BÓKASAFN "LÖGBERGS"

FANGINN Í ZENDA ÞRIGGJA MÁNAÐA ÞÁTTUR ÚR ÆVISÖGU TIGINBORINS ENGLENDINGS.

EFTIR

ANTHONY HOPE

WINNIPEG

PRENTSMIÐJA LÖGBERGS

1908
Efnisyfirlit

I. KAPITULI.

II. KAPITULI.

III. KAPITULI.

IV. KAPITULI.

V. KAPITULI.

VI. KAPITULI.

VII. KAPITULI.

VIII. KAPITULI.

IX. KAPITULI.

X. KAPITULI.

XI. KAPITULI.

XII. KAPITULI.

XIII. KAPITULI.

XIV. KAPITULI.

XV. KAPITULI.

XVI. KAPITULI.

XVII. KAPITULI.

XVIII. KAPITULI.

XIX. KAPITULI.

XX. KAPITULI.

XXI. KAPITULI.

XXII. KAPITULI.
I. KAPITULI.

"Hvenær skyldi sá dagur koma, að þú takir þér eitthvað fyrir hendur, Rúdólf?" sagði kona bróður míns.

"Kæra Rósa mín," svaraði ég og lagði frá mér eggjaskeiðina, "hvers vegna ætti ég að fara að taka mér eitthvað fyrir hendur? Lífskjör mín eru hin þægilegustu. Tekjur mínar hrökkva hér um bil til að bæta úr öllum þörfum mínum (þú veist reyndar, að enginn hefir alveg nógar tekjur). Margur mundi vilja skipta við mig á stöðu minni í þjóðfélaginu: Ég er bróðir Burlesdon lávarðar, og mágur allra yndislegustu konu, frúarinnar hans. Það er svei mér nóg."

"Þú ert orðinn tuttugu og níu ára," sagði hún, og enginn skapaður hlutur liggur eftir þig, nema að þú hefir – "

"Flakkað um? Það er satt. Ættfólk mitt þarf ekki að vinna."

Rósu féllu þau alls ekki sem best þessi ummæli mín, því að það er á allra vitorði (og þess vegna skaðlaust að minnast á það), að þó að hún sé bæði fríð sýnum og vel gefin í alla staði, þá er ætt hennar heldur smærri, en Rassendyllanna. En auk þess, að hún var glæsileg kona, var hún líka stórrík, og Robert bróðir minn var svo hygginn að setja það ekki fyrir sig af hvaða ættum hún var. Og um ættgöfgina er það að nokkru leyti satt, sem Rósa sagði næst.

"Þessar stóru ættir eru venjulega verri en hinar."

Nú strauk ég upp hár mitt. Ég vissi við hvað hún átti.

"En hvað mér þykir vænt um að Robert er dökkhærður," sagði hún.

Í þessu kom Robert inn (hann fer á fætur klukkan 7 og tekur til starfa fyrir morgunverð). Hann leit snöggt til konu sinnar. Hún var orðin dálítið rjóð á vangann, og hann klappaði henni á kinnina.

"Hvað er að, góða mín?" sagði hann.

"Hún er að hnýta í mig af því að ég hefi ekkert fyrir stafni og er rauðhærður," sagði ég þóttalega.

"Hann getur nú reyndar ekki við því gert, þó hann sé rauðhærður," sagði Rósa.

"Það kemur fram í ættinni öðru hvoru," sagði bróðir minn, "og nefið líka. Rúdólf hefir hlotnast hvorttveggja."

"Ég vildi óska, að það kæmi aldrei fram," sagði Rósa og roðnaði enn meira en áður.

"Mér þykir ekki nema vænt um það," sagði ég, stóð á fætur og hneigði mig fyrir myndinni af Amalíu barónsfrú.

Mágkonu minni gramdist þetta.

"Ég yrði fegin, ef þú tækir þessa mynd í burtu Robert," sagði hún.

"Góða mín!" sagði hann.

"Skárra er það nú," sagði ég.

"Hún kynni þá kannske að gleymast," sagði Rósa.

"Varla – meðan Rúdólf er hér," sagði Robert og hristi höfuðið.

"Hvers vegna ætti hún að gleymast?" spurði ég.

"Rúdólf!" hrópaði mágkona mín og kafroðnaði.

Ég skellihló, og hélt nú áfram að gera mér gott af egginu mínu. Ég þóttist nú loksins vera búinn að ráða við mig hvað ég ætti að gera (ef ég gerði nokkuð). Og til að eyða þessu umtalsefni – og auðvitað líka til að ergja mágkonu mína ofurlítið meira – sagði ég:

"Mér þykir fremur vænt um það en hitt, að ég skuli vera Elphbergur."

Þegar ég les sögur, þá er ég vanur að hlaupa yfir skýringarnar. En nú, þegar ég byrja sjálfur á sagnaritun, kemst ég ekki hjá því að skjóta inn í skýringum. Það verður ekki af sér keypt að skýra frá því, hvers vegna mágkonu minni var svo illa við nefið og hárið á mér, og hvernig á því stóð, að ég kallaði mig Elphberg. Því að, þó Rassendyllarnir hafi verið göfug ætt um marga mannsaldra, þá mun virðast svo í fljótu bragði, sem enginn ættliður þar geti með réttu miklast af því, að vera blóðböndum tengdur við Elphbergana, sem enn þá tiginættaðri eru, né hafi heimild til að telja sig konungborinn. Því hvaða samband var milli Rúritaníu og Burlesdon, eða hallarinnar í Streslau eða kastalanum í Zenda og nr. 305 Park Lane W.?

Jæja,– ég verð að játa það, að ég má til að ýfa upp sjálft hneykslið, sem mín kæra frú Burlesdon vill láta fyrnast sem fyrst. Árið 1733, er Georg II. sat á konungsstóli, og friður var í ríkinu, – því konungurinn og prinsinn af Wales voru enn ekki farnir að leiða hesta sína saman, kom prins nokkur í kynnis ferð til ensku hirðarinnar. Síðar er hann kunnur orðinn í sögunni. Því að hann varð Rúdolf hinn Þriðji í Rúritaníu. Prinsinn var maður hár vexti og fríður sýnum (vera má, að hann hafi verið kvæntur, en ég get ekki um það borið), en einkennilegur af því, að hann var óvenjulega langnefjaður, hánefjaður og beinnefjaður, og hár hans þykkt, mikið og dumbrautt. Þetta neflag og háraliturinn hafa alt af verið sérkenni Elphberganna. Hann dvaldi um hríð á Englandi og fékk þar hinar bestu viðtökur, en hvarf þaðan nokkuð skyndilega. Hann háði þar einvígi (það var talið honum til gildis, að hann notaði sér ekki ættgöfgi sína til að komast undan því), við aðalsmann nokkurn er mikið kvað að um þær mundir, ekki að eins fyrir kosti þá er hann sjálfur hafði til að bera, heldur og fyrir það, að hann átti konu forkunnar fríða. Í einvígi þessu særðist Rúdolf prins hættulega, en varð þó græddur aftur. Og er hann var orðinn ferðafær skaut rúritaníski sendiherrann honum undan og kom honum burt úr ríkinu. Aðalsmaðurinn særðist ekki í viðureigninni; en vegna þess að hráslaga veður var morguninn, sem þeir áttust við, sýktist hann af aðkælingu, og af því að hann komst ekki til heilsu aftur, dó hann sex mánuðum eftir burtför Rúdólfs prins, án þess að hafa haft færi á að segja neitt um barn það, er kona hans fæddi, tveim mánuðum síðar, og erfði tignarnafn og auðæfi Burlesdon-ættarinnar. Kona hans var Amalía barónsfrú, og það var myndin af henni, sem mágkona mín vildi láta færa burt úr gestasalnum í Park Lane. Maður hennar var James fimmti Burlesdon-jarl og tuttugasti og annar í barónatölu Rassendyllanna, einn lávarðanna ensku og riddari af sokkabandsorðunni. En það er af Rúdólf að segja, að hann sneri aftur til Rúritaníu, kvæntist þar, og hafa afkomendur hans setið þar að völdum síðan í beinan karllegg hver fram af öðrum, alt til þessa dags. Að síðustu skal ég geta þess, að ef yður verður gengið inn í myndasal Burlesdon-ættarinnar, og þér virðið fyrir yður þær fimmtíu myndir, af ættfólkinu á síðastliðinni öld, sem þar eru, þá munuð þér sjá, að fimm eða sex myndirnar, þar á meðal myndina af jarlinum þeim sjötta í röðinni, einkennir langt, hátt og beint nef, og þykkt og mikið dumbrautt hár; þessir fimm eða sex menn hafa og allir verið bláeygðir, en Rassendyllarnir eru aftur á móti venjulegast dökkeygðir.

Þetta er skýringin, sem ég varð að skjóta inn í, og mér þykir vænt um að hafa lokið henni af. Það er ætíð dálítið óþægilegt að þurfa að benda á bletti á heiðarlegum ættum, en ættarmótið getur verið sú mesta hneykslunarhella, sem hægt er að hugsa sér. Það gerir alla yfirhylmingu gagnslausa og setur stundum þau mörk á lávarðaættirnar, sem eiga þar alls ekki heima.

Eins og lesendurnir hafa orðið varir við, virtist helst sem mágkona mín vildi skella skuldinni á mig fyrir það, hvernig ég var ásýndum. Ég má til að kenna það skorti hjá sjálfri henni á því, að byggja á hugsunarréttum rökum, með því nú er það ekki framar leyft að tileinka kvenþjóðinni þann skort. Af ytra útliti mínu fannst henni svo sjálfsagt að ætla, að ég hefði þá innri eiginlegleika til að bera, sem ég tel mig öldungis saklausan af. Og þessa ályktun sína reyndi hún að styðja með því, að sýna fram á hve gagnslausu lífi ég lifði. En hvað sem því líður, þá hafði ég skemmt mér vel um daginn og aflað mér töluverðrar þekkingar. Ég hafði gengið á almenna skóla og háskóla á Þýskalandi, og talaði þýsku öldungis jafnvel sem ensku. Í frönsku var ég einnig furðu sleipur. Ofurlítið hafði ég líka lært í ítölsku og kunni að blóta á spánsku. Ég var, að því er ég veit best, vanur og þolinn skylmingamaður, þó að ég væri ekki afburða fimur. Til reiðar gat ég haft hverja skepnu, sem bak var á, og hræddist ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef mér er fundið það til foráttu, að ég fékkst ekki við nein nytsemdar störf, þá hefi ég engu til þess að svara öðru en því, að foreldrar mínir hefðu getað látið það vera að veita mér tvö þúsund punda árstekjur og hvikula stöðu.

"Munurinn á þér og Robert er sá," sagði mágkona mín, sem talar oft (blessunin sú arna) á ræðupöllunum, en oftar þó eins og hún væri stödd þar), "að hann gegnir skyldum þeim, sem staða hans leggur honum á herðar, en þú lætur nægja, að horfa á tækifærin, sem bjóðast þér."

"Hygginn maður notar ætíð tækifærið, þegar það býðst, kæra Rósa mín," svaraði ég.

"Þvættingur," sagði hún og hristi höfuðið; svo bætti hún við eftir litla þögn: "Sir Jacob Borrodaile hefir t.d. boðið þér stöðu, sem þú ert prýðisvel fallinn til."

"Ég þakka hjartanlega!' tautaði ég.

"Hann ætlar eftir sex mánuði í sendiherraför, og Robert segist vera viss um að hann taki þig fyrir aðstoðarmann. Taktu því, Rúdólf. Gerðu það fyrir mig."

Þegar mágkona mín fer svona að mér, hnyklar brýrnar, kreistir saman hendurnar, og umhyggjusemin fyrir öðrum eins slæpingja og mér, sem hana varðar þó eiginlega engu, skín henni úr augum, þá fæ ég ætíð samviskubit. Þar að auki fannst mér það ekki ólíklegt, að ég mundi geta haft einhverja skemmtun af því, ef ég tæki stöðuna, sem á var minnst, svo ég sagði:

"Systir mín góð! Ef ekkert óvænt kemur fyrir því til hindrunar næstu sex mánuði, og Sir Jacob býður mér að fara með sér, þá skal hundur heita í haus minn, ef ég fer ekki með honum."

"En hvað þú ert góður drengur, Rúdólf! Nú þykir mér vænt um þig!"

"Hvert ætlar hann að fara?"

"Hann veit það ekki enn. Þú mátt samt reiða þig á, að ferðin verður skemmtileg."

"Þín vegna skal ég fara, frú mín góð," sagði ég, "þó að þetta væri aldrei nema auðvirðileg betliför. Ég er vanur að láta verða af því, sem ég ætla mér."

Ég var nú búinn að lofa þessu. En sex mánuðir eru býsna langur tími, óendanlega langur að því er manni virðist stundum, og vegna þess það var ekki fyrr en að þeim liðnum, að ég átti í vændum að taka við fyrirhugaða starfinu (ég býst við, að aðstoðarmenn séu starfsamir; en ég veit það reyndar ekki, því að ég varð aldrei aðstoðarmaður Sir Jacobs, eða nokkurs annars manns), þá fór ég að hugsa mig um hvernig best væri að verja þessum tíma. Mér kom þá alt í einu í hug, að ég skyldi bregða mér til Rúritaníu. Það virtist kannske undarlegt að ég skyldi ekki hafa farið til þess lands fyrri; en faðir minn hafði (þrátt fyrir dulinn velvildarhug til Elphberganna, er lýsti sér í því, að hann hafði látið mig, næstelsta son sinn, heita eftir Rúdólf, Elphbergnum alkunna) alt af verið því mótfallinn að ég færi þangað, og eftir andlát hans hafði bæði bróðir minn og Rósa fylgt þeirri stefnu, sem komin var í hefð hjá ættinni, að djúp ætti að vera staðfest milli okkar og þess lands. En eftir að mér hafði nú dottið í hug að fara til Rúritaníu, fylltist ég óviðráðanlegri löngun að fara þangað. Eins og allir vita, eru fleiri rauðhærðir og langnefjaðir en Rúritaníu konungarnir, og gamla sagan virtist mér öldungis ófullnægjandi ástæða til að hindra mig í að koma til þessa merkilega konungsríkis. Það ríki var orðið frægt í sögu Evrópu, og líkindi voru til að þess mundi enn verða að nokkru getið, undir stjórn nýja konungsins, sem sagt var að væri ungur maður og mikilhæfur. Það skar úr um för mína þangað, að ég sá þess getið í "Times", að Rúdólf fimmti ætti að verða krýndur í Streslau að þrem vikum liðnum, og að þá ætti að verða meira en lítið um dýrðir þar. Ég afréði þá strax að fara þangað og vera viðstaddur, og fór að búa mig undir ferðina. En vegna þess að það var hvorki vani minn að segja vandamönnum mínum út í æsar um ferðir mínar, og af því að ég bjóst líka við að þeim mundi ekki getast vel að áforminu, lét ég í veðri vaka, að ég ætlaði mér til Tirol – þangað var ég oft vanur að fara – og jók á gremju Rósu með því að segja, að ég ætlaði að kynna mér stjórnfræðileg og þjóðfræðileg vandamál þeirrar merkisþjóðar, er þar ætti heima.

"Vera má," sagði ég drýgindalega, "að einhver árangur verði af þessari ferð."

"Við hvað áttu?" spurði hún.

"Ja, ég á við," svaraði ég tómlátlega, "að þar muni vera nægilegt verkefni, sem áður hefir ekki verið sinnt um, til að –"

"Ætlarðu að skrifa bók?" spurði hún og klappaði saman höndunum. "Væri Það ekki gaman, Robert?"

"Það er ekkert á móti því til að afla manni álits í stjórnmálum til að byrja með," sagði bróðir minn, sem satt að segja hefir gert margar atrennur til að auka álit sitt með því móti. "Ancient Theories" og "Modern Facts eftir Burlesdon" og "The Ultimate Outcome" eftir ungan stjórnmálamann, eru allar eftir þennan fræga höfund.

"Ég er á því, að þú hafir rétt fyrir þér, Robert bróðir," sagði ég.

"Jæja, lofaðu því þá, að þú skulir gera þetta," sagði Rósa.

"Nei, ég ætla ekki að lofa því; en ef ég fæ nægilegt tilefni til þess, þá skal ég gera það."

"Það er meir en nóg." sagði Robert.

"Ég held hann verði ekki ráðalaus með efnið," sagði hún ísmeygilega.

En það mátti einu gilda. Hún fékk mig ekki til að lofa neinu frekara. Og satt að segja hefði ég þorað að veðja stórfé um það, að aldrei kæmi til þess að sagan af leiðangri mínum mundi nokkurn tíma komast á prent eða nokkur penni mundi skemmast af að rita hana. Á því sést best, hve lítið maður veit um hið ókomna; því nú er ég sestur við að rita, og skrifa nú bók, sem er engu því svipuð, sem ég hefi ritað áður, þó að hún verði ekki líkleg til að afla mér álits í stjórnmálum, og sé Tyrol að öllu óviðkomandi.

Ég býst heldur ekki við, að hún falli Burlesdonbarónsfrúnni vel í geð, ef ég sýndi henni handritið. En mér dettur það heldur ekki í hug.


II. KAPITULI

William frændi minn var vanur að segja, að enginn gæti farið svo um Parísarborg, að hann stæði þar ekki við sólarhring. Ég vissi, að hann talaði af margra ára lífsreynslu, og ég lét ummæli hans sannast á mér og ásetti mér að dvelja í höfuðborginni tuttugu og fjórar klukkustundir á leið minni – til Tyrol. Ég hitti George Featherley á sendiherraskrifstofunni, og við snæddum saman miðdegisverð hjá Durans, og fórum svo um kveldið í leikhús. Að því búnu fengum við okkur kveldverð, og fórum svo til Bertram Bertrands, sem var maður töluvert skáldmæltur og tíðindamaður "The Critic" í París. Hann bjó í snotrum herbergjum, og sátu hjá honum nokkrir kátir piltar, reykjandi og rabbandi. Ég furðaði mig samt á því, að Bertram sýndist vera fremur daufur í bragði og eins og utan við sig, svo að þegar allir gestirnir voru farnir nema við tveir, fór ég að hnýsast eftir hverju það sætti, að hann var svona daufur í dálkinn. Hann fór fyrst undan í flæmingi, en að lokum fleygði hann sér aftur á bak á legubekk og sagði:

"Mér er sama Þó ég segi ykkur Það. Ég er ástfanginn – ákaflega ástfanginn!"

"Því betri verða ástarljóðin þín," sagði ég eins og til að hughreysta hann.

"Hann ýfði hranalega á sér hárið með hendinni og reykti í ákafa. George Featherley stóð hjá, sneri bakinu að arninum og brosti ertnislega.

"Maður kannast við vinskapinn þann," sagði hann. "Ég held þér sé betra að gefa hana upp á bátinn, Bert. Hún fer burt úr París á morgun."

"Ég veit það!" hreytti Bertram fram úr sér.

"Það mundi svo sem hvorki gera til né frá, þó að hún dveldi hér lengur," svaraði George hlífðarlaust. "Hún lítur stærra á sig en svo, að hún geri sér blaðasnápa að góðu, kunningi."

"Fjandinn hafi hana!" tautaði Bertram.

"Mér mundi þykja meira gaman að umræðunum, ef ég vissi, um hverja þið eruð að tala," varð mér að orði.

"Antoinette Mauban," sagði George.

"De Mauban!" öskraði Bertram.

"Hó! hó!" sagði ég, og hjó eftir de-inu. Þér er þó víst ekki alvara, Bert–"

"Getið þið ekki séð mig í friði?"

George hringlaði í peningunum, sem hann hafði í vasanum, brosti hæðnislega að aumingja Bertram og sagði ísmeygilega:

"Það veit enginn. En eftir á að hyggja, Bertram, þá rakst ég á stórmenni eitt við húsdyrnar hennar að kveldlagi fyrir nokkru – sjálfsagt mánuði síðan í minnsta lagi. Varst þú aldrei var við hann? Það var hertoginn af Streslau."

"Jú, ég held það," tautaði Bertram.

"Sérlega álitlegur maður, sýndist mér."

Það var vandalaust að sjá að ummæli George um hertogann voru sögð í því skyni að særa aumingja Bertram enn meira, svo að ég þóttist geta ráðið í að hertoginn mundi hafa heiðrað Madame de Mauban með vináttu sinni. Hún var ekkja, rík og fríð sýnum og metorðagjörn að því er sagt var. Það var ekki ósennilegt, ef hún leit eins stórt á sig sem George hafði gefið í skyn, að hún ætlaði sér þann mann, er Bertram komst að engu leyti til jafns við, og var konungborinn í beinan karllegg, því að hertoginn var sonur hins látna Rúritaníu-konungs; af i, og hálfbróðir nýja konungsins. Hann hafði verið eftirlætisbarn föður síns, og það hafði mælst miðlungi vel fyrir, að hann var gerður að hertoga, og kenndur við sjálfa höfuðborgina. Móðir hans hafði verið góð kona, af lágum stigum.

"Er hann í París núna?" spurði ég.

"Ónei. Hann er kominn heim til sín, til að vera viðstaddur krýninguna. Ég þori samt að segja, að hann er ekkert ánægður yfir þeirri athöfn. En blessaður Bert, þú mátt ekki láta hugfallast! Honum dettur ekki í hug að ganga að eiga Antoinettu hina fögru – að minnsta kosti kemur ekki til þess, nema aðrar fyrirætlanir hans fari forgörðum. En samt getur skeð að hún – "George þagnaði og bætti við hlæjandi: "Það er erfitt að slá hendinni á móti blíðu konungættaðra manna – þú veist það, Rúdolf."

"Þú ættir að skammast þín," sagði ég, stóð upp og fór, og skildi Bertram garminn eftir í höndum George, en fór heim og háttaði.

Daginn eftir fylgdi George Featherley mér á járnbrautarstöðina, og þar keypti ég mér farseðil til Dresden.

"Ætlarðu að fara að skoða myndir þar." spurði George kýmnislega.

George er frámunalega málgefinn, og ef ég hefði sagt honum, að ég ætlaði til Rúritaníu, þá mundi fregnin hafa verið komin til Lundúna að þrem dögum liðnum og eftir viku til Park Lane. Ég var rétt í þann veginn að svara spurningu hans játandi, þegar hann rauk frá mér alt í einu og losaði mig við að ljúga að sér. Ég horfði á eftir honum og sá, að hann tók ofan fyrir tígulegri og velbúinni konu, er kom í þessum svifum frá farseðla-skrifstofunni. Hún leit út fyrir að hafa tvo um þrítugt, var há vexti, dökkhærð, og fremur holdug að sjá. Ég sá, að George gaf mér hornauga meðan hann var að tala við konuna, og var ekki laust við að hégómagirnd minni væri misboðið, því að ég þóttist vita, að ég mundi hafa verið miður sjálegur þar sem ég stóð dúðaður í loðkápu, með klút um hálsinn (því að nístingskaldur Aprílstormur var) og hafði barðastóran ferðahatt á höfði, sem slútti yfir augu mér og eyru. Að stundarkorni liðnu kom George til mín.

"Þú fær skemmtilegan förunaut," sagði hann. "Gyðjan hans Bertrams verður þér samferða, hún Antoinetta de Mauban. Hún ætlar til Dresden eins og þú – og vafalaust til að skoða myndir þar líka. Það er dálítið undarlegt, að sem stendur langar hana þó ekkert til að kynnast þér."

"Ég mæltist alls ekki til þess, að ég yrði gerður henni kunnugur," svaraði ég afundinn.

"En ég bauð henni samt að kalla á þig, og kynna ykkur, en hún sagði: "Einhvern tíma seinna." En við skulum ekkert vera að ergja okkur yfir því, því að skeð geti að lestin rekist á og þér gefist færi á að bjarga henni og ná í hana frá hertoganum af Streslau!"

En hvorugt okkar Madame de Mauban lenti í járnbrautarslysi. Ég get sagt eins glöggt frá ferðum hennar sem mínum, því að eftir að ég hafði verið um kyrrt eina nótt í Dresden, kom hún inn í sömu lest og ég fór með. Ég þóttist sjá það á henni, að hún vildi ekki láta ónáða sig, og ég forðaðist því að gera það eins og gefur að skilja, en ég sá að hún ætlaði að verða mér samferða alla leið, og notaði því tækifærið að virða hana fyrir mér, þegar eigi varð eftir því tekið.

Þegar við komum að landamærum Rúritaníu (þar starði tollheimtumaðurinn svo fast og lengi á mig, að ég fullvissaðist enn betur en áður um það hve líkur ég væri Elphbergunum) keypti ég dagblöðin og sá þar fréttir, sem snertu ferðalag mitt. Einhverra orsaka vegna, er eigi var getið, og virtist eiga að halda leyndum, hafði krýningunni verið flýtt fyrir skemmstu svo að athöfnin átti að standa eftir tvo daga. Það var uppi fjöður og fit um alt landið og vafalaust mikill mannsöfnuður kominn til Streslau. Þar voru öll gistihús og híbýli full af fólki. Ég mátti því eiga það víst, að mér mundi ganga erfitt að ná þar í húsaskjól, og sjálfsagt greiða afarverð fyrir, ef eitthvert væri falt. Ég ásetti mér því að hinkra við í Zenda, sem var lítill bær, fimmtíu mílur vegar frá höfuðborginni, og tíu mílur frá landamærunum. Lestin, sem ég var í, kom þangað að kveldi. Næsta deginum, sem var þriðjudagur, ætlaði ég að verja til þess, að skoða mig um þar á hæðunum, því mikið var látið af fegurðinni þar, og sjá kastalann, er svo miklar sögur gengu um. Á miðvikudagsmorguninn ætlaði ég svo með lestinni til Streslau og sama kveldið aftur til Zenda og vera þar um nóttina.

Fyrir því steig ég út úr vagninum í Zenda, og þegar lestin skreið fram hjá stöðvapallinum, sá ég að kunningjakona mín, Madame de Mauban, sat inni í henni; Hún ætlaði vafalaust til Streslau, og hafði því verið fyrirhyggjusamari en ég um að útvega sér þar herbergi. Ég brosti, er mér kom til hugar, hve George Featherley mundi hafa furðað mjög á því, ef hann hefði vitað hve lengi við höfðum orðið samferða.

Mér var tekið mæta vel á veitingahúsinu. Það var heldur lítið, á við veitingastaði til sveita, og stýrði því gömul feitlagin kerling ásamt tveimur dætrum sínum. Þetta voru rólyntar og góðar manneskjur, sem virtust engu láta sig skipta öll ósköpin; sem á gengu í Streslau. Hertoginn var eftirlætisgoð gömlu konunnar, því að nú var hann, samkvæmt fyrirmælum hins látna konungs, sá er réði yfir landeignunum við Zenda og kastalanum þar. Sá kastali gnæfði tígulega efst á hæðunum þar fyrir dalstafni, á að giska mílu vegar frá veitingahúsinu. Gamla konan lét ekki á því standa að gefa í skyn að henni félli það illa, að hertoginn sæti ekki á konungsstóli í stað bróður hans.

"Við þekkjum Michael hertoga vel," sagði hún. "Hann hefir allatíð átt aðsetur hér í nágrenninu við okkur. Sérhver íbúanna í Rúritaníu þekkir hann. Konungurinn er mönnum aftur á móti lítt kunnur. Hann hefir dvalið svo lengi erlendis. Tíundi hver maður hér þekkir hann ekki í sjón."

"Og nú er sagt," mælti önnur unga stúlkan, "að hann hafi rakað af sér skeggið, svo að enginn þekki hann framar."

"Rakað af sér skeggið!" hrópaði móðir hennar. "Hver segir það?"

"Hann Jóhann, ráðsmaður hertogans. Hann hefir séð konunginn."

"Já, nú skil ég! Konungurinn heldur til um þessar mundir á skothúsi hertogans hér í skóginum. Þaðan fer hann beint til Streslau til að láta krýna sig á miðvikudagsmorguninn."

Mér þótti fróðlegt að heyra þetta, og ásetti mér að fara gangandi daginn eftir áleiðis til skothússins, til að reyna að sjá konunginn í svip. Gamla konan hélt áfram að masa og sagði:

"Ég vildi óska að honum dveldist svo við þessar veiðar – þær, vínið og eitt í viðbót (ónefnt af mér), er sagt að honum sé fyrir öllu – og hefði það fyrir, að hertoginn okkar yrði krýndur á miðvikudaginn. Þetta vildi ég fegin, og mér er sama hver heyrir það."

"Gáðu að hvað þú segir, mamma," hrópuðu dætur hennar.

"Það eru fleiri með sama sinni sem ég!" tautaði móðir þeirra þrákelknislega.

Ég fleygði mér niður á stóran hægindastól, og hló dátt að því, sem gamla konan sagði síðast.

"Ég segi fyrir mig." sagði yngri dóttirin, ljóshærð, broshýr stúlka, "að ég hata Michael svarta! Ég held með rauðhærðum Elphberg, mamma! Það er sagt að konungurinn sé rauðhærður, eins og refur eða eins og –"

Hún leit til mín og hló ertnislega og kinkaði kolli til systur sinnar.

"Margur maðurinn hefir bölvað rauðkollunum þeim," tautaði gamla konan – og mér datt James fimmti Burlesdon jarl í hug.

"En aldrei nein kona!" sagði unga stúlkan.

"Ójú, mörg konan líka, þegar það var orðið um seinan," svaraði gamla konan alvarlega, en dóttir hennar roðnaði og þagði við.

"Hvernig stóð á því, að konungurinn fór hingað?", spurði ég til að rjúfa þessa ömurlegu þögn sem varð. "Ég tók svo eftir að hertoginn réði fyrir þessum um landeignum."

"Hertoginn bauð honum hingað, maður minn, og bauð honum að hvíla sig hér þangað til á miðvikudaginn. Sjálfur er hertoginn í Streslau að undirbúa alt undir komu konungsins þangað."

"Eru þeir vinir?"

"Já, mestu vinir," sagði gamla konan.

Laglega stúlkan mín, ljóshærða, hristi höfuðið; hún lét ekki sitja lengi á sér, en tók aftur til máls og sagði:

"Ójá, þeir eru álíka vinir og tveir menn eru vanir að vera, sem báðir eru að hugsa um sama embættið og sömu konuna."

Gamla konan varð sótsvört í framan af vonsku; en nú fór ég að verða forvitinn, svo að áður en hún fékk tóm til að álasa dóttur sinni spurði ég:

"Svo þeir eru að hugsa um sömu konuna báðir. Hver er hún, sú ungfrú?"

"Það er á allra vitorði, að Michael svarti – kannske ég kalli hann hertogann, mamma – vildi gefa sál sína til að mega ganga að eiga frænku sína, Flavíu prinsessu, en hún er drottningarefnið."

"Ég segi það satt," sagði ég, "að mig er farið að taka sárt til hertogans. En ef maður er svo óheppinn, að vera yngri bróðirinn, þá verður sá hinn sami að gera sér það að góðu, og hirða molana, sem falla af borði hins eldra, og þakka sínum sæla fyrir að fá það," og svo yppti ég öxlum brosandi, er ég minntist hlutskiptis sjálfs mín. Og um leið flaug mér Antoinette Mauban í hug, og ferð hennar til Streslau.

"Michael svarti hefir lítið haft," tók stúlkan til máls, og lét gremju móður sinnar ekki á sig fá, en í því að hún fór að tala, heyrðist þunglamalegt fótatak, og ruddalega var tekið til orða og sagt í ógnandi rómi:

"Hver talar um Michael svarta, í hans eigin borg?"

Stúlkan rak upp óp, bæði af því hún varð smeyk og þótti að öðrum þræði vænt um að sjá komumann, að því er ég hélt.

"Ætlarðu að segja eftir mér, Jóhann?" spurði hún.

"Þetta hefirðu upp úr þvaðrinu í þér," sagði gamla konan.

"Hér er gestur kominn, Jóhann." sagði húsmóðirin, og aðkomumaður hrifsaði af sér húfuna. Rétt á eftir varð hann mín var, og þótti mér kynlegt, að hann hopaði ofurlítið aftur á bak, eins og hann hefði séð eitthvert furðuverk.

"Hvað gengur að þér, Jóhann?" spurði eldri stúlkan. "Þetta er ferðamaður, sem ætlar að verða við krýninguna."

Maðurinn var nú búinn að ná sér, en hann starði á mig fast og grunsamlega.

"Gott kveld," sagði ég.

"Gott kveld, herra minn," tautaði hann og starði enn á mig, en yngri stúlkan fór að hlæja og sagði:

"Þetta er liturinn, sem við þig á! Hann hefir verið að horfa á hárið á yður, herra minn. Þessi háralitur er ekki tíður á mönnum hér í Zenda."

"Ég bið yður fyrirgefningar," sagði maðurinn stamandi. "Ég bjóst ekki við að hér væri neinn gestur."

"Látið hann fá glas af öli til að drekka velfarnaðarminni mitt; svo ætla ég að bjóða ykkur góða nótt, og þakka kvenfólkinu fyrir gott atlæti, og skemmtilegar viðræður."

Að svo mæltu stóð ég á fætur, hneigði mig ofurlítið og sneri til dyranna. Yngri stúlkan brá við til að lýsa mér, og karlmaðurinn vék sér frá til að lofa mér að komast fram hjá sér, en starði þó enn á mig. Um leið og ég fór fram hjá honum spurði hann.

"Heyrið þér, herra minn, þekkið þér konunginn?"

"Ég hefi aldrei séð hann," svaraði ég, "en ég býst við að sjá hann á miðvikudaginn."

Hann sagði ekkert fleira, en ég fann glöggt að hann horfði á mig þangað til dyrnar luktust á eftir mér. Á leiðinni upp stigann leit hún um öxl, glettna stúlkan, sem fylgdi mér til herbergis, og sagði

"Jóhanni okkar gest aldrei að neinum manni, sem sama háralit hefir og þér."

"Honum gest líklega betur að háralit eins og yðar," sagði ég.

"Ég átti við háralit á karlmönnum," sagði hún flírulega.

"Hvað þá?" spurði ég og tók við ljósastjakanum, "er nokkuð komið undir háralit karlmanna?"

"Ónei, en mér þykir vænt um háralitinn yðar – það er rauða hárið Elphberganna."

"Það er ekki meira komið undir háralit karlmanna en þessu," sagði ég og rétti henni um leið eitthvert lítilræði.

"Guð blessi yður!" sagði hún.

"Amen!" sagði ég og skildi við hana.

En eigi að síður hefi ég nú komist að raun um, að það er töluvert komið undir háralit karlmanna stundum.


III. KAPITULI.

Ég var ekki svo ósanngjarn að ímynda mér, að ráðsmaður hertogans hefði ímugust á mér vegna þess hvernig hárið á mér var litt; en þó að ég hefði nú haldið það, þá hefði ég hlotið að falla frá því, þegar ég sá hve vel og vingjarnlega hann tók mér um morguninn. Hann hafði heyrt, að ég ætlaði til Streslau, og kom til mín þegar ég sat að morgunverði, og sagði mér að systir sín, er gift var efnuðum iðnaðarmanni í höfuðborginni, hefði boðið sér herbergi að heimili sínu. Hann kvaðst hafa tekið því þakksamlega, en sæi nú fram á, að hann hefði ekki tóm til að fara þangað. Nú sagði hann, að mér væri velkomið, ef ég gæti gert mér þetta lítilfjörlega herbergi að góðu (er hann sagði hreint og þrifalegt), að nota það í sinn stað. Hann lét vel yfir gestrisni systur sinnar, og var fjölorður um óþægindin, sem væru að mannfjöldanum í Streslau, og hve erfitt yrði ferðalagið þangað og þaðan. Ég tók boði hans hiklaust, og hann fór að símrita systur sinni meðan ég var að taka saman föggur mínar og búa mig undir að leggja á stað með lestinni. En hugur minn stóð þó til skógarins, og skothússins, og með því að káta kunningjastúlkan mín sagði mér, að járnbrautarstöð væri rétt við þjóðveginn, réð ég af að senda flutning minn rakleitt þangað, sem Jóhann hafði sagt mér að systir sín byggi, og fara gangandi áleiðis til Streslau. Jóhann var kominn burtu og vissi ekkert um þessa breytingu á fyrirætlunum mínum; en vegna þess að hún var ekki önnur en sú, að það drægist dálítið að ég kæmi á fund systur hans, fannst mér óþarft að fást um að gera honum það kunnugt. Sú góða kona, systir hans, mundi engar áhyggjur hafa mín vegna.

Ég snæddi morgunverð snemma, kvaddi veitingahúsfólkið, er hafði sýnt mér svo gott atlæti og lofaði að koma við hjá því er ég héldi aftur heimleiðis. Svo lagði ég á stað upp hæðirnar til kastalans, og þaðan til skógarins hjá Zenda. Í hægðum mínum gekk ég á hálfri klukkustund til kastalans. Hann hafði verið víggyrtur í fyrri daga, og gamla fangaturninum var enn vel við haldið og hinn reisulegasti. Á bak við hann var önnur álma af kastalanum forna, og aftan við þá álmu var snotur höll, með nýtískusniði, er látni konungurinn hafði látið reisa, og var nú sveitabústaður hertogans af Streslau. Umhverfis allar gömlu kastalabyggingarnar lá djúpur skurður og greindi hann höllina frá þeim. En yfir hann lá vindubrú milli gömlu og nýju bygginganna, og var eigi auðið að komast inn í gamla kastalann neina aðra leið en yfir brú þessa. Að höllinni sjálfri lá breið og falleg gata. Þetta var ágætis bústaður. Þegar Michael svarta fýsti að fá heimsóknir, gat hann dvalið í höllinni; en ef hann kynni að vilja draga sig í hlé, og firrast aðsóknir gesta, þá þurfti hann ekkert annað en að ganga yfir brúna og láta vinda hana upp, og þá var ónáandi til hans nema með nægum herafla og stórskotaliðskosti. Ég hélt leiðar minnar þaðan, og var þess fullviss, að þó að aumingja Michael svarti ætti hvorki kost á að eignast ríkið eða prinsessuna, þá væri bústaður hans eigi óálitlegri en hvaða prins sem vera skyldi í Evrópu.

Innan skamms kom ég inn í skóginn, og reikaði áfram í fulla klukkustund í skugga trjánna, svalandi og hressandi. Eikurnar teygðu saman limið yfir höfði mér, og sólargeislarnir hrundu niður um það eins og skínandi demantar, og varla fyrirferðarmeiri. Ég var hugfanginn af þessum yndislega stað, og þegar ég kom að tré einu föllnu, settist ég niður, hallaði mér upp að því, rétti frá mér fæturnar, og tók í næði að dást að kyrrlátri skógarfegurðinni, reykjandi góðan vindil. Og þegar vindillinn var reyktur og ég hafði (að því er ég held) dást að fegurðinni sem mig lysti, hné ég í ofur væran blund, og sinnti hvorki um lestina til Streslau né kvöldskuggana, sem færðust nær. Það hefði líka gengið glæp næst, að láta sér detta í hug járnbrautarlest í öðrum eins stað. Í þess stað fór mig að dreyma það, að ég væri kvæntur Flavíu prinsessu og byggi í kastalanum í Zenda, og reikaði á daginn um rjóður skógarins með ástmey minni. Það var indæll draumur. Mér þótti sem ég væri rétt að því kominn að þrýsta eldheitum kossi á yndislegu varirnar á prinsessunni, þegar ég heyrði einhvern kalla (mér fannst fyrst það vera eitt atriðið í draumnum) hátt og ruddalega:

"Ja, hver skollinn! Ekki þyrfti nema að raka hann, þá þekti hann enginn frá konunginum!"

Þessi uppástunga sýndist nægilega vitlaus til að vera draumur. Ekki nema það þó, að gera úr mér einveldishöfðingja með því að raka af mér yfirskeggið, sem var bæði mikið og teygt upp á við endarnir eins og á keisara! Ég þóttist ætla að kyssa prinsessuna í annað sinn, en komst þá að þeirri niðurstöðu, (og þótti hvergi gott), að ég væri vaknaður.

Þegar ég opnaði augun, sá ég tvo menn standa hjá mér og horfa á mig forvitnislega. Báðir voru í skotmannabúningi og héldu á byssum. Annar var fremur lágur vexti en þrekinn vel. Höfuðið á honum var stórt og hnöttótt og granaskeggið farið að grána. Augun voru ljósblá, og ofurlítið blóðhlaupin. Hinn var grannvaxinn og ungur að aldri, meðalmaður á hæð, dökkur yfirlitum, fallegur á velli og bar sig vel. Ég gat mér þess til, að eldri maðurinn væri gamall hermaður, en hinn maðurinn væri vanur að umgangast fólk af betra tagi, og væri ekki óvanur hermannalífinu heldur. Síðar komst ég að raun um að ég hafði farið býsna nærri um þetta.

Eldri maðurinn nálgaðist mig, og gaf hinum yngri merki um að fylgja sér. Hann gerði það og yppti hattinum kurteislega um leið. Ég spratt á fætur.

"Þeir eru líka jafnir á vöxt," heyrði ég hinn eldri tauta, er hann hafði mælt hæð mína, þrjár álnir og tvo þumlunga, með augunum. Svo snart hann húfu sína, að hermanna sið og ávarpaði mig þannig:

"Viljið þér segja mér nafn yðar?"

"Vegna þess að þið hafið orðið fyrri til að hefja kunningsskapinn, finnst mér viðurkvæmilegt að þið segið mér nöfn ykkar fyrst," sagði ég brosandi.

Ungi maðurinn færði sig ofurlítið nær brosti ljúfmannlega og sagði:

"Þetta er Sapt ofursti, og ég heiti Fritz von Tarlenheim; við erum báðir í þjónustu Rúritaníu-konungs."

Ég hneigði mig, tók ofan og svaraði:

"Ég heiti Rúdólf Rassendyll, og er ferðamaður frá Englandi. Ég hefi verið í herliði Hennar Hátignar, drottningar minnar, um eitt eða tvö ár."

"Þá erum við allir hjörvabræður," svaraði Tarlenheim, og rétti mér hönd sína, en ég tók í hana hiklaust.

"Rassendyll! Rassendyll!" tautaði Sapt ofursti. Svo kom alt í einu svipbreyting á greindarlega andlitið á honum.

"Hvað þá?" hrópaði hann. "Eruð þér einn Burlesdonanna?"

"Bróðir minn er Burlesdon lávarður," svaraði ég.

"Hárið á yður kemur upp um yður," svaraði hann, brosti í kampinn og benti á berhöfðaðan kollinn á mér. Hefir þú ekki heyrt söguna um það, Fritz?"

Ungi maðurinn leit til mín, eins og hann vildi bera í bætifláka fyrir mig. Hann sýndi nærgætni, sem mágkona mín hefði dáðst að. Til að sýna honum, að ég tæki þetta ekki nærri mér sagði ég brosandi:

"Hún virðist vera mönnum kunn hér, sagan sú, eigi síður en heima fyrir hjá okkur."

"Kunn!" endurtók Sapt. "Ef þér dveljið hér, nokkra daga mun ekki nokkur karlmannsræfill í allri Rúritaníu efast um sannleika sögunnar og engin kona heldur."

Mér fór ekki að verða um sel. Ef mér hefði verið það ljóst, hve skýrt skráða ættartölu ég hefði meðferðis, þá hefði ég hugsað mig æðilengi um áður en ég hefði lagt á stað til Rúritaníu. En nú var ég samt kominn þangað.

Í þessum svifum heyrðist kallað hátt inni í skóginum á bak við okkur:

"Fritz, Fritz! Hvar ertu maður?"

Tarlenheim hrökk við og sagði í fáti:

"Það er konungurinn, sem er að kalla!"

Gamli Sapt brosti aftur í kampinn.

Rétt á eftir kom ungur maður hlaupandi fram úr skóginum og nam staðar hjá okkur. Þegar ég sá hann rak ég upp óp af undrun og hann hopaði líka aftur á bak forviða þegar hann sá mig. Að undanteknu yfirskegginu á mér og tíguleik þeim er staða hans krafðist, að undanteknu því, segi ég ennfremur, að hann væri nærri hálfum þumlungi lægri en ég (eða minna en það), gat Rúritaníu-konungurinn hafa verið Rúdólf Rassendyll, og ég Rúdólf konungur.

Um stund stóðum við hræringarlausir og störðum hvor á annan. Síðan tók ég aftur ofan og hneigði mig virðulega. Konungurinn varð fyrri til máls og sagði undrandi:

"Ofursti – Fritz – hver er þessi maður?"

Ég var í hann veginn að svara, þegar Sapt ofursti gekk fram á milli mín og konungsins, og fór að tala við Hans Hátign í lágum hljóðum. Konungurinn beygði sig ofan að Sapt, og leit til mín öðru hvoru meðan hann hlustaði á það, sem Sapt var að segja. Ég virti hann nákvæmlega fyrir mér. Það var satt, við vorum undarlega líkir, þó mér dyldist ekki, að svipmunur var að sumu leyti. Konungurinn var heldur holdugri í andliti en ég, og andlitið ofurlítið bungu vaxnara fram á við, og mér fannst munnurinn á honum lýsa minni staðfestu (eða þráa), en samankipruðu varirnar á mér. En þrátt fyrir þennan óverulega mun, vorum við svo dæmalaust líkir að eftir því hlaut að verða tekið á augabragði.

Sapt hætti að tala, en konungurinn var hinn alvarlegasti. En svo fóru munnvikin á honum að dragast ofur hægt út á við, nefbroddurinn að teygjast niður (öldungis eins og nefbroddurinn á mér stundum), glampi kom í augun, og svo, skal ég segja ykkur, rak hann upp óstöðvandi hlátur, svo undir tók í skóginum og gaf til kynna hve glaðlyndur maður hann var.

"Komið sæll, frændi!" hrópaði hann, færði sig nær mér og hélt áfram að hlæja. "Þér verðið að fyrirgefa, þó mér brygði kynlega við. Maður býst ekki við að sjá tvöfalt um þennan tíma dags; felst þú ekki á það, Fritz?"

"Ég verð að biðja yður að fyrirgefa flakk mitt hér," sagði ég. "Ég vona að Yðar Hátign misvirði það ekki við mig?"

"Nei, alls ekki, og þér getið einnig glatt yður við að vera líkur konunginum," svaraði hann hlæjandi; "hvort sem mér þykir það betur eða ver; og í tilbót ætla ég að geta þess, að ég er fús að gera yður hvaða greiða sem ég get. Hvert eruð þér að fara?"

"Til Streslau, herra konungur. Ég ætlaði að vera við krýninguna."

Konungurinn leit til vina sinna; hann var enn brosandi, þó að svo sýndist sem honum væri ekki alls kostar rótt. En samt gat hann ekki bælt hláturinn lengi niðri.

"Fritz, Fritz!" hrópaði hann, "ég vildi gefa þúsund kórónur fyrir að sjá svipinn á Michael bróður, þegar hann sér okkur rauðhöfðana!" og svo rak hann upp skellihlátur á ný.

"Í alvöru talað," mælti Fritz von Tarlenheim, "þá er ég í efa um hvort það sé hyggilegt að Mr. Rassendyll fari til Streslau nú um þessar mundir."

Konungurinn kveikti í vindlingi.

"Hvað finnst þér, Sapt?" spurði hann.

"Hann má ekki fara," tautaði gamli karlinn.

"Ég skil þig, ofursti, þú átt við að ég verði í skuld við Mr. Rassendyll, ef –"

"Ónei, þér megið ekki snúa svona út úr fyrir mér," svaraði Sapt og tók stærðar-reykjarpípu upp úr vasa sínum.

"Það er ekkert meira um þetta að ræða, herra konungur," sagði ég. "Ég fer brott úr Rúritaníu í dag."

"Nei, fari það gangandi; þér skuluð hvergi fara. Mér er það fyllsta alvara. Þér skuluð snæða kveldverð með mér í kveld, og látum svo skeika að sköpuðu. Engar vífilengjur. Þér hittið ekki ókunna ættingja daglega."

"Það verður ekki íburðarmikill kveldverður, sem við snæðum í kveld," sagði Fritz von Tarlenheim.

"Ég held síður – þar eð þessi nýi frændi verður gestur okkar," svaraði konungur, og þegar Fritz yppti öxlum mælti hann enn fremur: "Ég ætla að minnast þess hve snemma við lögðum upp, Fritz."

"Það ætla ég líka að gera í fyrra málið," svaraði gamli Sapt og þeytti þykkum reykjarstrokum út úr sér.

"Einmitt það, gamli Sapt minn, hygginda maðurinn," mælti konungur. "Komið nú, Mr. Rassendyll, en eftir á að hyggja, hvaða skírnarnafn var yður gefið?"

"Sama og Yðar Hátign," svaraði ég og hneigði mig.

"Jæja, það sýnir, að fólkið hefir ekki skammast sín fyrir okkur. Komið þá, Rúdólf frændi. Hér eigum við reyndar ekki þak yfir höfuðið, en minn kæri bróðir Michael hefir léð okkur húsaskjól, og við tökum okkur bessaleyfi, að hýsa yður." Að svo mæltu tók hann um handlegginn á mér, gaf förunautum sínum merki að fylgja sér, og hélt á stað með mig í vesturátt inn í skóginn.

Við héldum áfram í rúman hálfan klukkutíma, og konungurinn reykti vindlinga og masaði allan tímann. Hann hafði mjög gaman af að heyra sagt frá ætt minni, og hló hjartanlega, þegar ég sagði honum frá myndunum í myndasal okkar, er bæru háralit Elphberganna, og enn meir, þegar hann fékk að vita, að ég hefði farið, til Rúritaníu með leynd.

"Svo þér hafið orðið að heimsækja hinn illræmda frænda yðar á laun," sagði hann.

Rétt þegar við komum út úr skóginum, sáum við fram undan okkur lítið og óásjálegt skothús. Það var einlyft, eins konar sumarbústaður, byggt einvörðungu úr tré. Þegar við nálguðumst það kom á móti okkur maður, smár vexti í viðhafnarlitlum einkennisbúningi. Enga aðra manneskju sá ég þar nema gamla feitlægna konu, er ég fékk síðar að vita, að var móðir Jóhanns ráðsmanns hertogans.

"Jæja, Jósef, er miðdegisverðurinn tilbúinn?" spurði konungur.

Þjónninn kvað já við, og við settumst að dýrindis krásum. Borðhaldinu er best lýst með þeim hætti, að konungurinn snæddi hraustlega, Fritz von Tarlenheim hæversklega, gamli Sapt græðgislega. Ég er vanur að geta tekið vel til matar míns; konungur varð þess var og líkaði honum það vel.

"Við erum allir matmenn, Elphbergarnir," sagði hann. "En hvað er þetta? Við snæðum þurrbrjóstaðir. Vín, Jósef!, komdu með vín, maður. Heldurðu að við séum gripir, Jósef, og getum snætt án drykks? Heldurðu að við séum nautgripir, Jósef?"

Þegar Jósef hafði fengið þessa áminningu hraðaði hann sér að stafla flöskum á borðið.

"Munið eftir morgundeginum," sagði Fritz.

"Já, morgundeginum!" sagði Sapt gamli.

Konungurinn tæmdi glas sitt í botn og drakk minni "Rúdolfs frænda". Hann kallaði mig það af kurteisi eða í gamni; og ég drakk aftur minni "Elphbergs rauða", og hló hann dátt að því.

Hvað svo sem um kjötkrásirnar var að segja, þá var vínið sem við drukkum hreinasta afbragð, og við neyttum þess eftir því. Einu sinni ætlaði Fritz að stöðva drykkjuna og tók um hönd konungs.

"Hvað þá?" hrópaði konungurinn. "Minnstu Þess, Mr. Fritz, að þú verður að leggja á stað á undan mér, og ég fæ að hvíla mig hér tveim stundum lengur en þú."

Fritz sá að ég vissi ekki við hvað hann átti.

"Ofurstinn og ég," sagði hann, "förum héðan klukkan 6; við ríðum niður til Zenda og komum aftur með lífvörðinn að sækja konunginn klukkan átta. Að því búnu ríðum við allir á stað til járnbrautarstöðvarinnar."

"Fari sá lífvörður til fjandans!" tautaði gamli Sapt.

"Það er mjög kurteislegt af bróður mínum, að bjóða mér, að heiðra mig með að lána mér hermenn sína til fylgdar mér," sagði konungurinn. "Við skulum halda áfram drykkjunni frændi minn. Komdu með aðra flösku maður"

Ég fékk aðra flösku, eða réttara sagt nokkurn hluta úr flösku, því að meiri hlutinn af henni rann með miklum hraða niður kokið á Hans Hátign. Fritz hætti nú alveg að telja úr um drykkjuna, en lét í þess stað teljast á að drekka, og eigi leið á löngu uns við vorum allir orðnir svo drukknir, að eigi var á það bætandi. Konungurinn fór að rausa um það, hverju hann ætlaði að koma til leiðar í framtíðinni, Sapt gamli um hverju hann væri búinn að afkasta, Fritz um einhverja fallega stúlku eða stúlkur og ég um þá ágætis kosti, er Elphberga-konungsættin væri búin. Við þvöðruðum allir í einu, og fórum bókstaflega eftir þeim ummælum Sapts, að láta morgundaginn bera umhyggju fyrir sér sjálfan.

Loksins setti konungur glas sitt á borðið, hallaði sér aftur á bak á stólnum og sagði:

"Ég er búinn að drekka nóg."

"Fjarri sé það mér að mótmæla konunginum," sagði ég.

Og það var dagsanna, sem hann sagði – svo langt sem það náði.

Meðan ég var að tala, kom Jósef og setti einkennilega, gamla, tágumriðna flösku á borðið fyrir framan konunginn. Hún hafði legið svo lengi í einhverjum dimmum kjallara, að helst virtist eins og hún þyldi ekki að koma í ljósbirtuna.

"Hans tign hertoginn af Streslau bað mig að bera konunginum þetta vín, þegar konungurinn væri orðinn leiður á öllum öðrum vínum, og biðja konunginn að drekka þessa flösku fyrir sakir ástar þeirrar, er hann ber til bróður síns."

"Fallega gert, Michael svarti!" sagði konungurinn. "Upp með tappann, Jósef. Fari hann bölvaður. Ímyndaði hann sér kannske, að standa mundi á því að ég gerði flöskunni hans skil?"

Flaskan var opnuð, og Jósef fyllti glas konungsins. Konungurinn dreypti í það. Síðan leit hann á okkur með alvörusvip, samboðnum þessari stundu og ástandi hans sjálfs og sagði:

"Herrar mínir, vinir mínir – Rúdolf, frændi minn (sagan er bannsett hneyksli Rúdolf, ég segi það satt) – allir hlutir standa ykkur til boða, alt að helmingi Rúritaníu. En biðjið mig ekki um deigan dropa úr þessari guðdómlegu flösku. Hana ætla ég að drekka fyrir minni slægðar – slægðarormsins hans Michael svarta, bróður míns."

Að svo mæltu greip konungurinn flöskuna og setti hana á munn sér, tæmdi hana í botn og fleygði henni frá sér, og svo hné höfuð hans niður á hendur honum á borðinu.

Og við drukkum, biðjandi konunginum blíðra drauma, og meira man ég ekki af því sem gerðist það kveld. Enda mun þetta nægja.


IV. KAPITULI.

Mér er jafn-ókunnugt um það, hvort ég svaf eina mínútu eða heilt ár. En ég vaknaði skjálfandi; hár mitt, andlit og fötin var rennandi blautt af vatni, og uppi yfir mér stóð Sapt gamli. Hann brosti háðslega og hélt á tómri vatnsfötu í hendinni. Fritz von Tarlenheim sat uppi á borðinu rétt við hliðina á honum, gulbleikur í framan eins og afturganga, með svarbláa tauma neðan við augun.

Ég spratt upp bálreiður.

"Þetta kalla ég grálegt gaman," hrópaði ég.

"Látið ekki svona, maður. Við höfum ekki tíma til að jagast núna. Það var ómögulegt að vekja yður öðruvísi. Klukkan er fimm."

"Sapt ofursti, ég skal þakka yður," – tók ég til máls og sauð í mér bræðin, þó að ónota hrollur væri reyndar í skrokknum á mér.

"Rassendyll," greip Fritz fram í, fór ofan af borðinu og tók um handlegginn á mér, "lítið þér á!"

Konungurinn lá endilangur á gólfinu. Andlitið á honum var jafnrautt hárinu, og hann dró þungt andann. Sapt gamli, ruddinn sá arna, sparkaði hranalega í hann. En konungurinn hrærði sig ekki og ekki kom nein óregla á andardrátt hans. Ég sá, að vatnið lak af hári hans og andliti eins og á mér.

"Við erum nú búnir að eyða hálfri klukkustund að fást við hann," sagði Fritz.

"Hann, drakk þrisvar sinnum meira en hver okkar," tautaði Sapt.

Ég kraup niður og tók á lífæðinni á honum. Æðaslátturinn var einkennilega daufur og hægur. Við litum hver framan í annan, þessir þrír.

"Skyldi svefnlyf hafa verið í síðustu flöskunni?" spurði ég lágt.

"Ég veit ekki," svaraði Sapt.

"Við verðum að ná í lækni."

"Það er enginn læknir nær en tuttugu mílur héðan, og þúsund læknum mundi ekki takast að koma honum til Streslau í dag. Ég sé glöggt hvernig þetta fer. Hann rumskar ekki næstu sex klukkustundirnar," mælti Fritz von Tarlenheim.

"En krýningin?" hrópaði ég kvíðafullur.

Fritz yppti öxlum. Ég var farinn að sjá, að það var kækur hans, þegar eitthvað kom fyrir.

"Við verðum að gera orð um, að hann sé veikur," sagði hann.

"Ég býst við því," sagði ég.

Sapt gamli var eins og nýsleginn túskildingur. Hann hafði kveikt í pípunni sinni og púðraði nú í ákafa.

"Ef hann verður ekki krýndur í dag," sagði hann, "þá verður hann aldrei krýndur. Ég þori að veðja hverju sem er um það."

"En hvernig í ósköpunum stendur á því."

"Öll þjóðin hefir safnast saman til að taka á móti honum; helmingur herliðsins – og Michael í fylkingarbroddi. Eigum við að gera orð um, að konungurinn sé fullur?"

"Að hann sé veikur," sagði ég til að bæta úr.

"Veikur!" endurtók Sapt og hló kuldahlátur. "Mönnum er helst til kunnugt um veikindi hans. Hann hefir verið 'veikur' áður!"

"Við verðum að eiga það á hættu hvað menn halda," sagði Fritz í ráðaleysi. "Ég skal fara með boðin, og reyna að bæta úr skák, eftir því sem hægt er."

Sapt brá upp hendinni.

"Segið mér," sagði hann, "haldið þið að konunginum hafi verið gefið svefnlyf?"

"Ég held það," svaraði ég.

"Og hver byrlað það?"

"Bölvaður hundurinn hann Michael svarti," sagði Fritz og gnísti tönnum.

"Ójá," sagði Sapt, "svo að hann yrði krýndur sjálfur. Þér þekkið ekki okkar góða Michael, Rassendyll minn. Heldur þú Fritz, að Michael verði ráðalaus með konungsefnið? Stendur ekki helmingur lýðsins í Streslau með öðrum keppinaut? Ef konungurinn lætur ekki sjá sig í Streslau í dag, þá gengur ríkið honum úr greipum. Ég er eins viss um það, og að guð er uppi yfir mér. Ég þekki Michael svarta."

"Við getum flutt hann þangað," sagði ég.

"Hann er heldur ekki ósnotur ásýndum núna," hreytti Sapt út úr sér.

Fritz von Tarlenheim fól andlitið í höndum sér. Konungurinn dró þungt andann og hraut hátt. Sapt rak fótinn í hann á ný og sagði:

"Fyllihundur! En samt er hann Elphbergur og sonur föður síns, og heldur vildi ég stikna í helvíti, en að Michael svarti setjist í hásætið hans!"

Við þögðum allir stundarkorn. Svo hnyklaði Sapt brýrnar, tók út úr sér pípuna og sagði við mig:

"Þegar maður fer að eldast, fer maður að trúa á forlög. Forlögin sendu yður hingað. Og forlögin senda yður nú til Streslau."

Ég hrökk við. "Drottinn minn!" varð mér að orði.

Fritz leit upp. Ákefð og undrun skein úr svip hans.

"Það er ómögulegt!" tautaði ég. "Ég hlyti að þekkjast."

"Það er áhætta, en víst er það ekki," sagði Sapt. "Ef þér látið raka yður, þori ég að segja, að þér þekkist ekki. Eruð þér hræddur?"

"Herra minn!"

"Sláið þá til, kunningi; en líf yðar liggur við, ef þér þekkist, – og líf mitt – og Fritz þarna líka. En ef þér þorið það ekki, þori ég að sverja yður það, að Michael svarti verður sestur í hásæti í kveld, og konungurinn kominn í fangelsi, eða gröf sína."

"Konungurinn mundi aldrei fyrirgefa mér þetta," sagði ég stamandi.

"Erum við konur? Hver skyldi skeyta um fyrirgefningu hans?"

Klukkudingullinn tifaði fram og aftur, fimmtíu, sextíu, sjötíu sinnum, og ég stóð hugsandi allan þann tíma. En þá býst ég við að svipbreyting hafi komið á andlitið á mér, því að Sapt gamli greip um hönd mína og hrópaði:

"Ætlið þér kannske að fara?"

"Já, ég ætla að fara," sagði ég og leit niður á konunginn, sem lá endilangur á gólfinu.

"Í nótt," sagði Sapt lágt, verðum við að vera í höllinni. En þegar við erum orðnir einir, stígum við þér og ég á bak hestum okkar. – Fritz verður að vera þar eftir og halda vörð um herbergi konungsins, – ríðum hingað á harða spretti. Konungurinn verður þá viðbúinn – Jósef skýrir honum frá öllu – og hann verður at ríða með mér aftur til Streslau, en þér þveitið á stað til landamæranna, eins og fjandinn sé í hælunum á yður."

Ég skildi þetta alt á augabragði og kinkaði kolli.

"Þetta getur kannske heppnast,"sagði Fritz. Nú fyrst var farin að vakna hjá honum ofurlítil von.

"Já, ef ekki kemst upp um mig," sagði ég.

"Ef að kemst upp um yður," sagði Sapt, "þá ætla ég að senda Michael svarta norður og niður á undan mér; ég sver það við allar helgar vættir. Setjist niður á stólinn þarna, maður!"

Ég hlýddi.

Hann þaut út úr herberginu og kallaði: "Jósef! Jósef!" Eftir drykklanga stund var hann kominn aftur, og Jósef með honum. Jósef kom með krukku með volgu vatni, sápu og rakhníf. Hann titraði af hræðslu þegar Sapt sagði honum hvað í ráði væri, og bað hann að raka mig.

Alt í einu tök Fritz viðbragð og hrópaði:

"En lífvörðurinn! Þeir hljóta að þekkja hann Þeir hljóta að þekkja hann!"

"Ónei. Við ætlum ekki að bíða eftir neinum lífverði. Við ríðum til Hofbau og náum í lestina þar.

Þegar lífvörðurinn kemur verður fuglinn floginn."

"En konungurinn."

"Konungurinn verður í vínkjallaranum. Ég ætla að bera hann þangað núna."

"En hvernig fer, ef þeir skyldu finna hann?"

"Það kemur ekki til mála. Hvernig ættu þeir að geta fundið hann? Jósef tekur af heim skriðið."

"En –"

Sapt stappaði niður fætinum.

"Við gerum þetta ekki að gamni okkar", öskraði hann. "Herra minn trúr! haldið þið að ég viti ekki um áhættuna? En þó að þeir fyndu konunginn, þá er hann engu ver kominn, heldur en ef hann verður ekki krýndur í Streslau í dag."

Að svo mæltu reif hann opna hurðina, beygði sig áfram og lyfti konunginum upp. Ég hafði ekki búist við að hann væri svona fílsterkur. En þegar hann var að þessu sáum við að móðir Jóhanns stóð frammi í ganginum. Hún stóð kyrr ofurlitla stund, svo sneri hún sér á hæl, og hvarf ofan stigann, án þess að láta sjá á sér nein undrunarmerki.

"Skyldi hún hafa heyrt það?" sagði Fritz.

"Ég skal loka túlanum á henni," tautaði Sapt reiðulega, og fór svo ofan með konunginn í fanginu.

Ég settist niður á hægindastól og sat þar í leiðslu þangað til Jósef var búinn að klippa og nauðraka af mér yfirskeggið keisaralega, og ég var orðinn jafn skegglaus sem konungurinn. Og þegar Fritz sá mig stundi hann feginsamlega og hrópaði:

"Hamingjunni sé lof! Ég þori að segja, að okkur heppnast þetta!"

Klukkan var nú orðin sex, og við máttum engan tíma missa. Sapt ýtti mér á undan sér inn í herbergi konungs, og ég færði mig í snatri í ofursta-búning eins lífvarðarforingjans. Ég hafði þó tóm til að spyrja Sapt um hvað hann hefði gert við gömlu konuna meðan ég var að troðast í stígvélin konungsins.

"Hún sór og sárt við lagði, að hún hefði ekki heyrt neitt," sagði hann, "en til að vera viss um hana batt ég hana á höndum og fótum og hnýtti vasaklút fyrir munninn á henni. Svo lokaði ég hana inni í kolakjallaranum, rétt við hliðina á konunginum Jósef gætir þeirra beggja."

Ég fór að skellihlæja, og Sapt gamli gat ekki heldur stillt sig um að brosa.

"Ég ímynda mér," sagði ég, "að þeir búist við að okkur hafi grunað að brögð væru í tafli, þegar Jósef segir þeim að konungurinn sé farinn. Það er svo sem enginn efi á því, að Michael svarti á enga von á að sjá hann í Streslau í dag."

Ég setti hjálm konungs á höfuð mér. Sapt gamli rétti mér sverð konungs, og horfði svo á mig fast og lengi.

"Guði sé lof, að hann rakaði af sér skeggið!" hrópaði hann.

"Hversvegna gerði hann það?" spurði ég.

"Vegna þess að Flavía prinsessa fann að því, að skeggið á honum stingi hana í kinnina, þegar honum þóknaðist allra frændsamlegast að kyssa hana. En komið nú. Við verðum að ríða á stað."

"Er alt tryggt hér?"

"Ekkert er tryggt neinsstaðar," sagði Sapt, "en við getum ekki gert það tryggara."

Fritz kom nú til okkar. Hann var kominn í kafteins-búning, sömu hersveitar og búningur minn var. Að fjórum mínútum liðnum var Sapt kominn í búning sinn. Jósef kallaði nú til okkar og sagði að hestarnir biðu okkar. Við stukkum á bak og þeystum á stað. Leikurinn var byrjaður. Hvernig skyldi hann fara?

Í hressandi morgunkælunni skýrðust hugsanir mínar, og ég gat nú fest mér í huga alt, sem Sapt sagði mér. Hann var einkennilegur maður. Fritz mælti varla orð frá munni, og reið áfram eins og sofandi maður. Sapt nefndi konunginn ekki á nafn, en fór strax að segja mér mjög nákvæmlega fyrri hluta ævisögu minnar, frá ættingjum mínum, venjum, háttum, göllum, vinum, félögum og þjónum. Hann skýrði mér frá hirðsiðum við Rúritaníu-hirðina, og lofaði að vera mér jafnan nærstaddur, og gefa mér bendingar um sérhvern þann, sem ég ætti að þekkja, og gera mér skiljanlegt hverskonar heiður ég ætti að sýna hverjum einum.

"Vel á minnst," sagði hann, "ég býst við að þér séuð kaþólskur?"

"Ónei," svaraði ég.

"Guð styrki mig, hann er þá vantrúarmaður!" tautaði Sapt og svo fór hann að skýra mér frá venjum og helgisiðum kaþólskrar trúar mjög nákvæmlega.

"Sem betur fer, verður þess ekki vænst, að þér vitið mikið" sagði hann, "því að konungurinn er þekktur að því að vera lítt fróður og kærulaus um þau efni. En þér verðið að vera bljúgur og blíður við kardínálann. Við vonumst til að vinna hann á okkar mál, vegna þess að Michael og hann hafa átt í stöðugum erjum um valdaforráð."

Við vorum nú komnir að járnbrautarstöðinni. Fritz hafði nú vaxið svo kjarkur, að hann gat tilkynt stöðvar-formanninum að konungurinn hefði breytt ferðaáætlun sinni, og furðaði hann ekki lítið á því. Lestin lagði á stað. Okkur var skipað inn í einn besta vagninn, og Sapt hallaði sér þar út af í einum legubekknum og hélt áfram að gefa mér leiðbeiningar. Ég leit á úrið mitt – það var reyndar úrið konungsins. Klukkan var orðin átta.

"Skyldu þeir þá hafa farið að skyggnast eftir okkur." sagði ég.

"Ég vona, að þeir finni konunginn ekki," sagði Fritz kvíðafullur, og í þetta skipti yppti nú Sapt öxlum.

Lestin hélt vel áfram, og þegar ég leit út um gluggann klukkan hálf tíu, sá ég turna stórborgarinnar.

"Þetta er höfuðborgin yðar, drottinn minn," sagði Sapt gamli og brosti glettnislega. Svo hallaði hann sér áfram og drap fingri á lífæðina á mér. "Hún er heldur í tíðara lagi," sagði hann í harðneskjulegum rómi, sem honum var laginn.

"Ég er ekki steingervingur," svaraði ég.

"Þér munuð samt duga vel," sagði hann og kinkaði kolli. "En ég er hræddur um að hann Fritz, þarna hafi fengið köldusótt. Blessaður Fritz heltu í þig úr flöskunni þinni, maður, í öllum hamingjubænum!"

Fritz fór að ráðum hans.

"Við komum klukkustund fyrr en til var ætlast." sagði Sapt. "Við gerum orð á undan okkur um að Hans Hátign sé kominn, því að hér verður enginn fyrir að taka á móti okkur nú. Og á meðan –"

"Og á meðan," sagði ég, "verður konungurinn að snæða morgunverð, ef hann á ekki að drepast úr hungri."

Hláturinn sauð í Sapt gamla og hann rétti mér höndina.

"Þér eruð sannur Elphberg," sagði hann. Svo þagnaði hann, leit til okkar og sagði rólega: "Guð gefi að við fáum að lifa næstu nótt!"

"Amen!" sagði Fritz von Tarlenheim.

Lestin nam staðar. Fritz og Sapt hlupu út berhöfðaðir og opnuðu hurðina fyrir mér. Ég renndi niður munnvatni mínu til að draga úr herpingnum, sem var í hálsinum á mér, þrýsti hjálminum vel ofan á höfuðið og (ég skammast mín ekki að segja frá því) stundi upp stuttri bæn til guðs. Því næst steig ég út á vagnstöðvapallinn í Streslau.

Rétt á eftir komst alt í uppnám: sumir komu hlaupandi, með hattana í höndunum, og þutu burt aftur; aðrir fylgdu mér í matsalinn, og enn aðrir stigu á bak hestum sínum og riðu alt hvað af tók til herstöðvanna, dómkirkjunnar, og til aðseturstaðar Michaels hertoga. Og þegar ég var að ljúka við að drekka úr kaffibollanum mínum kvað við glaðvær hreimur allra klukknanna í borginni, og þytur hermanna lúðraflokksins hljómaði fyrir eyrum mér.

Rúdólf konungur fimmti var kominn til Streslau, höfuðborgar sinnar! Og úti var hrópað hátt:

"Lifi konungurinn!"

Bros lék Sapt gamla um varir.

"Lifi þeir báðir!" hvíslaði hann. "Verið hughraustur, vinur!" og ég fann að hann tók þétt utan um hnéð á mér.


V. KAPITULI.

Ég fór út úr matsalnum, og út á vagnstöðvapallinn. Rétt á eftir gengu þeir Fritz von Tarlenheim og Sapt ofursti. En ég gáði þó að því áður, að marghleypa mín væri tiltæk og að sverðið væri laust slíðrunum. Flokkur glaðværra liðsforingja og ættgöfugra manna stóð þar og beið mín. Fremstur var hávaxinn maður, hniginn að aldri, margkrossaður, og hinn hermannlegasti. Hann bar gula og rauða tignarmerki Rúritaníu-rósarinnar rauðu, – er einnig skreytti nú bringu mína óverðuga.

"Strakencz marskálkur," hvíslaði Sapt, og ég vissi að ég stóð nú frammi fyrir nafnfrægasta herforingjanum í herliðinu rúritanska."

Að baki marskálksins stóð lágvaxinn, grannur maður, í áburðarmiklum litklæðum, dökkum og hárauðum.

"Kanslari konungsríkisins," hvíslaði Sapt.

Marskálkurinn heilsaði mér með nokkrum virðulegum orðum, og fór að skýra mér frá afsökun, sem hertoginn af Streslau sendi. Það var látið heita svo, að hertoginn hefði orðið alt í einu svo lasinn, að hann hefði ekki getað farið á járnbrautarstöðina, en hann æskti leyfis að fá að heilsa upp á Hans Hátign í dómkirkjunni. Ég lét hryggð mína í ljósi, og tók afsökunum marskálksins mjög blíðlega, og heilsaði svo fjöl mörgum mikilsmetnum höfðingjum. Engan virtist gruna neitt, og fann ég að mér fór að vaxa hugur og hjartslátturinn, sem ég hafði haft, minkaði. En Fritz var enn fölur, og höndin á honum skalf eins og laufblað, þegar hann rétti marskálkinum hana.

Innan skamms skipuðu menn sér í fylkingu og var síðan gengið til dyranna á stöðinni. Þar steig ég á bak hesti mínum, og marskálkurinn hélt í ístaðið. Borgara-stéttar höfðingjarnir sneru til vagna sinna, og nú lagði ég á stað til að halda innreið mína í borgina. Á hægri hönd mér reið marskálkurinn, en Sapt (sem rétt hafði til þeirrar virðingar, því að hann var æðsti aðstoðar-herforingi minn) á vinstri.

Streslau borg er bæði forn og ný. Breiðir gangstígar með nýtískusniði og íbúðarhús liggja beggja megin við mjóu, bugðóttu, einkennilegu göturnar í gömlu borginni. Heldra fólkið býr utan til í þeim hluta borgarinnar, en nær miðju eru sölubúðirnar. En aftan við búðirnar, sjálegar að framanverðu, eru fjölbyggð bakstræti og óþrifaleg, þar sem snauður, byltinga gjarn, (og að mörgu leyti) glæpsamlegur lýður á heima. Þjóðfélagslega niðurröðunin var öldungis með sama hætti, í hinum borgarhlutanum, eftir því sem Sapt hafði sagt mér, en sá partur borgarinnar kom mér meira við. Borgarbúar í nýja borgarhlutanum fylgdu konunginum, en eftirlætisgoð þeirra, sem í gömlu borginni bjuggu, var Michael hertogi af Streslau. Hann var dýrðlingur þeirra og á honum byggðu þeir allar vonir sínar.

Dýrðlegt var um að sjá, er við fórum eftir aðalgötunni, og um flötina stóru, þar sem konungshöllin stóð. Þar var ég mitt á meðal velunnara minna. Öll húsin voru skreytt rauðum litum, flöggum og einkunnarorðum. Beggja megin strætanna voru upphækkuð sæti, og ég reið þar á milli og hneigði mig til beggja handa, en fagnaðaróp og blessunar hljómuðu alt umhverfis og vasaklútar voru hvervetna á lofti. Allar svalir húsanna voru alskipaðar kvenfólki, sem klappaði saman höndum, kinkaði kolli og renndi til mín hlýjum augum. Helliskúr rauðra rósa steyptist yfir mig; eitt blómið festist í makkanum á hesti mínum; og ég tók það og festi það á yfirhöfn mína. Marskálkurinn brosti kuldalega. Ég hafði verið að gefa honum hornauga öðru hvoru, en hann var of kaldlyndur til að láta það sjást, hvort hann væri mér hlynntur eða ekki.

"Rauða rósin er Elphberganna, marskálkur," sagði ég gáskalega og kinkaði kolli.

Ég hefi skrifað "gáskalega", og virðist það ef til vill kynlegt. En sannleikurinn var sá, að í mér var nokkurskonar eldmóður. Þá stundina fannst mér – já, virtist ekki geta hjá því farið – að ég væri konungurinn. Því leit ég aftur með sigurbros, á vörum uppá svalirnar Þar sem allar blómarósirnar stóðu ... og brá þá í brún. Því að þaðan starði niður til mín fallega samferðakonan mín, hún Antoinette de Mauban, og brosti drembilega; ég sá að henni brá líka, hún bærði varirnar, beygði sig áfram og starði fast á mig. En ég náði mér fljótt, og leit djarflega framan í hana líka, og þuklaði eftir marghleypu minni. Setjum svo að hún hefði æpt upp: "Þetta er ekki konungurinn!". Jæja, við héldum nú samt fram hjá, en rétt á eftir sneri marskálkurinn sér við í söðlinum og gaf merki með hendinni. Hermennirnir hringfylktu þá um okkur, svo að múgurinn komst hvergi nærri mér. Við vorum að fara úr borgarhlutanum mínum yfir í borgarhluta Michaels hertoga. Þetta atferli marskálksins sýndi orðum ljósara, hversu ástatt var í borginni. En ef það átti fyrir mér að liggja að verða konungur, þá ætlaði ég að láta mér farast hlutverk mitt sæmilega.

"Hvað á þessi tilbreyting að þýða, marskálkur?" spurði ég.

Marskálkurinn fór að japla gráa granaskeggið sitt.

"Það er hyggilegra, konungur!" tautaði hann.

Ég stansaði hest minn.

"Látið þessa menn framan við okkur halda áfram þangað til þeir eru komnir fimmtíu skref á undan okkur. En þú, marskálkur, Sapt ofursti og vinir mínir, skuluð bíða hér þangað til ég hefi riðið fimmtíu skref héðan. Og gætið þess að enginn sé í nánd við mig. Ég ætla að láta þjóð mína sjá, að ég ber fullt traust til hennar."

Sapt tók um handlegginn á mér. Ég hristi hann af mér. Marskálkurinn hikaði við.

"Hefirðu ekki skilið mig?" spurði ég; hann japlaði aftur gráa granaskeggið og gaf svo skipunina. Ég sá að Sapt gamli brosti í kampinn en hristi þó höfuðið yfir mér. Ef ég hefði verið drepinn þarna á götum Streslau borgar um hábjartan daginn mundi Sapt hafa átt úr vöndu að ráða.

Ég ætti líklega að geta þess, að allur búningur minn var drifhvítur nema stígvélin. Ég hafði silfurhjálm á höfði og gilt flúrið og breiða rósarbandið rauða skar vel af á brjósti mínu. Ég mundi ekki hrósa konunginum sem sæmdi, ef ég sleppti ekki allri hæversku og segði, að ég hafi verið mjög svo glæsilegur ásýndum. Múgnum fannst það líka, því að þegar ég reið fram einsamall um óhreinu, líttskreyttu, skuggalegu strætin í gömlu borginni, þá heyrðist fyrst óánægju kliður, því næst fagnaðaróp og kona nokkur kallaði út um glugga, sem var uppi yfir matsöluhúsi, viðkvæðið gamla: "Ef hann er rauður, þá er hann sá rétti!" og ég brosti við og tók ofan hjálminn svo að hún þyrfti ekki að efast um rétta litinn, og aftur gall við fagnaðaróp mannfjöldans.

"Hann er fölari en hann er vanur," sagði einn.

"Þú mundir vera fölleitur, ef þú lifðir eins og hann," var svarið, svo virðulegt sem það var.

"Hann er hærri en ég hélt," sagði annar.

"Það hafa verið allra myndarlegustu kjálkar undir skegginu," sagði sá þriðji.

"Myndirnar af honum eru ekki nærri nógu fallegar," sagði lagleg stúlka og gerði sér far um að láta mig heyra það. Vitanlega var það tómt smjaður.

En að undanteknum þessum velvildarmerkjum tók þorrinn af fólkinu á móti mér með þögn og illúðlegu augnaráði, og myndir af mínum kæra bróður prýddu flestalla glugga – og var það nokkuð napurt að heilsa konunginum þannig. Mér þótti vænt um að hann hafði komist hjá að sjá þá ógeðfelldu sjón. Hann var maður örgeðja, og gat skeð, að hann hefði eigi borið slíkt með jafnmikilli stillingu sem ég.

Loksins komumst við til dómkirkjunnar. Ég sá þá í fyrsta sinni stóru gráu framhliðina á henni, prýdda mörg hundruð myndum, og á henni einhverja fallegustu eikarhurð, og dyraumbúning í Evrópu, og þá fékk ég alt í einu eftirþanka af dirfsku minni. Ég sá alt eins og í þoku, þegar ég steig af baki. Ég sá þá ógerla marskálkinn og Sapt, og skartbúnu prestaþyrpinguna, sem beið mín. Og mér var nærri dimmt fyrir augum þegar ég gekk inn eftir kirkjugólfinu og orgelhljómur barst mér að eyrum. Ég leit varla á neinn í þeim prúðbúna mannsöfnuði sem fyrir var. Ég gat naumast þekkt kardínálann, jafnvöxtulegur og hann var, þegar hann stóð upp úr erkibiskupsstól sínum að heilsa mér. En þó voru þarna inni tvö andlit, sem ég sá glögglega. Annað var fölleitt, yndislegt stúlkuandlit, er ljómandi fallegt elphbergst hár (því á kvenfólki er það ljómandi fallegt) liðaðist um. Hitt var karlmannsandlit, og þóttist ég geta ráðið af þeim svarrauðu vöngum, svarta hári og dökku augunum, sem lágu langt inn í höfðinu, að ég hefði loks fengið af sjá framan í bróður minn, Michael svarta. Og þegar hann sá mig, urðu svarrauðu kinnarnar á honum fölar á einu vetfangi, og hjálmur hans féll glamrandi ofan á gólfið. Alt til þeirrar stundar ímynda ég mér að hann hafi ekki trúað því að konungurinn væri í raun og veru kominn til Streslau.

Ég man fátt af því, sem gerðist næst. Ég kraup framan við altarið og kardínálinn smurði höfuð mitt. Síðan stóð ég upp og rétti fram höndina og tók við Rúritaníu-kórónunni og setti hana á höfuð mér. Því næst sór ég konungseiðinn gamla; og (ef ég hefi syndgað þá, býst ég við að mér verði fyrirgefið það) neytti síðan hins heilaga sakramentis þarna frammi fyrir þeim öllum. Að því búnu kváðu við tónar kirkjuorgelsins mikla og marskálkurinn kvaddi til kallara, að auglýsa konungsvalið, og þá var búið að krýna Rúdolf konung fimmta, og hangir nú skýr mynd af þessum hátíðlega atburði í borðsalnum mínum. Myndin af konunginum þar er mjög svo sæmileg.

Nú gekk stúlkan fölleita með fallega hárið fram. Tveir slóðaberar fylgdu á eftir henni. Hún nam staðar rétt hjá mér og kallari hrópaði:

"Hennar konunglega hátign, Flavía prinsessa!"

Hún hneigði sig ofurlítið, tók hönd mína og kyssti á hana. Ég var dálitla stund í vafa um, hvað ég ætti að gera. En svo dró ég hana að mér og kyssti hana tvisvar á kinnina, en hún kafroðnaði. Og í sömu svifum ýtti hans tign kardínálinn sér fram hjá Michael svarta, kyssti á hönd mína og afhenti mér bréf frá páfa, og er það fyrsta og síðasta skeytið, sem ég hefi fengið frá höfði kirkjunnar.

Næstur kom hertoginn af Streslau. Ég þori að ábyrgjast, að hann skalf í hnjáliðunum, og hann leit til beggja handa eins og flóttamaður. Hann fölnaði ýmist eða roðnaði, og hönd hans titraði, þegar hann rétti hana að mér og ég fann glöggt þegar hann snerti, hana, að varir hans voru þurrar og skorpnar. Ég leit til Sapt gamla. Hann brosti í kamp. Síðan leysti ég hiklaust af hendi skyldu þá, er á mér hvíldi samkvæmt hinni furðulegu stöðu minni nú. Ég tók utan um minn kæra Michael og kyssti hann á kinnina. Ég held að okkur hafi báðum þótt vænt um, þegar það var búið.

Engin efa- eða grunsemdar-mörk gat ég séð á svip prinsessunnar eða nokkurs annars. Þó hefðu menn strax getað sagt, eða eftir dálitla umhugsun, hefðum við staðið þarna hvor hjá öðrum, hvor okkar væri konungurinn. En samt dugði nú hve líkir við vorum, og ég stóð þarna í fulla klukkustund, finnandi til jafnmikillar þreytu og lífsleiða eins og ég hefði verið konungur alla æfi mína. Allir kysstu hönd mína, og sendiherrarnir heilsuðu mér eins og þeim er títt, meðal þeirra Tophan lávarður. Margoft hafði ég dansað að heimili hans, Grossvenor Square. Hamingjunni sé lof, að gamli maðurinn virtist starblindur eins og leðurblaka, og þekti mig alls ekki.

Síðan lögðum við á stað út á strætin og til hallarinnar, og ég heyrði, að Michael svarta voru æpt árnaðaróp. En Fritz sagði mér að hann hefði nagað neglur sínar stúrinn á svipinn og jafnvel vinir hans hefðu haft orð á því, að hann hefði átt að berast betur af. Nú var ég kominn í vagn minn og þar við hliðina á mér sat Flavía prinsessa, en einhver ruddi hrópaði þá:

"Og hvenær á brúðkaupið að standa?" en um leið og hann sleppti orðinu sló annar hann löðrung og æpti: "Lengi lifi Michael hertogi!" En prinsessan roðnaði – henni fór afbragðsvel að roðna – og horfði beint fram undan sér.

Nú var ég í vanda staddur, því að ég hafði gleymt að spyrja Sapt um það, hvernig vinskap mínum og hennar væri háttað, eða hve langt væri komið milli okkar. En svo ég segi rétt eins og var, hefði ég verið konungurinn, mundi mér hafa þótt því betur, sem hann hefði verið innilegri. Því að ég er ekki daufgerður maður, og ég hafði ekki kysst Flavíu prinsessu árangurslaust. Þetta flaug mér í hug, en vegna þess að ég var í óvissu, sagði ég ekkert, en eftir litla stund hafði prinsessan náð sér aftur og sneri sér nú að mér.

"Veistu það, Rúdolf," sagði hún, "að þú ert eitthvað breyttur í dag?"

Þetta var reyndar ekkert undarlegt, en samt var mér ekkert vel við að heyra bað.

"Þú ert miklu stilltari og óléttúðugri," mælti hún ennfremur; "þú virðist nærri því sorgbitinn, og mér sýnist þú holdskarpari. Getur það átt sér stað, að þú sért farinn að líta ofurlítið alvarlegri augum á lífið en þú hefir gert?"

Það leit út fyrir að prinsessan hefði sömu skoðun á konunginum eins og frú Burlesdon hafði á mér.

Ég herti mig upp til að tala við hana.

"Mundi þér þykja vænt um það?" spurði ég blíðlega.

"Þú veist um álit mitt í því efni," sagði hún og leit undan.

"Ég vil á allan hátt reyna að gera þinn vilja," sagði ég; nú bæði brosti hún og roðnaði, svo að ég þóttist viss um að ég spilaði allvel úr spilum konungsins. Ég hélt því áfram og sagði í fyllstu einlægni:

"Ég segi þér það dagsatt, frænka mín góð, að enginn atburður, sem komið hefir fyrir mig á ævinni, hefir haft eins miklar verkanir á mig, eins og viðtökurnar, sem ég fékk í dag."

Hún brosti glaðlega, en rétt á eftir kom alvörusvipur á hana og hún spurði í lágum hljóðum:

"Tókstu eftir Michael?"

"Já," svaraði ég; "hann skemmti sér ekki vel."

"Vertu varkár!" sagði hún. "Þú hefir engar – alls engar – gætur á honum. Þú veist þó –"

"Já, ég veit, að hann keppir eftir því, sem mér hefir hlotnast," svaraði ég.

"Já. Varaðu Þig!"

Mér er ekki hægt að réttlæta það, sem ég sagði næst, því að ég gekk þar lengra fyrir hönd konungsins, en ég hafði nokkra heimild til; ég held að það hafi verið henni að nokkru leyti að kenna hvernig ég hljóp á mig. Ég sagði:

"Og ef til vill keppir hann líka eftir öðru, sem mér hefir ekki hlotnast enn þá, en ég vona að ég muni öðlast einhvern tíma."

Þessu var mér svarað, og ef ég hefði verið konungurinn, mundi mér hafa sýnst heldur gefið undir fótinn með því:

"Hefirðu ekki tekið þér nægilega ábyrgð á herðar á einum degi, frændi minn?"

Hó! hó! Bumm! bumm! Við vorum komin til hallarinnar. Fallbyssuskot kváðu við og bumbur voru barðar. Raðir þjóna stóðu og biðu og ég leiddi prinsessuna upp marmarariðið, og tók formlega við eignarrétti á heimkynni forfeðra minna, því að ég var krýndur konungur, og settist nú niður við sjálfs mín borð. Prinsessan sat mér á hægri hönd, en til hægri handar henni Michael svarti, og á vinstri hönd mér hans tign kardínálinn. Á stólbaki við mig stóð Sapt, og við borðsendann sá ég Fritz von Tarlenheim tæma kampavínsglas sitt í botn heldur í fyrra lagi.

Ég var í vafa um, hvað Rúritaníu konungurinn skyldi gera.


VI. KAPITULI.

Við vorum komnir í búnings-herbergi konungs – Fritz von Tarlenheim, Sapt og ég. Ég fleygði mér niður í hægindastól, yfirkominn af þreytu. Sapt kveikti í pípu sinni. Hann lét enga ánægju á sér heyra yfir því, hve vel okkur hefði heppnast þetta glæfralega fyrirtæki okkar, en sjá mátti samt á svip hans, að honum þótti vel hafa tekist. Heppni okkar, og ef til vill góða vínið líka hafði gert Fritz von Tarlenheim að nýjum manni.

"Já, þetta hlýtur að verða yður heldur en ekki minnisstæður dagur!" sagði hann. "Ég segi það satt að ég vildi feginn mega vera konungur einn sólarhring! En þér verðið að gæta þess, Rassendyll, að láta ástina ekki hlaupa með yður í gönur. Mig furðaði ekkert á því, þó að Michael svarti væri enn svartari en hann er vanur. Þið þurftuð svo margt að skrafa saman, prinsessan og þér."

"Sleppum stúlkunni!" tautaði Sapt. "Eruð þér tilbúinn að leggja á stað?"

"Já," svaraði ég og stundi við.

Klukkan var fimm, og klukkan tólf átti ég aftur að vera orðinn Rúdolf Rassendyll og ekkert meira. Ég minntist á það í spaugi.

"Þér megið vera hamingjunni þakklátur, ef þér verðið þá ekki Rúdolf heitinn Rassendyll," sagði Sapt harðneskjulega. "Mér finnst satt að segja, að höfuðið dingla hálf laust á hálsinum á mér hverja mínútu, sem þér dveljið í borginni. Vitið þér það, vinur minn, að Michael hefir fengið fregnir frá Zenda? Hann fór einn inn í herbergi til að lesa skeytið – og þegar hann kom út aftur var líkast því sem hann væri ekki með sjálfum sér."

"Ég er tilbúinn," sagði ég, því að þessar fréttir juku drjúgum á brottferðarfýsn mína.

Sapt settist niður.

"Ég verð að rita leyfisbréf handa okkur, svo að við komumst út úr borginni. Michael er nú hæsta ráð hér, eins og þér vitið, og við megum búast við því, að heft verði för okkar. Þér verðið að undirskrifa leyfisbréfið."

"Mér hefir aldrei verið kennd skjalafölsun, herra ofursti."

Sapt tók þá bréfmiða upp úr vasa sínum.

"Þarna er undirskrift konungsins," sagði hann, "og hér er tvíritunar-blaðsnepill. Þó að þér getið ekki komið Rúdolfs-nafninu á pappírinn, þá get ég það."

"Þér hafið fengið víðtækari fræðslu í uppeldinu, heldur en ég," svaraði ég. "Það er best þér skrifið það."

Það var dálagleg fölsun, sem hann páraði upp, gamli maðurinn.

"Jæja, Fritz," sagði hann, "nú gengur konungurinn til sængur. Hann er þreyttur. Engum verður því leyft að fara inn til hans, fyrir klukkan níu í fyrra málið. Skilurðu það – engum?"

"Ég skil það," svaraði Fritz.

"Michael gæti komið, og heimtað að sjá konunginn tafarlaust."

"En þú verður að svara því, að engum verði leyft Það nema fæddum prinsum."

"Michael reiðist af því," sagði Fritz hlæjandi.

"Skilurðu það sem ég sagði?" spurði Sapt aftur. "Ef herbergisdyrnar verða opnaðar meðan við erum burtu, þá verður þú ekki lifandi til að segja okkur frá því sem gerst hefir."

"Ég þarf ekki á neinni fræðslu um það að halda, ofursti," svaraði Fritz dálítið snúðugt.

"Klæðið yður í þessa kápu," mælti Sapt og sneri sér að mér, "og setjið húfu á höfuðið á yður. Undirforingi minn ríður með mér til skothússins í nótt."

"Það er hængur á þessu," sagði ég. "Enginn hestur ber mig fjörutíu mílur í fleng."

"Ójú, ég veit af hestum, sem geta það, einum hérna og öðrum á skothúsinu. Eruð þér fullbúinn?"

"Já, ég er tilbúinn," sagði ég.

Fritz rétti fram höndina.

"Verið þið sælir, ef við skyldum ekki sjást aftur," sagði hann.

"Fjandinn hafi volið í þér, Fritz!" tautaði Sapt. "Komið nú!"

"Hann gekk ekki að dyrunum, heldur að leynihurð í tréveggnum.

"Meðan gamli konungurinn lifði, þá voru mér þessar leiðir kunnar," sagði hann.

Ég fór á eftir honum og við gengum á að giska tvö hundruð skref eftir mjóum gangi. Þá komum við að eikarhurð. Sapt lauk henni upp. Við fórum út um dyrnar og komum þá út á stræti, þar sem umferð var lítil. Það stræti var á hallarbaki. Þar beið okkar maður með tvo hesta. Annar var jarpur, mesti stólpagripur, að sjá; hinn var brúnn, og þreklegur líka. Sapt benti mér að fara á bak þeim jarpa. Við stigum á bak þegjandi og riðum á stað. Það var glaðværð mikla að heyra í borginni, en við lögðum leiðir okkar um göturnar þar sem kyrrast var. Ég hafði brett upp kápukraganum, svo að lítt varð séð í andlit mér; en húfan sem ég hafði huldi hárið á mér, margumrædda, fullkomlega. Eftir tilmælum Sapts beygði ég mig áfram á hestinum, og reið svo boginn í baki, að ég vona að fyrir mér liggi ekki að sitja svo álútur á hesti nokkurn tíma síðar. Við riðum eftir langri, mjórri akbraut og mættum fáeinum mönnum, sem á gangi voru, á leiðinni; þegar við riðum áleiðis heyrðum við dómkirkju-klukkurnar enn klingja og bjóða konunginn velkominn. Klukkan var orðin hálf sjö, og það var bjart enn þá. Loks komum við að hallargarðinum og hliðinu á honum.

"Hafið vopn yðar tiltæk," hvíslaði Sapt. "Við verðum að þagga niður í verðinum ef hann ætlar að verða hávær."

Ég tók um skeftið á skammbyssunni minni. Sapt kallaði til dyravarðarins. Lánið var með okkur. Lítil stúlka á fermingaraldri kom til dyranna.

"Fyrirgefið, herra minn, faðir minn er farinn til að sjá konunginn," mælti hún.

"Honum hefði verið sæmra að vera hér," sagði Sapt við mig hlæjandi.

"En hann sagði, að ég mætti ekki ljúka upp fyrir neinum."

"Sagði hann það, stúlka mín?" sagði Sapt og steig af baki. "Fáðu mér þá lykilinn."

Stúlkan hélt á honum. Sapt gaf henni krónu,

"Hér er leyfisbréf frá konunginum um að láta okkur fara burtu úr borginni. Sýndu föður þínum það. Opnaðu hurðina undirforingi."

Ég hljóp til, og báðir ýttum við upp hurðinni, sem var feikilega þung, teymdum hestana út og lokuðum aftur.

"Ég kenni í brjósti um dyravörðinn, ef Michael kemst að því, að hann hefir ekki verið hér. Jæja, kunningi, nú hefst leiðangurinn fyrir alvöru. Við megum ekki ríða of hart meðan við erum nærri borginni."

En eftir að við vorum komnir út úr borginni, vorum við samt í tiltölulega lítilli hættu, því að flestir voru innan borgar og voru að skemmta sér; og nú greiddum við ferðina því meir sem skyggði. Hesturinn, sem ég reið, var ágætis-skepna og bar mig vel og léttilega. Veðrið var ljómandi gott, og tunglið kom upp snemma. Við töluðum lítið saman á leiðinni, og aðallega um það, hvernig ferðin sóttist.

"Gaman væri að vita, hverskonar skeyti það hefir verið, sem hertoganum var sent," sagði ég einu sinni.

"Ójá, Það væri nógu gaman að vita það," svaraði Sapt.

Við áðum hálfa klukkustund til að láta gefa hestunum og fá okkur ofurlitla hressingu. Ég þorði ekki að fara inn í veitingahúsið, en beið úti í hesthúsinu hjá hestunum. Síðan lögðum við á stað aftur og vorum komnir eitthvað tuttugu og fimm mílur, þegar Sapt stöðvaði hest sinn alt í einu.

"Hlustið!" hvíslaði hann.

Ég lagði við hlustirnar. Æðilangt á eftir okkur heyrðum við í kveldkyrðinni – klukkan var rétt hálftíu – hófdyn. Hljóðið barst til okkar með vindinum allhvössum sem stóð á eftir okkur. Ég leit til Sapt.

"Höldum áfram!" hrópaði hann og rak sporana í síðurnar á hesti sínum, svo að hann fór á harðastökk. Þegar við námum næst staðar til að hlusta eftir hófdyninum, heyrðum við hann ekki, og við hægðum þá ferðina. En brátt heyrðum við hann aftur. Sapt stökk af baki, lagði vangann niður að jörð og hlustaði.

"Þeir eru tveir á ferð," sagði hann. "Þeir eru ekki nema eina mílu á eftir okkur. Hamingjunni sé lof að vegurinn er bugðóttur og vindstaðan okkur í vil."

Við héldum áfram og fórum hart. Það virtist sem við drægjum vel undan þeim. Við vorum komnir inn í jaðarinn á skóginum hjá Zenda, og bæði vegna trjánna og þess, hve vegurinn var krókóttur, sáum við ekkert til þeirra, sem eftir okkur sóttu, en þeir sáu okkur ekki heldur.

Eftir hálfrar stundar reið komum við að gatnamótum. Sapt stöðvaði hest sinn.

"Vegurinn, sem við eigum að fara, liggur til hægri," sagði hann. "Það er vegurinn til kastalans, sem til vinstri liggur. Það eru hér um bil átta mílur hvora leiðina. Farið af baki."

"Þeir ná okkur," sagði ég.

"Farið af baki," sagði hann bystur; ég hlýddi.

Skógurinn óx fast við veginn beggja megin. Við teymdum hesta okkar inn í skógarþykknið, bundum vasaklúta okkar fyrir augun á þeim og biðum þar hjá þeim.

"Viljið þér komast að því, hverjir þeir eru?" sagði ég lágt.

"Ójá, og hvert þeir eru að fara," svaraði hann. Ég sá að hann hélt á skammbyssu í hendinni.

Hófdynurinn færðist nær og nær. Tunglið var nú alveg komið upp, og skein í heiði. Sást því gerla til mannaferða um veginn. Jarðvegurinn þarna var þurr og harður, og engin för sáust eftir okkur.

Þarna koma þeir," hvíslaði Sapt.

"Það er hertoginn!"

"Ég bjóst við því," svaraði hann.

Það var hertoginn, og með honum var þreklegur maður, sem ég þekti vel. Síðar vildi svo til, að hann fékk töluverð kynni af mér. Það var Max Holf, bróðir Jóhanns ráðsmanns, og tryggur þjónn hertogans. Þegar þeir komu á móts við okkur, stöðvaði hertoginn hest sinn. Sapt krókbeygði fingurinn ánægjulega að skammbyssugikknum. Ég held að hann hefði viljað gefa tíu ár af æfi sinni fyrir að fá að skjóta. Og hann hefði átt eins hægt með að skjóta Michael svarta þarna, eins og að hitta hænu inni í hænsnagirðingu á bóndabýli. Ég tók um handlegginn á honum. Hann kinkaði kolli og gaf til kynna, að hann væri mér samþykkur; hann var ætíð fús á að brjóta bág við vilja sinn, ef skyldan heimtaði það.

"Hvora leiðina?" spurði Michael svarti.

"Til kastalans, göfugi herra," svaraði förunautur hans. "Þar fáum við að vita alt með sannindum."

Hertoginn var ofurlitla stund á báðum áttum.

"Mér fannst endilega að ég heyrði hófdyn," sagði hann.

"Ég er hræddur um, að það hafi ekki verið, göfugi herra"

"Því ættum við ekki að fara til skothússins?"

"Ég er hræddur um, að þar sé lögð gildra fyrir okkur. Ef alt er í góðu lagi, þá er ónauðsynlegt að fara til skothússins. En ef eitthvað er að, þá er það að ganga í gildru."

Rétt í þessu fór hestur hertogans að hneggja. Við vöfðum jafnskjótt kápunum okkar um höfuð hestanna, og héldum þeim þannig, að við gátum miðað byssum okkar á hertogann og förunaut hans. Ef þeir hefðu rekist á okkur, mundu þeir hafa látið lífið, eða verið teknir fastir.

Michael beið enn stundarkorn. Svo sagði hann:

"Jæja, það er best að við höldum til Zenda!" og um leið rak hann sporana í síðurnar á hesti sinum og hleypti á stað.

Sapt brá byssunni á loft og miðaði á eftir honum, og svo átakanleg eftirsjá skein út úr svip hans, að ég mátti taka á allri stillingu minni til að reka ekki upp skellihlátur. Við biðum þar sem við vorum í tíu mínútur.

"Þér sjáið, að hann hefir fengið fregnir um, að alt sé í góðu lagi," sagði Sapt.

"Og við hvað er átt með því?" spurði ég.

"Við góðar fréttir," svaraði Sapt og yggldi sig. "Hann hefir fengið þær frá Streslau, en óljósar hafa þær verið."

Því næst stigum við á bak, og riðum svo hart sem hestarnir komust, en þeir voru orðnir þreyttir mjög. Við mæltum ekki orð frá munni þessar átta mílur, sem eftir voru af leiðinni. Hugir okkar voru fullir eftirvæntingar. "Alt er í góðu lagi!" Hvað fólst í því? Var alt í góðu lagi að því er við kom konunginum?

Loks sáum við heim að skothúsinu. Við hvöttum hestana sporum í síðasta sinni og riðum að hliðinu á stökki. Alt var Þar kyrrt og hljótt. Engin lifandi sál sást úti. Við stukkum af baki í flýti. Sapt greip um handlegginn á mér.

"Lítið þér á," sagði hann og benti til jarðar.

Ég leit niður. Rétt við tærnar á mér lágu fimm eða sex silkivasaklútar, rifnir og tánir í smádruslur. Ég leit spyrjandi framan í Sapt.

"Ég batt kerlinguna, móður Jóhanns með þeim," sagði hann. "Bindið hestana og komið svo."

Engin fyrirstaða varð á, að við kæmumst inn í húsið. Við fórum inn í herbergið, þar sem við höfðum setið að veislunni síðasta kveldið. Matarleifarnar voru þar enn þá, og nóg af tómum flöskum.

"Komið!" hrópaði Sapt, og nú sá ég í fyrsta sinni að hann var farinn að guggna, þó kjarkur hans væri makalaus.

Við hlupum niður stigann ofan í kjallarann. Dyrnar á kolakjallaranum stóðu upp á gátt.

"Þeir hafa fundið kerlinguna," sagði ég.

"Þér hefðuð átt að geta séð það á vasaklútunum," svaraði hann.

Við komum svo að dyrunum á vínkjallaranum. Þær voru lokaðar; með sömu ummerkjum eins og þegar við skildum við þær um morguninn.

"Komið, alt er í góðu lagi," sagði ég.

Sapt stundi upp blótsyrði. Hann varð náfölur og benti á gólfið. Framan við dyrnar var gólfið rauðlitað. Og var auðséð að rauði vökvinn hafði runnið undir þrepskjöldinn og storknað þar. Sapt lét fallast upp að veggnum. Ég tók í hurðarsnerilinn. Dyrnar voru lokaðar.

"Hvar skyldi Jósef vera?" tautaði Sapt.

"Hvar skyldi konungurinn vera?" sagði ég.

Sapt tók upp flösku, og setti hana á munn sér. Ég hljóp aftur upp í borðsalinn og sótti skörung frá eldstónni. Ég lét svo hvert höggið af öðru ríða á dyrnar í ósköpum og skaut síðast skammbyssuskoti í skrána. Loks lét skráin undan og dyrnar luktust upp.

"Komið með ljós," sagði ég; en Sapt studdist enn upp við vegginn.

Hann var vitanlega sorgmæddari en ég, því að hann hafði misst húsbónda sinn. En hræddur var hann ekki. Ég held enginn hafi nokkurn tíma brugðið honum um bleyðiskap; en óvissan um það, hvað kynni að vera inni í kjallaranum, var svo ægileg, að eigi var að undra þó að maður fölnaði við að hugsa til þess. Ég fór þá sjálfur og sótti einn silfur ljósastjakann upp á borðinu í borðsalnum og kveikti ljós; og þegar ég fór ofan lak heitt vaxið niður á höndina á mér, því að ég var meir en lítið skjálfhentur; ég get því ekki ámælt Sapt ofursta þó að hann væri hrærður.

Ég fór að kjallaradyrunum. Rauði liturinn á gólfinu virtist öllu dekkri þegar inn fyrir hurðina kom. Ég steig tvö skref inn eftir gólfinu og hélt ljósinu hátt. Ég sá þar fullan kassa af vínflöskum. Ég sá kóngulær skríða um veggina. Ég sá líka tvær tómar flöskur liggja á gólfinu. Og loks sá ég, úti í einu horninu liggja mannslíkama. Handleggirnir voru réttir langt út og hárauður skurður yfir þverar kverkarnar. Ég gekk að líkinu og kraup á kné við hliðina á því og bað til guðs fyrir sálu þessa trygga þjóns. Þetta var líkið af Jósef, litla þjóninum, er látið hafði líf sitt fyrir konunginn.

Ég fann, að komið var við öxlina á mér. Ég leit við og sá Sapt. Hann starði á mig óttasleginn.

"Konungurinn! Guð minn góður! Konungurinn!" sagði hann lágt í höstum rómi. Ég lýsti nákvæmlega um allan kjallarann.

"Konungurinn er hér ekki," svaraði ég.


VII. KAPITULI.

Ég tók utan um Sapt, og studdi hann upp úr kjallaranum, og lagði aftur hurðina á eftir mér, þegar við fórum út. Við sátum þegjandi uppi í borðsalnum stundarkorn. Svo strauk Sapt hendinni sem snöggvast um augun, stundi þungt og var þá búinn að ná sér aftur. Klukkan uppi yfir eldstónni sló eitt, og þá stappaði Sapt fætinum í gólfið og sagði:

"Þeir hafa náð konunginum!"

"Já," svaraði ég; "alt var í góðu lagi! eins og sagt var í fréttunum, sem Michael svarta bárust. Það hefir hlotið að vera tilfinnanleg stund fyrir hann, þegar heiðursskotin kváðu við í morgun í Streslau og verið var að fagna yfir komu konungsins. Hvenær skyldi hann hafa fengið fréttirnar?"

"Hann hefir sjálfsagt fengið þær um morguninn," svaraði Sapt. Þeir hljóta að hafa sent honum skeytin áður en fregnin um komu yðar til Streslau var komin til Zenda – ég býst við, að það hafi verið sent frá Zenda."

"Og hann hefir vitað þetta allan daginn," hrópaði ég. "Ég er þá svei mér ekki sá eini, sem hefi þurft að halda á stillingunni í gærdag! Hvað skyldi hann hafa ímyndað sér, Sapt?"

"Stendur ekki á sama um það? En hvað skyldi hann ímynda sér nú, kunningi?"

Ég spratt á fætur.

"Við verðum að snúa aftur og kalla saman alla hermenn, sem við náum í Streslau," sagði ég. "Við ættum að geta verið komnir áleiðis til móts við Michael um hádegi."

Sapt gamli tók upp pípuna sína og kveikti í henni með hægð, á kertinu, sem alt af rann niður á borðið.

"Vera kann að verið sé að myrða konunginn, meðan við sitjum hér!" sagði ég.

Sapt reykti um hríð þegjandi.

"Fari hún bölvuð, kerlingarskrattinn!" tautaði hann eftir litla stund. "Hún hefir einhvern veginn vakið athygli þeirra. Ég sé nú hvernig í öllu liggur. Þeir hafa komið hingað til að ná í konunginn – og – þeim hefir einhvern veginn tekist að finna hann. Ef þér hefðuð ekki farið til Streslau, þá væruð bæði þér og Fritz liðin lík."

"En hvað haldið þér um konunginn?"

"Hver getur vitað, hvar hann er niður kominn?" spurði hann.

"Við skulum leggja á stað," sagði ég; en hann hrærði sig ekki. Svo rak hann upp skellihlátur, eins og hann átti vanda til stundum, og sagði:

"Við höfum eiginlega leikið prýðilega á Michael svarta!"

"Komið nú! komið nú!" sagði ég óþolinmóður.

"Og við skulum leika enn betur á hann, um það lýkur," mælti hann enn fremur, og kænskubros breiddist nú yfir hrukkótta, veðurtekna andlitið á honum og hann japlaði á endunum á granaskeggi sínu." Við förum aftur til Streslau, kunningi. Konungurinn skal vera í höfuðborg ríkis síns í fyrramálið."

"Konungurinn."

"Já, krýndi konungurinn!"

"Eruð þér genginn af vitinu?" hrópaði ég.

"Ef við snerum aftur og skýrðum frá brögðum þeim, sem við höfum beitt, hvað haldið þér að bjóðandi væri þá í líf okkar?"

"Svona hér um bil það, sem þau væru virði," svaraði ég.

"En í konungstignina? Haldið þér að göfugmenni ríkisins eða alþýðan láti sér það á sama standa hversu við höfum dregið dár að þeim? Haldið þér, að þegnarnir muni nokkurn tíma geta unnað konungi, sem var svo fullur, að ekki var hægt að krýna hann, og sendi þjón sinn til að vera í sinn stað við það hátíðlega tækifæri?"

"Honum hafði verið byrlað svefnlyf – og ég er enginn þjónn."

"Ég skal gera Michael svarta engu betri grikk."

Hann stóð upp, gekk til mín og lagði höndina á öxl mér og sagði:

"Vinur minn! Ef þér reynist nú mannslega, þá getið þér enn bjargað konunginum. Snúið við og setjist í hásæti hans, þangað til hann kemur sjálfur"

"En hertoginn veit – þorpurunum, sem hann hefir í þjónustu sinni, er kunnugt um –"

"Já, en þeir geta ekkert sagt," svaraði Sapt sigri hrósandi. "Við höfum þá í hendi okkar!"

"Hvernig eiga þeir að fara að því að koma upp um yður, án þess að koma upp um sjálfa sig um leið? "Þetta er ekki konungurinn, því við rændum honum og drápum þjón hans um leið." Gætu þeir sagt það?"

Mér duldist ekki, að þetta var satt. Hvort sem Michael þekti mig eða ekki, varð hann að þegja. Hvað gat hann gert annað en að láta konunginn lausan? Og ef hann léti konunginn lausan, hvers mátti hann þá vænta? Mér fannst margt mæla með því, að ég sneri aftur; en ég sá þó skjótt vandræðin á því líka.

"En ég hlýt að þekkjast," sagði ég.

"Getur verið; en nú er hver stundin dýrmæt. En hvað sem öðru líður, verðum við að hafa einhvern konung í Streslau. Annars verður borgin í höndum Michaels eftir einn sólarhring, og væri þá mikið gefandi fyrir líf konungsins, eða stjórnarvöld honum til handa? Þér megið til að gera þetta, vinur minn."

"En ef þeir skyldu nú drepa konunginn?"

"Þeir drepa hann, ef þér gerið þetta ekki."

"En ef þeir skyldu nú vera búnir að drepa hann, Sapt?"

"Ja, þá veit hamingjan, að þér eruð ekki síðri Elphbergur, en Michael svarti, og þér skuluð verða stjórnari Rúritaníu. En ég trúi því ekki, að þeir séu búnir að því enn; og ég býst heldur ekki við því að þeir geri það, meðan þér sitjið í hásæti. Mundu þeir vilja drepa hann, til þess að koma yður að?"

Þetta var ofdirfskufull fyrirætlan – jafnvel enn ofdirfskufyllri en hitt bragðið okkar, sem við höfðum þegar komið fram; en ég sá samt, að margar ástæður Sapts voru gildum gögnum studdar. Þar að auki var ég ungur að aldri, og þótti gaman að tilbreytingu allri, og nú stóð mér til boða starf, sem ég býst ekki við að nokkrum manni hafi verið falið áður.

"Ég þekkist," sagði ég.

"Það getur verið," sagði Sapt. "Komið! Til Streslau! Við verðum annars veiddir hér eins og rottur í gildru."

"Ég skal reyna það, Sapt," sagði ég loksins.

"Fallega sagt!" svaraði hann. "Ég vona, að þeir hafi skilið eftir hesta handa okkur. Ég ætla að fara og gæta að því."

"Við verðum að grafa þennan mannaumingja," sagði ég.

"Það er enginn tími til þess," sagði Sapt.

"Ég ætla þá að gera það."

"Bölvaður þrái er í yður," sagði hann og brosti. "Ég ætla að gera yður að konungi, og – jæja, gerið það þá. Farið þér að sækja hann meðan ég lít eftir hestunum. Við getum ekki grafið hann djúpt, en ég vona, að honum standi það á engu. Aumingja Jósef litli. Hann var allra heiðarlegasta skinn."

Hann fór út, en ég ofan í kjallarann. Ég tók upp líkið af Jósef litla og bar það að stiganum og svo út að húsdyrunum og lagði það niður rétt innan við dyrnar, því að ég mundi þá eftir að ég þurfti að finna reku til að geta grafið það. Rétt í því bar Sapt að.

"Hestarnir eru til; hér er bróðir hestsins, sem þér riðuð hingað. En þetta verðið þér að láta bíða."

"Ég fer hvergi fyrr en búið er að grafa hann."

"Ójú, þér megið til."

"Það verður ekki af því, Sapt ofursti. Ekki þó öll Rúritanía væri í boði."

"Þér eruð asni!" sagði hann. "Komið þér hingað."

Hann dró mig að dyrunum. Tunglið var að ganga undir, en á að giska þrjú hundruð skref í burtu sá ég flokk manna koma eftir veginum, sem lá frá Zenda. Þeir voru sjö eða átta. Fjórir þeirra voru ríðandi, en hinir gengu. Ég sá, að þeir báru einhver verkfæri á öxlunum, sem litu út fyrir að vera graftól.

"Þeir ætla að taka af yður ómakið," sagði Sapt. "Komið Þér!"

Hann hafði rétt að mæla. Þessi hópur, sem var á leiðinni, hlutu vafalaust að vera menn Michaels hertoga, í þeim erindum komnir að nema brott öll ummerki illverknaðar Þeirra. Ég hikaði nú ekki framar, en ómótstæðileg löngun greip mig. Ég benti á líkið af aumingja Jósef litla og sagði við Sapt:

"Við ættum að hefna hans, ofursti."

"Langar yður til að láta hann fá einhverja samfylgd? Ég held að of mikið sé í húfi til þess, yðar Hátign."

"Ég get ekki á mér setið, að gefa þeim einhverja ráðningu."

Sapt var á báðum áttum.

"Það er ekki hyggilegt. Þér sjáið það sjálfur, en þér hafið verið góður drengur – og ef við berum lægra hlut, þá losnum við við allar áhyggjurnar! Ég skal sýna yður, hvernig á að fara að þessum körlum."

Hurðin féll nærri því að stöfum, og hann lokaði henni varlega. Síðan snerum við til bakdyranna. Þar stóðu hestar okkar. Akbraut lá umhverfis alt skothúsið.

"Hafið þér skammbyssuna tiltæka?" spurði Sapt.

"Nei, ég ætla að láta stálið nægja mér," sagði ég.

"Herra trúr, þér eruð blóðþyrstur í kveld," Sagði Sapt og ískraði í honum hláturinn. "Þér skuluð ráða."

Við stigum á bak, brugðum sverðum okkar og biðum svo þegjandi ofurlitla stund. Þá heyrðum við harkið af mannaferðinni á akbrautinni hinu megin hússins. Þeir námu staðar, og einn hrópaði:

"Svona, sækið hann þá inn!"

"Til!" hvíslaði Sapt.

Við hleyptum hestunum á sprett og hvöttum þá sporum og vorum á næsta augnabragði komnir mitt á milli illmennanna. Sapt sagði mér seinna, að hann hefði drepið einn þeirra og ég trúði honum, en ég tók ekkert eftir því, hvað hann hafðist að. Ég klauf í einu höggi hausinn á einum þrjótinum, er reið jörpum hesti, og maðurinn steyptist til jarðar. Þá var kominn andspænis mér mikill maður og þreklegur og ég hafði eitthvert veður af öðrum óvini mínum hægra megin við mig. Ég sá, að svo búið mátti ekki standa, og rak sporana í síðurnar á hesti mínum, en sverðið á mitt brjóstið á mikla manninum. Kúlan, sem hann sendi mér, þaut við eyrað á mér – og ég er helst á því, að hún hafi snert það. Ég ætlaði að hnykkja að mér sverðinu, en það sat fast, svo að ég lét það eftir í undinni og hleypti á stað á eftir Sapt og sá nú að hann var kominn hér um bil tuttugu skref á undan mér. Ég veifaði hendinni yfir höfuð mér í kveðju skyni og kippti henni jafnskjótt að mér aftur og rak upp vein, því að kúla hafði komið í fingurinn á mér og blóðið fossaði úr sárinu. Sapt gamli sneri sér við í söðlinum. Svo skaut einhver aftur, en þeir höfðu enga riffla, og við vorum komnir úr skotmáli. Sapt fór að hlæja.

"Jæja, ég bar af einum, en þér af tveimur, og urðuð sár. Jósef litli fær samfylgd."

"Já, sem betur fer, fær hann samfylgd," sagði ég. Blóðið var nú farið að hitna í mér, og ég gladdist af því að hafa drepið þá.

"Það er ánægjulegt að leggjast til hvíldar eftir að hafa afkastað slíku verki!" sagði hann. "En skyldu þeir hafa þekkt yður?"

"Mikli maðurinn þekti mig; þegar ég lagði til hans heyrði ég hann segja: 'konungurinn'!"

"Ágætt! ágætt! Já, við skulum koma við Michael svarta og skósveina hans betur, áður lýkur nösum!"

Við stönsuðum ofurlítið og bundum um fingurinn á mér. Blóðið streymdi úr honum, því að beinið hafði laskast. Svo riðum við aftur á stað, og fórum svo hart, sem hestarnir komust. Bardagamóðurinn rann af okkur og áhyggjurnar út af fyrirætlun okkar ofdirfskufullri dofnuðu.

Við riðum þungbúnir og þegjandi. Dagurinn rann upp bjartur og kaldur. Við rákumst á bónda nokkurn, og fengum hjá honum fóður handa hestunum. Ég lést hafa ákafa tannpínu og því bundið fyrir andlitið. Svo lögðum við á stað aftur og linntum ekki reiðinni fyrr en við sáum til Streslau. Klukkan var átta eða níu og hlið öll opin, og það voru þau reyndar alt af nema þegar þeim var lokað sakir kænskubragða og undirferlis hertogans. Við riðum inn í borgina í sama stað, sem við höfðum farið út úr henni kveldið fyrir, og vorum við allir fjórir þjakaðir og þreyttir, við og hestarnir. Það var jafnvel heldur kyrrara og þögulla á götunum nú, en þegar við fórum. Nú voru menn að sofa úr sér rykið, og við mættum varla nokkurri lifandi sál, fyrr en við komum að hliðum hallarinnar. Hestasveinn Sapts gamla beið okkar þar.

"Hefir alt gengið vel?" spurði hann.

"Já, alt hefir gengið vel, sagði Sapt, og þegar maðurinn sá mig, greip hann hönd mína og kyssti hana.

"Konungurinn særður!" hrópaði hann.

"Það er ekkert," sagði ég og steig á bak. "Ég klemmdi fingurinn milli hurðar."

"Þögn – mundu það," sagði Sapt. "En ég þarf annars ekki að vera að ámálga það við þig, Freyler minn!"

Hestasveinninn, sem var roskinn maður, yppti öxlum.

"Allir ungir menn hafa of mikið gaman af að létta sér of mikið upp á hestbaki, öðru hvoru; því skyldi konungurinn ekki hafa gaman af því líka?" sagði hann. Sapt fór að hlæja og lét manninn halda meiningu sinni um mig óhaggaðri.

"Engum skyldi treysta, framar en þörf gerist," sagði Sapt, um leið og hann stakk lykli í skráargatið.

Við fórum svo inn í höllina og stönsuðum ekki fyrr en í búningsherberginu. Þegar við opnuðum dyrnar, þá sáum við að Fritz von Tarlenheim lá þar endilangur á legubekk. Svo virtist sem hann hefði sofið, en vaknað þegar við komum inn. Hann spratt á fætur, leit snöggt á mig, og fleygði sér svo með gleðisvip á kné frammi fyrir mér.

"Guði sé lof, konungur! Guði sé lof að þér eruð heill á húfi," hrópaði hann, og rétti upp hönd sína til að ná í hönd mér.

Ég játa það, að ég var hrærður. Þrátt fyrir galla konungsins, elskuðu menn hann. Ég gat um stund ekki komið upp orði, eða hafði ekki brjóst á að segja aumingja manninum hversu honum hefði missýnst. En þó að Sapt væri farinn að eldast, var hann ekki svona tilfinninganæmur. Hann sló á lærið og hrópaði í mestu kátínu:

"Laglega af sér vikið, kunningi! "Við komum fram því sem við ætluðum okkur!"

Fritz leit upp forviða. Ég rétti fram hönd mína.

"Þér eruð særður, konungur," sagði hann.

"Það er ekki nema skinnsprettur," sagði ég, "en –" Ég þagnaði.

Hann spratt á fætur og starði á okkur undrandi. Svo tók hann um hönd mína og aðgætti mig vandlega frá hvirfli til ilja. Eftir litla stund sleppti hann hönd minni og snerist á hæl frá mér.

"Hvar er konungurinn? Hvar er konungurinn?" hrópaði hann.

"Vertu ekki svona hátalaður, bjálfinn þinn," hvæsti Sapt út úr sér. "Konungurinn er hérna."

Nú var barið að dyrum. Sapt greip um höndina á mér.

"Komið! Verið þér fljótur! Inn í svefnherbergið. Fleygið af yður höfuðfatinu og drífið yðar úr stígvélunum. Leggist upp í rúm og breiðið upp yfir höfuð yðar."

Ég hlýddi því, sem mér var sagt. Rétt á eftir gægðist Sapt inn brosandi og bugtandi og fylgdi til mín einstaklega snotrum og virðulegum ungum herra. Hann kom fast inn að rúmi mínu, hneigði sig hvað eftir annað og sagði mér, að hann væri einn þjóna Flavíu prinsessu, og hennar konunglega tign hefði sent sig þangað í þeim erindum eingöngu, að spyrjast fyrir um hvernig konunginum heilsaðist, eftir alt, sem hann hefði orðið að leggja á sig daginn fyrir.

"Skilið innilegu þakklæti frá mér til frænku minnar," sagði ég, " og segið hennar konunglegu tign, að ég hafi aldrei verið frískari á æfi minni."

"Konungurinn hefir sofið í einum dúr í alla nótt," bætti Sapt gamli við. (Ég var nú farinn að sjá, að honum var ekki erfitt að bregða fyrir sig ósannindum, ef á þurfti að halda).

Ungi maðurinn (hann minnti mig á Osric í Hamlet) hneigði sig á ný og fór út. Uppgerðarleiknum var lokið í þetta sinn, og föla andlitið á Fritz von Tarlenheim minnti okkur aftur á veruleikann; en nú átti þessi uppgerðarleikur samt að fara að verða verulegur fyrir okkur.

"Er konungurinn dauður?" spurði hann.

"Guð gefi að svo sé ekki," svaraði ég. "En hann er í höndum Michaels svarta!"


VIII. KAPITULI.

Það er ef til vil erfitt að vera konungur í raun og veru; en ég þori að ábyrgjast, að miklu erfiðara er að þurfa að látast vera það. Daginn eftir fræddi Sapt gamli mig um skyldur mínar – hvað ég ætti að gera og hvað ég ætti að vita – og sat ég fullar þrjár klukkustundir undir þeirri ræðu; að því búnu snæddi ég morgunverð, og sat Sapt andspænis mér við matborðið og lét mig vita, að konungurinn drykki ætíð hvítt vín að morgni dags, og væri þekktur að því að snerta aldrei við bestu réttunum. Síðan kom kanslarinn til mín og dvaldi hjá mér næstu þrjár klukkustundirnar. Ég lét hann vita, að ég hefði meitt mig svo í fingrinum (sárið eftir kúluna töldum við okkur happ), að mér væri ómögulegt að skrifa neitt; þá var nú heldur en ekki farið að spyrja eftir orsökunum, og lauk svo, að ég "gerði merki mitt" og kanslarinn staðfesti það með hátíðlegri viðhöfn. Því næst var franski sendiherrann leiddur inn til mín, til að flytja við mig áhugamál sín. Að því er hann snerti gerði vanþekking mín hvorki til né frá, vegna þess að konungurinn mundi hafa verið mér jafn ófróður.

Loksins varð ég látinn í friði. Ég kallaði á nýja þjóninn minn (við höfðum valið mann, sem aldrei hafði séð konunginn, til að taka við verkum Jósefs litla), og bað hann að færa mér koníak og sódavatn, og lét Sapt vita, að ég vildi nú fá að hvíla mig stundarkorn.

Fritz von Tarlenheim var nærstaddur, þegar ég sagði þetta.

"Hamingjan hjálpi okkur!" hrópaði hann, "við eyðum tímanum til ónýtis. Væri okkur ekki nær að jafna um Michael svarta, óþokkann?"

"Hægan, kunningi, hægan," sagði Sapt og hleypti brúnum. "Það væri reyndar einstaklega ánægjulegt, en það gæti orðið okkur býsna dýrt spaug. Heldurðu að Michael léti okkur ná lífi sínu, án þess að hann dræpi konunginn áður?"

"Og meðan konungurinn er hér í Streslau og situr í hásæti, get ég ekki séð, hvaða illsakir hann ætti að troða við Michael bróður sinn elskulegan," sagði ég.

"Eigum við þá ekkert að gera?"

"Þetta minnir mig, Fritz, á einn enska leikinn okkar – "The Critic" –, hefir þú séð hann? Eða tvo menn, miðandi marghleypum hvor á annan, ef þú skilur það betur. Því að ég get ekki gengið skrokk á Michael án þess að lenda sjálfur í skömminni."

"En hvað er að segja um konunginn?"

"Og ég segi þér það satt, að ef Michael reynir að ljósta upp um mig, hlýtur hann að koma upp um sjálfan sig!"

"Alveg rétt!" sagði Sapt gamli.

"Ef kemst upp um mig," sagði ég, "þá ætla ég að játa sannleikann, og heyja baráttuna til enda við hertogann; en nú ætla ég að bíða við og sjá hvað hann gerir."

"Hann drepur konunginn," sagði Fritz.

"Hann gerir það ekki," sagði Sapt.

"Helmingur sexmenninganna er í Streslau," sagði Fritz.

"Ekki nema helmingurinn af þeim? Ertu viss um það?" spurði Sapt með ákefð.

"Já – bara helmingurinn."

"Þá er konungurinn lifandi, því að hinir þrír eru að gæta hans!" hrópaði Sapt.

"Já – þetta er líklega rétt!" sagði Fritz og glaðnaði nú yfir honum. "Ef konungurinn væri dauður, mundu þeir allir vera hér með hertoganum. Vitið þér ofursti, að Michael er kominn aftur?"

"Já, ég veit það. Fjandinn hafi hann."

"Herrar mínir, herrar mínir," sagði ég, "hverjir eru sexmenningarnir?"

"Ég býst við, að þér fáið að kynnast þeim innan skamms," sagði Sapt. "Það eru sex menn, sem Michael hefir í þjónustu sinni. Þeir fylgja honum með lífi og sál. Þrír þeirra eru rúritanskir, einn hinna er Frakki, annar Belgi og þriðji sömu þjóðar sem þér."

"Enginn Þeirra myndi skirrast við að drepa mann, ef Michael skipaði svo fyrir." sagði Fritz.

"Kannske þeir drepi mig?" sagði ég.

"Ekkert er líklegra," svaraði Sapt. "Hverjir þeirra eru hér, Fritz?"

"De Gautet, Bersonin og Detchard."

"Útlendingarnir! Já, tilgáta okkar er vafalaust rétt. Hann tók þá með sér, en skildi Rúritanana eftir hjá konunginum. Þetta gerir hann til þess að koma Rúritönunum í sökina."

"Enginn þeirra hefir þá verið meðal kunningja okkar hjá skothúsinu," sagði ég.

"Ég vildi að þeir hefðu verð þar." sagði Sapt. "Þá hefðu þeir ekki framar getað heitið sexmenningar. Þá hefði nú ekki verið nema um fjórmenninga að ræða."

Ég var nú búinn að ráða við mig, hvernig ég skyldi haga mér sem ríkishöfðingi – ég ætla reyndar ekki að skýra frá hverju einu í því efni, og vil jafnvel ekki kunngera vildustu vinum mínum það. En ég var nú einráður í því, hversu ég skyldi haga mér. Ég ætlaði að ná eins mikilli hylli hjá þegnum mínum eins og mér væri mögulegt, og samtímis ekki sýna Michael neina ónáð. Með þessu bjóst ég við að geta dregið úr fjandskap áhangenda Michaels á mér, svo að helst liti út fyrir, ef í hart slægi með okkur opinberlega, að það væri vanþakklæti hans at kenna, en ekki yfirgangi mínum.

En ég bjóst ekki við því, at slíkt kæmi fyrir fyrst um sinn.

Það var líka konunginum sjálfum fyrir bestu, að eigi kæmi til slíks. En meðan það dróst og alt var á huldu um mál hans, hafði ég nóg að starfa í Streslau honum í hag. Ég ætlaði Michael ekki að græða á þeim drætti!

Ég heimtaði hest minn og reið með Fritz von Tarlenheim um aðalgötuna í skemmtigarði konungsins, og tók öllum fagnaðarkveðjum, sem mér voru sendar, með mestu kurteisi. Því næst reið ég um nokkur stræti í borginni, keypti blóm af fallegri stúlku og gaf henni gullpening fyrir. Og eftir að ég hafði vakið þá athygli, er mér líkaði (því að á eftir mér fylgdu þúsundir manna) reið ég til bústaðar Flavíu prinsessu, og spurði hvort hún vildi taka á móti mér. Múgnum féll það einkar vel í geð, og árnaðaróp kváðu við hvaðanæva. Prinsessan var mjög vingjarnleg, og kanslarinn hafði ekki getað stillt sig um að stinga því að mér, að því fastara sem ég sækti bónorðið, og því fyrr sem trúlofun okkar yrði heyrinkunn, því meir myndi hylli þegna minna vaxa. Kanslarinn hafði enga hugmynd um, hve torvelt var fyrir mig að fylgja þessu holla og ágæta ráði hans. En eigi að síður hugði ég, að það gæti ekki orðið að neinu meini þó að ég liti inn til prinsessunnar, og á þetta féllst Fritz. Honum virtist það svo mikilsvarðandi að ég furðaði mig á því, þangað til hann sagði mér, að honum þætti sjálfum gaman að koma til híbýla prinsessunnar, og ástæðan til þess var engin önnur en sú, hve mikið hann langaði til að sjá móttöku-konu og aldavinkonu prinsessunnar, Helgu von Strofzin, greifadóttur.

Hirðsiðirnir voru Fritz í vil. Mér var fylgt inn til prinsessunnar, en hann varð eftir í biðherberginu með greifadótturinni. Þó að þjónar og annað fólk væri þar öðru hvoru, þori ég að segja, að þau hafa getað skrafað eitthvað saman í einrúmi. En ég gaf mér ekkert tóm til að hugsa um þau, því að nú varð ég að leika vandasamasta þáttinn í öllum leiknum. Ég varð að glæða velvild prinsessunnar til mín – og samt gera það án þess hugur fylgdi máli. Ég varð að láta sem mér þætti vænt um hana – án þess að þykja það. Ég varð að biðla til hennar fyrir annan mann – biðla til konu, sem var fegurri en nokkur önnur, er ég hafði séð, að því viðbættu, að hún var prinsessa. Ég herti upp hugann til að byrja á þessu verki, og varð mér það alls ekki léttara við það, hve vinsamlega var tekið á móti mér. En hversu mér tókst að leysa þetta af hendi sést á því, sem hér fer á eftir.

"Þér eru stöðugt að bætast gullin lárber," sagði hún. "Þú ert eins og prinsinn hans Shakespeare, sem komst úr álögum við að verða konungur. En ég var rétt búin að gleyma því að þú ert orðinn ríkishöfðingi, herra konungur."

"Ég ætla að biðja þig að segja ekkert annað við mig en það, sem þér býr í brjósti, og nefna mig eingöngu nafni mínu."

Hún starði á mig stundarkorn.

"Þá er ég kát og upp með mér, Rúdolf," sagði hún. "En þú ert skelfing breyttur í andliti, eins og ég minntist á við þig áður."

Mér þótti vænt um, hvað hún gaf mér nákvæmar gætur, en mér féll ekki vel þetta umræðuefni, svo ég sagði:

"Ég heyri sagt, að bróðir minn sé kominn aftur. Veistu það, að hann brá sér burtu?"

"Já, hann er kominn," sagði hún og hleypti brúnum.

"Það sýnist svo vera, sem hann eigi bágt með að skilja við Streslau," sagði ég brosandi. "En okkur þykir líka ekki nema vænt um að sjá hann. Því nær sem hann er, því betra."

Prinsessan leit til mín og glotti glettnislega.

"Hvers vegna, frændi? Er það vegna Þess, að þú getur þá –"

"Betur vitað, hvað hann hefir fyrir stafni? Getur verið," sagði ég. "En hvers vegna ertu kát?"

"Ég sagði ekki að ég væri kát," svaraði hún.

"Sumt fólk segir það þó."

"En sumt fólk er líka ósvífið," sagði hún með þykkju.

"Áttu kannske við, að ég sé einn í þeirra tölu."

"Yðar Hátign gæti ekki verið það," mælti hún ísmeygilega til að bæta úr, en sagði svo aftur glettnislega eftir litla þögn: "Nema ef –"

"Nú, nema ef hvað?"

"Nema ef þér segðuð, að ég metti það meira en fingrasprettu hvar hertoginn af Streslau er."

Ég óskaði þess heitt og innilega, að ég hefði verið konungurinn í raun og veru.

"Þú lætur þér þá á sama standa um Michael frænda –"

"Michael frænda! Ég kalla hann hertogann af Streslau."

"Kallarðu hann ekki Michael, þegar þú átt tal við hann?"

"Jú, – af því að faðir þinn skipaði mér það."

"Einmitt það? Og ef ég skipa það nú?"

"Skipar þú það?"

"Já, vitanlega! Við verðum öll að vera einstaklega vingjarnleg við okkar kæra Michael."

"Skipar þú mér ekki líka, að taka á móti vinum hans?"

"Sexmenningunum?"

"Og nefnir þú þá því nafni?"

"Já, til að fylgja tískunni. En ég skipa þér ekki að taka á móti neinum nema þeim, sem þér sýnist."

"Nema þér?"

"Ég bið þig að taka á móti mér. Ég gæti ekki skipað það."

Í því að ég sagði þetta, kvað við fagnaðaróp úti á strætinu. Prinsessan hljóp út að glugganum.

"Það er hann!" hrópaði hún. "Það er hertoginn af Streslau."

Ég brosti, en svaraði engu. Hún gekk aftur til sætis síns. Við sátum bæði þegjandi stundarkorn. Fagnaðarópin úti hættu, en ég heyrði fótatak í biðherberginu. Ég fór svo að tala um hitt og þetta góða stund. Ég furðaði mig á því, hvað orðið hefði af Michael, en það virtist ekki koma mér við að grennslast eftir því. En svo sló Flavía prinsessa alt í einu saman höndunum og spurði mér til mestu furðu, með skjálfandi röddu:

"Er það hyggilega gert af þér, að styggja hann."

"Hvað? Hvern? Hvernig skyldi ég hafa styggt hann?"

"Auðvitað með því að láta hann bíða."

"Góða frænka mín, ég kæri mig ekkert um að láta hann –"

"Jæja, má hann þá koma inn?"

"Já, auðvitað, ef þú vilt það."

Hún leit einkennilega til mín.

"En hvað þú ert skrítinn," sagði hún. "Vitanlega gat ég ekki tekið á móti neinum meðan ég var að tala við þig."

Mikil voru hlunnindin, sem konungurinn átti að fagna!

"Þetta er afbragðs hirðsiður!" hrópaði ég. "En ég var alveg búinn að gleyma honum. Og ef ég væri nú t.d. að tala við einhvern annan, gætir þú þá ekki fengið að koma inn til mín?"

"Þú veist þetta eins vel og ég. Mér væri leyft það, af því að ég er konungborin," svaraði hún og var enn hissa.

"Ég get aldrei munað þessar ólukkans leiðinda reglur," svaraði ég með hægð, og bölvaði Fritz heitt í hljóði fyrir að hafa ekki sagt mér þetta áður. En ég skal bæta úr þessum klaufaskap mínum."

Ég spratt svo á fætur, opnaði dyrnar snarlega og fór fram í biðherbergið. Michael sat við borðið og var heldur en ekki þungbúinn á brúnina. Allir aðrir, sem viðstaddir voru, stóðu, nema óskammfeilni þrjóturinn, hann Fritz. Hann sat makráður í hægindastól og var að daðra við Helgu greifadóttur. Þegar ég kom stökk hann svo auðmjúklega á fætur, að alveg stakk í stúf við ókurteisi hans áður. Ég var ekki í neinum vafa um, að hertoganum geðjaðist alls ekki að Fritz.

Ég rétti fram hönd mína, og Michael tók í hana, og ég faðmaði hann að mér, og því næst leiddi ég hann inn í innra herbergið.

"Bróðir minn góður," sagði ég, "ef ég hefði vitað, að þú varst kominn hefði ég ekki látið þig bíða eina mínútu, heldur strax beðið prinsessuna að leyfa mér að leiða þig inn til hennar."

Hann þakkaði, mjög kuldalega samt. Maðurinn var vel gefinn að mörgu leyti, en honum var ómögulegt að dylja tilfinningar sínar. Blá-ókunnugur maður hefði strax séð, að hann hataði mig, og hataði mig þó enn meira fyrir það, að sjá mig inni hjá Flavíu prinsessu; samt sem áður er ég viss um, að hann reyndi að dylja hvorutveggja, og leitaðist ennfremur við að láta mig halda, að hann tryði því, að ég væri konungurinn. Ég var reyndar ekki fullviss um það. En Michael gat ekki trúað því, nema að konungurinn sjálfur væri svikari, enn slungnari og ofdirfskufyllri en ég. Og ef hann hefir vitað með vissu, að ég væri ekki konungurinn, þá er hægt að geta sér nærri, hve erfitt honum hefir hlotið at falla það, að sýna mér virðingarmerki og hlusta á mig kalla hann "Michael" og hana "Flavíu".

"Ég sé, að þér hafið meitt yður í hendinni, konungur," mælti hann.

"Ójá, ég var að leika mér við kynblendingshund" (ég ætlaði að reyna að hleypa upp í honum), "og eins og þú veist, bróðir, eru þeir stundum undarlega skapstyggir."

Beiskjubros lék um varir hans og svörtu augun hans hvíldu á mér stundarkorn.

"En er bitið ekki hættulegt?" hrópaði Flavía óttaslegin.

"Ónei, þetta bit er óskaðlegt," svaraði ég, "en ef ég hefði leyft honum að bíta mig dýpra, þá gat verið öðru máli að gegna."

"Var hann ekki strax drepinn?" spurði hún.

"Nei, það er ekki búið enn. Við erum að draga það til að sjá hvort bitið er nokkuð hættulegt."

"Og ef það skyldi reynast svo?" spurði Michael, með beiskjubrosi sínu.

"Þá verður hann rotaður, bróðir," sagði ég.

"Ég vona, að þú leikir þér aldrei við hann framar!" sagði Flavía í bænarrómi.

"Getur bæði verið og ekki."

"Hann gæti bitið aftur."

"Vafalaust reynir hann það," sagði ég brosandi.

En vegna þess að ég var hræddur um að Michael kynni að segja eitthvað, sem ég hlyti að reiðast af (því að þó að ég kynni að láta hann skilja það, að mér væri illa við hann, þá varð ég að sýnast hinn vingjarnlegasti) fór ég að hrósa honum fyrir það, hve álitleg herdeild hans hefði verið, og hve mikill konunghollustubragur hefði verið á henni krýningardaginn. Síðan lýsti ég ánægju minni, með mörgum fögrum orðum yfir skothúsinu og veiðunum, sem hann hefði boðið mér til. En hann reis skyndilega á fætur. Hann gat sjáanlega ekki þolað þetta lengur, og afsakaði það að hann yrði að fara strax. Þegar hann var kominn fram að dyrunum sneri hann samt við og sagði:

"Þrjá vini mína langar mjög mikið til að verða gerðir kunnugir, herra konungur. Þeir eru hér í biðherberginu."

Ég kom undir eins til hans og tók um handlegginn á honum. Mér var heldur en ekki skemmt að sjá svipinn á honum þá. Við gengum svo einstaklega bræðralega fram í biðherbergið. Michael gaf merki, og mennirnir þrír gengu fram.

"Þessir herrar," tók Michael til máls með tígulegri hæversku, sem ég verð að játa, að hann átti hægt með að sýna, þegar hann vildi, "eru þeir konunghollustu og tryggustu þjónar Yðar Hátignar, sem til eru, og þeir eru einlægir vinir mínir og kærir mér."

"Mér þykir einkar vænt um að sjá þá, jafnt sakir þess er þú taldir þeim til gildis þín og mín vegna," svaraði ég.

Því næst gengu þeir til mín hver á eftir öðrum og kysstu á hönd mína. Fyrstur De Gautet, hár maður og grannleitur, og hafði hárið greitt beint upp frá enninu og vaxborið granaskeggið. Næstur honum Belginn, Bersonin, þreklegur meðalmaður á hæð, hvítur fyrir hærum (þó hann væri ekki nema liðlega þrítugur), og síðastur Bretinn Detchard, smáleitur náungi, með snöggklippt hár og brúnleitur á hörund. Hann var prýðilega fallegur í vexti, miðmjór og herðabreiður. Ég gat mér þess til að hann væri frækinn skylmingamaður, en viðsjálsgripur. Ég talaði ensku við hann, með ofurlitlum útlensku-blæ, og ég þori að ábyrgjast að honum var hlátur í hug, þó að hann leyndi því.

"Jæja, Mr. Detchard veit þá um leyndarmálið," hugsaði ég með mér.

Eftir að ég var laus við bróður minn elskulegan og vini hans, sneri ég inn aftur til að kveðja frænku mína. Ég kvaddi hana með handabandi.

"Ætlarðu ekki að lofa mér því, Rúdolf, að vera varkár." sagði hún lágt.

"Varkár, hvernig þá?"

"Þú veist það – ég get ekki sagt það. En minnstu þess hve líf þitt er mikils virði –"

"Hverjum?"

"Ja, Rúritaníu."

Var það rétt af mér að fara út í þessa sálma – eða var það rangt? Ég veit ekki. Hvorttveggja var illt og ég þorði ekki að segja henni eins og var.

"Að eins Rúritaníu?" spurði ég blíðlega.

Feimnisroði þaut fram í yndislega andlitið á henni.

"Og vinum þínum líka," sagði hún.

"Vinum?"

"Og frænku þinni," hvíslaði hún; "auðmjúkum þegni þínum."

Ég gat engu svarað, en kyssti hönd hennar, flýtti mér út og bölvaði heimsku minni.

Í biðherberginu hitti ég Fritz. Hann kærði sig kollóttan um þjónana þar, og var farinn að leika cat's cradle1 við Helgu greifadóttur.

"Fari það grenjandi, ég get ekki allar stundir haft hugann fastan við brögð og undirferli. Ástin krefst líka réttar síns."

"Ég er helst á því líka," sagði ég og Fritz dróst nú aftur úr og gekk allra virðingarfyllst á eftir mér.


IX. KAPITULI.

Ef ég ætti að lýsa venjulegum viðburðum hins daglega lífs míns, um þetta leyti, mundi mörgum, sem ókunnir eru hirðlífinu þykja þeir æði lærdómsríkir, og ef ég skýrði frá ýmsum leyndarmálum þeim, sem ég komst að, mundi ýmsum stjórnmálamönnum í Evrópu þykja þau býsna fróðleg. En hvorugt þetta ætla ég að gera. Leiðindin í frásögninni mundu þá yfirgnæfa Schyllu og málgefnin Charybdis, og ég sé að miklu réttara er mér að halda mig að þeim neðansjávar harmleik, sem leikinn er undir yfirborði rúritaníska stjórnmálahafsins. Ég ætla samt að geta þess strax, að leyndarmálið um falskonungdóm minn komst ekki upp. Ég hljóp á mig. Mér leið mjög illa stundum og þurfti oft á allri lagni og stillingu minni að halda, til að bera í bætifláka fyrir gleymsku mína og undarlegt minnisleysi um að þekkja menn, sem ég átti að vera þaulkunnugur. En ég slapp allvel úr þessum kröggum og þakka ég það, eins og ég hefi áður á vikið, einkanlega takmarkalausri ofdirfsku öðru fremur. Og þar eð líkingin að ytra útliti var nægilega mikil, tel ég það fullvíst að miklu auðveldara hafi verið að vera staðgöngumaður Rúritaníukonungs, en nábúa míns öðru hvoru megin við mig á strætinu.

Einu sinni kom Sapt inn í herbergi mitt. Hann fleygði til mín bréfi og sagði:

"Þetta er til yðar – það er kvenmannshönd á því sýnist mér. En ég hefi samt fréttir að færa yður, áður en þér lesið það."

"Hvaða fréttir eru það?"

"Konungurinn er í kastalanum í Zenda," sagði hann.

"Hvernig vitið þér það?"

"Vegna þess að helmingur sexmenninganna er þar. Ég hefi aflað mér vitneskju og komist að því, að þeir eru þar allir, Lauengram, Krafstein og Rúpert Hentzau ungi; meiri þorparar eru ekki ofanjarðar hér í Rúritaníu, það segi ég yður satt."

"Nú, hvað á að gera."

"Fritz vill að þér farið til kastalans með riddaralið, fótgöngulið og stórskotalið."

"Til að slæða í kastalasíkinu?"

"Það yrði líklega það eina, sem gert yrði," svaraði Sapt hlæjandi, "en lík konungsins mundi jafnvel ekki finnast þar."

"Eruð þér viss um að hann sé þar?"

"Það er mjög líklegt. Auk þess að þessir þrír menn eru þar, þá er vindubrúin undin upp og enginn fær að koma inn í kastalann nema með leyfi Hentzau unga eða Michaels svarta sjálfs. Við verðum að taka skriðið af Fritz."

"Ég ætla að fara til Zenda," sagði ég.

"Þér eruð genginn af vitinu."

"Ég fer einhvern tíma."

"Það getur verið. En yður dvelst þar líklega, ef þér farið."

"Vera má, vinur minn," sagði ég kæruleysislega.

"Hans Hátign er í þungu skapi," sagði Sapt. "Hvernig ganga ástamálin?"

"Skammist þér yðar og þegið þér!" sagði ég.

Hann starði á mig stundarkorn; svo kveikti hann í pípu sinni. Það var alveg satt, ég var í slæmu skapi, og mælti enn fremur önuglega:

"Ég get ekki þvers fótar stigið, án þess að hálf tylft manna sé á hælunum á mér."

"Ég veit þér segið það satt; ég hefi skipað mönnunum þetta," svaraði hann rólega.

"Hvers vegna?"

"Ja," sagði Sapt og þeytti út úr sér reykjarstroku, "Það mundi ekki hafa orðið neitt sérlega óþægilegt fyrir Michael svarta, ef þér hefðuð horfið. Ef þér hefðuð dottið úr sögunni, mundi gamli leikurinn, sem við komum í veg fyrir, hafa verið leikinn – eða þá hefði verið auðvelt að koma honum í kring."

"Ég get séð um mig sjálfur."

"De Gautet, Bersonin og Detchard eru í Streslau, og hver þeirra sem væri, mundi ráða yður af dögum – með jafn fúsu geði eins og ég mundi Michael svarta, en á töluvert sviksamlegri hátt þó. Hvaða bréf er þetta?"

Ég braut það upp og las upphátt:

"Ef konunginn langar til að vita um málefni, sem konunginum er mjög áríðandi, þá ætti hann að fara eftir því, sem honum er bent til í þessu bréfi. Við endann á Nýjugötu stendur hús og er víðáttumikil lóð umhverfis það. Súlnagöng liggja að húsinu, og er í þeim standmynd af vatnadís. Garður liggur umhverfis lóðina, á honum er hlið að baka til. Ef konungurinn kemur einn inn um það hlið klukkan tólf í nótt, beygir til hægri handar og gengur tuttugu skref, mun fyrir honum verða sumarhýsi, er sex tröppur liggja upp að. Ef hann gengur upp tröppurnar og fer inn, mun hann hitta manneskju, er mun segja honum það er mjög miklu varðar bæði að því er líf hans og konungdóm snertir. Tryggur vinur hans ritar þetta. Hann verður að koma aleinn. Ef hann skeytir ekkert um að koma, mun lífi hans hætta búin. Bréf þetta ætti hann ekki að sýna neinum, því ef hann gerir það, kemur hann konu, sem elskar hann, á kaldan klaka; en Michael svarti fyrirgefur ekki.

"Nei," sagði Sapt, "en hann getur stílað býsna snotur bréf."

Ég hafði komist að sömu niðurstöðu, og var í þann veginn að fleygja bréfinu frá mér, þegar ég tók eftir því, að eitthvað var skrifað á hina hliðina á því.

"Bíðum við, það er ekki alt búið enn."

"Ef þér eruð í vafa," (skrifaði bréfritarinn) "þá skuluð þér spyrja Sapt ofursta–"

"Svei! Svei!" hrópaði hann forviða. "Heldur hann að ég sé meira flón en þér?"

Ég benti honum að hafa sig hægan:

Spyrjið hann hvaða kona myndi vera líkleg til að leggja sig mest fram um að hamla því að hertoginn gangi að eiga frænku sína, og væri því mest um að gera að aftra því að hann yrði konungur? Og spyrjið hvort nafn hennar byrji á – A.

Ég spratt á fætur. Sapt lagði frá sér pípuna. "Antoinette de Mauban, sem ég er lifandi!" hrópaði ég.

"Hvernig vitið þér það?" spurði Sapt.

Ég sagði honum hvað ég vissi um konu þessa, og hvernig ég hefði komist að því. Hann kinkaði kolli.

"Þá eiga þau að öllum líkindum í brösum," sagði hann og var hugsi.

"Ef hún vildi, gæti hún orðið okkur að miklu liði," sagði ég.

"Ég er samt helst á því, að Michael hafi látið skrifa bréfið."

"Það ímynda ég mér líka, en ég ætla að vita vissu mína. Ég ætla að fara, Sapt."

"Nei, ég skal fara," sagði hann.

"Þér skuluð fá að fara með mér að hliðinu og lengra ekki".

"Ég ætla að fara til sumarhýsisins."

"Ég þori að hengja mig upp á að þér farið ekki."

Ég stóð upp og hallaði mér upp að arinhyllunni.

"Sapt, ég treysti þessari konu, og ég ætla að fara."

"Ég treysti engri konu," svaraði Sapt, "og þér skuluð ekki fara."

"Annað hvort fer ég til sumarhýsisins, eða á stað aftur til Englands," sagði ég.

Sapt vissi upp á hár, hve lengi hann mátti þrjóskast við og hve nær hann varð að láta undan.

"Við eyðum tímanum til ónýtis," mælti ég ennfremur. "Meðan við látum konunginn vera þar sem hann er, þá vex hættan með hverjum deginum, sem líður. Hættan fer sívaxandi meðan ég sit hér við þennan grímuleik. Við verðum að beita okkur betur; við verðum að sækja betur en við höfum gert."

"Það verður þá svo að vera," sagði hann og stundi við.

Og til að fara stutt yfir sögu, þá stigum við Sapt á bak hestum okkar klukkan hálf ellefu. Fritz varð eftir á verði, og létum við hann ekki vita hvert við ætluðum. Nóttin var niðdimm. Ég hafði ekkert sverð með mér, en marghleypu bar ég á mér, langblaðaðan hníf og ofurlitla lukt. Við komumst að hliðinu. Við stigum af baki. Sapt rétti mér hönd sína.

"Ég ætla að bíða hér," sagði hann. "Ef ég heyri skot, þá skal ég–"

"Bíðið hér. Það er eina vonin fyrir konunginn. Þér megið ekki stofna yður í hættu."

"Þér hafið rétt að mæla, vinur. Hamingjan fylgi yður!"

Ég ýtti á garðshurðina. Hún opnaðist og ég kom inn á flöt vaxna villtum runnum. Milli þeirra lá grasgróinn stígur og ég hélt eftir honum til hægri handar, eins og mér hafði verið sagt og fór gætilega. Ég hafði dregið niður í luktinni og hélt á marghleypunni. Ég heyrði engan minnsta hávaða. Loks sá ég stóra þústu í myrkrinu fram undan mér. Það var sumarhýsið. Ég kom að tröppunum og gekk upp eftir þeim, og þá varð fyrir mér veigalítil og fornfáleg tréhurð með skellilás fyrir. Ég opnaði hurðina og fór inn. Þá kom kona hlaupandi á móti mér og greip um hönd mína.

"Lokið dyrunum," hvíslaði hún.

Ég hlýddi og dró upp ljósið og lýsti í andlit hennar. Hún var í skrautlegum kveldkjól, og varð fegurð þessarar dökkhærðu konu furðulega tilkomumikil við daufa skinið af luktinni. Sumarhýsið var lítið og óálitlegt herbergi, og ekkert inni í því nema tveir stólar og ofurlítið járnborð, eins og menn sjá tíðum að notað er við tedrykkju í görðum úti eða þar sem veitingar eru seldar undir beru lofti.

"Þér megið ekkert segja," mælti hún. "Við höfum engan tíma. Heyrið þér! Ég Þekki yður, Mr. Rassendyll. Ég skrifaði bréfið eftir skipun hertogans."

"Ég bjóst við því," sagði ég.

"Að tuttugu mínútum liðnum koma þrír menn hingað til að drepa yður."

"Þrír – er það þrenningin."

"Já. Þér verðið að vera farinn þá. Ef þér verðið ekki farinn þá verðið þér nú í kveld drepinn–"

"Eða þeir."

"Hlustið á mig, hlustið á mig! Þegar búið er að ráða yður af dögum, þá verður farið með lík yðar til úthverfis í borginni. Það verður látið finnast þar. Michael lætur þá strax taka alla vini yðar fasta – Sapt ofursta og Tarlenheim kaftein fyrsta – setja hervörslu um Streslau og senda hraðboða til Zenda. Þrenningin þar myrðir þá konunginn í kastalanum, og hertoginn lætur svo setja sig eða prinsessuna í hásæti – sig fremur, ef hann hefir nægt fylgi til þess. Hvað sem öðru líður ætlar hann að kvænast henni, og ná konungsvöldunum, og nafninu rétt á eftir. Skiljið þér?"

"Þetta er dálaglegt ráðabrugg. En hvernig stendur á ferðum yðar, frú, eruð þér–"

"Ég er kristin kona – og ég er afbrýðissöm. Guð hjálpi mér! Ætti ég að horfa upp á það, hann gengi að eiga hana? Svona, farið þér nú; en munið eftir því – það þarf ég að segja yður – að þér eruð hvergi óhultur, hvorki nótt né dag. Þrír lífverðir fylgja yður. Er ekki svo? En þeim fylgja aðrir þrír menn. Þrenning Michaels er aldrei lengra frá yður en tvö hundruð skref. Líf yðar blaktir á skari ef þeim tekst að hitta yður nokkurn tíma einan. Svona, farið hér nú! En bíðið þér við. Nú er kominn vörður við hliðið. Farið nú hljóðlega út, og gangið á bak sumarhýsinu, og svo beint áfram hundrað skref, og lá finnið þér stiga sem reistur er upp að garðinum. Hlaupið upp eftir honum og flýið sem fætur toga."

"En hvað verður um yður?" spurði ég.

"Ég á margt ógert enn. Ef hann kemst að því, sem ég hefi sagt yður nú, munum við ekki sjást aftur. Ef ekki, getur verið að ég komi enn fram – En það skiptir yður engu. Farið þér nú strax."

"En hvað ætlið þér að segja honum?"

"Að þér hafið aldrei komið – að yður hafi grunað að brögð væru í tafli."

Ég tók um hönd hennar og kyssti á hana.

"Frú mín," sagði ég, "Þér hafið unnið konunginum þægt verk í kveld. Hvar er hann í kastalanum?"

Hún lækkaði röddina og hvíslaði óttafull því sem hún sagði. Ég hlýddi til með mikilli athygli.

"Þegar komið er yfir vindubrúna verður fyrir manni rammger hurð. Innan við hana er – Þey!

Hvað er þetta?"

Fótatak heyrðist úti fyrir.

"Þeir eru komnir. Þeir hafa komið fyrr en tiltekið var! Guð minn góður! Þeir hafa komið of snemma!" stundi hún og varð föl sem nár.

"Mér sýnist," sagði ég, "að þeir hafi komið um síðustu forvöð."

"Dragið niður í luktinni yðar. Það er op á hurðinni. Sjáið þér þá?"

Ég lagði augað við opið. Á neðstu tröppunni sá ég þrjá menn standa. Ég spennti marghleypu mína. Antoinette kippti í handlegginn á mér.

"Vera má, að yður takist að drepa einn þeirra," mælti hún. "En hvernig fer svo."

Svo heyrðist kallað að utan og talaði sá, sem orð hafði fyrir hinum, ágæta ensku.

"Mr. Rassendyll," var sagt.

Ég svaraði engu.

"Okkur langar til að tala við yður. Viljið þér lofa því að skjóta ekki fyrr en við höfum lokið máli okkar?"

"Veitist mér sú ánægja að tala við Mr. Detchard?" spurði ég.

"Nafnið skiptir engu."

"Því er þá verið að gefa mér nafn?"

"Við skulum sleppa því, konungur. Ég hefi boð að bjóða yður."

Ég horfði stöðugt út um opið á hurðinni. Þrenningin var nú komin upp í þriðju tröppuna og miðuðu þeir marghleypum sínum beint á dyrnar.

"Viljið þér leyfa okkur að koma inn? Við heitum yður griðum við drengskap okkar."

"Trúið þeim ekki," hvíslaði Antoinette.

"Við getum talað saman þó hurðin sé lokuð."

"En þér getið opnað hana og skotið," sagði Detchard," og þó að við réðum niðurlögum yðar, kynnuð þér að geta fellt einn okkar. Viljið þér lofa því við drengskap yðar að skjóta ekki meðan við tölumst við?"

"Trúið þeim ekki," hvíslaði Antoinette aftur.

Þá flaug mér ráð í hug. Ég athugaði það dálitla stund. Mér fannst það mundi geta komið að haldi.

"Ég lofa því við drengskap minn að skjóta ekki fyrr en þið skjótið," sagði ég, "en ég ætla ekki að hleypa ykkur inn. Standið þið kyrrir úti fyrir og segið þar það, sem þið hafið að segja."

"Þetta er sanngjarnt," svaraði hann.

Þrenningin steig nú upp á efstu tröppuna og stóð rétt framan við hurðina. Ég lagði augað vil opið Ég gat engin orðaskil heyrt, en ég sá höfuðið á Detchard fast við höfuð annars hærra manns (De Gautet bjóst ég við).

"Hm! Þeir eru að taka ráð sín saman," hugsaði ég. Svo kallaði ég til þeirra og sagði:

"Jæja, herrar mínir, hvert er boðið?"

"Fylgd í fullum griðum til landamæranna og fimmtíu þúsund pund ensk."

"Nei, nei," hvíslaði Antoinette svo lágt að ég heyrði varla. "Þeir svíkja yður."

"Þetta er allvel boðið," sagði ég og horfði stöðugt út um opið á hurðinni. Þeir stóðu nú allir í þvögu rétt utan við hurðina.

Þorpurunum þótti nú vænkast ráðið, og ég skeytti ekkert um ráðleggingar Antoinette. Þeir ætluðu að koma mér að óvörum meðan ég væri að tala.

"Gefið mér einnar mínútu frest til að hugsa mig um," sagði ég, og mér heyrðist ekki betur en að þeir færu að hlæja.

Ég sneri mér að Antoinette og hvíslaði:

"Standið þér fast út við vegginn svo að þér verðið ekki fyrir skotunum."

"Hvað ætlið þér að gera?" spurði hún óttaslegin.

"Þér skuluð nú fá að sjá það," svaraði ég.

Ég tók um fæturna á litla járnborðinu og lyfti því upp. Jafn kraftagóðum manni sem mér veittist það ekki erfitt. Ég hélt borðplötunni fyrir framan mig og var hún ágætis skjöldur fyrir höfði mér og efri búknum. Ég stakk luktinni í belti mér og marghleypunni í hægri vasann. Þá varð ég þess alt í einu var að hurðin hreyfðist ofurlítið. Það gat annað hvort verið vindurinn, sem þokaði henni til eða að einhver þeirra, sem úti voru, væri að reyna að opna hana.

Ég hopaði eins langt aftur á bak frá dyrunum eins og ég gat og hélt borðinu fyrir framan mig eins og ég hefi áður sagt.

"Herrar mínir, ég tek boði ykkar, ef þið leggið drengskap ykkar við að halda skilmálana. Ef þið opnið hurðina –"

"Opnið þér sjálfur," sagði Detchard.

"Hurðin opnast út," sagði ég. "Víkið ykkur ofurlítið frá, herrar mínir, því annars kann ég að reka í ykkur hurðina þegar ég opna hana."

Ég fór svo og rjálaði ofurlítið við skellilásinn og laumaðist svo aftur á tánum þangað sem ég hafði verið.

"Ég get ekki lokið upp; skráin er hlaupin í baklás," kallaði ég.

"Þvættingur! Ég skal ljúka upp!" hrópaði Detchard. "Hvaða bull, Bersonin, því þá ekki? Ertu hræddur við einn mann?"

Ég brosti í kampinn. Samstundis var hurðinni hrundið upp. Við skin af lukt, sem þeir höfðu, sá ég mennina þrjá standa í hópi fyrir utan og héldu þeir marghleypum sínum uppi tilbúnir að skjóta. Þá rak ég upp óp og hljóp eins hart og ég gat fram gólfið og út í dyrnar. Þrjú skot gullu við og skullu á skjöld minn. Á næsta augnabliki hentist ég út um dyrnar og borðið skall beint framan á þá. Svo veltumst við, ég, þeir bölvandi og ragnandi og blessað borðið mitt – alt í einni þvögu niður tröppurnar og ofan á völlinn fyrir utan. Antoinette de Mauban æpti upp, en ég spratt á fætur skellihlæjandi.

De Gautet og Bersonin lágu eins og í roti. Detchard varð undir borðinu, en um leið og ég stóð upp velti hann því ofan af sér og skaut aftur. Ég brá upp skammbyssunni og skaut í flýti. Ég heyrði að hann bölvaði mér og svo hljóp ég á stað eins og hræddur héri, hlæjandi á hlaupunum, aftur fyrir sumarhýsið og stefndi til garðsins. Ég heyrði fótatak á eftir mér, og sneri mér við og skaut upp á von og óvon. En svo heyrði ég fótatakið ekki framar.

"Hamingjunni sé lof," sagði ég, "að hún sagði mér satt um stigann," því að garðurinn var hár og járnbroddar ofan á honum.

Og stiginn var þarna líka. Ég hljóp upp eftir honum og komst út úr garðinum á svipstundu. Þegar ég sneri við sá ég hestana. Svo heyrði ég skot. Það var Sapt sem skaut. Hann hafði heyrt til okkar, og stóð nú skapillur í meira lagi við hliðið lokað, og barði og skaut í lásinn eins og vitlaus maður. Hann hafði alveg gleymt því, að hann átti engan hlut að eiga í bardaganum. Ég gat ekki stillt mig um að hlæja að honum og sagði um leið og ég lagði höndina á öxl honum:

"Komið nú heim, og göngum til hvílu, gamli vinur. Ég hefi einstaklega skemmtilega teborðs-sögu að segja yður."

Hann hrökk við og hrópaði: "Þér eruð þá heill á húfi!" og svo hristi hann hönd mína í ákafa.

"En að hverjum skrattanum eruð hér að hlæja?"

"Að fjórum herrum við teborð," sagði ég og hélt áfram að hlæja, því að það var ósegjanlega hlægilegt að sjá kappana þrjá hafa fallið í valinn fyrir eigi voðalegra vopni en venjulegt teborð er.

En af framansögðu sést, að ég hélt heit mitt heiðarlega, og skaut ekki fyrr en þeir byrjuðu að skjóta.


X. KAPITULI.

Sú var venja, að lögreglustjórinn sendi mér á hverju kveldi skýrslu um ástandið í borginni og hvernig í lýðnum lægi. Enn fremur var getið um háttalag allra þeirra manna, er lögreglunni hafði verið falið að hafa gætur á. Eftir að ég kom til Streslau hafði það verið siður Sapts að lesa skýrslu þessa, og skýra mér frá öllu því, sem þar var tekið fram, og markvert var að einhverju leyti. Daginn eftir skærurnar, sem ég lenti í, í sumarhýsinu, kom hann inn til mín þegar ég var að spila écarté við Fritz von Tarlenheim.

"Skýrslan núna í kveld er óvenjulega eftirtektarverð," sagði hann og settist niður.

"Hefir nokkurt uppþot orðið ?" spurði ég.

Hann hristi höfuðið brosandi.

"Ég sé hér fyrst," sagði hann, "að hans tign hertoginn af Streslau hefir farið burt úr borginni (sýnist svo sem hann hafi farið skyndilega), og með honum nokkrar undirtyllur hans. Haldið er að hann hafi ætlað til kastalans í Zenda, en hann og föruneyti hans fór þjóðbrautina en ekki með járnbrautarlestinni. Herrarnir De Gautet, Bersonin og Detchard lögðu á stað síðar, og hafði hinn síðastnefndi borið hönd sína í fetli. Eigi er það kunnugt, hversu hann hafi særst, en haldið er að hann hafi háð einvígi, líklega út úr ástamálum."

"Í því er engin hæfa," sagði ég og var meir en lítið ánægður yfir að hafa veitt piltinum þennan áverka.

"Þá er næst skýrt frá þessu," sagði Sapt: "Madama de Mauban, – á henni hafa verið hafðar gætur samkvæmt skipun —- fór héðan með lestinni. Hún keypti farbréf til Dresden – "

"Hún er vön að fara þangað," sagði ég.

"Lestin til Dresden kemur við í Zenda." Hann er athugull náungi skýrsluhöfundurinn. Og takið eftir þessu: 'Það er ekki sem ákjósanlegast hljóð í mönnum hér í borginni núna. Konunginum er mjög álasað' (honum hefir verið sagt, að skýra hárrétt og einarðlega frá), 'fyrir að herða ekkert á bónorði sínu. Eftir áreiðanlegum fregnum frá þeim, sem handgengnir eru hennar konunglegu tign Flavíu prinsessu, má ætla að hún taki sér það nærri hve konungurinn sinni lítið um hana. Til eru þeir menn, sem nefna nafn hennar í sambandi við nafn hertogans af Streslau, og hefir það orðið til þess að fylgi hertogans hefir drjúgum vaxið.' Ég sá því ekki önnur ráð, en láta það berast út, að konungurinn ætlaði að láta stofna til dansleikjar í kveld, í heiðursskyni við prinsessuna, og hefir það mælst mjög vel fyrir."

"Þetta eru mér nýjungar," sagði ég.

"Alt er þegar undirbúið," sagði Fritz hlæjandi. "Ég hefi séð um það." Sapt sneri sér að mér og sagði með hárri og einbeittri rödd:

"Þér verðið að biðla til hennar í kveld, heyrið þér það."

"Mér þykir mjög líklegt að ég geri það, ef ég næ tali af henni einni," sagði ég. "Haldið þér kannske, Sapt, að mér falli það erfitt?"

Fritz brosti ofurlítið og sagði svo: "Yður mun verða það helst til auðvelt. Sjáið til, mér fellur reyndar illa að segja yður það, en ég má til. Helga greifadóttir sagði mér að prinsessunni væri farið að geðjast einkar vel að konunginum! Síðan um krýninguna hefði hugur hennar snúist undarlega mikið til hans. Og það er öldungis satt, henni fellur það mjög þungt, hve konungurinn skiptir sér lítið af henni."

"Þetta er dálagleg lygi," hrópaði ég fokvondur.

"Sei, sei! Látið þér ekki svona. Ég þori að segja, að þér eruð enginn nýgræðingur í ástamálum, og hafið skjallað marga stelpuna. Það er einmitt það sem hana langar til." sagði Sapt.

Fritz skildi miklu betur í hve miklum vanda ég var staddur, því að hann átti unnustu. Hann studdi hönd sinni á öxl mér, en sagði ekkert.

"Ég held samt að þér ættuð, hvað sem öðru líður, að biðja hennar í kveld," sagði Sapt með kuldalegu kæruleysi.

"Guð sé mér næstur!"

"Að minnsta kosti verðið þér að tala utan að því við hana; ég ætla að sjá um að koma frétt um það í blöðin og láta þess getið að þær hafi við allgóðar heimildir að styðjast."

"Mér dettur ekki í hug að gera neitt slíkt – og vil það heldur ekki!" sagði ég. "Ég aftek alveg að eiga nokkurn hlut í því að draga prinsessuna á tálar."

Sapt horfði greindarlegum augum sínum fast á mig. Kænskubros færðist yfir andlitið á honum.

"Látum svo vera! Látum svo vera," sagði hann. "Það er ekki rétt af okkur að leggja fast að yður um þetta. Þér reynið að blíðka hana dálítið ef þér getið. Þá er næst að minnast á Michael!"

Fari Michael til fjandans!" sagði ég.

"Hann fer þangað bráðum," svaraði Fritz. "Komið þér nú með mér útí garð að ganga dálítið."

Sapt þagnaði þá strax. Undir ruddalegu fasi hans duldist furðulega mikil viðmótslægni og – að því er ég síðar komst að raun um – mikil þekking á mannlegu lífi. Hvers vegna lagði hann ekki meira að mér að koma fram bónorðinu við prinsessuna? Vegna þess að hann vissi að fegurð hennar og yndisleikur mundi flýta enn meira fyrir því, en allar hvatningar af hans hendi – og vegna þess, að því minna sem ég hugsaði um þetta, því líklegra var að ég gerði það. Að sjálfsögðu hefir honum ekki dulist það, að þetta gat orðið prinsessunni til óhamingju, en um það hirti hann ekkert. Er rétt af mér að leggja honum þetta til lasts? Ef næðist í konunginn lifandi, þá varð prinsessan að giftast honum, hvort sem hún vissi um mannaskiptin eða ekki. En ef ekki tækist að heimta konunginn heilan? Um það höfðum við aldrei rætt enn þá. En ég hafði grun um, að ef svo færi, þá ætlaði Sapt að láta mig sitja í hásæti í Rúritaníu til dauðadags. Hann hefði heldur viljað vita þar djöfulinn sjálfan en erkiárann Michael svarta.

Dansleikurinn var hinn viðhafnarmesti. Við Flavía hófum dansinn; fyrst var quadrille, síðan dönsuðum við vals. Mörg forvitin augu störðu á okkur, hvíslinga-kliður heyrðist um allan salinn. Nokkru síðar var sest að kveldverði. Undir borðum varð ég svo ör, er ég las endursvar ástar minnar í augum prinsessunnar, og barmur hennar hófst blíðuþrunginn undir viðræðu minni óáheyrilegri, að ég stóð upp úr sæti mínu mitt á meðal allra þeirra glæsilegu gesta, sem þar voru saman komnir, svipti af mér "rauðu rósinni", sem ég bar, og hengdi þetta gimsteinum setta tignarmerki um háls hennar. Svo settist ég niður undir miklu lófaklappi og háværum árnaðaróskum; ég sá Sapt brosa yfir vínglasi sínu og Fritz hleypa brúnum. Eftir það bar ekkert til tíðinda þangað til borðhaldinu var lokið; hvorugt okkar Flavíu gat neitt sagt. Fritz snart mig á öxlina; ég stóð upp, rétti prinsessunni höndina og leiddi hana út úr borðsalnum inn í lítið herbergi þar sem kaffi var borið á borð fyrir okkur. Þjónar og þernur fóru út, og létu okkur ein eftir.

Gluggarnir á þessu litla herbergi vissu út að garðinum. Veðrið var yndislegt, svalt og angandi blómilmur lagði inn um gluggana. Flavía settist niður en ég stóð frammi fyrir henni; ég átti í stríði við sjálfan mig, og ef hún hefði ekki litið til mín, er mér næst að halda að ég hefði unnið sigur í þeirri baráttu. En hún leit á mig snöggt, eins og óviljandi og svo niður fyrir sig; en blóðið þaut fram í kinnarnar á henni af því hvernig hún hefði litið til mín og hún dró þungt andann.

Þið hefðuð átt að sjá hana þá! Ég gleymdi konunginum í Streslau. Hún var prinsessa, en ég var aðskotadýr í dularbúningi. Haldið þið að ég hafi munað eftir því? Ónei, en ég fleygði mér á kné og greip um hendur hennar. Ég sagði ekkert. Því skyldi ég hafa átt að segja nokkuð? Blíðu næturómarnir breiddu ósegjanlega unaðsblæju yfir ástarandvörp mín er ég þrýsti heitum kossum á varir hennar.

En svo hratt hún mér frá sér alt í einu og hrópaði:

"Gerirðu þetta í einlægni? eða að eins vegna þess að þú mátt til?"

"Ég geri Það í einlægni," svaraði ég lágt og blíðlega, "og í einlægni segi ég, að ég elska þig meira en lífið í brjóstinu á mér – meir en sannleikann – meir en heiður minn!"

Henni datt ekki í hug að kryfja orð mín til mergjar, en skoðaði þau sem hugðnæm ofyrði eldmóðugrar ástar.

Hún hallaði sér að mér og hvíslaði:

"Ó! ég vildi bara, að þú værir ekki konungur! Þá skyldi ég sýna þér hve mikið ég ann þér! Hvernig stendur á því, að ég ann þér nú, Rúdolf."

"Nú?"

"Já, – þessa síðustu daga. Ég – ég hefi aldrei unnað þér fyrri."

Ég varð gagntekinn af metnaði. Það var ég – Rúdolf Rassendyll – sem unnið hafði ástir hennar! Ég lagði handlegginn um mittið á henni.

"Unnirðu mér ekki áður?" spurði ég.

Hún leit framan í mig og sagði lágt og brosandi:

"Það hefir líklega verið konungstigninni að þakka. Ég hefi aldrei orðið þess vör að ég mér þætti vænt um þig fyrr en krýningardaginn."

"Aldrei áður?" spurði ég með ákefð.

Hún hló lágt.

"Það er á þér að heyra, að þig langaði til að ég segði "já" við þessu," sagði hún.

"Væri það satt, ef þú segðir 'já'?"

"Já," svaraði hún svo lágt, að ég að eins heyrði, og svo sagði hún rétt á eftir: "Vertu varkár, Rúdolf, elskan mín! Hann verður afarreiður, þegar hann fréttir þetta."

"Hvað þá, hann Michael? Ef ekkert væri nú verra við að eiga, en Michael, þá –"

"Hvað getur verra verið?"

Mér bauðst þarna tækifæri, sem ég greip. Ég sleppti henni, þó að ég ætti bágt með það, og færði mig frá henni svo sem tvö skref. Mér er enn í fersku minni þyturinn í vindinum þá úti fyrir í linditrjánum.

En ef ég skyldi nú ekki vera konungurinn." tók ég til máls, "ef ég væri ótiginn maður –"

Áður en ég gat lokið við setninguna hafði hún gripið um hendurnar á mér

"Þó að þú værir dæmdur glæpamaður í fangelsinu hér í Streslau, þá yrðirðu samt konungurinn minn," sagði hún.

Með andköfum stundi ég: "Guð fyrirgefi mér!" Ég hélt um hendurnar á henni og sagði aftur:

"Ef ég væri nú ekki konungurinn –"

"Þey, þey!" hvíslaði hún. "Ég á það ekki skilið, – ég á það ekki skilið, að ég sé tortryggð. Heyrðu, Rúdolf, er sú kona, sem giftist ástlaust, vön að horfa á manninn sinn eins og ég horfi á þig?"

Svo fól hún andlitið í höndum sér.

Þannig stóðum við stundarkorn hvort hjá öðru; ég hélt um mittið á henni, og var þó að hugsa um, hvað fegurð hennar og leikaraskapur sá, sem ég hafði flækst inn í, hefði eftir skilið af heiðri mínum og samviskusemi.

"Flavía," sagði ég með svo einkennilegri og hásri rödd, að ég þekti varla róm sjálfs mín, "ég er ekki –"

Um leið og ég hóf máls, og hún leit upp á mig, heyrðist þunglamalegt fótatak í sandinum úti fyrir og maður kom að glugganum. Flavía rak upp ofurlítið óp og hopaði frá mér. Setningin sem ég hafði byrjað á dó á vörum mínum. Sapt stóð utan við gluggann, beygði sig auðmjúklega, en var þó þungbrýnn í meira lagi.

"Ég bið margfaldlega fyrirgefningar, herra konungur, en háæruverðugur kardínálinn hefir nú beðið í fullan fjórðung stundar eftir að fá að kveðja Yðar Hátign."

Ég leit fast framan í Sapt og sá, að aðvörunar og þykkjusvipur var á honum. Ég vissi ekki hve lengi hann hafði staðið á hleri, en hitt var víst, að hann hafði komið í opna skjöldu.

"Ekki dugir víst að láta kardínálann bíða lengur," sagði ég.

Flavía rétti Sapt höndina. Hún var rjóð í kinnum og augun tindruðu. En hún þurfti ekki að blygðast sín fyrir ást sína. Hún sagði ekkert við hann, en engum manni, er einhverntíma hafði séð konu hrifna, af ást gat dulist, til hvers hún ætlaðist. Þunglyndislegt raunabros kom á andlit gamla hermannsins, og blíðuhreimur var í rödd hans er hann beygði sig áfram, kyssti á hönd hennar og sagði:

"Guð blessi yðar konunglegu tign í sorg og gleði, í meðlæti og mótlæti.!"

Hann þagnaði og leit til mín, rétti sig upp, stóð þráðbeinn og hermannlegur og mælti enn fremur:

"En öllum fremur verður manni þó annt um konunginn – guð blessi Hans Hátign!"

Og Flavía greip um hönd mína, kyssti hana og sagði í hálfum hljóðum:

"Amen! Guð minn góður! Amen!"

Svo snerum við aftur öll saman inn í danssalinn. Ég neyddist til að veita viðtalsleyfi, og varð því að skilja við Flavíu; sérhver sá, sem við mig hafði talað, sneri til hennar. Sapt þokaði sér áfram um miðjan gestahópinn, og hvervetna sáust bros og heyrðust hvíslingar, þar sem hann fór. Ég efaðist ekki um að hann hefði framkvæmt óveglega hótun sína og væri nú að gera mönnum kunnugt – það sem hann hafði hlerað. Hann var ekki að hugsa um annað, en að halda í konungstignina og vinna bug á Michael. Flavía, ég – og rétti konungurinn í Zenda vorum taflmenn á skákborði hans; og peðin verða að vera tilfinningarlaus. Og hann hafði ekki látið sér nægja að tilkynna þetta innan hallarveggjanna, því að þegar ég að síðustu leiddi Flavíu niður breiðu marmaratröppurnar og að vagni hennar, var þar fyrir mikill mannfjöldi og hávær árnaðaróp kváðu við alt um hverfis okkur. Hvað gat ég gert? Ef ég hefði þá sagt sannleikann, mundu menn ekki hafa trúað því að ég væri ekki konungurinn; en menn mundu hafa haldið að konungurinn væri genginn af vitinu. Ég hafði gengið feti framar en rétt var sakir bragðvísi Sapts og taumlausrar ástríðu minnar, og nú voru öll sund lokuð að baki mér; og ástríða mín knúði mig áfram í sömu stefnu er bragðvísin hafði beint mér. Það kveld dró ég ekki af að láta alla Streslaubúa halda að ég væri konungurinn og bænheyrður biðill Flavíu prinsessu.

Loksins komst ég inn í búningsherbergi mitt, en það var ekki fyrr en klukkan þrjú um morguninn, þegar kaldranalega dagrenningarskíman fór fyrst að gægjast inn. Sapt var þar einn hjá mér. Ég var eins og hálftruflaður maður þegar ég settist niður, og starði fram undan mér á eldinn í arninum. Sapt reykti drjúgan eins og hann var vanur. Fritz var genginn til hvílu og hafði nærri því neitað því að tala við mig. Á borðinu hjá mér lá rós. Flavía hafði borið hana um kveldið og þegar við skildum hafði hún kysst hana og gefið mér.

Sapt rétti höndina, eftir rósinni, en ég spratt upp og greip um hana.

"Ég á hana," sagði ég, "en þér ekki, né konungurinn heldur."

"Við unnum konunginum mikið og þarft verk í kveld," sagði hann.

Ég sneri mér hvatlega að honum.

"Hver getur hindrað mig í að nota það verk mér í hag?"

Hann kinkaði kolli.

"Ég veit hvað þér eigið við," sagði hann. "En heiður yðar er í veði, ef þér gerið það."

"Hafið þér kannske ekki komið heiðri mínum fyrir kattarnef?"

"Þvættingur! að leika ofurlítið á kvenmann er ekki –"

"Þér ættuð að hlífa mér við þessu. Sapt ofursti, ef hér viljið ekki gera mig að purkunarlausum þorpara – ef þér viljið ekki að konungurinn morkni sundur í Zenda, meðan við Michael erum að leiða saman hesta okkar utan kastalans – þá fylgið mér!"

"Já, ég skal fylgja yður."

"Við verðum af taka eitthvað til bragðs, og það strax. Þér sáuð það, sem gerðist í nótt – þér heyrðuð –"

"Já," svaraði hann.

"Þér voruð nógu skarpskyggn til að sjá að svona mundi fara fyrir mér. Gott og vel, látið mig sitja hér vikutíma – og þá fáið þér annað verkefni að glíma við. Getið hér getið yður til hvað það muni vera?"

"Já, ég get Það," svaraði hann og yggldi sig. "En ef til þess kemur, þá verðið þér að fást við mig fyrst og drepa mig."

"Og þó svo yrði – þó að ég yrði að fást við heilan hóp manna? Ég segi yður það satt, að ég gæti fengið alla Streslaubúa til að rísa gegn yður á einni klukkustund og hengja yður – kæfa bölvaðar lygarnar í kverkunum á yður."

"Þessu verður ekki mótmælt," sagði hann. "Ég hefi búið svo í hendur yðar, að þér getið þetta."

"Ég gæti gengið að eiga prinsessunna, og sent Michael og bróður hans samdægurs til –"

"Ég er ekkert að bera á móti því, vinur minn," sagði hann.

"Heyrið þér þá, í guðs nafni," hrópaði ég og rétti honum höndina," látum okkur fara til Zenda og drepa Michael, en koma konunginum aftur á veldisstól hans."

Gamli maðurinn stóð og starði þegjandi á mig stundarkorn.

"En hvað segið þér um prinsessuna?" mælti hann.

Ég hneigði niður höfuðið – niður að höndum mér og marði rósina sundur milli varanna og fingra minna.

Hann lagði hendurnar á axlir mér og hvíslaði að mér lágt og með hásri röddu:

"Það veit guð, að þér eruð besti Elphbergurinn, sem til er. En ég hefi etið brauð konungsins og ég er þjónn konungsins. Við skulum fara til Zenda!"

Ég leit upp og greip um hönd hans. Okkur var báðum vott um augu.


XI. KAPITULI.

Nú er auðvelt að skilja, hve þung freisting það var, sem ég átti við að stríða. Ég gat hert svo að Michael að hann tæki konunginn af lífi. Ég átti hægt með að bjóða honum birginn og halda enn fastara en áður um konungstignina, – ekki hennar sjálfrar vegna, heldur vegna þess, að Rúritaníukonungurinn átti að ganga að eiga Flavíu prinsessu. En hvað mundu þeir Sapt og Fritz segja? Hvað um það; enginn getur vænst þess, að nokkur geti ritað með köldu blóði þær ótömdu og æðislegu hugsanir, er flykkjast að hugskoti manns þegar óviðráðanleg ástríða greiðir þeim veg. Samt sem áður þarf hann ekki að hryggjast yfir sjálfum sér, nema hann ætli að verða dýrðlingur fyrir dauðann. Mér sýnist, í mestu auðmýkt sagt, að sá maður geri betur, sem þakkar kraftinn, er honum var léður til að sigrast á freistingunum, en hinn, sem sýtir yfir vondum hugsunum, sem steðja að honum ófyrirsynju og leita óvelkomins húsaskjóls hjá spilltu eðli voru.

Indælt og bjart veður var morguninn þegar ég lagði á stað, einn míns liðs að heimsækja prinsessuna. Ég bar blómvönd í hendinni. Það var afsakanlegt að gefa ástinni lausan tauminn vegna þess, að það var hyggilegt, því að öll hlýleikamerki, sem ég sýndi prinsessunni, juku fylgi mitt hjá íbúum stórborgarinnar, er báru lotningarfulla ást til drottningarefnis síns. Ég hitti ástmey Fritz, Helgu greifadóttur. Hún var að tína blóm handa prinsessunni, og bað ég hana þá að færa Flavíu blómvönd minn í staðinn. Greifadóttirin var broshýr og ánægjuleg, því að Fritz hafði notað vel stundina, kveldið fyrir, og enginn skuggi var á ást þeirra, nema óvild sú, er kunnugt var að hertoginn af Streslau hafði á Fritz.

"Og þann skugga hefir Yðar Hátign numið á brott," sagði hún glettnislega." Já, ég skal fara með blóm yðar. Á ég að segja yður, herra konungur, hvað prinsessunni verður fyrst fyrir að gera við þau?"

Við vorum á gangi eftir breiðri gangstétt að húsa baki og uppi yfir okkur var opinn gluggi.

"Frú mín!" hrópaði greifadóttir glaðlega, og í því leit Flavía út. Ég tók ofan og hneigði mig. Hún var í drifhvítum kjól og gengið frá hárinu í einum laust hnýttum hnúti. Hún sendi mér koss með hendinni og hrópaði:

"Fylgdu konunginum upp hingað, Helga; ég ætla að gefa honum kaffi."

Greifadóttir brosti, lagði á stað á undan mér og fylgdi mér til herbergja Flavíu. Og þegar við prinsessan vorum orðin ein eftir, heilsuðumst við eins og elskhugum er títt. Því næst rétti prinsessan mér tvö bréf. Annað var frá Michael svarta – einkar hæverskleg beiðni um að hún sýndi honum þann heiður, að dvelja svo sem einn dag í kastalanum í Zenda, áþekkt því sem hún hefði verið vön einu sinni á sumri hverju áður fyrri, þegar kastalagarðurinn hefði staðið í mestum blóma. Ég fleygði bréfinu frá mér í bræði og Flavía fór að hlæja að mér. En þegar ég var orðinn rólegur aftur, benti hún mér á hitt bréfið.

"Ég veit ekki hvaðan þetta bréf er," sagði hún. "Lestu það."

En ég vissi það strax. Það var óundirskrifað, en rithöndin var sú sama, er skrifað hafði aðvörunina til mín, hönd Antoinette de Mauban.

Það var á þessa leið:

Ástæðulaust er fyrir mig að láta mér þykja vænt um yður, en guð forði yður frá að lenda í höndum hertogans. Sækið engin heimboð, sem – hann býður yður til. Farið hvergi, án þess að yður fylgi fjölmenn varðsveit — yður veitti ekki af að hafa heila herdeild með yður, ef þér ætluðuð að vera óhultar. Ef þér getið, þá skuluð þér sýna þetta þeim, sem nú ríkir í Streslau.

"Hversvegna er ekki sagt konunginum?" spurði Flavía og lagði höfuðið á öxl mér svo að hárlokkar hennar léku um vanga minn. "Er þetta blekking?"

"Ef þú metur líf þitt eins mikið og vert er, drottning mín, og það, sem er meira virði en lífið, skaltu hlýða því ítarlega sem ráðlagt er í bréfinu. Herdeild skal hafa aðsetur umhverfis heimili þitt, og gættu þess að fara hvergi fylgdarlaust."

"Er þetta skipun, herra konungur?" spurði hún með dálitlum mótþróakeim.

"Já, þetta er skipun, frú mín, ef þú elskar mig."

"Á!" hrópaði hún, og ég gat ekkert annað en kysst hana.

"Veistu hver hefir sent þetta?" spurði hún.

"Ég get getið mér til um það," sagði ég. "Það er frá góðum vini, – og ég er hræddur um að höfundurinn sé óhamingjusöm kona. Þú verður að látast vera veik, Flavía, og þess vegna ekki fær um að fara til Zenda. Þú getur skýrt frá afsökunum svo kuldalega sem þér sýnist."

"Þykist þú vera þess umkominn að móðga Michael?" sagði hún og brosti drembilega.

"Ég er þess umkominn og hvers annars, sem vera skal til þess að þú sért óhult," sagði ég.

Svo sleit ég mig frá henni og fór beint til Strakencz marskálks, án þess að spyrja Sapt til ráða. Ég hafði kynnst herforingjanum nokkuð, og mér féll hann vel í geð og bar ég gott traust til hans. Sapt var ekki eins fljótur til sem mér líkaði, og ég var nú farinn að sjá, að hann var ánægðastur þegar hann fékk öllu að ráða, og þá var hann stundum nokkuð hlutdrægur. Ég átti nú meira verk fyrir höndum en þeir Sapt og Fritz gátu annast, því þeir urðu að fara með mér til Zenda, og ég þurfti á manni að halda til þess að gæta þess er mér var kærara en alt annað í heimi, svo að ég gæti algerlega gefið mig við því í næði, að frelsa konunginn.

Marskálkurinn tók mér með þegnsamlegri blíðu. Ég gerði hann að trúnaðarmanni mínum að nokkru leyti. Ég fól honum að annast prinsessuna, og horfði framan í hann fast og íbyggilega, þegar ég bað hann að gæta þess, að engum sendimanni frá hertoganum frænda hennar skyldi vera hleypt inn til hennar, nema herforinginn sjálfur væri við staddur við tólfta mann.

"Verið getur að þetta sé rétt ráðið hjá yður, herra konungur," sagði hann og hristi gráhærða höfuðið raunalega. "Ég hefi vitað hertoganum betri menn gera annað eins fyrir ástar sakir."

Ég gat fyllilega fallist á það, sem hann sagði, en mælti þó:

"Fleira getur nú komið til greina, en ástin, marskálkur. Ástin kemur frá hjartanu; en gæti það ekki skeð, að metnaðarhugur bróður míns girnist eitthvað líka?"

"Ég vildi óska, að þér gerðuð honum rangt til, herra konungur."

"Ég ætla burt frá Streslau, marskálkur, og verð í burtu nokkra daga. Ég sendi hraðboða til yðar á hverjum degi. Ef enginn sendiboði skyldi koma þrjá daga í röð, þá skuluð þér auglýsa skipun þá, er ég fæ yður í hendur, og er hún þess efnis, að svipta Michael stjórnar yfirráðum í Streslau, en fela yður þau í hans stað. Þá setjið þér hervörslu um borgina. Því næst sendið þér Michael orð um, að þér viljið fá að tala við konunginn – skiljið þér mig?"

"Já, herra konungur."

"Ef svo líða tuttugu og fjórar klukkustundir, að hann gefi ekki kost á því," sagði ég og lagði hönd mína á hné honum, "þá er konungurinn dauður, og þá látið þér taka lögmætan ríkiserfingja til konungs. Þér vitið hver það er?"

"Já, Flavía prinsessa."

"Og sverjið mér það við átrúnað yðar og æru, og við nafn guðs, að þér veitið henni að málum meðan þér lifið, drepið skriðdýrið, og setjið hana í það tignarsæti, sem ég sit í nú."

"Ég sver þetta við átrúnað minn og æru, og við nafn lifandi guðs! Og virðist drottinn allsherjar að halda verndarhendi sinni yfir Yðar Hátign, því að ég óttast að þér ætlið að leggja í einhverja hættuför."

"Ég vona að einskis lífs, sem sé enn dýrmætara en mitt verði krafist," sagði ég og stóð upp. Svo rétti ég honum höndina.

"Marskálkur!" sagði ég, "vera má að sá tími komi einhvern tíma – ég veit ekki hve nær – að þér heyrið ýmislegt er menn furðast, um mann þann, er nú á tal við yður. Sleppum því hvar hann verður, eða hver hann verður, en hvað segið þér um framkomu hans, meðan hann var konungur í Streslau?"

Gamli maðurinn hélt í hönd mína, meðan hann talaði við mig, eins og við værum stallbræður.

"Ég hefi þekkt marga Elphenberga," mælti hann, "og ég hefi loks þekkt yður. En hvað sem fyrir kann að koma, ætla ég að segja það, að þér hafið hegðað yður eins og vitur konungur, og eins og ágætur maður; auk þess hafið þér sýnt yður jafn kurteisan tíginmann og prúðan elskhuga sem hver annar af konungsættinni er vera skal."

"Betur, að þetta verði grafskrift mín," sagði ég, "þegar að því kemur að eftirmaður minn sest í hásæti Rúritaníu-konungs."

"Guð gefi, að þess dags verði langt að bíða og ég þurfi ekki að lifa það," sagði hann.

Ég var mjög hrærður og titringur fór um þreytulega andlitið á marskálknum. Ég settist niður og reit skipun mína.

"Ég á bágt með að skrifa," sagði ég; "fingurinn er svo stirður ennþá."

Þetta var líka í fyrsta sinn sem ég hafði skrifað þar nokkuð nema nafnið mitt; og þó að ég hefði lagt mig eftir því að stæla rithönd konungsins var ég þó ekki orðinn fullfær um það.

"Það er satt, herra konungur," mælti hann. "þetta er dálítið ólíkt rithönd yðar venjulega. Það kemur sér illa, því að það gæti leitt til grunsemdar um, að skjalið væri falsað."

"Hvaða gagn er að fallbyssunum í Streslau, marskálkur," sagði ég brosandi, "ef þær geta ekki svæft ofurlitla grunsemd?"

Hann brosti hörkulega og tók við skjalinu.

"Sapt ofursti og Fritz von Tarlenheim fara með mér," sagði ég.

"Farið þér til að hitta hertogann?" spurði hann með lágri röddu.

"Já, ég fer að hitta hertogann og annan mann, sem ég þarf við, og nú er í Zenda," svaraði ég.

"Ég vildi að ég gæti farið með yður," hrópaði hann og beit í skegg sér. "Ég vildi gjarnan mega berjast fyrir yður og konungdóm yðar."

"Ég hefi falið yður það, sem meira er um vert en líf mitt og konungdómur," sagði ég, "og það hefi ég gert vegna þess, að ég treysti yður framar öllum öðrum Rúritaníumönnum."

"Ég skal skila henni aftur í yðar hendur heilli á húfi," sagði hann, "en að öðrum kosti gera hana að drottningu."

Síðan skildum við, og ég sneri aftur til hallarinnar og sagði þeim Sapt og Fritz frá því, sem ég hefði að hafst. Sapt fann að sumu og þótti það misráðið. Ég hafði líka einmitt búist við því, því að Sapt kaus jafnan helst að hann væri spurður til ráða fyrirfram, en ekki eftir á; samt var hann samþykkur fyrirætlun minni í aðal atriðunum, og varð því léttari í skapi sem nær því dró að til framkvæmda kæmi. Ekki stóð heldur á Fritz, þó að hann ætti meira á hættu en Sapt, vegna þess að hann átti unnustu, og hamingja hans var undir úrslitum fararinnar komin. En ég öfundaði hann samt meira en lítið! Ég öfundaði hann vegna þess að heppilegar lyktir leiðangursins, er við gengum nú að vongóðir með atorku og kappi, hlutu að færa honum gleði og hamingju og sameina hann og brúður hans, en mér hlutu þær að verða vísari og meiri harmsök, heldur en þó að fullvíst hefði verið, að förin misheppnaðist. Hann fór nærri um þetta, því að þegar við vorum orðnir einir (ég tel ekki gamla Sapt, sem sat úti í horni reykjandi), tók hann um handlegginn á mér og sagði:

"Þetta er hart aðgöngu fyrir yður. Ekki skuluð þér samt taka það svo, að ég vantreysti yður; ég er þvert á móti þess fullvís, að þér eruð fullkomlega einlægur í þessu máli."

En ég sneri mér frá honum, þakklátur fyrir það að hann fékk ekki séð hvað mér bjó í brjósti, heldur að eins það, sem fram kom í verkinu."

En jafnvel hann gat heldur ekki sett sig í spor mín, því að hann hafði aldrei dirfst að hefja augu sín upp til Flavíu prinsessu eins og ég.

Fyrirætlanir okkar voru nú fastákveðnar, jafnvel tilhögunin í framkvæmd þeirra eins og sést hér á eftir. Morguninn eftir ætluðum við að leggja á stað á veiðar. Ég hafði gert allar ráðstafanir til þess að geta farið burt úr borginni, og nú var að eins eitt eftir – en Það var þyngsta þrautin og sú átakanlegasta. Þegar kvelda tók ók ég á stað í gegn um hávaðann á strætunum til bústaðar Flavíu. Mín varð strax vart, þegar ég nálgaðist og ég fékk mjög vingjarnlegar viðtökur. Ég lét eigi annað á mér sjá, en ég væri hinn kátasti, eins og sæmdi hamingjusömum biðli. Enda þótt mér væri í rauninni þungt í skapi, gat ég ekki annað en brosað að þeim uppgerðar kulda og þótta, sem ástmey mín sýndi mér. Hún hafði heyrt, að konungurinn væri að fara burt úr Streslau á veiðar.

"Mér þykir það sorglegt, at við skulum ekki geta skemmt Yðar Hátign nægilega hér í Streslau," sagði hún og stappaði ofurlítið í gólfið með fætinum. "Ég mundi hafa lagt mig meira fram um að gleðja þig, en ég var svo fávís að ímynda mér að –"

"Hvað?" spurði ég og beygði höfuðið ofan að henni.

"Að þú mundir geta stillt þig – eftir – eftir það sem gerðist í gærkveld – að sækjast eftir æsingakenndum skemmtunum, svo sem einn eða tvo daga"; svo sneri hún sér frá mér þóttalega og sagði: "Ég vona, að villigeltirnir hafi betur af fyrir þér."

"Ég ætla að fara að veiða geysimikinn villigölt," sagði ég, og svo fór ég að strjúka hárið á henni, en hún vék sér undan.

"Ertu reið við mig?" spurði ég og lét sem þetta kæmi flatt upp á mig, því að ég gat ekki stillt mig um að erta hana ofurlítið. Ég hafði aldrei séð hana reiða, og mér var unun að kynnast öllu því í fari hennar, er ég þekti ekki áður.

"Hvaða heimild hefi ég til að reiðast? Reyndar sagðirðu í gærkveldi að þú teldir hverja þá stund glataða, sem þú dveldir ekki hjá mér. En þegar um 'geysimikinn villigölt' er að ræða, þá er öðru máli að gegna."

"Vera má að villigölturinn ráðist á móti mér," sagði ég. "Vera má að hann hafi betur Flavía!"

Hún svaraði engu.

"Fær jafnvel sú hætta ekkert á þig?"

Enn þagði hún; en þegar ég stalst til að líta framan í hana sá ég að tárin stóðu í augunum á henni.

"Ertu að gráta vegna hættunnar, sem ég er í?"

Þá tók hún loks til máls og sagði í lágum rómi:

"Þetta er svipað því, sem þú varst vanur að vera; en ekki líkt konunginum – konunginum, sem ég hefi orðið ástfangin af!"

Þá greip ég hana í fang mér og þrýsti henni að brjósti mínu.

"Elskan mín!" sagði ég og gleymdi öllu öðru en henni, "gastu ímyndað þér að ég vildi heldur fara á veiðar en vera hjá þér?"

"Hvernig stendur þá á þessu, Rúdolf? Eða ætlarðu kannske ekki að –"

"Jú, reyndar ætla ég á veiðar. Ég ætla að fara að hitta Michael í bæli hans."

Hún fölnaði mjög, þegar hún heyrði þetta.

"Þú sérð á þessu, góða mín, að ég er ekki eins kærulaus elskhugi eins og þú hélst. Ég skal ekki vera lengi í burtu."

"Ætlarðu að skrifa mér, Rúdolf?"

Þó að ég væri mjög hrærður stillti ég mig samt um að segja nokkuð, er vekti grun hjá henni.

"Ég skal senda þér hjartfólgnasta ástúð mína á hverjum degi," sagði ég.

"Og ætlar þú ekki að stofna þér í neina hættu."

"Nei, ekki að þarfalausu."

"Og hve nær kemurðu aftur? Skelfing verður tíminn langur þangað til!"

"Ja, hve nær kem ég aftur?"

"Já, já! Vertu ekki lengi, elskan mín, vertu ekki lengi. Ég get ekki sofið, meðan þú ert burtu."

"Ég veit ekki hvenær ég get komið," sagði ég.

"Bráðum, Rúdolf! Bráðum?"

"Guð má vita það, elskan mín. En ef ég skyldi aldrei –"

"Segðu það ekki, segðu það ekki!" sagði hún og þrýsti vörum sínum að mínum.

"Ef ég skyldi aldrei koma aftur," hvíslaði ég, þá verður þú að taka við embætti mínu; þú verður þá eini réttmæti ríkiserfinginn. Þú verður að taka við stjórninni, en gráta mig ekki."

Hún rétti sig upp í bili eins og drottning og sagði:

"Já, ég skal gera það! Ég skal taka við ríkisstjórninni. Þó að líf mitt verði ömurlegt og tómlegt, þó að hjartfólgnustu vonir mínar bregðist, skal ég samt gera skyldu mína."

Svo þagnaði hún, hallaði sér að brjósti mínu og sagði blítt og innilega:

"Komdu bráðum! Komdu bráðum!"

Ég stóðst þetta ekki og hrópaði hátt:

"Eins sannarlega og guð er uppi yfir okkur, skal ég – já, ég sjálfur – sjá þig einu sinni enn áður en ég dey!"

"Við hvað áttu?" hrópaði hún og starði á mig undrandi, en ég gat engu svarað henni, þar sem hún stóð og horfði enn á mig öldungis forviða.

Ég þorði ekki að biðja hana að gleyma mér; henni hefði hlotið að finnast það móðgun. Ég gat ekki sagt henni frá, hver ég væri og hvernig á högum mínum stæði. Hún var farin að gráta, og ég hugsaði ekki um annað en að hugga hana.

Hví skyldi ég ekki koma aftur til elskulegustu konunnar, sem til er í víðri veröld?" sagði ég. "Þúsund Michaelar geta ekki skilið mig frá þér."

Hún huggaðist ofurlítið við þetta og hjúfraði sig að mér.

"Þú ætlar þá ekki að láta Michael vinna þér mein?"

"Nei, elskan mín."

"Eða láta hann skilja okkur að?"

"Nei, elskan mín."

"Né neinn annan?"

Og aftur svaraði ég:

"Nei, elskan mín."

Það var annar maður – ekki – Michael –, sem mundi skilja okkur að, ef hann héldi lífi; og nú var ég einmitt í þann veginn að leggja líf mitt í hættu, til að bjarga lífi þess manns. Og ímynd hans – ímynd íturvaxna hvatlega mannsins, sem ég hafði hitt í skógunum við Zenda, – ímynd ósjálfbjarga máttvana líkamans, sem ég hafði skilið við í kjallaranum í skothúsinu, virtist rísa upp á milli mín og hennar, og þrengja sér jafnvel á milli okkar þar sem hún hvíldi föl, lémagna og nærri því í öngviti í faðmi mínum, en horfandi þó stöðugt á mig augum sínum yndisfögrum, er meiri ást skein úr, en ég hefi nokkru sinni síðar séð. Þau augu standa mér enn fyrir hugskotssjónum og munu aldrei líða mér úr minni fyrr en ég hverf undir græna torfu og kannske (hver veit) þau fylgi mér þangað líka.


XII. KAPITULI.

Andspænis kastalanum, en hinummegin við Zenda, og á að giska fimm mílur þaðan, lá belti af þykkum skógi. Þar er hálendara en umhverfis, og efst upp á hæðinni þar stendur aðalsmannssetur með nýtískusniði, og átti það frændi Fritz, fjarskyldur, Stanislás greifi von Tarlenheim. Stanislás greifi var lærður maður og lifði einbúalífi. Hann dvaldi mjög sjaldan á aðalsmannssetri sínu, og var svo greiðvikinn, þegar Fritz vakti máls á því, að bjóða mér og föruneyti mínu að gista þar ef við þyrftum. Þangað var nú för okkar heitið, og látið heita svo, að við ætluðum að vera þar við villigaltaveiðar (því skógarins var vel gætt, og gnægð var þar villigalta, eins og víðast hvar um alla Rúritaníu), en eiginlega höfðum við kosið þennan stað fyrir þá sök, að þar vorum við í námunda við hinn glæsilega dvalarstað hertogans af Streslau, er var rétt hinu megin við borgina. Strax um morguninn lagði flokkur þjóna á stað með klyfjahestana. Við lögðum ekki á stað fyrr en um hádegi, og fórum þrjátíu mílur með járnbrautarlestinni. Síðan stigum við á bak hestum okkar og riðum það sem eftir var leiðarinnar til aðalsmannssetursins.

Við vorum glæsilegur flokkur til að sjá. Fyrir utan Sapt og Fritz fylgdu mér tíu menn. Sérhver þeirra hafði verið valinn með mestu aðgætni, og höfðu vinir mínir tveir næga reynslu á þeim, og allir voru þeir konunginum hollir og trúir. Þeim var sagður sannleikurinn að nokkru leyti. Þeim var sagt frá árásinni, sem gerð hafði verið á mig í sumarhýsinu. Það var þeim sagt til að glæða konunghollustu þeirra og til að egna þá á móti Michael. Sömuleiðis var þeim kunngert, að einn af vinum konungsins væri talinn að vera hafður í ströngu varðhaldi í kastalanum, og væri förin meðal annars gerð í því skyni að ná honum á brott; en þess var og látið við getið, að aðal áform konungsins væri að kreppa nokkuð að bróður sínum misendismanninum, en hversu því skyldi hagað, væri eigi hægt að skýra frá að svo stöddu. Þeim ætti að nægja það, að konungurinn þyrfti að halda á liði þeirra, og reiddi sig á að þeir veittu honum dygga þjónustu þegar mest reyndi á. Þetta voru ungir, hugaðir og konunghollir menn og þeir spurðu einskis frekar. Þeir voru reiðubúnir að láta þjónustu sína í té, og óskuðu þess, að til bardaga kæmi svo að þeir gætu enn betur sýnt honum hollustu sína.

Við höfðum skipt um verustað, farið frá Streslau til Tarlenheim slotsins, og komnir í grennd við kastalann í Zenda, er blasti við okkur hinu megin dalsins. Ég reyndi líka til að skipta um skoðanir, kæfa niður ást mína, og beina huganum eingöngu að starfi því, er ég átti fyrir höndum. Ofbeldi var þýðingarlaust. Engu varð til vegar komið nema að hægt væri að koma við brögðum; og mér hafði þegar hugkvæmst ráð í þá átt. En miklar hömlur voru á að koma því fram vegna þess, hve mikið bar á ferðalagi mínu. Nú hlaut Michael að vita um ferð mína, og ég þekti Michael of vel til þess að halda að honum gleptist svo sýn, að hann tryði því, að ég hefði flutt mig þetta eingöngu til að veiða villigelti. Enginn vafi var á því, að hann mundi ráða í það hver væri aðal tilgangur fararinnar. En í það dugði ekki að horfa, því að okkur Sapt kom fyllilega saman um það, að eigi mætti lengur standa við það sem nú var. Einu hugði ég mér óhætt að treysta. Því, sem sé, að Michael svarti mundi ekki trúa því, að ég vildi konunginum vel. Hann gat ekki metið að neinu mann, er breytti heiðarlega, – ég vil ekki segja heiðvirðan mann, því að það gat naumast átt við mig. Hann hafði orðið þess var, hvaða færi mér bauðst, öldungis eins og ég sjálfur og Sapt; hann þekti prinsessuna – og (ja, ég get ekki neitað því að mér lá við að vorkenna honum) elskaði hana á sinn hátt; honum hlaut að finnast það sjálfsagt, að mér mundi takast að múta Sapt og Fritz, svo að dygði. En ef hann hugsaði sem svo, mundi hann þá drepa konunginn keppinaut minn, manninn, sem mér hlaut að standa geigur af? Vitanlega mundi hann ekki hugsa sig um að gera það, meir en þó hann ætlaði að sálga rottu. En hann mundi drepa Rúdolf Rassendyll fyrst ef hann gæti, og ekkert annað en vissan um þunga dómsáfelling, ef konungurinn slyppi lifandi og kæmist til valda, mundi neyða hann til að grípa til örþrifaráðsins, sem hann átti hjá sér til að taka skriðið af Rassendyll, svikaranum óskammfeilna. Ég hugsaði um þetta fram og aftur, meðan ég var að ríða til slotsins, og mér óx hugur.

Það var svo sem vafalaust, að Michael hafði vitað af komu minni. Ég var ekki búinn að vera þar nema eina klukkustund þegar sendimannahópur kom þangað frá honum. Hann var þó ekki svo óskammfeilinn að senda þá, sem reynt höfðu að myrða mig, en hinn helming sexmenninganna alræmdu sendi hann, Rúrítanana, þá Lauengram, Krafstein og Rúpert Hentzau. Þetta var allra glæsilegasta þremenning. Þeir riðu ljómandi fallegum hestum og voru prýðilega búnir. Rúpert ungi leit út fyrir af vera hinn mesti fullhugi, og tæpast eldri en tuttugu og tveggja til þriggja ára. Hann hafði orð fyrir þeim, og skýrði okkur frá því í snoturri ræðu, að Michael af Streslau, dyggur þegn minn og elskulegur bróðir, bæði mig fyrirgefningar á því, að hann gæti ekki sjálfur komið á fund minn, og eigi boðið mér til kastala síns; en sú væri orsök til hvorstveggja, að bæði hann og nokkrir af þjónum hans lægu veikir í flekkusótt, og væru gróflega þungt haldnir, og hætta á sýkingu í kastalanum. Þannig fórust Rúpert unga orð og óskammfeimnislegt bros lék um varir honum undir hrokkna granaskegginu, og hann velti vöngum svo að þykka mikla hárið á honum hristist eins og makki á ljóni. Hann var stórfallegur þorpari, og orð lék á því, að margri konunni hefði þegar hlýnað um hjartaræturnar af að sjá hann.

"Hafi bróðir minn fengið flekkusótt, þá er hann orðinn ofurlítið líkari mér á yfirlit, en hann er vanur," sagði ég. "Ég vona að hann sé ekki sárþjáður."

"Hann er fær um að annast dagleg störf sín, herra konungur."

"Ég vona að þeir séu ekki allir veikir kastalabúar. Hvernig lítur þeim De Gautet, Bersonin og Detchard vinum mínum? Ég hefi heyrt sagt at Detchard hafi meitt sig rétt nýlega."

Lauengram og Krafstein settu upp ólundarsvip, en brosið óx á andliti Rúperts unga.

"Ég vona að mér heppnist bráðum að ná í læknislyf, sem honum batnar af, herra konungur," svaraði hann.

Ég rak upp hlátur, þó að ég vissi að læknislyfið, sem hann átti við, – er kallað Hefnd.

"Ætlið þið ekki að gera svo vel og eta með okkur miðdegisverð, herrar mínir?" spurði ég.

Rúpert ungi var fljótur til að afþakka það. Sagði þeim væri það ómögulegt vegna þess að þeir ættu svo annríkt í kastalanum.

"Þá geymum við það, þangað til við sjáumst næst, herrar mínir," sagði ég og veifaði hendinni í kveðju skyni. "Það er líkara til að við fáum þá að kynnast betur!"

"Við skulum hitta Yðar Hátign svo fljótt, sem við getum," sagði Rúpert glaðlega; en þegar hann fór fram hjá Sapt yggldi hann sig svo fyrirlitlega, að gamli maðurinn steytti hnefann og varð sótsvartur af gremju.

Þegar um það var að ræða, að einhver sé þorpari, þá segi ég fyrir mig, að ég felli mig betur við að hann sé glæsimenni heldur en hitt; mér geðjaðist því betur að Rúpert Hentzau heldur en langleitu, mjónefjuðu félögunum hans. Syndir manna vaxa ekkert við það, býst ég við, þó að þær séu drýgðar á smekklegan hátt.

Þó undarlegt kunni að virðast, þá varð ég nú að sleppa því að eta þann ágætis kveldverð, sem matsveinar mínir höfðu til reitt, en láta förunauta mína setjast að honum ásamt Sapt, því sjálfur reið ég brott með Fritz til veitingahússins í Zenda, sem ég var kunnugur í áður. Sú för mátti heita hættulaus; þá var lengi bjart fram eftir kveldinu, og fjölförult um vegina þeim megin við Zenda. Við riðum því af stað og höfðum með okkur hestasvein. Ég dúðaði mig í stóra kápu.

Þegar við vorum komnir inn í borgina sagði ég við Fritz: "Það er óvenju lagleg stúlka á veitingahúsinu."

"Hvernig vitið þér það?" spurði hann.

"Ég veit það vegna þess, að ég hefi verið hér áður," sagði ég.

"Þegar –" tók hann til máls.

"Nei. Áður," sagði ég.

"En ætli þér þekkist þar ekki?"

"Vitaskuld þekkist ég. En við skulum ekki fara að þrefa um það, en hlustið nú á mig. Við segjumst vera tveir af förunautum konungs, og skal annar okkar látast hafa tannpínu. Hinn skal biðja um herbergi þar sem við getum verið út af fyrir okkur, og enn fremur flösku af góðu víni handa sjúklingnum. Ef sá fer eins fimlega að sem ég býst við, þá er ég illa svikinn, ef laglega stúlkan gengur ekki um beina fyrir okkur."

"En ef hún skyldi nú ekki gera það?" sagði Fritz.

"Ef hún fæst ekki til að gera það fyrir yður, Fritz minn, þá gerir hún það fyrir mig."

Við komum brátt að veitingahúsinu. Ég lét ekkert sjást af andliti mínu nema augun þegar við fórum inn. Veitingahússkonan tók á móti okkur; rétt á eftir kom kunningjastúlka mín. Ég held helst hún hafi oftast verið á varðbergi til að líta eftir gestum, sem skemmtilegir væru. Við báðum um mat og vín. Ég settist síðan niður í herberginu, sem okkur hafði verið vísað til. Rétt á eftir kom Fritz inn.

"Hún kemur," sagði hann.

"Ef hún vildi ekki koma, þá hlyti smekkur Helgu greifadóttur að vera slæmur," sagði ég.

Svo kom stúlkan. Ég gaf henni tóm til að setja frá sér vínið. Mig langaði ekki til að hún missti það niður. Fritz helti í glas og rétti mér.

"Þessi herra er ekkert veikari en þegar hann sá yður síðast," sagði ég og snaraði mér úr kápunni.

Hún hrökk við og rak upp óp. Síðan sagði hún:

"Það hefir þá verið konungurinn! Ég sagði móður minni það strax þegar ég sá yður. Æ, fyrirgefið mér!"

"Ég hefi ekkert að fyrirgefa," sagði ég.

"En það sem við sögðum."

"Ég fyrirgef það vegna þess sem þú gerðir."

"Ég verð að fara og segja móður minni þetta."

"Bíddu við," sagði ég með alvörusvip. "Við fórum ekki hingað að gamni okkar í kveld. Farðu og sæktu mat handa okkur, en láttu móður þína alls ekki vita að konungurinn sé hér."

Hún kom aftur eftir litla stund, og var mjög alvarleg á svip.

"Jæja, hvernig líður Jóhanni?" spurði ég og fór að snæða.

"Á, honum, herra – lávarður minn – konungur, ætlaði ég að segja."

"'Herra' nægir. Hvernig líður honum?",

"Við sjáum hann sjaldan nú orðið, herra!"

"Og hvers vegna?"

"Ég sagði honum að hann vendi of mikið komur sínar hingað, herra," sagði hún og hristi höfuðið.

"Svo að hann syrgir nú í fjarlægð og þorir ekki að koma?"

"Já, herra!"

"En þú gætir fengið hann til að koma aftur?" sagði ég brosandi.

"Skeð gæti að mér væri það hægt."

"Þú sér að ég veit, hvers þú ert megnug," sagði ég, en hún roðnaði af ánægju.

"Það er nú fleira en það, sem hindrar hann að koma. Hann hefir margt að starfa í kastalanum."

"En þeir eru ekki á veiðum núna."

"Nei, en hann verður að sjá um alt inni í kastalanum."

"Er Jóhann þá orðinn þjónustustúlka?"

Stúlkan fór að hlæja.

"Það er ekki um neina aðra að gera," sagði hún. "Þar er ekki neinn kvenmaður – það er að segja þjónustustúlka. Reyndar er sagt – en skeð getur, að það fari milli mála, herra?"

"Segðu samt það sem þú hefir heyrt," sagði ég.

"Ja, satt að segja skammast ég mín fyrir að segja frá því, herra."

"Láttu ekki svona. Þú sérð, að ég horfi upp á loftið í herberginu."

"Menn segja, að þar sé frú nokkur, herra; en fyrir utan hana er enginn annar kvenmaður þar. En Jóhann verður að þjóna þeim herrunum þar."

"Aumingja Jóhann! Hann hlýtur að hafa meira að gera en hann kemst yfir. Samt þori ég að segja, að hann fær tóm til að fara og finna þig."

"Það væri undir tímanum komið, herra. Vera má að hann gæti það."

"Þykir þér vænt um hann?" spurði ég.

"Ónei, herra."

"En viltu ekki sýna konunginum hollustu?"

"Jú, herra."

"Þá skaltu segja Jóhanni að hitta þig tvær mílur vegar frá Zenda annað kveld kl. 10. Þú skalt segja, að þú verðir stödd þarna þá, og svo fylgi hann þér heim."

"Ætlið þér að gera honum nokkuð illt, herra?"

"Nei, ekki ef hann gerir það sem ég skipa honum.

En ég held ég hafi sagt þér meir en nóg, stúlka mín. Mundu nú eftir, að gera eins og ég hefi beðið þig. Og eins máttu ekki gleyma því, að láta engan vita að konungurinn hafi verið hér."

Ég sagði þetta mjög alvarlega, því það er sjaldan neinn óhagur í því, að konur hafi ofurlítinn beig af karlmönnum, sem ætla að ná hylli þeirra; en svo blíðkaði ég hana aftur með því að gefa henni laglega gjöf. Því næst snæddum við. Og ég fór svo í kápu mína og að því búnu lagði Fritz á stað út á undan mér og við riðum á brott.

Klukkan var ekki meir en hálf átta og varla orðið dimmt. Fjöldi fólks var úti á götunum, í ekki stærri bæ en þetta var. Og við heyrðum, að nóg var um að tala. Þar eð konungurinn var annars vegar og hertoginn hins vegar, þá taldi bærinn sig vera orðinn hjarta Rúritaníu. Við riðum hægt í gegn um bæinn, en þegar við komum út á bersvæði fórum við að spretta úr spori.

"Eruð þér að hugsa um að ná í hann Jóhann?" spurði Fritz.

"Já, og ég held að ég hafi beitt þeirri beitu á öngulinn, sem dugir. Litla Dalila nær í Samson fyrir okkur. Það nægir ekki Fritz, þó að enginn kvenmaður sé á heimilinu, en víst er það samt hyggilegt af Michael bróður. Það má engin kona vera nær en í fimmtíu mílna fjarlægð, ef duga skal."

"Engin nær en í Streslau, t.a.m." sagði aumingja Fritz og stundi mæðulega.

Við komum á veginn, sem lá að slotinu, og náðum brátt heim. Sapt kom þjótandi á móti okkur, þegar hestatraðkið heyrðist á sandbrautinni.

"Guði sé lof, að þið eruð heilir á hófi!" hrópaði hann. "Hafið þið séð nokkurn þeirra?"

"Nokkurn hverra?" spurði ég og steig af baki.

Hann tók okkur afsíðis, svo að hestasveinarnir heyrðu ekki til okkar.

"Vinur minn!" mælti hann, "þér megið ekki fara í svona leiðangur nema við sjötta mann. Þekkið þér ekki einn förunauta okkar, hávaxinn mann ungan, sem heitir Bernenstein?"

Ég þekti hann. Það var gervilegur ungur maður, á vöxt við mig, og bjartur yfirlitum.

"Hann liggur nú upp í herbergi sínu, með kúluskot í handleggnum."

"Eftir kveldverð fór hann út að ganga sér til skemmtunar, og fór inn í skóginn, á að giska eina mílu. Og þegar hann var kominn þangað, sá hann þrjá menn þar inni í skógarþykkninu, og einn þeirra miðaði byssu sinni á hann. Hann var vopnlaus og brá því við og flýði til slotsins. En einn maðurinn skaut á eftir honum og hitti hann, og það svo að Bernenstein komst með naumindum hingað, áður hann féll í öngvit. Sem betur fór, þorðu þeir ekki að elta hann hingað."

Hann þagnaði í svip og sagði svo:

"Þér megið trúa því, vinur minn, að kúlan var ætluð yður."

"Það er mjög líklegt," sagði ég, "og þetta er fyrsta undin, sem Michael bróðir hefir slegið okkur."

"Ég hefði gaman að vita hvor þrenningin þetta hefir verið." sagði Fritz.

"Jæja. Sapt," sagði ég, "ég fór nú út í kveld og ekki erindisleysu, eins og þér skuluð fá að heyra síðar. En eitt er mér fremur öðru hugleikið."

"Hvað er það?" spurði hann.

"Það er það, að ég verðskulda illa þá miklu sæmd, sem Rúritaníubúar hafa sýnt mér, ef ég skilst svo við hér, að nokkur sexmenninganna verði á lífi – og það geri ég ekki, því heiti ég við allar helgar vættir."

Og Sapt tók í hönd mína því til staðfestingar.


XIII. KAPITULI.

Morguninn eftir að ég strengdi þess heit, að vinna á sexmenningunum, skipaði ég fyrir um ýmislegt, og leið þá miklu betur en um langan tíma áður. Ég hafði nú verk að vinna, og þó að vinna geti ekki læknað ástaharm manna, lá dregur hún úr honum samt. Þegar Sapt kom inn fann hann mig því sitjandi makráðan í hægindastól, og hlýðandi á söng eins vinar míns. Hann var að syngja fyrir mig ástarsöngva. Rödd hans var fögur og þýð, svo að brjóst mitt fylltist angurblíðu við að hlusta á. Þannig stóð á fyrir mér þegar Rúpert Hentzau unga bar að. Hann hræddist hvorki menn eða djöfla og reið um landeignina hiklaust, rétt eins og hún hefði verið lystigarður í Streslau, þó að hann gæti búist við, að þarna lægi maður í leyni bak við hvert tré til at skjóta hann. Þegar hann kom heilsaði hann með háðslegu bugti og krafðist þess, að fá að tala við mig í einrúmi, því að hann hefði boð til mín frá hertoganum af Streslau. Ég skipaði öllum öðrum að fara burtu. Þá settist hann niður hjá mér og sagði:

"Konungurinn virðist vera ástfanginn. Er það satt?"

"Ekki af lífinu, lávarður minn," sagði ég brosandi.

"Það er heppilegt," svaraði hann. "Við erum einir hér. Heyrið þér, Rassendyll –"

Ég reis upp í stólnum.

"Hvert ætlið þér." spurði hann.

"Ég var í þann veginn at kalla á einn þjóna minna til að sækja hestinn yðar, lávarður minn. Ef þér vitið ekki hvernig ber að ávarpa konunginn, þá verður bróðir minn að senda annan boðbera."

"Því á að vera að halda þessum skrípaleik áfram?" spurði hann, og fór að strjúka ryk af stígvélum sínum með glófanum mjög kæruleysislega.

"Vegna þess að hann er ekki á enda enn þá; en á meðan hann stendur yfir kýs ég mér nafn það, sem mér sýnist."

"Látum svo vera. Samt sagði ég þetta í vináttuskyni, því að þér eruð maður eftir mínu höfði."

"Það getur verið, að heiðvirði minni undanskilinni," sagði ég. "En vegna þess að ég held orð mín við karlmenn og sýni konum tállausa virðingu, tel ég mér slíkt til gildis, lávarður minn."

Hann skotraði til mín augunum og reiðisvipur var á honum.

"Er móðir yðar dáin?" spurði ég.

"Já, hún er dáin."

"Hún má þakka sínum sæla fyrir það," sagði ég og heyrði að hann bölvaði mér í hljóði. "Jæja, hvaða boð eruð þér með?"

Ég hafði komið við kaun hans, því að það var alkunnugt að hann hafði verið móður sinni til mestu hugraunar og hafði státað með fylgikonu sína á heimili hennar. Það fór nú af honum mesti reigingurinn í svipinn.

"Hertoginn býður yður meir en ég mundi hafa gert," tautaði hann. "Ég stakk upp á að láta yður lenda í snörunni, herra konungur. En hann býður yður fylgd í fullum griðum til landamæranna og eina miljón króna."

"Ég kýs heldur tilboð yðar, lávarður minn, ef ég þarf um nokkuð að velja."

"Þér neitið þá"

"Já. auðvitað."

"Ég sagði Michael, að þér munduð gera það," sagði þorparinn, og brosti nú einstaklega ánægður, því að nú var hann kominn í gott skap aftur. "Hérna milli okkar sagt," mælti hann enn fremur, "þá getur Michael ekki getið heiðvirðum manni nærri."

Ég fór að hlæja.

"En getið þér það?"

"Já, ég get það," svaraði hann. "Jæja, jæja, þér ætlið að kjósa snöruna."

"Mér þykir fyrir að þér lifið ekki til að sjá það," sagði ég.

"Hefir Yðar Hátign sýnt mér þá virðingu, að varpa ónáð yðar á mig?"

"Ég vildi samt gjarnan að þér hefðuð orðið fáeinum árum eldri."

Hann stóð upp, og ég líka. Svo sagði hann við mig brosandi:

"Drottinn gefur árafjöldann, en djöfullinn ávöxtinn," svaraði hann hlæjandi. "Ég skal sjá um mig."

"Hvernig líður fanganum ykkar?" spurði ég.

"Kon –"

"Fanganum ykkar."

"Ég gleymdi beiðni yðar, herra konungur. Hann er lifandi."

"En hvernig líður prinsessunni fögru? Ég þori að ábyrgjast að Elphbergur sá, sem næst verður borinn í heiminn, verður rauðhærður, þó að Michael verði kallaður faðir hans."

Ég stökk að honum og kleip utan um höndina á honum. Hann þokaðist ekki úr sporum, en óskammfeilið háðbros lék honum um varir.

Atburður sá, sem næst gerðist, bar vott um svo mikla ofdirfsku, að ég hefi aldrei vitað dæmi til annars eins. Vinir mínir voru svo sem þrjátíu skref frá mér. Rúpert kallaði til hestasveins og bað hann að koma með hest sinn, og fékk piltinum svo krónu. Hesturinn var rétt hjá okkur. Ég stóð upp og átti mér einskis ills von. Rúpert lét sem hann ætlaði að stíga á bak, en svo vatt hann sér alt í einu að mér, studdi vinstri hendi á beltisstað, rétti að mér hægri höndina og sagði:

"Hér er höndin."

Ég hneigði mig og rétti höndina aftur fyrir bakið, eins og hann hafði búist við. Þá sá ég blika á lítinn rýting, og með leifturhraða lagði hann til mín með vinstri hendinni. Lagið kom í öxlina á mér. Ef ég hefði ekki snarast undan, mundi hann hafa hitt mig í hjartastað. Ég rak upp hljóð og hopaði undan. En hann sveiflaði sér á bak án þess að stíga í ístað og hleypti á brott, sem kólfi væri skotið. En ópin og skammbyssuskotin, sem eftir honum voru send, unnu honum engan geig. Ég hné niður í hægindastólinn. Blóðið fossaði úr sárinu, og ég varð að horfa upp á að þrællinn slapp óskaddur. Vinir mínir fylktu sér utan um mig, og svo leið yfir mig.

Ég býst við, að ég hafi verið borinn inn í rúm og hafi legið þar meðvitundarlaus, eða hálfmeðvitundarlaus í margar klukkustundir. Ég hélt það vegna þess að nótt var komin, þegar ég vaknaði með fullu ráði og fann Fritz hjá mér.

Ég var mjög þreyttur og máttfarinn, en hann bað mig að vera hughraustan, því að sár mitt mundi skjótt gróa. Líka sagði hann mér, að þó að þetta hefði nú tekist slysalega til, þá hefði þó heppnast að ná í Jóhann ráðsmann. Hann hefði fallið í snöruna, sem fyrir hann hefði verið lögð, og væri nú búið að flytja hann heim til okkar.

"En það sem undarlegast er," mælti Fritz. "er það, að helst lítur út fyrir að hann sé ekkert óánægður yfir að hann lenti hingað. Það lítur út fyrir að hann hafi grun um, að þegar Michael sé búinn að koma fram fyrirætlun sinni, þá muni ekki mikið bjóðandi í líf þeirra, er sjónarvottar voru að því, hvernig að því var farið. Vitanlega eru sexmenningarnir þar undanskildir."

Þetta benti á hyggni hjá fanganum, er gaf mér góðar vonir. Ég skipaði að leiða hann fyrir mig undir eins. Sapt kom með hann, og lét hann setjast á stól hjá rúminu. Hann var yggldur á svip og hræddur. En satt að segja vorum við alls ekki orðnir óhræddir um okkur eftir tilræði Rúperts unga. Og þó að fanginn hefði þokað sér sem lengst frá ægilegu sexhleypunni, sem Sapt hélt á, þá var Sapt ekki óannara um að halda honum sem lengst frá mér. En reyndar var hann ekkert hættulegur, því að hendur hans voru bundnar, en slíkt gekk ekki nærri mér.

Það er óþarfi fyrir mig að fjölyrða hér um griðaboðin og öll launin, sem við hétum manninum, og var það alt vel og heiðarlega efnt, svo að hann lifir nú í "vellystingum praktuglega" (en ég má þó vitanlega ekki segja hvar hann er); við vorum líka heldur rífari á stykkjunum við hann vegna þess, að hann var kjarklítill fremur en hann væri vondur maður, og það, sem hann hafði gert í þessu máli, hafði hann meira gert af ótta fyrir hertoganum og bróður sínum Max, heldur en fyrir þá sök að honum félli vel það, sem gerst hafði. En hann hafði talið þeim öllum trú um hollustu af minni hendi; og þó að hann hefði aldrei verið staddur á leyndarráðsfundum þeirra, þá var samt auðgert fyrir hann að skýra okkur frá öllum þrælsbrögðum þeirra, sökum þess hve kunnugur hann var atferli þeirra og kastalanum. Hér á eftir er frásaga hans í fáum orðum:

Undir kastalanum neðan við jafnsléttu voru tvö lítil herbergi, höggvin út í klettinn og lágu steintröppur niður í þau frá enda vindubrúarinnar. Á ytra herberginu voru tveir gluggar, en þar var samt alt af látið loga kertaljós. Á herberginu, sem lá innar af, var að eins einn ferhyrndur gluggi, er vissi út að síkinu. Í ytra herberginu lágu dag og nótt þrír sexmenninganna, og hafði hertoginn skipað svo fyrir að þessir þrír menn skyldu verja dyrnar á því, ef áhlaup væri gert, svo lengi, sem þeim væri mögulegt, án þess þó að stofna sjálfum sér í mikla lífshættu. En undir eins og þeir sæju að þeir hrykkju ekki við til þess, þá átti Rúpert Hentzau eða Detchard (því að annar hvor þeirra var þar alt af) láta félaga sína tvo verja dyrnar meðan þeir gætu, en fara inn í innra herbergið, og drepa konunginn umsvifalaust, því að hann var þar, og vel með hann farið. En hann var vopnlaus, og handleggirnir á honum bundnir með járnfestum, svo rammlega, að hann gat ekki þokað olnbogunum til nema svo sem þrjá þumlunga. Væri því ráðist á ytri dyrnar, þá yrði búið að drepa konunginn áður en komist yrði inn um þær. En hvað átti að verða af líkinu? Hlaut það ekki að ljósta upp glæpnum?

"Nei, herra," sagði Jóhann, "hertoginn hefir hugsað fyrir því. Meðan mennirnir tveir verja fremra herbergið, þá opnar sá þriðji, sem drepið hefir konunginn, stengurnar fyrir ferhyrnta glugganum (þær eru á hjörum). Engin birta kemst samt inn um gluggann, því að áfastur við hann er annar endinn á víðri leirpípu. Sú pípa er nægilega víð um sig til þess að maður getur runnið gegn um hana, og hinn endinn á henni liggur út í sýkið og nemur rétt við yfirborð vatnsins, svo nákvæmlega, að ekkert bil verður séð milli hans og þess. Þegar búið er að drepa konunginn, þá bindur morðinginn eitthvað þungt við fæturna á líkinu. Síðan dregur hann það að glugganum og lyftir því upp með hjóltaug (því að Detchard hefir séð þar fyrir þess kyns útbúnaði ef þyngslin yrðu of mikil annars), þangað til það er komið upp á móts við pípuendann. Því næst ýtir hann fótunum inn á undan og rennir líkinu út um pípuna. Það fellur hljóðlaust og skvamplaust í vatnið og sekkur til botns í sýkið. Sýkið er hér um bil tuttugu fet á dýpt þar. Þegar þetta hefir verið sýslað hrópar morðinginn hátt: "Alt í góðu lagi!" og rennir sér sjálfur niður eftir pípunni. Þá hlaupa félagar hans tveir inn í innra herbergið og hlaða fyrir hurðina, ef þeim er mögulegt, og áhlaupið er ekki því snarpara og renna sér síðan út um pípuna og út í sýkið. Og þó að konunginum skjóti ekki upp aftur, þá skýtur þeim upp og þeir synda yfir fyrir kastalann, en þar hefir verið svo í garðinn búið, að menn bíða þeirra með reipi, til að draga þá upp, og hesta. Og ef kastalamenn verða undir, þá slæst hertoginn í för með þeim og forðar sér með því að ríða undan; en ef alt fer vel fyrir þeim, snúa mennirnir til kastalans og ná óvinum sínum þar í gildru. Þetta eru fyrirætlanir hertogans til að losa sig við bróður hans, ef á þarf að halda. En til þess á ekki að grípa nema í brýnustu nauðsyn; eins og þér vitið, hefir hertoginn ekki í hyggju að drepa bróður sinn, ef hann getur komist hjá því, fyrr en búið er að ráða yður af dögum. Nú hefi ég sagt yður sannleikann, herra minn, og ég kalla guð til vitnis um alt sem ég hefi sagt er satt, og nú treysti ég yður að vernda mig fyrir hefnd Michaels hertoga, eftir að hann hefir komist að því, sem ég hefi nú sagt, þá kysi ég um fram alt skjótan dauðdaga, en á því á ég ekki kost, ef hann má ráða!"

Maðurinn sagði sögu sína ekki sem greinilegast, en við komumst að öllu, sem við ætluðum okkur, með spurningum. Hann hafði að eins sagt frá fyrirætlunum viðvíkjandi því, ef skyndilegt áhlaup yrði gert. En ef grunur vaknaði og mikill mannfjöldi sækti að, svo sem ef ég, konungurinn, gerði atlögu með herliði, þá átti engri vörn að halda uppi. Þá átti að myrða konunginn í kyrrþey og renna honum út um pípuna. En nú kemur slóttugasta bragðið. Þegar búið var að koma konunginum frá, átti einn sexmenninganna að ganga í stað hans í fangelsið, og heimta lausn hástöfum, þegar farið yrði að leita í herberginu. En þegar Michael yrði spurður um þetta, ætlaði hann að játa að hafa sett manninn í fangelsi, og telja þá orsökina, að hann hefði móðgað sig með því að draga sig eftir frúnni í kastalanum (það var Antoinette Mauban). En þar sem hann væri hæstráðandi í Zenda, hefði hann þóst eiga með að hegna honum með þessu. Hins vegar væri hann nú fús á að láta manninn lausan, með því að hann hefði fengið maklega hefnd, með fram líka til þess að kvisið félli niður um að fanga væri haldið í kastalanum. En það hefði komið á stað leit þessari. Þegar leitarmenn fengju þessar viðtökur, var búist við að þeim félli allur ketill í eld, og þeir mundu hverfa aftur, og Michael fengi þá nægan tíma til að ganga betur frá líkinu af konunginum.

Við horfðum hver á annan, Sapt, Fritz og ég, öldungis forviða yfir þessum hryllilega svikavef, og slægviskulegu grimmd. Hvort sem ég færi með friði eða ófriði, í broddi herfylkingar eða gerði leynilegt áhlaup, mundi konungurinn verða myrtur áður en ég kæmist nálægt honum. Yrði Michael mér yfirsterkari, þá yrði öllu lokið. En þó að ég bæri hærri skjöld átti ég samt engan kost á að hegna honum. Mér var ómögulegt að sanna sekt hans, nema sekt mín kæmi í ljós um leið. En ef ég aftur á móti héldi áfram að vera konungur (ég fékk hjartslátt af að hugsa til þess), þá varð tíminn að skera úr úrslitum deilu okkar. Hann hafði komið því svo fyrir, að mögulegt var að hann ætti upphefð í vændum, en ómögulega niðurlæging. Í versta lagi, þá stæði hann í sömu sporum og hann stóð, áður en ég varð á vegi hans, – þannig, að einn maður bægði honum frá hásætinu, og sá maður var aðskotadýr. En ef sem best færi fyrir honum, þá yrði hann einvaldur. Ég hafði haldið í fyrstu, að Michael svarti léti vini sína eina um baráttuna, en nú sá ég að ráðin í samsærinu voru frá honum, þó að þeir beittu vopnunum.

"Veit konungurinn þetta?" spurði ég.

"Við bróðir minn," svaraði Jóhann, "settum upp pípuna eftir skipun Hentzau lávarðar. Hann var þann daginn á verði, og konungur spurði lávarðinn til hvers þetta væri gert. En lávarðurinn rak þá upp kæruleysishlátur, eins og hann gerir stundum, og sagði: "Þetta er ný útgáfa af "stiganum hans Jakobs", sem menn ganga eftir milli himins og jarðar, eins og þér hafið sjálfsagt lesið um. Okkur fannst það ekki sæma, að Yðar Hátign færi almanna leið, ef þér skylduð verða að leggja á stað héðan á annað borð. Þess vegna höfum við lagt einkavegs ómynd handa yður, svo að skríllinn fái ekki færi á að góna á yður á leiðinni. Þetta er ástæðan til þess, að við létum setja þessa pípu þarna". Og svo fór hann að hlæja og bugtaði sig í ákafa, og bað konunginn að leyfa sér að hella á glas hans, því að konungurinn sat að snæðingi. En þó að konungurinn sé kjarkmaður, eins og þeir frændur fleiri, þá skipti hann litum, og starði ýmist á pípuna eða mannhundinn, sem var að háða hann. Ég segi yður það satt, herra minn," sagði manngarmurinn, "það er síður en svo að manni sé hægt að sofa rólega í kastalanum í Zenda, því að þar er hver um sig jafn reiðubúinn að drepa mann, eins og að spila einn hring í spilum. Og Rúpert lávarði mínum mundi þykja enn meiri dægrastytting í hinu fyrrnefnda, eða þá að óvirða konu, því að honum er það títt."

Hér þagnaði maðurinn, og ég skipaði Fritz að fara burt með hann og gæta hans vandlega; um leið og hann var af fara sagði ég:

"Ef einhver spyr þig hvort þú vitir til þess, að fangi sé í Zenda, þá skalt þú kveða já við því. En ef þú verður spurður hver fanginn sé, þá skaltu segja, að þú vitir það ekki. Því öll loforð mín um vernd þér til handa koma þér að engu haldi, ef nokkur maður fær að vita það, hver fanginn í Zenda er. Ég drep þig eins og hund, ef þú ymprar nokkra vitund á því hér."

Þegar hann var farinn, leit ég til Sapts.

"Þetta er erfitt viðfangs," sagði ég.

"Svo erfitt," svaraði hann og hristi gráhærða höfuðið, "að ég býst helst við því að þér verðið Rúritaníukonungur um þetta leyti að ári eins og þér eruð nú!" Hann endaði setninguna með því að bölva Michael fyrir slægðina.

Ég hallaði mér aftur á bak á koddann.

"Mér sýnist, að það geti að eins með tvennu móti orðið, að konungurinn náist lifandi á brott frá Zenda. Og annar vegurinn til þess er að fylgismenn hertogans svíki hann."

"Yður er óhætt að reiða yður á, að til Þess kemur aldrei," sagði Sapt.

"Ég býst varla við því," svaraði ég, "því að hinn vegurinn, sem ég ætlaði að minnast á, er að teikn verði af himni til að bjarga honum!"


XIV. KAPITULI.

Blessuðum Rúritaníulýðnum hefði víst heldur en ekki brugðið í brún ef uppskátt hefði orðið hvað við vorum að tala um. Það var látið heita svo, að ég hefði særst hættulega af spjótskoti, sem ég hefði orðið fyrir af slysi við gamanleik. Ég sá um, að blöðin væru látin flytja það að ég væri þungt haldinn, en það vakti meir en litla athygli og leiddi þrennt af því. Í fyrsta lagi móðgaði ég helstu læknana í Streslau mjög með því, að neita því að nokkur þeirra fengi að stunda mig. Það var eingöngu falið ungum lækni, vini Fritz, því að honum gátum við treyst fullkomlega. Í öðru lagi fékk ég orð frá Strakencz marskálki, og lét hann þess getið, að fyrirskipanir hans virtust engu meiri verkanir hafa en mínar, og að Flavía prinsessa væri að leggja á stað til Tarlenheimslotsins, að sér óviljugum (Þetta voru fréttir, sem fengu mér bæði gleði og metnaðar). Og í þriðja lagi fullvissaðist bróðir minn, hertoginn af Streslau um það af fréttunum, þó að honum væri kunnugt um orsök sjúkdóms míns, að ég væri ófær um að hafast nokkuð að, sem stæði, og að líf mitt væri í verulegri hættu. Ég fékk vitneskju um þetta hjá Jóhanni, því að ég neyddist til að treysta honum og senda hann aftur til Zenda. En þar hafði Rúpert Hentzau látið húðstrýkja hann fyrir það, að hann skyldi hafa vogað sér að saurga siðgæðisorðstír þeirra Zendabúa með því að vera heila nótt í brott frá kastalanum í ástabralli. Jóhanni gramdist í meira lagi, að Rúpert skyldi bjóða sér þetta, og það að hertoginn skyldi vera samþykkur þessu varð til þess, að ráðsmaðurinn hændist meir að mér fyrir það en öll loforðin sem ég hafði gefið honum.

Ég ætla ekki að vera langorður um komu Flavíu. Enn sé ég í anda gleðisvipinn hennar, þegar hún hitti mig á fótum vel frískan, í stað þess að hún hafði búist við, að ég lægi dauðvona í rúminu. Sú ástljúfa töframynd mun aldrei líða mér úr minni; né heldur blíðlegar ásakanir hennar um að ég hefði ekki treyst henni, og verður því að virða mér til vorkunnar þó að ég færi eins að því að þagga þær niður, eins og ég fór. Sannleikurinn var sá, að það að sjá hana einu sinni enn fannst mér eins og að ég geri mér í hugarlund að forsmekkur himnaríkis sælu mundi vera fordæmdri sál, og því ljúfari sem dómurinn er eftir fylgdi var vísari og óhagganlegri. Og ég fagnaði yfir því að geta nú dvalið hjá henni tvo heila daga. Og að þeim tveim dögum liðnum þá byrjuðu veiðarnar, sem hertoginn af Streslau hafði komið af stað.

Atlagan var nú í nánd. Við Sapt höfðum borið ítarlega saman ráð okkar, og höfðum orðið ásáttir um að freista hennar; og við höfðum staðfest í þeim ásetningi við fréttir þær sem Jóhann hafði fært okkur um að konungurinn væri orðinn skinhoraður, fölur og veikur, og heilsu hans færi síhnignandi í því stranga varðhaldi er hann sæti. En hvaða manni sem er, hvort heldur konungi eða öðrum, er eins gott að deyja skyndilega, fyrir kúlu eða sverði, svo sem göfugum manni sæmir, og að dragast upp til dauða í fúlum kjallara! Frá því sjónarmiði var það sjálfsagt, að grípa til skjótra úrræða. Mér fannst það að minnsta kosti öldungis óhjákvæmilegt. Strakencz lagði fast að mér að hraða brúðkaupi mínu. Hann sýndi mér fram á hve afarnauðsynlegt það væri, og ást mín talaði sama máli svo fastlega, að ég óttaðist að ég stæðist slíkt ekki lengi. Ég ímynda mér samt, að ég hefði aldrei kvænst Flavíu þarna; en ég hefði kunnað að flýja, og flótti minn hefði komið öllu fyrir kattarnef. Og – ég er enginn dýrðlingur (spyrjið mágkonu mína, blessunina) – það hefði kunnað að koma eitthvað enn verra fyrir.

Það er líklegast einsdæmi í sögu nokkurrar þjóðar, að bróðir konungsins og staðgöngumaður konungs berjist í kyrrþey um líf konungsins og sjálfan hann, þegar friður er sýnilega í landinu, og það í grennd við rólegan bæ og óeirðalausan. En einmitt þvílík barátta stóð nú milli mín og hertogans. Þegar ég hugsa aftur til þess tíma finnst mér sem ég muni hafa verið að hálfu leyti frávita. Sapt hefir sagt mér, að ég hafi engin andmæli þolað og einskis ráðum viljað hlíta. Og hafi nokkur Rúritaníukonungur verið harðstjóri, þá var ég það í þá daga. Ég sá ekkert sem létt gæti eða fegrað æfi mína, hvert sem ég horfði; og því fór ég jafn-kæruleysislega með líf mitt, eins og þegar maður vingsar gömlum gatslitnum hanska í hendinni. Fyrst framan af reyndu vinir mínir að gæta mín vandlega, forða mér við grandi, og telja mig af því að stofna mér í háska, en þegar þeir sáu hve skeytingarlaus ég var, þá komust þeir á þá skoðun – hvort sem þeir hafa vitað hversu ástatt var fyrir mér eða ekki –, að forlögin stýrðu gerðum mínum, og að réttast væri að láta mig sjálfráðan í viðureign minni við Michael.

Að áliðnu kveldi daginn eftir stóð ég upp frá borðinu, þar sem Flavía sat við hlið mér, og fylgdi henni til herbergja hennar. Þar kyssti ég á hönd hennar og óskaði henni góðra drauma og ánægjulegra ókominna daga. Því næst hafði ég fataskipti og fór út. Sapt og Fritz biðu eftir mér við fimmta mann og reiðskjóta. Sapt reiddi kaðallykkju mikla og allir voru þeir vel vopnaðir. Ég hafði með mér langan hníf og digran staf. Við fórum nefsneiðing frá borginni, og að einni klukkustund liðinni vorum við farnir að halda upp hæðina er lá upp að kastalanum í Zenda. Nóttin var dimm og veður hvasst. Regnið og stormurinn skall á okkur þegar við fórum að fara upp hæðina, og hvein og söng í stóru trjánum. Við skipuðum vinum okkar fimm að vera eftir í þykkum skógarbuska, hér um bil fjórðung mílu frá kastalanum, og bíða okkar þar með hestana. Sapt hafði hljóðpípu á sér, og þeim var auðgert að komast til okkar á svipstundu, ef hættu bæri að höndum. En við höfðum í engri lent enn sem komið var. Ég vonaðist til, að Michael mundi vera heldur óvarari um sig en vant var, vegna þess að hann taldi víst að ég væri fárveikur í rúminu. En hvað sem því leið, þá komumst við samt upp á hæðarbrúnina án þess nokkuð kæmi fyrir, og að sýkisbarminum þar sem það greinir sundur gamla kastalann og hinn nýja. Þar stóð tré á bakkabrúninni. Sapt fór að binda kaðalinn hljótt og rammlega utan um það. Ég smokkaði mér úr stígvélunum, saup á vínflösku, hagræddi hníf mínum í skeiðunum og tók stafinn í munninn. Því næst kvaddi ég vini mína með handabandi, skeytti ekkert um bænarsvipinn, sem var á Fritz um að ég skyldi fara varlega, en tók utan um kaðalinn. Ég ætlaði að fara að skoða stigann hans Jakobs.

Ég lét sígast hljóðlega ofan í vatnið. Þó að ofsaveður væri um nóttina hafði heitt verið um daginn, svo að ekki var kalt í vatninu. Ég greip sundtökin og fór að synda umhverfis rammgeru veggina, er teygðust upp úr vatninu andspænis mér. Ég gat ekki séð fram undan mér nema svo sem einn eða tvo faðma. Ég hafði því góðar vonir um, að ekki mundi sjást til mín, þar sem ég þokaðist áfram með hægð með fram gráleitum mosavöxnum steinveggjunum. Ég sá ljós í gluggum á nýja hluta kastalans hinum megin, og heyrði öðru hvoru hlátur og sköll þaðan. Ég þóttist geta þekkt þar rödd Rúperts Hentzau. Hún var svo hvell og ímyndaði ég mér að hann væri þrútinn af drykkju. Ég stansaði á sundinu til að átta mig á því, sem ég átti fyrir höndum að gera. Ef frásaga Jóhanns var rétt, þá hlaut ég nú að eiga skammt eftir til gluggans. Ég hélt svo áfram og fór mjög varlega. Í myrkrinu grillti ég í eitthvað fram undan mér. Það var pípan, sem lá í sveig út úr glugganum og ofan að vatninu. Ég sá hér um bil tvö fet af henni; hún var vel víð, á við tvo menn á gildleik. Ég var rétt kominn að því að synda að henni þegar ég varð nokkurs annars var, er mér varð í meira lagi hverft við. Ég sá á hnífil á bát koma upp hinum megin við pípuna; ég hlustaði og heyrði eins og maður hefði fært sig til í bátnum. Hvaða maður var það, sem gætti uppgötvunar Michaels? Var hann vakandi eða sofandi? Ég þreifaði eftir hnífnum hvort hann væri tiltækur, og tróð marvaðann. Þá varð ég þess var að ég náði niðri. Undirstaðan undir kastalanum náði eitthvað fimmtán þumlunga út fyrir veggina og ég stóð á þeirri brún og tók vatnið mér þá undir hendur. Þaðan starði ég fast í myrkrinu í gegn um opið, sem var milli pípubugðunnar og vatnsyfirborðsins. Maður var í bátnum. Hjá honum lá riffill. Ég sá blika á hlaupið. Þetta var varðmaðurinn! Hann sat mjög rólegur. Ég hlustaði. Hann dró mjög þungt andann, reglulega og einhljóma. Það var enginn vafi á, að hann var sofandi. Ég mjakaði mér áfram eftir undirstöðubrúninni undir pípuna þangað til andlitið á mér var ekki meira en tvö fet frá andlitinu á honum. Ég sá að það var risavaxinn maður. Það var Max Holf bróðir Jóhanns. Ég laumaðist með höndina ofan að beltinu og dró hnífinn úr skeiðum. Mér er ekki eins lítið gefið um að hugsa til neins verks sem ég hefi unnið á ævinni, eins og þessa, og úr því get ég ekki skorið, hvort það var fremur karlmennskuverk eða sviksemdar. Ég sagði við sjálfan mig: "Líf konungsins er í veði, og hér er verið að berjast um það." Ég reis upp undan pípunni og hélt mér við bátinn, er lá þarna við stjóra. Ég hélt niðri í mér andanum, lyfti upp handleggnum og miðaði hnífnum. Risavaxni maðurinn hreyfði sig. Hann opnaði augun, og glennti þau upp afskaplega. Hann starði á mig dauðhræddur og greip til riffils síns. Ég rak hann í gegn. En frá bakkanum andspænis heyrðist kveða við margraddaður ástarsöngur.

Ég skildi við hann þar sem hann lá eins og óásjáleg hrúga og sneri að "stiga Jakobs". Ég hafði nauman tíma. Verið gat, að varðtími manns þessa væri á enda runninn og annar kæmi til að taka við af honum. Ég hallaði mér að pípunni og athugaði hana nákvæmlega alt frá vatnsyfirborði upp að efri enda er virtist liggja inn í steinvegginn. Hún var stráheil. Sprunga sást hvergi á henni. Ég fór á kné og athugaði neðri hliðina. Þá gat ég ekki varist þess að draga títt andann, því neðan vert við pípuna, þar sem hún lá inn í vegginn, sá ég ofurlitla ljósglætu! Það ljós hlaut að koma frá fangaklefa konungsins! Ég ýtti öxlunum upp undir pípuna til að reyna hve traust hún væri. Rifan víkkaði ofurlitla ögn, og ég hætti þá strax að þrýsta á pípuna. Ég hafði komist að raun um, að hún var laus að neðanverðu við steinvegginn.

Þá heyrði ég að sagt var með hörkulegri og hvellri röddu:

"Jæja, herra konungur, ef þér hafið fengið nóg af samverunni við mig í bráðina, þá ætla ég að lofa yður að fara að hvíla yður, en fyrst verð ég að tylla þessu litla djásni."

Þetta var Detchard! Ég heyrði það strax á enskukeimnum á áherslunum.

"Langar yður til að biðja nokkurs, herra konungur, áður við skiljum?"

Næst heyrði ég að konungurinn talaði. Ég þekti rödd hans, þó hún væri veik og hljómlítil – öldungis óáþekk hvellu kátínu-hrópunum, sem ég hafði heyrt til hans í skógarrjóðrunum.

"Biðjið bróður minn," sagði konungurinn, "að drepa mig. Ég dregst hér upp til dauða."

"Hertogann langar ekkert til að þér deyið, herra konungur – ekki strax," hreytti Detchard út úr sér. "Þegar hann ætlar yður að deyja, þá er yður óhætt að leggja á stað til paradísar."

Konungur svaraði: "Látum svo vera! Og nú ætla ég að biðja yður að fara frá mér, ef það kemur ekki í bága við skipanir, sem þér hafið fengið."

"Ég vona að yður dreymi um paradís!" sagði þorparinn.

Svo hvarf ljósið. Ég heyrði að dyrunum var lokað og rétt á eftir að konungurinn var að gráta. Hann vissi ekki betur en hann væri einn. Hver dirfist að draga dár að honum fyrir þetta?

Ég reyndi ekki að tala til hans. Ég þorði ekki að eiga það á hættu, að hann kynni að reka upp óp af undrun. Þá nótt var einskis frekar að freista, og nú var ekkert annað fyrir mig að gera, en að komast til baka aftur óskaddur, og koma undan líkinu af dauða manninum. Ekki dugði að skilja það eftir þar sem það var. Ég leysti bátinn og steig upp í hann. Veðrið var orðið ofsahvasst, og lítil hætta á því að áratök heyrðust. Ég reri því skyndilega yfir þangað, sem vinir mínir biðu mín. Ég var rétt kominn þangað, þegar ég heyrði blístrað lágt á eftir mér.

"Halló, Max!" heyrði ég svo kallað.

Ég kallaði til Sapts í lágum hljóðum. Kaðlinum var fleygt niður og ég batt honum utan um líkið og fór svo upp eftir honum sjálfur.

"Gefðu félögum okkar merki að koma," hvíslaði ég," og dragðu upp kaðalinn. Engin orð nú."

Þeir drógu upp líkið. Rétt þegar búið var að því komu þrír menn ríðandi frá framhlið kastalans. Við sáum þá, en af því að við vorum gangandi, urðu þeir ekki varir við okkur. En við heyrðum að félagar okkar komu og fóru mikinn.

"Þetta er mikið bölvað niðamyrkur!" heyrðist hrópað hvellt mjög.

Það var Rúpert ungi. Á næsta augnabliki heyrðist skot gella við. Félagar okkar höfðu hitt þá. Ég rauk á stað til mótsins og Sapt og Fritz á eftir mér.

"Höggvið, höggvið!" hrópaði Rúpert ungi, og óp er á eftir fylgdi bar vott um að hann væri enginn eftirbátur hinna í því.

"Það er úti um mig, Rúpert," sagði einhver. "Þeir eru þrír um einn. Bjargaðu sjálfum þér!"

Ég hélt áfram að hlaupa með stafinn í hendinni. Þá sá ég alt í einu hest koma á móti mér. Maður sat á honum og beygði sig fram á makkann.

"Eru þeir búnir að drepa þig líka, kafteinn?" hrópaði hann.

Ekkert svar. Ég stökk framan að hestinum. Það var Rúpert Hentzau.

"Loksins!" hrópaði ég.

Því að svo sýndist, sem við hefðum ráð hans í hendi okkar. Förunautar mínir voru rétt á hælunum á honum. Sapt og Fritz komu hlaupandi á eftir mér. Ég var kominn spottakorn á undan þeim, en ef þeir kæmust nógu nærri honum, þá varð hann að gefast upp eða láta lífið.

"Loksins!" hrópaði ég aftur. "Það er leikarinn!" hrópaði hann og hjó til mín. Höggið kom á staf minn og sverðið sneið hann sundur. Og með því að flestir kjósa firðar líf fremur en dauða, þá veik ég mér undan högginu og (ég skammast mín ekkert fyrir það) flýði sem fætur toguðu. Það var eins og djöfullinn hefði farið í Rúpert Hentzau. Hann rak sporana í síðurnar á hesti sínum, og þegar ég sneri mér við til að sjá hvað af honum yrði, sá ég hann hleypa á harða spretti beint á sýkið og út í það, en skotin frá félögum okkar dundu haglþétt umhverfis hann um leið. Ef ofurlítil tunglskinsglæta hefði verið, mundum við hafa getað sáldskotið hann, en vegna myrkursins tókst honum að komast fyrir hornið á kastalanum og þar hvarf hann.

"Djöfullinn hafi hann!" tautaði Sapt.

"Því fer miður," sagði ég, "að hann skuli vera illmenni. Hverjum höfum við náð?"

Það voru þeir Lauengram og Krafstein. Þeir lágu þar dauðir og stirðnaðir. Og vegna þess að nú var engin þörf framar á neinni launung, fleygðum við þeim og Max í sýkið og riðum síðan í einum hópi niður hæðina. En mitt í hópnum fluttum við fjögur lík. Lík fjögra hraustra drengja. Þannig héldum við heimleiðis í þungu skapi yfir dauða vina okkar, órólegir konungsins vegna, og sárir yfir því að Rúpert ungi hafði enn á ný fremur borið hærra hlut en hitt í viðskiptunum.

Ég var hryggur og reiður með sjálfum mér yfir því að ég hafði engan mann drepið í heiðarlegum bardaga, en að eins vegið einn riddara sofandi. Og það bætti ekki skap mitt að heyra það, að Rúpert skyldi kalla mig leikara.


XV. KAPITULI.

Það er sitt hvað að vera í Rúritaníu eða á Englandi. Annars hefði deilan milli Michaels hertoga og mín ekki getað staðið svona, jafnviðburðarík og hún var, án þess að almenningur hefði orðið var við hana. Einvíg voru tíð þar meðal æðri stéttar manna, og einkamáladeilur milli stórmennanna héldu við þessari fornu tísku meðal vina Þeirra og undirmanna. Samt sem áður fóru kviksögur að berast, eftir að atburðirnir síðasttöldu gerðust, þess eðlis að ég hugði nauðsyn til bera að taka í taumana. Það var ómögulegt að dylja dauða vina okkar fyrir námennum þeirra. Ég gaf því út stranga skipun, þess efnis að fyrirbjóða einvígi, nema í allra alvarlegustu málum, og nýmælið byggði ég á því að einvígin væru farin að verða svo tíð að fram úr hófi keyrði. (Kanslarinn samdi þetta lagafyrirmæli fyrir mig og gerði það snilldarlega). Ég sendi Michael opinberlega laglega afsökun, og hann svaraði mér aftur hlýlega og kurteislega; því að um þetta eitt vorum við sammála – og það mátti sín meir en öll óvináttan og kom einskonar nauðungarsamræmi á athafnir okkar. Við vorum báðir á eitt sáttir um það, að við gætum ekki opinberlega gengið í berhögg hver við annan.

Hann var "leikari" ekki síður en ég, og vegna þess að við hötuðum hvor annan, vorum við samtaka í því at dylja almenning hins rétta. En nú vildi svo óheppilega til, að þessi leynd hafði óhjákvæmilegan drátt í för með sér. Konungurinn kunni að deyja fangelsinu, eða verða tekinn af lífi einhvern veginn, meðan á þessu stóð og ég gat ekki komið í veg fyrir það. Ég varð að gera vopnahlé um stund og eina huggun mín var það að Flavía lýsti gleði sinni yfir því við mig, að ég skyldi hafa gefið út skipun um takmörkun einvíga, og þegar ég sagði, að velvild hennar gleddi mig, bað hún mig, ef ég metti velvild hennar að nokkru, að sjá um að engum yrði leyft að heyja einvígi framar í landinu.

"Við sjáum nú til þegar við erum gift," sagði ég brosandi.

Sá einkennilegi árangur varð af vopnahléinu, og leyndinni sem það stafaði af, að borgin Zenda varð á daginn nokkurs konar "temprað belti", þar sem báðir flokkarnir gátu farið leiðar sinnar hættulaust. Að nóttu til hefði ég samt ekki þorað að treysta því. Einn daginn, þegar ég reið til borgarinnar með Flavíu prinsessu, kom fyrir atburður, sem reyndar var hlægilegur en olli mér þó nokkurrar áhyggju. Á leiðinni mætti ég tígulegum manni er ók í vagni með tveimur hestum fyrir. Hann stöðvaði hestana, steig út úr vagninum, gekk á móti mér og hneigði sig virðulega. Ég þekti að þetta var lögreglustjórinn í Streslau.

"Við erum að líta svo vel eftir því sem við getum, að skipunum yðar viðvíkjandi einvígunum verði hlýtt," sagði hann við mig."

Ef hann var kominn til Zenda í þeim erindum, þá ætlaði ég að losna við hann aftur sem fyrst.

"Er það þess vegna, að þér eruð hingað kominn, beina leið?" spurði ég.

"Þessvegna, nei, herra konungur? Nei, ég er kominn hingað eftir tilmælum breska sendiherrans."

"Í hverju er breski sendiherrann að vasast hér?" sagði ég kæruleysislega.

"Ungur samlandi hans, herra konungur – maður í allmiklum metum – hefir horfið. Vinir hans hafa ekkert til hans spurt í tvo mánuði, og ástæða er til að halda, að hann hafi sést síðast í Zenda."

Flavía gaf þessu lítinn gaum. Ég þorði ekki að líta framan í Sapt.

"Og hver er ástæðan ?

"Einn vinur hans í París, Featherley að nafni, hefir skýrt oss frá að hann hafi komið hingað, og járnbrautarþjónar hafa fundið nafn hans á farmgóssi hér."

"Hvað hét hann?"

"Rassendyll, herra konungur," svaraði hann, og ég sá að hann mat nafnið að engu. En svo leit hann til Flavíu, lækkaði röddina og sagði: "Menn halda að hann hafi veitt frú einni eftirför hingað. Hefir Yðar Hátign heyrt nefnda konu, sem kölluð er Antoinette de Mauban?"

"Já," svaraði ég og leit eins og ósjálfrátt í áttina til kastalans. "Hún kom þá um sama leyti til Rúritaníu eins og þessi Rassendyll."

Lögreglustjórinn leit hvasst til mín, og langaði sjáanlega til að ræða þetta meira.

"Heyrið þér, Sapt," sagði ég. "Ég má til að tala fáein orð við lögreglustjórann. Viljið þér gera svo vel og ríða fáein skref á undan með prinsessunni?" Svo sneri ég mér að lögreglustjóranum og sagði: "Jæja, herra minn, hvað meira hafið þér um þetta að segja?"

Hann laut að mér og sagði:

"En þó hann hefði nú verið ástfanginn af konu þessari," hvíslaði hann, "þá er það undarlegt, að ekkert hefir til hans spurst í heila tvo mánuði," og nú leit lögreglustjórinn í áttina til kastalans.

"Ja, konan er þar," sagði ég rólega. "En ég vonast ekki til að Mr. Rassendyll – hét hann það ekki? – sé þar."

"Hertoganum er lítið gefið um keppinauta í ástamálum," hvíslaði hann.

"Það játa ég satt vera," svaraði ég alvarlega. "En þetta er býsna hörð ákæra, sem þér gefið í skyn."

Hann baðaði út höndunum svo sem til afsökunar. Ég hvíslaði þá að honum:

"Þetta er alvarlegt málefni. Þér skuluð fara aftur til Streslau –"

"En ef ég skyldi ná í sönnunaratriði, herra konungur.

"Þér skuluð fara aftur til Streslau," endurtók ég. "Segið sendiherranum, að þér hafið grun um, hvernig í þessu liggi; en að þér verðið að fá að sýsla um þetta mál í næði svo sem hálfan mánuð. En sjálfur skal ég taka það alvarlega til athugunar nú strax."

"En sendiherrann leggur mjög fast að mér um þetta herra konungur."

"Þér verðið að sefa hann. Þér sjáið sjálfur, að ef grunur yðar er á rökum byggður, þá verður að fara mjög varlega að í þessu máli. Vér verðum að forðast að gera hneyksli úr þessu. Munið það að snúa heim aftur í kveld."

Hann lofaði því, og ég reið nú á stað til að ná förunautum mínum, og var orðið heldur rórra innanbrjósts. Hvað sem öðru leið, þá varð að hindra alla leit eftir mér, næsta hálfa mánuðinn og þessi slungni embættismaður hafði komist býsna nærri hinu sanna. Það gat verið, að grunur hans gæti einhvern tíma komið að góðu haldi; en ef hann fengi nú að fást nokkuð við leitina, þá gat það orðið konunginum til tjóns eins. Ég bölvaði George Featherley sárt fyrir að geta ekki haldið sér saman.

"Jæja," sagði Flavía, "hefirðu lokið af erindi þínu við manninn"?

"Já, fullkomlega," svaraði ég. "Eigum við að snúa aftur? Við erum rétt að kalla farin að vaða inn á landareign bróður míns."

Það var satt; við vorum komin yst út í borgarjaðarinn, fast að hæðunum, sem liggja upp að kastalanum. Við litum upp til kastalans, og virtum fyrir okkur veggina á honum rammbyggilega og fagra. Þá komum við auga á flokk manna, sem kom í hægðum sínum ofan hæðina. Hann stefndi til okkar.

"Við skulum snúa aftur," sagði Sapt.

"Ég vildi gjarnan dvelja hér ofurlítið lengur," sagði Flavía; og ég stöðvaði hest minn við hliðina hesti hennar.

Við gátum nú gerla séð flokkinn. Þar voru tveir þjónar ríðandi í svörtum einkennisbúningi með silfurmerkjum. Á eftir þeim kom vagn, er fjórir hestar gengu fyrir. Á honum stóð líkkista, hjúpuð þykkum svörtum dúkum. Á eftir kistunni reið dökkklæddur maður og hélt hann á hatti sínum í hendinni. Sapt tók ofan, og við stóðum þarna og biðum. Flavía stóð fast hjá mér og hélt í handlegginn á mér.

"Þetta er líklega einn þeirra, sem féll í bardaganum," sagði hún.

Ég vék mér að hestasveini og sagði:

"Ríddu til þeirra og spurðu hvern þeir séu að flytja."

Hann reið til þjónanna og svo fram hjá þeim til móts við manninn, sem á eftir reið.

"Það er Rúpert Hentzau," sagði Sapt í lágum hljóðum.

Það var líka Rúpert, og hann gaf föruneyti sínu merki um að nema staðar og svo reið hann til mín á brokki. Hann var í frakka þétt hnepptum og viðeigandi buxum. Hann var alvarlegur á svip og hneigði sig mjög virðulega. En litlu síðar fór hann að brosa, og ég brosti líka, af því að Sapt gamli hafði höndina í vinstri brjóstvasanum, og við Rúpert báðir fórum nærri um það, á hverju hann héldi niðri í vasanum.

"Yðar Hátign hefir spurt um hvern við værum að flytja," sagði Rúpert. "Það er vildarvinur minn, Lauengram."

"Herra minn," tók ég til orða, "engum veldur þessi hryggilegi atburður meiri sorgar en mér. Skipun sú, er ég hefi látið út ganga, ber vitni um það. Ég vona að henni verði hlýtt."

"Aumingja maðurinn!" sagði Flavía blíðlega. Rúpert leit til hennar, og ástríðueldur brann úr augum hans. Ég roðnaði af að sjá það. Ef ég mætti ráða, hafði ég ekki ætlað að láta Rúpert Hentzau líðast að horfa þannig á hana. En þó hafði hann nú gert það, og hann kynokaði sér jafnvel ekki við að láta aðdáun sína í ljósi.

"Yðar Hátign farast vel orð," sagði hann. "Ég syrgi vin minn. En, innan skamms munu fleiri fara sömu leiðina sem hann."

"Þetta ættum við allir að hafa hugfast, lávarður minn," sagði ég.

"Jafnvel konungarnir líka," sagði Rúpert hátíðlega, og gamli Sapt bölvaði í hljóði rétt við hliðina á mér.

"Það er satt," sagði ég. "Hvernig líður bróður mínum, herra lávarður?"

"Hann er betri."

"Það þykir mér vænt um að heyra,"

"Hann býst við að fara til Streslau, þegar hann er orðinn frískur."

"Hann er, þá ekki orðinn albata enn þá?"

"Nei, en honum er nærri því batnað," svaraði þorparinn óbilgjarni með mesta sakleysissvip.

"Segið honum að ég óski, að hann verði bráðum heill meina sinna," sagði Flavía.

"Ósk mín er allra undirgefnast hin sama, sem yðar konunglegu tignar," sagði Rúpert og leit svo glannalega til prinsessunnar að hún kafroðnaði.

Ég hneigði mig, og Rúpert hneigði sig enn meir, lét hest sinn ganga aftur á bak og gaf föruneyti sínu merki um að halda áfram. En þá datt mér nokkuð í hug svo að ég reið á eftir honum. Hann sneri hesti sínum hvatlega við, því að hann óttaðist að ég ætlaði að vega að sér, þarna rétt hjá líkinu og að prinsessunni áhorfandi.

"Þér börðust hraustlega hérna um kveldið," sagði ég. "Heyrið þér! Þér eruð ungur maður á besta aldri. Ef þér viljið selja mér fangann í hendur lifandi, þá skal yður ekkert mein verða gert."

Hann starði á mig og brosti háðslega; og svo færði hann sig nær mér.

"Ég er óvopnaður," sagði hann, "og gamli Sapt þarna gæti fellt mig á einu augabragði."

"Óhræddur er ég."

"Já, þér eruð bölvaður gapi!" svaraði hann. "En hlustið þér nú á! Ég flutti yður einu sinni boð frá hertoganum."

"Ég vil ekki hlusta á nein boð Michaels svarta," sagði ég.

"Þá skuluð þér heyra, hvað ég hefi að bjóða." Hann lækkaði röddina og hvíslaði: "Gerið snarpt áhlaup á kastalann. Látið Sapt og Tarlenheim vera í fylkingarbroddi."

"Haldið áfram með tillöguna," sagði ég.

"Látið mig vita hve nær áhlaupið verður gert."

"Ég ætti nú ekki annað eftir, en treysta yður svona."

"Þvættingur! Mér er alvara í þetta sinn. Sapt og Fritz munu falla. Michael svarti fellur líka og –"

"Hvað þá?"

"Michael svarti fellur; fær hundsdauða, eins og honum sæmir, fanginn, sem þér nefnduð, fer niður stigann hans Jakobs – hvað þá, vissuð þér um hann. Fjandinn hafi yður! Tveir menn standa ófallnir –, ég, Rúpert Hentzau og þér, Rúritaníukonungurinn."

Hann þagnaði í bili og svo bætti hann við, og skalf í honum röddin af ákefð:

"Finnst yður þetta ekki lagleg tillaga, og þess verð að hún sé tekin til greina? – Hásætið og prinsessan í boði yður til handa. Og ég ætti að minnsta kosti að eiga valda og virðingarvon af Yðar Hátign."

"Vissulega!" hrópaði ég. "en meðan þér eruð ofanjarðar, vantar erkiárann í helvíti."

"Jæja, ég held samt að þér ættuð að hugsa um þetta," sagði hann. "En það segi ég yður satt, að það er meir en meðal sjálfsafneitun fyrir mig, að mega ekki sýna stúlkunni þarna ást mína."

"Skammist þér yðar!" hrópaði ég. En svo fór ég að hlæja að því, hve óviðjafnanleg ofdirfska kom fram í þessari tillögu.

"Ætlið þér kannske að snúast á móti húsbónda yðar?" spurði ég.

Hann bannsöng Michael fyrir að vera óskilgetið úrþvætti, og sagði svo við mig eins og í trúnaði:

"Hann er fyrir mér, skal ég segja yður. Hann Hann er afbrýðissamur álfur! Það var rétt að því komið, að ég legði hann í gegn í gærkveld. Hann kom mér svo óþægilega á óvart."

Ég var nú búinn að ná mér, svo að ég gat stillt mig eins og þurfti. Nú bárust mér nýjar fréttir, sem vert var að taka eftir.

"Voruð þér með kvenmanni?" spurði ég, eins og ég vissi ekkert.

"Já, og það fallegum kvenmanni," sagði hann og kinkaði kolli. "En þér hafið séð hana."

"Var það hún, sem ég hitti við teborðið kveldið góða, þegar vinir yðar lentu undir borðið?"

"Það var rétt eftir öðrum eins bjálfum og þeir eru, Detchard og De Gautet. Ég hefði betur verið þar."

"Og hertoganum er ekki um það gefið, að þér séuð að leggja yður eftir þessari konu?"

"Já," sagði Rúpert með dræmingi, – "það er kannske ekki rétt að hafa þau orð. Öllu heldur er það hins vegna, að ég kæri mig ekki um að hertoginn sé að leggja sig eftir henni."

"En hún tekur hertogann fram yfir yður?"

"Já, því miður gerir hún það, kjáninn sá arna! Jæja, þér hugsið tillögu mína," og að svo mæltu hneigði hann sig og þeysti á eftir félögum sínum.

Ég sneri aftur til Sapts og Flavíu og var að hugsa um það, hve undarlega honum væri varið þessum manni. Ég hefi þekkt marga vonda menn. En Rúpert Hentzau skaraði þar fram úr öllum öðrum. Og ef hans líki er einhverstaðar á jarðríki, þá vildi ég óska honum beint í snöruna! Þar á hann heima.

"Finnst ykkur hann ekki álitlegur þessi ungi maður?" sagði Flavía.

Því miður þekti hún hann ekki eins vel og ég, og ég bjóst við að hún mundi hafa reiðst honum fyrir það, hve ósvífnislega hann hafði horft á hana. En Flavía mín elskuleg var kona – og því fyrirgaf hún það. Og hún fór þvert á móti að hafa orð á því, hve henni sýndist Rúpert ungi laglegur, og það var heldur ekki hægt að neita því, að hann var það.

"Og hann leit út fyrir að vera svo hryggur yfir dauða vinar síns," sagði hún.

"Hann hefir fulla ástæðu til að bera kvíðboga fyrir dauða sjálfs sín," sagði Sapt og brosti illúðlega.

Ég varð líka skapsúr. Því að hafði ég nokkru meiri rétt til að líta hana ástaraugum, heldur en Rúpert þó illur væri? Og ég var í þungu skapi þangað til við komum heim undir Tarleinheimslotið, og Sapt hafði orðið ofurlítið á eftir en Flavía sagði við mig hálffeimnislega:

"Ef þú ferð nú ekki að brosa, Rúdolf, þá fer ég að gráta. Því liggur svona illa á þér?"

"Mér mislíkaði við manninn, sem ég var að tala við í dag," svaraði ég, en ég var þó farinn að brosa, þegar við komum að slotinu og ég steig af baki.

Þar rétti þjónninn mér bréf. Engin utanáskrift var á því.

"Er þetta til mín?" spurði ég.

"Já, herra konungur. Piltur nokkur kom með það hingað."

"Ég reif bréfið upp:"

"Jóhann kemur þessum línum á framfæri. Ég hefi aðvarað yður einu sinni. Í guðs nafni bið ég yður, ef þér viljið karlmaður heita, að bjarga mér úr þessu ræningjabæli!

A. de M.

Ég rétti Sapt miðann; en karlsauðinum varð þá að orði.

"Hver réði því, að hún fór þangað?"

Og af því að ég réði ekki ætíð sem heppilegast úr málum, þá fór ég að bera í bætifláka fyrir Antoinette de Mauban.


XVI. KAPITULI.

Með því að ég hafði látið sjá mig opinberlega í Zenda, og hafði átt þar tal við Rúpert Hentzau var vitanlega engum, sem duldist að ég væri orðinn frískur. Ég sá skjótt, að það hafði breytt atferli liðsmannasveitarinnar í Zenda. Hermennirnir sáust nú ekki framar á ferli, og allir þeir af mönnum mínum, sem nálguðust kastalann, kváðu þar haldinn strangan vörð. Þó mér þætti það illt, að geta ekki orðið við bón Antoinette de Mauban, þá virtist jafnómögulegt að hjálpa henni eins og að bjarga konunginum. Michael bauð mér birginn. Og þó að hann hefði líka látið sjá sig utan kastalaveggja, og það heldur oftar en áður, datt honum ekki í hug að senda neina afsökun um það að hann hefði ekki sýnt konunginum réttmætan heiður. Tíminn leið stöðugt, og hvert augnablik var dýrmætt, því að eigi kreppti að eins sú hætta að mér, að farið yrði frekar að grafast eftir því hvað af mér hefði orðið, heldur var allmikill kurr sagður í Streslau yfir því, hve lengi ég væri í burtu úr borginni. Meiri hefði hann auðvitað orðið, ef það hefði ekki verið kunnugt, að Flavía var með mér; og þess vegna fékk ég hana til að vera kyrra, jafnvel þó að mér félli það þungt að þurfa að láta hana vera þar sem henni gat verið hætta búin, og samvera okkar, jafn ástúðleg og hún var, veiklaði mig svo í ásetningi mínum, að rétt var að því komið, að ég félli frá honum. Heilráðir vinir mínir, t. a. m. Strakencz og kanslarinn (því að þeir komu frá Streslau, sendir þaðan á fund minn af borgarbúum) vildu ekki annað heyra, en að ég ákvæði dag er halda skyldi almennt hátíðlegan þegar trúlofun okkar Flavíu yrði gerð heyrinkunn. Slíkt er siður í Rúritaníu og sú athöfn talin nærri því eins bindandi og mikilvæg eins og hjónabandið sjálft. Og ég neyddist til að gera þetta. Flavía sat við hliðina á mér, þegar ég ákvað daginn, en hann var tiltekinn hálfum mánuði síðar, og í dómkirkjunni í Streslau skyldi athöfnin fara fram. Þetta var birt í öllum blöðum og því var fagnað mjög um endilangt konungsríkið. Um annað var mönnum ekki tíðræddara um þessar mundir. Ég held að engum hafi fallið þetta illa nema tveimur mönnum – Michael og mér; og það var öllum kunnugt nema einum manni, manninum, sem ég var staðgöngumaður fyrir, Rúritaníukonunginum.

Ég komst svona hér um bil að því, hversu fréttunum hafði verið tekið í kastalanum; því að eftir þrjá daga, tókst Jóhanni að komast á fund okkar. Fégirndin dró hann að okkur, þó að lífshætta væri fyrir hann að fara. Hann hafði verið staddur inni hjá hertoganum þegar fréttirnar bárust honum. Michael svarti hafði orðið enn þá svartari en hann var vanur, og hann hafði ausið úr sér formælingum. Og ekki bætti það honum í skapi, að Rúpert ungi kvaðst þora að sverja það, að ég ætlaði að láta fylgja fram skipun minni, og óskaði Antoinette de Mauban til hamingju, þar eð hún mundi nú eigi framar þurfa að óttast keppinaut sinn, prinsessuna. Þá þuklaði Michael eftir sverði sínu (sagði Jóhann), en Rúpert skeytti því engu; hann storkaði hertoganum með því að ég hefði reynst betri konungur en nokkur annar í Rúritaníu. "Og djöfullinn," bætti hann við og kinkaði kolli framan í húsbónda sinn fokreiðan, "hefir sent prinsessunni betri mann, en sá algóði hafði útvalið henni. Ég gat ekki betur séð, en að þetta sé dagsanna!" Þá skipaði Michael honum í vonsku að þegja og hypja sig burtu, en Rúpert kvaðst fyrst þurfa að kyssa á hönd Antoinette de Mauban, og það gerði hann innilega, eins og hann væri elskhugi hennar, en Michael starði á hann sem steini lostinn."

Þetta er nú betri þátturinn af fréttunum, sem hann flutti, þessi náungi. Það var alt alvarlegra, sem eftir var, og auðséð, að ef okkur fannst drátturinn illur í Tarlenheimslotinu, þá fannst þeim hann engu betri Zendabúum, því að konungurinn var veikur. Jóhann hafði séð hann. Hann var orðinn mjög máttfarinn og gat varla hrært sig. Þeir Zendabúar voru nú orðnir svo hræddir um hann, að þeir höfðu sent eftir lækni frá Streslau. Og þegar læknirinn kom út úr klefa konungsins, var hann náfölur og skjálfandi, og lagði að hertoganum um að sleppa honum úr varðhaldinu og ]eggja sig ekki í meiri hættu í þessu máli. En hertoginn vildi það ekki, en hélt honum eins og fanga kastalanum, og sagði honum að hann gæti verið óhultur um líf sitt ef konungurinn lifði og meðan hertoganum þóknaðist, en lengur ekki. Eftir ráði læknisins var Antoinette de Mauban leyft að fara inn til konungsins og hlynna að honum svo sem með þurfti, og konum einum er hent. En samt hékk líf hans veikum þræði. Ég var aftur á móti hress og alheilbrigður. Af öllu Þessu var fremur dauflegt í Zenda, og milli þess er kastalabúar voru ekki í deilum, mæltu þeir varla orð frá munni. En þó að hinir allir væru í þungu skapi, þá var Rúpert ungi samur og jafn í skömmunum, píreygður, brosandi og syngjandi, og "hló svo að hann ætlaði að rifna" (sagði Jóhann), af því að hertoginn skipaði Detchard ætíð að halda vörð um konunginn, Þegar Antoinette de Mauban var í klefa hans – og var það þó ekki óhyggilegt af bróður mínum, þeim varkára manni. Þannig voru fréttirnar, sem Jóhann sagði og fékk fé fyrir. Samt sem áður bað hann okkur mjög innilega að lofa sér að vera á slotinu, svo að hann þyrfti ekki oftar að hætta sér inn í bæli ljónsins. En við þurftum að hafa hann þar, og þó að ég vildi ekki leggja að honum að fara, þá gyllti ég það fyrir honum með því að lofa honum enn meiru fé að launum, ef hann kæmi skeytum fyrir mig til Antoinette de Mauban, og léti hana vita, að ég væri að gera ráðstafanir til að hjálpa henni, og bað hana að reyna að hughreysta konunginn, ef hún gæti. Því að þó óvissan sé ill þeim sem veikir eru, þá er örvæntingin enn þá verri. Líklegast var, að ekkert þrengdi meir að konunginum, en vonleysi eitt um lausn, því að ég hafði ekki getað fengið að vita, að hann þjáðist af neinum sjúkdómi.

"Og hvernig er konungsins gætt nú?" spurði ég, þar eð ég vissi að tveir sexmenninganna voru nú fallnir og Max Holf líka.

"Detchard og Bersonin gæta hans á nóttunni – Rúpert Hentzau og De Gautet á daginn, herra minn," svaraði hann.

"Að eins tveir í senn?"

"Já, herra; en hinir sofa í herbergi uppi yfir, og geta vel heyrt ef kallað er eða blásið í blísturpípu."

"Í herbergi rétt uppi yfir? Ég vissi það ekki. Er nokkur samgangur milli þess og herbergisins sem þeir halda vörð í?"

"Nei, herra. Það verður að ganga niður nokkrar tröppur og gegn um dyrnar hjá vindubrúnni og síðan þangað, sem konungurinn er hafður í haldi."

"Eru þær dyr lokaðar?"

"Engir aðrir en lávarðarnir hafa lykla að þeim, herra."

Ég færði mig nær honum.

"En að járnstöngunum fyrir glugganum?"

"Ég held að engir aðrir en Rúpert og DeGautet hafi lykla að þeim."

"Hvar sefur hertoginn?"

"Í kastalahöllinni á neðra lofti. Herbergi hans eru til hægri handar þegar farið er yfir vindubrúna."

"En Antoinette de Mauban?"

"Andspænis herbergjum hans, til vinstri. En dyrum á herbergi hennar er lokað, eftir að hún er farin inn á kveldin."

"Til að sjá um, að hún sleppi ekki?"

"Vafalaust, herra."

"Og ef til vill af öðrum orsökum."

"Það er vel mögulegt."

"Hertoginn hefir lyklana. Er ekki svo?"

"Jú. Vindubrúin er dregin uppá nóttunni, og hertoginn hefir líka lykilinn að henni, svo að ekki er hægt að láta hana falla niður yfir sýkið, nema með hans leyfi."

"Og hvar sefur þú?"

"Í fordyraherbergjum kastalahallarinnar, ásamt fimm þjónum."

"Eru þeir vopnaðir?"

"Þeir hafa lensur, herra, en engin skotvopn. Hertoginn hefir ekki þorað að láta þá bera skotvopn."

Ég hugsaði nú með mér, að ekki dygði annað en að taka til djarflegra ráða. Mér hafði misheppnast, þegar ég ætlaði að fara eftir stiganum hans Jakobs. Slík óhöpp ætlaði ég að forðast aftur. Ég varð að gera áhlaupið frá öðrum stað.

"Ég hefi lofað þér tuttugu þúsund krónum," sagði ég. "Þú skalt fá fimmtíu þúsund, ef þú gerir það, sem ég legg fyrir þig að gera annað kveld. En segðu mér fyrst, hvort þjónar þessir vita hver fanginn er."

"Þeir vita það ekki, herra. Þeir halda að eins, að hann sé einhver af óvinum hertogans."

"Og efast þeir þá ekki um, að ég sé konungurinn?"

"Hvernig ættu þeir að geta gert það?" spurði hann.

"Hlustaðu nú á. Aðra nótt stundvíslega kl. 2 verðurðu að opna framdyr hallarinnar. Láttu það ekki bregðast."

"Ætlið þér að verða þar, herra?"

"Spurðu engra spurninga. Gerðu það sem ég segi þér. Segðu að dyrnar séu lokaðar, eða hvað sem þér sýnist. Ég bið þig ekki annars."

"Og má ég flýja út um dyrnar, herra, eftir að ég hefi opnað þær?"

"Já, flýðu eins fljótt og þér er lífsins mögulegt. Enn þá er eitt eftir. Færðu Antoinette de Mauban þennan miða – hann er skrifaður á frönsku, þú getur ekki lesið hann." Ég þorði ekki að draga þetta, því ég óttaðist að konungurinn mundi deyja.

Þegar Jóhann var farinn kallaði ég á þá Sapt og Fritz og skýrði þeim frá fyrirætlunum mínum. Sapt hristi höfuðið yfir þeim.

"Hvers vegna getið þér ekki dregið þetta?" spurði hann.

"Konungurinn kann að deyja."

"Michael neyðist til að gera eitthvað áður."

"En svo getur konungurinn líka lifað," sagði ég.

"Jæja, og ef svo skyldi verða?"

"Hann kynni að lifa hálfan mánuð. Hvernig færi þá?" spurði ég rólega.

Sapt beit á jaxlinn.

Þá laut Fritz von Tarlenheim ofan að mér og sagði:

"Við skulum leggja á stað og freista hvers við fáum á orkað."

"Ég ætlast til að hér farið – berið ekki kvíðboga fyrir öðru."

"En þér ætlið að vera hér eftir og gæta prinsessunnar."

Það kom glampi í augun á Sapt gamla.

"Við mundum ráða niðurlögum Michaels einhvern veginn." sagði hann og skríkti í honum hláturinn; "en ef þér færuð með okkur og félluð með konunginum, hvað mundi þá verða hlutskipti þeirra okkar, sem af kæmust?"

"Þeir mundu þjóna Flavíu drottningu," sagði ég, "og betur að guð gæfi, að ég fengi að vera einn í þeirra tölu".

Svo varð þögn. Sapt gamli rauf þögnina mæðulegur á svip, en komst þó svo skringilega að orði, að við Fritz gátum ekki varist hlátri, þegar hann spurði:

"Hvers vegna kvæntist Rúdolf prins ekki langömmu yðar?"

"Sleppum því. Nú erum víð að hugsa um konunginn."

"Það er satt," sagði Fritz.

"Enn fremur ætti að geta þess," sagði ég, "að mér er það fyllilega ljóst, að ég hefi verið falsari öðrum til hagnaðar, en ég hefi enga lyst að vera það fyrir sjálfan mig; og ef konungurinn verður ekki á lífi og kominn í hásæti sitt eftir hálfan mánuð, daginn, sem trúlofun okkar Flavíu á að verða gerð heyrinkunn. þá ætla ég að segja sannleikann, hvernig sem fer".

"Það er þá best að þér farið, vinur minn," sagði Sapt.

Fyrirætlanir mínar voru á þessa leið: Valinn flokkur átti að laumast að dyrum kastalahallarinnar undir forustu Sapts. Ef flokksins yrði vart fyrr en til var ætlast, átti Sapt og menn hans að drepa hvern sem þeir næðu í – með sverðum sínum, því að ég vildi ekki láta vekja neina háreisti með skotum. Ef alt gengi vel, þá kæmu þeir að dyrunum þegar Jóhann væri búinn að opna. Þeir áttu að ryðjast inn og taka þjónana höndum, ef þeir hættu ekki allri vörn er þeir sæju hermennina og vissu að þeir voru sendir af konungi. Á sömu stund átti að kveða við neyðaróp kvenmanns úr herbergjum Antoinette de Mauban. Á því hafði ég mikið byggt. Hún átti að hrópa hvað eftir annað: "Hjálp, hjálp, Michael, hjálp!" og svo að nefna nafn Rúpert Hentzau. Þá bjuggumst við við því, að Michael mundi hlaupa í reiði sinni út úr herbergjum sínum og til herbergjanna andspænis, og falla þá lifandi í hendur Sapts og þeirra félaga. Ópin áttu að halda áfram. Menn mínir áttu að hleypa niður vindubrúnni. Þá þótti okkur undarlegt ef Rúpert reyndi ekki að komast yfir brúna þaðan sem hann svaf, þegar hann heyrði nafn sitt notað í blóra. De Gautet gat bæði komið með honum eða ekki. Það varð að láta slíkt ráðast.

Og þegar Rúpert kæmi út á vindubrúna, þá átti ég að mæta honum, því að ég hafði ætlað mér að þreyta sund á ný í síkinu: ætlaði ég að hafa með mér léttan viðarstiga til að hvíla mig á, ef ég skyldi þreytast á sundinu og klifra upp eftir honum þegar að því kæmi. Ég ætlaði að reisa hann upp við steinvegginn rétt hjá brúnni, og þegar hún væri komin niður ætlaði ég að laumast upp á hana, og ef þá bæri þá að Rúpert og De Gautet og kæmust yfir hana óhultir, þá mátti óheppni minni um kenna, en ekki viljaleysi. En eftir að þeir voru fallnir, þá voru að eins tveir menn eftir; og varð að treysta því, að ofboðið sem á þá kæmi mundi létta okkur að ráða við þá. Við mundum þá hafa lykla að öllum þeim dyrum er áríðandi var. Skeð gat að þessir menn mundu flýja. En ef þeir hlýðnuðust skipunum þeim, sem þeim voru gefnar, þá var líf konungsins undir því komið, hve fljótt okkur tækist að komast inn til þeirra, og ég þakkaði hamingjunni fyrir það, að Detchard hélt vörð en ekki Rúpert Hentzau. Því að þó að Detchard væri þrekmaður, óvæginn og engin skræfa, þá skorti hann skjótræði og óbilgirni Rúperts. Enn fremur var það víst, að ef nokkrum þeirra þótti vænt um Michael svarta, þá þótti Detchard það, og gat því verið, að hann skyldi Bersonin eftir til að gæta konungsins, en hlypi sjálfur yfir brúna til að taka þátt í erjunum hinu megin.

Þannig voru fyrirætlanir mínar – og helst til djarflegar. En til þess að óvinir okkar yrðu ugglausir, skipaði ég svo fyrir, að Tarlenheimslotið skyldi vera alt uppljómað af ljósum, svo að ætla mætti að við sætum þar að mikilli veislu. Ljósadýrðin átti að vera þar alla nóttina, söngur og hljóðfærasláttur, og menn sífellt á ferli. Strakencz átti að vera þar, og hann átti að dylja Flavíu þess ef hann gæti, að við hefðum farið burtu. En ef við kæmum ekki aftur morguninn eftir, átti hann að leggja á stað með hermannaflokk hiklaust til kastalans og heimta konunginn af kastalabúum. En ef Michael yrði þar ekki, en við því bjóst ég, þá átti marskálkurinn að taka Flavíu með sér til Streslau, svo fljótt, sem auðið yrði, og skýra þar opinberlega frá svikum Michaels svarta og væntanlegum dauða konungsins, en safna öllum dyggum og heiðarlegum þegnum undir merki prinsessunnar. Og svo ég segi satt frá, bjóst ég við því helst af öllu, að þetta yrði málalyktirnar.

Ég efaðist sem sé um, að konungur, Michael svarti eða ég mundi eiga eftir að lifa meir en einn dag eftir þetta. En ef Michael svarti félli, og ef ég; "leikarinn", legði Rúpert Hentzau að velli, og léti svo líf mitt, þá virtist helst sem forlögin yrðu Rúritaníuríki svo hagstæð, sem frekast mátti eftir vænta, þrátt fyrir það, þó að það missti konung sinn. En þó að alt þetta yrði, datt mér ekki í hug annað en vera ánægður með þau úrslit.

Það var orðið áliðið, þegar við slitum þessari ráðssamkomu og ég fór til herbergja prinsessunnar. Hún var þungbúin á svip þetta kveld, en þegar ég var að skilja við hana vafði hún mig samt örmum, og með yndislegum feimnissvip á fallega andlitinu, dró hún hring á fingur mér. Ég bar þá hring konungsins á hendi; en ég bar líka á litla fingri einbaug úr gulli og á hann voru letruð einkunnarorð ættar minnar; "Nil Quo Feci." Þennan hring tók ég af mér og dró á fingur henni og bað hana svo að lofa mér að fara. Henni skildist það, að ég þyrfti að fara, og hún sleppti mér og horfði á mig tárvotum augum.

"Ég ætla að biðja þig að bera þennan hring, þó að þú eignist annan, þegar þú ert orðin drottning, sagði ég.

"Hvaða hringa, sem ég kann að bera, þá ætla ég að bera þennan þangað til ég dey, og eftir það," sagði hún og kyssti á hringinn.


XVII. KAPITULI.

Nóttin kom og var björt og heiðskír. Ég hafði óskað eftir dimmu og skuggalegu veðri, eins og verið hafði þegar ég lagði út í sýkið hið fyrra sinn, og þá verið mér haganlegt. En nú var hamingjan mér ekki eins hliðholl. Samt vænti ég þess, að ef ég héldi mér í skugga við steinveggina mundi eigi verða eftir mér tekið úr gluggum kastalahallarinnar, er vissu þar að, sem ég ætlaði að hafast við. Ef vörður væri haldinn við sýkið, þá hlutu fyrirætlanir mínar að stranda, en ég bjóst við, að það mundi ekki vera gert. Þeir höfðu gert svo við stiga Jakobs, að hann stóðst áhlaup. Jóhann hafði sjálfur verið við það að festa hann við steinvegginn að neðan verðu, svo að nú varð pípunni hvorki þokað til að ofan eða neðan. Pípan varð ekki losuð nema með sprengiefni eða með því að höggva hana sundur með broddexi. Og hvorugt gat komið til greina vegna hávaðans. Hvaða ógagn gat nokkur þá gert kastalanum úr síkinu? Ég vonaðist til, að Michael svarti mundi svara þessari spurningu neitandi, með sjálfum sér. En jafnvel þó Jóhann brygðist vissi hann ekkert um þessar fyrirætlanir mínar, og mundi vafalaust búast við að sjá mig í fylkingarbroddi við framdyr kastalahallarinnar. Þar sagði ég Sapt að mest hættan væri.

"Þar skuluð þér líka vera," mælti ég enn fremur. "Eruð þér ekki ánægður með það?"

En hann var það ekki. Hann langaði innilega til að fara með mér, og hefði gert það, ef ég hefði ekki lagt þar blátt bann við. Vera kunni að einum manni gæti tekist að dyljast; en tveimur helmingi síður. Og þegar hann lét þess við getið, enn einu sinni, að líf mitt væri of dýrmætt, þá skipaði ég honum alveg að þegja, því að ég vissi við hvað hann átti, og kvaðst fullviss um, að lifði konungurinn ekki af þessa nótt þá mundi ég ekki heldur verða á lífi að morgni.

Klukkan tólf lagði sveit Sapts á stað frá Tarlenheim slotinu, og stefndi til hægri handar. Þeir fóru sjaldfarna leið og sneiddu hjá bænum Zenda. Ef alt gengi vel mundu þeir koma á móts við kastalann þegar klukkuna vantaði kortér í tvö. Þeir áttu að binda hesta sína hálfa mílu frá kastalahöllinni og laumast að innganginum sem hljóðlegast og bíða þess að opnað yrði. Ef dyrnar yrðu ekki opnaðar klukkan tvö, þá áttu þeir að senda Fritz von Tarlenheim yfir að kastalanum hinu megin. Ég ætlaði að hitta hann þar ef ég væri þá á lífi, og við ætluðum þá að ráðgast um hvort áhlaup skyldi gera á kastalann þá strax, eða ekki. Ef ég væri þar ekki, þá áttu þeir að snúa aftur sem skjótast til Tarlenheim slotsins, vekja marskálkinn og fara með fylktu liði til Zenda. Ef ég gæti ekki mætt Fritz þarna, þá yrði ég dauður; og ég vissi að konungurinn mundi ekki lifa lengur en fimm mínútur eftir að ég væri fallinn.

Ég verð nú að hætta við að segja frá ferðum Sapts, og skýra frá því hvernig sjálfum mér gekk þessa viðburðaríku nótt. Ég lagði á stað og reið góðum hesti, þeim sama sem hafði borið mig frá skothúsinu til Streslau, krýningarnóttina. Ég hafði marghleypu við söðulbogann og sverð mitt. Ég var klæddur í síða kápu, og undir henni var ég í þykkri en snöggefldri ullarpeysu, hnébuxum, þykkum sokkum, með strigaskó á fótum. Ég hafði smurt líkama minn vandlega með olíu, og hafði með mér væna flösku af viskí. Það var hlýtt um nóttina, en ég bjóst jafnvel við að verða að vera æði lengi í vatninu, svo að mér var nauðsynlegt að vera vel búin við kulda. En kuldinn lamar hugrekki manns, sem á fyrir höndum að deyja, deyfir vígfýsi hans ef aðrir eiga að láta lífið, og að síðustu, hleypir gigt í hann ef það er guðs vilji að ljá honum lengra líf. Ég hnýtti síðan utan um mig miðjan langan sterkan streng, og gleymdi ekki heldur stiganum. Ég lagði ekki á stað fyrr en Sapt var farinn, og fór yst eftir bæjarjaðrinum til vinstri handar og var kominn í skógarröndina klukkan hálf eitt.

Ég batt hest minn inn í þykkum skógarrunna. Marghleypuna skildi ég eftir í hulstrinu við söðulbogann. Ég gat ekkert gagn haft af henni. Svo fór ég á stað með stigann undir hendinni ofan að síkinu. Þegar ég kom að barminum á því losaði ég kaðalinn sem ég hafði með mér utan um mig miðjan, og batt annan endann á honum um trjástofn á bakkanum, og seig svo ofan í vatnið. Klukkan í kastalanum sló þrjú kortér í eitt um leið og ég kom ofan í vatnið, og fór að synda á stað með fram kastalaveggjunum með stigann fyrir framan mig. Þannig hélt ég áfram uns ég kom að gamla kunningja mínum, stiganum hans Jakobs, og fann steingrunnsbrúnina undir fótum mér. Ég beygði mig niður í skuggann undir stóru pípunni. Ég reyndi að þoka henni til, en það var ómögulegt. Svo beið ég dálítið. Ég man það glöggt að það sem mér var þá ríkast í huga, var hvorki uggur um konunginn, eða þrá eftir Flavíu, heldur óstöðvandi löngun til að reykja. En vitanlega gat ég ekki satt þá löngun mína.

Vindubrúin var enn á sínum stað. Ég sá glöggt granna grindaverkið á henni uppi yfir mér svo sem tíu fet til hægri handar, þegar ég stóð við steinvegginn á klefa konungsins. Ég gat séð glugga svo sem sex fet frá henni og því nær á sömu hæð. Það hlaut að vera glugginn á herbergjum hertogans, ef Jóhann hafði sagt satt frá. Hinu megin við brúna á líkri hæð hlaut að vera gluggi Antoinette de Mauban. Konur eru kærulausar og gleymnar skepnur. Ég óskaði þess heitt, að hún gleymdi því ekki að hún átti að verða fyrir fantalegri móðgun stundvíslega klukkan tvö. Ég þóttist góður af verki því, er ég hafði ákveðið hinum unga vini mínum Rúpert Hentzau. En hann átti samt lítilræði hjá mér, því að enn verkjaði mig í öxlina, þar sem hann hafði lagt til mín, að vinum mínum ásjáandi í Tarlenheim með svo mikilli ofdirfsku að svikræðið hvarf að hálfu leyti hennar vegna.

Alt í einu birti í herbergjum hertogans. Gluggahlerarnir voru ekki lokaðir svo að ég gat séð ofurlítið inn um gluggann þegar ég tyllti mér á tá. Þegar ég stóð þarna gat ég séð svo sem þriggja feta bil innan við gluggann, en ljósgeislinn náði þó ekki þangað sem ég var. Glugginn var rifinn opinn og einhver leit út. Ég þekti tígulega vaxtarlagið á Antoinette de Mauban, þó að andlit hennar væri hulið í skugganum, því að hún stóð fyrir ljósinu. Mig langaði til að kalla lágt: "Munið eftir!" En ég þorði það ekki, sem betur fór, því að samstundis kom maður að hliðinni á henni. Hann reyndi að taka utan um hana, en hún hopaði frá honum hvatlega og hallaði sér að gluggahleranum, svo að hún sneri vanganum að mér. Ég þekti manninn. Það var Rúpert Hentzau ungi. Hann hló lágt, og þá fullvissaðist ég um að mér hafði ekki missýnst. Svo hallaði hann sér áfram og teygði sig til að ná í hana.

"Hægan, hægan!" tautaði ég; "þú ert helst til bráður á þér í þetta sinn!"

Hann var kominn með höfuðið fast að höfðinu á henni. Ég held að hann hafi verið að hvísla einhverju að henni, því að ég sá hana benda á sýkið og svo sagði hún skýrt og rólega:

"Ég mundi heldur fleygja mér út um gluggann hérna."

Hann beygði sig út um gluggann og horfði út.

"Það er helst til kaldsamt, sýnist mér," sagði hann. "Látið þér ekki svona, Antoinette. Er yður kannske alvara?"

Ég heyrði hana ekki svara neinu, en hann strauk hendinni, óþolimóðlega um gluggakarminn og hélt áfram svo segjandi, og var röddin líkust eins og í brekóttunn krakka:

"Fjandinn hafi Michael svarta! Skyldi prinsessan ekki nægja honum? Á hann að gína yfir öllu? Hvern fjandann hefir Michael til að bera, sem getur hrifið yður?"

"Ef ég segði honum hvað þér hafið sagt" – tók hún til máls.

"Jæja segðu honum það", sagði Rúpert kæruleysislega og snaraðist að henni að óvöru og kyssti hana hlæjandi og hrópaði: "Nú hafið þér ofurlítið söguefni."

Ef ég hefði haft margh1eypuna mína á mér, þá hefði mikil freisting fyrir mig að grípa til hennar. En vegna þess að ég gat ekki látið eftir þeirri freistingu, þá lét ég mér nægja að skrifa þetta atvik í reikninginn hans.

"En satt að segja," mælti Rúpert, "býst ég ekki við að hann taki sér þetta nærri. Hann er vitlaus eftir prinsessunni, eins og þér vitið. Honum er ekki tíðræddara um annað en að láta drepa 'leikarann'."

Það var víst líka satt.

"Og vitið þér hverju hann hefir lofað mér, ef ég vil taka þann starfa að mer og leysa hann af hendi?"

Konan ógæfusama fórnaði höndum biðjandi í örvæntingu.

"En ég þoli mér ekki við að bíða." sagði Rúpert; og ég sá að hann var í þann veginn að leggja hönd á hana aftur þegar hávaði heyrðist, dyrnar voru opnaðar, og sagt var í hörkulegum rómi:

"Hvað eruð þér að gera hér, herra minn?"

Rúpert sneri bakinu að glugganum, hneigði sig kurteislega og sagði glettnislega:

"Ég var að afsaka fjarveru yðar, herra. Átti ég kannske að skilja frúna eina eftir?"

Það hlaut að vera Michael svarti, maðurinn, sem inn hafði komið. Og ég þekti hann þegar hann kom út að glugganum og tók í öxlina á Rúpert unga.

"Það geta fleiri komist fyrir í síkinu en konungurinn sagði hann íbygginn.

"Er yðar tign að ógna mér?" spurði Rúpert.

"Þeir eru tiltölulega fáir, sem eiga kost á þeirri aðvörun að ég ógni þeim."

"Samt er Rúdolf Rassendyll á lífi, þó margbúið sé að ógna honum," svaraði Rúpert.

"Mín er skuldin að því leyti, að ég hefi slippifenga þjóna," svaraði hertoginn.

"Yðar tign hefir ekki gefið raun á hinu gagnstæða," svaraði Rúdolf snúðugt.

Þetta var sama sem að segja hertoganum, að hann forðaðist að leggja sig í nokkra hættu. En Michael svarti stillti sig vel. Ég þori að segja, að hann hefir verið þungur á brúnina – og ég sá eftir því að geta ekki séð framan í þá – en enginn æsingur heyrðist á rödd hans, er hann svaraði:

"Þetta er nóg! Við megum ekki deila, Rúpert. Eru þeir Detchard og Bersonin þar sem þeir eiga að vera?"

"Já, þeir eru þar, herra."

"Þá þarf ég yðar ekki frekar við."

"Það er svo. Ég er þó öldungis óþreyttur," sagði Rúpert.

"Viljið þér gera svo vel og fara?" sagði Michael mjög óþolimóðlega. "Eftir tíu mínútur verður brúin dregin upp, og ég býst við að yður langi ekkert til að synda í rúmið yðar."

Rúpert hvarf úr herberginu. Ég heyrði að dyrunum var lokið upp og lokað aftur. Michael og Antoinette voru nú ein eftir. Mér til mikillar gremju tók Michael í gluggann og lokaði honum. Hann stóð samt kyrr þarna og talaði við Antoinette stundarkorn. Hún hristi höfuðið og sneri sér frá honum. Svo heyrðist aftur gengið um hurð og Michael lokaði hlerunum.

"De Gautet, De Gautet"! var hrópað frá vindubrúnni. "Ef þú vilt sleppa við það að fara í bað áður en þú fer í rúmið, þá komdu!"

Ég þekti rödd Rúperts, og rétt eftir komu þeir De Gautet og hann út á brúna, Rúpert hélt utan um handlegginn á Gautet og þegar þeir komu á miðja brúna stöðvaði Rúpert félaga sinn og leit niður fyrir brúna. Ég skaust undir stiga Jakobs.

En Rúpert varð einskis vísari. Svo tók hann flösku, sem De Gautet hafði með sér og setti hana á munn sér.

"Varla deigur dropi í henni!" tautaði hann reiðulega, og þeytti henni út í sýkið.

Af skellinum að dæma og báruhringunum, sem komu á vatnið, þá kom hún ekki niður fjær pípunni, en svo sem tvö fet. Og Rúpert tók marghleypu sína og fór að skjóta á hana. Fyrstu tvö skotin hittu ekki flöskuna, en komu í pípuna. Þriðja skotið muldi flöskuna sundur. Ég bjóst við að þessi ungi þorpari mundi nú vera orðinn ánægður, en hann skaut skotunum, sem eftir voru á pípuna og eitt þeirra, er þaut rétt ofan við hana, smaug í gegn um hárið á mér um leið og ég kraup í hlé hinu megin við pípuna.

"Gætið að brúnni!" heyrði ég kallað mér til mikils léttis.

Rúpert og Gautet kölluðu: "Bíðið ofurlítið," og svo hlupu þeir yfir um. Brúin var undin upp og svo varð alt hljótt. Klukkan sló eitt kortér yfir eitt. Ég stóð upp, rétti úr mér og geispaði.

Ég held að ekki hafi liðið meira en tíu mínútur þangað til ég heyrði hávaða til hægri handar við mig. Ég skyggndist upp yfir pípuna og sá grilla í mann í hlið-opinu, er vissi að brúnni. Vegna þess hvað tilburðir hans voru kæruleysislegir og djarflegir, gat ég mér þess til að þarna væri Rúpert aftur kominn. Hann hélt á sverði í hendinni og stóð hræringarlaus í nokkrar mínútur. Mér fór að detta margt í hug. Ég heyrði að hann hló lágt. Hvaða þorparabrögð skyldu nú vera að brjótast í honum þessum unga fanti? Aftur heyrði ég hann hlæja. Svo leit hann ofan á steinvegginn og gekk eitt skref í áttina til mín og svo sá ég, – mér til mikillar undrunar – að hann fór að klifra niður vegginn. Ég þóttist strax geta séð að spor hlytu að vera í veggnum. Þau voru höggvin eða sett í hann með eitthvað átján þumlunga millibili. Þegar Rúpert var kominn í næst neðsta sporið beit hann utan um sverð sitt, sneri sér við og hvarf hljóðlaust ofan í vatnið. Ef ekki hefði verið nema um mitt líf að eins að tefla, þá mundi ég hafa synt eftir honum og fengist við hann. Mikið langaði mig til að berjast þarna við hann með bitrum brandi, um bjarta nóttina, þar sem enginn var til að skakka leikinn. En ég varð að hugsa um konunginn! Ég gat samt stillt mig, en við það gat ég ekki ráðið, að andardráttur minn var óvenjulega tíður, og ég veitti Rúpert nákvæma eftirtekt.

Hann synti hægt og letilega yfir um sýkið. Það voru líka spor í vegginn hinu megin og hann klifraði upp eftir þeim. Þegar hann kom upp í hliðopið þar og stóð á brúnni sem undin var upp að þeim veggnum, fór hann ofan í vasa sinn og tók eitthvað upp úr honum. Ég heyrði að hurð var lokið upp, en aldrei að henni væri lokað aftur. Þar hvarf hann sjónum mínum.

Nú sleppti ég stiganum – ég sá að ég þyrfti ekki á honum að halda og synti yfir að þeim veggnum, sem vissi að vindubrúnni og klifraði miðja vegu upp eftir sporunum. Þar hékk ég með sverðið í hendinni og hlustaði nákvæmlega. Niðamyrkur var í herbergjum hertogans. Það var ljós í glugganum hinu megin við brúna. Enginn minnsti hávaði heyrðist, þangað til stóra klukkan í kastalaturninum sló hálf-tvö.

Það voru fleiri en ég, sem voru að brugga brögð í kastalanum þessa nótt.


XVIII. KAPITULI.

Það virðist sem eigi muni hafa verið þægilegt að hugsa mikið staddur þar, sem ég var nú kominn. Samt hugsaði ég af kappi næstu mínúturnar. Ég var fullviss um það með sjálfum mér, að ég stóð nú að einu leyti betur að vígi, en áður. Hvert svo sem erindi Rúpert Hentzau's var, hvaða þorparabragð, sem hann hafði fyrir stafni, þá stóð ég nú samt betur að vígi. Sýkið var nú á milli þeirra konungsins og hans, og ef ég mátti ráða ætlaði ég ekki að láta hann komast lifandi yfir það. Þá voru þrír eftir, sem ég hafði að fást við, og De Gautet í rúmi sínu. Betur að ég hefði haft lyklana. Ég mundi þá hafa freistað hvers sem vera skyldi. Ráðist á Detchard og Bersonin áður en vinir þeirra gátu komið þeim til hjálpar. En ég var einskis um megnugur. Ég varð að bíða þangað til vinir mínir kæmu og neyddu einhvern til að fara yfir brúna – einhvern, sem hafði lykla. Og ég beið hálfa klukkustund – að mér fannst, þó það væri reyndar ekki nema fáar mínútur – þangað til næsti þátturinn í þessum viðburðaríka en skamma sorgarleik hófst.

Alt var hljótt hinu megin síkisins. Ómögulegt var að sjá neitt inn í herbergi hertogans vegna gluggahleranna. Ljósið brann enn í herbergjum Antoinette de Mauban. Alt í einu varð ég var við ofurlítið marr. Það heyrðist út um dyrnar á kastalahöllinni, er lágu að vindubrúnni. Það var svo lágt, að ég að eins heyrði það, en mér duldist ekki hverskonar marr það var. Það var verið að snúa lykli í skrá ofur-hægt og gætilega. Hver var að því? Og að hvaða hurð gekk sá lykill? Mér sveif fyrir hugskotssjónir mynd Rúperts unga með illmannlegt bros á vörum, með lykilinn í annarri hendi og sverðið í hinni. En ég vissi ekki hvaða hurð þetta var, né heldur hvers konar fýsn sína Rúpert ungi var að seðja um þennan tíma nætur.

En ég fékk brátt vitneskju um það – áður en vinir mínir gátu verið komnir að dyrum kastalahallarinnar – áður en Jóhann ráðsmaður hafði hert sig upp til að vinna hlutverk sitt – heyrðist brothljóð alt í einu kveða við innan úr herberginu sem ljósið logaði í. Það virtist líkast því, sem einhver hefði steypt niður lampa, enda varð jafnskjótt dimmt í herberginu. Samstundis var kallað hástöfum í myrkrinu: "Hjálp, hjálp! Michael, hjálp!" og því fylgdi rétt á eftir hátt angistaróp.

Ég skalf á beinunum. Nú stóð ég í efsta sporinu í veggnum, og hélt mér í þrepskjöldinn með hægri hendinni, en í hinni á sverðinu. Þá varð ég þess alt einu var, að hliðopið var breiðara en brúin. Hinu megin var skot, er skugga bar á, og svo stórt, að maður gat staðið þar. Ég vatt mér upp þangað og staðnæmdist þar. Þegar ég var þar kominn, gat ég varið ganginn, svo að enginn gat farið milli kastalahallarinnar og gamla kastalans, án þess að mér væri að mæta.

Aftur kvað við annað angistarkvein. Því næst heyrði ég hurð rifna opna og skellt að veggnum og svo að handfangi á einhverri hurð var snúið með miklum skarkala.

"Opnið hurðina! Hvað gengur á? Segið það í guðs nafni!" heyrði ég að Michael svarti hrópaði.

Honum var svarað með sömu orðunum, sem ég hafði til tekið í bréfi mínu:

"Hjálp. Michael – Hentzau!"

Hertoginn jós úr sér afskaplegum blótsyrðum og fleygði sér á hurðina öskrandi. Samstundis heyrði ég að gluggi var opnaður uppi yfir mér og einhver kallaði: "Hvað gengur á?" og svo hratt fótatak. Ég greip til sverðs míns. Ef De Gautet kæmi til móts við mig, þá fækkaði sexmenningunum um einn.

Svo heyrði ég glamur af sverðshöggum og traðk mikið – og ég get ekki sagt svo fljótt frá því sem gerðist sem skyldi; alt virtist verða í einni svipan. Reiðióp kvað við úr herbergjum Antoinette de Mauban, óp manns, sem hafði verið særður. Glugginn var rifinn opinn og Rúpert ungi stóð þar með sverð í hendi. Hann sneri baki að mér og beygði sig áfram til að höggva.

"Þarna, hafðu þetta Jóhann! Sæktu fram Michael!"

Jóhann var þá þarna kominn til að hjálpa hertoganum! Hvernig gat hann nú opnað dyrnar fyrir menn mína? Því að ég óttaðist að Rúpert hefði drepið hann.

"Hjálp. hjálp!" heyrði ég að hertoginn kallaði með veiklulegum og rámum rómi.

Ég heyrði fótatak uppi yfir mér, og að komið var niður stiga og sömuleiðis fótatak til hægri handar við mig úr sömu átt, sem fangaklefi konungs var. En áður en nokkuð gerðist mín megin við sýkið, sá ég fimm eða sex menn sækja að Rúpert unga, sem stóð í gluggahvilftinni á herbergi frúarinnar. Þrisvar eða fjórum sinnum gerði hann svo harða hríð á þá, og með svo mikilli vígfimi og berserksgangi, að þeir hrukku fyrir og mynduðu hring um hann. Hann hljóp upp á gluggakarminn, hlæjandi á hlaupunum og veifandi sverði sínu. Hann var drukkinn af blóði og hann hló aftur hátt og steypti sér á höfuðið í sýkið.

Hvað varð þá af honum? Ég sá það ekki, því að þegar hann steypti sér út, gægðist magra andlitið á De Gautet út um dyrnar rétt hjá mér. Ég lagði til hans af öllum heim kröftum, sem guð hafði gefið mér, og hann hné dauður niður í hliðopinu án þess að gefa nokkurt hljóð af sér. Ég kraup á kné við hliðina á honum. Hvar voru lyklarnir? Ég tautaði fyrir munni mér: "Lyklana, maður, lyklana!" rétt eins og hann hefði verið lifandi og heyrði hvað ég var að segja. Og þegar ég fann þá ekki – guð fyrirgefi mér – þá held ég að ég hafi snoppungað dauðan manninn.

Loksins fann ég lykla. Þeir voru ekki nema þrír. Ég greip þann stærsta þeirra og bar hann að skránni á hurðinni er vissi að fangaklefanum. Hann gekk að. Það var rétti lykillinn. Skráin laukst upp, ég opnaði hurðina, svo hægt sem ég gat. og stakk lyklinum í vasa minn. Ég varð þess var, að ég stóð rétt ofan við steintröppustiga. Þar brann dauft ljós í olíulampa. Ég tók lampann í hönd mér og hlustaði.

"Hver fjandinn getur þetta verið?" heyrði ég að einhver sagði.

Röddin heyrðist út um hurð er var rétt fram undan mér neðan við tröppurnar

Svo heyrði ég að annar sagði:

"Eigum við að drepa hann?"

Ég reyndi að heyra hverju svarað væri. og mér lá við að gráta af gleði, þegar ég heyrði Detchard segja með rólegri og kaldranalegri röddu:

"Bíddu ofurlítið. Það geta vandræði hlotist af, ef við grípum til hnífsins of snemma."

Svo varð ofurlítil þögn. Því næst heyrði ég slagbrand dreginn ofurhægt frá hurðu. Ég slökkti jafnskjótt á lampanum og setti hann aftur á sama stað.

"Það er dimmt – slokknað á lampanum. Hefirðu eldfæri?" heyrði ég annan manninn segja. Það var Bersonin.

Enginn vafi var á, að þeir höfðu eldfæri, en þeir áttu ekki að nota þau. Nú var komið að því að úr skæri með okkur, svo að ég þaut ofan stigann og varpaði mér á hurðina af öllum mætti. Bersonin hafði tekið slagbrandinn frá svo að hún lét undan. Belginn stóð innan við hana með sverðið í hendinni, en Detchard sat á legubekk við einn vegginn í herberginu. Þegar Bersonin sá mig hopaði hann aftur á bak, svo bilt varð honum við, en Detchard greip til sverðs síns. Ég réðist með æðislegu áhlaupi á Belgann. Hann fór á hæli fyrir mér og hopaði út að veggnum. Hann var enginn skylmingamaður, þó að hann berðist nú hraustlega, og eftir ofurlitla stund lá hann fallinn á gólfinu. Ég sneri mér við, – en þá var Detchard horfinn. Hann hafði farið eftir því, sem fyrir hann hafði verið lagt, og stofnaði sér ekki í hættu að berjast við mig, en hafði strax hlaupið til dyranna á klefa konungsins, opnað þá hurð og skellt henni í lás á eftir sér. Og nú var hann að framkvæma illvirki sitt þar inni fyrir.

Hann mundi líka að líkindum hafa drepið bæði konunginn og mig ef eigi hefði göfugmenni eitt orðið til þess að láta líf sitt fyrir konunginn. Þegar ég braust inn um hurðina, sá ég það, sem nú skal greina: Konungurinn stóð úti í einu horni á herberginu. Hann var svo vanmegna af veikindum sinum, að hann var til einskis fær. Fjötraðar hendurnar á honum voru á stöðugu iði, og hann hló hryllilegan hlátur á hálfgerðri brjálsemi. Detchard og læknirinn voru í handalögmáli á miðju gólfinu. Læknirinn hafði náð hryggspennutökum á Detchard og gat því tafið ofurlítið fyrir honum. En Detchard tókst skjótt að losa sig, og þegar ég kom inn í dyrnar rak hann sverð sitt í gegn um mannaumingjann.

Svo sneri hann sér að mér og æpti:

"Loksins –"

Nú stóðum við hvor gagnvart öðrum með sverð í höndum. Til allrar hamingju hafði hvorki hann né Bersonin haft skammbyssur sínar á sér. Ég fann þær síðar hlaðnar uppi yfir eldstónni í fremra herberginu. Eldstóin var rétt við dyrnar, svo að auðgripið var til byssanna, en vegna þess að komu mína bar svo brátt að höfðu þeir orðið of seinir til að ná þeim. Já, við stóðum nú þarna hvor á móti öðrum, og við fórum að berjast, þögulir, alvarlegir og með miklu harðfylgi. Samt man ég óglöggt eftir viðureigninni, nema því, að maðurinn var jafn vígfimur mér með sverði – og meira en það – því að hann kunni fleiri brögð í skylmingalistinni en ég: og leikar fóru svo að hann fékk þokað mér aftur á bak að gluggagrindunum, er voru fyrir innganginum á "stiga Jakobs." Ég sá að hann fór þá að brosa, og særði mig á vinstra handlegg.

Ég á ekkert hrós skilið af þessu einvígi. Mér er nær að halda, að mótstöðumaður minn mundi að lokum hafa yfirbugað mig og drepið mig, og því næst níðst á konunginum og tekið hann af lífi. ef ekkert óvænt hefði komið fyrir, því að hann var sá fimasti skylmingamaður, sem ég hefi nokkurn tíma fyrir hitt. En Þegar hann sótti að mér sem fastast hoppaði hálfbrjálaði, skinhoraði auminginn úti í horninu upp og hrópaði í vitfirringarkasti sínu:

"Það er Rúdólf frændi! Rúdólf frændi! Ég skal hjálpa þér, Rúdólf frændi!" og svo tók hann upp stól (hann gat að eins "látið renna vatn undir hann" og hélt honum þannig að gagnslausu fyrir framan sig) og þokaði sér að okkur. Vonarneisti kviknaði hjá mér.

"Komdu!" hrópaði ég. "Komdu hingað!" Rektu hann í fæturna honum."

Detchard hjó til mín af mikilli reiði. Hann var rétt kominn að því að yfirbuga mig.

"Komdu! Komdu maður!" hrópaði ég. "Taktu þátt í Þessari skemmtun!"

Og konungurinn kom glaðhlakkalegur og ýtti stólnum á undan sér.

Detchard hopaði bölvandi aftur á bak, og áður en ég sá við honum hafði hann veitt konunginum tilræði. Hann hjó til konungsins. Það var mikið högg. Hann rak upp eymdarlegt óp og hné niður þar sem hann var kominn. Svo sneri þorparinn óbilgjarni sér að mér. En nú hafði hann steypt sjálfum sér í glötun, því þegar hann sneri sér við steig hann í blóðpoll, sem runnið hafði úr dauða lækninum. Hann hrasaði og datt. Ég rauk að honum eins og örskot og greip um hálsinn á honum og áður en hann gat áttað sig var ég búinn að reka sverðið í gegn um hálsinn á honum, og hann veltist ofan á manninn, sem hann hafði vegið, og blótsyrðið, sem hann hafði byrjað á, dó honum á vörum.

Var konungurinn dauður? Það datt mér fyrst í hug. Ég þaut þangað, sem hann lá. Já, það leit helst út fyrir það, því að hann var særður miklu sári á enninu, og lá enn eins og hræringarlaus þústa á gólfinu. Ég kraup á kné við hliðina á honum, og lagði eyrað við til að hlusta eftir andardrætti hans. En áður en ég var búinn að því, heyrði ég mikinn skruðning úti. Ég þekti hljóðið. Það var verið að hleypa niður vindubrúnni. Að andartaki liðnu heyrðist hún skella á sinn stað í veggnum mín megin við sýkið. Nú átti ég á hættu að vera veiddur þarna í gildru og konungurinn með mér, ef hann lifði. Ég tók sverð mitt og fór fram í fremra herbergið. Hverjir voru að hleypa niður vindubrúnni? Voru það menn mínir? Ef svo væri þá var öllu óhætt. Ég kom auga skammbyssurnar og greip aðra þeirra; svo nam ég staðar og hlustaði í hliðaropinu við fremra herbergið. Já, ég staðnæmdist þar líka til að kasta mæðinni. Síðan reif ég stóra druslu úr skyrtunni minni og batt um handlegginn á mér, því að blóðið streymdi úr honum, og svo hlustaði ég aftur. Ég vildi hafa gefið aleigu mína og meira til að heyra rödd Sapts. Ég var dauðuppgefinn, æstur og lá við yfirliði. Og enn lék svaðilmennið Rúpert Hentzau lausum hala í kastalanum. En vegna þess að hægra var fyrir mig að verja mjóu dyrnar ofan við stigann heldur en breiða innganginn að herberginu, þá dróst ég upp stigann og staðnæmdist þar hlustandi.

Hvaða háværð var það, sem ég heyrði? Hún var fremur undarleg, eins og á stóð nú. Það var léttur hæðnishlátur – hlátur Rúpert Hentzau unga. Ég gat varla trúað því, að maður með öllu viti væri nú að hlæja. En ég þóttist samt skilja, að menn mínir væru ókomnir. Og klukkan sló hálf-þrjú! Guð minn góður! Dyrnar höfðu ekki verið opnaðar. Þeir höfðu farið yfir fyrir kastalann hinu megin, eins og ég hafði gert ráð fyrir, og ekki fundið mig þar. Þeir voru snúnir aftur til Tarlenheimslotsins, flytjandi fregnir um dauða minn og konungsins. Að því mundi líka koma, að við létum líf okkar, og það áður en þeir kæmust til slotsins. Var Rúpert að hlæja yfir sigrinum, sem hann átti að hrósa.

Ég hallaði mér sem snöggvast yfirkominn af þreytu upp að dyrunum. En ég hrökk skjótt frá þeim aftur, því að ég heyrði Rúpert hrópa hæðnislega:

"Brúin er niðri! Komið yfir hana. Þorðu að láta sjá þig, Michael svarti. Vertu ekki að trana fram þessum lyddum þínum. Komdu Michael! Við skulum berjast um hana!"

Ef þrír áttu að taka þátt í bardaganum, þá vildi ég verða einn þeirra. Ég sneri lyklinum í skránni og leit út.


XIX. KAPITULI.

Fyrst í stað gat ég ekkert séð, því að ég fékk ofbirtu í augun af glampa luktanna og blysanna hinu megin við brúna. En brátt gat ég séð gerr til, og undraðist ég þá eigi lítið það, sem ég fékk að sjá. Brúin var niðri. Út á enda hennar kastalahallarmegin stóð hópur þjóna hertogans; tveir eða þrír þeirra héldu á ljósunum, sem höfðu vilt mér sýn, þrír eða fjórir höfðu lensur á lofti. Þeir stóðu þar í þéttum hnappi, og höfðu lensurnar fyrir sér. Sannleikurinn var sá, að þeir virtust vera lafhræddir, og þeir einblíndu á einn mann, sem stóð á miðri brúnni, með sverð í hendinni. Rúpert Hentzau var í buxum og línskyrtu. Hún var öll rauðflekkótt af blóði. En af hreyfingum hans og látbragði réði ég það, að hann væri lítt eða ekkert sár. Þarna stóð hann og varði brúna fyrir þeim og storkaði þeim, og eggjaði þá og Michael svarta að koma til móts við sig. En vegna þess að þeir höfðu engin skotvopn þorðu þeir ekki til við þennan ofurhuga. Þeir hvísluðust á, og aftast í hópnum sá ég vin minn Jóhann. Hann hallaðist upp að dyrastafnum og þerraði blóð er streymdi úr sári á kinninni á honum.

Fyrir furðulega tilviljun hafði ég bæði tögl og hagldir. Bleyðimennin mundu ekki fremur fara að veita mér mótstöðu en að ráða á Rúpert. Ég þurfti ekki annað en að lyfta upp skammbyssunni, og senda hann með alla syndabyrðina þangað sem hann átti heima. Hann hafði ekki minnsta veður af því, að ég væri þarna. En ég hafðist ekkert slíkt að – hversvegna, veit ég ekki enn í dag. Ég hafði vegið einn mann þannig, að ég kom að honum óvörum þá um nóttina, og annan fremur fyrir heppni en frækleik. Vera má, að þetta hafi haldið mér aftur. Og jafnvel þó maðurinn væri þorpari, þá geðjaðist mér ekki að því að ganga í lið með skræfuhópnum, sem hann átti nú í höggi við. Vera má, að sú kunni líka að hafa verið orsökin. En þó hygg ég, að það hafi mátt sín meira en þetta hvorttveggja, að það kom í mig óstöðvandi löngun til að sjá úrslitin og ég beið eftir þeim eins og í leiðslu.

"Michael! Hundurinn þinn, Michael! Ef þú getur staðið á löppunum, þá komdu hingað!" hrópaði Rúpert; hann færði sig eitt skerf nær þeim, en þeir hörfuðu annað eins aftur á bak. "Þorðu að koma, Michael, hórusonurinn þinn."

Svarið upp á öll þessi móðgunaryrði kom frá konu, sem æpti hástöfum og sagði:

"Hann er dauður. Guð hjálpi mér! Hann er dauður!"

"Dauður!" hrópaði Rúpert. "Ég hefi þá lagt fastara til hans en ég bjóst við," sagði hann og hló sigrihrósandi. Því næst kallaði hann til þjónanna og sagði: "Niður með vopnin! Ég er nú yfirmaður ykkar. Niður með þau, segi ég!"

Ég býst við að þeir hefðu hlýtt honum, ef ekki hefðu ný atvik komið fyrir. Rétt í þessu fór að heyrast hávaði, bæði hróp og högg, hinumegin við kastalahöllina. Ég fékk ákafan hjartslátt. Það hlutu að vera menn mínir. Þeir höfðu þá til allrar hamingju óhlýðnast því að snúa brott, þó að þeir fyndu mig ekki. Hávaðinn heyrðist stöðugt, en enginn annar en ég virtist taka eftir honum. Þjónarnir voru svo hugfangnir í því, sem þeim bar næst fyrir augu, að þeir gættu einskis annars. Þeir þokuðu sér frá, og leyfðu konunni að komast fram hjá sér út á brúna. Það var Antoinette de Mauban. Hún var í snjóhvítum línhjúpi, og svarta hárið á henni liðaðist niður eftir honum öllum. Hún var náföl í framan eins og vofa, og augun í henni tindruðu æðislega í bjarma blysanna. Hún hélt á marghleypu í skjálfandi hendinni, og þegar hún kom fram á brúna skaut hún á Rúpert Hentzau. Kúlan hitti hann samt ekki, en lenti í dyraumbúning rétt fyrir ofan höfuðið á mér.

"Ef augu yðar frú mín góð væru ekki hættulegri en kúlurnar, sem þér skjótið, þá hefði hvorki ég lent í þessum skærum í nótt, né Michael svarti í helvíti!"

Hún skeytti því engu, sem hann sagði. Með miklum erfiðismunum herti hún sig upp, svo að hún gat staðið róleg og kyrr. Því næst fór hún að lyfta upp handleggnum aftur og miðaði nú mjög vandlega.

Hann hefði verið viti sínu fjær ef hann hefði átt undir því, að henni misheppnaðist nú. Annað hvort varð hann að þjóta á móti henni, til að hindra það að hún gæti skotið aftur eða hopa aftur eftir brúnni til mín. Ég miðaði nú á hann.

En hann gerði hvorugt. Áður en hún var búin að miða fyllilega, hneigði hann sig með mestu hæversku og hrópaði: "Ég get ekki fengið það af mér að bana manneskju, sem ég hefi kysst," og áður en hún fengi nokkuð að gert greip hann í hliðargrindina á brúnni, vatt sér út yfir hana og stökk ofan í sýkið.

Í sama mund heyrði ég hratt fótatak og rödd. sem ég þekti. Það var rödd Sapt. Hann kallaði upp yfir sig og sagði: "Drottinn minn! Það er hertoginn – dauður!" Þá vissi ég, að konungurinn þurfti mín ekki frekar við, svo að ég fleygði frá mér skammbyssunni og hljóp fram á brúna. Undrunarópið, "konungurinn!", kvað við, og því næst stökk ég yfir hliðargrindina á brúnni eins og Rúpert Hentzau með sverðið í hendinni, og hugðist að binda enda á deilu okkar þarna, í síkinu, þar sem ég sá hrokkna hárið á honum koma upp úr vatninu.

Hann synti hratt og var auðsjáanlega létt um sundið. Ég var þreyttur og særði handleggurinn hindraði mig. Ég gat því ekki haft við honum á sundinu. Ég þagði stundarkorn. En þegar við fórum fyrir hornið á gamla kastalanum kallaði ég til hans og sagði:

"Bíðið þér, Rúpert, bíðið þér." Ég sá, að hann leit um öxl, en hélt áfram að synda. Nú var hann kominn að bakkanum og var að leita að stað þar sem hann gæti klifrað upp eins og ég bjóst við. Ég vissi að þess var hvergi kostur, en kaðall minn hékk þar sem ég hafði skilið hann eftir. Verið gat bæði að Rúpert rækist á hann og ekki, og ef hann drægi kaðalinn upp á eftir sér, þá átti hann auðvelt með að geta komist langt undan áður en ég hefði mig upp úr síkinu. Ég herti mig því eins og kraftarnir leyfðu. Og nú fór ég loksins að nálgast hann, því að hann hægði á sér vegna þess að hann var að skima í kring eftir uppgöngustað.

Því miður rakst hann á kaðalinn! Hann rak upp gleðióp, greip um endann og fór að handfanga sig upp. Ég var nógu nærri til að heyra hann tauta: "Hvernig í fjandanum stendur á að þetta er hér?" Hann var kominn miðja vegu upp eftir kaðlinum, og þá sá hann mig, en ég gat ekki náð til hans.

"Halló! Hver er þarna?" hrópaði hann.

Ég held að hann hafi fyrst í stað haldið, að það væri konungurinn – ég þori að segja, að ég var nægilega fölur til þess að hægt væri að villast á mér og honum, en rétt á eftir hrópaði Rúpert:

"Nei, er það þá leikarinn! Hvernig stendur á ferðum yðar hér?"

Að svo mæltu stökk hann upp á bakkann.

Ég greip um kaðalinn, en hikaði svo við. Hann stóð á bakkanum með sverðið í hendinni, og gat klofið mig í herðar niður eða lagt mig í gegn áður en ég kæmist upp. Ég sleppti því kaðlinum aftur.

"Gerir ekkert til," sagði ég, "en úr því að ég er hér kominn, þá býst ég við að ég verði að láta hér fyrirberast um stund."

Hann leit niður til mín og brosti.

"Þetta kvenfólk er bölv –" tók hann til máls, en þá var farið að hringja stóru kastalaklukkunni í ákafa, og hróp heyrðust handan yfir sýkið.

Rúpert brosti aftur og veifaði til mín hendinni.

"Mér hefði þótt gaman að slá eina brýnu við yður, en nú er ekki tóm til þess", sagði hann og hvarf að svo mæltu.

Ég greip um kaðalinn samstundis án þess að hugsa minnstu vitund um hættuna. Ég komst upp á bakkann. Ég sá hann þá svo sem þrjátíu skref á undan mér, þar sem hann hljóp eins og villidýr til skógarins. Í þetta eina skipti hafði Rúpert Hentzau valið þann kostinn að fara gætilega. Ég tók til fótanna og þaut á eftir honum, og kallaði til hans að bíða. Hann sinnti því engu. Hann var órór og ólúinn og sídró því í sundur með okkur. En ég herti mig alt hvað ég gat, því að mig þyrsti í blóð hans, og að lítilli stundu liðinni huldu skuggar Zendaskógarins. för okkar beggja.

Klukkan var nú orðin þrjú og farið að birta af degi. Ég var að hlaupa eftir löngu og sléttu grasigrónu rjóðri, en hundrað fetum á undan mér sá ég Rúpert hlaupandi, og hárlokkar hans flöksuðust fyrir morgungolunni. Ég var bæði þreyttur og móður; hann leit um öxl og veifaði til mín hendinni. Hann var að storka mér, því að hann gat hlaupið mig af sér nær sem honum sýndist. Ég neyddist til að nema staðar, því að ég var kominn að niðurfalli. Í þeim svifum beygði Rúpert til hægri handar og hvarf mér sjónum.

Ég hélt, að nú mundi hann sloppinn fyrir fullt og allt, og fleygði mér því niður hryggur og reiður. En brátt spratt ég upp aftur, því að ég heyrði kvenmannsóp innan úr skóginum. Ég tók nú á þeim kröftum, sem ég átti til, og hljóp þangað sem Rúpert hafði beygt við og horfið og þá sá ég hann aftur. En því ver og miður gat ég ekki náð til hans. Hann var þá að lyfta stúlku af hestbaki, og það hafði vafalaust verið hún, sem ég heyrði æpa. Hún leit út fyrir að vera bóndadóttir, og hafði körfu á handleggnum. Að líkindum var hún á leiðinni til torgsins í Zenda. Hún reið fallegum, þreklegum hesti. En Rúpert tók hana æpandi af baki – því að hún hræddist hann. Samt fór hann vel að henni, kyssti hana brosandi og gaf henni fé. Því næst stökk hann á bak hestinum og sat kvenvega. Þannig beið hann mín. En ég beið hans líka.

Svo reið hann skyndilega áleiðis til mín, og stöðvaði hestinn allnærri mér, lyfti upp hendinni og spurði:

"Hvað voruð þér að gera í kastalanum?"

"Ég drap þar þrjá vini yðar," svaraði ég.

"Hvað þá? Komust þér í fangaklefann?"

"Já."

"En hvað er að frétta af konunginum?"

"Áður en ég gat drepið Detchard særði hann konunginn, en ég vona að hann lifi það af."

"Og kjáninn þér," sagði Rúpert í gáska.

"En ég hefi ekki enn sagt allar fréttirnar."

"Hvað er eftir?"

"Það, að ég þyrmdi lífi yðar. Ég var á bak við yður á brúnni með skammbyssuna í hendinni."

"Er þetta satt? Ég hefi þá verið milli tveggja elda."

"Stígið af baki og látum okkur berjast eins og hraustum drengjum sæmir."

"Að kvenmanninum ásjáandi!" sagði hann og benti á stúlkuna. "Skammist þér yðar, Yðar Hátign!"

Þá reiddist ég svo að ég vissi ekkert hvað ég gerði. Ég laut á móti honum. Hann virtist fyrst vera á báðum áttum, en svo sneri hann hesti sínum að mér og beið mín. Ég þaut áfram í heimskulegu æði. Ég greip um beislistaumana og hjó til hans. Hann bar af sér höggið og hjó til mín aftur. Ég vék mér undan og hjó aftur, og í þetta sinn særði ég hann á kinninni, og hljóp svo aftur á bak undan honum áður en hann náði til mín. Hann virtist svo hissa á því hve fast og fíflsdirfskulega ég sótti að honum, að hann beitti sér ekki. Annars mundi hann hafa drepið mig strax. Nú féll ég á kné af mæði og bjóst við að hann riði að mér á hverri stundu. Og það hefði hann sjálfsagt gert, og ég efast ekki um, að þá hefði annar okkar eða báðir látið lífið, ef eigi hefði kveðið við óp á bak við okkur. Ég leit við, og sá ríðandi mann koma eftir grasivaxna rjóðrinu. Hann reið hart og hélt á skammbyssu í hendinni. Þetta var tryggðavinur minn Fritz von Tarlenheim. Rúpert sá hann og vissi hvers hann átti von. Hann stöðvaði hestinn, settist tvo vega í söðulinn, hikaði við andartak, svo beygði hann sig áfram, sveiflaði hárinu frá enninu, brosti og sagði:

"Au revoir, Rúdolf Rassendyll!"

Svo laut hann mér hæverskulega með bros á vörum og blóðið streymandi niður kinnina; hann hneigði sig líka fyrir bóndadótturinni; hún hafði fært sig nær aftur af óttablandinni forvitni, og hann veifaði hendinni til Fritz. sem nú var kominn í skotmál og sendi honum kúlu. Hún flaug býsna nærri honum, því að hún hitti sverðið, sem hann hélt á. Hann kastaði því frá sér bölvandi og hristi hendina. Svo rak hann hælana í síðurnar á hestinum og hleypti brott.

Ég horfði á eftir honum, þegar hann reið niður rjóðrið. Það var líkast því að hann væri að ríða sér til skemmtunar syngjandi hátt, þrátt fyrir sárið, sem hann hafði á kinninni.

Enn einu sinni sneri hann sér við og veifaði hendinni, og svo þeysti hann inn í þéttskóginn og hvarf sjónum okkar. Þannig hvarf hann þessi maður, sem bæði var fífldjarfur og gætinn, göfugur og ógöfugur, tígulegur, kurteis, illmenni og ósigrandi. Ég þeytti sverði mínu af hendi langt út á völlinn í heiftaræði og hét á Fritz að ríða á eftir honum. En Fritz stöðvaði hest sinn, stökk af baki og hljóp til mín, svo kraup hann á kné og vafði mig að sér. Mér veitti heldur ekki af hjálpinni, því að sárið sem Detchard hafði sært mig, hafði rifnað upp aftur og blóðið lagaði úr því.

"Lánið mér þá hestinn!" hrópaði ég, spratt á fætur og sleit mig af honum. Vegna æsingsins, sem í mér var, tókst mér að komast þangað sem hesturinn var, en þar datt ég áfram. Fritz kraup aftur niður hjá mér.

"Fritz!" sagði ég.

"Já, vinur, kæri vinur minn," sagði hann blíðlega eins og kona hefði verið að tala.

"Er konungurinn lifandi?"

Hann þerraði varir mínar með vasaklút sínum og kyssti mig á ennið.

"Konungurinn er lifandi! En það er að þakka framgöngu mannsins, sem hér er mestur kappinn allra."

Litla bóndastúlkan stóð hjá okkur grátandi af ótta með uppglennt augun af undrun, því að hún hafði séð mig í Zenda, og var það ekki ég, þó að ég væri fölur, blóðugur og óhreinn, sem þó var konungurinn?"

En þegar ég heyrði að konungurinn væri lifandi, þá reyndi ég að hrópa, Húrra! En ég kom engu orði upp, og hné því máttvana aftur í fangið á Fritz, og lagði augun aftur, stynjandi. En til þess að Fritz skyldi ekki halda annað um mig, en það sem rétt var, opnaði ég augun aftur og reyndi að segja: Húrra! En mér var það ómögulegt. Mér fannst ég óumræðilega þreyttur og kuldahrollur kom í mig, svo að ég hjúfraði mig fast að Fritz, svo að mér hlýnaði, lét aftur augun og fór að sofa.


XX. KAPITULI.

Til þess að lesendunum verði fyllilega ljóst hvað gerðist í kastalanum í Zenda, þá verður að gera nokkru frekar grein fyrir því. Við það sem ég sá og gerði verð ég því að skýra frá því, sem þau sögðu mér síðar um það, Fritz og Antoinette de Mauban. Frásögn hennar leysti úr því hvernig það hafði atvikast að ópið, sem ég hafði æskt eftir að yrði nokkurs konar heróp og herkænskubragð, bar of snemma að, og leit því út fyrir að yrði okkur til tjóns, þó að það að lokum snerist okkur í hag. Ég býst við að þessi ógæfusama kona hafi eftir beiðni hans farið á eftir honum frá París til Rúritaníu. Ég hygg að hún hafi borið einlæga ást til hans, og auk þess þótt í meira lagi girnilegar framtíðarhorfurnar, er við henni blöstu, ef hún næði tökum á honum. Ástríður þessa manns voru miklar og ríkar, en viljinn var enn sterkari, og sjálfs sín hag mat hann öllu öðru fremur. Hann kynokaði sér ekki við að taka alt, án þess að láta nokkuð í móti koma. Hún sá það skjótt eftir að hún kom til hans, að hún átti skæðan keppninaut þar sem Flavía prinsessa var; hún var óbilgjörn að eðlisfari og hikaði ekki við að koma neinu því í framkvæmd, er gat tryggt henni vald yfir hertoganum. Eins og ég sagði áðan, þá hugsaði hann eingöngu um sjálfan sig en skeytti ekkert um óhamingju Antoinette. Og fyrr en hana varði var hún orðin flækt inn í fífldirfskuleg vélabrögð hans. Hún vildi ógjarna yfirgefa hann, því að bæði smán og ímyndaðar vonir tengdu hana við hann, en samt gat hún ekki fengið sig til að láta hann hafa sig að agni, né tæla mig í gildru, svo að ég biði bana af. Fyrir þá sök hafði hún skrifað mér og aðvarað mig. Ekki er mér kunnugt um það, hvort bréf það er hún reit Flavíu var skrifað af illvilja, afbrýði eða meðaumkvun; en þar gerði hún okkur samt greiða. Þegar hertoginn fór til Zenda fylgdist hún með honum, og þar fékk hún fyrst fyrir alvöru færi á að sjá grimmd hans, og gat ekki annað en kennt í brjósti um konunginn, jafnbágt og hann átti. Þaðan í frá var hún á okkar bandi; mér var það samt sem áður kunnugt, og sagði hún mér það líka sjálf, að hún hafði alt af unnað hertoganum, og vonast til að geta bjargað lífi hans, og jafnvel að útvega fulla fyrirgefningu honum til handa, fyrir þá hjálp sem hún hafði veitt konunginum. Hana langaði alls ekki til, að hertoginn næði völdunum, því að hún var móthverf glæpum hans, enn mótfallnari því sem af þeim hlaut að leiða, gifting hertogans og frænku hans, Flavíu prinsessu.

Í Zenda kom okkur óvænt hjálp, fyrir ofdirfsku Rúperts unga. Vera má að hann hafi orðið töfraður af fegurð Antoinette; vera má og, að hann hafi farið að leggja sig eftir henni af því að hún var annars manns, en hataðist við hann. Það var nægileg ástæða til að koma Rúpert á stað. Nokkra daga höfðu þeir átt í brösum, Rúpert og hertoginn, og þrætan, sem þeir lentu í um kveldið, þegar ég sá til þeirra, var ein af mörgum. Hún furðaði sig alls ekkert á uppástungu þeirri, er Rúpert hafði borið upp við mig, þó að hún hefði reyndar ekkert um hana vitað. Hún kvaðst hafa varað hertogann við Rúpert, einmitt um sama leyti sem hún hét á mig um að frelsa sig frá þeim báðum. En þessa nótt hafði Rúpert ásett sér að koma fram vilja sínum. Þegar hún var komin inn í herbergi sitt hafði Rúpert náð í lykil, sem gekk að því og ruðst þangað inn. Þegar hún fór að hrópa á hjálp hafði hertoginn komið, og þarna í myrkrinu hjá henni hljóðandi höfðu mennirnir barist. Og eftir að Rúpert hafði sært húsbónda sinn banasári hafði hann sloppið burtu út um gluggann, undan þjónunum, eins og ég hefi áður skýrt frá. Blóðbunan úr sárinu á hertoganum hafði litað alla skyrtuna á Rúpert, en hann var ólmur í að heyja einvígið við hertogann til enda, þegar hann kom út á brúna, því að hann vissi þá ekki að hann hafði sært hann banasári. Hvernig hann ætlaði að fara að við hina þrjá sexmenningana veit ég ekki. Ég býst við að hann hafi ekki verið búinn að gera sér neina grein fyrir því, vegna þess að hann hafði ekki ætlað sér fyrirfram að drepa hertogann. Þegar Antoinette var orðin ein eftir hjá hertoganum, fór hún að stumra yfir honum og binda um sár hans, og skildi ekki við hann fyrr en hann lést. Þá heyrði hún hin æðislegu eggjunarorð Rúperts og hljóp til að hefna elskhuga síns. Ekki sagðist hún hafa séð mig fyrr en ég hefði komið út á brúna og steypt mér í sýkið á eftir Rúpert.

Í sama mund bar vini mína að. Þeir höfðu náð til kastalahallarinnar í tæka tíð og biðu við dyrnar. En Jóhann hafði hlaupið með hinum þjónunum til að hjálpa hertoganum, og gengið betur fram en nokkur hinna til að koma í veg fyrir að grunur yrði lagður á sig fyrir ótrúmensku. Hann hafði særst í viðureigninni við Rúpert í gluggahvilftinni. Sapt beið þangað til klukkan nærri hálf-þrjú. Þá sendi hann Fritz eftir skipun minni yfir á sýkisbarminn hinu megin. Ég var þar ekki. Fritz flýtti sér til að segja Sapt frá því, og ef Sapt hefði hlýðnast fyrirskipunum mínum, þá hefði hann átt að snúa hið bráðasta aftur til Tarlenheim-slotsins. En Fritz mátti ekki heyra það nefnt að skilið væri við mig þarna í kastalanum, hvað svo sem fyrirskipunum mínum leið. Þeir voru stundarkorn að ýtast á um þetta. Loksins kom Fritz svo fortölum sinum við Sapt, að hann lét það nægja, að senda nokkra menn undir forustu Bernenstein er ríða skyldu sem hraðast til Tarlenheim-slotsins og vekja marskálkinn, en hinir sem eftir voru gera áhlaup á hurð kastalahallarinnar. Hurðin stóð fyrir þeim í fullar fimmtán mínútur, og í sömu svifum sem Antoinette de Mauban skaut á Rúpert Hentzau á brúnni, gátu þeir brotið upp hurðina og komust inn átta saman. Fyrsta hurðin, sem þeir komu að, var hurðin á herbergi Michaels. Michael lá þar dauður á þrepskildinum, lagður í gegn. Sapt hafði kallað upp eins og ég heyrði, þegar hann sá að hertoginn var dauður, og því næst höfðu þeir þotið til að ná í þjónana. Þeir höfðu lagt niður vopnin skjálfandi af ótta og Antoinette fleygði sér grátandi fyrir fætur Sapts. Hún margtók það fram, að ég hefði verið á brúarendanum og fleygt mér í sýkið. "Hvað getið þér sagt mér um fangann?" spurði Sapt. En hún hristi höfuðið og gat engu svarað. Þá fóru þeir Sapt og Fritz yfir brúna og förunautar þeirra á eftir. Þeir fóru samt varlega. Þegar að hliðopinu kom rak Fritz fótinn í líkama De Gautets. Þeir sáu strax að hann var dauður.

Því næst ráðguðust þeir og hlustuðu vandlega hvort þeir heyrðu engan hávaða neðan úr klefanum En þeir urðu einskis varir. Þá urðu þeir mjög hræddir, því að þeir héldu að verðirnir hefðu drepið konunginn, rennt líkinu af honum út um pípuna og flúið út um hana á eftir sjálfir. En af því að til mín hafði sést þarna ólu þeir samt ofurlitla von í brjósti enn þá (þetta sagði Sapt mér). Þeir sneru því aftur þangað sem líkið af Michael lá, Antoinette var að biðja fyrir hinum framliðna. Þeir þokuðu henni frá, og leituðu á því, og fundu þar lykil að dyrunum, sem ég hafði lokað og opnuðu þær. Það var dimmt í stiganum, en þeir vildu ekki kveikja ljós svo að þeir þyrftu síður að eiga það á hættu að skotið yrði á þá. En þá sagði Fritz: "Dyrnar niðri eru opnar! Sjáið þið ljósglampann þarna!" Því næst gengu þeir djarflega niður, og mættu engri mótstöðu. Og þegar þeir komu í fremra herbergið og sáu Belgann Bersonin liggja þar dauðan, urðu þeir glaðir mjög, og Sapt sagði: "Hann hefir verið hér, sem betur fer!" Og þegar þeir komu inn í klefa konungsins fundu þeir Detchard dauðan ofan á líkama læknisins, og konunginn liggjandi á bakinu rétt hjá stólnum, sem hann hafði verið með. Þá hrópaði Sapt: "Hann er dauður!" en vísaði öllum út úr klefanum nema Fritz, og kraup svo á kné við hliðina á konunginum. Sapt var svo vanur við sár, að hann sá skjótt að konungurinn var hvorki dauður né leit út fyrir að þurfa að deyja af þessum áverka, ef hann nyti góðrar aðhlynningar. Þeir breiddu því dúk yfir andlitið á honum og báru hann yfir í herbergi hertogans og lögðu hann þar niður. Antoinette stóð þá upp frá bænahaldi sínu og fór að baða höfuðið á konunginum og binda sár hans, þangað til náðist í lækni. En af því að Sapt duldist ekki að ég hafði verið þarna og með því að Antoinette hafði séð mig og skýrt nákvæmlega frá brottför minni, skipaði Sapt Fritz að fara undir eins til skógarins og leita mín. Hann þorði ekki að senda neinn annan. Fritz fann hest minn og bjóst við öllu því versta. Samt tókst honum að finna mig eins og áður er frá sagt, því að hann heyrði ópin í mér, þegar ég var að eggja Rúpert á að bíða mín. Og það ímynda ég mér, að aldrei hafi neinum manni þótt vænna um að finna bróður sinn lifandi heldur en Fritz að finna mig; og vegna þess hve vænt honum þótti um það sinnti hann engu um jafnmikilvægt atriði og það var, að Rúpert Hentzau bæri undan. En ef Fritz hefði unnið á honum, mundi ég hafa séð eftir því.

En með því að svona heppilega hafði tekist til um að bjarga konunginum, þá hvíldi nú sú skylda á Sapt ofursta að sjá um það að ekki yrði uppskátt að hann hefði þurft nokkurrar bjargar. Antoinette de Mauban og Jóhann ráðsmaður (sem reyndar var svo sár að engin hætta var á að hann talaði af sér í bráðina) voru bæði látin vinna eið að því, að þegja um þetta. Og nú var sagt að Fritz hefði lagt á stað að leita að ónefndum vini konungsins, en vitanlega ekki konunginum sjálfum. Það hefði verið þessi maður, sem í Zenda hefði verið, og þjónar Michaels hertoga hefðu séð í svip á vindubrúnni. Mannaskiptunum var svo laglega komið fyrir, að engan grunaði. Það var sem sé látið heita svo, að konungurinn hefði verið særður því nær til ólífis af vörðum þeim er gættu vinar hans í kastalanum, en hefði þó unnið bug á þeim að lokum. En nú lægi hann særður mjög, en þó lífvænlegur í herbergjum Michaels svarta í kastalanum. Þangað hefði hann verið borinn beint frá fangaklefanum, og þær skipanir verið út gefnar, að ef vinur hans fyndist þá ætti að fylgja honum rakleiðis til konungsins. En samtímis voru sendiboðar sendir til Tarlenheimslotsins, sem segja skyldu Strakencz marskálk að fullvissa prinsessuna um það, að konunginum væri engin hætta búin, en að marskálkurinn ætti að koma á fund konungsins sem allra fyrst. Svo var ráð fyrir gert, að prinsessan skyldi bíða í Tarlenheim slotinu þangað til frændi hennar kæmi eða þangað til hann sendi henni önnur boð. Þess var látið við getið, að eigi mundi á löngu líða að konungurinn kæmi til höfuðborgarinnar, sigrihrósandi eftir hreystiverk þau, er hann hefi unnið og fyrir guðs mildi komist heill af þrátt fyrir fjörráð þau, sem varmennið bróðir hans hefði bruggað.

Þetta slóttuga bragð hins gamla hyggna vinar míns heppnaðist að öllu leyti, nema þar, sem það kom í bága við það óbeygjanlega sérlyndi, sem margt kænskubragð karlmanna hefir orðið að lúta í lægra haldi fyrir. Ég á við duttlunga konu. Því að hvað svo sem skipunum þeim leið, er frændi hennar og konungur sendi henni (eða Sapt fyrir hans hönd) og hvað mikið sem Strakencz marskálkur lagði að henni, þá datt Flavíu prinsessu ekki í hug að sitja kyrr á Tarlenheimslotinu þegar elskhugi hennar lá veikur í Zenda; og þegar marskálkurinn reið á stað með förunautum sínum frá Tarlenheim til Zenda, lagði vagn prinsessunnar strax á stað á eftir honum, og þannig var haldið áfram í gegnum bæinn. Þar var það þegar orðið hljóðbært að konungurinn hefði kveldið fyrir haldið til fundar við bróður sinn, og með mestu friðsemd farið þess á leit við hann, að hertoginn léti lausan vin konungsins, er í haldi hefði verið hafður í kastalanum. En þá hefði verið ráðist á konunginn með sviksemd, og lent í blóðugum bardaga. Það hafði frést að hertoginn hefði fallið og nokkrir riddaranna hans, og konungurinn særst, en þó náð kastalanum á sitt vald. Eins og við var að búast höfðu þetta þótt mikil tíðindi. Því strax var símað til Streslau og fregnir þessar bárust þangað rétt eftir að skipun hafði verið gefin til að kalla herlið til að bæla niður óróann í þeim hluta borgarinnar, er óánægjan var megnust í.

Þannig var ástatt þegar Flavía prinsessa kom til Zenda. Og þegar hún reið upp hæðina, og marskálkurinn við hliðina á vagni hennar og var stöðugt að telja hana á að hlýðnast skipun konungsins og snúa aftur, þá kom Fritz Tarlenheim með fangann í Zenda að skógarjaðrinum. Ég var nú farinn að ná mér aftur eftir öngvitið og geta gengið með Fritz, en hann varð að styðja mig. Og þegar ég horfði út á milli trjánna á skógarröndinni gat ég séð prinsessuna. En af því að ég sá það strax á förunaut mínum, að við máttum ekki hittast, fleygði ég mér niður á bak við runna nokkurn. En við höfðum gleymt manneskju, sem kom á eftir okkur, og ekki vildi missa af því að sjá prinsessuna brosa hlýlega til sín og ef til vill að eignast eina eða tvær krónur fyrir greiða, sem hún gat gert drottningarefninu. Það var bóndastúlkan. Þegar við vorum lagstir niður undir runnann hljóp hún fram hjá okkur í veg fyrir prinsessuna, laut henni og mælti:

"Frú mín góð! Konungurinn er hérna á bak við runnann. Leyfið mér að fylgja yður til hans."

"Hvaða bull er í þér barn!" tautaði Strakencz gamli: "konungurinn liggur særður í Zenda."

"Já, herra, ég veit að hann er særður, en hann er þarna – og Fritz greifi líka – en ekki í kastalanum," sagði stúlkan einbeitt.

"Getur hann skipt sér, eða eru konungarnir tveir?" spurði Flavía undrandi. "Hvernig ætti hann að geta verið hér?"

"Hann elti annan riddara, frú mín góð, og barðist þangað til Fritz greifa bar að, og hinn riddarinn tók hest föður míns frá mér og reið á brott, en konungurinn er hér hjá Fritz greifa. Eða er nokkur maður í Rúritaníu, sem líkur er konunginum?"

"Nei, barnið mitt," sagði Flavía blíðlega (mér var sagt þetta seinna) og svo brosti hún og gaf stúlkunni peninga. "Ég ætla að fara og sjá þessa herra," sagði hún og reis upp í vagni sínum.

En í þessum svifum kom Sapt ríðandi frá kastalanum. Þegar hann sá prinsessuna reyndi hann að láta á engu bera, og kallaði til hennar og sagði að konungur nyti góðrar aðhlynningar í kastalanum og væri í engri hættu.

"Í kastalanum?" spurði hún.

"Hvar annarsstaðar ætti hann að vera, frú mín?" spurði hann og laut henni.

"En stúlkan þarna segir að hann sé hérna skammt frá – með Fritz greifa."

Sapt leit til stúlkunnar og brosti þannig, að hann virtist ekki leggja mikinn trúnað á það sem hún sagði.

"Allir hæverskir riddarar eru kóngar í augum bændadætra," sagði hann.

"En samt er maðurinn, sem ég hefi sagt yður frá, svo líkur konunginum, að þeir verða ekki þektir að, frú mín góð," sagði stúlkan, hálf skelkuð, og sat þó fast við sinn keip.

Sapt sneri sér undan. Gamli marskálkurinn horfði á Sapt spyrjandi, þó hann þegði. Flavía sömuleiðis. Grunurinn er ekki lengi að grafa um sig.

"Ég ætla að fara sjálfur og sjá mann þennan," sagði Sapt og tók rögg á sig.

"Ónei, ég ætla sjálf að fara," sagði prinsessan.

"Komið þá ein," sagði Sapt í hálfum hljóðum.

Hún sá það á honum, að honum var það mikið áhugamál að hún færi ein, svo að hún bað marskálkinn að bíða þarna eftir sér, og svo fóru þau Sapt og hún gangandi þangað sem ég lá, en Sapt skipaði bændastúlkunni að bíða kyrr álengdar. Og þegar ég sá þau koma, settist ég eymdarlega á hækjur og huldi andlitið í höndum mér. Ég þorði ekki að líta framan í hana. Fritz kraup á kné við hliðina á mér og lagði höndina á öxlina á mér.

"Talið lágt, hvað svo sem þér kunnið að segja," heyrði ég að Sapt hvíslaði að prinsessunni þegar þau komu til okkar og rétt á eftir heyrði ég að prinsessan kallaði upp yfir sig. Það var fagnaðaróp óttablandið.

"Það er hann! Ertu særður?"

Og svo hneig hún niður við hliðina á mér og fór að toga hendurnar með hægð frá andliti mínu, en ég einblíndi niður fyrir mig.

"Það er konungurinn," sagði hún. "Heyrið þér, Sapt ofursti, viljið þér gera svo vel og segja mér hvað þetta dár á að þýða?"

Enginn okkar svaraði. Við þögðum allir þrír. Hún skeytti því engu, þó að þeir væru við Sapt og Fritz, en lagði hendurnar um hálsinn á mér og kyssti mig. Þá sagði Sapt lágt, og með hásri röddu:

"Þessi maður er ekki konungurinn. Kyssið hann ekki. Hann er ekki konungurinn."

Hún hrökk frá mér sem snöggvast, og því næst spurði hún reiðilega, haldandi annarri hendi um hálsinn á mér:

"Haldið þið að ég þekki ekki elskhuga minn? Rúdolf, elskan mín!"

"Þessi maður er ekki konungurinn," sagði Sapt aftur, og Fritz, sem viðkvæmur var að eðlisfari, gat nú ekki að því gert að grátstuna leið upp frá brjósti hans.

Á því sá hún, að hér var ekki um neinn gamanleik að ræða.

"Þessi maður er konungurinn!" hrópaði hún. "Þetta er andlit konungsins – hringurinn konungsins – hringurinn minn! Þetta er elskhugi minn!"

"Já, það er elskhugi yðar, frú," sagði Sapt gamli, "en það er ekki konungurinn. Konungurinn er þarna í kastalanum. Þessi maður –"

"Líttu framan í mig, Rúdolf! Líttu framan mig!" hrópaði hún og tók höndunum utan um andlitið á mér. "Því líðurðu þeim að pynta mig svona? Segðu mér hvernig í þessu liggur!"

Þá tók ég loks til máls og leit framan í hana:

"Guð fyrirgefi mér," sagði ég. "Ég er ekki konungurinn."

Hún þrýsti höndunum ofboðslega að kinnunum á mér, og starði á mig fast og lengi. En ég þagði, og sá undrun, efa og ótta skiptast á í hugskoti hennar. En svo fann ég að hún smálinaði takið, sem hún hafði utan um vanga mína, og nú leit hún til Sapts, Fritz og svo aftur til mín. En svo hallaði hún sér alt í einu áfram og hneig í faðm mér, en ég þrýsti henni að mér stynjandi af þungum harmi og kyssti hana blíðlega. Sapt tók um handlegginn á mér. Ég leit upp og framan í hann. Svo hallaði ég henni blíðlega ofan á grassvörðinn, stóð upp og starði á hana, formælandi örlögum mínum fyrir það, að ég skyldi hafa sloppið undan sverði Rúperts, til að verða að þola þessar kvalir, sem hverju helstríði voru sárari.


XXI. KAPITULI.

Það var komið kveld, og ég var í klefanum, sem konunginum hafði verið haldið í kastalanum í Zenda. Stóra pípan, sem Rúpert Hentzau hafði kallað "stigann hans Jakobs", var horfin og ljósin í herbergjunum hinu megin við sýkið sáust skína í myrkrinu. Alt var nú hljótt. Ófriðargnýrinn var horfinn. Ég hafði falið mig í skóginum, það sem eftir var dagsins, frá því að Fritz tók mig brott með sér, og skildi Sapt eftir með prinsessunni. Í rökkrinu var ég fluttur í dularbúningi til kastalans og komið fyrir þar sem ég var nú. Þó að þrír menn hefðu látið líf sitt þarna, og ég orðið banamaður tveggja, var ég ekki myrkfælinn. Ég fleygði mér á rúmflet við gluggann, og horfði út á dökkan vatnsflötinn. Jóhann ráðsmaður var nýbúinn að færa mér kveldverðinn. Jóhann var enn fölur eftir blóðmissinn, en ekki hættulega sár. Hann sagði mér, að konunginum liði vel, og kvaðst hafa séð prinsessuna. Þau hefðu setið lengi á tali, hún, Sapt og Fritz. Strakencz marskálkur var farinn til Streslau. Michael svarti lá í kistu sinni, og Antoinette de Mauban vakti yfir henni. Voru prestarnir í kapellunni ekki að syngja messu yfir honum?

Úti fyrir heyrðist einkennilegur hávaði. Sumir sögðu, að fanginn í Zenda væri dauður, aðrir, að hann hefði horfið brott lifandi, enn aðrir, að hann hefði verið vinur konungsins, og veitt honum mikilvæga þjónustu í Englandi. Þeir voru og til er héldu því fram, að hann hefði komist að samsæri hertogans og þess vegna hefði hertoginn tekið hann höndum og sett í varðhald. Einn eða tveir slungnir náungar hristu höfuðin og sögðust ekkert vilja segja, en kváðu sig gruna, að Sapt ofursti mundi geta frætt menn betur um þetta, en þegar hefði verið gert, ef hann vildi segja það, sem hann vissi.

Um þetta var Jóhann að þvaðra við mig, þangað til ég sendi hann frá mér og lá svo einn eftir hugsandi Ég var samt ekki að hugsa um ókomna tímann, heldur var ég að renna huga yfir viðburði síðustu vikna – eins og mönnum verður svo oft, þegar mikilvægir atburðir hafa gerst – og var að furða mig á því hve úrslit þeirra höfðu orðið einkennileg. En uppi yfir mér í myrkrinu og næturkyrrðinni heyrði ég fánana slást um stengurnar, því að fáni Michaels hékk í hálfri stöng og yfir honum konungsflagg Rúritaníu. Það blakti eina nótt til yfir höfði mér. Vaninn verður skjótt ríkur hjá manni, og það var að eins með hörkubrögðum að mér tókst að sannfæra sjálfan mig um, að það blakti ekki framar yfir mér.

Alt í einu kom Fritz von Tarlenheim inn í herbergið. Ég stóð þá við gluggann. Hann var opinn ég var að brjóta steinlímsmolana, er sátu eftir í veggnum frá því stigi Jakobs var þarna, af því ég hafði ekkert annað að gera. Fritz sagði mér í fáum orðum, að konungurinn vildi finna mig, og svo fórum við báðir á stað yfir vindubrúna, og fórum inn í herbergið, sem Michael svarti hafði haldið til í áður fyrri.

Konungurinn lá þar í rúmi. Læknir okkar frá Tarlenheim hafði verið sóttur til hans, og stakk því að mér, að ég yrði að standa stutt við. Konungurinn rétti mér hönd sína. Fritz og læknirinn fóru báðir út að glugganum.

Ég dró hring konungsins af fingrinum á mér og á fingur honum.

"Ég hefi kostað kapps um að vanhelga hann ekki, herra konungur," sagði ég.

"Ég er ekki fær um að tala margt við þig," sagði hann með veikri röddu. "Ég hefi átt í miklu stríði við Sapt og við marskálkinn – því að við höfum sagt marskálkinum alveg eins og var. Mig langar til að hafa þig með mér til Streslau og halda þér þar hjá mér, og gera það heyrin kunnugt hvað þú hefir gert; þar mundir þú hafa orðið besti og hjartfólgnasti vinur minn, Rúdolf frændi. En þeir halda því fram, að ég megi það ekki, og leyndarmáls þessa verði að gæta – ef mögulegt sé."

"Þeir hafa rétt fyrir sér, herra konungur. Leyfið mér að fara. Verki mínu hér er lokið."

"Já, því er lokið, og það svo af hendi leyst, að enginn maður mundi geta leikið það eftir, sem þú hefir afrekað. Þegar landslýður sér mig næst, þá verð ég orðinn skeggjaður; svo skal vera. Ég hefi orðið torkennilegur eftir sjúkdóminn. Menn munu því ekki undra þó að ég verði nokkuð breyttur. En ég skal reyna að láta þegna mína eigi finna að konungur þeirra hafi breyst að neinu leyti öðru. Þú hefir sýnt mér það hvernig konungur á að fara að ráði sínu."

"Heyrið, herra konungur!" sagði ég. "Mér er ekki mögulegt að hlýða á, að þér hrósið mér. Það er að eins fyrir einstaka guðs mildi, að ég varð ekki verri svikari en bróðir þinn."

Hann sneri sér að mér og leit framan í mig með spyrjandi augnaráði; en sjúka menn skortir kjark til að glíma við óljós málefni, og hann hafði ekkert þrek í sér til að spyrja mig. Honum varð litið á hring Flavíu. Ég hafði hann á hendinni. Ég hélt, að hann mundi spyrja mig eitthvað um hann, en hann þuklaði að eins lítið eitt á honum og hné svo aftur á bak ofan á koddann.

"Ég veit ekki hve nær ég fæ að sjá þig aftur," sagði hann veiklulega og eins og í sinnuleysi.

"Þú sérð mig þegar ég get eitthvað gert fyrir þig, herra!" svaraði ég.

Hann lagði aftur augun. Fritz og læknirinn komu. Ég kyssti á hönd konungsins og svo fylgdi Fritz mér út. Ég hefi aldrei séð konunginn síðan.

Þegar við komum út þá sneri Fritz ekki aftur yfir á vindubrúna, heldur til vinstri handar, og fylgdi mér þegjandi upp stiga gegn um skrautlegan gang inn í höllina.

"Hvert erum við að fara?" spurði ég.

Fritz leit undan og sagði:

"Hún hefir sent eftir yður. þegar það er búið, þá skuluð þér koma aftur yfir vindubrúna. Ég ætla að bíða yðar þar."

"Hvað vill hún?" sagði ég og bar ótt á.

Hann hristi höfuðið.

"Veit hún alt?"

"Já, alt eins og það er."

Hann opnaði dyr, ýtti mér þar inn með hægð og lokaði á eftir mér.

Ég kom þar inn í gestasal, og voru húsgögn þar hin skrautlegustu. Fyrst hélt ég, að enginn væri þar fyrir, því að birtan inni var dauf og ljós tvö, sem loguðu á arinhyllunni, depruð með hjálmskýlum. En brátt varð ég þess var, að kona stóð við gluggann. Ég þekti, að það var prinsessan, og ég gekk til hennar, féll á kné og tók um hönd hennar, og kyssti á hana. Hún hreyfði sig ekki og sagði heldur ekkert. Ég stóð á fætur, reyndi að horfa framan í hana í daufu birtunni og sá þá að hún var mjög föl, og stirna í fallega hárið hennar og áður en ég vissi af sagði ég blíðlega:

"Flavía!"

Ofurlítill titringur fór um hana og hún leit við. Því næst vatt hún sér hvatlega að mér, greip utan um mig og sagði:

"Stattu ekki svona, stattu ekki svona. Nei, þú mátt það ekki. Þú ert særður! Sestu niður, – hérna, hérna!"

Hún fékk mig til að setjast á legubekkinn og tók svo um ennið á mér.

"En hvað þér er heitt á höfðinu!" sagði hún og kraup á kné við fætur mér. Svo hallaði hún höfðinu að mér og ég heyrði hana segja í hálfum hljóðum: "Elskan mín, en hvað þér er heitt á höfðinu."

Því er einhvern veginn þannig varið, að ástin blæs jafnvel gáfutregum manni því í brjóst, hvílíkan hug unnustan ber til hans. Ég hafði komið til að biðja fyrirgefningar á gerræði mínu, en nú varð mér þetta eitt að orði:

"Ég elska þig af öllu hjarta og allri sálu minni."

Því hvað var það, sem olli henni hryggðar og var henni til niðrunar? Ekki ást hennar á mér, heldur kvíði fyrir því, að ég hefði verið að leika með tilfinningar hennar, þegar ég lék konunginn og hlegið á eftir að kossum hennar og ástaratlotum.

"Ég elska þig eins og lífið í brjóstinu á mér – ég elska þig af öllu hjarta," sagði ég aftur, en hún hjúfraði sig að mér. "Alla tíð frá því að ég sá þig fyrsta sinni í dómkirkjunni! Ég hefi að eins elskað eina konu á æfi minni og – og get aldrei unnað neinni annarri. En guð fyrirgefi mér það ranglæti, sem ég hefi sýnt þér."

"Þeir komu þér til að gera það," sagði hún og bar ótt á, svo lyfti hún upp höfðinu, horfði í augu mér og bætti þessu við: "Það hefði ef til vill komið fyrir eitt, þó að ég hefði vitað alt eins og það var. Það var alt af þér sem ég unni, en ekki konungurinn! Að svo mæltu teygði hún sig upp og kyssti mig.

"Ég ætlaði að segja þér eins og var," sagði ég. "Ég ætlaði að láta þig vita það á dansleiknum í Streslau, þegar Sapt truflaði mig. Þar á eftir gat ég það ekki – ég gat ekki átt það á hættu að missa þig fyrr – fyrr en ég mætti til! Elskan mín! Þinna vegna var rétt að því komið að ég léti konunginn deyja í fangaklefanum."

"Ég veit það, ég veit það. Hvað eigum við nú að gera, Rúdolf?"

Ég tók utan um hana, þrýsti henni að mér og sagði:

"Ég fer burtu í kveld."

"Ó, nei, nei!" hrópaði hún. "Ekki í kveld!"

"Ég verð að fara í kveld, áður en fleira fólk hefir séð mig. Og því skyldir þú vilja fá mig til að bíða, elskan mín, nema –"

"Ef ég gæti farið með þér!" hvíslaði hún mjög lágt.

"Drottinn minn!" sagði ég hörkulega, "minnstu ekki á það!" og um leið ýtti ég henni ofurlítið frá mér.

"Því þá ekki? Ég elska þig. Þú ert engu verri maður en konungurinn!"

En nú féll ég alveg frá mínum góða ásetningi, því að ég greip hana í fang mér og bað hana innilega að koma með mér, og ætla ég ekki að skýra frá þeim orðum, sem ég lét mér um munn fara, og ég kveið því engu þó að allir Rúritaníubúar mundu reyna að ná henni frá mér. Hún hlustaði á mig stundarkorn með starandi augum og alveg forviða. En meðan hún horfði þannig á mig fór ég að blygðast mín, og mér tók að vefjast tunga um tönn og loks þagnaði ég alveg.

Hún færði sig frá og nam staðar við vegginn, en ég sat á legubekksröndinni, skjálfandi eins hrísla, því að ég sá nú hvað ég hafði gert, og sá eftir því. Þó að ég hefði ekki skap til að biðja fyrirgefningar á á því. Þannig þögðum við langan tíma.

"Ég er óður," sagði ég óánægjulega.

"Mér þykir vænt um æði þitt, elskan, mín," svaraði hún.

Hún sneri sér frá mér, en ég sá samt að tárin streymdu niður kinnarnar á henni. Ég greip um legubekksbríkina og hélt mér þar.

"Er ástin það eina, sem um er að hugsa?" spurði hún, með lágri og blíðri rödd er virtist jafnvel friða hjarta mitt eins sært og það var. "Ef ástin væri það eina, sem um væri að hugsa, þá gæti ég fylgt þér til heimsenda – tötrum klædd, ef á þyrfti að halda, því að þú hefir algert vald yfir tilfinningum mínum. En er ástin það eina, sem um þarf að hugsa?"

Ég svaraði engu. Nú blygðaðist ég mín fyrir það, að ég skyldi ekkert hjálpa henni.

Hún færði sig nær mér og lagði höndina á öxlina á mér. Ég rétti upp höndina og greip um hönd hennar.

"Ég veit að menn skrifa og tala rétt eins og svo væri. Ef til vill eru örlögin sumum svo hagstæð, að þetta má til sanns vegar færa, og betur að ég væri ein af þeim. En ef ástin væri það eina, sem um væri að hugsa, þá hefðir þú látið konunginn deyja í fangaklefanum."

Ég kyssti á hönd hennar.

"Konan verður líka að hugsa um heiður sinn, Rúdolf. Heiður minn er undir því kominn, að ég reynist trú landi mínu og konungsættinni. Ég veit ekki hversvegna forsjóninni hefir þóknast að láta mig fá ást á þér; en ég veit að ég verð að vera kyrr."

Enn sagði ég ekkert. Hún þagnaði ofurlitla stund. Svo hélt hún áfram og sagði:

"Hring þinn mun ég alt af bera á fingri, hjarta þitt í hjarta mínu, og snerting vara þinna á mínum. En þú verður að fara, og ég að vera kyrr. Ef til vill verð ég að gera það, sem mér finnst líkast lífláti að hugsa til."

Ég vissi við hvað hún átti, og hrollur fór um mig. En þar eð hún sýndi svona mikla sjálfsafneitun, andmælti ég henni ekki. Svo veill var ég þó ekki. Ég stóð upp og tók um hönd hennar.

"Gerðu það sem þér sýnist og það, sem þú verður að gera," sagði ég. "Forsjónin hlýtur að hafa eitthvert ætlunarverk kosið öðrum eins manneskjum og þú ert. Minn hlutur er léttbærari, því hring þinn mun ég alt af bera á fingri, hjarta þitt í hjarta mínu, og aldrei skulu neinar varir snerta mínar aðrar en þínar. Svo bið ég drottinn að halda hendi sinni yfir þér, elskan mín!"

Í eyrum okkar kváðu við sönghljómar. Prestarnir í kapellunni voru að syngja messur fyrir sálum þeirra, sem látist höfðu. Þessi söngur var eins og grafarsöngur yfir heygðri gleði okkar, og fyrirgefningarbón ástar okkar, er eigi gat dáið. Tónarnir, blíðir, ljúfir og meðaumkvunarríkir hækkuðu og lækkuðu í eyrum okkar þarna, þar sem við stóðum og héldumst í hendur.

"Drottningin mín! Hugljúfa ástmey mín!" sagði ég.

"Unnusti minn! dyggi riddarinn minn!" sagði hún. "Við sjáumst ef til vill aldrei framar. Kysstu mig, elskan mín, og farðu svo!"

Ég kyssti hana eins og hún bað mig: en þá grúfði hún sig að mér og eina orðið sem hún hvíslaði var nafn mitt hvað eftir annað – upp aftur – og aftur — og aftur; og þannig skildi ég við hana.

Ég gekk hvatlega yfir brúna. Sapt og Fritz biðu mín þar. Að skipan þeirra hafði ég fataskipti og byrgði fyrir andlit mitt, eins og ég hafði gert einu sinni áður. Ég steig ásamt þeim á hestbak við kastalahliðin, og við þrír riðum svo á stað í náttmyrkrinu og héldum áfram ferðinni alt til birtingar og vorum þá komnir að litlu stöðinni rétt við landamæri Rúritaníu. Lestin kom ekki stundvíslega, og ég gekk með þeim út á víðavang meðfram lækjarsprænu meðan við biðum eftir lestinni; þeir lofuðu að senda mér allar nýstárlegustu fréttir, sem fyrir kæmu. Þeir voru einstaklega góðir við mig – gamli Sapt var jafnvel mjög ljúfmannlegur, en Fritz barst lítt af. Ég hlustaði eins og í draumi á það, sem þeir voru að segja. Rúdolf! Rúdolf! Rúdolf! Rúdolf! hljómaði mér enn þá í eyrum. Í þeim fólst ofurþungi harms og ástar. Loks urðu þeir þess varir, að ég var annarshugar, og við gengum fram og aftur þegjandi uns Fritz kom ofurlítið við handlegginn á mér, og ég sá þá bláa reykinn úr lestinni mílu vegar eða rúmlega það í burtu. Þá rétti ég þeim sína höndina hvorum.

"Enginn okkar er nema hálfur maður í dag," sagði ég brosandi. "En við höfum verið menn. Eruð þið ekki á því, gömlu vinir mínir, Sapt og Fritz? Við höfum marga hildi háð saman."

"Við höfum lagt svikara að velli, og gert konunginn fastan í sessi," sagði Sapt.

Þá var það, að Fritz von Tarlenheim tók ofan, áður en ég renndi grun í hvað hann ætlaði sér, og laut mér og kyssti á hönd mína eins og hann hafði verið vanur; og um leið og ég hnykkti henni að mér, mælti hann og reyndi að brosa:

"Forsjónin gerir ekki ætíð réttu mennina að konungum."

Gamli Sapt beit á jaxlinn þegar hann tók í hendina á mér.

"Fjandinn á sinn skerf í flestu," sagði hann.

Fólkið á stöðinni horfði býsna forvitnislega á háa manninn, sem byrgt hafði fyrir andlitið, en við skeyttum ekkert um hornaugun sem það sendi okkur. Ég stóð hjá vinum mínum og beið þangað til lestin kom á móts við okkur. Þá kvöddumst við með handabandi þegjandi. Og í þetta sinn tóku þeir báðir ofan – þetta kann að virðast undarlegt af gamla Sapt – og stóðu berhöfðaðir þangað til lestin var horfin með mig úr augsýn þeirra. Fyrir því héldu menn, að mikilmenni eitthvert væri þarna að ferðast með leynd, sér til skemmtunar, þó að sannleikurinn væri sá, að þetta væri að eins ég, Rúdolf Rassendyll, enskur maður, yngri bróðir í góðri ætt, en maður ófjáður og embættislaus, og ekki mjög tíginættaður heldur. Mönnum mundi hafa brugðið í brún ef þeir hefðu vitað það. Og ef þeir hefðu nú samt vitað alt um hagi mína, hefði þeim brugðið enn meir. Því hvað svo sem átti nú fyrir mér að liggja, þá hafði ég þó verið konungur um þriggja mánaða tíma, og sé það ekki til að miklast af, þá má þó telja það töluverða reynslu. Vafalaust mundi ég hafa hugsað enn meir um það, ef ekki hefði borist til mín frá turnunum í Zenda, bergmálað fyrir eyrum mér og níst hjarta mitt ástarópið: "Rúdolf! Rúdolf! Rúdolf!"

Þey! Ég heyri það núna.


XXII. KAPITULI.

Smáatriði þau, sem fyrir komu á ferð minni heim eru ekkert söguleg. Ég fór beint til Tyrol og dvaldi í ró og næði hálfan mánuð. Ég lá þar lengst af í rúminu með köldusótt; þar að auki þjáðist ég af taugaveiklun, og varð vanmegna eins og ungabarn. Þegar ég var þar kominn sendi ég bróður mínum bréfspjald og lét hann vita, að mér liði vel og byggist við að koma heim bráðum. Ég vissi að það yrði til þess að hætt yrði að spyrjast fyrir um verustað minn, en lögreglan í Streslau hafði alt af verið að grafast eftir honum. Ég lét skegg mitt vaxa aftur, og af því að ég hefi óðan skeggvöxt var skeggið á mér orðið býsna mikið þegar ég kom til Parísar og hitti vin minn George Featherley. Fundir okkar voru markverðastir fyrir það, hve marga lygina ég sagði honum óviljugur en tilneyddur þó; og ég hæddi hann meir en lítið þegar hann trúði mér fyrir því, að hann hefði þóst þess fullvís að ég hefði elt Antoinette de Mauban til Streslau. Ég heyrði nú að hún væri komin til Parísar frú sú, og byggi þar á mjög afskektum stað út af fyrir sig, og varð almenningi ekki skota skuld að geta sér til um hvernig á því stæði. Var ekki öllum orðið kunnugt um svikræði og dauða Michaels hertoga? Eigi að síður hvatti George Bertram Bertrand til að vera vongóðan og sagði kankvíslega að "lifandi skáld væri þó betra en dauður hertogi." Því næst sneri hann sér að mér og spurði:

"Hvað gerðirðu við skeggið á þér?"

"Satt að segja," svaraði ég réttilega, "finnst mér að maður hafi stundum ástæðu til að vilja breyta ásýnd sinni. Það er nú farið að vaxa nokkuð aftur."

"Einmitt það. Ég hefi þá ekki verið svo langt frá því rétta. Ástargyðja hefir það verið þó að það væri ekki Antoinette fagra."

"Það er sjaldan hörgull á ástargyðjunum," svaraði ég með hægð.

En George var ekki ánægður fyrr en hann hafði þröngvað mér til (hann þóttist meir en lítið góður af því) að dikta upp ástarævintýri, er ég hefði lent í, og þessvegna haldið til allan þennan tíma í friðsælu héruðunum í Tyrol. Í staðinn gæddi George mér á því sem hann nefndi "innri fræðsluna" (að eins á vitorði stjórnfræðinganna). Þetta sem hann sagði mér átti að vera ítarleg lýsing á viðburðum þeim, sem orðið höfðu í Rúritaníu, samsærinu og hversu því var hnekkt. Hann kvaðst ætla, að Michael svarti hefði haft meiri málsbætur, en almenningur héldi, og kinkaði kolli yfir þeirri getgátu. Hann kvaðst hafa góðar heimildir fyrir því, að grunur hefði leikið á því að dularfulli fanginn í Zenda, er svo langar blaðagreinir hefðu verið skráðar um, hefði alls ekki verið karlmaður, heldur kona klædd í karlmannsbúning. (Ég átti bágt með að verjast hlátri, þegar hann trúði mér fyrir þessu). Deila þeirra bræðranna kvað George og einmitt hafa risið af því, að þeir kepptu báðir um ástir konu þessarar.

"Kannske þetta hafi verið Antoinette de Mauban sjálf?" sagði ég.

"Nei," svaraði George alvarlegur, "Antoinette de Mauban fylltist afbrýði gegn konu þessari, og sveik hertogann í hendur konungs fyrir þá sök. Og til sönnunar þessu er það, að Flavía prinsessa sýnir konunginum nú mjög svo mikinn kulda, en hafði þó áður verið mjög ástúðleg við hann!"

Þegar hér var komið breytti ég umtalsefninu og slapp við "innblásturs" hugleiðingar hans. En ef stjórnfræðingarnir vita aldrei meira um neitt heldur en þeim tókst að komast að í þessu máli, þá virðist mér þeir vera býsnadýrir menn og óþarfagripir.

Meðan ég var í París skrifaði ég Antoinette, en aldrei fann ég hana að máli. Hún svaraði mér aftur með mjög vingjarnlegu bréfi, og gat þess þar, að hún teldi konunginn svo göfugan og góðan mann og þar að auki væri sér svo vel við mig, að ég mætti treysta því að hún skyldi aldrei ljósta neinu upp. Hún kvaðst ætla sér að setjast að upp í sveit, og draga sig með öllu út úr félagslífinu. Ekki hefi ég um það heyrt, hvort hún gerði það nokkurn tíma eða aldrei; en af því að ég hefi aldrei hitt hana eða heyrt neitt um hana, þá þykir mér líklegt, að hún hafi gert þetta. Enginn efi er á því, að hún hafði haft mikla ást á hertoganum af Streslau, og hún sýndi það þegar hann var veginn, að þó henni væri fullkunnugt um hvern mann hann hafði að geyma, þá gat velvild hennar til hans eigi kulnað fyrir það.

Ég átti enn eitt stríðið eftir, og vissi ég vel að það mundi verða allhart og líklegt að ég mundi bera þar lægri skjöld. Hafði ég ekki horfið svo frá Tyrol, að ég átti eftir að kynna mér háttu íbúanna þar, stofnanir, landslag, skóga, jurtir og alt annað? Hafði ég ekki eytt tímanum gálauslega og gagnslaust eins og mér hætti jafnan til? Mér gat ekki blandast hugur um, að mágkona mín mundi líta á málið, og ef hún færi út í þá sálma, þá var erfitt um varnir fyrir mig. Þess vegna geta menn búist við að ég hafi verið æði skömmóttulegur og kindarlegur þegar ég kom til Park Lane. En viðtökurnar voru samt yfir höfuð að tala ekki eins ægilegar og ég hafði óttast. Vitanlega hafði ég ekki farið eftir því sem Rósa hafði helst á kosið. – En hún vonaði, að betur tækist til í næsta sinn. Hún hafði alt af búist við því að ég mundi ekkert rita mér til minnis, né festa mig á neinu efni til að skrifa um. Bróðir minn aftur á móti hafði verið svo einfaldur að ímynda sér, að ég mundi nú loksins hafa ásett mér að taka eitthvað alvarlegt fyrir.

Þegar ég kom heim slyppur og snauður þá lenti alt í það fyrir Rósu að hælast um við Burlesdon, svo að ég slapp að mestu við átölur hennar, og þær lutu mest að Því að ámæla mér fyrir að hafa ekki látið vini mína vita um hvar ég hefði verið niður kominn.

"Við höfum eytt miklum tíma í að leita að þér," sagði hún.

"Ég veit það," sagði ég. "Helmingur bresku sendiherranna hefir ekki getað um frjálst höfuð strokið mín vegna. George Featherley sagði mér það. En því voruð þið óróleg? Ég var svo sem fullfær um að sjá um mig sjálfur."

"Það var ekki þess vegna," sagði hún háðslega. "Það var vegna þess, að ég þurfti að minnast á Sir Jacob Borrodaile við þig. Þú veist að hann er nú orðinn sendiherra eða verður það að minnsta kosti eftir einn mánuð, og mig langaði til að láta þig vita, að hann vonaðist eftir að þú færir með honum."

"Hvar verður hann sendiherra?"

"Hann verður eftirmaður Topham lávarðar

Streslau," sagði hún. "Þú gætir ekki á skemmtilegri stað kosið – örskammt frá París."

"Streslau! hm!" sagði ég og leit til bróður míns.

"Æ, það gerir ekkert til!" hrópaði Rósa óþolinmóðslega. Jæja, ætlarðu þá ekki að fara?"

"Ég held að ég kæri mig ekkert um það."

"Það er gremja í þér við þá!"

"Ég held að ég geti ekki farið til Streslau. Gerirðu þig ánægða með það svar, Rósa mín góð?"

"Það eru allir búnir að gleyma þeirri óskapasögu nú."

Þá tók ég upp úr vasa mínum mynd af Rúritaníu-konunginum. Hún hafði verið tekin einum eða tveimur mánuðum áður en hann tók við ríkisstjórn og hann hafði þá verið alskeggjaður. Það fór samt ekki fram hjá henni hvað ég átti við þegar ég rétti henni myndina og sagði:

"Ef þú skyldir ekki hafa séð eða tekið eftir myndum af Rúdolf V., þá sérðu hér eina af honum. Geturðu ekki ímyndað þér, að gamla sagan rifjaðist upp fyrir þeim, ef ég kæmi til hirðarinnar í Rúritaníu?"

Mágkona mín virti fyrir sér myndina og leit svo á mig.

"Hamingjan góða!" hrópaði hún og fleygði ljósmyndinni á borðið.

"Hvað finnst þér, Bob?" spurði ég.

Burlesdon stóð upp, fór út í horn á herberginu og tók að blaða þar í fréttablaða-hrúgu. Að vörmu spori kom hann með eitt blað af Illustrated London News. Hann fletti sundur blaðinu og sýndi okkur mynd, sem tók yfir heila opnu og var af krýningu Rúdolfs V. í Streslau. Hann lagði svo ljósmyndina og blaðamyndina hvora við hliðina á annarri. Ég renndi augum frá myndinni af mér yfir á myndina af Sapt, Strakencz, á skrautskikkju kardínálans, andlitið á Michael svarta, og tígulegu myndina af prinsessunni við hliðina á honum. Ég horfði fast og lengi á myndina alla, og leit fyrst upp við það, að bróðir minn lagði höndina á öxlina á mér.

Hann horfði á mig spyrjandi augum.

"Hún er undarlega lík, finnst þér það ekki?" sagði ég. "Heldurðu að það væri ekki réttara af mér að fara ekki til Rúritaníu?"

Þó að Rósa væri farin að sannfærast vildi hún ógjarnan falla frá uppástungu sinni.

"Þetta er ekkert nema fyrirsláttur," sagði hún fýlulega. "Þú vilt ekki taka þér neitt fyrir hendur. Þetta gæti þó orðið til þess, að þú kynnir einhverntíma að verða sendiherra."

"Ég held að ég kæri mig ekki um að verða sendiherra," svaraði ég.

"Það er þó hærri staða en þú kemst nokkurn tíma í," svaraði hún snúðugt.

Það er ekki ólíklegt. En það var þó lægri staða en ég hafði gengt. Mér gat ekki fundist mikil upphefð í því að verða sendiherra. Ég sem hafði verið konungur.

Svo þaut Rósa fagra frá okkur í bræði sinni. Burlesdon kveikti í vindlingi og horfði enn undrandi á mig.

"Myndin í blaðinu –" sagði hann.

"Já, hvað finnst þér um hana? Sýnist þér ekki að Rúritaníu-konungurinn og auðmjúkur þjónn þinn vera nauðalíkir?"

Bróðir minn hristi höfuðið.

"Jú, ég býst við Því," sagði hann. "En samt gæti ég þekkt þig frá manninum, sem ljósmyndin er af."

"En ekki frá myndinni í blaðinu?"

"Ég gæti þekkt að ljósmyndina og myndina í blaðinu. "Blað-myndin er mjög lík ljósmyndinni, en –"

"Hvað?"

"Hún er miklu líkari þér," sagði bróðir minn.

Bróðir minn er góður maður, alls trausts verður, og þó að hann sé kvæntur maður og sjái ekki sólina fyrir konu sinni, þyrði ég að trúa honum fyrir öllum leyndarmálum mínum. En þetta leyndarmál kom ekki mér einum við, og því gat ég ekki sagt honum það.

"Ég held að blað-myndin sé ekki eins lík mér og ljósmyndin," sagði ég hiklaust. "En samt sem áður kæri ég mig ekki um að fara til Streslau, Bob."

"Nei, farðu ekki til Streslau, Rúdolf," sagði hann.

Og ekki veit ég um það, hvort hann grunar nokkuð eða hefir fengið að vita nokkurn snefil af sannleikanum. Sé svo, þá flíkar hann því ekki, og aldrei höfum við minnst neitt á slíkt okkar á milli. En við lofuðum Sir Jacob Borrodaile að útvega sér annan aðstoðarmann.

Síðan allir þessir atburðir gerðust, er ég hefi minnst á í sögu þessari, hefi ég lifað rólegu lífi í litlu húsi, sem ég hefi keypt upp í sveit. Alt það, er menn, sem líkt eru settir og ég, girnast, finnst mér lítilsvert og óeftirsóknarvert. Ég hefi nú orðið enga ánægju af glaumi félagslífsins, og heldur ekki af stjórnmála-glamri. Frú Burlesdon er nú farin að örvænta um mig fyrir fullt og alt; nábúar mínir telja mig tilfinningalausan, dulan og óskemmtilegan náunga. Samt er ég ungur maður; stundum vaknar hjá mér grunur – hjátrúarfullir menn mundu kalla það hugboð – um að lífsstarfi mínu sé ekki alveg lokið enn þá, að einhvernveginn og einhverntíma muni ég verða bendlaður við stórmál, að ég þurfi að þreyta heilann á að leggja á snjöll ráð, þrautreyna hyggjuvit mitt við óvini mína, stæla vöðva mína í hörðum bardaga, og greiða stór högg. Um þetta er ég oftast að hugsa þegar ég reika út um víðavang með byssu eða staf í hendi. Ég legg oftast leið mína um skóga eða með lækjum fram. Ekki veit ég hvort þetta hugboð mitt rætist – og því síður það, hvort ég fæ að beita mér þar sem hugurinn mest þráir, því að mig langar til að komast í fólksstrauminn á strætum Streslau, eða undir skuggalegu múrana á kastalanum í Zenda.

Og þegar ég fer að hugsa þangað hvarflar hugurinn frá hinu ókomna til þess, sem liðið er. Þá rifjast upp fyrir mér umliðnir atburðir í langri röð. Fyrst háværi veislufagnaðurinn hjá konunginum, hlaupið með teborðið mitt góða, nóttin í síkinu, eltingaleikurinn í skóginum. Þá minnist ég líka vina minna og óvina, lýðsins, sem elskaði mig og heiðraði og þeirra manna, er reyndu að ráða mig af dögum og létu sér ekkert fyrir brjósti brenna. Og meðal þeirra er að eins einn enn á lífi; og þó að ég viti ekki hvar hann er niður kominn, þá efast ég ekki um, að hann er enn að brugga ill ráð, enn að stela hjörtum kvenna, skelfa karla og gera þá að hatursmönnum sínum. Hvar er Rúpert Hentzau nú – ungi maðurinn, er við lá að réði mér bana? Þegar mér kemur hann í hug, kreppi ég hnefana, og blóðið tekur að streyma miklu örara um æðar mínar. Og þá virðist bending örlaganna – hugboðið – skýrast og verða ákveðnara, og mér finnst eins og því sé hvíslað að mér, að ég eigi enn eftir að etja kappi við Rúpert. Þess vegna tem ég mér vopnaburð og reyni að halda við æskufjöri mínu og þreki.

Einu sinni á hverju ári er raskað ró minni, þessu kyrrláta lífi, sem ég lifi. Þá fer ég til Dresden og þar hitti ég vin minn Fritz von Tarlenheim. Síðastliðið ár kom Helga, fallega konan hans, með honum, og fjörugur og skemmtilegur krakki, sem þau áttu, með þeim. Þá erum við Fritz saman vikutíma, og þá fæ ég fréttir um alt, sem gerist í Streslau. Og á kveldin, þegar við reykjum og göngum okkur til skemmtunar, tölum við um Sapt, konunginn og oft um Rúpert unga, og að síðustu leiðist talið oftast að Flavíu. Á hverju ári kemur Fritz með ofurlitlar öskjur til Dresden. Í þeim er rauð rós, og við legginn á rósinni er fest blað og á þau rituð þessi orð: RúdolfFlavíaávalt. Og samskonar sendingu fer hann aftur með frá mér. Þessar sendingar og hringarnir, sem við berum, er það eina, sem tengir mig og Rúritaníu-drottninguna saman. Hún sýndi enn meiri göfugmennsku, eins og ég sagði henni, með því að fara að eins og hún fór. Hún rækti skyldu sína við land sitt og konungsætt sína, og giftist konunginum, og nú eru allir þegnar hans orðnir honum dyggir og trúir vegna ástar þeirrar, er þeir báru til drottningarinnar. Með sjálfsafneitun þeirri, er hún sýndi, hefir hún veitt þúsundum manna frið og hamingjusama daga. Stundum dirfist ég ekki að hugsa um þetta, en fyrir kemur það að hugur minn hvarflar þangað sem hún sífellt dvelur. Þá þakka ég guði fyrir að ég hafi unnað göfugustu konunni, sem til er í víðri veröld, og þeirri hugljúfustu og fegurstu. Og ég er forsjóninni þakklátur fyrir það, að á engan veg var ást minni þannig varið, að Flavía félli frá að rækja þá göfugmannlegu skyldu, er hvíldi á herðum hennar.

Á ég að fá að sjá hana aftur – föla andlitið á henni og yndisfagra hárið hennar? Ég veit ekkert um það. Engin örlagabending hefir mér borist um það, og ekkert hugboð hefi ég heldur um slíkt. Ég get ekkert vitað um það. Vera kynni að ég fengi að sjá hana hérna megin grafar – ónei – líklegast að það verði – aldrei. Og getur það verið, að sá staður sé líka einhvers staðar, er við getum ekki gert okkur grein fyrir meðan andinn er bundinn líkamsfjötrunum, þar sem hún og ég getum dvalið samvistum? Þar sem ekkert geti skilið okkur að; ekkert staðið ást okkar í vegi? Um þetta er ég jafn-ófróður eins og þeir, sem vitrari eru en ég. En ef þetta verður aldrei – ef ég fæ aldrei að tala blíðlega við hana aftur eða sjá andlit hennar, eða heyra hana fullvissa mig um ást sína, ef þetta verður aldrei, segi ég, þá ætla ég að reyna að lifa svo sem sæmir manni þeim, sem hún elskar; og hinu megin óska ég eftir draumlausum svefni.

Endir.

1 Eins konar leikur, er tveir leika með þráð á fingrum sér. – Þýð.