ÆVINTÝRI OG SÖGUR H.C. ANDERSEN ÆVINTÝRI OG SÖGUR STEINGRÍMUR THORSTEINSON ÞÝDDI 2. BINDI Fimmta útgáfa BARNABLAÐIÐ ÆSKAN REYKJAVÍK 1979 PRENTSMIÐJAN ODDI HF. Hans klaufi Úti á landsbyggðinni var gamalt höfuðból og á því bjó gamall herramaður, sem átti tvo sonu. Þeir voru svo gáfaðir, að það var nú sitt hvað. Þeir ætluðu sér að biðja dóttur kóngsins, og það máttu þeir, því hún hafði látið kunngjöra, að þann mundi hún kjósa sér að eiginmanni, sem henni þætti best koma fyrir sig orði. Þessir tveir voru nú að búa sig undir í átta daga; það var lengsti fresturinn, sem þeir gátu haft til þess, en það nægði líka, því þeir voru vel að sér undir, og slíkt kemur alténd í góðar þarfir. Annar þeirra kunni alla latnesku orðabókina spjalda á milli og þrjá árganga af fréttablaði bæjarins, og það bæði afturábak og áfram. Hinn hafði kynnt sér öll iðnaðarfélagalög og allt, sem hver iðnaðarstjóri þurfti að vita; hann þóttist því geta rætt um landsins gagn og nauðsynjar, og í annan stað kunni hann axlabandaútsaum, því hann var laghentur og fingrafimur. „Ég fæ kóngsdótturina,“ sögðu þeir báðir hvor um sig, og faðir þeirra gaf þeim sinn hestinn hvorum, og voru það prýðisfallegir hestar; sá, sem kunni orðabókina og fréttablaðið, fékk brúnan hest, en hinn, sem var iðnaðarfélaga-fróður og útsauminn kunni, fékk hvítan; báru þeir síðan lifrarlýsi í munnvikin til þess að gera þau liðugri. Allt vinnufólkið var niðri í garðinum til að sjá þá stíga á bak, en í þeim svifum kom þriðji bróðirinn, því þeir voru þrír, en engum kom til hugar að telja hann með sem bróður, því hann hafði ekki lærdóminn hinna tveggja, og kölluðu þeir hann aldrei annað en „Hans klaufa“. „Hvert ætlið þið, fyrst þið eruð komnir í stássfötin?“ sagði hann. „Til hirðarinnar, til þess að kjafta út kóngsdótturina; hefurðu ekki heyrt það, sem trumbað er um í öllu landinu?“ Og nú sögðu þeir honum allt, hvers kyns var. „Hæ, hæ, þá má ég líka vera með,“ sagði Hans klaufi, en bræðurnir hlógu að honum og riðu leiðar sinnar. „Pabbi minn, láttu mig fá hest,“ kallaði Hans klaufi. „Það er kominn í mig giftingarhugur. Taki hún mér, þá tekur hún mér, og taki hún mér ekki, þá tek ég hana engu að síður.“ „Bull og vitleysa!“ sagði faðirinn, „þér gef ég engan hest. Þú hefur sem sé engan talanda. Nei, bræðurnir, það eru karlar í krapinu.“ „Fái ég engan hestinn,“ sagði Hans klaufi, „þá tek ég geithafurinn; hann á ég sjálfur og hann getur vel borið mig.“ Og þar með settist hann klofvega upp á hafurinn, rak hælana í síður honum og þeysti svo hvað af tók eftir þjóðveginum. Það var sem kólfi væri skotið. „Hér er ég,“ sagði Hans klaufi, og söng við, svo að glumdi í honum. En bræðurnir riðu í hægðum sínum á undan og mæltu ekki orð. Þeir voru að bollaleggja með sjálfum sér alla þá fyndni, sem þeir ætluðu að koma með; það átti nú allt að vera svo undur kænlega hugsað. „Hæ, hæ!“ kallaði Hans klaufi, „hér kem ég; sko, hvað ég fann á veginum!“ Og um leið sýndi hann þeim dauða kráku, sem hann hafði fundið. „Klaufi!“ sögðu þeir, „hvað ætlarðu að gera, við krákuna?“ „Ég ætla að færa kóngsdótturinni hana að gjöf.“ „Já, gerðu það,“ sögðu þeir hlæjandi og riðu áfram. „Hæ, hæ! hér kem ég; sko, hvað ég fann; annað eins finnur maður ekki hvern dag á götu sinni.“ Og bræðurnir sneru sér við til að sjá hvað það var. „Klaufi!“ sögðu þeir, „þetta er gamall tréskór, sem efri hlutinn er dottinn af; á kóngsdóttirin líka að fá hann?“ „Já, hún á að fá hann,“ sagði Hans klaufi, og bræðurnir riðu hlæjandi frá honum og urðu langt á undan. „Hæ, hæ, hér er ég,“ kallaði Hans klaufi; „nei, nú versnar og versnar; hæ, hæ, það er alveg makalaust!“ „Hvað hefurðu nú fundið?“ sögðu bræðurnir. „O!“ sagði Hans klaufi, „minnumst ekki á það! Hvað hún mun verða fegin, kóngsdóttirin!“ „O, svei!“ sögðu bræðurnir, „það er forarleðja, sem mokað hefur verið upp úr gryfjunni.“ „Já, það er það reyndar,“ sagði Hans klaufi, „og það af fínasta tagi; maður getur ekki haldið á henni.“ Það var orð að sönnu, og því lét hann hana í vasann. Bræðurnir riðu svo hart sem hestarnir gátu farið og urðu því heilli klukkustund á undan. Stigu þeir af baki við borgarhliðið, og var biðlunum þar raðað eftir númerum, sem þeim voru fengin jafnóðum og þeir komu. Stóðu sex í hverri röð, og var þeim skipað svo þétt, að þeir gátu ekki hreyft handleggina, en það var vel farið, því annars hefðu þeir skaðskemmt bökin hver á öðrum, einungis af því, að einn stóð öðrum framar. Allir hinir aðrir landsbúar stóðu umhverfis höllina alla leið að gluggunum til þess að sjá kóngsdótturina taka á móti biðlunum. Í hvert skipti sem einhver biðlanna kom inn í stofuna, þá brást öll orðkringin, og stóð í honum. „Ekki dugir hann,“ sagði þá kóngsdóttirin; „burt með hann!“ Þá kom sá bróðirinn, sem kunni orðabókina, en úr henni mundi hann ekkert, og kom það af því, að hann hafði orðið að híma svo lengi í röðinni. Það marraði í gólfinu, og loftið var úr spegilgleri, svo að hann sá sjálfan sig á höfði; við hvern glugga stóðu þrír skrifarar og einn iðnaðarfélagsstjóri, og skyldu þeir skrifa upp allt, sem sagt var, svo að það gæti óðara komið í fréttablaðið og orðið selt fyrir tvíeyring á strætamótum. Það var ljóta gamanið, og þar við bættist, að ofninn hafði verið kyntur svo gríðarlega, að pípan var orðin eldrauð. „Það er ljóti hitinn hérna inni,“ sagði biðillinn. „Það er af því, að hann faðir minn steikir kjúklingana núna í dag,“ sagði kóngsdóttirin. Be! Þarna stóð hann klumsa; þeim orðum hafði hann ekki búist við. Hann gat ekkert sagt, því eitthvað skemmtilegt hafði hann ætlað sér að segja. Be! „Dugir ekki!“ sagði kóngsdóttirin; „burt með hann!“ Og svo varð hann að fara. Nú kom hinn bróðirinn. „Hér er voðalegur hiti,“ sagði hann. „Já, við erum að steikja kjúklinga í dag,“ sagði kóngsdóttirin. „Hvað þá? ha!“ sagði hann, og allir skrifararnir skrifuðu: „Hvað þá? ha!“ „Dugir ekki!“ sagði kóngsdóttirin; „burt með hann!“ Nú kom Hans klaufi og reið á hafrinum beint inn í stofuna. „Mikill steikjandi hiti er þetta!“ sagði hann. „Það kemur af því, að ég er að steikja kjúklinga,“ mælti kóngsdóttirin. „Það var ágætt,“ sagði Hans klaufi, „þá get ég líklega fengið kráku steikta.“ „Það er guðvelkomið,“ sagði kóngsdóttirin, „en hefurðu nokkuð til að steikja hana í, því ég á hvorki pott né pönnu?“ „Það hef ég,“ sagði Hans klaufi; „hérna er suðugagn með tinkeng,“ og í því vindur hann fram tréskónum gamla og lætur krákuna í hann. „Það er nóg til heillar máltíðar,“ sagði kóngsdóttirin, „en hvar fáum við ídýfu?“ „Hana hef ég í vasanum,“ sagði Hans klaufi; „ég hef svo mikið, að einu gildir, þó dálítið fari niður,“ og um leið hellti hann niður dálitlu af forarleðju úr vasa sínum. „Tarna líkar mér,“ sagði kóngsdóttirin, „þú lætur ekki standa á svörum, þú kannt að koma fyrir þig orði, og þig kýs ég fyrir eiginmann. En veistu það, að hvert orð, sem við segjum og sagt höfum, er skrifað upp og kemur út í fréttablaðinu á morgun? Við hvern glugga standa þrír skrifarar, eins og þú sérð, og einn iðnaðarfélagsstjóri, og iðnaðarfélagsstjórinn er verstur, því hann er skilningslaus,“ – en þetta sagði hún til þess að gera Hans hræddan. Og allir skrifararnir hvíuðu við og slettu blekklessu á gólfið. „Sá mun húsbóndinn vera,“ sagði Hans klaufi, „og verð ég þá að gefa iðnaðarfélagsstjóranum það, sem best er.“ Og í því sneri hann um vösunum og sletti leðjunni beint framan í hann. „Það var laglega af sér vikið,“ sagði kóngsdóttirin, „þetta hefði ég ekki getað gert, en sjálfsagt mun ég komast upp á það.“ Og nú varð Hans klaufi konungur, fékk konu og kórónu og settist í veldisstól, – og höfum vér tekið þetta beint úr blaði iðnaðarfélagsstjórans, en það er nú ekki sem allra áreiðanlegast. Nýju fötin keisarans Fyrir mörgum árum var keisari nokkur, sem hafði svo ákaflega miklar mætur á fallegum nýjum fötum, að hann eyddi öllum peningum sínum í það að geta verið sem allra skrautklæddastur. Hann kærði sig ekki um dáta sína, og ekki hirti hann um leikhússkemmtanir né skemmtiakstur út í skóga, nema aðeins til að sýna nýju, fallegu fötin sín. Hann átti sér kjól fyrir hverja dagsstund, og eins og sagt er um konung: „Hann er í ráðinu,“ eins var um keisarann alltaf sama viðkvæðið: „Hann er í fataskápnum.“ Í stóru borginni, þar sem hann hafði aðsetur sitt, var sérlega skemmtilegt, og komu þar margir útlendingar á degi hverjum. Og einhvern dag bar svo við, að þar komu tveir svikahrappar; þeir þóttust vera vefarar og kváðust kunna að vefa þann fegursta vefnað, sem hugsast gæti. Það væri ekki aðeins litirnir og mynstrin á vefnaðinum, sem væri svo óvenjufagurt, hvort um sig, heldur fylgdi líka sú náttúra fötunum, sem úr honum væru saumuð, að þau yrðu ósýnileg hverjum þeim manni, sem óhæfur væri í embætti sínu eða ófyrirgefanlega heimskur. „Já, það væru reyndar afbragðsföt,“ hugsaði keisarinn. „Með því að vera í þeim gæti ég komist fyrir, hverjir í ríki mínu eru nýtir menn og dugandi í embætti sínu, ég gæti þá þekkt vitsmunamennina frá heimskingjunum. Já, þess konar fataefni verður undir eins að vefa handa mér.“ Og hann greiddi báðum svikahröppunum mikið fé fyrirfram, til þess að þeir byrjuðu á verki sínu. Þeir settu líka upp tvo vefstóla og létu eins og þeir ynnu, en höfðu alls ekki neitt á vefstólunum. Þeir heimtuðu óðum fínasta silki og fegursta gull, en það létu þeir allt niður í sína eigin poka og ófu á tómum vefstólunum og það langt fram á nætur. „Nú þætti mér gaman að vita, hvað þeim líður með fataefnið,“ hugsaði keisarinn, en einhvern veginn lagðist það ekki vel í hann, þegar hann hugsaði til þess, að sá, sem heimskur væri eða illa hæfur í embætti sínu, gæti ekki séð það. Nú hélt hann reyndar, að hann þyrfti ekki neinu að kvíða um sjálfan sig, en hann vildi samt senda einhvern fyrst til að sjá, hvernig allt væri. Hvert mannsbarn í borginni vissi, hvaða náttúra fylgdi vefnaðinum, og allir brunnu í skinninu af löngun til þess að sjá, hversu ónýtur eða heimskur nágranni sinn væri. „Ég held það sé best, að ég sendi minn gamla valinkunna ráðgjafa til vefaranna,“ hugsaði keisarinn. „Hann getur borið um, hvernig fataefnið er áferðar, því hann hefur vit á því; hann er greindur maður, og enginn gegnir embætti sínu betur en hann gerir.“ Nú fór þessi gamli, skikkanlegi ráðgjafi inn í salinn, þar sem báðir svikahrapparnir sátu og ófu á tóma vefstólana. „Hvað er þetta?“ hugsaði ráðgjafinn gamli og glennti upp augun, „ég sé ekki nokkurn hlut.“ En ekki sagði hann það. Báðir svikahrapparnir beiddu hann að gera svo vel að koma nær og spurðu, hvort þetta væri ekki fallegt mynstur og fallegir litir. Bentu þeir svo á tóman vefstólinn, og veslings ráðgjafinn gamli hélt áfram að glenna upp augun, en gat ekki séð neitt, sem ekki var von, því, þar var ekki neitt. „Drottinn minn!“ hugsaði hann, „skyldi ég vera heimskur? Það hef ég aldrei haldið, og það má enginn vita. Skyldi ég vera óhæfur til að vera í embætti mínu? Nei, það tekur engu tali, að ég segi frá því, að ég sjái ekki vefnaðinn.“ „Nú, nú, þér segið ekkert um það,“ sagði annar vefarinn. „O, það er gullfallegt, það er hreinasta afbragð,“ sagði ráðgjafinn gamli og horfði í gegnum gleraugun, „þvílíkt mynstur og þvílíkir litir! Já, ég skal segja keisaranum, að mér geðjist það sérlega vel.“ „Nú, það þykir okkur vænt um að heyra,“ sögðu báðir vefararnir og tjáðu honum nú, hvað litirnir hétu og nafnið jafnframt á þessu frábrigðilega mynstri. Ráðgjafinn gamli tók vel eftir, til þess að geta munað það orðrétt, þegar hann kæmi heim aftur til keisarans, – enda varð honum ekki skotaskuld úr því. Nú heimtuðu svikahrapparnir meiri peninga og meira silki og gull til vefnaðarins, og stungu þeir því öllu í sína eigin vasa. Á vefstólinn kom ekki hætishót af því, en þeir héldu áfram að vefa á tómum vefstólunum. Keisarinn sendi nú bráðum aftur annan skikkanlegan embættismann til að líta eftir, hvað vefnaðinum liði og hvort fataefnið væri ekki bráðum búið. En það fór fyrir honum á sömu leið og fyrir ráðgjafanum, hann horfði og horfði, en af því að ekki var neitt nema tómir vefstólarnir, þá gat hann ekki heldur séð nokkra vitund. „Er það ekki fallegur vefnaður að tarna?“ sögðu báðir svikahrapparnir og sýndu honum og útskýrðu fyrir honum mynstrið, sem ekkert var. „Heimskur er ég ekki,“ hugsaði maðurinn, „það er þá heldur hitt, að ég er óhæfur til að vera í þessu mínu góða embætti. Það þykir mér nú nokkuð skrítið, en á því má maður ekki láta bera.“ Hældi hann svo vefnaðinum, sem hann ekki sá, og vottaði vefurunum gleði sína yfir því, hvað litirnir væru fallegir og mynstrið prýðilegt. „Já, það er ljómandi gull,“ sagði hann við keisarann. Öllu borgarfólkinu varð tíðrætt mjög um þennan forláta vefnað, og vildi nú keisarinn sjálfur sjá hann, meðan hann væri enn í vefstólnum. Tók hann með sér heilan skara valdra manna, og þar á meðal báða hina gömlu, skikkanlegu embættismenn, er áður höfðu verið sendir á fund bragðarefanna, sem nú voru að vefa í gríð og ergju, þó ekki væri nokkur tæta á vefstólnum. „Já, er það ekki yfirtak?“ sögðu báðir skikkanlegu embættismennirnir, „þóknast yðar hátign að líta á? Hvílíkt mynstur, hvílíkir litir!“ Og um leið bentu þeir á tóman vefstólinn, því þeir héldu fyrir víst, að hinir mundu sjá vefnaðinn. „Hvað er þetta?“ hugsaði keisarinn með sér, „ég sé ekki neitt; mikil skelfing! er ég heimskur? Er ég óhæfur til að vera keisari? Það var það hræðilegasta, sem fyrir mig gat komið.“ „Ó, það er ofur fallegt,“ sagði hann, „ég hef á því mína allra hæstu velþóknun.“ Hann kinkaði kolli ánægjulega og virti fyrir sér tóman vefstólinn; hann vildi ekki láta uppi hið sanna, að hann sá ekki neitt. Allir, sem í föruneytinu voru, horfðu og horfðu, en urðu engu nær en allir hinir, en þeir sögðu eins og keisarinn: „Ó, það er ofur fallegt,“ og réðu honum til að fá sér fyrstur allra í föt úr þessum nýja dýrindis vefnaði til að vera í á skrúðgönguhátíð þeirri hinni miklu, er þá fór í hönd. „Það er prýðilegt, það er ljómandi, það er fyrirtak,“ sagði hver sem einn, og allir voru hjartanlega ánægðir með það. Keisarinn sæmdi svikahrappana hvorn um sig riddarakrossi til að festa í hnappagatið, og fylgdi þar með sú nafnbót, að þeir skyldu kallast hirðvefarar. Alla aðfaranótt skrúðgönguhátíðarinnar vöktu svikahrapparnir; unnu þeir við ljós og höfðu kveikt á sextíu kertum. Þar gaf á að líta, hvað þeir kepptust við að geta orðið búnir með nýju fötin keisarans. Þeir létu sem þeir tækju fataefnið ofan af vefstólnum, þeir klipptu út í loftið með stórum skærum, þeir saumuðu með tvinnalausum nálum og sögðu að lokum: „Hana þá! nú eru fötin búin.“ Keisarinn kom nú sjálfur með helstu hirðgæðingum sínum, og báðir svikahrapparnir lyftu upp öðrum handleggnum, eins og þeir héldu á einhverju, og sögðu: „Sko! hérna eru buxurnar, hérna er kjóllinn,“ og svo framvegis. „Það er létt eins og kóngurlóarvefur, maður skyldi halda, að maður væri ekki í neinu, en það er nú einmitt aðalkosturinn við það.“ „Já!“ sögðu allir hirðgæðingarnir, en þeir gátu ekki séð neitt, því þar var ekki neitt. „Vildi nú yðar keisaralega hátign allranáðugast láta sér þóknast að fara úr fötunum,“ sögðu svikahrapparnir, „þá skulum við færa yður í nýju fötin hérna beint fyrir stóra speglinum!“ Keisarinn fór úr öllum fötunum og svikahrapparnir báru sig til eins og þeir færðu hann í hvert einstakt fat af alklæðnaði þeim hinum nýja, sem hafði átt að sauma handa honum, og þeir tóku yfrum hann og var sem þeir reyrðu eitthvað fastlega, það var kjóldragið, og keisarinn vék sér til og sneri á ýmsa vegu fyrir speglinum. „Nei, hvað fötin falla prýðilega að, og hvað þau fara dásamlega!“ sögðu allir. „Hvílíkt mynstur! Hvílíkir litir! Þetta er forkostulegur klæðnaður.“ „Nú eru þeir hérna fyrir utan með hásætishimininn, sem á að bera yðar hátign í skrúðgöngunni,“ sagði dróttsetinn. „Ekki stendur á mér, ég er til,“ sagði keisarinn. „Fara fötin ekki vel?“ Og þar með sneri hann sér við ennþá einu sinni fyrir framan spegilinn, svona hinsegin, eins og hann væri að virða fyrir sér skrautklæðin. Kammerherrarnir, sem áttu að bera kjóldragið, þreifuðu höndum eftir gólfinu, eins og þeir væru að taka dragið upp; þeir gengu og þeir héldu á lofti; þeir þorðu ekki að láta á því bera, að þeir sáu ekki minnstu vitund. Og nú gekk keisarinn í skrúðgöngunni undir fagurglæstum hásætishimninum, og allt fólkið bæði á strætunum og í gluggunum sagði einum rómi: „Ó, hvað þau eru dæmalaust falleg, nýju fötin keisarans! Mikið ljómandi gull er hældragið eftir kjólnum hans, og hvað það fer prýðilega á því!“ Enginn vildi láta á því bera, að hann sæi ekkert, því þá hefði hann verið óhæfur til að vera í embætti sínu eða fram úr lagi heimskur. Aldrei hafði keisarinn eignast föt, sem jafnmikið þótti til koma. „Nú, hann er þá ekki í neinu!“ sagði lítið barn. „O, sér er nú hvað! heyrið hvað sakleysinginn segir!“ mælti faðir barnsins, og hvíslaði svo einn í annars eyra því sama, sem barnið sagði. „Hann er ekki í neinu,“ segir barnunginn, „hann er ekki í neinu.“ „Hann er ekki í neinu," kallaði að lokum allt fólkið. Og keisaranum rann kalt vatn milli skinns og hörunds, því honum fannst, að menn hefðu rétt að mæla, en hann hugsaði með sér: „Nú verð ég að þrauka það af, þangað til hátíðargangan er á enda.“ Og keisarinn færðist í aukana og gekk sperrtari en áður, og kammerherrarnir löbbuðu á eftir og báru kjóldragið, sem ekkert var. Storkarnir Uppi á ysta húsinu í þorpi nokkru höfðu storkar gert sér hreiður, og sat storkamóðirin í því með fjóra unga sína, og teygðu þeir fram kollana með svört nefin, því enn voru þau ekki orðin rauð eins og á foreldrunum. Skammt þaðan stóð storkapabbi á húsmæninum bísperrtur. Og til þess að það sæist, að hann væri ekki iðjulaus, þá hafði hann kreppt upp undir sig annan fótinn og stóð á hinum eins og í varðstöðu. Hann stóð þarna hreyfingarlaus, eins og hann væri útskorinn úr tré. „Það er heldur en ekki höfðingjamót á þessu,“ hugsaði hann, „að kona mín hefur höfuðvörð hjá hreiðri sínu. Ekki vita þeir, að ég er maðurinn hennar, og munu þeir víst halda, að ég sé skipaður hér til að standa vörð; það er eitthvað svo hressilegt til að líta,“ og hann hélt svo áfram að standa þarna á öðrum fæti. Á götunni fyrir neðan var heill hópur af börnum, sem voru að leika sér, og jafnskjótt sem þau sáu storkana, þá tók einhver áræðnasti drengurinn í hópnum að syngja gömlu vísuna um storkana, og sungu börnin hana eins og þau mundu hana best hvert um sig: Storkur, storkur mæti! Statt' ekki á einum fæti; heima hreiðrið bíður, hygg að, hvað því líður; fljúg þú víf að finna, fljúg til unga þinna; einn skal hengja, annan stengja, þriðja þenja og spenna og þann hinn fjórða í eldi brenna. „Heyrið hvað drengirnir syngja!“ sögðu storkaungarnir, „þeir segja, að það eigi að hengja og brenna okkur.“ „Kærið ykkur ekkert um það,“ sagði móðirin, „hlustið bara ekki á það, þá sakar það ekkert.“ En drengirnir héldu áfram og bentu á storkana, allir nema einn. Hann hét Pétur og sagði, að það væri illa gert að hafa dýrin að spotti, og vildi þar hvergi nærri koma. Storkamóðirin huggaði líka unga sína og sagði: „Gefið ekkert um þetta, sjáið þið ekki, hvað hann faðir ykkar stendur rólegur, og það aðeins á einum fæti?“ „En við erum svo dauðans hræddir,“ sögðu ungarnir og lúpuðu sig niður í hreiðrið. Daginn eftir komu börnin aftur til að leika sér, og jafnskjótt sem þau sáu storkana, tóku þau að syngja: „Einn skal hengja, annan skal brenna.“ „Á að hengja og brenna okkur?“ spurðu ungarnir. „Víst ekki,“ svaraði móðirin, „þið eigið að læra að fljúga. Ég ætla að kenna ykkur það og æfa ykkur. Svo förum við út á engið og heimsækjum froskana. Þeir munu hneigja sig fyrir okkur niður í vatnið, þeir syngja: „hvakk! hvakk!“ og svo étum við þá. Það verður einstaklega gaman.“ „Og hvað kemur svo?“ spurðu ungarnir. „Þá safnast saman allir storkar, sem í landinu eru,“ svaraði móðirin, „og halda haustæfingar sínar. Þá ríður lífið á að geta flogið vel, því ef einhver er sá, sem ekki flýgur almennilega, þá rekur foringinn hann í gegn með nefi sínu. Þess vegna verðið þið að taka ykkur til og vera búnir að læra eitthvað, þegar haustæfingarnar byrja.“ „Þá verðum við þó stengdir og hengdir eftir allt saman, eins og drengirnir sögðu, og heyrið! – núna syngja þeir það aftur.“ „Hlustið á mig, en ekki á þá,“ sagði móðirin. „Eftir stóru æfinguna fljúgum við til heitu landanna, en þangað er óravegur héðan yfir fjöll og skóga. Við fljúgum til Egyptalands. Þar má sjá þrístrend steinhús, uppmjó og oddhvött, sem mæna upp yfir skýin. Þau nefnast pýramíðar og eru eldri en nokkur storkur getur ímyndað sér. Fljót er í því landi, sem flæðir yfir, svo allt verður ein aurleðja. Maður veður þar í aurnum og étur froska.“ „Ó, ó!“ sögðu allir ungarnir. „Já, þar er fjarska fallegt. Þar er ekkert gert nema að éta allan daginn, og meðan við erum þar og líður svona vel, þá er ekki nokkurt grænt laufblað á trjánum í þessu landi, og þá er hér svo kalt, að skýin frjósa og falla til jarðar í örsmáum, hvítum hnoðrum.“ Það var snjórinn, sem hún átti við, en hún gat ekki komið greinilegar orðum að því en svona. „Frjósa þá slæmu drengirnir líka og detta í stykki?“ spurðu ungu storkarnir. „Ekki frjósa þeir nú reyndar, svo þeir detti í stykki, en því sem næst. Þeim verður dauðkalt, og þeir verða að dúsa inni í dimmu herbergi, þegar þið getið flogið út um allt í öðru landi, þar sem sól er og sumar og fullt af blómum.“ Nú leið og beið, og voru ungarnir orðnir svo stórir, að þeir gátu staðið uppréttir í hreiðrinu og horft víðs vegar, og á degi hverjum kom storkapabbi með væna froska, smáa snáka og allt það storkagóðgæti, sem hann gat komist yfir. Og þá voru þau ekki mjög óskemmtileg, listabrögðin, sem hann lék fyrir þeim; hann vatt höfðinu aftur fyrir sig ofan á stélið, skrapaði með nefinu, svo það var að heyra eins og smábrestir í hrossaskellu, og sagði þeim jafnframt sögur, sem allar voru um fen og mýrar. „Heyrið þið!“ sagði móðirin einhvern dag, „nú verðið þið að læra að fljúga,“ – og urðu þá ungarnir allir fjórir að fara út á mæninn. En hvað þeir riðuðu á fótunum fyrst í stað og hvað þeim veitti erfitt að halda sér í jafnvægi með því að baða út vængjunum, svo að þeir steyptust ekki niður á stéttina! „Horfið á mig,“ sagði móðirin, „svona eigið þið að bera höfuðið, svona eigið þið að setja niður fæturna; einn, tveir, þrír! Það er þetta, sem á að hjálpa ykkur áfram í heiminum.“ Síðan flaug hún spölkorn frá þeim, og ungarnir fóru að bögglast við að hoppa á eftir henni, en duttu um sjálfa sig, því þeir voru enn svo þungir á sér. „Ekki vil ég fljúga,“ sagði einn af ungu storkunum og skreið aftur niður í hreiðrið. „Ég kæri mig ekkert um að komast til heitu landanna.“ „Viltu þá frjósa hérna í hel, þegar vetrar að. Eiga drengirnir að koma og hengja og brenna og steikja þig? Jæja, nú kalla ég á þá.“ „Æ, nei!“ sagði unginn og hoppaði aftur út á þakið eins og hinir. Á þriðja degi gátu þeir flogið dálítið og héldu þá, að þeir gætu setið í loftinu og hvílt sig, og það ætluðu þeir að gera, en dump! dump! þeir duttu kylliflatir og urðu svo aftur að taka til vængjanna. Og nú komu drengirnir á götuna fyrir neðan og sungu vísuna: „Storkur, storkur mæti!“ „Eigum við að fljúga ofan og kroppa úr þeim augun?“ sögðu ungarnir. „Nei, látið það ógert,“ sagði móðirin, „heyrið heldur, hvað ég segi, á því ríður ykkur miklu meira. Einn, tveir, þrír! nú fljúgum við til hægri handar, og nú til vinstri kringum reykháfinn, svona! þetta var mjög gott. Seinasti vængjaslátturinn var svo einstaklega fallegur og réttur, og því skal ég nú lofa ykkur að fara með mér út í mýrina á morgun. Þar kemur fleira af heldra storkafólki með börn sín. Látið nú á sannast, að ég eigi nettust börnin, og munið að kerra hnakkann; það skartar vel og aflar álits.“ „En eigum við þá ekki að klekkja á strákunum?“ spurðu ungarnir. „Lofið þeim að garga, eins og þeir vilja. Þið fljúgið, hvort sem er, upp til skýjanna, og þið komið til pýramíðalandsins, þegar þeir híma í kuldanum og hafa ekki svo mikið sem eitt grænt laufblað eða eitt sætt epli.“ „Já, hefnast viljum við,“ sögðu þeir í hljóði hver við annan, og var svo aftur tekið til æfinga. Enginn allra drengjanna á götunni, sem sungu háðvísuna um storkana, var verri en sá, sem fyrstur hafði byrjað á því, og var hann þó ekki nema dálítill hnokki, ekki eldri en sex ára eða þar um bil. Ungu storkarnir héldu reyndar, að hann væri hundrað ára, því hann var svo miklu stærri en móðir þeirra og faðir. En hvað mundu líka storkar geta ætlast á um aldur barna eða fullorðinna? Öll hefnd þeirra átti að koma niður á þessum eina dreng, því hann hafði byrjað fyrstur og hélt alltaf áfram. Ungarnir voru ákaflega æstir og ýfðust æ meira að því skapi sem þeir urðu stærri og eldri. Móðirin varð loksins að lofa þeim, að þeir skyldu fá hefnd harma sinna, en gat þess, að ekki mundi hún koma hefndinni í verk fyrr en síðasta daginn, sem þau væru í landinu. „Við verðum fyrst að sjá, hvernig ykkur reiðir af við stóra flugprófið. Skyldi ykkur illa takast, svo að foringinn rekur ykkur í gegn með nefinu, þá hafa drengirnir rétt að mæla, að minnsta kosti að nokkru leyti. Sjáum hvernig fer!“ „Já, sjá skaltu það,“ sögðu ungarnir, og nú höfðu þeir sig alla við og æfðu sig á hverjum degi, svo að loksins var yndi á að horfa, hvað fallega og létt þeir flugu. Nú kom haustið, og tóku þá storkarnir allir að safnast saman til að fljúga burt til heitari landanna, til þess að dvelja þar vetrarlangt. Og nú hófst flugprófið. Þeir flugu yfir skóga og borgir til að reyna, hversu vel þeir gætu flogið, því það var löng ferð, sem þeir áttu fyrir höndum. Ungarnir stóðust prófið svo prýðilega, að þeir fengu ágætlega með frosk og slöngu. Það var langbesta einkunnin, því froskinn og slönguna gátu þeir étið, og það gerðu þeir líka. „Nú skulum við hefna okkar,“ sögðu þeir. „Já, að vísu,“ svaraði móðirin. „Ég hef hugsað mér, hvernig best og réttast sé, að við hefnum okkar. Ég veit, hvar tjörnin er, þar sem öll litlu börnin mannanna felast, þangað til storkurinn kemur og sækir þau handa foreldrunum.[*] Blessuð smábörnin sofa og dreymir svo indæla drauma, að þau dreymir aldrei jafn yndislega síðar meir. [* Það er algengt í öðrum löndum, þegar barn fæðist á heimili og börn spyrja, hvernig á því standi, að barnið sé komið, að svara því þá, að „storkurinn hafi komið með það.“] Allir foreldrar vilja hjartans fegnir eignast dálítið barn, og öll börn vilja eignast systur eða bróður. Nú skulum við fljúga til tjarnarinnar og sækja ofurlítinn barnunga handa sérhverju þeirra barnanna, sem ekki sungu ótætis háðvísuna um storkana, því hinum skal engra barna auðið verða.“ „En hann þá, sem byrjaði sönginn, ljóti og slæmi drengurinn,“ görguðu ungu storkarnir, „hvað eigum við að gera við hann?“ „Það liggur dálítið andvana barn í tjörninni,“ sagði storkamóðirin, „það hefur dreymt sig í hel, og það skulum við taka handa honum; hann verður þá að tárast yfir því, að við höfum fært honum dálítinn dáinn bróður. En ekki munuð þið hafa gleymt góða drengnum, sem sagði, að það væri synd að hafa dýrin að spotti; honum munum við færa bæði bróður og systur. Hann heitir Pétur, og því nafni skuluð þið líka heita allir saman héðan af.“ Og svo varð sem móðirin hafði fyrir mælt, og hefur Pétursnafnið loðað við storkana allt fram á þennan dag. Litli Kláus og stóri Kláus Einu sinni bjuggu í þorpi nokkru tveir menn samnefndir. Báðir hétu Kláus, en annar þeirra átti fjóra hesta og hinn ekki nema einn. Til þess nú að greina þá í sundur, kölluðu menn þann, sem fjóra hestana átti, stóra Kláus, en hinn litla Kláus, sem átti ekki nema einn hestinn. Nú skulum við heyra, hvernig þeim farnaðist báðum, því þetta er sönn saga. Liðlanga vikuna varð litli Kláus að plægja fyrir stóra Kláus og lána honum eina hestinn, sem hann átti; þar kom á móti, að stóri Kláus hjálpaði honum með öllum sínum fjórum, en það var ekki nema einu sinni í viku, – á sunnudögunum. Það kynni nú að vera, að hann litli Kláus léti keyrið smella duglega yfir öllum fimm hestunum; það gat svo heitið, að þetta væru hans hestar á þeim eina degi. Sólin skein svo yndisfagurt, og allar klukkur í kirkjuturninum hringdu til messu. Fólkið var prúðbúið, og hver maður gekk með sálmabók undir hendinni í guðshús til að heyra prestinn prédika, og allir horfðu á litla Kláus, sem var að plægja með fimm hestum. Og hann varð þá svo hróðugur og ánægður, að hann smellti aftur með keyrinu og kallaði: „Hott, hott, allir mínir hestar!“ „Svona máttu ekki tala,“ sagði stóri Kláus, „það er ekki nema einn hesturinn, sem þú átt.“ En jafnharðan er einhver gekk aftur fram hjá á leið til kirkjunnar, þá mundi litli Kláus ekki eftir, að hann mátti ekki segja þetta, og kallaði: „Hott, hott, allir mínir hestar!“ „Já, nú ætla ég að biðja þig að hætta þessu,“ sagði stóri Kláus, „því ef þú segir þetta einu sinni enn, þá slæ ég hestinn þinn í ennið, svo að hann skal liggja dauður eftir.“ „Svei mér þá ef ég skal segja það oftar,“ sagði litli Kláus. En þegar svo einhverjir gengu fram hjá og heilsuðu honum með því að kinka til hans kolli, þá varð hann svo ofurfeginn og fannst það eitthvað svo mannalegt, að hann hafði fimm hesta til að plægja með, og gerði þá smell með keyrinu og kallaði: „Hott, hott, allir mínir hestar!“ „Ég skal hotta á hestana þína,“ sagði stóri Kláus og tók tjóðurhnallinn og laust þennan eina hest, sem litli Kláus átti, svo mikið högg í ennið, að hann byltist til jarðar og var steindauður. „Æ, nú á ég engan hest framar!“ sagði litli Kláus og fór að gráta. Síðan fláði hann hestinn, tók hána og lét hana hanga úti, þangað til hún var vel vindþurrkuð. Síðan tróð hann henni í poka, kippti honum á bak sér og sneri á leið til borgarinnar til að selja þar hána. Það var löng gönguleið sem hann átti fyrir höndum, og lá um skóg nokkurn mikinn og dimman, og nú gerði hræðilegt illviðri. Hann villtist alveg af leið, og áður en hann komst á rétta götu aftur, var orðið kvöldsett og lengra en svo til borgarinnar eða heim til hans aftur, að hann gæti komist það áður en náttaði. Rétt við þjóðgötuna stóð bóndagarður mikill; þar var stofuhús og útihlerar fyrir gluggum, og lagði út birtu innan frá að ofan til. „Hér get ég líklega fengið að vera,“ hugsaði litli Kláus og drap högg á dyr. Bóndakonan lauk upp, en þegar hún heyrði, hvað hann vildi, þá sagði hún honum, að hann gæti farið sína leið, maðurinn sinn væri ekki heima og hún tæki ekki á móti gestkomendum. „Nú, þá verð ég að liggja úti,“ sagði litli Kláus, og bóndakonan skellti dyrunum harkalega aftur beint framan hann. Rétt hjá stóð stóreflis heystakkur, en í sundinu milli hans og hússins hafði verið byggður dálítill skúr með flötu hálmþaki. „Þarna uppi get ég legið,“ sagði litli Kláus, þegar hann sá þakið: „það er ágætt rúm. Líklega flýgur storkurinn ekki ofan til að bíta mig í fæturna.“ Uppi á þakinu stóð sem sé storkur, því hann átti þar hreiður. Nú skreiddist litli Kláus upp á skúrinn, lagðist þar fyrir og hagræddi sér, svo að sem best færi um sig. Gluggahlerarnir luktu ekki fyrir að ofanverðu, og gat hann því séð beint inn í stofuna. Þar var lagt á borð, og var á því vín og steik og fyrirtaks fiskréttur. Bóndakonan og djákninn sátu við borðið, en ekki nokkur maður annar, og hún hellti í glasið fyrir hann, og hann tók til sín af fiskinum, því fiskur þótti honum mata bestur. „Æ, nú væri gaman að komast með í þetta góðgæti,“ sagði Kláus og teygði höfuðið allt inn að glugganum. En sú sælgætiskaka, sem hann sá þar framreidda á borðinu! Þvílíkt gildi! það mátti nú segja. Nú heyrir hann hófdyn, og kemur einhver ríðandi eftir þjóðveginum að húsinu. Það var maðurinn húsfreyjunnar, bóndinn sjálfur, sem var að koma heim. Bóndi þessi var mesti gæðamaður, en honum fylgdi sá undarlegi kvilli, að hann gat aldrei þolað að sjá djákna; sæi hann djákna, ætlaði hann hreint að ganga af göflunum. Það var líka þess vegna, sem djákninn hafði farið inn, til þess að bjóða konunni góðan daginn, að hann vissi, að bóndinn var ekki heima, og bar hin góða kona á borð fyrir hann allan þann ágætasta mat, sem hún átti í eigu sinni. Þegar þau nú heyrðu, að maðurinn kom, þá urðu þau svo logandi hrædd, og beiddi konan djáknann að skríða niður í stóra, tóma kistu, sem stóð úti í horni, og það gerði hann, því hann vissi, að manntetrið þoldi ekki að sjá djákna. Konan faldi í snatri allar þær ljómandi krásir, og vínið einnig, í bakstursofninum sínum, því hefði bóndinn séð það, þá mundi hann víst hafa spurt, hvað þess konar ætti að þýða. „Æ!“ sagði Kláus mæðilega uppi á skúrnum, þegar hann sá allan matinn hverfa. „Er nokkur þarna uppi?“ sagði bóndinn og gægðist upp fyrir sig til litla Kláusar; „því liggurðu þarna? Komdu heldur með mér inn í stofu.“ Litli Kláus sagði honum eins og var, að hann hefði villst af leið, og beiddi hann að lofa sér að vera þar um nóttina. „Já, það er nú sjálfsagt,“ sagði bóndinn, „en fyrst verðum við að fá okkur eitthvað að borða.“ Konan tók þeim báðum mjög vingjarnlega, breiddi dúk á langt borð og setti fyrir þá stórt fat fullt af graut. Bóndinn var svangur og át með góðri lyst, en Kláus gat ekki annað en verið að hugsa um steikina góðu, fiskinn og kökuna, sem hann vissi, að stóð inni í ofninum. Pokann með hrosshánni í hafði hann látið undir borðið; hána hafði hann, svo sem fyrr er á vikið, ætlað sér að selja í borginni. Grauturinn gat alls ekki smakkast honum; steig hann þá á pokann sinn, og skrjálaði við það allhátt í þurri hrosshánni. „Þei! þei!“ sagði litli Kláus við pokann sinn, en steig óðara á hann aftur, svo að skrjálaði enn hærra en áður. „Hvað er það, sem þú hefur í pokanum þínum?“ spurði bóndi. „O, það er galdrakarl,“ sagði litli Kláus, „hann segir, að við eigum ekki að éta graut, því hann hefur galdrað allan ofninn fullan af steik og fiski og köku.“ „Hvað ertu að segja?“ mælti bóndi, opnaði í skyndi ofnhurðina og sá nú allan þann ágætismat, sem kona hans hafði falið, og trúði hann nú statt og stöðugt, að galdramaðurinn í pokanum hefði galdrað þetta til þeirra. Konan þorði ekki að segja neitt, heldur setti matinn orðalaust á borðið, og neyttu þeir nú báðir af fiskinum, steikinni og kökunni. Steig nú litli Kláus enn á poka sinn, svo skrjálaði í hrosshánni. „Hvað segir hann núna?“ spurði bóndi. „Hann segir,“ svaraði litli Kláus, „að hann hafi sömuleiðis galdrað til okkar þrjár flöskur af víni; þær standa líka inni í ofninum.“ Og nú varð konan líka að taka fram vínið, sem hún hafði falið, og drakk bóndinn og varð hinn hreifasti; svona galdrakarl eins og þann, sem litli Kláus hafði í pokanum, sagði hann, að sig stórlangaði til að eiga. „Getur hann líka galdrað fram djöfulinn?“ spurði bóndi. „Djöfsa þætti mér gaman að sjá, því nú liggur vel á mér.“ „Já!“ sagði litli Kláus, „galdrakarlinn minn getur allt það, sem ég bið hann um. Er það ekki satt, kunningi?“ bætti hann við og steig á pokann, svo að skrjálaði. „Heyrirðu? hann segir já. En fjandinn er svo afskræmislega ljótur, það er betra að sjá hann ekki.“ „O, ég er hvergi hræddur. Hvernig er hann þá útlits?“ „Alveg eins og djákni, þar skal enginn mun á milli sjá.“ „Ú!“ sagði bóndi; „þá var ekki á verra von, því það skuluð þér vita, að djákna þoli ég ekki að sjá, en nú má það standa á sama; úr því ég veit, að það er djöfullinn, þá get ég betur sætt mig við það. Nú er ég óbilugur, en hann má ekki koma of nærri mér.“ „Nú skal ég spyrja galdrakarlinn minn,“ sagði litli Kláus, steig á pokann og lagði við eyrað. „Hvað segir hann?“ „Hann segir, að þú getir farið til og lokið upp kistunni, sem stendur þarna úti í horni; þá munir þú sjá fjandann, hvernig hann húkir í kistunni, en þú verður að halda í lokið, svo hann sleppi ekki út,“ „Viltu þá hjálpa mér að halda í það?“ mælti bóndi og gekk að kistunni, sem konan hafði falið í djáknann. Kúrði djákninn þar lafhræddur undir lokinu. Bóndinn lyfti því dálítið upp og gægðist undir það. Æpti hann þá upp yfir sig og hrökk til baka. „Jú, nú sá ég hann; hann er alveg eins í sjón og djákninn okkar. Það er hræðilegt!“ Ofan á þetta þurfti nú að drekka, og drukku þeir svo langt fram á nótt. „Þú verður að selja mér þennan galdrakarl,“ sagði bóndinn, „þú getur sett upp á hann, hvað sem þú vilt; já, meira að segja, ég skal þegar í stað gefa þér eina skeppu af peningum fyrir hann.“ „Nei, það get ég ekki,“ sagði litli Kláus, „gáðu að því, hvað mikið gagn ég get haft af þessum galdrakarli.“ „Æ, mér er svo skrambi hugleikið að fá hann,“ sagði bóndinn og linnti ekki á bæninni. „Jæja þá,“ sagði litli Kláus loksins, „fyrst þú hefur verið svo vænn að hýsa mig í nótt, þá ætla ég að gera það fyrir þig. Þú skalt fá galdrakarlinn fyrir eina skeppu af peningum, en ég vil hafa hana kúfmælda.“ „Það skaltu fá,“ sagði bóndinn, „en kistuna þarna verðurðu að taka með þér, ég vil ekki hafa hana stundu lengur í mínum húsum. Það er ekki að vita, nema hann sitji í kistunni enn.“ Litli Kláus lét bóndann fá pokann sinn með hrosshánni í og fékk eina skeppu af peningum í staðinn og hana kúfmælda. Bóndinn gaf honum í tilbót stórar hjólbörur til að aka burt peningunum og kistunni. „Vertu sæll!“ sagði litli Kláus, og að svo mæltu ók hann burt peningunum og stóru kistunni með djáknanum í. Hinum megin við skóginn var mikið og djúpt vatnsfall. Það beljaði fram með svo stríðu falli, að varla voru tiltök að synda móti straumnum; hafði nýlega verið gerð yfir það stór og stæðileg brú. Litli Kláus nam staðar á henni miðri og sagði upphátt, til þess að djákninn í kistunni skyldi heyra það: „Nei, hvað á ég annars að vera að burðast með þessa bannsettu kistu? Hún er eins þung og hún væri full af grjóti. Ég verð dauðuppgefinn að aka henni. Ég ætla því að steypa henni út í ána; reki hana svo heim til mín, þá er það gott, og verði það ekki, þá stendur mér alveg á sama.“ Nú tók hann í kistuna með annarri hendi og lyfti henni dálítið, eins og hann ætlaði að varpa henni niður í straumiðuna. „Æ, nei, gerðu það ekki,“ kallaði djákninn í kistunni, „lofaðu mér að komast út fyrst.“ „Hú!“ sagði litli Kláus og lét eins og sér yrði bilt við; „hann situr þá í henni enn. Það er þá eins gott, að ég fleygi henni nú þegar út í ána, svo að hann drukkni.“ „Æ, nei, æ, nei!“ sagði djákninn, „ég skal gefa þér eina skeppu af peningum, ef þú sleppir mér.“ „Nú, þá er allt öðru máli að gegna,“ sagði litli Kláus og lauk upp kistunni. Djákninn skreið óðara upp úr henni, hratt henni tómri út í ána og gekk heim til sín. Fékk litli Kláus þar eina skeppu af peningum, og eina var hann búinn að fá áður hjá bóndanum. Hann hafði nú eignast af peningum eins og komst á hjólbörurnar. „Sjáum við það, þann hest fékk ég dável borgaðan,“ sagði hann við sjálfan sig, þegar hann kom heim í stofuna sína og hvolfdi niður öllum peningunum í stóra hrúgu á gólfinu. „Mikil raun verður stóra Kláusi að því, þegar hann fréttir, hversu mikinn auð ég hef haft upp úr þessum eina hesti mínum, en ekki ætla ég samt að segja honum það með berum orðum.“ Nú sendi hann dreng heim til stóra Kláusar til þess að fá mæliker að láni. „Hvað skyldi hann ætla að gera við það?“ hugsaði stóri Kláus með sér og rauð tjöru á botninn, til þess að eitthvað tylldi við það af því, sem mælt yrði, og það varð líka, því þegar hann fékk mælikerið aftur, þá loddu eftir í því þrír nýir silfuráttskildingar. „Hvað er þetta?“ segir stóri Kláus, hleypur til litla Kláusar og segir: „Hvaðan hefurðu fengið alla þessa peninga?“ „O, það var fyrir hrosshúðina mína, ég seldi hana í gær.“ „Það var, svei mér, vel borgað,“ segir stóri Kláus, hleypur heim, tekur öxi, dauðrotar alla hestana sína fjóra, birkir þá síðan og ekur svo með húðirnar inn í borgina. „Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?“ kallaði hann í sífellu, er hann ók um strætin. Allir skóarar og sútarar komu hlaupandi og spurðu, hvað hann vildi hafa fyrir húðirnar. „Eina skeppu af peningum fyrir hverja,“ sagði stóri Kláus. „Ertu vitlaus?“ sögðu þeir allir, „heldurðu að við höfum peninga svo skeppum skiptir?“ „Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?“ kallaði hann aftur, og öllum, sem spurðu, hvað húðirnar kostuðu, svaraði hann: „Eina skeppu af peningum hver húð.“ „Hann er að gera háð og narr að okkur,“ sögðu þeir allir, og skóararnir tóku lærólar sínar og sútararnir skinnsvunturnar sínar og fóru að lemja á stóra Kláusi. „Húðir, húðir!“ æptu þeir að honum og skældu sig framan í hann, „já, við skulum fá þér húð, sem snýtir rauðu. Burt með hann úr borginni!“ Og stóri Kláus varð að flýja eins og fætur toguðu og hafði aldrei fengið slíka barsmíð fyrr á ævi sinni. „Nú, nú!“ sagði hann, þegar heim kom, „þetta skal litli Kláus fá borgað; ég skal drepa hann.“ Nú stóð svo á heima hjá litla Kláusi, að amma hans gamla var dáin. Hún hafði reyndar verið geðstirð og vond við hann, en samt tregaði hann hana mjög, tók hana andaða og lagði hana í sængina sína glóðvolga, ef svo mætti verða, að kerling lifnaði við aftur. Þar ætlaði hann að láta hana liggja alla nóttina, en sitja sjálfur úti í horni og sofa á stól, eins og hann hafði stundum gert áður. Og sem hann situr þar um nóttina, þá er upp lokið dyrum, og inn kemur stóri Kláus með öxi sína. Honum var vel kunnugt, hvar rúm litla Kláusar stóð, og gekk hann beint að því og hjó í enni ömmu gömlu, því hann hélt, að þar væri litli Kláus. „Búið er það,“ sagði hann, „ekki gabbar þú mig oftar.“ Og þar með fór hann heim aftur. „Þetta er ljóti maðurinn, þetta er illmenni,“ sagði litli Kláus, „þarna ætlaði hann að drepa mig. Það var lán fyrir ömmu gömlu, að hún var dauð áður, annars hefði hann banað henni.“ Nú færði hann ömmu gömlu í sparifötin hennar, fékk hest að láni hjá nábúa sínum og beitti hann fyrir vagninn. Síðan setti hann ömmu gömlu í baksætið og bjó svo um, að hún gæti ekki oltið út, þegar hann æki. Skokkuðu þau síðan af stað sem leið lá gegnum skóginn, og um morguninn, í sólarupprás, voru þau komin að stóru gistihúsi. Þar lét litli Kláus staðar numið og fór inn til að fá sér hressingu. Gestgjafinn var stórríkur maður, og þar til valmenni, en hann var nasbráður, eins og eldur og funi, þegar í hann fauk. „Góðan daginn,“ sagði hann við litla Kláus, „snemma hefur þú farið í sparifötin þín í dag.“ „Já,“ sagði litli Kláus, „ég er á leið til borgarinnar með henni ömmu minni gömlu, hún situr þarna úti á vagninum, ég fæ hana ekki til að koma með mér inn í stofu. Viltu ekki færa henni eitt staup mjaðar, en þú verður að tala hátt, því hún heyrir ekki vel.“ „Ég skal minnast þess,“ sagði gestgjafinn og fór út með fullt staup mjaðar til ömmunnar dauðu, sem sat upprétt í vagninum. „Hérna er fullt staup mjaðar frá syninum,“ sagði gestgjafinn, en konan dauða sagði ekki orð, heldur sat steinþegjandi. „Heyrirðu ekki?“ kallaði gestgjafinn eins hátt og hann gat, „hérna er fullt staup mjaðar frá syninum.“ Og einu sinni enn kallaði hann, og enn einu sinni, en þegar kerling hreyfði sig alls ekki úr stað, þá varð hann reiður og grýtti staupinu beint framan í hana, svo að mjöðurinn rann niður um nefið, en hún valt aftur á bak, því hún hafði aðeins verið reist upp, en ekki bundin. „Heyrðu, maður!“ kallaði litli Kláus, stökk fram úr dyrunum og greip fyrir kverkar gestgjafanum, „þarna hefurðu drepið hana ömmu mína. Líttu á, það er stórt gat á enninu.“ „Æ, mikil ógæfa!“ æpti gestgjafinn og skellti saman höndunum, „allt þetta kemur af fljótlyndi mínu. Elsku litli Kláus minn! ég skal gefa þér eina skeppu af peningum og láta jarða hana ömmu þína, eins og hún væri mín eigin amma, en þegiðu fyrir alla guðs muni, því annars höggva þeir af mér höfuðið, – og það er svo viðbjóðslegt.“ Með þessum hætti fékk litli Kláus eina skeppu af peningum, og gestgjafinn jarðaði ömmu gömlu, eins og hún hefði verið amma hans sjálfs. Þegar nú litli Kláus var kominn heim með þessa miklu peninga, þá sendi hann drenginn sinn yfrum til stóra Kláusar til þess að biðja hann að ljá sér mæliker. „Hvernig segir fyrir þessu?“ mælti stóri Kláus, „hef ég þá ekki drepið hann? Að því verð ég að gá sjálfur,“ og fór hann svo með mælikerið til litla Kláusar. „Nei – hvar hefurðu fengið alla þessa peninga?“ sagði hann og glennti upp augun, þegar hann sá allan þennan auð, sem við hafði bæst. „Það var hún amma mín, en ekki ég, sem þú drapst,“ sagði litli Kláus. „Ég hef nú selt hana og fengið fyrir hana eina skeppu af peningum.“ „Það var sannarlega vel borgað,“ sagði stóri Kláus og flýtti sér heim, tók öxi og drap ömmu sína gömlu þegar í stað, lét hana svo upp í vagn og ók til borgarinnar, þar sem lyfsalinn bjó, og spurði, hvort hann vildi kaupa dauða mannskepnu. „Nú, hvaða mannskepnu? og hvar hefurðu fengið hana?“ spurði lyfsalinn. „Það er hún amma mín,“ sagði stóri Kláus, „ég drap hana til þess að fá eina skeppu af peningum.“ „Guð varðveiti okkur,“ sagði lyfsalinn, „þú mistalar þig, segðu ekki annað eins og þetta, svo þú vinnir þér ekki til ólífis.“ Og nú sagði hann honum eins og satt var, hvílíkt illvirki hann hefði framið og hvílíkt illmenni hann væri, og hlyti hann því að sæta refsingu. Þá varð stóri Kláus svo skelkaður, að hann stökk beint úr lyfjabúðinni upp í vagn sinn, sló upp á hestana og ók heim í skyndi, en lyfsalinn og allir aðrir hugðu hann vera brjálaðan og lofuðu honum að aka hvert sem hann vildi. „Þetta skaltu fá borgað,“ sagði stóri Kláus, þegar hann var kominn á þjóðbrautina, „já, þetta skaltu fá borgað, litli Kláus!“ – Og jafnskjótt sem hann var kominn heim til sín, tók hann stærsta pokann, sem hann gat fundið, fór yfrum til Kláusar og mælti: „Nú hefurðu gabbað mig í annað sinn; fyrst drap ég hestana mína og þar næst ömmu mína. Það á ég allt upp á þig, en nú skaltu ekki gabba mig oftar.“ Að svo mæltu þreif hann yfir um Kláus, tróð honum í pokann sinn, kippti honum á bak sér og sagði: „Nú fer ég með þig og drekki þér.“ Það var langt nokkuð, sem hann þurfti að ganga áður en til árinnar kæmi, og síður en svo, að litli Kláus væri létt byrði. Leiðin lá fram hjá kirkjunni; var þar inni leikið á orgel og fagur safnaðarsöngur. Setti þá stóri Kláus niður pokann sinn, með litla Kláusi í, rétt við kirkjudyrnar, og hugsaði með sér, að ekki væri úr vegi að fara inn og hlýða fyrst á einn sálm, áður en hann héldi lengra áfram; ekki væri hætt við því, að litli Kláus slyppi út, og allir væru í kirkju. Fór hann því inn í kirkjuna. „Æ, jæja, æ, jæja!“ sagði litli Kláus stynjandi í pokanum, en hvernig sem hann sneri sér og bylti sér til í honum, þá gat hann ekki leyst bandið. En í sama bili kom gamall kúasmali með snjóhvítt hár og stórt gönguprik í hendi; hann rak á undan sér heilan rekstur kúa og nauta, og varð pokinn fyrir þeim og valt um. „Æ, æ!“ sagði litli Kláus, „ég er enn svo ungur og á nú svo fljótt að fara í himnaríki.“ „Og ég veslingur,“ sagði kúasmalinn, „ég er orðinn svona gamall og fæ ekki að komast þangað.“ „Leystu frá pokanum,“ kallaði litli Kláus, „skríddu í hann í minn stað, þá kemstu óðara í himnaríki.“ „Já, það vil ég allshugar feginn,“ sagði kúasmalinn og leysti frá fyrir litla Kláusi, og stökk hann þá óðara upp úr pokanum. „Vilt þú nú gæta nautgripanna?“ sagði gamli maðurinn og skreið í pokann, en litli Kláus batt fyrir og fór svo leiðar sinnar með allar kýrnar og nautin. Litlu síðar kemur stóri Kláus út úr kirkjunni og tekur aftur pokann á bak sér; finnst honum reyndar, að hann hafi lést mikið, því kúasmalinn var allt að því helmingi léttari en litli Kláus. „En hvað hann er orðinn léttur að bera! já, það mun nú koma af því, að ég hlýddi á sálminn.“ Fór hann svo til árinnar, en hún var bæði mikil og djúp, og fleygði hann út í hana pokanum með gamla kúasmalanum í og kallaði á eftir honum, því hann vissi ekki betur en að það væri litli Kláus: „Hana! búið er það, ekki skalt þú gabba mig oftar.“ Eftir það gekk hann heimleiðis, en þegar þangað kom, sem vegirnir skiptust, þá mætti hann litla Kláusi með allan nautgripareksturinn. „Hvað er þetta?“ sagði stóri Kláus, „drekkti ég þér ekki?“ „Jú!“ sagði litli Kláus, „þú fleygðir mér út í ána fyrir hálfri stundu.“ „En hvar hefurðu fengið allt þetta ljómandi fallega nautfé?“ spurði stóri Kláus. „Það eru sjávarnautgripir,“ sagði litli Kláus, „og skal ég nú segja þér upp alla söguna, og hafðu kæra þökk fyrir, að þú drekktir mér. Nú er mér óhætt úr þessu, – já, nú er ég verulega kominn í álnir, því máttu trúa. Ég var svo hræddur, þegar ég lá þarna, innibyrgður í pokanum; vindurinn hvein um eyru mér, þegar þú kastaðir mér niður í kaldan strauminn. Ég sökk undir eins til botns, en meiddi mig ekkert, því ég kom niður á dúnmjúkt gras, sem vex þar neðra, og í sama bili var pokinn opnaður, og kom til mín yndislegasta yngismey í snjóhvítum klæðum og með grænan krans um rennvott hárið. Tók hún í höndina á mér og sagði: „Ert þú þarna, litli Kláus! Þarna er nú, til að byrja með, nokkuð af nautgripum, sem þú mátt eiga, en einni mílu ofar á veginum stendur í viðbót heill rekstur, sem ég ætla að gefa þér.“ Ég sá nú, að áin var breiður þjóðvegur sæbúanna. Niðri á botninum komu þeir gangandi og akandi beint utan að úr sjónum og héldu inn í landið alla leið ána á enda. Þar var mesta auðlegð af indælustu blómstrum og safamikill grasvöxtur, og fiskarnir, sem þar syntu, þutu fram hjá eyrum mínum, alveg eins og fuglarnir hérna í loftinu. En hvað fólkið þar var laglegt! Og þá var ekki minna vert um búpeninginn, sem gekk þar um grund og haga!“ „En því varstu þá að koma hingað upp til okkar aftur?“ sagði stóri Kláus. „Það hefði ég ekki gert, fyrst svo ljómandi fallegt er þar neðra.“ „Jú,“ sagði litli Kláus, „það gerði ég nú einmitt af klókindum, og taktu nú eftir því, sem ég segi þér. Sækonan sagði, að mílu vegar þaðan uppi á veginum, – en með veginum meinar hún ána, því aðra leið getur hún ekki komist, – þar sé enn heill rekstur, sem mér er ætlaður. En ég veit, að áin rennur í alls konar bugðum, ýmist þar og ýmist hér, það er ekki smáræðis krókur; nei, þá er betra að stytta sér leið þegar maður getur, og koma hér upp á land og reka þvers yfir til árinnar aftur. Með því spara ég næstum hálfa mílu og kemst fljótara til sjávarnautgripanna minna.“ „Ó, mikill lánsmaður ertu,“ sagði stóri Kláus, „heldur þú, að ég fái líka sjávarnautgripi, þegar ég kem niður á árbotn?“ „Já, það mundi ég ætla,“ sagði litli Kláus, „en ég get ekki borið þig í pokanum til árinnar. Mér þykir þú heldur þungur, en ef þú vilt ganga þangað sjálfur og skríða svo í pokann, þá skal ég með mestu ánægju fleygja þér út.“ „Þakka þér fyrir,“ sagði stóri Kláus, „en fái ég ekki sjávarnautgripi, þegar niður kemur, skal ég lúberja þig.“ „Æ, vertu ekki svona vondur,“ sagði litli Kláus, og gengu þeir nú til árinnar. Nautféð var þyrst, og þegar það sá vatnið, hljóp það eins hratt og það komst til þess að geta fengið að drekka. „Sko, hvað það flýtir sér,“ sagði litli Kláus; „það langar aftur niður á botninn.“ „Já, hjálpaðu mér nú fyrst,“ sagði stóri Kláus, „ef þú vilt ekki, að ég berji þig.“ Skreið hann svo í pokann stóra, en áður hafði pokinn legið um þvert bak á einu af nautunum. „Láttu stein í pokann, því annars er ég hræddur um, að ég sökkvi ekki,“ sagði stóri Kláus. „Það mun óhætt um það,“ sagði litli Kláus, en lét samt stóran stein í pokann, reyrði fast fyrir opið og hratt honum svo út; plomp! Stóri Kláus var kominn í ána og sökk í sama vetfangi til botns. „Ég er hræddur um, að hann finni ekki nautkindurnar,“ sagði litli Kláus og hélt svo með rekstur sinn heim á leið. Þumalína Einu sinni var kona, sem sárlangaði til að eiga dálítið barn, en vissi ekki, hvaðan hún ætti að fá það. Hún fór því á fund gamallar galdrakerlingar og sagði við hana: „Mig langar svo ákaflega til að eignast ofurlítið barn. Viltu ekki segja mér, hvaðan ég á að geta fengið það?“ „Já, einhver ráð munum við hafa með það,“ sagði kerling, „hérna er byggkorn, sem ég skal gefa þér; það er ekki sams konar og þau, sem á akri spretta, eða þau, sem hænsnin fá að éta. Láttu það í urtapott, þá mun þér síðar gefa á að líta.“ „Þakka þér fyrir,“ sagði konan, gaf kerlingunni tólf skildinga, fór síðan heim og gróðursetti byggkornið. Óx það þegar í stað og varð að stóru og afarfögru blómi. Það var á að sjá alveg eins og túlípani, en blöðin lukust fast saman, sem enn væri það í hnappi. „Þetta er indælt blómstur,“ sagði konan og kyssti á fallegu rauðu og gulu blöðin, en er hún kyssti á þau, þá heyrðist hvellur í blómstrinu, og í sama bili opnaðist það. Þá sást best, að þetta var sannarlegur túlipani, en í miðju blómstrinu á græna stólnum sat agnarlítil stúlka, fín og yndisleg; hún var ekki lengri en svo sem svaraði þumlungi, og var hún því kölluð Þumalína. Hún fékk fyrir vöggu prýðisfagra, gljádregna valhnotarskurn, fjólublöð fyrir undirdýnur og rósarblað fyrir yfirsæng. Þar svaf hún um nætur, en um daga lék hún sér á borðinu, en á það hafði konan látið fullan disk af vatni, alsettan blómstrum, sem lágu með stönglana niður í vatnið. Þar var á floti stórt túlípanablað, og á því gat Þumalína setið og siglt frá einni diskhlið til annarrar; fyrir árar hafði hún tvö hvít hrosshár. Það var yndi á að horfa. Sungið gat hún líka, og það var svo fagurt og fínt, að slíkt hafði þar aldrei heyrst. Það var einhverja nótt, er hún lá í fallega rúminu sínu, að þá kom padda hoppandi inn um gluggann; það var, sem sé, brotin í honum ein rúðan. Paddan var fjarska ljót, stór og rennblaut. Hún hoppaði beina leið niður á borðið, þar sem Þumalína lá sofandi undir rósarblaðinu. „Þarna væri fallegt konuefni handa syni mínum,“ sagði paddan, þreif í valhnotarskurnina, sem Þumalína svaf í, og hoppaði með hana út um brotnu rúðuna og ofan í garðinn. Þar rann stór og breið á, en fast við bakkann voru fen og foræði; þar bjó paddan með syni sínum. Hann var líka ljótur og ótótlegur, enda var hann lifandi eftirmynd móður sinnar; „kvax, kvax, breke-ke-kex,“ það var allt og sumt, sem hann gat sagt, þegar hann sá fallegu litlu stúlkuna í valhnotarskurninni. „Talaðu ekki svona hátt, hún kynni að vakna,“ sagði paddan gamla; „hún gæti hlaupið frá okkur, því hún er létt á sér eins og svanadúnshnoðri. Við skulum setja hana út á eitt af breiðu vatnsrósablöðunum. Það er eins og eyja fyrir hana, sem er svo lítil og létt; þaðan getur hún ekki strokið, meðan við erum að laga til í stássstofunni undir forarleðjunni, þar sem þið eigið að búa framvegis.“ Úti í ánni uxu svo margar vatnsrósir með þessum afarbreiðu, grænu blöðum, sem sýnast fljóta ofan á vatninu. Það blaðið, sem lengst var frá bakkanum, var líka langstærst, og þangað út synti paddan gamla og lét valhnotarskurnina þar upp á með Þumalínu í. Hún vaknaði, veslings litla ögnin, snemma morguns, og er hún sá, hvar hún var, þá tók hún að gráta beisklega því öllum megin við græna blaðið var vatn, og lífs ómögulegt fyrir hana að komast á land. Gamla paddan sat niðri í feninu og var að prýða stofu sína með sefi og gulum árknöppum, til þess að sem nettast yrði fyrirbúið fyrir tengdadóttur hennar tilvonandi. Synti hún svo með óþekktinni honum syni sínum út að blaðinu, sem Þumalína stóð á. Þau ætluðu að sækja rúmið hennar fallega, og átti að setja það í brúðarherbergið, áður en hún sjálf stigi þar fæti. Paddan gamla hneigði sig djúpt fyrir henni í vatninu og mælti: „Hér máttu nú sjá son minn; hann á að vera maðurinn þinn, og ykkur er ætlaður prýðilegur bústaður niðri í feninu.“ „Kvax, kvax, breke-ke-kex,“ var allt og sumt, sem sonurinn gat sagt. Nú tóku þau fallega litla rúmið og syntu burt með það, en Þumalína sat alein eftir og grét á græna blaðinu, því hún vildi ekki vera hjá ljótu pöddunni eða eiga ófétið hann son hennar fyrir mann. En litlu fiskarnir, sem syntu niðri í vatninu, höfðu séð pödduna og heyrt hvað hún sagði, þess vegna teygðu þeir upp höfuðin. Þeim var forvitni á að sjá litlu stúlkuna. Og jafnskjótt sem þeir litu hana, þótti þeim hún svo yndisleg og tók sárt til hennar, að hún skyldi eiga að fara niður til ljótu pöddunnar. Nei, aldrei skyldi það verða. Þeir þyrptust niðri í vatninu utan um græna legginn, sem hélt uppi blaðinu, er hún stóð á, nöguðu hann svo í sundur með tönnunum, og flaut þá blaðið ofan eftir ánni með Þumalínu langa leið, svo að paddan gat ekki komist til hennar. Þumalína sigldi fram hjá mörgum stöðum, og litlu fuglarnir sátu í runnunum og sungu: „Ó, hvað hún er fögur, ungfrúin litla!“ Blaðið synti alltaf með hana lengra og lengra burt. Með slíkum hætti ferðaðist Þumalína erlendis. Ofurlítið hvítt fiðrildi undrafagurt fylgdi henni og flögraði stöðugt í kringum hana og settist loksins á blaðið, því það hafði svo góðan þokka á Þumalínu. Var hún nú svo glöð og ánægð yfir því, að paddan náði ekki lengur til hennar, og þar að auki var svo fallegt þar sem hún fór um; sólin skein á vatnið, svo að glitti í það eins og skínandi gull. Hún tók þá mittisband sitt og brá öðrum enda þess um fiðrildið, en hinum festi hún í blaðið; barst það þá miklu hraðara áfram og hún með því, því hún stóð á blaðinu. Í sama vetfangi kom stór aldinbori flögrandi; hann kom auga á hana, og jafnharðan læsti hann klónni yfir um mjóa mittið hennar og flaug upp í tré með hana. En græna blaðið flaut ofan ána og fiðrildið með, því það var bundið við blaðið og gat ekki losað sig. Vesalings Þumalína varð hræddari en frá megi segja, þegar aldinborinn flaug með hana upp í tréð. En það tók út yfir, hvað hún angraðist vegna fallega hvíta fiðrildisins, sem hún hafði bundið við blaðið, því hún gekk að því vísu, að ef það gæti ekki losað sig, þá hlyti það að deyja af hungri. En um það hirti aldinborinn ekki grand. Hann settist með hana á stærsta græna laufblaðið á trénu, gaf henni sætan blómsafa að eta og sagði, að hún væri svo prýðisnett, þó hún líktist alls ekki aldinbora. Síðan komu allir hinir aldinborarnir, sem bjuggu í trénu, og heimsóttu hana. Þeir virtu hana fyrir sér, og aldinboraungfrúrnar ypptu fálmstöngum sínum önuglega og sögðu: „Hún hefur þó ekki nema tvo fætur; það er neyðarlegt að sjá.“ „Hún hefur engar fálmstengur.“ „Hún er svo mittismjó, svei, hún er alveg útlits eins og manneskjan! – Hvað hún er ljót,“ sögðu öll aldinborakvendin, og þó var Þumalína svo ofurfríð. Svo virtist líka aldinboranum, sem hafði tekið hana, en þegar allir hinir sögðu, að hún væri ljót, þá trúði hann því að lokum sjálfur og vildi hana alls ekki. Sagði hann, að hún mætti fara fyrir sér hvert sem hún vildi. Flugu þeir svo með hana ofan úr tré og settu hana niður á murusóley eina. Þar grét hún yfir því, að hún var svo ljót, að aldinborarnir vildu ekki hafa hana, og þó var ekki hægt að hugsa sér neitt fegra en hún var, því hún var skær og fíngerð eins og fegursta rósarblað. Allt liðlangt sumarið hafðist vesalings Þumalína alein við í skóginum. Hún fléttaði sér rúm úr stráum og hengdi það undir stóra njólablöðku, til þess að ekki skyldi rigna á sig; hún flysjaði úr blómunum, það sem sætast var, og át það, og morgundöggina á laufblöðunum hafði hún fyrir svaladrykk. Svona leið sumarið og haustið, en nú kom veturinn að höndum, bæði kaldur og langur. Allir fuglarnir, sem höfðu sungið svo fagurt fyrir hana, flugu nú sína leið. Trén og blómin fölnuðu, og njólablaðkan stóra, sem hún hafði búið undir, smáskorpnaði, og varð seinast ekki eftir nema gulur og visinn stöngull. Þumalínu varð dauðkalt, því fötin hennar voru komin í sundur, og hún var svo fíngerð og lítil, vesalingurinn; hún hlaut að krókna út af. Það fór að snjóa, og hver snjóhnoðri, sem féll á hana, var eins og þegar kúfaðri reku af snjó er kastað okkur, því við erum stór, en hún var ekki nema þumlungur á hæð. Hún sveipaði sig þá í visið laufblað, en það hlúði henni ekkert, svo að hún skalf og nötraði af kulda. Rétt fyrir utan skóginn, þar sem hún lét fyrirberast, var stór kornakur, en kornið var flutt þaðan fyrir löngu, og stóðu aðeins þurrir og berir kólfarnir upp úr frosnum jarðveginum. Það var eins og skógur fyrir hana, þegar hún gekk á milli þeirra. Hún hríðskalf af kulda. Þá bar hana að dyrum akurmúsar einnar, sem átti sér dálitla holu undir kornhánni. Þar átti akurmúsin sér góðan og hlýjan bústað, stofuna fulla af korni, ágætt eldhús og matarbúr. Þumalína færði sig inn fyrir dyrnar og stóð þar eins og hver önnur förustúlka og bað að gefa sér dálítinn bita af byggkorni, því hún hefði ekki bragðað mat í tvo daga. „Vesalingur litli,“ sagði akurmúsin, því þetta var í rauninni gömul og góðsöm akurmús, „komdu inn í hlýjuna til mín og borðaðu hjá mér.“ Henni leist einkar vel á Þumalínu og sagði því: „Þér er velkomið að vera hjá mér í vetur, en þá verður þú að halda stofunni minni vel hreinni og segja mér sögur, því á sögum hef ég miklar mætur.“ Þumalína gerði eins og þessi gamla góða akurmús sagði fyrir, og leið henni nú mjög vel. „Nú eigum við bráðum von á gesti,“ sagði akurmúsin; „nábúi minn er vanur að heimsækja mig einu sinni í viku. Hann er nú enn betur við efni en ég; hann á stóra sali og gengur í ljómandi fallegum flauelsskinnfeldi. Ég vildi, að þú gætir orðið konan hans, þá væri vel séð fyrir þér, en hann er sjónlaus. Þú verður að segja honum allra fallegustu sögurnar, sem þú kannt.“ En um það kærði Þumalína sig ekkert, hún vildi ekki sjá nábúann, því hann var moldvarpa. Hann kom nú eins og til stóð og heimsótti akurmúsina; var hann þá í sínum svarta flauelsskinnfeldi. Sagði akurmúsin, að hann væri flugríkur og hálærður; bústaður hans væri meira en tuttugu sinnum stærri en hennar, og mikill væri lærdómurinn, en sólin og blómin fögru væru honum hvimleið og lægi honum illa orð til þeirra, því hvorugt hefði hann nokkurn tíma séð. Þumalína varð að syngja fyrir hann, og söng hún vísurnar: „Aldinbori! fljúg, fljúg!“ og „Munkur eigrar um engi.“ Fékk þá moldvarpan ástarhug á henni sakir þess, að hún hafði svo fagra söngrödd, en minntist samt ekki á það einu orði, því hún var forsjál mjög og gætin. Fyrir skemmstu hafði moldvarpan grafið sér langan gang gegnum jarðveginn frá sínu húsi til þeirra, og leyfði hún nú akurmúsinni og Þumalínu að ganga sér til skemmtunar í gangi þessum, svo oft sem þær lysti. En hún bað þær að verða ekki hræddar við litla, dauða fuglinn, sem lægi í ganginum. Það var fugl með fiðri og nefi, heill og óskertur, sem hafði víst drepist nýlega um veturnætur, og var nú niður grafinn, einmitt þar sem moldvarpan hafði holað sér út ganginn. Moldvarpan tók fnjóskaögn í munn sér, því fnjóski lýsir sem eldur í myrkri, og gekk á undan og lýsti þeim í ganginum, sem bæði var langur og dimmur. Þegar þau komu þangað, sem dauði fuglinn lá, þá rak moldvarpan trýnið upp undir loftið og ýtti upp moldinni, svo að þar varð stórt op, sem birtan gat skinið í gegnum. Á miðju gólfinu lá dauð svala með vængina fögru fastkreppta að síðunum, en fætur og höfuð dregið inn í fiðrið. Það var svo sem auðvitað, að vesalings fuglinn hafði króknað þarna út af. Þumalínu var sárasta raun að því. Henni þótti svo vænt um alla litlu fuglana; þeir höfðu sungið og kvakað svo fagurt fyrir hana allt sumarið, en moldvarpan ýtti við fuglinum með stuttu löppunum sínum og sagði: „Ekki tístir þessi lengur; aumt má það vera að fæðast sem smáfugl í heiminn. Guði sé lof, að ekkert af mínum börnum verður fugl. Svona fuglgrey hefur ekki nokkurn hlut, nema sitt „tí, tí“, og hlýtur að deyja úr hungri, þegar veturinn kemur.“ „Já, það er von, að þér segið það, svo skynsamur maður sem þér eruð,“ mælti akurmúsin. „Hvað hefur fuglinn fyrir sitt „tí, tí“, þegar veturinn kemur? Hann verður að svelta og kveljast í kulda. En það á nú að vera eitthvað svo mikilsháttar.“ Þumalína sagði ekki neitt, en þegar hin bæði sneru baki að fuglinum, þá laut hún niður, ýtti fiðrinu, sem byrgði yfir kollinn, og kyssti á lokuð augun. „Hver veit, nema það hafi verið þessi, sem söng svo fagurt fyrir mig í sumar?“ hugsaði hún með sér, „mikla gleði gerði hann mér þá, þessi elskulegi, fallegi fugl.“ Moldvarpan tróð nú upp í gatið, sem dagsbirtuna lagði inn um, og fylgdi síðan hefðarkvendunum heim. En um nóttina gat Þumalína ekkert sofið; reis hún því upp úr rúmi sínu og fléttaði saman stóra og fallega ábreiðu úr heyi, fór síðan ofan með hana og breiddi utan um dauða fuglinn og lagði mjúka baðmull, sem hún hafði fundið í stofu akurmúsarinnar, með síðum fuglsins, til þess að honum yrði hlýrra í kaldri jörðinni. „Vertu sæll, fallegi litli fuglinn minn!“ sagði hún, „vertu sæll, og hafðu þökk fyrir indæla sönginn þinn í sumar, þegar öll trén voru græn og sólin skein svo hlýlega niður á okkur.“ Síðan hallaði hún höfði sínu upp að brjósti fuglsins, en þá varð henni bilt við, því það var eins og eitthvað bærðist fyrir innan. Það var hjarta fuglsins. Fuglinn var ekki dauður; hann lá í dvala, og var nú orðinn vermdur upp og lifnaði við aftur. Á haustin fljúga allar svölur til heitu landanna, en verði ein of sein, þá slær að henni svo miklum kulda, að hún dettur niður sem dauð væri og liggur þar kyrr, sem hún er fallin, og byrgist undir köldum snjónum. Það setti skjálfta að Þumalínu af hræðslunni, því í samanburði við hana, sem var ekki nema þumlungur á hæð, þá var þetta stærðar fugl, en hún herti upp hugann, þjappaði baðmullinni enn betur að vesalings svölunni og sótti krúsmintublað, sem hún hafði notað sjálf fyrir yfirsæng, og breiddi það yfir höfuð fuglsins. – Næstu nótt læddist hún aftur ofan til fuglsins og var hún þá allifandi, en svo máttdregin, að hún gat ekki nema rétt sem allra snöggvast opnað augun og séð Þumalínu, þar sem hún stóð hjá henni með ofurlítinn fnjóska í hendinni, því annars ljósbera var ekki kostur. „Þakka þér fyrir, fallega barnið litla!“ sagði svalan sjúka, „mér er orðið svo notalega heitt. Bráðum næ ég mér aftur og get þá flogið úti í sólskininu og hlýindunum eins og áður.“ „Æ,“ sagði Þumalína, „það er svo kalt úti, það bæði snjóar og frýs. Vertu kyrr í sænginni þinni hlýju; ég skal stunda þig, vertu óhrædd um það.“ Hún færði þá svölunni vatn í blómblaði, og svalan drakk og sagði henni frá því, að annar vængurinn á sér hefði rifnað á þyrnirunni, og því hefði hún ekki getað flogið eins hratt og hinar svölurnar, sem þá flugu langar leiðir burt til heitu landanna. Hún hefði loksins fallið til jarðar, en meira gæti hún ekki munað og vissi alls ekki, hvernig hún væri í þennan stað komin. Þarna niðri var hún nú allan veturinn, og Þumalína stundaði hana og þótti svo vænt um hana. Hvorki moldvarpan né akurmúsin fengu neitt um það að vita, því þeim var ekki vel við vesalings fátæku svöluna. Þegar vorið kom og sólin yljaði jarðveginn, þá kvaddi svalan Þumalínu. Hafði Þumalína tekið frá opinu, sem moldvarpan hafði gert uppi yfir. Sólin skein svo fagurt ofan til þeirra, og spurði svalan Þumalínu, hvort hún vildi ekki fara með sér. Hún gæti setið á baki sínu, og skyldu þær þá fljúga langt út í grænan skóginn. En Þumalína vissi, að það mundi hryggja akurmúsina gömlu, ef hún yfirgæfi hana. „Nei, ég get það ekki,“ sagði Þumalína. „Vertu sæl, góða, gullfallega stúlka!“ sagði svalan og flaug út í sólskinið. Þumalína horfði á eftir henni og vöknaði um augu, því henni þótti svo vænt um vesalings svöluna. „Ví, ví!“ söng fuglinn og flaug inn í grænan skóginn. Það lá svo illa á Þumalínu. Hún fékk ekki að koma út í sólskins hlýviðrið. Kornið, sem sáð hafði verið í akurinn alla leið yfir híbýli akurmúsarinnar, óx nú og varð hátt. Það var eins og þykkur skógur fyrir vesalings litlu stúlkuna, sem var ekki nema þumlungur á hæð. „Nú átt þú að sauma til heimanfylgjunnar þinnar í sumar,“ sagði akurmúsin við hana, því nú hafði nábúinn, moldvarpan hvimleiða í flauelsskinnfeldinum, beðið hennar. „Þú verður að hafa bæði ullar- og léreftsfatnað; þú verður að eiga það, sem þú getur setið á og legið á, þegar þú verður kona moldvörpunnar.“ Þumalína varð að spinna á snældu, og akurmúsin leigði sér fjórar kóngulær til að spinna og vefa dag og nótt. Moldvarpan kom á hverju kveldi og varð skrafdrjúgt um það, að þegar sumarið liði á enda, þá skini sólin ekki nándar nærri eins heitt, núna brenndi hún jörðina, svo við lægi, að hún yrði hörð sem grjót. Já, þegar nú sumarið væri á enda, þá mundu þau Þumalína halda brúðkaup sitt. En hún var alls ekki ánægð, því hún hafði megna óbeit á þessari hvimleiðu moldvörpu. Á hverjum morgni, þegar sólin rann upp, og á hverju kveldi þegar hún gekk undir, þá læddist Þumalína út í dyrnar, og þegar þá vindurinn greiddi sundur toppana á kornstöngunum, svo að hún sá upp í bláan himininn, þá hugsaði hún um, hve bjart og fagurt væri þar úti fyrir og óskaði þess svo mikillega, að hún fengi aftur að sjá svöluna sína kæru. En hún kom aldrei framar; það var auðvitað, að hún mundi vera að fljúga einhvers staðar langt í burtu í græna skóginum. Þegar haustið var komið, hafði Þumalína alla fatnaðarheimanfylgjuna tilbúna. „Að fjórum vikum liðnum verður brúðkaup þitt,“ sagði akurmúsin við hana. En Þumalína grét og sagðist ekki vilja moldvörpuna hvimleiðu. „Hvaða vitleysa!“ sagði akurmúsin, „blessuð farðu nú ekki að rísa upp á afturfótunum, því þá bít ég þig með hvítu tönninni minni. Þetta er indæll maður, sem þú færð. Ekki á sjálf drottningin einu sinni annan eins svartan flauelsskinnfeld og hann. Hann hefur nóg að bíta og brenna. Þakkaðu þínum sæla, að þú færð hann.“ Nú átti brúðkaupið að vera. Moldvarpan var þegar komin til þess að sækja Þumalínu. Átti Þumalína að búa með henni djúpt niðri í jörðunni og mátti aldrei koma út í sólskinið, því að moldvörpunni var illa við það. Hún var sárhrygg, vesalingur; hún átti nú að kveðja blessaða sólina, sem hún hafði þó mátt sjá út um dyrnar, þegar hún dvaldi hjá akurmúsinni. „Vertu sæl, þú bjarta sól,“ sagði hún og fórnaði höndum og gekk spölkorn út fyrir híbýli akurmúsarinnar, því nú var búið að skera upp kornið og stóðu ekki eftir nema þurrir kólfarnir. „Vertu sæl, vertu sæl!“ sagði hún við dálitla rauða blómjurt, sem stóð þar; „berðu svölunni kæra kveðju mína, ef þú skyldir sjá hana.“ Þá gall við allt í einu „ví, ví!“ yfir höfði hennar. Hún leit upp fyrir sig, og var það svalan litla, sem nú einmitt fór þar um og lét til sín heyra. Hún varð sárfegin, er hún sá Þumalínu. Sagði Þumalína henni, hversu sér væri nauðugt að giftast moldvörpunni ljótu, og lægi nú fyrir sér að dvelja djúpt í jörðu niðri, þar sem aldrei skini sól. Hún fékk ekki tára bundist, er hún minntist á það. „Nú kemur kaldur vetur,“ sagði svalan, „ég flýg langt burt til heitu landanna. Viltu verða samferða? Þú getur setið á baki mínu. Bittu þig fast við mig með mittisbandi þínu; svo fljúgum við burt frá moldvörpunni ljótu og myrkrastofunni hennar, fljúgum langar leiðir yfir fjöllin til heitu landanna, þar sem er eilíft sumar og blómin svo dásamlega fögur. Komdu og fljúgðu með mér, elsku Þumalína! þú sem bjargaðir lífi mínu, þegar ég lá frosin í koldimmu jarðhúsinu.“ „Já, ég fer með þér,“ sagði Þumalína og settist á bak fuglinum með fæturna á útþöndum vængjunum. Síðan festi hún linda sinn við einhverja sterkustu fjöðrina og flaug þá svalan upp í háa loft yfir skóga og vötn, hátt yfir reginfjöllin, þar sem alltaf liggur snjór. Var loftið þar efra nístingskalt, en Þumalína bældi sig í volgu fiðri fuglsins og gægðist aðeins út með kollinn litla til að sjá allt hið fagra fyrir neðan sig. Nú komu þær til heitu landanna. Þar skein sólin miklu bjartar en hér, og himinninn sýndist miklu hærri, og við gryfjur og gerði uxu fegurstu vínber í klösum, græn og blá. Í skógunum héngu sítrónur og appelsínur; sums staðar angaði af murtusviði og krúsmintum; á þjóðvegunum hlupu til og frá yndisfríð börn og léku sér að stórum, allavega litum fiðrildum. En svalan flaug ennþá lengra, og alltaf varð fegurra og fegurra. Hjá fagurbláu stöðuvatni gnæfðu ljómandi fögur græn tré, og undir þeim stóð skínandi hvít marmarahöll frá fornum tímum. Vínviðirnir undu sig upp með hinum háu súlum, en þar efst uppi voru mörg svöluhreiður, og í einu þeirra bjó svalan, sem bar Þumalínu. „Hérna er húsið mitt,“ sagði svalan, „en viljirðu nú velja þér eitthvert af skrautlegustu blómunum, sem vaxa þarna niðri, þá skal ég setja þig þar niður, og mun þér þá líða svo blessunarlega sem þú getur framast óskað.“ „Það er ágætt,“ sagði Þumalína og klappaði saman litlu lófunum. Þar niðri lá stór, hvít marmarasúla, sem fallið hafði til jarðar og dottið í þrjú stykki, en á milli þeirra uxu prýðisfögur blóm, stór og hvít. Svalan flaug ofan með Þumalínu og setti hana niður á eitt af hinum breiðvöxnu blómablöðum. En þá varð Þumalína heldur en ekki forviða, því í miðju blóminu sat ofurlítill maður, eins hvítur og gagnsær eins og hann væri úr gleri. Hann hafði skínandi gullkórónu á höfði, en á öxlum hans voru ljómandi bjartir vængir, og sjálfur var hann ekki stærri vexti en Þumalína. Hann var engill blómsins. Í hverju blómi bjuggu þar maður og kona svona smávaxin, en þessi var konungur yfir þeim öllum. „Ó, hvað hann er fríður!“ hvíslaði Þumalína að svölunni. Litla konungmennið skelfdist að líta svöluna, því í samanburði við hann, svo fíngerðan og pínulítinn, var hún risavaxinn fugl, en þegar hann sá Þumalínu, varð hann stórglaður, hún var sú langfallegasta stúlka, sem hann hafði nokkurn tíma séð. Tók hann því af sér gullkórónuna og setti á höfuð henni, spurði hana, hvað hún héti og hvort hún vildi verða konan sín; hún skyldi þá verða drottning yfir öllum blómunum. Já, það mátti nú segja, að þetta var öðruvísi mannsefni en sonur pöddunnar og moldvarpan í svarta flauelsskinnfeldinum. Hún gaf honum því óðara jáyrði sitt, svona fríðum höfðingja, og kom nú úr hverju blómi hefðarkona eða hefðarmaður, og var það svo nettfrítt fólk, að yndi var að líta. Hver sem einn færði Þumalínu einhverja gjöf, en langbesta gjöfin voru tveir fallegir vængir af stórri hvítri flugu. Þeir voru festir á bak Þumalínu, og gat hún nú einnig flogið frá einu blómi til annars. Var nú hinn mesti fögnuður, og sat svalan uppi í hreiðri sínu og söng fyrir þau eins vel og hún gat, en var þó hrygg í hjarta, því henni þótti svo vænt um Þumalínu og vildi helst aldrei hafa þurft við hana að skilja. „Þú átt ekki að heita Þumalína,“ sagði blómengillinn við hana. „Það er ljótt nafn, og þú ert svo fögur. Við munum kalla þig Maju.“ „Vertu sæl, vertu sæl,“ sagði svalan litla og flaug nú burt úr heitu löndunum langar leiðir og aftur heim til Danmerkur. Þar átti hún sér lítið hreiður yfir glugga á húsi því, þar sem sá á heima, er ævintýri kann að segja. Fyrir honum söng hún: „Ví, ví!“ – Þaðan er saga þessi öll til okkar komin. Skugginn Mikill er sólarbruninn í heitu löndunum, það má nú segja. Hörund manna verður þar dumbrautt og alveg eins og rauðviður, og þar sem er allra heitast, brennast menn svo mjög af sólinni, að þeir verða svertingjar. En það var nú samt til þessara heitu landa, sem maður nokkur lærður var kominn frá köldu löndunum. Hann hélt sem sé, að hann gæti verið þar á gangi út um allt, eins og heima í hans eigin landi, en hann vandist fljótt af því. Hann varð, eins og hver annar heilvita maður, að kúra inni. Gluggahlerum og dyrum var lokað liðlangan daginn, það var eins og húsið allt væri í fasta svefni eða enginn væri heima. Það hagaði nú líka svo til í mjóstrætinu með háu húsunum, þar sem hann hafði leigt sér herbergi, að sólin hlaut að skína þar á frá morgni til kvölds; það veit hamingjan, að það var óþolandi. Lærða manninum frá köldu löndunum, sem var ungur að aldri og vel gefinn að vitsmunum, þótti sem hann sæti í glóandi ofni. Það tók mikið á hann, hann lagði stórum af, og enda skugginn hans gekk saman og varð miklu minni en heima; sólin tók líka á hann. Þeir félagar lifnuðu fyrst við aftur á kvöldin, þegar sólin var gengin undir. Það var sannarlega gaman á að horfa. Undir eins og ljós var sett inn í herbergið, þá teygði skugginn úr sér alla leið upp með þilinu, seildist meira að segja undir loftið; svo langan gerði hann sig. Hann varð að rétta úr sér til að jafna sig eftir hitann. Lærði maðurinn gekk fram á svalirnar til þess að rétta þar úr sér, og þótti honum þá sem hann lifnaði allur við smám saman, jafnóðum og stjörnurnar birtust í himinheiðríkjunni. Fólkið kom fram á svalir fyrir utan hvern glugga, enda veitir mönnum ekki af að viðra sig, hversu vanir sem þeir eru annars hitanum. Þá varð þar svo fjörugt bæði uppi og niðri. Skraddarar og skóarar, allt, sem vettlingi gat valdið, færði sig út á strætið. Voru sett út borð og stólar, og ljósin loguðu þúsundmörg; einn talaði og annar söng, og fólk var á sífelldum erli fram og aftur; vagnarnir runnu og asnarnir þrömmuðu; kling, kling, gló! því það voru á þeim bjöllur; lík voru jörðuð með sálmasöng, og götustrákarnir skutu púðurkerlingum. Það var heldur en ekki fjörugt niðri á strætinu. Það var einungis eitt hús, þar sem allt var kyrrt og hljótt. Það stóð beint á móti húsinu, sem útlendi lærði maðurinn bjó í. Einhver hlaut þó að búa þar, því á svölunum stóðu blóm og greru svo ljómandi vel í sólarhitanum, en það hefðu þau ekki getað, nema þau væru vökvuð, og einhver hlaut þá að vera, sem vökvaði. Dyrnar þar yfir frá opnuðust líka, þegar á leið kvöldið, en dimmt var þar inni, að minnsta kosti í fremsta herberginu; lengra innan að ómaði sönglist. Fannst lærða manninum hún vera alveg dæmalaus, en það gat nú vel verið, að það væri tóm ímyndun hans, því honum þótti allt vera svo dæmalaust ágætt þarna í heitu löndunum, hefði sólin ekki verið. Húseigandinn, sem lærði maðurinn bjó hjá, kvaðst ekki vita, hver sá væri, sem til leigu byggi í húsi gagnbúa hans. Þar sæist aldrei nokkur maður, og hvað sönglistina snerti, þá þætti sér hún vera fjarska leiðinleg. „Það er eins og einhver sé að æfa sig á einhverju lagi, sem hann getur ekki komist upp á, – alltaf á sama laginu. „Ég skal samt komast upp á það á endanum,“ veit ég hann muni segja, en það verður samt aldrei, hvað lengi sem hann leikur.“ Eina nóttina vaknaði lærði maðurinn. Hann svaf fyrir opnum svaladyrum, vindblærinn lyfti frá dyragluggatjaldinu, og sýndist honum koma undarlega mikil birta frá svölum gagnbúans. Öll blómin voru sem logar og lýstu fegurstu litum, og mitt á meðal blómanna stóð fríð og fagurvaxin yngismey. Það var líka eins og lýsti af henni; það nærri skar í augu hans, enda glennti hann þau upp í meira lagi, er hann var að vakna. Hann þaut í hendingskasti upp úr rúminu og var óðara kominn að baka til við gluggatjaldið, en yngismeyjan var þá öll á burtu. Ljóminn var horfinn, blómin lýstu ekki, en stóðu í prýði sinni eftir vanda, dyrnar voru opnar í hálfa gátt, og langt inni ómaði sönglistin svo blítt og fagurt. Það var ómögulegt annað en að ljúfar hugsanir vektust við þann hljóm. Þetta var töfrum líkt, en hver bjó þarna? Hver var rétti inngangurinn í húsið? Í neðsta gólfi var sölubúð við sölubúð, og ekki gat það verið, að alltaf væri gengið þar í gegnum. Eitt kvöld sat lærði maðurinn úti á svölum sínum. Ljós logaði í herberginu að baki hans, og var því eðlilegt, að skugga hans bæri á vegg gagnbúans; já, þar sat skuggi beint andspænis á meðal blómanna á svölunum, og þegar lærði maðurinn hreyfði sig, þá hreyfði skugginn sig líka, því það gerir hann ávallt. „Ég held skugginn minn sé það eina lifandi, sem sést þarna yfirfrá,“ sagði lærði maðurinn. „Sko, hvað nett hann situr þarna innan um blómin. Dyrnar eru opnar í hálfa gátt; nú ætti skugginn að vera svo naskur að fara inn og litast um og segja mér svo á eftir, hvað hann hefur séð. Já, þú ættir að vinna eitthvað þarft,“ sagði hann gamni, „gerðu nú svo vel og skrepptu inn fyrir; nú, nú, farðu þá!“ Og þar með kinkaði hann kolli til skuggans, og skugginn eins til hans. „Jæja! farðu þá, en svíkstu ekki um að koma aftur.“ Og lærði maðurinn stóð upp, og skugginn hans á svölum gagnbúans stóð líka upp, og lærði maðurinn sneri sér við og skugginn eins. Já, hefði einhver verið til að veita þessu almennilega eftirtekt, þá hefði hann getað séð greinilega, að skugginn gekk um hálfopnar dyrnar gagnbúans, alveg í sömu andránni sem lærði maðurinn gekk inn í herbergi sitt og hleypti niður gluggatjaldinu á eftir sér. Morguninn eftir fór lærði maðurinn út til að fá sér kaffi og lesa fréttablöðin. „Hvað er þetta?“ sagði hann, þegar hann kom út í sólskinið, „er sem mér sýnist? Ég hef þá engan skugga. Svo hann hefur þá farið sína leið í gærkveldi og ekki komið aftur. Það er leiðinlegur skolli.“ Og honum sárnaði í skapi, ekki svo mjög af því, að skugginn var horfinn, heldur af hinu, að hann vissi, að til var saga um skuggalausan mann, og að þá sögu þekkti og kunni hver maður í köldu löndunum, og þegar nú hann, lærði maðurinn, kæmi heim og segði sína sögu, þá mundu þeir segja, að hann væri að líkja eftir öðrum, en þess þóttist hann ekki þurfa. Hann vildi því alls ekkert á þetta minnast, og var það rétt og skynsamlega hugsað af honum. Um kvöldið gekk hann aftur út á svalirnar hjá sér. Ljósið hafði hann, eins og lög gera ráð fyrir, sett að baki sér, því skugginn vill ætíð hafa herra sinn að hlíf, en ekki tókst honum að lokka hann að sér. Hann gerði sig lítinn, hann gerði sig stóran, en enginn varð skugginn. Hann sagði: „Humm, humm!“ en ekkert stoðaði það. Það var leiðinlegt mjög, en þarna í heitu löndunum vex allt svo fljótt, og að átta dögum liðnum sér hann, þegar hann kemur út í sólskinið, að farinn er að vaxa nýr skuggi út úr fótum hans. Honum þótti undurvænt um það; hann réð af því, að rótin mundi hafa setið eftir. Og að þremur vikum liðnum hafði hann allsæmilegan skugga. Sneri hann þá heimleiðis til hinna norðlægari landanna, og á leiðinni fór skugginn dagvaxandi og var seinast orðinn svo langur og stór, að ekki þótti á bætandi. Lærði maðurinn kom nú heim aftur og samdi bækur um það, sem satt væri í heiminum, og um það, sem gott væri og fagurt, og svo liðu dagar og svo liðu ár. Það liðu mörg ár. Eitt kvöldið situr hann í herbergi sínu, og er þá drepið hægt á dyr. „Kom inn!“ sagði hann, en enginn kom. Hann lýkur upp, og stendur frammi fyrir honum maður nokkur fram úr lagi magur, svo að honum varð undarlega við. Að öðru leyti var maðurinn á sérlega fínum fötum. Það hlaut að vera einhver maður af heldra tagi. „Hver er sá, sem mér veitist sú virðing við að tala?“ mælti hinn lærði. „Já, þetta grunaði mig alténd,“ sagði fíni maðurinn, „að þér munduð ekki þekkja mig. Ég er nú orðinn svo líkamlegur; ég hef fengið almennilegt hold og spjarir utan á mig. Yður hefur víst aldrei dottið í hug, að þér munduð sjá mig svona uppdubbaðan. Þekkið þér ekki skuggann yðar gamla? Já, þér hafið víst ekki haldið, að ég mundi koma aftur nokkurn tíma framar. Mér hefur gengið mæta vel, síðan ég var hjá yður seinast. Ég er í alla staði velmegandi maður; skyldi ég þurfa að kaupa mig lausan úr vistinni, þá get ég það.“ Og um leið hringlaði hann í heilli kippu af dýrindis signetum, sem héngu við vasaúrið hans, og smeygði hendinni undir digra gullfesti, sem hann hafði um hálsinn. Demantssteinhring bar hann á hverjum fingri, og stóð af demöntunum tindrandi ljómi! Og allt var þetta í raun og veru. „Ég get ekki áttað mig á þessu,” sagði lærði maðurinn, „hvað er allt þetta?“ „Já, það er nú ekki neitt algengt,“ sagði skugginn, „og þér eigið nú ekki heldur sjálfur neitt skylt við þetta algenga, og hvað mig snertir, þá vitið þér, að ég hef frá blautu barnsbeini fetað í yðar fótspor. Þegar yður sýndist, að ég hefði þroska til að fara einn út í heiminn, þá fór ég mína eigin götu, og nú er svo komið, að ástæður mínar eru ljómandi góðar, en það greip mig einhvers konar löngun eftir að sjá yður einu sinni áður en þér deyið. Þér eigið sem sé að deyja. Og svo vildi ég líka feginn sjá aftur þessi lönd, því alténd þykir manni vænt um ættjörð sína. Ég veit þér hafið nú aftur fengið annan skugga; ber mér nokkuð að borga honum eða yður? Þér gerið svo vel að segja til.“ „Nei, ert það þú?“ sagði lærði maðurinn, „þetta er þó stórmerkilegt; aldrei hefði ég trúað því, að gamli skugginn nokkurs manns gæti komið aftur og sjálfur verið orðinn að manni.“ „Segið mér,“ mælti skugginn, „hvað mér ber að borga, mér er ekki um að vera í neins konar skuld.“ „Því talarðu svona!“ sagði lærði maðurinn, „hvaða skuld getur hér verið um að ræða? Vertu svo frjáls sem nokkur getur verið. Ég gleðst óumræðilega yfir hamingju þinni; tylltu þér á skákina, gamli góðkunningi, og segðu mér nú, blessaður, allt, sem farið hefur, og hvað það var, sem þú sást yfir frá hjá gagnbúa okkar þarna í heitu löndunum.“ „Já, það skal ég segja yður,“ mælti skugginn og settist „en þá verðið þér líka að lofa mér því, að hvar sem þér hittið mig, þá segið þér aldrei nokkrum manni hérna í borginni frá því, að ég hafi verið skugginn yðar. Ég hef í hyggju að trúlofast; ég get staðið straum af einni fjölskyldu og þó fleiri væru.“ „Vertu öruggur um það,“ sagði lærði maðurinn, „ég skal ekki segja nokkrum manni, hver þú í rauninni ert. Hérna er höndin mín; ég lofa þér því með æruorði. Maður er maður, og orð er orð.“ „Orð er orð, og skuggi er skuggi,“ mælti hinn og var það honum líkt að mæla á þá leið. Það var mesta furða, hvað skugginn var orðinn vel að manni. Hann var á svörtum fötum úr fínasta klæði, með gljástígvél á fótum og með þess konar hatt á höfði, er smella mátti saman, svo að barð og kollur fór í eitt, að við nú ekki tölum um hitt, sem áður var nefnt, signetin, hálskeðjuna og demantshringana. Já, það var óhætt að segja, að skugginn var fyrirtaks vel búinn, og það var einmitt það, sem gerði hann alveg að manni. „Nú skal ég taka til frásagna,“ mælti skugginn og lagði gljástígvéluðu fæturna eins óþyrmilega og hann gat á ermi nýja skuggans lærða mannsins, þar sem hann lá eins og rakki við fætur hans. Gerði gamli skugginn það annaðhvort af drembilæti eða til þess að hinn skyldi tolla betur við, en hann lá líka grafkyrr og bærði ekki á sér, til þess að taka betur eftir. Honum þótti víst nógu gaman að fræðast um, hvernig maður ætti að fara að til að losa sig svona og hafa sig svo upp, að maður gæti átt með sig sjálfur. „Vitið þér, hver það var, sem bjó í húsi gagnbúans?“ mælti skugginn, „það var hún, sem fegurst er allra, það var Skálddísin. Ég var þar í þrjár vikur, og verkar það eins mikið eins og ef maður lifði í þrjú þúsund ár og læsi allt, sem hefur verið skáldað og skrifað. Það segi ég, og það er sannleikur. Ég hef séð allt og ég veit allt.“ „Skálddísin!“ kallaði lærði maðurinn upp, „já, já, hún er oft einsetukona í stórborgunum. Skálddísin! Já, ég hef aðeins einu sinni séð hana í svip, en þá voru stírur í augunum á mér. Hún stóð á svölunum og skein eins og bragandi norðurljós. Æ, segðu, segðu mér frá öllu. Þú varst á svölunum, þú fórst inn um dyrnar, og þá – – –“ „Þá var ég kominn í forsalinn,“ sagði skugginn. „Þér hafið öllum stundum setið og horft yfir í forsalinn. Þar var alls ekkert ljós, þar var eins konar rökkur, en innar af voru stofur og salir í langri röð með opnum dyrum, sem stóðust á hverjar við aðrar, og var þar allt ljósum lýst. Ljósin hefðu alveg gert út af við mig, ef ég hefði komist alla leið til yngismeyjarinnar. En ég hafði vit fyrir mér; ég fór í hægðum mínum, og það á maður að gera.“ „Og hvað sástu þá?“ spurði lærði maðurinn. „Ég sá allt, og ég skal segja yður frá því – en, meðal annarra orða, það er alls ekki af neinum gikkshætti, heldur af því, að ég er nú frjáls orðinn, og svo líka vegna þeirrar þekkingar, sem ég hef til að bera, – að ég nú ekki nefni mína góðu stöðu og ágætu lífskjör, – þá væri mér ofur kært, ef þér vilduð þéra mig.“ „Æ, fyrirgefið þér,“ sagði lærði maðurinn, „það var af gamla vananum, sem loðir við. Þér hafið alveg rétt fyrir yður, og ég skal muna eftir því, en segið mér nú, hvað þér sáuð.“ „Allt,“ sagði skugginn, „ég sá allt og ég veit allt.“ „Hvernig er umhorfs í innstu sölunum?” spurði lærði maðurinn, „var þar eins og í grænum skógi? Var þar eins og í heilagri kirkju? Voru salirnir eins og stjörnubjartur himinn, þegar maður stendur uppi á háfjöllum?“ „Þar var allt,“ sagði skugginn; „ég fór ekki alveg inn, ég staðnæmdist í fremsta herberginu, í rökkurskímunni, en ég hafði þar bestu sjónarstöðu; ég sá allt, og ég veit allt. Ég hef verið við hirð skálddísarinnar, – í forsalnum.“ „En hvað sáuð þér? Gengu allir guðir fornaldarinnar um stóru salina? Börðust fornhetjurnar? Léku blessuð börnin sér og sögðu frá draumum sínum?“ „Ég segi yður svo mikið, að ég var þar, og skiljið þér, ég sá allt, sem þar var að sjá. Hefðuð þér komist þangað yfrum, þá hefðuð þér ekki orðið að manni, en það varð ég. Og jafnframt fór ég að þekkja mitt innsta eðli, það, sem mér er meðskapað, og þá frændsemi, sem ég er í við skáldskapinn. Já, þegar ég var hjá yður, þá hugsaði ég ekki út í það, en ætíð, eins og þér munið, þegar sól rann upp og sól settist, þá varð ég svo undarlega stór; í tunglskini lá við, að ég sæist greinilegar en þér sjálfur. Ég var þá ekki búinn að fá skilning á eðli mínu. Í forsalnum opnuðust hugskotsaugu mín, og þá varð ég maður. Fullþroskaður kom ég þaðan út, en þér fóruð þá alfarinn úr heitu löndunum. Ég skammaðist mín fyrir sjálfan mig eins og ég var og stóð, þar sem ég nú var orðinn maður. Mér lá á stígvélum, mér lá á fötum – í stuttu máli, mér lá á þessari góðu litgljá, sem einkennir manneskjuna. Ég segi yður það svona í trúnaði, þér farið ekki að setja það í neina bók, – ég smaug að pilsi kryddbrauðssölukonunnar og undir því faldi ég mig. Konukindinni datt ekki í hjartans hug, að hún hefði svo mikið að geyma. Fór ég nú ekki út, fyrr en kvöldsett var orðið, og var ég svo á reiki um strætin í tunglskininu. Ég teygði mig langt upp eftir múrnum; það kitlaði mig svo þægilega í bakinu; ég hljóp upp og ofan, gægðist inn um hæstu glugga, inn í salinn og upp á þakið. Ég gægðist þar inn, sem enginn getur gægst, og ég sá það, sem engir aðrir sáu, það, sem enginn átti að sjá. Ljót er hún annars þessi veröld. Ekki vildi ég vera manneskja, ef það nú ekki einu sinni væri álitið, að það væri einhver fremd í að vera það. Ég sá það, sem enginn lifandi maður mundi ímynda sér, – hjá konunum, hjá mönnunum þeirra, hjá foreldrunum og hjá blessuðum börnunum; – ég sá,“ sagði skugginn, „það, sem enginn mátti vita, en sem þeir allir vilja svo fegnir vita, en það er illt um nágranna sinn. Hefði ég haldið úti fréttablaði, þá hefði það víst orðið lesið. En ég skrifaði ekki fréttablað, heldur skrifaði ég þeim til hverjum í sínu lagi, og stóð af því mikill ótti í öllum þeim borgum, þar sem ég kom. Þeir urðu svo hræddir við mig, og þeim þótti svo vænt um mig; prófessorarnir gerðu mig að prófessor, skraddararnir gáfu mér ný föt, enda er ég nú heldur en ekki vel fataður; myntmeistarinn myntaði handa mér peninga, og konurnar sögðu, að ég væri svo fallegur, – og varð ég svo sá maður, sem ég er, og nú ætla ég að kveðja. Hérna er nafnmiðinn minn; ég bý sólarmegin og er ætíð heima, þegar rignir.“ Að svo mæltu fór skugginn. „Þetta er þó merkilegt,“ sagði lærði maðurinn. Svo leið ár og dagur, og kom þá skugginn aftur. „Hvernig gengur?“ segir skugginn. „Æ!“ sagði lærði maðurinn, „ég er að rita um hið sanna og hið góða og hið fagra, en enginn hirðir um að heyra slíkt. Ég er hreint að örvilnast, því ég tek mér þetta svo nærri.“ „En það geri ég ekki,“ sagði skugginn, „ég er alltaf að fitna, og það á maður að gera sér far um. Já, þér hafið ekki vit á veraldlegum efnum. Yður gerir ekki nema hraka. Þér þurfið að ferðast. Ég ætla að ferðast í sumar; viljið þér vera með? Ég vildi hafa einhvern með mér til samlætis; viljið þér slást með í ferðina sem skuggi? Það skal vera mér sönn ánægja að hafa yður með mér. Ég borga ferðina.“ „Það er nokkuð langt farið, að ætlast til þess af mér,“ sagði lærði maðurinn. „Það er nú eins og það er virt;“ mælti skugginn, „þér munuð hafa mjög gott af því að ferðast. Ef þér viljið vera skugginn minn, þá skuluð þér fá allt ókeypis á ferðinni.“ „Það væri þó ótækur skolli,“ sagði lærði maðurinn. „En svona er nú veröldin,“ mælti skugginn, „og svona mun hún verða,“ og þar með fór hann. Lærða manninum leið alls ekki vel, hryggð og leiðindi fylgdu honum hvarvetna, og hvað sem hann sagði um hið sanna og hið góða og hið fagra, þá var það fyrir flesta eins og perlur fyrir svín. – Að síðustu varð hann alveg sjúkur. „Þér eruð orðinn hreint eins og skuggi,“ sögðu menn, og það fór eins og hrollur um lærða manninn, því hann hugsaði margt. „Þér verðið að ferðast til baðstaðar,“ sagði skugginn, er hann kom að vitja hans, „annað tjáir ekki. Ég skal taka yður með mér upp á gamlan kunningsskap; ég borga ferðina, og þér semjið ferðasöguna og eruð mér svona ögn til skemmtunar á leiðinni. Ég ætla til baðstaðar. Skeggið vill ekki vaxa á mér almennilega, það er líka sjúkdómur fyrir sig, og skegg verður maður þó að hafa. Látið yður nú segjast og þiggið boðið, við ferðumst svo sem aðrir lagsbræður.“ Og svo varð það úr, að þeir ferðuðust. Var þá skugginn herra og herrann skuggi; þeir óku, riðu og gengu saman, hvor við annars hlið, og fór það eftir því, sem sól var á lofti, hvor á undan var eða eftir; skugginn var ætíð viss með að vera þar, sem herranum byrjaði að vera, en ekki var lærði maðurinn neitt að fást um það. Hann var hjartabesti maður og ljúfmennskan sjálf, og því var það, að hann einhvern dag sagði við skuggann: „Fyrst við nú erum orðnir lagsbræður á þessu ferðalagi og höfum vaxið upp saman frá blautu barnsbeini, væri þá ekki réttast að við drykkjum dús, það er eitthvað meiri vináttubragur á því?“ „Þarna segið þér nokkuð,“ mælti skugginn, sem nú var í raun réttri orðinn herra hins; „það er sérlega hispurslaust og góðgjarnlega talað af yður, og ég ætla þá aftur á móti að vera eins góðgjarn og hispurslaus í svörum. Þér eruð svo lærður maður, að þér vitið víst, hvað náttúran er stundum undarleg. Sumar manneskjur þola ekki að snerta á grápappír, þeim verður óglatt af því; sumum ískrar gegnum alla limi, ef nagla er núið við glerrúðu. Eitthvað líka tilfinningu hef ég, þegar ég heyri yður þúa mig, mér finnst, eins og mér sé þrýst niður í fyrri stöðu mína, þegar ég var hjá yður. Þér sjáið sjálfur, að þetta er eðlileg tilfinning mín, en alls ekki drembilæti. Ég get ekki lofað yður að þúa mig, en það er velkomið að ég þúi yður, og er þá beiðnin veitt að hálfu leyti.“ Og nú þúaði skugginn fyrrverandi herra sinn. „Nú kastar þó tólfunum,“ hugsaði lærði maðurinn með sér, „að ég verð að þéra hann, en hann þúar mig.“ Honum tjáði nú samt ekki annað en að sætta sig við það. Eftir þetta komu þeir til baðstaðar, þar sem fjöldi aðkomenda var fyrir, þar á meðal kóngsdóttir ein yndisfögur, sem haldin var af þeim kvilla, að hún sá of vel, en það getur valdið hjartveiki. Hún varð undir eins vör við, að þessi herra, sem nú var kominn, var af allt öðru tagi en allir hinir aðrir. „Hann ætlar að dveljast hér til þess að fá skeggið til að vaxa, segja þeir, en ég sé sönnu orsökina til þess: hann getur ekki látið bera af sér skugga.“ Forvitnin var vöknuð hjá henni, og því gaf hún sig óðara á tal við þennan ókunna herra á skemmtigöngusvæðinu. Hún var kóngsdóttir og þurfti ekki að hafa á því margar sveiflur, og því sagði hún: „Ég veit hvað að yður gengur, þér getið ekki látið bera af yður skugga.“ „Yðar konunglega hátign hlýtur að vera á batavegi,“ mælti skugginn. „Ég veit, að yðar meinsemd er í því fólgin, að þér sjáið alltof vel, en hún er í rénun. Þér eruð orðnar góðar. Ég hef, skal ég segja yður, alveg óvenjulegan skugga; sjáið þér ekki þessa persónu, sem alltaf gengur með mér? Aðrir hafa algengan skugga, en mér er nú ekki mikið gefið um þetta algenga. Maður lætur þjóninn sinn fá fínna klæði í gervið sitt en maður hefur sjálfur í sín eigin föt, og eins er það, að ég hef enda dubbað upp skuggann minn í mannsmynd; já, meira að segja, ég hef gefið honum skugga, eins og þér sjáið. Það er mjög kostnaðarsamt, en ég er nú reyndar svo gerður, að ég vil hafa eitthvað út af fyrir mig sérstaklega.“ „Hvað er þetta?“ hugsaði kóngsdóttirin, „skyldi mér þá vera batnað? Böðin hérna eru ágæt. Vatnið hefur á okkar tímum stórfurðulegan kraft. En ég fer ekki héðan, því nú fer að verða skemmtilegt hér. Þennan ókunna mann líst mér sérlega vel á. Bara að skeggið hans spretti því þá fer hann héðan.“ Um kvöldið dönsuðu þau í danssalnum stóra, kóngsdóttirin og skugginn. Hún var létt, en hann var enn léttari; slíkan dansara hafði hún aldrei þekkt. Hún sagði honum, frá hvaða landi hún væri, og hann kannaðist við landið, því hann hafði verið þar, en þá var hún ekki heima. Hann hafði gægst inn um gluggana, hátt og lágt, hann hafði séð hvað eina, og var honum því svo létt um svörin, að kóngsdóttirin varð steinhissa. Hann hlaut svo mikla virðingu fyrir þekkingu sína, og þegar þau dönsuðu í annað sinn, þá varð hún ástfangin, og það fann skugginn vel, því það lá við, að hún blíndi alveg í gegnum hann. Dönsuðu þau svo ennþá einu sinni, og var þá rétt komið að henni að segja það, en hún var stillt og gætin. Hún hugsaði um lönd sín og ríki og allan þann lýð, sem hún átti yfir að ríkja. „Vitur maður er hann,“ sagði hún við sjálfa sig, „gott er það, og ljómandi vel dansar hann, það er líka gott. En skyldi hann nú hafa grundaða þekkingu? Það er eins gott að prófa hana.“ Og tók hún þá smám saman að leggja fyrir hann spurningar, og þær svo þungar, að hún mundi ekki sjálf hafa getað leyst úr þeim. Varð þá skugginn undarlegur í framan. „Þessu getið þér ekki svarað,“ mælti kóngsdóttirin. „Þetta er í barnafræðum mínum,“ sagði skugginn, „ég held jafnvel, að skugginn minn þarna við dyrnar geti leyst úr því.“ „Skugginn yðar!“ sagði kóngsdóttirin, „það væri þó heldur en ekki merkilegt.“ „Ég segi ekki fyrir víst, að hann geti það,“ sagði skugginn, „en vel gæti ég ímyndað mér það. Hann hefur nú fylgt mér í svo mörg ár og tekið eftir, – ég gæti ímyndað mér það, en með leyfi yðar hátignar vildi ég benda yður á, að honum þykir svo mikil fremd að því að vera talinn maður, að það verður að fara með hann eins og hvern annan mann, ef vel á að liggja á honum, en þess þarf, ef hann á að geta svarað vel.“ „Þetta líkar mér,“ sagði kóngsdóttirin. Því næst fór hún til lærða mannsins við dyrnar og talaði við hann um sólina og tunglið og um mennina, hvernig þeir eru bæði hið ytra og innra, og svaraði hann öllu vel og viturlega. „Hvílíkur má sá maður vera, sem hefur svo vitran skugga!“ hugsaði hún með sér, „mikil blessuð hamingja mundi það vera fyrir þjóð mína og ríki, ef ég kysi hann fyrir eiginmann; – það geri ég!“ Og um það voru þau ekki lengi að koma sér saman, kóngsdóttirin og skugginn, en enginn átti um það að vita, fyrr en hún kæmi heim í ríki sitt. „Enginn, ekki einu sinni skugginn minn,“ sagði skugginn og hugsaði margt. Komu þau nú í landið, þar sem kóngsdóttirin annaðist stjórnina, þegar hún var heima. „Heyrðu, góði vinur!“ sagði skugginn við lærða manninn, „nú er ég orðinn svo hamingjusamur og voldugur sem nokkur getur orðið, og nú ætla ég líka að gera meira en lítið fyrir þig. Þú skalt hafa ævivist hjá mér í höllinni, aka með mér í mínum konunglega vagni og hafa að launum hundrað þúsund ríkisdali á ári, en þú verður að láta menn kalla þig skugga, hvern sem einn. Þú mátt ekki láta á því bera, að þú hafir nokkurn tíma verið maður, og þegar svo ber undir, sem ekki er nema einu sinni á ári, að ég sit á svölunum í sólskininu og lofa mönnum að sjá mig, þá verður þú að liggja við fætur mér, eins og skugga hæfir. Þér að segja, ætla ég að eiga kóngsdótturina, og í kvöld á brúðkaupið að vera.“ „Nei, þetta tekur þó engu tali,“ sagði lærði maðurinn, „það vil ég ekki, og það geri ég ekki. Það væru svik við landið og við kóngsdótturina líka. Ég segi allt eins og er, að ég er maðurinn, en þú ert skugginn. Þú ert ekki nema gervið tómt.“ „Enginn leggur trúnað á slíkt,“ mælti skugginn, „vertu nú góður, að öðrum kosti kalla ég á hallarverðina.“ „Ég fer beint til kóngsdótturinnar,“ sagði lærði maðurinn. „En ég fer til hennar fyrst,“ sagði skugginn, „og þú ferð í myrkvastofu.“ – Og það varð hann að fara, því verðirnir hlýddu honum, sem þeir vissu, að kóngsdóttirin ætlaði að giftast. „Þú skelfur,“ sagði kóngsdóttirin, þegar skugginn kom inn til hennar, „hefur nokkuð komið fyrir? Þú mátt ekki sýkjast undir kvöldið. Nú á brúðkaupið að vera.“ „Mér hefur mætt það hræðilegasta, sem að höndum getur borið, og nú skaltu heyra! Já, heilinn í svona skuggagreyi þolir ekki mikið. – Geturðu ímyndað þér það? – Skugginn minn er orðinn vitlaus og heldur, að hann sé maðurinn og að ég, – hvað líst þér? – að ég sé skugginn hans.“ „Það er hræðilegt,“ sagði kóngsdóttirin, „það mun þó vera búið að loka hann inni?“ „Svo er víst. Ég er hræddur um, að honum batni aldrei.“ „Vesalings skuggi,“ sagði kóngsdóttirin, „hann er sárilla farinn. Það væri sönn velgerð að losa hann við þá litlu líftóru, sem í honum er, og þegar ég fer að hugsa um það, þá held ég brýna nauðsyn beri til, að ráð verði séð fyrir honum í kyrrþey.“ „Hart er það reyndar, því hann var dyggur þjónn,“ sagði skugginn, – og var sem hann andvarpaði. Um kvöldið var öll borgin skrautlýst, og fallbyssuskotin riðu af, – bumm! – og dátarnir heilsuðu með byssunum. Það var verið að halda brúðkaup. Þau kóngsdóttirin og skugginn gengu út á svalirnar til að sýna sig og láta enn einu sinni fagna sér með húrraópi. Lærði maðurinn heyrði ekkert af þeim látum. Það var búið að taka hann af lífi. Farlami drengurinn Frá því er að segja, að á herragarði nokkrum bjuggu ágætishjón á besta aldri. Þau höfðu auð og allsnægtir, þau vildu gera alla ánægða, eins og þau voru sjálf ánægð. Um jólakvöldið stóð ljómandi vel skreytt jólatré í riddarasalnum gamla, eldur logaði á arinofninum, og grenikvistir höfðu verið hengdir á litmyndaspjöldin gömlu. Þar voru samankomin höfðingshjónin og gestir þeirra, og var bæði sungið og dansað. Nokkru fyrr um kvöldið var haldin jólagleði í vinnufólksstofunni. Þar inni stóð líka stórt grenitré með logandi kertaljósum, rauðum og hvítum, litlum pappírsnetjum, fullum af „gottigotti“. Fátæku börnunum í sókninni hafði verið boðið, og mæðrum þeirra líka. Þær horfðu ekki svo mjög á tréð; þeim varð oftar litið til jólaborðanna, en á þeim lágu ullar- og léreftsdúkar, kjólaefni og buxnaefni. Já, þangað litu mæðurnar og stálpuðu börnin; það voru ekki nema minnstu krakkarnir, sem terruðu fingurna eftir ljósunum, næfurgullsglysinu og fánunum. Þetta boðsfólk kom snemma um kvöldið og fékk til snæðings jólagraut og gæsasteik með rauðkáli. Þegar búið var að skoða jólatréð í krók og kring og gjöfunum var útbýtt, þá var púns til glaðnings á eftir, eitt glas á mann, og eplaskífur með. Þegar heim var komið í fátæklegu stofurnar, var talað um matarsæluna og góðgjörðirnar, og voru þá gjafirnar ennþá einu sinni vandlega skoðaðar. Það var nú hún garða-Stína og hann garða-Óli. Þau voru hjón og fengu húsnæði og daglegt brauð fyrir að pæla í garði herragarðshjónanna og reyta upp úr honum illgresið. Á hverri jólahátíð fengu þau sinn drjúga hlut í gjöfunum; þau áttu líka fimm börn, og öll voru þau fimm börn fötuð af herragarðshjónunum. „Þau eru góðgjörðasöm, herragarðshjónin, húsbændur okkar,“ sögðu þau, „en þau hafa líka efni á því og þau hafa sjálf ánægju af því.“ „Hér eru komin góð slitföt handa fjórum krökkunum,“ sagði garða-Óli. „En því er hér ekkert handa krypplinum? Þau eru þó vön að hugnast honum eitthvað líka, þó ekki sé hann með í gildinu.“ Það var elsta barnið, sem þau kölluðu „kryppil“; það var drengur og hét Hans. Hann hafði fyrst framan af verið fjörugt og efnilegt barn, en svo varð hann allt í einu afllaus í fótunum, hann gat ekki staðið né gengið, og nú var hann búinn að vera rekkjulægur á fimmta árið. „Já, eitthvað fékk ég nú líka handa honum,“ sagði móðirin, „en það er ekki mikið í það varið, það er ekki nema bók, sem hann getur lesið í.“ „Ekki verður hann feitur af því,“ sagði faðirinn. En hvað sem um það var, Hans varð bókinni feginn. Hann var mesti skýrleiks drengur og gefinn fyrir bóklestur, en varði líka tíma sínum til vinnu og leitaðist við að verða að gagni á heimilinu, eins og framast mátti vænta af honum, sem alltaf var í rúminu. Hann hafði góða krafta í höndunum, og þeim beitti hann óspart; hann prjónaði ullarsokka og enda heilar rúmábreiður. Herragarðsfrúin hafði lokið lofsorði á þær og keypt þær. Það var ævintýrabók, sem Hans hafði fengið. Í henni var margt að lesa og mikið til íhugunar. „Hún er ekki til nokkurs gagns hér á heimilinu,“ sögðu foreldrarnir. „En lofum honum að lesa í henni, svo þreyir hann af þær stundirnar; hann getur ekki alltaf verið að prjóna sokka.“ Vorið kom, grös og grænar jurtir tóku að spretta og illgresið með, og því nafni mun mega nefna netlurnar, og er þó svo fallega að orði komist um þær í sálminum: „Þó kóngar fylgdust allir að með auð og valdstign hárri, þeir megnuðu ei hið minnsta blað að mynda á netlu smárri.“ Það var mikið að gera í garðinum, ekki aðeins fyrir garðyrkjustjórann og lærisveina hans, heldur einnig fyrir garða-Stínu og garða-Óla. „Þetta er ljóta slitið og stritið,“ sögðu þau, „og þegar við svo erum búin að rífa upp úr göngunum og þrífa þá til, svo þeir verða fallegir, þá eru þeir óðara traðkaðir út og skemmdir. Hér er eilífur gestagangur og vaðall á herragarðinum. Það kostar víst ekkert smáræði, en þau eru líka forrík, herragarðshjónin.“ „Því er undarlega skipt niður,“ sagði Óli. „Við erum öll börn Drottins vors, segir presturinn. Því er þá þessi feikna munur?“ „Það stafar af syndafallinu,“ sagði Stína. Þetta barst aftur í tal á milli þeirra um kvöldið, þar sem Hans kryppill lá og var að lesa í ævintýrabókinni. Fátæktin með slitinu og stritinu hafði ekki aðeins gert hjónin sigghörð í lófum, heldur einnig hörð í dómum og skoðunum. Þetta efni var þeim ofvaxið, þau gátu ekki greitt úr því og urðu æ því ömurlegri og sárari í skapi sem þau töluðu lengur um það. „Sumar manneskjur fá auðlegð og hamingju, en aðrir ekki annað en fátæktina. Hvers vegna eigum við að gjalda forvitninnar í okkar fyrstu foreldrum? Við mundum ekki hafa farið eins að og þau tvö.“ „Jú, það hefðum við víst,“ gall Hans við allt í einu. „Það stendur allt hérna í bókinni.“ „Hvað stendur í bókinni?“ sögðu foreldrarnir. Og þá las Hans fyrir þau ævintýrið gamla um viðhöggvarann og konu hans; þau hallmæltu líka Adam og Evu fyrir forvitnina, sem orsök var í ógæfu þeirra. Þá bar þar að konunginn í landinu. „Komið þið heim með mér,“ sagði hann, „þá skuluð þið eiga eins gott og ég. Þið fáið sjö rétti matar og einn skoðunarrétt. Hann er í lokaðri skál; á henni megið þið ekki snerta, því ef þið gerið það, þá er herrasælan á enda.“ „Hvað skyldi vera í skálinni?“ sagði konan. „Það varðar okkur ekki um,“ svaraði maðurinn. „Ja, ég er nú ekki forvitin,“ sagði konan, „mig langaði bara til að vita, hvers vegna við megum ekki lyfta lokinu frá. Það er víst undir því eitthvert fyrirtaks hnossgæti.“ „Bara það sé þá ekki einhver vélatilbúningur,“ sagði maðurinn, „skammbyssuskot eða því um líkt, sem gerir hvell og vekur hvern mann í húsinu.“ „Það væri nú verra,“ sagði konan og snerti ekki á skálinni. En um nóttina dreymdi hana, að lokið lyfti sér sjálft, og kom þá ilmur af indælasta púnsi, eins og maður fær það best í brúðkaupsveislum og erfisdrykkjum. Stór silfurpeningur lá þar, og voru letruð á hann þessi orð: „Ef þið drekkið af þessu púnsi, þá verðið þið hjónin ríkust í heimi, og allir aðrir verða húsgangar.“ Í sama bili vaknaði konan og sagði manninum draum sinn. „Þú hugsar of mikið um þetta, kona!“ sagði hann. „Nú, við getum létt undir lokið með hægð,“ sagði konan. „Já, með hægð,“ sagði maðurinn. Og konan lyfti upp lokinu ofur hægt. Þá stukku út tvær bráðkvikar mýslur og voru óðara þotnar burt og horfnar inn í holu sína. „Góðar nætur,“ sagði kóngurinn. „Nú getið þið farið og háttað heima hjá ykkur. Hallmælið nú ekki framar Adam og Evu; þið hafið sjálf verið eins forvitin og óþakklát.“ „Hvaðan er þessi saga komin í bókina?“ mælti garða-Óli; „það er eins og hún væri stíluð upp á okkur. Það er í henni töluvert umhugsunarefni.“ Daginn eftir fóru þau aftur til vinnu sinnar. Þau steiktust af sólbakstrinum og urðu vot inn að skinni af rigningunni; innanbrjósts voru þau full af ama og ógeðsgrillum, sem þau jórtruðu á með sjálfum sér. Það var ennþá bjart fram eftir um kvöldin heima hjá þeim. Þau voru búin að borða mjólkurgrautinn sinn. „Lestu aftur fyrir okkur söguna um viðhöggvarann,” sagði garða-Óli. „Það eru svo margar ljómandi góðar sögur í þessari bók,“ sagði Hans, „svo margar, sem þið ekki þekkið.“ „Já, þær kæri ég mig ekkert um,“ sagði garða-Óli, „ég vil heyra þá söguna, sem ég þekki.“ Og nú hlýddu þau hjónin á hana aftur. Og þau voru fleiri kvöldin, sem hugur þeirra hvarf að þeirri sögu. „Ekki get ég botnað í því almennilega,“ sagði garða-Óli. „Það er með manneskjurnar eins og nýmjólkina. Sumir verða að nýmjólkurosti, sumir verða að þunnri mysu; sumir eru lánsmenn í öllu, sitja við háborðið alla daga og ekkert amar að þeim.“ Þetta heyrði Hans kryppill. Hann hafði vesöld í fótum, en vit í kolli. Hann las hátt fyrir þau úr ævintýrabókinni, las um manninn, sem ekkert amaði að. Já, hvar var þann mann að finna? Það var lífs áríðandi að finna hann. Kóngurinn lá veikur og varð ekki læknaður, nema hann yrði færður í slitna skyrtu, er sá maður hefði í verið og slitið, sem sagt gæti um sig með sanni, að aldrei hefði neitt amað að sér. Nú voru gerðir menn til allra heimsins landa, til allra halla og herragarða, til allra, sem lifðu í gleði og velgengni, en væru þeir þaulspurðir, þá kom jafnan upp úr kafinu, að eitthvað hafði amað að þeim. „Ekki hót að mér!“ sagði svínahirðirinn; hann sat ofan til í grófinni við þjóðveginn, hló og söng; „ég er allra manna sælastur.“ „Láttu okkur þá fá skyrtuna þína,” sögðu þeir, sem sendir voru, „þú skalt fá hálft kóngsríkið fyrir hana.“ En hann átti enga skyrtu og kallaði sig þó allra manna sælastan. „Já, hann var kyndugur, karlinn sá,“ sagði garða-Óli, og hlógu þau hjónin bæði svo dátt, að það var ár og dagur síðan þau höfðu jafnhátt hlegið. Þá kom skólastjórinn þar aðvífandi. „Mér þykir liggja heldur vel á ykkur núna,“ sagði hann, „það ber eitthvað til fagnaðar hérna á heimilinu og heldur meira en minna. Hafið þið unnið í happdrættinu?“ „Nei, ekki er nú því að heilsa,“ sagði garða-Óli, „það var hann Hans; hann var að lesa fyrir okkur í ævintýrabókinni. Hann las um manninn, sem ekkert amaði að, og hann átti enga skyrtu, karlfuglinn. Hver hefur sína byrði að bera; maður er ekki einn um það. Það er þó alténd huggun.“ „Hvar hafið þið fengið þá bók?“ sagði skólastjórinn. „Hann Hans fékk hana fyrir rúmu ári. Herragarðshjónin gáfu honum hana. Þau vita, að hann er svo mikið fyrir bókina, og hann er líka farlama. Okkur hefði í það skipti komið betur, að hann hefði fengið tvær strigaléreftsskyrtur. En bókin er merkileg. Það er eins og hún leysi úr því, sem maður er að brjóta heilann um.“ Skólastjórinn tók bókina og opnaði hana. „Látið þér okkur nú heyra sömu söguna aftur,“ sagði garða-Óli. „Ég er ekki búinn að grípa hana almennilega enn. Og svo verðið þér líka að lesa hina söguna um viðhöggvarann.“ Óli kærði sig ekki um meira en þessar tvær sögur, og þær nægðu honum áfram. Þær voru eins og tveir sólargeislar, sem skinu inn í hina fátæklegu stofu hjónanna og lýstu inn í þeirra döpru hugskot, milduðu mæðuhugsanirnar og mýktu stirðlyndið. Hans hafði lesið alla bókina spjalda milli, já, lesið hana mörgum sinnum. Ævintýrin báru hann út í heiminn, þangað sem hann komst ekki sjálfur, af því að fæturnir gátu ekki borið hann. Skólastjórinn sat hjá rúmi hans. Þeir töluðu saman og var það ánægja fyrir þá báða. Upp frá þeim degi kom skólastjórinn alloft til Hans, þegar foreldrarnir voru úti við verk sín. Hlýddi Hans með mestu athygli á gamla manninn, þegar hann var að segja honum frá hinu og þessu, frá stærð jarðarinnar og mörgum löndum, frá því, að sólin væri næstum milljón sinnum stærri en jörðin og svo langt í burtu, að fallbyssukúla með fullum hraða þyrfti tuttugu og fimm ár til þess að komast frá sólinni til jarðarinnar, þar sem ljósgeislarnir frá sólinni væru ekki nema átta mínútur að berast til jarðarinnar. Þetta veit nú hver skóladrengur, sem nokkurn veginn er að sér, en það var nýtt fyrir Hans og ennþá furðulegra en allt það, sem stóð í ævintýrabókinni. Skólastjórinn var vanalega boðinn svo sem tvisvar á ári til borðs hjá herragarðshjónunum, og einu sinni, er svo bar undir, sagði hann þeim, hve mikilsverð ævintýrabókin hefði reynst á fátæktarheimilinu, þar sem aðeins tvær sögur í henni hefðu orðið til vakningar og blessunar. Litli skýrleiksdrengurinn farlami hefði lesið þær, og með því hefði hann vakið þar á heimilinu umhugsunarefni og gleði, sem ekki var þar áður. Þegar skólastjórinn fór heim frá herragarðinum, lét frúin tvo silfurdali í lófa honum og bað hann færa Hans litla. „Hann faðir minn og hún móðir mín verða að fá þetta,“ sagði drengurinn, þegar skólastjórinn færði honum peningana. Og garða-Óli og garða-Stína sögðu: „Hann Hans tetrið er þó líka til gagns og blessunar.“ Fám dögum síðar bar svo til, er foreldrarnir voru úti í garði við verk sitt, að herragarðsvagninum var ekið að húsdyrum þeirra hjóna, og var það frúin hjartagóða, sem komin var til að votta gleði sína yfir því, að jólagjöfin hennar hafði orðið drengnum og foreldrunum til svo mikillar huggunar og ánægju. Hún hafði meðferðis sætabrauð og ávexti og flösku með aldinsafa, og svo færði hún drengnum nokkuð, sem honum þótti enn vænna um. Það var gyllt búr með dálitlum svörtum fugli í, sem söng yndislega. Búrið með fuglinum var sett upp á dragkistuna gömlu skammt frá rúmi drengsins. Hann gat séð til fuglsins og heyrt til hans, og enda þeir, sem fóru um þjóðveginn, gátu heyrt til hans, er hann söng. Garða-Óli og garða-Stína komu ekki heim, fyrr en frúin var farin; þau sáu og fundu, hvað Hans var glaður, en þeim sýndist nú, að þessi gjöf, sem honum hafði verið gefin, væri ekki nema til ómaks og fyrirhafnar. „Þetta ríka fólk er ekki svo nærgætið sem skyldi,“ sögðu þau. „Eigum við nú líka að hafa fuglsins að gæta? Það fer svo að lokum, að kötturinn tekur hann.“ Nú leið ein vika og önnur til; kötturinn hafði á þeim tíma verið oft í stofunni og ekki einu sinni gert fuglinn hræddan, hvað þá heldur gert honum neitt mein. Þá kom nokkuð fyrir, sem tíðindum sætti. Það var einhverju sinni síðdegis, að Hans var aleinn heima; foreldrarnir og hin börnin voru úti við vinnu. Hann hafði ævintýrabókina milli handa og las um konu fiskimannsins, sem fékk allar óskir sínar uppfylltar. Hún vildi verða kóngur, og hún varð það, hún vildi verða keisari, og hún varð það, en svo vildi hún verða algóður guð, – og þá sat hún aftur í forargryfjunni, þar sem hún var í fyrstunni. Sú saga átti nú ekkert skylt við fuglinn eða köttinn, en það hittist einmitt svo á, að það var sagan, sem hann var að lesa, þegar þessi viðburður varð; það leið honum aldrei úr minni síðan. Búrið stóð á dragkistunni; kötturinn stóð á gólfinu og hvessti grængul augun á fuglinn. Það var eitthvað í svip kattarins, eins og hann vildi segja við fuglinn: „Ó, hvað þú ert indæll! feginn vildi ég éta þig.“ Þetta skildi Hans; hann las það beint út úr svip kattarins. „Burt með þig, kisa!“ kallaði hann, „ætlarðu ekki að snáfa út úr stofunni?“ Það var eins og kötturinn hneppti sig saman til að taka stökkið. Hans gat ekki náð til hans, hann hafði ekkert, sem hann gæti hent í hann, nema kærasta dýrgripinn sinn, ævintýrabókina. Henni kastaði hann, en hún var orðin laus í bandinu, svo að bindið hraut til annarrar hliðar, en bókin sjálf til hinnar. Kötturinn hopaði seinstígur til baka á stofugólfinu og gaut augunum til Hans, eins og hann vildi segja: „Vertu ekki að sletta þér fram í þetta, Hans litli! Ég get bæði gengið og stokkið, en þú getur hvorugt.” Hans hafði ekki augun af kettinum og var órór mjög; fuglinn var það líka. Það var enginn, sem á yrði kallað, og var eins og kötturinn vissi það. Hann myndaði sig aftur til að stökkva. Hans veifaði rúmábreiðunni, en kötturinn var ekki vitund hræddur við hana, og þegar Hans hafði líka kastað henni á hann árangurslaust, þá stökk hann upp á stólinn, og var þá kominn nær fuglinum. Hans fann blóðið glóðhitna í æðum sér, en hann var ekki að hugsa um það; hann hugsaði ekki nema um köttinn og fuglinn. Hann var ekki sjálfbjarga ofan úr rúminu, hann gat ekki staðið á fótunum og enn síður gengið. Og nú var sem hjartað berðist upp við kverkar honum, er hann sá, hvernig kötturinn einhenti sér úr glugganum beint yfir á dragkistuna og hratt búrinu, svo að það valt um. Fuglinn flögraði innan í búrinu ærður af hræðslu. Hans hljóðaði upp yfir sig; hann kipptist allur við, og í hugsunarleysi stökk hann ofan úr rúminu og þaðan að dragkistunni, kippti niður kettinum og hélt um búrið fastatökum, með fuglinum í dauðskelkuðum. Hljóp hann síðan með búrið í hendinni út um húsdyrnar og út á veginn. Tárin flóðu af augum honum fyrir fagnaðar sakir; hann kallaði hátt með feginslátum: „Ég get gengið, ég get gengið.“ Hann hafði fengið heilsuna aftur. Slíks eru dæmi, og nú kom það fram á honum. Skólastjórinn bjó skammt þaðan, og nú hljóp Hans þangað berfættur á skyrtunni og treyjunni og með fuglinn í búrinu. „Ég get gengið!” kallaði hann, „guð minn góður!“ Og hann var grátkjökrandi af eintómum fögnuði. Nú varð mikil gleði heima hjá garða-Óla og garða-Stínu. „Meiri gleðidag en þennan getum við ekki lifað,“ sögðu þau bæði. Hans var boðaður heim á herragarðinn, en þá leið hafði hann ekki gengið í mörg ár. Það var eins og trén og hnoturunnarnir, sem hann þekkti svo vel, kinkuðu kolli til hans og segðu: „Góðan daginn, Hans, velkominn hingað!“ Sólin skein í andlit honum, og hún skein beint inn í hjarta hans. Ungu ágætishjónin á herragarðinum létu hann sitja hjá sér, og mátti sjá á þeim, að þau voru eins fegin og drengurinn væri þeirra eigið barn. En glöðust allra var herragarðsfrúin, sem hafði gefið honum ævintýrabókina, – gefið honum litla söngfuglinn. Fuglinn var nú reyndar dauður, – dauður af hræðslunni, en það var eins og hann hefði verið meðalið til þess, að Hans fékk heilsuna aftur, og bókin hafði verið til andlegrar vakningar fyrir hann og foreldrana. Hann hafði hana enn, og hana vildi hann geyma og lesa, hvað gamall sem hann yrði. Nú gat hann líka sjálfur orðið foreldrum sínum að liði. Hann vildi læra einhverja handiðn, helst af öllu bókband, „því þá,“ sagði hann, „get ég fengið allar nýjar bækur að lesa.“ Að áliðnum degi boðaði herragarðsfrúin foreldrana á fund sinn. Þau herragarðshjónin höfðu átt tal saman um Hans. Hann var hjartahreinn og efnilegur drengur, sem bæði var gefinn fyrir bækur og hafði námsgáfur góðar. Guð styrkir það, sem gott er, og sannaðist það hér. Það kvöldið lá einstaklega vel á hjónunum, er þau komu heim frá herragarðinum, einkum þó á Kristínu, en viku síðar grét hún, því þá lagði Hans litli af stað. Hann var þá kominn í góð föt. Hann var góður drengur, en nú átti hann að fara langt í burtu yfir saltan sjó; hann átti að ganga í skóla – latínuskóla, – og mundi því líða svo árum skipti, þangað til foreldrarnir sæju hann aftur. Ævintýrabókina fékk hann ekki að hafa með sér; foreldrarnir vildu halda henni í minningarskyni. Og faðirinn las oft í henni, en aldrei nema tvær sögurnar, því þær þekkti hann. Og þau fengu bréf frá Hans, hvert öðru ánægjulegra. Hann var hjá góðu fólki og átti við góð kjör að búa. Skemmtilegast af öllu sagði hann sér þætti að ganga í skóla, því þar mætti svo margt læra og fræðast um. Hann óskaði sér aðeins, að hann mætti verða hundrað ára og svo með tíð og tíma skólastjóri. „Ef við nú lifðum það,“ sögðu foreldrarnir og tókust fast í hendur eins og við altarisgöngu. „Já, merkilegt er þetta, sem komið hefur fyrir hann Hans,“ sagði Óli. „Drottinn hugsar líka um fátæks manns barn; það átti að sýna sig á krypplinum okkar. Er það ekki því líkast, sem hann Hans læsi það upp fyrir okkur úr ævintýrabókinni?“ Svínahirðirinn Einu sinni var fátækur kóngssonur. Hann átti kóngsríki, sem var ofurlítið, en það var þó alténd nógu stórt til þess að það mátti gifta sig upp á það, og það vildi hann nú. Nú var það reyndar nokkuð mikil dirfska af honum, að hann þorði að segja við keisaradótturina: „Viltu mig?“ en það þorði hann nú samt, því hann var frægur víða um lönd; það voru kóngsdætur svo tugum skipti, sem mundu hafa þakkað honum fyrir í tilbót, en hún var nú ekki rétt á því. Nú skulum við heyra. Á leiði kóngsins, föður hans, óx rósatré, einstaklega fallegt rósatré. Það bar ekki blóm nema fimmta hvert ár, og það aðeins eitt blóm, en það var rós, sem angaði svo sætt, að ef maður þefaði af henni, þá gleymdi maður öllum sorgum og áhyggjum. Kóngssonurinn átti líka næturgala, sem var svo mikill söngfugl, að það var eins og öll fögur sönglög væru saman komin í barka hans. Þessa rós og þennan næturgala átti nú keisaradóttirin að fá, og var hvort um sig látið í silfurhylki og henni sent. Keisarinn lét bera sendingarnar á undan sér inn í stóra salinn. Var þar dóttir hans þá í „gestakomuleik“ með hirðmeyjum sínum; þær gerðu ekki annað. Þegar hún sá stóru hylkin með gjöfunum í, þá klappaði hún saman lófunum af fögnuði. „Ég vildi það væri dálítil kisa,“ sagði hún, en þá var það rósin fallega, sem upp kom. „Nei, hvað hún er snoturlega gerð!“ sögðu allar hirðmeyjarnar. „Hún er meira en snotur, hún er fögur,“ sagði keisarinn. En keisaradóttirin tók á móti henni, og lá henni þá við að gráta. „Fý, pabbi!“ sagði hún, „hún er ekki tilbúin, hún er náttúrleg.“ „Látum okkur nú fyrst sjá, hvað í hinu hylkinu er, áður en við reiðumst,“ mælti keisarinn, og kom þá upp úr því næturgalinn. Hann söng svo yndislega, að það var enginn hægðarleikur svona fyrsta kastið að segja neitt illt um hann. „Superbe![*] charmant!“[**] sögðu hirðmeyjarnar, því þær töluðu allar frönsku, hver annarri verr. [* Frb. süperb = ágætt, fyrirtak.] [** Frb. sjarmang = indælt.] „Það er einstakt,“ sagði einn aldraður hirðarherra, „hvað þessi fugl minnir mig á spiladós hásællar keisaradrottningarinnar; æ, já! það er alveg sami hreimurinn, sami framburðurinn.“ „Já,“ sagði keisarinn og grét eins og barn. „Ég vona þó, að hann sé ekki náttúrlegur,“ sagði keisaradóttirin. „Jú, það er náttúrlegur fugl,“ sögðu þeir, sem höfðu komið með hann. „Jæja, látið þá þann fugl fljúga,“ sagði keisaradóttirin, og ekki vildi hún með nokkru móti leyfa, að kóngssonurinn kæmi. En hann var ekki svo gerður, að hann heyktist við þess konar; hann málaði sig í framan með mórauðum og svörtum lit, dró húfuna langt niður um höfuð sér og barði á dyr. „Góðan daginn, keisari!“ sagði hann, „gæti ég ekki orðið ráðinn til þjónustu hér í höllinni?“ „Já, það eru nú svo margir, sem sækja,“ sagði keisarinn, „en látum sjá, – mér er þörf á pilti, sem getur gætt svínanna, því að við höfum svo mikinn sæg af þeim.“ Kóngssonurinn fékk nú það embætti að vera keisaralegur svínahirðir. Til íbúðar var honum fengin léleg kytra niðri við svínastíuna, og þar varð hann að kúra. En hann sat allan daginn við vinnu, og þegar kvöld var komið, var hann búinn að smíða dálítinn pott, einstaklega snotran; hann var kringsettur með bjöllum, og jafnskjótt sem sauð í honum, þá klingdu þær svo fagurt og léku gamla lagið: „Æ, minn kæri Ágústín! Allt horfið burt, allt horfið burt.“ En það listilegasta, sem þessum potti fylgdi, var það, að þegar maður hélt fingrinum í reykjargufunni upp úr honum, þá mátti óðara lykta, hvaða mat væri verið að búa til á hverri einustu eldstó í allri borginni. Þetta var nú reyndar af allt öðru tagi en rósin. Þá bar þar að keisaradótturina með öllum hirðmeyjunum, og voru þær á skemmtigöngu, og er hún heyrði lagið, þá stóð hún við í sömu sporum og varð svo ánægjuleg í framan, því hún kunni líka að leika lagið: „Æ, minn kæri Ágústín“. Það var eina lagið, sem hún kunni, en það lék hún líka reiprennandi. „Það er einmitt lagið, sem ég kann,“ sagði hún; „þetta hlýtur þá að vera menntaður svínahirðir. Heyrið þið! það verður einhver ykkar að fara inn og spyrja, hvað hljóðfærið kosti.“ Ein af hirðmeyjunum varð þá að fara inn, en tréskó tók hún á fætur sér. „Hvað seturðu upp fyrir þennan pott?“ sagði hirðmeyjan. „Ég vil fá tíu kossa hjá keisaradótturinni,“ sagði svínahirðirinn. „Ó, guð varðveiti okkur!“ sagði hirðmeyjan. „Já, það getur nú ekki verið minna,“ sagði svínahirðirinn. „Nú, nú, hvað segir hann?“ spurði keisaradóttirin. „Ég get sannarlega ekki fengið af mér að segja það,“ mælti hirðmeyjan, „það er svo ljótt.“ „Þú getur þá hvíslað,“ og hirðmeyjan hvíslaði. „Ekki nema það, hann er dónalegur,“ sagði keisaradóttirin og fór sína leið, en þegar hún hafði gengið spölkorn, hljómuðu bjöllurnar svo yndislega. „Æ, minn kæri Ágústín! Allt horfið burt, allt horfið burt.“ „Heyrðu!“ sagði keisaradóttirin, „spurðu, hvort hann vilji tíu kossa hjá hirðmeyjunum mínum.“ „Nei, ég held ég þakki fyrir,“ sagði svínahirðirinn, „ég vil fá tíu kossa hjá keisaradótturinni, að öðrum kosti læt ég ekki pottinn.“ „Ósköp er það nú leiðinlegt,“ sagði keisaradóttirin, „en þá verðið þið að standa fyrir á meðan, svo enginn sjái.“ Og hirðmeyjarnar skipuðu sér fyrir og breiddu út kjóla sína, og fékk svo svínahirðirinn kossana tíu, en keisaradóttirin fékk pottinn. Nú var glatt á hjalla. Allt kvöldið og allan daginn sauð potturinn; það var engin sú eldstó í allri borginni, að þær ekki vissu hvað eldað var á henni, hvort heldur hjá kammerherranum eða ræflaskóaranum. Hirðmeyjarnar dönsuðu og klöppuðu saman lófunum. „Við vitum, hver á að borða sætsúpu og pönnukökur, við vitum, hver á að borða graut og rifjasteik. Er það ekki fróðlegt?“ „Jú, stórfróðlegt,“ sagði yfirfræðifóstran. „Já, – en verið nú þagmælskar, því ég er dóttir keisarans.“ „Já, það veit hamingjan, það skulum við vera,” sögðu þær allar. Nú er að segja af svínahirðinum, eða réttara kóngssyninum, – en ekki vissu þær betur en að hann væri óbreyttur svínahirðir –, hann lét ekki daginn líða svo, að hann hefði ekki eitthvað fyrir stafni, – og nú smíðaði hann hrossabrest. Þegar hann sneri honum, þá hljómuðu allir þeir valsar, hopsar og polkar, sem þekktir voru frá fyrstu sköpun heimsins. „Nei, þetta er „superbe“,“ sagði keisaradóttirin, um leið og hún gekk fram hjá, „aldrei hef ég heyrt fallegri hljómlist. Heyrðu, farðu inn og spurðu, hvað hljóðfærið kosti; en ekki kyssi ég aftur.“ „Hann vill fá hundrað kossa hjá keisaradótturinni,“ sagði hirðmeyjan, sem inn fór til að spyrja. „Er hann vitlaus?“ sagði keisaradóttirin og gekk áfram. En er hún hafði gengið spölkorn, staldraði hún við. „Maður verður að hlynna að listinni,“ sagði hún, „ég er keisaradóttir. Segðu honum, að hann skuli fá tíu kossa eins og í gær; það, sem á brestur, getur hann fengið hjá hirðmeyjunum mínum. „Já, en ekki er okkur um það,“ sögðu hirðmeyjarnar. „Hvaða vitleysa!“ sagði keisaradóttirin. „Þegar ég kyssi hann, þá getið þið gert það líka; minnist þess, að hjá mér fáið þið kost og kaup.“ Tjáði þá hirðmeyjunum ekki annað en að fara inn til hans aftur. „Hundrað kossa vil ég hafa hjá keisaradótturinni,“ sagði hann, „eða hvort okkar um sig heldur sínu.“ „Hvaða þys skyldi þetta vera þarna niður frá hjá svínastíunni?“ sagði keisarinn, sem rétt í þessu hafði gengið fram á svalirnar. Hann neri augun og setti upp gleraugun. „Nú, það eru hirðmeyjarnar, sem eru þarna að ólátast; ég verð víst að fara ofan til þeirra;“ – og hann setti upp inniskóna sína, sem voru troðnir niður á hælunum. Það kynni nú að vera, að hann flýtti sér. Þegar hann var kominn niður í garðinn, gekk hann hljóðlega, en hirðmeyjarnar áttu svo annríkt með að telja kossana, til þess að allt yrði rétt og svínahirðirinn fengi ekki of marga og ekki heldur of fáa. Þær urðu því ekkert varar við keisarann. Hann tyllti sér þá á tá. „Hvað er þetta?“ sagði hann þegar hann sá þau kyssast, og lamdi þau í höfuðið með öðrum skónum sínum, rétt í því, er svínahirðirinn fékk sjötugasta og sjötta kossinn. „Snáfið þið burt,“ sagði keisarinn, því hann var reiður, og bæði tvö, dóttir hans og svínahirðirinn, voru flæmd burt úr keisararíki hans. Þarna stóð hún nú grátandi; svínahirðirinn skammaði hana og hellirigning dundi niður úr lofti. „Æ, ég vesalingur!“ sagði keisaradóttirin, „ó, að ég hefði tekið fríða kóngssyninum! Æ, mig ógæfusama!“ En svínahirðirinn gekk bak við tré og þurrkaði svarta og mórauða litinn af andliti sínu, varpaði af sér vondu flíkunum og gekk nú fram í kóngssonarskarti sínu og var nú svo fríður ásýndum, að keisaradóttirin varð ósjálfrátt að hneigja sig fyrir honum. „Ég er búinn að fá á þér fyrirlitningu,“ sagði hann, „þú vildir ekki eiga ærlegan kóngsson. Þú kunnir ekki að meta rósina og næturgalann, en svínahirðinn gastu kysst fyrir skröpur einar. Þetta hefurðu nú fyrir.“ Og hann gekk inn í kóngsríki sitt, skellti aftur hurð-inni og skaut fyrir loku, og svo gat hún staðið fyrir utan og sungið: „Æ, minn kæri Ágústín! Allt horfið burt, allt horfið burt.“ Tindátinn staðfasti Einu sinni voru tuttugu og fimm tindátar. Allir voru þeir bræður, og móðir þeirra var gömul tinskeið. Þeir höfðu byssuna á handleggnum og otuðu beint fram andlitinu. Þeir voru rauðir og bláir. Einkennisbúningurinn var prýðisfallegur. „Tindátar!“ var fyrsta orðið, sem þeir heyrðu í þessum heimi. Það var þegar lokið var tekið af öskjunni, sem þeir lágu í. Þá kallaði lítill drengur upp: „Tindátar!“ og klappaði saman lófunum. Hann hafði fengið þá í afmælisgjöf og raðaði þeim nú á borðið. Þeir voru svo líkir að ekki mátti milli sjá. Aðeins einn var dálítið frábrugðinn. Hann var einfættur, því hann var steyptur síðast, enda var þá tinið á þrotum. En samt stóð hann eins fastur á sínum eina fæti og hinir á tveimur, og það var einmitt þessi dáti, sem gerði sig dálítið frásagnarverðan. Á borðinu, þar sem tindátunum var raðað, voru einnig önnur barnagull, en það, sem mest gekk í augun, var pappírshöll ljómandi fögur og skrautleg. Mátti sjá inn í sali hennar gegnum örsmáa gluggana. Fyrir utan stóðu lítil tré kringum dálítinn spegil, sem átti að vera stöðupollur. Á honum syntu álftir úr vaxi og spegluðu sig. Allt þetta var ofur fallegt, en það fallegasta var samt smámey ein, er stóð í opnum hallardyrunum. Hún var líka klippt úr pappír, en hún var í kjól úr smágjörvasta líni og brugðið um axlirnar bláum linda, litlum og mjóum, og á honum miðjum var glitrandi stjarna af málmi, viðlíka stór og andlit hennar sjálfrar. Smámeyjan rétti út báða handleggina, því hún var dansmey, og svo lyfti hún öðrum fætinum svo hátt upp, að tindátinn gat ekki fundið hann, og hugði hann, að hún væri einfætt eins og sjálfur hann. „Þar væri konuefni handa mér,“ hugsaði hann, „en hún er æði mikils háttar. Hún á heima í höll, en ég í öskju, þar sem við erum tuttugu og fimm saman. Það er ekki bústaður við hennar hæfi, en hvað sem því líður, þá verð ég samt að reyna að komast í kunningsskap við hana.“ Síðan lagðist hann endilangur á bak við tóbaksdósir, sem lágu á borðinu. Þar gat hann virt fyrir sér þessa litlu stássmey, sem alltaf stóð bísperrt og haggaðist ekki. Seint um kvöldið voru hinir tindátarnir látnir í öskjuna sína, og fólkið í húsinu tók á sig náðir. Þá fóru barnagullin að leika sér, bæði að „leika gestaleik“, „heyja hildi“ og „slá upp dansgleði“, og tindátarnir hringluðu í öskjunni, því þeir vildu komast með í leikinn, en gátu ekki lyft af lokinu. Hnotubrjóturinn steypti stömpum og griffillinn ólátaðist á töflunni. Það var svo mikill gauragangur, að kanarífuglinn vaknaði við og fór að leggja orð í belg og lét meira að segja fjúka í kviðlingum. Hin einu sem ekki hreyfðust úr sporunum, það voru þau tvö, tindátinn og dansmeyjan. Hún stóð keiprétt á tábroddinum með útrétta báða handleggi. Hann stóð eins staðfastur á einum fæti og hafði aldrei af henni augun. Nú sló klukkan tólf, og í sama bili hrökk upp lokið á tóbaksdósunum, en það var alls ekki neitt tóbak í þeim, heldur var í þeim dálítill svartur dvergur. Dósirnar voru hagvirki. „Tindáti þarna!“ sagði dvergurinn, „hafðu nú gætur á augum þínum.“ En tindátinn lét sem hann heyrði ekki. „Jæja, bíddu við til morguns,“ sagði dvergurinn. Morguninn eftir, þegar börnin voru komin á fætur, var tindátinn látinn út í glugga, en hvort sem það nú hefur verið dvergurinn, sem olli því, eða dragsúgurinn, þá hrökk glugginn opinn allt í einu og steyptist dátinn á höfuðið ofan af þriðja sal. Það var voðaferð á honum. Fóturinn sneri beint í loft upp, og festist dátinn á húfunni og byssustingnum milli götusteinanna, þar sem hann kom niður, og þar stóð hann á höfði. Vinnukonan og litli drengurinn fóru undir eins ofan að leita, en þó þau væru rétt við það að stíga ofan á hann, komu þau samt ekki auga á hann. Hefði tindátinn kallað: „Hér er ég!“ þá mundu þau víst hafa fundið hann, en honum fannst það ekki eiga við að æpa upp yfir sig, því hann var í einkennisbúningi. Nú tók að rigna alltaf þéttara og þéttara og loksins varð gríðar úrfelli. Þegar því létti, komu tveir götustrákar. „Sérðu,“ sagði annar, „þarna liggur tindáti; það er best að lofa honum út að sigla.“ Þeir bjuggu til bréfbát úr dagblaði og létu dátann út í bátinn, og nú sigldi hann ofan eftir göturæsinu, en báðir strákarnir hlupu með fram og klöppuðu saman lófunum. Skárri voru það nú bylgjurnar og straumurinn í ræsinu! En það hafði líka verið úrhellis rigning. Bréfbáturinn hossaðist upp og niður og stundum hringsnerist hann, svo að skjálfti kom á tindátann. En hann var staðfastur sem fyrr og brá sér hvergi, horfði beint fram og hélt um byssu sína. Þá rak bátinn allt í einu inn undir langt borð, sem var yfir steinræsinu. Varð þá eins dimmt og verið hafði í öskju tindátans. „Hvert skyldi ég nú ætla að berast?“ hugsaði hann, „já, já! þetta er af völdum dvergsins. Æ, væri smámeyjan hérna í bátnum, þá mætti fyrir mér vera helmingi dimmra en er.“ Í sama vetfangi kom stór vatnsrotta, sem hafði bækistöð sína undir borðinu. „Hefurðu vegabréf?“ sagði rottan. „Upp með vegabréfið!“ En tindátinn þagði og hélt enn fastar um byssuna. Báturinn þaut áfram og rottan á eftir. Hún gnísti tönnum og kallaði til tréspóna og hálmstráa: „Stöðvið hann, stöðvið hann! hann hefur ekki borgað toll, hann hefur ekki sýnt vegabréf.“ En straumurinn varð stríðari og stríðari. Tindátinn sá reyndar birtuna fram undan, þar sem borðinu sleppti, en hann heyrði líka gjálfrandi vatnshljóð, sem vel mátti skjóta hraustum manni skelk í bringu. Tarna var ljóta gamanið. Þar sem borðið endaði féll ræsið beint út í „Kanalinn“, og mundi því þetta eins mikill háski fyrir tindátann eins og fyrir okkur að sigla beint ofan eftir stóreflis fossi. Nú var hann kominn svo nærri, að ekki varð stöðvað. Bátinn bar fram af. Veslings tindátinn gerði sig eins stífan og hann gat. Enginn hefði getað brugðið honum um, að hann svo mikið sem blaktaði augunum. Báturinn hringsnerist þrisvar eða fjórum sinnum. Hann fylltist vatni upp á barma og hlaut að sökkva. Vatnið tók tindátanum í höku, og báturinn sökk dýpra og dýpra. Pappírinn drafnaði sundur meir og meir og nú gekk vatnið yfir höfuð dátanum. Þá minntist hann fallegu litlu dansmeyjarinnar, sem hann átti aldrei að sjá framar, og nú ómaði fyrir eyrum hans: „Far þú, far þú, stríðsmaður! Feigðin að þér kallar.“ Og nú rifnaði pappírinn og tindátinn sökk, en í sama bili kom stærðar fiskur og gleypti hann. Nei, nú tók út yfir hvað þar var dimmt inni. Það var ennþá verra en undir ræsis-borðinu, og þar á ofan voru svo mikil þrengsli, en tindátinn var staðfastur og lá eins og hann var langur til með byssuna. Fiskurinn þaut til og frá með ógnarlegum sporðaköstum. Loksins varð hann grafkyrr. Það fór eins og leiftur í gegnum hann, og allt í einu varð skínandi bjart og einhver kallaði hárri röddu: „Tindáti!“ Fiskurinn hafði veiðst. Það hafði verið farið með hann á torgið, hann hafði verið seldur og var nú kominn upp í eldhúsið, og nú slægði eldastúlkan hann með stóru saxi. Hún tók dátann milli fingra sinna og fór með hann inn í stofu. Fannst þar öllum mikið um að sjá slíkan merkismann, sem verið hafði á ferðalagi í fiskskviði, en tindátinn var alls ekkert montinn af því. Nú var hann settur á borðið, og sjá! – hversu undarlega getur stundum að borið í heimi þessum! – tindátinn var nú staddur í sömu stofunni, sem hann hafði verið í fyrrum. Hann sá sömu börnin, og sömu barnagullin voru á borðinu, sama dýrðarhöllin með fallegu, litlu dansmeynni. Og enn stóð dansmeyjan á einum fæti og lyfti hinum hátt upp. Hún var líka staðföst. Það hrærði hjarta tindátans, svo að honum lá við að gráta tini, en það átti ekki við. Hann horfði á hana og hún horfði á hann, en þau töluðu ekki orð. Þá tók annar litli drengurinn dátann og fleygði honum beint inn í ofninn, og gat ekkert um, hvers vegna hann gerði það. Það var án efa dvergurinn í dósunum, sem átti sök á því. Tindátinn stóð í eldsbjarmanum og kenndi ógurlegs hita, en hvort það var af eldinum sjálfum eða ástinni, það vissi hann ekki. Litirnir voru alveg farnir af honum, en hvort það hafði orðið á ferðalaginu eða það var af harmi, það gat enginn um sagt. Hann horfði á smámeyna og hún horfði á hann, og hann fann, að hann bráðnaði, og ennþá stóð hann staðfastur og hélt um byssuna. Þá var lokið upp dyrum, vindgusturinn þreif dansmeyna, og hún flaug eins og fiðrildi beint inn í ofninn til tindátans, fuðraði upp og var þar með horfin. Þá bráðnaði tindátinn og varð að tinklessu, og þegar vinnukonan bar út öskuna daginn eftir, fann hún það, sem eftir var af honum, og það var ofurlítið tinhjarta. En af dansmeynni var ekkert eftir nema stjarnan, og hún var orðin kolsvört af brunanum. Prinsessan á bauninni Einu sinni var prins. Hann vildi fá prinsessu fyrir konu, en það átti að vera sönn prinsessa. Hann ferðaðist því um veröld víða til þess að finna eina slíka, en alls staðar var eitthvað að. Nóg var af prinsessunum, en hvort það væru sannar prinsessur, það gat hann ekki almennilega komist fyrir, því að alltaf var eitthvað, sem ekki stóð alls kostar heima. Kom hann svo heim aftur úr þessu ferðalagi og var hnugginn mjög, því hann vildi svo gjarnan eignast sanna prinsessu. Eitt kvöldið gerði vonskuveður og gengu þrumur og eldingar. Það rigndi eins og hellt væri úr fötum. Það var afskaplegt. Þá var barið á borgarhliðið, og gamli kóngurinn fór ofan sjálfur til að ljúka upp. Það var prinsessa, sem stóð fyrir utan. En hvílík ósköp voru að sjá hana, eins og hún var til reika af rigningunni og illviðrinu! Vatnið rann niður úr hári hennar og förum, það rann inn um tána á skónum hennar og út um hælinn og samt sagðist hún vera sönn prinsessa. Já, við skulum nú ekki vera lengi að ganga úr skugga um það, hugsaði drottningin gamla með sér, en sagði ekki neitt. Fór hún svo inn í svefnherbergið, tók öll sængurfötin upp úr rúminu og lét baun ofan á rúmbotninn, tók síðan tuttugu dýnur og lagði ofan á baunina, og í tilbót tuttugu dúnsængur og hlóð þeim ofan á dýnurnar. Þar átti nú prinsessan að hvílast um nóttina. Um morguninn spurðu þau hana, hvernig henni hefði sofnast. „O, tarna var ljóta nóttin,“ sagði prinsessan. „Mér hefur varla komið dúr á auga alla nóttina. Hamingjan má vita, hvað hefur verið í rúminu! Ég hef haft eitthvað hart undir mér, svo ég er bæði blá og marin um allan kroppinn. Þvílík skelfing!“ Nú gátu þau séð, að þetta var sönn prinsessa, þar sem hún hafði orðið vör við baunina gegnum tuttugu dýnur og tuttugu dúnsængur. Svo hörundssár gat engin verið nema sönn prinsessa. Prinsinn gekk að eiga hana, því að nú vissi hann, að hún var sönn prinsessa, og baunin var látin í gersemasafnið og þar er hún enn til sýnis, nema ef einhver skyldi hafa tekið hana. Jæja, börnin góð! Þetta er nú áreiðanlega sönn saga. Rauðu skórnir Einu sinni var lítil stúlka, fríð og snotur, en á sumrin varð hún alltaf að ganga berfætt, af því hún var fátæk, og á veturna varð hún að ganga á tréskóm, svo að litla ristin varð þrútin og rauð og það var aumkunarleg sjón. Í miðju þorpinu átti heima gömul skóarakona. Hún tók sig til og saumaði dálitla skó úr gömlum rauðum klæðisræmum. Það var gróft handbragð á þeim, en þeir voru af góðum huga gerðir og ætlaðir litlu stúlkunni, en hún hét Katrín. Svo hittist á, að hún fékk skóna einmitt sama daginn sem átti að jarða móður hennar, og þá setti hún þá upp í fyrsta sinni. Það voru nú reyndar ekki skór, sem við áttu á sorgardegi, en hún hafði enga aðra og lét þá á bera, sokkalausa fæturna, og gekk svo á eftir fátæklegu kistunni hennar móður sinnar. Í þeim svifum kom stór vagn og fornlegur að sjá, og í honum sat frú nokkur mikil vexti og öldruð. Hún virti litlu stúlkuna fyrir sér og sagði við prestinn: „Heyrið þér! látið þér mig fá litlu stúlkuna. Ég skal verða henni góð.“ Og Katrín hélt, að þetta væri allt vegna rauðu skónna, en gamla frúin sagði, að þeir væru hræðilega ljótir, og þeim var stungið í eldinn, en Katrín sjálf var látin fara í hrein föt og ný. Henni var kennt að lesa og sauma, og menn sögðu, að hún væri lagleg, en spegillinn sagði: „Þú ert meira en lagleg, þú ert ljómandi falleg.“ Þá bar svo til einhverju sinni, að drottningin var á ferð um landið, og hafði með sér litlu dóttur sína, og hún var nú prinsessa. Allt fólkið flykktist að höllinni, og þar á meðal Katrín. Stóð kóngsdóttirin litla hvítklædd uppi í glugga og lofaði fólkinu að horfa á sig. Ekki hafði hún slóða á eftir sér og ekki bar hún kórónu á höfði, en á fótunum hafði hún ljómandi fallega rauða silkiskó. Nú var Katrín litla komin á þann aldur, að hún átti að fá nýja skó. Skóari nokkur í borginni tók mál af litla fætinum hennar. Hann gerði það heima hjá sér í stofunni sinni, og þar voru stórir skápar með glerhurðum fullir af forláta skóm og gljáandi stígvélum. Það var skínandi fallegt. En frúnni gömlu var farin að förlast sjón, og hafði hún því enga ánægju af þess konar. Mitt á meðal skónna voru einir rauðir, alveg eins og skórnir prinsessunnar, og þeir voru einstaklega fallegir. Skóarinn sagði líka, að þeir hefðu verið gerðir handa greifabarni, en hefðu ekki reynst mátulegir. „Það mun vera gljáleður í þeim,” sagði frúin gamla, – „þeir gljá.“ „Já, þeir glansa,“ sagði Katrín, og þeir reyndust henni mátulegir, en gamla frúin vissi ekki, að þeir voru rauðir, því hún mundi aldrei hafa leyft Katrínu að ganga til fermingar með rauða skó á fótunum, en það gerði nú Katrín engu að síður. Öllum varð starsýnt á fætur hennar, og þegar hún gekk inn eftir kirkjugólfinu að kórdyrunum, þá þótti henni sem gömlu myndirnar á legsteinunum, þessar myndir af prestum og prestkonum, með stífu kragana og á síðu, svörtu fötunum, væru að hvessa augun og horfa á rauðu skóna hennar. Um rauðu skóna og annað ekki var hún að hugsa, þegar presturinn lagði hönd á höfuð hennar og talaði um heilaga skírn og sáttmálann við guð og um það, að nú ætti hún að vera fullorðin, sannkristin stúlka. Og orgelið hljómaði svo hátíðlega og barnaraddirnar ómuðu svo fagurt og organleikarinn söng með, en Katrín hugsaði ekki um nokkurn skapaðan hlut nema rauðu skóna. Seinna um daginn varð gamla konan þess vís af allra umtali, að skórnir hefðu verið rauðir, og hún sagði, að það væri ljótt og að Katrín ætti framvegis að hafa svarta skó á fótum, þegar hún færi til kirkju, og það gerði ekkert til, þó skórnir væru gamlir. Sunnudaginn eftir var altarisganga. Katrín horfði á svörtu skóna, – hún horfði á rauðu skóna og svo leit hún á þá aftur, og það varð úr, að hún setti upp þá rauðu. Það var glaða sólskin. Þær Katrín og frúin gamla gengu eftir stígnum, sem lá eftir kornakrinum, og þar var ryksamt í meira lagi. Við kirkjudyrnar stóð gamall dáti með hækjur og fáránlega sítt skegg og var það fremur rautt en hvítt. Hann laut til jarðar og spurði gömlu konuna, hvort hann mætti strjúka rykið af skónum hennar. Katrín rétti líka fram litla fótinn sinn. „Nei, sko! tarna eru fallegir dansskór!“ sagði dátinn, „sitjið þið fastir, þegar þið dansið,“ og um leið skellti hann fast með lófa sínum undir sólana. Gamla frúin gaf dátanum skilding og gekk síðan með Katrínu inn í kirkjuna. Og allt fólkið þar inni horfði á rauðu skóna, sem Katrín hafði á fótunum, og allar myndirnar horfðu á skóna, og þegar Katrín kraup við gráturnar og færði gullkaleikinn að vörum sínum, þá hugsaði hún ekki um annað en rauðu skóna og henni þótti sem hún sæi þá fljótandi í kaleiknum. Og hún gleymdi að syngja sálminn sinn og lesa „faðir vor“. Nú gengu allir út úr kirkjunni og gamla frúin steig upp í vagn sinn. Katrín lyfti fæti til að stíga upp á eftir, en þá stóð dátinn gamli hjá henni og sagði: „Nei, sko! tarna eru fallegir dansskór!“ og Katrín gat ekki á sér setið. Hún mátti til að stíga nokkur dansspor, og úr því byrjað var, þá héldu fæturnir áfram að dansa. Það var eins og skórnir hefðu fengið vald yfir fótunum. Hún dansaði fyrir kirkjuhornið. Henni var það ekki sjálfrátt. Vagnstjórinn varð að hlaupa á eftir henni og ná henni, og hann lyfti henni upp í vagninn, en fæturnir héldu áfram að dansa, svo að hún meiddi góðu, gömlu frúna með sparki sínu. Loksins náðust skórnir af henni, og þá kyrrðust fæturnir. Þegar heim kom, voru skórnir látnir inn í skáp, en Katrín gat ekki stillt sig um að horfa á þá. Nú lagðist frúin gamla veik og var sagt, að henni væri ekki lífs von. Þurfti þá að hjúkra henni og hlynna að henni, og var það engum skyldara en Katrínu, en einhvers staðar í borginni átti þá að vera fjölmenn dansgleði, og var Katrínu boðið þangað. Hún leit á gömlu frúna, sem ekki gat batnað aftur, hvort sem var, og hún leit á rauðu skóna og henni sýndist það í alla staði saklaust. Hún setti upp rauðu skóna, og það mátti hún víst líka. – En svo fór hún á dansleikinn og þar fór hún að dansa. En þegar hún ætlaði að dansa til hægri handar, dönsuðu skórnir til vinstri, og þegar hún ætlaði að dansa innar eftir gólfinu, þá dönsuðu skórnir fram eftir því, ofan þrepin, eftir strætinu og út um borgarhliðið. Hún dansaði og henni var nauðugur einn kostur að dansa, – beina leið áfram inn í koldimman skóginn. Þá sá hún eitthvað uppi milli trjánna og hélt það væri tunglið, því það var eins og andlit, en þetta var þá gamli rauðskeggjaði dátinn. Hann sat og kinkaði kolli og sagði: „Nei, sko! tarna eru fallegir dansskór!“ Þá varð hún dauðhrædd og ætlaði að fleygja rauðu skónum, en þeir sáru fastir, og hún reif af sér sokkana, en skónir voru holdgrónir við fæturna. Hún dansaði og mátti til að dansa yfir akur og engi, í regni og sólskini, nótt og nýtan dag, en á nóttunni var það verst. Hún dansaði inn í opinn kirkjugarðinn, en hinir dauðu, sem þar voru, höfðu eitthvað betra fyrir stafni en að dansa. Hún ætlaði að tylla sér niður á leiði fátæklingsins, þar sem tannjurtin beiska greri, en henni veittist engin hvíld né ró, og þegar hún dansaði inn að opnum kirkjudyrunum, sá hún þar engil í síðum klæðum fannhvítum og með vængi, sem náðu frá öxlum ofan til jarðar. Svipurinn á ásjónu hans var strangur og alvarlegur og í hendi sér hélt hann á breiðu, leiftrandi sverði. „Dansa skaltu,“ sagði hann, „dansa á rauðu skónum þínum, þangað til þú verður helbleik og köld, þangað til hörund þitt skorpnar og þú verður að visinni beinagrind. Dansa skaltu frá einu húsi til annars, og þar sem dramblát hégómabörn eiga heima, skaltu berja á dyr, svo að þau heyri til þín og hræðist þig. Dansa skaltu, dansa –“ „Vægð, vægð!“ æpti Katrín. En hún heyrði ekki, hverju engillinn svaraði, því skórnir báru hana út um sáluhliðið og út á víðavang, um allar jarðir, – og alltaf varð hún að dansa. Einn morguninn dansaði hún fram hjá húsdyrum, sem voru henni vel kunnugar. Fyrir innan hljómaði sálmasöngur, og þar var hafin út kista blómum þakin. Þá vissi hún, að frúin gamla var dáin, og fann það, að hún var af öllum yfirgefin og fordæmd af engli drottins. Og hún dansaði og varð að dansa, – dansa um niðdimma nóttina. Skórnir báru hana yfir þyrna og trjástubba, svo að hún varð öll blóðrisa. Hún dansaði yfir móana, þangað til hún kom að einu litlu afskekktu húsi. Þar vissi hún, að böðullinn átti heima. Hún drap með fingrunum á gluggarúðu og sagði: „Komdu út, komdu út. Ég get ekki komið inn, því ég er að dansa.“ Og böðullinn sagði: „Þú veist víst ekki, hver ég er. Ég hegg höfuð af vondum mönnum, og nú verð ég var við að syngur í öxi minni.“ „Höggðu ekki af mér höfuðið,“ mælti Katrín, „því ef þú gerir það, þá get ég ekki iðrast synda minna, en höggðu af mér fæturna með rauðu skónum.“ Síðan játaði hún allt, sem hún hafði af sér brotið, og böðullinn hjó af henni fæturna með rauðu skónum, en skórnir dönsuðu jafnt sem áður með litlu fæturna eftir vellinum og langt inn í skóg. Og böðullinn telgdi handa henni tréfætur og hækjur og kenndi henni sálm, er syndugir allajafna syngja, og hún kyssti á höndina, sem höggvið hafði af henni fæturna með öxinni, og hélt síðan út á móana. „Nú hef ég þolað nóg fyrir rauðu skóna,“ sagði hún, „nú vil ég fara í kirkju, svo menn geti séð mig,“ og þar með hvataði hún göngunni beina leið að kirkjudyrunum, en þegar þar var komið, þá dönsuðu rauðu skórnir á undan henni, svo að hún varð hrædd og sneri aftur. Alla liðlanga vikuna var hún sárhrygg og sígrátandi, en þegar kominn var sunnudagur, sagði hún: „Hana! nú er ég búin að þola og þjást nógu lengi. Ekki skal ég öðru trúa en að ég sé eins góð og margir hverjir, sem sitja sperrtir þarna inni í kirkjunni.“ Lagði hún svo ókvíðin af stað, en komst ekki lengra en að sáluhliðinu. Þá sá hún rauðu skóna dansa á undan sér og sneri aftur óttaslegin og iðraðist synda sinna af öllu hjarta. Nú fór hún á prestsetrið og beiddist þar vistar, sagðist skyldu verða iðin og vinna öll verk, sem hún gæti. Hún væri ekki að hugsa um kaupið, heldur aðeins um það, að geta fengið húsaskjól og mega vera hjá góðu fólki. Og prestkonan kenndi í brjósti um hana og vistaði hana. Og Katrín var iðjusöm og hugsandi. Hún sat kyrrlát og eftirtektarsöm, þegar presturinn las hátt í biblíunni. Öllum börnunum þótti einstaklega vænt um hana, en þegar þau töluðu um prjál og prýði og um það að vera fríð eins og drottning, þá hristi hún höfuðið. Næsta sunnudag fóru allir til kirkju og var hún þá spurð, hvort hún ætlaði ekki líka, en hún leit sorgbitin og með tárin í augunum á hækjur sínar. Fór svo hitt fólkið að heyra guðs orð, en hún fór alein inn í kytru sína, sem var ekki stærri en svo, að þar komst fyrir rúmið hennar og einn stóll. Þar settist hún niður með sálmabókina sína og fór að lesa í henni með guðræknu hjarta, og meðan hún las, bar vindurinn orgelhljóminn frá kirkjunni yfir til hennar, og hóf hún þá upp andlitið grátandi og sagði: „Guð minn góður hjálpi mér!“ Þá skein sólin svo skært, og frammi fyrir henni stóð engill drottins í hvítum klæðum, sá hinn sami, sem hún hafði séð um nóttina fyrrum í kirkjugarðinum, en nú hélt hann ekki, eins og þá, á hvasseggjuðu sverði, heldur á ljómandi fagurgrænni grein, sem var alþakin rósum. Hann drap greininni á loftið, og þá hóf það sig hátt upp, og þar sem greinin hafði við komið, blikaði gullskær stjarna. Og hann snart veggina og þeir víkkuðu út, og Katrín sá orgelið, sem á var leikið, og hún sá gömlu myndirnar af prestunum og prestkonunum, og safnaðarfólkið sat í kirkjustólunum og söng á sálmabækurnar – því kirkjan sjálf var komin heim til veslings stúlkunnar í litlu kytruna, eða þá hitt, að hún var komin þangað. Hún sat í stólnum hjá hinu prestsfólkinu, og þegar sálmurinn var sunginn á enda og það leit upp, þá horfði það vinalega til hennar og sagði: „Það var rétt gert af þér, Katrín, að koma.“ „Það var drottins náð,“ svaraði hún. Og orgelið hljómaði og barnaraddirnar í söngflokknum ómuðu svo blítt og fagurt. Sólskinið lagði svo hlýlega gegnum gluggann inn í kirkjustólinn, þar sem Katrín sat. Hjarta hennar varð svo fullt af sólskini, friði og fögnuði, að það brast. Sál hennar sveif í sólskinsljómanum til guðs, og þar var enginn, sem spurði um rauðu skóna. Svanirnir Langt í burtu héðan, í því landi, sem svölurnar fljúga til, þegar fer að vetra hér, ríkti einu sinni konungur, sem átti ellefu sonu og eina dóttur, Elísu að nafni. Kóngssynirnir gengu í skóla með stjörnu á brjósti og korða við hlið, og þeir skrifuðu á gulltöflur með demantsgrifflum og lásu jafn reiprennandi utan bókar sem á bókina, svo auðheyrt var, að það voru kóngssynir. Elísa systir þeirra sat á dálitlum fótskemli, og átti myndabók, sem faðir hennar hafði keypt og gefið fyrir hálft kóngsríkið. Og þessum börnum leið mæta vel, en það átti nú ekki að verða svo alltaf. Faðir þeirra, sem réð yfir landinu, kvongaðist í annað sinn og gekk að eiga vonda drottningu, og það var síður en svo að hún væri góð við vesalings börnin. Þau fengu undir eins að kenna á því fyrsta daginn. Þá var mikið um dýrðir í höllinni, og öll börnin voru að leika gestaleik, en í stað þess, að þau fengu endranær allar þær kökur og öll þau steiktu epli, sem fyrir hendi voru, þá gaf nýja drottningin þeim ekkert nema sand í tebolla og sagði þeim, að þau gæru látið sem það væri eitthvert góðgæti. Viku síðar kom hún Elísu litlu fyrir hjá bændafólki úti á landsbyggðinni, og ekki leið á löngu áður hún fékk konunginn til að trúa ýmsum ósönnum áburði á vesalings drengina, sonu hans, svo að hann hirti ekkert um þá framar. „Fljúgið út í víða veröld og sjáið fyrir ykkur sjálfir,“ sagði vonda drottningin, „fljúgið í líki stórra fugla, sem enga rödd hafa.“ Samt fékk hún ekki eins miklu illu áorkað og hún vildi, því bræðurnir breyttust í ellefu prýðisfagra svani. Síðan flugu þeir með undarlegu gargi út um hallargluggana, yfir aldingarðinn, sem tilheyrði höllinni, og svo yfir skóginn, sem þá tók við. Um aftureldingu bar þá þangað sem Elísa systir þeirra hafðist við á bóndabænum og svaf þar fasta svefni. Þar sveimuðu þeir yfir þakinu, sveigðu hálsana og börðu vængjunum, en enginn heyrði það né sá, og var þá ekki annað fyrir en að fljúga þaðan hátt upp í skýin og langar leiðir út í víða veröld, og flugu þeir svo, uns þeir komu í stóran skóg og dimman, sem náði alla leið ofan að sjó. Elísa litla, vesalingurinn, var að leika sér að grænu laufblaði í stofunni á bóndabænum, því annað leikfang hafði hún ekki. Hún gerði gat á blaðið og horfði gegnum það upp í sólina. Þá þótti henni sem hún sæi augu bræðra sinna, björt og hýr, og í hvert sinn er ylgeislar sólarinnar skinu á vanga hennar, minntist hún allra kossanna, sem þeir höfðu kysst hana. Svona leið nú hver dagurinn af öðrum. Blési vindurinn gegnum rósarunnana fyrir framan húsið, þá hvíslaði hann að rósunum: „Hver skyldi geta verið fallegri en þið?“ „Hún Elísa,“ sögðu rósirnar, og hristu höfuðin. Og sæti bóndakonan gamla í húsdyrunum með sálmabókina sína og læsi í henni, þá fletti vindurinn blöðunum og sagði við bókina: „Hver skyldi geta verið guðræknari en þú?“ – „Hún Elísa,“ sagði sálmabókin, og það var líka hverju orði sannara, sem þær sögðu, rósirnar og sálmabókin. Þegar Elísa var orðin fimmtán ára, átti hún að fara heim, og er drottningin sá, hvað hún var orðin falleg, þá fylltist hún heift og hatri og mundi fegnust hafa brugðið henni í sams konar líki og bræðrum hennar, en þorði það ekki fyrst um sinn, með því að konungurinn vildi fyrir hvern mun fá að sjá dóttur sína. Snemma morguns fór drottning inn í baðherbergi sitt. Það var gert af marmara og skreytt með fegurstu ábreiðum og mjúkum hægindum. Hún tók þrjár pöddur, kyssti þær og sagði við eina: „Sestu á höfuð Elísu, þegar hún kemur til að baða sig, svo að hún verði eins doðaleg og þú. – Sestu á ennið á henni,“ sagði hún við aðra, „svo að hún verði eins ljót og þú, þá mun faðir hennar ekki kannast við hana. Hvíldu við hjarta hennar,“ hvíslaði hún að hinni þriðju, „gerðu hana svo skapilla, að hún verði sjálfri sér til kvalar.“ Að svo mæltu fleygði hún pöddunum í tært vatnið og varð það þá óðara grænt á litinn. Síðan kallaði hún á Elísu, færði hana úr fötunum og lét hana fara ofan í laugina. Og er Elísa fór ofan í, þá settist ein paddan í hár hennar, önnur á enni hennar og sú þriðja á brjóstið, en það var eins og Elísa tæki alls ekki eftir því. Í sama bili og hún fór upp úr lauginni flutu ofan á vatninu þrjú rauð svefngrös. Hefðu kvikindin ekki verið eitruð og mögnuð fyrir koss nornarinnar, mundu þau hafa breyst í rauðar rósir, en hvað sem öðru líður, þá urðu þau nú samt að blómum fyrir það, að þau hvíldu á höfði Elísu og við hjarta hennar. Hún var betri og saklausari en svo, að galdrar gætu hrinið á henni. Þegar drottningin vonda sá þetta, neri hún Elísu alla í valhnotusafa svo að hörund hennar varð dökkmórautt. Hún rauð þefillum smyrslum á yndisfríða andlitið og hleypti hárinu hennar fagra í berði og samloðandi flygsur, svo að vita ómögulegt var að þekkja þar aftur Elísu hina fögru. Því var það, að þegar faðir hennar sá hana, varð honum hverft við og sagði, að ekki væri þetta sín dóttir. Enginn vildi kannast við hana, nema varðhundurinn og svölurnar, en þau voru ekki nema vesalings dýr, sem ekkert gátu. Þá grét Elísa, vesalingurinn, og hugsaði til hinna ellefu bræðra sinna, sem allir voru horfnir. Hrygg í huga læddist hún burt úr höllinni og gekk allan daginn yfir merkur og mýrar, þangað til hún kom í skógana miklu. Hún vissi ekkert hvað hún var að fara, en hún fann til sárrar hryggðar og þráði innilega bræður sína. Þeir höfðu víst líka verið flæmdir út í víða veröld eins og hún, og hún vildi fyrir hvern mun leita þá uppi. Hún var ekki búin að vera lengi í skóginum, þegar náttmyrkrið datt á. Hún var orðin villt og hafði alveg týnt veginum. Þá lagðist hún niður í mjúkan mosann, las kvöldbænina sína og hallaði höfði sínu upp við tréstofn. Allt var þar svo kyrrt og loftið svo blítt og þægilegt, og bæði í grasinu og á mosanum allt í kringum hana ljómaði eins og grænn eldbjarmi. Það var ótölulegur urmull af ljósormum, sem þessi birta stóð af. Hvað lítið sem hún kom við trjágreinarnar, hrundu þessi skínandi skordýr ofan til hennar eins og stjörnuhröp. Alla nóttina var hana að dreyma bræður sína. Hana dreymdi, að þau væru aftur orðin börn og lékju sér saman, skrifuðu með demantsgriffli á gulltöflu og væru að skoða myndabókina indælu, sem hafði kostað hálft kóngsríkið. En nú rituðu bræður hennar ekki eintóm núll og strik á töfluna eins og fyrrum. Nei, þeir rituðu þar um hin djarflegustu fremdarverk, sem þeir höfðu unnið, allt sem þeir höfðu séð og lifað, og í myndabókinni var allt lifandi, fuglarnir sungu og mennirnir komu út úr bókinni og töluðu við þau Elísu og bræður hennar, en óðara en hún fletti við blaðinu, stukku þeir inn í bókina aftur til þess að myndirnar færu ekki í rugling. Þegar Elísa vaknaði, var sólin hátt á lofti. Hún gat reyndar ekki séð hana, því skógurinn var hávaxinn og skyggði fyrir með þéttu greinaþykkni, en úti fyrir léku sólargeislarnir og iðuðu glitrandi eins og netofnar blaktandi gullslæður. Það angaði af grænu laufinu, og fuglarnir voru svo gæfir, að við sjálft lá, að þeir settust á axlir henni. Hún heyrði vatnsnið skammt frá sér, og kom niðurinn frá mörgum vatnsríkum lindum, sem allar runnu út í tjörn eina með fegursta sandbotni. Reyndar var þéttsett skógarrunnum kringum tjörnina, en á einum stað höfðu hirtirnir grafið stórt hlið á gerðið, og þar út um komst Elísa ofan að tjörninni. Vatnið í henni var svo tært, að hefði blærinn ekki komið dálitlu kviki á greinar trjánna og runnana, þá hefði hún mátt ætla, að þær væru málaðar á tjarnarbotninn, svo greinilega speglaðist hvert laufblað á vatnsfletinum, bæði þau, sem sólin skein á, og eins hin, sem voru í skugga. Jafnskjótt sem hún sá mynd sjálfrar sín í vatninu, varð hún yfirkomin af ótta, svo dökkt og ljótt var andlit hennar orðið, en þegar hún vætti hönd sína og neri enni og augu, þá kom aftur fram hörundið skínandi hvítt. Hún fór því úr öllum fötunum og óð út í tjörnina og baðaði sig. Þá var hún svo fríð, að engin kóngsdóttir í heimi var fríðari. Þegar hún hafði klæðst aftur og fléttað hárið sitt síða, gekk hún að bunandi lindinni, drakk úr lófa sínum og gekk síðan áleiðis inn í skóginn. Hún vissi samt ekkert, hvert hún væri að fara. Hún var að hugsa um bræður sína, hún hugsaði til guðs; hann mundi víst ekki yfirgefa hana. Það væri hann, sem léti villieplin vaxa í skóginum til að seðja hina hungruðu. Hann vísaði henni nú á eitt þess konar tré. Greinar þess svignuðu af ávexti, og þarna át hún dagverð sinn, setti stoðir undir greinar trésins og gekk svo inn í skóginn, þar sem hann var dimmastur. Þar var svo kyrrt, að hún heyrði fótatak sjálfrar sín, heyrði hvernig skrjáfaði í hverju skrælnuðu laufi, sem hún steig á. Þar sást enginn fugl, og greinarnar voru svo þéttar, að enginn sólargeisli náði að skína í gegnum þær. Hinir háu stofnar voru svo þéttir, að þegar hún horfði beint fram fyrir sig, var engu líkara, en að hver bjálkagirðingin tæki við af annarri og lyki um hana á alla vegu. Slíka einveru sem þessa hafði hún aldrei þekkt á ævi sinni. Nóttin var koldimm og ekki var svo mikið, sem að lítill ljósormur glórði í mosanum. Hún lagðist raunamædd til svefns, en þá þótti henni sem trjágreinarnar uppi yfir sér þokuðust í sundur og að drottinn sjálfur horfði ofan til hennar líknarmildum augum og að litlir englar gægðust fram yfir höfði hans og undan handarkrikum hans. Þegar hún vaknaði um morguninn, vissi hún ekki, hvort sig hefði dreymt þetta eða þetta hefði verið veruleiki. Hún gekk spölkorn áleiðis og mætti þá gamalli konu með berjakörfu. Konan gaf henni dálítið af berjum. Elísa spurði hana, hvort hún hefði ekki séð ellefu kóngssonu ríða um skóginn. „Nei,“ sagði sú gamla, „en í gær sá ég ellefu svani með gullkórónur á höfði synda ofan eftir ánni hérna rétt hjá.“ Konan leiddi hana dálítið lengra á leið, þangað til þær komu fram á brekkubrún nokkra. Þar fyrir neðan rann á í bugðum og seildust trén á bökkum hennar með langar, allaufgaðar greinarnar hvert á móti öðru, og þar sem þau gátu ekki náð saman eftir eðlilegum vexti sínum, höfðu þau slitið upp ræturnar og slúttu fram yfir strauminn með greinarnar fléttaðar saman. Elísa kvaddi gömlu konuna og gekk ofan með ánni, þangað til hún rann í opinn sjóinn. Þarna lá nú hafið ljómandi fagurt fram undan Elísu, en ekki var þar nokkurt skip á siglingu. Þar sást ekki svo mikið sem bátkæna. Hvernig átti hún að komast lengra áleiðis? Hún virti fyrir sér hina óteljandi malarsteina á sjávarströndinni. Sjórinn hafði sorfið og slípað þá alla hnöttótta. Gler, járn og steinar og hvað eina, sem þar hafði á land rekið, hafði fengið lögun af sjónum, og þó var sjórinn miklu mýkri en þýða meyjarhöndin hennar. „Sjórinn bylgjast endalaust og þreytist aldrei,“ sagði hún, „og við það sléttast hið hrjúfa og harða. Ég ætla mér að vera eins óþreytandi. Ég þakka ykkur fyrir kenninguna, þið björtu, síkvikandi bylgjur! Og svo segir mér hugur um, að þið munuð einhvern tíma fyrr eða síðar bera mig til minna ástkæru bræðra.“ Ofan á þanghrönninni í fjörunni lágu ellefu fannhvítar svanafjaðrir. Þær tíndi Elísa upp og batt saman í vöndul. Vatnsdropar voru á þeim og var ekki auðið að greina, hvort það voru tár eða daggardropar. Það var einmanalegt þarna við sjóinn, en hún fann ekki til þess, því hafið var fullt af tilbreytingum og aldrei eins. Það sýnir meiri margbreytni á fáum stundum en stöðuvatn á heilu ári. Kæmi stór og svartur skýflóki, þá var eins og sjórinn segði: „Ég get líka verið svartur á svipinn,“ og þá fór að hvessa og bylgjurnar földuðu hvítu. En yrðu skýin skínandi rauð, og svæfi vindurinn, þá var hafið sem rósarblað á að sjá. Í einn tíma var það grænleitt, en aðra stundina var það hvítt, en hvað mikið lognmók sem á því var, þá var samt ætíð ofurlítil kvika við fjöruborðið. Sjórinn lyftist með hægð eins og brjóst á sofandi barni. Í þann mund, er sól var að setjast, sá Elísa hvar ellefu svanir, allir með gullkórónu á höfði, flugu að landi. Þeir svifu hver á eftir öðrum, svo að hópurinn varð tilsýndar eins og hvít ræma. Þá gekk Elísa upp á sjávarbakkann og faldi sig þar bak við runna. Svanirnir settust þar hjá henni og böðuðu út vængjunum. Í sama bili og sólin hvarf undir hafsbrúnina, féllu af þeim hamirnir, og nú stóðu þar ellefu forkunnar fríðir kóngssynir, bræður Elísu. Hún hljóðaði upp yfir sig, því þó að þeir hefðu mikið breyst, þá vissi hún samt, að þetta voru þeir. Hún fann það á sér, að svo hlaut að vera. Hún flaug í fangið á þeim og ávarpaði þá með nafni, og þeir urðu himinglaðir, þegar þeir sáu og þekktu aftur hana litlu systur sína, sem nú var orðin svo stór og falleg. Þau systkinin ýmist hlógu eða grétu og skildu nú fljótt, hve níðingslega stjúpunni hafði farist við þau öll. „Við bræður þínir,“ sagði hinn elsti, „fljúgum í líki villisvana meðan sól er á lofti, en óðara og hún er gengin undir, fáum við mannsmynd okkar aftur. Þess vegna verðum við ætíð um sólarlagið að gá vandlega að vera einhvers staðar þar nálægt, sem við getum hvílt fætur okkar, því ef við værum þá á flugi uppi við skýin, mundum við óðara hrapa niður í sjávardjúpið. Ekki eigum við heima hérna, en fyrir handan hafið er land nokkurt engu ófegra en þetta. Þangað er óravegur, og verðum við að fara yfir hafið stóra, en engin ey er á leiðinni, sem við gætum haft fyrir náttstað, ekkert nema dálítið sker, sem stendur eitt sér upp úr sjónum miðs vegar milli landa, og gerir ekki betur en að við getum allir hvílt okkur þar, með því að þjappa okkur saman, svo er það lítið. Þegar illt er í sjóinn, ganga brimgusurnar yfir okkur, en allt um það þökkum við guði fyrir skerið. Þar látum við fyrirberast náttlangt meðan við erum í okkar mannlegu mynd, og væri ekki þetta klettasker, þá gætum við aldrei vitjað okkar kæra ættlands, því tveir lengstu dagar ársins ganga til þess að fljúga yfir hafið. Aðeins einu sinni á ári megum við vitja átthaganna, og ellefu daga er okkur leyft að dveljast hér og notum við þann tíma til að fljúga yfir þennan víðáttumikla skóg, þar sem hann faðir okkar á heima og þar sem við fæddumst, og svo líka kirkjuna með háa turninum, þar sem hún móðir okkar er grafin. Hér finnst okkur eins og trén og runnarnir séu í ætt við okkur. Hérna rása villihestarnir um sléttlendið, eins og við sáum þá gera á bernskuárunum. Hérna syngur kolamaðurinn þjóðvísurnar gömlu, sem við dönsuðum eftir, þegar við vorum börn. Hingað dregur hugurinn okkur og hér höfum við hitt þig, elsku systir! Í tvo daga megum við vera hér enn, en svo verðum við að fljúga yfir hafið í annað land, sem hefur að vísu fegurð og indæli til að bera, en er ekki föðurland okkar. – Hvernig eigum við nú að fá þig í förina með okkur? Við höfum hvorki skip né bát.“ „Hvernig ætti ég að fara að frelsa ykkur úr álögunum?“ sagði Elísa. Um þetta voru þau að tala nærri því alla nóttina og sváfu aðeins fáar klukkustundir. Elísa vaknaði við þyt af svanavængjunum, því bræðurnir voru aftur komnir í hami sína og flugu í stórum hringum, uns þeir bárust úr augsýn langa leið í burt, en einn bræðranna, sá yngsti, varð eftir hjá systur sinni. Og svanurinn lagði höfuðið í kjöltu hennar og hún klappaði honum á hvítu vængina. Undir kvöldið komu hinir svanirnir aftur, og jafnskjótt sem sól var runnin, fengu þeir aftur sína réttu mannsmynd. „Á morgun fljúgum við héðan,“ sagði einn þeirra, „og megum ekki koma aftur fyrr en að fullu ári liðnu. En þig megum við ekki yfirgefa svona. Hefur þú hug í brjósti til að slást í förina? Ég er nógu handleggjasterkur til að bera þig alla leið um skóginn, og ætli við séum þá ekki allir nógu vængjasterkir til að fljúga með þig yfir hafið?“ „Já, lofið mér að fara með ykkur,“ sagði Elísa. Eftir þetta voru þau alla nóttina að ríða net úr mjúkum pílviðarberki og seigum sefreyr, og varð það bæði stórt og traust. Í net þetta lagðist Elísa, og er sólin rann upp og bræðurnir brugðust í svana líki, þá gripu þeir nefjum í netið og flugu hátt upp til skýja með systur sína sofandi. Sólargeislarnir stóðu beint í andlit henni og flögraði því einn af svönunum uppi yfir höfði hennar, til þess að skyggja yfir hana með vængjum sínum. Þegar Elísa vaknaði, voru þau komin langt frá landi, og hélt hún sig enn vera að dreyma, svo undarlegt fannst henni að berast svona í hálofti yfir hafið. Við hliðina á henni lá lítil hrísla vaxin alþroskuðum berjum og hnippi af ljúffengum rótum. Yngsti bróðirinn hafði tínt þetta saman og látið það þarna handa henni. Hún leit til hans með þakklátu brosi, því hún vissi, að þetta var frá honum, sem flögraði yfir höfði hennar og skýldi henni með vængjunum. Nú voru þau svo hátt uppi, að fyrsta skipið, sem þau sáu fyrir neðan sig, var til að sjá líkast því sem hvítur mávur synti þar á sjónum. Að baki þeirra var stórt ský í líkingu við heljarstórt fjall, og sá Elísa bera á það risavaxna skugga af sér og hinum ellefu svönum, er þau þutu áfram á fluginu. Fallegra málverk en þetta hafði hún aldrei séð, en er sólin hækkaði á lofti og skýið dróst smám saman lengra aftur úr, þá hvarf þessi svífandi skuggamynd. Allan daginn flugu svanirnir gegnum geiminn sem kólfi væri skotið og þó flugu þeir að þessu sinni ekki eins hratt og endranær, þar sem systir þeirra var þeim byrðarauki. Nú dró upp vonskuveður og tók að kvölda. Elísa horfði kvíðandi á sólina, er hún var að renna, og ekki gat hún enn þá komið auga á skerið staka úti á regindjúpinu. Henni fannst svanirnir vera að herða á vængjatökunum. Æ, það var hennar vegna, að þeim sóttist ekki nógu fljótt leiðin. Jafnskjótt sem sól væri af lofti, mundu þeir verða að mönnum, steypast niður í sjóinn og drukkna. Hún bað til guðs af innsta hjartans grunni, en ekki sást skerið að heldur. Skýsortinn var alltaf að færast nær og nær, og snarpir kastvindar boðuðu, að voðaveður væri í aðsigi. Skýin keyrðust saman í eina blýfasta bólstrahrönn, sem óðum veltist áfram, og samfara því leiftruðu eldingarnar hver á fætur annarri. Nú var sólin rétt við hafsbrúnina. Hjartað barðist og titraði í brjósti Elísu. Þá renndu svanirnir svo hratt niður á við, að hún hélt þau væru að detta, en það var ekki nema snöggvast. Nú liðu þau aftur jafnt áfram. Sólin var hálf niðri í sjónum. Þá kom Elísa fyrst auga á litla skerið fyrir neðan sig og var það ekki stærra en svo, að það var líkast sem selur gægðist með kollinn upp úr vatnsbrúninni. Sólin hneig svo fljótt, að nú var ekki eftir af henni nema eins og stjarna. Í því tyllti Elísa fótum á fasta jörð og um leið slokknaði sólin eins og síðasti neistinn í útbrunnu pappírsblaði. Elísa sá bræðurna standa í kringum sig og haldast í hendur, og var öllu til skila haldið, að þau kæmust fyrir á skerinu. Einum fleira hefði það ekki rúmað. Þarna skullu nú bylgjurnar á skerinu og sjávarlöðrið dundi yfir þau eins og hellirigning. Loftið bálaði jafnt og þétt af eldingum, og hver þruman reið af annarri, en systkinin héldust í hendur og sungu sálm, sem jók þeim hug og dug og veitti þeim huggun. Með morgninum kyrrði veðrið og birti í lofti, og með upprennandi sólu flugu svanirnir af stað með Elísu. Öldugangur var ennþá mikill á hafinu, og úr hæðinni, þar sem þau svifu, var froðan á dökkgrænum bylgjunum á að líta eins og óteljandi sægur fannhvítra svana synti þar á sjónum. Þegar sólin hækkaði á lofti, sá Elísa fjallaland fram undan sér, eins og sveimandi í lausu lofti, og voru fjöllin þakin skínandi íshrönnum. Miðja vega uppi á þeim gnæfði höll, sem var að minnsta kosti míla á lengd, og hófu sig þar hver súlnagöngin upp af öðrum, en fyrir neðan sáust bylgjandi pálmaskógar og ljómandi skrautblóm á stærð við mylluhjól. Hún spurði, hvort þetta væri landið, sem þau ætluðu til, en svanirnir hristu höfuðin og sögðu, að þetta væri höllin hennar Fata Morgana,[*] skýjahöllin síbreytilega, þar [* Fata Morgana, þ.e. álfkonan, dísin Morgana (fata á miðaldalatínu og ítölsku merkir álfkona, dís); hún var eftir miðaldaþjóðsögnum fósturdóttir Merlínusar (Merlins), galdramannsins spáfróða. Hún var talin hollvættur og eftir þjóðtrúnni á Ítalíu er henni eignuð viss tegund loftsjóna (hillingar, upphillingar), sérstaklega eins og þær gerast yfir Messínasundi, er tré, turnar, skip o.s. frv. sjást í lausu lofti. Hún á sér bústað í kristallshöll neðansjávar og kemur einatt upp um sólarlagið með leiksystrum sínum í ótal sjónhverfilegum myndum. Áðurnefndar loftsjónir kalla menn og almennt á öðrum málum hennar nafni: Fata Morgana. – Þýð.] sem enginn mennskur maður mætti stíga fæti. Elísa starblíndi á þessa furðu, en þá hrundu í sama vetfangi fjöllin, skógarnir og höllin, og í þeirra stað blöstu við tuttugu glæsilegar kirkjur með háum turnum og bogamynduðum gluggum. Elísu þótti sem hún heyrði orgelhljóma, en það var í rauninni sjávarniðurinn, sem lét svo í eyrum hennar. Nú voru þau rétt að kalla komin að kirkjunum, en þá breyttust þær í stóran skipaflota, sem brunaði áfram undir fullum seglum fyrir neðan þau. Hún horfði aftur niður fyrir sig, og þá var þetta ekki annað en hafþoka, sem bylti sér áfram eftir sjónum. Svona hafði hún sífelldar tilbreytingar fyrir augum, þangað til hún loksins sá með sönnu landið, sem þau ætluðu til. Það opnaðist fyrir þeim með fagurbláum fjöllum, sedrusviðarskógum, borgum og höllum. Og löngu fyrir sólarlag sat hún uppi í fjalli fyrir framan víðan helli, sem var alvaxinn grænum flækjuplöntum hátt og lágt og líkast til að sjá sem væri hann prýddur með ljómandi tjöldum og glitábreiðum. „Nú verður gaman að vita, hvað þig dreymir hérna í nótt,“ sagði yngsti bróðirinn og sýndi henni, hvar hún ætti að sofa. „Hamingjan gæfi, að mig dreymdi, hvernig ég á að frelsa ykkur!” sagði hún, og svo varð hún gagntekin af þessari hugsun, að hún bað til guðs af allri sál og öllu hjarta og hélt enda áfram bæn sinni í svefninum. Þá þótti henni sem hún svifi hátt í loft upp til skýjahallarinnar, þar sem Fata Morgana átti heima. Og álfkonan kom á móti henni fögur og ljómandi og var svipuð konunni, sem gaf henni berin í skóginum og sagði henni frá svönunum með gullkórónurnar. „Bræður þínir geta orðið leystir úr álögunum,“ sagði hún, „en ertu nú nógu huguð og þolgóð? Að vísu er sjórinn mýkri en fíngerðu hendurnar þínar, og ummyndar þó harða steinana, en ekkert mun hann finna til þess logandi sviða, sem þú munt verða að þola í fingrum þínum. Sérðu brenninetluna þá arna, sem ég held á í hendinni? Af þess kyns netlum vaxa fjölmargar úti fyrir hellinum, sem þú sefur í. Þær einar, sem þar vaxa, og þær, sem í kirkjugarði vaxa á gröfum framliðinna, geta komið þér að haldi. Taktu vel eftir því. Þær verðurðu að tína, þó þær brenni þig og hleypi upp blöðrum á hörundi þínu. Myldu þær með höndum og fótum og muntu þá fá hör, og skaltu spinna hann og prjóna úr bandinu ellefu ermalangar brynjur. Þeim skaltu varpa yfir svanina, og munu þeir þá leysast úr álögunum. En mundu vel eftir því, að allt frá þeirri stund, er þú byrjar á verkinu, og þangað til því er lokið, – og það enda þó á því stæði árum saman, – þá mátt þú ekki orð mæla. Það fyrsta orð, sem kemur yfir varir þínar, mun smjúga sem morðhnífur í hjörtu bræðra þinna. Þeir eiga allir líf sitt undir tungu þinni. Fest þér allt þetta vel í minni.“ Að svo mæltu kom hún við hönd hennar með netlunni, og sveið undan henni sem brennandi eldi. Við það vaknaði Elísa og var þá orðið bjart af degi. Hún féll á kné og þakkaði drottni, gekk síðan út úr hellinum og byrjaði á verkinu. Hún þreif niður í ótætis netlurnar, og voru þær sem eldur og hleyptu upp blöðrum á höndum hennar og handleggjum, en það vildi hún fegin leggja á sig, ef hún aðeins mætti frelsa bræður sína, sem henni þótti svo innilega vænt um. Hún þvældi sundur netlurnar með berum fótunum og spann grænan hörinn. Þegar sól var af lofti, komu bræðurnir og urðu hræddir, er þeir sáu hana svo steinþegjandi. Þeir héldu að það væru nýir gjörningar af völdum stjúpunnar vondu, en þegar þeir sáu hendur hennar, þá skildu þeir, hvað hún var að gera þeirra vegna, og yngsti bróðirinn grét, og þar sem tár hans féllu, þar kenndi hún einskis sviða og blöðrurnar hjöðnuðu. Alla nóttina var hún við vinnu sína. Hún hafði enga eirð né ró fyrr en hún hefði frelsað bræður sína. Allan næsta dag, meðan svanirnir voru í burtu, sat hún alein við vinnu sína, og aldrei fannst henni, að tíminn hefði liðið eins fljótt. Ein brynja var fullbúin og nú byrjaði hún á þeirri næstu. Þá heyrðist allt í einu veiðihornsþytur frammi til fjalla. Hljóðið færðist nær og nær. Hún heyrði hundgá og forðaði sér inn í hellinn, batt saman netlurnar og hörinn í bagga og settist á hann. Í sama vetfangi kom stór hundur geltandi fram úr kjarrinu, og svo kom annar og svo kom þriðji. Þeir geltu hátt, hlupu aftur inn í kjarrið og komu fram á ný. Að fám mínútum liðnum stóð allur veiðimannahópurinn fyrir utan hellisdyrnar. Einn í hópnum var lang fríðastur þeirra allra, og var hann konungur þar í landi. Honum fannst til um Elísu, því aldrei á ævi sinni hafði hann séð fríðari mey. Hann gekk að henni og mælti: „Hvernig ert þú komin hingað, yndisfagra mey?“ Elísa hristi höfuðið, því hún mátti ekki tala, þar sem við lá líf og frelsi bræðra hennar, og hún faldi hendurnar undir svuntu sinni, svo kóngurinn skyldi ekki sjá hvað hún píndist. „Komdu með mér,“ sagði hann, „hér máttu ekki vera framvegis. Sértu eins góð og þú ert fríð, þá skal ég klæða þig í silki og flauel, setja gullkórónu á höfuð þér og fá þér bústað í fallegustu höllinni minni,“ – og því næst tók hann hana og lét á bak hjá sér. Hún grét mikið og sló höndum, en kóngurinn mælti við hana þessum orðum: „Ég vil ekki annað en það, sem þér er fyrir bestu, og sá tími mun koma, að þú munt kunna mér þakkir fyrir.“ Að því mæltu hleypti hann af stað með Elísu fyrir framan sig og stefndi upp til fjallanna og veiðimennirnir þeysandi á eftir. Í það mund er sól var að renna, fór að sjást til konungsborgarinnar, og blasti hún við með kirkjum og kúptum stöplum. Þegar þangað var komið, leiddi konungurinn Elísu inn í höll sína. Þar inni gusu stórkostlegir gosbrunnar í háum marmarasölum, en veggir og loft voru prýdd ljómandi málverkum, en það var eins og Elísa sæi alls ekki þessa prýði. Hún gerði ekki annað en að gráta og harma. Hún lofaði þjónustumeyjunum mótstöðulaust að færa sig í konungleg klæði, flétta perlur í hár sitt og toga fína hanska á netlubrennda fingurna. Og er hún stóð þarna í öllu skartinu, þá var hún svo ljómandi fögur, að hirðin hneigði sig enn dýpra fyrir henni en áður, og konungurinn kaus hana sér að brúði, þrátt fyrir það, að erkibiskupinn hristi höfuðið og tautaði fyrir munni sér, að þessi fallega skógarstúlka hlyti að vera seiðkona. Það væri ekki efamál, að hún gerði þeim öllum sjónhverfingar og heillaði hjarta konungsins með fjölkynngi. En konungurinn gaf því engan gaum. Hann lét samstundis hefja hljóðfæraslátt. Hann lét frambera dýrindis rétti og yndisfagrar meyjar dansa í kringum brúðarefnið. Hann leiddi Elísu gegnum ilmandi aldingarða, inn í skrautlega sali, en ekki var svo mikið sem að henni vaknaði bros á vörum eða að augun hýrnuðu. Það var eins og sorgin hefði sest þar að. Því næst opnaði konungurinn fyrir henni dálítið herbergi, rétt hjá svefnstofunni, sem henni var ætlað. Það var líkt hellinum þar sem hún hafði verið. Á gólfinu lá hörbandsbagginn hennar, sem hún hafði spunnið úr netlunum, og uppi undir loftinu hékk hörbrynjan, sem hún hafði lokið við að prjóna. Einn af veiðimönnum konungs hafði hrifsað þetta handa sér í hellinum svo sem sjaldséðar minjar. „Hérna geturðu látið þig dreyma, að þú sért í þínu gamla heimkynni,“ mælti konungur, „hérna er vinnan, sem þú hafðir milli handa. Nú mun þér í allri dýrðinni þykja gaman að minnast liðins tíma.“ Þegar Elísa sá hluti þessa, sem lágu henni svo mjög á hjarta, þá lifnaði bros á vörum hennar og blóðið streymdi aftur fram í kinnarnar. Hún fór að hugsa um frelsun bræðra sinna og kyssti á hönd konungsins, en hann þrýsti henni upp að hjarta sínu og lét hringja öllum klukkum til þess að gera heyrinkunnugt, að nú ætlaði hann að halda brúðkaup sitt. Fallega stúlkan mállausa, sem fundin var í skóginum, átti nú að verða drottning ríkisins. Þá hvíslaði erkibiskupinn illum dylgjum í eyra konungs, en ekki náðu þær til hjarta hans. Brúðkaupið var fastráðið, og átti erkibiskupinn sjálfur að setja kórónuna á höfuð brúðarinnar, en þá þrýsti hann hinni kröppu umgjörð kórónunnar svo óþyrmilega á enni hennar, að hana kenndi til. En það var önnur umgjörð, sem lá um hjarta hennar og sárar kreppti. Það var sorgin yfir ástandi bræðra hennar. Um kvalir líkamans hirti hún ekki. Hún þagði sem steinn. Eitt einasta orð af vörum hennar mundi hafa orðið bræðrum hennar að bana, en úr augum hennar skein djúp og innileg ást á hinum fríða og göfuglynda konungi, sem allt gerði, er í hans valdi stóð, til að gleðja hana. Henni þótti vænna og vænna um hann dag frá degi og sárlangaði til að trúa honum fyrir leyndarmáli sínu og segja honum frá sálarkvölum sínum, en þögul varð hún að vera, og þögul varð hún að ljúka verki sínu. Þess vegna læddist hún á nóttunni úr rúminu frá honum og fór inn í launklefann, er gerður hafði verið sem líkastur hellinum hennar að allri innanprýði, og þar lauk hún við að prjóna Hverja hörbrynjuna eftir aðra, en þegar hún byrjaði á þeirri sjöundu, var hörinn þrotinn. Það vissi hún vel, að netlurnar, sem hún þurfti, uxu í kirkjugarðinum, en sjálf varð hún að tína þær, annars var allt ónýtt. Og hvernig átti hún að komast þangað? Sárt svíður mig í fingurna, en lítið er það hjá því, hvað mig svíður í hjartanu, hugsaði hún með sér. Ég verð að hætta á það. Góður guð mun ekki sleppa af mér hendi. Full af hugarangist, eins og hún ætlaði að fremja illt, læddist hún á náttarþeli í glaða tunglskini ofan í aldingarðinn, gekk svo eftir hinum löngu trjágöngum og auðum borgarstrætunum, þangað til hún kom út að kirkjugarðinum. Þar inni sá hún þá hvar lamíur[*] nokkrar afskræmislega ljótar sátu í hvirfing á einhverjum breiðasta legsteininum. Þær færðu sig úr ræflum sínum, eins og þær ætluðu að fara í laug, og grófu svo með skorpnum, fingralöngum krumlunum niður í nýjustu grafirnar, rifu upp líkin og átu af þeim holdið. Elísa varð að fara fram hjá þeim og komst það ekki nema með því að fara svo nærri þeim, að hún nálega straukst við þær, og hvesstu þær þá augun grimmdarlega á hana, en hún las bænir sínar í hljóði, tíndi saman brenninetlurnar og fór með þær heim í höllina. [* Sbr. forngríska nafnið „Lamía“. Lamía var ófreskja í kvenlíki, eins konar Grýla, sem átti að stela börnum og éta þau: af því er dregið þetta nafn á náætunum hér. – Þýð.] Það var aðeins einn maður, sem séð hafði til ferða hennar, og það var sjálfur erkibiskupinn. Hann hafði verið á fótum meðan aðrir sváfu. Honum þóttu nú fullar sönnur fengnar á því, að hann hefði rétt að mæla, að ekki væri einleikið um drottningu þessa. Hún væri áreiðanlega galdranorn og hefði vélað konunginn og alla þjóðina með töfrabrögðum sínum. Nú sætti erkibiskupinn lagi, er konungurinn skriftaði fyrir honum, og sagði honum frá því, sem hann hafði sjálfur séð, og hvað hann væri hræddur um, að vera mundi, og er þau hin hörðu orð liðu yfir varir hans, þá hristu hin útskornu dýrlinga-líkneski höfuðin, eins og þau vildu segja: „Það er ósatt, Elísa er saklaus.“ En erkibiskupinn skildi það á allt annan veg. Hann hélt, að dýrlingarnir bæru vitni á móti Elísu, og að þeir hristu höfuðin yfir syndum hennar. Þá hrundu tvö höfug tár niður eftir kinnum konungsins og hann gekk heim með efa í hjarta sínu. Um nóttina kom honum ekki dúr á auga, en þó lét hann svo sem hann svæfi, og þess varð hann vís, að Elísa fór á fætur og það gerði hún á hverri nóttu, og í hvert einasta skipti fór hann í humátt á eftir henni og sá, að hún hvarf inn í leyniklefann. Alltaf var konungur að verða þungbúnari á svipinn dag frá degi, og veitti Elísa því eftirtekt, en skildi ekki, af hverju það gæti verið. Það fékk henni mikils kvíða, og bættist hann svo ofan á sorgina, sem hún bar í hjarta vegna bræðranna. Tárin hrundu brennheit niður á tignarskrúðann hennar, flauelið og purpurann. Þau glitruðu þar eins og demantar, og allir, sem sáu hana í drottningarskartinu og dýrðinni, óskuðu sér að vera í hennar stað. Nú var hún samt bráðum búin með verk sitt. Það var aðeins ein brynjan eftir, en hör átti hún engan framar og ekki svo mikið sem eina netlu. Það var því ekki annað fyrir en að fara einu sinni enn, – sjálfsagt í síðasta sinni – út í kirkjugarðinn og tína netlur. Henni óaði við að fara þetta alein, og hugsaði með kvíða til lamíanna, sem voru svo ógurlegar, en viljaþrek hennar og traustið á varðveislu drottins var óbilandi. Nú fór hún af stað, en konungurinn og erkibiskupinn veittu henni eftirför og sáu þeir á eftir henni, er hún hvarf inn í kirkjugarðinn inn um grindahliðið. Þegar þeir komu að hliðinu, sáu þeir lamíurnar sitja á legsteininum, alveg eins og þær voru, þegar Elísa sá þær, og sneri konungurinn sér undan, því í þeirra hópi hélt hann að sú væri, sem á þessu sama kvöldi hafði hvílt við brjóst hans. „Þjóðin verður að dæma hana,“ sagði hann, og þjóðin dæmdi, að hún skyldi brennast á björtu báli. Eftir það var farið með hana úr dýrðarsölum konungshallarinnar í dimma og saggasama fangakytru, þar sem vindsúginn lagði inn um grindagluggann. Í staðinn fyrir flauel og silki var henni fengið netluhnippið hennar. Það átti hún að hafa undir höfðinu fyrir svæfil. Brynjurnar hörðu og snörpu, sem hún hafði prjónað, átti hún að hafa fyrir dýnur og ábreiður, en ekkert hefðu menn getað látið hana fá, sem henni var kærkomnara. Hún byrjaði nú aftur á vinnu sinni og bað til guðs síns. Úti fyrir sungu götustrákarnir kersknisvísur um hana, en enginn huggaði hana með einu vingjarnlegu orði. Þegar leið undir kvöldið heyrðist vængjaþytur við grindagluggann, og var það yngsti bróðirinn, sem kominn var og hafði nú loksins fundið systur sína. Hún grét hástöfum af fögnuði, þó hún vissi, að nóttin, sem í hönd fór, mundi að líkindum verða sín síðasta í þessum heimi. Enda var nú verkinu því nær lokið og bræður hennar komnir. Erkibiskupinn kom til þess að vera hjá henni síðustu stundirnar. Því hafði hann lofað konunginum. En hún hristi höfuðið og lét hann skilja á svip sínum og augnaráði, að hún beiddi hann að fara. Á þessari nóttu varð hún að ljúka verki sínu. Annars var allt til ónýtis, sem hún hafði þolað, sorgin og sviðinn, tárin og vökurnar. Erkibiskupinn jós yfir hana illyrðum og fór sína leið, en vesalings Elísa vissi sig saklausa og hélt áfram vinnu sinni. Litlu mýsnar voru á sífelldum erli um gólfið, þær roguðust með netlurnar að fótum hennar til að hjálpa henni eins og þær best gátu, og þrösturinn settist við grindagluggann og söng þar alla nóttina, til þess að hún léti ekki hugfallast. Það var ekki meira en svo farið að birta af degi og stund til sólaruppkomu eða vel það. Þá voru bræðurnir ellefu komnir að hallarhliðinu og beiddust þess, að þeim væri fylgt á konungs fund, en þeim var svarað, að þess væri enginn kostur, nóttin væri ekki enn á enda og konungurinn svæfi og vildi ekki láta vekja sig. Þeir ýmist báðu eða hótuðu og létu sig ekki. Þá komu hallarverðirnir og seinast konungurinn sjálfur og spurði, hvað á gengi. Í sama bili rann sólin upp, og úr því sáust ekki bræðurnir, en ellefu villisvanir sáust fljúga yfir konungshöllina. Allir, sem vettlingi gátu valdið, þustu nú út um borgarhliðið, því allir vildu horfa á, þegar galdranornin væri brennd. Henni var ekið í kerru, sem húðarjálkur gekk fyrir, en sjálf hafði hún verið færð í slopp úr grófgerðum striga. Hárið hennar síða og fagra féll laust niður á herðarnar. Kinnarnar voru nábleikar og varirnar bærðust aðeins lítið eitt, en fingurnir prjónuðu í sífellu grænan hörinn. Jafnvel á leiðinni til banabálsins hætti hún ekki við verkið, sem hún var byrjuð á. Tíu brynjur lágu við fætur hennar og þá elleftu var hún að prjóna, þrátt fyrir áreitni skrílsins, sem smánaði hana óspart: „Nei, lítið þið á galdrakindina,“ sagði skríllinn, „en hvað hún umlar og tautar! Ekki hefur hún sálmabók milli handa, nei, þarna situr hún með bannsett galdraplöggin sín. Rífum þau af henni og tærum þau í ótal stykki!“ Og nú ruddust allir að Elísu og ætluðu að rífa sundur brynjurnar, en þá komu ellefu svanir fljúgandi, settust á kerruna allt í kringum hana og börðu vængjunum. Við það skelfdist múgurinn og þokaði sér undan. „Þetta er teikn af himni. Hún er víst saklaus,“ hvísluðu margir, en ekki þorðu þeir að segja það upphátt. Í þessu kom böðullinn og þreif í höndina á henni. Þá varpaði hún í skyndi hinum ellefu brynjum yfir svanina, og óðara stóðu þar ellefu undurfríðir kóngssynir, en sá yngsti hafði svanavæng í staðinn fyrir annan handlegginn, því aðra ermina vantaði á brynju hans. Hana hafði systirin ekki getað lokið við. „Nú er mér óhætt að tala,” sagði hún, „ég er saklaus.“ Og lýðurinn, sem sá, hvað hér hafði til borið, laut henni eins og dýrlingi, en hún hné sem örend væri í faðm bræðra sinna, svo ofreynd var hún orðin af angistinni og geðshræringunum, sorginni og sviðanum. „Já, hún er saklaus,“ mælti elsti bróðirinn, og sagði nú frá öllu, sem gerst hafði, eins og var, og meðan hann var að segja frá því, dreifðist út ilmur svo mikill, að það var eins og hann væri framleiddur af þúsund rósum. En hann stafaði af því, að sérhvert viðarstykki í bálkestinum hafði fest rætur og skotið greinum. Nú stóð þar ilmandi laufgerði, stórt og hávaxið, alþakið rauðum rósum. En allra efst á gerðinu óx blóm eitt, hvítt og forkunnar fagurt, og glitraði það eins og stjarna. Þetta blóm braut konungurinn og lét það í barm Elísu og raknaði hún þá við úr öngvitinu með frið og fullsælu í hjarta sínu. – Og allar kirkjuklukkur hringdu sér sjálfar, og fuglarnir komu í stórhópum, og nú var snúið heim aftur til hallarinnar brúðför, – og slíka brúðför hafði enginn kóngur áður séð. Vondi kóngurinn Einu sinni var konungur nokkur, illur og ofdrambsfullur, sem hugsaði ekki um nokkurn hlut annan en að vinna undir sig öll lönd á jarðríki með ógn og yfirgangi og gera menn svo skelkaða, að þeir óttuðust nafn hans tómt. Hann fór æðandi um allt með báli og brandi. Hermenn hans tróðu niður kornið á ökrunum og brenndu upp bændabæina, svo að loginn sleikti laufið af trjánum, og ávextirnir löfðu steiktir niður af sviðnum greinunum. Mörg fátæk móðir faldi sig með nakið barn á brjósti bak við rjúkandi múrvegg, og liðsmennirnir leituðu að henni, og þegar þeir fundu hana og barnið, kættust þeir djöfullegri kæti. Árar Vítis hefðu ekki getað verið verri. En svona fannst konunginum það eiga að vera. Veldi hans fór dagvaxandi, allir óttuðust nafn hans, og heppnin var með honum í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur. Hann flutti heim með sér ógrynni fjár úr herteknu borgunum, og í aðsetursborg hans hrúguðust saman svo mikil auðæfi, að slíks voru ekki dæmi neins staðar í víðri veröld. Nú lét hann reisa skrautlegar hallir, kirkjur og önnur stórhýsi, og öllum, sem sáu þessa dýrð, varð að orði: „Hvílíkur konungur! mikill konungur og voldugur!“ Þeir hugsuðu ekki um alla þá eymd og hörmung, sem hann hafði leitt yfir löndin. Þeir heyrðu ekki harmakveinið og andvörpin, sem ómuðu frá borgunum, sem hann hafði brennt til kaldra kola. Konungurinn horfði á gull sitt og skrauthýsi og hugsaði með sjálfum sér eins og múgurinn: „Hvílíkur konungur, mikill konungur og voldugur, – en ég vil meira, miklu meira. Ekkert veldi má vera, sem teljist jafnt mínu, því síður meira.“ Hóf hann svo ófrið við alla nágranna sína og sigraðist á þeim öllum. Sigruðu konungana lét hann binda við vagn sinn með gullkeðjum, þegar hann ók um strætin, og þegar hann sat til borðs, urðu þeir að liggja fyrir fótum hans og hirðmanna hans og tína upp mola þá, er til þeirra var kastað. Nú lét hann reisa líkneski sitt á torgunum og í höllum sínum. Hann vildi meira að segja láta það standa í kirkjunum fyrir framan altari drottins, en prestarnir sögðu: „Herra konungur! mikill ert þú að vísu, en guð er meiri. Vér þorum það ekki.“ „Gott og vel,“ sagði konungurinn, „ég skal þá líka vinna sigur á guði.“ Og í fásinnu og ofmetnaði hjarta síns lét hann smíða forkostulegt skip, sem sigla mátti á í loftinu. Það var marglitt eins og stél á páfugli og sýndust vera á því þúsund augu, en hvert auga var byssuhlaup. Konungurinn sat miðskipa og þurfti ekki annað en að þrýsta á dálitla fjöður, þá flugu út þúsund skot, og voru byssurnar hlaðnar eftir sem áður. Hríðefldir ernir, hundruðum saman, voru spenntir fyrir skipið, og flaug nú konungur og stefndi á sólina. Jörðin lá langt fyrir neðan, og var hún fyrst á að sjá með fjöllum sínum og skógum eins og plægður akur, þar sem glittir í hið græna á uppristum svarðarstrengjunum, en þar á eftir var hún líkust landsuppdrætti, og því næst hulin þoku og skýjum. Ernirnir flugu æ hærra og hærra. Þá sendi drottinn einn af sínum óteljandi englum, og lét vondi konungurinn drífa á hann þúsundir kúlna, en þær hrutu sem hagl af hinum ljómandi vængjum engilsins. Aðeins einn einasti blóðdropi lak niður úr einni af flugfjöðrum hans, og féll sá dropi niður á konungsskipið. Dropinn læsti sig brennandi inn í það, þyngdi á því eins og þúsund vættir af blýi, svo það hrapaði með flughraða ofan til jarðar. Ernirnir hríðefldu vængbrotnuðu, vindurinn hvein um höfuð konungsins, og skýin allt í kring, sem myndast höfðu af reykjarsvælunni frá brenndu borgunum, breyttust nú í ógnamyndir. Þau urðu að stórum kröbbum, sem teygðu eftir honum heljarklær sínar, eða að veltandi björgum og eldspúandi drekum. Lá konungur hálfdauður í skipinu, og loksins kom það niður í skóg nokkurn og hékk þar fast í viðargreinum. „Ég skal sigrast á guði,“ sagði hann, „ég hef svarið það, og mínum vilja skal verða framgengt.“ Síðan lét hann sjö ár samfleytt smíða skip til loftsiglinga og enga vél til spara. Hann lét hamra eldingaskeyti úr harðasta stáli, því hann ætlaði sér að sprengja festingu himinsins, og hann dró saman óvíga heri úr öllum löndum sínum, svo að þeir tóku yfir margra mílna svæði, þegar búið var að skipa þeim í fylkingu. Og nú steig allt liðið á hin listilega gerðu skip, og konungur var sjálfur á leiðinni að sínu skipi, konungsskipinu, en í sama bili sendi drottinn mýflugnahóp, aðeins lítinn mýflugnahóp, og sveimaði nú mý þetta kringum konunginn og beit hann bæði á andliti og höndum. Brá hann þá sverði sínu í bræði og hjó, en það varð vindhögg, því á mýflugurnar gat hann ekki komið höggi. Þá bauð hann að sækja dýrindis ábreiður og vefja þeim utan um sig, því þá gæti engin mýfluga komist að sér og stungið sig. Var nú svo gert sem hann sagði fyrir. En ein mýflugan settist í innhverfu innstu ábreiðunnar. Hún skreið inn í eyra konungs og beit hann þar. Hann logsveið af bitinu og eitrið læsti sig inn í heilann. Fleygði hann þá af sér ábreiðunum eins og óður maður, reif sundur klæði sín og dansaði allsnakinn frammi fyrir dátum sínum. Þeir voru menn bíræfnir og siðlausir og gerðu ekki annað en að spottast að vitlausa kónginum, sem ætlaði að fara herferð á hendur guði sjálfum, en varð óðara yfirstiginn af einni ofurlítilli mýflugu. Gæfuskórnir I. Byrjunin Það er upphaf þessa máls, að stórt kvöldsamkvæmi var í húsi nokkru í Kaupmannahöfn, það var í Austurgötu, ekki langt frá Kóngsins Nýjatorgi. Því er nú svo varið, að samkvæmi verður að halda við og við, til þess að manni verði boðið aftur. Annar helmingur samkvæmisins var þegar sestur við spilaborðin, en hinn helmingurinn var að bíða eftir, hvað næst mundi ske, því frúin hafði sagt: „Já, nú verðum við að finna upp á einhverju.“ Svo langt var nú komið og lifnað vel yfir samtalinu. Meðal annars varð til rætt um miðaldirnar. Héldu ýmsir því fram, að þær hefðu verið miklu betri en vorir tímar, og varði Knapp jústisráð þá skoðun svo ákaft, að húsfreyjan tók óðara í sama strenginn, og reyndu þau bæði að berja niður ritgerð Ørsteds í almanakinu,[*] „Um fornar og nýjar tíðir“, þar sem okkar öld er í öllu verulegu talin betri en hinar fyrri. Jústisráðið lauk því orði á, að stjórnartíð Hans Danakonungs[**] hefði verið langbesta og heillaríkasta tíðin. [* Sbr. Ný Sumargjöf 1865, bls. 68.] [** 1481-1513.] Nú er mikið um þetta rætt með og móti og varð ekkert hlé á, nema allra snöggvast, þegar kvöldblaðið kom, en í því stóð nú ekkert, sem vert væri að lesa. En bregðum oss nú á meðan fram í fremra herbergið, þar sem yfirhafnir, stafir, regnhlífar og utanhafnarskór voru á sínum stað. Þar sátu tveir kvenmenn. Var önnur ung, en hin gömul. Menn skyldu ætla, að þær hefðu komið til að fylgja einhverri heim af þeim, sem boðnar voru, gamalli fröken eða ekkjufrú, en þegar betur var að gáð, mátti fljótt sjá, að þetta voru ekki algengar vinnukonur. Hendur þeirra voru fínni, fasið og allur limaburður tígulegri en svo, og þess utan var klæðabúnaður þeirra hinn myndarlegasti að gerð og sniði. Þetta voru tvær dísir. Sú yngri var reyndar ekki Gæfan sjálf, heldur ein af þernum salkvenna hennar, og eru þær þernur til þess settar að bera um meðal manna hinar smærri gjafir Gæfunnar. Hin eldri var nauða alvarleg. Það var Sorgin. Hún rekur ætíð erindi sín sjálf, svo hágöfug sem hún er, í eigin persónu. Hún veit, að þá verða ekki á því misfellurnar. Nú sögðu þær hvor annarri, hvar þær hefðu verið þennan dag. Sú, sem send var af Gæfunni, hafði ekki aflokið nema fáeinum ómerkilegum erindum. Hún hafði bjargað nýjum hatti undan regnskúr, útvegað manni nokkrum ráðvöndum þá sæmd, að heldri stéttar ómerkingur tók undir kveðju hans og þetta nokkuð, en hitt, sem hún ætti enn eftir að gera, það væri óvenju merkilegt. „Ég get þá sagt þér það, að í dag er afmæli mitt, og í virðingarskyni við daginn var mér trúað fyrir einum utanhafnarskóm, sem ég á að færa mannkyninu. Þessum utanhafnarskóm fylgir sú náttúra, að hver, sem setur þá upp, er á augabragði kominn á þann stað eða þann tíma, þar sem hann helst kýs að vera. Sérhver ósk hans, að því er snertir stað og stund, verður uppfyllt í sama vetfangi, sem hann óskar, og verður maðurinn svo einu sinni að endingu sæll og hamingjusamur hér á jörðu.“ „Trúa máttu mér;“ sagði Sorgin, „að hann verður að marki ófarsæll og lofar þá stundina, er hann losast við skóna.“ „Ertu frá þér?“ sagði hin, „nú læt ég þá hérna við dyrnar. Einhver tekur þá í misgripum og hreppir gæfuna.“ Svona var samtal þeirra. II. Hér segir frá því, hvernig fór fyrir jústisráðinu Það var orðið æði framorðið. Knapp jústisráð, sem alveg hafði sökkt huganum niður í aldarháttinn á stjórnardögum Hans konungs, vildi nú fara að komast heim, og æxlaðist þá svo til, að hann í staðinn fyrir sína utanhafnarskó setti upp gæfuskóna og gekk svo út á Austurgötu. En fyrir töframátt gæfuskónna var hann þegar horfinn aftur í tíma Hans konungs og steig hann því beint út í forarvilpu á götunni, því í þá daga var ekki enn farið að steinleggja götur. „Tarna er ljóta ólukkans forarsvaðið!“ sagði jústisráðið, „gangstéttin er alveg horfin og slökkt á öllum ljóskerunum.“ Tunglið var ekki enn komið nógu hátt á loft og í tilbót var þykkviðri, svo að allt var koldimmt. Á næsta götu-* horni hékk samt eitt ljósker fyrir framan Maríumynd eina, en birtan, sem af því stóð, var sama sem engin, og tók hann ekki eftir því, fyrri en hann stóð undir því, og rak þá augun í máluðu myndina af móðurinni með barnið. „Hér er víst listgripasafn,“ hugsaði hann með sér, „þeir hafa gleymt að taka niður nafnbríkina.“ Tveir menn gengu fram hjá í þeirrar aldar búningi. „Hvernig líta þeir út, þeir arna? Þeir voru víst að koma heim af grímudansleik.“ Allt í einu heyrðist trumbusláttur og pípnablástur og það birti af logandi blysum. Jústisráðið nam staðar og sá þá undarlega mannaferð. Fremst gengu trumbarar, og fór þeim trumbuslátturinn dável úr hendi. Næstir þeim fóru varðliðsmenn með boga og handbyssur. Höfuðpaurinn í förinni var andlegrar stéttar maður. Spurði jústisráðið forviða, hverju þetta sætti og hver þessi maður væri. „Það er Sjálands biskup,“ var honum svarað. „Hvað er þetta?“ sagði jústisráðið andvarpandi og hristi höfuðið, „hvernig er nú biskupinum vikið?“ Þetta gat þó með engu móti verið biskupinn. Hugsandi út af þessu gekk jústisráðið eftir endilangri Austurgötu og yfir Hábrúartorg og leit hvorki til hægri né vinstri. Hann gat hvergi fundið brúna yfir á Hallartorgið: hann grillti í vatnsbakka og rakst þar loksins á tvo karla, sem lágu þar við með bát sinn. „Vill herrann láta ferja sig yfir á Hólminn?“ „Yfir á Hólminn?“ segir jústisráðið, sem auðvitað hafði ekki hugmynd um, á hvaða aldarskeiði hann var staddur, „ég vil komast út á Kristjánshöfn í Litlu Torggötu.“ Körlunum varð heldur starsýnt á hann. „Segið þið mér bara, hvar brúin er,“ mælti hann. „Það er bölvuð skömm að því, að hér skuli ekki vera kveikt á neinum ljóskerum, og svo er hér þvílík ófærð, að það er eins og maður sé að ösla í forarflóa.“ Því lengur sem hann talaði við ferjukarlana, því minna botnuðu þeir í því, sem hann sagði. „Ég skil ekkert í ykkar Borgundarhólmsku,“ sagði hann loksins reiður og sneri við þeim bakinu. Brúna gat hann ekki fundið og ekki var heldur neitt handrið. „Það er stórhneyksli, hvernig allt er hér umhorfs,“ sagði hann. Aldrei hafði honum þótt öld sín vera jafnherfileg og nú. „Ég held ég verði að fá mér leigukerru,“ hugsaði hann með sér, en hvar voru leigukerrurnar? Þær sáust hvergi. „Það verður ekki annað fyrir en að ég fari aftur til Kóngsins Nýjatorgs. Þar munu vera vagnar til taks, annars kemst ég víst aldrei út á Kristjánshöfn.“ Nú arkar hann á leið til Austurgötu og sem hann er nærri kominn hana á enda, þá gægist tunglið fram. „Guð almáttugur!“ sagði hann, „hvaða reisipallur er nú að tarna, sem þeir hafa sett upp hérna?“ Hann sá sem sé Austurport, en það var á þeim tímum beint fyrir enda Austurgötu. Loksins kom hann að garðshliði einu, fór inn um það og var þá kominn á svæðið, þar sem nú er Nýjatorg. Það var þá ekki annað en stór engiteigur með kjarrrunnum á stangli, en þvers yfir engið gekk breið renna eða síki. Á bakkanum hinum megin stóðu lélegir timburskálar, þar sem hollenskir skiparar héldu til, og dró staður þessi nafn af því og var nefndur Hollands-ás. „Annað hvort eru þetta hillingar í augunum á mér, eða ég er fullur,“ sagði jústisráðið í eymdarlegum róm. „Hvað er þetta? Hvað er þetta?“ Hann var nú sannfærður um það með sjálfum sér, að hann væri sjúkur, og sneri því við, og er hann kom aftur inn í götuna og hugði betur að húsunum, sá hann, að þau voru byggð með bindingi flest öll og mörg þeirra þökt hálmi. „Nei, ég er hreint ekki vel frískur,“ sagði hann, „og drakk ég þó ekki nema eitt glas af púnsi, en ég þoli það ekki. Það var líka hringlandi vitlaust að setja í okkur púns og heitan lax. Það skal ég svei mér muna að segja agents-frúnni. Ætti ég nú að fara þangað aftur og láta þau vita, hvernig mér líður? Æ, nei, það er svo neyðarlegt, enda ekki víst að þau séu á fótum ennþá.“ Hann leitaði að húsinu, en það var hvergi að finna. „Skelfing er að vita til þess. Ég þekki ekki Austurgötu aftur. Hér er ekki nokkur sölubúð! ekkert að sjá, nema afgömul húshróf, eins og ég væri í Hróaskeldu eða Hringstöðum. Æ, ég er sjúkur! – Það tjáir annars ekki að vera með neina feilni. En hvar í þremlinum er húsið agentsins? Það er ekki lengur sama hús og það var, en inni í því eru þó víst einhverjir enn á fótum, – æ, en veikur er ég áreiðanlega.“ Nú rakst hann á hálfopnar dyr og skein birtan að innan út um gáttina. Það var einn af veitingastöðum þeirra tíma, eins konar ölhús. Stofan var áþekkust drykkjukrám, eins og þær gerast á Holtsetalandi. Var þar fyrir ýmislegt gott fólk, skiparar, Kaupmannahafnarborgarar og einn eða tveir menn lærðir, og voru þeir svo djúpt sokknir niður í samtal yfir ölkrúsum sínum, að þeir gáfu lítinn gaum að honum, sem inn kom. „Ég bið forláts,“ sagði jústisráðið við veitingakonuna, „mér er hálfillt. Vilduð þér ekki svo vel gera, að útvega mér leigukerru, svo ég geti komist út á Kristjánshöfn?“ Konan virti hann fyrir sér og hristi höfuðið. Síðan ávarpaði hún hann á þýsku. Jústisráðið skildi það svo, sem hún kynni ekki dönsku, og bar því fram bæn sína á þýsku. Bæði þetta og svo líka búningurinn styrkti konuna í þeirri trú, að hann væri útlendingur. Hitt skildist henni fljótt, að honum mundi vera illt, og rétti honum því könnu með vatni, sem reyndar var dálítið sjóbragð að. Það hafði verið sótt í brunninn þar fyrir utan húsið. Jústisráðið grúfði höfuðið í hendur sínar, dæsti þungan og var hugsandi út af kynjum þeim, er í kringum hann voru. „Eruð þér þarna með „Daginn“[*] í kvöld?“ mælti hann, til þess að segja eitthvað, því hann sá, að konan var að vasast með stórt blað. [* Kaupmannahafnardagblað (kvöldblað).] Hún skildi ekki, hvað hann átti við, en rétti honum samt blaðið. Það var tréskurðarmynd af loftsýn einni, er sést hafði suður í Köln. „Það er ævagamalt,“ sagði jústisráðið og lifnaði allur við, er hann rakst á þvílíkan forngrip. „Hvar hafið þér getað náð í þetta afar fágæta blað? Það er einkar fróðlegt, þó reyndar sé það eintóm hégilja. Menn gera sér þannig grein fyrir þess konar loftsýnum, að það hafi verið norðurljós, sem menn sáu. Það myndast að öllum líkindum af rafmagni.“ Þeir, sem næst sátu og heyrðu til hans, horfðu á hann með undrun, og einn þeirra stóð upp, tók ofan með lotningu og sagði með mesta alvörusvip: „Þér eruð víst mjög vel lærður maður, Monsjör!“ „O, ekki er ég nú það,“ ansaði jústisráðið, „en lagt get ég orð með um sitt hvað, sem ber á góma, eins og vel sómir, að maður geti.“ „Modestia[*] er fögur dyggð,“ sagði maðurinn, „en það verð ég að segja til skýringar yðar, að mihi secus videtur,[**] en hvað sem um það er, skal ég að sinni fúslega „suspendéra“[***] mitt judicium.[****] [* Yfirlætisleysi.] [** Mér líst á annan veg.] [*** Skjóta á frest, láta liggja milli hluta.] [**** Skoðun, meining.] „Með leyfi að spyrja, hver er sá, sem mér veitist sú ánægja að tala við?“ „Ég er Baccalaureus[*****] í kristnum fræðum,“ svaraði maðurinn. Þetta svar fullnægði jústisráðinu, því titill mannsins samsvaraði búningnum. „Þetta er eflaust,“ hugsaði hann með sér, „einhver gamall þorpskólakennari, dálítið hjákátlegur, eins og maður hittir þá stundum á Jótlandi.“ [***** Meistari.] „Hér er nú eiginlega ekki locus docendi,“[*] tók maðurinn til orða, „en samt sem áður bið ég yður sýna lítillæti og tala. Þér eruð víst mikið lesinn í fornum ritum?“ [* Staður til að kenna, fræða.] „Ó, já, nokkuð svo,“ svaraði jústisráðið, „ég les jafnaðarlega í gömlum, gagnlegum bókum, en mér geðjast líka dável að hinum nýrri, að undanskildum „Hversdags sögunum“;[**] við höfum meira en nóg í virkilega lífinu.“ [** Alkunnar og afhaldnar danskar skáldsögur eftir frú Gyllembourg, er sonur hennar, skáldið Johann Ludvig Heiberg gaf út.] „Hversdagssögur?“ sagði Baccalaureus. „Já, ég á við þessar nýju skáldsögur, sem maður hefur núna milli handa.“ „O,“ sagði maðurinn og brosti við, „þær eru þó af mikilli snilli samdar og þær eru lesnar við hirðina. Konungurinn hefur einkum miklar mætur á sögunni af herra Ívent og herra Gaudían. Sú sögubók er um Artus konung og kappa hans við kringlótta borðið, og hefur konungur haft um það spaugsyrði við hirðgæðinga sína.“[***] [*** Holberg getur þess í Danmerkursögu sinni, að eitt sinn, er Hans konungur hafði verið að lesa í sögunni af Artus konungi, hafi hann sagt í gamni við Ottó Rúð, vildarmann sinn: „Herra Ívent og herra Gaudian, sem skýrt er frá í þessari bók, hafa verið merkisriddarar. Slíka riddara hittir maður ekki nú á dögum.“ Þá mælti Ottó Rúð: „Væru margir konungar slíkir sem Artus konungur, þá mundu líka vera margir riddarar slíkir sem herra Ívent og herra Gaudían.“] „Já, þá bók hef ég ekki lesið enn,“ sagði jústisráðið, „það er væntanlega spánný bók, sem út er komin að tilhlutun Heibergs.“ „Nei,“ svaraði maðurinn, „ekki er það Heiberg, sem haft hefur veg og vanda af útkomu hennar, heldur Gottfred af Ghemen.“ „Svo hann er þá höfundur bókarinnar. Gamalt er nafnið, hann er fyrsti prentarinn, sem verið hefur í Danmörku.“ „Já, hann er okkar fyrsti prentari,“ sagði maðurinn. Svona fór nú samtalið allvel. Einn af þessum góðu borgurum, sem við voru, fór að tala um drepsóttina miklu og átti við þá, sem geisaði 1494, en jústisráðið hélt það væri kólera, og gekk þeim sæmilega vel að tala um það. Það lá svo nærri að minnast á víkinga-ófriðinn 1490, að hann hlaut að bera í tal. Kváðu þeir enska víkinga hafa tekið skipin í höfninni, og jústisráðið, sem hafði þaulkynnt sér viðburðina 1801, gat prýðilega tekið í strenginn með þeim að úthúða Englendingum. Hitt viðtalið fór ekki nærri eins vel. Alltaf öðru hverju sló eitthvað út í fyrir þeim og brá þá til ankannalegs orðalags. Baccalaureus var helst of fáfróður, og það sem jústisráðið sagði, þó ekki væri nema svona um daginn og veginn, þótti hinum alltof háfleygt. Þeir horfðu hvor á annan, og þegar í harðbakka sló, talaði Baccalaureus latínu, því þá hélt hann, að hann skildist betur, en það dugði samt ekki til. „Hvað gengur að yður?“ sagði veitingakonan og þreif í ermi jústisráðsins. Rankaði hann þá við sér, því meðan á samtalinu stóð, hafði hann steingleymt öllu, sem á undan var farið. „Drottinn minn! hvar er ég?“ sagði hann og bráðsundlaði, þegar hann hugsaði út í það. „‚Klaret' skulum við drekka, mjöð og Brimabjór,” kallaði einn af gestunum, „og þér skuluð drekka með okkur.“ Þá komu inn tvær drósir, og var önnur þeirra með tvílita húfu á höfði. Þær helltu á og hneigðu sig. Jústisráðinu rann kalt vatn milli skinns og hörunds. „Hvað er þetta? Hvað er þetta?“ sagði hann, en honum var nauðugur einn kostur að drekka með þeim. Tóku þeir allóþyrmilega á veslings manninum, sem var utan við sig af örvæntingu, og er einn þeirra sagði, að hann væri ölvaður, þá efaði hann síst, að svo væri, og beiddi þá fyrir hvern mun að útvega sér leigukerru. En þá héldu þeir, að hann mælti á rússnesku. Aldrei áður hafði hann lent í jafn óvönduðum og ruddalegum félagsskap. „Menn skyldu ætla, að landið væri horfið aftur til heiðni,“ hugsaði hann með sjálfum sér. „Þetta er sú skelfilegasta stund, sem ég hef lifað á ævi minni,“ en í sama bili datt honum ráð í hug, og það var að beygja sig niður undir borðið, skríða út að dyrunum og reyna svo að komast út. Það gerði hann, en þegar hann var við þröskuldinn, þá sáu hinir, hvað hann ætlaði sér, og þrifu í fætur honum, en þá smokkuðust af honum utanhafnarskórnir til allrar hamingju, og var þá öllum töfrunum lokið. Nú sér jústisráðið skærtlogandi ljósker fyrir framan sig og bak við ljóskerið stórt hús. Hann kannaðist bæði við það og næstu húsin og sá, að þetta var Austurgata, eins og við allir þekkjum hana. Hann lá á götunni með fæturna inn að porti einu, og rétt andspænis húkti næturvörðurinn sofandi. „Guð minn góður,“ sagði hann, „hef ég þá legið hér á götunni og allt þetta borið fyrir mig í draumi? Já, þetta er Austurgata með blessaða birtuna og fjölbreytnina. Ákaflega hefur hún svifið á mig þessi púnskolla, fyrr má nú vera.“ Svo sem tveim mínútum síðar var hann sestur upp í leigukerru og ók út á Kristjánshöfn. Hann hugsaði um þá neyð og angist, sem nú var afstaðin, og lofaði af hjarta öld vora með hennar sæla veruleika. Sá veruleiki fannst honum þó, þrátt fyrir alla annmarkana, stórum betri en hinn, sem hann fyrir skemmstu hafði reynt og prófað, og var það skynsamlega hugsað af jústisráðinu. III. Ævintýri næturvarðarins „Þarna liggja þá utanhafnarskór,“ segir næturvörðurinn. „Hann á þá víst, lautinantinn, sem býr þarna efra. Þeir liggja rétt við portið.“ Næturvörðurinn var ráðvandur og mundi því hafa verið næst skapi að hringja að dyrum, því ljós var enn hjá lautinantinum, en hann vildi ekki vekja hitt fólkið í húsinu og þess vegna sleppti hann því. „Svona skór eru víst hlýir að hafa á fótum,“ sagði hann; „mjúkt er í þeim leðrið.“ Hann var óðara búinn að setja þá upp. „Undarlega er því hagað í þessum heimi. Nú gæti hann verið háttaður niður í gott rúm, en það er nú rétt svo sem! Þarna er hann að spígspora um gólfið aftur og fram. Hann á hvorki konu né börn. Á hverju kvöldi er hann í boði; ég vildi óska, að ég væri orðinn að honum, þá væri ég sæll maður.“ Í því hann sagði fram ósk sína, varð hún að áhrínsorði fyrir töframátt utanhafnarskónna. Næturvörðurinn breyttist í lautinantinn bæði að ytra hætti og innri veru. Þarna stóð hann uppi í herberginu og hélt á dálitlu rósrauðu pappírsblaði, með árituðu kvæði. Lautinantinn hafði ort það sjálfur, því hver er það, sem ekki einhvern tíma á ævinni hefur átt sér skáldlega stund, og setji maður hugsunina á pappírinn, þá er hún orðin að kvæði. blaðinu stóð þetta skrifað: „Ó, væri' eg ríkur,“ oft þess óska' eg réð, Vart álnarlangur sveinn með bernsku geð, Ó, væri' eg það, þá yrði' eg „offiséri“ og uppdubbaður mér á hæli sneri; Sú tíðin kom, að eg varð offiséri, – Þó lifði' eg snauður, lítt sá gæða vottinn, Mér líkn bjó Drottinn. Eitt kvöld í æsku sat mér smámey hjá, Hún sjö var ára og blítt mig kyssti þá. Af sögum átti' eg auð og ævintýrum, En ekki hót af gulli og málmi dýrum. Hin litla sinnti ei utan ævintýrum. En snauðum var mér ástar auður sprottinn, Það einn veit Drottinn. Ó, væri' eg ríkur, ósk sú dvínar ei. Það unga barnið nú er vaxin mey, Og hún er gædd með andans auð og mildi, – Ef ævintýri hjarta míns hún skildi, Þá hugsast gæti', að mér hún sýndi mildi, – En snauður, hljóður hryggðar ber ég vottinn, Svo helst vill Drottinn. Ef frið og ró ég hefði' í hyggju-stað, Ég harma mína' ei skráði á þetta blað. Þú kærust mey! sem kætti' eg fyrr með sögum, Les kvæðisblaðið mitt frá æskudögum, Og settu það í röð með raunasögum. Ég bý við fátækt, braut er þyrnum sprottin, Þig blessi Drottinn! Já, þess konar vísur yrkir maður, þegar maður er ástfanginn, en hygginn maður lætur ekki prenta þær. Lautinant, ást og féskortur, það er þríhyrningur, eða sem eins vel mætti segja: það er helmingurinn af hinum sundurbrotna teningi lukkunnar. Það fann lautinantinn líka fullgjörla og grúfði því höfuðið upp við gluggasprotann og stundi þungan. „Fátæki næturvörðurinn úti á götunni er miklu farsælli en ég. Hann veit ekki, hve sárt er að þreyja það, sem ég fer á mis við. Hann á heimili, konu og börn, sem gráta með honum í sorginni og gleðjast með honum í gleðinni. Ó, sælli væri ég en ég er, ef ég væri orðinn að honum, því hann er miklu lánsamari en ég.“ Í sama vetfangi var næturvörðurinn aftur orðinn að næturverði, því það var fyrir kraft töfraskónna, sem hann hafði breyst í lautinantinn, en, svo sem fyrr er getið, var hann miklu síður ánægður í þeim ham og vildi eftir allt saman helst vera það, sem hann í raun réttri var. Næturvörðurinn var þá aftur næturvörður. „Tarna var ljóti draumurinn,“ sagði hann, „en skringilegur var hann. Ég þóttist vera lautinant þarna efra, en það var síður en svo, að það væri ánægjulegt. Ég saknaði konunnar og barnanna, sem ætla að kæfa mig í kossagangi.“ Nú sat hann aftur og dró ýsur. Draumurinn gat ekki almennilega liðið úr huga hans. Hann var ennþá með utanhafnarskóna á fótunum. Stjarna hrapaði á himninum. „Þarna fór þessi,“ sagði hann, „nóg er samt eftir. Mér mundi annars þykja gaman, ef ég gæti virt þessi kríli dálítið betur fyrir mér, einkum tunglið, því það þarf þó ekki að gloprast milli handanna á manni. Þegar við deyjum, sagði stúdentinn, sem konan mín þvær af nærfötin, þá fljúgum við frá einni stjörnu til annarrar. Það er auðvitað skreytni, en gæti samt verið nógu skemmtilegt. Ég vildi ég gæti hoppað þangað upp sem allra snöggvast, þá mætti kroppurinn gjarnan verða eftir hér á tröppunum.“ Það er sumt, sem maður verður að vera sérlega varkár með að láta sér um munn fara, en ennþá varkárari verður maður að vera, þegar maður hefur gæfuskóna á fótum sér. Heyrið nú og takið eftir, hvernig fór fyrir næturverðinum. Að því er snertir okkur mennina, þá þekkjum við nálega allir flýtinn, þegar farið er með eimknúnum farartækjum. Við höfum reynt það annaðhvort á járnbrautum eða skipum, sem fara yfir sjóinn. En sá flughraði er eins og lullgangur letimagans eða skrið snigilsins í samanburði við hraða ljóssins. Það flýgur nítján-milljón-sinnum fljótara en besti veðhlaupahestur, en samt er rafmagnið ennþá fljótara. Dauðinn er rafmagnshögg, sem við fáum í hjartað, og sálin flýgur á rafmagnsvængjum, þegar hún er orðin laus. Sólarljósið er átta mínútur og nokkrar sekúndur að fara vegalengd, sem svarar rúmum níutíu og tveim milljónum mílna, en með hraðpósti rafmagnsins þarf sálin ennþá færri mínútur til slíkrar flugfarar. Fyrir hana er bilið milli hnattanna ekki stærra en bilið er í sömu borginni á milli vor og húsa vina vorra, enda þó skammt sé á milli. En þetta rafmagnshögg dregur að öðru leyti þann dilk á eftir sér, að við missum af notkun líkamans hér á jörðu, nema ef svo skyldi vera, að við hefðum gæfuskóna á fótunum, eins og næturvörðurinn hafði að þessu sinni. Næturvörðurinn var ekki nema fáeinar sekúndur að komast þessar tvö hundruð og fjörutíu þúsundir mílna upp í tunglið. Það er, svo sem kunnugt mun vera, gert af miklu léttara efni en jörð vor, og er, að heita má, mjúkt sem nýfallinn snjór. Hann var staddur í einu af hinum stóru hringfjöllum, sem oss eru kunnug af hinu stóra tunglkorti dr. Mädlers. Að innanverðu gekk hringfjallið snarbratt niður í gíg, hálfa mílu vegar. Þar niðri lá borg, og var hún til að sjá eins og eggjakaka í vatnsglasi, svo mjúkt var efnið, og voru af því gerðir hjálmþaktir turnar og seglmyndaðar loftsvalir. Var það allt gagnsætt og svipaði til og frá í tæru loftinu, en jörð vor sveimaði þar uppi yfir eins og heljarmikil eldrauð kúla. Hann sá þar fjöldamargar verur, og voru þær víst allar það, sem vér köllum manneskjur, en þó allt öðruvísi í hátt en vér. Þær höfðu líka tungumál fyrir sig, en enginn getur ætlast til, að sál næturvarðarins skildi það. Hún skildi það nú samt engu að síður. Sál næturvarðarins skildi mjög vel mál tunglbúanna. Þeir áttu orðastað um jörð vora, og drógu þeir í efa, að hún gæti verið byggð, kváðu þeir loftið þar vera þykkara en svo, að nokkur skyni gædd tunglskepna gæti haldist þar við. Þeir héldu því fram, að tunglið eitt gæti verið hæfur bústaður fyrir lifandi verur. Tunglið væri hinn eiginlegi heimshnöttur, þar sem hið gamla hnattfólk ætti heima. En látum oss nú hverfa ofan í Austurgötu aftur og forvitnast um, hvernig líkama næturvarðarins líður. Hann sat líflaus á tröppunni, gaddastafurinn var dottinn úr hendi hans og augun störðu upp í tunglið eftir sálinni, sem var á sveimi þar efra. „Hvað er framorðið, næturvörður?“ sagði einhver, sem fram hjá gekk. En þegar nú ekki var þesslegt, að næturvörðurinn svaraði, þá gaf maðurinn honum selbita á nefið, og þurfti ekki meira. Líkaminn missti jafnvægið og lá þarna endilangur. Maðurinn var örendur. Hinn, sem selbitann gaf, varð dauðhræddur. Næturvörðurinn var dauður og ekkert lífsmark með honum. Það var sagt til um það og um það talað, og með morgninum var farið með líkið út á spítala. Nú hefði það getað orðið fremur skopleg rekistefna fyrir sálina, ef hún hefði komið aftur, og að öllum líkindum leitað að líkamanum í Austurgötu, en ekki fundið hann. Hefði hún þá sennilega þotið fyrst upp í lögreglustofuna og því næst í skrifstofu auglýsingablaðsins til þess að láta lýsa eftir honum meðal týndra eða horfinna muna, og að lokum farið út á spítalann. En við getum huggað okkur við það, að þá er sálin ráðsnjöllust, er hún spilar upp á eigin spýtur. Það er líkaminn, sem gerir hana heimska. Það var nú, eins og fyrr er getið, farið með líkama næturvarðarins á spítalann, og var hann látinn inn í hreinsunarstofuna. Þar varð mönnum auðvitað fyrst fyrir að taka af honum utanhafnarskóna, og þá hlaut sálin að koma aftur. Hún tók óðara strikið beina leið til líkamans, og á sama augabragði færðist aftur líf í manninn. Hann sagði, að þetta væri sú skelfilegasta nótt, sem hann hefði lifað, og þó sér væri boðin heil spesía, þá vildi hann ekki hafa slíkar ógnir í annað sinn, en nú væri það, sem betur færi, afstaðið. Sama dag var hann aftur útskrifaður af spítalanum. En utanhafnarskórnir urðu þar eftir. IV. Eitt höfuðatriði. Mjög svo óvenjulegt ferðalag Hver Kaupmannahafnarbúi veit, hvernig hagar til, þar sem gengið er inn í Friðriks-spítala, en með því að líklegt er, að sumir, sem ekki eru Kaupmannahafnarbúar, lesi sögu þessa, þá verðum vér að lýsa því í fáum orðum. Milli spítalans og götunnar eru æðiháar járngrindur með digrum járnstöngum og er svo mikið bil á milli stanganna, að orð leikur á, að einkar grannir kandídatar hafi getað troðið sér þar út um til að heimsækja kunningjana í borginni. Sá partur líkamans, sem erfiðast veitti að koma út um grindurnar, var höfuðið, svo að þeir urðu best farnir, sem höfuðminnstir voru. Þessi inngangur nægir. Einn af hinum ungu kandídötum í læknisfræði, sem var æði höfuðstór, átti að gegna varðþjónustu þetta kvöld. Það var hellirigning. En þó þetta tvennt stæði í vegi, þá vildi hann samt fyrir hvern mun komast út, þó ekki væri meira en fjórðung stundar. Honum fannst óþarfi að láta dyravörðinn vita um það, úr því að kostur væri að smjúga út um járngrindurnar. Þarna lágu utanhafnarskórnir, sem næturvörðurinn hafði gleymt, og kom honum síst til hugar, að það væru gæfuskór, en honum sýndist, að þeir gætu komið í góðar þarfir í svona veðri, og því, setti hann þá upp. Var nú um að gera að geta troðið sér út um grindurnar. En það hafði hann aldrei reynt áður. Þarna stóð hann nú. „Guð gæfi að ég kæmi út höfðinu,“ sagði hann, og óðara smaug það leikandi, þó stórt væri, út á milli grindanna. Gæfuskórnir sáu um það. En nú átti búkurinn að komast út með, en þá stóð hann þarna og komst hvergi. „Æ, hver skrambinn!“ sagði hann, „ég er of digur. Ég hélt það mundi ganga verst með höfuðið. Ég kemst ekki í gegnum.” Nú ætlaði hann að kippa aftur höfðinu, en það tókst ekki. Hann gat hreyft hálsinn, en það var líka allt og sumt. Fyrst varð honum það, að hann reiddist, en næst var það, að honum féllst alveg hugur. Gæfuskórnir höfðu komið honum í hræðilegan bobba, og til allrar óhamingju hugkvæmdist honum ekki að óska sér lausum. Hann braust um og komst ekki úr sporunum. Regnið helltist niður úr loftinu og engin hræða sást á götunni. Hann gat ekki náð til að hringja portbjöllunni. Hvernig átti hann að losna? Hann sá í hendi sér, að hér mundi hann verða að standa til morguns. Þá mundi verða að senda eftir smið til að sverfa í sundur járnstengurnar, en það tæki tíma. Allir drengirnir í skólanum andspænis mundu þjóta upp til handa og fóta og múgur og margmenni flykkjast að úr Nýbúðum til að horfa á hann, þar sem hann stæði í gapastokknum, og mundi verða gríðar mikill aðsúgur. „Ú! blóðið stígur mér til höfuðsins, svo ég hlýt að verða vitlaus. Ó, að ég væri aftur orðinn laus, þá vona ég, það liði frá.“ Þetta hefði hann átt að segja dálítið fyrr, en varla voru orðin töluð fyrr en höfuðið losnaði, og rauk hann þá inn aftur, ringlaður og ærður af ofboðshræðslu þeirri, sem gæfuskórnir höfðu bakað honum. En ekki skulum við ætla, að allt hafi verið þar með búið. Vont var þetta, en verra kom á eftir. Nóttin leið og næsti dagur, en ekki var sent eftir utanhafnarskónum. Um kvöldið átti að leika í minni-háttar leikhúsi nokkru. Húsið var troðfullt, og á meðal áhorfendanna var læknirinn ungi frá spítalanum, og var svo að sjá, sem hann væri búinn að gleyma næturævintýri sínu. Hann hafði á fótum utanhafnarskóna, því þeir höfðu ekki verið sóttir, og kom sér einmitt vel fyrir hann að nota þá nú, því blautt var á götunum. Í leikhúsinu var lesið upp nýtt kvæði. Það hét: „Gleraugun hennar móðursystur minnar.“ Það voru skrítin gleraugu, því þeim fylgdi sú náttúra, að ef maður setti þau upp og sat frammi fyrir miklum mannsöfnuði, þá voru manneskjurnar ásýndum eins og málspil og mátti sjá af þeim um allt, sem verða mundi á næsta ári. Þetta hugsaði hann mikið um og mundi hann gjarnan hafa viljað eignast slík gleraugu. Væru þau réttilega notuð, gæti maður ef til vill horft beint inn í hjörtu manna, og það var, að því er honum þótti, fróðlegra heldur en að sjá, hvað gerast mundi á næsta ári. Það fengi maður að vita, hvort sem væri, en hitt ekki. „Ég hugsa mér nú alla röðina fremst á bekknum, menn og konur. – Gæti maður horft beint inn í hjörtu þeirra, þá hlyti þar að verða op. Það yrði eins og nokkurs konar varningsbúð. Og það veit hamingjan, að þá skyldu augu mín fara í búðir. Hjá kvensunni þarna mundi ég hitta fyrir stóra búð með tískuvarningi. Hjá hinni þarna væri búðin tóm. Veitti samt ekki af að ræsta hana innan. En svo mundu líka vera þarfavörubúðir. O, jæja!“ sagði hann mæðilega, „ég þekki eina. Í henni er allt þarft, en það er komin í hana búðarsveinn, og hann er eini óþarfinn, sem í búðinni er. Úr einni búð eða annarri kynni að verða kallað: „Viljið þér ekki gera svo vel að koma inn fyrir?“ Já, ég vildi ég gæti skroppið inn fyrir og runnið gegnum hjörtun eins og ofurlítil og lagleg hugrenning.“ Gæfuskórnir voru ekki seinir að gegna markorðinu. Ungi maðurinn herptist allur saman, og nú hófst óvenjulegt ferðalag í gegnum hjörtu áhorfendanna, er sátu í fremstu röð. Fyrsta hjartað, sem hann átti leið í gegnum, var kvenhjarta. Hann hélt nú þegar, að hann væri kominn á lækningastofuna, og væri staddur í því herberginu, þar sem gipseftirsteypur af skakkvöxnum mannslimum hanga á veggnum. En sá var munurinn, að á stofnuninni eru þær gerðar, þegar sjúklingurinn kemur inn, en hérna í hjartanu voru þær gerðar og geymdar, eftir að hinar góðu manneskjur voru farnar út. Það voru eftirsteypur af vinkonum, lýtum þeirra og brestum á sál og líkama, sem hér voru geymdar. Brátt var hann kominn í annað kvenhjarta, og þótti honum, sem þar væri hann staddur í stórri, heilagri kirkju. Dúfa sakleysisins flögraði yfir háaltarinu. Feginn mundi hann hafa fleygt sér á kné, en hann varð að halda áfram og yfir í næsta hjarta. Hann heyrði samt ennþá orgelhljómana, og þótti honum sem hann væri orðinn nýr og betri maður og ekki þess óverður að koma í næsta helgidóminn, en sá helgidómur var þakherbergi nokkurt, sem var vistarvera sjúkrar móður. Það var fátæklegt, en inn um opinn gluggann streymdu ylgeislar guðs sólar. Yndisfagrar rósir kinkuðu til móðurinnar frá litlum trékassa á þakinu, og tveir himinbláir fuglar kváðu um barnslega gleði, en móðirin sjúka árnaði dóttur sinni blessunar af hæðum. Nú skreið hann á fjórum fótum gegnum slátrarabúð, sem var eins full og í hana gat komist. Það var ket, eintómt ket, sem þar varð fyrir honum. Það var hjartað auðmanni nokkrum vel metnum. Jafnharðan var hann kominn í hjarta konu hans. Það var gamalt og hrörlegt dúfnahús. Andlitsmynd mannsins var höfð fyrir vindhana, og var hann festur við dyrnar, svo að þær opnuðust og lokuðust allt eftir því, sem maðurinn snerist. Því næst kom hann í spegla-herbergi, líkt því, sem er í Rósenborgarhöll, en speglarnir létu allt sýnast svo ótrúlega miklu stærra en það var í raun og veru. Á miðju gólfinu sat hið ómerkilega ég persónunnar, eins og Dalai-Lama, og var undrun slegið yfir því að horfa á sinn eigin mikilleika. Því næst fannst honum hann vera kominn í þröngt nálahús fullt af oddmjóum nálum. „Það er víst hjartað í gamalli, ógiftri jómfrú,“ hefur hann mátt hugsa, en það var ekki svo, það var hjarta í ungum hermanni, sem sæmdur var mörgum heiðursmerkjum, enda var um hann sagt, að hann væri maður „með anda og hjarta.“ Veslings læknisfræðikandídatinn var alveg ærður, þegar hann kom úr seinasta hjartanu í röðinni. Hann gat ekki komið réttri skipan á hugsanir sínar. Hann hélt, að of sterkt ímyndunarafl hefði hlaupið með sig í gönur. „Herra trúr,“ sagði hann andvarpandi, „það er víst í mér eitthvert geðveikis-upplag. Ég held ég sé að verða vitlaus. Það er líka ódæma hiti hérna inni. Blóðið stígur mér til höfuðsins.“ Og nú rankaði hann við ósköpunum, sem höfðu komið fyrir hann kvöldið áður, þegar hann varð fastur með höfuðið milli járnstanganna. „Þar hef ég víst fengið það. Það verður að takast í tíma. Rússneskt gufubað gæti víst verið gott við því. Ég vildi ég lægi þar strax núna á efstu hillunni!“ Og í sömu andránni lá hann á efstu hillu í gufubaðinu, – en hann lá þar í öllum fötunum, með stígvél og utanhafnarskó. Heitir vatnsdroparnir láku niður úr loftinu í andlit honum. „Hú!“ sagði hann æpandi og æddi ofan til að fá sér steypubað. Baðþjónninn æpti líka upp yfir sig, þegar hann sá manninn þar inni alklæddan. En ungi maðurinn hafði samt svo mikið ráð og rænu, að hann hvíslaði að honum: „Það er veðmál,“ en það varð honum þó fyrst fyrir, þegar hann var kominn í herbergi sitt, að hann fékk sér stóran spanskfluguplástur við hnakkann og annan við endilangt bakið, til að draga út vitleysuna. Morguninn eftir var hann allur blóðrisa á bakinu. Það var allt og sumt, sem hann hafði grætt á gæfuskónum. V. Skrifari skiptir hömum Nú er þar til að taka, sem frá var horfið, að næturvörðurinn mundi vel eftir utanhafnarskónum, sem hann hafði fundið og farið með út í spítalann. Hann sótti þá, en með því að hvorki lautinantinn né nokkur maður annar í götunni vildi við þá kannast, voru þeir fengnir lögreglunni og afhentir í skrifstofu hennar. „Þeir eru alveg eins og utanhafnarskórnir mínir,“ sagði einn af skrifurunum, um leið og hann skoðaði óskilaskóna og setti þá hjá sínum. „Það er jafnvel skóaraaugum ofvaxið að greina þá í sundur.“ „Hérna, skrifari góður!“ sagði þjónn, sem kom inn með einhver skjöl og fékk honum. Skrifarinn sneri sér við og talaði við manninn, en þegar það var búið og hann virti fyrir sér skóna, var honum ómögulegt að átta sig á því, hvort það voru skórnir til hægri handar eða skórnir til vinstri handar, sem hann átti. „Það hljóta að vera þeir skórnir, sem votir eru,“ hugsaði hann með sér, en í því skjátlaðist honum, því það voru einmitt gæfuskórnir, – en hvers vegna skyldi annars ekki lögreglunni geta skjátlast eins og öðrum? Hann setti þá upp, stakk nokkru af skjölum í vasa sinn, en sum tók hann undir höndina. Hann átti að lesa þau yfir heima hjá sér og afskrifa þau. En núna hittist svo á, að þetta var á sunnudegi árdegis og veður gott. Hann hugði því, að hann mundi hafa gott af göngutúr út á Friðriksberg, og sneri svo á leið þangað. Það var ekki unnt að hugsa sér meiri stillingar- og iðjumann en þetta ungmenni. Unnum vér honum því hjartanlega þessa litla göngutúrs, því heldur sem honum hlaut að verða mjög gott af honum ofan á alla kyrrsetuna. Gekk hann nú fyrst í stað alveg hugsunarlaus áfram, og gafst því utanhafnarskónum ekkert tækifæri til að sýna töframátt sinn. Í trjágöngunum mætti hann kunningja sínum, ungu skáldi, og sagði skáldið honum, að daginn eftir mundi það leggja af stað í sumarferðir sínar. „Jæja, svo þér ætlið að leggja af stað ennþá einu sinni!“ sagði skrifarinn. „Það má segja, að þér eruð sæll maður, að vera svona frjáls. Þér getið flogið hvert á land, sem þér viljið, en við hinir erum hlekkjaðir um fótinn.“ „En hlekkjaðir fastir við brauðtréð,“ svaraði skáldið. „Þér þurfið ekki að bera áhyggju fyrir morgundeginum, og ef þér verðið gamall, þá komist þér á eftirlaun.“ „Betra eigið þér nú samt,“ sagði skrifarinn, „að geta setið við að yrkja. Þér fáið þægðarorð úr hverju horni og svo eruð þér alls engum háður. Þér ættuð að reyna, hvernig það er að sitja í réttinum og mæðast yfir þessari hversdagslegu málatuggu.“ Skáldið hristi höfuðið og skrifarinn hristi líka höfuðið. Hvor um sig hafði sína skoðun og svo skildu þeir. „Undarleg kynslóð eru þau, þessi skáld,“ sagði skrifarinn, „gaman þætti mér að reyna að komast í þann eðlisham og verða sjálfur að skáldi. Ég er viss um, að ég mundi ekki yrkja önnur eins væluljóð og hinir. Þetta er vordagur eins og hann á að vera fyrir skáld. Loftið er svo óvenjulega bjart, skýin svo falleg og ilmurinn svo mikill af öllu hinu græna. Já, í mörg ár hef ég ekki fundið til þess eins vel og á þessari stund.“ Við skiljum nú þegar, að maðurinn er orðinn skáld, en ekki reyndar svo mikið beri á, – því heimskulegt er það að hugsa sér skáldin öðruvísi gerð en aðra menn. Meðal annarra manna geta þeir verið, sem miklu skáldlegri eru að eðlisupplagi en margt viðurkennt stórskáld. Munurinn verður aðeins sá, að skáldið er minnisbetra í andlegum efnum. Það getur haldið hugmyndinni og tilfinningunni, þangað til hún er skýrt og greinilega framsett í orðum, það geta hinir ekki. En að fara úr hversdagseðlinu yfir í skáldeðlið, það er þó alténd yfirför, og nú hafði sú yfirför auðnast skrifaranum. „Ó, sá indæli ilmur!“ sagði hann, „hann minnir mig á fjólurnar hjá henni Lónu föðursystur minni. Já, þá var ég lítill drengur. Um það hef ég ekki hugsað langa lengi. Góða gamla systir! hún bjó þarna hinum megin, að baka til við Kaupmannahöllina.[*] Hún átti allténd einhvern kvist, eða svo sem tvo afgræðinga, í vatni, hvað mikil sem vetrarharkan var. Ilminn lagði af fjólunum, en ég var með koparskildinga, sem ég hitaði og þrýsti á frosnar rúðurnar og bjó mér svo til gægjugöt. Þar hafði ég gott útsýni. Fyrir utan lágu skipin innifrosin í „kanalnum“, og voru menn allir gengnir af þeim. Ein gargandi kráka var öll skipshöfnin. En svo þegar vorið andaði yfir, þá var nóg að gera. Ísinn söguðu menn sundur með söng og húrra-ópi, skipin voru bikuð og útbúin með reiða og seglum og héldu síðan til annarra landa. Ég hef kúrt hér og verð að kúra hér alltaf, verð að sitja alla daga á lögregluskrifstofunni og sjá aðra taka vegabréf til utanferða. Þetta er mitt hlutskipti. Ó, já!“ sagði hann andvarpandi og þagnaði allt í einu. – „Hvernig er mér varið? svona hef ég aldrei hugsað eða fundið til. Það hlýtur að koma af vorloftinu. Það er bæði kvíðakennd og þægileg tilfinning.“ Hann þreif niður í vasann til skjalanna. „Þessi hérna fá mér annað til að hugsa um,“ sagði hann og renndi augunum yfir fyrsta blaðið og las það, sem á því stóð, en það var: Frú Sigbrít, frumsaminn sorgarleikur í fimm þáttum. „Hvað er þetta?“ sagði hann, „og það er höndin mín á því. Hef ég samið þennan sorgarleik? „Gletturnar á borgarveggnum eða Kóngsbænadagurinn, ljóðsöngvaleikur.“ – En hvar hef ég náð í hann? Það hefur einhver laumað þessu í vasa minn; hérna er þá bréf;“ já, það var nú frá leikhúss-stjórninni. Leikritunum var hafnað, og bréfið var alls ekki kurteislega orðað. – „Humm, humm!“ sagði skrifarinn og settist á bekk. Hugurinn reikaði víða, hjartað var klökkt. Hann greip ósjálfrátt eitt af blómunum, sem næst voru. Það var algeng murusóley. Það, sem grasafræðingarnir segja oss í mörgum fyrirlestrum, það birti hún á einni mínútu. Hún skýrði frá krafti sólarljóssins, sem þandi út blöðin fíngerðu og þrýsti þeim til að ilma. Þá hugsaði hann til lífsbaráttunnar, sem eins að sínu leyti vekur tilfinningarnar í brjósti voru. Loftið og ljósið voru biðlar blómsins, en ljósið var sá biðillinn, sem það mat meira. Eftir ljósinu sneri það sér, og þegar það hvarf, þá lagði það saman blöðin og sofnaði, en loftið vafði það í faðmi sínum. „Það er ljósið, sem prýðir mig,“ sagði blómið. „En það er loftið, sem gefur þér andardráttinn,“ hvíslaði skáldröddin. [* Þ.e. „Börsen“, samkomuhús verslunarmanna í Kaupmannahöfn.] Allskammt frá stóð drengur og lamdi stafnum niður í moruga vatnsgryfju og skvettust vatnsdroparnir upp á milli greinanna. Fór þá skrifarinn að hugsa um þær milljónir smádýra, sem þannig var þeytt upp í háa loft, því eftir stærð þeirra var hæðin svo mikil, að þetta hlaut að vera hið sama fyrir þau eins og ef okkur væri hvirflað hátt upp yfir skýin. Þegar skrifarinn hugleiddi þetta og breytinguna jafnframt, sem orðin var á honum, þá brosti hann og sagði við sjálfan sig: „Ég er sofandi og mig er að dreyma þetta. Samt er það stórmerkilegt. En hvað mann getur dreymt náttúrlega, þó maður viti með sjálfum sér, að það er einber draumur! Ég vildi ég gæti munað það í fyrramálið, þegar ég vakna. Nú finnst mér ég vera óvenjulega vel fyrirkallaður. Ég hef svo ljóst yfirlit yfir allt. Það er eins og mér sé allt í augum uppi, en ég er handviss um, að ef ég man nokkuð af því á morgun, þá er það bull, og hefur líkt komið fyrir mig áður. Svona er allt hið viturlega og ágæta, sem maður heyrir og sér í draumi, – það er eins og gullið álfafólksins. Meðan maður að taka við því, er það fagurt og dýrðlegt, en þegar það er skoðað við dagsbirtuna, þá er það ekki annað en steinar og visin laufblöð. Æ,“ sagði hann raunalega og leit til fuglanna syngjandi, sem hoppuðu glaðir og ánægðir af einni greininni á aðra, „þeim líður miklu betur en mér. Að geta flogið – það er ágætis íþrótt, og er sá sæll, sem hún er meðsköpuð. Ef það væri nokkuð, sem ég gæti breyst í, þá vildi ég óska mér, að ég yrði að ofurlitlum lævirkja.“ Í sama vetfangi skruppu kjóllöf og ermar saman í vængi, fötin urðu að fiðurham og utanhafnarskórnir að klóm. Hann fann það ofurvel og hló innanbrjósts. „Hana!“ hugsaði hann, „nú sé ég best, hvort mig er ekki að dreyma. En aldrei hefur mig dreymt jafn-hlægilega að undanförnu.“ Og hann flaug upp í grænt trjálimið og söng, en það var engin skáldleg andagift í söngnum, því skáldeðlið var farið. Það var með utanhafnarskóna eins og hvern þann, sem gerir eitthvað að marki duglega, að þeir gerðu ekki nema eitt í senn. Skrifarinn vildi verða skáld, og það varð hann. Nú vildi hann vera dálítill fugl, og þegar hann varð það, þá var hinni atgervinni lokið. „Tarna er afbragð,“ sagði hann, „á daginn sit ég á lögregluskrifstofunni yfir mikilvægum málskjölum, en á nóttunni get ég látið mig dreyma, að ég sé að fljúga til og frá um Friðriksbergsgarð í lævirkjalíki. Það væri sannarlega tilvalið yrkisefni í alþýðlegan gamanleik.“ Nú flaug hann aftur niður í grasið, kinkaði kollinum til allra hliða og fiðraði með nefinu við iðandi grasstráin, sem voru svo löng, að í samanburði við það, hvað hann sjálfur var orðinn lítill, þóttu honum þau að sínu leyti eins stórgerð og greinarnar á pálmaviðunum, sem vaxa í Norður-Afríku. Þetta var ekki nema í svip, því jafnharðan varð kolniðamyrkur í kringum hann. Honum þótti sem einhverju gríðarstóru væri fleygt yfir sig. Þetta var þá stór húfa, sem drengur einn frá Nýbúðum dembdi ofan yfir hann. Þá kom inn hönd og þreif um bak og vængi skrifarans, svo hann tísti við. Í fyrsta ofboðinu kallaði hann hátt: „Þinn ósvífni strákhvolpur! ég er lögregluembættismaður.“ En það lét í eyrum drengsins eins og „pí, pí, pí.“ Drengurinn sló hægt á nef fuglsins og fór leiðar sinnar. Í trjágöngunum mætti hann tveimur skólasveinum. Þeir keyptu af honum fuglinn fyrir átta skildinga. Komst svo skrifarinn upp úr því til Kaupmannahafnar og lenti þar á heimili nokkru í Gautagötunni.[*] [* Gothersgade.] „Það er, sem betur fer, að mig er að dreyma,“ sagði skrifarinn, „það veit hamingjan, að annars mundi ég reiðast. Fyrst var ég skáld, nú er ég lævirki. Já, það var einmitt skáldeðlið, sem ummyndaði mig í þennan smáfugl. En það er þó neyðarlegur skolli, helst þegar maður kemst í stráka hendur. Bara ég vissi, hvað úr þessu öllu á að verða.“ Drengirnir fóru með hann inn í mjög fallegt herbergi. Þar tók á móti þeim frú nokkur feitlagin og brosleit, en henni fannst fátt um, þegar þeir komu inn til hennar með þennan algenga útifugl, því svo titlaði hún lævirkjann. Hún sagði samt, að það yrði þá svo að vera, rétt í dag, og urðu þeir að láta hann inn í tóma fuglabúrið, sem stóð út við gluggann; „kannski Poppadrengnum þyki gaman að því,“ bætti hún við og leit glottandi til grænfiðraðs páfagauks, sem rólaði kotroskinn í sveig sínum innan í skrautlegu messingbúri. „Það er afmælisdagur Poppa-drengs í dag,“ sagði frúin, „þess vegna er útifuglsgreyið komið til að færa honum hamingjuóskir sínar.“ Poppi svaraði ekki nokkru orði, en rólaði sér með hefðarþótta fram og aftur. Þar á móti tók fallegur kanarífugl að syngja við raust. Hann var nýkominn í þennan stað úr sínum hlýju og ilmríku átthögum. Hafði verið fluttur þaðan á síðastliðnu sumri. „Hljóðabelgur!“ sagði hún og fleygði hvítum vasaklút yfir búrið. „Pí, pí, pí! tarna var ljóti snjógangurinn,“ tísti fuglinn og eftir þann tísting þagnaði hann. En skrifarinn eða útifuglinn, eins og frúin kallaði hann, var látinn í lítið búr sem næst kanarífuglinum og ekki langt frá páfagauknum. Eina setningin, sem Poppi gat bablað, var þessi: „Nei, látum okkur nú vera menn!“ og kom hún oft hlægilega við. Allt hitt, sem hann gargaði úr sér, var jafn óskiljanlegt sem kliður kanarífuglsins, nema fyrir skrifarann, sem nú var sjálfur fugl og skildi því félaga sína einkar vel. „Ég flaug undir pálmanum græna og blómhlaðna möndlutrénu,“ söng kanarífuglinn. „Ég flaug með bræðrum mínum og systrum yfir blómin skrautlegu og stöðuvatnið glerskæra, þar sem plönturnar iðuðu á botninum. Ég sá líka marga fallega páfagauka, sem sögðu skemmtilegustu sögur, bæði langar og margar.“ „Það voru villifuglar,“ ansaði páfagaukurinn, „þeir voru menntunarlausir. Nei, látum oss nú vera menn. – Því hlærðu ekki? Þegar frúin og allt aðkomufólkið hlær að því, þá getur þú hlegið líka. Það er stór vöntun að geta ekki fundið púðrið í því, sem er skrítilegt og skemmtilegt. Nei, látum oss nú vera menn!“ „Ó, manstu eftir fallegu stúlkunum, sem dönsuðu undir útþanda tjaldinu hjá blómskrýddu trjánum? Manstu eftir sætu ávöxtunum og manstu, hvað safinn var svalandi í villijurtunum?“ „Víst man ég það,“ svaraði páfagaukurinn, „en hérna líður mér miklu betur; mataræðið er gott og atlætið ástúðlegt. Ég veit, að ég er gáfufugl, og meira heimta ég ekki. Látum oss nú vera menn. Þú hefur skáldlega andagift, eins og þeir komast að orði, en ég hef grundaða þekkingu og er bráðfyndinn. Þú hefur þessa fljúgandi andans gáfu, en stillinguna vantar. Þú rífur þig upp úr öllu valdi í þessum háu náttúrutónum, og þess vegna byrgir fólkið yfir þig. Slíkt býður það ekki mér, ég er dýrara verði keyptur en svo. Nefið mitt stóra gengur í augun á fólki, og ég get slegið fram hnittiyrðum. Nei, látum oss nú vera menn!“ „Ó, mitt hlýja, blómlega ættarland,“ söng kanarífuglinn, „ég vil kveða um trén þín dökkgrænu og lognmildu vogana þína, þar sem greinarnar kyssa glæfagran sjávarflötinn. Ég vil kveða um fögnuð minna blikfríðu bræðra og systra, þar sem „jurtalindir öræfanna“[*] gróa.“ [* Plöntur af kaktustegundinni.] „Æ, þagnaðu blessaður á þessum volæðis tónum,“ mælti páfagaukurinn. „Segðu eitthvað, sem maður getur hlegið að. Hláturinn er vottur þess, að maður stendur á hæsta stigi andans. Getur kannski hundur eða hestur hlegið? Nei, þeir geta grátið, – en að hlæja – það er ekki öðrum veitt en mönnunum.“ Og Poppi rak upp hlátur: „Ho, ho, ho!“ og bætti við eftir vanda: „Látum oss vera menn!“ „Þú þarna litli, grái fugl!“ sagði kanarífuglinn, „þú ert líka orðinn fangi. Það er víst kalt í skógunum þinum, en frelsi er þar samt. Það hefur gleymst að loka búrinu þínu. Efri glugginn stendur opinn. Fljúgðu, fljúgðu!“ Og það gerði skrifarinn og var í skyndi kominn út úr búrinu, en samstundis marraði í hurðinni að næsta herbergi, sem opin var í hálfa gátt, og inn kemur heimiliskötturinn, liðamjúkur með græn og glóandi augun, og ætlar að veiða hann. Kanarífuglinn flögraði í búrinu, páfagaukurinn bærði vængina og kallaði: „Látum oss vera menn!“ Skrifarinn var nær dauða en lífi af hræðslu og þaut út um gluggann yfir hús og stræti. Að lokum varð hann að hvíla sig dálítið. Húsið, sem var andspænis, leist honum eitthvað vinalegt. Einn glugginn stóð opinn, og þar flaug hann inn. Þetta var þá herbergið hans sjálfs, og settist hann þar á borðið. „Látum oss nú vera menn,“ sagði hann án þess að hugsa neitt um orðin. Hann hafði þau ósjálfrátt upp aftur eftir páfagauknum, en svo brá við, að í sömu andrá var hann skrifari, sem hann átti að sér, – en á borðinu sat hann. „Guð hjálpi mér!“ sagði hann, „hvernig stendur á því, að ég er kominn hingað upp og hef sofnað hér út af? Mig dreymdi líka órólega. Eintómt bull og heimska var það reyndar frá upphafi til enda.“ VI. Það, sem best var af því, er gæfuskórnir höfðu að færa Snemma morguninn eftir liggur skrifarinn í rúmi sínu. Ber þá einhver á dyrnar, og var það nábúi hans, sem var til húsa á sama lofti. Hann var stúdent og lærði til prestsskapar. „Lánaðu mér utanhafnarskóna þína,“ sagði hann, „það er svo blautt í garðinum, en indælt sólskinsveður, mig langar að fara ofan og reykja mér eina pípu.“ Hann fékk utanhafnarskóna og var þegar kominn niður í garð. Eitt plómutré og eitt eplatré var í garðinum. Þó ekki sé stærri garður, þá þykir það ekki smáræðis hnoss í stórborgum. Stúdentinn gekk fram og aftur í garðinum, og var þetta um miðjan morgun. Þá heyrist pósthorns blástur utan af stræti. „Ó, að ferðast, ferðast,“ gall hann við, „það er þó sú mesta sæla í heiminum. Það er æðsta óskin mín. En langt yrði það að vera. Ég vildi sjá dýrðarlandið Sviss, ferðast um Ítalíu –.“ Það var eina bótin, að gæfuskórnir voru svo skjótvirkir, því annars hefði hann orðið alltof víðförull, bæði fyrir sjálfan sig og okkur hina. Hann ferðaðist. Hann var í miðju Svisslandi, en hann var með átta öðrum, og hafði honum verið holað niður innst í póstvagni. Honum var illt í höfði og hann fann til þreytu í hnakkanum. Blóðið var sigið niður í fætur hans, sem bólgnir voru af stígvélakreppu. Hann var á milli svefns og vöku. Í vasanum hægra megin hafði hann lánstrausts-skírteinið, en vegabréfið í þeim vasanum, sem var vinstra megin. – Innan á brjósti sér hafði hann nokkra gullpeninga, sem saumaðir voru inn í dálítinn skinnpung. Hvað lítið, sem hann dreymdi, þá þótti honum sem eitthvað af þessum dýrindum væri tapað. Hrökk hann því upp með óðagoti, og fyrsta hreyfing handarinnar var í þríhyrning frá hægri til vinstri og svo upp á brjóstið til þess að þreifa á sér og vita, hvort hann hefði muni sína enn. Regnhlífar, stafir og hattar rugguðust í netinu fyrir ofan hann og tóku að mestu fyrir útsýnina, en hún var undrafögur. Hann var að smágefa henni auga, um leið og hjartað í honum söng um það, sem að minnsta kosti eitt skáld, er vér þekkjum, hefur kveðið á Svisslandi, en ekki látið prenta, enn sem komið er: Hér dýrðarsjón mesta menn fá séð, er Montblanc við himin sést bera. Ef aðeins í buddunni endist féð, þá er hér himneskt að vera. Mikilfengleg, alvarleg og dimmleit var öll náttúran kringum hann. Greniskógarnir sýndust eins og lyngrunnar uppi á hábjörgunum, sem gnæfðu upp í skýjaþokuna með tinda sína. Nú tók að snjóa og næddi kaldur gustur. „Hú!“ sagði hann, „ég vildi við værum komnir hinum megin við Alpafjöllin, þá væri sól og sumar og þá væri ég búinn að fá peningana út á lánstrausts-skírteinið mitt. Ég er á glóðum með það, svo ég fæ ekki almennilega notið Svisslands. Ó, að ég væri kominn hinum megin!“ Og í sama bili var hann kominn hinum megin. Hann var kominn langt inn í Ítalíu milli Flórens og Rómaborgar. Trasímenus-vatnið blasti við í kvöldljómanum eins og skínandi gull á milli dimmblárra fjallanna. Á þessum stað, þar sem Hannibal vann sigur á Flaminíusi, þar fléttuðu nú vínteinungarnir saman grænu fingrunum sínum í sælum friði. Yndisfögur, hálfnakin börn sátu yfir hópkorni svartra svína við veginn undir þyrpingu ilmandi lárberjatrjáa. Ef vér gætum sýnt þetta á málverki eins og það var, mundi öllum verða á að segja: „Fagra Ítalía!“ en það sagði ekki guðfræðingurinn og ekki neinn af samferðamönnunum, er með honum óku. Mý og eitraðar flugur sóttu á þá inni í vagninum. Það var til einskis, þó þeir tækju mýrtusgrein og lemdu í kringum sig, flugurnar bitu þá og stungu eftir sem áður. Enginn var sá í vagninum, er ekki væri bólginn og blóðugur af biti. Hestagreyin voru hræjum líkir. Flugurnar sátu á þeim í flekkjum, og það dugði ekki nema rétt í svipinn, að vagnmaðurinn fór ofan og skóf af þeim. Nú rann sólin, og lagði þá snöggan, en sárbitran, ískulda um alla náttúruna. Það var síður en svo, að það væri þægilegt, – en allt umhverfis færðist ljómandi fagurgrænn litblær á fjöllin og skýin, svo skær og skínandi, – já, farðu sjálfur og sjáðu það! – það er betra en að lesa lýsinguna á því. Það var dæmalaust, og það þótti ferðamönnunum líka, en maginn var tómur, líkaminn þreyttur og öll þeirra innsta hjartans löngun var að fá gistingarstað, en hvernig mundi nú ganga að fá hann? Eftir honum voru þeir miklu langeygðari en náttúrunni. Vegurinn lá um olíuviðarskóg, og var líkast sem verið væri að aka innan um kræklótta pílviði á voru landi. Hér var nú gistihúsið og stóð á afskekktum stað. – Dálítill hópur bæklaðra aumingja, svo sem svarar tíu manns, hafði skipað sér fyrir framan húsið, og var hinn burðugasti í því liði að öllu útliti, eins og „elsti sonur hungursins, er náð hefur lögaldri,“ svo sem Marryat kveður að orði, hinir voru annað hvort blindir eða fótavisnir og skriðu á fjórum fótum, eða með úttaugaða handleggi og fingralausar hendur. Það var eymdin í sinni ræfilslegustu mynd. „Miskunn, herrar mínir!“ sögðu þeir og teygðu fram limina sjúka og bilaða. Veitingakonan sjálf var berfætt með ógreitt hárið og á óhreinum léreftsstakki einum klæða, og tók hún á móti gestunum. Dyrnar voru reyrðar aftur með snærum, og gólfið í herberginu var hálfupprifið tíglgólf. Leðurblökur flögruðu undir loftinu, og megn ódaunn var þar inni. „Vill konan ekki gera svo vel að leggja á borðið fyrir okkur niðri í hesthúsinu?“ spurði einn af ferðamönnunum. „Þar veit maður þó, hverju maður andar að sér.“ Þá var lokið upp gluggum til þess að inn gæti komið dálítið af hreinu lofti, en áður en það kæmi, komu inn visnu handleggirnir með kveininu, sem aldrei linnti: „Miskunn, herrar góðir!“ Á veggina hafði mikið og margt verið skrifað, og af því var góður helmingurinn lastmæli um „hina indælu Ítalíu“. Nú var matur á borð borinn og var þar til rétta vatnssúpa krydduð pipar og þrárri olíu. Þrá olía var einnig höfð saman við salatið. Skemmd egg og steiktir hanakambar voru viðhafnarréttirnir. Enda að víninu var óbragðskeimur. Það var sannkölluð meðalablanda. Um nóttina var koffortunum hlaðið fyrir dyrnar, og hélt einn af ferðamönnunum vörð meðan hinir sváfu. Guðfræðingurinn hélt vörðinn. Þvílík bræla, sem þar var inni! mýið suðaði og beit, og aumingjarnir lágu fyrir utan og voluðu og kveinuðu upp úr svefni. „Já, að ferðast,“ sagði guðfræðingurinn, „það gæti verið dáindis gott, ef maður hefði ekki neinn líkama að dragnast með. Ef svo væri, að líkaminn gæti hvílt sig, en andinn þar á móti flogið. Hvar sem ég kem, þá er einhver vöntun, sem þrengir að hjarta mínu. Það er eitthvað betra, sem ég vil fá, en augabragðs ánægjan. Já, eitthvað betra, – það besta, en hvar er það og hvað er það? Og í rauninni veit ég vel, hvað ég vil, ég vil ná sælutakmarkinu, því takmarki, sem sælast er allra.“ Í sömu andránni, sem hann hafði orðin talað, var hann kominn heim til sín. Héngu þar síð tjöld og hvít fyrir gluggum, og á miðju gólfi stóð svört líkkista, og í henni lá hann nú grafkyrr og svaf svefni dauðans. Hann hafði fengið óskina sína uppfyllta, líkaminn hvíldi sig, en andinn var að ferðast. Kallið engan sælan fyrr en hann er kominn í gröf sína, sagði Sólon. Hér sannaðist nú það spakmæli ennþá einu sinni. Sérhvert lík er mannljón ódauðleikans, og ekki leysti heldur mannljónið hérna í svörtu kistunni úr því, sem maðurinn hafi ritað hjá sér tveim dögum áður, meðan hann var á lífi: Þín þögn, ó dauði! geigvæn öllum er, þín ilspor eru grafir, vígðar náum. Skal himnastiginn hrapa undir mér? Hvort rís ég aðeins upp í grafar stráum? Oft heimi dylst hið þyngsta, er þel vort ber. Þú, sem varst einn, uns hérvist þín réð dvína, á hjarta þyngri mörg er mæðan hér en moldin, sem menn varpa á kistu þína! Tvær konur voru á gangi í herberginu. Vér þekkjum þær báðar, það var Sorgardísin og sendikona Gæfunnar. Þær lutu ofan að hinum framliðna. „Líttu nú á,“ sagði Sorgin, „hvaða farsæld færðu skórnir þínir mannkyninu?“ „Þeim, sem hér blundar, færðu þeir þó að minnsta kosti varanlegt hnoss,“ svaraði Gleðin. „Ó, nei!“ sagði Sorgin, „hann skildi við af sjálfsdáðum. Hann var ekki kallaður. Hans andlega þrek var ekki svo mikið, að hann hefði orku til að ná þeim hnossum annars heims, sem hann á að geta náð, eftir ákvörðun sinni. Ég ætla að auðsýna honum velgjörð.“ Og hún tók skóna af fótum hans. Þá var dauðasvefninn á enda, hann var endurlifnaður og reis á fætur. Sorgin hvarf og skórnir með henni. Hún hefur víst þóst vera réttur eigandi þeirra. Sólargeislinn og fanginn Vér stöndum á hausttíma á kastalavíggarðinum og horfum út á sjóinn, og eru þar fjöldamörg skip á siglingu. Vér horfum yfir til Svíastrandar hinum megin við sundið, þar sem hyllir undir hana í bjarma kvöldsólarinnar. Að baka til við oss er virkisbrekkan snarbrött og allt umhverfis oss eru stórvaxin tré, og gulnað laufið hrynur af greinunum, en fyrir neðan brekkuna standa skuggaleg hús með stauragirðingu í kring, og fyrir innan, þar sem varðmaðurinn spígsporar fram og aftur, er dimmt og þrengslalegt, en þó er enn dimmra í svartholinu með grindagluggunum fyrir. Þar fyrir innan sitja fjötraðir fangar, hinir verstu óbótamenn. Einn geisli frá sólinni, sem er að setjast, skín inn í tómlegan fangaklefann. Sólin skín jafnt yfir vonda og góða. Fanginn horfir svipdimmur og hörkulegur á kaldan geislann og augnaráðið er ljótt. Dálítill fugl kemur fljúgandi að gluggagrindinni. Fuglinn syngur jafnt fyrir réttláta og rangláta, hann kvakar stuttlega: „ví, ví,“ situr kyrr um stund við grindina, reytir af sér eina fjöður og ýfir á sér fiðrið um háls og bringu – og vondi maðurinn hlekkjaði horfir á það, og mýkist þá svipurinn nokkuð, þó harður sé og ófrýnn. Það rennur upp bjartari hugsun í brjósti fangans, sem hann getur ekki sjálfur gert sér grein fyrir. En sú hugsun á eitthvað skylt við sólargeislann, sem skein inn í klefann til hans gegnum grindina, eitthvað skylt við ilminn af fjólunum, sem spretta svo gróskulega á vorin utan í virkisbrekkunni. Í þessu gellur við veiðihornsþytur. Fuglinn flýgur frá grindaglugga fangans, sólargeislinn hverfur, og aftur verður dimmt í klefanum, dimmt í hjarta vonda mannsins. En allt um það, sólin hefur náð að skína þangað inn, og fuglinn hefur náð að syngja þangað inn. Hljómið áfram, fögru veiðihornstónar! Kvöldið er unaðsblítt og hafið kyrrt og spegilfagurt. Koffortið fljúgandi Einu sinni var kaupmaður nokkur, sem var svo flugríkur, að hann hefði getað flórað með silfurpeningum allt borgarstrætið, sem hann bjó í, og enda smástrætin í viðbót, en það gerði hann ekki. Hann kunni betur að fara með peningana en svo. Gæfi hann einn skilding, þá tók hann ríkisdal í staðinn. Slíkur kaupmaður var hann – og svo dó hann. Sonur hans erfði nú alla þessa peninga og lifði heldur en ekki glatt. Hann sótti grímudansleika á hverri einustu nóttu, bjó til pappírsdreka úr ríkisdalsseðlum, kastaði gullpeningum, sem steinar væru, út á vatnið og lét þá flytja kerlingar. Með því lagi gátu peningarnir gengið til þurrðar, og það gerðu þeir líka. Að lokum átti hann ekki eftir nema fjóra skildinga, og ekkert af klæðnaði nema einn gamlan slopp og eina morgunskó. Nú kærðu vinir hans sig ekkert um hann, úr því þeir gátu ekki gengið með honum á strætum úti, – nema einn þeirra, sem var vel innrættur og góður í sér. Hann sendi honum gamalt koffort með svolátandi fyrirmælum: „Farðu að láta niður!“ Hann sagði vel um það, en kaupmannssonurinn átti ekkert til að „láta niður“, og lét því sjálfan sig niður í koffortið. Það var skringilegt koffort. Um leið og þrýst var á lásinn, gat koffortið flogið. Nú var svo gert, og óðara flaug það með kaupmannssoninn upp í gegnum reykháfinn, hærra og hærra, skýjum ofar, lengra og lengra burt. Það brakaði í botninum, og hann var svo hræddur um, að það færi í sundur, því þá hefði hann fengið þokkalega byltu. – Hætt er nú við! – en svo kom hann niður í Tyrklandi. Koffortið faldi hann í skóginum undir laufhrúgu og sneri síðan á leið til borgarinnar. Það gat hann óhræddur gert, því á Tyrklandi gengu allir á sloppum eins og hann og með töplur á fórum. Hann mætti barnfóstru með lítið barn. „Heyrðu, Tyrkjafóstra!“ sagði hann, „hvaða stórhöll er þetta hérna rétt við borgina. Það er svo hátt upp til glugganna?“ „Í þeirri höll býr dóttir konungsins,“ ansaði hún. „Því hefur verið spáð fyrir henni, að hún eigi að rata í ógæfu út af unnusta, og má þess vegna enginn koma til hennar, nema konungurinn og drottningin séu með honum.“ „Þökk fyrir!“ sagði kaupmannssonurinn. Síðan fór hann til skógar, settist í koffortið sitt, flaug upp á þakið og skreið inn um þakið til kóngsdótturinnar. Hún lá sofandi í legubekk, og svo var hún fögur, að kaupmannssonurinn gat ekki stillt sig um að kyssa hana. Hún vaknaði og varð dauðhrædd, en hann sagði henni, að hann væri Tyrkjaguðinn og væri kominn ofan af himnum til hennar, og féll henni það vel í geð. Þar sátu þau nú hvort hjá öðru, og sagði hann henni margar sögur um augun hennar, að þau væru ljómandi falleg, svört stöðuvötn, og að hugsanirnar lékju þar á sundi eins og hafmeyjar. Og um ennið hennar sagði hann, að það væri snæfjall með skrautlegum sölum og myndum, og hann sagði henni frá storkinum, sem kæmi með smábörnin elskulegu. Já, það voru nú sögur í lagi. Síðan bað hann kóngsdótturinnar, og játaðist hún honum óðara. „En þér verðið að koma hérna á laugardaginn,“ sagði hún, „því þá drekka þau te hjá mér, kóngurinn og drottningin. Þau munu hugsa sér til hreyfings, að ég skuli giftast Tyrkjaguðinum, en þér verðið að sjá svo til, að þér komið þá með verulega fallegt ævintýri, því á þess konar hafa foreldrar mínir fjarska miklar mætur. Móðir mín vill hafa það siðferðislegt og velsæmislegt, en faðir minn spaugilegt, svo hlegið verði að því.“ „Já, ég kem ekki með nokkra aðra bekkjargjöf en ævintýri,“ sagði hann og skildu þau svo að sinni, en kóngsdóttirin gaf honum korða, alsettan gullpeningum, og komu þeir honum í sérstaklega góðar þarfir. Eftir það flaug hann burt, keypti sér nýjan slopp og sat nú úti í skógi og var að setja saman ævintýri. Það átti að vera tilbúið á laugardaginn, og er slíkt ekki ætíð neinn hægðarleikur. Nú var hann þá búinn með það og kominn laugardagur. Konungurinn, drottningin og hirðin öll biðu hans með teið hjá kóngsdótturinni. Fékk hann þar prýðilegustu viðtökur. „Ætlið þér þá að segja okkur ævintýri?“ mælti drottningin, „en djúpsætt verður það að vera og lærdómsríkt.“ „En þó svo, að hlegið verði að því,“ mælti konungurinn. „Já, svo skal vera,“ sagði hann og byrjaði, og er nú best að taka vel eftir. Einu sinni var eldspýtnabréf og voru eldspýturnar ákaflega hreyknar af ættgöfgi sinni. Ættmóðir þeirra, það er að segja furutréð stóra, sem þær voru smáflísar úr, hver um sig, – það hafði verið stórt og aldrað tré í skóginum. Eldspýturnar lágu nú uppi á hillu milli eldfæra og gamals járnpotts og voru að segja þeim frá æsku sinni. – Já, þegar vér vorum á grænni grein, þá vorum vér með sanni „á grænni grein“, bæði sumar og vetur. En þá komu skógarhöggsmennirnir – það var nú „stjórnarbyltingin mikla“ – og þá tvístraðist fjölskylda vor í allar áttir. Óðalsherrann varð stórsigla á skrautlegu skipi, sem siglt gat um heim allan, ef vildi. Hinar greinarnar lentu annars staðar og vér höfum nú það starf að kveikja á ljósunum fyrir lágborin múgamenni. Þannig víkur því við, að vér stórmennin erum komin hér í eldhúsið.“ „Já, öðruvísi er nú háttað um mig,“ sagði járnpotturinn, sem stóð við hlið eldspýtnanna. „Allt frá því ég kom út í heiminn, hef ég verið fægður mörgum sinnum og oft verið soðið í mér. Ég hef það starfið á hendi, sem mest er um vert, og í raun réttri er ég æðstur allra hér í húsi. Mína einu ánægju hef ég, þegar búið er að borða, því þá stend ég hreinn og þokkalegur á hillunni og skrafa skynsamlega við félaga mína. En að undanskilinni vatnsfötunni, sem einstöku sinnum kemur niður í húsgarðinn, þá erum við alltaf inni við. Okkar eini fréttaberi er torgkarfan, en hún talar heldur æsingslega um stjórnina og þjóðina. Já, því var það hérna um daginn, að einum gömlum potti varð svo bilt við þetta, að hann datt niður og mölbrotnaði. Það er fjör í henni, skal ég segja yður.“ „Nú gerist þú heldur margmáll,“ sögðu eldfærin, og eldstálið sló í tinnuna, svo að gneistaði úr. „Eigum við ekki að gera okkur skemmtilegt kvöld núna?“ „Já, látum oss tala um, hver tignastur er,“ sögðu eldspýturnar. „Nei, mér er ekki um það gefið að tala um sjálfa mig,“ sagði leirgrýtan. „Látum okkur nú hefja kvöldskemmtun. Ég skal byrja, – ég skal segja frá einhverju þess konar, sem hver og einn hefur lifað og reynt. Það er eins og hver sjái sjálfan sig, og það er svo ánægjulegt. „Við Eystrasalt, við beykiskóginn danska.“ „Þetta er ljómandi vel byrjað,“ sögðu allir diskarnir, „þetta verður víst saga, sem okkur líkar.“ „Já, þar lifði ég æsku mína hjá fjölskyldu, sem hafði hægt um sig. Þar voru stofugögnin fægð og gólfin þvegin og hengd upp ný gluggatjöld tvisvar í mánuði.“ „En hvað þér segið vel frá,“ sagði ryksópurinn. „Það er undir eins auðheyrt, að það er kvenmaður, sem segir frá. Það er einhver hreinlætisbragur á því.“ „Já, það er auðfundið,“ sagði vatnsfatan og hoppaði dálítið upp af gleði, svo að small í gólfinu. Og grýtan hélt áfram að segja söguna og niðurlagið varð upphafinu samboðið. Allir diskarnir glömruðu af fögnuði, og ryksópurinn tók græna steinselju upp úr sandholinu og krýndi með grýtuna, því hann vissi, að það mundi verða hinum til gremju, og svo hugsaði hann líka með sjálfum sér: „Ef ég krýni hana í dag, þá krýnir hún mig á morgun.“ „Nú vil ég dansa,“ sagði eldtöngin og hún dansaði. Það kynni nú að vera, að hún gæti spennt upp annan fótinn í háa loft. Gamla stólsetuverið lengst úti í horni rifnaði af því að horfa á það. „Mætti ég svo verða krýnd?“ sagði eldtöngin, – og var það látið eftir henni. „Þetta er þá ekki annað en skríll,“ sögðu eldspýturnar. Nú átti temaskínan að syngja, en hún sagðist vera kvefuð, hún gæti ekki sungið, nema þegar syði á sér. En þetta voru eintóm hefðarlæti, því hún vildi ekki syngja, nema þegar hún stóð á borðinu hjá húsbændunum. Í glugganum lá gamall fjaðrapenni, sem vinnukonan var vön að skrifa með. Það var ekkert merkilegt við hann, nema það, að honum hafði verið dýft of langt niður í blekbyttuna, en af því þóttist hann nú mikill. „Vilji temaskínan ekki syngja,“ sagði hann, „þá þarf hún þess ekki fremur en hún vill. Það hangir hérna fyrir utan búr með næturgala í. Hann getur sungið. Reyndar hefur hann ekkert lært, en um það skulum við ekki vera að fást neitt núna í kvöld.“ „Mér virðist það mjög ósæmilegt,“ sagði teketillinn, sem var eldhúss-söngvari og hálfbróðir temaskínunnar, „að vera að hlýða á útlendan fugl. Er það þjóðræknislegt? Ég vil að torgkarfan kveði upp álit sitt um það mál.“ „Ég segi það satt, mér er gramt í geði,“ sagði torgkarfan, „mér er svo gramt í geði, sem framast má verða. Er það sómasamlegt að eyða kvöldinu svona? Ætli það væri ekki nær að koma öllu í röð og reglu hér í húsinu? Það ætti hver að vera á sínum rétta stað, og ég svo að stjórna öllu saman, það mundi fara eitthvað svolítið betur.” „Já, látum okkur nú gera ærsl og hávaða,” sögðu þau öll. Í sama bili var lokið upp dyrunum. Það var vinnukonan, og sló þá öllu í dúnalogn og enginn bærði á sér, en ekki var þar nokkurt eldhússgagn, sem ekki vissi, hvað það gæti gert og fyndi með sjálfu sér til mikilhæfis síns. „Já, það hefði ég viljað,” hugsaði hvert um sig, „þá veit hamingjan, að þetta hefði getað orðið skemmtilegt kvöld.” Vinnukonan tók eldspýturnar og kveikti upp eld með þeim. En hvað þær fuðruðu og loguðu! „Nú má þó öllum vera ljóst,“ hugsuðu þær, „hvílíkur ljómi stendur af okkur! Hvílíkt ljós!“ – og í sama vetfangi voru þær útbrunnar. „Þetta var ágætt ævintýri,“ sagði drottningin, „mér fannst ég vera komin í eldhúsið til eldspýtnanna. Já, nú skaltu fá hana dóttur okkar.“ „Já, svo skal vera,“ mælti konungurinn. „Á mánudaginn skal hún verða þín,“ – því nú þúuðu þau hann, er hann átti að verða tengdasonur þeirra. Nú var þá brúðkaupið ákveðið, og kvöldið áður en það skyldi vera, var öll borgin skrautlýst. Bollur og kringlur og sætabrauð fékk hver sem vildi. Því var þeytt út á meðal fólksins til hrifsinga. Götustrákarnir blésu og blístruðu í fingur sér. Mikið gekk á og mikil var viðhöfnin. „Nú, já, já,“ hugsaði kaupmannssonurinn, „ég má þá víst ekki láta mitt eftir liggja,“ og nú keypti hann sér púðurflugur, hvellbaunir og alls konar flugeldadót, sem hugsast gat, lét það í koffortið sitt og flaug með það í loft upp. Þvílíkt og annað eins! hvað það fuðraði og sprakaði! Allir Tyrkirnir hoppuðu í háa loft, svo að töplurnar þutu um eyru þeim. Slíka loftsjón höfðu þeir aldrei séð fyrri. Nú skildu þeir, að það var sjálfur Tyrkjaguðinn, sem ætlaði að eiga kóngsdótturina. Undir eins og kaupmannssonurinn var kominn aftur niður í skóginn með koffortið, þá fór hann að hugsa með sér: „Ég held það sé þó best, að ég fari inn í borgina, svo ég fái að vita, hvernig þeim hefur þótt það áhorfs, þegar ég flaug upp.“ – Og var það að vísu ekki tiltökumál, þó hann langaði til að vita um það. Þá var það mjög mismunandi, hvernig mönnum sagðist frá. Einum hafði komið það svona fyrir sjónir, en öðrum aftur hinsegin, en öllum bar saman um, að það hefði verið ljómandi fallegt. „Ég sá Tyrkjaguðinn sjálfan,“ sagði einn, „augun í honum voru eins og blikandi stjörnur, og skeggið eins og freyðandi foss.“ „Hann flaug í eldskikkju,“ sagði annar, „og yndislegustu englabörn gægðust fram úr fellingunum.“ Já, fallegt var það, sem hann fékk að heyra um sig, og daginn eftir átti brúðkaupið að standa. Nú sneri hann aftur til skógar og ætlaði að setjast í koffortið –– hvar var það? Koffortið var brunnið til ösku. Það hafði orðið eftir í því neisti úr flugeldunum og af neistanum hafði kviknað í því. Það var ekki eftir nema askan, og nú gat hann ekki framar flogið, og ekki komist til brúðarinnar. Af henni er það að segja, að hún stóð allan daginn uppi á þakinu og beið og beið, og ennþá bíður hún, – en hann fer um víða veröld og segir ævintýri. Samt eru þau nú ekki framar eins gamankennd og ævintýrið, sem hann sagði um eldspýturnar. Efnisyfirlit Bls. Hans klaufi ... 5 Nýju fötin keisarans ... 13 Storkarnir ... 23 Litli Kláus og stóri Kláus ... 33 Þumalína ... 53 Skugginn ... 71 Farlami drengurinn ... 91 Svínahirðirinn ... 104 Tindátinn staðfasti ... 114 Prinsessan á bauninni ... 122 Rauðu skórnir ... 125 Svanirnir ... 134 Vondi kóngurinn ... 161 Gæfuskórnir ... 166 Sólargeislinn og fanginn ... 210 Koffortið fljúgandi ... 212