Bréf Páls postula til Rómverja

1

Páll þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs, 2 sem hann áður gaf fyrirheit um fyrir spámenn sína í helgum ritningum, 3 um son hans, sem eftir holdinu er fæddur af sæði Davíðs, 4 en eftir anda heilagleikans er með krafti innsettur svo sem Guðs sonur fyrir upprisu dauðra, — Jesúm Krist, drottin vorn, 5 sem vér höfum öðlast náð fyrir og postuladóm til trúar-hlýðni meðal allra heiðingjanna vegna nafns hans; 6 en meðal þeirra eruð þér einnig, þér, Jesú Krists kölluðu, — 7 til allra Guðs elskuðu, sem eru í Róm, heilögu samkvæmt köllun.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drotni Jesú Kristi.

8 Fyrst þakka eg Guði mínum fyrir Jesúm Krist fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum. 9 Því að Guð, sem eg þjóna í anda mínum með fagnaðarerindi sonar hans, er mér þess vottur, hve óaflátanlega eg minnist yðar, 10 er eg ávalt í bænum mínum beiðist þess, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast með vilja Guðs að koma til yðar. 11 Því að eg þrái að sjá yður, til þess að eg fái veitt yður einhverja andlega náðargjöf, til þess að þér styrkist, 12 en það er, til þess að uppörvast á meðal yðar fyrir hina sameiginlegu trú yðar og mína. 13 En eg vil ekki, að yður, bræður, skuli vera ókunnugt um, að eg hefi oftsinnis ásett mér að koma til yðar, — en hefi verið hindraður alt til þessa, — til þess að eg mætti fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og á meðal annarra heiðinna þjóða. 14 Eg er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa; 15 þannig er eg fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið einnig yður, sem eruð í Róm. 16 Því að eg fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið; því að það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim, er trúir, bæði Gyðingi fyrst og grískum. 17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: En hinn réttláti skal lifa fyrir trú.

18 Því að reiði Guðs opinberast af himni yfir sérhverjum óguðleika og rangsleitni þeirra manna, er drepa niður sannleikanum með rangsleitni; 19 með því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra, því að Guð hefir birt þeim það. 20 Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkunum, til þess að þeir séu án afsökunar, 21 þar sem þeir hafa ekki, þótt þeir þektu Guð, vegsamað hann eins og Guð, né þakkað honum, heldur gjörst hégómlegir í hugsunum sínum og hið skynlausa hjarta þeirra hjúpast myrkri. 22 Þegar þeir kváðust vera vitrir, urðu þeir heimskingjar 23 og breyttu dýrð hins ódauðlega Guðs í líkingu myndar dauðlegs manns og fugla og ferfætlinga og skriðkvikinda.

24 Þess vegna hefir Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir sín á milli smánuðu líkami sína. 25 Þeir hafa umhverft sannleika Guðs í lygi, og göfgað og dýrkað skepnuna í stað skaparans, hans, sem er blessaður að eilífu. Amen.

26 Fyrir því hefir Guð ofurselt þá girndum svívirðingarinnar; því að bæði hefir kvenfólk þeirra breytt eðlilegum samförum í óeðlilegar, 27 og eins hafa líka karlmennirnir hætt eðlilegum samförum við kvenmanninn og brunnið í losta sínum hver til annars; karlmenn framið skömm með karlmönnum og tekið út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

28 Og eins og þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt, 29 er þeir voru fyltir alls konar rangsleitni, vonzku, ágirnd, ilsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmensku, 30 rógberar, bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir, 31 óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir, — 32 menn, sem þekkja Guðs réttlætisdóm, að þeir, er slíkt fremja, eru dauðasekir, og þó ekki einungis gjöra þetta, heldur og láta þeim, er gjöra það, velþóknun sína í té.


2

Fyrir því hefir þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Því að þar sem þú dæmir annan, fyrirdæmir þú sjálfan þig; því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. 2 En vér vitum, að dómur Guðs er sannleika samkvæmt yfir þeim, er slíkt fremja. 3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá, er slíkt fremja, og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs? 4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæzku hans og umburðarlyndis og langlyndis, og veizt ekki, að gæzka Guðs leiðir þig til iðrunar? 5 En með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi og degi opinberunar réttdæmis Guðs, 6 sem mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans; 7 þeim, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar og heiðurs og ódauðleika, eilíft líf, 8 og þeim, sem leiðast af flokksfylgi og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu, reiði og óvild; 9 þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er ilt fremur, bæði Gyðingsins fyrst og hins gríska; 10 en vegsemd og heiður og friður hlotnast sérhverjum, er gjörir hið góða, bæði Gyðingnum fyrst og hinum gríska. 11 Því að hjá Guði er ekki manngreinarálit. 12 Því að allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast fyrir lögmál. 13 Því að ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða. 14 Því að þegar heiðingjar, sem ekki hafa lögmál, gjöra ósjálfrátt það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt ekki hafi þeir neitt lögmál, sjálfum sér lögmál; 15 þeir sýna, að verk lögmálsins er ritað í hjörtum þeirra, með því að samvizka þeirra ber vitni og hugrenningarnar sín á milli ásaka eða líka afsaka, 16 á þeim degi, er Guð mun dæma hið dulda hjá mönnunum samkvæmt fagnaðarerindi mínu fyrir Jesúm Krist.

17 Ef nú þú nefnist Gyðingur og styðst við lögmál og stærir þig af Guði, 18 og þekkir vilja hans og kant að meta rétt þá hluti, sem munur er á, þar sem þú ert uppfræddur af lögmálinu, 19 treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra, sem eru í myrkri, 20 tyftunarmaður fávísra, fræðari óvita, af því að þú hefir snið þekkingarinnar og sannleikans í lögmálinu, — 21 þú sem þannig fræðir aðra, fræðir þú ekki sjálfan þig? Þú, sem prédikar, að ekki skuli stela, stelur þú? 22 Þú, sem segir, að ekki skuli drýgja hór, drýgir þú hór? Þú, sem hefir andstygð á skurðgoðum, rænir þú helgidóma? 23 Þú, sem hrósar þér af lögmáli, óvirðir þú Guð með yfirtroðslu lögmálsins? 24 Því að, eins og ritað er: Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna. 25 Því að vísu er umskurn gagnleg, ef þú heldur lögmálið, en ef þú ert yfirtroðslumaður lögmálsins, er umskurn þín orðin að yfirhúð. 26 Ef því yfirhúðin gætir réttlætiskrafa lögmálsins, mun þá ekki yfirhúð hans verða reiknuð sem umskurn? 27 og mun ekki hin meðfædda yfirhúð, sem heldur lögmálið, dæma þig, sem með bókstaf og umskurn ert yfirtroðslumaður lögmálsins? 28 Því að ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu. 29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf, og lofstír hans er ekki af mönnum, heldur af Guði.


3

Hvað hefir þá Gyðingurinn umfram? Eða hvert er gagn umskurnarinnar? 2 Mikið í öllu tilliti. Fyrst er þá það, að þeim hefir verið trúað fyrir orðum Guðs; 3 því að hvað um það, þótt nokkurir hafi reynst ótrúir, — mundi ótrúmenska þeirra að engu gjöra trúfesti Guðs? 4 Fjarri fer því. Látum Guð vera sannorðan, en sérhvern mann lygara, eins og ritað er: Til þess að þú megir reynast réttlátur í orðum þínum og vinna, þegar menn fara í mál við þig. 5 En ef ranglæti vort sannar réttlæti Guðs, hvað eigum vér þá að segja? Hvort mundi Guð vera ranglátur, er hann lætur reiðina yfir dynja? — Eg tala á mannlegan hátt. — 6 Fjarri fer því. Hvernig ætti Guð þá að dæma heiminn? 7 En ef sannleiki Guðs hefir fyrir lygi mína eflst honum til dýrðar, hvers vegna dæmist eg þá enn sem syndari? 8 Og eigum vér þá ekki, — eins og oss er lastmælt fyrir, og eins og sumir segja, að vér kennum, — að gjöra hið illa, til þess að hið góða komi fram? Dómur slíkra manna er verðskuldaður.

9 Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fyrir oss að bera? Nei, alls ekki. Vér höfum þegar áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd, 10 eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn? 11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn, sem leitar Guðs. 12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman orðnir duglausir; ekki er neinn, sem auðsýnir gæzku, ekki svo mikið sem einn einasti. 13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar, höggorma-eitur er undir vörum þeirra. 14 Munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju. 15 Fljótir eru fætur þeirra til að úthella blóði. 16 Tortíming og eymd er á vegum þeirra, 17 og veg friðarins þekkja þeir ekki. 18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.

19 En vér vitum, að alt, sem lögmálið segir, það talar það til þeirra, sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði, 20 með því að ekkert hold réttlætist fyrir honum af verkum lögmálsins; því að fyrir lögmál kemur þekking syndar. 21 En nú hefir réttlæti Guðs opinberast án lögmáls, sem vitnað er um af lögmálinu og spámönnunum, 22 það er: réttlæti Guðs fyrir trú á Jesúm Krist öllum þeim til handa, sem trúa; því að ekki er greinarmunur; 23 því að allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, 24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú, 25 er Guð framsetti sem friðþægingarmeðal fyrir trúna á blóð hans, til að auglýsa réttlæti sitt, — með því að Guð hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir, — 26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, til þess að geta sjálfur verið réttlátur og réttlætt þann, sem er af Jesú trú. 27 Hvar er þá hrósunin? Hún er útilokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar. 28 Vér álítum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmáls-verka. 29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja; 30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskurn af trú og yfirhúð fyrir trúna. 31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því; heldur staðfestum vér lögmálið.


4

Hvað eigum vér þá að segja, að forfaðir vor Abraham hafi úr býtum borið eftir holdinu? 2 Því að ef Abraham réttlættist af verkum, þá hefir hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði. 3 Því að hvað segir ritningin: En Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis. 4 En þeim, sem vinnur, verða launin reiknuð ekki af náð, heldur eftir verðleika; 5 hinum þar á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann, sem réttlætir óguðlegan, verður trú hans reiknuð til réttlætis. 6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án verka: 7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar. 8 Sæll er sá maður, sem drottinn tilreiknar ekki synd. 9 Nær þá sæluboðun þessi til umskurnarinnar? Eða líka til yfirhúðarinnar? Því að vér segjum: Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð. 10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Ekki umskornum, heldur óumskornum. 11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem innsigli trúar-réttlætisins, sem hann hafði meðan hann var óumskorinn, til þess að hann skyldi vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim, 12 og faðir hinna umskornu, þeirra, sem ekki aðeins eru umskornir, heldur og feta í fótspor þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn. 13 Því að ekki var Abraham eða sæði hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti; 14 því að ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört. 15 Því að lögmálið verkar reiði; en þar sem ekki er lögmál, þar er ekki heldur yfirtroðsla. 16 Fyrir því er það af trú, til þess að það sé af náð, svo að fyrirheitið mætti stöðugt standa fyrir alt sæðið, ekki fyrir það eitt, sem er af lögmálinu, heldur og fyrir það, sem er af trú Abrahams, hans, sem er faðir vor allra — 17 eins og ritað er: Föður margra þjóða hefi eg sett þig, — frammi fyrir honum, sem hann trúði á, Guði, sem lífgar hina dauðu og kallar það, sem ekki er til, eins og það væri til. 18 Hann trúði gegn von með von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða, samkvæmt því sem sagt hafði verið: Svo skal sæði þitt verða. 19 Og án þess að veiklast í trúnni leit hann á ellihruman líkama sjálfs sín, — hann var nálega tíræður, — og hið útdauða móðurlíf Söru; 20 en um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni, svo að hann gaf Guði dýrðina, 21 og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefir lofað. 22 Fyrir því var það honum og til réttlætis reiknað.23 En að það var honum tilreiknað, það var ekki ritað hans vegna einungis, 24 heldur líka vor vegna, sem það mundi tilreiknað verða, þeim sem trúa á hann, sem uppvakti Jesúm, drottin vorn, frá dauðum, 25 hann, sem vegna misgjörða vorra var framseldur og vegna réttlætingar vorrar uppvakinn.


5

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir drottin vorn Jesúm Krist, 2 sem vér og höfum aðgang fyrir með trúnni til þessarar náðar, sem vér stöndum í, og vér hrósum oss af von um dýrð Guðs; 3 en ekki það eitt, heldur hrósum vér oss líka af þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin verkar þolgæði, 4 en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. 5 En vonin lætur ekki til skammar verða, því að kærleika Guðs er úthelt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn. 6 Því að meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á tilteknum tíma fyrir óguðlega. 7 Því að varla deyr nokkur fyrir réttlátan mann; því að fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. 8 En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum. 9 Miklu fremur munum vér þá nú, réttlættir fyrir blóð hans, frelsaðir verða frá reiðinni fyrir hann. 10 Því að ef vér, þá er vér vorum óvinir, urðum sættir við Guð fyrir dauða sonar hans, þá munum vér miklu fremur, er vér verðum í sátt teknir, frelsaðir verða fyrir líf hans. 11 Og ekki það eitt, heldur hrósum vér oss líka af Guði fyrir drottin vorn Jesúm Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.

12 Þess vegna, eins og syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann, og dauðinn fyrir syndina, og dauðinn þannig er runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað, — 13 því að alt fram að lögmáli var synd í heiminum; en synd tilreiknast ekki, meðan ekki er lögmál. 14 Samt sem áður hefir dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað í líkingu við yfirtroðslu Adams, sem er fyrirmynd hans, er átti að koma. 15 En ekki er náðargjöfinni eins háttað og misgjörðinni. Því að ef hinir mörgu dóu fyrir misgjörð hins eina manns, þá hefir miklu fremur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í náð hins eina manns Jesú Krists. 16 Og ekki er gjöfinni eins varið og því, sem varð fyrir hinn eina mann, er syndgaði; því að dómurinn varð til fyrirdæmingar vegna eins, en náðargjöfin til sýknunar vegna misgjörða margra. 17 Því að ef dauðinn vegna misgjörðar hins eina manns ríkti fyrir hinn eina mann, þá munu miklu fremur þeir, sem meðtaka gnóttir náðarinnar og réttlætis-gjafarinnar, ríkja í lífi fyrir hinn eina Jesúm Krist. 18 Eins og því af misgjörð eins leiddi fyrirdæmingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætis-verki eins réttlæting til lífs fyrir alla menn. 19 Því að eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig munu og hinir mörgu verða réttlættir fyrir hlýðni hins eina. 20 En hér við bættist svo lögmál, til þess að misgjörðin ykist; en þar sem syndin jókst, þar flóði náðin yfir enn meir; 21 til þess að, eins og syndin ríkti fyrir dauðann, svo skyldi og náðin ríkja fyrir réttlæti til eilífs lífs fyrir Jesúm Krist, drottin vorn.


6

Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni, til þess að náðin aukist? 2 Fjarri fer því. Vér, sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni? 3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? 4 Vér erum því greftraðir með honum fyrir skírnina til dauðans, til þess að eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins, svo skulum vér og ganga í endurnýung lífsins. 5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum fyrir líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það fyrir líkingu upprisu hans, 6 með því að vér vitum þetta, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni; 7 því að sá, sem dauður er, er réttlættur frá syndinni. 8 En ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa, 9 með því að vér vitum, að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar, dauðinn drotnar ekki lengur yfir honum. 10 Því að það, að hann dó, dó hann syndinni einu sinni, en það, að hann lifir, lifir hann Guði. 11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.

12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans. 13 Frambjóðið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur frambjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn. 14 Því að synd skal ekki drotna yfir yður; því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.

15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því. 16 Vitið þér ekki, að þeim sem þér frambjóðið sjálfa yður fyrir þjóna til hlýðni, þess þjónar eruð þér, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða, eða hlýðni til réttlætis? 17 En þökk sé Guði, að þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri mynd kenningarinnar, sem þér voruð á vald gefnir, 18 og gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni. 19 Eg tala á mannlegan hátt, sökum veikleika holds yðar. Því að eins og þér hafið framboðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú frambjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar. 20 Því að þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið. 21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir; því að endalok þeirra er dauði. 22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og sem endalokin eilíft líf; 23 því að laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, drotni vorum.


7

Eða vitið þér ekki, bræður, — eg er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, — að lögmálið drotnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir. 2 Því að gift kona er að lögum bundin manninum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmáli mannsins. 3 Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns; en deyi maðurinn, er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns. 4 Fyrir því, bræður mínir, eruð og þér deyddir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að þér skylduð tilheyra öðrum, honum, sem var upp vakinn frá dauðum, til þess að vér mættum bera Guði ávöxt. 5 Því að þegar vér vorum í holdinu, störfuðu ástríður syndanna, þær sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt. 6 En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, svo að vér þjónum í nýung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

7 Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það, eg þekti ekki syndina nema fyrir lögmálið; því að eg hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: Þú skalt ekki girnast. 8 En er syndin hafði tekið tilefni af boðorðinu, kom hún til leiðar í mér alls konar girnd, því að án lögmáls er syndin dauð. 9 Eg lifði einu sinni án lögmáls; en er boðorðið kom, lifnaði syndin við, 10 en eg dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér að vera til dauða; 11 því að syndin, sem tók tilefni af boðorðinu, dró mig á tálar og deyddi með því. 12 Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt og réttlátt og gott. 13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því. Nei, það var syndin, til þess að hún birtist sem synd, er hún með því, sem gott er, olli mér dauða, — til þess að syndin yrði fyrir boðorðið ákaflega syndug. 14 Því að vér vitum, að lögmálið er andlegt; en eg er holdlegur, seldur undir syndina. 15 Því að eg veit ekki, hvað eg aðhefst; því að það, sem eg vil, það gjöri eg ekki, en það, sem eg hata, það gjöri eg. 16 En ef eg nú gjöri einmitt það, sem eg ekki vil, þá samsinni eg lögmálinu, að það sé gott. 17 En nú er það ekki framar eg sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr. 18 Því að eg veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er í holdi mínu; því að vilja veitir mér auðvelt, en að framkvæma hið góða ekki. 19 Því að hið góða, sem eg vil, gjöri eg ekki, en hið vonda, sem eg ekki vil, það gjöri eg. 20 En ef eg gjöri það, sem eg vil ekki, þá er það ekki lengur eg sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr. 21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast. 22 Því að samkvæmt hinum innra manni hefi eg mætur á lögmáli Guðs; 23 en eg sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugskots míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar, sem er í limum mínum. 24 Eg aumur maður! Hver mun frelsa mig frá líkama þessa dauða? 25 Eg þakka Guði fyrir Jesúm Krist, drottin vorn. Svo þjóna eg þá sjálfur lögmáli Guðs með hugskoti mínu, en lögmáli syndarinnar með holdinu.


8

Svo er þá nú engin fyrirdæming fyrir þá, sem eru í Kristi Jesú; 2 því að lögmál lífsins anda hefir í Kristi Jesú frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans. 3 Því að það, sem lögmálinu var ómögulegt, að því leyti sem það mátti sín einkis fyrir holdinu, það gjörði Guð, er hann, með því að senda sinn eigin son í líkingu syndar-holds og vegna syndarinnar, fyrirdæmdi syndina í holdinu, 4 til þess að réttlætiskrafa lögmálsins uppfyltist á oss, sem ekki göngum eftir holdi, heldur eftir anda. 5 Því að þeir, sem ganga eftir holdi, hyggja á það, sem holdsins er, en þeir, sem ganga eftir anda, á það sem andans er. 6 Því að hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður; 7 því að hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. 8 En þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði. 9 En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, svo framarlega sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans. 10 En ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn líf vegna réttlætisins. 11 En ef andi hans, sem vakti Jesúm frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist Jesúm frá dauðum, og gjöra lifandi dauðlega líkami yðar fyrir þann anda hans, sem býr í yður.

12 Svo erum vér þá, bræður, í skuld, ekki við holdið, svo að vér skyldum lifa eftir holdinu; 13 því að ef þér lifið eftir holdinu, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa. 14 Því að allir þeir sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs synir. 15 Því að ekki hafið þér fengið þrældómsanda aftur til hræðslu, heldur hafið þér fengið anda sonar-kosningar, sem vér köllum í: Abba, faðir! 16 Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn; 17 en ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, svo framarlega sem vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum gjörðir vegsamlegir með honum.

18 Því að eg hygg, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast. 19 Því að þrá skepnunnar bíður eftir opinberun Guðs barna. 20 Því að skepnan er undirorpin hégómanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, 21 í von um að jafnvel sjálf skepnan muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til frelsis dýrðar Guðs barna. 22 Því að vér vitum, að öll skepnan stynur líka og hefir fæðingarhríðir alt til þessa. 23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss, bíðandi eftir sonar-kosningunni, endurlausn líkama vors. 24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir, en von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér? 25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.

26 En sömuleiðis hjálpar og andinn veikleika vorum; því að vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber; en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpunum, sem ekki verður orðum að komið. 27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, með því að hann biður fyrir heilögum eftir Guðs vilja. 28 En vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar alt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt fyrirhugun; 29 því að þá, sem hann þekti fyrirfram, hefir hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra. 30 En þá sem hann fyrirhugaði, þá hefir hann og kallað, og þá sem hann kallaði, þá hefir hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, þá hefir hann einnig vegsamlega gjört.

31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss? 32 Hann, sem ekki þyrmdi sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss alt með honum? 33 Hver skyldi ásaka Guðs útvalda? Guð er sá, sem réttlætir. 34 Hver er, sem fordæmir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er, og meira en það, upprisinn frá dauðum, hann, sem er við hægri hönd Guðs, hann, sem einnig biður fyrir oss. 35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Hvort þjáning? Eða þrenging? Eða ofsókn? Eða hungur? Eða nekt? Eða háski? Eða sverð? 36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, vér erum álitnir eins og sláturfé. 37 En í öllu þessu meira en vinnum vér sigur fyrir hann, sem elskaði oss. 38 Því að eg er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, né englar, né tignir, né hið yfirstandandi, né hið ókomna, né kraftar, 39 né hæð, né dýpt, né nokkur önnur skepna muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem er í Kristi Jesú, drotni vorum.


9

Eg tala sannleika í Kristi, eg lýg ekki, samvizka mín vitnar það með mér í heilögum anda, 2 að eg hefi hrygð mikla og sífelda kvöl í hjarta mínu; 3 því að þess mundi eg óska, að eg væri sjálfur útskúfaður frá Kristi fyrir bræður mína, ættmenn mína að holdinu, 4 en það eru Ísraelsmenn, sem sonar-kosningin tilheyrir og dýrðin og sáttmálarnir og löggjöfin og helgihaldið og fyrirheitin; 5 þeim tilheyra og feðurnir og af þeim er Kristur kominn að holdinu, hann, sem er Guð yfir öllu, blessaður um aldirnar. Amen. 6 Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist; því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir, 7 ekki eru heldur allir börn, þótt þeir séu sæði Abrahams, heldur: Þar sem Ísak er, skal sæði þitt kallast. 8 Það er: ekki eru holdsins börn Guðs börn, heldur eru börn fyrirheitisins talin sæði. 9 Því að fyrirheitis-orð er þetta: Í þetta mund mun eg aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið. 10 En ekki einungis á það hér heima, heldur og um Rebekku, sem var þunguð af eins manns völdum, Ísaks föður vors; 11 því að þá er þeir voru enn ófæddir og höfðu enn ekki gjört hvorki gott né ilt, — til þess að það stæði stöðugt, að útvalningar-fyrirætlun Guðs væri óháð verkunum, en öll komin undir vilja þess, er kallar, — 12 þá var henni sagt: Hinn eldri skal þjóna hinum yngri; 13 eins og ritað er: Jakob elskaði eg, en Esaú hataði eg. 14 Hvað eigum vér þá að segja? Er óréttvísi hjá Guði? Fjarri fer því. 15 Því að hann segir við Móse: Þeim sem eg miskunna, honum mun eg miskunna, og þann sem eg aumkast yfir, hann mun eg aumkast yfir. 16 Það er því ekki komið undir þeim, sem vill, né þeim sem hleypur, heldur Guði, sem miskunnar. 17 Því er í ritningunni sagt við Faraó: Einmitt til þess hóf eg þig, að eg fengi sýnt mátt minn á þér, og að nafn mitt yrði boðað um alla jörðina. 18 Svo miskunnar hann þá þeim sem hann vill, en forherðir þann sem hann vill.

19 Þú munt nú vilja segja við mig: Hvað er hann þá að ásaka framar? Því að hver fær staðið gegn vilja hans. 20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: Hví gjörðir þú mig svona? 21 Eða hefir ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar? 22 En ef nú Guð, þótt hann vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefir með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin voru til glötunar, 23 einnig til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? 24 En slíka hefir hann og kallað oss, ekki aðeins af Gyðingum, heldur og af heiðingjum. 25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Eg mun kalla það mína þjóð, sem ekki er mín þjóð, og þá elskaða, sem ekki er elskuð; 26 og það mun fara svo, að á þeim stað, þar sem við þá var sagt: Þér eruð ekki mín þjóð, þar munu menn verða kallaðir synir Guðs lifanda. 27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða; 28 því að drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, bindandi enda á hann og ljúkandi við hann í skyndi, og — 29 eins og Jesaja hefir sagt fyrir, — ef drottinn hersveitanna hefði ekki skilið oss eftir sæði, værum vér orðnir eins og Sódóma og værum þá orðnir líkir Gómorru.

30 Hvað eigum vér þá að segja? Að heiðingjar, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, en það réttlæti, sem er af trú.31 En Ísrael, sem sóttist eftir réttlætis-lögmáli, náði ekki til slíks lögmáls. 32 Hvers vegna? Af því að þeir gjörðu það ekki af trú, heldur eins og af verkum. Þeir hafa rekið sig á ásteytingarsteininn; 33 eins og ritað er: Sjá eg set í Síon ásteytingarstein og hneykslunarhellu, og sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.


10

Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða. 2 Því að það ber eg þeim, að þeir eru vandlátir Guðs vegna, en ekki með skynsemd. 3 Því að með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að afla sér síns eigin, hafa þeir ekki hlýðnast réttlæti Guðs. 4 Því að Kristur er endir lögmálsins til réttlætis sérhverjum, sem trúir. 5 Því að Móse ritar, að sá maður, sem gjörir það réttlæti, sem er af lögmálinu, skuli lifa fyrir það. 6 En það réttlæti, sem er af trúnni, mælir þannig: Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn? — það er: til að flytja Krist ofan, — 7 eða hver mun stíga niður í undirdjúpið? — það er: til að flytja Krist upp frá dauðum. 8 Hvað segir það svo? Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu. Það er: orð trúarinnar, sem vér prédikum. 9 Því að ef þú játar með munni þínum drottin Jesúm og trúir með hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða; 10 því að með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis; 11 því að ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða; 12 því að ekki er munur á Gyðingi og grískum manni; því að hinn sami er drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá, sem ákalla hann; 13 því að hver, sem ákallar nafnið drottins, mun hólpinn verða. 14 Hvernig eiga þeir þá að ákalla þann, sem þeir hafa ekki trúað á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekkert heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? 15 Og hvernig eiga þeir að prédika, nema þeir séu sendir? Það er eins og ritað er: Hversu fagrir eru fætur þeirra, sem boða fagnaðarerindið um hið góða.

16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu; því að Jesaja segir: Drottinn, hver trúði því, sem hann heyrði hjá oss? 17 Svo kemur þá trúin af prédikuninni, en prédikunin byggist á orði Krists. 18 En eg segi: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega er hljómur þeirra farinn út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbygðarinnar. 19 Og eg segi: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: Eg vil vekja yður til vandlætingar gagnvart ekki-þjóð, upp á móti óviturri þjóð vil eg æsa yður. 20 En Jesaja gjörist djarfmáll og segir: Eg er fundinn af þeim, sem ekki leituðu mín, og orðinn þeim augljós, sem ekki spurðu að mér. 21 En við Ísrael segir hann: Allan daginn breiddi eg út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð.


11

Eg segi því: Hefir Guð útskúfað lýð sínum? Fjarri fer því. Því að eg er líka Ísraelsmaður, af sæði Abrahams, ættkvísl Benjamíns. 2 Guð hefir ekki útskúfað lýð sínum, sem hann fyrirfram þekti; eða vitið þér ekki, hvað ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann gengur fram fyrir Guð gegn Ísrael: 3 Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og ölturum þínum hafa þeir velt um, og eg er einn skilinn eftir, og þeir sitja um líf mitt? 4 En hvað segir guðsvarið honum? Eg hefi mér sjálfum eftirskilið sjö þúsundir manna, sem ekki hafa beygt kné fyrir Baal. 5 Þannig eru þá líka á yfirstandandi tíma samkvæmt náðar-útvalningu leifar orðnar eftir. 6 En ef það er af náð, þá er það ekki framar af verkum, annars verður náðin ekki framar náð. 7 Hvað þá? Það sem Ísrael sækist eftir, það hlotnaðist honum ekki, en hinum útvöldu hlotnaðist það, en hinir aðrir urðu forhertir. 8 Það er eins og ritað er: Guð gaf þeim sljóleiks-anda, augu til þess að sjá ekki, og eyru til þess að heyra ekki, alt fram á þennan dag, 9 og Davíð segir: Verði borð þeirra að snöru og að gildru og að hneykslun og til hegningar þeim? 10 Blindist augu þeirra, til þess að þeir sjái ekki, og beyg sífelt bak þeirra. 11 Eg segi því: Hvort hrösuðu þeir, til þess að þeir skyldu falla? Fjarri fer því; heldur hlotnaðist heiðingjunum hjálpræðið af falli þeirra, til þess að það skyldi vekja þá til vandlætingar. 12 En ef fall þeirra er heiminum auður og tjón þeirra heiðingjum auður, hve miklu fremur þá fylling þeirra?

13 En við yður, þér heiðingjar, segi eg: Að því leyti, sem eg þá er postuli heiðingja, vegsama eg þjónustu mína, 14 ef eg gæti vakið vandlæti hjá ættmönnum mínum og frelsað einhverja þeirra. 15 Því að ef burtsnörun þeirra er sætt heimsins, hvað er þá upptaka þeirra annað en líf af dauðum? 16 En ef frumgróðinn er heilagur, þá er einnig deigið það; og ef rótin er heilög, þá eru einnig greinarnar það. 17 En þótt nokkurar af greinunum hafi verið brotnar af, en þú, sem ert villiolíuviður, hafir verið græddur inn á meðal þeirra, og sért orðinn samhluttakandi í rót olíuviðarfitunnar, 18 þá stær þig ekki gegn greinunum; en ef þú stærir þig, þá vit, að þú ber ekki rótina, heldur rótin þig. 19 Þú munt þá segja: Greinarnar voru brotnar af, til þess að eg yrði græddur við. 20 Rétt er það. Fyrir sakir vantrúarinnar voru þær brotnar af, en vegna trúarinnar stendur þú. Hreyktu þér ekki upp, heldur óttast. 21 Því að hafi Guð ekki þyrmt hinum náttúrlegu greinum, þá mun hann ekki heldur þyrma þér. 22 Sjá því gæzku Guðs og strangleika, — strangleika við þá sem fallnir eru, en gæzku Guðs við þig, ef þú stendur stöðugur í gæzkunni; annars verður þú einnig af höggvinn. 23 En hinir munu og verða græddir við, ef þeir halda ekki áfram í vantrúnni, því að máttugur er Guð að græða þá aftur við. 24 Því að ef þú ert höggvinn af þeim olíuviði, sem eftir eðli sínu var villiviður, og ert móti eðli þínu græddur við ræktaðan olíuvið, hve miklu fremur munu þá þessar náttúrlegu greinar verða græddar við sinn eigin olíuvið?

25 Því að eg vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skulið ekki með sjálfum yður ætla yður hygna, að forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael, alt þangað til fylling heiðingjanna er komin inn. 26 Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun sá koma, sem frelsar, og útrýma guðleysi frá Jakob. 27 Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar eg hefi tekið burt syndir þeirra. 28 Eftir fagnaðarerindinu eru þeir að sönnu óvinir vegna yðar, en eftir útvalningunni elskaðir vegna feðranna, 29 því að ekki iðrar Guð náðargjafa sinna og köllunar. 30 Því að eins og þér fyrrum voruð óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra, 31 þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt. 32 Því að Guð hefir innilukt þá alla undir óhlýðni, til þess að hann gæti miskunnað þeim öllum.

33 Hvílíkt djúp ríkdóms og speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! 34 Því að hver hefir þekt huga drottins? Eða hver hefir verið ráðgjafi hans? 35 Eða hver hefir að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið? 36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldirnar! Amen.


12

Svo áminni eg yður þá, bræður, fyrir miskunnsemi Guðs, að þér frambjóðið, svo sem skynsamlega guðsdýrkun, líkami yðar sem fórn, lifandi, heilaga, Guði þóknanlega, 2 og hegðið yður eigi eftir öld þessari; heldur takið háttaskifti með endurnýungu hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, velþóknanlega og fullkomna.

3 Því að fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi eg sérhverjum, sem á meðal yðar er, að hugsa ekki hærra en hugsa ber, heldur að hugsa svo, að hann hugsi hyggilega, sérhver eins og Guð hefir úthlutað honum mæli trúarinnar. 4 Því að eins og vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa, 5 þannig erum vér hinir mörgu einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir; 6 en þar eð vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin, hvort heldur það er spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna, 7 eða þjónusta, þá gefum oss við þjónustunni, eða það er maður, sem kennir, hann gefi sig við kenslunni, 8 eða maður, sem áminnir, við áminningunni; sá sem útbýtir, gjöri það í einlægni, sá sem forstöðu veitir, gjöri það með kostgæfni, sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði. 9 Elskan sé flærðarlaus; hafið andstygð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. 10 Verið í bróðurkærleikanum ástúðlegir hver við annan og verið hver öðrum fyrri til að veita hinum virðingu; 11 í áhuganum ekki hálfvolgir; í andanum brennandi; 12 drotni þjónandi; glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni, staðfastir í bæninni. 13 Takið þátt í nauðsynjum heilagra; stundið gestrisnina. 14 Blessið þá, er ofsækja yður; blessið, en bölvið ekki. 15 Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. 16 Berið sama hug hver til annars; hugsið eigi um hið háa, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður eigi hygna með sjálfum yður; 17 gjaldið engum ilt fyrir ilt; stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna; 18 ef mögulegt er, að því er til yðar kemur, þá hafið frið við alla menn; 19 hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur gefið rúm reiðinni; því að ritað er: Mín er hefndin, eg mun endurgjalda, segir drottinn. 20 En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka, því að með því að gjöra þelta safnar þú glóðum elds á höfuð honum. 21 Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú hið vonda með hinu góða.


13

Sérhver sál sé yfirboðnum valdstéttum hlýðin; því að ekki er nein valdstétt til nema frá Guði, og þær sem til eru, þær eru skipaðar af Guði; 2 svo að sá, sem veitir valdstéttinni mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu; en þeir, sem veita mótstöðu, munu fá dóm sinn. 3 Því að valdsmennirnir eru eigi ótti góðum verkum, heldur vondum. En viljir þú eigi þurfa að óttast valdstéttina, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af henni; 4 því að hún er þjónn Guðs þér til góðs, en ef þú gjörir það sem ilt er, þá skaltu óttast; því að hún ber ekki sverðið ófyrirsynju, með því að hún er Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim, er aðhefst hið illa. 5 Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samvizkunnar. 6 Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að þeir eru Guðs þjónar, sem starfa að þessu sama. 7 Gjaldið öllum það sem skylt er, þeim skattinn, sem skatturinn ber, þeim tollinn, sem tollurinn ber, þeim óttann, sem óttinn ber, þeim virðinguna, sem virðingin ber.

8 Skuldið ekki neinum neitt nema það að elska hver annan; því að sá sem elskar annan, hefir uppfylt lögmálið. 9 Því að þetta: Þú átt ekki að drýgja hór; þú átt ekki að vega mann; þú átt ekki að stela; þú átt ekki að girnast, og hvert annað boðorð er í þessari grein innifalið, í þessu: Þú átt að elska náunga þinn eins og sjálfan þig. 10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein; þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.

11 Og þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær, en þá er vér tókum trú. 12 Liðið er á nóttina, en dagurinn í nánd; leggjum því af verk myrkursins og íklæðumst hertýgjum ljóssins. 13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti eða ofdrykkju, ekki í ólifnaði né saurlífi, ekki í þrætu né öfund, 14 heldur íklæðist drotni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.


14

Takið að yður hinn trúarveika, ekki til þess að dæma um skoðanir. 2 Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta, en hinn trúarveiki neytir einungis jurtafæðu. 3 Sá sem etur, fyrirlíti ekki hinn, sem ekki etur, og sá sem ekki etur, dæmi ekki þann, sem etur; því að Guð hefir tekið hann að sér. 4 Hver ert þú, sem dæmir annarlegan þjón? Hann stendur og fellur herra sínum; og hann mun standa; því að máttugur er drottinn að láta hann standa. 5 Einn gjörir sér dagamun, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum. 6 Sá sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna drottins, og sá sem etur, etur drotni, því að hann gjörir Guði þakkir; og sá sem ekki etur, það er vegna drottins, að hann etur ekki, og hann gjörir Guði þakkir. 7 Því að enginn af oss lifir sjálfum sér, og enginn deyr sjálfum sér, 8 því að hvort sem vér lifum, lifum vér drotni, eða vér deyjum, deyjum vér drotni; hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér drottins. 9 Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drotna bæði yfir dauðum og lifandi. 10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Því að allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs. 11 Því að ritað er: Svo sem eg lifi, segir drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð. 12 Fyrir því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.

13 Dæmum því ekki framar hver annan, en kveðið öllu heldur upp þann dómsúrskurð, að þér skulið ekki setja ásteytingu eður hneyksli fyrir bróður yðar. 14 Eg veit það og er þess fullviss í drotni Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt; honum er það vanheilagt. 15 Því að ef bróðir þinn hryggist sökum matar, þá gengur þú ekki framar eftir kærleikanum. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur er dáinn fyrir. 16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.17 Því að ekki er guðsríki matur og drykkur, heldur réttlæti og friður og fögnuður í heilögum anda. 18 Því að hver sem þjónar Kristi í þessu, hann er Guði velþóknanlegur og fullreyndur fyrir mönnunum. 19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar. 20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Alt er að sönnu hreint; en það er þó ilt þeim manni, sem etur til ásteytingar. 21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á. 22 Haf þú þá trú, sem þú hefir, hjá sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem áfellir sig ekki fyrir það, sem hann hefir valið. 23 En sá sem er efablandinn, hann er dæmdur, ef hann etur, af því að það er ekki af trú; en alt sem ekki er af trú, er synd.


15

Skylt er oss, hinum styrku, að umbera veikleika hinna óstyrku og þóknast ekki sjálfum oss. 2 Sérhver af oss þóknist náunganum í því sem gott er til uppbyggingar; 3 því að Kristur þóknaðist ekki heldur sjálfum sér, en eins og ritað er: Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér. 4 Því að alt það, sem áður er ritað, er áður ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolinmæðina og fyrir huggun ritninganna hefðum vonina. 5 En Guð þolinmæðinnar og huggunarinnar gefi yður að bera sama hug hver til annars að vilja Krists Jesú, 6 til þess að þér samhuga með einum munni vegsamið Guð og föður drottins vors Jesú Krists. 7 Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar. 8 Því að eg segi, að Kristur sé orðinn þjónn umskurnarinnar fyrir sakir sannorðleika Guðs, til að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin, 9 en að heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: Þess vegna skal eg játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni. 10 Og enn segir: Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans; 11 og enn: Lofið drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir; 12 og enn segir Jesaja: Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum; á hann munu þjóðir vona. 13 En Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

14 En eg er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, fyltir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan. 15 En eg hefi ritað yður að nokkuru leyti fulldjarflega, til þess að minna yður á þetta, vegna þeirrar náðar, sem mér er af Guði gefin, 16 til þess að eg skyldi vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum, innandi af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að fórn heiðingjanna mætti verða velþóknanleg og helguð í heilögum anda.

17 Eg hefi þá það, sem eg get hrósað mér af í Kristi Jesú, starf mitt í þjónustu Guðs. 18 Því að ekki mun eg dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefir framkvæmt fyrir mig, til að leiða heiðingja til hlýðni, með orði og verki, 19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda, svo að eg frá Jerúsalem og alt í kring til Illyríu hefi til fulls flutt fagnaðarerindi Krists; 20 en þannig, að eg hefi talið mér það sæmd, að boða ekki fagnaðarerindið þar sem Kristur hafði áður verið nefndur, til þess að eg bygði ekki ofan á annarlegan grundvöll; 21 heldur eins og ritað er: Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja.

22 Þess vegna hefi eg líka margsinnis hindrast frá að koma til yðar; 23 en nú hefi eg ekki lengur rúm í þessum héruðum, og mig hefir auk þess í mörg ár langað lil að koma til yðar, 24 þegar eg færi til Spánar; því að eg vona, að eg fái að sjá yður, er eg fer um hjá yður, og að mér verði fylgt á leið af yður þangað, er eg fyrst hefi nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður. 25 En nú fer eg á leið til Jerúsalem til að þjóna hinum heilögu. 26 Því að Makedónía og Akkea hafa af góðvild sinni gengist fyrir samskotum nokkurum handa fátæklingum meðal hinna heilögu, sem eru í Jerúsalem. 27 Því að af góðvild hafa þeir gjört það, enda eru þeir í skuld við þá; því að fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum. 28 En þegar eg hefi lokið þessu og innsiglað þeim þennan ávöxt, mun eg fara um hjá yður til Spánar. 29 En eg veit, að þegar eg kem til yðar, mun eg koma með fylling blessunar Krists.

30 En mikillega bið eg yður, bræður, fyrir sakir drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér í bænunum til Guðs fyrir mér, 31 til þess að eg verði frelsaður frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og þjónustustarf mitt Jerúsalem til handa verði vel þegið af hinum heilögu, 32 til þess að eg, ef Guð lofar, mætti koma til yðar með fögnuði og endurhressast ásamt yður. 33 En Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.


16

Eg fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu, 2 til þess að þér veitið henni viðtöku í drotni, eins og heilögum hæfir, og liðsinnið henni í hverju því efni, sem hún þarf yðar við, því að hún hefir verið bjargvættur margra og mín sjálfs.

3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú, 4 sem stofnað hafa lífi sínu í hættu fyrir líf mitt, sem ekki eg einn votta þakkir, heldur og allir söfnuðir heiðingjanna; 5 heilsið einnig söfnuðinum, sem er í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa. 6 Heilsið Maríu, sem mikið hefir erfiðað fyrir yður. 7 Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum, sem eru í metum hjá postulunum og á undan mér hafa gengið Kristi á hönd. 8 Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í drotni. 9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða. 10 Heilsið Apellesi, sem er fullreyndur í Kristi. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls. 11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem eru í drotni. 12 Heilsið Trýfæna og Trýfósa, sem erfiða í drotni. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefir starfað í drotni. 13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í drotni, og móður hans og minni. 14 Heilsið Asýnkrítusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru. 15 Heilsið Fílólógusi og Júlíasi, Nerevs og systur hans, og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru. 16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Yður senda kveðju allir söfnuðir Krists.

17 En eg áminni yður, bræður, um að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og hneyksli á móti þeirri kenningu, sem þér hafið numið; og sneiðið yður hjá þeim. 18 Því að slíkir menn þjóna ekki drotni vorum Kristi, heldur maga sjálfra þeirra, og með blíðmælum og fagurgala tæla þeir hjörtu hrekklausra manna. 19 Því að hlýðni yðar er alkunnug orðin; því gleðst eg yfir yður; en eg vil, að þér séuð vitrir í hinu góða, en einfaldir í hinu illa. 20 En Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar.

Náðin drottins vors Jesú Krists sé með yður.

21 Yður heilsa Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus og Jason og Sósípater, ættmenn mínir. 22 Eg, Tertíus, sem hefi ritað bréfið, heilsa yður í drotni. 23 Yður heilsar Gajus, sem ljær hús mér og öllum söfnuðinum. Yður heilsar Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus.

25 En honum, sem megnar að styrkja yður eftir mínu fagnaðarerindi og prédikun Jesú Krists, samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefir legið í þagnargildi, 26 en nú er auglýstur fyrir spámannlegar ritningar og eftir skipun hins eilífa Guðs kunngjörður öllum þjóðum til trúar-hlýðni, 27 einum vitrum Guði, fyrir Jesúm Krist, — honum sé dýrð um aldirnar. Amen.