Neil Gaiman um bókasöfn, lestur og dagdrauma

Það er mikilvægt fyrir fólk að segja frá því hvaða málstað það styður, hvers vegna og hvort það gæti mögulega verið hlutdrægt. Einskonar yfirlýsingu um hagsmunatengsl. Þannig að ég ætla að ræða við ykkur um lestur. Ég ætla að segja ykkur að bókasöfn séu mikilvæg. Ég ætla að gefa í skyn að það að lesa skáldskap, ánægjulestur, sé eitt það mikilvægasta sem maður getur gert. Ég ætla að biðla til fólks á tilfinningaþrunginn hátt um að skilja – og taka þátt í að verja – bókasöfn og bókaverði.

Og ég er hlutdrægur, augljóslega og stórkostlega: Ég er rithöfundur, oft skáldsagnahöfundur. Ég skrifa fyrir börn og fyrir fullorðna. Í um 30 ár hef ég haft mitt lifibrauð af orðum mínum, aðallega með því að skálda hluti og skrifa þá niður. Það er augljóslega í mína þágu að fólk lesi, að það lesi skáldskap, að bókasöfn og bókaverðir verði áfram til og hlúi að lestrarást og rýmum sem lestur getur átt sér stað.

Þannig að ég er hlutdrægur sem rithöfundur. En ég er mun frekar hlutdrægur sem lesandi. Og jafnvel enn hlutdrægari sem breskur ríkisborgari.

Og ég er hér að tala í kvöld í boði Lestrarfélagsins (Reading Agency) sem er góðgerðarfélag sem hefur það að markmiði að gefa öllum jafnt tækifæri í lífinu með því að hjálpa fólki að verða sjálfsöruggir og ákafir lesendur. Félagið styður líka lestrarátök og bókasöfn og einstaklinga. Það styður hreint út og ákaft það að lesa. Þetta gerir félagið, að sögn, vegna þess að allt breytist þegar við lesum.

Og það er þessi breyting, og athöfnin að lesa, sem ég ætla að tala um í kvöld. Ég vil tala um hvað lestur gerir. Hvaða gagn er að honum.

Ég var einu sinni í New York og hlustaði á fyrirlestur um byggingu einkarekinna fangelsa – sem er gríðarlegur vaxtabroddur í Bandaríkjunum. Fangelsisiðnaðurinn þarf að áætla vöxtinn fram í tímann – hve marga klefa munu fangelsin þurfa? Hve margir fangar verða hér eftir 15 ár? Og þeir sáu út að þeir gátu reiknað það frekar auðveldlega út með einföldum algóryþma byggðum á könnun á því hve hátt hlutfall 10 og 11 ára barna gátu ekki lesið. Sem gátu alls ekki lesið sér til ánægju.

Þetta er ekki bein fylgni. Þú getur ekki sagt að bókaþjóð sé laus við glæpi. En það er raunverulegt samhengi.

Og ég tel að eitthvað af því samhengi, það einfaldasta, komi til á einfaldan hátt. Læst fólk les skáldskap.

Skáldskapur nýtist á tvennan hátt. Í fyrsta lagi sem fyrsti skammturinn sem leiðir fólk út í harðara lestrarefni. Þörfin til að sjá hvað gerist næst, að langa til að fletta síðunni, að þurfa að halda áfram, jafnvel þó það sé erfitt, bara af því að einhver er í vandræðum og þú þarft að sjá hvernig það fer allt að lokum … þetta er mjög áþreifanleg þörf. Og það neyðir þig til að læra ný orð, að hugsa nýjar hugsanir, að halda áfram. Að uppgötva að lestur er í sjálfu sér ánægjulegur. Þegar þú hefur lært það, ertu á leiðinni að lesa allt. Og lestur er lykill. Fyrir nokkrum árum var rætt um að við lifðum í veröld sem væri komin handan lesturs, að hæfileikinn til þess að sjá vit út úr skrifuðum orðum væri á einhvern hátt óþarfur, en sú tíð er liðin: orð eru mikilvægari en þau hafa nokkru sinni verið: við ferðumst um heiminn með orðum, og þegar heimurinn laumast út á vefinn þurfum við að elta, að eiga samskipti og skilja það sem við lesum. Fólk sem ekki skilur hvert annað getur ekki skipst á hugmyndum, getur ekki átt samskipti og þýðingarforrit skila ekki nema takmörkuðum árangri.

Einfaldasta leiðin til þess að tryggja að við ölum upp læs börn er að kenna þeim að lesa og að sýna þeim að lestur sé ánægjulegt athæfi. Og þetta þýðir einfaldlega að finna bækur sem þau njóta þess að lesa, gefa þeim aðgang að þessum bókum og leyfa þeim að lesa þær.

Ég tel að það sé ekki til neitt sem heitir slæm bók fyrir börn. Það kemst stöku sinnum í tísku að einhverjir fullorðnir bendi á tilteknar bækur, að ákveðin tegund barnabóka eða bækur einhverra höfunda séu slæmar bækur, bækur sem börn ættu ekki að lesa. Ég hef séð þetta gerast aftur og aftur. Því var lýst yfir að Enid Blyton væri slæmur höfundur, einnig RL Stine, ásamt tugum annarra. Teiknimyndasögur hafa verið sagðar leiða til ólæsis.

Þetta er rugl. Þetta er snobb og þetta er vitleysa. Það eru engir höfundar sem börn eru hrifin af, leita uppi og lesa, sem eru slæmir fyrir þau því börn eru ólík. Þau geta fundið þær sögur sem þau þurfa. Marg- og ofnotaðar hugmyndir eru ekki marg- eða ofnotaðar í þeirra huga. Þetta er í fyrsta skipti sem þau komast í tæri við þær. Ekki letja börn til lesturs af því að þér finnst þau vera að lesa rangar sögur. Skáldskapur sem þú ert ekki hrifinn af leiðir til bóka sem þér þykja mögulega betri. Og það hafa ekki allir sama smekk og þú.

Velmeinandi fullorðið fólk getur auðveldlega eyðilagt ást barna á lestri, stöðvað lestur sem þau njóta eða gefið þeim verðugar en þó leiðinlegar bækur sem þú ert hrifin af, nútímaígildi “mannbætandi” bókmennta Viktoríanska tímans. Eftir situr kynslóð sem er sannfærð um að lestur sé ósvalur og, það sem verra er, óskemmtilegur.

Við þurfum að koma börnum okkar upp lestrarstigann: allt sem þau njóta þess að lesa mun færa þau ofar, þrep fyrir þrep, í átt að læsi. (Þú ættir ekki að gera það sem þessi rithöfundur gerði þegar 11 ára dóttir hans var hrifin af RL Stine sem var að ná í eintak af Carrie eftir Stephen King með þeim rökstuðningi að ef hún væri hrifin af fyrrnefnda höfundinum þá myndi hún elska þann síðarnefnda! Holly las ekkert nema öruggar sögur um landnema á sléttum það sem eftir var táningsára sinnar og starir ennþá illilega á mig í hvert skipti sem Stephen King berst í tal.)

Hitt sem skáldskapur gerir er að byggja upp samkennd. Þegar þú horfir á sjónvarp eða sérð kvikmynd þá ertu að horfa á það sem kemur fyrir annað fólk. Skáldskap getur þú byggt á 26 bókstöfum [í ensku] og nokkrum greinarmerkjum og þú, og þú einn, getur notað ímyndundarafl þitt til þess að skapa veröld og fylla hana af fólki og sjá hlutina með þeirra augum. Þú finnur fyrir hlutum, heimsækir staði og heima sem þú gætir aldrei annars þekkt. Þú lærir að allir þarna úti eru “ég”, eins og þú. Þú ert einhver annar og þegar þú ferð aftur í þína eigin veröld ertu aðeins breyttur.

Samkennd er verkfæri til þess að búa til hópa úr fólki, að leyfa okkur að verða meira en eingöngu einstaklingar sem eru uppteknir af sjálfum sér.

Þegar þú lest kemst þú að nokkru ákaflega mikilvægu til þess að rata um heiminn.

Og það er þetta:
Heimurinn þarf ekki að vera svona. Hlutirnir geta verið öðruvísi.

Ég var í Kína árið 2007 á fyrstu vísindaskáldsöguráðstefnunni sem Kommúnistaflokkurinn leyfði að yrði haldin. Á ákveðnum tímapunkti tók ég háttsettan embættismann á eintal og spurði hann: Hvers vegna? Vísindaskáldsögur höfðu svo lengi verið í ónáð. Hvað hafði breyst?

Hann sagði mér að þetta væri mjög einfalt. Kínverjar væru mjög góðir í að búa til hluti þegar aðrir kæmu með teikningarnar. En þeir stunduðu ekki nýsköpun og þeir fyndu ekkert upp. Þeir hefðu ekki ímyndarafl. Þannig að þeir sendu nefnd til Bandaríkjanna, til Apple, til Microsoft, til Google, og þeir spurðu fólkið sem var að finna upp framtíðina um það sjálft. Og það kom í ljós að það hafði allt, sem börn, bæði strákar og stelpur, lesið vísindaskáldskap.

Skáldskapur getur sýnt þér aðra veröld. Hann getur farið með þig á staði sem þú hefur aldrei komið á. Þegar þú hefur heimsótt aðra heima, líkt og þeir sem hafa neytt fæðu álfanna, þá geturðu aldrei orðið sáttur við heiminn sem þú ólst upp í. Óánægja er góð, óánægt fólk getur breytt og bætt sinn heim, gert hann betri, skilið við hann öðruvísi en hann var.

Fyrst við erum að fjalla um þetta efni þá myndi ég vilja segja nokkur orð um veruleikaflótta. Ég heyri orðið notað eins og það sé eitthvað slæmt. Eins og skáldskapur sem þú getur notað til að flýja veruleikann sé ódýrt ópíum sem sé notað af hinum ringluðu, af hinum einföldu og hinum blekktu, og að eini skáldskapurinn sem sé lestursins virði, hvort sem það er fyrir börn eða fullorðna, sé eftirlíking sem speglar það versta í heiminum sem lesandinn er í.

Ef þú værir fastur í ómögulegum aðstæðum, á slæmum stað, með fólki sem vildi þér illt og einhver byði þér tímabundinn flótta, hví ekki taka boðinu? Flótti í gervi skáldskapar býður einmitt upp á þetta. Skáldskapur opnar dyr, sýnir þér dagsljósið fyrir utan, fer með þig á stað þar sem þú hefur stjórn, ert með fólki sem þú vilt vera með (og bækur eru raunverulegir staðir, ekki efast um það) og, það sem skiptir meira máli, á meðan flóttanum stendur geta bækur frætt þig um þinn heiminn og þínar aðstæður, séð þér fyrir vopnum, gefið þér brynju: raunverulega hluti sem þú getur haft með þér aftur í fangelsið þitt. Hæfileika og þekkingu og verkfæri sem þú getur notað til að sleppa í raun.

Líkt og JRR Tolkien minnti okkur á þá eru það fangaverðirnir einir sem berjast gegn flóttanum.

Önnur leið til þess að eyðileggja lestraráhuga barna er að sjálfsögðu að passa að þau hafi ekki aðgang að neinum bókum. Og gefa þeim ekki neinn stað til að lesa þessar bækur. Ég var heppinn. Ég hafði frábært almenningsbókasafn þegar ég var að vaxa úr grasi. Ég hafði líka þá tegund foreldra sem hægt var að sannfæra um að skutla mér á bókasafnið á leiðinni í vinnu meðan ég var í sumarfríi, og þá tegund bókavarða sem skiptu sér ekki af því að lítill einsamall drengur fór innst í barnabókadeildina á hverjum morgni og vann sig kerfisbundið í gegnum spjaldskrána í leit að bókum með draugum eða göldrum eða eldflaugum, leitandi að vampírum eða spæjurum eða nornum eða undrum. Og þegar ég hafði lokið við að lesa upp barnabókadeildina byrjaði ég á fullorðinsbókunum.

Þetta voru góðir bókaverðir. Þeim líkaði við bækur og þeim líkaði það að bækur væru lesnar. Þeir kenndu mér að panta bækur frá öðrum söfnum í millisafnaláni. Þeir áttu ekki til snobb í garð neins  sem ég var að lesa. Þeim virtist einfaldlega líka það að þessi opineygði drengur skyldi elska lestur og töluðu við mig um bækurnar sem ég var að lesa, þeir fundu fyrir mig fleiri bækur í sama bókaflokki. Þeir hjálpuðu. Þeir komu fram við mig eins og hvern annan lesanda – hvorki meira né minna – sem þýddi að þau komu fram við mig af virðingu. Þegar ég var átta ára var ég ekki vanur því að fólk kæmi fram við mig af virðingu.

En bókasöfn snúast um frelsi. Frelsi til að lesa, frelsi hugmynda, frelsi til samskipta. Þau snúast um menntun (sem er ekki ferli sem lýkur daginn sem við yfirgefum skóla eða háskóla), um skemmtun, um að búa til örugga staði, og um aðgengi að upplýsingum.

Ég hef áhyggjur af að nú á tuttugustu og fyrstu öld misskilji fólk hvað bókasöfn eru og hver tilgangurinn með þeim sé. Ef þú telur að bókasafn sé hilla með bókum þá gæti það virst vera fyrnt eða úrelt í heimi þar sem flestar, en þó ekki allar, bækur eru til rafrænt. En þá ertu algjörlega að missa af kjarna málsins.

Ég tel að þetta snerti eðli upplýsinga. Upplýsingar hafa gildi og réttar upplýsingar hafa gríðarlega mikið gildi. Í gegnum mannkynssöguna höfum við lengst af lifað á tímum upplýsingafátæktar og það að hafa nauðsynlegar upplýsingar hefur alltaf verið mikilvægt og alltaf einhvers virði. Hvenær á að sá í akurinn, hvernig á að finna hluti, þessar upplýsingar má nálgast í gegnum kort, sagnfræði og sögur – þær hafa alltaf verið virði máltíðar og félagskapar. Upplýsingar eru verðmætar og þeir sem bjuggu yfir þeim eða gátu nálgast þær gátu rukkað fyrir þá þjónustu.

Síðustu ár höfum við fært okkur frá upplýsingafátæku hagkerfi yfir í hagkerfi sem er knúið af offramboði af upplýsingum. Samkvæmt Eric Schmidt hjá Google þá skapar mannkynið á hverjum tveimur dögum jafn mikið af upplýsingum og við gerðum frá örófi siðmenningar til ársins 2003. Það eru um fimm exobæti af gögnum á hverjum degi fyrir þau ykkar sem eruð að telja. Ögrunin verður ekki lengur sú að finna plöntu í eyðimörkinni heldur að finna ákveðna plöntu í frumskógi. Við þurfum alla þá hjálp sem við mögulega getum til þess að finna það sem við þurfum í raun á að halda.

Bókasöfn eru staðir þar sem fólk fer til að fá upplýsingar. Bækur eru bara toppurinn af upplýsingaísjakanum: Þær til staðar og bókasöfn geta fengið þér þær ókeypis og löglega. Fleiri börn eru að fá bækur lánaðar frá bókasöfnum en nokkru sinni fyrr – bækur af öllum tegundum: pappírsbækur, rafbækur og hljóðbækur. En bókasöfn eru líka, til dæmis, staðir þar sem fólk sem á ekki tölvur, sem hefur kannski ekki netaðgang, getur komist á netið án þess að borga nokkuð. Það er mjög mikilvægt þegar það er orðið svo að atvinnuauglýsingar, atvinnuumsóknir og umsóknir um bætur eru meira og meira einungis aðgengilegar á netinu. Bókaverðir geta hjálpað þessu fólki að ferðast um þá veröld.

Ég trúi ekki að allar bækur muni eða ættu að flytja á skjái. Líkt og Douglas Adams benti mér einu sinni á, meira en 20 árum áður en Kindle kom til, þá er áþreifanleg bók eins og hákarl. Hákarlar eru fornir, það voru hákarlar í sjónum áður en risaeðlirnar urðu til. Og ástæðan fyrir því að það eru ennþá til hákarlar er sú að hákarlar eru betri í að vera hákarlar en nokkuð annað.  Áþreifanlegar bækur eru harðar af sér, erfitt að eyðileggja, baðþolnar, sólarknúnar og fara vel í hendi, þær eru góðar í að vera bækur og það verður alltaf til staður fyrir þær. Þær eiga heima á bókasöfnum, rétt eins og bókasöfn hafa þegar orðið staðir þar sem þú getur fengið aðgengi að rafbókum, hljóðbókum, mynddiskum og efni á vefnum.

Bókasafn er staður sem safnar upplýsingum og gefur öllum borgurum jafnt aðgengi að þeim. Þar á meðal eru upplýsingar um heilbrigðismál. Og geðheilbrigði. Þetta er samfélagslegt rými. Þetta er öruggur staður, athvarf frá heiminum. Þetta er staður með bókavörðum. Það hvernig bókasöfn framtíðar eiga að verða er nokkuð sem við ættum að vera að ímynda okkur í dag.

Læsi er mikilvægara en nokkru sinni, í heimi texta og tölvupósts, heimi upplýsinga á textaformi. Við þurfum að lesa og skrifa, við þurfum heimsborgara sem geta verið öruggir í lestri, skilið það sem þeir lesa, skilið blæbrigði og gert sjálfa sig skiljanlega.

Bókasöfn eru í raun hliðið að framtíðinni. Svo það er óheppilegt að víða í heiminum sjáum við sveitastjórnir nýta tækifærið til þess að loka bókasöfnum til þess að spara fé á einfaldan máta án þess að átta sig á að þeir eru að stela frá framtíðinni til þess að borga fyrir daginn í dag. Þeir eru að loka hliðum sem ættu að vera opin.

Samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð var af OECD er England “eina landið þar sem elsti aldurshópinn er hæfari í lestri og stærðfræði en sá yngsti, eftir að tekið hefur verið tillit til annarra þátta s.s. kyns, félagslegs bakgrunns og starfsvettvangs.”

Þetta má umorða. Börn okkar og barnabörn eru minna læs og og verri í stærðfræði en við erum. Þau eru minna fær um að ferðast um heiminn, að skilja hann, að leysa vandamál. Það er auðveldara að ljúga að þeim og blekkja. Þau verða ekki jafn fær í að breyta heiminum sem þau búa í. Þau verða ekki jafn hæf til vinnu. Allt þetta. Og sem land mun England standa þróuðum löndum að baki af því að landið skortir hæft vinnuafl.

Bækur eru leiðin sem við notum til samskipta við hina dauða. Leiðin til þess að læra af þeim sem eru ekki lengur meðal vor, að mannkynið hefur byggt á sjálfu sér, þróast, skapað þekkingu í skrefum frekar en að þurfa að læra hlutina alltaf upp á nýtt, aftur og aftur. Það eru til sögur sem eru eldri en flest lönd, sögur sem hafa lifað af þá menningu sem þær urðu til í og þær byggingar sem þær voru fyrst sagðar í.

Ég tel að við berum öll ábyrgð gagnvart framtíðinni. Ábyrgð og skuldbindingar fyrir börnin, fyrir hið fullorðna fólk sem þessi börn munu verða, fyrir heiminn sem þau munu byggja. Öll okkar, sem lesendur, sem höfundar, sem borgarar – höfum skuldbindingar. Mér datt í hug að reyna að útskýra nokkrar af þessum skuldbindingum hér.

Ég tel okkur skuldbundinn til að lesa okkur til ánægju, í einkarými og opinberu. Ef við lesum okkur til ánægju, ef aðrir sjá okkur lesa, þá lærum við, þá æfum við ímyndundaraflið. Við sýnum öðrum að lestur er góður.

Við erum skuldbundin gagnvart bókasöfnum. Að nota bókasöfn, að hvetja aðra til þess að nota bókasöfn, að mótmæla lokun bókasafna. Ef þú kannt ekki að meta bókasöfn þá kanntu ekki að meta gildi upplýsinga eða menningar eða visku. Þú ert að þagga niður í röddum fortíðarinnar og þú ert að skaða framtíðina.

Við erum skuldbundin því að lesa upphátt fyrir börnin okkur. Að lesa fyrir þau það sem þau njóta að heyra. Að lesa fyrir þau sögur sem við erum þreytt á. Að leika raddir, að gera þetta áhugavert og að hætta ekki að lesa fyrir þau bara af því að þau geta lesið sjálf. Nota þennan lestrartíma sem tækifæri til að tengjast þar sem engir símar eru athugaðir og allar truflanir eru settar til hliðar.

Við erum skuldbundin til þess að nota tungumálið. Að ögra okkur: að komast að því hvað orð þýða og hvernig á að nota þau, að tjá okkur á skýran hátt, að segja það sem við meinum. Við megum ekki gera tilraunir til að frysta tungumálið eða láta eins og það sé dauður hlutur sem verður að tilbiðja, en við ættum að nota það sem lifandi hlut, sem flæðir, sem fær orð að láni, sem leyfir merkingu og framburði að breytast með tímanum.

Við rithöfundar – og sérstaklega við sem skrifum fyrir börn en þó allir – erum skuldbundin lesendum okkar: það er skylda okkar að skrifa sanna hluti, sérstaklega mikilvægt þegar við erum að skapa sögur af fólki sem er ekki til, á stöðum sem aldrei voru – til að skilja að sannleikurinn er ekki það sem gerist heldur það sem hann segir okkur um hver við erum. Skáldskapur er, þegar öllu er á botninn hvolft, lygin sem segir sannleikann. Við erum skuldbundin til þess að láta lesendum okkar ekki leiðast heldur að fá þá til þess að fletta síðunum. Eitt besta meðalið fyrir ófúsan lesanda er, eftir allt saman, saga sem hann getur ekki hætt að lesa. Og þó við þurfum að segja lesendum okkar sanna hluti og gefa þeim vopn og brynjur og veita þeim þeim þá visku sem við höfum aflað okkar frá þessari stuttu dvöl okkar í þessum græna heimi þá erum við líka skuldbundin til þess að predika ekki, halda ekki fyrirlestra, ekki neyða formeltan siðferðisboðskap og skilaboðum niður hálsa lesenda okkar líkt og fuglar metta unga sína með formeltum möðkum; og við erum skuldbundin því að skrifa aldrei, ekki undir neinum kringumstæðum, eitthvað fyrir börn sem við myndum ekki vilja lesa sjálf.

Við erum skuldbundin því að skilja og staðfesta að sem barnabókahöfundar séum við að vinna mikilvægt verk því að ef við klúðrum því og skrifum óspennandi bækur sem fæla börn frá lestri og bókum þá höfum við gengisfellt framtíð okkar og rýrt framtíð þeirra.

Við erum öll, fullorðnir og börn, höfundar og lesendur skuldbundin til þess að dreyma dagdrauma. Við erum skuldbundin til þess að ímynda okkur. Það er auðvelt að láta sem enginn geti breytt neinu, að við séum í veröld þar sem samfélagið er risastórt og einstaklingurinn minna en ekkert: frumeind í vegg, grjón á hrísgrjónaakri. En sannleikurinn er sá að einstaklingar breyta heiminum aftur og aftur, einstaklingar skapa framtíðina, og þeir gera það með því að ímynda sér að hlutirnir gætu verið öðruvísi.

Líttu í kringum þig. Ég meina það. Hættu lestrinum eitt augnablik og líttu á herbergið sem þú ert í. Ég ætla að benda á nokkuð sem er svo augljóst að það á það til að gleymast. Það er þetta: allt sem þú sérð, þar með talið veggirnir, voru, á einhverju tímapunkti, ímyndaðir. Einhver ákvað að það væri auðveldara að sitja á stól en á jörðinni og ímyndaði sér stólinn. Einhver þurti að ímynda sér leið til til þess að ég gæti talað við ykkur hér og nú í London núna án þess að það rigndi á okkur. Þetta herbergi og allt sem er í þessari byggingu, þessari borg, er til af því að aftur og aftur og aftur þá ímyndaði fólk sér hluti.

Við erum skuldbundin til þess að búa til fallega hluti. Að skilja heiminn ekki eftir ljótari en hann var þegar við fundum hann, að tæma ekki höfin, að láta komandi kynslóð ekki eftir vandamál okkar. Við erum skuldbundin til þess að taka til eftir okkur og láta ekki börnunum eftir heim sem við höfum vegna skammsýni ruslað til, snuðað og bæklað.

Við erum skuldbundin til að segja stjórnmálamönnum hvað við viljum, að kjósa gegn stjórnmálamönnum, í hvaða flokki sem þeir eru, sem kunna ekki að meta gildi lestrar til þess að skapa góða borgara, sem hafa ekki gert neitt til þess að viðhalda og vernda þekkingu og hvetja til læsis. Þetta er ekki spurning um flokkastjórnmál. Þetta snýst um sameiginlega mennsku.

Albert Einstein var eitt sinn spurður hvernig við ættum að gera börn okkar gáfuð. Svar hans var bæði einfalt og viturt. “Ef þú vilt að börnin þín verði gáfuð,” sagði hann, “lestu þá fyrir þau ævintýri. Ef þú vilt að þau verði enn gáfaðri, lestu þá fyrir þau meira af ævintýrum.” Hann skildi gildi lesturs, og ímyndunarafls. Ég vona að við getum gefið börnum okkur heim þar sem þau munu lesa og þar sem er lesið fyrir þau, þau muni ímynda sér, og þau muni skilja.

Þetta er stytt útgáfa af fyrirlestri Neil Gaiman fyrir Lestrarfélagið (Reading Agency) sem flutt var mánudaginn 14. október í Barbican í London. Þýtt af Óla Gneista Sóleyjarsyni eftir að Neil Gaiman skipaði fólki á Facebook að dreifa þessu sem víðast. Þýðandi er hlutdrægur enda starfandi bókasafnsfræðingur. Eygló Traustadóttir og Hafdís Inga Haraldsdóttir fá þakkir fyrir yfirferð og athugasemdir.