RIDER HAGGARD

NÁMUR SALÓMONS KONUNGS


Námur Salómons konungs

H. Rider Haggard

Námur Salómons konungs

Skáldsaga

Reykjavík, Stafafell, 1971.

Prentsmiðjan Prentrún

Bókband: Nýja bókbandið


Efnisyfirlit

INNGANGUR.

I. KAPITULI. - ÉG HITTI SIR HENRY CURTIS.

II. KAPITULI. - MUNNMÆLIN UM NÁMUR SALÓMONS.

III. KAPTULI.

IV. KAPITULI. - FÍLAVEIÐIN.

V. KAPITULI. - FERÐIN INN Í EYÐIMÖRKINA.

VI. KAPITULI. - VATN! VATN!

VII. KAPITULI. - VEGUR SALÓMONS.

VIII. KAPITULI. - VIÐ KOMUM TIL KÚKÚANALANDS.

IX. KAPITULI. - TWALA KONUNGUR.

X. KAPITULI. - GALDRALEITIN.

XI. KAPITULI. - JARTEIKNIÐ.

XII. KAPITULI. - VIÐBÚNAÐUR.

XIII. KAPITULI. - ÁHLAUPIÐ.

XIV. KAPITULI. - SÍÐASTA VIÐNÁM GRÁMANNANNA.

XV. KAPITULI. - GOOD LEGST VEIKUR.

XVI. KAPITULI. - STAÐUR DAUÐANS.

XVII. KAPITULI. - FJÁRHIRSLA SALÓMONS.

XXVIII. KAPITULI. - VONLAUSIR.

XIX. KAPITULI. - KVEÐJA IGNOSIS.

XX. KAPITULI. - FUNDINN.


INNGANGUR.

Nú, þegar bók þessi er alprentuð, og komið er að því, að hún eigi að fara út í heiminn, þá leggjast ófullkomlegleikar hennar, bæði að því er orðfæri og efni viðvíkur, þungt á mig. Að því er efni hennar áhrærir hef ég ekki annað að segja en það, að ekki er ætlast til að bókin geri fulla grein fyrir öllu, sem við gerðum og sáum. Margt var það, sem stóð í sambandi við ferð okkar til Kúkúanalands, sem ég hefði viljað gera glöggva grein fyrir, og sem ég hef naumast drepið á. Þar á meðal eru skrítnu helgisögurnar, sem ég safnaði saman viðvíkjandi spangabrynjunum, sem urðu okkur til lífs í bardaganum mikla við Loo, og sömuleiðis um „þá þöglu“, eða risavöxnu standmyndirnar við munnann á dropsteinahellinum. Enn er það, að ef ég hefði farið eftir mínum eigin geðþótta, þá hefði mér þótt gaman að minnast á mismuninn á Lúlú- og Kúkúanamállýzkunni, og virðist mér sá mismunur að sumu leyti gefa miklar bendingar. Það hefði og getað verið gagn að því að verja fáeinum blaðsíðum til þess að lýsa plönturíkinu og dýraríkinu þar í Kúkúanalandi1. Þar næst er óskýrt frá merkasta atriðinu – sem í þessari bók hefur aðeins verið drepið á við og við – hinu stórkostlega fyrirkomulagi á stjórn hersins, sem á sér stað í því landi, og sem, að mínu áliti, tekur langt fram herstjórn þeirri, sem Chaka kom á í Zúlúlandi, því að herinn getur orðið ferðbúinn enda á styttri tíma en í Zúlúlandi, og þetta, fyrirkomulag gerir ekki það skaðræði óhjákvæmilegt, að hermennirnir séu neyddir til að lifa ókvæntir. Og loksins hef ég naumast drepið á heimilissiði Kúkúananna. Margir þeirra eru framúrskarandi undarlegir, og ég hef heldur ekki minnst á það, hve leiknir þeir eru í að bræða málma og sjóða þá saman.

Þeir eru töluvert langt komnir í þessu efni: glöggt dæmi þess má sjá á tollum þeirra, sem eru þungir kasthnífar. Bakkinn á þessum hnífum er smíðaður úr járni, en eggin úr ágætu stáli, sem soðið er á bakkann með miklum hagleik. Sannleikurinn er sá, að mér fannst (og það fannst Sir Henry Curtis og Good kapteini), að best mundi að segja söguna blátt áfram, og geyma þessi atriði, þangað til þau yrðu síðar skýrð á hvern þann hátt, sem mönnum kynni á endanum að þykja ákjósanlegast. Þangað til að því kemur, mun mér auðvitað þykja ánægja að gefa hverjum manni, sem þykir gaman að slíku, allar þær skýringar, sem í mínu valdi standa.

Og nú á ég ekki annað eftir en biðja menn velvirðingar á því, hve klaufalega mér farast ritstörf. Ég get ekki sagt annað mér til afsökunar en að ég er vanari við að fara, með kúlubyssur en penna, og af mér má ekki ætlast til þess mikilfenglega bókmenntaflugs og skrúðmáls, sem ég sé að er í skáldsögum – því að mér þykir stundum gaman að lesa skáldsögur. Ég býst við að það – flugið og skrúðmálið – sé eftirsóknarvert, og mér þykir það illa farið, að ég skuli ekki vera fær um að láta það í té. En jafnframt getur mér ekki annað en fundist, að það, sem einfalt er, fái ávallt mest á menn, og að auðveldara sé að skilja bækur, þegar þær eru skrifaðar blátt áfram, þó að það geti verið, að ég eigi engan rétt á að láta neina skoðun í ljósi á slíkum málum. „Ekki þarf að fægja oddhvasst spjót“, segir máltæki meðal Kúkúananna, og eftir sömu grundvallarreglu dirfist ég að vona, að ekki muni þurfa að klæða sögu í fagran orðabúning, ef hún er sönn, hve undarleg sem hún kann að virðast.

Allan Quatermain.


I. KAPITULI. - ÉG HITTI SIR HENRY CURTIS.

Það er skrítið, að ég á mínum aldri – fimmtíu og fimm ára var ég síðasta afmælisdaginn minn – skuli vera að taka mér penna í hönd og reyna að skrifa sögu. Mér þætti gaman að vita, hvers konar saga það verður, þegar ég hef lokið við hana, ef ég kemst nokkurn tíma alla leið. Ég hef gert allmargt um ævina, sem mér finnst vera orðin löng – ef til vill af því, að ég byrjaði svo ungur. Á þeim aldri, þegar aðrir drengir eru í skóla, varð ég að vinna fyrir mér við verslun í gömlu nýlendunni. Ávallt síðan hef ég verið að versla, veiða, berjast og grafa í námum. Og enn eru ekki nema átta mánuðir síðan ég hafði nokkuð upp úr því – ég veit ekki hvað mikið – en ég held ekki, að ég vildi lifa upp aftur síðustu fimmtán eða sextán mánuðina fyrir það. Nei, ég vildi það ekki, þó að ég vissi, að ég ætti að komast af óskaddur á endanum, með auðinn og allt saman. Það stendur svo á, að ég er huglítill maður, og mér er ekki um ofbeldi, og ég er orðinn æði leiður á ævintýrum. Mér þætti fróðlegt að vita, hvers vegna ég ætla að fara að skrifa þessa bók, – það er ekki mín iðn. Ég er enginn bókamaður, þó ég hafi mikla lotningu fyrir Gamla testamentinu og eins fyrir „Helgisögum Ingoldsbys“. Það er best ég reyni að skrifa upp ástæður mínar, rétt svo að ég sjái, hvort ég hef nokkrar ástæður.

Fyrsta ástæða: Af því að Sir Henry Curtis og John Good kapteinn báðu mig um það.

Önnur ástæða: Af því að ég ligg hér veikur í Dúrban, með kvölina og ónotin í vinstra fætinum. Mér hefur alltaf verið hætt við því, síðan bölvað ljónið náði í mig, og af því að mér er venju fremur illt í fætinum einmitt nú, þá er ég haltari en nokkru sinni áður. Það hlýtur að vera eitthvert eitur í ljónstönnum, hvernig ætti ég annars að gera mér grein fyrir því, að óðar en þess háttar sár læknast, ýfast þau upp aftur, og það vanalega einmitt á sama tíma árs, sem menn hafa fengið þessi sár. Það er hart, þegar maður hefur skotið hvorki meira né minna en sextíu og fimm ljón á ævi sinni, að þá skuli það sextugasta og sjötta tyggja sundur fótinn á manni eins og munntóbaksbita. Maður gleymir þá sínum gömlu listum, og svo að ég sleppi öðru, sem mætti til færa, þá læt ég mér nægja að geta þess, að ég er vanafastur maður, og mér geðjast ekki að þess háttar. Þetta er nú dálítill útúrdúr.

Þriðja ástæða: Af því að mig langar til að drengurinn minn, Harry, sem er þarna, á spítalanum í London að læra til læknis, hafi eitthvað sér til dægrastyttingar, sem geti haldið honum frá bernskubrögðum eina viku eða svo. Spítalavinna hlýtur stundum að vera daufleg og heldur leiðinleg, og það getur ekki hjá því farið, að menn fái nóg jafnvel af annarri eins vinnu eins og að kryfja lík, og með því að þessi saga verður ekki leiðinleg, hvað sem hún annars kann að verða, þá getur það verið, að hún hleypi dálitlu fjöri í hann einn eða tvo daga, meðan hann er að lesa hana.

Fjórða og síðasta ástæða: Af því að sagan, sem ég ætla að fara að segja, er sú undarlegasta saga, sem ég hef heyrt getið um. Mönnum kann að virðast það kátlegt, að ég skuli komast svo að orði, einkum þegar þess er gætt, að engin kona kemur fyrir í sögunni – nema Foulata. Bíðum samt við! Gagool kemur þar fyrir, ef hún var kona og ekki ill vættur. En hún var að minnsta kosti hundrað ára gömul, og var því ekki á giftingaraldrinum, svo að hana tel ég ekki. Að minnsta kosti er mér óhætt að segja, að ekki komi neitt pils fyrir í allri sögunni. En það væri víst betra fyrir mig að komast að efninu. Mér verður það örðugt, og mér finnst eins og vagninn minn hafi sokkið niður í foræði upp að öxlinum. En sutjes, sutjes, segja Bóarnir (ég veit alls ekki, hvernig þeir stafa það), allt vinnst með hægðinni. Sterkt par akneyta kemst út úr ófærðinni á endanum. En aldrei verður neitt gert með ónýtum uxum. Nú er best ég byrji.

„Ég, Allan Quatermain frá Dúrban í Natal herramaður, vinn eið að því að –“ svona byrjaði ég framburð minn fyrir yfirvöldunum viðvíkjandi hinu sorglega andláti þeirra Khivas og Venvogels, veslinganna, en það er einhvern veginn eins og það eigi ekki við að byrja bók svona. Og svo kemur það, hvort ég sé herramaður. Hvað er herramaður? Mér er það ekki fullljóst, því að ég hef átt við „niggara“ – nei, ég ætla að strika þetta orð „niggara“ út, því að mér geðjast ekki að því. Ég hef þekkt menn, sem bornir voru og barnfæddir í Suðurálfunni, og sem voru herramenn, og það munt þú líka segja, Harry minn góður, áður en þú hefur lokið við þessa sögu, og ég hef þekkt hvíta menn, sem voru dónar, og sem höfðu firn af peningum og voru þar að auki nýkomnir frá Norðurálfunni, og þeir voru ekki herramenn.

Jæja, að minnsta kosti er ég herramaður, að því er ætterninu viðvíkur, þó að ég hafi ekkert verið annað alla mína ævi en fátækur mangari og veiðimaður á sífelldu ferðalagi. Ég veit ekki, hvort ég hef verið herramaður að öðru leyti. Það verða aðrir að bera um. Guð veit, að ég hef reynt það. Ég hef drepið marga menn á ævi minni, en ég hef aldrei orðið neinum að bana af léttúð eða glánaskap, né saurgað hendur mínar á saklausu blóði. Ég hef jafnan átt hendur mínar að verja. Guð almáttugur hefur gefið oss lífið, og ég býst við, að hann ætlist til að við verjum það, að minnsta kosti hef ég ávallt breytt eftir þeirri skoðun, og vona, að það verði mér ekki til dómsáfellis, þegar ég á að gera reikning ráðsmennsku minnar. Þessi veröld er grimm og vond, og ég hef lent í töluverðum manndrápum, jafn huglaus maður og ég er. Ég skal ekkert um það segja, hvað rétt það hefur verið, en að minnsta kosti hef ég aldrei stolið, þó að ég hefði einu sinni af einum Kafír nokkuð mikið af nautgripum. En hann hafði líka gert mér vondan grikk, og auk þess hef ég alltaf síðan haft samviskubit af því.

Það eru nú átján mánuðir, eða um það bil, síðan ég hitti Sir Henry Curtis og Good kaptein í fyrsta sinni, og það varð á þann hátt sem nú skal greina. Ég hafði verið á fílaveiðum hinum megin við Bamamgwato, og mér hafði gengið illa. Allt var öfugt í þeirri ferð, og svo sem í þokkabót varð ég fárveikur. Þegar ég var orðinn ferðafær, dróst ég niður á demantsvellina, seldi allt þetta litla fílabein, sem ég hafði og sömuleiðis vagn minn og uxa, sagði veiðimönnum mínum upp og fór með póstvagninum suður á Góðravonarhöfða. Eftir að ég hafði verið eina viku í bænum þar á höfðanum og hafði komist að því, að ég var féflettur á hótelinu, og eftir að ég hafði séð allt, sem þar varð séð, þar á meðal plöntugarðinn, sem mér þykir líklegt, að landið hafi mikið gagn af, og nýja þinghúsið, sem ég ímynda mér að alls ekkert gagn verði að þá réð ég af að fara aftur til Natal með skipinu „Dunkeld“, sem lá þá ferðbúið í skipakvíum og beið eftir „Edinburgh Castle“, og við léttum akkerum og létum í haf.

Meðal farþega þeirra, sem komu á skip þar, voru tveir menn, sem mér lék hugur á að vita hverjir væru. Annar þeirra var um þrítugt og var einhver sá brjóstbreiðasti og handleggjalengsti maður, sem ég hef séð. Hann hafði gult hár, mikið, gult skegg, reglulega andlitsdrætti og stór grá augu, sem sátu langt inni í höfðinu. Ég hef aldrei séð fallegri mann, og hann minnti mig einhvern veginn á hina fornu Dani. Það er ekki svo að skilja, að ég viti mikið um hina fornu Dani, þó að ég muni eftir dönskum nútíðarmanni, sem féfletti mig um tíu pund. En ég man eftir að ég hef einu sinni séð málverk af einhverjum af þessum gömlu höfðingjum, sem ég býst við að hafi verið nokkurs konar hvítir Zúlúar. Þeir voru að drekka úr stórum hornum, og síða hárið þeirra hékk langt niður á bakið, og þegar ég stóð þarna og horfði á þennan mann standandi við lyftingarstigann, þá fannst mér, að ef hann hefði aðeins látið hárið á sér vaxa lítið eitt, hefði steypt hringabrynju yfir þessar breiðu herðar, og hefði tekið sér vígaöxi í aðra hönd og drykkjarhorn í hina, þá hefði hann getað verið fyrirmynd fyrir þessu málverki. Ég ætla að geta þess hér, að Sir Henry Curtis – því þessi risi hét það – var kominn af dönskum ættum. Það er skrítið og sýnir hvað ættarmótið getur haldist. Hann minnti mig líka sterklega á einhvern annan mann, en þá, gat ég ekki áttað mig á því, hver það var.

Hinn maðurinn, sem stóð og var að tala við Sir Henry, var lágur, djarfmannlegur og dökkhærður, og mjög ólíkur hinum. Mig grunaði þegar að hann mundi vera herforingi í sjóliðinu. Ég veit ekki hvers vegna, en það er erfitt að villast á mönnum úr sjóliðinu. Ég hef verið á veiðiferðum með allmörgum þeirra á ævi minni, og þeir hafa jafnan verið þeir bestu og hugrökkustu og ástúðlegustu félagsbræður, sem ég hef hitt á, þó að þeim hafi verið nokkuð hætt við að blóta.

Ég kom með þá spurningu einni eða tveimur blaðsíðum hér á undan: Hvað er herramaður? Ég ætla að svara því nú: Það er herforingi í konunglega sjóliðinu, svona yfir höfuð að tala, þó, að þar hittist auðvitað misjafn sauður hér og þar. Ég ímynda mér, að það muni einmitt vera hið ómælilega haf og gusturinn af vindum guðs, sem þvoi hjörtu þeirra og blási mannvonskunni út úr hugum þeirra, og geri þá eins og menn eiga að vera. Jæja, svo að ég komi aftur að efninu, þá hafði ég aftur getið rétt til. Ég komst að því, að hann var herforingi í sjóliðinu, lautinant, þrjátíu og eins árs gamall. Eftir 17 ára herþjónustu hafði honum verið vísað burt úr herliði hennar hátignar, af því að ómögulegt var að færa hann hærra upp, en var áður veitt kapteins-nafnbót, sem er heldur ábatalítil sæmd. Þess mega þeir vænta, sem drottningunni þjóna: að verða hrundið út í heim, sem sama er um mann, til þess að hafa ofan af fyrir sér, einmitt þegar menn fara að hafa fullt vit á sínu verki og fara að leysa það sem best af hendi.

Annars býst ég við, að þeir muni kæra sig kollótta. Ég vildi fyrir mitt leyti heldur vinna fyrir mér við veiðarnar. Getur verið að tekjurnar verði fullt eins litlar, en þá er heldur ekki hætt við að menn verði fyrir öðrum eins ónotum. Ég komst að því, með því að líta í farþegaskrána, að hann hét Good – John Good, kapteinn. Hann var gildvaxinn, meðalmaður á hæð, dökkhærður, bar sig prýðilega og var nokkuð skrítinn á að líta. Hann var svo framúrskarandi hreinn, og svo framúrskarandi vel rakaður, og hann hafði jafnan augnagler í hægra augnkróknum. Það var eins og það hefði vaxið þar út, því að það var engin snúra við það, og hann tók það aldrei af sér, nema til að þurrka það. Fyrst hélt ég, að hann væri vanur að sofa með það, en seinna komst ég að því, að þar hafði mér skjátlast. Hann stakk því í buxnavasa sinn, þegar hann fór að sofa, ásamt lausatönnunum sínum, því að hann hafði ágætar lausatennur beggja megin í munninum, og af því að mínar tennur eru ekki sem allra bestar, þá, komu lausatennurnar hans mér oft til að syndga á móti tíunda boðorðinu. En nú er ég farinn að hlaupa aftur í söguna.

Skömmu eftir að við höfðum létt akkerum, datt náttmyrkrið á, og með því kom mesta óhræsis veður. Stinningsgola stóð af landi, og ónotalegt, þétt regn rak bráðlega alla af þilfarinu. Dunkeld er botnflöt skúta, var lítt hlaðin og veltist ákaflega í öldunum. Það var næstum því eins og henni ætlaði að hvolfa, en aldrei varð samt af því. Það var alveg ómögulegt að ganga fram og aftur, svo að ég stóð grafkyrr nálægt vélinni í hlýindunum og stytti mér stundir við að horfa á dingulinn, sem festur var upp beint fyrir framan mig, og sem dinglaði hægt fram og aftur og sýndi, hve mikið skipið ruggaði í hvert sinn.

„Þessi dingull er vitlaus; hann er skakkt festur upp.“ Þetta var allt í einu sagt fyrir aftan mig, heldur önuglega. Ég leit við og sá sjóliðsforingjann, sem ég hafði tekið eftir, þegar farþegarnir stigu á skip.

„Er það satt? Hvers vegna haldið þér það?“ spurði ég.

„Held ég. Ég held alls ekkert um það. Skoðið þér til,“ sagði hann, þegar skipið var að rétta sig við aftur eftir eina dýfuna – „ef skipið hefði oltið eins og þessi ómynd sýndi, þá hefði það aldrei oltið framar, það munar ekki öðru en því. En það er eftir þessum mangaraskipum, þau eru ævinlega svo argvítuglega ónákvæm.“

Rétt í sama bili var miðdegismatarklukkunni hringt, og mér þótti ekkert að því, því að það er hræðilegt að verða að hlusta á foringja úr konunglega sjóliðinu, þegar þeir komast út í þær sakir. Ég þekki ekki nema eitt, sem er verra og það er að heyra skipstjóra á kaupskipum láta í ljósi sína hjartansskoðun á foringjum úr konunglega sjóliðinu.

Good kapteinn og ég urðum samferða ofan til að borða, og þar hittum við Sir Henry Curtis. Hann hafði þegar sest. Hann og Good kapteinn sátu saman, og ég sat beint á móti þeim. Kapteinninn og ég fórum bráðlega að tala um skotveiðar og hitt og þetta annað. Hann spurði mig ýmsum spurningum, og ég svaraði þeim eftir megni. Svo fór hann að tala um fíla.

„Já“, kallaði einhver upp, sem nærri mér sat. „Þar hafið þér hitt á þann, sem við átti; ef nokkur maður getur sagt yður af fílum, þá er það veiðimaðurinn Quatermain.“

Sir Henry hafði setið grafkyrr og hlustað á það, sem við vorum að segja, en nú hrökk hann auðsjáanlega við.

„Fyrirgefið mér, herra,“ sagði hann, laut fram yfir borðið og talaði í lágum, djúpum róm. Mér fannst svo eðlilegt, að svona rómur skyldi koma upp frá svona stórum lungum. „Fyrirgefið mér, herra minn, en heitið þér Allan Quatermain?“

Ég sagði að svo væri.

Stórvaxni maðurinn sagði ekkert meira, en ég heyrði hann muðla fyrir munni sér: „Það vildi vel til.“

Rétt á eftir lukum við við máltíðina, og þegar við vorum að fara út úr salnum, kom Sir Henry til mín, og spurði, hvort ég vildi ekki koma inn í káetuna hans, og reykja eina pípu. Ég þáði það, og hann fór með mig inn í káetuna á þilfarinu. Þar var ágætt herbergi, því hafði upphaflega verið skipt í tvennt, en þegar Sir Garnet, eða einhver annar af þessum stórhöfðingjum, hafði farið þar fram með ströndinni með Dunkeld, þá hafði þilið verið rifið niður, og svo hafði það aldrei verið sett þar aftur. Legubekkur var í káetunni og dálítið borð fyrir framan hann. Sir Henry sendi þjóninn eftir viskýflösku, og við settumst niður, allir þrír, og kveiktum í pípunum okkar.

„Mr. Quartermain,“ sagði Sir Henry Curtis, þegar þjónninn hafði fært okkur viskýið og kveikt á lampanum, „í hittifyrra um þetta leyti munuð þér hafa verið á stað sem kallaður er Bamangwato, fyrir norðan Transvaal.“

„Það var ég,“ svaraði ég, og þótti það fremur undarlegt, að honum skyldi vera svo kunnugt um mínar ferðir, því að, eftir því sem ég hafði getað komist næst, hafði almenningur manna látið þær liggja sér í léttu rúmi.

„Þér voruð í verslunarerindum, voruð þér það ekki?“ bætti Good kapteinn inn í á þennan hastarlega hátt, sem honum var eiginlegur.

„Það var ég. Ég fór með eitt vagnhlass af vörum og tjaldaði utan við nýlenduna og dvaldi þar, þangað til ég var búinn að selja þær.“

Sir Henry sat á móti mér í Madeirastól og lagði handlegginn fram á borðið. Hann leit nú upp, og horfði með sínum stóru gráu augum beint framan í andlitið á mér. Mér fannst vera í þeim hræðslublandin forvitni.

„Vildi svo til, að þér hittuð þar mann, sem kallaði sig Neville?“

„Ó, já; hann var rétt við hliðina á mér einn hálfan mánuð til þess að hvíla uxana sína, áður en hann héldi lengra upp í landið. Ég fékk bréf frá málafærslumanni einum fyrir fáeinum mánuðum, og hann spurði mig, hvort ég vissi hvað af honum hefði orðið, og því svaraði ég eins vel og ég gat þá.“

„Já,“ sagði Sir Henry, „mér var sent bréfið yðar. Þér sögðuð þar, að maður, sem hefði kallað sig Neville, hefði farið frá Bamangwato í byrjun maímánaðar, að hann hefði farið í vagni og hefði haft með sér ökumann, leiðsögumann og Kafírveiðimann, sem kallaður hafði verið Jim, og að hann hefði sagst ætla, ef honum yrði það mögulegt, að halda allt til Inyati, fjarlægustu verslunarstöðvanna í Matabele landinu, og þar hafði hann ætlað að selja vagninn og halda áfram fótgangandi. Þér sögðuð líka, að hann hefði selt vagninn sinn, því að þér hefðuð séð vagninn 6 mánuðum síðar hjá portúgölskum verslunarmanni, sem hefði sagst hafa keypt hann í Inyati af hvítum manni, sem hann mundi ekki, hvað hefði heitið, og sem jafnframt hefði sagt, að hvíti maðurinn hefði haldið á stað lengra upp í landið með þarlendum þjóni – á veiðar, að því, er hann hélt.“

„Já.“

Svo varð þögn.

„Mr. Quatermain,“ sagði Sir Henry svo allt í einu. „Ég býst við þér munið ekkert vita um og ekki geta giskað neitt hvernig á því stóð að bró- að Mr. Neville fór þessa ferð norður eftir, né hvert ferðinni var heitið?“

„Eitthvað heyrði ég um það,“ svaraði ég og þagnaði við. Mig langaði ekkert til að fara að tala um það mál.

Sir Henry og Good kapteinn litu hvor til annars, og Good kapteinn hneigði höfuðið snöggvast lítið eitt áfram.

„Mr. Quatermain“, sagði Sir Henry. „Ég ætla að segja yður sögu og leita ráða hjá yður og ef til vill hjálpar. Umboðsmaður minn, sem sendi mér bréfið yðar, sagði, að ég mætti skilyrðislaust reiða mig á yður, því að þér væruð, sagði hann, alþekktur í Natal og allir bæru virðingu fyrir yður, og sérstaklega væri orð á því haft, hve þagmælskur þér væruð.“

Ég hneigði mig og drakk svo nokkuð af viskýinu, til þess að leyna fátinu, sem á mig kom, því að ég læt ekki mikið yfir mér – og svo hélt Sir Henry áfram:

„Mr. Neville var bróðir minn.“

„Æ!“ sagði ég og hrökk saman, því að nú vissi ég, hver það var, sem Sir Henry hafði minnt mig á, þegar ég hafði séð hann fyrst. Bróðir hans var miklu minni maður og hafði dökkt skegg, en þegar ég fór að hugsa um það, sá ég, að hann hafði sama gráa augnalitinn og sama hvassa augnaráðið, og auk þess voru andlitsdrættirnir ekki ólíkir.

„Hann var,“ sagði Sir Henry enn fremur, „eini bróðirinn, sem ég átti og yngri en ég, og þangað til fyrir fimm árum síðan, held ég ekki, að við höfum nokkurn tíma verið aðskildir heilan mánuð. En fyrir réttum fimm árum síðan greindi okkur á, eins og skyldmennum stundum verður. Deilan milli okkar var snörp, og í reiði minni breytti ég mjög ósanngjarnlega við bróður minn.“ Nú hneigði Good höfuðið í ákafa. Skipið ruggaði ákaflega í sama bili, svo að spegillinn, sem var festur beint á móti okkur á stjórnborða, var allra snöggvast beint uppi yfir höfðunum á okkur, og af því að ég sat með hendurnar í vösunum og horfði upp í loftið, þá gat ég séð, hve ótt og títt hann hneigði höfuðið.

„Eins og ég þykist vita að yður muni vera kunnugt,“ hélt Sir Henry áfram, „þá er því svo varið á Englandi, að ef einhver deyr, án þess að hafa látið eftir sig erfðaskrá, og hefur ekkert átt nema landeignir – real property er það kallað á Englandi – þá erfir elsti sonur hans allt saman. Nú vildi svo til, að einmitt um það leyti, sem ósamlyndið var milli okkar, þá dó faðir okkar, án þess að láta eftir sig erfðaskrá. Hann hafði dregið að ráðstafa húsi sínu, þangað til það var um seinan. Afleiðingarnar af því voru, að bróðir minn, sem ekkert hafði lært, sem hann gæti haft ofan af fyrir sér með, var allsendis öreigi. Það hefði auðvitað verið skylda mín að sjá um hann, en um þetta leyti var deilan milli okkar svo snörp, að ég – þó skömm sé frá að segja (og hann stundi þungan) – að ég bauð honum ekkert. Það var ekki af því, að ég sæi eftir neinu handa honum, en ég beið eftir því, að hann friðmæltist við mig, og það gerði hann ekki. Mér fellur illa að vera að þreyta yður á þessu öllu, Mr. Quatermain, en ég verð að koma yður vel í skilning um allt saman. Finnst yður ekki, Good?“

„Alveg satt, alveg satt,“ sagði kapteinninn. „Ég er viss um, að Mr. Quatermain muni ekki láta þessa sögu fara lengra.“

„Auðvitað,“ sagði ég, „því ég tel mér það til gildis að vera þagmælskur.“

„Jæja,“ hélt Sir Henry áfram, „bróðir minn átti ekki yfir að ráða nema fáeinum hundruðum punda um þetta leyti. Þetta lítilræði tók hann út úr banka, án þess að geta grand um það við mig, tók sér nafnið Neville og lagði af stað til Suður-Afríku með þeirri fjarstæðu von að verða þar stórríkur maður. Þetta heyrði ég síðar. Nú liðu eitthvað þrjú ár, og ég fékk engar fréttir af bróður mínum, þó að ég skrifaði honum hvað eftir annað. Hann hefur sjálfsagt aldrei fengið bréfin. En eftir því sem tímar liðu fram, fór mér að verða æ órórra út af honum. Ég fann, Mr. Quatermain, að ekki verður hjá því komist, að manni renni blóðið til skyldunnar.“

„Það er satt,“ sagði ég, því að mér datt hann Harry, drengurinn minn, í hug.

„Ég fann, Mr. Quatermain, að ég mundi vilja gefa helming eigna minna til þess að fá vissu fyrir, að George, bróðir minn, eina skyldmennið, sem ég átti, væri heill á húfi, og að ég ætti að fá að sjá hann aftur.“

„En þér gerðuð það aldrei, Curtis,“ hratt Good kapteinn út úr sér og leit um leið skyndilega framan í hinn mikla mann.

„Mr. Quatermain, eftir því sem tímar liðu fram, varð mér meira og meira annt um að fá að vita, hvort bróðir minn væri lifandi eða dauður, og að fá hann heim aftur, ef hann skyldi vera lifandi. Ég fór að grennslast eftir þessu, og þannig fékk ég meðal annars fréttabréfið yðar. Fréttirnar í bréfi yðar voru góðar, það sem þær náðu, því að þær sýndu, að George hafði nýlega verið á lífi, – en þær náðu ekki nógu langt. Og svo að ég verði ekki of langorður, þá læt ég mér nægja að segja yður, að ég réð af að fara sjálfur á stað og leita að honum, og Good kapteinn gerði mér þann greiða að fara með mér.

„Já,“ sagði kapteinninn, „ég hafði ekkert annað að gera, eins og þér sjáið. Sjóliðsstjórnin hafði rekið mig burtu með hálfum mála, svo að ég skyldi drepast úr hungri. En nú viljið þér ef til vill gera svo vel, að segja okkur það, sem þér vitið eða hafði heyrt um þennan herramann, sem kallar sig Neville?“


II. KAPITULI. - MUNNMÆLIN UM NÁMUR SALÓMONS.

„Hvað er það, sem þér heyrðuð um ferð bróður míns í Bamangwato?“ sagði Sir Henry, því að ég þagði og fór að troða í pípuna mína, áður en ég svaraði Good kapteini.

„Ég heyrði þetta“, svaraði ég, „og ég hef aldrei minnst á það við nokkra lifandi manneskju fyrr en nú. Ég heyrði, að hann hefði lagt á stað til náma Salómons“.

„Námur Salómons!“ hrópuðu báðir tilheyrendur mínir einu. „Hvar eru þeir?“

„Það veit ég ekki“, sagði ég, „en ég veit, hvar sagt er að þeir séu. Ég hef einu sinni séð tindana á fjöllunum, sem að þeim liggja, en það var hundrað og þrjátíu mílna breið eyðimörk milli mín og þeirra, – og ég veit ekki til, að nokkur hvítur maður hafi nokkurn tíma komist yfir þá eyðimörk, að undanteknum einum. En það er ef til vill best, að ég segi ykkur munnmælin um námur Salómons eins og ég hef heyrt þau, en þið verðið að lofa mér því hátíðlega, að láta engan vita það, sem ég segi ykkur, án míns samþykkis.“

Sir Henry hneigði höfuðið til samþykkis, og Good kapteinn sagði: „Auðvitað, auðvitað.“

„Jæja,“ byrjaði ég, „eins og þér munuð giska á, eru fílaskyttur svona yfir höfuð að tala hálfgerð rustamenni og kæra sig vanalega kollótta um það, sem ekki kemur þeim sjálfum við. En við og við hittast menn, sem leggja á sig það ómak að safna þjóðsögum meðal villimannanna og reyna að hafa uppi á broti úr sögu þessa dimma lands. Þess háttar maður var það, sem sagði mér munnmælin um námur Salómons og síðan eru nálega þrjátíu ár. Það var þegar ég var fyrsta sinni á fílaveiðum í Matabele-landinu. Hann hét Evans, og særður vísundur drap hann ári síðar, veslinginn, og nú liggur hann grafinn nærri Zambesi-fossunum. Ég man eftir, að ég var eitt kveld að segja honum frá merkilegum mannaverkum, sem ég hafði einu sinni fundið á veiðum þar, sem nú er kallað Lydenburghéraðið. Ég sé, að gullleitendur hafa nýlega hitt á þessi mannaverk aftur, en það eru mörg ár síðan ég vissi af þeim. Mikill breiður vegur er höggvinn þar í harðan klettinn og liggur að göngum inn í fjöllin. Fyrir innan mynnið á göngunum er gullblöndnu stuðlabergi hlaðið upp, og undirbúið undir að molast sundur. Þetta sýnir að námumennirnir, hverjir sem þeir hafa verið, hljóta að hafa farið þaðan í flýti. Hér um bil 20 feta löng krossgöng eru þar, og snilldarleg er sú veggjahleðsla.

„Rétt er það“, sagði Evans, „en ég get sagt þér miklu merkilegri sögu en þetta“. Og svo sagði hann mér, að hann hefði rekist á rústir af bæ langt uppi í landinu og sagðist halda að þar hefði verið Ófír, sem getið er um í biblíunni, – og annars hafa aðrir lærðir menn haldið það sama, löngu eftir daga Evans heitins. Ég man, ég drakk í mig þessar dásemdir, því að ég var ungur þá, og þessi þjóðsaga um gamla menningu, og um fjársjóðina, sem þessir fornu ofurhugar Gyðinga eða Föníkumanna voru vanir að sækja til lands, sem fyrir löngu síðan er sokkið niður í svartasta skrælingjahátt – hún fékk mjög á ímyndunarafl mitt. Svo sagði hann allt í einu við mig: „Hefur þú nokkurn tíma heyrt getið um Súlímansfjöllin norð-vestur við Mashukulumbwe-landið, drengur minn?“ Ég sagðist aldrei hafa heyrt getið um þau. „Jæja“, sagði hann, „það var í raun og veru þar, að námur Salómons voru – demants-námurnar hans á ég við“.

„Hvernig veistu það?“ spurði ég.

„Hvernig veit ég það! Hvernig geturðu spurt! Hvað er Súlíman, nema afbökun af Salómon?2 og auk þess hefur gömul isanusi (galdrakona, sem fæst við lækningar) uppi í Manica-landi sagt mér allt um þetta. Hún sagði, að þjóðin sem byggi hinum megin við fjöllin, væri grein af Zúlúum og talaði zúlúska mállýsku, en væri enda fríðara fólk og stærra, og að meðal þeirra væru miklir galdramenn, sem hefðu lært listir sínar af hvítum mönnum, „þegar allur heimurinn var dökkur,“ og sem varðveittu leyndarmálið um undursamlegar námur, þar sem „skínandi steinar“ væru.

„Jæja, þá hló ég að þessari sögu, þó mér þætti mikils um vert, því að þá voru demants-vellirnir ófundnir, og Evans heitinn fór burt frá mér og lét lífið, og í tuttugu ár hugsaði ég aldrei neitt um þetta. En réttum tuttugu árum seinna – og það er langur tími, mínir herrar, – það er sjaldgæft, að þeir menn lifi tuttugu ár, sem alltaf fást við fílaveiðar – en réttum tuttugu árum seinna heyrði ég nokkuð ákveðnara um Súlímansfjöllin og landið hinum megin við þau. Ég var uppi í landinu, hinum megin við Manica-land, á stað, sem kallaður er Sitandas Kraal, og þar var illt að vera, naumast mögulegt að fá þar neitt ofan í sig, og þar í grenndinni var mjög lítið um veiðidýr. Ég varð veikur, og mér leið yfir höfuð illa, – þá var það einn dag, að portúgalskur maður kom með einum félaga – kynblending. Ég þekki annars Portúgalana í Delagoa vel. Það eru ekki til verri djöflar óhengdir en þeir, eins og þeir eru vanalega, því að þeir fita sig á kvölum og holdi annarra manna sem þræla. En þessi maður var mjög ólíkur þeim varmennum, sem ég hafði vanalega hitt á; hann minnti mig meira á þessa kurteisu dona3, sem ég hafði áður lesið um. Hann var hár og grannur, hafði stór, dökk augu og hrokkið grátt yfirskegg. Við töluðum dálítið saman, því að hann gat talað bjagaða ensku, og ég skildi dálítið í portúgölsku, og hann sagðist heita Jose Silvestre og sagði mér, að hann ætti jörð nálægt Delagoa-firðinum, og þegar hann lagði af stað næsta dag með förunaut sínum, kynblendningnum, kvaddi hann mig og tók þá ofan alveg eftir forna siðnum. „Verið þér sælir, senor,“ sagði hann, „ef við hittumst nokkurn tíma aftur, þá verð ég ríkasti maður í heiminum, og ég skal muna eftir yður.“ Ég hló dálítið – ég var of veikur til að hlæja mikið – og ég horfði á eftir honum, þegar hann lagði út á hina miklu eyðimörk vestan við mig. Ég var að hugsa um, hvort hann væri brjálaður eða hvað það gæti verið, sem hann hygðist að finna þar.

„Svo leið ein vika, og mér fór að batna. Eitt kveld sat ég á jörðinni framan við litla tjaldið, sem ég hafði flutt með mér og var að sjúga síðasta beinið úr grindhoruðum fugli, sem ég hafði keypt af þarlendum manni fyrir klæðispjötlu, sem var tuttugu fugla virði. Ég starði á heitu, rauðu sólina, sem var að síga niður í eyðimörk: þá, sá ég allt í einu mannsmynd, á halla, sem var beint á móti mér, hér um bil 450 álnir frá mér. Það leit svo út, sem þetta væri Norðurálfumaður, því að hann var í frakka. Mannsmyndin skreið áfram á höndum og hnjám, við og við komst hún á fætur og staulaðist áfram á fótunum fáeinar álnir, en svo valt hún um og skreið svo áfram á fjórum fótum. Ég sá, að maðurinn hlaut að eiga eitthvað bágt, hver sem það nú var, og ég sendi einn af veiðimönnum mínum til þess að hjálpa honum. Hann kom svo bráðlega, og hver haldið þið, það hafi svo loksins verið?“

„Jose Silvestre, náttúrlega“, sagði Good kapteinn.

„Já, Jose Silvestre, eða öllu heldur beinagrindin af honum og dálítið af skinni. Hann var ljósgulur í framan af gallsýki, og stóru dökku augun hans stóðu nálega út úr höfðinu á honum, því allt holdið var farið. Ekkert var eftir nema gult skinn, líkast bókfelli, hvítt hár og bein inni fyrir, sem stungust út í skinnið.

„Vatn! fyrir Krists sakir, vatn!“ veinaði hann. Ég sá að varirnar á honum voru sprungnar, og að tungan, sem kom út á milli þeirra, var þrútin og dökkleit.

„Ég gaf honum vatn með ofurlitlu af mjólk saman við, og hann drakk þetta í stórum teygum, sex merkur eða meira einu. Ég vildi ekki láta, hann fá, meira. Þá fékk sýkin aftur yfirhönd yfir honum, og hann valt um og fór að tala óráð um Súlímansfjöllin og demantana og eyðimörkina. Og ég fór með hann inn í tjaldið og hlynnti þar að honum, það sem ég gat, sem reyndar var ekki mikið, en ég sá, hvernig þetta hlaut að fara. Um kl. 11 varð hann rólegri, og ég lagði mig út af ofurlitla stund og sofnaði. Í afturbirtingunni vaknaði ég aftur og sá, hann í dagsglætunni sitja uppréttan. Það var óviðfelldin sjón, jafn grindhoraður eins og hann var, og hann starði út til eyðimerkurinnar. Allt í einu skaust fyrsti sólargeislinn þvert yfir hina víðlendu sléttu, sem fyrir framan okkur var, þangað til hann náði einum hæsta tindinum á Súlímansfjöllunum, langt burtu, meir en 100 mílur burt frá okkur.

„Þarna er það!“ hljóðaði hinn deyjandi maður á portúgölsku og rétti út hægra, mjóa handlegginn, „en þangað kemst ég aldrei, aldrei. Enginn maður kemst þangað nokkurn tíma!“

„Allt í einu þagnaði hann, og var eins og hann afréði eitthvað. „Vinur minn,“ sagði hann, og sneri sér að mér, „eruð þér þarna? Mér er að verða dimmt fyrir augum.“

„Já,“ sagði ég; „já, leggist þér nú útaf aftur og hvílið yður.

„Ó, já,“ svaraði hann, „ég hvílist bráðum, ég hef tíma til að hvíla mig bráðum – alla eilífðina. Hlustið þér á mig, ég er að deyja! Þér hafið verið mér góður. Ég ætla að fá yður blaðið. Það getur verið, að þér komist þangað, ef þér getið haldið lífinu á leiðinni yfir eyðimörkina, sem hefur drepið veslings þjóninn minn og mig.“

„Svo þreifaði hann fyrir sér um skyrtuna sína, og tók nokkuð upp, sem ég hélt að væri tóbakspoki Bóa úr antilópuskinni. Þetta var fest saman með dálítilli skinnræmu, sem við kölluðum rimpi, og hann reyndi að leysa hana en gat ekki. Hann rétti mér þetta. „Leysið þér það,“ sagði hann. Ég gerði það, og dró þar út tána, gula léreftspjötlu, og á henni stóð eitthvað ritað, með upplituðum stöfum. Innan í pjötlunni var pappírsblað.

„Svo hélt hann áfram í veikum rómi, því að farið var að draga af honum. „Það er allt á blaðinu, sem á pjötlunni stendur. Ég var mörg ár að komast fram úr því. „Hlustið þér á: Forfaðir minn, pólitískur flóttamaður frá Lissabon og einn af þeim fyrstu Portúgalsmönnum, sem lent hafa við strendur þessa lands, skrifaði þetta, þegar hann var kominn að dauða á þessum fjöllum, sem enginn hvítur maður hafði nokkurn tíma stigið fæti á fyrr, né heldur síðar. Hann hét Jose da Silvestre, og hann var uppi fyrir 300 árum síðan. Þræll hans, sem beið eftir honum hérna megin við fjöllin, kom að honum dauðum og flutti það, sem hann hafði skrifað, heim til Delagoa. Það hefur alltaf verið í ætt okkar síðan, en enginn hefur hirt um að lesa það, þangað til ég gerði það loksins. Og það hefur orðið mér að bana, en það getur verið, að einhverjum öðrum takist betur og verði ríkasti maður í veröldinni. Látið þér bara engan mann ná í það, farið þér sjálfur!“ Svo fór hann aftur að tala óráð, og eftir eina klukkustund var hann liðinn.

„Guð sé með honum! Hann fékk hægan dauðdaga, og ég gróf hann djúpt niður og lagði stóran hnullung ofan á brjóstið á honum, svo að ég held ekki, að sjakalarnir hafi getað grafið hann upp aftur. Og svo fór ég burt þaðan.“

„Æ, en skjalið?“ sagði Sir Henry, og var auðheyrt á málrómnum, að honum fannst mikið um.

„Já, skjalið; hvað stóð á því?“ bætti kapteinninn við.

„Það skal ég segja ykkur, herrar mínir, ef ykkur langar til að vita það. Ég hef aldrei sýnt nokkrum manni það, nema konunni minni elskulegu, sem er dáin, og hún hélt að það væri allt þvættingur, og svo drukknum, gömlum portúgölskum verslunarmanni, sem lagði það út fyrir mig, og hafði gleymt því öllu morguninn eftir. Upprunalega pjatlan er heima hjá mér í Dúrban, ásamt með þýðingu Don Joses heitins, en ég hef ensku þýðinguna í vasabókinni minni og eftirlíkinguna af kortinu, ef kort skyldi kalla.“

„Ég, Jose da Silvestre, sem nú er að deyja úr hungri í litla hellinum, þar sem snjólaust er norðanmegin á Geirvörtunni á því syðra af fjöllum þeim, sem ég hef skýrt Shebubrjóst, skrifa þetta árið 1590 með klofnu beini á pjötlu rifna af fötum mínum og hef blóð mitt fyrir blek. Ef þræll minn skyldi finna þetta, þegar hann kemur og skyldi fara með það til Delagoa, þá skal vinur minn láta konunginn vita um þetta mál, svo að hann geti sent herlið, sem mun gera hann að ríkasta konungi síðan Salómons daga, og svo framarlega sem það kemst lifandi yfir eyðimörkina og fjöllin og fái yfirstigið hina hraustu Kúkúana og þeirra djöfullegu listir, í því skyni verða margir prestar að fara með. Með mínum eigin augum hef ég séð hina óteljandi demanta, sem hrúgað er upp í fjársjóðaherbergi Salómons, bak við hvíta „Dauðann“, en vegna svikanna í Gagool, galdrakerlingunni, gat ég ekki komist með neitt á burt, naumast með lífið. Sá, sem kemur, skal fara eftir kortinu og fara yfir snjóinn á vinstra brjósti Shebu, þangað til hann kemur að Geirvörtunni. Norðan við hana er vegurinn mikli, sem Salómon lagði, og þaðan eru þrjár dagleiðir til konungsstaðarins. Hann ætti að drepa Gagool. Biðjið fyrir sálu minni. Verið sæl.
– Jose da Silvestre.“

Þegar ég hafði lokið við að lesa þetta ofanritaða og hafði sýnt þeim eftirrit af kortinu, sem hinn deyjandi, gamli don hafði dregið upp með blóði sínu, í staðinn fyrir blek, þá, varð um stund steinþögn, svo forviða urðu þeir.

„Jæja,“ sagði Good kapteinn, „ég hef tvisvar farið hringinn í kringum heiminn, en farið inn í flestar hafnir, en þó það ætti að hengja mig, þá hef ég aldrei heyrt aðra eins sögu sagða úr nokkurri ævintýrabók og veit heldur annars ekki til að slíkt standi í nokkurri bók,“

„Þetta er undarleg saga, Mr. Quatermain,“ sagði Sir Henry. „Ég vona þér séuð ekki að gabba okkur. Ég veit, að það er stundum álitið leyfilegt að henda gaman að græningjum.“

„Ef þér haldið það, Sir Henry,“ sagði ég og varð hvumsa við og stakk blaðinu í vasa minn, því að mér fellur ekki vel, að menn haldi að ég sé einn af þessum kjánum, sem finnst það fyndið að segja lygasögur, og sem alltaf eru að skruma við nýkomna menn af óvanalegum veiðiævintýrum, sem aldrei hafa borið við – „ef þér haldið það, Sir Henry, þá er ekki meira um það,“ og svo stóð ég upp og ætlaði að fara.

Sir Henry hafði lagt stóru höndina sína á herðarnar á mér. „Setjist þér niður, Mr. Quatermain,“ sagði hann, „fyrirgefið mér; ég sé það mikið vel, að yður langar ekkert til að gabba okkur, en sagan var svo óvanaleg, að ég gat naumast trúað henni.“

„Þér skuluð fá að sjá upprunalega kortið og frumritið, þegar við komum til Dúrban,“ sagði ég og blíðkaðist nokkuð, því í raun og veru sá ég það, þegar ég fór að hugsa um þetta, sem ég hafði sagt þeim, að það var naumast ástæða til að furða sig á því, þó að hann efaðist um að ég segði það satt. „En ég hef ekki sagt yður allt um bróður yðar. Ég þekkti Jim, manninn, sem með honum fór. Hann var Bechuana-maður að ætterni, góð skytta og röskur maður af þarlendum mönnum að vera. Morguninn, sem Mr. Neville lagði af stað, sá ég Jim standa hjá vagninum mínum og skera tóbak í pípuna mína.“

„Jim,“ sagði ég, „hvert ætlið þið að fara? Ætlið þið að fara að leita að fílum?“

„Nei, Baas, við ætlum að leita að nokkru, sem er dýrara en fílabein.“

„Og hvað getur það verið?“ sagði ég, því að ég varð forviða. „Er það gull?“

„Nei, Baas, nokkuð, sem er dýrara en gull,“ og hann brosti.

Ég lét sem ég heyrði ekki.

„Baas,“ sagði hann aftur.

„Hvað þá, drengur, hvað viltu?“ sagði ég.

„Baas, við ætlum að leita að demöntum.“

„Demöntum! Hvað er þetta! Þið farið þá í skakka átt; þið ættuð að fara til Vallanna.“

„Baas, hafið þér nokkurn tíma heyrt getið um Súlímans Berg?“ (Salómons fjöllin).

„Já.“

„Hafið þér nokkurn tíma heyrt getið um demantana þar?“

„Einhverja vitleysu hef ég heyrt um það, Jim.“

„Það er engin vitleysa, Baas. Ég þekkti einu sinni kvenmann, sem kom þaðan og sagði mér, að hún hefði farið til Natal með barn, sem hún átti – hún er dauð nú.“

„Herra þinn verður gömmunum að bráð, Jim, ef hann reynir að komast til Súlímans landsins, og eins fer fyrir þér, ef þeir geta rifið nokkuð af gamla, einskisverða skrokknum á þér,“ sagði ég.

Hann glotti. „Getur verið, Baas. Einhvern tíma eiga allir að deyja. Ég vil fyrir mitt leyti heldur reyna eitthvert nýtt land, það er farið að minnka um fílana hér í grenndinni.“

„Jæja, drengur minn,“ sagði ég, „bíddu við þangað til gamli, föli maðurinn (dauðinn) nær tangarhaldi á gula hálsinum á þér, og þá skulum við heyra, hvernig í þér syngur.“

Hálfri stundu síðar sá ég vagn Nevilles færast á stað. Allt í einu kom Jim hlaupandi aftur. „Guðsfriði, Baas,“ sagði hann. „Ég kunni ekki við að fara af stað án þess að kveðja yður, því að ég er viss um, að þér hafið á réttu að standa, og að við komum aldrei aftur.“

„Er herra þínum alvara með að ætla að fara til Súlímansfjalla, Jim, eða ertu að ljúga?“

„Nei,“ sagði hann, „hann ætlar þangað. Hann hefur sagt mér, að hann sé neyddur til að afla sér auðs á einhvern hátt eða reyna það, – og þá gæti hann eins reynt demantana eins og hvað annað.“

„Ó,“ sagði ég, „bíddu við ofurlítið, Jim, viltu fara með miða fyrir mig til herra þíns, Jim, og lofa mér því að fá honum hann ekki fyrr en þið eruð komnir til Inyati?“ (sem var nokkur hundruð mílur burtu).

„Já,“ sagði hann.

Svo tók ég bréfræmu og skrifaði á hana: „Sá, sem kemur, skal fara yfir snjóinn á vinstra brjósti Shebu, þangað til hann kemur að Geirvörtunni. Norðan við hana er þjóðvegur Salómons.“

„Nú, Jim,“ sagði ég, „þegar þú færð herra þínum þetta, þá segðu honum, að honum sé best að fara nákvæmlega eftir þessu ráði. Þú skalt ekki fá honum það nú, því að ég vil ekki að hann snúi aftur við og spyrji mig að spurningum, sem ég vil ekki svara – og farðu nú, ónytjungurinn þinn; vagninn er nærri því horfinn.“

Jim tók bréfið og fór á stað, og þetta er allt, sem ég veit um bróður yðar, Sir Henry, en ég er ósköp hræddur um –“

„Mr. Quatermain,“ sagði Sir Henry. „Ég ætla að fara og leita að bróður mínum, – ég ætla að rekja spor hans til Súlímansfjalla, og yfir þau ef á þarf að halda, þangað til ég finn hann eða kemst að því, að hann sé dauður. Viljið þér fara með mér?“

Ég er eins og ég held ég hafi sagt gætinn maður. Ég er í raun og veru huglítill, og mér hnikti við að hugsa til annars eins og þessa. Mér virtist sem það að leggja af stað í slíka ferð mundi vera það sama sem að leggja út í opinn dauðann, og þó ég sleppi öllu öðru, þá hafði ég ekki efni á að deyja einmitt þá, þar sem ég átti son, sem ég þurfti að vinna fyrir.

„Nei, þakka yður fyrir, Sir Henry, ég held ég ætti ekki að gera það,“ svaraði ég. „Ég er of gamall fyrir þess háttar villigæsaveiðar, og það yrði ekki annað úr því, en að það færi fyrir okkur eins og fyrir honum vesalings Silvestre mínum. Ég á son, sem á alla sína stoð þar sem ég er, svo að ég hef ekki efni á að hætta lífi mínu.“

Það var svo að sjá, að bæði Sir Henry og Good kapteini þætti mjög mikið miður.

„Mr. Quatermain“, sagði Sir Henry. „Ég er vel efnaður, og mér er þetta áhugamál. Þér getið sett laun yðar fyrir aðstoð yðar hvað hátt sem yður sýnist, svo framarlega nokkurt vit verði í því, og yður skal verða borgað það áður en við leggjum upp. Áður en við leggjum upp vil ég ennfremur sjá svo um, að ef eitthvað skyldi verða að okkur eða yður, þá verði séð sæmilega fyrir syni yðar. Af þessu munuð þér sjá, hve áríðandi mér finnst að þér séuð með. Svo er líka það, að ef einhvern veginn skyldi svo fara, að við kæmumst þangað og fyndum demanta, þá eiga þeir að skiptast jafnt milli yðar og Goods. Ég þarf þeirra ekki með. Auðvitað er þessi möguleiki einskisvirði, þó að sama sé að segja um allt það fílabein sem við kunnum að ná í. Yður er velkomið að setja upp við mig hvað sem þér viljið, Mr. Quatermain, – og auðvitað borga ég allan kostnaðinn.“

„Sir Henry,“ sagði ég, „þetta er það örlætislegasta boð, sem nokkur maður hefur boðið mér, og það er ekki ástæða til þess fyrir fátækan veiðimann og mangara að vilja ekki þiggja það. En þetta er það stórkostlegasta verk, sem nokkurn tíma hefur komið fyrir mig, og ég verð að hugsa mig um nokkurn tíma. Ég skal segja yður annaðhvort áður en við komum til Dúrban.“

„Ágætt,“ svaraði Sir Henry, og svo bauð ég þeim góða nótt og fór að sofa, og mig dreymdi um vesalings Silvestre, sem nú var löngu dauður, og um demantana.


III. KAPTULI.

UMBOPA RÆÐST TIL OKKAR.

Það er fjögra til fimm daga ferð, eftir því hvernig skipið er og veðrið, frá Höfðabænum til Dúrban. Stundum er það, að ef brim er í Austur-London, þar sem enn er ófengin þessi dásamlega höfn, sem þeir tala svo mikið um og hafa sökkt svo miklum peningum niður í, að menn verða að bíða í tuttugu og fjóra klukkutíma áður en uppskipunarbátarnir geta komist út og flutt vörurnar í land. En í þetta skipti þurftum við alls ekkert að bíða, því að engir boðar voru við skerin, sem teljandi voru, og róðrarbátarnir komu þegar út með löngu trossuna af ljótu botnflötu uppskipunarbátunum aftan í sér og í þá var vörunum fleygt, svo að brakaði í. Það gerði ekkert til, hvaða vörur það voru, út var þeim kastað, svo að small í og söng við, hvort þær voru kínverskt postulín eða ullarvörur, þá urðu bær fyrir sömu meðferðinni. Ég sá einn kassa, sem voru í fjórar tylftir af kampavíni, fara í smámola og svo freyddi kampavínið og sauð á botninum á skítugum uppskipunarbátnum. Þar var illa farið með góðan grip, og það fannst Kafírunum í bátnum auðsjáanlega líka, því að þeir fundu tvær flöskur óbrotnar, og þeir slógu stútana af þeim og drukku það, sem í þeim var. En þeir höfðu ekki varað sig á útþembingu, sem orsakaðist af því, hve vínið freyddi mikið, og þegar þeir fundu að þeir voru farnir að þenjast út, þá veltu þeir sér um botninn á bátnum, og kölluðu upp yfir sig, að þetta ágæta vín væri tagati (töfrum blandið). Ég yrti á þá, frá skipinu, og sagði þeim að þetta væri hið sterkasta, lyf hvítra manna, og að þeir ættu dauðann vísan. Þeir héldu til strandar, dauðhræddir, og ég held ekki, að þeir smakki kampavín aftur.

Jæja, allan tímann, sem við vorum á ferðinni til Natal, var ég að hugsa um tilboð Sir Henrys Curtis. Við töluðum ekkert frekar um málið einn eða tvo daga, þó að ég segði þeim margar veiðisögur, allar sannar. Það er engin þörf á að segja lygasögur um veiðar, því að sá, sem gerir veiðar að atvinnu sinni, hann fær svo margt skrítið að vita, sem í raun og veru hefur borið við, en þetta er nú útúrdúr.

Loksins var það nú eitt yndislegt kveld í janúarmánuði, sem þar er heitasti mánuðurinn, að við létum gufuaflið flytja okkur fram með Natalströndinni, og bjuggumst við að fá Dúrbanhöfðann að sjá um sólsetursmund. Öll ströndin frá, Austur-London er ljómandi falleg, með rauðum sandhólum og breiðum fagurgrænum blettum. Hér og þar er stráð um hana Kafíra-kofum, og svo er hún brydd með hvítu brimbandi, sem spýtist upp og verður að súlum, þar sem klettarnir verða fyrir því. En rétt áður en komið er til Dúrban, er sérstaklega fagurt útsýni til strandarinnar. Þar eru djúpu skorurnar í hæðirnar, sem regnstraumarnir, sem streymt hafa niður um margar aldir, hafa skorið, og niður eftir þeim renna lækirnir og glitrar á þá. Þar eru runnar svo dökkgrænir sem þeir framast geta verið og hafa vaxið eins og guð hefur plantað þá, og þar eru matjurtagarðar og sykurreitir með öðrum grænum litum, og hér og þar eru hvít hús, brosandi við rólegu hafinu, og leggur heimkynnisblæ yfir útsýnið og gefur því alla þá fegurð, sem það hefði annars vantað. Því að eftir því, sem mér finnst, þá þarf jafnan návist manna til að gera útsýni algert, hve yndislegt sem það annars kann að vera, en ef til vill kemur þetta til af því, að ég hef hafst svo mikið við í óbyggðum, og því kann ég svo vel að meta menntunina, þó að hún auðvitað reki veiðidýrin á burt. Aldingarðurinn Eden hefur vafalaust verið fagur áður en mennirnir voru til, en ávallt held ég, að hann hafi verið enn fegurri eftir að Eva fór að ganga um hann. En okkur hafði reiknast ofurlítið skakkt, og það var vel sólsett áður en við vörpuðum akkerum fyrir framan höfðann og heyrðum byssuskotið, sem sagði náungunum þar frá því að bréfin frá Englandi væru komin. Það var orðið of seint til þess að hugsandi væri til að ganga á land um kveldið, og því fórum við ofan til þess að borða miðdagsverð í makindum, eftir að við höfðum séð pósttöskurnar fluttar burt í björgunarbátnum.

Þegar við komum aftur upp á þilfarið, var tunglið komið upp og skein svo bjartlega yfir sjóinn og ströndina, að skæru stóru ljósin frá vitanum sýndust föl. Frá ströndinni barst ljúfur kryddkenndur ilmur, sem ávallt minnir mig á lofsöngva og trúboða, og í gluggum húsanna á Berea glitruðu hundruð ljósa. Frá stóru briggskipi, sem lá nærri okkur, barst söngur, sem hásetarnir sungu jafnframt því sem þeir drógu upp akkerin til þess að vera ferðbúnir, þegar byrinn kæmi.

Það var að öllu samanlögðu ljómandi nótt, og aðrar eins nætur eru hvergi til nema í Suður-Afríku. Hún kastaði friðarskikkju yfir hvern mann, eins og tunglið kastaði friðarblæju yfir hvern hlut. Jafnvel stóri bolabíturinn, sem veiðimaður einn átti, sem með okkur var á skipinu, sýndist láta undan allri þessari blíðu, hætti að berjast við að spreyta sig við bavíanann í búri þar á skipinu, heldur hraut ánægjulega í káetudyrunum. Hann var vafalaust að dreyma að hann hefði gert út af við bavíanann, og þótti draumurinn góður.

Við fórum allir, þar er að segja Sir Henry Curtis, Good kapteinn og ég, og settumst við hjólið og þögðum dálitla stund.

„Jæja, Mr. Quatermain,“ sagði Sir Henry allt í einu, „hafið þér hugsað um uppástungu mína?“

„Já,“ tók Good kapteinn undir, „hvernig finnst yður hún vera, Mr. Quatermain? Ég vona, að þér lofið okkur að hafa ánægju af að verða yður samferða alla leið til náma Salómons, eða hvert sem þessi herramaður, sem þér þekkið sem Neville, kann að hafa komist.“

Ég stóð upp og barði úr pípunni minni áður en ég svaraði. Ég hafði enn ekki afráðið þetta og þurfti á þeim augnablikum að halda, sem við bættust til þess að hugsa það til hlítar. Áður en tóbakið brennandi hafði dottið ofan í sjóinn hafði ég hugsað það til hlítar. Einmitt þessi eina aukasekúnda rak á það endahnútinn. Þetta er oft eina ráðið, þegar menn hafa verið lengi að ráða eitthvað við sig.

„Já, mínir herrar,“ sagði ég og settist aftur niður, „ég ætla að fara, og með ykkar leyfi ætla ég að segja ykkur hvers vegna, og með hverjum skilmálum.

1. Þér eigið að borga allan kostnaðinn, og allt fílabein, en dýrmætir hlutir, sem við kunnum að ná, í, skiptast jafnt á milli Goods kapteins og mín.

2. Að þér borgið mér £300 fyrir þjónustu mína á leiðinni, áður en við leggjum á stað, en þar á móti undirgengst ég að þjóna yður trúlega, þangað til þér kjósið að hætta við fyrirtækið, eða þangað til okkur heppnast það, eða óhamingjan vinnur bug á okkur.

3. Að áður en við leggjum á stað gefið þér út skuldbindingjarskjal og lofið því að borga drengnum, Harry, sem nú er að nema læknisfræði yfir í London á Guyes-spítalanum, £200 á ári í fimm ár – svo framarlega sem ég skyldi annað hvort deyja eða verða ófær til vinnu. Eftir þessi fimm ár á hann að geta haft ofan af fyrir sér sjálfur. Nú held ég það sé ekki meira, og ég býst við að yður muni líka þykja það nógu mikið.“

„Nei,“ svaraði Sir Henry, „ég tek þessu með glöðu geði. Mér er annt um þetta, og ég vildi borga meira en þetta fyrir hjálp yðar, einkum þegar ég hugsa um þá sérstöku þekkingu, sem þér hafið.“

„Gott og vel. Og úr því ég hef nú sagt yður skilmála mína, þá ætla ég að segja yður ástæður mínar fyrir að ég skuli hafa ráðið af að fara. Fyrst er það, herrar mínir, að ég hef verið að taka eftir ykkur báðum þessa síðustu daga, og ef þið ætlið ekki að taka það sem ósvífni af mér, þá ætla ég að segja að þið fallið mér vel í geð, og ég held, að okkur komi vel saman. Það er ekki einskisvert, þegar menn eiga aðra eins ferð fyrir höndum eins og þessa.

Og hvað sjálfri ferðinni viðvíkur, þá ætla ég að segja ykkur það blátt áfram, Sir Henry og Good kapteinn, að mér þykir það ólíklegt, að við komum lifandi úr henni, það er að segja, ef við reynum að fara yfir Súlímansfjöllin. Hvernig fór fyrir gamla Don da Silvestre fyrir 300 árum síðan? Hvernig fór fyrir afkomanda hans fyrir 20 árum síðan? Hvernig fór fyrir bróður yðar? Og ég segi ykkur það hreinskilnislega, herrar mínir, að ég held það liggi það sama fyrir okkur eins og fyrir þessum mönnum.

Ég þagnaði við, til þess að gæta að, hver áhrif orð mín hefðu. Good kapteini virtist ekki lítast rétt vel á blikuna, en engin breyting kom á andlitið á Sir Henry. „Það verður að fara sem auðið er,“ sagði hann.

„Ykkur finnst það ef til vill undarlegt,“ hélt ég áfram, „að ég skuli takast þessa ferð á hendur, ef ég held þetta, þar sem ég er, eins og ég hef sagt ykkur, huglítill maður. Það er af tveimur ástæðum. Fyrst og fremst er ég forlagatrúarmaður og held að mér sé skapaður aldur fyrirfram án minnsta tillits til þess, hvernig ég fer sjálfur að, og ef ég á að fara til Súlímansfjallanna til þess að verða drepinn þar, þá muni ég fara þangað og verða drepinn þar. Guð almáttugur veit vafalaust, hvað hann ætlar að gera við mig, svo að ég þarf engar áhyggjur að hafa af því. Í öðru lagi er ég fátækur maður. Ég hef stundað veiðar og verslun í nærfellt 40 ár, en ég hef aldrei komist yfir meiri efni en svo, að ég hafi aðeins getað lifað. Jæja, herrar mínir, ég veit ekki, hvort ykkur er það kunnugt að meðalaldur þeirra, sem stunda fílaveiðar, eru fjögur til fimm ár frá því að þeir byrja á þeirri atvinnu. Þið sjáið því, að ég hef lifað hér um bil 7 mannsaldra minna stéttarbræðra, og mér liggur við að halda, að hvernig sem allt fer, þá eigi ég ekki langt eftir. Ef mér skyldi nú vilja einhver skyssan til við mitt vanalega starf, þá væri ekkert eftir, þegar skuldir mínar væru borgaðar, handa Harry syni mínum að lifa á, meðan hann er að ryðja sér veg til að hafa ofan af fyrir sér, þar sem hann aftur á móti getur haft nóg til fimm ára, ef ég fer svona að. Þetta er galdurinn við það allt saman.“

„Mr. Quatermain,“ sagði Sir Henry, sem hafði hlustað á mig með alvarlegustu athygli, „ástæður yðar fyrir að takast þetta á hendur, sem þér haldið ekki geti farið öðruvísi en slysalega, mæla töluvert fram með yður. Tíminn og rás viðburðanna geta ein sýnt, hvort þér hafið rétt að mæla eða ekki, þá ætla ég að leiða fyrirtækið til lykta, hvort sem það verður súrt eða sætt – og ég get eins sagt yður það nú þegar. Ef það skyldi eiga fyrir okkur að liggja að verða lamdir í höfuðið, þá segi ég ekki annað en það, að ég vona að okkur takist að skjóta dálítið á undan. Haldið þér ekki, Good?“

„Jú, jú,“ bætti kapteinninn við „Við höfum, allir þrír, vanist við að mæta hættum augliti til auglitis og verja líf okkar á ýmsan hátt, svo að það sæti illa á okkur að renna nú.“

„Og nú sting ég upp á, að við förum ofan í drykkjustofuna og athugum legu þessa staðar á hnettinum og sjáum hvernig fer. Og við gerðum það – gegnum botninn á staupi.“

Næsta dag stigum við á land, og ég fór með Sir Henry og Good kapteini upp að litla kofanum, sem ég hafði reist á Beroa, og sem ég kallaði heimili mitt. Það eru ekki nema 3 herbergi og eldhús í honum, og hann er byggður úr grænum múrsteini með rafmögnuðu járni á þakinu, en það er góður garður við kofann með þeim bestu loquottrjám, sem ég þekki, og þar eru nokkur ljómandi falleg mangotré, sem ég geri mér miklar vonir um. Umsjónarmaðurinn í plöntugarðinum gaf mér þau. Einn af mínum gömlu veiðimönnum sér um garðinn. Hann heitir Jack, og blauður vísundur í Síkúkúnislandi braut svo illilega á honum lærið, að hann fer aldrei á veiðar aftur. En hann getur fengist við leirkerasmíðar og garðyrkju. Því að hann á kyn sitt að rekja til Griqua. Zúlúar fást aldrei til að hirða mikið um garðyrkju. Það er friðsamleg list, og friðsamlegar listir eiga ekki vel við þá pilta.

Sir Henry og Good sváfu í tjaldi, sem reist hafði verið í litla appelsínulundinum mínum í endanum á garðinum (því að það var ekkert pláss fyrir þá í húsinu) og þegar komu saman lyktin af blómunum og sjógrænu, gullnu ávaxtanna (því í Dúrban sér maður allt þetta þrennt til saman á trénu) er ég viss um, að það er nógu viðunanlegur staður, einkum þar sem flugur eru hér ekki miklar, nema þegar kemur óvanalega mikil regnskúr.

Nú, svo ég komist áfram – því ef ég geri það ekki, verðið þér leiðir á sögunni minni áður en við komumst til Súlímansfjalla – þá skal þess getið, að strax og ég hafði ráðið við mig að fara, þá fór ég að undirbúa nauðsynjar okkar. Fyrst fékk ég skuldbindingarskjalið hjá Sir Henry, þar sem ákveðið var, hvað drengurinn minn skyldi fá, ef mér hlekktist á. Það gekk nokkuð örðugt að fá það í löglegt form, þar eð Sir Henry var ókunnugur hér, og eignin, sem um var að ræða, var hinum megin hafsins, en loksins komumst við út úr því með aðstoð málafærslumanns eins, sem setti £20 fyrir viðvikið – sem mér þótti skammarlega dýrt. Svo fékk ég mína ávísun upp á £500. Eftir að varkárni minni hafði verið goldinn þessi skattur, keypti ég vagn og uxapar fyrir Sir Henry, og hvortveggja var ágætt. Það var tuttugu og tveggja feta vagn með járnöxlum, mjög sterkur, mjög léttur og allur úr „ilm-viði“. Hann var ekki alveg nýr, því að farið hafði verið með hann til Demantsvallanna og heim aftur, en eftir því, sem mér fannst, var hann betri fyrir bragðið, því að sjá mátti að viðurinn í honum var vel þurr. Ef nokkuð ætlar að láta undan á vögnunum, eða ef nýr viður er í þeim, þá sést það í fyrstu ferðinni. Yfir honum var það, sem við köllum „hálftjald“, það er að segja ekki nema tólf fetin aftan af honum voru með tjaldi yfir sér, en allur fremri parturinn var opinn og ætlaður nauðsynjum þeim, sem við urðum að flytja með okkur. Í aftari partinum var rúm úr húðum, þar var og röð af snögum til að hengja á kúlubyssur og mörg önnur smáþægindi. Ég gaf £125 fyrir vagninn og áleit hann hafa verið ódýran fyrir það verð. Svo keypti ég 20 ágæta reynda Zúlúuxa, sem ég hafði haft augastað á í eitt eða tvö ár. Vanalega er 16 uxum ætlað að draga vagninn, en ég hafði fjóra umfram, til þess að vera viðbúinn, ef eitthvað kynni út af að bera. Þessir Zúlúuxar eru litlir og léttir, ekki nema helmingur á við Africandauxana, sem vanalega eru hafðir til að flytja vörur; en þeir lifa þar, sem Africandarnir drepast úr hungri, og hafi þeir létt hlass, fara þeir fimm mílum lengra á dag, því að þeir eru viljugri, og þeim er ekki eins hætt við að verða sárfættir.

Meira var þó um það vert, að þessir uxar voru fullreyndir, því að það hafði verið farið með þá um alla Suður-Afríku, og þannig hafði fengist tiltölulega mikil sönnun fyrir því, að þeir þyldu rauða vatnið, sem drepur svo oft alla þá uxa, sem menn hafa meðferðis, þegar þeir koma á graslendi, þar sem þeir hafa ekki áður verið. Og lungnaveiki, sem er hræðileg tegund af lungnabólgu, og mjög rík í þessu landi, hafði þeim verið „sett“. Það er gert með því að skorinn er skurður í halann á uxunum, og svo er haldið þar við stykki af veiku lunga úr dýri, sem drepist hefur úr veikinni. Afleiðingarnar verða þær, að uxinn veikist, fær mildari tegund af sýkinni, svo dettur halinn af, svo að eftir verður vanalega aðeins fet af honum, og svo verður dýrinu óhætt fyrir veikinni framvegis. Það virðist vera harðýðgislegt, að svipta skepnuna halanum, einkum í landi, þar sem svo margar flugur eru, en það er betra að leggja halann í sölurnar og halda eftir uxanum, heldur en að missa bæði halann og uxann, því að uxalaus hali er ekki mikils virði, nema til að þurrka af ryk með honum. En samt sem áður er eitthvað óviðkunnanlegt við að horfa aftan á 20 stúfa, þar sem halar hefðu átt að vera. Það er líkast því sem náttúrunni hefði orðið dálítin misgáningur á og sett skrautið, sem annars hefði átt að vera aftan á nokkrum bolabítum aftan á uxana.

Næst lá það fyrir, að sjá sér fyrir vistum og lyfjum. Það þurfti að gerast með nákvæmustu umhugsun og varasemi, því að bæði þurfti að varast að fylla vagninn með því, sem hjá varð komist, og þó mátti ekkert skilja eftir af því, sem var allsendis óhjákvæmilegt. Til allrar hamingju kom það upp úr kafinu að Good var dálítið brot úr lækni, því að einhvern tíma á fyrri árum sínum hafði honum tekist að fá læknisfræðislega þekking, sem hann hafði meira eða minna haldið við. Hann hafði auðvitað ekki lækningaleyfi, en hann bar meira skynbragð á þess konar, eins og við komumst að seinna, en margur maður, sem getur ritað dr. aftan við nafnið sitt, og hann hafði ágætan ferðakassa undir meðul, og hin bestu læknisverkfæri. Meðan við vorum í Dúrban, tók hann stóru tána af Kafír einum og fórst það svo vel, að ánægja var að horfa á það. En hann varð alveg steinhissa, þegar Kafírinn, sem setið hafði og glápt á skurðinn eins og naut á nývirki, bað hann að setja á sig aðra tá, og sagði að ef ekki væri annað fyrir hendi, þá mætti hún vera hvít.

Þegar þessum atriðum var viðunanlega ráðið til lykta, þurfti enn fremur að íhuga tvö mikilsvarðandi málefni: vopnabúnaðinn og þjóna. Að því er vopnunum viðkemur, get ég ekki betur gert, en skrifa upp lista af þeim, sem við réðum loks af að velja úr hinu mikla vopnabúri, sem Sir Henry hafði flutt með sér frá Englandi, og þeim, sem ég hafði. Ég skrifa listann upp úr vasabók minni, ég hafði fært hann inn í hana upphaflega.

Þrjár þungar fílabyssur, aftanhlaðningar, hver þeirra var hér um bil 15 punda þung, og tók ellefu „drams“ af púðri. Tvær af þeim voru frá alþekktum byssusmiðum í London, en ég veit ekki, hvaðan mín var, enda var hún ekki eins prýðilega gerð. Ég hafði notað hana á æði mörgum ferðum og skotið allmarga fíla með henni, og hún hafði ávallt reynst ágætt vopn, sem skilyrðislaust mátti reiða sig á.

Þrjár tvíhleyptar „express“-byssur, sem fluttu 500 metra og tóku sex „drams“, góð vopn og aðdáanlega hentug til þess að skjóta með meðallagi stór dýr eins og antilópur, eða menn, einkum úti á víðavangi með hálfholum kúlum.

Eina tvíhleypta „Centrums“ haglabyssu, nr. 12, frá, Keeper, þessi byssa gerði oss hið mesta gagn síðar, því að við skutum með henni smádýr okkur til matar.

Þrjár „repeter“-byssur frá Winchester, sjaldgæfar byssur.

Þrjár Colts skammbyssur með mjög þungum skotum.

Þetta var allt okkar vopnabúr, og lesandinn mun vafalaust taka eftir því, að byssurnar af hverri tegund fyrir sig, voru búnar til af sömu smiðum og jafnvíðar, svo að hvert skot átti jafnt við þær allar, og var það mjög mikils virði. Ég kem ekki með neinar afsakanir fyrir því að hver reyndur veiðimaður mun kannast við það, hve áríðandi er fyrir slíkar ferðir að vera vel búinn að byssum og skotfærum.

Ég kem nú til manna þeirra, sem með okkur áttu að fara. Eftir að við höfðum oft ráðgast um það hver við annan, kom okkur saman um, að þeir skyldu ekki vera fleiri en fimm, þ.e.a.s. ökumaður, leiðsögumaður og þrír þjónar.

Ökumanninn og leiðsögumanninn fékk ég án mikilla vafninga, það voru tveir Zúlúar. Ökumaðurinn hét Goza og leiðsögumaðurinn Tom, en þjónana var örðugra að fá. Það var nauðsynlegt að allsendis óhætt væri að reiða sig á þá, og að þeir væru hugprúðir menn, því að eins og hér stóð á, gat líf okkar verið undir þeim komið. Loksins náði ég í tvo; annar var Hottintotti og var kallaður Ventvogel (vindfugl) og hinn var lítill Zúlúi, og hét Khiva. Þeir höfðu þann kost að tala ensku vel. Ventvogel hafði ég áður þekkt. Hann var einn af ágætustu „spoorers“ (menn, sem eru naskir að finna veiðidýr), sem ég hef nokkurn tíma kynnst við og seigur eins og svipuskaft. Það var eins og hann þreyttist aldrei. En hann hafði einn galla, sem er svo algengur meðal þjóðflokks hans. Hann var drykkfelldur, næði hann í flösku af groggi, þá mátti ekkert reiða sig á hann. En af því að veitingahús lágu ekki á leið okkar, þá gerði þessi veikleiki hans ekki svo mikið til.

Eftir að ég hafði fengið þessa tvo menn, leitaði ég fyrir mér eftir þeim þriðja, en fékk engan eins og ég þurfti á honum að halda, svo að við afréðum að leggja af stað án hans, í því trausti, að við mundum rekast á einhvern hæfan mann á leiðinni upp í landið. En kveldið áður en við ætluðum að leggja af stað, sagði Búlúinn Khiva mér, að maður væri kominn, sem vildi finna mig. Ég sagði honum því að koma með manninn inn, þegar við höfðum borðað miðdegismat, því að við sátum þá að borðum. Inn kom þegar mjög hár maður, laglegur, hér um bil 30 ára gamall og mjög bjartur yfirlitum, af zúlúskum manni að vera. Hann lyfti upp kvistaprikinu sínu til að heilsa mér, settist á hækjur sínar úti í horni og steinþagði. Ég skipti mér ekkert af honum nokkra stund, því að það er mikil yfirsjón að fara svo að. Ef nokkur byrjar viðstöðulaust á samræðu, þá er Zúlúum hætt við að halda, að lítið kveði að þeim manni, og að hann sé ógætinn. Ég tók þrátt fyrir það eftir því, að hann var keshla, það er að segja hann hafði á höfðinu svarta, hringinn, sem gerður er úr vissri tegund af viðarkvoðu, fægður með fitu og festur inn í hárið. Zúlúarnir fara venjulega að setja þennan hring upp, þegar þeir hafa náð vissum aldri eða metorðum. Mér fannst líka eins og ég kannast við andlitið á honum.

„Jæja,“ sagði ég loksins, „hvað heitir þú?“

„Umbopa,“ svaraði maðurinn hægt og með djúpri rödd.

„Ég hef séð þig áður.“

„Já, inkosinn“ (höfðinginn) „sá andlit mitt að Litluhönd“ (Isandhlevan) „daginn fyrir bardagann.“

Þá kannaðist ég við hann. Ég hafði verið einn af leiðsögumönnum Chelmsfords lávarðar í Zúlústríðinu, vansællar minningar, og hafði verið svo heppinn að fara frá herbúðunum, af því að mér hafði verið falið á hendur að sjá um nokkra vagna, daginn fyrir bardagann. Meðan ég hafði verið að bíða eftir því, að uxunum yrði beitt fyrir vagninn, hafði ég farið að tala við þennan mann, sem var einhver lægri yfirmaður meðal innlendu hjálparsveitarinnar, og hann hafði látið í ljósi við mig, að honum þætti vafasamt að herbúðunum væri óhætt. Þá hafði ég sagt honum að halda sér saman, og láta sér vitrari menn sjá fyrir slíkum málum, en síðar hugsaði ég oft til orða hans.

„Ég man það,“ sagði ég. „Hvað er þér á höndum?“

„Það er þetta, Macúmazahn“ (það er nafn mitt meðal Kafíranna og þýðir: maður sem fer á fætur um miðjar nætur, eða á almennri ensku: sá, sem heldur opnum á sér augunum). „Ég heyri sagt að þú ætlir í langa ferð, langt til norðurs, með hvítu höfðingjunum frá löndunum, sem er hinum megin við vatnið. Er það satt?“

„Já.“

„Ég heyri sagt, að þú ætlir enda að fara til Lúkangafljótsins, mánaðarferð frá Manicalandi. Er það líka satt, Macúmazahn?“

„Hvers vegna spyrðu um, hvað við ætlum að fara? Hvað kemur það þér við?“ svaraði ég, og þótti þetta tortryggilegt, því að fyrirætlan okkar um ferðina hafði verið leynt mjög vandlega.

„Mér kemur það við, þið hvítu menn, að ef þið ætlið raun og veru að fara svona langt, þá vildi ég fara með ykkur.“

Það var einhver þóttafullur tíguleikur, sem mér fannst til um, í því, hvernig maðurinn fór að tala, og einkum kom hann fram í orðunum „þið hvítu menn“, í staðinn fyrir inkosis (höfðingjar).

„Þú hleypur dálítið á þig,“ sagði ég. „Þú gætir ekki að, hvað þú segir. Svona á ekki að tala. Hvað heitirðu og hvar eru átthagar þínir? Segðu okkur það, svo að við vitum við hvern við eigum.“

„Ég heiti Umbopa. Ég heyri Zúlúþjóðinni til og heyri henni þó ekki til. Stöðvar kynflokks míns eru langt norður frá. Zúlúarnir fóru framhjá þeim, þegar þeir fóru hingað suður fyrir þúsund árum síðan, löngu áður en Chaka ríkti í Zúlúlandi. Ég á enga átthaga. Ég hef reikað um í mörg ár. Ég kom norðan að sem barn til Zúlúlands. Ég var í liði Cetywayos í Nkomabakosi herdeildinni. Ég strauk frá Zúlúlandi og kom til Natal, af því að mig langaði til að sjá háttu hvítra manna. Svo barðist ég móti Cetywayo í stríðinu. Síðan hef ég unnið fyrir mér í Natal. Nú er ég þreyttur og vildi fara norður aftur. Hér á ég ekki heima. Ég kæri mig ekkert um peninga, en ég er hugprúður maður, og það rúm er ekki óskipað, sem ég er í, og ég vinn fyrir mat mínum. Meira hef ég ekki að segja.“

Mér þótti þessi maður nokkuð kynlegur og eins það, hvernig hann talaði. Mér duldist það ekki, að hann mundi segja að mestu leyti satt, en hann var einhvern veginn allt öðruvísi, en Zúlúar eru vanir að vera, og ég var ekki laus við að tortryggja tilboð hans um að fara með okkur borgunarlaust. Af því að ég var í vandræðum þýddi ég orð hans fyrir Sir Henry og Good, og spurði þá, hvað þeim sýndist. Sir Henry sagði, að ég skyldi biðja hann að standa upp. Umbopa gerði það og brá um leið af sér síðu hermannaskikkjunni, sem hann var í. Hann var nakinn innanundir, nema hvað hann hafði belti um mitti og keðju um hálsinn úr ljónaklóm. Hann var sannarlega íturlegur ásýndum. ég hef aldrei séð fegurri Afríkumann. Hann var hér um sex fet og þrír þumlungar á hæð, eftir því gildur og mjög vel vaxinn. Í því ljósi, sem þar var inni, var hörundslitur hans líka naumast dekkri en Suður-Evrópumanna, nema á einstaka stað, þar sem djúp, svört ör voru eftir gömul axarsár. Sir Henry gekk til hans og leit framan í djarfmannlega, fallega andlitið hans.

„Þeir eiga vel saman, finnst yður ekki?“ sagði Good, „hvor öðrum stórvaxnari.“

Ég kann vel við augnaráð yðar, Mr. Umbopa, og ég vil taka yður sem þjón minn, sagði Sir Henry á ensku.

Umbopa skildi hann auðsjáanlega, því að hann svaraði á zúlúsku: „Gott og vel“ og svo leit hann á hinn háa og þrekvaxna hvíta mann og sagði um leið: „Við erum karlmenn, þú og ég.“


IV. KAPITULI. - FÍLAVEIÐIN.

Það er ekki áform mitt að segja nákvæmlega frá öllu, sem við bar á okkar löngu ferð til Sitandas Kraal, sem er nálægt ármótum Lukanga- og Kalukwe-fljótanna. Það er meir en 1,000 mílna leið frá Dúrban, og síðustu 300 mílurnar, eða þar um bil, urðum við enda að fara fótgangandi, af því að þar var svo mikið af hinum voðalegu tsetseflugum, eins og kunnugt er, bíða öll dýr bana af stungum þeirra, nema asnar og menn.

Við fórum frá Dúrban um lok janúarmánaðar, og það var í annarri viku maímánaðar, að við tjölduðum nálægt Sitandas Kraal. Við rötuðum í mörg og misjöfn ævintýri á þessari leið, en af því að þau voru samkyns þeim ævintýrum, sem koma fyrir hvern einasta, afríkanskan veiðimann, þá ætla ég ekki að geta þeirra hér – að undanteknu einu þeirra, sem ég mun þegar skýra frá nákvæmlega – því að annars mundi þessi saga verða of þreytandi.

Í Inyati skildum við við vagninn okkar þægilega með söknuði. Inyati er ysta, verslunarstöðin í Matabelelandi, sem Lobengula (mesti þorpari) er konungur yfir. Af þessum 20 ágætu uxum, sem ég hafði keypt í Dúrban, áttum við ekki eftir nema 12. Einn höfðum við misst þannig, að kóbraslanga beit hann, þrír höfðu drepist úr hungri og þorsta, einum höfðum við týnt, og hinir höfðu drepist af að éta eiturplöntu sem kölluð er tulip. Fimm aðrir veiktust af þessari sömu orsök, en okkur tókst að lækna þá með því að gefa þeim inn seyði af tulipblöðum. Þegar það er notað í tíma, er það ágætt móteitur. Til þess að gæta vagnsins og uxanna settum við Goza og Tom, ökumanninn og leiðsögumanninn, sem báðir voru áreiðanlegir piltar, og heiðvirðan skoskan trúboða, sem bjó í þessum óbyggðum, báðum við að gefa þeim auga. Svo lögðum við af stað fótgangandi í þessa hættulegu leit. Með okkur fóru Umbopa, Ventvogel og Khiva og sex burðarmenn, sem við fengum þar á staðnum. Ég man eftir, að við þögðum allir, þegar við lögðum upp, og ég held, að allir höfum við verið að hugsa um, hvort við mundum nokkurn tíma sjá þennan vagn aftur. Ég fyrir mitt leyti bjóst ekki við því. Stundarkorn gengum við þegjandi, þangað til Umbopa, sem gekk á undan, fór að syngja zúlúskan söng um einhverja hrausta menn, sem voru þreyttir á lífinu og því, hve allir hlutir voru felltir og smeltir, og lögðu út í mikla eyðimörk til þess að finna eitthvað nýtt eða deyja, og kvæðið sagði frá því, að – nú kemur nokkuð merkilegt – þegar þeir höfðu komist langt inn í eyðimörkina, þá urðu þeir þess varir, að þetta var alls ekki eyðimörk, heldur yndislegt land, fullt af ungum konum og feitum kvikfénaði, af dýrum til að veiða og óvinum til að drepa.

Þá hlógum við allir, og okkur þótti þetta góðs viti. Hann var glaðlyndur þessi Umbopa, og kæti hans kom fram á tígulegan hátt, þegar hann lenti ekki í heilabrotum, sem honum var hætt við, og hann hafði dásamlegt lag á að halda við hjá okkur hugrekkinu. Okkur fór öllum að þykja mjög vænt um hann.

Og nú ætla ég að byrja á ævintýrinu, sem ég ætlaði að gæða sjálfum mér á, því að mér þykir innilega gaman að segja veiðisögur.

Eftir hér umbil fjórtán daga ferð frá Inyati, lá leið okkar yfir sérlega fagran, vatnsauðgan, skógivaxinn landfláka. Drögin í hæðunum voru þakin þéttum runnum, idororunna kalla þarlendir menn þá, og á sumum stöðum voru watcheen-beche-þyrnir, og þar var mikið af hinum yndislegu machabelletrjám, hlöðnum hressandi, gulum ávöxtum með feikistórum steinum. Þessi tré eru uppáhaldsmatur fílanna, og það vantaði ekki merki þess, að þessi miklu villidýr væru þar í nágrenninu, því að það var ekki aðeins, að spor þeirra væru víða, heldur voru trén á mörgum stöðum brotin og enda rifin upp með rótum. Fíllinn er átvagl og skemmir ósköpin öll.

Eitt kveld komum við á sérlega yndislegan stað, og höfum þá gengið allan daginn. Neðan við kjarrvaxna hæð var þurr lækjarfarvegur, þó voru í honum pollar af kristalstæru vatni, og fram með honum voru hvarvetna spor eftir veiðidýr. Á móti hæðinni var sléttan, lík blómagarði. Þar uxu hnappar af mímósum, flötum að ofan, og hér og þar voru, svo sem til tilbreytingar, machabellurnar með gljáandi blöðunum, og allt í kring var hið mikla haf af veglausum þöglum kjörskógi.

Þegar við komum fram úr þessum lækjarfarvegi, þá styggðum við allt í einu flokk af háum gíröffum, sem stukku eða öllu heldur sigldu á stað með þessu undarlega göngulagi, sem þeim er eiginlegt, halana eins og skrúfur upp yfir hryggina og klaufirnar glamrandi líkt og handsmellur við dansleiki. Þeir voru hér um 150 faðma frá okkur og voru því í raun og veru ekki í skotfæri, en Good, sem gekk á undan, og hélt „expressbyssu“, hlaðinni þungri kúlu, gat ekki stillt sig, heldur bar byssuna upp að auganu og miðaði á það dýrið, sem síðast fór, ungt kvendýr. Af einhverri sérstakri tilviljun hitti kúlan rétt á hálsinn á dýrinu og sprengdi mænuna, og sá gíraffi steyptist á hausinn alveg eins og kanína. Ég hef aldrei séð skrítnari sjón.

„Hver fjandinn!“ sagði Good – því að þó að mér þyki það leiðinlegt, verð ég að kannast við, að honum hætti við að viðhafa stóryrði, þegar hann var í geðshræringu – hann hefur vafalaust vanist á það á sjómannsárum sínum. „Hver fjandinn! Ég hef drepið hann.“

„Ó, Bougwan!“ hrópuðu Kafírarnir upp yfir sig, – „ó, ó!“ Þeir kölluðu Good „Bougwan“ (glerauga), vegna glersins, sem hann hafði fyrir auganu.

„Ó, Bougwan!“ kölluðum við líka upp, Sir Henry og ég og frá þeim degi hafði Good einstakt orð á sér fyrir að vera framúrskarandi skytta, að minnsta kosti meðal Kafíranna. Í raun og veru var hann klaufi, en þegar hann hitti ekki, þá létum við eins og við sæjum það ekki vegna þessa gíraffa.

Eftir að við höfðum sett nokkra af „piltunum“ til þess að skera besta ketið af gíraffanum, fórum við að hlaða schrem nálægt einum pollinum, hér um bil 50 faðma frá honum. Það er gert með því að sníða af allmikið af þyrnirunnum og hlaða þeim upp í hringmyndaða girðingu. Það sem verður innan girðingarinnar, er sléttað, og sé þurrt tamboukigras fáanlegt er það lagt innan í og svo kveikt í á einum eða fleiri stöðum.

Um það leyti sem við höfum lokið við schreminn, kom tunglið upp, og miðdagsmatur okkar, gíraffasteikin og steiktir mergjarleggir, var fram reiddur. Hvað okkur geðjaðist vel að þessum mergjarleggjum, þó það væri ekki hlaupið að því að mölva þá. Ég þekki ekkert meira sælgæti en gíraffamerg, nema ef það skyldi vera fílshjarta, og það höfðum við morguninn eftir. Við átum okkar einföldu máltíð í tunglsbirtunni, og létum hlé verða á máltíðinni við og við til þess að þakka guði fyrir þetta dásamlega skot, og svo fórum við að reykja og rabba. Og skrítið hlýtur að hafa verið að sjá okkur þarna kringum eldinn. Ég og Sir Henry vorum nokkuð ólíkir, ég með stutt, gráleitt hár, sem stóð beint upp, og Sir Henry með sína gulu lokka, sem voru farnir að verða nokkuð langir, en einkum var þó munurinn innifalinn í því, að ég er grannur og lágur, og dökkleitur á hörund, og veg ekki nema 136 pund, en Sir Henry er hár og þrekinn og bjartleitur og vegur 210 pund. En ef til vill var þó kapteinn John Good, R.N., skrítnastur af okkur þremur, þegar alls var gætt. Þar sat hann á leðurpoka, og var ekki að sjá á honum annað en að hann hefði komið af fyrirhafnarlitlum veiðum í menntuðu landi. Tárhreinn var hann, snyrtilegur og vel búinn. Hann var í veiðifötum, úr móleitu tweedefni, með hatt, sem átti við fötin, og var í laglegum leistabrókum. Hann var eins og hann var vanur, ágætlega rakaður, gleraugað hans og lausatennurnar virtust vera í bestu reglu, og yfir höfuð var hann sá snyrtilegasti maður, sem ég hef nokkurn tíma komist í tæri við í óbyggðunum. Hann hafði enda flibba úr gúttaperka um hálsinn, og hann hafði mikið af þeim flibbum með sér.

„Þér sjáið, þeir eru svo léttir,“ sagði hann við mig sakleysislega, þegar ég lét í ljósi, hve steinhissa ég varð á þessu.

„Mér þykir ævinlega ánægja að líta út eins og herramaður.“

Jæja, þarna sátum við allir rabbandi í hinu yndislega tunglskini og horfðum á Kafírana, sem voru fáeina faðma frá okkur að sjúga sína áfengu daccha úr pípum, sem höfðu munnstykki úr antilópuhornum, þangað til þeir hver eftir annan vöfðu utan um sig ábreiðunum og fóru að sofa við eldinn, það er að segja allir nema Umbopa. Hann sat dálítið frá hinum (ég tók eftir, að hann skipti sér aldrei mikið af hinum Kafírunum), og hélt hendinni utan um hökuna og var auðsjáanlega í djúpum hugsunum.

Allt í einu kom innan úr runnanum á bak við okkur sterkt hljóð: „vúff, vúff!“ „Það er ljón,“ sagði ég, og við stukkum allir á fætur til að hlusta. Varla höfðum við risið á fætur, þegar við heyrðum brakandi bumbuhljóð í fíl einum. Það kom frá pollinum hér um bil 50 faðma frá, okkur. „Inkúbu! inkúbu!“ (fíll! fíll!), hvísluðu Kafírarnir, og fáum mínútum síðar sáum við halarófu af stórum, óljósum myndum færast hægt frá vatninu til runnanna. Good stökk upp, brennandi af veiðilöngun, og hélt ef til vill að það væri eins auðvelt að drepa fíl, eins og honum hafði orðið að skjóta gíraffann, en ég þreif í handlegginn á honum og þrýsti honum niður.

„Það dugar ekki,“ sagði ég, „látið þér þau fara.“

„Það lítur svo út, sem við séum í einhverri veiðiparadís. Ég legg það til, að við stöldrum hér við einn eða tvo daga og reynum við dýrin,“ sagði Sir Henry allt í einu.

Mér þótti þetta, fremur kynlegt, því að allt til þessa hafði Sir Henry viljað hraða ferðinni svo mikið sem mögulegt var, og sérstaklega eftir að við höfðum komist að því í Inyati, að hér um bil tveimur árum áður hefði Englendingur, Neville að nafni, selt vagninn sinn þar og haldið upp í landið, en ég held að veiðináttúra hans hafi fengið vald yfir honum.

Good féllst á þetta, því að hann langaði til að spreyta sig við þessa fíla, og sannast að segja var því eins varið með mig, því að það var á móti samvisku minni að láta annan eins hóp og þennan sleppa, án þess að skjóta á hann einu skoti.

„Jæja, góðirnir mínir,“ sagði ég. „Ég held við þurfum að hressa okkur dálítið. Og nú er best við förum inn, því að við ættum að vera komnir á stað í dögun, og þá getur verið að við getum náð þeim, meðan þeir eru að mat sínum, áður en þeir fara á kreik.“

Hinir féllust á þetta, og við fórum að búa okkur undir. Good fór úr fötunum, hristi þau, lét gleraugað sitt og lausatennurnar í buxnavasa sinn, braut fötin öll fallega saman og stakk þeim inn undir mackintosábreiðuna sína, til þess að ekki skyldi falla á þau dögg. Sir Henry og ég létum okkur nægja minna umstang, vöfðum ábreiðurnar utan um okkur og höfðum innan skamms sofnað þeim draumlausa svefni, sem ferðamönnunum fellur í skaut.

Þramm, þramm, þramm – hvað er þetta?

Allt í einu heyrðist úr þeirri átt, sem vatnið var, gauragangur, eins og flogist væri á í ákafa, og næsta augnablik eftir komu hræðileg org, hvert eftir annað, sem ætluðu að rífa sundur á okkur eyrun. Það gat ekki verið um að villast, hvaðan þau komu. Það gat engin skepna nema ljón gert annan eins hávaða. Við stukkum allir á fætur og litum til vatnsins. Í stefnunni þangað sáum við ógreinilega þústu, gula og dökka á lit, skjögrandi, sem stritaðist við að komast áfram í áttina til okkar. Við tókum byssur okkar, og létum upp veldtschoona (skór úr ósútuðu leðri) og hlupum út úr byrginu að þústinni. Þá var hún oltin um og byltist fram og aftur á jörðinni, og þegar við komum að henni, streittist hún ekki lengur neitt, heldur lá grafkyrr.

Nú sáum við hvað þetta var. Þarna í grasinu lá, sabelantilópa, karldýr – þessi tegund er fegurst allra antilóputegunda í Afríku – steindauð, og ofan á henni lá fagurt, svartfext ljón, lagt í gegn af stóru bognu hornunum antilópunnar, og var líka dautt. Þetta hafði auðsjáanlega viljað til á þann hátt, sem nú skal greina. Antilópan hafði leitað ofan að pollinum til þess að fá sér að drekka, og ljónið – vafalaust það sama, sem við höfum áður heyrt til – hafði legið þar í launsátri. Meðan antilópan var að drekka, hafði ljónið stokkið á hana, en hefur lent á hvössu, bognu hornunum á henni, og þau hafa rekist í gegnum það. Ég hef einu sinni séð þetta vilja til áður. Ljónið gat ekki losað sig og hafði því rifið og bitið í hrygginn og hálsinn á antilópunni, sem svo hafði þotið stað, æðisgengin af hræðslu og kvölum, þangað til hún datt niður dauð.

Þegar við höfðum virt hin dauðu dýr fyrir okkur eins lengi og okkur langaði til, kölluðum við á Kafírana, og okkur tókst að draga skrokkana af þeim upp að byrginu. Svo fórum við inn og lögðumst niður, og vöknuðum ekki fyrr en dagur rann.

Þegar lýsti af degi vorum við komnir á fætur og vorum að búa okkur undir bardagann.

Við fórum með allar þrjár fílabyssurnar, drjúgan forða af skotfærum og stóru vatnsflöskurnar okkar, fylltar daufu, köldu tei, sem mér hefur jafnan reynst besti drykkur til að fara á veiðar með. Eftir að við höfðum etið í snatri ofurlítinn morgunmat, lögðum við af stað, og Umbopa, Khiva og Ventvogel fóru með okkur. Hina Kafírana skildum við eftir og sögðum þeim að flá ljónið og antilópuna, og lima antilópuna sundur.

Okkur veitti ekki örðugt að finna breiða fílastiginn. Ventvogel skoðaði hann nákvæmlega og sagði að hann væri eftir milli 20 og 30 fíla, og þar af væru flestir fullorðnir og karldýr. En hópurinn hafði farið nokkuð langt um nóttina, og klukkan var orðin 9 og orðið mjög heitt, þegar við vissum að ekki mundi vera langt eftir til hans, en það réðum við af brotnum trjám, af rifnum blöðum og berki og rjúkandi mykju, sem varð á vegi okkar.

Rétt á eftir sáum við hópinn, og í honum voru eins og Ventvogel hafði sagt, milli 20 og 30 fílar. Þeir stóðu í dæld einni, höfðu verið að ljúka við að éta morgunmatinn, og stóru eyrun á þeim gengu fram og aftur. Það var fögur sjón.

Þeir voru hér um bil 100 faðma frá okkur. Ég tók lúkufylli mína af þurru grasi og kastaði því upp í loftið til þess að sjá, hvaðan golan væri. Því að ég vissi, að ef þeir fengju veður af okkur, þá mundu þeir verða allir á burtu áður en við kæmumst í skotfæri við þá. Við komumst að því, að ef golan var annars nokkur, þá var hún frá fílunum á móti okkur. Við laumuðumst því hægt áfram, og vegna þess hve kjarrið var þétt tókst okkur að komast svo nærri hinum stóru dýrum, að við áttum ekki til þeirra nema 20 faðma eða þar um bil. Rétt fram undan okkur stóðu þrjú ljómandi karldýr, og eitt þeirra hafði feikilega miklar höggtennur. Ég hvíslaði að hinum, að ég skyldi taka þann að mér, sem í miðjunni var. Sir Henry skyldi eiga við þann til vinstri og Good skyldi skjóta á dýrið með miklu höggtönnunum.

„Nú,“ hvíslaði ég.

Búmm! búmm! búmm! og skotin sentust út úr öllum þremur þungu kúlubyssunum, og fíll Sir Henrys valt um steindauður, skotinn gegnum hjartað. Minn fíll féll á kné, og ég hélt hann væri kominn að bana, en hann brölti aftur á fætur og þaut rétt framhjá mér. Um leið sendi ég honum aðra kúlu inn á milli rifbeinanna, og þá datt hann um í alvöru. Í einni svipan lét ég tvær nýjar patrónur í byssuna, hljóp rétt að fílnum, sendi kúlu gegnum heilann á honum og við það lauk helstríði vesalings dýrsins. Þá sneri ég mér við til þess að sjá, hvernig Good hefði gengið með stóra fílinn, sem ég hafði heyrt grenja af reiði og kvölum um það leyti, sem ég var að gera út af við mitt dýr. Þegar ég náði í kapteininn, var hann í mikilli geðshræringu. Það virtist svo sem fíllinn hefði snúið sér við, þegar kúlan hitti hann og þotið beint móti þeim, sem skotið hafði á hann. Good hafði svo aðeins getað komið því við að víkja sér undan. Fíllinn hafði svo í æðisblindninni þotið framhjá honum í áttina til farangurs okkar. Meðan á þessu stóð hafði hópurinn þotið af stað í aðra átt með mesta hávaða og vitlaus af hræðslu.

Stundarkorn þinguðum við um, hvort við ættum að fara á eftir særða fílnum eða hópnum, að lokum afréðum við að fara á eftir hópnum og lögðum svo á stað og héldum að við mundum aldrei sjá neitt meira af þessum stóru höggtönnum. Ég hef oft óskað síðan að svo hefði farið. Það var létt verk að rekja spor fílanna, því að eftir þá lá braut, líkust akbraut, og á æðisflótta sínum höfðu þeir marið undir fótum sér þétta runnana, eins og væru þeir tamboukigras.

En það var mun örðugra að ná þeim, og við höfðum stritast í steikjandi sólarhitanum meir en tvo tíma, áður en við fundum þá. Þeir stóðu allir í hnapp, að undanteknu einu karldýri, og gat ég séð á óróanum, sem á þeim var, og á því, hvernig þeir lyftu upp rönunum til þess að rannsaka loftið, að þeir voru varir um sig fyrir nýjum ófriði. Einstaki fíllinn stóð 25 faðma eða um það bil okkar megin við hópinn, og hér um bil sextíu faðma frá okkur. Hann stóð þar auðsjáanlega á verði. Við héldum að hann mundi bráðlega sjá okkur, eða hafa veður af okkur, og allur hópurinn mundi að líkindum leggja aftur á stað, ef við reyndum að komast nær þeim, einkum af því að á þessu svæði var fremur skóglítið. Við miðuðum því allir á þetta dýr, ég hvíslaði að þeim, hvenær skjóta skyldi og svo hleyptum við af.

Öll þrjú skotin hittu, og fíllinn féll dauður til jarðar. Aftur þaut hópurinn á stað, en til allrar óhamingju varð fyrir honum nullah, eða þurr lækjarfarvegur, með bröttum bökkum, þegar hann var kominn svo sem 50 faðma, þessi staður var mjög líkur staðnum, þar sem keisara-prinsinn var drepinn í Zúlúlandi. Fílarnir steyptust þarna niður, og þegar við komum á brúnina, sáum við að þeir voru að stritast við að komast upp á hinn bakkann og flæktust hver fyrir öðrum. Loftið kvað við af grenji þeirra, og þeir hrundu hver öðrum til hliðar í sjálfselskufulla felmtrinu, sem á þeim var, alveg eins og þeir væru mannlegar verur. Nú var gott færi fyrir okkur, og við hleyptum af eins ótt og títt eins og við gátum hlaðið og drápum fimm af vesalings dýrunum, og við hefðum vafalaust gert út af við allan hópinn, ef fílarnir hefðu ekki allt í einu hætt við að reyna að klifrast upp brekkuna og þotið ofan eftir skorningnum allt hvað af tók. Við vorum of þreyttir til að elta þá, og ef til vill líka dálítið leiðir á drápunum, enda voru átta fílar dágóð veiði eftir einn dag.

Eftir að við höfðum svo hvílt okkur dálítið, og Kafírarnir höfðu skorið hjörtun úr tveimur dauðu fílunum, – við ætluðum að hafa þau til morgunverðar, – þá lögðum við af stað heimleiðis, mjög ánægðir með sjálfa okkur, og höfðum þegar afráðið að senda burðarmennina á stað næsta morgun til þess að höggva tennurnar úr fílunum.

Skömmu eftir að við höfðum farið framhjá staðnum, þar sem Good hafði sært fílinn æruverða, fórum við framhjá hóp af eland-antilópum, en við skutum ekki á þær, af því að við höfðum nóg af keti fyrir. Þær brokkuðu framhjá okkur, námu svo staðar bak við dálítinn kjarrrunna og sneru sér við til þess að gæta að okkur. Good langaði til að sjá þær nærri, því að hann hafði aldrei séð þessa antilóputegund nema tilsýndar. Hann rétti Umbopa byssuna sína og gekk með Khiva í hægðum sínum að runnanum. Við settum okkur niður og biðum eftir honum, og okkur þótti ekkert að því að fá þannig tilefni til að hvíla okkur dálítið.

Sólin var rétt að setjast í rauðustu geisladýrð sinni, og Sir Henry og ég vorum að dást að þessari yndislegu sjón, þá heyrðum við allt í einu fílsöskur, og sáum risavaxinn og reiðilegan fílsskrokk bera eins og svarta skuggamynd við stóru, rauðu sólskífuna. Næsta augnablik sáum við nokkuð annað, og það voru þeir Good og Khiva, sem komu þjótandi til okkar með særða fílinn (því að þetta var hann) á hælunum á sér. Eitt augnablik þorðum við ekki að hleypa af – en annars hefði það verið til lítils, því að við vorum of langt frá, – við vorum hræddir um, að við kynnum að hitta annan hvorn þeirra, og næsta augnablik kom voðalegur atburður fyrir – ástríða Goods fyrir fötum siðaðra þjóða varð honum til falls. Hefði hann fengist til að fara úr buxunum, eins og við höfðum gert, og vera á veiðum í ullarskyrtu einni og með skóna úr ósútaða skinninu á fótunum, þá hefði allt farið vel, eins og hann var nú klæddur, þá töfðu buxurnar fyrir honum í þessu óttalega veðhlaupi, og þegar hann var hér um bil 30 faðma frá okkur, þá rann hann allt í einu til á stígvélunum, sem voru orðin glerhál af þurra grasinu, og hann stakkst á höfuðið rétt fyrir framan fílinn.

Við stundum við, því að við vissum að hann hlaut að vera dauðans matur og þutum eins hart eins og við gátum til hans. Eftir þrjár sekúndur var öllu lokið, en ekki á þann veg, sem við höfðum haldið. Khiva, Zúlú-pilturinn, hafði séð herra sinn detta. Hann var hugprúður maður og hafði snúið sér við og höggvið með öxi sinni beint framan í fílinn. Hann hitti með henni á ranann.

Dýrið rak upp öskur af kvölum, tók vesalings Zúlúann, fleygði honum til jarðar, setti risavaxna fótinn ofan á hann hér um bil miðjan, vafði rananum utan um efri hluta líkama hans og reif hann svo sundur í tvo hluti.

Við þutum að, óðir af skelfingu og hleyptum af aftur og aftur, og innan skamms féll fíllinn ofan á leifarnar af Zúlúanum.

En það er af Good að segja, að hann sló höndum yfir hinum hugprúða manni, sem hafði lagt líf sitt í sölurnar til þess að frelsa hann, og þó að ég sé gamall í hettunni, þá fannst mér eins og köggull í hálsinum á mér. En Umbopa stóð og virti fyrir sér risavaxna dauða fílinn og sundurrifnu leifarnar af vesalings Khiva.

Allt í einu sagði hann: „Gott og vel, hann er dauður, en hann féll þó eins og karlmaður.“


V. KAPITULI. - FERÐIN INN Í EYÐIMÖRKINA.

Við höfum drepið níu fíla, og það gengu tveir dagar í að höggva úr þeim tennurnar og koma þeim að byrginu og grafa þær vandlega í sandinum við rætur á stóru tré, sem auðþekkt var á nokkurra mílna svæði. Við höfðum þar aflað mikils og góðs fílabeins, ég hef aldrei séð meiri feng, því að hver tönn vó að meðaltali milli 40 og 50 pund. Tennurnar úr stóra fílnum, sem hafði drepið Khiva, vógu báðar til samans 170 pund, eftir því sem við gátum komist næst.

Frá Khiva er það að segja, að við jörðuðum það, sem eftir var af honum í maurbjarnarholu og lögðum hjá honum exi hans, svo að hann gæti varið sig á leið sinni inn í betra heim. Á þriðja degi lögðum við af stað og vonuðum að okkur mætti einhvern tíma auðnast að koma þangað aftur, til þess að grafa upp aftur fílabeinið okkar. Eftir langa og erfiða göngu komumst við á þeim tíma, sem við höfðum ætlað okkur, til Sitandas Kraal, nálægt Lukanga-fljótinu, og höfðum þá ratað í mörg ævintýri, sem hér er ekki rúm til að skýra nákvæmlega frá. Sitandas Kraal er staður, sem við eiginlega lögðum upp frá í leiðangurinn. Ég man mjög vel eftir því, þegar við komum þangað. Hægra megin við okkur voru hér og þar bústaðir þarlendra manna með fáeinum nautakofum úr steini og nokkuð af ræktuðu landi, sem lá, niður við vatnið. Þar óx sá litli kornforði, sem þessir villimenn afla sér, hinum megin við akrana var stórt sléttuflæmi, þakið háu grasi, sem gekk í öldum, og um það reikuðu hópar af smáum veiðidýrum.

Vinstra megin við okkur var hin feiknastóra eyðimörk. Það var því auðséð, að þessi staður var endimark þess lands, sem nokkuð var ræktað á, og það hefði verið örðugt að segja, hvernig á því stóð, að jarðvegurinn skyldi breytast svona allt í einu. En svona var því varið. Rétt þar fyrir neðan, sem við settumst að, rann dálítil á, hinum megin við ána var grýttur hallandi, sami hallandinn, sem ég hafði séð Silvestre heitinn skríða ofan 20 árum áður, eftir að hann hafði reynt að komast til náma Salómons, og hinum megin við þann hallanda tók vatnslaus eyðimörk við, þakin vissri tegund af karookjarri. Það var um kveld, að við bjuggum þarna um okkur, og stóri, eldheiti sólhnötturinn var að sökkva niður í eyðimörkina og sendi dýrlega geisla af marglitu ljósi yfir alla þessa feiknastóru sléttu. Við létum Good sjá um, að koma okkar litlu herbúðum í lag, en ég fór með Sir Henry, og við gengum upp á brúnina á hallandanum, sem gagnvart okkur var og störðum út yfir eyðimörkina. Loftið var mjög hreint, og langt, langt burtu gat ég greint óglöggu, bláu umgjörðina á hinum miklu fjöllum Salómons, og hér og þar voru á þeim eins og hvítar húfur.

„Þarna“, sagði ég, „þarna er garðurinn utan um námur Salómons, en guð veit, hvort nokkrum á nokkurn tíma að auðnast að komast yfir hann.“

„Bróðir minn ætti að vera þar og ef hann er þar, þá skal ég komast til hans einhvern veginn,“ sagði Sir Henry á þann rólega hátt, sem lýsti svo miklu sjálfstrausti og sýndi að hann ætlaði sér það sem hann sagði.

„Ég vona það,“ sagði ég, og sneri mér við til að horfa aftur þangað, sem við höfðum sest að, en þá sá ég að við vorum ekki tveir einir. Bak við okkur stóð Búlúinn mikli, Umbopa, og starði eins og við alvarlega á fjöllin, sem sáust í fjarska.

Þegar Búlúinn sá, að við höfðum tekið eftir honum, tók hann til máls, en hann ávarpaði Sir Henry; hann hafði orðið mjög elskur að honum.

„Er það til þessa lands að þú ætlar að fara, Incubu (Fíll – það var Sir Henry kallaður á zúlúsku), sagði hann og benti til fjallanna með breiðu öxinni sinni.

Ég spurði hann þurrlega, hvers vegna hann ávarpaði herra sinn svona kompánlega. Það er þolandi, þó að villimenn kalli fólk sín á milli það og það, en ósæmilegt að þeir nefni menn sínum heiðingjanöfnum, þegar þeir eru að tala við þá. Maðurinn hló við ósköp rólega, og mér gramdist það.

„Hvernig veistu, að ég sé ekki jafn þessum Inkosi, sem ég þjóna?“ sagði hann. „Hann er vafalaust af konungaættum, ég sé það á vaxtarlagi hans og í augum hans, en það getur verið, að ég sé það líka. Ég er að minnsta kosti eins mikill maður. Ver þú munnur minn, Macumazahn, og seg þú orð mín Inkosanum Incubu, herra mínum, því að ég vildi tala við hann og þig.“

Mér var gramt í geði við manninn, því að ég er ekki vanur við, að Kafírar ávarpi mig á þessa leið, en hann náði einhverju valdi yfir mér, og auk þess var ég forvitinn að heyra, hvað hann ætlaði að segja. Ég þýddi því það, sem hann hafði sagt og lét um leið þá skoðun mína í ljósi, að hann væri ósvífinn ruddi og að glamrið í honum væri óþolandi.

„Já, Umbopa,“ svaraði Sir Henry, „ég ætla að fara þangað.“

„Eyðimörkin er stór, og þar er ekkert vatn. Fjöllin eru há og snævi þakin, og enginn maður veit, hvað hinum megin við þau er, bak við stað þann, þar sem sólin sest. Hvernig ætlarðu að komast þangað, Incubu, og hvers vegna ferðu þessa ferð?“

Ég þýddi aftur.

„Segið þér honum,“ svaraði Sir Henry, „að ég fari þessa ferð, af því að ég haldi, að maður með sama blóð í æðum eins og ég, bróðir minn, hafi farið þangað á undan mér, og að ég fari til að leita að honum.“

„Það er svo, Incubu, maður, sem ég hitti á veginum, sagði mér, að hvítur maður hefði lagt út í eyðimörkina fyrir tveimur árum í áttina til þessara fjalla, og að með honum hefði verið einn þjónn, veiðimaður. Þeir hafa aldrei komið aftur.“

„Hvernig veistu, að það hafi verið bróðir minn?“ spurði Sir Henry.

„Ég veit það sannarlega ekki. En þegar ég spurði manninn, hverjum þessi hvíti maður hefði verið líkur, þá sagði hann, að hann hefði haft þín augu og svart skegg. Hann sagði líka, að veiðimaðurinn, sem með honum var, hefði heitið Jim og verið í fötum.“

„Það er enginn vafi á, að þetta hefur verið hann,“ sagði ég, „ég þekkti Jim vel.“

Sir Henry kinkaði kolli. „Ég var viss um það,“ sagði hann. „Ef George ætlaði sér eitthvað, þá gerði hann það vanalega. Því var allt af svo varið, frá því hann var barn. Ef hann hefur ætlað sér að fara yfir Súlímansfjöllin, þá hefur hann farið yfir þau, nema eitthvert slys hafi viljað honum til. Við verðum þá að leita hans hinum megin við þau.“

Umbopa skildi ensku, þó að hann talaði hana sjaldan.

„Það er löng leið, Incubu,“ sagði hann, og ég þýddi athugasemd hans.

„Já,“ svaraði Sir Henry, „það er langt. „En það er engin sú leið til á jörðinni, sem er ófarandi fyrir mann, sem er alvara að vilja fara hana. Það er ekkert til, Umbopa, sem hann getur ekki gert, það eru engin fjöll til, sem hann getur ekki komist upp á tindinn á, það er engin sú eyðimörk til, sem hann getur ekki komist yfir, nema eitt fjall og ein eyðimörk, sem þú veist enn ekkert um – hann kemst yfir það allt, ef kærleikurinn leiðir hann, og ef hann metur líf sitt einskis í hættunum, er reiðubúinn til að halda því eða týna því, eftir því sem forsjónin kann að haga því til.“

Ég þýddi.

„Mikilfengleg orð, faðir minn,“ svaraði Zúlúlinn (ég kallaði hann ávallt Zúlúa, þó að hann væri það í raun og veru ekki), mikilfengleg, tíguleg orð, sem eiga við karlmannsmunn. Þú hefur rétt að mæla faðir minn, Incubu. Hlustaðu á það, sem ég segi, hvað er lífið? Það er fjöður, það er grasfræ, feykt hingað og þangað. Stundum margfaldar það sig og deyr um leið, stundum flyst það á burt til himnanna. En ef fræið er gott og þungt í sér, þá getur það ef til vill farið ofurlítinn spöl eftir þeim vegi, sem það sjálft vill. Það er vel til fallið að reyna að fara eftir sinni eigin götu og berjast við loftið. Einhvern tíma á maður að deyja. Það getur ekki farið verr, en að hann deyi dálítið fyrr en ella. Ég ætla að fara með þér yfir eyðimörkina og yfir fjöllin, nema ef svo skyldi fara, að ég félli til jarðar á leiðinni, faðir minn.“

Hann þagnaði við dálitla stund, svo hélt hann áfram með þessum undarlega mælskustraumi, sem stundum kemur fram hjá Zúlúunum, þó að þessi mælska sé full af fánýtum endurtekningum, þá sýnir hún, að því er mér virðist, að þessi þjóðflokkur hefur alls ekki farið varhluta af vissri tegund af gáfnaafli.

„Hvað er lífið? Segið þér mér það, þér hvítu menn, sem eruð vitrir, sem þekkið leyndardóma veraldarinnar og veröld stjarnanna og veröldina sem liggur fyrir ofan stjörnurnar og utan um þær, þér, sem sendið orð yðar langar leiðir eins og eldingar, án nokkurrar raddar, segið mér, þér hvítu menn, leyndardóma lífs vors – hvert það fer, og hvaðan það kemur!

„Þér getið ekki svarað. Þér vitið það ekki. Hlustið á mig, ég ætla að svara. Út úr dimmunni komum vér, inn í dimmuna förum vér. Eins og stormhrakinn fugl að næturþeli fljúgum vér út úr tilveruleysinu, eitt augnablik sjást vængir vorir í ljósi eldsins, og eftir eitt augnablik erum vér aftur farnir inn í tilveruleysið. Lífið er ekkert. Lífið er allt. Það er eins og blikormurinn, sem skín um nóttina og er orðinn svartur að morgni, það er eins og hvíta gufan út úr uxunum á vetrum, það er eins og litli skugginn, sem hleypur eftir grasinu og verður að engu um sólsetrið. Ég hef lokið máli mínu.“

„Þú ert undarlegur maður,“ sagði Sir Henry.

Umbopa hló við. „Mér virðist sem við séum mjög líkir, Incubu. Vera má, að ég sé að leita að bróður hinum megin við fjöllin.“

Ég leit á hann tortryggnisaugum. „Hvað áttu við?“ spurði ég, „hvað veist þú um fjöllin?“

„Dálítið, mjög lítið. Þar er undarlegt land, land galdra, og yndislegra hluta, land hugprúðra manna og trjáa og fljóta og hvítra fjalla, og þar er mikill hvítur vegur. Ég hef heyrt sagt frá því. En til hvers er að vera að tala um það? Það dimmir að. Þeir, sem lifa til að sjá það, sjá það.“

Aftur leit ég til hans tortryggilega. Maðurinn vissi of mikið.

„Þú þarft ekki að óttast mig, Macumazahn,“ sagði hann, því að hann skildi augnaráð mitt. „Ég gref engar grafir, sem þið skuluð detta í. Ég er ekki með neitt undirferli. Ef við komumst nokkurn tíma yfir þessi fjöll bak við sólina, þá skal ég segja ykkur það, sem ég veit. En dauðinn situr uppi á þeim. Verið vitrir og snúið aftur. Farið og veiðið fíla. Ég hef lokið máli mínu.“

Og án þess að segja einu orði meira, lyfti hann upp sverði sínu sem kveðjumerki og sneri aftur þangað, sem við höfðum sest að. Skömmu seinna fundum við hann þar, og var hann þá að fægja byssu, eins og hver annar Kafír.

„Þetta er kynlegur maður,“ sagði Sir Henry.

„Já,“ svaraði ég, „heldur til kynlegur. Mér geðjast ekki að dylgjunum í honum. Hann veit eitthvað og vill ekki segja það. En ég býst ekki við að það sé til neins að jagast við hann. Við erum að leggja upp í kynlega ferð, og það gerir ekki mikið til eða frá um einn dularfullan Zúlúa.“

Næsta dag bjuggumst við til að leggja af stað. Það var auðvitað ómögulegt fyrir okkur að dragast með þungu fílabyssurnar okkar og annan farangur yfir eyðimörkina. Við sendum því burðarmennina heim aftur og báðum gamlan Afríkumann, sem átti kofa rétt hjá okkur, að gæta farangursins, þangað til við kæmum aftur. Ég tók það nærri mér að skilja aðra eins muni eins og þessi ágætu verkfæri eftir og láta þau vera á náðum gamals, þjófgefins villimanns, enda sá ég, hve ágirndarlega hann glápti á þau. En ég hafði varúð við.

Fyrst hlóð ég allar byssurnar, og sagði honum, að ef hann snerti þær, þá mundi skotið ríða af. Hann reyndi þetta þegar í stað með afturhlaðningnum mínum, og skotið reið af og bjó til holu beint í gegnum einn af uxunum hans, sem einmitt þá voru reknir upp að kofanum – svo að ég sleppi því, hvernig skeftið lamdi hann um koll. Hann komst á fætur, og honum varð alls ekki um sel, og ekki kunni hann því vel að missa uxann sinn, hann hafði þá ósvífni í frammi að biðja mig að borga hann, og ófáanlegur var hann til að snerta byssurnar aftur.

„Stíktu þessum lifandi djöflum þarna upp í þakið,“ sagði hann, „svo að þeir séu ekki fyrir okkur, annars drepa þeir okkur öll.“

Því næst sagði ég honum, að ef ég saknaði nokkurs af þessum hlutum, þegar ég kæmi aftur, þá skyldi ég drepa hann og allan hans þjóðflokk með göldrum, og ef við dæjum, og hann reyndi að stela þessum munum, þá skyldi ég ganga aftur og fylgja honum og gera alla nautgripi hans óða og sýra fyrir honum mjólkina, þangað til lífið yrði honum til kvalar og djöflunum, sem væru í byssunum, skyldi ég hleypa út. Þeir skyldu tala við hann heldur óviðkunnanlega og gefa honum yfir höfuð góða hugmynd um, hver dómur biði hans í öðru lífi. Eftir þetta sór hann að hann skyldi gæta þeirra eins vel eins og þeir væru önd föður hans. Þessi gamli Kafíri var einstakur hjátrúarbelgur og versti þorpari.

Eftir að við höfðum þannig ráðstafað þeim eigum okkar, sem við þurftum ekki á að halda, fórum við fimm – Sir Henry, Good, ég, Umbopa, og Hottentottinn Ventvogel – að koma fyrir þeim farangri, sem við þurftum að hafa með okkur á ferðinni. Það var reyndar ekki mikill farangur, en hvernig sem við fórum að, gátum við samt ekki komist af með minna en svo, að það varð hér um bil 40 pund á mann. Þetta var það, sem við fluttum með okkur:

Þrjár „express“-byssur og 200 skot.

Tvær Winchester-afturhleypurnar (handa Umbopa og Ventvogel) með 200 skotum.

Þrjár „Colt“-skammbyssur og 60 skot.

Fimm Cochranes vatnsflöskur, hver þeirra tók fjórar merkur.

Fimm ábreiður.

Tuttugu og fimm pund af biltong (sólþurrkuðu veiðidýraketi).

Tíu pund af bestu perlum, allavega litum, til gjafa.

Úrval úr lyfjum, þar á meðal ofurlítið af kíníni, og eitt eða tvö verkfæri til sáralækninga.

Hnífana okkar og fáeina muni svo sem kompás, eldspýtur, vasasíu, tóbak, múrsleif, brennivínsflösku, og fötin, sem við stóðum í.

Þetta var allur flutningur okkar, og hann var sannarlega lítill til að leggja út í annað eins ævintýri, en við þorðum ekki að reyna að bera meira. Ekki meiri en byrðin var, þá var hún þung á hverjum, þar sem fara átti með hana yfir brennandi eyðimörkina, því að á þess háttar stöðum munar um hvað lítið, sem á mann er bætt. En hvernig sem við reyndum, gátum við ekki látið það vera minna. Við fluttum ekkert með okkur, sem ekki var algerlega óhjákvæmilegt.

Mér tókst að fá, þrjá þarlenda manngarma þar frá þorpinu til að fara með okkur fyrsta áfangann, tuttugu mílur, og að bera kúta, og voru fjórir pottar af vatni í hverjum, en mikið hafði ég fyrir því, og lofa varð ég að gefa hverjum þeirra góðan veiðihníf. Með þessu ætlaðist ég til, að við gætum fyllt vatnsflöskur okkar eftir fyrstu næturgönguna, því að við réðum af að leggja á stað í kveldkulinu. Ég taldi Afríkumönnunum trú um, að við færum til að skjóta strúta, sem nóg var af í eyðimörkinni. Þeir mölduðu í móinn og ypptu öxlum og sögðu við værum vitlausir, og að við mundum deyja úr þorsta, sem ég verð að segja að var mjög líklega til getið. En af því að þá langaði til að ná í hnífana, sem þar uppi í óbyggðum voru nærri því óþekktir dýrgripir, þá féllust þeir á að fara með okkur og hafa líklegast hugsað sem svo, að þó að við dræpumst, þá kæmi þeim það ekki við.

Allan næsta dag hvíldum við okkur og sváfum, og um sólarlag átum við nýtt ket með góðri lyst og skoluðum því niður með tevatni. Good gerði þá athugasemd með heldur döpru bragði, að það mundi verða í síðasta sinn í langan tíma, sem við mundum drekka þann drykk. Eftir að við svo höfðum lagt síðustu hönd á útbúnað okkar, lögðumst við niður og biðum þess að tunglið kæmi upp. Loksins kom það upp um kl. 9 í allri sinni dýrð, hellti silfurljósi sínu yfir hið hrikalega hérað og varpaði töfrandi ljóma yfir eyðimerkurflötinn, sem fyrir framan okkur lá, og var jafnhátíðlegur og þegjandalegur og ókunnur mönnunum eins og festingin stjörnum stráða fyrir ofan oss. Við risum á fætur og vorum ferðbúnir eftir fáeinar mínútur, og þó hikuðum við dálítið við, því að mannlegri náttúru er hætt við að hika við, þegar hún er komin á þröskuldinn og verður að halda áfram, ef hún fer yfir þann þröskuld. Við þrír hvítu mennirnir stóðum út af fyrir okkur. Umbopa stóð með öxina í hendinni og byssurnar lagðar yfir herðarnar fáein skref fyrir framan okkur og horfði hvasst út yfir eyðimörkina. Þrír leigðu Afríkumennirnir með vatnskútana og Ventvogel höfðu safnast saman í ofurlítinn hóp fyrir aftan okkur.

„Herrar mínir,“ sagði Sir Henry allt í einu með sinni lágu, djúpu rödd, „við erum að leggja upp í hér um bil eins undarlega ferð eins og nokkrir menn geta farið á þessari jörð. Það er mjög vafasamt, hvort okkur getur heppnast hún. En við erum þrír, karlmenn, sem viljum fylgjast að í góðu og illu til hins síðasta. Og áður en við leggjum nú á stað, þá látum okkur biðja eitt augnablik það vald, sem skapar örlög mannanna, og sem fyrir öldum síðan hefur ákveðið okkar vegi – látum okkur biðja það vald, segi ég, að því megi þóknast að stefna fótmálum okkar samkvæmt sínum vilja.“

Hann tók ofan hattinn, og huldi andlit sitt höndum svo sem eina mínútu, og Good og ég fórum eins að.

Ég vil ekki segja, að ég sé neinn framúrskarandi bænamaður. Það eru fáir veiðimenn, og um Sir Henry get ég sagt það, að ég hafði aldrei heyrt hann tala líkt þessu áður og hef heyrt hann gera það aðeins einu sinni síðan, en þó held ég, að í djúpi hjarta síns sé hann mikill trúmaður. Good er líka guðhræddur, þó að honum sé mjög gjarnt að blóta. Hvernig sem á því stóð, þá held ég, að ég hafi aldrei, nema í eitt einasta skipti, beðið betur á ævi minni heldur en ég gerði þá mínútu, og mér fannst mér líða einhvern veginn betur fyrir þá bæn. Framtíð okkar var svo allsendis óþekkt, og ég held að það óþekkta og það ægilega flytji menn ávallt nær skapara sínum.

„Og nú,“ sagði Sir Henry, „af stað.“

Svo lögðum við upp.

Við höfðum ekkert að fara eftir, nema fjöllin í fjarska og uppdrátt gamla, Joses da Silvestre, og þegar þess er gætt, að hann var dreginn af deyjandi, hálfbrjáluðum manni léreft fyrir þremur öldum, þá mun mönnum verða það ljóst, að hann var ekki sem allra áreiðanlegastur að fara eftir. En þrátt fyrir það byggðum við alla okkar von um æskileg erindislok á honum, ekki betri en hann var. Ef okkur skyldi mistakast að finna þennan poll með illu vatni, sem gamli doninn hafði sýnt á uppdrættinum í miðri eyðimörkinni, hér um bil 60 mílur frá staðnum, sem við lögðum upp frá, og eins langt frá fjöllunum, þá, voru öll líkindi til, að við mundum deyja aumkunarlegum dauða af þorsta. Og líkindin fyrir því að við fyndum pollinn í þessu mikla hafi af sandi og karoorunnum, virtust mér hér um bil óendanlega lítil. Enda þó maður byggist við, að Da Silvestre mundi hafa sett hann á réttan stað – hvað var samt á móti því, að hann hefði þornað upp af sólinni fyrir mörgum mannsöldrum síðan, að veiðidýrin hefðu troðið hann út, eða að foksandurinn hefði fyllt hann?

Áfram þrömmuðum við í þungum sandinum um nóttina, þögulir eins og skuggar. Karoorunnarnir flæktust um fæturna á okkur og töfðu fyrir okkur, og sandurinn fór ofan í ósútuðu skóna okkar og veiðistígvél Goods, svo að við urðum alltaf að nema staðar með fárra mílna millibili og hella úr þeim, en nóttin var þægilega svöl, þó að loftið væri þykkt og þungt og eins og rjómakennt, og okkur miðaði drjúgum. Það var mjög kyrrt og einmanalegt þar í eyðimörkinni, og það verkaði óþægilega á okkur. Good fann það og fór að blístra lagið við kvæðið: „Stúlkan mín hún situr heima,“ en tónarnir hljómuðu sorglega á þessari miklu sléttu, og hann hætti að syngja. Skömmu síðar kom fyrir atvik, sem kom öllum til að hlæja, þó að okkur yrði bylt við í fyrstu. Good hélt á kompásnum, sem hann auðvitað bar gott skynbragð á, þar sem hann var sjómaður, og hann gekk á undan. Við hinir gengum í halarófu á eftir honum. Allt í einu heyrðum við óminn af ópi, og Good hvarf. Næstu sekúndu var allt á tjá og tundri kringum okkur, og við heyrðum hnegg, stunur og ótt og títt fótatak. Í daufri tunglsglætunni gátum við grillt óljósa þjótandi líkami, hálfhulda í sandskýjum. Afríkumennirnir fleygðu niður byrðum sínum og bjuggust til að flýja, en svo mundu þeir eftir því, að þeir vissu ekkert, hvert flýja skyldi og fleygðu sér því næst til jarðar og grenjuðu, að þetta væri djöfullinn, sem væri á ferðinni.

Sir Henry og ég vorum steinhissa, og ekki þótti okkur það minni furðu gegna, þegar við sáum Good þeysa í átt til fjallanna á hestbaki, að því er okkur virtist, og hljóðandi, eins og hann væri orðinn bandvitlaus. Fáeinum sekúndum síðar rétti hann upp handlegginn og við heyrðum hann hlunkast til jarðar.

Þá sá, ég, hvað það var, sem við hafði borið; við höfðum rekist beint á hóp af sofandi quöggum4. Good hafði af hendingu dottið ofan á bakið á einum þeirra, og dýrið hafði, eins og nærri má geta, þotið upp og stokkið af stað með hann. Ég hóaði til hinna, að ekkert væri að og hljóp til Goods. Ég var hræddur um, að hann mundi hafa meitt sig, og ég gladdist til muna við að sjá hann sitja á sandinum, með glerið grafkyrrt við augað. Dýrið hafði hrist hann nokkuð, og steinhissa var hann, en hvergi hafði hann meitt sig.

Eftir það héldum við áfram, án þess fleiri óhöpp kæmu fyrir okkur, þangað til klukkan var orðin yfir eitt. Þá námum við staðar, drukkum dálítið af vatni, ekki mikið, því að vatn var dýrmætt, og hvíldum okkur hálfan tíma. Svo lögðum við aftur af stað.

Áfram héldum við, áfram, þangað til austurloftið fór loksins að roðna líkt og stúlkuvangi. Svo komu daufir geislar af rósrauðu ljósi, sem breyttist allt í einu í gulllitan ljósstraum, og dögunin leið út yfir eyðimörkina. Stjörnurnar urðu fölari og fölari, þangað til þær hurfu loksins. Gullliturinn á mánanum fölnaði, og fjallabrúnirnar á honum komu greinilega fram í þessu sjúklega andliti, líkt og bein í andliti deyjandi manns, svo skaust hvert geislaspjótið af dýrlegu ljósi eftir annað óraveg yfir hina takmarkalausu auðn. Þau stungust í gegnum og rifu sundur móðublæjuna, þangað til eyðimörkin var vafin í titrandi, gulllitan ljóma, og dagurinn var kominn.

Ennþá námum við ekki staðar, og hefðum við þó sannarlega kunnað vel við það um það leyti, en við vissum, að þegar sólin var á annað borð komin fullkomlega upp, þá mundi það verða nær því ómögulegt fyrir okkur að halda áfram ferð okkar. Loksins, hér um bil kl. 5, sáum við ofurlitlar klettóttar hæðir rísa upp af sléttunni, og þangað drógumst við. Við vorum svo heppnir að hitta þar á klettasnös, sem slútti fram, og undir henni var mjúkur sandur ofan á jörðinni, þar fengum við skýli fyrir hitanum, og þótti heldur en ekki vænt um. Þarna skriðum við undir, og eftir að við höfðum drukkið dálítið af vatni, hver okkar, og etið bita af biltong, þá lögðumst við niður, og sofnuðum bráðlega vært.

Klukkan var orðin 3 e.h., þegar við vöknuðum, og þá voru burðarmennirnir okkar þrír að búast til að snúa aftur. Þeir höfðu þegar fengið nóg af eyðimörkinni, og hvað margir hnífar, sem hefðu verið í boði, þá hefðu þeir ekki getað freistast til að fara einu fótmáli lengra. Við drukkum því af góðri lyst, og eftir að við höfðum tæmt vatnsflöskur okkar, fylltum við þær aftur úr kútunum, sem þeir höfðu borið, og svo horfðum við á eftir þeim, þegar þeir lögðu upp í sína 20 mílna göngu heimleiðis.

Klukkan 4½ lögðum við svo af stað. Það var eyðilegt og ömurlegt að leggja af stað, því að undanteknum fáeinum strútum, sást engin lifandi skepna á þessu mikla sandsléttuflæmi. Það var auðsjáanlega of þurrt fyrir veiðidýr, og að undanteknum einni eða tveimur kóbraslöngum, voðalegum ásýndum, sáum við engin skriðdýr. Af einu skorkvikindi var þar þó meira en nóg, og það var húsflugan. Þangað komu þær, „ekki eins og einstakir njósnarar, heldur í herflokkum,“ eins og ég held að standi einhvers staðar í Gamla testamentinu. Það er einkennilegt dýr, húsflugan. Hvert sem maður fer, þá verður hún fyrir manni, og svo hefur því ávallt verið varið.

Ég hef séð hana lokaða inni í rafi, sem hlýtur, eftir því sem mér hefur verið sagt, að hafa verið milljón ára að aldri og hún leit alveg eins út, eins og niðjar hennar í dag, og ég efast ekki um, að þegar síðasti maðurinn liggur deyjandi jörðinni, þá muni hún verða að suða í kringum hann, ef sá atburður skyldi bera við að sumri til – og leita að færi til að setjast á nefið á honum.

Um sólarlag námum við staðar og biðum þess, að tunglið kæmi upp. Um kl. 10 kom það upp, yndislegt og blíðlegt, eins og það ávallt er, og alla nóttina þrömmuðum við áfram

þreytulega, nema hvað við námum staðar um klukkan 2, þangað til loksins sólin gerði hlé á erfiði okkar, og var okkur þá hvíldin velkomin. Við drukkum dálítið og fleygðum okkur svo niður örþreyttir á sandinn og sofnuðum bráðlega allir. Engin þörf var á að setja vörð, því að við höfðum ekkert að óttast af neinum eða neinu á þessari víðlendu, óbyggðu sléttu. Einu óvinir okkar voru hiti, þorsti og flugur, en miklu heldur hefði ég viljað mæta hverri hættu sem helst, sem af mönnum stafaði eða stórvöxnum dýrum, heldur en þessari voðalegu þrenningu. Í þetta skipti vorum við ekki svo heppnir að finna neinn skýlandi klett, til þess að vernda okkur fyrir sólsterkjunni, og því fór svo, að við vöknuðum um kl. 7, og fundum þá til alveg sömu tilkenningar, eins og menn gætu ímyndað sér að ketstykki hefði, meðan það lægi á ristinni. Við vorum bókstaflega að gegnbakast. Það var eins og sólin brennandi væri að sjúga sjálft blóðið úr okkur. Við settumst upp, og stundum með opinn munninn.

„Farið þið grenjandi,“ sagði ég, og hrifsaði eftir flugnakrans, sem suðaði glaðlega kringum höfuðið á mér. Hitinn gerði þeim ekkert til.

„Hamingjan góða,“ sagði Sir Henry.

„Það er heitt,“ sagði Good.

Það var sannarlega heitt, og það var ekki hægt að fá minnsta skýli. Hvert sem við litum, var enginn klettur eða tré og ekkert nema óendanlegur ljómi, og maður blindaðist af heita loftinu, sem dansaði á yfirborði eyðimerkurinnar eins og yfir rauðglóandi eldstó.

„Hvað eigum við að gera?“ spurði Sir Henry, „við getum ekki þolað þetta lengi.“

Við litum hver á annan ráðaleysislega.

„Ég veit, hvað við eigum að gera,“ sagði Good, „við verðum að grafa holu og fara ofan í hana og þekja yfir okkur með karoorunnum.“

Þetta virtist ekki vera efnileg tillaga, en hún var að minnsta kosti betri en ekkert, svo að við tókum til starfa, og með múrsleifinni, sem við höfðum haft með okkur, og með höndum okkar, tókst okkur á hér um bil klukkutíma að róta upp jörðinni á svæði hér um bil 12 fet á annan veginn og 10 á hinn, og búa okkur til gröf um tveggja feta djúpa. Svo skárum við töluvert af lágu kjarri með veiðihnífunum okkar, skriðum ofan í holuna og drusluðum þessu ofan yfir okkur alla nema Ventvogel. Hann var Hottentotti, og sólin hafði því engin sérleg áhrif á hann. Þetta skýldi okkur ofurlitla ögn fyrir sólargeislunum brennandi, en auðveldara er að ímynda sér hitann í þessari lifandi manna gröf, en að lýsa honum. Það er ómögulegt að svarti hellirinn í Calcutta hafi verið neitt hjá öðru eins og þessu, ég veit í raun og veru ekki enn í dag, hvernig við fórum að lifa þann dag af. Þarna lágum við stynjandi, og vorum við og við að vökva varirnar á okkur með þessu litla vatni, sem við höfðum fyrir hendi. Hefðum við farið að eins og okkur langaði til, þá hefðum við lokið öllu á fyrstu tveimur klukkutímunum, en við hlutum að gæta okkar mjög vandlega, því að ef við yrðum vatnslausir vissum við, að við mundum skjótlega deyja aumkvunarlegum dauðdaga.

En öllu lýkur einhvern tíma, ef menn aðeins lifa nógu lengi til þess að sjá fyrir endann á því, og einhvern veginn leið þessi aumi dagur fram að kveldi. Um klukkan þrjú eftir hádegi kom okkur saman um, að við gætum ekki þolað þetta lengur. Okkur fannst betra að deyja á gangi heldur en að láta hitann og þorstann drepa okkur smátt og smátt í þessari voðalegu holu. Svo tók hver af okkur dálítinn sopa af vatnsforðanum, sem mjög var farinn að minnka og sem var orðinn hér um bil jafn heitur og blóðið í manni, svo reikuðum við áfram.

Við höfðum nú farið eitthvað 50 eyðimerkurmílur. Ef lesari minn vill líta á óskýra uppdráttinn og þýðinguna af skýringu Don Silvestre, þá mun hann sjá, að þar er eyðimörkin látin vera 40 leagues þvert yfir, og „illa vatnið“ er látið vera í henni hér um bil miðri. Nú eru 40 leagues 120 mílur, og þess vegna áttum við ekki að eiga lengra en 12-15 mílur í mesta lagi eftir til vatns, ef þar skyldi vera nokkurt vatn raun og veru.

Síðari hluta dagsins skriðum við áfram hægt og með herkjum. Við komumst naumast meira en hálfa mílu á klukkutímanum. Um sólsetur hvíldum við okkur aftur og biðum eftir tunglinu, drukkum ofurlítið, og svo tókst okkur að sofna dálítið.

Áður en við lögðumst niður, benti Umbopa okkur á litla og ógreinilega hæð á flata eyðimerkur yfirborðinu, hér um bil átta mílur frá okkur. Í fjarlægð var hún líkust mauraþúfu, og um það leyti, sem ég var að sofna var ég að hugsa um, hvað það gæti verið.

Þegar tunglið kom upp, lögðum við aftur af stað. Okkur fannst við vera óttalega örmagna, og við kvöldumst sáran af þorsta og stingandi hita. Enginn sem ekki hefur reynt annað eins, getur gert sér hugmynd um, hve við þjáðumst. Við gengum ekki lengur, við stauluðumst, aftur og aftur duttum við af magnleysi, og við urðum að nema staðar á hverjum klukkutíma eða um það bil. Það var naumast nógu mikið þrek eftir í okkur til að tala. Hingað til hafði Good látið dæluna ganga og gert að gamni sínu, því að hann var glaðlyndur maður, en nú var ekkert til af glensi eftir í honum.

Loksins komum við um klukkan tvö, algerlega lémagna á líkama og sál, að rótum þessarar undarlegu hæðar eða sandhaugs, sem hafði í fyrstu líkst afarstórri mauraþúfu, hæðin var hér um bil 100 feta há og grunnflötur hennar var nálega tvær ekrur lands.

Hér námum við staðar, og ofsaþorstinn, sem á okkur stríddi, rak okkur til að drekka síðustu dropana af vatninu okkar. Við höfðum ekki nema hálfa mörk á mann, og við hefðu getað drukkið fjóra potta.

Svo lögðumst við niður. Rétt þegar ég var að sofna, heyrði ég Umbopa segja við sjálfan sig á zúlúsku:

„Ef við finnum ekki vatn, þá, verðum við allir dauðir áður en tunglið kemur upp aðra nótt.“

Það fór hrollur um mig, jafn heitt eins og veðrið þó var. Það var ekkert viðfelldið að horfa fram á, að jafn voðalegur dauðdagi muni vera í nánd, en jafnvel ekki hugsunin um það gat haldið mér frá að sofa.


VI. KAPITULI. - VATN! VATN!

Eftir tvo tíma, hér um bil kl. 4, vaknaði ég. Jafnskjótt og sárasta þreytan hafði fengið fyrstu sefunina, þá lét þorstakvalræðið, sem ég hafði þjáðst af, til sín taka. Ég gat ekki sofið lengur. Mig hafði verið að dreyma, að ég hefði verið að baða mig í rennandi vatni, og grænir bakkar og tré lægju að því, og ég vaknaði til þess að vita af mér í vætulausum óbyggðum, og til þess að muna eftir, að ef við fyndum ekki vatn þann dag, þá yrði það víst að við yrðum að deyja aumkvunarlegum dauða, eins og Umbopa hafði sagt. Engin mannleg vera gat lifað lengi vatnslaus í þeim hita. Ég settist upp og nuggaði á mér óhreina andlitið með þurru og siggmiklu höndunum á mér. Varirnar á mér og augnalokin héngu saman, og ég gat ekki náð þeim sundur fyrr en ég hafði nuggað þau og tekið í þau. Það var ekki langt frá dögun, en ekkert af glaðlegu dögunartilfinningunum lá í loftinu, heldur var það þykkt af heitu myrkri, sem ég get ekki lýst. Hinir sváfu enn. Rétt á eftir fór að vera lesljóst, svo að ég tók upp úr vasa mínum eitt eintak af „Helgisögum Ingoldsbys“, sem ég hafði haft með mér, og fór að lesa „Hrafninn frá Rheims“. Þegar ég kom að þessum stað:

Einn lítill drengur gullskál hélt í hendi sér af vatni fylltri, tárhreint eins og tært það var, sem það er milli Rheims og Namur rennur best,

þá smjattaði ég bókstaflega með sprungnu vörunum, eða öllu heldur reyndi að smjatta með þeim. Ég var óður aðeins af því að hugsa um þetta hreina vatn. Ef kardínálinn hefði verið þar kominn með bjöllu sína, bók og kerti, þá hefði ég þotið að honum og drukkið allt vatnið hans, og það enda þótt hann hefði látið út í það sápustykki, sem páfanum hefði verið samboðið að þvo hendur sínar með, og þó ég hefði vitað að öll bölvun kaþólsku kirkjunnar hefði átt að safnast saman yfir höfði mér fyrir það. Ég held næstum því, að ég hafi verið farinn að missa vitið af þorsta, þreytu og matarleysi, því að ég fór að hugsa um, hve hissa kardínálinn og litli laglegi drengurinn og hrafninn hans mundu hafa orðið, ef þeir hefðu séð dálitla sólskrælda, móeygða, gráhærða fílaskyttu allt í einu ryðjast að og stinga óhreina andlitinu á sér ofan í skálina og teyga í sig hvern dropa af hinu dýrmæta vatni. Mér þótti þessi hugsun svo skrítin, að ég hló, eða öllu heldur kvakaði upphátt. Við það vöknuðu hinir, og fóru að nugga á sér óhrein andlitin og rífa sundur á sér samanlímdu varirnar og augnalokin.

Jafnskjótt og við vorum allir vaknaðir til fulls, fórum við að ræða ástand okkar, og það var ekki til að henda gaman að. Enginn dropi af vatni var eftir. Við hvolfdum vatnsflöskunum og sleiktum stútana, en það var ekki til neins, þeir voru þurrir eins og bein. Good, sem hafði umráð yfir brennivínsflöskunni, tók hana upp og leit á hana löngunaraugum, en Sir Henry sýndi þá rögg af sér að taka hana af honum, því að það að fara að drekka óblandaðan vínanda, hefði aðeins orðið til þess að flýta fyrir ævilokum okkar.

„Ef við finnum ekki vatnið, þá deyjum við,“ sagði hann.

„Ef við getum reitt okkur á uppdrátt gamla donsins,“ sagði ég, „þá ætti að vera eitthvað af vatni hér nálægt“, en það virtist ekki sem neinum yrði sú athugasemd til mikillar huggunar. Það var svo auðsjáanlegt, að lítið var treystandi á uppdráttinn. Nú var smátt og smátt að birta, og meðan við sátum þar og gláptum ráðaleysislega hver á annan, þá tók ég eftir því, að Ventvogel, Hottintottinn, stóð upp, fór að ganga um gólf og horfði til jarðar. Allt í einu nam hann staðar, rak óp upp úr kokinu á sér, og benti til jarðar.

„Hvað er það?“ hrópuðum við, og í einu vetfangi risum við á fætur og fórum þangað, sem hann stóð og benti á jörðina.

„Nú?“ sagði ég, „þetta eru ný spor eftir stökkhafra5, hvað kemur það okkur við?“

„Stökkhafrar eru aldrei langt frá vatni,“ svaraði hann á hollensku.

„Nei,“ svaraði ég. „Því hafði ég gleymt, og guði sé lof fyrir það.“

Þessi litla uppgötvun setti nýtt líf í okkur. Þegar allar bjargir virðast bannaðar, þá er það dásamlegt, hvernig menn hrifsa eftir hverri minnstu von, sem býðst, og þeim líður þá nærri því vel. Á myrkri nótt er ein einasta stjarna betri en ekkert.

Meðan þessi samræða hafði farið fram, hafði Ventvogel lyft upp nefkubbnum á sér og þefað í allar áttir, eins og gamall impala-hafur, sem grunar að hætta muni vera í nánd. Allt í einu tók hann aftur til orða:

„Ég finn vatnslykt,“ sagði hann.

Þá urðum við alveg gagnteknir af ofsagleði, því að við vissum, hve dásamlega skörp skilningarvit þeir hafa, þessir menn, sem alist hafa upp sem villimenn.

Rétt í þessu augnabliki kom sólin upp í allri sinni dýrð og afhjúpaði fyrir undrandi augum okkar svo mikilfenglega sjón, að eitt eða tvö augnablik gleymdum við því enda, hve þyrstir við vorum.

Því þar voru Brjóst Shebu, ekki meira en 40 eða 50 mílur frá okkur, og stirndi á þau eins og silfur í fyrstu geislum morgunsólarinnar. Og beggja megin við þau þandist hið mikla Súlímansfjall út yfir hundruð mílna. Þegar ég nú sit hér og reyni að lýsa hinum óvenjulega mikilfengleik þessarar sjónar, þá virðist mér sem mig þrjóti málið. Enda frammi fyrir endurminningunni einni er ég sem agndofa. Beint framundan okkur voru tvö feikilega stór fjöll, og ég held að þeirra líki sjáist ekki í Afríku, og efast annars um að önnur eins fjöll séu til í heiminum. Hvort um sig var að minnsta kosti 15,000 fet á hæð. Milli þeirra voru ekki nema 12 mílur, þverhníptur hamar tengdi þau saman, og þarna teygðu þau sig í voðalegum, hvítum hátíðleik beint upp í himininn. Þessi fjöll, sem standa þannig eins og stólpar við risavaxin hlið, eru nákvæmlega eins og konubrjóst í lögun. Að neðan bugðuðust þau mjúklega upp frá jafnsléttunni, og í þessari fjarlægð, sem við sáum þau, var sem þau væru algerlega hrukkulaus og mjúk, og ofan á hvoru fyrir sig var snjóþakin, stór hæð, að sér dregin að ofan og svaraði nákvæmlega til geirvörtunnar á kvenbrjósti. Klettabeltið, sem sameinaði þau, virtist vera nokkur þúsund fet á hæð, og var alveg þverhnípt. Beggja vegna við þau, svo langt sem augað eygði, teygðu sig líkar hamralínur, nema hvað á stöku stöðum voru fjöll, flöt eins og borð að ofan, nokkuð lík heimsfræga fjallinu við Town-höfðann. Það landslag er mjög almennt í Afríku.

Það er mér um megn, að lýsa mikilfengleik allrar þessarar sjónar. Það var eitthvað svo óumræðilega hátíðlegt við þessi geysilega miklu eldfjöll – að við stóðum alveg á öndinni fyrir framan þau. Um stund léku morgungeislarnir sér á snjónum og á móleitu fjallabumbunum fyrir neðan hann. Og því næst safnaðist undarleg móða og ský saman, og móðan og skýin uxu æ meir og meir utan um fjöllin, eins og til þess að hylja þessa hátignarlegu sjón fyrir forvitni okkar, þangað til við eftir skamma stund gátum aðeins greint skörpu og risavöxnu fjallaumgjörðina, sem virtist tútna draugalega út úr þessari ullarblæju. Við komumst líka að því síðar, að fjöllin voru vanalega hulin þessari skrítilegu, slæðukenndu móðu, og af því hefur það vafalaust komið, að við skyldum ekki geta greint þau glöggt áður.

Naumast höfðu fjöllin horfið inn í sitt þokuklædda heimkynni, fyrr en þorstinn – sem nú var bókstaflega brennandi spursmál – fór að láta til sín taka aftur.

Ventvogel hafði sagst finna vatnslykt, en það var ekki mikið gagn að því – hvert, sem við litum, gátum við ekki séð nein merki vatns. Svo langt sem augað eygði, var ekkert að sjá, nema skrælþurran, heitan sandinn og karoorunnana. Við gengum kringum hæðina og skyggndumst um órólega hinum megin, en það var hvarvetna sama sagan – hvergi sást deigur dropi. Ekkert var þar, sem benti á tjörn eða poll eða lind.

„Þú ert asni,“ sagði ég við Ventvogel, „hér er ekkert vatn.“ En hann lyfti upp ljóta kubbaralega nefinu á sér og þefaði.

„Ég finn lyktina af því, baas,“ (meistari) svaraði hann, „það er einhvers staðar í loftinu.“

„Já,“ sagði ég, „það er vafalaust í skýjunum, og eftir svo sem tvo mánuði kemur það niður og skolar bein okkar.“

Sir Henry strauk á sér gulleita skeggið og var hugsi. „Það gæti skeð, að það væri efst uppi á hæðinni,“ sagði hann.

Þvættingur,“ sagði Good; „hver hefur nokkurn tíma heyrt getið um, að vatn hafi fundist efst uppi á hæðum.“

Við skulum fara, og gæta að því,“ bætti ég inn í, og við fórum að eigra upp eftir sandhliðunum á hæðinni, en vorum sannarlega vondaufir. Umbopa fór fyrir. Allt í einu stóð hann grafkyrr, eins og hann væri orðinn að steini.

„Nanzia manzie!“ (hér er vatn), hljóðaði hann með hárri raustu.

Við þutum upp til hans, og það leyndi sér ekki, að það var vatnspollur í djúpum bolla, eða hvilft einmitt efst uppi á hæðinni. Við biðum ekki boðanna til að rannsaka, hvernig á því stæði, að það skyldi vera á jafn undarlegum stað, og við hikuðum okkur heldur ekki við að sjá, að vatnið var dökkt og ógeðslegt. Það var vatn, eða þá góð eftirlíking á vatni, og það var okkur nóg. Við tókum undir okkur stökk og þutum, og á næstu sekúndu vorum við allir lagstir á grúfu og farnir að teyga þennan ógeðslega lög, eins og væri hann dýrlegar veigar, sem hæfðu guðunum. Guð minn góður hvað við drukkum! Svo þegar við höfðum drukkið, rifum við af okkur fötin og settumst niður í vatnið og sugum í okkur vætuna gegnum skrælnuð skinnin. Þú, lesari minn, sem ekki þarft annað en snúa tveimur krönum og ná þér í heitt vatn og kalt vatn úr feikilega stórum ósýnilegum pottum, þú getur ekki haft mikla hugmynd um, hvílíkur munur var fólgin í að velta sér í þessu grugguga, sjókynjaða, volga vatni.

Að stundarkorni liðnu risum við aftur upp úr vatninu og vorum þá miklu hressari. Við réðumst þá á biltongið okkar. Við höfðum naumast getað komið niður nokkrum munnbita af því í 24 klukkutíma, en nú átum við okkur sadda. Svo reyktum við pípu, og lögðumst niður hjá þessum blessaða polli í forsælu undir bakkanum, og þar sváfum við til hádegis.

Allan þann dag hvíldum við okkur þar við vatnið og þökkuðum okkar sæla fyrir, að við skyldum hafa verið svo heppnir að finna það, þó það illt væri. Við gleymdum heldur ekki að þakka, eins og vera bar, önd hins löngu dauða Da Silvestre, sem klórað hafði legu vatnsins svo nákvæmlega á skyrtulafið sitt. Undarlegast þótti okkur það, að það skyldi hafa haldist svo lengi, og við gátum ekki gert okkur grein fyrir því með neinu öðru en þeirri tilgátu, að einhver lind djúpt niðri í sandinum héldi því við.

Eftir að við höfðum fyllt bæði okkur sjálfa og vatnsflöskurnar okkar, eins vel og mögulegt var, lögðum við af stað aftur um það leyti, sem tunglið kom upp, og lá þá miklu betur á okkur. Þá nótt gengum við nærri því 25 mílur, en auðvitað fundum við ekkert vatn framar, þó að við værum svo heppnir, að fá dálitla forsælu bak við nokkrar maurahæðir. Þegar sólin kom upp, og þurrkaði um stund burt hina dularfullu móðu, þá sýndist Súlímansfjall og tvö hátignarlegu brjóstin, sem nú voru ekki nema hér um bil 20 mílur frá okkur, teygja sig upp rétt fyrir ofan okkur, og þau virtust stórkostlegri en nokkurn tíma áður. Undir kveldið lögðum við aftur af stað, og, svo að ég fari fljótt yfir sögu, þá vorum við í dögun morguninn eftir komnir upp á lægstu hjallana, þar sem vinstra brjóst Shebu byrjaði. Þangað var það, sem við höfðum alltaf stefnt. Um þetta leyti var vatn okkar þrotið, og við kvöldumst illilega af þorsta, og við gátum heldur ekki séð nein líkindi til þess, að við mundum fá svalað okkur, fyrr en við kæmum að snjólínunni langt, langt fyrir ofan okkur. Eftir að þorstakvalirnar höfðu neytt okkur til að hvíla okkur einn eða tvo tíma, lögðum við aftur af stað og eigruðum með mestu þrautum í steikjandi hitanum upp eftir hraunhallandanum, því að hin risavaxna undirstaða fjallsins samanstóð af hrauni einu, sem gúlpast hafði út einhvern tíma fyrir löngu síðan.

Um klukkan 11 vorum við alveg lémagna, og vorum sannarlega illa á okkur komnir yfir höfuð að tala. Þó að hraungrjótið væri tiltölulega mjúkt, miðað við annað hraungrjót, sem ég hef heyrt getið um, eins og t.d. grjótið á Uppstigningar-eyjunni, þá var það nógu hart til að gera okkur sárfætta, og þegar það bættist við aðrar raunir okkar, þá herti það duglega að okkur. Nokkur hundruð álnir fyrir ofan okkur voru nokkrar hraunklappir, og þangað héldum við, í því skyni að leggjast niður í forsælunni við þær. Við komumst þangað og furðuðum okkur á því, að svo miklu leyti sem við höfðum ekki misst hæfileikann til að furða okkur á nokkrum hlut, að á dálitlum flöt, eða ás, rétt hjá okkur, sáum við að hraungrjótið var hulið í þéttu, grænu grasi. Auðsjáanlega hafði þar myndast jarðvegur af sundurleystu hraungrjóti, og svo hafa fuglar borið fræ í hann. En við létum okkur ekki sérlega annt um grasvöxtinn, því að menn geta ekki lifað á grasi eins og Nebúkaðnesar. Til þess þarf maður að vera sérstaklega útbúinn af forsjónarinnar hendi og hafa sérstök meltingarfæri. Við settumst því undir klettana og stundum, og ég fyrir mitt leyti óskaði hjartanlega, að við hefðum aldrei lagt út í þessa heimskuför. Meðan við sátum þarna, sá ég Umbopa standa upp og hökta, að einum grasblettinum, og fáeinum mínútum seinna sá ég mér til mestu furðu, þennan náunga, sem vanalega var svo framúrskarandi stilltur og alvarlegur, fara að dansa og hljóða, eins og brjálaðan mann og veifa einhverju grænu yfir höfði sér. Við skjöktum til hans eins hart og okkar þreyttu limir gátu borið okkur og vonuðum, að hann hefði fundið vatn.

„Hvað er þetta, Umbopa, aulinn þinn?“ kallaði ég á zúlúsku.

„Það er matur og vatn, Macumazahn,“ og aftur veifaði hann græna hlutnum.

Þá sá ég, hvað hann hafði náð í. Það var melóna. Við höfum hitt á blett, þar sem villtar melónur uxu þúsundum saman, og fullþroskaðar voru þær.

„Melónur!“ grenjaði ég til Goods, sem var næstur mér, og eftir eina sekúndu hafði hann bitið lausatönnunum sínum í eina þeirra.

Ég held, að við höfum étið hér um sex hver, áður en við hættum, og þó að þær væru ekki merkilegur ávöxtur, þá efast ég um, að ég hafi nokkurn tíma borðað neitt ljúffengara.

En melónur eru ekki mjög staðgóður matur, og þegar við höfðum slökkt þorsta okkar með vökvanum í þeim og kælt okkur á þann einfalda hátt að skera þær í sundur og setja svo sárið móti sólinni – þá gufar út vökvinn og við það kólna þær – þá fórum við að finna til þess, að við vorum ákaflega hungraðir. Við höfðum enn eftir nokkuð af biltong, en okkur hryllti við því, og auk þess urðum við að halda mjög spart á því, því að við vissum ekki, hvenær við mundum ná í meira af mat. Rétt í þessu bili vildi okkur mikil heppni til. Ég leit út yfir eyðimörkina og sá hóp af fuglum – hér um bil 10 – fljúga beint til okkar.

„Skit, baas, skit“ (skjóttu, meistari, skjóttu) – hvíslaði Hottintottinn og fleygði sér á grúfu. Við fórum allir eins að.

Þá sá ég, að fuglarnir voru hópur af stórum trappgæsum. og að þær mundu ekki fljúga hærra en 25 faðma fyrir ofan höfuðið á mér. Ég tók eina af Winchesters afturhleypunum og beið þangað til fuglarnir voru hér um bil beint uppi yfir okkur, og þá stökk ég á fætur. Þegar gæsirnar sáu mig, þyrluðust þær upp á við allar saman, eins og ég bjóst við að þær mundu gera, og ég skaut tveimur skotum inn í miðjan hópinn og var svo heppinn að hitta eina. Það var ljómandi fugl og vó hér um bil 20 pund. Eftir hálfan tíma höfðum við kveikt eld af þurrum melónustönglum, og á honum steiktum við fuglinn, – annan eins mat höfðum við ekki fengið í heila viku. Við átum þá gæs, ekkert var skilið eftir af henni, nema beinin og nefið, og okkur leið ekki lítið betur að þeirri máltíð endaðri.

Það kveld lögðum við upp með tunglsuppkomunni, og við fluttum með okkur eins margar melónur, eins og við gátum. Eftir því sem hærra dró, varð loftið kaldara og kaldara, og það var okkur mikill léttir. Eftir því, sem við gátum næst komist, áttum við nú ekki nema 12 mílur eftir til snjólínunnar. Hér fundum við meira af melónum, svo að nú kviðum við ekki lengur vatnsleysi, því að við vissum að bráðlega mundum við fá nóg af snjó. En nú fór leiðin að verða mjög brött, og okkur miðaði lítið. Við komumst ekki nema mílu á klukkutímanum. Við átum líka þá nótt okkar síðasta bita af biltong. Enn höfðum við ekki séð nokkra lifandi skepnu á fjöllunum, að undanteknum trappgæsunum, og við höfðum heldur ekki rekist á eina einustu lækjarsprænu. Okkur þótti það mjög undarlegt, þar sem allur þessi snjór var fyrir ofan okkur, og við héldum að stundum hlyti hann að bráðna. En eins og við komumst að síðar, runnu allar árnar norður af fjöllunum, af einhverri orsök, sem mér er alveg ómögulegt að gera grein fyrir.

Við fórum að verða mjög hræddir um matarleysi. Við höfðum sloppið við að deyja af þorsta, en það virtist líklegt, að það hefði aðeins verið til þess að við skyldum deyja úr hungri. Ég get ekki lýst því, sem við bar þá næstu, aumu, þrjá daga á annan hátt betur, en með því að skrifa það upp, sem ég ritaði þá í vasabókina mína.

21. maí. – Lögðum af stað kl. 11 f.h., því að loftið var alls ekki of heitt til að ferðast að degi til. Fluttum með okkur nokkrar vatnsmelónur. Brutumst áfram allan daginn, en sáum engar fleiri melónur, vorum auðsjáanlega komnir út af því svæði, þar sem þær uxu. Sáum engin veiðidýr. Settumst að fyrir nóttina um sólsetur og höfðum engan mat fengið marga klukkutíma. Þoldum miklar þrautir um nóttina af kulda.

22. – Lögðum af stað um sólaruppkomu, og vorum mjög linir og lasburða. Komumst ekki nema 5 mílur allan daginn, fundum nokkra snjóskafla og átum af þeim, en annars ekkert. Settumst að um kveldið undir brekkunni að stórum hjalla. Napur kuldi. Drukkum dálítið af brennivíni hver og hnipruðum okkur saman, hver um sig vafinn í ábreiðum til þess að halda lífinu í okkur. Erum nú óttalega útleiknir af kulda og þreytu. Héldum að Ventvogel mundi deyja um nóttina.

23. – Brutumst enn áfram jafnskjótt og sólin var vel komin upp og hafði þýtt limi okkar dálítið. Nú er hræðilega ástatt fyrir okkur, og ég er hræddur um, að ef við fáum engan mat, muni þetta verða okkar síðasta dagleið. Ekki nema lítið eftir af brennivíni. Good, Sir Henry og Umbopa bera sig dásamlega, en Ventvogel er mjög illa á sig kominn. Eins og flestir Hottentottar, getur hann ekki þolað kuldann. Hungurkvalirnar ekki svo illar, en ég hef nokkurs konar lífleysis tilfinning yfir um kviðinn. Hinir segja það sama. Við erum nú komnir jafnhátt þverhnípta klettabeltinu eða hraungarðinum, sem tengir brjóstin saman, og útsýnið er dýrlegt. Bak við okkur liggur hin mikla skínandi eyðimörk í öldum svo langt sem augað eygir, og fyrir framan okkur er hver mílan eftir aðra af sléttum, hörðum snjó. Fjallið snjóhvítt bungast upp hægt og hægt, en sýnist líkast flatneskju, og upp úr miðri bungunni rís geirvarta fjallsins, sem sýnist vera nokkrar mílur ummáls, hér um bil 4,000 fet upp í loftið. Engin lifandi skepna sést. Guð hjálpi okkur. Ég er hræddur um að skapadægur okkar muni vera komið.

Og nú ætla ég að hætta við dagbókina, sumpart af því, að ekki er sérlega skemmtilegt að lesa hana, og sumpart af því, að ef til vill þarf að segja nokkuð greinilegar frá því, sem fer hér á eftir.

Allan þann dag (23. maí) eigruðum við áfram hægt og hægt upp eftir snjóbrekkunni og lögðum okkur við og við niður til að hvíla okkur. Hverjum, sem hefði séð okkur, hefði víst virst við undarlegir og úttaugaðir ásýndum, þar sem við, hlaðnir þungum byrðum, drógum okkar þreyttu fætur eftir gljáhvítum fletinum og gutum hungruðum augum umhverfis okkur. En það var ekki til mikils að gjóta augunum, því að þar var ekkert til að éta. Við komumst ekki nema 7 mílur þann dag. Rétt fyrir sólsetrið vorum við komnir alveg að geirvörtunni á vinstra brjósti Shebu, og þessi ummálsmikla, hrufulausa hæð úr freðnum snjó teygðist þúsundir feta upp í loftið fyrir ofan okkur. Þó að við værum illa á okkur komnir, gátum við ekki annað en dást að þessu dýrlega útsýni, sem varð enda enn dýrlegra en það var í sjálfu sér af flöktandi ljósgeislunum frá sólinni, sem var að setjast. Þessir geislar settu hér og þar blóðrauða bletti á snjóinn og krýndu fjallið fyrir ofan okkur með dýrlegri kórónu.

„Heyrið þið,“ stundi Good allt í einu upp, „við ættum að vera nálægt hellinum, sem gamli herramaðurinn minntist á í riti sínu.

„Já,“ sagði ég, „ef hellirinn er nokkur til.“

„Blessaðir verið þér, Quatermain,“ sagði Sir Henry og andvarpaði um leið, „talið þér ekki svona. Ég ber fullt traust til donsins. Munið þér eftir vatninu. Við finnum staðinn bráðum.“

„Ef við finnum hann ekki fyrir myrkrið, þá erum við dauðans matur, það munar ekki öðru.“ Þessum orðum svaraði ég, svo huggandi sem þau voru eða hitt þó heldur.

Næstu tíu mínúturnar þrömmuðum við áfram þegjandi. Umbopa gekk við hliðina á mér, vafinn innan í ábreiðu, og með leðurbelti strengt svo fast utan um magann, til þess að „gera hungrið lítið,“ eins og hann komst að orði, að mittið á honum varð eins og á ungri stúlku. Allt í einu tók hann í handlegginn á mér.

„Líttu á,“ sagði hann og benti á fjallsbrekkuna.

Ég leit þangað, sem ég sá hann horfa og gat greint hér um bil hundrað faðma frá okkur eitthvað, sem líktist gati á snjónum.

„Þetta er hellirinn,“ sagði Umbopa.

Við hröðum okkur það sem við gátum að staðnum, og það stóð heima, við sáum, að gatið var hellismunni, og hellirinn var vafalaust sá sami, sem Da Silvestre hafði ritað um. Það mátti ekki seinna vera að við fyndum hann, því að rétt þegar við náðum þessu skýli, gekk sólin undir með furðulegum hraða, og þá varð nær því aldimmt umhverfis okkur. Á þessum breiddargráðum er rökkrið aðeins skamma stund. Við skriðum inn í hellinn, sem ekki virtist vera mjög stór, hnipruðum okkur saman til að láta okkur hlýna og gleyptum það, sem eftir var af brennivíninu okkar – sem ekki var nema munnsopi handa hverjum – og reyndum að gleyma þrautum okkar með því að sofna. En kuldinn var of átakanlegur til þess að við gætum það. Ég er sannfærður um, að þá hefur að minnsta kosti verið 14-15 gráðu frost, jafnhátt og við vorum komnir. Lesari minn getur betur ímyndað sér það en ég lýst því, hvernig slíkt frost muni hafa reynt í okkur þolrifin, jafn úttaugaðir eins og við vorum, af þrautum, matarleysi og mikla hitanum í eyðimörkinni. Ég læt mér nægja að segja það, að ég hef aldrei verið nær dauða mínum af illri aðbúð en ég var þá. Þarna sátum við tíma eftir tíma í næturgrimmdinni og fundum, hvernig frostið flögraði um okkur og kleip okkur, ýmist í fingurna eða fæturna eða í andlitið. Við hnipruðum okkur fastar og fastar saman, en það var ekki til neins. Það var enginn hiti til í okkar aumu, hungurmorða skrokkum. Stundum tókst einhverjum okkar að blunda órólega í fáeinar mínútur, en lengi gátum við ekki sofið, og vera má, að það hafi verið heppni fyrir okkur, því að ég efast um, að við hefðum vaknað aftur. Ég held, að það hafi ekki verið annað en viljakraftur okkar, sem hélt í okkur lífinu.

Tennurnar í Ventvogel, Hottintottanum, höfðu glamrað alla nóttina líkt og handsmella. Ekki löngu fyrir dögun heyrði ég hann stynja þungan, og að tennur hans hættu að nötra. Ég hugsaði ekki mikið um það í það skipti, því að ég hélt að hann hefði sofnað. Bakið á honum lá upp að bakinu á mér, og það var eins og það yrði kaldara og kaldara, þangað til það var loksins orðið eins og klaki.

Loksins fór loftið að verða grátt af ljósi, svo skutust skjótfleygar gular örvar glampandi yfir snjóinn, og að lokum gægðist sólin dýrleg upp yfir hraungarðinn, leit inn til okkar, á okkar hálffreðnu líkami og á Ventvogel, sem sat þar milli okkar steindauður. Það var ekki furða, þó að bakið hefði orðið kalt á honum, vesalingnum. Hann hafði dáið, þegar ég heyrði hann hætta að stynja, og nú var hann allt að því harðfreðinn. Þetta fékk óumræðilega mikið á okkur, og við drögnuðumst frá líkinu (það er undarleg óbeit, sem vér höfum allir á dauðum líkömum), og skildum það þar eftir sitjandi, með greiparnar spenntar utan um hnén.

Um þetta leyti var sólarljósið að hella sínum köldu geislum (því að hér voru þeir kaldir) beint inn í hellismunnann. Allt í einu heyrði ég hræðsluóp frá einhverjum og sneri við höfðinu inn í hellinn.

Og þetta var það, sem ég sá: Önnur mynd sat innst inni í hellinum – hann var ekki nema 20 feta langur – og höfuðið hvíldi á brjóstinu og löngu handleggirnir héngu niður. Ég starði á myndina og sá að þetta var annar dauður maður, og það sem meira var, hvítur maður.

Hinir sáu þetta líka, og sýnin reyndist of mikil fyrir taugar okkar, sem voru farnar svo mjög að bila. Allir klöngruðumst við í einum hóp út úr hellinum eins hart eins og okkar freðnu limir gátu flutt okkur.


VII. KAPITULI. - VEGUR SALÓMONS.

Fyrir utan hellinn námum við staðar, og okkur fannst við vera hálfgerð flón.

„Ég ætla að snúa við,“ sagði Sir Henry.

„Hvers vegna?“ spurði Good.

„Af því mér datt í hug, að – það sem við sáum – kynni að vera bróðir minn.

Þetta hafði okkur ekki komið til hugar, og við fórum aftur inn í hellinn, til þess að vita, hvort það reyndist satt. Eftir skæru ljósbirtuna fyrir utan gátu augu okkar ekki um stund grillt í gegnum myrkrið í hellinum, með því við vorum líka veikir í þeim af að stara á snjóinn. Bráðlega vöndumst við þó við þetta hálfmyrkur, og færðum okkur nær dauðu myndinni.

Sir Henry kraup á kné og leit framan í andlitið.

„Guði sé lof,“ sagði hann og dró andann þannig að auðheyrt var að honum létti, „það er ekki bróðir minn.“

Þá gekk ég að og leit á. Maðurinn hafði verið hár vexti, miðaldra maður með hátt nef og bogið, gráleitt hár og langt svart yfirskegg. Skinnið var alveg gult og þanið strítt yfir beinin. Fötin voru af honum að undanteknu einhverju, sem virtist vera leifar af grind, var því nakin. Við hálsinn hékk gult fílabeinskrossmark. Líkið var alveg harðfreðið.

„Hver í ósköpunum getur þetta verið?“ sagði ég.

„Getið þér ekki getið þess?“ spurði Good.

Ég hristi höfuðið.

„Hvernig látið þér! Það er auðvitað gamli doninn, Jose da Silvestre, hver ætti það annars að vera?“

„Það er ómögulegt,“ sagði ég og gapti við, – svo steinhissa varð ég. – „Hann dó fyrir 300 árum.“

„Og mér þætti gaman að vita, hvað skyldi vera því til fyrirstöðu, að hann entist í þrjú þúsund ár enn í öðru eins loftslagi og þessu,“ sagði Good. „Ef loftið er aðeins nógu kalt, þá helst hold og blóð eins óskemmt til eilífðar eins og sauðakjöt frá Nýja Sjálandi; og nógur er kuldinn hér, það veit hamingjan. Sólin kemst aldrei hingað inn, ekkert dýr kemur hingað til að rífa mann sundur. Þrællinn hans, sem hann talar um neðan við uppdráttinn, hefur vafalaust fært hann úr fötunum og skilið svo við hann. Hann hefur ekki getað grafið hann einn. Lítið þér á,“ hélt hann áfram og laut um leið niður og tók upp bein með undarlegri lögun, og sem hvass oddur hafði verið skafinn á endann á. „Hér er klofnabeinið, sem hann gerði uppdráttinn með.“

„Við gláptum á þetta ofurlitla stund steinhissa og gleymdum okkar eigin þrautum við þessa óvenjulegu og, að því er okkur virtist, hálfyfirnáttúrlegu sýn.

„Já,“ sagði Sir Henry, „og hér hefur hann fengið blekið,“ og hann benti á lítið sár á vinstra handleggnum á dauða manninum. „Hefur nokkur maður nokkurn tíma séð annan eins áður.“

Það lék enginn vafi framar á þessu, og ég játa fyrir mitt leyti, að það olli mér skelfingar. Þarna sat hann dauður, maðurinn, sem hafði ritað þær leiðbeiningar fyrir eitthvað tíu mannsöldrum síðan, sem höfðu komið okkur á þennan stað. Þarna hélt ég með mínum eigin höndum á pennaskriflinu, sem hann hafði ritað þær með. Og þarna hékk við hálsinn á honum krossmarkið, sem varir hans höfðu kysst, þegar hann var í andarslitrunum. Þar sem ég starði á hann, gat ímyndunarafl mitt gert sér grein fyrir, hvernig öllu hefði verið háttað. Það var eins og ég sæi ferðamanninn, þegar hann var að deyja af kulda og hungri, og samt sem áður að berjast við að láta veröldina vita um þetta leyndarmál, sem hann hafði komist að – og ég fann til þess, hve óttalega einmana hann hafði verið á dauðastundinni, enda bar þetta, sem sat þar fyrir framan okkur, vitni um það. Mér virtist sem ég gæti séð líkingu með skarpleita andlitinu á honum og andliti Silvestre heitins, kunningja míns og afkomanda hans, sem dáið hafði fyrir 20 árum í örmum mínum, en vera má, að það hafi verið ímyndun ein. Að minnsta kosti sat hann þarna, sem sorglegt dæmi upp á afdrif þau, sem þeir menn oft fá, sem vilja kanna það, sem óþekkt er, og þar situr hann að öllum líkindum, krýndur hinni hræðilegu hátign dauðans, um ókomnar aldir til þess að verða augum ferðamanna eins og okkar að undrunarefni, ef nokkurn tíma skyldi vilja svo til, að þangað kæmi nokkur maður til þess að rjúfa einveru hans. Þetta bar okkur ofurliði, enda var það engin furða, þar sem við vorum þegar nær dauða en lífi af kulda og hungri.

„Við skulum fara,“ sagði Sir Henry með lágri rödd, „bíðið þið við, við skulum fá honum félaga,“ og hann lyfti upp líkinu af Ventvogel, Hottintottanum, og setti það rétt hjá gamla doninum. Svo laut hann niður braut sundur fínu snúruna, sem bundin var utan um hálsinn og hélt krossmarkinu, því að honum var of kalt á fingrunum til þess að hann reyndi til að leysa hnútinn á henni. Ég tók pennann, og hann liggur fyrir framan mig, meðan ég er að skrifa – stundum skrifa ég nafnið mitt með honum.

Svo yfirgáfum við þá tvo, prúðmennið hvíta frá liðnum öldum og vesalings Hottintottann, þar sem þeir áttu að vera á sínum eilífa verði innan um snjóana eilífu, og við skriðum út úr hellinum, út í blessað sólskinið og héldum enn áfram leiðar okkar og lögðum niður fyrir okkur innan brjósts, hve margir klukkutímar mundu líða þangað til við yrðum jafnir þessum mönnum.

Þegar við höfðum gengið hér um bil hálfa mílu, komum við að flatarbrúninni, því að geirvarta fjallsins reis ekki alveg upp úr miðjunni, þó að svo sýndist eyðimerkurmegin við fjallið. Við gátum ekki séð það, sem fyrir neðan okkur var, því að landið var hjúpað bylgjum morgunþokunnar. Svo rofaði samt sem áður ofurlítið til í efri þokulögunum, og þá sáum við eitthvað 250 faðma fyrir neðan okkur, við endann á löngum snjóhallanda, grænan grasblett, og eftir honum rann lækur. Og við sáum meira en þetta. Við lækinn stóð hópur af antilópum, 10 til 15, og vermdi sig í sólskininu. Í þessari fjarlægð gátum við samt ekki séð, hvaða dýr þetta voru.

Við þessa sýn greip okkur óhemjulegur fögnuður. Þar var nóg af mat, ef við aðeins gætum náð honum. En vandræðin voru að ná honum. Dýrin voru fulla 300 faðma frá okkur, og það er langt skotfæri og ekki gott að reiða sig á það, þegar líf manns er komið undir, hvort maður hittir eða ekki.

Við ræddum það í mesta flýti, hvort ráðlegt væri að reyna að laumast nær dýrunum, og loksins réðum við af að gera það ekki, þó að okkur væri það nauðugt. Fyrst og fremst var vindurinn ekki hagstæður, og ennfremur var víst, að dýrin hefðu séð okkur á gljáhvítum snjófletinum, sem við urðum að fara eftir.

„Jæja, við verðum að reyna það héðan,“ sagði Sir Henry.

„Með hvorum eigum við að gjöra það, Quatermain, repeter-byssunum eða express-byssunum?“

Hér kom aftur vafamál fyrir. Repeter-byssunum frá Winchester – við höfðum tvær af þeim, og Umbopa bar byssu Ventvogels heitins og sína eigin – var ætlað að flytja 500 faðma, en þar á móti var express-byssunum ekki ætlað að flytja nema 175 faðma, og væri skotfærið lengra, þá var ekki hægt að miða nema meira eða minna eftir ágiskun. Að einu leytinu var þess gætandi, að hitti maður með express-byssunum, þá voru meiri líkur til, að skotið riði dýrinu að fullu, því að kúlur þeirra voru þanþolnar. Hér var úr vöndu að ráða, en við réðum af, að við skyldum hætta á það með express-byssunum.

„Við skulum miða á það dýrið, sem er beint framundan hverjum einum. Miðið þið rétt á herðakambinn og nógu hátt, sagði ég, „og segðu til, Umbopa, hvenær við eigum að hleypa af, svo að við getum gert það allir í einu.“

Svo kom þögn, og hver miðaði, sem best hann gat á sitt mark, eins og sannarlega er eðlilegt að hver maður geri, þegar hann veit að líf hans er undir skotinu komið.

„Skjótið!“ sagði Umbopa á zúlúsku, og nær því á sama augnabliki kváðu skotin við úr öllum byssunum, og þrjú reykský héngu eitt augnablik fyrir framan okkur, og á ótal stöðum tók undir, og bergmálið flaug á burt yfir þöglan snjóinn. Allt í einu hvarf reykurinn, og þá sáum við – okkur til mikils fagnaðar – stórt karldýr liggja á bakinu og berjast um hamstola í dauðakvölunum. Við æptum siguróp – við vorum úr háskanum, við áttum ekki að deyja úr hungri. Þó linir værum, þá þutum við ofan snjóhallandann, sem var milli okkar og dýrsins, og tíu mínútum eftir að við höfðum hleypt af, lá hjarta og lifur dýrsins rjúkandi fyrir framan okkur. En nú komu ný vandræði. Við höfðum ekkert eldsneyti, og gátum því ekki kveikt neinn eld og soðið matinn. Við störðum hver á annan í ráðaleysi.

„Menn, sem eru að deyja úr hungri, mega ekki vera matvandir,“ sagði Good; „við verðum að éta ketið hrátt.“

Við áttum einskis annars úrkosta, og vegna þess, hve hungrið nagaði okkur varð þessi uppástunga okkur ekki eins ógeðfelld eins og annars mundi hafa orðið. Svo tókum við hjartað og lifrina grófum hvorttveggja niður í snjóskafl og létum það vera þar í nokkrar mínútur, svo að það skyldi kólna. Svo þvoðum við það í ísköldu lækjarvatninu, og loksins átum við það með áfergju. Það er hræðilegt að heyra það, en í hreinskilni að segja hef ég aldrei smakkað neitt eins gott og þetta hráa kjöt. Á fjórða parti stundar vorum við orðnir allt aðrir menn. Lífið og fjörið kom aftur í okkur, slagæðarnar, sem áður höfðu verið svo linar, fóru aftur að slá hratt og blóðið streymdi hart um æðarnar. En við höfðum í huga afleiðingarnar af að éta yfir sig, þegar maður er kominn að dauða úr hungri, vöruðumst því að borða of mikið og hættum, meðan við enn vorum hungraðir.

„Guði sé lof,“ sagði Sir Henry, „þessi skepna bjargaði lífi okkar. Hvaða dýr er það, Quatermain?“

Ég stóð upp og leit á antilópuna, því að ég var ekki viss um það. Dýrið var hér um bil á stærð við asna, með stórum, bognum hornum. Ég hafði aldrei séð neina skepnu líka þessari áður, tegundin var mér alveg óþekkt. Dýrið var móleitt með rauðleitum rákum og húðin var þykk. Síðar komst ég að því, að íbúar þessa undralands kölluðu dýrið „inco.“ Hún var mjög sjaldgæf og hittist ekki nema mjög hátt frá sjávarmáli, þar sem engin önnur veiðidýr gátu hafst við. Dýrið var prýðisvel skotið, hátt í herðakambinn, en auðvitað gátum við ekki séð, hvers kúla það var, sem hafði riðið því að fullu. Ég held að Good hafi munað eftir, hve makalaust vel honum tókst að skjóta gíraffann, og hann hafi innanbrjósts eignað sér þetta skot, og við vorum ekkert að þræta við hann.

Við höfðum átt svo annríkt, meðan við vorum að seðja hungur okkar, að við höfðum ekki til þessa komist til að litast um. En eftir að við höfðum nú falið Umbopa á hendur að skera svo mikið ket af skepnunni, sem líkindi voru til, að við gætum borið, þá fórum við að gæta að því, sem umhverfis okkur var. Þokunni hafði létt af, því að klukkan var orðin átta, og sólin hafði sogið þokuna í sig. Við gátum því séð í einu allt landið, sem fyrir framan okkur lá. Ég veit ekki, hvernig ég á að lýsa því dýrlega útsýni, sem þar birtist augum okkar, er voru sem frá sér numin. Ég hef aldrei séð neitt líkt því áður, og ég býst heldur ekki við, að ég muni sjá neitt líkt því hér eftir.

Bakvið og fyrir ofan okkur teygðust snjóbrjóst Shebu upp í loftið, og fyrir neðan, eitthvað fimm þúsund fetum lægra en við stóðum, lá hver mílan fram af annarri af því yndislegasta flatlendi, sem ég hef nokkurn tíma séð. Sums staðar voru þéttir skógarflákar með háum trjám, sums staðar liðuðust stórar ár fram sína silfurleið. Vinstra megin þandist út yfir stórt svæði frjósamt, öldumyndað veldt eða graslendi, og á því gátum við aðeins grillt ótal hjarðir af veiðidýrum eða nautgripum – í þeirri fjarlægð gátum við ekki greint, hvort heldur var. Þetta landflæmi virtist vera umgirt með múr af fjöllum langt í burtu. Hægra, megin við okkur var landið meira eða minna fjöllótt, það er að segja, að einstaka hæðir stóðu upp úr sléttlendinu. Á milli hæðanna lágu ræktaðir landflákar, og á þeim gátum við glöggt séð hópa af kofum með kringlóttu hvolflagi. Héraðið lá frammi fyrir okkur eins og landabréf og glitraði á ár þess líkt og silfurlita orma, og tindarnir, líkir tindum Alpafjallanna, risu upp í hátíðlegum tíguleik, krýndir snjósköflum, sem liðuðust allavega um þá. En yfir öllu lá glaðlegt sólarljósið, og okkur var sem fyndum við sælulíf náttúrunnar draga andann.

Tvennt þótti okkur kynlegt, sem við sáum, meðan við störðum þarna fram undan okkur. Fyrst og fremst það, að landið fyrir framan okkur hlaut að liggja að minnsta kosti fimm þúsund fetum hærra heldur en eyðimörkin, sem við höfðum farið yfir. Það annað, að allar árnar runnu frá suðri til norðurs. Við vissum það vel og höfðum ekki komist að því þrautalaust, að alls ekkert vatn var sunnan megin við þennan mikla fjallgarð, sem við stóðum á, en norðan megin voru margar ár, og flestar þeirra virtust renna í stórt fljót, sem við sáum liðast áfram, þangað til augað eygði það ekki lengur.

Við settumst niður, sátum kyrrir um stund og störðum þegjandi á þetta dásamlega útsýni. Allt í einu tók Sir Henry til máls:

„Er ekki neitt á uppdrættinum um þjóðveg Salómons?“ sagði hann.

Ég hneigði höfuðið til samþykkis, en horfði enn langt út yfir landið.

„Jæja, lítið þér á, þarna er hann!“ og hann benti lítið eitt til hægri handar við okkur.

Good og ég litum þá við, og þar liðaðist eftir sléttunni einhver rák, sem virtist vera breiður þjóðvegur. Við höfðum ekki séð hana í fyrstu, því að þar sem hún lá inn í sléttuna faldist hún bak við nokkur moldarbörð. Við sögðum ekkert, að minnsta kosti ekki mikið. Við vorum farnir að missa hæfileikann til að verða hissa. Það virtist einhvern veginn ekkert sérlega óeðlilegt, að við fyndum nokkurs konar rómverskan veg í þessu undarlega landi. Við sættum okkur við það, sem við sáum.

„Jæja,“ sagði Good, „vegurinn hlýtur að vera rétt hjá okkur, ef við höldum til hægri. Ættum við ekki heldur að leggja af stað?“

Það var góð bending. Og jafnskjótt og við höfðum þvegið okkur um andlitið og hendurnar í ánni, fórum við eftir bendingunni. Eina mílu eða þar um bil stauluðumst við yfir stóra hnullunga og snjóskafla, þangað til við allt í einu vorum komnir upp á ofurlitla hæð – þá lá vegurinn þar fyrir fótum okkar. Það var ágætur vegur, höggvinn út í harðan klettinn, að minnsta kosti 50 feta breiður, og honum var auðsjáanlega haldið vel við, en það undarlegasta við veginn var það, að svo virtist, sem hann byrjaði þar. Við gengum ofan hæðina og komum á veginn, en ekki nema 100 skrefum fyrir aftan okkur, þeim megin við okkur, sem brjóst Shebu lágu, hvarf hann, og allt fjallið var þakið stórum hnullungum, og snjósköflum milli þeirra.

„Hvernig haldið þér að standi á þessu, Quatermain?“ spurði Sir Henry.

„Ég veit það,“ sagði Good, „vegurinn hefur vafalaust legið beint yfir fjallgarðinn og yfir eyðimörkina hinu megin, en eyðimerkursandurinn hefur hulið hann, og fjallið fyrir ofan okkur hefur einhvern tíma gosið, og vegurinn eyðilagst af hraunleðjunni.“

Þetta virtist líklega til getið, að minnsta kosti létum við okkur það nægja og héldum áfram ofan eftir fjallinu. Það var mjög ólíkt verk að fara ofan á við eftir þessum stórkostlega þjóðvegi, með fulla magana, og að fara upp eftir snjónum, glorhungraðir og nær því helfreðnir. Hefði ekki setið í huga okkar endurminningin um, hve sorglega fór fyrir vesalings Ventvogel, og hve voðalegt var í hellinum, þar sem við höfðum verið með doninum gamla, þá hefðum við nú sannast að segja verið beinlínis kátir, þrátt fyrir það, að okkur grunaði, að ókunnar hættur mundu bíða okkar. Með hverri mílu, sem við fórum, varð loftið mildara og ilmríkara, og fegurð landsins fyrir framan okkur varð enn skærari. Af veginum er það að segja, að ég hef aldrei séð annað eins mannvirki. Sir Henry sagði þó, að vegurinn mikli yfir St. Gothard í Svisslandi væri mjög líkur honum. Engir örðugleikar höfðu verið of torveldir fyrir þann byggingameistara gamla heimsins, sem ráðið hafði, hvernig sá vegur skyldi leggjast. Á einum stað komum við að miklu gili, þrjú hundruð feta breiðu og að minnsta kosti hundrað feta djúpu. Þetta mikla hyldýpi hafði beinlínis verið fyllt, auðsjáanlega með afarstórum, tilhöggnum björgum, en á gilbotninum hafði hvelfing verið gerð, til þess að vatnið skyldi geta runnið þar, og yfir öllu þessu lá vegurinn. Á öðrum stað var vegurinn höggvinn sem krákustígur með hvössum hornum í hliðina á þverhníptum kletti, fimm hundruð feta háum, og í þriðja staðnum lá hann í jarðgöngum beint í gegnum klett einn, fimmtán faðma eða meira.

Hér tókum við eftir því, að hliðarnar á jarðgöngunum voru þaktar með undarlegum myndum, mest af herklæddum mönnum í vögnum. Ein, sem var afburðafögur, sýndi heilan bardaga, og í fjarlægð sást farið burt með hertekna menn, og fylgdu þeim varðmenn.

„Jæja,“ sagði Sir Henry, eftir að hann hafði skoðað þetta forna listaverk vandlega. „Það er ef til vill ekkert að því að kenna þennan veg við Salómon, en ekki lærðari en ég er, þá grunar mig að Egyptar hafi komið hingað áður en fólk Salómons steig sínum fæti á þennan veg. Ef þetta er ekki handaverk Egypta, þá get ég ekkert annað sagt, en að þetta líkist þeim mjög mikið.“

Um hádegi vorum við komnir svo langt ofan eftir fjöllunum að skógur var farinn að verða á leið okkar. Fyrst urðu fyrir okkur runnar hér og þar, svo urðu þeir æ þéttari og þéttari, þangað til vegurinn bugðaðist loksins gegnum þéttan skóg af silfurlitum trjám, líkum trjánum, sem sjá má á hallanum við Table Mountain við Townhöfðann. Ég hafði aldrei rekist á þau á öllum mínum ferðum annars staðar en á Höfðanum, og mig furðaði því stórlega á að sjá þau.

„Ó,“ sagði Good og virti fyrir sér trén með skínandi laufunum, og var auðséð, að honum þótti framúrskarandi mikils vert um þau. „Látum okkur nema hér staðar og sjóða handa okkur miðdegisverð, ég hef hér um bil melt þetta hráa ket“.

Enginn andmælti þessu, svo að við fórum út af veginum og brutumst gegnum skóginn að á, sem við heyrðum skvettast áfram ekki langt frá okkur. Það leið ekki á löngu áður en eldur logaði glatt hjá okkur á þurrum greinum. Við skárum nokkra væna bita af ketinu, sem við höfðum flutt með okkur af incóanum, stungum þeim upp á oddmjóar spýtur og steiktum þá, eins og Kafírarnir gera, og átum þá með góðri lyst. Eftir að við höfðum troðið í okkur, kveiktum við í pípunum okkar og nutum lífsins. Okkur virtist það nærri því himneskt í samanburði við þrautir þær, sem við höfðum nýlega þolað.

Árbakkarnir voru þaktir þéttum burkna, ákaflega stórvöxnum, nema hvað hér og þar stóðu upp eins og fjaðraskúfar af villtum asparagus, og áin bablaði í sífellu glaðlega við hliðina á okkur. Í hlýja loftinu heyrðist suða gegnum laufin á silfurlitu trjánum, dúfurnar kvökuðu kringum okkur og ljósvængjaðir fuglar flögruðu, líkastir lifandi gimsteinum, frá einni grein til annarrar. Það var líkast því, sem hér væri aldingarðurinn Eden.

Það sló eins og einhverri töfraþögn á okkur. Því olli bæði unaðsleikur staðarins, og svo þessi sterka meðvitund um hættur, sem við vorum komnir úr, og um fyrirheitna landið sem við vorum loksins komnir til. Sir Henry og Umbopa sátu og töluðu saman í hálfum hljóðum einhvern hrærigraut af bjagaðri ensku og illri zúlúsku, en alvarlegir voru þeir, og ég lá, með augun hálflokuð, á ilmríku burknarúminu og gætti að, hvað þeim liði. Allt í einu hvarf Good mér, og ég fór að líta í kringum mig til þess að vita, hvað orðið hefði af honum. Ég sá hann þá sitjandi á árbakkanum. Hann hafði verið að baða sig í ánni. Hann var nakinn, nema hvað hann var í ullarskyrtu, óstjórnlega hreinlætisæðið hans hafði náð sér aftur, og hann var því önnum kafinn við að búa sig sem allra best. Hann hafði þvegið gúttaperkakragann sinn, hrist allt ryk úr buxunum sínum, frakkanum og vestinu, og nú var hann að brjóta fötin saman vandlega áður en hann færi í þau, og á meðan á því stóð, hristi hann höfuðið með sorgarsvip yfir öllum götunum og rifunum, sem eðlilega höfðu komið á þau í þessari óttalegu ferð okkar. Svo tók hann stígvélin sín, nuddaði þau með handfylli sinni af burkna og nuggaði þau svo loksins með fitustykki, sem hann hafði verið svo hugsunarsamur að geyma af ketinu af incóanum, þangað til þau voru orðin tiltölulega lagleg. Eftir að hann hafði athugað þau nákvæmlega gegnum gleraugað sitt, fór hann í þau og byrjaði á nýju verki. Úr dálitlum böggi, sem hann bar, tók hann fram vasagreiðu. Í hana var festur ofurlítill spegill, og í honum skoðaði hann sig nákvæmlega. Það var svo að sjá sem hann væri ekki ánægður, því að hann fór að greiða hárið sérlega vandlega. Svo varð dálítið hlé, og á meðan skoðaði hann, hver breyting hefði á orðið, enn var hann ekki ánægður. Hann þreifaði á hökunni á sér, á hana höfðu nú safnast 10 daga skeggbroddar. „Það getur þó aldrei skeð,“ hugsaði ég, „að hann ætli að fara að reyna að raka sig.“ En það ætlaði hann. Hann tók fitumolann, sem hann hafði nuggað um stígvélin sín og þvoði hann vandlega í ánni. Svo fór hann aftur ofan í böggulinn, og tók út dálítinn vasarakhníf með spelku við blaðið, af þeirri tegund, sem þeir menn kaupa, sem hræddir eru um að skera sig, og eins menn, sem ætla að leggja upp í sjóferð. Svo nuggaði hann kinnarnar og hökuna með ákefð með fitumolanum og fór svo að raka sig. En það var auðsjáanlega sárt, því að hann stundi mjög mikið meðan á því stóð, og ég engdist sundur og saman af hlátri við að sjá hann berjast við þessa skeggbrodda. Það virtist svo einstaklega skrítilegt að sjá mann leggja svo mikið á sig til þess að raka sig með fitubita á öðrum eins stað og þessum og þegar eins stóð á eins og hér. Loksins tókst honum að ná verstu stúfunum af hægri kinninni og hægra megin af hökunni, en þá sá ég allt í einu, þar sem ég var að horfa á Good, ljósglampa bregða fyrir, og ljósglampinn skaust rétt fyrir ofan höfuðið á honum.

Good stökk upp með blótsyrði (hefði rakhnífurinn ekki verið eins úr garði gerður eins og hann var, þá hefði hann vafalaust skorið sig á háls). Ég stökk líka upp, en blótaði ekki, og nú skal ég skýra frá því, sem ég sá. Ekki nema 20 skref frá mér, og 10 skref frá Good, stóð hópur af mönnum. Þeir voru mjög hávaxnir og eins og kopar á litinn, og sumir þeirra báru stóra skúfa af svörtum fjöðrum og stuttar kápur úr hlébarðaskinnum. Meira sá ég ekki í svipinn. Fyrir framan þá stóð unglingur, hér um bil 17 ára gamall, hann hafði hendurnar enn á lofti og líkaminn hallaðist áfram á sama hátt eins og grískar standmyndir af spjótkösturum. Ljósglampinn hafði auðsjáanlega verið vopn, og hann hafði kastað því.

Meðan ég var að horfa á hann, kom gamall hermannlegur maður fram úr hópnum, tók í handlegginn á unglingnum og sagði eitthvað við hann. Og svo héldu þeir til móts við okkur.

Sir Henry, Good og Umbopa höfðu þrifið kúlubyssur sínar og lyftu þeim upp ógnandi. Þarlendu mennirnir færðust nær og nær. Mér datt í hug, að þeir gætu ekki vitað, hvað kúlubyssur væru, annars mundu þeir naumast sýna þeim slíka fyrirlitningu.

„Látið þið byssurnar niður!“ hrópaði ég til hinna, því að ég sá, að væri okkur ekki óhætt, ef við færum friðsamlega að þeim, þá var okkur það ekki á annan hátt. Þeir hlýddu, og ég steig fram og ávarpaði aldraða manninn, sem hafði tekið í unglinginn.

„Heilir,“ sagði ég á zúlúzku, en vissi annars ekki, hvaða tungu ég átti að tala. Hann skildi mig, og mig furðaði á því.

„Heilir,“ sagði maðurinn, reyndar ekki á sama máli, en á mállýsku svo náskyldri zúlúsku, að hvorki Umbopa né ég áttu neitt örðugt með að skilja hana. Við komumst í raun og veru að því síðar, að mál það, sem þessi þjóð talaði, var forn zúlúska, var hér um bil jafn skyld zúlúsku eins og enska Chaucers er skyld ensku 19. aldarinnar.

„Hvaðan komið þið?“ hélt hann áfram, „hverjir eruð þið? og hvers vegna eru andlit þriggja ykkar hvít og andlit þess fjórða eins og andlitin á sonum mæðra okkar?“ og hann benti á Umbopa um leið og hann sagði þetta, og því brá fyrir í huga mínum, að hann hefði rétt að mæla. Umbopa var líkur þessum mönnum, sem stóðu frammi fyrir okkur, í andliti, og eins var mikli vöxturinn á honum. En ég hafði engan tíma til að hugsa um þessa líking.

„Við erum útlendir menn og komum í friði,“ svaraði ég og talaði mjög hægt, til þess að hann skyldi geta skilið mig, „og þessi maður er þjónn okkar.“

„Þú lýgur,“ svaraði hann, „engir útlendingar geta farið yfir fjöllin, þar sem allt deyr. En lygar ykkar gera ekkert til, ef þið eruð útlendir menn, þá verðið þið að deyja, því að engir útlendir menn mega lifa í landi Kúkúana. Það eru lög konungsins. Búist því við dauða ykkar, þér útlendu menn!“

Ég kunni þessu dálítið illa, einkum með því ég sá að hendur nokkurra manna fóru að laumast niður með síðum þeirra. Við hlið hvers þeirra hékk eitthvað, sem mér virtist líkt stórum og þungum hnífi.

„Hvað segir dóninn?“ spurði Good.

„Hann segir það eigi að hengja okkur,“ svaraði ég önuglega.

„Guð minn góður,“ stundi Good, og eins og hann var vanur, þegar hann var í vandræðum, tók hann höndinni um lausatennurnar, dró niður tennurnar í efri skoltinum og lét þær smella aftur í munninn. Það var frámunalega heppileg hreyfing, því að á næstu sekúndu rak þessi alvarlegi Kúkúanahópur upp org af skelfingu, allir á sama augnablikinu, og þeir hrukku aftur á bak nokkra faðma.

„Hvað gengur á?“ sagði ég.

„Það eru tennurnar í honum,“ hvíslaði Sir Henry, og var auðheyrt, að honum var mikið niðri fyrir. „Hann hreyfði þær. Takið þér þær út úr yður, Good, takið þér þær út úr yður!“

Hann hlýddi og laumaði tönnunum ofan í aðra ermina á ullarskyrtunni sinni.

Á næstu sekúndu hafði forvitnin orðið hræðslu mannanna yfirsterkari, og þeir færðust hægt nær og nær okkur. Það virtist svo sem þeir hefðu gleymt sínum vinsamlegu fyrirætlunum með okkur.

„Hvernig víkur þessu við, þér útlendu menn,“ spurði aldraði maðurinn hátíðlega, „með tennur mannsins (hann benti á Good, sem var í engu nema ullarskyrtunni, og ekki hafði rakað sig nema öðru megin), sem er klæddur um búkinn, en nakinn um fæturna, sem hefur hár öðru megin á sínu veiklulega andliti, en ekki hinum megin, og sem hefur eitt skínandi gagnsætt auga og tennur, sem hreyfast sjálfkrafa, og fara burt frá tanngarðinum og koma aftur, eftir því, sem þeim sjálfum sýnist?“

„Ljúkið þér upp munninum,“ sagði ég við Good, og hann bretti upp varirnar ótrauðlega og fitjaði upp á nefið að gamla herramanninum líkt og reiður hundur. Þá komu í ljós tvær rauðar línur, jafn algerlega tannlausar eins og í nýfæddum fíl. Hinir stóðu á öndinni af undrun.

„Hvar eru tennurnar úr honum?“ grenjuðu þeir. „Við sáum þær með okkar eigin augum.“

Good sneri höfðinu við hægt og með óumræðilegum fyrirlitningarsvip og brá hendinni yfir munninn. Svo bretti hann varirnar aftur upp, og þar voru komnar tvær raðir af ljómandi fallegum tönnum.

Unglingurinn, sem kastað hafði hnífnum, fleygði sér niður í grasið og rak upp langt org af skelfingu, og af gamla herramanninum er það að segja, að hnén á honum lömdust saman af hræðslu.

„Ég sé að þið eruð andar,“ sagði hann stamandi. „Hefur nokkurn tíma maður af konu fæddur haft hár öðru megin á andlitinu og ekkert hinum megin eða kringlótt og gagnsætt auga eða tennur, sem hreyfðust og eyddust, svo þær urðu að engu og uxu svo aftur? Vægið okkur, þér herrar.“

Nú bar sannarlega vel í veiðar, og ég þarf ekki að taka það fram, að ég tók þessu fegins hendi. „Bæn þín er veitt,“ sagði ég, með hátignarlegu brosi. „Sannlega segi ég ykkur, þið skuluð læra að þekkja sannleikann. Við komum frá öðrum heimi, þó að við séum menn, slíkir sem þið eruð. Við komum,“ hélt ég áfram, „frá stærstu stjörnunni, sem skín á nóttunni.“

„Ó! ó!“ andvörpuðu allir þarlendu mennirnir í einu hljóði, frá sér numdir af undrun.

„Já,“ hélt ég áfram, „þaðan komum við sannarlega,“ og aftur brosti ég góðlátlega um leið og ég lét þessa furðulegu lygi út úr mér. „Við komum til þess að dvelja hjá ykkur lítinn tíma og blessa ykkur með dvöl okkar hjá ykkur. Þið sjáið, vinir, að ég hef undirbúið mig með því að læra mál ykkar.

„Það er satt, það er satt,“ sögðu þeir allir í einu hljóði.

„Það er ekkert hægt á móti því að mæla, herra,“ bætti gamli herramaðurinn við, „annað en það, að þú hefur lært það ósköp illa.“

Ég leit til hans reiðilega og hann varð lafhræddur.

„Nú gætuð þið haldið, vinir mínir,“ hélt ég áfram, „að þar sem við erum komnir úr svona langri ferð, og þið hafið veitt okkur slíkar viðtökur, þá kynni okkur að koma til hugar að hegna ykkur, ef til vill að slá helkalda þá óguðlegu hönd, sem – sem, í stuttu máli – kastaði hnífnum og ætlaði að hitta höfuðið á þeim manni, sem hefur tennur þær, sem fara og koma.“

„Vægið honum, lávarðar mínir,“ sagði gamli maðurinn auðmýktarlega, „hann er sonur konungsins, og ég er föðurbróðir hans. Ef honum skyldi hlekkjast nokkuð á, þá kemur blóð hans yfir höfuð mér.“

„Já, svo er því sannarlega varið,“ bætti ungi maðurinn við og lagði mikla áherslu á orðin.

„Vera má, að þið efist um mátt okkar til að hegna,“ hélt ég áfram, og lét sem ég tæki ekkert eftir þessu, sem þeir höfðu skotið inn. „Bíðið þið við, ég skal sýna ykkur hann. Komdu hingað, þú hundur og þræll“ (svona ávarpaði ég Umbopa með grimmilegri rödd), „fáðu mér töfrapípuna sem talar,“ og ég benti á express-byssuna mína.

Umbopa stóð upp til að hlýðnast boðinu, og það var eitthvað á alvarlega andlitinu á honum, sem líktist meira glotti en nokkuð, sem ég annars hef séð þar. Hann rétti mér byssuna.

„Hér er hún, þú lávarður lávarðanna,“ sagði hann með mikilli lotningu.

Rétt áður en ég hafði beðið hann um byssuna, hafði ég tekið eftir ofurlítilli fjallaantílópu, sem stóð á kletti hér um bil 35 faðma frá okkur, og ég réð af að hætta á, hvort ég gæti skotið hana.

„Þið sjáið hafurinn þarna,“ sagði ég og benti hópnum, sem fyrir framan mig stóð, á dýrið. „Segið þið mér, hvort mögulegt sé fyrir mann, fæddan af konu, að drepa það héðan með hávaða einum.“

„Það er ekki mögulegt, herra,“ svaraði gamli maðurinn.

„Og þó mun ég gera það,“ sagði ég rólega.

Gamli maðurinn brosti. „Það getur herra minn ekki gert,“ sagði hann.

Ég lyfti byssunni upp og miðaði á antilópuna. Dýrið var lítið, og það var afsakanlegt, að hitta það ekki, en ég vissi, að nú varð ég að hitta.

Ég dró andann djúpt og þrýsti hægt á gikkinn. Antilópan stóð kyrr eins og steinn.

Skotið small af. Antilópan stökk upp í loftið, og skall svo niður á klettinn, steindauð.

Hópurinn fyrir framan okkur stundi hátt af skelfingu.

„Ef ykkur langar í kjöt,“ sagði ég rólega, „þá farið og sækið hafurinn.“

Gamli maðurinn gaf fylgdarmönnum sínum merki, og einn þeirra lagði af stað, og kom þegar aftur með antilópuna á bakinu. Ég tók eftir því, og þótti vænt um, að ég hafði hitt hana laglega, rétt aftan við herðarnar. Þeir söfnuðust saman kringum skrokkinn af vesalings dýrinu og störðu frá sér numdir á gatið eftir kúluna.

„Þið sjáið,“ sagði ég, „að ég tala ekki marklaus orð.“

Þeir svöruðu engu.

„Ef þið efist enn um mátt okkar,“ hélt ég áfram, „þá látið einn ykkar standa á klettinum, svo að ég geti látið hann verða eins og þennan hafur.“

Enginn þeirra virtist fús á að fara eftir þessari bendingu, þangað til sonur konungsins tók loksins til máls.

„Þetta er vel mælt. Gerðu það, föðurbróðir, farðu og stattu á klettinum. Það er ekki nema hafur, sem þessir töfrar hafa drepið. Auðvitað geta þeir ekki drepið mann.“

Gamli herramaðurinn sýndist ekki taka þessari tillögu neitt vel. Sannast að segja virtist svo sem hann styggðist við hana.

„Nei, nei!“ hrópaði hann og bar ótt á, „gömlu augun í mér hafa séð nóg. Þetta eru sannarlega töframenn. Látum okkur fara með þá, til konungsins. En ef einhver skyldi þó óska eftir frekari sönnun, þá standi hann á klettinum, svo að töfrapípan geti talað við hann.“

Allur flokkurinn hafnaði þessu tilboði mjög skyndilega.

„Eyðið ekki þessum góðu töfrum á okkar aumu líkami,“ sagði einn þeirra. „Við látum okkur þetta nægja. Allir galdrar okkar þjóðar geta ekki jafnast við þetta.“

„Svo er það,“ sagði gamli herramaðurinn og var auðheyrt á röddinni, að nú létti honum að mun. „Vafalaust er því svo varið. Hlustið, þér börn stjarnanna, þér börn hins skínandi auga og hreyfanlegu tanna, þér sem grenjið eins og þruman og drepið álengdar. Ég er Infadoos, sonur Kafa, sem einu sinni var konungur Kúkúanaþjóðarinnar. Þessi unglingur er Scragga.“

„Fari hann bölvaður,“ nöldraði Good.

„Scragga, sonur Twala, konungsins mikla, sem á þúsund konur, er höfðingi og æðsti lávarður Kúkúana, vörður hins mikla vegar, skelfing fjandmanna sinna, lærður í fjölkynngi, foringi hundrað þúsund hermanna, Twala hinn eineygði, hinn svarti, hinn voðalegi.“

„Jæja,“ sagði ég drembilega, „vísaðu okkur þá veginn til Twala. Við tölum ekki við smælingja og undirtyllur.“

„Gott og vel, lávarðar mínir, við skulum vísa ykkur leiðina, en vegurinn er langur. Við erum á veiðum þrjár dagleiðir frá höll konungsins. En séu lávarðar mínir þolinmóðir, þá munum við vísa þeim veginn.“

„Gott og vel,“ sagði ég hirðulauslega. „Okkur liggur ekkert á, því að við deyjum aldrei. En Infadoos og þú Scragga, varið ykkur! Gerið okkur engan grikk, leggið engar snörur fyrir okkur, því að áður en ykkar forarleðjuheilar hafa hugsað sér, hverjar þær skuli vera, þá munum við þekkja þær og hegna ykkur fyrir þær. Ljósið frá gagnsæja auganu á honum með beru leggina og hálfháruga andlitið (Good) mun gera ykkur að engu og fara yfir land ykkar, tennur hans, sem við og við verða ósýnilegar, skulu festast í ykkur og éta ykkur upp, ykkur og konur ykkar og börn, töfrapípurnar skulu tala hátt við ykkur og gera ykkur götótta eins og síur. Varið ykkur!“

Þessi viðhafnarræða hafði þau áhrif, sem til var ætlast. Sannast að segja þurfti naumast á henni að halda, svo mikið hafði þessum vinum okkar þegar fundist til um mátt okkar.

Gamli maðurinn hneigði sig djúpt og hafði lágt fyrir munni sér orðið „koom, koom“. Síðar komst ég að því, að konungum var heilsað með því orði, og það þýddi því það sama meðal Kúkúana eins og bayete meðal Zúlúa. Svo sneri hann sér við og ávarpaði fylgdarmenn sína. Þeir tóku þegar alla muni okkar í því skyni að bera þá fyrir okkur, nema byssurnar einar, þær vildu þeir með engu móti snerta. Þeir tóku enda föt Goods, sem voru brotin laglega saman við hlið hans, eins og lesarinn kann að muna.

Hann ætlaði þegar að grípa þau, og út af því varð hávær deila.

„Látið ekki lávarð minn með gagnsæja augað og tennurnar, sem hverfa, snerta þau,“ sagði gamli maðurinn. „Sannarlega bera þrælar hans þessa muni.“

„En ég þarf að fara í þetta!“ grenjaði Good, á sköruglegri ensku.

Umbopa lagði þetta út.

„Nei, lávarður minn,“ sagði Infadoos, „vill lávarður minn hylja sína yndishvítu fótleggi“ (þó að Good væri dökkhærður, þá var hann þó sérlega hörundshvítur) „fyrir augum þjóna sinna? Höfum við styggt lávarðinn, svo að hann þess vegna geri slíkt?“

Nú lá við, að ég skellti upp úr af hlátri, og meðan á þessu stóð lagði einn af mönnunum af stað með fötin.

„Hver fjandinn!“ grenjaði Good, „þessi svarti þorpari hefur náð í buxurnar mínar.“

„Skoðið þér til, Good,“ sagði Sir Henry, „þér hafið opinberast í þessu landi á nokkuð einkennilegan hátt, og við það verður að sitja. Þér megið aldrei héðan af fara í buxur. Hér eftir megið þér ekki klæðast öðru en ullarskyrtu, stígvélum og gleraugum.“

„Já,“ sagði ég, „og með kinnskegg öðru megin á andlitinu, en ekki hinum megin. Ef þér breytið út af þessu að einhverju leyti, þá halda þeir, að við séum svikarar. Mér þykir það leiðinlegt yðar vegna, en í alvöru að tala, þér megið til með það. Fari þeir á annað borð að gruna okkur, þá er ekki lífið okkar túskildingsvirði.“

„Haldið þér það í raun og veru?“ sagði Good þunglyndislega.

„Það geri ég sannarlega. „Yndishvítu fótleggirnir yðar og gleraugað yðar eru nú það, sem einkennir okkar flokk, og eins og Sir Henry segir, við það verður að sitja. Þakkið þér hamingjunni fyrir að þér komust í stígvélin, og að loftið er hlýtt.“

Good andvarpaði og sagði ekkert framar, en hálfan mánuð þurfti hann til að venjast við þennan búning.


VIII. KAPITULI. - VIÐ KOMUM TIL KÚKÚANALANDS.

Allan síðari hluta dagsins héldum við eftir þessum stórkostlega vegi, sem sífellt lá til norðvesturs, Infadoos og Scragga gengu með okkur, en fylgdarmenn þeirra gengu hér um bil 100 skrefum á undan.

„Infadoos,“ sagði ég loksins, „hver lagði þennan veg?“

„Hann var lagður, lávarður minn, í fyrndinni, enginn veit hvernig eða hvenær, jafnvel ekki galdrakonan Gagool, sem hefur lifað marga mannsaldra. Við erum ekki nógu gamlir til að muna eftir því, þegar hann var lagður. Enginn getur lagt slíkan veg nú, en konungurinn lætur ekkert gras gróa á honum.“

„Og hver hefur ritað á veggina að göngunum, sem við höfum farið gegnum á leiðinni!“ spurði ég, og átti við egypsku myndirnar, sem við höfðum séð.

„Lávarður minn, hendur þær, sem lögðu veginn rituðu hið undarlega letur. Við vitum ekki, hver hefur ritað það.“

„Hvenær komu Kúkúanar til þessa lands?“

„Lávarður minn, þjóðflokkurinn kom hingað eins og stormbylur fyrir tíu þúsund sinnum þúsund mánuðum síðan frá miklu löndunum, sem liggja þarna bakvið,“ og hann benti til norðurs. „Menn gátu ekki komist lengra. Svo segja hinar gömlu raddir feðra vorra, sem borist hafa til vor, barnanna, og svo segir Gagool, galdrakonan, sem þefar upp töfrana, vegna miklu fjallanna, sem umkringja landið,“ og hann benti á snjóþöktu tindana. „Landið var líka gott, svo að þeir settust hér að og urðu sterkir og voldugir, og nú erum vér margir sem sandur sjávarins, og þegar Twala, konungurinn, kallar saman hersveitir sínar, þá þekja fjaðrir þeirra sléttuna, svo langt sem augað eygir.“

„Og ef landið er girt fjöllum, hvern hafa þá hersveitirnar að berjast við?“

„Landið er opið þarna, lávarður minn,“ sagði hann og benti aftur til norðurs, „og við og við vaða hermenn inn í landið eins og skýstólpar. Þeir koma frá landi, sem við þekkjum ekki, og við drepum þá. Það er þriðji partur af mannsævi síðan stríð var. Margar þúsundir dóu í því, en við fyrirfórum þeim, sem komu til að eta okkur upp. Svo hefur ekkert stríð verið síðan.“

„Hermenn ykkar hljóta að vera orðnir þreyttir á að hvílast á spjótum sínum.“

„Lávarður minn, það var einu sinni stríð, rétt eftir að við höfðum tortímt þeim mönnum, sem á okkur réðust, en það var borgarastríð, hver hundurinn át annan.“

„Hvað er um það að segja?“

„Lávarður minn, konungurinn, hálfbróðir minn, átti bróður, sem fæddur var í sama skiptið, og af sömu konunni. Það er ekki siður okkar, lávarður minn, að láta tvíbura lifa; sá veikari verður ávallt að deyja. En móðir konungsins valdi veikara barnið, sem síðar var fætt, því að hjarta hennar hafði meðaumkvun með því, og barnið er Twala, konungurinn. Ég er yngri bróðir hans, fæddur af annarri konu.“

„Jájá?“

„Lávarður minn, Kafu faðir okkar dó, þegar við vorum orðnir fullorðnir, og Imotu, bróðir minn, var gerður að konungi í hans stað, og um nokkurn tíma sat hann að völdum og gat son við vildarkonu sinni. Þegar barnið var þriggja ára gamalt, vildi svo til, að rétt eftir stríðið mikla – enginn maður gat sáð né skorið upp meðan á því stóð – þá vildi svo til, segi ég, að hungursneyð kom yfir landið, og illur kurr kom í þjóðina vegna hungursneyðarinnar, og hún leit í kringum sig eins og hungrað ljón eftir einhverju að rífa í sig. Þá var það, að Gagool, galdrakonan, sem ekki deyr, ávarpaði lýðinn og sagði: „Konungurinn Imotu er enginn konungur.“ Og á þeim tíma var Imotu sjúkur af sárum og lá í kofa sínum og gat ekki hrært sig.

„Þá fór Gagool inn í kofa einn og leiddi út Twala, hálfbróður minn og tvíbura við konunginn, sem hún hafði falið í hellum og gjótum frá því hann fæddist, reif moochuna af búk hans, og sýndi Kúkúanaþjóðinni merki hins heilaga orms, sem elsti sonur konungsins er merktur með við fæðinguna, snúið utan um mittið, en hún hrópaði hástöfum. „Lítið á konung yðar, sem ég hef varðveitt handa yður allt frá fæðingu hans til þessa dags.“ Og þjóðin var óð af hungri og allsendis svipt viti sínu og þekkingu sannleikans, og hún hrópaði: „Konungurinn! konungurinn!“ En ég vissi, að því var ekki svo varið, því að Imotu, bróðir minn, var sá eldri af tvíburunum, og hann var löglegi konungurinn. Og rétt þegar sem hæst stóð á ólátunum, skreiddist Imotu, konungurinn, út úr kofa sínum, þó að hann væri mjög sjúkur, og hélt í hendina á konu sinni, og með honum var litli sonur hans, Ignosi (eldingin).

„Hvað gengur á?“ spurði hann, „hvers vegna hrópa þeir: „Konungurinn! Konungurinn?“

„Þá, var það, að Twala, hans eigin bróðir, fæddur af sömu konu og á sömu stund, hljóp til hans, tók í hárið á honum og rak hníf sinn gegnum hjartað á honum. Og með því að þjóðin er nýjungagjörn, og ávallt reiðubúin til að dýrka sólina, þegar hún er að koma upp, þá, klappaði hún saman höndunum og hrópaði: „Twala er konungurinn! Nú vitum við, að Twala er konungurinn!“

„Og hvað varð af konu hans og syni hennar Ignosi? Drap Twala þau líka?“

„Nei, lávarður minn. Þegar hún sá, að lávarður hennar var dauður, rak hún upp hljóð, tók barnið og stökk á burt. tveimur dögum síðar kom hún til þorps eins, hungruð en engin vildi gefa henni mjólk eða mat, úr því að lávarður hennar, konungurinn, var dauður, því að allir menn hata þá, sem í ólán rata. En um dagsetur laumaðist ofurlítið barn, og færði henni mat, og hún blessaði barnið, og hélt áfram til fjallanna með drenginn sinn, áður en sólin kom upp aftur, og þar hlýtur hún að hafa farist, því að enginn hefur séð hana síðan, og ekki heldur barnið, Ignosi.“

„Þá væri þetta barn, Ignosi, rétti konungurinn, ef það væri enn á lífi?“

„Svo er það, lávarður minn, ormurinn helgi er utan um mitti þess. Ef hann lifir, þá er hann konungurinn, en – hann er löngu dauður.“

„Lít þú á, lávarður minn,“ sagði hann, og hann benti á stórt safn af kofum á sléttunni fyrir neðan okkur, girt skíðgarði, og utan um skíðgarðinn lá aftur mikill skurður. „Þetta er þorpið, þar sem kona Imotus sást síðast með barni sínu, Ignosi. Þar er það, sem við eigum að sofa í nótt – ef annars,“ bætti hann við efablandinn, „lávarðar mínir sofa nokkuð á þessari jörð.“

„Þegar við erum meðal Kúkúana, góði vinur minn, Infadoos, þá förum við að eins og Kúkúanar fara að,“ sagði ég hátignarlega og sneri mér skyndilega við til að ávarpa Good, sem þrammaði áfram með ólundarsvip bak við okkur. Hann hugsaði um alls ekkert annað en að reyna að varna ullarskyrtunni sinni frá að goppast upp í kveldgolunni, og þær tilraunir hans gengu ekki vel. En þá rak ég mér til mikillar furðu, á Umbopa, sem gekk fast bak við mig, og hann hafði auðsjáanlega hlustað með mestu athygli á samtal okkar Infadoos. Svipurinn á andlitinu á honum var ákaflega skrítinn, manni hlaut að detta í hug maður, sem væri að berjast við að koma einhverju löngu gleymdu aftur inn í huga sinn, og sem hefði tekist það að nokkru leyti.

Meðan á öllu þessu stóð, hafði okkur miðað drjúgum ofan eftir til öldumynduðu sléttunnar, sem fyrir neðan okkur lá. Fjöllin, sem við höfðum farið yfir, risu nú upp langt fyrir ofan okkur, og brjóst Shebu voru feimnislega hulin gagnsærri móðublæju. Eftir því, sem við komumst lengra, varð landið yndislegra og yndislegra. Plöntuvöxturinn í hitabeltinu. Sólin var björt og hlý, en ekki brennandi, og undur þægileg gola blés hæglega eftir ilmríku fjallahlíðunum. Og sannast að segja vantaði lítið á, að þetta nýja land væri jarðnesk paradís. Ég hef aldrei séð þess líka, hvorki að fegurð, auðæfum náttúrunnar né loftslagi. Transvaal er fagurt land, en það er ekkert í samanburði við Kúkúanaland.

Jafnskjótt og við höfðum lagt af stað, hafði Infadoos sent skyndiboða á undan okkur, til þess að láta fólkið í þorpinu, sem stóð undir herstjórn hans, vita af komu okkar. Maðurinn hafði farið óvenjulega hart, þegar hann lagði af stað, og Infadoos sagði mér, að hann mundi aldrei linna á sér alla leiðina, með því að hlaup væru líkamsæfing, sem mjög væri iðkuð meðal þjóðar hans.

Afleiðingarnar af þessari sendiferð komu nú í ljós. Þegar við áttum eftir tæpar tvær mílur til þorpsins, gátum við séð hvern herflokkinn eftir annan fara út um hlið þess, og halda til móts við okkur.

Sir Henry lagði höndina á handlegginn á mér, og gat þess, að svo sýndist, sem það mundi eiga að gera okkur það heitt. Eitthvað í málrómi hans dró athygli Infadoos að sér.

„Lávarðar mínir verið óhræddir,“ sagði hann og bar ótt á, „því að í brjósti mínu búa engin svik. Þetta herlið er undir minni stjórn og kemur út eftir skipun minni til þess að fagna ykkur.“

Ég kinkaði kolli eins og ekkert væri um að vera, þó að mér fyndist ekki alveg svo í huga mínum.

Hér um bil hálfa mílu frá hliðum þorpsins hækkaði landið á löngum kafla, og var aflíðandi brekka meðfram veginum. Uppi á henni staðnæmdust hersveitirnar. Það var ljómandi sjón að sjá þær. Í hverri hersveit voru hér um bil 300 manns, og þær sneru skyndilega upp brekkuna, með glampandi spjótum og flaksandi fjöðrum, og staðnæmdust þar, sem þeim var skipað. Um það leyti, sem við komum að brekkunni, voru 12 slíkar hersveitir eða samtals 3,600 menn, komnir út og höfðu staðnæmst meðfram veginum.

Við komum nú á móts við fyrsta herflokkinn, og fengum þar tækifæri til að horfa á þann dýrlegasta flokk manna, sem ég hef nokkurn tíma séð, enda urðum við steinhissa. Allir höfðu mennirnir náð fullum þroska, voru flestir gamlir hermenn um fertugt, og enginn einasti þeirra var lægri en 6 fet, en þar á móti voru margir þeirra 6 fet og 3 til 4 þumlungar. Á höfðum sínum höfðu þeir þunga, dökka skúfa úr Sacaboola-fjöðrum, líka þeim, sem fylgdarmenn okkar skreyttu sig með. Utan um mittið og fyrir neðan hægra hnéð voru bundnir hvítir uxahalar, og í vinstri höndunum héldu þeir á kringlóttum skjöldum, hér um bil 20 þuml. að þvermáli. Grindin var úr næfurþunnri járnplötu, og yfir þessa grind var strengd þunn, mjólkurhvít uxahúð. Vopnin, sem þeir báru, voru einföld, en það munaði mjög mikið um þau. það voru stutt og mjög þung tvíeggjuð sverð með viðarskafti og var blaðið hér um bil 6 þuml. á breidd, þar sem það var breiðast. Sverðin voru ekki ætluð til að kasta þeim, heldur var með þau eins og þau Zúlúvopnin, sem kölluð eru bangwan, að þau voru aðeins fyrir návígi, og sárin, sem fá mátti af þeim á þann hátt, voru voðaleg. Auk þessara bangwans hafði hver maður líka þrjá stóra og þunga hnífa, hver hnífur var hér um bil tvö pund á þyngd. Einn hnífurinn var fastur við uxahalabeltið, og tveir voru aftan á kringlótta skildinum. Þessir hnífar, sem Kúkúanar kölluðu tollas, notuðu þeir til að kasta. Kúkúanskur hermaður getur hitt hvað sem hann vill með þeim í 25 faðma fjarlægð, og þegar þeir ráðast á óvini sína, er það siður þeirra að kasta þessum hnífum til þeirra, hverjum eftir annan í sífellu.

Hver hersveitin fyrir sig stóð eins og safn af koparlíkneskjum, þangað til við vorum komnir framhjá henni. Þá gaf herforingi sá, sem fyrir henni var, merki. Hershöfðinginn var auðþekktur á því, að hann var í skikkju úr hlébarðaskinnum, og stóð nokkrum skrefum fyrir framan hersveitina. Þegar hann hafði gefið merkið, lyftust öll sverðin upp í loftið, og út úr þrjú hundruð kokum kom allt í einu org mikið. Það var hin konunglega kveðja: „Koom.“ Þegar við svo vorum komnir framhjá hersveitinni lagði hún af stað á eftir okkur og fylgdi okkur allt til þorpsins, þangað til allt lið „Gránanna“ (nefnt svo af hvítu skjöldunum), úrvalslið Kúkúana-þjóðarinnar, var komið á hergöngu bak við okkur, svo að jörðin skalf undir fótum þess.

Loksins snerum við af þjóðvegi Salómons og komum að breiða skurðinum, sem umgirti þorpið. Þorpið var að minnsta kosti eina mílu ummáls, og utan um það var sterkur stauragarður úr trjástofnum. Við hliðið lá lítilfjörleg vindubrú yfir skurðinn, og hleypti varðmaður henni niður til þess að lofa okkur að komast inn í þorpið. Það var framúrskarandi reglulega byggt. Eftir miðjum bænum lá breiður vegur, og beint á hann komu aðrar götur, svo að kofarnir mynduðu hvarvetna milli gatnanna jafnhliða ferhyrninga, og í hverjum þessum ferhyrning bjó ein hersveit. Kofarnir voru með hvolflagi og byggðir eins og kofar Zúlúanna úr tágum, og utan á þeim óx ljómandi fallegt gras. En þeir voru ólíkir kofum Zúlúanna að því leyti, að það voru dyr á þeim, sem hægt var að ganga inn um. Þeir voru líka miklu stærri, og umhverfis þá lágu svalir, hér um bil sex feta breiðar, og var ágætt gólf í þeim úr harðtroðnu kalkdufti. Beggja megin fram með breiða veginum, sem lá í gegnum þorpið, stóðu hundruð af konum í röðum – voru komnar þangað af forvitni. Þessar konur eru sérstaklega laglegar, þar sem um Afríkuþjóð var að ræða. Þær eru háar og bera sig vel og eru dásamlega vel vaxnar. Þó að hárið sé stutt, þá er það fremur hrokkið en ullarkennt, nefið er hátt og bogið á þeim flestum og varirnar eru ekki ljótlega þykkar eins og á flestum Afríku kynflokkum. En mest þótti okkur vert um það, hve framúrskarandi hæggerðar þær voru, og hvernig sópaði að þeim. Þær litu að sínu leyti eins vel út eins og það fólk, sem vanalega sést í sölum höfðingja, og að því leyti voru þær ólíkar Zúlú-konum, og frændum þeirra, Masainum, sem byggðu landið sunnan við Zanzibar. Þeim gekk forvitni til að koma út úr kofunum og horfa á okkur, en ekki létu þær heyrast til sín nokkurt ruddalegt furðuorð, eða dónalegar útásetningar um leið og við þrömmuðum þreytulega framhjá þeim. Gamli Infadoos stalst til að benda þeim með hendinni á „yndishvítu fótleggina“ á vesalings Good, sem honum þóttu taka öllum dásemdum fram. Það var líka auðséð, að konurnar dáðust hjartanlega að þeim, en ekkert orð sögðu þær um það. Þær störðu með dökku augunum sínum á þennan snjóhvíta yndisleik (skinnið á Good var framúrskarandi hvítt) – en meira gerðu þær ekki. En Good lét sér það líka algerlega nægja, enda er það eðlisfar hans að láta lítið yfir sér.

Þegar við vorum komnir inn í mitt þorpið, nam Infadoos staðar við dyrnar á stórum kofa. Utan um þann kofa lá hringur af mörgum smærri kofum, og var nokkurt autt bil á milli hans og húsahringsins.

„Gangið inn, þér synir stjarnanna,” sagði hann með viðhafnarraust, „og látið svo lítið að hvílast um stund í okkar lítilfjörlegu híbýlum. Ofurlítið skal ykkur verða fært af mat, svo að þið skulið ekki neyðast til að þrengja belti ykkar af hungri, nokkuð af hunangi og nokkuð af mjólk og einn eða tvo uxa og fáeinar sauðkindur. Það er ekki mikið, lávarðar mínir, en það er þó dálítill matur í því.“

„Það er gott,“ sagði ég. „Infadoos, við erum þreyttir af ferðast um stórveldi loftsins, látum okkur nú hvílast.“

Við gengum því inn í kofann, og þar var prýðilega búist við okkur. Rúm voru búin upp fyrir okkur úr sútuðum skinnum til að hvíla á, og vatn var sett fyrir okkur til að þvo okkur í.

Allt í einu heyrðum við hávaða fyrir utan húsið. Við gengum út í dyrnar og sáum hóp af stúlkum með mjólk og hunang í potti. Bak við stúlkurnar voru nokkrir ungir menn, sem ráku á undan sér feitan uxa.

Við tókum á móti gjöfunum, og þá tók einn af ungu mönnunum hníf frá belti sínu og skar uxann laglega á háls. Eftir 10 mínútur var uxinn dauður, fleginn og limaður sundur. Það besta af ketinu var því næst skorið af handa okkur, og afganginn gaf ég, í nafni flokks okkar, hermönnunum kringum okkur. Þeir tóku við honum og skiptu „gjöf hvítu mannanna“ milli sín.

Umbopa tók nú til starfa og fór að sjóða okkar skammt, með hjálp sérlega laglegrar ungrar stúlku, í stórum leirpotti yfir eldi, sem kveiktur var utan við kofann, og þegar maturinn var nær því tilbúinn, sendum við eftir Infadoos og buðum honum og Scragga, konungssyninum, að borða með okkur.

Þeir komu þegar, og við settumst á dálitla baklausa stóla, sem töluvert var af þar í kofanum (því að Kúkúanar sitja yfir höfuð ekki á hækjum sínum, eins og Zúlúarnir gera), og svo tókum við til miðdegismatar okkar. Gamli herramaðurinn var sérlega ástúðlegur og kurteis, en við urðum þess varir, að ungi maðurinn leit tortryggnislega til okkar. Hann hafði, ásamt öðrum í flokki sínum, orðið gagntekinn af ótta, þegar hann sá, hve hvítir við vorum, og svo töfrapípur okkar, en mér virtist svo sem minna færi að verða úr ótta hans, þegar hann komst að því, að við átum, drukkum og sváfum eins og aðrir dauðlegir menn, og að í stað óttans kæmi greinileg tortryggni – og við kunnum heldur óþægilega við hana.

Meðan við vorum að borða gat Sir Henry þess við mig, að það mundi vera vel til fallið að reyna að komast eftir því, hvort þeir menn, sem við vorum til komnir, vissu nokkuð um, hvað hefði orðið af bróður hans, eða hvort þeir hefðu nokkurn tíma séð hann eða heyrt um hann getið. En ég áleit yfir höfuð að tala, að það mundi vera viturlegra að tala ekkert um það atriði að svo stöddu.

Eftir máltíðina fylltum við pípur okkar og kveiktum í þeim, og urðu Infadoos og Scragga steinhissa, þegar þeir sáu það. Kúkúanar þekktu auðsjáanlega ekkert til hinnar guðdómlegu nautnar tóbaksreykinganna. Mikið óx af jurtinni meðal þeirra, en það var um þá eins og Zúlúana, að þeir tóku hana aðeins í nefið og gátu alls ekki þekkt hana af þessari nýju mynd.

Ég spurði nú Infadoos, hvenær við ættum að halda áfram ferð okkar, og mér þótti mjög vænt um að fá að heyra, að undirbúningur hefði verið viðhafður, til þess að við legðum af stað morguninn eftir, því að sendimenn höfðu þegar farið á stað til þess að láta, Twala, konunginn, vita um komu okkar. Það kom þá fram, að Twala var í höfuðborg sinni, sem nefnd var Loo, og var að undirbúa hina miklu, árlegu hátíð, sem haldin var í fyrstu viku júnímánaðar. Til þessarar samkomu var öllu herliðinu stefnt, að undanteknum vissum hersveitum, sem skildar voru eftir á vissum stöðum sem setulið, og var herliðinu fylkt frammi fyrir konunginum. Og þá var gerð hin mikla árlega galdramannaleit, sem síðar mun verða betur minnst á.

„Við áttum að leggja af stað í dögun, og Infadoos, sem ætlaði að fylgja okkur, brjóst við, að við mundum komast til Loo að kveldi annars dags, svo framarlega sem við tefðumst ekki af einhverju slysi eða vatnavöxtum.

Þegar gestir okkar höfðu skýrt okkur frá þessu, buðu þeir okkur góða nótt. Við komum okkur saman um að skiptast á um að standa á verði, og þrír okkar fleygðu sér niður og sofnuðu hinum sæta svefni þreyttra manna, en sá fjórði var á fótum til þess að líta eftir svikum, sem við kynnum að verða fyrir.


IX. KAPITULI. - TWALA KONUNGUR.

Ég get komist hjá því að skýra nákvæmlega frá því, sem okkur henti á leið okkar til Loo. Það er góð tveggja daga ferð eftir þjóðvegi Salómons, og þessi þjóðvegur hélt beinu striki alla leið inn í mitt Kúkúanaland. Ég læt mér nægja að geta þess, að eftir því sem við komumst lengra, virtist landið verða frjósamara og frjósamara, og þorpin, ásamt breiðu ræktuðu beltunum, sem utan um þau lágu, fleiri og fleiri. Þau voru öll byggð á sama hátt eins og fyrsta þorpið, sem við komum til, og mikið setulið var í hverju þeirra. Því er í raun og veru eins varið í Kúkúanalandi, eins og meðal Þjóðverja, Zúlúa og Masaia, að hver einasti fullhraustur maður er hermaður, svo að öll þjóðin getur farið að berjast, hvenær sem á þarf að halda að sækja eða verja sig. Á leiðinni náðu okkur þúsundir af hermönnum, sem voru á hraðri ferð til Loo, til þess að vera viðstaddir hina miklu árlegu liðskönnun og hátíðahald, og aldrei hef ég séð tilkomumeiri hersveitir. Daginn eftir að við lögðum upp staðnæmdumst við um sólsetursbilið, til þess að hvíla okkur dálitla stund, efst uppi á hæðum nokkrum, sem vegurinn lá yfir, og þar lá Loo sjálf fyrir framan okkur á ljómandi fallegri og frjósamri sléttu. Það var ákaflega stór staður, þar sem um Afríkubæ var að ræða, á að giska fullar fimm mílur ummáls. Út frá staðnum lágu svo þorp, þar sem hersveitirnar sátu við hátíðleg tækifæri, og skrítin skeifumynduð hæð var hér um bil tvær mílur fyrir norðan staðinn. Þeirri hæð áttum við síðar að fá að kynnast betur. Afstaða bæjarins var ljómandi falleg, og um hann miðjan rann á ein, og skipti honum í tvo parta. Brýr virtust vera á henni hér og þar, og ef til vill hefur það verið sama áin, sem við höfðum séð frá hlíðunum að Brjóstum Shebu. Sextíu eða sjötíu mílur burtu risu þrjú mikil, snjóþakin fjöll upp úr sléttunni og stóðu þannig, að hvert um sig myndaði eitt hornið á þríhyrningi. Lögunin á þessum fjöllum var allt önnur en á Brjóstum Shebu; þau voru brött og þverhnípt, þar sem Brjóstin voru ávöl og aflíðandi.

Infadoos sá, að við horfðum á fjöllin, og hann tók til máls, án þess við yrtum á hann:

„Vegurinn endar þar,“ sagði hann, og benti á fjöllin, sem Kúkúanar kölluðu „Galdrakonurnar þrjár.“

„Hvers vegna endar hann þar?“ spurði ég.

„Hver veit það?“ sagði hann og yppti öxlum: „Fjöllin eru full af hellum, og milli þeirra er mikið djúp. Það var þangað sem vitringar fyrri tíma voru vanir að fara til þess að sækja það, sem þeir voru að leita að í þessu landi, hvað sem það var, og þar eru konungar vorir nú grafnir á Stað Dauðans.“

„Hvað voru þeir að sækja?“ spurði ég áfergjulega.

„Það veit ég sannarlega ekki. Lávarðar mínir, sem komnir eru frá, stjörnunum, ættu að vita það,“ svaraði hann og leit um leið skyndilega til mín. Hann vissi auðsjáanlega meira, en hann hirti um að segja.

„Já,“ hélt ég áfram, „þú hefur rétt að mæla, í stjörnunum vitum við margt. Ég hef til dæmis heyrt, að vitringar fornaldarinnar hafi komið til þessa fjalls til þess að ná í bjarta steina, fögur leikföng og gult járn.“

„Lávarður minn er vitur,“ svaraði hann þurrlega. „Ég er ekki nema barn og get ekki talað við lávarð minn um slíka hluti. Lávarður minn verður að tala við Gagool gömlu, þar sem konungurinn býr. Hún er jafnvel eins vitur og lávarður minn.“ Og svo sneri hann sér frá mér.

Þegar er hann var farinn frá mér, sneri ég mér að félögum mínum og benti á fjöllin. „Þarna eru demantanámur Salómons,“ sagði ég.

Umbopa stóð hjá þeim. Hann hafði auðsjáanlega fengið eitt af köstunum, sem hann fékk svo oft þessa síðustu daga, og var utan við sig. Þó vissi hann, hvað það var, sem ég hafði sagt.

„Já, Macumazahn,“ tók hann fram í á zúlúsku, „demantarnir eru þar áreiðanlega, og þið skuluð fá þá fyrst ykkur, hvítu mönnunum, þykir svo vænt um leikföng og peninga.“

„Hvernig veist þú það, Umbopa?“ spurði ég þurrlega, því að ég kunni ekki við það, hve leyndardómslega hann lét sér.

Hann hló. „Mig dreymdi það að nóttunni til, þér hvítu menn. Og svo sneri hann líka við mér bakinu og fór frá mér.

„Hvað á nú þessi dökkleiti kunningi okkar við?“ sagði Sir Henry. „Hann veit meira en hann hirðir um að segja, það er greinilegt. Heyrið þér annars, Quatermain, hefur hann frétt nokkuð um – um bróður minn?“

„Ekkert, hann hefur spurt hvern einasta mann, sem hann hefur komist í kunningsskap við, en allir segja þeir, að enginn hvítur maður hafi nokkurn tíma sést fyrr í landinu.“

„Haldið þið hann hafi annars nokkurn tíma komist hingað?“ sagði Good, „það er kraftaverk, að við skulum vera komnir á þennan stað. Er líklegt að honum hefði verið mögulegt að komast hingað án uppdráttar?“

„Ég veit ekki,“ svaraði Sir Henry með hryggðarsvip, „en hvernig sem á því stendur, þá held ég, að ég muni finna hann.“

Sólin seig hægt og hægt niður, og allt í einu steyptist myrkrið yfir landið, og það var eins og þreifa mætti á því. Það var ekki tími til að draga andann á milli dags og nætur, enga mjúklega ummyndunarsýningu ber þá fyrir augu manns, því að á þessum breiddargráðum er rökkrið ekki til. Umbreytingin frá degi til nætur er eins skjótleg og eins algerð eins og umbreytingin frá lífi til dauða. Sólin hvarf og himininn var vafinn skugga. En ekki stóð lengi á því, því að í austri var bjarma að sjá, svo kom bogin egg af silfurlitu ljósi, og að lokum gægðist allur bogi hins vaxandi tungls upp yfir sléttuna, skaut glampandi örvum í allar áttir og fyllti jörðina með daufum ljóma, eins og glampi af ágætisverkum góðs manns skín um stund á hinn litla heim mannsins, eftir að sól hans hefur sest, og lýsir ferðamanninum, þangað til dagurinn er runninn.

Við stóðum og horfðum á þessa yndislegu sjón, meðan stjörnurnar fölnuðu upp fyrir þessari hreinu hátign, og við fundum, að hjörtu okkar lyftust upp í viðurvist einhverrar fegurðar, sem við gátum ekki gert okkur grein fyrir, og enn miklu síður lýst. Líf mitt hefur verið óheflað, lesari góður, en það hafa þó verið fáein atvik í því, sem ég er þakklátur fyrir að hafa lifað, og eitt þeirra er það, að mér skyldi auðnast að sjá þessa tunglsuppkomu í Kúkúanalandi. Allt í einu vorum við truflaðir í þessum hugleiðingum af kurteisa vininum okkar, Infadoos.

„Ef lávarðar mínir eru ferðbúnir, þá skulum við halda fram til Loo. Þar er hreysi fyrirbúið handa lávörðum mínum til næturinnar. Tunglsljósið er nú glatt, svo að við munum ekki detta á leiðinni.“

Við féllumst á þetta, og eftir einn klukkutíma vorum við komnir til bæjar-takmarkanna. Eldar herliðsins umkringdu hann, og hann sýndist alveg endalaust flæmi. Good þótti jafnan gaman að vitlausri fyndni, og hann skírði bæinn „Endalausu Loo“. Nú komum við að díki einu, sem vindubrú lá yfir, þar heyrðum við vopnabrak, og varðmaður kallaði til okkar með rámri raust. Infadoos sagði eitthvert inngangsorð, sem ég gat ekki náð. Þá var okkur heilsað, og við héldum eftir götunni, sem lá eftir miðjum mikla grassléttubænum. Eftir að við höfðum þrammað hálfan tíma framhjá endalausum röðum af kofum, staðnæmdist Infadoos loksins við hliðið á dálitlu safni af kofum, sem lágu utan við lítinn garð, þar sem gólfið var úr kalksteinsdufti, og hér sagði hann okkur, að við ættum að vera, „þó að fátæklegt væri.“

Við fórum inn og sáum, að kofi hafði verið búinn út handa hverjum okkar. Þessir kofar voru betri en nokkrir aðrir, sem við höfðum séð, og í hverjum þeirra var mjög þægilegt rúm uppbúið úr sútuðum skinnum, sem breidd voru ofan á dýnur úr ilmandi grasi. Matur var þar líka tilbúinn handa okkur, og jafnskjótt og við höfðum þvegið okkur úr vatni, sem beið okkar í leirkerum, komu nokkrar ungar laglegar stúlkur til okkar með steikt ket og maísstöngla, og var þetta laglega framreitt á trédiskum. Þetta fengu þær okkur með auðmjúklegum lotningarmerkjum.

Við átum og drukkum, svo voru rúmin öll færð inn í einn kofann að beiðni okkar, og ungu stúlkurnar elskulegu brostu að þeirri varúð. Því næst fleygðum við okkur niður til að sofa, öldungis örmagna af þessari löngu ferð.

Þegar við vöknuðum, sáum við, að sólin var komin hátt upp á himininn, og að stúlkurnar, sem þjónuðu okkur, og sem ekki virtust þjást af neinni heimskulegri feimni, voru komnar í kofann. Þeim hafði verið skipað að vera þar og hjálpa okkur að „búa okkur.“

„Búa okkur,“ nöldraði Good, „það er sannarlega ekki lengi verið að því, þegar maður er ekki í öðru en einni skyrtu og stígvélum. Ég vildi, að þér vilduð biðja þær um buxurnar mínar.“

Ég bað þær því um buxurnar, en mér var sagt, að þessir helgu dómar hefðu þegar verið fengnir konunginum í hendur, og að hann vildi finna okkur fyrir hádegið.

Við báðum stúlkurnar að fara út, og þeim þótti það nokkuð undarlegt, og kunnu því heldur ekkert vel. Svo fórum við að búa okkur svo vel sem ástæður okkar leyfðu. Good lagði enda út í að raka sig aftur hægra megin á andlitinu, en við sýndum honum fram á, að hann mætti með engu móti snerta vinstri kinnina, þar var nú komið allra fallegasta skegg. Af okkur hinum er það að segja, að við létum nægja að þvo okkur vel og greiða hár okkar. Gulu lokkarnir á Sir Henry náðu nú næstum því niður á herðar, og nú var hann líkari dönskum fornköppum en nokkru sinni áður. Gráa stríið á mér var fullur þumlungur á lengd, í stað þess, að ég skoða að jafnaði hálfan þumlung það lengsta, sem ég geti haft það.

Eftir að við höfðum étið morgunverð okkar og reykt eina pípu hver, fengum við þau boð með engum lítilfjörlegri manni en Infadoos sjálfum, að Twala konungur væri reiðubúinn að taka á móti okkur, ef við vildum gera svo vel að koma.

Við gátum þess í svari okkar, að okkur þætti betra að bíða, þangað til sólin væri komin dálítið hærra á loft, að við værum þreyttir eftir ferðina o.s.frv., o.s.frv. Það er ávallt vel til fallið, að flýta sér ekki of mikið, þegar við villimenn er að eiga. Þeir eru vísir til að álíta það ótta eða undirferli, þegar þeim er sýnd kurteisi. Og því var það, að þó að okkur væri alveg eins annt um að finna Twala, eins og Twala gat verið að finna okkur, þá, settumst við niður og biðum einn klukkutíma. Tímann, sem við biðum, notuðum við til að taka til þær gjafir, sem við gátum gefið, en þær voru ekki miklar, eins og að líkindum ræður, þar sem vörubirgðirnar voru jafnrýrar. Gjafirnar voru Winchester-byssan, sem Ventvogel heitinn hafði haft, og nokkrar perlur. Byssuna og skotfæri ætluðum við að gefa hans konunglegu hátign, en perlurnar voru handa konum hans og hirðmönnum. Við höfðum þegar gefið Infadoos og Scragga fáeinar þeirra, og við höfðum komist að því, að þeir voru alveg hugfangnir af þeim, því að þeir höfðu aldrei séð neitt líkt þeim fyrr. Loksins lýstum við því yfir, að við værum albúnir, og við lögðum af stað. Infadoos vísaði okkur veg, og Umbopa bar byssuna og perlurnar.

Eftir að við höfðum gengið fáein hundruð faðma, komum við að umgirtu svæði, nokkuð líku því, sem lá utan um kofana, sem okkur hafði hlotnast. Það var aðeins fimmtíu sinnum stærra. Það hefur ekki getað verið minna en 6 eða 7 ekrur. Allt í kringum girðinguna, sem lá utan um þetta svæði, var röð af kofum, þar bjuggu konur konungsins. Beint á móti hliðinu, hinum megin á þessu auða svæði, var mjög stór kofi, sem stóð einstakur. Í honum bjó hans hátign. Allt hitt var autt svæði, það er að segja, það hefði verið autt, hefði það ekki verið fyllt með hverri hersveitinni eftir aðra. Þar hafði verið safnað saman sjö til átta þúsund hermönnum. Þessir menn stóðu grafkyrrir eins og líkneskjur, meðan við vorum að komast milli þeirra, og ómögulegt væri að gefa mönnum hugmynd um, hve tilkomumiklir þeir voru með blaktandi fjöðrum, glampandi sverðum og uxahúðar-skjöldunum með járngrindinni.

Svæðið beint framundan stóra kofanum var mannlaust, en nokkrir stólar stóðu þar. Á þrjá þeirra settumst við, eftir að Infadoos hafði gefið okkur bendingu um það. En Umbopa stóð bak við okkur. Af Infadoos er það að segja, að hann stóð kyrr við dyrnar á kofanum. Svo biðum við í tíu mínútur eða meira í dauðaþögn, en vorum okkur þess meðvitandi, að eitthvað 8,000 pör af augum störðu á okkur og veittu okkur nákvæmustu eftirtekt. Þetta var nokkuð örðug raun, ekki ósvipuð járnburði miðaldanna að sínu leyti, en við stóðumst hana eins vel og við gátum. Loksins opnuðust dyr á kofanum, og út um þær kom risavaxinn maður, með ljómandi fallegt tigrisdýraskinn yfir herðarnar. Á eftir honum kom pilturinn Scragga, og eitthvað, sem okkur virtist vera api, lasburða og af sér genginn og klæddur í skinntreyju. Karlmaðurinn settist á stól, Scragga stóð bak við hann, og apinn af sér gengni skreið á fjórum fótum í skuggann við kofann, og fleygði sér þar niður.

Enn var dauðaþögn.

Svo lét maðurinn risavaxni skinnið falla af herðum sér og stóð uppréttur frammi fyrir okkur, og hann var sannarlega voðalegur ásýndum. Maðurinn var feikilega stórvaxinn, og hann hafði það lang viðbjóðslegasta andlit, sem við höfðum nokkurn tíma séð. Varirnar voru þykkar eins og á svertingja, nefið var flatt, ekki var nema eitt augað, og það var dökkleitt og glóandi (í staðinn fyrir hitt augað var hola í andlitinu), og allur svipurinn yfir andlitinu var grimmdarlegur og holdlegur. Frá stóra höfðinu hófst upp stórkostlegur skúfur af hvítum strútsfjöðrum. Utan um búkinn var brynja úr skínandi hringum, en utan um mittið og hægra hnéð voru vanalegu skrautgjarðirnar úr hvítum uxahölum. Í hægri hendinni hélt hann á ógurlega stóru spjóti. Utan um hálsinn var þykkur gullhringur og framan á ennið var festur einn einstakur, ákaflega stór, óslípaður demant.

Enn var þögn, en hún stóð ekki lengi. Allt í einu lyfti maðurinn, sem við höfðum getið okkur til að mundi vera konungurinn, og það með réttu, spjótinu mikla upp. Þegar í stað var þessari hreyfingu svarað með því, að 8000 spjót lyftust upp, og út úr 8000 kokum hljómaði konunglega kveðjan „Koom“. Þrisvar var þetta endurtekið, og í hvert skipti skalf jörðin af hávaðanum, sem ekki verður jafnað saman við neitt nema dýpstu nótur þrumunnar.

„Ver þú auðmjúkur, lýður,“ vældi mjó rödd, sem virtist koma frá apanum í skugganum, „það er konungurinn.“

„Það er konungurinn,“ grenjuðu 8000 kok sem svar. „Vér erum auðmjúkur lýður, það er konungurinn.“

Svo varð aftur þögn – dauðaþögn. Þegar í stað var hún þó rofin. Hermaður einn vinstra megin við okkur missti skjöld sinn, og hann féll á kalksteinsgólfið og glamraði við.

Twala, sneri sínu eina, kalda auga í þá áttina, sem skröltið hafði orðið. „Kom þú hingað,“ sagði hann með þrumuraust.

Fríður ungur maður gekk út úr fylkingunni og staðnæmdist frammi fyrir honum.

„Það var þinn skjöldur, sem féll, klaufinn þinn. Vilt þú valda mér svívirðingar í augum ókunnra manna frá stjörnunum? Hvað hefur þú þér til afsökunar?“

Og þá sáum við vesalings manninn fölna, þótt yfirlitur hans væri dökkur.

„Það var af hendingu, ó! kálfur svörtu kýrinnar,“ sagði hann í hálfum hljóðum.

„Þeirrar hendingar verður þú að gjalda. Þú hefur gert mig hlægilegan, bústu við dauða þínum.“

„Ég er uxi konungsins,“ svaraði maðurinn lágt.

„Scragga,“ grenjaði konungurinn, „lát mig sjá, hvernig þú kannt að nota spjót. Dreptu þennan klaufahund fyrir mig.“

Scragga steig fram með illmannlegu glotti og lyfti upp spjóti sinu. Vesalings maðurinn tók hendinni um augun og stóð grafkyrr. Af okkur er það að segja, að við stirðnuðum upp af skelfingu.

Einu sinni, tvisvar sveiflaði hann spjótinu, og svo skaut hann því og hitti beint í hjartað – spjótið stóð eitt fet út úr bakinu á hermanninum. Hann sló upp höndunum og féll dauður niður. Frá manngrúanum, sem umhverfis stóð, kom einhver kliður, líkur nöldri. Kliðurinn veltist eftir fylkingunum og svo dó hann út af. Sorgarleikurinn var á enda, – þarna lá líkið, og við höfðum enn ekki gert okkur grein fyrir, að leiknum væri lokið. Sir Henry stökk upp og sór dýran eið, svo fékk þögnin vald yfir honum, og hann settist aftur niður.

„Það var vel skotið,“ sagði konungurinn; „farið burt með hann.“

Fjórir menn komu fram úr fylkingunni, lyftu upp líki hins myrta manns og báru það burt.

„Hyljið blóðblettina, hyljið þá,“ vældi mjóa röddin frá apamyndinni. „Konungurinn hefur talað, dómi konungsins er fullnægt.“

Þá kom stúlka fram frá afturhliðinni á kofanum. Hún hélt á keri, fullu af kalkdufti, og því var stráð yfir rauða blettinn, svo að hann sást ekki lengur.

Meðan á þessu stóð, sauð reiðin í Sir Henry út af því, sem við hafði borið. Við áttum örðugt með að halda honum í stilli.

„Sitjið þér kyrr í guðs bænum,“ hvíslaði ég, „líf okkar er undir því komið.“

Hann lét undan og sat rólegur.

Twala var kyrr þangað til ekki sáust lengur nein merki eftir sorgarleik þann, sem leikinn hafði verið, þá ávarpaði hann okkur.

„Hvítu menn,“ sagði hann. „Þið sem komið hingað frá þeim stöðvum, sem ég þekki ekki, og í erindum, sem ég þekki ekki – ég heilsa ykkur.“

„Við heilsum þér, Twala, konungur Kúkúana,“ svaraði ég.

„Hvítu menn, hvaðan komið þið og hvaða erindi eigið þið?“

„Við komum frá stjörnunum, spyr oss ekki á hvern hátt. Við komum til að sjá þetta land.“

„Þið komið langt að til þess að sjá lítið. Og þessi maður sem með ykkur er“ – hann benti á Umbopa – „kemur hann líka frá stjörnunum?“

„Hann líka, það eru menn með sama lit og þú í himninum fyrir ofan okkur, en þú skalt ekki spyrja um málefni, sem eru þér of háleit, Twala konungur.“

„Þið talið hárri raustu, þið menn frá stjörnunum,“ svaraði Twala, og mér geðjaðist ekki rétt vel að rómnum. „Munið eftir því, að stjörnurnar eru langt í burtu, og þið eruð hér. Hvernig fer, ef ég fer með ykkur eins og manninn, sem verið er að bera burt?“

Ég rak upp skellihlátur, þó að mér væri lítill hlátur í hug.

„Konungur,“ sagði ég, „varaðu þig, gakktu varlega á heitum steinum, annars kynnir þú að brenna á þér fæturna. Haltu um skaftið á sverðinu, annars kynnir þú að skera þig í hendurnar. Snertu aðeins eitt hár á höfðum vorum, og eyðileggingin skal koma yfir þig. Hvort hafa ekki þessir“ – ég benti á Infadoos og Scragga og sá, að ungi fanturinn var önnum kafinn að verka blóðið úr hermanninum af spjóti sínu – „hvort hafa ekki þessir sagt þér hvers konar menn við erum? Hefur þú nokkurn tíma séð okkar líka og ég benti á Good og var fyllilega sannfærður um, að hann hefði aldrei séð nokkurn fyrr, sem hefði verið það minnsta svipaður þeim manni, eins og hann þá leit út.

„Það er satt, það hef ég ekki séð,“ svaraði konungurinn.

„Hafa þeir ekki sagt þér, hvernig við drepum álengdar?“

„Þeir hafa sagt mér það, en ég trúi þeim ekki. Látið þið mig sjá ykkur drepa. Drepið fyrir mig einhvern af þessum mönnum, sem standa þarna hinum megin“ – og hann benti á mennina, sem stóðu beint á móti honum – „og þá skal ég trúa.“

„Nei,“ svaraði ég, „við úthellum engu mannsblóði nema í réttvísri hegningu, en ef þú vilt sjá þetta, þá bjóð þú þjónum þínum að reka uxa inn um hliðin, og áður en hann hefur hlaupið 20 skref, mun ég hafa fellt hann.“

„Nei,“ svaraði konungurinn hlæjandi, „drepið fyrir mig mann, og þá skal ég trúa.“

„Gott og vel, konungur, látum svo vera,“ svaraði ég þurrlega. „Gerðu svo vel og gakktu yfir þetta auða svæði, og áður en fætur þínir hafa náð hliðinu, skalt þú liggja dauður, eða ef þú vilt það ekki, þá sendu son þinn Scragga“ (á því augnabliki hefði mér verið það mikil ánægja að skjóta hann).

Þegar Scragga heyrði þessa tillögu, rak hann upp nokkurs konar ýlfur og stökk inn í kofann.

Twala bretti brýrnar hátignarlega, honum geðjaðist ekki að tillögunni.

„Látið reka ungan uxa inn,“ sagði hann.

Tveir menn fóru þegar af stað á harðahlaupum.

„Gerið þér nú svo vel að skjóta, Sir Henry,“ sagði ég. „Ég vil sýna þessum tudda, að ég sé ekki eini galdramaðurinn í hópnum.“

Sir Henry tók því expressbyssuna og bjó sig undir.

„Ég vona að mér takist vel,“ sagði hann og stundi við.

„Yður verður að takast vel,“ svaraði ég. „Ef þér hittið ekki með fyrstu kúlunni, þá látið hann fá aðra. Miðið eins og uxinn væri 75 faðma frá yður, og bíðið, þangað til dýrið snýr við yður hliðinni.“

Svo kom þögn, þangað til við sáum allt í einu uxa einn koma þjótandi að hliðinu. Hann kom inn um hliðið, svo sá hann þennan mikla mannsöfnuð, nam staðar frá sér numinn, sneri sér við og baulaði.

„Nú er að yður komið,“ hvíslaði ég.

Byssan hófst upp.

Skotið reið af, og uxinn lá á hryggnum og lamdist um með fótunum, skotið hafði farið inn milli rifjanna. Hálfhola kúlan hafði leyst verk sitt vel af hendi, og undrunar andvarp kom upp frá brjóstum þessara þúsunda, sem þarna voru saman safnaðar.

Ég sneri mér við eins og ekkert væri um að vera.

„Hef ég logið, konungur?“

„Nei, hvítu menn, þið hafið sagt satt,“ svaraði hann, og það var nokkur ótti í málrómnum.

„Hlustaðu, Twala,“ hélt ég áfram. „Þú hefur séð. Vita skaltu nú, að við komum með frið, ekki með stríði. Lít þú á“ (og ég lyfti upp Winchesterbyssunni), „hér er hol stöng, sem þú munt geta drepið með, jafnvel eins og við drepum, aðeins legg ég það á hana, að þú skalt ekki geta drepið neinn mann með henni. Ef þú lyftir henni upp á móti nokkrum manni, þá skal hún drepa þig. Bíddu við, ég ætla enn að sýna þér nokkuð. Lát þú einhvern mann ganga 40 skref frá mér og setja spjótskaft niður í jörðina, þannig að önnur hliðin á blaðinu snúi að okkur.“

Þessu var lokið eftir fáar mínútur.

„Sjáðu nú, ég ætla að brjóta spjótið.“

Ég miðaði vandlega og hleypti af. Kúlan hitti blaðið og braut það í mola.

Aftur heyrðist undrunarandvarp.

„Nú, Twala,“ sagði ég og rétti byssuna að honum, „þessa töfrapípu gef ég þér, og smámsaman munum vér sýna þér, hvernig á að nota hana, en varaðu þig að beita ekki töfrum stjarnanna gegn börnum jarðarinnar“.

Hann tók við byssunni með mestu gætni og lagði hana niður við fætur sér. Um leið og hann gerði það, tók ég eftir því, að uppþornaða veran, sem líktist svo mjög apa, skreiddist fram úr skugganum, sem var við kofann. Hún skreið á fjórum fótum, en þegar hún kom þangað, sem konungurinn sat, reis hún á fætur og kastaði af sér skinnblæjunni, sem huldi andlit hennar, og þá kom í ljós framúrskarandi einkennilegt og galdralegt andlit. Það var (að því er virtist) kvenmannsandlit ævagamalt og svo skinhorað, að það var ekki stærra um sig en andlit á ársgömlu barni, og ekkert var annað á því að sjá en djúpar, gular hrukkur. Innan um hrukkurnar langt inni í andlitinu var þverrifa, þar sem munnur annars á að vera, og fyrir neðan þá rifu beygðist hakan út á við, oddhvöss í endann. Ekkert nef, sem svo gat heitið, var þar að sjá. Sannast að segja hefði mátt halda, að þetta væri andlitið á sólþurrkuðu líki, hefðu þar ekki verið stór og dökk augu, sem voru fjörug og gáfuleg og sem glóðu líkt og gimsteinar í líkgeymsluhúsi undir snjóhvítum augnabrúnum og pergamentlitu hauskúpunni, sem stóð þar fram. Af hauskúpunni var það annars að segja, að hún var alveg nakin og gul á lit.

Það fór hræðsluhrollur um okkur, þegar við sáum þetta voðalega andlit. Kerlingin stóð kyrr eitt augnablik, og svo rak hún allt í einu út grindhoraða kló, með nöglum nálega þumlungs löngum og lagði hana á herðarnar á Twala, konunginum, og tók til orða í mjóum skerandi róm:

„Hlusta þú, konungur! Hlusta þú, þjóð! Hlustið fjöll og sléttur og ár, heimili Kúkuana kynflokksins! Hlustið himinn og sól, regn og stormur og þoka! Hlustið allir dauðir hlutir, sem lifið og verðið að deyja aftur! Hlustið, allir hlutir, sem verðið að lifa til þess að deyja aftur, andi lífsins er í mér, og ég spái! Ég spái!“

Orðin dóu út á vörum hennar og breyttust í veikt andvarp. Skelfing virtist grípa um hjörtu allra þeirra, sem heyrðu þau, að okkur meðtöldum. Kerlingin var mjög hræðileg.

„Blóð! blóð! blóð! blóðfljót, blóð hvarvetna. Ég sé það, ég finn lyktina af því, ég finn bragðið af því. Það er salt, það rennur í rauðum lækjum eftir jörðinni, því rignir niður frá himninum.

„Fótatak! fótatak! fótatak. Þramm hvítu mannanna, sem koma langt að. Það skekur jörðina, jörðin skelfur fyrir herra sínum.“

„Blóðið er gott, rauða blóðið er fagurt. Það er engin lykt til, sem jafnast við lyktina af nýúthelltu blóði. Ljónin munu lepja það og öskra, gammarnir munu þvo vængi sína úr því og garga af fögnuði.

„Ég er gömul! ég er gömul! Ég hef séð mikið af blóði, ha! ha! en ég mun sjá meira áður en ég dey og kætast. Hvað haldið þið, að ég sé gömul? Feður ykkar þekktu mig, og þeirra feður þekktu mig, og þeirra feðra feður. Ég hef séð hvíta manninn og ég þekki eftirlanganir hans. Ég er gömul, en fjöllin eru eldri en ég. Hver lagði veginn mikla? Segið þið mér það. Hver reit myndirnar á klettana? segið þið mér það. Hver reisti upp þessar þrjár þöglu galdrakonur, sem stara út yfir hyldýpið þarna hinum megin? segið þið mér það.“ (Og hún benti til þriggja þverhníptu fjallanna, sem við höfðum tekið eftir kveldinu áður).

„Þið vitið það ekki, en ég veit það. Það voru hvítir menn, sem voru til, áður en þið voruð til, sem munu verða til, þegar þið eruð ekki til, sem munu éta ykkur upp og tortíma ykkur. Já! já! já!

„Og í hverjum erindum komu þeir, hvítu mennirnir, óttalegu mennirnir, sem eru lærðir í töfrum og allri þekking, sterku mennirnir, ósveigjanlegu mennirnir? Hvað er þessi bjarti steinn á enni þínu, konungur? Hvers hendur gerðu járnklæðin á brjósti þínu, konungur? Þið vitið það ekki, en ég veit það. Ég, gamla konan, ég, vitra konan, ég isanúsi“ (galdrakennarinn).

Svo sneri hún gammhausnum á sér til okkar.

„Að hverju leitið þér, hvítu menn frá stjörnunum – ó, já, frá stjörnunum? Eruð þið að leita að nokkru, sem týnst hefur? Þið munuð ekki finna hann hér. Hann er ekki hér. Mannsaldur eftir mannsaldur hefur aldrei nokkur hvítur fótur stigið á þetta land, aldrei nema einu sinni, og hann yfirgaf það aðeins til að deyja. Þið komið eftir björtum steinum, þið munuð finna þá, þegar blóðið er orðið þurrt, en skylduð þið snúa aftur til þess staðar, sem þið komuð frá, eða skylduð þið staðnæmast hér hjá, mér? Ha, ha! ha!“

„Og þú, þú með dökkleita skinnið, þú, sem ber þig svo tígulega“ (nú benti hún með grindhoruðum fingrinum á Umbopa), „hver ert þú, og að hverju ert þú að leita? Ekki að steinum, sem skína, ekki að gulum málmi, sem glóir. Þess háttar lætur þú „hvítu mönnunum frá stjörnunum“ eftir. Ég held, ég þekki þig, ég held ég þekki lyktina af blóðinu í æðum þínum. Spenn þú af þér beltið –“

Nú kom krampi í andlitið á þessu undarlega kvikindi. Hún fékk niðurfallssóttar aðsvif, datt niður froðufellandi og var borin burt inn í kofann.

Konungur reis á fætur skjálfandi og veifaði hendinni. Á augabragði fóru hersveitirnar að tínast burt. Í halarófu, og eftir 10 mínútur var þetta mikla svæði orðið mannlaust, að undanteknu okkur félögum, konunginum og fáeinum þjónum hans.

„Hvítu menn,“ sagði konungurinn, „mér dettur í hug að drepa ykkur. Gagool hefur talað undarleg orð. Hvað segið þið?“

Ég rak upp hlátur. „Varaðu þig, konungur, það er ekki svo auðvelt að drepa okkur. Þú sást, hvernig fyrir uxanum fór, vildir þú láta fara fyrir þér eins og uxanum?“

Konungurinn yggldi sig. „Það er ekki gott að hafa hótanir í frammi við konung.“

„Við höfum ekki hótanir í frammi. Við tölum það sem satt er. Reyndu að drepa okkur, konungur, og vittu, hvernig fer.“

Hinn mikli maður tók hendinni um ennið.

„Farið í friði,“ sagði hann loksins. „Í kveld er dansinn mikli. Hann skuluð Þið sjá. óttist ekki, að ég muni leggja snörur fyrir ykkur. Á morgun mun ég hugsa málið.“

„Gott og vel, konungur,“ svaraði ég eins og ekkert væri um að vera, og þar næst risum við á fætur og héldum aftur til kofa okkar.

Infadoos fór með okkur.


X. KAPITULI. - GALDRALEITIN.

Þegar við komum til kofa okkar, stakk ég upp á því við Infadoos, að hann kæmi inn með okkur.

„Nú Infadoos,“ sagði ég, „við vildum tala við þig.“

„Lávarðar mínir tali.“

„Okkur virðist, Infadoos, að Twala, konungur sé grimmur maður.“

„Svo er það, lávarðar mínir. Um landið fer óp út af grimmdarverkum hans. Í kveld munuð þið sjá. Þá er hin mikla galdraleit, og af mörgum mun finnast lykt sem galdramönnum, og þeir munu verða drepnir. Einskis líf er óhult. Ef konungurinn girnist nautpening einhvers manns eða líf hans eða ef hann er hræddur um, að einhver muni æsa menn til uppreisnar gegn sér, þá finnur Gagool, sem þið sáuð, eða einhver af konum þeim, sem hún hefur kennt að finna galdra, það á lyktinni, að þessi maður er galdramaður, og hann verður drepinn. Margir munu deyja, áður en tunglið fölnar í nótt. Þannig fer það ávallt. Ef til vill verð ég líka drepinn. Hingað til hefur mér verið þyrmt, af því að ég kann að hernaði og hermönnunum þykir vænt um mig, en ég veit ekki hve lengi ég verð látinn lifa. Landið andvarpar af grimmdarverkum Twala, konungsins. Það er orðið þreytt á honum og manndrápum hans.“

„Hvers vegna er það þá, Infadoos, að þjóðin veltir honum ekki úr völdum?“

„Nei, lávarðar mínir, hann er konungurinn, og ef hann yrði drepinn, þá mundi Scragga setjast að völdum í hans stað, og hjarta Scragga er dekkra en hjarta Twala, föður hans. Ef Scragga væri konungur, þá mundi okið á hálsi vorum verða þyngra heldur en ok Twala. Hefði Imotu aldrei verið drepinn, eða ef Ignosi, sonur hans, hefði lifað, þá hefði allt verið öðruvísi; en þeir eru báðir dauðir.“

„Hvernig veist þú, að Ignosi sé dauður?“ sagði rödd bak við okkur. Við litum við steinhissa til að sjá, hver hefði talað. Það var Umbopa.

„Hvað áttu við, drengur?“ spurði Infadoos, „hver sagði þér, að þú skyldir tala?“

„Hlustaðu á, Infadoos, og þá skal ég segja þér sögu. Fyrir mörgum árum var Imotu konungur drepinn í þessu landi, og konan hans flýði á burt með drenginn Ignosi. Er ekki svo?“

„Svo er það.“

„Það var sagt, að konan og drengurinn hefði dáið á fjöllunum. Er ekki svo?“

„Það er líka satt.“

„Jæja, það vildi svo til, að móðirin og drengurinn Ignosi dóu ekki. Þau komust yfir fjöllin, og flokkur eyðimerkurmanna, sem á ferð voru, fluttu þau yfir sandana hinum megin við fjöllin, þangað til þau komu loksins aftur til vatns og grass og trjáa.“

„Hvernig veist þú þetta?“

„Taktu nú eftir. Þau héldu áfram lengra og lengra, marga mánuði, þangað til þau loksins komu til lands eins, þar sem þjóðin er kölluð Amazúlu, sem líka líkist Kúkúunum, lifir af hernaði, og hjá henni dvöldust þau, þangað til móðirin dó loksins. Þá fór sonurinn, Ignosi, aftur að ráfa um, og hann kom til undralands eins, þar sem hvítir menn lifa, og í mörg ár lærði hann visku hinna hvítu manna.“

„Þetta er dálagleg lygasaga,“ sagði Infadoos.

„Í mörg ár var hann þar í þjóns- og hermannsstöðu, en hann geymdi í hjarta sínu allt, sem móðir hans hafði sagt honum um sínar eigin stöðvar, og hann velti því fyrir sér, hvernig hann ætti að komast þangað aftur til þess að sjá sína eigin þjóð og hús föður síns, áður en hann dæi. Mörg ár lifði hann og beið, og loksins kom tíminn eins og hann ávallt kemur til þess, sem getur beðið eftir honum, og hann hitti nokkra hvíta menn, sem vildu leita þessa óþekkta lands, og hann slóst í för með þeim. Hvítu mennirnir lögðu af stað og héldu lengra og lengra, leitandi að manni einum, sem týndur var. Þeir fóru yfir eyðimörkina brennandi, þeir fóru yfir fjöllin snjóþöktu, og þeir komust til lands Kúkúana, og þar hittu þeir þig, Infadoos!“

„Þú ert sannarlega brjálaður, að þú skulir tala þannig,“ sagði gamli maðurinn steinhissa.

„Það heldur þú, skoðaðu til, ég skal sýna þér, föðurbróður minn. Ég er Ignosi, sá löglegi konungur Kúkúana!“

Svo lét hann í einum rykk falla mouchuna eða beltið um miðju sér, og stóð nakinn frammi fyrir okkur.

„Lítið á mig,“ sagði hann, „hvað er þetta?“ og hann benti á stóra ormsmerkið, sem málað var með bláum lit utan um mittið á honum. Halinn hvarf inn í opinn munninn rétt fyrir ofan mjaðmirnar.

Infadoos leit á, og augun ætluðu nærri því út úr höfðinu á honum, og svo féll hann á kné.

„Koom! Koom!“ hrópaði hann, „það er sonur bróður míns, það er konungurinn.“

„Sagði ég þér ekki, föðurbróðir minn? Statt upp, ég er enn ekki konungurinn, en með þínu fulltingi, og með fulltingi þessara hraustu hvítu manna, sem eru vinir mínir, mun ég verða það. En gamla konan, Gagool, hafði á réttu að standa. Landið mun áður fljóta í blóði, og hennar blóð skal renna ásamt öðru blóði, því að hún drap föður minn með orðum sínum og rak móður mína á burt. Og kjóstu nú, Infadoos. Vilt þú taka höndum saman við mig, og verða minn maður? Vilt þú taka þátt í hættum þeim, sem fyrir mér liggja og hjálpa mér til að bylta þessum grimmdarsegg og morðingja úr völdum eða viltu það ekki? Kjóstu.“

Gamli maðurinn tók hendinni um höfuðið og hugsaði sig um. Því næst reis hann á fætur og gekk þangað sem Umbopa, eða réttara sagt Ignosi, stóð, féll á kné fyrir framan hann og tók í hendina á honum.

„Ignosi, löglegi konungur Kúkúana, ég tek höndum saman við þig og verð þinn maður til dauðans. Þegar þú varst barn, hossaði ég þér á hnjánum á mér, og nú skal gamli handleggurinn minn berjast fyrir þér og frelsinu.“

„Gott og vel, Infadoos, vinni ég sigur skalt þú verða æðstur maður í þessu konungsríki, næstur konunginum, misheppnist mér, þá getur þú ekki nema dáið, og dauðinn er hvort sem er ekki langt undan landi fyrir þér. Stattu upp föðurbróðir minn.“

„Og þið, hvítu menn, viljið þið hjálpa mér? Hvað get ég boðið ykkur! Hvítu steinana – ef ég vinn sigur og get fundið þá, þá skuluð þið fá eins marga af þeim eins og þið getið flutt á burt héðan. Nægir ykkur það?“

Ég þýddi orð hans.

„Segið honum,“ svaraði Sir Henry, „að hann villist á Englendingum. Auður er góður, og verði hann á vegi okkar þá tökum við hann, en enginn herramaður selur sig fyrir auð. En ég segi þetta fyrir mitt leyti: Mér hefur alltaf geðjast vel að Umbopa, og að því leyti, sem í mínu valdi stendur, mun ég styrkja hann við þetta tækifæri. Það verður mér sérstök ánægja að reyna að jafna á þessum grimmdardjöfli, Twala. Hvað segið þér, Good, og þér, Quatermain?“

„Jæja,“ sagði Good, til þess að tala í líkingu, sem allt þetta fólk virtist vera svo mikið gefið fyrir, „þér getið sagt honum, að þjarkið sé sannarlega gott og vermi hrukkur hjartans, og að ég fyrir mitt leyti skuli ekki bregðast honum. Mitt eina skilyrði er það, að hann lofi mér að vera í buxum.“

Ég þýddi þessi svör.

„Gott og vel, vinir mínir,“ sagði Ignosi, áður Umbopa, „og hvað segir þú, Macumazahn, gamli veiðimaður, sem ert kænni en særður vísundur?“

Ég hugsaði mig um dálitla stund og klóraði mér í höfðinu.

„Umbopa, eða Ignosi“, sagði ég, „mér geðjast ekki vel að stjórnarbyltingum. Ég er friðsamur og fremur huglítill“ (þá. brosti Umbopa), „en að hinu leytinu hleyp ég ekki burt frá vinum mínum, Ignosi. Þú hefur ekki brugðist okkur, heldur farið að eins og maður, og ég ætla ekki að bregðast þér. En mundu eftir því, að ég er verslunarmaður og þarf að hafa ofan af fyrir mér, svo ég þigg boð þitt viðvíkjandi þessum demöntum, ef við skyldum nokkurn tíma verða svo staddir að geta þegið það. Svo er annað: við komum hingað eins og þú veist, til þess að skyggnast eftir hinum týnda bróður Incubus (Sir Henry). Þú verður að hjálpa okkur til að finna hann.“

„Það skal ég gera,“ svaraði hann. „Bíddu við, Infadoos, ég særi þig við ormsmerkið, sem er utan um mittið á mér, að segja mér sannleikann. Hefur nokkur hvítur maður stígið fæti sínum á þetta land, svo að þú vitir til?“

„Enginn, Ignosi.“

„Mundir þú hafa vitað það, ef nokkur hvítur maður hefði sést, eða nokkur heyrt um hann getið?“

„Ég mundi áreiðanlega hafa vitað það.“

„Þú heyrir það, Incubu,“ sagði Ignosi við Sir Henry, „hann hefur ekki hingað komið.“

„Jæja,“ sagði Sir Henry og stundi við. „Þarna kemur það. Ég býst við, að hann hafi aldrei hingað komið. Vesalingurinn. Svo þetta hefur allt verið til ónýtis. Verði guðs vilji.“

„Nú skulum við fara að hugsa um það, sem við eigum að gera,“ sagði ég, því að mér var annt um að sleppa við þetta málefni, sem var svo óviðfelldið. „Það er gott og blessað að vera konungur með guðdómlegum rétti, Ignosi, en hvernig hugsarðu þér að verða konungur í raun og veru?“

„Það veit ég sannarlega ekki. Infadoos, dettur þér nokkurt ráð í hug?“

„Ignosi, sonur eldingarinnar,“ svaraði föðurbróðir hans. „Í kvöld er dansleikurinn mikli og galdraleitir. Af mörgum mun finnast lykt, og þeir munu farast, og í hjörtum margra annarra mun verða sorg og angur og reiði gegn Twala, konunginum. Þegar dansleiknum verður lokið, mun ég tala við nokkra af stórhöfðingjunum, sem aftur munu tala við herflokka sína, svo framarlega sem ég get fengið þá á mitt mál. Ég mun í fyrstu fara að þeim með hægð og koma þeim í skilning um, að þú sért í raun og veru konungurinn, og ég held, að þegar sólin kemur upp á morgun, munir þú hafa yfir 20 þúsundum spjóta að ráða. Og nú verð ég að fara að hugsa og heyra og undirbúa. Þegar dansinum er lokið, mun ég, ef ég verð þá enn á lífi, hitta þig hér, og þá skulum við talast við. Þó að allt gangi sem best, þá verður stríð.“

Á þessu augnabliki trufluðust viðræður okkar, því að hrópað var til okkar, að sendimenn væru komnir frá konunginum. Við gengum að dyrunum á kofanum og buðum að hleypa þeim inn. Þá komu þegar inn þrír menn og hver þeirra kom með skínandi hringabrynju og dýrlega stríðsexi.

„Gjafir lávarðar míns, konungsins, til hvítu mannanna!“ hrópaði kallari, sem með þeim kom.

Við þökkum konunginum,“ svaraði ég, „farið.“

„Mennirnir fóru, og við virtum herklæðin fyrir okkur og þótti mjög mikils um vert. Aldrei höfðum við séð hringa betur gerða. Öll skikkjan hrökk svo fast saman, að lítið vantaði á að hylja mætti alla hringana með því að leggja báðar hendurnar utan yfir þá.

„Búið þið þetta til hér í landinu, Infadoos?“ spurði ég, „það er ljómandi vel gert.“

„Nei, lávarður minn, við höfum erft það eftir forfeður okkar Við vitum ekki, hver hefur búið það til, og ekki eru nema fáar eftir af þessum skyrtum. Engir bera þær nema þeir, sem eru af konunglegum ættum. Þetta eru töfraskyrtur, sem spjót geta ekki komist í gegnum. Hverjum, sem í þeim er, er nær því óhætt í bardögum. Konunginum geðjast vel að ykkur eða hann er mjög hræddur, því að annars hefði hann ekki sent ykkur þetta. Verið í þeim í kvöld, lávarðar mínir.“

Það sem eftir var af deginum höfðum við lítið um okkur, hvíldumst og töluðum um, hvernig ástatt var fyrir okkur, enda var ekki ástæðulaust, þó að okkur væri órótt út af því. Loksins kom sólarlagið, þúsundir af varðeldum glóðu, og gegnum myrkrið heyrðum við þramm margra fóta og glamur spjóta í hundraðatali, þegar herflokkarnir voru á leiðinni til stöðva þeirra, sem þeim hafði verið sagt að vera á til þess að vera búnir til hins mikla dansleiks.

Um kl. 10 kom tunglið upp í öllum ljóma sínum, og meðan við stóðum og vorum að horfa á uppgöngu þess, kom Infadoos, herklæddur frá hvirfli til ilja, og með honum komu 20 menn sem varðlið til þess að fylgja okkur á dansleikinn. Við höfðum þegar farið í hringaskyrturnar, sem konungurinn hafði sent okkur, eins og Infadoos hafði ráðið okkur til. Við vorum í þeim innan undir okkar vanalegu fötum, og okkur til mikillar furðu fannst okkur þær hvorki þungar né óþægilegar. Þessar stálskyrtur, sem auðsjáanlega höfðu verið búnar til handa mjög stórum mönnum, héngu nokkuð lauslega utan um Good og mig, en utan um hinn tígulega líkama Sir Henrys féll skyrtan eins og hanski. Svo gyrtum við okkur skammbyssum okkar, tókum okkur í hönd stríðsaxirnar, sem konungurinn hafði sent okkur með herklæðunum, og lögðum af stað.

Þegar við komum á stóra auða svæðið, þar sem konungurinn hafði talað við okkur um morguninn, var það troðfullt af eitthvað 20 þúsund mönnum, sem skipað hafði verið niður eftir herflokkum. Herflokkunum var aftur skipt í sveitir, og milli hverrar sveitar var dálítill stígur, til þess að konur þær, sem finna áttu galdramennina, skyldu geta farið þar um fram og aftur. Það er ómögulegt að gera sér hugmynd um neina áhrifameiri sjón en þennan mikla og skipulega grúa af vopnuðum mönnum. Þarna stóðu þeir steinþegjandi, og glampandi máninn hellti ljósi sínu yfir þennan skóg af upplyftum spjótum, yfir hina tígulegu líkami hermannanna, blaktandi fjaðrirnar og skildina fagurlega marglita. Hvert, sem við litum, sáum við röð við röð af óbifanlegum andlitum, og fyrir ofan þau var röð eftir röð af glampandi spjótum.

„Allt herliðið er hér víst,“ sagði ég við Infadoos.

„Nei, Macumazahn,“ svaraði hann, „ekki nema þriðjungurinn af því. Einn þriðjungurinn er viðstaddur þennan dans á hverju ári, öðrum þriðjungnum er saman safnað hér fyrir utan, til þess að hann sé við höndina, þegar manndrápin byrja, ennfremur eru um 10 þúsundir manna sem setulið á landamærum umhverfis Loo, og hitt liðið er á verði í þorpunum út um landið. Þú sérð að þetta er mjög stór þjóð.“

„Þeir hafa mjög hljótt um sig,“ sagði Good, og því var sannarlega svo varið, að þessi mikla kyrrð meðal svo mikils safnaðar lifandi manna hlaut nær því að kúga mann.

„Hvað segir Bougwan?“ spurði Infadoos.

Ég þýddi orð Goods.

„Þeir menn, sem skuggi dauðans hangir yfir, hafa hljótt um sig,“ svaraði hann með þungu yfirbragði.

„Verða margir drepnir?“

„Mjög, margir.“

„Það virðist svo,“ sagði ég við hina, „sem við eigum hér að veita aðstoð okkar við skylmingaleik, sem ekki er horft í kostnaðinn við.“

Það fór hrollur um Sir Henry, og Good sagðist óska, að við gætum sloppið við þetta.

„Segðu mér,“ sagði ég við Infadoos, „erum við í hættu staddir?“

„Ég veit ekki, lávarðar mínir. Ég vona að svo sé ekki, en látið ekki sjá á ykkur hræðslu. Ef þið lifið þessa nótt af, getur allt farið vel. Það er kominn illur kurr í hermennina við konunginn.“

Meðan á þessum viðræðum hafði staðið, höfðum við jafnt og þétt haldið áfram inn að miðju þessa auða svæðis. Þar voru settir nokkrir stólar. Á leiðinni tókum við eftir öðrum litlum flokki manna, sem kom frá kofa konungsins.

„Það er konungurinn, Twala, Scragga sonur hans og Gagool gamla, og sjá, með þeim eru þeir, sem drepa“, og hann benti á dálítinn hóp manna, þeir voru risavaxnir og grimmilegir ásýndum, hér um bil 12 að tölu, og höfðu spjót í annarri hendi sér, en kylfu í hinni.

Konungurinn settist á stól í miðjunni, Gagool hnipraði sig við fætur hans, og hinir stóðu fyrir aftan hann.

„Heilir, hvítu lávarðar,“ hrópaði hann, þegar við komum þangað, sem hann sat. Setjist, eyðið ekki hinum dýrmæta tíma – nóttin er allt of stutt fyrir dáðir þær, sem drýgja skal. Þið komið á heillastund, og munið sjá dýrlega sýningu. Lítið í kringum ykkur,“ og hann velti þessari einu glyrnu, sem í honum var, frá einum herflokkraun til annars. „Getið þið séð annað eins og þetta í stjörnunum? Sjáið, hve þeir skjálfa í vonsku sinni, allir þeir, sem hafa illt í hjörtum sínum og óttast dóminn af himnum ofan.“

„Byrjið! byrjið!“ hrópaði Gagool með sinni mjóu, skerandi rödd. „Gaupurnar eru hungraðar, þær ýlfra eftir æti. Byrjið! byrjið.“ Svo varð dauðaþögn eitt augnablik, og grunurinn um það, sem koma átti, gerði þá þögn ógurlega.

Konungurinn lyfti upp spjóti sínu, og allt í einu lyftust upp þúsundir fóta, eins og þeir fætur hefðu allir setið á sama manninum, og stöppuðu á jörðina. Þetta var endurtekið þrisvar sinnum, svo að hinn sterki grundvöllur hristist og skalf við. Svo fór ein einstök rödd langt úti í hringnum að syngja sorgarsöng, og viðkvæðið við hann var eitthvað á þessa leið:

„Hvað er hlutskipti manns, sem af konu er fæddur?“

Og svo valt aftur svar út frá hverju koki í þessum mikla manngrúa: –

„Dauðinn!“

Smám saman tók hver hersveitin eftir aðra undir sönginn, þangað til allur þessi vopnaði mannfjöldi var farinn að syngja hann, og ég gat ekki lengur náð orðunum, nema að því leyti, að mér virtust koma fram í þeim ýmsar mannlegar ástríður, hræðsla og fögnuður. Stundum fannst mér þetta vera ástarsöngur, stundum þjótandi hersöngur og allra síðast jarðarfararkvæði, sem allt í einu endaði á átakanlegu neyðarópi.

Aftur lagðist þögn yfir staðinn, og aftur rauf konungurinn hana með því að lyfta upp hendinni. Allt í einu heyrðist ótt og títt fótatak, og út úr hermannagrúanum komu undarlegar og voðalegar fígúrur á harða hlaupum í áttina þangað, sem við vorum. Þegar við komum nær, sáum við að þetta voru konur, flestar aldraðar, því að hvíta hárið þeirra, sem skreytt var með litlum tálknum, flaksaðist aftur af þeim. Andlit þeirra voru máluð með hvítum og gulum rákum. Niður eftir bökum þeirra héngu höggormaskinn, og um mitti þeirra voru belti úr mannabeinum og glamraði í þeim. Hver þeirra hélt í kræklóttum höndunum í dálítilli hríslu. Samtals voru þær tíu. Þegar þær voru komnar fram undan okkur, námu þær staðar, og ein þeirra benti með hríslu sinni á Gagool, þar sem hún hnipraði sig saman, og hrópaði:

„Móðir, gamla móðir, hér erum við!“

„Gott! gott! gott!“ skrækti gamla óræstið. „Eru augu ykkar skörp, isanusis (galdra-kennendur), þið, sem sjáið það, sem í myrkrunum er hulið?“

„Móðir, þau eru skörp.“

„Gott! gott! gott! Eru skilningarvit ykkar vakandi, isanusis – getið þið fundið lyktina af blóði, getið þið hreinsað úr landinu þá vondu menn, sem búa yfir illu gegn konunginum og gegn nágrönnum sínum? Eruð þið reiðubúnar til að beita réttvísi „himinsins fyrir ofan okkur“, þið, sem (ég hef kennt, sem hafið etið af brauði visku minnar og drukkið af vatni töfra minna?“

„Móðir, við getum það.“

„Farið þá! Tefjið ekki, þið gammar, sjáið drápsmennina,“ og hún benti á böðlahópinn bakvið, sem ekki spáði góðu, „gerið spjót þeirra hvöss. Hvítu mennirnir frá fjarlægum stöðum eru fíknir í að fá að sjá þetta. Farið!“

Galdrakerlingarnar ráku upp æðislegt org og sentust í allar áttir, líkt og brotin úr holkúlu, og í þurru beinunum utan um mittið á þeim glamraði á hlaupunum. Þær fóru rakleiðis til ýmsra staða í þessari þéttu mannþyrpingu. Við gátum ekki gætt að þeim öllum, og því veittum við nákvæma eftirtekt þeirri isanusi, sem næst okkur var. Þegar hún átti eftir fá skref til hermannanna, nam hún staðar og fór að dansa, eins og hún væri æðisgengin. Hún snerist í hring í sífellu, nærri því ótrúlega ótt og grenjaði um leið vissar setningar, svo sem: „Ég finn lyktina af honum, illgerðamanninum!“ „Hann er nærri mér, sá sem gaf móður sinni inn eitur!“ „Ég heyri hugsanir hans, sem býr yfir illráðum gegn konunginum!“

Harðar og harðar dansaði hún, þangað til hún hafði komið sér í það óstjórnaræði, að froðan fauk í flyksum frá, gnístandi tönnunum, augun sýndust ætla út úr höfðinu og vöðvarnir titruðu sýnilega. Allt í einu nam hún staðar, stóð grafkyrr, og stirðnaði öll, eins og veiðihundar gera, þegar þeir finna lyktina af veiðidýrunum, því næst skreið hún hægt og hægt til hermannanna fram undan henni og rétti hrísluna út frá, sér. Okkur virtist sem stilling þeirra rénaði, þegar hún kom, og að þeir hopuðu undan henni með hryllingi. Af okkur er það að segja, að við horfðum á hreyfingar hennar, eins og einhverjir voðalegir töfrar hefðu fengið vald yfir okkur. Nú var hún komin fast að þeim, og enn skreið hún á fjórum fótum eins og hundur. Svo nam hún staðar og benti. skreið svo aftur áfram eitt eða tvö skref.

Allt í einu var þessu lokið. Hún rak upp org, stökk inn í hópinn og snerti háan hermann með hríslu sinni. Tveir af félögum hins dæmda manns, þeir, sem stóðu allra næst honum, tóku þegar í hann, sinn í hvorn handlegg, og fóru með hann til konungsins.

Hann veitti ekkert viðnám, en við sáum, að hann dró limi sína áfram eins og allur kraftur væri úr þeim farinn, og fingur hans, sem spjótið hafði dottið úr, voru linir, eins og á nýdauðum manni.

Þegar hann kom, stigu tveir böðlafantarnir fram til þess að taka á móti honum. Þegar þeir höfðu mæst, sneru böðlarnir sér við, að konunginum, til þess að taka á móti skipunum hans.

„Drepið!“ sagði konungurinn.

„Drepið!“ vældi Gagool.

„Drepið!“ tók Scragga upp eftir þeim, og hlakkaði við.

Orðin voru naumast komin út af vörunum á þeim, þegar illverkið hafði verið unnið. Annar böðullinn hafði rekið spjótið sitt í gegnum hjartað á manninum, og til þess að þeir skyldu vera tvöfalt vissir í sinni sök, hafði hinn mölvað honum hauskúpuna með stóru kylfunni sinni.

„Einn,“ taldi Twala konungur, og líkaminn var dreginn fáein skref burt og lagður þar endilangur.

Naumast var þessu lokið, þegar komið var með annan manngarm eins og uxa, sem leiddur er til slátrunar. Þetta sinn sáum við af kápu úr hlébarðaskinni, að þetta var tiginn maður. Aftur þetta voðaorð sagt, og maðurinn féll dauður niður.

„Tveir,“ taldi konungurinn.

Og þannig hélt þessi voðaleikur áfram, þangað til eitthvað hundrað líkamar lágu endilangir í röðum fyrir aftan okkur. Ég hef heyrt getið um skylmingaleiki rómversku keisaranna og um nautaat á Spáni, en ég leyfi mér að efast um, að þeir leikir hafi komist í hálfkvisti við galdraveiðar Kúkúana að voðalegleiknum til. Almenningi þótti að minnsta kosti gaman að skylmingaleikjunum og nautaatinu, en því var sannarlega ekki svo varið meðal Kúkúana.

Einu sinni risum við á fætur og reyndum að aftra þessu, en Twala lét það alvarlega í ljósi við okkur, að við skyldum ekkert skipta okkur af því.

„Látið lögunum verða framgengt, hvítu menn. Þessir hundar eru töframenn og illgerðamenn. Það er vel til fallið, að þeir deyi.“ Annað svar fengum við ekki.

Um miðnæturskeið varð hlé á. Galdraleitendurnar söfnuðust saman og voru auðsjáanlega dauðþreyttar eftir blóðvinnu sína. Við héldum, að nú væri leiknum lokið. En því var ekki svo varið, því að allt í einu reis kerlingin Gagool, okkur til mikillar furðu, upp, þaðan sem hún hafði legið einum kuðung. Hún studdist við staf og staulaðist fram mannlausa svæðið. Það var óvenjuleg sjón að sjá þetta óttalega gamla kvikindi með gammshausnum, sem var orðin svo bogin af elli að nærri lá, að hausinn næmi við jörðina – það var óvenjuleg sjón að sjá henni smámsaman aukast svo þróttur, að hún þaut loksins um með nærri því eins miklu fjöri eins og óheillanornir þær, sem hún hafði kennt. Aftur og fram þaut hún raulandi eitthvað fyrir munni sér, þangað til hún allt í einu lamdi út frá sér, þangað er hár maður stóð fyrir framan herflokkinn og snerti manninn. Um leið og hún gerði það, reis andvarp upp frá herflokknum, maðurinn var auðsjáanlega foringi hans. En samt sem áður tóku tveir menn úr herflokknum í hann og drógu hann fram, svo að hann skyldi verða drepinn. Við komumst síðar að því, að þessi maður var auðugur mjög og voldugur, enda var hann náfrændi konungsins.

Hann var drepinn, og konungurinn taldi hundrað og þrjá. Þá fór Gagool aftur að stökkva aftur og fram og dróst smámsaman nær og nær okkur.

„Svei mér sem ég held ekki, að hún ætli að fara að reyna að leika sér við okkur,“ sagði Good, og fór hrollur um hann.

„Þvættingur,“ sagði Sir Henry.

Af mér er það að segja, að þegar ég sá þennan gamla djöful koma dansandi nær og nær, þá sökk hjartað í mér hreint og beint ofan í stígvélin mín. Ég leit aftur fyrir mig á þessa löngu röð af líkum og ég skalf við.

Nær og nær færðist Gagool hoppandi og leit í allar áttir eins og krókóttur stafur, sem andi hefði hlaupið í. Voðalegu augun í henni glitruðu og glóðu áfergjulega og framúrskarandi óheillavænlega.

Nær kom hún og enn nær, og augu hvers einasta manns í þessum mikla manngrúa fylgdu hreyfingum hennar með innilegustu forvitni. Loksins nam hún staðar og benti.

„Við hvern skyldi hún eiga?“ spurði Sir Henry sjálfan sig.

Að einu augnabliki liðnu lék enginn vafi á því framar, því að kerlingin hafði þotið inn á milli okkar og snortið Umbopa, öðru nafn Ignosi, á herðarnar.

„Ég finn lyktina af honum,“ grenjaði hún. „Drepið hann, drepið hann, hann er fullur af illu, drepið hann, útlendinginn, áður en blóð flýtur frammi fyrir honum. Drepið hann, konungur!“

Nú varð þögn, sem ég notaði mér tafarlaust.

„Konungur,“ kallaði ég hátt og reis upp úr sæti mínu. „Þessi maður er þjónn gesta þinna, hann er hundur þeirra! Hver sem úthellir blóði hunds okkar, hann úthellir okkar blóði. Ég særi þig við hið heilaga lög-mál gestrisninnar að halda hlífiskildi yfir honum.“

„Gagool, móðir galdrakennaranna hefur fundið lyktina af honum. Hann hlýtur að deyja, hvítu menn,“ svaraði konungurinn.

„Nei, hann skal ekki deyja,“ svaraði ég, „en sá, maður, sem reynir að snerta hann, skal sannarlega deyja.“

„Takið hann,“ grenjaði Twala til böðlanna, sem stóðu umhverfis, rauðir upp undir augu af blóði mannanna, sem þeir höfðu drepið.

Þeir færðust nær okkur, og svo kom hik á þá. Af Ignosi er það að segja, að hann lyfti upp spjóti sínu og lyfti því á þann hátt, eins og hann væri staðráðinn í að selja líf sitt dýrt.

„Færið ykkur aftur á bak, hundar,“ kallaði ég, „ef þið viljið sjá ljós morgundagsins. Snertið eitt hár á höfði hans, og konungur ykkar skal deyja,“ og ég miðaði á Twala með skammbyssunni minni, Sir Henry miðaði á þann, sem fyrir böðlunum var, og sem var að færa sig nær til þess að fullnægja dómnum, og Good miðaði vandlega á Gagool.

Twala brá augsýnilega, þegar skammbyssan mín var komin jafnhátt breiða brjóstinu á honum.

„Jæja,“ sagði ég, „hvað á að verða úr þessu, Twala?“

„Leggið töfrapípur ykkar frá ykkur,“ sagði hann. „Þið hafið sært mig í nafni gestavináttunnar, og þess vegna er það, en ekki af hræðslu við það, sem þið getið gert, að ég gef honum líf. Farið í friði.“

„Gott og vel,“ svaraði ég eins og ekkert væri um að vera. „Við erum þreyttir á manndrápum og viljum fara að sofa. Er dansleiknum lokið?“

„Honum er lokið,“ svaraði Twala ólundarlega. „Fleygið hundum þessum út til gaupnanna og gammanna,“ og hann benti á löngu líkaröðina. Svo lyfti hann upp sverði sínu.

Á sama augnabliki fóru herflokkarnir steinþegjandi að tínast út um hliðið, en dálítill flokkur af þreyttum mönnum varð eftir til þess að draga burtu líkama hinna drepnu manna.

Þá stóðum við líka upp. Við kvöddum konunginn, og hann lét naumast sem hann sæi það, svo fórum við til kofa okkar.

„Jæja,“ sagði Sir Henry, þegar við settumst niður, eftir að við höfðum kveikt á lampa með lagi, sem tíðkast meðal Kúkúana. Kveikurinn er gerður úr rifjum af vissri tegund af pálmaviðarblöðum, og olían úr hreinsaðri flóðhestafeiti – „ég skal ekki neita því, að mér sé æði óglatt.“

„Hafi mér verið nokkuð illa við að hjálpa Umbopa til þess að hefja uppreisn gegn þessum bölvuðum fanti,“ sagði Good, „þá er ég kominn á aðra skoðun nú. Ég var ekki fær um meiri raun en að sitja kyrr meðan á þessum manndrápum stóð. Ég reyndi að halda augunum lokuðum, en þeim hætti við að opnast einmitt, þegar þau áttu ekki að gera það. Hvar skyldi Infadoos vera? Umbopa góður, þú ættir að vera okkur þakklátur, það vantaði ekki mikið á að það kæmi gat á skinnið á þér, sem öndin í þér hefði getað farið út um.“

„Ég er þakklátur, Bougwan,“ svaraði Umbopa, þegar ég hafði þýtt þetta fyrir hann, „og ég mun ekki gleyma. Infadoos mun bráðum koma. Við verðum að bíða.“

Svo kveiktum við í pípunum okkar og biðum.


XI. KAPITULI. - JARTEIKNIÐ.

Lengi – ég held eina tvo tíma – sátum við þarna þegjandi, því að endurminningin um skelfingar þær, sem við höfðum séð, hafði of mikið vald yfir okkur til þess að við gætum talað. Loksins, rétt þegar við vorum farnir að hugsa um að leggja okkur út af – því að daufar ljósrákir voru farnar að sjást á austurloftinu, þá heyrðum við fótatak. Svo heimtaði varðmaðurinn inngönguorðið. Það virtist svo, sem því hefði verið svarað, þó að það heyrðist ekki, því að fótatakið færðist nær. Og á næstu sekúndu var Infadoos kominn inn í kofann, og með honum eitthvað sex tígulegir höfðingjar.

„Lávarðar mínir,“ sagði hann, „ég kem, eins og ég lofaði. Lávarðar mínir, og Ignosi rétti konungur Kúkúana, ég er kominn með þessa menn,“ og hann benti á röðina af höfðingjunum, „sem eru stórmenni vor á meðal, og sem hafa hver um sig þrjár þúsundir hermanna yfir að ráða, sem ekki hafa annað lífsstarf en að hlýða skipunum þeirra, undir yfirstjórn konungsins. Ég hef sagt þeim, hvað ég hef séð og hvað eyru mín hafa heyrt. Lát þú nú einnig sjá hið helga ormsmerki utan um þig og heyra sögu þína, Ignosi, svo að þeir geti sagt, hvort þeir vilji fylgjast að málum með þér gegn Twala, konunginum, eða þeir vilja það ekki.“

Ignosi svaraði með því að taka af sér beltið og sýna ormsmerkið, sem málað var utan um hann. Hver höfðinginn eftir annan færðist nær og virti það fyrir sér við daufu lampaglætuna, og færði sig svo yfir um til hinnar hliðar við Ignosi, án þess að segja nokkurt orð.

Þá lét Ignosi aftur beltið á sig og ávarpaði þá, endurtók fyrir þeim söguna, sem hann hafði sagt svo greinilega um morguninn.

„Nú hafið þið heyrt, höfðingjar,“ sagði Infadoos, þegar Ignosi hafði lokið máli sínu. „Hvað segið þið nú? Viljið þið aðstoða þennan mann og hjálpa honum til að komast í hásæti föður síns, eða viljið þið það ekki. Um landið fer gremjuóp gegn Twala, og blóð þjóðarinnar rennur líkt og vötnin á vorin. Þið sáuð, hvað skeði í nótt. Tveir aðrir höfðingjar voru þar, sem ég hafði í huga að tala við, og hvar eru þeir nú? Gaupurnar ýlfra yfir líkum þeirra. Bráðum fer um ykkur, eins og fór um þá, bræður mínir.“

Elsti maðurinn af þessum sex, lágvaxinn hermaður, steig eitt skref áfram og svaraði á þessa leið:

„Orð þín eru sönn, Infadoos. Um landið fer óp. Minn eigin bróðir er meðal þeirra, sem látið hafa líf sitt í nótt, en þetta er stórmerkilegt málefni, og sagan er ótrúleg. Hvernig vitum við, að ef við lyftum upp sverðum vorum, þá kunni það ekki að vera fyrir svikara? Þetta er stórkostlegt mál eins og ég segi, og enginn getur vitað, hvernig því lýkur. Því að það er áreiðanlegt, að blóðið mun renna í lækjum, áður en þessu verki er lokið. Margir munu enn halda fast við konunginn, því að menn tilbiðja þá sól, sem skín bjart á himninum og ekki þá, sem enn er ekki upp komin. Töfrar þessara hvítu manna frá stjörnunum eru miklir, og Ignosi er undir skjóli vængja þeirra. Sé hann í sannleika sá lagalegi konungur, þá látum hann gefa oss jarteikn og látum alla þjóðina fá jarteikn, sem allir geti séð. Svo munum menn halda sér að okkur, því að þeir vita þá, að töfrar hins hvíta manns eru með þeim.“

„Þið hafið ormsmerkið.“ svaraði ég.

„Lávarðar mínir, það er ekki nóg. Vera kann að ormurinn hafi verið settur þar síðar. Sýnið okkur eitthvað til jarteikna. Við hreyfum okkur ekki, nema við fáum eitthvert jarteikn.“

Hinir létu það sama í ljósi afdráttarlaust, og ég sneri mér að Sir Henry og Good í standandi vandræðum, og skýrði fyrir þeim, hvernig sakir stæðu.

„Ég held ég viti, hvað við eigum að taka til bragðs,“ sagði Good, ofsaglaður. „Biðjið þá að lofa okkur að hugsa okkur um eitt augnablik.“

Ég gerði það, og höfðingjarnir höfðu sig á braut. Jafnskjótt og þeir voru farnir, gekk Good að litla kassanum, þar sem meðul hans voru, lauk honum upp og tók þar dálitla vasabók. Framan á henni var almanak. „Skoðið þið nú til, kunningjar, er ekki 4. júní á morgun?“

Við höfðum nákvæmlega fylgst með dagatalinu, svo að við gátum sagt honum að svo væri.

„Gott og vel, þá kemur það heim – „4. júní, almyrkvi á sólu, byrjar kl. 11.15 eftir Greenwich tíma, sést á þessum eyjum – Afríku o.s.frv.“ Þarna er jarteikn handa ykkur. Segið þeim, að þið ætlið að myrkva sólina á morgun.“

Hugmyndin var ágæt. Það eina, sem var að óttast, var í raun og veru það, að villa kynni að vera í almanaki Goods. Kæmum við með falsspádóm um slíkt efni, þá glataðist álit okkar að eilífu, og eins hefði þá farið með möguleika Ignosis til þess að komast á veldisstól Kúkúana.

„Setjum svo að villa sé í almanakinu,“ sagði Sir Henry við Good sem var önnum kafinn við að draga eitthvað upp á saurblaðið í bókinni.

„Ég sé enga ástæðu til að búast við slíku,“ svaraði hann. „Myrkvar koma ævinlega þegar búist er við þeim, og það er sérstaklega tekið fram, að hann sjáist í Afríku. Ég hef reiknað út, hvar við erum staddir, eins vel og ég get, án þess ég geti sagt það upp á hár, og ég kemst að þeirri niðurstöðu, að myrkvinn muni byrja hér um kl. 1 á morgun, og muni standa yfir þangað til kl. 2.30. Hálfa stund eða meira ætti að vera aldimmt.“

„Jæja,“ sagði Sir Henry, „ég held okkur sé þá best að hætta á það.“

Ég féllst á það, og þó efablandinn, því að myrkvar eru óviðfelldnar skepnur viðureignar, og svo sendi ég Umbopa eftir höfðingjunum. Þeir komu þegar í stað, og ég ávarpaði þá á þessa leið:

„Þér, stórmenni Kúkúana og þú Infadoos, hlustið. Okkur þykir ekkert gaman að sýna mátt okkar, því að það er að breyta stefnu náttúrunnar, og baka veröldinni ótta og truflun, en með því að þetta er stórkostlegt málefni, og með því, að við erum reiðir við konunginn vegna manndrápa þeirra, sem við höfum séð, og vegna þess sem isanusin Gagool gerði, þar sem hún ætlaði að drepa vin okkar Ignosi, þá höfum við afráðið að gera svo og að sýna ykkur það til jarteikna, sem allir menn munu geta séð. Komið hingað,“ og ég leiddi þá að dyrunum á kofanum og benti á glóandi sólarhnöttinn, sem var að koma upp.

„Sjáið þið þarna?“

„Við sjáum sólina, sem er að koma upp,“ svaraði sá, sem hafði orð fyrir flokknum.

„Svo er það. Segið mér nú, getur nokkur dauðlegur maður slökkt þessa sól, svo að nótt komi yfir landið um hádegisbilið?“

Höfðingjarnir hlógu dálítið við. „Nei, lávarðar mínir, það getur enginn maður. Sólin er sterkari en maðurinn, sem á hana horfir.“

„Þið segið það. En ég segi ykkur, að á þessum degi, einni stundu eftir hádegi, munum við slökkva þessa sól eina stund, og myrkur skal hylja jörðina, og það skal vera til merkis um, að við séum í sannleika virðingarverðir menn, og að Ignosi sé í sannleika konungur Kúkúana. Er ykkur það nóg, ef við getum þetta?“

„Já, lávarðar mínir,“ sagði gamli höfðinginn brosandi, og endurskin af því brosi sást líka á andlitum félaga hans. „Ef þið getið það, þá er okkur það í sannleika nóg.“

„Þá, skal það verða. Við þrír, incubu, fíllinn, Bougwan hinn bjarteygði, og Macumazahn, sem heldur vörð á nóttunni, hafa sagt það, og það skal verða. Heyrir þú það, Infadoos?“

„Ég heyri, lávarðar mínir, en það er undursamlegt, sem þið lofið, að slökkva sólina, sem er móðir allra hluta og sem skín um aldur og ævi.“

„Þó munum við gera það, Infadoos.“

„Gott og vel, lávarðar mínir. Í dag, litlu eftir hádegi, mun Twala senda eftir lávörðum mínum til þess að vera við stúlkudansinn, og einni stund eftir að dansinn byrjar, mun Scragga, konungssonurinn, drepa þá stúlku, sem Twala þykir fegurst, sem fórn til þöglu steinkvennanna, sem sitja á verði hjá fjöllunum þarna hinum megin,“ og hann benti á þrjá undarlegu strókana, þar sem ætlað var að vegur Salómons mundi enda. „Myrkvið þá lávarðar mínir sólina, og frelsið líf stúlkunnar, og þá mun þjóðin sannarlega trúa.“

„Já,“ sagði gamli höfðinginn og brosti enn lítið eitt. „Þjóðin mun sannarlega trúa.“

„Tvær mílur frá Loo,“ hélt Infadoos áfram, „er hæð ein, bogin eins og nýtt tungl, þar er vígi gott. Þar situr herflokkur minn og þrír aðrir herflokkar, sem þessir menn eru fyrirliðar fyrir. Snemma í dag ætlum við að koma því svo fyrir, að aðrir herflokkar, tveir eða þrír, verði líka fluttir þangað. Geti þá lávarðar mínir í raun og veru myrkvað sólina, þá mun ég taka í hendurnar á Lávörðum mínum í myrkrinu og leiða þá út úr Loo til þessa staðar, þar mun þeim verða óhætt, og þaðan getum við hafið ófriðinn gegn Twala konungi.“

„Það er gott,“ sagði ég. „Farið nú og lofið okkur að sofa stundarkorn og undirbúa töfra okkar.“

Infadoos reis á fætur, kvaddi okkur og fór af stað með höfðingjunum.

„Vinir mínir,“ sagði Ignosi, jafnskjótt og þeir voru farnir, „getið þið í sannleika gert slík fádæmi, eða voruð þið að raupa við þessa menn?“

„Við höldum að við getum það, Umbopa – Ignosi á ég við.“

„Það er undarlegt,“ svaraði hann, og væruð þið ekki Englendingar, hefði ég ekki trúað því, en enskir „herramenn“ ljúga aldrei. Ef við lifum þetta af, þá verið vissir um, að ég mun endurgjalda ykkur þetta.“

„Ignosi,“ sagði Sir Henry, „lofaðu mér einu.“

„Incubu, vinur minn, ég skal lofa því, enda áður en ég heyri það,“ svaraði hinn mikli maður brosandi. „Hvað er það?“

„Þetta: að ef þú verður nokkurn tíma konungur yfir þessari þjóð, þá afnemir þú þann sið að þefa uppi galdramenn, eins og við höfum séð í nótt, og að það skuli ekki eiga sér stað í landinu, að menn séu drepnir án þess mál þeirra sé rannsakað.“

Ignosi hugsaði sig um stundarkorn, eftir að ég hafði þýtt þetta fyrir honum, og svo svaraði hann:

„Vegir blökkumanna eru ekki þeir sömu og vegir hvítra manna, Incubu, og við metum heldur ekki líf manna eins mikils og þið gerið. En þó ætla ég að lofa því. Verði það á mínu valdi að aftra galdraleitendunum, þá skulu þær ekki oftar fara á mannaveiðar, og enginn maður skal heldur láta lífið án dóms og laga.“

„Þá kaupum við þessu,“ sagði Sir Henry, „og látum okkur nú hvílast ofurlítið.“

Við sofnuðum bráðlega sætt, enda vorum við yfirkomnir af þreytu, og við sváfum þangað til Ignosi vakti okkur um kl. 11. Þá risum við á fætur, þvoðum okkur og átum morgunmat með góðri lyst, enda vissum við ekki, hvenær við mundum fá aftur að borða. Eftir það fórum við út fyrir kofann og störðum á sólina, og okkur féll illa að sjá, að henni leið prýðilega vel, og engin merki sáust til myrkva neins staðar nálægt henni.

„Ég vona hann komi,“ sagði Sir Henry efablendnislega. „Falsspámenn komast oft í hann krappan.“

„Komi hann ekki, þá er bráðum úti um okkur,“ svaraði ég dapur í bragði, „því að það er eins víst, eins og við erum lifandi, að einhverjir af þessum höfðingjum segja konunginum upp alla söguna, og þá verður annars konar myrkvi, sem okkur mun ekki getast að.“

Við snerum nú aftur inn í kofann og klæddum okkur, fórum í stálskyrturnar, sem konungur hafði sent okkur áður. Óðar en við vorum komnir í þær, kom sendiboði frá Twala í þeim erindum að bjóða okkur að vera viðstaddir hinn mikla árlega „stúlknadans“, sem þá átti að fara að halda.

Við tókum byssur okkar og skotfæri með okkur, til þess að hafa það við höndina, ef svo kynni að fara, að við yrðum að flýja eins og Infadoos hélt, og svo lögðum við upp og bárum okkur karlmannlega, en vorum þó innanbrjósts hræddir og skjálfandi. Nú var stóra svæðið fyrir framan konungshúsið ólíkt því, sem það hafði verið kveldinu áður. Í staðinn fyrir þungbúnu raðirnar af alvarlegum hermönnum var nú flokkur eftir flokk af Kúkúana-stúlkum. Ekki var mikið utan á þeim af fötum, en allar voru þær krýndar blómakrönsum, og hver þeirra hélt á pálmaviðarblaði í annarri hendinni og stórri hvítri lilju í hinni. Mitt á auða svæðinu sat Twala konungur, með Gagool gömlu við fæturna á sér, og hjá honum voru Infadoos, pilturinn Scragga, og hér um bil 20 höfðingjar, og þeirra á meðal kannaðist ég við flesta, af vinum okkar frá nóttunni áður.

Twala heilsaði okkur mjög vingjarnlega að því er virtist, en þó sá ég hann líta með sínu eina auga illilega til Umbopa.

„Velkomnir, hvítu menn frá stjörnunum,“ sagði hann. „Það, sem þið nú sjáið, er ólíkt því, sem augu ykkar störðu á við ljós mánans síðastliðna nótt, en þetta er ekki eins góð sjón. Stúlkur eru viðfelldnar, og það er aðeins vegna þessara hér“ (og hann benti hringinn í kringum sig), „að við erum hér í dag, en karlmenn eru betri. Kossar og blíðmæli kvenna eru sæt, en hljómurinn frá brakandi karlmanna sverðum og lyktin af karlmanna blóði er enn sætari. Viljið þið konur frá okkar þjóð, hvítu menn? Sé svo, þá kjósið þær fegurstu hér, og þið skuluð fá þær, eins margar og þið viljið,“ og hann þagnaði við og beið eftir svari.

Með því svo virtist, sem Good litist ekki svo illa á þetta því að hann var, eins og flestir sjómenn, heldur kvenhollur, og þar sem ég var orðinn roskinn og gætinn og sá fyrir, að endalausir vafningar mundu hljótast af því, ef við flæktumst inn í nokkuð þvílíkt (því að það er eins víst að vandræði fylgja konum, eins og að nóttin kemur á eftir deginum) – þá flýtti ég mér að svara:

„Þakka þér fyrir, konungur! en hvítir menn ganga ekki að eiga aðrar konur en hvítar, sem eru eins og við sjálfir. Stúlkur ykkar eru fríðar, en þær eru ekki fyrir okkur.!“

Konungur hló. „Gott og vel. Í okkar landi er til málsháttur á þessa leið: „Kvennaaugu eru ávallt björt, hvernig sem liturinn á þeim er,“ og annar málsháttur segir: „Elskaðu þá, sem hjá þér er, því að þú getur verið viss um, að sú, sem fjarstödd er, bregst þér,“ en vera má að þessu sé ekki þannig varið í stjörnunum. Allt er mögulegt í því landi, þar sem mennirnir eru hvítir. Látum svo vera, hvítu menn. Stúlkurnar munu ekki ganga eftir ykkur! Velkomnir aftur, og vertu velkominn, dökki maður. Hefði Gagool komið vilja sínum fram, þá mundir þú nú hafa verið orðinn stirður og kaldur. Það var heppilegt, að þú skyldir líka koma frá stjörnunum, ha! ha!“

„Ég get drepið þig áður en þú getur drepið mig, konungur,“ svaraði Ignosi stillilega, „og þú munt vera orðinn stirður áður en limir mínir hætta að beygjast.“

Twala hrökk saman. „Þú talar djarflega,“ svaraði hann reiðilega, „ætlaðu þér ekki of mikið.“

„Sá sem hefur sannleikann á vörum sínum getur talað djarflega. Sannleikurinn er oddhvasst spjót, sem flýgur þangað, sem honum er ætlað og skeikar ekki. Þetta eru skilaboð frá stjörnunum, konungur!“

Twala bretti brýrnar og eina augað, sem í honum var, glóði grimmdarlega, en hann sagði ekkert frekar.

„Látið dansinn byrja,“ grenjaði hann, og á næstu sekúndu stukku stúlkurnar blómkrýndu fram í flokkum, sungu hljómfagran söng og veifuðu fögru pálmablöðunum og hvítu blómunum. Áfram dönsuðu þær, ýmist þyrluðust þær í kring, ýmist komu þær hver á móti annarri líkt og herflokkar. Hóparnir brugðust og lykkjuðust hér og þar, áfram og aftur á bak, í reglubundnum flækjum, sem yndi var á að horfa. Loks námu þær staðar, og ljómandi fögur ung kona stökk fram úr röðunum og fór að dansa á tánum frammi fyrir okkur með svo miklum yndisleik og fjöri, að hún gerði flestum dansmeyjum á leikhúsum skömm til. Loksins hvarf hún aftur í raðirnar örmagna, og önnur tók við af henni, og svo hver af annarri, en engin jafnaðist við þá fyrstu, hvorki að yndisþokka, kunnáttu í dansi né fegurð.

Loks lyfti konungurinn upp hendinni.

„Hver þykir ykkur fegurst, hvítu menn?“ spurði hann.

„Sú fyrsta,“ sagði ég í hugsunarleysi. Óðar en ég hafði sleppt orðinu, iðraðist ég eftir því, því að ég minntist þess, að Infadoos hafði sagt, að fórna ætti fegurstu konunni.

„Þá er minn hugur eins og ykkar hugur, og mín augu eins og ykkar augu. Hún er fegurst, Það er sorglegt fyrir hana, því að hún hlýtur að deyja.“

„Já, hlýtur að deyja,“ skrækti Gagool og leit með fjörlegu augunum í áttina til vesalings stúlkunnar. Hún vissi enn ekki, hver voðaforlög biðu hennar, og stóð eitthvað tíu faðma frá okkur fyrir framan stúlknaflokk einn, og var að reita óstillingarlega eitt blómið í kransi sínum, blað fyrir blað.

„Hvað er þetta, konungur,“ sagði ég, og átti bágt með að halda gremju minni í skefjum, stúlkan hefur dansað vel, og okkur hefur geðjast vel að henni. Hún er auk þess fögur, það væri hart að launa henni með lífláti.“

Twala hló við og svaraði:

„Það er siður okkar, og konurnar, sem sitja þarna hinum megin“ (og hann benti á þrjá strókana) „verða að fá það sem þeim ber. Ef mér skyldi lázt að lífláta fallegustu stúlkuna í dag, þá mundi óhamingja koma yfir mig og mína ætt. Þannig er spádómur einn á meðal lýðs míns: „Ef konungurinn fórnar ekki fegurstu stúlkunni á þeim degi, sem stúlknadansinn fer fram, til gömlu kvennanna, sem sitja verði á fjöllunum, þá skal hann og hans ætt missa völdin.“ Gætið að, hvítu menn, bróðir minn, sem réð ríkjum á undan mér, fórnaði ekki, af því að honum gekkst hugur við tárum stúlkunnar, og hann byltist úr völdum og hans ætt, og ég sit að völdum í hans stað. Svo er þessu máli lokið, hún verður að deyja.“ Svo sneri hann sér að varðmönnunum og sagði: „Komið hingað með hana. Scragga, hvesstu spjót þitt.“

Tveir af mönnunum stigu fram, og þá fékk stúlkan fyrst hugmynd um, hvað yfir henni vofði. Hún hljóðaði hátt og reyndi að flýja. En hinar sterku hendur héldu henni fastri og komu með hana, bröltandi og grátandi, fram fyrir okkur.

„Hvað heitir þú, stúlka?“ vældi Gagool. „Hvað er þetta! Ætlarðu ekki að svara? Á sonur konungsins að vinna verk sitt þegar í stað?“

Við þessa bendingu steig Scragga, enn illmannlegri en nokkru sinni áður, eitt skref áfram og lyfti upp stóra spjótinu sínu, og um leið og hann gerði það sá ég höndina á Sir Henry laumast að skammbyssunni hans. Aumingja stúlkan sá gegnum tárin glampa á kalt stálið, og við það varð sorg hennar stillilegri. Hún hætti að brjótast um, en kreisti aðeins saman hendurnar, eins og hún hefði krampa, og hristist frá hvirfli til ilja.

„Sko,“ hrópaði Scragga með mestu kátínu, „hún kinokar sér við að horfa leikfangið mitt, jafnvel áður en hún hefur fundið af því bragðið,“ og hann klappaði breiða spjótblaðinu.

„Ef mér verður það nokkurn tíma mögulegt, þá skaltu fá þetta borgað, hvolpurinn þinn!“ Þetta heyrði ég Good nöldra fyrir munni sér.

„Segðu okkur nú, hvað þú heitir, fyrst þú ert nú orðin hæg og stillt. Vertu nú ekki að þessu, og vertu óhrædd,“ sagði Gagool háðslega.

„Ó, móðir góð,“ svaraði stúlkan, og skalf í henni röddin. „Ég heiti Foulata, af ætt Súkós. Ó, móðir góð, hvers vegna verð ég að deyja? Ég hef ekkert illt gert.“

„Láttu huggast,“ hélt kerlingin áfram, í sama hatursfulla hæðnisrómnum. „Auðvitað verður þú að deyja sem fórn til gömlu kvennanna, sem sitja þarna hinum megin (og hún benti á strókana). „En það er betra að sofa á nóttunni en að þræla að deginum til, það er betra að deyja en að lifa, og þú átt að falla fyrir hinni konunglegu hönd konungsins eigin sonar.“

Stúlkan Foulata sló höndum í harmi sínum og hljóðaði hátt upp yfir sig. „Ó, það er grimmdarlegt, og ég, sem er svo ung! Hvað hef ég gert, að ég skuli aldrei oftar fá að sjá sólina koma upp úr nóttinni né stjörnurnar fara eftir braut sinni á kveldin, að ég skuli aldrei framar fá að safna blómunum, þegar döggin liggur þung á jörðinni, né hlusta á hlátur vatnanna. Vei mér, að ég skuli aldrei fá að sjá kofa föður míns aftur, né finna kossa móður minnar, né annast litla kiðið, sem er sjúkt! Vei mér, að enginn elskhugi skuli leggja handlegginn utan um mig, og líta inn í augun á mér, og ekki fæðast mér heldur nein piltbörn! Ó, það er grimmdarlegt, grimmdarlegt!“ – og aftur sló hún höndunum og sneri tárvota, blómkrýnda andlitinu til himins, og hún var elskuleg ásýndum í örvænting sinni – því að hún var í sannleika ljómandi fögur kona – að hún hefði sannarlega fengið á hjarta hvers þess, sem minni grimmd hefði búið í, en var í þessum þremur manndjöflum fyrir framan okkur. Ávarp Arthúrs prins til riddaranna, sem komu til að blinda hann, var ekki átakanlegra en ræða þessarar villistúlku.

En það fékk ekki á Gagool né herra hennar, og sá ég þó merki meðaumkvunar á andlitum höfðingjanna, og af Good er það að segja, að líkast var því sem hann frýsaði af vonsku, og hann kipptist við, eins og hann ætlaði að fara til hennar. Konur eru oft fljótar til að skilja það, sem fyrir augun ber, og stúlkan dauðadæmda þýddi það þegar, sem honum hafði flogið í hug, og í einu hendingskasti fleygði hún sér niður fram fyrir hann og greip með höndunum utan um „yndishvítu fótleggina“ á honum.

„Ó, hvíti faðir frá stjörnunum,“ hljóðaði hún, „kastaðu yfir mig skikkju verndar þinnar, lát mig skríða inn í skugga máttar þíns, svo að ég megi frelsast. Ó, varðveittu mig fyrir þessum grimmu mönnum og fyrir meðaumkvun Gagools!“

„Jæja, gæskan mín, ég skal líta eftir þér,“ svaraði Good í syngjandi málrómi á hreinni ensku. „Rístu nú upp og vertu góð stúlka,“ og hann laut niður og tók í höndina á henni.

Twala sneri sér við og gaf syni sínum bendingu. Scragga steig fram með spjótið á lofti.

„Nú er að yður komið,“ hvíslaði Sir Henry að mér, „eftir hverju eruð þér að bíða?“

„Ég er að bíða eftir sólmyrkvanum,“ svaraði ég, „ég hef verið að gæta að sólinni síðasta hálftímann, og ég hef aldrei séð henni líða betur.“

„Hvað um það, þér verðið nú að hætta á það, annars verður stúlkan drepin. Twala er að missa þolinmæðina.“

Ég sá að hann hafði satt að mæla, leit enn einu sinni örvæntingaraugum á sólina glóbjarta, því að aldrei hefur ákafasti stjörnufræðingur beðið eftir neinum viðburði meðal himintunglanna með annarri eins óþreyju, og svo steig ég fram milli stúlkunnar, sem lá þarna endilöng, og spjótsins, sem Scragga beindi að henni, og ég reyndi að bera mig svo tígulega eins og mér var mögulegt.

„Konungur,“ sagði ég, „það verður ekkert af þessu. Við þolum ekki annað eins og þetta, láttu stúlkuna fara í friði.“

Twala reis upp úr sæti sínu bálreiður og steinhissa, og undrunarkliður heyrðist frá höfðingjunum og samþjöppuðu stúlknaröðunum. Stúlkurnar höfðu búist við að sjá sorgarleik, og þær höfðu hægt og hægt alveg slegið hring utan um okkur.

„Skal ekki verða af því, hvíti hundurinn þinn, sem gjammar að ljóninu í bæli þess, skal ekki verða af því! Ertu vitlaus! Varaðu þig, annars kynnu sömu forlög að bíða þín eins og þessa hænuunga og þeirra, sem með þér eru. Hvernig getur þú aftrað því? Hver ert þú, sem setur þig upp á móti mér og mínum vilja? Farðu burt, segi ég. Scragga, dreptu hana. Varðmenn! takið þessa menn fasta.“

Þegar hann hafði grenjað þetta, komu vopnaðir menn á harða hlaupum framundan kofanum. Þeir höfðu auðsjáanlega verið settir bakvið hann fyrirfram.

Sir Henry, Good og Umbopa röðuðu sér út frá hliðunum á mér, og lyftu upp byssum sínum.

„Standið kyrrir,“ kallaði ég djarflega, þó að hjartað væri komið ofan í stígvélin mín. „Standið kyrrir! Við, hvítu mennirnir frá stjörnunum, segjum að það skuli ekki verða af því. Ef þið færið ykkur, þó ekki sé nema einu skrefi nær, þá skulum við slökkva sólina og láta myrkur verða um landið. Þið skuluð fá að kenna á töfrum okkar.“

Hótunarorð mín urðu ekki árangurslaus. Mennirnir námu staðar, og Scragga stóð enn frammi fyrir okkur, með spjótið á lofti.

„Heyrið þið, hvað hann segir! Heyrið þið, hvað hann segir!“ vældi Gagool, „hlustið þið á lygarann, sem segist ætla að slökkva sólina eins og lampaljós. Látið þið hann gera það, og þá skal stúlkunni ekkert verða gert. Já, látið þið hann gera það, og að öðrum kosti deyja með stúlkunni, hann og þá, sem með honum eru.“

Ég leit upp til sólarinnar, og til mikils fagnaðar fyrir mig, sá ég, að okkur hafði ekki skjátlast. Á röndinni á ljómandi yfirborði hennar var óglögg skuggabugða.

Ég lyfti höndunum mínum hátíðlega til himins, og Sir Henry og Good fylgdu dæmi mínu, og ég las upp eina eða tvær línur úr Helgisögum Ingoldsbys með svo áhrifamiklum málróm sem ég átti til í eigu minni. Svo kom Sir Henry með eitt vers úr Gamla testamentinu, en þar á móti ávarpaði Good drottningu dagsins með þeim ágætustu blótsyrðum, sem hann mundi eftir í þann svipinn.

Hægt og hægt færðist dimma bugðan yfir glóandi sólina, og meðan á því stóð, heyrði ég djúpar hræðslustunur stíga upp frá brjóstum manngrúans umhverfis okkur.

„Lít þú á, konungur! Lít þú á, Gagool! Lítið á, höfðingjar og menn og konur og sjáið, hvort hvítu mennirnir frá stjörnunum halda orð sín, eða hvort þeir eru aðeins fánýtir lygarar! Sólin verður dimm fyrir augum vorum, bráðum verður nótt – já, nótt um hádegisbilið. Þið hafið beðið um jarteikn, þið hafið fengið það. Vert þú dimm, sól! Hverf þú burt með ljós þitt, þú bjarta vera, ger þú hjörtun drambsömu að dusti, og ét þú upp heiminn með skuggum.“

Áhorfendurnir stundu hátt af skelfingu. Sumir stóðu eins og steingervingar af ótta, aðrir köstuðu sér á hné og hrinu. Af konunginum er það að segja, að hann sat grafkyrr og fölnaði undir dökkleitu húðinni. Gagool ein hélt hugrekki sínu.

„Þetta líður hjá,“ hrópaði hún. „Ég hef séð það sama áður, enginn maður getur slökkt sólina, látið ekki hugfallast, sitjið kyrrir – skugginn líður hjá.“

„Bíðið við, og þá skuluð þið sjá,“ svaraði ég og hoppaði upp af geðshræringu.

„Haldið þér því áfram, Good, ég man ekki meiri skáldskap. Bölvið þér meira í öllum lifandi bænum.“

Good brást mér ekki, þar sem ég treysti á uppfinningarhæfileika hans. Aldrei hafði ég fyrr haft daufustu hugmynd um breidd og dýpt og hæð þeirra hæfileika, sem sjóherforingjar hafa til að bölva. Í tíu mínútur hélt hann áfram, án þess að verða orðfall, og það kom varla fyrir, að hann tæki það upp aftur, sem hann hafði áður sagt.

Meðan á þessu stóð, varð dökki hringurinn stærri og stærri. Undarlegir og vanhelgir skuggar náðu smátt og smátt valdi yfir ljósi sólarinnar, og umhverfis okkur var dauðakyrrð, sem manni fannst vita á eitthvað illt, út úr fuglunum skruppu allra snöggvast hræðsluhljóð, og svo létu þeir ekki á sér bera. Hanarnir einir fóru að gala.

Lengra og lengra læddist dimmi baugurinn áfram. Nú var hann kominn yfir meira en helminginn af blóðrauða sólarhnettinum. Loftið var þykkt og dimmt. Lengra og lengra, þangað til við gátum naumast séð grimmdarlegu andlitin fyrir framan okkur. Ekkert hljóð heyrðist koma frá áhorfendunum, og Good hætti að blóta.

„Sólin er að deyja – töframennirnir hafa drepið sólina,“ grenjaði pilturinn Scragga loksins. „Við deyjum öll í myrkrinu,“ og örvaður af ótta eða reiði eða hvorutveggja lyfti hann upp spjóti sínu og rak það á breiða brjóstið á Sir Henry. En hann hafði gleymt stálskyrtunum, sem konungurinn hafði gefið okkur, og sem við vorum í innan klæða. Spjótið hrökk aftur, án þess að meiða hann nokkuð, en áður en Scragga fékk ráðrúm til að byrja á nýjum leik, hafði Sir Henry þrifið spjótið úr höndunum á honum, og skotið því beint í gegnum hann. Hann hneig niður örendur.

Stúlknaflokkarnir þutu af stað í einni bendu, þegar þær sáu þetta, og jafnframt af því að stúlkurnar voru orðnar vitlausar af hræðslu við myrkrið, sem sífellt fór vaxandi, og stukku til hliðar með óhljóðum. En þar var ekki lokið felmtursæðinu. Konungurinn sjálfur lagði á flótta til kofanna og með honum varðmennirnir, nokkrir af höfðingjunum og Gagool, sem hökti áfram framúrskarandi tindilfætt, svo að eftir eina mínútu eða svo vorum við, sem drepa átti: Foulata, Infadoos og nokkrir af höfðingjunum, sem talað höfðu við okkur nóttina áður, orðin ein eftir á leiksviðinu, ásamt líki Scragga.

„Nú, nú, höfðingjar,“ sagði ég, „þið hafið fengið jarteikn frá okkur. Ef þið eruð ánægðir með þetta, þá látum okkur flýja í skyndi, þangað sem þið töluðuð um. Sem stendur er ekki mögulegt að stöðva töfrana. Þeir haldast einn klukkutíma. Við skulum færa okkur myrkrið í nyt.“

„Komið,“ sagði Infadoos og sneri sér við til að leggja af stað. Dæmi hans fylgdu höfðingjarnir óttaslegnir, við sjálfir og stúlkan Foulata. Good tók í höndina á henni og leiddi hana.

Áður en við náðum hliðinu, hvarf sólin algerlega.

Við tókum hvert í höndina á öðru og stauluðumst þannig áfram í myrkrinu.


XII. KAPITULI. - VIÐBÚNAÐUR.

Til allrar hamingju fyrir okkur var Infadoos og höfðingjarnir svo kunnugir öllum stígum í þessum stóra bæ, að okkur miðaði drjúgum, þó niðdimmt væri.

Eina klukkustund eða meira héldum við áfram, þangað til myrkvinn fór loksins að líða hjá, og sú röndin af sólinni, sem fyrst hafði horfið, fór aftur að sjást. Eftir einar fimm mínútur þar frá var orðið svo bjart, að við gátum séð, hvar við vorum staddir, og þá urðum við þess varir, að við vorum alveg komnir út úr bænum Loo og sáum fram undan okkur stóra hæð, flata að ofan, eitthvað tvær mílur ummáls. Mikið er til af hæðum líkum þessari í Suður-Afríku. Hún var ekki mjög há. Þar sem hún var hæst, var hún víst ekki hærri en 200 fet, en hún var eins og skeifa í laginu, og hlíðarnar að henni voru fremur brattar og stráðar tinnusteinum. Á grasfletinum ofan á hæðinni var nóg rúm fyrir herbúðir, enda hafði alls ekki svo fámennt herlið hafst þar við áður. Vanalega var þar hafður einn herflokkur, þrjú þúsund manns, sem setulið, – en meðan við vorum að stritast við að komast upp bröttu hlíðina á hæðinni í afturbirtingunni, urðum við þess varir, að uppi á henni voru langtum fleiri hermenn en sem því næmi.

Þegar við loksins vorum komnir upp á flötinn, hittum við þar hópa af mönnum, sem þyrpst höfðu saman öldungis steinhissa á náttúruviðburði þeim, sem fyrir augu þeirra hafði borið. Við komumst gegnum hópana án þess að mæla nokkurt orð, og að kofa einum, sem stóð á miðri flötinni. Þar hittum við, okkur til mikillar furðu, tvo menn, sem voru að bíða eftir okkur og voru hlaðnir því litla, sem við höfðum haft meðferðis. Við höfðum auðvitað neyðst til að skilja það eftir, af því að við höfðum orðið að flýja svo skyndilega.

„Ég sendi eftir því,“ sagði Infadoos til skýringar, „og líka eftir þessu,“ og hann lyfti upp buxum Goods, sem hann hafði misst fyrir svo löngu.

Good rak upp fagnaðaróp og stökk til buxnanna og fór á augabragði að fara í þær.

„Lávarður minn ætlar þó sannarlega ekki að fara að hylja sína yndishvítu fótleggi!“ kallaði Infadoos upp yfir sig, og var auðheyrt að honum þótti miður.

En Good var ófáanlegur ofan af því, og Kúkúanar höfðu ekki nema í eitt skipti eftir það færi á að sjá yndishvítu fótleggina hans. Annars urðu fegurðarlanganir þeirra að láta sér nægja með kinnskeggið hans öðru megin, gagnsæja augað og hreyfanlegu tennurnar.

Infadoos leit enn vingjarnlega á buxur Goods, og því næst lét hann okkur vita, að hann hafði boðið herflokkunum út þangað til þess að koma þeim fyllilega í skilning um uppreisn þá, sem höfðingjarnir höfðu afráðið og til þess að sýna þeim Ignosi, löglega ríkiserfingjann.

Á hálfum klukkutíma var herflokkunum, samtals 20 þúsundum manna, sem saman stóðu af úrvalsliði Kúkúana, fylkt á stóru auðu svæði, og þangað fórum við. Mönnunum var raðað í þrjár hliðar af ferhyrningi, og þeir voru tígulegir ásýndum. Við staðnæmdumst, þar sem opna hliðið á ferhyrningnum var, og skyndilega höfðu allir helstu höfðingjarnir og herforingjarnir þyrpst utan um okkur.

Eftir að mönnum hafði verið sagt að hafa hljótt um sig, fór Infadoos að ávarpa þessa menn. Hann sagði þeim söguna af föður Ignosis á ljómandi fjörugu máli — því að eins og flestir tignir Kúkúanar var hann málsnjall af náttúrunni — hvernig Twala, konungurinn, hefði myrt hann skammarlega, og flæmt konu hans og barn á burt, svo að ekkert lá annað fyrir þeim en að verða hungurmorða. Því næst benti hann þeim á, hverjar þrautir landið liði, og hvernig það styndi undir grimmdarstjórn Twala, og hann færði til dæmis það sem fram hefði farið nóttina á undan, þegar margir hinna göfugustu manna í landinu höfðu verið dregnir fram og drepnir með stakri grimmd og það borið fyrir, að þeir væru illgerðamenn. Þar á eftir fór hann að tala um það, að hvítu lávarðarnir frá stjörnunum hefðu litið niður á landið og séð raunir þess og ráðið af, sjálfum sér til mikilla óþæginda, að gera hlutskipti þess vægara, hvernig þeir hefðu þess vegna tekið í hendurnar á Ignosi, rétta konungi landsins, sem var að dragast upp í útlegð, og leitt hann yfir fjöllin, hvernig þeir hefðu séð mannvonskuverk Twala, og til jarteikna hinum veiktrúuðu og jafnframt til þess að frelsa líf stúlkunnar Foulötu hefðu þeir beinlínis slökkt sólina með sínum háleitu töfrum og drepið unga þorparann Scragga, og hvernig þeir væru þess albúnir að veita þeim fulltingi sitt og aðstoð til þess að bylta Twala úr völdum, og setja í hans stað Ignosi, löglega konunginn.

Þegar hann lauk máli sínu, varð samþykkiskliður, og þá steig Ignosi fram, og fór að tala. Hann tók allt það upp aftur sem Infadoos föðurbróðir hans hafði sagt, og endaði ræðu sína, sem var atkvæðamikil, með þessum orðum:

„Ó, þér höfðingjar, liðsforingjar, hermenn og þú lýður, þið hafið heyrt orð mín. Nú eigið þið að velja milli mín og hans, sem situr í mínu hásæti, föðurbróðurins, sem drap bróður sinn og flæmdi barn bróður síns á burt, svo að það skyldi deyja í kuldanum og myrkrinu. Þessir“ – og hann benti á höfðingjana – „geta sagt ykkur, að ég er í raun og veru konungurinn, því að þeir hafa séð ormsmerkið um mitti mér. Mundu þessir hvítu menn, með öllum sínum töfrum, vera mín megin, ef ég væri ekki konungurinn? Skjálfið, þér höfðingjar, liðsforingjar, hermenn og þú lýður! Er ekki myrkrið, sem þeir hafa leitt yfir landið til þess að skjóta Twala skelk í bringu og hylja flótta okkar, enn fyrir hugskotssjónum ykkar?“

„Svo er það,“ svöruðu hermennirnir.

„Ég er konungurinn, ég segi ykkur það, að ég er konungurinn,“ hélt Ignosi áfram, rétti úr stórvaxna líkamanum svo sem hann gat, og lyfti blaðbreiðu bardaga-öxinni upp yfir höfuð sér. „Ef nokkur maður er meðal yðar, sem segir, að ég sé það ekki, þá látið hann koma fram, og ég skal berjast við hann nú, og blóð hans skal verða rautt merki um það, að ég segi satt. Látið hann koma fram, segi ég“, og hann hristi stóru öxina svo hart, að hún virtist eins og leiftur í sólarljósinu.

Enginn virtist ætla að sinna tilboðinu um að koma og láta drepa sig, og því hélt þessi fyrrverandi þjónn okkar áfram með ræðu sína.

„Ég er í sannleika konungurinn, og ef þið standið við hlið mér í orrustunni og ég vinn sigur, þá munið þið fylgja mér til sigurs og virðinga. Ég mun gefa ykkur uxa og konur, og þið skuluð verða öllum hinum herflokkunum æðri. Og ef þið fallið, þá mun ég falla með ykkur.

Og takið eftir, þessu lofa ég ykkur, að þegar ég er kominn í sæti feðra minna, þá skuli öllum blóðsúthellingum í landinu lokið. Ekki skuluð þið lengur hrópa eftir réttlæti og hitta morð ein í þess stað, og ekki skulu lengur galdraleitendurnar elta ykkur, svo að þið verðið drepnir að orsakalausu. Enginn maður skal deyja nema sá, sem brotið hefur á móti lögunum. Ekki skal bæjum ykkar lengur eytt, hver skal sofa óhultur í sínum eigin kofa og ekkert hafa að óttast, og réttvísin skal fara blind um landið. Hafið þið kosið höfðingjar, liðsforingjar, hermenn og lýður?“

Og svarið var: „Vér höfum kosið, ó, konungur.“

„Gott og vel. Snúið við höfðum ykkar og sjáið, hvernig sendimenn Twala fara út frá hinni miklu borg, austur og vestur og norður og suður, til þess að safna saman óvígum her til þess að drepa mig og ykkur, og þessa vini mína og verndara. Á morgun, eða ef til vill ekki fyrr en hinn daginn, mun hann koma með alla þá, sem honum eru trúir. Og þá skal ég veita því eftirtekt, hverjir í raun og veru eru mínir menn, hverjir ekki eru hræddir við að deyja fyrir sitt málefni, og ég segi ykkur það satt, að þeim mönnum skal ég ekki gleyma, þegar til herfangsins kemur. Ég hef lokið máli mínu, þér höfðingjar, liðsforingjar, hermenn og lýður! Farið nú til kofa ykkar og búið ykkur undir stríðið.“

Nú varð þögn, og því næst lyfti einn af höfðingjunum upp hendi sinni, og þá drundi við konunglega kveðjan: „Koom“. Hún var merkið um að herflokkarnir hefðu viðurkennt Ignosi sem konung sinn. Síðan gengu þeir á burt í fylkingum.

Hálfri stundu síðar héldum við fund, og þar voru allir foringjar herflokkanna viðstaddir. Okkur duldist það ekki, að áður en mjög langt liði mundi verða ráðist á okkur með miklu meira liði, en við höfðum yfir að ráða. Við vorum á hagkvæmum stað þarna á hæðinni, og við sáum beinlínis þaðan, að farið var að fylkja liðinu, og að sendiboðar fóru frá Loo í allar áttir, vafalaust til að safna herflokkunum saman til liðs við konunginn. Við höfðum okkar megin hér um bil 20 þúsundir manna, og það voru 7 af bestu herflokkunum í landinu. Eftir því sem Infadoos og höfðingjarnir giskuðu á voru að minnsta kosti 30 – 40 þúsundir manna saman komnar í Loo, og á það lið gat Twala treyst, og þeir hugðu að um miðjan þann dag eða næsta dag mundi hann geta, safnað 5 þúsundum eða meira í viðbót til fylgis sér. Það gat auðvitað verið, að sumir af herflokkum hans kynnu að strjúka frá honum og ganga í lið með okkur, en ekkert var hægt að reiða sig á það. Hvað sem því leið, þá var það augsýnilegt, að gengið var með atorku að undirbúningnum undir að vinna bug á okkur. Þegar voru stórir flokkar vopnaðra manna á göngu fram og aftur umhverfis rætur hæðarinnar, og önnur merki sáust þess, að við mundum eiga áhlaup í vændum.

Samt sem áður hugði Infadoos og höfðingjarnir, að ekkert áhlaup mundi verða gert þá næstu nótt, heldur mundi henni varið til undirbúnaðar, og til þess með öllu mögulegu móti að nema burtu áhrif þau, er sólmyrkvinn, sem allir kenndu töfrunum, hafði haft á hugi mannanna. Þeir sögðu, að áhlaupið mundi verða næsta morgun, og það sannaðist að þeir höfðu rétt að mæla.

Við tókum nú að búast fyrir og gera vígi okkar sem öruggast við framast gátum. Nær því allur okkar liðsafli var látinn taka til starfa, og á þeim tveimur stundum, sem enn voru eftir til sólarlags, var fádæmamiklu verki afkastað Hæðin var fremur heilsubótarstaður heldur en kastali, því að þar höfðu vanalega verið hafðar herbúðir herflokka, sem nýlega höfðu verið í herþjónustu í óheilnæmum hlutum af landinu og sem voru lasburða af verunni þar. Í stígana, sem upp eftir hlíðinni lágu, var stórum steinum vandlega hlaðið, og allir aðrir uppgöngustaðir voru gerðir svo torfærir sem tími var til. Dyngjur voru bornar saman af hnullungum á ýmsa staði og átti að velta þeim ofan á móti óvinunum, þegar þeir réðu til uppgöngu, herflokkarnir voru settir hver á sinn stað, og auk þess höfðum við allan annan viðbúnað, sem okkur gat sameiginlega til hugar komið.

Rétt fyrir sólsetrið sáum við lítinn hóp manna koma úr þeirri átt sem Loo var. Einn þeirra bar pálmaviðarblað í höndum sér til merkis um að hann væri sendiboði.

Þegar hann kom, fór Ignosi, Infadoos, einn eða tveir af höfðingjunum og við, hvítu mennirnir ofan að fjallsrótunum til móts við manninn. Hann var fjörlegur maður og fríður sýnum og var í einni skikkjunni af hlébarðaskinni, sem herforingjarnir voru vanir að bera.

„Heilir!“ hrópaði hann, þegar hann var kominn nærri okkur. „Konungurinn heilsar þeim, sem hefja vanheilagt stríð gegn honum. Ljónið heilsar sjakölunum, sem urra við fætur honum.“

„Talaðu,“ sagði ég.

„Þessi orð konungsins. Gefist upp á náðir konungsins, áður en ykkur hendir annað verra. Herðakamburinn hefur þegar verið rifinn af svarta nautinu, og konungurinn rekur það löðrandi í blóði um herbúðirnar.“6

„Hverjir eru friðarskilmálar Twala?“ spurði ég fyrir forvitnis sakir.

„Friðarskilmálar hans eru náðarsamlegir, samboðnir miklum konungi. Svo segir Twala, hinn eineygði, hinn voldugi, hann sem á þúsund konur, lávarður Kúkúana, vörslumaður hins mikla vegar“ (Vegar Salómons), „hann sem nýtur ástríkis hinna óþekktu kvenna, sem sitja í þögn við fjöllin þarna hinum megin“ (Galdrakvennanna þriggja), „kálfur svörtu kýrinnar, fíllinn, sem skekur jörðina, þegar hann gengur um hann, voði illgerðamannanna, strúturinn, sem gleypir eyðimörkina með fótum sínum, hinn afskaplegi, svarti, vitri, hann, sem er konungur frá kynslóð til kynslóðar! svo segir Twala: „Ég vil sýna miskunn og láta mér nægja með lítið blóð. Einn af hverjum tíu skal deyja, hinir skulu allir lausir látnir, en hvíti maðurinn, Incubu, sem drap Scragga, son minn, og svarti maðurinn, þjónn hans, sem sækist eftir hásæti mínu, og Infadoos, bróðir minn sem hefur gert uppreisn gegn mér. Þessir menn skulu deyja með pyndingum, sem fórn til hinna þöglu kvenna. Þessi eru hin náðarsamlegu orð Twala.“

Eftir að ég hafði borið ráð mín saman við hina lítið eitt, svaraði ég honum með hárri raustu, svo að hermennirnir skyldu geta heyrt til mín:

„Snú þú aftur, hundurinn þinn, til Twala, sem sendi þig, og seg þú honum, að við, Ignosi, hinn rétti konungur Kúkúana, Incubu, Bougwan og Macumazahn, hvítu vitringarnir frá stjörnunum, sem myrkvuðu sólina, Infadoos, af húsi konungsins, og höfðingjarnir, liðsforingjarnir og lýðurinn, sem hér hefur safnast saman, svari og segi: „Að við viljum ekki gefast upp, að áður en sólin hefur tvisvar sinnum gengið til viðar, skuli lík Twala stirðnað við hlið borgar hans, og Ignosi, sonur þess, sem Twala myrti, skuli ráða ríkjum í hans stað.“ Far þú nú, áður en við lemjum þig á stað með svipum, og farið varlega í því að hefjast handa gegn öðrum eins mönnum eins og við erum.“

Sendiboðinn rak upp skellihlátur. „Þið hræðið menn ekki með slíkum stóryrðum,“ hrópaði hann. „Berið ykkur eins karlmannlega á morgun, þið sem myrkvið sólina! Berið ykkur karlmannlega, berjist og verið glaðir, áður en krákurnar tína ketið utan af beinum ykkar, þangað til þau eru orðin hvítari en andlitin á ykkur. Farið vel, vera má að við hittumst í orrustunni. Gerið svo vel að bíða eftir mér, hvítu menn.“ Og þegar hann hafði skotið þessari hæðnisör út úr sér, lagði hann af stað heimleiðis, og nær því á sama augnabliki gekk sólin undir.

Þá nótt áttum við annríkt, því að öllum viðbúnaðinum fyrir bardagann daginn eftir var haldið áfram, að svo miklu leyti sem það var mögulegt í tunglsljósinu. Sendimenn voru alltaf að koma og fara þaðan, sem við sátum á ráðstefnu. Hér um bil einni stundu eftir miðnætti höfðum við loksins gert allt, sem gert varð, og allir féllu í fastasvefn í herbúðunum nema hvað við og við heyrðist til varðmannanna, þegar þeir kröfðust inngönguorðsins. Sir Henry og ég fórum ásamt með Ignosi og einum höfðingjanna, niður af hæðinni og um allar varðstöðvarnar. Á þeirri leið okkar brá hér og þar, sem við áttum ekki von á því, allt í einu glampandi spjóti fyrir í tunglsljósinu og hurfu svo aftur, þegar við sögðum inngönguorðið. Við sáum það ljóst, að engir sváfu á varðstöðvum sínum. Svo snerum við aftur, stauluðumst innan um þúsundir af sofandi hermönnum, og var þetta síðasta jarðneska hvíldin, sem margir þeirra fengu.

Tunglsgeislarnir flögruðu eftir spjótum þeirra og léku á andlitum þeirra og gerðu þá draugalega. Hráslagalegi næturvindurinn skók háu og jarðarfararlegu fjaðraskúfana. Þarna lágu þeir í einni bendu, með útrétta handleggina og saman fléttaða limina. Alvarlegu, karlmannlegu drættirnir í andliti þeirra voru galdralegir og vofulegir ásýndum í tunglsljósinu.

„Hvað haldið þér, að margir af þessum mönnum muni verða á lífi aðra nótt um þetta leyti?“ spurði Sir Henry.

Ég hristi höfuðið og leit aftur á mennina sofandi, ímyndunarafl mitt var þreytt og þó í æsingi, og mér virtist sem dauðinn hefði þegar snortið þessa menn. Ég þóttist geta greint þá með augum sálar minnar, sem innsiglaðir voru til dráps, og hjarta mitt varð gagntekið af sterkri tilfinning fyrir leyndardómi mannlegs lífs og sorg út af því, hve auðvirðilegt og hryggilegt það er, fékk vald yfir mér. Þessa nótt sofa þessar þúsundir sætum svefni, næsta dag verða þær, og margar aðrar þúsundir með þeim, orðnar stirðar af helkuldanum, og ef til vill verðum við sjálfir í þeirra tölu. Konur þeirra verða ekkjur, börn þeirra föðurlaus, og aldrei framar verður hirt um þá á þeirra fyrri stöðvum. En tunglið heldur áfram að kasta sinni alvarlegu birtu yfir jörðina, næturvindurinn hristir grasið, og hin ummálsmikla jörð hvílist ljúflega, alveg eins og hún hefur hvílst um ómælilegar aldir, áður en þessir menn voru til, og eins og hún mun hvílast um ómælilegar aldir, eftir að þessir menn hafa gleymst.

Og þó er því ekki svo varið, að maðurinn deyi, þar sem veröldin, sem bæði er móðir hans og minnisvarði, lifir. Nafn hans gleymist auðvitað, en loftið, sem hann hefur frá sér andað, hristir þó toppa furutrjánna á fjöllunum, hljómurinn af orðum þeim, sem hann hefur talað, bergmálar þó út um rúmið. Hugsanir þær, sem heili hans hefur alið, höfum vér erft sem nú lifum. Ástríður hans eru orsökin til þess að við lifum, fögnuður sá og sorgir þær, sem hann fann til, eru kunningjar okkar – endalyktin, sem hann fældist og óttaðist, nær líka áreiðanlega til okkar.

Sannarlega er alheimurinn fullur af öndum, ekki kirkjugarðsvofum, klæddum í líkblæjur, heldur af hinum óafmáanlegu, ódauðlegu atriðum lífsins, sem aldrei geta dáið, ef þau einu sinni hafa verið til, þó að þau kunni að blandast og breytast aftur til eilífrar tíðar.

Alls konar hugleiðingar af þessu tagi liðu í huga mér – því að þó mér þyki leiðinlegt að kannast við það, þá virðist sá óvani að hugsa hafa fengið æ meira vald yfir mér, eftir því sem ég hef orðið eldri – meðan ég stóð þarna og horfði á þessar hrikalegu og þó draugalegu raðir af hermönnum, sem sváfu, eins og þeir eru vanir að komast að orði „á spjótum sínum.“

„Curtis,“ sagði ég við Sir Henry, „ég er neyðarlega hræddur.

Sir Henry strauk gula skeggið, hló við og sagði:

„Ég hef heyrt yður segja svipað áður, Quatermain.“

„Hvað um það, nú er mér alvara. Ég skal segja yður, ég efast mjög mikið um, að nokkur okkar verði á lífi aðra nótt. Áhlaup verður gert á okkur af óflýjandi her manns, og það er mjög vafasamt, hvort við verðum ekki hraktir héðan.“

„Við velgjum þeim sumum að minnsta kosti. Skoðið þér nú til, Quatermain, þetta er óræstismál, sem við hefðum í hreinskilni að segja ekki átt að bendlast við, en það er nú komið sem komið er, og við verðum að gera það besta, sem við getum. Ég segi fyrir mig, ég vil heldur láta drepa mig í bardaga en á nokkurn annan hátt, og úr því að nú virðast lítil líkindi til, að ég finni bróður minn, vesalinginn, þá er þessi hugsun mér ekki eins óviðfelldin og annars væri. En hamingjan, fylgir þeim hugrökku og vera kann, að við verðum ofan á. Hvað um það, mannfallið verður voðalegt, og þar sem það orð fer af okkur, að við látum ekki okkar hlut, þá munum við verða þar sem hríðin verður hörðust.“

Sir Henry sagði þessa síðustu setningu með sorgarrödd, en í augum hans var glampi, sem lýsti þá sorg lygi. Mér er ekki grunlaust um, að Sir Henry Curtis kunni beinlínis vel við að berjast.

Eftir þetta lögðumst við til svefns og sváfum eina tvo tíma.

Rétt í dögun vakti Infadoos okkur. Hann kom til að segja að mikið sæist til mannaferða í Loo, og að flokkar af liðsmönnum konungs væru þegar komnir rétt að varðstöðvum okkar.

Við risum upp og bjuggum okkur til bardagans. Hver okkar fór í hringaskyrtu sína, og fyrir þær skyrtur vorum við framúrskarandi þakklátir, eins og nú stóð á fyrir okkur. Sir Henry gerði hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni og klæddi sig eins og þarlendir hermenn. „Þegar menn eru í Kúkúanalandi, þá eiga menn að fara að ráði sínu eins og Kúkúanar gera,“ sagði hann um leið og hann dró skínandi stálið yfir breiðu herðarnar á sér, sem féll þar eins og hanski að hendi. Og hann lét ekki þar við sitja. Eftir beiðni hans hafði Infados útvegað honum alklæðnað af einkennisbúningi hermanna. Um hálsinn á sér festi hann skikkju þá úr hlébarðaskinnum, sem herforingjar voru í, um augabrýr sér batt hann skúfinn úr svörtu strútsfjöðrunum, sem æðstu herforingjar einir báru, og um mitti sér batt hann mjög tilkomumikið belti úr hvítum uxahölum. Ilskór, hosur úr geitarhári, þung bardagaöxi með skafti úr nashyrningshorni, kringlóttur járnskjöldur, þakinn hvítri uxahúð, og venjulegi fjöldinn af tollum eða kasthnífum – þetta var útbúnaður hans, og svo bætti hann þá við skammbyssunni sinni ofan á. Þetta var auðvitað villimannabúningur, en það verð ég að segja, að aldrei hef ég séð fegurri sjón, en Sir Henry Curtis í þessum búningi. Hann sýndi á þann besta hátt, sem mögulegt var, hve dýrlegur líkamsskapnaður mannsins var, og þegar Ignosi kom rétt á eftir í samskonar búningi, þóttist ég aldrei fyrr hafa séð tvo menn jafn vasklega. Af Good og mér sjálfum er það segja, að hringabrynjurnar fóru okkur ekki nærri því eins vel. Fyrst og fremst var Good ófáanlegur til annars en að vera í buxunum sínum, og feitlaginn, stuttvaxinn maður með eitt glerauga og helminginn af andlitinu rakaðan, klæddur í hringabrynju, sem vandlega er gyrt ofan í mjög slitnar loðnar bómullarbuxur – hann er skrítnari heldur en, hvað hann er tilkomumikill. Fyrir mig var hringabrynjan of stór og fór ég í hana utan yfir öll fötin, og við það gúlpaði hún út hér og þar heldur ólaglega. Ég fór úr buxunum, því að ég hafði afráðið, að fara berfættur í bardagann, til þess að verða því léttari á mér, ef óhjákvæmilegt skyldi verða að láta óhjákvæmilega undan síga, og var í engu að neðanverðu nema skónum úr ósútaða leðrinu. Svo hafði ég spjót, skjöld, sem ég vissi ekkert, hvernig ég átti að nota, tvo kasthnífa, skammbyssu og feikilega mikinn fjaðraskúf, sem ég nældi efst ofan í hattinn, sem ég var vanur að vera með á veiðum, svo að ég skyldi verða nokkuð grimmilegur ásýndum. Þetta var allur minn búningur, og var ekki sérlega tilkomumikill. Auk þessara hluta, sem ég hef nefnt, höfðum við auðvitað byssur okkar, en bæði var lítið um púður og kúlur, og svo gat ekkert gagn orðið að byssunum, ef til návígis kæmi. Við létum því burðarmennina koma með þær á eftir okkur.

Jafnskjótt og við höfðum búið okkur, gleyptum við í okkur einhvern mat í mesta flýti, og lögðum svo af stað til þess að vita, hvernig gengi. Á einum stað á fletinum ofan á fjallinu var dálítill kofi úr móleitum steini, og var hann notaður bæði sem aðalstöðvar hersins og sem njósnarturn. Hér hittum við Infadoos, umkringdan af herflokki sínum, Grámönnunum, sem vafalaust var fegursti flokkurinn í liði Kúkúana, sami flokkurinn, sem við höfðum fyrst séð í þorpinu á endimörkum landsins. Í þessum herflokki voru nú 3,500 manns, og var hann þar til vara. Mennirnir lágu í grasinu í hópum og horfðu á lið konungsins, sem laumaðist út úr Loo í löngum röðum, líkum mauraröðum. Þessar raðir virtust aldrei ætla að taka enda – þrjár voru þær í allt, og í hverri þeirra voru að minnsta kosti 11 eða 12 þúsundir manna.

Jafnskjótt og liðið var komið út úr bænum var því fylkt. Þá hélt ein hlutinn af því til hægri handar, annar til vinstri handar og sá þriðji hélt til móts við okkur í hægðum sínum.

„Já,“ sagði Infadoos, „þeir ætla að ráðast á okkur frá þremur hliðum í einu.“

Þetta voru fremur alvarlegar fréttir fyrir okkur, því að víða mátti á okkur ráða, þar sem hæðin var að minnsta kosti hálfa aðra mílu ummáls, og okkur var áríðandi að halda liði okkar, sem var tiltölulega lítið, svo mikið saman á einum stað, sem mögulegt var. En okkur var ómögulegt að ráða því sjálfir, hvernig ráðið skyldi verða á okkur, og þess vegna urðum við að gera það besta úr því, sem við gátum. Við létum því það boð út ganga til hinna ýmsu herflokka, að búast við að taka á móti áhlaupum á hverjum staðnum fyrir sig.


XIII. KAPITULI. - ÁHLAUPIÐ.

Hægt og hægt liðu þessir herflokkar áfram, og án þess að séð yrði að þeim lægi það allra minnsta á, né að þeim væri það allra minnsta órótt. Þegar aðalflokkurinn, sá sem hélt beint til móts við okkur, átti hér um bil 250 faðma eftir til okkar, þá nam hann staðar hinum megin við endann á aflangri flöt, sem lá upp að hæðinni, til þess að hinir flokkarnir skyldu fá tíma til að komast aftur fyrir vígi okkar. Það var töluvert líkt skeifu í laginu, og endarnir sneru að bænum Loo. Enginn vafi lék á því, að þeir ætluðu sér að gera þetta þrefalda áhlaup á öllum stöðunum í einu.

„Betur að við hefðum nú eina Gatling-byssuna,“ stundi Good, þegar hann virti fyrir sér breiðfylkingarnar, sem fyrir neðan okkur stóðu. „Ég skyldi sópa sléttuna á tuttugu mínútum “

„Við höfum enga, svo að það er gagnslaust að andvarpa eftir henni, en að þér reynduð eitt skot, Quatermain. Reynið þér, hvað þér getið komist nærri þessum hávaxna náunga, sem virðist vera fyrir liðinu. Ég vil veðja 10 á móti einum, að þér hittið hann ekki, og einu pundi, sem skal borgast skilvíslega, ef við komumst nokkurn tíma út úr þessu, um það, að kúlan skal ekki lenda nær honum, en 5 faðma frá honum.“

Mér gramdist þetta, svo ég hlóð express-byssuna mína og beið svo þangað til þessi kunningi minn hafði gengið svo sem 5 faðma burt frá liði sínu til þess að fá betra útsýni yfir vígi okkar. Með honum var einn óbreyttur liðsmaður. Ég lagðist þá niður og lét byssuna hvílast á steini. Ég miðaði á hann. Það var um þessa byssu eins og allar express-byssur, að henni var ekki ætlað að flytja lengra en 175 faðma. Ég varð því að gera fyrir því, að braut kúlunnar beygðist niður á við á leiðinni. Ég miðaði því á miðjan hálsinn, og mér taldist svo til, að kúlan ætti að koma í brjóstið á honum. Hann stóð grafkyrr og gaf mér allt færi á sér, sem mögulegt var, en hvort sem það var af því, að ég var í geðshræringu, eða það var vindinum að kenna, eða það var af því að skotfærið var langt – þá fór eins og nú skal segja: Ég hélt að þetta, mundi takast ljómandi vel og hleypti af, og þegar reykjarmökkurinn hafði rokið burtu, sá ég mér til gremju, að maðurinn stóð óskaddaður, en þar á móti lá óbreytti liðsmaðurinn, sem með honum var, og sem hafði staðið að minnsta kosti þrjú skref frá honum vinstra megin við hann – hann lá endilangur á jörðinni og virtist örendur. Foringinn, sem ég hafði miðað á, sneri sér við skyndilega og tók að renna til liðs síns og var auðsjáanlega hræddur.

„Ágætt, Quatermain,“ söng Good út úr sér. „Þér hafið skotið honum skelk í bringu.“

Af þessu varð ég mjög reiður, því að sé mér mögulegt að komast hjá því, er mér afleitlega við að hitta ekki, þegar fjöldi manna horfir á mig skjóta. Þegar manni getur ekkert farist vel, nema eitt verk, þá kann maður betur við, að missa ekki það orð, sem af manni fer í því efni. Ég var alveg utan við mig af því, hve illa mér hafði tekist, og ég tók því til örþrifaráða. Ég miðaði skyndilega á foringjann á hlaupunum og hleypti annarri kúlu af. Manngarmurinn sló upp höndunum og féll áfram á andlitið. Þetta skipti hafði ég hitt, og – ég segi það sem sönnun um, hve lítið við hugsum um aðra, þegar dramb okkar eða álit er hinum megin – ég var nógu villidýrslegur til þess að finna til fagnaðar við þá sjón.

Herflokkar okkar horfðu á þetta snilldarverk, og ráku upp fagnaðaróp mikið út af því, að töfrar hins hvíta manns skyldu þannig koma fram. Þeir tóku þetta sem fyrirboða þess, að við mundum bera hærra hlut. Þar á móti fór lið það að riðlast, sem maður þessi var foringi fyrir – því að, eins og við síðar komumst að raun um, höfðum við getið rétt til að hann var foringinn. Sir Henry og Good tóku nú sínar byssur og fóru að skjóta. Good skaut jafnt og þétt á saman þjappaða múginn, sem fyrir framan hann var, með Winchestertvíhleypu, ég skaut líka einu eða tveimur skotum, að svo miklu leyti, sem við gátum dæmt um árangurinn, drápum við eitthvað 8 eða 10 menn inni í fylkingunum.

Rétt þegar við hættum að skjóta, heyrðist álengdar hægra megin við okkur kliður, sem ekki vissi á gott. Svo heyrðist svipaður kliður vinstra megin við okkur. Hinar tvær herdeildir voru að ráðast á okkur.

Þegar kliðurinn heyrðist, greiddi mannþyrpingin, sem fyrir framan okkur stóð, dálítið úr sér, og færðist nær hæðinni eftir grasfletinum á hægu brokki, og á leiðinni sungu þeir eitthvað með djúpri rödd. Við héldum áfram jafnt og þétt að skjóta, meðan þeir færðust nær og nær, og við og við skaut Ignosi líka. Við drápum nokkra menn, en auðvitað höfðum við ekki meiri áhrif á þennan ógnarstraum vopnaðra manna, heldur en sá hefur á aðfallandi öldur, sem fleygir smásteinum út í þær.

Nær færðust þeir, með hávaða og vopnabraki. Nú hröktu þeir burtu ystu varðmennina, sem við höfðum sett milli klettanna við rætur hæðarinnar. Eftir það fóru þeir dálítið hægar, því að þó að við hefðum enn ekki veitt neitt alvarlegt viðnám, þá átti áhlaupsliðið nú að sækja upp á móti, og það fór hægt, til þess að mæðast ekki. Fyrsta varnarröð okkar var miðja vegu upp í brekkunni, önnur 25 föðmum ofar, en sú þriðja var rétt á brúninni.

Nær komu þeir, grenjandi heróp sitt: „Twala! Twala! Chiele! Chiele!“ (Twala! Twala! Drepið! Drepið!). „Ignosi! Ignosi! Chiele! Chiele!“ svaraði okkar lið. Nú hafði þeim alveg lent saman, og tollunum, eða kasthnífunum, fór að bregða fyrir glampandi aftur og fram, og nú hófst orrustan með voðalegu orgi.

Til og frá sveigðist múgur hermannanna í bardaganum, og menn féllu eins þétt og blöð í haustvindi, en áður en langt um leið fór ofurefli áhlaupsins að segja til sín, og fyrsta varnarröðin okkar þokaðist hægt og hægt aftur, þangað til hún rann saman við þá næstu. Þar var orrustan ákaflega snörp, en aftur var okkar lið hrakið aftur á bak og upp á við, þangað til loksins komið var að þriðju röðinni, innan 20 mínútna frá því að bardaginn byrjaði.

En um það leyti voru áhlaupendurnir orðnir vígmóðir mjög, og höfðu auk þess látið fjölda manna, drepna og særða, og þeim varð um megn að ryðjast í gegnum þennan þriðja þétta spjótagarð. Um stund vingsaðist þessi þétti hermannamúgur aftur og fram í fjöru og flóði bardagans, og óvíst var, hvernig fara mundi. Sir Henry horfði á þennan grimma, óvissa leik, og brann eldur úr augum hans, og svo stökk hann upp, án þess að segja nokkurt orð, og Good með honum og gengu í hríðina, þar sem hún var hörðust. Sjálfur var ég kyrr, þar sem ég hafði verið.

Hermennirnir festu sjónir á þessum hávaxna manni, um leið og hann varpaði sér inn í orrustuna, og nú grenjuðu þeir:

„Nanze Ineubu!“ (þarna er fíllinn!) „Chiele! Chiele!“

Upp frá, því augnabliki lék enginn vafi lengur á því, hvernig fara mundi. Áhlaupsliðið barðist með framúrskarandi vaskleik upp á líf og dauða, en þumlung eftir þumlung þokaðist það niður á við, ofan eftir brekkunni, þangað til það loksins lét undan síga til stöðva sinna niðri á sléttunni, og var þá, ekki laust við, að nokkuð riðl hefði komist á það. Í því augnabliki kom líka sendiboði til að segja, að tekist hefði að hrekja áhlaupsmennina vinstra megin af höndum sér, og ég var rétt í þann veginn að fara að óska sjálfum mér til hamingju með það, að í þetta skipti væri öllu lokið, en þá sáum við, okkur til skelfingar, að þeir menn okkar, er áttu að taka á móti áhlaupinu hægra megin, voru á flótta í áttina til okkar yfir flötina, og á eftir þeim kom múgur af fjandmönnunum, sem auðsjáanlega höfðu orðið yfirsterkari á þessum stað.

Ignosi stóð hjá, mér. Hann sá í einni svipan, hvernig komið var og var fljótur að gefa skipanir sínar. Varaflokkurinn umhverfis okkur (Grámennirnir) breiddu úr sér á augabragði.

Aftur skipaði Ignosi fyrir, flokksforingjarnir tóku upp skipan hans og endurtóku hana fyrir hermönnunum, og fáeinum sekúndum síðar var ég sjálfur staddur, mér til innilegrar gremju, mitt í æðisgengnu áhlaupi á óvinina. Ég hélt mér svo mikið sem ég gat aftan við risann Ignosi, og svo lét ég sem ekkert væri, þó að mér væri ekki um sel, og labbaði af stað til að láta drepa mig, eins og mér þætti gaman að því. Eina eða tvær mínútur – mér fannst tíminn allt of stuttur – þutum við gegnum hina flýjandi hópa af okkar mönnum. Þegar í stað fór að koma skipulag á þá bakvið okkur, og svo veit ég alls ekkert hvað gerðist. Allt, sem ég man, er það, að ég heyrði óttalegan hávaða af skjöldunum, þegar þeim lenti saman, líkt og þegar bumbur eru barðar í ákafa, og svo sá ég allt í einu risavaxið ruddamenni. Augun sýndust bókstaflega vera að fara út úr hausnum á honum, og hann stefndi beint að mér með blóðugt spjótið. En ég var hættunni vaxinn – og ég er stoltur af að geta sagt það. Flestir menn mundu í mínum sporum hafa misst móðinn þegar í stað – og aldrei fengið hann aftur. Ég sá, að ef ég stæði kyrr, þá væri úti um mig. Þegar þessi sjón var rétt komin að mér, fleygði ég mér því niður rétt fyrir framan fæturna á manninum, svo laglega, að hann stakst á hausinn rétt ofan yfir mig, þar sem ég lá endilangur, því að hann gat ekki stöðvað sig. Áður en hann gat risið upp, var ég kominn á fætur, og hafði séð fyrir piltinum að baki hans með skammbyssunni minni.

Skömmu síðar lamdi einhver mig niður, og svo man ég ekki meira um bardagann.

Þegar ég raknaði við, var ég aftur kominn í kofann. Good stóð þar hálfboginn yfir mér og hafði nokkuð af vatni í graskeri.

„Hvernig líður yður, kunningi?“ spurði hann kvíðafullur.

Ég reis upp og hristi mig áður en ég svaraði.

„Dável, þakka yður fyrir,“ svaraði ég svo.

„Guði sé lof! Þegar ég sá þá bera yður inn, varð mér öllum illt. Ég hélt, að það væri úti um yður.“

„Ekki í þetta skipti, góðurinn minn. Ég held, ég hafi ekki fengið nema högg á höfuðið, sem hafi rotað mig. Hvernig fór það?“

„Sem stendur höfum við hvarvetna rekið þá af höndum okkar. Manntjónið er hræðilega mikið. Við höfum látið fullar tvær þúsundir fallinna og særðra manna, og hinir hljóta að hafa misst þrjár. Sko, þarna er nokkuð að sjá!“ og hann benti á langar raðir manna, sem komu fjórir og fjórir saman. Í miðjum hverjum af þessum fjögurra manna-flokkum voru nokkurs konar trog úr húðum, sem mennirnir báru, Kúkúanaliðið flytur ávallt með sér mikið af þessum áhöldum, og er lykkja á hverju horni til að halda á. Í þessum trogum – og tala þeirra virtist engan enda ætla að taka – lágu særðir menn. Jafnóðum og þeir komu, skoðuðu læknarnir þá, í skyndi, af þeim voru tíu við hvern herflokk. Væru sárin ekki banvæn, voru sjúklingarnir fluttir burt, og fengu svo góða hjúkrun sem mögulegt var, eftir því sem á stóð.

En væri að hinu leytinu engin von um hina særðu menn, þá var það voðalegt, sem kom á eftir þessari læknaskoðun, þó að það væri vafalaust sú sannasta líkn, sem mönnunum varð sýnd. Einn af læknunum lét sem hann væri að skoða manninn og opnaði svo skyndilega einhverja slagæð með beittum hníf, og eftir eina eða tvær mínútur hafði sjúklingurinn gefið upp öndina án nokkurra þrauta. Þetta var oft gert þann dag. Í raun og veru var þetta oftast gert, þegar sárið var einhvers staðar á bolnum, því að oftast nær voru ólæknandi sárin eftir þessi feikilega breiðu spjót, sem Kúkúanar höfðu. Oftast voru vesalings sjúklingarnir þegar orðnir meðvitundarlausir, og á hinum var banastungan í slagæðina gerð með skjótri svipan og svo þrautalaust, að mennirnir virtust ekkert taka eftir henni. En samt sem áður var það hryllileg sjón og fagnaðarefni að losna við hana. Sannast að segja man ég ekki eftir að neitt hafi fengið eins á mig eins og að sjá þessum vösku hermönnum forðað frá kvölum á þennan hátt af rauðhentum meðalamönnum, nema í eitt skipti, þegar ég sá liðsöfnuð af Svözum jarða þá af mönnum sínum lifandi, sem særðir voru banvænum sárum.

Við flýttum okkur burt frá þessari hræðilegu sjón. Fyrir utan kofann hittum við Sir Henry (sem enn hélt á blóðugri bardaga-öxinni í hendi sér), Ignosi, Infadoos og einn eða tvo af höfðingjunum. Þeir voru þar sokknir niður í að ráða ráðum sínum.

„Guði sé lof, að þér eruð kominn, Quatermain! Ég er ekki alveg viss um að skilja, hvað Ignosi vill láta okkur gera. Það virðist svo, þó að við höfum rekið áhlaupsmennina af höndum okkar, að Twala sé nú að draga að sér mikið lið á ný, og að það sjáist að hann sé að hugsa um að umkringja okkur í því skyni að svelta okkur í hel.“

„Það eru óþægilegar fréttir.“

„Lávarðar mínir, því er svo varið,“ sagði Infadoos, „lindin getur ekki látið allt það í té, sem þessi mannfjöldi þarfnast, og hún er óðum að þorna. Áður en næsta nótt kemur verðum við allir þyrstir. Hlusta þú, Macumazahn. Þú ert vitur og hefur vafalaust séð mörg stríð í löndum þeim, sem þú komst frá – það er að segja, ef menn í raun og veru heyja stríð á stjörnunum. Seg þú okkur nú, hvað við eigum að gera. Twala hefur aflað sér margra nýrra manna, sem koma í stað þeirra, sem fallið hafa. En Twala hefur látið sér hið liðna að kenningu verða. Haukurinn bjóst ekki við að hitta hegrann viðbúinn, en nefið á okkur hefur gengið í gegnum brjóstið á honum. Hann leggur ekki til okkar aftur. Við erum líka særðir, og hann biður eftir því að við deyjum. Hann ætlar að snúa sig utan um okkur eins og höggormur snýr sig utan um hafur, og halda ófriðnum áfram á þann hátt að hafast ekkert að.“

„Ég heyri til þín,“ sagði ég.

„Þú sérð þá, Macumazahn, að við höfum ekkert vatn hér, og ekki nema lítið af mat, og að við verðum að velja eitthvað af þessu þrennu: að dragast upp eins og hungrað ljón í bæli sínu, reyna að ryðja okkur braut norður úr, eða“ – og um leið og hann sagði það stóð hann upp og benti á þétta fjandmannamúginn – „að fleygja okkur beint í ginið á Twala. Incubu, vígamaðurinn mikli – því í dag hefur hann barist líkt og vísundur í neti, og hermenn Twala féllu fyrir exi hans eins og korn fyrir hagli. Ég sá það með mínum eigin augum – Incubu segir, að við skulum ráða á þá, en fíllinn (Incubu) er ávallt gjarn á atlögur. Hvað segir þú, Macumazahn, gamli, slóttugi refurinn, sem hefur séð mikið, og sem ert gjarn á að leggja til fjandmanns síns að baki hans? Ignosi, konungurinn, á að skera úr, því að það er réttur konungsins að kveða á um stríð – en látum okkur heyra tillögur þínar, Macumazahn! þú sem heldur vörð á nóttunum og eins tillögu mannsins með gagnsæja augað.“

„Hvað segir þú, Ignosi?“ spurði ég.

„Sannarlega skalt þú tala, faðir minn,“ svaraði þjónn okkar, sem áður var, og sem nú var svo herkonungslegur ásýndum sem framast var unnt, þar sem hann stóð í öllum herklæðum villimannanna. „Tala þú og lát mig, sem ekki er nema barn í visku í samanburði við þig, hlusta á orð þín með athygli.“

Þegar þannig hafði verið á mig skorað, ráðgaðist ég í skyndi um við Good og Sir Henry, og svo lét ég í ljósi mína skoðun. Hún var í þá átt, að þar sem við værum komnir í þessa kreppu, þá mundi það að líkindum verða affarabest að ráða á lið Twala, einkum þar sem vatnsforðinn var að þrotum kominn, og því næst lagði ég það til, að áhlaupið skyldi gert þegar í stað, „áður en sár okkar stirðnuðu,“ og sömuleiðis, áður en hjörtun í hermönnum okkar „rynnu eins og feiti við eld,“ við að sjá, hve miklu liðfleiri fjandmennirnir voru. Ég benti á, að annars kynni einhverjum af höfðingjunum að snúast hugur, semja frið við Twala og strjúka til hans eða enda svíkja okkur í hendur hans.

Menn virtust yfir höfuð taka þessari skoðun vel, í raun og veru nutu orð mín slíkrar virðingar hjá Kúkúönum, að þau hafa aldrei verið í öðrum eins heiðri höfð, hvorki fyrr né síðar. En sjálfan úrskurðinn viðvíkjandi stefnu okkar átti Ignosi að kveða upp. Síðan menn höfðu kannast við hann sem lögmætan konung, gat hann beitt nær því ótakmörkuðu einveldi, og þar í var auðvitað innifalið æðsta úrskurðarvald í herstjórnarsökum. Og nú snerust allra augu að honum.

Hann þagði fyrst og virtist vera sokkinn niður í umhugsanir, svo tók hann þannig til orða:

„Incubu, Macumazahn og Bougwan, hraustu hvítu menn og vinir mínir, Infadoos, föðurbróðir minn, og þér höfðingjar! Ég hef staðráðið, hvað gera skal. Ég ætla að leggja til orrustu við Twala í dag og eiga hamingju mína og í sannleika líf mitt undir úrslitunum. Mitt líf og ykkar líf líka. Hlustið hvernig ég ætla að haga atlögunni. Þið sjáið, hvernig hæðin liggur í bugðu líkt og hálftungl, og hvernig sléttan liggur upp að okkur innan í bugðunni líkt og blómfesti.“

„Við sjáum það,“ sögðu þeir.

„Gott og vel. Nú er hádegi, og mennirnir eta og hvíla sig eftir erfiði orrustunnar. Þegar sólin er snúin við og hefur farið dálítinn spöl í áttina til dimmunnar, þá skal herflokkur þinn, föðurbróðir minn, halda með öðrum herflokki til ofan að grænu tungunni.

Þegar Twala sér það, þá, mun hann senda lið sitt þangað til þess að afmá þann liðsafla okkar með öllu. En þar er þröngt aðstöðu, og herflokkarnir komast ekki að þér nema einn í senn, svo munu þeir verða höggnir niður einn og einn, og allur her Twala mun stara á þann aðgang, enda mun enginn lifandi maður hafa séð annað eins. Og með þér, föðurbróðir minn, skal Incubu, vinur minn, fara, og má þá, vera, að Twala bregði í brún, þegar hann sér glitra á bardagaöxina hans í fyrstu röð „Grámannanna.“ Og ég ætla að vera með hinum herflokknum, þeim sem á að fara á eftir þér, svo að ef þið farist, eins og vel kann að verða, þá sé þó enn eftir konungur, sem menn geti barist fyrir, og með mér skal koma Macumazahn hinn vitri.“

„Gott og vel, konungur,“ svaraði Infadoos, og virtist svo sem hann horfði án minnstu geðshræringar fram á það, hve áreiðanlegt það var að herflokkur hans mundi algerlega farast. Þessi Kúkúanar eru sannarlega dásamleg þjóð. Þeim stendur enginn ótti af dauðanum, þegar skyldan býður að hann skuli koma.

„Og meðan manngrúinn í herflokkum Twala starir þannig á bardagann,“ hélt Ignosi áfram, „þá skal einn þriðjungur þeirra manna, sem enn eru á lífi hjá oss (þ.e. hér um bil 6.000), laumast fram með hægra horni hæðarinnar og ráðast á vinstra arminn á liði Twala, og annar þriðjungur skal laumast fram með vinstra horninu og ráðast á hægra arminn á liðinu. Og þegar ég sé, að þessir liðshlutar eru reiðubúnir til að gera áhlaup sín, þá mun ég með þeim mönnum, sem með mér verða, ráða beint framan á lið Twala, og ef hamingjan verður með okkur, þá munum við vinna sigur, og áður en nóttin rekur hesta sína frá fjöllum til fjalla munum við sitja í Loo og í friði. Og látum okkur nú eta og búast af stað, og þú, Infadoos, sjá þú um, að fyrirhugun þessari verði fram fylgt, og bíðum við, Bougwan, hinn hvíti faðir minn, fari með þeirri herdeildinni, sem leggur af stað hægra megin, svo að hið skínandi auga hans megi auka mönnum hugrekki.“

Fyrirbúnaðurinn til árásar þeirrar, sem nú hefur verið lýst í stuttu máli, var gerður með svo skjótri svipan, að það bar vitni um, hve hernaðarfyrirkomulag Kúkúana var fullkomið. Mönnum voru afhentir matarskammtarnir, og þeir átu þá, liðinu var skipt í þessar þrjár deildir, fyrirkomulagið á áhlaupinu var skýrt fyrir foringjunum, og allt liðið, sem nú var um 18,000 manns í allt, að undanteknum varðmönnunum, sem skildir voru eftir hjá þeim særðu, var búið að leggja af stað – og öllu þessu var lokið á litlu meir en einni klukkustund.

Allt í einu kom Good og tók í höndina á Sir Henry og mér.

„Verið þið sælir, vinir mínir,“ sagði hann; „ég fer burt með þeirri herdeildinni, sem leggur af stað til hægri handar, eins og mér er skipað, og svo kem ég til þess að taka í höndina á ykkur, ef svo skyldi fara að við finnumst aldrei aftur, þið skiljið,“ bætti hann við, og var auðheyrt, hvað undir bjó.

Við tókum í höndina á honum þegjandi, og það sást á okkur eins mikil geðshræring eins og Englendingar eru vanir að láta kom í ljós.

„Þetta er óviðfelldin saga,“ sagði Sir Henry, og djúpa röddin í honum skalf lítið eitt, „og ég kannast við það, að ég býst ekki við að sjá nokkurn tíma sól morgundagsins. Eftir því sem ég get komist næst, eiga Grámennirnir, sem ég á að fara með, að berjast þangað til þeir verða afmáðir, til þess að hinar herdeildirnar skuli geta laumast hringinn í kring og ráðist á hliðarnar á herliði Twala. Jæja, gott og vel, það verður að minnsta kosti karlmannlegur dauðdagi! Verið þér sælir, laxmaður gamli. Guð blessi yður! Ég vona þér þraukið það af og lifið til að ná í demantana, en ef yður tekst það, þá farið að mínum ráðum og varist að skipta yður framar nokkuð af þeim sem tilkall gera til ríkja.“

Einni sekúndu síðar hafði Good kreist hendurnar á okkur báðum og var farinn, og þá kom Infadoos til okkar og leiddi Sir Henry þagað, sem hann átti að vera, allrafremst í herflokki Grámanna. Þar í móti fór ég með Ignosi til míns staðar í efra herflokknum, og sagði mér illa hugur um.


XIV. KAPITULI. - SÍÐASTA VIÐNÁM GRÁMANNANNA.

Fáum mínútum síðar höfðu herflokkar þeir, er ætlað var að komast á hlið við óvinina, haldið á burt hljóðlega, og fóru þeir með mikilli varhyggð sem næst brekkunni, til þess að hin skörpu augu njósnarmanna Twala skyldu ekki verða vör við för þeirra.

Hálf klukkustund eða meira var látin líða, frá því að þessar deildir herliðsins lögðu af stað og þangað til Grámennirnir hreyfðu sig hið minnsta og herflokkurinn, sem átti að aðstoða þá, og kallaður var Vísundarnir. Það voru þessir herflokkar, sem mynduðu brjóst herliðsins, og þeim var ætluð snarpasta orrustan.

Báðir þessir herflokkar voru nær því óþreyttir og því með fyllsta fjöri. Grámennirnir höfðu aðeins verið hafðir til vara um morguninn og höfðu aðeins misst fáeina menn, þegar þeir voru að hrekja aftur þann hluta áhlaupsmannanna, sem tekist hafði að komast gegnum varnarröðina, í sama skiptið sem mér hafði lent saman við þá, og ég hafði verið rotaður. Og af Vísundunum er það að segja, að þeir höfðu myndað þriðju varnarröðina vinstra megin, og með því að áhlaupsliðinu hafði ekki tekist þar að komast gegnum aðra röðina, þá höfðu Vísundarnir nærri alls ekki komið í bardagann.

Infadoos var hygginn og gamall hershöfðingi og vissi vel, hve einkar áríðandi það var að halda við hugrekki manna sinna, þegar komið var að jafnóvænlegri orrustu, og hann notaði því hlé þetta til þess að halda skáldlega ræðu yfir herflokki sínum, Grámönnunum. Hann sýndi þeim fram á, hvílík virðing þeim væri sýnd með því að setja þá þannig allra fremsta í orrustuna og með því, að láta þá fá mikla, hvíta hermanninn frá stjörnunum, sem berjast skyldi í flokki þeirra, og öllum, sem lifðu af, lofaði hann háum launum í kvikfénaði og embættishækkun, ef Ignosi skyldi vinna sigur.

Ég leit ofan eftir þessum löngu röðum af dökkum, blaktandi fjöðrum og alvarlegum andlitum þar fyrir neðan, og ég stundi við umhugsunina um, að eftir eina stutta stund mundu flestir, ef ekki allir, þessir tilkomumiklu gömlu hermenn, sem allir voru komnir yfir fertugt, liggja dauðir eða deyjandi í duftinu. Það gat ekki öðruvísi orðið. Þeir höfðu verið dæmdir til dauða með þessu viturlega skeytingarleysi um mannlegt líf, sem einkennir mikla herforingja. Þeir voru þegar dæmdir til dauða, og þeir vissu það. Það var þeirra verk að berjast við hvern herflokkinn af liði Twala eftir annan á mjóu, grasi vöxnu spildunni fyrir neðan okkur, þangað til þeir yrðu allir drepnir, eða þangað til herdeildirnar, sem til hliðanna fóru, hefðu fengið gott tækifæri til atlögu. Og þó hikuðu þeir sér ekki grand, og ekki gat ég heldur séð nokkur óttamerki á andliti eins einasta af hermönnunum. Þarna voru þeir gangandi út í opinn dauðann, rétt að því komnir að skilja fyrir fullt og allt við blessað dagsljósið, og þó gátu þeir hugleitt dómsáfelli sitt án skelfingar. Jafnvel á því augnabliki gat ég ekki að mér gert að bera ekki þeirra sálarástand saman við mitt, því að það var langt frá, að ég kynni vel við mig, og ég andvarpaði af öfund og aðdáun. Aldrei hafði ég fyrr séð jafn eindregna undirgefni undir skylduna, né jafn algert hirðuleysi um harðar afleiðingar skyldurækninnar.

„Lítið á konung yðar!“ Þannig lauk Infadoos gamli máli sínu og benti á Ignosi, „farið og berjist og fallið fyrir hann, eins og hraustum mönnum sæmir, og bölvað og svívirt verði að eilífu nafn þess manns, sem kinokar sér við að deyja fyrir konung sinn, eða sem snýr bakinu við fjandmanni sínum. Lítið á konung yðar! Þér höfðingjar, liðsforingjar og hermenn. Auðsýnið nú hinum helga ormi lotningu yðar, og leggið svo af stað, til þess að við, Incubu og ég, fáum sýnt yður veginn, sem liggur inn að hjartanu á liðsafla Twala.“

Eitt augnablik var steinhljóð, svo heyrðist allt í einu kliður frá herfylkingunum, sem raðað var fyrir framan okkur, og sá kliður var líkur sævargný í fjarska, og hann kom af því, að sköftunum á sex þúsund spjótum var slegið hægt í skildi þeirra manna, sem á spjótunum héldu. Smátt og smátt óx kliðurinn, varð dýpri og sterkari, þangað til hann valt áfram eins og ljónsöskur. Kvað þá við í hæðunum líkt og af þrumum, og loftið fylltist af þungum hljóðöldum. Svo fór kliðurinn að minnka og smátt og smátt dó hann og varð að engu, og svo var allt í einu grenjuð konunglega kveðjan.

Ég hugsaði með sjálfum mér, að Ignosi hefði vel mátt þykjast nokkuð þennan dag, því að enginn rómverskur keisari hefur nokkurn tíma fengið aðra eins kveðju frá skylmingamönnum, sem áttu að fara að deyja.

Ignosi svaraði þessu tilkomumikla lotningarmerki með því að lyfta upp bardagaexi sinni, og því næst lögðu Grámennirnir af stað í þreföldum röðum, og voru í hverri röð hér um bil eitt þúsund vígra manna, að undanteknum hershöfðingjum. Þegar síðasta röðin hafði farið hér um bil 250 faðma, gekk Ignosi sjálfur í flokk Vísundanna og tók sér þar stöðu meðal hinna fremstu. Þeim herflokki var fylkt eins í þrefaldar raðir. Ignosi bauð mönnum svo að leggja af stað, og af stað héldum við, og ég þarf víst ekki að taka það fram, að ég bað þess heitt og innilega, að ég mætti komast klakklaust út úr þessu fyrirtæki. Oft hefur staðið undarlega á fyrir mér, en aldrei eins óþægilega eins og í þetta skipti, og aldrei hafa líkindin verið jafn lítil fyrir því, að ég slyppi heill á húfi.

Um það leyti, sem við komum á brúnina, voru Grámennirnir þegar komnir miðja vegu ofan í brekkuna, þar fyrir neðan lá grasivaxna tungan inn í fjallabogann, nokkuð svipuð eins og hóftungan inn í skeifuna. Í herbúðum Twala á sléttunum hinum megin voru menn í ákafri geðshræringu, og hver herflokkurinn eftir annan lagði af stað brokkandi í langri bugðu, til þess að komast að rótum landtungunnar, áður en áhlaupsliðið gæti komist út á sléttuna við Loo.

Þessi landtunga, sem var eitthvað 150 faðmar á lengd, var jafnvel um ræturnar, þar sem hún var breiðust, ekki meira en 150 skref á breidd, en í broddinum var hún naumast 60 skref. Ofan hlíðina og í tungubroddinum höfðu Grámennirnir farið í halarófu, en þegar þeir komu þangað, sem tungan fór að breikka, skipuðu þeir sér aftur í þreföldu raðirnar, og stóðu grafkyrrir.

Svo færðum við – Vísundarnir – okkur ofan eftir tungubroddinum og staðnæmdumst þar sem varalið hér um bil 50 faðma fyrir aftan síðustu röð Grámanna, og bar okkur lítið eitt hærra. Við höfðum nú færi á að líta yfir allt lið Twala. Það hafði auðsjáanlega verið aukið síðan áhlaupið var gert um morguninn, og þrátt fyrir alla þá menn, sem Twala hafði látið, gátu það ekki verið færri en 40 þúsundir manna, sem nú héldu til móts við okkur á hraðri ferð. En þegar þeir voru komnir nærri tungurótunum kom hik á þá, því að þá höfðu þeir uppgötvað það, að ekki gat nema einn herflokkur komist að í einu, og að eitthvað 36 faðma frá tungusporðinum stóð hinn nafnfrægi herflokkur Grámanna, stolt og prýði Kúkaúnaherliðsins, reiðubúinn til að veita ofurefli þeirra viðnám, eins og þrír Rómverjar vörðu einu sinni brúna fyrir þúsundum manna. Ekki varð komist að honum nema að framan, vegna háu blágrýtis-brekknanna, sem voru beggja megin. Það kom hik á þá, og að lokum staðnæmdust þeir á leiðinni. Þeim var ekkert annt um að komast í návígi við þessar þrjár raðir hræðilegra hermanna, sem stóðu svo fast fyrir albúnir til bardaga. En þá kom allt í einu hár liðsforingi, með venjulega höfuðbúnaðinn af blaktandi strútsfjöðrum, hlaupandi fram úr liðinu. Honum fylgdi flokkur höfðingja og óbreyttra liðsmanna, og ég hélt, að það hefði enginn annar verið en Twala sjálfur. Hann gaf einhverja skipun, og fyrsti herflokkurinn rak upp óp og hélt áfram til Grámannanna. Þeir hrærðu sig ekki og steinþögðu, þangað til áhlaupsliðið átti eftir til þeirra minna en 20 faðma, og sægur kasthnífa kom fljúgandi og brakandi framan á þá.

Þá stukku Grámennirnir allir fram grenjandi með spjótin á lofti, og þessir tveir herflokkar lögðu til orrustu og börðust í ógurlegum ákafa. Á næstu sekúndu barst brakið í skjöldunum, sem mættust, til eyrna okkar, líkast þrumugný, og öll sléttan var eins og lifandi af ljósglömpum frá spjótunum. Til og frá bugðaðist múgur hinna stritandi, drepandi manna eins og í öldugangi, en ekki stóð lengi á því. Allt í einu virtust áhlaupsraðirnar verða þynnri, og þar næst komust Grámennirnir yfir þær í hægri, langri sveiflu, alveg eins og þegar stór alda lyftist upp og kemst yfir sokkið sker. Verkið var unnið, herflokkurinn var algerlega afmáður, og Grámennirnir áttu nú ekki eftir nema tvær raðir, þriðjungurinn af þeim var dauður.

Þeir röðuðu sér enn öxl við öxl, stóðu þegjandi og biðu átaks, og það fékk mér fagnaðar að sjá gula skegginu á Sir Henry bregða fyrir, þegar hann fór fram og aftur og fylkti liðinu. Hann var þá enn á lífi!

Meðan á þessu stóð, færðum við okkur nær vígvellinum. Á honum lágu hér um 4 þúsund dauðra og særðra deyjandi manna, og hann var bókstaflega rauður af blóði. Ignosi lét það boð út ganga, sem skyndilega var flutt um fylkingarnar, að enginn af hinum særðu fjandmönnum skyldi verða drepinn, og að svo miklu leyti sem við gátum séð, var þessu boði vandlega hlýtt. Þetta hefði verið hræðileg sjón, ef við hefðum haft tíma til að hugsa um hana.

En nú færðist annar herflokkur nær. Einkenni hans voru hvítar fjaðrir, stutt pils og skildir, og hann kom til þess að ráða á þessar tvær þúsundir, sem eftir voru af Grámönnum. Þeir stóðu og biðu með sömu voðaþögninni eins og áður, þangað til óvinirnir áttu eftir til þeirra tæpa 20 faðma eða þar um bil. Þá réðust þeir á þá með ómótstæðilegu afli. Aftur kom óttalegt brak af skjöldunum, þegar þeir slógust saman, og nú sáum við endurtekning á sama hræðilega sorgarleiknum, sem áður hafði farið fram. En í þetta skipti lék lengur vafi á því, hvernig fara mundi. Í raun og veru virtist um stund alveg ómögulegt, að Grámennirnir yrðu yfirsterkari aftur. Áhlaupsflokkurinn, sem saman stóð af ungum mönnum aðeins, barðist eins og hann væri algerlega æðisgenginn, og í fyrstu virtist svo sem hann væri að hrekja gömlu liðsmennina aftur á bak með þunga sínum einum. Mannfallið var nokkuð voðalegt, því að hundruð manna féllu á hverri einustu mínútu, og innan um hróp bardagamannanna og stunur hinna deyjandi, sem runnu saman við spjótaglamrið og urðu eins og brakandi hljóðfærasláttur, innan um það heyrðist hvæsandi undirtónn, „s'gí, s'gí“, og var það sigurhljómur sem kom frá vörum hvers einstaks sigurvegara um leið og hann rak spjót sitt alla leið gegnum líkama fjandmanns síns.

En ágæt regla og staðfast og óbilandi þrek getur gert kraftaverk, og einn gamall liðsmaður er ígildi tveggja ungra, eins og bráðlega kom í ljós við þetta tækifæri. Því rétt þegar við héldum að nú væri alveg úti um Grámennina og vorum að búast við að koma í þeirra stað, jafnskjótt og þeir hefðu verið höggnir niður, og við þannig kæmumst að, þá heyrði ég djúpu röddina í Sir Henry kveða upp úr hávaðanum, og sá bardagaöxinni hans bregða fyrir í hring um leið og hann veifaði henni upp yfir fjaðraskúfinn. Þá varð breyting á. Grámennirnir hættu að láta þokast, þeir stóðu grafkyrrir eins og klettur, og þessar æðandi öldur spjótberanna brotnuðu á þeim hvað eftir annað, og urðu í hvert skipti að hörfa aftur. Allt í einu fóru þeir aftur að hreyfa sig – í þetta skipti áfram, enginn var reykurinn, þar sem þeir höfðu engin skotvopn, svo að við gátum séð allan leikinn. Svo leið ein mínúta til, og áhlaupið varð linara.

„Ó, þeir eru sannarlega karlmenn. Þeir ætla aftur að vinna sigur,“ kallaði Ignosi, sem var að nísta tönnum af geðshræringu við hliðina á mér. „Sko, það er búið!“

Allt í einu brast flótti í áhlaupsflokkinn, og hann sentist burt í smáflokkum, líkt og reykjargusur út úr fallbyssukjöftum, með hvíta höfuðbúnaðinn flaksandi aftur af mönnum í vindinum, og skildi mótstöðumenn sína eftir sem sigurvegara – en því miður var enginn herflokkur eftir. Af þessum vösku þríröðuðu þremur þúsundum, sem fjörutíu mínútum áður höfðu lagt til orrustu, voru í mesta lagi eftir sex hundruð blóðstorkinna manna, hinir lágu á jörðinni. Og æptu þeir gleðióp og veifuðu spjótum sínum sigri hrósandi, og því næst stukku þeir áfram eina 50 faðma eða þar um bil, í stað þess að draga sig aftur á við til okkar eins og við höfðum búist við að þeir mundu gera, skipuðu sér utan um ofurlítinn hól, sem þar var, fylktu sér aftur í þrjár raðir, og mynduðu þrefaldan hring utan um hólinn. Og þá sá ég, til allrar guðs lukku, Sir Henry standa ofurlitla stund uppi á hólnum, óskaddaðan að því er séð varð, og hjá honum Infadoos gamla, vin okkar. Því næst óðu herflokkar Twala að þessum dauðadæmda flokki, og enn einu sinni tókst orrusta.

Eins og þeir, sem lesa þessa sögu, munu að líkindum fyrir löngu hafa komist að, þá er ég, í hreinskilni að segja, ekki laus við að vera heigull, og ég er sannarlega ekki gefinn fyrir að berjast, þó að það einhvern veginn hafi orðið mitt hlutskipti að lenda í ýmsu óþægilegu og neyðast til að úthella mannsblóði. Ég hef ávallt haft óbeit á því, og ég hef jafnan reynt að halda svo miklu blóði í sjálfum mér, sem mér hefur verið mögulegt, stundum með því að vera svo hygginn að taka til fótanna. En á því augnabliki fann ég, í fyrsta sinni á ævi minni, brjóst mitt brenna af hernaðarákafa. Hermennsku brot úr „Helgisögum Ingoldsbys“, ásamt ýmsum blóðsúthellinga versum úr Gamla testamentinu spruttu upp í heila mínum, líkt og gorkúlur í dimmunni. Blóð mitt, sem hingað til hafði verið hálffreðið af skelfingu, streymdi og lamdist um í æðum mínum, og villimannleg löngun til að drepa og hlífa ekki fékk vald yfir mér. Ég leit um öxl mér á hermannaraðirnar fyrir aftan okkur, og ég veit ekki, hvernig á því stóð, en ég fór allt í einu að verða forvitinn eftir, hvort ég mundi vera líkur þeim í framan. Þarna stóðu þeir og teygðu höfuðin fram yfir skildina, með krepptar hendurnar, varirnar opnar. Í hörðu dráttunum í andliti þeirra sást hungurlöngun eftir orrustu, og í augum þeirra var svipur líkur glórunni í augum blóðhunda, þegar þeir fá auga á veiðidýrin.

Ef nokkuð mátti ráða af því, hvað Ignosi hafði mikið vald yfir sér, þá virtist svo sem hjarta hans slægi jafnrólega undir hlébarða-skinnstakknum, eins og það hafði nokkurn tíma áður gert, enda þótt hann héldi áfram í sífellu að nísta tönnum. Ég gat ekki þolað þetta lengur.

„Eigum við að standa hér, þangað til við festum hér rætur, Umbopa – Ignosi á ég við – meðan Twala svelgir í sig bræður okkar þarna hinum megin?“ spurði ég.

„Nei, Macumazahn,“ svaraði hann. „Sko, nú er rétta augnablikið, látum okkur nota það.“

Um leið og hann sagði þetta, þaut nýr herflokkur framhjá hringnum á litlu hæðinni, sneri sér svo við og réðst á hann þeim megin, sem við vorum.

Þá lyfti Ignosi upp bardagaöxi sinni til merkis um, að við skyldum veita þeim atlögu, og Vísundarnir gerðu það, og ráku um leið upp bardagaóp Kúkúana.

Ég get ekki sagt, hvað gerðist rétt á eftir. Ég man ekki eftir öðru, en að við þutum áfram sem æðisgengnir, en þó í reglu, og þetta stökk virtist hrista svo jörðina, að herflokkur sá, er við réðumst á, sneri sér við í skyndi og raðaði sér aftur, og svo man ég eftir voðalegum samanrekstri, óglöggum raddklið og sífelldum glömpum af spjótum, sem sáust gegnum rauða blóðgufu.

Þegar ég fékk aftur fullt ráð, sá ég, að ég stóð innan um leifar Grámanna, nærri því efst uppi á hólnum, rétt aftan við Sir Henry sjálfan. Á því augnabliki hafði ég enga hugmynd um, hvernig ég hefði komist þangað, en Sir Henry sagði mér síðar, að ég hefði flust þangað í fyrsta æðisáhlaupi Vísundanna, rétt upp að fótum hans, og þar hefði ég svo orðið eftir, þegar þeir hefðu aftur orðið að láta undan síga. Þá hefði hann brotist út úr hringnum og druslað mér inn í hann.

Þeirri orrustu, sem nú tókst, mundu fáir geta lýst. Aftur og aftur veltist manngrúinn upp að þessum litla hring, sem með hverju augnabliki varð minni og minni, og aftur og aftur börðum við þá af höndum okkar.

Það var tilkomumikið að sjá þessar hraustu hersveitir koma hvað eftir annað yfir garðana, sem myndast höfðu úr hinum föllnu mönnum úr þeirra hópi. Stundum héldu þeir líkum fram undan sér, til þess að spjótalög okkar skyldu lenda í þeim, og árangurinn varð ekki annar en sá, að þeirra eigin líkamar urðu eftir og juku við haugana, sem sífellt fóru vaxandi. Það var hermannleg sjón að gamla óbifanlega bardagamanninum Infadoos, jafnrólegum eins og hann væri við viðhafnarhersýningu, hrópa skipanir, napuryrði og jafnvel gamanyrði til þess að halda við hugrekki þeirra manna, sem eftir voru, og svo fara í hvert skipti sem atlaga var gerð þangað sem hríðin var hörðust, til þess að leggja sinn skerf til að við skyldum fá rekið áhlaupsmennina af höndum okkar. Og þó var enn hermannlegra að sjá Sir Henry, spjót hafði lent á fjaðraskúfnum hans og numið hann burt, svo að gula hárið flaksaðist aftur af höfðinu á honum í golunni. Þarna stóð hann, mikli danski víkingurinn, því að hann var ekkert annað, og hendurnar á honum, öxin hans, herklæðin hans, allt var rautt af blóði, og engum var lífs auðið undir höggum hans. Hvað eftir annað sá ég öxi hans sveiflast niður, þegar einhver mikill vígamaður dirfðist að veita honum viðnám, og um leið og hann hjó hrópaði hann: „óhoj! óhoj!“ eins og forfeður hans, berserkirnir, og öxin fór glamrandi gegnum skjöld og spjót, gegnum höfuðfat, hár og hauskúpu, þangað til loksins enginn varð til þess af eigin hvöt að koma nærri þessum mikla, hvíta „tagati“ (töframanni), sem drap og aldrei hjó vindhögg.

En allt í einu heyrðist hrópað: „Twala, Twala,“ og út úr mannþyrpingunni stökk enginn annar en risavaxni, eineygði konungurinn sjálfur, og hann var eins og aðrir með vígaöxi og skjöld, klæddur hringabrynju.

„Hvar ert þú, Incubu, þú hvíti maður, sem drapst Scragga son minn – reyndu, hvort þú getur drepið mig!“ grenjaði hann og skaut um leið kasthníf að Sir Henry. Til allrar hamingju sá hann hnífinn á fluginu og brá fyrir sig skildinum. Hnífurinn fór í gegnum skjöldinn og sat fastur í járnplötunni bak við húðina.

Þá óð Twala grenjandi áfram, beint að Sir Henry og rak með vígaöxi sinni svo mikið högg í skjöld hans, að Sir Henry féll á kné af þunga höggsins einum, þótt hann sterkur væri.

En þá varð ekki meira úr viðureign þeirra, því að á því augnabliki heyrðist eitthvað líkt og skelfingaróp frá herflokkunum, sem þjappast höfðu saman utan um okkur, og þegar ég leit upp sá ég, hvernig á stóð.

Hægra megin og vinstra megin var sléttan iðandi af fjöðrum hermanna, sem réðust á herflokkana í kringum okkur. Herdeildirnar, sem sendar höfðu verið til beggja hliða, voru komnar okkur til hjálpar. Tíminn til þess hefði ekki getað verið hentugar valinn. Allt herlið Twala starblíndi, eins og Ignosi spáði, á blóðuga, hryllilega bardagann umhverfis Grámennina og Vísundana, sem börðust hvorir fyrir sig, með dálitlu millibili, og sem höfðu verið látnir mynda brjóst herliðs vors. Óvinir okkar höfðu ekki minnsta veður af komu hina herdeildanna, fyrr en þær voru komnar fast að þeim. Og nú komu þær þeim í opna skjöldu og stukku á þá líkt og veiðihundar, svo að þeir fengu jafnvel ekki ráðrúm til að koma hæfilegri skipun á til að geta varið sig.

Á fimm mínútum var útkljáð, hvernig fara mundi orrustan. Á herflokka Twala var ráðið frá báðum hliðum og þeir voru örvilnaðir af mannfalli því, sem orðið hafði í þeirra hópi í viðureigninni við Grámennina og Vísundana. Og nú brast flótti í liðið, og bráðlega var öll sléttan milli vor og Loo stráð hópum af flýjandi hermönnum, sem hlupu allt hvað af tók. Af liðsafla þeim, sem svo nýlega hafi umkringt okkur og Vísundana, er það að segja, að hann þynntist eins og honum hefði verið eytt með töfrum, og við vissum ekki fyrr til en við stóðum þar eftir líkt og klettur, sem öldur hafsins hafa horfið frá. En slík og þvílík sjón, sem þar var að sjá. Umhverfis okkur lágu dauðir og deyjandi menn í stórhrúgum, og af hinum vösku Grámönnum voru ekki eftir nema níutíu og fimm menn. Meir en 2,900 höfðu fallið af þessum eina herflokk, og flestir þeirra stigu aldrei á fæturna aftur.

„Karlmenn,“ sagði Infadoos stillilega, um leið og hann leit yfir hópinn, á meðan verið var að binda um sár á handleggnum á honum, og taldi þá sem eftir voru af liði hans. „Þið hafið haldið uppi frægðarorðinu, sem farið hefur af herflokki ykkar, og barnabörn ykkar munu tala um bardagann, sem háður hefur verið í dag.“ Svo sneri hann sér við og tók í höndina á Sir Henry Curtis og hristi hana. „Þú ert mikill maður, Incubu,“ sagði hann blátt áfram. „Ég hef lengi lifað meðal vígamanna og þekkt margan hraustan dreng, en ég hef þó aldrei séð neinn, sem hefur verið þinn maki.“

Á þessu augnabliki lögðu Vísundarnir af stað og fóru framhjá okkur eftir veginum, sem lá til Loo, og um leið komu til okkar skilaboð frá Ignosi um að hann bæði Infadoos, Sir Henry og mig að slást í för með sér. Við gerðum það, en mæltum áður svo fyrir, að þessir 90 menn, sem eftir voru af Grámönnunum, skyldu safna særðu mönnunum saman. Ignosi sagði okkur, að hann væri að hraða sér til Loo til þess að gera sigur sinn fullkominn með því að taka Twala höndum, ef þess yrði auðið. Áður en við vorum komnir langt, sáum við allt í einu Good sitja á mauraþúfu einni hér um bil 100 skref frá okkur. Rétt hjá honum var líkami eins Kúkúanamanns.

„Hann hlýtur að vera særður,“ sagði Sir Henry hræddur. Um leið og hann sagði þetta kom leiðinlegt atvik fyrir. Lík Kúkúanahermannsins, eða öllu heldur það, sem virtist vera lík hans, stökk allt í einu upp, lamdi Good, svo að hann kútveltist ofan af mauraþúfunni, og ætlaði að reka hann í gegn með spjótinu. Við þutum áfram í dauðans skelfingu, og þegar við komum nær, sáum við hermanninn, sem var stórvaxinn maður, stinga hvað eftir annað í Good, þar sem hann lá endilangur, og við hverja stungu spriklaði Good með öllum öngunum út í loftið. Þegar Kúkúanamaðurinn sá okkur koma, lagði hann til Goods enn gríðarlegar en áður, skaust í burt eins og sending og grenjaði um leið: „Hafðu þetta töfrahundurinn þinn.“ Good hrærði sig ekki, og við réðum af því, að þetta mundi hafa riðið félaga okkar að fullu. Við komum til hans hryggir í huga, og það gekk í sannleika öldungis fram af okkur, þegar við hittum hann, fölan og af sér genginn að sönnu, en þó með glaðlegu brosi á andlitinu – og alltaf sat glerið fast við augað.

„Ljómandi brynja þetta,“ tautaði hann fyrir munni sér, þegar hann sá andlitin á okkur hallast yfir sig. „Hvað honum tókst þetta báglega!“ og svo leið yfir hann. Við skoðuðum hann vandlega og urðum þess varir, að hann hafði særst mjög, á fætinum af kasthníf í bardaganum, en að hringabrynjan hafði aftur á móti hamlað því, að maðurinn, sem síðast réðst á hann, gæti gert honum nokkurt annað mein með spjóti sínu en merja hann illilega. Það var mikil guðs mildi, að honum skyldi reiða þannig af. Við gátum ekkert bætt honum á því augnabliki og lögðum hann því, á einn af tágaskjöldunum, sem hafðir voru handa særðum mönnum, og bárum hann burt með okkur.

Þegar við komum að einu hliðinu á bænum Loo, hittum við þar einn af herflokkum okkar. Hann stóð þar á verði eftir skipun, sem hann hafði fengið frá Ignosi. Hinir herflokkarnir stóðu á sama hátt á verði við aðrar leiðir, sem lágu inn í bæinn. Herforinginn, sem fyrir þessum herflokki réð, kom til okkar, heilsaði Ignosi sem konungi, og lét hann vita, að herlið Twala hefði leitað hælis í bænum. Twala hefði og sjálfur komist þangað, en herforinginn hélt jafnframt, að herliðið í borginni væri allt á ringulreið og hefði gersamlega látið hugfallast, og að það mundi gefast upp. Ignosi réðst svo um við okkur, og að því búnu sendi hann kallara til allra hliðanna, sem skyldu skipa varnarmönnunum að opna þau, og lofaði hverjum hermanni, sem legði niður vopnin, lífi og uppgjöf saka, og við því loforði lagði hann sinn konunglega drengskap. Þessi orðsending varð ekki árangurslaus. Allt í einu var brúin látin falla þvert yfir díkið, og dyrnar á hliðunum hinum megin voru rifnar upp. Þá kvað við fagnaðaróp frá Vísundunum.

Við gættum þess vandlega, að ekki væru nein brögð í tafli og héldum áfram inn í bæinn. Fram með öllum vegunum stóðu mæddir hermenn, niðurlútir með skildi sína og spjót við fætur sér og heilsuðu Ignosi sem konungi, þegar hann gekk framhjá þeim. Áfram héldum við, beint að kofa Twala. Þegar við komum að stóra svæðinu, þar sem við höfðum rétt áður horft á hersýninguna og galdraveiðina, var það mannlaust. Nei, ekki var það með öllu mannlaust, því að hinum megin á því, fyrir framan kofann, sat Twala sjálfur, og aðeins ein persóna af hirðfólki hans hjá honum – Gagool.

Það var dapurleg sjón að sjá hann sitja þarna, með bardagaöxina og skjöldinn við hlið sér, hökuna niður á brynjaða brjóstinu og með aðeins eina gamla kerlingu til fylgis sér, og þrátt fyrir öll grimmdarverk hans og glæpi, fann ég til meðaumkvunarstings í gegnum mig, þegar ég sá, hve ömurlega var komið fyrir honum. Ekki var þar einn einasti hermaður af öllu hans liði, ekki einn einasti hirðmaður, af öllum þeim hundruðum, sem höfðu flykkst utan um hann og smjaðrað fyrir honum, jafnvel ekki ein einasta af konum hans, til þess að taka þátt í forlögum hans, né draga úr biturleikanum í óförum hans. Vesalings villimaðurinn. Hann var að læra þá lexíu sem forlögin kenna flestum, sem lifa nógu lengi til að geta lært hana, þá lexíu, að augu mannanna sjá ekki þann, sem ratað hefur í óvirðing, og að varnarlaus maður og fallinn á fáa vini og lítillar vægðar að vænta. Í þetta skipti hafði hann heldur ekki til hennar unnið.

Við fórum í halarófu inn um hliðið og héldum beint yfir auða svæðið, þangað sem konungurinn, sem verið hafði, sat. Þegar við áttum eftir eina 25 faðma, nam herflokkurinn staðar, en við gengum til hans ásamt fámennum lífverði. Gagool hrakyrti okkur mjög. Þegar við vorum rétt komnir að Twala, rétti hann í fyrsta sinni upp fjaðraða höfuðið og festi eina augað sitt á mótstöðumanninum, sem borið hafði hærra hluta – Ignosi. Svo virtist sem eldur brynni úr auganu af niðurbældri ofsareiði, og það var nærri því eins glóbjart eins og mikla djásnið, sem bundið var á ennið á honum.

„Heill, konungur!“ sagði hann í sárbitrum kesknisróm. „Þú sem etið hefur af brauði mínu, og sem nú hefur með tilstyrk töfra hinna hvítu manna tælt herflokka mína og unnið sigur á herliði mínu, heill sért þú! Hverjum forlögum ætlar þú að láta mig sæta, konungur?“

„Þeim forlögum, sem þú lést föður minn sæta, hann, sem átti það hásæti, sem þú hefur setið á þessi mörgu ár!“ svaraði Ignosi alvarlega.

„Gott og vel. Ég skal sýna þér, hvernig menn eiga að deyja, svo að þú getir munað það, þegar að sjálfum þér er komið. Sjá, sólin gengur undir í blóði,“ og hann benti með blóðugri bardagaöxinni á eldrauða hnöttinn, sem nú var að setjast. „Það er vel farið, að mín sól setjist með henni. Og nú, konungur, er ég reiðubúinn til að deyja, en ég krefst þeirra réttinda, sem konungsætt Kúkúana hefur, að deyja í bardaga.7 Þess getur þú ekki synjað mér, annars munu jafnvel þessar mannskræfur, sem flúðu í dag, telja það skömm fyrir þig.“

„Það er þér veitt. Kjóstu, við hvern viltu berjast. Sjálfur get ég ekki barist við þig, því að konungurinn berst ekki nema í stríði.“

Twala renndi þunglyndislega auganu fram og aftur eftir röðum vorum, og eitt augnablik horfði hann á mig. Mér fannst þá sem ný skelfing vera komin í ljós út úr þessu öllu saman. Hvernig færi, ef hann nú vildi byrja á að berjast við mig? Hvað hefði ég að gera í hendurnar á æðisgengnum villimanni, sex feta og fimm þumlunga háum, og eftir því gildum? Ég hefði eins vel getað framið sjálfsmorð þegar í stað. Ég réð það af í einni svipan, að ég skyldi skorast undan að berjast, enda þótt ég hefði það fyrir, að ég yrði flæmdur út úr Kúkúanalandi með svívirðing. Það er, að því er ég held, betra að verða fyrir svívirðing, en að vera höggvin sundur í smáparta með bardagaöxi.

Svo tók hann til orða:

„Incubu, hvað segir þú, eigum við að ljúka við það, sem við byrjuðum á í dag, eða á ég að kalla þig heigul, hvítan – inn að lifrinni?“

„Nei,“ tók Ignosi skyndilega fram í: „Þú skalt ekki berjast við Incubu.“

„Ekki ef hann er hræddur,“ sagði Twala.

Til allrar óhamingju skildi Sir Henry þessi orð, og blóðið streymdi eldheitt fram í kinnarnar á honum.

„Ég ætla að berjast við hann,“ sagði hann, „hann skal sjá hvort ég er hræddur.“

„Fyrir guðs skuld,“ grátbændi ég, „hættið ekki lífi yðar móti þessum æðisgengna manni. Allir, sem sáu yður berjast í dag, vita, að þér eruð enginn heigull.“

„Ég ætla að berjast við hann,“ sagði hann þrákelknislega. „Enginn lifandi maður skal kalla mig heigul. Ég er albúinn!“ Og hann steig fram og lyfti upp exi sinni.

Ég sló höndum yfir þessum fráleita og heimskulega riddaraskap, en ef hann var alráðinn í að berjast, þá gat ég auðvitað ekki aftrað honum.

„Berst þú ekki, hvíti bróðir minn,“ sagði Ignosi, og lagði höndina vingjarnlega á handlegginn á Sir Henry. „Þú hefur barist nóg, og ef hann skyldi fá gert þér nokkurt mein, mundi það skera hjarta mitt sundur.“

„Ég ætla að berjast, Ignosi,“ sagði Sir Henry.

Gott og vel, Incubu. Þú ert hraustur maður. Nú verður vel barist. Líttu á, Twala, fíllinn er þess albúinn að eiga við þig.“

Konungurinn, sem verið hafði, hló grimmdarlega, steig fram og horfði framan í Curtis. Eitt augnablik stóðu þeir þannig, og sólin, sem var að setjast, ljómaði á karlmannlegu andlitunum á þeim og klæddi þá báða í eldshjúp. Þeir voru vel valdir saman.

Svo fóru þeir að snúast hvort utan um annan, með bardagaaxirnar á lofti. Allt í einu stökk Sir Henry fram og hjó voðalegt högg til Twala. Hann vék sér til hliðar. Svo þungt var höggið, að sá sem hjó steyptist nær því áfram á höfuðið, og mótstöðumaðurinn notaði sér það atvik. Hann hringsneri þungu bardagaexinni umhverfis höfuð sér og lét hana svo falla af voðalegu afli. Ég varð nær því yfirkominn af skelfingu. Ég hélt að hólmgöngunni væri þegar lokið. En því var ekki svo varið. Sir Henry færði skyndilega upp vinstra handlegginn og brá skildinum milli sín og axarinnar, ytri röndin á skildinum klofnaði alveg af, og öxin féll á vinstri öxlina, en ekki með nægilegum þunga til þess að valda alvarlegu tjóni. Á næstu sekúndu hjó Sir Henry aftur til Twala, og Twala kom skildinum fyrir. Svo kom högg eftir högg, og ávallt kom sá, er til var höggvið skildinum fyrir sig, eða vék sér undan. Geðshræring þeirra, sem umhverfis stóðu, fór að verða ákafleg. Herflokkurinn, sem á hólmgönguna horfði, gleymdi heraganum, færði sig nær og hrópaði og grenjaði við hvert högg. Good, sem lagður hafði verið á jörðina hjá mér, raknaði líka við úr yfirliðinu rétt um það leyti, settist upp, og sá, hvað um var að vera. Á augabragði stökk hann á fætur, tók í handlegginn á mér, hoppaði til og frá á öðrum fæti, dró mig alltaf á eftir sér, og hrópaði upphvatningarorð til Sir Henrys.

„Látið þér hann hafa það, kunningi!“ hrópaði hann. „Þetta var laglega gert! Látið þér hann hafa það miðskipa“ og svo framvegis.

Sir Henry hafði fengið nýtt högg á skjöld sinn, og allt í einu hjó hann með öllu afli. Öxin klauf skjöld Twala sundur, fór inn úr hringabrynjunni, sem bakvið skjöldinn var, þótt seig væri, og særði Twala djúpu sári á öxlinni. Twala grenjaði af sársauka og reiði, og borgaði höggið með rentum, svo var styrkur hans mikill, að hann hjó sundur hvert skaftið úr nashyrnings horninu á bardagaexi mótstöðumanns síns, sem þó var styrkt með stálbönduum – og særði Curtis á andlitinu.

Vísundarnir ráku upp skelfingaróp, þegar breiði hausinn af öxi hetju þeirra féll á jörðina, og Twala lyfti vopni sínu upp, og þaut að honum með óhljóðum. Ég lokaði augunum. Þegar ég lauk þeim upp aftur, sá ég skjöld Sir Henrys liggja á jörðinni og Sir Henry sjálfan með miklu handleggina utanum mittið á Twala. Til og frá slingruðu þeir, kreistandi hvor annan líkt og birnir, stríðandi með öllum sínum voldugu vöðvum fyrir lífinu, sem var þeim svo kært, og fyrir sómanum, sem var þeim enn kærri. Twala gerði þá öflugustu tilraun, sem honum var unnt, fékk lyft Englendingnum upp frá jörðinni og veifað honum þannig fram og aftur, og niður komu þeir saman og ultu hver ofan á öðrum eftir kalkgólfinu. Twala reyndi að berja í höfuðið á Curtis með öxinni sinni, og Sir Henry reyndi að reka kasthnífinn, sem hann hafði dregið frá belti sínu, gegnum brynju Twala.

Það voru öflugar stympingar og óttalegar á að horfa.

„Náið þér öxinni hans,“ hrópaði Good, og vera má að Sir Henry hafi heyrt það.

Að minnsta kosti sleppti hann kasthnífnum og hrifsaði í öxina, sem fest var um úlnliðinn á Twala með ól úr vísundahúð, og enn veltust þeir áfram, hvor ofan á öðrum, flugust á um öxina líkt og ólmir kettir og drógu andann í þungum sogum. Allt í einu slitnaði ólin. Sir Henry rykkti öfluglega og losnaði, og hnefinn á honum var krepptur utan um vopnið. Á næstu sekúndu var hann kominn á fætur, og blóðið streymdi rautt úr sárinu á andlitinu á honum. Twala komst líka á fætur. Hann dró þunga kasthnífinn frá belti sínu, lagði til Curtis og hitti hann á brjóstið. Vel var lagt og sterklega, en hver sem það hefur verið, sem búið hefur til hringabrynjuna, þá hefur hann kunnað verk sitt, því að stálið komst ekki gegnum hana. Twala lagði aftur og grenjaði æðislega, og enn hrökk þungi hnífurinn aftur, og Sir Henry hrökklaðist aftur á bak. Enn einu sinni kom Twala, en þá hafði enska hetjan okkar náð sér, og þegar Twala kom að honum, veifaði hann þungu öxinni utan um höfuð sér og hitti hann með öllu sínu afli. Þúsundir koka ráku upp org af geðshræringu, og sjá! höfuð Twala virtist stökkva frá herðunum á honum, og svo féll það niður og valt og stökk eftir jörðinni að Ignosi og nam staðar rétt við fætur honum. Eina sekúndu eða svo stóð skrokkurinn uppréttur, og spýttist blóðið í bogum frá slagæðunum, sem skornar höfðu verið sundur, svo féll hann til jarðar með hljómlitlu braki, og gullhringurinn frá hálsi hans valt burt yfir kalkgrjótið. Í sama bili féll Sir Henry þunglamalega ofan á hringinn, yfirkominn af magnleysi og blóðmissi.

Eftir eina sekúndu hafði honum verið lyfti upp, og hraðar hendur voru að stökkva vatni í andlit hans. Svo leið ein mínúta eða svo, og stóru gráu augun lukust upp.

Hann var þá ekki dauður.

Þá gekk ég, rétt í því að sólin settist, þangað, sem höfuð Twala lá í duftinu, leysti demantinn frá dauðu brúnunum og rétti hann að Ignosi.

„Taktu við honum,“ sagði ég, „þú löglegi konungur Kúkúana.“

Ignosi batt gimsteininn um augabrýr sér, svo gekk hann áfram og setti fót sinn á breiða brjóstið á fjandmanni sínum og fór að syngja söng eða öllu heldur sigurdýrðarljóð, svo ljómandi fögur og þó svo framúrskarandi villimannsleg, að ég örvænti um að ég sé fær, um að gefa mönnum nokkra hugmynd um þau. Ég heyrði einu sinni lærðan mann lesa upphátt með fagurri röddu ljóðmæli grísks skálds, sem kallaður var Hómer, og ég man eftir því, að það var eins og hljómfallandinn í línunum kæmi blóðinu í mér til að stöðvast. Söngur Ignosi, sem var á jafn yndislegu og hljómfögru máli eins og grískan er, hafði alveg þau sömu áhrif á mig, þrátt fyrir það, að ég var yfirkominn af áreynslu og ýmsum geðshræringum.

„Nú,“ byrjaði hann, „nú er uppreist vor að engu orðin, en sigurinn er kominn í staðinn, og illgerðir vorar eru réttlættar af styrkleikanum.“

„Að morgni til fóru kúgararnir á fætur og hristu sig, þeir bundu á sig fjaðraskúfa sína og bjuggust til bardaga.

„Þeir risu á fætur og þrifu spjót sín, hermennirnir kölluðu til foringjanna: „Komið, verið leiðtogar vorir“ – og herforingjarnir hrópuðu til konungsins: „Stýr þú orrustunni.“

„Þeir risu á fætur í drambi sínu, tuttugu þúsundir manna, og enn tuttugu þúsundir.

„Fjaðrir þeirra huldu jörðina eins og fjaðrir fuglsins hylja hreiður hans. Þeir skóku spjót sín og hrópuðu, já, þeir þyrluðu spjótum sínum út í sólarljósið, þeir þráðu orrustuna og voru glaðir.

„Þeir komu fram á móti mér, kraftamenn þeirra komu á harðahlaupum til að merja mig í sundur. Þeir hrópuðu hástöfum: „Ha! ha! hann er svo að segja dauður maður.“

„Þá andaði ég á þá, og andi minn varð líkur anda stormsins, og sjá! þeir voru ekki lengur til.

„Eldingar mínar skutust gegnum þá, ég sleikti upp styrkleik þeirra með eldingunum frá spjótum mínum. Ég hristi þá til jarðar með þrumurödd minni.

„Þeir tvístruðust – þeir sundruðust – þeir voru horfnir eins og morgunmóðan.

„Þeir eru æti krákanna og refanna og vígvöllurinn er litaður af blóði þeirra.

„Hvar eru öflugu mennirnir, sem risu á fætur um morguninn? Hvar eru drambsömu mennirnir, sem skóku fjaðrir sínar og hrópuðu hástöfum: „Hann er svo að segja þegar dauður maður?“

„Þeir hneigja höfuð sín, en ekki í svefni. Þeir liggja endilangir, en ekki í svefni.

„Þeir eru gleymdir, þeir hafa farið út í dimmuna og munu aldrei aftur hverfa, já, aðrir menn munu leiða konur þeirra á braut, og börn þeirra munu aldrei minnast þeirra framar.

„Og ég – ég konungurinn – eins og örn hef ég fundið mér hreiðurstað.

„Sjá! víða hef ég reikað að næturþeli, en þó hef ég aftur horfið til unganna minna í döguninni.

„Krjúp þú undir skugga vængja minna, þú lýður, og ég mun hlúa að þér, og þú skalt ekki óttast.

„Nú er góður tími, tími herfangsins.

„Ég á kvikfénaðinn í dölunum, og ég á líka meyjarnar í bæjunum.

„Veturinn er liðinn, sumarið er fyrir höndum.

„Nú skal bölið hylja andlit sitt, og farsældin skal blómgast í landinu líkt og lilja.

„Fagna, fagna þú, lýður minn! Allt landið fagni, því að harðstjórnin er fótum troðin, með því að ég er orðinn konungurinn.“

Hann þagnaði, og í þungbúnu þyrpingunni var svarað djúpum rómi:

„Þú ert konungurinn!“

Þannig var það, að spádómur minn við kallarann rættist, og innan 48 stunda stirðnaði líkami Twala við hlið hans.


XV. KAPITULI. - GOOD LEGST VEIKUR.

Eftir að hólmgöngunni var lokið, voru þeir Sir Henry og Good fluttir inn í kofa Twala, og þangað fór ég til þeirra. Þeir voru báðir alveg örmagna af áreynslu og blóðmissi, og í raun og veru var ég lítið betur farinn. Ég er seigur mjög og þoli betur þreytu en flestir menn, líklegast vegna þess hve léttur ég er og hve langa æfingu ég hef fengið, en það kveld var ég alveg yfirkominn, og gamla sárið, sem ljónið særði mig, fór að kvelja mig eins og ávallt verður, þegar ég verð örmagna. Ég hafði líka ákaflegan höfuðverk eftir höggið, sem ég hafði fengið um morguninn, þegar ég rotaðist. Yfir höfuð var örðugt að hafa upp á aumari þrenningu en við vorum það kveld. Okkar einu þægindi voru innifalin í umhugsuninni um það, að við skyldum vera svo framúrskarandi heppnir að vera þar og finna til þess, hve illa okkur leið, í stað þess að liggja endilangir á sléttunni, steindauðir, eins og svo margar þúsundir vaskra manna lágu það kveld, sem farið höfðu á fætur hraustir og heilbrigðir um morguninn. Síðan við höfðum orðið til þess að frelsa líf Foulötu hinnar fögru, hafði hún sjálfkrafa gerst þjónustustúlka okkar og einkum Goods, og með tilstyrk hennar tókst okkur einhvern veginn að komast úr hringaskyrtunum, sem áreiðanlega höfðu orðið tveimur af okkur til lífs um daginn. Við urðum þess þá varir, að holdið innan undir þeim var óttalega marið, því að þó að stálhringarnir hefðu aftrað vopnunum frá að komast inn úr, þá höfðu þeir ekki aftrað þeim frá að merja okkur. Bæði Sir Henry og Good voru allir marðir, og ég hafði alls ekki sloppið við það. Foulata kom með nokkur græn, mulin blöð með ilmandi lykt, sem læknislyf, og þegar þau voru lögð eins og plástur við marið, varð okkur töluvert hægra. En þó að marið væri kveljandi, þá olli það okkur ekki annars eins hugarangurs eins og sár Sir Henrys og Goods. Á Good var gat alveg gegnum holduga partinn á „yndishvítu fótleggjunum“ hans, og úr því hafði hann misst allmikið blóð. Djúpur skurður var á kjálkanum á Sir Henry, sem hann hafði fengið af vígaöxi Twala. Til allrar hamingju var Good dágóður sáralæknir, og jafnskjótt og náð hafði verið í litla meðalakassann hans, hreinsaði hann sárin vandlega og tókst svo að sauma saman sárið á Sir Henry og því næst á sjálfum sér sérlega viðunanlega, þegar þess var gætt, hve lítilfjörleg birta stóð af auðvirðilega Kúkúanalampanum í kofanum. Síðar smurði hann sárin ríkulega úr einhverjum rotnunarvarnandi smyrslum – í kassanum var krús með þeim í – og ofan á þau lögðum við leifarnar af vasaklút, sem við áttum.

Meðan á þessu stóð hafði Foulata búið til handa okkur eitthvert sterkt mauk, því að við vorum of þreyttir til að eta. Við slokuðum það, og svo fleygðum við okkur á dyngjur af stórum húðum, sem hér og þar voru breiddar út í kofa hins dauða konungs. Af mjög einkennilegri kaldhæðni forlaganna atvikaðist það svo, að það var í Twala eigin hvílu og vafinn innan í þær húðir, sem Twala sérstaklega bældi sig í, að Sir Henry, maðurinn, sem hafði drepið hann, svaf þessa nótt.

Ég segi að hann hafi sofið – en eftir það dagsverk var sannarlega örðugt að sofa. Til að byrja með var loftið bókstaflega fullt af kveðjum til hinna deyjandi manna og harmi út af þeim, sem dauðir voru. Úr öllum áttum kom hljómurinn af veini kvennanna, sem höfðu misst menn sína, syni og bræður í orrustunni. Það voru engin undur, Þó að þær veinuðu, því að meira en tuttugu þúsundir manna, eða nálega þriðji parturinn af Kúkúanaherliðinu, hafði farist í þeim voðalega aðgangi. Það var átakanlegt að liggja og hlusta á óp þeirra út af mönnum þeim, sem aldrei máttu aftur hverfa, og það kom manni til að skilja til fulls, hve voðalegt það verk var, sem unnið hafði verið þann dag fyrir metorðagirnd mannanna. Um miðnæturskeið fóru þó hin óaflátanlegu óp kvennanna að heyrast sjaldnar og sjaldnar, þangað til þögnin var aðeins rofin með fárra mínútna millibili af löngu, skerandi veini, sem kom frá kofa rétt fyrir aftan okkur, og sem ég síðar uppgötvaði að var frá Gagool, er veinaði út af dauða konungsins, Twala.

Eftir það festi ég óværan blund dálitla stund og hrökk við og við upp, og hélt að ég væri enn einu sinni hluttakandi í þeim voðalegu atburðum, sem gerst höfðu síðustu tuttugu og fjórar stundirnar. Stundum þóttist ég sjá hermanninn, sem ég hafði sent fram fyrir síðasta dómara sinn, ráða á mig efst uppi á hæðinni. Stundum var ég aftur kominn innan í frækilega Grámannahringinn, sem veitti öllum liðsafla Twala sitt ódauðlega viðnám á litla hólnum. Stundum sá ég aftur fjaðraða og blóðlifraða höfuðið á Twala velta framhjá fótunum á mér með gnístandi tönnum og glóandi auga. Loksins leið nóttin einhvern veginn á enda, og þegar dagur rann, fékk ég að vita, að félagar mínir höfðu ekki sofið vitund betur en ég. Good hafði fengið sterka brunasótt, og mjög bráðlega fór að koma rugl á hann, sömuleiðis fór mér til mikillar skelfingar, blóð að ganga upp úr honum, og orsakaðist það vafalaust af meiðslum einhvers staðar innvortis, eftir æðislegu tilraunirnar, sem Kúkúanahermaðurinn hafði gert daginn áður til að reka stóra spjótið gegnum hringabrynjuna. En Sir Henry sýndist allhress, þrátt fyrir sárið á andlitinu, sem gerði honum örðugt að eta og ómögulegt að hlæja. Þó var hann svo aumur og stirður, að hann gat naumast hrært sig.

Um klukkan 8 heimsótti Infadoos okkur. Hann var seigur gamli maðurinn – reynslan daginn áður sýndist lítið hafa á hann fengið, og hann sagði okkur þó, að hann hefði verið á fótum alla nóttina. Honum þótti einkar vænt um að sjá okkur, en þó fékk það honum mikillar sorgar, hve sjúkur Good var, og hann tók hjartanlega í hendurnar á okkur, en ég tók eftir því, að hann ávarpaði Sir Henry með vissri lotningu, eins og hann væri eitthvað meira en maður, og eins og við komumst síðar að, var hinn mikli Englendingur skoðaður sem yfirnáttúrleg vera um allt Kúkúanaland. Enginn maður, sögðu hermennirnir, hefði getað barist eins og hann barðist, og enginn maður hefði, eftir annan eins áreynslu- og blóðsúthellingadag, getað unnið á Twala, sem auk þess, að hann var konungur, var talinn hraustasti maðurinn í Kúkúanalandi í einvígi, sniðið sundur nautshálsinn á honum í einu höggi. Það högg varð í raun og veru orðtæki í Kúkúanalandi, og hvert einasta óvenjulega sterklegt högg eða átak var þaðan af kallað „Incubus högg.“

Infadoos sagði okkur sömuleiðis, að allir herflokkar Twala hefðu gengið Ignosi á hönd, og að hollustuloforð væru farin að koma frá höfðingjunum út um landið. Það atvik, að Twala hafði fallið fyrir Sir Henry, hafði skotið loku fyrir allar frekari óeirðamöguleika, því að Scragga hafði verið einkasonur hans, og enginn var eftir á lífi, sem keppt gæti við Ignosi um konungdóminn.

Ég lét mér þau orð um munn fara, að Ignosi hefði synt í blóði að hásætinu. Gamli maðurinn yppti öxlum. „Já,“ svaraði hann, „en það er með því einu móti unnt að halda Kúkúanalýðnum í stilli, að honum sé tekið blóð við og við. Vitaskuld hafa margir verið drepnir, en konurnar eru eftir, og aðrir menn vaxa innan skamms upp í stað þeirra, sem fallnir eru. Eftir þetta verður friður í landinu um stund.“

Síðar um morguninn heimsótti Ignosi okkur og tafði hjá okkur skamma stund. Konungsdjásnið var nú bundið við brýr hans. Þegar ég virti hann fyrir mér, þar sem hann gekk áfram með konunglegum tíguleik, með auðmjúkan varðmann á hælum sér, þá gat ég ekki að mér gert að minnast háa Zúlúans, sem hafði komið til okkar í Dúrban fáeinum mánuðum áður, og beðið um að mega komast í okkar þjónustu, og ég fór að hugsa um, hve undarlegar væru byltingar hamingjuhjólsins.

„Heill, konungur!“ sagði ég og stóð upp.

„Já, Macumazahn, konungur er ég loksins orðinn af náð ykkar þriggja,“ svaraði hann ótrauðlega.

Hann sagði, að allt gengi vel, og hann vonaði að koma á miklu hátíðahaldi eftir tvær vikur til þess að sýna lýðnum sig.

Ég spurði hann, hvað hann hefði ráðið að gera við Gagool.

„Hún er landsins illi andi,“ svaraði hann, „og ég ætla að drepa hana og alla galdrakennara með henni. Hún hefur lifað svo lengi, að enginn man eftir henni öðru vísi en gamalli, og ávallt hefur það verið hún, sem alið hefur upp galdraleitendurnar, og gert landið illt í augum himinsins, sem er uppi yfir okkur.“

„En hún veit mikið svaraði ég. „Það er auðveldara að gera þekkinguna að engu en að afla hennar.“

„Svo er það,“ svaraði hann hugsandi. „Hún og hún ein þekkir leyndardóminn viðvíkjandi „Galdrakonunum þremur“ þarna hinum megin. Þangað liggur vegurinn mikli, þar eru konungarnir grafnir, og þar sitja hinar þöglu konur.“

„Já, og þar eru demantarnir. Gleymdu ekki loforði þínu, Ignosi. Þú verður að fara með okkur til námanna, og það enda þótt þú yrðir að gefa Gagool líf til þess að vísa okkur leiðina.“

„Ég skal ekki gleyma því, Macumazahn, og ég ætla að hugsa um það, sem þú segir.“

Þegar Ignosi var farinn, fór ég að finna Good, og hitti hann alveg rænulausan. Brunasóttin, sem kom af sári hans, virtist hafa fengið fullt vald yfir líkamsbyggingu hans og hafa runnið saman við meiðsli innvortis. Í fjóra eða fimm daga var hann í mjög mikilli hættu staddur. Í raun og veru held ég fastlega, að hann hefði hlotið að deyja, hefði Foulata ekki annast hann með óþreytandi elju.

Konur eru konur. Hvarvetna í heiminum, hvernig sem þær eru litar. En einhvern veginn sýndist það skrítið, að sjá þessa fríðu, dökkleitu konu standa hálfbogna nótt og dag yfir hvílu hins sjúka manns og inna af hendi öll þau meðaumkvunarverk, sem gera þarf í sjúkrastofum, eins greiðlega, blíðlega og með jafnmikilli nákvæmni eins og æfðar konur, sem annast sjúka menn í spítölum. Eina eða tvær nætur reyndi ég að hjálpa henni, og það gerði Sir Henry líka jafnskjótt og hann var orðinn svo liðugur að hann gæti hrært sig, en hún tók afskiptum okkar óþolinmóðlega, og stóð loksins á því fastara en fótunum, að við skyldum lofa henni að vera einni um hann, því að hreyfingar okkar gerðu honum ónæði, sagði hún, og það held ég hún hafi sagt satt. Dag og nótt vakti hún yfir honum og hjúkraði honum og gaf honum aðeins eitt meðal, kælandi drykk, sem búinn var til þar í landinu. Hann var gerður úr mjólk, og í hana látinn lögur úr vissri tegund af túlípana, svo varnaði hún og flugunum að setjast á hann. Ég get séð allt málverkið nú, eins og það birtist við ljósið frá lítilfjörlega lampanum nótt eftir nótt. Good bylti sér á ýmsa vegu með andlitið grindhorað, augun stór og glampandi og ruglandi vitlausan þvætting. Blíðlega, íturvaxna Kúkúanastúlkan sat á gólfinu hjá honum, með bakið upp að kofaveggnum. Þó að hún væri þreytt, þá fjörgaðist allt andlit hennar af óendanlegri meðaumkvun – eða var það eitthvað meira en meðaumkvun?

Tvo daga héldum við að honum gæti ekki orðið lífs auðið, og við drógumst áfram með sorgbitnum hjörtum. Foulata ein vildi ekki trúa því.

Á 150 faðma svæði allt í kringum aðalkofa Twala, þar sem sjúklingurinn lá, var þögn, því að eftir skipan konungsins höfðu allir, sem heima áttu í húsunum bakvið hann, verið fluttir á burt, að undanteknum Sir Henry og mér, til þess að enginn hávaði skyldi berast að eyrum hins sjúka manns. Eitt kveld – það var fimmta kveldið frá, því að hann hafði lagst, gekk ég um hjá honum, eins og ég var vanur, til þess að vita, hvernig honum liði, áður en ég legði mig til hvíldar nokkrar klukkustundir.

Ég gekk varlega inn í kofann. Lampinn hafði verið settur á gólfið, og við hann sá ég Good; hann bylti sér ekki lengur, heldur lá grafkyrr.

Svona var þá loksins komið! Og í gremju hjarta míns kom eitthvað upp hjá mér svipað andvarpi.

„Uss-s-s!“ heyrðist úr dimma skugganum bakvið höfuðið á Good.

Þá læddist ég nær og sá, að hann var ekki dáinn, heldur svaf hann vært, og utan um fingurna á Foulötu, sem líkastir voru vaxkertum, kreppti hann vesalings hvítu höndina fast. Hættuskorpan var afstaðin og lífi hans var borgið. Hann svaf líkt þessu 18 klukkustundir, og mér er naumast um að segja það, því að ég er hræddur um, að menn rengi mig, en allan tímann sat stúlkan hjá honum, af ótta fyrir því, að ef hún hrærði sig og færi burtu, þá mundi höndin á henni vekja hann. Enginn maður mun nokkurn tíma fá að vita, hve mikið hún hefur hlotið að þjást af sinadrætti, stirðleik og þreytu, svo að ég sleppi næringarleysinu alveg, en víst er um það, þegar hann loksins vaknaði, varð að bera hana burt – limir hennar voru svo stirðir, að hún gat ekkert hreyft þá.

Eftir að Good hafði brugðið til batnaðar hresstist hann skjótt og fékk heilsu sína algerlega aftur. Ekki var það fyrr en hann var orðinn alheill, að Sir Henry sagði honum allt, sem hann átti Foulötu upp að unna. Þegar hann kom að sögunni um það, hvernig hún sat við hlið hans 18 klukkustundir, af því að hún var hrædd um, að hún mundi vekja hann, ef hún hreyfði sig, þá fylltust augu sjómannsins með tárum. Hann sneri sér við og hélt beint til kofa þess, þar sem Foulata var að búa til morgunmatinn (við vorum nú komnir aftur í okkar gömlu híbýli), og tók mig með sér til þess að túlka fyrir sig, ef hann skyldi ekki geta gert henni ljóst, við hvað hann ætti. Annars verð ég að segja það, að hún skildi hann venjulega aðdáanlega vel, þegar þess er gætt, hve framúrskarandi lítið hann kunni í málinu.

„Segið þér henni,“ sagði Good, „að ég eigi henni líf mitt að launa og að ég muni aldrei gleyma velvild hennar.“

Ég þýddi, og það virtist beinlínis eins og hún bláðroðnaði, þó að hörundið væri blakt.

Hún sneri sér að honum með einni af þessum skyndilegu og unaðsfullu hreyfingum, sem ávallt minntu mig á flug villifugla, leit stóru brúnu augunum á hann, og svaraði blíðlega:

„Nei, lávarður minn. Lávarður minn gleymir. Frelsaði hann ekki líf mitt og er ég ekki þerna lávarðar míns?“

Menn munu taka eftir því, að unga stúlkan virtist algerlega hafa gleymt þeim hlut, sem Sir Henry og ég höfðum átt í að frelsa hana úr klóm Twala. En svo er því varið með allar konur! Ég man eftir því, að konan mín sæla var alveg eins. Ég sneri frá þessu stutta samtali hryggur í huga. Mér leist ekki á blíða augnatillitið hennar Foulötu, því ég þekkti þá ólánstilhneiging til ástafars, sem sjómenn yfir höfuð hafa til að bera, og Good sérstaklega.

Ég hef komist að því, að það er tvennt í heiminum, sem ekki verður afstýrt. Það er ómögulegt að aftra Zúlúa frá að berjast né sjómanni frá, að verða ástfanginn, hvenær sem minnsta tilefni býðst.

Fáum dögum eftir þennan síðasta, atburð var það, að Ignosi hélt sína mikla „indaba“ (ráðstefnu), og var á löglegan hátt viðurkenndur sem konungur af þeim mönnum, sem kallaðir voru „indunas“ (höfuðsmenn) Kúkúanalands. Þá var viðhöfn mikil, enda fór þá og fram stórkostleg hersýning. Á þeim degi voru þær leifar sýndar, sem eftir voru af Grámönnunum, og frammi fyrir herliðinu var þeim þakkað fyrir sína ljómandi frammistöðu í orrustunni miklu. Hverjum þeirra gaf konungurinn mikið af kvikfé, og hver einasti þeirra var hafinn upp í herforingjastöðu í nýja Grámannaherflokknum, sem verið var að mynda. Sú skipan var og látin ganga út um þvert og endilangt Kúkúanaland, að meðan við sýndum landinu þann sóma að dvelja þar, þá ætti að fagna okkur þar með konunglegri kveðju, og að sama viðhöfn og lotning skyldi höfð í frammi við okkur eins og konunginum bar eftir þarlendum sið. Okkur var í heyranda hljóði gefið vald yfir lífi manna og dauða. Ignosi tók og upp aftur í viðurvist lýðs síns loforð það, sem hann hafði gefið, um að einskis manns blóði skyldi úthellt verða, án þess að mál hans væri rannsakað, og að galdraveiðarnar skyldu ekki framar eiga sér stað í landinu.

Þegar hátíðahaldi þessu var lokið, hittum við Ignosi að máli og við sögðum honum frá því, að okkur væri nú einkar hugleikið að rannsaka leyndardóminn um námurnar, sem vegur Salómons lá að, og við spurðum hann, hvort hann hefði komist að nokkru viðvíkjandi þeim.

„Vinir mínir,“ svaraði hann, „ég hef komist að því, sem ég nú skal segja ykkur. Þar er það, að þær þrjár miklu myndir eru, sem hér eru kallaðar: „Þöglu konurnar“, og sem Twala ætlaði að fórna Foulötu. Þar er það líka í stórum helli, langt inni í fjöllunum, að konungar landsins eru jarðaðir. Þar munuð þið finna líkama Twala sitjandi hjá öðrum, sem farið hafa löngu á undan honum. Þar er líka mikill pyttur, sem löngu dánir menn hafa einhvern tíma grafið, ef til vill til að leita að steinum þeim, sem þið talið um, eins og ég hef heyrt menn í Natal tala um að gert hafi verið í Kimberley. Þar er líka á Stað Dauðans leyniherbergi, sem enginn veit hvar er, nema konungurinn og Gagool. En Twala, sem vissi hvar það er, er dauður, og ég veit það ekki, og ekki veit ég heldur, hvað í því er. En til er munnmælasaga í landinu um það, að einhvern tíma fyrir mörgum mannsöldrum hafi hvítur maður farið yfir fjöllin, og að kona ein hafi farið með hann að leyniherberginu og sýnt honum auðæfin, en áður en hann hafi getað tekið þau, hafi hún svikið hann, og að konungurinn, sem þá réði hér ríkjum, hafi rekið hann aftur til fjallanna, og að síðan hafi enginn maður komið inn í herbergið.“

„Sagan er áreiðanlega sönn, Ignosi, því að við fundum manninn á fjöllunum,“ sagði ég.

„Já, við fundum hann. Og ég hef lofað ykkur því, að ef þið getið fundið herbergið og steinarnir eru þar –“

„Steinninn á enni þínu sannar að þeir eru þar,“ skaut ég inn í, og benti á stóra demantinn, sem ég hafði tekið af augabrúnunum á Twala dauðum.

„Getur verið, ef þeir eru þar,“ sagði hann, „þá skuluð þið fá eins marga eins og þið getið haft á burt með ykkur héðan – ef þið í raun og veru ætlið að yfirgefa mig, bræður mínir.“

„Fyrst verðum við að finna herbergið,“ sagði ég.

„Það er ekki nema ein manneskja, sem getur sýnt þér það – Gagool.“

„Og ef hún skyldi ekki vilja það?“

„Þá skal hún deyja,“ sagði Ignosi alvarlega. „Ég hef þyrmt lífi hennar í því skyni einu. Bíðum við. Hún skal kjósa,“ og hann kallaði á sendiboða og bauð að sækja skyldi Gagool.

Eftir fáeinar mínútur kom hún, og voru tveir varðmenn með henni, sem drusluðu henni áfram, og bölvaði hún þeim óaflátanlega á leiðinni.

„Sleppið henni,“ sagði konungur við varðmennina.

Jafnskjótt og þeir hættu að styðja þennan uppþurrkaða, gamla böggul – því að hún var líkari böggli en nokkru öðru – þá hneig hún niður á gólfið og varð að hrúgu, og út úr þeirri hrúgu glóðu tvö bjartleit, illileg augu, lík höggormsaugum.

„Hvað vilt þú mér, Ignosi?“ skrækti hún. „Vogaðu ekki að snerta mig. Ef þú snertir mig, þá mun ég drepa þig, þar sem þú situr. Varaðu þig á töfrum mínum.“

„Töfrar þínir gátu ekki borgið Twala, gamla vargynjan þín, og mér geta þeir ekkert mein gert,“ svaraði hann. „Hlustaðu á, ég vil þér þetta, að þú látir uppskátt, hvar herbergið er, þar sem skínandi steinarnir eru.“

„Ha! ha!“ vældi hún. „Enginn veit það nema ég, og ég mun aldrei segja þér það. Hvítu djöflarnir skulu fara héðan tómhentir.“

Þú munt segja mér það. Ég mun koma þér til að segja mér það.“

„Hvernig, konungur? Þú ert mikill, en getur vald þitt neytt sannleikann út úr konumunni?“

„Það er örðugt, en þó mun ég gera það.“

„Hvernig, konungur?“

„Ég ætla að fara svona að því: ef þú segir mér það ekki, þá skaltu deyja.“

„Deyja!“ grenjaði hún í skelfingu og ofsareiði. „Þú þorir ekki að snerta mig – maður, þú veist ekki hver ég er. Hvað heldurðu að ég sé gömul? Ég þekkti feður ykkar og feðra-feðra-feður ykkar. Þegar landið var ungt, þá var ég hér, þegar landið verður orðið gamalt, mun ég enn verða hér. Ég get ekki dáið, nema ef ég yrði drepin af tilviljun, því að enginn þorir að lífláta mig.“

„Og þó mun ég drepa þig. Sko, Gagool, illskumóðirin, þú ert svo gömul, að þú getur ekki lengur elskað lífið. Hvað getur lífið verið fyrir aðra eins kerlingarnorn eins og þig, sem ekki er lengur nein mynd á, sem ekki hefur neitt hár né neinar tennur – hefur ekkert nema mannvonskuna og illmannlegu augun? Það væri gustukaverk af mér að lífláta þig, Gagool.“

„Þú flón, grenjaði kvendjöfullinn, „þú bölvaða flón, heldur þú, að lífið sé ekki öðrum ljúft en ungum mönnum? Því er ekki svo varið, og ekkert þekkir þú mannshjartað, þar sem þú heldur þetta. Ungir menn þrá einmitt oft dauðann, af því að ungir menn hafa tilfinningar. Þeir elska og þjást, og það kvelur þá að sjá þá, sem þeir elska hverfa burt til skuggalandsins. En gamla fólkið hefur engar tilfinningar, það elskar ekki og ha! ha! Það hlær að því að sjá aðra fara út í myrkrið, ha! ha! Það hlær að því að sjá þau illvirki, sem framin eru undir sólinni. Það elskar ekkert annað en lífið, hlýju, hlýju sólina, og blessað, blessað loftið. Það er hrætt við kuldann og myrkrið ha! ha! ha!“ Gamla kerlingarnornin engdist sundur og saman af draugalegri kæti á jörðinni.

„Hættu mannvonzkuskrafi þessu og svaraðu mér,“ sagði Ignosi reiðilega. „Ætlarðu að sýna staðinn þar sem steinarnir eru, eða ætlarðu ekki? Ætlirðu ekki, þá muntu deyja og það þegar í stað,“ og hann tók spjót og hélt því yfir henni.

„Ég ætla ekki að sýna hann. Þú dirfist ekki að drepa mig, dirfist ekki. Sá, sem líflætur mig, mun verða bölvaður að eilífu.“

Ignosi færði spjótið hægt og hægt niður, þangað til það stakst lítið eitt inn í hrúguna, sem þarna lá.

Hún rak upp æðislegt óp og stökk á fætur, og svo datt hún aftur niður og veltist um á jörðinni.

„Nei, ég ætla að sýna það. Lofaðu mér aðeins að lifa, lofaðu mér að sitja í sólskininu og fá ketbita að sjúga, og þá skal ég sýna það.“

„Gott og vel. Ég hélt mér mundi takast að komast út af við þig. Á morgun skalt þú fara með Infadoos og mínum hvítu bræðrum til staðarins, og varaðu þig að láta þetta ekki misheppnast, því að ef þú sýnir þeim það ekki, þá skalt þú deyja. Ég hef lokið máli mínu.“

„Þér skal ekki misheppnast, Ignosi. Ég held jafnan loforð mín, ha! ha! Einu sinni sýndi kona hvítum manni þennan stað áður, og sjá, ólán kom yfir hann,“ og það glaðnaði yfir illmannlegu augunum hennar. „Hún hét Gagool, líka. Getur verið, að ég hafi verið konan.“

„Þú lýgur,“ sagði ég, „það var fyrir 10 mannsöldrum síðan.“

„Getur verið, getur verið. Þegar maður er orðinn gamall fer maður að verða gleyminn. Getur verið það hafi verið móðir móður minnar, sem sagði mér frá því. Hún hét áreiðlega líka Gagool. En setjið það á ykkur, að á staðnum, þar sem glampandi leikfangið er, munuð þið finna skjóðu fulla af steinum. Maðurinn fyllti þá skjóðu, en hann fór aldrei burt með hana. Ólán kom yfir hann, heyrið þið það? – ólán kom yfir hann! Getur verið, það hafi verið móðir móður minnar, sem sagði mér frá því. Það verður skemmtileg ferð – á leiðinni getum við séð líkami þeirra, sem dóu í orrustunni. Þeir fara nú að verða inneygðir og holt fer að verða undir rifjunum á þeim. Ha! ha! ha!“


XVI. KAPITULI. - STAÐUR DAUÐANS.

Það var þegar komið myrkur á þriðja degi frá því, er það hafði gerst, sem sagt hefur verið frá, í síðasta kapitula, þegar við settumst að í einhverjum kofa við rætur „Galdrakvennanna þriggja“. Þannig var fjallaþríhyrningur sá, nefndur, sem þjóðvegur Salómons lá að. Í flokki okkar voru: við þrír: Norðurálfumennirnir og Foulata, sem þjónaði okkur – einkum og sérstaklega Good – Infadoos og Gagool, sem var borin í burðarstól. Inni í honum gátum við heyrt hana nöldra og bölva allan liðlangan daginn. Svo var og með okkur flokkur varðmanna og þjóna. Fjöllin, eða öllu heldur fjallatindarnir, því að þarna var auðsjáanlega einn saman hangandi fjallgarður, mynduðu, eins og ég hef áður sagt, þríhyrning. Grunnlína þríhyrningsins sneri að okkur, því að einn tindurinn var til hægri handar við okkur, annar til vinstri handar og sá þriðji beint framundan okkur. Aldrei mun ég gleyma þessum þremur himinháu tindum eins og við sáum þá í sólskininu snemma morguninn eftir. Hátt, hátt upp fyrir ofan okkur teygðust snjókransar þeirra upp í bláloftið. Fyrir neðan snjóinn voru tindarnir purpurarauðir, vaxnir lyngi, og eins var óræktaði hallandinn upp að þeim. Rétt fram undan okkur lá þjóðvegur Salómons eins og hvítt band, allt upp að rótum miðtindsins, hér um bil fimm mílur frá okkur, og svo sást hann ekki framar. Þar var honum lokið.

Mér þykir best til fallið, að lofa þeim, sem lesa þessa sögu, að beita ímyndunarafli sínu sjálfir til þess að gera sér grein fyrir þeirri geðshræringarákefð, sem í okkur var, þegar við lögðum af stað morguninn eftir. Loksins vorum við þá komnir í nánd við námurnar dásamlegu, sem höfðu valdið andláti gamla portúgalska donsins fyrir þremur öldum síðan, veslings kunningja míns, sem var svo ólánssamur að vera afkomandi donsins, og svo, að því er við óttuðumst, George Curtis, bróður Sir Henrys. Átti okkur að farnast nokkru betur eftir allt, sem við höfðum ratað í og komist fram úr? Ólán kom yfir þá, eins og kerlingarfjandinn Gagool sagði. Átti það líka að koma yfir okkur? Því var einhvern veginn svo varið, meðan við gengum upp eftir síðasta spottanum af þessum yndislega vegi, að ég gat ekki varist dálítilli hjátrúartilfinning út af þessu, og eins held ég að verið hafi um Good og Sir Henry.

Hálfa aðra klukkustund eða meira þrömmuðum við upp eftir lyngkögraða veginum, og við gengum svo hratt í geðshræring okkar, að mennirnir, sem báru burðarstól Gagoolar, gátu naumast fylgt okkur eftir, og sú sem í stólnum var vældi út til okkar, að við skyldum nema staðar.

„Farið hægar, hvítu menn,“ sagði hún og stakk afskræmislega hrukkótta andlitinu út á milli tjaldanna og festi glampandi augun á okkur. „Hvers vegna viljið þið hlaupa til móts við ólánið, sem yfir ykkur mun koma, þið fjársjóðaleitendur? Og hún hló þessum voðalega hlátri, sem ávallt lét kaldan hroll fara niður eftir bakinu á mér, og sem um stund nam ákefðina alveg burt úr huga okkar.

Samt sem áður héldum við áfram, þangað til við sáum framundan okkur, milli okkar og tindsins, stóra hringmyndaða skál, sem þrengdist eftir því sem niður eftir henni dró. Hún var 300 fet eða meira á dýpt, og fullkomin hálf míla að ummáli.

„Getið þið giskað á, hvað þetta er?“ sagði ég við Sir Henry og Good, sem störðu steinhissa niður í þennan voðalega pytt fyrir framan okkur.

Þeir hristu höfuðin.

„Þá er auðséð, að þið hafið aldrei séð demantanámurnar við Kimberley. Þið megið reiða ykkur á, að þetta eru demantanámur Salómons. Lítið á,“ sagði ég og benti á hörðu, bláu leirjörðina, sem sást innan um grasið og kjarrið, sem var á pyttbörmunum. „Jarðlagið er það sama. Ég þori að ábyrgjast, að ef við færum þarna niður í, þá mundum við finna „pípur“ úr sápukenndum steini, samsettum úr dálitlum marghyrndum brotum. Lítið líka á þetta,“ og ég benti á röð af slitnum steinflötum, sem raðað var í óbrattan halla fyrir neðan vatnsbunu, sem einhvern tíma hafði verið höggvin út úr hörðum klettinum. „Ef þetta eru ekki borð, sem einhvern tíma hafa verið notuð til að þvo „efnið“, þá er ég Hollendingur.“

Á brúninni á þessari stóru gryfju, sem var pytturinn, sem markaði fyrir á uppdrætti gamla donsins, skiptist vegurinn mikli í tvær greinar, og lá allt umhverfis skálina. Víða var vegurinn umhverfis skálina lagður aðeins úr stórum björgum, og var tilgangurinn með því auðsjáanlega sá, að styðja brúnirnar og tálma því að grjótið ylti ofan. Áfram ruddumst við eftir veginum, því að okkur lék mikil forvitni á að sjá, hverjir væru þeir þrír háu hlutir, sem við gátum greint hinum megin við stóru holuna. Þegar við komum nær, sáum við að þetta voru einhverjar risavaxnar myndir, og við gátum þess til, og höfðum þar rétt fyrir okkur, að þetta væru „Þær þöglu“, sem Kúkúanalýðurinn óttaðist svo mjög. En það var ekki fyrr en við komum fast að þeim, að við gátum gert okkur fulla grein fyrir hátign þeirri, sem hvíldi yfir hinum „þöglu“ myndum.

Þarna sátu þrjár risavaxnar líkneskjur á feikilega stórum fótstöllum úr blökkum kletti, og voru höggnar í klettana myndir, sem við vissum ekki, hvað tákna skyldi. Tuttugu skref voru milli þeirra, og þær horfðu ofan eftir veginum, sem lá yfir sléttuna ofan við Loo, eitthvað 60 mílur – tvær karlmyndir og ein kvenmynd, og var hver þeirra hér um bil 20 fet frá krúnunni og ofan að fótstallinum.

Kvenmyndin var nakin og var mjög fríð, en þó harðleg á svipinn, en til allrar óhamingju voru andlitsdrættir hennar skemmdir af því að hafa staðið úti undir beru lofti um margar aldir. Frá hvorritveggju hlið höfuðs hennar bólaði á hornum vaxandi tungls. Báðar risavöxnu karlmyndirnar voru þar á móti í klæðahjúp og voru óttalegar ásýndum, einkum sú sem var hægra megin við okkur, hún hafði djöfulsandlit. Myndin til vinstri handar var alvarleg í framan, en stillingin, sem á andlitinu sást, var hræðileg. Það var sú stilling, sem samfara er mannúðarlausri grimmd – þeirri grimmd, eins og Sir Henry komst að orði, sem fornmenn tileinkuðu voldugum verum í staðinn fyrir gæskuna, verum sem gátu horft á þrautir mannkynsins, að minnsta kosti án þess að finna nokkuð til sjálfar, ef þær þrautir ekki beinlínis fengu þeim fagnaðar. Það var eitthvað voðalegt við að sjá þessa þrenningu, þar sem hún sat í einveru sinni og horfði út yfir sléttuna um aldur og ævi. Þegar við vorum að horfa á þessar „þöglu“ verur, eins og Kúkúanar kölluðu myndirnar, þá greip okkur áköf forvitni eftir að fá að vita, hverra hendur hefðu myndað þær, hverjir grafið hefðu pyttinn og hverjir lagt veginn. Meðan ég var að glápa þarna og undrast datt mér það allt í einu í hug (af því að ég er kunnugur Gamla testamentinu), að Salómon hefði látið afvegaleiðast og farið að elta útlenda guði, og ég mundi eftir nöfnum þriggja þeirra – „Astorte, gyðju Sídóníta, Kamos, guði Móabíta og Milkóm, guði Ammons barna“ – og ég gat þess við félaga mína, að þessar þrjár líkneskjur, sem fyrir framan okkur voru, kynnu að eiga að tákna þessa þrjá falsguði.

„Hm“, sagði Sir Henry, sem var lærður maður. Hann hafði leyst af hendi þungt próf í fornfræðum við lærðan skóla. „Það getur verið, að þetta sé ekki fjærri sanni. Astorte Hebreanna, var sama sem Astarte Fönikíumanna, sem mestir voru verslunarmenn á Salómons tímum. Astarte, sem síðar varð að Afródíta Grikkja, var mynduð með hornum, líkum hálfmána, og þarna eru greinilega horn á höfðinu á kvenmyndinni. Getur verið að einhver embættismaður Fönikíumanna, sem haft hefur yfirstjórn yfir þessum námum, hafi látið gera þessar risavöxnu myndir. Hver veit?“

Áður en við höfðum lokið við að skoða þessar gömlu fornleifar, kom Infadoos til okkar. Hann heilsaði fyrst „hinum þöglu“ með því að lyfta upp spjóti sínu og spurði okkur svo, hvort við ætluðum þegar í stað að fara inn í Stað Dauðans, eða við vildum heldur bíða, þangað til við hefðum borðað miðdegisverð. Gagool hafði látið í ljósi, að hún væri fús á að vísa okkur veginn, ef við værum þegar búnir til inngöngu. Með því ekki var áliðnara en svo, að ein stund var eftir til hádegis, þá kváðumst við ætla að fara inn þegar í stað – forvitnin rak okkur áfram – og ég stakk upp á því, að við skyldum hafa eitthvað af mat með okkur, svo að við skyldum ekki verða ráðalausir, ef okkur skyldi tefjast í hellinum. Stóll Gagoolar var því borinn þangað og kvendinu sjálfu hjálpað út úr honum. Meðan á því stóð raðaði Foulata, eftir ósk minni, nokkru af „biltong“ eða þurrkuðu veiðidýraketi í reyrkassa einn ásamt tveimur viðarflöskum, fullum með vatn. Beint fyrir framan okkur, eitthvað 50 skref fyrir aftan standmyndirnar, reis upp einstakur hamar, 80 fet á hæð eða meira, og smám saman hallaðist hann aftur á við, þangað til úr honum varð flötur undir háa snjókrýnda tindinn, sem teygðist 3.000 fet upp í loftið fyrir ofan okkur. Jafnskjótt og Gagool var komin út úr burðarstólnum sínum glotti hún til okkar illilega, studdi sig við stafinn sinn og hökti á stað í áttina til klettsins. Við fórum á eftir henni, þangað til við komum að þröngu hliði, rammgerðu, sem líktist gangi inn í námu.

Gagool beið þar eftir okkur, og enn var illmannlega glottið á hræðilega andlitinu á henni.

„Nú, hvítu menn frá stjörnunum,“ vældi hún. „Miklu bardagamenn, Incubu, Bougwan og Macumazahn hinn virti, eruð þið tilbúnir? Sjáið, hér er ég, til þess að hlýðnast skipun lávarðar míns, konungsins, og til þess að sýna ykkur, hvar bjartir steinar eru geymdir.“

„Við erum albúnir,“ sagði ég.

„Gott, gott! Gerið hjörtu ykkar sterk, svo að þið getið staðist það, sem þið munuð fá að sjá. Ætlar þú líka að koma, Infadoos, sem sveikst drottinn þinn?“

Infadoos varð þungbrýnn við og svaraði:

„Nei, ég kem ekki, það er ekki fyrir mig að fara þar inn. En þú, Gagool, haltu tungu þinni í stilli og varaðu þig að hafa ekkert illt í frammi við lávarða mína. Af þér mun ég heimta þá, og ef eitt hár á höfðum þeirra skyldi skert verða, þá skaltu deyja, og það þó þú værir fimmtugföld galdranorn. Heyrirðu það?“

„Ég heyri það, Infadoos. Ég þekki þig, þú hefur ávallt verið mikið gefinn fyrir stóryrði. Þegar þú varst ofurlítið barn, man ég eftir að þú hótaðir móður þinni hörðu. Það var rétt hérna um daginn. En verið óhræddir, verið óhræddir, ég lifi ekki til annars en að gera skipanir konungsins. Ég hef gert skipanir margra konunga, Infadoos, þangað til þeir gerðu loksins mínar skipanir. Ha! ha! Ég ætla að fara að líta framan í þá einu sinni ennþá, og framan í Twala líka! Komið, komið, hér er lampinn,“ og hún dró fram undan skinnstakknum sínum stóra viðarflösku fulla af olíu með fífukveik í.

„Ætlarðu að koma, Foulata?“ spurði Good á sinni afleitu eldhússkúkúönsku, sem hann hafði verið að reyna að láta sér fara fram í undir tilsögn þessarar ungu stúlku.

„Ég er hrædd, lávarður minn,“ svaraði stúlkan felmturslega.

„Fáðu mér þá kassann.“

„Nei, lávarður minn, hvert sem þú ferð, þá fer ég þangað líka.“

„Hver fjandinn!“ hugsaði ég með sjálfum mér. „Það verður ónotalega stautsamt, ef við komumst nokkurn tíma út úr þessu.“

Án frekari umsvifa hlunkaðist Gagool inn í göngin, sem voru nógu breið til þess, að tveir gætu gengið þar samsíða, og koldimm. Hún vældi út til okkar, að við skyldum koma, og við fórum á eftir, töluvert hræddir og skjálfandi, og ekki dró það úr óttanum, að við heyrðum hraðan vængjaþyt.

„Halló! Hvað er þetta?“ hrópaði Good, „eitthvað lamdist framan í mig.“

„Leðurblökur,“ sagði ég, „haldið þér áfram.“

Þegar við höfðum farið eitthvað 50 skref, að svo miklu leyti sem við gátum gert okkur grein fyrir vegalengdinni, þá urðum við þess varir, að dálítið var farið að birta í göngunum. Svo leið ein mínúta til, og við stóðum á þeim undursamlegasta stað, sem augu nokkurs lifandi manns hafa litið.

Lesarinn hugsi sér þá stærstu dómkirkju, sem hann hefur nokkurn tíma komið í, gluggalausa vitaskuld, en með daufri birtu að ofan (sem að líkindum hefur komið gegnum pípur, sem staðið hafa í sambandi við loftið fyrir utan, og sem reknar hafa verið gegnum þakið, sem hvelfdist ein hundrað fet fyrir ofan okkur). Hann fær þá nokkra hugmynd um lögunina á þessum feikilega helli, sem við vorum í, en þó var sá munur, að þessi dómkirkja, sem náttúran hefði gert, var hærri undir loft og stærri um sig en nokkur dómkirkja reist af manna höndum. En dásemdir staðarins voru að minnstu leyti innifaldar í þessari undursamlegu stærð, því að í röð eftir endilöngum hellinum voru feikilega stórar stoðir, sem líktust því að þær væru úr ís, en voru í raun og veru úr stuðlabergi. Það er ómögulegt fyrir mig að gefa mönnum hugmynd um þá ofboðslegu fegurð og tíguleik, sem var á þessum hvítu steinstoðum. Sumar þeirra voru full tuttugu fet að þvermáli niður við grunninn, og þær náðu allt upp að þakinu, þó hátt væri. Aftur voru aðrar að myndast. Þar sem þetta átti sér stað stóðu súlur á steingólfinu, og eftir því sem Sir Henry sagði, voru þær á að sjá alveg eins og brotnar súlur í gömlum grískum hofum, en hátt uppi gátum við óglöggt séð broddana á stórvöxnum klakastrýtum, sem niður héngu. Og rétt þegar við stóðum þarna og störðum gátum við heyrt, hvernig þetta myndaðist, því að allt í einu féll vatnsdropi með ofurlitlum smelli frá klakastrýtunni uppi í rjáfrinu ofan á súluna, sem undir henni var. Á sumar súlurnar féllu droparnir ekki nema einu sinni eða tvisvar á þremur mínútum, og það hefði verið gaman að reikna það út, hvað lengi hefði verið að myndast stoð svo sem 80 feta há og 10 fet í þvermál, ef droparnir hefðu alltaf komið jafn ört. Með eina súluna að minnsta kosti gátum við séð, að gekk óútreiknanlega hægt, og mun dæmi það, sem hér kemur eftir, nægja til að sýna það. Á eina súluna sáum við að var illa höggvin mynd af múmíu, og við höfuð hennar sat eitthvað, sem virtist eiga að vera eitt af egypsku goðunum, og hefur vafalaust einhver erfiðismaður fornaldarinnar, sem unnið hefur í námunum höggvið þær myndir. Þetta listaverk var gert hér um bil á þeirri eðlilegu hæð, sem latur náungi, hvort sem hann er nú föníkiskur námumaður eða enskur slæpingur, er vanur að skemma snilldarverk náttúrunnar til þess að reyna að gera sjálfan sig ódauðlegan, það er að segja hér um bil 5 fet frá jörðinni. En á þeim tíma sem við sáum það, sem hlýtur að hafa verið nálega þrem þúsundum ára eftir að mynd þessi var höggvin, var súlan ekki nema 8 feta há, og var enn að myndast. Af því sést, að vöxturinn hefur ekki verið meiri en eitt fet á hverjum þúsund árum, eða einn þumlungur og brot á hverri öld. Þetta vissum við, af því að við heyrðum vatnsdropa falla, meðan við stóðum þarna hjá súlunni.

Sums staðar var undarleg lögun á stuðlaberginu, og hafði vatnið þar að líkindum ekki ávallt dropið niður á sama staðinn. Þannig var á einum stað ákaflega stórt stykki, sem hefur hlotið að vera 3,200 pund á þyngd eða um það bil. Það var eins og prédikunarstóll í lögun, prýðilega upphleypt að utan, líkt og það væri lagt knipplingum. Sum stykkin líktust undarlegum dýrum, og á hliðum hellisins voru fjaðramyndaðar, fílabeinshvítar rósir eins og koma í frosti á gluggarúður.

Út úr stóra aðalhellinum sást hér og þar inn í minni hella, og Sir Henry sagði, að það væri alveg eins og þegar sæi inn í smá kapellur út úr stórum dómkirkjum. Sumir þeirra voru stórir, en einn eða tveir voru örlitlir – og er það dásamlegt dæmi þess, hvernig náttúran framleiðir sín handaverk eftir óbreytanlegum lögum, án minnsta tillits til þess, hvort þau eru stór eða smá. Eitt lítið skot var t.d. ekki stærra eða meira en í meðallagi stórt brúðuhús, og þó hefði það getað verið fyrirmynd sú, sem allur staðurinn hefði verið gerður eftir, því að vatnið draup, ofurlitlar ísstrýtur héngu niður og súlur mynduðust þar alveg á sama hátt og annars staðar.

En við höfðum ekki tíma til að skoða þennan ljómandi fagra stað jafn nákvæmlega eins og okkur langaði til, því að til allrar óhamingju virtist Gagool ekki hirða grand um stuðlabergið og ekki vera annt um neitt nema að afljúka erindi sínu. Mér féll það mjög illa, þar sem mig langaði sérstaklega mikið til að komast að því, ef mögulegt væri, hvernig ljósinu væri hleypt inn á þennan stað, og hvort það hefði verið gert af manna höndum eða náttúrunnar, og eins það, hvort það hefði verið notað á nokkurn hátt á fyrri tímum, eins og líkindi voru til að mundi hafa verið. En við hugguðum okkur við þá hugsun, að við skyldum rannsaka þetta vandlega á leiðinni út, og svo héldum við áfram á eftir okkar óviðfelldna leiðtoga.

Áfram vísaði hún okkur veginn, beint inn að endanum á stóra hellinum, þar sem allt var svo hljótt. Þar komum við að öðru hliði, ekki hvelfdu að ofan eins og fyrra hliðið var, heldur ferhyrndu, nokkuð líku hliðunum á egypskum hofum.

„Eruð þið reiðubúnir að ganga inn í Stað Dauðans?“ spurði Gagool, auðsjáanlega í því skyni að koma geig inn hjá okkur.

„Á undan, Macduff,“ sagði Good hátíðlega og reyndi að bera sig eins og hann væri algerlega óhræddur, og það reyndu annars allir nema Foulata. Hún tók í handlegginn á Good til þess að leita þar verndar.

„Þetta fer að verða fremur draugalegt,“ sagði Sir Henry og gægðist inn í dimmu göngin. „Haldið þér áfram, Quatermain – seniores prioris. Látið ekki gömlu frúna bíða!“ og hann vék sér kurteislega til hliðar frá mér, til þess að ég skyldi komast á undan, og blessaði ég hann ekki fyrir það í huga mér.

Tapp, tapp, heyrðist innan úr göngunum. Það var stafur Gagoolar gömlu, sem hún stakk niður jafnframt og hún staulaðist áfram og kvakaði andstyggilega. Enn hikaði ég, því að ég var gagntekinn af einhverju hugboði, sem ég gat ekki gert mér grein fyrir, um eitthvað illt.

„Verið þér ekki að þessu, haldið þér áfram, laxmaður,“ sagði Good, „annars missum við af leiðsögumanninum okkar blessuðum.“

Þegar þannig hafði verið að mér lagt, lagði ég af stað inn eftir göngunum, og eftir að ég hafði gengið hér um bil 20 fet, varð ég þess var, að ég var kominn í ljóslítið hýsi, eitthvað 40 feta langt, 30 feta breitt og 30 feta hátt, og hafði fjallið þar auðsjáanlega einhvern tíma á fyrri tímum verið holað innan af mannahöndum. Þar var ekki nærri því eins bjart eins og í stuðlabergshellinum, sem fyrr var komið inn í, og þegar ég fyrst leit yfir það, gat ég ekkert séð annað en þykkt steinborð, sem stóð eftir því endilöngu, ákaflega stóra hvíta líkneskju við endann á borðinu og hvítar líkneskjur á manns stærð umhverfis það. Þar næst sá ég eitthvað brúnt sitja á miðju borðinu, og á næsta augnabliki voru augu mín orðin vön við rökkurbirtuna, og þá sá ég, hvað allt þetta var, og ég lagði af stað út, þjótandi eins hart eins og fætur mínir gátu borið mig. Ég er ekki taugaveikur maður, svona yfir höfuð að tala, og hjátrúarsögur fá lítt á mig, því að ég er orðinn nógu gamall til að sjá, hvað heimskulegar þær eru. En ég kannast við það afdráttarlaust, að þessi sjón bugaði mig algerlega, og hefði ekki Sir Henry tekið í kragann á mér og haldið mér, þá held ég í einlægni að segja, að eftir næstu 5 mínútur hefði ég verið kominn út úr stuðlabergshellinum, og að ég hefði ekki fengist til að fara þar inn aftur, þó að mér hefði verið lofað öllum demöntunum í Kimberley. En hann hélt fast í mig, svo að ég nam staðar, af því að ég gat ekki að því gert. En á næstu sekúndu voru augu hans líka farin að venjast við þetta ljós, og hann sleppti mér, og fór að þurrka svitann af enninu á sér. Af Good er það að segja, að hann bölvaði í hálfum hljóðum, og Foulata vafði handleggjunum utan um hálsinn á honum og hrein hástöfum.

Gagool ein hló hátt og lengi.

Það var draugaleg sjón. Þarna sat Dauðinn sjálfur við endann á steinborðinu í líkingu risavaxinnar mannsbeinagrindar, 15 fet eða meira á hæð, og í beinagrindar fingrunum hélt hann á stóru, hvítu spjóti. Hátt yfir höfði sinu hélt hann spjótinu, eins og hann ætlaði að fara að skjóta því. Sterkvaxin hönd hvíldi á steinborðinu fyrir framan hann í þeim stellingum, sem höndin er, þegar maður ætlar að standa upp úr sæti sínu, en líkaminn beygðist áfram, svo að við sáum skáhallt á hryggjarliðina í hálsinum og glampandi höfuðskelina, og holu augnatóftirnar blöstu við okkur og munnurinn, sem stóð lítið eitt opinn, eins og hann ætlaði að fara að tala.

„Guð almáttugur!“ sagði ég loksins í hálfum hljóðum, „hvað getur þetta verið?“

„Og hver ósköpin er þetta?“ sagði Good, og benti á hvíta söfnuðinn umhverfis borðið.

„Og hver ósköpin eru þetta?“ sagði Sir Henry, og benti á brúnu skepnuna, sem sat á borðinu.

„Hí! hí! hí!“ hló Gagool. „Ólán kemur yfir þá, sem fara inn í höll þeirra dauðu. Hí! hí! hí! ha! ha! ha!“

„Komdu, Incubu, fullhuginn í orrustum, komdu og sjáðu þann, sem þú drapst,“ og kerlingarskepnan greip grindhoruðum fingrunum í treyjuna hans og leiddi hann að borðinu. Við komum á eftir.

Allt í einu nam hún staðar og benti á þetta brúnleita, sem á borðinu var. Sir Henry leit á það, og hrökk aftur á bak og hljóðaði upp yfir sig. Það var engin furða, því að þar sat hinn saman skroppni líkami Twala, síðasta konungs Kúkúana, allsnakinn á borðinu, og á hnjám hans lá höfuðið, sem Sir Henry hafði sneitt frá bolnum með bardagaöxi hans. Já, þar sat hann, með höfuðið á knjám sér, í öllum sínum ljótleik, og hryggjarliðirnir stóðu fullan þumlung upp úr skorpnu hálsketinu. Yfir öllum líkamanum lá þunn, glerkennd himna, sem gerði útlitið enn hræðilegra, og gátum við í fyrstu alls ekki gert okkur neina grein fyrir, hvernig á henni stóð, þangað til við allt í einu urðum þess varir, að frá þakinu draup vatn niður jafnt og þétt ofan á hálsinn á líkinu, og þaðan rann það yfir allt hörundið og hvarf að lokum inn í klettinn gegnum ofurlitla holu á borðinu. Af þessu gat ég mér til, hvað þetta mundi vera – líkami Twala var að breytast í stuðlaberg.

Ég styrktist í þessari skoðun, þegar ég athugaði hvítu myndirnar, sem sátu á steinbekknum, er var umhverfis þetta draugalega borð. Þetta voru mannamyndir, eða öllu heldur höfðu verið mannamyndir. Nú voru þær orðnar að stuðlabergi. Svona hafði Kúkúanalýðurinn frá ómunatíð geymt sína dánu konunga. Hann breytti þeim í steina.

Ég komst aldrei að því, hverja aðferð þeir í raun og veru höfðu við þetta, ef þeir annars höfðu nokkra aðferð aðra en að setja líkin þarna undir dropann og láta þau vera þar um margra ára tíma, en þarna sátu konungarnir allir ísi þaktir og varðveittir um aldur og ævi í þessum kísilkennda lög. Ómögulegt er að hugsa sér neitt óttalegra en þessa löngu röð af dauðum konungum, klæddum í ískennda steinblæju, sem grilla mátti í gegnum, svo að mótaði fyrir andlitsdráttunum (27 voru þeir, og faðir Ignosi var sá síðasti), sitjandi umhverfis þetta ógestrisnislega borð, með dauðann sjálfan fyrir húsráðanda. Auðséð var á því hve konungarnir voru margir, að þessi siður að geyma lík þeirra á þennan hátt hefur verið orðinn gamall. Setjum svo að ríkisár þeirra hafi að meðaltali verið 15 ár, og að allir konungarnir, sem ríkjum hafa ráðið hafi verið þarna – sem annars er mjög ólíklegt, þar sem sumir þeirra hafa vafalaust látist í ófriði langt frá heimilum sínum – Þá hefði þessi siður byrjað fyrir 425 árum. En risavaxna líkneskjan af dauðanum, sem situr við borðsendann, er miklu eldri en það, og ef mér skeikar ekki mikið, þá er hún eftir sama listamanninn, sem gert hefur þrjár miklu líkneskjurnar, sem úti voru. Myndin var höggvin út úr einu einasta stuðlabergsstykki, og sem listaverk var hún aðdáanlega hugsuð og gerð. Good, sem bar skyn á líkskurðarfræði, sagði, að svo miklu leyti sem hann gæti séð, bæri beinagrindinni saman við mannslíkamann algerlega, svo að ekki væri nokkurt smábein skakkt sett.

Mín skoðun á þessu máli er sú, að þeir duttlungar hafi dottið í einhvern myndhöggvara fornaldarinnar að búa þetta ferlíki til, og svo hafi Kúkúönum út úr því dottið í hug að setja konunga sína þar dauða, og láta þessa voðalegu líkneskju vera forseta þeirra. En vera má og, að myndin hafi verið sett þarna til þess að fæla alla ræningja burtu, sem kynnu að hafa í hyggju að komast inn í fjárhirsluna, sem fyrir aftan var. Ég get ekki um það sagt. Ég get aðeins lýst því eins og það var, og svo verður lesarinn að fá það út úr því, sem honum þykir líklegast.


XVII. KAPITULI. - FJÁRHIRZLA SALÓMONS.

Meðan við höfðum nóg að gera að ná okkur aftur eftir hræðsluna og skoða hin voðalegu undur þessa staðar, hafði Gagool haft annað fyrir stafni. Hún hafði einhvern veginn hökt að stóra borðinu – því að hún var makalaust fjörug, þegar hún vildi það við hafa, – og komist allt þangað sem okkar látni vinur, Twala, hafði verið settur undir dropana; Good gat þess til, að hún ætlaði að skoða, hvernig um Twala færi í pæklinum, eða þá hún hefði þangað farið í einhverjum illum tilgangi. Svo hökti hún til baka, og nam við og við staðar til þess að ávarpa þessa líkami í steinhjúpunum, alveg eins og hver annar hefði gert, sem hitt hefði einhvern gamlan kunningja, en ekki gat ég náð því, sem hún sagði. Eftir að hún hafði lokið við þessa leyndardómsfullu og hræðilegu formála, fleygði hún sér niður á borðið fast við fæturnar á hvítu Dauðamyndinni og, að svo miklu leyti sem ég gat skilið hana, fór hún að bera fram bænir til hennar. Það var svo óviðfelldið að sjá bölvað kerlingarkvikindið útausa bænum (vafalaust illum) til erkióvinar mannkynsins, að það kom okkur til að fara binda enda á rannsóknir okkar.

„Nú, Gagool!“ sagði ég lágt – því var einhvern veginn svo varið, að engin þorði að tala nema í hálfum hljóðum á þessum stað – „Farðu nú með okkur inn í fjárhirsluna.“

Kerlingarkvikindið staulaðist þegar ofan af borðinu. „Lávarðar mínir eru ekkert hræddir?“ sagði hún og gaut hornauga framan í mig.

„Haltu áfram.“

„Gott og vel, lávarðar mínir,“ og hún hökti með fram borðinu, þangað til hún var komin bak við miklu myndina af dauðanum. „Hér er fjárhirslan. Lávarðar mínir kveiki á lampanum og fari inn,“ og hún setti viðarflöskuna fulla af olíu á gólfið og hallaði sér upp að hellishliðinni. Ég tók upp eldspýtu – við áttum enn nokkrar eftir af þeim í dálitlum stokk – og kveikti á fífukveiknum. Ég fór svo að líta eftir hliðinni, en ekkert var fyrir framan okkur nema sprungulaus hamarinn. Gagool glotti. „Þetta er vegurinn, lávarðar mínir.“

„Gerðu ekki að gamni þínu við okkur,“ sagði ég alvarlega.

„Ég er ekki að gera að gamni mínu, lávarðar mínir. Sjáið!“ og hún benti á hamarinn.

Um leið og hún gerði það, lyftum við upp lampanum og sáum þá, að stórt bjarg lyftist hægt upp frá gólfinu og hvarf inn í klettinn fyrir ofan. Þar hefur vafalaust verið hol, sem bjargið hefur gengið inn í. Bjargið var á breidd við væna hurð, hér um bil 10 feta hátt og ekki minna en 5 feta þykkt. Það hlýtur að minnsta kosti að hafa verið 20 til 30 tonn þyngd. Það hefur sjálfsagt flust til eftir einhverri einfaldri jafnvægisreglu, að líkindum sömu reglunni og farið er eftir, þegar lokið er upp eða lokað venjulegum gluggum eins og þeir nú gerast. En auðvitað sá enginn okkar, hvernig þessari reglu var komið við. Gagool gætti þess vandlega, að við skyldum ekki geta það, en ég efast mjög lítið um, að einhver einstaklega einföld vogarstöng hafi verið þar, og að hún hafi færst til ofurlitla ögn við það að þrýst hafi verið á einhvern leyndan stað, og með því aukið við þunga þess hlutar, sem vó á móti og ekki sást, og þannig lyft þessu mikla bjargi frá gólfinu. Steinninn hófst upp hægt og laglega, þangað til hann var loksins allur horfinn, og þar sem hann hafði verið sáum við nú dimmt op.

Geðshræring okkar var svo áköf, þegar við sáum leiðina opna, að fjárhirslu Salómons, að ég fyrir mitt leyti fór að hristast og skjálfa. Mér datt í hug, hvort þetta mundi loksins reynast þvættingur, eða hvort Da Silvestre gamli hefði haft rétt að mæla, og voru miklir fjársjóðir geymdir í þessu myrkraskoti, fjársjóðir, sem gerðu okkur að auðugustu mönnum í heiminum? Þetta áttum við að fá að vita eftir eina eða tvær mínútur.

„Gangið inn, hvítu menn frá stjörnunum,“ sagði Gagool og færði sig nær hliðinu, „en heyrið fyrst, hvað þerna ykkar, Gagool gamla, ætlar að segja. Björtu steinarnir, sem þið munuð fá að sjá, voru grafnir upp úr pyttinum, sem „Hinar þöglu“ eru settar yfir, og þeim var komið hér fyrir, ég veit ekki af hverjum. Ekki hefur verið farið inn í þennan stað nema einu sinni, síðan þeir, sem komu þessum steinum hér fyrir, flýðu í skyndi og skildu þá eftir. Sagan um fjársjóðinn gekk frá manni til manns meðal lýðsins, sem lifði í landinu öld eftir öld, en enginn vissi, hvar fjárhirslan var, né þekkti leyndardóminn um dyrnar. En það vildi svo til, að hvítur maður komst yfir fjöllin til þessa lands, getur verið, að hann hafi líka verið frá stjörnunum, og konungurinn, sem þá sat að völdum, tók vel við honum. Það var hann, sem situr þarna hinu megin,“ og hún benti á fimmta konunginn við dauðraborðið. „Og það vildi svo til, að hann og kona ein hér úr landinu, sem með honum var, komu til þessa staðar, og að konan komst af hendingu eftir leyndardóminum viðvíkjandi dyrunum – þó að þið leituðuð í 1,000 ár, munduð þið aldrei komast eftir honum. Þá fór hvíti maðurinn inn með konunni og fann steinana og fyllti með steinum belg af lítilli geit, sem konan hafði haft með sér undir mat. Og þegar hann var á leiðinni út úr fjárhirslunni, tók hann enn upp einn stein, stóran, og hélt honum í hendi sinni.“ Nú þagnaði hún.

„Já?“ sagði ég og stóð á öndinni af forvitni, og það gerðum við allir. „Hvernig fór fyrir Da Silvestre?“

Gamla konan hrökk saman, þegar hún heyrði nafnið.

„Hvernig veist þú nafnið á þessum dauða manni?“ spurði hún hvasslega, og svo hélt hún áfram, án þess að bíða eftir svari:

„Enginn veit, hvað vildi til, en það fór svo, að hvíti maðurinn varð hræddur, því að hann fleygði niður geitarbelgnum, sem steinarnir voru í, og flýði út með stóra steininn einan í hendinni, og hann tók konungurinn, og það er sami steinninn, sem þú, Macumazahn, tókst af augabrúnum Twala.“

„Hefur enginn komið inn hingað síðan?“ spurði ég og skyggndist aftur inn í dimma hliðið.

„Enginn, lávarðar mínir. Aðeins hefur leyndarmálið viðvíkjandi dyrunum geymst, og hver einasti konungur hefur opnað þær, en enginn hefur farið inn. Það er sagt, að þeir sem fari hingað inn, deyi áður en mánuðurinn er á enda, eins og hvíti maðurinn dó í hellinum á fjöllunum, þar sem þið funduð hann, Macumazahn. Ha! ha! orð mín eru sönn.“

Við litum hver framan í annan um leið og hún sagði þetta, og mér varð illt og kuldi fór um mig allan. Hvernig vissi kerlingarnornin þetta allt saman?

„Gangið inn, lávarðar mínir. Ef ég segi satt, Þá mun geitarbelgurinn með steinunum liggja á gólfinu. Hinu munuð þið síðar komast að, hvort það sé satt, að þeim sé bráður bani vís, sem fari hér inn. Ha! ha! ha!“ Og hún hökti inn um hliðið, og bar ljósið með sér. En ég játa það, að ég hikaði mig enn einu sinni að fara inn á eftir henni.

„Ó, bölvað fari það allt saman!“ sagði Good. „Látum reka á reiða. Ég ætla ekki að láta þennan gamla djöful hræða mig,“ og hann þaut inn í göngin á eftir henni og Foulata á eftir, og geðjaðist henni þó auðsjáanlega ekki að þessu, því að hún skalf af ótta, eins og hrísla. Dæmi Goods fylgdum við skyndilega.

Fáeinar álnir inni í hliðinu, þessum göngum, sem höggvin voru út úr klettinum, hafði Gagool numið staðar og beið eftir okkur.

„Sjáið, lávarðar mínir,“ sagði hún og hélt ljósinu fram undan sér, „þeir sem komu fjársjóðunum hér fyrir flýðu í skyndi, og þeir ætluðu sér að sjá svo um, að enginn kæmist að leyndarmálinu viðvíkjandi dyrunum, en þeir höfðu ekki nógan tíma til þess,“ og hún benti á stóra ferhyrnda steina, sem hlaðið hafði verið upp í hliðið, hér um bil 2 fet og 3 þumlunga á hæð, til þess að byrgja fyrir það. Fram með hliðunum voru líkir steinar, tilhöggnir, svo að hlaða mátti þeim, og það sem skrítnast var af öllu, fjöldi af sleggjum og einar tvær múrsleifar, sem, að svo miklu leyti sem við höfðum tíma til að rannsaka áhöldin, virtust vera lík að lögun og gerð, eins og þau, sem notuð eru enn í dag.

Foulata hafði alltaf verið í mestu angist og geðhræringu, og nú sagði hún, að það væri eins og ætlaði að líða yfir sig, og hún gæti ekki farið lengra, en vildi bíða þar sem hún var komin. Við létum hana því setjast á þennan ófullgerða garð, settum matarílátið við hliðina á henni og skildum hana þar eftir, svo að hún skyldi geta náð sér aftur.

Enn héldum við áfram eftir göngunum hér um bil 15 skref. Þá komum við allt í einu að tréhurð, vandlega málaðri. Dyrnar stóðu galopnar. Hver sem síðast hafði gengið þar um, hafði annað hvort ekki haft tíma til að loka henni eða þá gleymt því.

Á þröskuldinum lá skjóða úr geitarskinni, og virtist vera full af kísilsteinum.

„Hí! hí!, hvítu menn,“ skríkti Gagool, þegar ljósið frá lampanum féll á skjóðuna. „Sagði ég ykkur ekki, að hvíti maðurinn, sem kom hingað, hafi flúið í skyndi, og misst skjóðu konunnar? – litið á!“

Good laut niður og tók skjóðuna upp. Hún var þung, og glamraði í henni.

„Svei mér sem ég held ekki, að hún sé full af demöntum,“ sagði hann lágt og var auðheyrt á rómnum, að maðurinn var skelkaður. Það er sannarlega nóg til að koma inn skelk hjá hverjum sem er að hugsa sér skjóðu fulla með demanta.

„Áfram,“ sagði Sir Henry óþolinmóðlega. „Hérna, gamla frú, fáðu mér lampann,“ og hann tók hann úr höndunum Gagool, steig inn úr dyrunum og hélt honum hátt yfir höfði sér.

Við ruddumst inn á eftir honum og gleymdum í augnablikinu demantaskjóðunni og vorum nú komnir inn í fjárhirslu Salómons.

Í fyrstu gátum við ekkert séð við lampaljósið, sem var nokkuð dauft, nema herbergi, sem höggvið var í klettinn og virtist ekki vera nema svo sem tíu ferhyrningsfet. Næst sáum við ljómandi samsafn af fílatönnum, sem hlaðið var hverri ofan á aðra, allt upp að lofti. Ekki vissum við, hvað margar þær voru, því að við gátum auðvitað ekki séð, hvað þykk hleðslan var, en tannendarnir, sem við sáum, hafa ekki getað verið færri en 4 eða 5 hundruð, og það var ágætasta fílabein. Þar var nóg fílabein til að gera mann auðugan alla sína ævi. Mér datt í hug, að það hefði ef til vill verið úr þessu forðabúri, að Salómon tók efnið í fílabeinssætið mikla, sem ekki átti sinn líka í nokkru konungsríki.

Við hlið herbergisins voru hér um bil 20 bréfkassar, ekki ósvipaðir skotfærakössum Martini Henrys, en heldur stærri, og rauðmálaðir.

„Þarna eru demantarnir,“ hrópaði ég, „komið með ljósið.“

Sir Henry gerði það, hélt því fast að efsta kassanum. Lokið á honum var orðið fúið, enda þótt þurrt væri þarna og það virtist hafa verið barið inn, líklegast af Da Silvestre sjálfum. Ég stakk hendinni inn um holuna á lokinu og tók hana út fulla, ekki af demöntum, heldur af gullstykkjum, með lögun, sem enginn okkar hafði fyrr séð, og eitthvað var markað á þá, sem líktist hebreskum bókstöfum.

„Jæja,“ sagði ég og lét peninginn aftur í kassann. „Við þurfum að minnsta kosti ekki að fara héðan tómhentir. Það hljóta að vera einir tvö þúsund peningar í hverjum kassa, og kassarnir eru átján. Með þessum peningum mun hafa átt að borga erfiðismönnunum og kaupmönnunum.“

„Þetta munu vera allir fjársjóðirnir,“ sagði Good. „Ég sé enga demanta, nema Portúgalsmaðurinn gamli hafi stungið þeim öllum í belginn sinn.“

„Vilji lávarðar mínir finna steina, þá skulu þeir gæta að þarna hinum megin, þar sem dimmast er,“ sagði Gagool, því að hún hafði skilið augnaráð okkar. „Þar munu lávarðar mínir finna krók og þrjár steinkistur í króknum, tvær innsiglaðar og eina opna.“

Áður en ég lagði þetta út fyrir Sir Henry, sem hélt á ljósinu, gat ég ekki stillt mig um að spyrja hana, hvernig hún vissi þetta, ef enginn hefði komið inn í þennan stað, síðan hvíti maðurinn var þar á ferðinni, fyrir mörgum mannsöldrum síðan.

„Ó, Macumazahn, sem haldið hefur vörð á nóttunum,“ svaraði hún í ertnisróm, „vitið þið ekki, sem heima eigið í stjörnunum, að sumir menn hafa augu, sem séð geta gegnum stein?“

„Lítið þér á þetta horn, Curtis,“ sagði ég, og vísaði honum á staðinn, sem Gagool hafði bent á.

„Halló, kunningjar,“ sagði hann, „hér er skot. Guð almáttugur! Lítið þið á.“

Við stukkum þangað, sem hann stóð í krók einum, ekki óáþekktum litlum bogaglugga. Við vegginn inn í þessu skoti voru þrjár steinkistur, hver hér um bil 2 ferhyrningsfet. Á tveimur þeirra voru steinlok, sem lágu niðri, en lokið á þriðju kistunni lá, upp við kistuhliðina, og sú kista var opin.

„Lítið á,“ sagði hann með hásum rómi og hélt lampanum uppi yfir opnu kistunni. Við litum á, og eitt augnablik gátum við ekkert séð, af því að ofbirta kom í augu okkar af silfurlitum ljóma, sem fyrir þeim varð. Þegar augu okkar voru farin að venjast honum, sáum við, að kistan var mitt á milli hálfs og fulls af óslípuðum demöntum, og flestir voru þeir æði stórir. Ég laut niður og tók nokkra þeirra upp. Já, okkur hafði ekki missýnst, þeir voru sápukenndir átöku, eins og þeir áttu að vera, svo að hér var ómögulegt um að villast.

Ég ætlaði naumast að ná andanum þegar ég sleppti þeim.

„Við erum ríkustu mennirnir í öllum heiminum,“ sagði ég. „Monte Christo var hreinn húsgangur í samanburði við okkur.“

„Við fyllum alveg markaðinn með demöntum,“ sagði Good.

„Þurfum að koma þeim þangað fyrst,“ hélt Sir Henry.

Og við stóðum með föl andlitin og störðum hver á annan, með ljósið á milli okkar og glitrandi gimsteinana við fætur okkar, eins og við værum samsærismenn og ætluðum að fara að drýgja einhvern glæp, í stað þess að láta svo sem við værum þrír hamingjusömustu mennirnir á jörðunni, eins og við héldum að við værum.

„Hí! hí! hí!“ hélt Gagool gamla áfram fyrir aftan okkur og flæktist aftur og fram líkt og blóðsuguleðurblaka. „Þarna eru björtu steinarnir, sem þið hvítu mennirnir elskið. Þarna eru þeir eins margir eins og þið viljið, takið þá, hleypið þeim gegnum fingurna á ykkur, étið þá, hí! hí, drekkið þá, ha! ha!“

Mér fannst á því augnabliki eitthvað svo hlægilega fráleitt við þá hugsun að éta og drekka demanta, að ég fór að hlæja eins og væri ég æðisgenginn, og hinir gerðu eins, án þess að vita, hvers vegna þeir gerðu það. Þarna stóðum við og örguðum af hlátri yfir gimsteinunum, sem við áttum, og sem hinir þolgóðu námumenn höfðu fundið fyrir okkur fyrir þúsundum ára í mikla pyttinum þar hinum megin, og sem Salómons löngu dauði verkstjóri hafði komið þarna fyrir okkur, og ef til vill stóð nafn þessa verkstjóra á upplitaða vaxinu, sem enn hékk við lokin á þessum kistum. Salómon náði aldrei í þá, né Da Silvestre, né nokkur annar maður. Við höfðum náð þeim. Þarna voru fyrir framan okkur demantar, sem námu milljónum sterlingspunda, og gull og fílabein, sem nam þúsundum punda, og það beið eftir því, að það yrði flutt á burt.

Allt í einu leið þetta hlátursaðsvif frá, og við hættum að hlæja.

„Opnið hinar kisturnar, hvítu menn,“ kvakaði Gagool, „það er vafalaust meira í þeim. Takið fylli ykkar, hvítu lávarðar!“

Þegar þannig hafði verið á okkur skorað, tókum við að ná upp steinlokunum af hinum tveimur og byrjuðum á því að brjóta innsiglin, sem héldu þeim lokuðum. Það var ekki laust við að okkur fyndist þá við spilla helgidómi.

Húrra! Þær voru fullar líka, fullar upp á barma, að minnsta kosti var önnur þeirra það. Enginn óræstis Da Silvestre hafði úr henni tekið til þess að fylla geitarbelg sinn. Af þriðju kistunni er það að segja, að hún var mitt á milli hálfs og fulls, en steinarnir voru allir valdir, enginn þeirra var minni en 20 karöt, og sumir þeirra voru eins stórir og dúfuegg. Samt gátum við séð á sumum þeim stærstu, þegar við héldum þeim upp við ljósið, að þeir voru ofurlitið gulleitir, „upplitaðir,“ eins og þeir kalla það við Kimberley.

En það var annað, sem við ekki sáum, voðalega illmennsku augnaráðið, sem Gagool gamla sendi okkur um leið og hún skreið, skreið eins og ormur, út úr fjársjóðakompunni út göngin í áttina til þungu hurðarinnar úr sprungulausum hamrinum.

Hvað er þetta? Hljóð kemur eftir hljóð gjallandi inn eftir hvolfgöngunum. Það er rödd Foulötu!

„Ó, Bougwan! Hjálp! Hjálp! Kletturinn er að síga!“

„Láttu hann fara, stúlka. Þá –“

„Hjálp! Hjálp! Hún lagði mig í gegn!“

Nú þutum við út göngin, og lampinn kastaði birtu á það, sem nú skal greina. Kletthurðin sígur hægt og hægt niður. Hún er ekki þrjú fet frá gólfinu. Nálægt henni eigast þær Foulata og Gagool við. Rautt blóðið streymir allt niður að hnjám á Foulötu, en þó heldur stúlkuhetjan enn fastri kerlingarnorninni, sem berst um eins og villiköttur. Ó! þar losnaði hún! Foulata hnígur niður, og Gagool fleygir sér niður á gólfið til þess að liðast eins og snákur út gegnum rifuna, sem enn er eftir í hamrinum, sem er að lokast. Hún er komin inn undir – ó, guð minn góður! Of seint! Of seint. Steinninn kremur hana og hún ýlfrar af kvölum. Niður koma þau, niður, öll þessi 30 tonn og merja hægt og hægt gamla skrokkinn á henni niður við hamarinn, sem undir er. Arg eftir arg, slíkt sem við höfðum aldrei fyrr heyrt, svo langt viðbjóðslegt marr, og hurðin lokaðist rétt í því bili að við hlupum út ganginn og rákum okkur á hana.

Öllu þessu var lokið á fjórum sekúndum.

Þá snerum við okkur að Foulötu. Vesalings stúlkan hafði verið stungin, og ég sá, að hún átti ekki langt eftir.

„Ó, Bougwan, ég dey!“ sagði stúlkuskepnan fallega, og gat naumast náð andanum. „Hún skreið út – Gagool; ég sá hana ekki, það leið yfir mig – og hurðin fór að síga niður, og svo kom hún aftur og leit inn eftir göngunum – og ég sá hana koma inn undir hurðinni, sem smátt og smátt var að síga, inn úr dyrunum, og ég náði í hana og hélt henni, og hún rak mig í gegn og ég dey, Bougwan.“

„Aumingja stúlkan! Aumingja stúlkan!“ hljóðaði Good, og svo fór hann að kyssa hana, af því að hann gat ekkert annað gert.

„Bougwan,“ sagði hún eftir nokkra þögn, „er Macumazahn hér? Það er orðið svo dimmt, að ég get ekkert séð.“

„Hér er ég, Foulata.“

„Macumazahn, gerðu svo vel og vertu tunga mín eitt augnablik, því að Bougwan getur ekki skilið mig, og áður en ég fer inn í myrkrið langar mig til að segja ofurlítið.“

„Talaðu, Foulata, ég skal leggja það út.“

„Segðu lávarði mínum, Bougwan, að – ég elski hann, og að mér þyki vænt um að deyja, af því ég veit, að hann getur ekki ofþyngt lífi sínu með annarri eins konu og mér, af því að sólin getur ekki átt við myrkrið né heldur það hvíta við það svarta.

„Segðu honum, að stundum hafi mér fundist eins og einhver fugl vera í brjósti mér, sem einhvern tíma mundi fljúga héðan og syngja einhvers staðar annars staðar. Mér finnst jafnvel ekki nú, sem hjarta mitt sé að deyja, og get ég þó ekki lyft upp hendinni og heilinn í mér er að verða kaldur. Það er svo fullt af elsku, að það gæti lifað í þúsund ár, og þó verið ungt. Segðu honum, að ef ég lifi síðar, þá geti skeð að ég hitti hann á stjörnunum, og að – ég ætli að leita á þeim öllum, þó það geti skeð, að ég verði þar ennþá dökk og hann verði hvítur. Segðu – nei, Macumazahn, segðu ekkert annað, nema að ég elski – Ó, haltu mér fastar, Bougwan, ég finn ekkert til handleggjanna á þér – ó! ó!“

„Hún er dáin – hún er dáin!“ sagði Good, og stóð upp harmþrunginn. Tárin runnu ofan eftir góðmannlegu andlitinu á honum.

„Þér þurfið ekki að taka yður þetta nærri, gamli kunningi,“ sagði Sir Henry.

„Hvað!“ sagði Good, „hvað eigið þér við?“

„Ég á við það, að þér getið bráðum orðið henni samferða þangað. Sjáið þér ekki, maður, að við erum jarðaðir hér lifandi?“

Áður en Sir Henry sagði þessi orð held ég ekki, að við höfum að fullu gert okkur grein fyrir, hvað okkur hafði hent, því að við tókum ekki eftir öðru en andláti vesalings Foulötu. En nú skildum við það. Steinninn feiknaþungi hafði lokast, að líkindum til eilífðar, því að sá eini heili, sem þekkti leyndarmálið viðvíkjandi honum, hafði marist sundur og orðið að dufti undir honum. Enginn gat gert sér von um að brjótast út eða inn um þessar dyr með neinu óöflugra efni en dynamiti, og það enda miklu af því. Og við vorum þeim megin við þær, sem við ekki hefðum átt að vera!

Fáeinar mínútur stóðum við lostnir af skelfingu yfir líki Foulötu. Það var eins og við værum allri karlmennsku sviptir. Okkur brá, svo mikið í fyrstu við hugsunina um þann seina og auma dauðdaga, sem okkar beið, að við buguðumst algerlega. Við sáum það allt nú. Þessi djöfull, Gagool, hafði hugsað sér að koma okkur í þessa snöru frá því fyrsta. Það hefði verið gaman, sem fengið hefði hennar vonskuhug verulegs fagnaðar, að hugsa sér þessa þrjá hvítu menn, sem hún af einhverjum ástæðum, sem enginn vissi nema hún, hafði ávallt hatað, tortímast hægt og hægt af þorsta og hungri innan um fjársjóði þá, sem þeir höfðu girnst. Nú sá ég, hvað hún meinti með skopinu, að við skyldum eta og drekka demantana. Ef til vill hafði einhver reynt að fara á sama hátt með veslings gamla doninn, þegar hann skildi eftir belginn fullan gimsteina.

„Þetta dugir aldrei,“ sagði Sir Henry rámur. „Það deyr bráðum á lampanum. Við skulum vita, hvort við getum ekki fundið fjöðrina, sem hreyfir klettinn.“

Við stukkum fram með örvæntingarákefð og sveittumst blóðinu. Við fórum að þreifa upp og niður um hurðina og hliðina á göngunum. En enga örðu né fjöður gátum við fundið.

„Verið vissir,“ sagði ég, „að hurðinni verður ekki lokið upp að innan, ef svo væri, þá hefði Gagool ekki lagt á tvær hættur með að reyna að skríða út undir steininn. Það var af því, að hún vissi það, að hún reyndi að komast út, hvað sem það kostaði. Fari hún bölvuð.“

„Að minnsta kosti,“ sagði Sir Henry og hló við kuldalega, „fékk hún það skyndilega borgað. Hennar dauðdagi var nærri því eins óttalegur eins og líklegt er að okkar verði. Við getum ekkert við dyrnar gert. Látum okkur fara aftur inn í herbergið, þar sem fjársjóðirnir eru.“

Við snerum inn aftur, og um leið og við gerðum það, tók ég eftir matarskrínunni, sem Foulata heitin hafði haft með sér. Hún var hjá ófullgerða veggnum, sem hlaða hafði átt þvert yfir göngin. Ég tók hana upp og bar hana inn í bölvaða fjárhirsluna, sem átti að verða gröf okkar. Svo snerum við aftur við, bárum líkama Foulötu með lotningu inn, og lögðum hann á gólfið hjá peningakössunum.

Þar næst settumst við sjálfir niður og hölluðum bökunum upp að steinkössunum, þar sem einskisverðu fjársjóðirnir voru geymdir.

„Látum okkur skipta matnum,“ sagði Sir Henry, „svo að hann endist eins lengi og mögulegt er.“ Við gerðum það því. Okkur taldist svo til, að úr honum mundu verða fjórar óendanlega litlar máltíðir fyrir hvern okkar, nóg til að halda í okkur lífinu svo sem tvo daga. Auk „biltongsins“ eða þurrkaða veiðidýraketsins, voru til tvær flöskur af vatni, og hver þeirra tók hér um bil einn pott.

„Látum okkur nú éta og drekka,“ sagði Sir Henry, „því að á morgun eigum við að deyja.“

Við átum hver um sig lítinn skammt af „biltongi,“ og drukkum sopa af vatni. Ég þarf ekki að taka það fram, að við höfðum litla matarlyst, þó að við værum mjög matarþurfi, og okkur liði betur eftir að við höfðum rennt þessu niður. Svo stóðum við upp og fórum að rannsaka veggi fangelsis okkar nákvæmlega, í þeirri veiku von að finna einhver ráð til útgöngu. Við rannsökuðum vandlega, hvort hvergi tæki undir í veggjunum eða gólfinu.

En ráðin voru engin til. Það var ekki líklegt að þau væru nein til, þar sem um fjárhirslu var að ræða.

Ljósið fór að loga dauft. Fitan var nærri því útbrunnin. „Quatermain,“ sagði Sir Henry. „Hvað er klukkan – úrið yðar gengur?“

Ég tók það upp og leit á það. Klukkan var 6, við höfðum farið inn í hellinn kl. 11.

„Infadoos saknar okkar,“ sagði ég. „Ef við komum ekki aftur í nótt, þá leitar hann að okkur með morgninum, Curtis.“

„Honum verður ekki til neins að leita. Hann þekkir ekki leyndardóm hurðarinnar, veit ekki einu sinni, hvar hún er. Engin lifandi manneskja vissi það í gær, nema Gagool. Í dag veit enginn það. Jafnvel þótt hann fyndi hurðina, gæti hann ekki brotist inn um dyrnar. Allt Kúkúanaherliðið gæti ekki brotist gegnum fimm fet af sprungulausum hamri. Vinir mínir, ég sé engin úrræði fyrir okkur önnur en beygja okkur undir vilja almáttugs guðs. Eftirsókn fjársjóða hefur komið mörgum á kaldan klaka. Við bætumst við tölu þeirra.“

Ljósið varð enn daufara.

Allt í einu blossaði það upp, svo að öll sýningin lyftist upp líkt og upphleyptar myndir, kynstrin miklu af hvítu fílabeini, kassarnir fullir af gulli, líkami Foulötu heitinnar endilangur fyrir framan þá, geitarbelgurinn fullur af dýrgripum, daufa glætan af demöntunum og æðislegu náfölu andlitin á okkur þremur hvítu mönnunum, sem sátum þar og biðum þess að deyja úr hungri.

Svo lækkaði ljósið aftur skyndilega og slokknaði.


XXVIII. KAPITULI. - VONLAUSIR.

Ég get ekki lýst svo skelfingu nætur þeirrar, er nú kom, að menn fái neina verulega hugmynd um hana. Við urðum þó fyrir þeirri náð, að þær mýktust nokkuð af svefni, því að jafnvel þegar eins er ástatt fyrir mönnum eins og fyrir okkur var, lætur þreytan stundum til sín taka. En að minnsta kosti var mér ómögulegt að sofa mikið. Þó að ég sleppi skelfingarhugsuninni um þau forlög, sem yfir okkur vofðu – því að jafnvel hugrakkasti maður á jörðinni hefði vel getað bugast af öðrum eins forlögum og okkar biðu, og ég hef aldrei látið mikið yfir hugrekki mínu – þá var þögnin of mikil til þess að ég gæti sofið. Lesari góður, þú kannt að hafa legið andvaka á næturþeli, og þér kann að hafa þótt þögnin óviðfelldin, en ég er sannfærður um, að þú getur enga hugmynd haft um það, hve sterk og áþreifanleg alger þögn í raun og veru er. Á yfirborði jarðarinnar er ávallt einhver hljómur eða hreyfing, og þó að það ef til vill verði ekki greint sjálft, þá, sljóvgar það þó þá bitru egg, sem er á algerðri þögn. En þar var enginn hljómur og engin hreyfing. Við vorum jarðaðir í innyflum afarmikils jökuls. Þúsundir feta fyrir ofan okkur þaut hreina loftið um hvíta snjóinn, en enginn hljómur frá því náði til okkar. Jafnvel frá dauðrasalnum voðalega vorum við aðskildir með löngum göngum og fimm feta þykkum hamri, og dauðir menn gera engan skarkala. Þó að allt skotlið himins og jarðar hefði farið að braka, hefði það ekki geta borist til eyrna okkar í gröf þeirri, sem við vorum grafnir í lifandi. Okkur var stíað frá öllum hljómum veraldarinnar – það var eins og við værum þegar dauðir.

Og þá gat ég ekki varist hugsunum um þá kaldhæðni, sem lá í því, hvernig ástatt var fyrir okkur. Þarna lágu umhverfis okkur fjársjóðir, sem nægt hefðu til þess að borga hóflega ríkisskuld eða til að koma upp flota af herskipum, og þó hefðum við orðið fegnir að mega láta þá alla af hendi fyrir minnsta möguleika til að sleppa þaðan. Vafalaust mundum við bráðlega verða fegnir að skipta þeim fyrir matarbita eða bolla af vatni, og þar á eftir jafnvel fyrir þau hlunnindi, að þrautir okkar tækju skjótt enda. Það er óhætt um það, að auðurinn, sem menn verja öllu sínu lífi til að ná í, hann verður að lokum einskisvirði.

Og svo leið nóttin.

„Good,“ sagði Sir Henry loksins, og rödd hans hljómaði voðalega í þessum algerða kyrrleik, „hvað eru margar eldspýtur eftir í kassanum?“

„Átta, Curtis.“

„Kveikið þér á einni, svo við getum séð hvað klukkan er.“

Hann gerði það, og loginn ætlaði næstum að gera okkur blinda, af því að myrkrið hafði verið svo þétt áður. Mín klukka var fimm. Snækransarnir hátt yfir höfðum okkar voru nú að roðna í döguninni yndisfagurri, og golan átti að vera farin að koma róti á næturmóðuna í hellunum.

„Okkur væri betra að borða eitthvað og halda kröftum okkar við,“ sagði ég.

„Til hvers er að borða?“ sagði Good. „Því fyrr sem við deyjum og losnum við þetta því, betra.“

„Alltaf er von, meðan lífið er ekki farið,“ sagði Sir Henry.

Við átum því ofurlítið og drukkum vatnssopa, og enn leið nokkur stund. Einhver stakk þá upp á því, að það væri ef til vill réttara að fara svo nærri dyrunum sem komist yrði og kalla, ef svo kynni að atvikast, sem reyndar var ekki líklegt, að einhver kynni að geta heyrt hljóðin út. Good hafði skerandi rödd eftir langa æfingu frá sjómennsku sinni. Hann fálmaði því fram göngin og fór að hljóða, og ég verð að segja, að það voru ljótu bölvuð óhljóðin, sem upp úr honum komu. Ég hef aldrei heyrt önnur eins org, en áhrifin urðu ekki meiri en þó að mýfluga hefði verið að suða.

Eftir nokkra stund hætti hann þessu, kom aftur þyrstur mjög og varð að fá sér nokkuð af vatni. Eftir það hættum við öllum óhljóðum, því að úr þeim varð svo mikil vatnseyðsla.

Svo settumst við allir niður einu sinni enn og hölluðumst upp að kistunum okkar, þar sem gagnslausu demantarnir voru geymdir. Í þessu voðalega aðgerðaleysi, sem var einna harðasta atriðið í ástandi okkar, og ég verð að segja það, fyrir mitt leyti, að ég örvænti algerlega. Ég lagði höfuðið upp að breiðu herðunum á Sir Henry og fór að gráta, og ég held ég hafi heyrt Good snökta hinum megin og jafnframt bölva sjálfum sér hrottalega fyrir að gera það.

Hvað góður og hugrakkur hann var, sá mikli maður! Þó að við hefðum verið tvö hrædd börn, og hann hefði verið fóstra okkar, þá hefði hann ekki getað farið betur að okkur. Hann gleymdi þeim þætti, sem hann sjálfur tók í eymdinni og gerði allt sem hann gat til að koma ró á okkar æðstu geðshræringar. Hann sagði sögur af mönnum, sem eitthvað líkt hafði verið ástatt fyrir og höfðu sloppið á yfirnáttúrlegan hátt, og þegar honum tókst ekki að gleðja okkur með þessu, þá, benti hann á, hvernig, þegar öllu væri á botninn hvolft, þetta væri ekki annað en að sú endalykt, sem hlyti að bíða okkar, kæmi aðeins nokkru fyrr en ella, að þessu mundi bráðum öllu lokið, og það væri góður dauðdagi að örmagnast (sem annars er ósatt). Svo breytti hann um og fór að eins og ég hafði einu sinni heyrt hann gera, gat þess, að við ættum að fela okkur náð æðra valds, og það gerði ég fyrir mitt leyti afdráttarlaust.

Hann er ágætur drengur, mjög hæglátur, en mjög kjarkmikill.

Og svo leið dagurinn einhvern veginn eins og nóttin hafði liðið (ef annars á við að tala um slíka dægraskiptingu, þar sem alltaf var svartasta nótt), og þegar ég kveikti á eldspýtu til að gæta að klukkunni, var hún 7.

Einu sinni enn átum við og drukkum, og meðan við vorum að því datt mér nokkuð í hug.

„Hvernig stendur á því,“ sagði ég, „að loftið helst hér hreint? Það er þykkt og þungt, en það er alveg hreint.“

„Guð almáttugur!“ hrópaði Good og spratt á fætur, „um þetta hef ég aldrei hugsað. Það getur ekki komist gegnum steinhurðina, því að hún er loftheld, ef nokkur hurð hefur nokkurn tíma verið þar. Einhvers staðar hlýtur það að komast inn. Væri hér enginn loftstraumur, þá hefðum við kafnað þegar við fyrst komum inn. Við skulum gæta að.“

Það var dásamlegt, hvað þessi litli vonarneisti gat breytt okkur. Á næsta augnabliki vorum við allir farnir að skríða höndum og hnjám innan um herbergið og leita að því, hvort við fyndum hvergi minnsta vott um súg. Allt í einu dró úr áhuga mínum. Ég tók á einhverju köldu. Það var andlitið Foulötu heitinni.

Einn klukkutíma eða lengur héldum við áfram að þreifa fyrir okkur, þangað til loksins Sir Henry og ég örvæntum um árangurinn og hættum. Við höfðum þá meitt okkur talsvert með því að reka höfuðin sífeldlega í fílatennur, kistur og veggi herbergisins. En Good hélt enn áfram og sagði eins og í gamanskyni að það væri betra en að gera ekkert.

„Heyrið þið, piltar,“ sagði hann allt í einu, og var eins og hann væri að halda röddinni í stilli, „komið þið hingað.“

Ég þarf svo sem ekki að taka það fram, að við flýttum okkur það sem við gátum að skreiðast þangað sem hann var.

„Quatermain, leggið þér höndina þar sem mín hönd er. Nú, nú, finnið þér nokkuð?“

„Ég held ég finni loft koma upp.“

„Hlustið þið nú.“ Hann stóð upp og stappaði með fótunum, þar sem hann stóð, og vonarblossi bálaðist upp í hjörtum okkar. Það var tómahljóð undir.

Með skjálfandi hendi kveikti ég á eldspýtu. Ég átti ekki nema þrjár eftir, og við sáum, að við vorum staddir innst inni í því horni herbergisins, sem fjærst var dyrunum, og þannig stóð á því, að við höfðum ekki tekið eftir tómahljóðinu sem þarna var, í leit okkar áður, þó nákvæm væri. Meðan logaði á eldspýtunni rannsökuðum við staðinn. Steingólfið var þar sett saman, og – drottinn minn góður! Inn í bjarginu var steinhringur, sem ekkert stóð út úr. Við sögðum ekki orð. Við vorum í of mikilli geðshræringu, og hjörtu okkar börðust of ákaft af von til þess að við gætum talað. Good hafði hníf, og aftan á honum var einn af þessum krókum, sem gerðir eru til að ná steinum úr hrosshófum. Hann opnaði krókinn og klóraði umhverfis hringinn með honum. Loksins komst hann undir hringinn og fór gætilega með hann, því að hann var hræddur um að brjóta hann. Hringurinn fór að hreyfast. Hann var úr steini og hafði því ekki orðið fastur allar þessar aldir, sem hann hafði legið þarna, eins og mundi hafa orðið, ef hann hefði verið úr járni. Hringurinn stóð allt í einu uppréttur. Þá fór hann með hendurnar inn í hann og togaði af öllum kröftum. En ekkert lét undan.

„Látið þér mig reyna,“ sagði ég óþolinmóðlega, því að afstaða steinsins var svo, þarna fast inni í horninu, að ómögulegt var fyrir tvo að toga í einu. Ég tók í og togaði, en ekkert gekk.

Þá reyndi Sir Henry og tókst ekki.

Good tók aftur krókinn og klóraði eftir öllum samskeytum, þar sem við fundum loftið koma upp.

„Nú, Curtis,“ sagði hann, „togið þér nú allt hvað þér getið. Þér eruð eins sterkur eins og tveir menn. Bíðum við,“ og hann tók af sér fallegan svartan silkiklút, sem hann var með, til þess ekki að hætta við hreinlætisvenjur sínar, og hleypti honum í hringinn. „Quatermain, takið þér nú utan um mittið á Curtis og togið, þegar ég segi til, því nú liggur okkur lífið á. Nú.“

Sir Henry beitti öllu sínu heljarafli, og Good og ég gerðum það, sem við gátum með þeim kröftum, sem náttúran hafði gefið okkur.

„Upp! upp! það er að láta undan,“ stundi Sir Henry, og ég heyrði vöðvana í stóra bakinu á honum braka. Allt í einu kom aðskilnaðarhljóð, svo loftstraumur, og allir lágum við á bakinu á gólfinu, með stóran flögustein ofan á okkur. Afl Sir Henrys hafði riðið af baggamuninn, og aldrei hefur vöðvakraftur nokkurs manns komið honum betur.

„Kveikið þér á eldspýtu, Quatermain,“ sagði hann, jafnskjótt og við höfðum komist á fætur og náð andanum, „farið þér nú varlega.“

Ég gerði það, og fyrir framan okkur var, guð veri lofaður! fyrsta þrepið af steinstiga.

„Hvað á nú að gera?“ spurði Good.

„Fara ofan stigann auðvitað og treysta. forsjóninni.“

„Bíðum við!“ sagði Sir Henry. „Quatermain, náið þér í biltongsbitann og vatnið, sem við eigum eftir. Við kunnum að þurfa á því að halda.“

Ég skreið í því skyni þangað, sem við höfðum áður verið við kisturnar, og á leiðinni datt mér nokkuð í hug. Við höfðum ekki hugsað mikið um demantana síðustu 24 stundirnar eða svo. Í raun og veru er viðbjóðslegt að hugsa um demanta, þegar þess var gætt, hverjar raunir þeir höfðu komið okkur í. En ég hugsaði með mér, að það væri rétt af mér að stinga á mig fáeinum, ef svo skyldi fara, að við kæmumst nokkurn tíma út úr þessum voðalega helli. Ég stakk því lúk unni niður í fyrstu kistuna og fyllti alla vasana á gömlu veiðitreyjunni minni, og ég bætti við tveimur hnefafyllum af stóru steinunum úr þriðju kistunni – og það var gott að mér skyldi detta það í hug.

„Heyrið þið, piltar,“ hrópaði ég, „ætlið þið ekki að taka nokkra demanta með ykkur? Ég hef fyllt mína vasa.“

„Ó! fari demantarnir bölvaðir!“ sagði Sir Henry. „Ég vona ég þurfi aldrei að sjá demanta framar.“

Af Good er það að segja, að hann svaraði engu. Hann var held ég að kveðja allt það, sem eftir var af aumingja stúlkunni, sem hafði elskað hann svo heitt. Og þó að þér, lesari minn, sem situr heima í næði og hugsar um þessi miklu, sannast að segja ómælanlegu auðæfi, sem við nú létum ganga úr greipum okkar, kunni að þykja það kynlegt, þá get ég fullyrt, að ef þú hefðir verið svo sem 28 klukkustundir, með nær því ekkert til að eta og drekka á þessum stað, þá, hefði þér ekki leikið hugur á að hlaða á þig demöntum um leið og þú steyptir þér niður í hin óþekktu iður jarðarinnar, í vitleysislegri von um að komast hjá, hörmulegum dauðdaga. Hefði það ekki verið orðin nokkurs konar önnur náttúra mín, vegna þess að ég hafði allt mitt líf vanið mig á það, að skilja aldrei neitt eftir, sem var ómaksins vert að eiga, ef minnsti möguleiki var á því í að flytja það með sér, þá er ég alveg viss um, að ég hefði ekki lagt það á mig að fylla vasa mína.

„Komið þér, Quatermain,“ sagði Sir Henry, sem þegar stóð á fyrsta þrepi steinstigans. „Gætilega, ég ætla að fara á undan.“

„Gætið þér vel að, hvar þér stigið fætinum niður, einhver voða hola kann að vera fyrir neðan.“

„Miklu líklegra, að það sé annað herbergi,“ sagði Sir Henry, gekk hægt ofan og taldi þrepin um leið og hann steig þau.

Þegar hann var kominn niður á fimmtán, nam hann staðar. „Hér er gólfið,“ sagði hann. „Guði sé lof! Ég held að það séu göng. Komið þið ofan.“

Good gekk næst ofan stigann og ég síðastur, og þegar ég var kominn alla leið niður, kveikti ég á annarri af þeim tveim eldspýtum, sem eftir voru. Við ljósið af henni gátum við aðeins séð, að við stóðum í þröngum jarðgöngum, sem lágu að stiganum, sem við höfðum gengið ofan, bæði frá vinstri og hægri hlið, og mynduðu rétt horn við hann. Áður en við gátum gert okkur grein fyrir meiru, brenndi eldspýtan fingurinn á mér og svo slokknaði þegar á henni. Þá varð það vandasama spurningaratriði fyrir okkur, hvora leiðina við ættum að fara. Auðvitað var ómögulegt fyrir okkur að vita, hvað þessi göng væru, né hvert þau lægju, og þó gat svo farið, að það yrði okkur til bjargar að fara í aðra áttina, en að hin leiðin yrði okkur að bana. Við vorum í framúrskarandi miklum vandræðum, þangað til allt í einu að Good datt það í hug, að þegar ég kveikti á eldspýtunni, þá hafði súgurinn í ganginum blásið logann til vinstri handar.

„Látum okkur ganga á móti súgnum,“ sagði hann. „Loftið streymir inn, ekki út.“

Við fórum eftir þessu ráði, þreifuðum fyrir okkur með hendinni fram með veggnum og reyndum fyrir okkur með fótum við hvert stig, sem við stigum. Á þann hátt héldum við burt frá bölvaðri fjárhirslunni í okkar voðalegu rannsóknarferð. Ef nokkur lifandi maður skyldi nokkurn tíma koma inn þangað aftur, sem ég held ekki að verði, þá mun hann sjá þess merki, að við höfum þangað komið, á gimsteinakistunum opnum, lampanum tómum og hinum hvítu beinum Foulötu heitinnar.

Þegar við höfðum fálmað okkur áfram eftir göngunum hér um bil einn fjórða hluta klukkustundar, kom skarpur hlykkur á þau, eða þá, að önnur grein lá út úr þeim, og eftir henni fórum við og komumst svo eftir nokkra stund inn í þá þriðju. Og þannig liðu nokkrar klukkustundir. Það virtist svo sem við værum komnir í eitthvert völundarhús úr steini, og að hvergi væri leið út úr því. Auðvitað get ég ekki sagt, hvað öll þessi göng voru, en við héldum, að þetta hlyti að vera gamlar námur, og að göngin mundu liggja hingað og þangað eftir því sem málmurinn hafði legið í jörðinni. Á annan hátt gátum við ekki gert okkur grein fyrir, hvernig standa mundi á öllum þessum fjölda af göngum.

Loksins námum við staðar, alveg yfir komnir af þreytu. Vonin var lömuð og hugrekkið bilað, svo átum við síðasta bitann, sem eftir var af biltonginu, og drukkum síðasta vatnsdropann, því að kok okkar voru orðin líkust kalkofnum. Okkur virtist, sem við hefðum ekki sloppið við dauðann í fjárhirslumyrkrinu til annars en þess að láta lífið í myrkrum jarðgangnanna.

Þegar við stóðum þarna, örvæntingarfyllri en nokkru sinni áður, hélt ég, að ég heyrði hljóð og vakti athygli hinna á því. Það var mjög veikt og mjög langt burtu, en það var hljóð, lágt, suðandi hljóð, því að hinir heyrðu það líka, og engin orð geta lýst því, hvílík sæla var að heyra það eftir allar þessar stundir, sem algerð, voðaleg kyrrð hafði verið umhverfis okkur.

„Guð minn góður! Það er rennandi vatn,“ sagði Good.

„Haldið þið áfram.“

Aftur lögðum við af stað, þangað sem veika suðuhljóðið virtist vera, og þreifuðum okkur áfram eins og áður fram með steinveggjunum. Hljóðið heyrðist æ betur og betur, þangað til okkur virtist það vera orðið talsvert sterkt þar í kyrrðinni. Áfram, áfram enn. Nú gátum við glöggt heyrt nið frá streymandi vatni, þar var ekkert um að villast. Og hvernig gat þó verið rennandi vatn í iðrum jarðarinnar? Nú vorum við rétt komnir að því, og Good, sem var á undan, bölvaði sér upp á, að hann fyndi lyktina af því.

„Farið varlega, Good,“ sagði Sir Henry; „við hljótum að vera rétt hjá því.“ Þá heyrðum við hlunk og sull og hljóð, sem kom frá Good.

Hann hafði dottið í vatnið.

„Good! Good! Hvar eruð þér?“ hrópuðum við hræddir og sorgbitnir. Okkur til innilegrar gleði heyrðum við svarað með rödd, sem lá við köfnun:

„Bíðið við, ég hef náð í klett. Kveikið ljós og sýnið mér, hvar þið eruð.“

Ég flýtti mér að kveikja á síðustu eldspýtunni, sem eftir var. Við daufa glætu af henni sáum við dökkleitt vatn renna við fætur okkar. Við gátum ekki séð, hvað breitt það var, en nokkuð út í því sáum við félaga okkar hanga á framslútandi klettasnös.

„Verið viðbúnir að ná í mig,“ sagði Good, „ég verð að synda það.“

Svo heyrðum við hlunk og að sullað var í vatninu og brotist um fast. Eftir eina mínútu eða svo hafði hann hrifsað eftir hönd Sir Henrys, sem út var rétt, og náð í hana, og við drógum hann upp úr vatninu inn í göngin.

„Það veit hamingjan,“ sagði hann milli þess að hann sótti í sig veðrið, „þar skall hurð nærri hælum. Hefði ég ekki náð í klettinn þann arna og ekki kunnað að synda, þá hefði verið úti um mig. Vatnið sendist áfram eins og það væri í myllustokk, og ég gat engan botn fundið.

Auðséð var að ekki dugði þetta. Good hvíldi sig dálitla stund, og við drukkum lyst okkar úr vatni þessarar undirheima-ár, sem var bragðgott og ferskt, og þvoðum okkur í framan eins vel og við gátum, enda var öll þörf á því fyrir okkur. Svo héldum við frá bökkum þessarar Afríku-Styxar og fórum sömu leiðina sem við höfðum farið. Good var á undan okkur og var óviðfelldið að heyra, hvernig úr honum lak. Loksins komum við að öðrum gangi, sem lá til hægri handar út frá okkur.

„Við getum eins vel farið þessa leið,“ sagði Sir Henry þreytulega, „það er líkt um allar leiðir hér. Við getum aðeins gengið þangað til við hnígum niður.“

Hægt og hægt stauluðumst við lengi lengi eftir þessum nýja gangi; Sir Henry var nú á undan.

Allt í einu nam hann staðar, og við rákum okkur á hann.

„Lítið þið á hvíslaði hann, „er ég að verða brjálaður eða er þetta ljós?“

Við störðum svo fast sem okkur var mögulegt, og það var, já, það var langt framundan okkur blettur, sem daufa glætu bar á, ekki stærra en gluggarúða í litlu húsi. Glætan var svo dauf, að ég efast um, að nokkur augu hefðu getað séð hana, nema þau, sem ekkert höfðu séð nema sorta svo dögum skipti, eins og hér var um að ræða.

Okkur varð einhvern veginn þungt um andardráttinn af voninni, og við ruddumst áfram. Eftir fimm mínútur lék enginn vafi lengur á þessu. Þetta var blettur, sem dauft ljós bar á. Eftir svo sem eina mínútu lék um okkur verulega hreint loft. Áfram þreyttum við. Allt í einu þrengdust göngin. Sir Henry fór á hnén. Enn þrengri urðu þau, þangað til þau voru ekki orðin víðari en stór refahola. Nú er jörð umhverfis okkur, kletturinn er á enda.

Við þrýstum okkur inn og brutumst um, og Sir Henry komst út og við Good líka, og yfir höfðum okkar voru blessaðar stjörnurnar og hreina loftið í vitum okkar. Þá lét allt einu eitthvað undan, og við kútveltumst langa lengi yfir gras og kjarr, og mjúka vota jörð.

Ég náði í eitthvað og nam staðar. Ég settist upp og hrópaði fjörlega. Rétt neðan undan mér kom annað óp, sem svar. Þar hafði Sir Henry stöðvast á sinni fljúgandi ferð, af því að hann hafði lent á einhverjum flötum bletti. Ég skreiddist til hans og fann hann ósærðan, en móðan mjög. Þá skyggndumst við um eftir Good. Spölkorn þar frá fundum við hann líka, og var hann rígfastur í greinóttri trjárót. Hann hafði rekið sig á hér og þar, en náði sér bráðlega.

Við settumst niður þar í grasinu, og umskiptatilfinningarnar voru svo miklar, að ég held beinlínis að við höfum grátið af fögnuði. Við vorum sloppnir út úr þessu voðalega fangelsi, sem svo nærri hafði legið að yrði gröf okkar. Sannarlega hlaut eitthvert náðarsamlegt æðra vald að hafa stýrt fótum okkar til þessarar sjakalaholu við endann á göngunum (því að þar hlýtur hún að hafa verið). Og sjá, þar á fjöllunum skein rósrauð dagsbirtan, sem við höfðum ekki gert okkur von um að sjá nokkurn tíma framar.

Svo fór grátt ljósið að laumast niður eftir brekkunum, og við sáum að við vorum staddir í botninum, eða öllu heldur nálægt botninum á gryfjunni miklu framundan dyrunum á hellinum. Nú gátum við greint þrjár svörtu, risavöxnu myndirnar, sem voru á brúninni. Vafalaust höfðu þessi voðalegu göng, sem við höfðum reikað um alla liðlanga nóttina, upprunalega staðið á einhvern hátt í sambandi við miklu demantanámurnar. En að því er ánni í iðrum fjallsins við kemur, þá veit guð einn, hvað hún var eða hvaðan hún kemur, eða hvert hún rennur. Mér er fyrir mitt leyti ekkert annt um að rannsaka farveg hennar.

Það var bjartara og bjartara. Nú gátum við séð hver annan, og aðra eins sjón og við vorum hef ég aldrei litið fyrr né síðar. Kinnfiskasognir, inneygðir garmar vorum við, allir þaktir ryki og leðju, marðir og blóðugir. Hræðslan við yfirvofandi dauða stóð enn rituð á andlitum okkar, og það hefði sannarlega ekki verið undarlegt, þó að dagsljósið hefði orðið hrætt við okkur. Og þó er það heilagur sannleikur, að glerauga Goods var enn fast við augað á honum. Ég efast um, að hann hafi nokkurn tíma tekið það af sér. Hvorki myrkrið, né hlunkurinn í ána niðri í jörðinni, né veltingin ofan brekkuna gat aðskilið Good og gleraugað hans.

Við stóðum nú upp, því að við vorum hræddir um að limir okkar kynnu að stirðna, ef við stæðum þar lengur við. Hægt og hægt fórum við að berjast við að komast upp brekkuna að miklu gryfjunni, og var það þrautaferð. Eina klukkustund eða meira þreyttum við látlaust upp eftir bláa leirnum og létum ræturnar og grasið, sem hann var hulinn með, hjálpa okkur til að dragast áfram.

Loksins tókst okkur að komast upp, og við stóðum á veginum mikla, beint á móti standmyndunum stórvöxnu, gryfjunnar megin við þær.

Utan við veginn, eina 50 faðma frá okkur, logaði eldur fyrir framan nokkra kofa, og umhverfis eldinn voru menn. Við héldum í áttina til þeirra, studdumst hver við annan og staðnæmdust í hvert skipti, sem við höfðum gengið nokkur skref. Allt í einu stóð einn af mönnunum upp, sá okkur og féll til jarðar, hrínandi af hræðslu.

„Infadoos, Infadoos! Það erum við, vinir þínir.“

Hann stóð upp, hljóp til okkar, glápti á okkur æðislega og skalf af ótta.

„Ó, lávarðar mínir, lávarðar mínir, þið eruð þá í sannleika komnir aftur frá hinum dauðu! – Komnir aftur frá hinum dauðu!“

Og gamli bardagamaðurinn fleygði sér niður fyrir framan okkur, faðmaði knén á Sir Henry og grét af fögnuði.


XIX. KAPITULI. - KVEÐJA IGNOSIS.

Tíu dögum eftir þennan minnisstæða morgun vorum við enn einu sinni í okkar gömlu híbýlum í Loo. Þó að undarlegt megi virðast, þá vorum við hér um bil jafngóðir eftir okkar voðalegu raunir, nema hvað hárstúfarnir á mér komu talsvert grárri út úr hellinum en þeir höfðu farið inn í hann, og að Good var aldrei alveg sami maður eftir dauða Foulötu, sem virtist hafa fengið mjög mikið á hann. Ég verð að segja það, að þegar ég lít á málið frá sjónarmiði veraldarmanns með gömlum skoðunum, þá virðist mér fráfall hennar heppilegur atburður, því að annars er áreiðanlegt, að vafningar hefðu orðið úr öllu saman. Veslings stúlkan var ekki eins og Kúkúanastúlkur gerast svona upp og niður, heldur hafði hún mikla, mér liggur við að segja tígulega, fegurð til að bera og allnæmar tilfinningar. En hve mikla fegurð og hve næmar tilfinningar sem um var að ræða, þá gat ekki verið ákjósanlegt, að Good færi að bindast henni, því að „sólin getur ekki átt við myrkrið, né heldur það hvíta við það svarta,“ eins og hún sjálf sagði.

Ég þarf naumast að taka það fram, að við komumst aldrei inn í fjárhirslu Salómons. Eftir að við höfðum hvílt okkur – og til þess þurftum við 48 klukkustundir, fórum við ofan miklu gryfjuna í þeirri von að finna holuna, sem við höfðum skriðið út um út úr fjallinu, en okkur tókst það ekki. Fyrst og fremst hafði rignt og regnið afmáð spor okkar, og auk þess voru brekkurnar fullar af holum eftir mauragleipur og önnur kvikindi. Það var ómögulegt að segja, hver af þessum hefði orðið okkur til lífs. Daginn áður en við lögðum upp til Loo, rannsökuðum við líka betur dásemdir stuðlabergs-hellisins, og það var eins og einhver hvíldarlaus tilfinning drægi okkur áfram, svo að við fórum jafnvel aftur inn í dauðrasalinn. Við gengum undir spjót Dauðans og störðum með tilfinningum, sem mér væri ómögulegt að lýsa, á hamarinn, sem lokaði fyrir okkur útgöngunni. Við hugsuðum um stund um hina einskisverðu fjársjóðu hinum megin við klettinn, um leyndardómsfullu gömlu nornina, sem lá útflött og kramin undir honum, og um fallegu stúlkuna, sem hafði þennan klett fyrir hlið á haugi sínum. Ég segi, að við höfum starað á klettinn, því að þó við vildum rannsaka hann, þá gátum við ekki séð neinn vott samskeytanna. Þetta var sannarlegt aflfræðislegt snilldarverk, og með sinni stórkostlegu en þó óskiljanlegu einfeldni einkenndi það tíma þá, sem höfðu framleitt það, og ég efast um, að annað eins sjáist nokkurs staðar í veröldinni.

Loksins hættum við í gremju, þó að ég efist um að við hefðum haft hugrekki til að stíga yfir knosuðu leifarnar af Gagool og fara aftur inn í fjárhirsluna, jafnvel þótt kletturinn hefði allt í einu hafist upp fyrir augum okkar, og við hefðum haft alveg vissa von um ógrynni af demöntum. Og þó hefði ég getað grátið af hugsuninni um það, að skilja alla þá fjársjóðu eftir, að líkindum þá mestu fjársjóðu, sem nokkurn tíma hefur verið haugað saman á einum stað síðan veröldin var sköpuð. En við því varð ekki gert. Ómögulegt var að komast gegnum fimm fet af sprungulausum hamri nema með dynamiti. Og svo hurfum við þar frá. Vera má að einhverjum heppnari rannsóknamanni, langt fram í öldum, kunni að takast að opna þennan Sesam og fylla heiminn af gimsteinum. En ég fyrir mitt leyti efast um það. Mér finnst einhvern veginn eins og þessir gimsteinar, sem jafngilda mörgum milljónum sterlingspunda og liggja þarna í þremur steinkistum, muni aldrei ljóma við háls jarðneskrar konu. Þeir og bein Foulötu munu halda saman, þó að dauf sé vistarveran, þangað til endir allra hluta kemur.

Við andvörpuðum af óánægju og héldum aftur, og næsta dag lögðum við af stað til Loo. Og þó var það í raun og veru mjög mikið vanþakklæti af okkur, að vera óánægðir, því að eins og lesarinn mun kannast við hafði ég til allrar hamingju verið svo forsjáll að fylla vasana á gömlu veiðitreyjunni minni með demanta áður en við fórum út úr prísund okkar. Margir þeirra höfðu dottið úr vösunum, þegar við ultum ofan brekkurnar að gryfjunni, og þar á meðal voru flestir stóru steinarnir, sem ég hafði hrúgað ofan á. En tiltölulega voru ósköpin öll eftir, þar á meðal 18 stórir steinar, frá hér um bil 130 karata þyngd. Í gömlu veiðitreyjunni minni sátu enn nóg auðæfi til þess að gera okkur alla, ef ekki að milljónaeigendum, þá að minnsta kosti að stórauðugum mönnum, og þó gátum við haldið eftir handa sjálfum okkur nógum steinum til að eignast hver um sig fegurra gimsteinadjásn, en til var í Norðurálfunni. Okkur hafði því ekki farnast svo illa.

Þegar við komum til Loo, veitti Ignosi okkur hinar hjartanlegustu viðtökur. Honum leið vel, og hann var önnum kafinn við að styrkja vald sitt, og koma aftur skipulagi á herflokka þá, sem harðast höfðu orðið úti í hinni miklu sennu við Twala.

Hann hlustaði frá sér numinn á kynjasögu okkar, en þegar við sögðum honum af hinni voðalegu endalykt Gagoolar gömlu, þá varð hann hugsi.

„Kom þú hingað,“ kallaði hann til mjög gamals induna eða ráðgjafa, sem sat ásamt öðrum í hring utan um konunginn, en svo langt frá, að ekki heyrðist þangað það sem talað var. Karlinn stóð upp, gekk nær og heilsaði og settist niður.

„Þú ert gamall,“ sagði Ignosi.

„Já, herra konungur!“

„Segðu mér, þekktir þú Gagool, galdrakonuna, þegar þú varst lítill?“

„Já, herra konungur!“

„Hvernig var hún þá – ung eins og þú?“

„Nei, herra konungur! Hún var alveg eins og nú, gömul og skorpin, mjög ljót og full af illmennsku.“

„Hún er ekki lengur til, hún er dauð.“

„Er það svo, konungur? Þá er bölvun numin burt frá þessu landi.“

„Far þú!“

„Koom! Ég fer, þú dökki ungi hundur, sem sviptir sundur koki gamla hundsins. Koom!“

„Þið sjáið, bræður mínir,“ sagði Ignosi, „að þetta var undarleg kona, og ég fagna yfir því, að hún skuli vera dauð. Hún mundi hafa látið ykkur deyja í þessu myrkraskoti, og vera kann, að henni hefði síðar tekist að drepa mig eins og henni tókst að drepa föður minn og setja Twala, sem hún elskaði, í sæti hans. Haldið þið nú áfram með söguna. Sannarlega hefur aldrei hennar líki heyrst.“

Eftir að ég hafði sagt alla söguna af því, hvernig við sluppum, notaði ég tækifærið, eins og við höfðum áður komið okkur saman um að ég skyldi gera, til þess að tala við Ignosi um burtför okkar frá Kúkúanalandi.“

„Og nú er tíminn kominn, Ignosi, til þess að kveðja þig og leggja af stað til þess að leita okkar eigin lands. Sjá þú, Ignosi, þú komst með okkur sem þjónn, og nú skiljum við við þig sem voldugan konung. Ef þú ert okkur þakklátur, þá mundu að breyta eins og þú lofaðir: stjórna réttvíslega, virða lögin og lífláta engan að ástæðulausu. Þá mun þér vel farnast. Vilt þú í dögun á morgun ljá okkur fylgdarmenn, sem fari með okkur yfir fjöllin? Er ekki svo, konungur?“

Ignosi huldi andlitið í höndum sér áður en hann svaraði.

„Hjarta mitt er sárt,“ sagði hann loksins; „orð ykkar höggva hjarta mitt sundur í tvennt. Hvað hef ég gert ykkur. Incubu, Macumazahn og Bougwan, að þið skulið skilja mig eftir yfirgefinn? Þið, sem fylgduð mér í uppreisn og orrustu, ætlið þið að yfirgefa mig á degi friðar og sigurs? Hvað viljið þér – konur? Veljið hverjar sem þið viljið í landinu! Stað til að búa á? Sjáið, landið er ykkar, eins langt og þið getið séð. Hús hvítra manna? Kennið lýð mínum að reisa þau. Kvikfé til steikur og mjólkur? Hver kvæntur maður skal færa ykkur uxa eða kú. Villidýr til veiða? Fer ekki fíllinn um skógana mína og sefur ekki vatnahesturinn í sefinu? Viljið þið heyja stríð? Herflokkar mínir hlýða skipunum ykkar. Sé nokkuð frekar, sem ég gæti veitt ykkur, þá mun ég veita ykkur það.“

„Nei, Ignosi, þetta viljum við ekki,“ sagði ég. „Við vildum leita okkar eigin heimkynna.“

„Nú skil ég,“ sagði Ignosi gremjulega og var eins og eldur brynni úr augum hans, „það eru björtu steinarnir, sem þið elskið meira en mig, vin ykkar. Þið hafið náð í steinana, og nú viljið þið fara til Natal og yfir dökkva vatnið ókyrra og selja þá, og verða ríkir, eins og hjörtu hvítra manna jafnan þrá. Bölvaðir séu steinarnir ykkar vegna og bölvaður sá, sem leitar þeirra. Ég hef lokið máli mínu, hvítu menn. Þið getið farið.“

Ég lagði hönd mína á handlegginn á honum. „Ignosi,“ sagði ég, „segðu mér, hvort hjarta þitt dróst ekki að landi því, sem móðir þin hafði sagt þér frá, þegar þú reikaðir um Zúlú-land og meðal hvítra manna í Natal? Dróst ekki hjarta þitt til ættjarðar þinnar, þar sem þú fyrst hafðir séð dagsljósið og leikið þér, þegar þú varst lítill, til landsins, þar sem þú áttir heima?“

„Svo var það, Macumazahn.“

„Þannig dragast okkar hjörtu að okkar landi og okkar heimkynnum.“

Þá varð þögn. Þegar Ignosi rauf hana, þá var rödd hans öðru vísi en hún hafði verið.

„Ég sé það, að orð þín eru, eins og ávallt endranær viturleg og full af skynsemi, Macumazahn. Það sem flýgur í loftinu kann ekki við að hlaupa eftir jörðinni, hvítu mennirnir kunna ekki við að lifa eins og dökkir menn. Jæja, þið verðið að fara og skilja hjarta mitt eftir í sárum, af því að þið eruð eins og dauðir fyrir mig, því að engin tíðindi geta borist til mín, þaðan sem þið verðið.

„En takið eftir og látið alla hvíta menn vita það, sem ég segi. Enginn annar hvítur maður skal fara yfir fjöllin, enda þótt honum auðnaðist að fara svo langt. Ég vil enga prangara hafa með þeirra byssum og rommi. Minn lýður skal berjast með spjótinu og drekka vatn eins og forfeður þeirra hafa áður gert. Ég vil enga bænamenn, sem komi ótta við dauðann inn í hjörtu karlmannanna og spani þá upp á móti konunginum, og byggi veg fyrir hvíta menn að fara eftir. Komi hvítur maður til minna hliða, þá mun ég senda hann aftur, komi hundruð, þá rek ég þá aftur, komi herlið, þá mun ég berjast á móti því með öllu mínu afli, og það skal ekki vinna sigur yfir mér. Enginn skal nokkurn tíma koma eftir skínandi steinum, nei, þó að herlið komi, þá skyldi það ekki verða til neins, því að ef það skyldi koma, þá skyldi ég senda herflokk og fylla upp gryfjuna og brjóta niður hvítu súlurnar í hellinum og fylla þá, með stórbjörgum, svo að enginn skuli einu sinni geta komist að hurðinni, sem þið talið um, og sem enginn veit framar hvernig á að opna. Aðeins fyrir ykkur þrjá, Incubu, Macumazahn og Bougwan, er vegurinn ávallt opinn. Þið sjáið, að þið eruð mér kærri en nokkuð annað, sem andann dregur.

„Og þið vilduð fara. Infadoos, föðurbróðir minn, og ráðherra minn, skal taka í hönd þína og vísa þér veginn, ásamt með einum herflokki. Eftir því sem ég hef komist eftir, er annar vegur yfir fjöllin, sem hann mun sýna þér. Farið vel, bræður mínir, hraustu, hvítu menn. Finnið mig ekki aftur, því að ég hef ekki þrek til að bera það. Sjáið, ég gef út skipan, og hún skal verða birt frá fjöllum til fjalla. Nöfn ykkar, Incubu, Macumazahn og Bougwan, skulu vera álitin sem nöfn dauðra konunga, og hver sem nefnir þau, skal deyja.8 Þannig skal minning ykkar haldast í landinu um allan aldur.

„Farið nú, áður en augu mín rigna tárum, eins og kvennaaugu. Stöku sinnum, þegar þið lítið aftur á lífsferli ykkar, eða þegar þið eruð orðnir gamlir og þyrpist saman til að hnipra ykkur utan um eldinn, af því enginn hiti er lengur að sólinni, þá munuð þið hugsa um, hvernig við stóðum hlið við hlið í bardaganum mikla, sem þú lagðir svo viturleg ráð á um, Macumazahn, um það hvernig þú, Bougwan, varst oddurinn á því horni, sem særði hliðarfylking Twala, og um það, hvernig þú, Incubu, stóðst innan um Grámennina, og hvernig menn féllu fyrir öxi þinni eins og kornstangir fyrir sigð, og um það, hvernig þú bugaðir styrkleik hins ólma nauts (Twala), og lést dramb hans falla í duftið. Farið þið ávallt vel, Incubu, Macumazahn og Bougwan, lávarðar mínir og vinir mínir.“

Hann stóð upp, horfði á okkur alvarlegur fáeinar sekúndur og fleygði svo skikkjulafi sínu yfir höfuð sér eins og hann væri að hylja með því andlit sitt fyrir okkur.

Við gengum burt þegjandi.

Daginn eftir lögðum við upp frá Loo í dögun, og með okkur fór okkar gamli vinur, Infadoos, harmþrunginn af burtferð okkar, og herflokkur Vísundanna. Þó að við værum svo snemma á ferðinni, stóðu manngrúaraðir eftir öllu aðalstræti bæjarins, og þegar við fórum framhjá þeim á undan herflokknum, fengum við frá þeim konunglegu kveðjuna, en konurnar blessuðu okkur fyrir að hafa frelsað landið frá Twala, og köstuðu blómum fyrir fætur okkar.

Það var í sannleika mjög átakanlegt, og allt öðru vísi en það, sem menn eiga að venjast frá hálfu Afríkumanna.

Þó kom eitt mjög skringilegt atvik fyrir, sem mér þótti fremur vænt um, því að það gaf okkur tilefni til að hlægja.

Rétt þegar við vorum komnir að takmörkum bæjarins, kom lagleg, ung stúlka hlaupandi að okkur. Hún hélt á nokkrum ljómandi fallegum liljum í hendinni og rétti Good þær (það var einhvern veginn eins og þeim litist öllum vel á Good. Ég held að gleraugað hans og kinnskeggið öðru megin hafi gefið honum eitthvert svikagildi), og svo sagði hún, sig langaði til að biðja hann bónar.

„Talaðu.“

„Lávarður minn sýni þernu sinni sína yndishvítu fótleggi svo að þerna hans geti horft á þá og minnst þeirra alla sína daga og sagt börnum sínum frá þeim. Þerna hans hefur farið fjórar dagleiðir til þess að sjá þá, því að frægð þeirra hefur borist út um allt landið.“

„Fari ég þá grenjandi,“ sagði Good og var mikið niðri fyrir.

„Gerið þér það, gerið þér það, blessaður karlinn,“ sagði Sir Henry. „Þér getið ekki skorast undan að gera stúlku ofurlítinn greiða.“

„Ég geri það ekki,“ sagði Good þrákelknislega, „það er hreint og beint ósæmilegt.“

Samt sem áður fékkst hann loksins til að draga buxnaskálmina upp að hnénu. Allar konur, sem viðstaddar voru, létu í ljósi hjartanlega aðdáun, og einkum unga stúlkan, sem þetta var gert fyrir og svona varð hann að ganga þangað til við komumst alveg út úr bænum.

Ég er hræddur um, að fótleggir Goods verði aldrei framar dáðir jafn stórkostlega. Fólk varð meira og minna þreytt á hans hreyfanlegu tönnum og „gagnsæja auga,“ en aldrei á fótleggjum hans.

Á leiðinni sagði Infadoos okkur, að annar vegur væri yfir fjöllin en sá, sem þjóðvegur Salómons var áframhald af, eða öllu heldur, að til væri staður, þar sem mögulegt væri að klifrast ofan af þeim klettavegg, sem aðskildi Kúkúanaland frá eyðimörkinni, og sem skiptist í tvennt milli tindanna á Brjóstum Shebu. Það kom líka upp úr kafinu, að fyrir nokkru meira en tveimur árum höfðu veiðimenn frá Kúkúanalandi farið eftir þessum stíg niður í eyðimörkina, og voru þeir að leita að strútum, því að fjaðrir þeirra voru mjög mikils metnar sem höfuðbúnaður hermanna. Þessir veiðimenn höfðu lent langt frá fjöllunum og komist í miklar raunir af þorsta. En þeir sáu tré bera við sjóndeildarhringinn, stefndu þangað og fundu stóra og frjósama grasey, nokkrar mílur á stærð, og þar voru gnægðir vatns. Hann áleit, að við ættum að leggja leið okkar yfir þessa grasey, og okkur virtist það heillaráð, því að það sýndist svo sem við gætum á þann veg komist hjá gaddhörkunum í fjallaskarðinu, og eins voru nokkrir af veiðimönnunum þar til með að fylgja okkur til graseyjarinnar. Þeir fullyrtu líka, að frá henni hefðu þeir getað séð frjósama bletti úti í eyðimörkinni.9

Við fórum í þægilegum dagleiðum, og að kveldi fjórða ferðadagsins vorum við aftur komnir á hrygg fjalla þeirra, sem aðskilja Kúkúanaland og eyðimörkina, sem lá í sandöldum fyrir fótum okkar, og vorum við þá hér um bil 20 mílur norður af Brjóstum Shebu.

Daginn eftir í dögun vorum við komnir þangað, sem vegur okkar fór að liggja ofan eftir þverhnípinu, til þess við skyldum geta náð eyðimörkinni, sem var meir en tvö húsund fet frá okkur.

Þar kvöddum við okkar trygga vin og gamla staðfasta bardagamann, Infadoos, sem hátíðlega óskaði okkur alls góðs, og nærri því grét af sorg.

„Aldrei, lávarðar mínir, munu mín gömlu augu sjá ykkar líka aftur,“ sagði hann. „Ó! hvernig Incubu brytjaði mennina niður í bardaganum. Ó, hvílík sjón, þegar hann sneið í einu höggi höfuðið af Twala, bróður mínum! Það var yndislegt – yndislegt! Ég get ekki vonast eftir að sjá aðra eins sjón, nema ef vera skyldi í sælum draumum.

Okkur þótti sannarlega mikið fyrir að skilja við hann, og Good komst meira að segja svo við, að hann gaf honum til endurminningar um sig – hvað haldið þið? Glerauga. (Síðar komst ég að því, að hann hafði haft það með sér til vara). Infadoos var frá sér numinn af fögnuði, því að hann sá fyrir, að það mundi auka álit sitt frámunalega, að eiga annan eins hlut, og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir tókst honum loksins, að skrúfa gleraugað fast við augað á sjálfum sér. Ég hef aldrei séð neitt eins sundurleitt eins og gamla bardagamanninn með glerauga. Gleraugu eiga ekki vel við kápur úr hlébarðaskinnum og svartar strútsfjaðrir.

Eftir að við svo höfðum séð, að fylgdarmenn okkar voru vel búnir með vatn og matvæli og höfðum fengið þrumandi kveðju frá Vísundunum, tókum við ósleitilega í hönd gamla bardagamannsins og fórum að klifrast niður á við. Okkur reyndist það örðugt ferðalag, en einhvern veginn vorum við þó komnir ofan á jafnsléttu um kveldið slysalaust.

„Vitið þér nokkuð,“ sagði Sir Henry það kveld, þegar við sátum við eldinn okkar og gláptum á þverhníptu klettana fyrir ofan okkur – „Ég held það séu til verri staðir í heiminum en Kúkúanaland, og að ég hafi lifað leiðinlegri stundir en þennan síðasta mánuð, þó að ég hafi aldrei lifað undarlegri tíma. Hvað finnst ykkur?“

„Það liggur við, að ég vildi vera horfinn þangað aftur,“ sagði Good og stundi við.

Af sjálfum mér er það að segja, að ég hugsaði sem svo, að allt væri gott, þegar endirinn er góður, en þó að ég hefði oft komist í hann krappan, þá hafði ég þó aldrei komist hann jafnkrappan á ævi minni eins og þá fyrir skemmstu. Það fer enn hrollur um mig allan, Þegar ég hugsa um orrustuna góðu og að því er viðkemur raunum okkar í fjársjóðaherberginu.

Næsta morgun lögðum við af stað út í eyðimörkina, og var það örðug ferð. Okkar fimm fylgdarmenn báru góðan forða af vatni, og um kveldið settumst við að undir beru lofti og lögðum af stað aftur í dögun morguninn eftir.

Um hádegi á þriðja ferðadegi okkar gátum við séð til graseyjar þeirrar, sem fylgdarmenn okkar höfðu talað um, og hér um bil einni stundu fyrir sólsetur höfðum við enn gras undir fótunum og fengum að heyra nið rennandi vatns.


XX. KAPITULI. - FUNDINN.

Og nú kem ég að því atriði, sem ef til vill var undarlegast af því, sem henti okkur á allri þessari undarlegu ferð, og það atriði sýnir, hve dásamlega hlutunum er hagað og fyrir komið.

Ég labbaði áfram í hægðum mínum á undan hinum tveimur félögum mínum ofan eftir bökkum ár þeirrar, sem rann frá graseyjunni, þangað til hinir hungruðu sandar eyðimerkurinnar gleyptu hana í sig. Þá nam ég allt í einu staðar og nuggaði á mér augun eins vel og ég gat. Þar stóð ekki fulla tíu faðma fram undan mér, laglegur kofi á ljómandi fallegum stað, í skugga eins konar fíkjutrés og sneri framhliðin á honum fram að ánni. Kofinn var að mestu leyti eins og tíðkaðist meðal Kafíra úr grasi og tágum. Munurinn var aðeins sá, að dyrnar voru fullháar í stað þeirrar býflugnaholu, sem Kafírarnir hafa fyrir dyr á húsum sínum.

„Hvernig í þremlinum getur staðið á því,“ sagði ég við sjálfan mig, „að hér skuli vera kofi?“ Rétt í sama bili og ég sagði það, var dyrunum á kofanum lokið upp, og út úr honum hökti hvítur maður í skinnfötum og með feikilega mikið dökkt skegg. Ég hélt ég hlyti að vera orðinn brjálaður. Þetta var ómögulegt. Aldrei kom nokkur veiðimaður til annars eins staðar og þessa. Að minnsta kosti var það áreiðanlegt, að aldrei mundi nokkur veiðimaður fara að setjast þar að. Ég starði og starði, og það gerði hinn maðurinn líka, og rétt því bili komu þeir Sir Henry og Good að mér.

„Lítið þið á,“ sagði ég, „er þetta hvítur maður, eða er ég orðinn vitlaus?“

Sir Henry horfði og Good horfði, og svo rak allt í einu hvíti maðurinn upp hljóð, og hökti til móts við okkur. Þegar hann var kominn fast að okkur, hneig hann niður í nokkurs konar yfirliði.

Sir Henry stökk fram og stóð á sömu svipstundu við hlið mannsins.

„Drottinn minn góður,“ hrópaði hann. „Það er hann George bróðir minn!“

Þegar hljómurinn af ókyrrleikanum við þetta atvik barst til kofans, kom annar maður út úr honum, líka klæddur í skinn, með byssu í hendinni. Hann kom þjótandi til okkar. Þegar hann sá mig, rak hann líka upp hljóð.

„Macumazahn,“ hrópaði hann, „þekkið þér mig ekki, Baas? Ég er Jim, veiðimaðurinn. Ég týndi miðanum, sem þér fenguð mér til Baasans, og hér höfum við verið næstum því tvö ár.“ Og manntetrið féll mér til fóta og veltist fram og aftur, grátandi af fögnuði.

„Ólukkans klaufinn,“ sagði ég, „þú ættir skilið að verða duglega strýktur.“

Meðan þessu fór fram, hafði maðurinn með mikla skeggið náð sér aftur og komist á fætur, og hann og Sir Henry voru nú að faðma hvor annan, og það var eins og þeim gæti ekkert dottið í hug að segja. En hvað sem það nú hefur verið, sem þeir hafa deilt um áður – mig grunar, að það muni hafa verið kona, þó að ég hafi aldrei um það spurt –, þá var auðséð, að það var allt gleymt nú.

„Bróðir minn, elskulegur,“ sagði Sir Henry loksins, þegar hann fyrst kom upp orði. „Ég hélt að þú værir dauður. Ég fór yfir Salómonsfjöllin til að leita að þér, og nú rekst ég á þig sitjandi í eyðimörkinni eins og gamlan aasvogel“ (gamm)

„Ég reyndi að komast yfir Salómonsfjöllin fyrir nærri því tveimur árum,“ svaraði hinn, og röddin var hikandi, eins og maðurinn hefði ekki nýlega haft mikið tækifæri til að nota tunguna, „en þegar ég kom hingað datt steinn á fótinn á mér og braut hann, og síðan hef ég hvorki getað komist áfram eða aftur.“

„Þá kom ég til þeirra. „Komið þér sælir, Mr. Neville,“ sagði ég, „munið þér eftir mér?“

„Hvað er þetta!“ sagði hann, „er þetta ekki Quatermain – og Good líka? Bíðið þið við ofurlítið, piltar, mig er farið að svima aftur. Þetta er allt svo fjarskalega undarlegt, og þar sem maður hafði hætt að vona, svo fjarskalega gleðilegt.“

Um kveldið sagði George Curtis okkur sögu sína við eldinn. Hún var á sinn hátt nærri því eins viðburðarík eins og okkar eigin saga, og var í stuttu máli á þessa leið: Fyrir litlu minna en tveimur árum hafði hann lagt á stað frá Sitandas Kraal til þess að reyna að ná fjöllunum. Af miðanum, sem ég hafði sent honum með Jim, er það að segja, að sá náungi hafði týnt honum, og George Curtis hafði aldrei heyrt um hann getið, fyrr en þennan dag. En hann hafði farið eftir leiðbeiningum, sem hann hafði fengið frá þarlendum mönnum, og ekki haldið til Brjósta Shebu, heldur til brekkunnar, sem við höfðum einmitt farið ofan í þessari ferðinni, sem var líkust stiga, og sem auðsjáanlega var betri vegur, heldur en sá, sem sýndur var á uppdrætti gamla donsins, Silvestre. Á eyðimörkinni hafði hann og Jim þolað miklar þrautir, en loksins höfðu þeir komist til þessarar graseyjar, og þar vildi George Curtis hræðilegt slys til. Sama daginn sem þeir höfðu þangað komið, hafði hann setið við ána, og Jim var að ná hunangi úr búri býflugu einnar, sem ekki stingur, og sem til er í eyðimörkinni, efst uppi á bakkanum beint fyrir ofan Curtis. Þegar hann var að því, losaði hann um stóran hnullung, sem datt ofan á hægri fótinn á George Curtis og molaði hann hroðalega. Upp frá þeim degi hafði hann verið svo draghaltur, að honum hafði verið ómögulegt að komast fram eða aftur, og hann hafði heldur kosið áhættuna að deyja þar á graseynni, heldur en vissuna um að láta lífið í eyðimörkinni.

Annars hafði þeim gengið vel að afla sér matvæla, því að þeir höfðu verið vel útbúnir með skotfæri, og mikill fjöldi veiðidýra sótti til eyjarinnar, einkum á nóttum. Til þess að leita að vatni. Þessi dýr skutu þeir, eða veiddu þau í leynigryfjum, og höfðu ketið sér til matar og skinnið til klæðnaðar, eftir að þeir höfðu slitið út fötum sínum.

Hann lauk máli sínu á þessa leið: „Og þannig höfum við lifað nálega í tvö ár, líkt og Robinson Crusoe og fylgdarmaður hans, Frjádagur, höfum við vonað í einhverri vitleysu, að einhverjir hérlendir menn kynnu að koma hingað og hjálpa okkur á burt, en engir hafa komið. Og nú síðastliðna nótt afréðum við, að Jim skyldi yfirgefa mig, reyna að komast til Sitandas Kraal og ná í hjálp þaðan. Hann átti að fara á morgun, en ég hafði litla von um að sjá hann nokkurn tíma aftur. Og nú eru það einmitt þið, sem ég bjóst við að munduð hafa fyrir löngu gleymt öllu, sem mig áhrærði, og lifa þægilegu lífi í gamla Englandi – nú eruð þið það, sem rekist hingað og finnið mig, þar sem þið síst áttuð von á. Þetta er það undarlegasta, sem ég hef nokkurn tíma heyrt getið um, og jafnframt sú mesta guðs mildi.“

Þá tók Sir Henry að segja honum aðalatriðin úr ævintýrum okkar, og hann sat uppi við það langt fram á nótt.

„Það munar ekki um það,“ sagði hann, þegar ég sýndi honum nokkra af demöntunum. „Jæja, þið hafði þá að minnsta kosti haft eitthvað upp úr ykkar þrautum fyrir utan mig, sem ekki er nú mikið gefandi fyrir.“

Sir Henry hló. „Quatermain og Good eiga þá. Það var eitt af skilyrðunum, að þeir skyldu skipta með sér hverju því, sem okkur kynni að auðnast að ná í.“

Við þessa athugasemd varð ég hugsi, og eftir að ég hafði talað við Good, sagði ég Sir Henry, að okkur hefði komið saman um að æskja þess, að hann tæki þriðja partinn af demöntunum, eða, ef hann vildi það ekki, að hans hlutur yrði afhentur bróður hans, sem hafði jafnvel þolað meiri þrautir en við í því skyni að reyna að ná í þá. Að lokum tókst okkur að fá hann til að fallast á þetta, en George Curtis vissi ekkert um það þangað til nokkru síðar.

*

Og nú held ég, að ég slái botninn í þessa sögu. Ferð okkar yfir eyðimörkina aftur til Sitandas Kraal var framúrskarandi erfið, einkum þar sem við urðum að hjálpa George Curtis, sem mjög var veikur í hægra fætinum, enda gengu stöðugt beinflísar út úr honum, en einhvern veginn tókst okkur að komast þá leið, og færi ég að segja þá ferðasögu nákvæmlega, yrði hún að miklu leyti endurtekning af því, sem henti okkur í fyrra skiptið, þegar leið okkar lá um eyðimörkina.

Þegar við komum aftur til Sitandas Kraal, voru byssur okkar óskemmdar og aðrir munir okkar, en gamli þorparinn sem hafði geymt þær, var mjög gramur út af því að okkur skyldi hafa orðið lífs auðið, svo að við gátum gengið eftir þeim. Sex mánuðum síðar vorum við allir komnir heilu og höldnu til litla hússins míns í Berea, nálægt Dúrban; þar er ég nú að skrifa og þaðan kveð ég alla þá, sem hafa fylgt mér á þeirri undarlegustu ferð, sem ég hef nokkurn tíma farið, þó margt og misjafnt hafi fyrir mig komið.

Rétt þegar ég hafði skrifað síðasta orðið, kom Kafíri einn eftir appelsínutrjágöngunum mínum og færði mér bréf, sem hann hafði tekið á pósthúsinu. Það reyndist vera frá, Sir Henry, og með því að það þarf engra skýringa við, þá læt ég það koma hér orði til orðs.

„Brayley Hall, Yorkshire.
„Kæri Quatermain minn.
„Ég sendi yður línu með póstinum fyrir skömmu síðan til þess að láta yður vita, að við þrír, George, Good og ég vorum komnir heilu og höldnu til Englands. Við stigum á land við Southampton og fórum inn í bæinn. Þér hefðuð átt að sjá, hve prýðilega Good var til fara næsta dag, ágætlega rakaður, í lafafrakka, sem féll að líkamanum eins og skinnhanski, spánýtt glerauga o.s.frv., o.s.frv. Ég fór og gekk með honum í lystigarðinum og mætti þar nokkrum mönnum, sem ég þekkti, og sagði þeim þegar söguna af hans „yndishvítu fótleggjum.“
„Hann er hamslaus út af því, einkum vegna þess að einhver þorparinn hefur sett þetta á prent í blað, sem lesið er af heldra fólki.
„Svo að ég komi nú að bréfsefninu, þá fórum við Good með demantana til Streeters, til þess að fá þá virta, eins og við höfðum komið okkur saman um, og ég er í raun og veru hræddur við að segja yður, hvað þeir möttu þá, það sýnist svo feikilegt. Þeir segja, að auðvitað sé það meira eða minna ágiskun, því aldrei hafi svo að þeir viti neitt svipaður fjöldi af öðrum eins steinum verið boðinn til sölu í einu í heiminum. Það virðist svo sem þeir séu, að undanteknum tveimur af þeim stærstu, af bestu tegund, og jafnist að öllu leyti við bestu steina frá Brasilíu. Ég spurði þá, hvort þeir vildu kaupa þá, en þeir sögðu, að það væri sér um megn, og ráðlögðu okkur að selja smátt og smátt, því að annars kynnum við að fylla markaðinn. Samt sem áður bjóða þeir 180 þúsund pund fyrir lítinn part af þeim.
„Þér verðið að koma heim, Quatermain, og hafa eftirlit með þessu, einkum ef þér haldið því fram, að gefa George bróður mínum þriðja hlutinn, sem ekki heyrir mér til, og sem yrði stórkostleg gjöf. Af Good er það að segja, að hann er til einskis. Hann er alltaf önnum kafinn við að raka sig og annað, sem stendur í sambandi við fánýta dýrkun líkamans. En ég held, að hann sé alltaf hnugginn út úr Foulötu. Hann hefur sagt mér, að síðan hann hafi komið heim, hafi hann ekki séð nokkra konu, sem komist í hálfkvisti við hana, hvorki að vaxtarlagi né svipfegurð.
„Ég vil fá yður til að koma heim, kæri, gamli félagi minn, og kaupa stað hér nálægt. Þér hafið unnið yðar dagsverk og hafið nú firn af peningum, og nú er staður til sölu rétt hér hjá, sem mundi henta yður ágætlega. Gerið svo vel að koma, því fyrr því betra. Þér getið lokið við að rita söguna af ævintýrum okkar á skipinu á heimleiðinni. Við höfum neitað að segja söguna, þangað til þér hafið skrifað hana, af því að við erum hræddir um, að okkur yrði ekki trúað. Ef þér leggið af stað, þegar þér fáið þetta bréf, þá náið þér hingað um jólaleytið, og ég vona, að þér verðið hér um jólin. Good ætlar að koma og George, og annars líka Harry, drengurinn yðar, – með því ætla ég að múta yður. Ég hef fengið hann til að vera hér á veiðum eina viku, og mér fellur hann vel í geð. Hann er stilltur unglingur. Hann skaut í fótinn á mér, skar út úr kúlurnar og lét þess svo getið, hvað það væri hentugt að hafa læknisfræðing við höndina í hvert skipti, sem menn færu á skotveiðar.
„Verið þér sælir, blessaður karlinn. Ég get ekkert meira sagt, en ég veit, að þér munið koma, þó ekki væri nema til að gera bón.
„Yðar einlægs vinar, Henry Curtis.“
„P.S. – Tennurnar úr stóra karlfílnum, sem drap Khiva heitinn, hef ég nú sett upp hér í forstofuna, fyrir ofan vísundahornin tvö, sem þér gáfuð mér, og þær eru stórkostlegar að sjá, og öxinni, sem ég hjó með höfuðið af Twala, hef ég stungið upp fyrir ofan skrifborðið mitt. Ég vildi óska, að við hefðum getað komið því við, að flytja með okkur hringabrynjurnar.
H.C.“

Í dag er þriðjudagur. Á föstudaginn fer gufuskip, og ég held beinlínis, að ég verði að láta Curtis standa við þetta allt saman og fara með þessu skipi til Englands, þó að ekki væri til annars en finna Harry, drenginn minn, og sjá, um prentun á þessari sögu, sem mér ekki um að trúa neinum öðrum fyrir.

ENDIR.

1 Ég uppgötvaði 8 tegundir af antilópum, sem mér voru áður allsendis ókunnar, og margar nýjar tegundir af plöntum, sem flestar heyrðu til laukættarinnar. – A.Q.

2 Súlíman er arabíska nafnið, sama og Salómon.

3 Don er spánska og portúgalska og þýðir herra.

4 Quagga, er ferfætt dýr, sem hefst við í Suður Afríku. Það er líkast asna að sköpulagi, zebradýri að lit. – Þýð.

5 Stökkhafrar (springbucks) eru ein tegund af antilópum, og er afarfjöldi af þeim í Suður-Afríku. – Þýð.

6 Kúkúanar eru ekki einir um þessa grimmdarvenju, því að hún er alls ekki óalgeng meðal kynflokka í Suðurálfunni, þegar ófriður kemur upp og við aðra merkilega atburði, er almenning varða – A.Q.

7 Það eru lög meðal Kúkúana, að enginn karlmaður af konungsættinni megi líflátast, nema með hans samþykki, en það samþykki fæst jafnan. Hann má kjósa menn, hvern eftir annan til að berjast við sig, þangað til einhver þeirra drepur hann, þó á konungurinn að samþykkja kosninguna.

8 Það er alls ekki óþekkt meðal Suðurálfumanna að láta innilega lotningu í ljósi á þennan óvenjulega og neikvæða hátt, og þannig fer svo, að ef nafnið, sem um er að ræða, merkir eitthvað sérstakt, eins og venjulegast er, þá verður að láta merkinguna í ljósi með einhverju öðru orði. Á þennan hátt geymist minningin marga mannsaldra, eða þangað til nýja orðið er að fullu komið í staðinn fyrir það gamla. – A.Q.

9 Við komumst oft í vandræði með að skilja, hvernig það hefði verið mögulegt, að móðir Ignosis, sem bar barn sitt með sér, skyldi geta komist lifandi úr hættum ferðarinnar yfir eyðimörkina og fjöllin – hættum, sem höfðu verið svo nærri því að gera út af við okkur. Mér hefur síðan dottið í hug – og ég sel það ekki dýrara en ég keypti það – að hún hafi hlotið að fara þessa leiðina og hafi reikað, líkt og Hagar, út í eyðimörkina. Hafi hún gert það, þá er ekki lengur neitt óskiljanlegt við söguna, því að það má vel vera, að hún hafi, eins og Ignosi sagðist frá, rekist á einhverja menn á strútaveiðum áður en hún eða barnið hefði örmagnast. Þeir gátu farið með hana til graseyjarinnar. Þaðan gat hún komist í smá áföngum þangað, sem landið fór að verða frjósamt, og svo áfram, hægt og hægt, suður á við til Zúlúlands. – A.Q.