Bréf Páls postula til Filippímanna

1

Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, til allra heilagra í Kristi Jesú, sem eru í Filippí, ásamt biskupum og djáknum.

2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

3 Eg þakka Guði mínum í hvert skifti sem eg hugsa til yðar, 4 og gjöri ávalt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum, 5 fyrir samfélag yðar um fagnaðarerindið, frá hinum fyrsta degi til þessa; 6 þar eð eg fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður gott verk, muni fullkomna það alt til dags Jesú Krists, 7 eins og einnig rétt er fyrir mig að bera þennan huga til yðar allra, þar eð eg hefi yður í hjarta mínu, þar sem þér eruð allir hluttakandi ásamt mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og við vörn og staðfesting fagnaðarerindisins. 8 Því að Guð er mér þess vitni, hvernig eg þrái yður alla með ástúð Krists Jesú; 9 og þetta bið eg um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir, með þekkingu og allri greind, 10 svo að þér getið metið rétt þá hluti, sem munur er á, til þess að þér séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists, 11 auðugir að réttlætis ávexti, þeim er fæst fyrir Jesúm Krist, til dýrðar og lofs Guði.

12 En eg vil, bræður, að þér skulið vita, að það, sem fram við mig hefir komið, hefir mikillega orðið fagnaðarerindinu til eflingar, 13 svo að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að fjötrar mínir eru í Kristi, 14 og að flestir af bræðrunum í drotni hafa, uppörfaðir við fjötra mína, meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust. 15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug; 16 þeir, sem gjöra það af kærleika, gjöra það vegna þess, að þeir vita, að eg er settur fagnaðarerindinu til varnar; 17 en hinir, sem prédika Krist af sérdrægni, gjöra það ekki af hreinum huga, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína.

18 En hvað um það? einungis að Kristur er boðaður á allan hátt, hvort sem það heldur er af yfirdrepskap eða í sannleika; og þetta gleður mig og það mun einnig gleðja mig; 19 því að eg veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bæn yðar og fulltingi anda Jesú Krists, 20 eftir innilegri löngun minni og von, að eg í engu muni til skammar verða, heldur að Kristur muni í allri djörfung einnig nú, eins og ávalt, miklast fyrir líkama minn, hvort sem það verður með lífi eða dauða; 21 því að mér er það að lifa Kristur og að deyja ávinningur. 22 En ef það að lifa í holdinu er starfsávöxtur fyrir mig, þá veit eg reyndar ekki, hvað eg á að kjósa.

23 Það er tvent, sem þrýstir að mér, þar sem eg hefi löngun til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra; 24 en að dvelja í holdinu er nauðsynlegra yðar vegna; 25 og í trausti til þess veit eg að eg muni lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni, 26 til þess að hrós yðar verði því meira í Kristi Jesú fyrir mína skuld, við það að eg kem aftur til yðar. 27 Einungis skuluð þér hegða yður eins og samboðið er fagnaðarerindi Krists, til þess að hvort sem eg kem og sé yður, eða eg er fjarverandi, að eg fái að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál, fyrir trú fagnaðarerindisins, 28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum, sem fyrir þá er merki um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar, og það frá Guði; 29 því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna, 30 yður, sem eigið í sömu baráttu, sem þér áður sáuð á mér og nú heyrið um mig.


2

Ef því nokkur upphvatning er í Kristi, ef nokkurt kærleiksávarp, ef nokkurt samfélag andans, ef nokkur ástúð og meðaumkvun á sér stað, 2 þá gjörið gleði mína fullkomna, svo að þér séuð samhuga, hafið sama kærleika og hafið með einni sál eitt í huga; 3 ekkert af sérdrægni né hégómagirnd, heldur metið með lítillæti hver annan meira en sjálfan sig; 4 og sérhver líti ekki einungis til þess, sem hans er, heldur líti og sérhver til þess, sem annarra er. 5 Hafið það hugarfar í yður, sem og var í Kristi Jesú, 6 sem áleit það ekki, þótt hann væri í Guðs mynd, rán að vera jafn Guði, 7 heldur afklæddist henni, er hann tók þjóns mynd og kom í líkingu manns; 8 og er hann kom fram að ytra hætti sem maður, lítillækkaði hann sjálfan sig og varð hlýðinn til dauða, já til dauða á krossi. 9 Fyrir því hefir og Guð hátt upp hafið hann, og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, 10 til þess að í nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig, þeirra, sem eru á himni, og þeirra, sem eru á jörðu, og þeirra, sem undir jörðunni eru, 11 og sérhver tunga viðurkenna, að Jesús Kristur er drottinn, Guði föður til dýrðar.

12 Eins og þér þess vegna, mínir elskuðu, hafið ætíð verið hlýðnir, svo vinnið að sáluhjálp yðar með ugg og ótta, ekki eins og í viðurvist minni aðeins, heldur nú miklu fremur að mér fjarverandi; 13 því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma, sér til velþóknunar. 14 Gjörið alt án mögls og efablendni, 15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og einlægir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspiltrar kynslóðar, sem þér skínið hjá eins og himinljós í heiminum, 16 og haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists, að eg hafi ekki hlaupið til ónýtis né erfiðað til ónýtis. 17 En þótt mér, við fórn og þjónustu mína að trú yðar, verði sjálfum fórnað, þá gleðst eg og samgleðst yður öllum; 18 en af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér.

19 En eg vona í drotni Jesú, að eg bráðum muni geta sent Tímóteus til yðar, til þess að einnig mér verði hughægra, þá er eg fæ að vita um hagi yðar; 20 því að engan hefi eg með sama huga, þann er láti sér einlæglega ant um hagi yðar; 21 því að allir leita þeir þess, sem er þeirra sjálfra, en ekki þess, sem Jesú Krists er. 22 En þér vitið, hvernig hann hefir reynst, að hann hefir þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér, eins og barn þjónar föður sínum. 23 Hann vona eg þá að geta sent, jafnskjótt og eg er búinn að fullsjá, hvað um mig verður. 24 En eg treysti því í drotni, að eg muni og bráðum koma sjálfur. 25 En eg hefi álitið nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn og samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni, 26 því að hann þráði yður alla og var angurvær út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur; 27 því sjúkur varð hann, aðkominn dauða, en Guð miskunnaði honum, og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að eg eigi skyldi hafa hrygð á hrygð ofan. 28 Þessa vegna hefi eg flýtt mér því heldur að senda hann, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra. 29 Takið því á móti honum í drotni með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri, 30 því að fyrir verk Krists var hann að dauða kominn, þar eð hann lagði líf sitt í hættu, til þess að hann bætti upp það, sem brast á þjónustu yðar mér til handa.


3

Að öðru leyti, bræður mínir, gleðjist í drotni. Að skrifa yður hið sama er mér eigi erfitt, en fyrir yður er það tryggjandi. 2 Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að sundurskurninni; 3 því að vér erum umskurnin, vér sem dýrkum Guð með hans anda og hrósum oss í Kristi Jesú, og treystum ekki holdinu, 4 jafnvel þótt eg einnig í holdinu hafi það, sem eg gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst holdinu, þá get eg það fremur: 5 Eg er umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, að lögmáli til Farísei, 6 að vandlæti til maður, er ofsótti söfnuðinn, og að því réttlæti til, sem fæst með lögmálinu, var eg óásakanlegur. 7 En það, sem var mér ávinningur, það hefi eg sakir Krists metið sem skaða; 8 já, meira að segja met eg jafnvel alt vera skaða hjá ágæti þekkingarinnar á Kristi Jesú, drotni mínum, fyrir hvers sakir eg hefi mist alt og met það sem sorp, til þess að eg geti áunnið Krist 9 og reynst vera í honum, án þess að hafa eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það, er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni, 10 til þess að eg geti þekt hann og kraft upprisu hans og samfélag písla hans, sammyndaður orðinn dauða hans, 11 ef mér mætti auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. 12 Ekki að eg hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn, en eg keppi eftir því, ef eg skyldi geta höndlað það, með því að eg er höndlaður af Kristi Jesú. 13 Bræður! ekki tel eg sjálfan mig enn hafa höndlað það; 14 en eitt gjöri eg: eg gleymi því sem að baki er, en seilist eftir því sem fyrir framan er, og keppi þannig að markinu, til verðlauna himinköllunar Guðs í Kristi Jesú. 15 Þetta hugarfar skulum því allir vér hafa, sem fullkomnir erum; og ef þér hugsið í nokkuru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta; 16 einungis að vér göngum þá götu, sem vér höfum komist á. 17 Verðið, bræður, hver með öðrum eftirbreytendur mínir, og lítið til þeirra, sem framganga þannig, eftir því sem þér hafið oss að fyrirmynd. 18 Því að margir framganga, sem eg hefi oft sagt yður og nú segi jafnvel grátandi, að þeir eru óvinir krossins Krists, 19 en afdrif þeirra er glötun; Guð þeirra er maginn, og heiður þeirra er í svívirðingunni, þeir er hafa hugann á jarðneskum munum. 20 Því að borgarréttur vor er á himni, þaðan sem vér og væntum drottins Jesú Krists sem frelsara, 21 hans sem mun breyta lægingarlíkama vorum í sömu mynd og dýrðarlíkami hans hefir, samkvæmt þeim krafti, að hann getur lagt jafnvel alt undir sig.


4

Þess vegna, mínir elskuðu og eftirþráðu bræður, gleði mín og kóróna, standið þannig fastir í drotni, þér elskuðu. 2 Evodíu áminni eg og Sýntýke áminni eg um að vera samlyndar í drotni. 3 Já, eg bið einnig þig, trúlyndi samþjónn, hjálpa þú þeim, því að þær börðust með mér við boðun fagnaðarerindisins ásamt Klemens og öðrum samverkamönnum mínum, hverra nöfn standa í lífsins bók.

4 Verið ávalt glaðir í drotni; eg segi aftur: Verið glaðir. 5 Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. 6 Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. 7 Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

8 Að öðru leyti, bræður, alt sem er satt, alt sem er sómasamlegt, alt sem er rétt, alt sem er hreint, alt sem er elskuvert, alt sem er gott afspurnar, hvað sem er dygð, og hvað sem er lofsvert, íhugið það. 9 Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið og heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra; og Guð friðarins mun vera með yður.

10 En eg varð mjög glaður í drotni yfir því, að þér hafið loksins aftur blómgast svo, að þér gátuð hugsað til mín, sem þér að sönnu hafið hugsað um, en þér áttuð ekki hægt með það. 11 Ekki segi eg þetta vegna þess, að eg hafi liðið skort, því að eg hefi lært að vera ánægður með það, sem eg á við að búa; 12 bæði kann eg að búa við lítinn kost; eg kann einnig að hafa alsnægtir; hvervetna og í öllum hlutum hefi eg lært þann leyndardóm bæði að vera mettur og að vera hungraður, bæði að hafa allsnægtir og að líða skort. 13 Alt megna eg í honum, sem gjörir mig styrkan. 14 Engu að síður gjörðuð þér vel í því, að taka þátt með mér í þrengingu minni; 15 þér vitið og, Filippímenn, að í upphafi fagnaðarboðskaparins, þegar eg fór burt úr Makedóníu, hafði enginn söfnuður samfélag við mig í að láta af hendi og taka á móti, nema þér einir. 16 Því að jafnvel í Þessaloníku senduð þér mér einu sinni, já tvisvar, til nauðsynja minna. 17 Ekki að eg þrái mjög gjöfina, heldur þrái eg mjög ávöxtinn, sem ríkulega fellur í yðar sjóð. 18 En nú hefi eg alt og hefi allsnægtir; eg hefi yfirfljótanlegt, síðan eg meðtók af hendi Epafrodítusar sendinguna frá yður, ilm reykelsis, þekka fórn, Guði velþóknanlega. 19 En minn Guð mun uppfylla sérhverja þörf yðar eftir auðlegð sinni, með dýrð í Kristi Jesú. 20 En Guði og föður vorum sé dýrðin um aldir alda. Amen.

21 Heilsið sérhverjum heilögum í Kristi Jesú. 22 Yður heilsa bræðurnir, sem hjá mér eru; yður heilsa allir hinir heilögu, en einkanlega þeir, sem heyra til húsi keisarans. 23 Náðin Drottins Jesú Krists sé með anda yðar.