SAGAN AF NATAN KETILSSYNI.


SKRIFUÐ AF

SIGHVATI GRÍMSSYNI BORGFIRÐING.

Kostnaðarmaður: Reinharður Kristjánsson.

ÍSAFIRÐI 1892.

Prentsmiðja Ísfirðinga.

Prentari Jóhannes Vigfússon.

SAGAN AF NATANI KETILSSYNI.




Efnisyfirlit

I. KAP. Frá ætt og upphafi Natans.

II. KAP. Lát Ketils. Uppvöxtur Natans.

III. KAP. Frá Natani og systkinum hans.

IV. KAP. Frá Natani og Konráðssonum.

V. Kap. Lýsing Natans og utanför.

VI. KAP. Draumur Natans í Brimnesi.

VII. KAP. Leikur Natans í Brimnesi

VIII. KAP. Frá Birni presti. Natani kennt barn.

IX. KAP. Leikur Natans og barngetnaður.

X. KAP. Natan prettar Jóhannes.

XI. KAP. Stuldur í Múla.

XII KAP. Stuldur í Svartárdal ytra.

XIII. KAP. Frá Natani og Rósu.

XIV. KAP. Múlatökumál og frá Natan og Blöndal sýslumanni.

XV. KAP. Rændur Lúsa-Egill.

XVI. KAP. Frá Espólín sýslumanni og Natan.

XVII. KAP. Natansmál.

XVIII. KAP. Frá Páli, Natan og Hellulands-Þorláki.

XIX. KAP. Natan vélar Pál Sigfússon.

XX. KAP. Rændur Tíkar-Mangi.

XXI. KAP. Setið fyrir Natani.

XXII. KAP. Frá Arnljóti, Natani og Arna.

XXIII KAP. Natan læknar Guðrúnu á Þingeyrum.

XXIV. KAP. Natan læknar Svein og vélar Pétur.

XXV. KAP. Natan fer að búa og frá hyski hans.

XXVI. KAP. Viðureign Natans og Friðriks.

XXVII. KAP. Draumar Natans og Péturs.

XXVIII. KAP. Ráðið að myrða Natan.

XXIX. KAP. Framferði Natans við Pétur.

XXX. KAP. Illræði Natans við Pétur bónda.

XXXI. KAP. Dráp Natans og Péturs.

XXXII. KAP. Guðmundur kemur upp morðinu.

XXXIII. KAP. Tekinn Friðrik morðingi.

XXXIV. KAP. Frá Friðrik, Agnes og Rósu.

XXXV. KAP. Dómar í morðsmálinu.

XXXVI. KAP. Frá Friðrik, Þorbjörgu og öðru.

XXXVII. KAP. Hæstaréttardómur birtur Friðriki.

XXXVIII. KAP. Aftaka Friðriks og Agnesar.

XXXIX. KAP. Getið ættmanna Natans Rósu.

XL. KAP. Enn frá Rósu, getið Rósants.

XLI. KAP. Lok Rósu.




I. KAP. Frá ætt og upphafi Natans.

Ketill hét maður, sonur Eyjólfs Eyjólfssonar er búið hafði að Móbergi í Langadal; voru mörg börn Eyjólfs, en koma ei mjög við þessa sögu. Solveig hét ein dóttir Eyjólfs, hálfsystir Ketils, átti hana Jón hreppstjóri, er síðast bjó að ytra Vallholti í Vallhólmi; voru þeirra börn: Gísli, námsmaður mikill, bjó eptir föður sinn í Vallholti, og Margrét, er átti Jón son Jóns í Skinnþúfu í Vallhólmi Helgasonar. Ketill Eyjólfsson var vel að sér og hagorður, hann fékk Guðrúnar Hallsdóttur frá Stafshóli í Skagafirði, Kárssonar, af Kárs ætt. Jón á Hellulandi í Hegranesi var sonur Halls og fyrri konu hans, en síðan fékk Hallur konu þeirrar er Guðrún hét, og síðar var Stafshóls-Gunna kölluð; voru börn þeirra, Guðrún, er Ketill átti, og Jón Hallsson, er bjó að ytri Svartárdal í Hegranesþingi. En Stafshóls-Gunna var Jónsdóttir, systir þeirra Konráðs í Kollgröf og Sigurðar í Stafni í Svartárdal, er átti mörg börn; en börn Konráðs voru, Jón prófastur á Mælifelli og Ruth á Álfgeirsvöllum, varð tvígipt. En móðir þeirra systkina var Guðrún Konráðsdóttir, systir Gísla smiðs og skyttu Konráðssonar, föður þeirra Konráðs á Völlum í Vallhólmi og Egils á Miðgrund og þeirra systkina. Ketill og Guðrún bjuggu að Strjúgi í Langadal; það hafði áður orðið eitt sinn að yrmlingur hraktist í vör Ketils er hann lagði sig niður að læk sveittur í sauðaleit og drakk úr, varð honum það að meini og bólgnaði mjög vörin áður Ólafur bóndi Sigurðarson á Vindhæli skar stykki úr henni, því mjög fór hann með lækningar og varð mörgum að liði miklu, og var þetta nokkru fyrr en nú var frá sagt. Börn þeirra Ketils og Guðrúnar voru, Guðmundur og Natan, Jón og Ketill, Guðrún og Ketilríður, dætur. Guðrún Hallsdóttir var námskona mikil vel viti borin, og draumakona mikil; dreymdi hana er hún gekk með Natan, að maður kæmi að sér og beiddi sig að láta heita í höfuð sér, en hann nefndi sig Satan, varð hún þá allhugsjúk, og sagði Auðunni presti í Blöndudalshólum, föður Blöndals sýslumanns og hans systkina, er þá var prestur þeirra Ketils; er sagt að Ketill kallaði draum þenna fíflsku eina, en Guðrún ætlaði ills vita og bað guð að varðveita sig og börn sín. Síðan var það að Guðrún ól sveinbarn (1792), og bað hún Auðun prest skíra það, og komu þau sér saman um að skíra það Natan, þótti það sæmilegt. Öll voru börn þeirra Ketils vel viti borin nema Jón, hann var ekki fullvita.


II. KAP. Lát Ketils. Uppvöxtur Natans.

Katli Eyjólfssyni elnaði nú af nýju mein það er hann hafði fengið í vörina; var hann vanur út að róa sem margir Norðlendingar, og var þá um vetur syðra í verinu að hann kynntist við skipara er lá í Hafnarfirði sem bauð honum utan með sér til lækninga, vildi Ketill sæta því en kvaðst áður verða að ná leiðarbréfi sínu að norðan og finna konu sína, ákvað þá skiparinn dag um vorið er hann skyldi aptur kominn norðan að, við það fór Ketill heim norður og varð síðbúinn, svo þá hann kom suður var skiparinn á haf kominn; kallaði Ketill það ekki auðnast eiga að hann yrði læknaður, vildi sér ekki annarstaðar far taka og fór heim norður aptur, og andaðist hann litlu síðar úr meininu, en Guðrún ekkja hans var eptir með 6 börn og bjó við fátækt. All-snemma var það að Natan þótti brögðóttur, er það eitt sinn til dæma talið, að móðir hans var í seli upp á Laxárdal fyrir slátt, og skipaði þeim Natan og Ketilríði að gæta túns heima, var hann yngri og all-ungur, leiddist honum jafnan heimaveran og nauðaði við systir sína að þau færi upp í sel, hún kvað þau strýkt ef þau bryti svo boð móður sinnar, vel kvaðst hann mega um það sjá að ekki yrði af því, en er Ketilríður vildi ekki gegna kvabbi hans, kvaðst hann mundi hlaupa á aðra bæi og segja sér væri ekki vært með henni heima, hún þóttist vita að ekki mundi hann í það horfa og vildi heldur fara með honum í selið. En er skammt var þangað rak hann upp hljóð, fleygðist niður og lézt hafa tak mikið, varð henni það þá fyrir að segja móður hans til hans, er tók hann og bar hann heim að selinu, lézt hann þá enn sjúkur ei all-litla hríð, þó er það sagt að móðir hans grunaði um skrópasótt hans, og strýkti hann fyrir það seinna, því vör yrði hún fleiri slíkra bragða hans.


III. KAP. Frá Natani og systkinum hans.

Þegar börn Guðrúnar voru nokkuð á legg komin, vistaði hún þau á ýmsum stöðum. Guðmundur var á Þorbrandsstöðum og svalt, hann var skáld og vel viti borinn, svo voru og bræður hans Natan og Ketill er yngstur var systkina sinna. En það varð um Guðmund að hann hvinnskaði mat nokkrum, og var honum dæmd strýking af Birni Ólsen á Þingeyrum er þá hafði lögsögn. En það sögðu margir að Jóhannes bóndi Jónsson á Breiðavaði hefði haft hann til þess, og annan strák er Sveinn hét Kársson, en mælt var að Jóhannes bætti fyrir sig af hljóði, því ekki skorti hann fé. En aldrei bar á hvinnsku Guðmundar síðan; gerðist hann hagur og hýsingamaður mikill, og verður hans enn getið síðar. Jón Ketilsson varð eigi gamall. Guðrún Ketilsdóttir andaðist 15 vetra og var kallað reimt eptir hana, svo menn báru það út og kölluðu Guðmund bróður hennar sagt hafa, að hún fleygði að sér lokarspónum er hann smíðaði líkkistu hennar, og trúðu því sumir menn. Ketilríðar Ketilsdóttur fékk sá maður er Árni hét, kallaður hvítkollur, sonur Jóns Bjarnasonar frá Brekkukoti í Þingi, hún var hög á hendur og vel viti borin, en það varð um hag hennar er hún ól fyrsta barn, að hún sýktist svo að aldrei mátti hún síðan á jörð stíga, en lifði síðan lengi; kom svo að Árni maður hennar skildi við hana, en mælt er að jafnan færist honum vel við hana. Natan Ketilsson var fyrst heima með móður sinni, en fór þó víða um byggðir og gerðist all-viðsjáll, eignuðu og sumir honum hvinnskubrögð, og töldu hann líkjast um það Jóni yngra Hallssyni, móðurbróður sínum, því orð það lagðist á hann ungan. En það mundi sannast frá Natani sagt, að aldrei færi hann til stulda sjálfur, en tældi heldur til aðra, er hann vissi lítt varkára sér til arðs. Það var opt að Natan hitti frændur sína í Skagafirði. Jón prestur Konráðsson bjó þá að Húsey í Vallhólmi, og var þá aðstoðarprestur Eggerts prests gamla Eiríkssonar í Glaumbæ, áður hann fengi Mælifell og gerðist prófastur. Mörgum kenndi Jón prestur undir skóla er hann var í Húsey, og má þessa til nefna: Gunnlaug Oddsson frá Geldingaholti, er síðan fór utan til náms og gerðist að lyktum dómkirkjuprestur í Reykjavík; Gísla son Gísla bónda á Enni í Refasveit, frænda Jóns prests, er síðan varð prestur að Vesturhópshólum og víðar; Jónatan son Þorfinns bónda á Víðimýri og síðan á Brenniborg, er síðan lét af lærdómi og gerðist hreppstjóri; og Arnbjörn Arnason, er síðan bjó stúdent að Ósi í Miðfirði. Natan bað þess Jón prest að taka sig í frændsemis skyni, og kallaði eigi meira en fjöður af fati hans að kenna sér; Jón prestur var vitur maður og framsýnn, gazt honum illa að framferðum Natans þó gnægar vissi hann námsgáfur hans, synjaði honum viðtökunnar, en greiddi nokkuð fyrir honum. Natan fann og Gísla bónda Jónsson í ytra Vallholti og Konráð bónda í Kollgröf, föður Jóns prests, og baðst peninga, lézt vilja nema latínu, mátti Gísli eigi peninga láta, en Konráð nennti eigi að kasta peningum til Natans. Síðan var það að Natan gerðist blóðtökumaður og fór með lækningar, og kom svo að honum heppnaðist ærið vel er hann vildi, en hrekkvísan ætluðu menn hann ef svo bar undir, var það dregið af orðum hans, kvaðst hann ekki lækna vilja nema sjálegar meyjar og ríka menn og auðuga, kallaði ekki eyðandi meðulum til annara, er ekkert kvæði að, og er hann spurði að einhver auðugur væri sjúkur, kvað kann sem gullfjall opnaðist fyrir sér.


IV. KAP. Frá Natani og Konráðssonum.

Natan hafðist nú við í ýmsum stöðum, og suður fór hann tvo eða þrjá vetur, þó eigi til róðra, en seldi kæfu eða villibráð er alsagt er að hrossakjötskæfa væri, var það þá um veturinn að hann kom í för bræðra tveggja, Konráðssona frá Völlum í Vallhólmi, Gísla og Konráðs, þeir voru þriðja og fjórða í frændsemi við Natan; Konráð var örorður en Natan hnífilyrður og hélt sér mjög fram, bar þeim Konráði í milli svo til átaka kom með þeim á Lundum í Borgarfirði, stóðst Natan eigi Konráð og skildi Gísli þá og félagar þeirra, vildi Gísli sætta þá og hét Natan því, en kvað þó níðvísur síðan um Konráð er suður kom, eirði Konráð því illa og bað Gísla hefna sín, en þó Gísli væri kallaður níðkvæður ungur, tók hann því ekki allskjótt, lét Konráði ekki ofviða að hefna á Natani með öðru móti er þeir finndust, en þó var það síðan er Natan seldi kæfuna, og sagt var hann gæti svikið kaupmann nokkurn á henni. áður bert yrði og henni væri aptur skilað; var og ekki trútt um að sumir Sunnlendingar grunuðu fleiri Norðlendinga um slíka sölu, þó menn vissi eigi aðra að norðan pretti þá við hafa; gazt mörgum Norðlendingum all-illa að því og þótti Natan gjöra sér skömm mikla, kvað Gísli þá vísur nokkrar og eru þessar þar í, sem margir kunna:

Heiðri glatar hvert um fet
haldinn snata jafni,
hefir Natan hrossaket
hakkað í Satans nafni.
Natan! hlaðinn vondri vömm,
við það áttu að tóra,
af þér hefir Ísland skömm
erlendis, – já stóra.

Kvað Gísli hina síðari stöku þessa eitt sinn er þeir hittust á Reykjavíkurstræti, en Natan kvaðst engu gegna lygum hans í það sinni, eigi var því heldur á lopt haldið að Natan kvæði aptur á móti, en það var síðan er norður kom, að Guðmundur Ketilsson kvað stöku þessa fyrir Natan, ritaði á blað og bað Jónas bónda Jónsson á Gili í Svartárdal, að fá Gísla er þeir finndist:

Heilla-þur mun hætta að stíla
hrakvísur að gamni sér,
þá Hripuður í smugu smíla
smelta burinn Konráðs fer.

Enn er Gísli sá vísu Gvendar, ritaði hann upp á seðilinn og bað bera honum, og gerði Jónas sem Gísli bað:

Gvendur hafnar heiptum ei,
hvar af nafn sér vinni,
við þig jafnast vil eg – nei,
í vonsku dafnan þinni.
Nam til mölva næmis skrín
Niflheims völvu snúður,
syndum ölvað eddu svín
orti bölvað klúður.
Það eg segja víst þér vil,
verst má þegi bjóða
og kallaði' ei hann Kölska til,
þó kjöptugur megir ljóða.
Mér þó spjalli glæpa gys,
gikkir, kalla' ei sóma,
og hirði valla um helvítis
húsgangs palladóma.

Og enn fleira kvað Gísli um Natan, því heyrði hann stóryrði og hótanir eptir honum. En ekki áttust þeir fleira við í kvæðum Guðmundur og Gísli, og furðaði það suma, ekki sízt síðar, er Gvendur kvaðst á við Níels skáld Jónsson, og minntist hvorugur þeirra Gvendar og Gísla á vísur þessar, er þeir fundust löngu síðar í Skrapatungurétt í Laxárdal. Það hafði orðið áður, þá Gísli reri fyrst, 16 eða 17 vetra, suður í Svalbarða á Alptanesi, að lagsmaður hans einn, er Gísli hét Jónsson, orti níðvísur um Jón Hallsson yngra, móðurbróður Natans, og þó ekki orsakalaust, en Gísli lagaði vísurnar er voru víða heldur ófimlegar, snerist þá Jón að Gísla Konráðssyni, og bað Natan þess löngu seinna að yrkja á móti, Gísli fékk þó aldrei að sjá það, en sögð var þetta ein vísan:

Honum skal nú hæfa það sem heiptar byrði,
þó næsta lítið nú eg virði
níðskáldið í Skagafirði.

Þegar Gísli spurði það, sendi hann vísur þessar Natani, og hugði að erta út það hann hafði kveðið:

Meira af vilja' en mætti kvað hann,
má því vorkennast, hann er flón;
Mammons þræll einn um bragi bað hann,
bíddu nú við, hvað hét hann? Jón;
hljóðstöfum réttan hugsa stað,
hvernig átti' hann að geta það.
Ældu nú garnar Ara dilkur
öðru bulli, það geturðu,
Arnar rassinn þér enn er mylkur,
allan skrattann fyrst éturðu,
flettu það svo í fáviti,
fram, þú hrosskæfu prófeti.

Það héldu sumir að Natan hefði aldrei kveðið stöku þá er Gísla var flutt, og login væri hún til að etja þeim saman. Enn var það að Natan hafði farið vestur undir Jökul, og komizt í dáleika, að sagt var, við dóttur þess manns í Rifi er Guðmundur hét og kallaður skáldi, hét hún Guðrún, og kvað hún þá ástabréf til hans norður í Langadal, en ei þóttist Guðrún það fyrir sig kveðið hafa, bar þó eigi á móti að fyrir aðra væri gjört. En sökum þess að Natan hirti eigi meira um konu þessa, þá kvað hann, er hann hafði lesið bréfið sem kallað var allvel ort, stöku þessa:

Allt er þetta Amorslega kveðið,
það hefir ruglað seljan seims
sárkvalin af girndum heims.

En er Gísli spurði vísu þessa norður í Skagafjörð, kvað hann og bað bera Natani:

Fólinn hefir flekkað sprund,
finnst ei venja login,
óheill refur er í lund,
Amors grenja smoginn.

Þó var það síðan að þeir Gísli og Natan sættust, sem enn verður getið. Hélzt Natan nú lengstum við í Langadal.


V. Kap. Lýsing Natans og utanför.

Natan var vitur af eðli og mælskur, en ærið óstöðugur í gáfum, lítilmenni að orku og huglítill ef á þurfti að reyna, nær meðalmaður á vöxt en heldur grannleitur, nefstór nokkuð en sléttur á kinn og smáeygður, jarpleitur á hár, fingralangur og öll höndin mjó en löng, ekki gæfusamlegur á svip en ör af fé ef hann hafði það fyrir hendi, vildi láta virða sig en eigi ganga í vistir, sýslaði mikið um lækningar og grasafræði, sem áður er talið. Fyrir sunnan kom Natan sér í kunnleika nokkra við Klogh landlækni, hét hann Natani að segja honum nokkuð til í læknisfræði ef hann kæmi til Hafnar, því utan vildi Klogh þá alfarinn. Þá er Natan kom heim norður, tók hann sér far í Spákonufellshöfða, var þá mælt að hann mundi fá meyjar þeirrar er Guðrún hét, Halldórsdóttir bónda á ytri Langamýri á Bug, og fylgdi hún honum til skips, en sundur dróst það síðan, og kenndu menn það Pétri Skúlasyni Skagfirðingi, er Höskuldsstaða-Pétur var kallaður. En er Natan kom til Hafnar, var Klogh þaðan farinn til Lauenborgar, skorti Natan þá gjald til að komast þangað og varð nú á vonarvöl, gaf sig ekki heldur að neinu námi, enda skorti fé til þess, lögðu honum þá lið stúdentarnir Björn Blöndal Auðunsson og Gunnlaugur Oddsson frá Geldingaholti; mælt er að Natan lærði ei annað en lævísibrögð nokkur og talnafræði, en fyrir því að hann skorti gjald, var honum ráðið til og boðið að verða á brott úr Höfn, tók hann sér þá far á kaupfari því er „Hvíti Svanurinn" hét, til Flateyjar á Breiðafirði, til Guðmundar Schevings, snauður var hann þá mjög; létu Flateyingar flytja hann inn í Skáleyjar; þar bjó þá Einar sáttaleitarmaður Ólafsson með konu sinni, Astríði yfirsetukonu Guðmundardóttur, og var Natan þar nótt við beina góðan; að morgni var þoka mikil, var þá tilrætt um hver rata mundi að flytja Natan. Einar var skáld og kvað stöku í gamni: Gatan flata greiðir skeið, gölt óvöltum stafna; Natan ratar rétta leið Reykjaness til hafna.

Þá kvað Natan vísu þessa:

Af yður berast, satt eg sver,
Sigtýs kera flæður;
Litars deri ei undir er
Einare jafn kvæður.

Flutti Einar Natan upp í Staðarklauf, þaðan fór Natan fótgangandi norður í land, kallaði hann sig þá Langdal, en síðar Lyngdal og sagði það fegra, en ekki festist það nafn við hann. Kunni hann þá margar sögur um kvennafar sitt og brögð, en flestir ætluðu ósannindi ein. Mörg fórust honum orð er til guðleysis horfðu, helzt þar hann vissi fáfróða menn. Eptir það hann kom utan, las hann aldrei blessunarorð á eptir húslestri, kvað hann það ekki hæfa nema lærðum guðfræðingum. Ætluðu nú sumir að hann færi með fjölkyngi, og drógu það til líkinda að nú skorti hann aldrei peninga, mátti og sjá að hann lastaði ekki þá hyggju manna um sig. Mjög tók Natan nú að sýsla um lækningar, blóðtökur, böð og annað, og heppnaðist vel; eitt sinn er hann fór um Skagafjörðinn, sem optar, gisti hann að syðra Skörðugili á Langholti, þá bjó þar gamall maður er Jón hét Jónsson, trúmaður og allfastur við forna alþýðuhætti, hafði Natan mjög gaman af að stríða honum, lastaði margt í ritningunni, og sagði meðal annars, að ekkert væri að marka Móseslögmál, því á greni hefði hann legið á Sinaifjalli er hann diktaði það sér til skemmtunar, og fleira því um líkt er eg nenni ekki að rita; þá bjó á ytra Skörðugili Gísli Konráðsson, með Evphemiu konu sinni Benediktsdóttur, sagði Jón Gísla granna sínum þessi guðleysisorð Natans. Kom og Natan til Gísla, kallaði hann frænda sinn og lét sem ekkert hefði í skorizt milli þeirra, tók Gísli því álitlega, en þó báðu þau hjón Natan að hafa ekki slíkar orðræður frammi sem á syðra Skörðugili, svo að börn sín heyrði, Natan bað þau þess viss vera, hefði hann gaman af að segja þetta heimskingjum einum, og bauð Gísla að lána honum 20 spesiur, og skyldi hann eigi þurfa að gjalda sér aptur fyr en honum væri hægt um, en þótt Gísli væri ómagamaður fátækur og peningaþurfi, þorði hann eigi undir að eiga peningaviðskiptum við Natan, kvaðst ei vilja draga svo fé úr hendi manna, er hann fengi seint eða aldrei aptur goldið, en heimil skyldi Natani næturgisting og vist hjá sér, þá til væri, og hann væri á förum sínum. Hann tók og af Natani lækningarit nokkurt til afskriptar, og galt Natan honum fyrir það ríflega síðar.


VI. KAP. Draumur Natans í Brimnesi.

Björn hét maður, er sumir kölluðu Mála-Björn, síðan hann átti í Staðarlíka-máli, auðugur maður, og bjó í neðra Asi í Hjaltadal, en það var um vorið að Björn flutti að Brimnesi, en lét Gunnlaug son sinn búa á öllum neðra Asi, hafði hann tekið við hreppstjórn eptir föður sinn, og fengið Margrétar dóttur Gísla prests á Hólum í Hjaltadal, er áður var konrektor. Björn tók þegar að hýsa í Brimnesi um vorið, og fyrir því að Natan gisti að Bjarnar nokkrar nætur, þá falaði Björn hann til veggjahleðslu, var Natan og verklaginn þá hann nennti að starfa, og dvaldist hann nú með Birni um hríð; nú var það að Natan dreymdi draum, og er þess því hér getið, að hann dreymdi annan líkan seinna, og fékk hann áhyggjur í fyrstu, þótt allskjótt hygði hann af því. En þessi var draumur hans: „að hann þóttist hlaupa heim að Hólum í Hjaltadal, og þar í kirkjugarð, og sjá þar opna gröf, og líkama sinn í öðrum enda hennar, en sálina í hinum, og mælti líkaminn til sálarinnar vers þetta:

„Hvað kann þig stoða hefð og vald,
heims tign og allur sómi,
þá fyrir þín brot skalt greiða gjald
guði á efsta dómi,
veraldar makt er þrotin þá,
þessa skildir í tíma gá,
þenk um að þar að komi.

Þetta er þriðja versið í sálminum: „Vakna mín sál og virð fyrir þér", eptir Stein Jónsson biskup á Hólum. Sagði Natan draum þenna þeim feðgum, Birni og Gunnlaugi, og Margrétu konu Gunnlaugs; höfðu þeir feðgar í skimpi, en þeim Margréti og Natan þótti draumur sá ískyggilegur. Sumir héldu að Natan hefði diktað honum upp, en síðar ætluðu menn hann dreymt hafa, því eptir það sagði hann marga ófagra drauma sína, og var optast nokkuð hnugginn um hríð a eptir.


VII. KAP. Leikur Natans í Brimnesi

Ýms hafði nú Natan gróðabrögð í frammi, og þóttist hann þá við hafa eins konar talnafræðis-fjölkyngi, var ei heldur trútt um að sumir tryði því, enda mátti kalla að Natani væri allt vel gefið er til náms vissi og honum var ósjálfrátt. Hann sýndi það stundum, að hann lézt finna það er týndist með talnafræði, og er alsagt, að þá hann var í Brimnesi, kom þar Gunnlaugur hreppstjóri í neðra Asi ríðandi, og hafði týnt sokkabandi sínu á leiðinni; Björn og Natan voru úti staddir er Gunnlaugur reið í hlað og saknaði bandsins Natan kvað hægt mundi að finna, en Björn tók það með glettni, og bað Natan taka á mikla vitinu að finna bandið, Natan kvað eigi meira en mannsverk vera fengi hann spesiu til þess, hétu þeir feðgar þessu ef hann snuðraði eigi lengi eptir því og hlóu að, vitnaði Natan það og tók að telja nokkuð um hríð með krít, gekk síðan á leið með Gunnlaugi fyrir túngarð út, svipaðist lítið um og fann þar bandið, launaði og Gunnlaugur honum spesiu, sem ákveðið var; trúðu þá sumir að slíkt væri ekki fjölkyngislaust; sögðu þeir feðgar frá þessu mörgum manni. Natan sagði og Brimnesdraum sinn Arnljóti hreppstjóra Arnasyni á Gunnsteinsstöðum í Langadal, og hafði þá heldur í skimpi.


VIII. KAP. Frá Birni presti. Natani kennt barn.

Natan fór og vestan norður í Vaðlaþing, og læknaði þar suma; fékk hann þá til láns hjá Jóni presti lærða Jónssyni í Möðrufelli lækningabók Jóns læknis í Viðvík Péturssonar, var hún þá all-óvíða kunn orðin, hét hann að skila aptur bókinni og fór vestur, en er Natan skilaði henni ekki sem ákveðið var, ritaði Jón prestur Birni presti í Bólstaðahlíð, Jónssyni, að ná henni frá Natani. Beiddist þá Björn prestur bókarinnar, en Natan kvað Jón prest ekki hafa með hana að gera, er ekki læknaði svo mikið sem hund, væri jafnt á komið að senda hana aptur Jóni presti, sem að brenna hana. En fyrir því að Björn prestur vissi, að mörgum mátti Natan gagn gera með lækningum sínum, þeim flestum er hann vildi, þá varð það að prestur bauðst að láta afrita hana fyrir hann, og varð það, að tvær lét hann Gísla Konráðsson afrita fyrir sig, gaf Natani aðra, átti hina, og sendi Jóni presti sína bók. Heldur lagðist illur orðrómur á framferði Natans um stuldi, en hafði þó jafnan aðra til, og um kvennafar. Halldóra hét kona, kölluð Hlaupa-Halldóra, hafði hana hent óhamingja sú, að maður sá er Andrés Asgrímsson hét, sveik hana um eiginorð, féll henni það svo þungt, að hún truflaðist mjög, en hafði verið væn kona; kenndi hún Natani barn, en hann vildi eigi við ganga í fyrstu, áður hún taldi tíma og minnti hann á það, að sprett hefði hún brókum hans; lét hann hana þá ættfæra, og það sagði hann, að aldrei skildi hann rangan eið sverja, hvað sem í skærist fyrir sér; var barn það mær og hét Guðný, og varð mannvænleg.


IX. KAP. Leikur Natans og barngetnaður.

Natan fór víða að lækningum, og þótti hann ærið brögðóttur, en opt tókst honum vel að lækna. Það var eitt sinn að hann gisti að Bjarna hreppstjóra Þorleifssyni, er þá bjó að Stað í Reyninesi, frænda sínum, bauð hann þá að sýna Þorleifi syni Bjarna, ef hann gæfi sér peninga til, að finna kníf Þorleifs hvar sem hann fæli hann, og lézt hafa til talnafræði; fól Þorleifur þá knífinn úti á engi, og lézt Natan telja með krít og fann þegar knífinn; skildu menn ekki í hversu það mætti verða, en margir réttorðir hafa þó einn veg frá sagt. Þorleifur sá bjó síðan í Vík út frá Stað, og var gildur bóndi, átti hann Guðbjörgu Þorbergsdóttur, systur Páls læknis. Bræður Þorleifs, voru þeir Pétur bóndi og formaður á Reykjum á Reykjaströnd, og Jón hreppstjóri í Eyhildarholti, er síðan flutti vestur á land, og bjó síðan í Ólafsdal, systir þeirra var Guðrún, átti Björn í Glæsibæ út frá Stað. Jón hét maður, Sigurðarson, er bjó að Stöpum á Vatnsnesi, kom Natan til hans öndverðan vetur einn, og bað hann lána sér 10 spesiur til þess jörð þiðnaði, og gerði hann það. Jón kom til hans um vorið, þurfti hann þá við peninganna, gekk Natan þá með honum að steini nokkrum klofnum, flysjaði hellublað lítið upp úr glufunni, og tók þar úr sjóð digran, galt Jóni peningana og hafði mikið eptir; þóttu mönnum allkynjalegar slíkar og aðrar framferðir Natans, furðaði það alla að hann skorti aldrei peninga. Það þóttust og menn vita, að opt ætti hann hlut í með þjófum, og beitti þeim fyrir; græddi hann og mjög á lækningum sínum, en þurfti optast lítið eður ekkert að kosta sig. Natan gat barn við konu þeirri er Solveig hét, er bjó í Lækjardal á Refasveit, það var sveinn og hét Hans. Marga mátti þá kalla óaldarmenn í Húnaþingi, og var Natan þeirra allra vitrastur. Aldrei vildi hann í kirkju ganga, nema hann væri settur við altari, og sjá var það opt að hann hrærðist mjög við helgar ræður, þó að optast ræddi hann um annað, og mest um vænar konur og lækningar.


X. KAP. Natan prettar Jóhannes.

Jóhannes Jónsson bjó að Breiðavaði, er áður hefir nefndur verið, auðugur, en lítt lagðist orð á hann um hvinnsku og annað. Synir hans voru þeir Ísleifur, er sekur varð um stuldi, og Jónas, er síðar varð hreppstjóri, vitur maður og góður drengur. Það hafði orðið er Natan kom út, að Jóhannes lánaði honum 30 spesiur, en fyrir því að fé það galzt ekki, lét Jóhannes rita ákæru yfir Natan, og sendi sýslumanni; Natan var þá á Lækjamóti í Víðidal, og nefndi sýslumaður það við hann og bað hann gjalda, tók Natan því vel. Eptir það reið Jóhannes að Lækjamóti og heimti skuldina. Natan tók því og fékk honum vasaúr nokkurt, kvað það þó ekki ótiginna manna eign, er það væri úr gulli einu, og sagði Jóhannesi að hægt mundi vera að selja það fyrir 20 spesiur, þó eigi hefði sér mjög dýrt orðið, ætti og Jóhannes skilda ívilnun fyrir umliðingu og annan drengskap við sig. Jóhannes var ærið fégjarn og hugði satt vera og tók við; því næst fékk Natan honum hring mikinn, og kvað kosta 5 spesiur. Jóhannes mælti: „Er ekki látún í því, djöflinum þeim arna"? Var hann smámæltur mjög, og hermdu það margir kátir menn eptir honum. Natan mælti: „Kann ske, fá þú mér hann þá aptur, mér er hann ekki útfalur, ekki svo mikið". Runnu þá tvær grímur á Jóhannes, og mælti hann: „Ætla hann hafi verið fingradigur djöfullinn sá, arna, er hann. er af; kann ske eg taki hringskömmina“. Natan mælti: „Þú ert sjálfráður, en séður maður hefði komið honum á 10 spesiur, eða sástu ekki hendur á Bjarna Halldórssyni“? Jóhannes segir: „Þú segir satt, það er af honum, bölvuðum ýstrubelgnum þeim“. Natan mælti: „Nú máttu kjósa hvert þú vilt, að eg gjaldi þér þegar í stað það eptir er, og sæki þig síðan að lögum fyrir rangláta ákæru yfir mig til sýslumanns, og komi þannig á lopt þeim hlutum er þú vilt láta leynda vera, og nefndi þá, eða kvitta mig þegar, og skal eg þá þegja“? Kaus Jóhannes heldur að þeir væru sáttir. Þá ritaði Natan lúkningarseðil fyrir sig á dönsku, og nefndi þar í „Kaaberring“, er hann fékk Jóhannesi, og skildi Jóhannes ekkert í dönsku, þó hann hefði einn vetur utan verið, og ritaði nafn sitt undir. Eptir það lét Jóhannes Helga silfursmið Þórðarson á Brandsstöðum í Blönduhlíð virða gripi þessa, og virti hann úrið á 5 dali, en hringinn 1 mark, og hafði Jóhannes það svo búið; hafa frá þessu sagt þeir menn, er til þeirra heyrðu, Jón Bergsted og fleiri.


XI. KAP. Stuldur í Múla.

Guðmundur hét maður, Guðmundarson, hann bjó á bæ þeim á Miðfjarðarhálsi, er á Múla heitir, upp undir Vatnsnessfjalli. Þangað kom lausingi einn öndverðan vetur, er Helgi Guðmundarson hét, hann var þar kunnugur, og gisti tvær nætur. Guðmundur bóndi hafði skömmu áður selt jörðina, Þaðan fór Helgi til Lækjamóts, og fann Natan; hann fagnaði honum, og áttu þeir launmæli nokkurt, og var það mælt að þeir væri á ferli um nóttina; en þá nóttu, er Helgi skildi vera á Lækjamóti, hurfu Guðmundi í Múla 209 spesiur, og smáskildingar 144 dalir. Eptir það flaug pati af því, að Natan syði upp silfurpeninga gamla, og varð þá margrætt um, en leiddi af meira seinna, er frá verður sagt.


XII KAP. Stuldur í Svartárdal ytra.

Bjarni hét maður, kallaður glímu-Bjarni, Víðdælingur einn, kallaður Gíslason, bróðir Brands, er síðan bjó á Úfagili á Laxardal ytri. Bjarni réðist norður að Hellulandi í Hegranesi og fór að búa þar, hann fékk meyjar þeirrar er Anna hét Jónsdóttir frá Grófargili. Nú var það seint á slætti, að Natan kom vestan frá Lækjamóti til Hellulands, því kunnmenn voru þeir Natan og Bjarni. Riðu þeir þá suður til fiskikaupa, að þeir sögðu, hafði og fiskur verið lítt harður það sumar, er lestir gengu; fóru þeir ekki almenningsveg, því allir fóru, utan úr sveitum, Vatnsskarð og Skínanda, suður að Blönduvöðum á Fjöllum, eða þá Mælifellsdal og eystri heiðar til vaðanna. En þeir komu hvergi þar menn stóðu að heyverki, fram Tungusveit, og sneru þeir andlitum jafnan undan þar sem þeir riðu nálægt mönnum. Riðu þeir fram á Gilhagadal og lágu þar nótt, en hina sömu nótt hurfu peningar og annað silfur að Jóns Hallssonar hins yngra, móðurbróður Natans, er bjó á ytri Svartárdal. En eptir það þeir Natan komu aptur að sunnan, kærði Jón Hallsson missir sinn fyrir Jóni sýslumanni Espólín, er þá var farinn að búa á Frostastöðum í Blönduhlíð. Reið hann jafnskjótt yfir að Hellulandi, og vildi Bjarni eigi meðkenna, en Natan var þá vestur riðinn. Síðan prófaði sýslumaður í Tungusveit, og urðu líkur miklar á þá Natan; sótti það Tómas hreppstjóri á Nautabúi Tómasson, var það þá borið að hestaspor yrðu rakin frá tjaldstað þeirra á Gilhagadal, heim í mýri í námunda bænum í Svartárdal. Heyrði og kveld hið sama, mær ein að búsmalarekstri að Miðvöllum, tveggja manna mál, eigi allnærri, og sagði annar: „Hvar ætli við komumst yfir ána“? Svaraði hinn þá lágt, svo hún nam ekki orðaskil, og ætla menn það Natan er lægra hafði, því hann var þar kunnugur. Síðan fór Bjarni vestur og hét þó að svara málinu til loka. Ekki vildi Björn Blöndal sýslumaður prófa Natan vestra, kvað hann verða undir öllum sömu kjörum sem Bjarna. Það ætluðu menn og, að Bjarni mundi eigi þola honum annað, því hann var vel glímufær, en Natan kallaður huglítill og lítt til átaka. Komu þeir Bjarni og Natan þá norður aptur. Þingaði Espólín þá í máli þessu, og voru þar þingvottar Jón bóndi Illugason á Þverá, og Gísli Konráðsson, er kominn var að finna sýslumann; spurði þá sýslumaður sinn í hverju lagi, Bjarna og Natan, og Bjarna að því með öðru, hvert hann vissi enga hvinnsku til Natans. Bjarni kvað því fjarri fara. Hann spyr og Natan hins sama. Natan kvað sér ekki ugglaust. Sýslumaður frétti þá hversu við vissi um það. Natan lézt tregur, en sagði þó um síðir: „Þá við komum síðast að sunnan, sáum við sauð í Svartárbugum, jafnstórann gráu merinni sem eg ríð hérna. Sagði Bjarni þá við mig“: það er mátulegt lagsmaður, að taka sauð þenna, og hafa í klakksekkinn, ég sé það er biti í honum“. Sá Espólín að það var spéskapur Natans einn. Meðgekk hvorugur þeirra en á Bjarna dæmdist málskostnaður, og svaraði hann honum greiðlega, en hélt fram kunnleika við kompána sína sem áður. En margir ætluðu að mest hefði hann af því, hefði þeim Natani fénast nokkuð í Svartárdal.


XIII. KAP. Frá Natani og Rósu.

Natan hafðist nú við á ýmsum stöðum í Húnaþingi, og læknaði jafnan nokkra, var hann lengstum að vistum á Lækjamóti, með manni þeim er Ólafur hét, Eyfirzkur, og bjó þar á nokkru af landinu. Rósa Guðmundsdóttir hét kona hans, frá Fornhaga í Hörgárdal, verður síðar við getið kyns hennar, var hún fríð sýnum, gáfuð vel, yfirsetukona með afbrigðum og skáld liðugt. Það er í sögnum, ekki ómerkum, að gjafvaxta trúlofaðist hún lærðum manni, er hér varð síðan hár valdamaður, og hefir verið til þess nefndur Páll amtmaður Melsted. En er það brást, er mælt hún hafi kveðið vísur nokkrar, og er þetta ein:

Augað snart er tárum tært,
tryggð í partast mola,
mitt er hjartað sárum sært,
svik er hart að pola.

Mælt hefir og verið, að óviljug ætti hún Ólaf. Natan fífldi Rósu, og eignaði sér barn það er Rósa ól og Rósant Berthold hét. Kvað Rósa svo um nafn drengsins við Natan, því hún kallaði hann föður að honum:

Seinna nafnið sonar þíns,
sífellt þig á minni,
að opt var fáklædd eyjan líns
upp í hvílu þinni.

Sagt er að Natan lýsti Ólaf þjóf að, ef hann eignaði sér Rósant Berthold. það eru almæli að Natan gyldi Ólafi eptir Rósu ár hvert, 2 kúgildi, meðan hann var þar; aðrir segja krónu um vikuna. Annað barn áttu þau, að sagt er, er Súsanna hét. Þóranna Rósa hét og barn Rósu, var það kennt Ólafi; dætur hennar og Ólafs voru og Pálína. Guðrún og Sigríður, efnilegar meyjar. Ólafur var geðlaus, og lét allt liggja í þeirra skauti, fór Natani því vel við hann og þeim Rósu báðum. Einn vetur var það sem optar, að vermenn gistu að Lækjamóti, vælti Natan þá Ólaf mann Rósu að rassskella vinnukonu sína, eður að bera sig við það, er í gamni átti að vera, hafði hún setið við að þurrka föt vermanna, og sáu þeir til atferla Ólafs. Natan hló að og kvað:

Lundum hringa land um kring,
listugt klingi á seðli.
vætti hann fingur, veigsól sling
var af þvinguð eðli.

Þá kvað einn vermanna, en eigi vitum vér hver hann var:

Hérna hvelli heyra má,
heit því svellur undin blá,
rassa smellir röskur sá
rak á skelli einn og þrjá.

Síðan var það síðla á engjaslætti, að þau Rósa og Natan riðu vestan norður til Eyjafjarðar, vildi hún finna frændur sína. en er þau riðu norðan, komu þau að Stafnsrétt í Svartárdal, þar menn dróu fé sitt, hafði þá Natan málað þau með rauðum lit í kinnum, ætluðu hinir óvitrari menn það eðlis-litarhátt þeirra, þó að hinir hyggnari þekktu. Eitt sinn kvað Rósa við Natan:

Eg ann þér meðan í æðum mín
einn blóðdropi kvikar,

Natan bætti við:

Sannlega hefir sálin þín
sopið á vísdóms bikar.

Og enn kvað Rósa eitt sinn er þau skildu;

Hjartað saxar harma geir,
hrannar dags í jurtu,
að búðar laxa fíra freir
fara á strax í burtu.

Natan kvað margar mansöngsvísur um Rósu, og það var honum lægnast kveðskapar, og eru þessar tvær þeirra;

Marga leit eg menjarein
mér fyrir augum skarta,
þó hefir engin eins og ein,
inntekið mitt hjarta.
Þú mér bakar hugs óhægð,
hjartað þvinga tekur,
þín einstaka gáfna gnægð
geðshræringar vekur.

Jafnan var Natan slægur viðfangs ef hann vildi því beita, en réðst ekki í stórræði með sitt eindæmi, gat opt til að skjótlega myndi hann deyja, og lét sér það hermilegt þykja, hræddist því að ríða vatnsföll, þó eigi væri meira en í miðjan legg, var það eptir honum haft, en má vera að nokkuð væri orðum aukið, Marga nam hann læknisdóma blandan, og það fróðlegar og betur þeim er menntaðir höfðu verið, og er það sögn viturra manna og fróðra í læknavísindum.


XIV. KAP. Múlatökumál og frá Natan og Blöndal sýslumanni.

Guðmundur bóndi á Múla, sá er peningana missti, kærði skaða sinn fyrir Blöndal sýslumanni, stefndi hann þá vitnum að stóru Borg í Víðidal, og þingaði hann í júnímánuði um vorið og aptur á töðuslætti, þrætti Helgi sá er fyrir var hafður með öllu fyrir peninga stuldinn, bárust þó ærnar líkur að honum, og sá maður er Árni hét í Múla, kvað Helga hafa spurt sig að, hversu hægast væri að komast í lokaðan bæinn. Peningarnir höfðu verið í kistu einni, fram í bæjarkofa einum ólæstum. Þá var og borið um peninga þá er Natan hafði soðið upp, og kvaðst hann hafa fengið 30 dali hjá Helga, en Helgi þrætti þess, ætluðu menn svo undir búið af þeim Natani, svo að því meira skildi vefjast, því að menn höfðu það fyrir satt, að Natan hefði sent Helga eptir þeim, þó eigi yrði vottum að komið. Talaði þá Blöndal einslega við Natan utan þinghúss, og kvað hann eigi mæla mega móti stuldum, því stolið hefði hann í Svartárdal með Bjarna. Natan kvaðst eigi átt hafa annars kosti, því svo mikið illmenni hefði sá verið er með sér var, að eigi hefði sér verið óhætt ella. Tók Natan ekki heldur þvert af um Múlatökuna, að hann vissi til, og þetta bar sýslumaður á Natan í þinghúsinu, en hann þrætti fyrir, og kvaðst það ekki mælt hafa, bað Blöndal neyta votta sinna eða þá að bera enga lygi á sig, sá Blöndal þá þann kost einan að slíta þinginu, er hann mátti ekki lengur dæma í því máli Natans. Ritaði síðan Grími amtmanni, og beiddist að hann setti sér dómara í málinu, kvaðst verða sjálfur vitni að bera í móti Natan. Það hafði og Blöndal spurt, að Natan hefði haft á orði við kunnmenn sína, Pálma bónda á Sólheimum í Ásum, Holtastaða Jóhann og Höskuldsstaða Pétur Skúlason, að fyrirkoma sýslumanni, og mælt til hans margt illa. En sveitarrómur mundi það einn, og eigi orðið sannað á Natan, þó mikið orð væri á því gjört í Skagafirði.


XV. KAP. Rændur Lúsa-Egill.

Förumaður einn sunnan úr Árnesþingi, hét Egill Jónsson, ýmist kallaður Lúsa-Egill eða Egill Tota, hafði hann ei hamist í sveit sinni, og flakkaði ei allskamma hríð, norður um land og víðar, var bæði latur og skapillur svo hverjum manni var hann komleiður; hann fór og opt suður og sunnan, og hafði peninga nokkra í trússi sínu; var það nú á lestum, að hann kom sunnan Mosfellsheiði, settist hann og hvíldi sig við lestaveg í Vilborgarkeldu, riðu þar að honum 3 menn skrautbúnir á krögum, er þá, tóku að tíðkast, voru það kragaólpur, optast bláar; spurðu þeir Egil að vegabréfi og kváðust prestar vera, svaraði Egill þeim í styttingi sem hann var vanur, og kallaði þá ekkert um það varða, heituðust þeir þá við hann, og kváðust skyldi berja á honum, hræddist hann þá og þagnaði, en allt tóku þeir það fémætt var í trússi Egils. Sagði Egill frá þessu og þóttust menn vita að satt mundi vera, grunuðu margir að Natan mundi einn þeirra og annar glímu-Bjarni, en á ýmsu lék um einn þeirra. En er þetta spurðist norður, kváðu menn Bjarna, Natan og fleiri, einskis mundu svífast, og því var það að Blöndal sýslumaður bar jafnan á sér smábissu, enda var þá orðasveimur mikill í héraði um það, að atför væri ráðin að sýslumanni þó ekkert yrði af.


XVI. KAP. Frá Espólín sýslumanni og Natan.

Grímur amtmaður skipaði nú Jóni sýslumanni Espólín að fara vestur, og þinga í Múla-stuldarmáli, reið hann norðan frá Frostastöðum, og þingaði á Stóru-Borg hinn 9. september, þar kom þeim Blöndal það saman fyrir þingið, að freista mætti að hafa í hótunum við Natan af hljóði, svo huglaus sem hann var, og tala svo við hann, að menn væri fyrir innan í húsinu og heyrði á. Freistaði Espólín þess við Natan einan í þinghúsinu, og gjörði sig reiðuglegan, lét Natan þá sem hann æðraðist, er hinn var manna mestur að vexti og tók að kalla upp, en Espólín kvað hann ei þess þurfa, og bað hann segja sér hið sanna, tók að mæla hóglátlega og lézt lítið mundi af gera. Þá mælti Natan: „af ótta kann eg að játa á mig sökum, ef harðindum er við mig beitt, því þá tvo hluti hefi eg mest hræðst á æfi minni, sterka menn og vatnsföll“. Natan sá inn um rifu á skilrúminu, að menn mundu fyrir innan vera, var því all-grunsamt og tók að klifra á þilið, og var þá þeirri ætlan lokið (segir Espólín). En það sagði hann af hljóði við Espólín, að hann hræddist hann ef hann reiddist, „eða hví vilji þið að eg heiti þjófur? gjalda skal eg með ærnum peningum hvað sem á er kveðið“. Á þinginu settist hann hjá Blöndal, en kvaðst gera það hræddur, að setjast hjá svo göfugum manni, og er Jón í Hnausum, bróðir Ólsens á Þingeyrum, vitnaði nokkuð á móti honum, lézt hann eigi þora móti að mæla, því maðurinn væri sterkur. Blöndal vann þar eið að viðtali þeirra Natans, og þótti sumum kynlegt, að amtmaður vildi eigi að heldur upp taka Svartárdals stuldarmál, en honum mun hafa þótt eitt vitni of lítið, þar sem Natan synjaði með öllu fyrir þau orð sín. En er þingi var slitið, ræddust þeir Espólín og Natan við úti svo margir heyrðu, og hafði Natan þá við Espólín ærin skapraunarorð, og var þá eigi að sjá að hann hræddist, kvað hann sýslumann hafa gjört sér of mikið ómak, að slæpast vestur um sveitir til að lepja slaður eitt og endileysu; reiddist Espólín því æsilega og kvað reiður illbænir þessar:

Er nú kominn á þig rómur,
endann færð ei séðan,
harðni yfir þér drottins dómur
dag hvern æ upp héðan.
Kremji þig alls kyns kynja skæð,
kvöl og glatan Datans;
brenni þér sinar, blóð og æð,
bölvaður Natan Satans.

En mjög iðraði Espólín þessara illbæna um Natan síðar. Aptur var þingað í máli þessu 16. sept., var þar vottað um ill orð og ráðagjörðir Natans við Blöndal, en varð þó eigi að fullum sökum. því Natan kvaðst í því skyni mælt hafa, að vita hve margir yrði til að bera róg í einn höfðingja, en eigi í alvöru, enda væru orð sín tvíræð. Björn Ólsen á Þingeyrum sókti málið, en Ólafur hreppstjóri Björnsson á litlu Giljá varði; var málskostnaður dæmdur af þeim Natani og Helga báðum, en Natani 10 vandarhögg að auki, lézt hann þá eigi vita hvort hann skyldi skjóta máli sínu til landsyfirréttar eða eigi, fyrir þá sök að sér þætti óvirðing að slíkt sæist um sig í yfirrétti, og beiddist að gjalda 20 dali silfurs fyrir höggin; en er það fékkst eigi, réði hann af að skjóta máli sínu suður. Eigi hafði Natan andæpt því er Espólín kvað við hann á Borgarþingi, og ætluðu margir hann hræðst hafa. En er Guðmundur Ketilsson spurði vísurnar, kvað hann:

Slíkar heyra vont er vítur,
veguna menn þó brassi,
hörmung er að heita skítur
heimilaður í rassi.

En er Ketill bróðir þeirra Natans heyrði þær, kvað hann:

Espólín ef drottins dómur
daglega fengi skeðan,
mundi hann ekki finnast frómur,
förum við hægt á meðan.

Guðmundur Ketilsson bjó að Sneis í Laxárdal í Húnaþingi, og átti ekkju þá er Helga hét, verður hans enn getið.


XVII. KAP. Natansmál.

Mál þetta Natans var nú dæmt í landsyfirrétti, tveim dögum eptir Knútsdag, og staðfestur dómur Espólíns um Helga Guðmundsson, en bætt við Natan 5 höggum. Skildu þeir Natan og Helgi gjalda allan málskostnað til landsyfirréttarins. Kváðust dómendur því herða sekt Natans, að eigi hefði hann til fulls þrætt um orð sín við Blöndal utan þinghúss, og borið stundum fyrir minnisleysi sitt um það og annað, hefði hann og kannast við sekt sína, er hann bauð 20 dali í hýðingarfrelsi; álitu menn að dómendur vildu helzt fella Natan fyrir óhlýðni hans við sýslumennina, og fyrir kostnað þann er hann jók með því að fella Blöndal sem dómara svo setja varð Espólín. Grímur amtmaður hafði og boðið að stefna máli Natans fyrir landsyfirrétt. Guðmundur í Múla missti með öllu gjaldsins. Illyrðum Natans við Blöndal var heim vísað, og var það ekki aptur sótt. Þá Espólín spurði dóm þenna, kvað hann:

Nú skal flengja Natan dreng,
nauða vöndur stóri,
sig mun engja saman í keng,
satans ára stjóri.

Eptir það kom Blöndal óvörum að Natan og lét leggja á hann hirtingu, að flestra sögn væga, en Natan þótti óvirðing mikil að henni.


XVIII. KAP. Frá Páli, Natan og Hellulands-Þorláki.

Páll hét maður, Svarfdælskur að ætt, Sigfússon, hafði hann nýtekið við föðurleifð sinni, er hann fluttist norðan og fékk Ingibjargar, dóttur Sölva prests a Hjaltastöðum, Þorkelssonar prófasts á Hólum, Ólafssonar biskups á Hólum Gíslasonar. Páll hafði erft mikið, en varð lítt við hendur fast; fór hann að búa á Miklahóli í Viðvíkursveit, hann hafði áður en hér var komið komizt í kunnleika nokkurn við Natan, en fyrir því að Páll var afar bókhnýsinn, og ætlaði Natan fjölkunnugan sem fleiri, þá falaði Páll af honum slíkar skruddur, tók Natan ei af því þá færi fengist. Jón eldri Hallsson, móðurbróðir Natans, bjó á Hellulandi í Hegranesi, kom Natan opt til fundar við hann, var þar og glímu-Bjarni félagi Natans, og bjó á nokkru af landinu, ekki allskamma hríð, áður hann missti Önnu konu sína, fluttist hann þá aptur vestur í Húnaþing. Jón Hallsson var lítt heill, og eigi með sinnu, læknaði Natan hann þó að nokkru; kona hans hét Halldóra dóttir Jóns málara, systir Hallgríms djákns á Sveinsstöðum í Þingi, voru synir þeirra Jóns: Þorlákur, hinn elzti, Jóhannes og Sigurður. Þorlákur fagnaði jafnan Natani frænda sínum, er hann kom, og gerði sér dátt við hann. Þorlákur þessi, er síðan var kallaður Hellulands-Þorlákur, hafði fengið peninga nokkra hjá Þorláki bónda hinum auðga, Símonarsyni, á stóru Ökrum í Blönduhlíð, og heitið að selja honum Helluland, því Jón faðir hans andaðist um þær mundir, en síðan kvaðst Hellulands-Þorlákur hafa misst þá í Héraðsvötn, er hann riði á sund, en það héldu flestir, að peningar þeir lentu hjá Natan. Þá bjó að Holti í Svínadal, Illugi bóndi Gíslason, auðugur mjög, var Natan þar í kunnleika miklum sökum lækninga sinna, og jafnan var honum þar gisting heimil er hann vildi. Hellulands-Þorlákur fylgdi opt Natani vestur, var það þá eitt sinn að Natan gerði frænda sinn drukkinn, að því er Þorlákur bar síðan fyrir, og kom honum til að selja Illuga bónda Helluland, reis af því síðan langt mál og flókið, milli þeirra Þorláks auðga og Illuga bónda. Var þetta nokkru áður en hér er sögnum komið um Natan, og kemur eigi við þessa sögu, en segir gjörr frá í Húnvetninga sögu.


XIX. KAP. Natan vélar Pál Sigfússon.

Páll Sigfússon á Miklahóli, seldi Halldóri bónda á Tungu í Stýflu, hálfan Miklahól fyrir 250 spesiur; Halldór var sonur Jóns prests á Barði í Fljótum, Jónssonar. Sama kvöldið og Halldór hafði goldið verðið, kom Natan að Miklahóli og Hellulands-Þorlákur með honum, og gistu hjá Páli; litlu síðar kom þar Sölfi prestur utan úr Hofsóskaupstað, og Björn Illugason á Brimnesi, er fóstrað hafði Ingibjörgu konu Páls, en dóttur Sölva prests; með þeim var og maður sá er Jón hét, ójafnaðarmaður mikill og óeirinn, Jónsson beingarðs, er sumir kölluðu beykisformann, hafði hann búið um hríð á Bjarnastöðum í Blönduhlíð, og því kallaður Bjarnastaða-Jón, og verður enn lítið við getið, var hann laungetinn hálfbróðir Níels skálds. Sölvi prestur var við öl, og er hann vissi Natan þar kominn, mælti hann: „Er Natan Satan hér? Djöfullinn!“ Natan var í rekkju kominn og tók að klæða sig, kvaðst óvanur slíkum kveðjum og vitnaði þegar orð prests. Björn bað hann fara að vægilega, kallaði hann mundi láta sig njóta kunningsskapar, og furðaði þá hvað Björn fór að hóglega, öndvert venju sinni, svo illa sem honum gazt að kunnleik þeirra Páls og Natans, og presti því ver. Natan kvað sér vandgert við Björn, og fyrir því mætti hann láta sök þá niður falla, en slíkir orðhákar, ættu sig þó fyrir að hitta, sem prestur væri. Björn bauð og Páli að geyma jarðarverðið, og fá honum af eptir því sem hann með þyrfti, því grunur var honum á að Natan mundi véla hann. Til Brimness riðu þeir Björn og prestur um kvöldið, því eigi vildi prestur gista að dóttur sinnar, þá Natan var þar. Halldór bóndi í Tungu er jörðina keypti, var og gestkominn á Miklahóli, og er sagt hann réði Páli að láta Björn geyma peningana, og tók ei Páll af því, en burt fór Halldór um kveldið. Daginn eptir fylgdi Páll Natani vestur yfir Héraðsvötn, allt að Holtsmúla á Langholti, bjó þar þá Guðlaugur Jónsson, bróðir Halldórs í Tungu, er áður var nefndur, átti Guðlaugur Sezelju, dóttur Einars prests á Knappstöðum Grímssonar, og Ólafar Steinsdóttur, Jónssonar skálds í Fjörðum Þorsteinssonar, og sá Sezelja það, að þeir Natan og Páll fóru inn í fjárhús og töldu þar sundur peninga, og skildu þeir Natan og Páll þar með vináttu, kom það upp seinna að því er Páll sagði sjálfur frá, að Natan skildi þá eina peninga Páli eptir er utanríkis voru, og tók nær 200 spesíur til láns hjá Páli, en hét honum aptur parti af Stóru-Borg í Víðidal og galdrabókum af Ströndum fyrir sumt af þeim, og svo að koma honum niður í fjölkyngi, er miklu væri honum arðmeira peningum, hafði Páll og mikla fysn á að nema slíkt. Natan hafði og rúnamyndir nokkrar með höndum; hann kvaðst og vita hvað um sig væri rætt, og trúðu því óvitrir menn. Eigi kom Natan aptur með það hann hafði heitið, og tapaði Páll jarðarverðinu, en talaði fátt um.


XX. KAP. Rændur Tíkar-Mangi.

Magnús hét maður í Múlaþingi, kallaður Tíkar-Mangi af sumum, hann var son Páls prests á Valþjófsstað Magnússonar frá Brennistöðum, Jónssonar. Bróðir Magnúsar var Guttormur prófastur í Vallanesi, en móðir þeirra var Sigríður dóttir Hjörleifs prófasts á Þvottá; Magnús hafði utan farið en lítið mannast, þótti lítt borginorður og ærið málgur um hvívetna; kom hann norðan með leiðarbréfi Páls Melsteds, sýslumanns á Ketilsstöðum, skyldi hann selja jörð austur í Árnessþingi; lauk hann erindum þeim syðra og reið norður Sand í júlímánuði, hafði hann jarðarverðið með sér í peningum innsiglað; á Arnarvatnsheiði komu 3 menn á eptir honum, riðu 2 á Kragaólpum og 1 á treyju, ætlaði hann fyrirmenn vera; sögðust þeir á ólpunum voru Jónar heita, annar Konráðsson frá Mælifelli, en hinn Jónsson frá Miklabæ í Blönduhlíð, sá á treyjunni var kvaðst Þorsteinn heita, Pálsson frá Hofstöðum í Blönduhlíð, og bjó þar sá bóndi er svo hét, en hinir er svo hétu, voru prófastur á Mælifelli og prestur á Miklabæ, spurðu þeir Magnús að heiti og erindum, sagði hann þeim allt af létta, og að öllu sem ýtarlegast um jarðasöluna. Kvöddu þeir hann sem kurteislegast og riðu undan um hríð, uns þeir komu aptur og leituðu á veginum, kváðust þeir týnt hafa peningasjóð, og fréttu hvort Magnús hefði ekki fundið, neitaði hann því, en þeir létust eigi trúa, og kváðu öll líkindi á vera þótt hann vildi eigi við kannast, og heimtu að rannsaka plögg hans, var hann lostugur er hann vissi sig með öllu sýknan, fóru þeir því fram, og er jarðarverðið fannst, kváðu þeir það sinn sjóð, tóku peningana hvað sem hann sagði og riðu brott; en er Magnús kom norður að Mælifelli, og gisti að Jóni prófasti Konráðssyni, sagði hann honum sínar farir eigi sléttar, hugðu og allir að satt eitt mundi hann frá segja, en menn þessir er rændu Magnús, telja menn að víst væri Natan, glímu-Bjarni og Elis Oddsson sá á treyjufötunum var, hálfbróðir Jóseps smiðs á Refsteinsstöðum, afar harðgjörr og drykkjugjarn, kalla menn og fullan vott þess að þeir væri, því þeim mætti Hörgdælskur maður skilgóður, Guðmundur bóndi frá Lönguhlíð í Hörgárdal, þar sem vegir skiptast við Búðará norður á Sand og Grímstungnaheiði, en fyrir því að Bjarni og Elis vildu ríða Víðdælaveg, baðst Natan eptir að verða að tína lækningagrös, geymdi hann og peningana, en hinir voru ölvaðir og nenntu eigi að bíða, en þegar þeir voru á brott, tók Natan hest sinn og reið Grímstungnaheiði, síðar kvaðst hann hafa týnt peningunum, og fengu hinir ekki af, nema ef til vill Bjarni.


XXI. KAP. Setið fyrir Natani.

Páll á Miklahóli þóttist nú vita að Natan hefði vélað sig, því löngu var liðinn gjalddagi og Natan hafði heldur eigi ritað honum eins og hann hafði heitið, réðu þeir Sölvi prestur og Björn Hlugason til þess, að fá Bjarnastaða-Jón, sem bæði var skapharður og áræðinn, til fylgdar við Pál vestur að ná skuld sinni hjá Natan; Jón var fús til þess, og réðst með Páli vestur í Langadal, og spurðu þar að Natan var að lækningum í Svínadal, riðu þeir þá að Svínavatni og gistu þar, en Jón fékk með leynd mann nokkurn að njósna hvar Natan væri, spurðu þeir þá að hann væri á Rútsstöðum, en ætlaði ofan að Holti daginn eptir að lækna Eirík Illugason, fóru þeir Jón og Páll þá og sátu fyrir Natani í litlu gili milli Rútsstaða og Holts; innan skamms bar Natan að þeim með þverpoka um öxl, og með honum sá maður er Sigurður hét Þorsteinsson, frá Kríthóli í Skagafirði Oddssonar; Jón kvað Pál verða að gæta Sigurðar, meðan hann réðist á Natan og næði peningum þeim er hann hafði fregnað Natan hafa. Sigurður var hár vexti, en óx þó Páli lítt í augum því hann var knár, en Jón kaus sér Natan svo þeir væri vissir um að ná peningunum; en áður af átökum yrði, faðmaði Natan Pál að sér, því grunsamt varð honum er hann sá Jón í förinni, kvaðst nær afhuga, að þeir mundu finnast, og mál mundi að ræða um bækurnar og annað, og bað hann heyra sig afsíðis, hjöluðu þeir um hríð, kom svo Páll til Jóns og kvað einskis við þurfa því Natan lofaði að gjalda sér í Holti og rita þar lúkningarskrá, Jón bistist við og kvað hann síðar sanna myndu hversu það seldist út og vildi þegar ráðast á Natan, en Páll neitaði því, enda vildi hann ei vita láta um galdrabækurnar; fylgdust þeir nú að Holti og gistu að Illuga. Jón eggjaði þá Pál að heimta skuldina að Natan svo vottar heyrði, vék þá Páll Natani á einmæli, en að því loknu ókættist hann mjög, eptir langa brýningu Jóns heimti þó Páll skuldina undir votta. Natan spyr hvort þess væri með alvöru leitað, og kvað Páll já við, lézt Natan þá reiðast og hótaði að stefna Páli fyrir sáttaleitamenn, Jóni gerðist órótt en treystist eigi að hefna þar á Natani. Illugi bóndi bað Natan eigi gera þras úr skuldheimtunni, þar hún hefði að borið í sínum húsum, og kvaðst Natan virða til þess hans orð. Páll og Jón fóru norður aptur, og missti Páll skuldarinnar, því engi treystist eptir að sækja.


XXII. KAP. Frá Arnljóti, Natani og Arna.

Grunaður var Natan um að grafa eða fela peninga hingað og þangað. Eitt sinn bað Hellulands-Þorlákur hann peningaláns, er þeir hittust á Æsustöðum, kvað hann þá Þorlák verða að fylgja sér út til Gunnsteinsstaða, bjó þar Arnljótur hreppstjóri Arnason, hann átti Guðrúnu dóttur Guðmundar hins auðga í Stóradal, Jónssonar frá Skeggstöðum; var dóttir þeirra einberni Elín, er átti Guðmund Arnljótsson á Guðlaugsstöðum. Arnljótur hreppstjóri var auðugur. Er þeir Natan og Þorlákur komu til Gunnsteinsstaða, gekk Natan að fornum eldiviðarhlaða, kippti úr honum flögu einni, tók þar út sjóð nokkurn og lánaði Þorláki það hann hafði um beðið; sáu þetta heimakonur tvær. Natan kom eitt sinn að Fjalli í Sæmundarhlíð, bjó þar Arni bóndi Helgason frá Þverárdal, Jónssonar harða bónda er á Mörk hafði búið. Arni átti Margrétu Björnsdóttur frá Mjóadal, vitra konu, systur Ólafs hreppstjóra á litlu Giljá, og margt barna. Arni var gestgjafi mikill og vel fjáreigandi, var Natani boðið inn, sem siður var þá gestir komu. Arni hafði um hríð haft fleiður eða kaun lítið á vör. Natan mælti við Arna: „Djöfullinn situr á vörinni á þér í hnipri, lát mig við gera í tíma“. Arni virti það að vettugi og tók í glettni, hafði og lítinn þokka á Natani, en svo fór að krabbamein varð úr, en dauðamein hans um sjötugs aldur; frá þessu sagði Margrét ekkja Arna. Natan hafði þá og læknað krabbamein á manni þeim er Þorvaldur hét Bjarnason, er að vistum var í Valadal með Ólafi bónda Andréssyni, lifði Þorvaldur sá lengi síðan. Vorm Símonsson Bech bjó að Geitaskarði, auðugur maður og hreppstjóri Langdælinga, hann átti Lilju Daníelsdóttir, Sveinssonar úr Eyjafirði, og voru þeirra börn: Þuríður, Elizabet, Símon Daníel, Worm, Lárus og Helga, koma þau ei við þessa sögu, er þess eins getið, að Elizabet var krönk mjög, lét Worm faðir hennar leita Natans, læknaði hann hana að mörgum frágengnum.


XXIII KAP. Natan læknar Guðrúnu á Þingeyrum.

Guðrún Runólfsdóttir kona Bjarnar Ólsens á Þingeyrum, var góðlát kona og vitur, hún hafði afar lengi krönk verið, og þó leitað allra nálægra lækna árangurslaust. Eitt sinn kom Natan að Þingeyrum, og bauð Guðrún honum inn að drekka kaffi þó henni væri ekki um hann. Mælti hann þá, að lítt batnaði henni fyrir gjald sitt hjá læknum, svaraði hún þá sem í glettni, að eptir væri að kaupa að honum lækningar; sá hann gjörla því hún mælti svo, og svaraði því að lítils myndi við þurfa, og glotti við, var hann þar um nóttina; þóttist Guðrún eigi hafa rétt gjört, að hafa í spéskap lækningar hans, og tók það ráð að spyrja hann um morguninn með alvöru, hvað hann mundi til leggja, réði hann henni þá skjótt að drekka fjallagrasavatn um hríð, en á milli af blóðbergi eptir þeirri lögun er hann sagði fyrir, en varast að neyta garðakáls og mjólkurmatar, en eta allan mat annan, er henni þætti beztur, sjálf kynni hún hóf á nautninni. Kom svo að Guðrún varð heil á þriggja vikna fresti, átti hann jafnan síðan vinum að mæta á Þingeyrum; en er hún launaði honum lækninguna og kvað launin of lítil, en hann of mikil, sagði hann sér þætti meira vert að hún léti sig njóta sannmælis, er hún var vitur kona og drenglynd, því eigi mundi of góður rómur eptir sig dauðan; hefir Guðrún sjálf frá þessu sagt. Nær þessum stundum læknaði hann Guðrúnu Þórðardóttur, konu Blöndals sýslumanns, kvað hann slíkar konur vert að lækna, er bæði væri vænar og duglegar. Mikið orð fór nú af lækningum Natans, enda var hann ærið glöggsær um mein manna og hjálpaði mjög mörgum.

Um þessar mundir er sagt að Natan færi alfarinn frá Lækjamóti; þá er Rósa fann ást hans til sín þverra, kvað hún til hans ljóðabréf og er þetta ein vísan:

Ektaskapar æru og trú,
allt veðsetti' eg fyrir þig,
af einni tröppu á aðra þú,
til ófarsældar leiddir mig.

XXIV. KAP. Natan læknar Svein og vélar Pétur.

Nær þessum missirum var Natan beðinn lækningar af manni er Sveinn hét, og bjó á Illugastöðum á Vatnsnesi, klausturjörð frá Þingeyrum. Sveinn var við aldur, krankur mjög, og svo kona hans og dóttir; læknaði Natan konuna, dóttur hans og griðkonu, en vannst lítið á við hann sjálfan, þóttist hann sjá að Natan legði ei alhuga á sig, og hafði orð um, Natan kvað honum eigi bata þörf er hann var gamall, og barst það út. Í sauðarétt í Stafni í Svartárdal, beiddi Arnljótur hreppstjóri á Gunnsteinsstöðum Natan eigi svo guðlausan vera, að lækna eigi Svein ef hann mætti. Natan kvað honum eigi þörf á að lifa svo gömlum, og kvaðst vilja fá Illugastaði til ábýlis. Arnljótur kvað betra að hafa það í skilorði við Svein ef hann gæti læknað hann, gjörði Natan það og játti Sveinn því sem vænta mátti. Natan reið norður í Eyjafjörð, og gisti á Tyrfingsstöðum í Skagafirði, hjá Pétri bónda, ættuðum úr Fljótum, og hafði Pétur þessi fóstrað meybarn það, er Natan gat við hlaupa-Halldóru, var mærin nú 10 vetra og svo fóstruð af Pétri sem hann sjálfur ætti, lézt Natan nú vilja borga barnsfúlguna því lítt hafði hann áður goldið, fékk hann nú Pétri 10 dali í seðlum, lét hann Pétur þá rita lúkningarskrá fyrir meðgjöfinni, en Natan las honum fyrir, og skildu þeir sem vinir. A vesturleið kom Natan að Þverá í Vesturhópi, þá var þar að vistum Jón er sig kallaði Bergsted og síðan fór með lækningar, þeir Natan voru kunnugir, og sagði hann Jóni af hljóði viðskipti þeirra Péturs og sýndi honum lúkningarskrána. Jón spyr: „Hversu fékk maðurinn kvittað þig þannig?“ Natan mælti: „Þeir sögðu eg hefði gefið honum að súpa á glasi, og ritaði hann þá eptir því er eg stílaði fyrir“; er þetta sögn Bergsteðs. Eptir það lagði Natan sig til að lækna Svein á Illugastöðum, varð hann heill og sagði síðan lausri jörðinni, en Björn Ólsen byggði Natani hana og flutti hann þangað um vorið.


XXV. KAP. Natan fer að búa og frá hyski hans.

Nú hafði fjárdrápsmálið verið upp tekið í Húnaþingi, því eina nótt á Góu barst það að á ytri Langamýri á Bug, þar Höskuldsstaða-Pétur átti ásauð sinn, að 70 ær höfðu verið reknar um nótt úr tveimur fjárhúsum, var sumt ánna komið heim aptur til fjárhúsanna, en 30 lágu stungnar og undnar úr hálsliðum á hálu svelli skammt frá bænum, voru 27 dauðar en þrjár lifðu er fólk bar að, sem dóu skömmu síðar; 12 kindur stóðu uppi meðal hinna drepnu, – segir gjörr frá þessu í Húnvetninga sögu, og einkum í sögu Eyólfs og Péturs. – Þá bjó Höskuldsstaða-Pétur á Gili í Svartárdal, og hafði náð því undan Eyjólfi Jónassyni, er mál þeirra risu af, en þeir urðu sekir um fjárdrápið, Jón Arnason frá Botnastöðum og Pétur, son Skúfs-Jóns, voru þeir dæmdir á Brimarhólm og hafðir í varðhaldi; var það nú þetta vor að Natan fór að búa á Illugastöðum, og var þá með honum Hellulands-Þorlákur. Gísli hét ungur maður, sonur Skörðugils-Brands, fullur meinlæta, er vestur fór með Natani og læknaði Natan hann. Sigríður hét bústýra Natans, all-ung, var hún dóttir Guðmundar á Haukagili í Vatnsdal, Jónssonar, Ísakssonar, Björnssonar frá Asbúðum á Skaga, en Helga var móðir Guðmundar, kona Jóns, Bárðardóttir brotinnefs, systir þeirra Högna skálds, Halldórs og Þorsteins er kvað Greifarímu. Guðmundur átti margt barna, hét Helga seinni kona Guðmundar, og var Sigríður þeirra dóttir, hann var andaður er hér var komið. Þau missiri fór griðkona sú enn til Natans er Agnes hét, kölluð Magnúsdóttir, bróðurdóttir Jóns Magnússonar á Sveinsstöðum, en aðrir sögðu hana dóttir Jóns Bjarnasonar á Brekkukoti í Þingi, var hann kynjaður vestan af Skarðsströnd. Agnes var vel viti borin og hagorð, hafði hún áður kveðizt á við Ketil Ketilsson stríðvísur nokkrar, var kallað henni veitti þar miður; orð hafði á komið að Natan fengi Agnesar, en það var almæli að hann ætlaði að eiga Sigríði. Sigurður Þorsteinsson, sá áður er getið að var í för með Natani að Holti, var og á vist með honum til lækninga.


XXVI. KAP. Viðureign Natans og Friðriks.

Sigurður hét maður, Ólafsson, frá Skíðastöðum í Tungusveit í Skagafirði, en þeir voru bræður Sigurðar: Gvendur þjófur er utan var dæmdur, Ólafur bóndi á Öxl í Þingi, Guðni á Ölduhrigg í Skagafirði og Jón. Sigurður hafði verið grunaður um, er hann var heima með foreldrum sínum, að hafa hengt kerlingu í hálstrefli sínum er heyrnarlausa Ranka var kölluð. Sigurður var knálegur maður, lítill vexti og nú tekinn að eldast, bjó hann í Katadal á Vatnsnesi og átti konu þá er Þorbjörg hét Halldórsdóttir, frá Hjallalandi, son þeirra hét Friðrik, viti borinn, illa vaninn og hinn ósvífnasti. Gísli var einn þeirra bræðra Sigurðar, hafði hann búið í Brekku norður hjá Víðimýri, og átti konu þá er Ingiríður hét Pálsdóttir, svarri mikill, höfðu þau verið lítt þokkuð og voru nú skilin, en Gísli kominn vestur í Katadal til bróður síns, var hann jafnan kallaður Brekku-Gísli. Friðrik komst í kunnleika nokkra við Natan. Nú var það að hval rak í Vik á Vatnsnesi, hafurketti þrítugt milli skurða, og varð úr þræta milli Björns Ólsens á Þingeyrum og Helga í Krossanesi á Vatnsnesi, komu margir á hvalfjöruna og með öðrum Natan frá Illugastöðum og Friðrik frá Katadal; bar þeim til út af hvalþjósum nokkrum, færði Friðrik þá ífæru í brjóst Natani svo blóð dreyrði af, hljóp Natan þá á Friðrik, flugust þeir á og stóðst Natan eigi Friðrik. Björn Ólsen mælti: „Það er skömm fyrir þig Natan að falla fyrir stráknum, alténd getur þú kveðið um hann vísu svo dragi“. Natan mælti: „Hann mun eiga annað meira eptir; hér er um annað að gera“. Björn mælti: „Líklega að skeina með þér jörðina annað sinn“. Natan mælti: „Ef ei annað verra“. Og það sagði Natan öðru sinni, að þetta mundi sitt síðasta ár, og mátti kalla það yrði að spámæli þó litlu lengur drægist; en að öllu rættist það er hann mælti um Friðrik; það var og fleira er svo var að sjá sem Natan vissi fyrir. Guðmundur Ketilsson bróðir hans ritaði honum ljóðabréf þenna vetur, og er þetta eitt erindið:

Vertu bróðir var þig um,
vonaðu eptir slisunum,
heima áttu á höggstöðum,
þar hætt er vígabrandinum.

Það hafa sumir sagt að Natan segði, að víst mundi Friðrik morðingi orðinn áður hann næði tvítugs aldri.


XXVII. KAP. Draumar Natans og Péturs.

Mælt er það, að jafnan héldi Blöndal sýslumaður svari Natans eptir það hann læknaði Guðrúnu konu hans, Natan var draumamaður mikill sem móðir hans, og dreymdi opt illa um sjálfan sig, ætluðu sumir ýkjur vera, en eptir því er síðar kom fram, héldu flestir þá sanna vera. Það var eitt sinn: „að hann þóttist staddur í kirkjugarði einum – líkt hafði hann áður dreymt –, sýndist honum þar í garðinum lík eður hræ nokkurt, viðbjóðslegt og svart, og brunnið utan, og pöddur þrjár eða eðlur mórauðar sátu á því, nöguðu það og hoppuðu við, varð honum hverft við í svefninum, en þótti þá maður standa hjá sér er hann þekkti eigi. Natan þóttist spyrja hvaða hræ þetta væri? En sá svaraði: „Þekkir þú ei lík þitt?“ og þá vaknaði hann“. Natan sagði Vorm á Skarði og fleirum draum þenna; Vorm kvað opt ljótan draum fyrir litlu efni. Fjárdráps-Pétur var í haldi með Vormi, hann dreymdi það, að hann mætti þremur ám, þeim er þeir Jón Arnason drápu á Langamýri, og jörmuðu allar upp á hann, var það opt að hann dreymdi ærnar, sagði frá og hló að, þó kom svo að honum tóku að ofbjóða draumar sínir, og sá einn: „að honum þóttu ærnar koma framan dalinn, og ein hvítkollótt framgjörn á undan, stóð blóðbogi úr henni, færðist hún óðum að honum svo á hann sprændi dreyranum, varð honum bilt við það og hrökk upp“. Natan kvað sig dreymt hafa, ásamt mörgu öðru, að illur andi stingi sig í kviðinn, ofbuðu honum slíkir draumar og var jafnan dapur á eptir. Mey eina á Norðurárdal í Hegranesþingi dreymdi: „að henni þótti margt fólk komið að Silfrastaðakirkju, og stóð fjöldi manna í kirkjugarðinum, hún þóttist sjá Natan standa þar á háu leiði og heyra hann mæla fram vísu þessa:

Vondir og góðir veljast hér,
víst þeim stóra herra;
gæti hver að sjálfum sér,
svo hann hendi ei verra.

Vér ætlum þessa vísu gamla þó sumir ætli það ekki.


XXVIII. KAP. Ráðið að myrða Natan.

Friðrik Sigurðarson tók nú að leggja hug á Sigríði bústýru Natans, og er Natan fann það, lézt hann mundi ná Sigríði til handa honum, og er sagt að Friðrik gæfi honum til þess silfur nokkurt, var þá álitlegt með þeim um hríð. Nú var Gísli Brandsson norður farinn, er til lækninga var með Natani; á brott var og Hellulands-Þorlákur, en Sigurður Þorsteinsson var enn með honum til lækninganna, því brugðið hafði hann búi til þess á Skefilsstöðum á Skaga, er hann var orðinn barnlaus ekkill eptir Valgerði Grettisdóttur, aldraða konu; launsynir Sigurður voru þeir Jóhannes, kallaður bústólpi og Hallgrímur, kallaður Rósnefur, eigi áttu þeir barna. Það er sagt að Natan mislíkaði við smalasvein sinn eitt kveld, en um nóttina varð sveinninn bráðdauður, sagði Natan þá, að hann hefði dáið úr dygð; en þó illur grunur legðist á lát hans sökum ummæla Natans, ætla þó kunnugir að einskis væri hann um valdur. En sagt var það, að Natan sængaði stundum með Sigríði bústýru sinni, reiddist Agnes því, og þóttist vita að ei ætlaði hann að ganga með sér; Friðrik gramdist og mjög Natani, og þótti sýnt að ei mundi hann styrkja sig til að fá Sigríðar, héldu þær og báðar, Agnes og Sigríður, að hann mundi svíkja sig, þar hann hafði báðum eiginorði heitið, kom svo að Sigríður varð mjög sinnandi Friðrik, og bundust þær í því með honum, að fyrirkoma Natani þá færi gæfist; var það nú eitt sinn er Sigurður þorsteinsson var ei heima, að Friðrik frá Katadal kom á Illugastaði og Brekku-Gísli með honum og ætluðu að myrða Natan, en er hann varð þeirra var, bauð hann þeim gisting og lét uppi allan greiða, enda var hann manna gestrisnastur, kom þá og Sigurður heim; sagði Friðrik svo síðan, að þá hefði hann ei nennt að myrða Natan þó í færi hefði komizt, fóru þeir heim um morguninn, og var því lokið að þau ynni honum mein að því sinni.


XXIX. KAP. Framferði Natans við Pétur.

Pétur bóndi á Tyrfingsstöðum undi því illa að hafa ritað Natan kvittan um framfærisféð, og skildi ei hversu Natan gat vélað hann, bað því Espólín sýslumann veita sér að málum, en hann ritaði Blöndal sýslumanni, er þegar bauð Natani að gera skil á hversu við vissi. Tók Natan þá leiðarbréf til Skagafjarðar um vorið, og stefndi Pétri til sáttafundar að stóru Ökrum, fyrir þá Sölva prest, og Þorlák auðga Símonsson á Ökrum; hafði Natan þá lúkningarskrána í höndum, með nafni og innsigli Péturs, vildi hann þá eigi sættast með minna en 100 dala millilagi, kvað hann hafa ranglega ákært sig fyrir yfirvaldi sínu, og kallaði rógsök á vera, og hét að sækja til fullra laga, þá hann var áður kvittaður um allt fúlguféð, en þó kom svo fyrir umtölur sáttaleitarmanna, að hann kvaðst mundi sættast með 50 dala gjaldi til sín frá Pétri, og kvaðst gera það fyrir orð Þorláks auðga, með þeim hætti að Pétur veðsetti sér 1 hndr. úr Tyrfingsstöðum, og varð Pétur að því að ganga, lýsti Natan því þá, að yrði peningar þeir ekki goldnir fyrir þau næstkomandi árslok (1827), flytti hann sig á hundrað það í Tyrfingsstöðum hið næstu vor. Fór Natan síðan vestur aptur til bús síns.


XXX. KAP. Illræði Natans við Pétur bónda.

Vorm hreppstjóra á Geitaskarði þraut heilsu, lét hann þá sækja Natan öndverðan vetur, kom hann og var þar um hríð. Daníel hét einn húskarl Vorms, sonur Jóns lausamanns Jónssonar á Skagaströnd, þann sendi Vorm vestur að Illugastöðum að gæta sauðfjár Natans meðan hann dveldist á Skarði, en er Daníel kom vestur, komst hann brátt í kunnleika við Friðrik í Katadal, Sigríði og Agnes, sögðu þau svo síðan, að hann legði ráð á að fyrirkoma Natani. Pétur á Tyrfingsstöðum vildi fyrir engan mun að Natan flytti á Tyrfingsstaði móti sér, er hann hafði á orði haft, og kom hann nú nær jólum norðan með peningana, þá Natan var á Skarði með Vormi, kvaðst Pétur heldur vilja gjalda en eiga sambúð við Natan, hittust þeir á Skarði og voru þar nótt saman, óskaði Pétur að Natan gæfi sér upp nokkuð, því hann vissi hversu allt væri undir búið, Natan hló að og kvað hann mega þakka fyrir að sleppa við svo búið, andæpti Pétur því þunglega og beiddi guð að sjá sinn hluta, galt féð og skildu við það. Eptir það fór Natan vestur um nýjár (1828), og var heima um hríð, var þá ár mikið til sjós og lands.


XXXI. KAP. Dráp Natans og Péturs.

Natan fékk enn boð frá Vorm um miðjan vetur, fór hann en vannst lítt á með lækninguna, vildi hann þá heim fara eptir meðulum, fékk hann til fylgdar fjárdráps-Pétur er í haldi var með Vorm, en Jón Arnason var með Arnljóti hreppstjóra á Gunnsteinsstöðum; þeir Natan komu að liðnum degi til Illugastaða, var þá Sigurður Þorsteinsson ekki heima, en Daníel farinn á leið aptur til Geitaskarðs, höfðu þeir Natan farizt hjá. Friðrik í Katadal var kominn og leyndist í fjósi. Hafði Natan mjög flýtt sér vestur, lögðust þeir Pétur og hann til svefns er rökkvaði, ætlaði hann og degi síðar til Skarðs aptur. En þau Friðrik, Agnes og Sigríður ræddu nú um að veita þeim aðgöngu, var Friðrik nokkuð tregur í fyrstu sökum þess að Pétur var með Natani, en þær hvöttu og létu ei öðru sinni vænlegra, sótti þá Sigríður slaghamar, var hann úr eigu Páls á Miklahóli Sigfússonar, eptir Pál smið föður Sigfúsar, litlu verði keyptan af Natani, fékk Sigríður hann Friðriki, hljóp hann þá inn og Agnes með honum, en Sigríður gætti barns eins fram í bænum, sem Natan hafði tekið af fátækum að mælt er; er sagt að Sigríður segði því að inni væri verið að skera hrúta. Þeir Natan sváfu andfætis, sló Friðrik Pétur rothögg með hamrinum og molaði hausinn, hann braust um nokkuð og vaknaði Natan við og mælti: „Hví gerir þú mér þetta Vorm vinur“. Er svo að sjá sem hann dreymdi Vorm sér eitthvað illt gera, kallaði síðan og bað kveikja, segir Pétur hafa fengið slag eður flog, í því sló Friðrik hann með hamrinum, varð rothögg í fyrstu, lét hann þá hamarinn ganga um hann og braut handlegg hans, raknaði þá Natan enn við nokkuð, baðst friðar og bauð ærna peninga til lífs sér, en það tjáði eigi og hvatti Agnes Friðrik fram, og kom svo að Natan fékk fullan bana, að þau ætluðu. því hann rotaðist í öðru sinni; báru þau þá hvalfeiti á rúmbríkurnar og innviðu hússins og báru eld að; í því raknaði Natan við nokkuð úr rotinu og mælti óráð, varð þeim felmt við og ætluðu hann gengi aptur, eggjaði Agnes þá mjög og kvaðst sjálf skyldi að vinna ef Friðrik æðraðist, greip hann þá kníf og stakk hann stingi marga, eptir þeirra eigin sögn, en sumir segja að Agnes ynni og á honum, og það ætlum vér satt vera; Natan var vetri betur en hálffertugur er hann var drepinn, en Pétur yngri þá er morð þessi spurðust í Skagafjörð, kvað Gísli Konráðsson og sendi Espólín sýslumanni:

Hræðilegur voða vigur
vestra Natan lesti flatan,
sæng í myrður stunginn stærðar
stingjum niður um bringu og kviðinn,
sjö að tölu, segja halir,
sára refðis- nárinn hefði
-undir holar, en andar skýli
átti hlöður á náttartröðum.
Tvær að vísu týrar lausar
tróður, því að stóðu vígi,
samvitund við semja reyndu
sjálfan glóp og bálför skópu,
lætu trylldir, átur elda,
enn að farga brennuvargar,
líkin smurð að ljúka morði,
líka rúm og bríkur í húmi.
Seka Pétur svika neytir
í sama ranni lamaði þannig,
leggur risið högg að hausi,
hamri skapan samri drap hann,
höfuðið kyndugt klauf í sundur,
kyndu bál, með lyndið hála,
eldar gnúðu valdir viðum,
vendir háfa brenndu rjáfur.
Silfur fundu sjálfri hendi,
sem og annað, kemur sannað,
stálu, fólu, fúlu véla
feikna hjú, að teiknum snúin,
hara flugna forsi mögnuð,
fýstust þráir, lysti náir,
félli að dupti, en fallnir eptir,
fundust sviðnir, stundir liðnar.

Hallgrímur Jónsson aukalæknir, Eyfirzkur, er þá bjó að Nautabúi í Skagafirði, kvað svo í ljóðabréfi um morðið:

Pétur stirt sem fór með fé,
fékk nú hirting bráða,
og Natan firrtur fjöri hné,
Friðrik myrti báða.
Vífa slingan veiðimann,
víst nam þvinga losti,
er helstingjum olla vann,
og peninga þorsti.

Þau Friðrik ætluðu að brenna bæinn með líkunum, en tóku áður burt það fémætast var, var Brekku-Gísli þá kominn að hirða og fela það undan yrði skotið; fleiri urðu og sekir um þjófnað þann og meðvitund; þar starfaði og að maður sá er Jóhannes hét, Magnússon, og systkyn tvö, Eyvindar börn, Þórunn og Brynjólfur, griðka sú er Elinborg hét, Sigurðardóttir, var þar og við riðin. Það er sagt að þau Friðrik tækju rekkjuvoðir undan þeim Natani, en brenndu þær síðar. Agnes og Sigríður fóru til bæja, og kváðust flúnar úr eldsvoða, sögðu Natan hafa sett saman meðul um kvöldið, er hann ætlaði með til Geitaskarðs, og haft við eld mikinn, mundi af því hafa kviknað í húsinu; var þetta fyrst út borið. Menn fóru til og slökktu eldinn, fundu lík þeirra Natans og Péturs, sviðin mjög, en Natans þó meira en upp að miðju, svo að mjaðmarspaðarnir stóðu út berir.


XXXII. KAP. Guðmundur kemur upp morðinu.

Nú spyr Blöndal þessi tíðindi, og lét þegar senda eptir Guðmundi á Sneis, bróður Natans, kom hann skjótt og ætlaði að smíða kistu að líki Natans, þegar hann sá líkið, kvað hann undir nafni Natans:

Ó minn bróðir, sem enn þá lífs
ert, og bíður þíns dauða kífs,
aðkvæða dóms og umbunar,
ávaxtar þess er trú þín bar,
sjáðu hvernig lék syndin mig,
svo mitt dæmi leiðrétti þig.

En þó Guðmundur mælti þetta til sjálfs sín og í góðu skyni, apaði Níels skáld það fyrir honum, því hver apaði fyrir öðrum eptir að þeir komust í mótkveðlinga; kvað Níels nú 6 vísur og er þessi fyrst:

Hafi við Natans helför skeð,
það hitt gat ekki bezta mann,
þá geta menn að sönnu séð
að syndin hafi skaðað hann.

Guðmundur fann skjótt áverka á líki Natans er hann skoðaði, og er sagt hann fyndi alls 7 stingi, handlegginn brotinn og höfuðið lamað, brotið var og höfuð Péturs, kallaði hann þá votta til og sýndi benjarnar, reið síðan í Hvamm og sagði Blöndal sýslumanni, reið hann sjálfur til að skoða líkin; þótti nú víst að af manna völdum væri og að Agnes og Sigríður hlytu til að vita, lét nú sýslumaður grípa þær og flytja í Hvamm, tók síðan að ganga á þær, en þær þrættu harðlega í fyrstu, kom þó svo að þær meðgengu og nefndu Friðrik til. Þegar Rósa spurði dráp Natans, eru henni eignaðar vísur þessar:

Þegar síðast sá eg hann,
sannlega fríður var hann.
allt sem prýða má einn mann,
mest af lýðum bar hann.
Hefi' eg lengi heimsfögnuð
haft og gengið bjarta,
nú veit enginn utan guð,
að hvað þrengir hjarta.

Og enn:

Angurs stranga leið er löng,
lengi strengist mæðan ströng,
mig langar þangað geðs um göng,
sem gengur að mengi engin þröng.

Vísurnar geta vel verið fleiri þó vér vitum eigi.


XXXIII. KAP. Tekinn Friðrik morðingi.

Nú reið Blöndal við nokkra menn í Katadal, og er þeir komu á bæinn, gengu þeir fyrst bak húsum en tveir börðu að dyrum og kom Friðrik út, jafnskjótt tóku þeir sinn í hvern handlegg Friðriki og járnuðu hann þegar, sagði hann þá, að hann iðraðist eptir að hafa ekki bissu sína út með sér, fyrst slíku ofbeldi og ranglæti væri beitt við sig saklausan. Þorbjörg móðir Friðriks lét sem yfir sig liði er Blöndal sagði henni að Friðrik væri tekinn, bauð Blöndal þá Jósep stúdent Skaptasyni, ritara sínum, að bregða ljósi að augum hennar, gerði hann það, deplaði hún þá augunum og raknaði þegar við úr uppgerð þessari; þótti hún jafnan harðlynd vera. Sigurður Ólafsson, faðir Friðriks, vissi og um morðið og þjófnaðinn. Var það nú fyrst að Friðrik þrætti all-lengi og harðlega, og illskaðist við er á hann var gengið, og kvað allt slíkt álygar og illmæli um sig. Þá er sýslumaður þingaði í málinu, gekkst þó Friðrik við morðinu og var hann þá 17 vetra, rættist nú það er Natan sagði, að níðingsverk myndi hann vinna innan tvítugs aldurs. Þá er Friðrik hafði meðgengið, var hann einarður í öllum frásögnum og þóttist enda þarft verk unnið hafa, kenndu menn það illu uppeldi og rangskildum kristindómi, en ætluðu hann ei skilningsminni en aðra ef hann tæki leiðbeiningu.


XXXIV. KAP. Frá Friðrik, Agnes og Rósu.

Blöndal sýslumaður þingaði nú mörg þing í máli þessu, og urðu margir sekir um meðvitund á morðinu, þjófnað frá Illugastöðum og þjófshylmingu; meiri þjófnaður kom og upp um hina seku frá öðrum mönnum. Friðrik viðurkenndi og miklu fleira en hann var um spurður, og kom upp um foreldra sína og aðra; eigi kallaði hann réttilegt að verða að þola dauða fyrir verk sitt, mætti það frægt heita að hafa drepið tvo hina verstu menn, kvaðst hann vera þriðja verst mannsefni; hann stóð við meðkenningu sína og þótti það fyrna dirfska; í haldi var hann hjá Birni Ólsen á Þingeyrum. Þegar stund leið viknaði Agnes fyrst og vildi þá týna sér, en síðan lézt hún líða vilja fyrir brot sitt sem fyrst og orti iðrunarsálm. Natans-Rósa, er svo er kölluð nyrðra, eptir samveru þeirra Natans, ljóðaði á Agnes eitt sinn er hún gekk úr þinghúsinu:

Undrast ekki baugabrú
þó beiskrar kennir pínu,
hefir burtu hrifsað þú
helft úr brjósti mínu.

Agnes svaraði því með vísum þessum:

Sálar minnar sorg ei herð,
seka drottinn náðar,
af því Jesús eitt fyrir verð
okkur keypti báðar.
Er mín klárust ósk til þín,
angurs tárum bundin,
ýfðu ei sárin sollnu mín,
sólar báru hrundin.

Fleiri eru sagðar vísur þeirra, en vér þekkjum þær eigi.


XXXV. KAP. Dómar í morðsmálinu.

Friðrik var nú orðinn 18 vetra er hann var dæmdur, Sigríður 17, en Agnes 33. Þorbjörg Halldórsdóttir, Sigurður maður hennar, Daníel húskarl á Skarði og Brekku-Gísli, voru öll ákærð um meðvitund í morðinu, þjófnað og þjófshylmingu; Jóhannes Magnússon, Þórunn og Brynjólfur, Eyvindar börn, og Elinborg Sigurðardottir fyrir meinsæri, þjófnað og þjófshylmingu. Dæmdi Blöndal í máli þessu 2. júlí 1828, að Friðrik, Agnes og Sigríður skyldu hálshöggvast með öxi, og þar eptir leggjast á steglur og hjól, en höfuðin setjast á stjaka; Daníel dæmdi hann á Kaupmannahafnar sögunarhús um 4 ár; Þorbjörgu 5 ár á betrunarhús í Kaupmannahöfn; bræðurna Sigurð og Gísla til að hýðast þrennum 27 vandarhöggum hvern; Jóhannes Magnússon jafn mörgum; Þórunni Eyvindardóttur 20; Brynjólf bróður hennar 10, en Elinborg Sigurðardóttir skyldi sýkn. Þau Friðrik, Sigríður og Agnes, skyldu öll gjalda 29 dali silfurs, erfingjum Natans, fyrir hús og fjármuni, brennt á Illugastöðum; Friðrik og Brekku-Gísli andvirði þess er seinna var brennt með 11 dölum; Friðrik einsamall verð stolinnar rekkjuvoðar frá Natani með 16 fiskum eða 1 dal 72 sk.; Friðrik, Þorbjörg og Þórunn stolnar sauðkindur frá Natani og erfingjum hans með 68 fiskum á landsvísu eða 4 rd. 12 sk. í N. V.; Friðrik einsamall Guðmundi bónda Guðmundssyni á syðri Þverá 2 rd. 32 sk., Bjarna Guðmundssyni á ytri Völlum, Jóni Péturssyni á litlu Borg og Hjálmari Guðmundssyni á Sigríðarstöðum 2 dali í silfri hverjum; erfingjum Natans gjaldi Daníel 10 dali, Sigurður í Katadal 2 dali, Jóhannes Magnússon 6 fiska; Þórunn Eyvindardóttir gjaldi Björgu Guðmundsdóttur, griðkonu í Vesturhópshólum, fyrir stolin sauðskinn 12 fiska eða 81 sk., og loksins gjaldi þeir Friðrik og Brynjólfur Eyvindarson, Gísla presti Gíslasyni í Vesturhópshólum, fyrir stolin sauðskinn 12 fiska, eða 81 sk.; borgi og allir hinir seku málskostnað að niðurjöfnun, og fangarnir fangahaldið. Síðan fór málið fyrir landsyfirrétt; hinn 27. okt. um haustið voru þau Friðrik, Sigríður og Agnes dæmd að höggvast, og höfuðin að setjast á stöng, Brynjólfur Eyvindarson til 15 vandarhagga í stað 10, en að öðru var dómur Blöndals staðfestur; sóknara við landsyfirréttinn voru dæmdir 6 dalir, en ef efni skorti hina seku að lúka sektirnar, skyldi þeim niður jafna á amtið; var málinu síðan skotið fyrir hæstarétt, sem siður er til um óbótamál, og beiðst linunar á dauðarefsingu.


XXXVI. KAP. Frá Friðrik, Þorbjörgu og öðru.

Guðmundur Ketilsson hafði misst Helgu konu sinnar, en fengið konu þeirrar er Auðbjörg hét Jóelsdóttir, hún hafði áður kennt barn Arna hvítkoll, manni Ketilríðar Ketilsdóttur, er Ögn hét, þótti það fánefnt og eignuðu menn Guðmundi meyna, enda gekkst hann við henni er hann hafði fengið móður hennar. Ögn var mállaus, en að öllu öðru vel á sig komin, námfús til munns og handa, ritaði hún það er hún vildi mæla. Annað vor eptir dráp Natans (1829) fór Guðmundur byggðum á Illugastaði og bjó þar lengi síðan. Kona ein á Þingeyrum varð þess vör fyrir jólin að nýir skór voru hjá Natan, sagði hún Ólsen, en hann fór þegar og rannsakaði og fann skóna. Friðrik var í þrennum járnum, en Ólsen fann hjá honum lykla að tveimur hlekkjalásunum, spurði hann þá hversu hann hefði fengið þá. Friðrik sá að ei var undankomu von, og kvað Pétur Skúlason á Gili hafa sent sér lyklana og skóna, en griðkona þar á heimilinu komið þeim til sín, hefði Pétur haft það í skilorði við sig, að drepa Eyjólf Jónasson, er í málunum átti við Pétur, og skildi hann þá skjóta Friðrik undan með hestum og öðrum fararbeina. Eigi vildi griðkonan sanna sögu Friðriks, er og sagt að Ólsen knýði lítt á. Mælt er að Þorbjörg móðir Friðriks, færði honum bláar buxur vel gerðar meðan hann sat í haldinu, en honum geðjaðist lítt að, á hún þá að hafa sagt: „Mér þótti enginn betur til þeirra komin en þú, hefi eg sniðið þær og litað úr rekkjuvoð undan Natani heitnum“. Ætla menn hún vildi storka honum fyrir að hafa meðgengið; hefir Jón Bergsted frá þessu sagt, er þá var í Húnaþingi og kunnugur á Þingeyrum.


XXXVII. KAP. Hæstaréttardómur birtur Friðriki.

Morðsmálsdómana samþykkti hæstiréttur að mestu leyti 25. júní, skildu þau Friðrik, Agnes og Sigríður missa höfuð sín, og þau setjast á stöng; Daníel 4 ár á sögunarhús; Þorbjörg 5 ár á betrunarhús; bræðurnir Sigurður og Gísli hýðast þrenn 27 högg; Jóhannes 30, Þórunn 20 og Brynjólfur 10; allir hinir seku skyldu gjalda fjársektirnar, en af almennum sjóði það ekki hrykki til, málafærslumanni fyrir hæstarétti er Salicath hét, bæru 30 dalir í málfærslulaun, er greiða skyldi af málskostnaðinum að niðurjöfnun. Eptir að dómurinn var út kominn reið Blöndal ofan að Þingeyrum, hann kom þar síðla dags og bað Ólsen hann geyma birtinguna til morguns, því hann óttaðist tiltektir Friðriks, enda töldu menn hann einskis mundi svífast, og jafnvel ekki að rota sig á járnunum ef hann gæti. Þegar er hann spurði að sýslumaður væri kominn, vildi hann fara á fund hans, en fékk það eigi fyrri en um morguninn, kom hann þá inn áður sýslumaður var upp staðinn og spurði frétta um mál sitt. Blöndal sagði dómana staðfesta af konungi. Friðrik mælti þá hann heyrði að eigi fékkst linun á dauðarefsingunni: „það þarf þá aldrei að þakka það sem ekki er gjört“. Sagði Blöndal svo frá að hann sæi honum að engu bregða; og er Ólsen kom inn til þeirra, hafði Friðrik hendur á knappabindi er lá á borðinu, en venja hans var að skoða það er nærri honum lá. Ólsen mælti: „Hvað ætlar þú að gera með hnappana þá arna?" Friðrik svarar: “Eg held það detti ekki af þeim gullhringarnir þó eg taki á þeim“. „Þú kannt að gleypa þá“, kvað Ólsen. Friðrik svarar: „Satt er það, að eg hefi verið ætinn síðan eg kom að Þingeyrum, en þó hefi eg hvorki gleypt bein né steina“. Hefir Blöndal frá þessu sagt, og kvað Friðrik eigi geigað hafa hið minnsta. Sannorðir menn segja og, að miklu hnuggnari væru þeir Blöndal og einkum Ólsen; Blöndal hefir og sagt, að kviðið hafi hann fyrir að fara með þeim erindum er hann þá fór. Milduð var dauðarefsing Sigríðar í æfilanga þrælkun, fyrir það að hún var all-ung og lagði eigi hendur á þá Natan; Blöndal, Ólsen og Pétur hreppstjóri í Miðhópi rituðu út fyrir hana og báðu henni lífs; utan var hún flutt í Spákonufellshöfða, og eptir það ýmist frá henni sagt; þar hygg eg og að Þorbjörg og Daníel færu utan.


XXXVIII. KAP. Aftaka Friðriks og Agnesar.

Aftaka Friðriks og Agnesar var af Blöndal ákveðin 12. jan. 1830, ekki langt frá Hólabaki vestan Sveinsstaði í Þingi, á einum yzta Vatnsdalshóla er nær stakur stendur; var byggður á hólnum aftökupallur sléttur, að sið útlendra þjóða, höggstokkur var þangað fluttur, hökuskarð á höggvið og rautt klæði í neglt, gekkst Björn Ólsen fyrir því. Blöndal þótti sér vandfenginn maður að höggva þau Friðrik, og eigi vildi hann þiggja það af Eyfirzkum umrennings vesaling er Jón Þórðarson hét og hafður var til hýðinga, sem bauðst til að höggva þau fyrir tóbakspund og brennivínspott, þá var það, að sumra sögn, að Guðmundur Ketilsson bauðst til að höggva þau og kvað sér skyldast, aðrir bera móti þessu, en hvort sem er, þá fór það fram, og almælt að hann reyndi áður exina í Hvammi. Stefndi nú Blöndal til bændum öllum og mörgum öðrum, allt í Miðfjörð vestur og norður undir Vatnsskarð, skyldi Jóhann prestur á Tjörn á Vatnsnesi Tómasson, lögsagnara á Asgeirsá, telja um fyrir Friðrik, og Gísli prestur í Vesturhópshólum Gíslason, bónda frá Enni í Refasveit, kaus Friðrik hann sjálfur því hann hafði lært af honum stafagjörð; báðir voru prestar þessir skáld og liprir ræðumenn er þeir nutu sín. Lengi var Friðrik tregur, en er á leið til aftökunnar, og einkum kvöldið áður, gekk Gísla presti betur. Þó hefir Ólsen svo frá sagt sjálfur, er kunnugt mátti um vera, að Friðrik væri mjög snúinn nokkrum dögum áður en hann bjóst við dauða sínum, og orðið það fljótt við einskis manns umtölur í það sinn. Friðrik var vel viti borinn, gjörfuglegur eptir aldri, en ýrður mjög á svip sem stuggaði við. A leið til aftökustaðarins var sunginn sálmurinn: „Allt eins og blómstrið eina", entist hann eigi og bað Friðrik syngja hann aptur og svo var gjört; hann baðst að sjá öxina er hann kom á aftökustaðinn, og er hann fékk það, kvað hann hana fagurt vopn, aðrir segja hann sagt hafa: „blessaður réttlætis vöndurinn“. Gekk hann þá að Guðmundi Ketilssyni og spurði hvert hann hyggði að vinna á sér í hefndarskyni, en hann neitaði því og kvaðst þjóna réttinum, þá tók Friðrik í hönd honum og bað hann gæta guðs; á aftökupallinum hélt Friðrik stutta tölu fyrir mönnum er var mjög lofuð, og orti Gísli prestur sálm út af efni tölunnar, en efni sálmsins kennir um uppvakningu, ásakar vanrækslu guðsorðs og telur þar af leiða alla glæpi og varar við henni, þakkar guði uppvakningu sína, snýr sér til trúar á Krist og væntir þar alls af; væntu flestir Friðriki guðs náðar fyrir atferli sitt. Sýslumaður, Björn Ólsen og Arnljótur hreppstjóri gengu upp á aftökupallinn og voru þeir vottar; þá Friðrik sté á pallinn, mælti Gísli prestur við hann allhátt: „Hafðu í minni Jesúm Krist þann krossfesta!“ Arni hét maður frá Enniskoti er leiddi fangana, og Jón böðull Þórðarson, áttu þeir og að starfa að líkunum; kringum pallinn var tréverk og stóðu 150 menn í hvirfingu um það er allir áttu á að horfa, en mælt að sumir skjópluðust í því. Friðrik afklæddi sig sjálfur og braut niður skyrtukraga sinn, lagðist síðan á höggstokkinn með fagurlegri játningu, hjó Guðmundur hann svo ósleitilega að öxin stóð í höggstokknum svo tveir urðu úr að kippa. Meðan þessu fór fram, sátu Vatnsdælir fram í hólunum með Agnesi, var henni fenginn Þorvarður prestur frá Breiðabólstað, Jónsson prests Þorvarðarsonar, Agnes var löngu snúinn og þurfti því lítillar umtölu, komu þeir nú með hana og leiddi Þorvarður prestur hana á aftökupallinn, kvaddi hún menn dapurlega er hún gekk þangað, og bað að dauðadómur sinn væri ei lesinn og þetta gengi sem fljótast, lagðist hún upp í lopt á höggstokkinn en Ólsen bað hana leggjast á grúfu og gjörði hún það; Arni úr Enniskoti hélt í hár henni meðan hún var höggvin, og hugðu menn hún væri í ómegi þá Guðmundur hjó hana, tókst honum það og greiðlega og skar lítið við þá stokksins kenndi, héldu menn hann vilja hlífa öxinni í hið síðara sinni; áður hann hjó Agnesi gaf sýslumaður honum að dreypa á glasi. Enniskots-Arni mælti er hún var höggvin: „Hvað á að gera við hausana sýslumaður góður?“ „Þar sem vargar rífa þá ekki“, kvað sýslumaður. Þorvarði presti lá opt við ómegi meðan á aftökunni stóð, en þeir dreyptu á hann. Guðmundur bóndi Halldórsson frá Asi í Vatnsdal og Jón Bergsted. Þetta er ritað eptir frásögn Ólafs bónda Björnssonar á Auðólfsstöðum í Langadal, Arnljóts hreppstjóra og Jóns Bergsted. Höfuð þeirra Friðriks voru sett á stangir skammt frá aftökupallinum, en líkin lögð í kistur er Ólsen hafði gera látið og flutt þangað, voru þau dysjuð í lægð lítilli á hólnum norðan til við aftökustaðinn og snúið út og suður. Gísli Konráðsson kvað svo í sendibréfi um aftöku þeirra Friðriks:

Morðinginn er Friðrik frá að fengnum dómi,
Agnes kennd við illgjörð rama,
endurgjaldið fékk hið sama.
Eins og lifði gneisti gamall golnis hríða.
genju brá og glitar blóði,
Gvendur hjó þau Natans bróðir.
Hausa burt af bolnum tók, ei bilar rekkinn,
fljótt, sem gneisti flýgi hrokkinn,
fálu munnur smaug í stokkinn.
Svarðarhauður sett á stöng nær sveita vegum,
fregnir sanna, felldist lögum,
fyrir Þorra níu dögum.

Guðmundur fékk 100 dali fyrir aftöku þeirra Friðriks, og gaf þá fátækum; misrætt varð um þetta verk Guðmundar, þótti sumum vel fallið, en sumum ekki. Sagt er að skipari sá er flutti Sigríði utan, keypti hana úr sektum, og fengi hennar síðan bróðir hans. Daníel Jónsson er dæmdur var utan, lifði þar skamma hríð, að sögn. Þorbjörg Friðriks móðir kom út aptur, og þá mjög búin í skart, vildi hún þá ei fara til Sigurðar manns síns, en var um hríð ráðskona Ögmundar prests á Tjörn, Sigurðarsonar, áður hann fengi Ólafar Jónsdóttur Hannessonar að vestan.


XXXIX. KAP. Getið ættmanna Natans Rósu.

Rósu hefir verið hér áður getið, var hún dóttir Guðmundar bónda á Fornhaga í Hörgárdal, voru systur hennar: Sigríður og Guðrún, en bræður: Snorri og Jón. Sigríðar Guðmundsdóttur fékk Ólafur Jónsson, söngmaður mikill, en hann skildi við Sigríði og fékk síðan Steinunnar, dóttur Páls prests á Undirfelli, Bjarnasonar, bjuggu þau Steinun síðan að Leysingjastöðum við Þingeyra. Guðrún Guðmundsdóttir átti Ólaf Ólafsson í Skjaldarvík, bróður Jóns Ólafssonar á syðri Ey á Skagaströnd og síðan á Helgavatni í Vatnsdal; Guðrún var móðir Jakobs er prestur varð á Kálfatjörn og síðan að Ríp í Hegranesi. Snorri Guðmundsson bróðir Rósu, átti Guðrúnu Gunnarsdóttur frá Garðshorni á Þelamörk. Jón Guðmundsson, bróðir Rósu, bjó á Krakavöllum í Vestur-Fljótum, og átti Margrétu, er sögð var dóttir Jóns prests skálds Þorlákssonar á Bægisá, þótt öðrum væri hún kennd í fyrstu, var þeirra son er í skóla nam og þá kallaður Jón Staður, en síðar Grímseyjarprestur um hríð, fékk svo Barð í Fljótum og ritaði sig þá Norðmann. Guðmundur faðir Rósu og þeirra systkyna var Rögnvaldsson, Arnfinnssonar, Jónssonar í Hörgárdal, en móðir hans, kona Rögnvaldar, hét Sigríður Guðmundardóttir, Halldórssonar. Kona Guðmundar í Fornhaga, móðir Rósu og systkina hennar, hét Guðrún Guðmundsdóttir, Ívarssonar, en launson Guðrúnar er talinn Grímur Norðurlands póstur Jónsson, er fyrri bjó á Tréstöðum nyrðra, og síðan að Fjalli í Sæmundarhlíð og dó þar. Rósu Guðmundardóttur fékk sá maður er Ólafur hét Asmundarson, og fyrr um getur, Bárðdælskur maður að ætt, vefari kallaður og spakmenni mikið, þótt Rósu þætti ei allmikið til hans koma.


XL. KAP. Enn frá Rósu, getið Rósants.

Rósa var skáld liðugt og fríð sýnum, yfirsetukona með afbrigðum og að öllu vel á sig komin, þó sumir legði henni til lýta ástir á Natani, var hún gamansöm stundum í kveðskap; eru margar vísur eptir hana, en þær oss einar kunnar er flestir kunna. Þá var hún á Lækjamóti er henni varð að orði staka þessi við mann, er ætlaði að láta hana upp í söðul og kom að henni baka til:

Það sér á að þú ert ungur, því ólaginn,
frjálsari tel eg fremri veginn,
farð' ekk' að mér þarna megin.

Eignuð er og Rósu staka þessi, en ei getið hversu á stóð, líklega við barn kveðin:

Augað mitt og augað þitt,
og þá fögru steina,
mitt er þitt, og þitt er mitt,
þú veizt hvað eg meina.

Það eru almæli að 2 börn ætti Rósa fram hjá manni sínum Ólafi með Natani, þau Rósant Berthold og Súsönnu, en er Rósa fæddi hana og varð ber að hórdómi, kvað hún:

Manna dómur varla var
vægur nöfnu minni;
um æðri hjálp sá ákallar,
áheyrn trú' eg finni.
Lét minn herra leiða af sér
líknarorð að vana:
sá, hver yðar, sem að er
syndlaus, grýti hana.

Rósa missti Ólaf mann sinn nyrðra, litlu eptir dráp Natans, fékk hennar þá ungur maður, Gísli son Gísla prests, í Vesturhópshólum, skáldmæltur og vel að sér, höfðu þau all-lengi búðsetu í Ólafsvík undir jökli, kváðust þau opt á ei allfagurt, er þetta af vísum Rósu um mann hennar, er opt svakaði úti á kveldum:

Opt til veiða Venusar
vopna meiða fjöldinn,
upp á heiði hafssólar
herða reið á kvöldin.
Hvað er að tala um þegna þá,
þeir burt fara á kvöldin,
hvolfandi sér ofan á
Amors stórkéröldin.

Þá Sigurður Breiðfjörð var undir Jökli og hafði fengið Kristínar Illugadóttur frá Melabúð, vildi hann sjá Rósu og er hann kom að herbergi hennar og spurði hver þar byggi, svaraði hún:

Það er Rósa, þú sem hrósa gjörir,
og þig kjósa vill að vin
vafurs ljósa frægstan hlyn.

Breiðfjörð kvað:

Unnar ljósa álfarner
allir kjósa blíðu sér,
ef að Rósa er inni hér,
ofan að drós eg hvolfi mér.

Svaraði hún þá:

í sinnu gólfi segi eg hitt,
sunnu ósa viður,
þú mátt hvolfa þér á þitt,
þarft ei Rósu viður.

Þá Þorsteinn verzlari Þorsteinsson prests var í Ólafsvík, er átti Hildi dóttur Guðmundar agents Schevings í Flatey, sat Rósa yfir henni, og er Þorsteinn flutti vestur á Vatneyri var kona hans þunguð, flutti hann þá Rósu þangað með sér að sitja yfir henni. En er Rósa kom aptur að vestan, dvaldi hún um hríð í Flatey, og var þar vel tekin af göfugum konum, Herdísi dóttur Guðmundar Schevings, systur Hildar, hana átti Brynjólfur Bogason Benediktssen; einnig af Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur prests Kolbeinssonar, konu Ólafs prófasts Sivertsens; þar kvað Rósa stöku þessa:

Væri eg tvítugs aldri á
og ætti von til þrifa,
mér eg kjósa mundi þá,
að mega á Flatey lifa.

Sigríður dóttir Rósu og Ólafs manns hennar var vestra með móður sinni og Gísla manni hennar, Sigríður var þá enn ung, sjáleg mær og afar vel að sér, ól hún sveinbarn og kenndi það Wulf kaupmanni, vildi hann ei fyrst viðgöngu veita, fór þá Rósa á fund hans og ræddi svo um fyrir honum með viturleik og, að sögn, ákafa miklum, að hann tók sveininn, gekkst við honum og fór utan með hann. Úr Ólafsvík fóru þau Gísli og Rósa suður í Hafnarfjörð, og voru að Óseyri svo árum skipti. Fóru þau á sumrum í kaupavinnu norður í Húnaþing, en Rósant Berthold Natansson og Rósu fór norður í Eyjafjörð, gerði hann þá barn dóttur Jónasar er síðar vó Stefán bónda á Asláksstöðum í Kræklingahlíð, en Jónas skar sig jafn skjótt á háls að unnu víginu. Rósant kom með mær þá norðan og flutti suður hið sama sumar og vígið varð, lézt hann mundi fá hennar nyrðra og flutti aptur sunnan, var hann þá í för með móður sinni og stjúpa, en þá ól hún barnið á Arnarvatnsheiði um haustið er þau fóru suður, Rósant gekkst við því og nefndi Július Cæsar, kom fólk þetta að Kalmannstungu í illviðri, var eg, sem þetta rita, þá á 12. ári og man gjörla eptir því; hvort Rósant fékk konu þessarar eða eigi, er oss óljóst.


XLI. KAP. Lok Rósu.

Sveinbjörn son Eyjólfs dannebrogsmanns í Svefneyjum, Einarssonar, útskrifaðist úr skóla 1840, fékk aðstoðarprests vígslu 1843, kvæntist þá Guðrúnu dóttur Guðmundar prófasts á Staðastað, en missti hana sömu misseri eptir tvíbura fæðingu og börnin með, ári síðar kenndi honum barn Guðrún, dóttir Ólafs og Rósu, hét það Svensína, missti hann þá prestskap, en hélt sér um hríð uppi á skriptum við Búðir vestra, áður hann fékk Arnes og leyfi að kvænast Guðrúnu barnsmóður sinni, og fluttist hann þangað 1849. Eptir það fóru þau Sigríður Ólafsdóttir, systir Guðrúnar, vistum norður í Trékyllisvík, og svo Rósant. Nú var það um sumarið 1855 að Gísli maður Rósu fór í kaupavinnu norður í Húnaþing, en Rósa norður á Strandir í Arnes, og var það sumar með dóttur sinni og Sveinbirni presti. Á suðurleið um haustið gisti Rósa að Núpi í Núpsdal í Miðfjarðardölum, og andaðist þar. Rósant hafði þá farið suður, en átti þó heima í Trékyllisvík, var það hina sömu nótt og móðir hans andaðist að hann gisti að stóra Lambhaga í Hraunum suður, þótti honum þá móðir sín koma að sér í svefninum og mæla fram þrjár stökur, en mundi að eins þessa:

Á haustin fölnar rósin rauð
reifuð hvítum hjúpi,
móðir þín er drottni dauð,
dó á stóra Núpi.

Njáll hét son Rósants, er ólst upp í Árnesi. Nokkru fyr en þetta var, höfðu þau Gísli og Rósa fluzt að Lambhaga í Hraunum suður, og var Gísli þar lengi formaður síðan.