Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna, sem Bríet Bjarnhjeðinsdóttir hjelt í Reykjavík 30. des. 1887 Fyrsti fyrirlestur kvennmanns á Íslandi, Reykjavík. Kostnaðarmaður: Sigurður Kristjánsson. 1888. Ísafoldarprentsmiðja. Háttvirtu áheyrendur! Þótt jeg standi hjer, er það eigi fyrir þá sök, að jeg þykist færari en aðrar konur til að taka fyrir umtalsefni eina hlið af þessu mikla áhuga- og velferðarmáli voru: um hagi og rjettindi kvenna, heldur vegna þess, að jeg vil að einhver af oss konum hreyfi við því. Og fyrst engin af hinum menntuðustu konum vorum hefir tekið það opinberlega til umtals, hætti jeg á að rjúfa þögnina, í þeirri von, að það geti orðið til þess, að einhverjar konur, sem mjer eru færari til að takast á hendur framsögu máls þessa, finni hjá sjer köllun til að skýra það betur fyrir almenningi en jeg fæ gjört. Jeg veit að jeg tekst mikið í fang, en jeg vænti umburðarlyndis yðar. Háttvirtu áheyrendur! Þegar jeg lít yfir alla þá, sem hjer eru saman komnir, finn jeg glöggt, hve satt það er, sem frú de Staël sagði: »Karlmaðurinn getur boðið almenningsálitinu byrginn, en konan hlýtur að gefa sig undir það«. En það er til tvenns konar almennt álit: það álit, sem byggist á heimsku, hleypidómum, einstrengingsskap, vanafestu, hlutdrægni, öfund og jafnvel illgirni, -- en undir það álit gef jeg mig ekki, heldur geng jeg fram hjá því -- og það álit, sem er byggt á skynsemi, drengskap, óhlutdrægni og mannúð, og þeim dómi skal jeg fúslega hlíta, hvernig sem hann fellur. Það er mjög algengt að heyra kvartað yfir þeim mikla mun, sem sje á högum karla og kvenna. Og það eru ekki einungis vjer konurnar, sem optlega látum óánægju vora í ljósi yfir því, heldur þykir líka mörgum karlmönnum það ranglátt og óhafandi. Vjer skulum nú líta snöggvast aptur á bak til hinna liðnu alda, og reyna til að glöggva oss á, hvort oss hefir heldur farið fram eða aptur í því tilliti, og á hverju það hefir verið byggt, að skipa konum svo lágt sæti í mannfjelaginu. Jeg verð að biðja hina háttvirtu áheyrendur að misskilja eigi, þótt jeg tali um rjettleysi kvenna. Með því á jeg eigi við, að menn hafi almennt farið illa með konur sínar og dætur, heldur það, að þær hafa ekki leyfi eða tækifæri til að nota alla sína hæfileika og krapta. Fuglinn getur átt góða daga, þótt hann sje settur í lokað búr, eða fjaðrir hans sjeu stýfðar, en hann er þá sviptur frelsinu og vængirnir verða honum þá gagnslausir, en enginn getur sagt, hve langt flug hann hefði getað þreytt, of hann hefði verið látinn sjálfráður. Þegar vjer lítum til baka, höfum vjer ekki annað við að styðjast en sögurnar, og verður þá biflían hin fyrsta saga, sem fyrir oss verður og sem flestir af oss þekkja. Frásögn hennar um sköpun Adams og Evu hefir lengi verið tekin af allmörgum sem óræk sönnun þess, að guð hafi þegar í öndverðu ætlað konum lægra sæti í mannfjelaginu en karlmönnum, því annars mundi hann eigi hafa haft svo lítið við hana, að skapa hana einungis af einu rifbeini karlmannsins, því varla muni honum hafa verið orðið svo fátt um efni eða ráð til að skapa hana á annan hátt, heldur sýni þetta ljóslega, að guð hafi ætlazt til að konan yrði aldrei tiltölulega meira, í samanburði við manninn, en rifið, sem hún var gjörð af, var í samanburði við allan líkamann. Og þessu hafa margir þeirra fylgt, sem í öðrum greinum hafa eigi sýnzt vera um of trúaðir á allar frásagnir biflíunnar. Þetta var svo einstaklega handhæg ástæða, til að smeygja sjálfum sjer út úr öllum þeim þrætum og vafningum, sem af þessu hefði getað leitt, og skella allri skuldinni upp á guð, að geta í skjóli ritningarinnar og undiryfirskini guðhræðslunnar troðið alla mannúð og rjettlætistilfinningu undir fótum. Vjer vitum, að hjá fornþjóðum Austurálfunnar, t.a.m. Indverjum, voru konurnar hafðar í stað vinnudýra. Öll erfiðustu verkin urðu þær að gjöra, því karlmönnunum þótti slíkt niðurlæging fyrir sig. Í biflíunni finnum vjer hvergi þess getið, að slíkt hafi átt sjer stað hjá Gyðingum, enda má vera, að það hafi komið af því, að Gyðingar hafi verið komnir lengra á veg í menntun en aðrar Austurálfuþjóðir, einkum eptir að þeir höfðu kynnzt Egyptum, sem stóðu svo ofarlega í menningu þeirra tíma. Þó sjáum vjer á ýmsu í bókum Móses, að konur hafa þar verið settar talsvert lægra en karlmenn. Jeg vil taka til dæmis eitt atriði, það eru hinar alkunnu hreinsanir. Þegar kona ól sveinbarn, var hún, eptir lögunum, óhrein í 7 daga, en hálfu lengur þegar hún átti meybarn. Auðsjeð er líka, að ekki hafa konur haft erfðarjett hjá Gyðingum fyrir Móses daga, því eptir að dætur Selófeads höfðu kvartað yfir því, að vera afskiptar í arftökunni, skipaði Móses fyrir, að dætur skyldu erfa, þar sem eigi væru synir, en þá yrðu þær að giptast einhverjum úr sinni ættkvísl, svo arfurinn gengi ekki úrættis. Væru synir til, erfði dóttirin ekki. Í bókum dómaranna eru líka mörg dæmi, sem sýna, að feður og eiginmenn höfðu takmarkalausan rjett yfir dætrum, konum og hjákonum sínum, og gátu misþyrmt og jafnvel líflátið þær óhegnt. Þær voru eign þeirra, og þeir voru sjálfráðir að því, hvort þeir fóru með þær vel eða illa. Kenning Páls postula er að þessu leyti áframhald af gamla testamentinu, sem eðlilegt var; og vjer sjáum, hve fastlega hann hefir fylgt hinni fornu frásögu biflíunnar um sköpun mannanna, þegar hann í fyrra brjefi sínu til Korintuborgarmanna býður konum, að þær sjeu mönnum sínum undirgefnar, þolinmóðar og auðsveipar, og að hylja höfuð sín í kirkjum og á mannfundum, en kveður karlmenn eiga að vera berhöfðaða, »því karlmaðurinn sje vegsemd guðs«, og »maðurinn sje eigi af konunni, heldur konan af manninum«. Sama er að segja um það, þegar hann skipar konum að þegja á mannfundum, en spyrja heldur menn sína heima. Telur ekki sæma, að þær tali opinberlega. Þessi kenning Páls postula hefir orðið að nokkru leyti undirrót þeirrar harðstjórnar og gjörræðis, sem konur hafa opt orðið að þola, eptir að kristni komst á, af feðrum, eiginmönnum og öðrum karlmönnum, sem yfir þeim hafa átt að segja. Því þótt Páll kenndi, að maðurinn væri konunnar höfuð, sem Kristur safnaðarins höfuð, þá hafa þó margir þeirra eigi að síður leyft sjer að nota þetta vald á allt annan veg. Þeir hafa sleppt seinni hluta setningarinnar, annaðhvort af gleymsku eða af því, að þeim hefir þótt hann óþarfur og ónotalegur þröskuldur fyrir því, að hægt væri fyllilega að nota herrarjettinn. Og karlmenn hafa notað hann, það er óefað. Það þarf ekki annað en að líta til miðaldanna, til að sjá, hvernig konur og dætur voru opt gjörsamlega sviptar öllu frelsi og mannrjettindum, hvernig dæturnar voru opt gefnar mönnum, þvert á móti vilja sjálfra þeirra. Því þótt kirkjusiðirnir segðu svo fyrir, að brúðurin væri spurð við giptinguna, hvort það væri fús vilji hennar, þá var hverri stúlku alveg ómögulegt að komast undan að játa því, þótt hún hefði heldur viljað láta lífið en giptast þeim manni, sem hún var þannig neydd að eiga. Stundum var líka dætrunum stungið í klaustur, þegar vandamenn þeirra þörfnuðust arfs þeirra, en gátu ekki náð honum á lagalegan hátt með öðru móti. Það má nærri geta, hvort þær stúlkur, sem ekki höfðu sjeð annað af lífinu en bjartari hliðina, og hlaut því að þykja það fýsilegt, og væntu margs af ókomna tímanum, hafi verið ánægðar með að segja skilið við glaum og gleði, æsku og ást, og grafa sig lifandi í klaustrum, opt undir hendi ónærgætinna umsjónarkvenna eða abbadísa. En þegar þessu var andæpt, settu menn upp guðræknissvip og báru fyrir sig boð guðs og ritningarinnar. Stuart Mill hefir því ekki sagt of mikið, þegar hann sagði, að þegar eitthvert málefni væri svo illt og svo gagnstætt allri mannúð og rjettlætistilfinningu, að það væri óafsakanlegt, þá hafi menn hlaupið í trúarbrögðin og sagt, að þau skipuðu svo fyrir, rangfært og hártogað þau, og þótzt gjöra það allt guðs vegna. Það er auðvitað, að til hefir verið fjöldi kvenna á öllum öldum, sem notið hefir fulls jafnrjettis við karlmenn, bæði hjá feðrum sínum og eiginmönnum, en það hefir þá verið einungis því að þakka, að menn þeirra og yfirboðarar hafa verið betri, rjettsýnni og mannúðlegri en lögin, og því, að konurnar hafa verið svo heppnar að koma sjer vel. Það hafa líka jafnvel einstöku þjóðflokkar veitt konum nokkur rjettindi, t.a.m. Spartverjar. Því þótt konur á Grikklandi væru í fornöld háðar mönnum sínum, veittu þó Spartverjar dætrum sínum mjög frjálslegt uppeldi, og vöndu þær við líkamsæfingar, eða leikfimi og íþróttir, ásamt drengjunum. Enda voru spartverskar konur sjálfstæðari og tóku meiri þátt í almennum málum en aðrar grískar konur, og meira en venja var til á þeim tímum. Í fornum enskum lögum er maðurinn kallaður herra konunnar og var bókstaflega álitinn það, enda voru það kölluð drottinssvik, ef kona vó mann sinn, og var hegnt harðara en þegar konungar voru myrtir, því hún var brennd lifandi, og það jafnvel þótt hún hefði áður mátt sæta grimmdarlegustu meðferð, og glæpurinn hefði þannig mátt heita síðasta vandræðaúrræði til að frelsast undan böðulshendi manns hennar. Þá fæddist konan til að verða eign mannsins, rjett eins og þrællinn til ánauðarinnar, og aðalsmaðurinn til aðalstignarinnar. Við því varð ekki gjört á annan hátt, en að konan yrði svo heppin, að verða eptirlætisbarn föðursins, eða uppáhaldsgersemi mannsins. Hefði hún ekki því láni að fagna, voru það óhjákvæmileg örlög hennar, að vera sem ambátt alla sína æfi, bæði sem dóttir og eiginkona. Hjer á Norðurlöndum sjáum vjer þó hvergi nein merki þess, að konur hafi verið í verulegri niðurlægingu fyr en eptir það að kristni komst á. Það er að vísu satt, að dætur voru stundum gefnar nauðugar, en það var fyrir það, að á þeim tímum var rjettur einstaklingsins opt lítils metinn, og átti það sjer jafnt stað um karla sem konur. Enda voru konur alls ekki skyldaðar til að þegja á mannfundum, heldur bendir allt á, að þær hafi haft fullt málfrelsi. Það var líka satt, að »mey skyldi mundi kaupa«; en það var að eins siður, og er líklegt, að það fje hafi átt að leggjast á móti heimanmundi stúlkunnar. Enda tíðkast slíkt enn hjá einstöku þjóðflokkum, t.a.m. Svartfellingum og sumstaðar í Kaukasusfjöllunum, og er alls ekki álitin sala, heldur að eins löglegar festar. Konum var heldur hvergi gjört lægra fyrir í hinum fornu goðasögum vorum en karlmönnum, og því hefir forfeðrum vorum ekki fundizt nein ástæða til að gjöra konur að óæðri verum. En þegar þeir kynntust biflíunni og sáu, hvernig ritningarnar voru lagðar út, þá opnuðust augu þeirra, og þeir sáu, að þessi kenning var makalaust þægileg. Var það ekki rjett og mátulegt, að þessar eptirlifandi Evudætur fengju að líða eitthvað fyrir óhlýðni og forvitni formóður þeirra, sem hafði bakað karlmönnunum svo mikla fyrirhöfn, og sem þeir höfðu úthelt svo mörgum svitadropum fyrir? Og átti ekki vel við, að karlmenn, sem sannir Adams synir, kenndu þeim um allt illt: syndina, baráttuna og dauðann? Og var það þá ekki eðlilegt og samboðið drengskap annara eins sona, sem sóru sig svo vel í föðurættina, þótt þeir notuðu sjer valdið, sem þeim var gefið af guði sjálfum, og sem þeir voru því svo vel að komnir, og fyrst þeir áttu konunum svona grátt að gjalda, að þeir þá ljetu bitna á þeim sína »rjettferðugu reiði«, og ljetu þær finna, að þeir hefðu nú bæði töglin og hagldirnar og mundu því nota valdið eptir föngum. Það er samt ekki svo að skilja, að kristnin hafi orðið bein ástæða til þess, að konur urðu að skipa óæðra bekkinn, heldur óbein. Áður höfðu Norðurlandabúar engin slík lög, og allra sízt guðleg lög, sem settu konur skör lægra en karlmenn, heldur tóku þeir menn, sem það gjörðu, leyfið hjá sjálfum sjer; enda voru það jafnast þeir einir, sem mestir harðstjórar og ódrengir voru. Og af því að fornþjóðir Norðurlanda stóðu á svo lágu stigi að allri menningu og sökum þess, að aldarhátturinn var sá, að rjettur hins sterkara mátti mest, hlutu konurnar, sem aðrir, er minna máttu, að kenna á grimmd og siðleysi þeirra, sem höfðu hnefarjettinn, þegar því var að skipta. En að öðru leyti sýna fornsögur vorar, að þær voru mikils metnar. Dætur og konur rjeðu auk heldur opt miklu í ríkisstjórn með feðrum og mönnum sínum. Þær höfðu jafnvel hirð um sig, eptir því sem skýrt er frá í gömlum frásögum, t.a.m. Þorbjörg á Ullarakri, Þóra Borgarhjörtur og drottning Valdimars konungs í Hólmgarði, sem sagt er að hafi keppt við hann að hafa jafnágæta menn við sína hirð og konungur, »eins og títt var um drottningar ríkra konunga«. Því þótt slíkar frásagnir sjeu ekki sögulega áreiðanlegar, sýna þær þó hugsunarhátt fornaldarinnar. Þær gengu líka í hernað; og rjeðu fyrir liði; og með því herfrægð var hin mesta virðing hjá fornþjóðum Norðurlanda, má af því marka, að konur hafa ekki verið lítils virtar, enda voru líka sumar af þeim konum, sem urðu frægastar í hernaði, gjörðar að valkyrjum eptir dauða sinn, eða nokkurs konar gyðjum, t.a.m. Brynhildur, Sigrún o.fl. En með kristninni komu lögin eða fyrirskipanir trúarbragðanna um undirgefni kvenna undir vald karlmanna. Og þótt trúarbrögðin mýktu að mörgu leyti siðina og bönnuðu líkamleg meiðsl og misþyrmingar, urðu þau þó óbeinlínis undirstaða þeirrar andlegu undirokunar og niðurlægingar, sem konur hafa orðið að búa við nú í margar aldir. Því ráðríkir, harðir og ódrenglyndir menn gátu þá undir eins vitnað til ýmsra biflíustaða og fyrirmæla kirkjufeðranna, og þannig, undir yfirskini trúarvandlætingar, fegrað og jafnvel rjettlætt hið augljósasta ranglæti og níðingsskap. Þetta mun nú sumum þykja kynleg skýring á ástandinu á miðöldunum, þegar margir hafa kennt það, að trúin hafi stórum bætt hagi kvenna að öllu leyti. En þetta hefir eigi verið það eina. sem byggt hefir verið á ritningunni, sem gagnstætt hefir verið allri mannúð og rjettlætistilfinningu. Þrælaeigendurnir í Ameríku byggðu líka rjett sinn, til að þjá þá og misþyrma, á því boði Páls postula, að þrælarnir skyldu sýna húsbændum sínum hlýðni. En mun það hafa verið tilgangur Páls, eða samkvæmt anda kristindómsins, að svo mikill hluti mannkynsins, sem allir svertingjarnir voru, væru skapaðir til að sviptast öllum mannrjettindum og sæta hinni harðýðgislegustu og miskunnarlausustu meðferð, sem siðlausir harðstjórar gátu fundið upp til að skeyta á þeim skapi sínu, notandi sjer það, að þrællinn eða svertinginn átti ekki til neins að flýja, engin lög vernduðu hann, eða ráku rjettar hans gegn húsbónda hans? Nei, postularnir hlutu að móta kenningu sína eptir aldarhættinum og háttum þjóða þeirra, sem þeir voru hjá. Þeir hefðu varla komið kristniboði sínu langt áleiðis, ef þeir höfðu viljað umskapa stjórnarfyrirkomulag þjóðanna; en við því hefðu þeir hreyft, ef þeir hefðu bannað þrælahald og þrælaverzlun, og sett konur jafnfætis karlmönnum. Það hefði heldur ekki orðið auðvelt fyrir postulana, að koma í veg fyrir þrælahaldið, þar sem það var ríkjandi skoðun manna, og jafnvel eins frægur spekingur og Aristóteles var, kenndi það, að svertingjarnir væru skapaðir til að vera þjónar hvítu mannanna; enda hefir sú trú haldist fast fram á vora daga, hvort sem þetta atriði hefir orðið að hefð, af því það var svo þægilegt fyrir hina auðugu þrælaeigendur, eða það hefir verið sannfæring manna, byggð á því, að svertingjarnir sýndust vera miður úr garði gjörðir, bæði að andlegum og líkamlegum hæfileikum. Nú á þessari öld, og einkum hin síðastliðin 20 ár, hefir að vísu hagur kvenna batnað stórum, og þó sjer í lagi hin síðustu 10 ár. Svisslendingar hafa fyrstir allra Norðurálfuþjóða veitt konum ýmsar rjettarbætur, t.a.m. leyfi til að ganga á háskóla, sem margar konur hafa gjört þar, bæði innlendar og útlendar, á síðustu árum. Á Þýzkalandi og í Austurríki gengur enn nokkuð seint með framfarir eða rjettarbætur kvenna. Á Skotlandi og í Belgíu fá konur að taka próf við háskólana og leikfimisskólana, að »praktisera« sem læknar og lyfsalar og vera við póststörf og frjettaþræði. Á Frakklandi hafa konur leyfi til að ganga á háskóla og hlýða á fyrirlestra. Og 1884-85 voru 80 kvennstúdentar í París. Á Spáni og Portúgal hafa konur fengið aðgang að háskólum, póststörfum, frjettapráðum og verzlun. En til þessa tíma hafa konur í Portúgal lítið notað það, en aptur margar á Spáni. 1875 fengu konur á Ítalíu aðgang að háskólum, sem þær höfðu verið sviptar um tíma. Á 15. öld var kona nokkur, Laura Creta Serena að nafni, prófessor við háskólann í Brescia. Nú er kona, sem heitir Giuseppina Battani, kennari við háskólann í Bologna. Á Ítalíu hafa konur líka fengið atkvæðisrjett í sveitarstjórnarmálum, og giptar konur sjerstök fjárráð. Þar hafa verið stofnaðir kvennaskólar og kvenna-háskólar handa þeim konum, sem vildu verða kennarar, og verzlunarskólar handa konum. Á Rússlandi hafa konur fengið full fjárráð yfir sínum sjerstöku eignum, bæði giptar og ógiptar. Þær hafa atkvæðisrjett til að kjósa bæjarfulltrúa, þótt þær megi ekki mæta sjálfar á kjörfundunum. Þær hafa á hendi ýms lægri embætti við póststörf og frjettaþræði, og mega jafnvel takast á hendur fjárráð óviðkomandi barna. Nú á síðustu árum hafa líka rússneskar konur stundað vísindi hópum saman við erlenda háskóla, einkum í Sviss. En nú síðast hafa konur fengið að lesa læknisfræði við háskólann í Pjetursborg og gengur síðan fjöldi kvenna á hann. Það er talið svo, að kvennlæknar á Rússlandi sjeu 350, og af þeim sjeu 100 í höfuðborginni. Á Tyrklandi hafa konum nú á síðustu árum verið veittar ýmsar rjettarbætur viðvíkjandi menntun þeirra, og á Grikklandi lætur drottningin sjer sæma, að vera fremst í flokki fyrir ýmsum fjelögum og fyrirtækjum, sem miða til að útvega konum meiri rjettindi en verið hefir. Í Svíþjóð fengu konur aðgang að háskólum 1870, en fengu þó ekki að taka próf í guðfræði eða lögfræði. Og nú er, sem mörgum hjer mun kunnugt, kona, sem heitir Sofía Kovalewsky, kennari í tölvísi við háskólann í Stokkhólmi. Í Norvegi fengu konur 1882 aðgang að háskólanum, til að nema þar ýmsar vísindagreinir, en 1884 fengu þær leyfi til að taka próf í öllum þeim vísindagreinum, sem þar eru kenndar. Á Englandi og í Ameríku er kvennfrelsismálið komið lengst, en jeg þarf eigi að skýra hjer frá viðgangi þess og framförum þar, því menn geta lesið fyrirlestur Páls Briems um það efni, sem hann hjelt hjer 20. júlí 1885, og eins, hve Danir eru komnir langt í þeim greinum. Jeg vil að eins geta þess, að 1875 fengu konur í Danmörku aðgang að háskólanum, og síðar hafa þær fengið aðgang að póststörfum, frjettaþráðum, skrifstofustörfum o.s.frv. Viljum vjer nú líta aptur á bak, og hyggja að kjörum kvenna hjer á Íslandi, verðum vjer að taka sögurnar oss til stuðnings, og þá sjáum vjer, að þegar í Landnámu kemur fram nokkur munur á kjörum karla og kvenna. Jeg vil taka eitt atriði til greina, það er landnámið. Í landnámu segir svo, að enginn maður megi stærra land nema en það, er hann geti eldi yfir farið á dag, þá er hann byrji, er sól sje í austri, og endi, er sól sje gengin í vestur. En um konu segir svo, að engin kona megi meira land nema en það, sem hún geti leitt kvígu sína yfir á dag. Nú er auðsætt, að eptir þessu hefir landnám karlmannsins orðið mikið stærra, því hægra hefir verið að fara hart yfir, þótt eldar væru kveyktir á eyktamótum, en að draga vetrung eptir sjer heilan dag. En þrátt fyrir þetta, sjáum vjer hvergi, að konur hafi verið lítilsvirtar, hvorki í heimahúsum eða hjá mönnum sínum. Því þótt stundum kæmi fyrir, að dætur væru festar mönnum nauðugar, eða jafnvel að þeim fornspurðum, þá kom það til af því, að það var aldarháttur, og ráðríki manna kom jafnt fram á börnum þeirra sem öðrum undirgefnum, þegar því var að skipta. Þær rjeðu auk heldur opt miklu um það, hverjum menn þeirra veittu að málum og vígum, og þær tóku jafnvel skógarmenn til ásjár að mönnum sínum fornspurðum, t.a.m. Þorbjörg digra, þegar hún ljet leysa Gretti Ásmundarson, án þess Vermundur vissi, Guðrún Ósvífursdóttir, er hún tók Grím til ásjár, sökudólg Þorkels festarmanns hennar, og lagði svo mikið kapp á að veita honum lið, að hún hét á boðsgesti sína að verja hann móti Þorkeli, sem var þó þá að drekka brúðkaup sitt til hennar. Og mundi slíkt ekki vera dæmt kvennlegt á vorri öld, þegar konur hafa varla leyfi til að hugsa eða bera hönd fyrir höfuð sjer, þótt þær megi sæta þeirri áreitni og mótgjörðum, sem enginn karlmaður hefði þolað orðalaust, nema þær sjeu dæmdar frekar og ókvennlegar af almenningsálitinu. Það er auðvitað, að það er að eins álit þeirra manna, sem ekki hafa skynsemi eða sanngirni til að skoða það án hleypidóma og hlutdrægni, og sem sízt af öllum geta dæmt um, hvað hið kvennlega sje í raun og veru. Það er því eins og hver annar ástæðulaus sleggjudómur, sem þeir einir nota, sem ekki hafa hæfileika eða vilja til að koma sjer upp með öðru en því, að troða náungann undir fætur, og hafa hann svo fyrir fótstall, svo þeir verði sjálfir ögn hærri í loptinu. Nei, á þeim tímum, það er að segja á söguöld vorri, heyrum vjer óvíða getið hins nærsýna smásálarskapar, sem dæmir drengskap, fastlyndi og sjálfstæðan vilja óþarfan, ókvennlegan og jafnvel óhæfu. Það er að eins við eitt tækifæri, að vjer sjáum brydda á því í Laxdælu, í þeim venjulega óheiðarlega tilgangi, að sverta drenglynda og sjálfstæða konu, er braut bág við almenningsálitið. Það var þegar Þórður Ingunnarson fjekk sjer það að skilnaðarsök við Auði konu sína, að hún hefði klæðst í karlmannaföt. Og eptir lögunum gátu menn skilið við konur sínar fyrir þá sök. Það er einmitt þessi þröngsýni og heimskulegi dómur fjöldans, sem veldur svo opt aðburðaleysi og þolinmæði kvenna, en hvorki skortur á skynsemi eða vilja til að komast áfram. Það lítur svo út, sem það sje eitthvað svo óhæfilegt fyrir konur, að skapa sjer sjálfstæðar skoðanir og framfylgja þeim, að þær geti ekki unnið það fyrir, ef það skyldi þá verða álitið »ókvennlegt«. Og það má fullyrða, að þessu orði hefir fylgt það töframagn, sem um margar aldir hefir hneppt hugi og framkvæmdir kvenna í þá fjötra, sem enn eru að mestu óleystir. Áður þótti það góður siður og sjálfsagður, að konur riðu til þings með feðrum og mönnum sínum. Og hvergi er þess getið, að til orðs væri lagt, þótt karlar og konur töluðu saman opinberlega og frjálslega. En nú er það dæmt óhæfilegt eða ókvennlegt, að konur sæki fundi, og það er gaman að sjá það háð og þá fyrirlitningu, sem skín út úr mörgum mönnum þegar þeir heyra þess getið, að stúlka »interesseri« sig fyrir einhverju almennu málefni. Þá kalla þeir hana rauðan »pólitikus«, og með því er sá dómur felldur, að hún sje ókvennleg og óhæf í allra kvennlegra kvenna röð. Þótt þeir geti ekki fundið henni annað til saka, og jafnvel þótt þeir geti ekki brugðið henni um þekkingarleysi á málinu, og geti hvergi rekið hana í vörðurnar, vilja þeir þó áskilja hverjum skóladreng meira vit og þekkingu en henni, vegna þess að hún er kona, þótt hún þekki málið sjálft betur, af því hún hefir gefið sig meira við því og hugsað margfalt meira um það en þeir. Af þessu leiðir það, að konur verða að snúa sjer að smámununum, þegar það er talið ósæmilegt, að þær fylgi tímanum og gefi gaum að áhugamálum hans. Það er víst, að þótt allir þeir ókostir væru sannir, sem konum eru eignaðir, svo sem lausmælgi, öfund, útásetningar, hleypidómar, tepruskapur, skrautgirni og hjegómaskapur, þá væru það eðlilegar afleiðingar vanans og uppeldisins. Þær eru bundnar við heimilin og hugsun þeirra verður því takmörkuð innan húsdyranna. Þeim hefir svo lengi verið sagt, að þeirra ætlunarverk væri ekki annað en að giptast og eiga börn, og að þær eigi engan annan verkahring að hafa en hússtjórnina, að líklegt væri, að þær væru loksins farnar að trúa því. En nú vill svo illa til, að konur eru fleiri en karlmenn, svo það er ómögulegt að þær geti gipzt allar nema ef þær yrðu allar mjög skammlífar, en karlmenn aptur að því skapi langlífir, og þeir gætu svo orðið tví- og þríkvæntir. Því ekki er líklegt, að þær fari að sem býflugurnar, að gjöra sig ánægðar með að þjóna alla æfi undir einvaldri húsmóður, og allra sízt, ef móður- og húsmóðurstaðan er þeirra eina upprunalega ákvörðun. Það væri að afneita eðli sínu, og því afneitar enginn, sem er óneyddur og sjálfráður. Er þá ekki eðlilegt, fyrst allir aðrir atvinnuvegir, sem þolanlegir eru, eru þeim lokaðir, að þær þá geri sitt til að geta gipzt, og fyrst lítið hefir verið hirt um þeirra andlegu framför og þær sjá það lítið metið, þótt þær vilji gefa sig við því, sem er verulegt og gæti auðgað þær að nytsamri þekkingu, er það þá ekki eðlilegt, segi jeg, að þær taki það fyrir sem næst er, og minnsta hæfileika þarf til -- að húðfletta náungann með smámunalegum og ástæðulausum sleggjudómum, eðlilegt, þótt þær öfunduðu þegar einhver hefði eitthvað það til að bera, sem þeim þætti mikið í varið, þótt þær baktöluðu og settu út á aðra, þótt þær skreyttu sig og gjörðu allt hvað þær gætu til að verða sem útgengilegastar? Þetta væri eðlilegt, en það er langt frá mjer að játa öllum þessum sakargiptum upp á oss stúlkurnar. Vjer eigum, sem betur fer, margfalt minna skilið af þeim, en sagt hefir verið og líkindi hefðu verið til. Þetta mun nú mörgum þykja heldur mikið sagt, og því verður ekki neitað, að það lætur ekki vel í eyrum. En það er líka satt, að margra eyru eru svo viðkvæm, að þau þola ekki að heyra sannleikann nema hann sje þynntur út eða kryddaður með einhverju ljúffengara. En þá á það við, sem Georg Brandes segir: að sú þjóð sje illa farin, sem sje orðin svo »æstetiseruð«, að hún þoli ekki að heyra sannleikann, af því hann láti illa í eyrum. Það er ekki að búast við, að konur taki miklum framförum, meðan þessi hugsunarháttur er ríkjandi, en til allrar hamingju er hann heldur að ganga úr gildi, og margir, bæði karlar og konur, eru farnir að játa, að þess konar kreddur eigi ekki við þessa tíma. Á hinum síðustu öldum var ástand kvenna hjer á landi í mörgu lakara en nú. Þá höfðu dætur ekki svo mikið sem jafnan erfðarjett gagnvart bræðrum sínum, heldur fengu þær aðeins hálfan arf móti þeim, og það langt fram á þessa öld. Því er svo opt talað um bróðurlóð, þegar einhver hefir haft meira en honum hefir borið. En það var þó eigi í því eina atriði, sem dóttirin var fyrir borð borin. Allir skynsamir foreldrar ala þannig upp sonu sína að leitast við að búa þá undir þá lífsstöðu, sem líkast var að þeir yrðu settir í, eða þeir væru hæfir til. En um dæturnar hefir það skipt öðru máli. Í stað þess að taka tillit til hæfileika þeirra og velja þeim, sem bræðrum þeirra, lífsstöðu eptir því, urðu þær, fram yfir miðja þessa öld, að vinna baki brotnu og opt það, sem þær hvorki voru lagaðar til, nje færar um. Þá þótti sú stúlka afbragðsvel að sjer til bókar, sem var lesandi og skrifandi. Foreldrar þeirra sýndu þannig of mikla ónærgætni og hlutdrægni, þegar þeir eyddu fje sínu til náms sonum sínum, en ljetu dæturnar þrælka og bera hita og þunga dagsins, án þess að hafa neitt fyrir og svo að lokum fá að eins hálfan arf móti þeim. Hvernig mundi yður þykja sá bóndi fara að ráði sínu, sem ætti tvo sonu og segði þegar sá eldri fæddist: »Þú skalt heita Jón eins og hann faðir minn og verða prestur eins og hann«. En þegar sá yngri fæddist: »Það er bezt þú heitir Sigurður eptir honum afa þínum og búir hjerna á kotinu eptir mig«. En nú skyldi vilja svo óheppilega til, að prestsefnið væri efni í bónda, en óhæfur til náms, og bóndaefnið væri skapaður til náms, en ófær til búskapar, -- en faðir þeirra hafði ákveðið örlög þeirra og við það varð að sitja. Þeir voru því báðir settir á ranga hyllu í lífinu, hvorugur gat notið hæfileika sinna og báðir urðu svo andlegir umskiptingar, engum til gagns, en sjálfum sjer til byrði. Eða var það ekki eðlilegt? Þetta mun nú fáum þykja forsjálega farið að, en þó er það nákvæm lýsing á kjörum kvenna, eins og þau hafa verið um margar aldir. Að vísu hefir hið sama stundum átt sjer stað um drengi, að þeir hafa verið fyrirfram ákvarðaðir af vandamönnum sínum til einhverra vissra starfa, en það er nú algerlega horfið og hefir heldur ekki verið nema hjá einstöku feðrum, sem hafa verið allra einstrengingslegastir. Enda hefir slíkt aldrei orðið almennt hjer á landi. En konurnar eru frá fæðingunni ákvarðaðar til sinna vissu starfa, sem kölluð hafa verið kvennaverk, hvort sem þeim mundu láta þau vel eða illa. Drengirnir hafa átt að verða menn, sem gætu orðið færir um að ryðja sjer sjálfir braut til gæfu og gengis. En stúlkurnar hafa átt að verða konur, sem höfðu sinn takmarkaða verkahring í búri og eldhúsi. Það er að segja: verur, sem stæðu skör lægra í öllu tilliti, sem ekki hefðu annað takmark í lífinu en að snúast í kringum karlmennina og gjöra þeim lífið sem þægilegast, og sem ættu að gefa sig með lífi og sál einungis að þessu ætlunarverki. Þær ættu að eiga góða daga, ef feður þeirra og eiginmenn leyfðu, en hefðu þó engan rjett til að fá sama uppeldi og lifa sama lífi og bræðurnir. Þær þyrftu ekki og ættu ekki að hugsa um annað en búið og börnin, það væri hið eina, sem þeim kæmi við. Skylduverk þeirra væri það, sem þessir húsbændur sköpuðu þeim, en það ætti ekki við, að leyfa sjer að hugsa um, hvort þau væru sanngjörn eða ekki. Konum sæmdi að vera hógværar og þolinmóðar, það væri guðs boð, og það væri synd að breyta því. Þótt konur hafi verið auðugar og fært mönnum sínum í búið margar þúsundir króna, áttu þær þó -- og svo er enn -- ekki ráð á nokkurum eyri þegar þær voru giptar, ef mönnum þeirra leizt svo. Maðurinn var og er enn þeirra löglegi fjárráðamaður, og getur jafnvel skammtað þeim í hendurnar, það sem þær þurfa til daglegra þarfa á heimilunum. Það þarf eigi langt að leita aptur á bak til að finna þau dæmi. Jeg hefi þekkt menn, sem tóku við skökunni af strokknum hjá konum sínum, sem töldu kjötbitana ofan í tunnurnar og reiknuðu svo saman, hvort talan stæði heima, þegar búið var úr tunnunni, eptir því sem þurfti að taka úr henni daglega, svo þeir sæju, hvort konan hefði ekki hnuplað úr henni, -- sem tóku til kornmatinn út á pottinn og kaffið, sem brennt var, og höfðu nefið niðri í hverri kollu og kyrnu, -- sem konurnar áttu svo illt hjá, að þær þurftu að fá leyfi þeirra til að fara til kirkju og það þótt þær færu gangandi. Og þessum mönnum eiga konur að umbera allt og hlýða í öllu! Væri ekki sanngjarnara og rjettara, að þær hefðu eitthvað meira undir sinni hendi? Eða er það viðurkvæmilegt, og mun það auka þá virðingu, sem hver maður hlýtur að vilja, að bæði hjú hans og aðrir sýni konu hans, ef hún sjálf, eiginkonan og húsmóðirin, þarf að standa frammi fyrir honum sem beiningakona í hvert sinn, er hún þarf einhvers við, þótt eigi sje nema eldstokkur, og verði með ótta og skelfingu að gera grein fyrir, hvernig hún hafi varið hverjum þeim eyri, sem hann af náð sinni miðlaði henni? Eða ef illa gengur fyrir henni að fá þá hluti, sem henni eru allra nauðsynlegastir, að hún neyðist þá til að laumast og pukra á bak við mann sinn og þannig gera sjálfa sig að óheimildarmanni, eða, ef vjer viljum nefna það sínu rjetta nafni -- að þjóf að eigum sjálfrar sinnar? Hún, sem á að vera jafningi og fjelagi manns síns. Mundi það þykja sanngjarnt, ef tveir menn verzluðu í fjelagi með jöfnum eigum, og báðir ynnu verzluninni jafnt gagn, en annar hrifsaði undir sig öll völdin og allt yrði að ganga í gegn um hans hendur, hvort sem hann væri vel eða illa til þess fallinn, en hinn rjeði engu og yrði að biðja um hvern þann eyri, sem hann þyrfti við, og yrði jafnan að skripta fyrir það, hvað hann hefði gjört við 5 eða 10 aurana síðast, þótt hann vissi, að fjelagi sinn eyddi eigum þeirra beggja í alls konar óreglu? Munu ekki flestir karlmenn hafa orðið fegnir þegar þeir losuðust við eptirlit og umsjón fjárráðamanna eða vandamanna sinna? Og er þá ekki líklegt, að margri konu falli illa að vera alla æfi ómyndug? Því það mega þær heita þegar þær fara frá foreldrunum til mannsins og verða jafnan að hlýta annara forsjá og ráðum. Vera má að menn segi, að sumar konur sjeu svo eyðslusamar og óhagsýnar, að menn þeirra neyðist til að skipta sjer af öllu, ella færi allt á höfuðið. Það er auðvitað, að þetta getur átt sjer stað, en það kemur líka stundum af því, að konan hefir aldrei haft nein fjárráð, en hefir tekið við því, sem að henni hefir verið rjett, bæði hjá foreldrunum og manni sínum. Hafi hún átt efnaðan föður og góðan mann, þá hefir hún fengið alla þá hluti, sem hún hefir þarfnast, án þess hún hafi þurft að bera umhyggju fyrir hvað það kostaði, eða hvernig gengi að borga það. Jeg vil taka til dæmis, að ef kona kaupir á uppboði 20 króna virði, þá er hún aldrei skrifuð fyrir skuldinni, heldur maður hennar, og hann hlýtur að gjalda hana, hvort honum þykir betur eða ver. Af þessu leiðir, að sje konan hugsunarlítil, óforsjál og eyðslusöm, getur hún keypt margt og eytt mörgu, þegar hún tekur það allt af annara peningum, og það mundi hún síður gjöra, ef hún hefði sjálf haft vissa upphæð að ráða yfir og vissum útgjöldum að svara, en gæti ekki skellt skuldinni upp á manninn, Hún lærði þá betur að meta gildi peninganna, og sjá, að allir hlutir kostuðu eitthvað, að af eineyringum gæti orðið króna og af smámunum gæti orðið mikil upphæð. En væri hún nú svo ráðlaus, að ekkert dygði nema að fara með hana sem ómyndugt barn, þá yrði það að eins síðustu neyðarúrræði manns hennar, að taka af henni ráðin, og þá kæmi alveg það sama fyrir og konum ætti að vera heimilt, ef þær ættu ráðleysingja eða óreglumenn. Þar sem gott samkomulag er á milli hjóna, er ekkert eðlilegra en full sameign, og að maðurinn hafi umsjón fjár þeirra beggja. En beri út af því, ætti vel við, að hvort fyrir sig hefði sín sjerstöku fjárráð. Það eru hrópleg rangindi, að maðurinn skuli geta sólundað öllum eigum sínum og konu sinnar í allskonar óreglu, að hann geti tekið síðustu aurana, sem hún hefði þurft sjer og börnum þeirra til viðurværis, til að borga með vínskuldir eða önnur slík útgjöld, án þess að hún hafi lagalegan rjett til að halda þeim fyrir honum. Eða sje hann ráðleysingi, sem kaupir og selur svo, að allir heilvita menn sjá, að hann hlýtur að verða fjelaus -- er það þá ekki óheyrilegt, að konan, þótt hún sjái betur og henni sje þetta þvernauðugt, verði samt að horfa þegjandi á, að hann komi þeim báðum og börnum þeirra á vonarvöl með heimsku og fyrirhyggjuleysi, án þess hún hafi heimild til að bjarga sínum fjárhluta frá því eyðslunnar ginnungagapi. Með því að hafa eitthvað á milli handa, læra menn að verja eigum sínum hyggilega. Og það mundi verða langt um happasælla, að haga þannig uppeldi kvenna, að þær væru sem mest látnar læra að bera umhyggju fyrir sjer sjálfar, en að þær væru frá vöggunni til grafarinnar settar á knje karlmönnum, sem þær ættu að sækja til allt vitið og öll ráðin. Og það jafnvel þótt sumir þeirra manna, sem þær væru þannig faldar til umsjár, reiddu hvorki vitið nje ráðdeildina í þverpokunum. Nú á hinum síðustu árum hefir hagur kvenna hjer á landi breytzt nokkuð til batnaðar, þótt mikið vanti til að vel sje. Þær hafa fengið nokkuð líkara uppeldi bræðrum sínum, þær hafa fengið nokkura menntun, þær hafa fengið fullan erfðarjett, þær hafa fengið kosningarrjett í sveitarstjórnarmálum, þótt þær hafi notað hann að þessum tíma miður en skyldi, og þær hafa nú síðast fengið leyfi til að ganga undir próf við lærðaskólann og læknaskólann hjer, þótt þær bæði þurfi hærri einkunnir til að geta staðizt prófið og fái hvorki námsstyrk nje nokkura von um embætti að loknu náminu, eða svo mikið sem von um, að geta haft nokkurn tíma nokkurt gagn af því. Það er nú reyndar bágt að sjá, hvað svona lagaðar ákvarðanir eiga að þýða, eða hver ástæða sje fyrir því, að veita konum tækifæri til að verða færar um að takast embætti á hendur, en útiloka þær svo frá öllum mögulegleikum til að geta lifað af náminu. Með öðrum orðum: þær mega eyða tíma sínum og peningum til þess, en aldrei hafa neitt verulegt gagn af því. Sumir menn segja, að það sje ekki ákvörðun kvenna að »stúdera«, og ef þeim væri gjört jafnhægt fyrir að fá embætti og karlmönnum, mundu þær hverfa frá sinni upprunalegu köllun -- móður- og húsmóður-stöðunni -- og verða svo nokkurs konar »paríur«, sem engum flokki gætu tilheyrt. Þessari mótbáru mætti svara með orðum Stuart Mill's. Hann segir: »Það lítur svo út sem karlmenn haldi, að það, sem kallað er ákvörðun eða köllun kvenna, sje gagnstæðast eðli þeirra. Að minnsta kosti lítur svo út sem þeir haldi, að ef konur hefðu frjálsræði eða leyfi til að gjöra eitthvað annað, eða ef þeim væri gefinn kostur á að nota tíma sinn á geðfeldari hátt fyrir þær, samkvæmt hæfileikum þeirra, þá mundu þær konur, sem tækju þá stöðu fyrir, sem þeim er sögð eðlilegust, verða of fáar. Það er eins og menn segðu: »Konurnar vilja ekki giptast, því verðum vjer að neyða þær til þess«. Sje þetta meining manna, hlýtur annaðhvort að vera, að þeir sjeu ekki alveg vissir um, hvað sje ákvörðun konunnar, -- því fæstir munu þó játa það, að »þótt náttúran sje lamin með lurk, leiti hún út um síðir« -- eða þeir gjöra ekki hjónabandið mjög fýsilegt fyrir þær, ef þær mundu velja hvað helzt annað, væru þær sjálfráðar, og það þótt hjónabandið væri þeirra eina sanna köllun. Aptur segja sumir menn, að konur sjeu ekki færar um að takast embætti á hendur, þær hafi ekki jafna hæfileika og maðurinn, risti ekki eins djúpt og sjeu ekki jafn þolgóðar að grafast til botns í neinni vísindagrein. Það getur verið satt, að fáar af þeim konum, sem enn hafa lagt sig eptir vísindum, hafi skarað fram úr, eða fundið ný sannindi og nýjar reglur. En það getur ekki sannað neitt, þegar þess er gætt, hve fáar konur hafa gefið sig við námi og vísindum í samanburði við karlmenn. Af öllum þeim aragrúa karlmanna, sem á öllum öldum hafa stundað vísindi og listir, hefir meiri hlutinn verið heldur neðar þeim konum, sem hafa lagt sig eptir sama námi. Mundi ekki geta skeð, ef jafnmargar konur stunduðu vísindi, að einhverjar þeirra gætu skarað fram úr, og unnið vísindunum og mannkyninu ómetanlegt gagn? Vjer sjáum, að af þeim fáu konum, sem hafa lagt sig eptir vísindum og opinberum störfum, hafa sumar áunnið sjer nafn í menningarsögu heimsins. Vjer vitum, að Grikkir töldu Sappho með sínum beztu skáldum, og eins, að sagt er að Mirtis hafi kennt Pindar, hinu fræga fornskáldi, og að Korinna vann 5 sinnum verðlaun fram yfir hann í skáldskap. Sömuleiðis viðurkennir hinn frægi spekingur, Sókrates, að hann hafi gengið til Aspasiu og numið af henni heimspeki. Hypatia, sem var kennari í heimspeki við hinn nafnfræga háskóla í Alexandríu (dáin 415 e. Kr.), hefir getið sjer mikinn orðstír fyrir fyrirlestra sína í heimspeki, sem fjöldi manna hlýddi á, og vjer vitum ekki, hvað heimurinn hefir misst mikið við hin hörmulegu afdrif hennar. Hinn ofstækjufulli biskup Cyrillus æsti munkana móti henni, af því hún var ekki kristin, og bar hana galdri; varð hann þannig valdur að því, hvernig henni var misþyrmt og að hún var líflátin með ótrúlegri grimmd, vegna þess að kenning hennar var hrein og laus við ofstækju og hleypidóma. Heloise (dáin 1162), hefir líka getið sjer orðstír í heimspeki, og hefði hún getað haldið áfram, er líklegt að hún hefði unnið meira í vísindanna þarfir en margir karlmenn. Nú á seinni tímum hafa líka margar konur verið taldar mjög merkir rithöfundar, t.a.m. frú de Staël, sem var samtíða Goethe og Schiller, hefir bæði ritað skáldsögur og líka nokkuð í heimspeki, George Sand og ýmsar fleiri. En þótt konur hafi ekki enn þá orðið karlmönnum jafnsnjallar í vísindalegu tilliti, er það eðlilegt, því þær hafa orðið að hafa námið í hjáverkunum, en karlmenn hafa getað gefið sig eingöngu við því; og þegar þess er gætt, má óhætt fullyrða, að þær hafa ekki staðið karlmönnum á baki. Þótt konur hjer á landi hafi ekki átt kost á bóklegri menntun, nema ef þær hafa getað tínt saman ýmsa mola á víð og dreif, má þó fullkomlega segja, að þær hafi átt mestan og beztan þátt í því, að alþýðan hefir verið álitin, og hefir verið, betur menntuð en alþýða víða erlendis. Því þegar engir barnaskólar eða unglingaskólar voru til, hlutu þær að verða hinir fyrstu kennarar barna sinna. Þær kenndu þeim málið, lesturinn og barnalærdóminn. Af þeim lærðu synir þeirra frásagnir um frægð og drengskap forfeðranna. Hjá þeim geymdust hinar gömlu þjóðsögur, sem svo mikið hefir þótt til koma meðal annara þjóða. Þær hafa varðveitt málið hreint og óblandað; því þótt ýmsir menn, sem farið höfðu utan, vildu fara að öllu að siðum Dana, og streittust við að »tyggja upp á dönsku«, eins og Jónas Hallgrímsson komst að orði, þá voru konurnar jafnan eptirbátar í þeirri grein. Af þeim lærðu hinir beztu menn vorir að unna þjóðerni og ættjörðu sinni. Þær voru það, sem kenndu þeim að vinna öðrum til gagns, þótt það væri ekki metið af samtíðarmönnum þeirra, og að setja ekki sjálfa sig í það öndvegi, sem allt ætti að miðast við. Jeg vil segja, að flestir hinna beztu og merkustu manna hafi að meira eða minna leyti átt mæðrum sínum eða öðrum konum ágæti sitt að þakka. Nú á síðustu árum hafa líka verið stofnaðir kvennaskólar, þar sem konur geta fengið nokkura menntun í ýmsum greinum. Því verður ekki neitað, að þeir hafa komið miklu góðu til leiðar til að auka áhuga og menntafýsi kvenna. En það er eðlilegt, að þar komi fram hið sama og hjá karlmönnunum, sem litla menntun hafa fengið, að þær skilji ekki ætíð, hvað menntun er, og taka því opt litinn fyrir það sanna og verulega. Ýmsir hafa fundið það að kvennaskólum vorum, að þeir kenndu of margt, en því hefi jeg aldrei getað verið samdóma. Það er mjög sanngjarnt og nauðsynlegt, að stúlkur geti átt kost á að læra sem flest eptir vilja, efnum og hæfileikum þeirra. Það hefir líka tíðkast frá því sögur hófust, að konur hafa gefið sig við margs konar hannyrðum, og það er alls ekki rjett, að kalla þær í sjálfu sjer óþarft glingur. En í því tilliti sem öðru þarf að læra að sníða sjer stakk eptir vexti og hvorki byrja á of mörgu, svo ekki sje hægt að verða fullnuma í neinu, eða taka það óþarfasta, en skilja eptir það nauðsynlegasta. Enn sem komið er, er menntun vor kvennanna hjer á landi svo skammt komin áleiðis, að vjer höfum varla fengið ljósa hugmynd um, hvað menntun er. Auk þess að læra lestur og skript lítur svo út sem fjöldi kvenna haldi, að ekkert sje jafn nauðsynlegt og það, að geta skilið lítið eitt í dönsku, þótt þær geti hvorki talað hana nje skrifað, og þótt þær enn síður geti ritað sendibrjef lýtalaust á móðurmáli sínu, hvorki að hugsun, orðfæri nje stafsetningu, auk heldur þær hafi nokkura málfræðislega hugmynd um móðurmál sitt, eða þekki hinar einföldustu reglur fyrir uppruna þess og beygingum. Móðurmálið ætti þó að sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru, að undanteknum lestri og skript. Það minnsta, sem hægt er að heimta af þeim, sem vill heita menntaður, er þekking á móðurmáli og sögu þjóðar sinnar. Jeg vil líka segja, að hver, sem hefir fylgt þeim viðburðum, sem gjörzt hafa í föðurlandi hans, sem hefir kynnt sjer menningarsögu þjóðar sinnar, bæði að fornu og nýju, og fylgir í öllu tímanum, -- að hann sje margfalt menntaðri, þótt hann kunni enga aðra tungu en þjóðtungu sína, ef hann kann hana vel, en þótt hann hefði lesið eitthvað af misjöfnu »rómana«-rusli á einhverju öðru tungumáli, en kynni hvorki það mál nje sitt eigið mál til hlítar, eða hefði lesið nokkura fróðlega bók, sem gagn væri að. Það, sem þarf að komast inn í hugsunarhátt og vilja bæði karla og kvenna, er, að læra vel það, sem vjer lærum, og læra helzt það, sem er nytsamlegast fyrir oss. Það eru margir, bæði karlar og konur, sem læra sjer til gagns, og láta sjer ekki nægja að sýnast menntaðir, heldur eru það líka. En það eru þó of margir, sem hugsa of mikið um að sýnast. Og það ættu skólarnir að laga. Á kvennaskólunum ættu kennslukonurnar að geta nokkuð stutt að því, að stúlkurnar leituðust við að ná sem mestri sannri menntun og þekkingu. Hjer í Reykjavík eiga kennslukonur kvennaskólans óhægra með að ráða námi stúlknanna en á sveitaskólunum, þar sem kennslukonur og námskonur búa saman, og stúlkurnar eru þannig kunnugri kennurunum og geta lært margt af þeim, sem eigi eru beinar námsgreinar. Kurteisi og látlausa framgöngu geta stúlkur aldrei lært eins vel af bókum og af menntuðum og kurteisum konum, sem þær búa saman við; enda geta kennararnir jafnan haft fullt svo mikil áhrif á nemendurna með eptirdæmi og dagfari sínu, sem með tímakennslunni. Vjer konurnar þurfum að finna, að menntunin á að hefja oss upp yfir hið lága og smálega, til hins sanna, góða og göfuga. Vjer verðum að læra að meta fegurðina frá öðru sjónarmiði en margir hafa áður skoðað hana. Vjer verðum að sjá, að ekkert er fagurt, sem ekki er satt, eðlilegt og rjett, og að það er ekki ófagurt eða ókvennlegt, að vinna heiðarlega fyrir sjer, á hvaða hátt sem er, hvort það er með höndum eða höfði. Vjer verðum að losa oss við hleypidóma og vana, og hætta að dæma það óhæfu, þótt einhver af oss vilji ryðja sjer aðra götu en vjer höfum sjálfar gengið. Vjer þurfum að mennta oss og leitast við að verða sem færastar í hvaða stöðu sem fyrir kann að verða, að reyna að verða sem sjálfstæðastar, ef vjer viljum ekki verða neinum til byrði. Vjer þurfum að verða samtaka og fjelagslegar. Vjer verðum að stefna áfram. Vjer þurfum ekki að kvíða því, að oss takist ekki að komast áleiðis á framfaraveginum, ef vjer viljum. Vjer verðum að leggja niður feimnina og framtaksleysið, dáðleysið og tepruskapinn. En vjer skulum aldrei gleyma, að vera sannar konur, konur, sem tökum þátt í kjörum annara, sem erum mannúðlegar, umhyggjusamar og starfsamar. Vjer þurfum eigi að vera sprenglærðar eða stórpólitiskar til að stefna áfram og vinna í hag uppvaxandi kynslóðum. Hver kona, og sjer í lagi hver gipt kona, getur gjört mikið í þá átt. Hún getur á margan hátt bætt hagi vinnukvenna sinna. Hún getur leitast við að vekja hjá þeim framfaralöngun og sýnt þeim, að það er undir þeim sjálfum komið, hvort þær geta nokkurn tíma skapað sjer sjálfstæða stöðu eða ekki. Þá er eitt atriði, sem þarf stórra umbóta við og sem konur ættu að geta lagað dálítið, það er að jafna nokkuð muninn á kaupi karlmanna og kvenna, en til þess þarf samheldi og fjelagsskap. Það getur varla verið rjettlátt, að vinnukonan hafi ekki meira en þriðjungs kaup móti karlmanni, hvað dugleg sem hún er, og þótt hún gangi opt að sömu vinnu og hann, eins og er í sveitum á sumrin. Og þó þarf stúlkan að vinna mörg verk fram yfir karlmanninn, bæði kvöld og morgna og sunnudaga, þegar hann getur notið hvíldar. Hún þarf þá að nytka kýr og ær og margt fleira umfram hann, og svo hefir hún svo sem í þokkabót að taka af honum vosklæðin á kvöldin, jafnvel draga af honum skó og sokka, meðan hann liggur aptur á bak í rúmi sínu og ef til vill reykir pípu sína, og færa honum svo allt þurrt og hreint að morgni, þótt hún verði sjálf að fara í sömu fötin, eins og þau voru að kvöldinu. Hún verður á sumrin að nota sunnudaga og nokkuð af svefntíma sínum til þjónustubragðanna, og fyrir það hefir hún ekkert, nema ef til vill vanþakklæti og aðfinnslu fyrir, að þjónustan sje ekki nógu góð. Ef konur gætu komið því á, að vinnumennirnir sæju sjer sjálfir fyrir þjónustu, en hefðu hana ekki að sjálfsögðu heima, fyrir ekkert, þá yrðu þeir annaðhvort að þjóna sjer sjálfir eða kaupa hana. Ef þær svo gæfu stúlkum sínum vissan tíma kvöld og morgun, setjum það væri klukkutími í einu, fyrir þann tíma, sem þær eyddu á helgidögum til nauðsynlegustu starfa, og stúlkan fengi svo 10-15 kr. hjá vinnumanninum fyrir þjónustuna, þá gæti það orðið góð viðbót við vinnukonukaupið, en kostaði þó húsbændurna ekki annað en lítinn tíma, sem stúlkan hefði vel unnið fyrir, og sem hver góð húsmóðir mundi vel geta unnt stúlkum sínum. Í kaupstöðum yrði þetta síður viðbót við vinnukonukaupið, því þar hafa stúlkur öðrum störfum að gegna. En þar hafa þær líka opt hærra kaup og svo fá þær opt talsvert að auki hjá húsmæðrum sínum, sem þeim er ekki reiknað. Vinnukonur gætu og, ef þær væru hugsunarsamar, notað marga stund sjer til gagns, og ef húsmæður þeirra væru velviljaðar og framfaragjarnar, gætu þær leiðbeint þeim í mörgu. Hjer í Reykjavík gengur of mikill tími í heimsóknir til kunningjanna og í skemmtigöngur á götum úti. Það er að vísu vorkunn, þótt vinnukonur langi til að bregða sjer út og fá sjer hreint lopt, en ekki mundu þær verða mikið vansælli, þótt þær eyddu sumum þeim stundum á annan hátt, sjer til menntunar eða gagns að einhverju leyti. Jeg tel víst, að mörg húsmóðir mundi með ánægju veita vinnukonu sinni tilsögn í ýmsu bæði til munns og handa, ef hún sæi að stúlkan vildi það. Því verður aldrei neitað, að aðalverksvið konunnar er heimilið, þótt það sje ekki því til fyrirstöðu, að hún geti gefið gaum að fleiru. Heimilin eru ríki út af fyrir sig. Þar er húsmóðirin optast mestu ráðandi, þegar um innanhúss-stjórn er að gjöra. Og þá er það skylda hennar og ætti að vera ljúf skylda, að bera umhyggju fyrir velferð þeirra, sem hún á yfir að segja. Það er eigi nóg að heimta hlýðni og virðingu af öðrum. Menn verða líka að vera virðingarverðir og sýna, að þeir virði sig sjálfa í raun og veru, með því að láta sjer annt um þá, sem þeir eiga að ráða yfir, og sýna þeim þá mannúð og nærgætni, sem þeir hefðu viljað njóta, ef eins hefði staðið á fyrir þeim. Það er stagast á því, hve fagurt það sje fyrir konur, að vera »kvennlegar«, en eptir þeirri þýðingu, sem jeg legg í þetta orð, sýnist mjer ekkert vera ókvennlegra en mannúðarleysi, harðstjórn og ónærgætni, og ekkert samkvæmara kvennlegu eðli en mannúð, umhyggjusemi og nærgætni við þá, sem eru undirgefnir. Að sýna umhyggju og lipurð í umgengni við þá, sem hún á að ráða yfir, og vekja hjá þeim löngun eptir sannri menntun og framförum, og efla þannig hagsæld og ánægju þeirra allra, -- það getur hver húsmóðir að meira eða minna leyti.