Bylting á íslenskum bókamarkaði

amazon-kindle-logoÍ gær varð bylting (það ætti kannski að segja stór bylting eða gjörbylting) á íslenskum bókamarkaði þegar bárust fréttir af því að hægt væri að kaupa íslenskar rafbækur beint af Amazon.

Við höfum haft rafbækur í mörg ár en það hefur verið eins og þegar Bretar byrjuðu að selja skyndibita, hann var vondur og það tók langan tíma að útbúa hann. Við höfum haft rafbækur en þær hafa verið dýrar og ferlið við að kaupa þær hefur verið flókið (auðveldara hjá t.d. Emmu samt). Við sem höfum átt t.d. Kindle vitum hve þægilegt það er að klára eina bók, skreppa á Amazon í rafbókalesaranum og kaupa strax nýja bók sem hægt er að lesa strax. Einn smellur, hvort sem það er í tölvu, snjalltæki eða rafbókalesara og þá er rafbókin komin. Ekkert vesen. Í gær gaf ég rafbók afmælisgjöf, bara að fylla út netfangið og kaupa og eftir örfáar mínútur gat afmælisbarnið sótt bókina.

Kostirnir við að versla við Amazon eru gríðarlegir þó við ættum öll að vera meðvituð um hve stórt fyrirtækið er orðið. Amazon hefur, ólíkt t.d. Barnes and Noble sem selur Nook, heimild til að selja erlendar bækur til Íslands. Það er hægt að versla við Amazon án þess að eiga Kindle tæki því þú getur notað Kindle smáforritið.

Ég hef ekki athugað allar bækurnar sem eru í boði á Amazon en í fljótu bragði sýnist mér að verðið sé þolanlegt, t.d. virðist ódýrara að kaupa Rökkurhæðir á rafbókaformi heldur en prentaða. Maður veltir þó fyrir sér hvernig gengismál eiga eftir að hafa áhrif á verðið, dollarinn er t.d. mjög verðlítill núna en hvað gerist ef hann hækkar?

Það er óhugsandi annað en að aðrar íslenskar bókaútgáfur fylgi í kjölfarið og fari að selja á Amazon. Spurningin er bara hvað það tekur langan tíma og hvort að Forlagið verði næst inn eða síðast í röðinni.

Óli Gneisti Sóleyjarson