UMHVERFIS JÖRÐINA Á 80 DÖGUM EFTIR JULES VERNE KOSTNAÐARM.: JÓH. JÓHANNESSON UMHVERFIS JÖRÐINA Á 80 DÖGUM EFTIR JULE VERNE REYKJAVÍK KOSTNAÐARMAÐUR: JÓH. JÓHANNESSON PRENTSMIÐJAN GUTENBERG 1906 I. KAPÍTULI. Þeir Phileas Fogg og Passe-partout gera þann samning með sér, að Phileas Fogg tekur að sér að vera húsbóndi Passe-partout's og Passe-partout tekur að sér að vera þjónn Phileasar Foggs. Árið 1872 bjó Phileas Fogg, Esq., í húsi því, sem Sheridan dó í árið 1816 – nr. 7, Saville Row, Burlington Gardens. Phileas Fogg var einn af einrænustu meðlimum Framfara-klúbbsins, þó að ávalt virtist svo sem hann gerði sér far um að komast hjá umtali. Phileas hafði eignast hús eins af mestu ræðusnillingum Englands, en hann var ólíkur fyrirrennara sínum að því leyti, að enginn vissi neitt um hann, því að hann var dulur maður, þó hann væri hugrakkur og legði lag sitt við hina helztu menn. Sumir sögðu, að hann væri líkur Byron – að eins ásýndum, því að framferði hans var óaðfinnanlegt – en þessi Byron hafði þó skegg á kinnum og á efri vör; þessi Byron lét ekkert á sig fá, og hefði getað lifað 1000 ár án þess að eldast. Phileas Fogg var brezkur maður í húð og hár, þó að hann hafi ef til vill ekki verið Lundúna-maður. Hann sást aldrei á kaupmanna-samkundum, né á banka Englands, né hjá neinum af hinum miklu verzlunarmönnum borgarinnar. Aldrei kom nokkurt skip inn í höfn Lundúnaborgar með vörur til Phileas Fogg. Hann var ekki í neinu stjórnarembætti. Hann hafði aldrei verið ritaður á meðlimaskrá neins lögfræðingafélags. Hann hafði aldrei fært mál fyrir nokkrum dómstóli verzlegum né geistlegum. Eigi var hann kaupmaður né verksmiðjueigandi, né bóndi, né maður sem ræki neins konar atvinnu. Eigi var það vandi hans að sækja fundi konunglega vísindafélagsins né neinna annara lærdóms-félaga í borginni. Hann var blátt áfram meðlimur »Framfara«-klúbbsins. Það var alt og sumt. Ef nokkur hefði spurt, hvernig hann hefði orðið meðlimur klúbbsins, þá hefði spyrjandanum verið svarað því, að hann hefði verið borinn upp af bankastjóranum Baring; hjá þeim var hann í reikningi, og átti þar jafnan inni, og þeir borguðu ávísanir hans reglulega og tafarlaust. Var Phileas Fogg auðugur maður? Vafalaust. En jafnvel kunnugustu kjaftakindur gátu ekki sagt, hvernig hann hefði komizt yfir efni sín, og Mr. Fogg var síðasti maðurinn, sem menn mundu hafa leitað til í því skyni að verða nokkurs vísari um það efni; Hann var enginn eyðslubelgur, en aldrei grútarlegur; og hvenær sem farið var fram á, að hann legði fé fram til einhvers góðs eða nytsamlegs fyrirtækis, þá gaf hann með glöðu geði, og oft án þess að láta nafns síns getið. Í stuttu máli, hann var einn af hinum fátöluðustu mönnum. Hann talaði lítið, og þagmælska hans gerði líf hans enn leyndardómsfyllra. Engu að síður var líf hans brotalaust og blátt áfram, en hann hagaði öllum sínum gerðum eftir stærðfræðislegri nákvæmni, sem var í sjálfu sér grunsöm fyrir ímyndunarafli kjaftaskúmanna. Hafði hann nokkurn tíma ferðast? Það var mjög líklegt, því að enginn var betur að sér í landafræði. Það virtist svo sem enginn afskektur staður væri sá, sem hann ekki bæri sérstök kensli á. Stundum bar það við, að hann leiðrétti með fáeinum setningum ótal orðasveima, sem gengu í klúbbnum viðvíkjandi hinum og öðrum týndum eða nálega gleymdum ferðamönnum; hann var vanur að benda á, hver líkindin væru í raun og veru; og það var eins og hann væri gæddur þeirri ófreskisgáfu, að sjá í gegn um holt og hæðir, svo nákvæmlega rættist grunur hans síðar, Hann var maður, sem hefir hlotið að hafa komið hvervetna – í anda að minsta kosti. Eitt var víst, hvað sem öðru leið, og það var, að hann hafði farið frá Lundúnum um mörg ár. Þeir, sem voru honum kunnugastir, voru vanir að fullyrða, að enginn hefði nokkurn tíma séð hann annarsstaðar en á leiðinni til klúbbsins eða frá honum. Hans eina skemtun var sú að spila vist, og svo að lesa dagblöðin. Vistspilið átti einstaklega vel við jafnþögulan mann eins og hann var að eðlisfari, og hann vann líka venjulega; en ágóða sínum varði hann jafnan einhverjum til góðs. Það var auðséð, að Mr. Fogg spilaði spilsins vegna, en ekki til að græða fé. Það sem sérstaklega vakti honum yndi við spilamenskuna var að þreyta kunnáttu sína, reyna sig; en þeirri raun fylgdi engin þreyta, og hann þurfti ekki að hafa mikið fyrir því, svo að þetta átti ágætlega við hann. Enginn hafði nokkurn tíma kent Phileas við konu né börn; ekki átti hann heldur nein náin skyldmenni né góða vini, enda eru þeir sjaldgæfir í þessum heimi. Hann bjó einn í húsi sínu í Saville Row, og enginn heimsótti hann né kom þar inn. Hann lét sér nægja með einn þjón. Hann borðaði allar máltíðir í klúbb sínum, en hann sat aldrei við sama borðið sem nokkur kunningi hans, bauð ekki heldur neinum utanfélagsmanni að neyta með sér miðdegisverðar. – Hann fór að eins heim til sín um miðnætti til að sofa, ávalt á sama tíma, því að hann lagði sig aldrei fyrir í neinu þægilegu rúmi, sem Framfara-klúbburinn hefir til handa meðlimum sínum. Tíu stundir af sólarhringnum var hann heima, og þær notaði hann, sumpart til að sofa, sumpart til að klæða sig eða afklæða. Gengi hann, þá var það í forstofunni með málaða steingólfinu, eða í hringmynduðu súlnagöngunum undir stóru hvelfingunni, sem haldið var uppi af 20 íóniskum súlum. Þar gekk hann stundum með afmældum skrefum. Þegar hann borðaði miðdegisverð eða morgunmat, þá voru bornar fram allar beztu kræsingar klúbbsins; honum var þjónað af hinum alvarlegustu þjónum í svörtum kjólum, og stigu þeir varlega til jarðar, þegar þeir voru að færa honum matinn á sérstökum postulínsdiskum, og á dýrustu damask-dúkum. Vín hans var geymt í flöskum úr efni, sem nú er ófáanlegt og scherry hans var ískælt svo mátulega sem allra framast var auðið. Ef það er nokkur sönnun fyrir einræningsskap að haga lífi sínu á þennan hátt, þá verður því ekki neitað, að töluvert mælir með því, að hann hafi einrænn verið. Húsið i Saville Row var ekki mjög skrautlegt, en það var framúrskarandi þægilegt. Auk þess var svo lítið að gera í húsinu sem framast var mögulegt, þar sem lifnaðarhættir húsbóndans voru eins og þeir voru. En Phileas Fogg viðhafði þá ströngustu reglusemi í öllu sínu heimilislífi – reglusemi, sem var næstum því yfirnáttúrleg. Einmitt þennan dag hafði Fogg sagt James Forster upp, af því að pilturinn hafði hitað vatn það sem Fogg rakaði sig úr, svo að það var 84 gráður á Farenheit í stað þess sem það, átti að vera 86 gr.; Phileas var nú að bíða eftir manni í hans stað; hans var von milli 11 og 11½. Phileas Fogg sat í hægindastól sínum, og hélt fótunum fast saman; hendurnar lágu á hnjánum, og hann sat keipréttur; höfðinu hélt hann upp og var að gæta að klukkunni, sem var mjög margbrotin, sýndi stundirnar, mínúturnar, sekúndurnar, daga vikunnar og mánuði ársins. Þegar klukkan sló 11½ ætlaði Mr. Fogg, eftir vana sínum, að fara út í klúbb sinn. Rétt í því bili heyrðist barið á herbergisdyrnar, og James Forster, þjónninn sem átti að fara, kom inn, og sagði, að nýi maðurinn væri kominn. Ungur maður, á að gizka þrítugur, kom inn og hneigði sig. »Þér eruð franskur, og heitið Jón, er ekki svo?« spurði Phileas Fogg. »Jean, herra, ef yður stendur á sama«, svaraði nýkomni maðurinn. »Jean Passe-partout [*], viðurnefni, sem hefir fest sig við mig, af því að eg hefi verið gefinn fyrir að breyta til um atvinnuvegina. Eg held eg sé heiðarlegur maður; en svo eg tali blátt áfram, þá hefi eg reynt æði margt. Eg hefi ferðast um sem söngmaður; eg hefi verið reiðmaður á dýrasýningu, og þar var eg vanur að stökkva líkt og Leopard og ganga á strengjum líkt og Blondin; svo varð eg kennari í leikfimi; og að lokum varð eg slökkvimaður í París, til þess að gera eitthvert þarft handarvik, og hefi á bakinu þann dag í dag ör eftir ýms ill brunasár. En það eru fimm ár síðan eg fór af Frakklandi, og af því að mig langaði til að njóta þeirrar ánægju, sem heimilislífinu fylgir, þá varð eg þjónn á Englandi. Sem stendur er eg atvinnulaus, og af því að eg hefi heyrt, að þér séuð sá reglusamasti gentlemaður í öllu brezka ríkinu, þá kom eg hingað í þeirri von, að eg mundi geta lifað rósömu lífi og gleymt nafni mínu: Alt í öllu – Passe-partout!« [* Hér um bil sama sem alt í öllu, eða þúsundþjalasmiður.] »Passe-partout hentar mér«, svaraði Mr. Fogg. »Eg hefi heyrt mjög gott um yður, og þér hafið fengið góð meðmæli. Þér vitið, hvernig vistráða-skilyrði mín eru?« »Já«. »Gott og vel. Hvað er klukkan yðar?« »Tuttugu og tvær mínútur yfir 11«, svaraði þjónninn, um leið og hann leit á feykilega stórt silfurúr. »Yðar klukka er of sein«, sagði Mr. Fogg. »Fyrirgefið þér, það er ómögulegt!« »Hún er fjórum mínútum of sein. Það gerir ekkert til; það er nóg, að við höfum tekið eftir villunni. Upp frá þessu augnabliki, 29 mínútur eftir 11 fyrir hádegi þann annan október 1872, eruð þér í minni þjónustu«. Um leið og Phileas Fogg sagði þetta, stóð hann upp, eins og sjálfhreyfibrúða hefði getað gert, og fór úr herberginu án þess að segja nokkurt orð framar. Pass-partout heyrði götudyrunum lokað; það var nýi húsbóndinn hans, sem hafði farið út. Skömmu síðar heyrði hann þeim aftur lokað – það var fyrirrennari hans, James Forster, sem var að fara. Passe-partout var þá einn eftir í húsinu í Saville Row. II. KAPÍTULI. Passe-partout verður þess fullviss, að hann hafi nú loks hlotið það hlutskifti, er hann hafði lengi þráð. PASSE-PARTOUT vissi eitt augnablik ekki alminnilega, hvaðan á sig stóð veðrið. »Það veit hamingjan, að eg hef séð skepnur maddömu Tussands alveg eins fjörugar eins og nýi húsbóndinn minn er«. Skepnur maddömu Tussands voru allar úr vaxi, og þær vantaði að eins talgáfuna. Á þeim stutta tíma, sem Passe-Partout hafði verið í návist Mr. Foggs, hafði hann veitt húsbónda sínum nákvæma eftirtekt. Hann virtist vera hér um bil fertugur að aldri, og var fríður sýnum; hár var hann og vel vaxinn, ekki of feitur. Hann hafði ljóst hár og skegg, bjartleitar augabrýr, nokkuð fölt andlit og mjallhvítar tennur. Það sýndist hvíla sérstök rósemd yfir honum, sem er eiginleg þeim mönnum, sem meira eru gefnir fyrir verk en orðmælgi. Hann var stiltur, hæglyndur og glöggsýnn, alger fyrirmynd þessara rólegu Englendinga, sem menn hitta svo oft á Stórbretalandi, og sem Angelica Kauffmann hefir lýst svo dásamlega. Menn fengu ósjálfrátt þá hugmynd um Mr. Fogg, að hann væri í algerðu jafnvægi, eins og ágæt stundaklukka, sem er prýðilega vel stilt. Hann var sannast að segja persónugerfing nákvæmninnar, og það var jafnvel auðséð á höndunum og fótunum á honum; því að því er eins varið með menn eins og lítilfjörlegri skepnurnar, að af útlimum þeirra má ráða vissar tilhneigingar þeirra. Phileas Fogg var einn af þessum nákvæmu mönnum, sem aldrei þurfa að hraða sér, ávalt eru búnir til alls, og fara sparlega með hreyfingar sínar. Hann gekk jafnvel aldrei einu skrefi of langt; hann fór jafnvel styztu leiðina; hann leit aldrei á neitt að óþörfu, né leyfði sjálfum sér neina líkamshreyfing, sem var ofaukið. Enginn hafði nokkurn tíma séð hann í geðshræringu. Honum mundi síðast af öllum mönnum hafa dottið í hug að flýta sér, en hann kom jafnan nógu snemma. Hann lifði alveg út af fyrir sig og féll svo að segja hvergi inn í stillingar félagslífsins. Hann vissi, að lífinu er samfara töluverður árekstur; og með því að áreksturinn tefur ávalt fyrir því, að menn komist áfram, þá rak hann sig aldrei á neinn. Af Jean, sem kallaði sig Passe-partout, er það að segja, að hann var Parísarmaður í húð og hár. Hann hafði verið fimm ár á Englandi sem þjónn heldri manna, og allan þann tíma hafði hann leitazt við að fá húsbónda líkan Mr. Fogg, en ekki tekist það fyrri en nú. Passe-partout var ekki einn af þessum oflátungs-spjátrungum, sem láta mikið yfir sér, en eru ekkert nema ósvífin flón; hann var gæðagrey, geðslegur á svip, með nokkuð þykkar varir, sem jafnan voru við búnar að hirða mat sinn eða henda koss; höfuðið var góðlátlegt og hnöttótt, einmitt þess konar höfuð, sem hver maður vill á vini sínum vita. Hann var ljós-bláeygur, vel í holdum, vöðvamikill og all-rammur að afli. Hárið bar hann nokkuð þyrilslega. Og eins víst og það er, að marmaramyndasmiðir fornaldarinnar kunnu að haga hári Minervu á 18 ólíka vegu, eins víst var það, að Passe-partout kunni að eins að hagræða hári sínu á einn veg, og það var með þremur hárgreiðu-dráttum upp á við. Vér viljum engar spá-getur að því leiða, hvernig Mr. Fogg mundi hugnast að eðlisfari Passe-partouts. Það var spurning, hvort Passe-partout væri einmitt sá maður, sem slíkum húsbónda mundi geðjast að. Reynslan ein gat skorið úr því. Eftir að hann hafði verið á þessum flækingi fyrra hluta æfi sinnar, hlakkaði Passe-partout nú til hvíldarinnar. Hann hafði heyrt að orðtaki gerða reglusemi og ró enskra herramanna, og hann hafði því farið til Englands til að leita þar gæfu sinnar; en alt fram að þessu hafði lánið ekki leikið við hann. Hann var búinn að reyna sex vistir, en gat í engri þeirra unað. Í öllum þessum sex stöðum hafði húsbóndinn annaðhvort verið dutlungafullur, eigi reglubundinn í háttsemi eða flögrandi og óstöðugur, og átti þetta illa við Passe-partout. Síðasti húsbóndi hans hafði verið hinn ungi lávarður Longsferry, M. P.; hann hafði eitt kvöld verið á túr í Haymarket og komu lögregluþjónarnir heim með hann á herðum sér um morguninn. Passe-partout vildi um fram alla muni geta borið virðingu fyrir húsbónda sínum, og leyfði sér allra-virðingarfylst að finna að þessu við húsbóndann; en honum var tekið það illa upp, og sagði hann þá upp vistinni. Það var um þessar mundir, að hann heyrði að Phileas Fogg vantaði þjón, og bauð hann sig í þá vist. Svona gentlemaður, sem var reglusemin sjálf í öllu sínu dagfari, var aldrei úti á nóttunni, ferðaðist aldrei, var aldrei nokkurn tíma daglangt að heiman – það hlaut að vera húsbóndi eftir hans höfði; svo hann bauð honum þjónustu sína, og hún var þegin eins og vér höfum séð. Þannig vék því við, að þegar klukkan var hálf-tólf var Passe-partout vita-aleinn í húsinu í Saville Row. Hann tók þegar að kanna húsið hátt og lágt. Alt í þessu húsi var í svo skipulegri reglu, svo alvarlegur, nærri því púrítanskur blær á öllu, að honum geðjaðist að hið bezta, Honum fanst húsið eins og ljómandi falleg skel utan um snigil; en það var snigil-skel uppljómuð og hituð með gasi og svaraði einkar-vel tilgangi sínum. Hann fann brátt herbergi það, sem honum var ætlað í að búa, og líkaði það vel. Með rafurmagnsbjöllum og togleðurspípum mátti gefa merki sín á milli og mælast við úr herbergi hans og herbergjunum niðri. Á arin-hyllunni stóð rafurmagnsstundaklukka, sem gekk nákvæmlega upp á sekúndu í samræmi við klukku í svefnherbergi Phileas Foggs. »Þetta er einmitt það sem á við mig«, sagði Passe-Partout við sjálfan sig. Í herberginu tók hann einnig eftir auglýsingu, sem fest var upp á vegginn rétt uppi yfir klukkunni. Þetta var skrá yfir hans daglegu skyldur. Var þar upp talið hvert viðvik, sem hann átti að gera frá því kl. 8 á morgnana – Mr. Fogg fór ávalt á fætur kl. 8 – og þar til hálfri stundu fyrir hádegi að Mr. Fogg fór að heiman til að snæða morgunverð í Framfaraklúbbnum. Á skránni var alt upp talið: te og steikt franzbrauð kl. 23 mínútur yfir 8; rakstrarvatnið kl. 7 mínútur yfir hálf-níu; að hjálpa húsbóndanum við að klæða sig kl. 10 mínútur yfir hálf-tíu, og svo framvegis. Og svona var alt uppskrifað og öllu niður raðað frá kl. hálf-tólf, að hin staka reglusemis-fyrirmynd, Mr. Fogg, fór út, og til miðnættis, að hann lagðist til svefns. Passe-partout settist glaður í bragði við að lesa tímaskrána og reyna að læra hana utan að. Fataskápur Mr. Foggs var fullur af fatnaði og alt í prýðilegustu röð og reglu. Sérhverjar buxur, sérhvert vesti, sérhver frakki hafði sína einkunnar-tölu, og svo var skrá yfir allan fatnaðinn, þar sem hver leppur var talinn upp með sinni einkunnartölu, og var dagsetning aftan við hverja flík, sem sagði til, hvenær hana skyldi nota, alt eptir árstíðunum. Það voru meira að segja til varabirgðir af skóm og stígvélum. Þegar hinn nafnfrægi, en óreglusami Sheridan hafði átt þetta hús, þá hafði það verið musteri regluleysis og hirðuleysis; nú ríkti þar einveldi regluseminnar. Ekki var þar nein lestrarstofa né neinar bækur, enda hefði það verið óþarft fyrir Mr. Fogg, því í Framfaraklúbbnum voru 2 lestrarsalir. Í svefnherbergi hans var lítill skápur úr járni fyrir peninga og verðmæt skjöl, og var hann svo vandlega og rammlega gerður, að eigi máttu þjófar né eldur granda. Engin voru skotvopn í húsinu né neitt annað af vopna tagi, og bar alt þess vott, að eigandinn væri friðsamur maður og hæglátur. Þegar Passe-partout hafði skoðað alt í húsinu í krók og kring, neri hann saman höndunum af gleði, ánægjubros lék um andlitið og hann sagði við sjálfan sig: »Þetta líkar mér; þetta er það sem við mig á. Við skiljum hvor annan til fullnustu við Mr. Fogg. Hann er fyrirmynd af reglusömum manni, – hrein maskína! Já, mér er svo sem ekki mikið á móti skapi að hafa maskínu fyrir húsbónda«. III. KAPÍTULI. Greinir frá samtali, sem líkindi eru til, að muni verða all-kostnarsamt fyrir Phileas Fogg. PHILEAS Fogg fór að heiman á slaginu kl. hálf-tólf; og er hann hafði stigið hægra fæti fram fyrir vinstra fót fimm hundruð sjötíu og fimm sinnum, og vinstra fæti fram fyrir hægra fót fimm hundruð sjötíu og sex sinnum, steig hann á þröskuld Framfaraklúbbsins í Pall Mall[*] og hélt þegar upp í borðsalinn og gekk til síns venjulega sætis við sitt venjulega borð, og beið hans þar hans venjulegi morgunverður. En máltíðin var: einn forréttur, lítill en bragðgóður biti af nýjum fiski soðnum, flaga af linsteiktu nautaketi með ætisveppum, rabarbara og stikkelsberjaterta og dálítið af Cheshire-osti; öllu þessu skolað niður með nokkrum bollum af þessu afbragðs tevatni, sem Framfaraklúbburinn er nafnfrægur fyrir. [* Pall Mall (pell mell) heitir stræti í Lundúnum. ] Klukkan 47 mínútur yfir tólf stóð hann upp frá borði og gekk inn í gestasalinn; þar rétti þjónn honum óuppskorið eintak af The Times, og braut Phileas Fogg blaðið og skar upp úr því, fór honum það svo lipurt og snyrtilega úr hendi, að það var auðséð að hann var þessu vanur. Hann fór svo að lesa blaðið og var að því þar til er klukkuna vantaði fjórðung í fjögur; þá fékk hann blaðið The Standard og entist það honum til miðdegisverðar-tima. Hann borðaði þessa máltíð á sama hátt sem hann hafði etið morgunverð sinn, og klukkan 10 mínútur yfir hálf-sex kom hann aftur fram úr borðsalnum og tók að lesa The Morning Chronicle. Svo sem hálfri stundu síðar komu ýmsir af kunningjum Mr. Foggs inn í salinn og staðnæmdust umhverfis arninn. Þessir herrar voru venjulegir meðspilamenn hans í whist, og voru allir, eins og hann, þaulbakaðir spilamenn. Þessir menn vóru: Andrew Stuart, verkfræðingur; bankararnir John Sullivan og Samuel Fallentin; Tomas Flanagan bruggari; og Gauthier Ralph, einn af forstjórum Englandsbanka; – alt auðugir menn og málsmetandi, og það jafnvel málsmetandi þar í klúbbnum, sem svo margir merkismenn voru þá meðlimir í. »Nú, Ralph«, spurði Thomas Flanagan, »hvað er að frétta af þessum þjófnaði?« »Bankinn missir náttúrlega peningana«, sagði Stuart. »Langt frá«, svaraði Ralph; »eg geri mér góða von um að við náum í þjófinn. Vér höfum leynilögregluþjóna í öllum helztu hafnarborgum bæði hér í álfu og í Vesturheimi, og það verður ekkert spaug fyrir hann að sleppa undan klónum á réttvísinni«. »Þið hafið þá lýsing af þjófnum náttúrlega«, sagði Andrew Stuart. »Maðurinn er nú fyrir það fyrsta alls ekki þjófur«, svaraði Ralph alvarlega. »Það er skrítið! Maðurinn, sem tekur fimmtíu og fimm þúsundir punda sterling[*] í bankaseðlum og strýkur burt með féð – er hann ekki þjófur?« [* Þ.e. hér um bil 1 millíón króna. ] »Nei«, svaraði Ralph. »Hann er þá iðnrekandi maður, geri eg ráð fyrir?« sagði Sullivan. »The Morning Chronicle fullyrðir, að hann sé herramaður«. Þessi síðustu orð mælti Phileas Fogg og leit um leið upp úr dagblaða-hrúgunni, sem kring um hann var, stóð síðan upp og fór að heilsa upp á kunningjana. Umtalsefnið var rán, sem framið hafði verið fyrir þrem dögum, hinn 29. september, og var nú almennast umtalsefni manna á meðal. Hrúgu af bankaseðlum, sem námu alls þessari feiknaupphæð, fimmtíu og fimm þúsund pundum, hafði verið stolið af borðinu í Englandsbanka. Það sem mestri furðu sætti var, hvað auðframið þetta rán hafði verið, og eins og Rarlph skýrði frá, sem var einn af bankastjórunum, að meðan þessi fimmtíu og fimm þúsund punda bankaseðlahrúga hafði verið tekin af borðinu, hafði gjaldkeri bankans verið sokkinn niður í að færa rétt og nákvæmlega inn í bækurnar innborgun, sem nam þrem shillings og sex pence[*]) og hann gat auðvitað ekki haft augun alstaðar í einu. [* Þ.e. hér um bil 3 kr. 15 au. ] Það er ekki úr vegi að minnast þess hér (því að það gerir ránið, sem hér er um að ræða, miklu skiljanlegra), að í daglegri starfsemi í Englands-banka byggir bankastjórnin mjög á ráðvendni viðskiptamanna sinna. Þar eru engir verðir, engir eftirlitsmenn, og engar rimla-grindur upp af borðinu milli starfsmanna bankans og gestanna. Gullið, silfrið og bankaseðlarnir liggja þar inni vöktunarlaust í hrúgum, svo að segja eins og bráð fyrir hvern, sem um gengur. Einskis manns ráðvendni er tortrygð. Eg skal minna hér á, það sem útlendur ferðamaður einn segir, sem hefir verið orðlagður fyrir nákvæma eftirtekt sína á háttum og siðum Engla. Þessi maður var einn dag í einum skipta-sal bankans og tók þá upp af forvitni þar af borðinu gullkólf, er vóg sjö eða átta pund, og fór að skoða hann; þegar hann hefir skoðað hann um hríð, rétti hann kólfinn að manni, sem hjá honum stóð, sá rétti síðan síðumanni sínum, og þannig gekk gullkólfurinn mann frá manni, þar til hann var kominn til þeirra, sem stóðu í skuggsýni fremst fram við dyrnar, og það var eitthvað hálf klukkustund, sem kólfurinn gekk þannig meðal manna áður en hann kom á sinn stað aftur, og allan þennan tíma leit ekki bankaembættismaðurinn, sem við var, upp frá verki sínu. En 29. dag septembermánaðar féll ekki alt til svona í ljúfa löð eins og vant var; sá, sem haft hafði hönd á bankaseðla-hrúgunni, skilaði henni ekki aftur; og þegar vísarnir á hinni stóru klukku í afgreiðslusal bankans sýndu fimta stundarmark eftir hádegi – en það er lokunartími bankans – þá var þessi fimmtíu og fimm þúsund punda upphæð komin til bókar útgjaldamegin á reikningsopnu bankans yfir »ávinning og tjón«. Þegar það varð uppvíst, að stórþjófnaður hafði verið framinn, voru undir eins hinir færustu leynilögregluþjónar sendir af stað til Liverpool og Glasgow og annara helztu hafnarbæja á Stór-Bretalandi, og þar að auki til Suez, Brindisi, New York o. fl. staða, með loforði um tvö þúsund punda verðlaun og fimm af hundraði af upphæð þeirri er nást kynni. Jafnframt því voru gæzlumenn settir til að athuga nákvæmlega alla ferðamenn bæði komandi og farandi á helztu hafnarbæjum. Það varð nú töluverð ástæða til að ætla, eins og The Morning Chronicle lét í ljós, að þjófurinn mundi ekki heyra til neinu þjófafélagi, því að þann 29. september höfðu menn tekið eftir prúðbúnum herramanni í bankanum rétt við borðið, þar sem seðlarnir lágu, sem stolið hafði verið. Menn voru svo heppnir, að fá nákvæma lýsingu á manni þessum, og var hún fengin í hendur öllum leyni-lögregluþjónum, og því voru margir léttlyndir menn, og þar á meðal Mr. Ralph, vongóðir um, að þjófurinn mundi eigi fá undan dregið. Eins og nærri má geta, var ekki um annað talað um þessar mundir. Blöðin skröfuðu og skeggræddu ýtarlega um líkindin með og móti því, hvort takast mundi að ná í þjófinn, svo það var ekki að kynja þótt meðlimum Framfaraklúbbsins yrði þetta að umtalsefni, sérstaklega þar sem einn af bankastjórunum var viðstaddur. Ralph datt ekki í hug að efast um, að takast mundi að ná í þjófinn, þar sem til svo mikils væri að vinna fyrir leyni-lögregluþjónana, að þeir mundu leggja fram sitt ýtrasta. En Andrew Stuart var á gagnstæðri skoðun, og héldu þeir áfram umræðunum um þetta eftir að þeir voru seztir við spilin. Stuart var á móti Flanagan, og Fallentin móti Fogg. Þeir töluðu ekki um þetta meðan þeir spiluðu, en á milli rúbbertanna héldu þeir áfram umtalsefninu. »Já, eg er nú á því«, mælti Stuart, »að líkurnar séu öllu meiri fyrir, að þjófurinn geti sloppið; það er auðséð, að hann er enginn amlóði«. »En« svaraði Ralph, »það er enginn staður til, sem gagn er í að flýja til, fyrir svona þjófgarm«. »Og það er nú helzt að segja!« »Nú, hvað á hann að gera af sér?« »Það er vont að segja, hvað bezt er«, svaraði Stuart, »en nógu víð og stór er veröldin að minsta kosti«. »Hún var það einu sinni«, sagði Phileas Fogg í hljóði; »gerið þér svo vel að draga stokk« bætti hann við og rétti spilin að Flanagan. Þeir léttu þá talinu um hríð; en er rúbbertin var úti, tók Stuart aftur til máls og sagði: »Hún var það einu sinni, sögðuð þér um veröldina; hvað eigið þér við? Hefir þá veröldin minkað?« »Vitaskuld hefir hún minkað«, svaraði Ralph. »Eg er alveg samdóma Mr. Fogg um það. Veröldin hefir óneitanlega minkað, þar sem nú má fara hringinn í kring um hana á tíu sinnum skemri tíma heldur en til þess þurfti fyrir 100 árum. Það veldur því í þessu tilfelli, bæði að eftirleitin gengur margfalt hraðara, og að þjófurinn á hægra með að komast undan«. »Þér eigið út, Mr. Stuart«, sagði Fogg. En Stuart með alla tortrygnina var enn ekki sannfærður orðinn, og vakti hann aftur máls á umtalsefninu. »Það verð eg að segja, Mr. Ralph«, hélt hann áfram, »að yður hefir orðið auðvelt til röksemda fyrir því, að veröldin hafi minkað, fyrir það þótt nú megi fara hringinn í kring umhverfis hnöttinn á þrem mánuðum«. »Á áttatíu dögum að eins«, sagði Phileas Fogg. »Aldeilis rétt góðir hálsar«, sagði John Sullivan; »þér getið nú orðið ferðast umhverfis hnöttinn á áttatíu dögum, síðan búið er að ljúka við þann stúfinn af Indlandsjárnbrautinni miklu, sem liggur milli Rothal og Allakabad. Hérna er áætlun yfir ferðina í The Morning Cronicke: ** London til Suez yfir Mont Cenis og Brindisi, með járnbraut og eimskipi ... 7 daga Suez til Bombay, á eimskipi... 13 – Bombay til Calcutta, á járnbraut 3 – Calcutta til Hong Kong, á eimskipi 13 – Hong Kong til Yokohama, á eimskipi 6 – Yokohama til San Francisco, á eimskipi ... 22 – San Francisco til New York, á járnbraut ... 7 – New York til London, á eimskipi og járnbraut ... 9 – Samtals 80 dagar ** »Já, áttatíu dagar!« sagði Stuart, sem var nú allur með hugann í ferðaáætluninni, svo að hann gaf rangt; »en í þessari áætlun er ekkert gert fyrir illviðrum, mótbyr, skipreikum, járnbrautarslysum og því um líku«. »Það er ætlað fyrir því öllu saman«, sagði Fogg og hélt áfram að spila, því að í þetta sinn hættu þeir ekki talinu þótt búið væri að gefa. »En ef Hindúar eða þá Indíánar rífa upp járnbrautarteinana? Gerum ráð fyrir, að þeir stöðvi lestina, ræni farangursvagnana og flái höfuðleðrin af farþegjunum?« »Það er gert fyrir því öllu saman«, sagði Fogg rólegur. »Og svo eru hér tvö tromp«, bætti hann við og vann spilið. Stuart átti að gefa, tók saman spilin og sagði: »Þér hafið vafalaust rétt að mæla í orði kveðnu. Mr. Fogg, en í reyndinni – «. »Í reyndinni líka, Mr. Stuart«. »Mér þætti gaman að sjá yður gera það«. »Það er alveg undir yður komið. Við skulum verða samferða«. »Hamingjan forði mér frá því«, hrópaði Stuart; »en eg skal rólegur veðja fjórum þúsundum, um að slík ferð er, eins og hér er ástatt, ómöguleg«. »Þvert á móti, hún er fullkomlega möguleg«, svaraði Mr. Fogg. »Jæja þá, hvers vegna farið þér hana þá ekki?« »Umhverfis jörðina á 80 dögum, eigið þér við það?« »Já«. »Eg ætla að gera það«. »Hvenær?« »Tafarlaust; en eg læt yður vita, að eg geri það á yðar kostnað«. »Ó, þetta er ekki nema þvættingur«, svaraði Stuart; hann var farinn að kunna illa við þrákelkni Foggs; »við skulum halda áfram að spila«. »Það er þá bezt fyrir yður að gefa; þér gáfuð vitlaust áðan«. Andrew Stuart tók spilin, og lagði þau alt í einu aftur frá sér. »Heyrið þér, Mr. Fogg«, sagði hann; »ef þer viljið, þá skal eg veðja fjórum þúsundum«. »Stuart minn góður«, sagði Fallentin, »verið þér ekki að ruglinu því arna; þetta er ekkert nema gaman«. »Þegar eg segist vilja veðja«, sagði Stuart, »þá er mér alvara«. »Gott og vel«, sagði Mr. Fogg; svo sneri hann sér að hinum og sagði: »Eg á tuttugu þúsund pund geymd hjá Baring. Eg er fús á að hætta því fé«. »Tuttugu þúsund pund!« hrópaði Sullivan; »minsta óhappa-atvik gæti látið yður missa alt saman. Hvert einasta ófyrirséð – « »Það ófyrirséða er ekki til«, svaraði Fogg blátt áfram. »En, Mr. Fogg, þessir ágizkuðu áttatíu dagar eru allra stytzti tíminn, sem mögulegt er að komast af með til ferðarinnar«. »Sé tímanum vel varið, þá þarf ekki nema stytzta tímann«. »En til þess að fá þessu komið í verk, verðið þér að fara frá járnbrautum á gufuskip og frá gufuskipum á járnbrautir með svo mikilli nákvæmni, að aldrei muni minstu vitund«. »Eg ætla aldrei að láta muna minstu vitund«. »Ó, þér eruð að gera að gamni yðar!« »Sannur Englendingur gerir aldrei að gamni sínu, þegar hann á eitthvað á hættu. Eg veðja tuttugu þúsundum móti hverjum ykkar sem er um það, að eg skal fara kring um jörðina á 80 dögum eða skemri tíma. Það er að segja á nítján hundruð og tuttugu stundum, eða hundrað og fimtán þúsund og tvö hundruð mínútum. Ætlið þið að taka því?« »Já, við gerum það«, svöruðu hinir, eftir að þeir höfðu ráðgast um hver við annan. »Gott og vel«. sagði Fogg. »Lestin, sem pósturinn er sendur með til Dover, fer af stað kl. 8,45; eg fer með þeirri ferðinni«. »Í kveld?« sagði Stuart. »Já, í kveld«, svaraði Fogg. Svo leit hann á vasa-almanak og bætti við: »Í dag er miðvikudagur, 2. október; eg á að verða kominn til Lundúna, inn í þessa stofu, laugardaginn 21. desember, kl. 8¾ um kveldið; takist mér það ekki, þá eigið þið, mínir herrar, þær tuttugu þúsundir, sem eg á hjá Baring. Hér er ávísun fyrir upphæðinni«. Veðskilmálarnir voru skrifaðir upp og allir hlutaðeigendur skrifuðu undir þá. Phileas Fogg var eins rólegur eins og hann hafði nokkurn tíma áður verið. Hann hafði vissulega ekki veðjað í því skyni að græða fé, og hann hafði að eins veðjað tuttugu þúsundum punda, helmingnum af eigum sínum, af því að hann sá fram á, að hann mundi að öllum líkindum verða að eyða hinum helmingnum, ef hann átti að geta int af hendi þessa þraut, sem var svo örðug, ef hún var ekki allsendis ómöguleg. Mótstöðumenn hans voru í allmikilli geðshræringu, ekki vegna þess, hve miklu þeir hefðu hætt, heldur af því, að þeir voru ekki lausir við áhyggjur og samvizkubit út af því að hafa veðjað eins og hér var ástatt. Klukkan sló 7, og nú stakk einhver upp á því, að þeir skyldu hætta spilamenskunni, til þess að Mr. Fogg skyldi geta búið sig til fararinnar. »Eg er ávalt ferðbúinn«, svaraði þessi óbifanlegi maður, um leið og hann gaf. »Tigull er tromp«, bætti hann við; »þér eigið að koma út, Mr. Stuart«. IV. KAPÍTULI. Passe-partout verður steinhissa á Phileas Fogg. PHILEAS Fogg vann tuttugu pund í vistinni. Tuttugu og fimm mínútur eftir sjö kvaddi hann kunningja sína og fór úr klúbbnum. Tveim mínútum fyrir 8 kom hann heim. Passe-partout hafði samvizkusamlega sett sig inn í verk sitt, og hann varð steinhissa, þegar hann sá Mr. Fogg koma á svo óvenjulegum tíma, því að eftir öllu því, sem menn vissu um hann, var hans ekki von til Saville Row fyrr en um miðnætti. Phileas Fogg hélt beint til herbergis síns og kallaði á Passe-partout. Pass-partout svaraði ekki. Það var auðsjáanlegt, að kallið gat ekki átt við hann; tíminn var ekki kominn. »Pass-partout«, kallaði Mr. Fogg aftur, án þess samt að hafa nokkuð hærra en áður; »þetta er í annað skiftið, sem eg kalla til yðar«, sagði Mr. Fogg. »En það er ekki komið miðnætti«, svaraði Passe-partout, og dró upp úrið sitt. »Eg veit það«, svaraði Fogg, »og eg áfelli yður ekki. Við leggjum af stað til Dover og Calais eftir 10 mínútur«. Það fóru að koma brettur á kringlótta andlitið á franska manninum; hann skildi auðsjáanlega ekki, það sem sagt hafði verið. »Ætlið þér að fara út«, sagði hann. »Já«, svaraði húsbóndi hans, »við eigum að leggja af stað í ferð kring um jörðina«. Við þessa frétt rak Passe-partout upp svo stór augu, sem honum framast var mögulegt, hélt upp handleggjunum, og varð furðulega sauðarlegur í framan. Svo steinhissa varð hann. »Kring um jörðina!« tautaði hann. »Á áttatíu dögum«, sagði Mr. Fogg; »svo að við megum ekkert augnablik missa«. »En farangurinn?« sagði Passe-partout, og ruggaði höfðinu óafvitandi frá einni hlið til annarar. »Við þurfum engan farangur; okkur nægir dúkpoki. Stingið þér niður í hann tveimur náttskyrtum og þrennum sokkaplöggum handa mér, og jafnmiklu handa yður sjálfum. Við kaupum það sem okkur vanhagar um á ferðinni. Komið þér niður með regnkápuna mína og ferðafrakkann, og ein sterk stígvél, þó að við þurfum lítið eða ekkert að ganga. Hraðið þér yður nú«. Passe-partout langaði til að segja eitthvað, en gat þó ekki. Hann fór út úr svefnherbergi húsbónda síns og upp í sitt eigið herbergi, lét þar fallast í stól, og hrópaði upp yfir sig: »Já, já, eitthvað þykir mér nú ganga á. og eg sem sérstaklega vildi nú fá að njóta næðis!« Hann fór ósjálfrátt að búast til ferðarinnar. Kring um jörðina á 80 dögum! Hafði hann vistast hjá brjáluðum manni? Nei – honum var þetta ekki alvara. Ferðinni var heitið til Dover og Calais. Það var nú ekkert að því. Í raun og veru var honum það ekki mikið óánægjuefni, því að það voru rúm fimm ár síðan hann hafði séð ættjörð sína. Það gat enda verið, að þeir færu alla leið til Parísar, og hann fann, að sér mundi verða auðið að sjá höfuðstaðinn aftur. Það var enginn vafi á því, að maður, sem fór jafnvarlega með hreyfingar sínar eins og Mr. Fogg var vanur að gera, mundi nema þar staðar fyrir fult og alt; en að hinu leytinu var þessi heimasætni maður að fara að heiman. Á móti því varð ekki borið. Kl. 8 hafði Passe-partout gengið frá litla bögglinum, þar sem farangur húsbónda hans og hans sjálfs var í; hann fór þá út úr herbergi sínu, og var honum mjög órótt innan brjósts, lokaði dyrunum vandlega, og fór ofan til Mr. Foggs. Húsbóndinn var með öllu ferðbúinn. – Undir handleggnum bar hann leiðsögubók Bradshavs um meginland Norðurálfunnar. Hann tók litla böggulinn af Passe-partout, opnaði hann og stakk þar niður fjölda af samanbrotnum bankaseðlum, sem eru gjaldgengir í hverju landi sem er. »Eruð þér viss um, að þér hafið engu gleymt«, spurði hann. »Já, eg er alveg viss um það«. »Þér eruð með regnkápuna mína og ferðafrakkann?« »Þau eru hér«. »Gott og vel, takið þá við bögglinum«; og Mr. Fogg rétti manninum hann aftur. »Það er betra fyrir yður að gæta hans vandlega«, bætti hann við, »það eru í honum þrjátíu þúsund pund«. Það lá við að Passe-partout misti böggulinn niður, eins og það hefði verið í honum þrjátíu þúsund pund í gulli. Húsbóndinn og þjónninn fóru saman ofan stigann; dyrunum var lokað og tvílæst. Phileas kallaði til ökumanns við endann Saville Row, og ók til Charing Cross-stöðvanna. Kl. var tuttugu mínútur yfir átta, þegar þeir komu að járnbrautinni. Passe-partout stökk út. Húsbóndi hans kom á eftir og borgaði ökumanni. Á þessu augnabliki kom beiningakerling ein í ljós; hún bar ungbarn í fanginu, var mjög aumkvunarleg ásýndum, og annars í tötrum; hún færði sig nær Mr. Fogg og bað um ölmusu. Mr. Fogg tók upp úr vestisvasa sínum þau tuttugu pund, sem hann hafði unnið í vistinni, rétti að beiningakerlingunni og sagði: »Takið við þessu, kona góð. Mér þykir vænt um, að eg skyldi hitta yður«. Svo fór hann inn á járnbrautarstöðvarnar. Það komu tár fram í augun á Passe-partout, þegar hann sá þetta til húsbónda síns. Hann hafði meiri mætur á Mr. Fogg eftir en áður. Þessi einræningur sagði honum nú að kaupa tvö farbréf til Parísar fyrir beztu vagnana, og um leið og hann sneri sér við sá hann vini sína, fimm talsins, frá Framfara-klúbbnum. »Jæja, mínir herrar, þið sjáið, að eg er að leggja af stað, og áteiknanirnar á vegabréfinu mínu munu sýna ykkur og sanna, þegar eg kem aftur, að eg hefi farið ferðina«. »Ó, Mr. Fogg«, svaraði Gauthier Ralph kurteislega. »Það er alveg óþarfi. Þegar þér segið eitthvað, þá trúum við því að það sé satt«. »Því betra«, svaraði Fogg. »Þér gleymið ekki, hve nær þér eigið að koma aftur«, sagði Stuart. »Eftir áttatíu daga«, svaraði Mr. Fogg. »Laugardaginn 21. desember 1872, fjörutíu og fimm mínútur eftir átta að kveldinu. Verið þið sælir, mínir herrar«. Þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í 9 settust þeir Phileas Fogg og þjónn hans í sæti sín í lestinni. Kl. 8,45 blés vélin og lestin lagði af stað. Nóttin var dimm og sallarigning var. Það fór vel um Mr. Fogg í horninu, sem hann hafði sezt í, og hann mælti ekki orð frá munni. Passe-partout var enn allmikið utan við sig, og hann greip ósjálfrátt böggulinn með bankaseðlunum. En naumast var lestin komin út úr Sydenham, þegar Passe-partout rak upp örvæntingaróp. »Hvað gengur að yður?« spurði Mr. Fogg. »Ó, hamingjan hjálpi mér! Í flýtinum, sem á mér var, gleymdi eg alveg – « »Hverju?« »Eg gleymdi að snúa fyrir gasið í herberginu mínu!« »Gott og vel, drengur minn«, svaraði Mr. Fogg stillilega, »þá verður það að brenna meðan við erum burtu – á yðar kostnað«. V. KAPÍTULI. Nýr gróðavegur á verðbréfa-kauphöllinni. ÞEGAR Phileas Fogg fór úr London, efaðist hann alls ekki um, að burtför sín mundi valda miklu umtali. Fregnin um veðmálið, dreifðist frá klúbbnum til utanfélagsmanna, og á þann hátt til allra blaða í konungsríkinu. Þetta atriði, hvort fara mætti kringum jörðina á 80 dögum, var athugað, rætt og sundurliðað, og röksemdaleiðslurnar voru eins miklar eins og þær höfðu verið viðvíkjandi Alabamakröfunum. Nokkrir voru á máli Phileas Foggs, en meiri hlutinn var á móti honum. Meiri hlutanum virtist ómögulegt að komast þessa leið á jafnskömmum tíma, eftir því sem samgöngurnar voru. Fyrirtækið var blátt áfram óðs manns æði. Times, Standard, Morning Chronicle og ein tuttugu önnur virðingarverð blöð úrskurðuðu móti Mr. Fogg. Daily Telegraph var eina blaðið, sem að vissu leyti studdi hann. Phileas Fogg var alment skoðaður brjálaður maður, og kunningjum hans í Framfaraklúbbnum var mjög láð, að þeir skyldu hafa gengið að þessu veðmáli, sem ekki sýndist annað en heimska uppástungumannsins. Framúrskarandi æstar en hugsunarréttar greinar voru skrifaðar um þetta mál. Vér vitum allir, hve ant Englendingar láta sér um landfræðisleg atriði, og lesendur af öllum stéttum gleyptu dálkana, þar sem rætt var um ferðalag Mr. Foggs. Fáeina fyrstu dagana héldu nokkrar djarfar sálir, sérstaklega konur, með honum, einkum eftir að blaðið Illustrated London-News kom með mynd hans, og vissir herramenn komust svo langt að segja: »Jæja, hvers vegna ætti hann annars ekki að geta þetta? Ólíklegra hefir skeð«. Þetta voru einkum lesendur blaðsins Daily Telegraph, en þeir fundu bráðlega, að blaðið sjálft var farið að linast. 7. október kom út löng grein í fundargerðum kgl. Landfræðisfélagsins: höfundurinn skoðaði málið frá öllum hliðum, og sýndi ljóslega, hve fráleitt fyrirtækið var. Eftir þeirri grein var alt á móti ferðamanninum – alla mögulega örðugleika átti hann við að stríða. Ætti honum að hepnast fyrirtækið, var óhjákvæmilegur yfirnáttúrlegur samkvæmileikur í komu- og farstundum járnbrautarlesta og skipa – og sá samkvæmileikur gat ekki verið til og var heldur ekki til. Ef til vill gat hann reitt sig á nákvæma komu- og farstund járnbrautarlestanna í Norðurálfunni, en hvernig gat hann búizt við, að vel færi, þegar ekki voru ætlaðir nema þrír dagar til að komast yfir Indland og sjö til að fara yfir meginland Ameríku? Voru ekki véla-óhöpp, hlaup út af járnbrautarteinum, árekstur, ilt veður eða skaflar – var ekki alt þetta móti Phileas Fogg? Um vetrarleytið átti hann á hættu að fá storma eða mótbyr á hafinu. Jafnvel beztu gufuskip, sem fara heimsálfu milli, tefjast stundum tvo eða þrjá daga. Ef nú ein slík töf skyldi koma fyrir, þá var einn liður í samgöngukeðjunni brostinn, svo að ómögulegt var úr að bæta. Ef Phileas Fogg skyldi koma fáeinum stundum of seint til að ná í eitthvert gufuskip, þá varð hann að bíða eftir næsta skipi; og við slíkan viðburð mundi alt fyrirtækið verða í voða statt. Um þessa grein varð mönnum afar-tíðrætt. Hún var tekin upp í nær því öll blöð, og »hlutir« Phileas Foggs lækkuðu að sama skapi í verði. Fáeina fyrstu dagana eftir burtferð hans var allmiklu fé veðjað um, hvort fyrirtækið mundi hepnast eða ekki. Allir vita, að Englendingar eru miklir veðmála- og áhættumenn; það er þeim eðlilegt. Nú fór almenningur manna að reyna lukkuna. Phileas Fogg varð nokkurs konar veðmála-uppáhald, líkt og gæðingar við kappreiðar. Hann hafði víst gildi á verðbréfa-kauphöllinni. Foggs verðbréf voru boðin fyrir ákvæðisverð og hærra, og geysileg, fébrögð voru í frammi höfð. En fimm dögum eftir burtför hans, eftir að grein sú, er áður er um getið kom út, féllu verðbréfin niður úr ákvæðisverði, og voru boðin hverjum sem vildi hafa þau. Einn maður dró enn hans taum, visinn. og afllaus karl, Albemarle lávarður. Þessi virðulegi herramaður, sem ekki gat komizt upp af stólnum sínum, mundi hafa viljað gefa aleigu sína til að ferðast umhverfis jörðina, jafnvel á 10 árum, og hann hafði veðjað 50 þúsundum punda um að Phileas Fogg mundi fá sitt fram; og þegar fólk fór að skýra fyrir honum, bæði hvað ferðin væri heimskuleg og gagnslaus, þá varð honum ekki annað að orði en þetta: »Ef það er mögulegt að gera þetta, þá ætti Englendingur að verða til þess fyrstur manna«. Eins og sakir stóðu nú, voru áhangendur Phileas Foggs óðum að fækka. Allir voru móti honum, enda var það ekki að ástæðulausu. Fólk vildi ekki vera á hans bandi í veðmálum með meira en 1 á móti 50 eða jafnvel 200. En svo kom fyrir alveg óvænt atvik sjö dögum eftir burtför hans, og eftir það átti hann alls engan meðhaldsmann. – Kl. 9 að kveldi hins sjöunda dags fékk yfirumsjónarmaður Lundúna-lögreglunnar eftirfylgjandi hraðskeyti:
»Frá Fix, Leynilögregluþjóni, Suez, Til Rowans, Lögreglu-umsjónarmanns, Scotland Yard. Eg hefi rakið spor bankaþjófsins, Phileas Foggs. Sendið mér tafarlaust heimild til að taka hann fastan í Bombay. Fix«.
Áhrifin af þessu hraðskeyti komu tafarlaust í ljós. Sómamaðurinn varð að »bankaþjóf«. Ljósmynd var til af honum í Framfara-klúbbnum, og nú var hún vandlega skoðuð. Það sýndi sig þá, að mannlýsingin, sem lögreglustjórinn hafði gefið út, átti nákvæmlega við Fogg. Fólk fór nú að minnast þess, hve undarlegt háttalag Foggs hafði verið, hve einrænn hann var, og hve skyndilega hann hafði farið burt. Hann hlaut að vera fanturinn, og nú var það auðséð, að þessi ferð umhverfis jörðina og þetta hlægilega veðmál var ekkert nema yfirskin, og að hann hafði ekkert haft fyrir augum með því annað en að villa sjónir fyrir leynilögregluþjónum. VI. KAPÍTULI. Fix lögregluþjónn sýnir nokkur eðlileg óþolinmæðismerki. ÞANNIG var ástatt um hraðskeyti það, sem áður er frá sagt: Miðvikudaginn 29. október biðu menn óþreyjufullir við Suez eftir gufuskipi »Peninsular og Oriental félagsins« Mongoliu. Skipið fór milli Brindisi og Bombay gegnum Suez-skurðinn. Það er eitt af hraðskreiðustu skipum félagsins; vanaferð þess er tíu knútar[*] á klukkutímanum milli Brindisi og Suez, og níu og hálfur milli Suez og Bombay, og stundum jafnvel meira. [* ensk sjómíla = ¼ danskrar mílu.] Meðan von var á Mongóliu, voru tveir menn á gangi fram og aftur með fram lendingunni innan um múg af þarlendum mönnum og aðkomumönnum, sem fyltu þorpið, er var orðið að talsverðum bæ fyrir framtakssemi M. de Lesseps. Annar þessara manna var breski konsúllinn í Suez; þrátt fyrir hrakspár brezku stjórnarinnar og vonleysi Stephensons, verkfræðings, auðnaðist honum daglega að sjá ensk skip fara eftir skurðinum, og þannig stytta sér leiðina til Indlands um helming frá því, sem verið hafði, þegar siglt var suður fyrir Góðravonarhöfða. Hinn maðurinn var magur, með sterklegt og greindarlegt andlit. Fyrir neðan löngu augnahárin sást í kvikleg augu, og á þessu augnabliki sýndi hann greinileg ópolinmæðismerki, strunsaði fram og aftur og gat ómögulega haldið kyrru fyrir nokkurt augnablik. Þessi maður var Fix, enski leynilögregluþjónninn, sem sendur hafði verið til þess að leita að banka-þjófnum. Hann gætti vandlega að hverjum einasta ferðamanni, og ef einhver skyldi líkjast fantinum að nokkru leyti, þá átti að taka hann fastan. Tveim dögum áður hafði Fix fengið lýsingu á sakamanninum frá Lundúnum. Það var lýsingin á vel búna manninum, sem sézt hafði í bankanum. Lögregluþjónninn gerði sér auðsjáanlega von um að ná í miklu launin, sem boðin voru, og hann beið því komu Mongólíu með mikilli óþolinmæði. »Svo þér segið, að skipið komi aldrei seinna en til er ætlazt«, sagði Mr. Fix við konsúlinn. »Nei«, Svaraði hinn. »Það var gert aðvart um, að hún væri komin til Port Said í gær. Eg tek það fram aftur, að Mongólía hefir ávalt fengið þau 25 pund, sem stjórnin veitir fyrir að koma 24 kl.stundum á undan ákvæðistíma«. »Kemur hún beina leið frá Brindisi?« spurði Fix. »Já, beina leið. Hún tekur þar póstinn til Indlands. Hún fór þaðan kl. 5. e.h. á laugardaginn. Verið því rólegur. Hún kemur í tæka tíð. En eg sé sannast að segja ekki, hvernig yður verður unt að þekkja manninn af þeirri lýsingu, sem þér hafið, þó aldrei nema hann skyldi vera á skipinu«. »Maður þekkir hann af ávísun eðlis síns fremur en af andlitsdráttum hans«, svaraði Fix; »það liggur við, að maður þekki hann með lyktinni fremur en sjóninni. Eg hefi átt við fleiri en einn af þessum herrum á æfi minni, og ef þjófurinn er á skipinu, þá skal eg ábyrgjast, að hann skal ekki ganga mér úr greipum«. »Eg vona þér náið í hann. – Þetta var mikill stuldur«. »Afbragðs-stuldur«, svaraði Fix fjörlega; »fimmtíu og fimm þúsundir punda. Það er ekki oft, sem hnífur okkar kemur í svo feitt. Þess háttar piltar eru orðnir sjaldgæfir. Jacks Sheppards líkar eru nú útdauðir – fólk er flutt í sakamanna-nýlendur fyrir fáeina shillings«. »Þér talið um Þetta með andagift, Mr. Fix«, svaraði konsúllinn, »og eg vona, að yður farnist vel, en hræddur er eg um, að yður veiti Þetta ervitt eins og ástatt er. Auk Þess getur lýsingin, sem þér hafið fengið, verið af mesta sómamanni«. »Miklir glæpamenn líkjast ávalt sómamönnum«, svaraði lögregluþjónninn spekingslega. »Þér hljótið að skilja það, að ruddamenni mundu ekki komast langt. Þeir verða að sýnast sómamenn, annars yrðu þeir tafarlaust hneptir í varðhald. Það er þessi sómamannagríma, sem við eigum að ná af þeim; það er örðugt, eg játa það, og það er í raun og veru list«. Það leyndi sér ekki, að Mr. Fix hafði allmikið álit á stöðu sinni. Meðan á þessu stóð óx þröngin við lendinguna. Sjómenn af öllum þjóðum, kaupmenn, burðarmenn og egipzkir bændur þyrptust þar saman. Það var auðséð, að menn bjuggust við skipinu innan skamms. Veðrið var ljómandi þennan dag, og austanvindurinn kældi loftið. Það glampaði sólskininu á bænahús-turnana, sem sáust álengdar uppi í bænum. Sunnan megin gekk langur flóðgarður út í höfnina. Fjöldi af fiskibátum var á víð og dreif út um Rauða hafið, og þar á meðal mátti sjá nokkur skip með gamla galeiðulaginu. Fix var á ferð fram og aftur í hópnum, og gætti lögregluþjónslega að hverju andliti í mannþrönginni. Kl. var 11½. »Þetta skip ætlar ekki að koma«, sagði hann, þegar hann heyrði klukkuna slá. »Það getur ekki verið langt burtu« sagði konsúllinn. »Hvað stendur það lengi við hér«, spurði Fix. »Fjóra klukkutíma til þess að taka kol. Frá Suez til Aden eru þrettán hundruð og tíu mílur, svo það verður að hafa góðar birgðir«. »Og frá Suez fer skipið beina leið til Bombay?« spurði Fix. »Beint, nema lestin rofni«, »Gott og vel«, sagði Fix, »ef þjófurinn hefir farið þessa leiðina og með þessu skipi, þá gengur hann vafalaust á land við Suez, til þess að komast til hollenzku eða frönsku nýlendnanna í Asíu eftir einhverri annari leið. Hann hlýtur að vita mjög vel, að hann mundi ekki verða óhultur á Indlandi, sem er í eignum Breta«. »Eg held ekki, að hann sé mjög slunginn«, svaraði konsúllinn, »því að London er loksins bezti felustaðurinn«. Þegar konsúllinn hafði þannig gefið lögregluþjóninum nokkuð um að hugsa, fór hann til skrifstofu sinnar, sem var þar rétt hjá. Lögregluþjónninn varð þá einn eftir, og varð æ óþolinmóðari og óþolinmóðari, því að hann hafði sérstakt hugboð um, að þjófurinn mundi vera á Móngolíu; og ef hann hefði farið frá Englandi í því skyni að komast til nýja heimsins, þá var eðlilegt að hann færi heldur Indlands-leiðina, því að á þeirri leið var örðugra að finna menn heldur en á Atlantshafs-leiðinni. Lögregluþjónninn þurfti ekki lengi að standa í öngum sínum. Hvað eftir annað heyrðist skerandi blásturshljóð, sem gaf til kynna, að gufuskip væri í nánd. Allur burðarmanna- og bændamúgurinn egipzki þaut niður að lendingunni á heldur óviðfeldinn hátt fyrir limi og föt áhorfendanna. Allmargir bátar lögðu líka af stað til þess að mæta Mongolíu. Þessi feykilega stóri skipskrokkur sást bráðlega milli hæðanna, sem að skurðinum liggja, og þegar klukkan sló 11, lagðist Mongolía við akkeri á skipalæginu, og streymdi um leið gufuský út úr öryggispípunum. Mikill fjöldi farþegja var á skipinu. – Sumir þeirra stóðu kyrrir á stjórnbrúnni, og dáðust að útsýninu, en allur fjöldinn fór á land í bátunum, sem settir höfðu verið fram til að mæta skipinu. Fix gætti vandlega að hverjum fyrir sig, þegar menn stigu á land. Meðan hann var önnum kafinn við þetta, gekk einn farþeginn til hans, ruddi fjörlega frá bændunum, sem þyrpzt höfðu utan um hann og spurði lögregluþjóninn, hvar skrifstofa brezka konsúlsins væri; jafnframt dró farþeginn fram vegabréf sitt, og ætlaði hann vafalaust að fá konsúlinn til að skrifa á það. Fix tók ósjálfrátt við vegabréfinu, og sá á augabragði, hvað á því stóð. Mannlýsingin á vegabréfinu stóð nákvæmlega heima við lýsinguna á þjófnum. »Þér eigið ekki þetta vegabréf?« sagði hann við farþegann. »Nei«, svaraði maðurinn, »húsbóndi minn á það«. »Og hvar er húsbóndi yðar?« »Hann er úti á skipinu«. »En«, sagði lögregluþjónninn, »hann verður að koma sjálfur á skrifstofu konsúlsins, til þess að sýna, að hann sé sami maðurinn, sem talað er um í vegabréfinu«. »Ó, er það nauðsynlegt?« »Alveg óhjákvæmilegt«. »Hvar er skrifstofan?« »Þarna á horninu á húsaferhyrningnum«. svaraði lögregluþjónninn, og benti á hús, sem var hér um bil 100 skref frá. »Jæja þá, eg ætla að fara og ná í húsbónda minn; en eg get sagt yður það, að hann þakkar yður ekkert fyrir að vera að gera sér ónæði«. Að svo mæltu kvaddi farþeginn Fix, og sneri aftur út á gufuskipið. VII. KAPÍTULI. Sem sýnir enn betur, hve einskisverð vegabréf eru, þegar við lögregluþjóna er að eiga. LÖGREGLUÞJÓNNINN skundaði enn upp að skrifstofu konsúlsins. Eftir sérstakri beiðni hans var honum tafarlaust vísað inn til þess embættismanns. »Fyrirgefið þér«, sagði hann við konsúlinn, og var nokkurt æði á honum, »en eg hefi mikla ástæðu til að halda, að maðurinn, sem eg er að leita að, í raun og veru úti á Mongolíu, og svo sagði Mr. Fix, hvað sér og þjóninum hefði á milli farið. »Gott«, svaraði konsúllinn; »mér skyldi ekki þykja neitt að því, að sjá sjálfur framan í fantinn; en ef til vill sýnir hann sig ekki hér sjálfur, ef eins er ástatt með hann og þér haldið. Engum þjóf er um að láta menn geta rakið slóðina sína; og auk þess er ekki þörf á að skrifað sé á vegabréfið«. »Ef hann er eins slunginn eins og hann ætti að vera, þá kemur hann«, sagði Mr. Fix. »Til þess að láta skoða vegabréf sitt?« »Já, vegabréf eru ekki til neins, nema til þess að gera sómamönnum ómak, og hjálpa þorpurum til að komast undan. Eg efast ekki um, að vegabréf náungans muni vera ágætt; en eg vona samt, að þér skrifið ekki á það«. »Hvers vegna ekki?« Sé vegabréfið í góðri reglu, þá hefi eg engan rétt til að neita að skrifa á það«, svaraði konsúllinn. »Engu að síður – eg verð að halda piltinum hér, þangað til eg hefi fengið umboð frá Lundúnum til að taka hann fastan«. »Ó, Mr. Fix, það kemur yður einum við«, sagði konsúlinn; »eg fyrir mitt leyti verð – « Konsúlinn lauk ekki við setninguna. Í þessu augnabliki var barið að dyrum, þjónninn vísaði inn tveimur ókunnugum mönnum, og var annar þeirra þjónninn, sem talað hafði við lögreglumanninn við lendingarstaðinn. Nýkomnu mennirnir voru húsbóndi og þjónn. Húsbóndinn rétti vegabréf sitt að konsúlnum, og bað hann með mjög fáum orðum að skrifa á það, að hann hefði séð það. Konsúllinn tók við vegabréfinu og skoðaði það vandlega; Fix stóð út í horni og glápti á aðkomumann. Þegar konsúllinn hafði yfirfarið vegabréfið, sagði hann: »Þér eruð Phileas Fogg?« »Já«, svaraði aðkomumaður. »Og þetta er þjónn yðar?« »Já, hann er franskur, og er kallaður Passe-partout«. »Þér komið frá London?« »Já«. »Og þér ætlið – hvert?« »Til Bombay«. »Gott og vel. Þér vitið, ef til vill, að þessi áskrift er alveg óþörf og enda gagnslaus. Við æskjum ekki annars en að fá að sjá vegabréfið«. »Eg veit það«, svaraði Fogg; »en mig langar til að biðja yður að votta það, að eg hafi komið til Suez«. »Gott og vel, látum það svo vera«, svaraði konsúllinn, sem því næst skrifaði vottorð sitt á vegabréfið. Mr. Fogg greiddi áskriftargjaldið, hneygði sig og fór út ásamt þjóni sínum. »Jæja, hvað sýnist yður?« spurði lögregluþjónninn. »Mér sýnist hann líta út eins og hver annar sómamaður«, svaraði konsúllinn. »Getur vel verið«, svaraði Fix; »en hér er ekki um það að ræða, Sáuð þér ekki, að lýsingin, sem send var út af þjófnum, á í hverju einasta atriði við þennan stillilega herra?« »Eg felst á það; en þér vitið, að allar lýsingar – « »Eg skal ganga úr skugga um það«, svaraði Fix. »Mér dettur í hug, að það muni vera auðveldara að ná tali af þjóninum heldur en húsbónda hans. Auk þess er hann franskur og getur ekki annað en vaðið elginn. Eg kem bráðum aftur«. Um leið og lögregluþjónninn þagnaði, fór hann út úr skrifstofu konsúlsins og fór að leita að Passe-partout. Meðan þessu fór fram, hafði Mr. Fogg haldið frá konsúls-húsinu og ofan að lendingunni. Þar gaf hann þjóni sínum nokkrar skipanir, fór svo í báti út til skipsins og gekk ofan í káetu sína. Þar tók hann upp minnisbók og færði þetta inn í hana: Fór frá London miðvikudag 2. október kl. 8,45 e.m. Kom til París fimtudaginn, kl. 8,40 f.m. Kom til Turin, Mont Cenis-veginn, föstudag 4. október, kl. 6,35 f.m. Fór frá Turin föstudag, kl. 7,20 f.m. Kom til Brindisi, laugardag 5. október, kl. 4 e.m. Steig á skip á Mongóliu, laugardag kl. 5. e.m. Kom til Suez miðvikudag 9. október, kl. 11 f.m. Samtals eytt til ferðarinnar 158¼ stundum eða 6½ dögum. Mr. Fogg færði þetta inn í dagbók, sem strykuð var í dálka, og byrjaði 2. október, og hélt þannig áfram til 21. desember; þar sást mánuðurinn, mánaðardagurinn og vikudagurinn, og jafnframt þeir dagar, sem hann átti að koma til helztu staða á ferðinni, t.d. París, Brindisi, Suez, Bombay, Calcutta, Singapore, Hong Kong, Yokohama, San Fransisco, New York, Liverpool, London. Þar var líka dálkur, sem sýndi, hve mikið hann væri á undan eða eftir þeim fyrirhugaða tíma, á hverjum stað fyrir sig, og annars var alt í bókinni, sem hann þurfti að vita. Þannig var miðvikudagurinn 9. október nefndur sem sá dagur, er hann ætti að koma til Suez, og hann sá því á augabragði, að enn sem komið var hafði hann hvorki unnið né tapað. Svo lét hann færa sér morgunmatinn í káetu sína. Honum datt ekki í hug, að fara að skoða bæinn; hann var einn af þessum herrum, sem eru harðánægðir með að sjá önnur lönd með augum þjóna sinna. VIII. KAPÍTULI. Passe-partout talar þar heldur meira en hann hefði átt að gera. Það leið ekki mjög löng stund áður en Fix hitti Passe-partout við lendinguna. Passe-partout var að skygnast um, því að honum fanst ekkert móti því að sjá alt, sem hann gat séð. »Jæja, kunningi«. sagði Fix, þegar hann kom til hans, »er búið að skrifa á vegabréfið yðar?« »Ó, það eruð þér«, svaraði þjónninn. »Eg þakka yður mikillega fyrir leiðbeininguna. Já, alt er komið í rétta röð og reglu«. »Eg býst við að þér ætlið nú að fara að sjá eitthvað af staðnum?« »Já, en við höldum svo hratt áfram, að mér finnst þetta eins og draumur. Svo við erum komnir til Suez, erum við ekki?« »Jú, það eruð þið«. »Á Egiptalandi?« »Á Egiptalandi, alveg áreiðanlega«. »Og í Afríku?« »Já í Afríku«. »Vitið þér hvað«, svaraði Passe-partout, »eg get naumast trúað því. Í Afríku, beinlínis kominn til Afríku. Hugsið þér yður bara – eg hafði ekki minstu hugmynd um, að við mundum fara lengra en til Parísar, og allur tíminn, sem eg hafði til að sjá þann yndislega stað, var frá kl. 7,20 e.m. til 8,40, milli þess að lestin kemur eftir Norðurbrautinni og þangað til lagt er af stað með Lyonsbrautinni, og það sem eg sá, það sá eg gegnum vagnglugga í rigningu. Mér þykir fyrir því. Mér hefði þótt gaman að sjá aftur Pére La Caise og Circus á elyseisku völlunum«. »Yður liggur þá öll ósköpin á?« sagði lögregluþjónninn. »Nei, mér liggur ekki minstu vitund á«, svaraði Passe-partout. »Það er húsbóndi minn. Eg átti annars að kaupa nokkrar skyrtur og eina skó. Við fórum á stað alveg farangurslausir, nema hvað við fórum með einn dúkpoka«. »Eg skal fara með yður í búð, þar sem þér fáið alt, sem þér þurfið á að halda«. »Er það satt?« svaraði Passe-partout; »framúrskarandi getið þér verið greiðvikinn«. Svo lögðu þeir af stað saman, og alt af lét Passe-portout munninn ganga. »Eg verð að gæta mín vandlega, að eg missi ekki af skipinu«, sagði hann. »Ó, þér hafið nægan tíma«, svaraði Fix; »klukkan er ekki nema tólf«. Passe-partout tók upp stóra úrið sitt. »Klukkan tólf«, sagði hann. »Þvættingur. Hún er fimmtíu og tvær mínútur yfir níu«! »Yðar klukka er of sein«, svaraði Fix. »Of sein, úrið mitt of seint! Eg skal segja yður, þetta úr hefir afi minn átt. Það er erfðafé, og því skeikar ekki um fimm mínútur á árinu. Það er reglulegur kronometer«. »Eg sé hvernig í þessu liggur«, svaraði Fix; »þér hafið Lundúna-tíma, en þar eru klukkurnar hér um bil tveimur stundum á eptir klukkunum í Suez. Þér verðið að passa yður að setja úrið yðar, þegar klukkan er tólf, í hverju landi sem þér komið í«. »Eg held síður«, sagði Passe-partout. »Eg fer víst ekki að færa til úrið mitt«. »Nú, en þá stendur það ekki heima við sólina«. »Eftir fárra mínútna þögn sagði Fix. »Þið hljótið að hafa farið í skyndi frá Lundúnum?« Eg skyldi segja það. Á miðvikudagskvöldið var, kl. 8, kom Mr. Fogg heim úr klúbbnum sínum, og eftir ¾ úr klukkustund vorum við lagðir af stað«. »En hvert ætlar húsbóndi yðar?« »Beint áfram – hann ætlar að fara kringum jörðina«. »Ætlar að fara kring um jörðina! hrópaði Fix upp yfir sig. »Já, á 80 dögum. Hann segir, það sé veðmál, en okkar á milli sagt, trúi eg ekki einu orði af því. Það er ekkert vit í því. Honum hlýtur að ganga eitthvað annað til«. »Þessi húsbóndi yðar er nokkuð einkennilegur að eg held«. »Fremur það«, svaraði þjónninn. »Er hann mjög ríkur?« »Það hlýtur hann að vera; og hann hefir með sér mikla peninga, alt í nýjum bankaseðlum. Hann skirrist aldrei við útgjöldum. Vélastjóranum á Mongólíu lofaði hann miklum launum, ef hann kæmist til Bombay fyrr en á er kveðið«. »Hafið þér þekt húsbónda yðar lengi?« »Og sussu nei«, svaraði Passe-partout. »Eg kom ekki í hans þjónustu fyrr en einmitt sama daginn sem við lögðum af stað«. Menn geta ímyndað sér, hver áhrif öll þessi svör muni hafa haft á lögregluþjóninn með allri hans tortryggni. Þessi skyndilega brottför frá Lundúnum, svo skömmu eftir að þjófnaðurinn hafði verið framinn, stórfé í bankaseðlum, ákafi mannsins eftir að komast til Indlands undir yfirskini óheyrilegs veðmáls – alt þetta festi Fix í ímyndunum þeim, sem hann hafði þegar gert sér, enda var það ekki óeðlilegt. Hann réð af að veiða dálítið meira upp úr franska manninum, og komast að því fyrir fult og fast, hvort þjónninn vissi meira um húsbónda sinn en það, að hann lifði einbúalifi í Lundúnum; væri sagður stórríkur, þó að enginn vissi, hvaðan sá auður kæmi, að hann væri mjög undarlegur maður og þar fram eftir götunum. En jafnframt þóttist Fix viss um, að Phileas Fogg mundi ekki ganga á land við Suez, og að hann mundi halda áfram til Bombay. »Er Bombay langt burtu«, spurði Passe-partout. »Æði langt. Það er tíu daga ferð á gufuskipi héðan«. »Og hvar er Bombay?« »Á Indlandi«. »Í Asíu?« »Náttúrlega«. »Ó, hver djöfullinn. Nú datt mér nokkuð í hug, og það er ljósið mitt«. »Hvaða ljós?« »Gasljósið í herberginu mínu; eg gleymdi að skrúfa fyrir það, þegar eg lagði af stað frá Lundúnum, og það logar enn á minn kostnað. Eg hefi nú reiknað út, að eg tapa með því móti tveimur shillings á hverjum tuttugu og fjórum klukkutímum, og það er réttum sex pencum meira en laun mín nema. Svo að þér sjáið, að því lengri sem ferðin er – « Það er ekki mjög líklegt, að Fix hafi veitt þessu gasmáli sérlega mikla athygli; hann var að hugsa um nokkuð annað. Þeir komu bráðum að búðinni, og Passe-partout varð þar eftir til þess að kaupa það, sem hann þurfti á að halda, en Fix skildi þar við hann og hraðaði sér til konsúlsskrifstofunnar; hann hafði nú fengið aftur sína venjulegu stillingu, af því að grunur hans hafði styrkzt. »Nú er eg alveg viss um það«, sagði hann við konsúlinn, »að þetta er maðurinn, sem við erum að leita að. Hann vill láta sýnast svo sem hann sé einhver sérvitringur, sem ætli að fara kring um jörðina á 80 dögum«. »Hann er slunginn, pilturinn, og ætlar líklega að fara aftur til London, þegar hann er búinn að villa sjónir fyrir lögreglunni«. »Bíðum við, við skulum sjá«, svaraði Fix. »En eruð þér viss um, að yður skjátlist ekki?« spurði konsúllinn enn einu sinni. »Eg er viss um, að mér skjátlast ekki«. »Gott og vel, en hverja grein gerið þér þá fyrir því, að manninum skuli vera svo ant um að fá skrifað á vegabréfið sitt til þess að geta sannað, að hann hafi hingað komið?« »Ja – ja – það get eg ekki sagt«, svaraði lögregluþjónninn, »en hlustið þér á eitt augnablik«. Og svo sagði hann honum, í svo fáum orðum sem mögulegt var, aðalatriðin úr samræðu þeirri, sem hann hafði átt við Passe-partout. »Eg verð að játa það, að hin ytri atvik eru mjög á móti honum«, svaraði konsúlinn. »Hvað ætlið þér nú að gera?« »Eg telegrafera til Lundúna og legg lögreglustjórninni þar ríkt á hjarta, að mér verði tafarlaust sent til Bombay umboð til að taka manninn fastan. Svo stíg eg á skip á Mongólíu og hefi gætur á piltinum þangað til við komum til Bombay. Þar erum við komnir í eignir Breta og þar tek eg hann fastan svo lítið beri á«. Lögregluþjónninn lauk stillilega við þessa skýringu, gekk til telegrafstofunnar, og sendi þaðan hraðskeyti það sem vér höfum þegar séð. Einum fjórða stundar á eftir steig Mr. Fix á skip á Mongólíu, bar með sér létta ferðatösku og var vel út búinn með peninga. Skömmu síðar var skipið farið að kljúfa öldurnar suður eftir Rauða hafinu. IX. KAPÍTULI. Rauða hafið og Indverska hafið greiða fyrir fyrirtæki Phileas Foggs. MILLI Suez og Aden eru nákvæmlega þrjú hundruð og tíu mílur, og til þess að fara þá leið eru gufuskipum ætlaðar hundrað þrjátíu og átta klukkustundir. En Mongólía fór svo hratt, að líkindi voru til, að hún mundi verða töluvert fljótari í ferðum. Meiri hluti farþeganna frá Brindisi ætluðu til Indlands, sumir til Calcutta, sumir til Bombay; og síðan járnbraut var lögð yfir Indland þurfa menn að fara suður fyrir Ceylon. Meðal farþeganna voru margir hershöfðingjar og alls konar embættismenn. Hershöfðingjarnir voru bæði úr reglulega liðinu og úr indverska hernum; sitja þeir í vel launuðum embættum, því að lautenantar fá tvö hundruð og áttatíu, brigade-foringjar tvö þúsund og fjögur hundruð, og generalar fjögur þúsund pund á ári. Það var því skemtilegt fólk, sem var saman komið þar á skipinu. Á hverjum degi borðuðu menn dýrlegustu kræsingar. Snemma að morgninum var borðað, svo klukkan tvö, svo miðdegismatur kl. 5½ og kveldmatur kl. 8; og borðin stundu undir mergð réttanna. Konur á skipinu skiftu um búning tvisvar á dag, og hljóðfærasláttur og dans fór fram hvenær sem þessum skemtunum varð við komið fyrir veðrinu. En Rauðahafið er dutlungasamt mjög; þar er oft illur sjór eins og í flestum löngum og mjóum flóum. Þegar vindurinn stóð í hliðina á skipinu, ruggaði Mongólía óttalega. Þá fóru konur í rekkjur sínar; píanóin steinþögðu, og söng og dans linti. En þrátt fyrir vindinn og sjóganginn knúðist skipið áfram af sinni öflugu skrúfu og þaut áfram suður að sundinu við Babel-Mandeb. Og hvað gerði Phileas Fogg allan þennan tíma? Ef til vill gizka menn á, að honum hafi verið órótt, og að hann hafi verið að hugsa um mótbyrinn og hraðann á skipinu, þar sem líkindi voru til, að það mundi tefjast af storminum, og að þannig mundi verða þrándur í götu fyrir fyrirtæki hans. Hvort sem honum lá þetta þungt á hjarta eða ekki, þá lét hann að minsta kosti aldrei í ljósi minstu hræðslu því viðvíkjandi. Hann var eins þögull og rólegur eins og hann hafði nokkurtíma áður verið; það var eins og hann furðaði ekki á neinu, sem fyrir gæti komið. Svo var að sjá sem honum væri ekki annara um það, hvernig ferðin gekk, heldur en úrunum á skipinu. Hann skeytti mjög lítið um Rauða hafið, jafnmerkilegt og það þó er, þar sem þar hafa borið við hinir stórkostlegustu viðburðir mannkynssögunnar. Hann hirti aldrei um að líta á bæina, sem báru við himinn. Hann var allsendis óhræddur við Arabiska Flóann, sem fornir rithöfundar, Strabo, Arian, Artemidorus o.s. frv., hafa ávalt ritað um með skelfingu og sjómenn þeirra tíma aldrei þorðu að leggja út á án þess að bera áður fram friðþægingarfórn. Hvernig fór þá þessi einræni maður að stytta sér stundir, lokaður inni í káetu sinni? Í fyrsta lagi át hann reglulega sínar fjórar máltíðir á dag, því að hvorki sjógangur né rugg höfðu minstu áhrif á matarlyst hans. Og hann spilaði vist, því að hann hafði kynzt nokkrum mönnum, sem voru jafnfíknir í að spila eins og hann sjálfur, skattheimtumanni, sem var á leiðinni til Goa, presti, síra Decimus Smith, sem var á heimleið til Bombay, og enskum herforingja, sem ætlaði til Benares. Þessir þrír voru eins vitlausir í vist eins og Mr. Fogg sjálfur, og þeir eyddu þegjandi heilum dögum í þá ánægju. Af Passe-partout er það að segja, að hann slapp líka við sjóveikina, og borðaði máltíðir sinar með viðfeldinni reglusemi og á samvizkusamlegan hátt, sem vert er eftir að líkja. Þrátt fyrir alt og alt, þótti honum ekkert að ferðinni; hann hafði ráðið við sig, hvernig hann skyldi haga sér; hann starði á útsýnið, þar sem hann fór fram hjá, naut matar síns, og var alveg sannfærður um, að allri þessari ferða-vitleysu mundi lokið í Bombay. Daginn eftir að þeir fóru frá Suez, 10. október, hitti Passe-partout á þilfarinu mann þann, er hafði verið svo kurteis við hann í Egiptalandi, og þótti honum ekkert að þeim fundi. »Eg er viss um, að mér getur ekki skjátlazt«, sagði hann. »Hefi eg ekki þá ánægju að hitta herrann, sem var svo greiðvikinn við mig í Suez?« »Ójú, nú kannast eg við yður. Þér eruð þjónn þessa einræna Englendings«. »Alveg rétt. Mr. – « »Fix«, svaraði lögregluþjónninn. »Mr. Fix«, hélt Passe-partout áfram, »mér er fögnuður að hitta yður hér á skipinu. Hvert ætlið þér að fara?« »Það sama eins og þér sjálfur, til Bombay«. »Því betra. Hafið þér nokkurn tíma farið þessa leið fyrr?« »Oft. Eg er agent P. og O. félagsins«. »Ó, þá þekkið þér vafalaust Indland ágætlega?« »O – já«, sagði Fix, og kærði sig annars ekki um að koma upp um sig. »Það er víst skrítið land, er það ekki?« »Mjög skrítið. Þar eru tyrknesk bænahús, bænhúsa-turnar, musteri, förumunkar, goðahof, tígrisdýr, höggormar og dansmeyjar. Eg vona, að þér fáið tíma til að skoða landið«. »Það vona eg líka, Mr. Fix. Eins og þér hljótið að sjá, er naumast við því að búast, að maður geti alla æfi verið að stökkva frá gufuskips-þilfari inn í járnbrautarlest og frá járnbrautarlest á annað gufuskip, undir því yfirskini, að maður sé að fara kring um jörðina á 80 dögum. Nei; öll þessi hlaup og stökk enda í Bombay, vona ég«. »Er Mr. Fogg vel frískur?« spurði Fix kurteislega. »Ágætlega, þakka yður fyrir. Það er eg líka. Eg ét eins og hestur. Eg býst við, að það muni koma af sjóloftinu«. »Eg sé aldrei húsbónda yðar á þilfarinu«. »Nei; hann er ekki minstu vitund forvitinn«. »Vitið þér hvað, Mr. Passe-partout, eg ímynda mér, að þessi ferð kring um hnöttinn á 80 dögum, sem er látin í veðri vaka, sé ekki nema hula yfir einhverju meir áríðandi erindi; ef til vill er hann í einhverri stjórnmálaferð«. »Eg segi yður satt, Mr. Fix, eg veit ekki lifandi vitund um það; og það sem meira er, eg vil ekki gefa baun fyrir að vita það«. Eftir þetta sátu þeir Passe-partout og Fix oft og mösuðu saman; lögregluþjónninn gerði alt, sem hann gat, til þess að hæna þjóninn að sér. Hann bauð honum glas af Whisky eða bitru öli, og franski þjónninn þáði veitingarnar umsvifalaust, og lýsti því yfir, að Fix væri gentlemaður í húð og hár. Meðan þessu fór fram brauzt skipið áfram með fleygingsferð. Þ. 13. sást Mocha, umkringd sinum traustu víggirðingum og bak við þær girðingar teygðu nokkur pálmatré höfuðin upp. Lengra burtu sáust ákaflega miklar kaffi-plantanir. Passe-partout þótti yndi að horfa á þennan fræga bæ, og honum datt í hug, að þessir hrundu múrar líktust mjög ákaflega stóru bollapari. Næstu nótt komst Mongólía út úr sundinu við Babel-Mandeb, sem þýðir Tárahliðið, og daginn eftir var komið til Gufuskipahöfðans, norðvestur frá höfninni við Aden; þar átti að flytja kolaforða út á skipið. Það er enginn hægðarleikur að sjá gufuskipum fyrir kolum, þar sem jafnlangt er til náma, enda varði P. og O. félagið árlega átta hundruð þúsund pundum til þess starfa. Kolin verða að geymast í fjarlægum hafnarstöðum, og tonnið af þeim kostar meira en þrjú pund sterling. Mongólía átti enn eftir sextán hundruð og fimmtíu mílur áður en hún kæmi til Bombay, og hún varð því að standa við 4 klukkutíma við Gufuskipa-höfðann til þess að skipa út kolum. En þessi dvöl kom ekki að minsta leyti í bága við ferðaáætlun Phileas Foggs. Það hafði verið gert ráð fyrir henni. Auk þess kom Mongólía inn á höfnina við Aden að kveldi þess 14. í stað þess gert hafði verið ráð fyrir, að hún kæmi þangað þann 15., svo að Fogg var orðinn hér um bil fimtán klukkustundum á undan þeim áætlaða tíma. Mr. Fogg og þjónn hans gengu á land. Fogg vildi fá skrifað á vegabréf sitt. Fix fór í humátt á eftir honum án þess á bæri. Eftir að skrifað hafði verið á vegabréfið, hélt Phileas Fogg aftur út á skipið, og settist að vistinni. Passe-partout ráfaði, eins og hann var vanur, um meðal hinna margvíslegu þjóðflokka, sem búa í Asíu. Hann dáðist að víggirðingunum utan um þetta Gíbraltar austurlanda, og að vatnsgryfjunum, sem breskir verkfræðingar voru enn að starfa að, tveim þúsundum ára eftir að erfiðismenn Salómons höfðu við þær fengizt. »Það er sannarlega skrítið þetta, mjög skrítið«, hugsaði Passe-partout með sjálfum sér um leið og hann sneri út á skipið aftur. »Það borgar sig að ferðast, ef maður fær alt af eitthvað nýtt að sjá«. Kl. 6 um kveldið létti Mongólía akkerum og lagði út á þvert Indlands haf. Hún hafði nú hundrað og sextíu klukkutíma til þess að komast til Bombay. Veðrið var gott, þægileg gola á norðvestan; segl voru því dregin upp til þess að létta undir með skrúfunni. Þegar skipið hafði þannig fengið stöðuga rás, notuðu konurnar tækifærið til að láta aftur sjá sig í nýjum búningi, og nú var aftur farið að dansa og syngja. Ferðin gekk ágætlega. Passe-partout var stórglaður út af að hafa jafnviðfeldinn förunaut eins og Fix. Sunnudaginn 20. október um hádegi sáu menn Hindostan-ströndina. Tveim stundum síðar kom hafnsögumaður út á skipið. Löng röð af hæðum bar við himininn, og innan skams fóru pálmatrén að sjást. Póstskipið hélt nú inn á skipalagið, sem myndaðist af eyjunum Salsette, Colaba, Elephanta og Butcher, og klukkan 4¼ lá skipið upp við lendingarstaðinn. Phileas Fogg hafði nýlokið við þrítugasta og þriðja spilið þann dag. Meðspilari hans og hann höfðu unnið þrisvar sinnum í röð, og þannig lauk sjóferðinni heppilega fyrir þá. Mongólía hafði ekki átt að koma til Bombay fyrr en 22. október; hún var komin þangað þann 20. Mr. Fogg hafði þannig unnið tvo daga í samanburði við það, sem áætlað var, og þar af leiðandi færði hann þann »gróða« inn í þann dálk af dagbók sinni, sem afmarkaður var í því skyni. X. KAPÍTULI. Passe-parlout þykist góður, að missa ekki nema skóna sína. ALLIR vita, að hálfeyjan Hindostan er ein millíón og fjögur hundruð þúsund ferhyrningsmílur að stærð; íbúunum er ójafnt skift niður á þetta svæði, og eru hundrað og áttatíu millíónir að tölu. Brezka stjórnin er einvöld yfir meiri hlutanum af þessu óskaplega landflæmi. Yfir-landstjórinn situr í Calcutta, og svo eru landstjórar í Madras og Bombay og landstjóri yfir Bengal. Sá partur Indlands, sem beinlínis er talinn heyra Bretum til, er að eins sjö hundruð þúsund ferhyrningsmílur, og tala landsbúa er frá hundrað til hundrað og tíu millíónir. Þannig er enn stór partur af Indlandi sjálfstæður, og í raun og veru eru til indverskir höfðingjar uppi í landinu, sem hafa óbundið einveldið. Frá árinu 1756 og þangað til Sepoy-uppreistin mikla varð, hafði Austur-Indlandsfélagið æðstu völd í þeim hluta Indlands, sem Bretar eiga yfir að ráða; en nú er landið undir stjórn krúnunnar. Háttsemi manna og siðir á Indlandi eru stöðugt að breytast. Þangað til fyrir skömmu fóru ferðalög öll fram eftir fornum hætti, en nú ganga gufuskip eftir Ganges og járnbrautir hafa verið lagðar um landið, og nú má fara frá Calcutta til Bombay á þremur dögum. En járnbrautin liggur ekki beint yfir hálfeyjuna. Bein lína milli Bombay og Calcutta er ekki nema hér um bil 1100 mílur, og járnbrautarlestirnar mundu ekki vera þrjá daga að fara þá leið; en vegurinn lengist að minsta kosti um einn þriðja part við brautarhlykkinn upp að Allahabad. Hin Mikla Indverska Braut liggur sem nú skal greina: Byrjar á Bombay-eyjunni, liggur yfir eyjuna Salsetti, byrjar á meginlandi við Tannah, liggur yfir fjöllin Vestri Ghauts, liggur þaðan norðaustur til Burhampoor, fram með sjálfstæða fylkinu Bundelcund og norður að Allahabad; svo snýr brautin austur á við og kemur að Ganges við Benares; þar næst liggur brautin frá fljótinu suðaustur á við, fram hjá Burdivan og Chandernagore, þangað til hún kemur til Calcutta, og þar með er henni lokið. Kl. var 4½ e.m., þegar farþegarnir stigu á land af Mongólíu, og Calcutta-lestin átti að leggja af stað kl. 8. Mr. Fogg kvaddi spilabræður sína og gekk á land, sagði þjóni sínum fyrir um kaup á nokkrum óhjákvæmilegum munum, lagði honum ríkt á hjarta að vera kominn til járnbrautarstöðvanna fyrir kl. 8, og lagði svo af stað til konsúls-skrifstofunnar með sinni vanalegu hægð. Hann sá ekkert af því, sem sjáandi er í Bombay – bæjarþingshúsið, bókasafnið stórkostlega, kastalarnir, skipakvíarnar, bómullarmarkaðurinn, búðirnar, bænahúsin – um ekkert af þessu hirti hann. Phileas Fogg skeytti ekkert um Elephöntu, né heldur skoðaði hann hellana á Salsette. Eftir að hann hafði farið frá konsúlsskrifstofunni, gekk hann í hægðum sínum til járnbrautarstöðvanna og borðaði þar miðdegisverð. Eigandi hótellsins mælti sérstaklega fram með »indverskum rabbít«. Phileas þáði skamtinn, sem honum var borinn, en þótti maturinn afleitur. Hann hringdi klukkunni. Það var sent eftir eigandanum. »Er þetta rabbít?« spurði Mr. Fogg. »Já, lávarður minn, skógar-rabbít«. »Haldið þér ekki, að þessi rabbít hafi einhvern tíma mjálmað?« »Ó, lávarður minn, skógar-rabbítar mjálma. Svo mér – «. »Verið þér ekki að blóta«, sagði Fogg stillilega, »og minnist þess, að kettir voru forðum daga heilög dýr á Indlandi. Það voru sæluríkir dagar. »Fyrir kettina, lávarður minn?« »Og ef til vill líka fyrir ferðamenn«, sagði Fogg, og hélt svo áfram að borða. Skömmu síðar kom Fix á land, og var það hans fyrsta verk að fara til lögreglustöðvanna. Hann sagði hver og hvað hann væri, í hverjum erindum hann væri og hvernig á stæði með þjófnaðinn. Hafði nokkurt umboð verið sent til að taka manninn fastan? Nei, ekkert þess háttar hafði komið, og auðvitað gat það ekki verið komið til Bombay, þar sem það hlaut að vera sent frá London eftir að Fogg hafði lagt af stað. Fix varð daufur í dálkinn við þetta. Hann vildi fá lögreglustjórann til að veita sér umboðið þegar í stað, en beiðni hans var neitað. Þetta kom stjórninni á Englandi við, en ekki honum, og hann gat ekkert umboð gefið. Þessar ströngu skrifstofureglur eru alveg brezkar. Fix fór auðvitað ekki frekara fram á þetta, og réð af að bíða, þangað til umboðið kæmi. En hann staðréð jafnframt, að hafa aldrei augun af þjófnum á meðan. Hann efaðist alls ekki um, að Fogg mundi halda kyrru fyrir í Bombay um nokkurn tíma – vér vitum, að það hafði Passe-partout líka haldið – og honum þótti líklegt, að umboðið mundi koma áður en fanturinn færi úr bænum. En Passe-partout var nú genginn úr skugga um, að húsbóndi hans mundi ætla að hraða sér eins mikið frá Bombay eins og hann hafði hraðað sér frá París og Suez, að ferðinni var ekki lokið í Bombay, heldur átti að halda henni áfram til Calcutta að minsta kosti og ef til vill jafnvel lengra. Passe-partout fór þá að hugsa, að vera mætti, að þetta stafaði af veðmálinu og að forlögin hefðu sannarlega dæmt hann, þrátt fyrir alla löngun eftir næði, til þess að fara kringum heiminn á 80 dögum. Hvað sem nú því leið, þá var hann að ganga um strætin í Bombay, eftir að hann hafði keypt nokkra nauðsynlega muni. Þar var mikill fjöldi af fólki – Norðurálfumenn af öllum þjóðum; Persar með uppmjóum húfum; Buntryar með kringlóttum túrbönum; Skindar með ferstrendum húfum; Armeníumenn í flaksandi klæðum; Parsar með svörtum húfum. Parsar héldu hátíð þennan dag. Þessir Parsar eru Zoroasters-menn að trúarbrögðum og eru iðjusamastir, gáfaðastir og mest mentaðir af öllum þarlendum þjóðflokkum; af þessum þjóðflokki er meiri hluti kaupmanna í Bombay. Við þetta tækifæri var haldin nokkurs konar trúarbragðaleg skemtun fyrir fólkið; á götunum voru prósessíur, og fjöldi af dansmeyjum, klæddum í róslitaðar silkislæður, dansandi hæversklega og yndislega eftir hljómnum frá bumbum og fiðlum. Eins og nærri má geta, drakk Passe-partout með fögnuði inn í sig alt, sem fyrir augun og eyrun bar; og svipurinn á honum lýsti hinni mestu undrun, þegar hann var að glápa á þessa óvenjulegu sjón. Til allrar óhamingju lá nærri, að forvitni hans kæmi í bága við ferðalag húsbóndans. Eftir að hann hafði horft á skemtanirnar, ráfaði hann áfram í áttina til járnbrautarstöðvarinnar, en sá þá ljómandi fallegt goðahof á Malabarhæðinni, og langaði hann til að koma þar inn. Honum var allsendis ókunnugt um tvent: í fyrra lagi, að viss hof eru lokuð fyrir öllum kristnum mönnum, og að jafnvel mönnum af trúarflokkum þeim, er hofin tilheyra, er því að eins heimilt að koma inn í þau, að þeir skilji skó sína eftir við dyr hofsins. Brezka stjórnin virðir trú þarlendra manna, og hegnir stranglega hverjum, sem reynir að spilla helgi musteranna og hofanna. En Passe-partout átti sér einskis ills von, og eins og ferðamönnum er títt, fór hann inn og dáðist þar að goðinu og dýrindisskrautinu; þá vissi hann ekki fyrr til en hann lá á hryggnum á gólfinu og spriklaði öllum öngum út í loftið. Uppi yfir honum stóðu þrír reiðir menn, sem nú fóru að lúskra honum, rifu af honum skóna, lömdu hann afdráttarlaust og ráku upp villimannaleg org meðan á því stóð. Franski maðurinn var snar í snúningum og var skyndilega kominn á fætur aftur; hann beindi laglega sínu hnefahögginu að hvorum af tveimur mótstöðumönnum sínum, sem flæktust í síðu kápunum; svo þaut hann út úr hofinu, var bráðlega kominn langt á undan Hindúanum, sem hann hafði ekki barið, og slapp þannig út í mannþröngina. Fimm mínútum fyrir átta var hann kominn á járnbrautarstöðvarnar, hattlaus og skólaus, og hafði jafnframt mist böggulinn, sem munir þeir, er hann hafði keypt, voru vafðir í. Fix var þar á stéttinni. Hann hafði elt Fogg og komist að því, að sá herra ætlaði frá Bombay tafarlaust. Fix afréð að fylgja honum til Calcutta, og jafnvel lengra, ef þörf gerðist. Passe-partout tók ekki eftir lögregluþjóninum, enda dró Fix sig inn í forsæluna; en lögregluþjónninn heyrði þjóninn segja húsbónda sínum frá æfintýri sínu í fám setningum. »Eg vona, að þetta komi ekki oftar fyrir«, svaraði Fogg stillilega, um leið og hann tók sér sæti í vagninum. Manngarmurinn svaraði engu, en settist líka alveg lafmóður og hattlaus og skólaus. Fix fór inn í annan vagn í lestinni, en alt í einu datt honum nokkuð í hug, og hann tautaði fyrir munni sér: »Nei, ég ætla að verða eftir. Lagabrot hefir verið framið hér á Indlandi. Nú næ eg í piltinn!« Í því augnabliki kom skerandi blásturhljóð út úr vélinni, og vagnlestin lagði af stað út í náttmyrkrið. XI. KAPÍTULI. Sýnir hvernig Phileas Fogg kaupir sér reiðskjóta fyrir geypi-verð. VAGNLESTIN lagði af stað á alveg réttum tíma og ferðamenn voru eins margir og venja var til; þar á meðal voru borgaralegir embættismenn, hershöfðingjar og kaupmenn. Passe-partout sat nærri húsbónda sínum, og þriðji ferðamaðurinn hafði komið sér fyrir í horni beint á móti þeim. Þessi herra var Sir Francis Cromarty, general, einn af meðspilurum Mr. Foggs við vistar-borðið á Mongólíu, og var á leiðinni til Benares til þess að taka við herstjórn þar. Sir Francis var hár maður, gott sýnishorn af brezkum herforingjum, og hér um bil fimtugur að aldri. Hann hafði mjög unnið sér til frægðar meðan á uppreisninni stóð. Hann hafði verið á Indlandi mestan hluta æfi sinnar, og að eins endrum og sinnum heimsótt ættjörð sina. Hann var vel kunnugur á Indlandi og hefði verið fús á að gefa allar þær leiðbeiningar, sem hann gat, ef Phileas Fogg hefði viljað leita til hans. En Mr. Fogg bar það ekki við. Hann ferðaðist aldrei. Hann fór að eins eftir sem beinustu stryki yfir landið. Hann var eins og þungur líkami, sem fer eftir ákveðinni braut kringum jarðarhnöttinn, eftir vissum aflfræðislegum lögum. Um þetta leyti var hann að reikna, hve margar stundir væru liðnar síðan hann fór frá Lundúnum, og hann hefði núið saman höndunum af ánægju, ef hann hefði verið einn af þeim mönnum, sem eru að láta í ljósi þess háttar þarflaus fagnaðarmerki. Sir Francis hafði þegar tekið eftir einræningsskap félaga síns, meðan þeir voru að skemta sér við vistina, og hann hafði spurt sjálfan sig í fullri alvöru, hvort nokkurt mannlegt hjarta í raun og veru bærðist innan í þessu kjötumslagi, hvort Fogg hefði í raun og veru sál með tilfinning fyrir fegurð náttúrunnar og mannlegum yfirsjónum og þrám. Það var þetta, sem hinn vaski hermaður var í vandræðum með. Enginn af þeim mörgu einkennilegu mönnum, sem hann hafði hitt, hafði að neinu leyti líkzt Mr. Fogg, þessu sýnishorni af því, hvað óyggjandi vísindagreinirnar geta gert úr mönnunum. Phileas Fogg hafði ekki dulið það fyrir Sir Francis, að hann væri að fara kringum jörðina, né heldur með hverjum skilmálum hann hefði undirgengist að fara ferðina. Generalinn sá ekkert við veðmálið nema kynlegleik þess og skort á þarflegu augnamiði, sem ætti að leiðbeina hverjum skynsömum manni. Hann þóttist viss um, að ef þessi undarlegi maður héldi þannig áfram alt sitt líf, þá mundi hann að lokum kveðja heiminn án þess að hafa gert nokkurn skapaðan hlut sjálfum sér og öðrum til gagns. Einni stundu eftir að farið var frá Bombay, fór vagnalestin yfir brúna, sem brautin liggur eftir frá Salsette til meginlands. Við Callyan-stöðina höfðu þeir aukabrautina til Kandallah og Pooma á hægri hönd, en héldu áfram ferð sinni til Panwell. Á þeirri leið fóru þeir eftir giljunum í fjöllunum Vestur-Ghouts. Þau fjöll saman standa af trap- og basalt-klöppum, og eru þakin þéttum trjám á hæstu tindunum. Sir Francis Cromarty og Phileas Fogg skiftust við og við fáeinum orðum, og einu sinni endurnýjaði generalinn umræðuna með því að segja: »Fyrir fáum árum, Mr. Fogg, mundi talsverður farartálmi hafa orðið fyrir yður hér, og sá farartálmi mundi að líkindum hafa gert yður ómögulegt, að fá fyrirætlun yðar framgengt«. »Við hvað eigið þér, Sir Francis?« »Eg á við það, að járnbrautin náði þá ekki nema að rótum þessara fjalla, og þá varð maðurinn að halda ferðinni áfram í burðarstólum eða á smáhestum alt til Kandallah hinu megin við fjöllin«. »Slíkt hefði ekki að neinu leyti komið mínum fyrirætlunum á ringulreið«, svaraði Mr. Fogg. »Eg hefi gert ráðstafanir gegn vissum tálmunum«. »Engu að síður vantaði lítið á, Mr. Fogg, að þér kæmust í ljótu kröggurnar út af æfintýri þessa náunga þarna«. Passe-partout var steinsofandi með járnbrauta-ábreiðu sína vel vafða utan um fæturna, og hafði enga hugmynd um, að það væri verið að tala um hann. »Brezka stjórnin er framúrskarandi ströng gegn slíkum yfirsjónum, enda hefir hún ástæðu til þess«, hélt Sir Francis áfram. »Framar öllu öðru lítur hún svo á sem sýna verði virðingu trúarbrögðum hérlendra þjóðflokka, og ef þjónn yðar hefði verið tekinn fastur – «. »Látum svo vera«, tók Mr. Fogg fram í, »látum svo vera, Sir Francis, að hann hefði verið tekinn fastur og dæmdur sekur og látinn sæta hegningu; hann gat á eftir farið til Norðurálfunnar í mesta næði. Það hefði ekki verið nein ástæða til þess að neyða húsbónda hans til að halda kyrru fyrir«. Svo varð samtalið aftur að engu. Um nóttina komst lestin yfir fjöllin, fór fram hjá Nassik, og næsta dag, þ. 21. október, fór hún yfir flatneskju Kandish-héraðsins. Landið var vel ræktað og hér og þar sett smábæjum, og gnæfðu upp yfir það sívölu turnarnir á goðahofunum í stað ensku kirkjuturnanna. Ýmsar ár, sem í Godavery renna, vökvuðu þennan frjósama landshluta. Passe-partout vaknaði og leit í kring um sig. Í fyrstu gat hann ekki trúað því, að hann væri í raun og veru að fara yfir Indland eptir G. T. P. járnbrautinni. Það virtist alveg óskiljanlegt, en það var engu að síður satt. Eimvélin knúðist áfram, undir stjórn ensks vélastjóra, af enskum kolum, yfir kaffismára, bómullar- og pipar-plantanir. Reykurinn þyrlaðist utan um pálmatrén, og sáust víða innan um þau fallegir sumarkofar (bungalows) og »viharis«, nokkurs konar óbygð klaustur; fáein indversk musteri með hinum dásamlega byggingarstíl Indverja sáust líka hér og þar. Þegar lengra dró var farið yfir afskaplega landfláka, svo stóra sem augað eygði, og smáskóga, þar sem höggormar og tígrisdýr flýðu undan orgi og glamri lestarinnar. Þar á eftir lá brautin gegn um stórskóga; þar höfðust fílar við, og veittu þeir vagnlestinni mjög nákvæma eftirtekt, þegar hún þaut fram hjá. Fyrra hluta dagsins fóru ferðamennirnir yfir blóðstokkna héraðið, hinu megin við Malligaum, sem helgað er dýrkendum gyðjunnar Kalí. Ekki langt þar frá fóru turnarnir á bænahúsunum í Elóra og goðin þar að sjást, og hið nafnkunna Aurungabad, höfuðstaðurinn í hinu frjósama Aurung-Zeb, og nú aðalbærinn í einu af hinum sérstöku konungsríkjum í Nizam. Það var í þessu landi, að Feringhea, höfðingi Thuganna – konungur Kyrkjaranna – beitti valdi sinu. Þessir manndráparar höfðu gengið í leynifélag, og kyrktu, dauðagyðjunni til dýrðar, fólk á öllum aldri, án þess að úthella blóði, og um tíma var naumast nokkur sá staður, að ekki sæust líkin eftir þá þar. Ensku stjórninni hefir tekist að draga til mikilla muna úr þessum gríðarlegu manndrápum, en Thugarnir eru þó enn til og fylgja sinni voðalegu köllun. K1. 12½ nam vagnalestin staðar við Burhampore, og Passe-partout tókst að ná í eina morgunskó, skreytta fölskum perlum, og þóttist hann auðsjáanlega af þeim, þegar hann var búinn að setja þá upp. Farþegarnir flýttu sér að borða morgunmat, og lestin lagði aftur af stað til Assinghur; fór hún þá ofurlitla stund með fram Tapy, lítilli á, sem rennur út í Cambay-flóann nálægt Surat. Vér hyggjum, að ekki muni eiga illa við, að segja nú frá hugleiðingum Passe-partouts. Þangað til hann kom til Bombay, hafði hann glatt sig við þá von, að ferðinni mundi ekki verða haldið lengra áfram. En nú, þegar hann var að berast yfir þvert Indland, leit hann á málið á alt annan veg. Sú ánægja, sem hann áður hafði haft af ferðalagi, kom nú aftur með fullu afli. Öfgafullar hugsjónir frá æskuárum hans gerðu nú aftur vart við sig; hann fór að hugsa um fyrirætlanir húsbónda síns í fullri alvöru; hann fór að trúa veðmálinu, og þar af leiðandi líka því, að Mr. Fogg væri að fara kring um jörðina, og mætti með engu móti vera lengur að því en áttatíu daga. Hann fór nú jafnvel að kvíða fyrir töfum og óhöppum, sem fyrir kynnu að koma á ferðinni. Hann fór að láta sér ant um vinninginn, og hann skalf við þá hugsun, að hann hefði beinlínis sett alt í hættu með heimsku sinni daginn á undan. Honum var þannig miklu órórra en Mr. Fogg, af því að hann var ákaflyndari. Hann taldi aftur og aftur dagana, sem liðið hefðu síðan hann hafði lagt af stað, bölvaði töfinni á járnbrautarstöðvunum, fann að því, hve hægt lestin færi, og láði Mr. Fogg það í hjarta sínu, að hann skyldi ekki múta vélastjóranum. Hann gætti þess alls ekki, að þó að slíkt sé mögulegt á gufuskipum, þá kemur það ekki til nokkurra mála á járnbraut, þar sem fyrirfram er ákveðinn tími sá, er lestirnar skulu vera á ferðinni og hve hart þær skuli fara. Undir kveld fór lestin inn í gilin í Sutpoor-fjöllunum, sem aðskilja fylkin Khandeish og Bundelcund. Næsta dag spurði Sir Francis Cromarty Passe-partout, hvað klukkan væri. Passe-partout svaraði, að hún væri 3 e. m., en auðvitað var þessi dásamlega klukka hér um bil fjórum tímum of sein; hún sýndi alt af klukkustundina á Greenwich hádegisbaug, sem var hér um bil 77 gráðum vestar en þeir þá voru, og úrið var alt af að verða meir og meir á eftir tímanum. Sir Francis ráðlagði Passe-partout að setja klukkuna, og Passe-partout svaraði honum á líkan hátt og hann hafði svarað Fix. Sir Francis reyndi að sannfæra þjóninn um, að hann ætti að setja úrið sitt við hvern hádegisbaug, og að af því að hann væri á austurleið, styttust dagarnir um fjórar mínútur við hverja gráðu. En það var alt árangurslaust. Hvort sem þessi þrákálfur skildi generalinn eða ekki, þá færði hann ekki úrið sitt, og lét það alt af vera eins og hann væri með það í London. En hvað sem um það var að segja, þá þótti honum gaman að þessari vitleysu, og hún gerði engum mein. Kl. 8 um morguninn nam lestin staðar hér um bil 15 mílur frá Rothal, og voru þar reistir margir sumarkofar og önnur hreysi. Varðmaðurinn gekk fram með brautinni og hrópaði: »Hér eiga allir að fara út úr vögnunum«. Phileas Fogg leit á Sir Francis Cromarty, sem ekki virtist skilja þessa óvæntu viðtöku. Passe-partout var ekki síður hissa, hljóp ofan úr lestinni, og kom aftur eftir örstutta stund og hrópaði þá: »Engin járnbraut lengra!« »Við hvað eigið þér?« spurði Sir Francis. »Eg á við það, að lestin fer ekki lengra«. Generalinn fór út á augabragði. Phileas Fogg fór stillilega á eftir honum. Báðir herrarnir gáfu sig á tal við varðmanninn. »Hvar erum við?« spurði Sir Francis. »Við þorpið Kolby, herra«, svaraði varðmaðurinn. »Hvers vegna stöndum við hér við?« »Af því að það er ekki búið að leggja járnbrautina lengra«. »Ekki búið að leggja brautina lengra! Hvernig stendur á því?« »Það eru hér um bil 50 mílur ólagðar, héðan til Allahabad; þar förum við aftur á lestina«. »Blöðin auglýstu að brautin væri fullger«. »Eg get ekki gert að því, herra; blöðunum hefir skjátlazt«. »En þið seljið mönnum farbréf fyrir alla leið, milli Bombay og Calcutta«, hélt Sir Francis áfram, og var farið að síga í hann. »Auðvitað gerum við það; en það er tilskilið, að farþegjarnir sjái sér fyrir flutningi milli Kholby og Allahabad«. Sir Francis varð æfarreiður. Passe-partout langaði til að lemja varðmanninn um koll, ef hann hefði getað það. Hann þorði ekki að líta á húsbónda sinn. »Það væri betra fyrir okkur að halda áfram, Sir Francis, sagði Mr. Fogg; einhvern veginn verðum við að komast til Allahabad; við skulum sjá, hvernig við getum það«. »Mér dettur í hug, að þessi töf muni koma æði mikið í bága við fyrirætlun yðar, Mr. Fogg«, svaraði Sir Francis. »Og seisei nei! eg hefi gert ráð fyrir öllu þessu«, svaraði Fogg. »Hvað segið þér? Vissuð þér að brautin var ekki fullgerð? »Nei; en eg var alveg viss um, að einhverjar tálmanir mundu koma fyrir og tefja fyrir mér. Enn er engu tapað. Eg hefi tvo aukadaga. Skipið fer ekki frá Calcutta til Hong Kong fyrr en þ. 23. um miðjan dag. Þetta er ekki nema sá 22., og þrátt fyrir þetta komumst við til Calcutta í tækan tíma«. Það var ekki létt að segja mikið gegn jafn-afdráttarlausu svari. Og ekki var tvennum blöðum um það að fletta, að járnbrautin náði ekki lengra. Fréttablöð eru svo gjörn á að segja frá hlutunum fyrir tímann; og í þetta skifti hafði frásögn þeirra greinilega verið ótímabær, þar sem þau færðu fregnina um, að járnbrautinni væri lokið. Meiri hluti farþeganna hafði fengið vitneskju um, hvernig á stóð, og séð fyrir flutningi, á hvern hátt sem þeir gátu fengið hann – í kerrum, dregnum af zebúum, nokkurs konar indverskum uxum, burðarstólum, á smáhestum o.s. frv. Þannig vildi svo til, að ekkert varð eftir handa Mr. Fogg og Sir. Francis Cromarty. »Eg geng«, sagði Phileas Fogg. Passe-partout stóð rétt hjá húsbónda sínum; honum varð litið á morgunskóna sína, sem voru fallegir, en mjög þunnir, og hann gretti sig í meira lagi. Til allrar hamingju datt honum svo nokkuð nýtt í hug, en hann hikaði sér við að segja frá því. »Herra«, sagði hann loksins, »eg held eg hafi fundið reiðskjóta«. »Hvaða reiðskjóti er það?« »Fíll. Hérlendur maður, sem býr hér rétt við, á hann«. »Við skulum fara og sjá dýrið«, sagði Mr. Fogg. Fimm mínútum síðar komu þeir Sir Francis og Mr. Fogg að kofanum, og voru grindur utan um hann. Í kofanum var eigandi fílsins; innan grindanna hafðist fíllinn við. Maðurinn sýndi gestunum fílinn eftir sérstakri beiðni þeirra. Dýrið var hálftamið; fíllinn hafði upprunalega verið keyptur til þess að notast í bardögum, en ekki sem áburðarfíll. Hann var að eðlisfari góðlynt grey, en eigandinn hafði breytt skapi hans, og smátt og smátt hleypt í hann þeirri vonzku, sem Hindúar kalla »mutsh«; það er gert með því að ala fílana á sykri og sméri um þrjá mánuði. Það virðist í fyrsta áliti ólíklegt, að sú meðferð sé hentug í slíku skyni, en samt reynist hún vel. En til allrar hamingju fyrir Mr. Fogg var langt síðan að farið hafði verið með fílinn á þennan hátt, og þessi »mutsh« var alveg farin. Kiouni var dýrið kallað; og það var enginn vafi á því, að Kiouni var fullfær til þessa ferðalags; og þar sem ekki var um annan fararskjóta að gera, þá réð Phileas Fogg af að leigja hann. En fílar eru dýrir á Indlandi, því að það er farið að verða heldur lítið um þá. Til circkus-sýninga verða að eins hvatir fílar hafðir, og er því talsverð eftirspurn eftir þeim. Þeir hætta venjulega að tímgast þegar þeir eru tamdir, svo að viðkoman er eingöngu hjá villi-fílunum, og verða menn því að veiða þá og temja. Eigendur fíla láta sér því einkar ant um dýr sín; og þegar Mr. Fogg spurði eiganda fílsins að, hvað hann vildi leigja hann fyrir mikið, þá svaraði eigandinn honum blátt áfram því, að fíllinn væri alveg ófáanlegur til leigu. Fogg var ekki frá horfinn við svo búið; hann bauð tíu pund sterling um klukkustundina í leigu fyrir dýrið. Það var þvert nei. Tuttugu pund. Enn þá nei. Fjörutíu pund. Eigandinn þakkaði boðið, en neitaði. Passe-partout hrökk upp eins og hundbitinn við boðið. En eigandi fílsins lét ekki undan freistingunni. Það var þó dáindis snotur upphæð, sem boðin var. Ef ráðgera mátti, að fíllinn yrði 15 stundir með þá til Allahabad, þá nam leigan sex hundruðum punda (10,800 krónum). – Phileas Fogg lét sér hvergi bregða við þetta, en sló nú upp á því við eigandann, að hann skyldi selja sér fílinn hreint og beint, og bauð honum eitt þúsund punda fyrir hann. En Hindúinn neitaði því; hefir hann ef til vill hugsað, að hann mundi hafa meira upp úr því. Sir Francis Cromarty tók þá Mr. Fogg afsíðis, og bað hann að skoða vel huga sinn áður en hann byði hærra. Mr, Fogg svaraði honum aftur, að það væri aldrei vani sinn að rasa að neinu fyrir ráð fram; að Það stæði sér á tuttugu þúsund punda veðmáli að komast leiðar sinnar í ákveðna tíð; fíllinn væri sér alveg ómissandi, og hann gæti því ekki komist af án hans, þótt hann yrði að kaupa hann tvítugföldu verði. Mr. Fogg sneri sér aftur til Hindúans, sem nú sá, að hér var um það eitt að gera að setja nógu hátt upp. Phileas Fogg bauð nú skjótlega hvort boðið á fætur öðru, tólf hundruð punda, fimtán hundruð, átján hundruð, og loksins tvö þúsund. Passe-partout, sem annars var hraustlega rjóður ásýndum hversdagslega, var nú fölur sem nár af geðshræringu. Þegar tvö þúsund punda voru boðin, lét Hindúinn undan. »Það sver eg við skóna mína, að þetta er vel borgaður fíll«, sagði Passe-partout. Þegar kaupin voru fullger, var ekki annað eftir en að fá sér fylgdarmann. Það var auðgert. Þar var ungur og greindarlegur Parsí (eldsdýrkandi), sem bauð þeim þjónustu sína. Mr. Fogg réð hann til fylgdar við sig og lofaði honum góðri aukaþóknun, ef vel gengi, og jók það auðvitað greindargáfu mannsins að munum. Fíllinn var nú útbúinn í skyndi. Parsíinn var þaulvanur öllum fílmannsstörfum. Hann lagði eins konar söðul á bak fílnum og festi sitt »howdah« (sæti) á hvern enda. Mr. Fogg borgaði Hindúanum hið tilskilda verð, tvö þúsund punda, í bankaseðlum, sem hann dróg upp úr sinni ótæmanlegu skinnsál. Passe-partout nötraði á beinunum, er hann sá féð talið í hendur seljanda. Mr. Fogg bauð síðan Sir Francis sæti á fílnum, og þá hershöfðinginn það þakksamlega. Það var auðsætt, að slíka skepnu mundi ekki draga mikið um, hvort það var manninum fleira eða færra á baki hennar. Vistir voru keyptar til nestis. Sir Francis og Mr. Fogg settust í sitt Howdah hvor, en Passi-partout klofvega á milli þeirra. Parsíinn settist á hálsinn á fílnum, og klukkan 9 lögðu þeir af stað úr þorpinu og fór fíllinn beinustu leið gegn um þykka pálmaskóginn. XII. KAPÍTULI. Segir frá æfintýri þeirra Phileas Foggs og hans félaga í skóginum. TIL þess að stytta sér leið hélt fylgdarmaðurinn stefnu til vinstri handar við járnbrautina fyrirhuguðu; hún átti að liggja í allstórum bug um Vindhæja-fjöllin. En Parsíanum voru allar leiðir kunnar, og kvað hann þá geta stytt sér veg um 20 mílur með því að stefna beint í gegn um skóginn, og létu þeir hann ráða. Umgjörðin á howdah því, sem þeir sátu í, Sir Francis Cromarty og Mr. Fogg, náði þeim upp í háls, svo að höfuðin ein stóðu upp úr; fylgdarmaðurinn hraðaði ferðinni og brokkaði fíllinn heldur ómjúkt og urðu þeir allir sem lurkum lamdir, er á honum sátu. En þeir Sir Francis og Mr. Fogg báru sína hörmung með brezkri stillingu. Þeir mæltu varla orð frá munni og litu naumast upp hvor til annars. Passe-partout varð að gæta sín vel að láta tunguna aldrei koma fram á milli tannanna á sér; því að hefði hún gert það, þá er enginn efi á því, að hann hefði bitið hana af sér undir eins; svo ómjúklega hossaði fíllinn honum. Veslings Passe-partout kastaðist ýmist fram á fílnum og ýmist aftur, og sýndi hann af sér ýmsar hinar kynlegustu hreyfingar, líkt og væri hann fimleika-trúður á stökkborði á circus. En hann bara hló að sjálfum sér og gerði skop að þessum ósjálfráðu rassaköstum sínum. Af og til tók hann sykurmola úr vasa sínum og rétti að Kiouni, sem tók við molanum með rananum án þess að hægja á sér eitt augnablik. Þá er þeir höfðu haldið þannig áfram, svo sem tvær klukkustundir, stöðvaði fylgdarmaður ferðina og hvíldi í klukkutíma. Fíllinn svalaði þorsta sinum í uppsprettu-lind þar rétt hjá og át svo upp alla búska og greinar þar umhverfis. Sir Francis kvartaði ekki undan hvíldinni; hann var skelfilega lerkaður. Mr. Fogg virtist vera svo vel í essinu sínu eins og hann væri ný-risinn úr rekkju. »Þetta er járnskrokkur!« sagði hershöfðinginn og leit aðdáunaraugum á félaga sinn. »Já – úr fjaðrastáli«, sagði Passe-partout, sem var að búa þeim morgunverð í skyndingu. Um hádegi gaf leiðsögumaður merki til að mál væri að leggja upp á ný. Landið fór nú að verða mjög hrikalegt. Í staðinn fyrir hinn þykkva skóg fóru að koma döðlu-lundar og pálma-lundar; þá komu víðlendar, vatnslausar sléttur með smárunum hér og þar og stórkostleg syenit-hraun á milli. Þetta er Bundelcund-héraðið, og er þar fáförult af aðkomu-fólki; fólkið, sem byggir það, er fult trúarofstækis og gegnsýrt af hinum hryllilegustu hjátrúar-siðum Hindúa. Englendingar hafa harla lítil umráð yfir héraði þessu; því er stjórnað af rajah-um; sem búa í fjall-köstulum, sem örðugt er að sækja; og er því varla auðið að koma neinum lögum yfir þá Ferðamennirnir urðu oft varir við flokka af grimmúðlegum mönnum þarlendum, sem létu all-reiðilega, er þeir sáu fílinn hraðfætta brokka hjá sér. Leiðsögumaður þeirra gætti þess ávalt, að halda aldrei allnálægt slíkum flokkum. Fá villidýr urðu þeir varir við; það var enda fátt um apa, og þeir fáu, sem þeir sáu, flýðu undan þeim með grettum og skrípalátum, og var það hin bezta skemtun fyrir Passe-partout. Eitt var það þó, sem fékk Passe-partout allmikillar áhyggju, og það var, hvað húsbóndi hans mundi gera við fílinn þegar þeir kæmu til Allahabad. Skyldi hann flytja hann með sér? Það var lítt hugsandi. Fargjaldið fyrir hann, ásamt kaupverðinu, hlaut að verða voðaleg upphæð. Skyldi hann selja dýrið, eða sleppa því lausu? Vissulega var dýrið umhyggju vert. Ef að Mr. Fogg skyldi nú t.d. gefa Passe-partout dýrið? Hann fann sér mundi verða það að mestu vandræðum. Og fékk þetta þjóninum ekki lítillar áhyggju. Klukkan 8 voru þeir komnir yfir meginhæðir Vindhæja-fjallgarðsins. Sunnan til á fjalldrögunum komu þeir að hálf-föllnu bungalov (sumar-hús) og þar áðu þeir. Þeir höfðu þá farið um tuttugu og fimm mílur og þeir áttu aðra eins vegalengd eftir til þess að ná til Allahabad. Nóttin var allsvöl. Parsíinn kveykti eld, og kom það ferðamönnunum einkar vel; bjuggu þeir sér til ágætan kveldverð úr vistföngum þeim, sem þeir hörðu keypt sér í Kholby. Þeir skröfuðu saman um hríð, en svo fór ekki að heyrast nema orð og orð á stangli, og loksins ekki nema tómar hrotur. Fíllinn hallaðist upp að bolnum á afarstóru tré og svaf þannig, og var leiðsögumaður á verði úti hjá honum. Um nóttina bar ekkert það til titla né tíðinda, er raskað gæti ró ferðamannanna. Af og til heyrðist öskur einhvers villidýrs eða þá suða í öpunum; en einskis geigvænlegra urðu menn varir, og hin stærri villidýr ónáðuðu ekki gestina í bungalovinu. Sir Francis Cromarty »lá eins og hermaður hvílandi eftir þraut«. Passe-partout svaf órótt, og var eins og hann væri að rifja upp í svefninum allar hinar sömu líkamsæfingar, sem hann hafði haft á baki fílsins daginn áður. Mr. Fogg svaf eins vært eins og þótt hann hefði hvílt í sínu rólega rúmi í Saville Row. Um miðmorgunsskeið lögðu þeir upp á ný til að halda fram ferð sinni. Leiðsögumaðurinn vonaðist til, að þeir næðu til Allababad um kveldið. Ef það tækist, misti Mr. Fogg ekki nema nokkurn hluta aftur af þeim fjörutíu og átta stundum, sem hann var búinn að vinna eða spara frá því fyrsta að hann hafði lagt á stað að heiman. Þeir héldu nú niður síðustu hlíðadrög Vindhæja-fjallanna. Fíllinn tók að brokka á ný með sínum gamla hraða. Um hádegisbil fóru þeir fram hjá þorpinu Kallenger við ána Cani, en það er ein af smá-ám þeim, er í Ganges renna. Það leit svo út sem leiðsögumaður þeirra forðaðist allar mannabygðir og áliti óhultast að leggja leiðina sem mest um óbygðir. Nú var Allhabad í norðaustur frá þeim, og einar tólf mílur eftir þangað. Þeir áðu nú enn einu sinni undir bananatré; ávöxtur þess er »eins hollur og brauð og eins safaríkur og rjómi«, og þótti ferðamönnunum mikið til hans koma. Klukkan um tvö héldu þeir inn í stóran og þykkan myrkvið, og þurftu þeir að fara nokkrar mílur vegar gegnum hann. Leiðsögumaðurinn kaus einlægt helzt að leggja leiðar sínar þar sem dimmast var. Enn sem komið var hafði þeim heldur ekkert á hlekkzt fyrir það, og það var nú alt útlit fyrir, að þeir mundu lúka svo ferð sinni, að ekkert bæri við öðru markverðara. En rétt í þessu fór fíllinn að verða eitthvað undarlegur og staðnæmdist svo alt í einu grafkyrr. Þetta var tveim stundum fyrir miðaptan. »Hvað er um að vera?« spurði Sir Francis Cromarty og rak höfuðið upp úr howdahinu. »Ég veit ekki« svaraði Parsíinn og hlustaði með athygli á ógreinilegan suðu-þyt, sem barst að eyrum þeirra gegn um trjágreinarnar, sem fléttuðust þétt saman. Hljóð þetta varð brátt skýrara. Það hefði mátt halda, að það væri ómur af samsöng og hljóðfæraslætti í fjarska; það var líkast lúðrahljómi, og væri sungið undið jafnframt. Passe-partout hleraði og skimaði í allar áttir og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Mr. Fogg beið með mestu þolinmæði og mælti ekki orð. Parsíinn stökk hvatlega af baki fílnum, batt hann við tré, en læddist sjálfur inn í kafþykkan undirskóginn. Eftir drykklanga stund kom hann aftur og mælti. »Það er Brahmína-prósessía að nálgast og stefnir þessa leið. Felum okkur, ef auðið er«. Meðan hann mælti þetta, tók hann fílinn, teymdi hann inn í skógar-þykknið, en bað ferðamennina að bíða kyrra á meðan. Hann var við búinn, að allir stykkju á bak, ef endilega þyrfti að flýja; en hann vonaðist eftir, að prósessían færi fram hjá þeim án þess að verða þeirra vör, því að umhverfis þá var svo þétt laufborð, að alveg huldi þá. Þessi ósamræmi hljómur barst nær og nær – það var tilbreytingalaust söngl samfara bumbuslætti og hljómskála[*]) glamri. Brátt sáu þeir undir limið fylkingarbrodd prósessíunnar, svo sem fimmtíu fet frá sér, og Mr. Fogg og félagar hans gátu vel greint einstaklingan hvern frá öðrum. [* Cymbal.] Fremstir gengu prestarnir og báru mítur og langa kögraða refla. Umhverfis þá gekk þyrping karla, kvenna og barna í marglitum klæðum, og sönglaði hópurinn eins konar líksöngslag, og tók svo hljómur ýmislegra hljóðfæra inn í á millum. Á eftir þessum flokki kom kerra með stórum hjólum, og voru öll hjólin, og þar með spælarnir, skreytt höggormamyndum; kerruna drógu fjórir skrautsöðlaðir Indlands-vísundar; en í henni sat hrikalegt og afskaplegt líkneski. Á því voru fjórar hendur, skrokkurinn var málaður lifrauður, augun voru starandi, hárið fléttað, tungan lafði fram úr kjaftinum og varirnar voru málaðar með henna og betel. Um hálsinn héngu hauskúpur á bandi, en um mittið var belti og færðar upp á manna hendur. Ferlíki þetta stóð upprétt á hauslausum risa-bol. Sir Francis kannaðist þegar við skurðgoðsmynd þessa. »Þetta er gyðjan Kali«, hvíslaði hann; »gyðja elskunnar og dauðans«. »Dauðans – það get eg skilið«, tautaði Passe-partout, »en ekki elskunnar; bölvuð norn er þetta«. Parsinn gaf honum merki um að halda sér saman. Fjöldi förumunka dansaði og ærslaðist kring um skurðgoðið. Þessir mannræflar voru smurðir með gulum lit og þaktir sárum, sem blóðið draup úr í dropatali; þetta voru frávita fífl, sem hefðu verið vís til að fleygja sér undir vagnhjól, ef þeir hefðu átt kost á því. Á eftir ofstækismönnum gengu nokkrir Bramínar, klæddir í alt sitt austurlenzka viðhafnarskraut og drógu á eftir sér kvennmann, sem hnaut í hverju spori. Þessi kona var ung og hvít eins og Norðurálfumenn. Höfuð hennar, háls, herðar, eyru, handleggir, hendur og öklar voru þakin gimsteinum eða hringum. Hún var í gullskreyttri skikkju og þar utan yfir í þunnri músselínskápu, og sást ljóslega hve íturvaxin hún var. Fyrir aftan þessa ungu konu var önnur sjón að sjá, sem var henni mjög ólík, varðmenn, vopnaðir brugðnum sverðum og löngum, myndskreyttum skammbyssum; þeir báru mannslík á burðarstól. Þetta var gamals manns lík, klætt í skrautbúning indveskra konunga; túrbaninn var bródéraður með perlum, skykkjan var úr silki gullofin, beltið úr cashmer, sett demöntum, og við það héngu hin prýðisfallegu vopn indverskra þjóðhöfðingja. Síðastur var hljóðfæraleikenda flokkur, ásamt ofstækisfullum varðmönnum, sem grenjuðu svo hátt, að stundum heyrðist jafnvel ekki til hljóðfæranna. Þar með var líkfylgdinni lokið. Sir Francis Cromatry horfði á prósessíuna meðan hún fór fram hjá, og það var einkennilegur hrygðarsvipur á andlitinu á honum. Hann snéri sér að leiðsögumanninum og sagði: »Er það suttee?« Parsíinn svaraði með jákvæðismerki, og lagði fingurna á varirnar. Langa prósessían liðaðist hægt og hægt milli trjánna, og áður en langt leið hurfu þeir síðustu inn í skóginn. Hljóðfærahljómurinn dó út smátt og smátt; við og við heyrðust fáein org, en þeim linti bráðlega, og varð þá alveg þögn. Phileas Fogg hafði heyrt það, sem Sir Francis hafði sagt, og jafnskjótt og prósessían var horfin sagði hann: »Hvað er suttee?« »Suttee«, svaraði generalinn, »er mannblót – en af frjálsum vilja. Konan, sem þér sáuð rétt áðan, verður brend í dögun í fyrramálið«. »Bölvaðir fantarnir!« hrópaði Passe-partout; hann gat ekki setið á gremju sinni. »Og þetta lík?« sagði Mr. Fogg. »Er lík mannsins hennar – konungsins«, sagði leiðsögumaðurinn. »Hann var sjálfstæður höfðingi í Bundelcund«. »Er það alvara yðar að segja, að slíkir skrælingjasiðir eigi sér enn stað á Indlandi – undir brezkri stjórn?« sagði Mr. Fogg, án þess að nokkur minsta geðshræring sæist á honum. »Í meiri hluta Indlands«, svaraði Sir Francis Cromarty, »eiga þessi blót sér ekki stað; en við höfum ekkert vald yfir villihéruðunum, og meðal þeirra er Bundelcund eitt af þeim helztu. Allur landsparturinn norður af Vindlia er fullur af ránum og morðum«. »Aumingja konan«, hrópaði Passe-partout, »brend lifandi«. »Já«, hélt generalinn áfram, »brend lifandi; og ef hún væri það ekki, þá gætuð þið enga hugmynd gert ykkur um, hve þrælslega skyldmenni hennar mundu fara með hana. Þau mundu raka af henni alt hárið, halda í henni lífinu með mjög skornum skamti af hrísgrjónum, og forðast öll afskifti af henni, því að hún mundi vera talin óhrein, og deyja eins og hundur. Það er af því, að ekkjur sjá fram á þessa meðferð, að þær oft neyðast til að láta brenna sig, fremur en af ást eða trúarofsa. Stundum fer þó þessi fórn fram af fyllilega frjálsum vilja konunnar, og stjórnin verður að taka alvarlega í taumana til þess að afstýra þessu. Þegar eg fyrir nokkrum árum var í Bombay, bað ung ekkja landstjórann um leyfi til þess að mega brennast með manni sínum dánum. Eins og þið getið nærri synjaði hann bænarinnar. Þá fór þessi óhuggandi ekkja burt úr borginni, leitaði hælis hjá sjálfstæðum smákonungi, og brendi sig sjálf, og þótti öllum hlutaðeigendum það prýðilega af sér vikið«. Jafnframt því sem generalinn talaði, kinkaði leiðsögumaðurinn kolli, til þess að gefa með því til kynna, að sagan væri sönn, og þegar hann hafði lokið máli sínu, sagði Parsíinn: »En það suttee, sem á að fara fram á morgun, er ekki gert af frjálsum vilja«. »Hvernig vitið þér það?« »Hver einasti maður í Bundelcund veit það«, svaraði leiðsögumaðurinn. »En veslings konan veitti enga mótspyrnu«, sagði Sir Francis Cromarty, »Af því að henni hafði verið gefinn inn hampur og ópíum«, svaraði Parsíinn. »En hvert eru þeir að fara með hana?« »Til hofsins Pillaji, tvær mílur héðan. Þar verður hún í nótt og bíður þeirrar stundar, þegar fórnin á fram að fara«. »Og hvenær á fórnin að fara fram?« »Í dögun á morgun«. Um leið og leiðsögumaðurinn sagði þetta, leiddi hann fílinn úr stað og kleif upp í sæti sitt á hálsinum á honum; og rétt í því bili sem hann ætlaði að fara að blístra, til þess að láta dýrið skilja, að nú ætti það að leggja af stað, lét Mr. Fogg hann bíða við, og sagði við Sir Francis Cromarty: »En að við frelsum konuna?« »Frelsum hana!« hrópaði generalinn upp yfir sig. »Eg á enn eftir tólf stundir afgangs«, hélt Fogg áfram; »eg get varið til þess þeim tíma«. »Gott og vel, þér eruð maður með hjartað á réttum stað, það skal eg segja«, hrópaði Sir Francis. »Stundum er það þar«, svaraði Mr. Fogg og glotti við, »þegar eg hefi tíma!« XIII. KAPÍTULI. Sýnir, hvernig Passe-partout verður þess var, að hamingjan fylgir hugmönnum. FYRIRÆTLUNIN var örðug og djarfmannleg; það var næstum því ómögulegt að koma henni fram. Mr. Fogg ætlaði að fara að leggja líf sitt eða að minsta kosti frelsi sitt í hættu, og þar af leiðandi fyrirtæki sitt; en engu að síður hikaði hann sér ekki eitt augnablik. Auk þess fékk hann ósveigjanlegan félaga í Sir Francis Cromarty. Passe-partout var sömuleiðis boðinn og búinn til að fylgja þeim, og honum þótti meira og meira vert um húsbónda sinn með hverju augnablikinu sem leið. Það reyndist þá svo, að hann hafði hjarta undir sínu kuldalega yfirbragði. Passe-partout var farinn að elska Mr. Fogg. Leiðsögumaðurinn var eftir. Hvernig skyldi hann snúa sér í þessu máli? Það voru öll líkindi til, að hann mundi draga taum þar lendra manna. Það varð að minsta kosti að sjá um, að hann yrði með hvorugum, ef hann vildi ekki aðstoða förunauta sína. Sir Francis lagði spurninguna fyrir hann blátt áfram. »Virðulegi herra«, sagði maðurinn, »eg er Parsíi. Konan er líka Parsíi. Þið getið látið mig gera hvað sem ykkur sýnist«. »Gott og vel«, svaraði Sir Francis. »En«, hélt leiðsögumaðurinn áfram, »þið verðið að muna eftir því, að það er ekki að eins að við stofnum lífi okkar í hættu með þessu fyrirtæki, en það getur verið, að við verðum fyrir hræðilegum pyntingum, ef við verðum teknir höndum lifandi. Þið skuluð því fara varlega«. »Við höfum ráðið af að hætta á þetta«, sagði Mr. Fogg. »Eg held, það væri betra fyrir okkur að bíða næturinnar«. »Það held eg líka«, sagði leiðsögumaðurinn, og fór svo að segja ferðamönnunum frá ýmsu viðvíkjandi konunni. Hann sagði, að hún væri Parsíi, orðlögð fyrir fegurð, og dóttir eins af ríkustu kaupmönnunum í Bombay. Hún hafði fengið alenskt uppeldi; allir hennar hættir og tilhneigingar væru eins og tíðkast meðal Norðurálfumanna. Hún hét Aouda. Hún var enn fremur föður- og móðurlaus, og hafði verið gift indverska höfðingjanum nauðug. Hún hafði ekki verið nema þrjá mánuði í hjónabandi. Hún hafði vitað, hver forlög biðu hennar og reynt að forða sér, en hafði tafarlaust náðst aftur; og skyldmenni höfðingjans, sem fyrir eigin hagsmuna sakir þráðu dauða hennar, höfðu ráðið af að fórna henni, enda virtist nú óhjákvæmilegt að úr því yrði. Þessi atriði urðu til að styrkja Mr. Fogg og félaga hans í hinu göfugmannlega áformi þeirra. Það var þá afráðið, að leiðsögumaðurinn skyldi fara með þá svo nærri hofinu sem mögulegt væri án þess að vekja eftirtekt manna. Eftir hér um bil hálfa klukkustund nam fíllinn staðar í kjarrskóginum á að gizka 250 faðma frá musterinu og sást það ekki þaðan; en org ofstækismannanna heyrðust greinilega. Þá var það tekið til umræðu, á hvern hátt bezt mundi vera að reyna að bjarga konunni. Leiðsögumaðurinn vissi, hvernig hagaði í musterinu, og sagði, að unga konan væri höfð þar í varðhaldi. Var mögulegt að komast inn um nokkrar dyrnar, þegar prestahópurinn o.s. frv. væri steinsofnaður? Eða áttu þeir að fara inn um gat á veggnum? Þetta var ómögulegt að afráða fyrr en þeir kæmu að hofinu. En eitt var víst, og það var, að verkið varð að vinnast að nóttunni, og ekki í dögun, þegar konan skyldi leiðast til lífláts. Þá mundi öllum mannlegum kröftum ofvaxið að bjarga henni. Svo var beðið nætur. Um kl. 6 átti að vera orðið dimt, og þá átti að fara njósnarferð. Þá hugðu þeir, að förumunkarnir mundu hættir að orga. Hindúarnir mundu um það leyti, eftir venju sinni, fallnir í vímusvefn af »bang« – ópíums-lög blönduðum hampi; og þá hugðu þeir, að takast mundi mega að laumast fram hjá þeim inn í hofið. Allur flokkurinn laumaðist nú, eftir leiðsögn Parsíans, gegn um skóginn. Eftir að þeir höfðu í tíu mínútur skriðið undir greinum trjánna, komu þeir að læk einum; þaðan gátu þeir við glampann af kyndlunum grilt í bálköstinn, sem hlaðinn var upp af ilmandi sandelsviði; var þegar búið að hella um hann allan ilmsætri olíu. Á þessum kesti lá líkami hins látna höfðingja, sem átti að brennast ásamt ekkju sinni. Hundrað skref frá kestinum var hofið, og sáust turnar þess gnæfa upp yfir toppana á trjánum, sem í kring voru. »Haldið áfram«, hvíslaði leiðsögumaðurinn. Parsíinn fór, ásamt félögum sínum, enn varlegar en áður steinþegjandi innan um háa grasið. Þyturinn í trjánum var eina hljóðið, sem rauf þögnina. Parsíinn nam bráðum staðar í skógarbrúninni. Nokkrir kyndlar köstuðu birtu yfir svæðið fyrir framan þá. Það var þakið hópum af drukknum sofandi mönnum, og líktist mjög vígvelli, stráðum mannabúkum. Karlar, konur og börn lágu þar saman. Sumir drukknir náungar stauluðust fram og aftur. Í framsýn gnæfði musterið upp úr þykkum skóginum. En til mikillar gremju fyrir leiðsögumanninn héldu vopnaðir indverskir bardagamenn vörð í ljósbirtunni, frá kyndlum, sem festir voru á dyrnar; þar skálmuðu þeir fram og aftur með brugðnum sverðum. Vafalaust voru prestarnir fyrir innan jafn-árvakrir. Parsíinn hélt ekki lengra áfram. Hann sá þegar í hendi sér, að ómögulegt var að komast með valdi inn í musterið, og sneri aftur við með félögum sínum. Sir Francis og Mr. Fogg skildu líka, að ekkert varð frekar gert þeim megin. Þeir námu staðar og báru ráð sín saman í hljóði. Við skulum bíða dálítið við«, sagði generalinn. Klukkan er ekki nema átta; þessir varðmenn kunna að sofna seinna«. »Víst er það mögulegt«, sagði Parsíinn. Svo lögðust þeir allir niður við trén og biðu. Tíminn var mjög lengi að líða. Við og við fór leiðsögumaðurinn og njósnaði. En varðmennirnir voru þar alt af. Kyndlarnir brunnu enn glatt, og flöktandi glampa sló út um musterisgluggana innan að. Þeir biðu þangað til komið var undir miðnætti. Engin breyting varð á. Varðmennirnir sváfu ekki, og það var augsýnilegt, að þeir ætluðu að vera á verði alla nóttina Það varð nú óhjákvæmilegt að reyna aðra aðferð og að skera sig inn úr veggjunum á hofinu. Svo mátti ef til vill búast við, að þeir hittu prestana inni fyrir vakandi, gætandi fórnardýrs síns eins vandlega eins og hermennirnir gættu dyranna. Eftir að þeir höfðu borið saman ráð sín, kvaðst leiðsögumaðurinn albúinn að halda til hofsins. Mr. Fogg, Sir Francis og Passe-partout fóru á eftir honum. Þeir fóru langan krók á sig í því skyni og komust aftan að hofinu. Hér um bil kl. 11½ komust þeir að musterisveggjunum án þess nokkur hefði orðið var við þá. Það var auðséð, að enginn vörður var haldinn þeim megin, en það var jafn-auðséð, að það var hvorki gluggi né dyr á því aftanmegin. Nóttin var dimm. Tunglið var á síðasta kvartéli, og var naumast sýnilegt fyrir ofan sjóndeildarhringinn, og var oft þakið þykkum. skýjum. Trén gerðu og myrkrið enn svartara. Þeir voru nú komnir að veggnum, og annaðhvort urðu þeir að finna einhverja holu í hann eða þá búa hana til. Til þess hafði Mr. Fogg og félagar hans ekkert nema vasahnífa sína. En það vildi svo vel til, að ekkert var í hofsveggjunum nema múrgrjót og viður, og því gat ekki verið mjög örðugt að skera þá. Þegar búið var að ná út fyrsta múrsteininum, var annað auðvelt. Þeir tóku tafarlaust til starfa og höfðu svo hljótt um sig sem þeim var mögulegt. Parsíinn og Passe-partout spertust við að losa múrsteinana á hér um bil tveggja feta svæði. Verkinu var haldið áfram og það gekk ágætlega, þangað til hljóð heyrðist innan úr hofinu, heyrðust þá þegar önnur hljóð utan hofsins. Passe-partout og leiðsögumaðurinn hættu starfinu. Hafði heyrzt til þeirra, og höfðu menn utan hofsins verið gerðir varir við? Það þurfti ekki nema meðalhyggni til að sjá, varlegra var að hverfa frá, og það gerðu þeir ásamt Sir Francis Cromarty og Phileas Fogg. Þeir földu sig aftur innan um trén til þess að bíða eftir því, að hræðslan færi úr Hindúunum, ef þetta höfðu annars verið hræðslumerki, sem þeir höfðu heyrt, og þeir svo að taka aftur til starfa. En sér til sorgar sáu þeir, að varðmennirnir höfðu nú alveg umkringt hofið og var nú algerlega ómögulegt að því að komast. Það mundi verða örðugt að lýsa gremju þessara fjögra manna á þessari óhappastund. Hvernig áttu þeir að bjarga konunni, þegar þeim var ómögulegt að komast að henni? Sir Francis Cromarty krepti hnefana, Passe-partout var alveg utan við sig, og jafnvel leiðsögumaðurinn átti örðugt með að stilla sig, Phileas Fogg einn hélt jafnvægi sínu óbreyttu. »Eg býst við, að getum nú eins vel farið«, sagði Sir Francis Cromarty í hljóði. »Við getum ekki annað gert«, sagði fylgdarmaðurinn. »Farið að engu óðslega«, sagði Mr. Fogg. »Mér er nóg, ef eg kemst til Allahabad um miðjan dag«. »En hvað vonist þér eftir að við getum gert, þó við bíðum hér? sagði Sir Francis. »Eftir tvo tíma fer að birta, og – « »Við getum fengið eitthvert tækifæri á síðusta augnablikinu.« Generalnum mundi hafa þótt vænt um að geta lesið út úr andlitinu á Mr. Fogg, hvað honum bjó í brjósti, um hvað var hann að hugsa, þessi stilti Englendingur? Var hann að hugsa um að hlaupa á brennandi köstinn á síðasta augnablikinu, og hrífa konuna út úr greipum böðlanna fyrir allra augum? Í slíkum aðförum hefði ekkert vit verið, og enginn gat eitt augnablik ímyndað sér, að Mr. Fogg væri svo fífldjarfur. Engu að síður féllst Sir Francis á að bíða eftir þessum voðalegu leikslokum. En fylgdarmaðurinn, fór með þá í skógarbrún eina, og mátti þar út úr runnunum sjá alt, sem fram fór. Meðan á þessu stóð, hafði Passe-partout verið að velta málinu í sínum annríkissama heila, og loksins datt honum nokkuð í hug eins hastarlega eins og eldingu slær niður. Í fyrstu þótti honum hugmyndin svo hlægilega heimskuleg, en að lokum fór honum að finnast vit í henni. »Það er tilviljun«, tautaði hann, »en ef til vill verður ekki öðruvísi farið með þessa skinhelgu aula«. Hvað sem því leið, sneri hann sig utan um endann á lægstu greininni á tré einu, og vantaði lítið á, að greinarendinn snerti jörðina. Stundirnar voru lengi að líða, en að lokum sáust á himninum óljós merki þess, að dagurinn væri í nánd. Enn var niðamyrkur umhverfis hofið. Þetta var tíminn, sem fórnfæringin skyldi fram fara. Sofandi flokkarnir stóðu upp eins og upprisan væri komin. Bumburnar hljómuðu. Söngvar og org heyrðust enn. Hátíðlega augnablikið var nú komið! Rétt í þessu bili var nú dyrum hofsins lokið upp, og sterkum glampa sló út innan að. Tveir prestar sáust draga konuna fram að dyrunum. Áhorfendunum virtist sem vesalings konan hefði hrist af sér vímuna, og væri að reyna að sleppa frá böðlum sínum. Sir Francis Cromarty var í mjög mikilli geðshræringu, og þreif um hönd Mr. Foggs. líkt og hann hefði krampa; hann varð þess var, að Mr. Fogg hélt all fast utan um opinn hníf. Manngrúinn fór nú að hreyfa sig. Unga konan hafði aftur verið gerð hálfdrukkin af hampgufu, og gekk fram hjá förumunkunum, sem fluttu hana, og grenjuðu þeir æðislega jafnframt því, sem þeir héldu áfram. Phileas Fogg og félagar hans fylgdust með yzt í manngrúanum. Tveim mínútum síðar komu þeir að læknum, og námu staðar hér um bil 50 skref frá bálkestinum, sem líkið hafði verið lagt á. Þessari dimmu guðræknis-birtu griltu þeir í dauðadæmdu konuna, rétt hjá líki manns hennar. Logandi kindill var þá skyndilega borinn að viðarkestinum; olíu hafði verið helt yfir hann, og hann stóð þegar í ljósum loga. Sir Francis Cromarty og fylgdarmaðurinn urðu að beita öllu sínu afli, til þess að halda aftur af Mr. Fogg; gremjan brann í honum, og það var svo að sjá sem hann ætlaði að ráða á köstinn logandi. En rétt í því, að Phileas Fogg var að takast að fleygja þeim af sér, breyttist það, sem þeir voru að horfa á. Múgurinn rak upp skelfingar-org, og beygði sig alt niður til jarðar í óumræðilegri angist. Gamli höfðinginn var, þegar til kom, ekki dauður! Þarna stóð hann uppréttur á logandi bálkestinum, með ungu konuna í faðmi sér, albúinn til að stökkva út úr reyknum inn í hópinn, sem var örvita af skelfingu. Förumunkarnir, varðmennirnir, prestarnir, allir voru utan við sig af hræðslu, héldu andlitunum niður við jörðina, og þorðu ekki að líta upp augunum til þess að virða fyrir sér slík fádæma-undur. Upprisni maðurinn komst þannig þangað, sem þeir Phileas Fogg og Sir Francis Cromarty stóðu með leiðsögumanni sínum. »Við skulum fara héðan«, sagði vofan. Þetta var ekki nema Passe-partout; hann hafði, án þess eftir honum væri tekið, komizt að bálkestinum, með því að fylgja reykjarmekkinum, og hafði frelsað hina ungu frú frá bráðum bana. Það var Passe-partout sjálfur, sem fyrir ofdirfsku sína hafði tekizt að komast óskemdum gegn um skelfdan mannfjöldann. Á einu augnabliki voru mennirnir fjórir horfnir út í skógana, og fíllinn þrammaði greiðlega áfram. En mjög bráðlega heyrðu þeir, að háu orgin og ólætin voru aftur byrjuð, og vissu af því, að menn mundu hafa komizt að raun um, hver brögð höfðu verið í frammi höfð, og svo sem til frekari staðfestingar þaut kúla fram hjá þeim. Því að líkami indverska höfðingjans lá á logandi kestinum; og prestarnir skildu skjótt, að tekizt hafði, að minsta kosti til bráðabirgða, að bjarga konunni. Þeir þutu tafarlaust inn í skóginn, ásamt hermönnunum, sem hleyptu af allir í einu; en flóttamennirnir voru allir burt, og fáeinum minútum síðar voru þeir komnir úr skotfæri, hvort heldur sem örvum eða kúlum var skotið. XIV. KAPÍTULI. Phileas Fogg fer ofan Ganges-dalinn yndislega, án þess að taka eftir því, hve fagur hann er. FYRIRTÆKIÐ hafði tekist, þó óvarkárt væri. Einni stundu síðar var Passe-partout farinn að hlæja að því, hvað vel sér hefði tekist glánaskapurinn. Sir Francis hafði tekið í höndina á honum. Húsbóndi hans hafði sagt, að þetta væri »vel af sér vikið«, sem í sannleika var mikið lof af hans munni. Þessu hrósi hafði Passe-partout svarað á þann hátt, að það væri húsbóndi hans, sem átti alt hrósið skilið. Sá eini þáttur, sem hann hafði tekið í fyrirtækinu sjálfur, hefði í raun og veru verið vitlaus grilla, og hann hló aftur að því, að hann, Passe-partout, gamall fimleika-kennari, fyrverandi lægsti foringi í slökkviliðinu, hefði látist vera eiginmaður yndislegrar, ungrar frúr, ekkju eftir smurðan indverskan konung! Af ungu frúnni er það að segja, að hún var enn meðvitundarlaus, og hafði enga hugmynd um það, sem gerst hafði síðustu klukkustundina, né það sem nú fór fram. Utan um hana var vafin ábreiða, sem notuð hafði verið í járnbrautarvögnunum, og nú hvíldi hún á einu sætinu, sem sett hafði verið upp á fílinn. Meðan á þessu stóð, hélt fíllinn hratt áfram eftir skóginum, og stýrði Parsíinn honum með mikilli nákvæmni. Eftir einnar stundar ferð komu þeir að stórri sléttu. Klukkan sjö námu þeir staðar. Unga frúin var enn meðvitundarlaus. Fylgdarmaðurinn helti dálitlu af brennivíni ofan í kokið á henni, en það leið enn nokkur stund áður en hún fengi meðvitundina. Sir Francis Cromarty hafði séð, að hampgufan, sem hún hafði andað að sér, hafði ekki gert henni neitt tjón, og var alls ekkert hræddur um hana. En þó að generalinn væri óhræddur við það, að konan fékk ekki aftur meðvitundina, þá var hann ekki eins öruggur viðvíkjandi lífi hennar framvegis. Hann hikaði ekki við að segja Mr. Fogg, að ef frú Aouda héldi kyrru fyrir á Indlandi, þá mundu ofsækjendur hennar ná henni fyrr eða síðar. Þessir ofstækismenn voru á víð og dreif út um alla hálfeyjuna, og það var enginn vafi á því, að Hindúar mundu reyna að ná í konuna, þrátt fyrir enska lögregluliðið, í hverju fylkinu sem hún reyndi að leita sér hælis. Og til stuðnings sínu máli gat Sir Francis um svipaðan atburð, sem nýlega hafði komið fyrir. Hans skoðun var því sú, að henni var ekki með öllu óhætt nema hún færi burt af Indlandi og kæmi þangað aldrei aftur. Mr. Fogg sagðist skyldi hugsa um málið og segja sína skoðun síðar. Um kl. 10 lét fylgdarmaðurinn þá vita, að þeir væru komnir rétt að Allahabad. – Þegar þangað var komið, gátu þeir haldið ferðinnni áfram eftir járnbraut, og eftir hér um bil 24 tíma áttu þeir að koma til Calcutta. Phileas Fogg átti þó að koma nógu snemma til þess að ná í gufuskipið til Hong Kong, sem átti að leggja á stað um hádegi þ. 25. október. Ungu konunni var komið fyrir í prívat biðstofu, þar sem henni var óhætt, en Passe-partout var sendur af stað í skyndi til þess að kaupa ýms óhjákvæmileg föt, o.s. frv., handa henni. Húsbóndi hans lagði peningana til. Passe-partout flýtti sér og hljóp um strætin í Allahabad – borg guðs – einni af helgustu borgum Indlands, þar sem hún stendur, þar sem Ganges og Jumma koma saman; þær ár draga að sér pílagríma frá öllum hlutum hálfeyjunnar. Vér höfum og verið fræddir á því, að Ganges komi upp á himnum og þaðan láti Brama hana streyma niður til jarðar. Passe-partout keypti þessa muni samvizkusamlega, en gleymdi ekki að líta í kring um sig og skoða bæinn dálítið. Ljómandi fallegur kastali hafði einu sinni átt að vernda borgina, en síðar hafði hann verið gerður að ríkisfangelsi. Verzlun og viðskifti eru ekki eins mikil í Allahabad eins og fyr á tímum. Það var ekki til mikils fyrir Norðurálfumanninn að leita að öðrum eins vörubirgðum eins og í Regentstræti. Hann gat ekki fundið neitt betra en smábúð gamals Gyðings, sem prangaði með föt – og Gyðingurinn var auk þess önugur í meira lagi. Af honum keypti hann tweed-kjól, stóra skikkju, og tilkomumikla oturskinnskápu, sem kostaði 75 pund sterling. Með þessi föt sneri hann svo aftur til járnbrautarstöðvanna, og var hróðugur mjög. Frú Aouda hafði um þetta leyti fengið meðvitundina aftur að nokkru leyti. Lyfið, sem prestarnir höfðu svæft hana með, var smátt og smátt að missa kraft sinn, og í fögru augun var aftur að koma blíði og yndislegi indverski svipurinn. Skáldakongurinn Ucaf Uddaul kveður á þessa leið, þegar hann er að lofa fegurð drotningarinnar í Ahundnagara: »Skínandi lokkarnir hennar, sem skift er yfir miðju enninu, láta menn taka eftir, hve fagurlega eru lagaðar hvítu, litfögru kinnarnar, glóandi af æskublómanum. Hrafnsvörtu brýrnar hafa sömu lögun og styrkleik eins og bogi Kama, ástarguðsins; og fyrir neðan silkimjúku augnahárin synda dökku augun í vökvakendri blíðu, eins og ljós himinsins speglar sig í hinum helgu vötnum Himalaya. Glitrandi, jöfnu tennurnar hennar líkjast perlum og skína milli brosandi varanna líkt og daggardropar í krónublöðum passíublómsins. Litlu eyrun með guðdómlegu bogunum, litlu hendurnar, litlu fæturnir, fíngerðir eins og knappur lótusviðarins, glitra af perlum frá Ceylon og fögrum demöntum frá hinni nafnfrægu Golconda. Sívala, liðuga mittið, sem spenna má utan um með höndunum, vekur athygli manna á íbognu mjöðmunum og bungandi barminum, þar sem æskan í öllum sínum yndisleik breiðir út alla sína dýrgripi. Fyrir neðan skikkjufaldinn sýnast limirnir vera myndaðir í silfurformi af höndum hins guðumlíka, ódauðlega myndasmiðs Vicvarcarnia«. Vér ætlum ekki að halda því fram, að þessi lýsing hafi átt beinlínis við frú Aoudu, en hitt er óhætt að segja, að hún var einstaklega yndisleg kona í orðsins fylsta skilningi. Hún talaði hreina ensku reiprennandi, og fylgdarmaðurinn hafði ekki sagt nema satt, þegar hann hafði fullyrt, að þessi parsneska frú hefði umskapast við mentun þá, sem hún hafði fengið. Járnbrautarlestin var um það bil að leggja af stað; Mr. Fogg var að borga parsneska fylgdarmanninum þau laun, sem um hafði verið samið – ekki vitund umfram. Passe-partout varð hálfhissa á þessari smámunasemi, því að hann mintist alls þess, sem þeir áttu fylgdarmanninum að þakka. Parsíinn hafði í raun og veru lagt sitt eigið líf í hættu, þar sem hann tók þátt í því, sem gerðist við Pillaji, og það var mjög líklegt, að hann mundi sæta þungum refsingum, ef Hindúarnir skyldu ná í hann. En svo var Kiouni. Hvað átti að gera við fílinn, sem hafði kostað svo mikið? Phileas Fogg hafði þegar ráðið við sig, hvað gert skyldi verða við hann. »Parsíi«, sagði hann við fylgdarmanninn, »þér hafið gert okkur mikið gagn og sýnt okkur mikla trúmensku. Viljið þér eiga fílinn? Sé svo, þá er hann yðar eign«. Augun í fylgdarmanninum glitruðu. »Þér eruð að gefa mér stórfé, virðulegi herra«, hrópaði hann. »Takið hann«, svaraði Mr. Fogg, »og samt skulda eg yður«. »Herra!« hrópaði Passe-partout; »takið hann, vinur minn. Kiouni er fallegt dýr; og svo gekk hann að skepnunni, gaf henni nokkra sykurmola og sagði: »Hérna Kiouni, taktu þetta, og þetta«. Fíllinn lét til sín heyra nokkrar ánægjuhrinur, tók utan um mittið á Passe-partout með rananum, og lyfti honum upp. Passe-partout var ekki grand hræddur og hélt áfram að kjassa skepnuna; fílgreyið setti hann svo hægt niður og þrýsti dálítið að með rananum; Passe-partout svaraði á þann hátt, að smella hendinni vingjarnlega á fílinn. Stuttu á eftir voru þeir Phileas Fogg, Sir Francis Cromarty og Passe-partout seztir niður hjá frú Aoudu; hún sat í besta sætinu í þægindalegum vagni í lestinni, sem var á hraðri ferð til Benares. Þær 80 mílur, sem eru á milli Allahabad og Benares, fór lestin á tveimur tímum, og hafði þá unga frúin alveg náð sér eftir svefnlyfið, sem hún hafði andað að sér. Menn geta því nærri, hve forviða hún var, þegar hún varð þess vör, að hún var stödd á járnbrautarlest, klædd Norðurálfu-búningi og með þrjá alveg óþekta ferðamenn í kring um sig. Félagar hennar sýndu það, að þeir létu sér mjög ant um hana, gáfu henni jafnvel fáeina dropa af víni, og svo sagði generalinn henni, hvað við hafði borið. Einkum fór hann mörgum orðum um Phileas Fogg, sem hefði lagt líf sitt í hættu til að frelsa hana, og um það, hvernig Passe-partout hefði leitt æfintýrið til lykta með afreksverki sínu, Mr. Fogg sagði alls ekki grand, og Passe-partout varð mjög vandræðalegur í framan, og sagðist ekkert hafa gert, sem vert væri, að tala um. Frú Aouda þakkaði lausnurum sínum mikillega, að minsta kosti eins mikið með tárum eins og með orðum. Yndislegu augun hennar sýndu jafnvel enn betur þakklátsemi hennar en varirnar. Svo datt henni aftur brennan í hug, og þegar hún varð þess vör, að hún var enn stödd á Indlandi, þá fór um hana skelfingarhrollur. Phileas Fogg gat sér til, hvað henni mundi vera innan brjósts, ýtti sér að hleypa í hana kjarki og bauð henni stillilega að fara með hana til Hong Kong; þar gæti hún dvalið, þangað til útrætt væri um þetta mál. Þetta tilboð þáði konan mjög þakksamlega, því að það vildi svo vel til, að einn fræendi hennar, Parsi eins og hún, átti þá heima í Hong Kong, og var einn af helztu kaupmönnum í brezku bygðinni þar. Kl. 12½ nam lestin staðar við Benares. Helgisögur Bramína segja, að sá bær standi, þar sem áður hafi staðið hið forna Casi, er einu sinni hékk milli himins og jarðar líkt og líkkista Múhameds. En á þessum praktisku dögum stendur Benares, sem austurlandamenn kalla Aþenuborg Indlands, blátt áfram á jörðinni, og Passe-partout kom auga á múrhús og fjölda af leirkofum, sem gáfu staðnum einhvern eyðilegan svip, án þess nokkuð væri sérstaklega einkennilegt við hann. Sir Francis Cromarty var nú kominn þangað, sem hann ætlaði sér; hersveitir þær, sem hann átti að stýra, voru í herbúðum fáeinar mílur norður af bænum. Hann kvaddi Phileas Fogg, óskaði honum allrar hamingju og lét í ljósi pá von, að ferðin yrði honum framvegis kostnaðarminni, né heldur hann þyrfti að rata í önnur eins æfintýri. Mr. Fogg tók vingjarnlega í höndina félaga sínum, Aouda lét meira bera á tillinningum sínum; hún gat ekki gleymt hve mikið hún átti Sir Francis Cromarty að þakka. Af Passe-partout er það að segja, að generalinn sæmdi hann með því að hrista hjartanlega á honum höndina, og þótti Passe-partout það mjög mikill heiður. Svo skildu þeir. Frá Benares liggur járnbrautin yfir Ganges dalinn. Ýmislegt bar fyrir augu ferðamannanna í hinu margbreytilega Beharlandi; grænar hæðir, flákar af bygg-, hveiti- og mais-ökrum, runnar fullir af krókódílum, lagleg þorp og þykkir skógar. Fílar og aðrar skepnur böðuðu sig í hinu helga fljóti; sömuleiðis flokkar af Hindúum, karlar og konur; var það fólk að lauga sig þar í guðræknisskyni, þó að komið væri fram á haustið. Þessir guðræknu menn voru afdráttarlausir óvinir búddatrúarinnar, strangir Bramtrúarmenn, og trúðu á Vishnú, sólguðinn, Shiva persónugjörfing náttúrunnar, og Brama, æsta prest og stjórnara. En hvernig skyldi Brama, Vishnú og Shiva lítast á Indland, sem nú er alt orðið enskt, með gufuskip í hundraðatali þjótandi og grenjandi á hinum helgu vötnum Ganges-fljótsins, skelfandi fugla og dýr merkurinnar og hina tryggu áhangendur guðanna, sem dvelja fram með fljótsbökkunum. Landsplássið bar skyndilega fyrir augu þeirra, og við og við sást það ekki fyrir fljótinu. Ferðamennirnir gátu nú greint Chunar-kastalann, 20 mílur suðvestur frá Benares; svo kom í ljós Fhazipore og merkilegu rósavatns-verkstaðirnir þar; þar næst komu þeir auga á gröf Cornwallis lávarðar, á vinstra fljótsbakkanum; þar næst kom viggirti bærinn Buxar, Patna, verzlunarbærinn mikli og aðal-ópíumsmarkaður Indlands; Monghir, bær með Norðurálfu-sniði, eins enskur eins og Manchester eða Birmingham, með sínum málmsmiðjum, verkstöðum og háu strompum, sem gusu upp úr sér ógrynnum af svörtum reyk. Nóttin datt á, og enn þaut lestin áfram, innan um öskrandi og urrandi villidýr, sem flýðu undan gufuvélinni. Auðvitað gátu þeir þá ekkert séð af undrum Bengals, né Golconda, rústum Coms, né Morschabad, forna hófuðstaðinn. Hooghly, né Chandermagore í franska landshlutanum, og mundi þó Passe-partout hafa þótt vænt um að sjá þar merki ættjarðar sinnar. Loksins var komið til Calcutta kl. 7 um morguninn. Gufuskipið til Hong Kong átti ekki að fara af stað fyrr en um hádegi, svo að Phileas Fogg hafði fimm stundir afgangs. Samkvæmt dagbók hans átti hann að koma til Calcutta 25. Oktober – tuttugu og þremur dögum eftir að hann fór frá London; og til Calcutta var hann kominn eins og til hafði verið ætlast. Enn var hann hvorki á undan né eftir áætluninni. Þeim tveim dögum, sem hann hafði haft afgangs, hafði hann eytt, eins og vér hófum séð, til ferðar sinnar yfir hálfeyjuna; en vér skulum ekki láta oss detta í hug, að Phileas Fogg hafi eitt augnablik séð eftir því, hvernig hann hafi farið að ráði sínu. XV. KAPÍTULI. Bankaseðla-böggullinn verður tveim þúsundum punda léttari. PASSE-PARTOUT varð fyrstur til að stökkva ofan af lestinni; Mr. Fogg kom á eftir og rétti hinum fagra förunaut sínum hjálparhönd. Phileas hafði ætlað að halda beint til skipsins, til þess að koma frú Aoudu þar vel fyrir. Hann vildi ekki skilja við hana þann tíma, þar sem hún var enn á hættulegum stað. Þegar Mr. Fogg var að fara burt af járnbrautarstöðvunum, gekk lögregluþjónn að honum og sagði: »Er ekki þetta Mr. Phileas Fogg?« »Jú«, svaraði Phileas. »Og þetta er þjónn yðar?« hélt lögregluþjónninn áfram og benti á Passe-partout. »Já«. »Viljið þér gera svo vel og koma með mér?« Það var ekki að sjá sem Mr. Fogg furðaði sig minstu vitund á þessu. Lögregluþjónninn var fulltrúi laganna, og lögin eru Englendingum heilög. Passe-partout vildi, eins og Frökkum er títt, fara að þinga um þetta, en lögregluþjónninn snerti hann með staf sínum, og húsbóndi hans gaf honum merki um að hlýða. »Getur þessi unga frú komið með okkur?« sagði Mr. Fogg. »Sjálfsagt«, svaraði lögregluþjónninn. Mr. Fogg, Mrs. Aouda og Passe-partout voru þar næst leidd að »palkighari«, nokkurs konar fjórhjóluðum vagni, sem tók fjórar persónur, og dreginn var af fjórum hestum. Þau óku af stað, og enginn talaði orð frá munni þær tuttugu mínútur, sem þau voru á ferðinni. Vagninn fór gegn um »svarta bæinn«, og svo gegn um þann hluta bæjarins, sem Norðurálfumenn byggja; þar eru húsin úr múrgrjóti, fólkið vel klætt og fallegir vagnar, og er mikill munur að líta í kring um sig þar eða í bæjarparti þarlendra manna. Vagninn nam staðar fyrir utan hús eitt, og virtist þar alt vera hljótt og kyrlátt, og þó var ekki svo að sjá sem það væri íbúðarhús neins prívatmanns. Lögregluþjónninn bauð föngum sínum – því að oss er óhætt að kalla þau svo – að stíga niður úr vagninum, og leiddi þau inn í herbergi eitt, þar sem slár voru fyrir dyrunum. »Klukkan hálfníu«, sagði hann, »verðið þið leiddir fyrir Obadiah dómara«. Svo fór hann út og lokaði dyrunum. »Svo við erum í varðhaldi!« hrópaði Passe-partout upp yfir sig og lét fallast niður í stól. Mrs. Aouda sneri sér að Mr. Fogg og sagði með grátstaf í kverkunum: »Ó, gerið þér það fyrir mig, hugsið ekki frekar um mig. það er mín vegna, að þér hafið verið tekinn fastur. Það er fyrir það að hafa bjargað mér«. Phileas Fogg svaraði rólega, að slíkt væri ómögulegt. Það kæmi ekki til nokkurra mála, að hægt væri að setja þá í varðhald út úr brennunni. Kærendurnir þyrðu ekki að sýna sig. Hér hlyti að eiga sér stað einhver misskilningur, og Mr. Fogg bætti því við, að hvernig sem alt færi, skyldi hann sjá um, að unga frúin kæmist heil á húfi til Hong Kong. »En skipið leggur af stað kl. 12«, sagði Passe-partout. »Við skulum verða komin út á skipið fyrir þann tíma« sagði Fogg eins og ekkert væri um að vera. Þetta var sagt svo afdráttarlaust, að Passe-partout gat ekki að sér gert að tauta við sjálfan sig: »Það gerir þá ekkert til; við verðum vafalaust komin nógu snemma út á skipið«. En í hjarta sinu var hann ekki eins handviss um það. Kl. 8½ var dyrunum lokið upp, lögregluþjónninn kom inn og leiddi þau þrjú inn í herbergi við hliðina. Það var réttarsalurinn, og var allmargt þar inni af Norðurálfumönnum og þarlendu fólki. Förunautunum þremur var vísað til sætis á bekk, beint á móti skrifborði dómarans. Obadiah dómari kom inn svo að segja tafarlaust, ásamt ritara sinum. Dómarinn var feitur maður, kringluleitur. Hann tók hárkollu ofan af nagla og lét á höfuðið á sér. »Nefnið þér fyrsta málið« sagði hann, en þegar hann hafði slept orðinu, tók hann hendinni um höfuðið á sér og sagði; »Þetta er ekki mín hárkolla«. »Sannleikurinn er sá, herra dómari, að þetta er mín hárkolla«, svaraði ritarinn. »Mr. Oysterpuff minn góður, hvernig getið þér búist við, að nokkur dómari geti dæmt mál manna með ritara-hárkollu á höfðinu?« Þeir skiftu um hárkollurnar. Allan þennan tíma sauð óþolinmæðin niðri í Passe-partout, því að klukkuvísirarnir voru farnir að færast hræðilega nálægt hádeginu. »Jæja, fyrsta málið«, sagði dómarinn. »Phileas Fogg!« hrópaði ritarinn. »Hér er eg«. »Passe-partout«. »Já«. »Gott«, sagði dómarinn. »Við höfum beðið ykkar í tvo daga«. »En hvað gefið þið okkur að sök?« hrópaði Passe-partout óþolinmóðlega. »Þið fáið að heyra það«, sagði dómarinn stuttlega. »Herra dómari«, sagði Mr. Fogg, »eg er brezkur borgari, og á rétt á –«. »Hefir ekki verið farið sómasamlega með yður?« spurði dómari. »Ójú, en –«. »Gott og vel. Kallið á kærendurna«. Um leið og dómarinn sagði þetta, var dyrunum lokið upp og þremur Hindúa-prestum vísað inn. »Það er þá loksins þetta«, tautaði Passe-partout. »Þetta eru piltarnir, sem ætluðu sér að brenna ungu konuna«. Prestarnir stóðu keipréttir frammi fyrir dómaranum, og ritarinn las hátt kæru gegn Phileas Fogg og þjóni hans um goðgá; þeir voru sakaðir um að hafa saurgað stað, sem helgaður var guðræknisiðkunum Bramatrúarmanna. »Þér heyrið sakaráburðinn«, sagði dómarinn við Phileas Fogg. »Já, herra dómari« svaraði hinn ákærði og leit á úrið sitt, »og eg kannast við sökina«. »Þér kannist við hana?« »Já, eg geri það, og eg bíð jafnframt eftir að heyra, hvað þessir prestar að sínu leyti vilja kannast við viðvíkjandi gerðum sínum við Pillaji-hofið«. Prestarnir litu hver á annan. Þeir skildu auðsjáanlega ekki, hvað hann átti við. »Við eigum auðvitað við það«, sagði Passe-partout með ákefð, »sem þeir höfðust að við Pillaji-hofið, þegar þeir ætluðu að brenna konuna«. Það var auðséð á prestunum, að þeir skildu ekki upp né niður, og dómarinn var hér um bil jafn-forviða. »Hvaða konu?« spurði hann. »Hvern ætluðu þeir að brenna? Í Bombay?« »Bombay!« hrópaði Passe-partout. »Við erum ekki að tala um Pillaji-hofið, heldur um hofið á Malabar-hæðinni í Bombay«. »Og sem sönnun«, bætti ritarinn við, »eru hér skórnir af manni þeim, sem saurgaði musterið, og hann lét eina skó á borðið um leið og hann sagði þetta. »Skórnir mínir!« hrópaði Passe-partout upp yfir sig; hann varð svo forviða, að hann gætti ekkert að hvað hann sagði. Menn geta getið því nærri, hver ruglingur nú kom í reikninginn. Viðburðurinn hofinu í Bombay hafði alveg gleymst; hvorki húsbóndinn né þjónninn hafði fest hann í huga sér, og nú var það hans vegna, að þeir höfðu báðir verið teknir fastir. Leynilögregluþjónninn Fix, hafði þegar séð, hvern hag mátti hafa af þessu atviki; hann dró því hálfan sólarhring að fara burt úr bænum, bar ráð sín sama við prestana á Malabarhæðinni, og lofaði þeim góðum launum; hann vissi mjög vel, að enska stjórnin mundi hegna mjög stranglega þess háttar yfirtroðslu. Svo hafði hann sent prestana með járnbrautarlestinni til þess að elta syndarana. Vegna þess, hve Phileas Fogg og förunautar hans eyddu miklum tíma í að frelsa ungu ekkjuna frá brennunni, höfðu þeir Fix og Hindúa-prestarnir orðið á undan til Calcutta, en hvort sem var, mundi Mr. Fogg og þjónn hans hafa verið teknir fastir jafnskjótt sem þeir fóru út úr lestinni, því að yfirvöldin höfðu sent hraðskeyti um það til Calcutta. Menn gátu ímyndað sér, hve gramur Fix varð, þegar hann kom til Calcutta, og heyrði að Mr. Fogg væri ekki þangað kominn. Hann hélt að sökudólgurinn mundi hafa farið út af lestinni á einhverjum brautarstöðvum á leiðinni, og svo leitað hælis einhversstaðar í syðri fylkjunum. Tuttugu og fjóra klukkutíma skálmaði Fix hvíldarlaust fram og aftur við járnbrautarstöðvarnar í Calcutta. Og hann varð stórglaður við, þegar hann sá manninn stíga út úr járnbrautarlestinni ásamt konu, sem hann gat enga grein gert sér fyrir hver væri. Hann hafði tafarlaust sagt lögregluþjóni einum að taka Mr. Fogg fastan, og þannig stóð á því, að þau voru öll leidd fyrir Obadiah dómara. Ef Passe-partout hefði ekki verið eins sokkinn niður í sínar eigin sakir, þá mundi hann hafa tekið eftir Fix sitjandi í einu horninu í réttarsalnum; hann hlustaði með mikilli athygli á það, sem fram fór, eins og nærri má geta, þar sem hann enn langaði til að fá heimild til að taka þennan ímyndaða þjóf höndum. En Obadiah hafði tekið eftir ógætnisorði Passe-partout; sem hann hefði viljað gefa auð fjár til að láta ósagt. »Svo þér kannist við að sakaráburðurinn sé sannur«, sagði dómarinn. »Eg er búinn að því«, svaraði Fogg rólega. »Gott og vel«, hélt dómarinn áfram, »með því að breskum lögum er ætlað að vernda stranglega og án manngreinarálits öll trúarbrögð á Indlandi, og með því að þessi piltur, Passe-partout, hefir játað brot sitt, og það hefir sannast um hann, að hann hefir saurgað hofið á Malabarhæðinni, með því að stíga þar inn þann 20. október, þá dæmist rétt að vera, að nefndur Passe-partout sæti fimtán daga fangelsi og borgi þrjú hundruð pund í sekt«. »Þrjú hundruð pund!« hrópaði Passe-partout upp yfir sig; hann gerði sér naumast grein fyrir neinu nema upphæð sektafjárins. »Þögn«, hrópaði siðagætirinn. »Og«, hélt dómarinn áfram, »með því að það er ósannað, að húsbóndi hans hafi átt nokkurn þátt í þessari goðgá, en með því að hann hlýtur að standa í ábyrgð fyrir gerðum þjóns síns, þá skal nefndur Phileas Fogg sæta 8 daga fangelsi og hundrað og fimtíu punda sekt. Siðgætir, nefnið næsta mál«. Fix nuddaði saman höndunum af ánægju úti í horni sinu. Phileas Fogg haldið átta daga í Calcutta! það var heppilegt, því að þeim tíma liðnum mundi handtökuheimildin verða komin frá Englandi. Passe-partout var alveg klumsa. Hann sá, að þessi dómur mundi alveg fara með húsbónda hans. Hann mundi tapa þeim tuttugu þúsundum punda, sem hann hafði veðjað um; og alt hlauzt þetta af því, að hann hafði strunsað inn í bölvað hofið eins og auli. En Phileas Fogg var eins stiltur og rólegur, eins og þetta hefði alls ekki komið honum við. Á sama augnablikinu sem siðagætir var að kalla upp næsta málið, stóð Phileas upp og sagði: »Eg býð veð«. »Þér eigið rétt á þvi«, sagði dómarinn. Fix rann kalt blóð milli skinns og hörunds; en hann náði sér aftur, þegar hann heyrði dómarann segja, að með því að fangarnir væru óþektir menn, þá yrði hvor þeirra að leggja fram þúsund pund. Það kostaði því Mr. Fogg tvö þúsund pund, ef hann skyldi ekki sýna sig, þegar hann ætti að mæta. »Eg skal borga peningana nú«, sagði hann; og svo dró hann tvö þúsund pund í bankaseðlum upp úr pokanum, sem Passe-partout enn hélt á, og lagði þau á borð skrifarans. »Þessir peningar verða yður aftur fengnir, þegar þér komið út úr fangelsinu«, sagði dómarinn. »Um stundarsakir eruð þér frjáls gegn veði«. »Komið«, sagði Phileas Fogg við þjón sinn. »Eg býst þó við, að þeir fái mér aftur skóna mína«, sagði Passe-partout rólega. Þeir fengu honum aftur skóna. »Þeir hafa orðið okkur nokkuð dýrir«, tautaði hann, »meira en þúsund pund hvor um sig, án þess eg telji óþægindin, sem eg hefi sjálfur orðið fyrir«. Mr. Fogg bauð ungu frúnni arminn og lagði af stað með hana út; Passe-partout gekk á eftir honum svo hundslegur sem verða mátti. Fix var enn að vona, að Mr. Fogg mundi ekki kasta annari eins upphæð eins og tveim þúsund pundum á glæ, og hélt sig því rétt í hælunum á honum. Phileas leigði sér léttan vagn, og var ferðafólkinu nú ekið ofan að lendingargarðinum. Hálfa mílu þaðan lá Rangoon fyrir akkerum, og var búið að draga upp flaggið, sem sýndi, að skipið var albúið til að halda af stað. Klukkan var að slá 11, svo að Mr. Fogg átti eina klukkustund eftir. Fix sá hann leggja frá landi í bát ásamt Mrs. Aoudu og þjóninum. Lögregluþjónninn stappaði í gólfið af vonzku. »Og fanturinn«, hrópaði hann; »hann er þá að fara. Leggur tvö þúsund pund í sölurnar. Þetta er samvizkulaus þjófur. Eg elti hann til veraldarinnar enda, ef á þarf að halda; en með slíkri ferð, sem á honum er nú, verður hann ekki lengi með stolnu peningana«. Það var ekki svo fjarri sanni, sem lögregluþjóninum þar datt í hug. Síðan Phileas Fogg fór frá London, hafði ferðakostnaður hans, ómakslaun, borgunin fyrir fílinn, sektir og veð þegar numið meir en fimm þúsund pundum, svo að það gekk heldur rösklega á fé það, sem lögregluþjónninn bjóst við að ná aftur út úr þjófnum. XVI. KAPÍTULI. Fix skilur alls ekki það sem við hann er sagt. RANGOON, eitt af skipum P. & O. félagsins, fór á milli Indlands, Kína og Japan; það var járnskrúfuskip, flutti hér um bil 1770 tons, og vélar þess höfðu 400 hesta afl. Það var eins hraðskreytt eins og Mongólía, en ekki eins þægilegt, og það fór naumast eins vel um Mrs. Aoudu eins og Phileas Fogg mundi hafa óskað. En af því að sjóferðin var ekki nema 3500 mílna löng, og ekki gengu til hennar nema 11 eða 12 dagar, og af því að ekki var örðugt að gera ungu frúnni til hæfis, þá gerði það ekki svo mikið til. Fyrsta daginn af sjóferðinni kyntist hún Phileas Fogg vel, og lét við hvert tækifæri sína miklu þakklátsemi í ljósi. Þessi hægláti herra hlustaði á þakklætisyfirlýsingar hennar, án þess sjáanlegt væri, að þær fengju minstu vitund á hann; ekkert orð, engin hreyfing bar þess vitni, að hann kæmist í nokkra minstu geðshræringu; en hann gætti þess vandlega, að ungu frúna skorti ekkert. Hann var hjá henni vissar stundir á daginn, og þó hann ekki talaði mikið sjálfur, þá hlustaði hann að minsta kosti á ræður hennar; hann sýndi henni einstaka kurteisi, en það var því líkara, sem sú kurteisi kæmi frá líkneskju, sem hreyfðist af sjálfri sér, en frá lifandi manni. Mrs. Aouda skildi ekkert í honum, og hafði þó Passe-partout skotið því að henni stuttlega, hvað einræningslegur húsbóndi sinn væri, og eins hafði hann sagt henni frá veðmálinu um ferðina kring um hnöttinn. Mrs. Aoudu hafði legið við að þykja það hlægileg hugmynd, en átti hún honum ekki líf sitt að launa, hvað sem því leið? Og Mr. Fogg skaðaðist ekki á því, að vera skoðaður gegn um þakklætisgleraugu. Mrs. Aoudu bar saman við Parsíann um það, sem á daga hennar sjálfrar hafði drifið. Hún heyrði til tignasta flokkinum meðal Indverja. Margir parsneskir kaupmenn hafa orðið stórauðugir menn á bómullarverzlun á Indlandi. Einn þeirra, Sir Jamsetjee Jejeebhoy, hefir brezka stjórnin gert að »baronet«, og Mrs. Aouda var skyld þessum höfðingja; hann var þá enn á lífi og átti heima í Bombay. Maðurinn, sem hún vonaði að hitta í Hong Kong, var frændi hans, og treysti hún því, að hún mundi njóta þar verndar. Hún var þó ekki alveg viss um, að hann mundi veita henni viðtöku; en Mr. Fogg sagði henni, að hún skyldi ekki vera áhyggjufull, því alt mundi verða hnífjafnt á endanum. Það var einmitt á þann hátt, sem hann komst orði. Það var óvíst, hvort unga frúin skildi hann alveg. Hún leit á hann stóru augunum – »þessum augum, sem voru eins skær eins og hin helgu vötn Himalaya«; en Mr. Fogg var jafn-óbifanlegur eins og hann hafði áður verið, og sýndi ekki minstu tilhneiging til að kasta sér út í þau vötn. Fyrsti parturinn af ferðinni gekk mjög ákjósanlega. Mönnum lék alt í lyndi. Frá Rangoon sáust bráðum Andaman-eyjarnar miklu, með fagra fjallinu, sem kallað er Söðultindur; það er tvö þúsund og fjögur hundruð feta hátt, og hafa allir sjófarendur það sér til hliðsjónar. Þeir komu við á ströndinni, en sáu enga af eyjarskeggjum. Eyjarnar eru dýrðlegar á að líta. Ómælilegir skógar af pálmum, indverskum eikum og risavöxnum mímósum voru í nærsýni, en bak við lyftust upp öldóttar hæðir. Klettarnir úðu og grúðu af þeirri svölutegund, er býr til ætilegu hreiðrin, sem Kínverjar eru mest sólgnir í. En brátt var komið fram hjá eyjunum, og Rangoon stefndi með miklum hraða til Malacea-sundsins, sem liggur að Kínverska hafinu. Hvað hafðist nú Fix að allan þennan tíma? Hann hafði lagt svo fyrir, að sér skyldi verða send handtökuheimildin til Hong Kong. Honum fanst, sannast að segja, að það mundi verða örðugt fyrir sig að gera svo grein fyrir þarveru sinni, að Passe-partout ekki grunaði neitt, því að Passe-partout hélt, að hann mundi vera í Bombay. En forlögin höguðu því svo til, að hann varð að endurnýja kunningsskapinn við piltinn, eins og vér munum síðar fá að sjá. Allar ráðagerðir og vonir lögregluþjónsins snerust nú um Hong Kong, því að við Singapore stóð skipið ekki svo lengi við, að þar væri neitt hægt að gera. Í Hong Kong varð að taka þjófinn fastan, annars mundi hann sleppa, og það um aldur og æfi að öllum líkindum. Hong Kong er í eignum Breta, en það var síðasti staðurinn í brezka ríkinu, sem þeir mundu koma í á ferðinni. Svo var Kína, Japan og Ameríka, og í öllum þeim löndum var Mr. Fogg svo að segja óhætt. Skyldi Fix fá handtökuheimildina í Hong Kong, þá gat hann fengið lögreglustjórninni þar Fogg í hendur, og látið hann svo eiga sig. En eftir að hann var kominn af þeirri eyju, dugði ekki almenn handtökuheimild; þá þurfti á framsöluheimild að halda; henni mundu fylgja alls konar tafir, og það gat enda verið, að sakamaðurinn kynni að færa sér þær tafir í nyt og komast undan; svo að tæki hann Fogg ekki fastan í Hong Kong, þá gat hann eins vel hætt við alt saman. »Jæja«, sagði Fix við sjálfan sig, »annaðhvort verður handtökuheimildin í Hong Kong, og þá tek eg manninn fastan, eða hún verður þar ekki; og í þetta skifti verð eg að tefja fyrir honum, hvað sem það kostar. Mér hefir mistekist bæði í Bombay og í Calcutta, og fari það í handaskolum líka fyrir mér í Hong Kong, þá er mitt álit á förum. Mér verður að takast þetta, hvað sem það kostar; en með hverju móti á eg að hefta för mannsins, ef í það fer? Fix réð nú af út úr vandræðum, að segja Passe-partout alla söguna og hvernig piltur húsbóndi hans væri, því að það var auðséð, að Passe-partout var ekki meðsekur. Fix hugði, að hann mundi vafalaust aðstoða sig, þar sem svona var ástatt. En hættuleg úrræði voru þetta, og til þeirra var ekki takandi, nema mikið lægi við. Skyldi Passe-partout gefa húsbónda sínum bendingu, þá var alt þegar farið forgörðum. Lögregluþjónninn var því í mestu vandræðum, og mikið braut hann heilann um það, hvernig á ferðalagi Mrs. Aoudu stæði. Hvaða kona var það? og hvernig vék því við, að hún skyldi vera Fogg samferða? Þau hlutu að hafa hitzt einhversstaðar milli Bombay og Calcutta. Honum var þetta ráðgáta, og hann fór að halda, að hér kynni að vera um konunám að ræða. Hann var viss um það. Þessi hugmynd fékk nú algert vald yfir Fix, og hann fór að velta því fyrir sér, hvern hag hann gæti af þessu haft; hvort sem þessi unga kona væri gift eða ekki, þá var hér um konunám að ræða; og það gat verið, að hann gæti gert Mr. Fogg það svo heitt í Hong Kong, að honum tækist ekki að komast úr klemmunni með fjárframlögum. En Rangoon varð að komast til Hong Kong fyrst, og gat hann beðið eftir því? Því Fogg hafði þann árans sið að stökkva úr einu gufuskipinu yfir í annað, og hann gat verið kominn óraveg á burt, áður en Fix gat verið búinn að koma málinu í rétt horf. Það sem hann því þurfti að gera var að gera ensku yfirvöldunum aðvart, og svo skipstjóranum á Rangoon, áður en skipið væri komið inn í höfn. Það var ekki torvelt, því að skipið stóð við við Singapore, og þaðan gat hann telegraferað til Hong Kong. Hvað sem öðru liði, þá afréð hann að spyrja Passe-partout spjörunum úr, áður en hann afréði til fulls, hvernig hann skyldi fara að. Hann vissi, að það var ekki örðugt að losa um málbeinið á piltinum, og Fix afréð að gera vart við sig. Hann mátti engan tíma missa, því að skipið átti að koma til Singapore næsta dag. Fix fór þá út úr káetu sinni síðari hlut þess sama dags; hann sá Passe-partout uppi á þilfarinum, gekk rakleiðis að honum og sagði: »Hvað er þetta? Þér hér í Rangoon?«. »Mr. Fix, er þetta ekki missýning?« sagði Passe-partout um leið og hann kannaðist við samferðamann sinn frá Mongólíu. »Hvað er þetta – eg er kominn frá Bombay, og hér eruð þér á leiðinni til Hong Kong. Eruð þér líka að fara kring um hnöttinn?« »Nei«, svaraði Fix, »eg er að hugsa um að staldra við í Hong Kong, að minsta kosti nokkra daga«. »Einmitt það«, sagði Passe-partout, »en hvernig stendur á því, að eg hefi hvergi séð yður á skipinu síðan við fórum frá Calcutta?« »Sannleikurinn er sá, að eg hefi ekki verið vel frískur, og hefi ekki getað verið á ferli. Mér fellur ekki eins vel við Bengalska flóann eins og Indverska hafið. Hvernig líður húsbónda yðar?« »Ó, ágætlega, og hann er jafn-nákvæmur með tímann eins og nokkru sinni áður; en Mr. Fix, þér vitið ekki, að við höfum fengið með okkur unga frú«. »Unga frú?« át lögregluþjónninn eftir. honum, og lést ekkert skilja, hvað átt væri við. Passe-partout kinkaði kolli, og fór tafarlaust að segja honum söguna af því, sem gerzt hafði í hofinu, fílkaupunum, brennunni, björgun Aoudu, dómnum i réttarsalnum í Calcutta, og hvernig þeir hefðu sloppið með veðinu. Fix var fullkunnugt um þessa síðastnefndu atburði, en lézt ekkert vita, og Passe-partout var í sjöunda himni út af að hafa mann til að hlusta á sig með annari eins athygli. »En«, sagði Fix, þegar lagsbróðir hans var þagnaður, »ætlar húsbóndi yðar að fara með þessa ungu frú til Norðurálfunnar?« »Alls ekki, Mr. Fix, alls ekki. Við ætlum bara með hana til Hong Kong, til þess að koma henni undir vernd frænda hennar, ríks kaupmanns þar. »Ekkert er hægt að gera við það«, sagði lögregluþjónninn við sjálfan sig, og leyndi vonbrigðum sínum. »Komið þér og fáið yður glas af einirberjabrennivíni, monsieur«. »Hjartans gjarnan, Mr. Fix; við getum ekki minna gert en fengið okkur glas í bróðerni, þegar við erum svo heppnir að hittast úti á Rangoon. XVII. KAPÍTULI. Segir frá því, er við bar á sjóferðinni milli Singapore og Hong Kong. EFTIR þetta hittust þeir þráfaldlega, Passe-partout og lögregluþjónninn, en Fix var fátalaður og gerði enga tilraun til að hafa neitt upp úr lagsbróður sínum viðvíkjandi Mr. Fogg. Hann hitti Mr. Fogg ekki nema einu sinni eða tvisvar, því að Fogg fór lítið út úr káetunni, og gaf sig ýmist við Mrs. Aoudu eða fékk sér slag af vist. Af Passe-partout er það að segja, að hann fór mjög alvarlega að hugsa um, hvernig standa mundi á þeim skringilega atburði, að Mr. Fix skyldi enn vera kominn á hælana á húsbónda hans, og honum þótti það mjög mikilli furðu gegna. Hvernig vék því við, að þessi viðfeldni, káti herra, sem þeir höfðu fyrst hitt við Suez, og svo úti á Mongólíu, sem hafði stigið á land í Bombay, og sagst ætla að halda þar kyrru fyrir – hvernig stóð á því, að hann var nú á skipinu Rangoon á leiðinni til Hong Kong, og að hann var í einu orði að elta Mr. Fogg, hvert sem hann fór? Það var sannarlega framúrskarandi einkennilegt, og hvað gekk Mr. Fix til þessa? Passe-partout var þess albúinn að veðja indversku skónum sínum, sem hann hafði geymt vandlega allan þennan tíma, um það, að þessi Fix mundi fara frá Hong Kong jafnsnemma þeim, og líklegast á sama skipinu. Þó að Passe-partout hefði brotið heilann um hundrað ár, þá hefði honum aldrei dottið það sanna erindi lögregluþjónsins í hug. Honum hefði aldrei komið til hugar, að verið væri að elta Phileas Fogg kring um hnöttinn fyrir þjófnað. En með því að það er samgróið mannlegu eðli, að fá einhverja skýringu á öllu, þá skýrði Passe-partout fyrir sér, hvernig stæði á þeirri óaflátanlegu athygli, sem Fix sýndi þeim, og niðurstaða hans var annars ekkert óskynsamleg. Hann þóttist viss um, að Fix væri agent, sem Framfaraklúbburinn hefði sent eftir Mr. Fogg, til þess að gæta þess, hvort hann héldi veðmáls-skilmálana samvizkusamlega. »Þetta er það«, sagði Passe-partout hvað eftir annað við sjálfan sig, og var stoltur af skarpleik sínum. »Hann er njósnarmaður, sem þessir herrar hafa sent af stað. Það er naumast gentlemannlegt, jafn-ráðvandur maður eins og Mr. Fogg er. Að hugsa sér að senda njósnarmann á eftir okkur! Þetta skal verða ykkur dýrt, þið Framfaraklúbbs-herrar!« Passe-partout var stórglaður út af þessari uppgötvun sinni, og afréð að þegja yfir þessu við húsbónda sinn, því hann hélt, að Mr. Fogg mundi þykkjast, og það ekki að ástæðulausu, við tortryggni mótparta sinna, en hann staðréð, að draga Fix sundur í logandi háði við hvert tækifæri, án þess að gefa höggstað á sér sjálfum. Miðvikudaginn 30. október fór Rangoon inn í Malaeca-sundið, sem aðskilur hálfeyjuna og Súmatra, og kl. 4 morguninn eftir varpaði Rangoon akkerum við Singapore, til þess að byrgja sig með kolum; hafði þá verið hálfum degi fljótari í förum en áætlað var. Phileas Fogg færði vinninginn inn í vasabók sína, og gekk á land ásamt Mrs. Aoudu; hún hafði látið í ljósi, að sig langaði til að vera í landi fáeinar klukkustundir. Fix var grunsamt um allar hreyfingar Foggs, og fór á eftir honum svo að lítið bar á; og Passe-partout hafði með sjálfum sér gaman af öllu umstangi lögregluþjónsins, og fór að gegna sínu vanalega starfi. Þó að Singapore-eyjan sé ekkert stórkostleg né sérlega tilkomumikil, þá hefir hún samt sína sérstöku fegurð. Hún er garður, gegnumskorinn af fallegum vegum gegn um pálmaviðarskóga og smáviðarplantanir; ýmsar hitabeltisplöntur fyltu loftið sætum ilmi, og hópur af öpum ólmuðust í trjánum; skógarnir voru heldur ekki lausir við tigrisdýr, og ef einhverja ferðamenn skyldi furða á því, að jafn voðaleg dýr skuli ekki vera upprætt af jafn-lítilli eyju, þá er svarið það, að þau synda yfir sundið af meginlandinu. Eftir að Mr. Fogg og Aouda höfðu ekið eina tvo tíma, sneru þau aftur til bæjarins og fóru út á skipið; allan tímann elti lögregluþjónninn þau. Passe-partout beið þeirra á þilfarinu; hann hafði verið svo hugsunarsamur að kaupa nokkra ljómandi fallega mongóviðarávexti, sem hann bauð Mrs. Aoudu og þáði hún það þakksamlega. Kl. 11 lagði Rangoon aftur af stað og fáum stundum síðar var Malacca horfin í sjó. Hér um bil 1300 mílur voru eftir til Hong Kong, og Phileas Fogg vonaði, að komast þangað á 6 dögum, og geta þannig náð gufuskipinu, sem átti að leggja af stað til Yokohama 6. nóvember. Veðrið hafði hingað til verið mjög fagurt en breyttist nú með síðasta kvarteli tunglsins. Nú var komið hvassveður, sem til allrar hamingju stóð á eftir skipinu, og sjógangur var mjög mikill. Skipstjórinn hafði segl uppi hvenær sem færi gafst, og þegar svo stóð á skreið skipið mjög hart áfram. En með því að veðrið var svo ilt, varð að hafa sérstaka varkárni í frammi og draga úr gufukraftinum. Phileas Fogg virtist ekki hirða grand um töfina, sem af því hlauzt, en Passe-partout var óður og uppvægur út af henni. Hann bölvaði skipstjóranum, vélastjóranum, gufuskipafélaginu og óskaði þeim öllum í hlýjara loftslag heldur en er í Hong Kong. Vera kann að umhugsunin um gasið, sem enn brann í herbergi hans í London, hafi staðið í einhverju sambandi við óþolinmæði hans. Það er svo að sjá sem yður liggi mikið á að komast til Hong Kong«, sagði Fix við hann einn daginn. »Já«, svaraði Passe-partout. »Þér haldið, að Mr. Fogg sé mjög ant um að ná í Yokohamaskipið?« »Honum er mjög ant um það«. »Þér trúið þá á þessa ferð kring um hnöttinn?« »Það geri eg reyndar; gerið þér það ekki?« »Ekki lifandi vitund«. »Þér eruð slunginn náungi«, svaraði Passe-partout og drap titlinga framan í hann. Þessi orð rugluðu Fix hálfpartinn, án þess hann vissi hvernig á því stóð. Gat franski þjónninn hafa komist á snoðir um hver hann var? Hann vissi ekki, hvernig hann átti að að fara. En hvernig gat Passe-partout hafa komist að hans sanna erindi? Eitthvað hlaut Passe-partout að ganga til að tala eins og hann talaði. Nokkru seinna fór hann enn lengra og sagði hálf-kesknislega: »Jæja, Mr. Fix, eigum við að verða svo óheppnir í Hong Kong að missa ánægjuna af samfylgd yðar?« »Ja–a«, svaraði Fix hálf-vandræðalega, »eg get ekki sagt það með vissu. – Skoðið þer til –« »O«, sagði Passe-partout, »eg skyldi verða stórglaður, ef þér bara vilduð verða okkur samferða. Gufuskipafélagsagent getur ekki verið að halda kyrru fyrir á miðri leið, það sjáið þér sjálfur. Þér ætluðuð ekki nema til Bombay og nú eruð þér rétt að kalla kominn til Kína. Ameríka er ekki langt í burtu, og frá Ameríku er ekki nema spottakorn yfir til Norðurálfunnar«. Fix leit mjög fast á laxbróður sinn; andlitið á honum var einstaklega sakleysislegt og Fix fór að hlægja. En Passe-partout var í kesknis-skapi, og spurði hann, hvort hann græddi mikið á stöðu sinni. »Já og nei«, svaraði Fix, án þess honum brygði það minsta. »Það er misjafnt hvernig gengur, stundum vel og stundum illa, en auðvitað greiði eg ekki ferðakostnað minn sjálfur«. »Það er eg alveg viss um«, sagði Passe-partout hlægjandi. Fix sneri aftur til káetu sinnar og sat þar í þungum hugsunum. Hann þóttist viss um, að franski þjónninn hefði einhvern veginn komist á snoðir um, hver hann var; en hafði hann sagt húsbónda sínum frá því? Og varð Fix að hætta við alt saman? Lögregluþjónninn var marga klukkutíma að hugsa málið frá öllum hliðum, og að þeim liðnum var hann jafn-óákveðinn, eins og í byrjuninni. En snarræði sitt misti hann ekki, og hann afréð loksins að segja Passe-partout alla söguna hreinskilnislega, ef hann gæti ekki tekið Fogg fastan í Hong Kong. Annaðhvort var, að þjónninn var meðsekur og vissi alt, og þá þóttist Fix vita, að sér mundi mistakast, eða þá að hann vissi ekkert, og þá var það í hans eigin hag að komast úr þjónustu glæpamanns. Í þetta horf var nú málið komið, og meðan Fix hafði verið að bræða það, var svo að sjá sem Phileas Fogg stæði á sama um alla skapaða hluti. En engu að síður var ekki langt frá honum truflunarefni, sem ekki var óhugsandi, að kynni að hafa einhver áhrif á hjarta hans; og þó ekki – yndisleikur Mrs. Aoudu hafði engin áhrif, og þótti Passe-partout það mjög mikilli furðu gegna. Já, hann furðaði sannarlega á því, piltinn, enda gat hann á hverjum degi lesið augum Mrs. Aoudu þá þakklátsemi, sem hún bar í brjósti til húsbónda hans. Phileas Fogg hlaut sannarlega að vera tilfinningalaus maður; hugrakkur var hann, það var enginn vafi á því, en tilfinninganæmur var hann ekki. Ekkert var það, sem sýndi, að viðburðir þeir, sem gerzt höfðu á ferðinni, hefðu vakið neinar tilfinningar í brjósti hans, þar sem aftur á móti Passe-partout gekk í stöðugri leiðslu. Einn daginn var hann að virða fyrir sér, hvernig skipið knúðist áfram af vélinni, og vildi þá svo til, að skrúfan kom upp úr vatninu af kasti, sem kom á skipið. Gufan kom grenjandi út um öryggispípurnar, og Passe-partout hrópaði þá í mestu gremju: »Pípunni er ekki alminnilega lokað! Við komumst ekkert áfram! Það er eftir Englendingum. Bara þetta væri ameríkanskt skip – við kynnum að springa í loft upp, ef til vill, en þangað til það kæmi fyrir, kæmumst við að minsta kosti hraðar áfram«. XVIII. KAPÍTULI. Phileas Fogg, Passe-partout og Fix fara hver um sig sinna eigin ferða. SÍÐARA hluta sjóferðarinnar var veðrið mjög ilt; allhvast var – nærri því ofsastormur – beint á móti Rangoon, sem ruggaðist talsvert, farþegunum til mikilla óþæginda. Þriðja og fjórða nóvember var komið reglulegt ofsaveður, og Rangoon varð að fara mjög hægt. Öll segl voru dregin saman, og kapteinninn hugði, að ekki mundi verða komizt til Hong Kong fyrr en tuttugu stundum síðar en til var ætlast, eða jafnvel seinna, svo framarlega sem ofveðrið héldist. Phileas Fogg horfði á æstar öldurnar með jafnmikilli stillingu eins og hann hafði nokkurn tíma áður sýnt; engin óþolinmæðis-merki sáust á honum, enda þótt tuttugu stunda töf breytti ágizkunum hans, þar sem hún olli því, að hann hlaut að missa af Yokohama-skipinu. Það var næstum því svo að sjá sem stormurinn væri partur af ferðaáætlun hans, og Mrs. Aouda, sem lét sér ant um fyrirtæki hans, var alveg steinhissa á því, að hann skyldi vera eins rólegur eins og allsendis ekkert væri um að vera. En Fix stóð ekki á sama um þetta; honum þótti mjög vænt um, að ofveðrið hafði komið, og honum hefði verið það sannarlegt fagnaðar-efni, ef Rangoon hefði orðið að hleypa undan óveðrinu. Allar þessar tafir voru honum í hag, af því að þær töfðu fyrir Mr. Fogg að komast frá Hong Kong; hann lét sér standa á sama um sjóveikina, sem hann þjáðist af, og þó að líkami hans píndist, var fögnuður í sál hans. En Passe-partout féll þetta illa veður mjög illa. Alt hafði gengið vel þangað til nú. Hingað til hafði alt virst hlynna að húsbónda hans. Gufuskip og járnbrautir höfðu hlýtt honum; vindur og gufa höfðu í sameiningu aðstoðað hann. Gat það verið, að óhappa-stundin væri nú upp runnin? Passe-partout fanst eins og hann ætti að borga út úr sínum vasa 20 þúsund punda veðféð. Stormurinn gerði hann ösku-bál-reiðan, og honum mundi hafa þótt gaman að kagstrýkja sjóinn fyrir óhlýðnina. Manngarmurinn! Fix leyndi allan þennan tíma ánægju sinni, því að ef Passe-partout hefði orðið var við hana, þá mundi Fix ekki hafa átt upp á háborðið hjá honum. Passe-partout var á þilfarinu alt af meðan á ofviðrinu stóð, því að honum var alveg ómögulegt að fara ofan. Hann aðstoðaði skipshöfnina að öllu leyti, sem honum var mögulegt, og sjómennina furðaði stórum á dugnaði hans. Hann lagði ótal spurningar fyrir skipstjórann, yfirmennina og hásetana um það, hvað skipinu gengi, og þeir hlógu að áhyggjum hans. Hann vildi fá að vita, hve lengi óveðrið mundi standa, og menn vísuðu honum á loftþyngdarmælinn, sem hafði auðsjáanlega ekki ráðið af að stíga; það vildi ekki breytast, enda þótt Passe-partout tæki hann og hristi hann. Loksins lægði veðrið og vindurinn snerist í suðrið, svo að byrinn var hagstæður. Þegar veðrið batnaði, komst Passe-partout aftur í gott skap. Segl voru aftur undin upp, og Rangoon hélt ferðinni áfram með miklum hraða, en gat ekki unnið töfina upp. En við því varð ekki gert, og land sást ekki fyrr en kl. 5 að morgni þess 5. nóvembers. Ferðabók Mr. Foggs sýndi, að þeir hefðu átt að koma þangað deginum áður, svo að þeir voru 24 stundum á eftir áætluninni, og hlutu að missa af Yokohamaskipinu. Kl. 6 kom hafnsögumaðurinn út á skipið. Passe-partout langaði til að spyrja manninn, hvort Yokohama-skipið væri farið, en vildi þó heldur geta vonað í lengstu lög. Hann hafði trúað Fix fyrir áhyggjum sínum, og hann hafði, ólukkans refurinn, látizt taka þátt í þeim, og sagt Passe-partout, að þeir kæmu nógu snemma, ef húsbóndi hans tæki sér far með næsta skipi, og hafði Passe-partout orðið bálvondur út af þeirri athugasemd. En þó að Passe-partout vildi ekki spyrja hafnsögumanninn, þá hikaði Fogg ekki við að inna eftir því, hvenær gufuskipið legði af stað til Yokohama, eftir að hann hafði litið í Bradshaw sinn. »Í fyrramálið, um flóðtíma«, svaraði hafnsögumaðurinn. »Ó, einmitt það«, sagði Mr, Fogg, án þess minsta geðshræring sæist á honum. Passe-partout hefði getað faðmað hafnsögumanninn fyrir þessa upplýsingu, en þar á móti mundi Fix hafa viljað snúa hann úr hálsliðnum. »Hvað heitir skipið?« spurði Mr. Fogg. »Carnatic«, svaraði hafnsögumaðurinn. »Átti það ekki að leggja af stað í gær?« »Jú, en það þurfti að gera við einn ketilinn í því, svo að það leggur ekki af stað fyrr en á morgun«. »Þakka yður fyrir«, sagði Mr. Fogg, og gekk stillilega ofan í káetu sína. Passe-partout kreisti höndina á hafnsögumanninum og hrópaði: »Þér eruð valmenni«. Að líkindum hefir hafnsögumaðurinn enn í dag ekki minstu hugmynd um, hvað Passe-partout átt við. Hann blístraði að eins, og sneri svo aftur til stjórnbrúarinnar, þar sem hann átti að vera, til þess að vísa skipinu leið innan um alls konar báta-flota, sem var á ferðinni fram undan Hong Kong. Kl. 1 lá skipið fram með lendingargarðinum, og farþegjarnir gengu á land. Því verður ekki neitað, að í þetta skifti voru forlögin sérstaklega hlynt Phileas Fogg. Hefði ekki þurft að gera við katlana í Carnatic, þá hefði skipið lagt af stað þ. 5., og ferðamenn, sem til Japans ætluðu, hefðu orðið að bíða átta daga eftir næsta gufuskipi. Reyndar var Mr. Fogg 24 tímum á eftir áætluninni, en það hafði engin alvarleg áhrif á ferðalag hans. Nú stóð jafnframt svo á, að gufuskipið, sem fór milli Yokohama og San Francisco, stóð í sambandi við Hong Kong skipið, og lagði ekki af stað fyr en það kom; svo þó að Fogg kæmi 24 stundum of seint til Yokohama, þá gat hann unnið það upp á ferðinni yfir Kyrrahafið. En hvað sem því leið, þá hafði Phileas Fogg tafist 24 tíma þá 35 daga, sem liðnir voru síðan hann fór frá Lundúnum. Carnatic átti að leggja af stað morguninn eftir kl. 5., svo að Mr. Fogg gat enn helgað Mrs. Aoudu sextán klukkutíma. Þegar hann steig á land leiddi hann ungu frúna við hönd sér, og fór með hana til »Klúbbhúss«-hótelsins; þar leigði hann herbergi handa henni. Svo lagði Mr. Fogg af stað til þess að leita að skyldmennum hennar, en sagði Passe-partout að bíða þar þangað til hann kæmi aftur, svo að ungu frúnni skyldi ekki finnast hún vera alveg einmana. Mr. Fogg hélt til kaupmannasamkundunnar, því að hann gat sér til, eins og líka var skynsamlegt, að mest líkindi væru til, að fá þar fregnir af jafn-ríkum manni eins og Jejeeb var. Verzlunarmiðillinn, sem Mr. Fogg fann að máli, þekti manninn, sem eftir var spurt, en hann hafði farið frá Kína fyrir tveimur árum, og miðillinn hélt, að hann mundi hafa sezt að á Hollandi; því að hann hafði einkum átt verzlunar-viðskifti við hollenzka kaupmenn. Phileas Fogg sneri aftur til hótellsins, og sagði Mrs. Aoudu, að frændi hennar væri farinn frá Hong Kong, og hefði sezt að á Hollandi. Eitt augnablik svaraði Mrs. Aouda engu; hún dró hendina eftir augabrúnunum, og það var svo að sjá sem hún væri í þungum hugsunum. Loksins sagði hún blíðlega: »Hvað á eg að gera Mr. Fogg?« »Það er ekkert vandverk að leysa úr því«, svaraði hann; haldið þér áfram til Norðurálfunnar«. »En eg get ekki farið að troða mér upp á yður«. »Þér troðið yður ekki það minsta upp á mig. Passe-partout«. »Já, herra«. »Farið þér út á Carnatic og pantið þrjú rúm«. Passe-partout varð stórglaður við þá tilhugsun, að unga frúin skyldi halda áfram að verða þeim samferða, því að hún hafði verið mjög vingjarnleg við hann. Hann fór því út úr hótelinu með glöðu geði, til þess að leysa af hendi erindi húsbónda síns. XIX. KAPÍTULI. Sýnir hvernig Passe-partout lét sér of ant um húsbónda sinn, og hver árangurinn varð. HONG Kong er að eins eyja, sem Bretar fengu umráð yfir með samningnum í Nankin árið 1843. Á fáum árum kom nýlendu-dugnaður Breta þar upp mikilsverðum bæ og fallegri höfn – Victoriu. Eyjan er fram undan minni Canton-fljótsins, að eins 60 mílur frá Macao, sem er hinumegin á ströndinni. Hong Kong hefir komizt fram úr hinni höfninni í verzlunarsökum, og meiri hlutinn af vörum Kínverja fer til Eyjarinnar. Þar eru skipakvíar, spítalar, flóðgarðar, vöruhús, dómkirkja, stjórnarhús, macadamiséraðir vegir o.s. frv., og er Hong Kong-bær eins enskur ásýndum og hver sem helzt bær í Kent eða Surrey, sem af tilviljun er bygður af andfætingunum. Passe-partout varð reikað með hendurnar í vösunum til Port Victoria, glápti á fólkið, jafnóðum og það fór fram hjá honum, og dáðist að burðarstólunum og öðrum flutningafærum. Honum sýndist bærinn líkur Bombay, Calcutta og Singapore, eða hverjum öðrum bæ, sem Englendingar hafa flutt til og sezt að í. Við höfnina, sem er fram undan mynni Banton-fljótsins, var reglulegur urmull af allra þjóða skipum, kaupskipum og herskipum; þar voru kínversk skip og kvenbátar og jafnvel blómsturbátar, líkir fljótandi aldingarðapörtum. Passe-partout tók eftir nokkrum þarlendum, rosknum mönnum, klæddum í nankínföt; og þegar hann fór að láta raka sig, spurði hann rakarann, sem talaði dável ensku, hverjir þessir menn væru. Honum var svarað, að þessir menn væru allir áttræðir, og hefðu því leyfi til að skrýðast lit keisarans, það er að segja gula litnum. Passe-partout þótti það mjög skrítið, án þess honum væri fyllilega ljóst, hvers vegna honum þótti það. Þegar búið var að raka hann, gekk hann ofan að lendingargarðinum, sem Carnatic átti að fara frá, og þar fann hann Fix, gangandi fram og aftur, og sýndist hann vera mikilli geðshræringu. »Hó, hó!« hugsaði Passe-partout; »þetta lítur ekki vel út fyrir Framfara-klúbbinn«. Og svo ávarpaði hann lögregluþjóninn með glaðlegu brosi, án þess að láta á því bera, að hann hefði tekið eftir, hve illa lá á honum. Fix hafði sannarlega góða ástæðu til að vera í órólegu skapi. Handtöku-heimildin var enn ekki komin. Það var enginn vafi á því, að hún var á leiðinni, en það var alveg ómögulegt, að hún gæti komið til Hong Kong fyrr en eftir nokkra daga, og þar sem þetta var síðasta brezka landið, sem Mr. Fogg mundi koma við í, þá hlaut hann að komast undan, svo framarlega sem ekki yrði tafið fyrir honum með einhverju móti. »Jæja, Mr. Fix«, sagði Passe-partout, »hafið þér ráðið af að verða okkur samferða til Ameríku?« »Já«, svaraði Fix og nísti tönnum. »Komið þá með mér«, sagði Passe-partout og hló hátt; »eg vissi, að þér gátuð ekki skilið við okkur. Komið og pantið yður rúm«. Svo fóru þeir til skrifstofunnar og pöntuðu fjögur rúm. Ritarinn á skrifstofunni lét þá vita, að Carnatic hefði fengið fulla viðgerð og legði af stað um kveldið kl. 8, en ekki morguninn eftir, eins og áður hefði verið auglýst. »Gott og vel«, sagði Passe-partout, »það hentar húsbónda mínum ágætlega. Eg ætla að fara og segja honum frá því«. Og nú afréð Fix að leggja mjög á tvær hættur. Hann ætlaði sér að segja Passe-partout hreinan sannleikann. Það var ef til vill með því einu móti, að hann gat haldið Phileas Fogg í Hong Kong. Þegar þeir fóru út úr skrifstofunni, bauð Fix lagsbróður sínum hressingu, og þáði Passe-partout boðið. Rétt hjá var veitingastaður og fóru þeir inn; þeir komu inn í stórt, vel búið herbergi; í öðrum endanum á því var rúmstæði, sem tók fjölda manns, og dýnur á því. Lágu þar allmargir menn sofandi. Hér um bil 30 manns sátu við lítið borð og drukku bjór, porter, brennivín og aðra áfenga drykki; og flestir þeirra, sem að drykkjunni sátu, voru að reykja úr rauðum, löngum leirpípum, fullum með ofurlitlum ópíumskúlum, bleyttum í rósavatni. Við og við stungust reykingamennirnir undir borðið, og tóku þá þjónarnir þá og lögðu þá í rúmið í endanum á herberginu. Alls voru þessir reykingamenn, sem orðnir voru út úr, um tuttugu. Fix og Passe-partout sáu, að þeir voru komnir inn í eitt reykingahúsið, sem sótt er af þeim fábjána-görmum, sem hneigðir eru til eins af hinum skaðlegustu löstum mannkynsins – að reykja ópíum, sem enskir kaupmenn selja á ári hverju fyrir eina miljón og fjögur hundruð þúsund pund sterling. Kínverska stjórnin hefir reynt að bæta úr þessu illendi með hörðum lögum, en það hefir orðið árangurslaust. Þessi siður hefir gengið frá auðugu stéttunum niður til hinna fátækustu, og nú er ópíum reykt hvarvetna á öllum tímum af konum og körlum, og þeir, sem hafa vanið sig á þann sið, geta ekki án ópíumsins verið. Mikill reykingamaður getur reykt átta pípur á dag, en hann deyr á fimm árum. Það var inn á eina af þessum krám, að Fix og Passe-partout höfðu komið til þess að fá sér hressingu; Passe-partout var peningalaus, en þáði boð lagsbróður síns, og vonaði að geta endurgoldið honum kurteisina einhvern tíma seinna. Fix bað um tvær flöskur af portvíni, og gerði franski þjónninn þeim allgóð skil, en Fix fór gætilegar, og gætti nákvæmlega að lagsbróður sínum. Þeir töluðu um ýmislegt, og sérstaklega um þann gleðilega ásetning Fix, að taka sér far með Carnatic, og það minti Passe-partout á, að hann ætti að fara að gera húsbónda sínum aðvart um breytinguna á farartíma gufuskipsins, og með því að flöskurnar voru orðnar tómar, þá ætlaði hann að fara að gera það. »Bíðið þér rétt eitt augnablik«, sagði Fix og hélt í hann. »Hvað viljið þér, Mr. Fix?« »Mig langar til að tala við yður alvarlega«. »Alvarlega!« hrópaði Passe-partout. – »Jæja þá, við skulum tala saman á morgun; í dag hefi eg engan tíma«. »Þér ættuð heldur að bíða«, sagði Fix; »það kemur húsbónda yðar við«. Passe-partout leit fast á lagsbróður sinn, og með því að svipurinn á andlitinu á honum var nokkuð einkennilegur, þá settist hann aftur niður. »Hvað hafið þér að segja mér?« sagði hann. Fix lagði höndina á handlegg lagsbróður síns og sagði í lágum rómi: »Þér hafið getið yður til, hver eg er; er ekki svo?« »Eg er ekki frá því«, svaraði Passe-partout. »Jæja þá, eg ætla að segja yður satt frá öllu«. »Já, þér ætlið að gera það nú, þegar eg veit alt, kunningi. Það er ekki svo fráleitt. En hvað sem því líður, þá skuluð þér halda áfram. En lofið þér mér fyrst að segja yður, að þessir herrar hafa sent yður út í sjóðandi vitleysu«. »Það er auðséð, að þér vitið ekki, hvað mikið fé er um að ræða«. »Ójú, það veit eg«, sagði Passe-partout, »það eru tuttugu þúsund pund«. »Fimmtíu þúsund«, svaraði Fix og hristi höndina á franska þjóninum. »Hvað!« hrópaði Passe-partout, »hefir Mr. Fogg lagt á tvær hættur með fimmtíu þúsund pund? »Jæja þá, því meiri ástæða til að eyða ekki tímanum«, bætti hann við og stóð upp af stólnum. »Fimmtíu þúsund pund«, hélt Fix áfram og neyddi lagsbróðir sinn til að setjast niður aftur, og var um leið sett fyrir þá kognaksflaska; »og heppnist mér erindið, þá fæ eg tvö þúsund punda þóknun. Ef þér viljið rétta mér hjálparhönd, þá skal eg gefa yður fimm hundruð«. »Rétta yður hjálparhönd!« hrópaði Passe-partout, og glápti á lögregluþjóninn frá sér numinn. »Já, rétta mér hjálparhönd til þess að halda Mr. Fogg hér nokkrum stundum lengur«. »Hvað erað þér að segja?« sagði Passe-partout. »Er því svo varið, að þessir herrar séu ekki ánægðir með að elta húsbónda minn, heldur bæti gráu ofan á svart með því að leggja tálmanir á leið hans? Eg skammast mín fyrir þá«. »Hvað eruð þér að tala um?« sagði Fix. »Eg segi, að slíkt sé tuddaskapur; þeir gætu eins vel stolið úr vösum Mr. Foggs«. »Það er einmitt það, sem við viljum gera«. »þetta er þá samsæri – er það það?« hrópaði Passe-partout; hann var orðinn ör af kognakinu, sem hann helti í sig án þess að hugsa út í það; »reglulegt samsæri og þeir kalla sig gentlimenn og vini hans!« Fix fór að þykja þetta furðu kynlegt. »Þeir eru líka vinir hans!« hrópaði Passe-partout, »þessir Framfara-klúbbs menn, eða hitt þó heldur. Vitið þér, Mr. Fix, að húsbóndi minn er sómamaður, og að þegar hann hefir veðjað um eitthvað, þá vinnur hann ekki með neinum brögðum?« »En getið þér getið upp á hver eg er?« sagði Fix og leit fast framan í Passe-partout. »Sendimaður klúbbsmannanna, sem vilja tálma ferð húsbónda míns; það er ótuktarerindi þetta; þess vegna hefi eg ekki getað fengið af mér að koma upp um yður við Mr. Fogg, þó að eg, hafi komist að því fyrir löngu, hver þér eruð«. »Hann veit þá ekkert um það«, sagði Fix fljótlega. »Ekkert«, svaraði Passe-partout og drakk enn einu sinni út úr glasinu sínu, Leynilögregluþjónninn strauk hendinni yfir augun á sér, og hugsaði sig um, hvað hann ætti að gera. Það var svo að sjá sem Passe-partout væri húsbónda sínum einlægur, og það gerði fyrirætlanir hans langt um örðugri; en hann var auðsjáanlega ekki í vitorði með húsbónda sínum. »Þess vegna hjálpar hann mér«, sagði Fix við sjálfan sig. Nú var engum tíma að eyða. Það varð að tefja fyrir Fogg í Hong Kong, hvað sem það kostaði. »Heyrið þér«, sagði Fix í höstum tón; »eg er ekki það, sem þér haldið að eg sé«. »Þvættingur«, sagði Passe-partout. »Eg er leynilögregluþjónn, sendur af lögreglustjórninni í Lundúnum«. »Þér leynilögregluþjónn?« »Já, eg get sannað það. Hér er mitt umboð«, og svo dróg hann blað út úr vasabók sinni, og sýndi Passe-partout skipanir þær, sem hann hafði fengið. Passe-partout var svo frá sér numinn, að hann gat ekki komið upp neinu orði. »Þetta veðmál Mr. Foggs«, hélt Fix áfram, »er ekki til annars en þess að kasta ryki í augun á yður og félögum hans í Framfara-klúbbnum. Honum gekk nokkuð til að flækja yður inn í málið, að yður óafvitandi«. »En hvað gekk honum til?« sagði Passe-partout. »Það skal eg segja yður. Þann 28. september síðastliðinn var stolið fimmtíu og fimm þúsund pundum úr Englands bankanum, af manni, sem menn til allrar hamingju vita lýsinguna á. Þessi lýsing á alveg við Mr. Fogg«. »Þetta er argvítugasti þvættingur«, hrópaði Passe-partout og barði með hnefanum niður í borðið; »húsbóndi minn er einn af mestu heiðursmönnum, sem til eru í heiminum«. »Hvað vitið þér um það?«, svaraði Fix. »Þér genguð ekki í hans þjónustu fyr en sama daginn, sem hann lagði út í þessa vitleysislegu ferð, farangurslaus, en með ógrynni af peningum í bankaseðlum; og þorið þér svo að fullyrða, að hann sé heiðursmaður?« »Já, já«, sagði Passe-partout, eins og ósjálfrátt. »Langar yður til að vera tekinn fastur fyrir að vera í vitorði með honum?« Passe-partout þreif með báðum höndum utan um höfuðið á sér; hann var alveg utan við sig. Hann þorði ekki að líta á lögregluþjóninn. Phileas Fogg þjófur! Þessi hugprúði göfuglyndi maður, sem hafði frelsað Aoudu, þjófur! Og þó voru líkurnar miklar. Passe-partout vildi ekki trúa því. Hann gat ekki trúað því, að húsbóndi sinn væri glæpamaður. »Jæja þá, hvað viljið þér láta mig gera?« sagði hann, og átti hann örðugt með það. »Skoðið þér til«, sagði Fix: »Eg hefi elt Mr. Fogg hingað, en enn þá hefi eg ekki fengið neina handtökuheimild, sem eg hefi beðið um að mér yrði send frá Lundúnum. Þér verðið að hjálpa mér til að halda húsbónda yðar í Hong Kong«. »En eg –« »Ef þér gerið það, þá skal eg skifta milli okkar þessum tveim þúsundum punda, sem bankinn hefir lofað að launum«. »Það geri eg aldrei!« svaraði Passe-partout og reyndi að standa upp, en hneig aftur á bak, alveg máttlaus og út úr. »Mr. Fix«, stamaði hann, »jafnvel þótt þér segið mér satt, og húsbóndi minn sé þjófurinn, sem þér eruð að leita að – sem eg neita – þá hefi eg verið, og er enn í hans þjónustu; honum ferst vel og göfugmannlega við mig, og eg svík hann aldrei fyrir alt heimsins gull«. »Þér neitið þá?« »Algerlega«. »Jæja þá«, sagði Fix; »þá skuluð þér gleyma þessu öllu, sem eg hefi sagt. Og svo skulum við fá okkur í staupinu«. »Já, við skulum fá okkur eitt glas til«. Passe-partout fann, að hann var alt af að verða fyllri og fyllri. Fix hafði ráðið af, að hann skyldi ná honum frá húsbónda hans, hvað sem það kostaði, og nú ætlaði hann að láta verða af því. Á borðinu lágu nokkrar ópíumspípur. Fix rétti Passe-partout eina þeirra; hann dró að sér fáeina reyki og féll svo alveg meðvitundarlaus aftur á bak. »Loksins«, tautaði Fix, þegar Passe-partout hneig út af. »Mr. Fogg fær engar fregnir af, að farartími Carnatics hafi breytzt, og ef hann fréttir það, þá má hann vera án þessa bölvaða franska þjóns«. Svo borgaði hann það, sem hann skuldaði, og fór út úr drykkjustofunni. XX. KAPÍTULI. Sýnir hvernig Fix og Fogg hittust augliti til auglitis. FRAMTÍÐAR-HORFUM Mr. Foggs var mikil hætta búin af viðburðum þeim, sem nú hefir verið skýrt frá. Meðan þeir gerðust, var þessi herra og Aouda að ganga um bæinn. Eftir að hún hafði tekið boði Mr. Foggs að flytja hana til Englands, langaði hana til að kaupa ýmsa muni til ferðarinnar, því að kona getur ekki ferðast með að eins eina handtösku, eins og karlmaður getur gert. Hún keypti sér því ýms nauðsynleg föt og fleira, og Mr. Fogg vann bug á allri hennar undanfærslu með sínu einkennilega göfuglyndi. »Það er mér sjálfum í hag«, svaraði hann alt af; »það er partur af minni ferðaáætlun«. Eftir að þau höfðu keypt það, sem þau þurftu á að halda, sneru þau aftur til hótellsins til þess að borða miðdegismat. Mrs. Aouda fór því næst að fá sér nokkra hvíld, og skildi Mr. Fogg eftir lesandi Times og Illustrated News. Hefði Mr. Fogg verið hætt við að furða sig á nokkrum sköpuðum hlut, þá hefði hann orðið hissa á því, að þjónn hans skyldi ekki vera kominn um háttatíma. En hann hélt að gufuskipið legði ekki af stað til Yokohama fyrr en morguninn eftir, og hirti því ekki um frávist þjónsins. En Passe-partout kom ekki, þegar Mr. Fogg hringdi á hann morguninn eftir, og þá frétti hann, að þjónninn hefði ekki komið um nóttina. Mr. Fogg lét dót sitt niður í tösku sína án þess að segja eitt einasta orð, og lét svo kalla á Mrs. Aoudu og sækja burðarstól. Klukkan var þá 8, og Carnatic átti að leggja af stað um flóðtíma, kl. 9½. Mr. Fogg og samferðakona hans fóru upp í burðarstólinn og komust ofan að lendingargarðinum. Þá fyrst var þeim sagt, að Carnatic hefði lagt af stað kveldinu fyrir. Mr. Fogg hafði statt og stöðugt búist við að hitta þarna gufuskipið og þjón sinn, hvorttveggja bíðandi eftir honum, en nú rak hann sig á það, að hann varð að fara beggja á mis. Það sást ekki á honum, að honum yrði neitt órótt; hann sagði að eins við Mrs. Aoudu: »Venjulegt ferðaóhapp, ekkert annað, frú mín«. »Voruð þér ekki einn af farþegunum á Rangoon í gær, eins og eg var sjálfur?« »Jú«, svaraði Mr. Fogg kuldalega; »en eg hefi ekki þá æru –« »Fyrirgefið þér, en eg bjóst við að finna þjón yðar hér«. Vitið þér hvar hann er?« spurði unga frúin fljótlega. »Hvað!« hrópaði Fix og lét sem hann yrði steinhissa, »er hann ekki með yður?« »Nei«, svaraði Mrs. Aouda, »hann hefir ekki fundið okkur síðan í gær. Ef til hefir hann farið með Carnatic«. »Án yðar, frú mín?« sagði lögregluþjónninn. »Fyrirgefið þér forvitnina, en ætluðuð þér ekki að fara með því skipi?« »Jú«. »Það ætlaði eg líka; og eg er hræðilega gramur. Sannleikurinn er sá, að Carnatic var ferðbúið 12 stundum áður en búist var við, og nú verðum við að bíða tólf daga eftir næsta gufuskipi«. Fix var fögnuður að segja þetta. Eftir 8 daga átti hann von á handtökuheimildinni. Horfurnar voru góðar fyrir honum. En það má geta nærri, hve gramur hann var, þegar hann heyrði Fogg segja með sinni vanalegu stillingu: »Eg býzt við, að það séu fleiri skip í Hong Kong höfn en Carnatic«; og svo bauð hann Mrs. Aoudu arminn og stefndi til skipakvíanna. Fix hélt í humátt á eftir honum, gramur mjög. Það var eins og hann væri bundinn við Fogg með, einhverju ósýnilegu bandi. En hamingjan hafði auðsjáanlega yfirgefið Phileas Fogg. Þrjár langar stundir gekk hann um skipakvíarnar og reyndi að leigja skip til að flytja sig til Yokohama; en það var annaðhvort verið að ferma eða afferma hvert einasta skip, og þau gátu ekki farið. Lögregluþjóninum fór aftur að verða léttara um hjartaræturnar. En Mr. Fogg lét ekki hugfallast. Hann réði af að halda leit sinni áfram, enda þótt hann yrði að fara yfir um til Macao. Loks náði sjómaður einn í hann. »Eruð þér að leita að bát, virðulegi herra?« »Hafið þér bát, sem þér getið lagt af stað í tafarlaust?« spurði Mr, Fogg. »Já. Eg hefi hafnsögumannsbát, nr. 43; bezti bátur í höfninni«. »Er hann hraðskreiður?« »Hann getur farið 8 eða 9 knúta á klukkutímanum, eða meira, Viljið þér sjá hann?« »Já«. »Yður lízt vel á hann, það er eg viss um. Þurfið þér hann til að skreppa einhvern spöl í honum?« »Nokkuð meira en það; langa sjóferð«. »Langa sjóferð?« »Eg þarf að fá yður til að flytja mig til Yokohama«. Sjómaðurinn spenti greipar og leit fast framan í Mr. Fogg. »Er yður alvara, virðulegi herra?« sagði hann. »Já. Eg hefi mist af Carnatic, og eg verð að vera kominn til Yokohama þann 14. í síðasta lagi, til þess að ná í skipið, sem fer til San Francisco«. »Mér þykir mjög fyrir því«, svaraði hafnsögumaðurinn, »en það er ómögulegt«. »Eg skal borga yður 100 pund um daginn og 200 pund í ofanálag, ef þér komið í tíma«. »Er yður alvara?« spurði hafnsögumaðurinn. »Mjög mikil alvara«, svaraði Mr. Fogg. Hafnsögumaðurinn fór að ganga fram og aftur eftir flóðgarðinum; hann leit til sjávar og voru auðsjáanlega að berjast í huga hans, löngunin til að fá peningana og hræðslan við að hætta sér svo langt út á hafið. Fix var alt af á nálum. Mr. Fogg sneri sér að Mrs. Aoudu, og spurði hana, hvort hún væri hrædd. »Ekki með yður, Mr. Fogg«, svaraði unga frúin. Rétt í því bili kom hafnsögumaðurinn til þeirra, og sneri hattinum hart milli handa sér. »Já-já, hafnsögumaður?« sagði Mr. Fogg. »Eg skal segja yður, virðulegi herra«, svaraði hafnsögumaðurinn, »eg get ekki lagt líf mitt né manna minna, né jafnvel yðar, í slíka hættu, eins og um er að ræða á annari eins sjóferð, á jafnlitlu skipi um þetta leyti árs. Auk þess gætum við ekki komið til Yokohama í tíma. Sá bær er eitt þúsund sex hundruð og fimmtíu mílur héðan«. »Ekki nema eitt þúsund og sex hundruð« sagði Mr. Fogg. »Ó, það stendur alveg á sama«. Fix fór að anda aftur skaplega. »En«, hélt hafnsögumaðurinn áfram, »við kynnum að geta komið því fyrir á annan hátt«. Fix þorði naumast að draga andann. »Við hvað eigið þér?« spurði Fogg. »Með því að fara til Nagasaki, sem er að eins ellefu hundruð mílur héðan, eða til Shanghai, sem er átta hundruð mílur héðan. Ef við förum til Shanghai, getum við haldið með ströndum fram og haft gagn af straumunum«. »En«, svaraði Fogg, »eg verð að ná í ameríkanska póstskipið í Yokohama, en get ekki gert það í Shanghai eða Nagasaki«. »Ja, því ekki það?« svaraði hafnsögumaðurinn. »San Fransisco fer ekki fyrst frá Yokohama; það leggur af stað frá Shanghai, og kemur að eins við á leiðinni í Yokohama og Nagasaki«. »Eruð þér alveg viss um það?« »Alveg viss«. »Og hvenær fer skipið frá Shanghai?« »Þann 11., kl. 7 að morgninum. Svo höfum við 4 daga, sem er sama sem 96 klukkutímar; og ef við förum 8 hnúta á klukktímanum, og vindurinn heldur sér, þá náum við til Shanghai nógu snemma«. »Og hvenær getið þér lagt af stað?« »Eftir klukkutíma. Eg þarf að eins að kaupa mér nokkur matvæli til ferðarinnar, og festa seglin við rárnar«. »Gott og vel, við kaupum þá þessu. Eigið þér skipið«. »Já; eg heiti John Bunsby, og er eigandi bátsins Tankadere«. »Viljið þér fá eitthvað fyrir fram?« »Ef þér eigið hægt með, virðulegi herra«. »Hérna eru tvö hundruð pund. »Heyrið þér«, hélt Fogg áfram og sneri sér að Fix, »ef þér skylduð vilja nota tækifærið –« »Þakka yður fyrir«, svaraði Fix. »Eg ætlaði að fara að biðja yður að gera mér þann greiða«. »Jæja þá, við verðum ferðbúnir eftir hálfan tíma«. »En hvað eigum við að gera við þjóninn?« sagði Mrs. Aouda; henni féll mjög illa frávera Passe-partouts. »Eg geri alt fyrir hann, sem eg get«, svaraði Fogg; þau stefndu svo til lögreglustöðvanna, en Fix fór út á bát hafnsögumannsins. Phileas skildi eftir hjá lögreglustjórninni lýsing á þjóninum og peninga, sem varið skyldi verða til að leita hans. Sama gerði hann hjá franska konsúlnum; svo ráðstöfuðu þau farangri sínum, sem hafði verið sendur aftur til hótelsins, og fóru þar næst ofan að flóðgarðinum. Klukkan sló 3; hafnsögumanns-báturinn nr. 43 var ferðbúinn. Það var ofurlítil skonnorta, flutti hér um bil 20 tons, og var smíðuð með sérstöku tilliti til hraðans, líkt og kappsiglingaskip. Skipið var eins hreint og fágað eins og mögulegt var, og það var auðséð, að Bunsby var stoltur af bátnum sínum. Möstrin hölluðust dálítið. Skipið hafði stagsegl og þau venjulegu segl, sem jafnstór skip hafa. Það var auðsjáanlega hraðskreitt, eins og líka hafði sýnt sig, þar sem það hafði unnið ýms verðlaun. Skipshöfnin samanstóð af eigandanum og fjórum öðrum mönnum, sem allir voru kunnugir sjónum þar í grendinni, því að þeir höfðu farið þar aftur og fram í leit eftir skipum, sem þyrftu hafnsögumanns við. John Bunsby var hér um bil 45 ára gamall, fjörmaður, úrræðagóður og kjarkmikill, og vel fallinn til að hughreysta hina hræðslugjörnustu farþega. Phileas Fogg og Mrs. Aouda fóru út á skipið, og hittu þar Fix; hann var þar búinn að koma sér fyrir. Það var heldur þröngt um þau, en alt var hreint og snoturt. »Mér þykir fyrir því að hafa ekkert betra að bjóða yður«, sagði Mr. Fogg við Fix. Fix hneigði sig þegjandi, því að honum þótti hálfgerð skömm að því að þiggja greiðasemi Mr. Foggs eins og á stóð. »Hann er að minsta kosti mjög kurteis«, sagði hann við sjálfan sig, »þó aldrei nema hann sé þorpari«. Klukkan tíu mínútur eftir þrjú voru seglin undin upp, og enska flaggið dregið upp á gaffalinn; farþegjarnir litu til flóðgarðanna í síðasta sinn, í þeirri von að grilla í Passe-partout, en þeim brást sú von. Fix var hálfhræddur um, að eitthvað það kynni að koma fyrir, sem ylli því að pilturinn, sem hann hafði farið svo illa með, kynni að koma, og að þá kynni að koma fram sú skýring á málinu, sem ekki yrði sem þægilegust fyrir hann sjálfan. En franski þjónninn kom ekki, og var vafalaust enn undir áhrifum ópíumsins. Svo lét John Bunsby í haf, og Tankadere þaut fjörlega eftir öldunum fyrir rúmum vindi. XXI. KAPÍTULI. Sýnir, hvernig eiganda skipsins Tankadere liggur við að missa af 200 punda þóknuninni. ÞESSI 800 mílna sjóferð er hættumikil um þann tíma og yfir slíkan sjó, sem venjulega er illur, einkum um jafndægra leytið, og þetta var í byrjuninni á nóvember. Eiganda Tankaderes hefði verið mikill hagur í því að fara til Yokohama, þar sem honum var borgað svo mikið fyrir hvern daginn, en slík sjóferð hefði verið framúrskarandi mikið áhættuspil. Það var hættuferð að fara til Shanghai; en John Bunsby bar traust til skips síns, sem var ágætt siglingaskip, og ef til vill var honum það óhætt. »Eg þarf víst ekki að brýna fyrir yður að hraða yður«, sagði Fogg við Bunsby, þegar þeir höfðu látið í haf. »Þér getið reitt yður á mig, virðulegi herra«, svaraði Bunsby; »eg skal gera alt, sem í mínu valdi stendur«. »Gott og vel, þér eigið hér yfir að ráða, og eg treysti yður algerlega«. Þegar Phileas Fogg stóð uppréttur, nokkuð fótgleiður, og horfði út yfir freyðandi sjóinn, var hann eins stöðugur og sjómaður. Mrs. Aouda sat aftarlega á skipinu, og var nokkur taugaóstyrkur í henni, þegar hún virti hafið fyrir sér. Seglin þöndust út yfir höfðum þeirra líkt og stórvaxnir vængir, og skonnortunni miðaði drjúgum. Nóttin datt á. Tunglið var ekki nema á fyrsta kvartéli, og ekki leið á löngu, að ljós þess hyrfi undir sjóndeildarhringinn. Ský voru að koma upp í austrinu, og voru þegar orðin allmikil. Hafnsögumaðurinn hengdi út ljósker skipsins, enda var það bráðnauðsynlegt, því það var alls ekki sjaldgæft, að skip rækust á þar, og hefði slíkt hent litla, fallega bátinn, með þeim hraða sem nú var á honum, þá hefði hann alveg farið í smámola. Fix settist upp í framstafninn, og var þar einn út af fyrir sig, því að hann vissi, að Fogg talaði ekki mikið; auk þess var honum ekki mikið um það gefið að sitja í samræðum við þennan mann, sem hann hafði þegið svo mikinn greiða af. Hann var að hugsa fram í tímann, því að nú virtist það áreiðanlegt, að Fogg mundi ekki standa við í Yokohama, heldur mundi þegar stíga á skipið, sem til Francisco átti að fara, til þess að komast til Ameríku, því að þar var honum óhætt. Lögregluþjóninum virtist fyrirætlun Foggs mjög blátt áfram. Fogg hafði farið yfir þrjá fjórðu hluta hnattarins, til þess að geta á sem óhultastan hátt komist til Ameríku, í stað þess að leggja af stað frá Englandi beina leið til Bandaríkjanna; og þegar hann var einu sinni þangað kominn, þá gat hann notið þýfisins í mestu makindum. En hvað gat Fix gert í Bandaríkjunum? Átti hann að hætta við manninn? Nei, alls ekki; og hann ætlaði ekki að missa sjónar af honum, fyrr en hann hefði fengið hann framseldan. Þetta var hans skylda, og hann ætlaði að standa við hana, þó örðugt yrði. Eitt gat hann að minsta kosti þakkað fyrir, það, að Passe-Partout var ekki með húsbónda sínum; og eftir að Fix hafði trúað honum fyrir svo miklu leyndarmáli, var það mjög áríðandi, að hann findi ekki húsbónda sinn skyndilega. Phileas Fogg var sjálfur að hugsa um þjón sinn, sem hafði horfið svo undarlega. En eftir því, sem á stóð, þótti honum ekki ólíklegt, að pilturinn hefði farið út á Carnatic á síðasta augnabliki. Þetta hélt Mrs. Aouda líka, því að henni þótti mjög fyrir um hvarf piltsins, þar sem hún átti honum svo mikið gott upp að unna. Það gat því vel verið, að þau fyndu hann í Yokohama, og ef hann hafði verið á Carnatic, þá hlaut að vera auðvelt að fá að vita það. Hér um bil kl. 10 fór að hvessa, og þó að það hefði kunnað að vera hyggilegt að lækka seglin dálítið, þá lét hafnsögumaður þau halda sér, eftir nákvæmari athugun, því að Tankadere þoldi segl sín vel; en alt var reiðubúið til að lækka seglin, ef á þyrfti að halda. Um miðnæturskeið tóku þau Phileas Fogg og Aouda á sig náðir. Fix hafði áður gengið til rekkju, en skipseigandinn og hásetar hans voru á þilfarinu alla nóttina. Um sólaruppkomu morguninn eftir hafði skonnortan farið 100 mílur. Hraðamælirinn sýndi, að skipið fór átta eða níu hnúta á klukkutímanum. Þeim miðaði enn drjúgum, og héldist vindurinn, þá var líklegt, að fyrirætlun þeirra mundi takast. Skipið hélt fram með ströndinni allan þann dag. Sjórinn var ekki mjög illur, því að vindur stóð af landi, og var það mjög heppilegt, þar sem báturinn var svo lítill. Um hádegi lægði goluna dálítið, og snerist í suðaustrið. Skipseigandinn setti upp toppseglin, en dró þau aftur saman, því svo sýndist, sem aftur ætlaði að hvessa. Mr. Fogg og Mrs. Aouda voru ekki sjóveik og borðuðu með góðri matarlyst; þau buðu Fix að borða með sér og varð hann að þiggja það, þó honum væri það nauðugt. Hann kunni ekki vel við að ferðast og borða á kostnað þess manns, sem hann var að elta; en hann neyddist til að eta, og svo át hann. Eftir miðdagsmatinn fékk hann tækifæri til að tala við Mr. Fogg einslega. »Herra minn«, sagði hann – þetta ávarp brendi á honum varirnar, svo að segja, og hann fann, að hann varð að hafa gát á sér; honum fanst hendi næst að taka þennan »gentleman« fastan – »herra minn«, sagði hann, »það er mjög vel gert af yður að lofa mér að vera með á skipinu; en þó eg hafi ekki efni á að eyða eins miklum peningum eins og þér gerið, þá langar mig til að borga fyrir mig«. »Þér skuluð ekki minnast neitt á það«, svaraði Mr, Fogg. »En ef eg stend nú fastur á því?« »Nei«, svaraði Fogg í málróm, sem gaf til kynna, að Fogg væri ófáanlegur til að tala meira um það mál, »þetta er innifalið í mínum aðalkostnaði«. Fix hneigði sig; honum fanst næstum því eins og hann ætlaði kafna; og hann gekk frá Fogg, settist niður og talaði ekki orð allan daginn. Meðan á þessu stóð miðaði þeim drjúgum, John Bunsby vonaði, að sér mundi takast áform sitt, og sagði hvað eftir annað við Mr. Fogg, að »þeir mundu koma nógu snemma«; Fogg svaraði því ekki öðru, en að »hann treysti á það«. Hásetarnir höfðu líka von um þóknun, og lögðu mikið á sig. Á engum streng þurfti að herða, ekkert segl var linlega dregið upp, og maðurinn, sem við stýrið stóð, hefði ekki getað bætt á sig einum einasta óþörfum hnykk. Skipverjar hefðu ekki getað látið skonnortuna fara hraðar, þó að hún hefði verið að taka þátt í kappsigling konunglega siglinga-klúbbsins. Um kveldið sýndi hraðamælirinn, að þau höfðu farið tvö hundruð og tuttugu mílur, og Mr. Fogg vonaði, að þegar hann kæmi til Yokohama mundi hann ekki þurfa að færa neina töf inn í dagbók sína. Færi svo, þá var líka óhætt um, að þessi eini hnekkir, sem hann hafði orðið fyrir frá því, er hann fór frá Lundúnum, mundi ekki gera ferðalagi hans neitt til. Undir morguninn fór Tankadere inn í Fokiensundið, sem aðgreinir Formosa og kínversku ströndina. Mjög illt var í sjóinn, og örðugt að standa á þilfarinu. Um dögun herti goluna enn meir, og voru allar horfur á, að von mundi vera á ofsaveðri. Kvikasilfrið gerði ýmist að stíga eða falla. Í suðaustri reis sjórinn í löngum öldum, sem bentu á ofviður. Hafnsögumaðurinn virti himininn fyrir sér lengi, og sagði loksins við Mr. Fogg: »Eg býst við, að mér sé óhætt að segja yður hvað eg hugsa, virðulegi herra?« »Auðvitað«, svaraði Fogg. »Jæja þá, það ætlar að koma á okkur ofsaveður«. »Norðanveður eða sunnanveður?« spurði Mr. Fogg stillilega. »Sunnanveður. Það er rétt kominn fellibylur«. »Mér þykir vænt um, að hann verður á sunnan; það flýtir fyrir okkur«. »Ó, ef þér lítið á það frá þeirri hlið«, sagði Bunsby, »þá hefi eg ekki meira að segja«. Hugboð Bunsbys rættist. Að sumri til hefði líklegast ekki orðið annað úr bylnum en þrumuveðursdemba, en að vetrarlaginu mátti við honum búast. Hafnsögumaðurinn bjóst því um sem bezt hann mátti. Hann tók saman seglin, lét að eins stormseglið standa, og beið þess, er koma kynni. Hafnsögumaðurinn bað farþegja sína að fara ofan í káetuna, en í öðrum eins þrengslum og þar voru, var alt annað en þægilegt varðhaldið, svo að ekkert þeirra vildi yfirgefa þilfarið. Um kl. 8 kom á þau fellibylurinn með straumum af regni. Það lá við, að stormurinn lyfti Tankadere upp úr vatninu. Skipið þaut eftir sjónum líkt og þegar járnbrautarvél fer sem hraðast. Allan þennan dag barst skipið með geysihraða norður á við, eftir hryggjunum á feykilegum bylgjum. Við og við lá við, að öldurnar skyllu með öllu yfir það, en hafnsögumaðurinn stýrði því varlega. Farþegarnir urðu rennandi af roki, en tóku því með þolinmæði. Fix var vafalaust gramur; en Aouda virti samferðamann sinn fyrir sér, dáðist að stillingu hans, og reyndi að líkja eftir henni. Af Phileas Fogg er það að segja, að hann lét eins og alveg ekkert væri um að vera. Alt til þessa hafði Tankadere haldið norður á við, en undir kveldið snerist vindurinn í norðvestrið, enda hafði hafnsögumaðurinn verið hræddur um, að svo mundi fara. Það var voðalegt, þegar skonnortan var að steypast ofan í bylgjudalina, og vel var það farið, hve sterk hún var. Veðrið óx um nóttina, ef það var annars mögulegt, og John Bunsby fór ekki að lítast á blikuna; hann réðst um við háseta sína, hvað gera skyldi. Svo kom hann til Mr. Foggs og sagði: »Eg held við ættum að halda til einhverrar hafnarinnar hér í grendinni«. »Það held eg líka«, svaraði Fogg. »Já«, sagði hafnsögumaðurinn; »en hverrar?« »Eg þekki ekki nema eina«, sagði Fogg rólega. »Og það er –?« »Shanghai«. Í fyrstu hnykkti hafnsögumanninum fremur við þetta svar; en honum var kunnugt um staðfestu Mr. Foggs og sagði: »Já, þér hafið rétt að mæla, virðulegi herra. Við skulum láta það vera Shanghai«. Svo héldu þeir í sama horfið. Nóttin var voðaleg; það sýndist kraftaverk, að litla skipið skyldi ekki farast. Tvisvar sinnum lukust öldurnar saman um það, og hefði þá verið út um það, ef ekki hefði verið lagt til drifs. Mrs. Aouda rauk um koll, og oftar en einu sinni þaut Mr. Fogg til hennar til þess að aðstoða hana, jafnvel þótt hún kæmi ekki með neinar kvartanir. Í dögun var enn sama ofviðrið, en alt í einu snerist vindurinn til suðausturs. Þetta var breyting til hins betra, og Tankadere gat aftur farið sinna ferða, þó að krossbylgjurnar gæfu henni oft hræðilega skelli, sem nægt hefðu til að mola ótraustari bát. Við og við sást ströndin gegn um móðuna, en ekkert segl var sýnilegt. Um hádegisbil birti dálitið til, ofviðrið hafði eytt sjálfu sér og ferðafólkið gat tekið á sig nokkrar náðir. Um nóttina var tiltölulega kyrt, og hafnsögumaður dró því upp dálítið meira af seglum, og um dögun morguninn eftir gat John Bunsby sagt, að ekki væru eftir fullar hundrað mílur til Shanghai. Hundrað mílur, og ekki nema einn dagur eftir til þess að komast þær. Um kvöldið áttu þau að vera komin til Shanghai, svo framarlega sem þau ætluðu að ná í Yokohama-gufuskipið; hefði ekki óveðrið skollið á og tafið fyrir þeim nokkra klukkutíma, þá hefðu þau nú ekki átt eftir fullar þrjátíu mílur. Það kyrði meira og meira og sjóinn lægði. Öll segl voru breidd út, og kl. 12 átti Tankadere ekki eftir nema 45 mílur til Shanghai. Enn voru sex tímar eftir, og allir voru hræddir um, að ekki mundi verða komið þangað nógu snemma. Allir á skipinu voru með öndina í hálsinum, sjálfsagt að undan teknum Phileas Fogg. Þeir urðu að fara 9 hnúta á klukkutímanum, og vindinn var óðum að lægja; hann kom með smábyljum. En skonnortan var létt og bar svo mikil segl, auk þess sem straumar með ströndinni hjálpuðu henni, að Bunsby reiknaði svo kl. 6, að þeir væru ekki nema tíu mílur frá Shanghai-fijótinu. Bærinn sjálfur var hér um bil 12 mílum ofar. Kl. 7. voru enn eftir 3 mílur til Shanghai. Hafnsögumaðurinn lét út úr sér hræðilegt blótsyrði, þegar hann varð þess var, að 200 punda ofanálagið var að ganga úr greipum hans. Hann leit á Mr. Fogg; af Mr. Fogg datt ekki né draup, enda þótt hér væri að ræða um aleigu hans. Í þessu augnabliki sást langur, svartur reykháfur, og stóð út úr honum þykk reykjarstroka. Það var ameríkanska skipið, sem var að fara frá Shanghai á ákveðnum tíma. »Fari það grenjandi!« hrópaði Bunsby og stýrði skonnortunni lítið eitt úr vegi. »Gefið þeim merki«, sagði Fogg rólega. Það var ofurlítil messingfallbyssa á frampallinum, og var hún notuð í þokum. Hún var alveg troðhlaðin, en rétt í því bili, sem hafnsögumaðurinn ætlaði að fara að hleypa af, sagði Phileas: »Dragið upp flagg yðar«. Flaggið var dregið upp í mitt mastrið. Það var neyðarflagg, og þeir mundu sjást frá gufuskipinu og að svo mundi verða komið þeim til hjálpar. »Skjótið þér«, hrópaði Mr. Fogg. Og í sama augnabliki drundi skothljóðið frá litlu fallbyssunni út yfir sjóinn. XXII. KAPITULI. Sýnir, hvernig Passe-partout kemst að raun að það er ávalt hyggilegt að bera á sér peninga, jafnvel hjá andfætingunum. CARNATIC lagði af stað frá Hong Kong til Japans þ. 7. nóvember. Í tveimur rekkjunum á skipinu var enginn maður – þær hafði Mr. Phileas Fogg beðið um. Morguninn eftir urðu skipverjar steinhissa á að sjá ógreidda, hálfruglaða manneskju koma út úr lakari káetunni og setjast niður á þilfarið. Farþeginn var Passe-partout, og skal nú frá því greint, er hann hafði hent. Skömmu eftir að Fix hafði farið út úr reikinga-kránni höfðu tveir þjónar lagt Passe-partout á rúm það, sem reykingamönnum var ætlað; þrem stundum síðar hafði Passe-partout vaknað; það var eitthvað, sem fyrir honum vakti og lét hann engan frið hafa, og hann barðist alt hvað hann gat við ópíumsvímuna. Svo mundi hann eftir því, sem hann hafði enn ekki leyst af hendi, og það hjálpaði honum til að hrista af sér sljófleikann. Hann fór út úr drykkjusmugunni, staulaðist áfram með húsveggjunum og hrópaði eins og í draumi: »Carnatic, Carnatic!« Gufuskipið lá við lendingargarðinn, ferðbúið. Passe-partout átti að eins fáein skref til þess. Hann þaut upp á þilfarið, og datt þar niður meðvitundarlaus í sama bili og skipið var að fara. Hásetarnir voru vanir við þess háttar, fóru með hann ofan í lakari káetuna, og þegar hann vaknaði, var hann kominn 50 mílur frá Hong Kong. Þannig stóð á því, að hann var kominn út á Carnatic; sjóloftið, sem hann dróg að sér, gerði hann smátt og smátt afdrukkinn. Hann fór að reyna að átta sig, en honum var það enginn hægðarleikur; loksins tókst honum þó að muna eftir því, sem gerst hafði daginn áður – leyndarmálinu, sem Fix hafði trúað honum fyrir, ópíums-reykingunni o.s. frv. »Sannleikurinn er sá«, sagði hann við sjálfan sig, »að eg hefi orðið blindfullur. Hvað skyldi Mr. Fogg segja? Hvað sem því líður er eg þó kominn út á skipið, og það er aðalatriðið«. Svo fór hann að hugsa um Fix. »Eg vona þó«, tautaði hann, »að hann hafi ekki vogað að elta okkur út á skipið, eins og hann sagðist ætla að gera. Ekki nema það þó, að lögregluþjónninn skuli vera að elta húsbónda minn og bera það upp á hann, að hann hafi stolið úr Englands-bankanum! Slíkur þvættingur! Hann er ekki fremur þjófur en eg er morðingi«. Átti hann nú að segja húsbónda sínum alla söguna? Mundi ekki verða betra að bíða, þangað til þeir yrðu komnir til Lundúna, og lögregluþjónninn hefði elt þá kring um hnöttinn, til þess að geta þá skopast að honum duglega? Þetta varð hann að hugsa sig um. Það fyrsta, sem hann þurfti að gera, var að finna Mr. Fogg og biðja hann fyrirgefningar. Passe-partout fór því á fætur; það var ilt í sjóinn og skipið ruggaði talsvert. Það var með nokkrum erfiðismunum, að hann komst upp á afturpallinn, en hann sá þar alls engan, sem líktist húsbónda hans eða Mrs. Aoudu. »Það gerir ekkert til«, hugsaði hann, »frúin er ekki enn komin á fætur, og Mr. Fogg er líklega að spila vist eins og hann er vanur. Passe-partout fór því ofan í salinn. Ekki var Mr. Fogg þar. Nú gat hann ekki annað gert en spyrja veitingamann skipsins, hvar húsbóndi sinn svæfi. Maðurinn svaraði, að hann vissi ekki til, að neinn farþeginn héti Fogg. »Fyrirgefið«, sagði Passe-partout, »það er hár maður, rólegur og stillilegur, og ung frú er með honum«. »Það er engin ung frú á skipinu«, sagði veitingamaðurinn. »Annars er farþegalistinn hér, svo að þér getið sjálfur gætt að«. Passe-partout gerði það. Nafn húsbónda hans stóð þar ekki. Alt í einu datt honum nokkuð í hug, og hann sagði: »Er eg á Carnatic?« »Já«, svaraði veitingamaðurinn. »Á leiðinni til Yokohama?« »Já, það getið þér verið viss um«. Passe-partout var eitt augnablik hræddur um að hann væri kominn út á rangt skip, en ef hann var á Carnatic, þá var auðséð, að húsbóndi hans var þar ekki. Passe-partout lét fallast aftur á bak á stól. Hann var sem þrumu lostinn. Alt í einu rann nýtt ljós upp fyrir honum; hann mundi eftir, að fartíma skipsins hafði verið breytt, að hann hafði átt að segja húsbónda sínum frá því, og að hann hafði ekki gert það. Það var því honum að kenna, að þau höfðu mist af skipinu. Vitaskuld var það honum að kenna, en það var þó enn þá meira að kenna svikaranum, sem hafði reynt að halda húsbónda hans í Hong Kong og fylt hann sjálfan. Hann sá það nú alt saman. Húsbóndi hans var gerður að öreiga og ef til vill hneptur varðhald. Passe-partout var hamslaus. Ó, hvað hann skyldi jafna á Fix, ef hann næði nokkurn tíma framar í hann. Passe-partout fór svo að jafna sig smátt og smátt, og hugleiða, hvernig ástatt væri fyrir sér. Hann var á leiðinni til Japan, hvað sem öðru leið, en hann var alveg peningalaus, og það var ekkert skemtileg tilhugsun. Hann átti bókstaflega ekki einn einasta penny. Til allrar hamingju hafði far hans verið borgað fyrirfram, svo að hann hafði 5 eða 6 daga til að hugsa sig um, hvað hann skyldi taka til bragðs. Hann át því fyrir sjálfan sig og förunauta sína, eins og hann væri að eta fyrir ókomnum sulti í Japan. Carnatic kom inn á Yokohama-höfnina að morgni þess 13., og lagðist við lendingargarðinn nálægt tollhúsinu, innan um grúa af allra þjóða skipum. Passe-partout steig á þetta kynjaland, en var heldur daufur í dálkinn; hann gat ekkert gert nema reikað út í bláinn eftir götunum. Fyrst var hann staddur í parti af bænum, sem eingöngu var bygður af Norðurálfumönnum; húsin voru skreytt með svölum og fögrum súlnagöngum. Þessi partur bæjarins náði yfir alt svæðið milli Sáttmálshöfðans og fljótsins, og voru þar skipakvíar og vöruhús, með mörgum strætum og torgum. Hér voru, eins og í Hong Kong og Calcutta, hópar af amerískum, enskum, kínverskum og hollenzkum kaupmönnum, sem reiðubúnir voru til að kaupa og selja nær því alla skapaða hluti, og Passe-partout kunni eins illa við sig innan um þá, eins og Hottintotti mundi hafa gert. Eitt gat hann að minsta kosti gert: snúið sér til enska eða franska konsúlsins; en hann kom sér ekki að því að segja frá æfintýrum sínum, sem stóðu í svo nánu sambandi við húsbónda hans. Áður en hann gerði það, hugsaði hann sér að reyna að hafa ofan af fyrir sér á hvern annan hátt, sem honum yrði mögulegt. Eftir að hafa gengið um Norðurálfupartinn, fór hann inn í japanska borgarhlutann, og réð af að halda alt til Yeddo, ef á þyrfti að halda. Japanski parturinn af Yokohama er kallaður Benter, eftir sjógyðjunni, sem tilbeðin er á eyjunum þar í grendinni. Þar tók hann eftir yndislegum furu- og sedrusviðarlundum; þar voru og heilög hlið, einkennilega smíðuð; brýr þaktar bambus og reyr; og musteri, umkringd af afarstórum, þungbúnum sedrustrjám; höfðust þar við Búdda-prestar og dýrkendur Confúcíuss. Þar voru löng stræti með hópum af ungbörnum, sem voru að leika sér að kiðfættum ullhundum og að gulum, rófulausum köttum, einstaklega lötum og einstaklega góðlyndum. Strætin voru full af fólki, sem var á ferð fram og aftur: prestum, lögregluþjónum, tollþjónum og hermönnum – lífverði míkadóans, í silkivestum og hringabrynjum, og ýmsum öðrum hermönnum; því að í Japan er herliðið í eins miklum metum haft eins og það er í mikilli fyrirlitning í Kína. Þar voru munkar, pílagrímar í síðum skikkjum, og embættismenn með síðu, dökku hári, höfuðstórir, mittislangir, leggjamjóir og lágir vexti; sumir voru eirlitir í framan, aðrir fölir, en engir gulir líkt og Kínverjar, enda er mikill munur á þeim og Japönum. Innan um vagnana, burðarstólana og seglbörurnar, tók hann eftir mörgum mjög, fríðum konum, smástígum og smáfættum; sumar voru með dúkskó á fótunum, aðrar með ilskó úr strái, og enn aðrar með tréskó. Þær sýndust hafa lítil augu, flöt brjóst, dökkar tennur samkvæmt tízkunni; en þeim fór prýðilega þjóðbúningurinn, sem kallaður er »kirimon«; það er nokkurs konar sloppur, en um mittið er breitt silkiband, sem bundið er að aftan í stóran hnút, og hefir kvenfólkið í París tekið það eftir japönsku konunum. Passe-partout reikaði innan um mannþröngina nokkra klukkutíma, og horfði á búðirnar, hinar glitrandi vörur gimsteinasalanna, matsöluhúsin, sem hann gat ekki farið inn í, tehúsin, þar sem menn voru að drekka »saki«, áfengan drykk, sem búinn er til úr hrísgrjónum, og þægilegu tóbaksbúðirnar, þar sem menn sátu og reyktu, ekki ópíum – það er nær því óþekt í Japan – heldur gott tóbak. Þaðan fór hann inn í hrísplantanirnar; þar voru alls konar blóm, sem sendu út frá sér sinn síðasta ilm – yndislegar kamelíur, ekki á smákjarri, heldur á trjám; og þar voru bambusviðar-girðingar með kirsiberja-, plóma- og epla-trjám, sem þarlendir menn rækta fremur blómanna vegna en ávaxtanna. Á nær því hverju einasta sedrustré sat örn, og á píltrjánum voru þunglyndislegir hegrar og stóðu á öðrum fætinum; og svo voru þar krákur, endur, haukar, gæsir og fjöldi af trönum; Japanar telja þá fugla helga, halda, að þeir veiti mönnum langlífi og ánægju. Á göngu sinni tók Passe-partout eftir nokkrum fjólum innan um grasið. »Gott og vel«, sagði hann, »hér er kveldmatur handa mér«; en svo fann hann, að enginn ilmur var af þeim. »Ekki er til neins að leita hingað«, hugsaði hann. Auðvitað hafði hann verið svo forsjáll að taka vel til matar síns áður en hann fór af Carnatic; en eftir að hann hafði gengið allan daginn fór hann að svengja æðimikið. Hann hafði tekið eftir því, að í slátrarabúðunum var hvorki sauðaket, svínaket, né geitaket; og með því að hann vissi, að þar er bannað að drepa nautgripi, því að þeir eru að eins ætlaðir til landbúnaðar, þá þóttist hann vita, að ket mundi sjaldgæft í Japan. Honum skjátlaðist ekki í því, en hann mundi hafa látið sér nægja með villisvínaket, akurhænu, vagtel, fisk eða hænsni, sem Japansmenn eta nær eingöngu með hrísgrjónum. En hann reyndi að herða upp hugann, og vonaði að fá eitthvað að nærast á næsta dag. Myrkrið datt á og Passe-partout sneri aftur til japanska hlutans af bænum; þar reikaði hann fram og aftur um strætin innan um lituð ljósker, og horfði á galdramennina og stjörnuspámennina, sem safnað höfðu hóp manna utan um sjónpípur sínar. Svo varð honum aftur reikað til hafnarinnar, sem var uppljómuð af kyndlum fiskimannanna. Loksins fóru strætin að tæmast og þegar mannþröngin var farin af þeim komu næturverðirnir. Þessi yfirvöld líktust sendiherrum í sínum skrautlega einkennisbúningi og með aðstoðarmönnunum, sem þeim fylgdu; og hvert skifti, sem Passe-partout mætti einum varðmannahópnum, þá sagði hann við sjálfan sig: »Þarna er þá enn ein japanska sendisveitin að leggja af stað til Norðurálfunnar«. XXIII. KAPÍTULI. Nefið á Passe-partout verður ómælilega langt. MORGUNINN eftir var Passe-partout mjög þreyttur og mjög hungraður, og fór að hugsa um, að hann ætti að fá sér eitthvað að borða og það helzt sem fyrst. Hann hafði enn úrið sitt, og það gat hann selt, en hann vildi heldur deyja úr hungri en gera það. Náttúran hafði gætt hann sterkri, en reyndar heldur ófagurri rödd, og hann sá, að annaðhvort varð hann nú eða aldrei að færa sér hana í nyt. Hann kunni ýms frönsk og ensk lög, réð af að reyna að syngja þau. Hann taldi víst, að Japansmenn mundu vera gefnir fyrir söng, af því að þeir voru sí og æ að berja alls konar bumbur; það gat engin vafi leikið á því, að þeim mundi finnast mikið um sönglist Norðurálfumanna. En honum datt í hug, að það kynni að vera of snemt að leggja af stað í slíkum erindum, og að það gæti skeð, að þeir sem ánægjunnar ættu að njóta, kynnu að vakna óþægilega, og svo ef til vill ekki borga honum í sem beztum málmi. Passe-partout réð því af að bíða; og meðan hann beið, kom honum til hugar, að það væri vel til fallið að hann seldi föt sín og fengi sér í staðinn klæðnað, sem betur ætti við þáverandi stöðu; með því móti gat hann líka á eftir keypt sér eitthvað að eta. Hann lagði þegar af stað til þess að láta verða af þessu, og eftir að hann hafði lengi leitað, fann hann loksins mann, sem keypti og seldi gömul föt; við þennan mangara hafði hann fataskifti, og kom út úr búðinni í japanskri kápu og með upplitaðan túrban höfðinu; en hann hafði líka dálitla peninga í vösum sínum. »Gott og vel«, hugsaði hann með sjálfum sér; »eg þarf ekki annað en ímynda mér, að eg sé á kjötkveðjuhátíð«. Passe-partout varð nú fyrst fyrir, að fara inn í rólegt tehús, þar keypti hann sér part af hænsni, og dálítið af hrísgrjónum, og borðaði sinn morgunmat líkt og maður, sem enn hefir ekki leyst þá ráðgátu, hvar hann eigi að fá sér miðdagsverð. Eftir að hann hafði svo etið með góðri lyst, sagði hann við sjálfan sig: »Nú verð eg að hugsa ráð mitt. Alt, sem eg get gert er að selja þessi föt fyrir önnur enn japanskari. Eg verð að finna einhver ráð til þess að komast burt af þessu sólarlandi það allra fyrsta, og endurminningin um það verður ekkert sérlega ljúf«. Hann fór því að líta eftir gufuskipum, sem ætluðu til Ameríku innan skamms; hann ætlaði að bjóða sig þar sem matreiðslumann eða þjón, og fá í staðinn farið og matinn. Hann treysti sér til að komast áfram þegar hann væri kominn til San Francisco. Aðalatriðið var að komast yfir Kyrrahafið. Það var ekki hans siður að hugsa lengi um hlutina, svo hann hélt tafarlaust til skipakvíanna; en þó að áform hans sýndist einfalt og óbrotið, þá var ekki svo auðvelt að fá því framgengt. Hvaða ameríkanskt póstskip þurfti að fá matreiðslumann eða þjón? Og hvernig var hægt að treysta honum í þessum búningi? Til hvers gat hann vísað, og hvaða meðmæli gat hann sýnt? Þegar hann var að velta þessum spurningum í huga sér, varð honum litið á auglýsingu, sem circus-loddari var að bera um strætin. Auglýsingin var á ensku, og hljóðaði þannig: /* JAPANSKUR STÖKKLEIKARA-FLOKKUR – Hins – VELBORNA WILLIAMS BATULCARS. Áreiðanlega síðasta sýningin áður en flokkurinn fer til Ameríku. –A– LANG-NEFJA LANG-NEFJUNUM. Undir Sérstakri Vernd Guðsins Tingou. ÁGÆT SKEMTUN! */ »Bandaríkin í Ameríku!« hrópaði Passe-partout; »það stendur alveg heima fyrir mig«. Hann fór á eftir auglýsingamanninum, og var brátt kominn aftur inn í japanska borgarhlutann. Eftir hér um bil fjórðung stundar námu þeir staðar fyrir framan stóran kofa, skreyttan flöggum; á flöggin voru málaðar myndir af loddurum, og fjarsýnisins var þar ekki gætt hið minsta. Þetta var aðseturstaður hins velborna Mr. Batulcars; hann var nokkurs konar Barnum, foringi fyrir stökkleikurum og loddurum, sem voru að ljúka við að sýna listir sínar, áður en þeir legðu af stað til Bandaríkjanna. Passe-partout gekk inn og spurði eftir eigandanum. Mr. Batulcar kom. »Hvað viljið þér?« sagði hann við Passe-partout, sem hann hélt væri þarlendur maður. »Þurfið þér ekki á þjóni að halda, herra?« spurði Passe-partout. »Þjóni!« át Barnum eftir honum, og strauk á sér skeggið; »eg hefi tvo þjóna, hlýðna og dygga, sem aldrei hafa yfirgefið mig, og ekkert kaup fá nema fæðið; og hérna eru þeir«, bætti hann við og rétti fram sterklegu handleggina; stóru æðarnar belgdust þar út, og voru líkastar ólum á að sjá. »Svo eg get þá ekki orðið yður að neinu gagni?« »Ekki minsta gagni«. »Hver fjandinn! það hefði þó komið sér vel fyrir mig, ef eg hefði getað orðið með yður yfir hafið«. »Það er og«, sagði sá velborni Batulcar; »þér eruð víst álíka Japansmaður eins og eg bavían. Hvers vegna klæðið þér yður svona afkáralega?« »Menn verða að láta klæðaburðinn fara eftir efnunum«. »Satt er það. Þér eruð franskur, er ekki svo?« »Jú, frá París«. »Þér kunnið þá víst töluvert af fettum og brettum?« Passe-partout féll hálf-illa að þjóðerni hans skyldi valda slíkri spurningu. »Það er satt, að við Frakkar kunnum ýmsar fettur og, brettur, en ekkert fremur en Ameríkumenn«. »Satt er það. Jæja, þó eg geti ekki tekið yður sem þjón, þá get eg ráðið yður sem loddara. Þér vitið, góðurinn minn, hvernig á stendur: í Frakklandi eru sýndir útlendir loddarar og erlendis franskir loddarar?« »Það veit eg«. »Þér munuð vera allvel að manni?« »Einkum þegar eg hefi fengið miðdagsmat«. »Og þér getið sungið?« »Já«, sagði Passe-partout; hann hafði einu sinni á árunum sungið fyrir fé á strætum úti. »En getið þér staðið á höfðinu, látið skopparakringlu snúast á iljinni á vinstra fætinum og sverð halda jafnvægi sínu á hægra fætinum, og svo sungið í þeim stellingum«. »Svona hér um bil«, svaraði Passe-partout; hann mintist íþrótta þeirra, sem hann hafði framið í æsku sinni. »Gott og vel; meira þurfið þér ekki«, svaraði sá velborni Mr. Batulcar. Og svo réðst Passe-partout til hans þegar í stað. Loksins hafði þá Passe-partout fengið atvinnu. Hann var ráðinn í hinn japanska leikaraflokk. Staðan var ekki há, en eftir átta daga gat hann með þessu móti verið kominn á leiðina til San Francisco. Það hafði verið auglýst, að sýningin byrjaði kl. 3, og þó að Passe-partout hefði ekki æft sig grand, þá varð hann nú að taka opinberlega þátt í leikjum »Langnefja guðsins Tingon«. Langnefjarnir voru aðalaðdráttaraflið, og skemtunin átti að enda með þeim. Áður en klukkan var orðin þrjú, var húsið orðið troðfult af fólki, körlum og konum, af öllum þjóðflokkum og á öllum aldri. Hljóðfæraleikendurnir settust í sæti sín, og léku fjörlega á sín hávaðasömu hljóðfæri. Sýningin var hér um bil sú sama eins og hjá öllum öðrum loddurum; en það er ástæða til að taka það fram, að Japansmenn eru einna fimastir loddarar í heimi. Einn lék leikinn: fiðrildi og blóm, með veifu og fáeinum blaðsneplum; annar lét koma fram í reyknum úr pípu sinni lofsyrði um áhorfendurnar; enn annar lék með nokkur logandi kerti, slökti á þeim hverju eftir annað, þegar þau bar fyrir munninn á honum, og kveikti jafnóðum aftur á þeim, án þess að hlé yrði á hundakúnstum hans eitt augnablik; enn sýndi einn fjölda af skopparakringlum, sem léku alls konar leiki í höndum hans, jafnframt því sem þær snérust – þær hlupu eftir pípuleggjum, á sverðseggjum, vírþráðum, og jafnvel á hárum, sem hengd voru upp þvert yfir leiksviðið; þær snerust utan um krystalsker, fóru yfir bambus-stiga, þutu út í öll hornin á leiksviðinu, og svo heyrðist í þeim undarlegur söngur með ýmsum mismunandi tónum. Loddararnir fleygðu þeim upp í loftið, hentu þeim milli sín líkt og fjaðraboltum, létu þær niður í vasa sína og tóku þær upp aftur, og alt af snerust þær jafnt og þétt. En aðalskemtunin var þó að Langnefjunum, sem aldrei höfðu sést í Norðurálfunni. Þessir Langnefjar voru úrvalsflokkur, og stóðu undir sérstakri vernd guðsins Tingon. Þeir voru klæddir í miðaldabúning, og hver þeirra hafði tvo vængi; en einkennilegust voru óvenjulega löngu nefin á þeim, og það, hvernig þeir notuðu þau. Nefin á þeim voru blátt áfram búin til úr bambus og voru fimm til tíu feta löng; sum voru bein, sum bogin, sum hrukkótt, og á sum voru málaðar vörtur. Á þessum nefjum, sem voru vandlega fest við náttúrlegu nefin, fóru fram helztu stökklistirnar. Ein tylft af þessum leikurum lá á bökunum, og svo stukku félagar þeirra, í þrumuleiðara-líki, frá einu nefi til annars, og hoppuðu þar og stungu sér af hinni mestu snild. Alt átti að enda með »pýramídanum«, eftir því sem auglýst hafði verið; 50 Langnefjar ætluðu að sýna »Juggernauts-kerruna«[*]. En í stað þess að mynda pýramída hver á annars herðum, þá fóru þessir leikarar hver upp á nefið á öðrum. Nú stóð svo á, að einn af þeim, sem vanur hafði verið vera í undirstöðunni undir kerrunni, hafði gengið úr skaftinu, og með því að ekki þurfti nema afl og lægni til þess að vinna það verk, þá hafði Passe-partout verið valinn til þess að koma í hans stað. [* Juggernaut er Hindúa-skurðgoð eitt; það situr á nokkurskonar kerru, 200 feta hárri. Fyrr á dögum var það siður pílagríma að fórna sjálfum sér með því að fleygja sér undir hjólin, þegar kerran var á hreyfingu. Aths. Þýð.] Manngarmurinn var mjög daufur í dálkinn, þegar hann hafði klætt sig í búning sinn, skreyttan með mislitum vængjum, og fest sex feta langt nef við nefið á sér; en nefið útvegaði honum að minsta kosti eitthvað að eta, og hann réð því af að gera það, sem fyrir hann var lagt. Hann fór upp á leiksviðið til starfsbræðra sinna; þeir lögðust á bökin, og svo kom annar flokkur, og lagðist ofan á nefin á þeim, sem neðst lágu; svo önnur röðin þar ofan og svo framvegis; og á nefjunum var þannig reist bygging úr mönnum nærri því upp í loftið. Þá kom hávært lófaklapp og stóð lengi, og hljóðfæraleikendurnir ætluðu næstum því að æra mann; þá kom alt í einu hristingur á pýramídann, eitt af nefjunum datt af, og allur pýramídinn hrundi líkt og hús úr spilum. Það var alt Passe-Partout að kenna. Hann komst út úr þvögunni, stökk yfir gólfljósin, án þess að nota vængi sína, kleif upp á áhorfendaloftið, féll einum áhorfendanum til fóta og hrópaði um leið: »ó, húsbóndi minn, húsbóndi minn!« »Eruð það þér!« »Já, það er eg«. »Jæja þá, eftir því sem ástatt er, mun vera bezt fyrir yður að fara út á gufuskipið«. Aouda var með Mr. Fogg, og svo flýttu þau sér ásamt Passe-Partout út úr leikhúsinu. Við dyrnar mætti hann hinum velborna Mr. Batulcar; hann var öskuvondur, og heimtaði skaðabætur fyrir, að »pýramídinn sinn hefði verið brotinn«. Mr. Fogg friðaði hann skyndilega með því að rétta að honum bankaseðla-ströngul. Kl. 6½ átti ameríska póstskipið að leggja af stað; þá stigu þau Mr. Fogg, Mrs. Aouda og Passe-partout upp á þilfarið á því. Passe-partout var enn með vængina og langa nefið. XXIV. KAPÍTULI Ferðin yfir Kyrrahafið. LESARINN mun hæglega geta gizkað á, hvað í Shanghai gerðist. Merkin, sem Tankadere gaf, sáust frá gufuskipinu, og skömmu síðar var Phileas Fogg og samferðafólk hans komið upp á gufuskipið; áður borgaði hann flutningsgjald það, er um hafði verið samið, og auk þess 550 punda viðbót. Til Yokohama komu þau þ. 14. Phileas Fogg, lét Fix eiga sig, en fór sjálfur um borð á Carnatic; þar heyrði hann, Aoudu til mikils fagnaðar, að franskur maður, Passe-partout að nafni, hefði komið þangað með skipinu daginn áður. Ekki er og ólíklegt, að honum hafi sjálfum þótt vænt um þá frétt, þó að hann léti ekki á því bera. Mr. Fogg varð að leggja af stað til San Francisco sama kvöldið, og hann fór því tafarlaust að leita að þjóni sínum. En það var árangurslaust, þó að hann spyrði sig fyrir hjá konsúlnum eða gengi um göturnar, og hann hætti því leitinni. Var það af hendingu eða hugboði, að hann kom á skemtisýning Mr. Batulcars. Honum hefði auðvitað verið ómögulegt að þekkja þjón sinn í öðrum eins óskapabúningi eins og hann var í um kveldið, en Passe-partout uppgötvaði húsbónda sinn. Hann gat þá ekki ráðið við nefið á sér, og svo hrundi alt niður. Mrs. Aouda sagði Passe-Partout alla ferðasögu þeirra Mr. Foggs, og það með, að frá Hong Kong hefði orðið þeim samferða maður, sem héti Fix. Það datt ekki né draup af Passe-partout þegar hann heyrði Fix nefndan, því að hann hugði, að enn væri ekki kominn rétti tíminn til að segja húsbónda sínum það, sem gerzt hafði, þess vegna sagði hann ekki greinilegar frá æfintýrum sýnum en að hann hefði orðið út úr í ópíum. Mr. Fogg hlustaði þurlega á afsakanir hans og lánaði honum svo nóga peninga, til að geta fengið sómasamleg fót. Eftir hér um bil klukkutíma var hann orðinn laus við nefið og vængina, og varð aftur sjálfum sér líkur. Gufuskipið, sem flutti þau, var kallað General Grant, og til heyrði Kyrrahafs-póstfélaginu. Það flutti 2500 tons og var þrímastrað; með 12 hnútum á klukkutímanum átti það ekki að þurfa nema 21 dag til að fara yfir hafið. Phileas Fogg hafði því rétt til að búast við, að hann mundi komast til San Francisco 2. desember, til New York þ. 11., og til Lundúna þ. 20.; með því móti átti hann að koma nokkrum stundum fyrir hinn ákveðna tíma. Ekkert merkilegt bar við á sjóferðinni, Kyrrahafið bar nafn með rentu, og var eins stilt og Mr. Fogg sjálfur. Mrs. Aouda drógst meir og meir að þessum þögla manni, og það með sterkari böndum en þakklátsseminni. Mr. Fogg hafði haft meiri áhrif á hana heldur en hún vissi, og hún gaf sig næstum því óafvitandi þessari tilfinningu á vald, án þess samt, að Mr. Fogg sýndist taka nokkrum breytingum. Auk þess lét hún sér framúrskarandi ant um fyrirætlanir hans – alt, sem fyrirtæki hans stóð einhver hætta af, olli henni hins mesta kvíða. Hún réðst oft um það við Passe-partout; hann gat sér til, hve innilegan þátt hún mundi taka í kjörum Mr. Foggs, og hældi húsbónda sínum á hvert reipi. Hann dró úr hræðslu hennar, hélt því fram, að örðugasti parturinn af ferðinni væri nú farinn, bráðum yrðu þau komin í mentuð lönd, og járnbrautarlestin til New York, og gufuskipið, sem gengi yfir Atlantshafið til Liverpool, mundi skila þeim heim í tækan tíma. Níu dögum eftir að þau fóru frá Yokohama, hafði Mr. Fogg ferðast yfir réttan helming hnattarins. 23. nóvember fór General Grant yfir 180. hádegisbauginn, sem lengst er frá þeim hádegisbaug, er London stendur á. Af 80 dögum hafði hann að sönnu eytt 52, og ekki voru eftir nema 28; en þess verður að gæta, að þó hann hefði ekki farið nema hálfa leiðina að hádegisbaugatali, þá hafði hann í raun og veru farið tvo þriðju hluta af ferð sinni. Hann hafði orðið að fara langa króka; ef hann hefði alt af farið eftir 50. breiddargráðunni, sem London stendur þá hefði hann ekki þurft að fara nema 12,000 mílur, þar sem aftur á móti flutningunum var svo háttað, að hann varð að fara 26,000 mílur; þar af hafði hann nú farið 17,500. En nú var ekki annað eftir en að sigla yfir opin höf, og Fix var nú ekki heldur til að stemma stigu fyrir honum. Svo vildi líka svo til þennan dag, að Passe-partout gerði merkilega uppgötvun. Eins og menn muna, hafði hann staðið á því fastara en fótunum, að láta ættar-úrið sitt makalausa ganga ósnert, eins og hann hefði altaf verið í London, og hann hafði fyrirlitið alla aðra tímamæla, sem orðið höfðu á leið hans. Þó að hann hefði nú aldrei snert það, þá sá hann, að þennan dag stóð það nákvæmlega heima við krónómeterinn á skipinu. Hann varð ákaflega hróðugur af þessu, og það lá við, að hann langaði til, að Fix væri þar kominn, til þess að geta rekið hann á stampinn. »En þau ógrynni af lygum, sem hann var að segja mér um hádegisbaugana, og sólina og tunglið. Það hefði farið fallega, ef eg hefði farið að hans ráðum með að mæla tímann. Eg var alveg viss um, að sólin mundi áður en langt um liði laga sig eftir úrinu mínu«. Passe-Partout varaði sig ekki á því, að ef á úrinu hans hefðu staðið 24 klukkutímar eins og á ítölsku úrunum, þá hefðu vísarnir á því nú staðið á 9 að kveldinu, en ekki 9 að morginum – það er að segja, á 21. stundu eftir miðnætti, sem er munurinn á tímanum í Lundúnum og á 180. hádegisbaug. En Passe-partout mundi ekki hafa kannast við þetta, jafnvel þótt hann hefði skilið það, og að minsta kosti mundi hann hafa farið að stæla um það við lögregluþjóninn, ef hann hefði verið þar kominn. Hvar var nú Fix á þessu augnabliki? Fix var hvergi annarsstaðar en á skipinu General Grant. Þegar lögregluþjónninn kom til Yokohama, hafði hann viðstöðulaust farið til enska konsúlsins. Þar fékk hann handtökuheimildina; hún hafði komið með Carnatic, enda hélt og konsúllinn, að Fix mundi hafa komið með því skipi. Menn geta því nærri, hve gramur hann varð, því að handtökuheimildin var nú gagnslaus, og örðugt mundi hafa orðið að fá Fogg framseldan og tekinn höndum. »Jæja«, sagði hann við sjálfan sig, þegar honum var runnin mesta reiðin, »þó að handtökuheimildin sé gagnslaus hér, þá er hún það ekki á Englandi. Náunginn er nú að snúa aftur til ættjarðar sinnar, og heldur, að hann hafi vilt sjónir fyrir lögreglunni. Eg skal elta hann, eg vona, að eitthvað af peningunum verði eftir. Hann hlýtur að hafa eytt meiru en fimm þúsund pundum; en bankinn hefir efni á að missa af því«. Svo réð hann af að halda ferð sinni áfram með General Grant, og hann var kominn út á skipið, þegar Mr. Fogg og Mrs. Aouda komu þangað. Hann varð steinhissa, þegar hann þekti Passe-partout í hans fáránlega búningi, fór skyndilega ofan í káetu sína, til þess að ekki skyldi komast upp um sig, og hann vonaði að geta dulist fjandmanni sínum, af því að svo margir farþegar voru á skipinu. En einmitt þennan dag rakst hann á Passe-partout. Passe-partout sagði ekki eitt einasta orð; en tók um hálsinn á Fix; áhorfendunum þótti stór-vænt um og fóru á augabragði að veðja um úrslitin; og svo sannaði Passe-partout yfirburði frönsku hnefaleika-aðferðarinnar fram yfir þá ensku. Passe-partout hrestist til muna við þessa hreyfingu. Fix stóð upp, úfinn mjög, og spurði mótstöðumann sinn, »hvort hann væri nú alveg búinn«. »Já, í bráðina«. »Lofið þér mér þá að tala við yður«. »En –«. »Það verður alt húsbónda yðar í hag«. Passe-partout sýndist bugast af stillingu lögregluþjónsins, og fór með Fix fram á skipið. »Þér hafið lumbrað á mér«, sagði lögregluþjónninn. »Það gerir ekkert til. Eg bjóst við því; en nú verðið þér að hlusta á mig. Hingað til hefi eg unnið á móti Mr. Fogg. Nú er eg með honum«. »Ó, þá eruð þér loksins farinn að halda að hann sé saklaus?« »Alls ekki. Eg held, að hann sé þjófur. Verið þér rólegur, hlustið þér á alt, sem eg ætla að segja. Meðan Mr. Fogg var á brezkri lóð, gerði eg alt, sem eg gat, til þess að tefja fyrir honum, þangað til handtökuheimildin kæmi. Það var eg, sem sendi Bombay-prestana á yður. Eg svæfði yður í Hong Kong. Eg skildi yður frá húsbónda yðar og olli því, að hann misti af Yokohama-skipinu«. Passe-partout krepti hnefann um leið og hann hlustaði. »En nú« hélt Fix áfram, »lítur svo út sem Mr. Fogg ætli til Englands. Gott og vel, eg ætla að elta hann. En framvegis ætla eg að gera eins mikið til að greiða götu hans eins og eg hefi gert mikið til að tefja fyrir honum. Eg hefi breytt stefnu minni, og það hefi eg gert sjálfum mér í hag; yðar hagur er sá sami og minn, því að annarsstaðar en í Englandi getið þér ekki komist að því, hvort húsbóndi yðar er heiðursmaður eða ekki«. Passe-partout hlustaði með athygli, og hann fann, að Fix var alvara með það, sem hann sagði. »Eigum við að verða vinir?« spurði Fix. »Nei, ekki vinir; en bandamenn skulum við verða, en ekki nema að vissu leyti, því að hvenær sem eg fæ minsta pata af prettum frá yðar hálfu, þá sný eg yður úr hálsliðnum«. »Við kaupum þá þessu«, sagði lögregluþjónninn stillilega. Ellefu dögum síðar, 3. desember, kom General Grant inn á höfnina í San Francisco. Mr. Fogg hafði hvorki unnið né mist einn einasta dag. XXV. KAPÍTULI. San Francisco. Pólitiskur fundur. KL. 7 um morguninn steig Mr. Fogg og förunautar hans á land Ameríku, eða öllu heldur á flekabryggju þá, sem gufuskipin eru fermd og affermd við. Þar voru alt í kring um þau allra þjóða skip, og ferjubátar með tvennum og þrennum þiljum, sem gengu fyrir gufu eftir Sacramento-fljótinu og ám, sem í það renna. Passe-partout réð sér ekki fyrir fögnuði út af að vera kominn til Ameríku, og fanst því hann mega til með að taka undir sig eitt af sínum fjörlegustu stökkum. En þegar hann kom niður á bryggjuna, komst hann að raun um, að hún var ormétin, svo að hann rak fæturna niður úr henni. Hann rak upp hljóð, og hræddi með því alla fuglana, sem sátu á þessum fljótandi lendingargörðum. Mr. Fogg lét sér fyrst um það hugað að fá að vita, hvenær næsta brautarlest til New York legði af stað. Hún átti að leggja af stað kl. 6, svo að hann hafði heilan dag til stefnu. Svo leigði hann sér vagn og ók til Alþjóða hótellsins. Passe-partout sat uppi á ökumannssætinu, og þótti honum gaman að horfa yfir breiðu strætin, á háu húsaraðirnar, kirkjurnar og önnur guðþjónustuhús, sem bygð voru í engilsaxnesk-gotneskum stíl, afarstóru skipakvíarnar, geymsluhúsin, sem líktust höllum, óteljandi smávagna, omníbúsa og sporvagna. Ameríkumenn, Norðurálfumenn, Kínverjar og Indíánar gengu eftir gangstéttunum. Passe-partout furðaði sig á San Francisco. Borgin var ekki lengur aðsetursstaður fanta, brennuvarga og morðingja, sem spiluðu um gullduft, með skammbyssu í annari hendi og hníf í hinni. »Góðu tímarnir« voru liðnir. Nú var borgin orðin að viðskiftabæ. Turninn á ráðhúsinu horfði út yfir völundarhús langstræta og þverstræta, sem skáru hvert annað, svo að réttir ferhyrningar mynduðust, og innan um voru auðir blettir fagurgrænir; og það var líkast því sem kínverski borgarhlutinn hefði verið fluttur frá »himneska ríkinu« í leikfangastokk. Í staðinn fyrir barðastóra hatta, rauðar skyrtur og Indíánahöfuðföt, voru komnir silkihattar og svartir frakkar, og fram með sumum höfuðstrætunum endilöngum voru ljómandi fallegar búðir með afurðir allrar veraldarinnar til sölu. Þegar Passe-partout kom til Alþjóða hótellsins, gat hann naumast séð, að hann væri ekki á Englandi. Á neðsta lofti í þessu afarstóra húsi var veitingasalur; þar mátti alt af fá ókeypis máltíð af köldu keti, ostrasúpu, hveitibrauði og osti; fyrir vín og bjór varð að borga. Borðstofan var viðfeldin. Mr. Fogg og Mrs. Aouda settust að borði, og kolsvartur blökkumaður gekk fyrir beina. Þegar þau Mr. Fogg og Mrs. Aouda höfðu borðað morgunmat, fóru þau saman til enska konsúlsins, til að fá skrifað á vegabréf sitt. Á gangstéttinni mættu þau þjóni hans; Passe-partout vildi fá að vita, hvort hann ætti ekki að kaupa nokkrar skammbyssur og skorubyssur. Hann hafði heyrt getið um Siouxana og Pawnecana, sem hafa þann sið að stöðva járnbrautarlestir. Húsbóndi hans sagði, að slík varkárni væri óþörf, en leyfði honum að gera hvað honum gott þætti í því efni, og hélt áleiðis til konsúlsins. Hann hafði ekki gengið langt, þegar hann mætti Fix, sjálfsagt af einstökustu tilviljun. Lögregluþjónninn lézt verða steinhissa. Var það mögulegt, að hann og Mr. Fogg hefðu farið yfir Kyrrahafið á sama gufuskipinu, án þess að hittast nokkurn tíma? Fix lét í ljósi, að sér þætti mjög vænt að hitta þennan herra, sem hann ætti svo mikið gott upp að unna. Hann ætti brýnt erindi til Norðurálfunnar, og sér skyldi þykja heiður að því, að hafa jafn-skemtilegan förunaut. Mr. Fogg svaraði, að sín væri æran. Svo bað Fix um leyfi til að mega verða Mr. Fogg samferða um bæinn, því hann hefði staðráðið, að missa ekki sjónar af honum; honum var veitt það leyfi. Skömmu síðar var þetta ferðafólk komið í Montgomerystræti, og var statt yzt í mikilli mannþröng. Fólk var allstaðar að hrópa og horfa, og menn báru stór prentuð blöð; flögg og fánar blöktuðu, og allir voru að hrópa: »Húrra fyrir Camerfield!« eða »Húrra fyrir Maudiboy!« Þetta var pólitiskur fundur, eða að minsta kosti hugði Fix að svo mundi vera; og hann sagði við Mr. Fogg, að það gæti verið betra að fara ekkert inn í hópinn, til þess að verða ekki fyrir neinu misjöfnu. Mr. Fogg var á sama máli, og bætti því við, »að þó að högg væru gefin í pólitisku skyni, þá væru þau þó engu að síður högg«. Fix brosti, og svo fóru þau þrjú upp á rið eitt við efri endann á strætinu, til þess að geta séð það, sem fram fór, án þess að lenda í troðningnum. Beint á móti þeim var ræðupallur, og virtist múgurinn vera að stefna að honum. Mr. Fogg gat ekki gert sér neina hugmynd um, í hverju tilefni þessi fundur væri haldinn. Ef til vill átti að tilnefna governor fyrir ríkið eða congress-mann. Rétt í því bili fór múgurinn að komast í meiri geðshræringu, hnefar voru réttir upp, eins og atkvæði væru greidd. Múgurinn iðaði fram og aftur, flögg voru breidd út og á augabragði rifin sundur í smápjötlur, hattar voru molaðir, og meiri hluti manngrúans sýndist alt í einu vera orðinn styttri en áður. »Það er auðsjáanlega pólitískur fundur«, sagði Fix; »ef til vill er hann út af Alabama-kröfunum, þó að nú sé búið að gera út um þær«. »Getur verið«, svaraði Mr. Fogg. »Að minsta kosti«, hélt Fix áfram, »eru umsækjendurnir hér. Sá velborni Mr. Camerfield og sá velborni Maudiboy eru komnir«. Aouda hallaði sér upp að handleggnum á Mr. Fogg og horfði forvitnisaugum á mannþröngina; Fix ætlaði að fara að spyrja um, hvernig á þessum ólátum stæði; en þá uxu þau í sama bili hræðilega. Múgurinn komst í enn meiri geðshræringu, menn lögðu hver í annan, stígvél og skór komu þjótandi í loftinu, og áhorfendurnir þóttust heyra skammbyssuskot innan um orgin í mönnunum. Áflogaseggirnir færðust nær riðinu, sem ferðafólkið flúði til. Öðrum umsækjandanum hafði auðsjáanlega verið hafnað, en engir afskiftalausir áhorfendur gátu gert sér grein fyrir, hvort það hefði verið Camerfield eða Maudiboy, sem hefði orðið hlutskarpari. »Eg held það væri betra fyrir okkur að fara héðan«, sagði Fix; »ef þeir skyldu eitthvað vera að þjarka um England, og við skyldum þekkjast, þá gætum við orðið fyrir einhverju hnjaski«. »Englendingur –« byrjaði Mr. Fogg. En hann lauk aldrei við setninguna, því að rétt fyrir framan þau laust upp ógurlegum orgum, og var þá hrópað hástöfum á Maudiboy; áhangendur hans voru að ráða á mótstöðumenn sína. Ferðafólkið var nú milli tveggja elda; nú var orðið of seint að sleppa burt; múgurinn var vopnaður með stöfum, og í endunum á sumum stöfunum voru blýkúlur, og það var ómögulegt að veita hér viðnám. Phileas Fogg og Fix gerðu alt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að verja samferðakonu sína með þeim vopnum, er náttúran hafði búið þá út með; en þeim gekk illa. Stórt rustamenni, rauðskeggjur, sem virtist vera fyrirliði flokksins, ætlaði að leggja í Mr. Fogg, og hefði að líkindum meitt hann til muna, ef Fix hefði ekki hlaupið undir höggið í hans stað; við það molaðist alveg hatturinn hans. »Yankee-dóninn!« hrópaði Mr. Fogg fyrirlitlega. »Englendings-hundspottið!« hrópaði hinn. »Við hittumst aftur«, »Hvenær sem yður þóknast«. »Hvað heitið þér?« »Phileas Fogg; og þér?« »Stamp Proctor óbersti«. Og mannstraumurinn þaut fram hjá, og velti Fix um koll; hann komst samt bráðlega á fætur aftur, og þó að hann væri talsvert af sér genginn, þá var hann ekki særður til muna. Yfirfrakkinn hans hafði svifzt sundur, og buxurnar hans voru líkar buxunum, sem Indíánarnir eru í; en til allrar hamingju hafði Aouda sloppið ómeidd, og engin merki sáust eftir rósturnar nema á Fix. »Þakka yður fyrir«, sagði Mr. Fogg við lögregluþjóninn, þegar þau voru komin út úr hópnum. »Ekkert að þakka«, svaraði Fix; »við skulum halda áfram«. »Hvert?« »Til skraddara«. Það var líka þörf á því, því að föt þeirra beggja voru eins illa komin, eins og þeir hefðu tekið þátt í áflogunum; en eftir einn klukkutíma voru þeir komnir í nýjum fötum heilir á húfi aftur til hótelsins. Þar fundu þeir Passe-partout; hann beið þeirra vopnaður, með einar tólf sexhleyptar skammbyssur. Þegar hann sá, að Fix var með Fogg, fór að ýglast á honum brúnin, en þegar Mrs. Aouda sagði honum alt, sem gerst hafði, blíðkaðist hann. Fix var auðsjáanlega ekki lengur óvinur; hann var bandamaður og stóð við samning sinn. Eftir miðdegismatinn fengu þau sér vagn og óku til járnbrautarstöðvanna. Þegar Mr. Fogg var að komast upp í vagninn, sagði hann við Fix: »Hafið þér séð þennan Proctor, ofurstann, síðan?« »Nei«, svaraði Fix. »Eg skal sjá um að komast aftur til Ameríku og finna hann«, sagði Fogg rólega. »Það dugar ekki fyrir Englendinga að láta fara með sig eins og hann hefir farið með ² okkur«. Lögregluþjónninn brosti, en svaraði engu. Það var þó auðséð, að Mr. Fogg var einn af þeirri tegund Breta, sem berjast erlendis, þegar þeim þykir gengið nærri sóma sínum, þó að þeir leyfi ekki einvígi heima fyrir. Kl. 5 2/3 kom ferðafólkið til járnbrautarstöðvanna, og var lestin þá ferðbúin. Mr. Fogg kallaði á burðarmann einn, og spurði hann, hvernig hefði staðið á ólátunum þann dag. »Það var fundur«, svaraði burðarmaðurinn. »Það var eitthvert fjarskalegt uppnám á götunum. »Það var ekki nema kjörfundur. »Það hefir víst farið fram kosning á æðsta herforingja Bandaríkjanna?« sagði Mr. Fogg. »Og sussu-nei«, svaraði maðurinn. »Það var ekki nema friðdómari, sem menn voru að kjósa«. Þegar Mr. Fogg hafði fengið þetta svar, fór hann inn í járnbrautarlestina, og lagði hún af stað svo að segja að vörmu spori. XXVI. KAPÍTULI. Sýnir, hvernig Mr. Fogg og förunautum hans gekk ferðin eftir Kyrrahafsbrautinni. »Frá hafi til hafs«, segja Ameríkumenn, og er venjulega komist þannig að orði um ferðina yfir meginlandið með Pacific-brautinni. Brautinni er í raun og veru skift í tvent: milli San-Francisco og Ogden er Central Pacific; og milli Ogden og Omaha er Union Pacific. Frá Omaha til New York liggja 5 aðalbrautir. New York og San Francisco eru þannig samtengdar með járnbraut, sem er meir en þrjú þúsund sjö hundruð áttatíu og sex mílur á lengd. Milli Kyrrahafsins og Omaha liggur brautin yfir land, sem enn er mestmegnis bygt af Indíánum og villidýrum, og svo stóran fláka af landi því, sem Mormónarnir fóru að byggja árið 1845, þegar þeir voru reknir út úr Illinois. Fyrr á dögum þurfti sex mánuði, þegar bezt gekk, til þess að komast milli New York og San Francisco; nú fara menn það á sjö dögum. Það var árið 1862, að ákveðið var að leggja brautina milli 41. og 42. gráðu norðlægrar breiddar, þrátt fyrir mótspyrnu sunnanmanna í congressinum, sem vildu hafa brautina sunnar. Lincoln forseti ákvað sjálfur, að brautin skyldi enda í Omaha í Nebraska. Tafarlaust var byrjað á verkinu, og því var haldið fram með einkennilegum ameríkönskum dugnaði, sem ekki lætur bindast af smámunalegri embætta-skriffinsku. Þó að hratt gengi með verkið, var það ekki síður vel af hendi leyst fyrir það; hálf önnur míla var lögð yfir sléttuna á hverjum degi; gufuvél rann eftir brautinni jafnskjótt og hún var lögð og flutti teinana, sem leggja átti næsta dag. Kyrrahafsbrautin hefir ýmsar greinar í ríkjunum Iowa, Kansas, Colorado og Oregon. Hún liggur frá Omaha eftir suðurbakka Platte-fljótsins, þangað til fljótið skiftist, liggur svo fram með suður-ánni, yfir Laramine-héraðið og Wahsatch-fjöllin til Salt Lake City (höfuðstaður Mormónanna), ofan í Tuilla-dalinn, yfir eyðimörkina, Cedar og Humboldt-fjöllin, Humboldt-ána og Sierra Nevada, og svo fram hjá Sacramento ofan að Kyrrahafinu. Hvergi á leiðinni, jafnvel ekki í Klettafjöllunum, er hallinn meiri en hundrað og tólf fet á mílunni. Þannig var braut sú, er Phileas Fogg vonaði að flytjast eftir til New York á 7 dögum, svo að hann gæti náð í gufuskipið til Liverpool þ. 11. Vagninn, sem ferðafólkið sat í, var nokkurs konar omníbús, með fjórum hjólum við hvorn enda og ekkert hólfaður sundur; sætaraðir voru við báðar hliðar, og gangur milli þeirra frá öðrum vagnendanum til hins, og í raun og veru eftir allri lestinni, því að hver vagninn var tengdur fast við þann næsta. Í lestinni voru stázstofuvagnar, reykingavagnar og matsöluvagnar. Ekkert vantaði nema leikhúss-vagn, en hann kemur vafalaust einhvern tíma. Menn, sem seldu bækur og blöð, mat og drykk og tóbak, voru á sífeldri ferð fram og aftur um vagnana. Lestin lagði af stað frá Oaklands-stöðvunum kl. 6 e.h. Þá var þegar orðið dimt, og var svo að sjá, sem von mundi vera á snjókomu. Lestin fór ekki nema 20 mílur á tímanum, að meðtöldum viðstöðunum. Farþegarnir töluðu ekki mikið saman, og flestir þeirra lögðust bráðlega til svefns. Passe-partout sat næstur lögregluþjóninum, en yrti ekki á hann, því að eftir það, sem þeir höfðu ázt við, var vinskapurinn ekki mikill milli þeirra. Fix hafði ekki breytzt, en Passe-partout var í mesta máta þurrlegur, og mundi hafa kyrkt gamla kunningja sinn, ef hann hefði orðið var við nokkurn hlut grunsaman frá hans hálfu. Eftir hér um bil klukkutíma fór að snjóa, en þó ekki svo mikið, að lestin gæti ekki haldið áfram. Ekkert sást út um gluggana nema ein afarstór hvít breiða, og sýndist gufan úr vélinni grá, þegar hún var borin saman við hana. Kl. 8 kom lestarþjónninn inn og sagði að háttatími væri kominn. Bökin í sætunum voru þá lögð niður, rúmstæði dregin út og búin til rúm á fáeinum augnablikum. Með þessu haganlega fyrirkomulagi fékk hver farþegi rúm, og varði sig með tjöldum gegn forvitnis-augum annara. Rekkjuvoðirnar voru hreinar, koddarnir mjúkir. Ekkert var að gera nema fara í rúmið og sofa, og það gerði hver maður, rétt eins og á skipum; en lestin þaut áfram yfir Californíuríkið. Landið milli San Francisco og Sacramento er ekki mjög hæðótt; brautin liggur þar í norðaustur fram með Ameríku-fljótinu, sem rennur út í San Pablo-flóann. Þær 120 mílur, sem eru milli þessara borga, voru farnar á 6 klukkutímum, og með því að farið var fram hjá Sacramento um miðnætti, gat ferðafólkið ekkert séð af þeim bæ. Frá Sacramento liggur brautin fram hjá Junction, Rochin, Auburn og Colfax og gegn um Sierra Nevada fjallgarðinn; kl. 7 kom lestin til Cisco. Einum klukkutíma síðar var svefnvagninn aftur gerður að venjulegum vagni, og gátu þá farþegarnir aftur séð hið dýrðlega útsýni þessa fjallalands. Brautin lagaði sig eftir öllum dutlungum fjallendisins, stundum var hún í snarbröttum brekkum, sumstaðar voru á henni skarpir hlykkir, sumstaðar fór hún inn í þröng gil, sem enginn vegur sýndist liggja út úr. Eldurinn glóði í vélar-arninum, reykurinn stóð upp úr strompinum, viðvörunar-klukkan hringdi, »kúatakarinn« stóð fram líkt og spori, og blístrið og hvæsingarnar í vélinni runnu saman við niðinn í fljótum og fossum, og dökki reykurinn vatt sig utan um stofna furutrjánna. Lítið er um jarðgöng og brýr á þessum hluta brautarinnar, því að hún liggur fram með hlíðum fjallanna, en fer ekki í gegn um þau. Um kl. 9 fór lestin eftir Carsonadalnum inn í Nevada-ríkið, og var stefnan enn norðaustur. Um hádegi fór lestin frá Rene, hafði staðið þar við í 20 mínútur, til þess að menn skyldu geta fengið sér þar morgunmat. Eftir morgunmatinn settust farþegarnir aftur í sæti sín í vögnunum, og dáðust að útsýninu. Sumstaðar stóðu vísundahópar eins og afarstórir hreyfanlegir garðar í sjóndeildarhringnum. Þessir feyki-flokkar varna stundum járnbrautarlestum að fara ferða sinna, því að þeir fara yfir brautina þúsundum saman í þéttri halarófu, og eru marga tíma að komast yfir hana. Þá verða lestirnar að halda kyrru fyrir og bíða þangað til brautin er aftur orðin auð. Þetta kom nú einmitt fyrir að þessu sinni. Um kl. 3 e.h. gerðu 10-12 þúsundir vísunda brautina ófæra. Vélarstjórinn dróg úr hraðanum og reyndi að komast ferða sinna með hægð, en gat ekki komist gegn um vísundahópinn. Farþegarnir sáu vísundana fara hægt og hægt í halarófu yfir brautina; stundum bauluðu dýrin hástöfum. Þau voru stærri en Norðurálfunaut, um höfuðið og herðarnar er sítt fax, og þar fyrir neðan hnúður; fæturnir og halarnir stuttir. Enginn maður þyrfti nokkurn tíma að hugsa til að snúa þeim við. Þegar vísundar hafa á annað borð tekið einhverja vissa stefnu, þá er ómögulegt að sveigja þá. Þeir eru lifandi holdstraumur, sem enginn varnargarður getur stíflað. Farþegarnir horfðu á þessa skrýtnu sjón stórum augum, en sá maður, sem mest lá á að lestin kæmist greiðlega áfram, Phileas Fogg, sat rólegur í sæti sínu og beið þess, að vísundarnir færu fram hjá. Passe-partout var ösku-vondur út af töfinni, sem dýrin ollu, og langaði til að hleypa af á þau úr skambyssum sínum. »Skárra er það nú landið«, hrópaði Passe-partout. »Að hugsa sér, að heil járnbrautarlest sé stöðvuð af nautaflokki, sem ekki hraðar sér það allra minsta, eins og hann tefði okkur ekki grand; mér þætti gaman að vita, hvort Mr. Fogg hefir búist við þessari töf. Og svo höfum við vélarstjóra sem ekki þorir að hleypa lestinni sinni móti fáeinum kúm«. Vitaskuld reyndi vélarstjórinn það ekki, og það átti hann heldur ekki að reyna. Hann hefði vafalaust getað drepið fyrstu tvo eða þrjá vísundana, sem hefðu orðið á vegi hans; en vélin mundi bráðlega hafa kastast út af brautinni, og þá hefði engin von verið að geta komist áfram. Það bezta, sem hægt var að gera, var því að bíða þolinmóðlega, og reyna að vinna töfina upp, þegar vísundarnir væru komnir fram hjá. En þessi dýra-prósessía varaði fulla þrjá tíma, og það var komið kvöld áður en brautin var auð orðin. Og áður en svo var komið, var fyrsta nautið horfið í sjóndeildarhrings-brúninni í suðri. Kl. var 8, þegar lestin var komin gegn um skörðin í Humbolt-fjöllunum, og 9½, þegar komið var inn í héraðið kring um hið mikla Saltvatn í Utah, þar sem trúarbragðaflokkur skrítinn, Mormónar, hafast við. XXVII. KAPÍTULI. Sýnir, hvernig Passe-partout gekk gegn um sögur Mormónanna með 20 mílna hraða á tímanum. NÓTTINA milli 5. og 6. desember hélt lestin suðaustur á við, hér um bil 50 mílur, og stefndi svo í norðaustur-átt til Saltavatnsins. Um kl. 9 að morgninum fór Passe-partout út á vagnpallinn til þess að fá sér hreint loft. Veðrið var kalt og himininn þungbúinn, en engin snjókoma var þá. Sólin sýndist í þokunni eins og ákaflega stór gullkringla, og Passe-partout var að geta sér til, hve mikils virði hún mundi vera í enskum peningum; en þá kom til hans maður mjög skrítinn ásýndum, og truflaði hann. Þessi náungi hafði komið inn í lestina við Elko; hann var hár og dökkur í framan, hafði svart yfirskegg, var í svörtum sokkum og með svartan hatt, annars allur svartklæddur, nema hvað hann hafði hvítt band um hálsinn og hanzka úr hundsskinni. Hann líktist presti. Hann gekk alla lestina á enda og festi ofurlítið auglýsingablað upp á hurðina í hverjum vagni. Passe-partout las eina af þessum auglýsingum, og sá þar, að sá velborni öldungur, William Hitch, mormónatrúboði, ætlaði að nota tækifærið til þess að halda fyrirlestur um Mormónatrú í vagninum nr. 117 kl. 11 f.h. Fyrirlesturinn átti að standa til hádegis, og allir, sem eitthvað vildu fá að vita um »hina helgu menn nútíðarinnar«, voru boðnir og velkomnir að hlusta á hann. »Eg skal svei mér fara«, tautaði Passe-partout; hann vissi ekkert um Mormónatrúna nema fjölkvænið. Fréttin barst skyndilega milli farþeganna og hér um bil 30 af 100 ferðamönnum, sem í lestinni voru, komu inn í vagninn nr. 117. Passe-partout sat á fremsta bekk. Hvorki húsbóndi hans né Fix hugsuðu grand um þetta, Öldungurinn William Hitch kom á ákveðnum tíma; hann byrjaði heldur önuglega, eins og þegar væri farið að stæla við hann, og hrópaði: »Eg segi ykkur það afdráttarlaust, að Jóseph Smith er píslarvottur, og Híram bróðir hans er líka píslarvottur, og ofsóknir stjórnarinnar gera Brigham Young líka að píslarvotti. Þorir nú nokkur að segja hið gagnstæða?« Enginn dirfðist að mótmæla honum, og ákafinn í honum var sannarlega undarlega ólíkur stillingar-svipnum, sem á honum var. Vitaskuld var reiði hans sprottin af ókjörum þeim, sem Mormónarnir höfðu sætt. Bandaríkjastjórn hafði haft mikið fyrir að koma vitinu fyrir þessa ofstækismennn. Hún hafði nú náð yfirráðum yfir Utah, eftir að hafa sett Brigham Young í fangelsi fyrir uppreisn og fjölkvæni. Frá þeim tíma höfðu áhangendur spámannsins tvöfaldað tilraunir sínar og veitt yfirdrottnum Bandaríkjastjórnar mótspyrnu, ef ekki í verki þá með orðum. Öldungurinn W. Hitch var nú, eins og vér höfum séð, að reyna að snúa mönnum til trúarinnar þarna í járnbrautar-vögnunum. Svo hélt hann áfram ákefðarlega, og sagði sögu Mormónatrúarinnar alt frá dögum Gyðingaforfeðranna. Hann sagði frá því hvernig Mormóna-spámaður í Ísrael, af kynþætti Jóseps, hefði fært í letur annála hinna nýju trúar, og eftirlátið þá syni sínum Móronn og hvernig mörgum öldum síðar Jóseph Smith yngri, bóndi í Yermont, hefði þýtt þessa dásamlegu bók, og komið fram sem spámaður árið 1823; þá hefði engill vitrast honum gefið honum handritið af þessari helgu bók. Þegar hér var komið sögunni, fóru ýmsir af áheyrendunum að fara út úr vagninum en ræðumaðurinn hélt áfram að segja frá því, hvernig Smith yngri, faðir hans og bræður og fáeinir lærisveinar, hefðu stofnað trúarbrögð hinna helgu manna nú á dögum, sem hefðu snúið mönnum ekki að eins í Ameríku heldur á Norðurlöndum, Englandi og Þýzkalandi. Eins skýrði hann og frá stofnun nýlendu einnar í Ohio; þar var reist musteri, sem kostaði tvö hundruð þúsund dollara og þorp bygt við Kirkland. Þá gat hann og þess, hvernig Smith varð auðugur bankastjóri, og fékk papyrus-handrit, skrifað af Abraham og ýmsum ágætum Egyptum. Sagan var mjög leiðinleg, og því fór meiri hlutinn af áheyrendunum á burt, en ræðumaðurinn hélt engu að síður áfram sögu sinni af Jóseph Smith, gjaldþrotum hans, hvernig honum var stungið ofan í tjöru og fiður, framkomu hans í Independence í Missouri sem leiðtoga hér um bil 3000 lærisveina, sem lifðu eins og blóm í eggi, ofsóknir þær, sem hann varð fyrir, og aðsetur langt vestur í álfu. Um þetta leyti voru ekki aðrir orðnir eftir hjá ræðumanni en Passe-partout og tíu menn aðrir; þeim var skýrt frá því, að Smith hefði eftir miklar ofsóknir komið fram í Illinois og stofnað hinn yndislega bæ Nauvoo við Mississippi, og svo orðið æðsta yfirvald þess bæjar; að hann hefði boðið sig fram sem forsetaefni Bandaríkjanna; að hann hefði orðið fyrir launsát við Carthage, verið tekinn höndum og svo myrtur af flokki grímuklæddra morðingja. Passe-partout var nú orðinn aleinn eftir; ræðumaðurinn horfði stöðugt framan í hann, minti hann á störf guðsmannsins Brighams Youngs, og sýndi honum, hvernig nýlenda Mormónanna hefði blómgast. »Og þess vegna er það, að öfundarreiði congressins hefir upptendrast gegn okkur. Eigum við að láta undan ofureflinu? Aldrei. Þó við séum reknir ríki úr ríki, þá mun okkur enn takast að finna óháðan stað, sem við getum hvílst á og reist á tjöld vor. Og viljið þér«, hélt hann áfram við Passe-partout, »viljið þér, bróðir minn, slá yðar tjaldi í skugga flaggs vors?« »Nei«, svaraði Passe-partout skýrt, og gekk um leið út, og lét Mormóna-öldunginn einan eftir. Meðan ræðumaður lét dæluna ganga, hafði lestinni miðað mikið áfram, og var nú komin að norðvestur-horninu á Saltavatninu. Farþegarnir sáu þaðan, sem þeir nú voru, þetta afarmikla stöðuvatn – Dauða hafið, eins og það er stundum kallað, sem Jórdan Ameríku rennur út í. Það er enn ljómandi fallegt vatn, þó að það sé að nokkru minna en það var á fyrri dögum, af því að bakkarnir hafa oltið fram í það. Saltvatnið er 70 mílna langt og 35 mílna breitt, og er meir en 3 mílur fyrir ofan sjávarflöt. Þó að það sé alveg ólíkt Asfaltíta-vatninu, þá er mjög mikið í því af salti. Eðlisþyngd þess er 1170; en þyngd þess er 1000 eftir að það hefir verið hreinsað. Enginn fiskur getur í því lifað; og berist þeir þangað með Jordan, Weber, og öðrum ám, þá deyja þeir innan skamms; en það er ósatt, að vatnið sé svo þykt, að enginn maður geti synt í því. Landið umhverfis er vel ræktað, því að mormónarnir eru bændur miklir, og á öðrum tíma árs mundu menn hafa séð þar blóm o.s.frv. En um þetta leyti var jörðin ígrá af snjó. Járnbrautarlestin kom til Ogden kl. 2, og lagði ekki af stað aftur fyr en kl. 6; Mr. Fogg og samferðafólk hans hafði því tíma til að fara til borgar hinna helgu manna eftir aukabraut, sem lá þangað frá Ogden. Þau töfðu eina tvo tíma í þessum há-ameríska bæ, sem hefir yfir sér, eins og allir aðrir bæir í Bandríkjunum, hinn »þunglyndislega dapurleik réttra horna«, eins og Victor Hugo komst að orði. Kl. 3 var ferðafólkið á gangi um bæinn. Það tók eftir mjög fáum kirkjum, en hús þau, sem voru almennings eign, voru spámannshúsið, dómhúsið og vopnabúrið; íbúðarhúsin voru úr bláum tígulsteini, með súlnadyrum og loftsvölum; kring um hýsin voru aldingarðar, og í þeim pálmatré, akasíur o.s.frv. Steingarður var kring um bæinn. Á aðalstrætinu var sölutorg og ýms hótel. Þar á meðal var »Salt Lake House«. Engin mannþröng var á götunum nema kring um musterið. Þar var gnægð kvenna, sem stafaði af hinum einkennilegu trúarsetningum mormónanna; en það er misskilningur að halda, að allir mormónar séu fjölkvænismenn. Þeir geta gert eins og þeim gott þykir; en það er óhætt að segja, að konurnar eru sérstaklega fíknar í að giftast, því að ógiftar konur njóta ekki fullra réttinda í kirkjufélaginu. Þessar veslings konuskepnur sýnast ekki vera í góðum efnum, né una vel hag sínum. Vera má, að sumar séu auðugar og gangi í Norðurálfu-fötum, en meiri hlutinn er klæddur eins og konur Indíána. Passe-partout horfði á þessar konur með hálfgerðum skelk, en framar öllu öðru vorkendi hann eiginmönnum þeirra. Honum virtist það voðaleg tilhugsun, að eiga að leiða svo margar konur eftir öllum krókastigum lífsins inn í paradís mormóna, og eiga svo að hitta þar hinn dýrðlega Jósep Smith, sem vafalaust lét þar ljós sitt skína. Hann komst í ilt skap, og hann gerði sér í hugarlund – ef til vill hefir það samt ekki verið annað en hugarburður –, að sumar af hinum ungu konum litu til hans á þá leið, sem þær hygðust að leggja höft á frelsi hans, og stóð honum stuggur af því augnaráði. Til allrar hamingju varð ekki dvöl hans löng í borg hinna helgu manna. Kl. 4 settist ferðafólkið í lest þá, er flutti þá aftur til Ogden. Það hvein í pípunum, en rétt þegar lestin var að byrja að hreyfast, heyrðust hróp um það, að hún skyldi staldra við. En lestin staldraði ekki við. Maðurinn, sem hrópaði, var mormóni, og hafði orðið of seinn til að ná í lestina. Hann hljóp eins og hann ætti lífið að leysa. Til allrar hamingju var brautin alveg opin, engin hlið, sem gegn um þyrfti að fara. Maðurinn þaut eftir brautinni, stökk upp á pallinn á aftasta vagninn, og fleygði sér svo lafmóður niður í fyrsta sætið, sem fyrir honum varð. Passe-partout hafði veitt manninum nákvæmar gætur, og fengið að vita, að hann hafði hlaupið á burt eftir eitthvert rifrildi heima fyrir. Þegar mormóninn var búinn að kasta mæðinni, tók Passe-partout í sig hug og dug, og spurði flóttamanninn, hvað margar konur hann ætti; af ákefðinni, sem í honum var að komast burt, gerði hann sér í hugarlund, að hann mundi að minsta eiga þær tuttugu. »Eina«, svaraði mormóninn, og rétti upp handlegginn, eins og hann væri að vitna til himins. »Eina, og sú eina kona er alveg nóg, það veit hamingjan!« XXVIII. KAPÍTULI. Passe-partout getur ekki komið vitinu fyrir neinn. ÞEGAR lestin lagði af stað frá Saltvatninu og Ogden-stöðvunum, hélt hún í norðurátt alt til Weber-fljótsins, hér um bil 900 mílur frá San Francisco. Þar beygði hún sig til vesturs yfir Wahsatch-fjallgarðinn. Það var á þessum partinum, að mestu örðugleikarnir urðu fyrir amerísku járnbrautarmeisturunum. Á þessum hluta brautarinnar hafði stjórnin líka hækkað styrkinn upp í $48,000 á míluna, í stað þess sem hann var $16,000 á sléttunum. En járnbrautameistararnir lögðu svo krók á leið sína, fóru fram hjá örðugleikunum, í stað þess að brjótast gegn um þá, og grófu að eins ein jarðgöng fjórtán þúsund feta löng. Við Saltvatnið liggur brautin hærra en nokkurs staðar annars staðar; þaðan liggur hún í langri bugðu til Bittercreek-dalsins, og fer svo aftur hækkandi á leiðinni til vatnaskiftanna milli dalsins og Kyrrahafsins. Ár eru margar um þær slóðir, Leirá, Græná og fleiri, og var farið yfir þær, hverja eftir aðra, á grjót- og timburbrúm. Eftir því, sem á ferðina leið, varð Passe-partout æ óþolinmóðari og óþolinmóðari; Fix varð líka alt af annara og annara um að komast áfram, því hann óttaðist tafir og óhöpp; hann lét sér jafnvel annara um að komast til Englands en Phileas Fogg. Járnbrautarlestin tafði ofurlitla stund við Fort Bridger um kl. 10, og 20 mílur þaðan fór hún inn í ríkið Wyoming, sem áður hét Dakota. Daginn eftir, 7. desember, var numið staðar við Grænafljót. Kraparigning hafði verið um nóttina, en ekki nógu mikil til þess að tefja umferðina. Samt sem áður var Passe-partout mjög gramur út af illviðrinu, því að hann vissi, að kæmi mikill snjór, mundi það hefta för þeirra. »Það var að minsta kosti hringlandi vitleysa af húsbónda mínum, að takast slíka ferð á hendur að vetrarlaginu; hann hefði alveg eins vel getað beðið eftir góðu veðri; þá hefðu líkindin verið meiri til þess að fyrirtækið hefði hepnast«. En meðan manngarmurinn var að ergja sig út af veðrinu, var Mrs. Aoudu órótt af alt annari ástæðu. Meðal farþeganna, sem komu inn í lestina við Grænafljót, hafði hún þekt Stamp Proctor, óberstann, sem móðgað hafði Mr. Fogg á San Francisco-fundinum. Hún lét ekki á sér bera, því hún vildi ekki láta þekkja sig, en henni féll þetta mjög illa. Sannleikurinn var sá, að hún hafði fengið ást á þessum manni, sem sýndi með hverjum deginum betur og betur, hve ant honum var um hana, þrátt fyrir það, hve kuldalegur hann var í viðmóti. Vafalaust var henni sjálfri ókunnugt um, hve djúpar þær tilfinningar voru, sem hann hafði komið inn hjá henni; hún hélt þær væru að eins þakklátsemi, en þær áttu áreiðanlega dýpri rætur. Hjarta hennar hætti næstum því að slá á því augnabliki, sem hún sá óvin Mr. Foggs. Auðsjáanlega var það af hendingu einni, að Proctor ofursti hafði lent einmitt í þessa lest, en fundum hans og Mr. Foggs mátti ekki bera saman, hvað sem það kostaði. Hún notaði tækifærið meðan Mr. Fogg svaf, til að segja hinum samferðamönnum sínum frá því, hvern hún hefði séð. »Proctor á lestinni!« hrópaði Fix upp yfir sig. »Gott og vel, þér getið verið alveg rólegar, frú mín góð; ég ætla að finna hann í fjöru áður en þeir Mr. Fogg finnast. Mér fanst hann gera meira á minn hluta en nokkurs annars í það skifti. »Og ég á líka dálítið erindi við hann, þó að hann sé óbersti«, bætti Passe-partout við. »Mr. Fix«, svaraði Mrs. Aouda, »Mr. Fogg mundi ekki líða neinum að taka fram fyrir hendurnar á honum í þessari deilu. Hann hefir sagt skýrt og skorinort, að hann ætli aftur til Ameríku til þess að hitta þennan mann, sem gerði á hluta hans. Sjái hann óberstann, þá getum við ekki stemt stigu fyrir, að þeir hittist á þann hátt, sem kann að hafa sorglegar afleiðingar. Þeir mega ekki sjást«, »Þér hafið rétt að mæla, frú«, svaraði Fix; »það yrði óbætanlegt tjón, ef þeir findust. Hvort sem Mr. Fogg vinnur sigur eða ekki, þá tefst hann, og –«. »Og þá yrði Framfaraklúbburinn ofan á«, bætti Passe-partout við. »Eftir fjóra daga verðum við komnir til New York. Ef húsbóndi minn fer ekkert út úr vagninum, þá er líklegt, að hann hitti ekki óberstann. Að minsta kosti verðum við að reyna að tálma fundi þeirra«. Samtalið hætti, því að Mr. Fogg vaknaði rétt í þessu bili og leit út um gluggann á snjóinn. Skömmu síðar hvíslaði Passe-partout að lögregluþjóninum: »Var það alvara yðar, að berjast fyrir hann?« »Eg vildi gera alla skapaða hluti til að koma honum lifandi til Norðurálfunnar«, svaraði lögregluþjónninn, og var auðheyrt á málrómnum, að honum var alvara. Það fór hrollur um Passe-partout, en traust hans á húsbóndanum bugaðist ekki. Nú var um það að ræða, hvernig þeir gætu haldið Mr. Fogg í vagninum og tálmað því, að hann fyndi óberstann. Það átti ekki að verða svo örðugt, því að Phileas var hneigður til kyrrsetu. En hvað sem því leið, fann lögregluþjónninn upp á einu ráði; rétt á eftir sagði hann við Mr. Fogg: »Tíminn líður ósköp hægt«. »Já«, svaraði Fogg, »en samt líður hann«. »Á gufuskipinu«, svaraði lögregluþjónninn, »þótti yður venjulega gaman að fá yður slag af vist«. »Já«, svaraði Fogg, »en hér hefi eg hvorki spil né menn til að spila við«. »Ó, það er ekki mikið fyrir okkur að kaupa spil. Svo er nú með spilamennina – ef frúin gæti slegið í –« »Það get eg reyndar«, svaraði unga frúin. »Eg kann vist; hún er partur af minni ensku mentun«. »Og eg kann líka dálítið í spilinu«, hélt Fix áfram, »og svo getum við spilað við blindan«. »Alveg sem þér viljið«, sagði Fogg; hann varð stórglaður við að geta spilað uppáhaldsspil sitt jafnvel í járnbrautarlestinni. Passe-partout var tafarlaust sendur til þjónsins í lestinni, og hann kom skyndilega aftur með tvo spilaböggla, merkispjöld og borð með dúk yfir. Spilið byrjaði; Mrs. Aouda spilaði dável, og Phileas hrósaði henni. Af lögregluþjóninum er það að segja, að hann var ágætur spilamaður, hæfilegur mótstöðumaður fyrir Mr. Fogg. »Nú hófum við neglt hann fastan«, hugsaði Passe-partout með sjálfum sér; »hann hreyfir sig nú ekki héðan af«. Kl. 11 um morguninn kom lestin til vatnaskiptanna við Bridger Pass, og var þá 7524 fet fyrir ofan sjávarmál. Eftir að ferðafólkið hafði svo haldið áfram um 200 mílur, var það komið út á eina af þessum víðáttumiklu sléttum, sem reynzt höfðu svo þægilegar til járnbrautalagninga. Kl. 12½ kom ferðafólkið auga á Fort Halleck, og fáum stundum síðar var það komið yfir Klettafjöllin. Það vonaði nú, að upp frá því mundi ekki þurfa að óttast neitt slys á leiðinni; snjóveðrið hafði hætt og loftið var svalt. Nokkrir stórir fuglar fældust gufuvélina og flugu upp, en engin villidýr sáust; öll sléttan var eins og eyðimörk. Eftir að Mr. Fogg hafði fengið sér góðan morgunmat, þar sem hann sat í vagninum, byrjaði hann aftur á vistinni ásamt samferðamönnum sínum. Rétt í sama bili heyrðist hátt blístur, og vagnalestin nam staðar. Passe-partout stakk út höfðinu, en gat ekki séð, hvernig á viðstöðunni stóð. Mrs. Aouda og Fix voru hrædd um, að Mr. Fogg mundi standa upp og forvitnast um, hvað að væri, en hann lét sér nægja að segja þjóni sínum að komast eftir, hvernig á biðinni stæði. Passe-partout stökk ofan. Hann hitti þar marga af farþegunum, sem voru komnir ofan á undan honum, og meðal þeirra var Proctor óbersti. Lestinni hafði verið gefið merki um að nema staðar. Vélastjórinn og vörðurinn voru að tala með mestu ákefð við vísbendingamanninn, sem yfirmaðurinn á járnbrautarstöðvunum í Medicine Bow hafði sent til þeirra. Farþegarnir tóku þátt í umræðunni, og meðal þeirra, sem mest bar á, var Proctor óbersti. Þegar Passe-partout kom til hópsins, heyrði hann vísbendingamanninn segja: »Þið getið ekki komizt yfir um. Brúin er ótraust, og þolir ekki lestarþyngslin«. »Brúin, sem hér var um að ræða, var hengibrú yfir á eina hér um bil mílu fram undan þeim. Maðurinn sagði, að margar stoðirnar undir brúnni væru brotnar, og að ómögulegt væri að komast yfir um; hann ýkti ekki hættuna, og það er óhætt að ganga að því vísu, að full ástæða sé til að fara gætilega, þegar Ameríkumenn fara að gera það. Passe-partout þorði ekki að segja húsbónda sínum frá þessu, heldur stóð við og hlustaði, nístandi tönnum og hreyfingarlaus eins og líkneskja. »Þetta er nú allt gott og blessað«, sagði Proctor óbersti, »en eg býst þó við, að við eigum ekki að bíða hér, þangað til við höfum fest rætur í snjónum«. »Við höfum telegraferað til Omaha eftir lest, hr. óbersti«, sagði vörðurinn; »en hún getur ekki komið til Medicine Bow fyrr en eftir sex tíma«. »Sex tíma!« hrópaði Passe-partout. »Já, svaraði vörðurinn; »en við þurfum líka þann tíma til að komast til Medicine Bow fótgangandi«. »Hvers vegna – það sem er ekki nema 5 mílur héðan?« sagði einn af farþegunum. »Satt er það, en það er hinu megin við ána«. »Og getum við ekki farið fyrir hana á bát?« spurði óberstinn. »Alveg ómögulegt; það er fjarska vöxtur í ánni af rigningunum; við verðum að fara á okkur 10 mílna krók til þess að fá vað«. Óberstinn lét út úr sér allra bezta safn af blótsyrðum; hann bölvaði félaginu, verðinum og sköpunarverkinu yfir höfuð; og Passe-partout fann hjá sér tilhneiging til að taka undir með honum, því hann var mjög reiður. Nú hafði orðið fyrir þeim þröskuldur, sem húsbóndi hans gat ekki rutt burt með öllum sínum peningum. Farþegarnir voru yfir höfuð gramir, því að auk biðarinnar urðu þeir að ganga 15 mílur í snjónum. Uppnámið, sem varð, hefði vakið athygli Phileas Foggs, ef hann hefði ekki verið allur í spilunum. Samt sem áður mundi Passe-partout hafa sagt hvernig á stóð, ef vélastjórinn, sem hét Foster og var Yankee í húð og hár, hefði ekki sagt: »Ef til vill er nú samt sem áður mögulegt að komast yfir um, mínir herrar, »Yfir brúna?« spurði einn farþeginn. »Já«. »Með lestina – eigið þér við það?« spurði óberstinn. »Já, með lestina«. Passe-partout var í meira lagi órótt! hann staldraði við til að hlusta á skýringu vélastjórans. »En brúin er rétt brotin«, sagði vörðurinn. »Gerir ekkert til«, svaraði Foster. »Eg held það séu líkindi til, að við sleppum yfir um með því að hleypa fullum gufukrafti á vélina«. »Hver djöfullinn!« tautaði Passe-partout. En nokkrir af farþegunum létu sér tillöguna vel líka; sérstaklega þótti Proctor vænt um hana, og hélt að þetta gæti vel tekist. Hann sagði ýmsar sögur um vélstjóra, sem hann hefði þekt, og farið hefðu yfir ár alveg brúarlausar, með því aðeins að hleypa fullum krafti á vélarnar, o.s.frv. Að lokum voru margir af farþegunum komnir á sama mál sem vélastjórinn. »Líkindin eru 50 móti 100, fyrir því, að við munum sleppa yfir um«, sagði einn. »Sextíu!« sagði annar. »Áttatíu, níutíu!« sagði sá þriðji. Passe-partout var alveg orðlaus; þó að honum væri ant um að komast yfir ána, þá þótti honum þetta helzt til ameríkanskt. »Auk þess«, sagði hann við sjálfan sig, »er til léttari vegur, sem engum þeirra sýnist hafa dottið í hug«, svo sagði hann við einn af farþegunum: »Mér virðist ráð vélastjórans vera nokkuð hættulegt: en –« »Líkindin eru 80«, svaraði sá, sem á var yrt, og sneri sér frá honum. »Veit eg það«, svaraði Passe-partout, og fór að tala við annan; »en mér kemur til hugar –« »Það er ekki til neins að láta sér koma til hugar«, svaraði Ameríkumaðurinn; »vélastjórinn segir okkur, að við getum komist yfir um«. »Vitaskuld«, svaraði Passe-partout; »en ef til vill væri gætilegra –« »Hvað gætilegra!« hrópaði Proctor óbersti; hann var reiðubúinn til að jagast við hvern, sem fór fram á gætni. »Skiljið þér ekki það, að við ætlum að fara yfir um svo hart sem við komumst? Heyrið þér það, svo hart sem við komumst?« »Eg veit það, eg veit það«, sagði Passe-Partout; enginn vildi lofa honum að ljúka við setninguna; »en það væri, ef ekki gætilegt, fyrst yður fellur ekki það orð, þá samt að minsta kosti eðlilegt –« »Hver er þetta, hvað er þetta? Hver er að tala um hvað sé eðlilegt?« hrópuðu farþegarnir frá öllum hliðum Vesalings Passe-partout vissi ekki, hvert hann ætti að snúa sér. »Eruð þér hræddur?« spurði Proctor óbersti. »Eg hræddur?« hrópaði Passe-partout; »svo þér haldið það? Eg skal sýna ykkur, að einn franskur maður getur verið eins amerískur eins og þið sjálfir«. »Allir inn í vagnana !« hrópaði varðmaðurinn. »Já, allir inn«, tautaði Passe-partout; »en þið getið ekki varnað mér að hafa þá skoðun, að það væri miklu eðlilegra fyrir okkur að fara brúna fótgangandi og láta svo lestina koma á eftir«. En enginn heyrði þessa viturlegu hugleiðingu, og þó svo hefði verið, þá mundi að líkindum enginn hafa kannast við, hve mikið vit var í henni. Farþegarnir fóru í sæti sín, Passe-partout eins og aðrir; hann lét þess ógetið, sem við hafði borið. Vistspilararnir voru soknir ofan í spil sín. Vélastjórinn blés í pípu og lét svo lestina fara nærri mílu aftur á bak; svo blés hann aftur og lét lestina leggja af stað áfram. Hraðinn varð óttalegur, nær því 100 mílur á klukkutímanum, og það var eins og lestin kæmi naumast við járnbrautarteinana. Þeir fóru yfir ána eins og elding. Enginn sá neitt af brúnni; lestin skauzt frá öðrum bakkanum til hins, án þess menn vissu af, og það var ekki mögulegt að stöðva hana fyr en hún var komin nokkrar mílur fram hjá járnbrautarstöðvunum. Á sama augnabliki sem lestin var komin yfir um, hrundi brúin með ákaflegum brestum og braki niður í ána! XXIX. KAPÍTULI. Segir frá vissum atburðum, sem aldrei koma fyrir nema á járnbraut í Bandaríkjunum. Það kveld hélt lestin áfram án þess nokkuð tefði fyrir henni, fór fram hjá Fort Sanders, yfir Cheyenne-skarðið og í Evans-skarðið. Þar liggur brautin hærra en á nokkrum öðrum stað, 8091 fet yfir sjávarmál. Nú var undan fæti alla leiðina til Atlantshafsins, og yfir sléttur að fara. Þaðan lá aðalbrautin til Denver, höfuðbæjar Colorado-ríkisins, sem er auðugt af gull- og silfurnámum, og hælir sér af að hafa meira en fimmtíu þúsund íbúa. Þremur dögum og þremur nóttum hafði nú verið varið til þess að fara 1382 mílur; á fjórum dögum og fjórum nóttum mátti komast til New York, og tækist það, hafði Phileas Fogg engan tíma misst. Um kveldið fór lestin fram hjá Walbacks-búðunum, og inn í Nebraska um kl. 11, fram hjá Julesberg við suðurgrein Platte-fljótsins. Það var þar, að Dodge general vígði Union Pacific brautina 23. október 1867. Þá voru þar tvær stóreflis gufuvélar með níu vögnum fullum með fólk, þrisvar sinnum var hrópað húrra, Sioux og Pawnee Indiánarnir börðust til málamynda, flugeldum var skotið og fyrsta númerið af blaði, sem kallað var The Railvay Pioneer, var prentað í járnbrautarlestinni. Um kl. 8 um morguninn var farið fram hjá Fort MacPherson; þá voru enn eftir 357 mílur til Omaha. Kl. 9 nam lestin staðar við North Platte, dálítinn bæ, sem er milli hinna tveggja greina fljótsins. Nú var komið yfir 101. hádegisbauginn. Mr. Fogg var sestur að vistinni að nýju ásamt félögum sínum; enginn spilamannanna, jafnvel ekki sá blindi, kvartaði yfir, að ferðin væri löng. Fix hafði í fyrstu unnið nokkrar guineur, og var svo að sjá sem hann ætlaði nú að tapa þeim, en hann var engu minni ákafamaður í spilum en Fogg. Hamingjan var nú auðsjáanlega með Fogg, og það rigndi yfir hann trompum og vinningum. Einu sinni var rétt komið að því, að hann spilaði út spaða; þá var sagt fyrir aftan hann: »Eg hefði spilað tigli«. Spilafólkið leit upp, og sá þar Proctor óbersta. Hann og Fogg þektu hvor annan á sama augnablikinu. »Ó, þér eruð Bretinn góði, eruð þér það?« hrópaði óberstinn. »Svo þér eruð að hugsa um að spila spaða?« »Já, og geri það líka«, svaraði Fogg þurlega, og sló út tíunni. »Jæja«, eg hefði nú spilað tigli«, sagði Proctor í ósvífnisróm. Hann hreyfði sig og hann ætlaði að þrífa spilið, sem var nýkomið út á borðið, og bætti þessu við: »Þér kunnið ekkert í vist«. »Það getur verið, að eg kunni hana eins vel eins og hver annar«, sagði Mr. Fogg og stóð upp. »Reynið þér bara, Jóns Bola-sonurinn«, sagði þrekni maðurinn. Mrs. Aouda náfölnaði; hún tók í handlegginn á Fogg og dró hann aftur. Passe-partout var þess albúinn að fljúga á Ameríkumanninn, og Proctor starði í sífellu ósvífnislega á mótstöðumann sinn; en Fix stóð upp og sagði: »Þér gleymið því, að það er fyrst og fremst eg, sem á erindi við þennan mann; hann hefir ekki að eins svísvirt mig orðum, heldur líka barið mig«. »Fyrirgefið þér, Mr. Fix«, sagði Fogg; »þetta kemur eingöngu mér við. Óberstinn hefir svívirt mig með því að láta sem eg kunni ekki að spila, og hann skal gefa mér uppreist míns máls«. »Hvenær og hvar sem yður þóknast«, sagði Ameríkumaðurinn; »nefnið þér vopnin«. Aouda reyndi að halda Mr. Fogg aftur; Lögregluþjónninn reyndi líka að verða sjálfur málsaðili í deilunni; Passe-partout vildi fleygja óberstanum út um gluggann, en húsbóndi hans gaf honum bendingu um að láta það vera. Mr. Fogg fór út úr vagninum og Ameríkumaðurinn fór á eftir honum út á vagnpallinn. »Herra minn«, sagði Fogg, »mér liggur mjög mikið á að komast til Norðurálfunnar; mér yrði mjög mikill bagi að hverri töf, sem fyrir mig kæmi«. »Hvað kemur alt þetta mér við?« sagði óberstinn. »Herra minn«, hélt Fogg áfram mjög kurteislega, »eftir deilu okkar í San Francisco hafði eg lofað sjálfum mér, að eg skyldi fara aftur til Ameríku og finna yður, þegar eg hefði bundið enda á það, sem eg þarf að gera á Englandi. »Er það satt!?« »Viljið þér hitta mig eftir sex mánuði?« »Hvers vegna segið þér ekki sex ár?« »Eg sagði sex mánuði«, sagði Mr. Fogg, »og það skal ekki standa á mér að koma til fundar við yður«. »Þetta er alt húmbúg«, grenjaði Proctor; »annaðhvort verður það að vera nú eða aldrei«. »Gott og vel«, sagði Mr. Fogg; »ætlið þér til New York?« »Nei«. »Til Chicagó?« »Nei«. »Til Omaha?« »Það kemur yður ekkert við. Þekkið þér Plum Creek?« »Nei«, svaraði Mr. Fogg. »Það er næsta járnbrautarstöð. Við eigum að standa við tíu mínútur; það verður nægur tími fyrir okkur til að skiftast á skotum«. »Gott og vel«, sagði Mr. Fogg, »eg staldra við í Plum Creek«. »Eg býst við þér staldrið þar við fyrir fult og alt«, sagði Ameríkumaðurinn með dæmalausum ósvífnis-svip. »Hver veit«, svaraði Mr. Fogg, og fór inn í vagninn eins rólegur og hann hafði nokkurn tíma áður verið. Hann fór þegar að hughreysta Mrs. Aoudu með því að segja henni, að oflátunga þyrfti aldrei að óttast. Hann bað svo Fix að vera fulltingismann sinn við einvígið, sem í vændum var, og Fix gat ekki vel synjað honum um þá bón; og svo settist Phileas Fogg niður rólega, fór aftur að spila vistina, og voru engin minstu geðshræringarmerki sýnileg á honum. Kl. 11 gaf blásturinn í vélinni bending um, að nú væri rétt komið til Plum Creek. Mr. Fogg stóð upp og gekk út á vagnpallinn; Fix var með honum og sömuleiðis Passe-partout með tvær skammbyssur. Mrs. Aouda varð eftir inni í vagninum, föl eins og liðið lík. Á sama augnabliki opnuðust dyrnar á næsta vagni, og út um þær kom Proctor óbersti ásamt fulltingismanni sínum, Yankee, sem var sams konar piltur eins og Proctor sjálfur. Þeir voru að stíga niður af vagninum, þegar vörðurinn kom hlaupandi og sagði: »Þið megið ekki fara ofan, mínir herrar«. »Hvers vegna ekki?« spurði óberstinn. »Við komum hingað 20 mínútum of seint, og getum ekki staðið neitt við«. »En eg ætla að fara að heyja einvígi við þennan herra«. »Því er miður«, sagði vörðurinn, »við verðum að leggja af stað tafarlaust; klukkan er að hringja«. Áður en hann var búinn að sleppa orðinu lagði lestin af stað. »Mér þykir framúrskarandi mikið fyrir þessu, mínir herrar«, sagði vörðurinn, »og hvernig sem öðruvísi hefði staðið á, mundi eg hafa gert að vilja ykkar. En þó að þið getið ekki staðið við til að berjast, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að þið gerið það á leiðinni«. »Ef til vill hentar það ekki þessum herra vel«, sagði óberstinn háðslega. »Það hentar mér ágætlega«, svaraði Phileas Fogg. »Jæja, það leynir sér ekki, að við erum í Ameríku«, sagði Passe-partout við sjálfan sig; »og vörðurinn er einhver mesti gentlemaður, sem hér er hægt að hugsa sér«. Mótstöðumennirnir, fulltingismenn þeirra og vörðurinn fóru inn í aftasta vagninn í lestinni. Þar voru ekki nema hér um bil 12 farþegar, og lestarstjórinn spurði þá, hvort þeim þætti nokkuð fyrir að flytja sig, með því að þessir tveir herrar þyrftu að binda enda á mál, sem þeir teldu snerta sóma sinn. Farþegarnir voru mjög fúsir á að gera þessum herrum þetta til geðs, og fluttu sig því í næsta vagn. Vagninn var hér um bil 50 feta langur, og mjög vel fallinn til einvígis. Hólmgöngumennirnir gátu fært sig nær hvor öðrum milli sætanna og skotið þar hvor á annan í næði. Aldrei hefir verið léttara að koma sér niður á einvígisskilmála en í þetta sinn. Mr. Fogg og Proctor óbersti höfðu hvor um sig í höndunum sexhleypta skammbyssu og gengu inn í vagninn. Þegar fulltingismenn þeirra höfðu lokað dyrunum á eftir þeim, þá gengu þeir út á vagnpallinn. Hólmgöngumennirnir áttu að byrja að skjóta jafnskjótt sem þeir heyrðu blásturinn í vélinni; svo áttu að líða tvær mínútur, og þá átti að taka út úr vagninum það sem eftir yrði af þessum tveimur herrum. Ekkert gat verið auðveldara. Það var enda svo einfalt, að Fix og Passe-partout gátu heyrt hjörtu sín slá meðan þeir stóðu þarna og hlustuðu. Allir voru á nálum meðan þeir biðu eftir blístrinu. En þá heyrðust alt í einu villimannaorg, ásamt skothljóðum, sem áreiðanlega komu ekki frá hólmgöngumönnunum. Þvert á móti, skotin voru fram með allri lestinni; inni í vögnunum heyrðust skelfingar-óp. Proctor óbersta og Mr. Fogg var skyndilega hleypt út; þeir þutu með skammbyssurnar í höndunum út í þyrpinguna, þar sem hún var þéttust, og urðu þess þá vísari, að flokkur af Sioux-Indíánum hafði ráðist á lestina. Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem þessi harðsnúni þjóðflokkur hafði ráðið á lestina. Það var siður þeirra að stökkva upp á vagnpallana meðan lestin var á ferðinni, og þeim veitti það eins létt eins og reiðmeistaranum að stökkva upp á hesta á hraðri ferð á hringsviði. Siouxarnir voru vopnaðir með byssum, og farþegarnir svöruðu þeim með skammbyssum. Indíánarnir höfðu fyrst hlaupið á vélina, höfðu gefið vélastjóranum og kyndingamanninum högg á höfuðin og rotað þá. Indíánahöfðingi einn hafði ætlað að stöðva lestina, en ekki vitað, hvernig hann átti að því að fara, og hafði svo opnað stillirinn, í stað þess að loka honum, og þaut nú lestin áfram með ákaflegum hraða. Hinir úr flokknum höfðu farið inn í vagnana og tekizt það jafn-lipurlega eins og þeir hefðu verið apar, og börðust nú við farþegana. Þeir létu greipar sópa um farangursvagninn, og börðust af hinni mestu ákefð. Ferðamennirnir vörðust hraustlega; þeir hlóðu upp í suma vagnana, og var svo setzt um þá líkt og kastala, og jafnframt fluttist alt áfram með 40 til 50 mílna hraða á klukkutímanum. Mrs. Aouda hafði sýnt hið mesta hugrekki, varðist eins og hetja með skammbyssu sinni, skaut gegn um brotnar gluggarúðurnar í hvert skifti, sem hún kom auga á einhvern villimanninn. Einir 20 Siouxar voru fallnir og höfðu marizt sundur af hjólunum; og margir farþegar lágu endilangir á sætunum, illa særðir. En það varð að binda enda á þennan bardaga; hann hafði staðið 10 mínútur, og það leyndi sér ekki, að Indíánarnir mundu vinna sigur, svo framarlega sem lestin yrði ekki stöðvuð. Fort Kearney-stöðvarnar voru ekki nema hér um bil 4 mílur fram undan þeim, og ef lestin færi þar viðstöðulaust fram hjá, þá var auðséð, að Indíánarnir mundu ráða lögum og lofum á lestinni, þangað til komið væri að næstu járnbrautarstöð. Vörðurinn barðist hraustlega við hliðina á Mr. Fogg, en svo varð hann fyrir skoti og hneig niður. Um leið og hann féll hrópaði hann: Ef lestin verður ekki stöðvuð innan 5 mínútna, þá er úti um okkur öll!« »Hún skal verða stöðvuð«, sagði Fogg og ætlaði að þjóta út. »Verið þér grafkyr, herra«, sagði Passe-partout, »eg skal sjá um þetta«. Húsbóndi hans fékk ekki ráðrúm til að stöðva hann, og honum tókst að krjúpa áfram undir vögnunum, án þess Indíánarnir sæju neitt til ferða hans, og með öllum sínum makalausa lipurleik tókst honum að komast fremst fram í lestina án þess nokkur sæi hann. Þar hékk hann á annari hendinni milli farangursvagnsins og kolakerrunnar, en með hinni losaði hann um keðjurnar, sem héldu þeim saman. Þegar gufuvélin var þannig orðin laus, þaut hún áfram með ofsalegum hraða, en þar á móti dró smámsaman úr ferðinni á lestinni, og það tókst að stöðva hana innan 100 feta frá Kearny-kastalanum. Liðsmennirnir komu skyndilega út, því þeir heyrðu skotin; en Indíánarnir biðu ekki eftir þeim. Þeir voru allir horfnir áður en lestin stöðvaðist. En þegar farið var að telja farþegana, þá komust menn að því, að nokkra vantaði, og meðal þeirra var hinn vaski fransmaður, sem hafði lagt líf sitt í sölurnar til þess að frelsa hina. XXX. KAPÍTULI. Phileas Fogg gerir blátt áfram skyldu sína. ÞRÍR af ferðamönnunum, að Passe-partout meðtöldum, voru horfnir, en það var ómögulegt að segja, hvort þeir hefðu verið drepnir eða teknir höndum. Ýmsir höfðu særst, en engir banvænum sárum. Proctor var einn af þeim, sem verst voru særðir; hann hafði barizt hraustlega, og var borinn með öðrum særðum mönnum inn á járnbrautarstöðvarnar, og þar var honum sint eins vel og föng voru á. Mrs. Aouda var heil á húfi, og Phileas Fogg, sem hafði verið þar, sem harðasta rimman var, hafði ekki fengið eina einustu skrámu. Fix hafði særzt á handlegg, en Passe-partout vantaði, og Aouda gat ekki að sér gert að gráta. Ferðafólkið hafði alt farið út úr vögnunum; hjólin á þeim voru þakin blóði og smáum ketflyksum. Rauðar slóðir sáust á hvítri sléttunni. Indíánarnir voru að hverfa í suðri fram með Republican River. Mr. Fogg stóð hræringarlaus og víxllagði handleggina; Aouda horfði á hann þegjandi, en hann skildi hana; hann varð að ráða eitthvað af. Átti hann ekki að frelsa þjón sinn úr höndum Indíánanna, ef hann skyldi hafa komizt í hendur þeirra? »Eg skal finna hann, hvort sem hann er lifandi eða dauður«, sagði hann blátt áfram við Aoudu. »Ó, Mr. Fogg!« hrópaði unga frúin, tók um hendur hans og lét tár sín falla niður á þær. »Hann verður lifandi«, bætti Mr. Fogg við, »ef við hröðum okkur sem mest við megum«. Með því að ráða þetta af, lagði Phileas Fogg alt í sölurnar, kvað upp gjaldþrotadóminn yfir sjálfum sér. Hann þurfti ekki að tefjast nema einn dag til þess að missa gufuskipið í New York og tapa veðmáli sínu. En hann taldi það skyldu sína og hikaði sér ekki. Kastalahöfðinginn í Kearny var viðstaddur; herflokkur hans var allur vopnaður, til þess að reka Indíána af höndum sér, ef þeir skyldu gera frekari árásir. »Herra minn«, sagði Mr. Fogg við hann, »þrjá farþegana vantar«. »Eru þeir dauðir?« spurði kastalahöfðinginn. »Annaðhvort dauðir eða handteknir«, svaraði Fogg; »eg verð að fá að vita, hvort heldur er. Er það áform yðar að elta Siouxana?« »Það yrði mjög varasamt«, svaraði hershöfðinginn. »Það getur verið, að Indíánarnir fari alla leið yfir í Arkansas, og eg get ekki skilið kastalann eftir varnarlausan«. »Herra minn«, svaraði Fogg, »líf þriggja manna er í veði«. »Veit eg það; en get eg hætt lífi 50 manna til þess að bjarga þremur mönnum?« »Eg veit ekki, hvort þér getið það; en eg veit, að þér ættuð að gera það«. »Herra minn«, svaraði hershöfðinginn, »hér er enginn, sem hefir myndugleika til að kenna mér skyldur mínar«. »Gott og vel«, sagði Fogg þurrlega, »eg fer þá einn«. »Þér!« hrópaði Fix; hann kom að rétt í þessu. »Er það alvara yðar, að fara einn að elta Indíánana?« »Viljið þér, að eg skilji eftir í dauðans greipum þennan vesalings mann, sem bjargað hefir lífi okkar allra? Vitaskuld fer eg«. »Nei, þér farið ekki einn«, sagði hershöfðinginn; hann gat ekki að sér gert og komst við. »Þér eruð hugrakkur maður. Hverjir 30 vilja nú gefa sig fram?« bætti hann við og sneri sér að liðsmönnunum. Allur flokkurinn gekk fram þegar í stað. Hershöfðinginn gat sjálfur valið úr. Þrjátíu voru valdir, og gamall og ráðsettur undirforingi var settur yfir þá.erlendur »Þakk' yður fyrir, kapteinn«, sagði Mr. Fogg. »Þér lofið mér að fara með yður«, sagði Mr. Fix. »Þér getið gert eins og yður þóknast, en ef þér viljið gera mér greiða, þá verðið þér hér eftir hjá Mrs. Aoudu. Ef mig skyldi henda eitthvert slys –«. Lögregluþjónninn varð náfölur. Átti hann að skilja við manninn, sem hann hafði elt með svo mikilli staðfestu? Átti hann að lofa honum að fara þannig að flækjast um sléttuna? Fix horfði á Mr. Fogg með athygli, og þrátt fyrir grun hans og vandræði þau, sem hann var í staddur, þá gat Fix ekki horft í hreinskilnislegu augun á honum. »Eg verð kyrr«, sagði hann. Mr. Fogg kvaddi ungu frúna með handabandi, og fól henni á hendur ferðatösku sína með öllum eigum sínum í, og lagði svo af stað eftir fáein augnablik með liðsmönnunum. En áður en hann lagði af stað, sagði hann við förunauta sína: »Vinir mínir! Eg skifti milli ykkar þúsund pundum, ef við frelsum bandingjana«. Þetta var litlu eftir hádegi. Mrs. Aouda fór inn í biðstofuna; þar hélt hún kyrru fyrir og var að hugsa um göfuglyndi og hugrekki Phileas Foggs, sem hafði lagt í sölurnar aleigu sína, og nú lagði á tvær hættur með líf sitt, til þess að gera það, sem hann taldi skyldu sína. Í hennar augum var Mr. Fogg hetja. En Fix hugsaði á alt annan veg; hann gat naumast dulið geðshræring sína; hann gekk fram og aftur eftir járnbrautarstöðvunum, svo leið ekki langt um áður en hann náði sér aftur. Nú þegar Fogg var farinn, þóttist Fix sjá, hve mikill auli hann hafði verið að sleppa honum. Hann fór að ásaka sjálfan sig afdráttarlítið, eins og hann hefði sjálfur verið sinn eigin umsjónarmaður. »En sá asni eg hef verið«, sagði hann við sjálfan sig. »Náunginn er farinn og kemur aldrei aftur. Hvernig stendur á því, að það skuli hafa verið mögulegt að leika svona á mig, sem geng með heimild til að handtaka hann í vasa mínum. Jæja, þöngulhöfuð er eg, hvað sem því líður!« Þannig hugsaði nú lögregluþjónninn meðan hann gekk fram og aftur á pallinum fyrir framan járnbrautarstöðvarnar. Hann vissi ekki, hvað hann átti að gera. Stundum hélt hann, að bezt væri að segja Aoudu alt, en hann vissi vel, hvernig hún mundi taka trúnaði hans. Svo fór hann að hugsa um að fara á eftir Fogg út á sléttuna, og hann hugði ekki ómögulegt, að hann kynni að geta fundið hann, af því að rekja mátti slóð flokksins í snjónum. En hann sá, að hún mundi brátt hverfa, þegar meira hefði snjóað. Fix misti móðinn og langaði til að hætta við alt saman. Hann hafði nú tækifæri til að fara frá Keaney-stöðvum og halda heimleiðis. Nú vildi svo til um kl. 2, að langt blístur heyrðist í kafaldinu austurundan; eitthvað stórt og dökt sást færast nær hægt og hægt, ekki var von á neinni lest úr þeirri átt, Aðstoð sú, sem beðið hafði verið um með hraðskeyti, gat ekki verið komin svo snemma og lestin til San Fransisco var ekki væntanleg fyrr en næsta dag. Gátan var bráðlega ráðin. Það var gufuvélin, sem runnið hafði burt frá lestinni, sem nú var að koma. Eftir að hún hafði losnað við lestina hafði hún runnið langan veg, þangað til eldurinn fór að verða lítill og gufan að dvína. Þá nam hún staðar og voru þá enn á henni vélastjórinn og kyndlarinn meðvitundarlitlir. Þegar þeir röknuðu úr rotinu og sáu, að þeir voru tveir einir þarna út á sléttunni, þá skildu þeir, hvernig í öllu lá, og þeir efuðust ekki um, að þeir mundu finna lestina einhversstaðar á brautinni. Vélastjórinn hikaði ekki. Það hefði verið gætilegt af honum að halda áfram til Omaha, en það var hættulegt að snúa aftur. Engu að síður kveikti hann upp eld og hélt aftur til Keaney-kastalans, og lét alt af vélina blása í dimmviðrinu. Ferðamennirnir urðu allir stórglaðir við að sjá vélina aftur framan við lestina. Nú gátu þeir haldið áfram ferð sinni, sem svo svaðalega hafði verið tafin. Þegar vélin hafði verið fest við lestina, spurði Mrs. Aouda vörðinn, hvort nú ætti að leggja af stað. »Tafarlaust, frú mín góð«, svaraði hann. »En bandingjarnir, veslings samferðamennirnir okkar –«. »Eg get ekki hleyft neinum ruglingi á lestaganginn«, svaraði hann; »við erum þegar þrem stundum of seint á ferðinni«. »Og hvenær kemur hingað næsta lest frá San Fransisco?« »Annað kveld«. »Það verður of seint. Við verðum að bíða«. »Það er ómögulegt. Ef þér viljið verða samferða, þá gerið svo vel að fara inn í lestina«. »Eg fer ekki«, svaraði frúin. Fix heyrði þessa samræðu. Skömmu áður, þegar ómögulegt var að halda áfram, hafði hann ráðið af að fara frá Kearney sem allra fyrst, og nú, þegar hann átti að fara upp í lestina, var eins og eitthvað héldi í hann. Tvískiftingin í huga hans varð ákafari. Meðan á þessu stóð, höfðu farþegarnir farið í sæti sín í lestinni; sumir þeirra voru særðir, þar á meðal Proctor óbersti. Lestin lagði tafarlaust af stað og hvarf innan skamms. Gufan rann saman við kafaldið. Fix hafði orðið eftir. Nú liðu nokkrar stundir. Veðrið var ónotalegt og kalt. Fix sat á bekk og virtist sofa. Þrátt fyrir óveðrið kom Aouda af og til út úr herberginu, sem henni var yfirlátið, og gekk yzt út á vagnstöðvapallinum og reyndi að skyggnast út í þykku snjódrífuna og hleraði vandlega eftir, hvort hún heyrði ekki neitt hljóð til leitarmanna, ef þeir skyldu vera að koma aftur. En hún sá ekkert né heyrði og varð jafnan að snúa svo búin inn aftur heltekin af kulda; en jafnskjótt sem henni var hitnað aftur inni, sneri hún út aftur nýja forgefins för. Nú skall nóttin á, en eigi komu leitarmenn aftur að heldur. Kastalaforinginn tók að gerast órór, en lét lítt á sér bera, drífan var ekki eins þykk nú, en frostið var ákaflega grimmt; alt var dauðaþögult. Mrs. Aouda var á ferli alla nóttina, og sagði henni þunglega hugur um forlög leitarmanna – hún var að ímynda sér þúsund hættur og háskasemdir og hún var ákaflega óróleg. Fix bærði ekki á sér, en ekki svaf hann einn dúr að heldur. Eitthvert sinn gekk einhver maður að honum og varpaði á hann orði, en hann hristi bara höfuðið og svaraði ekki öðru. Svona leið nóttin. Um sólar upprás var svo rofað upp, að sjá mátti svo sem tvær mílur frá sér. En í suðurátt, þaðan sem leitarmannanna var von, bærði ekki á neinu. Klukkan var nú orðin sjö. Foringinn var nú orðinn mjög órólegur, og vissi ekkert hvað til bragðs skyldi taka. Skyldi hann eiga að senda fleiri leitarmenn af stað til að leita hinna, og leggja þannig ef til vill enn fleiri menn í sölurnar í þeirri einkar-óvissu von, að frelsa þá, sem hann hafði sent burt í gær? En hann var ekki lengi að velta þessu fyrir sér og var í þann veginn að skipa mönnum af stað í nýja leit; en í því bili heyrðist skot. Hermennirnir þustu allir úr úr kastalanum, er það heyrðist, og sáu þá til leitarmannanna, er komu heilir á húfi. Phileas Fogg gekk í broddi fylkingar. Næstir honum gengu Passe-partout og hinir tveir týndu farþegarnir, er leitarmenn höfðu frelsað úr höndum Sioux-Indíánanna. Þeir höfðu náð Indíánunum 10 mílur frá Kearney. Rétt áður en leitarmennirnir fundu þá, hafði Passe-partout og félagar hans snúist gegn Indíánunum og hafði Passe-partout slegið þrjá niður í rot með hnefanum, en í því kom húsbóndi hans og leitarmenn að og veittu þeim félögum lið. Leitarmönnum var nú fagnað hið bezta. Phileas Fogg skifti milli leitarmannanna verðlaunafé því, er hann hafði heitið þeim, en Passe-partout tautaði með sjálfum sér: »það verð eg að segja, að dýr gerist eg nú húsbónda mínum«. Og var það ekki mælt að raunalausu. Fix horfði á Mr. Fogg og mælti ekki orð frá munni, og mundi eigi auðvelt að geta sér til, hvað hann hugsaði með sér þá í svip. Mrs. Aouda komst meira við en svo, að hún gæti komið nokkrum um orðum að tilfinningum sínum, en hún tók báðum höndum um hönd Mr. Foggs, og þrýsti hana fast milli handa sér þegjandi. Passe-partout hafði einlægt verið að skyggnast eftir lestinni síðan hann kom aftur; hann hafði búist við að finna hana hér á járnbrautarstöðvunum, þar sem hann hafði skilið við hana, og mundi hún vera ferðbúin að leggja af stað til Omaha. Vonaðist hann til, að þeir gætu unnið upp aftur tímann, sem þeir höfðu mist. »Hvar er lestin?« spurði hann loks. »Farin« svaraði Fix. »Og hvenær er von á næstu lest?« spurði Mr. Fogg. »Ekki fyr en í kvöld». »Það er svo«, svaraði Mr. Fogg stillilega. Honum sást ekkert bregða. XXXI. KAPÍTULI. Mr. Fix hjálpar Mr. Fogg töluvert til að flýta ferð sinni. PHILEAS Fogg var nú 20 klukkustundum of seinn orðinn, og Passe-partout, sem óviljandi hafði orðið örsök í töfinni, var alveg óhuggandi. Hann þóttist viss um, að hann hefði alveg sett húsbónda sinn á höfuðið. Leynilögregluþjónninn gekk nú til Mr. Foggs, starði á hann með athygli og sagði: »Í fullri alvöru að tala, herra minn, liggur yður í raun og veru svona ákaflega mikið á?« »Því miður er svo, það er mér hreinasta alvara«, mælti Mr. Fogg. »Og það er endilega nauðsynlegt fyrir yður að ná til New York þann 11. þ.m. – áður en gufuskipið til Englands fer af stað?» »Mér ríður ákaflega mikið á því«. »Og ef þessi töf hefði ekki fyrir yður komið, þá hefðuð þér komið til New York að morgni þess ellefta?« »Já, og haft 12 stundir afgangs«. »Jæja, þér eruð 20 stundum á eftir tímanum nú. Tólf frá tuttugu, verða eftir átta – þér verðið að vinna upp þessar átta stundir. Viljið þér reyna það?« »Fótgangandi?« »Nei, á sleða«, svaraði Fix; »á sleða með seglum; það hefir maður stungið upp á því við mig«. Það er satt að segja maðurinn, sem hafði ávarpað Fix um nóttina, sem hafði stungið upp á þessu við hann, en Fix hafði þá hafnað boðinu. Mr. Fogg svaraði ekki að vörmu spori, en Fix benti honum á manninn, og Fogg gekk til hans og talaði við hann. Skömmu síðar gengu þeir saman inn í kofa, sem var þar rétt hjá kastalanum. Hér sýndi maðurinn Mr. Fogg mjög einkennileg aktýgi – eins konar sleða, sem rúmaði fimm til sex menn. Á honum var hátt siglutré, ramlega fest með siglustrengjum úr stálþráðarreipi; á því var stórt segl; og fyrir sleðanum var einskonar stýri. Það var sleði, seglbúinn að öllu sem skip þau, er kúttarar nefnast. Það kemur oft fyrir á vetrinn á sléttunum, að gufuvagna-lestirnar komast ekki leiðar sinnar fyrir snjó, og þá er farið á þessum sleðum frá einni brautarstöð til annarar, og er það hröð ferð; þegar þeir hafa byr beint á eftir, fara þeir engu hægra, ef eigi hraðara, heldur en gufuvagnslestin. Þeir urðu bráðum ásáttir. Vindur blés hvass á vestan og var það beinn eftir-byr; snjórinn var harður og sleðafæri hið besta. Mr. Mudge, eigandi sleðans, kvaðst viss um að ná til Omaha á fám stundum. Þaðan gengu nægar gufuvagnalestir til Chicago og New York. Það var rétt um það, að það mátti vinna upp tímann, sem þeir höfðu mist, og þeir töfðu ekki lengi með að gera tilraunina. Mr. Fogg vildi ekki hætta Aoudu út heljarkuldann, og stakk upp á, að hún skyldi verða eftir ásamt Passe-partout, sem gæti fylgt henni til Englands, og gætu þau þá haft næðissamari ferð; en hún neitaði alveg að skilja við Mr. Fogg, og fékk það Passe-partout eigi lítillar gleði, því að honum var illa við að skilja húsbónda sinn einan eftir með Fix. Það var ekki gott að fara nærri um, hvað Mr. Fix hugsaði með sér. Breytti það áliti hans á Mr. Fogg, er hann kom aftur með leitarmönnunum og hélt nú áfram ferð sinni? Eða var hann enn sannfærður um, að hann væri þjófur, sam áliti sér óhult nú að koma aftur heim til Englands eftir svona langa burtu-veru? Getur verið, að Mr. Fix hafi verið farinn að breyta áliti sínu á Mr. Fogg; en hann vildi gera skyldu sína í því, að flýta sem mest fyrir heimferð hans til Englands. Kl. 8 var sleðinn tilbúinn. Farþegarnir settust í sætin, segl voru upp undin, og sleðinn þaut á stað með 40 mílna hraða á klukkustundinni. Vegalengdin milli Fort Kearney og Omaha beinustu leið er í mesta lagi 200 mílur. Ef vindurinn héldist, þá áttu þeir að geta náð til Omaha um klukkan eitt, ef ekki kæmu nein óhöpp fyrir. Skárra var það nú ferðalagið! Farþegarnir þjöppuðu sér svo þétt saman sem þeir gátu og gátu ekki mælt orð fyrir kulda. Sleðinn rann yfir sléttuna eins og bátur á vatni, og þegar hvössustu hviðurnar komu, var eins og hann ætlaði að lyftast upp af jörðinni. Mudge stýrði beina stefnu, og þegar sleðinn ætlaði að snúa krók á sig, rétti hann stefnuna með stýrinu. Þeir drógu öll segl upp; það var óhugsandi, að ferðahraðinn væri minni en 40 mílur á klukkustundinni. »Ef ekkert kemur óvænt fyrir«, sagði Mr. Mudge, »þá skulum við ná þangað í tæka tíð«. Það stóð á talsverðu fyrir Mr. Mudge að ná til Omaha í tæka tíð, því að Mr. Fogg hafði að vanda heitið góðum verðlaunum, ef hann kæmi ferð sinni fram í tíma. Sléttan var svo marflöt sem framast mátti verða, og Mudge stýrði þráðbeint. Járnbrautin liggur í stóran boga eftir bökkunum á Platte River, en Mudge stýrði svo, að hann tók þann krók alveg af. Hann var ekki hræddur um, að áin mundi verða þeim að farartálma, því að hún hlaut að vera lögð. Það var þannig enginn fyrirsjáanlegur farartálmi á leið þeira, og það var ekki nema tvent að óttast – að sleðinn kynni að bila eða vindurinn að breyta stefnu sinni eða hann kynni að lygna. En vindurinn blés stöðugt af sömu átt og hann var heldur að hvessa. Það söng í stálþráðar-reipunum eins og í hljóðfærastrengjum, og sleðinn þaut áfram sem örskot og hinn ákafi þytur í strengjunum söng raunalega undir. »Við siglum með hljóðfæraslætti«, sagði Mr. Fogg eitt sinn; það var alt og sumt, sem hann talaði alla leiðina, Mrs. Aouda var vel vafin í loðskinnsfeldum. Andlitið á Passe-partout var eins eldrautt eins og sólin þegar hún er að setjast, og samkvæmt því, sem hann var skapi farinn, fór honum að vaxa von á ný. Í stað þess að koma til New York að morgni dags, vonaði hann þau mundu ná þangað að kveldi dags, og ef til vill í tæka tíð, til að ná gufuskipinu til Liverpool. Passe-partout lá við að taka í höndina á Fix, því hann gleymdi því ekki, að það var þó hann, sem hafði komið upp með sleðann, sem var eini vegurinn til að ná Omaha í tæka tíð; en það var eitthvert hugboð í honum, sem hélt honum þó frá því. En hvað sem öðru leið, fann Passe-partout, að hann gat aldrei gleymt, hvað Mr. Fogg hafði lagt í sölurnar til að frelsa hann frá Indíánunum. Sleðinn flaug enn áfram. Slétturnar og vötn öll voru fannfeldi þakin. Stór óbygð eyja virtist vera innilukt milli Union Pacific járnbrautarinnar og hliðarbrautarinnar, sem tengir Kearny við St. Jóseph. Hvergi sást nokkurt hús. Stundum fóru þau fram hjá einmana laufsnauðu tré, og stundum spruttu upp í kring um þau flokkar af villifuglum, eða hópar af hungruðum úlfum eltu sleðann spölkorn. Passe-partout sat þá með skambyssu í hendinni, sí-viðbúinn að hleypa skoti á hvern þeirra, sem yrði of nærgöngull. Hefði nokkurt slys viljað til eða stöðvun á ferðinni, þá hefðu úlfarnir orðið fljótir að gera sér góða bráð af farþegunum í sleðanum. En sleðinn þaut áfram eins og örskot og skaut þessum hungruðu og gráðugu villidýrum fljótt aftur fyrir sig. Um hádegi þóttist Mugde vita, að þau væru að fara yfir Platte River. Hann talaði ekki orð um það, en nú þóttist hann viss um, að ekki væri nema 20 mílur eftir til Omaha. Og það var sannast að segja, að það var ekki liðin ein klukkustund frá þessu, þar til að Mugde stóð upp frá stýrinu, dróg niður seglin, en sleðinn rann áfram enn af ferðinni, sem á honum var. Loks stöðvaðist hann; Mudge benti þeim á þyrpingu af snjóþöktum húsum og mælti: »Þá erum við hér komin!« Þau voru komin að brautarstöðvunum, sem þau höfðu þráð, og héðan voru sífelt lestir á ferðinni til Austurríkjanna. Passe-partout og Fix hoppuðu af sleðanum og urðu fegnir að teygja úr sér, því þeir voru hálfstirðnaðir af kulda. Þeir hjálpuðu svo Mr. Fogg og Mrs. Aoudu niður úr sleðanum. Mr. Fogg borgaði Mudge mjög sómasamlega. Passe-partout barði sér dálítið til hita, og nú hröðuðu þau sér öll til járnbrautarstöðvarinnar. Þar stóð vagnlest á brautinni alveg tilbúin til að halda áleiðis austur, og þau höfðu að eins tíma til að stökkva upp í vagninn. Þau sáu auðvitað lítið af Omaha; en það kærðu þau sig ekki mikið um; þau voru ekki á neinni skemtiferð. Lestin hélt hraðfara austur um ríkið Iowa, fram hjá Council Bluffs, Des Moines og Iowa City. Um nóttina fóru þau yfir Missisippi hjá Davenport og komu í Illinois-ríkið. Næsta dag f.m. náðu þau til Chicago, sem var nýrisin upp úr ösku sinni eftir brunann, og sat nú tignarlegri en nokkru sinni áður á sínum veldisstóli við suðurendann á hinu fagra Michingan-vatni. Enn þá áttu þau 900 mílur til New York, en nú var enginn hörgull á vagnlestum þangað. Mr. Fogg fór blátt áfram úr einum vagninum upp í hinn og undir eins af stað með fullu gufuafli, eins og hann mætti enga stund missa. Lestin fór í gegnum Indiana, Ohio, Pensylvania og New Jersey eins og elding, gegn um borgir með fornaldarnöfnum, borgir með strætum og strætisvagnsporum, en svo sem engum húsum enn þá. Loksins sáu þeir Hudson sléttuna, og kl. 11 og 15 mínútur að kvöldi þess ellefta staðnæmdist lestin á hægri fljótsbakkanum, rétt við skipalægi það, sem skip Cunardlínunnar, eða öðru nafni Brezku og Norður-Ameríku konunglega póstgufuskipa-félags skipin, leggja burt frá. Gufuskipið China var þá lagt af stað til Liverpool 45 mínútum áður en þau komu. XXXII. KAPÍTULI. Phileas Fogg heyir stríð við óhamingjuna. GUFUSKIPIÐ China virtist hafa siglt burt með hina síðustu von Mr. Foggs, því að af engu gufuskipi neinnar annarar línu gat hann haft nokkurt gagn. Gufuskipið Percire, eign frakkneska Atlantshafs gufuskipafélagsins, átti ekki að leggja af stað fyr en þann 14., og skip Hamborgar og Ameríku-félagsins átti að koma við í Havre, en ekki fara beint til Liverpool; og þessi krókur til Havre hlaut að seinka honum of mikið. Gufuskip Imman-línunnar City of Paris ætlaði ekki af stað fyr en annan dag þar á eftir – það varð of seint. White Star línunni gat hann heldur ekki haft gagn af. Alls þessa varð hann vísari í »Bradshaw« hinni miklu leiðarvísisbók ferðamanna. Passe-Partout var alveg frá sér; honum fanst maður geta gengið af göflunum yfir því að verða af skipinu fyrir það að koma 45 mínútum of seint, og svo var þetta honum að kenna ofan í kaupið; hann hafði tafið fyrir húsbónda sínum; og þegar hann rendi huganum yfir viðburði ferðarinnar, mintist þess, hvern feikna kostnað hann hafði bakað húsbónda sínum, hins voðaháa veðmáls og þess of fjár, sem ferðin hafði kostað, þessi ferð, sem nú var orðin gagnslaus, þá varð hann sem örvita. Ekki var Mr. Fogg samt að ávíta hann; en þegar hann sneri sér við frá sjónum, sagði hann: »Við skulum sjá til á morgun hvað tiltækilegast verður að gera. Komið þið nú«. Þau fóru yfir ána, óku til St. Nicholas hótelsins á Broadway og leigðu þar herbergi. En Mr. Fogg var sá eini af þeim, sem kom nokkur dúr á auga um nóttina. Hann svaf rólega. Morguninn eftir var 12. desember. Frá þeim degi, kl. 7 um morguninn, og til þess 21., kl. 8¾ um kveldið, voru 9 sólarhringar, 13 stundir og 45 mínútur; svo að ef Phileas Fogg hefði siglt með China, þá hefði hann náð til Lundúna í tæka tíð til þess að vinna veðmál sitt. Mr. Fogg fór einn út um morguninn og bað þau Aoudu og Passe-partout að bíða sín, til þess er hann kæmi aftur, en vera við búin að leggja af stað með augnabliks fyrirvara. Hann gekk niður að Hudson River til að sjá, hvort þar væru nokkur skip ferðbúin. Allmörg skip voru þar altilbúin að leggja út, en hávaði þeirra voru seglskip, og af þeim gat Mr. Fogg auðvitað ekkert gagn haft. Það leit út fyrir, að honum hefði nú brugðist sín síðasta von, þegar hann kom auga á lítið skrúfu-eimskip, er lá fyrir akkerum rétt undan skanzinum; svarta kolagufuna lagði upp úr strompinum á því, og það var alt útlit á, að það væri albúið að leggja af stað að vörmu spori. Mr. Fogg kallaði á ferjubát og var skömmu síðar kominn um borð í Henriettu, sem var gufuskip úr járni bygt. Skipstjóri var um borð og gekk í móti Mr. Fogg, til að vita hvað hann vildi. Skipstjóri var maður um fimtugt, reglulegur sjóselur. »Eruð þér skipstjórinn?« spurði Mr. Fogg. »Jú«. »Eg heiti Phileas Fogg, frá Lundúnum«. »Og eg heiti Andrew Speedy, frá Cardiff. »Þér munuð vera að leggja af stað, þykist eg sjá?« »Fer innan klukkustundar«, »Hvert er ferðinni heitið?« »Til Bordeaux«. »Hvaða farm hafið þér«? »Engan farm; ekki nema seglfestu«. »Fara nokkrir farþegar með yður?« »Tek aldrei farþega; þeir eru alt af fyrir manni og síkjaftandi«. »Gengur skipið yðar vel?« »Milli 11 og 12 mílur. Henrietta er vel þekt«. »Munduð þér vilja sigla með mig og 3 félaga mína til Liverpool?« »Til Liverpool! Hví segið þér ekki eins vel til Kínlands undir eins?« »Eg sagði: til Liverpool«. »Nei«. »Ekki?« »Nei, segi eg yður; til Bordeaux er ferð minni heitið, og til Bordeaux fer eg«. »Hvað sem í boði er?« »Hvað sem í boði er«. Skipstjóri var svo hiklaus í svörum, að það var auðheyrt, að ekki var til neins halda lengra út í þá sálma. »En eigendur Henriettu?« sagði Fogg. »Eg er eigandinn. Skipið heyrir mér til«. »Eg leigi það af yður«. »Nei«. »Þá kaupi eg það«. »Nei«. Mr. Fogg lét ekki á sér sjá minstu gremjumerki, þó að illa liti út fyrir honum. Í New York var alt öðru máli að gegna en í Hong Kong, og skipstjóri Henriettu var ekkert líkur hafnsögumanninum sem átti Tankadere. Hingað til hafði mátt ráða fram úr öllum vandræðum með peningum. Nú brugðust þeir. En einhver ráð varð að hafa til þess að komast yfir Atlantshafið, og það var svo að sjá sem Phileas Fogg hefði dottið eitthvað nýtt í hug, því að hann sagði við skipstjórann: »Viljið þér þá flytja mig til Bordeaux?« »Eg gerði það ekki, þó að þér borguðuð mér tvö hundruð dollara«. »Eg skal borga yður tvö þúsund dollara«. »Hvað segið þér – fyrir hvern farþega?« »Já«. Við þetta svar fór Speedy kapteinn að klóra sér í höfðinu. Hann gat grætt átta þúsund dollara, blátt áfram með því að fara sömu leiðina sem hann hafði ætlað sér; það var ekkert fráleitt, að láta slíka upphæð vinna bug á þeirri óbeit, sem hann hafði á farþegum. Farþegar, sem borguðu hver um sig tvö þúsund dollara, voru all-dýrmætur varningur. »Eg legg af stað kl. 9«, sagði Speedy kapteinn stillilega; og ef þér og samferðamenn yðar verða þá ferðbúnir, nú, þá getið þið orðið samferða«, »Við skulum verða komin um borð kl. 9«, svaraði Mr. Fogg með engu minni stillingu. Klukkan var þá hálf-níu. Mr. Fogg var ekki mjög lengi að fara til lands aftur, aka upp að hótellinu og flytja samferðafólk sitt út í Henriettu. Hann bauð jafnvel Fix, sem orðinn var óaðskiljanlegur frá honum, að verða samferða. Alt þetta gerði Mr. Fogg með jafn mikilli ró eins og framast var unt að hugsa sér. Þau voru öll komin út á skipið, þegar Henrietta var ferðbúin. Þegar Passe-partout heyrði, hvað sjóferðin ætti að kosta, rak hann upp langt hljóð, sem greip yfir allar nótur tónstigans. Af Fix er það að segja, að hann komst tafarlaust að þeirri niðurstöðu, að Englandsbankinn mundi ekki fá mikið aftur af peningunum, því þó að Mr. Fogg ysi engum peningum út framar, þá mundi hann að minsta kosti verða búinn að eyða sjö þúsund pundum um það leyti, sem hann kæmi til Englands. XXXIII. KAPÍTULI. Phileas Fogg stendur ekki uppi ráðalaus. EINNI stundu síðar fór Henrietta fram hjá vitaskipinu við mynni Hudsonsfljótsins, sveigði fram hjá Sandy Hook, hélt fram með ströndum Eldeyjar og Langeyjar og skreið austur á við með miklum hraða. Um hádegi daginn eftir steig Phileas Fogg upp á skipstjórnarbrúna, til þess að fullvissa sig um, hvernig alt gengi, því að Speedy kapteinn var vandlega lokaður inni í káetu sinni, og hafði þar frammi heldur ljótan munnsöfnuð, sem vel var afsakanlegt, eftir því sem þá stóð á. Sannleikurinn var sá, að Mr. Fogg vildi halda til Liverpool, en skipstjórinn vildi það ekki; og Mr. Fogg hafði notað svo vel tíma þann, sem hann hafði á skipinu verið, og peninga sína, að hann hafði fengið alla skipshöfnina á sitt band, enda kom henni ekki sem bezt saman við skipstjórann. Og þannig var því varið, að Phileas Fogg réð nú yfir skipinu, að kapteinninn var lokaður inni í káetu sinni, og að skipið stefndi til Liverpool. Það var auðséð, að Mr. Fogg hafði einhvern tíma verið sjómaður, svo vel fórst honum skipstjórnin. Lesarinn mun síðar sjá, hvernig æfintýri þessu lauk. Aouda var skelkuð, en sagði ekkert. Fix hafði verið frá sér þegar frá byrjun; en Passe-partout þótti þetta bragð blátt áfram ágætt. Skipstjórinn hafði sagt, að Henrietta gæti farið milli 11 og 12 hnúta á klukkutímanum, og það höfðu engar ýkjur verið. Enn var ýmislegt óvíst – en ef ekki skyldi verða of ilt í sjóinn, né vindurinn snúast í austur, né neitt óhapp vilja til með vélina, þá var mögulegt, að Henrietta kæmist yfir Atlantshafið á níu dögum. En það var ekki ólíklegt, að þegar Mr. Fogg kæmi til Liverpool, þá yrði hann að svara ýmsum óþægilegum spurningum viðvíkjandi Henriettu og bankamálinu. Fáeina daga gekk alt vel, og Henrietta þaut áfram fyrir gufu og seglum líkt og stórskipin, sem um Atlantshafið fara. Passe-partout var hinn kátasti. Þetta síðasta meistarastykki húsbónda hans fékk honum meiri fagnaðar en alt annað; hann var lífið og sálin í skipshöfninni og glaðlyndi hans verkaði á aðra. Hann hafði gleymt sínum fyrri raunum og leit að eins fram undan sér. Hann gaf nákvæmar gætur að Fix, en talaði lítið sem ekkert við hann, því að þeir voru ekki lengur aðrir eins mátar og þeir höfðu einu sinni áður verið. Því er ekki að leyna, að Fix skildi ekki það, sem nú var að gerast. Hann varð steinhissa á því, þegar stjórnin var tekin af kapteininum og skipshöfninni mútað, og svo sjómennskuhæfileikum þeim, sem komu fram hjá Mr. Fogg; hann vissi ekki hvað hann átti að halda; því að maður, sem hafði byrjað á að stela 55 þúsund pundum, gat endað með því að stela heilu skipi, og Fix komst að þeirri niðurstöðu, eins og ekki var óeðlilegt, að Henrietta mundi alls ekki til Liverpool fara, heldur til einhverrar hafnar, þar sem sjóræningjanum Fogg væri óhætt. Lögregluþjóninum þótti mjög ilt, að hann skyldi hafa farið að skifta sér af þessu máli. Allan þennan tíma hélt Speedy kapteinn áfram að nöldra og bölva í káetu sinni, og Passe-partout, sem færði honum matinn, varð að neyta allrar varkárni. Það var svo að sjá, sem Mr. Fogg stæði alveg á sama, hvort nokkur kapteinn var á skipinu eða ekki. Þann 13. fóru þeir fram hjá rifunum við Nýfundnaland. Þar var hættuferð með fram ströndinni, einkum um vetur, því að oft eru þá þokur og stormar. Í þetta skifti hafði loftþyngdarmælirinn verið að falla allan daginn áður, og um nóttina hafði kólnað til muna og vindurinn snúist í suðaustrið. Það kom sér illa. Mr. Fogg tók saman segl sín og jók gufukraftinn svo mikið sem mögulegt var; engu að síður dróg úr hraðanum á skipinu, og jafnframt ruggaði það ákaflega. Enn hvesti og horfurnar fóru að verða ískyggilegar fyrir Henriettu. Andlitið á Passe-partout döknaði eins og himininn, og tvo daga var hann dauðhræddur. En Mr. Fogg var hugrakkur sjómaður, og hélt skipinu upp í ósjóinn án þess jafnvel að draga úr gufukraftinum. Henrietta þaut áfram eftir bylgjunum og þilfarið flaut í vatni. Stundum var skrúfan öll fyrir ofan sjó, en engu að síður færðust þeir áfram. Reyndar varð vindurinn ekki ofsalega sterkur, en hann hélzt í suðaustrinu, svo að seglin urðu að engum notum, og mistist þannig sú mikla aðstoð, sem skrúfan hefði getað af þeim haft. 16. desember var 75. dagurinn frá því, er Fogg fór frá London; helmingur leiðarinnar yfir Atlantshafið var farinn, og það verri helmingurinn. Hefði þetta verið að sumarlaginu, þá hefði Fogg verið óhætt, en að vetrinum var alt undir veðrinu komið. Passe-partout sagði ekkert, en huggaði sig við þá ímyndun, að gufan mundi ekki bregðast þeim, og var hinn vonbezti. Einn dag kom vélastjórinn upp á þilfarið og átti tal við Mr. Fogg; það var auðséð, að honum var eitthvað órótt. Passe-partout leizt ekki á blikuna; hann hefði viljað að gefa eyrun á sér til að geta heyrt það, sem þeir sögðu; honum tókst að ná í fáein orð, og heyrði húsbónda sinn segja: »Eruð þér alveg viss um þetta?« »Alveg viss«, svaraði vélastjórinn; »Þér megið ekki gleyma því, að við höfum kynt ofsalega alt af síðan við lögðum af stað, og þó að við hefðum nóg kol til að fara í hægðum okkar til Bordeaux, þá höfum við ekki nóg af þeim til þess að komast til Liverpool með sem mestum hraða. »Eg skal hugsa um það«, sagði Mr. Fogg; og þá skildi Passe-partout hvernig í öllu lá. Kolin voru að ganga upp! »Ráði húsbóndi minn fram úr þessu«, hugsaði hann með sér, »þá þykir mér hann í meira lagi ráðagóður«. Hann var í svo mikilli geðshræringu, að hann gat ekki stilt sig um að segja Fix hvers hann hefði orðið vísari. Fix svaraði: »Haldið þér þá virkilega að við séum á leiðinni til Liverpool?« »Auðvitað erum við það?« »Og aulinn!« svaraði lögregluþjónninn, ypti öxlum og sneri sér frá honum. Passe-partout mundi hafa hefnt þessarar svívirðingar, ef hann hefði ekki hugsað sem svo, að Fix garmurinn væri að öllum líkindum daufur í dálkinn og skammaðist sín fyrir að hafa hlaupið apríl alla leiðina kringum hnöttinn. En hvað vildi Phileas Fogg nú gera? Það gat enginn sagt; en sjálfur var hann jafn-rólegur að ytri ásýndum eins og hann hafði nokkurn tíma áður verið, og það var svo að sjá, sem hann hefði eitthvað ráðið af, því að hann sagði vélastjóranum þá um kvöldið, að hann skyldi ekkert draga úr gufukraftinum þangað til kolin væru gengin upp. Þannig hélt Henrietta áfram með fullum krafti, en þann 18. var lítið orðið eftir af kolunum, eins og vélastjórinn hafði spáð. »Haldið gufukraftinum eins miklum eins og mögulegt er sagði Mr. Fogg. Þegar Phileas Fogg var búinn með leiðarreikninginn, sagði hann Passe-partout að sleppa Speedy skipstjóra úr varðhaldinu. Hann vildi heldur hafa átt að leysa tígrisdýr og sagði um leið og hann gekk aftur á skipið: »Mikil óttaleg vonzka verður í manninum«. Fáum mínútum síðar kom sprengikúla ein í ljós á þilfarinu. Sprengikúlan var Speedy skipstjóri, og það var svo að sjá sem kúlan mundi ætla að fara að springa. »Hvar erum við staddir?« varð honum fyrst að orði jafnskjótt sem hann gat nokkru orði upp komið fyrir reiði. »Hvar erum við?« tók hann upp aftur og leit í kring um sig. »Sjö hundruð og sjötíu mílur frá Liverpool«, svaraði Fogg með hægð. »Sjóræningi!« grenjaði Andrew Speedy. »Eg bað yður að finna mig«. »Ræningi!« »Herra minn«, sagði Mr. Fogg, »mig langar til að biðja yður að selja mér skipið«. »Nei, aldrei að eilífu, fari það bölvað!« »Þá neyðist eg til að brenna það«. »Brenna skipið mitt?« »Já, að minsta kosti efri partinn af því, því við erum eldiviðarlausir«. »Brenna skipið mitt!« grenjaði Speedy skipstjóri; »það er að minsta kosti 50 þúsund dollara virði!« »Hér eru sextíu þúsund dollarar«, svaraði Fogg, og rétti um leið að honum bunka af bankaseðlum. Þetta hafði mikil áhrif á Speedy skipstjóra. Á einu augnabliki gleymdi hann reiði sinni, fangelsisvist sinni og öllum sínum raunum. Skipið var 20 ára gamalt, og hann græddi mjög á sölunni. Kúlan sprakk loksins ekki. Fogg hafði slökt eldinn í brunapípunni. »Eg fæ að halda skipskrokknum, er ekki svo?« »Þér megið eiga skipskrokkinn og vélina. Ætlið þér að ganga að þessu«. »Já«. Og Speedy tók peningana, sem að honum voru réttir, og stakk þeim skyndilega í vasa sinn. Alt af meðan á þessu stóð, var Passe-partout fölur eins og vofa, en það var því líkast, sem Fix ætlaði að ganga af vitinu. Tuttugu þúsund pundum eytt, og skipstjórinn átti þó enn vélina, það af skipinu, sem mest eign var í! Vitaskuld hafði fimmtíu og fimm þúsund pundum verið stolið. Þegar Speedy hafði stungið peningunum á sig, sagði Mr. Fogg við hann: »Þér skuluð ekki furða yður á öllu þessu; þér skuluð vita, að verði eg ekki kominn til London þ. 21. desember, þá tapa eg tuttugu þúsund pundum. Skoðið þér nú til – eg misti af skipinu í New York – þér neituðuð að flytja mig til Liverpool –« »Og það var rétt af mér að gera það«, svaraði kapteinninn, »því að eg hefi grætt á því tuttugu þúsund dollara«. Svo bætti hann við í alvarlegum róm: »Vitið þér hvað, kapteinn –«. »Fogg«, sagði sá sem á var yrt. »Kapteinn Fogg; það er í yður dálítið af Yankeeanum«. Og þegar Speedy hafði lokið á hann þessu lofsorð, eftir því sem honum sjálfum fannst, þá ætlaði hann að fara ofan, en í því bili sagði Fogg: »Nú á eg skipið!« »Vitaskuld; frá masturstoppunum og ofan að kjölplötum – eg á við viðinn!« »Gott og vel. Gerið þá svo vel að láta höggva allan viðinn og brenna honum«. Það var óhjákvæmilegt að nota allan þurran við til eldsneytis; og hann dag var brent afturþilfarinu, káetu-umbúningnum, svefnbekkjunum og miðþilfarinu. Næsta dag, 19. desember, var möstrunum og ránum brent. Skipverjar gengu rösklega fram og Passe-partout sagaði á við hverja tíu menn. Daginn eftir voru horfnir allir viðir upp um skipið, og Henrietta var ekki orðin nema flak. En þann dag sást Fastnet-vitinn og írska ströndin. Kl. 10 var skipið fram undan Queenstown. Phileas Fogg átti nú ekki eftir nema 24 klukkutíma til þess að komast til Liverpool, þó að hann héldi áfram með fullum hraða; og öll líkindi voru til, að gufan mundi ekki endast. Speedy var næstum farinn að láta sér eins ant um ferðina eins og nokkur hinna. »Sannast að segja vil eg helzt ráða yður til að hætta við alt saman«, sagði hann við Mr. Fogg. »Alt er á móti yður. Enn erum við ekki komnir lengra en fram undan Queenstown«. »Ó«, sagði Fogg, »er þetta Queenstown, þar sem ljósin eru?« »Já«. »Getum við ekki komist inn í höfnina?« »Ekki fyr en klukkan 3; það stendur svo á flóði«. »Þá skulum við bíða«, sagði Fogg stillilega, án þess nokkur geðshræring sæist á honum, nú, þegar hann var að gera sína síðustu tilraun til að vinna sigur á óhamingjunni. Í Queenstown er Ameríku-pósturinn fluttur í land. Þaðan er hann sendur til Dublin með hraðlest, og svo þaðan til Liverpool með hraðskreiðum gufuskipum; með því móti verður hann tólf stundum skemur á leiðinni en ef hann væri sendur alla leið með skjótustu skipum. Mr. Fogg hugsaði sér að spara þennan tima, og komast með þessu móti til Liverpool um hádegi, í stað þess sem hann gat annars ekki komist þangað fyr en kveldið eftir; með því móti átti hann að geta komist til Lundúna kl. 8¾ e.h, Um kl. 1 f.h. kom Henrietta inn á Queenstowns-höfn, og Mr. Fogg tók í höndina á Speedy skipstjóra og skildi hann eftir á skipinu, sem nú var ekki orðið annað en flak. Alt samferðafólkið gekk þegar í stað á land. Fix langaði mjög til að taka Fogg fastan tafarlaust, en gerði það þó ekki. Hvers vegna? Hélt hann loksins, að sér hefði skjátlast? Að minsta kosti ætlaði hann ekki að yfirgefa Mr. Fogg. Þau fóru öll inn í járnbrautarlestina kl. 1½ f.h., og komu til Dublin í dögun, og á augabragði stigu þau á póstskipið, sem ekki lagði sig niður við að fljóta á öldunum, heldur klauf þær. Kl. 10 mínútur fyrir 12 (um hádegi) gekk Mr. Fogg á land í Liverpool. Nú átti hann ekki eftir nema 6 tíma ferð með gufuvagni til Lundúna. En í sama augnabliki gekk Fix að Mr. Fogg, lagði aðra höndina á öxlina á honum og sagði: »Eruð þér í raun og veru Phileas Fogg?« »Já«, var svarið. »Þá tek eg yður fastan í nafni drotningarinnar!« XXXIV. KAPÍTULI. Passe-partout verður stórorður. PHILEAS Fogg sat í varðhaldi. Hann hafði verið lokaður inni í tollhúsinu, þangað til hann yrði fluttur til Lundúna. Passe-partout hefði ráðist á Fix, þegar hann tók húsbónda hans fastan, ef nokkrir lögregluþjónar hefðu ekki tálmað honum. Mrs. Aouda var alveg utan við sig af þessum viðburði, enda skildi hún ekki upp né niður í honum. Passe-partout skýrði fyrir henni, hvernig í öllu lagi, og unga frúin gat auðvitað engu til leiðar komið, en grét sáran. Fix hafði ekkert gert nema skyldu sína, hvort sem Mr. Fogg var sekur eða sýkn. Það var dómarinn, sem úr því átti að skera. Þá þóttist Passe-partout sjá, að alt væri sér að kenna. Hvers vegna hafði hann ekki sagt Mr. Fogg alla söguna? Hann hefði átt að segja honum, hver Fix var og í hverjum erindagerðum. Ef hann hefði þannig verið varaður við, þá hefði hann þannig getað sannað sakleysi sitt, og að minsta kosti hefði lögregluþjónninn þá ekki ferðast á Mr. Foggs kostnað né tekið hann fastan á því augnabliki, sem hann sté á land. Passe-partout lá við að skjóta sig, þegar hann hugsaði um þetta alt. Þó að kalt væri í veðri fór hvorki hann eða Aouda frá tollhúsinu. Þeim var ant um að sjá Mr. Fogg enn einu sinni. Af honum sjálfum er það að segja, að hann var nú blásnauður maður, og varð það einmitt á því augnabliki, sem hann annars hafði sigrað. Þessi handtaka fór með alt saman. Hann hafði átt eftir átta tíma og fjörutíu og fimm mínútur til þess að komast í Framfara-klúbbinn, og honum hefðu nægt sex tímar til að komast til Lundúna. Hefði nokkur getað séð Mr. Fogg, mundi hann hafa hitt hann sitjandi stillilega á bekk í tollhásinu, jafn-rólegan eins og nokkurn tíma áður. Það á naumast við að segja, að hann hafi tekið þessu með stillingu, heldur var svo að sjá sem honum stæði algerlega á sama. Hann kann að hafa verið hamslaus innanbrjósts, en hann lét ekki nein reiðimerki á sér sjá. Var það mögulegt, að hann gerði sér enn von um að verða sigursæll? Að minsta kosti hafði hann lagt úrið sitt kyrfilega á borð fyrir framan sig, og gætti vandlega að tímanum. Hann steinþagði, en það var skrítinn svipur í augunum á honum. Hvort sem hann var ráðvandur maður eða ekki, þá var hann kominn í gildruna og hafði mist allar sínar eigur. Var hann að hugsa um að sleppa á burt? var hann að skygnast um eftir smugu til að komast út um? Það var ekki ólíklegt, því að við og við stóð hann upp og gekk um herbergið. En dyrnar voru harðlokaðar og eins gluggarnir. Hann settist niður, dró dagbókina upp úr vasa sinum og las: »21. desember, laugardag, Liverpool«. Við þetta bætti hann þessu: »Áttugasti dagurinn, 12,40 f.h.« Svo beið hann. Tollhúsklukkan sló eitt. Mr. Fogg sá, að úrið hans var tveim mínútum of fljótt. Klukkan varð 2! Ef hann skyldi á því augnabliki geta komist inn í hraðlest, þá gat hann komist til Lundúna nógu snemma til að geta komið í tíma í Framfara-klúbbinn. Kl, 2,33 heyrði hann hávaða fyrir utan og að dyrum var lokið upp. Hann gat greint raddir Passe-partouts og Fix's. Dyrnar voru rifnar upp og Mrs. Aouda, Fix og Passe-partout komu þjótandi inn. »Ó, herra minn!« hrópaði Fix og flýtti sér til bandingjans, »eg bið yður fyrirgefningar af öllu hjarta – það var maður, sem var svo óheppilega líkur yður! Rétti þjófurinn hefir verið tekinn fastur. Þér eruð frjáls, frjáls!« Phileas Fogg var frjáls. Hann gekk stillilega að lögregluþjóninum, horfði fast framan í andlit honum eina sekúndu, og gaf honum svo slíkt högg, að hann rauk út af! »Vel hitt!« hrópaði Passe-partout. »Svona eiga menn að leika þá list að verja sig! Það veit hamingjan!« Fix lá endilangur á gólfinu og sagði ekki nokkurt orð. Hann hafði ekki fengið annað en það, sem hann átti skilið. Mr. Fogg, Aouda og Passe-parout fóru tafarlaust út úr tollhúsinu, stukku upp í vagn, og óku til járnbrautarstöðvanna. Mr. Fogg spurði, hvenær næsta lest legði af stað til Lundúna. Klukkan var þá 2,40; lestin var farin fyrir 35 mínútum. Mr. Fogg bað um sérstakan gufuvagn. Nóg var til af vélum, sem gátu farið hart, en vagninn gat ekki orðið ferðbúinn fyrr en kl. 3. Þá sagði Mr. Fogg fáein orð við vélastjórann viðvíkjandi þóknun, og lagði svo af stað í fljúgandi ferðinni til London, ásamt Mrs. Aoudu og hinum trúa þjóni sínum Passe-partout. Leiðina má vel fara á hálfum sjötta tíma, þegar ekkert er á brautinni, en í þetta skipti komu fyrir nokkrar tafir, sem ómögulegt var hjá að komast, og þegar komið var til Lundúna, vantaði klukkuna tíu mínútur í 9. Phileas Fogg hafði þannig lokið ferð sinni kringum, og komið fimm mínútum of seint! Hann hafði tapað veðmálinu. XXXV. KAPÍTULI. Passe-partout hlýðir skyndilega. Fólkið, sem bjó í Saville Row, mundi hafa orðið forviða daginn eftir, ef því hefði verið sagt, að Mr. Fogg væri kominn heim aftur, að dyrnar voru enn lokaðar á húsinu og hlerar fyrir gluggunum, og engin breyting var sjáanleg að utan. Þegar Mr. Fogg fór af járnbrautarstöðvunum, sagði hann Passe-partout að kaupa eitthvað af matvælum, og hélt svo heim til sín, án þess að láta neitt á sér bera. Mr. Fogg hélt sínum venjulega tilfinningarleysis-svip, þó að hann hefði ratað í þessar raunir; hann var orðinn vita-félaus, og það var alt að kenna lögregluþjóns-klaufanum. Það var sannarlega hræðilegt að tapa á sama augnabliki, sem sigurinn var viss, eftir að hafa farið svo langa ferð, yfirstigið ótal tálmanir, lagt sig í ótal hættur og jafnvel fengið tíma til að gera dálítið gott á leiðinni. Hann hafði mjög lítið eftir af öllum þeim peningum, sem hann hafði haft með sér að heiman; öll hans efni voru þessi 20 þúsund pund, sem hann hafði lagt inn hjá Baring, og þau skuldaði hann klúbbfélögum sínum. Jafnvel þótt hann hefði unnið veðmálið, mundi hann ekki hafa orðið vitund ríkari en áður, eftir að hafa borgað allan kostnaðinn, og það er ekki heldur víst, að hann hafi kært sig neitt um að verða ríkari, því að hann var einn af þeim mönnum, sem veðja orðstírsins vegna; en hann sá, að veðmálið mundi algerlega eyðileggja orðstír sinn. Samt sem áður hafði hann fyllilega ráðið við sig, hvað hann skyldi gera. Aoudu hafði verið fengið sérstakt herbergi og hún tók sér ófarir Mr. Foggs mjög nærri. Af vissum orðum, sem hún hafði heyrt, skildi hún það, að hann mundi hafa eitthvað alvarlegt í huga. Passe-partout vissi, að einrænir Englendingar ráða sér stundum bana, og hafði því nákvæmar gætur á húsbónda sínum án þess á bæri. En það fyrsta, sem pilturinn gerði, var að slökkva gasið í herbergi sínu, sem brunnið hafði í 80 daga. Í bréfakassanum hafði hann fundið reikning frá gasfélaginu, og honum þótti tími kominn til að takmarka slík útgjöld. Nóttin leið, Mr. Fogg fór í rúmið, en vafasamt er, hvort honum varð svefnsamt. Aouda gat engrar hvíldar notið, og Passe-partout hélt vörð líkt og hundur við dyr húsbónda síns. Daginn eftir sagði Mr. Fogg honum fám orðum, að hann skyldi sjá Aoudu fyrir morgunmat; sjálfur kvaðst hann vilja fá bolla af te og steiktan rifbita. Hann afsakaði sig fyrir að borða ekki með Aoudu, með því að hann væri að koma lagi á skjöl sín, og það var ekki fyrr en um kveldið, að hann vildi fá að finna ungu frúna að máli. Passe-partout gat ekki annað en gert það sem honum var sagt, en honum fanst sér ómögulegt að fara út úr herbergi húsbónda síns. Honum var svo mikið niðri fyrir, og hann hafði samvizkubit, því að hann gat ekki annað en kent sjálfum sér um ófarirnar. Ef hann hefði að eins varað húsbónda sinn við Fix, þá mundi Mr. Fogg ekki hafa flutt lögregluþjóninn til Liverpool, og þá – Passe-partout gat ekki stilt sig lengur. »Ó, Mr. Fogg!« hrópaði hann, »bölvið þér mér ekki? Það er alt mér að kenna –« »Eg kenni engum um«, svaraði Phileas Fogg með sínum venjulega rólega róm. »Farið þér nú«. Passe-partout fór út úr herberginu, fann Mrs. Aoudu, og færði henni skilaboðin. »Frú mín«, bætti hann við, »eg get engu til vegar komið. Eg hefi engin áhrif á hug húsbónda míns; það gæti verið að þér hefðuð það«. »Hvaða áhrif get eg haft?« svaraði hún. »Mr. Fogg lætur ekki undan neinu. Hefir hann í raun og veru nokkurn tíma tekið eftir, hve þakklát eg er honum? Hefir hann nokkurn tíma lesið í hjarta mitt? Það má ekki skilja hann einan eftir eitt augnablik. Þér segið, að hann ætli að finna mig í kveld?« »Já, frú mín. Vafalaust til þess að gera ráðstafanir viðvíkjandi dvöl yðar í Englandi«. »Við skulum þá bíða«, svaraði unga frúin, og varð alt í einu hugsi. Þannig leit svo út allan sunnudaginn sem húsið í Saville Row væri mannlaust. Og þetta var í fyrsta skiftið, sem Phileas Fogg hafði í því búið og ekki farið í klúbb sinn, þegar klukkan sló hálf-tólf. Og hvers vegna hefði hann átt að fara í Framfara-klúbbinn? Vinir hans þar bjuggust ekki við honum. Úr því að hann hafði ekki komið nógu snemma til að vinna veðmálið, þá þurfti hann ekki að fara í bankann og sækja þangað sín 20 þúsund pund. Mótstöðumenn hans höfðu ávísunina frá honum; þeir þurftu ekki annað að gera en fylla hana út og sýna hana, til þess að fá peningana út borgaða. Með því að Mr. Fogg átti því ekkert erindi út, þá var hann kyrr heima í herbergi sínu og kom skjölum sínum í röð og reglu. Passe-partout var alt af að hlaupa upp og ofan stigann, og honum fanst dagurinn vera lengi að líða. Hann lagði hlustirnar við dyr húsbónda síns, og sá ekkert rangt við það; hann gægðist gegn um skráargatið, því hann óttaðist á hverju augnabliki, að einhver ósköp mundu koma fyrir. Stundum var hann að hugsa um Fix, en án allrar óvildar. Fix hafði skjátlast eins og öllum öðrum, og hafði gert skyldu sína með því að elta Mr. Fogg, en aftur hafði hann (Passe-partout) – – – Hugsunin lét hann engan frið hafa, og honum fanst hann vera aumastur allra manna. Það lá svo illa á honum, að hann gat ekki þolað að vera einn; hann barði því að dyrum á stofu Mrs. Aoudu, fékk leyfi til að koma inn, settist þar niður úti í horni og talaði ekki orð. Hún var líka mjög hugsi. Um klukkan hálfátta bað Mr. Fogg um leyfi til að koma inn; hann fékk sér stól og settist fast við ofninn, beint á móti ungu frúnni; engin geðshræring var sjáanleg á honum, – sá Fogg, sem komið hafði heim, var sami Fogginn, sem farið hafði heiman að. Sama stillingin, sami tilfinningarleysissvipurinn. Fimm mínútur talaði hann ekki orð frá munni; svo sagði hann: »Getið þér fyrirgefið mér, frú mín, að ég skuli hafa flutt yður til Englands?« »Eg, Mr. Fogg!« hrópaði Mrs. Aouda, og reyndi að hafa vald á hjartslætti sínum. »Gerið þér svo vel að lofa mér að ljúka við það, sem eg ætlaði að segja«, hélt Mr. Fogg áfram. »Þegar ég bauð yður hingað til landsins, var ég auðugur maður, og eg hafði staðráðið, að fá yður til umráða einhvern part af eigum mínum. Þér hefðuð getað lifað frjálslegu og ánægjusömu lífi. Nú er eg blásnauður«. »Eg veit það«, Mr. Fogg«, svaraði hún; »og eg þarf að mínu leyti að biðja yður fyrirgefningar á því, að eg skuli hafa farið með yður, og ef til vill tafið fyrir yður, og þannig gert mitt til að gera yður félausan«. »Þér hefðuð ekki getað orðið eftir á Indlandi«, svaraði Mr. Fogg, »og yður var ekki óhætt með öðru móti en því, að þér væruð algerlega tekin burt frá þessum ofstækisseggjum, sem um yður sátu«. »Þér voruð þá ekki ánægður, Mr. Fogg, með að hafa bjargað mér úr dauðans greipum, heldur vilduð þér líka sjá mér framvegis borgið í framandi landi«. »Já«, svaraði Mr. Fogg; »en forlögin voru mér andstæð. En hvað sem því líður, þá langar mig til að fá yður í hendur það litla, sem eg á eftir«. »En«, hrópaði hún, »hvað verður um yður, Mr. Fogg?« »Um mig? Eg þarf einskis með«. »En«, hélt hún áfram, »hvernig getið þér hugsað til þess, sem yðar bíður?« »Eins og eg annars hugsa til hvers sem er«, svaraði Mr. Fogg, »svo vel sem eg get«. »Vinir yðar munu að minsta kosti sjá um, að þér liðið engan skort«. »Eg á enga vini, frú mín góð«. »Skyldmenni yðar þá«. »Nú orðið á eg engin skyldmenni«. »Ó, þá kenni eg sannarlega í brjósti um yður, Mr. Fogg. Einstæðingsskapurinn er voðalegur. Eigið þér enga einustu manneskju, sem þér getið trúað fyrir sorgum yðar? Menn segja, að auðveldara sé að bera sorgina, þegar tveir eru um hana«. »Það er sagt svo«. »Mr. Fogg«, sagði Aouda, stóð upp og rétti honum hönd sína, »viljið þér eignast skyldmenni og vin í einu? Viljið þér gera mig að eiginkonu yðar?« Mr. Fogg var líka staðinn upp. Það var óvenjulegur glampi í augunum á honum og varirnar skulfu. Aouda leit á hann. Í þessu augnaráði voru sýnileg einlægni, staðfesta og yndisleikur hinnar göfugu konu, sem lagði nú á tvær hættur með alt lífið, til þess að frelsa þann mann, sem hún átti líf sitt að Hann varð í fyrstu steinhissa og með öllu frá sér numinn. Eitt augnablik lokaði hann augunum, eins og hann væri að forðast ljómann af henni, og þegar hann lauk þeim upp, sagði hann blátt áfram: »Eg elska þig. Eg sver það við alt, sem mér er heilagt, að eg elska þig hjartanlega; og þér heyri eg til alla mína æfi«. Aouda rak upp hljóð og hélt hendinni fast upp að brjósti sínu. Nú var tafarlaust kallað á Passe-partout. Mr. Fogg hélt enn í hönd frúarinnar. Passe-partout skildi það alt saman, og það fór heldur en ekki að hýrna yfir honum. Mr. Fogg spurði hann, hvort þá mundi of áliðið dags til að finna séra Samuel Wilson, prest Marylebone-kirkjunnar, viðvíkjandi hjónavígslunni. Passe-partout svaraði brosandi: »Það er aldrei of seint«. Klukkan var þá fimm mínútur eftir átta. »Á vígslan að fara fram á morgun, mánudaginn?« sagði hann. »Eigum við að láta það vera á morgun? sagði Mr. Fogg, og sneri sér að Aouda. »Ef þú vilt«, svaraði hún og blóðroðnaði. Passe-partout þaut af stað eins hart eins og hann komst. XXXVI. KAPÍTULI. Nafn Phileas Foggs kemst enn í hátt verð á kaupbréfahöllinni. NÚ er kominn tími til að segja frá breytingu þeirri, sem varð á almenningsálitinu á Englandi, þegar rétti bankaþjófurinn, James nokkur Strand, var tekinn fastur í Edinborg þ. 17. desember. Þremur dögum áður var Phileas Fogg glæpamaður, eltur af lögregluþjóni; nú var hann gentlemaður, sem ekkert hafði gert fyrir sér, nema tekist á hendur óvenjulega ferð kring um hnöttinn. Miklar umræður voru um hann í blöðunum, og þeir, sem veðjað höfðu með eða móti Mr. Fogg, fóru aftur að láta á sér bera, eins og eitthvert töfraafl hefði knúð þá fram. »Skuldabréf Foggs gengu aftur kaupum og sölum, og nafn Phileas Foggs stóð aftur í fullu verði. Meðlimum Framfaraklúbbsins leið mjög illa þessa þrjá daga. Skyldi Philehs Fogg, sem þeir höfðu gleymt, koma aftur? Hvar skyldi hann þá vera 17. desember, sem var 76. dagurinn frá því, er hann hafði lagt af stað? Þeir höfðu ekkert af honum frétt. Hafði hann hætt við alt saman, eða hélt hann áfram ferð sinni með hæfilegum hraða, og skyldi hann láta sjá sig laugardaginn 21. desember kl. 8¾ um kveldið, eins og um hafði verið samið? Vér getum ekki lýst þeirri áköfu geðshræringu, sem allar stéttir manna voru í þessa þrjá daga. Hraðskeyti voru send til Ameríku og Asíu, fyrirspurnir um Mr. Fogg, og dag og nótt var fólk sent til Savilla Row; en ekkert fréttist. Jafnvel lögregluliðið vissi ekki, hvað orðið hefði af Fix. En alt þetta var ekki veðmálunum til fyrirstöðu; þau voru jafnvel hærri en áður. Skuldabréfin voru ekki lengur einskisvirði, heldur komust upp í fimm og tíu af hundraði; og Albemarle, gamli lávarðurinn, veðjaði enda jafn-hátt eins og móti honum var veðjað. Laugardagskveldið, sem Fogg átti að koma, var mikill fjöldi saman kominn í Pall Mall og Framfara-klúbbnum. Örðugt var að komast ferða sinna um göturnar; í öllum áttum voru menn að rífast, færa rök fyrir máli sínu og veðja, og ósköpin öll gengu á. Lögregluþjónarnir áttu mjög örðugt með að halda manngrúanum í stilli og þegar rétt var komið að því, að Mr. Fogg ætti að koma, þá gekk ákafinn í mönnum fram úr öllu hófi. Þetta kvöld höfðu hinir fimm kunningjar Mr. Foggs komið saman í samkvæmissal klúbbsins. Þar voru bankastjórarnir báðir John Sulivan og Samúel Fallentin; Andrew Stúart, verkfræðingurinn; Guthier Ralph, einn af forstjórum enska bankans; og Thomas Flanagan, bruggarinn; allir biðu þeir þeir Foggs með hinum mesta áhuga. Tuttugu mínútum eftir átta stóð Stúart upp og sagði: »Mínir herrar, eftir 25 mínútur er liðinn tíminn, sem um var samið«. »Hvenær átti síðasta lestin frá Liverpool að koma?« spurði Flanagan. »Kl. 7.23« svaraði Ralph; og næsta lest kemur ekki fyrri en eftir miðnætti«. »Jæja þá, mínir herrar«, sagði Stuart, »ef Mr. Fogg hefði komið með lestinni kl. 7,23, þá mundi hann nú vera kominn hingað, svo að við getum verið vissir um að hafa unnið«. »Verið þið ekki of bráðir á ykkur«, svaraði Fallentin. »Þið vitið, að kunningi okkar er mjög einrænn maður, og það er að orðtæki haft, hvað alt stendur eins og stafur á bók sem hann segir. Mér þykir fyrir mitt leyti mjög mikilli furðu gegna, ef hann kemur ekki á síðustu mínútunni«. »Eg segi fyrir mig«, sagði Stúart, sem var taugaveiklaður mjög, »að þó eg sæi hann, þá mundi eg ekki getað trúað því, að það væri hann«. »Í raun og veru var fyrirtæki Mr. Foggs óðs manns æði«, sagði Flanagan. »Það stendur alveg á sama, hvað ant hann lætur sér um að alt standi heima, sem hann ætlar sér, hann getur ekki tálmað því, að nokkrar tafir verði; og eins eða tveggja daga töf mundi koma öllum hans fyrirætlunum á ringulreið«. »Og auk þess er þess að gæta«, sagði Sullivan, »að við höfum engin skeyti frá honum fengið allan tímann, sem hann hefir verið burtu, og eru þó telegrafþræðir fram með allri leið hans«. »Hann hefir tapað, mínir herrar«, sagði Stúart, »það er enginn minsti vafi á því. Eina skipið, sem hann hefði getað komið með til þess að koma nógu snemma, er China og það kom í gær. Hér er skrá yfir farþegana, og Phileas Fogg er þar ekki nefndur. Þó að við búumst við, að honum hafi gengið ágætlega, þá getur hann naumast verið kominn til Ameríku enn. Eg á ekki von á honum næstu 20 dagana, og Albemarle lávarður tapar sínum fimm þúsund pundum. »Þá höfum við ekkert annað að gera en sýna ávísunina hans hjá Baring á morgun«. Nú vantaði kl. 20 mínútur í 9. »Fimm mínútur eftir«, sagði Stuart. Þeir fimm vinirnir litu hver á annan því að mátti næstum heyra hjörtun í þeim slá, því að ekki verður því neitað, að jafnvel þó þeir væru gamlir veðmálamenn, þá þótti þeim veðfjárupphæðin nokkuð há; en þeir vildu ekki láta á því bera, að þeim væri neitt órótt; Fallentin lagði til, að þeir fengju sér eina vist, og það gerðu þeir. »Eg sleppi ekki mínum 4000 pundum, þó að einhver byði mér 3999«, sagði Stuart um leið og hann settist niður. Klukkuna vantaði þá 18 mínútur í 9. Spilamennirnir tóku spilin upp, en héldu áfram að horfa á klukkuna. Þeim þótti mínúturnar vera lengi að líða, þó aldrei nema þeir öruggir væru. »8,43«, sagði Flanagan, og dróg um leið stokkinn, sem Ralph hafði rétt honum. Á því augnabliki var dauðaþögn, en brátt fóru aftur að heyrast óhljóðin í manngrúanum fyrir utan. Sekúndurnar seigluðust áfram með sömu ófrávíkjanlegu nákvæmninni, og allir spilamennirnir töldu hverja umferð klukkudingulsins. »8,44«, sagði Sullivan og var auðheyrt á röddinni, að taugarnar voru ekki sem styrkastar. Eftir eina mínútu áttu þeir að hafa unnið veðmálið. Þeir lögðu frá sér spilin og töldu sekúndurnar. Við fertugustu sekúnduna voru engar fréttir komnar; ekki heldur við þá fimtugustu. Við fimtugustu og fimtu sekúnduna heyrðist hátt öskur frá strætinu, og inn í það fléttuðust fagnaðaróp og blótsyrði. Allir spilamennirnir stóðu upp í sama augnablikinu. Þegar stóð á fimtugustu og sjöundu sekúndunni voru dyrnar rifnar upp, og áður en mínútan var liðin, var Phileas Fogg kominn inn í stofuna, og á eftir honum kom múgur og margmenni i mikilli geðshræringu, sem hafði ruðst inn. Mr. Fogg sagði í sínum venjulega, stillilega rómi: »Hér er eg kominn, herrar mínir!« XXXVII. KAPÍTULI. Sýnir, hvernig Phileas Fogg græddi ekkert nema ánægju á ferð sinni kring um hnöttinn. JÁ, þetta var Phileas Fogg sjálfur. Lesendur vorir munu minnast þess, að fimm mínútum eftir átta þetta kvöld – hér um bil tuttugu og þremur klukkustundum eftir að ferðafólkið hafði komið til London – hafði Passe-partout verið beðinn að semja við séra Samúel Wilson um vissa hjónavígslu. Passe-partout hafði farið með fögnuði í þær erindagerðir, en presturinn hafði ekki verið heima. Hann beið eftir honum, eins og eðlilegt var, en hann varð að tefja þar að minsta kosti 20 mínútur. Klukkan var 8,32, þegar hann fór út úr húsi prestsins; en slíkur og þvílíkur útgangur sem á honum var! Hárið á honum var í flækjum, hattlaus hljóp hann heim til sín, og svo velti hann um þeim, sem fyrir honum urðu á hlaupunum. Eftir þrjár mínútur var hann kominn aftur inn í Saville Row, og lafmóður þaut hann inn í herbergi Mr. Foggs. Hann kom engu orði upp. »Hvað gengur á?« spurði Mr. Fogg. »Ó – hjónavígslan ómöguleg«. »Ómöguleg?« »Ómöguleg á morgun«. »Hvers vegna það?« »Af því að á morgun er – sunnudagur«. »Á morgun er mánudagur«, sagði Mr. Fogg. »Nei, það er laugardagur í dag«. »Laugardagur? það er ómögulegt«. »Jú, jú!« hrópaði Passe-partout. Yður hefir skjátlazt um einn dag. Við komum hingað til borgarinnar 24 tímum áður en við þurftum, en nú eigum við ekki eftir nema 10 mínútur«. Meðan Passe-partout lét dæluna ganga dró hann húsbónda sinn beinlínis út af stólnum, sem hann sat á. Phileas Fogg var nú nauðugur einn kostur. Hann þaut ofan stigann, stökk upp í vagn, lofaði ökumanninum hundrað pundum, ók yfir tvo hunda, rakst á fimm vagna og komst inn í Framfara-klúbbinn kl. 8,45. Þannig hafði Phileas Fogg lokið ferð sinni kring um hnöttinn á 80 dögum, og hafði unnið sitt veðfé, tuttugu þúsund pund. Hvernig stóð nú á því, að öðrum eins reglumanni og honum skyldi geta skjátlazt um einn dag? Hvernig gat hann ímyndað sér, að hann hefði komið aftur til Lundúna laugardaginn þ. 21., þar sem hann í raun og veru kom föstudaginn þ. 20., sjötíu og níu dögum eftir að hann hafði lagt af stað? Ástæðan er mjög einföld. Phileas Fogg hafði unnið einn dag, án þess hann vissi af, blátt áfram af því, að hann hafði alt af haldið í austur; þar á móti hefði hann tapað einum degi, ef hann hefði haldið í vestur. Sannleikurinn er sá, að þar sem hann hafði ferðazt í austurátt, þá hafði hann farið í áttina móti sólinni, og þar af leiðandi höfðu dagarnir orðið eins mörgum sinnum fjórum mínútum styttri eins og hann hafði farið yfir margar gráður. Gráðurnar eru þrjú hundruð og sextíu, og það margfaldað með fjórum mínútum verður nákvæmlega 24 klukkutímar; þann dag hafði Fogg unnið. Með öðrum orðum, af því að Fogg hafði haldið til austurs, þá hafði hann séð sólina áttatíu sinnum fara yfir hádegisbauginn, en þar á móti höfðu kunningjar hans í London ekki séð það nema sjötíu og níu sinnum, og þannig stóð á því, að þeir bjuggust við honum í Framfaraklúbbnum þennan dag, sem var laugardagur, en ekki sunnudagur, eins og Mr. Fogg hélt. Úrdjásnið hans Passe-partuots, sem alt af hafði sýnt Lundúna-tíma, hefði sýnt þetta og sannað, ef á því hefði staðið dagatalið jafnframt stunda- og mínútna-talinu. Þannig hafði Phileas Fogg unnið sín tuttugu þúsund pund, en með því að hann hafði eytt nær því nítján þúsund pundum, þá var gróði hans lítill. En hann hafði ekki heldur veðjað til að græða peninga. Enda var það auðséð á því, að þeim þúsund pundum, sem eftir voru, skifti hann milli Passe-partouts og Fix ræfilsins, sem honum var ekki vitund illa við. En svo reglufastur var hann, að hann dró frá Passe-partouts hluta það, sem hann varð að borga fyrir gasið, er hafði logað eitt þúsund níu hundruð og tuttugu klukkustundir. Þetta kveld sagði Mr. Fogg við Aoudu með sinni venjulegu stillingu: »Er yður enn eins geðfelt að hugsa til hjónabands okkar?« »Mr. Fogg«, svaraði hún, »það er eg sem ætti að hafa spurt að því. Áður voruð þér félaus, en nú eruð þér auðugur maður«. »Fyrirgefið, frú mín«, svaraði hann, »þessi efni heyra yður til. Ef yður hefði ekki dottið hjónavígslan í hug, þá hefði þjónn minn aldrei farið að finna Mr. Wilson, og þá hefði eg ekki fengið vitneskju um misskilning minn«. Hjónavígslan fór fram fjörutíu og átta stundum síðar og svaramaður brúðurinnar var Passe-partout, ljómandi af fögnuði. Hafði hann ekki frelsað líf hennar, og átti hann ekki þennan heiður skilið? Morguninn eftir hjónavígsluna barði Passe-partout að dyrum húsbónda síns. »Hvað gengur á, Passe-partout?« »Eg skal segja yður, eg hefi rétt í þessu augnabliki séð, að við hefðum getað farið kring um höttinn á 78 dögum að eins«. »Enginn vafi á því«, svaraði Mr. Fogg, »ef við hefðum ekki farið yfir Indland; en ef við hefðum ekki farið yfir Indland, þá hefðum við ekki bjargað Mrs. Aoudu, og þá hefði hún aldrei orðið konan mín«. Og Mr. Fogg lokaði dyrunum með mestu stillingu. Þannig hafði Phileas Fogg unnið veðmál sitt, og farið kring um jörðina á 80 dögum. Hann hafði notað öll flutningafæri til þess að komast það – gufuskip, járnbrautir, smávagna, duggu, kaupskip, sleða og fíla. Hvarvetna hafði þessi einræni herra sýnt dæmalausa stillingu og gætni; og hvað hafði hann svo grætt á öllu saman? Hvað hafði hann komið með úr ferðinni? »Ekkert« munuð þið segja, Jæja, getur verið, svo framarlega sem yndislegasta kona sé ekkert, kona, sem gerði hann einn af hinum sælustu mönnum, þó að það kunni að þykja undarlegt. Og mundir þú annars ekki, lesari góður, vilja ferðast kring um hnöttinn, þó að þú ættir ekki til svo mikils að vinna?