ÆVINTÝRI OG SÖGUR H.C. ANDERSEN ÆVINTÝRI OG SÖGUR STEINGRÍMUR THORSTEINSON ÞÝDDI 3. BINDI Fimmta útgáfa BARNABLAÐIÐ ÆSKAN REYKJAVÍK 1979 PRENTSMIÐJAN ODDI HF. Fegursta rós heimsins Frá því er sagt, að einu sinni var voldug drottning. Hún átti fagran lystigarð, og uxu í honum fegurstu blóm allra ársins tíða og frá öllum heimsins löndum, en það, sem hún hafði langmestar mætur á, voru rósirnar, og af þeim átti hún hinar sundurleitustu tegundir, neðan frá villirósunum, sem spretta á gerðum úti með grænum eplisangandi blöðum, og upp að hinum fegurstu Provence-rósum, og uxu þær upp með múrveggjum hallarinnar, vöfðu sig um súlurnar og gluggakisturnar, inn í gangrúmin og uppi meðfram loftum hallarsalanna, og voru þær mjög margbreytilegar að ilm, lit og lögun. En nú ríkti hér inni sorg og harmur. Drottningin lá á sóttarsæng og læknarnir töldu hana af. „Það er samt eitt, sem gæti bjargað henni,“ sagði sá á meðal þeirra, sem vitrastur var. „Færið henni fegurstu rós heimsins, þá rósina, sem lýsir hinum æðsta og hreinasta kærleika. Komi hún fyrir augu henni, áður en þau bresta, þá deyr hún ekki.“ Og nú komu bæði ungir og gamlir hvaðanæva með rósir, – hinar fegurstu, sem blómguðust í hverjum jurtagarði, en það voru ekki þær rósir. Það varð að sækja blómið í jurtagarð kærleikans, en hver af rósunum þar var sú, er lýsti hinum æðsta og hreinasta kærleika? Og skáldin kváðu um fegurstu rós heimsins, og sinn nefndi hverja. Og boð fóru víða um lönd, til hvers eins hjarta, sem sló í kærleika. Það fóru boð til allra, hverrar stéttar eða á hvaða aldri, sem voru. „Enginn hefur ennþá nefnt blómið,“ sagði vitringurinn. „Enginn hefur bent á staðinn, þar sem það spratt upp í dýrð sinni. Ekki eru það rósirnar frá kistu Rómeós og Júlíu eða frá gröf Valborgar, þó þær rósir muni ávallt ilma í söng og sögu. Það eru ekki rósirnar, sem upp spretta af hinum blóðugu lensum Vínkelríðs, upp af hinu helga blóði, sem bogar úr brjósti hetjunnar, er lífið lætur fyrir ættjörðu sína, þó enginn dauði sé ljúfari og engin rós rauðari en það blóð, sem þar rennur. Ekki heldur er það undrablómið það, sem maðurinn ræktar og hirðir um, ár og dag út, og fórnar fyrir fjöri og heilsu um langar andvökunætur í einslegum. klefa – hin töfraríka rós vísindanna.“ „Ég veit hvar hún blómgast,” sagði hamingjusöm móðir, sem kom með kornungt barn sitt að hvílu drottningarinnar. „Ég veit hvar fegurstu rós heimsins er að finna, – þá rósina, sem lýsir hinum æðsta og hreinasta kærleika. Hún blómgast á rjóðu kinnunum elsku barnsins míns, þegar það endurnært af svefninum opnar augun og brosir við mér með öllum sínum kærleika.“ „Fögur er sú rós, en til er önnur fegurri,“ sagði vitringurinn. „Já, miklu fegurri,“ sagði ein af konunum. „Ég hef séð hana, ég hef séð hana. Æðri og helgari rós er hvergi til. En hún var bleik á lit eins og blöð terósarinnar. Ég sá hana á kinnum drottningarinnar. Hún hafði lagt af sér ríkiskórónuna og gekk sjálf sorgbitin með barnið sitt sjúka liðlanga nóttina, grét yfir því, kyssti það og bað til guðs fyrir því, eins og móðir á angistarstundu getur framast beðið.“ „Heilög og undursamleg er hin hvíta rós sorgarinnar í öllum sínum mætti, en þó er það ekki hún.“ „Nei, fegurstu rós heimsins sá ég frammi fyrir altari drottins,“ mælti biskupinn, guðhræddur og æruverðugur öldungur. „Ég sá hana ljóma, og var þá sem maður sæi engilsandlit. Yngismeyjarnar gengu að guðs borði og endurnýjuðu skírnarsáttmála sinn. Þar stóð ein þeirra. Hún horfði með öllum hreinleika og kærleika sálar sinnar upp til guðs. Sú rós lýsti hinum hreinasta og æðsta kærleika.“ „Blessuð sé hún,“ sagði vitringurinn, „en enginn ykkar hefur ennþá nefnt fegurstu rós heimsins.“ Þá kom barn inn í stofuna, kornungur sonur drottningarinnar. Tárin stóðu í augum hans og kinnar hans voru votar. Hann bar stóra bók opna í flauelsbandi og með silfurspennslum. „Móðir mín!“ sagði litli drengurinn, „heyrðu nú, hvað ég hef lesið.“ Og barnið settist hjá rúminu og las í bókinni um hann, sem gaf sig sjálfan í dauða á krossinum til að frelsa mannkynið, – jafnvel óbornar kynslóðir. „Meiri kærleikur er ekki til.“ Þá færðist rósfagur roðablær yfir kinnar drottningarinnar, augu hennar urðu svo stór og björt, því upp frá blöðum bókarinnar sá hún lyftast hina fegurstu rós heimsins, ímynd þeirrar, sem upp spratt af blóði Krists á krossinum. „Ég sé hana,“ sagði hún. „Sá deyr aldrei, sem þá rós lítur augum, fegurstu rósina á jarðríki.“ Snædrottningin Ævintýri í sjö þáttum Fyrsti þáttur: Um spegilinn og brotin Hana þá! nú byrjum við. Þegar frásögninni lýkur, þá vitum við meira en við vitum núna, því það var seiðskratti, sem um er að ræða, og það einn hinn argasti: þar var „defillinn“. Það var einhvern dag, að gállinn var á honum, því hann hafði búið sér til spegil, sem sú náttúra fylgdi, að allt gott og fagurt, sem speglaðist í honum, það skorpnaði þar saman og varð að því nær engu. Hitt aftur, sem ekki var gagn í og ljótt ásýnis, það kom skýrt fram og versnaði um allan helming. Fegurstu landspláss urðu í honum eins og grænmetismauk, og bestu menn urðu viðbjóðslegir eða stóðu á höfði magalausir. Andlitin urðu svo afmynduð, að þau þekktust ekki, og hefði einhver freknu, þá mátti að vísu ganga, að hún tæki yfir nefið og munninn. Þetta sagði „defillinn“, að væri ódáði skemmtilegt. Rynni einhverjum eitthvað gott og guðlegt í huga, þá kom fram háðglott í speglinum, svo að seiðskrattinn gat ekki annað en hlegið að hinni hugvitslegu uppfinningu sinni. Allir, sem gengu í svarta skóla, því svarta skóla hélt „defillinn“, þeir fóru víðs vegar og sögðu frá, að nú væri furðuverk unnið. Nú kváðu þeir fyrst mega sjá, hvernig veröldin og mennirnir litu út í raun og veru. Þeir hlupu út um allar trissur með spegilinn, og að lokum var ekki nokkur maður né nokkurt land, sem ekki hafði verið skælt og bjagað í honum. Nú vildu þeir einnig fljúga til himna, til þess að draga dár að englunum og guði. Því hærra, sem þeir flugu með spegilinn, því meira gríndi hann. Það var með naumindum, að þeir gætu haft handastjórn á honum. Þeir flugu hærra og hærra og færðust í nánd við guð og englana. Þá hristist spegillinn svo ákaflega, um leið og hann gríndi, að hann hrökk út úr höndunum á þeim, féll til jarðar og brast þar sundur í ótal stykki, hundrað milljónir, billjónir og þaðan af fleiri, og hlaust þá enn meira illt af honum en áður, því sum stykkin voru varla eins stór og sandkorn, og flugu þau víðs vegar um alla veröld, og þar sem þau lentu í augum manna, þar sátu þau föst, og sáu þeir menn allt öfugt eða höfðu ekki sjón á öðru en því, sem skakkt var og rangt í hverjum hlut, því hver örlítil spegilögn hafði haldið sömu náttúrunni, sem allur spegillinn hafði. Sumir menn urðu fyrir því, að dálítil spegilbrot lentu í hjartanu, og það var nú hræðilegt. Hjartað varð þá kalt eins og klakastykki. Sum spegilbrotin voru svo stór, að þau urðu notuð fyrir rúðugler, en ekki var hollt að horfa á vini sína út um þær rúður. Önnur brot voru höfð í gleraugu og fór þá illa, er menn settu þau upp, til að sjá rétt og vera réttlátir. Þá hló „sá vondi“ svo dátt, að hann ætlaði að springa. Svo var honum dillað. En til og frá í loftinu flugu enn að auki lítil glerbrot. Og víkur nú til sögunnar. Annar þáttur: Lítill drengur og lítil stúlka Í stórborginni, þar sem svo mörg eru húsin og fólkið, að ekki er nægilegt rúm til þess, að allir geti átt sér dálítinn jurtagarð, svo flestir verða að láta sér nægja blóm í jurtapottum, – þar voru þó tvö fátæk börn, sem áttu sér jurtagarð, er var nokkru stærri en jurtapottur. Þau voru ekki systkini, en svo vænt þótti þeim hvoru um annað, að það var jafngott sem þau væru systkini. Foreldrar þeirra bjuggu hvorir gegnt öðrum í tveimur þakherbergjum. Og þar sem þakið á öðru nábúahúsinu nam við þakið á hinu og vatnsrennan lá með þakbrúnunum, þar var dálítill gluggi á hvoru húsinu um sig. Það þurfti ekki annað en að skrefa yfir rennuna, þá var maður kominn úr einum glugganum yfir í hinn. Foreldrarnir höfðu fyrir utan hjá sér stóra trékassa og uxu í þeim matjurtir, sem þau notuðu, og dálítið rósatré að auki, sitt í hvorum kassa og uxu þau prýðis vel. Nú tóku foreldrarnir upp á því að setja kassana þvers yfir rennuna, svo að þeir náðu því nær úr einum glugganum yfir að hinum og voru tilsýndar eins og tvö blómsturgerði. – Baunablómteinungarnir löfðu niður af kössunum, og út úr rósatrjánum spruttu langar greinar, undu sig um gluggana og seildust hverjar að öðrum. Það var nærri því eins og heiðurshlið úr blöðum og blómum. Af því nú að kassarnir voru æði háir, og börnin vissu, að þau máttu ekki skríða þangað upp, þá var þeim oft leyft að stíga út, hvoru til annars, og sitja á litlu fótskemlunum sínum undir rósunum, og léku þau sér þá saman mjög svo ánægjulega. Á veturna var úti um þá ánægju. Oft voru gluggarnir allagðir, en þá hituðu þau eirskildinga á ofninum, lögðu svo heitan skildinginn við frosna rúðuna, og varð þá ljómandi gott gægjugat, fallega kringlótt. Þar að baki gægðist út svo elskulega blítt auga, sitt við hvorn gluggann. Það var litli drengurinn og litla stúlkan, sem þar horfðu út um. Hann hét Karl, en hún Helga. Á sumrin gátu þau komist í einu hendingskasti hvort til annars, en á veturna urðu þau fyrst að fara svo mörg stigaþrepin ofan og svo mörg upp aftur. Úti fyrir var fjúk og éljagangur. „Það eru hvítu býflugurnar, sem núna eru á ferðinni,“ sagði amma gamla. „Eiga þær sér líka drottningu?“ sagði litli drengurinn, því hann vissi, að réttu býflugurnar eiga sér drottningu. „Já, það eiga þær reyndar,“ sagði amma, „hún flýgur, þar sem þær sveima þéttast. Hún er stærst þeirra allra og aldrei bíður hún um kyrrt á jörðinni. Hún flýgur upp aftur í svarta skýjabólsturinn. Marga vetrarnóttina flýgur hún um borgarstrætin og gægist inn um gluggana, og þá hélar svo fáránlega, alveg eins og með blómstrum.“ „Já, það hef ég séð,“ gullu við bæði börnin hvort um sig, og nú vissu þau, að þetta var sannleikur. „Getur snjódrottningin komist hingað inn?“ spurði litla stúlkan. „Komi hún bara!“ sagði drengurinn, „ég set hana þá upp á ofninn og þá bráðnar hún.“ En amma sléttaði á honum hárið og sagði honum aðrar sögur. Um kvöldið, þegar Karl var afklæddur til hálfs, þá klifraðist hann upp á stólana við gluggana og gægðist út um litla gatið. Fyrir utan féllu niður tveir fjúkhnoðrar og annar þeirra, sá stærri, lá kyrr, þar sem hann var kominn á ystu brún annars blómsturskassans. Fjúkhnoðrinn stækkaði meira og meira og loksins varð hann að konu í fullri stærð. Hún var í hvítum hjúpi afar smágjörvum, og var hjúpurinn eins og samsettur af milljónum stjörnulíkra hnoðra. Hún var svo fögur og fín, en öll af ísi, björtum, blikandi ísi. Samt var hún lifandi. Augun störðu eins og tvær skærar stjörnur, en engin eirð né ró var í þeim. Hún kinkaði kolli til gluggans og benti með hendinni. Litli drengurinn varð hræddur og stökk niður af stólnum. Var þá sem stór fugl flygi fyrir gluggann. Daginn eftir var frost með heiðríkju. – Eftir það gekk í þeyviðri, og svo kom vorið með glaða sólskini. Grænkan fór að gægjast upp, og svölurnar tóku að byggja hreiður sín, gluggunum var lokið upp og litlu börnin sátu aftur í garðholunni sinni hátt uppi í þakrennunni, öllum húsgólfum ofar. Rósirnar blómguðust á því sumri svo frábærlega vel. Litla stúlkan hafði lært sálm, og í honum var minnst á rósir, sem hún heimfærði í huganum upp á sínar eigin rósir. Og hún söng sálminn fyrir litla drenginn, og hann söng hann með henni: Við barnið Jesúm best oss gefst að tala, Þar blómgast rósir neðst í lægðum dala. Og bæði litlu börnin héldust í hendur, kysstu rósirnar og horfðu inn í guðs bjarta sólskin og töluðu við það eins og Jesúbarnið væri þar. Hvílíkir sumardagar, hvílík unun að vera hjá rósarunnunum gróðursælu, sem aldrei sýndust ætla að hætta að bera blóm! Þau Karl og Helga sátu og voru að skoða myndabókina sína, dýramyndir og fugla. Bar þá svo til – rétt í því er klukkan sló fimm í kirkjuturninum stóra – að Karl sagði: „Æ, þar fékk ég sting í hjartað og núna fór eitthvað upp í augað á mér.“ Litla stúlkan lagði hendur um háls honum. Hann deplaði augunum, en það sá ekkert á þeim. „Ég held það sé farið,“ sagði hann. En það var ekki farið. Það var einmitt eitt af þessum glerkornum, sem hrokkið höfðu úr speglinum, gjörningaspeglinum, – ótætis glerinu, sem gerði það að verkum, að allt mikilhæft og ágætt, sem speglaðist í honum, varð smátt og afskræmislegt, – en lét hins vegar allt illt og hraklegt sjást sem greinilegast, og alla annmarka á hlutunum í ljós koma þegar í stað. Vesalings Karl! Það hafði líka lent ofurlítil glerbrotsögn í hjarta hans. Það var auðvitað, að það mundi bráðum verða eins og ískökkur. „Því ertu að gráta?“ sagði hann, „þú verður þá svo ljót í framan. Það gengur ekkert að mér. Svei!“ kallaði hann upp allt í einu, „rósin þarna er ormstungin, og sko, þessi þarna er rammskökk. Þær eru rétt á borð við kassann, sem þær standa í,“ og þar með spyrnti hann fæti í kassann og reif af báðar rósirnar. „Hvað ertu að hugsa?“ kallaði litla stúlkan, og er Karl sá, hvað hún varð hrædd, þá sleit hann af eina rósina enn, hljóp síðan burt frá blessaðri litlu telpunni og inn um gluggann sinn. Seinna, þegar hún kom með myndabókina, sagði hann, að hún væri rétt handa brjóstmylkingum, og segði amma sögur, þá var hann sí og æ að koma með sínar athugasemdir – já, meira að segja, þegar færi gafst, þá gekk hann á eftir henni, setti upp gleraugu og hermdi eftir málfæri hennar. Það var alveg eins, og hlógu menn að, hvað vel honum tókst. Hann varð bráðum svo mikil hermikráka, að hann gat hermt eftir hverjum manni þar í strætinu bæði í tali og göngulagi. Allt sem einkennilegt var hjá fólki og ekki fór vel á, það gat Karl leikið eftir, og sögðu menn þá: „Hann hefur víst gáfur í kolli, drengurinn sá arna,“ en það, sem gerði, það var glerið, sem lent hafði í auga hans, og glerið, sem sat fast í hjarta hans. Það var það, sem olli því, að hann var enda með ertingar við Helgu litlu, sem unni honum svo innilega. Leikir hans urðu nú á allt aðra leið en áður hafði verið. Þeir voru svo vitsmunalegir. Á einum vetrardegi, er snjóaði, kom hann með stórt eldgler, breiddi út lafið á bláa jakkanum sínum og lét snæhnoðrana falla niður á það. „Horfðu í glerið, Helga!“ sagði hann, og sýndist þá hver snæhnoðri miklu stærri og varð til að líta eins og skrautblóm eða tístrend stjarna. Það var ljómandi fallegt áhorfs. „Sérðu, hvað þetta er með listum gert?“ sagði Karl, „það er miklu tilkomumeira en virkilegu blómstrin, og það er ekki á þeim nokkur minnsti galli. Þeir eru alveg reglulegir, – ef þeir aðeins ekki bráðnuðu.“ Rétt á eftir kom hann með stóra vettlinga og sleðann sinn á bakinu. Hann hrópaði í eyra Helgu: „Mér hefur verið gefið til leyfis að aka á stóra plássinu þar sem hinir leika sér,“ og óðara var hann þotinn burt. Það bar oft til þar á plássinu, að röskustu drengirnir bundu sleða sína aftan í vagna bændanna og óku svo með þeim æðilangan spöl. Það gekk nú prýðilega. Þegar hæst stóð leikurinn, kom stór sleði. Hann var allur hvítmálaður og sat á honum einhver í hvítum loðfeldi með hvíta loðhúfu. Var sleðanum ekið tvisvar sinnum umhverfis plássið, og var Karl ekki seinn á sér að binda litla sleðann sinn aftan við þann stóra og ók hann svo með. Gekk það hraðara og hraðara, beint inn í næsta stræti. Ekillinn á sleðanum kinkaði svo vingjarnlega kolli til Karls, það var eins og þeir þekktust. Í hvert sinn er Karl vildi leysa frá sleða sinn, þá kinkaði ekillinn aftur kolli, og sat nú Karl þar sem hann var kominn. Var nú ekið beint út úr borgarhliðinu. Þá fór snjónum að kingja svo niður, að drengurinn sá ekki handaskil, er hann rann áfram. Þá sleppti hann snærinu til að losna við stóra sleðann, en það dugði ekki hót. Litla akfærið hans hékk fast við og rann svo hratt sem vindur blési. Hann æpti hástöfum, en enginn heyrði til hans. Snjóinn dreif niður, og sleðinn rann óðfluga áfram. Og þess á milli tókst hann á loft, og var sem hann hentist yfir gryfjur og gerði. Karl var dauðhræddur og ætlaði að lesa Faðirvor, en hann mundi þá ekkert annað en stóru töfluna. Snæhnoðrarnir urðu alltaf stærri og stærri, og seinast voru þeir tilsýndar eins og stórar, hvítar hænur. Allt í einu þutu þeir til hliðar, og stöðvaðist þá stóri sleðinn. Ekillinn stóð upp, og sást þá, að feldurinn og húfan voru úr eintómum snjó. Þetta var þá kona, sem ekið hafði, há og réttvaxin og skínandi hvít, það var snædrottningin. „Vel hefur okkur skilað áfram,“ sagði hún. „En hvað er nú að láta sér verða kalt? Skríddu hérna inn í bjarnarfeldinn minn.“ Setti hún hann þá í sleðann hjá sér og vafði um hann feldinum og var honum þá eins og hann sykki niður í snjóskafl. „Er þér kalt ennþá?“ sagði hún og kyssti hann á ennið. Sá koss var ísi kaldari og lagði þann kulda að hjarta hans, sem þegar áður var hálfvegis orðið að ískekki. Honum fannst eins og hann væri að deyja, en það var ekki nema í svip. Á eftir varð honum einmitt svo notalegt. Hann fann ekki framar til nepjunnar, sem næddi í kringum hann. „Gáið að sleðanum, gleymið ekki sleðanum mínum!“ kallaði hann, því fyrst mundi hann eftir honum. Var sleðinn þá bundinn á eina af hvítu hænunum, og flaug hún á eftir með sleðann á bakinu. Snædrottningin kyssti Karl ennþá einu sinni og hafði hann þá í sama bili gleymt Helgu litlu, ömmu sinni og öllum þeim, sem heima voru. „Nú færðu ekki fleiri kossa,“ sagði hún, „því kyssi ég þig oftar, þá yrði það þinn bani.“ Karli varð starsýnt á hana, því hún var fyrirtaks fríð. Gáfulegra og yndislegra andlit en hennar gat hann ekki hugsað sér. Nú virtist hún ekki vera öll af ísi, eins og þegar hún sat fyrir utan gluggann og benti honum. Hún var í hans augum alfullkomin, og ekki fann hann til minnstu hræðslu. Hann sagði henni, að hann kynni að reikna í huganum og það enda með brotum. Að hann vissi stærð landanna að flatarmáli og íbúatölu þeirra, – og alltaf brosti snædrottningin. Þótti honum þá ekki það vera nóg, sem hann vissi, og horfði upp í víðan loftgeiminn. Og hún flaug með hann, flaug hátt upp á skýið svarta. Stormurinn hvein og beljaði. Það var sem hann syngi forna söngva. Þau flugu yfir skóga og vötn, yfir höf og lönd. Fyrir neðan þau næddi ískaldur vindurinn, og úlfarnir ýlfruðu. Það stirndi á fannahjarnið, og yfir það flugu svartar, gargandi krákur, en hátt uppi skein tunglið stórt og bjart, og á það horfði Karl um hina löngu, löngu vetrarnótt, en á daginn svaf hann við fætur snædrottningrinnar. Þriðji þáttur: Blómagarðurinn hjá fjölkunnugu konunni En hvernig leið nú Helgu litlu, þegar Karl kom ekki fram? Hvað mundi vera orðið af honum? Það vissi enginn og frá því kunni enginn að skýra, nema það eitt sögðu drengirnir, að þeir hefðu séð hann binda litla sleðann sinn aftan í annan stóran og skrautlegan. Hefði hann svo ekið inn í strætið og út um borgarhliðið. Enginn vissi, hvað orðið var af honum og voru nú felld mörg tárin, og Helga litla grét sárt og lengi. Svo sögðu menn hann væri dauður, hann hefði sokkið niður í fljótið, sem rann fram með borginni. Ó, hvað vetrardagarnir voru þá dimmir og langir! Nú kom vorið og fylgdi því hlýrra sólskin. „Karl er dáinn og horfinn,“ sagði Helga litla, „Því trúi ég ekki,“ sagði sólskinið. „Hann er dáinn og horfinn,“ sagði hún við svölurnar. „Því trúum við ekki,“ sögðu þær, og að síðustu trúði Helga litla því ekki heldur. „Ég ætla að setja upp rauðu skóna mína nýju,“ sagði hún einhvern morguninn, „skóna, sem hann Karl sá aldrei. Svo fer ég ofan að fljótinu og spyr það.“ „Er það satt, að þú hafir tekið hann litla leikbróður minn? Þú skalt fá rauðu skóna mína, ef þú skilar mér honum aftur.“ Og nú virtist henni sem bylgjurnar kinkuðu svo undarlega kolli, og tók hún þá rauðu skóna, sem henni þótti vænst um af því, er hún átti, og fleygði þeim út í fljótið, en þeir komu niður rétt hjá bakkanum, og báru litlu bylgjurnar þá aftur að landi til hennar. En nú hélt hún, að hún hefði ekki kastað þeim nógu langt út, og fór því út í bát, sem lá þar í sefinu, – fram í stafninn og fleygði út skónum. En báturinn var ekki fastur við land, og af hreyfingu þeirri, er við þetta kom á hann, þá þokaði honum frá landi. Hún tók eftir því og ætlaði að komast burt sem fljótast, en áður en það tækist, var báturinn kominn meira en álnarlengd frá landi og bar hann nú æ hraðara á burt. Þá varð Helga litla dauðhrædd og tók að gráta, en enginn heyrði það, nema gráspörvarnir, og þeir gátu ekki borið hana á land, en þeir flugu með bakkanum og sungu eins og til að hugga hana: „Hér erum við, hér erum við.“ Bátinn rak forstreymis, en Helga litla sat grafkyrr á sokkunum einum. Rauðu skóna rak á eftir bátnum, en þeir gátu ekki náð honum. Það var hraðari skriður á honum en svo. Fagurt var þar umhorfs beggja megin fljótsins, yndisfögur blóm og gömul tré, og brekkur kvikar af sauðum og kúm, en maður sást þar enginn. „Hver veit nema fljótið beri mig til Karls litla,“ hugsaði Helga og fór þá að glaðna yfir henni. Hún stóð upp og horfði stundunum saman á fögru grænu fljótsbakkana. Kom hún þá að stórum kirsuberjagarði, og var þar húskorn með undarlegum gluggum, rauðum og bláum. Að öðru leyti var það með hálmþaki, og stóðu fyrir utan það tveir trémenn. Það voru dátar og brugðu þeir byssunum um öxl fyrir þeim, sem fram hjá sigldu. Helga kallaði til þeirra, hún hélt þeir væru lifandi, en auðvitað gegndu þeir henni ekki. Hún kom rétt að þeim, því straumurinn bar bátinn beint að landi. Helga kallaði nú hærra, og kom þá út úr húsinu gömul kona, og staulaðist hún við krókstaf. Hún hafði stóran sólhatt á höfði; og voru málaðar á hann litmyndir fegurstu blóma. „Veslings barnkind!“ sagði gamla konan, „hvernig hefur þú borist út á þennan mikla og stríða straum og rekist út í víða veröld?“ og um leið óð hún út í vatnið, krækti í bátinn með stafnum sínum, dró hann að landi og kippti Helgu litlu á land. Helga var nú fegin að vera komin á þurrt land, en hrædd samt í meira lagi við þessa ókunnu, öldruðu konu. „Komdu nú og segðu mér,“ mælti konan, „hver þú ert og hvernig á því stendur, að þú ert hingað komin.“ Og Helga litla sagði henni allt sem var, en gamla konan hristi höfuðið og sagði: „Humm, humm!“ og er Helga hafði lokið sögu sinni og spurt, hvort hún hefði ekki séð Karl litla, þá sagði konan, að ekki hefði hann farið þar um, en hann mundi víst koma. Hún skyldi ekki vera sorgbitin, heldur smakka á kirsuberjunum sínum og skoða blómin sín, þau væru fallegri en nokkur myndabók, og þau gæru, hvert um sig, sagt henni heila sögu. Tók hún síðan Helgu við hönd sér og gengu þær inn í litla húsið og lokaði konan hurðinni. Gluggarnir voru ofarlega og glerrúðurnar í þeim voru rauðar, bláar og gular, og undarlega lýsti dagsbirtan þar inn með öllum litum, en á borðinu voru ágæt kirsuber, og át Helga af þeim svo mörg sem hana lysti, því það mátti hún. Og meðan hún neytti berjanna, kembdi gamla konan hár hennar með gullkambi, og hárið liðaðist og skein svo fagurgult kringum litla vinalega andlitið, sem var svo kringluleitt og svo blómlegt sem rós á vordegi. „Svona elskulega smámey hef ég lengi þráð,“ sagði gamla konan. „Og nú muntu sjá, hvort okkur fellur ekki vel að vera saman,“ og jafnóðum og konan kembdi hár Helgu litlu, þá gleymdi hún Karli, uppeldisbróður sínum, meir og meir, því gamla konan kunni töfralist, en vond töfrakona var hún þó ekki. Hún beitti aðeins töfrabrögðunum lítið eitt, og þá sér til gamans, og nú var henni mikill hugur á að halda Helgu litlu hjá sér. Fór hún því út í garð og rétti út krókstafinn sinn gegn öllum rósatrjánum, og þrátt fyrir það, að þau voru í fegursta blóma, þá sukku þau nú niður í svarta moldina, og varð ekki séð, hvar þau höfðu staðið. Gamla konan var hrædd um, að þegar Helga sæi rósirnar, þá færi hún að hugsa um sínar eigin rósir og minntist þá Karls litla og hlypi svo sína leið. Nú fór hún með Helgu út í blómagarðinn. En sá ilmur og indæli, sem þar var! öll hugsanleg blóm – og það eins og samsvaraði hverri árstíð, – voru þar samankomin og blómguðust prýðilega. Engin myndabók gat verið margbreytilegri að litum né fegurri. Helga hoppaði upp af gleði og lék sér, þangað til sólin rann að baki hinna hávöxnu kirsuberjatrjáa. Þá var henni búin forkunnar fögur hvíla með rauðum silkidýnum, sem stoppaðar voru með bláum fjólum, og í þeirri hvílu sofnaði hún og dreymdi svo yndislega sem nokkra drottningu getur dreymt á brúðkaupsdegi sínum. Daginn eftir gat hún leikið sér aftur við blómin í sólskininu, og þannig liðu margir dagar. Helga þekkti hvert blóm, en allt hvað þau voru mörg, þá fannst henni samt eitt vanta, en hvaða blóm, – það vissi hún ekki. Þá var það, að hún sat einn dag með sólhatt gömlu konunnar með máluðu blómamyndunum á, en fegursta blómið, sem málað var á hattinn, var einmitt rós. Gömlu konunni hafði gleymst að má hana af hattinum, þegar hún kom hinum blómunum niður í jörðina. En það fer nú svona stundum, þegar ekki er alls gætt. „Hvað þá!“ sagði Helga, „eru hér engar rósir?“ og hljóp inn á milli beðanna og leitaði og leitaði, en þar var engar rósir að finna. Settist hún þá niður og grét, en tár hennar féllu einmitt þar sem eitt af rósatrjánum hafði sokkið niður, og þegar heit tárin vökvuðu jörðina, þá þaut rósatréð upp allt í einu og var þá eins blómlegt og þegar það hafði sokkið niður í jörðina. Og Helga faðmaði það og kyssti rósirnar og hugsaði til rósanna, sem heima voru, og jafnframt til Karls litla. „Æ, hvað ég hef tafist!“ sagði Helga, „ég, sem átti að finna hann Karl. Vitið þið, hvar hann er?“ sagði hún við rósirnar. „Haldið þið, að hann sé dauður?“ „Ekki er hann dauður,” sögðu rósirnar. „Við höfum verið í jörðinni, þar eru allir hinir dauðu, en Karl var þar ekki.“ „Þakka ykkur fyrir,“ sagði Helga litla og fór þá til hinna blómanna, horfði í bikar þeirra og mælti: „Vitið þið ekki, hvar hann Karl litli er?“ En hvert og eitt blóm stóð í sólskininu og dreymdi sitt eigið ævintýri, og af þeim ævintýrum fékk Helga svo mörg, svo mörg að heyra, en ekkert blómanna kunni neitt af Karli að segja. Og hvað sagði eldliljan? „Heyrirðu trumbuna: bumm, bumm! Það eru aðeins tveir tónar, ætíð: bumm, bumm! heyrðu sorgarsöng kvennanna, heyrðu óp prestanna! Hindúakonan stendur uppi á bálkestinum í síða rauða möttlinum sínum. Eldslogann leggur upp um hana og líkið mannsins hennar látna. En Hindúakonan er að hugsa um lifandi manninn hérna í mannhringnum, um hann, sem hefur þann eld í augum, er heitar brennir en logi, augna eldinn þann, er næmara nemur hjarta hennar en bálið, sem bráðum brennir líkama hennar til ösku. Getur logi hjartans dáið út í loga líkbrennunnar?“ „Þetta skil ég alls ekki,“ sagði Helga litla. „Þetta er mitt ævintýri,“ sagði eldliljan. „Hvað segir „samvafi“?“[*] [* Blómið convolvulus.] „Þar sem götustígurinn þröngi liggur utan í fjallinu, gnæfir gömul riddaraborg. Bergfléttan þétta vex upp með hinum öldnu, rauðu múrum, lauf við lauf, og vefur sig um loftsvalirnar. Uppi á þeim stendur yndisfögur stúlka. Hún hallar sér út yfir brjóstriðið og horfir ofan eftir veginum. Ekki hangir nein rós á greinunum, er blómlegri sé en hún. Ekkert eplablómstur, þegar vindblærinn feykir því af trénu, er svifléttara en hún. Hversu skrjáfar í skrautlega silkikyrtlinum hennar! „Skyldi hann þá ekki ætla að koma?“ „Er það hann Karl, sem þú átt við?“ mælti Helga litla. „Ég er ekki að tala um annað en ævintýrið mitt og drauminn minn,“ svaraði samvafi. „Hvað segir snæklukkan litla?“ „Á milli trjánna hangir fótafjölin langa í strengjum. Það er róla. Tvær forkunnar fríðar smámeyjar – kjólar þeirra eru hvítir sem mjöll og löng, græn silkibönd blakta aftur af höttum þeirra – þær sitja og eru að róla sér. Bróðirinn, sem er stærri en þær systurnar, stendur í rólunni, hann hefur brugðið handleggjunum um strenginn til þess að halda sér. Í annarri hendinni heldur hann á skál, en í hinni á krítarpípu. Hann þeytir upp sápubólum. Rólan er á ferðinni og bólurnar fljúga með ljómandi litbrigðum. Síðasta bólan hangir enn við pípulegginn og sveigist til í loftblænum. Rólan er á ferðinni. Litli hundurinn svarti, léttur á sér eins og bólurnar, rís upp á afturfæturna og, vill komast með í róluna. Bólan flýgur, hundurinn gjammar og er illur. Hann gabbast, bólurnar springa – ruggandi fjöl, rifnandi froðumynd – það er minn söngur.“ „Það má vel vera, að það sé fallegt, sem þú segir frá, en þú segir það svo raunverulega og nefnir ekki Karl á nafn. – Hvað segja hýasinturnar?“ „Þrjár voru systurnar fríðar, gagnsæjar og fíngerðar. Ein var í rauðum kyrtli, önnur í bláum, þriðja í hvítum. Þær héldust í hendur og dönsuðu hjá lygna stöðuvatninu í glaða tunglskini. Þær voru ekki álfameyjar, þær voru mennskra manna börn. Þar ilmaði svo sætt, og meyjarnar hurfu í skóginum. Ilmurinn varð megnari. Þrjár líkkistur liðu fram úr skógarþykkninu yfir vatnið, og í þeim lágu hinar fríðu meyjar. Ljósormarnir flugu skínandi allt umhverfis eins og svífandi smáljós. Sofa þær dansmeyjarnar eða eru þær dauðar? Blómilmurinn segir, að þær liggi á líkfjölum. Kvöldklukkan hringir yfir hinum dauðu.“ „Þú gerir mig sárhrygga,“ sagði Helga litla, „ilmurinn af þér er svo megn. Ég get ekki annað en hugsað um meyjarnar dánu. Er það þá víst, að Karl litli sé dauður? Rósirnar hafa verið niðri í jörðinni, og þær segja, að svo sé ekki.“ „Kling, kling, kló!“ hringdu klukkur hýasintunnar. „Ekki hringjum við yfir Karli litla, við þekkjum hann ekki. Við syngjum aðeins vísuna okkar, þá einu sem við kunnum.“ Og Helga fór til sóleyjarinnar, sem glóði fram á milli gljágrænu blaðanna sinna. „Þú ert lítil, ljómandi sól,“ sagði Helga. „Segðu mér, hvort þú veist, hvar ég muni geta fundið hann leikbróður minn?“ Og sóleyjan ljómaði svo fagurlega og leit aftur til Helgu. Hvaða vísu mundi nú sóleyjan syngja? Ekki var hún heldur um Karl. „Í litlum húsgarði skein sólin guðs vors svo hlýtt á hinum fyrsta vordegi. Geislarnir liðu ofan eftir hvíta húsveggnum nábúans, og rétt þar hjá greru fyrstu gulu blómin og glóðu gullfögur í sólarylnum. Amma gamla var komin út og sat í hvílustólnum sínum. Dótturdóttir hennar, fátæk og lagleg vinnustúlka, kom heim aftur. Hún hafði brugðið sér burt í sturta kynnisför. Hún kyssti ömmu sína. Það var gull, hjartans gull í þeim signaða kossi. Gull á munni, gull í grunni, gull í lundu, gull þar efra um morgunstundu. Þetta er nú sögukornið mitt,“ sagði sóleyjan. „Veslings gamla amma mín,“ sagði Helga og stundi við, „hún þráir mig víst og er mjög sorgbitin mín vegna, eins og hún var það vegna hans Karls litla. En ég kem bráðum heim aftur og hef þá Karl með mér. Það er ekki til neins fyrir mig að spyrja blómin. Þau kunna vísurnar sínar, en annað ekki. Þau fræða mig ekki um neitt.“ Síðan stytti hún upp litla kjólinn sinn til þess að geta gengið hraðara, en hvítasunnuliljan flæktist um fót hennar í því að hún stökk yfir hana. Stóð Helga þá kyrr, virti fyrir sér blómið hið langa og gula og sagði: „Það skyldi þó ekki vera, að þú vissir eitthvað?“ Og beygði hún sig þá alveg ofan að liljunni. Og hvað sagði hún? „Ég get séð mig sjálfa, ég get séð mig sjálfa,“ sagði hún. „Ó, ó, hvað ég ilma! Uppi í litla þakherberginu stendur dálítil dansmey, klædd til hálfs, hún stendur ýmist á einum fæti, ýmist á tveimur. Hún sparkar við heiminum öllum. Hún er ekki annað en eintóm sjónhverfing. Hún hellir vatni úr tekönnunni á spjörina, sem hún heldur á, það er lífstykkið. Hreinlætið er dýrmætt. Hvíti kjóllinn hangir á snaganum, hann er líka þveginn upp úr tekönnunni og þurrkaður á þakinu. Hún fer í hann og lætur saffranlita klútinn um hálsinn á sér. Þá sýnist kjóllinn hvítari. Upp með fótinn! sko, hvað hún stendur þráðbein upp á einum legg! ég get séð mig sjálfa, ég get séð mig sjálfa.“ „Ekki hirði ég minnsta hót um það,“ sagði Helga, „og ekki er sú saga við mitt hæfi,“ og hljóp hún svo yfir í enda garðsins. Hurðin var lokuð, en hún rykkti í ryðgaða járnhespuna, svo að upp gekk kengurinn, og hrökk upp hurðin, og hljóp Helga þá berfætt út í víða veröld. Hún leit þrisvar aftur fyrir sig, en sá engan, er veitti sér eftirför. Loksins varð hún uppgefin af hlaupunum og settist á stóran stein, og er hún litaðist um, þá sá hún, að sumarið var á enda og komið langt fram á haust, en þess hafði ekki orðið vart í garðinum indæla, þar sem alltaf var sólskin og blómgróður allra árstíða. „Guð hjálpi mér, hvað ég hef orðið sein á mér,“ sagði Helga, „það er þá komið haust. Mér er sannarlega ekki til setu boðið,“ og hún stóð upp til að halda áleiðis. Ó, hvað fætur hennar voru aumir og lúnir og allt var svo nepjulegt og hráslagalegt í kringum hana. Löngu blöðin á píltrjánum voru orðin alveg gulnuð og seitlaði niður af þeim suddavætan. Hvert laufið féll niður af öðru, og það var slóþyrnirinn einn, sem nú bar ávexti, en þeir voru rammir og barkandi í munni. Ó, hvað nú var grátt og ömurlegt í víðri veröld! Fjórði þáttur: Prins og prinsessa Helga varð nú að hvíla sig í annað sinn. Bar þá svo til, að stór kráka kom hoppandi á fönninni beint fyrir framan hana, þar sem hún sat. Krákan hafði setið lengi, horft hana og lagt kollhúfurnar, en loksins sagði hún: „Krá, krá! – gó dægi, gó dægi!“ Hún gat nú ekki betur gert, en hún vildi litlu stúlkunni svo vel og spurði, hvað hún væri að flækjast svona alein út í víða veröld. Þetta orð: alein, skildi Helga mjög vel. Hún fann til fullnustu, hve mikið í því lá, og sagði því næst krákunni alla sína ævisögu og spurði, hvort hún hefði ekki séð hann Karl litla. Krákan kinkaði kollinum íbyggnislega og sagði: „Það gæti verið, það gæti verið.“ „Hvað þá? heldurðu það?“ kallaði Helga og var nærri búin að kæfa krákuna, svo ákaft kyssti hún hana. „Stilltu þig, stilltu þig,“ sagði krákan. „Ég held það geti verið hann Karl litli, en nú þykir honum svo vænt um prinsessuna, að hann er víst búinn að gleyma þér.“ „Heldur hann til hjá prinsessu?“ spurði Helga. „Já, heyrðu,“ sagði krákan, „en mér veitir svo erfitt að tala þitt tungumál. Skilurðu krákumál? Ef svo væri, þá gengi mér betur frásögnin.“ „Nei, það hef ég ekki lært,“ sagði Helga, „en amma mín kunni það og hún kunni pé-mál. Ég vildi óska, að ég hefði lært það.“ „Jæja, það gerir þá ekkert til,“ sagði krákan, „ég skal segja eins vel frá og ég get, en tómur ómyndarskapur verður það.“ Og sagði hún nú allt sem hún vissi. „Í þessu kóngsríki, þar sem við nú dveljum, býr prinsessa nokkur, sem er frábærlega vitur, en hún hefur líka lesið öll þau dagblöð, sem til eru í heiminum, og gleymt þeim aftur. Svo vitur er hún. Fyrir skömmu settist hún á veldisstólinn, og er það ekki sem skemmtilegast, að því er sagt er. Þá tekur hún upp á því að raula vísu eina, og það var nú þessi: „Hvers vegna ætti ég þá ekki að giftast?“ „Heyrið þið, það er nokkuð um það,“ sagði hún, og svo vildi hún giftast, en hún vildi eiga mann, sem gæti svarað, þegar við hann væri talað, en ekki einhvern og einhvern, sem stæði stífur og sperrtur og ekkert segði, því það er svo leiðinlegt. Nú lét hún trumba saman öllum hirðdrósunum, og þegar þær heyrðu, hvað hún ætlaði sér, þá urðu þær himinlifandi. „Tarna líkar mér,“ sögðu þær, „þetta sama var ég að hugsa um fyrir skemmstu.“ „Þú mátt trúa því, að hvert orð, sem ég tala, er sannleikur,“ sagði krákan. „Ég á tamda kærustu, sem er heimagangur í höllinni, og hún hefur sagt mér frá því öllu eins og það er.“ Kærastan var auðvitað kráka, því að „líkt á við líkt,“ og „kráka kýs sér kráku að maka.“ Dagblöðin komu óðara út með hjartnarönd í kringum og nafnmerki prinsessunnar. Þar mátti lesa, að hverjum laglegum ungum manni skyldi heimilt að koma í höllina og tala við prinsessuna, og þann, sem talaði svo, að heyra mætti, að hann ætti þar heima, og kæmi best fyrir sig orði, þann mundi prinsessan kjósa sér að eiginmanni. – „Já, já,“ sagði krákan, „þú mátt trúa mér, það er svo satt sem ég sit hér, mesti fjöldi flykktist þangað, og varð mikill troðningur og vaðall, en ekki tókst það, hvorki fyrsta né annan daginn. Þeim var fullliðugt um málbeinið, þegar þeir voru úti á strætinu, en þegar þeir voru komnir inn um hallarhliðið og sáu höfuðverðina silfurskreytta og hirðþjónana gullbrydda upp um allar tröppurnar, og stóru salina ljósum lýsta, þá urðu þeir utan við sig, og stæðu þeir frammi fyrir hásætinu, þar sem prinsessan sat, þá gátu þeir ekkert sagt nema seinasta orðið, sem hún hafði sagt, og það kærði hún sig ekki um að heyra í annað sinn. Það var eins og mennirnir yrðu fálkaðir þar inni og vissu ekki sitt rjúkandi ráð, þangað til þeir komu út á götuna aftur, því þá vantaði ekki, að þeir gátu talað. Þarna stóð manngarðurinn frá borgarhliðinu og alla leið að höllinni. Ég var sjálf þar inni til að horfa á þetta,“ sagði krákan. „Þeir urðu bæði svangir og þyrstir, en í höllinni fengu þeir ekki svo mikið sem kaldan vatnssopa. Reyndar höfðu sumir þeir hyggnustu haft með sér smurðar brauðsneiðar, en þeir gáfu ekki náunganum minnsta munnbita. Þeir hugsuðu með sér: [** ,]Það gildir einu, þó það sjáist á honum, að hann er svangur, þá tekur prinsessan honum ekki'.“ „En hann Karl litli?“ spurði Helga. „Hvenær kom hann? Var hann á meðal þessara mörgu?“ „Vertu nú hæg, vertu nú hæg! ég er nú rétt komin að honum. Það var á þriðja degi, þá kom lítill maður hestlaus og vagnlaus og sprangaði alveg ófeiminn upp í höllina. Hann var fagureygður eins og þú og hafði ljómandi fallegt og sítt hár, en að öðru leyti var hann fátæklega til fara.“ „Það hefur verið Karl,“ sagði Helga og komst á loft af fögnuði. „Ó, þá er ég búinn að finna hann,“ sagði hún og klappaði saman lófunum. „Hann hafði skreppu á baki,“ sagði krákan. „Það hefur verið sleðinn hans,“ sagði Helga, „því hann hafði með sér sleðann, þegar hann fór.“ „Það getur vel verið,“ sagði krákan, „ég gáði ekki svo vandlega að því, en það hefur kærastan mín tamda sagt mér, að þegar hann kom inn um hallarhliðið og sá höfuðverðina silfurskreytta og hirðþjónana gullbrydda upp um allar tröppur, þá lét hann sér ekki nokkra vitund bilt við verða, heldur kinkaði hann kolli til þeirra og sagði við þá: [** ,]Það er víst leiðinlegt að standa á tröppunum. Þá kýs ég heldur að fara inn.' Þar voru þá salirnir uppljómaðir, og gengu þar stórgæðingar og ríkisráðherrar berfættir og báru gullskálar. En á margan gæti komið hik af minna. Það brakaði ákaflega í stígvélunum hans, en hann varð nú samt ekki smeykur.“ „Þetta hefur víst verið Karl,“ sagði Helga, „ég veit, að hann var í nýjum stígvélum, ég hef heyrt í þeim brakið heima í stofunni hennar ömmu.“ „Já, víst brakaði í þeim,“ sagði krákan, „og glaður og ófeilinn gekk hann beint fram fyrir prinsessuna. Hún sat á perlu, sem var á stærð við rokkhjól, og allar hirðdrósirnar með sínum þjónustumeyjum og þjónustumeyjum þjónustumeyjanna og allir riddararnir með þjónum sínum og þjónum þjónanna stóðu í röðum allt umhverfis, og því nær sem þeir stóðu dyrunum, því drembilegri voru þeir á svipinn. Undirtyllu þjóna-þjónsins, sem alltaf gengur á töplum, dirfist maður varla að líta upp á. Svo drembilegur er hann, þar sem hann stendur í dyrunum.“ „Ósköp hlýtur það að vera leiðinlegt,“ sagði Helga litla. „Og Karl hefur samt fengið prinsessuna?“ „Hefði ég ekki verið kráka, þá hefði ég átt hana, og það þó ég hafi mér konu festa. Hann kvað hafa talað eins vel og ég tala, þegar ég tala krákumál. Það hefur kærastan mín sagt mér. Hann var ófeiminn og indæll. Hann var alls ekki kominn í biðils erindum, heldur aðeins til að kynna sér vitsmuni prinsessunnar, og að þeim gast honum vel, enda gast þá henni vel að honum.“ „Já, víst hefur þetta verið Karl,“ sagði Helga, „hann var svo gáfaður, hann kunni hugarreikning með brotum. Æ, viltu ekki koma mér á framfæri í höllinni?“ „Já, það er nú auðsagt,“ mælti krákan, „en það er ekki auðgert. Hvernig eigum við þá að fara að því? Ég skal færa það í tal við kærustuna mína. Hún getur líklega lagt á ráðin. Því það verð ég að segja þér, að svona lítil telpa eins og þú, mun aldrei fá þar inn að koma.“ „Jú, það mun ég víst fá,“ sagði Helga. „Þegar Karl heyrir, að ég sé hér, þá mun hann undir eins koma út og sækja mig.“ „Bíddu mín við garðshliðið þarna,“ sagði krákan, kinkaði kolli og flaug burt. Krákan kom ekki aftur fyrr en um kvöldið, þegar dimmt var orðið. „Ná, ná!“ sagði hún. „Hún bað mig að bera þér kæra kveðju sína og hérna er dálítill brauðhleifur handa þér, hún tók hann í eldhúsinu. Þar er nóg af brauðinu og þú ert víst svöng. Það eru engin tiltök, að þú náir inn að ganga í höllina, – þú, sem ert berfætt. Silfurskreyttu höfuðverðirnir og gullbryddu þjónarnir mundu ekki leyfa það. En gráttu ekki, þú munt samt komast upp í höllina. Kærasta mín veit af bakriði, sem gengur upp að svefnherberginu, og hún veit, hvar hún getur náð í lykilinn.“ Og nú fóru þær inn í garðinn, inn í trjágöngin miklu, þar sem laufin voru að hrynja niður hvert af öðru, og er slökkt voru ljósin í höllinni hvert af öðru, þá fylgdi krákan Helgu litlu að bakdyrum nokkrum, er opnar stóðu í hálfa gátt. Hjartað barðist í brjósti Helgu af angist og eftirvæntingu. Henni fannst eins og hún ætlaði að fara að gera eitthvað illt, og þó var ekki annað í efni en það, að hún vildi verða þess vísari, hvort Karl litli væri þarna fyrir. Augun hans gáfulegu og síða hárið hans stóð svo lifandi fyrir hugskotssjónum hennar. Hún sá í anda, hvernig hann brosti eins og fyrrum, þegar þau sátu heima hjá rósunum. Hann mundi víst verða feginn að sjá hana, – feginn að heyra, hvað langa leið hún hafði gengið hans vegna, og fá að vita, hversu angruð þau hefðu öll saman orðið þar heima, þegar hann kom ekki aftur. Ó, það var ótti og það var fögnuður! Nú voru þær komnar upp á riðið. Logaði þar þá á litlum lampa uppi á skáp, og á miðju gólfinu sat krákan tamda, vaggaði kollinum til allra hliða og virti Helgu fyrir sér, þar sem hún stóð og hneigði sig eins og amma hennar hafði kennt henni. „Kærasti minn hefur sagt mér mikið gott af yður,“ mælti tamda krákan. „Manni hlýtur líka að renna til rifja það, sem fyrir yður hefur komið. Viljið þér taka lampann, – ég skal ganga á undan. Við göngum hér beint áfram, því þá mætum við engum.“ „Mér kemur svo fyrir, sem einhver sé rétt á eftir okkur,“ sagði Helga, og fór þytur nokkur fram hjá henni. Það var eins og skuggum svipaði eftir veggnum, hestar með flagsandi fax og granna fætur, veiðisveinar, tignarmenn og hefðarkvendi, allt ríðandi. „Það er ekki annað en draumarnir,“ sagði krákan, „þeir koma og stefna hugsunum hinna háu tignarhjóna til dýraveiða. Það er ekki nema gott, þér getið því betur virt þau fyrir yður í rúminu. En munið mig annars um það, ef þér komist til vegs og virðinga, að auðsýna þá þakklátt hjarta.“ „Það er nú svo sem óþarfi að vera að taka það fram,“ sagði krákan úr skóginum. Nú komu þær í fyrsta salinn. Hann var úr rósrauðu þykksilki með listgjörvum blómum upp eftir veggjunum. Þar þutu draumarnir þegar fram hjá þeim, en þeir fóru svo hratt, að Helga kom ekki auga á tignarhjónin. Var nú hver salurinn öðrum skrautlegri, svo að maður hlaut að falla í stafi – og nú voru þær komnar í svefnherbergið. Var loftið þar áþekkt stórum pálma með blöðum af gleri, dýrindis gleri, og á miðju gólfinu héngu tvær hvílur á gulllegg, og voru þær ásýndum eins og liljur. Önnur var hvít og í henni lá prinsessan, en hin var rauð og í henni átti Helga nú að leita Karls. Hún ýtti einu af rauðu blöðunum til hliðar og sá þá á dökkan hnakka. – Ó, það var Karl! – Hún kallaði nafn hans upphátt og hélt lampanum að honum – draumarnir þeystu aftur inn í stofuna – hann vaknaði og sneri við höfðinu, og þá var þetta ekki Karl litli. Prinsinn var ekki líkur honum nema um hnakkann, en ungur var hann og fríður. Og prinsessan gægðist fram úr liljuhvílunni sinni og spurði, hvað um væri að vera. Þá grét Helga litla og sagði upp alla sögu sína og hvað krákurnar hefðu gert fyrir sig. „Vesalingur litli!“ sögðu þau prinsinn og prinsessan, og hrósuðu þau krákunum og kváðust alls ekki vera þeim reið, en sögðu þó, að ekki mættu þær gera þetta oftar. Að öðru leyti skyldu þær fá verðlaun. „Viljið þið fljúga frjálsar út um allt?” sagði prinsessan, „eða viljið þið hafa fasta stöðu sem hirðkrákur með öllu því, er af hrýtur í eldhúsinu?” Og báðar krákurnar hneigðu sig og báðu um að mega komast í fasta stöðu, því þær hugsuðu til efri áranna og sögðu, að gott væri að hafa eitthvað til að taka, þegar komið væri á gamalsaldurinn. Og prinsinn reis upp úr hvílu sinni og lét Helgu sofa í henni. Hann gat ekki betur gert. Hún spennti greipar og hugsaði með sér: „Góðar eru manneskjurnar og góð eru dýrin.“ Síðan lét hún augun litlu aftur og svaf svo unaðslega vært. Allir draumarnir komu inn aftur fljúgandi og voru þá ásýndum eins og englar guðs. Þeir drógu lítinn sleða, og á honum sat Karl og kinkaði kolli. En þetta allt var einber draumur og þess vegna óðara horfið, er hún vaknaði. Daginn eftir var hún klædd í silki og flauel frá hvirfli til ilja. Henni var boðið að vera um kyrrt í höllinni og eiga góða daga, en hún beiddist þess eins, að hún mætti fá lítinn vagn með einum hesti fyrir og ein stígvél. Kvaðst hún svo mundu aka út í víða veröld til að leita að Karli. Hún fékk nú bæði stígvél og loðskinns-handskjól og var færð í ljómandi klæði, og er hún vildi fara af stað, var vagni af skíru gulli ekið að dyrunum. Ljómaði á honum skjaldarmerki prinsins og prinsessunnar, svo skært sem stjarna væri. Vagnstjóri, þjónar og forreiðarsveinar sátu þar með gullkórónur á höfðum. Prinsinn og prinsessan hjálpuðu Helgu upp í vagninn og óskuðu henni allrar hamingju. Skógarkrákan, sem nú var kvonguð, fylgdist með henni þrjár fyrstu mílurnar. Hún sat við hlið henni, því hún þoldi ekki að aka aftur á bak. Hin krákan var í hliðinu og barði vængjunum. Hún fylgdist ekki með, því að hún þjáðist af sífelldum höfuðverk frá því, er hún fékk fasta embættisstöðu og of mikið að borða. Að innan var vagninn fóðraður með sykurkringlum og í sætunum voru aldin og piparhnetur. „Verið þið sælar! verið þið sælar!“ kölluðu þau prinsinn og prinsessan, og Helga grét, og krákan grét með henni. Svona gekk það nú fyrstu mílurnar, en þá kvaddi krákan líka, og sá var skilnaðurinn sárastur. Hún flaug upp í tré og barði vængjunum svörtu, allt þangað til vagninn, glitrandi sem sólargeisli, – var horfinn henni úr augsýn. Fimmti þáttur: Ræningjastúlkan litla Nú var ekið gegnum dimman skóginn, en af vagninum lýsti eins og logandi ljósi. Það skar í augu ræningjunum, það gátu þeir ekki þolað. „Það er gull, það er gull!“ æptu þeir og þustu fram í sama bili, þrifu í hestana, drápu forreiðarsveinana litlu, vagnstjórann og þjónana og drógu Helgu litlu út úr vagninum. „Hún er feit, hún er ljómandi falleg, hún hefur verið alin á hnotukjörnum,“ sagði ræningjakerlingin gamla. Hún hafði úfið skegg og sítt og loðnar brýr, sem löfðu niður fyrir augu. „Hún er eins góð og alilamb,“ sagði kerling, „ætli það verði amalegt að éta hana?“ Og um leið tók hún upp hnífinn sinn, og blikaði á hann í hendi hennar, svo að Helgu blöskraði. „Æ, æ!“ sagði kerling rétt í sömu andrá, því hún var bitin í eyrað af sinni eigin dóttur, sem hékk á baki hennar. En dóttirin var mesti óþekktar- og ódældarungi. „Hafðu skömm fyrir, ókindin þín,“ sagði móðirin og fékk nú ekki tíma til að slátra Helgu. „Hún skal nú leika sér við mig,“ sagði ræningjastúlkan litla. „Hún skal gefa mér loðna handskjólið sitt og fallega kjólinn sinn og sofa hjá mér í rúminu mínu,“ og í því beit hún aftur svo tilfinnanlega, að kerling stökk upp í háa loft og hringsnerist, en ræningjarnir allir hlógu og sögðu: „Sko, hvernig hún dansar með telpukrakkann sinn.“ „Ég vil komast upp í vagninn,“ sagði ræningjastúlkan, og hún varð að hafa sitt fram, því hún var eftirlætisbarn og þrákálfur. Þær Helga settust í vagninn og óku nú yfir stokka og steina lengra inn í skóginn. Ræningjastúlkan litla var á hæð við Helgu, en sterkari og herðabreiðari og dökk á hörund. Augun voru kolsvört og næstum því raunaleg. Hún tók yfrum Helgu og sagði: „Ekki skulu þeir slátra þér, meðan ég ekki reiðist þér. Þú munt vera prinsessa.“ „Nei, það er ég ekki,“ svaraði Helga og sagði henni síðan allt, sem fyrir sig hefði komið og hvað vænt sér þætti um Karl litla. Ræningjastúlkan horfði á hana með alvörusvip, kinkaði dálítið kolli og mælti: „Ekki skulu þeir slátra þér, enda þó svo yrði, að ég reiddist þér, því þá geri ég það sjálf.“ Þurrkaði hún Helgu þá um augun og stakk báðum höndum inn í loðskinnshandskjólið mjúkhlýja. Nú var vagninn stöðvaður. Það var í miðjum húsagarði ræningjahallar nokkurrar. Var höllin öll rifin og sprungin ofan frá og niður í gegn. Hrafnar og krákur flugu þar út úr opnum raufunum, og bolabítarnir stóru, sem voru þesslegir, að þeir mundu geta gleypt heilan mann, þeir stukku upp í háa loft, en ekki geltu þeir, því það var þeim bannað. Í stóra, gamla sótuga salnum brann eldur mikill á steingólfi. Reykinn lagði upp undir loftið, og varð hann sjálfur að finna sér útleið. Súpu var verið að sjóða í stórum ölheitukatli. Líka var verið að steikja héra og kanínur á teinum yfir eldi. „Hér áttu nú að sofa í nótt hjá mér og öllum smádýrunum mínum,“ sagði ræningjastúlkan. Þeim var borinn matur og drykkur og fóru þær síðan út í skot eitt, þar sem bæði var hálmur og ábreiður. Uppi á rimlum og pinnum sátu yfir hundrað dúfur. Þær sýndust allar sofa, en viku sér ofurlítið til, þegar smástúlkurnar komu. „Ég á þessar allar,“ sagði ræningjastúlkan litla og þreif rösklega til einnar af þeim, sem næstar voru, hélt henni á fótunum og hristi hana, svo að hún barði vængjunum. „Kysstu hana!“ sagði hún og danglaði henni framan í Helgu. „Þarna sitja skógardúfurnar,“ mælti hún ennfremur, og benti bak við fjöldamarga rimla, sem negldir höfðu verið fyrir gat á múrnum ofanverðum. „Þessar tvær þarna eru skógardúfur. Þær fljúga undir eins burt, þegar þær eru ekki almennilega innibyrgðar. Og hérna stendur hann Be, kærastinn minn gamli,“ og í sama bili dró hún hreindýr til sín á hornunum. Það var bundið, og um háls þess var skyggður koparhringur. „Þennan hrein verðum við líka að hafa innibyrgðan, því að öðrum kosti stekkur hann frá okkur. Á hverju kvöldi kitla ég hann á hálsinum með hnífnum mínum flugbeitta. Það er hann hræddur við.“ Þá dró litla stúlkan langan hníf fram úr rifu, sem var í múrnum, og lét hann leika eftir hálsi hreinsins. Hreintetrið sló út undan sér fótunum, en ræningjastúlkan hló við og dró svo Helgu niður í rúmið hjá sér. „Ætlarðu að sofa með hnífinn hjá þér?“ mælti Helga og leit til hnífsins með hálfgerðum beyg. „Ég sef ætíð með hníf hjá mér,“ sagði ræningjastúlkan litla. „Aldrei er að vita, hvað fyrir kann að koma. En segðu mér nú aftur það, sem þú sagðir mér fyrr um hann Karl litla og hvers vegna þú eigraðir út í víða veröld.“ Og Helga sagði upp aftur frá öllu þessu og skógardúfurnar kurruðu uppi í búrinu. Hinar dúfurnar sváfu. Ræningjastúlkan lagði aðra höndina um háls Helgu, en hélt á hnífnum í hinni og svaf svo að heyra mátti, en Helgu kom ekki dúr á auga. Hún vissi ekki, hvort heldur lægi fyrir sér líf eða dauði. Ræningjarnir sátu hringinn í kring um eldinn, sungu og drukku, og ræningjakerlingin steypti stömpum. Skelfing var það fyrir Helgu litlu að horfa á þær aðfarir. Þá sögðu skógardúfurnar: „Kurr, kurr! við höfum séð hann Karl litla. Hvít hæna bar sleðann hans. Hann sat í vagni snædrottningarinnar, en vagninn leið lágt yfir skóginum, þar sem við lágum í hreiðrum okkar. Hún blés á okkur ungana og dóu allir nema við tveir: kurr, kurr!“ „Hvað segið þið þarna uppi?“ kallaði Helga, „hvert fór snædrottningin? vitið þið nokkuð um það?“ „Hún fór víst til Lapplands, því þar er ætíð snjór og ís. Spyrjið hreindýrið, sem stendur þarna í tjóðurbandinu.“ „Þar er ís og snjór, þar er gott og blessað,“ sagði hreindýrið. „Þar má stökkva frjálslega í ljómandi landvíðu dölunum. Þar hefur snædrottningin sumartjaldið sitt, en fastaborgin hennar er hátt uppi við norðurheimskaut, í ey nokkurri, sem Spitsbergen heitir.“ „Æ, hann Karl, hann Karl!“ sagði Helga andvarpandi. „Liggðu nú grafkyrr,“ sagði ræningjastúlkan, „að öðrum kosti rek ég í þig hnífinn.“ Morguninn eftir sagði Helga henni allt, sem skógardúfurnar höfðu sagt henni, og varð þá ræningjastúlkan alvarleg á svipinn, en kinkaði samt kolli og sagði: „Það er nú sama, það er nú sama!“ „Veistu hvar Lappland er?“ sagði hún við hreindýrið. „Hver skyldi vita það betur en ég?“ svaraði hreinninn og tindruðu augu hans af fjöri. „Þar er ég fæddur og uppalinn, þar hef ég hlaupið og stokkið um hjarnslóðir.“ „Heyrðu,“ sagði ræningjastúlkan við Helgu. „Þú sérð, að allir karlmennirnir eru farnir, en mamma er hér enn, og hún verður kyrr heima. Þegar kornið er undir hádegi, þá drekkur hún úr stóru flöskunni og fær sér á eftir dálítinn dúr. Ég skal þá gera nokkuð fyrir þig.“ Að svo mæltu stökk hún upp úr rúminu, rauk um háls mömmu sinnar, togaði í skegg hennar og sagði: „Góðan daginn, bukkurinn minn!“ Og móðirin gaf henni svo vænan selbita undir nefið, að blánaði undan, en það var allt af eintómum kærleika. Þegar móðirin var búin að drekka úr flösku sinni og lúrði á eftir, þá gekk ræningjastúlkan til hreindýrsins og sagði: „Helst væri mér í mun að kitla þig mörgum sinnum enn með beitta hnífnum mínum, því þá er gaman að þér, en það er nú sama um það, ég ætla að leysa af þér bandið og hjálpa þér að komast út fyrir, svo þú getir hlaupið til Lapplands, en þá verðurðu að taka til fótanna og koma fyrir mig þessari litlu stúlku í höll snædrottningarinnar, því leikbróðir hennar er þar. Þú hefur víst heyrt, hvað hún sagði, því ekki vantaði, að hún talaði nógu hátt, og þú stendur á hleri.“ Hreinninn hoppaði upp af fögnuði. Ræningjastúlkan lét Helgu á bak og var svo fyrirhyggjusöm að binda hana, og meira að segja að láta hana fá undir sig dálítinn kodda fyrir reiðver. „Jæja, það er nú sama. Hérna eru loðnu stígvélin þín, því kalt mun verða, en loðskinnshandskjólinu held ég eftir. Þér skal nú samt ekki verða kalt. Taktu við, hérna eru stóru belgvettlingarnir hennar mömmu, þeir ná þér upp á olnboga. Nú ertu til handanna eins og kerlingarskrukkan hún móðir mín.“ Og Helga grét af gleði. „Mér líkar ekki að sjá þig skæla,“ sagði ræningjastúlkan litla. „Nú áttu einmitt að vera kát. Hana, þarna eru handa þér tvö brauð og eitt hangikjötslæri. Þá þarftu ekki að vera svöng.“ Hvorttveggja batt hún upp á hreininn. Síðan lauk hún upp dyrunum, lokkaði inn alla stóru hundana, skar á bandið með hnífnum sínum og sagði við hreininn: „Hlauptu nú, en hafðu góðar gætur á litlu stúlkunni.“ Og Helga rétti út hendurnar með stóru belgvettlingunum móti ræningjasrúlkunni og kvaddi hana, en hreinninn þaut af stað yfir runna og trjástubba, og hvað sem fyrir var, gegnum skóginn mikla, yfir mýrar og heiðarfláka, eins hratt og hann gat komist. Úlfarnir ýlfruðu og hrafnarnir krunkuðu. Þytur var hið efra og var sem himinninn fnæsti rauðu. „Það eru norðurljósin mín,“ sagði hreinninn. „Sko, hvað þau lýsa vel!“ og þá hljóp hann enn hraðara og keppti áfram nótt og nýtan dag. Brauðin urðu etin upp og lærið með, og voru þau þá komin til Lapplands. Sjötti þáttur: Lappakonan og Finnakonan Þau staðnæmdust hjá húskorni einu, og það var nú eymdar kumbaldi. Þakið náði niður að jörðu, svo að heimafólkið varð að skríða á maganum, þegar það vildi komast út eða inn. Enginn var þar heima, nema gömul Lappakona. Hún var að steikja fisk við lýsislampatýru. Sagði hreinninn alla ævisögu Helgu, en fyrst sína eigin sögu, því honum þótti hún öllu merkilegri, enda var Helga svo magnþrota af kuldanum, að hún mátti ekki mæla. „Æ, vesalingur!“ sagði Lappakonan, „þá eigið þið enn þá langt hlaup fyrir höndum. Þið verðið að komast frekar hundrað mílur inn í Finnmörk, því þar hefur snædrottningin sumarvist og lýsir þar með bláljósum á hverju kveldi. Ég skal skrifa svo sem tvær línur á þurran saltfisk, því pappír hef ég ekki. Fæ ég ykkur svo fiskinn meðferðis til Finnakonunnar þar efra. Hún getur sagt ykkur allt ýtarlegar en ég er fær um.“ Nú sem Helgu var fullhlýnað og hún hafði matast og drukkið, þá skrifaði Lappakonan svo sem tvær línur á þurran saltfisk og beiddi Helgu að varðveita hann vel. Síðan batt hún hana aftur upp á hreininn, og hann óðara af stað. Þytur var í upplofti, og norðurljós mikil og fögur. Um nóttina komu þau Helga og hreinninn svo í Finnmörk og klöppuðu á reykháf Finnakonunnar, því dyr voru engar á híbýlum hennar. Þar inni var baðhiti, svo að Finnakonan sjálf gekk því nær nakin. Hún var lítil vexti og óþverraleg. Losaði hún þegar um klæði Helgu litlu og dró af henni belgvettlingana og stígvélin, því ella mundi henni hafa orðið of heitt. Eftir það lét hún klakastykki á koll hreininum og las það, sem skrifað stóð á saltfiskinum. Hún las það þrem sinnum og kunni það þá utan að, lét síðan fiskinn í soðpottinn, því fiskurinn var vel ætur, enda var hún ekki vön að láta neitt fara til spillis. Nú sagði hreinninn fyrst sína ævisögu og því næst sögu Helgu, og Finnakonan skarpeyga drap tittlinga, en mælti ekki orð frá munni. „Þú ert kona fjölvitur,“ sagði hreinninn. „Ég veit, að þú getur bundið alla heimsins vinda á einum saumþræði. Þegar skipstjórinn leysir einn hnútinn, þá fær hann óskabyr. Leysi hann annan, verður snarphvasst, og leysi hann þriðja og fjórða, gerir felliveður, svo að skógarnir hrynja um koll. Viltu ekki gefa litlu stúlkunni drykk þann, að hún fái tólf manna afl og geti svo yfirbugað snædrottninguna?“ „Tólf manna afl,“ sagði Finnakonan. „Já, það mundi vel duga.“ Gekk hún síðan að hillu, tók stórt samanbrotið skinn og rakti það í sundur, var það skráð með undarlegu letri og las Finnakonan af öllu megni, svo að svitinn bogaði af enni hennar. En hreinninn bað svo aftur innvirðulega fyrir Helgu, og Helga mændi slíkum vonaraugum, fljótandi í tárum, á Finnakonuna, að henni gekkst hugur við, og fór aftur að depla augunum til Helgu og dró hreininn út í horn og hvíslaði einhverju að honum, um leið og hún lagði að nýju ís við höfuð honum. „Karl litli er reyndar hjá snædrottningunni og finnst allt vera þar eftir hjartans lyst og löngun og hyggur þar vera bestan hluta heims, sem hún er, en það kemur af því, að hann hefur fengið glerbrot í hjartað og ofurlítið glerkorn í augað. Það verður fyrst að ná því úr honum, annars kostar verður hann aldrei að manni, og snædrottningin heldur þá valdi sínu yfir honum.“ „En geturðu ekki gefið Helgu litlu eitthvað inn, svo að hún fái valdi yfir öllu?“ „Ég get ekki veitt henni meira vald en hún hefur nú þegar. Sérðu ekki, hvað það er mikið? Sérðu ekki, hvernig menn og skepnur verða að þjóna henni, og hvað vel henni hefur gengið berfættri að komast áfram í heiminum? Hún má ekki vita af valdi sínu. Það býr í hjarta hennar. Það er fólgið í því, að hún er elskulegt og saklaust barn. Geti hún ekki sjálf komist inn til snædrottningarinnar og náð út glerinu á Karli litla, þá getum við ekki hjálp veitt. Þegar komið er tvær mílur vegar héðan, tekur við garður snædrottningarinnar. Þangað geturðu borið litlu stúlkuna. Settu hana niður hjá stóra runninum, sem stendur með rauðum berjum í fönninni. Vertu þá ekki með neina óþarfa mælgi og flýttu þér hingað aftur.“ Að svo mæltu lyfti Finnakonan Helgu á bak hreininum, en hann af stað og hljóp sem hann gat hraðast komist. „Æ, ég fékk ekki stígvélin mín, ég fékk ekki belgvettlingana mína,“ kallaði Helga litla í nístingskuldanum. En hreinninn þorði ekki að standa við. Hann hljóp, þangað til hann kom að stóra runnanum með rauðu berjunum. Þar setti hann Helgu niður og kyssti á munn hennar. Runnu þá stór og fögur tár ofan eftir kinnum hans, og hljóp hann síðan til baka eins og fætur toguðu. Og þarna stóð nú vesalings Helga skólaus og vettlingalaus í gaddhörkunni úti í miðri Finnmörk. Hún hljóp áleiðis eins hratt og hún gat. Kom þá heill herskari af snæhnoðrum, en ekki féllu þeir úr himni niður, því hann var heiður og skínandi af norðurljósum. Runnu þeir beint áfram eftir jörðinni og því nær sem þeir komu, því stærri urðu þeir. Helga mundi glöggt eftir, hversu stórir og listgjörvir henni höfðu sýnst þeir vera, þegar hún sá þá gegnum glerið, en nú skipti miklu, hvað þeir voru stórvaxnari og óttalegri. Þeir voru lifandi, – og hafði snædrottningin þá fyrir útverði. Fáránlega voru þeir skapaðir, sumir tilsýndar eins og ljótir og stórir burstíglar, aðrir eins og hnútar, riðnir úr höggormum, er teygðu fram hausana, aðrir eins og lítil digur bjarndýr, kafloðin og úfin, en allir voru þeir hvítir – eintómir lifandi snæhnoðrar. Þá las Helga litla Faðirvor og gerðist nú svo kalt, að andbert varð, og sá hún andann fram úr munni sínum eins og reykstroku. Andinn varð þéttari og þéttari og ummyndaðist í engla, smávaxna og bjarta, sem stækkuðu meir og meir, þegar þeir komu við jörðina. Allir höfðu þeir hjálma á höfðum og spjót og skjöld í höndum. Og er Helga hafði lesið Faðirvor til enda, var komin í kringum hana heil hersveit af englum. Þeir ráku hina afskaplegu snæhnoðra í gegn með spjótum sínum, svo að þeir hrukku sundur í ótal stykki og gat þá Helga haldið áfram göngu sinni glöð í huga, og alveg örugg. Englarnir hjúfruðu blíðlega við hendur hennar og fætur, svo að hún fann síður til frostbitrunnar og hélt hún nú rösklega áfram til hallar snædrottningarinnar. En nú er best að vita fyrst, hvað títt er um Karl litla. Hann hugsaði reyndar ekkert um Helgu litlu og síst kom honum til hugar, að hún stæði fyrir utan höllina. Sjöundi þáttur: Hér segir af höll snædrottningarinnar og því, er síðar bar til Veggirnir í höll snædrottningarinnar voru úr skafrenningi, en gluggar og dyr úr nístandi vindum. Þar voru fleiri en hundrað salir, allt eftir því, hvernig snjórinn hlóðst í skafla. Stærsti salurinn tók yfir margar mílur. Allir voru salirnir lýstir björtum norðurljósum, og þeir voru svo tómir, svo ískaldir og skínandi. Aldrei var þar neinn gleðskapur, ekki svo mikið sem dálítill bjarndýra-dansleikur, þar sem stormurinn gæti spilað upp í dansinn og hvítabirnirnir stigið hann á afturfótunum og látið sjá sína laglegu tilburði. Ekki einu sinni dálítið spilasamkvæmi með snoppungum og hrammaslögum. Ekki einu sinni svo vel, að hvítu tófuungfrúrnar hefðu þar nokkurn tíma kaffisamsæti. Það var tómlegt, stórfenglegt og kalt í sölum snædrottningarinnar. Norðurljósin lýstu og loguðu svo nákvæmlega, að telja mátti til, hvenær þau stóðu hæst eða lægst. Í miðjum þessum endalausa snjósal var frosið stöðuvatn. Var svellið á því sprungið í ótal stykki, en svo nákvæmlega var eitt stykkið líkt öðru, að það var sannkallað listaverk, og á miðju svellinu sat snædrottningin, þegar hún var heima, og sagðist hún þá sitja í skuggsjá skynseminnar, og kvað hún hana vera þá einu og þá bestu skuggsjá, sem til væri í heimi þessum. Karl litli var helblár af kulda, já, svartur að kalla mátti, en hann fann ekki til þess, af því að snædrottningin hafði kysst úr honum kuldahrollinn og af því að hjarta hans var nálega orðið að ískekki. Hann var að rogast með nokkur flöt og randhvöss ísstykki, og mátaði þau saman á alla vegu, sem hugsast gat, eins og þegar við erum að leika okkur að örsmáum trétöflum og leggjum þær saman í myndir. Það er kínverska spilið, sem svo er kallað. Það var áþekkt, sem Karl hafði nú með höndum. Hann raðaði ístöflunum sínum í myndir, og það hinar margbrotnustu. Það var hyggjuvits ísspilið. Í hans augum voru myndirnar hreinasta fyrirtak og fjarskalega mikilsvarðandi. Það stafaði af glerkorninu, sem sat í auga hans. Hann raðaði í heilar myndir, sem voru skrifað orð, en aldrei gat hann komist niður á, hvernig hann ætti að raða í það orðinu, sem hann einmitt vildi, en það var orðið eilífð. Hafði snædrottningin sagt við hann: „Ef þú getur fundið út þá mynd, þá skaltu vera þinn eigin herra, og þá gef ég þér alla veröldina og spánnýja skauta.“ En hann gat það ekki. „Nú þýt ég burt til heitu landanna,“ sagði snædrottningin. „Þangað ætla ég að fara og gá niður í svörtu pottana.““ Það voru eldfjöllin Etna og Vesúvíus, sem hún átti við. „Ég ætla að hvítta pottana dálítið að utan og kæla svo um munar glóaldinin og vínberin.“ Flaug þá snædrottningin af stað, og Karl sat aleinn eftir í stóra, tóma íssalnum, sem náði yfir margra mílna svæði. Hann horfði á ísstykkin og þreytti sig á sífelldum heilabrotum í frosthörkunni og kúrði þarna grafkyrr og stirðnaður, svo ekki var annað að sjá, en að hann væri með öllu helfrosinn. Þá einmitt kom Helga litla í höllina inn um stóra hliðið. Blésu þar nístandi vindar, en hún las kvöldbæn eina og lægðust samstundis vindarnir, eins og þeir ætluðu að fara að sofa. Gekk hún þá inn í stóru, auðu og köldu salina og kom auga á Karl. Hún þekkti hann, hljóp um háls honum, hélt honum fast að sér og kallaði: „Karl, elsku Karl litli! nú hef ég þá fundið þig.“ En hann sat grafkyrr, stirður og kaldur. Þá grét Helga litla heitum tárum og hrundu þau niður á brjóst Karls. Þau leituðu inn í hjarta hans, þau þíddu ískökkinn og eyddu glerbrotinu, sem var fyrir. Hann horfði á hana, og hún söng: „Við barnið Jesúm best oss gefst að tala, þar blómgast rósir neðst í lægðum dala.“ Þá kom upp grátur fyrir Karli. Hann grét svo, að spegilkornið losnaði og hrundi úr auga hans. Hann þekkti hana og kallaði upp fagnandi: „Helga! elsku Helga litla! hvar hefurðu verið svo lengi? Og hvar hef ég verið? En hvað hér er kalt! Og hvað hér er tómt og víðáttan endalaus!“ Og hann vafði sig fast að Helgu, og hún hló og grét af gleði. Og svo mikill var fögnuðurinn, að enda ísstykkin dönsuðu af kæti allt í kringum þau, og þegar þau voru þreytt orðin og lögðust til hvíldar, þá lágu þau einmitt í þeim stöfum, sem snædrottningin hafði talað um við Karl og sagt, að ef hann fengi útgrundað þá stafi, þá skyldi hann vera sinn eigin herra, og þá skyldi hún gefa honum alla veröldina og spánnýja skauta. Og Helga kyssti á kinnar hans og þær urðu rjóðar og blómlegar. Hún kyssti á augu hans og þau urðu eins blíðskær og hennar. Hún kyssti á hendur hans og fætur og hann varð heill og hraustur. Nú mátti snædrottningin gjarnan koma heim aftur, því lausnarbréf Karls stóð þarna greinilega skrifað með glæjum ísstykkjum. Og nú leiddust þau bæði burt úr höllinni stóru og héldu af stað. Þau töluðu um ömmu gömlu og rósirnar uppi á þakinu, og þar sem þau fóru um, þar lágu vindarnir í dái og sólin braust fram úr skýjunum. Og þegar þau komu að runnanum með rauðu berjunum, þá stóð hreinninn þar og beið þeirra. Fylgdi honum þá hreinkvíga með stálmafull júgur og lét hún kálfa sína sjúga sig og kyssti á granir þeirra. Og nú fóru þau þaðan, Karl og Helga, og létu hreindýrin bera sig. Komu þau fyrst til Finnakonunnar og ornuðu sér þar í heitu stofunni og fengu tilsögn um heimleiðina. Síðan komu þau til Lappakonunnar, og hafði hún saumað handa þeim ný föt og gert að sleðanum þeirra eins og þurfti. Og hreinninn og hreinkvígan hlupu samsíða sleðanum og fylgdust með þeim allt að landamærunum. Var þar farin að koma upp fyrsta grænkan, og þar kvöddu þau Karl og Helga hreininn og Lappakonuna. Og öll kvöddust þau með virktum. Nú fóru að kvaka fyrstu smáfuglarnir, á skógartrjánum voru grænir brumhnappar, og út úr skóginum kom ung stúlka ríðandi. Þekkti Helga hestinn, því honum hafði verið beitt fyrir gullvagninn fyrrum, en stúlkan hafði skínandi rauða húfu á höfði og skammbyssur í hylkjum framan við hnakkinn. Var þetta ræningjastúlkan litla, og vék því svo við, að henni hafði tekið að leiðast heimaveran, og ætlaði nú fyrst um sinn norður eftir, en í aðra átt síðar, ef hún kynni ekki við sig. Hún þekkti undir eins Helgu, – og Helga þekkti hana, og varð þar fagnaðarfundur. „Þú ert fallegur hlaupagosi,“ sagði hún við Karl litla, „mér þætti gaman að vita, hvort þú ert þess verður, að hlaupið sé á heimsenda þín vegna.“ En Helga klappaði henni á vangann og spurði frétta um prinsinn og prinsessuna. „Þau eru komin af stað til annarra landa,“ svaraði ræningjastúlkan. „En krákan þá?“ sagði Helga litla. „Já, krákan er nú dauð,“ svaraði hún, „tamda kærastan er orðin ekkja og gengur með svartan ullbandspotta um fótinn. Hún kveinar og kvartar, en bull og þvaður er það allt saman. – En segðu mér nú, hvernig þér hefur gengið og hvernig þú hafðir upp á honum Karli.“ Og þau Karl og Helga sögðu henni allt, sem farið hafði. En ræningjastúlkan tók í höndina á þeim báðum og hét þeim því, að færi hún einhvern tíma um borgina, þar sem þau áttu heima, þá skyldi hún heimsækja þau. Reið hún síðan út í víða veröld, en Karl og Helga héldu áfram og leiddust á göngunni. Var þá komið indælt vor með blómum og grængróðri. Kirkjuklukkunum var hringt og þau þekktu aftur háu turnana og stóru borgina, þar sem þau áttu heima. Og þau gengu inn í borgina og alla leið að dyrum ömmu gömlu, upp stigann og inn í stofuna, og allt stóð þarna á sama stað og áður, og stundaklukkan sagði: tikk! tikk! og vísarnir snerust. En í því að þau gengu inn um dyrnar, þá urðu þau þess vör, að sjálf voru þau orðin fullvaxta. Rósirnar úr þakrennunni seildust alblómgaðar inn í opna gluggana, og ennþá stóðu þar barnastólarnir litlu, og settust þau á sinn stólinn hvort og héldust í hendur. Köldu og tómlegu dýrðinni hjá snædrottningunni höfðu þau gleymt eins og einhverjum drungalegum draumi. Amma sat í geislabirtu guðs sólar og las hátt upp úr ritningunni: „Hver, sem ekki meðtekur guðs ríki eins og barn, mun aldrei þangað koma.“ Og Karl og Helga horfðust í augu, og nú skildust þeim allt í einu orðin í sálminum gamla: „Við barnið Jesúm best oss gefst að tala, þar blómgast rósir neðst í lægðum dala.“ Þarna sátu þau bæði tvö, vaxin að aldri og þó börn, því í hjartanu voru þau börn, og nú var sumar, unaðsfagurt, hlýtt og ánægjulegt sumar. Móðirin Móðir sat hjá barni sínu kornungu. Hún var svo hrygg, svo hrædd um, að það mundi deyja. Það var nábleikt í framan, augun litlu höfðu lokast aftur. Það dró svo hægt andann og var öðru hverju eins og það andvarpaði. Því sorgbitnari horfði móðirin á aumingjann litla. Þá var barið á dyr og kom inn fátækur maður gamall, og hafði sveipað um sig einhverju, sem var áþekkt stórri hrossverju, sér til hita, enda var honum ekki vanþörf á. Úti var allt þakið ís og fönnum og vindurinn næddi svo napurt, að tók í andlitið. Af því nú gamalmennið nötraði af kulda og barnunginn blundaði ofurlítið, þá stóð móðirin upp og setti mjólk í dálítilli pönnu inn í ofninn og ætlaði að hita hana handa honum. Gamli maðurinn sat og ruggaði og móðirin settist rétt hjá honum og horfði á barnið sitt sjúka. Það dró svo þungt andann og hélt upp hendinni litlu. „Heldurðu ekki, að það verði kyrrt hjá mér, barnið mitt?“ sagði hún, „guð fer ekki að taka það frá mér.“ Gamli maðurinn, sem var dauðinn sjálfur, kinkaði kollinum svo undarlega. Það gat bæði þýtt já og nei. Móðirin horfði í gaupnir sér og tárin hrundu niður eftir kinnum hennar. Hún var yfirkomin af höfuðþyngslum, því henni hafði ekki komið dúr á auga í þrjá sólarhringa, og sofnaði hún nú, en það var aðeins í svip. Hún hrökk upp skjálfandi af kulda. „Hvað er þetta?“ sagði hún og leit á alla vegu frá sér, en gamli maðurinn var farinn og barnið hennar litla var horfið. Hann hafði haft það burt með sér. Úti í stofuhorninu marraði í stundaklukkunni gömlu og blýlóðið rann allt niður á gólf, og þá stóð klukkan. En vesalings móðirin hljóp út úr húsinu og kallaði á barnið sitt. Úti í miðri fönninni sat kona síðklædd og svartklædd og mælti: „Dauðinn var inni í stofunni hjá þér, ég sá hvar hann skaust burt með barnið þitt litla. Hann er fljótari en vindurinn. Hann skilar aldrei aftur því, sem hann tekur.“ „Segðu mér bara, hverja leið hann fór,“ mælti móðirin, „segðu mér leiðina, þá skal ég finna hann.“ „Veit ég veginn,“ sagði svartklædda konan. „En áður en ég segi þér hann, verðurðu að syngja fyrir mig allar vísurnar, sem þú hefur sungið fyrir barnið þitt. Mér er yndi að þeim. Ég er nóttin, ég sá hversu þú tárfelldir meðan þú söngst þær.“ „Ég skal syngja þær allar,“ sagði móðirin, „en tefðu mig ekki, svo ég geti náð honum og fundið barnið mitt.“ En nóttin sat þögul og grafkyrr. Þá sló móðirin höndum sínum, söng og táraðist. Margar voru vísurnar, þó voru tárin fleiri. Eftir það sagði nóttin: „Farðu hægra megin inn í greniskóginn dimma. Þangað sá ég dauðann fara með barnið þitt litla.“ Langt inni í skóginum lágu vegirnir á víxl, og vissi hún ekki, hvorn fara skyldi. Þá sá hún, hvar stóð þyrnirunnur blaðlaus og blómlaus. Þetta var líka um hávetur og var ísing á greinunum. „Hefurðu ekki séð dauðann ganga fyrir með barnið mitt?“ – „Jú!“ svaraði þyrnirunnurinn, „en fyrr segi ég þér ekki, hverja leið hann fór, en þú vermir mig við hjarta þitt. Ég frýs í hel, ég verð að tómum ís.“ Hún þrýsti þyrnirunnanum að brjósti sínu svo fast, að honum gat vel ylnað, og gengu þyrnarnir inn í holdið, svo að blóðið dreyrði í stórum dropum, en þyrnirunnurinn skaut út nýjum og grænum blöðum og blómgaðist um nóttina í vetrarnístingnum, svo var hlýtt við hjarta hinnar mótlættu móður. Og þyrnirunnurinn sagði henni veginn, sem hún átti að fara. Þá kom hún að miklu hafi, en þar voru hvorki skip né bátar. Sjóinn hafði ekki lagt svo vel, að ísinn héldi, og ekki var hann svo grunnur, að hún gæti vaðið, en yfir hann varð hún að komast, úr því hún vildi finna barnið sitt. Hún lagðist niður til að drekka upp sjóinn, og var það ógjörningur, en móðirin hélt í hörmum sínum, að kraftaverk kynni að verða. „Nei, þetta tekst aldrei,“ sagði sjórinn, „við skulum heldur koma okkur saman. Mér þykir gaman að safna perlum, og augun þín eru skærustu perlurnar, sem ég hef séð. Viljir þú gráta þeim til mín, þá skal ég bera þig til stóra gróðrarhússins, þar sem dauðinn býr og gætir blóma og trjáa. Hvert þeirra um sig er mannslíf.“ „Æ, allt vil ég vinna til að komast þangað sem barnið mitt er,“ sagði móðirin grátmædda og grét enn sárar, og augu hennar hnigu niður á hafsbotn og urðu að tveimur dýrindis perlum, en sjórinn reið undir hana, og kastaðist hún í einni sveiflu yfir á ströndina fyrir handan. Þar stóð undarlegt hús mílubreitt og var ekki að vita, hvort það væri skógi vaxið fjall með hellisskútum, eða það væri timbrað upp. Aumingja móðirin gat ekki séð það, hún hafði grátið úr sér augun. „Hvar get ég hitt dauðann, sem fór með barnið mitt litla?“ sagði hún. „Ekki hefur hann komið hingað ennþá,“ sagði grafkonan gamla, sem gæta átti gróðurhúss dauðans. – Hvernig komstu á veginn hingað og hver hefur hjálpað þér?“ „Guð hefur hjálpað mér,“ svaraði hún, „hann er miskunnsamur og það munt þú vera líka. Hvar get ég fundið barnið mitt litla?“ „Ég þekki það ekki,“ mælti konan, „og þú ert sjónlaus. Fjöldi blóma og trjáa hefur fölnað í nótt. Dauðinn kemur bráðum og gróðursetur þau í nýjum reit. Þú veist víst, að hver maður á sitt lífstré eða sitt blóm, eftir því sem hverjum kann að vera háttað. Þau eru eins á að sjá og hver önnur jurt eða tré, en hjartsláttur er í þeim öllum. Barnahjörtun bærast líka. Eftir þessu skaltu fara. Ekki er að vita, nema þú þekkir hjartsláttinn barnsins þíns, en hvað gefurðu mér til þess, að ég segi þér, hvað þú átt að gera frekar?“ „Ég á ekkert til að gefa,“ ansaði móðirin sorgbitna, „en ég skal ganga á heimsenda fyrir þig.“ „Þangað á ég ekkert að sækja,“ sagði konan, „en þú getur látið mig fá svarta hárið þitt síða. Þú veist sjálf, að það er fallegt, og það á nú við mig. Ég skal láta þig fá hvíta hárið mitt. Það er betra en ekki neitt.“ „Þú mælist þá ekki til meira!“ sagði móðirin, „það er þér velkomið.“ Og hún gaf gömlu konunni fallega hárið sitt, og fékk hárið hennar snjóhvíta í staðinn. Nú gengu þær inn í hið mikla gróðurhús dauðans. Þar óx fjöldi trjáa og blóma undarlega hvað innan um annað. Þar stóðu fagrar hýasintur undir glerhjálmum, þar stóðu og gildvaxnir píónar. Þar uxu sæjurtir, og voru sumar þeirra mjög svo blómlegar, en aftur var kyrkingur í sumum. Vatnssniglarnir hringuðu sig utan um þær og svartir krabbar læstu sig um stofnana. Þar stóðu fagrir pálmar, eikur, hlynir, pétursseljur og blómgað blóðberg. Hvert tré og hvert blóm átti sér nafn, hvert einstakt merkti mannslíf og voru mennirnir á lífi, sumir á Kínlandi, sumir á Grænlandi og hvarvetna í heiminum. Þar stóðu stór tré í litlum gróðrarkerum, svo að þau máttu eigi þrífast og lá við, að þau sprengdu kerin. Hingað og þangað stóðu líka lítil og leiðinleg blóm í frjóum jarðvegi. Þau voru varin mosa allt í kring, og dekurlega hirt og stunduð. En móðirin harmþrungna laut ofan að öllum minnstu nýgræðingunum og heyrði mannshjörtun bærast í þeim öllum og innan um þúsundir þúsunda þekkti hún hjartsláttinn barnsins síns. „Þarna er það!“ kallaði hún og seildist með höndina út yfir dálítinn bláan krókus, sem hallaðist út í aðra hliðina og var næsta sjúklegur. „Snertu ekki blómið,“ sagði gamla konan, „en stattu hérna, og þegar dauðinn kemur – en hans er nú von á hverri stundinni – þá láttu hann ekki kippa jurtinni upp og hótaðu honum, að þú skulir fara eins með hin blómin. Þá verður hann hræddur, því hann á að standa drottni skil á þeim og má ekkert upp slíta fyrri en honum þóknast.“ Í sama bili blés nákaldur þytur eftir endilöngum salnum, og fann móðirin blinda á sér, að það var dauðinn sem kom. „Hvernig gast þú ratað hingað?“ spurði dauðinn, „hvernig gast þú orðið fljótari en ég?“ „Ég er móðir,“ svaraði hún. Og dauðinn seildist með sinni löngu hendi eftir blóminu litla og veika, en hún hélt höndunum rígsperrtum utan um það, og var þó hrædd um að hún kynni að koma við blöðin. Þá blés dauðinn á hendur henni, og fann hún, að það var kaldara en vetrarnepjan. Féllust henni þá hendur. „Þú mátt ekkert við mér,“ sagði dauðinn. „En guð má við þér,“ sagði hún. „Ég geri ekki annað en það, sem er hans vilji,“ mælti dauðinn, „ég er hans jurtagarðsmaður. Ég tek öll blóm hans og tré og gróðurset þau í stóra paradísargarðinum á ókunna landinu, en ekki þori ég að segja þér, hvernig þau gróa þar og hvernig þar hagar til.“ „Gefðu mér barnið mitt aftur,“ grátbændi móðirin hann. Í sama bili tók hún utan um tvö fögur blóm, sem stóðu þar rétt hjá, sitt með hvorri hendi, og kallaði til dauðans: „Ég slít upp öll blómin þín, því ég er sturluð af örvæntingu.“ „Snertu ekki á þeim,“ sagði dauðinn. „Þú þykist sjálf vera svo ólánssöm, en nú ætlarðu að gera aðra móður jafn ólánsama.“ „Aðra móður?“ sagði hún og sleppti undir eins blómunum. „Hérna eru augun þín,“ sagði dauðinn, „ég hef slætt þau upp úr sjónum. Það stóð svo mikil birta af þeim. Ég vissi ekki að það voru augun þín. Taktu við þeim aftur, þau eru skærari núna en þau voru áður. Líttu svo niður í djúpa brunninn rétt hjá þér, og skal ég segja þér nöfnin á báðum blómunum, sem þú ætlaðir að slíta upp. Þú sérð þá ókomna ævi þeirra, allt, sem þú ætlaðir að eyða og ónýta.“ Og hún leit niður í brunninn og var það fagnaðarsjón að sjá, hversu ævi annars barnsins varð blessunarrík fyrir heiminn, hversu það jók auðnu og yndi alls staðar nærri sér. Og hún sá það, sem fyrir hinu barninu lá, og var það ekki annað en böl og bágindi, skelfing og volæði. „Hvort tveggja er vilji guðs,“ sagði dauðinn. „Hvort þeirra er blóm ógæfunnar og hvort er blóm blessunarinnar?“ spurði hún. „Það segi ég þér ekki,“ ansaði dauðinn, „en hitt skaltu vita, að annað þeirra var blómið barnsins þíns. Það voru forlög þess, sem þú sást, – hin ókomna ævi þess.“ Þá hljóðaði móðirin upp yfir sig af ótta. „Hvort þeirra var barnið mitt? segðu mér það. Frelsaðu sakleysingjann, frelsaðu barnið mitt frá öllu þessu volæði. Taktu það heldur burt og flyttu það inn í guðsríki. Gleymdu tárum mínum, gleymdu bænum mínum, gleymdu öllu, sem ég hef sagt eða gert.“ „Ég skil þig ekki,“ mælti dauðinn. „Viltu fá barnið þitt aftur, eða á ég að fara með það þangað, sem þú ekki veist?“ Þá sló móðirin höndum sínum og féll á kné og bað til guðs: „Bænheyr mig ekki, ef ég bið gagnstætt þínum vilja, sem öllum er fyrir bestu, bænheyr mig ekki.“ Og hún drap höfði niður í skaut sér. Og dauðinn fór með barnið hennar inn í hið ókunna landið. Strætisljóskerið gamla Hefurðu heyrt söguna af strætisljóskerinu gamla? Hún er ekki svo yfirtaks skemmtileg, en það má þó vel heyra hana sagða einu sinni. Já, það var einu sinni gamalt og heiðvirt strætisljósker, sem búið var að vera mörg herrans ár í embættinu, en átti nú að leggjast fyrir óðal. Og nú var þetta seinasta kvöldið, sem það sat uppi á staurnum og lýsti í strætinu, og var því í líku skapi og gömul leikhúss danskona, sem dansar síðasta kvöldið sitt og veit, að hún er orðin aflóga á næsta morgni. Ljóskerið var svo kvíðandi fyrir morgundeginum, því það vissi, að það átti að fara með það upp í bæjarráðsstofu, og þar áttu hinir „þrjátíu og sex menn“ að halda skoðunargjörð yfir því og gera út um, hvort það væri brúklegt eða óbrúklegt. Þar átti að ákveða, hvort það yrði sent út í eina af undirborgunum, til að lýsa þar, eða út á landsbyggð til einhverrar verksmiðju. Það var enda ekki að vita, nema það færi beina leið til járnsteypara og yrði steypt upp aftur, – gæti þá orðið að hverju, sem vera skyldi. En sú tilhugsun kvaldi það mest, að það vissi ekki, hvort það mundi þá muna nokkuð eftir því, að það hefði verið strætisljósker. En hvernig svo sem færi, þá var það ekki efamál, að ljóskerið yrði að skilja við næturvörðinn og konu hans, sem það var orðið svo samgróið við, að þau voru öll eins og ein fjölskylda. Þegar hann varð næturvörður, þá varð það strætisljósker, en um það skeið var konan í meira lagi fínlát. Leit hún þá aðeins til ljóskersins á kvöldin, þegar hún gekk fram hjá því, en aldrei á daginn. En nú þar á móti á seinni árunum, er þau þrjú tóku að eldast, næturvörðurinn, konan og ljóskerið, þá hafði konan hirt það, fægt lampann og hellt á hann lýsinu. Hjón þessi voru ráðvendnin sjálf og höfðu aldrei haft af ljóskerinu svo mikið sem einn dropa. Þetta var nú seinasta kvöldið, sem ljóskerið átti að vera í strætinu, og að komandi morgni átti það að fara upp í bæjarráðsstofu. Það var dapurleg tilhugsun, og má því nærri geta, hvernig logað hefur á því. En það var líka annað, sem því hvarflaði í hug. Það var svo margt og mikið, sem það hafði séð, svo margt og mikið, sem það hafði borið birtu yfir og eins mikið, ef til vill, og „þrjátíu og sex mennirnir“, en það sagði ekki frá því, því það var skikkanlegt, gamalt ljósker, sem engan vildi styggja og allra síst yfirboðara sína. Það mundi eftir svo mörgu, og stundum smágaus upp í því loginn, það var eins og það hefði eitthvert hugboð á þessa leið: „Já, það verður víst líka einhver, sem man eftir mér. – Það var nú fallegi ungi maðurinn, – já, það eru mörg ár síðan – hann kom með sendibréf, það var á rósrauðan pappír, ákaflega fínum, með gyllta rönd, prýðis fallega skrifað og með kvenmanns hendi. Hann las það tvívegis, renndi upp til mín báðum augum og sagði: „Ég er allra manna sælastur.“ – Enginn vissi nema ég og hann, hvað stóð í fyrsta bréfinu frá kærustunni. – Ég man líka eftir tveimur öðrum augum. Það er undarlegt, hvernig hugurinn hvarflar frá einu til annars. Hérna í strætinu fór fram viðhafnarmikil jarðarför. Ung fríðleikskona hvíldi í líkkistunni á flauelslíkvagninum. Þar var slíkt ógrynni af blómum og krönsum og svo mikill bjarmi af blysunum, að ég varð svo sem að engu. Öll gangstéttin var troðfull af fólki, allt slóst í hóp með líkfylgdinni, en þegar blysin voru horfin og ég litaðist um, þá stóð einn eftir við staurinn minn og grét. Aldrei gleymi ég þeim sorgaraugum, sem þá var rennt upp til mín.“ – Svona rak hver hugsunin aðra í ljóskerinu gamla, sem lýsti þetta kvöld í síðasta sinni. Sá, sem á verði stendur, veit þó, hver við tekur eftir hann, og getur sagt við hann eitt eða tvö orð, en ljóskerið vissi ekki, hver við embættinu tæki eftir sig, og mundi þó hafa getað gefið viðtakandanum ýmsar bendingar, svo sem um kuldaveður og rigningar, um það, hvað tunglskinið næði langt á gangstéttinni og um vindstöðuna, hvernig henni hagaði. Á göturæsisborðinu stóðu þrír umsækjendur, sem komnir voru á fund ljóskersins, í þeim vændum, að það mundi eiga að veita embættið. Einn umsækjandinn var síldarhöfuð, því síldarhöfuð lýsa í myrkri, og var ætlun þess, að það mundi verða hreinn sparnaður á lýsi, ef það kæmist upp á ljóskersstaurinn. Hinn umsækjandinn var dálítill fnjóskur, því fnjóskur lýsir líka, og það sagði hann sjálfur. Auk þess hafði hann það til síns ágætis, að hann var síðasta stykkið af tré nokkru, sem einhvern tíma hafði verið prýði skógarins. Þriðji umsækjandinn var ljósormur. Engan skilning hafði ljóskerið á því, hvaðan hann væri kominn, en ormurinn var þar, og ekki vantaði það, að hann lýsti. En fnjóskurinn og síldarhöfuðið sóru það, að hann lýsti ekki nema með höppum og glöppum og ætti því alls ekki að koma til greina. Ljóskerið gamla sagði þessum umsækjendum, að enginn þeirra hefði nægilegt ljósmagn til að vera strætisljósker, en enginn þeirra trúði því, og þegar þeir heyrðu, að það væri ekki ljóskerið, sem veitti embættið, þá sögðu þeir, að það væri í mesta máta gleðilegt, því það væri svo gamalt og farið, að það kynni ekki að velja. Í sama bili kom vindurinn frá strætishorninu. Hann þaut gegnum skerminn á gamla ljóskerinu og sagði við það: „Hvað heyri ég? Er það satt, að þú ætlir burt á morgun? er þetta síðasta kvöldið, sem ég hitti þig hér? Jæja, fyrst að svo er, þá ætla ég að gefa þér gjöf. – Nú viðra ég til í heilabúi þínu, svo þú munir glöggt og greinilega, ekki einungis það, sem þú hefur heyrt og séð, heldur skal þér veitast svo mikill skyggnleiki, að þegar frá einhverju er sagt eða eitthvað lesið í viðurvist þinni, þá muntu einnig sjá það.“ „Já, þetta er meira en lítið,“ sagði ljóskerið gamla, „bestu þakkir fyrir! bara ég verði nú ekki steypt upp aftur.“ „Ekki verður það að svo komnu,“ sagði vindurinn, „og nú fríska ég minni þitt með blæstri mínum. Fáirðu margar sams konar gjafir, þá geturðu lifað fremur ánægjulega elli.“ „Bara ég verði ekki steypt upp aftur,“ sagði ljóskerið, „eða geturðu þá líka ábyrgst mér minnið?“ „Láttu ekki svona, gamla ljósker!“ sagði vindurinn og blés um leið. Í sama vetfangi kom tunglið fram undan skýjunum. „Hvað gefið þér?“ spurði vindurinn. „Ég gef ekki neitt,“ svaraði tunglið, „ég er þverrandi núna, og ljóskerin hafa aldrei lýst mér, heldur hef ég lýst ljóskerunum.“ – Og óðara hvarf tunglið aftur bak við skýin, því það vildi ekki að verið væri að kvabba á sér. Þá féll vatnsdropi beint niður á skerminn. Það var því líkast sem honum læki niður af þaki, en hann sagði sjálfur, að hann kæmi niður úr skýjunum gráu og að hann væri líka gjöf, og ef til vill besta gjöfin. „Ég fer inn í þig,“ sagði hann, „og þar með veitist þér það, að ef þú óskar þér þess, þá getur þú kolryðgað, svo að þú hrynjir alveg saman og verðir að dufti einu.“ Þetta þótti ljóskerinu smánargjöf, og svo leist einnig vindinum. „Fæst engin betri, fæst engin betri?“ blés hann svo hátt sem hann orkaði. Í því hrapaði stjarna og dró eftir sér skínandi ljósrák. „Hvað var að tarna?“ sagði síldarhöfuðið, „hrapaði ekki stjarna þarna beint niður? Ég held hún hafi farið niður í ljóskerið. – Nú, já, já! ef þeir sækja líka um embættið, sem svo hátt eru settir, þá held ég okkur hinum sé best að hætta við það,“ og það gerði síldarhöfuðið og hinir með, en ljóskerið gamla lýsti allt í einu með undarlega mikilli birtu. „Þetta var ljómandi gjöf,“ sagði það. „Stjörnurnar björtu, sem ætíð hafa verið mér til svo mikillar gleði og lýsa svo ljómandi vel, að ég, ef satt skal segja, hef aldrei getað lýst á við þær, þó ekki hafi viljann vantað, – þær hafa nú tekið eftir mér, fátæku og gömlu ljóskeri, og gert út stjörnu með gjöf til mín, sem í því er fólgin, að allt, sem ég man og sé glöggt og greinilega, það sjá líka þeir, sem mér þykir vænt um. Enda verður ánægjan þá fyrst sönn, því þegar maður getur ekki veitt öðrum hlutdeild í henni með sér, þá er gleðin ekki nema hálf.“ „Þetta er mikið heiðarlega hugsað,“ sagði vindurinn, „en þú veist víst ekki, að vaxkerti heyra hér líka til. – Ef ekki er tendrað vaxljós innan í þér, þá getur enginn hinna séð neitt við þig. Eftir því hafa stjörnurnar ekki hugsað. Þær halda, að í öllu, sem lýsir, sé eitt vaxljós að minnsta kosti. En nú er ég þreyttur,“ sagði vindurinn, „nú ætla ég að leggjast út af,“ og að svo mæltu lagðist hann út af. Næsta dag – já, næsta daginn getum við hlaupið yfir, – næsta kvöldið lá ljóskerið í hægindastól – og hvar þá? – Hjá næturverðinum gamla. Hann hafði beiðst þess af bæjarráðinu, „hinum þrjátíu og sex mönnum“, að hann mætti fá að halda ljóskerinu gamla í notum sinnar löngu og dyggu þjónustu. Þeir hlógu að honum, þegar hann kom með þessa bæn og gáfu honum ljóskerið, og nú lá það í hægindastól rétt hjá heitum ofninum, og var sem það væri orðið stærra en áður, því minna vantaði á, að það fyllti allan stólinn. Hjónin gömlu voru sest við kvöldmatinn og renndu hýrum augum til ljóskersins gamla og mundu gjarnan hafa unnt því sætis við borðið með sér. Þau bjuggu reyndar í kjallara tvær álnir í jörð niður og lá leiðin ofan í stofu þeirra um forstofu með steinlögðu gólfi, en hlýtt var í stofunni, því hurðin var listuð með ánegldum klæðislistum. Allt var þar hreint og þokkalegt, sparlök um rúmið og tjöld hengd yfir gluggunum litlu, en á syllunni fyrir ofan stóðu tveir undarlegir jurtapottar. Kristján háseti hafði komið með þá frá Austindíum eða Vestindíum. Það voru tveir leirfílar, baklausir, en mold látin þar niður í, er bak skyldi vera, og óx upp úr öðrum fílnum fegursti graslaukur; það var matjurtagarður gömlu hjónanna, en upp úr hinum óx stórvaxið, blómstrandi storkablágresi. Það var blómreiturinn þeirra. Á veggnum hékk stór litmynd. Það var „furstafundurinn í Vínarborg“, og áttu hjónin þar alla kónga og keisara í einu lagi. Stundaklukka var í stofunni, ein af þeim frá Borgundarhólmi, og gekk með þungum blýlóðum – tikk takk! – og alltaf heldur fljótt, en gömlu hjónin sögðu, að það væri betra, heldur en að hún gengi of seint. Borðuðu þau nú kvöldverðinn og gamla ljóskerið lá eins og fyrr er sagt í hægindastólnum við ofninn. Þótti ljóskerinu sem veröldin öll væri af göflum gengin. En þegar næturvörðurinn gamli horfði á það og talaði um, hvað drifið hefði á daga þeirra beggja í regni og súld, á hinum björtu og stuttu sumarnóttum og í skafbylnum, þegar næturverðinum þótti gott að leita skjóls í kjallaraskúrnum, – þá þótti ljóskerinu gamla allt vera aftur svo sem vera átti. Það sá það eins og væri það í raun og veru, og mátti með sanni segja, að vindinum hefði vel tekist að heiða til innan í því. Þau voru einstaklega iðin og eljusöm þessi gömlu hjón og eyddu ekki nokkurri stund í iðjuleysi. Á sunnudögum síðdegis var ætíð tekin upp bók, helst einhver ferðasaga, og las gamli maðurinn hátt um Afríku, um stóru skógana og villifílana, sem þar rása, og gamla konan hlýddi á með athygli og var að smágjóta augunum til leirfílanna, sem voru jurtapottar. „Ég get svona hér um bil ímyndað mér, hvernig það er.“ Og ljóskerið sárlangaði, að vaxkerti væri til, sem kveikt yrði á, og setti yrði inn í það, því þá mundi konan sjá allt nákvæmlega eins og ljóskerið sá það. Eikurnar háu, greinarnar þéttu, sem flæktust hver í aðra, blökkumennina þeysandi og fílahjarðirnar, sem brömluðu reyr og runna undir fótum sínum. „Hvað stoða allir mínir hæfileikar, þegar engin vaxkerti eru til?“ sagði ljóskerið andvarpandi. „Þau hjónin eiga ekki í eigu sinni nema lýsi og tólgarkerti og það er ekki nóg.“ Það var einhvern dag, að þeim kjallarahjónum bættist heilt knippi af vaxkertastubbum. Höfðu þau stærri stubbana til ljósa, en með hinum minni vexti gamla konan tvinnann, þegar hún var við saumaskap. Vaxljósin voru til, en ekki hugkvæmdist þeim að stinga dálitlu kertisskari inn í ljóskerið. „Hér stend ég með mína fágætu hæfileika,“ sagði ljóskerið, „ég hef allt innan í mér, en get ekki veitt þeim hlutdeild í því með mér. Þau vita ekki, að ég get breytt hvítum veggjunum í fegurstu tjöld, í gróðursæla skóga, já, í hvað eina, sem þau mundu óska sér. Þau vilja það ekki.“ Að öðru leyti stóð ljóskerið fægt og þokkalegt úti í horni, þar sem alltaf hlaut að vera tekið eftir því. Menn sögðu reyndar, að það væri skrifli, en það kærðu gömlu hjónin sig ekkert um, því þeim þótti vænt um ljóskerið. Nú er að segja frá því, að einn dag – það var fæðingardagur næturvarðarins gamla, þá gekk gamla konan að ljóskerinu, brosti við og sagði: „Nú ætla ég að skrautlýsa í stofunni fyrir hann.“ Þá marraði í pjáturhettu ljóskersins, því það hugsaði með sér: „Nú rennur upp ljós fyrir þeim.“ En það var lýsi, sem látið var í það, en ekki vaxkerti. Það logaði á ljóskerinu allt kvöldið. En nú vissi það, að gjöfin, sem stjörnurnar höfðu gefið því, sú gjöfin, sem best var allra, hún mundi verða dauður fjársjóður í þessu lífi. Þó dreymdi það – enda fer að vonum, að þeim beri eitthvað í drauma, sem aðra eins hæfileika hafa hlotið. – Já, það dreymdi að hjónin gömlu væru dáin og að það sjálft væri komið til járnsteypara og ætti að steypast upp aftur. Það var eins kvíðafullt nú eins og fyrrum, þegar það átti að fara upp í bæjarráðsstofu og takast undir skoðun af hinum „þrjátíu og sex mönnum“, en þó það ætti á sínu valdi að geta fallið saman í ryð og duft, ef það óskaði þess, þá kaus það samt ekki að láta svo verða, og komst það svo í bræðsluofninn og varð úr því járnkertastjaki, og hann svo fagur, að ekki mundi annar vænni. Hann var til þess gerður að setja í vaxljós og lagaður í engils líki, og hélt engillinn á blómvendi, en í miðjan blómvöndinn var stungið vaxljósi og stjakinn settur á grænt skrifborð til að standa þar. Herbergið var mjög viðkunnanlegt, og var þar mikið af bókum, og héngu á veggjunum fagrar myndir. Það var skáld, sem þar átti heima, og allt, sem skáldið hugsaði og ritaði, varð sjáanlegt þar umhverfis. Herbergið varð að þéttum og dimmum skógi, – að sólskinshýrum völlum, þar sem storkurinn vappaði, – eða þá að hafskipsþiljum úti á rúmsjó. „Mikið er mér lánað,“ sagði ljóskerið gamla í því að það vaknaði. „Það liggur við mig langi til að verða steypt upp aftur, – en það er nú sama, það kemur ekki til nokkurra mála, meðan gömlu hjónin tóra. Þeim þykir vænt um mig sjálfs mín vegna. Ég er eins og þeirra barn og þau hafa fægt mig og gefið mér lýsi og ég á í alla staði eins góða daga og myndin þarna á veggnum, sem er þó svo ákaflega mikilsháttar.“ Og upp frá þessu hafði það meiri innvortis rósemi, og það átti þetta gamla, heiðvirða strætisljósker alla dagana skilið. Penninn og blekbyttan Það var einhverju sinni í herbergi skálds nokkurs, að einhverjum, sem horfði á blekbyttuna skáldsins, urðu þessi orð á munni: „Það gegnir alveg furðu með þessi lifandi ósköp, sem koma upp úr blekbyttunni þeirri arna. Hvað skyldi nú verða það næsta? Það er stórmerkilegt.“ „Það er það reyndar,“ sagði blekbyttan. „Það er óskiljanlegt. Einmitt það, sem ég er alltaf að segja,“ sagði hún við fjaðrapennann og við alla þá hluti, sem á borðinu voru og gátu heyrt til hennar. „Það er furða, að öll þessi kynstur skuli koma úr mér. Já, það liggur við, að það sé ótrúlegt, og sannarlega veit ég ekki, hvað það næsta verður, þegar maðurinn fer að ausa úr mér. Einn dropi úr mér nægir á hálfa blaðsíðu, og hversu mikið getur ekki rúmast á hálfri blaðsíðu? Ég er mesta merkisþing. Úr mér koma öll ritverk skáldsins. Þessir lifandi menn, sem öllum finnst eins og þeir þekki, þessar innilegu tilfinningar, þetta léttlyndi, þessar indælu náttúrulýsingar. Sjálf skil ég það ekki, því ég þekki ekki náttúruna, en í mér hlýtur það að vera. Frá mér hefur komið og kemur enn þessi fjöldi svífandi yndislegra meyja og vaskra riddara á fnæsandi hestum. „Já, sjálf veit ég ekki um það, því það get ég sagt yður fyrir satt, að ekki hugsa ég um það.“ „Já, þar hafið þér rétt að mæla,“ sagði penninn, „þér hugsið alls ekki, því ef þér gerðuð það, þá munduð þér sjá, að það er ekkert, sem þér látið í té, nema vökvinn. Þér leggið til vökvann, svo að ég geti komið orðum að og sett á pappírinn það, sem í mér býr, það sem ég færi í rit. Það er penninn, sem ritar, um það blandast engum lifandi manni hugur, og ef satt skal segja, þá hefur allur þorri manna ekki meira vit á skáldskap en gömul blekbytta.“ „Þér eruð heldur óreyndur,“ sagði blekbyttan. „Þér hafið ekki verið lengur en tæpa viku í vistinni og eruð þó þegar uppslitinn til hálfs. Gerið þér yður í hugarlund, að þér séuð skáldið? Þér eruð þó aldrei nema vinnuhjú, og mörg slík hef ég haft áður en þér komuð, sum af gæsakyninu og sum úr enskum verksmiðjum. Ég þekki bæði fjaðrapenna og stálpenna. Ég hef haft marga slíka í vinnu hjá mér og mun hafa framvegis, þegar hann kemur hérna, maðurinn, sem stýrir fyrir mig hreyfingunum og færir það letur, sem hann lyftir upp úr mínum innri forða. Gaman þætti mér að vita, hvað nú verður það fyrsta, sem hann færir upp úr mér.“ „Hvernig lætur blekílátið sér,“ sagði penninn. Seint um kvöldið kom skáldið heim. Hafði hann þá verið við hljóðfæraleik og hlýtt á fyrirtaks fiðluleikara og var alveg frá sér numinn og gagntekinn af leiksnilld hans, sem var óviðjafnanleg. Það var dásamlegt tónaflóð, sem fiðluleikarinn hafði náð úr hljóðfærinu. Ýmist var það á að heyra eins og fagurhljóða, fallandi vatnsdropar, perla á perlu ofan, ýmist sem söngflokkur kvakandi fugla, ýmist hóf það sig upp eins og stormur þyti í greniskógi. Honum þótti sem hann heyrði hjartað í sér gráta, en það var í sönglaginu sjálfu, sem væri það sungið með fagurri kvenrödd. Það hafði verið á þá leið, sem ekki hljómuðu fiðlustrengirnir einir fyrir sig, heldur sjálft hljóðfærið allt í senn, strengjastóllinn, skrúfurnar og ómbotninn. Það hafði verið óviðjafnanlegt, en vandasamt mjög og þó sýnst vera leikur einn, eins og boginn gerði ekki annað en að renna fram og aftur yfir strengina, og skyldu menn ætla, að hver og einn gæti leikið það eftir. Fiðlan hljómaði sjálfkrafa, boginn lék sjálfkrafa. Þau tvö gerðu það allt saman. Menn gleymdu meistaranum, sem báðum stýrði og gaf þeim líf og sál. Menn gleymdu meistaranum, en um hann hugsaði skáldið, og það, sem hann hugsaði, orðaði hann og færði í letur: „Hvílík heimska væri það, ef boginn og fiðlan vildu hrokast upp af verki sínu! En það gerum vér mennirnir oft og einatt – skáldið, listamaðurinn, uppgötvarinn í vísindanna heimi, hershöfðinginn, — vér hrokumst allir, og þó erum vér ekkert annað en strengfærin, sem drottinn vor leikur á. Honum einum ber heiðurinn. Vér höfum ekkert að hrokast af.“ Þetta skrifaði skáldið og setti það fram í líkingu, er hann kallaði: „Meistarinn og hljóðfærin“. „Þarna fenguð þér yðar vöru selda, maddama góð!“ sagði penninn við blekbyttuna, þegar þau voru orðin tvö ein. „Þér heyrðuð hann víst lesa hátt það, sem ég hafði skrifað?“ „Já, það sem ég fékk yður til að skrifa,“ sagði blekbyttan. „Það er ádrepa til yðar fyrir hrokann. Að þér skulið ekki einu sinni skilja, þegar verið er að skopast að yður! Ég gaf yður ádrepuna úr mínum innri forða. Það væri þó líklegt, að sjálf þekkti ég best mínar eigin skammir.“ „Blekkollu garmur!“ „Ritfjaðrar ræfill!“ sagði blekbyttan. Og hvort þeirra um sig hafði það á vitundinni, að það hefði svarað vel fyrir sig, og það er nú ætíð þægilegt að vita með sjálfum sér, að maður hefur ekki látið standa upp á sig í svörum. Þegar svo er, getur maður sofið rólega á eftir, og það gerðu þau. En skáldið svaf ekki. Hugsanirnar streymdu eins og tónaflóðið hafði streymt úr fiðlunni. Ýmist var það hrynjandi sem perlur, ýmist dunandi sem stormur í skógi. Hann fann í því sitt eigið hjarta, hann fann í því neistann frá hinum eilífa meistara. Honum einum ber heiðurinn og vegsemdin. Síðasti draumur eikitrésins gamla (Jólaævintýri) Uppi á hæð nokkurri við sjó fram, fyrir opnu hafi, gnæfði ævagamalt eikitré. Það stóð heima, að nú var það réttra þrjú hundruð sextíu og fimm ára, en sá langi tími var ekki meira fyrir tréð en jafnmargir dagar fyrir oss mennina. Vér vökum á daginn og sofum á nóttunni, og dreymir oss þá drauma vora. En þetta er nú allt öðruvísi fyrir trénu. Meðan þrjár árstíðir standa yfir, verður það að vaka og fær ekki að sofna fyrr en vetrar. Veturinn er svefntími þess. Hann er nótt þess eftir hinn langa dag, sem tekur yfir vorið, sumarið og haustið. Margan heitan sumardaginn hafði dægurflugan dansað kringum krónu trésins, lifað dátt og svifið létt og verið svo sæl og ánægð, og kæmi það fyrir, að þessi örlitla skepna hvíldi sig unaðfangin litla stund á einhverju af stóru fagurgrænu laufblöðunum, þá sagði það ætíð: „Vesalingurinn litli! öll þín ævi varir aðeins einn dag. ósköp er það stutt. Það er hörmulegt.“ „Hörmulegt!“ var þá dægurflugan vön að segja, „hvað áttu við? Allt er svo dæmalaust bjart, svo hlýtt og yndislegt, og ég er svo glöð.“ „En ekki nema einn dag, og svo er allt búið að vera,“ sagði eikin. „Búið að vera!“ mælti dægurflugan. „Hvað er búið að vera? Ert þú líka búin að vera?“ „Nei, ég lifi, og það, ef til vill, svo þúsundum skiptir af þínum dögum, og minn dagur nær yfir heilar árstíðir. Það er svo langt, að þú getur alls ekki reiknað það út.“ „Nei, – því ég skil þig ekki. Þú lifir svo þúsundum skiptir minna daga, en ég lifi þúsundir augnablika, sem ég nýt allra í gleði og sælu. Hættir allt þetta heimsins indæli, þegar þú deyrð?“ „Nei,“ svaraði tréð, „það stendur víst lengur, óendanlega miklu lengur en ég get hugsað mér.“ „Þá höfum við alveg jafnt, en við reiknum það á mismunandi hátt, það er allt og sumt.“ Og dægurflugan dansaði og sveiflaði sér í loftinu. Hún var hróðug af haggjörvu, silkimjúku vængjunum sínum, og lék sér unaðfangin í hlýju loftinu, sem angaði af ilminum frá smáragrundunum, villirósunum á limgerðunum og fleiri blómum, svo sem viðvindlum, skógmerkjum, kúrekum og villtum krúsmyntum. Var sá ilmur svo megn, að dægurflugunni fannst hún verða hálfdrukkin af honum. Dagurinn var langur og fagur, fullur unaðar og ljúfra tilfinninga, og er sólin rann til viðar, var dægurflugan svo notalega þreytt af allri þessari kæti. Vængirnir gátu ekki borið hana lengur. Hún leið hóglega niður í grasið mjúkt og dúandi, dottaði með höfðinu litla, eins og dægurfluga dottar, og sofnaði blítt og sætlega. Hún var dáin. „Vesalings dægurflugan litla!” sagði eikin, „það var sannarlega of stutt ævi.” Og á hverjum sumardegi var upp aftur og aftur þessi sami dans, sömu spurningarnar og svör og sami svefn. Ein kynslóð af dægurflugum tók við af annarri og alltaf var þetta sama upp aftur og aftur, og allar voru þær jafnsælar og glaðar. Eikin var sívakandi á vormorgni sínum, sumarhádegi og haustkvöldi. En nú leið að svefntímanum, næturhvíldinni. Veturinn var í aðsigi. Stormarnir voru þegar farnir að syngja: „Góðar nætur, góðar nætur! Þarna datt eitt laufblað og þarna datt annað! Við reytum og reytum. Við syngjum þig í blund. Við ruggum þér í blund með ryskingum vorum. Það ógleður ekki greinarnar þínar gömlu. Það brakar í þeim af tómri ánægju. Sofðu sætt, sofðu sætt! Þetta er þín þrjú hundraðasta sextugasta og fimmta nótt. Ef satt skal segja, þá ertu ekki nema barn að aldri. Sofðu sætt. Skýin ausa niður snjónum. Hann verður að laki, hann verður að skjólgóðri ábreiðu fyrir fætur þína. Sofðu sætt og dreymi þig ljúfa drauma!” Og þarna stóð eikin svipt öllu laufi sínu og hvíldbúin undir allan þennan langa vetur, og í þeim vændum, að dreyma á honum margan draum, og alltaf um eitthvað, sem hún hafði reynt og lifað, alveg eins og gerist í draumum mannanna. Hún hafði líka einhvern tíma verið lítil. Dálítið akarn hafði verið vaggan hennar. Og eftir tímatali mannanna var hún nú komin á fjórðu öldina, enda var hún stærsta og ágætasta tréð í skóginum, gnæfði hátt upp yfir öll hin trén og sást langt utan að frá sjónum, svo að sjómenn höfðu hana fyrir merki. En það kom henni síst til hugar, að svo mörg augu leituðu hennar. Skógardúfurnar hreiðruðu sig í græna toppliminu hennar og þar galaði gaukurinn: „kú! kú!“ og á haustin, þegar laufblöðin voru tilsýndar eins og útbeittar eirþynnur, þá komu farfuglarnir og hvíldu sig þar áður en þeir flugu út yfir hafið. En nú var vetur og tréð blaðlaust og bert, svo að glöggt mátti sjá, hve bognar og kræklóttar greinarnar stóðu út úr bolnum. Krákur og krákubræður komu og settust þar á víxl og töluðu sín í milli um vetrarharðindin og bjargarleysið. Það var einmitt um jólin, sem tréð dreymdi sinn fegursta draum, en hann var á þessa leið. Það var enginn vafi á því, að tréð fann á sér, að nú var komin hátíð. Því þótti sem það heyrði öllum kirkjuklukkum hringt og þar á ofan var svo mikil veðurblíða og hlýindi sem á sumardegi væri. Það útbreiddi volduglega laufbaðminn sinn nýsprottinn og iðgrænan. Sólargeislarnir léku milli laufanna og greinanna og loftið var fullt af ilmi þeim, er upp lagði af jurtum og runnum. Fjöllit fiðrildi voru í eltingaleik saman og dægurflugurnar dönsuðu eins og allt væri skapað þeirra vegna, til þess að þær skyldu skemmta sér og dansa. Allt, sem tréð hafði árunum saman lifað og reynt og séð í kringum sig, það leið nú fram hjá eins og í hátíðlegri skrúðför. Það sá fornaldarriddara og frúr fara ríðandi um skóginn með fjaðurskreytta hatta og hauk á hendi. Veiðihornið gall og hundarnir geltu. Það sá hermenn á litklæðum og fóru þeir með ófriði. Voru þeir vopnaðir spjótum og brynþvörum og gerðu ýmist að reisa tjöld eða taka þau ofan. Varðbál voru kynt. Það var sungið og sofið undir hinu víða greinaskjóli trésins. Það sá ánægða, ástarsæla elskendur hittast hjá sér í tunglskini og skera upphafsstafi nafna sinna í grágrænan börkinn. Einhvern tíma fyrir mörgum árum höfðu kátir ferðapiltar hengt upp sítara og eólshörpu í greinar trésins. Nú héngu hljóðfærin þar aftur og nú hljómuðu þau aftur svo yndislega. Skógardúfurnar kurruðu eins og þær vildu skýra frá tilfinningum trésins, og gaukurinn sagði því með kvaktónum sínum, hve marga sumardaga það ætti eftir ólifða. Þá var eins og nýr lífsstraumur færðist alla leið niður í minnstu ræturnar og upp í hæstu greinarnar og gagntæki hvert laufblað. Tréð fann, að það rétti úr sér og þandi sig um leið. Það kenndi þess með rótum sínum, að einnig niðri í jörðinni var líf og ylur. Stofninn hækkaði viðstöðulaust. Hann óx meira og meira, krónan varð fyllri, breiddist út og lyftist, og eftir því sem tréð óx, eftir því leið því betur og betur og eftir því magnaðist meira og meira hin sælufulla löngun þess, að komast hærra og hærra, beina leið upp til hinnar björtu og vermandi sólar. Nú var það þegar vaxið hátt upp yfir skýin, þar sem dökkir farfuglahópar eða stórir fannhvítir svanaflokkar svifu áfram í loftinu fyrir neðan það. Og hvert og eitt af laufblöðum trésins var sjáandi, eins og það hefði augu. Stjörnurnar urðu sýnilegar við dagsbirtuna, stórar og skærar. Hver og ein blikaði sem augu geta fegurst blikað, svo blítt og skært. Þær minntu á vel þekkt ástrík augu, – barnsaugu eða augu elskendanna, þegar þeir höfðu hist undir trénu. Þetta voru fagnaðarrík, undursæl augnablik fyrir tréð, en í öllum þeim fögnuði fann það samt til einhverrar þrár og löngunar, að öll skógartrén þar neðra, allir runnar, jurtir og blómstur gætu lyfst upp með því, gætu fundið til og skynjað þenna ljóma og fögnuð. Eikin tignarlega og volduga gat ekki verið fullsæl í þessum dýrðardraumi sínum, nema því aðeins, að hún hefði það allt njótandi með sér, smátt og stórt, og þessi tilfinning titraði gegnum hverja grein og hvert laufblað, eins heitt og innilega eins og mannlegt hjarta getur framast fundið til. Og tréð hreyfði kollinn, eins og það væri að leita og saknaði einhvers. Þá fann það ilm af skógmerkjum og bráðum enn megnari ilm af geitablöðum og fjólum. Því þótti sem það heyrði gaukinn svara sér. Og trénu varð að ósk sinni. Grænu trjátopparnir í skóginum fóru að gægjast upp í gegnum skýin. Það sá hin trén fyrir neðan sig vaxa og lyftast upp með sér. Runnar og jurtir þutu upp. Sumt reif sig upp með rótum, til þess að geta verið fljótara á sér. Birkið var skjótfærast. Stofninn þess beinvaxni renndi sér í loft upp sem hvítleiftrandi elding. Greinar þess dúðu eins og grænar blæjur og fánar. Gjörvallt gróðurríki skógarins óx með, enda reyrstráin brúnfiðruðu líka, og á grasstráinu, sem flögraði laust eins og grænt silkiband, sat engisprettan og blakaði vængjunum við fótleggi sína. Aldinborarnir umdu og býflugurnar suðuðu. Hver fugl söng með sínu nefi. Allt var einskær unun og sönglist, sem ómaði alla leið inn í himininn sjálfan. „Hvar er rauða blómið litla, sem vex hjá vatninu? Það ætti að vera með okkur;“ sagði eikin. „Og svo klukkublómið bláa og murusóleyin litla.“ Eikin vildi hafa þau með sér öll saman. „Við erum hérna, við erum hérna,“ var svarað ómandi og hljómandi. „En fallegu skógmerkin þá, – þau í fyrra sumar – og liljublómafansinn, sem var hér árið þar á undan og villiapaldurinn – ó, hvað hann var indæll! og öll skógarprýðin, sem verið hafði árum saman, – hefði hún haldist og lifnað við núna, þá hefði hún líka getað verið með.“ „Við erum hérna, við erum hérna,“ heyrðist ennþá hærra uppi. Það var eins og þetta, sem lét til sín heyra, væri komið þangað á undan. „Nei, þetta er alltof ótrúlega indælt,“ sagði eikin gamla fagnandi. „Ég hef það allt hjá mér, smátt og stórt, ekkert vantar. Hvernig getur slík sæla verið hugsanleg og möguleg?“ „Á himnum hjá guði er hún hugsanleg og möguleg.“ Og eikin, sem alltaf var að vaxa, fann nú, að rætur hennar losnuðu við jörðina. „Þetta er það langbesta af öllu, sagði eikin,„nú halda mér engin bönd. Ég get flogið upp til hins allra hæsta í dýrðarljómann, og allt, sem ég elska, hef ég með mér, smátt og stórt. Allt hef ég með mér.“ Þetta dreymdi eikina, og meðan hana var að dreyma, gekk ofsaveður yfir haf og hauður á helgri jólanóttunni. Sjórinn velti þungum bylgjum að ströndinni. Í trénu heyrðust brestir og brak. – Það rykktist upp með rótum rétt í sama bilinu og það dreymdi, að rætur þess væru að losna. Það féll til jarðar og sannaðist nú, að þau þrjú hundruð sextíu og fimm ár, sem það hafði lifað, voru alls ekki meira en hinn eini dagur dægurflugunnar. Á jóladagsmorguninn, þegar sólin rann upp, var storminum slotað. Frá öllum kirkjum ómaði klukknahringingin hátíðlega, og upp frá hverjum reykháf, enda á hverjum aumasta kotbæ, lagði bláan reykinn, í líkingu við þakkarfórnarreykinn frá altari „drúídanna“.[*] Sjórinn kyrrðist meira og meira, og á einu stóru hafskipi, sem heilu og höldnu hafði afborið storminn um nóttina, var mikið við haft og flaggað öllum flöggum til að minnast jólahátíðarinnar. [* „Drúídar“ hétu prestar Kelta í fornöld (Breta og Galla). Eikin var heilagt tré í átrúnaði Kelta.] „Tréð er horfið, – eikin gamla, landkenningarmerkið okkar!“ sögðu skipverjarnir. „Það hefur farið um koll í ofsaveðrinu í nótt. Hver bætir okkur skaðann? Það getur enginn.“ Þessa líkræðu hlaut tréð, og fylgdi þar hugur máli, þó ræðan væri stutt. Þarna lá það endilangt á snæþaktri ströndinni, og yfir því hljómaði sálmasöngur frá skipinu, söngurinn um jólagleðina, endurlausn mannkynsins fyrir Jesúm Krist og eilífa lífið. Nú hljómi lofgjörð hátt við ský, Er heimi rann upp sólin ný. Sú hjartans gleði himnesk er, Hallelúja því syngjum vér. Svona hljómuðu orðin í sálminum gamla, og á skipinu lyftust upp hugir og hjörtu allra í lofgjörðinni og bæninni, á líkan hátt og eikin gamla hafði lyfst til hæða í síðasta og fegursta draumnum, sem hana dreymdi um jólanóttina. Gamla húsið Þarna yfir frá í strætinu var ævagamalt hús. Það var allt að því þrjú hundruð ára gamalt. Það gat hver maður lesið á bjálkanum, þar sem ártalið var útskorið ásamt túlípönum og humalteinungum. Þar voru letraðar heilar vísur með fornum rithætti og yfir hverjum glugga var útskorið á bjálkanum grettið mannsandlit. Hver húslyftingin skagaði út yfir aðra, og undir þakinu var blýrenna með drekahöfði. Rigningarvatnið átti að renna út um ginið, en það rann út úr búknum, því gat var á rennunni. Öll hin húsin í strætinu voru ný og snotur með stórum gluggarúðum og sléttum veggjum. Það var auðséð, að þau vildu ekki hafa neitt saman við gamla húsið að sælda. Þau munu hafa hugsað með sér: „Hvað lengi skyldi þetta gamla húshróf eiga að standa hér í strætinu, öllum mönnum til hneykslunar og skapraunar? Svalirnar standa svo langt út, að enginn sér úr okkar gluggum, hvað hinum megin gerist. Tröppurnar eru eins breiðar og hallartröppur og liggja hátt eins og upp í kirkjuturn. Járnhandriðið er eins og dyr að ættargrafreit og messinghnúður á því í tilbót. Það er í meira lagi smekklaust!“ Beint andspænis í strætinu stóðu líka ný hús, og hugsuðu þau á sömu leið og hin. En þar sat við gluggann dálítill drengur með rjóðar kinnar og björt og skýrleg augu. Honum geðjaðist reyndar hvað best að gamla húsinu og það bæði í sólskini og tunglskini. Og þegar hann horfði yfrum á múrinn, þar sem kalkið var dottið af, þá gat hann setið og fundið út hinar undarlegustu myndir og það einmitt með mestu nákvæmni: hvernig strætið hefði verið á að líta til forna, með tröppum, svölum og hvassgöflum. Hann gat séð hermenn með atgeira, og rennur með upsum fram í orma og drekalíkjum. Það var hús, sem vert var að virða fyrir sér, og svo líka bjó þar yfir frá gamall maður, sem gekk á stuttbuxum og kjól með messinghnöppum, og með parruk á höfði, sem allir gátu séð að var ósvikið parruk. Á hverjum morgni kom til hans gamall þjónn, sem hélt hreinu hjá honum og fór sendiferðir. Að öðru leyti var gamli maðurinn á stuttbuxunum aleinn í gamla húsinu. Oftsinnis kom hann út að glugga og horfði út. Kinkaði þá litli drengurinn kolli til hans og gamli maðurinn gerði eins, og þannig urðu þeir fyrst kunningjar og síðan vinir, þótt aldrei hefðu þeir talast við, og það mátti líka á sama standa. Litli drengurinn heyrði foreldra sína segja: „Gamla manninum þarna yfir frá líður dáindis vel, en hann er svo hræðilega einmana.“ Næsta sunnudag tók drengurinn eitthvað, vafði það innan í pappír og fór ofan í húsdyrnar, og er þjónninn gamla mannsins gekk fram hjá, þá kallaði drengurinn til hans og sagði: „Heyrðu! viltu fara með að tarna fyrir mig og fá það gamla manninum, sem býr yfir frá? Ég á tvo tindáta og þetta er annar. Hann skal eiga hann, því ég veit, að hann er svo einmana.“ Og gamli þjónninn varð svo ánægjulegur á svipinn, kinkaði kolli og fór með tindátann yfir í gamla húsið. Komu síðan skilaboð til litla drengsins, hvort hann vildi ekki koma sjálfur og heimsækja gamla manninn. Það leyfðu foreldrarnir honum og kom hann svo yfir í gamla húsið. Og messinghnúðarnir á tröppuhandriðinu glóðu miklu meir en endranær. Menn skyldu hafa haldið, að þeir hefðu verið fægðir til að fagna heimsækjandanum, og það var eins og lúðurþeytararnir útskornu – það voru sem sé útskornir lúðurþeytarar á dyrnar, og stóðu þeir í túlípanablómstrunum – já, það var eins og þeir blésu af öllu megni, svo að tútnuðu út kinnarnar. Ef það var, að þeir blésu: „Tra, tra, tra, trataratra! litli drengurinn kemur, tra, tara, tra,“ og lukust nú upp dyrnar. Inn eftir öllum ganginum héngu mannamyndir, riddarar í spangabrynjum og frúr í silkikjólum. Það glamraði í brynjunum og skrjáfaði í kjólunum, og svo komu tröppur, fyrst nokkuð upp á við og svo dálítið niður á við, því næst var maður kominn út á svalir, sem reyndar voru orðnar æði hrörlegar með stórum götum og löngum rifum, en upp úr þeim óx gras og jurtablöð, því svalirnar voru allar vaxnar svo mildum grængróðri, að þetta var blómagarði líkast, þó ekki væri nema veggsvalir einar. Stóðu þar gamlir jurtapottar með andlitum og asnaeyrum og uxu nú blómin í þeim sem villiblóm. Í einum jurtapottinum uxu nellikur með óhemju grósku, það er að segja það á þeim, sem grænt er, angi við anga, og var þar greinilega einum rómi sagt: „Loftblærinn hefur klappað mér, sólin hefur kysst mig og lofað mér litlu blómi á sunnudaginn kemur, litlu blómi á sunnudaginn kemur.“ Því næst komu þeir inn í herbergi, þar sem veggirnir voru fóðraðir með svínsleðri, en flúrað var með blómmyndum. „Gylling fer á glæ, En svínsleður endist sí og æ –,“ sögðu veggirnir. Þar voru bakháir hægindastólar með miklum útskurði og bríkur beggja vegna. „Tylltu þér niður, tylltu þér niður!“ sögðu þeir. „Ó, ó, það hriktir í mér, nú fæ ég víst gigt eins og gamli skápurinn. Gigt í bakið, ó, ó!“ Nú kom litli drengurinn inn í stofuna, sem vissi út að svölunum, og þar sat gamli maðurinn. „Bestu þökk fyrir tindátann, litli vinur minn!“ sagði gamli maðurinn, „og þökk fyrir það, að þú ert kominn hingað yfrum til mín.“ „Þökk, þökk!“ eða „kra, krakk!“ heyrðist í öllum stofugögnunum. Þau voru svo mörg, að heita mátti, að hvert stæði í vegi fyrir öðru og varnaði eitt öðru að sjá litla drenginn. Á miðjum veggnum hékk málverk. Það var mynd af fríðri stássmey, ungri og glaðlegri, en búningurinn var gamaldags, með hárið sallaborið og stífu klæðasniði eins og fyrrum tíðkaðist, en hún horfði blíðum augum til drengsins og varð honum undir eins að spyrja gamla manninn: „Hvar hefurðu fengið hana?“ „Hjá skransalanum þarna yfir frá,“ sagði gamli maðurinn. „Þar hanga margar myndir. Enginn þekkir þær eða kærir sig um þær. Sjálfar persónurnar eru allar komnar í jörðina, en þessa þarna hef ég þekkt, og eru fimm tugir ára síðan hún skildi við.“ Undir málverkinu hékk vöndull visinna blóma undir gleri og í umgjörð. Þau blóm höfðu víst líka verið tínd fyrir hálfri öld. Svo ellileg voru þau að sjá. Pendúllinn í stundaklukkunni gekk fram og aftur og vísarnir snerust og allt í herberginu varð eldra, – en sjálft fann það ekki til þess. „Þau segja heima, að þú sért svo hræðilega einmana,“ mælti litli drengurinn. „O,“ sagði gamli maðurinn, „hugsanirnar gömlu með því, sem þær hafa í eftirdragi, þær koma til mín og heimsækja mig, og nú kemur þú líka. Mér líður ofurvel.“ Að svo mæltu tók hann myndabók ofan af hillunni. Í henni voru myndir af löngum prósessíum, afbrigðilegum vögnum og allt öðruvísi en þeir, er sjá má nú á dögum. Af dátum í laufagosalíki og borgurum með blaktandi fána. Skraddararnir höfðu sinn sérstaka fána og var merkið í honum skæri, sem tvö ljón héldu um. Í skóarafánanum var merkið ekki stígvél, heldur örn, sem tvö voru á höfuðin, því skóararnir vilja hafa það á þann veg, að allt sé parað, tvennt og tvennt saman. Hún var mesta höfuðþing, myndabókin sú. Og nú fór gamli maðurinn inn í næsta herbergi til að sækja handa drengnum sætmeti, epli og hnetur. Það var ekki margt að því að vera í gamla húsinu. „Hér get ég ekki haldist við,“ sagði tindátinn, sem stóð uppi á dragkistunni. „Hér er svo einmanalegt og raunalegt. Nei, þegar maður hefur komist á að lifa heimilislífi, þá getur maður ekki sætt sig við annað eins og þetta. Ég helst hér ekki við. Allur dagurinn er svo langur, og kvöldið er enn lengra. Það er síður en svo, að það sé eins og heima hjá þér þarna yfir frá, þar sem hann faðir þinn og hún móðir þín töluðu svo ánægð saman, og þið öll blessuð börnin voruð svo skemmtilega galsafengin. Hvað það er leiðinlegt fyrir gamla manninn að vera svona einn, fyrr má nú vera. Heldurðu svo sem, að hann fái koss? Heldurðu, að hann fái nokkurt hýrlegt augnatillit – eða þá jólatré? hann fær ekkert nema útförina. Nei, hér helst ég ekki við.“ „Þú mátt ekki líta svona sorglega á þetta,“ sagði litli drengurinn, „mér sýnist hér vera svo indælt, og svo koma líka allar hugsanirnar gömlu í heimsókn hingað með því, sem þær hafa í eftirdragi.“ „Já, ég sé þær nú ekki og þekki þær ekki,“ sagði tindátinn. „En hér get ég ekki haldist við.“ „En þú mátt nú samt til með það,” sagði litli drengurinn. Og gamli maðurinn kom nú næsta hýrleitur með indælasta sætmeti, epli og hnetur og hugsaði litli drengurinn þá ekki stórt um tindátann. Litli drengurinn kom því næst heim og var hinn ánægðasti. Liðu svo dagar og liðu svo vikur. Litli drengurinn kinkaði kolli til gamla hússins, og gamli maðurinn kinkaði aftur kolli þaðan, og kom þá litli drengurinn þangað aftur. Og útskornu lúðurþeytararnir blésu: „Trattara tra! þarna kemur litli drengurinn, trattara tra!“ og sverðin og hertygin á gömlu riddaramyndunum glömruðu, og skrjáfaði í silkikjólunum. Svínsleðrið talaði og gömlu stólarnir höfðu gigt í bakinu og æjuðu. Það var nákvæmlega eins og í fyrra skiptið, því þar yfir frá var einn dagurinn sem annar og ein stundin sem önnur. „Ég helst hér ekki við,“ sagði tindátinn, „ég hef grátið tini. Hér er alltof dapurlegt. Láttu mig heldur fara í stríð og missa fætur og handleggi, þar er þó tilbreyting. Ég þoli ekki að vera við þetta lengur. Nú veit ég hvað það er, að verða fyrir heimsókn sinna gömlu hugsana með því, sem þær hafa í eftirdragi. Mínar gömlu hugsanir hafa heimsótt mig, og því máttu trúa, það er annað en gaman, þegar til lengdar lætur. Það var rétt að mér komið að steypa mér niður af dragkistunni. Ég sá ykkur öll í húsinu þarna yfir frá, eins greinilega og þið hefðuð verið hérna. Það var aftur sunnudagsmorgunninn sá, sem þú manst víst eftir. Þið börnin stóðuð öll fyrir framan borðið með guðrækni og sunguð sálminn ykkar, sem þið sunguð á hverjum morgni. Þið stóðuð og spenntuð greipar með guðrækni. Og eins voru þau hátíðleg á svipinn, hann faðir ykkar og hún móðir ykkar, og svo var dyrunum lokið upp og hún María systir ykkar látin koma inn, telpan litla, sem ekki er fullra tveggja ára enn og ætíð dansar, þegar hún heyrir leikið á hljóðfæri eða sungið, hvað svo sem það er. Hún átti nú raunar ekki að gera það, en þarna fór hún að dansa. Gat samt ekki komist í takt, því tónarnir voru svo langir, og stóð hún svo fyrst á öðrum fæti og laut áfram með höfuðið, og svo á hinum fætinum og laut áfram með höfuðið, en það fór nú ekki sem best. Þið stóðuð öll saman með mesta alvörusvip, þó ykkur hafi víst veitt það erfitt, en ég hló innanbrjósts og þess vegna datt ég niður af borðinu, svo ég meiddi mig og dalaðist, og að því bý ég enn, því það var ekki rétt gert af mér að hlæja. En allt þetta tekur sig nú upp aftur í mér, og allt annað, sem komið hefur fyrir mig um dagana. Og það mundu nú vera gömlu hugsanirnar með því, sem þær hafa í eftirdragi. En segðu mér nokkuð; syngið þið enn á sunnudögunum? Hvað geturðu sagt mér um hana Maríu litlu, og hvernig líður honum félaga mínum, hinum tindátanum? Já, hann er nú sannarlega hamingjusamur, en ég get ekki haldið þetta út.“ „Það er búið að gefa þig burt,“ sagði litli drengurinn. „Þú mátt til að vera kyrr, skilurðu það ekki?“ Gamli maðurinn kom með skúffu, og var margt að sjá í henni, bæði skildingabaukur og balsambaukur og gömul spil, og þau svo stór og svo gyllt, að slík sjást ekki nú á dögum. Og nú voru dregnar út stórar skúffur og lokið upp klavérinu. Það var með landslagsmálverki innan á lokinu, en tónarnir voru rámir, þegar gamli maðurinn fór að leika á hljóðfærið. Jafnframt raulaði hann vísu eina. „Já, þessa vísu gat hún sungið,“ sagði hann og kinkaði kolli til myndarinnar, sem hann hafði keypt hjá skransalanum, og birti þá og hlýnaði yfir augum gamla mannsins. „Ég vil fara í stríð, ég vil fara í stríð!“ kallaði tindátinn eins hátt og hann gat og steypti sér niður á gólfið. Já, hvað varð nú af honum? Gamli maðurinn leitaði og litli drengurinn leitaði, en tindátinn var allur á burtu. „Ég mun víst finna hann,“ sagði gamli maðurinn, en hann fann hann aldrei. Gólfið var svo gisið og rifið. Tindátinn hafði dottið niður í rifu og þar lá hann í opinni gröf. Og nú leið þessi dagur og litli drengurinn kom heim, og svo leið vikan og fleiri vikur. Gluggarnir voru alfrosnir. Litli drengurinn varð að sitja við og anda á þá til þess að búa til dálítið gægjugat, svo hann sæi yfir til gamla hússins, en þar hafði snjóað yfir allt skurðverk og letur og skeflt alla leið upp yfir riðið, eins og enginn væri heima, enda var ekki heldur neinn heima, því gamli maðurinn var dáinn. Um kvöldið var vagni ekið að húsdyrunum og ofan í hann var gamli maðurinn borinn í kistu sinni. Það átti að fara með hann út á land og jarða hann í grafreit sínum. Var nú vagninum ekið burt, en enginn fylgdi, því allir vinirnir voru dauðir. Litli drengurinn kyssti á fingurinn eftir kistunni, þegar henni var ekið fram hjá. Nokkrum dögum síðar var haldið uppboð á gamla húsinu, og drengurinn horfði á það úr glugga sínum, hvernig munirnir voru bornir þaðan burt: riddararnir gömlu og hefðardrósirnar gömlu, jurtapottarnir langeyrðu, gömlu stólarnir og gömlu skáparnir, eitt fór í þessa áttina og annað í hina. Andlitsmyndin af stássmeynni, sem fundist hafði hjá skransalanum, lenti nú hjá skransalanum í annað sinn, og þar hékk hún nú alla tíð, því að enginn þekkti hana framar, enda kærði enginn sig neitt um þessa gömlu mynd. Um vorið var húsið rifið niður, og var þá viðkvæðið hjá öllum, að það væri skrifli. Af strætinu sást alla leið inn í stofuna með svínsleðursveggfóðrinu góða. Nú var það rifið og tætt í sundur, og grænu jurtavefjurnar um veggsvalirnar héngu á rúi og stúi utan um hrynjandi bjálkana. Öllu var rótað og rýmt á burt. „Tarna dugði!“ sögðu nágrannahúsin. Og nú var byggt ljómandi fallegt hús með stórum gluggum og hvítum, sléttum múrveggjum, en fyrir framan það, þar sem gamla húsið eiginlega hafði staðið, þar var gerður dálítill lystigarður og uxu villivínviðarteinungar upp með múrveggjum nábúans. En fyrir framan lystigarðinn voru settar járngrindur með járnhliði. Var það skrautlegt tilsýndar, svo að þeir, sem fram hjá gengu, staðnæmdust og gægðust þar inn. Og spörvarnir settust tugum saman á vínviðarteinungana og mösuðu óðamála hver við annan eins hátt og þeir gátu, en ekki var það um gamla húsið, því það hafði verið fyrir þeirra minni. Það voru nú liðin svo mörg ár, að litli drengurinn var orðinn fulltíða maður, og meira að segja, hann var dugandi maður og gleði foreldra sinna. Hann var nýkvæntur og nýsestur að með hinni ungu konu sinni í húsi þessu, sem garðurinn heyrði til. Hann stóð hjá henni og var hún að gróðursetja vallblóm eitt, sem henni þótti einstaklega fallegt. Hún gróðursetti það með litlu hendinni sinni og þjappaði moldinni að því með fingrunum. Æ, hvað var að tarna? Hún stakk sig á einhverju. Það var eitthvað oddhvasst, sem stóð upp úr mjúkri moldinni. Þetta var þá tindátinn, sem týnst hafði hjá gamla manninum, verið svo á einhverjum flækingi til og frá innan um timbur og mylsnu og að síðustu legið mörg ár í jörðu. Og unga konan þurrkaði óhreinindin af tindátanum, fyrst með grænu laufblaði, en síðan með vasaklútnum sínum fína — hann var svo ilmandi, og þótti þá tindátanum sem hann vaknaði af dauðadái. „Lof mér að sjá hann,“ sagði ungi maðurinn, hló við og hristi höfuðið. „Já, ekki getur það nú verið hann, en hann minnir mig á nokkuð, er til bar með tindáta, sem ég átti, þegar ég var lítill.“ Og nú sagði hann konu sinni frá gamla húsinu og gamla manninum og frá tindátanum, sem hann sendi honum yfir í gamla húsið, af því hann var svo hræðilega einmana. Og hann sagði nákvæmlega rétt frá öllu eins og var, svo að það kom út tárum á ungu konunni að heyra þetta um gamla húsið og gamla manninn. „Það gæti þó hugsast, að það væri sami tindátinn,“ sagði hún, „ég ætla að geyma hann og muna allt, sem þú hefur sagt mér, en gröfina gamla mannsins verðurðu að sýna mér.“ „Um hana veit ég ekkert,“ sagði hann, „og um hana veit enginn. Allir vinir hans eru dánir, það er enginn til að hirða um hana, og ég var þá ekki nema dálítill drenghnokki.“ „Ósköp hefur hann víst verið einmana,“ sagði hún. „Ósköp einmana,” sagði tindátinn, „en mikil blessun er það, að vera ekki gleymdur.“ „Mikil blessun,“ kallaði einhver rétt hjá, en enginn nema tindátinn sá, að það var lappi af svínsleðursveggfóðrinu. Öll gyllingin var farin af honum, en hann hafði sína skoðun fyrir sig og hana sagði hann óhikað: „Gylling fer á glæ, En svínsleður endist sí og æ.“ Ekki var samt tindátinn alveg á því. Nágrannafjölskyldurnar Það hefði mátt ætla, að eitthvað væri um að vera á þorpstjörninni, en þar var ekkert um að vera. Allar endurnar, og það einmitt, er þær lágu sem spakast á vatninu, og sumar stóðu á höfði, því það kunnu þær einkar vel – þær þutu nú allt í einu á land. Það mátti sjá fótaförin þeirra í votum leirnum og æðilangt í burtu mátti heyra gargið. Það hljóp ylgja í vatnið, en rétt áður glampaði á það eins og spegilgler. Það sást í því hvert tré og hver runnur, sem hjá því stóð, og bóndahúsið gamla með götin á gaflinum og svöluhreiðrið, en þó einkum rósatréð stóra, alþakið blómum, sem héngu frá múrnum nærri því út yfir vatnið. – Og í vatninu var allt þetta eins og málverk í umgjörð, en allt stóð það á höfði, og þegar vatnið ókyrrðist, þá rann það hvað yfir í annað og myndin var horfin. Tvær fjaðrir, sem hrutu niður úr öndunum, er þær flugu, hossuðust upp og niður. Allt í einu fóru þær af stað, eins og vindur tæki í þær, en vindur var þó enginn, og svo lágu þær kyrrar, og vatnið varð aftur spegilfagurt og sást greinilega í því gaflinn með svöluhreiðrinu og rósatréð sást líka. Hver rós speglaði sig, — þær voru svo yndislegar, en þær vissu ekki af því sjálfar, því enginn hafði sagt þeim það. Sólin skein inn á milli blaðanna fíngerðu, sem voru svo ilmþrungin, og það var líkt fyrir hverri rós eins og sjálfum okkur, þegar við erum niðursokknir í einhverjar sæluhugsanir. „Ó, hvað það er indælt að vera til!“ sögðu rósirnar hver sem ein, „ég veit ekki neitt, sem ég ætti að óska mér, nema að ég gæti kysst sólina fyrir það, að hún er svo hlý og björt. Já, rósirnar niðri í vatninu vildi ég líka kyssa. Þær eru lifandi eftirmyndin okkar. Ég vildi líka kyssa blessaða ungana þarna niðri í hreiðrinu. Já, það er satt, það eru líka nokkrir fyrir ofan okkur. Þeir gægjast út og eru að smátísta. Þeir eru alls ekki fiðraðir eins og faðirinn og móðirin. Við eigum þar góða nábúa, bæði þá fyrir ofan og þá fyrir neðan. Ó, hvað lífið er indælt!“ Litlu ungarnir uppi og niðri — já, þeir þarna niðri voru ekki nema speglanir í vatninu — það voru allt saman spörvar. Faðirinn og móðirin voru spörvar. Þeir höfðu tekið undir sig tóma svöluhreiðrið frá fyrra árinu. Í því lágu þeir nú og áttu þar heima. „Er það andaungviði, sem syndir þarna?“ sögðu spörvaungarnir, þegar þeir sáu andafjaðrirnar reka á vatninu. „Spyrjið þið af viti, þegar þið spyrjið,” sagði móðirin. „Sjáið þið ekki, að það eru fjaðrir, lifandi kjólklæðnaðarefni, sams konar og er í kjólnum mínum og verða mun í ykkar, – en okkar er fínna. Ég vildi annars að við hefðum þær hérna í hreiðrinu, því þær eru til hlýinda. Mér þætti gaman að vita, hvað það hefur verið, sem gerði endurnar hræddar. Það hlýtur að hafa verið eitthvað í vatninu, því ekki var það ég, þó ég tísti í hærra lagi við ykkur. Þær ættu að vita það, þessar þykkhöfðuðu rósir, en þær vita ekki neitt, þær gera ekki annað en að horfa á sjálfar sig og ilma. Ég er dauðleið á þeim nágrönnum.“ „Heyrið þið til sætu smáfuglanna þarna uppi?“ sögðu rósirnar, „þeir eru nú líka farnir að bera við að syngja. Þeir geta það ekki, en það lagast. Ó, hvað það hlýtur að vera gaman. Dæmalaust er það skemmtilegt að hafa svona glaðværa nábúa.“ Í sama vetfangi kom bóndadrengur þeysandi með tvo hesta til brynningar. Hann reið öðrum þeirra og hafði farið úr öllu, nema svarta hattinn sinn hafði hann á höfðinu, og var hann æði stór og barðamikill. Drengurinn blístraði eins og hann væri dálítill fugl og reið út í tjörnina, þar sem hún var dýpst. Og þegar hann kom þangað sem rósatréð stóð, þá þreif hann eina rósina af og festi á hattinn sinn. Þóttist hann þá hafa prýtt sig ágætlega vel og reið sína leið með rósina. Hinar rósirnar horfðu á eftir systur sinni og spurðu hver aðra: „Hvert fór hún að ferðast?“ En það vissi enginn. „Gaman þætti mér að komast út í veröldina,“ sögðu þær, ein við aðra. „En hér heima í átthögunum grænu er líka indælt. Á daginn er sólin heit, og á nóttunni er himinninn enn fegri. Það getum við séð gegnum þessi mörgu smágöt, sem eru á honum.“ Það voru stjörnurnar, sem þær héldu að væru göt. Þær vissu ekki betur. „Við gerum líflegt í kringum húsið,“ sagði spörvamóðirin, „og almanarómur er, að svöluhreiðrum fylgi hamingja, þess vegna er fólk fegið að hafa okkur. En þessir nábúar þarna, svona heill rósarunnur upp með múrnum, – hann gerir sagga. Ég er að vona, að runnurinn verði færður burt, – þá gæti þar þó vaxið korn. Rósir eru ekki til annars en að horfa á þær eða þefa af þeim, eða þá í besta lagi til að festa á hattinn. Á hverju ári detta þær af, – það hefur hún móðir mín sagt mér. Bóndakonan saltar þær til geymslu, þær fá franskt nafn, sem ég kann ekki að hafa eftir eða kæri mig ekki neitt um. Og svo eru þær lagðar á eldinn til að gera góða lykt. Sjáið þið nú, þetta er þeirra æviferill, þær eru ekki nema fyrir augun og nefið. Nú vitið þið það!“ Þegar kvölda tók og mýið sveimaði í heitu loftinu og skýin voru roðafögur, þá kom næturgalinn og kvað fyrir rósunum, að hið fagra væri eins og sólskinið í heimi þessum og að hið fagra lifði ávallt. En rósirnar héldu, að næturgalinn væri að kveða um sjálfan sig, enda var öll ástæða til að ímynda sér það. Þeim kom alls ekki til hugar, að söngnum væri beint til sín, en með gleði tóku þær honum og voru að hugsa um það með sjálfum sér, hvort ekki allir litlir spörvaungar mundu geta orðið næturgalar. „Ég skil dável, hvað fuglinn þarna söng,“ sögðu litlu spörvarnir. „Það var aðeins eitt orð, sem ég ekki skildi: Hvað er hið fagra?“ „Það er ekki neitt,” sagði spörvamóðirin, „það er svona einhvers konar útlit. Það er þarna upp frá á herragarðinum, þar sem dúfurnar eiga sitt eigið hús og dag hvern er stráð ertum fyrir þær í garðinum – ég hef borðað með þeim og það fáið þið líka að gera síðar meir – ,segðu mér hvern þú hefur mök við, þá skal ég segja þér, hver þú ert – já, á herragarðinum hefur það tvo fugla grænhálsaða með topp á höfðinu. Stélið á þeim getur breiðst út eins og stóreflis hjól og ljómar í öllum litum, svo að sker í augun. Þeir eru kallaðir páfuglar og þeir eru hið fagra. Það ætti að reyta þá dálítið, þá mundu þeir ekki vera öðruvísi útlits en aðrir. Hefðu þeir ekki verið svo stórir, þá skyldi ég hafa goggað í þá.“ „Ég skal gogga í þá,“ sagði minnsti unginn og hann var ófjaðraður enn. Í bóndahúsinu bjuggu ung hjón. Þau unnust hugástum, þau voru iðjusöm og ötul, og innan húss hjá þeim var allt með stakri prýði. Svo var það einn sunnudagsmorgun að unga konan gekk út, tók handfylli af fegurstu rósunum, lét þær í vatnsglas og setti það upp á dragkistuna. „Nú get ég séð að það er sunnudagur,“ sagði maðurinn og kyssti sína kæru konu, og þau settust niður, lásu sálm og héldust í hendur, og sólin skein inn um gluggana á rósirnar glænýjar og ungu hjónin. „Þetta leiðist mér að horfa á,“ sagði spörvamóðirin, er henni varð litið úr hreiðrinu inn í stofuna, og óðara að því mæltu flaug hún burt. Konan gerði næsta sunnudaginn sem hinn fyrra, og á hverjum sunnudegi lét hún nýjar rósir í glasið og alltaf blómgaðist rósarunnurinn jafn fallega. Spörvaungarnir voru nú orðnir fjaðraðir og vildu fegnir fljúga með, en móðirin sagði: „Þið sitjið kyrrir, og sátu þeir þá kyrrir. Hún flaug af stað, en hvernig sem það kann nú að hafa atvikast, þá vissi hún ekki fyrri til en hún hékk föst í hrosshársfuglasnöru, sem einhverjir drengir höfðu fest við grein. Snaran reyrðist svo fast að fætinum sem mundi hann skerast í sundur. Það var kvöl og það var skelfing. Drengirnir stukku óðara að og handsömuðu fuglinn, og tóku á honum mjög óþyrmilega. „Það er ekki nema spörfugl,“ sögðu þeir, en ekki slepptu þeir honum, heldur fóru þeir með hann, og í hvert sinn, er hann skrækti, þá slógu þeir hann á nefið. Inni í bóndahússgarðinum stóð gamall maður, sem kunni sápugerð og bjó til sápu bæði til skeggraksturs og handaþvottar, sápu í kúlum og sápu í stykkjum. Þetta var glaðlyndur umferðakarl, og þegar hann sá gráspörinn, sem drengirnir komu með og kváðust ekki kæra sig um, þá sagði hann: „Eigum við að gera hann fagran?“ Það fór hryllingur um spörvamóðurina, þegar hann sagði það. Hann hafði hjá sér kassa, sem lágu í fegurstu litir, og tók hann upp úr honum heilmikið af skínandi bókagulli, og drengina rak hann inn til að sækja egg; tók hann úr því hvítuna og makaði í henni allan fuglinn og klíndi svo á gullinu, og var þá spörvamóðirin algyllt, en henni gast ekki að því stássi, heldur skalf hún öll og nötraði. Og sápumaðurinn tók rauða dulu, – hann reif hana úr fóðrinu á treyjugarminum sínum, – klippti síðan úr dulunni tenntan hanakamb og klístraði honum á höfuð fuglsins. „Nú skuluð þið sjá gullfuglinn fljúga,“ sagði hann og sleppti spörfuglinum, og þaut hann burt eins og byssubrenndur í glaða sólskininu. Að sjá, hvað hann ljómaði! Allir gráspörvarnir, og meira að segja ein stór kráka, urðu felmtruð við þessa sjón, en flugu samt á eftir, því þeim var forvitni á að vita, hvaða tignarfugl þetta mundi vera. „Hvaðan kemur þessi?“ gargaði krákan. „Bíddu ögn, bíddu ögn?“ sögðu spörvarnir. En spörvamóðirin vildi ekki bíða minnstu ögn, heldur flaug hún heim í ofboði og skelfingu. Hún var rétt við það að hníga til jarðar og alltaf komu fleiri og fleiri fuglar, smáir og stórir. Sumir flugu beint að henni til að höggva í hana. „Sko þennan! sko þennan!“ skræktu þeir allir saman. „Sko þennan, sko þennan!“ skræktu ungarnir, þegar hún kom að hreiðrinu. „Það er ugglaust páfuglsungi. Þarna eru allir litirnir, sem skera í augun, eins og mamma sagði; – pí, pí! það er hið fagra.“ Og svo ákaft hjuggu þeir í hana með litlu nefjunum, að hún gat með engu móti komist inn, og svo var hún frá sér af hræðslu, að hún gat ekki einu sinni sagt „pí, pí!“ hvað þá heldur: „Ég er hún mamma ykkar.“ Hinir fuglarnir veittust nú allir að henni og hjuggu hana, svo að hver fjöður datt af, og lauk svo, að spörvamamma féll blóðug niður í rósarunninn. „Vesalings fugl!“ sögðu rósirnar, „komdu til okkar, við skulum fela þig. Hallaðu litla höfðinu þínu upp að okkur.“ Spörvamóðirin breiddi út vængina einu sinni enn, kippti þeim svo aftur fast að sér og var þá örend þarna hjá nágrannafjölskyldunni, – blómlegu fallegu rósunum. „Pí, pí!“ sögðu spörvaungarnir í hreiðrinu, „ekkert skil ég í þessu, að hún móðir okkar skuli ekki koma,“ sagði hver um sig. „Þetta skyldi þó ekki vera kænskubragð af henni, til þess að láta okkur héðan af spila á eigin spýtur. Húsið hefur hún ætlað okkur að erfa, en hver okkar á að eiga það einn, þegar við staðfestum ráð okkar og reisum bú?“ „Já, ég get nú ekki haft ykkur hina hérna, þegar ég færi út kvíarnar með konu og börnum,“ sagði sá minnsti. „Ég geri nú ráð fyrir, að ég eignist fleiri konur og börn en þú,“ sagði annar. „En ég er elstur,“ sagði sá þriðji. Lenti þeim svo saman í rifrildi og áflogum. Þeir börðu með vængjunum og hjuggu með nefjunum og gekk á einlægum hrindingum, þangað til þeir einn eftir annan voru oltnir ofan úr hreiðrinu. Þarna lágu þeir og voru reiðir. Þeir hölluðu höfðinu út í aðra hliðina og pírði það augað, sem upp vissi. Það voru nú þeirra taktar, þegar illa lá á þeim. Lítið eitt gátu þeir flogið, og æfðu þeir sig nú nokkuð meira og loksins urðu þeir ásáttir um, að þeir skyldu hafa það að marki til að þekkja hver annan, þegar þeir hittust úti í heimi, að segja „pí, pí!“ og krafsa þrisvar með fætinum. Unginn sá, sem eftir varð í hreiðrinu, gerði sig eins digran og hann gat. Hann var nú orðinn húseigandinn, en það stóð skamma stund. Um nóttina skein rauður eldurinn út um gluggarúðurnar, loganum sló út undan þakinu, hálmþakið fuðraði upp, húsið brann allt og ungi spörfuglinn með, en hjónin ungu voru svo lánsöm að komast lífs af. Þegar sól var komin á loft næsta morgun og allt sýndist svo endurhresst eins og eftir blíðan nætursvefn, þá stóð ekkert eftir af bóndahúsinu nema nokkrir svartir, kolbrunnir bjálkar, sem hölluðust upp við skorsteininn. Hann var nú orðinn sinn eigin herra. – Reykjarsvælu mikla lagði upp úr grunninum, en fyrir framan hann stóð rósarunnurinn í blóma og speglaði sig með hverri grein og hverju blómi í lygnu vatninu. „Nei, hvað þær standa fallega rósirnar þarna fyrir framan niðurbrunna húsið,“ sagði maður nokkur, sem fór þar um, „þetta er einhver sú yndislegasta mynd. Hana verð ég að hafa,“ og þar með tók hann upp úr vasa sínum dálitla bók með hvítum blöðum og hann tók upp blýantinn sinn, því hann var málari, og gerði uppdrátt af rjúkandi rústinni með kolbrunnu bjálkunum upp við hallan skorsteininn, því honum hallaði alltaf meira og meira, en fremst á myndinni stóð stóri blómlegi rósarunnurinn. – Prýðisfallegur var hann, það mátti með sanni segja, enda var það hans vegna, sem uppdrátturinn var gerður af öllu hinu. Að áliðnum degi komu tveir af gráspörvunum, sem þar voru barnfæddir. „Hvar er húsið?“ sögðu þeir, „hvar er hreiðrið? pí, pí! allt er brunnið til kaldra kola og bróðir okkar með alla ásælnina hefur brunnið líka. Þetta hafði hann fyrir það, að hann sat uppi með hreiðrið. Rósirnar hafa komist af. Þær standa með rjóðar kinnarnar. Ekki syrgja þær ógæfu náungans. Já, ég ætla nú ekki að yrða á þær, en það segi ég, að afarljótt er hér umhorfs og það sný ég ekki aftur með.“ Flugu þeir svo leiðar sinnar. Einhvern tíma seint um haustið var ljómandi fagur sólskinsdagur. Menn skyldu hafa ætlað, að það væri á miðju sumri. Það var svo þurrt og hreinlegt fyrir framan stóra steinriðið herramannsins, og þar vöppuðu dúfurnar, svartar, hvítar og fjólulitar. Það stirndi á þær í sólskininu og gömlu dúfumæðurnar þeyttu sig upp og sögðu við ungana: „Standið í hnapp! standið í hnapp!“ – því með þeim hætti voru þær álitlegri tilsýndar. „Hver eru þessi gráu smákríli, sem eru á hlaupum innan um okkur?“ sagði gömul dúfa dálítið grænleit og rauðleit í augunum. „Litlu greyin gráu, litlu greyin gráu!“ sagði hún. „Það eru spörvar, meinhægðar kvikindi. Við höfum ætíð haft það orð á okkur, að við værum gæflyndar og er best við lofum þeim að tína í sig. Þeir leggja ekki orð í belg – og krafsa líka svo nett með fætinum.“ Já, þeir kröfsuðu, kröfsuðu þrisvar sinnum með vinstra fæti, en þeir sögðu líka: „Pí, pí!“ og þekkti þá hver annan, það voru þrír spörvar frá húsinu, sem brunnið hafði. „Hér er yfrið nóg og gott að éta,“ sögðu spörvarnir. Og dúfurnar voru á vappi hver í kringum aðra og reigðu sig, hugsuðu sitt með sjálfum sér og voru íbyggnar. „Sérðu brjóstdúfuna?“ sagði ein dúfan um aðra, „sérðu hvernig hún hámar í sig erturnar? hún fær of margar, hún fær þær bestu, kurr! kurr! Sérðu, hvað hún er orðin snoðin um kambinn, sérðu illhryssingskvikindið ljóta? urr, urr,“ og augun í þeim öllum urðu leiftrandi rauð af geðvonsku. „Standið í hnapp, standið í hnapp, litlu skammirnar gráu, litlu skammirnar gráu! urr, urr!“ Á þessu gekk alltaf látlaust, og mun svo ganga enn að þúsund árum liðnum. Gráspörvarnir átu vel og þeir heyrðu líka vel. Þeir tóku nú enda að skipa sér í röð með dúfunum, en það fór þeim síður en svo vel. Þeir voru nú saddir og fóru frá dúfunum. Sögðu þeir hvor öðrum álit sitt á þessu. Því næst hoppuðu þeir undir garðgrindurnar og með því að garðherbergisdyrnar stóðu opnar, hoppaði annar þeirra upp á þrepskjöldinn. Hann hafði étið yfir sig og var því djarfhugaður: „Pí, pí!“ sagði hann, „þetta þori ég.“ – „Pí, pí!“ sagði hinn, „það þori ég líka og meira til,“ og þar með hoppaði hann inn í stofuna. Þar var enginn maður inni, það sá hinn þriðji og flaug hann þá enn lengra inn í stofuna og mælti: „Alla leið inn eða þá alls ekki. Það er annars skrýtið mannahreiður að tarna, og hvað hefur nú verið sett hérna. Nú, hvað getur það verið?“ Beint fyrir framan spörvana stóðu sem sé rósirnar í fullum blóma, þær spegluðu sig í vatninu og kolbrunnu bjálkarnir lágu upp við hálffallinn skorsteininn. – Nei, hvað var nú þetta, hvernig var þetta komið inn í herragarðsherbergið? Og allir spörvarnir þrír ætluðu að fljúga yfir rósirnar og skorsteininn, en þeir flugu á flatan vegginn og ráku sig á. Þetta, sem þeir sáu, var málverk, stórt og ágætt listaverk, sem málarinn hafði gert eftir litla frumuppdrættinum sínum. „Pí, pí!“ sögðu spörvarnir, „það er ekki neitt. Það er ekki nema útlit. Pí, pí! það er hið fagra. Getur þú skilið það, því ekki skil ég það?“ Og nú flugu þeir þaðan, því menn komu inn í herbergið. Nú leið ár og dagur, og oftar en frá verði sagt höfðu dúfurnar kurrað – að við ekki segjum urrað – því þær voru geðvondar. Gráspörvunum hafði verið kalt um veturinn, en höfðu lifað í bílífi allt sumarið. Þeir voru allir trúlofaðir eða kvæntir. Þeir áttu unga, og auðvitað þótti hverjum sinn ungi fríðastur og gáfaðastur. Einn flaug hér og annar þar og ef þeir mættust, þá þekktu þeir hver annan á tístinu: „Pí, pí!“ og á krafsinu með vinstra fæti. Elsti gráspörinn var kvenfugl og orðinn gamall, en átti hvorki hreiður né unga. Langaði spörkvensu þessa að koma einhvern tíma í stóra borg og flaug hún því til Kaupmannahafnar. Þar stóð stórhýsi eitt með mörgum litum, þétt við konungshöllina og „kapalinn“, þar sem margar skútur liggja hlaðnar eplum og leirkerum. Gluggarnir voru breiðari neðan til en ofan til, og þegar spörvarnir horfðu inn um þá, þótti þeim tilsýndar sem þeir horfðu niður á túlípan. Þeir sáu alls konar liti og útflúr og í miðjum túlípananum stóðu hvítir menn. Þeir voru úr marmara og sumir voru líka úr gipsi, en það er í spörvaaugum eitt og sama. Uppi á húsinu stóð málmvagn með málmhestum fyrir, sem sigurgyðjan stýrði, og var hún einnig af málmi gjör. Stórhýsið var gripasafn Thorvaldsens. „En hvað það glansar, en hvað það glansar!“ sagði spörkvendið, „það er víst hið fagra. Pí, pí! hérna er það þó stærra en páfugl.“ Hún mundi enn frá barnæskunni eftir þessu fagra, sem hún móðir hennar hafði séð stærst. Og nú flaug hún beint niður í garðinn, og var þar líka hin mesta prýði, málaðir pálmaviðir og greinar upp um veggina og í miðjum garðinum stóð stór rósarunnur alblómgaður. Hann slútti með greinar sínar alþaktar rósum yfir gröf nokkra, og þangað flaug hún, því þar voru líka spörvar nokkrir á vakki. „Pí, pí!“ sagði hún og krafsaði með vinstra fæti þrisvar sinnum. – Með því hafði hún heilsað oft og tíðum langan tíma, en enginn skilið eða tekið undir, því þeir, sem sundurskildir eru, hittast ekki dagsdaglega, en á þessum degi voru tveir spörvar og einn ungi, sem sögðu „pí, pí!“ og kröfsuðu með vinstra fæti. „Nei, hvað sé ég? góðan daginn, góðan daginn!“ Það voru þrír gamlir spörvar úr spörvahreiðrinu og einn lítill, sem heyrði til ættinni. „Svo við hittumst þá hérna,“ sögðu þeir. „Þetta er hefðarlegur staður, en ekki er hér gott um æti. Það er hið fagra. Pí, pí!“ Og nú kom margt manna úr hliðarherbergjunum þar sem hin veglegu mannlíkön stóðu, og varð mörgum gengið til grafarinnar, er geymdi meistarann mikla, sem myndað hafði marmaralíkneskin, og allir, sem komu, stóðu með hýrlegu yfirbragði kringum gröf Thorvaldsens og sumir tíndu upp rósablöðin, sem af höfðu dottið, og hirtu þau til minja. Þar var fólk, sem komið var langar leiðir að, sumt frá Stóra-Bretlandi, sumt frá Þýskalandi og Frakklandi. Sú konan, sem fríðust var allra, tók eina af rósunum og lagði hana við brjóst sér. Þá héldu spörvarnir, að rósirnar réðu hér fyrir og að húsið allt væri reist þeirra vegna. Þótti þeim reyndar helst til mikið haft við þær, en úr því að mennirnir allir höfðu svo miklar mætur á rósunum, þá vildu þeir ekki verða eftirbátar. „Pí, pí!“ sögðu þeir, struku gólfið með stélunum og gutu öðru auganu til rósanna. Þurftu þeir ekki lengi að horfa til að fá vissu sína um það, að þetta voru þeirra gömlu nágrannar, og svo var líka í raun og veru. Málarinn, sem gert hafði uppdráttinn af rósarunninum hjá brunarústunum, hafði seinna á árinu fengið leyfi til að stinga runninn upp og gefið hann síðan byggingameistaranum, því engar rósir voru þar fegurri til. En hann hafði aftur gróðursett hann á gröf Thorvaldsens, og þar blómgaðist hann sem ímynd fegurðarinnar og gaf sín rauðu, ilmandi blöð, til þess að menn gætu haft þau burt með sér í minningar skyni til fjarlægra landa. „Hafið þið fengið embætti hérna inni í borginni?“ sögðu spörvarnir. Og rósirnar kinkuðu kolli. Þær þekktu sína gráu nágranna og glöddust mjög af því að sjá þá. „Ó, hvílík blessuð sæla er að lifa og blómgast og að sjá gamla vini og hýrleg andlit á hverjum degi. Hér er hver dagurinn eins og mesti helgidagur.“ „Pí, pí!“ sögðu spörvarnir. „Jú, jú, það eru gömlu nágrannarnir okkar. Við munum eftir ætt þeirra og uppruna úr þorpstjörninni. Pí, pí! Þeim hefur heldur en ekki hlotnast upphefðin. Satt er það, að sumum gefst sofandi lánið. Og hvað svona rauð hlussa hefur til síns ágætis, – það veit ég sannarlega ekki. – Og þarna er þá eitt blaðið visið, – það sé ég gjörla.“ Og síðan kroppuðu þeir í blaðið, svo að það datt af, og runnurinn stóð því fegurri og grænni, og rósirnar ilmuðu í sólskininu á gröf Thorvaldsens, og fegurð þeirra var samvígð ódauðlegu nafni hans. Barnið í gröfinni Það var sorg á heimilinu, sorg í hjörtunum. Yngsta barnið, fjögurra ára gamall drengur, gleði foreldranna og framtíðarvon þeirra, var dáinn. Þau áttu raunar tvær eldri dætur, og átti sú eldri að fermast einmitt á þessu ári. Báðar voru þær góðar og elskulegar stúlkur, en það barnið, sem menn hafa misst, er jafnan kærast, og dána barnið var yngst og það var sonur. Það var þungt mótlæti. Systurnar syrgðu eins og ung hjörtu syrgja, þeim gekk harmur foreldranna mest til hjarta. Faðirinn var sárhnugginn, en móðirin yfirkomin af þessu mikla hryggðarefni. Hún hafði verið yfir barninu nótt og dag í veikindum þess, stundað það, tekið það upp og borið það. Hún hafði fundið til þess, að það var partur af henni sjálfri, hún gat ekki skilið í því, að það væri dáið, að það ætti að kistuleggjast og geymast í gröfinni. Henni fannst, að guð gæti ekki tekið frá sér þetta barn, og þegar það nú samt sem áður var að höndum komið og orðið að fullri vissu, þá sagði hún í hugarsturlun sinni: „Guð hefur ekki vitað um það. Hann hefur miskunnarlausa þjóna hér á jörðu, sem allt gera eftir eigin geðþótta, og þeir heyra ekki, þótt móðir biðji og grátbæni.“ Í ofurharmi sínum hætti hún að hugsa til guðs og myrkrahugsanir sóttu á hana, hugsanirnar um dauðann, hinn eilífa dauða: að maðurinn verði að mold í jörðu og að þá sé allt á enda. Með slíku hugarfari hafði hún ekkert framar sér til stuðnings og sökk því niður í hið botnlausa tóm örvæntingarinnar. Þegar sorgin þyngdi mest að hjarta hennar, þá gat hún ekki lengur grátið. Hún hugsaði ekki um dæturnar sínar ungu. Tár mannsins hennar hrundu niður á enni hennar, en hún leit ekki upp til hans. Allur hugur hennar var hjá dána barninu. Hún lifði ekki í öðru en því, að rifja upp fyrir sér hvert og eitt atvik ævi þess, hvert orð, sem það hafði hjalað í sínu barnslega sakleysi. Nú kom dagurinn, er jarða skyldi barnið. Næturnar þar á undan hafði hún ekkert sofið, en um morguninn varð hún yfirkomin af þreytu og fékk við það dálitla hvíld. Á meðan var kistan borin inn í afvikna stofu og lokið neglt á, til þess að hún skyldi ekki heyra hamarshöggin. Þegar hún vaknaði og reis á fætur og vildi sjá barnið, sagði maðurinn grátandi: „Við erum nú búnir að ganga frá lokinu. Það varð að gerast.“ „Þegar guð er harðbrjósta við mig, því skyldu þá ekki mennirnir vera það líka?” sagði hún og grét af miklum ekka. Kistan var borin til grafar. Móðirin sat óhuggandi hjá ungu dætrunum sínum. Hún horfði á þær og sá þær ekki. Hugur hennar var allur horfinn frá heimilinu, hún sleppti sér í sorginni og sorgin bylti henni eins og ólgusjórinn byltir skipi, sem misst hefur stýri og stjórnara. Svona leið greftrunardagurinn og svona liðu nokkrir dagar á eftir, dauflega og fábreytilega, undir sama sorgarfarginu. Syrgjendurnir á heimilinu horfðu á hana með votum brám og hryggðarlegu augnaráði. Hún heyrði ekki huggunarorð þeirra, og hvað gátu þau líka sagt, sem sjálf voru svo sorgbitin? Það var eins og hún þekkti ekki neitt framar til svefns, og nú var það þó einmitt svefninn, sem hefði getað reynst besti vinurinn hennar með því að styrkja líkamann og koma kyrrð á sálina. Þau fengu hana til að hátta, enda lá hún og grafkyrr í rúminu eins og hún svæfi. Það var eina nótt, að maður hennar hlustaði eftir, hvernig hún drægi andann, og hélt fyrir víst, að henni væri orðið rórra og léttara. Hann spennti því greipar og baðst fyrir og féll þegar á eftir í væran svefn og fastan og varð þess ekki var, að hún reis á fætur, kippti á sig fötum og gekk síðan hægt og hljóðlega út úr húsinu til þess að komast þangað, sem hugur hennar leitaði dag og nótt – til grafarinnar sem geymdi barnið hennar. Hún gekk gegnum trjágarðinn við húsið út á bersvæði, þar sem götustígur lá fyrir utan borgina út að kirkjugarðinum. Enginn sá hana og hún sá engan. Veður var fagurt og stjörnubjart, loftið enn svo milt og blítt og þægilegt. Þetta var í öndverðum septembermánuði. Hún fór inn í kirkjugarðinn og gekk að litlu gröfinni, sem heita mátti, að væri eitt einasta blómahaf, svo var hún þakin blómum, og lagði af sæta angan. Hún settist niður og laut ofan að gröfinni, eins og gæti hún í gegnum þykkt moldarlagið séð drenginn sinn litla. Hún mundi svo glöggt eftir brosinu hans. Ástarblíðunni í augnaráðinu, allt fram í andlátið, henni gat hún aldrei gleymt, eða hvað augnatillitið hafði verið talandi, þegar hún laut ofan að honum og tók um litlu höndina hans, sem hann gat ekki lyft upp sjálfur. Eins og hún hafði setið við rúmið hans, eins sat hún nú við gröfina hans, en hér höfðu tár hennar óhindraða rás, þau hrundu ótt og títt niður á gröfina. „Þú vilt komast niður til barnsins þíns,“ sagði rödd nokkur rétt hjá. Hún hljómaði svo skýrt og svo djúpt. Hún ómaði inn í hjarta hennar. Leit hún þá upp og sá, að hjá henni stóð maður sveipaður stórri sorgarskikkju með hettu, sem byrgði höfuð hans, en hún sá samt í andlit honum undir hettunni. Svipurinn var alvarlegur, en þó þannig, að hann vakti tiltrú, og augun tindruðu eins og væri maður þessi á æskualdri. „Niður til barnsins míns,“ tók hún upp aftur og var svo að heyra, sem hún beiddist þess í örvæntingu. „Þorirðu að fara með mér?“ spurði myndin. „Ég er Dauðinn.“ Og hún jánkaði því með höfuðbeygingu. Þá var allt í einu eins og allar stjörnur hið efra yrðu ljómandi eins og jafnmörg tungl í fyllingu. Hún sá hið fjölbreytta litaskraut blómanna á gröfinni. Jarðvegurinn lét undan hægt og mjúklega, eins og svífandi klæði, hún seig niður og myndin breiddi utan um hana svörtu skikkjuna sína. Það varð nótt, dauðans nótt, hún seig dýpra en rekur grafaranna komast niður. Kirkjugarðurinn var eins og þak yfir höfði hennar. Faldur skikkjunnar straukst til hliðar, hún stóð í höll einni mikilli og víðri um sig og var það viðkunnanlegur staður. Skuggsýnt var þar umhverfis sem í rökkri, en þá brá við, og í sama vetfangi vissi hún ekki fyrri til en hún hélt á barni sínu þétt við hjarta sér. Það brosti við henni ennþá fríðara en það nokkurn tíma hafði verið. Hún æpti upp yfir sig, en það heyrðist ekki, því rétt þar hjá – og svo aftur langt í burt, og því næst aftur allnærri, heyrðist indæl hljómbylgjandi sönglist. Aldrei hafði svo sæluríka samræmistóna borið fyrir eyru hennar. Þeir ómuðu hinum megin við þetta náttsvarta fortjald, sem skildi höllina frá hinu mikla landi eilífðarinnar. „Elsku móðir mín! besta móðir mín!“ heyrði hún barnið sitt segja. Það var málrómurinn, sem hún þekkti og elskaði, og hver kossinn kom á eftir öðrum í óumræðilegri sælu. Og barnið benti á fortjaldið dimma. „Svona fallegt er ekki uppi á jörðinni. Sérðu, móðir mín! Sérðu þau öll? Þetta er sæla!“ En móðirin sá ekkert, þar sem barnið benti til, – ekkert nema svartnættið. Hún sá það með jarðneskum augum, sá ekki eins og barnið, sem guð hafði kallað til sín. Hún heyrði hljóminn, tónana, en hún skynjaði ekki orðið, sem hún átti að trúa. „Nú get ég flogið, móðir mín!“ sagði barnið, „ég get flogið með glaðværu börnunum beint þarna inn til guðs. Það vildi ég svo feginn, en þegar þú grætur svona eins og þú grætur núna, þá get ég ekki komist frá þér. Og ég vildi það svo feginn. Æ, má ég það ekki? Þú kemur þangað inn til mín, hvort sem er, áður en langt um líður, elsku móðir mín!“ „Æ, bíddu, bíddu!“ sagði hún, „aðeins eitt andartak enn. Ég verð ennþá rétt einu sinni að horfa á þig, kyssa þig og vefja þig fast í fangi mínu.“ Og hún kyssti barnið og hélt fast um það. Þá heyrir hún uppi yfir sér að kallað er á hana með nafni. Það var í raunalegum málróm. Hvað gat það verið? „Heyrirðu?“ sagði barnið, „það er hann pabbi, sem er að kalla á þig.“ Og eftir fáein augnablik heyrðust þung andvörp eins og frá grátandi börnum. „Það eru systur mínar,“ sagði barnið. „Ekki hefurðu víst gleymt þeim, móðir mín!“ Og nú minntist hún þeirra, sem eftir höfðu orðið. Hún varð angistarfull og leit fram undan sér og alltaf svifu fram hjá henni myndir, og þóttist hún þekkja sumar. Þær svifu gegnum höll dauðans og að fortjaldinu dimma og þar hurfu þær. Skyldi maðurinn hennar og dætur hennar birtast henni þarna? Nei, köll þeirra og andvörp heyrðust ennþá ofan að. Nærri lá, að hún hefði gleymt þeim vegna barnsins, sem dáið var. „Móðir mín! nú er klukkunum hringt í himnaríki,“ sagði barnið. „Móðir mín! nú kemur sólin upp.“ Og yfirtaks geislaljómi streymdi í móti henni. Barnið var horfið og hún hófst upp – það varð svalt í kringum hana, hún lyfti upp höfðinu og sá nú, að hún lá í kirkjugarðinum á gröf barnsins síns. En guð hafði í draumnum orðið styrktarstafur fyrir fætur hennar og ljós fyrir skilning hennar. Hún beygði kné sín og baðst fyrir: „Fyrirgef mér, drottinn minn og guð minn! að ég vildi aftra eilífri sál frá flugi hennar, og að ég gat gleymt skyldum mínum við hina lifandi, sem þú gafst mér.“ Og það var eins og þunganum létti af hjarta hennar við þessi orð. Í því kom sólin upp. Lítill fugl söng yfir höfði móðurinnar og kirkjuklukkunum var hringt til morguntíða. Allt varð svo heilagt umhverfis hana, heilagt eins og í hjarta hennar. Hún þekkti guð sinn, hún þekkti skyldur sínar og flýtti sér löngunarfull til heimilisins. Hún laut niður að manni sínum og vakti hann með heitum, innilegum kossum, og þau ræddust við með hjartans og einlægninnar orðum, og hún var þrekmikil og blíð eins og eiginkona framast má vera. Frá henni kom uppsprettulind trúnaðartraustsins: Vilji drottins er æ fyrir bestu.“ Og maður hennar sagði við hana: „Hvaðan fékkstu allt í einu þennan hugþrótt, þennan huggunaranda.“ Og hún kyssti hann og kyssti börn sín og mælti: „Ég fékk hann frá guði, og barnið mitt í gröfinni varð hjálpin mín til þess, að ég fékk hann.“ Stúlkan, sem gekk á brauðinu Einu sinni var stúlka, sem gekk á brauði til þess að óhreinka ekki skóna sína og varð ólánsstúlka fyrir. Þú munt kannast við að hafa heyrt það. Sagan hefur bæði verið skrifuð og prentuð. Stúlkan sú hét Inga og var bláfátækt barn, en drembin var hún og þóttafull og illa innrætt. Þegar hún var svolítill angi, hafði hún gaman af að ná í flugur, reyta af þeim vængina og gera þær að skriðdýrum. Það kom fyrir, að hún tók aldinbora og tordýfil, stakk þeim upp á nál, hvorum um sig, og lét svo grænt lauf eða bréfsnuddu við fætur þeirra og þegar veslings kvikindið þreif í það sem fastast og sneri því alla vega til að komast af nálinni, þá sagði hún: „Nú er aldinborinn að lesa, sko, hvernig hann snýr við blaðinu.“ Eftir því sem hún stálpaðist, fór hún heldur versnandi en batnandi, en falleg var hún, og var það henni til ógæfu, því hefði hún ekki verið það, þá mundi öðruvísi hafa verið tekið í lurginn á henni. „Það þarf skarpan lög í þinn koll,“ sagði móðir hennar. „Þú hefur oft troðið svuntu mína undir fótunum í barnæskunni, en þegar þú eldist er ég hrædd um, að það verði hjartað í mér, sem þú treður undir fótunum.“ Og það gerði hún líka. Nú fór hún í vist hjá heldra fólki úti á landsbyggðinni. Voru húsbændur hennar eins góðir við hana og hún hefði verið þeirra eigin dóttir, og eftir því var hún klædd og uppdubbuð. Fríð var hún sýnum, ekki vantaði það, og drambið fór stórum vaxandi. Þegar hún hafði verið eitt ár í vistinni, sögðu húsbændurnir við hana: „Þú ættir þó einhvern tíma að fara að finna foreldrana þína, Inga litla!“ Hún fór þá líka, en það var ekki til annars en að sýna sig. Hún vildi, að fólkið í átthögunum sæi, hvað hún var orðin fín. En þegar hún kom að hliðinu, þar sem vegurinn lá inn í fæðingarþorp hennar og hún sá ungu verkamennina og stúlkurnar standa við þorpstjörnina rabbandi saman og móður sína sitjandi mitt á meðal þeirra með samanbundið hnippi af smásprekum, sem hún hafði tínt saman í skóginum, þá sneri hún aftur. Henni þótti skömm að því, að hún, sem var svo fínt klædd, skyldi eiga annan eins kvenræfil fyrir móður, sem tíndi saman sprek til eldsneytis. Það var ekki af því að henni rynni þetta til rifja, að hún sneri aftur. Henni var aðeins gramt í geði, það var allt og sumt. Nú leið annað misserið til og segir þá húsmóðirin við hana: „Þú ættir þó að fara einhvern daginn og sjá, hvernig foreldrunum þínum gömlu líður, Inga litla! Hérna er stórt hveitibrauð, taktu við og hafðu það með þér handa þeim. Þau munu víst verða fegin að sjá þig.“ Og Inga fór í stásslegustu fötin, sem hún átti, og setti upp nýju skóna sína, hélt upp fötunum og gekk sem gætilegast, til þess að fætur hennar mættu vera sem hreinlegastir og nettastir, en þegar hún kom þar sem stígurinn lá yfir mýri nokkra fulla af pollum og aurbleytu, þá fleygði hún brauðinu niður í aurinn til að stikla á því og komast yfir þurrum fótum, en í því hún steig öðrum fæti á brauðið, um leið og hún tók hinn upp, þá sökk brauðið með hana dýpra og dýpra, þangað til hún hvarf algerlega og ekkert sást nema fenið svarta og bólurnar á því, sem upp hafði skotið. Svona gengur sagan. Hvar lenti hún þá? Hún lenti hjá mýrarkonunni, sem er síbruggandi. Mýrarkonan var föðursystir álfkvennanna, sem alkunnar eru. Það hafa bæði verið ort um þær kvæði og málarar hafa málað þær, en um mýrarkonuna vita menn það eitt, að þegar þokulæða er yfir engjunum, þá er mýrarkonan að brugga. Það var nú ofan í bruggstaðinn hennar, sem Inga sökk niður, og í þeim stað er ekki lengi við vært. Forarsafnkistan stóra er skrauthýsi í samanburði við brugghýsi mýrarkonunnar. – Af hverju keri leggur svo megnan ódaun, að hver maður mundi falla í óvit, og þess utan er kerunum hlaðið svo þétt saman, að sé einhvers staðar bil á milli, þar sem troðast mætti í gegnum, þá geta menn það ekki fyrir öllum þeim pöddum og snákum, sem þar eru flæktir í eina bendu. Þangað seig Inga litla niður, og var nú öll sú viðbjóðslega kvika kös svo ísköld, að hún fékk hrylling í sig alla og stirðnaði í öllum limum. Hún var föst við brauðið og það dró hana með sér eins og rafhnappur dregur ofurlítið strá. Mýrarkonan var heima og hittist svo á, að þau kölski og amma hans voru þar fyrir þann daginn, og voru þau að skoða bruggunarbúskapinn hjá mýrarkonunni. Amma kölska er gömul kerling, meinbölvuð ókind og aldrei iðjulaus. Fer hún aldrei svo af heimili sínu, að ekki hafi hún með sér handavinnu sína, og svo hafði hún einnig gert í þetta sinn. Hún saumaði óþola til að láta í skó mannanna, svo að þeir hefðu enga eirð í sér, hún baldýraði lygi og heklaði orð í ógáti töluð og til jarðar fallin, allt saman í því skyni að gera sem mestan skaða og bölvun. Hún kunni heldur en ekki að sauma, baldýra og hekla, amman sú. Nú sér hún Ingu og setur sjónglerið fyrir annað augað, virðir hana fyrir sér og segir: „Tarna er hæfileika kvenmaður. Það eru tilmæli mín, að ég fái stúlkuna, svo að ég geti átt hana til minnis um hérkomu mína. Hún er vel fallin til að standa eins og myndastytta í anddyri barnabarnabarnsins míns.“ Og hún fékk hana líka, og þannig atvikaðist það, að Inga litla komst í Víti. Það er ekki ætíð, sem menn fara rakleiðis þangað niður, en þeir geta komist þangað í krókaleiðum, sem til þess eru efnilegir og vel fallnir. Anddyrið var óendanlegt. Mann sundlaði, þegar maður horfði fram undan sér og eins þegar maður horfði til baka. Og þar inni hímdi heill skari og beið þess, að náðardyrunum yrði upp lokið. Stórar, digrar og drattandi köngulær ófu þúsund ára vef yfir fætur þeirra, er þar stóðu, og vefjarþræðirnir reyrðust að eins og fótaskrúfur og voru órjúfandi eins og eirhlekkir. Og hver og ein sál var þar full af órósemi, kveljandi órósemi. Hinn ágjarni stóð þar og hafði gleymt lyklinum að peningakistli sínum. Hann vissi, að hann hafði orðið eftir í skránni. En það yrði of langt mál að telja upp allar þær plágur, sem hér áttu sér stað, og fyrir Ingu var það hryllileg tilfinning að standa eins og stytta. Það var eins og hún væri strengd við brauðið neðan frá. „Þetta hef ég fyrir það, að ég vildi vera hrein um fæturna,“ sagði hún við sjálfa sig. „Sko, hvernig þær glápa á mig, þessar forynjur,“ og það var satt, illgirnin skein út úr augum þeirra og mælti frá ómálga vörum þeirra og munnvikum. Þær voru ferlegar ásýndum. „Það hlýtur að vera yndi að horfa á mig,“ hugsaði Inga litla, „ég hef frítt andlit og er fallega búin,“ og tildraði og sneri nú í sér augunum, en hnakkanum gat hún ekki snúið fyrir stirðleika í hálsinum. Hitt kom henni ekki til hugar, hversu hún var orðin útötuð í brugghúsi mýrarkonunnar. Föt hennar voru öll í einni slepju og snákur hafði fest sig í hári hennar og dinglaði niður af hnakka hennar. Úr hverri kjólfellingu gægðist padda og bopsuðu pöddur þær eins og mæðnar kjöltutíkur. Það var heldur en ekki óþægilegt. „Ekki er hann betri, þessi lýður hérna niður frá, svo hræmulega sem hann er útlítandi,“ hugsaði hún með sjálfri sér og var það henni dálítil huggun. Það þótti henni verst af öllu, hvað hún var svöng. Gat hún þá ekki beygt sig niður og brotið mola úr brauðinu, sem hún stóð á? Nei, bakið var stirðnað, handleggir og hendur voru það líka og allur líkami hennar var eins og steinstytta. Hún gat aðeins snúið í sér augunum, snúið þeim í hring, svo að hún sá með þeim aftur fyrir sig, og var það leiða sjónin. Og svo komu flugurnar. Þær skriðu yfir augu hennar fram og aftur. Hún deplaði augunum, en flugurnar flugu ekki, því það gátu þær ekki. Vængirnir voru reyttir af þeim. Þær voru orðnar að skriðdýrum. Það var mikil þjáning og svo bættist þar við sulturinn. Henni fundust innyflin í sér éta sig upp sjálf og hún varð svo hræðilega innantóm. „Eigi þessu lengi að halda áfram,“ sagði hún, „þá ber ég það ekki af,“ en hún varð að afbera það og því hélt stöðugt áfram. Þá hrundi brennandi tár niður á höfuð hennar, það féll niður um andlit hennar og brjóst og allt niður á brauðið, og enn féll eitt tár, og síðan mörg. Hver var það, sem grét yfir Ingu litlu? Átti hún ekki móður ofan jarðar? Hryggðartárin, sem móðirin grætur yfir barni sínu, þau komast ætíð til þess alla leið, en þau veita ekki svíun, þau brenna og auka kvalirnar. Og svo var þessi óþolandi sultur, og að geta ekki náð í brauðið, sem hún gekk á. Henni fannst að lokum eins og allt, sem innan í henni var, hefði étið sig sjálft upp. Hún var eins og þunngerð pípa, sem dró inn í sig hvert hljóð. Hún heyrði glöggt og skynjaði allt, sem hana snerti þar efra á jörðinni, og það, sem hún heyrði um sig, var illt eitt og hörkulegt. Móðir hennar grét reyndar af djúpri hryggð, en sagði um leið: „Oflæti veit á fall. Það var þín ógæfa, Inga! Mikla sorg hefurðu gert henni móður þinni.“ Móðir hennar og allir þar efra vissu um synd hennar, að hún hafði gengið á brauðinu, hafði sokkið í jörð niður og horfið. Kúasmalinn hafði sagt frá því. Hann hafði sjálfur séð það úr hólbrekkunni, þegar það gerðist. „Mikla sorg hefurðu gert henni móður þinni, Inga!“ sagði móðirin, „þetta grunaði mig allténd.“ „Ég vildi, að ég hefði aldrei verið fædd,“ hugsaði Inga með sér. „Það stoðar lítið núna, að hún móðir mín grætur og volar.“ Hún heyrði, hvernig þau töluðu um hana, hjónin góðu, sem höfðu verið henni í foreldra stað. „Hún var bersyndugt barn,“ sögðu þau, „hún kunni ekki að meta ástgjafir drottins vors, heldur tróð þær undir fótum. Erfitt mun henni verða að fá náðardyrunum upp lokið.“ „Þeim hefði verið nær að aga mig betur,“ hugsaði Inga, „og uppræta í mér skaplestina, ef einhverjir voru.“ Hún heyrði, að ortar höfðu verið um hana söngvísur og var fyrirsögn þeirra: „Drembiláta stúlkan, sem gekk á brauðinu til þess að óhreinka ekki fallegu skóna sína.“ Voru þær vísur sungnar landshornanna á milli. „En að maður skuli fá svo mörg orð í eyra og taka svo mikið út fyrir annað eins og þetta!“ hugsaði Inga. „Öðrum ætti þá líka að vera refsað fyrir sín afbrot, en þá yrði fyrir margt að refsa. Skárri eru það nú kvalirnar!“ Og hugur hennar harðnaði enn meira en hamur hennar. „Ekki er þá heldur von, að maður verði betri í slíkum félagsskap og ekki vil ég verða betri. Sko, hvernig þeir glápa!“ Og skap hennar fylltist reiði og vonsku við alla menn. „Nú hafa þeir eitthvað um að tala þarna efra. Miklar skelfingar kvalir eru þetta.“ Og hún heyrði, að börnunum var sögð saga hennar og þau kölluðu hana Ingu guðlausu, „hún var ótætis telpa,“ sögðu þau, „mesta óhræsi, svo það var ekki nema maklegt, að hún yrði duglega kvalin.“ Börnin voru ætíð harðorð um hana í hvert skipti, sem á hana var minnst. En einhvern daginn var það, er hún var sem innantómust og sulturinn og gremjan svarf sem sárast að henni, að þá heyrir hún sig nefnda á nafn, og að verið er að segja sögu hennar saklausu barni, ofurlítilli telpu. Og heyrir hún þá, að telpan viknar svo við að heyra frásögnina um Ingu hina drembilátu og skartsömu, að hún fer að gráta. „En kemur hún þá aldrei upp framar?“ spurði litla telpan. „Nei, hún kemur aldrei upp framar.“ „En ef hún biður fyrirgefningar og lofar að gera það aldrei oftar?“ „Já, en það kemur nú ekki til, að hún biðji fyrirgefningar,“ var henni svarað. „Ég vildi af hjarta óska þess, að hún gerði það,“ sagði litla telpan og var óhuggandi. „Ég vildi gefa brúðuskápinn minn til þess að hún fengi að koma upp. Hún á svo skelfing bágt, hún Inga, veslingurinn.“ Og þessi orð tóku Ingu til hjarta. Það var eins og henni fróaði við þau. Það var í fyrsta sinni, sem einhver sagði: „Veslingurinn hún Inga;“ og bætti ekki neinu við um bresti hennar. Þarna grét saklaust barn og bað fyrir henni. Henni brá svo undarlega við það, og mundi fegin hafa grátið sjálf, en hún gat ekki grátið og það píndi hana enn meira. Nú leið tíminn ár frá ári og varð engin minnsta breyting þar neðra og alltaf varð það sjaldnara og sjaldnara, að henni bárust hljóð til eyrna úr efri byggðum, því nú var þar minna talað um hana en áður. En þá var það einn dag, að hún heyrði andvarp og þessi orð um leið: „Inga, Inga! mikla sorg hefurðu gert mér. Þetta sagði ég allténd, að svona mundi fara.“ Það voru andlátsorð móður hennar. Stundum heyrði Inga húsbændurna sína gömlu minnast á sig, og var það vægast að orði kveðið, þegar húsmóðirin sagði: „Veslings Inga! skyldi ég þá sjá þig nokkurn tíma framar? maður veit ekki í hvaða samastað manni er ætlað að komast síðar.“ En Inga fann og skildi fullvel, að þangað, sem hún var, mundi valkvendið hún húsmóðir hennar aldrei koma. Nú leið enn langur tími, beiskur raunatími. Þá bar svo til, að Inga heyrði sig nefnda einu sinni enn og sá eitthvað skína fyrir ofan sig eins og tvær stjörnur. Það voru tvö augu, sem voru að lykjast aftur hér á jörðu. Nú voru liðin mörg ár frá því er telpan litla hafði grátið yfir veslings Ingu og verið óhuggandi. Telpan sú var nú orðin öldruð kona, sem drottinn var að kalla til sín úr þessum heimi. Á síðustu ævistundinni, þá er allt hennar liðna líf bar henni fyrir hugskotssjónir, þá minntist hún einnig þess, að hún í barnæsku hafði tárfellt yfir sögu veslings Ingu, og þetta stóð svo vakandi fyrir henni í andlátinu, að hún kallaði upphátt: „Drottinn minn og guð minn! skyldi ég þá ekki oft og tíðum hafa troðið ástgjafir þínar undir fótum í hugsunarleysi, mundi ég ekki líka hafa gengið með ofdramb í huga, en þú af miskunn þinni lést mig ekki sökkva, heldur hélst mér uppi! Slepptu nú ekki hendi þinni af mér á minni síðustu stund.“ Og augu gömlu konunnar luktust saman, en sálaraugu hennar opnuðust fyrir leyndardómum eilífðarinnar, og með því að Inga var svo lifandi í huga hennar á dauðastundinni, þá sá hún hve djúpt hún var sokkin, veslings stúlkan, og við þá sjón kom upp fyrir henni grátur, og í himnaríki grét hún nú, eins og hún hafði gert, þegar hún var barn, og bað fyrir veslings Ingu. Grátur hennar og bænir ómuðu eins og bergmál niður í hið tóma fangelsi, sem byrgði þessa fjötruðu sál. Þessi elska að ofan, sem hún aldrei hafði haft neina hugmynd um, kom nú svo átakanlega yfir hana. Engill guðs grét yfir henni. Hvernig gat það verið? Hún rifjaði upp í huganum hverja synd, sem hún hafði framið á jörðu, og nú grét hún svo, að þannig hafði hún aldrei grátið. Hún varð svo sorgbitin yfir sjálfri sér. Henni fannst eins og dyr náðarinnar gætu aldrei opnast fyrir sér, og er hún í djúpri iðrun viðurkenndi, að svo hlyti að vera, þá leiftraði í sama bili geisli niður í myrkradjúpið til hennar. Og sá geisli var máttugri en sólargeislinn, er þíðir upp snjókerlinguna, sem börnin hafa hlaðið í bæjarvarpanum, – og eins fljótt og lítið snjókorn bráðnar á barnsvör og verður að vatnsdropa, eins fljótt gufaði burt og hjaðnaði steinlíki Ingu. – Hún varð að litlum fugli og flaug með leifturhraða upp til mannheima. En hræddur og fælinn var fuglinn við allt, sem var í kringum hann. Hann fyrirvarð sig fyrir sjálfum sér og öllum lifandi skepnum og reyndi sem fljótast að fela sig í holu einni, sem hann fann í afgömlum hrörnuðum múrvegg. Þar sat hann og hnipraði sig saman nötrandi og gat ekki gefið frá sér neitt raddhljóð, því hann hafði enga rödd. Og þarna sat hann lengi áður en hann gat séð í ró og skynjað alla dýrðina í kringum sig. Og þar var sannarlega mikið um dýrðir. Loftblærinn var svo mildur og hressandi, tunglskin ljómandi bjart, og sætan ilminn lagði af trjám og runnum, og það fór svo vel um fuglinn, er hann sat þarna í hvíta fiðurhamnum sínum. Ó, hvað allt hið skapaða var dýrlegt og fullt af guðlegri gæsku. Öll sú hugsun, sem hreyfði sér í brjósti fuglsins, þurfti að verða að söng, og feginn hefði fuglinn viljað syngja eins og næturgalinn og gaukurinn syngja um vortímann, en hann gat það ekki. En drottinn, sem heyrir hin þögula lofsöng ormsins, hann heyrði líka lofsönginn hér, sem lyftist í samhljóm hugsananna eins og sálmarnir ómuðu fyrst í brjósti Davíðs áður en orðin komu til og sönglögin. Þessir hljóðlausu söngvar bjuggu um sig og þróuðust í huganum, þeir hlutu að brjótast út jafnskjótt og vængirnir hreyfðust til einhvers góðs verks. Gott verk þurfti að gera. Nú komu heilög jólin og bóndamaður einn reisti upp stöng við múrvegginn hrörnaða og batt við hana hnippi af óþresktum höfrum til þess að fuglar himinsins fengju sína hlutdeild í jólafögnuðinum og góða máltíð á hátíð frelsarans. Og sólin rann upp um jólamorguninn og skein á hafrahnippið, og allir fuglarnir flugu kvakandi kringum málsverðarstöngina. Þá heyrðist líka kvak úr múrveggnum: „ví, ví“; hugsunin var orðin svo rík, að hún varð að sönghljóði. Kvakið veika var fullkominn fagnaðarlofsöngur, góðverkshugsunin var vakin og fuglinn flaug út úr fylgsni sínu. Á himnum var þeim, sem þar voru, fullvel kunnugt um, hvers konar fugl þetta var. Veturinn tók að harðna. Þykkur ís var á vötnunum og bjargarleysi mikið hjá fuglum og skógardýrum. Þá flaug litli fuglinn út á þjóðveginn og leitaði í slóðinni eftir sleðana og fann þar korn á strjálingi hingað og þangað. Á vagnastöðvunum fann hann brauðmola nokkra og át einn af þeim sjálfur, en kallaði á hina fuglana og glorhungruðu spörvana, svo að þeir gætu fengið saðning. Hann flaug inn í borgirnar til njósna og þar sem einhver kærleiksrík hönd hafði stráð út brauði við gluggann handa fuglunum, þar át hann sjálfur aðeins dálitla ögn, en gaf hinum fuglunum allt. Vetrarlangt hafði fuglinn tínt saman og gefið svo margar brauðagnir, að þær til samans teknar voru jafnvægi brauðsins, sem Inga litla hafði gengið á til þess að óhreinka ekki skóna sína, og þegar síðasta brauðögnin var fundin og gefin, þá voru vængir fuglsins orðnir hvítir og breiddust út. „Þarna flýgur kría yfir sjóinn,“ sögðu börnin, þegar, þau sáu hvíta fuglinn. Ýmist stakk hann sér niður í sjóinn eða hann hóf sig hátt upp á fluginu í glaða sólskininu. Það stirndi á hann, og var ómögulegt að sjá, hvað af honum varð. Sumir sögðu, að hann hefði flogið beint inn í sólina. Silfurskildingurinn Einu sinni var skildingur. Hann kom skínandi fagur úr peningasláttunni, hoppandi og glansandi af kæti. „Húrra!“ hrópaði hann, „nú á ég að fara út í víða veröld,“ og það fór hann líka, viti menn. Börnin héldu fast utan um hann með heitum höndunum, nirfillinn með köldum og deigum höndum. Gamla fólkið margsneri honum milli góma, en unga fólkið lét hann fjúka. Skildingurinn var úr silfri með örlitlum eirblendingi saman við og hafði nú þegar verið heilt ár á ferðinni út um heiminn, það er að segja, í landinu þar sem hann var mótaður, en svo komst hann í ferðalag út úr landinu. Það stóð svo á því, að heldri maður átti hann, sem ætlaði í utanför, og varð skildingurinn aleinn eftir af innlendum peningum neðst í buddunni, þegar maðurinn lagði af stað. Hann vissi ekki af því sjálfur, að hann átti skildinginn fyrri en hann einhvern daginn varð á milli fingurgóma hans. „Nei, hérna er þá enn einn skildingur heiman að,“ sagði hann. „Hann getur líka fengið að ferðast mér til samlætis,“ og skildingurinn klingdi við af kæti, þegar maðurinn lét hann aftur í budduna. Þar lá hann innan um útlenda lagsbræður, og kom þar jafnan einn þegar annar fór, en skildingurinn heiman að varð alltaf eftir í buddunni. Það var heldur en ekki virðingarmerki. Nú var liðið svo vikum skipti og hafði skildingurinn alltaf verið á ferðinni og var kominn út í heim, en vissi alls ekki, hvar hann var. Hann hafði skilið á hinum peningunum, að þeir væru frakkneskir og ítalskir. Einn sagði, að nú væru þeir í þessari borg, og annar sagði, að þeir væru í einhverri annarri borg, sem hann nafngreindi, en skildingurinn gat ekki gert sér neina hugmynd um það. Maður sér ekki mikið af veröldinni, þegar maður er byrgður í poka, en það var skildingurinn eða sama sem. En einhvern daginn bar svo til, er hann lá í buddunni, að hann tók eftir því, að hún var ekki alveg lokuð, og læddist hann þá að opinu til að gægjast dálítið út. Það hefði hann helst átt að láta ógert, en hann var forvitinn og forvitnin hefnir sín. Hann rann út í buxnavasann og um kvöldið, þegar buddan var lögð til hliðar, þá lá skildingurinn kyrr í vasahorninu. Um morguninn var farið með fötin fram á gang og þá valt skildingurinn niður á gólf, en enginn heyrði það eða veitti því eftirtekt. Svo var farið inn til mannsins með fötin og fór hann í þau og hraðaði sér af stað, en skildingurinn varð eftir, þar sem hann lá á gólfinu. Hann fannst samt nokkru síðar, var aftur tekinn í notkun og gefinn út með þremur öðrum peningum. „Æ, tarna er gaman,“ hugsaði skildingurinn með sér, „að fá að sjá sig um í heiminum, kynnast öðru fólki og öðrum siðum.“ „Hvaða skildingur er að tarna?“ sagði einhver í sama bili, „þetta er ekki ósvikin innlend mynt. Falspeningur! Ónýtur peningur!“ Nú hefst saga skildingsins, eins og hann hefur eftir á sagt hana sjálfur. „Falspeningur! Ónýtur peningur!“ Það fór um mig allan, sagði skildingurinn. Ég vissi að í mér var gott silfur og góður hljómur og að mótið var ósvikið. Þetta hlaut að vera misskilningur, þeir gátu ekki talað þetta til mín. Jú, jú! Það var nú samt, það var ég, sem þeir áttu við. Það var ég, sem var kallaður falsaður og ónýtur peningur. „Þann pening verður maður að láta frá sér í myrkri,“ sagði maðurinn, sem hafði fengið mig. Og svona gekk það, menn komu mér af sér, þegar dimmt var, en hundskömmuðu mig, þegar bjart var. „Falsaður peningur! ónýtur peningur! Honum verður maður að koma af sér.“ Og skildingurinn nötraði og skalf milli gómanna í hvert skipti, sem átti að lauma honum burt og láta hann gilda sem rétta mynt landsins. Ég veslings skildingur, hvað stoðar mig silfrið, sem í mér er, verðmæti mitt og mót, þar sem allt þetta er haft að markleysu? Í augum heimsins er maður eingöngu metinn eftir því áliti, sem á manni er. Það hlýtur að vera ógurlegt að hafa vonda samvisku, að læðast áfram á vegum hins illa, þegar ég, sem þó er alveg saklaus, get örvilnast út af því að sýnast þannig fyrir mönnum. Mér óaði við þeim augum, sem á mér mundu standa, í hvert sinn, sem ég var tekinn upp. Ég vissi, að menn mundu ýta við mér eða grýta mér á borðið svo sem öðru lygahylki og hrekkjatóli. Einu sinni lenti ég í höndum fátæks konuaumingja, hún fékk mig í dagkaup fyrir slit og strit, en hún gat með engu móti komið mér af sér, enginn vildi hafa mig og henni var ég sannur óhappapeningur. „Ég neyðist víst til að koma honum af mér,“ sagði konutetrið, „ég hef ekki ástæður til að sitja með falspening í fórum mínum. Það er best að bakarinn fái hann, hann er nógu ríkur og þolir það, en rangt geri ég, það veit heilög hamingjan.“ „Nú á ég þá í tilbót að ofþyngja samvisku konunnar,“ sagði skildingurinn andvarpandi. „Er ég þá orðinn svona breyttur á gamals aldri.“ Nú fór konan til ríka bakarans, en hann bar gleggra skyn á gangsilfur en svo, að það tjáði nokkuð. Hann tók mig óðara og fleygði mér beint framan í andlit konunnar. Hún fékk enga brauðögn fyrir mig, og mér rann sárt til rifja, að ég skyldi hafa verið mótaður svona öðrum til hugraunar, ég sem í æsku hafði verið svo kátur og hróðugur og öruggur, svo innilega sannfærður um verðmæti mitt og ósvikið mót. Ég varð svo hnugginn sem nokkur skildingur getur orðið, þegar enginn vill hafa hann. En konan labbaði heim aftur með mig, virti mig fyrir sér með innilega góðlegum og vingjarnlegum svip og sagði: „Nei, ég skal ekki reyna að svíkja fleiri á þér. Ég ætla að bora gat á þig, svo hver og einn geti séð, að þú ert falspeningur og einskis verður – og samt – nú kemur mér nokkuð í hug – þú ert ef til vill heillaskildingur – já, það ætla ég að hafa fyrir satt – það leggst svona í mig. Ég bora gat á skildinginn, dreg spotta í gegnum gatið og gef hann svo barninu hennar nábúakonu minnar til að bera um hálsinn sem heillapening.“ Og að svo mæltu boraði konan gat á mig. Það er nú öðru nær en það sé þægilegt að láta bora á sig gat, en það þolist mikið þegar tilgangurinn er góður. Gegnum gatið var dreginn spotti, og varð ég svo einhvers konar medalía í bandi. Svo var ég hengdur um hálsinn á litla barninu, og barnið brosti framan í mig og kyssti mig, og hvíldi ég nú heila nótt við brjóstið á blessuðum sakleysingjanum. Um morguninn tók móðirin mig, hélt mér á milli fingurgómanna, horfði á mig og hugsaði sitt um leið. Ég varð fljótt áskynja um, hvað það var. Hún náði sér í skæri og klippti sundur spottann. „Já, lukkuskildingur!“ sagði hún, „það er best að vita, hvernig það fer.“ Hún lét mig þá í edik og hafði mig liggjandi í því þangað til ég varð grænn. Síðan kíttaði hún í gatið, nuddaði mig dálítið og fór svo í ljósaskiptunum til happdrættisins til að kaupa sér happdrættismiða, og átti lukkuskildingurinn að gera hann vænlegan til vinnings. Hvað mér leið nú illa, því trúir enginn. Það verkjaði um mig allan eins og ég ætlaði að liðast í sundur. Ég vissi að ég mundi verða kallaður falspeningur og að mér mundi verða fleygt burt og það beint í augsýn fjölda margra skildinga og peninga með áletrun og andlitsmyndum, sem þeir gátu verið hróðugir af, – en allt um það – ég slapp, því mannösin var svo mikil hjá umboðsmanninum og hann svo önnum kafinn, og í þeim svifum fór ég klingjandi ofan í skúffuna innan um hina peningana. Hvort unnist hefur á seðilinn, er mér ókunnugt um, en hitt veit ég, að daginn eftir var ég þekktur sem falspeningur, tekinn frá og sendur út til að svíkja og svíkja endalaust. Slíkt er með öllu óþolandi fyrir þann, sem ærlegur er að gerð og innræti, og þess vitnisburðar get ég ekki synjað sjálfum mér. Á þessu gekk nú ár og dag út, að ég fór úr einni hendinni í aðra, úr einu húsinu í annað, ávallt skammaður og ávallt illa þokkaður. Enginn trúði mér og ég trúði ekki sjálfum mér. Það var mesta bágindatíð. Þá bar svo til einhvern dag að ferðamaður nokkur kom. Ég var prettaður í hendur honum og hann tók mig í hjartans einlægni fyrir góðan gjaldeyri. En svo kom að því, að hann ætlaði að borga með mér og þá heyrði ég aftur kallað: „Ónýtur peningur, falspeningur!“ „Þá hef ég þó fengið hann svo sem ófalsaðan og ósvikinn,“ sagði maðurinn, og virti mig vandlega fyrir sér og varð þá allt andlitið í einu brosi, en það kom annars aldrei fyrir, að bros sæist á nokkurs manns andliti, sem á mig horfði. „Nei, hvað er að tarna?“ sagði hann, „þetta er ein af myntum okkar eigin lands, góður og gildur skildingur heiman að, sem menn hafa borað gat á og kallað falspening. Skrítið var það, að hann skyldi berast upp í hendurnar á mér. Þig skal ég sannarlega varðveita og hafa heim með mér.“ Það fór ánægjutitringur um mig allan, þegar ég var kallaður góður og gildur skildingur. Og nú átti ég að fara heim í ættland mitt, þar sem ég átti þess vísa von, að allir mundu við mig kannast og vita full deili á, að ég var úr góðu silfri gerður og með ósviknu móti. Mér þótti svo vænt um þetta, að mér hefði verið skapi næst að gneista af fögnuðinum, en það er ekki mitt eðli að gneista. Stál getur gneistað, en silfur getur það ekki. Ég var vafinn í fínan og hvítan pappír til þess að ég færi ekki saman við aðrar myntir og týndist svo. Aðeins við hátíðleg tækifæri, þegar menn úr mínu eigin landi komu saman, – var ég tekinn upp og sýndur og farið um mig einkarloflegum orðum. Þeir sögðu, að það væri skemmtun að mér, og er þó hálf skrítilegt, að skemmtun skuli geta verið að þeim, sem aldrei talar orð. Og loksins komst ég þá heim. Öll mín neyð var á enda og nú byrjaði gleðin. Silfrið í mér var gott og mótið ósvikið, og úr þessu gramdist mér ekkert, þótt ég hefði verið glataður, svo sem einn falspeningur. Það sakar ekkert, þótt maður sé kallaður falspeningur, þegar maður er það ekki. Manni ber að þreyja með þolinmæði. Allt nær rétti sínum um síðir. „Það er mín örugg trú,“ sagði silfurskildingurinn. Anna Lísa Anna Lísa var fríðleiks kvenmaður, rjóð og hvít og skipti vel litum. Tennurnar skínandi skærar, augun björt og fögur. Fæturnir léttir í dansinum, en lundin þó enn léttari. Hún hafði eignast dálítinn krakka – því miður – og var hann ekki ýkja laglegur. Var honum komið til fósturs hjá verkamannskonu einni, en móðirin vistréð sig í greifahöllinni. Þar sat hún í prýðisfallegri stofu, klædd í silki og flauel. Varla mátti þar koma að henni kaldur gustur, enginn mátti tala til hennar aukatekið orð. Henni hentaði ekki, að það væri gert, hún gat haft illt af því. Hún hafði barn greifans á brjósti. Það var sveinbarn, fíngert sem prins væri og fagurt sem engill. Og hvað hún elskaði þetta brjóstbarn sitt. Það var meira en lítið! Hennar eigið barn hafði fengið samastað. Það var á verkmannsheimilinu, þar sem önnur suða var tíðari en sú, að það syði upp úr pottinum, og oftar var það, að enginn var heima. Grét þá drengurinn, en enginn hirðir um það, sem enginn heyrir eða veit um. Var hann svo að gráta, þangað til hann sofnaði, og í svefninum finnur maður ekki til hungurs né þorsta. Sannarlega er hann dýrmæt guðs gjöf, blessaður svefninn! Nú líða fram stundir, og drengurinn hennar Önnu Lísu óx og dafnaði, að sínu leyti eins og arfinn og ógresið grær og dafnar, og var þó sagt, að einhver kýtingur væri í vexti hans, en samgróinn var hann orðinn þeim, sem fóstruðu hann, enda vantaði ekki, að ríflega hafði verið gefið með honum og það í peningum. Anna Lísa var laus allra mála við hann. Hún var orðin kaupstaðarmaddama, átti þægilegt og notalegt heimili og hafði stásshatt á höfði, þegar hún gekk út, en aldrei gerði hún sér ferð til fátæku hjónanna, sem fóstruðu drenginn hennar. Það var svo langt frá kaupstaðnum og hún átti ekkert erindi þangað, drengurinn var kominn henni af höndum á þeirra vegu. Þau sögðu, að hann væri fullfrekur á fóðrunum, enda átti hann líka að vinna fyrir mat sínum, og var hann settur til að sitja yfir rauðu kusu Mads Jensens. Það gat hann og það var honum engin ofætlun, en ekki hentugt, að hann vendist við tómt iðjuleysi. Hlekkjahundurinn við herragarðshliðið situr hreykinn í sólskininu uppi á skýli sínu og geltir að hverjum, sem fram hjá gengur. Þegar fer að rigna, skríður hann inn í kytru sína og liggur þar inni alþurr, og fer vel um hann. Drengurinn hennar Önnu sat líka í sólskininu á gryfjubarminum og telgdi tjóðurhæla. Á vortímanum vissi hann af þremur jarðarberjaplöntum, blómstrandi, sem áreiðanlega mundu bera ávöxt. Það var það, sem hann hlakkaði mest til, en aldrei komu berin. Hann sat úti í rigningunni og varð holdvotur, lét síðan vindinn snarphvassan þurrka utan á sér fötin. Kæmi hann á greifaheimilið, þá varð hann að sæta höggum og hrindingum, og vinnumenn og vinnukonur kváðu hann vera leiðan og ljótan. Þessu var hann vanur, og enginn elskaði hann. Svona var farið með drenginn hennar Önnu Lísu, og hvernig átti öðruvísi að vera? Það voru forlög hans, að hann átti aldrei að vera elskaður af neinum. Hingað til hafði hann lifað á þurru landi, en nú var honum varpað út í sjávarvolk og vos. Hann varð háseti á lélegri skútu og sat við stýrið, en skipstjórinn sat við flöskuna og drakk. Hann var óhreinn og ljótur, síkaldur og sísvangur, og af útliti hans mátti ráða, að hann hefði aldrei étið sig saddan, enda var orð og að sönnu, að svo var. Það var einhvern tíma seint um haustið, að veður var hvasst á landi með kalsarigningu. Vindurinn næddi í gegnum fötin, þó þykk væru, en einkum var þó kalt á sjónum. Þá var það, að skútugarmur var á siglingu við eitt segl, með tvo menn aðeins innanborðs, eða réttara sagt, hálfan annan, skipstjórann semsé og skipsdrenginn. Það hafði verið rökkurdimma allan daginn, en nú syrti að og gerði herpingskulda. Skipstjóri fékk sér „dramm“ til að hita sér fyrir brjósti. Flöskuna hafði hann fyrir framan sig og staupið með. Það var heilt að ofan, en brotinn undan því fóturinn, og var undir því telgdur tréfótur, blámálaður, svo það gæti staðið. Einn dramm hressti vel, tveir mundu gera það enn betur, eða svo hélt skipstjórinn. Drengurinn sat við stýrið og hélt um sveifina með sigghörðum og tjörugum höndunum. Ósélegur var hann, hárið strítt, og allur var hann kyrkingslegur. Það var nú sonur verkmannsins fátæka, en í kirkjubókinni stóð aðeins, að hann væri sonur Önnu Lísu. Vindurinn hvein í reiðanum, og skútan keyrðist áfram eftir öldunum. Beljandi vindstrokan stóð í seglin, það var á fleygiferð, allt í einu löðri, vos og væta hátt og lágt, og gat þó versnað enn úr því, sem var. En þei, þei! hvað var þetta? hvað var það, sem steytti? hvað var það, sem brast? hvað kippti í skútuna? hún hringsnerist allt í einu. Var það skýjafall, sem yfir dundi, eða skall yfir þá brotsjór? Drengurinn við stýrið kallaði hástöfum: „Í Jesú nafni.“ Skútan hafði steytt á blindskeri og sökk eins og gamall skór í aurkeldu. Hún sökk með þeim tveimur, sem á voru, skipstjóranum og drengnum verkmannsins fátæka. Enginn sá það, nema mávarnir gargandi, sem voru þar á flökti, og fiskarnir í sjónum, og sáu þeir það þó ekki almennilega, því þeir þutu felmtraðir undan, þegar kolblár sjórinn féll inn í sökkvandi skútuna. Þarna lá hún og maraði á tæpu faðmsdýpi undir sjónum. Báðir félagarnir voru geymdir og gleymdir, það var aðeins staupið með blámálaða fætinum, sem ekki sökk, því tréð flaut og hélt því uppi. Staupið rak til og frá um sjóinn, svo það ræki upp á endanum og brotnaði, – hvar eða hvenær má á sama standa. Það hafði lokið sínu ævistarfi og það hafði verið elskað. Það hafði drengurinn hennar Önnu Lísu ekki verið, en hvað sem því líður, þegar í himnaríki kemur, þá mun engin sála geta sagt: „Enginn hefur elskað mig.“ Anna Lísa hafði nú átt heima í kaupstaðnum í mörg ár. Hún var kölluð „maddama“ og fann til sín, einkum færðist í hana reigingur, er hún minntist á gamla tíma og vistina í greifahöllinni, þegar hún ók í stásskerru og gat talað við greifafrúr og barónafrúr. – Greifabarnið blessað var, að því er henni þótti, sá indælasti guðs engill og einstakasta gæskublóð. Drengnum hafði þótt vænt um hana og henni um hann. Þau höfðu alltaf verið að kyssa og klappa hvort öðru. Drengurinn sá var gleðin hennar og lífsins yndi. Nú var hann fjórtán ára gamall og orðinn bæði yndisfríður og vel að sér ger. Hún hafði ekki séð hann, síðan hún bar hann í fanginu, hún hafði ekki um mörg ár komið í greifahöllina, enda var æði langt þangað úr kaupstaðnum. „Ég verð einhvern tíma að manna mig upp til þess,“ sagði Anna Lísa, „ég má til að finna elskuna mína, sæta greifabarnið mitt. Ég veit, að hann sárþreyir mig, hugsar til mín og elskar mig eins og fyrrum, þegar hann hékk um háls mér með engilhendurnar sínar og sagði: „Ann—Liss!“ Það ómaði í eyrum mér eins og fiðlutónar. Já, ég verð að manna mig upp til að fara og sjá hann aftur.“ Hún ók nú af stað með kálfaflutningsvagni og fór síðan fótgangandi. Kom hún svo til greifahallarinnar. Höllin var eins mikilfengleg og ljómandi til að sjá og fyrrum, og trjágarðurinn var samur við sig, en skuldaliðið allt á heimilinu var henni ókunnugt, og enginn var þar, sem þekkti Önnu Lísu. Það vissi ekki, hversu atkvæðamikil hún hafði verið þar á heimilinu fyrrum, en hún taldi víst, að það mundi greifafrúin segja fólkinu og elsku drengurinn hennar líka. Ó, hvað hana langaði til að sjá hann! Nú var þá Anna Lísa komin þangað, sem förinni var heitið, en lengi var hún látin bíða, og löng finnst bíðendum biðin. En áður en fyrirfólkið gengi til miðdegisverðar var kallað á hana, að hún kæmi inn til greifafrúarinnar, og talaði frúin vingjarnlega til hennar. Drenginn sinn sæta átti hún að fá að sjá eftir borðun, og var þá aftur kallað á hana. En hvað hann var orðinn stór og langur og grannvaxinn, en yndisfögur voru augun og engilmunnurinn sjálfum sér líkur. Hann horfði á hana, en mælti ekki orð. Auðvitað þekkti hann hana ekki. Hann sneri sér við og ætlaði að fara, en þá greip hún um hönd hans og þrýsti henni að munni sínum. „Jæja, gott er nú það,“ sagði hann og gekk út úr stofunni, – hann, sem fyllti allan huga hennar, hann, sem hún hafði unnað mest og unni enn. Hann, sem var mesti metnaður hennar hér á jörðu! Anna Lísa gekk burt úr höllinni út á þjóðveginn og var í þungu skapi. Hann hafði verið svo kaldur og annarlegur við hana, ekkert viljað sinna henni, og ekkert við hana talað, hann, sem hún hafði haft á brjósti dag og nótt og ávallt haft í huga sínum. Stór, svartur hrafn flaug niður á veginn fram undan henni og krunkaði. „Æ,“ sagði hún, „hvaða óheillafugl ert þú?“ Leið hennar lá fram hjá húsi fátæka verkmannsins. Konan stóð í dyrunum, og nú töluðust þær við. „Þú ert sælleg,“ sagði verkmannskonan, „þú ert feit og bústin: þér lætur lífið.“ „Ojæja, lof sé guði,“ sagði Anna Lísa. „Það fórst þá skipið, sem þeir voru á,“ mælti verkmannskonan. „Þeir drukknuðu báðir, hann Lars skipstjóri og drengtetrið. Nú eru þeir búnir að vera. Ég hélt að drengurinn mundi einhvern tíma geta hjálpað mér um skildinga. Þig kostar hann þá ekki mikið úr þessu, Anna Lísa!“ „Svo þeir drukknuðu,“ sagði Anna Lísa, og ræddu þær nú ekki meira um það. Anna Lísa var svo sorgbitin af því að litli greifinn hennar hafði ekki viljað virða hana orðs, hana, sem unni honum svo heitt og hafði nú tekið sér langa ferð á hendur til að sjá hann. Ferðin hafði kostað peninga og ánægjan orðið svo nauðalítil, en um það talaði hún ekki nokkurt orð. Hún vildi ekki létta á hjarta sínu með því að tala um það við konu verkmannsins. Hún kynni þá að hafa ímyndað sér, að hún væri búin að glata hylli greifafólksins. Í sama bili gargaði hrafninn aftur yfir höfði hennar. „Er það ekki þarna, ófétið svarta!“ sagði Anna Lísa, „það ætlar heldur en ekki að hræða mig í dag.“ Hún hafði haft með sér kaffibaunir og kaffibæti. Það var hugulsemi við verkmannskonuna, svo að hún gæti hitað sér kaffi, og hún þá líka fengið sér kaffibolla um leið. Fór þá verkmannskonan að hita á katlinum, en Anna Lísa settist á stól. Þá dreymdi hana nokkuð, sem hana hafði aldrei dreymt áður. Hana dreymdi barnið sitt, sem hafði hljóðað og hungrað í kofa þessum og átt illa ævi, en lá nú á mararbotni. – Guð einn vissi hvar. Hana dreymdi, að hún sæti einmitt þarna, sem hún sat, og að verkmannskonan væri frammi að hita kaffið. Hún fann kaffilyktina, og í dyrunum þótti henni standa ljómandi fallegur drengur, eins fríður og greifasonurinn litli, og hann sagði við hana: „Nú ferst heimurinn, haltu þér fast við mig, því þú ert þó móðir mín. Þú átt engil í himnaríki. Haltu í mig dauðahaldi.“ Og engillinn þreif til hennar, en í sama bili heyrðist vábrestur, eins og heimurinn væri að klofna, og engillinn hófst upp og hélt af öllu afli í ermar hennar og þótti henni sem hún lyftist frá jörðinni. En hins vegar fannst henni, eins og eitthvað þungt hengdist við fætur sér og eitthvað lægi á baki sér. Það var eins og hundrað konur hnöppuðu sig að henni, og þær sögðu: „Ef þú átt að frelsast, þá verðum við líka að frelsast. „Hanga og hanga, toga og toga!“ – og héngu þær svo allar á henni, og var það mikils til of mikið. Ermarnar sviptust í sundur og Anna Lísa hrapaði hræðilega djúpt niður, svo að hún hrökk við og lá við sjálft, að hún byltist niður á gólfið með stólnum, sem hún sat á. Hún var svo ringluð í höfðinu, að hún mundi alls ekki, hvað hana hafði dreymt, nema það, að það hefði verið eitthvað illt og ógurlegt. Nú drukku þær kaffið og röbbuðu saman, og gekk Anna Lísa síðan til næsta þorps, þar sem hún átti að hitta ökumanninn og aka með honum þá þegar um kvöldið og nóttina til heimilis síns. En er hún kom á fund ökumannsins, þá sagði hann, að þau gætu ekki komist af stað fyrr en næsta kvöld. Fór hún þá að hugsa um, hversu mikið það mundi kosta sig að bíða um kyrrt, og um vegarlengdina, og sá þá í hendi sér, að færi hún með sjó fram, en ekki akveginn, þá væri það allt að því tveimur mílum skemmra. Veður var bjart og tungl í fyllingu, svo að hún réð af að fara gangandi. Það munaði því, að næsta dag gat hún komist heim til sín. Sól var af lofti, og enn hljómuðu kvöldklukkurnar. En það voru ekki þær, sem kváðu við í eyrum hennar, heldur froskarnir, sem hvökkuðu í tjörnunum. Nú þögnuðu þeir og allt var kyrrt og hljótt, ekki svo mikið sem að fugl kvakaði. Þeir höfðu tekið á sig náðir og uglan hefur víst ekki verið heima. Allt var grafkyrrt við skógarjaðarinn og á sjávarströndinni, þar sem hún gekk. Hún heyrði fótatak sjálfrar sín, er hún gekk eftir sandinum. Sjórinn gerði ekki svo mikið sem að gjálpa, allt þar úti fyrir í djúpinu var hljóðlaust. Allt var steindumba, sem þar var niðri, bæði hið lifandi og hið dauða. Anna Lísa hélt áfram í hugsunarleysi, eins og menn segja, eða öllu heldur, hún var hugsunum sínum fjær, en hugsanirnar voru ekki fjarri henni. Þær eru oss aldrei fjærkomnar, þær liggja aðeins í dái, bæði hinar lífgæddu, sem sofnaðar eru út af, og hinar, sem ekki eru farnar enn að hreyfa sig. En hugsanirnar munu víst gera vart við sig, þó síðar verði, þær geta hreyft sér í huga vorum og hjarta eða yfirþyrmt oss allt í einu. „Gott verk ber í sér ávöxt blessunarinnar,“ stendur skrifað einhvers staðar. Og „dauðinn er laun syndarinnar,“ stendur á öðrum stað. Margt stendur skrifað og margt hefur verið sagt. Maður veit ekki af því, maður man það ekki, og svo var um Önnu Lísu. En það getur rifjast upp fyrir manni allt í einu, það getur skilað sér. Allir lestir, allar dyggðir felast í hjarta voru. – Í þínu sem mínu hjarta liggja fólgin hin ósýnilegu frækorn þeirra. Svo þarf ekki utan frá nema einn sólargeisla, viðkomu vondrar handar eða að þú gangir fyrir hornið til hægri handar eða vinstri – já, það gerir það, sem dugir. Það kemur titringur á frækornið smáa, það þrútnar út og springur og eys vökva sínum í blóð þitt, það ólgar í þér og kemur þér af stað. Það eru til angistarfullur hugsanir – þær gera ekki vart við sig, þegar sálardofinn er yfir manni, en þær geta búið um sig. Frá kyndilmessu til jafnlengdar hefur hjartað mikið á sínum skuldadálki. Það á að standa eins árs reikningsskap. Margt kann að vera gleymt, syndir gegn guði í orðum og hugrenningum, náunga vorum og vorri eigin samvisku. Vér hugsum ekki eftir því og það gerði Anna Lísa ekki heldur. Hún hafði ekkert brotið gegn lögum og landsrétti. Hún var vel metin, vönduð og heiðarleg kona – það vissi hún. Og nú, er hún gekk fram með sjónum – hvað var það þá, sem þar lá? Hún nam staðar. Hverju hafði skolað þar að landi? Það var gamall karlmannshattur, sem lá þar. Hvar skyldi hann hafa fallið fyrir borð? Hún gekk nær, stóð kyrr og horfði á hann – já, hvað var það, sem lá þar? Hún varð dauðhrædd, en það var ekkert að hræðast, það var ekki annað en þang og marhálmur, sem hafði hrúgast ofan á stóran aflangan stein, en skjótt á að líta var það eins og mannsbúkur. Þetta var það, þang og marhálmur, en samt varð hún hrædd, og er hún gekk áleiðis, þá datt henni svo margt í hug, sem hún hafði heyrt í barnæskunni, hjátrúin og bábiljurnar um sjódrauginn eða vofu ójarðaðs manns, sem liggur sjórekinn á eyðiströnd. Líkið örent gerði auðvitað ekkert mein, en sjódraugurinn eða sjóvofan elti þann, sem einn var á ferð og varð á vegi hennar, hékk á honum og heimtaði, að með sig væri farið í kirkjugarðinn –, svo að hún yrði þar jarðsett í kristinna manna reit. „Hanga og hanga, toga og toga!“ sagði vofan, og er Anna Lísa hafði upp fyrir sér þessi orð, þá rifjaðist allt í einu upp fyrir henni draumurinn og það svo glöggt og skýrt, – þegar mæðurnar þrifu utan í hana og kölluðu: „Hanga og hanga, toga og toga!“ þegar heimurinn sökk niður og kjólermar hennar rifnuðu og hún sjálf féll úr fangi barnsins síns, sem vildi halda henni uppi á hinni hræðilegu stundu dómsins. Barnið hennar, hennar eigið holdgetið barn, sem hún aldrei hafði elskað, meira að segja, aldrei hugsað neitt um, það lá á mararbotni, það gat komið sem sjóvofa og kallað: „Hanga og hanga, toga og toga! komdu mér í kristinna manna jörð,“ og er hún hugsaði um þetta, þá pikkaði hræðslan í hæla hennar, svo að hún greikkaði sporið. Hræðslan yfirþyrmdi hana, – það var eins og köld og stöm hönd væri lögð á hjarta hennar, svo við sjálft lá, að liði yfir hana, og er hún leit út á sjóinn, þá þykknaði þeim megin meira og meira dró upp þaðan þunga þoku, sem grúfði sig að trjám og runnum, svo kynjalegt var á að horfa. Hún leit við til að gá að tunglinu, sem upp var komið að baki henni. Það var þá eins og bleik og ljómalaus kringla. Henni fannst eins og einhver ógnaþungi hefði lagst á sig alla, alla sína limi. „Hanga og hanga, toga og toga!“ hugsaði hún, og er hún leit við aftur og horfði á tunglið, þá þótti henni sem hið hvíta andlit þess væri komið rétt ofan að sér, og að þokan héngi niður yfir axlir sér eins og hvít línslæða. „Hanga og hanga, toga og toga! komdu mér í kristinna manna jörð.“ – Það þótti henni sem hún heyrði sagt í dimmum, undarlegum rómi, og kom það hljóð ekki frá krákum eða hröfnum, því þeirra varð hún hvergi vör. „Grafðu mér gröf, grafðu mér gröf!“ heyrðist fullglöggt. Jú, það var sjóvofan barnsins hennar, sem lá á mararbotni og ekki gat friðast fyrri en það yrði borið í kirkjugarðinn og grafin gröf handa því í vígðri jörð. Sneri hún þá á leið í áttina þangað, sem kirkjan var, og fannst henni eins og byrði hennar yrði léttari og enda hyrfi með öllu, en þegar hún sneri við til að halda heim skemmstu leiðina, þá kom það aftur: „Hanga og hanga, toga og toga!“ og lét það í eyrum eins og froskahvakk eða fuglavæl, og orðin: „Grafðu mér gröf, grafðu mér gröf!“ heyrði hún þá mjög skilmerkilega. Þokan grúfði yfir með vætukulda. Um hendur henni og andlit sló köldum svita af hræðslunni, það kreppti að henni utan frá og inni fyrir í henni sjálfri gafst nú óendanlegt rúm fyrir hugsanir, sem hún hafði aldrei áður haft aðkenningu af. Hér á Norðurlöndum getur beykiskógurinn sprungið út á einni vornótt og staðið alskrýddur í sinni ungu, ljósgrænu prýði, þegar sólin ljómar yfir hann næsta dag. Og eins er snöggt í innra manni vorum. Það syndasæði, sem vér höfum niður sáð á vorri liðnu ævi í hugrenningum, orðum og verkum, það getur á einni sekúndu lyft sér upp og slegið sér út, þegar samviskan vaknar. Og guð vekur samviskuna, þegar oss síst varir. Þá finnum við ekkert oss til málsbóta. Verkið er þar og vitnar á móti oss. Hugsanir verða að orðum og hljómur orðanna berst út í víða veröld. Oss hryllir við því, sem vér höfum borið í oss og ekki kæft niður. Oss blöskrar allt það, sem vér í hroka vorum og hugsunarleysi höfum stráð í kringum oss. Hjartað geymir í sér allar dyggðir, en einnig alla lesti, og þeir geta þróast enda í ófrjóasta jarðvegi. Í brjósti Önnu Lísu ólguðu nú þessar hugsanir, sem hér eru með orðum tjáðar. Þær báru hana ofurliði. Hún hné niður og skreið áfram spölkorn eftir jörðinni. „Grafðu mér gröf, grafðu mér gröf!“ heyrði hún sagt, og fegnust mundi hún hafa grafið sig sjálfa, ef gröfin hefði getað veitt henni eilífa gleymsku þess, sem liðið var. – Þetta var hin fyrsta vakningarstund alvörunnar með ógn og angist. Hjátrúin gerði henni ýmist funheitt eða frostkalt í æðum, og svo margt rann henni í huga, sem hún helst aldrei vildi nefna á nafn. Vofusýn fór fram hjá henni, hljóðlaust eins og skýskugginn í tunglskininu. Hún hafði heyrt getið um líka sýn áður. Fjórir fnæsandi hestar þutu fram hjá henni, og brann eldur úr augum þeirra og nösum. Þeir drógu glóandi kerru, og í henni sat herramaðurinn vondi, sem fyrir hundrað árum hafði böðlast þarna í byggðarlaginu. Sagan sagði, að á hverri nóttu um lágnættið æki hann inn í hallargarð sinn og óðara út aftur. Hann var ekki hvítur, eins og mælt er, að dauðir menn séu, heldur svartur eins og brunnið kol. Hann kinkaði kolli til Önnu Lísu og benti henni: „Hanga og hanga, toga og toga! – þá geturðu aftur ekið í greifalegum vagni og gleymt barninu þínu.“ Hún hraðaði sér burt allt hvað af tók og komst inn í kirkjugarðinn, en svörtu krossarnir og svörtu hrafnarnir þyrluðust saman fyrir augum hennar, svo að hún gat ekki greint eitt frá öðru. Hrafnarnir görguðu eins og hún hafði heyrt hrafninn garga um daginn, en nú skildi hún, hvað það var, sem þeir sögðu: „Ég er hrafnamóðir, ég er hrafnamóðir!“ sagði hver þeirra um sig, og vissi Anna Lísa, að það nafn átti hún líka sjálf, og var vísast, að hún kynni sjálf að breytast í sams konar svartan fugl og yrði þá sí og æ að garga hið sama og þeir görguðu, ef henni yrði ekki auðið að grafa gröfina. Og hún fleygði sér niður á jörðina og gróf gröf ofan í harðan jarðveginn með höndum sínum, svo að blóðið kreistist fram undan nöglum hennar. „Grafðu mér gröf, grafðu mér gröf!“ ómaði stöðugt fyrir eyrum hennar. Hún var dauðhrædd um, að haninn kynni að gala og fyrsta rauða ljósrákin að sjást í austri, áður en hún hefði lokið verki sínu. Því yrði svo, þá var hún glötuð. Og haninn galaði og dagur ljómaði í austri, en gröfin var ekki grafin nema til hálfs. Ísköld hönd strauk ofan um höfuð hennar og andlit og allt niður að hjartagróf. „Ekki nema hálf gröf!“ sagði einhver kveinandi rödd og leið á burt, leið niður á hafsbotn. Já, það var sjóvofan. Anna Lísa hné til jarðar yfirkomin, höggdofa og meðvitundarlaus. Þegar hún raknaði við, var bjart orðið og dagur á lofti. Þá komu að tveir menn og reistu hana upp þar sem hún lá, en ekki var það í kirkjugarðinum, heldur á sjávarströndinni, og hafði hún grafið djúpa holu niður í sandinn og skorið sig á brotnu glasi, með stilkinn niður úr, festan í blásteindan tréfót. Anna Lísa var sjúk. Samviskan hafði stokkað spil hjátrúarinnar, raðað þeim og ráðið það af þeim, að nú hefði hún ekki nema hálfa sál, hinn helminginn hefði barnið hennar tekið með sér niður á mararbotn, og aldrei mundi hún fá lyft sér upp til náðarinnar á himnum, fyrri en hún fengi aftur náð í hinn helminginn, sem haldið var föstum niðri í sjávardjúpinu. Anna Lísa kom nú heim til sín og var ekki framar hin sama, sem hún áður hafði verið. Hugsanir hennar voru einlæg flækja. Það var aðeins einn þráðurinn, ein hugsunin, sem hún gat áttað sig á, og hún var sú, að hún yrði að koma sjóvofunni í kirkjugarðinn, grafa henni gröf og ná svo aftur sinni eigin sálu heilli og óskertri. Marga nóttina vantaði hana á heimilinu og ávallt fannst hún á sjávarströndinni. Hún var þar að bíða eftir sjóvofunni. Leið svo heilt ár til enda, en þá bar svo til, að hún hvarf eina nótt og fannst ekki aftur. Var hennar svo leitað liðlangan næsta dag, en allt árangurslaust. Þegar komið var að sólarlagi og djákninn fór inn í kirkjuna til aftanhringingar, sá hann, hvar Anna Lísa lá fyrir framan altarið. Hún hafði þá verið þar frá því snemma um morguninn. Kraftar hennar voru nærri gjörþrotnir, en augu hennar ljómuðu, og ljós roðablær var yfir andlitinu. Síðustu sólargeislarnir skinu inn á hana, breiddu bjarma sinn yfir altarið og glóðu á hinum fögru spennslum biblíunnar, sem lá opin fyrir framan hana með þessum orðum Jóels spámanns: „Sundurrífið hjörtu yðar, en ekki klæði yðar. Snúið yður til drottins.“ Það hafði nú hist svona á – af tilviljun, sögðu menn, en það er nú svo margt, sem hittist svona á af tilviljun. Sólarbirtuna lagði yfir andlit Önnu Lísu, og mátti lesa út úr því, að inni fyrir ríkti náð og friður. Hún sagði, að sér liði vel. Hún hefði nú sigrast á þraut sinni. Um nóttina hefði sjóvofan, barnið hennar, komið til hennar og sagt: „Þú grófst ekki nema hálfa gröf handa mér, en þú hefur ár og dag verið að grafa mig niður í hjarta þínu og þar geymir móðirin langbest barnið sitt.“ Og þess vegna hefði það gefið henni aftur hina glötuðu helft sálar hennar og leitt hana inn i kirkjuna. „Nú er ég í guðs húsi,“ sagði hún, „og í guðs húsi er maður sæll.“ Þegar sólin var alveg gengin undir, var sál Önnu Lísu komin til hæða, þar sem enginn ótti né sorg er framar, þegar lokið er hinsta stríði hér á jörðu, og svo var nú fyrir Önnu Lísu, að því stríði hafði hún lokið. Sálin Í árroða dögunarinnar lýsir stór stjarna, hin skærasta stjarna morgunsins. Geislar hennar titra á veggnum hvíta, eins og hún vildi rita á hann það, sem hún hefur séð um þúsundir ára hingað og þangað á voru hverfandi jarðarhveli. Heyrið nú eina af sögunum hennar! Núna nýlega – en nýlega á hennar máli er sama sem fyrir mörgum hundruðum ára á mennskra manna máli – fylgdu geislar mínir ungum listamanni. Það var í páfalöndum, í heimsborginni Róm. Mikið hefur breyst með tímanum, en ekki eins fljótt og mannveran breytist úr barni í gamalmenni. Keisarahöllin var í rústum, eins og hún er enn í dag. Fíkjuviðir og lárviðir uxu innan um hrundar marmarasúlur og ofan á baðhússherbergjunum með gullskreyttu veggina. Hringleikhúsið var orðið að rúst einni. Kirkjuklukkunum var hringt og skrúðfylkingar fóru um strætin með logandi ljósum og ljómandi tjaldhimnum. Kirkjuhelgin var mikil og listin háheilög. Þá var Rafael uppi í Róm, mesti málari heimsins, og Michelangelo, mesti myndasmiður sinnar aldar. Jafnvel páfinn hafði þá báða í hávegum og heimsótti þá jafnaðarlega. Listin var viðurkennd og virt og vel launuð. En ekki er þar fyrir allt séð og metið, sem dugandi er í sjálfu sér og mikilhæft. Í litlu og mjóu stræti stóð gamalt hús, sem einhvern tíma í fyrndinni hafði verið goðahof. Þar átti heima ungur listamaður. Hann var fátækur og ekki þekktur. Kunningja átti hann raunar, unga listiðkendur á sínu reki, unga að skapsmunum, unga að hugsunarhætti og framtíðarvonum. Þeir sögðu honum, að hann hefði auðuga listgáfu og væri fær í allan sjó, en hann væri sá fáráðlingur, að hann gæti ekki haft trú á því sjálfur. Hann mölvaði ætíð það, sem hann hefði myndað í leir, hann væri aldrei ánægður með neitt, lyki aldrei við neitt, en það væri lífs áríðandi, svo að verkið gæti orðið séð og metið og aflað manni peninga. „Þú ert draumvingull,“ sögðu þeir, „og það er ógæfa þín, en það kemur af því, að þú hefur ekki lifað, enn sem komið er, þú hefur ekki smakkað á lífinu, ekki notið þess í drjúgum heilsusamlegum teygum, eins og maður á að njóta þess. Í æskunni einmitt getur maður samlagað sig lífinu, svo að það og sjálfur maður renni í eitt. Líttu á meistarann mikla, hann Rafael, sem páfinn heiðrar og heimurinn dáir, hann leggur vínið og brauðið óspart sér til munns.“ „Og bakarakonuna með, fríðleiksdrósina hana Fornarínu!“ sagði Angeló, sem var einna kátastur í vinahópnum. Já, þeir sögðu nú svo margt eins og aldurinn var til og vitsmunirnir. Þeir vildu fá listamanninn unga með sér út í gjálífi og gamanóra, ærsl og gleðskap. Það kom líka að honum með köflum, að hann langaði til þess sjálfan. Hann hafði heitt blóð í æðum og fjörugt ímyndunarafl. Hann gat lagt til gamanmálanna og hlegið með hinum. En það, sem þeir kölluðu „hið fjöruga líf Rafaels“, hjaðnaði í augum hans eins og morgunþoka, þegar hann sá guðdómsljómann, sem geislaði út frá myndum meistarans mikla. Og þegar hann stóð í Vatikaninu[*] frammi fyrir hinum fögru myndum, sem ýmsir meistarar fyrir þúsundum ára höfðu höggvið út í marmara, þá svall honum móður í brjósti, þá fann hann í sjálfum sér eitthvað svo háleitt, heilagt, mikið og gott, að hann langaði til að skapa slíkar myndir og höggva þær út í marmara. Hann vildi leiða það í ljós, sem leitaði frá hjarta hans upp í hæðirnar til hins óendanlega, en hvernig þá og í hvaða mynd? Leirinn mjúki lagaðist milli handa hans í fegurðarmyndir, en það var segin saga, að daginn eftir mölvaði hann í sundur það, sem hann hafði skapað. [* Páfahöllinni.] Það var einn dag, að hann gekk fram hjá einni af þessum ríkmannlegu höllum, sem svo margt er af í Róm. Hann nam staðar við aðalhliðið og sá fyrir innan dálítinn blómagarð fullan af fegurstu rósum og girtan myndprýddum bogagöngum. Stórvaxin hvít kallablómstur, með grænum safaríkum blöðum, spruttu upp úr marmaraskálinni, sem gosbrunnsvatnið helltist niður í og bullaði í, og þarna fram hjá skundaði yngismey. Það var dóttirin í þessu furstalega húsi, svo fríð, svo sviflétt á fæti, svo ljómandi fögur. Slíka sem þessa hafði hann enga séð. Jú, eina málaða af Rafael, sem átti að vera Sálin, í einni af höllum Róms, Já, en þar var hún máluð, hérna gekk hún lifandi. Og hún var lifandi í huga hans og hjarta, og hann fór heim í fátæklega herbergið sitt og myndaði Sálina af leir. Það var hin unga rómverska, tiginborna mey, og núna horfði hann í fyrsta sinni ánægður á verk sitt. – Í þetta var eitthvað varið. Það var mynd af henni. Og vinirnir, sem sáu, urðu hrifnir af fögnuði. Hér sáu þeir opinberaðan listamannsmikilleika hans, sem þeir höfðu vitað um áður. Nú átti heimurinn að viðurkenna hann. Leirinn nær að vísu holdslíkingunni og lífblænum, en hann hefur ekki hvítleik og varanleik marmarans. Nú átti Sálin að öðlast líf í marmara, og marmaraefnið, sem er dýrt, hafði hann til taks. Það var stór marmarablökk, sem foreldrar hans áttu og legið hafði árum saman úti í húsgarðinum. Flöskubrot og óhroði af matjurtaleifum höfðu haugast ofan á hana og óhreinkað hana, en hið innra var hún hvít sem mjöllin. Upp úr henni átti Sálin nú að rísa. Svo bar til einhvern dag – stjarnan kann ekki frá því að segja, hún sá það ekki, en oss er það kunnugt – að rómverskt tignarfólk kom í þrönga, auvirðilega strætið. Það var staðið við með vagninn spottakorn í burtu. Þetta fólk kom til þess að líta á hagvirki listamannsins unga. Það hafði af hreinni tilviljun heyrt þess getið. Og hverjir voru þessir tignu gestir? Veslings ungi maður! Það má nærri því segja, að hann væri of hamingjusamur. Yngismeyjan sjálf stóð þarna í herberginu hans, og hvílíkt bros var það, sem lék á vörum hennar, þegar faðir hennar sagði þessi orð: „Nú, þarna höfum við þig. Það er lifandi eftirmyndin þín.“ Því brosi verður ekki lýst, eða augunum, sem hún renndi til listamannsins unga, það var þess konar augnatillit, sem lyfti, göfgaði og að endingu – lamaði. „Það verður að fullgera Sálina í marmara,“ sagði stórhöfðinginn. Og það voru lífsins orð fyrir dauðan leirinn og meginþungan marmarann, eins og það voru lífsins orð fyrir unga manninn ástfangna. „Þegar listaverkið er búið, þá kaupi ég það,“ sagði tignarmaðurinn. Það var eins og nú væri byrjað nýtt tímabil í fátæklega vinnuhúsinu listamannsins. Þar var líf og fjör og kæti. Morgunstjarnan sá, hversu verkinu miðaði áfram. Það var eins og leirinn hefði fengið anda við komu meyjarinnar. Hann lagaðist ljúflega til að ná hinum rétta svip og öllum dráttum í aukinni fegurð. „Nú finn ég, hvað lífið er,“ sagði listamaðurinn ungi frá sér numinn, „það er ástin, það er gagntekningin af hinu fagra. Það, sem vinirnir kalla líf og lífsnautn, er forgengilegt fánýti, froðubólur óhreinna dreggja, ekki hreina himneska vínið á guðs borði, ekki það, sem helgar manninn til þess að lifa sönnu lífi.“ Marmarablökkin var reist upp á enda og meitluð úr henni stór stykki. Svo var mælt og settir punktar og merki og unnin fyrst óæðri handtökin, þangað til steinninn varð smám saman að líkama, hverfðist í fagurt kvenlíkan, breyttist í Sálina, sem var dásamleg eins og guðsmyndin í yngismeynni sjálfri. Þungur steinninn varð að svífandi, loft, kenndri, yndislegri Sál, með himneskt sakleysisbros á vörum, eins og það hafði endurspeglast í hjarta myndasmiðsins unga. Stjarnan sá það frá róslitum morgunhimninum og skildi vissulega, hvað unga manninum var niðri fyrir, skildi litaskiptin í kinnunum og blikið í augunum, þegar hann var að skapa í hendi sér og eftirmynda það, sem guð hafði fyrirmyndað. „Þú ert meistari eins og fornaldarsnillingarnir grísku,“ sögðu vinirnir frá sér numdir. „Bráðum dáist allur heimur að henni Sál þinni.“ „Henni Sál minni!“ tók hann upp aftur, „Sál minni! já, mín hlýtur hún að vera. Ég er líka listamaður, eins og þessi löngu liðnu mikilmenni. Guð hefur veitt mér náðargáfuna, hann hefur lyft mér hátt í sæti, svo sem eðalbornum.“ Og hann féll á kné og þakkaði guði grátandi, en gleymdi honum aftur fyrir henni, myndinni hennar, – myndinni af Sálinni, sem stóð þarna eins og af snævi gerð og roðnaði í ljóma morgunsólarinnar. Hann átti nú að sjá hana, eins og hún var í verulega lífinu, meyna lifandi, meyna svífandi, með málfærið þýða og hljómfagra. Nú var svo langt komið, að hann gat sagt þær fréttir í ríkismannshöllinni, að marmarasálin væri fullgerð. Þangað fór hann og gekk inn um opinn garðinn, þar sem vatnið bunaði niður í marmaraskálina úr ginum málmhöfrunganna, þar sem kallajurtirnar blómguðust og rósirnar greru allt umhverfis. Hann kom inn í stóra hallarforsalinn, sem skreyttur var myndum og skjaldarmerkjum með hinni mestu litprýði. Skrautklæddir, hnakkakerrtir þjónar gengu þar fram og aftur. Sumir lágu líka makindalega og teygðu úr sér á útskornum trébekkjum, og voru þeir svo rembingslegir, að svo var að sjá sem þeir ættu þar húsum að ráða. Listamaðurinn tjáði erindi sitt, og var honum þá fylgt upp tröppur nokkrar af marmara, sem lagðar voru dýrindis ábreiðum. Stóðu þar standmyndir beggja vegna og hélt hann nú áfram um ríkmannlegar stofur. Voru þær myndum skreyttar og gólfin sett litgleri. Honum varð eins og þungt fyrir brjósti af öllu þessu skínandi skrauti og yfirlæti, en honum létti fljótlega aftur, því tignarherrann gamli, sem höllina átti, tók honum svo góðmannlega og nærri því hjartanlega, og er þeir höfðu talast við, beiddi hann listamanninn að skilnaði að koma til dóttur sinnar, því hana langaði líka til að sjá hann. – Fóru þjónarnir þá með hann um skrautlegar stofur og sali allt til herbergis hennar. Hún yrti á hann, og engin dýrðar sönglist hefði getað gagntekið huga hans og hjarta meira en ávarp hennar. Hann greip hönd hennar og þrýsti henni að vörum sínum. Engin rós gat verið mýkri viðkomu, en út frá þessari rós gekk eldur, sem fór um hann allan. Honum hrutu orð af vörum, hann vissi ekki af því sjálfur. Veit eldgígurinn af því, að hann gýs úr sér glóðum? Hann sagði henni, að hann elskaði hana. – Hún stóð þarna steinhissa, stórmóðguð, drembileg og smánandi, og með þann viðbjóð í svipnum, að engu var líkara en hún hefði allt í einu óvart tekið á slepjuðum froski. Kinnar hennar urðu kafrjóðar, varirnar litverpar. Augun leiftruðu, þó kolsvört væru sem nóttin. „Vitfirringur!“ sagði hún, „burt með þig! niður með þig!“ og þar með sneri hún baki við honum. Fegurðarásjónan hafði fengið á sig svip af andliti Medúsu hinnar snákhærðu, sem gerði menn að steinum. Einhvern veginn komst hann ofan á strætið, en líkari þó dauðum hlut en lifandi manni, og heim komst hann eins og maður, sem gengur í svefni, og vaknaði síðan æðisgenginn og harmsfullur. Hann greip hamar sinn, reiddi hann hátt til höggs og ætlaði að mölva sundur marmaralíkneskið fagra, en eins og hann þá var á sig kominn, tók hann ekki eftir, að Angeló vinur hans stóð hjá honum og þreif fast um handlegg hans. „Ertu orðinn brjálaður? Hvað ætlarðu að gera?“ mælti Angeló. Þeir stimpuðust, og var Angeló þeirra sterkari. Listamaðurinn ungi varpaði sér niður á stól með þungum andköfum. „Hvað er að?“ spurði Angeló, „komdu til sjálfs þín, maður! talaðu!“ En hvað mundi hann tala, hvað gat hann sagt? Og þegar Angeló gat ekki fengið úr honum orð, þá sleppti hann að togast eftir orðum við hann að því sinni. „Það þykknar í þér blóðið af þessu eilífa draumavingli,“ sagði hann, „vertu bara maður með mönnum eins og við hinir, og hættu að lifa í hugsjónum. Maður fer alveg með sig á því. Drekktu þig duglega kenndan í víni, þér sofnast þá vel á eftir. Leitaðu þér lækninga hjá fallegri stúlku. Kampaníu-drósin[*] er dægileg, eins og kóngsdóttirin í marmarahöllinni. Báðar eru Evudætur og í Paradís þekkjast þær ekki í sundur. Far þú að ráðum Angelós vinar þíns, ég er engillinn þinn, lífsins engill. Einhvern tíma kemur að því, að þú verður gamall, og líkami þinn hrumur og hrörlegur, og á fögrum sólskinsdegi, þegar allt hlær og leikur við hvern sinn fingur, þá liggur þú eins og visið strá, sem lifnar ekki né litkast framar. Ég hef enga trú á því, sem prestarnir kenna, að líf sé til eftir þetta. Það er fallegur hugarburður, ævintýri handa börnum, dáindis ánægjulegt, ef maður getur ímyndað sér, að svo sé, en ég lifi ekki í ímyndunum, heldur í veruleikanum. Komdu nú með mér og vertu maður með mönnum.“ [* Kampanía (Campagna) nefnist landsbyggðin í kringum Róm.] Og Angeló dró hann með sér. Honum tókst það á þessari stundinni. Það var eldur í æðum listamannsins unga, bylting í sálu hans, einhver knýjandi þörf til að slíta sig frá öllu hinu gamla, öllu því, sem hann var vanur við, slíta sig frá sjálfum sér eins og hann hafði verið, og þess vegna fylgdist hann með Angeló. Í einum af útjöðrum Rómaborgar var veitingaskáli, sem tíðsóttur var af listamönnum. Hann var byggður inn í rústir fornrar baðhallar. Stórar, gular sítrónur héngu innan um laufasafnið dökkgrænt og gljáandi, sem huldi nokkurn hluta af gömlu rauðgulu múrveggjunum. Skálinn var djúp hvelfing, sem gekk inn í hallarrústirnar eins og hellir. Logaði þar á lampa fyrir framan Maríulíkneski, eldur mikill brann á arni, og var þar verið að matselda í óða önn, bæði að sjóða og steikja, en úti fyrir stóðu tvö dúkuð borð undir sítrónu og lárberjatrjánum. Vinirnir tóku þeim Angeló með algleymings fögnuði. Var svo borðað dálítið og mikið drukkið og gerðist glatt á hjalla, var bæði sungið og leikið á gítar, og farið að dansa „saltarelló“. Tvær yngisstúlkur rómverskar, fyrirmyndir listamannanna, gengu með í dansinn og tóku þátt í gleðskapnum. Þær voru tvær yndislegar Bakkynjur. Síst var á þeim Sálar-bragur, og líkari voru þær lífefldum, blóðrjóðum nellíkum en fíngerðum fegurðarrósum. Mikill var hitinn á þessum degi, og enda logandi heitt um sjálft sólarlagið, eldur í blóðinu, eldur í loftinu, eldur í hverju augnatilliti. Loftið svam í gulli og rósum, lífið var eintómt gull og rósir. „Nú ertu þá loksins með. Láttu berast með straumnum í kringum þig og straumnum í sjálfum þér.“ „Aldrei hef ég áður verið svona heilbrigður og glaður,“ sagði listamaðurinn ungi. „Þú hefur rétt fyrir þér, þið hafið rétt fyrir ykkur, ég var hjáræna og draumavingull. Maðurinn á heima í veruleikanum, en ekki í draumaheiminum.“ Með söng og gítaraglaumi fóru nú æskumennirnir á stjörnubjörtu heiðkvöldinu frá veitingaskálanum og gegnum smástrætin, og þær voru með þeim, báðar kampaníudrósirnar – nellíkurnar blóðrjóðu. Og nú komu þeir í stofu Angelós, og var þar fyrir næsta mikið af munaðarlegum myndum og myndauppköstum, sem sumt hvað lá á rúi og stúi. Varð nú háreystin minni en áður og ekki eins gjallandi, þó sama væri eldfjörið. Á gólfinu lágu mörg uppdráttarblöð, myndir af kampaníustúlkum með alla vega tilbreytingum, fallegar myndir og líkar, þótt stúlkurnar væru reyndar fallegri sjálfar. Á kertastikunni sexörmuðu loguðu nú ljósin og innan frá skein líkamsfegurð mannlegs skapnaðar í guðdómlegum ljóma. „Apolló! Júpíter! Ég lyftist upp í ykkar himindýrðarsælu, mér finnst eins og blómstur lífsins springi út í hjarta mínu á þessu andartaki.“ Já, það sprakk út, brotnaði og féll, og þyrlaðist frá því deyfandi, ógeðsleg gufa, sem glapti sjónina og sveim á hugann. Flugeldar holdsmunaðarins fuðruðu og slokknuðu og allt varð dimmt. Hann komst heim til sín, settist á rúmstokkinn og reyndi að vitkast. „Fý!“ kvað við frá hans eigin munni; „fý!“ frá hjartans innsta grunni. „Burt með þig! Niður með þig!“ Og hann varp öndinni þungt og mæðilega. „Burt með þig! niður með þig!“ Þessi orð hinnar lifandi Sálar ómuðu í brjósti hans, ómuðu frá vörum hans. Hann hallaði sér út af á koddann, hugsunin vildi ekki skýrast og hann sofnaði. Þegar morgnaði, hrökk hann upp í rúminu og fór aftur að reyna að átta sig. Hvað var þetta? Hafði allt þetta borið fyrir hann í draumi? Orðin, sem hún sagði við hann, koma hans í veitingaskálann og samveran um kvöldið við kampaníudrósirnar kinnrjóðu? – Nei, allt var þetta eintómur veruleiki, veruleiki, sem hann hafði ekki þekkt áður. Stjarnan skæra lýsti á morgunhimninum purpurarauðum og skein niður á listamanninn unga og marmara-Sálina hans. Honum hraus hugur við að horfa á hina flekklausu, himinhreinu mynd, honum fannst að augu sín væru óhrein orðin. Hann brá klæðinu yfir hana, – tók í það ennþá einu sinni til að afhjúpa hana, en – hætti við, gat ekki fengið af sér að horfa á sitt eigið listaverk. Liðlangan daginn sat hann hljóður, þungbúinn og innibyrgður í sjálfum sér. Hann vissi ekkert um það, sem gerðist fyrir utan hann, og um það, sem í honum var að brjótast, – um það vissi enginn. Svo liðu dagar og svo liðu vikur og þóttu honum næturnar lengstar. Það var einn morgun, að stjarnan skæra sá hann rísa úr rekkju náfölan og riðusjúkan. Sá hann ganga að marmaralíkneskjunni, lyfta frá klæðinu og horfa með innilegasta hryggðarsvip á listaverk sitt, og því næst rogast veikburða og hálfsligaðan með styttuna út í garðinn. Þar var gjörfallinn, uppþornaður brunnur, fordjúp hola, og í hana sökkti hann Sálinni niður, mokaði svo mold þar ofan í og huldi allt með trosi og netlum. „Burt með þig, niður með þig!“ það var öll líkræðan. Stjarnan sá það frá sinni rjóðu slóð og geisli hennar titraði í tveimur höfugum tárum á nábleikum kinnum hins unga manns. „Maðurinn riðusjúki, maðurinn dauðasjúki,“ var hann kallaður í legunni. Ignatius munkur vitjaði hans sem vinur hans og jafnframt sem læknir. Hann færði honum huggunarorð trúarinnar og talaði um frið og sælu kirkjunnar, um syndir mannanna og náðina og friðinn í guði. Og orðin hrifu eins og vermandi sólargeislar á hinn vota og ólgandi jarðveg, sem fyrir var. Og jarðvegurinn gufaði frá sér og sendi upp þokuský, hugsanamyndir, sem áttu sinn veruleik, og frá þessum sveimandi eyjum horfði hann yfir mannlífið. Honum hafði svo reynst, að það væri tóm glappaskot, blekkingar og vonbrigði. Listin væri seiðkona, sem lokkaði oss með töfrum sínum til hégóma og jarðnesks munaðar. Vér værum ótrúir sjálfum oss, ótrúir vinum vorum, og ótrúir guði. Höggormurinn í oss segði alltaf: „Smakkaðu á því, þá muntu verða guði líkur.“ Honum fannst, að nú fyrst skildi hann sjálfan sig, nú fyrst hefði hann fundið leiðina til sannleikans og friðarins. Í kirkjunni væri ljós og birta drottins og í munkaklefanum væri hvíldin og rósemin, þar sem lífstré mannsins gæti dafnað til eilífa lífsins. Ignatius munkur styrkti hann í þeirri skoðun og skoðunin varð að föstum ásetningi. Heimsbarnið varð kirkjunnar þjónn, listamaðurinn ungi hafnaði þessum heimi og gekk í klaustur. Og hvað þeir tóku honum innilega, glaðlega og ástúðlega munkarnir í klaustrinu, hvílíkur hátíða- og helgiblær var yfir vígslunni! Honum þótti sem guð væri í sólskininu, er birti upp kirkjuna, honum þótti sem geislar frá honum stæðu af myndunum helgu og róðukrossinum. Og á kvöldin, þegar sólin var að ganga undir og hann stóð í klefa sínum og lauk upp glugganum og horfði út yfir gömlu Rómaborg, goðahofin brotnu og heljarbáknið Kolosseum í sinni dauðu tign, sá það um vortímann, þegar akasíurnar blómguðust og eilífðarblómin voru í gróðri, þegar grundirnar þöktust rósum, sítrónurnar og gulleplin glóðu og pálmatrén veifuðu greinum sínum – já, þá varð hann frá sér numinn og fann þá unaðsfyllingu í brjósti sínu, sem hann hafði aldrei fundið áður. Hið kyrrláta sléttlendi kampaníunnar lá opið fyrir honum allt að fjöllunum bláum og snæviþöktum. Þau mændu við bláloftið og sýndust eins og máluð á það. Og allt rann saman í friðar- og fegurðarblænum, svo sveimandi, svo dreymandi – allt saman draumur! Já, draumur var veröldin hérna megin og draumurinn ræður á sumum stundum, og getur komið aftur á sumum stundum, en klausturlífið er líf, sem árum skiptir, já, löngum árum og mörgum. Innan að kemur mikið og margt, sem manninn saurgar, það sannaðist á honum. Hvaða eldur var það, sem endrum og sinnum logaði um hann allan? Hver var þessi sívellandi uppspretta hins illa, sem hann þó vildi forðast? Hann agaði líkama sinn, en innan að kom hið illa. Hver var sá hluti anda hans, sem með höggorms liðleika hringaði sig um sig sjálfan og skreið með samvisku hans inn undir klæði alkærleikans og færði huggunina: hinir heilögu biðja fyrir oss, móðirin biður fyrir oss, Jesús hefur úthellt blóði sínu fyrir oss. Var það barnslegt hugarfar eða æskuléttlyndi, sem gerði það að verkum, að hann gaf sig undir náðina og fannst hún lyfta sér, lyfta sér upp yfir svo margt. Því hann hafði, viti menn, kastað frá sér hégóma veraldarinnar. Hann var sonur kirkjunnar. Einn góðan veðurdag mörgum árum síðar, verður Angeló á vegi hans, og Angeló þekkir hann aftur. „Jæja, maður!“ segir hann, „þarna ert þú þá kominn! ertu nú sæll og ánægður? Þú hefur syndgað gegn guði og varpað náðargáfu hans frá þér, spillt lífsköllun þinni í þessum heimi. Lestu dæmisöguna um geymsluféð. Meistarinn, sem sagði hana, talaði hreinan sannleik. Hvað hefurðu haft upp úr þessu og hvað hefurðu fundið? Býrðu ekki til draumóralíf fyrir sjálfan þig? Býrðu þér ekki til trúarbrögð eftir þínu eigin höfði? Svo munu þeir allir gera. Og nú skyldi þetta allt vera einber draumur, ímyndanir, fagrar hugsanir – ekkert annað!“ „Vík frá mér, Satan!“ sagði munkurinn og skundaði burt frá Angeló. „Það er til djöfull, persónulegur djöfull, – ég sá hann í dag,“ tautaði munkurinn fyrir munni sér. „Ég rétti honum einu sinni einn fingur, og þá tók hann alla höndina. Nei!“ sagði hann og andvarpaði, í sjálfum mér er hið illa, og í þessum manni er hið illa, en hann sligast ekki af því, hann gengur með uppréttu höfði, honum líður vel. – Og ég leita mér minnar vellíðunar í þeirri huggun, sem trúin veitir. – Væri það nú ekki nema bláber huggunin, væri nú allt hérna, eins og heimurinn, sem ég hafnaði, aðeins fagrar hugmyndir! – já, tál og blekking er það, eins og gullfegurð skýjanna að kvöldi dags, eins og fagurblámi fjallanna, sem eru langt í burtu. Þau eru allt öðruvísi, þegar maður er kominn nærri þeim. Eilífð! þú ert eins og hið mikla, ómælisvíða, blælygna úthaf, sem bendir oss og kallar á oss, og laðar oss með hugboði, – og þegar vér svo leggjum út á það, þá sökkvum vér, þá hverfum vér, – deyjum og hættum að vera til. Tóm blekking og tál! burt! niður!“ Og þarna sat hann táralaus og sokkinn niður í sjálfan sig á sínu harða fleti, knékrjúpandi, – fyrir hverjum þá? Fyrir steinkrossinum, sem greyptur var í múrinn? Nei, það var vaninn, sem lét líkamann hníga niður í þessar stellingar. Því dýpra sem hann horfði inn í sjálfan sig, því dimmra leist honum. „Ekkert þar inni, ekkert fyrir utan, þessu lífi alveg spillt!“ Og þessi snækökkur hugsana hans valt fram án afláts, varð stærri og stærri, marði hann undir sér og gerði hann að engu. „Engum manni þori ég að segja frá orminum, sem nagar hér inni. Leyndarmál mitt er bandingi minn. Sleppi ég bandingjanum út, þá er ég á valdi hans.“ Og guðskrafturinn í honum píndist og háði baráttuna. „Herra! herra!“ kallaði hann í örvæntingu, „miskunna mér, gef mér trúna. Ég fleygði frá mér náðargáfu þinni, köllun minni í þessu lífi. Mig vantaði þrekið, þú gafst mér það ekki. Hún, Sálin í brjósti mínu, – ódauðleikahugsjónin, – burt! niður! hún skal jarðsetjast eins og hún, Sálin hin, – ljúfasti ljósglampinn ævi minnar, – og hún skal aldrei rísa upp aftur.“ Stjarnan lýsti rósrauðum himninum, stjarnan, sem vissulega mun slokkna og eyðast, þar sem hins vegar sálirnar munu ekki undir lok líða, heldur lifa og lýsa áfram. Geisli hennar skein titrandi á hvítan vegginn, en ekki skrifaði hann þar neitt um dýrðina í drottni, um náðina, um alkærleikann, þann kærleika, sem endurómar í brjósti trúaðs manns. „Þetta, að Sálin hér inni fyrir deyi aldrei – lifi og viti til sín? Getur hið óskiljanlega orðið? Já, já, óskiljanlegt er mitt eigið ég; sjálfur þú, ó drottinn! ert óskiljanlegur, allur þinn heimur er óskiljanlegur – kraftaverk veldis og dýrðar – kærleiki.“ Þá var bjart yfir augum hans og þau brustu. Klukknahringingin var seinasta hljóðið, sem heyrðist yfir honum dauðum. Hann var jarðaður í mold, sem sótt var til Jórsala og blandin saman við duftleifar guðhræddra manna. Eftir allmörg ár var beinagrind hans tekin upp, eins og annarra munka, sem dánir voru á undan honum. Hún var færð í mórauðan munkakufl og talnaband látið í hendur honum og grindin því næst reist upp í vegghvilft, sem gerð var af mannabeinum, er fundist höfðu í grafreit klaustursins. Úti fyrir skein sólin, en inni var brennt reykelsi og sungnar sálutíðir. Svo liðu mörg, mörg ár. Beinagrindin datt í sundur og beinin fóru í rugling hvað innan um annað. Hauskúpurnar voru settar upp, hverjar yfir aðrar, og lágu þar sem hlaðinn garður kringum kirkjuna. Þar á meðal var líka hauskúpan hans og lá þar í brennandi sólarhitanum. Þar voru svo margir framliðnir. Enginn vissi á þeim nöfnin og þá ekki á honum heldur. En, sjá! Það var eitthvað lifandi, sem hreyfði sig þarna í tveimur augnatóttum. Hvað var það? Bröndótt eðla var á kreiki innan í holri hauskúpunni og skaust út og inn um tómar og víðar augnatóttirnar. Það var allt lífið í því höfði núna, en áður höfðu þaðan lyfst til hæða miklar hugsanir, bjartir draumar og ástin á öllu fögru og ágætu. Heit tár höfðu hrunið þaðan, og þar inni hafði lifað vonin um ódauðleikann. Eðlan tók undir sig stökk og hvarf, en hauskúpan feygðist með tímanum og varð að dufti í duftinu. Það var mörgum öldum síðar. Stjarnan skæra skein óbreytt, eins og hún hafði gert um þúsundir ára, fögur og stór. Loftið í kringum hana var rautt, það var á því bæði rósalitur og blóðlitur. Þar sem einhvern tíma í fyrndinni hafði verið mjótt stræti með leifum af fornu goðahofi, þar stóð nú nunnuklaustur og vissi út að auðu svæði. Í garðinum við klaustrið var verið að taka gröf, því þar hafði dáið ung nunna, og átti að jarða hana á þessum morgni. Rekan skall við stein, og sást, að steinninn var skínandi hvítur. Það var marmari og bólaði á öxl, sem betur og betur kom í ljós. Var þá rekunni beitt varlegar. Svo kom í ljós kvenmannshöfuð og vængir með fiðrildisvængjalögun. Og upp úr gröfinni, þar sem niður átti að láta yngisnunnuna framliðnu, var hafið upp í morgunbirtuna ljómandi fagurt Sálarlíkneski úthöggvið í hvítan marmara. „Ó, hvað það er dásamlega fagurt og fullkomið! Það er listaverk frá bestu tímum listarinnar,“ sögðu menn. Hver mundi verið hafa meistarinn, sem myndaði það? Það vissi enginn. Enginn var sá, er þekkti hann, nema stjarnan skæra, sem lýsir um árþúsundir. Hún þekkti jarðlífsferil hans, þrautir hans og veikleika – það hjá honum, sem aðeins var mannlegt. En það var nú látið og liðið, horfið í veður og vind, eins og fyrir öllu liggur, sem duftborið er og dauðlegt, en árangurinn af bestu viðleitni hans, hið ágætasta, sem bar vott um hið guðdómlega, er í honum bjó, um Sálina sjálfa, sem er meiri og bjartari en frægðarminning hinna látnu, – ljósglampinn frá þeirri Sál hér á jörðu, hann var nú séður hér og látinn njóta sannmælis með elsku og aðdáun. Morgunstjarnan skæra á loftinu róslita beindi geisla sínum á Sálina og á gleðibrosin á andlitum aðdáendanna, sem horfðu á mynd sálarinnar, meitlaða í marmarasteininn. Það, sem er jarðneskt, hverfur og eyðist og gleymist, það er einungis stjarnan í óendanleikanum, sem veit um það. Það, sem er himneskt, ljómar í lofstír og endurminningu hinna látnu, og þegar endurminningin slokknar, þá lifir þó Sálin áfram. Snigillinn og rósviðurinn Allt umhverfis blómgarðinn var gerði úr hnotrunnum, og fyrir utan hann var akur og engi, og gengu þar kýr og kindur, en í miðjum garðinum stóð blómstrandi rósviður. Undir honum sat snigill. Hann átti mikið í sér, hann átti sig sjálfan. „Bíðið þið nú bara, þangað til minn tími kemur, ég skal víst afreka meira en að framleiða rósir eða bera hnetur, eða að mjólka eins og kýrnar og kindurnar.” „Ég býst við miklu af yður,“ sagði rósviðurinn. „Má ég vera svo djarfur og spyrja: Hvenær kemur það?“ „Ég gef mér góðan tíma,“ sagði snigillinn. „Þér eruð nú allténd með þennan asa. Það spennir ekki eftirvæntinguna.“ Næsta ár lá snigillinn hér um bil á sama stað í sólskininu undir rósviðnum, sem knappaðist óðum og opnaði rósir alltaf ferskar og fagrar, nýjar og nýjar. Og snigillinn skreið út til hálfs, rétti út fálmarana og dró þá að sér aftur. „Allt hefur sama útlitið og í fyrra. Engin framför. Rósviðurinn heldur áfram með rósirnar, þar við lendir og lengra kemst ekki.“ Sumarið leið og haustið kom. Rósviðurinn var stöðugt með blómum og knöppum, þangað til fór að snjóa. Veðráttan gekk í vætur og kalsa. Rósviðurinn beygði sig niður að jörðu, snigillinn skreið niður í hana. Nú byrjaði nýtt ár og rósirnar fóru að koma út og snigillinn kom út líka. „Nú verðið þér gamall, rósviður,“ sagði hann, „þér ættuð að fara að hypja yður og kveðja heiminn. Þér hafið látið honum allt í té, sem til var í yður. Hvort það hefur verið nokkurs virði, það er spurning, sem ég hef ekki haft tíma til að ígrunda. En það liggur ljóst fyrir, að þér hafið ekki gert hið minnsta fyrir yðar innri þróun og framfarir. Getið þér mælt því bót? Innan skamms munuð þér grennast, svo þér verðið ekki nema örmjór stöngull. Skiljið þér orð mín?“ „Þér gerið mig hræddan,” sagði rósviðurinn, „um þetta hef ég aldrei hugsað.“ „Nei, þér hafið víst aldrei fengist mikið við að hugsa. Hafið þér nokkurn tíma gert yður grein fyrir, hvers vegna þér blómguðust, og hvernig því var háttað með blómgunina. Hvers vegna það var einmitt svona og ekki öðruvísi?“ „Nei,“ sagði rósviðurinn, „ég blómgaðist í gleði, því ég gat ekki annað. Sólin blessuð var svo hlý og loftið svo hressandi. Ég drakk skæra döggina og dropadrjúgu regnskúrina, ég dró andann og lifði. Það kom þróttur í mig neðan úr jörðinni, það kom þróttur í mig að ofan, ég fann til sælu, sem alltaf var ný og alltaf mikil og þess vegna varð ég að blómgast. Það var lífið mitt, ég gat ekki annað.“ „Þér hafið lifað sérlega náðugu lífi,“ sagði snigillinn. „Það er meira en satt, allt var lagt upp í hendurnar á mér,“ sagði rósviðurinn, „en yður var samt enn meira gefið. Þér eruð einn af þeim, sem eru svo hugsandi og djúpsæir, einn af þessum hágáfuðu, sem vekja munu undrun alls heimsins.“ „Það ætla ég mér alls ekki að gera,“ sagði snigillinn. „Heimurinn kemur mér alls ekkert við. Hvað hef ég með heiminn að sýsla? Ég á nóg með sjálfan mig og ég á nóg í sjálfum mér.“ „En eigum við ekki allir hér á jörðu að gefa öðrum hlutdeild í því besta, sem við eigum, láta í té það sem við getum? já, ég hef nú ekki gefið nema rósir – en þér, sem fenguð svo mikið, hvað gáfuð þér heiminum? Hvað gefið þér honum?“ „Hvað ég hef gefið? Hvað ég gefi? Ég skyrpi á heiminn. Hann er einskis virði. Hann kemur mér ekki við. Berið þér rósir, þér komist aldrei lengra. Beri heslirunnurinn hnetur. Gefi beljurnar og kindurnar mjólkina sína. Hver hefur sitt „publikum“, ég hef mitt í sjálfum mér. Ég fer inn í sjálfan mig og þar sit ég. Heimurinn kemur mér ekki við.“ Og svo fór snigillinn inn í húsið sitt og þéttaði fyrir dyrum. „Það er svo báglega ástatt fyrir mér,“ sagði rósviðurinn, „ég get ekki skriðið inn, hve feginn sem ég vil, ég verð alltaf að springa út rósagróðrinum mínum. Blöðin detta af og fjúka út í vindinn. Samt sá ég, að ein af rósunum var látin í sálmabók húsmóðurinnar, önnur fékk samastað á brjósti yndisfríðrar yngisstúlku, sú þriðja fékk koss af munni barns, sem kyssti hana af innilegum fögnuði. Það hafði svo einstaklega góð og þægileg áhrif á mig, það var sannarleg blessun. Ég á minninguna um það og í henni lifi ég.“ Og rósviðurinn blómgaðist í sakleysi, og snigillinn lati þumbaðist í húsinu sínu. Heimurinn kom honum ekkert við. Og árin liðu, eitt af öðru. Snigillinn var orðinn að mold í moldu, rósviðurinn var orðinn að mold í moldu. Minningarrósin í sálmabókinni var undir lok liðin, en í garðinum blómguðust nýir rósviðir og uxu upp nýir sniglar. Þeir skriðu inn í húsin sín og skyrptu, heimurinn kom þeim alls ekki við. Eigum við að lesa söguna upp aftur. Svona verður hún og ekki öðruvísi. Kertaljósin Einu sinni var vaxkerti og það vissi nú af því, hvað það var. „Ég er af vaxi alið og í formi steypt,“ sagði það, „ég lýsi betur og loga lengur en önnur ljós. Ég á mér sæti í kertahjálmi eða silfurstjaka.“ „Ósköp hljótið þér að eiga gott,“ sagði tólgarkertið. „Ég er nú ekki nema úr tólg, ekki nema strokkkerti, en ég hugga mig við það, að það er þó allténd meira en að vera dás. Honum var ekki dýft oftar en tvisvar sinnum, en mér hefur verið dýft átta sinnum, svo ég fengi tilhlýðilega digurð. Ég læt mér samt lynda að vera eins og ég er. Það er víst fínna og farsælla að vera af vaxi fæddur, en ekki tólg, en maður ræður nú ekki sjálfur fæðingu sinni í heiminn. Þér komist í glerhjálminn í viðhafnarstofunni, en ég hírist frammi í eldhúsinu, en það er líka góður staður, þaðan fær allt heimilið matinn.“ „En það er eitthvað til, sem er mikilvægara en maturinn,“ sagði vaxkertið. „Það er mannfögnuðurinn, – að sjá hann ljóma í allri sinni dýrð og fá að ljóma með honum. Hér á að vera dansveisla í kvöld og nú verð ég sótt bráðum með allri minni fjölskyldu.“ Varla voru orðin töluð fyrri en öll vaxkertin voru sótt, en tólgarkertið var líka látið verða þeim samferða. Frúin tók það sjálf í sína fínu hönd og bar það fram í eldhús. Stóð þar lítill drengur með körfu. Hún hafði verið fyllt með kartöflum. Fáein epli höfðu líka verið látin í hana. Allt þetta gaf góða frúin fátæka drengnum. „Hana, taktu við kertinu því arna, litli vinur minn!“ sagði hún. „Hún móðir þín vakir við vinnu sína langt fram á nótt. Það getur komið henni í góðar þarfir.“ Dóttir frúarinnar, dálítil telpa, stóð þar hjá henni, og þegar hún heyrði orðin: langt fram á nótt, sagði hún með innilegum feginleika: „Ég á líka að vaka langt fram á nótt, hér á að vera dansgleði og ég fæ að skarta með stóru slaufunum rauðu.“ En hvað ánægjan skein út úr andliti hennar! En sú gleði! Ekkert vaxljós er eins skínandi og tvö barnsaugu. „Þetta er unun að sjá,“ hugsaði tólgarkertið með sér, „þessu gleymi ég aldrei og þetta sé ég víst aldrei framar.“ Því næst var það látið í körfuna undir lokið og drengurinn fór með það. „Hvert á ég nú að fara?“ hugsaði kertið. „Ég á að fara til fátæklinga, sem ef til vill eiga ekki einu sinni messingstjaka, en vaxljósið situr í silfri og horfir á „fínasta fólkið“. Ó, hvað það má vera gaman, að lýsa fínasta fólkinu! En það varð nú mitt hlutskipti að verða tólg, en ekki vax.“ Og tólgarkertið kom til fátæklinga, til ekkju með þremur börnum í lágri stofu beint andspænis húsi ríka fólksins. „Guð blessi góðu frúna fyrir það, sem hún gaf okkur,“ sagði móðirin, „það er vænsta kerti. Það getur logað á því langt fram á nótt.“ Og svo kveikti hún á kertinu. „Fútt, fútt!“ sagði það. „Það var ljóta lyktin, sem kom af brennisteinsspýtunni, þegar hún kveikti á mér. Annað eins er vaxkertinu tæplega boðið þarna yfir frá hjá ríka fólkinu.“ Þar var líka kveikt á kertunum. Ljósbjarmann lagði út á strætið. Vagnarnir runnu að skröltandi með stássklæddu dansgestina. Svo hófst hljóðfæraslátturinn. „Nú er það að byrja þarna yfir frá,“ hugsaði tólgarkertisljósið, og þá rann því í huga andlit litlu stúlkunnar ríku, hvernig ánægjan hafði skinið út úr því, skinið miklu fegur en öll vaxljósin. „Þá sjón sé ég aldrei framar.“ Þá kom minnsta barnið á fátæktarheimilinu, dálítil telpa, og lagði hendurnar um háls bróður sínum og systur. Það var eitthvað mikið áríðandi, sem hún ætlaði að segja þeim, hún varð að hvísla að því: „Hugsaðu þér! við eigum að fá heitar kartöflur í kvöld.“ Og ánægjan skein út úr andliti hennar og ljósið skein framan í hana. Það sá hér eins mikla farsæld og feginleika og í ríkisfólkshúsinu, þar sem litla stúlkan sagði: „Hér á að vera dansgleði í kvöld, og ég á að skarta með stóru slaufunum rauðu.“ „Er eins mikið varið í að fá heitar kartöflur?“ hugsaði ljósið. „Eins mikill er fögnuðurinn hjá smælingjunum.“ Og það hnerraði um leið, það er að segja, það snarkaði í því, og verður ekki til meira ætlast af tólgarljósi. Svo var breiddur dúkur á borð og kartöflurnar borðaðar. Ó, hvað það smakkaðist þeim vel! Það var veislu ígildi, og svo var á eftir eitt epli handa hverju þeirra um sig, og minnsta barnið mælti fram versið: „Minn góður guð! ég þakka þér. Að þú enn veittir saðning mér! Amen.“ „Gerði ég það ekki laglega, mamma mín?“ sagði telpan litla hróðug. „Svona máttu ekki spyrja eða tala svona,“ ansaði móðirin, „þú átt ekki að hugsa nema um algóðan guð, sem hefur veitt þér saðning.“ Börnin litlu háttuðu, fengu kossinn sinn undir nóttina og móðirin sat við saumaskap langt fram á nótt til að hafa ofan af fyrir sér og börnunum sínum. Og bjarmann lagði af ljósunum í ríkisfólkshúsinu, og ómurinn barst þaðan af hljóðfæraslættinum. Stjörnurnar blikuðu yfir öllum húsunum, jafnskært og unaðslega yfir húsum ríkra og fátækra. „Það var í rauninni ánægjulegt kvöld,“ hugsaði tólgarljósið. „Skyldi nú vaxljósunum hafa liðið betur í silfurpípunum sínum? Það þætti mér gaman að vita áður en ég er útbrunnið.“ Og það hugsaði um tvö jafnsælu börnin, annað í birtunni af vaxljósinu, hitt í birtunni af tólgarljósinu. Og lýkur svo þeirri sögu. Sögukorn Í aldingarðinum voru apaldrarnir nýútsprungnir og höfðu flýtt sér að fá á sig blómstur, áður en þeir fengu græn blöð, og í húsgarðinum voru allir andarungarnir komnir út og kötturinn líka. Hann sleikti sólskinið, það kynni nú að vera, sleikti það, meira að segja, af löpp sinni. Og ef litið var út á akrana, þá var kornið á þeim svo ljómandi grænt. Allir litlu fuglarnir kvökuðu og kliðuðu og brýndu sönghljóðin eins og það væri stórhátíð, og það mátti nú til sanns vegar færast, því það var sunnudagur. Klukkunum var hringt, og fólkið fór til kirkju í bestu fötunum sínum og var á því mikill ánægjubragur. Já, það var einhver sérleg ánægja yfir öllu og sannarlega var þessi dagur svo hlýr og unaðslegur, að vel mátti segja: Gæskuríkur er drottinn vor og mönnunum góður.“ En inni í kirkjunni var presturinn í stólnum og prédikaði í þrumandi, reiðilegum rómi. Hann sagði, að mennirnir væru svo óguðlegir, og að guð mundi hegna þeim fyrir það, og þegar þeir dæju, þá færu hinir vondu til helvítis, og þar mundu þeir brenna um alla eilífð. Hann sagði, að ormur þeirra dæi ekki og eldur þeirra slokknaði ekki og aldrei mundu þeir öðlast hvíld né ró. Það var voðalegt að heyra, og hann sagði það svo óskorað og afdráttarlaust. Hann lýsti helvíti þannig, að það væri hellir fullur ódauns, þar sem öllum óhroða veraldarinnar ægði saman í eina vellu, engin lofthræring væri þar nema af glóandi brennisteinslogunum, það væri botnlaust díki, þar sem menn sykkju dýpra og dýpra í eilífri þögn. Það var voðalegt að heyra lýsinguna eina á þeim ófögnuði, en hjá prestinum fylgdi hugur máli, og í öllum söfnuðinum var hræðsla. En úti sungu allir litlu fuglarnir svo ánægðir og sólin skein svo hlýtt. Það var eins og hvert smáblóm segði: „Dæmalaust er drottinn okkur öllum góður.“ Já, því fór fjarri, að þar úti væri eins og presturinn prédikaði. Um kvöldið, þegar komið var undir háttatíma, sér presturinn, að kona hans situr þegjandaleg og hugsandi. „Hvað gengur að þér?“ segir hann „Hvað gangi að mér,“ svarar hún, „það gengur það að mér, að ég get ekki almennilega áttað mig á þessu. Að ég get ekki almennilega komið því heim, sem þú sagðir, að það væru til svo margar óguðlegar manneskjur, og að þær ættu að brenna eilíflega, eilíflega, – æ, hvað það er löng brenna! Ég er ekki nema syndug manneskja, en ekki hefði ég brjóst á að láta enda hinn versta syndara brenna eilíflega. Hvernig ætti þá drottinn vor að geta það, hann, sem er svo óendanlega gæskuríkur og veit best, hvernig hið illa kemur bæði að utan og innan? Nei, það get ég ekki hugsað mér, þótt þú segir það.“ Það var um hausttíma. Presturinn strangi og alvörugefni sat við banabeð. Það var hjartahrein, trúandi kona, sem gaf upp öndina. Það var prestskonan. „Fái nokkur frið í gröfinni og náð hjá guði sínum, þá ert það þú,” sagði presturinn, og hann lagði saman hendur hinnar framliðnu og las sálm yfir henni. Og hún var færð til grafar. Tvö höfug tár runnu niður eftir kinnum alvörumannsins. Á prestssetrinu var nú svo kyrrt og tómlegt. Sólskinið þar innanhúss var horfið burt með hinni framliðnu. Það var um nótt. Kaldur vindur næddi um höfuð prestsins, hann lauk upp augunum og þótti sem tunglið skini inn í stofu sína, en það var ekki tunglskin. Það var mynd, sem stóð hjá rúmi hans. Hann sá vofu konunnar sinnar sálugu. Hún horfði á hann svo innilega sorgbitin. Það var eins og hún vildi segja eitthvað. Og maðurinn reis upp til hálfs og breiddi út arma sína móti henni. „Er þér ekki heldur unnt þess, að hafa ró í gröfinni? Verður þú að kveljast? Þú, sem varst best allra og guðhræddust.“ Og hin framliðna hneigði höfuð sitt eins og jánkandi og lagði höndina á brjóst sér. „Og get ég komið því til leiðar, að þú fáir ró í gröfinni?“ „Já!“ svaraði hún. „Og hvernig þá?“ „Gefðu mér eitt hár, aðeins eitt hár af höfði þess syndara, hvers eldur mun aldrei slokkna, þess syndara, sem guð steypir niður til helvítis í eilífar kvalir.“ „Já, svo máttu auðveldlega leyst verða, þú hreina, guðhrædda sál?“ „Komdu þá með mér,“ sagði hin framliðna. „Það er okkur svo til leyfis gefið. Mér við hlið máttu svífa hvert sem hug þinn lystir. Ósýnileg fyrir mönnum erum við óðara horfin inn í leyndustu afkima þeirra, en með óskeikandi hendi verðurðu að benda á þann, sem dæmdur er til eilífra kvala, og áður en haninn galar verður hann að vera fundinn.“ Og á svipstundu, eins og hugurinn hefði borið þau, voru þau horfin í hina stóru borg, og frá veggjum húsanna lýstu með eldletri nöfn dauðasyndanna: ofdramb, ágirnd, ofdrykkja, lauslæti, í stuttu máli allur hinn sjöliti bogi syndarinnar. „Já, á þessu átti ég von, þetta þóttist ég vita,“ sagði presturinn, „þarna inni eru þeir, sem vígðir eru hinum eilífa eldi.“ Og þau stóðu fyrir framan skrautlýst aðalhlið með breiðum tröppum, sem lagðar voru dýrindis ábreiðum og blómum skreyttar. Inni í viðhafnarsölunum var dans og glymjandi hljóðfærasláttur. Dyravörðurinn stóð þar prúðbúinn í silki og flaueli með stóran silfurbúinn staf í hendi. „Okkar ball stendur fullkomlega jafnfætis kóngsballinu,“ sagði hann og sneri sér út að fólksþyrpingunni á strætinu. Það skein út úr manninum frá hvirfli til ilja, að hann hugsaði með sér: „Skríll og ekki annað! – þið, sem glápið og gónið inn um hliðið, þið eruð í samanburði við mig ekki nema húsgangsræflar.“ „Ofdramb,“ sagði hin framliðna. „Sérðu hann?“ „Hann!“ tók presturinn upp aftur. „Já, en hann er heimskingi, hann er ekki nema fífl og mun ekki dæmdur verða í hinn eilífa eld og kvalirnar.“ „Ekki nema fífl,“ heyrðist endurtekið í öllu ofdrambshúsinu. Fífl voru þeir allir, sem þar áttu heima. Og þau flugu inn til hins ágjarna, þangað sem hann sat milli nakinna fjögurra veggja, grindhoraður, nötrandi af kulda, svangur og þyrstur. Nirfillinn gamli hékk með allan hugann við gullið sitt. Þau sáu hann stökkva upp úr eymdarfletinu sínu og taka lausan stein úr múrveggnum. Hann geymdi þar fyrir innan gullpeninga í sokkbol. Hann þuklaði með deigum fingrum og skjálfhentur um karbætta kyrtilinn sinn, því innan í hann voru saumaðir gullpeningar. „Hann er sjúkur – þetta er vitfirring, gleðilaus vitfirring með aðköstum af hugarangist og illum draumum.“ Og þau skunduðu þaðan sem óðast og stóðu upp við trébekkjaflet glæpamannanna, þar sem þeir sváfu í langri röð, maður við mann. Einn hrökk upp með andfælum, líkur óarga dýri, æpti upp yfir sig ámátlega og rak olnbogann hart í bekkjunaut sinn, en hann hrökk við úrillur: „Haltu kjafti, draugurinn þinn! og sofðu. Á hverri nóttu –.“ „Á hverri nóttu,“ át hinn upp eftir honum, „já, á hverri nóttu kemur hann grenjandi og kvelur mig. Ég hef gert hitt og þetta í bráðræði. Reiðigirni er mér meðsköpuð, og það á ég upp á hana, að ég er kominn hingað í annað sinn. En hafi ég gert rangt, þá tek ég líka út refsinguna fyrir það. Það er aðeins eitt, sem ég hef ekki meðgengið. Þegar mér var sleppt héðan í fyrra skiptið og leið mín lá fram hjá garði húsbónda míns, þá fór að hitna í mér út af gömlum væringum. Ég strauk eldspýtu við múrinn, heldur nærri hálmþakinu. Kviknaði svo í öllu saman. Það kom einhver fítungur í það, eins og stundum kemur yfir sjálfan mig. Ég hjálpaði til að bjarga skepnum og innanstokksmunum. Af kviku brann þar ekkert nema nokkrar dúfur og hlekkjahundurinn. Eftir honum hafði ég alls ekki munað. Það heyrðist í honum ýlfrið, og þetta ýlfur heyri ég ennþá alltaf, þegar ég ætla að sofna, og sofni ég út af, þá kemur líka stóri hundurinn, kafloðinn, leggst ofan á mig ýlfrandi, þrúgar mig undir sér og kyrkir mig. Heyrðu þó, maður, hvað ég er að segja þér. Þetta geturðu: sofið og legið með hrotum alla nóttina, og ég get varla fengið drykklangan dúr.“ Og það skein í augun blóðhlaupin af vonskunni, hann rauk í lagsbróður sinn og sló hann með krepptum hnefa beint framan í andlitið. „Þarna hefur hann fengið eitt kastið enn, hann uppstökki Mads,“ kvað við allt í kring, og hinir bófarnir þrifu í hann, stimpuðust við hann og höfðu hann undir og bundu hann með höfuðið niður milli fótanna. Það lá við að blóðið kreistist út úr augum hans og öllum svitaholum. „Þið drepið mannaumingjann,“ kallaði presturinn og rétti út höndina yfir syndarann, eins og hann vildi bera blök af þeim, sem hér sætti alltof hörðu, og þá í sömu svifum breyttist um staði, og flugu þau bæði um ríkmannlega sali og fátæklegar stofur. Lostagirnd og öfund og allar dauðasyndir svifu fram hjá þeim. Engill dómsins las upp afbrot þeirra, sakvörn þeirra og málsbætur. Þær voru að vísu lítilfjörlegar fyrir guði, en guð les í hjörtunum, hann þekkir allt út í æsar, hið illa, sem kemur utan að og innan að, hann, sem er náðin og alkærleikinn. Prestinum féllust hendur. Hann dirfðist ekki að rétta út höndina til að kippa út einu einasta hári úr höfði syndarans. Tárin runnu í lækjum frá augum hans, eins og það náðarinnar og kærleikans tæra vatn, sem slökkti vítislogana. Í því galaði haninn. „Miskunnsemdanna guð og faðir! þitt er að veita henni þá hvíld í gröfinni, sem ég hef ekki verið megnugur inn að leysa.“ „Hana hef ég nú,“ mælti hin framliðna. „Það voru þín hörðu orð, þínar myrktrúarlegu hugmyndir um guð og hans skapaðar verur, mennina, það var það, sem knúði mig til að fara til þín. Lærðu að þekkja mennina. Jafnvel í hinum vondu er partur af guði, sá partur, er sigra mun og slökkva eldsloga helvítis.“ Og kossi var þrýst á varir prestsins og það var bjart í kringum hann. Sólin guðs hin skæra skein inn í herbergið, og það var konan prestsins lifandi, ljúf og ástrík, sem vakti hann af draumi þeim, er guð hafði sent honum. Hún amma Hún amma er svo gömul. Hrukkurnar á andlitinu eru margar og hárið er snjóhvítt, en augun hennar skína eins og stjörnur, þau eru enda miklu fallegri, þau eru svo innilega mild og blíð, að unun er að horfa inn í þau. Og hún kann ljómandi fallegar sögur, og kjól á hún rósaðan stórum, stórum rósum. Það er þykksilki í kjólnum og í því getur nú skrjáfað. Amma veit svo margt, því hún er svo miklu eldri en pabbi og mamma. Amma á sálmabók með þykkum silfurspennslum, og í henni les hún oft. Innan í bókinni liggur rós, hún er flöt og uppþornuð, ekki nærri eins falleg og rósirnar, sem hún lætur standa í glasinu, og þó brosir hún vinalegast við henni, – já, hvað meira er, tárin koma fram í augun á ömmu. Hvað skyldi koma til þess að hún horfir svona á visnu rósina í gömlu bókinni? Veist þú það? Í hvert skipti, sem tárin hennar ömmu hrynja á blómið, þá frískast upp liturinn, rósin þrútnar og ilminn leggur um alla stofuna, veggirnir sökkva niður, eins og þeir væru ekki annað en þoka og allt í kring er grænn indæll skógurinn, þar sem sólin blessuð gægist inn milli laufanna, og amma – já, hún er nú kornung, gullfalleg stúlka með glóbjart hár og rjóða blómlega vanga, fríð og yndisleg, – engin rós getur verið blæfegri – en augun, blessuð augun blíðlegu, það eru þó augun hennar ömmu. Hjá henni situr maður, hann er svo ungur og fríður og gervilegur. Hann réttir henni rósina og hún brosir – svona brosir þó ekki hún amma. – Jú, jú! brosið kemur. Hann er á burtu. Það líða fram hjá svo margar hugsanir, svo margar myndir. Fríði maðurinn er farinn, rósin liggur í sálmabókinni og hún amma, já, hún situr nú þarna eftir, gamla konan, og horfir á visnu rósina í bókinni. Nú er amma dáin. Hún sat í hægindastólnum sínum og sagði langa, langa sögu, fallega sögu. „Og nú er sagan á enda,“ sagði hún, „lofið þið mér nú að sofna dálítið.“ Og hún hallaði sér aftur í stólnum og andardrátturinn heyrðist, – hún svaf, en alltaf kom yfir hana meiri og meiri kyrrð. Friður og sæla var yfir andlitinu, það var því líkast sem sólskin liði yfir það, og þá var sagt að hún væri dáin. Hún var lögð í svarta líkkistuna og þar lá hún sveipuð hvítu líni. Hún var svo falleg og samt voru augun lokuð, en hrukkurnar voru horfnar, og var sem léki bros á vörum hennar. Hárið var svo silfurhvítt og virðulegt. Það gerði engum beyg að horfa á hina framliðnu, það var gæskan hún amma, sem lá þarna. Og sálmabókin var látin undir höfuð henni, því svo hafði hún fyrir lagt, og rósin lá í gömlu bókinni, – og svo var amma jörðuð. Á gröfinni fast við kirkjugarðsmúrinn var gróðursettur rósviður, og hann varð blómstrum hlaðinn, og næturgalinn söng yfir honum, og innan að úr kirkjunni ómaði orgelhljómurinn og sálmasöngurinn, – fegurstu sálmarnir í bókinni, sem lá undir höfði hinnar framliðnu. Og máninn lýsti beint niður á gröfina, en hún var þar ekki, sú, sem dáin var. Hvert barnið gat farið þangað á nóttunni og fengið sér þar rós við kirkjugarðsmúrinn. Hinir dauðu vita meira en við allir, sem lifum, þeir þekkja þann ótta og angist, sem oss mundi standa af þeim kynjum, að þeir kæmu til okkar. Hinir dauðu eru betri en við allir og þess vegna koma þeir ekki. Það er mold yfir kistunni, það er mold í kistunni. Sálmabókin með öllum sínum blöðum er fallin í duft, rósin með öllum sínum endurminningum er fallin í duft, en efra blómgast nýjar rósir, efra syngur næturgalinn og orgelið hljómar. Menn hugsa um ömmu gömlu og mildu augun eilífungu. Augu geta aldrei dáið, augu okkar munu einhvern tíma sjá hana unga og fagra, eins og hún var, þegar hún kyssti í fyrsta sinni rauðu rósina döggskæru, sem nú er orðin að dufti í gröfinni. Efnisyfirlit Bls. Fegursta rós heimsins ... 5 Snædrottningin ... 9 Móðirin ... 56 Strætisljóskerið gamla ... 65 Penninn og blekbyttan ... 75 Síðasti draumur eikitrésins gamla ... 79 Gamla húsið ... 88 Nágrannafjölskyldurnar ... 102 Barnið í gröfinni ... 117 Stúlkan, sem gekk á brauðinu ... 124 Silfurskildingurinn ... 138 Anna Lísa ... 145 Sálin ... 161 Snigillinn og rósviðurinn ... 179 Kertaljósin ... 183 Sögukorn ... 187 Hún amma ... 194