ÆVINTÝRI OG SÖGUR H.C. ANDERSEN ÆVINTÝRI OG SÖGUR STEINGRÍMUR THORSTEINSON ÞÝDDI 1. BINDI Fjórða útgáfa BARNABLAÐIÐ ÆSKAN REYKJAVÍK 1970 PRENTSMIÐJAN ODDI HF. H.C. ANDERSEN Hans Christian Andersen, ævintýraskáldið heimsfræga, er fæddur í Odense (Óðinsvéum) 2. apríl 1805. Faðir hans var fátækur skóari, en vel gefinn að andlegum hæfileikum og betur en vanalegt er í þeirri stétt, og talsvert lesinn. Móðirin var blíðlynd kona og góðhjörtuð. Lagði faðirinn mikla alúð við drenginn og varði sunnudögunum til þess að búa til handa honum leikföng og las fyrir hann í „Þúsund og einni nótt“, kómedíum Holbergs o.fl. Vakti það snemma ímyndunarafl drengsins, einkum fór hann að hafa mikinn hug á sjónleikjagerð, saumaði föt á leikbrúður sínar og lét þær leika leiki, sem hann bjó til upp úr sér eða setti saman af því, er hann hafði séð umferðartrúða leika í Odense; ætlaði hann sér að semja ósköpin öll af leikritum og bar þar að auki óspart við að yrkja kvæði. Auðvitað var á þessu öllu hinn mesti viðvaningsháttur og bernskubragur, en það sýndi, hversu rík og ómótstæðileg skáldþráin var í brjósti hans. Mjög var hann undarlegur og ólíkur öðrum börnum, fullur af ímyndunar draumórum og sjúklegri viðkvæmni, samfara hóflausum stórhug til einhvers hærra, sem þótti stinga í stúf við fátæktina, og þó sumum væri ekki grunlaust, að eitthvað óvenju mikið byggi í drengnum, þá voru þó hinir fleiri, sem drógu dár að honum og nærri því töldu hann hálfvita. Föður sinn missti Andersen 11 ára gamall og hafði þá móðir hans ofan af fyrir þeim með þvotti og ýmissi annarri vinnu. Nokkru seinna giftist hún í annað sinn og var seinni maðurinn líka skóari, en lét sér ekkert annt um uppeldi stjúpsonarins. Móðir Andersens hugsaði þá helst að láta hann læra skraddaraiðn, af því hann var svo natinn að sauma utan á leikbrúður sínar, en það vildi Andersen ekki; hann vildi fyrir hvern mun verða leikari. Svo varð samt að vera sem móðirin vildi. En áður hann færi að nema skraddarahandverkið átti hann að ljúka skólagöngu sinni, en það var í skóla nokkrum fyrir fátæk alþýðubörn, þar sem ekki var annað kennt en fræðin, skrift og reikningur. Var hann nú fermdur og átti að fara til læringar hjá skraddara nokkrum, en þá sárbændi hann móður sína að lofa sér heldur að fara til Kaupmannahafnar. „Ég vil verða frægur,“ sagði hann; „ég hef lesið um marga menn, sem fæddir voru í bláfátækt eins og ég, en urðu frægir; fyrst verður margt illt að þola, en á eftir verður maður frægur.“ Nú er hann sótti þetta svo fast, þá leitaði móðirin til spákonu einnar og lét hana spá fyrir honum í spilum og kaffikorg. „Sá tími mun koma,“ sagði spákonan, „að Odense-bær verður skrautlýstur honum til sæmdar.“ Þau orð gerðu það sem dugði, og lagði nú Andersen, fjórtán ára gamall, af stað til Kaupmannahafnar (1819) með eina tíu ríkisdali í vasanum og dálítinn fataböggul undir hendinni. Kemur hann nú til höfuðborgarinnar alókunnugur öllum og átti nú sjálfur að koma sér á framfæri. Ekki var drengurinn sélegur, heldur ófríður í meira lagi, bleikhærður og fölur í andliti, toginleitur og fullorðinslegri í yfirbragði en hann hafði aldur til, óliðlega vaxinn og limaburðurinn dinglandalegur, en ófeiminn var hann að hafa sig áfram. Vildi svo heppilega til fyrir honum, er hann leitaði á fund Síbóni, söngmeistara við konunglega leikhúsið, ítalsks manns, að hann hitti þar í miðdegisgildi; voru þar meðal annarra gesta skáldið Baggesen og tónsnillingurinn Weyse. Spáði Baggesen því þá, að einhvern tíma mundi verða maður úr þessum undarlega pilti og Weyse gekkst fyrir samskotum til bráðustu þarfa hans. Síbóni tók að sér að kenna honum söng, því Andersen hafði söngrödd mjög góða, en er sú kennsla var á sem bestum vegi, komst hann í mútur, og var þá horfið frá því að gera hann að leikhúss-söngvara. Ekki fór betur, er reyna skyldi að kenna honum ballettdans; líkamsvöxtur hans og limaburður gerði hann ófæran til þess og varð því sú niðurstaðan, að hann var látinn hætta við allt leiklistarnám (1822). Andersen hafði samt það gagn af þessari veru sinni í leikhússkólanum, að hann fékk að vera bak við leiktjöldin og enda koma fram á leiksviði einstöku sinnum og taka þátt í flokkasöngum, eftir að hann komst úr mútum. Sorgarleika samdi hann um þessar mundir hvern af öðrum og hvern öðrum lakari, sendi þá leikhússstjórninni og fékk þá jafnharðan aftur með þeim ummælum, að þeir væru óhafandi. En ekki duldist mönnum samt, að innan um voru í þeim glampar af sannri skáldgáfu. Hitt var þó enn auðsæjara, að ætti nokkuð að verða úr Andersen sem skáldi, þá yrði að bæta úr menntunarskorti hans og urðu ýmsir góðir málsmetandi menn til að styðja hann og styrkja með ýmsu móti og má þar fremstan telja mikilmennið og göfugmennið Jónas Collin. Hann kom því til leiðar, að konungur veitti Andersen 400 rd. ársstyrk í 3 ár til að ganga í latínuskóla. Fór Andersen þá í Slagelse latínuskóla, en rektor við þann skóla var á þeim árum S. Meisling, og var Andersen á heimili hans og undir hans tilsjón og fylgdist með honum síðan til Helsingjaeyrar, er hann varð rektor við skólann þar. Meisling þessi var að vísu velmenntaður maður og hinn lærðasti, en hvort sem það hefur verið hrapallegt missýni eða annað verra, þá er víst, að honum fórst illa við Andersen. Hafði hann enga trú á að neitt mundi verða úr honum sem skáldi og ætlaði sér að uppræta úr honum allar skáldagrillur og beitti við hann hörku og háði, en Andersen viðkvæmur og blautgeðja sem barn og lauk svo, að Collin tók hann úr skólanum og sá honum fyrir prívatkennslu í Kaupmannahöfn. Gekk Andersen svo undir stúdentspróf (Artium) í Kaupmannahöfn og hlaut aðra einkunn. Um þessar mundir hafði Andersen ort hið fræga kvæði sitt „Det döende Barn“ og fleiri, sem vöktu athygli manna; þá samdi hann og „En Fodrejse fra Holmens Kanal til Östpynten af Amager“, „humöristiska“ skáldsögu, sem ber talsverðan keim af þýska ævintýraskáldinu Hoffmann. Kvæðasöfn komu út eftir hann 1830-33 og '47, en ekki verður sagt að hann sé tilkomumikið ljóðskáld, þó sum kvæði hans séu einkar fögur. 1833 fékk hann ferðastyrk af almannafé til utanfarar og dvaldi hann á Ítalíu veturinn 1833 – 34. Eftir það samdi hann skáldsöguna „Improvisatoren“ („Talandi skáldið“), sem er ágæt lýsing á lífinu á Ítalíu, full af ljómandi fegurð og ímyndunar auðlegð. Markar útkoma þeirrar bókar tímamót í lífi hans, því fyrir hana hlaut hann fyrst almenna viðurkenningu sem skáld, bæði utanlands og innan, en áður hafði hann átt mjög erfitt uppdráttar, einkum í Danmörku, með því að gagnrýnendur þar höfðu lagst mjög á hann með hörðum og enda óvildarfullum ritdómum. En úr þessu var honum óhætt. Menn fundu það að hinum fyrri skáldritum Andersens, að þau væru að mörgu leyti andlega óþroskuð, formlaus og ólistfeng, og er að vísu nokkuð hæft í því. Þar við bætist, að Andersen var sjálfur helst til mikið barn – það var hann alla ævi; hin barnalega hégómagirni hans egndi marga á móti honum. Meðal þeirra, sem drjúgan hnífluðu hann, var skáldið og menntaskörungurinn Johann Ludvig Heiberg, þó hann að sumu leyti kannaðist við skáldkosti hans. Heiberg hefur víst ekki órað fyrir því, að hann mundi sjálfur verða svo stórkostlega yfirstiginn af honum að skáldfrægð eins og raun hefur á orðið síðar. Helstu skáldsögur Andersens aðrar en „Improvisatoren” eru „O.T.”, „Kun en Spillemand” og „De to Baronesser”. Andersen hefur eflaust verið víðförlastur allra danskra skálda. Hann var nálega ávallt á ferðalagi úr einum stað í annan, enda var hann ókvæntur alla ævi og hafði ekki neitt fast heimili. Höfðu þær ferðir mjög svo örvandi og auðgandi áhrif á skáldgáfu hans. Kynntist hann á ferðum sínum fjöldamörgum andans mönnum og tignarmönnum ekki síður, og hvarvetna var hann kærkominn gestur; átti það vel við hann að fara land úr landi og gleðjast yfir frægð sinni og vinsæld. Hefur hann ritað nokkrar ferðasögur eða skáldlegar lýsingar landa þeirra, er hann fór um, og þjóða þeirra, er hann hafði kynni af. Merkast þeirra rita er „En Digters Basar”. Þótt Andersen hafi samið leikrit ekki allfá og sum þeirra getið sér góðan róm á leiksviði, þá kveður samt eigi mjög að honum sem sjónleikaskáldi. Sumir sjónleikar hans eru ævintýralegs efnis. Best af leikritum hans er talið „Den ny Barselstue”, fyndnisríkur kímileikur, sem alloft hefur verið leikinn. Það, sem gert hefur Andersen frægastan allra danskra skálda í öðrum löndum, gert hann að heimsfrægu skáldi, það eru ævintýri hans. Af þeim kom út fyrsta heftið 1835 og svo þaðan af hvert á fætur öðru; létu menn misjafnlega við þeim í fyrstu, einkum í Danmörku, en áður langt um liði, urðu þau mikils metin og vinsæl og þá ekki síst erlendis. Hafa þau verið þýdd á fjölda mörg tungumál og eru fram á þennan dag í mesta afhaldi víða um lönd. Kallaði Andersen þau fyrst „Eventyr fortalte for Börn”, en seinna gaf hann þeim nafnið „Eventyr og Historier”, og er það mikið safn, um 150 að tölu. Er auðvitað ekki allt jafn gott í svo miklum fjölda, en þó tekin séu aðeins þau ævintýrin, sem eru viðurkennd snilldarverk, þá er það ekki lítið safn. Í þessum ævintýraskáldskap hefur Andersen fundið sig sjálfan sem skáld; í honum er hann frumlegur og alveg einstakur; í honum hafa allir skáldkostir hans getað notið sín til fulls, enda er í honum meira frjálsræði og formið óbundnara en í öðrum skáldskap. En það má með sanni segja, að Andersen hefur aðdáanlega tekist að klæða ævintýri sín í listfengan búning, sem efninu hæfir, og á þann hátt, sem enginn mun geta leikið eftir. Það var eigi aðeins skáldgáfan með sínum töfrum, sem hér kemur til greina, en það var líka barnseðlið í Andersen sjálfum í sambandi við skáldgáfu hans sem gerði það, að hann gat orðið slíkur höfundur fyrir börnin sem hann varð; að hann gat samið slík barnaævintýri, sem enginn hefur getað fyrr né síðar – sannkallaðar perlur úr djúpi barnhreinnar skáldsálar. En það er ekki aðeins til barnanna, sem ævintýri Andersens eiga erindi, heldur einnig til hinna fullorðnu, og því kvað norska þjóðskáldið Björnstjerne Björnson þetta til hans: Da min Sjæl var barnehungrig, Mætted Du med voksne Tanker; Siden den blev mæt og voksen, Ammed Du paa Barnet i den. Það kom fram, sem Andersen hafði sjálfur sagt í æsku, að fyrst yrði maður að þola margt illt, en síðan yrði maður frægur. Hann öðlaðist meiri heimsfrægð en nokkurt annað danskt skáld. Odense-bær gerði hann að heiðursborgara sínum og bærinn var skrautlýstur honum til sæmdar. Ævisögu sína ritaði hann sjálfur og kallaði hana „Mit Livs Eventyr“. Er það hin fróðlegasta bók, þar sem hún bæði skýrir svo nákvæmlega frá lífsferli hans og lýsir skapferli hans svo hreinskilnislega, alveg eins og það var.[*] Hann andaðist sjötugur að aldri í Kaupmannahöfn 4. ágúst 1875. [* Í niðurlagi þeirrar bókar minnist hann með sérlegri þakklátssemi á ritgerð dr. Gríms Thomsens í „Dansk Maanedsskrift“ (1855), er hann samdi, þá er safn-útgáfa ritverka Andersens var nýútkomin. Grímur Thomsen hafði ávallt unnað mjög skáldskap Andersens og tekið svari hans. Þess ber og að geta, að þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson hafði frá því fyrsta hinar mestu mætur á ævintýrum Andersens. Ævintýrið „Toppen og Bolden“ ummyndaði hann í íslenskt ævintýri „Leggur og skel“ og er kunnugra en frá þurfi að segja, hve meistaralega það er gert.] Hafmeyjan litla Langt úti í reginhafi er vatnið fagurblátt eins og blöðin á fegursta kornblómi og gagnsætt eins og skærasta gler, en það er geysidjúpt og dýpra en svo að nokkur akkerisstrengur taki þar niður og mætti reisa marga kirkjuturna hvern upp af öðrum, ef þeir ættu að ná upp allt frá botninum og yfir sjávarborð. Þar niðri búa marbendlarnir. Nú skal enginn ætla, að þar sé ekkert nema auður og hvítur sandbotninn. Það er öðru nær. Þar vaxa furðulegustu tré og plöntur, sem allt er svo liðugt í leggjum og blöðum, að það kvikar við hverja minnstu bifun vatnsins sem lifandi væri. Allir fiskarnir, bæði þeir stóru og smáu, skjótast þar inn á milli greinanna, að sínu leyti eins og fuglarnir í loftinu hérna uppi á þurrlendinu. Þar sem dýpst er í sjónum gnæfir höll hafkóngsins. Eru veggir hennar af kóral og gluggarnir háir og ganga upp í hvassboga. Þeir eru gerðir af skærasta rafi, en þakið af skeljum einum, sem opnast og lykjast saman eftir hræringum vatnsins. Það er yndi á að horfa, því í hverri skel eru ljómandi perlur, og mundi hver þeirra vera fyrirtaks prýði í drottningarkórónu. Hafkóngurinn, sem bjó þarna niðri, hafði verið ekkjumaður í mörg ár, og var móðir hans ráðskona hjá honum. Hún var vitur kona, en þóttist mjög af ættgöfgi sinni, og því bar hún tólf ostrur á sporðinum, þar sem hinum hefðarfrúnum leyfðist ekki að bera fleiri en sex. En annars átti hún mikið lof skilið, ekki síst fyrir það, að hún var svo góð við litlu hafmeyjarnar, sonardætur sínar. Þær voru sex að tölu og allar fallegar, en sú yngsta var lang fríðust. Hörund hennar var ljóst og skært sem rósarblöð, augun bláfögur sem vatnadjúp, en þó var hún að sköpulagi eins og hinar, því ekki hafði hún fætur, heldur var líkami hennar vaxinn niður í fisksporð. Allan liðlangan daginn léku kóngsdæturnar sér þarna niðri í höllinni, í sölunum stóru, þar sem fullt var af lifandi blómum, sem spruttu út úr veggjunum. Þar var lokið upp rafgluggunum stóru og syntu þá fiskarnir inn til þeirra í höllina, að sínu leyti eins og svölurnar fljúga inn til okkar, þegar við ljúkum upp gluggunum, en fiskarnir syntu beina leið til kóngsdætranna, létu þær mata sig og lofuðu þeim að strjúka sér. Fyrir utan höllina var stór lystigarður. Í honum uxu eldrauð og dimmblá tré. Glóðu aldinin sem gull og blómin sem logandi eldur, því alltaf voru leggir þeirra og blöð á sífelldu iði. Sjálfur jarðvegurinn var duftsmár ægisandur og fagurblár til að líta sem brennisteinslogi. Allt sveimaði þar í einhverjum undarlegum heiðbláma, og var líkara því, að maður stæði hátt uppi í loftinu og sæi himininn fyrir ofan sig og neðan en að maður væri niðri á mararbotni. Í blíðalogni sá til sólarinnar og var hún tilsýndar eins og purpurablóm og því líkast sem allt ljósið streymdi út frá blómbikarnum. Allar kóngsdæturnar áttu hver sinn smáskika í garðinum, sem þær máttu vinna að og planta í eftir vild sinni. Einni leist að laga blómbeðið sitt í hvals líki, annarri þótti betur fara að hafa það sem líkast lítilli hafmey, en sú yngsta gerði sinn kringlóttan í líkingu við sólina og setti þar ekki önnur blóm en þau, sem voru skínandi rauð og líktust henni að lit. Hún var undarlegt barn, stillt og hæglát og athugasöm, og þegar hinar systurnar prýddu hjá sér með undarlegustu hlutum, sem þær höfðu fengið úr sokknum skipum, þá var það aðeins einn hlutur, sem hún vildi nota, fyrir utan rósrauðu blómin, sem líktust sólinni hið efra. Það var fagurt marmaralíkneski af dálitlum fríðum yngissveini, úthöggvið í hvítskæran, gljáandi marmara. Var það standmynd og hafði einhvern tíma við skipreika sokkið þangað niður á sjávarbotn. Upp við marmarasveininn gróðursetti hún grátvíði, og óx hann prýðilega og slútti yfir líkneskið með laufmiklum greinum, sem löfðu allt niður að bláleitum sandbotninum, en skugginn, sem bar af trénu á sandinn, var fjólublár og iðaði án afláts eftir blakti greinanna. Það var eins og toppurinn og rótin væru alltaf að leika sér að því að kyssast. Að engu þótti henni eins gaman og að heyra sagt frá mannheimum uppi á þurrlendinu. Amma hennar gamla varð að segja henni allt, sem hún vissi um skip og borgir, menn og dýr. Það þótti henni sem vera mundi hvað indælast, að á landi uppi leggur ilm og angan af blómunum, því á sjávarbotninum eru þau ilmlaus. Eins það, að skógarnir eru grænir og að fiskarnir, sem sveima þar á milli greinanna, geta sungið svo skært og fagurt. Það stóð nú svo á því, að amma hennar kallaði smáfuglana fiska. Þær hefðu annars ekki skilið hana, því þær höfðu aldrei séð fugl á ævi sinni. „Þegar þið eruð fullra fimmtán ára,” sagði amman, „þá verður ykkur lofað að fara upp úr sjónum, og þá megið þið sitja uppi á klettunum í tunglskininu og horfa á stóru skipin, sem fram hjá sigla. Þið skuluð þá fá að sjá skógana og stóru borgirnar.” Á því árinu, sem nú fór í hönd, varð ein af systrunum fimmtán ára, en svo var hver einu ári yngri en önnur, koll af kolli. Hin yngsta hlaut því að bíða í fimm ár þangað til hún fengi að koma upp frá sjávarbotninum og skoða, hvernig umhorfs er hjá okkur, sem á landi búum. En hver hét annarri að segja frá því, sem hún hefði séð og þótt fallegast fyrsta daginn, því amma þeirra sagði þeim ekki nándar nærri nóg. Það var svo margt og mikið, sem þær vildu fræðast um. Engin systranna þráði þetta til líka við yngstu systurina og það var einmitt hún, sem lengst átti að bíða, – hún sem alténd var svo stillt og hæglát og hugsandi. Hún stóð marga nóttina við opinn gluggann og horfði upp í sjóinn dimmbláan, þar sem fiskarnir léku sér með sporðaköstum. Hún sá tunglið og stjörnurnar, og stóð af þeim bleikur ljómi, en virtust þó stærri gegnum vatnið en fyrir okkar augum sýnist. Þegar undir þau virtist svipa svörtu skýi, þá vissi hún, að það var annaðhvort hvalur, sem synti uppi yfir henni, eða þá skip með mörgum mönnum innanborðs. Þeim kom víst allra síst til hugar, að lítil og fögur hafmey stæði þar fyrir neðan og rétti upp hvítar hendurnar eftir kilinum. Nú var þá kóngsdóttirin elsta orðin fimmtán ára og mátti koma upp fyrir sjávarmálið. Þegar hún var aftur komin, kunni hún frá ótalmörgu að segja, en það sagði hún væri indælislegast, að liggja í tunglskininu á sandrifi úti á lásléttum sjónum skammt frá landi og horfa upp til stóru borgarinnar, þar sem ljósin blikuðu eins og ótal stjörnur, og væri þá skemmtilegt að heyra hljóðfærasláttinn og ysinn og hávaðann í vögnunum og manngrúanum og að sjá kirkjustöplana og turnspírurnar mæna hátt í loft upp og heyra þaðan klukknahljóminn. Af því nú yngsta systirin gat ekki komist þangað upp, þá varð eftirþrá hennar því meiri. Og mikil var athygli hennar og eftirtektarsemi þegar hún heyrði frá þessu sagt, og seinna þegar hún stóð á kvöldin við opinn gluggann og horfði upp í gegnum sjóinn dimmbláan, þá var hún alltaf að hugsa um stóru borgina, með öllum glaumnum og háreystinni og þótti henni þá sem kirkjuklukkurnar hringdu rétt yfir höfði sér. Árið eftir fékk önnur elsta systirin að fara upp úr sjónum og mátti hún synda hvert á leið sem hún vildi. Hún skaut sér upp rétt í sama bilinu og sólin gekk undir, og þá sjón kvaðst hún hafa séð fegursta á ævi sinni. Hún sagði, að himinninn hefði verið allur eins og glóandi gull; og skýin, – já, þeim hafði hún engin orð til að lýsa; þau hefðu siglt rauðgullin og fjólublá yfir höfði sér, en þá hefði komið svanahópur fljúgandi ennþá ferðmeiri en skýin, eins og snjóhvít slæða, og svifið fram yfir djúpið, þangað sem sólin var að setjast. Hún hefði líka ætlað að synda þangað, en í því hefði sólin horfið og rósfagri bjarminn slokknaði um leið á hafinu og skýjunum. Næsta ár kom þriðja systirin upp úr sjónum. Hún var áræðnust þeirra allra og synti því upp eftir einu breiðu fljóti, er féll til sjávar. Þá sá hún ljómandi fagrar iðgrænar hæðir, alvaxnar vínviði; lystihallir og búgarðar blöstu þar við innan um dýrðlega skóga; hún heyrði hljóðfagran söngfuglaklið og sólarhitinn var svo mikill að hún varð að stinga sér á kaf til að kæla andlitið. Í víkurhvarfi einu hitti hún hóp af mennskum börnum; hlupu þau allsnakin og óðu og busluðu í sjónum; hún ætlaði þá að slást í leikinn með þeim, en þau urðu hrædd og flýðu undan henni. Það sótti að henni dálítið svart kvikindi, það var hundur, en hún hafði aldrei séð hund áður; gelti hann svo gríðarlega að henni, að hún varð logandi hrædd og hafði sig undan út í sjóinn, en aldrei gat hún gleymt indælu skógunum, grænu hlíðunum og fallegu börnunum, sem synt gátu í sjónum, þó þau væru alveg sporðlaus. Fjórða systirin var ekki eins huguð; hún staðnæmdist úti í miðju reginhafi og sagði, að þar væri langfallegast, því þaðan sæist yfir mikla víðáttu, svo mílum skipti, og himinninn uppi yfir væri eins og stór glerhjálmur. Séð kvaðst hún hafa til skipa, en þau hefðu verið langa leið í burtu og ekki ósvipuð veiðibjöllum tilsýndar; höfrungarnir, sagði hún, hefðu verið skrítnir og skemmtilegir og steypst kollhnísur, stórhvelin hefðu gusað vatnsstrókum upp úr nasaholunum, og hefði sér þótt því líkast sem fullt væri af gosbrunnum allt umhverfis. Nú kom röðin að fimmtu systurinni. Hún átti afmælisdag um vetur, og því gafst henni að sjá það, sem hinar höfðu ekki séð í fyrstu skiptin. Sjórinn var golgrænn, og stórjakar á floti um hann allan. Hver jaki, sagði hún, var sem perla, og miklu stærri þó og hærri en kirkjuturnar af manna höndum reistir. Mynd þeirra og lögun var hin fáránlegasta, og glitruðu þeir sem demantar. Hafmeyjan hafði sest upp á einhvern hinn langstærsta, og beittu öll skipin undan í ofboði, þar sem hún barst á jakanum og lét hárið síða flaksast í vindinum. Þegar leið undir kvöldið, var loftið orðið alskýja, gengu þrumur og eldingar, og hófust jakarnir í háa loft, þegar stórsjóirnir riðu undir þá, og sló á þá eldroða af leiftraganginum. Á skipunum öllum voru tekin saman seglin með ótta og æðru, en hafmeyjan sat róleg hæst uppi á stórjaka sínum og horfði á, þegar bláleiftrunum hvasshlykkjuðum laust niður í glampandi brimsjóinn. Svo var í hvert sinn, þegar systurnar höfðu fyrst fengið til leyfis að fara upp úr sjónum, að þá var hver um sig hrifin af hinu nýja og fagra, sem fyrir augun bar, en nú, þegar þær voru fullorðnar stúlkur og máttu fara upp úr sjónum, þegar þær vildu, þá hættu þær að kæra sig um það. Þær langaði þá heim aftur, og þegar mánuður var liðinn, sögðu þær, að langfallegast væri niðri hjá þeim, og skemmtilegast væri að vera heima. Oft var það á kvöldin, að hinar fimm systur tóku hver yfir um aðra og stigu svo saman upp úr sjónum; og þegar upp dró stormviðri, svo að þær gátu ímyndað sér, að skip mundi farast, þá syntu þær á undan skipunum og kváðu svo snjallt og yndislega um það, hve fagurt væri á mararbotni, og beiddu sjómennina að óttast ekki að koma þangað niður. En sjómennirnir skildu ekki orðin, þeir héldu, að það væri hvinurinn í storminum, og fengu ekki heldur að sjá dýrðina þar neðra, því þegar skipið sökk, þá drukknuðu mennirnir og komu aðeins sem liðin lík í höll hafkóngsins. Þegar nú systurnar stigu svona samtengdar á kvöldin hátt upp í gegnum hafsjóinn, þá stóð litla systirin alein eftir og mændi á eftir þeim. Henni fannst eins og hún ætlaði að fara að gráta, en hafmeyjarnar geta ekki fellt tár, og fyrir þá sök verður sorgin þeim miklu þungbærari. „Æ, það vildi ég, að ég væri fimmtán ára,“ sagði hún, „ég veit það, að mér mun þykja vænt um heiminn þarna efra og mennina, sem þar búa.“ Loksins varð hún fimmtán ára. „Hana þá,“ sagði amma hennar, ekkjudrottningin gamla, „nú ert þú þá af höndum okkar. Komdu nú og lofaðu mér að skreyta þig eins og hinar systurnar þínar.“ Og hún setti á höfuð hennar krans úr hvítum liljum, en hvert liljublað var perlu-helmingur; og svo lét sú gamla átta stórar ostrur læsa sig fastar á sporð kóngsdótturinnar til að tákna tignarstöðu hennar. „Ég kenni svo til,“ sagði hafmeyjan litla. „Slíkt verður að þola, fordildin er ekki tekin út með sældinni,“ sagði sú gamla. Fegin mundi hafmeyjan hafa viljað hrista af sér allt þetta skraut og leggja af sér þennan þunga krans; rauðu blómin hennar í garðinum fóru henni miklu betur, en hún vildi nú ekki fara að gera þetta upp aftur. „Vertu sæl!“ sagði hún og hóf sig, létt og skær eins og vatnsbóla, upp í gegnum sjóinn. Sólin var nýgengin undir, þegar hún lyfti höfði sínu upp úr sjónum, en skýin öll glóðu enn sem rósir og gull, og kvöldstjarnan blikaði svo skær og fögur á bleikrauðum himninum; loftið var hollt og hressandi og dúnalogn á hafinu. Þar lá stórt skip þrísiglt og hafði ekki uppi nema eitt segl, með því að ekki hreyfði sig minnsti vindblær, og sátu hásetarnir hingað og þangað í reiðanum og á ránum. Söngur var þar og hljóðfærasláttur, og jafnskjótt sem dimma tók, var kveikt á ótal alla vega litum ljóskerum, og var til að líta sem allra þjóða flögg blöktu í loftinu. Hafmeyjan litla synti beint að káetuglugganum, og í hvert sinn, er sjórinn lyfti undir hana, gat hún séð inn um spegilskærar rúðurnar, hvar margir menn stóðu; voru þeir prýðisvel búnir, en langfríðastur þeirra allra var kóngssonurinn með stóru augun svörtu. Hann var á að geta ekki mikið eldri en sextán ára; í dag var afmælisdagur hans, og því var öll þessi viðhöfn. Skipverjar dönsuðu á þilfarinu, og þegar kóngssonurinn kom þangað fram, þá sendust yfir hundrað eldflugur í loft upp, og gerði svo bjart sem dagur væri, en hræðsla mikil kom yfir hafmeyjuna, svo hún stakk sér niður í sjóinn. En hún rak fljótt upp höfuðið aftur, og þóttu henni þá sem allar stjörnur himinsins hryndu ofan í kringum hana. Slíkar eldlistir hafði hún aldrei séð. Stórar sólir snerust í snarkringlu, skrautlegir eldfiskar sveifluðu sér í bláu loftinu, og allt þetta speglaði sig í lygnum og tærum sjónum. Á sjálfu skipinu var svo bjart, að sjá mátti hvern hinn minnsta streng í reiðanum, hvað þá heldur mennina. En kóngssonurinn, hvað hann var fallegur! – og hann gekk innan um fólkið og tók í höndina á hverjum manni vinalega og brosandi, og jafnt og stöðugt ómaði hljóðfæraslátturinn á þessari fögru nóttu. Það var nú komið langt fram á nótt, en hafmeyjan litla gat ekki haft augun af skipinu og kóngssyninum fríða. Það var búið að slökkva á marglitu ljóskerunum, eldflugur sendust ekki framar í loft upp og fallbyssuskot heyrðust engin fleiri, en langt neðan úr djúpinu heyrðist þungur niður og gjálfurhljóð. En hún sat meðan því fór fram á sjónum og hossaðist ýmist upp eða niður, svo að hún gat séð inn í káetuna; en skipið tók nú að skríða hraðara, hvert seglið breiddist út af öðru, og stærði nú bárurnar; það dró upp stóra skýflóka, og brá fyrir eldingum langt í burtu. Ógurlegt veður var í aðsigi, og því hlóðu hásetar seglum. Skipið stóra öslaði með óðaskriði yfir ólgusjóinn, boðaföllin hófust upp eins og stór, dimm fjöll, sem ætluðu að skella yfir, en skipið tók dýfur niður á við milli stórsjóanna, eins og svanur, og lét lyfta undir sig upp á ölduhryggina. Þetta þótti hafmeyjunni litlu heldur en ekki skemmtileg ferð, en það þótti skipverjum ekki; í skipinu heyrðust brestir og brak, og plankarnir svignuðu, þó þykkir væru, fyrir voðaskellum brotsjóanna, mastrið hrökk í sundur sem reyrleggur væri, og inn í skipið féll sjór kolblár. Nú sá hafmeyjan litla, að þeir á skipinu voru í háska staddir; hún átti sjálf nóg með að gæta sín, svo að hún yrði ekki fyrir bjálkunum og brotunum, sem rak á sjónum. Í eitt skipti varð svo koldimmt, að hún sá ekki handa skil, en næst þegar leiftraði yfir, varð svo bjart, að hún þekkti þá alla á skipinu. Allt var þar í ys og uppnámi, en hún leitaði sérstaklega kóngssonarins unga, og sá hún hann sökkva niður í sjávardjúpið, þegar skipið leysti sundur. Hún fagnaði þá fyrst í svipinn yfir því, að nú kæmi hann niður til hennar, en rétt á eftir rankaði hana við, að mennirnir geta ekki lifað niðri í sjónum, og hann gæti því ekki lifandi komið niður í höll föður hennar. Nei, fyrir engan mun mátti hann deyja; þess vegna synti hún innan um borð og planka, sem reiddi þar til og frá í sjónum, og gleymdi því alveg, að hún hefði getað orðið fyrir þeim og dauðrotast. Hún stakk sér djúpt niður í sjóinn og skaut sér svo aftur upp úr kafi milli bylgnanna, og loksins kom hún þangað, sem kóngssonurinn ungi var að gefast upp á sundi í ólgusjónum. Hendur hans og fætur voru að verða magnþrota, augun fögru voru að lykjast saman; hann hefði dáið þarna, ef hafmeyjan litla hefði ekki komið. Hún hélt höfði hans upp úr sjónum og lét svo öldurnar bera sig með honum, hvert sem þær vildu. Þegar morgnaði, var illviðrinu slotað, en af skipinu sást enginn urmull. Sólin rann upp úr sjónum, rauð og skínandi, og var eins og kinnar kóngssonarins fjörguðust við það, en augun voru lokuð eftir sem áður. Hafmeyjan kyssti á ennið hans fagra og háa og strauk aftur sjóvott hárið. Henni sýndist hann líkur marmaralíkneskinu niðri í garðinum hennar litla; hún kyssti hann aftur og óskaði af hjarta, að hann mætti lifa. Nú sá hún fram undan sér meginlandið með háum fjöllum og bláum, sem efst á tindum sínum voru þakin snævi, svo skínandi hvítum sem lægju þar svanir. Niðri við ströndina var indæll, iðgrænn skógur, og fyrir framan hann stóð kirkja eða klaustur; hvort heldur væri, vissi hún ógerla. Í garðinum uxu sítrónu- og appelsínutré, og háir pálmaviðir stóðu fyrir framan hliðið. Ofurlítil vík skarst þar inn í landið; var þar lygnt, en dýpi mikið upp að kletti nokkrum; hafði sjórinn skolað þar upp hvítum ægisandi. Þangað synti hún með kóngssoninn fagra og lagði hann á sandinn, en gætti þess vel, að hann lægi hátt með höfuðið í hlýju sólskininu. Nú var klukkum hringt í stóru, hvítu byggingunni, og komu þá margar ungar stúlkur út í garðinn. Þá synti hafmeyjan litla lengra frá landi og faldi sig milli steina nokkurra hárra, sem stóðu upp úr sjónum, lét sjávarfroðu á höfuð sitt og brjóst, svo að enginn gæti séð ásýnd hennar, og hafði nú vandlega gætur á, hvort nokkur kæmi til vesalings kóngssonarins. Áður langt liði kom ung stúlka, og var sem hún yrði felmtruð, en það var ekki nema í svipinn. Hún sótti fleira fólk, og sá hafmeyjan, að kóngssonurinn lifnaði og brosti við öllum, sem kringum hann voru, en ekki brosti hann í áttina þangað, sem hún var. Hann vissi ekki heldur, að það var hún, sem bjargað hafði lífi hans. Þetta hryggði hana stórum, svo þegar farið var með hann inní stóru bygginguna, þá stakk hún sér harmþrungin niður í sjóinn og hélt til hallar föður síns. Hún hafði jafnan að undanförnu verið fálát og hugsandi, en nú urðu miklu meiri brögð að því. Systur hennar spurðu hana, hvað hún hefði séð í fyrstu ferð sinni þar efra, en hún vildi frá engu segja. Margt kvöldið og margan morguninn fór hún upp þangað, sem hún hafði skilið við kóngssoninn. Hún sá, að aldinin í trjágarðinum þroskuðust og voru tekin af trjánum, hún sá snjóinn bráðna af tindum háfjallanna, en kóngssoninn sá hún ekki og því sneri hún ætíð hryggari heim aftur en hún fór af stað. Það var eina huggunin hennar að sitja í litla garðinum og vefja örmum sínum um marmaralíkneskjuna fögru, sem var svo lík kóngssyninum, en blómin hirti hún ekki. Þau uxu í órækt yfir gangana og fléttuðu hina löngu leggi sína og blöðin inn í greinar trjánna, svo að þar varð alveg dimmt. En loksins gat hún ekki lengur borið þetta ein með sjálfri sér og sagði einni af systrum sínum allt sem var, og fengu þá hinar allar óðara að vita um það, en ekki reyndar fleiri en þær og tvær aðrar hafkonur, sem ekki sögðu frá því nema vildustu vinkonum. Ein þeirra vissi deili á, hver kóngssonurinn var, hún hafði líka horft á þegar mest var um dýrðir á skipinu, og vissi hvaðan hann var og hvar hann átti ríki. „Komdu, systir góð!“ sögðu hinar kóngsdæturnar, og með hendurnar lagðar hver um öxl annarrar hófu þær sig í langri röð upp úr sjónum, einmitt þar fyrir landi, sem þær vissu, að höll kóngssonarins stóð. Höllin var gerð af ljósgulri gljáandi steintegund, og lágu upp að henni marmaratröppur, sem náðu niður í sjóinn. Skrautleg gullroðin hjálmhvolf gnæfðu upp af þakinu, og á milli súlnanna, sem settar voru umhverfis hallarbygginguna, stóðu marmaramyndir, sem voru tilsýndar eins og lifandi. Inn um háa glugga af skærasta gleri sást inn í skrautlegustu sali; voru þar hengd upp dýrindis silkigluggatjöld og reflar, en veggir allir prýddir stórum litmyndum, sem yndi var á að horfa. Í miðjum stærsta salnum gaus stór gosbrunnur, og þeyttust vatnsbunurnar hátt upp undir glerhjálminn í loftinu, þar sem sólin skein ofan í gegn á vatnið og hinar yndisfögru plöntur, sem uxu í gosbrunnsþrónni. Nú vissi hún, hvar hann átti heima, og margt kvöldið og marga nóttina kom hún þangað upp úr sjónum; hún synti miklu nær landi en nokkur hinna mundi hafa árætt, meira að segja, hún fór alla leið upp í mjóa síkið, beint inn undir marmarasvalirnar skrautlegu, sem köstuðu skugga langt fram á vatnið. Þar sat hún og horfði á kóngssoninn unga, sem ekki vissi annað en að hann væri þar aleinn í glaða tunglskininu. Oft sá hún hann á kvöldin sigla á skrautbátnum sínum, með blaktandi veifum og ómandi hljóðfæraslætti; hún gægðist fram úr grænu sefinu, og tæki vindurinn í síðu, silfurhvítu blæjuna hennar, og sæi það einhver, þá hélt hann, að það væri svanur, sem lyfti upp vængjunum. Marga nóttina, þegar fiskimenn voru úti á sjó og höfðu blys uppi, þá heyrði hún þá segja svo margt gott af kóngssyninum unga, og þótti henni þá vænt um, að hún hafði bjargað honum, þar sem hann var að volkast hálfdauður í öldunum, og hún hugsaði til þess, hversu höfuð hans hafði hvílt fast við brjóst hennar og hversu innilega hún hafði kysst hann þá; hann vissi ekki vitund um það, hann gat ekki einu sinni dreymt hana. Alltaf var henni að verða betur og betur til mannanna, alltaf fór vaxandi sú ósk hennar að geta hafið sig upp til að vera á meðal þeirra. Henni virtist þeirra heimur svo miklu stærri en sinn; þeir gátu flogið yfir hafið á skipum og farið yfir fjöllin skýjum ofar, – og löndin, sem þeir áttu, þau náðu með ökrum og skógum lengra en hún gat eygt. Það var svo margt og mikið, sem hana langaði til að vita, en systurnar gátu ekki leyst úr því, og þess vegna spurði hún ömmu sína gömlu. Hún þekkti vel efri heiminn, sem hún, eins og líka rétt var, kallaði löndin fyrir ofan sjóinn. „Geta mennirnir lifað alltaf, þegar þeir ekki drukkna?“ spurði hafmeyjan litla. „Deyja þeir ekki eins og við hérna niðri í sjónum?“ „Jú,“ sagði sú gamla, „þeir verða líka að deyja, og þeirra ævi er enda styttri en okkar. Við getum lifað í þrjú hundruð ár, en þegar við svo hættum að vera til, þá verðum við að froðu á sjónum, og eigum ekki einu sinni neitt leiði hér á mararbotni meðal ástvina okkar. Við eigum ekki ódauðlega sál; við eignumst aldrei líf oftar, við erum eins og sefið græna; úr því það er afskorið einu sinni, þá getur það ekki grænkað í annað sinn. En mennirnir eiga sál, sem alla tíð lifir, lifir eftir það, að líkaminn er orðinn að mold. Hún hefur sig upp gegnum hreinan og bjartan loftgeiminn til hinna skínandi stjarna; eins og við köfum upp úr sjónum og sjáum lönd mannanna, eins kafa þeir upp úr og hefja sig til ókunnra yndisstaða, sem við fáum aldrei að sjá.” „Því fengum við þá ekki ódauðlega sál?“ sagði hafmeyjan litla sorgbitin, „ég vildi gefa öll hundruð árin, sem mér er ætlað að lifa, til þess að vera manneskja einn einasta dag og fá síðan hlutdeild í himneska heiminum.“ „Þú mátt ekki vera að setja þetta fyrir þig,“ sagði sú gamla, „okkur líður hér miklu betur en mönnunum þar efra.“ „Ég á þá að deyja og fljóta sem froða á sjónum og heyra ekki sönglist bylgnanna, sjá ekki blómin indælu og sólina eldrauða. Get ég þá ekkert gert til þess að eignast eilífa sál?“ „Nei!“ sagði sú gamla; „ekki nema með því eina móti, að mennskur maður fengi svo mikla ást á þér, að þú yrðir honum kærari en faðir hans og móðir. Ef hann héngi við þig með allan hug sinn og hjarta og léti prestinn leggja sína hægri hönd í þína, þá rynni sál hans yfir í þinn líkama og þá fengir þú einnig hlutdeild í mennskra manna hamingju. Hann gæfi þér sál og héldi samt sinni eftir sem áður. En þetta getur aldrei orðið. Það sem hér í sjónum þykir sú mesta prýði, fisksporðurinn þinn, það þykir þar efra afskræmislega ljótt, – þeir hafa nú ekki betur vit á; en þar verður maður að hafa undir sér tvær klunnalegar stoðir, sem þeir kalla fætur, ef maður á að þykja fallegur.“ Þá andvarpaði hafmeyjan litla og horfði með raunasvip á fisksporðinn sinn. „Látum okkur vera ánægðar,“ sagði sú gamla, „leikum okkur og hoppum í þau þrjú hundruð árin, sem við eigum að lifa, það er þó ekki svo stuttur tími. Því ánægjulegar getur maður þá hvílt sig á eftir í gröfinni. Í kvöld stendur til að verði hirðdansleikur hjá okkur.“ Þar var líka sú viðhöfn og prýði, sem hvergi sést önnur eins á jörðu. Veggirnir og loftið í danssalnum stóra voru úr þykku og gagnskæru gleri. Kynjastórar krákuskeljar, rósrauðar og grasgrænar, stóðu raðsettar hundruðum saman beggja vegna, og logaði í þeim blár eldur, sem lýsti upp allan salinn, og lagði þá eldsbirtu út um veggina, svo að sjórinn fyrir utan varð gagnlýstur. Mátti þar sjá allan þann urmul af fiskum, smáum og stórum, sem syntu að glermúrnum, og var hreistrið á sumum purpurarautt, en á öðrum eins og silfur eða gull. Um miðjan salinn rann breið móða, og á henni dönsuðu marmennlar og hafgúur eftir sínum eigin söng, en hann var undrafagur. Svo fagrar raddir hafa ekki mennirnir á landi uppi. Hafmeyjan litla söng fegurst þeirra allra, og var henni klappað lof í lófa; fékk það henni fagnaðar rétt í svipinn, því hún vissi, að hún hafði þá rödd, sem öllum röddum var fegri á landi og í sjó. En hugur hennar hvarf óðara aftur til efra heimsins; hún gat ekki gleymt kóngssyninum fagra og þeirri miklu mæðu að eiga ekki ódauðlega sál eins og hann. Þess vegna læddist hún út úr höll föður síns, og meðan þar var eintómur glaumur og gleði, sat hún í litla garðinum sínum sorgbitin og einmana. Þá heyrði hún allt í einu veiðihornsblástur óma til sín niður í gegnum sjóinn, og þá hugsaði hún með sér: „Nú siglir hann víst þarna uppi, hann, sem ég ann meira en föður og móður, hann, sem ég hef fest við hug minn og hjarta, hann, sem ég vildi á vald gefa mig sjálfa og alla auðnu mína. Ég vil hætta á allt til að geta eignast hann og ódauðlega sál. Meðan systur mínar dansa þarna inni í höll föður míns, ætla ég að fara á fund hafnornarinnar. Ég hef alltaf verið svo hrædd við hana, en ekki er að vita nema hún geti kennt mér ráð og hjálpað mér.“ Nú gekk hafmeyjan litla út úr garði sínum og stefndi þangað, sem hinir beljandi hringiðusvelgir voru; að baka til við þá bjó hafnornin. Þá leið hafði hún aldrei farið áður; þar uxu engin blóm og ekkert sjógras. Grár og nakinn sandbotninn lá alla leið að hafsvelgjunum, þar sem sjórinn þyrlaðist eins og snarsnúið mylnuhjól og sogaði niður í djúpið hvað sem fyrir varð. Inn á milli þessara sundurmolandi hafsvelgja varð hún að halda til þess að komast á stöðvar hafnornarinnar, og drjúgan spöl varð að fara yfir eintóma vellandi leðju, sem nornin kallaði mómýrina sína. Þar að baka til stóð hús hennar í kynjalegum skógi. Trén og runnarnir þar voru ekki annað en margfætlur, dýr að hálfu, en plöntur að hálfu. Það var eins og hundraðhöfðaðir höggormar, vaxnir upp úr jörðunni; allar greinarnar voru slepjugar armakræklur með fingur, sem voru liprir í snúningum eins og ormar og hreyfðust lið fyrir lið frá rótinni og út í ystu góma. Allt sem til varð náð í sjónum, vöfðu þær sig fastlega utan um og slepptu því aldrei aftur. Hafmeyjan litla varð dauðhrædd og staldraði við; hjarta hennar barðist af angist, og henni lá við að snúa aftur, en þá fór hún að hugsa um kóngssoninn og mannlegu sálina, sem hún þráði svo mikið, og við það hughreystist hún. Og nú batt hún síða, hrynjandi hárinu sínu fast um höfuðið, til þess að margfætlurnar gætu ekki náð í það, krosslagði hendurnar á brjósti sér og þaut svo áfram, eins og fiskur rennir sér hraðast gegnum sjóinn, og inn á milli margfætlu-ófétanna, sem teygðu eftir henni hjólliðugu armana og fingurna til að krækja í hana. Hún sá, að hver þeirra um sig hafði náð í eitthvað og hélt því föstu með ótal smáörmum, eins og í járnböndum. Hvítar beinagrindur gægðust fram úr fangi þeirra, og voru þær af mönnum, sem drukknað höfðu og sokkið niður í djúpið. Margfætlurnar héldu og utan um stýri og kistur og beinagrindur landdýra og enda eina litla hafmey, sem þær höfðu fengið fang á og kyrkt, – og það þótti hafmeyjunni einna hræðilegast. Nú kom hún á stórt, slepjulegt svæði í skóginum, þar sem stórir, feitir vatnssnákar botnveltust og sýndu á sér kviðina ógeðslega ljóta og hvítgula. Á miðju svæðinu stóð hús, sem reist hafði verið úr hvítum kjúkum sjódauðra manna; þar sat hafnornin og lét pöddu éta út úr sér, eins og þegar kanarífugli er gefinn sykur. Ljótu, feitu vatnssnákana kallaði hún litlu kjúklingana sína og lét þá velta sér á kvapa-brjóstum sínum. „Ég veit, hvert erindi þitt er,“ sagði hafnornin, „þetta er mikil heimska af þér, en þú skalt nú samt fá viljann þinn, þó það steypi þér í ógæfu, blessuð gullfallega kóngsdóttirin! Þú vilt fegin losna við fisksporðinn og fá í staðinn tvær stoðir til að ganga á eins og mennirnir, svo að kóngssonurinn ungi fái ást á þér og þú verðir konan hans og eignist ódauðlega sál.“ Um leið og nornin mælti þetta, rak hún upp hlátur svo mikinn og ferlegan, að paddan og snákarnir hrukku niður til jarðar og veltust þar um. „Þú kemur einmitt á réttum tíma,“ mælti hún, „á morgun, þegar sólin kemur upp, mundi ég ekki geta hjálpað þér, fyrr en að ári liðnu. Ég skal byrla þér drykk, og áttu að synda með hann til lands, áður en sól rennur á loft, setjast á ströndina og drekka hann; þá mun sporður þinn klofna og grennast í það, sem mennirnir kalla netta fætur, en það er sárt, það er eins og sverði sé lagt í gegnum þig. Allir, sem sjá þig, munu segja, að þú sért sú fegursta mannssköpun, sem þeir hafi séð. Þú verður svífandi létt í hreyfingum þínum eins og áður, engin dansmey mun geta svifið á við þig, en við hvert spor, sem þú stígur, mun þér finnast eins og þú stigir á flugbeittan hníf, svo að blóð þitt renni. Viljirðu þola allt þetta, skal ég hjálpa þér.“ „Já, það vil ég,“ sagði hafmeyjan litla með titrandi rödd; hún var að hugsa um kóngssoninn og ódauðlegu sálina. „En mundu það,“ mælti nornin, „að úr því þú einu sinni ert komin í mannsmynd, þá geturðu aldrei aftur orðið hafmey. Þú getur aldrei liðið niður gegnum sjóinn til systra þinna og hallarinnar hans föður þíns, og náirðu ekki ástarþokka kóngssonarins, svo að hann þín vegna gleymi föður og móður og elski þig af öllum hug og hjarta og láti prestinn leggja saman hendur ykkar, þá eignast þú ekki ódauðlega sál. Fyrsta morguninn eftir að hann giftir sig annarri, þá brestur hjarta þitt, og þú verður að froðu á sjónum.“ „Ég vil það,“ sagði hafmeyjan og varð í framan eins og fölur nár. „En þú verður nú líka að borga mér,“ sagði nornin, „og það er ekkert smáræði, sem ég set upp. Þú átt fegurstu rödd allra þeirra, er á mararbotni búa, og með þeirri rödd muntu hugsa þér að töfra kóngssoninn, en þá rödd verðurðu að láta mig fá. Það besta, sem þú átt í eigu þinni, vil ég fá fyrir drykkinn minn dýra. Ég verð að blanda í hann mínu eigin blóði, svo að hann verði skarpur eins og tvíeggjað sverð.“ „En þegar þú tekur frá mér röddina,“ sagði hafmeyjan, „hvað á ég þá eftir?“ „Þú átt líkamsskapnaðinn fagra, ganginn svífandi og augun talandi,“ sagði nornin, „og með þessu muntu geta heillað manns hjarta. Hvað er þetta! hefur þér fallist hugur? Réttu út tunguna þína litlu, svo að ég geti skorið hana úr þér í borgun; þú færð kraftadrykkinn í staðinn.“ „Svo skal vera,“ mælti hafmeyjan. Setti þá nornin ketilinn yfir eldinn til að sjóða töfradrykkinn. „Það er alténd gott að vera hreinlátur,“ sagði nornin og neri ketilinn með snákunum, sem hún batt saman í stóran vöndul, síðan risti hún sér skinnsprettu á brjóstinu og lét svart blóðið úr sér leka niður í ketilinn. Reykjargufan hverfðist í undarlegustu myndir, ógurlegt var á að horfa. Alltaf öðru hverju var nornin að bæta einhverju í ketilinn, og þegar farið var að sjóða til fulls, þá var hljóðið líkt og þegar krókódíll grætur. Loksins var drykkurinn fullseyddur, og var hann þá ílits eins og tærasta vatn. „Hana, þar hefurðu hann!“ sagði nornin og skar tunguna úr hafmeyjunni litlu, og var hún nú dumba; gat hvorki sungið né talað. „Ef margfætlurnar ætla að ná í þig, þegar þú ferð heimleiðis gegnum skóginn minn,“ sagði nornin, „þá þarftu ekki annað en skvetta einum dropa á þær af drykknum, og munu þá armar þeirra og fingur detta sundur í ótal stykki.“ En hafmeyjan litla þurfti þess ekki; margfætlurnar hrukku undan henni lafhræddar, þegar þær sáu skínandi drykkinn í höndum hennar; það lýsti af honum eins og blikandi stjörnu. Svona komst hún skjótlega leiðar sinnar gegnum skóginn, mýrina og beljandi hafsvelgina. Nú sá hún heim til hallar föður síns. Var þar búið að slökkva á blysunum í stóra danssalnum. Það var svo sem auðvitað, að þau mundu öll vera sofnuð, en ekki þorði hún að fara inn til þeirra, því nú var hún mállaus og ætlaði að skilja við þau fyrir fullt og allt. Henni fannst eins og hjarta sitt ætlaði að bresta af sorg. Hún læddist inn í garðinn, tók sitt blómið úr hverju blómabeði þeirra systra sinna, kastaði ótal fingurkossum í áttina til hallarinnar og hóf sig svo upp gegnum dimmbláan sjóinn. Sólin var ekki enn á loft runnin, þegar hafmeyjan sá höll kóngssonarins og gekk upp marmarariðið. Tunglskin var bjart. Hún drakk hinn magnaða töfradrykk, og fannst henni þá sem tvíeggjað sverð gengi gegnum líkama sinn; hún leið í öngvit og lá sem dauð væri. Þegar sólin skein yfir sjóinn, vaknaði hún og fann logandi sviða leggja um sig alla, en frammi fyrir henni stóð ungi kóngssonurinn fríði og horfði á hana með svörtu augunum sínum, en hún leit niður fyrir sig. Hún sá, að sporðurinn var horfinn og að hún hafði litla, yndisnetta fætur, svo að leit mundi vera á annarri fótnettari. En hún var allsnakin, og því sveipaði hún um sig hinu mikla og síða hári sínu. Kóngssonurinn spurði, hver hún væri og hvernig hún væri þangað komin, en hún horfði til hans svo blítt, og þó svo raunalega með dökkbláu augunum sínum; það var að vonum, þar sem henni var málsins varnað. Þá tók hann í höndina á henni og leiddi hana inn í höllina. Við hvert eitt spor, sem hún gekk, fannst henni sem hún gengi á nálum og beittum hnífum, eins og nornin hafði sagt henni fyrir, en það þoldi hún fúslega. Og við hlið kóngssonarins tók hún fótstigin svo léttilega, eins og hún væri vatnsbóla, svo að bæði hann og allir aðrir undruðust, hvað göngulag hennar var yndislegt og svífandi. Hún var færð í dýrindis föt úr silki og netludúk; var hún fegurst allra kvenna í höllinni, en hún var dumba, hún gat hvorki sungið né talað. Yndisfagrar ambáttir, hlaðbúnar silki og gulli, gengu fram og sungu fyrir kóngssoninn og konungshjónin foreldra hans. Var þar ein, er fegur söng en allar hinar, og kóngssonurinn klappaði lof í lófa og leit til hennar brosandi. Þá hryggðist hafmeyjan litla, því hún vissi, að hún hafði sungið miklu fegur. Hún hugsaði með sér: „Ó, ef hann vissi, að til þess að vera hjá honum hef ég gefið burt söngrödd mína og fæ hana ekki aftur um alla eilífð!“ Nú dönsuðu ambáttirnar yndislega, sviflétta dansa eftir hljómi fegurstu sönglistar. Þá lyfti hafmeyjan upp sínum fögru, hvítu örmum, reisti sig upp á tágómana og sveif eftir gólfinu dansandi, og var það með svo mikilli snilld, að enginn hafði áður dansað nándar nærri eins vel. Við hverja hreyfingu kom fegurð hennar æ betur og betur í ljós, og augu hennar töluðu hjartnæmara máli en söngur ambáttanna. Allir voru hrifnir af því, einkum kóngssonurinn. Hann kallaði hana óskilabarnið sitt litla, og hún herti sig að dansa, þó henni fyndist hvassir hnífar skera sig í iljarnar í hvert sinn, er hún kom við gólfið. Kóngssonurinn sagði, að nú skyldi hún héðan af ætíð vera hjá sér, og var henni leyft að sofa á floskodda fyrir framan dyr hans. Hann lét gera henni karlmannsföt, svo að hún gæti riðið út með honum. Þau riðu um ilmandi skóga, þar sem grænar greinarnar strukust við axlir þeirra og smáfuglarnir sungu bak við gróðursæl laufblöðin. Hún klifraði upp há fjöll með kóngssyninum, og þó að blæddi úr fótum hennar svo aðrir sáu, þá hló hún samt að því og fylgdist með honum, þangað til þau sáu skýin fyrir neðan sig, eins og fljúgandi fugla, sem eru á leið til fjarlægra landa. Heima í höll kóngssonarins gekk hún einatt út á marmaratröppurnar breiðu, og kældi það brennandi fætur hennar að standa í köldu sjóvatninu, og hugsaði hún þá til hinna allra þar niðri í djúpinu. Eina nóttina komu systur hennar og héldust í hendur; þær sungu svo raunalega um leið og þær bárust eftir sjónum. Hún gerði þeim bendingu, og þær þekktu hana þá og sögðu henni, hversu hún hefði hryggt þau öll. Eftir það komu þær til hennar á hverri nóttu, og eina nóttina sá hún álengdar á sjónum ömmu sína gömlu, sem hafði ekki komið upp á yfirborðið í mörg ár, og enda hafkónginn sjálfan með kórónu á höfði. Þau teygðu hendurnar í áttina til hennar, en þorðu ekki að koma eins nærri landi og systurnar. Dag frá degi varð hún kóngssyninum kærari; honum þótti vænt um hana eins og manni þykir vænt um gott og elskulegt barn, hitt kom honum ekki til hugar að gera hana að drottningu sinni. En það sem hún vildi allt til vinna, var það að verða konan hans, því annars gat hún ekki eignast ódauðlega sál, heldur hlaut hún að verða að sjávarfroðu á brúðkaupsmorgni hans. „Þykir þér ekki vænna um mig en allar hinar?“ virtist mega lesa út úr augum hafmeyjunnar, þegar hann tók hana í fang sér og kyssti á ennið hennar fagra. „Jú, það þykir mér,“ sagði kóngssonurinn, „því þú hefur betra hjarta en þær allar, þú hefur tekið mestri tryggð við mig og þú ert lík ungri stúlku, sem ég sá einu sinni, en sé víst aldrei framar. Ég var á skipi, sem strandaði, og skoluðu öldurnar mér á land nálægt helgu musteri, þar sem allmargar yngisstúlkur gegndu helgiþjónustu. Sú yngsta meðal þeirra fann mig á ströndinni og bjargaði lífi mínu; hún er sú eina, sem ég gæti elskað í þessum heimi, og henni ert þú lík og liggur þó við, að þú rýmir burt mynd hennar úr sálu minni. Hún er vígð hinu helga musteri, og þess vegna hefur hamingjan sent mér þig í hennar stað, og skulum við aldrei skilja.“ Æ, hann veit ekki, að ég hef bjargað lífi hans, hugsaði hafmeyjan, ég bar hann yfir sjóinn til skógarins, þar sem musterið helga stendur, ég sat bak við froðuskaflinn og leit eftir, hvort enginn kæmi til hans. Ég sá fallegu stúlkuna, sem honum þykir vænna um en mig, – og hafmeyjan stundi þungan, en grátið gat hún ekki. „Stúlkan er vígð musterinu helga,“ sagði hann, hún kemur aldrei út meðal manna, þau hittast ekki framar. Ég er hjá honum og sé hann á degi hverjum, og því skal ég stunda hann, elska hann og fórna honum lífi mínu. Nú barst út sá orðrómur, að kóngssonurinn ætti að kvongast og eiga dóttur nágrannakóngsins, hina fríðustu mey, og þess vegna væri verið að búa út skrautlegt skip. Reyndar var látið í veðri vaka að kóngssonurinn færi þessa för til að sjá lönd nágrannakonungsins, en hitt þóttust menn vita, að förin væri gerð til þess að sjá dóttur hans. Átti hann að hafa með sér mikið föruneyti. Hafmeyjan litla hristi höfuðið og hló; hún vissi betur en allir aðrir, hvað kóngssyninum bjó í brjósti. „Ég verð að fara,“ hafði hann sagt við hana, „ég verð að sjá kóngsdótturina fögru, foreldrar mínir krefjast þess, en ekki munu þau neyða mig til að flytja hana með mér hingað heim sem brúði mína. Ég get ekki elskað hana, hún er ekkert lík fallegu stúlkunni í musterinu, sem þú ert svo lík. Ætti ég að kjósa mér brúði, þá yrðir þú það öllu heldur, óskilabarnið mitt mállausa með augun talandi!“ Og hann kyssti á munninn hennar rjóða, lék sér að hárinu hennar síða og hallaði höfði sínu að hjarta hennar, svo að það fór að dreyma um mannlega hamingju og ódauðlega sál. „Þú ert þó ekki hrædd við sjóinn, blessað barnið mállausa!“ sagði hann, þegar þau voru komin út á skipið skrautlega, sem átti að flytja hann til landa nágrannakonungsins. Og hann sagði henni frá hafstormum og hafstillum, frá kynjafiskum í djúpinu og hvað kafarinn hefði séð þar, en hún brosti að frásögn hans, því hún þekkti betur til á sjávarbotninum en nokkur annar. Það var eina mánabjarta nótt, þegar allir sváfu, nema skipstjórnarmaðurinn, sem stóð við stýrið, þá sat hún við borðstokkinn og horfði niður í blátæran sjóinn. Þá þótti henni sem hún sæi höll föður síns, og ömmu sína gömlu standandi uppi á henni með silfurkórónuna á höfði. Starði hún upp í gegnum straumfallið á kjöl skipsins. Þá komu systur hennar upp úr sjónum. Þær horfðu til hennar sorgbitnar og slógu höndum; hún benti þeim brosandi og ætlaði að fara að segja þeim, að sér liði mæta vel, en þá kom skipsdrengurinn til hennar, og stungu þá systurnar sér óðara, en hann hugsaði, að hvítan, sem hann sá, hefði ekki verið annað en froða á sjónum. Morguninn eftir lagði skipið inn á höfnina við hina skrautlegu borg nágrannakonungsins. Öllum kirkjuklukkum var hringt, og lúðrar voru þeyttir í hinum háu turnum, en dátaflokkar stóðu með blaktandi fána og blikandi byssustingi. Hver dagur var sem hátíðisdagur, og gekk ekki á öðru en dansveislum og samkvæmum, en dóttir konungsins var ókomin enn. Menn sögðu, að hún væri að fóstri í helgu musteri og ætti þar að læra allar dyggðir, sem konungsdætrum sæma. Loksins kom hún. Hafmeyjunni var ekki lítil forvitni á að sjá hana, og þegar til kom, varð hún að játa, að yndislegri kvenmann hafði hún aldrei séð. Hún var ljómandi hörundsfríð, og dyggðin og tryggðin virtust skína út úr augunum hennar björtu, bak við svörtu augnahárin. „Það ert þú,“ sagði kóngssonurinn. „Það ert þú, sem bjargaðir mér, þegar ég lá eins og liðið lík á ströndinni,“ og hann þrýsti henni kafrjóðri í fang sér. „Ó, ég er allt of sæll,“ sagði hann við hafmeyjuna litlu. „Það besta, sem ég aldrei þorði að vona, hefur nú ræst á mér. Ég veit að þú gleðst yfir hamingju minni, því enginn ann mér eins og þú.“ Og hafmeyjan litla kyssti hönd hans, og henni fannst sem hjarta sitt væri að bresta. Hún vissi það, að hún átti að deyja á brúðkaupsmorgni hans og verða þá að sjávarfroðu. Öllum kirkjuklukkum var hringt og kallarar fóru um borgarstrætin og kunngjörðu trúlofunina. Dýrindis silfurlampar stóðu á öllum ölturum, og logaði á þeim af ilmandi olíu. Prestarnir veifuðu reykelsiskerum, brúður og brúðgumi tókust í hendur, og biskupinn gaf þeim blessun sína. Hafmeyjan litla stóð skartbúin í gull og silki og hélt slóða brúðarinnar, en eyru hennar heyrðu ekki hátíðahljóm sönglistarinnar og augu hennar sáu ekki vígsluathöfnina. Hún hugsaði aðeins um dauðans nótt, sem yfir vofði, og um allt það, sem hún hafði misst í heimi þessum. Sama kvöldið gengu brúðhjónin út á skipið, fallbyssuskotin drundu og öll flögg blöktu uppi; miðskipa var slegið upp konunglegu tjaldi af gulli og purpura með dýrindis hægindum; þar áttu brúðhjónin að sofa um nóttina. Seglin þöndust út í hægum byr, og skipið leið með hægum skriði yfir bjartan sjóinn. Þegar dimma tók, var kveikt á alla vega litum lömpum, og skipverjar dönsuðu fjöruga gleðidansa á þilfarinu. Hafmeyjan litla gat ekki annað en minnst þess, þegar hún í fyrsta sinni kom upp úr sjónum og sá þessa sömu viðhöfn og gleði. Hún fór með í dansinn og þyrlaðist í honum svífandi eins og svalan, þegar hún er elt, og allir rómuðu með aðdáun, hve prýðilega hún dansaði, aldrei hafði henni eins tekist upp. Hana sveið í iljarnar, eins og skorið væri í þær með beittum hnífum, en hún fann ekki til þess, hana sveið meira í hjartanu. Hún vissi, að þetta var síðasta kvöldið, sem hún sá hann, er hún hafði lagt svo mikið í sölurnar fyrir, yfirgefið ætt sína og heimili, gefið burt sína yndislegu söngrödd og daglega tekið út óumræðilegar kvalir, sem hann vissi ekkert um. Þetta var síðasta nóttin, sem hún andaði að sér sama lofti og hann, síðasta nóttin, sem hún sá hinn stirnda himin og hinn djúpa sæ. Eilíf nótt án hugsana eða drauma beið hennar, hún átti ekki sál og gat aldrei eignast hana. Á skipinu var ekki nema glaumur og gleði, þangað til komið var langt fram yfir miðnætti; hafmeyjan hló og dansaði með dauðahugsunina í hjarta sér. Kóngssonurinn kyssti hina ungu og fögru brúði sína, og hún lék sér að hárinu hans svarta, og leiddust þau svo til hvílu í skrauttjaldinu. Nú varð allt hljótt og kyrrt á skipinu. Stýrimaðurinn einn var á fótum og stóð við stýrið. Hafmeyjan litla lagði armana sína á borðstokkinn, horfði í austrið og gáði til aftureldingarinnar. Hún vissi það, að fyrsti sólargeislinn mundi drepa sig. Þá sér hún systur sínar koma upp úr sjónum; voru þær bleikar eins og hún sjálf. Og nú höfðu þær ekki lengur fallega, síða hárið til að láta flaksast í vindinum. Það var afskorið. „Við gáfum norninni það, til þess að hún hjálpaði okkur, svo að þú þyrftir ekki að deyja núna í nótt. Hún hefur látið okkur fá hníf; hérna er hann; sjáðu, hann er beittur. Fyrir sólaruppkomu verðurðu að reka hann í hjarta kóngssonarins, og þegar glóðvolgt blóðið úr honum slettist á fætur þína, þá munu þeir gróa saman í fisksporð og þá verðurðu hafmey aftur og getur aftur komist niður í sjóinn til okkar og lifað í þrjú hundruð ár, áður en þú verður að saltri sjávarfroðu. Flýttu þér nú. Annaðhvort ykkar verður að deyja áður en sól rennur á loft. Ömmu okkar hefur sorgin gengið svo til hjarta, að hún er búin að missa hárið sitt hvíta, eins og við urðum að láta okkar fyrir skærum nornarinnar. Dreptu kóngssoninn og komdu aftur til okkar. Vertu nú fljót, sérðu ekki rauðu rákina þarna á himninum? Eftir fáein augnablik kemur sólin upp, og þá verðurðu að deyja.“ Og þær stundu þungan og hurfu niður í bylgjurnar. Hafmeyjan litla dró purpuradúkbreiðuna frá tjalddyrunum og sá hvar brúðurin yndislega hvíldi sofandi við brjóst kóngssonarins. Hafmeyjan laut ofan að honum og kyssti hann á ennið. Hún leit til himins, þar sem morgunroðinn var að vaxa í ljóma, hún leit á hnífinn beitta og svo aftur á kóngssoninn, sem var að nefna nafn brúðar sinnar, því um hana eina hugsaði hann, og hnífurinn titraði í hendi hafmeyjarinnar, – en þá kastaði hún honum langt út í bylgjurnar, og í sama bili brá á þær rauðu skini, þar sem hnífurinn kom niður, og var sem blóðdropar hreyttust upp úr sjónum. Ennþá einu sinni leit hún á kóngssoninn með hálfbrostnum augum, steypti sér út yfir borðstokkinn og fann, hversu líkami hennar leystist sundur og varð að sjávarfroðu. Nú reis sól úr hafi og lagði geisla hennar blítt og hlýtt yfir helkalda sjávarfroðuna, en hafmeyjan fann ekki til dauðans. Hún sá sólina skínandi bjarta, og uppi yfir sér sá hún svífa óteljandi yndisfagrar gagnsæjar verur; hún sá hvítu seglin á skipinu og rauðu skýin á himninum í gegnum þær. Rödd þeirra var hljómfögur, en svo himnesk, að ekkert mannlegt eyra gat heyrt hana, að sínu leyti eins og ekkert mannlegt auga gat séð verurnar. Þær voru svo eðlisléttar, að þær svifu vængjalaust í loftgeiminum, aðeins fyrir léttleika sjálfra sín. Hafmeyjan litla sá, að hún hafði sams konar líkama og þær, og fann, að hann lyftist æ betur og betur upp úr froðunni. „Til hverra er ég að komast?“ sagði hún, og rödd hennar hljómaði eins og hinna, svo andleg og himnesk, að engin jarðnesk sönglist mátti þar eftir líkja. „Til dætra loftsins,“ svöruðu hinar. „Hafmeyjan á enga ódauðlega sál og getur aldrei eignast hana, nema henni takist að verða elskuð af mennskum manni. Það er undir annarlegu valdi komið, að hún hljóti tilveru. Dætur loftsins eiga ekki heldur ódauðlega sál, en sjálfar geta þær áunnið sér hana með góðum verkum. Við fljúgum til heitu landanna, þar sem drepþrungin loftmolla sálgar mönnunum; þangað færum við hressandi kælu. Við dreifum ilmi blómanna um loftið og sendum frá okkur endurnæringu og heilsubót. Og þegar við í þrjú hundruð ár höfum ástundað að gera allt hið góða, sem við megum, þá öðlumst við ódauðlega sál og hlutdeild í eilífri sælu mannanna. Vesalings litla hafmey, þú hefur af öllu hjarta þínu stundað eftir hinu sama sem við, þú hefur þolað og þjáðst, þú hefur hafið þig upp í heim loftandanna, og nú getur þú sjálf með góðum verkum öðlast ódauðlega sál að þrjú hundruð árum liðnum.“ Og hafmeyjan litla lyfti upp sínum björtu örmum til guðs sólar, og nú fann hún sér vökna um augu í fyrsta sinni; hún gat grátið. Á skipinu var aftur gleðiglaumur og háreysti, hún sá, að kóngssonurinn og brúðurin hans fagra voru að leita hennar; þau horfðu sorgbitin niður í löðrandi sjóinn, eins og þau vissu, að hún hefði steypt sér út í bylgjurnar. Hún kyssti ósýnileg á enni brúðarinnar og hóf sig með hinum öðrum börnum loftsins upp á rósrautt ský, sem leið áfram gegnum loftið. „Að þrjú hundruð árum liðnum svífum við á sama hátt inn í guðsríki.“ „Og við getum enda komist þangað fyrr,“ hvíslaði ein þeirra. „Við svífum, svo enginn sér okkur, inn í hús mannanna, þar sem börn eru, og hver sá dagur, er við hittum fyrir gott barn, sem er foreldrum sínum til gleði og verðskuldar elsku þeirra, sá dagur verður til þess, að drottinn styttir reynslutíma okkar. Barnið veit ekki af, þegar við líðum um stofuna; það veit ekki, að þegar við brosum af gleði yfir því, þá er eitt ár reiknað frá hinum þremur hundruðum, en ef við sjáum vont og óhlýðið barn, þá fellum við sorgartár, og fyrir hvert eitt tár bætist þá einn dagur við reynslutíma okkar.“ Eldfærin Dáti nokkur kom skálmandi eftir þjóðveginum, – einn, tveir, einn, tveir! – Hann bar hertösku sína á baki og korða við hlið, því hann hafði verið í stríðinu og var nú á leiðinni heim til sín. Bar þá svo til, að hann mætti gamalli galdranorn á þjóðveginum; hún var afskaplega ljót með neðri vörina lafandi niður á brjóst. „Góðan daginn, dáti sæll!“ sagði hún, „en hvað korðinn þinn er fallegur og hertaskan þín stór; þú ert almennilegur dáti. Nú skaltu fá svo marga peninga sem þig lystir að eiga.“ „Þakka þér fyrir, gamla kerlingarnorn!“ sagði dátinn. „Sérðu stóra tréð þarna?“ mælti kerling og benti um leið á tré, sem stóð rétt hjá þeim, „það er alveg holt að innan. Þú skalt klifrast upp í toppinn, þá muntu sjá op, og geturðu svo rennt þér niður um það og komist langt niður í tréð. Ég skal bregða reipi yfrum þig miðjan, svo ég geti dregið þig upp aftur, þegar þú kallar til mín.“ „Og hvað á ég að gera niður í tréð?“ sagði dátinn. „Sækja peninga,“ sagði kerling, „því það get ég sagt þér, að þegar þú ert kominn niður á botn trésins, þá er þar gangur mikill og víður, þar er albjart, því þar logar á lömpum svo hundruðum skiptir. Þá muntu sjá þrjár dyr, og geturðu lokið þeim upp, því lykillinn stendur í skránni. Farirðu inn í fyrsta herbergið, þá muntu sjá þar á gólfinu stóra kistu. Á henni situr hundur, og eru augu hans eins stór og tvær undirskálar, en um það skaltu ekki hirða hót. Ég ætla að lána þér blátiglóttu svuntuna mína, þú getur breitt hana á gólfið. Gakktu svo djarfmannlega að hundinum og taktu hann og settu hann á svuntuna mína, þar næst skaltu ljúka upp kistunni og taka svo marga skildinga sem þú vilt. Það eru tómir koparskildingar, en viljirðu heldur silfur, þá skaltu fara inn í næsta herbergi. Þar situr hundur með augu, sem eru eins stór og mylnuhjól, en kærðu þig ekkert um það, settu hann á svuntuna mína og taktu sem þér líkar af peningunum. En viljirðu þar á móti hafa gull, þá geturðu líka fengið það, og það eins mikið og þú getur borið, og verðurðu til þess að fara inn í þriðja herbergið. En hundurinn, sem þar situr á peningakistunni, hefur tvö augu, sem eru eins stór og „Sívaliturn“, hvort um sig. Það er almennilegur hundur, því máttu trúa, en kærðu þig ekkert um það, heldur settu hann niður á svuntuna mína; þá gerir hann þér ekkert mein, og taktu svo úr kistunni eins mikið gull og þú vilt.“ „Það væri ekki svo vitlaust,“ sagði dátinn. „En hvað á ég að gefa þér, gamla kerlingarnorn! Eitthvað mun kerling vilja hafa fyrir snúð sinn, geri ég ráð fyrir.“ „Nei,“ sagði kerling, „ekki einskilding vil ég hafa. Þú átt aðeins að ná fyrir mig gömlu eldfæraeski, sem hún amma mín gleymdi, þegar hún var þar niðri í síðasta skiptið.“ „Hana! Það er þá best ég fái reipið yfrum mig,“ segir dátinn. „Hérna er það,“ sagði kerling, „og hérna er blátiglótta svuntan mín.“ Dátinn klifraðist nú upp í tréð og lét hlammast niður um opið, og óðara stóð hann, eins og kerling hafði fyrir sagt, í víða ganginum, þar sem logaði á lömpum svo hundruðum skipti. Nú lauk hann upp fyrstu dyrunum. Hú! þar sat hundurinn með augun stór sem undirskálar væru og starblíndi á hann. „Þú ert fallegur karl,“ sagði dátinn, setti hann niður á svuntu kerlingar og tók eins marga koparskildinga og komust fyrir í vasa hans, læsti síðan kistunni, setti hundinn upp á hana og gekk inn í hitt herbergið. Æ, æ! þar sat hundurinn með augun, sem voru eins stór og mylnuhjól. „Þú ættir ekki að glápa svona á mig,“ sagði dátinn, „þér gæti orðið illt í augunum.“ Þar með setti hann hundinn niður á svuntu kerlingar, en þegar hann sá, hvílík kynstur voru af silfurpeningum í kistunni, þá fleygði hann öllum koparskildingunum og fyllti vasa sína og hertöskuna með skínandi silfrinu. Eftir það fór hann inn í þriðja herbergið. Nei, það var nú ljóta sjónin. Það var orð og að sönnu, að hundurinn þar inni hafði augu, sem voru eins stór og Sívaliturn og snarsnerust í hausnum eins og hjól. „Gott kvöld!“ sagði dátinn og brá hendinni upp að húfuderinu, því slíkan hund hafði hann aldrei séð á ævi sinni. En þegar hann hafði virt hann fyrir sér, þá hugsaði hann, að nóg væri komið af svo góðu, setti hann niður af kistunni á gólfið og lauk upp kistunni. Drottinn dýri! hvílík ósköp voru í henni af gullinu! Fyrir það hefði hann getað keypt alla höfuðborgina, alla þá sykurgrísi, sem kryddbrauðssölukonurnar höfðu á boðstólum, alla þá tindáta, keyri og rugguhesta, sem til voru í heiminum. Já, þetta voru peningar. Og nú fleygði dátinn öllum þeim silfurpeningum, sem hann hafði fyllt með vasa sína og hertöskuna, og tók nú í þeirra stað gullið og troðfyllti með því alla vasa sína, hertöskuna, húfuna og stígvélin, svo að hann gat varla gengið. Nú hafði hann nóga peningana. Hundinn setti hann upp á kistuna, skellti á eftir sér hurðinni og hrópaði upp í gegnum tréð: „Dragðu mig upp, gamla kerlingarnorn!“ „Ertu með eldfærin?“ sagði kerling. „Æ, það er satt,“ sagði dátinn, „því var ég alveg búinn að gleyma.“ Fór hann þá aftur og náði þeim. Kerlingin dró hann upp, og nú stóð hann aftur þarna á þjóðveginum með vasana, stígvélin, hertöskuna og húfuna, allt troðfullt af peningum. „Hvað ætlarðu að gera við þessi eldfæri?“ mælti dátinn. „Það varðar þig ekkert um,“ ansaði kerling, „þú ert búinn að fá peningana. Fáðu mér nú eldfærin orðalaust.“ „Slúður!“ sagði dátinn, „segðu mér undir eins, til hvers þú ætlar að hafa eldfærin, eða ég dreg út korðann og hegg af þér höfuðið.“ „Nei, það geri ég ekki,“ sagði kerling. Þá hjó dátinn af henni höfuðið, og þarna lá hún, en hann batt svuntu hennar utan um alla peningana, snaraði bögglinum á bak sér, stakk eldfærunum í vasa sinn og gekk rakleiðis til borgarinnar. Það var falleg borg, og í fallegasta gistihúsið fór hann inn, heimtaði þar handa sér bestu herbergin, sem til væru, og sína kærustu kjörrétti, því nú var hann ríkismaður, hafði sand af peningum. Þjóninum, sem átti að bursta stígvélin hans, sýndist reyndar, að þau væru heldur gömul og lasleg fyrir svona ríkan herra, en hann átti eftir að kaupa sér önnur ný; daginn eftir fékk hann sér stígvél, sem honum hæfðu, og fallegan klæðnað. Nú var hann orðinn hefðarmaður, og nú sögðu menn honum frá öllu, sem merkilegast var í borginni, frá kónginum sínum og frá því, að dóttir hans væri ljómandi fríð og yndisleg. „Hvar getur maður fengið að sjá hana?“ sagði dátinn. „Það er alls enginn kostur á að sjá hana,“ svöruðu allir, „hún býr í stórri koparhöll, sem lukt er umhverfis með mörgum múrum og turnum. Engum er þar heimill gangur út og inn, nema konunginum, en það er nú sökum þess, að spáð hefur verið, að það liggi fyrir henni að giftast sléttum og réttum dáta, en það vill kóngurinn ekki hafa.“ „Gaman þætti mér að sjá hana,“ hugsaði dátinn með sér, en það voru nú engin tiltök, að hann fengi það. Nú lifði hann fjörugt, fór í leikhúsið, ók í konungstrjágarðinum og gaf fátæklingum mikla peninga, og var það fallega gert af honum; hann vissi af gamalli reynslu, hvað það er bágt að eiga ekki nokkurn skilding. Hann var nú ríkur, átti fallegan fatnað, og hændust að honum margir vinir, og allir sögðu, að dæmalaust væri hann nú vænn, og einstakasta prúðmenni, og það þótti honum gott að heyra. En af því að honum eyddust peningar á degi hverjum, en bættust engir aftur í staðinn, þá fór svo, að á endanum átti hann ekki eftir nema einn tvískilding og varð að flytja sig burt úr fallegu herbergjunum, þar sem hann hafði verið, og fá sér húsnæði í ofurlítilli kytru uppi undir þaki og bursta stígvélin sín sjálfur og enda staga þau saman, og ekki kom þar nokkur inn til hans af vinum hans, því það voru svo mörg stigaþrepin að ganga upp og ofan. Eitt kvöld er hann sat í kolniðamyrkri og hafði ekki einu sinni efni á að kaupa sér kerti, þá rifjaðist allt í einu upp fyrir honum, að það lá ofurlítill kertisstubbur í eldfæra-eskinu, sem hann hafði tekið í hola trénu eftir tilvísun galdrakerlingarinnar og með hennar tilbeina. Hann tók þá upp eldfærin með kertisstubbnum, en í sama bili og hann sló eld og neistarnir hrutu úr tinnunni, þá hrukku upp dyrnar, og stóð frammi fyrir honum hundurinn, sá hinn sami sem hann fyrr sá niðri í trénu, hundurinn með augun, sem voru eins stór og undirskálar. „Hvað vill herra minn gera láta?“ spurði hundurinn. „Hvað er þetta?” sagði dátinn, „tarna eru skemmtileg eldfæri, ef ég get fengið svona hvað sem ég vil. Útvegaðu mér dálítið af peningum,“ sagði hann við hundinn, og varla var hann farinn fyrr en hann var aftur kominn með stóran poka, fullan af skildingum, sem hann bar í trantinum. Nú vissi dátinn, hvílík ágætis eldfæri þetta voru; slægi hann einu sinni, þá kom hundurinn, sem sat á eirpeningakistunni, slægi hann tvisvar, þá kom hundurinn, sem hafði silfurpeningana, og slægi hann þrisvar, þá kom sá sem gullið hafði. Flutti nú dátinn sig aftur í fallegu herbergin og komst aftur á fallegu fötin, og þá jafnharðan þekktu vinirnir hann aftur, og þá þótti þeim svo dæmalaust vænt um hann. Einu sinni hugsar hann með sér: „Undarlegur skolli er þetta, að maður skuli ekki mega fá að sjá kóngsdótturina, hún kvað vera svo ljómandi falleg, það segja þeir allir. En hvaða gagn er að því, ef hún verður alltaf að sitja innilokuð í stóru koparhöllinni með turnana? Er þá ómögulegt, að ég geti fengið að sjá hana? Hvar eru nú eldfærin mín?“ Og hann sló eld og í sama bili kom hundurinn með augun, sem voru eins stór og undirskálar. „Það er reyndar komið fram á miðja nótt,“ sagði dátinn, „en mig langar svo ákaflega til að sjá kóngsdótturina, þó það væri ekki nema rétt allra snöggvast.“ Hundurinn var óðara þotinn út og ekki vissi dátinn fyrr en hann sá hann aftur kominn með kóngsdótturina; hún sat sofandi á baki hundsins og var svo ljómandi fögur, að hver maður gat séð, að þetta var sannarleg kóngsdóttir. Dátinn gat ekki á sér setið, hann mátti til að kyssa hana, og var það að vonum, því þetta var almennilegur dáti. Hundurinn hljóp síðan beina leið aftur með kóngsdótturina, en um morguninn, þegar kóngurinn og drottningin sátu við teborðið, sagði kóngsdóttirin, að sig hefði dreymt svo undarlegan draum, það hefði verið um hund og dáta. Hún hefði riðið hundinum, dátinn hefði kysst sig. „Það er dáfallegt að heyra, eða hitt þó heldur,“ sagði drottningin. Nú átti ein af hirðkonunum gömlu að vaka við rúm kóngsdótturinnar næstu nótt, til þess að komast fyrir, hvort þetta væri draumur eða hvernig annars í því lægi. Dátann langaði nú fram úr öllu lagi til að sjá aftur kóngsdótturina fallegu, og kom þá hundurinn um nóttina, tók kóngsdótturina og hljóp með hana eins og hann gat hraðast, en hirðkonan gamla fór í vaðstígvél og hljóp engu óhraðara á eftir. Nú sem hún sá, að þau hurfu inn í stórt hús, þá hugsaði hún með sér: nú veit ég, hvar það er, og markaði með krítarmola stóran kross á dyrnar. Síðan fór hún heim og háttaði, og hundurinn kom líka aftur með kóngsdótturina. En þegar hann sá, að kross hafði verið markaður á dyrnar, þar sem dátinn var til húsa, þá tók hann líka krítarmola og markaði kross á allar húsdyr í allri borginni, og var það kænlega gert, því nú gat hirðkonan ekki fundið réttu dyrnar, þegar kross var á öllum. Snemma morguns komu þau kóngur og drottning, hirðkonan gamla og allir höfuðsmennirnir til að gá að, hvar kóngsdóttirin hefði verið um nóttina. „Þarna er það,“ sagði konungurinn, þegar hann sá fyrstu dyrnar með krítarmerkinu. „Nei, þarna er það, gæska!“ sagði drottningin, en henni varð litið á aðrar dyr, sem kross var markaður á. „Og þarna er einn og þarna er einn,“ sögðu þau öll, þegar þau voru að reka augun í krossana, sem voru á öllum húsdyrum borgarinnar. Þeim gat ekki lengur blandast hugur um, að leitin mundi verða árangurslaus. En drottningin var stórvitur kona, sem fleira kunni en að aka í dýrum vagni. Hún tók stóru gullskærin sín, klippti sundur stóran silkidúk og saumaði úr stykkjunum poka. Pokann fyllti hún fínustu bókhveitigrjónum og batt hann á bak kóngsdótturinni, klippti síðan gat á pokann, til þess að grjónin skyldu sáldrast niður alla leiðina, þar sem kóngsdóttirin færi um. Um nóttina kom hundurinn aftur, tók kóngsdótturina á bak sér og hljóp með hana til dátans, sem þótti svo vænt um hana og vildi svo feginn, að hann hefði verið konungborinn sjálfur, til þess að geta eignast hana fyrir konu. Hundurinn varð ekkert var við, hvernig grjónin sáldruðust niður alla leiðina frá höllinni og þangað sem dátinn var til húsa. Morguninn eftir sáu þau kóngur og drottning, hvar dóttir þeirra hafði verið, og létu þá taka dátann og setja hann í svartholið. Þarna sat hann nú. Ó, hvað það var dimmt og leiðinlegt, og svo sögðu þeir líka við hann: „Á morgun verðurðu hengdur,“ og til allrar ógæfu höfðu eldfærin orðið eftir, þegar hann fór úr gistihúsinu. Um morguninn sá hann út um járngrindurnar fyrir fangelsisglugganum, hvílíkur asi var á fólkinu að komast út úr borginni til þess að horfa á, þegar hann yrði hengdur. Hann heyrði trumbusláttinn og sá dátasveitina þramma til aftökustaðarins. Allt þusti af stað, sem vettlingi gat valdið. Þar á meðal var skóarapiltur einn með skinnsvuntu og á töplum. Hann anaði svo hart áfram, að önnur taplan rauk af fætinum og beint í vegginn, þar sem dátinn sat fyrir innan og horfði út um járngrindurnar. „Heyrðu, skóarapiltur! þú þarft ekki að flýta þér svona ákaflega,“ sagði dátinn við hann, „ekkert verður gert, hvort sem er, fyrr en ég kem; en ef þú vilt hlaupa fyrir mig þangað, sem ég hef verið til húsa, og sækja eldfærin mín, þá skaltu fá fjóra skildinga, en þú verður að taka duglega til fótanna.“ Skóarapilturinn vildi feginn fá skilding og þaut sem kólfi væri skotið eftir eldfærunum og fékk þau dátanum. Heyrum svo hvernig fer! Fyrir utan borgina var reistur upp feiknastór gálgi, og stóðu hermenn í kringum hann og fólksfjöldi svo hundruðum þúsunda skipti. Konungur og drottning sátu í glæsilegu hásæti andspænis dómurunum og öllu ráðinu. Dátinn var þegar kominn efst upp í stigann, en þegar smeygja skyldi hengingarólinni um háls honum, þá sagði hann, að það væri ætíð siður að veita sakamanni ósk sína á undan aftökunni, ef óskin væri meinlaus. Hann sagði, að sig langaði svo mikið til að reykja sér eina pípu, það yrði svo hvort heldur er seinasta pípan sín í þessum heimi. Konungurinn vildi ekki synja honum þess, og tók dátinn þá eldfærin og sló eld, einn, tveir, þrír, – og í sama bili stóðu þar hundarnir allir, sá sem hafði eins stór augu og undirskálar, sá sem hafði þau eins stór og mylnuhjól og sá sem hafði þau á stærð við Sívalaturn. „Hjálpið þið mér nú, svo ég verði ekki hengdur,“ sagði dátinn, og í sama vetfangi ruku hundarnir í dómarana og allt ráðið, þrifu einn upp á fótunum og annan á nefinu og þeyttu þeim margar mannhæðir í loft upp, svo þeir féllu niður og duttu sundur í ótal stykki. „Nei, þetta vil ég ekki hafa,“ sagði konungurinn, en stærsti hundurinn tók bæði hann og drottninguna og þeytti þeim á eftir öllum hinum. Þá urðu dátarnir skelkaðir, og allur lýðurinn æpti: „Þú skalt vera kóngurinn okkar og eiga fallegu kóngsdótturina.“ Þar með settu þeir dátann í kerru konungsins, og allir þrír hundarnir dönsuðu á undan og æptu „húrra!“ og strákarnir blístruðu í fingur sér og dátarnir heilsuðu með byssunum. Kóngsdóttirin var leyst úr koparhöllinni og varð drottning, og þótti henni ekki margt að því. Brúðkaupið stóð yfir í átta daga, og sátu hundarnir þar með öðrum til borðs og gláptu stórum augum. Förunauturinn Það lá svo illa á Jóhannesi vesalingnum, því faðir hans var fárveikur og engin lífsvon. Það var enginn nema þeir tveir í litlu stofunni, þar sem hann lá. Það var við það að slokkna á lampanum, sem á borðinu stóð, og langt liðið fram á kvöld. „Þú hefur verið mér góður sonur, Jóhannes!“ sagði faðirinn; „góður guð mun hjálpa þér áfram í þessum heimi,“ og hann leit til hans með alvarlegu og mildu augnaráði, dró öndina djúpt og mæðilega og dó samstundis; var þá yfirbragð hans líkast sem hann svæfi. En Jóhannes grét, því nú átti hann engan að í víðri veröld, hvorki föður né móður, systur né bróður. Vesalings Jóhannes! Hann lá á knjám fyrir framan rúmið og kyssti á hönd föður síns dáins og grét mörgum beiskum tárum, en loksins luktust augu hans saman, og sofnaði hann svo út af með höfuðið á hörðum rúmstokknum. Þá dreymdi hann undarlegan draum. Honum þótti sólin og tunglið lúta sér, og hann sá föður sinn heilan og hraustan og heyrði hann hlæja, eins og hann átti að sér að hlæja, þegar hann var allra kátastur. Yndisfögur stúlka, fagurhærð og síðhærð, með gullkórónu á höfði, rétti Jóhannesi hönd sína, og faðir hans sagði: „Sérðu hvílíka brúði þú hefur hlotið! hún er fríðust allra kvenna í heimi!“ Í því vaknaði hann, og allt hið fagra var horfið. Faðir hans lá liðinn og kaldur í rúminu, og enginn var hjá þeim. Vesalings Jóhannes! Viku síðar var hinn látni jarðsettur. Jóhannes gekk rétt á eftir kistunni og gat nú ekki framar fengið að sjá hann föður sinn góða, sem hafði elskað hann svo innilega. Hann heyrði moldinni mokað niður á kistuna og horfði enn á síðasta horn hennar, en við næstu rekufylli moldar, sem niður var kastað, hvarf það einnig. Þá var sem hjarta hans ætlaði að bresta, svo harmþrunginn var hann. Þeir, sem í kringum hann stóðu við gröfina, sungu sálm; það ómaði svo fagurt, og Jóhannesi vöknaði um augu; hann grét, og við það hægði honum í sorginni. Sólin skein ljómandi á grænu trén, eins og hún vildi segja: „Þú mátt ekki vera svona sorgbitinn, Jóhannes! Þar efra er hann faðir þinn núna og biður algóðan guð að láta þér ætíð ganga vel.“ „Ég vil líka ætíð vera góður,“ sagði Jóhannes, „þá auðnast mér að koma í himnaríki til föður míns, og hvílíkur fögnuður verður það, þegar við sjáumst aftur. Hversu margt mun það verða, sem ég get sagt honum frá, og hann mun aftur sýna mér svo margt og fræða mig um alla þá fegurð, sem í himninum er, eins og hann kenndi mér hér á jörðu! Ó, sú gleði, sem þá mun verða!“ Jóhannes hugsaði sér þetta svo ljóst og greinilega, að hann brosti um leið og tárin hrundu niður eftir kinnum hans. Litlu fuglarnir sátu uppi í kastaníutrjánum og kvökuðu „ví, ví, ví“. Þeir voru svo glaðir og ánægðir, þó þeir væru einnig við jarðarförina, en þeir vissu það líklega, að hinn látni maður var á himnum, hafði vængi, sem fegurri voru og stærri en þeirra vængir, og var nú alsæll, af því hann hafði verið góður hér á jörðu, – og þetta fékk þeim ánægju. Jóhannes sá þá fljúga af grænu trjánum út í víða veröld, og þá fékk hann löngun til að fljúga með þeim. En fyrst smíðaði hann stóran trékross til að setja á gröf föður síns, og um kvöldið, er hann kom þangað með krossinn, þá var gröfin prýdd með sandi og blómum, og höfðu vandalausir gert það, því öllum, sem þekkt höfðu, var svo innilega vel við hinn góða föður hans, sem nú var dáinn. Snemma næsta morgun batt Jóhannes dót sitt saman í böggul, en arf sinn allan, er nam fimmtíu ríkisdölum og fáeinum silfurskildingum, fal hann í belti sínu; með þetta ætlaði hann nú að eigra út í víða veröld. En fyrst gekk hann út í kirkjugarð að gröf föður síns, las „Faðir vor“ og sagði: „Vertu sæll, faðir minn! Það er ásetningur minn að vera ávallt góður maður, og máttu þá víst biðja algóðan guð, að hann láti mér ganga vel.“ Úti á víðavangi, þar sem Jóhannes fór um, stóðu blómin öll svo skær og fögur í sólskinsblíðunni og kinkuðu kolli í vindblænum, eins og þau vildu segja: „Velkominn á grænar grundir! er ekki ljómandi fallegt hérna?“ En Jóhannes sneri sér við einu sinni enn, hann varð að líta aftur til kirkjunnar gömlu, þar sem hann hafði verið skírður barnsskírn og verið með föður sínum gamla á hverjum sunnudegi og sungið með honum margan sálminn. Þá sér hann kirkjuálfinn litla standa með rauðu topphúfuna sína í einu opinu á turninum. Álfurinn beygði upp handlegginn og bar hendi fyrir andlit, því sólarbirtan skar í augu honum. Jóhannes kinkaði til hans kolli í kveðjuskyni, og álfurinn litli veifaði húfunni sinni, lagði höndina á hjarta sér og kyssti hvað eftir annað á fingurna til merkis um, að hann af heilum huga óskaði honum alls góðs og að honum gengi ferðin vel og farsællega. Jóhannes var nú að hugsa um alla þá dýrð, sem hann mundi fá að sjá í þessum mikla og fagra heimi, og gekk alltaf lengra og lengra áleiðis, og miklu lengra en hann hafði farið nokkurn tíma áður. Hann þekkti alls ekki borgirnar, sem hann fór um, eða mennina, sem hann mætti. Hann kannaði ókunnuga stigu. Fyrstu nóttina varð hann að leggjast til svefns í heystakk á víðavangi; annars hvílurúms var ekki kostur. En þetta þótti honum einmitt ágætur náttstaður, það gat ekki nettara eða notalegra verið, jafnvel ekki hjá kónginum sjálfum. Allur hinn víði vangur með ánni, heystakknum og bláa himninum uppi yfir, það var fegursti svefnsalur. Grængresið með rauðu og hvítu smáblómunum var gólfábreiða, ylli-runnarnir og villirósagerðin voru blómvöndlar, og ekki vantaði heldur þvottaskálina handa honum, en það var áin öll með hreina, svala og tæra vatninu, þar sem sefstönglarnir hneigðu sig og buðu gott kvöld og góðan morgun. Máninn var myndarlegasti náttlampi hátt uppi undir loftinu bláa, og ekki hætt við, að kviknaði af honum í rúmtjöldunum. Jóhannes gat sofið þarna rór og öruggur, og það gerði hann líka, og ekki vaknaði hann fyrr en sólin kom upp og allir litlu fuglarnir sungu allt í kringum hann: „Góðan daginn, góðan daginn! þú ert þá ekki enn kominn á fætur!“ Klukkum var hringt til messu. Það var sunnudagur, og var fólkið að fara til kirkju til að hlýða á prestinn sinn, og Jóhannes fylgdist með því, söng með og hlýddi á guðsorð. Þótti honum alveg eins og hann væri í kirkjunni sinni heima, þar sem hann hafði verið skírður og seinna sungið margan sálminn með föður sínum. Úti í kirkjugarðinum voru svo margar grafir, og sumar komnar í kafgras. Þá fór Jóhannes að hugsa um gröf föður síns, sem nú kynni að verða óræktarleg útlits eins og þessar, af því að hann var ekki til að reyta af henni og skreyta hana. Hann settist því niður og reytti upp grasið, reisti við trékrossana, sem fallnir voru, og lét kransana, sem vindurinn hafði feykt burt, á sinn stað aftur, því hann hugsaði með sér: Hver veit, nema einhver geri þetta sama við gröfina hans föður míns núna, þegar ég get ekki gert það sjálfur? Þarna úti fyrir sáluhliðinu stóð gamall förumaður og studdist við hækju sína. Jóhannes gaf honum það, sem hann átti af silfurskildingum, og gekk svo glaður og ánægður leiðar sinnar út í víða veröld. Undir kvöldið gerði ógurlegt illviðri og hraðaði Jóhannes sér sem mest hann gat til að geta komist í húsaskjól, en bráðum dimmdi af nótt. Komst hann loksins til kirkju nokkurrar lítillar, sem stóð ein sér uppi á hæð. Til allrar hamingju stóð hurðin opin í hálfa gátt, og skaust hann þar inn; ætlaði hann sér að láta þar fyrir berast, þangað til illviðrinu slotaði. „Hér er best ég setjist fyrir úti í horni,“ sagði hann, „ég er orðinn dauðþreyttur, og mér er ekki vanþörf á dálítilli hvíld.“ Síðan settist hann niður, spennti greipar og las kvöldbænina sína, og fyrr en hann sjálfur af vissi, var hann sokkinn í svefn og drauma, á meðan úti fyrir gengu þrumur og eldingar. Þegar hann vaknaði aftur, var komið miðnætti, og óveðrinu af létt, og lagði tunglskin inn um gluggann til hans. Á miðju kirkjugólfinu stóð opin líkkista með dauðum manni í, sem beið greftrunar. Jóhannes var alls ekki hræddur, því hann hafði góða samvisku og vissi vel, að hinir dauðu gera engum mein. Það eru hinir lifandi, vondu mennirnir, sem mein gera. Og nú vildi svo til, að tveir lifandi menn, og báðir illmenni, voru þarna hjá dauða manninum, sem borinn hafði verið í kirkjuna, svo hann stæði þar uppi til útfararinnar. Þeir vildu gera honum mein og ekki lofa honum að liggja í kistunni, heldur kasta honum út fyrir kirkjudyrnar, vesalings dauða manninum. „Því viljið þið gera það?“ sagði Jóhannes, „það er illa gert og ljótt. Lofið honum að sofa í Jesú nafni.“ „Hvaða bull!“ sögðu illmennin, „hann hefur prettað okkur. Hann skuldaði okkur peninga og gat ekki borgað, og nú bætist þar á ofan, að hann er dáinn, svo við fáum ekki nokkurn skilding. Þess vegna skulum við hefna okkar á honum og það að marki; hann skal fá að liggja eins og hundur fyrir utan kirkjudyrnar.“ „Ég á ekki nema fimmtíu dali í eigu minni,“ sagði Jóhannes, „það er allur arfurinn minn, en það fé skal ég gjarnan gefa ykkur, ef þið viljið lofa mér því, upp á æru og trú, að þið skulið láta vesalings dauða manninn í friði. Mér leggst eitthvað til, þó ég hafi ekki þessa peninga. Ég er hraustur og heilsugóður, og guð mun hjálpa mér.“ „Jæja þá,“ sögðu illmennin, „fyrst þú borgar skuld hans, þá skulum við ekkert illt til hans leggja, á það geturðu reitt þig,“ og tóku þeir síðan við peningunum af Jóhannesi, skellihlógu að hjartagæsku hans og fóru leiðar sinnar. En Jóhannes hagræddi líkinu í kistunni, krosslagði á því hendurnar, kvaddi það og sneri svo ánægður á leiðina inn í stóra skóginn. Allt umhverfis, þar sem tunglið náði að lýsa inn á milli trjánna, sá hann yndislega litla álfa vera að leika sér. Þeir létu það ekkert glepja sig þó hann kæmi; þeir vissu, að hann var góður maður og vammlaus, og það eru aðeins vondir menn, sem ekki fá að sjá álfana. Sumir þeirra voru ekki stærri en mannsfingur; höfðu þeir sítt hár og glóbjart með gullkömbum í til að halda því saman. Þeir hossuðu sér tveir og tveir á stóru daggardropunum, sem lágu á blöðunum eða á grasinu, þar sem það var hæst. Stundum valt dropinn niður, svo að þeir hröpuðu niður milli löngu grasstránna, og hlógu þá hinir smáálfarnir dátt og höfðu hátt um sig. Það var ofur skemmtilegt. Þeir sungu, og kannaðist Jóhannes þar við allar fallegu vísurnar, sem hann hafði lært, þegar hann var dálítill drengur. Stórar, marglitar kóngulær með silfurkórónur á höfðum voru í óða önn að spinna langar hengibrýr og hallir frá einum limgarðinum til annars, og þegar svo merlaði yfir hagvirki þetta af döggfallinu, þá varð það tilsýndar í tunglskininu eins og glitrandi gler. Á þessu gekk stöðugt, þangað til sólin kom upp. Þá skriðu álfarnir litlu inn í blómknappana, vindurinn tók í brýr þeirra og hallir og feykti þeim út í loftið eins og kóngulóarvefjum. Nú var Jóhannes kominn út úr skóginum. Þá er kallað á eftir honum með sterkum karlmannsrómi: „Hæ, hæ! hvert ert þú að halda, lagsmaður?“ „Út í víða veröld,“ sagði Jóhannes. „Ég á hvorki föður né móður; ég er fátækur unglingspiltur, en guð minn góður mun hjálpa mér.“ „Ég ætla líka út í víða veröld,“ sagði ókunni maðurinn. „Hvernig líst þér á, að við báðir ferðumst saman?“ „Til er ég í það,“ sagði Jóhannes, og urðu þeir nú samferða. Fengu þeir fljótt mætur hvor á öðrum, því þeir voru gæðamenn báðir tveir. En Jóhannes fann fljótt, að ókunni maðurinn var honum stórum fremri að vitsmunum; hann hafði nálega farið um allan heim og kunni frá öllu að segja, sem hugsast getur. Um það bil er sól var komin í hádegisstað, settust þeir báðir niður undir tré nokkru stóru til að neyta þar dagsverðar. Kom þar þá í sama bili gangandi kona nokkur öldruð. Hún var ellileg mjög og staulaðist hálfbogin við hækjustaf, en á bakinu bar hún knippi af viðarsprekum, sem hún hafði tínt saman í skóginum. Hún hafði krækt upp svuntunni, og sá Jóhannes gægjast út undan þrjá stóra sófla úr burkna- og pílviðarkvistum. Þegar konan var rétt komin að þeim, skriðnaði henni fótur; hún byltist til jarðar og hljóðaði upp yfir sig, því hún hafði fótbrotnað, vesalings gamla konan. Jóhannes vildi þegar fyrir hvern mun, að þeir bæru hana heim til hennar, en ókunni maðurinn opnaði ferðatösku sína og tók upp úr henni krukku. Kvaðst hann hafa í henni áburð, sem undir eins gæti gert fót konunnar jafngóðan, svo að hún gæti sjálf gengið heim, alveg eins og hún hefði aldrei fótbrotnað. En það áskildi hann sér að launum, að hann fengi hjá henni sóflana þrjá, sem hún hafði í svuntu sinni. „Dýr gerist nú læknishjálpin,“ sagði gamla konan og kinkaði kynlega kolli. Henni var ekki um að láta sóflana, en það var ekki heldur skemmtilegt fyrir hana að liggja þarna fótbrotin. Hún fékk því ókunna manninum sóflana, en hann reið áburðinum á fótinn, og jafnharðan stóð sú gamla upp og var stórum hraustari til gangs en áður. Svo mikið fékk áburðurinn að gert, enda fékkst hann ekki heldur í neinni lyfjabúð. „Hvað ætlarðu að gera við sóflana?“ sagði Jóhannes við förunaut sinn. „Þeir eru laglegir þessir þrír burknavendir,“ svaraði hann, „þeir eru einmitt eins og ég vil helst, því ég er undarlegur náungi.“ Síðan gengu þeir drjúgan spöl áleiðis. „Nei, nú þykir mér hann þykkna upp,“ sagði Jóhannes og benti beint áfram, „tarna eru voðalegir skýbakkar.“ „Nei,“ sagði förunauturinn, „það eru ekki ský, það eru fjöll, stór og há fjöll, – svo geysihá, að þegar við erum komnir upp á tinda þeirra, þá erum við skýjum ofar, í hreinu og tæru upphimins lofti. Þar er dýrðlegt, máttu trúa. Á morgun er vonandi, að við verðum þangað komnir.“ En það var ekki eins nærri og sýndist. Þeir urðu að ganga eina dagleið enn, áður en þeir komust að fjöllunum. Tók þar við dimmur og gríðar hávaxinn skógur, og hamrabjörg voru þar svo ummálsmikil sem borgir væru. Það var ekki árennilegt að komast þar yfir, og því fóru þeir félagar í gistihús eitt til að hvíla sig og safna kröftum til göngunnar daginn eftir. Í veitingastofunni stóru í gistihúsi þessu hafði flykkst saman fjöldi fólks, því þar var maður nokkur að skemmta með brúðuleikhúsi. Hann var einmitt nýbúinn að setja upp litla leikhúsið sitt, og fólkið sat hringinn í kring til að horfa á sjónleikinn, en langfremstur hafði sest slátrari einn gamall og digur og tekið þar besta sætið. Hundur hans, afargrimmilegur bolabítur, sat við hlið honum og glennti upp augun eins og aðrir. Nú byrjaði sýningin, og var hún hin snotrasta, með kóng og drottningu í leiknum. Þau sátu í flauels hásæti með gullkórónur á höfðum og voru í dragsíðum glitklæðum; þau gátu það, þau voru nógu rík. Gullfallegar leikbrúður með augu úr gleri og mikið yfirskegg stóðu við allar dyr og tóku ýmist opið eða létu aftur, til þess að hreint loft kæmi inn í stofuna. Það var allra laglegasti sjónleikur og alls ekki neinn sorgarleikur, en einmitt í sömu andránni sem drottningin stóð upp og gekk fram eftir gólfinu – já, – hamingjan má vita, hvað bolabítur hefur verið að hugsa, – en af því að slátrarinn digri hélt ekki í hemilinn á honum, þá rauk hann beint í leikhúsið og beit yfrum mjóa mittið drottningarinnar, svo það hrökk í sundur. Það var ljóta slysið. Vesalings maðurinn, sem stóð fyrir þessari leiksýningu, varð óttasleginn og sáraumur vegna drottningarinnar sinnar, því hún var langfallegasta leikbrúðan, sem hann átti, og nú hafði ótætis bolabíturinn brotið af henni höfuð og axlir. En á eftir, þegar fólkið var farið, sagði ókunni maðurinn, sem kominn var með Jóhannesi, að hann treysti sér til að gera við hana. Tók hann þá upp krukkuna sína og reið á leikbrúðuna smyrslunum, sem hann hafði læknað með gömlu konuna, þegar hún fótbrotnaði. Óðara en leikbrúðan var smurð, varð hún alheil aftur, já, hún gat meira að segja hreyft limi sína; það þurfti ekki að kippa í snúruna. Hún var eins og lifandi manneskja, nema að hún gat ekki talað. Maðurinn, sem brúðuleikhúsið átti, varð stórglaður; nú þurfti hann ekki að halda í þessa leikbrúðu, hún dansaði sjálfkrafa. Það gat engin hinna. Þegar nótt var komin og allt fólkið í gistihúsinu var háttað, þá var einhver, sem stundi svo skelfing mæðilega og var þangað til að stynja, að allir fóru á fætur til þess að sjá, hver það væri. Sýningarmaðurinn gekk til litla leikhússins síns, því þaðan heyrðust stunurnar. Allar trébrúðurnar lágu hverjar innan um aðrar, kóngurinn og allir höfuðverðirnir, og það voru þeir sem andvörpuðu svo aumkunarlega. Þeir störðu með stóru augun, en þau voru úr gleri, sem fyrr er sagt; Þeim var svo innilega hugleikið, að þeir mættu verða smurðir eins og drottningin. En drottningin lagðist á kné, rétti upp skínandi gullkórónuna og sagði: „Þessa kórónu mína megið þér eiga, en smyrjið þið manninn minn og hirðfólkið mitt.“ Sýningarmaðurinn, sem leikbrúðurnar átti, fékk þá ekki tára bundist, því hann kenndi innilega í brjósti um leikbrúðurnar. Hann lofaði óðara ókunna manninum, að ef hann vildi smyrja fjórar eða fimm fallegustu brúðurnar sínar, þá skyldi hann láta hann fá alla þá peninga, sem hann fengi fyrir sýninguna næsta kvöld. En hinn sagðist ekkert setja upp fyrir það, hann væri ánægður, ef hann fengi stóra korðann, sem hann bæri sér við hlið. En sem hann hafði fengið korðann, þá smurði hann sex leikbrúður, og dönsuðu þær óðara og það svo listilega, að allar stúlkurnar í herberginu, sem á þetta horfðu, stóðust ekki lengur mátið og fóru með í dansinn. Ökumaðurinn og eldastúlkan dönsuðu, þjónninn og stofustúlkan, gestirnir allir, ofnskaran og eldtöngin, – en ofnskaran og eldtöngin duttu kylliflöt, þegar þær hoppuðu út á gólfið. Varð svo gleðskapur mikill um nóttina. Morguninn eftir hélt Jóhannes af stað með förunaut sínum, og lögðu þeir upp á fjöllin háu, og lá leið þeirra um greniskóga mikla. Þeir komust svo hátt upp, að kirkjuturnarnir fyrir neðan þá urðu seinast tilsýndar eins og dálitlir rauðir dílar innan um allt hið græna; þeir sáu margar rastir frá sér, í staði, þar sem þeir höfðu aldrei komið. Aldrei hafði Jóhannes í einu horft yfir jafnmikið af fegurð þessa unaðslega heims. Sólin skein hlýtt úr fagurbláu heiðloftinu, og heyrði Jóhannes til veiðimannanna, er þeir þeyttu veiðihorn sín í fjalladölunum, og ómaði það svo yndisfagurt, að honum komu tár í augu af gleði. Hann fékk ekki orða bundist og sagði: „Góði guð minn! ó hvað þú ert oss öllum góður að hafa gefið oss alla þessa fegurð og indæli hér í heiminum.“ Förunauturinn stóð einnig með spenntar greipar og horfði yfir skógana og borgirnar, sem blöstu við í sólskininu. Í sama bili gall við undurfagur hljómur yfir höfði þeirra, þeir litu upp fyrir sig og sáu stóra álft á flugi fyrir ofan sig. Hún var fögur mjög, og söngur hennar svo frábær, að slíkan söng höfðu þeir aldrei heyrt til nokkurs fugls. En smám saman dró úr sönghljóðunum; álftin beygði höfuðið og hneig seint og hægt niður að fótum þeirra og lá þar steindauð. „Tveir aðrir eins vængir og þessir álftarvængir,“ sagði förunauturinn, „eru margra peninga virði; þá ætla ég að hirða. Nú sérðu, hvort það var ekki gott, að ég fékk korðann.“ Hjó hann svo í einu höggi vængina af dauðu álftinni. Þá ætlaði hann sér að eiga. Nú ferðuðust þeir margar, margar mílur áleiðis yfir fjöllin, þangað til þeir sáu fram undan sér stóra borg með fjöldamörgum turnum. Glitruðu turnarnir í sólskininu sem á silfur sæi, og í miðri borginni stóð skrautleg marmarahöll, og þar bjó konungurinn. Þeir Jóhannes og förunauturinn vildu nú ekki fara inn í borgina þá þegar, heldur stöldruðu þeir við í gistihúsi einu utan borgar til þess að búa sig; þeir vildu vera ásjálegir, þegar þeir sýndu sig á strætum borgarinnar. Gestgjafinn sagði þeim, að kóngurinn væri mesti gæðamaður, sem aldrei gerði nokkrum manni mein, en þegar hann minntist á dóttur hans, þá bað hann guð að hjálpa sér; hún væri hið mesta forað. Nógu falleg væri hún samt, ekki vantaði það, engin væri eins fríð og yndisleg eins og hún, en hvað stoðaði það? Hún væri argasta galdrakind, og hún væri orsök í, að svo margir ágætir kóngssynir hefðu látið líf sitt. Hún hefði gefið öllum mönnum til leyfis að biðja sín, og mætti hver koma sem vildi, hvort heldur kóngssonur væri eða húsgangur, það stæði ekki á neinu. Hann ætti aðeins að geta sér til um þrennt, sem hún spyrði hann um. Gæti hann það, þá skyldi hún giftast honum og hann verða konungur yfir öllu landinu, þegar faðir hennar dæi, en gæti hann ekki getið rétt til um hina þrjá hluti, þá léti hún hengja hann eða hálshöggva. Svona ill og örg væri þessi fríða kóngsdóttir. Faðir hennar, kóngurinn gamli, væri svo hryggur af þessu, en hann gæti ekki bannað henni að sýna af sér þessa vonsku, því hann hefði einu sinni sagt, að hann vildi ekki skipta sér minnstu vitund af kærustum hennar, hún gæti haft það allt eins og hún sjálf vildi. Og í hvert sinn, sem einhver kóngssonur hefði komið og átt að leysa úr spurningum hennar, þá hefði hann ekki getað ráðið fram úr þeim, og hefði hann þá verið hengdur eða hálshöggvinn, og viðkvæðið verið, að hann hefði verið varaður við í tíma, hann hefði getað látið ógert að biðla. Gamli kóngurinn væri svo raunamæddur út af þessum hörmungum, að hann legðist jafnan einn dag á árinu á bæn með öllum dátum sínum og bæði til guðs, að dóttir sín mætti taka sinnaskiptum, en hún væri nú ekki rétt á því. Gömlu konurnar, sem brennivín drykkju, lituðu það svart áður en þær drykkju það, til þess að votta sorg sína, og hvernig ættu þær að geta gert betur? „Sú fjárans kóngsdóttir!“ sagði Jóhannes, „hún ætti að komast undir vöndinn; þess væri henni ekki vanþörf. Væri ég í gamla kóngsins sporum, þá skyldi hún fá ósvikna ráðningu.“ Í sama bili heyrðu þeir fólkið fyrir utan hrópa húrra. Kóngsdóttirin fór þar fram hjá, og var það sannast að segja, að svo var hún fríð, að allir gleymdu, hvað hún var vond; þess vegna hrópuðu þeir húrra. Í för með henni voru tólf fríðar yngismeyjar og riðu svörtum hestum; voru þær á hvítum silkikjólum og héldu á gull-túlípönum. Sjálf reið kóngsdóttirin fannhvítum hesti, sem skreyttur var með demöntum og rúbínum. Reiðbúningur hennar var af skíru gulli gjör, og keyrið, sem hún hélt á í hendinni, var tilsýndar eins og sólargeisli; gullkórónan á höfði hennar glóði sem stjarna, og skikkjan var saumuð saman úr þúshundruð fiðrildavængjum. En ekki var samt búningsfegurðin mikið í samanburði við fríðleik kóngsdótturinnar sjálfrar. Þegar Jóhannes sá hana, blóðroðnaði hann í framan og gat varla komið upp nokkru orði, enda var hún alveg eins í sjón og fallega stúlkan með gullkórónuna, sem hann dreymdi sömu nóttina og faðir hans dó. Honum sýndist hún svo óumræðilega falleg, og gat ekki að því gert, að honum þótti undurvænt um hana. „Það getur ekki verið satt,“ sagði hann, „að kóngsdóttirin sé illskufull galdrakind, sem hengi menn eða hálshöggvi, þegar þeir fá ekki getið þess, sem hún leggur fyrir þá. Og fyrst nú hverjum manni er leyfilegt að biðja hennar, enda aumasta húsgangi, þá fer ég upp í höllina; ég verð að gera það, ég get ekki annað.“ Allir sögðu við hann, að það mætti hann ekki gera, það mundi áreiðanlega fara fyrir honum eins og öllum hinum. Förunauturinn latti hann þess líka, en Jóhannes var fastur á því, að vel mundi takast, burstaði skóna sína og kjólinn sinn, þvoði sér um andlit og hendur, kembdi fagra hárið sitt glóbjarta, sneri síðan aleinn til borgarinnar og gekk rakleiðis til kóngshallarinnar. „Kom inn,“ sagði kóngurinn gamli, þegar Jóhannes drap á dyr. Jóhannes lauk upp, og kom gamli kóngurinn á móti honum í sloppnum sínum og með útsaumaða morgunskó á fótunum; hann hafði gullkórónuna sína á höfði, veldissprotann í annarri hendi, en gulleplið í hinni. „Bíddu ögn,“ sagði hann og mjakaði eplinu upp í handarkrikann til þess að geta rétt Jóhannesi höndina. En undir eins og hann heyrði, að hann væri kominn í biðils erindum, þá kom upp fyrir honum svo mikill grátur, að bæði sprotinn og eplið féll niður á gólfið, og varð hann að þurrka sér um augun á sloppnum sínum. Vesalings gamli kóngur! „Hættu við það,“ sagði hann, „það fer illa fyrir þér, eins og öllum hinum. Nú skaltu sjálfur sjá,“ og þar með leiddi hann Jóhannes inn í lystigarð kóngsdótturinnar. Þar var hræðilegt umhorfs. Uppi í hverju tré héngu þetta þrír eða fjórir kóngssynir, sem biðlað höfðu til kóngsdótturinnar og ekki fengið getið þess, sem hún hafði fyrir þá lagt. Við hvern vindgust skrönglaði í öllum beinagrindunum, svo að smáfuglarnir urðu hræddir og þorðu aldrei inn í þann garð að koma. Öll blóm voru bundin upp við mannabein, í staðinn fyrir blómpinna, og í urtapottunum lágu helglottandi hauskúpur dauðra manna. Það var dáfallegur garður fyrir kóngsdóttur, eða hitt heldur! „Þarna geturðu séð,” sagði kóngurinn gamli, „það mun fara fyrir þér eins og öllum hinum, sem þú hér mátt sjá. Hættu því heldur við; þú leiðir yfir mig mestu ófarsæld, ef þú gerir það, það segi ég satt, því ég tek mér það svo dauðans nærri.” Jóhannes kyssti á hönd góða kóngsins gamla og sagði, að allt mundi vel fara, því sér þætti svo vænt um blómarósina hana dóttur hans. Í sama bili kom kóngsdóttirin sjálf ríðandi inn í hallargarðinn með öllum fylgimeyjum sínum. Gengu þeir þá út til hennar og buðu henni góðan daginn. Falleg var hún, það mátti nú segja; hún tók í höndina á Jóhannesi og fyrir það tilvik þótti honum enn vænna um hana, og hugsaði með sér, að það næði engri átt, að hún væri óhræsis galdrakind, eins og altalað var. Var nú gengið upp í hallarsalinn, og þjónustusveinarnir báru um sykraða ávexti og piparhnetur, en gamli kóngurinn var svo sorgbitinn, að hann gat einskis neytt, og þess utan voru piparhneturnar of harðar fyrir hann undir tönnina, svo að hann vann ekki á þeim. Nú var fastmælum bundið, að Jóhannes skyldi koma upp í höllina morguninn eftir; skyldu þá dómararnir vera þar samankomnir og allt ráðið til þess að heyra, hvernig honum tækist að geta. Ef honum heppnaðist það vel, þá átti hann að koma tvisvar enn, en það hafði til þessa aldrei komið fyrir, að nokkur hefði átt kollgátuna í fyrsta sinn, og höfðu því allir orðið að láta lífið. Jóhannes var alls ekki hugsjúkur um, hvernig fara mundi, það var öðru nær, hann var hinn glaðasti, hugsaði ekki nema um kóngsdótturina yndislegu og var fulltrúa um, að góður guð mundi hjálpa sér, en hvernig, – það vissi hann ekki né vildi um það hugsa. Hann dansaði fremur en hann gengi eftir þjóðveginum, þegar hann fór aftur úr borginni til gistihússins, þar sem förunautur hans beið eftir honum. Hann ætlaði aldrei að verða búinn að segja frá því, hvað kóngsdóttirin væri falleg. Hann eirði sér ekki fyrir óþreyju eftir næsta deginum, er hann átti að ganga í höllina og reyna sig á getspeki. En förunauturinn hristi höfuðið og lá sárilla á honum. „Mér þykir svo vænt um þig,” sagði hann, „við hefðum getað verið lengi saman ennþá, og nú á ég að missa þig svona fljótt. Vesalings, elsku Jóhannes! ég gæti grátið, en ég vil ekki spilla gleði þinni það kvöldið, sem ef til vill verður hið síðasta í okkar samverutíma. En nú skulum við vera glaðir og kátir. Á morgun, þegar þú ert horfinn, fæ ég nógan tímann til að gráta.” Nú var það alspurt um borgina, að nýr biðill væri kominn til kóngshallarinnar, og var því harmur mikill meðal borgarbúa. Leikhúsinu var lokað, allar kryddbrauðs-sölukonurnar vöfðu svörtum ræmum um sykurgrísina sína, kóngurinn og prestarnir lögðust á bæn í kirkjunum. Það var almennur harmur, því allir töldu víst, að Jóhannesi mundi ekki farnast betur en hinum biðlunum, sem á undan höfðu verið. Seint um kvöldið lét förunauturinn hita handa þeim púns í kollu og sagði við Jóhannes, að nú skyldu þeir gleðja sig almennilega og drekka kóngsdótturinnar skál. En þegar Jóhannes hafði drukkið tvö glös, varð hann svo syfjaður, að hann gat með engu móti haldið sér uppi; hann mátti til að sofna. Förunauturinn tók hann upp af stólnum með mestu hægð og lagði hann í rúmið, og þegar svo aldimmt var orðið af nóttu, þá tók hann báða stóru vængina, sem hann hafði höggvið af álftinni, og batt þá fasta við axlir sér; stærsta sóflinum, er hann hafði fengið hjá konunni, sem fótbrotnaði, stakk hann í vasa sinn, lauk upp glugganum og flaug á leið inn yfir borgina, beint til hallarinnar; settist svo fyrir í skoti undir glugga þeim, er var á svefnherbergi kóngsdótturinnar. Allt var grafkyrrt í borginni, og nú sló klukkan, er einn fjórðungur lifði tólftu stundar. Þá laukst upp glugginn, og út flaug kóngsdóttirin í stórri, hvítri kápu með langa svarta vængi yfir borgina og stefndi á stórt fjall; en förunauturinn brá yfir sig hulinshjálmi, svo að hún gat alls ekki séð hann, flaug á eftir henni og lét ganga á henni sóflinn svo fast að blæddi undan. Það voru ljótu hamfarirnar, sem þau fóru bæði gegnum loftið. Stóð vindurinn í kápuna, svo að hún þandist eins og stór seglvoð út til allra hliða, og skein tunglið í gegnum hana. „Skárra er það nú haglið,“ sagði kóngsdóttirin við hvert högg, sem á henni dundi, en það var henni rétt mátulegt. Loksins var hún komin út að fjallinu og drap högg á dyr. Það var sem reiðarþruma glumraði, þegar fjallið laukst upp, og kóngsdóttirin gekk inn. Förunauturinn fór á eftir henni, öllum ósýnilegur undir hulinshjálminum. Gengu þau nú eftir víðum göngum og löngum. Sindruðu veggirnir þar af kynlegum neistagangi, en ekki voru neistarnir annað en þúsundmargar kóngulær, sem runnu múrinn upp og ofan og lýstu sem eldur brennandi. Nú komu þau í stóran sal, er gerður var af silfri og gulli, og glóðu þar á veggjunum rauð og blá blóm, á stærð við sólsekvíur, en þau blóm var enginn kostur að taka, því leggirnir undir þeim voru hryllilegir eiturormar, og öll blómin voru eldslogar, sem stóðu út úr ginum þeirra. Allt loftið var glitsett skínandi ljósormum og himinbláum leðurblökum, sem böðuðu út örþunnum vængjunum, og var það stórfurðulegt að líta. Á miðju gólfinu stóð hásæti eitt, sem hvíldi á fjórum hestabeinagrindum, með aktygjaólum á úr eldkóngulóm, en hásætið sjálft var úr mjólkurhvítu gleri, og sessurnar í því voru svartar mýslur, sem bitu hver í hala annarrar. Uppi yfir hásætinu var yfirtjald úr rósrauðum kóngulóarvefjum, og voru vefirnir alsettir grænum smáflugum ljómandi fögrum, er blikuðu sem gimsteinar væru. Í hásætinu miðju sat seiðkarl ófrýnilegur með kórónu á höfði og sprota í hendi. Hann kyssti kóngsdótturina á ennið og setti hana í hásætið hjá sér. Byrjaði nú sönglistin. Stórar svartar engisprettur léku á munnhörpur, og uglan barði sig á kviðinn í bumbu stað, því hún var bumbulaus. Var þetta fremur skringilegur samsöngur. Ofurlitlir álfar með hrævarelda á húfunum dönsuðu hringinn í kring í salnum. Förunautinn gat enginn séð, hafði hann farið bak við hásætið og sá þaðan og heyrði allt, hvað fram fór. Hirðfólkið, sem nú fór líka að koma inn í salinn, var einkar fínt og fyrirmannlegt, en ekki gat það dulist neinum, sem vel var sjáandi, hvernig því var háttað. Það fólk var ekki annað en kústsköft með kálhöfuð á endunum, sem seiðskrattinn hafði galdrað líf í og búið skrautklæðum. En það mátti alveg á sama standa, því það var ekki til annars en viðhafnar hvort sem var. Þegar búið var að dansa um stund, sagði kóngsdóttirin seiðkarlinum, að nú væri kominn til sín nýr biðill, og spurði hann, hvað hún ætti að hugsa um, til þess að láta biðilinn geta þess morguninn eftir, þegar hann kæmi í höllina. „Heyrðu,“ sagði seiðkarlinn, „nú skal ég segja þér nokkuð. Þú átt að velja eitthvað afar auðvelt, því það dettur honum síst í hug. Hugsaðu um annan skóinn þinn. Þess mun hann ekki fá getið. Láttu svo höggva af honum höfuðið, en gleymdu ekki, þegar þú kemur hingað til mín aftur næstu nótt, að færa mér úr honum augun, því þau ætla ég að éta.“ Kóngsdóttirin hneigði sig djúpt og kvaðst ekki mundu gleyma augunum. Seiðkarlinn lauk þá upp fjallinu og flaug hún heim aftur, en förunauturinn flaug á eftir henni og lamdi hana svo óþyrmilega með sóflinum, að hún stundi þungan undan þeirri voðalegu haglhríð og flýtti sér af fremsta megni að komast inn um gluggann í svefnherbergi sitt. En förunauturinn flaug aftur til gistihússins, þar sem Jóhannes var, og hitti hann sofandi. Leysti hann þá af sér vængina og lagði sig líka fyrir upp í rúm, því hann var þreyttur, sem von var til. Jóhannes vaknaði árla næsta morgun, og reis þá förunauturinn upp jafnsnemma og sagði honum, að þessa nótt hefði sig dreymt mjög svo undarlegan draum um kóngsdótturina og annan skóinn hennar, og beiddi hann fyrir alla muni að spyrja, hvort kóngsdóttirin hefði ekki hugsað um annan skóinn sinn. Því það var þetta, sem hann hafði heyrt seiðkarlinn segja í fjallinu, en hann vildi ekki láta Jóhannes vita neitt meira um það. „Ég get eins vel spurt um það eins og eitthvað annað,“ sagði Jóhannes, „ef til vill hefur þig dreymt hárrétt, því alltaf er ég þeirrar trúar, að drottinn muni hjálpa mér. En ég ætla samt að kveðja þig, því geti ég skakkt, þá fæ ég aldrei að sjá þig framar.“ Eftir það kveðjast þeir með kossi, og gengur Jóhannes til borgarinnar og kemur í konungshöllina. Allur salurinn var fullur af fólki; dómararnir sátu í hægindastólum og hvíldu höfuðin á dúnsængum, því þeir höfðu svo mikið um að hugsa. Gamli kóngurinn stóð og þurrkaði sér um augun með hvítum vasaklút. Og nú gekk inn kóngsdóttirin, ennþá yndislegri í sjón en daginn áður og heilsaði öllum svo ástúðlega, en Jóhannesi rétti hún höndina og sagði: „Góðan daginn og komdu nú sæll!“ Nú átti Jóhannes að geta, hvað hún hefði verið að hugsa um. Leit hún þá svo vinarhýrum augum til hans, að það var sitt hvað, en óðara en hann hafði nefnt orðið „skó“, þá hvítnaði hún upp í framan og skalf frá hvirfli til ilja, en það stoðaði hana ekki grand, því að hann hafði getið rétt. Herra trúr, hvað gamli kóngurinn varð feginn! hann steypti stömpum af fögnuðinum og allir klöppuðu honum lof í lófa og Jóhannesi, sem getið hafði í kollinn þegar í fyrsta sinn. Förunauturinn varð himinlifandi glaður, þegar honum var sagt, hversu vel hefði farið, en Jóhannes spennti greipar og þakkaði góðum guði, treystandi honum, að hann mundi vissulega hjálpa sér í bæði hin skiptin. Daginn eftir átti hann að geta aftur. Kvöldið þetta leið eins og kvöldið áður. Þegar Jóhannes var sofnaður, flaug förunauturinn á eftir kóngsdótturinni út til fjallsins og flengdi hana enn fastara en í fyrra skiptið, því að þessu sinni hafði hann tekið með sér tvo sófla; enginn gat séð hann, en hann sá og heyrði allt. Kóngsdóttirin ætlaði að hugsa um hanskann sinn, og sagði förunauturinn Jóhannesi það og lét sem sér hefði birst það í draumi. Jóhannes gat rétt, og varð þá mesti fögnuður í höllinni. Hirðin öll steypti stömpum, eins og hún hafði séð kónginn gera í fyrra skiptið, en kóngsdóttirin lá í legubekk og fékkst ekki til að mæla orð. Nú var allt undir því komið, að Jóhannes gæti rétt í þriðja sinn. Tækist honum það, þá átti hann að fá kóngsdótturina fögru fyrir konu og erfa allt kóngsríkið, þegar gamli kóngurinn félli frá, en gæti hann skakkt, þá átti hann lífið að láta og seiðkarlinn að éta fallegu bláu augun hans. Kvöldið áður fór Jóhannes snemma að hátta, las kvöldbænina sína og sofnaði væran, en förunauturinn spennti vængina á bak sér og korðann við hlið sér, tók með sér alla sóflana þrjá og flaug til hallarinnar. Nóttin var koldimm og stórviðri, svo að þakhellurnar fuku af húsunum, og trén í garðinum, þar sem beinagrindurnar héngu, svignuðu fyrir storminum eins og sefstönglar; hver eldingin rak aðra, og þrumugnýrinn var eins og samfelld skrugguduna, sem ekki varð lát á liðlanga nóttina. Nú laukst upp glugginn og kóngsdóttirin flaug út. Hún var bleik sem hel, en hún hló að illviðrinu, eins og henni þætti það ekki nógu svæsið, hvíta kápan hennar þyrlaðist um í loftinu eins og segl á stórskipi, en förumaðurinn flengdi hana svo snarplega með sóflunum þremur, að dreyrði undan, og féllu blóðdropar til jarðar, og að lokum var það með naumindum, að hún gæti flogið. Loksins komst hún út að fjallinu. „Mikið er haglið og stormurinn,“ sagði hún, „aldrei hef ég verið úti í öðru eins veðri.“ „Það má líka fá of mikið af góðu,“ sagði seiðkarlinn. Hún sagði honum nú, að Jóhannes hefði einnig getið rétt í annað sinn, og ef hið sama yrði uppi á teningnum næsta morgun, þá hefði hann unnið, og þá gæti hún aldrei framar komið til hans í fjallinu og aldrei framið slíkar fítonsandalistir sem að undanförnu, og þess vegna væri hún frá sér af harmi. „Hann skal aldrei geta þess,” sagði seiðkarlinn. „Ég skal hugsa upp eitthvað það, sem honum hefur aldrei dottið í hug; hann mætti þá vera fjölkunnugri en ég er sjálfur, ef svo væri. En nú skulum við láta liggja vel á okkur.“ Að svo mæltu tók hann í báðar hendur kóngsdótturinnar, og dönsuðu þau hringinn í kring með öllum þeim smáálfum og hrævareldum, sem í salnum voru. Með sömu kæti hoppuðu kóngulærnar upp og ofan á veggjunum. Það var eins og neistar sindruðu úr eldblómunum, uglurnar börðu bumbu, veggjatítlurnar tístu og engispretturnar blésu á munnhörpu. Það var dansgleði í lagi. Þegar þau voru nú búin að dansa nógu lengi, varð kóngsdóttirin að fara heim, því annars hefði þess orðið vart í höllinni að hana vantaði. Seiðkarlinn kvaðst skyldu fylgja henni, svo að þau gætu þá verið saman þeirri stundinni lengur. Þau flugu þá af stað í illviðrinu, og förunauturinn hamaðist svo á bökum þeirra með þremur vöndunum, að þeir voru nálega gjörslitnir; aldrei hafði seiðkarlinn verið úti í annarri eins haglhríð. Kveður hann nú kóngsdótturina fyrir utan höllina og hvíslar að henni um leið: „Hugsaðu um höfuð mitt,“ en förunauturinn heyrði það, og í sömu svifunum, er kóngsdóttirin sveif inn um gluggann í svefnherbergi sitt og seiðkarlinn ætlaði að snúa við, þá þreif förunauturinn í síða skeggið hans svarta, brá korðanum og hjó af honum hausinn ófrýna að aftanverðu niður við axlir, svo að seiðkarlinn sá það ekki einu sinni sjálfur. Búknum fleygði hann út í tjörn til fiskanna, en höfðinu dýfði hann niður í vatnið, batt svo um það silkivasaklútnum sínum, fór með það í gistihúsið og lagði sig til svefns. Morguninn eftir fékk hann Jóhannesi vasaklútinn, en sagði honum, að ekki mætti hann leysa klútinn, fyrr en kóngsdóttirin spyrði, hvað það væri, sem hún hefði hugsað um. Það var svo margt fólk í hallarsalnum, að húsfyllir var og maður stóð við mann. Ráðgjafarnir sátu í mjúkum hægindastólum, og kóngurinn gamli var á nýjum fötum; gullkórónan hans hafði verið fægð og sprotinn líka, og var það skrautlegt á að líta, en kóngsdóttirin var náföl og á kolsvörtum kjól, eins og hún ætti að vera við jarðarför. „Hvað var ég að hugsa um?“ sagði hún við Jóhannes, og í sama bili leysti hann klútinn og skelfdist mjög, er hann sá hið ófrýnilega höfuð seiðkarlsins. Alla hryllti við að sjá það, því það var ógurlegt ásýndum, en kóngsdóttirin sat eins og steinlíkneskja og gat ekki komið upp nokkru orði. En að lokum stóð hún upp og rétti Jóhannesi höndina, því hann hafði getið rétt; hún leit ekki upp á nokkurn mann, en varp öndinni mæðilega og sagði: „Þú ert nú héðan af herra minn; í kvöld munum við halda brúðkaup okkar.“ „Þetta líkar mér,“ sagði gamli kóngurinn, „svona á það að vera.“ Allt fólkið æpti fagnaðaróp, varðliðið fór með hljóðfæraslætti um borgarstrætin, klukkunum var hringt og kryddbrauðs-sölukonurnar tóku svörtu ræmurnar af sykurgrísunum, því nú var gleði á ferðum. Þrír steiktir uxar fylltir öndum og hænsnum voru settir fram á miðju torginu, og mátti hver sem vildi skera sér bita; gosbrunnarnir gusu indælasta víni, og ef keypt var einskildings kringla hjá bakaranum, þá fengust sex stórar bollur í kaupbæti með rúsínum í. Um kvöldið var borgin skrautlýst; dátarnir skutu fallbyssuskotum og drengirnir hvellbaunum og púðurkerlingum, og borðað var og drukkið þar efra í höllinni, klingt með glösum og hreyfðir fæturnir; allir hinir tignu herrar og yndislegu hefðarmeyjar, allt þetta dansaði hvað við annað, og mátti heyra langar leiðir er sungið var: Hér eru margar meyjar snjallar, sem munar helst í snúning nú: Fjörug sönglist fram oss kallar, fagra stúlka! við mér snú! Dönsum óspart, dönsum í þrá, uns detta sólar skónum frá. En kóngsdóttirin var galdrakind enn sem áður, og þótti ekkert vænt um Jóhannes. Eftir því mundi förunauturinn, og fékk hann Jóhannesi því þrjár fjaðrir úr álftarvængjunum og dálítið glas með nokkrum dropum í. Hann sagði honum, að hann skyldi láta setja stórt baðker fullt af vatni hjá brúðarhvílunni og láta svo í fjaðrirnar og dropana. Þegar svo kóngsdóttirin ætlaði að stíga upp í hvíluna, þá skyldi hann stjaka dálítið við henni, svo að hún dytti niður í vatnið; skyldi hann færa hana þar í kaf þrisvar sinnum, og mundi hún þá losna við fjölkynngi sína og unna honum hugástum. Jóhannes gerði allt eins og förunauturinn hafði sagt honum fyrir; hljóðaði kóngsdóttirin hástöfum, er hann færði hana í kaf, og braust um í höndunum á honum; var hún þá í líki kolsvartrar álftar með eldtindrandi augum. Þegar hún kom upp í annað sinn, var hún orðin að hvítri álft, nema hvað einn hringur svartur var um háls hennar. Jóhannes bað þá heitri bæn til guðs og kaffærði fuglinn í þriðja sinn, og varð hann þá í sömu svipan að yndislegustu kóngsdóttur. Var hún þá enn fríðari en áður og þakkaði honum með tárin í augunum fyrir það, að hann hefði leyst sig úr álögum. Morguninn eftir kom kóngurinn gamli með öllu hirðfólki sínu og gekk ekki á öðru en hamingjuóskum langt fram á dag. Síðastur allra kom förunauturinn með stafinn í hendi og töskuna á baki. Jóhannes kyssti hann mörgum kossum og sagði, að nú mætti hann ekki fara frá sér, hann yrði að staðnæmast hjá sér, því honum ætti hann alla sína hamingju að þakka. En förunauturinn hristi höfuðið og sagði blítt og vingjarnlega: „Nei, nú er minn tími á enda. Ég hef ekki gert annað en borga skuld mína. Manstu eftir dauða manninum, sem vondu mennirnir vildu illt gera? Þú gafst aleigu þína til þess að honum veittist ró í gröf sinni. Ég er dauði maðurinn.“ Brúðkaupið stóð nú í heilan mánuð. Þau Jóhannes og kóngsdóttir unnust mjög, og gamli kóngurinn lifði marga ánægjulega daga og lét börn þeirra ríða á kné sínu og leika sér að ríkissprota sínum, en Jóhannes varð kóngur yfir öllu ríkinu. Brellni drengurinn Einu sinni var gamalt skáld, – gamalt skáld, sem var stakasta góðmenni. Eitt kvöld, er hann sat heima hjá sér, gerði úti fyrir hræðilegt illviðri með dynjandi hellirigningu, en skáldið sat makindalega í hlýindunum við ofninn sinn, og logaði vel í honum; heyrðist kraum-suða í eplum, sem látin höfðu verið ofan á hann og áttu að steikjast. „Það verður ekki nokkur þurr þráður á vesalingunum, sem úti eru í þessu veðri,“ sagði skáldið, sem var svo einstakt góðmenni. „Æ, ljúktu upp fyrir mér, ég er holdvotur,“ kallaði drenghnokki nokkur úti fyrir. Hann grét og barði á dyrnar, en regnið streymdi úr loftinu, og vindurinn tók í, svo að allir gluggar gjöktu. „Vesalingur litli!“ sagði skáldið gamla, gekk til dyra og lauk upp. Úti stóð ofurlítill drengur; hann var allsnakinn, og vatnið rann niður af síða hárinu hans fagurgula. Hann nötraði af kulda, og hefði hann ekki komist inn, þá mundi hann víst hafa orðið til í þessu vonskuveðri. „Vesalingur litli!“ sagði skáldið gamla og tók í hönd hans. „Komdu nú til mín, ég skal verma þig. Þú skalt fá vín og epli, því þú ert gullfallegur drengur.“ Hann var það líka. Augun voru eins og tvær skærar stjörnur, og þó að vatnið rynni úr gulu lokkunum hans, þá liðuðust þeir samt eins fagurlega fyrir því. Hann var líkastur dálitlu engilbarni, en fölur af kulda og skjálfti í öllum limum hans. Hann bar í hendi boga, sem var prýðisfallegur, en hafði skemmst í rigningunni. Allir litirnir á hinum fögru örvum drengsins höfðu runnið saman, þegar þær vöknuðu. Skáldið gamla settist við ofninn, setti litla drenginn á kné sér, kreisti vatnið úr lokkum hans, vermdi hendur hans í lúkum sínum og heitti handa honum sætt vín. Þá náði drengurinn sér, varð rjóður í kinnum, stökk niður á gólfið og dansaði kringum skáldið gamla. „Þú ert kátur drengur,“ sagði skáldið gamla. „Hvað heitirðu?“ „Ég heiti Amor,“ svaraði hann. „Þekkirðu mig ekki? Þarna liggur boginn minn; af honum kann ég að skjóta, – skaltu vita. Sko, nú skánar aftur veðrið úti; það er komið tunglskin.“ „En boginn þinn er skemmdur,“ sagði skáldið gamla. „Það væri skaði,“ sagði litli drengurinn, tók upp bogann og hugði að honum. „O, hann er orðinn þurr að heita má, hefur ekkert skemmst, góð þensla í strengnum; nú ætla ég að reyna hann.“ Og óðara spennti hann bogann, dró ör fyrir odd, miðaði og skaut beint í hjarta skáldsins gamla. „Þarna geturðu séð, að boginn minn var ekki skemmdur,“ sagði hann og hljóp sína leið skellihlæjandi. Skárri var það nú brellnin í drengnum að skjóta ör í skáldið gamla, sem hafði hleypt honum inn í hlýju stofuna sína, verið svo góður við hann og gefið honum indælasta vín og besta epli. Skáldið góðhjartaða lá á gólfinu og grét. Hann var skotinn beint í hjartað og sagði: „Fý! hvað hann er brellinn drengur, þessi Amor, það skal ég segja öllum góðu börnunum, svo þau vari sig og leiki sér aldrei við hann, því hann gerir þeim mein.“ Öll góðu börnin, stúlkurnar og drengirnir, sem hann sagði frá þessu, vöruðu sig á viðsjálsgripnum Amor, en hann lék samt á þau, því hann var svo útfarinn og sniðugur. Þegar stúdentarnir koma frá fyrirlestrum með bók undir hendinni, þá hleypur hann við hliðina á þeim og er þá á svörtum kjól. Þeir geta alls ekki þekkt hann, taka hann við hönd sér og ímynda sér, að hann sé stúdent eins og þeir, en þá sætir hann lagi og stingur örinni í brjóst þeim. Þegar fermingarstúlkurnar koma frá prestinum og þegar þær standa frammi á kirkjugólfinu, þá er hann á hælunum á þeim. Já, hann er sí og æ á hælum manna. Hann er á hlaupum í kóngshallargarðinum og á borgarveggjunum; meira að segja, einu sinni hefur hann skotið hann föður þinn og hana móður þína beint í hjartað. Spurðu þau um það og heyrðu, hvað þau segja. Já, hann er slæmur drengur, þessi Amor, það er best fyrir þig að eiga aldrei neitt við hann. Hann eltir allt fólk á röndum, og hvernig líst þér á? Einu sinni lagði hann ör á streng og skaut hana ömmu gömlu, en það er langt síðan, það er búið að vera, en öðru eins og því gleymir hún aldrei. Fý! Amor er slæmur. En nú þekkirðu hann og veist, hvað hann er brellinn, drengurinn sá. Murusóleyin Taktu nú eftir. Úti á landsbyggðinni, fast við veginn, var sumarbýli nokkurt; þú hefur víst einhvern tíma séð það sjálfur; fyrir framan er dálítill blómgarður með rimlagirðingu. Þar rétt hjá í vegarbrúninni, mitt í grængresinu, óx dálítil murusóley. Sólin skein allt eins hlýtt og fagurt á hana eins og stóru skrautblómin inni í garðinum, og þess vegna óx hún dag frá degi. Einn morgun stóð hún útsprungin með blöðunum sínum smáu og skínandi hvítu, sem sitja eins og geislar kringum litlu gulu sólina innan í. Hún var ekki að setja það fyrir sig, að enginn lifandi maður leit við henni þarna í grasinu; nei, hún var svo ánægð; hún sneri sér beint framan í heita sólina, mændi upp til hennar og hlýddi á lævirkjann, sem söng uppi í loftinu. Murusóleyin var svo sæl og ánægð með sjálfri sér sem helgidagur væri, og var þó mánudagur. Öll börn voru í skóla, og meðan þau sátu á bekkjunum og voru eitthvað að læra, þá sat hún á litla, græna leggnum sínum og var að læra það af sólinni og öllu í kringum sig, hversu guð er góður, og fannst henni lævirkinn syngja svo skýrt og fagurlega allt það, sem hún fann til í þegjanda hljóði. Og murusóleyin mændi með eins konar lotningu upp til fuglsins, sem átti svo gott, að hann gat sungið og flogið, en ekkert angraðist hún af því, að hún gat það ekki sjálf. „Ég sé og heyri,“ hugsaði hún með sér, „sólin skín á mig og vindblærinn kyssir mig; ó, hvað mér hefur verið mikið gefið.“ Fyrir innan rimlagirðinguna stóðu mörg státin mikilsháttar blóm; því minna sem þau ilmuðu, því meira reigðust þau. Peónarnir þeyttu sig út til þess að verða stærri en rósin, en það er ekki allt undir stærðinni komið. Túlípanarnir voru ljómandi litfagrir, en þeir vissu líka af því og stóðu svo keikir, til þess að eftir sér yrði tekið. Þeir tóku alls ekki eftir murusóleynni ungu fyrir utan, en hún horfði því meira á þá og hugsaði með sér: „En hvað þeir eru ríkir og fallegir! og það veit ég, að ofan til þeirra muni fuglinn góði fljúga og heimsækja þá. Hamingjunni sé lof, að ég stend svo nálægt hérna; þá fæ ég þó að horfa á alla dýrðina.“ – Og einmitt þegar hún var að hugsa þetta, þá heyrðist „ví, ví!“ og lævirkinn kom fljúgandi, en ekki til peóna og túlípana, heldur ofan í grasið til murusóleyjarinnar fátæku, en henni varð svo mikið um af eintómum fögnuði, að hún vissi hvorki upp né niður. Litli fuglinn hoppaði í kringum hana og söng: „Nei, hvað grasið er mjúkt, og sko! hvað það er yndislegt, litla blómið að tarna með gullið í hjartanu og silfrið á kjólnum!“ Það var líka orð og að sönnu; guli depillinn í murusóleynni var á að sjá eins og gull og litlu blöðin hringinn í kringum voru skínandi hvít. Því fær enginn getið nærri, hvað murusóleyin litla var unaðfangin. Fuglinn kyssti hana með nefinu, söng fyrir hana og flaug svo aftur upp í bláan himininn. Það leið góð stund áður en murusóleyin rankaði við sér aftur. Hún horfði hálffeimin og þó innilega fegin yfir til blómanna í garðinum. Þau höfðu auðvitað verið sjónarvottar að heiðri hennar og hamingju, þau hlutu að fara nærri um hennar miklu sælu. En túlípanarnir stóðu fullt eins hnakkakerrtir og áður, og þar á ofan voru þeir svo ólundarlegir í framan og rauðir, því þeim hafði orðið gramt í geði. Peónarnir stóðu með þrútna kollana; það var bótin, að þeir voru ekki máli gæddir, að öðrum kosti mundi murusóleyin hafa fengið þokkalega ofanígjöf. Hún sá það, vesalingurinn, að þeir voru ekki í góðu skapi, og það féll henni sárilla. Í sama bili kom stúlka inn í garðinn með hníf í hendi, flugbeittan og bjartan, og gekk beint inn á milli túlipananna og skar þá hvern af öðrum. „Æ!“ sagði murusóleyin í huganum andvarpandi, „mikil skelfing! nú eru þeir búnir að vera.“ Síðan fór stúlkan með túlípanana, en murusóleyin hrósaði happi, að hún stóð úti í grasinu og var lítið blóm og fátækt; hún var svo innilega þakklát fyrir það, og þegar sólin rann, þá lagði hún saman blöðin, sofnaði rótt og dreymdi alla nóttina um sólina og litla fuglinn. Morguninn eftir, þegar blómið breiddi fagnandi aftur út blöðin sín hvítu eins og smáa arma móti lofti og ljósi, þá heyrði það og þekkti rödd fuglsins síns, en það, sem hann söng, var svo raunalegt. Honum var það líka vorkunn, því hann hafði verið veiddur og sat nú í búri við opinn glugga. Hann söng um það, hvað sæll hann hafði verið, þegar hann gat flogið frjáls og glaður út um allt, hann söng um unga kornið græna á akrinum og um þær indælu ferðir, sem hann hafði farið í háa lofti á vængjum sínum. Það var síður en svo, að það lægi vel á vesalings fuglinum, því nú var hann fangi í búri, og þar varð hann að kúra. Murusóleyin litla vildi svo fegin verða honum að liði, en hvernig átti hún að fara að því? Það var annað en gaman að finna ráð til þess. Hún gleymdi með öllu, hvað allt var fallegt í kringum hana, gleymdi því, hvað sólin skein hlýtt og hvað hvítu blöðin hennar sjálfrar voru yndisleg; æ, hún gat ekki hugsað um annað en fangna fuglinn, sem engin tiltök voru að hjálpa. Þá komu í sama bili tveir litlir drengir út úr garðinum, og hafði annar þeirra hníf í hendi, beittan og mikinn, viðlíka og þann, sem stúlkan hafði haft til að skera með túlípanana. Þeir gengu beint að murusóleynni, og hún gat ekki ímyndað sér, hvað þeir mundu vilja. „Hérna getum við skorið tilvalinn snepil handa lævirkjanum,“ sagði annar drengurinn og tók að rista í ferhyrning kringum murusóleyna, svo að hún varð í miðjum sneplinum. „Slíttu upp blómið að tarna,“ sagði hinn drengurinn, og murusóleyin titraði af angist, því að vera slitin upp, það var sama sem að láta lífið, og nú langaði hana svo mikið til að lifa, af því hún átti að fylgjast með sneplinum inn í búrið til lævirkjans. „Nei, lofaðu henni að vera þar sem hún er,“ sagði hinn drengurinn, „það er svo mikil prýði að henni,“ og svo fékk hún að sitja kyrr og komst með inn í búrið til lævirkjans. En vesalings fuglinn kveinaði hástöfum yfir frelsismissinum og barði vængjunum í járnvírinn; vesalings murusóleyin gat ekki talað, ekki sagt eitt orð til huggunar, hvað fegin sem hún vildi. Svona leið dagurinn fram til hádegis. „Hér er ekkert vatn,“ sagði lævirkinn í búrinu, „allir eru úti og hafa ekki skilið eftir handa mér svo mikið sem einn vatnsdropa. Ég er svo þurr í kverkunum og heitur; það er innan í mér eins og ís og eldur, og loftið er svo þungt. Æ, ég verð að deyja frá sólarylnum, frá öllu hinu fagurgræna og öllu því indæli, sem guð hefur skapað.“ Og hann boraði nefinu sínu litla niður í kælandi grastorfið til að hressa af sér ofurlitla ögn; þá varð honum litið á murusóleyna; hann kinkaði kolli til hennar, kyssti hana með nefinu og sagði: „Þú verður að visna hérna líka, vesalings litla blóm! Þig og þennan litla grasblett hafa þeir gefið mér fyrir alla þá veröld, sem ég átti þarna út frá; hvert lítið grasstrá skal vera mér grænt tré, hvert og eitt af þinum hvítu blöðum skal vera mér ilmandi blóm. Æ, þið eruð ekki til annars en að minna mig á, hvað mikið ég hef misst.“ „Æ, hamingjan gæfi, að hann huggaðist,“ hugsaði murusóleyin. Hún gat ekki hreyft nokkurt blað, en ilmurinn, sem lagði af fíngerðu blöðunum hennar, var miklu meiri en annars gerist af því blómi; það fann líka fuglinn og þó hann vanmegnaðist af þorstanum og þó hann sliti upp grasstráin grænu í kvölum sínum, þá snerti hann samt alls ekki blómið. Nú kvöldaði, og samt kom enginn enn til að færa vesalings fuglinum vatnssopa. Þá baðaði hann út litlu vængjunum og engdist sundur og saman; söngurinn hans var sorgarblítt „bí, bí!“ Höfuðið litla beygðist niður að blóminu, og hjarta fuglsins brast af þrá og söknuði. Þá gat blómið ekki, eins og kvöldið áður, lagt saman blöðin og sofnað; það drúpti til jarðar hnípið og sjúklegt. Næsta morgun komu drengirnir loksins, og þegar þeir sáu, að fuglinn var dauður, þá grétu þeir mörgum beiskum tárum og grófu honum ofurfallega gröf og skreyttu hana með blómablöðum. Líkið fuglsins var látið í fallegar, rauðar öskjur; konungleg átti útförin að vera. Vesalings fugl! meðan hann var á lífi og söng, þá gleymdu þeir honum, létu hann stúra í búrinu og fara margs á mis; nú hlaut hann viðhafnarlega útför og nóg af tárum. En grasrótarsneplinum með murusóleynni var fleygt út á rykugan þjóðveginn; enginn hugsaði um hana, sem vænst hafði þótt um litla fuglinn, sem sárast hafði tekið til hans og hefði svo fegin viljað hugga hann, ef hún aðeins hefði getað. Rósarálfurinn Í miðjum garði óx rósatré, fullt af rósum, og í einni rósinni, einmitt þeirri, sem fegurst var allra, bjó álfur. Hann var svo örsmár, að ekkert mannlegt auga gat séð hann. Bak við hvert rósarblað átti hann sér svefnherbergi. Hann var svo fríður og fagurskapaður sem nokkurt barn gat verið og hafði vængi, sem náðu frá öxlum og ofan að fótum. En sá ilmur, sem var í herbergjunum hans, og hvað veggirnir voru hreinir og fallegir! Það voru rósarblöðin bleikrauð og smáger, sem þar voru veggir. Hann skemmti sér liðlangan daginn í heitu sólskininu, flaug frá einu blómstrinu til annars, dansaði á vængjum fiðrildanna, þegar þau flugu, og mældi hvað mörg fet hann varð að ganga til að komast um alla þá þjóðvegi og götustigi, sem eru á einu linditrésblaði. Það, sem við köllum æðar í laufblaði, það voru í hans augum þjóðvegir og götustigir; já, það voru óravegir fyrir hann. Áður en hann væri kominn alla leið, gekk sólin undir, enda hafði hann líka lagt of seint af stað. Nú kólnaði með kvöldinu, döggin tók að falla og vindurinn að kula; það var best að halda heim. Álfurinn flýtti sér eins og hann gat, en rósin hafði lokað sér aftur, hann komst ekki inn, – og ekki nokkur rós var opin. Vesalings álfurinn litli varð svo hræddur, hann hafði aldrei áður verið úti nokkra nótt og ætíð sofið svo rótt að baki mjúkhlýrra rósarblaðanna; þetta hugði hann, að mundi verða sér að bana. Í öðrum enda garðsins vissi hann af laufskála, þar sem uxu gullfallegir geitblöðungar; blómin á þeim voru tilsýndar eins og stór, máluð horn, og hugsaði hann sér nú að fara niður í eitt þeirra og sofa þar til morguns. Þangað flaug hann, – en þei, þei! eitthvað tvennt var þar fyrir: ungur maður fríður og yndisfögur yngisstúlka. Þau sátu hvort hjá öðru og óskuðu þess, að þau þyrftu aldrei að skilja alla eilífð; þeim þótti svo vænt hvoru um annað, vænna en besta barni getur þótt um föður og móður. „Og samt verðum við að skilja,“ sagði ungi maðurinn, „hann bróðir þinn hefur horn í síðu okkar, þess vegna sendir hann mig í erindagjörðir, langar leiðir yfir fjöll og höf. Vertu nú sæl, elsku brúðurin mín tilvonandi, því það ertu, hvað sem öðru líður.“ Og þar með kysstust þau, og stúlkan grét og gaf honum rós; en áður en hún rétti honum hana, þá þrýsti hún á hana kossi svo fast og innilega, að blómið opnaðist. Þá flaug álfurinn litli inn í blómið og hallaði höfði sínu upp að ilmandi blaðaveggjunum, en hann heyrði glöggt að sagt var: „vertu sæl,” „vertu sæll,” og hann fann, að rósin var fest á brjóst unga mannsins – ó, hvað hjartað sló og barðist inni fyrir! – Álfurinn litli gat alls ekki sofnað, svo mikill var hjartslátturinn. Ekki fékk rósin lengi að liggja kyrr á brjóstinu, maðurinn tók hana, og meðan hann var á leiðinni aleinn gegnum dimman skóginn, þá kyssti hann blómið svo oft og fast, að við sjálft lá, að álfurinn litli merðist til bana. Hann fann í gegnum blöðin, hvað varir mannsins voru brennheitar, og rósin sjálf hafði lokist upp eins og við megnasta hádegis sólhita. Í því kom annar maður, svipdimmur og reiðilegur. Það var vondi maðurinn, bróðir stúlkunnar fögru; hann tók upp hníf, mikinn og beittan, og meðan hinn kyssti rósina, rak illmennið hann í gegn, skar af honum höfuðið og gróf það niður ásamt bolnum í mjúkri moldu undir linditré nokkru. „Nú er hann úr sögunni og gleymdur,” hugsaði vondi bróðirinn með sér. „Hann átti að fara í langferð yfir fjöll og höf; getur þá svo um margan farið, að hann týni lífi, og eins hefur orðið um hann. Það er útséð um hans afturkomu, og aldrei spyr systir mín mig um hann; hún þorir það ekki.” Eftir það sópaði hann visnu laufi með fætinum yfir moldargröftinn og hélt heimleiðis í náttmyrkrinu. En hann fór ekki einsamall, eins og hann gerði sér í hugarlund; álfurinn litli fylgdist með honum. Hann sat á visnuðu, samanvöfðu linditrésblaði, sem fallið hafði ofan úr tré í hár morðingjans, meðan hann var að taka gröfina. Nú hafði hann látið hattinn aftur á höfuð sér; það var svo dimmt þar inni, og álfurinn litli nötraði af hræðslu og gremju yfir níðingsverkinu. Snemma morguns kom illmennið heim. Hann tók af sér hattinn og gekk inn í svefnherbergi systur sinnar. Þar lá hún sofandi, fögur og blómleg, og var að dreyma um ástvininn sinn, sem hún hélt að væri á ferð um fjöll og skóga, og vondi bróðirinn laut ofan að henni og hló svo andstyggilega sem djöflar einir geta hlegið. Þá datt visna laufið úr hári hans niður á rúmábreiðuna, en hann varð ekkert var við það og gekk burt til að fá sér sjálfur dálítinn morgunsvefn. En álfurinn skaust út úr visna laufblaðinu, fór inn í eyrað á stúlkunni sofandi og skýrði henni eins og í draumi frá hinu hryllilega morði, lýsti fyrir henni staðnum, þar sem bróðir hennar hafði drepið unnusta hennar og hulið lík hans, sagði henni frá linditrénu, sem stæði þar í blóma rétt hjá, og lauk með þessum orðum máli sínu: „Svo þú ekki ætlir, að þetta, sem ég hef sagt þér frá, sé einber draumur, þá hafðu það að marki, að þú munt finna visið laufblað á rúmi þínu.” Eftir það vaknaði hún og fann laufblaðið. Ó, hversu grét hún beisklega, enda átti hún nú engan að, sem hún gæti haft að trúnaðarmanni í hörmum sínum. Allan daginn stóð glugginn opinn, svo hægt var fyrir álfinn litla að komast út til rósanna og allra hinna blómanna, en hann hafði ekki brjóst í sér til að yfirgefa stúlkuna svona sorgbitna. Í glugganum stóð tré, sem bar mánaðar-rósir, og settist hann á eina rósina og horfði á vesalings stúlkuna. Bróðir hennar kom oft inn í herbergið og var glaður og kátur í allri vonskunni, en hún þorði ekki orð að mæla um þá miklu sorg, sem henni bjó í hjarta. Jafnskjótt sem nótt var komin, læddist hún burt úr húsinu, gekk út í skóginn, þangað sem linditréð var, rótaði laufinu ofan af jörðinni, gróf niður og fann óðara þann, sem myrtur hafði verið. Ó, hversu grét hún, og hversu bað hún til guðs, að hún fengi líka að deyja sem fljótast! Fegnust mundi hún hafa viljað flytja líkið heim með sér, en það gat hún ekki. Hún tók þá höfuð unnusta síns nábleikt með afturlokuð augun, kyssti munninn kalda og hristi moldina úr hárinu hans fagra og mælti: „Þetta vil ég eiga.” Því næst jós hún mold og laufi yfir líkamann dauðan og hafði höfuðið heim með sér og dálitla grein af jasmínutré, sem blómgaðist í skóginum, þar sem vígið hafði verið unnið. Þegar hún var heim komin, sótti hún stærsta urtapottinn, sem til var, og lét í hann höfuð hins látna, fyllti ofan yfir með mold og plantaði í hana jasmínugreinina. „Vertu sæl, vertu sæl!” hvíslaði álfurinn litli. Hann gat ekki lengur afborið að horfa á alla þessa sorg og flaug því út í garð til rósarinnar sinnar, en hún var nú afblómguð, og héngu aðeins fáein bliknuð blöð við rósberin grænu. „Æ, að hið fagra og góða skuli svo fljótt líða undir lok!” sagði álfurinn og andvarpaði. Loksins fann hann sér nýja rós; hún varð húsið hans, og innan ilmveggja hennar hafði hann bækistöð sína. Á hverjum morgni flaug hann að glugganum til vesalings stúlkunnar, því alltaf stóð hún þar hjá urtapottinum og grét. Tárin hrundu á jasmínu-greinina, og eftir því sem stúlkan varð fölari dag frá degi, að sama skapi varð greinin grænni og blómlegri; hver anginn spratt út á fætur öðrum, og hvítir blómhnappar sprungu út á henni. Stúlkan kyssti þá blómhnappana, en bróðirinn vondi atyrti hana og spurði hana, hvort hún væri orðin vitstola. Hann sagði sér væri illa við þetta, og síst gæti hann skilið í því, hvers vegna hún væri sígrátandi yfir þessum urtapotti. Hann vissi ekki, hvers augu þar voru undir, byrgð og lokuð, hann vissi ekki, hvers rjóðu varir þar voru að moldu orðnar. Stúlkan laut með höfuðið niður að urtapottinum, og þar hitti rósarálfurinn hana sofnaða út af, og fór hann þá inn í eyra hennar, sagði henni frá kvöldinu í laufskálanum, frá angan rósanna og elsku blómálfanna. Hana dreymdi svo indælan draum, og meðan hana var að dreyma, leið lífið burt. Hún var dáin hægum dauða, hún var á himnum hjá honum, sem hún elskaði. Og jasmínublómin opnuðu stóru, hvítu klukkurnar sínar og ilmuðu svo undarlega sætt, þau gátu ekki grátið hina framliðnu öðruvísi. En vondi bróðirinn horfði á fallega, blómlega tréð, tók það til sín, eins og erfðafé og setti það í svefnherbergi sitt sem næst rúminu, því það var yndislegt á að líta og eftir því sættilmandi. Rósarálfurinn litli fylgdist með; hann flaug frá einu blóminu til annars, en í hverju blómi bjó lítil sál. Hann sagði þeim öllum frá unga manninum, sem hafði verið drepinn, sagði frá höfði hans, sem nú væri moldu orpið og að moldu orðið, sagði frá bróðurnum vonda og vesalings systurinni. „Við vitum það,” sögðu blómin hvert um sig, „við vitum það; erum við ekki sprottin upp af augum og vörum drepna mannsins? við vitum það, við vitum það;” og um leið kinkuðu þau kollinum svo annarlega. Rósarálfurinn skildi ekki, hvernig blómin gátu tekið þessu svo rólega, og flaug út til býflugnanna, sem voru að safna hunangi. Hann sagði þeim söguna af vonda bróðurnum, en þær sögðu drottningu sinni, og hún bauð, að þær skyldu drepa morðingjann næsta morgun. En um nóttina áður, sem var fyrsta nóttin eftir dauða systurinnar, þá bar svo til, er bróðirinn svaf í rúmi sínu hjá ilmandi jasmínutrénu, að þá opnaðist hver blómbikar, og komu út blómsálirnar, ósýnilegar að vísu, vopnaðar eitruðum spjótum, og settust þær fyrst við eyru hans og sögðu honum vonda drauma, síðan flugu þær yfir varir hans og stungu hann í tunguna með eitruðum spjótunum. „Nú höfum við hefnt hins látna,” sögðu þær og hypjuðu sig aftur inn í hvítu blómklukkurnar jasmínunnar. Samtímis og svefnherbergisglugganum var upp lokið um morguninn, þá þusti þar inn rósarálfurinn með býflugnadrottningunni og öllum býflugnahópnum til að drepa hann. En hann var þá þegar dáinn, og allt í kringum rúmið stóðu menn og sögðu: „Jasmínuilmurinn hefur drepið hann.” Þá skildi rósarálfurinn, hvers kyns var, að blómin höfðu komið fram hefndinni, og hann sagði býflugnadrottningunni frá því, og hún suðaði með öllum sínum sæg í kringum urtapottinn. Býflugurnar urðu með engu móti reknar í burtu. Þá tók maður nokkur urtapottinn og ætlaði burt með hann, en ein af býflugunum stakk hann í höndina, svo hann varð að sleppa, og féll þá urtapotturinn á gólfið og brotnaði. Þá sáu menn hvítu höfuðkúpuna og vissu, að dauði maðurinn í rúminu var morðingi. Og býflugnadrottningin suðaði í loftinu og sönglaði um hefnd blómanna og um rósarálfinn og um það, að bak við minnsta laufblað býr sá nokkur, er sagt getur frá og hefnt þess, sem illa er gert. Ljóti andarunginn Það var indælt úti á landsbyggðinni, en það var líka um hásumartímann, kornið var ljósgult á ökrunum, hafrarnir fagurgrænir og heystakkarnir stóðu niður frá á grænum engjunum, og þar sprangaði storkurinn háfættur og rauðfættur og skraflaði egypsku, því þá tungu hafði hann lært af móður sinni. Umhverfis akrana og engin voru skógar miklir, og mitt í skóginum voru djúpar tjarnir; já, það mátti með sanni segja, að það var indælt þar úti á landsbyggðinni. Og í miðju sólskininu gnæfði gamall herragarður með djúpum síkjum allt í kring, og ofan frá múrnum og niður að vatninu uxu stórgerðar njólablöðkur, og voru njólarnir svo háir, að smábörn gátu staðið upprétt undir þeim stærstu, og þar var eins villugjarnt eins og í þykkasta skógi. Þar sat önd ein í hreiðri sínu og átti að unga út, en nú var henni farið að leiðast, því það stóð svo lengi á því og lítið var um heimsóknir; hinum öndunum þótti skemmtilegra að svamla eftir síkjunum en að trítla uppá land og sitja undir njóla og rabba við hana. Loksins brakaði í hverju egginu á fætur öðru og heyrðist „pí, pí!“ Allar eggjarauðurnar voru orðnar að lifandi ungum, og litlu höfuðin gægðust út. „Rabb, rabb!“ sagði öndin, „berið ykkur nú að vera dálítið piprir,“ og þeir reyndu að vera eins piprir og þeir gátu og skimuðu í allar áttir undir grænu blöðkunum, og lofaði móðirin þeim það, því græni liturinn er hollur fyrir augun. „En hvað veröldin er stór!“ sögðu ungarnir, því munur var á, hvað miklu rýmra var um þá núna heldur en þegar þeir lágu inni í egginu. „Haldið þið, að þetta sé öll veröldin?“ sagði móðirin, „nei, – hún nær langa leið þarna hinum megin við garðinn og inn í landareignina prestsins, en þangað hef ég aldrei komið. Þið eruð þó, vænti ég, allir með tölu! – og um leið reis hún á fætur. „Nei, ekki allir; þarna liggur stærsta eggið enn; hvað lengi á þetta að ganga? nú er ég senn uppgefin á því,“ og að svo mæltu lagðist hún á aftur. „Nú, nú, hvernig gengur það?“ sagði gömul önd, sem kom að heimsækja hana. „Það stendur svo lengi á því með þetta eina egg,“ sagði öndin, sem lá á; „það vill ekki koma gat á það; en nú skal ég sýna þér hina; það eru fallegustu andarungarnir, sem ég hef séð. Þeir líkjast allir skömminni honum föður þeirra, sem aldrei kemur að vitja mín.“ „Lof mér að sjá eggið, sem ekki vill opnast,“ sagði sú gamla. „Þér er óhætt að trúa því, að það er kalkúnsegg; sama gabbinu hef ég einu sinni orðið fyrir; ég man, í hvaða stauti ég átti með ungana; þeir eru svo vatnshræddir, skal ég segja þér, en ég gaf þeim ekki griðin. Lof mér að sjá eggið; jú, jú; kalkúnsegg er það. Láttu það bara eiga sig og kenndu hinum krógunum að synda.“ „Ég ætla nú samt að liggja dálítið á því enn,” sagði öndin; „fyrst ég er nú búin að liggja svo lengi, þá get ég líka legið næstu sumarvikurnar með.“ „Þú um það,“ sagði gamla öndin og fór sína leið. Loksins rifnaði gat á stóra eggið. „Pí, pí!“ sagði unginn og valt út; hann var svo stór og ljótur. Öndin virti hann fyrir sér. „Hvaða ógnar stærð er á unganum!“ sagði hún; „enginn hinna hefur þetta útlit; það skyldi þó ekki vera kalkúnsungi? Nú, ég skal ekki vera lengi að komast að því; í vatnið skal hann fara, og það þó ég verði sjálf að sparka honum út í.“ Daginn eftir var veður ljómandi fagurt, og skein sólin á allar grænu njólablöðkurnar. Öndin kreikaði út að síkinu með allan hópinn, og óðara dembdi hún sér út í, – skvamp, skvamp! Hún sagði: „Rabb, rabb,“ og hver unginn skvettist út á fætur öðrum; þeir fóru í kaf, en þeim skaut upp aftur og fleyttust mæta vel, fæturnir gengu af sjálfu sér. Þeir voru þarna allir buslandi, og enda ljóti, grái unginn synti með. „Nei, þetta er ekki kalkún,“ sagði hún, „sko, hvað fallega hann ber fæturna og hvað hann er keipréttur. Ég á hann sjálf, ungatetrið. Í rauninni er hann dáindis laglegur, þegar maður virðir hann almennilega fyrir sér; rabb, rabb! – komið þið nú með mér, þá skal ég leiða ykkur inn í heiminn og sýna ykkur í andagarðinum. En haldið þið ykkur alltaf nærri mér, svo enginn stígi ofan á ykkur, og varið ykkur á kettinum.“ Nú komu þau öll inn í andagarðinn. Þar var hræðilegur hávaði, því að tvær fjölskyldur voru að berjast um eitt álshöfuð, og lauk svo, að kötturinn sat uppi með það. „Sjáið þið! svona gengur það í veröldinni,“ sagði hún og sleikti út um nefið, því hún hafði líka viljað ná álshöfuðið. „Nú skuluð þið hafa hraða fætur og bera ykkur að vera dálítið röskir,“ sagði hún, „og hneigið þið ykkur fyrir gömlu öndinni þarna, því hún er langgöfugust allra, sem hér eru. Hún er af spönsku blóði, – þess vegna er hún feit og digur; og sjáið þið: hún hefur rauða dulu um fótinn. Það er ákaflega fallegt og það er sá mesti fremdarauki, sem nokkur önd getur hlotið; það sýnir það, að menn vilja ekki láta hana í burtu og að hún eigi að vera auðþekkt bæði dýrum og mönnum; rabb, rabb! ekki innskeifir! Vel uppalinn andarungi á að hafa langt á milli fótanna, eins og pabbi hans og mamma. Svona, hneigið þið nú hálsinn og segið: Rabb!“ Og þeir gerðu svo, en hinar endurnar allt í kringum horfðu á þá og sögðu upphátt: „Já, já! og nú eigum við líka að hafa hyskið að tarna að burðast með, eins og við værum ekki nógu mörg fyrir, þó þetta bættist ekki við; og svei! hvaða ósköp eru að sjá einn andarungann þarna; sá er ljótur, hann skulum við ekki þola á meðal okkar.“ Og óðara flaug til ein öndin og beit aftan í hnakkann á honum. „Láttu hann vera,“ sagði móðirin, „hann gerir sannarlega engum til meins.“ „Já, en hann er of stór og eitthvað svo afbrigðilegur,“ sagði öndin sú, sem beit, „og þess vegna verður að taka lurginn á honum.“ „Dálagleg eru þau, börnin hennar blessaðrar,“ sagði gamla öndin með duluna um fótinn, „öll saman lagleg, nema þessi eini ungi, sem hefur mistekist; ég vildi óska, að hún gæti gert hann upp aftur.“ „Það er enginn vegur, náðin góð!“ sagði móðirin; „hann er ekki laglegur, en hann er blíður í lund og besta barn og syndir eins fallega og nokkur hinna, – og vel svo það, má ég óhætt segja. Ég er að vona, að hann fríkki með aldrinum eða verði grennri. Hann hefur legið of lengi í egginu, og þess vegna hefur hann ekki fengið þá réttu lögun.“ Og um leið og hún talaði, jafnaði hún á honum hnakkann með nefinu og notraði hann til; „hann er líka steggi, og gerir hitt þá minna til; ég er að hugsa að hann verði kraftagóður; honum er óhætt, hann mun hafa sig áfram.“ „Hinir ungarnir eru sérlega fallegir,“ sagði sú gamla. „Verið þér nú eins og heima hjá yður, og ef þér finnið álshöfuð, þá getið þér gjarnan fært mér það.“ Og nú voru þau þarna eins og heima hjá sér. En vesalings ljóti andarunginn, sem síðast hafði komið úr egginu, var bitinn og barinn, hrakinn og hæddur, og það bæði af öndunum og hænsnunum. „Hann er of stór,“ sögðu þau öll, og kalkún-haninn, sem fæddur var með sporum og hugðist því vera keisari, blés sig allan upp eins og skip með vindbólgnum seglum, óð svo beint að honum og þvoglaði í þaula, og varð eldrauður á honum kamburinn. Vesalings andarunginn vissi nú hvorki, hvar hann mætti ganga eða standa. Hann varð sárhryggur af því að vera svona ófríður og hafður að háði og spotti í öllum andagarðinum. Svona leið fyrsti dagurinn, og alltaf fór versnandi. Allir lögðust á vesalings andarungann, og enda systkin hans voru vond við hann, og var viðkvæðið hjá þeim: „Bara að kötturinn tæki þig, afskræmið þitt!“ og móðirin sagði: „Ó, að þú værir kominn langt í burtu.“ Og endurnar bitu hann, og hænsnin hjuggu í hann, og stúlkan, sem átti að gefa alifuglunum, sparkaði í hann fætinum. Þá hljóp hann og flaug út yfir limgerðið, en litlu fuglarnir urðu hræddir og þutu upp úr skógarrunnunum. „Það kemur af því, að ég er svo ljótur,“ hugsaði andarunginn og lét aftur augun, en hljóp samt áfram. Lenti hann svo í mýrarflóanum stóra, þar sem villiendurnar héldu til. Þar lá hann af nóttina, þreyttur og armæddur. Um morguninn flugu upp villiendurnar, og horfðu þær á þennan nýja félaga. „Hver ert þú, sem kominn ert?“ sögðu þær, og andarunginn sneri sér á ýmsa vegu og heilsaði svo kurteislega sem hann gat. „Þú ert herfilega ljótur,“ sögðu villiendurnar, „en það má á sama standa, ef þú giftist ekki inn í okkar ætt.“ Það var nú öðru nær en að hann væri að hugsa um giftingar, vesalingurinn, hann þóttist góðu bættur, ef hann fengi að liggja í sefinu og drekka dálítið af mýrarvatninu. Þarna lá hann í fulla tvo daga. Þá bar þar að tvær villigæsir, eða réttara, villigassa, því það voru steggir. Það var ekki svo ýkja langt síðan þeir voru skriðnir úr egginu, þess vegna voru þeir svo gassalegir. „Heyrðu, kunningi!“ sögðu þeir, „þú ert svo ljótur, að okkur geðjast vel að þér. Viltu slást í för með okkur og vera farfugl? Hérna rétt hjá í annarri mýri eru nokkrar ofurljúfar, elskulegar villigæsir, allar saman heiðursjómfrúr, sem geta sagt „rabb, rabb!“ Hver veit nema þú grípir þar gæfu þína, þó ljótur sért.“ Í sömu svipan heyrðist uppi yfir þeim hár hvellur, „pó, pó!“ og duttu báðir villigassarnir dauðir niður í sefinu, og vatnið varð blóðrautt. „Pó, pó!“ heyrðist í annað sinn, og heilir hópar af villigæsum flugu upp úr sefinu, og enn heyrðust skotsmellir. Hér hafði verið stofnað til mikillar veiði, og höfðu veiðimennirnir skipað sér hringinn í kringum mýrina; sumir sátu enda á greinum trjánna, þar sem þær slúttu fram yfir sefið. Skotreykurinn hnyklaðist í bláum skýjum milli dimmra trjánna og lagðist yfir vatnið í löngum slæðum. Veiðihundarnir komu öslandi í efjunni, – skvamp, skvamp! og sefið og reyrinn lagðist út af til allra hliða, það var ógurlegt fyrir vesalings andarungann. Hann vatt við höfðinu til að fela það undir vængnum, en í sama vetfangi stóð hjá honum hræðilega stór hundur með blaðrandi tunguna, og brann eldur úr augum hans. Hann rak uppglenntan skoltinn rétt ofan að andarunganum, og skein í hvassar tennurnar, – – en skvamp, skvamp! hundurinn vaslaði burt og tók ekki ungann. „Æ, guði sé lof!“ sagði unginn og varp öndinni. „Ég er svo ljótur, að hundurinn vill ekki einu sinni bíta mig.“ Og svo lá hann grafkyrr, meðan höglin dundu í sefinu og skotin smullu í sífellu. Að áliðnum degi, en fyrr ekki, komst kyrrð á, en vesalings unginn þorði ekki að fara á kreik og beið því nokkrar stundir enn, áður en hann tók að litast um. En þá flýtti hann sér líka allt hvað af tók og hljóp yfir akra og engi, en hvassviðri var á, svo að honum veitti fullerfitt að hafa sig áfram. Um kvöldið kom hann að býli nokkru fátæklegu. Húskofinn var svo hrörlegur, að hann vissi ekki sjálfur, út í hvora hliðina hann ætti að hrynja, og hékk því uppi. Svo mikið var hvassviðrið, að unginn varð að setjast á stélið til þess að fjúka ekki, og alltaf hvessti meira og meira. Þá sá hann, að kofahurðin var gengin af annarri hjörinni og hékk svo skökk, að hann mundi geta smogið inn milli stafs og hurðar, enda gerði hann það líka. Í kofa þessum bjó gömul kona með ketti sínum og hænu sinni. Kettinum, sem hún kallaði „Sonarkindina“, var það til lista lagt, að hann kunni að setja upp kryppuna og mala; gneistað gat hann líka, en þá varð að strjúka honum öfugt, móti hárfarinu. Hænan var ofur smáfætt og lágfætt og var því. kölluð „Kýkelí-kí-lágfóta“. Hún var góð varphæna, og þótti konunni eins vænt um hana eins og hún væri barnið hennar. Um morguninn varð vart við andarungann ókunna, og tók þá kisa að mala og hænan að klaka. „Hvað er þetta?“ sagði konan og skimaði allt í kring, en hún sá ekki vel og hugði því, að andarunginn væri feit önd, sem villst hefði þangað. „Þetta var happafengur,“ sagði hún, „nú get ég fengið mér andaregg, – nema ef þetta skyldi vera andarsteggi. Það verð ég nú að reyna og prófa.“ Og nú var andarunginn tekinn þarna á vist til reynslu í þrjár vikur, en engin komu eggin. Kötturinn var húsbóndi á heimilinu og hænan húsfreyja, og alltaf sögðu þau: „Við og veröldin,“ því að þau hugðust vera hálf veröldin og auðvitað stórum betri helmingurinn. Andarunganum fannst hann geta haft á því aðra skoðun, en það þoldi hænan ekki. „Geturðu orpið eggjum?“ spurði hún. „Nei.“ „Gerðu þá svo vel og haltu þér saman.“ Og kötturinn sagði: „Kanntu að setja upp kryppu, mala og gneista?“ „Nei.“ „Þú átt þá ekki heldur að leggja orð í belg, þegar skynsama fólkið talar.“ Og andarunginn kúrði úti í horni og lá illa á honum. Honum rann í huga útiloftið hreina og sólskinið, og kom í hann einhver undarleg löngun til að fleytast á vatni, og loksins gat hann ekki á sér setið og sagði hænunni frá því. „Hvað gengur að þér?“ sagði hún. „Þú hefur ekkert að gera, þess vegna ertu með þessar kenjar. Verptu eggjum eða malaðu, þá fer það af þér.“ „En það er svo indælt að fleytast á vatni,” sagði andarunginn. „Það er svo indælt að fá það yfir kollinn á sér og stinga sér niður til botns.“ „Já, heldur er það skemmtilegt,“ sagði hænan, „þú ert víst genginn af göflunum. Spurðu köttinn, hann er vitrastur allra sem ég þekki; spurðu hann, hvort honum þyki gaman að fleytast á vatni eða að stinga sér, – að ég nú ekki tali um sjálfa mig. Spurðu húsmóðurina sjálfa, gömlu konuna; enginn í heimi er henni vitrari. Heldurðu, að hana langi til að fleytast á vatni og fá gusur yfir kollinn?“ „Þið skiljið mig ekki,“ sagði andarunginn. „Já, það er nú svo, ef við ekki skiljum þig, hver ætti þá að skilja þig? Þú þykist þó líklega ekki vitrari en kötturinn og konan, að ég nú ekki nefni sjálfa mig. Láttu ekki svona, barntetur, og þakkaðu skaparanum fyrir allar þær velgerðir, sem þér hafa verið auðsýndar. Ertu ekki kominn í hlýja stofu og átt kost á að vera með þeim, sem þú getur fræðst af? En þú ert kenjaklápur, og ekkert gaman við þig að fást. Þér er óhætt að trúa mér; ég segi þér til syndanna, en sá er vinur, sem til vamms segir. Láttu nú sjá, verptu eggjum eða lærðu að mala eða gneista.“ „Það er efst í mér að fara út í víða veröld,“ sagði andarunginn. „Jæja, farðu þá,“ sagði hænan. Nú kom haustið, og skógarlaufið gulnaði og sölnaði; vindurinn tók í það og þyrlaði því víðs vegar. Uppi yfir var loftið kólgulegt, skýin þrungin af snjó og hagli, og hrafninn sat á gerðinu og gargaði „krá, krá!“ af því að honum var svo kalt. Maður gat fundið til nepju, þegar maður hugsaði um það, og sannast er það að segja, að langt var frá því núna, að aumingja andarunganum liði vel. Það var eitt kvöld, er sólin var að renna í blessaðri unaðsfegurð, að þá kom heill hópur af fuglum, ljómandi fallegum og stórum, út úr skógarrunnunum. Svo fallega fugla hafði andarunginn aldrei séð; þeir voru skínandi hvítir með langa og liðamjúka hálsa. Þetta voru svanir. Þeir létu til sín heyra undarleg hljóð, er þeir breiddu út sína löngu og skrautlegu vængi og flugu burt frá köldu löndunum til hinna heitari, þar sem vötnin eru auð og opin. Þeir hófu sig svo hátt, að litla andarunganum ljóta brá undarlega við það. Hann hringsneri sér í vatninu eins og hjól og teygði hálsinn hátt upp í loftið á eftir þeim og rak upp hljóð svo hvellt og undarlegt, að það gerði hann sjálfan hræddan. Hann gat ekki gleymt þessum fríðu og farsælu fuglum, og þegar hann eygði þá ekki framar, þá stakk hann sér niður til botns, og er hann kom upp aftur, var hann eins og utan við sig. Hann vissi ekki, hvað fuglarnir hétu né hvert þeir flugu, en samt þótti honum vænt um þá, svo að aldrei hafði honum áður um nokkuð annað jafnvænt þótt. En ekki öfundaði hann þá; hvernig hefði honum átt að koma til hugar að óska sér slíkrar fegurðar? Hann mundi hafa orðið feginn, hefðu endurnar aðeins viljað eira því, að hann væri í þeirra hóp, – aumingja andarunginn ljóti! Og nú kom veturinn napur og nístingskaldur. Andarunginn varð að synda fram og aftur á vatninu, til þess að það legði ekki alveg, en með hverri nótt varð vökin, sem hann synti í, þrengri og þrengri. Frostharkan varð svo mikil, að brakaði í ísnum. Andarunginn varð alltaf að strita með fótunum, til þess að vökin frysi ekki saman, en að lokum varð hann uppgefinn, lá grafkyrr og fraus fastur við ísinn. Snemma morguninn eftir bar þar að bónda nokkurn, og sá hann ungann og braut gat á ísinn með tréskónum og bar fuglinn heim til konu sinnar, og var hann lífgaður við þar á heimilinu. Nú vildu börnin fara að leika sér við hann, en hann hélt, að þau ætluðu að gera sér illt, og varð svo hræddur, að hann henti sér upp í mjólkurtrogið, svo að mjólkin skvettist út um alla stofuna. Konan hljóðaði upp yfir sig og fórnaði upp höndunum, en þá flaug hann yfir í smjörtrogið og þaðan niður í mjöltunnuna og svo upp úr henni aftur. Þá var auma sjónin að sjá hann. Konan hrein og elti hann með reidda eldtöngina, og börnin, hlæjandi og organdi, hlupu hvert annað um koll af ákafanum að handsama hann. En þá vildi til allrar hamingju, að dyrnar stóðu opnar, og þaut andarunginn út um þær og inn á milli skógarrunnanna, en snjóað hafði þar nýlega, og fal hann sig í fönninni og lá þar eins og í dvala. En það yrði helst til mikil raunasaga að skýra frá allri þeirri neyð og armæðu, sem hann varð að reyna vetrarlangt. En þegar hann vaknaði af dvalanum, þá lá hann innan um sefreyrinn í mýrinni, – sólin var hátt á lofti og skein hlýjum geislum, og lævirkjarnir sungu. Það var komið indælasta vor. Og óðara þandi hann vængina til flugs, og dundu þeir nú með meiri þyt en áður, og varla vissi hann, fyrr en hann var kominn í stóran aldingarð, þar sem eplatrén blómstruðu og sýringurnar héngu ilmandi á grænum greinunum niður að bugðóttum garðsíkjunum. Ó, sá vorgróður, ó, það indæli! Og andspænis beint út úr skógarþykkninu komu þrír ljómandi, undurfagrir, fannhvítir svanir. Þeir þeyttu fjaðrirnar og liðu svo léttsyndir á vatninu. Andarunginn kannaðist við þessa dýrðlegu fugla og varð gagntekinn af einhverri undarlegri angursemi. „Ég vil fljúga til þeirra, þessara konunglegu fugla, og þeir munu höggva mig til bana fyrir það, að ég, svona ljótur, skuli voga að koma nálægt þeim, en mér er sama um það; betra er að þola dauða af þeim en bit af öndunum, högg af hænsnunum, fótaspark af hænsnastúlkunni og bágindi liðlangan veturinn.“ Og hann flaug út á vatnið og synti út til svananna fögru, en þeir sáu hann og renndu sér til hans með dynjandi fjöðrum. „Þið megið drepa mig,“ sagði vesalings fuglinn, beygði höfuðið niður að vatninu og bjóst við dauða sínum, – en hvað sá hann í tæru vatninu? Hann sá undir eins sína eigin mynd, en nú var hann ekki framar klunnalegur, dökkgrár fugl, ljótur bæði og leiður, – hann var sjálfur svanur. Ekki sakar þann að vera fæddur í andagarði, sem í svanseggi hefur legið. Hann var ekki nema glaður yfir allri þeirri neyð og andstreymi, sem hann hafði reynt. Nú kunni hann rétt að meta hamingju sína og alla þá fegurð, sem við honum brosti. Og stóru svanirnir syntu hringinn í kringum hann og struku honum með nefjum sínum. Smábörn nokkur komu út í garðinn; þau fleygðu brauðmolum og korni út í vatnið, og þá kallaði það barnið, sem minnst var: „Þarna er þá kominn einn nýr,“ og hin börnin tóku undir og sögðu: „Já, það er kominn einn nýr.“ Og þau klöppuðu saman lófunum og dönsuðu hringinn í kring, og óðara fóru þau hlaupandi og sóttu föður sinn og móður, og brauði og kökum var fleygt út í vatnið og öll sögðu þau: „Sá nýi er fallegastur, hann er svo ungur og indæll,“ og gömlu svanirnir lutu honum. Þá fyrirvarð hann sig og stakk höfðinu aftur undir væng sér. Hann vissi ekki sjálfur, hvernig hann var; honum fannst hann vera alltof sæll, en ofmetnaðist alls ekki, því að gott hjarta ofmetnast aldrei. Hann hugsaði til þess, hversu hann hafði verið ofsóttur og smánaður, og heyrði nú alla segja, að hann væri allra fugla fríðastur. Og sýringurnar beygðu greinar sínar ofan til hans allt niður í vatnið, og sólin skein svo hlýtt og unaðslega. Þá dundu fjaðrir hans, og hann sveigði reisulega hálsinn fagurvaxna og mælti í hjartans fögnuði: „Um slíka hamingju dreymdi mig ekki, þegar ég var andarunginn ljóti.“ Óli Lokbrá Í öllum heimi er enginn, sem kann eins margar sögur og Óli Lokbrá, eða segir eins vel frá. Þegar liðið er á kvöldið og börnin sitja eins og brúður við borðið eða á fótskemlum sínum, þá kemur hann Óli Lokbrá, – kemur svo hægt upp tröppurnar, því að hann gengur á sokkaleistunum. Hann lýkur upp dyrunum með mestu hægð og sáldrar dufti í augu barnanna, svo fínu, svo undurfínu, – en það er alténd nóg til þess, að þau fá ekki haldið opnum augunum, og geta fyrir þá sök ekki séð hann; hann læðist rétt á eftir þeim og púar hægt í hnakka þeirra, og kenna þau þá þunga nokkurs í höfðinu, ójá, en ekki fylgir því neinn verkur, því að Óla Lokbrá gengur ekki nema gott til, sérstaklega við börnin. Hann vill aðeins, að þau séu sem spökust, og það verða þau svo best að þeim verði komið í rúmið. Þau eiga að hafa hægt um sig, til þess að hann geti sagt þeim sögur. Þegar börnin eru sofnuð, sest Óli Lokbrá á rúmstokkinn. Hann er vel til fara; hann er á silkifrakka, en ómögulegt er að segja, hvernig frakkinn er litur, því að það bregður á hann grænum, rauðum eða bláum lit, eftir því sem hann snýr sér við. Hann hefur tvær regnhlífar, sína undir hvorri hendi; önnur er með myndum á, og hana þenur hann út yfir góðu börnunum, og ber þá hinar fegurstu sögur fyrir þau í draumi; á hinni regnhlífinni er alls ekki neitt, og hana þenur hann út yfir óþekku börnunum. Þau sofa þá eins og kjánar, og þegar þau vakna næsta morgun, þá hefur þau alls ekkert dreymt. Nú er frá því að segja, að Óli Lokbrá kom í heila viku til dálítils drengs, er Hjálmar hét, og skemmti honum með sögum sínum. Sögurnar eru sjö að tölu, eins og dagarnir eru í vikunni. Mánudagur „Heyrðu nú,“ sagði Óli Lokbrá um kvöldið, þegar hann var búinn að hátta Hjálmar litla ofan í rúmið, „nú ætla ég að prýða hjá okkur,“ – og urðu þá öll blómin í urtapottunum að stórum trjám, sem seildust með langar greinar upp undir loftið og fram með veggjunum, svo að öll stofan varð eins og indælasti laufskáli; og allar greinarnar voru fullar af blómum, og hvert blóm var fegurra en rós, og vildi maður eta það, þá var það hverju sætmeti ljúffengara. Ávextirnir glóðu sem gull, og bollur voru þar líka úttroðnar af rúsínum, – það var nú fagnaður heldur en ekki. En allt í einu byrjaði einhver hræðilegur jarmur í borðskúffunni, þar sem skólabækur Hjálmars lágu. „Hvað er nú þetta?” sagði Óli Lokbrá, gekk að borðinu og dró út skúffuna. Það var þá taflan; henni var orðið bumbult, af því að það hafði slæðst vitlaus tala í reikningsdæmið, svo að það ætlaði að detta í sundur. Griffillinn hoppaði og ólmaðist í seglgarnstjóðri sínu, eins og hann væri dálítill hundur; hann vildi hjálpa til með reikningsdæmið, en það gat hann ekki. Og svo var líka skrifbók Hjálmars litla, það var eymdarsónn innan í henni; það var verulega ljótt að heyra. Langsetis niður eftir hverri blaðsíðu stóðu allir stóru stafirnir, hver með lítinn staf við hlið sér, heil röð ofan í gegn, það var sem sé forskrift. Hjá þeim stóðu aftur nokkrir stafir, sem héldu að þeir væru alveg eins útlítandi og hinir, því að þá stafi hafði Hjálmar skrifað; þeir lágu þar nærri því eins og þeir hefðu oltið um blýantsstrikið, sem þeir áttu að standa á. „Sjáið þið, svona eigið þið að bera ykkur; sjáið þið, sko! svona íhallir með myndarlegri sveiflu.” „Ó, við vildum það svo fegnir,” sögðu stafir Hjálmars, „en við getum það ekki; við erum svo vesælir.” „Það verður þá að gefa ykkur inn barnaskammt,” sagði Óli Lokbrá. „Æ, nei!” kölluðu þeir og stóðu þá svo keipréttir sem framast verður á kosið. „Já, nú verður ekkert tóm til að segja sögur,” mælti Óli Lokbrá; „nú verð ég að heræfa þá. Einn, tveir! einn, tveir!” Og þar með heræfði hann stafina, og þeir stóðu eins réttir og myndarlegir eins og forskrift getur verið best. En þegar Óli Lokbrá var farinn og Hjálmar leit á þá um morguninn, þá voru þeir jafn aumir og kauðalegir sem áður. Þriðjudagur Undir eins og Hjálmar var háttaður, drap Óli Lokbrá litla stafnum sínum á öll stofugögnin, og tóku þau þá óðara að mæla, og öll töluðu þau um sig sjálf, nema þá hrákadallurinn; hann stóð þegjandi og gramdist, að þau skyldu vera svo fáfengileg að tala ekki um annað en sig sjálf, hugsa ekki um annað en sig sjálf, en hugsa ekki vitund um hann, sem stóð þarna svo yfirlætislaus úti í horni og lofaði öllum að hrækja í sig. Uppi yfir kommóðunni hékk stórt málverk í gylltum ramma. Það var landslagsmynd; sáust á henni hávaxin gömul tré, blóm í grasinu og stórt stöðuvatn með fljóti, sem rann um skóginn fram hjá mörgum höllum, langar leiðir út í opið úthafið. Óli Lokbrá tæpti töfrastafnum á málverkið, og tóku þá allir fuglarnir á því að syngja, greinar trjánna hreyfðust, og rek kom á skýin. Það mátti sjá skugga þeirra berast yfir landið. Nú lyfti Óli Lokbrá Hjálmari upp að rammanum, og Hjálmar steig inn í málverkið, inn í kafgrasið, og þar stóð hann. Sólin skein niður á hann gegnum greinar trjánna. Hann hljóp ofan að vatninu og settist í lítinn bát, sem lá við bakkann. Báturinn var rauð- og hvítmálaður, seglin skínandi sem silfur, og sex svanir, allir með gullbauga um hálsana og blikandi bláar stjörnur á höfðum sér, drógu bátinn fram hjá grænu skógunum, þar sem trén voru að segja frá ræningjum og galdranornum, og blómin frá yndislegu litlu álfunum og frá því, sem fiðrildin höfðu sagt þeim. Á eftir bátnum syntu fegurstu fiskar, og var hreistur þeirra sem gull sæi eða silfur; stundum tóku þeir spretti, svo að skvampaði í vatninu, og fuglarnir rauðir og bláir, smáir og stórir, flugu í tveimur löngum röðum á eftir, mýflugurnar dönsuðu og aldinborarnir sögðu: „Búmm, búmm!“ Allir vildu fylgja Hjálmari, og allir höfðu sína sögu að segja. Þetta var ljómandi skemmtisigling. Ýmist voru skógarnir feikna þéttir og dimmir, ýmist voru þeir sem fegurstu lystigarðar, fullir af sólskini og blómum, og stóðu í þeim stórar hallir af gulli gerðar eða marmara. Á svölunum stóðu kóngsdætur. Það voru litlu telpurnar, sem Hjálmar þekkti áður og hafði leikið sér við. Þær réttu út hendurnar, og hélt hver um sig á sykurhjarta, svo lystugu sem nokkur kryddbrauðs-sölukona getur haft á boðstólum, og Hjálmar tók í hjartað öðrum megin, í því hann sigldi fram hjá, en kóngsdóttirin hélt fast í síns vegar, og fékk svo sinn hlutann hvort, hún þann minni og Hjálmar þann stærri. Hjá hverri höll héldu kóngssynir vörð, þeir heilsuðu með því að setja gullkorðann sér við öxl og létu rigna niður rúsínum og tindátum; það voru kóngssynir, eins og þeir eiga að vera. Ýmist sigldi Hjálmar gegnum skóga eða þá eins og í gegnum stóra sali eða mitt í gegnum borgina, þar sem barnfóstran hans átti heima, sem hafði borið hann í fanginu, þegar hann var ofurlítill angi og hafði þótt svo innilega vænt um hann. Og hún kinkaði kolli til hans og benti honum og söng fallegu vísuna, sem hún hafði ort sjálf og sent Hjálmari: Oft hugsa ég um þig, Hjálmar minn! Ég hugsa um þig, elskan góða! Svo oft kyssti ég munninn indæla þinn og ennið og vanga rjóða. Í fangi mínu þú fyrst kvaðst orð, svo fór ég úr þínu ranni; þig verndi guð ávallt um ægi og storð, hans engill ertu með sanni. Og allir fuglarnir tóku undir, blómin dönsuðu á leggjum sínum, og trén gömlu kinkuðu kolli, eins og Óli Lokbrá væri líka að segja þeim sögur. Miðvikudagur En það úrhelli, sem var úr loftinu fyrir utan! Hjálmar heyrði það gegnum svefninn, og þegar Óli Lokbrá lauk upp glugganum, þá tók vatnið upp að sólborðinu. Það var alveg sjór fyrir utan, en afarskrautlegt skip lá fast upp við húsið. „Ef þú vilt sigla með mér, Hjálmar litli!“ sagði Óli Lokbrá, „þá geturðu ferðast í nótt til annarra landa og verið kominn hingað aftur að morgni.“ Og samstundis stóð Hjálmar í sparifötunum sínum úti á miðju skrautskipinu, og óðara var komið besta veður, og sigldu þeir eftir strætunum og beygðu fyrir kirkjuna og voru þá komnir út á rúmsjó. Þeir sigldu, uns ekki eygðist lengur til landa, og þá sáu þeir storka fljúga marga í hóp, og komu þeir líka úr átthögum sínum og voru á leið til heitu landanna; flaug hver storkurinn aftan í öðrum, og voru þeir búnir að fljúga langa lengi. Einn þeirra var svo þreyttur, að vængirnir gátu með naumindum borið hann lengur. Hann var langsíðastur í röðinni og dróst brátt æðilangt aftur úr; loksins seig hann með útþanda vængina lengra og lengra niður, hann sló þeim enn svo sem tveimur sinnum, en það dugði ekkert, nú kom hann með fæturna við skipsreiðann, rann niður með seglinu, og í sama vetfangi kom hann standandi niður á þilfarið. Léttadrengurinn á skipinu tók hann þá og lét hann inn í hænsnahúsið til hænsnanna, andanna og kalkúnshananna; og nú stóð hann þarna höggdofa mitt á meðal þeirra. „Nei, lítið á þennan peyja,“ sögðu öll hænsnin. Og kalkúnshaninn blés sig upp svo digran sem hann gat og spurði, hver hann væri; og endurnar gengu aftur á bak, hnipptu hver í aðra og sögðu: „Rabb, rabb!“ Og storkurinn sagði þeim frá heitu álfunni, Afríku, frá pýramíðunum og frá strútsfuglinum, sem færi á hlaupum yfir eyðimörkina eins og villihestur, en endurnar skildu ekki, hvað hann sagði, hnipptu hver í aðra og mæltu: „Ætli við munum ekki verða á einu máli um það, að hann sé heimskingi?“ „Jú, víst er hann heimskingi,“ sagði kalkúnshaninn og þvoglaði áfram. Þá steinþagnaði storkurinn og hugsaði um Afríku sína. „Það eru gullfallegir, mjóir fætur, sem þér hafið,“ sagði kalkúnshaninn, „hvað kostar alinin?“ „Kí, kí, kí!“ skríkti í öndunum, en storkurinn lét sem hann heyrði það alls ekki. „Þér getið gjarnan hlegið með,” sagði kalkúnshaninn við hann, „því þetta var bráðfyndnislega sagt; eða skyldi það hafa farið fyrir ofan garð og neðan? Æi jæja, hann stígur ekki í vitið sá arna. Við skulum þá hafa skemmtunina út af fyrir okkur.“ Og hænsnin klökuðu og endurnar körruðu: „Gik gak! gik gak!“ Fyrr mátti nú vera, hvað þær höfðu gaman af þessu. En Hjálmar gekk að hænsnahúsinu, lauk upp dyrunum og kallaði á storkinn, en hann hoppaði út á þilfarið til hans. Nú var hann búinn að hvíla sig, og var sem hann kinkaði kolli til Hjálmars til að tjá honum þakklæti sitt. Síðan þandi hann út vængina og flaug til heitu landanna, en hænsnin klökuðu, endurnar körruðu, og kollurinn á kalkúnshananum varð eldrauður. „Á morgun sjóðum við ykkur í súpu,“ sagði Hjálmar og vaknaði nú, þar sem hann lá í litla rúminu sínu. Það var kynleg ferð, sem Óli Lokbrá hafði látið hann fara þá nótt. Fimmtudagur „Veistu hvað!“ sagði Óli Lokbrá, „vertu nú ekki hræddur; – hérna geturðu séð dálitla mús,“ og um leið rétti hann að honum höndina og sýndi honum ofur laglegt músartetur í lófa sínum. „Hún er komin til þess að bjóða þér í brúðkaupið sitt. Hér eru tvær litlar mýs, sem ætla sér á þessari nótt að innganga í hjúskaparstétt. Þær búa undir búrgólfinu hennar mömmu þinnar, það kváðu vera ljómandi húsakynni.“ „En hvernig á ég að geta komist niður um litla músargatið á gólfinu?“ mælti Hjálmar. „Láttu mig um það,” sagði Óli Lokbrá, „eitthvað verður mér til þess að gera þig lítinn.“ Og að því mæltu drap hann töfrastafnum sínum á Hjálmar. Varð hann þá alltaf minni og minni og seinast ekki stærri en mannsfingur. „Nú geturðu fengið fötin tindátans að láni. Ég geri ráð fyrir, að þau séu þér mátuleg, en það er svo mannalegt að vera í einkennisbúningi, þegar maður er í samkvæmi.“ „Já, satt er það,“ sagði Hjálmar, og í sama bili stóð hann aldubbaður sem allra snotrasti tindáti. „Viljið þér gera svo vel að setjast í fingurbjörgina hennar mömmu yðar,“ sagði litla músin, „þá skal mér vera sönn ánægja að mega draga yður.“ „Mikil ósköp!“ sagði Hjálmar, „á nú ungfrúin að fara að gera sér það ómak?“ Og svo óku þau af stað í músabrúðkaupið. Fyrst komu þau inn undir gólfið í langan gang, þar sem ekki var hærra undir loftið en svo, að þau gátu aðeins ekið fingurbjörginni. Allur gangurinn var lýstur með fnjóski. „Er hér ekki indæl lykt?“ sagði músin, sem dró hann, „allur gangurinn hefur verið makaður innan með flesksverði. Það getur ekki indælla verið.“ Nú komu þau inn í brúðkaupssalinn. Þar stóðu hægra megin litlar kvenmýs og hvísluðust á og flissuðu, eins og þær væru að draga dár hver að annarri; vinstra megin stóðu allar karlmýsnar og struku um yfirskeggið á sér með framlöppinni, á miðju gólfi gaf að líta á brúðhjónin. Þau stóðu í útholaðri ostskorpu og kysstust með miklum dáleikum, svo að allir sáu, því að þau voru, viti menn, trúlofuð, og nú átti brúðkaupið að standa. Alltaf komu fleiri og fleiri gestir, og lá við að hver músin træði aðra undir, því að brúðhjónin höfðu skipað sér í dyrnar, svo hvorki varð komist út né inn. Öll stofan var mökuð flesksverði, og ekki voru þar neinar aðrar veitingar, en í eftirmatarskyni var höfð til sýnis baun nokkur, sem dálítil mús, frændmús brúðhjónanna, hafði markað á með tönnunum upphafsstafina í nöfnum þeirra. Þótti það óvenju merkilegt og stórmikið í varið. Allar mýsnar sögðu, að þetta hefði verið dýrðlegt brúðkaup og skemmtunin fyrirtak. Hjálmar ók nú heim aftur; hann hafði reyndar verið í mikilsháttar samkvæmi, en hann hafði líka orðið að hnipra sig allan saman og gera sig svo lítinn, að hann kæmist í einkennisbúning af tindáta. Föstudagur „Því trúir enginn,“ sagði Óli Lokbrá, „hvað margt gamalt fólk vill ná í mig, en einkum eru það þeir, sem eitthvað illt hafa gert. „Óli minn góður!“ segja þeir við mig, „við fáum ekki lokað augunum til svefns og liggjum svo alla nóttina og sjáum okkar vondu verk; þau sitja á rúmstokknum, eins og ófrýnilegir púkar, og gusa yfir okkur heitu vatni; æ, að þú vildir koma og reka þá burt, svo að við gætum fengið góðan svefn.“ Og um leið segja þeir þungt stynjandi: „Við viljum fegnir borga fyrir það, það veit hamingjan, – góðar nætur, Óli! peningarnir liggja úti í glugga.“ En ég geri það ekki fyrir peninga,“ sagði Óli Lokbrá. „Hvað eigum við nú að gera í nótt?“ sagði Hjálmar. – „Já, ég veit ekki, hvort þú mundir vilja fara í brúðkaup aftur núna í nótt; það er annars konar en það í gær. Stóra brúðan hennar systur þinnar, sem er með karlmanns útliti og heitir Hermann, á að gefast saman við brúðuna Bertu. Það er að auki fæðingardagur brúðunnar, og munu því berast að fjöldamargar gjafir.“ „Já, það kannast ég við,“ sagði Hjálmar, „ætíð þegar brúðurnar þurfa að fá ný föt, þá lætur systir mín þær eiga fæðingardag eða halda brúðkaup. Það er víst búið að vera brúðkaup hundrað sinnum.“ „Já, en í nótt verður það hundraðasta og fyrsta brúðkaupið, og þegar hundraðasta og fyrsta er búið, þá er allt búið. Þess vegna verður þetta líka svo ljómandi gott. Líttu nú á!“ Og Hjálmar leit yfir á borðið. Þar stóð pappahúsið litla með ljós í glugganum, og allir tindátarnir stóðu fyrir dyrum úti og heilsuðu með byssunum. Brúðhjónin sátu á gólfi og hölluðu sér upp að borðfætinum, hugsandi mjög, sem vonlegt var. En Óli Lokbrá, sem farið hafði í svarta kjólinn hennar ömmu, gaf þau saman. Þegar hjónavígslan var búin, sungu öll húsgögnin, sem inni voru, vísuna fallegu, er hér fer á eftir. Hafði blýanturinn ort hana og ritað, og er hún undir „kveldbumbusláttar“laginu: Nú berist, sem gola blási stinn, til brúðhjónanna vort söngljóð inn; þau bæði eru hæsta hróðurs verð, af hanskaskinni eru bæði gerð. Svo hrópum vér húrra hjónum þeim og heill og heiður sé báðum tveim. Og fengu þau nú brúðkaupsgjafir, en allt matarkyns höfðu þau afbeðið, með því að þau í ást sinni höfðu nægtanóg. „Eigum við nú að hafa sumarvist á landsbyggðinni eða ferðast erlendis?“ sagði brúðguminn, og var ráða leitað hjá svölunni, sem víða hafði ferðast, og hjá garðhænunni gömlu, sem hafði fimm sinnum ungað út kjúklingum. Sagði svalan þá frá fögru og heitu löndunum, þar sem klasarnir héngju svo þungir og stórir á vínviðnum, þar sem loftið væri svo blítt og litbreytingaprýði á fjöllunum, sem hér væri óþekkt. „En þau lönd hafa samt ekki grænkálið okkar,“ sagði hænan. „Ég var einu sinni sumarlangt á landsbyggðinni með alla kjúklingana mína. Þar var mylsnugryfja, sem við máttum ganga í og krafsa í eftir vild, og svo höfðum við líka frjálsa aðgöngu í garð, sem grænkál óx í. Ó, hvað það var grænt! ég get ekki hugsað mér neitt fallegra.“ „En einn kálleggurinn er öðrum líkur,“ sagði svalan, „og svo er hér líka illviðrasamt.“ „Já, en því er maður orðinn vanur,“ sagði hænan. „Já, en hér er kalt, og þá eru frostin.“ „Það er gott fyrir kálið,“ sagði hænan. „Annars getur hér líka verið heitt. Var ekki hérna fyrir fjórum árum sumar, sem stóð í fimm vikur? Hér var þá svo heitt, að maður gat varla dregið andann. Svo höfum við ekki öll þessi eiturkvikindi, sem þeir hafa í útlöndum, og við erum alveg laus við ræningja. Sá er úrþvætti, sem ekki álítur, að okkar land sé fallegast af öllum löndum; hann ætti sannarlega ekki skilið að vera hér,“ – sagði hún grátandi og bætti við: „Ég hef líka ferðast, ég hef ekið í kirnu meira en tólf mílur. Það er ekkert gaman að ferðast.“ „Já, hænan er skynsemdarkona,“ sagði brúðan Berta, „ég er ekki heldur neitt gefin fyrir að ferðast um fjöll, því það er alltaf þetta sama, ýmist upp á móti eða ofan í móti. Nei, við skulum flytja okkur út að mylsnugryfjunni og spásséra í kálgarðinum.“ Og þar við sat. Laugardagur „Fæ ég nú að heyra sögur?“ sagði Hjálmar litli, þegar Óli Lokbrá var búinn að hátta hann. „Í kvöld verður ekki tími til þess,“ sagði Óli og þandi út yfir honum fallegustu regnhlífina sína. „Líttu nú á þessa Kínverja,“ og öll regnhlífin var að sjá eins og stór kínversk skál með bláum trjám og hvassodduðum brúm, fullum af litlum Kínverjum, sem stóðu þar og kinkuðu kolli. „Við verðum að dubba upp alla veröldina fyrir morgundaginn,“ sagði Óli, „það er sem sé helgur dagur, það er sunnudagur. Ég þarf að fara upp í kirkjuturninn til að líta eftir, hvort litlu kirkjuálfarnir fægja klukkurnar, svo að þær geti hljómað fagurlega, ég þarf að fara út á víðavang til að gá að, hvort vindarnir blása rykið af grasi og laufblöðum. Og þá er nú það, sem mest er fyrirhöfnin; ég verð að taka ofan allar stjörnurnar til þess að fægja þær upp. Ég tek þær í svuntuna mína, en fyrst verður að setja á þær tölur, hverja um sig, eins er um götin, sem þær sitja í þar efra, það verður líka að setja tölur á þau, svo að stjörnurnar komist aftur á sinn rétta stað; annars mundu þær ekki sitja fastar, og yrði þá of mikið af stjörnuhröpum, þegar hver stjarnan hrapaði á fætur annarri.“ „Heyrið þér, vitið þér hvað, herra Lokbrá!“ sagði gömul andlitsmynd, sem hékk á veggnum, þar sem Hjálmar svaf, „ég er langafi Hjálmars; þér skuluð hafa þökk fyrir, að þér segið drengnum sögur, en þér megið ekki rugla hugmyndir hans. Stjörnur verða ekki teknar ofan og fægðar. Stjörnurnar eru hnettir eins og jörðin okkar, og það er einmitt þeirra aðalkostur.“ „Þakka þér fyrir, gamli langafi!“ sagði Óli Lokbrá, „þakka þér fyrir; þú ert höfuð ættarinnar; þú ert langafi, en ég er eldri en þú. Ég er gamall heiðingi; Grikkir og Rómverjar kölluðu mig Draumaguð; ég hef komið á mestu heiðingjaheimili og kem þar enn; ég hef lag á að umgangast jafnt smælingja sem stórmenni; nú getur þú sjálfur sagt sögu.“ Að því mæltu fór Óli Lokbrá og tók með sér regnhlífina. „Það er þá orðið svo núna, að maður má ekki segja eins og manni býr í brjósti,“ mælti andlitsmyndin gamla. Í því bili vaknaði Hjálmar. Sunnudagur „Gott kvöld!“ sagði Óli Lokbrá, og Hjálmar kinkaði kolli, en stökk óðara til og sneri við andlitsmynd langafans inn að veggnum, svo að hún sletti sér ekki fram eins og kvöldinu áður. „Nú áttu að segja mér sögur: söguna af „fimm grænu baununum, sem bjuggu í einum og sama baunabelg,“ af „hanafæti, sem mangaði til við hænufót,“ og af „stagnálinni, sem var svo fordildarfull, að hún gerði sér þá ímyndun, að hún væri saumnál“.“ „Maður getur líka fengið of mikið af góðu,“ sagði Óli Lokbrá. „Þú munt vita, að ég vil helst sýna þér eitthvað. Nú ætla ég að sýna þér hann bróður minn. Hann heitir líka Óli Lokbrá, en hann kemur aldrei til nokkurs manns oftar en einu sinni, og þegar hann kemur, þá tekur hann menn með sér og segir þeim sögur. Hann kann ekki nema tvær; önnur er svo undurfalleg, að enginn maður í heimi mundi fá getið því nærri, en hin er svo afskaplega ljót – já, því verður ekki með orðum lýst.“ Og þar með lyfti Óli Lokbrá Hjálmari litla upp í gluggann og sagði: „Þarna sérðu hann bróður minn; það er Óli Lokbrá annar, þeir kalla hann líka Dauða. Sjáðu, hann er alls ekki eins ófrýnilegur og í myndabókunum, þar sem hann er ekki annað en visin beinagrind; nei, það er silfurútsaumur á klæðnaði hans; hann er í húsara-einkennisbúningi[*], og svört flauelsskikkja flaksast eftir honum aftur á hestinum.“ [* Húsari, léttvopnaður riddari.] Og Hjálmar sá, hversu Óli Lokbrá þeysti leiðar sinnar og kippti ungum og gömlum upp á hest sinn; suma setti hann fyrir framan sig, en suma fyrir aftan, en ætíð spurði hann þá fyrst: „Hvernig er vitnisburðarbókin?“ „Góð,“ var svarið hjá öllum. „Jæja, lof mér að sjá,“ sagði hann, og allir, sem höfðu fengið „dável“ og „ágætlega“, voru settir fyrir framan á hestinum og fengu að heyra fallegu söguna en hinir, sem höfðu „laklega“ og „illa“, voru settir fyrir aftan og fengu að heyra ljótu söguna. Þeir skulfu og grétu og vildu stökkva af hestinum, en gátu það ekki, því þeir voru óðara grónir fast við hann. „En dauðinn er þá allrafallegasti Óli Lokbrá,“ sagði Hjálmar; „við hann er ég ekki hræddur.“ „Það átt þú ekki heldur að vera,“ sagði Óli Lokbrá, „sjáðu aðeins fyrir því að hafa vitnisburðarbókina þína góða.“ „Já, þetta er lærdómsríkt,“ tautaði andlitsmynd langafans, „það hrífur þó, þegar maður segir afdráttarlaust, það sem manni býr í brjósti,“ og svo var myndin ánægð. Og lýkur svo hér að segja frá Óla Lokbrá, en sjálfur mun hann geta sagt þér meira í kvöld. Flibbinn Einu sinni var fínn herra, sem enga innanstokksmuni átti, nema stígvélaþræl og eina hárgreiðu; – en hann átti þann fegursta flibba í heimi, og frá þeim flibba er saga sú, er við fáum nú að heyra. Það er nú af flibba þessum að segja, að hann var kominn á þann aldur, að hann var farinn að hugsa um að gifta sig, og vildi þá svo til, að hann lenti í þvotti með sokkabandi nokkru. „Nei,“ sagði flibbinn, „aldrei hef ég nú séð neina svo mjóslegna, fína og mjúka og svo dæilega. Hvað heitið þér, má ég spyrja?“ „Það segi ég ekki,“ sagði sokkabandið. „Hvar eigið þér heima?“ spurði flibbinn. En sokkabandið var svo feimið og þótti eitthvað svo undarlegt að svara svona lagaðri spurningu. „Þér eruð víst mittisband,“ sagði flibbinn, – „svona innanhafnar mittisband! Ég þykist sjá, að þér eruð bæði til gagns og prýði, jómfrú góð!“ „Þér megið ekki tala við mig,“ sagði sokkabandið, „ég veit ekki til þess, að ég hafi gefið yður neitt undir fótinn.“ „Jú, þegar einhver er eins ljómandi falleg og þér eruð, þá er nóg gefið undir fótinn með því.“ „Þér megið ekki koma svona nærri mér,“ sagði sokkabandið, „það er svoddan karlmannsbragur á yður.“ „Ég er líka fínn herra,“ sagði flibbinn, „ég á stígvélaþræl og hárgreiðu,“ og það var nú ekki satt, því að það var húsbóndi hans, sem átti það, en hann grobbaði af sér. „Komið ekki nærri mér,“ sagði sokkabandið, „ég er óvön þess konar.“ „Teprudrós!“ sagði flibbinn, og svo var hann tekinn upp úr þvottinum. Hann var makaður í línsterkju, hékk á stólnum í sólskini og var síðan lagður á strokfjöl, og nú kom boltinn heitur. „Frúin góð!“ sagði flibbinn, „heyrið þér, góða ekkjufrú! mér verður svo fjarska heitt, ég verð allur annar en ég var, ég geng hreint af göflunum, þér brennið gat á mig! ú! – Ég verð að biðja yðar.“ „Lass!“ sagði boltinn og brunaði drembilega yfir flibbann, því hann hafði þá ímyndun um sig, að hann væri gufuketill og ætti að fara út á járnbrautina og draga vagna. „Lass!“ sagði hann. Flibbinn trefjaðist dálítið á brúnunum, og komu þá pappírsskærin og áttu að klippa af trefjurnar. „Ó!“ sagði flibbinn, „þér eruð víst fremsta dansmær; þér kunnið að rétta út fótinn. Það er það yndislegasta, sem ég hef séð, enginn lifandi maður gæti leikið það eftir yður.“ „Ég veit það,“ sögðu skærin. „Þér ættuð skilið að vera greifafrú,“ sagði flibbinn. „Allt, sem ég á í eigu minni, er einn fínn herra, einn stígvélaþræll og ein hárgreiða. Bara að ég ætti greifadæmi!“ „Eru þetta biðilsbænir?“ sögðu skærin, því að þau reiddust, og klipptu í flibbann stóra rifu, og var hann þá lagður fyrir óðal. „Nú verð ég víst að biðja hárgreiðunnar,“ sagði flibbinn. „Það er mikið, fröken góð, hvað þér haldið svona öllum tönnunum yðar óskertum. Hafið þér aldrei hugsað um trúlofun?“ „Já, það ættuð þér nú að fara sem næst um,“ sagði hárgreiðan, „ég er lofuð stígvélaþrælnum.“ „Lofuð!“ sagði flibbinn. Nú voru ekki fleiri, sem hann gat beðið, og svo fékk hann skömm á kvonbænum. Nú leið langur tími, og lenti flibbinn seinast í kassa hjá pappírsgerðarmanninum. Þar var mikið tuskusamkvæmi, fínu tuskurnar sér og þær grófu sér, alveg eins og á að vera. Allt þetta hyski kunni frá mörgu að segja, en þó bar flibbinn þar af öðrum, því hann var stórgrobbinn. „Ég hef átt svo fjarska margar kærustur,“ sagði flibbinn, „ég gat ekki verið í friði. Ég var líka fínn herra, fyrirtaks vel stífaður, átti stígvélaþræl og hárgreiðu, sem ég aldrei notaði. Þið hefðuð átt að sjá mig, eins og ég var þá, helst þegar ég lá á hliðinni. Aldrei gleymi ég fyrstu kærustunni minni; hún var mittisband, hún var svo fín og mjúk og falleg; hún steypti sér í þvottabalann mín vegna. Þá var líka ein ekkjufrú, sem varð glóandi, en hún fékk að bíða og blakkna fyrir mér. Og enn var danskona ein í fyrstu röð; hún veitti mér skrámuna, sem ég geng með enn; hún var svoddan vargur. Það kvað svo rammt að kvennaláni mínu, að hárgreiðan mín varð skotin í mér; hún missti allar tennurnar af ástarharmi. Já, ég hef lifað mikið og margt af þess konar, en sárast tekur mig til sokkabandsins – mittisbandsins ætlaði ég að segja, sem fór í þvottabalann. Ég hef mikið á minni samvisku, mér er ekki vanþörf á að verða að hvítum pappír.“ Og það varð hann líka. Allar tuskurnar urðu að hvítum pappír, en flibbinn varð einmitt að pappírsblöðunum, sem við höfum fyrir framan okkur og sagan er prentuð á, og varð það fyrir þá sök, að hann var svo upp með sér og montinn af því, sem hann hafði aldrei verið. Við ættum því að láta okkur hugfast að fara ekki eins að ráði okkar og hann, því að ekki er að vita, nema við lendum líka einhvern tíma í tuskukassanum og verðum gerðir að hvítum pappír og fáum prentaða á okkur alla okkar sögu, jafnvel það, sem leyndast átti að vera, og verðum svo sjálfir að fara með hana víðsvegar, eins og flibbinn, og segja hana hverjum sem vera skal. Engillinn „Í hvert skipti, sem gott barn deyr, kemur engill frá guði niður á jörðina, tekur dauða barnið sér í faðm, breiðir út stóru, hvítu vængina sína og flýgur á alla þá staði, sem barninu þótti vænt um í lifanda lífi. Hann tínir nokkur blóm og ber þau, ásamt barninu, upp til guðs, til þess að þau blómgist ennþá fegur en hér á jörðinni. Guð hinn algóði þrýstir öllum blómunum upp að hjarta sínu, en það blómið, sem honum þykir vænst um, kyssir hann, og þá fær það rödd og syngur með í hinni mildu sælu.“ Allt þetta var einn af englum guðs að segja dauðu barni, sem hann var að fljúga með upp til himins, og barnið hlustaði á eins og í draumi. Hann flaug með það yfir þá staði á heimili barnsins, þar sem það hafði leikið sér, og hann flaug með það gegnum yndislega blómvaxna aldingarða. „Hvaða blóm eigum við nú að taka með okkur til að gróðursetja á himnum?“ sagði engillinn. Og þar stóð hátt og fagurt rósatré, en einhver vond hönd hafði brotið stofn þess, svo að allar greinarnar, sem voru fullar af hálfútsprungnum hnöppum, héngu niður visnar og dauðar. „Vesalings tré!“ sagði barnið, „taktu það, svo það geti blómgast í himninum hjá guði.“ Engillinn tók rósatréð og kyssti barnið, en það opnaði augun ofurlítið við kossinn. Engillinn og barnið tóku nú nokkur af litprúðustu skrautblómunum, en líka sum af þeim, sem eru óásjáleg fyrir manna augum og að engu metin. „Nú höfum við þá fengið okkur blóm,“ sagði barnið, og engillinn brosti við, en samt fór hann ekki enn með barnið upp til guðs. Þetta var um nótt, og var kyrrð yfir öllu. Engillinn flaug með barnið inn í þrönga götu í stórri borg. Þar voru hrúgur af hálmi, ösku og alls konar rusli, eins og við mátti búast, því þetta var eftir sjálfan fardaginn, og því lágu víðsvegar brotnir diskar, kalkmolar, fataræflar og gamlir hattkúfar. Þar var samansafn af alls konar hlutum, sem ekki var sjónin að sjá. Og engillinn benti barninu á brotinn urtapott og moldarkökk, sem hafði dottið út úr urtapottinum. Í moldarkekkinum voru ræturnar af stóru, visnuðu skógarblómi, og þær héldu honum saman. Blóminu hafði verið fleygt, því það var ónýtt. „Þetta blóm skulum við taka með okkur,“ sagði engillinn; „ég skal segja þér nokkuð um það á leiðinni.“ Síðan flugu þeir, og engillinn sagði: „Þarna niðri í þrönga strætinu, í lágum kjallara, átti heima veikur og fátækur drengur. Frá því að hann var kornungur hafði hann því nær alltaf legið rúmfastur; þegar hann var sem hressastur, gat hann staulast á hækjum til og frá um gólfið í litlu kjallarastofunni, þar sem hann átti heima. Fáeina daga um hásumarið gat sólin skinið svo sem hálfa stund niður í kjallarann, og þegar þá veslings drengurinn sat í kjallaradyrunum til þess að njóta sólskinsins, þá var sagt: Í dag hefur hann fengið að koma út. Um skóginn og vorfegurð náttúrunnar hafði hann enga hugmynd aðra en þá, sem hann gerði sér af því, að drengur nokkur, sem stundum heimsótti hann, færði honum græna beykiviðargrein. Henni hélt hann yfir höfði sér og ímyndaði sér svo, að hann sæti í sólskininu undir beykitrjánum og að hann heyrði unaðslegan fuglasöng. Þessi drengur, sem var kunningi hans, kom einn dag með nokkur skógarblóm handa honum, og þar á meðal var eitt með rótum. Það var því tekið og gróðursett í urtapotti, sem var settur í gluggann rétt hjá rúmi hans. Og blómið óx og dafnaði vel og blómstraði á hverju ári. Sjúki drengurinn hafði það fyrir aldingarðinn sinn, og ekkert á jörðunni var honum eins kært og blómið. Hann vökvaði það og ól önn fyrir því, og hvern sólargeisla, sem náði að skína niður í gegnum kjallaragluggann, lét hann skína á blómið. Blómið dafnaði saman við drauma hans, því það blómgaðist aðeins fyrir hann; fyrir hann ilmaði það og aðeins hans augum skemmti það; á dauðastund sinni hafði hann augun á blóminu. Nú er hann búinn að vera eitt ár hjá guði, og í eitt ár er blómið búið að standa hirðingarlaust í glugganum; þess vegna hefur því verið fleygt í sorpið. Og einmitt það er nú blómið, þetta auvirðilega og visna blóm, sem ég hef tekið með mér, því þetta blóm hefur glatt meira en dýrðlegasta skrautblóm í garði nokkurrar drottningar.“ „En hvernig veistu þetta allt saman?“ spurði barnið, sem engillinn var að fljúga með upp til himins. „Ég veit það,“ sagði engillinn, „ég er sjálfur sjúki drengurinn, sem gekk við hækjur. Blómið mitt þekki ég aftur.“ Og barnið opnaði alveg augu sín og leit brosandi framan í engilinn, og í því voru þeir komnir inn í himin guðs, og þar var ekkert að sjá annað en gleði og sælu. Og guð þrýsti dauða barninu upp að hjarta sínu, og þá fékk það vængi eins og engillinn, sem hafði flogið með það til himins; þeir tóku höndum saman og flugu saman. Guð þrýsti öllum blómunum að hjarta sínu, en skógarblómið kyssti hann, svo að það fékk rödd og söng með öllum englunum, sem sveimuðu í kringum guð, sumir nær, en sumir lengra burtu, í stórum hringum, en allir voru þeir jafnsælir. Og allir sungu þeir, smáir og stórir, barnið og hið auvirðilega skógarblóm, sem hafði legið visið og dautt innan um sorpið í þrönga og dimma strætinu. Litla stúlkan með eldspýturnar Það var nístingskuldi með fjúki og fannkomu, og það var orðið dimmt um kvöldið; það var líka síðasta kvöldið á árinu; það var gamlárskvöld. Í þessum kulda og í þessu myrkri gekk á strætinu lítil stúlka, bláfátæk, berhöfðuð og berfætt. Að sönnu hafði hún gengið á tréskóm, þegar hún fór að heiman, en hvað hjálpaði það? Það voru stórir tréskór af móður hennar; en af því aumingja stúlkan mætti tveimur vögnum, sem óku svo ákaflega hart, varð hún að hlaupa úr vegi fyrir þeim til þess að verða ekki undir þeim. Hún týndi báðum tréskónum, því þeir voru svo stórir, að þeir tolldu ekki á fótunum á henni; annar tréskórinn fannst aldrei aftur, en drengur, sem gekk fram hjá, fann hinn; hann hljóp burt með hann og sagðist ætla að hafa hann fyrir vöggu, þegar hann eignaðist sjálfur börn. Þannig gekk nú veslings stúlkan á berum fótunum; þeir voru rauðir og bláir af kulda; svuntan hennar var gömul og rifin og í henni bar hún mörg eldspýtnabréf, og á einu þeirra hélt hún í hendinni. Enginn hafði þann dag keypt neitt af henni; enginn hafði gefið henni einn einasta eyri; þarna gekk hún sársvöng og nötraði og var svo döpur, veslings barnið. Fjúkið dreif þétt niður á hárið hennar síða og glóbjarta, sem liðaðist svo fallega niður á hálsinn, en hún var lítið að hugsa um prýði eða fegurð. Út úr hverjum glugga skein ljósbirtan, og um allt strætið ilmaði steikarlyktin; það var líka gamlárskvöld, og um það var hún að hugsa. Hún settist niður og hnipraði sig saman í skoti milli tveggja húsa; annað þeirra stóð framar í götunni en hitt. Hún kreppti undir sér fæturna, en henni varð æ kaldara og kaldara, og heim til sín þorði hún ekki að fara. Hún hafði ekkert selt af eldspýtunum og engan eyri fengið; hún vissi, að faðir sinn mundi þá berja sig. Þar var líka litlu heitara, því ekki höfðu þau nema bláþakið yfir höfðinu, og vindurinn blés þar í gegn, eins og það væri hjallur, þó troðið væri hálmi og tuskum í stærstu rifurnar. Hendurnar hennar litlu voru krókloppnar af kulda. Æ, gott væri að kveikja á einni eldspýtu. Hún óskaði, að hún mætti taka eina út úr bréfinu og kveikja á henni til að verma á sér fingurna. Hún tók þá eina eldspýtu og kveikti á henni, – riss! riss! sagði spýtan; en hvað hún logaði fallega! hversu var loginn heitur og skær! alveg eins og dálítið ljós, þegar hún hélt á eldspýtunni í lófa sínum; það var undarlegt ljós. Henni virtist sem hún sæti fyrir framan heitan ofn, skínandi fagran og fágaðan; það logaði svo vel í honum, og hann hitaði svo vel; nei, hvað var það? Veslings stúlkan rétti fram fæturna og ætlaði að fara að hita sér við ofninn, – þá dó á eldspýtunni. Ofninn hvarf, – hún sat með útbrunna eldspýtu í hendinni. Hún kveikti á annarri; hún logaði og lýsti, og þar sem birtan féll á múrinn, varð hann gagnsær eins og blæja. Hún sá beint inn í stofuna; þar stóð borð inni, og var breiddur á það dúkur með fegursta borðbúnaði, og á því miðju var steikt gæs á fati, fyllt með sveskjum og eplum; og – það sem var enn betra, – gæsin bylti sér niður af fatinu og vagaði eftir gólfinu með hníf og gaffal í bakinu; hún kom til fátæku stúlkunnar, – en í sama bili slokknaði á eldspýtunni, og var þá ekkert annað að sjá en myrkan og kaldan múrvegginn. Hún kveikti á þriðju eldspýtunni. Þá sat hún undir prýðisfallegu jólatré, það var enn stærra en það, sem hún hafði séð gegnum glerhurðina hjá ríka kaupmanninum síðastliðið aðfangadagskvöld, þúsundum saman loguðu á því ljósin, og alls konar dýrindis gripir héngu á greinum þess. Stúlkan rétti upp báðar hendurnar; – þá slokknaði á spýtunni; ljósin óteljandi, sem hún hafði séð, þau liðu æ hærra og hærra í loft upp. Hún sá, að það voru stjörnurnar á himninum; ein af þeim hrapaði og dró eftir sér langa eldrák á himninum. „Nú deyr einhver,“ sagði litla stúlkan, – því að amma hennar sæla, sem var sú eina manneskja, sem nokkurn tíma hafði verið góð við hana, hafði sagt: „Þegar stjarna hrapar á himninum, þá fer einhver sál til guðs.“ Hún kveikti á fjórðu eldspýtunni; hún lýsti svo vel, og í bjarmanum stóð amma litlu stúlkunnar skínandi björt með milda ásjónu. „Amma mín góð!“ kallaði litla stúlkan, „æ taktu mig með þér; ég veit að þú hverfur, þegar deyr á eldspýtunni, þú hverfur eins og heiti ofninn, góða gæsasteikin og blessað jólatréð.“ Og óðara kveikti hún á nærri því öllum eldspýtunum, sem eftir voru í bréfinu, en hún vildi með engu lifandi móti sleppa ömmu sinni; og eldspýturnar báru svo skínandi birtu, að það varð bjartara en um hádegi. Amma hennar hafði aldrei verið svona fríð og svona stór; hún tók litlu stúlkuna upp á handlegg sér, og þær lyftust í ljóma og fögnuði upp í hæstu hæðir, og þar var enginn kuldi, ekkert hungur og ekkert volæði, – þær voru hjá guði. En í skotinu milli húsanna sat litla stúlkan morguninn eftir með roða í kinnum og bros á vörum. Hún var dáin; hún hafði orðið úti á síðasta kvöldi ársins. Nýársmorgunninn rann upp yfir litla líkið, sem sat með eldspýturnar í kjöltunni; einu eldspýtnabréfinu hafði hún því nær eytt. „Hún hefur ætlað að hita sér,“ sögðu þeir, er fram hjá gengu. Enginn vissi neitt um alla þá fegurð, sem fyrir hana hafði borið, enginn vissi í hvílíkri dýrð og ljóma hún gekk með ömmu sinni inn í hina eilífu nýársgleði. Klukkan Það var altítt í einni stórborginni, að þegar kvölda tók og sólin rann og skýin glóðu sem gull á milli efstu reykháfanna, þá heyrðu hinir og þessir í smástrætunum eitthvert undarlegt hljóð, eins og eim af kirkjuklukku, en það heyrðist ekki nema rétt í svip, því vagnaskröltið og hrópið á strætunum tók yfir og truflaði. „Nú er verið að hringja kvöldklukkunni,“ sögðu menn, „nú gengur sólin undir.“ Þeir, sem voru á gangi fyrir utan borgina, þar sem húsin stóðu strjálar innan um trjágarða og smáekrur, sáu kvöldhimininn í enn meiri fegurðarljóma og heyrðu betur klukkuhljóðið. Það var eins og hljóðið bærist frá einhverri kirkju úr innstu fylgsnum hinna ilmandi skóga, og fólkið horfði þangað eins og gagntekið af einhverjum hátíðlegum anda. Nú leið og beið, og stundum sögðu menn sín á milli: „Ætli það sé kirkja í skóginum þarna út frá? Þessi klukka er svo hljómfögur, að það gegnir undrum. Eigum við að gera okkur ferð þangað og skoða hana betur?“ Og nú fór ríka fólkið akandi og fátæka fólkið gangandi, en það teygðist svo undarlega úr veginum, og þegar komið var þangað, sem pílviðir nokkrir stóðu í þyrpingu við skógarjaðarinn, þá var sest niður og horft upp í trjágreinarnar langar og laufmiklar, og kunni fólkið sér ekki læti af feginleik yfir því að vera komið út í græna sumardýrðina. Sætabrauðsbakari nokkur kom þangað úr borginni og reisti upp sölutjaldið sitt, og svo kom annar sætabrauðsbakari og hengdi upp klukku rétt andspænis móti tjaldinu sínu, og meira að segja, það var klukka, sem var bikuð, til þess að hún skyldi þola regn og vætu, en kólfinn vantaði. Þegar nú fólkið fór heim aftur, þá sagði það, að þetta hefði verið svo dásamlega fagurt. Það voru einhverjir þrír, sem staðhæfðu, að þeir hefðu komist í gegnum allan skóginn, og alltaf hefðu þeir heyrt undarlega hljóðið til klukkunnar, en þeim hefði látið svo fyrir eyrum, sem það kæmi úr borginni. Einn þeirra orti um það heilt kvæði og sagði, að klukkan hljómaði eins og móðurrödd við skýrleiks óskabarn, og ekkert sönglag væri fegra til en ómur klukkunnar. Þessi tíðindi komu nú einnig fyrir keisarann í þessu landi, og hét hann því, að hver sá, sem með sönnu fengi uppgötvað, hvaðan hljóðið kæmi, hann skyldi fá þá nafnbót, að vera kallaður „heimshringjari“, og það enda þó svo reyndist, að klukkan væri ekki til. Eftir það fóru margir þessa erindis til skógarins, en það var ekki nema einn, sem kom heim aftur með einhvers konar skýringu leyndardómsins. Það hafði sem sé enginn brotist nógu langt inn í skóginn, og hann þá ekki heldur, en svo mikið kvaðst hann þó vita, að klukkuhljóðið kæmi frá uglu nokkurri stórri, sem byggi í holu tré, og það væri eins konar vísdómsugla, sem alltaf lemdi hausnum í tréð, en hvort hljóðið kæmi úr kolli hennar eða holum tréstofninum, það þóttist hann ekki geta sagt með áreiðanlegri vissu. Fyrir þetta var hann skipaður „heimshringjari“, og samdi hann síðan á ári hverju eina vísindalega ritgerð um ugluna, en jafnfróðir voru menn eftir sem áður. Það var nú einhvern dag, að börn voru fermd. Presturinn hafði haldið fagra og hjartnæma ræðu, og börnin höfðu viknað svo innilega, þetta var líka merkisdagur á ævi þeirra, því að nú áttu þau úr börnum að verða fullorðin svona allt í einu, og það var eins og barnssálin myndaði sig til að taka þessari breytingu. Það var glaðasólskin; fermingarbörnin gengu út úr borginni, og klukkan mikla og ókunna ómaði nú með undrasterkum hljómi úr skóginum. Þau urðu þegar í stað svo óðfús að komast þangað, öll nema þrjú. Eitt, sem var stúlka, varð að fara heim til að máta á sér danskjólinn sinn, því það var ekki vegna nokkurs annars en kjólsins og dansins, að hún var fermd í þetta skipti; hún hefði annars verið látin bíða. Annað barnið var fátækur drengur, sem hafði orðið að fá fermingartreyjuna sína og stígvélin að láni hjá syni húseigandans, þar sem hann átti heima, og átti hann að skila því aftur á tilteknum tíma. Þriðja barnið, sem líka var drengur, sagðist aldrei fara á nokkurn ókunnan stað, nema því aðeins að foreldrar sínir færu með. Hann hefði alténd verið hlýðið barn, og það ætlaði hann sér einnig að vera eftir ferminguna, og eiga menn ekki að gera gys að slíku, en það gerðu menn nú samt. Þessi þrjú fóru því ekki með, en hin örkuðu af stað. Sólin skein í heiði, og fuglarnir sungu, og fermingarbörnin sungu með og héldust í hendur, því enn sem komið var höfðu þau ekki fengið embætti og voru öll saman fermingarbörn fyrir guði. En skammt var þess að bíða, að tvö minnstu börnin urðu þreytt, og sneru þau þá bæði aftur til borgarinnar. Tvær smámeyjar settust niður og fóru að knýta blómkerfi; ekki komust þær heldur með; en þegar hin börnin voru komin að píltjánum, þar sem sætabrauðsbakarinn hafði búð sína, þá sögðu þau: „Skoðum til, nú erum við komin hingað. Klukkan er í rauninni ekki til, hún er ekki annað en einhvers konar hugarburður.“ Í sama bili hljómaði klukkan langt inni í skóginum svo skært og blítt og hátíðlega, að fjögur eða fimm börn réðust í að halda nokkuð lengra inn í skóginn. En svo var hann þéttgróinn og laufmikill, að harðsótt var að komast áfram; það lá við, að bláklukkurnar og krossgrösin væru of hávaxin, klukknablóm og brómberjaklasar héngu í löngum fléttum frá einu tré til annars, og þar söng næturgalinn dillandi og sólargeislarnir iðuðu. Ó, sá unaður, sem þar var! en ekki var smámeyjunum hent að fara þann veg, því hætt er við, að kjólarnir hefðu rifnað. Þar voru stórgrýtisbjörg og klappir, algrónar allavega litum mosa, og spruttu þar upp tærar lindir með suðandi nið, og var eins og þær segðu: „glúk, glúk!“ „Skyldi nú ekki þetta vera klukkan?“ sagði eitt af fermingarbörnunum og lagðist niður til að hlusta betur; „það verður að rannsaka til hlítar.“ Og svo beið það kyrrt og hirti ekki um, þó hin börnin héldu áfram. Það er nú af þeim að segja, að þau komu að húsi einu, sem gert var af berki og trjágreinum. Stórvaxið tré, sem bar villiepli, slútti ofan yfir það, eins og það ætlaði að hella allri ávaxtablessun sinni yfir þakið, sem var rósum vaxið. Löngu greinarnar á trénu seildust fram með gaflinum, og á honum hékk lítil klukka. Það skyldi þó ekki vera klukkan, sem til hafði heyrst og eftir var leitað! Jú, jú! Allir voru samdóma um, að svo væri, nema einn. Hann sagði, að þessi klukka væri smáfelldari og lítilfjörlegri en svo, að það gæti heyrst til hennar þvílíkan óraveg eins glöggt og þeir hefðu heyrt hljóðið, og það væru líka allt aðrir hljómar, sem gætu gripið mannlegt hjarta svo innilega. Sá, sem þetta mælti, var kóngssonur, og þá var það viðkvæðið hjá hinum, að hann væri einn af þeim, sem þættust vitrari en allir aðrir. Honum var þá lofað að fara einum, því hinum leist ekki að fara lengra, og gekk hann leiðar sinnar áfram, en að því skapi sem honum miðaði áleiðis, eftir því varð hjarta hans æ gagnteknara af töfrum skógarkyrrðarinnar. Samt heyrði hann enn til litlu klukkunnar, sem honum líkaði svo vel, og stæði vindurinn þaðan, sem sætabrauðsbakarinn hafðist við, þá heyrði hann óminn öðru hverju, þegar fólkið var að syngja yfir tedrykkjunni, en dimmrödduðu klukkuslögin voru hljómmeiri og sterkari. Það fór að heyrast eins og leikið væri undir á orgel, og hljóðið kom frá vinstri hlið, þeirri hliðinni, þar sem hjartað slær. Nú skrjáfaði í runnunum, og allt í einu stóð frammi fyrir kóngssyninum lítill piltur á tréskóm og treyjugarmi, æði ermastuttum, svo ekki náði fram á úlnliðina. Báðir þekktust, því þessi drengur var einmitt sá hinn sami, sem fyrr er um getið, að ekki komst með í ferðina, af því hann varð að fara heim og skila treyjunni og stígvélunum, sem hann hafði fengið að láni af syni húseigandans. Þessu hafði hann aflokið og síðan labbað af stað í fátæklegu flíkunum sínum á tréskónum, því klukkan dunaði fyrir eyrum hans með svo aflmiklum og undarlega djúpum hljómi. Hvað sem tautaði, varð hann að reyna að komast þangað út. „Við getum þá orðið samferða,“ sagði kóngssonurinn. En fátæki fermingarpilturinn á tréskónum varð feiminn við, strauk um sturtu treyjuermarnar og sagðist ekki treysta sér til að ganga nógu hart, svo hann gæti fylgst með; auk þess hélt hann, að það yrði að leita klukkunnar þeim megin, sem til hægri handar vissi, því að þeirri hliðinni hneigðist allt, sem veglegt er og mikilfenglegt. „Þá er ekki að hugsa til að við finnumst,“ segir kóngssonurinn og kinkar kolli til fátæka drengsins. Fór þá sá fátæki inn í skóginn, þar sem hann var þykkastur og skuggalegastur og allur þyrnum gróinn, enda rifnuðu líka föt hans, og fætur hans og hendur urðu blóðrisa. Kóngssonurinn fékk líka margan skinnsprett, en sólin skein þó á hans leið, og skulum við nú fylgja honum eftir, sem vert er, því hann var dugandi drengur. „Klukkuna vil ég og skal ég finna,“ sagði hann, „og það þó ég ætti að ganga á heimsenda.“ Ófrýnir apar sátu uppi í trjánum og glottu, svo að skein í tanngarðinn. „Eigum við að lemja hann? Eigum við að lumbra á honum? Hann er kóngssonur.“ En hann brá sér ekki við það og gekk inn í skóginn lengra og lengra, þar sem hann var gróinn kynlegustu blómum; þar stóðu bjartar stjörnuliljur með dreyrrauðum duftþráðum, himinbláar hjálmrósir, sem blikuðu í vindblænum, og eplatré með eplum, sem glóðu álengdar eins og gljágeislandi sápubólur; það má nærri geta, hvað falleg tré þessi voru í sólskininu. Allt umhverfis ljósgræn engin, þar sem hjörturinn og hindin léku sér í grasinu, gnæfðu laufskrýddar eikur og beykitré, og væri börkurinn sprunginn á einhverju trénu, þá uxu bæði grös og langflæktar, öngóttar jurtir út úr sprungunum. Þar voru skóglendi mikil með lygnum stöðuvötnum, og syntu á þeim fannhvítir svanir og böðuðu vængjunum. Kóngssonurinn stóð oft við og hlustaði, og þótti honum stundum eins og klukkan sendi óminn upp til hans úr þessum djúpu vötnum, en hann fann í hvert sinn, að klukkuhljómurinn kom ekki þaðan, heldur lengra innan að úr skóginum. Nú settist sólin, og loftið varð rauðglóandi sem eldur, það varð svo hljótt og svo rótt í skóginum. Þá féll hann á kné og söng kvöldsálminn sinn og sagði: „Aldrei finn ég það, sem ég leita eftir; nú rennur sólin og nú kemur nóttin, hin dimma nótt. Þó veit ég ekki, nema ég geti ennþá einu sinni séð kvöldsólina kringlótta og eldrauða, áður en hún hverfur alveg undir jörðina. Ég ætla að komast upp á klettana þarna, þar sem þeir gnæfa jafnhátt hæstu trjánum.“ Og hann þreif í rætur og tágar og klifraðist upp eftir votum steinunum, þar sem vatnssniglarnir hringuðu sig og froskpaddan glennti upp skoltinn, eins og til að gelta að honum, en upp komst hann samt, áður en sólin var alveg gengin undir, og var sjón að sjá hana úr þeirri hæð. Ó, hvílík dásemdarprýði! Hafið, hið mikla og dýrðlega haf, sem velti löngum bylgjum inn að ströndinni, lá opið fram undan honum, og sólin glóði eins og gullaltari út við ystu brúnina, þar sem haf og himinn mættust. Allt rann saman í leiftrandi litadýrð. Skógarnir sungu og hafið söng og hann söng með. Öll náttúran var ein stór og heilög kirkja, þar sem tré og sveimandi ský voru súlurnar, þar sem blóm og grös voru glitofin gólfábreiða og himinninn sjálfur hvelfing hins mikla musteris. Hið efra slokknuðu rauðu litirnir, þegar sólin hvarf, en þá tendruðust þúshundruð stjörnur, og þá lýstu þúshundruð demantslampar, og kóngssonurinn breiddi faðminn móti himninum, móti hafinu og skóginum, og rétt í sama bili kemur fátæki drengurinn með stuttu ermarnar, á tréskónum, út úr hægra hliðargangi. Hann var þá kominn jafnsnemma hinum og kominn það á sínum vegi, og nú runnu þeir í fangið hvor á öðrum og héldust í hendur í hinni miklu kirkju náttúrunnar og skáldskaparins. Yfir þeim hljómaði hin ósýnilega, heilaga kirkja, og kringum hana svifu sælir andar í danshring með fagnandi lofgerðarröddum. Grenitréð Úti í skógi stóð undurfallegt grenitré, og var það á góðum stað, því það naut vel sólar, hafði gnægð af hreinu og heilnæmu lofti, og kringum það uxu margir stærri lagsbræður þess, bæði grenitré og furutré. En grenitréð litla var svo bráðlátt með að vaxa; það hugsaði ekki um sólina, sem var svo hlý, eða um loftið, sem var svo hressandi, og ekki sinnti það bændabörnunum, sem hjöluðu svo margt saman, þegar þau voru að tína jarðarber eða hindber. Komu þau oft með fulla krukku eða þau voru með jarðarber dregin upp á strá; þá settust þau hjá litla trénu og sögðu: „Nei, hvað þetta litla tré er ljómandi fallegt!“ En það vildi tréð alls ekki heyra. Árið eftir var það orðið góðri legglengd hærra, og árið þar á eftir hafði það tognað mun meira, því á grenitrjám má af liðum þeirra marka, hversu gömul þau eru. „Ó, að ég væri nú orðið stórvaxið tré, svona ámóta og hin önnur,“ sagði litla tréð og stundi við, „þá gæti ég breitt út greinar mínar á alla vegu og horft út í víða veröld með toppi mínum. Þá mundu fuglarnir byggja sér hreiður í limi mínu, og þegar vindur blési, þá gæti ég kinkað kolli allt eins burgeislega og hin þarna.“ Það hafði alls enga ánægju af sólskininu, fuglunum eða rauðu skýjunum, sem liðu áfram í loftinu fyrir ofan það bæði kvöld og morgna. Á veturna, þegar hvítglitrandi hjarnfönnin lá allt í kring, þá bar það oft við, að héri kom hlaupandi og henti sér yfir litla tréð; ó, hvað því gat sárnað það! En svo liðu tveir vetur, og á þeim þriðja var tréð orðið svo stórt, að hérinn varð að fara utan við það. „Ó, að vaxa, vaxa, verða stór og gamall, það er þó eina indælið í þessum heimi,“ hugsaði tréð. Á haustin komu skógarhöggsmennirnir ætíð og felldu nokkur af stærstu trjánum. Var svo á hverju ári, og fór hræðslutitringur um grenitréð unga, sem nú var svo vel á legg komið, þegar stóru, skrautlegu skógartrén féllu til jarðar með braki og brestum. Því næst voru limarnar höggnar af þeim, svo að þau voru bersnauð á að líta á eftir, löng og rengluleg; þau urðu nær því óþekkjanleg, en svo var þeim hlaðið á vagna, og hestar drógu þau burt úr skóginum. Hvert áttu þau að fara? Hvað áttu þau fyrir höndum? Um vorið, þegar svalan kom og storkurinn, þá spurði tréð þau: „Vitið þið ekki, hvert farið var með þau? Hafið þið ekki mætt þeim?“ Svölurnar vissu ekki neitt, en storkurinn varð áhyggjufullur á svipinn og mælti: „Jú, það held ég; mörg ný skip urðu á vegi mínum, þegar ég flaug frá Egyptalandi; á skipunum voru prýðisfalleg siglutré, ég þori að segja, að það hafi verið þau tré; það angaði af þeim greni-ilmurinn; ég get borið frá þeim kæra kveðju, þau gnæfa, þau gnæfa!“ „Ó, að ég væri orðið nógu stórt, svo að ég gæti líka flogið yfir hafið! Hvernig er það eiginlega, þetta haf, og hverju er það líkt?“ „Það er nú svo umfangsmikið að skýra frá því,“ sagði storkurinn og flaug sína leið. „Gleddu þig yfir æsku þinni,“ sögðu sólargeislarnir, „gleddu þig yfir þroska þinum og lífsfjörinu unga, sem spriklar í þér.“ Og vindurinn kyssti tréð, og döggin tárfelldi yfir því, en það skildi grenitréð ekki. Þegar leið að jólum, voru felld mörg ung tré, og það oft og einatt tré, sem ekki voru einu sinni eins stór eða stálpuð og þetta bráðláta grenitré, sem aldrei var í rónni, en alltaf vildi komast í burt. Þessi tré, og það voru nú einmitt hin langfegurstu, – fengu að halda öllum greinum sínum. Þau voru látin upp á vagn, og hestar drógu þau burt úr skóginum. „Hvert eiga þau að fara?“ spurði grenitréð. „Þau eru ekki stærri en ég. Eitt þeirra er enda miklu minna; hvers vegna fá þau að halda öllum greinum sínum? Hvert er ekið með þau?“ „Það vitum við, það vitum við,“ tístu gráspörvarnir. „Við höfum gægst inn um gluggana á húsunum í borginni þarna niður frá, og við vitum, hvert ekið er með trén. Þau komast í þann mesta dýrðar- og viðhafnarljóma, sem hugsast getur. Við höfum gægst inn um gluggann og séð, að þeim er plantað á miðju gólfi í heitri stofu; við höfum séð þau prýdd með fegurstu hlutum, gylltum eplum, hunangskökum, barnagullum og mörgum hundruðum ljósa.“ „Og svo?“ mælti grenitréð með titringi í öllum sínum greinum; „og svo? Hvað verður svo?“ „Já, meira höfum við nú ekki séð. Það var alveg makalaust.“ „En skyldi nú þessi ljómandi lífsbraut liggja fyrir mér?”“ sagði grenitréð hlakkandi. „Þetta er enn betra en að fara yfir hafið. Ó, hvað ég kvelst af löngun! Ég vildi, að jólin væru komin. Nú er ég hávaxið tré með breiddum baðmi eins og hin, sem flutt voru burt í fyrravetur. Ó, að ég væri komið á vagnana, komið í heitu stofuna innan um alla viðhöfnina og dýrðina! Og þá þar næst? Já, þá kemur nú eitthvað enn betra, ennþá fallegra, því skyldu þeir annars láta á mig svo mikla prýði? Það hlýtur að koma eitthvað ennþá mikilfenglegra; en hvað þá? Ó, ég þjáist og ég þrái; ég veit ekki, hvernig mér er varið.“ „Gleddu þig yfir mér,“ sagði loftið og sólarljósið, „gleddu þig yfir fjörmagni æsku þinnar í frjálsri náttúru.“ En tréð gladdist alls ekki; það óx og óx, það var grænt vetur og sumar; dökkgrænt var það, og þeir, sem sáu það, sögðu: „Tarna er ljómandi fallegt tré,“ og undir jólin var það höggvið fyrst af öllum trjám. Öxin hjó djúpt gegnum merginn; tréð féll til jarðar og stundi við, það kenndi sárinda og ómegins, það gat ekki hugsað um neina hamingju, það var sorgbitið yfir því að skilja við átthaga sína, við blettinn, þar sem það hafði úr jörðu vaxið. Það vissi, að það mundi aldrei framar sjá sína kæru, gömlu félaga, litlu runnana og blómin allt í kring, já, ef til vill, ekki einu sinni fuglana. Það var öðru nær en að burtförin væri því þægileg. Tréð rankaði ekki við sér fyrr en í húsagarðinum, þegar það var tekið af vagninum ásamt öðrum trjám og heyrði, að einhver sagði: „Tarna er fallegt tré; við þurfum ekki nema þetta eina.“ Nú komu tveir þjónar búnir stássgervi og báru tréð inn í stóran og fagran sal. Hringinn í kring á veggjunum héngu myndir, og hjá stórum ofni stóðu kínversk skrautker með ljósmyndir á lokunum; þar voru ruggustólar, silkilegubekkir, stór borð hlaðin myndabókum og barnagullum, er kostað höfðu mörg hundruð ríkisdali; svo sögðu að minnsta kosti börnin. Grenitréð var sett í stóran stamp fullan af sandi, en enginn gat séð, að það væri stampur, því utan um hann var hengdur grænn dúkur, og svo var látin undir stór, marglit ábreiða, sem hann átti að standa á. Nú var heldur en ekki skjálfti á trénu. Hvað mundi standa til? Bæði þjónarnir og ungfrúrnar prýddu tréð. Þær hengdu á greinarnar netpoka, sem klipptir voru úr litpappír; hver netpoki var fylltur sætindum; gyllt epli og valhnetur héngu sem fastgróin væru, og fjöldamörg smákerti, rauð, blá og hvít, voru fest á greinarnar. Þá héngu og brúður svífandi í grænu liminu, líkar lifandi manneskjum, – aldrei hafði nú tréð séð annað eins, og allra efst í toppinn var sett stór stjarna úr blaðagulli. Það var skrautlegt, það var óviðjafnanlega skrautlegt. „Í kvöld, í kvöld skal það verða skínandi fallegt,“ var viðkvæðið hjá öllum. „Ó, að kvöldið væri komið,“ hugsaði tréð, „ó, að farið væri að kveikja á kertunum! Og hvað mun svo verða? Ætli það komi tré úr skóginum til að horfa á mig? Skyldu gráspörvarnir fljúga að glugganum? Skyldi ég festa hér rætur og standa með alla þessa prýði bæði vetur og sumar?“ Jú, jú, það fór nú heldur en ekki nærri um að tarna, en það hafði megnan barkarverk af tómri eftirlöngun, og barkarverkur er ekki betri fyrir tré en höfuðverkur fyrir okkur mennina. Nú var kveikt á kertunum. Hvílíkur ljómi, hvílík prýði! Það var titringur í öllu trénu, svo að eldur las sig í grænt limið frá einu kertinu, og sviðnaði í kringum. „Hamingjan hjálpi oss,“ sögðu ungfrúrnar hljóðandi og slökktu í snatri. Nú þorði tréð ekki einu sinni að skjálfa. Þvílík vandræði! Það var svo hrætt um, að það missti eitthvað af skrauti sínu; það var alveg ruglað af öllum þessum ljóma. Þá lukust upp báðar vængjahurðirnar, og þusti inn fjöldi barna; það var eins og þau ætluðu að ryðja trénu um koll. Eldra fólkið kom stillilega á eftir. Litlu börnin stóðu orðlaus, en það var ekki nema allra snöggvast; í næstu andrá æptu þau af fögnuði, svo að undir tók í öllu. Þau dönsuðu kringum tréð, og var tekin af trénu hver jólagjöfin á fætur annarri. „Hvað er verið að gera?“ hugsaði tréð. „Hvað stendur nú til?“ Ljósin loguðu, þangað til komið var niður í greinarnar, og var slökkt á þeim jafnóðum og þau brunnu út, og eftir það var börnunum leyft að rupla tréð. Ruddust þau á það svo áfergjulega, að brakaði í öllum greinunum, og hefði það ekki verið fest við loftið með toppinn og gullstjörnuna, þá mundi það hafa oltið um koll. Börnin dönsuðu nú hringinn í kringum það með fallegu gullin sín í höndum. Enginn horfði á tréð, nema barnfóstran gamla. Hún kom og gægðist inn á milli greinanna, en það var ekki til annars en að gá að, hvort ekki kynni að hafa leynst eftir fíkja eða epli. „Segið okkur sögu, segið okkur sögu,“ sögðu börnin og drógu með sér bústinn mann og lágvaxinn að trénu, og settist hann niður undir því. „Svo erum við þá komin út í græna forsæluna,“ sagði hann, „og tréð getur haft sérlega gott af því að hlusta á með ykkur. En ekki segi ég nema eina sögu. Viljið þið heyra söguna af honum Íviða-Áviða eða honum Klumpa-Dumpa, sem valt ofan tröppurnar, en komst samt í hásætið og fékk kóngsdótturina?“ „Íviða-Áviða,“ kölluðu sum, „Klumpa-Dumpa,“ kölluðu önnur. Urðu þá köll og háreysti, nema grenitréð eitt stóð þegjandi og hugsaði með sér: „Á ég þá ekki að vera með? Á ég ekkert að gera?“ Nú, það var búið að vera með og gera það, sem það átti að gera. Maðurinn sagði nú söguna af Klumpa-Dumpa, sem valt ofan tröppurnar, en komst samt í hásætið og fékk kóngsdótturina. Og börnin klöppuðu saman lófunum og kölluðu: „Segðu meira, segðu meira.“ Þau vildu líka fá söguna af Íviða-Áviða, en þau fengu ekki nema söguna af Klumpa-Dumpa. Grenitréð stóð og hlustaði á þögult og hugsandi; aldrei höfðu fuglarnir í skóginum sagt frá neinu slíku. „Klumpa-Dumpi valt ofan tröppurnar og fékk samt kóngsdótturina. Já, svona gengur það í heiminum,“ hugsaði grenitréð og trúði þessu öllu, af því að það var svo nettur maður, sem söguna sagði. „Já, já, ef til vill velt ég líka ofan tröppurnar og fæ kóngsdóttur.“ Og það hlakkaði til næsta dags, í þeim vændum, að það yrði aftur skreytt og prýtt með ljósum, barnaglingri, gulli og ávöxtum. „Á morgun mun ég ekki skjálfa,“ hugsaði það; „og þá ætla ég nú almennilega að skemmta mér í allri minni dýrð. Á morgun fæ ég aftur að heyra söguna af Klumpa-Dumpa og ef til vill líka söguna af Íviða-Áviða.“ Og tréð stóð grafkyrrt og hugsandi alla nóttina. Um morguninn kom inn vinnumaðurinn og vinnukonan. „Nú byrjar dýrðin aftur,“ hugsaði tréð, en þau drógu það út úr stofunni, upp stigann og inn á háaloft og settu það út í skúmaskot, þar sem aldrei sást nokkur dagsskíma. „Hvað á þetta að þýða?“ hugsaði tréð. „Hvað ætli ég eigi hér að gera? Hvað skyldi ég fá hér að heyra?“ Og það hallaði sér upp að veggnum og hugsaði og hugsaði. Og það hafði líka góðan tíma til þess, því svo liðu dagar og svo liðu nætur, að enginn kom þangað upp, og þegar þá loksins einhver kom, þá var það til þess að demba nokkrum stórum kössum út í skotið. Tréð var nú algerlega falið og svo að sjá, sem búið væri að gleyma því með öllu. „Nú er vetur úti,“ hugsaði tréð, „jörðin gaddfrosin og snjór yfir öllu. Mennirnir geta ekki sett mig niður, þess vegna á ég að standa hér í skjóli til vorsins. En hvað það var vel hugsað og nærgætnislegt! Ó, hvað mennirnir eru góðir! – Það er verst, að hér er svo dimmt og svo hræðilega einmanalegt; ekki svo mikið sem einn ofurlítill héri. Það var þó svo skemmtilegt þarna út frá í skóginum, þegar allt var undir snjó og hérinn þaut fram hjá; já, enda þegar hann hentist yfir mig, en það átti nú reyndar ekki við mig í þá daga. En uppi hérna er svo hræðilega einmanalegt.“ „Pí, pí,“ sagði dálítil mús rétt í þessu og skaust út; svo kom önnur dálítil. Þær þefuðu af grenitrénu og skutust út og inn á milli greina þess. „Tarna er ljóti kuldinn,“ sögðu litlu mýsnar, „annars væri hér svo gott og blessað. Eða finnst þér það ekki líka, gamla grenitré?“ „Ég er hreint ekki gamalt,“ sagði grenitréð, „það eru mörg tré eldri en ég.“ „Hvaðan ert þú, og hvað getur þú sagt í fréttum?“ sögðu mýsnar. Þær voru svo hræðilega forvitnar. „Segðu okkur eitthvað af þeim staðnum, sem fegurstur er á jarðríki. Hefur þú komið þar? Hefur þú komið í matarbúrið, þar sem ostar liggja á hillunum og svínslæri hanga undir loftinu, þar sem maður dansar á tólgarkertum, kemur magur inn og fer feitur út?“ „Ekki þekki ég það,“ sagði tréð, „en skóginn þekki ég, þar sem sólin skín og fuglarnir syngja.“ Og nú sagði það alla sína æskusögu, og höfðu litlu mýsnar aldrei heyrt neitt þvílíkt, enda hlýddu þær á með stakri eftirtekt. „Nei, en hvað þú hefur séð margt! Ó, hvað lánið hefur leikið við þig!“ „Við mig?“ sagði grenitréð um leið og hugurinn hvarflaði að því, sem það var að segja frá, „já, það voru í rauninni dáindis skemmtilegir tímar.“ – En þessu næst sagði það frá aðfangadagskvöldinu, þegar það var alsett sætabrauði og kertaljósum. „Ó, hvað lánið hefur leikið við þig, gamla grenitré!“ sögðu litlu mýsnar. „Ég er hreint ekki gamalt,“ sagði tréð, „það var núna í vetur, sem ég kom úr skóginum; ég er á allra besta aldri, þó ég hafi ekki vaxið núna í bili.“ „En hvað þú segir fallega frá!“ sögðu litlu mýsnar, og næstu nótt komu þær aftur með fjórar aðrar mýslur, til þess að þær fengju líka að heyra tréð segja sögur sínar, en því fleiru sem tréð sagði frá, því greinilegar mundi það sjálft eftir öllu og fannst, „að það hefðu þó í rauninni verið dáindis skemmtilegir tímar.“ En þeir gætu komið aftur, hugsaði tréð, „Klumpa-Dumpi valt ofan tröppurnar og fékk samt kóngsdótturina; hver veit nema ég fái líka kóngsdóttur?“ Og þá fór tréð að hugsa um eina ofurnetta birkihríslu, sem óx úti í skóginum. Hún var í trésins augum ljómandi fögur kóngsdóttir. „Hver er Klumpa-Dumpi?“ sögðu litlu mýsnar. Sagði grenitréð þá allt ævintýrið og mundi hvert einasta orð, og lá músunum við að stökkva upp í toppinn á trénu af einberri ánægju. Nóttina eftir komu miklu fleiri mýs, og á sunnudaginn komu enda tvær rottur, en þær sögðu, að sagan væri ekkert skemmtileg, og það hryggði litlu mýsnar, því nú þótti þeim líka sjálfum minna til hennar koma. „Kanntu ekki nema þessa einu sögu?“ spurðu rotturnar. „Nei, ekki nema þessa einu,“ svaraði tréð; „ég heyrði hana á því sælasta kveldi, sem ég hef lifað á ævi minni, en þá kom mér ekki til hugar, hvað sæla mín í rauninni var mikil.“ „Það er ofurléleg saga, kanntu enga sögu um flesk og tólgarkerti? Kanntu enga búrsögu?“ „Nei,“ sagði tréð. „Jæja, við þökkum þá fyrir okkur,“ sögðu rotturnar og smugu inn í holur sínar. Svo lauk, að litlu mýsnar hættu líka að koma, og þá sagði tréð andvarpandi: „Það var þó allskemmtilegt, þegar þær sátu í kringum mig, þessar pipru smámýs, og hlýddu á sögur mínar. Nú er það líka búið að vera, en það skal ég muna að skemmta mér, þegar menn taka mig héðan og láta mig út aftur.“ En hvenær varð það? Jú, það var eina morgunstund, að fólkið kom og fór að taka til á loftinu. Kassarnir voru færðir, tréð var dregið fram úr skotinu. Þeir köstuðu því reyndar fremur óþyrmilega eftir gólfinu, en óðara rogaði einn vinnumaðurinn því út að stiganum og komst það þá útí dagsbirtuna. „Nú byrjar lífið aftur,“ hugsaði tréð. Það fann hreina loftið leika um sig og fyrstu sólargeislana skína á sig, og nú var það komið ofan í húsgarðinn. Þetta gerðist svo fljótt, að tréð gleymdi með öllu að líta á sjálft sig; það var svo mikið og margt, sem það sá í kringum sig. Húsgarðurinn lá fast að trjágarði, þar sem allt stóð í mesta blóma; rósirnar héngu svo blómlegar og ilmandi út yfir grindverkin, linditrén blómstruðu og svölurnar voru síflöktandi til og frá og sögðu: „Kví, ví! maðurinn minn er kominn,“ en það var ekki grenitréð, sem þær áttu við. „Nú skal ég njóta lífsins,“ sagði það með fögnuði og breiddi út greinar sínar, en þær voru nú allar visnar og gular; það lá úti í garðshorni innan um illgresi og netlur. Gullpappírs-stjarnan sat enn í toppinum og glitraði í glaða sólskininu. Í garðinum voru tvö börn að leika sér. Þau höfðu verið í barnahópnum káta, sem dansaði kringum tréð á jólunum seinast, og höfðu þá verið svo frá sér numin yfir því. Yngra barnið, dálítill drengur, rauk til og reif af því gullstjörnuna. „Sko, hvað enn er eftir á gamla, ljóta jólatrénu,“ sagði hann, og sparkaði ofan á greinarnar, svo að brakaði í þeim undan stígvélum hans. Og tréð horfði á alla blómprýðina og gróðursældina garðinum; það leit á sjálft sig og óskaði sér nú, að það hefði verið kyrrt í skúmaskotinu uppi á loftinu; það hugsaði um sitt fjöruga æskulíf í skóginum, um aðfangadagskvöldið skemmtilega og litlu mýsnar, sem hlýtt höfðu á söguna af Klumpa-Dumpa með svo mikilli ánægju. „Nú er úti um allt!“ sagði veslings tréð. „Ó, að ég hefði notið gleðinnar meðan ég gat. Það er úti um allt! úti um allt!“ Og vinnumaðurinn kom og hjó tréð í smælki. Þarna lá það og var nú orðið að heilu smáspýtnaknippi. Það logaði svo prýðilega undir ölheitukatlinum stóra, og það tók svo djúp andvörp; hvert andvarp var eins og ofurlítill skotsmellur. Þess vegna hlupu börnin, sem voru að leika sér, settust fyrir framan eldinn, horfðu í hann og kölluðu: „piff, paff.“ En þegar smellirnir urðu, – sem í rauninni voru djúp andvörp, – þá var tréð að hugsa um einhvern sumardaginn í skóginum, einhverja vetrarnóttina þarna út frá, þegar stjörnurnar tindruðu, það var að hugsa um aðfangadagskvöldið góða, og um Klumpa-Dumpa, eina ævintýrið, sem það hafði heyrt og kunni frá að segja – og svo var tréð brunnið til ösku. Drengirnir léku sér í garðinum, og hafði minnsti drengurinn á brjósti sér stjörnuna, sem tréð hafði borið á því sælasta kvöldi ævi sinnar; nú var úti með það, og úti með tréð og söguna, og fer svo með allar sögur. Vatnsdropinn Þú munt víst þekkja stækkunargler, svona kringlótt sjóngler, sem gerir alla hluti hundrað sinnum stærri en þeir eru? Þegar maður tekur það og heldur því fyrir auganu og horfir á vatnsdropa úr tjörninni þarna úti, þá sér maður þúsundmörg undarleg dýr, sem maður sér annars aldrei í vatninu, en þau eru þar, og það er alls engin missýning. Það er líkast til að líta eins og diskur, fullur af marþvörum, sem stökkva hverjir innan um aðra. Þeir eru svo glefsandi og slíta kræklur og lappir, totur og skækla hverjir af öðrum, en eru þó glaðir og ánægðir eftir sínum hætti. Nú var einu sinni gamall karl; almenningur kallaði hann Iða-Skriða, enda var það nafn hans. Hann vildi ætíð hafa það, sem best var úr hverjum hlut, og þegar það vildi ekki heppnast, þá hafði hann það með göldrum. Nú situr hann einn dag og heldur stækkunarglerinu fyrir auganu og rýnir í vatnsdropa; hann var tekinn úr polli, sem stóð úti í skurðinum. En hvað iðaði og skreið í honum, því trúir enginn; öll þessi þúsund smádýr hentu sér og hoppuðu, rifu og toguðu hvert í annað og átu hvert annað. „Já, – en þetta er, sannast að segja, viðbjóðslegt,“ mælti Iði-Skriði gamli. „Getur maður þá ekki fengið dýrin til að lifa í friði og gegna sínu?“ Og hann var að hugsa um þetta, en komst enga leið, og var þá ekki annað fyrir en að galdra. „Ég verð að setja á þau lit, svo þau geti komið greinilega í ljós,“ sagði hann og lét eins og dálítinn dropa af rauðleitu víni í vatnsdropann, – en það var galdrablóð af langfínasta tagi á tvo skildinga, þá urðu öll þessi kynjadýr rósrauð á skrokkinn, – það varð tilsýndar eins og heil borg, sem naktir villimenn bjuggu í. „Hvað hefurðu þarna?“ spurði annar gamall galdrakarl, sem hafði það til síns ágætis, að hann var nafnlaus. „Takist þér að geta í kollinn, hvað það er,“ sagði Iði-Skriði, „þá skal ég láta þig fá það að gjöf, en það er ekki auðgetið, þegar maður veit það ekki.“ Og galdrakarlinn nafnlausi horfði á í gegnum stækkunarglerið. Það var sannarlega eins og heil borg, þar sem allir voru á hlaupum allsberir. Það var hryllilegt, en það var ennþá hryllilegra að sjá, hvernig þeir rysktust og rifust, bitust og toguðu hver í annan. Það, sem neðst var, átti að verða efst, og það, sem efst var, átti að verða neðst. Sko, sko! þarna er einn, sem er fótlengri en ég; svei! fótinn af honum! Þarna er einn með ofurlítinn nabba bak við eyrað, en nabbinn kvelur hann, og þá skal hann kveljast af honum enn meir; og þeir hjuggu í hann og þeir toguðu hann og átu hann vegna nabbans. Einn sat þarna, hægur og stilltur eins og jómfrú, og óskaði einskis annars en að mega vera í friði og ró, en það fékk jómfrúin ekki, það varð að draga hana fram, og þeir toguðu í hana og rifu hana í sig. „Þetta er ódáði skemmtilegt,“ sagði galdrakarlinn. „Já, en hvað heldurðu að það sé?“ mælti Iði-Skriði. „Geturðu ráðið þá gátu?“ „Hún er auðráðin,“ svaraði hinn, „það er Kaupmannahöfn eða einhver önnur stórborg; þær eru allar hver annarri líkar. En stórborg er það.“ „Það er forarvatn,“ sagði Iði-Skriði. Paradísargarðurinn Einu sinni var kóngssonur, sem átti svo mikið af fallegum bókum, að enginn átti jafnmikið. Í þeim gat hann lesið um allt, sem við hefur borið í heimi þessum, eða skemmt sér við að skoða af því ágætafagrar myndir. Um hverja þjóð og hvert land gat hann fengið þar fullan fróðleik, en um það, hvar paradísargarðurinn væri, stóð ekki nokkurt orð, en það var nú einmitt það, sem hann langaði mest til að fræðast um. Amma hans hafði sagt honum, þegar hann var dálítill drengur og átti að fara að ganga í skóla, að hvert blóm í paradísargarðinum væri sætasta kryddkaka, og ljúfasta vínbragð að duftþráðunum. Á einu væri saga og á öðru landafræði eða töflurnar; ekki þyrfti annað en að éta köku, þá kynni maður lexíuna sína. Og því meira, sem maður æti, því meira kynni maður í sagnfræði, landafræði og reikningi. Þessu trúði hann þá, en þegar hann varð stærri, lærði meira og vitkaðist betur, þá skildist honum, að meira mundi um dýrðir í paradísargarðinum en þetta. „Hvað var það þá, sem Evu gekk til þess að éta af skilningstrénu? Hefði ég verið þar, þá hefði það aldrei orðið; þá skyldi syndin ekki hafa komist inn í heiminn.“ Þetta sagði hann þá, og þetta sagði hann enn, er hann var orðinn seytján ára gamall. Hann hugsaði ekki um nokkurn hlut annan en paradísargarðinn. Það var einhvern dag, að hann var aleinn á gangi í skóginum, því það var hans mesta unun, og bar þá svo til, að með kvöldinu tók að þykkna í lofti og gerði hellirigningu, eins og himinninn allur væri orðinn að einni flóðgátt, sem vatnið steyptist niður úr, og varð eins koldimmt og maður stæði um nóttu niðri í dýpsta brunni. Ýmist skriðnuðu kóngssyninum fætur í votu grasinu, eða hann datt um bera steinana, sem stóðu upp úr jarðveginum. Allt flaut í vatni, og ekki var þurr þráður á vesalings kóngssyninum. Hann varð að klifrast yfir stór grjótbjörg, þar sem vatnið seytlaði niður úr mosanum. Hann var í þann veginn að hníga niður af þreytu, en þá heyrði hann undarlegan þyt og sá fram undan sér víðan helli allýstan. Brann í honum miðjum eldur mikill, svo að steikja mátti við heilan hjört, og það stóð líka heima; þar var verið að steikja á teini prýðisvænan hjört með hákvísluðum hornum, og var honum hringsnúið seinlega á milli tveggja nýfelldra grenitrjáa. Kona sat við eldinn, fremur roskinleg, mikil vexti og burðaleg, sem væri hún karlmaður í kvenmannsfötum, og fleygði hún í eldinn hverju skíðinu á fætur öðru. „Komdu nær,“ sagði hún, „sestu við eldinn og láttu þorna á þér vosklæðin.“ „Hér er slæmur súgur,“ sagði kóngssonurinn og settist niður á gólfinu. „Verra verður þó, þegar synir mínir koma heim,“ ansaði konan; „þú ert kominn hér í helli vindanna; synir mínir eru fjórir vindar heimsins. Skilurðu það?“ „Hvar eru synir þínir?“ spurði kóngsson. „Já, það er nú ekki svo auðvelt að svara, þegar heimskulega er spurt,“ sagði konan. „Synir mínir flakka lausu við, þeir eru í knattleik og hafa skýin fyrir leiksoppa þarna uppi í hásalnum,“ og um leið benti hún upp í loftið. „Nú, er það svo!“ sagði kóngssonur. „Þér eruð annars nokkuð hastar í máli og ekki eins þýðar eins og það kvenfólk, sem ég er vanur að sjá í kringum mig.“ „Já, það hefur nú ekki öðru að gegna. Ég verð að vera hörð, ef ég á að geta haldið drengjum mínum í skefjum, en það get ég, þó þeir séu baldnir. Sérðu pokana fjóra, sem hanga þarna á veggnum? Drengirnir hafa eins mikinn beyg af þeim og þú hafðir af sóflinum bak við spegilinn. Ég tek þá í bóndabeygju, skal ég segja þér, og svo sting ég þeim í pokann. Ég hef ekki neinar sveiflur á því; þarna verða þeir að dúsa og komast ekki út til að stroka, fyrr en mér sjálfri þóknast. En þarna kemur nú einn þeirra.“ Það var Norðri, norðanvindurinn, sem inn kom, og fylgdi honum nístingskuldi; stórgerð haglkorn skoppuðu eftir gólfinu, og stóð kafaldsstroka um hann allan. Hann var í bjarnskinnsskóm og bjarnskinnsúlpu og hafði togað selskinnshettu niður fyrir eyru. Langir frostdinglar héngu niður úr skegginu á honum og hvert haglkornið af öðru hrundi niður af úlpukraganum. „Farðu ekki strax að eldinum,“ sagði kóngssonurinn. „Þú gætir hæglega fengið frostbólgu í andlitið og hendurnar.“ „Frostbólgu!“ át Norðri eftir honum. „Frostið er mitt mesta yndi. En hvaða skrapagrind ert þú? Hvernig ert þú kominn í helli vindanna?“ „Hann er gestur minn,“ sagði gamla konan, „þyki þér vansvarað, þá er þér til reiðu að fara í pokann. Skilurðu mig?“ Þetta dugði, og sagði þá Norðri, hvaðan hann kæmi og hvar hann hefði hafst við í nærfellt heilan mánuð. „Ég kem frá heimskautshafinu,“ sagði hann, „ég var við Bjarnarey með rússneskum rostungsveiðimönnum. Ég sat og svaf á stýrinu, þegar þeir lögðu út frá Knöskanesi. Þegar ég smávaknaði á milli, flögraði stormfuglinn um fætur mér; það er kátlegur fugl, hann slær út vængjunum rösklega, heldur þeim svo stríðþöndum og flýgur með ærnum hraða.“ „Vertu nú ekki svona langorður,“ sagði móðir vindanna. „Svo þú komst þá í Bjarnarey?“ „Þar er ljómandi; þar er frægasta dansgólf, slétt eins og skerborð. Þar lá snjórinn hálfþiðnaður, með mosatægjum saman við beinagrindur úr rostungum og hvítabjörnum, líkast jötnahandleggjum eða fótleggjum, og komin grænleit mygla á beinin. Ég blés dálítið á þokuna, til þess að hrófið gæti sést; því hafði verið klöngrað upp úr skipsflökum, og tjaldað um rostungshúðum; holdrosinn sneri út með grænum og rauðum gárum. Ég fór ofan til sjávar og horfði á fuglahreiðrin, horfði á ungana ófiðraða, tístandi og gapandi; þá blés ég niður í öll þau óteljandi kok, og lærðist þeim þá að halda sér saman. Allra neðst byltu sér rostungarnir eins og lifandi vambir eða heljarstórir maðkar með svínshöfðum og álnarlöngum tönnum.“ „Þú segir vel frá, drengur minn!“ sagði móðirin. „Vatnið kemur fram í munninn á mér, þegar ég heyri sögu þína.“ „Nú byrjaði veiðiskapurinn. Skutlinum var hent í brjóst rostungnum, svo að rjúkandi blóðboginn stóð í loft upp yfir ísnum, eins og vatnsstafur upp úr gosbrunni. Þá hugsaði ég, að nú skyldi ég líka leika mínar listir; ég tók að blása og lét knerri mína, klettháa ísjakana, kreppa utan um bátana. Hæ! hæ! mikið hrinu mennirnir, en ég hrein hærra; þeim var nauðugur einn kostur að ryðja dauðum hvalskrokkunum, kistum og köðlum út á ísinn. Ég jós yfir þá kafaldsrokunum og lét þá reka með allan aflann á innikrepptum fleytunum suður eftir og súpa þar saltan mar. Aldrei eiga þeir framar afturkvæmt í Bjarnarey.“ „Þá hefur þú unnið illt verk,“ sagði vindamóðirin. „Frá góðverkum mínum geta aðrir skýrt,“ sagði hann, „en þarna kemur hann bróðir minn úr vestrinu. Hann er mér geðfelldastur þeirra allra, það er sjóseltubragð að honum, og hann færir með sér blessaðan kulda.“ „Er þetta hann Vestri litli?“ mælti kóngssonurinn. „Já, víst er það hann Vestri,“ mælti sú gamla, „en ekki er hann svo lítill. Þeir voru tímarnir, að hann var fallegur drengur, en það er nú af, sem áður var.“ Hann var eins og villimaður ásýndum, en hafði fallhatt á höfði, til þess að hann meiddi sig ekki. Í hendi sér hafði hann rauðviðarkylfu, sem hann hafði höggvið sér í rauðviðarskógunum fyrir vestan haf. Minna mátti ekki gagn gera. „Hvaðan ber þig að?“ sagði móðir hans. „Úr skógarauðnunum,“ svaraði hann, „þaðan, sem þyrnóttu flækijurtirnar girða á milli trjánna, þar sem vatnsormurinn liggur í votu grasinu og mönnunum virðist vera ofaukið.“ „Hvað gerðir þú þar?“ „Ég horfði á hyldjúpt fljótið, sá hvernig það steyptist niður af hamrinum, varð að vatnsúða og þeyttist upp til skýja og hélt þar upp regnboganum. Ég sá villinautið synda í fljótinu, en straumurinn hreif það með sér; það rak forstreymis með flokki villiandanna, sem flugu upp, þar sem vatnið steyptist niður. Villinautið hrapaði ofan fyrir, og þá var mér dillað; því næst hljóp ég á með voðastormi, svo að ævagömul skógartrén rifust upp með rótum, fuku út í fljótið og flísuðust sundur í beljandi straumiðunni.“ „Og annað hefur þér ekki orðið að verki?“ sagði sú gamla. „Ég hef steypt stömpum á gresjunum, ég hef klappað villihestunum og skekið niður kókoshnetur; það veit hamingjan, ég kann frá mörgu að segja; en maður á ekki að segja allt, sem maður veit; þú kannast við það, móðir mín!“ Og þar með kyssti hann móður sína, svo að hún var nærri oltin aftur á bak. Hann var gassalegur, drengurinn, því verður ekki neitað. Nú kom Suðri, sunnanvindurinn, með vefjarhött á höfði, í flakandi Bedúínakápu. „Sér er hver kuldinn hérna inni!“ sagði hann og kastaði viðarbút í eldinn; „það er auðfundið, að norðanvindurinn er kominn hér á undan.“ „Hér er svo heitt, að steikja mætti hvítabjörn,“ sagði Norðri. „Þú ert sjálfur hvítabjörn;“ mælti Suðri. „Langar ykkur til þess að komast í pokana?“ sagði sú gamla. „Sestu nú niður á steininn hérna og segðu okkur, hvar þú hefur verið.“ „Ég var í Afríku, móðir mín!“ sagði hann; „ég var á ljónaveiðum með Hottentottunum í Kaffalandi. Þar er nú heldur en ekki loðið á sléttlendinu, grasið olífugrænt. Þar dansaði gnúinn, og strúturinn þreytti við mig kapphlaup, en ég fór fram úr honum. Ég kom á eyðimörkina á gulu sandana; þar er líkast sem á mararbotni. Ég rakst á ferðamannalest; þeir voru að slátra síðasta úlfaldanum sínum til þess að fá sér vatn að drekka, en fengu nauðalítið. Sólin brenndi að ofan, og sandurinn steikti að neðan. Eyðimörkin var endalaus á alla vegu. Ég velti mér í fínum og lausum sandinum og þyrlaði honum upp í stórstróka, þá gekk eitthvað á. Þú hefðir átt að sjá, hvað úlfaldinn var lúpulegur, þar sem hann stóð. Kaupmaðurinn sveipaði skikkjunni um höfuð sér. Hann fleygði sér niður frammi fyrir mér, eins og ég væri Allah, guðinn hans. Nú eru þeir dysjaðir, og gnæfir sandpýramíði yfir þeim öllum. Þegar þar að kemur, feyki ég honum burt, og þá skal sólin bleikja þeirra hvítu bein, svo að ferðamenn sjái, að þar hafa menn komið. Annars trúa menn því ekki, að svo hafi verið, slík eyðimörk sem þar er.“ „Þú hefur þá ekki gert nema illt eitt,“ sagði móðirin. „Niður með þig í pokann!“ Og óðara en Suðri af vissi, hafði hún þrifið um hann miðjan og dembt honum niður í pokann; botnveltist pokinn þar á gólfinu, en hún settist ofan á hann, og þá varð hann að liggja grafkyrr. „Það eru heldur röskir drengir, sem þér eigið,“ sagði kóngssonurinn. „Svo er víst,“ svaraði hún, „og agað get ég þá piltana. Þarna kemur sú fjórði.“ Það var Austri. Hann var búinn eins og Kínverji. „Nú, þú kemur þá úr þeirri átt?“ sagði móðirin; „ég hélt þú hefðir verið í Paradísar-garði.“ „Þangað flýg ég ekki fyrr en á morgun,“ sagði Austri. „Á morgun verða liðin hundrað ár síðan ég kom þar. Núna kem ég frá Kína, og dansaði ég þar í kringum postulínsturninn, svo að allar klukkurnar hringdu. Niðri á strætinu voru embættismennirnir lúbarðir, bambusprikin voru látin ganga sér til húðar á öxlum þeirra, og þetta voru mannvirðingamenn frá fyrstu röð til níundu. Þeir hljóðuðu og sögðu: „Ástarþakkir, minn föðurlegi velgerðamaður!“ En þar fylgdi ekki hugur máli. Ég hringdi klukkunum og söng: „tsing, tsang, tsú.“ „Mikill er í þér gáskinn,“ sagði sú gamla. „Það er gott, að þú kemur á morgun í paradísar-garðinn; það er þó alténd til þess að þú siðast dálítið betur. Drekktu þá duglega úr viskulindinni og mundu að koma heim með fulla flösku úr henni handa mér.“ „Það skal ég gera,“ sagði Austri; „en því hefurðu látið hann bróður minn að sunnan niður í pokann? Upp með hann! Hann á að segja mér frá fuglinum Fönix. Kóngsdóttirin í aldingarðinum vill ætíð fá fréttir af honum, þegar ég kem þangað hundraðasta hvert ár. Opnaðu pokann, þá ertu væn, elsku móðir mín, og þá skal ég gefa þér tvær vasafyllir af tegrasi, eins grænu og glænýju og það var, þegar ég tíndi það, þar sem það óx.“ „Jæja, fyrst þú færir mér tegras og líka af því að þú ert eftirlætið mitt, þá skal ég opna pokann.“ Hún gerði svo, og skreiddist Suðri upp úr pokanum, en afar-sneypulegur var hann í framan, og kom það af því, að kóngssonurinn ókunni hafði séð, hvernig farið var með hann. „Hana! þarna er pálmaviðarlaufblað handa kóngsdótturinni,“ sagði Suðri. „Laufblaðið gaf mér gamli fuglinn Fönix, sá eini, sem til var í heimi. Hann hefur rist á það með nefinu alla ævisögu sína, um öll þau hundrað ár, sem hann hefur lifað. Nú getur hún lesið það sjálf. Ég horfði á, þegar fuglinn Fönix kveikti í hreiðri sínu og brann það upp eins og Hindúakona. En hvað snarkaði í skraufþurru liminu! Þvílíkur reykur og ilmur! Að lokum stóð allt í björtu báli, gamli fuglinn Fönix varð að ösku, en egg hans lá rauðglóandi í eldinum. Það sprakk með gríðarhvelli, og flaug unginn út úr því; nú er hann konungur allra fuglanna og sá eini fugl Fönix, sem nú er til í veröldinni. Hann hefur höggvið gat á pálmaviðarlaufblaðið, sem ég fékk þér, það er kveðjusending hans til kóngsdótturinnar.“ „Fáum okkur nú dálítið að borða,“ sagði vindamóðirin, og settust þau þá öll og tóku að snæða af steikta hirtinum; sat kóngssonurinn hjá Austra, og féll skjótt vel á með þeim. „Heyrðu, segðu mér nokkuð,“ mælti kóngssonurinn, „hvaða kóngsdóttir er það, sem hér er svo tíðrætt um, og hvar er paradísargarðurinn?“ „Hó, hó!“ sagði Austri, „viljirðu komast þangað, þá fljúgðu með mér á morgun, en það verð ég annars að segja þér, að allt frá Adams og Evu dögum hefur enginn lifandi maður þangað komið. Við Adam og Evu muntu víst kannast af biblíusögunum?“ „Já, víst geri ég það,“ sagði kóngssonurinn. „Þegar þau voru út rekin, sökk paradísargarðurinn í jörð niður, en hann hélt samt sínu hlýja sólskini, sínu gæðaloftslagi og allri sinni dýrð. Álfkvennadrottningin á þar heima; þar er Sæluey, sem dauðinn stígur aldrei fæti á, og indælt er þar að vera. Sestu á bak mér í fyrramálið, og skal ég hafa þig með mér. Ég er að hugsa um, að það takist, en ná máttu ekki tala meira, því ég ætla að sofna.“ Og nú sváfu þau öll saman. Snemma morguns vaknaði kóngssonur og brá þá heldur en ekki í brún, því hann var kominn hátt upp yfir skýin. Hann sat á baki Austra, sem hélt honum traustatökum. Svo hátt voru þeir komnir upp, að merkur og skógar og fljót og stöðuvötn, það var allt tilsýndar eins og stór litsettur landsuppdráttur. „Góðan daginn!“ sagði Austri. „Þér væri annars óhætt að sofa dálítið enn, því ekki er mikið að sjá á flatneskjunni fyrir neðan okkur, nema ef svo væri, að þig langaði til að telja kirkjurnar, því þær standa eins og krítardeplar á græna borðinu.“ Það voru merkur og engi, sem hann kallaði græna borðið. „Það var ókurteisi, að mér láðist að kveðja móður þína og bræður,“ sagði kóngssonurinn. „Þegar maður sefur, er maður löglega afsakaður,“ sagði Austri, og flugu þeir nú æ harðara og harðara áleiðis. Það mátti heyra það frá trjátoppunum í skógunum, því þegar þeir flugu yfir, varð þytur mikill í greinum og laufi, eins mátti heyra það frá hafinu og stöðuvötnunum, því hvarvetna, sem þá bar yfir, risu bylgjurnar hærra, og stórskipin hneigðu sig djúpt niður í sjóinn eins og svanir á sundi. Þegar kvölda tók og dimmdi yfir, var skrýtilegt að sjá stóru borgirnar; þá sáust ljósin ýmist hér og ýmist þar, það var líkast eins og þegar maður hefur brennt pappírsblaði og allir litlu eldneistarnir hverfa hver af öðrum. Og kóngssonurinn klappaði saman lófunum, en Austri beiddi hann að vera ekki að því, en halda sem fastast, því ella kynni hann auðveldlega að hrapa og hanga svo fastur á einhverri kirkjuturnsspírunni. Örninn í koldimmu skógunum er léttfleygur að vísu, en léttfleygari var Austri. Kósakkinn á litla hestinum sínum ríður í loftinu yfir völluna, en hvað var það hjá þeysireið kóngssonarins? „Þarna geturðu séð Himalaya,“ sagði Austri, „það er hæsta fjallið í Asíu. Nú erum við bráðum komnir að paradísar-garðinum.“ Sveigðu þeir þá betur suður á við, og kenndi brátt ilms af kryddjurtum og blómum; voru þar sjálfsánar fíkjur og granatepli, og villivínviðurinn var hlaðinn bláum og rauðum vínberjum. Þar fóru þeir báðir ofan og réttu úr sér í mjúku grasinu, og blómin kinkuðu kolli móti vindinum, eins og þau segðu: „Ver heill aftur kominn!“ „Erum við nú komnir í paradísargarðinn?“ mælti kóngssonurinn. „Nei, nei! ekki enn,“ sagði Austri, „en nú erum við þar bráðum. Sérðu hamrabergið þarna og stóra hellinn, þar sem vínteinungarnir hanga eins og stór, græn gluggatjöld. Þar eigum við að fara inn. Sveipaðu að þér skikkjunni; hérna er steikjandi sólarhiti, en einu feti framar er nístingskuldi. Fuglinn, sem flöktir fram hjá hellinum, er með annan vænginn hérna úti í brennandi sumarhita, en með hinn þarna inni í nístings vetrarkulda.“ „Svo þetta er þá vegurinn til paradísargarðsins?“ sagði kóngssonurinn. Nú fóru þeir inn í hellinn; þvílík nepja! En það stóð ekki lengi. Austri breiddi út vængi sína, og lýsti af þeim sem skærasta eldi; en hvernig var hellirinn? Þar seytlaði vatnið niður af stórbjörgum, sem héngu yfir höfði þeim í fáránlegustu myndum; ýmist var svo þröngt, að þeir urðu að skríða á fjórum fótum, ýmist svo hátt og vítt um sig eins og undir beru lofti. Það var líkast heljar-grafkapellu með steingerðum orgelum og steinþöglum pípum. „Við göngum víst á helvegi til paradísargarðsins,“ sagði kóngssonurinn, en Austri svaraði engu orði og benti fram fyrir sig. Skein þá í móti þeim bláleitur bjarmi, ljómandi fagur. Grjótbjörgin uppi yfir þeim hverfðust hvað af hverju í þoku, og varð hún björt að lokum, eins og hvítt ský í tunglskini. Og nú lék um þá ljúfasti loftblær, hreinn og hressandi sem á fjöllum uppi og angandi eins og þar, sem rósir gróa í dölum niðri. Á ein rann þar, og var hún fagurtær sem himinloftið sjálft, og fiskarnir voru skínandi sem gull og silfur; léku þar niðri í vatninu purpurarauðir álar, og sindruðu af þeim eldneistar í hvert sinn, er þeir hreyfðu sig. Vatnsrósablöðin ljómuðu af litaskrauti regnbogans, og blómið sjálft var rauðgulur, brennandi logi, sem nærðist af vatninu, eins og lampaljós af olíu. Marmarabrú var á ánni, stæðileg og stöðug, en svo haglega gerð og fínt úthöggin sem hún væri úr knipplingum og glertölum; lá brú þessi yfir á Sæluey, þar sem paradísargarðurinn var í öllum sínum blóma. Austri tók kóngssoninn í fang sér og bar hann yfir um. Þar sungu blóm og blöð hina fegurstu söngva frá barnæsku hans og sungu þá svo ununarlega snjallt og fagurt, að engin rödd hér á jörðu getur sungið jafnfagurt. Voru það pálmaviðir eða risavaxnar vatnsplöntur, sem greru hér? Svo safamikil og stórvaxin tré hafði kóngssonurinn aldrei séð á ævi sinni. Þar héngu og hinar undarlegustu vafningsjurtir í löngum sveigum, líkast þeim, sem myndaðar sjást með litum utanmáls í gömlum helgramannasögum eða eru flúraðar í þeim kring um upphafsstafina. Í grasinu rétt hjá stóð hópur páfugla, og breiddu þeir út ljómandi stélin; jú, jú! það var nú rétt svo sem, því þegar kóngssonurinn tók á þeim, þá fann hann, að það voru ekki fuglar, heldur plöntur; það voru njólablöðkurnar stórvöxnu, sem ljómuðu hér með sömu litprýðinni sem hið fagra stél páfuglsins. Ljón og tígrisdýr stukku eins og liðamjúkir kettir á milli limgerðanna, sem ilmuðu eins og olíutrjáablómstur, og ljónin og tígrisdýrin voru gæf og spök; villi-skógdúfan klappaði ljóninu á makkann með vængjum sínum, og antilópan, sem annars er svo stygg, stóð spakleg og kinkaði kolli, eins og hún vildi líka vera með í leiknum. Nú kom paradísarálfkonan. Klæði hennar voru skínandi eins og sólin, og hún var blíðleg í yfirbragði, eins og ánægð móðir, þegar hún gleðst mest yfir barni sínu. Hún var svo ung og svo fríð, og fylgdu henni fríðar þjónustumeyjar, sem allar báru skínandi stjörnu til skrauts í hári sínu. Austri fékk henni skrifaða blaðið frá fuglinum Fönix, og tindruðu þá augu hennar af fögnuði. Tók hún kóngssoninn við hönd sér og leiddi hann inn í höll sína. Var liturinn á hallarveggnum líkur túlípanablaði, þegar því er haldið upp við sólina. Hallarloftið sjálft var stóreflis geislandi blóm, og því lengur sem horft var upp í það, því dýpri sýndist blómbikarinn. Kóngssonurinn gekk út að glugganum og horfði í gegnum eina rúðuna. Sá hann þá skilningstréð með höggorminum, og stóðu þau Adam og Eva þar hjá. „Eru þau ekki rekin burt héðan?“ sagði hann. Þá brosti álfkonan og útskýrði fyrir honum, að í hverja rúðu hefði tíminn brennt mynd sína, en ekki eins og myndir gerðust almennt, heldur þannig, að lifandi væri; laufin á trjánum hreyfðust, og mennirnir komu og fóru, alveg eins og í spegilmynd. Og hann horfði í gegnum aðra rúðu, og var á henni draumur Jakobs; stiginn náði þar beint upp í himininn, og englar með stórum vængjum gengu upp og ofan eftir honum. Já, allt, sem við hefur borið í heimi þessum, lifði og hrærðist í glerrúðunum. Það var tíminn einn, sem gat brennt svo listilegar myndir í glerið. Álfkonan leiddi hann brosandi inn í sal nokkurn mikinn og háan. Veggir hans sýndust vera gagnsæ málverk, og var hvert öðru fegra; það voru þúsundir þúsunda af sælum verum, sem brostu og sungu, svo að allt rann saman í eitt sönglag; hinar efstu voru svo litlar, að þær sýndust minni en minnsti rósknappur, þegar hann er dreginn upp á blaði depilsmár. Og í miðjum salnum stóð tré eitt mikið með gróðursælum, slútandi greinum, og héngu gullfögur epli, stór og smá, eins og appelsínur, innan um grænt laufið. Það var skilningstréð með ávöxtunum, sem Adam og Eva höfðu etið af. Af hverju blaði draup niður skínandi rauður daggardropi; það var eins og tréð gréti blóðugum tárum. „Förum nú út í bátinn,“ sagði álfkonan, „og fáum okkur hressingu úti á ylgjandi vatninu. Báturinn ruggar, og hreyfist þó ekki úr stað, en öll heimsins lönd líða fram hjá fyrir augum okkar.“ Og það var undarleg sjón að sjá, hvernig kvik kom á alla ströndina. Þar birtust há og snæþakin Alpafjöllin, með skýjabólstrum og dökkum greniskógi; Alpahornið ómaði svo djúpróma og augurblítt, og hjarðmaðurinn „jóðlaði“ svo fagurlega niðri í dalnum. Þar næst beygðu bananatrén hinar löngu og slútandi greinar sínar yfir bátinn; svartar álftir syntu á vatninu, og undarlegustu dýr og blómstur sáust á ströndinni. Það var Nýja Holland, fimmta heimsálfan, sem nú leið hjá með bláum fjöllum. Gat þar að heyra söng blótprestanna og að horfa á villimennina, er þeir dönsuðu eftir trumbnahljómi og beinpípnablæstri. Hinir skýháu pýramíðar Egyptalands, kollhrundar súlur og Svinxmyndir, sem hálfar voru sandi orpnar, sáust líða fram hjá. Norðurljósin bröguðu yfir jöklum norðurheimsins, það var flugeldagerð, sem enginn gat leikið eftir. Kóngssonurinn var frá sér numinn af unun, og var ekki furða, því nú sá hann hundrað sinnum meira en hér verður frá sagt. „Og fæ ég nú að vera hér alla ævi?“ sagði hann. „Það er undir sjálfum þér komið,“ ansaði álfkonan. „Ef þú lætur ekki, eins og Adam fyrrum, freistast til að gera það, sem bannað er, þá máttu vera hér um aldur og ævi.“ „Ekki skal ég snerta eplin á skilningstrénu,“ sagði hann, „hér eru ótal ávextir, allt eins fagrir og þau eru.“ „Reyndu og prófaðu sjálfan þig, og kennirðu þig ekki nógu fastan fyrir, þá farðu með austanvindinum, sem kom með þig. Hann flýgur nú til baka og kemur hér ekki í hundrað ár; sá tími mun þér ekki finnast lengri á þessum stað en hundrað stundir, en það er langur tími fyrir freistnina og syndina. Á hverju kvöldi, er ég geng frá þér, verð ég að kalla til þín: „Komdu með mér.“ Ég verð að benda þér með hendinni, en vertu kyrr og fylgdu mér hvergi. Farðu ekki með mér, því þá mun ílöngun þín fara vaxandi með hverju spori, sem þú stígur áfram; þú kemur í salinn þar sem skilningstréð er; ég sef undir hinum ilmandi, slútandi greinum þess. Þú munt beygja þig ofan að mér, og ég verð að brosa, en þrýstir þú kossi á varir mínar, þá mun paradís sökkva í jörð niður, og mun hún þá vera þér með öllu töpuð. Kuldagjóstur eyðimerkurinnar mun þjóta um þig og kraparegnið renna niður af hári þínu. Hryggð og armæða mun verða þitt hlutskipti.“ „Ég verð hér kyrr,“ mælti kóngssonurinn, og Austri kyssti hann á ennið og sagði: „Vertu nú sterkur fyrir, þá munum við sjást hér að hundrað árum liðnum. Vertu sæll!“ – og Austri þandi út stóru vængina sína, og skinu þeir eins og leiftur á haustdegi eða norðurljós um hávetur. „Vertu sæll, vertu sæll!“ ómaði frá blómum og trjám. Storkar og pelíkanar flugu með í langri röð eins og flögrandi band og fylgdu honum alla leið út að takmörkum aldingarðsins. „Nú byrja dansleikirnir okkar,“ sagði álfkonan, „en þegar að því er komið, að hætt verður, og ég dansa við þig, þá muntu sjá, í sama bili og sólin rennur, að ég bendi þér; þú munt heyra, að ég kalla til þín: „Komdu með mér!“ en gerðu það ekki. Í hundrað ár verð ég að ítreka þetta á hverju kvöldi. Í hvert sinn, sem sá tími er liðinn, mun þér aukast þrek, og að síðustu muntu aldrei láta þér það í hug koma. Í kvöld er þetta í fyrsta sinn, og hef ég nú varað þig við.“ Og álfkonan leiddi hann inn í stóran sal, sem allur var úr hvítum gagnsæjum liljum. Ofurlítil gullharpa var í hverri lilju og ómaði með strengjahljómi og flaututónum. Fríðustu stúlkur stigu þar dansinn, svifléttar og fagurvaxnar, klæddar bylgjandi netvefjarhjúpum, svo að sjá mátti þar í gegnum hið yndisfagra limalag þeirra, og sungu þær um það, hve dýrðlegt væri þar að lifa, að þær mundu aldrei deyja og paradísargarðurinn um eilífð standa í blóma. Og sólin rann, og allur himinninn glóði sem gull og brá bjarma yfir liljurnar, svo að þær urðu sem fegurstu rósir, og kóngssonurinn drakk af freyðandi víni, sem stúlkurnar báru honum, og svo mikinn sæluunað fann hann streyma um sig allan, að aldrei hafði hann áður fundið slíkan. Hann sá salargaflinn opnast og skilningstréð standa þar í svo miklum blóma, að glýju gerði fyrir augum hans. Söngurinn, sem þaðan ómaði, var þýður og indæll eins og rödd móður hans, og var sem hún syngi: „Komdu barnið mitt! komdu, elsku barnið mitt!“ Þá benti álfkonan honum og kallaði svo ástúðlega: „Komdu með mér! komdu með mér!“ Og hann skundaði til hennar og gleymdi heiti sínu, gleymdi því nú þegar fyrsta kvöldið. Ilmurinn kryddsæti allt umhverfis varð æ megnari og megnari, hörpurnar hljómuðu miklu fegur en áður, og það var eins og þessi ótal höfuð í salnum, þar sem tréð var inni, það var eins og þau kinkuðu kolli brosandi og syngju: „Allt ber manni að þekkja, maðurinn er herra jarðarinnar.“ Og það voru ekki framar blóðug tár, sem hrundu af blöðunum á skilningstrénu, honum sýndust það vera rauðleitar, blikandi stjörnur. „Komdu með mér! komdu með mér!“ ómaði í eyrum hans með titrandi tónum, og við hvert fótmál hitnuðu kinnar hans og blóðið æstist í æðum hans. „Ég má það,“ sagði hann, „það er engin synd, getur ekki verið nein synd. Því skyldi ég ekki mega fylgja fegurðinni og gleðinni? Ég vil sjá hana sofandi; það er ekkert í hættunni, ef ég aðeins kyssi hana ekki, og það geri ég ekki, ég er óbilugur, ég hef sterkan vilja.“ Og álfkonan varpaði af sér hinum skínandi klæðum sínum og ýtti greinunum til hliðar, og óðara var hún horfin þangað inn og faldist þar. „Ekki hef ég syndgað ennþá,“ sagði kóngssonur, „og ekki mun ég heldur gera það síðar,“ og um leið mjakaði hann greinunum til hliðar. Þarna lá hún og var svo fríð og yndisleg, sem engin er önnur nema álfkonan í paradís. Hún brosti í draumi, og hann laut ofan að henni og sá tárin titrandi milli bránna. „Græturðu yfir mér?“ hvíslaði hann. „Gráttu ekki, yndisfagra kona! Nú skil ég fyrst sælu paradísar. Hún streymir um æðar mínar, streymir gegnum huga minn. Ég finn þrótt kerúbsins og hið eilífa lífið í mínum jarðneska líkama. Nú má koma yfir mig eilíf nótt; ein mínúta sem þessi er mér nógur auður.“ Og í því kyssti hann tárið af auga hennar, og varir hans snertu varir hennar. Þá dunaði skrugga svo dimmt og ógurlega, að slíkt hafði aldrei heyrst fyrr, og allt hrundi saman: paradísin sökk með öllum sínum blóma, hún sökk svo djúpt, svo djúpt. Kóngssonurinn sá hana sökkva niður í svartnætti; hún geislaði langt í burtu, eins og dálítil skínandi stjarna. Helkuldi fór um limi hans, hann lét aftur augun og lá lengi sem dauður væri. Kalsarigning dundi niður í andlit hans, og nöpur vindgola næddi um höfuð hans. Þá rankaði hann við sér. „Hvað hef ég gert?“ sagði hann og andvarpaði. „Ég hef syndgað eins og Adam; já, syndgað, svo að paradís er sokkin þarna niður.“ Og hann lauk upp augum sínum; stjarnan þarna langt í burtu, stjarnan, sem blikaði eins og paradísin horfna, – það var morgunstjarnan á himninum. Hann reis upp og sá nú, að hann var í skóginum mikla nálægt vindahellinum, og sat vindamóðirin hjá honum. Hún var reiðileg og lyfti upp hendinni. „Undir eins fyrsta kvöldið!“ sagði hún; „þetta grunaði mig alténd. Já, ætti ég þig, drengur minn, þá skyldirðu fara í pokann.“ „Já, í pokann skal hann fara,“ sagði Dauðinn. Það var sterklegur maður, aldraður, með ljá í hendi og stóra svarta vængi á öxlum. „Hann skal lagður í líkkistu, en ekki núna. Ég læt að svo stöddu nægja að merkja hann; lofum honum svo að flakka í heiminum um stund, sjá að sér og verða betri maður; – ég kem einhvern tíma. Þegar hann þá minnst varir, sting ég honum í líkkistuna svörtu, set hana upp á höfuð mér og flýg upp til stjörnunnar. Þar er líka paradís í blóma, og sé hann góður og guðhræddur, þá skal hann fá að fara þar inn, en séu hugrenningar hans illar og hjartað ennþá fullt af synd, þá sekkur hann með kistunni enn dýpra en paradís sökk, og aðeins þúsundasta hvert ár sæki ég hann þá aftur, til þess að hann sökkvi enn dýpra eða öðlist samastað í stjörnunni, – í blikskæru stjörnunni þar efra.“ Næturgalinn Það muntu vita, að í Kína er keisarinn Kínverji og þeir allir Kínverjar, sem hann hefur í kringum sig. Mörg ár eru liðin, síðan þetta var, en einmitt þess vegna er gott að heyra söguna, áður en hún gleymist. Höllin keisarans var glæsilegust höll í heimi; hún var öll af fínu postulíni, sem var svo dýrt og brothætt, að það varð að gæta mestu varkárni, hvað lítið sem við það var komið. Í aldingarði keisarans mátti sjá undarlegustu blóm, og við hin allra skrautlegustu voru bundnar silfurbjöllur, til þess að þeir, sem fram hjá gengju, mættu til að taka eftir blómunum. Já, allt í garði keisarans var merkilegt og með listum gert, og svo langt náði hann, að enda sjálfur garðyrkjumaðurinn vissi ekki, hvar hann tæki enda, en héldi maður þar áfram göngu sinni, þá kom maður í fegursta skóg með hávöxnum trjám og djúpum tjörnum. Skógurinn náði alla leið ofan að bláu hafinu, og var þar aðdjúpt, svo að stór skip gátu siglt inn undir greinarnar, en í þeim átti heima næturgali einn, sem söng svo unaðslega fagurt, að enda fiskimennirnir fátæku, sem höfðu þó svo miklu öðru að gegna, létu staðar numið til að hlusta, þegar þeir voru úti á sjónum um nætur til að draga upp net sín. Og þegar þeir hlýddu á næturgalann, þá sögðu þeir: „Ó, hvað þetta er fallegt!“ en urðu þá að sinna verki sínu og gleymdu fuglinum. En þegar fuglinn söng aftur næstu nótt og þeir komu þangað, þá sögðu þeir aftur: „Ó, hvað þetta er fallegt!“ Frá öllum heimsins löndum komu ferðamenn til keisaraborgarinnar og dáðust að borginni, höllinni og lystigarðinum, en þegar þeir heyrðu til næturgalans, þá luku allir upp einum munni og sögðu: „Hann er þó bestur af því öllu.“ Og ferðamennirnir sögðu frá því, þegar þeir komu heim, og lærðu mennirnir sömdu margar bækur um borgina, höllina og lystigarðinn, en ekki gleymdu þeir næturgalanum. Hann settu þeir efstan, og þeir, sem skáldmæltir voru, ortu fegurstu kvæði, sem öll voru um næturgalann í skóginum við hinn djúpa sæ. Bækur þessar bárust um heim allan, og sumar þeirra komu að endingu til keisarans. Hann sat á gullstólnum sínum og las og las; kinkaði kolli alltaf öðru hverju, því honum var ánægja að hinum dýrðlegu lýsingum á borginni, höllinni og garðinum. „En næturgalinn var þó það langbesta,“ stóð þar skrifað. „Hvað er þetta?“ sagði keisarinn. „Næturgalinn! – ekki þekki ég hann. Er slíkur fugl hér í keisararíki mínu? Það hef ég aldrei heyrt; um þess konar verður maður fyrst að fræðast af bókum.“ Hann kallaði þá á einn af hirðgæðingum sínum. Hann var svo mikill stórbokki, að ef einhver dirfðist að ávarpa hann, sem var minni háttar en hann sjálfur, þá sagði hann ekki annað en Pé! og það þýðir ekki neitt. „Hér kvað vera einstaklega merkilegur fugl, sem næturgali nefnist,“ mælti keisarinn; „menn segja, að hann sé það langbesta í mínu stóra ríki. Því hafa menn aldrei sagt mér neitt um hann?“ „Ég hef aldrei áður heyrt hann nefndan á nafn,“ svaraði gæðingurinn; „hann hefur aldrei verið sýndur hér innan hirðar.“ „Ég vil, að hann komi hér í kvöld og syngi fyrir mig,“ sagði keisarinn. „Þarna veit allur heimur, hvað ég á, og ég veit það ekki sjálfur.“ „Ég hef aldrei áður heyrt hann nefndan á nafn,“ sagði gæðingurinn, „ég skal leita að honum, ég skal finna hann.“ En hvar mundi hann vera að finna? Hirðgæðingurinn hljóp upp og ofan allar tröppur, um hallarsali og hallargöng, en enginn, sem hann hitti, hafði heyrt næturgalans getið, og hljóp þá gæðingurinn aftur til keisarans og sagði, að þetta hlyti að vera skröksaga, sem bókahöfundar hefðu búið til. „Yðar keisaralega hátign ætti ekki að leggja trúnað á það, sem skráð er í bókum. Það eru uppáfinningar og fítonsandalist, sem svo er kölluð.“ „En bókin, sem ég hef lesið það í,“ sagði keisarinn, „hefur verið mér send af hinum stórvolduga Japanskeisara, og þá getur það ekki verið ósatt. Ég vil hlýða á næturgalann. Hann verður hér að vera í kvöld; hann nýtur minnar æðstu náðar, og komi hann ekki, þá skal öll mín hirðdrótt lamin á magann að loknum kvöldverði.“ „Tsingpe!“ sagði hirðgæðingurinn og hljóp aftur upp og ofan allar tröppurnar, um hallarsali og hallargöng, og hálf hirðin hljóp með, því hirðarherrunum var ekki mikið um það gefið, að þeir yrðu barðir á magann. Og nú gekk ekki á öðru en eftirspurnum um næturgalann, sem allir þekktu aðrir, en enginn við hirðina. Loksins hittu þeir dálitla fátæka telpu í matreiðsluhúsinu. „Mikil ósköp!“ sagði hún, „næturgalann, jú, ég þekki hann vel. Sá getur nú sungið. Mér hefur verið leyft að fara á hverju kvöldi með dálítið af matleifum frá borðinu til veslingsins hennar móður minnar, sem er veik; hún býr niðri við sjóinn. Þegar ég er svo á heimleið og verð þreytt og hvíli mig í skóginum, þá heyri ég næturgalann syngja; mér vöknar um augu af því, það er eins og hún móðir mín væri að kyssa mig.“ „Heyrðu, eldastúlka litla!“ sagði gæðingurinn, „ég skal útvega þér fasta stöðu í matreiðsluhúsinu og leyfi til að sjá keisarann borða, ef þú getur fylgt okkur til næturgalans, því hann er kvaddur til hirðarinnar nú í kvöld.“ Og nú lagði allur hópurinn af stað út í skóginn, þar sem næturgalinn var vanur að syngja; hálf hirðin var með í þeirri för. Þegar kippkorn var komið áleiðis, fór kýr nokkur að baula. „O!“ sögðu hirðmennirnir, „þarna höfum við hann; það er merkilega mikil orka í svona litlu dýri. Mér bregst ekki, að ég hef heyrt til hans einhvern tíma áður.“ „Nei! Það eru kýrnar, sem eru að baula,“ sagði litla eldastúlkan, „við erum ekki nærri komin á staðinn enn.“ Nú tóku froskar nokkrir að kvaka í tjarnarpolli. „Indælt!“ sagði hallarpresturinn kínverski, „nú heyri ég til hans, það hljómar eins og litlar kirkjuklukkur“” „Nei! Það eru froskarnir,“ sagði litla eldastúlkan. „En nú geri ég ráð fyrir, að við heyrum til hans bráðum.“ Nú tók næturgalinn að syngja. „Þetta er hann,“ sagði litla stúlkan, „heyrið þið! heyrið þið! Og þarna situr hann.“ Og um leið benti hún á ofurlítinn gráan fugl uppi í liminu. „Getur það verið?“ sagði hirðgæðingurinn. „Ekki hafði ég hugsað mér hann svona! En hvað hann er lítilfjörlegur í sjón! Hann hefur víst skipt litum við það að sjá svo marga tigna menn í kringum sig.“ „Næturgali litli!“ kallaði eldastúlkan litla upphátt, „okkar náðugi keisari vill gjarnan, að þú syngir fyrir hann.“ „Með mestu ánægju,“ sagði næturgalinn og söng, svo unun var á að hlýða. „Það er eins og glerklukkur,“ sagði hirðgæðingurinn, „sko barkann litla, hvað hann rembist; það er merkilegt, að við skulum aldrei hafa heyrt til hans áður. Hann mun verða á höndum borinn við hirðina.“ „Á ég að syngja einu sinni enn fyrir keisarann?“ sagði næturgalinn. Hann hélt, að keisarinn væri sjálfur með þarna í hópnum. „Minn ágæti litli næturgali!“ sagði hirðgæðinguruinn, „mér hefur veist sú mikla gleði að bjóða yður í hirðveislu í kvöld. Munuð þér þar heilla hans keisaralegu náð með töfrandi sönglist yðar.“ „Hún er áheyrilegust í grænum skóginum,“ sagði næturgalinn, en fylgdist samt fúslega með, er hann heyrði, að keisarinn óskaði þess. Í höllinni hafði verið prýðilega fyrir búið. Veggirnir og gólfið, sem allt var úr postulíni, ljómaði við logbirtu af þúsundum gulllampa, fegurstu blómum, þeim, er snjallast kunnu að klingja, var raðað í gangana. Var þar umferð mikil og dragsúgur, en einmitt við það klingdu líka allar bjöllurnar, svo ekki heyrðist mannsins mál. Í miðjum stóra salnum, þar sem keisarinn sat, var reistur upp gullteinn, og á honum átti næturgalinn að sitja. Öll hirðin var þar saman komin, og eldastúlkunni litlu hafði verið leyft að standa að hurðarbaki, því nú hafði hún fengið nafnbót og var orðin fastráðin eldastúlka. Allt hirðfólkið var þar í sínum skrautlegasta búningi, og öllum varð starsýnt á litla fuglinn gráa, enda var keisarinn alltaf að kinka kolli til hans. Og næturgalinn söng svo fagurt, að keisaranum vöknaði um augu; tárin hrundu niður eftir kinnum hans, og þá söng næturgalinn enn fegur. Það var söngur, sem gekk til hjartans. Og keisarinn varð svo glaður, að hann sagði, að næturgalinn skyldi fá gulltöpluna sína til að bera um háls sér. En næturgalinn þakkaði fyrir, honum var þegar að fullu launað. „Ég hef séð tár í augum keisarans, það er mér dýrmætara en gull og gersemar. Keisaratár hafa undarlega mikið vald. Það veit guð, að mér er nógsamlega launað.“ – Söng hann ennþá aftur með sinni sætu, unaðslegu rödd. „Þetta er það elskulegasta hljóðadill, sem ég þekki,“ sögðu hefðarkvendin allt í kring og létu svo vatn í munn sér til þess að verða klak-róma, þegar einhver yrti á þær. Þær héldu líka, að þá væru þær næturgalar. Enda þjónarnir og herbergismeyjarnar létu skila frá sér, að þau væru vel ánægð, og má það mikið kalla, því langerfiðast er að gera þeim til hæfis. Já, það má með sanni segja, að næturgalinn komst í gengið. Nú átti hann að vera innan hirðar, fá sérstakt búr og svo mikið frelsi, að hann mátti ganga út tvisvar á daginn og einu sinni á nóttunni. Honum voru fengnir tólf þjónar, og höfðu allir silkiþráð um fót honum, og héldu þeir í þræðina vel og fastlega. Svo löguð ganga var engin skemmtiganga. Í allri borginni varð mönnum tíðrætt um þennan merkilega fugl, og þegar tveir mættust, sagði annar ekki annað en: „Nætur-”, en hinn sagði „gali”, og stundu þeir þá við og skildi hvor annan. Ellefu fleskmangarabörn voru látin heita í höfuðið á næturgalanum, en ekki var þó rómur skapaður í barka neins þeirra. Einn dag var komið með stóran pakka til keisarans, og stóð skrifað utan á honum: „Næturgali“. „Þarna er þá komin ný bók um fuglinn okkar fræga,“ sagði keisarinn. En það var ekki bók, heldur var það smíðisgripur, mesta hagvirki, falinn í öskjum. Það var smíðaður næturgali, sem líkjast átti hinum lifandi, en hann var alsettur demöntum, rúbínum og safírum. Óðara en gervifugl þessi var dreginn upp, gat hann sungið eitthvert af lögum þeim, er hinn náttúrlegi söng, og gekk þá stélið upp og niður og glitraði af gulli og silfri. Um hálsinn á fuglinum hékk band, og voru letruð á það þessi orð: „Næturgali Japanskeisara er fátæklegur í samanburði við næturgala keisarans í Kína.“ „Það er ágætt,“ sögðu allir, og sá, sem hafði komið með gervifuglinn, varð jafnharðan „yfirnæturgalaberi“ að nafnbót. „Nú verða þeir að syngja saman; það verður tvísöngur í lagi,“ sögðu menn. Og þeir voru látnir syngja saman, en það gekk ekki sem best, því náttúrlegi næturgalinn söng á sína vísu, en hinn lék á völtum. „Það er ekki honum að kenna,“ sagði tónmeistarinn, „hann er einstaklega taktviss og útlærður úr mínum skóla.“ Var svo gervifuglinn látinn syngja einn. Rómuðu menn hans söng engu síður en náttúrlega fuglsins, og bættist þar við, að hann var svo miklu prýðilegri álits; hann glitraði allur eins og armbönd og brjóstnálar. Þrjátíu og þrisvar sinnum söng hann eitt og sama lagið og varð samt ekki þreyttur. Mundu menn og gjarnan hafa heyrt hann syngja upp aftur frá byrjun, en keisarinn vildi, að nú syngi lifandi næturgalinn líka dálítið, – – en hvar var hann? Enginn hafði veitt því eftirtekt, að hann hafði flogið út um opinn gluggann og haft sig þaðan burt til grænu skóganna sinna. „En hvernig stendur á þessu?“ sagði keisarinn, og hirðfólkið var uppi með illyrði og lauk því orði á, að næturgalinn væri fram úr hófi óþakklátur fugl. „Jæja, betri fuglinn höfum við samt,“ sögðu menn, og varð svo gervifuglinn að syngja aftur, og var það í þrítugasta og fjórða sinn, sem þeir fengu að heyra sama lagið, en lagið kunnu þeir ekki enn til fulls, því það var svo erfitt, og lofaði tónmeistarinn fuglinn á hvert reipi og fullvissaði um, að hann væri betri en náttúrlegi næturgalinn, ekki einungis að klæðnaðinum til og demantaskrautinu, heldur og að innri gerð. „Því sjáið nú, þér hágöfugu tignarmenni, og æðstur allra keisarinn: Hjá náttúrlega næturgalanum verður aldrei reiknað út, hvað koma muni, en hjá gervifuglinum er allt niðurskorðað; svona verður það og ekki öðruvísi. Maður getur gert grein fyrir því, maður getur tekið hann í sundur og sýnt hina mannlegu hugvitssemi, hvernig valtararnir liggja, hvernig þeir leika, og hvernig eitt leiðir af öðru –.“ „Það er einmitt það, sem ég hugsaði mér,“ sögðu þeir, sem við voru, hver um sig, og var tónmeistaranum leyft að sýna almenningi fuglinn sunnudaginn á eftir. Keisarinn sagði, að alþýðufólk yrði líka að heyra hann syngja, og það hlýddi á hann, og urðu menn svo unaðfangnir, eins og þeir hefðu drukkið sig góðglaða, – í tevatni, auðvitað, því það er nú svo alveg upp á kínversku. Og allir sögðu: „Ó!“ – réttu upp sleikifingurinn og kinkuðu kolli. En einum af fátæku fiskimönnunum, sem heyrt höfðu rétta næturgalann syngja, varð þetta að orði: „Það er dáfallegt að heyra, og það líkist, en eitthvað vantar samt, sem ég veit ekki hvað er.“ Náttúrlegi næturgalinn var nú gerður útlægur úr ríki keisarans. Gervifuglinn var látinn sitja á silkikodda fast við hvílu keisarans. Allar gjafirnar, sem hann hafði fengið, gull og gimsteinar, lágu þar í kringum hann, og hafði hann verið hækkaður að nafnbót, svo að nú var hann orðinn „hákeisaralegur náttborðssöngvari“, og var í virðingaröðinni númer eitt til vinstri hliðar, því keisarinn taldi þá síðuna göfugri, þar sem hjartað er, hjartað er vinstra megin, einnig í keisurum. Og tónmeistarinn skráði tuttugu og fimm bindi um gervifuglinn. Það var nú svo hálærð og langorð ritsmíð, með allra torskildustu orðum í kínversku máli, og sögðust allir hafa lesið og skilið, því annars mundu þeir vitanlega hafa verið dæmdir heimskir og lamdir fyrir það á magann. Svona leið nú heilt ár. Keisarinn, hirðfólkið og allir aðrir Kínverjar kunnu upp á tíu fingur hvern klaktón í sönglagi gervifuglsins, en einmitt þess vegna geðjaðist þeim nú langtum betur að honum; þeir gátu sjálfir sungið með, og það gerðu þeir. Götustrákarnir sungu: „Si, sí, sí! klúk, klúk, klúk!“ og keisarinn sjálfur söng það líka. Mátti nærri geta, hvort það var ekki fallegt. En eitt kvöld, þegar gervifuglinn söng sem snjallast og keisarinn lá í hvílu sinni og hlýddi á, þá heyrðist bresthljóð innan í fuglinum. Það var eitthvað sem sprakk og sagði „birrr!“ Öll hjólin snarsnerust og sönglistin hætti. Keisarinn stökk óðara ofan úr rúminu og lét kalla á líflækni sinn, en hvað mundi hann geta hjálpað? Var þá sóttur úrsmiðurinn, og eftir mikið tal og mikla eftirgrennslan tókst honum nokkurn veginn að gera við fuglinn, en hann sagði, að það yrði að nota hann með mestu varúð, því tapparnir í honum væru orðnir svo slitnir og enginn vegur að setja svo í hann nýja tappa, að öruggt væri um, að sönglistin gengi rétt. Fékk það öllum mikillar hryggðar. Aðeins einu sinni á ári mátti láta gervifuglinn syngja, og var þó öllu til skila haldið, að svo mætti verða. Hélt þá tónmeistarinn ræðukorn með afartorskildu orðalagi og sagði, að allt væri jafngott og áður, enda tóku þá allir undir og sögðu, að svo væri. Nú voru liðin fimm ár, og bar þá nokkuð það að höndum, sem þjóðinni var verulegt sorgarefni. Henni þótti í rauninni innilega vænt um keisara sinn, og nú var hann fárveikur og lífsvon engin, að því er sagt var. Það var þegar búið að velja nýjan keisara, og fólkið stóð á strætinu og spurði hirðgæðinginn, hvernig keisaranum liði. „Pé!“ sagði hann og hristi höfuðið. Keisarinn lá kaldur og fölur í stóru skrauthvílunni sinni. Öll hirðin hélt, að hann væri dáinn, og hirðmennirnir þustu hver á sinn stað til að heilsa upp á nýja keisarann, herbergissveinarnir hlupu út til að tala um það, og þjónustumeyjarnar héldu stórt kaffisamsæti. Klæði hafði verið breitt á gólfið í öllum sölum og göngum, svo ekki heyrðist, þegar um væri gengið, og var því allt hljótt og þegjandalegt. En keisarinn var ekki dáinn enn. Hann lá stirður og fölur í skrauthvílunni með löngu flauels-sparlökunum og þungu gullskúfunum; hið efra stóð opinn gluggi, og skein tunglið inn um hann á keisarann og gervifuglinn. Vesalings keisarinn gat varla dregið andann. Það var eins og eitthvað sæti á brjósti hans. Hann brá sundur augum og sá þá, að það var dauðinn, sem sat á brjósti hans og hafði sett upp gullkórónu hans og hélt á gullsverði hans í annarri hendi, en skrautfána hans í hinni, og allt umhverfis í fellingum flauelssparlakanna gægðust fram undarleg höfuð, sum afskræmilega ljót, en aftur önnur svo blíð og ástúðleg. Það voru öll hin illu og góðu verk keisarans, sem horfðu á hann nú, er dauðinn sat á hjarta hans. „Manstu eftir því?“ hvíslaði eitt eftir annað. – „Manstu eftir því?“ Og svo sögðu þau honum frá svo mörgu, svo að svitinn bogaði af enni honum. „Það hef ég aldrei vitað,“ sagði keisarinn: „Sönglist! sönglist!“ kallaði hann. „Berjið stóru, kínversku bumbuna, svo ég þurfi ekki að heyra allt, sem þau segja!“ En höfuðin héldu áfram, og dauðinn kinkaði kolli eins og Kínverji við allt, sem sagt var. „Sönglist! sönglist!“ æpti keisarinn. „Blessaður litli gullfuglinn! syngdu, í öllum bænum, syngdu. Ég hef gefið þér gull og gersemar, ég hef sjálfur hengt gulltöpluna mína um háls þér, syngdu, í öllum bænum, syngdu!“ En fuglinn steinþagði. Það var enginn, sem gat dregið hann upp, og að öðrum kosti söng hann ekki. En dauðinn hélt áfram að stara á keisarann með augnatóftunum stóru og tómu. Það var svo hræðilega þegjandalegt þar í herberginu. Þá hljómaði allt í einu fegursta sönglist við gluggann. Það var litli, lifandi næturgalinn, sem sat á trjágrein fyrir utan. Hann hafði heyrt, hvað keisarinn ætti bágt, og var því kominn til að færa honum huggun og von með söng sínum. Og eftir því sem hann söng lengur, bliknuðu myndirnar meir og meir, blóðrásin örvaðist í hinum sjúka líkama keisarans og dauðinn sjálfur hlustaði á og sagði: „Haltu áfram, næturgali litli! haltu áfram!“ „Viltu þá láta mig fá gullsverðið glæsilega? Viltu láta mig fá skrautfánann? Viltu láta mig fá kórónu keisarans?“ Og dauðinn lét hverja gersemi af hendi fyrir einn söng, og næturgalinn hélt áfram að syngja, og hann söng um kirkjugarðinn, þar sem kyrrðin ríkir, þar sem hvítu rósirnar vaxa, þar sem ylliviðurinn angar og grængresið vöknar af tárum þeirra, sem eftir lifa. Þá fór dauðann að langa heim aftur í garðinn sinn, og sveif hann svo út um gluggann í líki kaldrar, hvítrar þoku. „Hafðu þökk fyrir, himneski fuglinn minn!“ sagði keisarinn. „Víst þekki ég þig. Ég hef flæmt þig burtu úr ríki mínu og löndum, og samt hefurðu sungið syndirnar illu burt frá hvílu minni og komið dauðanum burt frá hjarta mínu. Hvernig á ég að launa þér fyrir?“ „Þú ert búinn að launa mér,“ sagði næturgalinn. „Ég kom út á þér tárunum í fyrsta sinni, þegar ég söng; því gleymi ég aldrei. Það eru dýrgripirnir, sem gleðja hjarta söngvarans. En sofðu nú, svo þú hressist og styrkist. Ég skal syngja fyrir þig aftur.“ Og hann söng, og keisarinn sofnaði. Ó, hve sá svefn var sætur og endurnærandi! Og sólskinið lagði inn um gluggann til hans, er hann vaknaði aftur, endurhresstur og heill heilsu. Engir af þjónum hans voru enn komnir aftur, því þeir hugðu hann dauðan, en næturgalinn sat hjá honum enn og söng. „Þú verður að vera hjá mér alltaf,“ sagði keisarinn. „Þú skalt ekki þurfa að syngja oftar en þú sjálfur vilt, og smíðaða fuglinn mölva ég í ótal stykki.“ „Gerðu það ekki,“ sagði næturgalinn, „hann hefur gert það gott, sem hann gat. Hafðu hann hjá þér, eins og að undanförnu. Ég get ekki haldið til hér í höllinni, en láttu mig koma, þegar mig lystir sjálfan, þá skal ég sitja að kvöldi dags á trjágreininni þarna við gluggann og syngja fyrir þig, svo að þú verðir glaður og þó hugsandi um leið. Ég skal syngja um þá, sem hamingjusamir eru, og um þá, sem raunamæddir eru; ég skal syngja um hið illa og góða, sem í kringum þig er og leyndu er haldið. Söngfuglinn litli flýgur víðsvegar, – heim að kofanum fiskimannsins fátæka, heim að bænum bóndans, og til hvers og eins, sem fjarri er þér og hirð þinni. Ég elska hjarta þitt meira en kórónu þína, og er þó eitthvað heilagt yfir henni líka. Ég skal koma, ég skal syngja fyrir þig, en einu verður þú að lofa mér.“ „Öllu, hverju sem er,“ sagði keisarinn og stóð nú þarna í keisaraskrúðanum, sem hann hafði farið í á meðan, en hélt gullsverðinu upp að hjarta sér. „Eins bið ég þig,“ sagði næturgalinn; „láttu engan vita, að þú eigir lítinn fugl, sem segir þér allt; þá mun enn betur fara.“ Og að svo mæltu flaug næturgalinn burt. Nú komu þjónarnir inn til að líta eftir dauða keisaranum sínum. Og sjá! Þarna stóð hann og bauð þeim góðan daginn. Efnisyfirlit Bls. H.C. Andersen ... 5 Hafmeyjan litla ... 11 Eldfærin ... 44 Förunauturinn ... 58 Brellni drengurinn ... 88 Murusóleyin ... 92 Rósarálfurinn ... 99 Ljóti andarunginn ... 107 Óli Lokbrá ... 125 Flibbinn ... 145 Engillinn ... 151 Litla stúlkan með eldspýturnar ... 156 Klukkan ... 163 Grenitréð ... 172 Vatnsdropinn ... 186 Paradísargarðurinn ... 189 Næturgalinn ... 213