ÓBUNDIÐ MÁL

Fyrra bindi

EINAR BENEDIKTSSON

ÓBUNDIÐ MÁL

KRISTJÁN KARLSSON gaf út

Fyrra bindi

HAFNARFIRÐI

1980

EINAR BENEDIKTSSON

SÖGUR

ÚR SÖGUM OG KVÆÐUM

ÚR DAGSKRÁ OG FLEIRI RITUM

UNDAN KROSSINUM

SKUGGSJÁ

BÓKABÚÐ OLIVERS STEINS SF

MCMLXXX

Uppsetning og útlit:

Hafsteinn Guðmundsson

Setning: Prentstofan Blik hf.

Filmuvinna: Prentþjónustan hf.

Prentun: Offsetmyndir sf.

Bókband: Bókfell hf.

EFNISYFIRLIT

Inngangsorð eftir Kristján Karlsson ... 7

SÖGUR ÚR SÖGUM OG KVÆÐUM

Svikagreifinn ... 13
Gullský ... 39
Valshreiðrið ... 43
Farmaðurinn ... 56

ÚR DAGSKRÁ OG FLEIRI RITUM

Kaupamaðurinn ... 85
Lax á færi ... 91
Blátreyjur í landi ... 95
Hundadagar ... 99
Hrossasala ... 102
Heiðmyrkur ... 106
Haustgarður ... 109
Niðri í „her“ ... 111
Gráni ... 114
Nýir menn ... 117
Gullaldarmaðurinn ... 123
Móri ... 129
Tóbakspundið ... 135
Kisi ... 139
Jóreykur ... 143
Strætapentarinn ... 146
Þyrsklingurinn ... 149
Aurriðinn ... 152
Tuddi ... 155
Davíð ... 158
Heiló ... 163
Selveiðin ... 166

UNDAN KROSSINUM ... 173

SÖGUR

úr Sögum og kvæðum

SVIKAGREIFINN

Í sögu þeirri, sem hér fer á eftir, er skýrt rétt frá viðburðum, er skeð hafa fyrir allmörgum árum í héraði einu á Íslandi, og er sagan þannig sönn, en nöfnum manna og staða er breytt, og er einnig sneitt hjá öðru því í frásögninni, er kynni að geta leitt til þess, að menn könnuðust við það, meðal hverra og á hverjum stöðum sagan hefur gerzt. –

– Það var einn dag á miðju sumri, að þrír menn riðu saman yfir F-heiði, sem liggur milli tveggja frjósamra byggðarlaga á norðanverðu Íslandi. – Tveir af þeim voru miðaldra menn, en einn ungur, á að gizka tvítugur. Sást það glöggt á reiðlagi þeirra, að sá yngsti var íslenzkur maður en hinir útlendingar. –

Þeir námu staðar við stein einn, er stendur á miðri heiðinni, þar sem ferðamenn eru vanir að æja hestum sínum; sprettu þeir þar af og settu koffortin saman á slétta grasflöt fyrir framan sig. Heyrið þér, Sigurður minn, sagði annar útlendingurinn, á góðri ensku. – Viljið þér nú ekki fá yður svolítinn bita af því, sem við höfum flutt með okkur að heiman. – Ég tók eftir því, að þér borðuðuð ekkert í morgun, þar sem við gistum? – Og einn whisky—ha? – Enskur matur og drykkur er alla daga nógu góður hérna uppi á heiðinni.

Sá sem talaði beið ekki eftir neinu svari, en benti hinum, er auðsjáanlega var þjónn hans, að hann skyldi opna koffortin. – Svo fleygði hann sér niður hjá farangrinum, tók ofan léreftshattinn og strauk af sér svitann með rauðröndóttum silkiklút. Sigurður svaraði aftur á sama máli, og þakkaði hæversklega fyrir. – Ég get ekki neytt neins, fyrr heldur en ég kem heim sagði hann og benti um leið austur yfir heiðina á grænblettótta sveitina, sem breiddi sig út frá dalsbotni niður til sjávar, milli heiðarinnar og næsta fjalls. Daginn sem ég kem heim og daginn sem ég fer þaðan, hef ég aldrei lyst á neinu, fyrir einhverju eirðarleysi. Ég veit ekki af hverju það kemur.

Jú það þekkja allir, sem ungir hafa verið. Úr mér er það nú farið fyrir löngu — því ég á alstaðar heima sagði Englendingurinn og skrúfaði stútinn af whisky-fleygnum.

– Sólin skein hátt á himninum, og það suðaði í fiðrildum og flugum allt í kring. – Það brakaði í lyngrunnunum af hita og þurrki. Spóavell og lóusöngur hljómaði um allar loftsins áttir, en spölkorn frá heyrðist suða í á, sem rann af heiðinni niður í dalinn, beygði við, þegar hún kom niður á láglendið og liðaðist svo í mjóum, löngum sveigum út eftir sveitinni. Hér og þar stirndi á brot og breiður í ánni, en dökkir hamrar gnæfðu yfir henni, þar sem hún féll í fossum. Það var sumarblær yfir landinu, og hafið lá spegilslétt og fagurt úti fyrir, svo langt sem augað eygði.

Bretarnir tóku drjúgum til sín af mat og drykk og fóru sér hægt að öllu, en ungi maðurinn var ókyrr og fámæltur við félaga sína. Hann horfði út yfir sveitina. Þar lyftu reykjarstrókarnir sér þráðbeint í loftið hærra og hærra, eins og þeir væru að teygja sig upp í skýin, sem grúfðu sig grafkyrr og góðveðursleg yfir fjallshnjúkunum.

Hvað er það sem þér hlakkið svo til að sjá heima? spurði sá enski, sem ferðinni réð og renndi um leið út fleytifullan tinbikar af skozku brennivíni. – Maður á aldrei að hlakka til neins, bætti hann svo við og hallaði sér í hnakksetið. Það eru einmitt vonirnar, sem baka manninum mestar sorgir í lífinu; sá sem einkis góðs væntir, hann verður ekki hryggur, þó hann baði ekki í rósum.

En þá þekkir hann heldur ekki þá gleði, sem það veitir manni að sjá vonir sínar rætast, svaraði Sigurður þurrlega. – Honum mislíkaði, að þessi útlendingur skyldi leggja það, sem hann var nú að hugsa um á borð við aðrar vonir annarra manna.

En Englendingurinn hélt áfram:

Sú gleði, sem maðurinn fær við uppfylling óska sinna, er bæði stopul og dýr, sagði hann. Fyrst og fremst er hún stopul vegna þess, að það er hreinasta undantekning að óskir manns eða vonir rætist – því maðurinn er nú einu sinni svo gerður, að hann hefur ekki vit á að venja sig á, að óska þess eins, sem miklar líkur eru til, að hann öðlist. – Þvert á móti. Maðurinn óskar sér oftast þess, sem forsjónin sízt vill veita honum. En svo verður gleðin manni alltof dýr; – mannssálin vill alltaf hafa nýtt og nýtt efni til að halda tilfinningunum við – annars verður sjálf gleðin yfir því, sem fengið er, að söknuði. –

Englendingurinn horfði á Sigurð með gráum, köldum veiðimannsaugum, meðan hann hélt þessa ræðu – en svipurinn var þó góðmannlegur, og hann brosti við eins og hann þekkti vel frá fornu fari, hvað það er að vera ungur og hlakka til að komast heim til sín. –

Sigurður var sonur prófastsins í þessu umdæmi og hafði verið settur mjög ungur í skóla. – Hann hafði verið þrjú, fjögur ár Reykjavík, en svo leiddist honum námið og skrifaði sig sjálfur út úr lærða skólanum. – Síðan var hann nokkurn tíma heima hjá foreldrunum og tók ekki neitt fyrir sig, en þau sáu ekki sólina fyrir honum og létu hann öllu ráða. –

Þegar Sigurður var um 18 ára gamall kom nýbyggjari nokkur frá Ameríku heim aftur í sveitina. Hafði hann flutt sig og allt sitt vestur um haf, fyrir mörgum árum síðan, en leitaði nú aftur til átthaganna. – Hafði hann svo mikið fé aflögu, að hann gat keypt jörðina, sem hann hafði flutt sig af þá er hann fór vestur, – og nú settist hann þar að með konu sína og uppkomna dóttur, er hafði, ein af fleiri systkinum, viljað snúa heim til Fróns með foreldrunum. –

Þessi heimsnúni Vesturheimsfari hét upphaflega Þórður Hákonarson, en kallaði sig nú Valdal, eftir heimili sinu á Íslandi. – Þetta nafn bar hann síðan þar í sveitinni, og kona hans og dóttir sömuleiðis, upp á ameríska vísu.

Dóttirin hét Sara – Miss Sara Valdal. Það var hún oftast kölluð í verzlunarstaðnum og á prófastssetrinu, en þar var hún stöðugur gestur, enda var ekki nema örskammt á milli bæjanna.

Sara Valdal var velkomin alstaðar í sveitinni. – Mönnum þótti skemmtun og jafnvel sómi að því, að hún heimsækti þá, og flestir gerðu sér allt far um að ná kunningsskap hennar eða vináttu. – Hún var fríð og bar sig vel; hún söng betur en nokkur önnur stúlka, sem þar þekktist, dansaði ágætlega og var ófeimin og ræðin við hvern sem hún talaði. Menn urðu glaðari, þegar hún kom og söknuðu hennar þegar hún fór. Þegar haldin hafði verið einhver skemmtisamkoma í sveitinni og menn töluðu um, hvað þar hefði skeð, hvernig gleðin hefði farið fram o.s. frv. – þá var nafn hennar nefnt þar til, fyrst og fremst, ef hún hafði komið þar – og ef Sara kom þar ekki var það eiginlega ekki álitin nein skemmtun. – Það sagði hún Sara að minnsta kosti, sögðu menn, ef deila varð um hvort hitt eða þetta hefði verið svo eða svo.

Og ef hún Sara hafði sagt eitthvað um spursmálið, þá var þrætan oftast úti.

Þessi unga og fríða Ameríkustúlka vildi hvergi fremur koma heldur en á prófastssetrið, því þar var menntað fólk, alltaf nóg af öllu – og þar var laglegasti ungi maðurinn, sem til var sveitinni. Prófasturinn sjálfur var mikill gleðimaður en þó allt hófi. Hann hafði fyrst lesið guðfræði við Hafnarháskóla en orðið að hætta sökum fátæktar og gjöra sig ánægðan með próf af prestaskólanum – en nú sat hann á einu bezta brauði landsins og var vel látinn af öllum, bæði utan kirkju og innan, eins og hreppstjórinn jafnan sagði, ef menn fóru að tala um hann úti í frá. – Prófastsfrúin var ættuð úr Reykjavík – hafði verið ljómandi falleg kona og ein helzta „stjarna“ á dansleikjum í höfuðstaðnum á sinni tíð. – En nú var hún orðin mædd af barnamissi og annari alvöru lífsins og gaf sig alla við bústjórninni. – Hún var sjaldan kát, en gerði aldrei neitt til þess að hindra skemmtun annarra á heimilinu, og ef Sigurður, eina barnið, sem hjónin áttu á lífi, var heima, og tók þátt í einhverjum gleðskapnum, þá var frúin alltaf reiðubúin til þess að láta allt sem þurfti, herbergi, kaffibrauð og lykilinn að stofuorgelinu – og þá brosti hún vinsamlega framan í unga fólkið, þegar hún sá að það skemmti sér vel.

Og það var yfirleitt mikið um gleði og glaum í þessari sveit. Þar var söngfélag, leikja- og glímufélag og á fjórum heimilum voru stofuorgel til. En bezta orgelið, sem til var átti kirkjan en það var alltaf látið standa inni á staðnum milli helga. – Það var orgelið, sem fyrst kom Söru og Sigurði í góðan kunningsskap. – Hann spilaði rétt laglega, og hafði færi á að æfa sig alla daga, líka þá, þegar allir aðrir voru við vinnu. Hann var því eiginlega sá eini, sem Sara gat stöðugt sungið með, – og ekkert leiðir hugi pilts og stúlku fyrr saman heldur en það, að þau finni að þau standi bæði saman, sér – fyrir utan félagsskap annarra, hve litlu sem það er.

Þau voru trúlofuð með vilja og vitund foreldranna, þegar Sigurður sigldi til Hafnar – og Sigurður hefði sjálfsagt verið þar lengur, að minnsta kosti eitt ár til, í allri gleðinni og áhyggjuleysinu, ef löngunin eftir að sjá Söru Valdal aftur hefði ekki knúið hann heim.

Hann tók sér farbréf með einni fyrstu sumarferðinni til verzlunarstaðar þess, er lá næst prófastssetrinu, og þar hitti hann Englending þann, er nú var í förinni.

Hann hafði næstu sumur á undan ferðast um aðra hluti landsins, með sama þjóninum og fylgdi honum nú. – Sögðu menn að hann hefði veðjað um það á Englandi, afarmikilli upphæð, að hann skildi ríða einu sinni yfir alla aðalvegi á Íslandi á 5 árum ― og víst var það að Sigurður sá hjá honum einkennilegt landbréf, þar sem allir þjóðvegir voru dregnir á, og nöfn allra áfangastaða um allt Ísland. ― Englendingurinn hafði feginn tekið á móti tilboði Sigurðar um að verða honum samferða og koma við á prófastssetrinu, sem einmitt lá í þjóðbraut og var getið að öllu góðu í ferðabókum útlendinga. ―

Sigurður vissi vel, að allir mundu fagna komu sinni heima. Hann átti þar ekki einn einasta óvin; jafnvel hundarnir vissi hann, að mundu hlaupa með vinalátum á móti honum, og hann málaði fyrir sér í huganum, hvað fólkið mundi verða hýrt á svipinn og að móðirin mundi vikna af gleði, þegar hún sæi soninn ― augastein sinn koma aftur, ungan og glæsilegan úr utanförinni. ― Allt þetta sá hann fyrir sér í huganum og í miðju málverkinu, þar sem allt er hann átti kærast heima, raðaði sér upp fyrir framan hann, stóð Sara Valdal, unnusta hans, og breiddi faðminn á móti honum með þessum indælu, náttúrlegu hreyfingum, sem hrifu alla er sáu hana.

― Hann stökk upp af þúfunni, sem hann sat á og sló svipuskaftinu utan á vatnsstígvélið af óþreyju yfir Englendingunum, sem nú lágu aftur á bak og reyktu í pípum sínum, og horfðu steinþegjandi upp í himininn.

Þegar Sigurður stökk upp af þúfunni reisti sá enski sig á olnbogann, dró stóreflis silfurúr upp úr treyjuvasanum og leit á það. ― Klukkan var 4; það var einmitt kominn tími til þess að leggja af stað ― til þess að halda áætluninni. Hann hafði hingað til gætt þess nákvæmlega að fara á tiltekinni mínútu frá hverjum einasta stað, sem nefndur var í bréfinu hans.

― Það var rúm tveggja tíma ferð niður í dalinn, og Sigurður herti á ferðinni það sem hann gat, en Bretinn hélt hesti sínum aftur og lét hann hálfskokka, jafnt nú sem endranær. En loksins komust þeir niður af heiðinni og nú blasti hlaðbrekkan á staðnum við þeim, hinum megin við ána.

Sigurður bað Englendinginn að fyrirgefa sér þó hann riði á undan; hann ætlaði að segja frá því að hann hefði gesti með sér; svo hleypti hann á spretti heim, og bráðum þekkti hann andlit þeirra sem stóðu í varpanum heima og biðu eftir honum, þar á meðal foreldra sinna. ― Hann reið hart heim túnið, en sá nú að eitt andlitið vantaði. Hann hafði skrifað, að hann kæmi einmitt þennan dag — og það hafði víst verið litið eftir því um daginn, nær hann kæmi. — En hvernig stóð svo á því, að Sara var ekki komin líka til þess að taka á móti honum? ―

Þegar hann hafði heilsað foreldrum sínum og fólkinu leit hann í kring um sig og upp í gluggann á loftsherberginu, þar sem hún stundum var vön að standa og horfa yfir veginn, einkum á helgum þegar mikil mannaferð var. — Svo leit hann á móður sína, en hún dró hann inn með sér, áður en hann gat spurt hana. — Við skulum ekki tala um það svo fólkið heyri, hvíslaði hún að honum um leið. ―

Hann skildi ekkert, hvað hún átti við — honum var ómögulegt að láta sér detta neitt í hug, en hann hlýddi henni ósjálfrátt og gekk þegjandi á undan henni inn í gestaherbergið undir baðstofunni. En þá áttaði hann sig á því, að það hlyti að vera eitthvað óþægilegt — eitthvað sorglegt, sem móðir hans vildi ekki segja honum svo fólkið heyrði, og hann horfði aftur á hana.

Móðir hans leit undan; hún var mæðuleg, eins og hann hafði séð stundum þegar hann virti hana fyrir sér, án þess að hún tæki eftir honum.

Hann vildi fá að vita, hvað þetta var — og ætlaði að fara að spyrja hana, en þá mundi hann eftir Englendingunum. Það dugði ekki að láta þá finna að þeirra væri ekki vænzt og hann skýrði henni í fljótum orðum frá því, að hann hefði boðið þeim að vera þar um nóttina og að hann ætlaði að sýna þeim mógilskambinn við ána — sem svo margir útlendingar komu til að skoða.

Hann heyrði að þeir riðu í hlaðið og flýtti sér út til þess að taka fyrstur á móti þeim. — Hann gekk brosandi á móti Englendingum, bauð hann velkominn — og benti smaladrengnum að taka við hestunum. Hann reyndi að láta ekki á neinu bera ― en honum fannst strax á sér, að Englendinginn mundi gruna eitthvað: Á, var það ekki satt sem ég sagði þér? Maður á aldrei að hlakka til neins — fannst honum hann geta lesið út úr veiðimannsaugunum — þó Englendingurinn reyndar væri brosleitur og spaugsamur, eins og hann var vanur.

Foreldrar Sigurðar töluðu ekki ensku og hann mátti því til að dvelja hjá komumönnum til þess að brjóta ekki á móti boðum gestrisninnar, en Englendingurinn talaði út um heima og geyma og forðaðist að víkja að umtalsefni þeirra á heiðinni, eins og hann vissi að það hlyti að særa hinn unga samfylgdarmann hans.

Hver er þessi ljómandi fallega stúlka?, spurði Englendingurinn, og tók upp mynd af ungum kvenmanni, sem lá efst í bakkanum á stofuborðinu.

Unnusta mín svaraði Sigurður fljótt. — Sýnist yður hún ekki lík systur sinni, þessari? bætti hann við, til þess að segja eitthvað og benti á aðra mynd af ungri stúlku í útlendum búningi.

Nei, sagði Englendingurinn. Mér sýnast þær ekki líkar. Það er að segja, myndirnar eru í sjálfu sér mjög svipaðar, en ―

En hvað? tók Sigurður upp, eins og ósjálfrátt. Hann var með hugann allt annarstaðar.

― Englendingurinn svaraði ekki strax — en svo leit hann upp á Sigurð. Ég meina, að myndirnar séu í rauninni svo líkar sem systramyndir geta verið, en það er auðséð á þeim, að þær sem myndirnar eru af, munu vera mjög ólíkar.

Það var í annað sinn, sem Sigurði fannst þessi útlendingur vera of nærgöngull. Hvað vissi hann um það, hvernig Sara Valdal eða systir hennar voru gerðar? — En það var ómögulegt að reiðast honum; hann var svo undarlega góðmannlegur og þó alvörugefinn að sjá, þegar hann sagði þetta.

En rétt þegar Sigurður ætlaði að fara að segja eitthvað til þess að rjúfa þögnina, sem orðið hafði, eftir að Bretinn hafði mælt síðustu orðin, var slegið eitt sterkt og snöggt högg í hurðina og hún opnuð um leið. Þeir stóðu allir upp. — Jú, það var Sara Valdal sjálf, rjóð og brosandi, í reiðfötum, með ofurlitla silfurbúna svipu í annari hendi en pilsfellingarnar í hinni, sem var þar komin. Hún staðnæmdist rétt fyrir innan þrepskjöldinn og horfði á stofugestina á víxl. — En Sigurður fleygði myndinni á borðið og gekk á móti henni, þegjandi og frá sér numinn, eins og í hálfgerðum draumi. Hann vissi ekki, hvað hann átti að segja eða hvernig hann ætti að heilsa henni.

Englendingurinn leit aftur niður á myndina og þjónninn blíndi útí loftið, eins og steingervingur. Það varð þögn í stofunni, ekki löng, en óheimleg og illsvitandi eins og sumar þagnir geta verið, sem detta á allt í einu milli manna, undir ýmsum atvikum lífsins, ófyrirséðar en ógleymanlegar, líkastar því sem maður heyri tímann fljúga fram hjá sér á mjúkum, dökkum hrafnsvængjum.

Þögnin varaði aðeins eitt andartak. Það var Sara sem leysti álögin af. Hún rétti Sigurði hendina, en opnaði hurðina um leið upp á gátt, og benti ókunnugum karlmanni, sem stóð úti fyrir, með hattinn í hendinni, að koma inn.

Unnusti minn, sagði hún og leit til gestanna. Hún tók um leið innilega og fast í hendina á Sigurði. ―

Sá nýkomni beygði sig hæversklega fyrir syni húsbændanna og heilsaði hinum tveim fljótlega. Svo sneri hann sér að Söru og spurði brosandi, á mjög bjagaðri íslenzku:

Er þetta ungi maðurinn, sem þú hefur talað um við mig?

Sigurður starði höggdofa á Söru. Hann skildi ekki eitt einasta orð af því, sem talað var. Hver var þessi maður sem þúaði unnustu hans og talaði svo kunnuglega til hennar og hans, á þessu herfilega útlendingsmáli?

Brjóstið á Söru gekk upp og ofan eins og hún kæmi úr dansi — en hún var róleg og ánægð á svipinn. ―

Já, svaraði hún. Það er einmitt hann. Ég vona að þið verðið góðir vinir. ― Þetta er unnusti minn sagði hún svo í annað sinn og leit til Sigurðar.

Hver er unnusti þinn? sagði hann. ― Honum heyrðist líkast því, sem hans eigin orð kæmu frá öðrum manni, einhverstaðar utan af þekju.

Herra Pierre de Lavatte, greifi frá Normandí, svaraði Sara og lygndi augunum ― en sá ókunnugi hneigði sig aftur enn dýpra fyrir Sigurði.

— Hann fann steypuna koma yfir sig, svíðandi kalda eins og klakavatn — aðeins eitt augnablik. Svo skildi hann allt saman.

Þið verðið að fyrirgefa, að ég hef ekki haft eins góðan undirbúning undir þennan einkennilega gamanleik eins og þið ― en ég vona að ég komist á það með tímanum að spila minn þátt í honum eins og á að vera, sagði hann og beit tönnunum fast saman. Hann vissi ekki enn hvað hann átti að gjöra, og gat ekki áttað sig til fulls á svo dæmalausri, óheyrðri ósvífni.

Sara var nú orðin alvarlegri á svipinn — og horfði fast framan í Sigurð.

Það getur vel verið sagði hún að einhver önnur stúlka, eða segjum allar aðrar stúlkur en ég, hefðu farið allt öðru vísi að þessu. ― En svona fannst mér nú langbezt og einfaldast að gjöra það. — Og til hvers átti ég að láta aðra vera að segja þér frá því, að ég væri trúlofuð í annað sinn? Og til hvers átti ég að vera að fást við að lýsa þeim manni fyrir þér, sem ég hafði valið mér? Var ekki best að við kæmum bæði saman, til sjónar og viðtals við þig, — svona, einmitt eins og við höfum gjört? —

Sigurður virti fylgimann hennar fyrir sér, sem snöggvast. Hann var lágvaxinn, fremur feitur, rauðhærður, nálægt miðjum aldri og með skalla yfir enninu nokkuð aftur á hvirfil. — Hann var glaðlegur og fremur góðmannlegur að sjá, en svipurinn ekki sem hreinastur. — Hann var vel limaður, og bar sig náttúrlega; það var auðséð á öllu, að hann hafði fengið gott uppeldi.

Svo horfði hver á annan. Þögnin kom enn yfir stofuna, lengri og ennþá óheimlegri en fyrr. Sigurður fann að eitthvað brauzt í kokinu á honum; hann vissi ekki hvort það var fremur grátekki eða skellihlátur. Hann rykkti upp stofuhurðinni og benti út í ganginn. Kemur það ekki fyrir í leiknum hjá ykkur, að höfuðpersónunum sé vísað út?, kallaði hann ónáttúrlega hátt, og með torkennilegum málróm.

Oui, en þér barra sigja vitlausan stikorð sagði Frakkinn, tók hendina á Söru undir arminn og gekk hofmannlega og brosandi, eins og ekkert væri, út úr stofunni. —

Þegar hurðin var fallin í falsið á eftir unnustufólkinu, losnaði fyrst um öll bönd á geðshræringum Sigurðar, og hann fleygði sér endilöngum niður í legubekkinn við stofuborðið, og skellihló svo hátt og sterkt, sem lungun orkuðu. — Hann tók ekkert eftir því, að hann var ekki einn inni, en bara hló hærra og hærra, svo að glumdi í öllu húsinu. Honum flaug sem allra snöggvast í hug, að hann mundi ætla að verða brjálaður — en hann fann svo að segja samstundis að hláturinn var annars eðlis. Hann fann sér létta betur en við heillar eyktar grát — og svo tók hann hverja hláturhviðuna á fætur annari. Það var eins og hann væri kitlaður í handarkrikunum, og hann ætlaði aldrei að geta hætt. — Loksins fóru köstin að styttast, og hann settist upp, rauður í framan af hlátrinum og af blygðun yfir því að vera gjörður að skopgosa í þessum bölvaða skrípaleik, óviðbúinn og án þess að vera spurður leyfis.

Englendingurinn sat grafkyrr á sama stólnum og honum stökk ekki bros. Það var eins og hann væri heyrnarlaus eða gerður af grjóti. — Sigurður stóð upp af bekknum og ætlaði út - en sneri við aftur og sagði við samferðamann sinn:

Þér verðið að fyrirgefa, að ég haga mér svona undarlega. Það eru kenningar yðar frá heiðarmáltíðinni, sem eru nú að rætast á mér. — Ég get ekki talað um það við yður, hvað hér hefur skeð, en yður hefur máske grunað það, þó þér skylduð ekki málið sem talað var. — Þér megið ekki álíta mig ókurteisan né vitfirrtan, viljið þér lofa mér því — þó ég skýri þetta ekki nánar fyrir yður.

Hættið þér að afsaka yður, ungi maður, umfram allt. Það er ég sem á að gjöra það, en ekki þér, sagði Englendingurinn. - En ég ætla samt ekki að afþakka yðar góða og gestrisna tilboð um að mega skoða árkambinn. — Allt sem ég gjöri er ákveðið fyrir fram eins og gangur klukkunnar, hvað sem fyrir kemur - og það er nú yðar að fyrirgefa mér, að ég kem til þess að ónáða yður og hús yðar, með svo óhentugri heimsókn.

— Sigurður svaraði blátt áfram og hlýlega eins og við átti, og voru gestirnir á staðnum um nóttina, eins og gjört hafði verið ráð fyrir. Sigurður fylgdi Englendingnum til allra þeirra staða við ána, sem ferðamenn voru vanir að skoða, og töluðu þeir saman daginn og veginn, eins og áður, en minntust aldrei á neitt, er laut að einkamálum Sigurðar. — Og þegar sá tími kom, er ákveðinn var í hinni óskeikanlegu ferðaáætlun Bretans, steig hann á bak, eftir að hafa litið á vasaúrið og séð að allt stóð heima.

Sigurður gekk með gestinum út tröðina í vinsemdarskyni eins og títt er þar um sveitir, þegar hann lagði af stað.

Hann þagði nokkra stund; — það var eins og honum fyndist, að hann þyrfti að minnast eitthvað á atburðinn í gestastofunni. Þegar þeir voru komnir út undir hliðið, sagði hann loksins, rétt eins og hann hefði hugsað upphátt:

Það er annars sjaldgæft að sjá rauðhærða Frakka. Hafið þér séð marga af þeim?

Nei, svaraði Bretinn. Ég hef aðeins séð einn.

Bara einn? Það er merkilegt. Við höfum þá báðir séð jafnmarga, þó þér hafið farið víðar en ég, sagði Sigurður. -

Já, og báðir þann sama — bætti sá enski við.

Sigurður nam staðar á traðarveggnum. Hvað meinið þér? Þekkið þér þennan frakkneska greifa, eða hvað hann nú kallar sig? spurði hann.

Við skulum tala betur um það þegar ég kem aftur sagði Englendingurinn. -

Svo þér komið aftur. Það mundi gleðja mig að sjá yður aftur heima hjá okkur. En er það nú víst að þér farið ekki aðra leið?

Já það er víst svaraði Englendingurinn og leit um öxl á Sigurð. Það stendur í ferðaáætluninni minni.

— Svo hleypti hann klárnum á tölt og hélt leiðar sinnar.

— — —

Strax sama kvöldið, sem hann kom heim, hafði Sigurður gengið fast að móður sinni og spurt hana, hvort það hefði verið með hennar vilja, að þau Sara og greifinn hennar komu þannig að honum óvörum í viðurvist ókunnugra manna, með fregnina um það, að allt væri úti á milli hennar og Sigurðar. — Móðir hans hafði sagt honum að Sara hefði vitað eins vel eins og heimafólkið á staðnum, af bréfum frá honum sjálfum, nær hann ætlaði sér að koma heim, og sig hefði að sönnu grunað að hún væri komin í þeim erindum að sýna sig og nýja unnustann, þegar hún sást koma ríðandi með honum sunnan götu, skömmu eftir að þeir Sigurður voru komnir í hlaðið. — Hún hefði áður látið orð falla í þá átt, við og við, þá sjaldan þær hefðu átt tal saman eftir að það var orðið kunnugt að hún og „greifinn“ voru farin að draga sig saman. -

Móðir Sigurðar sagði honum ennfremur að hún hefði ekki viljað upp á sitt eindæmi skerast í það hvernig Sara færi að því að láta hann vita um trúlofunarbrigðin. — Hún sagðist jafnan hafa álitið, að best væri að láta ástamál annarra afskiptalaus - enda væri óvíst, að hún hefði fengið neinar þakkir fyrir það. Hún yrði líka einmitt að álíta að allt hefði farið vel, úr því sem ráða var. Nú þekkti hann Söru betur eftir og sæi hana fyrir sér í réttu ljósi, einmitt eins og hún kom fram á þeirri einustu alvörustund, sem hafði komið yfir þau bæði. — Hún sagðist heldur ekki hafa getað skrifað honum neitt um þetta með síðasta pósti, því þá hefði greifinn verið ókominn þar í sveitina. — Þetta tilhugalíf þeirra Söru væri aðeins nokkurra daga gamalt. -

En hvernig gat Sara farið að flækja sig í snörurnar hjá þessum hálfgamla, kvapaða skallakolli? — Þessu spurði Sigurður sjálfan sig og móður sína að, hvað eftir annað — og hvorugt þeirra gat neinu svarað til þess. — Við föður sinn þorði Sigurður ekki að tala um unnustumissinn — því hann varð fjúkandi reiður ef nafn hennar var nefnt, sagði að hún hefði gjört heimili þeirra og ætt óafmáanlega skömm, og valdi henni orð, sem Sigurður vildi ekki heyra. -

Hann vissi ekki sjálfur hvort hann var eiginlega sorgbitinn af því að hafa misst Söru. Hugsanir hans og ástand allt var eitthvað svo undarlegt. Það var eins og hláturinn byggi alltaf undir — og þyrfti ekki nema eitthvert smáatvik til þess að brjótast út aftur, eins og í stofunni á heimkomudaginn, þegar fundum þeirra bar saman. Og þó leið honum illa. Hann var lengi að ígrunda hvað það væri, sem kvaldi hann. Svo fann hann það loksins. Það var ekki eiginleg ást eða söknuður. — Það var logandi öfund á þessum undarlega, vel limaða, feita og flærðarlega útlendingi, sem olli þessari óþolandi óþreyju í öllum hans beinum.

Honum fannst eins og sér hefði líkað allt vel og hann hefði svo að segja verið ánægður með þessa breytingu, skoðað þetta sem hreint happ, úr því að Sara var ekki göfugri eða tryggari en svona — aðeins ef hún hefði valið sér ungan, laglegan mann á sínu reki. En að vita þennan útbrunna kvennadólg hafa hana á valdi sínu — fara með hana eina, hvert sem hann lysti og gjöra við hana, hvað sem honum sýndist, það var Sigurði svo sárt og svíðandi gremjulegt, að hann tókst á loft af hatri og afbrýði, þegar honum flaug það í hug.

Hann fyrirvarð sig hálfgert fyrir sjálfum sér, að láta þessa lágu tilfinning ná yfirhönd yfir sér. En hvað stoðaði það? Hinar lægstu tilfinningar mannsins eru jafnan þær sterkustu og Sigurður varð smátt og smátt ofurseldur þessari voldugu ástríðu, sem er móðir ástarinnar. Hann barðist á móti henni með öllu afli; hann rakti það í sundur fyrir sjálfum sér, hvað auðvirðilegt það var af honum að geta ekki gleymt Söru Valdal úr því hann gat þó ekki elskað hana. Meira að segja — hann játaði fyrir sjálfum sér að hann stæði lægra í þessu efni heldur en „greifinn“ — því hann hafði þó sótzt eftir Söru, sjálfrar hennar vegna. En það var aðeins þegar Sigurði kom til hugar, að hinn hefði hana á valdi sínu, að þessi óþolandi eldur kviknaði í honum.

Hann réði sér varla þegar hann hugsaði sér þau saman. En hvernig stóð á því að honum sveið afbrýðin ennþá sárar einmitt af því að honum virtist þessi svokallaði greifi svo viðbjóðslegur? Honum flugu í hug ýmsar ástarsögur, er hann hafði lesið, þar sem ófríðir eða gamlir menn voru látnir njóta ungra kvenna. Hann hafði alltaf haft andstyggð á þessum sögum. Eða var það eitthvað annað en andstyggð? — Hann hafði heyrt getið um það, að ýmsir karlmenn, sem öllum af sama kyni þóttu hvimleiðir og ógirnilegir, höfðu undarlegt ástalán hjá kvenfólki — og að það vakti enn næmari óbeit á þeim meðal annarra karlmanna. Sigurður fann í fyrsta sinn á ævinni til þess, að heimurinn er ekki nógu stór handa þeim, er girnist konu, sem annar ræður yfir.

Það var til einskis fyrir hann að berjast á móti sjálfum sér. Því meir sem hann reyndi að bæla þessar hugrenningar niður því beiskara bitu þær hann, rétt eins og öngull sem stingst þá fyrst upp fyrir agnúann þegar fiskurinn tekur í færið. — Hann mátti til að sjá Söru og þennan nýja biðil hennar, hvað sem menn kynnu að halda um það, og hvað sem foreldrar hans kynnu að segja þar um.

Einn dag undir kvöld, nokkru eftir að hann kom heim, tók hann hest sinn, lagði sjálfur á hann og reið af stað, án þess að láta þess getið við nokkurn mann, beint heim til Valdalsfólksins. - Hann hugsaði ekkert um það, hvað hann ætti að segja eða gjöra, en reið bara rakleitt heim í hlaðið. — Þar var enginn úti, en fólkið sást við heyvinnu skammt fyrir utan túnið. -

Hann barði að dyrum, þrjú hörð högg, en enginn kom út. Svo gekk hann inn í göngin, sem hann hafði svo oft farið um í gamla daga án þess að gjöra vart við sig. — Hann gekk fram hjá búrinu og eldhúsinu; þar var heldur enginn maður. — Svo steig hann upp í tröppuna, sem lá að baðstofuloftinu og hratt hurðinni upp.

Það fór á þá leið, sem hann hafðí haft einhvern óljósan grun um. Herra Lavatte sat þar með Söru á hnjánum inni í hjónaherberginu — og hún hélt handleggnum um hálsinn á honum. - Yfir þeim hékk gamli, kringlótti bornhólmarinn, og tannaði sumardaginn í sundur. — Flugurnar suðuðu í gluggakörmunum, og máriátlan tísti úti á baðstofuveggnum. Annars var allt hljótt og kyrrt í kringum unnustufólkið.

Sara stóð seint upp, eins og hálfnauðug, gekk á móti Sigurði og rétti að honum hendina ekki óvingjarnlega. Hann lét sem hann sæi það ekki, og vék henni frá sér, en gekk að greifanum. þar sem hann sat og lagði hendina fast á öxlina á honum. Honum fannst, að hann væri kominn á fremsta hlunn með að slá honum við vegginn og ganga svo næst lífi hans. Hann sá rautt fyrir augunum, og hafði suðu fyrir eyrunum af reiði, eða einhverju öðru enn þá verra. — En Frakkanum varð ekki bilt. Hann horfði ofboð rólega upp á Sigurð, sem var afskræmdur í framan af geðshræringu, og sagði:

Þér gjör mykeð óklókindalegt að slást með mig. — Ég fyrst mikið sterrkur — ogg svo mamsell Valdal hata yðður eftir. En núh ennir barra sama um monsieur Sigg — Sikúrð.

Sigurður dró hendina að sér. Það var satt, sem hann sagði. Hann varð að játa að öll aðferð hans var vítaverðari heldur en greifans — og var það þó hart að standa neðar í sínum eigin augum heldur en þetta undarlega aðskotadýr. Hann sneri sér að Söru, til þess að sjá hvort hún væri ekki að hlæja að sér. En hún stóð enn í sömu sporum og horfði á þá báða á víxl, og þó miklu oftar og lengur á greifann, því tók Sigurður eftir.

Honum sýndist fegurð hennar ennþá meira tælandi og fullkomnari heldur en nokkru sinni fyrr. — Það var ekki lengur þessi kalda, hreina meyjarfegurð, sem stóð fyrir hugskotssjónum hans, meðan hann var ytra og sem hafði teymt hann heim frá Hafnarglauminum öllum. Nei, það var kominn yfir hana annar einkennilegur blær, sá sem segir eftir fyrstu ástum kvenmannsins. -

Sigurður fann eldinn læsast um allar sínar æðar — og hann mundi nú eftir því, hvernig Sara hafði hagað fundum þeirra, þegar hann kom heim til þess að hitta heitmey sína eftir langan aðskilnað. Hann mundi nú eftir því að allt þetta var í rauninni skrípaleikur, þar sem hver mátti láta sem hann lysti.

Hann apaði eftir málfæri greifans og sagði með hæðnissvip:

Móðir mín hefur sagt mér, að greifinn þinn hafi látizt koma hingað til þess að leita að gömlum skeljum í kambinum, en að hann þekki ekki hörpudisk frá öðuskel, og að hann sé kunnur frá öðrum héruðum landsins síðan í fyrra. Hvar skyldi greifadæmið hans liggja?

Frakkinn var nú staðinn upp og sagði ofur hæglátlega: Ég sigi barra til helvíti mið öllum skelar, ettir aðð ég fuinna Sara. — Minn greiffadómur er hérr, ogg ún greiffafrú. — N'est ce pas, m'amie?

Sigurður lét sem hann heyrði ekki til greifans og hélt áfram:

Þykir þér ekki minnkun að því að vita menn hlæja að því um allar sveitir, að þú hafir látið þennan rauðsköllótta kúluvamba tæla þig?

Sara fölnaði dálítið við — en það var auðséð á öllu, að hún hvorki gat né vildi snúa aftur. Augu hennar glömpuðu eins og demantar, þegar hún leit til greifans, og Sigurður fann að hún mundi líta á sig sem fjandmann. — Greifinn settist aftur í stólinn og lagði fæturna á misvíxl, með báðar höndur í vösum. Hann horfði upp og ofan eftir Sigurði og blístraði á milli tannanna. Það var sýnilegt, að hann var hvorki hræddur við Sigurð né um Söru — og lét sig alveg einu gilda, hverjum nöfnum hann var kallaður. -

Sigurður sá að allt þetta var til einskis annars, en að gjöra hann sjálfan kátlegan í augum sín og annarra — og að æsa yfir sig hatur þessa unga kvenmanns, sem vildi ekki hafa skipti á honum og greifanum.

Sigurður var sannfærður um það, að þessi svokallaði greifi væri ekkert annað en einhver óvalinn prakkari, sem hefði kosið sér að heimsækja þetta afskekkta land, af því að hann hefði álitið að hér væri hægt að spila mikinn mann með litlu, fremur heldur en annarstaðar. — Hann hafði fyrr heyrt getið um ferðamenn af líku tagi, og jafnvel kynnzt einum ómenntuðum rusta, er komið hafði þar í sveitina til þess að skoða skeljar í kambinum eins og þessi. Hann lést vera útsendari vísindafélags á Þýzkalandi og kallaði sig doktor. En þegar til kom kunni hann ekki eitt orð í latínu, og gat ekki borgað næturgreiða fyrir sig á bæjunum. — Af þessu sama sauðahúsi þóttist Sigurður viss um að greifinn væri. — En hvað stoðaði það, þó hann sýndi Söru fram á, hve grunsamlegur hann væri, þessi útlendingur, sem komið hefði hingað fyrir 2-3 vikum, fylgdarlaus, með eina leðurtösku til að safna í skeljum, en kallaði sig þó aðalsmann og eiganda heils greifadæmis? Hvað stoðaði það allt saman? Hann var viss um, að það var ekki greifadæmið, heldur „barra“ sá rauðsköllótti, sem hún var svo hugfangin af.

Hann sneri sér á hæl og gekk út án þess að kveðja og reið aftur heim til sín. — Hann fyrirleit Söru og sjálfan sig með — og honum fannst jafnvel, að honum væri nú hughægra að vita þau tvö saman, heldur en áður. — En það varaði ekki langa stund. Bráðum sótti ábrýðin á hann aftur, ennþá sárari en fyrr og hann hætti loks að neyta svefns eða matar.

Svo leið og beið. Sigurður var að sjá eins og fárveikur maður. Hann forðaðist að tala við nokkurn mann — og var önugur í svörum, ef á hann var yrt. Móðir hans varð mæðulegri og mæðulegri á svipinn, með hverjum degi sem leið, því hún sá, hvað að Sigurði gekk, en faðir hans skellti hurðum, ef hann varð Sigurðar var í bænum, og tautaði fyrir munni sér. Það var eins og eitthvert ófagnaðarfarg lægi yfir öllu heimilinu, og menn töluðu í hálfum hljóðum og hnipptust á, þegar prófastssonurinn gekk hjá.

— Svo var það einn dag að riðið var í hlaðið með marga hesta. Þar var þá kominn Englendingurinn, kunningi Sigurðar og þjónn hans, einmitt á þeim sama tíma sem skráð var í hinni óskeikulu áætlun. Það lifnaði yfir Sigurði, og hann gekk út til þess að heilsa gestunum og bjóða þá velkomna.

Veiðimannsaugað leit í þetta sinn fastar á Sigurð en nokkru sinni fyrr, en hvorugur minntist á rauðhærða greifann, þó báðir vissu að þeir höfðu hugann á honum, hvor um sig. — Þegar gestirnir höfðu dvalið nokkra stund á staðnum, snætt og hvílt sig, sagði Englendingurinn allt í einu upp úr þögn:

Eigum við að koma og hitta þann rauðhærða? Ég ímynda mér, að hann sé enn hjá unnustu yðar, er ekki svo?

Sigurður játaði því, en sagðist ekki vilja fara þangað í annað sinn; hann hefði þegar fyrir nokkrum dögum reynt að opna augu hennar, en það hefði verið til einkis.

Viljið þér giftast henni, ef hún yfirgefur greifann?

Nei, svaraði Sigurður fljótt.

Er það hefnd, sem yður langar til að koma fram? spurði Bretinn enn.

Nei, heldur ekki. Það eina, sem ég þrái og kvelst af að geta ekki komið til leiðar, er það að stía þeim sundur, sagði Sigurður og stundi þungt.

— Það gleður mig að heyra, — og mér skal vera mesta ánægja að því að hjálpa yður til þess. — Við skulum ekki hafa langan formála við þetta. — Fylgið þér mér þangað, sem greifann er að hitta, og svo skal ég annast um það, sem eftir er.

Sigurður gaf sér ekkert tóm til þess að hugsa um, hvort það væri göfugmannlegt eða hreystilegt, að varpa þannig áhyggjum sínum í þessu máli af sér, yfir á annan mann — því alltaf brann í honum sama löngunin til þess að ganga á milli Söru og þess rauðsköllótta.

Hann greip þetta færi feginshendi til þess að geta afsakað það fyrir sjálfum sér, þótt hann gerði þeim aðra heimreiðina til — og innan stundar voru þeir lagðir af stað áleiðis til Valdalsfólksins.

Hvernig taka foreldrar hennar þessu? spurði sá enski, þegar þeir voru rétt komnir heim að bænum. — Það var auðheyrt að hann hafði haft sagnir af ýmsum högum Söru og atvikum, er að þessu lutu.

Þau láta sér það, held ég, líka nokkurn veginn. Þau trúa því að þetta sé ríkur hefðarmaður og þykir því meiri veiður í honum en mér. — En annars held ég að Sara ráði hverju sem henni sýnist, fyrir foreldrum sínum, sagði Sigurður.

Jæja — við verðum þá að snúa okkur að Miss Valdal og greifanum sjálfum. — Skömmu síðar voru þeir komnir í hlaðið.

Fólkið var flest heima við, en sást ganga ýmist inn í bæ eða út á tún, þegar gestina bar að garði. Sá eini sem eftir varð var Valdal gamli sjálfur. Hann beið eftir þeim og tók kveðju þeirra fremur þurrlega. -

Sigurður gjörði boð fyrir herra Lavatte, greifa frá Normandí.

— Já, hann var heima, en það væri víst bezt að þeir gengju inn til hans ef þeir vildu finna hann, sagði Valdal. -

Sigurður sagði Englendingnum, að húsbóndinn skildi ensku, og að hann skyldi segja um það, hvort hann vildi hitta greifann inni.

Viljið þér gjöra svo vel, sagði Englendingurinn við Valdal, að skila til hins virðulega greifa, fyrrverandi búðarþjóns á ...firði (hér nefndi Bretinn verzlunarstað einn íslenzkan), að okkur langi til þess að hafa tal af honum?

— Þórði Valdal hnykkti við, og hann vissi ekki hverju skyldi svara — en rétt í sömu svipan kom „greifinn“ út, brosandi og að því er virtist mjög ánægður með sjálfan sig. Hann hafði heyrt það síðasta, sem talað var, og gekk rakleitt til Sigurðar, sem stóð úti á miðju hlaði með handlegginn í hnakksætinu.

— Ég er ekki vel heima í enskunni, — en mér skildist þessi samferðamaður yðar gefa í skyn, að hann þekkti mig og fortíð mína. Viljið þér gjöra mér þann greiða, að spyrja hann, áður en við förum lengra í sakirnar, hvaðan hann þekki mig eða fyrri hagi mína? Greifinn talaði nú rétta íslenzku, en þó var auðheyrt, að hann var ekki alinnlendur maður. —

Sigurður þýddi orð hans á ensku, og Bretinn gaf nú skýrslu sína í fáum orðum.

Hann hafði fyrir tveim árum orðið samferða, út til Íslands, gömlum kaupmanni, er lengi hafði rekið verslun hér við land. Eitt sinn höfðu þeir gengið saman fram og aftur um þilfarið, í mjög góðu veðri, nálægt Færeyjum, og talað saman um hitt og þetta, en allt í einu hafði kaupmaðurinn tekið í handlegginn á honum og horft fram á skipið, þar sem nokkrir farþegar sátu.

Svona ljótt auga hef ég aldrei séð hann senda mér fyrr, hafði kaupmaðurinn sagt í hálfum hljóðum.

Ég leit á farþegana hélt Englendingurinn áfram og meðal þeirra var einmitt „greifinn“, sá sem nú stendur hér fyrir okkur. Ég varð forvitinn og fór að spyrja kaupmanninn hvað hann meinti, og hann benti mér síðan að koma með sér niður lyftingu. — Þar lét hann mig heyra alla söguna.

Hann sagðist fyrir mörgum árum síðan hafa tekið í þjónustu sína son vinar síns eins í Kaupmannahöfn, af góðum ættum, sem var orðinn öreigi af óreglu og spilamennsku. Piltur þessi var sextán-sautján ára og vel að sér, og hefði hann smátt og smátt komist í efsta sæti meðal verzlunarþjónanna, svo að honum var trúað fyrir öllum reikningum og peningum verslunarinnar. — Svo hafði kaupmaðurinn sent þennan þjón sinn eitt haust, sem oftar, með lóssbátnum um borð með bréf og pappíra til skipstjórans á síðasta skipinu, sem afgreitt var frá versluninni, — en þegar báturinn kom í land aftur var honum beðið að heilsa frá þjóninum. Hann hafði brugðið sér áleiðis út fyrir pollinn, með 2000 dali úr peningakassanum. -

Þegar til Hafnar kom hafði hann logið viðskiptamenn kaupmannsins fulla, með allskyns sögum um erindi sitt, allt þangað til fyrsti póstur kom frá Íslandi, en þá var hann allur á bak og burt, og spurðist svo ekki til hans í fjöldamörg ár. — Svo var það loks fyrir þrem árum síðan, að kaupmaðurinn þóttist þekkja hann í Reykjavík meðal farþega um borð á póstskipinu; en skömmu síðar tók greifinn hann tali, játaði sig fyrir honum og fékk um leið loforð hans um að segja engum frá því hver hann var. Hann átti þá naumlega fyrir fargjaldinu, og var ekkert af honum að hafa, enda hafði kaupmaðurinn haft hinar mestu mætur á honum á sínum tíma.

Greifinn hafði lengst af dvalið með Frökkum í Canada eftir því sem hann sagði, en kaupmanninum hafði skilizt það á orðum hans, að hann mundi eiga víðar sökótt en á Íslandi. - Kaupmaðurinn forðaðist síðan að eiga tal við hann, þó hann yrði hans var — en það var oftar en einu sinni, að hann ýmist sá hann eða heyrði hans getið á ferðum út og utan frá Íslandi. - Hélt hann, að greifinn mundi flýja hingað við og við eftir að hann hefði drýgt hina og þessa glæpi ytra — en honum þótti hvorttveggja illt, bæði að láta hann afskiptalausan og að ljósta upp um hann. — Svo var það, að hann sá hann enn í þessari ferð, og hefur greifanum ef til vill sýnzt hinn gamli húsbóndi hans líta svo til sín, sem honum mundi nú nóg boðið. En þegar kaupmaðurinn sá hvert auga greifinn gaf honum á þilfarinu, er við gengum þar saman, þóttist hann vita, að það væri ekki ráðlegt lengur að vera einn um leyndarmál greifans — og sagði mér því þessa sögu, en lét greifann vita það þann sama dag. Kaupmaðurinn var að vísu svo göfuglyndur að biðja mig fyrir, að láta ekki öðrum uppskátt um fortíð þessa ískyggilega samferðamanns okkar, fyrir sakir gamallar tryggðar við þjón sinn, og ég hét honum því, en þó með því skilyrði, að ég mætti segja hver hann væri, ef ég yrði þess var, að nokkrum stafaði hætta af honum. - Og nú álít ég öll atvik vera svo, að ekki væri rétt að þegja um það, hver þessi svokallaði greifi er?

Allir höfðu hlýtt þögulir á sögu Bretans — og greifinn sömuleiðis. — Var auðséð á honum, að hann mundi skilja mest af því, sem talað var, en ekki brá honum neitt við það, né heldur lét hann á sér sjá að hann væri smeykur, þó menn vissu nú betur deili á honum en áður. - Þegar Bretinn hafði lokið sögunni gekk greifinn að glugga einum er vissi út að hlaðinu, og kallaði hátt og skýrt:

Miss Valdal! Þér eruð beðin að gjöra svo vel og ganga út. - Hér eru komnir gestir með fréttir til yðar.

Að vörmu spori kom Sara út. Hún var í ljósri sumartreyju, með uppgreitt hár, björt og fríð eins og sumardagurinn sjálfur. — Hún gekk til greifans og nam staðar við hliðina á honum, eins og hún biði þess, að hann segði til, hvert hann óskaði, að hún færi með honum.

Greifinn var svolítið fölari en hann átti að sér, en tengdafaðirinn var sótrauður í framan, og það var þrumuveður undir yglibrúnum hans. -

Svo sagði greifinn hægt og stillilega, en svo hátt, að það heyrðist um allt hlaðið:

Ég er hvorki greifi né ríkur maður — þó þið hafið haldið það. Ég á ekkert annað en það sem ég hef hér meðferðis, og ég er ófriðhelgur í þessu landi. Hvert af ykkur, sem vill, getur kært mig fyrir yfirvöldunum og látið varpa mér í fangelsi. -

Það kom dauðaþögn yfir alla eftir þessa játningu greifans. - Menn litu á Söru Valdal, sem enn stóð í sömu sporum. Hún var drifhvít eins og trafið, sem hún hafði um hálsinn, en hún stóð þó upprétt og bar höfuðið hátt, eins og sett hefði verið greifakróna á það, í stað þess að öllum hennar draumum um greifatignina hafði verið fleygt í sorpið, undir fætur hvers, sem vildi troða ofan á þeim. — —

Faðir hennar gat varla stjórnað sér lengur. Hann hljóp í einu stökki þangað sem þau greifinn og Sara stóðu og kippti hart í handlegginn á dóttur sinni. — Það urraði í honum eins og skógardýri.

Ætlarðu að fylgja honum í fangelsið? spurði hann, skjálfandi af heift.

Sara dró að sér handlegginn, og sagði, um leið og hún leit til Sigurðar.

Mig hefur lengi grunað það, sem nú er komið fram — og ég bið ykkur að ætlast ekki til þess af mér, að ég snúi aftur — ekki fremur en ég ætlast til þess af ykkur, að þið takið við mér.

Þegar Sara sagði þessi orð, var eins og annar svipur kæmi yfir greifann. Hann reisti sig líkt og hestur, sem sleppt er frjálsum í haga — og gekk til Sigurðar, þar sem hann stóð.

Ég veit að yður muni ekki detta í hug að hefta för mína, úr því að þér getið ekkert unnið annað með því en að leiða ógæfu yfir þessa stúlku, sem fylgir mér hvert sem ég fer. Og mér skildist það á sögu Bretans, að hann sé bundinn við loforð sitt til húsbónda míns um að láta mig hlutlausan, eftir því sem nú stendur á. — En hvað ykkur víkur við, sagði hann um leið og hann sneri sér til gamla Valdals og brosti við, veit ég að mér sjálfum er ekki annara um það en ykkur, að ég komist óhindraður burt frá Íslandi. -

Sigurður og Valdal litu hvor til annars. — Hér var ekkert annað að gjöra, en það sem svikagreifinn sagði, að þegja og sleppa honum úr landi. Sigurður gat ekki annað en undrazt með sjálfum sér þann kjark og snarræði, sem þessi maður sýndi, einn síns liðs, sekur og fyrirlitinn eins og hann var, meðal margra er báru hefndarhug til hans.

— — Sigurður þýddi fyrir Bretanum það síðasta, sem farið var fram, og svo kom þeim saman um að halda leiðar sinnar. Hér var ekkert meira að gjöra fyrir þá.

Sigurður leit um öxl á Söru, þegar hann reið úr hlaðinu, en hún lét sem hún sæi hann ekki. Hann var lengi eins og utan við sig og fór einförum heima hjá sér. Það var alltaf sama tilfinningin sem kvaldi hann, hvorki ást né söknuður eftir Söru, heldur aðeins óþolandi öfund yfir því að „greifinn“ skyldi hafa vald á henni. — En smátt og smátt læknaði tíminn þetta, eins og allt annað.

Svikagreifinn var lagður af stað áleiðis til næstu hafnar, stundu eftir að Sigurður og hinir brezku ferðamenn voru farnir. — Sara lét lítið bera á sér úr því og kom hvergi meðal manna, eftir að greifinn hvarf. En síðar, á öðru sumri þar frá kom sendimaður frá hafnarstaðnum til hennar einn dag, með bréf frá útlöndum; og þá tók hún sig upp með dóttur sinni ársgamalli og sigldi eitthvað út í heim.

Menn hafa síðan ekkert spurt til hennar né svikagreifans.

GULLSKÝ

— — Hann lá með hendur undir höfði í allri dýrð og unaði vorkvöldsins, fyrir framan gamla, lága bæinn, með rúðukrílin grænbrennd af sól, margra ára sól og litaskiptum loftsins. — —

Drottin himinsins var náðugur eins og stórauðugur einvaldsherra, sem hrærist til örlætis, þegar honum sjálfum þóknast. Jörðin lá prúðbúin fyrir fótum þess, sem hafði skapað hana, og hafið saug að sér geislabros hins volduga, fagra sólarguðs. Náttúran var öll þrungin af elsku. Allt var svo blítt, svo ríkt af þessum þögula, djúpa fögnuði yfir því að lifa, anda og hrærast — sem kemur stundum yfir jörðina.

Hann fann eðli náttúrunnar streyma í gegnum taugar sínar og æðar, þetta tvíbrotna, hverfula eðli, sem þráir að lifa og þarf að deyja.

Já, hann fann þrótt lífsins og vanmátt þess anda í sér, þjóta um sig á víxl, fram og aftur, eins og ganglóð í stundaklukku, sem hreyfir vísana, en eyðir tönnum og möndlum klukkuhjólanna um leið.

Hann hafði lengi, lengi velt fyrir sér þessari hugsun, meðan hann var sjúkur. Eða var það hugsun? Honum fannst stundum, a8 dýpsti, innsti skilningur hans ætti ekki heima í heilanum, heldur í hinum ósýnilegu, hárgrönnu taugum, sem liggja um allan líkamann. En hvað sem það var, þá kom það að honum æ ofan í æ, lá yfir honum svo að segja mestallan tímann sem hann vakti, þetta hugboð um samspil hinna tveggja frumhreyfinga lífsins. Þá vakti það hjá honum hálfgerð óþægindi, líkast þeim, sem sá finnur, er man að hann hefur gleymt einhverju, sem hann getur nú heldur ekki komið fyrir sig hvað var.

Það var taugakerfið og heilinn, sem hann fann starfa af eigin hvöt, án þess að hann byði svo með vilja sínum — starfa að því að leysa þá þyngstu gátu, sem mennirnir hafa reynt að ráða. En nú var þessi hugsun, eða hvað hann átti að kalla það, honum ekki lengur óþægileg. Nú fannst honum hann muna og skilja svo óendanlega margt, og hann fann, að það var af því að hann hvíldi á sjálfri jörðunni, andaði sama loftinu sem grösin í túninu og sá himininn í allri sinni ósegjanlegu dýrð, án þess að sólbrenndu rúðurnar brytu geislana, áður en þeir komu inn í augað.

Vilji, vit og tilfinningar hans störfuðu í eining, eins og strengir á hljóðfæri, sem eru stilltir nákvæmlega saman. Honum fannst eins og lífsafl hans breiddist út, víðar og víðar um náttúruna, sem hvíldi þögul og kyrr í kringum hann — eða þó öllu heldur, að þetta afl þyti um hana fram og aftur eins og æðaslag.

Að vera til, það er að skilja, skynja eitthvað til fulls. Því víðara svæði, sem hin fullkomna skynjun nær yfir, þvi öflugra og víðtækara er líf hinnar skynjandi veru. Þetta fann hann svo glöggt. Hann sameinaðist hinni ytri náttúru, varð svo að segja náttúrunni sjálfri, eða miklum hluta hennar, fannst honum.

Og honum fannst eins og niðurinn af öldunum við ströndina og ómurinn af vængjaflugi tímans kæmi frá honum sjálfum.

En öll þessi hreina, djúpa fegurð himinloftsins sjálfs, sem blikaði eins og demantsglampi í auga hans — átti hún ekki heima í hans eigin sál? Hvelfdist ekki himinninn einmitt fyrir innan augað, sem skynjaði hann? Honum þótti sem anda hans væri ekkert of hátt og ekkert of lágt. Hann teygaði andvarann frá uppsprettum loftsins og lét hjartað slá fast við moldina. Hann elskaði allt og honum bauð við engu.

En hæst uppi yfir fjallsenninu, sem lyfti sér uppí móti kvöldgeislunum, hinum megin við fjörðinn, þar hvíldi gullský á vængjunum, grafkyrrt, ómælanlega langar leiðir uppi yfir öllu, sem bjó á jörðunni. Það var eins og blómknýti, bundið saman af ósýnilegum höndum með geislafingrum. Upp úr því teygðu sig gullblöð og þéttir, skínandi ljósstilkar, enn hærra upp yfir hin yztu mörk, sem auga hans náði til.

Hann lagði aftur augun, til þess að geta séð dýpra og horft lengra inn í þessa himnesku mynd, en hann fann að lífstraumurinn í æðum hans og taugum náði ekki til ljósblómanna, sem nærðust af eldi sólarinnar, gegnum ósýnilegar rætur.

Glitlauf og logandi frjóknappar tindruðu fyrir innri augum hans, með litabrigðum sólarlagsins og ljósafli morgunroðans — en hann gat ekki skynjað eðli þeirra til fulls. Gullskýið var of hátt fyrir ofan hann — og hann gat ekki elskað það.

Hann heyrði þytinn í blóði sjálfs sín; það ólgaði fram og aftur eins og öldusog. — Hann fann nú að hjarta hans og hugur voru bundin. Hvert sem hann leit urðu fyrir honum strendur hins ókunna lands, þar sem allar bylgjur brotnuðu og hurfu í sjálfar sig aftur.

En var ekki unnt að hugsa sér, að hann væri skynjaður og skilinn til fulls af annarri æðri sál, með næmari taugar og öflugri æðaslög — sem ef til vill kynnu að streyma frá strönd til strandar gegnum ljósvakahafið, langt, langt fyrir ofan huga hans? Niður þessa hafs heyrðist ekki, þó að hann byrgði eyrun og hlustaði með hjartanu, og öldur þess sáust ekki brotna, þó að hann léti ljós sinna innstu, dýpstu drauma skína í öllum sínum ljóma. Nei, hann gat ekki elskað þessa sál, þó hún væri til, því hann gat ekki snortið hana með huganum, og hjartað í honum skalf af árangurslausri ofraun, þegar hann vildi byrgja ímynd þessarar sálar inni í því. Það var ekki elska, það var öllu fremur ótti, sem hann fann til. En var hann ekki elskaður, eins og moldin sem hann lét æðar sínar slá við? — — —

Það er komið kvöld og farið að verða kalt — var sagt lágt, með skjálfandi rödd fast hjá honum — og visin, hrukkótt hönd strauk svitann af enni hans.

Hann reis upp og gekk hægt og hægt í bæinn, inn fyrir gömlu sólbrenndu glerin, sem byrgðu daginn úti og nóttina inni. — —

VALSHREIÐRIÐ

Ég man alla daga eftir hömrunum, þar sem valirnir urpu, fyrir sunnan og neðan túnjaðarinn á Hvammi. Ég er fæddur þar; fór þaðan ekki fyrr en frændi minn, sem ól mig upp, gifti sig í annað sinn og fluttist til Vesturheims. Ég var þá orðinn fullvaxinn maður.

Hamrarnir lágu hálfan hring í kringum feiknamikinn hyl í jökulfljótinu. Það beljaði fram með fjallshlíðinni, sem bærinn okkar stóð undir, skolgrátt og vatnsþungt, skemmstu leið til hafs, og það kom í einu breiðu, beinu flóði, allar götur sunnan dali. Rétt á merkjunum milli Hvamms og næsta bæjar lá hamrabelti yfir þveran dalinn, en flatar sandeyrar fyrir neðan. Þar var það, sem fljótið féll fram í hvítum stokk, klauf gljúfur í hamrana og sveiflaði sér í breiðum straumstrengjum fram og aftur í hring, og gróf sig niður í iðuhylinn fyrir neðan fossinn. Hamrarnir gnæfðu hátt beggja megin, grúfðu sig yfir vatnsflauminn, með hvössum gnípum og strýtum á milli. Tveir úfnir og brúnaþungir hamrakarlar stóðu hvor sínum megin við fossinn og hölluðu saman kollunum. Það var eins og þeir gerðu það af náð að sleppa fljótinu fram hjá sér, og svo þjöppuðu þeir þó að flauminum, að hann stundi við eins og jötunn í fjötrum, um leið og hann straukst fram af berginu.

En fyrir neðan var leikur og líf í vatninu. Þar ófu straumkambarnir sig hver utan um annan, og byltu sér og veltu á ótal lundir í skjóli fyrir öllum veðrum, nema norðanátt og ofanhríð. Klettafangið vafði hylinn að sér, en fljótið smaug þó enn út um risagreiparnar niðri á brotinu. Þar breiddu sig út urðargrynningar, yfir hálfan dalinn, og drógu sig svo saman smátt og smátt í hægum halla, þangað til allt flaut í einum djúpum farvegi fram með engjum og túnum út í flóa.

Hamrarnir voru alsettir stöllum og syllum, með grænar meltór og toppa hér og þar, enda áttu smyrlar og valir hreiður þar á hverju vori. Eitthvað það fyrsta, sem ég man eftir, er skurn af valseggi, sem brotnaði í flutningnum heim að Hvammi hjá smalastrák, sem var látinn síga í björgin eftir þessum fágætu og dýru eggjum eitt vor. Frændi minn og fóstri átti eggin og ætlaði að leggja þau inn til kaupmannsins. Við stóðum úti í varpa og biðum eftir piltunum, sem komu neðan túnfótinn, þrír saman, einn með reipakippu á öxlinni. Smalinn hélt á húfunni sinni með eggjunum í, móður og kafrauður í framan. Frændi minn leit niður í húfuna; þar voru þrjú egg heil og eitt brotið. Hann tók eggin upp hægt og varlega, lagði þau upp á bæjarvegginn, vatt sér svo að stráknum og sló hann snöggan, harðan snoppung. En ég fékk eggskurnið. Það var módropótt með snjóhvítri himnu innan í, sem ég man alltaf eftir, að ég reyndi að tæta innan úr skurninu, en þá braut ég það sem eftir var heilt af því.

Ég fékk oft að fara með þegar sigið var í hamrana á vorin. Minningarnar um eggjaleitir okkar verða ljósari og ljósari fyrir mér. Ég beið eftir því að mega síga sjálfur í björgin, og svo kom loks að mér var leyft það, þótt það væri alls ekki hættulaust og þó frænda mínum væri ekki um að láta mig fara niður í vaðinn. Í fyrsta sinn sem ég seig, man ég eftir, að mig svimaði sem snöggvast og að hrollur fór um mig allan þegar ég kom niður fyrir brúnina. Ég hálfsá eftir, að ég hafði sótt það svo fast að mega heimsækja valina í hreiðrum þeirra. Ég hékk í lausu lofti; einar tíu mannhæðir fyrir neðan mig lá urðin grá og staksteinótt frá klettafætinum og út í fljót. Hylurinn velti sér grænfreyðandi í ótal iðuhringum, tilbúinn að gleypa allt, sem kynni að falla til að ofan. Ég sá inn undir fossinn í koldimman hamraskúta, sem mig hafði löngum langað til að skyggnast inn í, en ég gat nú ekki hugsað um annað en að halda mér í vaðinn og spyrna fótunum á víxl í bergið, svo að reipið færi ekki að snúast með mig. Ef vaðurinn byrjar að vinda af sér á annað borð, er ekki auðgjört að átta sig úr því; sviminn eykst, maður lætur ósjálfrátt aftur augun og missir öll tök fyrir hendur og fætur. Ég lokaði augunum eitt augnablik og hallaði mér aftur í vaðinn með báða fætur í hamarinn; en svo tók ég á öllu sem ég hafði til, og fór að ganga hægt niður að syllunni, sem við vissum að valurinn átti hreiður á.

Ég braut tvö smyrilsegg þetta sinn og skildi eftir hrafnshreiður, sem illt var að komast að. Annars gekk mér fyrsta bjargförin mín slysalaust. Og eftir að ég hafði einu sinni horft niður yfir hengiflugið, var mér sama hvort ég fetaði mig áfram í hamrinum, eða ég gekk um pallgólfið heima hjá mér.

Ég óx upp við leiki og erfiði undir beru lofti þegar fært var úti að vera, og ég fékk því meiri mætur á náttúrunni, dalnum okkar og öllu sem ég sá utan dyra, sem ég eltist meir og fann meiri þrótt í leggjum og liðum. Sérstaklega var mér það yndi að sitja á hamrabrúnum þeim, sem lágu að fljótshylnum, og horfa og hlusta á fossinn, þangað til vatnskliðurinn lét við eyrað eins og þungt æðaslag, en fallið sjálft teygðist í drifhvíta lopa og slitnaði sundur fyrir auganu. Valir og krummar flögruðu klett af kletti, allan sumartímann út, dýfðu sér, skutust áfram og veltu sér í loftinu eins og urriðarnir gerðu niðri í fljóti. Allt var stórskorið og þó gullfagurt í þessu mikla hamrahreiðri, og þegar sólin skein og allir vindar voru hljóðir, var eins og allt sem sást og heyrðist væri gagntekið af fögnuði yfir því að vera til, og maður fann kvika í hverri sinni taug heita ættarást til náttúrunnar, bæði þeirrar lifandi og þeirrar, sem kölluð er dauð.

Það var þessi sívaxandi löngun mín til að dvelja undir beru lofti, sem leiddi mig svo oft á fund þeirrar fyrstu stúlku, sem ég hef orðið ástfanginn af. Hún var bóndadóttir af næsta bæ og sat yfir ám niðri undir fljóti, fyrsta sumarið eftir að ég var kominn í skóla. Ég þekkti hana vel, við höfðum hitzt við kirkjuna og leikið okkur saman þegar svo bar undir; en þegar ég kom niður að fossinum einn morgun, með spánnýja piltahúfu á höfðinu, tók hún dræmt undir við mig og gjörði sér til erindis að hlaupa fyrir eina ána, sem lappaði hægt upp í móinn.

Ég varð lengi að ganga eftir henni áður en ég fékk hana til þess að tala blátt áfram við mig. En svo urðum við beztu vinir. Hún hló hátt undir hömrunum til þess að heyra bergmálið drynja frá einum kletti til annars, og kastaði steinum jafnlangt og ég út í fljótið. Hún var há og grannvaxin, með sítt, jarpt hár og dökkblá augu. Þegar við fundumst fyrst niðri við fossinn var hún fjórtán ára, en ég tveim árum eldri.

Við sátum saman uppi í brekkum og úti í móum þegar við komumst höndum undir næstu tvö sumur, og loksins kom ég heim eitt kvöld með gamlan silfurhring á litla fingri. Það var tryggðapantur, sem hún hafði gefið mér þennan dag; en við höfðum í rauninni verið trúlofuð lengi, þó við töluðum ekki alvarlega um það fyrr en rétt áður en ég átti að fara suður, þriðja árið mitt í skóla.

Trúlofunin breytti ekki sambúð okkar að neinu nema því, að við fundumst nú á heimilum okkar þegar við vildum. Foreldrar hennar og frændi minn voru ánægð með þennan ráðahag, og allir aðrir álitu mjög jafnt á komið með okkur. Hún var fallegasta stúlkan í sveitinni, og ein af þeim efnuðustu. — Ég var þar á móti bláfátækur, og hafði frændi minn, með fram fyrir ósk ýmsra sóknarbarna föður míns, sem hafði lengi verið prestur í þessari sókn, tekið mig að sér til uppeldis, eftir að ég hafði misst foreldri mín bæði. En þegar ég stálpaðist, réði hann af að senda mig í skóla, og ég var nú einasti lærði maðurinn í þessu byggðarlagi. Allt þetta jafnaði sig vel upp, og það styrkti okkar unga ástaband að við mættum alls staðar hlýjum kveðjum og góðum óskum meðal nágranna okkar.

En þekking sú á lífinu og mönnunum, sem ég aflaði mér síðar, er ég kom út í heiminn, hefur skýrt það fyrir mér eftir á, að lund og eðli þessarar fyrstu heitmeyjar minnar var ekki fallið til neinnar hversdagsgæfu, þó að hamingjan sýndist leggja greiða og beina leið fyrir okkur bæði. Meðan við lékum okkur, var allt eins og það átti að vera; í leikjunum eru aðeins dregnar upp myndir af alvörunni, og vér höfum oft jafnt gaman af því að vinna og tapa þar, sigra og sigrast. En þegar leikjunum er lokið kemur allur annar svipur yfir sækjendur og verjendur í þessum kappleik, sem kallaður er líf.

Unnusta mín var allt of kappsöm til þess að geta orðið ánægð. Hún lagði allt sitt fram í smáu og stóru, allt í einu ef til vill, þegar maður síst vænti þess, og hún var þess vegna vel fallin til þess að bera hærra hlut; en það er fullt eins mikið komið undir því, að kunna að gleðjast yfir sigrinum, eins og hinu, að afla hans. Ég tók alls ekki eftir því, lengi fram eftir ástadögum okkar, að hún réði oftast fyrir okkur báðum. Í leikjunum, eins og lífinu sjálfu, kemur það fram, að tvennir viljar geta aldrei orðið að einum eða sama vilja. Tveir eða fleiri geta, að því sem verður ráðið af því ytra, fallizt á eitt mál. En í raun réttrí er það þá ætíð svo, að annar lýtur yfirráðum hins. — Okkur greindi oft á, áður en alvaran kom og skildi okkur til fulls, og hún varð oftast hlutskarpari; ekki svo mjög af því, að hún setti sinn vilja beinlínis yfir minn heldur af því, að hún varði meira afli og kappi til þess að sannfæra mig heldur en ég til þess að koma henni á mitt mál. Þegar við töluðum um það, hvert við ættum að fara þennan daginn, eða hvað við ættum að gjöra okkur til skemmtunar þegar þangað væri komið, fór það oftast svo, að ég fékk að leggja eitthvað til fyrst, en það var sjaldnast, að tillagan væri samþykkt. Hún hafði hugsað sér enn betri stað og hafði augastað á enn skemmtilegri leik. Og ég varð oftast að játa, að hún færði sannfærandi rök fyrir því, sem hún hélt fram. Hún stóð kyrr fyrir framan mig, lagði stundum höndina á öxlina á mér og talaði svo skýrt og með svo mikilli áherslu um allt, sem þræta valt á, hve lítið sem það sýndist vera, að ég fann, að það hefði verið óvinsamlegt, jafnvel ranglátt, að viðurkenna ekki, að hún hefði á réttu að standa.

Hún var aldrei fallegri heldur en þegar hún lagði sem mest kapp á að telja manni hughvarf. Einstöku sinnum kom það fyrir, að ég var heitur og stóð fast á mínu máli. Ég hagaði þá orðum mínum svo vel sem ég hafði vit á og setti ástæður mínar skipulega fram, með og mót. Hún hlustaði þá á mig til enda, og brosti oft, einmitt þegar mér fannst ég reka smiðshöggið á og taka af allan efa um það, hvað rétt væri eða rangt í því efni, sem við ræddum um. En þegar ég loksins hafði lokið mínu máli, tók hún allar ástæður mínar í réttri röð, liðaði þær í sundur eins og lærðasti miðaldaspekingur og gat alloftast snúið mér á sína skoðun, að minnsta kosti í bráðina.

Margar konur verða ókvenlegar þegar þær beita sér í samræðum, en unnusta mín var ekki svo. Hún var prúðust og hreif huga manns mest, þegar hún líktist mest sjálfri sér, og það gjörði hún þegar um eitthvað var að keppa. Hún var ein af þeim. — Viljinn var æðsta gáfa hennar, og það kom nýtt líf og yndisleikur yfir hverja hreyfing hennar, þegar hún þurfti viljans með. En hversu mikla sanna yfirburði sem vér finnum hjá öðrum, er ætíð einhver taug í oss sjálfum, sem vill ráða, og þó ástvinir vorir eigi í hlut, leitum vér undan á aðrar leiðir, ef vér finnum, að vér getum aldrei beygt þá undir vorn eigin vilja.

Það bar við, að hún gjörði allt til þess að láta mig finna, að hún hefði engan annan vilja en minn. Hún gat upp á allar mínar óskir og styrkti allt, sem ég sagði, með enn heppnari og hnyttnari rökum en ég sjálfur hafði getað fundið. Þá daga, sem þannig lá á henni, var ég töfraður af ást og vinarhug til hennar, og hefði ekki getað hugsað mér að lifa án þess að hún lifði með mér. En þessir dagar voru ekki eins margir og hinir, og smátt og smátt læddist sú meðvitund inn í huga minn, að hún ekki einasta stæði ofar en ég, heldur líka að hún fyndi það sjálf, og það er sú hættulegasta raun, sem nokkur kona getur sett karlmannsást í; því er nú einu sinni svo varið, að karlmennirnir vilja hafa tögl og hagldir, þó það sé ranglátt, þegar völdin væru betur komin höndum konunnar.

Orsökin til þess að við skildum var ekki stórvægileg. Það fór með okkur eins og oftar, að smámunirnir verða til ósætti og fjandskapar milli þeirra, sem eru drottnunargjarnir að eðlisfari og eiga erfitt með að láta undan, jafnvel þótt beztu vinir þeirra eigi í hlut.

Það var einn morgun, snemma á sumri. Ég var nýkominn úr skóla og gekk til móts við unnustu mína niðri við fljót. Hún tók nú kveðju minni eins og ung ástmey á að gjöra og eins og margar aðrar konur hafa kvatt mig síðan.

Sólin skein yfir öllum engjum og túnum. Loftið var létt og reykjarstrókarnir stóðu upp af bæjunum uppi við fjallshlíð, þráðbeinir og háir. Þrestir og aðrir smáfuglar sungu í lágvöxnum skógarrunnum, sem eftir voru enn á undirlendinu hér og hvar, frá fyrri dögum þegar allur þessi dalur var viði vaxinn.

Við leiddumst niður að fossinum. Úðaboginn vafði sig eins og blómsveigur yfir hið brúnadimma hamragljúfur, þar sem flaumurinn féll hvítkembdur og þungraddaður niður í hyl, á leið til hafsins. Allt var svo fagurt þennan dag, og við fögnuðum lífinu, sem lá óeytt og óreynt fyrir framan okkur.

Við gengum út á hamar þar sem valurinn átti hreiður undir. Þar var svolítil grasi vaxin lægð í klettabrúnina. Gamall hálffúinn trédrumbur var rekinn þar niður í jörðina, og kaðalspotti bundinn við; ég hafði stundum hætt mér niður í hamarinn í handvað, sem festur var við þennan kaðalenda. En oftast voru tveir menn hafðir uppi við vaðinn, og sá þriðji á brúninni, til þess að gefa merki um það, hvort slaka ætti til eða draga upp reipið.

Valirnir höfðu enn sem oftar orpið í hamrinum, og eggin þeirra lágu enn ósnert niðri á stallinum. Ég sá það vel á því hvernig þeir höguðu sér á fluginu, að þeir áttu egg einmitt á sama stað og síðast þegar ég var látinn síga í bjargið.

Við litum út yfir hamraflugið og svo hvort á annað. Okkur datt báðum það sama í hug.

Þorirðu að síga? sagði hún og gægðist fram yfir brúnina, en hélt sér þó í handlegginn á mér.

Þú veizt að ég hef oft gert það áður og að ég er ekki hræddur, svaraði ég; en ég kunni þó ekki við að hún skyldi spyrja mig að þessu að fyrra bragði. Ég ætlaði að stinga upp á því sjálfur að sækja valseggin.

Ég kallaði á smaladrenginn frá okkur, sem sat yfir ám þar rétt fyrir ofan, og bað hann um að skreppa heim eftir reipum. Ég vildi fara í handvað í þetta sinn, þó það væri ekki hættulaust.

Unnusta mín tók ekki, eða lézt ekki taka eftir því, að ég bað ekki drenginn að skila neinum boðum til piltanna heima, og eftir nokkra stund kom hann ofan frá bæ með tvo hesta af ólarreipum. Hann fleygði þeim hjá staurnum, þurrkaði af sér svitann og leit hálfhlæjandi ofan fyrir bergið og niður í hylinn. Það var ekki árennilegt, satt að segja, að fara þarna niður, og það var auðséð, að strákurinn hélt að ég mundi ekki þora að fara í vaðinn.

En ég hafði nú einsett mér að freista þess, og eins og allir unglingar sem leggja sig í hættu, var mér hálfskemmt við það, að vita að tekið var eftir mér af augum, sem mundu fella tár, ef mér hlekktist eitthvað á.

Þegar ég fór að leysa sundur reipin, tók ég eftir því, að hún varð náföl í andliti. Ég sá á henni, að hana langaði til þess að biðja mig að hætta við að síga, en vissi um leið, að henni félli illa að víkja frá því, sem hún einu sinni hafði lagt til. Ég gjörði mér það víst ekki ljóst þá stundina, að það hafði verið kuldalegt ráð af ungum kvenmanni að hvetja unnusta sinn til slíkrar ferðar. En eitthvað vakti þó fyrir mér í þá átt, að láta hana nú finna til þess, að ég ætti alvöru til, og ég vildi ekki láta eggja mig til einkis. Sumarhitinn og lyngilmurinn vafði sig um okkur, þar sem við stóðum bæði ung og sterk, í geðshræringum, sem við vissum hvorugt af til fulls, en sem áttu að snúa forlögum okkar á allt annan veg en við höfðum haldið hugsanlegt fyrir skammri stundu.

Ég spyrnti fætinum hart í trédrumbinn og fann að hann mundi duga mér þetta sinn. Ég hnýtti reipin saman þegjandi og brá svo öðrum enda vaðsins utan um staurinn, niðri við jörð. Ég vissi hvað við lá, ef hnútarnir rektust upp, og ég kunni vel að búa svo um þá sem vera átti.

Hún stóð hjá mér og mælti heldur ekki orð. Ég beið þess að hún yrti á mig, og ég hafði svarið til á reiðum höndum. Ég hafði nú reyrt að öllum hnútunum, yfir hnéð, og vissi að þeir mundu ekki bila. Svo gerði ég vaðinn upp í hönk og fleygði honum fram af berginu, beint niður undan staurnum.

Ég leit á hana sem snöggvast, en hún beygði sig niður og þreifaði á efsta hnútnum, sem riðinn var á reipið. Svo gekk ég frá henni niður að brúninni og tók í vaðinn. Ég horfði niður urðina og kargann fyrir framan og mig svimaði ekki. Ég fann, að ég hafði vald yfir öllum mínum vöðvum og taugum, og ég sneri bakinu að hylnum, tók báðum höndum um reipið og hallaði mér aftur á brúninni.

Þá gekk hún hart niður eftir til mín og staðnæmdist rétt fyrir framan mig, á fremstu bjargegginni. Hún sýndist heldur ekki vera hrædd. Ég vil ekki að þú sígir, sagði hún lágt. Hún dró andann djúpt og talaði óskýrt.

Ég ætla að síga, svaraði ég. Ég hafði búizt við því að hún talaði fyrr, og að hún bæði mig, en byði mér ekki.

Þú mátt ekki síga, sagði hún og gekk enn nær mér. Ég sá, að hún brá upp hægri hendinni, eins og hún ætlaði að leggja hana á öxlina á mér, líkt og hún var vön að gjöra þegar hún lagði kapp á að beygja vilja minn allan og óskir til hlýðni við sig. Ég hef stundum hugsað um það síðan, að þetta hafi ef til vill valdið meiru um yfirburði hennar yfir mér en mig grunaði þá. Hver veit nema þessir huldu straumar andlegra áhrifa, sem renna frá einni sál til annarrar, leiðist betur á þann veg? Augnaráð, málrómur og nærvera sumra manna hrífa oss líkt og leikið sé á strengjaspil. Því skyldu þessi áhrif ekki verða enn næmari og öflugri ef þeir snerta oss?

En ég beygði mig nú langt aftur af berginu. Gættu þín að fara ekki of langt fram á brúnina, sagði ég, þig gæti sundlað.

Hún stóð kyrr og horfði á mig. Hún var föl, og það glampaði á augu hennar, öðruvísi en ég hafði séð áður, og þó var það ekki af tárum. Hún sá, að mér var nú alvara, og ég byrjaði að feta mig niður bergið.

Ég mölva valseggin þegar þú kemur með þau, sagði hún. Ég man eftir henni enn í dag, eins og ég sjái hana fyrir mér, þar sem hún stóð uppi á hamrabrúninni, með glampandi augu og hárið strokið frá enninu. Hún var nú vaxin kona, og ég fann líka, að ég var fullorðinn. Leikirnir okkar voru úti, og alvaran var byrjuð. En þessi síðustu orð, sem ég heyrði hana segja, voru barnsleg eins og ástir okkar hörðu verið allt til þessa dags. Þau hljómuðu í eyrum mér, þar sem ég hékk í veikri taug milli heims og helju, eins og kveðja frá æskudögum okkar, sem nú eru liðnir. Eitt augnablik flaug mér í hug að snúa aftur og faðma hana að mér. Ég heyrði, að hún hafði nú lagt niður vopnin og að hún bað mig með þessum orðum, svo vel sem henni var lagið, að stofna mér ekki í hættu. En það var aðeins eitt augnablik. Sjálfsþóttinn átti yfirhöndina hjá mér þetta sinn, og ég vissi einnig, að hún mundi virða mig minna eftir á, ef ég hyrfi aftur. Eðli allra kvenna er svo.

Ég hélt áfram hægt og hægt niður eftir hamrinum, og bráðum bar brúnina á milli okkar. Ég þekkti hvern stalla og stein í þessu bergi, og þó ég hefði ekki verið jafn óhræddur í hömrum sem ég var að upplagi og vegna vana, fann ég að ég hefði, þessa stund, getað farið allt sem fært var.

Valshreiðrið lá á örmjórri syllu, einar þrjár mannhæðir fyrir neðan brúnina. Ég sá tóna niður undan mér og vék mér svolítið til hliðar með vaðinn, til þess að geta tyllt fætinum á snös, sem stóð út úr berginu rétt hjá hreiðrinu. Þegar ég kom út á móts við sylluna, tvívafði ég vaðnum um vinstri handlegg, spyrnti báðum fótum í bergið og tók eggin með hinni hendinni. Þau voru með tölu, og ég lét þau hver í sinn vasa, tvö og tvö.

Ég hafði ekki fundið til neinnar hræðslu til þessa. Kapp og þótti hafði knúð mig til þess að sækja eggin, og ég hefði gengið niður í hamrana, þó að hættan hefði verið margfalt meiri. En þegar ég lagði upp eftir bjarginu aftur, varð ég allt í einu gagntekinn af þessum einkennilega hrolli og ótta, sem flestir finna til í fyrsta sinn, sem þeir síga í kletta. Mér fannst ég mundi vilja gefa hálfan heiminn til þess að vera kominn upp á brún. Ég hafði aldrei farið niður í handvað fyrr, þó ég að vísu nokkrum sinnum hefði séð aðra gjöra það, og eitt augnablik fannst mér ég verða að sleppa tökunum. Það kom yfir mig svimi og magnleysi og ég leit niður fyrir mig ofan í urðina. En lífsþráin bar hærra hlut, og ég náði aftur afli og áræði til þess að halda áfram.

Ég komst slysalaust upp á hamarinn; en ég var móður og skalf allur eftir áreynsluna þegar ég gekk upp eftir lægðinni, þangað sem unnusta mín sat og beið eftir mér. Hún spennti greipar yfir hnéð og horfði í aðra átt; ég hafði þó orðið var við, að hún hafði gægzt fram af brúninni á öðrum stað og séð, hvað mér leið meðan ég var niðri í vaðnum. En það var nú auðséð, að hún vildi ekkert láta á því bera.

Ég tók eggin upp úr vasa mínum eitt og eitt, og lagði þau þegjandi fyrir framan hana. Hún leit á mig sem snöggvast, eins og hún ætlaði að segja eitthvað. Varirnar titruðu, og nú glampaði eitthvað líkt tári í augum hennar. En hún þagði þó. Ég vissi, að hún átti að segja fyrsta orðið, og þagði líka.

Ég dró reipið upp til mín og fór að leysa um hnútana; ég fann, að lengra og lengra varð á milli okkar, þó að við værum svo nálægt hvort öðru, að við hefðum getað tekið saman höndunum. En ég vildi ekki láta undan.

Allt í einu reis hún upp og strauk stráin af fötunum sínum. Ég horfði á höndina á henni; hún var smá, með þéttum vöðvum og sívölum úlnlið. Svo beygði hún sig niður, tók eitt valseggið upp, studdi annarri hendi í hliðina, hallaði sér aftur og þeytti egginu langt út í hyl.

Ég fann blóðið streyma sjóðheitt upp í kinnarnar á mér. Í einu vetfangi flugu mér í hug allar leikstundir okkar, þar sem ég hafði látið hana ráða, og ég skildi það nú, að hún vildi ekki láta sér nægja að ráða leikjunum. Hún vildi ráða lífi okkar líka. Ég lifði upp aftur allar þær ógnir, sem ég hafði liðið niðri í hamrinum, þegar ég leit sem snöggvast niður í helgráa urðina, og allt sem til var í mér af karlmannsþótta gjörði uppreist á móti þessum unga kvenmanni, sem stóð fyrir framan mig með upprétt enni og tindrandi augu og hafði þeytt niður fyrir hamra því, sem ég hætti lífi mínu til að sækja.

Mér sýndist hún ekki lík því, sem mér hafði virzt hún áður. Mér fannst hún allt í einu vera orðin mér ókunnug. Og ég greip hálfósjálfrátt utan um gamla silfurhringinn, sem ég bar á litla fingri. Ég tók ekki eftir því, hvort henni brá eða ekki; ég man aðeins eftir því, að ég dró hringinn af mér hægt og stillilega, með ráðnum huga. Hann var orðinn mér þröngur, því ég hafði vaxið með hann, en ég náði honum þó af. Svo studdi ég vinstri hendi í síðuna, hallaði mér aftur og henti hringnum út á hylinn, eins langt og hún hafði kastað egginu.

Hún gekk hægt frá mér og bar sig vel á ganginum. Hún var allra kvenna fríðust á fæti, sem ég hef séð, og þegar ég minnist hennar, sé ég hana í huga mínum, ýmist eins og hún stóð á hamrinum, þegar ég fór niður af brúninni, eða eins og hún gekk frá mér upp móinn, ein síns liðs, með æskuleikina okkar beggja að baki og sína eigin vegi fyrir framan sig, sem lágu langt frá mínum leiðum.

Við hittumst nokkrum sinnum eftir þetta, en töluðum aldrei saman, og hún fór úr sveitinni með foreldrum sínum á næsta ári. Ég hef heyrt að hún hafi ekki gifzt.

Eggjamóðirin flaug kringum hreiðrið sitt í styttri og styttri sveiflum, og valurinn þaut fyrir hamrasnasirnar með úfnum fjöðrum og snöggum vængjatökum. Þessir fuglar eru harðlyndir og bera sig vel, en það er óvíst, að þeir syrgi eggin sín minna en hinir, sem meira ber á. Mér sýndist fossinn og hylurinn vera orðnir breyttir, þó að sólin skini jafnbjart og áður og loftið væri fullt af klið og kvaki smáfuglanna, sem ekki höfðu orðið fyrir neinni sorg.

Ég hef lifað marga góða og glaða daga síðan og þekki nú heiminn og konurnar betur en ég gjörði, þegar ég lagði af stað niður í valshreiðrið. Og stæði ég nú á brúninni, hjá fyrstu heitmey minni, með gamla silfurhringinn hennar á hendinni, mundi ég hugsa mig betur um, áður en ég fleygði honum út á hylinn.

FARMAÐURINN

Innst inni við fjarðarbotn einn bjó fyrir nokkrum áratugum gamall höldur, hærður og lotinn. Hann var daglegur gestur á -eyri, dálitlu kauptúni, er stóð við þennan sama fjörð, og skeggræddi við hvern, sem hafa vildi, helzt um selaskot og siglingar. Hann var allvel að sér og hafði getað bjargað sér á yngri árum í nokkrum útlendum tungumálum; blandaði hann þá oft ýmsum framandi glósum í ræðu sína. En síðar ryðgaði hann mjög í útlenzkunni, en lærði sitt eigið mál upp aftur.

Karl þessi var mjög mislyndur, en var þó vel liðinn af öllum. Menn höfðu gaman af að tala við hann um sjómennsku og veiðiskap, því hann var fjörugur og dálítið ýkinn, þegar vel lá á honum. En stundum varð hann hljóður allt í einu og vildi þá ekki segja neinar sögur af sér eða öðrum, en lagði byssuhólkinn, sem hann oftast hafði með sér, yfir um öxlina og hélt heim í kofann sinn.

Kofinn lá fyrir neðan eitt helzta býlið í byggðinni, og hafði Halldór gamli — svo hét karlinn — fengið leyfi jarðeigandans til að byggja þar yfir sig. Hann fékk þá aðhjúkrun, sem hann þurfti, frá heimabænum, og komu í staðinn ýms vik, er hann vann fyrir húsbóndann. Annars átti karl alltaf nóg fyrir sig að leggja, en safnaði þó ekki fé. Það helzta, sem hann lagði fyrir sig, var seladráp og viðgerðir á byssum.

Halldór gamli dó um sjötugt, og hafði hann áður gjört þá ráðstöfun, að bóndi skyldi taka það, sem eftir hann var til, en kosta jarðarför hans á móti. Meðal þess, sem fannst eftir Halldór gamla, voru nokkrar gamlar guðsorðabækur; en inni í einni postillunni lá handrit eftir þann látna sjálfan með stórri stafagerð og að því er virtist skrifað á mörgum árum, því rithöndin var mjög misjöfn og fremstu síðurnar orðnar upplitaðar. Síðustu línurnar voru nýskrifaðar að sjá, og stóð nafn karls undir með feitu letri.

Sá, sem þetta skrifar, hefur fengið handritið að láni; innihald þess er svo, nokkuð stílfært að orðalagi og efnisskipun:

„Ég er fæddur við sjó og hef alltaf síðan annaðhvort verið nálægt sjónum eða úti á honum. Ég man ekki eftir því, að ég væri nokkurn tíma spurður að því, hvað ég ætlaði að leggja fyrir mig, en ég veit, að ég hafði frá fyrstu álitið sjálfsagt að komast á sjóinn, helzt út yfir hann, til þeirra landa, sem liggja að hafinu hinum megin.

Ég missti foreldra mína svo ungur, að ég man ekki eftir þeim, og svo ólst ég upp sem tökudrengur hjá fjarskyldum ættingjum mínum nálægt þeim stað, sem ég er fæddur á. — Þar háttaði svo til, að há fjöll byrgðu allt útsýni til landsins, en sjávarmegin breiddu sig út flatneskjuvellir og sandar alla leið niður í fjöruborð. Svo tók við opið hafið, lengra en augað eygði. Ströndin var þar brimsæl, og gaf sjaldan til róðra, en væri fært út fyrir fjöruna, var ekki langróið og oftast gott um afla. — Í byggðinni voru ekki nema tveir bátar til og sjósókn ekki mikil, en þó hafði ég verið nokkrum sinnum úti á handfæri, þegar ég var kristnaður.

Ég hafði aldrei orðið hræddur á sjónum, og þó voru róðrar okkar ekki alltaf hættulausir, því allt í einu, áður en nokkurn varði, gat rjómasléttur sjórinn orðið ófær jafnt þeim, sem vildi komast í land, eins og hinum, sem vildu komast út. Sú eina geðshræring, sem ég man eftir að sjórinn vekti hjá mér, var heit þrá til þess að þekkja hann, leggja hann undir mig og komast út, langt út fyrir miðin, sem fiskibátarnir okkar sóttu.

Þannig leið og beið. Ég var kominn undir tvítugt og var sterkur og stæðilegur piltur, allvel fær í flestan sjó. Þá var það eitt sumar snemma, að við sáum hafskip, sem nokkra daga hafði verið á sveimi úti fyrir, nálægjast ströndina rétt fyrir neðan bæinn okkar, þar sem svolítill vogur skarst inn í sandana. Skipið sigldi þétt upp undir voginn, og svo var skotið út báti. Okkur þótti þetta nýstárlegt, en sumt heimilisfólkið var hálfskelkað við þessa ókunnu gesti, sem komu utan af hafinu, og enginn fór til móts við þá. Svo komu þeir upp sjávargötuna fjórir saman; einn gekk á undan, en tveir af hinum leiddu þann þriðja á milli sín.

Þetta var hollenzk fiskiskúta, og sá, sem leiddur var, var sjúkur skipverji, sem hafði óskað, að hann væri róinn til lands. Þeir gjörðu sig skiljanlega fyrir okkur með bendingum, dönskublendingi og einstöku orðum, sem við skildum úr fiskaramáli, og endinn á samtali okkar varð sá, að við tókum skipverjann til hjúkrunar, en skipstjórinn kvaðst mundu koma og vitja hans innan nokkurra daga. Svo sigldi skútan úf aftur, en Hollendingurinn varð eftir hjá okkur.

Ég man vel eftir andlitinu á þessum útlendingi, þar sem hann lá við herðadogg í baðstofunni hjá okkur. Hann var fölur og úfinn á hár og skegg, og augun flöktuðu fram og aftur, upp í rjáfrið og niður eftir sperrunum. Það var eins og hann væri alltaf að furða sig á öllu, sem hann sá, upp aftur og aftur, og það skein út úr honum, að hann átti heima langt, langt í burtu. Hann át hvorki né drakk, en renndi augunum sífellt upp og niður eftir súðinni og sperrunum; og svona veslaðist hann upp nokkra daga, þangað til eitt kvöld, þegar komið var að háttatíma, að hann settist allt í einu upp í rúminu, skimaði allt í kringum sig með stórum, daufum augum og féll svo aftur á koddann og var dauður.

Skipstjórinn kom á tilteknum tíma til þess að vitja hans, og þá hafði sá hollenzki staðið uppi tvo, þrjá daga. Við ætluðum að fara að grafa hann, því dagarnir voru langir og heitir, og strax sem skipstjórinn var kominn að dyrunum, sá ég á honum, að hann vissi, að hinn var dauður. Hann þreif niður í vasann, tók upp stóran leðurpung og taldi nokkra silfurpeninga upp á hefilbekkinn, sem stóð frammi við dyr. Svo gekk hann nokkrum sinnum fram og aftur í bæjardyrunum, tautaði fyrir munni sér eitthvað, sem við skildum ekki, og gaf heimilisfólkinu auga á víxl, þangað til hann staðnæmdist fyrir framan mig. Við horfðum fast hvor í augun á öðrum sem snöggvast, og ég fann, að okkur hafði báðum dottið það sama í hug. Ég vissi, að ég mundi ekki hafa langan tíma til umhugsunar og benti út á skútuna. Hann kinkaði kolli. Svo benti ég á silfurpeningana, og hann tók nokkra enn upp úr leðurpungnum og lét þá hringla í lófa sínum. Ég rétti höndina út og kaupin voru gjörð.

Þetta kom allt í einu og fólkið varð staðhissa á mér. Ég var minntur á sögur um Íslendinga, sem hefðu verið brytjaðir niður í þorskabeitu á útlendum fiskiskipum, og mér var bent á breiðan, tréskeftan kuta, sem hékk aftan á lendinni á skipstjóra í hálfslitnum leðurslíðrum.

— En allt kom fyrir ekki. Ég vissi, að svo gott tækifæri mundi trauðla bjóðast mér í annað sinn, en ég hafði í rauninni lengi verið ráðinn í því að reyna að komast utan, þó ég gerði mér það ekki fullljóst sjálfum, fyrr en skipstjóri nam staðar fyrir framan mig í bæjardyrunum og leit í augun á mér. — Ég tók saman plögg mín, seldi í snatri og fyrir gjafverð það lítið, sem ég átti fémætt og gat ekki tekið með mér, og lagði svo af stað burt úr átthögum mínum sömu sjávargötuna, sem feigi Hollendingurinn gekk á heim til okkar.

Lífið um borð var bæði erfitt og óviðfelldið en þó heldur skárra en ég hafði búizt við. Mér höfðu verið sagðar svo margar ljótar sögur af útlendingum, að ég átti ekki von á neinni paradísarævi á fiskiskútunni, og ég ásetti mér að láta hart mæta hörðu, meðan ég sæi mér það fært. Ég þóttist vita, að skipstjóri þyrfti mín við til þess að vinna og mundi því láta mig halda lífinu í lengstu lög; en í rauninni óttaðist ég ekkert annað af skipverjum heldur en að þeir, ef til vill, mundu drepa mig. Svo rík var hjá mér trúin á mannvonzku og harðneskju útlendinga, sem ég hafði drukkið í mig með þjóðsögunum um útilegufólk og aðra kynjamenn.

Viðurværið var illt og öll aðbúð eftir því. En ég var hraustur og vandist fljótt við hvað, sem var. Það versta af öllu þótti mér óloftið í skutnum, þar sem hásetarnir sváfu og mötuðust; einkum var mér það lítt bærilegt, þegar ósjór var og allt var byrgt. Óþrifnaðurinn hjá félögum mínum keyrði fram úr hófi; maturinn var ýmist hrár eða sangur og ekkert að hafa nema skammir og hótanir, ef ég reyndi að finna að því, sem að mér var rétt.

Einn af skipsmönnum var Þjóðverji, geysimikill raumur og illúðlegur. Allir hásetar sýndust hræddir við hann, og hann virtist vita það vel, því hann leyfði sér alls konar hrekki og frumtabrögð móti hverjum, sem var á skipinu, allt upp að skipstjóra sjálfum.

Einn dag vorum við sem oftar undir þiljum, því veður var illt og varð ekki staðið á fiski, flestir hásetar lágu í rúmum sínum, sumir hrjótandi, en sumir hálfsofandi. — Ég sat á trébekk, sem negldur var í gólfið með fram matarborðinu, og lá fram á hendur mínar. Ég var að hugsa um hitt og þetta. Stundum hvarflaði hugurinn þangað, sem ég átti áður heima, og stundum leit ég upp, yfir andlitin, sem lágu óhrein og afskræmd af alls konar löstum á koddunum í kringum mig. Sumir opnuðu augun til hálfs við og við, þegar stærstu öldurnar riðu á skipið eða þegar það sökk niður í dýpstu öldudalina. Ég var sá einasti, sem sat uppi við borðið, og ég fékk einstöku augnagotu á móti út yfir rúmstokkana; en þegar ég sá hvítmata í augun á þeim, stóð mér fyrir hugskotssjónum það versta, sem ég hafði heyrt um mannillsku útlendinga í þjóðsögunum heima, þar sem sveitungar mínir lifðu friðsömu, fátæku lífi undir fjöllunum.

Skútan hentist á allar hliðar, svo brakaði og söng í hverju tré. Yfir okkur þaut óveðrið ýlfrandi og ógnandi, en undir okkur gnauðaði og stundi hafið, sem ég hafði þráð að þekkja. Ég sá að sönnu ekki eftir neinu ennþá, en margt flaug mér í hug um það, sem ég var nú, og það, sem ég hafði áður verið.

Meðan ég sat í þessum hugleiðingum, bar matsveinninn kaffi fyrir okkur í afarstórri tinkönnu, sem öll var beygluð og með afarstórum ryðskellum hér og þar. Kaffið var biksvart og sjóðheitt; gufuna lagði fyrir vitin á mér og vakti hjá mér sterkar endurminningar um það, sem ég hafði skilið við, þegar ég tók við silfrinu af Hollendingnum.

Þjóðverjinn kom niður rétt á hælunum á drengnum. Hann lét sig aldrei vanta eitt augnablik, þegar eitthvað var á borðum, hvort heldur matur eða drykkur, og nú gein hann yfir kaffikönnunni, hundvotur, í olíufötum og með sjóhatt, sem seltan streymdi af niður eftir honum öllum.

Hann lyfti lokinu af könnunni, saug að sér lyktina af þessum drykk, sem mér bauð við, og vatt um leið úr sjóvettlingunum sínum niður á gólfið. Þessa vettlinga hafði hann keypt fyrir þrjár kökur af svartabrauði af stúlkuanga frá næsta bæ, sem kom niður að skipsbátnum daginn, sem ég lagði frá landi.

Ég horfði á Þjóðverjann með vettlingana og fann kaffiþefinn leggjast fyrir brjóstið á mér. Ég hafði aldrei talað orð við þennan mann og skildi hann verst af öllum skipverjum, en ég hafði alltaf haft ímigust á honum frá því fyrsta, er ég sá hann.

Hann leit upp sem snöggvast og horfði á mig eitt augnablik. Það, sem ég hugsaði um hann, og allt hitt, sem vettlingarnir og kaffilyktin minntu mig á, hefur víst skinið út úr augunum á mér, þó ég kynni ekki að segja honum það á hans máli. Það var eins og hann yrði fyrst forviða á því, að ég skyldi líta svo til sín. En í sama vetfangi var annar svipur kominn á hann allan, og heiftin gneistraði út úr honum. Hann kleip saman augun og lyfti annarri hendinni upp, svo beygði hann sig aftur á bak og þeytti vettlingunum vindandi blautum beint framan í andlitið á mér.

Þetta var fyrsta sinn, sem hann gerði á hluta minn, og hafði hann þó verið öðrum skipverjum sannkölluð plága allan þann tíma, sem ég hafði verið um borð. En í sömu svipan og ég fann til vettlinganna, var ég kominn upp af bekknum — og yfir borðið. Það hefur víst hjálpað mér, að hann hefur nú furðað sig enn meira á því, að ég skyldi þora að rísa upp á móti honum. Ég beið ekki eftir því, að hann áttaði sig á þessu, heldur þreif til hans, hallaði mér aftur og lyfti honum upp af gólfinu; svo fleygði ég honum á klofbragði endilöngum niður á gólfið fyrir framan rúmstokkana.

Innan um öll ólætin og hávaðann af sjávarganginum varð þó svo mikill dynkur, þegar þessi mikli svoli féll, að skipverjar hrukku upp, risu á olnboga í rúmunum og réttu höfuðin út fyrir stokkana til þess að sjá, hvað um væri að vera.

Þó þeir hefðu heyrt, að gat væri komið á skipið, held ég ekki, að þeir hefðu undrazt meira heldur en að sjá Þjóðverjann liggja á gólfinu og mig standa uppi yfir honum. En upp frá þessari stundu var viðmót þeirra við mig allt annað en áður, og þeir sneiddu hjá því að hrekkja mig eða styggja. Jafnvel Þjóðverjinn sjálfur lét mig hlutlausan eins og áður, en ég sá, að hann hataði mig frá þessum degi með hatri hins fallna Golíaths.

Við flæktumst nokkrar vikur með þessari skútu hingað og þangað, alltaf í landsýn, og ég sá nú, að fjöllin bera allt annan svip, þegar maður sér þau utan af hafi, heldur en þegar búið er undir þeim og þau byrgja manni sýn til sjávar eða lands. Hvítu faldarnir, sem klæddu þau niður fyrir brúnir, voru nú svo mjallahreinir að sjá, og allir kambar, rindar og tindar voru eins og þaktir með bláleitri voð, sem augað sá enga óprýði á. Það var eins og undirlendið hyrfi inn undir fjöllin og ár og lækir yrðu að engu; en þó sáust einstöku smáfossar liðast eins og silfurlokkar niður eftir hlíðunum.

Eftir því sem við dorguðum lengur úti fyrir ströndunum, eftir því varð ég leiðari í skapi; mér fannst stundum ég yrði annaðhvort að biðja skipstjóra að setja mig á land eða að vera undir þiljum þangað til við kæmumst úr landsýn.

Ég vildi komast burt, og mig langaði heim. — Ég veit ekki, hvort aðrir þekkja þessa tilfinningu, en það er víst, að ég fann sárt til hennar, þegar ég horfði heim á fjöllin, og það er ekki að vita, hver löngunin hefði orðið ofan á hjá mér, ef við hefðum hringsólað öllu lengur í landsýn og ef mér hefði gefizt kostur á að komast aftur burt úr þeim félagsskap, sem ég hafði valið mér sjálfur, frjáls og óneyddur.

En loks kom sá tími, að við áttum að fara burt, hvert vissi ég ekki, en yfir sjóinn áttum við að komast.

Einn morgun snemma kom skipstjóri upp á þiljur og kallaði á stýrimanninn til sín. Þeir kíktu á fjöllin og sólina og skrifuðu og reiknuðu stundarkorn. Svo fór skipstjóri sjálfur undir stýrið, kallaði hátt til skipverja, sendi þá fram og aftur um þilfarið, fram á stefni og upp í reiða. Það var halað í kaðla, og segl voru undin upp. Skipverjar sungu undir, og kom allt annar svipur á þá, því nú vissu þeir, að átti að halda heim. — Skútan leitaði fyrst upp í, í horf til lands, eins og hún væri að kveðja; svo þöndust allar voðir út, og hún lét undan stýrinu, suður og austur til hlýrri landa.

Á leiðinni út var lítið að starfa um borð, og ég hafði nógan tíma til að hugleiða ýmislegt, sem ég hafði aldrei hugsað um áður — ég fann, að ég var kominn út í alvöru lífsins og að ég gæti ekki snúið aftur frá þeirri leið, sem ég hafði kosið mér; áður átti ég tvo vegi færa, þann að fara og vera kyrr.

Við fengum allgott leiði með einum hafstormi af norðurátt. Við tókum höfn sunnarlega á Hollandi, og dreifðust skipverjar þar hver í sína átt. — Eftir nokkurra daga dvöl í landi réðist ég á annað skip, sem fór milli Hollands og ýmsra Miðjarðarhafsstaða. Ég var lengi að átta mig á hinu margbreytilega stórborgarlífi og mikilfenglegu mannvirkjum, er ég sá á ferðum mínum. En smátt og smátt hætti ég að undrast eða dást að hæð húsanna, strætafjöldanum eða öðru því, sem útlendingnum frá Íslandi verður svo starsýnt á, þegar hann kemur fyrst út í „heiminn“. — Mér fannst því minna til um það sem ég sá meira af því, en kotbærinn, sem ég hafði alizt upp í, hækkaði og prýkkaði að sama skapi fyrir huga mínum.

Þannig var ég í förum alllangan tíma og réðist á skip af skipi. Ég sá unga, uppvaxandi nýlendubæi í Vesturheimi og öreiga sveitaþorp í Suðurálfunni. Stundum féllu sólargeislarnir beinir og svíðandi heitir niður á þilfarið; í öðrum ferðum voru stagir og strengir beinharðir af gaddi.

Ýmist voru það hinir fögru og frjóvu akrar Frakklandsstranda, sem ég sá líða fyrir eins og málverk, eða það voru hin vogskornu og hrjóstrugu fjallahéruð Noregs, sem gnæfðu yfir hafsbrúnina, með háa hamratinda og lága snjálínu.

Jafn fjölbreytilegir voru félagar mínir á þessum sjóferðum. Ég kynntist mönnum af öllu tagi og fleiri þjóðernum en ég get talið. Ég lenti í lífshættum með skakkeygðum Asíumönnum, dansaði og drakk sterkt vín með hinum tígulegu, beinvöxnu Spánverjum í Cadix og strauk frá illa þokkuðum skipara í tyrkneskri höfn með svolitlum blámannshnokka, sem ég hafði tengt kunningsskap við á langri óveðrasigling yfir Svartahafið.

Lífið var allt ein breyting, frá striti og þrældómi til iðjuleysis, frá hrakningum og vosbúð til alls konar gleðskapar í nýjum og nýjum verzlunarborgum. Ég gleymdi löngum tímum saman, að ég átti hvergi heima, eins og allar strendur væru átthagar mínir svo langt sem skipum varð siglt; en á milli minntist ég með sárri heimþrá sveitarinnar minnar með bátahrófin tvö og hinnar mjóu, hlykkjóttu sjávargötu, sem Hollendingurinn og ég gengum báðir, hver í sína átt.

Svo var það eitt kvöld á einni af grísku eyjunum, að ég fór í land eftir stranga og langa vinnu um borð. — Þá varð sá atburður, sem hefur valdið mestu um forlög mín síðar og sem ég get aldrei gleymt vegna þess, sem á eftir fór.

Ég fór í land með tveimur skipsnautum mínum í því skyni að hvíla mig og gleðja mig eftir daginn. Veðrið var fagurt og himinninn heiður. Skipið lá fast uppi við land og var affermt yfir breitt borð, sem lá af byrðingnum upp að steinlögðum akvegi, innst í höfninni.

Við fórum beina leið uppí dansstofu, sem ég þekkti vel. — Þegar við gengum inn af dyrunum, stóð ungur kvenmaður við innri hurðirnar í fordyrinu og strauk sig um enni og kinnar með drifhvítum vasaklút, sem ég fann ilminn leggja af á móti okkur með heitri bylgju af þungu lofti innan úr danssalnum.

Þessi kona var sú fegursta, sem ég hafði séð til þess dags, og ég hef ekki séð neina fegri síðan.

Ég hafði áður orðið var við það, að ég var karlmaður, en ekki kona. — Við kirkjuna heima hjá okkur í sveitinni hafði ég séð allt það af kvenfólki, sem til var bezt og þokkalegast, og ég get ekki neitað því, að ég fann oft eðli vors fyrsta forföður streyma gegnum mig við guðsþjónusturnar. En ég hafði aldrei verið settur augliti til auglitis gagnvart konu á sama hátt og þetta kvöld.

Hún sneri sér að okkur, þegar við komum inn af dyrunum, og mér fannst hún horfa framan í okkur alla í einu. Þó tók ég eftir því, að hún leit síðast á mig — sem allra snöggvast. Svo veifaði hún vasaklútnum einu sinni snöggt um andlitið og gekk á undan okkur inn í salinn.

Við fórum á eftir beint þangað inn, sem hljóðfærin voru slegin. Bæði ég og félagar mínir voru alvanir slíkum skemmtunum og ég lét mér oftast hægt að taka þátt í dansleikjum. En í þetta sinn hreif hijóðfæraslátturinn mig með sér, og fótatakið í salnum vakti hjá mér sterka löngun til þess að ganga í dansinn.

Sú, sem stóð í dyrunum, þegar ég kom inn, var horfin mér inn í fjölmennan hóp af dansmeyjum, en ég sá hana þó skýrt fyrir mér — eins og ég sé hana enn.

Hún var ennishá og beinnefjuð, með tinnusvart hár, nokkuð langleit. Hún bar höfuðið hátt, og herðarnar voru breiðar; hálsinn var líkur því, sem ég hafði séð á gyðjumyndum í grískum borgum. Göngulagið var sköruglegt og vöxturinn fagur. Því tók ég eftir, þegar hún gekk á undan okkur inn í salinn. — En það, sem mér virtist einkennilegast af öllum hennar friðleik, voru augun.

Þau voru sægræn.

Þessum augum gleymi ég aldrei, og þegar ég hugsa um þau á kvöldin í einverunni eftir öll þessi ár, finnst mér enn líkast því sem ég horfi niður í sjávariðu fram af hraðskreiðu skipi, sem klýfur djúpdimmar öldur með bringunni.

Ég beið eftir því, að ég sæi hana meðal dansmeyjanna, og hirti ekki að taka fyrr þátt í gleðskapnum. Félagar mínir voru komnir út á gólfið, og ég stóð einn fast upp við grindurnar fyrir framan þá, sem léku danslagið.

Loksins varð ég hennar var. Hún sat við lítið borð fyrir framan sjálft danssviðið og hjá henni ungur Grikki í þjóðbúningi eyjarskeggja. Hann hallaði sér fram og talaði við hana með aðra höndina undir kinn, en hina utan um stórt vínglas. Mér sýndist hún veita máli hans lítið athygli, og ég horfði stöðugt á hana og beið þess, að hún tæki eftir mér.

Svo leit hún á mig í annað sinn; og í sömu svipan var ég kominn af stað á leið til hennar. Ég gekk gegnum dansraðinnar fram hjá léttklæddum, hlæjandi konum og víndrukknum mönnum á öllum aldri beint þangað, sem hún sat, og hneigði mig fyrir henni.

Hún leit enn einu sinni á mig með sægrænu augunum, lengur og fastar en fyrr; svo stóð hún upp og rétti mér höndina.

Ég tók utan um hana, og við dönsuðum af stað.

Svo reyndi ég að tala við hana. Hún gjörði fyrst ekki annað en hlæja stuttan, lágan hlátur, sem mér fannst bera hreim af danslaginu. Hún lagði sig fastar upp að mér, og mér fannst eins og við skildum hvort annað, þó við kynnum ekki sama mál. Svo sagði hún eitthvað, sem ég ekki skildi, með alvarlegum, málmhreinum rómi.

Við dönsuðum beint fram og aftur, þvert í gegnum salinn nokkrum sinnum; svo staðnæmdist hún, og ég ætlaði að leiða hana að sama borðinu, sem hún sat áður við. En hún tók í handlegginn á mér og benti mér í aðra átt.

Við settumst saman tvö ein úti í horni, langt frá Grikkjanum, sem hún hafði áður setið hjá — og nú fyrst virti ég hana fyrir mér.

Ég hef áður sagt, að ég hef aldrei séð fegurri konu, og ég segi það aftur. Ég fann, að ég var gersamlega hugfanginn af henni eftir þessi fáu augnablik, sem við höfðum sézt og verið saman. Heitur straumur af nýrri, sterkri gleði, sem ég hafði aldrei fundið til áður, fór um mig allan, og ég fann og skildi eins glöggt eins og ég vissi af sjálfum mér, að hún mundi ráða mestu um forlög mín frá þessum degi.

Ég kallaði einn af þjónunum til mín og nefndi nafnið á bezta víninu, sem ég þekkti af því, sem drukkið er á þessum eyjum, en hún leit til mín hálfbrosandi, og ég færði mig nær henni á bekknum. — Við gátum ekki talað saman, en ég gat þó látið hana skilja, að ég væri sjómaður, að skipið mitt héti Etruria — og að ég væri ástfanginn af henni.

Svo kom þjónninn með tvær krúsir af hvítu þrúguvíni, og ég drakk henni til, eins og við hefðum þekkzt lengi.

Vínið gerði okkur léttara að skilja hvort annað. Ég gat greint einstöku orð, sem ég kannaðist við; hún talaði einkennilega mállýzku, en ég sagði þau fáu orð, sem ég kunni í grísku, samhengislaust og einungis til þess að segja eitthvað. Við hlógum hvort að öðru, horfðumst í augu og dreyptum á krúsunum. — Svo hallaði ég mér áfram, lagði höndina á öxlina á henni og kyssti hana beint á munninn.

Henni brá ekki neitt við, en hún varð alvarlegri. Hún leit í kringum sig; þar var ekkert að sjá nema hlæjandi, hugsunarlaus andlit, og enginn sýndist taka eftir okkur. Grikkinn var horfinn, og danslagið var enn fjörugra og háværara en áður. Sporið var stigið hringinn í kring, og við vorum ein innan um allan fjöldann. — Ég tók í höndina á henni og nefndi nafnið mitt fast við eyrað á henni. Hún kippti hendinni að sér og sagði mér sitt lágt og skýrt.

Hún hét Darja.

Þannig leið kvöldið allt fram á nótt. Við vissum ekki lengur af því, að tungurnar eru saman settar af orðum og setningum, en við töluðum saman viðstöðulaust á máli Adams og Evu í Paradís.

Svo kom sá tími, að ég þurfti að fara um borð. — Við kvöddumst ekki. Ég vissi, að hún mundi hitta mig daginn eftir; hún þekkti skipsnafnið, og ég taldi á fingrum hennar, á hverri klukkustund vinnu okkar um borð væri lokið. Þá var ég frjáls og gat fylgt henni upp í bæinn. — Hún leit enn fast á mig með sægrænu augunum að skilnaði, en hún þurfti þess ekki. Það var ekki hætt við því, að ég mundi gleyma þeim.

Næsta kvöld sá ég hana á tilteknum tíma ganga fram og aftur á steinstéttinni fyrir ofan bryggjuvegginn, og ég hafði hraðar hendur að búa mig af stað, á leið til gleðinnar og ástmeyjar minnar.

Í þetta sinn fór ég einn frá borði og lofaði félögum mínum að fara hverja leið, sem þeim þóknaðist.

Darja!

Hún nefndi nafnið mitt aftur, og ég tók eftir því, að hún sagði það alveg eins og í gær, en hún gat ekki borið það rétt fram.

Hún smeygði hendinni undir handlegginn á mér, og ég fann, að hún hefði getað leitt mig með sér hvert sem var, ef hún hefði ekki viljað láta mig leiða sig.

Hún lagði sig upp að mér, og ég gagntókst af þessum heita ástaryl, sem brennir mann svo sárt í fyrsta sinn. — Ég er nú snauður og gamall útlendingur í mínu eigin landi, en ég vildi þó ekki skipta á endurminningunni um þessi kvöld í hinum grikkneska aldingarði og auðlegð þeirra, sem aldrei hafa lifað slíkt.

Við vorum saman hvert kvöld til enda, svo lengi sem skipið stóð við í eyjunni. Og við hugsuðum víst hvorugt um það, að samvistum okkar væri lokið þá og þegar. — Svo lét ég hana skilja eitt kvöld, að við ættum að vera seglbúnir um hádegi daginn eftir.

Hún varð fölari og augnaráðið sterkara, en annars sá ég henni ekki bregða mikið. — Ég drakk fast þetta kvöld, því ég var hryggur út af framtíð okkar.

Ég benti á okkur bæði og upp í landið, en hún hristi höfuðið. Svo nefndi ég skipið, höfnina, sem ég var ráðinn til, og nafnið á eynni hennar, um leið og ég dró strik á bekkinn, sem við sátum á, til þess að gefa henni í skyn, að ég ætlaði að koma aftur. Hún hristi enn höfuðið, og ég vissi engin ráð, en drakk bara fastara og fastara, þangað til ég hætti að hugsa um, að við áttum að skilja næsta dag.

Það einasta, sem ég hafði fyrirhyggju til að taka fram, þegar við kvöddumst síðasta kvöldið okkar á eynni, var það, að hún yrði að hitta mig á tilteknum stað nálægt skipalegunni tveim stundum fyrir hádegi. Hún hneigði höfuðið til samþykkis, og svo skildum við með löngum faðmlögum og kossum eins og vant var.

Daginn eftir var ég snemma á ferli. Það var víma í mér enn eftir vínið, og mér sýndist sú leið, sem fyrir mér lá, vera tóm og gleðisnauð. Ég var að brjóta heilann um, hvað ég ætti að taka til bragðs, og mér fannst ljón vera á hverjum vegi. Félagar mínir yrtu á mig, en ég svaraði þeim naumast. — Svo heyrði ég einn þeirra segja:

Þarna kemur nýi hásetinn í staðinn fyrir Korsíkumanninn, sem strauk í gær.

Ég leit upp og sá þann, sem talaði síðast, benda upp á landbrúna. — Þar kom maður, mikill vexti og raumslegur, er dró á eftir sér stóra skipskistu.

Ég þekkti hann strax og varð lítt glaður við. — Það var Þjóðverjinn, sá er ég lagði klofbragðið á við Íslandsstrendur.

Ég átti mér enga von þess að hitta þennan félaga minn framar, og mér þótti það ills viti, að ég skyldi sjá framan í þetta loðbrýnda, illúðlega andlit einmitt nú, þegar ég var að vakna upp til alvöru og kvíða eftir minn stutta ástadraum og þá stundargleði, sem ég hafði teygað svo hart af hinum grísku vínkrúsum.

Mér flaug margt í hug. Ég vissi, að ég varð að hafa hugsað ráð mitt, áður en Darja kæmi til mótsins, og ég fann, að láni mínu var lokið, ef vegir okkar skyldu skiljast að fullu og öllu. — Ég leit aftur á Þjóðverjann; hann var nú kominn upp á skipið og arkaði borginmannlegur fram og aftur um þiljurnar, eins og hann ætti allt það, sem hann sté fæti á. Hann gaf mér auga aftur og kinkaði kolli til mín heldur þurrlega, en ég tók dræmt undir.

En að ég gerði það sama sem Korsíkumaðurinn? — Mér hafði ekki óðar dottið þetta í hug heldur en ég fleygði frá mér kaðalendanum, sem ég var að rekja upp, og eftir örstutta stund var ég klæddur til landferðar.

Ég tók á eintal þann af félögum mínum, sem ég trúði bezt, og sagði honum frá fyrirætlun minni. Ég bað hann að láta allar föggur mínar á tiltekinn stað í skipinu og hjálpa mér síðan til þess að koma þeim í land, svo lítið bæri á, er ég kæmi aftur niður til skipsins. Hann játti þessu fúslega, því hann gat átt von á að fá að dansa eitt kvöldið til í landi, ef enn einn skipverjinn stryki af Etruriu. — Svo fór ég upp í bæinn og beið þess, að sá tími kæmi, er Darja og ég áttum að hittast.

Ég reikaði um stræti og torg bæjarins og skoðaði mig um í staðnum í fyrsta sinn. Það var nú ekki lengur Darja ein, sem ég þurfti að sjá, heldur landið hennar með, því ég var fastráðinn í því að setjast þar að og hætta við sjóinn, sem hún gat ekki fylgt mér út á.

Ég undraðist, hve skrautlega hinir heldri Grikkir voru búnir. Yfirbragð þeirra og limaburður allur lýsti þótta og sjálfsáliti. Konurnar gengu sumar með blæjur fyrir andlitunum, og sást ekki nema í augun, sem tindruðu kolsvört gegnum slæðurnar, en hér og þar sáust síðskeggjaðir Tyrkir, harðlegir á svipinn, með gullbúna tygilknífa í beltunum.

Ég fór ósjálfrátt að bera fólkið í þessu nýja föðurlandi mínu saman við landa mína heima, sem ég hafði ekki séð svo lengi, og allt í einu kom yfir mig sárari heimþrá en ég hafði nokkurn tíma fundið til áður. — Hefði ég átt eina ósk, mundi ég hafa kosið, að ég væri kominn heim til Íslands með það eina, sem ég unni á grísku eynni. — Ég fór að byggja lofthallir, háar og fagrar; ég sá okkur tvö koma heim, þó síðar væri, hana í skrautlegum erlendum klæðum og mig í dýrum, óbrotnum búningi með íslenzku sniði. — —

Heimþrá og ást ríktu í huga mínum; ég reikaði fram og aftur innan um Grikki og Tyrki með fyrirætlanir um nýtt líf við sjóinn, en ekki úti á honum; og hver veit, hvað mér hefði tekizt, ef Darja hefði lifað með mér?

En þetta átti að fara öðruvísi.

Ég hafði gengið þannig lengi frá stræti til strætis og mundi nú eftir því, að stundin var komin. — Ég hafði aðeins tíma til þess að komast nógu snemma til mótsins, og flýtti mér þangað með hjartslátt og hita í blóðinu.

Hún var ókomin.

Ég furðaði mig alls ekki á því. — Ég hafði áður beðið eftir henni, en aldrei lengi, og ég var öruggur um, að hún mundi koma.

Ég vissi, að hún mundi hrista höfuðið aftur — en ég vissi einnig, að hún óskaði einkis fremur en að ég setti minn vilja yfir hennar vilja — og nú var ég ráðinn í að gjöra það.

Ég beið og beið. — Darja kom ekki. — Ég var óttalaus ennþá, en grunurinn um einhverja ógæfu, eitthvað, sem vofði yfir ást minni og hamingju, læddist að mér hægt og hægt, fyrst án þess, að ég yrði þess var, og breiddi dökka vængi yfir allar vonir mínar og drauma; — svo stóð það allt í einu glöggt og óhagganlegt fyrir mér. — Hún kom ekki.

Ég rifjaði upp fyrir mér samveru okkar alla frá því, að við hittumst fyrst, og mér gat ekki dulizt, að þetta væri í raun réttri mjög eðlilegur endir á sögunni okkar. Ég hafði heyrt getið um slíkt fyrr og var jafnvel ekki sjálfur alókunnugur skammvinnum trúlofunum í hinum og þessum skipastöðvum. En Darja var öðruvísi en allar hinar, og ég hugsaði öðruvísi til hennar en allra annarra. Því brást hún mér nú, einmitt þegar ég hafði ráðið af að snúa inn á aðra vegi til þess að fylgja henni? Sjálfsagt vegna þess, hugsaði ég, að henni hefur virzt ég vera eins og allir aðrir — þeir, sem hún hefur dansað við!

Ég fann öfund og heift læsa sig um mig allan, og þó ég bæri ekki geðshræringar mínar utan á mér eins og hinir hviklyndu íbúar þessarar eyjar, vissi ég, að ég mundi geyma þær því lengur með langrækni og þykkjuþunga þeirra, sem aldir eru upp í köldu landi.

Ég beið enn nokkra stund, eftir að ég var úrkula vonar um, að hún kæmi. — Svo gekk ég rakleiðis niður til skipsins og fór til vinnu minnar um borð, eins og ekkert hefði í skorizt. Félagi minn, sá er ég hafði beðið um að hjálpa mér til að leynast burt úr skipsvistinni, horfði undrandi augum á mig, en ég sagði honum, að ég hefði hætt við að strjúka og skýrði honum frá engum ástæðum.

Þjóðverjinn forðaðist mig og ég hann. Mér stóð hálfgerður stuggur af honum, og sama hugsunin, sem greip mig, er ég varð hans var á landbrúnni um morguninn, leitaði á mig aftur og aftur. Að nokkru leyti var það nú komið fram, að mér var ills viti að hitta hann aftur þennan dag.

Mér fannst eins og allir skipsmenn gætu séð það á mér, að ég hafði misst unnustu mína. Ég skildi reyndar ekki í því, hvernig þeir færu að sjá það, því ég var kaldur og rólegur. En hvernig stóð á því, að skipstjórinn gaf mér svo undarlegt auga og hálfglotti við, þegar hann gekk hjá mér?

Ég vann á við tvo, meðan við vorum að koma skipinu út. Ég hljóp fram og aftur svo hart sem ég komst til þess að hlýðnast skipunum yfirmannanna, og ég togaði í keðjur og kaðla fastar en nokkur hinna, en ég tók ekki undir í siglingasöngnum. — Einu sinní var ég sendur upp í reiða til þess að greiða kaðla rétt fyrir neðan körfuna. Etruria var stórt, hásiglt barkskip og afarhæð niður á þilfar, þaðan sem ég hékk. Ég horfði niður fyrir mig eitt augnablik og lét kaðlana eiga sig — en þá sá ég skipstjórann nema staðar við sigluna beint fyrir neðan mig, og mér sýndist hann hlæja og velta vöngum framan í mig. Hugsunin um „fall úr reiðanum og fljótan dauða“ hvarf frá mér aftur, áður en ég hafði hugsað hana til enda, og ég flýtti mér að ljúka því, sem ég átti að vinna uppi milli himins og jarðar.

Loks komst Etruria út úr höfninni og sigldi fyrir mjúkum byr vestur Eyjahafið á leið til Njörvasunds, en ég horfði oft og lengi aftur til eyjarinnar, þar sem Darja átti heima, og mig sveið í hjartað, þegar hæsti turninn á eyjarborginni hvarf undir sjávarbrún.

Við sigldum þannig alllangan tíma. Þessi tími dagsins var hvíldartími minn, en ég hélzt ekki við undir þiljum, heldur stóð ég aftur á og saug að mér sjávarloftið. Tvo farþega sá ég ganga fyrir inní lyftingu, aldraðan mann og konu, og veitti ég þeim litla eftirtekt, því við höfðum flutt farþega milli hafna á flestum ferðum Etruriu, síðan ég kom þar um borð.

Þegar komið var að því, að varðtími minn byrjaði, gekk ég fram á, þangað sem skipshöfnin hafðist við, en í miðjum stiga þeim, er lá niður í hásetarúmið, rak ég mig á skutulsvein skipstjóra, og benti hann mér að koma með sér aftur í lyftingu.

Skipstjóri þessi var Ítali að ætterni og mjög vel látinn af skipverjum og ekki strangur yfirmaður. Mér datt strax í hug, að hann mundi hafa komizt að því, að ég ætlaði að strjúka um morguninn, og þó hann væri mildur og ekki afskiptasamur, vissi ég, að hann mundi taka hart á þessari ráðagerð. En í þetta sinn skeytti ég lítið um reiði hans eða annarra, en fór fúslega á fund skipstjóra, þó ég að vísu ætti von hins versta.

Hann var reiðulegur mjög, þegar ég gekk fyrir hann, og mundi ég ekki eftir því að hafa áður séð hann svo byrstan á bragðið. En ég nam staðar fyrir framan hann þegjandi, með húfu mína í hendi og beið eftir þungum refsidómi af skipherranum.

En er hann hafði ygglt sig og hleypt brúnum framan í mig nokkra stund, rak hann allt í einu upp ráman og óhæverskan sjómannshlátur, gekk fast að mér, þar sem ég stóð á káetugólfinu, og gaf mér selbita í magann. Svo vatt hann sér út, upp á þiljur, en í sömu svipan fann ég tvo mjúka konuhandleggi vefjast um hálsinn á mér. Ég þekkti þá strax og hófst í sjöunda himin, áður en ég sá, hver handleggina átti. — Þar var Darja komin.

Ég lýsi ekki fundi okkar. Við höfðum bæði sýnt, að ást okkar var af því tagi, sem endist frá höfn til hafnar, hún með því, sem hún hafði gjört, og ég með því, sem ég hafði ætlað að gjöra. Og úti á þessari fljótandi ey, sem bar okkur hratt fyrir fullum seglum þangað, sem forlögin ætluðu okkur, var fögnuður okkar enn dýpri og sterkari en áður, meðan við vissum ekki bæði, hvernig leiðir okkar ættu að leggjast saman.

Ég fékk að vita, að Darja hafði komið um borð í Etruriu daginn eftir, að við sáumst fyrst, og gjört boð fyrir skipstjóra. Hún hafði spurt hann að því blátt áfram, hvort nokkur vegur væri til þess, að hún gæti fylgzt með mér á skipinu til þeirrar hafnar, er ég var ráðinn að. Hún sagði skipstjóra frá því, að hún ætti ekki foreldra, lifði á vinnu sinni og væri engum háð — og beið svo þess, að hann svaraði.

Skipstjórinn sagði mér, að hann hefði undrazt einurð hennar og fegurð — og hve kvenleg og prúð hún hefði verið í framgöngu. Hann sagðist hafa hugsað sig um stutta stund og svo boðið henni að vera þjónustumey grískra hjóna, er höfðu tekið sér far með skipinu til Norður-Spánar.

Ég þakkaði skipstjóra svo vel sem ég hafði vit á, sagði honum, að ég hefði ásett mér að fara með heitmey mína heim til Íslands, og nefndi honum, hve mikið ég ætti óeytt af því fé, er ég hafði unnið mér inn í förum frá því fyrsta.

Skipstjóri leit alvarlega til mín, er ég skýrði honum frá þessu, klappaði síðan á öxlina á mér og gekk frá mér. Ræddum við svo ekki meira um þetta, enda töluðum við í þetta sinn síðast saman.

Við Darja mættumst við og við á þilfarinu og töluðum þá saman með augunum einum. — Enginn annar en við og skipstjórinn vissi neitt af því, að hún væri komin um borð á Etruriu mín vegna, en félagar mínir, þeir er fylgdust með mér í dansinn kvöldið fyrsta, er við sáumst, þekktu hana aftur og minntust á hana við mig nokkrum sinnum, en ég vatt þá alltaf af mér, án þess þá grunaði nokkuð.

Alls einu sinni hitti ég hana eina aftur við lyftingu, á siglingu suður af Sikiley. Ég stóð á verði með þrem öðrum, en þeir voru frammi á eða miðskipa, þegar Darja kom upp. Þetta var undir rökkur, og skipið sigldi við, í óstöðugum byr, ekki sterkum. Hún hélt annarri hendi í dyrakarminn og leit útí hléborða, þegar ég gekk fyrir. Ég horfði í kringum okkur og sá engan. Svo gekk ég að dyrunum og vafði hana að mér, með augun á verði um alla stiga og hurðir.

Ég tók um höndina á henni; hún var hvít og köld af hafgustinum, en það var eins og ég heyrði blóðið þjóta um háls hennar og brjóst, ungt og sterkt eins og áður, er við gengum saman undir grisku trjánum. Ég sá engan nærri, og ég kyssti hana með augun lokuð, eitt, langt augnablik.

Þegar ég leit upp aftur, stóð Þjóðverjinn fyrir aftan okkur með niðurbrettan sjóhatt og ókveikt ljósker í annarri hendi.

Ég sleppti henni hægt og stillilega og sneri mér að Þjóðverjanum.

Ég hafði oft áður orðið þess var, að hann horfði á mig með gamalli, rótgróinni heift, og ég kippti mér ekki upp við það. Ég vissi, að þessi maður hafði hatað mig alla stund frá fyrri samvist okkar og að hann gleymdi mér aldrei, þó hann færi víða. — En í þetta sinn hryllti mig við eituraugunum hans, sem ég sá glóa undan hattskyggninu og loðbrúninni.

Ég fann það á mér og las það út úr honum, að hann gladdist af því að vita, að hann gæti nú beitt fjandskap sínum gegn fleirum en mér einum. Hann var einn af þeim, sem hata allt, sem óvinir þeirra elska, og þó ég óttaðist hann ekki, greip mig eitthvert ógeð og kvíði út af því að vita þennan ógöfuga, heiftrækna fjandmann á sömu skipsfjöl og heitmey mína.

Við sögðum hvorugur eitt orð og fórum hvor í sína átt. En ég hugsaði mér, að ég skyldi ekki vera lengur en ég þyrfti með þessum félaga, eftir að hann hafði komizt að leyndarmáli mínu.

Þegar ég kom af verðinum, hallaði ég mér upp í rekkju mína í öllum klæðum og steinsofnaði.

Ég svaf langan tíma fram á næstu vöku. Sundurlausir og óglöggir draumar leituðu á mig. Stundum var ég eins og milli svefns og vöku, og mér leið illa. Ég vissi af því í gegnum svefninn, að það mundi koma af því, að ég lá í öllum fötum, og ég ætlaði mér að rísa upp hvað eftir annað, en einhver martröð lá yfir mér og hélt mér föstum.

Seinast dreymdi mig, að Darja og ég dönsuðum hart eftir endilöngum þiljunum á Etruriu, en skipstjórinn hékk uppi undir körfunni og horfði niður á okkur. Ég þóttist vera í aldökkum klæðum, en hún var á hágrænum kyrtli. Mér þótti skipið liggja upp að landi með aðra hliðina, en það var ekki í Eyjahafinu, heldur við einhverja óþekkta strönd með sandi og grjóti. Upp af skipinu lá landbrú, löng og örmjó. Á henni miðri stóð maður ónáttúrlega hár með sjóhatt í annarri hendi. Ég þóttist þekkja hann vel. Það var Þjóðverjinn, og sami grunurinn um einhverja ógæfu, er vofði yfir mér, greip mig aftur sterkari og ljósari en fyrr. Mér fannst ég nú sjá, hvað verða vildi, með spámannsaugum þess, sem sefur, og óttinn læsti sig í gegnum allar mínar taugar — en við héldum áfram að dansa, harðara og harðara.

Mér fannst, að fætur okkar kæmu ekki lengur við þilfarið. Skipstjórinn horfði niður yfir okkur alvarlegur á svipinn, en með góðmanniegum augum, og mér sýndist leka vatn úr hári hans. — —

Ég þaut upp stigann og upp á þilfar. Þar var öll skipshöfnin uppi í sjóklæðum, sumir á hlaupum fram og aftur, en sumir héldu sér í kaðla og stagi. Skipið valt voðalega, og sjóir gengu yfir það. Eg sá land á hléborða, flatt sandlendi með lágum húsaþorpum nokkuð frá sjónum. Ég þekkti mig vel á þessum stöðvum og vissi strax, hvað orðið var. Við vorum strandaðir á grunnbroti við skagann austan við Tunis.

Þegar ég fór niður, hefur veðrið verið að búa sig undir leikinn, og meðan ég svaf í rekkju minni, hafði stormurinn náð tökum á sjónum og öllu, sem á honum flaut. Nú voru öll bönd laus af honum, og hann æddi yfir hafið, þeytti særokinu hátt upp á land og svipti í sundur hverri pjötlu, sem uppi var. Ég hef aldrei séð neinn óðari hafstorm, enda var hann þess valdandi, að ég hætti við siglingar og leitaði aftur heim til átthaga minna.

Ég mældi fjarlægðina til lands með augunum og hljóp í sviphending aftur að lyftingunni — eins hart eins og við Darja höfðum dansað í draumnum. Skipverjar héngu fölir og þögulir í hverju, sem þeir gátu hönd á fest, og það brakaði og brast í skipshliðunum. Við vissum allir, að skipið var brotið og að ekkert líf um borð á Etruriu átti sér nú mikla bjargarvon.

Eftir því sem meiri sjór rann í skipið, urðu boðarnir þyngri, sem yfir það gengu. En ég hugsaði nú um ekkert annað en það að finna unnustu mína og deyja með henni eða bjargast með henni, ef þess væri kostur.

Ég kom að hurðinni, þar sem Þjóðverjinn sá okkur saman. Hún var lokuð aftur, en ég spyrnti henni upp með fætinum og komst niður stigann.

Darja hélt sér í járnstólpa við borðið. Hún var náföl, en þó stoltleg á svipinn; við sögðum hvorugt eitt einasta orð, en ég tók annarri hendi utan um hana og hélt mér með hinni í stigariðið og hvað, sem fyrir varð. Þannig komumst við upp.

Ég sá skipstjórann miðskipa. Hann hélt sér í kaðal við sigluna og hrópaði til skipverja, en ég heyrði engin orðaskil.

Skipverjar höfðu flestir bundið á sig björgunarhringi; grísku hjónin sá ég haldast í hendur rétt hjá skipstjóranum með sundbelti utan um sig. Ég sá engan björgunarhring neins staðar; þeir voru allir leystir eða skornir frá borðstokkunum.

Ég litaðist í kringum mig, en sá ekkert, sem ég gæti fleytt mér á til lands. Ég fann, að Darja skalf við handlegginn á mér, og ég tók fastar utan um hana. Svo fann ég skipið lyftast undir okkur af skerinu, og um leið féll himínhár sjór yfir það og brotnaði í miðjum siglum.

Ég heyrði skipstjórann hrópa yfir storminn og sjóganginn, og um leið fann ég, að við flutum upp. Ég greip ósjálfrátt sundtak með annarri hendinni, þeirri sem laus var, en þá rak ég mig á eitthvað, sem ég festi tök á. Það var brot af lestarloki, sem var að skjóta upp, þegar ég handsamaði það.

Við losnuðum við skipið, og ég sá skipverja á sundi hingað og þangað í kringum mig. Skipstjórann sá ég síðast halda sér í taug við sigluna, og mér sýndist hann kinka kolli til mín, alvarlegur og góðmannlegur á svipinn.

Svo missti ég sjónar á Etruriu og honum. Sjóirnir gengu yfir okkur, einn eftir annan, en ég hélt dauðahaldi utan um unnustu mína, og við komum alltaf upp á milli. Hún var náföl með lokuð augu, og ég fann, að ég mundi þreytast fljótt í þeirri hendinni, sem ég hélt um fjölina.

Ég sá einu sinni til lands. Það voru eitt, tvö brot milli okkar og fjörunnar; við vorum komin upp að því efsta, og aldan var að lyfta okkur upp á bakið á sér. Ég beitti síðustu kröftum mínum til þess að halda okkur uppi; þá skaut berhöfðuðum, sjódrukknum manni upp rétt við hliðina á okkur. Þar var Þjóðverjinn kominn í veginn fyrir okkur í síðasta sinn. Hann kom við okkur og opnaði augun. Mér sýndist eins og hann bæri kennsl á mig, og mér fannst ég sjá gamla hatrið loga upp í augunum á honum. Hann rétti út handlegginn, og Darja varð fyrir; — svo drógumst við niður aftur óstöðvanlega, djúpt og langt niður í öldurnar. Við Darja skildum ekki, meðan ég vissi af mér — en ég hafði ekki þrótt til þess að draga allan þennan þunga upp, og svo missti ég meðvitundina.

— — Þegar ég raknaði við, lá ég á gólfinu í fátæklegum, loftlágum kofa, með herðarnar upp við dogg og heitar vatnsflöskur við iljarnar. Við hliðina á mér lá langleitur, skinhoraður Tyrki á knjánum og þrýsti annarri hendinni á bakið á mér, en hinni á bringspalirnar. Ég mundi strax eftir þvi, sem skeð hafði, og undarlega margir viðburðir úr lífi mínu flugu mér í hug á svipstundu. Ég sá ekki aðra í kofanum en okkur tvo og sex, sjö ára gamla Rabítatelpu, sem stóð úti við dyr, berfætt, með fingurna í munninum og starði á mig með stórum augum.

Ég hreyfði mig ekki, en leit bara í kringum mig upp um veggina og rjáfrið; — ég var að reyna að muna eftir einhverju, sem var skeð fyrir löngu, löngu siðan, en gat ekki strax komið því fyrir mig. Loksins rifjaðist það upp fyrir mér, að úti á Íslandi í lágu baðstofunni, þar sem ég átti aður heima, hafði útlendur sjómaður legið svona við herðadogg, eins og ég gerði nú, sjúkur og langt frá öllum sínum. — Ég mundi eftir forlögum Hollendingsins, og ein minningin leiddi aðra með sér. Ég sá sægrænu augun fyrir mér — og um leið sá ég önnur augu, langt inni undir þungum, illúðlegum karlmannsbrúnum, logandi af heift. Mér fannst ég heyra mínar eigin æðar þjóta og slá hart við eyrun á mér. Svo var eins og hellt væri eldheitu baði um mig allan, og hver einasta taug í mér titraði af reiði. — Ég vissi, að fjandmaður minn mundi vera dauður; en því mátti ég ekki bera hefndarhug minn út yfir þetta líf eins og hann?

Svo sá ég unnustu mína enn standa fyrir mér eitt augnablik. Allt hitt hvarf úr huga mínum, og ég fann brunasáran sviða yfir augunum. Darja! — Darja!

Ég reyndi að lyfta upp annarri hendinni, en þá kenndi ég til óþolandi kvala milli herðanna og fram í brjóstið. Blóðið þaut enn harðara við eyrun á mér; mér heyrðist rjáfrið og veggirnir bresta í sundur; — mér fannst líkast því sem mér væri skotið langt, langt út í geiminn, og svo gleymdi ég mér aftur.

— Tyrkinn átti í löngu og ströngu stríði að halda í mér lífinu, en af því að þolinmæði hans var óþrjótandi, vann lífsþróttur minn loksins sigur, og ég var orðinn ferðafær eftir nær tvo mánuði frá því, að Etruria strandaði.

Hann hafði fundið mig í flæðarborðinu, marinn og illa leikinn af fjörugrjótinu, þegar hann, ásamt öðrum fleiri Tyrkjum, sem næstir bjuggu, gekk niður á ströndina til þess að vera til taks, ef einhverju skolaði á land af strandinu, mönnum eða munum. Fimm skipverjar sagði hann að hefðu komizt lífs í land auk mín, en þeir voru allir farnir leiðar sinnar fyrir löngu. Hann sagði mér, að skipstjórinn hefði ekki verið þar á meðal, og ég þurfti ekki að spyrja hann um hana, sem varð mér samferða upp í landbáruna. Ég vissi, að Darja var drukknuð.

Hann sagðist strax hafa séð lífsmark með mér, og af því að hann var ekki óreyndur við lækningar, hafði nágrönnum hans komið saman um að bera mig upp í kofann til hans.

Ég hafði legið nokkurn tíma í sjónum, en honum tókst þó bráðum að koma lofti í lungun á mér. Það, sem sjúkdómur minn stafaði af, voru meiðsli þau, er ég hafði fengið á grjótinu í lendingunni, og þegar ég raknaði við í kofanum, var hitasóttin að gagntaka mig.

Það lítið, sem ég hafði fémætt á mér, höfðu Tyrkirnir tekið af mér, strax er þeir fundu mig í fjöruborðinu. Ég gat því ekki launað lífgjafa mínum með neinu, er ég kvaddi hann, en hét honum að senda laun þau, er ég ynni fyrir fyrsta misserið, til smábæjar nokkurs, er skip sigldu til, skammt frá þessari Tyrkjabyggð, og ráðstafa þeim svo, að þau kæmust honum í hendur.

Áður en ég lagði af stað, gekk ég fram og aftur um ströndina, sem Etruria fórst við. Flekar og brot úr skipinu lágu á víð og dreif um allar fjörur, og ég þekkti aftur hurðir, karma og borðstokka, sem ég mundi vel hvar höfðu verið í skipinu, áður en það liðaðist í sundur á grunnbrotinu við Cap Bon.

En ég sá ekkert, sem Darja hafði átt, og þó leitaði ég vandlega í öllu því, sem sjórinn hafði skilað á land.

— Ég fann, að ég þoldi ekki að dvelja lengi á þessari strönd, og svo fljótt sem ég treysti mér til ferða kvaddi ég hinn gestrisna Tyrkja og dóttur hans litlu, sem ég hafði svo oft séð sitja hjá rúmstokknum mínum, þegar ég vaknaði við og við af sóttarórunum.

Svo komst ég aftur í siglingar og varð innan langs tíma heill heilsu — en aldrei gat ég gleymt skipbrotinu og því, sem ég missti þar.

Ég hafði verið nokkur misseri í förum hingað og þangað um veröldina og hafði sent Tyrkjanum af launum mínum, eins og ég hét honum. Heimþráin var alltaf að verða ríkari og ríkari hjá mér, en það var þó eins og mér væri ómögulegt að koma heim enn. Það var allt öðruvísi heimkoma, sem ég hafði hugsað mér, þegar ég sigldi um Eyjahafið á leiðinni til Afríkustrandarinnar.

En loksins lét ég undan þessari sterku löngun og leitaði heim til gamla Íslands aftur, miklu fróðari, en engu sælli fyrir brottvist mína hinum megin við hafið.

Síðan hef ég lifað hér við sjóinn eins og ykkur, sem blöð þessi berast í hendur, er kunnugt. Árin hafa breytt mér, og tíminn hefur breitt yfir sorgir mínar, en alltaf er þó Darja mér í minni, og ég sé hana enn í huga mínum unga og fagra eins og hún var, þegar við fundumst og skildum. Nú er svo langt um liðið og langt á milli okkar, en stundum finnst mér, að sægrænu augun hennar séu svo nærri mér — allt eins og við séum í rauninni saman, þrátt fyrir öll lönd, höf og liðin ár, sem skilja okkur.“

ÚR DAGSKRÁ og fleiri ritum

KAUPAMAÐURINN

FERÐAMINNING

Seinasti klárinn var að taka sundið, og ferjumaðurinn henti með hrópi og hotti smágrýti úr mölinni niður fyrir hestana til þess að ógna þeim upp í strauminn. Blanda var ekki mikil þennan dag, og þeir fremstu höfðu eftir nokkrar hestlengdir krakað og fótað sig hinum megin við álinn, svo óðu þeir seint og gætilega upp að bakkanum, hnutu á flúðunum og stóðu kyrrir við og við, ráku snoppuna niður í jökulvatnið og hnusuðu. En sólin, sem var að renna upp yfir ásinn í dagmálastað, gljáði heit og morgunrjóð á blautar síðurnar.

Þetta var guðdómlega bjartur og fagur sumardagur, sá glaðasti, sem við höfðum fengið alla leiðina, og við vorum í góðu skapi. Allir hestar óþreyttir, dagurinn tekinn snemma frá Stóradal og hlemmivegir, svo langt sem átti að ríða þann áfanga.

Við þurftum ekki að óttast, að hestar okkar rynnu of langt með sundhrollinn, því á eystra landinu stóð maður, sem ferjaður var á undan okkur, og hafði hann gert sér allt til dundurs, meðan við vorum að spretta af og reka út í. Það var auðséð, að hann vildi slást í förina, og nú hljóp maðurinn út fyrir þann klárinn, sem lengst hafði hrakið, en við fleygðum beizlum og svipum í fleytuna, og svo var róið yfir með snöggum, stuttum áratökum og stafninum haldið krappt skáhorn við straum.

Þegar við riðum að ánni, gátum við þess, að sá, sem ferjaður var, mundi vera kaupamaður, því reiðskjótinn var róinn, og leiddi þó hvorki búningurinn né annað líkur að því, að þar færi skólapiltur. En þeir einir langferðamenn eru þekktir að því að ríða svo ótraustu einhesta, að ekki sé rekandi í jafnstutt sund og þetta var. Það reyndist og vera. — Hann rak hestana í þvögu að ferjustaðnum og kvaddi okkur kumpánlega. Sagði, að hestur sinn væri tregur í einreið og mæltist til samferða við okkur norður yfir Skarðið. Kvaðst vera ráðinn til kaupamennsku í Skagafirði utarlega, spurði okkur alla heitis og heimilis og lét í óspurðum fréttum dæluna ganga um alla sína hagi. Hann talaði á greinilegu Suðurnesjamáli, og var ósvikið lausamannssnið á honum. Maðurinn var mjög þægur og ötull og bauðst undir eins til að hjálpa okkur til að leggja á. Hann gyrti einn af hestum okkar, en móttakið var stutt, svo hann varð að bíta í endann, en hrossið hrökklaðist við.

Ætlar andskotans, lá mér við að segja, truntan að slegast undir tómri hnakkpútunni, sagði hann þá og skyrpti um leið, því leir hafði runnið í hringjuna.

Við vorum þá 4 alls. Auk okkar kaupa skólapiltur norðan úr Þingeyjarsýslu og búfræðingur frá Ólafsdal, sem vistazt hafði fyrir ársmann norður í landi. Hann var gáfaður maður og hafði lesið margt og mikið, en mest á eigin spýtur og var fremur sérvitur, eins og svo margir greindir íslendingar eru. Hann talaði um alla heima og geima og sykraði ræðuna drjúgum með dönskum og útlendum orðum, sem þó við og við komu á afturfótunum, svo auðheyrt var, að hann hafði siglt sjóinn undir eigin seglum. Honum þótti gott í staupinu, og þurfti ekki mikið til þess, að hann yrði hreifur eða klökkur. Það kallaði hann að vera „sentimabel“, en við kölluðum hann ýmist Búa eða Fræbúðing. Seinna nafnið hafði Þingeyingurinn fundið og þótzt góður af.

Nú tókum við okkur upp frá ánni og riðum greitt upp í Svartárdalinn. Hestarnir voru viljugir eftir sundið og léku við taumana, jafnvel hestur kaupa sýndist vera hinn ákafasti að komast sem fyrst norður Fjörðinn. Svo mikil brögð voru að þessu, að kaupi virtist mega hafa sig allan við að halda dýrinu í skefjum. Ýmist hélt hann hestinum aftur með hringuðum makka og svo fjörlegum fótaburði, að líkast var lestærri ótemju, eða hann hleypti og renndi sér á harða spretti fram með okkur með slaka tauma og bringuna niður undir faxi. Við tókum þó innan skamms eftir því, að hann kitlaði hestinn í náranum með þeim fætinum, sem frá sneri, og hélt svo ríkt við, að aumingja skepnan gat ekki rétt úr hálsinum og trítlaði eins og á nálum, þangað til hann hleypti, og varð dauðfegin að stökkva nokkra faðma til þess að rétta úr sér. Við báðum hann að hætta þessu, og missti jálkurinn þá fljótt ferðina, svo við urðum að lána honum einn af hestum okkar, til þess að hann gæti orðið samferða.

Það varð brátt uppskátt, að nýi samferðamaðurinn var vel birgur af brennivíni, og tókst eftir það hinn mesti kumpánaskapur með þeim Búa. Þeir fóru að dragast aftur úr hvað eftir annað, því ýmist hafði farið steinn í hóftunguna hjá kaupamanninum eða lengja þurfti reiðann hjá Búa eða eitthvað annað var að reiðskapnum, og varð þeim ærið staldursamt norður Skarðið, en héldu þó samreiðinni.

Á eyrunum fyrir neðan Stóra-Vatnsskarð áðum við stundarkorn, því hitinn var mikill. Klárarnir gengu í ána, sötruðu drjúgum, veltu sér og hristu svo af sér leirinn, svo hvein í bökkunum, og fóru að nasla allt í kringum okkur, en við tókum upp nestið og breiddum blöð á flötina fast upp við holtið, þar sem þurrast var.

Þeir félagar, kaupamaðurinn og búfræðingurinn, voru orðnir mjög ræðnir um þetta leyti, og bar margt á góma, meðan á máltíðinni stóð; meðal annars gat kaupi þess, að hann væri staðráðinn í því að fara til Vesturheims á næsta sumri.

Þykir þér ekki föðurlandið fullgott til þess að lifa og deyja þar? sagði Búi. Hann hafði oft á leiðinni minnzt á Ameríkuferðir manna og hve mikið tjón væri að þeim fyrir landið.

Til þess að drepast þar er Ísland víst ekki verra en önnur lönd, svaraði kaupi, en að lifa þar er svo bezt, að sveitastjórnirnar hafi ekki hendur í hári manns. Ég hef verið kvenhollur um dagana og á 4 börn sitt á hverri sveit svo að segja. Vilt þú gjalda fyrir grísina, lagsi?

Ekki hélt ég það, að þú vildir flýja börnin þín, kunningi, því þar sem ég hef verið ungur og elskað, þar vil ég líka bera beinin, sagði Búi og hallaði sér upp að stórri lyngþúfu.

O, ekki get ég nú betur séð en að hyggilegt sé að flytja sig um set, þegar maður er orðinn of kunnugur. Svo er það annað. Ég hef oft hugsað sem svo: Nú er ég til að mynda kominn út í haf, um borð á einum af þessum útflutningaskrokkum, sem kunnugir segja, að djöflum sé naumast vært í, hvað þá heldur mönnum. Og svo spyr ég sjálfan mig: Er það nú nokkuð, sem þú sér eftir, Eiríkur minn? Er eins og þig svíði í augun, ha? Því ég skal nefnilega segja þér, þess konar grillur geta sótt á mann í einrúmi. Ég er nú fæddur í Kjósinni, sérðu, og var 7 ára, þegar ég fór þaðan, en oft, þegar mér dettur í hug græni balinn fyrir neðan bæinn, fæ ég eins og einhver ótætis ónot í mig, sem ég reyndar ekkert vil hafa að sýsla með, lagsi, því ég er engin heimótt. Álíka ímynda ég mér að muni sækja á mig niðri í skipinu, þegar ég fer yfir sjóinn. En hvað um það. Gunna mín þrælar baki brotnu í ársvist dag út og dag inn og fær 30 krónur í kaup, og sveitastjórnir, yfirvöld og allt það djöfuls slengi, sem kúgar þjóðina, hefur gert mér lífið svo leitt á Íslandi, að ég vil ekkert hafa að „do“ með það. Í vetur lærði ég svo mikið í ensku, að ég get beðið um mat og drykk, þegar þangað kemur, og hreppsnefndir og hreppstjórar skulu naga um hnúturnar á einhverjum öðrum en mér. Það geturðu bitið í nefið á þér upp á.

Ég vil ekki þrátta við þig um þetta, því þú ert ekki nógu menntaður til þess að skilja mig, svaraði búfræðingurinn. En eitt vil ég segja þér kunningi. Ónotin, sem þú nefndir, skulu aldrei yfirgefa þig, þó þú flýir það land, sem hefur alið þig og krakkana þína, þegar hættan er mest. Til yztu merkja skulu þau elta þig eins og skuggi frá fylki til fylkis, meðan þig rekur minni til, hvar þú ert fæddur og þíns eigin nafns. — Við skulum gjalda fyrir grísina. Við skulum ala upp ungana þína, sem ég reyndar kann þér þökk fyrir, því fólkið er fátt í landinu. En við gerum það með þeirri von, að þegar ómagarnir verða vaxnir menn, búi þeir bændur á Íslandi, sem hafi vit á að láta fólkið vinna, svo þeir geti goldið slitið með öðru en smánarkaupi, að þá sé sveitunum ekki stjórnað af fíflum, sem ýmist flæma eða kaupa menn til að yfirgefa sitt eigið land, að íslenzkir menn, en ekki hálfdanskir leiguþjónar ráði hér lögum og lofum, en einkum með þeirri von, að í stað þín og þinna líka vaxi upp kynslóð, sem finnur, að sú sanna hamingja býr í okkar eigin hjarta og innan lands, en sá eltir villuljós, sem leitar hennar yfir hafið.

Svo mælskan hafði ég aldrei heyrt Búa, enda hafði kaupi lagt höfuðið á hnakksetið, áður en ræðunni var lokið, og breitt klút yfir andlitið. Við hinir hölluðum okkur nú líka og biðum þess, að klukkutíminn liði, og nú heyrðist ekkert nema langir andardrættir, suðið í ánni og hagalætin í hestunum. Stundum rykktu þeir grasinu upp með rótum svo nærri okkur, að við fundum grundirnar nötra, eða þeir frýsuðu stutt og snöggt rétt við eyrun á okkur, en jarðarilmurinn breiddi sig þungur og sumarvarmur yfir bala og brekkur.

Kaupi reis fyrstur á fætur og tíndi saman klárana, en við fleygðum á þá reiðverunum í snatri, því nú var nógu lengi áð. — Þar, sem vegir skiljast, kvaddi kaupi okkur með kærum þökkum fyrir hestlánið og hélt niður í Sæmundarhlíðina.

Fyrir okkur blasti við Skagafjörðurinn. Sólin var hátt á lofti, og við heyrðum kveða við í Gýgjarfossi, en til hægri handar var hóað hátt uppi í holtum, og hundur gelti við. Það var smaladrengur með ærnar sínar, á að gizka einar 30. Út um sveitina sáust grænir blettir hér og þar, ekki stórir og langt á milli, en hinum megin Vatnanna gnæfðu Blönduhlíðarfjöllin við himin, grá og nakin niður undir hjalla. Þó seildist gróðurinn sums staðar í geirum og tungum hærra upp í auðnina.

Þegar við vorum komnir spölkorn niður fyrir gatnamótin, sneri kaupamaðurinn sér við í hnakknum, veifaði hattinum og hrópaði: „Good by!“

LAX Á FÆRI

Við göngum á svig við tvo, þrjá beztu veiðistaðina. Stangirnar yfir öxlina og öngulinn kræktan neðst niður í hjól. Færið smellur saman við hina reyrmjúku stöng svo hvín í við hvert spor. Sólin er að koma upp í röku þokuskýi, rétt yfir austurásnum, og breiðir skrúðskikkju gullroðna með hvikulum litaskiptum yfir árbakkana; þeir eru grasgrónir niður í vatn með loðnum engjabekkjum, móum og hraunrjóðrum frá báðum löndum.

Jörðin er öll í einu úðabaði; stráin drúpa við steina og þúfur, meyr og þung, með glitrandi perlusveiga af næturdögg. Þetta er skínandi fagur morgunn. Loftið er svo himinhreint og hollt. Allir fuglar kvaka af gleði, og áin suðar og syngur svo langt sem eyrað heyrir. Við göngum þegjandi upp með, fram hjá melbörðum og holtum, þangað til við skiptum okkur í tvö laxalón, sem liggja saman með stuttum lygnum ál á milli.

Maðkurinn spriklar á oddinum, teygir sig og fettir eða skreppur í hnút og vefur sig svo utan um krókinn, sem er kappbeittur frá agnúa upp að spaða. Það er til einkis að bjóða laxinum minna en það mesta og bezta, sem komið verður á járnið. Hann er þóttafullur alvörufiskur, sem aldrei lýtur að litlu sé annars kostur, og um þetta leyti er hann stríðspikaður úr sjónum, en áin full af æti.

Félagi minn er Frakki, hárfínn og snyrtilegur. Hann vill ekki snerta á maðki, og leiðist líka að tefja sig á að egna öngulinn. Ég heyri hvininn af færinu hans, snöggt og snarpt með jöfnum bilum. Hann fleygir flugu manna bezt, sem ég þekki. Ég hef séð hann kasta móti vindi hálfa leið út á breiðasta hylinn, sem til er í ánni, og það er ekki vandalaust. — Auk þess ber hann sig vel við stöngina. Nú vaggar hann sér í mjöðmunum, stígur þungt á annan hælinn, og hallar sér hægt og fimlega aftur á bak. Svo lyftir hann stönginni hægt og hægt og dregur fluguna að sér í skorpunni eftir endilöngu lóni, eins og á að vera.

Ég geng fram á stóran stein, sem stendur í ánni rétt við bakkann, spölkorn fyrir ofan lónið, í miðri ánni er flúð undir vatnsborðinu, breið og mikil; þar beljar allur meginstraumur árinnar á; fyrir ofan flúðina er vatnskúfur með hvítfyssandi öfugbáru upp í strenginn, en fyrir neðan iðar flaumurinn í hringum og sveipum og breiðir sig svo niður eftir á; verður alltaf víðari og lygnari, þangað til lónið endar á grunnu löngu broti, góða færislengd fyrir neðan steininn, sem ég stend á.

Vandinn er að fá fiskinn til að sjá agnið, koma því á þann stað, sem honum er léttast að taka það, og vera þó svo langt frá sjálfur, að maður sjáist ekki. Við þetta er margs að gæta. Beitan má ekki haggast á önglinum; því verður að slæma agninu frá sér, svo að það detti á vatnið af eigin þunga, en ekki kasta því. Bezt er að leggja það niður og láta strauminn svo flytja það, en því verður ekki alltaf komið við. Þegar nóg er gefið út og agnið kemur þar sem ætla má, að laxinn standi undir, á að draga stöngina hægt til baka, svo maður hafi gott vald á færinu og finni hvort tekið er, en þá verður að gæta þess að agnið fari ekki upp úr vatnsskorpunni. Venjulega er því bezt að leggja stangaroddinn niður að vatni, þegar agninu er haldið upp í straum. Til þess að geta komið agninu nógu langt frá sér er bezt að standa sem lengst úti og hafa straumlínuna nær því beint fyrir neðan sig, að minnsta kosti ekki meira en stangarlengd út frá sér.

Það er gott að láta agnið sveipast fram og aftur í hringiðu áður en það er stöðvað; með því eru mestar líkur til að lónbúinn veiti því eftirtekt. — Þessu lóni háttar einmitt svo, að hringflaumurinn tekur agnið þegar það kemur niður fyrir flúðina og ber það í löngum sveiflum niður í lygnu. Þar sem slikju slær á vatnið og straumur og lygna mætast er laxinn oftast fyrir. — Meðan laxinn er feitur og nýr úr sjó, er honum tamt að standa kyrr fyrir ofan brot, tifa uggunum rétt til viðhalds og láta vatnið líða gegnum tálknin án þess að leita annarrar fæðu. Þó má með lagi oftast fá hann til að sinna feitum, góðum maðki, eða vel gerðri flugu, því náttúran sjálf hefur ekki föng á að bjóða eins girnilegt æti eins og maðurinn getur matreitt, ef hann leggur sig til.

Í þriðja sinn, sem ég kasta, finn ég kyrrð á færinu, þar sem það annars er vant að fljúga fram hjá undan straumnum. Ég lyfti stönginni upp, ekki snöggt en fast, og finn þennan kvika, þunga kipp á móti, sem er gleði og eftirlæti allra laxdorgara. Ég held stönginni þétt upp nokkra stund, til þess að festa vel í, og vind færið upp á hjólið hægt og hægt. Nú byrjar leikurinn. Lónið er langt og vítt og greiðfært vatn bæði fyrir ofan og neðan; laxinn heldur sig enn á sama stað, en hann getur tekið roku niður eftir allri á, svo langt sem hann kemst, þegar minnst varir. Þess vegna er ætíð sjálfsagt að fara upp á þurrt land með stöngina, þegar lax er á, svo hægt sé að hlaupa með honum ef á þarf að halda. Það er ætíð hættulegt að leika við laxinn með langri línu. Krókurinn getur staðið illa í og losnað úr fiskinum, ef tökunum er sleppt og slakað til á færinu. En aftur er hins að gæta, ef laxinn hleypur á stað með færið, að reisa stöngina upp svo nokkuð sé eftir af færinu að leggja til, ef hann stekkur upp úr vatninu. Stórlaxar gjöra þetta oftast við endann á fyrstu sprettunum, meðan þeir eru óþreyttir. Þegar laxinn stekkur, verður að leggja stöngina flata, svo að ekkert haldi í færið, annars er laxinn manni misstur.

Sá sem ég hef nú á færinu er nálægt fjórðungi, ef til vill rúmlega það. Það er nýrunninn og spegilfagur hængur, með harða, langa spretti og há stökk í fjórum fyrstu rokunum. Hjólið er liðugt, og öngullinn finnst standa vel í. Ég stend á vesturlandinu, og sólin skín beint á, heit og björt. — Ég sæti lagi, þegar laxinn stendur við botninn, og allt er kyrrt, að bretta hattbarðið niður, því taki hann sprett undir sólina og stökkvi, svo er fengurinn farinn.

Hann fer nú smátt og smátt að dasast. Ég get dregið hann rétt að landinu við og við, en ennþá tekur hann kipp út í hyl, þegar hann kennir grynninganna. Loksins tekst mér að leiða hann upp í leirvik fyrir miðju lóninu; þar leggst hann á hliðina, geispar ótt og hvílir sig. Og nú verður að hafa hraðar hendur. — Ég legg stöngina niður, sný hjólsveifinni upp og hleyp að laxinum. Hann ætlar að fara að brölta út aftur, en ég næ í síðasta augnabliki taki á honum fram með eyrugganum og get smeygt fingri undir kjammann inn í tálkn.

Nú liggur laxinn á bakkanum. Það hefði hann ekki gjört, ef hann hefði látið agnið fara fram hjá. — Sólin ljómar yfir öllum ásum, og þungur grasilmur stígur upp frá jörðinni. — Í skugganum undir berginu hinum megin sé ég bláma fyrir tveimur stórlöxum. Ég flýti mér að egna aftur og fleygja færinu, til þess að veiða meira, meðan heppnin er með.

BLÁTREYJUR Í LANDI

Það úir og grúir af þeim á strætum og stéttum. Hvítir brjóstabreiðir bátar hafa komið hver af öðrum, hlaðnir með lifandi farm utan af skipalegu, síðan langt fyrir miðaftan. Þá var landgangsleyfið veitt.

Flotinn liggur yzt og austast á höfninni, fjögur skip þrímöstruð, hvert við hliðina á öðru, gömul í sniði, með léttum fallskeytum. Meðal óbrotinna hermanna og sjóliða um borð fer sú saga hámælum, að flotinn sé sendur til þess að gæta botnvörpuskipanna ensku hér við land, en allir aðrir vita, að þetta eru skólaskip, sem send eru hingað með ung foringjaefni til æfinga í flóanum.

Nú eru þeir komnir í land hundruðum saman; undirmennirnir eru einkennisbúnir, en foringjarnir í borgaraklæðum, allir nema yfirmenn, þeir sem gæta reglu við landganginn. Dátarnir eru í ljósrauðum stutttreyjum með breiðum málmlögðum beltum um mittið. Brækurnar eru dökkleitar, borðalagðar og fara vel. En sjóliðarnir bera hinar alkunnu blátreyjur, derlaus kaskeiti og skálmavíðar brækur, þröngar í setið. Treyjurnar eru opnar í hálsinn og skornar niður með léreftskrögum lögðum út yfir. Hlýjar ullarskyrtur, háar í hálsmálið, með hvítum og bláum röndum, ganga upp í treyjuopin að framan.

Enskir hermenn bera sig vel og eru karlmannlega vaxnir. Göngulagið er stillilegra og líkara tízku annarra landa en hinn skreflangi, ófagri fótaburður, sem alls staðar sést utan hers meðal Breta. Foringjar þeir, sem ekki eru einkennisbúnir, bregða ósjálfrátt fyrir sig borgaraganginum, þegar þeir kenna lands undir fótunum. Þumalfingurinn læðist niður í hliðarvasann á brókinni, göngustafurinn er látinn leika í greipinni og sleginn með þrem fingrum aftur undan sér. Svo beygist allur efri hlutinn áfram, en fæturnir standa beinir eins og áður, og Bretinn álpast áfram, alvörugefinn og langstígur, og horfir fast á hvað sem er.

Veitingahús og sölubúðir taka nú við flestum gestunum. Aðrir ganga í smáhópum eftir aðalgötum bæjarins og láta sér hægt að skipta við landann. Sumir staðnæmast þar sem ferðamenn hafa hesta sína, klappa klárunum á makkann, og gangi saman með þeim og eigendunum, sjást þeir innan skamms demba upp og ofan stíga með slökum taumum og viðvaningslegu reiðlagi.

Förin liggja langflest að gildaskálanum. Þar er orðinn húsfyllir á svipstundu, og skozkt brennivín og bjór af ýmsu tagi flýtur í drjúgum straumum úr krönum og kollum.

Og nú líður ekki á löngu áður en slegið er í dans. Rauðar og bláar treyjur takast á axlatökum, og svo er sporið stigið aftur og fram með bekkjum og borðum. Axlabreiður Íri með strítt skegg og stuttan háls þeytir dragspil úti í horni, veltir vöngum og slær gólfið með hælunum, eftir því sem sporið skiptist í dansinum. Sumir raða sér fram með veggjunum, sumir koma og fara, hella í sig slagbjórum og ganga úr einni búð í aðra.

Það er líf í bænum þetta kvöld. Eftir því sem á líður verður háreystin meiri og lausari bragur á öllum látum liðsmanna. Ungur liðsforingi í gráleitum ferðaklæðum kemur fyrir götuhorn með hárauðar kinnar og glampandi augu. Hann læzt ekki sjá neitt eða neinn, en gengur hratt fram hjá — hvert sem hann ætlar.

En inni eru Bretarnir orðnir þungstígari, hnippast fastar á, þó í spaugi sé, og velja sér verri vísur að syngja. Ein rauðtreyja sést halla sér út í gluggann, þeim megin sem að götunni veit. Hann vindur varaskeggið fast milli gómanna, og horfir öfundaraugum eftir þeim gráklædda. — — —

Blátreyjurnar voru að hverfa út til skipa sinna aftur, þegar ég komst af stað, burt frá öllum hávaðanum og rykinu upp af stígum og strætum. — Ég fer ekki langt, ekki lengra en svo að mátulegt sé fyrir mig og klárinn heiman og heim aftur.

En hér er sannarlega gott að vera. Ég hef fyrir góðri stundu heyrt síðasta smalann hóa í holtunum. Feiknamikill álfasteinn rétt við veginn teygir skuggann sinn suður og austur, lengra og lengra upp eftir öllum götum, og rennur seinast saman við birtubrigðin uppi undir lágri lyngbrekku, þar sem brautin beygist á hvarf — upp til sveita.

Hafið blasir við í vestri. Eyjar og sker móka í kvöldkyrrðinni uppi undir fjarðarbotni, með ála og sund spegilslétt og sólroðin á milli. Hér og þar frá miðjum flóa út undir hafsbrún sjást skip á fiski, með hangandi segl eða mjóa, langa reykjarmekki. Inni undir eyjum sjást tvær, þrjár kænur á uppróðri, en eftir endilöngum firði, vestur og norður, liggur geislaröst, breið og glitrandi, eins og kjalfar eftir eldknör út frá landi, til sólarlagsins. Mófuglarnir hafa hljótt um sig. Ein og ein eggjamóðir skýzt í skorningum heim að hreiðrinu sínu, en feðurnir kúra kirfilegir með nef undir væng uppi á þúfnakollum. Náttúran er öll þögul og friðleg. Það eina sem heyrist er langdregið einraddað lag, sem er sungið á veginum og kemur nær og nær.

Ég bíð og læt klárinn minn blása. — Hann dregur beizlið um hálsinn og gengur rösklega milli loðnustu töðutoppanna í lautinni. Svo kippir hann grasinu upp fast og snarplega, en við og við reisir hann makkann, hættir að tyggja og hlustar á lagið með hvesstum eyrum.

Lagið er nú svo nærri, að ég get greint raddirnar. Það eru tveir karlmenn, yngri og eldri, sem syngja á lestagangi. — Raddirnar fara ekki illa saman, en öllum tónum er haldið of lengi, og þeir ganga í ringjum upp og ofan með hnökkunum.

Ég lofa lestinni að fara fram hjá. Söngurinn heyrist aftur uppi á vegi, fjær og fjær. — Fjöllin dökkna að austan vestur eftir, og blakkari bláma slær á hafið inni undir landi. Sólaráttin bliknar meir og meir, og gullskýjahallirnar hrynja í rústir úti við hafsbrún.

Nóttin breiðir sig yfir allt. Jörðin kólnar og grösin vökna. Hesturinn andar nú djúpt og hægt og ég bý mig af stað. — Ég hef vakað til að sjá daginn hverfa vestur í sjó, en ég sef á morgun meðan sólin er að koma upp að fjallabaki.

HUNDADAGAR

Sumrinu var ekki lokið og þó var komið haust. Norðansúgur og saggakaldir útsynningar næddu á víxl yfir allar byggðir. Stráin hneigðu sig, með hálffölnaða brodda, niður að jörðinni, sem þau hafa sprottið upp af og eiga að hverfa til aftur. — Niðri í bænum strukust þéttir og snöggir veðrabyljir fram með öllum húsaröðum, skutust fyrir götuhorn og kræktu kippkorn inn í næsta stræti til þess að feykja öllu, sem fokið getur, upp í augun á gestum og gangandi. Það kembdi aftur af mönnum og skepnum, sem leituðu á móti, upp í áttina, en hinir, sem áttu undanhaldið, urðu að halla sér aftur og stíga fast á hælana, til þess að ráða ferðinni.

Það var hvergi sumar nema í almanakinu. Sjórinn valt úti fyrir í þungum haföldum; hann var úfinn og krappur innst inn á voga, og sá í hvíta bylgjuhryggina svo langt sem augað eygði út eftir flóa. Seltustækjan læsti sig inn yfir allar fjörur lengst upp í land, en hvítar voðir og smásiglur sáust skoppa uppi á bylgjutoppum, hálft horn við vatnsflöt, þó tekið væri frá og rifaðar allar pjötlur, sem uppi voru.

Menn áttu sér allra veðra von af himninum. Gráir, stormtáðir skýjaflókar sigldu beggja skauta byr fram með fjallabrúnum, og áttirnar skiptust á eyktabilum. Stundum sýndist hann ætla að ganga fyrir í vestrinu, og þá fóru menn að ráðgera hvernig ætti að hagnýta sér þurrkstundina, ef hún kæmi; en óðar en varði var þá ef til vill komið dökkt og drungalegt skýjafar í austri sólarsælis, og menn urðu að gera sér til dundurs að dytta að hálfsætinu, sem haugað var saman undan síðustu súldinni, eða þjappa saman margulum fangahnöppum, sem aldrei hafði verið breitt úr.

En svo komu hundadagarnir. — Það var eins og náttúran sældist til þess að geyma oss sólskinið, þangað til minningardagar hins stjórnspaka Jörundar konungs runnu upp yfir landið. Þessi buðlungur renndi hér inn á höfnina, einmitt um sama leyti árs, í brakandi sólskini og léttum seglkalda. Hann var kominn langt að, yfir vota vegu, til þess að leggja hina margfróðu íslenzku eyjarskeggja undir sig, og himinninn sjálfur brosti að hans Hátign Jörundi og fyrirtækjum hans. — Nú eru liðnir margir viðburðarikir áratugir siðan; þeir kaplar eru nú fyrir löngu birktir, sem Jörsi lét taglstýfa upp í stert; og nú vappa skrautklæddir „aldarendamenn“ út um landsbyggðina á spóaveiðum, með spegilfægðar tvíhleypur og skrælþurrt púður í fikkanum, í stað þess sem Jörundur konungur, háloflegrar minningar, lét illsinnaða þorpara ota ryðguðum tinnuhólkum að borgurum hins fræga sögulands. — En veðrið blessað var rétt álíka þá og nú, og sé vel að gáð, er margt og mikið í sama góða gamla horfinu, eða þá öðru fullt eins góðu, eins og var þegar kóngsskipið hans Jörundar lagðist á Víkurhöfn. — Það helzta, sem hundadagana okkar vantar af því, sem áðurnefnt stjórnartímabil hafði sér til ágætis, er — Jörundur.

Mánuðurinn með ljóta nafnið hefur byrjað vel, hvernig sem það endist. — Sólin skín aftur mild og sumarbjört yfir sveitunum og mjólkurvolgur andvari strýkur læknishendi yfir engjar og móa. — Stráin reisa sig aftur og standa teinrétt á stönglinum; þau vissu að þeim var heitið lengra lífi, og þau eru enn ung og ófeyskin í merg og rótum.

Allar ár voru orðnar kolmórauðar eins og jökulvötn af rigningum og ofviðri. En nú er hver lækur silfurtær, og það glitrar á vatnið á brotum og flúðum. — Hrífurnar eru aftur á lofti, og töðuilmurinn breiðir sig yfir túnin frá garði til garðs. — Það er ekkert að marka almanakið. Haustið getur komið áður en sumarið er á enda; en veturinn getur líka byrjað seinna og endað fyrr en gjört er ráð fyrir í tímatöflunni, og þau grös, sem voru kjarnagóð að upplagi, fá ef til vill að lifa lengur en búizt var við, þó að kuldahretin kæmu illa við brodda og blaðarandir á öllum gróðri, einmitt á þeim tíma, sem jörðin er vön að njóta sólar og sumars.

Það er komið nýtt fjör í bæinn. Nú glampar þar á ljósleitar sólhlífar og sumarklæði. Göturnar breiða sig moldþurrar fyrir fæturna á fólkinu, sem streymir út í sólskinið, til þess að sjá hvort sumarið sé nú loksins komið. — En úti á sundum skríða bátarnir fyrir hægum hafrænubyr, og þilskipin móka, eins og hvítvoðungar í vöggu inni á höfninni.

Þó eru ennþá gráleitir skýjahnoðrar uppi yfir fjallabrúnunum, hér og þar, á hægri leið austur eftir. — Enginn veit hvað úr þeim getur orðið, en eigi nokkurt sumar að verða þetta ár, má það nú ekki dragast lengur.

HROSSASALA

Nú eru þeir seldir, ungir, gamlir. Þeir tömdu, gamalmeiddu híma með hálfopin augu og hangandi eyru niðri í fjörunni, en ótömdu folarnir reisa makkana og líta snöggt við, þegar gengið er hjá þeim. — Þeir halda sig saman í þéttum hnappi, norðan undir húsvegg, fast við flæðarmálið, og stikla á hnullungunum, sárfættir eftir reksturinn, innan um egghvasst veggjagrjót, sem hefur verið lagt þar til geymslu.

Folarnir eru flestir einlitir, vel vaxnir, ekki yngri en þriggja vetra. Menn bera upp trjávið af stórum uppskipunarbát, sem liggur við bryggjuna, og í hvert skipti, sem borðunum er kastað niður, hrökkva ungviðin saman og líta fælnisaugum út undan sér. — Hópurinn þjappar sér enn fastar saman, eins og þeir vilji verja hver annan fyrir einhverri hættu, sem þeir finna að nálgast meir og meir. Tveir folar í miðri þvögunni rétta höfuðið beint upp úr þrengslunum, með titrandi nasir, og spenna eyrun aftur og fram á víxl. — Þeir skima upp yfir fjöruna, þangað sem þeir vita að vegurinn liggur, burt, heim, þangað sem þeir eru aldir upp. En kringum hópinn standa rekstrarmenn og áhorfendur á alla vegu. Það er ekkert undanfæri.

Nú á að fara að leggja við ótemjurnar. — Þreklega vaxinn ungur maður gengur niður að hópnum, smeygir snærismúla upp á handlegginn og hendir sér á fyrsta folann, grípur annarri hendinni um nasirnar og hinni á makkann. Folinn hrekkur í hnút, lyftir sér svo upp að framan og stekkur út úr þvögunni, með manninn hangandi í makkanum. Allur þróttur sem þetta unga dýr á til, er nú lagður fram til að forða frelsinu. Það er í fyrsta sinn, sem mannshönd er lögð á hann, og hver einasti vöðvi og taug er strengd af ýtrasta megni til þess að hrista okið af. En höndin heldur sínu taki, járnfast; maðurinn lafir í makkanum með öllum þunga og spyrnir af alefli á móti, hvenær sem hann getur komið fótunum fyrir sig. Folinn hamast fram og aftur tvær eða þrjár umferðir, en bráðum dregur svo af honum, að hann stöðvast með blóðhlaupin augu og skjálfandi af ótta og áreynslu.

Hann getur varla náð andanum, því að höndin heldur enn um nasirnar, jafnfast. Hann sýgur af öllum kröftum það litla af lofti, sem er sleppt inn um nasaholurnar, og svo fnæsir hann því út, snöggt og hart eins og hnísa, sem kemur upp af kafi. Nú er múllinn borinn að honum með gætni, hægt og hægt; það mistekst í fyrsta sinn. Folinn tekur eitt viðbragð enn, harðara, óviðráðanlegra en áður; en svo lætur hann loksins yfirbugast af járnhöndunum, sem hann getur ekki slitið af sér, og múlnum er smeygt upp á hann og kippt fast í tauminn. Ungi hesturinn er nú bandaður, kominn undir yfirráð mannanna og kemst aldrei undan þeim aftur.

Á þennan veg eru þeir teknir og mýldir hver af öðrum. Þeir eru misjafnlega sprettharðir; hlaupa sumir fleiri og sumir færri umferðir; en allir leggja það afl til í fjörbrotum síns frjálsa ótemjulífs, sem þeir eiga til. Einn smávaxinn jarpur foli er snarpastur og villtastur. Það er ekki fyrr en eftir langa og harða viðureign að honum verður komið undir bandið, og maður og hestur eru báðir lafmóðir, þegar leikurinn er úti. Þessi jarpi er auðsjáanlega hestefni. Hann hefur öll merki þess, að hann sé af góðu kyni, og að upplagið sé of gott til þess að verja honum fyrir kerruakstur í dimmri kolanámu.

Leggirnir eru mjóir og beinir, en liðirnir gildir. Lendin er brött, hryggurinn beinn og stuttur. Hann er nokkuð útskotinn um síðuna, en brjóstið ekki breitt, og er það sýnilegt hverjum hestamanni, að folinn muni vera vakur. — Hann er prúður á tagl og fax. Hófarnir eru smáir, svartir og harðir, og kjúkan stutt. Lærvöðvarnir eru harðir og hnyklast út í skinnið. Og svo er nú höfuðið. Það er ekki stórt; ennið er breitt og hátt og brúnin mikil. Augað er kúpt, liggur utarlega, og er glært að sjá, þegar litið er í gegnum það; hann hefur auk þessa það fjörmerki, sem sjaldan bregzt. Augnahárin eru mjög löng og gisin og standa beint út eins og útbreiddur blævængur. Eyrun eru smá og síkvikandi, og allur svipur folans er breytilegur, eftir því sem fyrir hann ber. — Ég horfi á hann til hliðar og sé hvernig hann reisir sig allan, verður fákslegur og hvatleitur, þegar gengið er hart hjá honum.

Ég spyr einn af rekstrarmönnunum, hvaðan sá jarpi sé. Hann kannast við folann, en man ekki, hvað seljandann fékk fyrir hann; einar 50 kr., heldur hann. Ég geng að honum og get fengið að strjúka honum um snoppuna. Hún er mjúk eins og silki, og það angar af honum heitur, hreinn hestaþefur, sem mér fellur betur en nokkurt reykelsi. — Augun eru kvik og flóttaleg eftir fyrstu viðureign hans við mannshöndina, og hann skelfur enn í nárunum. — Hann stöðvar þó augað á mér sem snöggvast, og við horfumst á — aðeins eitt augnablik — en það er nóg til þess að ég finn, að þessi hestur er göfuglyndur, stoltur og hrekklaus.

Ég vildi ég væri svo ríkur, að ég gæti keypt þig undan aktygjunum, Jarpur.

Hann hvessir annað eyrað fram, en heldur hinu beint upp, eins og hann vilji hlusta á það, sem ég segi, en viti þó, að forlögin hans eru nú ráðin á annan veg. — Fæturnir stikla á fjörusteinunum, hann gengur að hópnum og leggur kverkina upp á lend á næsta folanum, dregur andann djúpt og horfir út á sjóinn, þar sem skipið liggur og bíður hans.

Nokkrir smádrengir hafa safnazt af götunum utan um folana, skoða þá í krók og kring, kippa í múlana, og hlaupa sumir hlæjandi, sumir hálfhræddir undan, þegar ókyrrð kemur á stóðið. Þeir eru ólíkir og óreyndir eins og folarnir í fjörunni. — En þeir eru ekki seldir enn. Hreppsnefndirnar annast það kannske seinna, að koma þeim í lóg, vestur í Winnipeg. — Þennan daginn verða þeir eftir í flæðarmálinu, en hestunum er hrundið í bátinn og þeir eru fluttir út, niður í námamyrkrið, sumir fyrir minna verð en uppeldi þeirra hefur kostað.

Enginn veit hvað býr í þeim ótömdu, sem reknir eru út á bryggjuna, því að enginn veit af hverju bergi þeir eru brotnir. Göfugra dýr en góðan íslenzkan hest getur náttúran ekki leitt fram, og flónskulegri aðferð en hin íslenzka hestarækt þekkist ekki í búnaði neins lands. — Þess vegna er nú litla Jarp hrundið út af bryggjuborðinu, saman við letingja og úrætta gutlara, fyrir sama verð eins og fékkst fyrir þá. Og börnin kasta steinum úr fjörunni út á eftir hverjum farmi, sem fluttur er. En luralegir, álútir hrossaeigendur ganga búð úr búð og hafa skipti á hestverðinu sínu og alls kyns erlendum varningi, sem stundum hefði betur verið ókeyptur.

HEIÐMYRKUR

Himinninn var heiðbjartur fyrir skammri stundu. Öll ljós loguðu í uppheimi og fjöllin hinum megin við flóann teygðu sig upp í silfurgráan skýjabakka, sem vafði faðminn utan um alla norðurátt. Uppi í brúnunum léku breið geislablik og mjúkir giljaskuggar á víxl, en niðri í hlíðum báru fjöllin þessa sæbláu loftskikkju, hálfgagnsæja, er hvergi í heimi sést skreyta betur fjarlægar hæðir og hamra en á Íslandi.

En svo fóru stjörnurnar að depla augum. Þær sýndust allt í einu verða syfjaðar — þær breiddu skýjablæjurnar fyrir andlitin, eins og þær byðu góða nótt. Skýjaflákinn í norðri varð úlfgrár og ýfði kambinn, og eftir fáein augnablik var komið skammdegisrökkur yfir jörðina.

Þeir kalla þetta heiðmyrkur. Þurr, grá þoka læsti sig utan um húsin og smaug inn í hvern kima og krók. Það var eins og köldum þeflausum reyk slægi niður yfir bæinn, og mennirnir sýndust líða áfram í strætunum eins og risavaxnar vofur, með fáránlegum limaburði. Það grillti í þakskeggin hátt uppi í lofti, og var líkast sem gengið væri undir feiknaháum hamrabrúnum, en fáa faðma fram undan stóð þokuveggurinn húmsvartur og ógagnsær og faldi allt, sem kom og fór, fyrir auga manns.

Ég gekk inn að rökkurþilinu og það vék undan mér, jafnt og hægt. Það var alltaf jafnlangt á milli okkar. Þegar ég kom á krossgöturnar, þar sem síðbúnir kveldgestir og hvíluræknir skyldumenn kveðjast, þegar fækkar á strætunum, sá ég óhemjustóra skessumynd inni í þokuhjúpnum. — Vöxturinn var dyrgjulegur og höfuðið kýtt niður í herðar. Hún hélt á afarmiklum lurk í annarri hendi; göngulagið var tröllslegt og ófagurt, og allt virtist ómennskt í fari hennar. En þessi kynjasjón entist ekki nema eitt augnablik. Hún kom út úr þokuveggnum; limirnir fríkkuðu, fótaburðurinn varð mjúkur og léttur og ég gat greint vöxtinn fyrst og síðan andlitsfallið. Lurkurinn var orðinn að regnhlíf og ég bar nú góð kennsl á konuna. Hún var há og grannvaxin, með dökkar brýr og sumarrjóðar kinnar. — Húfuskúfur dinglaði við öxlina og silkiþræðirnir liðuðust niður um vanga og háls. — Hún þekkti mig nú líka og við heilsuðumst, eins og áður, með augunum.

Hún gekk fram hjá mér og var að hverfa út í mökkinn, sem óprýðir og afmyndar allt lifandi, hve frítt sem það er. — Herðarnar voru að breikka óeðlilega og mér sýndist hálsinn vera að hverfa saman við höfuð og axlir. Ég flýtti mér á eftir henni, og gekk svo nálægt sem þurfti til þess að ég missti ekki sjónar á þessum fríðleik, sem ég hafði veitt eftirtekt heila viku, alla tíð síðan hún kom til bæjarins.

Ég hraðaði mér og gekk samhliða henni nokkur spor. — Svo talaði ég til hennar eins og á að gjöra. — Hún svaraði rétt og skýrt, eftir svolitla þögn. — Það var gersemisstúlka.

Við urðum samferða í blessaðri þokunni alla þá leið sem hún átti eftir — þó ekki alveg heim. Hún var hæversk, stillt og skynsöm og ég veitti því ekki neitt athygli, hve margar vofur mættu okkur. Þær voru hrikavaxnar og báru sig ferlega þegar þær birtust í suddanum, en voru mennskar ásýndum örfá spor meðan þær voru að liða fram hjá; en hefði ég þá tekið vel eftir þeim, mundi ég hafa séð allmörg þekkt augu furða sig á okkur tveimur, sem vorum lík sjálfum okkur rétt sem snöggvast, meðan við vorum að skrefa inn í þokuvegginn.

Samleiðin var ekki löng, því miður. Við töluðum um hitt og þetta; meðal annars kunningja og vini okkar beggja fyrir vestan, þar sem hún var alin upp, og ég hafði eytt mínum beztu árum meðal kvenna, sem voru örfáar jafnfríðar og hún. Ekkert samræðuefni verður valið betra í kaupstaðnum en sveitin, með öllu sem í henni er kært og skylt.

Þetta kvöld var gott, það sem það tók. — Ég nam staðar þegar ég sá glóra í næsta hús við heimilið. — Ég reyndi hana aftur og kvaddi eins og kveðja skal. Hún svaraði enn rétt og hiklaust.

Ég sneri mér við eftir nokkur spor. Ég vissi að það var synd, en vor fyrsti faðir féll fyrir líkri freistingu og því skyldi ég ekki falla líka, sem hef erft bresti óteljandi feðra? — Ég varð að loka augunum, svo furðulega afskræmislegt var það sem ég sá. — Herra trúr, var þetta hún, sú grannvaxna með dökku brýrnar? En það var aðeins eitt augnablik. Svo hvarf hún inní vegginn. Ég reyndi að gleyma því, sem gleyma átti, og muna hitt, þegar ég sneri bakinu að, og taldi dagana til næsta móts.

HAUSTGARÐUR

Fyrsti garðurinn kom eins og þjófur á nóttu yfir sofandi borgara inni í bænum, og úti á skipalegunni yfir þá, sem halda áttu hundavökuna. — Laust eftir lágnættið var ofviðrið vaxið upp á hæsta stig. Glerjabrot þeyttust á endum suður allar götur, húsin skulfu og stundu undir byljunum, og særokið geisaði eins og stormský hátt yfir bæinn og uppí land. — En úti fyrir gnauðaði hafrótið og hvein í rám og siglum. — Þararöstin bylti sér í brimgarðinum í ótal hlykkjum og vafði sig kringum endilanga fjöruna, hringlandi af kufungum og smámöl, eins og feiknalangt skeljaskrímsli.

Þetta var óheimleg nótt. Stormur, frost og koldimmt haustmyrkur leiddust yfir byggðir mannanna og létu allt, sem kann að skynja og skelfast, finna það í vöku, í draumi, eða í gegnum svefninn, hve voldugar eru geðshræringar hafs og himins og hve veik eru til varnar öll híbýli dauðlegra manna, hvort sem þau fljóta fyrir festum eða þau standa uppi á þurru landi, þegar öfl náttúrunnar ganga í bandalag til þess að granda og ógna allri skapaðri skepnu.

Þegar bjart var orðið af degi sáust nokkrir bátar veltast í flæðarborðinu með festarstúfa í stefnunum, en aðrir möruðu keipafullir úti fyrir bryggjunum og stungu hnýflunum við og við upp á milli ölduhryggjanna, eins og djúpsyndir hestar, sem teygja blásnoppurnar upp í úfnu vatnsfalli. Þilskipin réttu trjónurnar beint upp í rokið og hjuggu sundur sjóina, sem ultu krappir og háir inn öll eyjasund og þeyttu brimlöðrinu hátt upp undir þakskegg á fremstu húsunum, þegar þeir urðu að stöðvast við fjöruklettana. — Festar sáust strengjast hátt úr sjó fram af skipsbringunum, og á tveimur skipum höfðu losnað segl, sem flöksuðust gaulrifin utan um stagina. Skipin rugguðu ákaflega á alla enda, einkum ein útlend skúta, sem hafði hafnað sig rétt áður en óveðrið kom, fyrir utan venjulega skipalegu. Við hverja bryggju og undir hverju þili, sem vissi að sjó, sáust standa smærri og stærri hópar af sjómönnum með niðurbrotnar stormhúfur eða sauðvesti, sumir í skinnfötum. Þeir horfðu út yfir höfnina, klipu saman augun fyrir veðrinu og kölluðust hátt á, þó þeir stæðu þétt saman. Það var að vísu ekki mikil hætta ennþá, en það mátti búast við því, að fleiri eða færri af skipunum ræki upp, ef hann harðnaði úr þessu. Einkum sýndist yztu skútunni hætt. Hefði hann verið örlítið vestanstæðari mundi hún hafa slitnað upp, héldu menn.

Á götunum var naumast stætt. Loftið var mórautt af moldroki, en í gegnum hafstorminn og brimrokið grillti í gráan snjókamb, sem hafði lagzt yfir Esjuna þessa síðustu nótt og náði niður í miðjar hlíðar. — Það var auðfundið, að þessi stormur var kominn langt að, norðan úr hafi, og það var eins og ísþefur blandaðist við seltubragðið að loftinu.

Ofviðrið hélt áfram að kasta skútunum á enda, skaka húsin og feykja földum á hverjum þeim, sem hætti sér út fyrir dyr. — Svo leið dægur eftir dægur, að höfuðskepnurnar hömuðust yfir og í kringum þetta marghrellda land. Loksins linnti þá storminum, en þá lá ein skútan á hlið uppi í fjöru og önnur með höggnar siglur frammi á legu.

Enginn veit hvernig þeim hefur reitt af öllum, sem hafa orðið fyrir þessum fyrsta haustgarði úti fyrir ströndum, en það má ætla, að hann hafi sízt verið vægari norðar og nær upptökunum.

NIÐRI Í „HER“

Salurinn er troðfullur af hálútherskum trúendum. Mislitar raðir af sjölum og svuntum skipa bekkina á báðar hendur alla leið inn undir pall, þar sem þeir „frelsuðu“ sitja með hálflokuðum augum og þylja bænarorð niður í bringu sína upp aftur og aftur, sömu klausurnar, sumir lágt, sumir upp úr öllum vindum. Frammi í sætunum heyrist suðandi niður af pískri og lágum hlátrum, eins og undirspil undir andvörpum og stunum hinna útvöldu. Öll þessi hljóð blandast saman í eina Babels truflan og vefast hvert inn í annað eins og svuntulitirnir, en fáein syfjuð olíuljós breiða óskýra birtu yfir söfnuðinn, sem horfir með hundrað hlæjandi andlitum inn á sviðið þar sem trúarleikurinn er leikinn.

Úti við dyrnar er óvenjulega þröngt. Þar verður ekki snúið við hendi né fæti, en allir tylla sér á tær til þess að sjá og verða séðir. Í hvert skipti sem nýr áhorfandi treður sér inn snúast höfuðin við sem snöggvast og líta á hann eða hana. Það skaðar ekki að vita hvað bætist við.

Herfólkið er hávært sem vænta má af svo hugmiklu stríðsliði, er gengur á hólm móti öllum illum völdum; það er og sjaldan hljótt meðal heimsbarna þeirra, er koma hingað til þess að horfa á orrahríðina. En í þetta sinn er hér þó enn meiri ys og þys en venja er til. Það er líkast því sem eitthvað óvænt sé fyrir höndum, einhver sjaldheyrð barátta gegn þeim vonda og árum hans á pallinum, eða einhver enn öflugri hluttekning í messugjörðinni af hálfu safnaðarins heldur en gjörist á hverri óbrotinni samkundu. — Þessi salur, sem hefur áður tekið undir af gleðisöngvum veraldlegra samkvæma, er nú orðinn að musteri lofgjörða og stríðsbæna, sem háðar eru með lúðraþyt og pípnablæstri. En þetta kvöld er eins og maður finni einhvern keim af hinum gamla gleðskaparanda innan þessara fjögurra veggja, sem gætu flutt undarlega vitnisburði, væri þeim gefin rödd og tunga.

Fyrir framan pallinn leikur ungur karlmaður í liðsforingjabúningi á strengjaspil og syngur fyrir liðinu. Efni söngsins er líkt og vant er, upphvatning til hinnar erfiðu dyggðar og viðvörun gegn hinum auðgengnu breiðu vegum. Í hverju erindi tekur liðið undir með einrödduðum kór og viðlagið er oft sungið upp. Lagið liggur hátt og kvenraddirnar ráða, en einstaka karlmannsrödd heyrist undir, rám og sterk, áttund fyrir neðan tóninn.

Liðsforinginn leggur nú frá sér strengjaspilið og gengur til sætis. Annar hermaður stendur upp í hans stað og talar fyrir fólkinu snjallt og langt erindi með erlendu málfæri. Hann rekur sögu eins syndara, sem lengi hafði látið eftir meðfæddum hvötum til alls hins verra, en loks fyrir undarlegt atvik hafði snúizt á rétta leið — og gengið í herinn. Á þennan hátt getur hann lýst lífinu fyrir framan og innan ræðustólinn, skýrt og greinilega, án þess menn finni, að vikið sé að þeim. Þessi maður er talinn mælskastur allra fyrirliðanna, og hann fær oftast hljóð meðal áheyrenda sinna. En í þetta sinn fær hann ekki að ljúka við söguna um syndarann. Merkið er gefið og fyrsta skeytið flýgur, utan frá hurð, alla leið inn yfir bekkina, og fellur niður mitt á meðal lærifeðranna fyrir framan bekkinn.

Viðureign þeirra útvöldu og hins herleidda fólks úr höfuðstaðnum var hörð og löng. Þykkjuþungir trúendur í báðum flokkum lögðu sitt fram til sóknar og varnar, og veitti ýmsum betur. Um tíma virtist svo sem hinir herleiddu mundu vinna sigur fyrir kraft holdsins. En að lokum fór þó svo, að þeir unnu sem áttu að vinna, og samkomustaður hinna friðsömu her-manna, sem berjast góðri baráttu, stendur enn opinn öllum sem vilja heyra söguna um syndarann — sem fór í herinn.

GRÁNI

Einn naprasta frostdaginn, sem komið hefur á þessum vetri, var ég staddur skammt frá „póstinum“ með báðar hendur á kafi niðri í frakkavösunum og kragann uppbrettan og var að tala við mann. Gusturinn þaut fúll og kaldur eftir götunni og beit mig þar sem hann komst að mér. Við töluðum um ekkert það, sem vanalega er rætt á þessum söguríku stöðvum, því hvorugur kunni sögur að segja í þetta sinn, svo nýjar eða merkar að þeim væri hreyfandi svo nálægt sjálfum „póstinum“.

Það sem við vorum að tala um var grár hestur, sem búinn var að standa lengi — jafnlengi og við — og mæna með þessum raunavotu augum, sem fáar skepnur skaparans eiga, svo að komist til jafns við fjöruhestana hérna í Reykjavík, á vatnspóstinn.

Margir vatnsberar komu með skjólur sínar; þeir ungu blístrandi eða raulandi, eldri kynslóðin róleg og stillt, eins og sæmir vatnsberum hins „gamla skóla“. — Í hvert sinn sem hringlaði vatnsberakrókunum eða vatnsgrindin datt á gaddinn, hrökk Gráni við, og þegar svo fatan hringlaði á dælunefinu, hrökk hann enn við og saup hregg þegar fyrsta vatnsbunan datt tær og skvettin niður í tóma blikkfötuna. Eftir því sem vatnshljóðið færðist hærra upp eftir fötunni varð augnaráð Grána bónlegra, snoppan smálengdist og flipinn titraði.

En svo fór þessi fata, og sú næsta, og margar fleiri, að enginn gaf þeim neinn gaum, sem þyrstastur var við póstinn.

Og svo komu fleiri og fleiri. Allir sáu hann Grána, og þó sá hann enginn.

Hann stóð hreyfingarlaus eins og hann hefði verið dæmdur til að deyja úr þorsta við sjálfa vatnslindina.

Nú voru seinustu föturnar fylltar og bornar á burt.

Kunningi minn hljóp til, þreif í dæluna og litarlaus vökvi spann sig út úr dæluopinu og datt í tærri bunu niður á dælupallinn. Þaðan veitti vatninu vel ofan í steinþróna. — Þá var sjón að sjá Grána. Hann kipptist í einu vetfangi að þrónni, og áður en augað eygði var munnurinn kominn á kaf ofan í vatnið. Svo sötraði hann í löngum teygum og tifaði augnalokunum upp og ofan. Það var yndi að sjá Grána drekka.

Þegar hann var búinn að sötra nægju sína, kippti hann munninum allt í einu upp úr þrónni og blés mæðilega, japlaði saman skoltunum og lét það af drykknum, sem ekki var komið á sinn stað, detta út úr sér og ofan á götuna. Svo lagði hann hausinn ofurlítið á skakk og leit á póstinn og okkur, eins og hann vildi merkja sér, að hér hefði hann þó loksins fengið að drekka.

Grána var ómótt eftir drukkinn; þegar búið var að fullnægja bráðustu þörf hans, kom á hann værð, og augnaráðið varð seint og letilegt.

Meðan hann var að feta sig ofan af svellbunkanum á rennubarminum, sem vatnsgusurnar, frárennslið frá dælunni og frostið hafði unnið saman að, tókum við eftir því, að Gráni var járnalaus og hófbarinn.

Göngurnar úr fjörunni og upp að húsunum, þar sem hann var vanur að híma fram af sér skammdegisnæturnar, ýmist við gaflinn eða hliðina, allt eftir því hvaðan „hann stóð“ — og svo sandurinn og fjörugrjótið, sem fór svo ónotalega undir fæti, hafði urið hófana og brotið í þá stór skörð hér og hvar.

Enda vissi Gráni vel, að hann var illa gengur; hann lötraði á stað ofur gætilega, tyllti hófunum að hverri snös sem hann sá og nældi sig áfram með þeirri hægð og varkárni, sem hæfir 16 vetra gömlum útigöngujálki á þessu kalda landi.

Við stóðum og blíndum á eftir Grána eins og við ættum í honum hvert bein, en hann stóð — af vana, og þegar hann hvarf okkur út fyrir húshornin og ofan í „Grófina“, ýttum við vefrarhúfunum betur ofan á höfuðið og gengum heim.

Daginn eftir — eins og aðra daga — lá leið mín í sama mund yfir þessar stöðvar. Ég tók í löngum skrefum seinustu faðmana og inni götuna — en þar var enginn Gráni.

Að öllum líkindum hefur hann ekki þurft að bíða eins þennan dag eins og daginn áður, því margir vilja brynna þyrstum gaddhesti, ef þeir sjá, að hann er þyrstur.

NÝIR MENN

Við göngum tveir saman snemma dags yfir götur bæjarins, svo langt sem þær ná, upp í átt til sveitanna.

Morgunninn er á lofti. Í útnorðri eru breiðir flókar af silfurgráum vetrarskýjum að dragast upp í miðjar hlíðar, og hafbakkinn lyftir sér hægt og hægt á móti hinni miklu ljósstjörnu í austri.

Landið liggur drifhvítt fyrir framan okkur. — Frá fjalli til fjöru dúða byggðirnar sig morgunsvæfar og kirfilegar undir snjófeldinum, en flæðarborðið hringar sig dökkt af sæbörðu grjóti og þarabingjum, eins og örmjór mittislindi milli láðs og lagar. Þar vakir landbáran. — Fjærst, við loftsbrún í átt til lands, sjást jökulleitir fjallgarðar með gullhlaðsglampa yfir tindum og skörðum.

Við höfum þagað nokkra stund og gengið hratt fram hjá efstu húsunum. Nú víkur hann aftur að umtalsefninu, sniðuglega og með lipru málfæri.

Það má heita svo, að við séum málkunnugir. — Ég hitti hann fyrsta sinn fyrir nokkrum árum í félagsskap með ungum „nemanda“, er ég þekkti vel. Ég sá þá oft saman síðar, ýmist á göngu, við hljóðfæraslátt eða lestur, en aldrei við drykkju né spil.

Ég átti stundum tal við þá og tók eftir því, að þessi unglingur hafði næmar taugar og skilning og lét sjaldan af skoðun sinni um hvað sem var. Hann var fremur þaulræðinn, rakti mál sitt út í æsar, og var karpgjarn, þó um smámuni eina væri að tala.

Svo missti ég sjónar á honum svo árum skipti og hef nú fyrst fyrir skömmu uppgötvað hann aftur, með gljáandi nýja fálkamynd yfir húfuderinu.

Hann er orðinn nokkuð skarpleitari, horfir fastar á mann þegar hann talar og sýnist vita betur en fyrr hvað hann á undir sér.

Hann virðist halda sjálfur, að hann sé fullorðinn, en er þó unglingur enn. Augun eru skýr og dökk, en það sést vel á honum, að hann hefur lagt að sér við lestur eða annað, sem eldir manninn fljótt. — Það finnst á öllu, að hann er maður, sem ætlar sér að komast áfram.

Við höfum hitzt af tilviljun á sömu leið þennan morgun og höfum deilt um það stundarkorn hvort hollara sé, eins og nú stendur, að yrkja „fast“ eða „laust“ hér á landi.

Ég hef ekki getað verið honum samdóma nema að nokkru leyti, og eins og hans er venja til, hefur hann sótt fast að sannfæra mig. Ég hef reynt tvívegis að víkja samtalinu í aðra átt, en hann hefur haldið sér fast við efnið. Svo hef ég látið hann einan um að tala og við höfum þagað nokkra stund, en nú er hann byrjaður aftur.

— Fólkið þarf ekki að skilja til fulls það sem það les eða heyrir, segir hann. Skáldlist og stíll eiga að metast af þeim fáu, sem bera gott skyn á slíkt; og sé það kunnugt um kvæði eða rit, að það þyki gott meðal þessara fáu manna, og séu kvæðin eða ritin í sjálfu sér þess álits verð, er allt fengið.

En hver á að dæma um verðmæti kvæðis eða rits í sjálfu sér? svara ég. — Ég þekki áherslurnar hans og mig langar til að flækja hann í mótsögn.

Hann lítur upp og horfir fast á mig. — Sá, sem yrkir eða ritar, svarar hann eftir stutta þögn.

Fár, færri, fæstur! Hm. Sá þykist ekki ætla að leggja mikla rækt við „sálarlíf fjöldans“, hugsa ég; en hann heggur stafnum fast niður í svellið og er langstígur upp eftir veginum.

Hvað álítið þér „lausast“ ort af góðum kvæðum hjá okkur? spyr ég.

Annað eins þvaður, til dæmis, eins og þetta: „Hvað er svo glatt“ — er svarað.

Og hvað er bezt ort af þeim „föstu“? held ég áfram.

Þér spyrjið um svo mikið. Látið þér mig heldur spyrja. — En annars man ég ekki eftir öðru betra eftir sama höfund en „Skraddaraþönkum“.

Ég veit, að hann hefur sjálfur ort, og mér hefur fundizt það á honum stöku sinnum, að hann mundi láta mig heyra eitthvað, ef ég bæði þess.

Hvernig stendur á því, að það er „laust“ þetta eina kvæði, sem ég hef séð prentað eftir yður?

Það er langt síðan það er ort, svarar hann, mér hefur farið fram.

Ég hlæ, af því að hann segir að það sé langt síðan, og lít út á sjóinn. Bakkinn er að dreifa sér upp á lofthvolfið. Yfir hafinu er nú breiður, dimmblár bekkur af hreinum himni. Svipur næturinnar er að hverfa undir hafsbrúnina, en langt fyrir ofan okkur, uppi í efstu brekkunni sem við sjáum, færast tveir dökkir dílar nær og nær yfir snjóbreiðuna. — Þar kafar maður til höfuðstaðarins með klyfjadróg í taumi.

Náttúran liggur í dái. — Úti fyrir landsteinunum vefja æðurnar vængina fast að sér, til varnar móti hafgustinum. Torfbæirnir skjaga einn og einn á stangli upp úr fönninni, svarthöttóttir og torkennilegir eins og álfaklettar; allt er dauft og dautt. En þegar hið ytra hvílir kalt og líflaust fyrir fótum mannsins er eins og hjartað slái fastar og blóðið hitni í æðum hans.

Nýir menn!

Ég hef hugsað um þá oft og lengi. Tími hinnar yngstu kynslóðar er kominn. Vér sjáum einu og einu andliti bregða fyrir í samkvæmum eða úti á götum og strætum. Vér rekum oss á eitt og eitt kvæði eða sögukorn í blöðum og bæklingum. Andlitin bera flest keim af hinum sama doða og drunga, sem liggur og mun liggja eins og snjóköld, dauð hönd, yfir þeim sem næstir voru á undan, og kvæðin eru hálffull af hinum arfgengu uppgerðarádeilum um allt, jafnt sjálfan sig sem annað. En það er eitthvað nýtt í svipunum og vér finnum stráð gullkornum innan um rímið og ritin af ósviknum tilfinningum íslenzkrar æsku.

Og svo ber það ef til vill við, að vér sjáum allt í einu alókunnugt, ungt karlmannsandlit frá tvítugustu öldinni, komið af hinum komandi tíma í báðar ættir. — Og innan um kynblendingaljóðin heyrist við og við hreinn hljómur af nýju máli með þrótt og list hins næsta skóla.

Þessi, sem með mér gengur, er nýr — og verður maður.

Ég sé, að treyjan bungar út hægra megin. Þar ber hann bréfaveskið, og í því veit ég að hann á ljóð, sem hann mundi ekki ófús að sýna einhverjum af þeim „fáu“.

Nú reyni ég að haga orðum mínum sniðuglega og forðast allt, sem gæti vakið þrætu. Ég læt hann finna, að ég hafi áður átt þungu striði við sjálfan mig um það, „hvort ætti nú heldur að halda“ — í áttina til fjöldans eða brott frá honum. Og ég læt hann skilja á mér, að ég aðhyllist þá stefnu fremur, sem hann segist ætla að fylgja, þó að ég hafi án efa ekki verið maður til þess að vinna höfðingjahylli í andans ríki. Ég greini honum frá von minni um „nýju mennina“, og er svo hreinskilinn sem þarf til þess að menn haldi, að satt sé sagt.

Svo setjumst við á stóran stein við veginn, og hann dregur upp tvö, þrjú nýort kvæði. Við lítum hvorugur á annan, en horfum báðir á blöðin hans, þar sem hin beztu og síðustu ljóð eins nýjasta skáldsins á Íslandi eru skráð með ófastri, svipfallegri skólahönd.

Ég les þau og les þau aftur, með athygli þess sem vill sjá lýti og galla, og ég finn endurtekningar, illa fallin orð og hálfleik í hugsunum, sem óefnilegri menn mundu eflaust hafa forðazt. En svo eru þar setningar, hendingar og heil stef, sem ég undrast og dáist að meir en ég þori að láta hann vita.

Þessi er „lærður“, en þegar ég hef upp fyrir mér beztu gullstefin úr ljóðum hans, detta mér stundum í hug hendingar úr „Smalavísum“, sem ortar eru við Mývatn, eftir eitt af þeim skáldum vorum, sem enginn veit af. — Ég tek hér upp fáeinar línur úr þeim:

— — Sjá, eygló skín við náttmál, skýin kyssast,
og varirnar, þær loga eins og eldur!
Ég hef nú kannske allt of lengi legið —
þar lötra ærnar fram, — þær mega ei missast.
— Ég veit ei hvað í skyndiskýin heldur,
þau skuli ei rjúka af stað í aftanblænum,
að líta eigin fegurð sína í sænum.

Ó, sól við náttmál, ljá mér ljósið þitt,
gef lúnum smala fangið fullt af sól,
ég flyt það út um kalda landið mitt.
Ég sá þar margan hélugráan hól,
sem hita þarf — —

— Við göngum lengra upp eftir, og snúum fyrst aftur þegar bærinn er horfinn, og tölum um hitt og þetta.

Félagi minn á eftir að fá að vita það, að fólkið er ekki einasta dómari, heldur löggjafi, og að þankalaus gleði „á góðra vina fundi“ er jafnrétthá og hin djúpsetta íhugun um rangindastjórn gullvaldsins í þessum heimi. Og ég á ef til vill eftir að sjá, að það> er rangt að láta af að gjöra það, sem sjálfur maður álítur réttast — hvað sem fjöldanum eða þeim fáu líður.

Við eigum allan daginn fyrir okkur. Það er ekki langt síðan vinnuljóst varð. En nú heyrast grjóthögg í holtunum og vagnaskrölt á veginum.

Við förum heim hvor til sín, en vel má vera, að við finnumst aftur seinna á samleið — þó nokkur ár séu á milli okkar.

GULLALDARMAÐURINN

Það, sem hér er sagt frá, er skeð fyrir nokkrum árum síðan. Við sitjum tveir landar saman í fjölsóttum skemmtigarði, undir gömlum, limþéttum linditrjám. Sólhlífarnar blika allt í kringum okkur, yfir ljósum, léttum kjólum, og hér og þar sést glitra á borðalagðar liðsforingjaermar eða tinnusvarta háhatta.

Við erum í Höfn. Það er bjartur, heitur sumardagur, en ekki helgi og ekki þröngt á garðbrautunum. Við höfum setið þarna nokkra stund og horfum þegjandi á þá, sem ganga fram hjá.

Rétt hjá okkur er laufskáli með bekkjum og borði; þar sjáum við gamlan, velþekktan nemanda sitja við hliðina á ungri borgaradóttur. Þau hafa tóm vínglös fyrir framan sig og horfa hvort á annað með glampandi augum, hún hlæjandi og hann smábrosandi.

Úr víðri og hárri glerhvelfingu utar í garðinum heyrist sterkt og vel æft samspil af margs konar hljóðfærum, en til annarrar handar heyrast óp og köll í kringum þrjá „klunna“, sem eru að renna sér á gólfskautum, og velta hver yfir annan með afkáralegu látæði. Allt er hér rammdanskt og ber vott um létta lund og nóg fé hjá höfuöstaðarbúunum við Eyrarsund.

Sá sem hjá mér situr er grannvaxinn, fölleitur Norðlendingur, snyrtilega klæddur og fríður sýnum. Hann hefur lítið, vel strokið varaskegg og kembingin haggast ekki á honum hvað oft sem hann tekur ofan. Mér sýnist hann alltaf vera eíns og nýþveginn.

Hann er ekki heimskur og á talsvert af vilja til. Hann skemmtir sér þegar skemmtun býðst með góðum kjörum, en fer örsjaldan yfir mörkin. Og eins gætir hann ætíð, hvað sem öðru líður, það er að lesa svo mikið sem hann þarf til þess að geta staðizt prófið sitt eftir hæfilegan tíma með hæfilega góðri einkunn.

Ég hef séð hann standa upp frá ýmsum gleðskap, þegar staðið hefur sem hæst, til þess að fara heim og lesa, þó ekki væri nema einn, tvo tíma undir næsta dag. Þá er hann vanur að rétta sig, svo hann sýnist hærri en hann er, og hneppa treyjuna niður úr. Hann réttir þá að manni litla fingurinn og býður góða nótt, hvað sem hver segir af félögum hans. Heim að lesa, laggi, segir hann stundum um leið og hann fer og dregur augun í pung, svo þau sjást varla inni í höfðinu.

Hann les sjaldnast annað en þá grein, sem hann hefur valið sér til náms við háskólann, og er fremur ómenntaður maður. Þegar rætt er um þau efni, er helzt skipta skoðunum manna, svo sem skáldskap eða pólitík, talar hann almúgalega og virðist ekki vera víðsýnn í neinu. Um trúarefni öll lætur hann sig litlu skipta, en er þó oft orðillur um þá hluti í sinn hóp. Eina lífsskoðun hans er, eftir því sem hann segir sjálfur, sú, að það sé eitt fyrir öllu, sem gagnlegt sé, — en mér hefur aldrei fundizt hann vita góða grein á því, hvað er gagnlegt.

Við höfum verið lengi saman og erum allkunnugir, en ekki vinir. Við erum sjaldan á sama máli, en hann lætur sér jafnan hægt í kappræðum og hann er vanur að þagna og brosa við, ef einhver af félögum hans heldur fast á móti því, sem hann segir. Það skín út úr honum, að honum finnst hann vera hafinn upp yfir slíkan ágreining, og að honum virðist allt, sem sagt er á móti „gagnsemdarkenningum“ hans, vera staðlaust og sprottið af þroskaleysi eða einfeldni.

Nú verður hlé á hljóðfæraslættinum og við stöndum upp til að hreyfa okkur um gangstígana.

Hér er gott fólk í garðinum í dag, segi ég.

Já, hér er vel klætt fólk, og hér sést nú reyndar ekki annað, segir hann. Allir Danir eru vel klæddir þegar þeir eru að skemmta sér — ekki sízt fjórða stéttin.

Það sést þó, hvort mennirnir eru af lágum stigum, á ýmsu öðru en klæðaburðinum.

Nei — annars væri til einkis gagns að kaupa sér háhatt og glófa, og Danir mundu ekki gjöra það; þeir eru séðir og sparsamir.

Ég hirði ekki um að halda lengra útí þetta efni, því ég veit að álit hans um „hattana og glófana“ er samgróið grundvallarskoðun hans allri á mönnum og manna mun.

Ég fitja upp á ýmsum öðrum efnum, en alltaf stöðvast samtalið á því, að hann er á gagnólíkri skoðun um hvað sem er.

Mér hálfleiðist að vera með honum í dag, því hann er óvenjulega þveröfugur á móti öllu, þó hann reyndar fari ekki langt út í að færa nein rök fyrir því, sem hann segir, það gjörir hann aldrei, við hvern sem hann á, enda er hann ekki álitinn vel fær til þess meðal samnemenda sinna.

Þetta er þreytandi og óhollur molluhiti, segi ég. Eigum við ekki að fara héðan? Við gætum ekið á sporinu út á Austurbrú — og farið í sjó. Þar er betra loft. Mér finnst það líkara sumarloftinu heima.

Nei, ég held ég nenni því ekki — mér líður fullvel hér. Ég kæri mig ekki um íslenzkt loft í Danmörku.

Hann leit á mig um leið, og ég sá á honum, að hann þóttist vera fyndinn.

— Nei, nei, en ég er viss um, að þú flytur töluvert af dönsku lofti heim með þér á sínum tíma.

Getur vel verið. En þess ber líka að gæta, að vísindin okkar eru öll dönsk, og ég hef siglt hingað til þess að geta flutt keim af þeim heim — á sínum tíma, svarar hann.

Rétt í þessu gengur einn af lægri embættismönnum háskólans fram hjá okkur og félagi minn tekur ofan harða hattinn, öldungis mátulega djúpt — og beygir sig hofmannlega.

Svo víkur hann sér inn að einu af hinum mörgu veitingaborðum og biður um öl — og við setjumst þar báðir saman.

Hann verður hreifur eftir nokkrar ölkrúsir og samtal okkar verður fjörugra. Við víkjum aftur að ýmsu, sem áður hafði borið á góma, og hann tekur nú munninn fullan um hvað eina.

Seinast förum við aftur að tala um íslenzka loftið. Hann stendur fast á því, að við hljótum að „dependera af þeim dönsku“ í öllum vísindum, en ég held hinu fram og finnst ekki meira til um þá fræðslu, er hann fái hér í einhverjum Garðklefanum, heldur en þá, sem hann gæti fengið heima.

Þú verður aldrei góður Íslendingur, segi ég.

En hann tekur gleraugun upp úr vestisvasa sínum, lítur í gegnum þau með annað augað aftur, og þurrkar af þeim með drifhvítum vasaklút, sem ilmar af ódýru höfuðvatni. Svo leggur hann annan stígvélahælinn upp á reyrstól, sem stendur fyrir borðendanum, og segir þessi minnisstæðu orð:

Þegar ég og mínir menn erum komnir í embætti heima, þá rennur upp gullöld á Íslandi.

Ég kalla hann „gullaldarmanninn“ frá þessum degi, en mér býður við að sjá á honum, hvernig gullaldarmennirnir okkar eiga að verða.

Þessi Messías hinnar allra næstu framtíðar á Íslandi — sem raunar er orðin að fortíð áður en við vitum af — er sérgóður, þröngsýnn og ómenntaður uppskafningur, sem engu ann og ekkert virðir annað en það, sem hann álítur að sé gagnlegt, — en því nafni nefnir hann ekkert nema það, sem hann getur þreifað og þuklað á og verður metið til peninga eftir virðing almennra markaðsprangara. — Allt sem liggur þar fyrir ofan og utan álítur hann einskisvert og gagnslaust, og barnaskap að sækjast eftir því af þjóð eða einstaklingi.

Þess vegna metur hann það einnig einskisvert, sem þjóð eða einstaklingur á til af því, sem hann getur ekki mælt á smásálarkvarðann sinn. Og þess vegna álítur hann alla hærri menning ómögulega hjá Íslendingum — og er sannfærður um, að þeir þurfi um aldur og ævi að sækja alla vísindafræðslu til höfuðstaðarins danska, þess einasta útlenda stórbæjar, sem hann þekkir.

Gullaldarmaðurinn er ekki frá því, að Íslendingum geti farið nokkuð fram frá því sem er, sem sé þegar gullöldin hans rennur upp yfir landið. Þessar framfarir minnist hann stundum á og falla orð hans þá oftast eitthvað á þessa leið:

Já, hér gæti verið fleira fólk í landinu; já, auðvitað getur Ísland flutt meira út af fiski, og það mætti nokkuð auka fjáreign landsmanna. — Það er ýmislegt, sem mætti koma hér í talsvert betra horf, o. s. frv., o. s. frv.

Gullaldarmaðurinn trúir ekki á neinar stórbreytingar til hins betra á Íslandi, fyrstu mannsaldrana, — en það þarf heldur ekki miklar framfarir til þess að honum finnist gullna öldin runnin upp — og veiðist einu skippundi meira í verstöðinni þetta ár en það næsta á undan, er það honum og hans mönnum að þakka.

Danir blása pípurnar og strjúka strengina allt í kringum okkur, og hávaðinn hrífur eyru hins íslenzka Messíasar; — ég hef gleymt að taka fram, að hann hefur enga þekkingu eða smekkvísi á tónlist. — Sömuleiðis rekur hann augun í allra skörpustu litbreytingarnar í garðinum, sólblikið á gullborðaermunum og skuggana á sandstígnum, sem við sitjum hjá — en hann þekkir ekki olíumálverk frá olíuprenti.

Hann snýr örmjóum göngustaf milli fingranna og blístrar undir, þegar einhverju alþekktu göngulagi heyrist bregða fyrir í hijóðfærahljómnum — en hann blístrar hálffalskt.

Allt danska prjálið blikar svo ánægjulega fyrir augum hans og breiðir sig yfir og utan um skilning hans og skynjan. Það er eins og einhver glampi af glingri og gamni hinna glaðlyndu Kaupinhafnarbúa glitri yfir öllum manninum, álíka eins og þegar bjarmar á fægðan málmblending.

Jú, það glampar óneitanlega á manninn, en það er hvorki gull í honum né öldinni hans.

MÓRI

Hann var ársgamall þegar hengdar voru á hann bjöllurnar, en hann hafði alltaf verið fremstur, svo lengi sem hann mundi eftir sér.

Menn vissu ekki til þess, að forustukyn væri að honum. En það gengur nú svona. Stundum skapar náttúran alls kyns viðbrigði, allt í einu, ólík sínum eigin uppruna — og þau eru ekki ætíð úrætt. Það kemur fyrir, að þau eru hreint afbragð alls síns kyns svo langt sem það verður rakið, og menn undrast og spyrja sjálfa sig: Hvaðan hefur hann það? — Ekki hefur hann það úr föðurættinni, því að þar eru tómir erkidaufingjar og þráablóð, lið fram af lið. — Og þá ekki úr móðurættinni, segir annar; þar er ekkert til nema sauðheimska og svefndoði, sem ekkert annað getur vakið til meðvitundar en hungrið eða sláturkutinn.

En Móri var samt forustusauður, sá bezti, vitrasti og hjarðspakasti sem menn þekktu í sveitinni.

Eigandinn tók eftir honum strax um vorið áður en rekið var á fjall. Það var fráfærnakvöldið sjálft. Allt sem var til af sauðaklaufum í heimalandinu var hnappað saman úti á sléttum grundum, spölkorn fyrir utan bæinn. Stekkurinn var troðfylltur með jarmandi lambamæðrum, en ungviðið tók undir fyrir utan, á hreinu, hvellu kindamáli, og hljóp hvað innan um annað, með snöggum stökkum og upplyftum snoppum, fram og aftur um balana.

Tveir seppar lágu gapandi og másandi á stekkjarveggnum, með blóðrauða, langa tungu út úr sér — og lygndu augunum. En við og við litu þeir til lambanna, og hvesstu eyrun. Smalinn hélt hópnum saman og veifaði langri viðartág í annarri hendi. Það var heiðaþrá í fullorðna fénu og flokkurinn var óþægur. Svo varð smalanum á að siga við tönn, sem snöggvast, um leið og hann lyfti táginni — og óðar var annar rakkinn kominn á lappir og gelti framan í fremstu kindurnar. Þær hrukku saman og fáeinir gemlingar og lömb hlupu út úr hnappnum — þar á meðal Móri litli.

Bóndinn veitti því eftirtekt, að Móri hljóp fram úr öllum hinum, kippkorn á undan,og staðnæmdist við þurran lækjarveg úti á grundinni. Svo sneri hann sér við og stóð grafkyrr, — og þegar smalinn var kominn fyrir kindurnar, stökk Móri aftur fram fyrir og stefndi beint á stekkinn.

Skyldi vera efni í krílinu? hugsaði bóndinn. Nei, það getur ekki verið, hann á ekki kyn til þess — en rétt í sömu svipan gelti seppi aftur, rétt fyrir framan Móra, spölkorn frá stekknum. En Móri hélt áfram, beint á hundinn, fót fyrir fót, með leggina þráðbeina fram undan sér — og svo beitti hann kollinum á móti; þar var þá aðeins farið að sjá á hrútshnýflana.

Jú, þetta er efni í forustusauð, það er enginn efi á því. — Bóndinn fór niður í brókarvasann, stútaði sig af pontunni í báðar nasir og leit ánægjulega til mórauða lambsins um leið. Og upp frá þessu sást Móri ætíð fremstur meðal þeirra fyrstu, hvort heldur fara átti frá fjárhúsunum eða að þeim.

Móri lifði sínu lífi fyrir sig, og öllum sauðkindum þótti gott að láta hann riða á vaðið. Hann fann það á sér, af meðfæddri þefvísi og náttúruviti, hvert átti að halda til þess að finna bezta haga, og gæti hann ekki „dregið grænt“ úr jörðinni var engri skepnu til neins að leita. Hann vissi á sig veður og allar loftbreytingar, sem mönnunum eru huldar, og loftvoginni sjálfri skjátlast að spá réttu um. Hann rataði beinustu og beztu leið, þó að ekki sæi út úr augunum fyrir náttmyrkri eða byl, og þó að mennirnir mundu hafa villzt í sporum hans, með beztu landabréf og leiðarsteina í höndunum. Og svo var Móri svo tryggur og húsbóndahollur af náttúru, að hann hélt hjörðinni sinni til beitar, eins og harðvítugasti yfirstöðumaður.

Móri varð gamall sauður og það var sagt frá mörgum afreksverkum hans á heimilinu, löngu eftir að hann var liðinn undir lok.

Hann hafði tvívegis bjargað sauðamanninum og fénu frá villu og voða í heiðinni, sem beitarhúsin stóðu undir, og það var sagt, að hann hefði stundum tekið ráðin af þeim sem yfir stóð, þegar einhver ofsabylurinn vofði yfir, og tekið á rás heim til þess að ná húsum áður en það væri um seinan. Þá hringdi Móri bjöllunum ákaflega, tók sig út úr hópnum og skimaði í allar áttir. Svo hljóp hann spölkorn frá, í áttina heim, og beið svo þess að honum yrði hlýtt.

En merkilegasta afreksverk Móra, er menn hafa haft í minnum, var síðasta afreksverkið hans.

Það var harða veturinn, var bóndinn vanur að segja. — Þeir voru margir hörðu veturnir í búskapartíð hans, en hann kallaði einn öðrum fremur þessu nafni, vegna þess að þá missti hann megnið af sauðum sínum. — Þennan vetur höfðu verið þung snjóalög framan af og miklar innistöður, svo það gafst drjúgum á heyin, og sumarið áður hafði verið grasbrestur og illar nýtingar. En þegar kom fram á veturinn, fór tíðin að gjörast umhleypingasöm, og ýmist hörkugaddar eða stuttir blotar, með krapahríðum, svo að fé fór illa með sig á beitinni.

Heyin voru spöruð allt sem mátti, og menn sáu felli fyrir, ef vorið skyldi verða eins hart og veturinn.

Svo leið og beið; féð varð megurra og máttminna eftir því sem fram á leið, og bóndinn var farinn að hugsa um að skera af heyjunum, til þess að bjarga þó einhverju frá hordauðanum — en þá kom bloti, með heitari og stöðugri sunnanátt heldur en áður, og féð var rekið út til þess að leita sér bjargar.

Á fjórða degi var komin marauð jörð í holtum og ásum, og áin, sem rann fyrir neðan bæinn, flaug áfram milli skara með jakaburði og kolmórauð af vexti. Allar skepnur voru úti á beit — og þar með einnig Móri og sauðaliðið hans.

Um morguninn var þungbúið loft, og lognfjúk fram undir dagmál. Svo kólnaði veðrið og hann sneri sér upp í hægan útnyrðing — en um hádegi var brostinn á gaddbylur með froststormi af hafi, sem herti sig meir og meir og varð að ofsaveðri á örstuttri stund.

Þá var það að Móri gjörði sína síðustu og frægustu göngu.

— Sauðamaðurinn sneri helzti seint heim á leið og gaddhríðin hafði komizt á hæsta stig áður en hann náði á miðjan veg. — Svo fór féð að hrekja, fyrst hægt og hægt á snið niður í brekkurnar, og síðan beint undan veðrinu ofan alla ása, í átt til árinnar, sem beljaði fram djúp og ströng í ísfarveginum.

Kind og kind sleit úr hópnum og týndist eitthvað út í buskann, og gjörði smalinn þó allt, sem í valdi hans stóð. En hann hafði svo að segja nóg að gjöra að halda sér sjálfum á fótum, og hefði Móri ekki verið, mundi hópurinn fljótt hafa tvístrazt í veður og vind.

Móri hagaði sér aðdáanlega þennan dag. Alls staðar þar sem hættan var mest var Móri og hringdi bjöllunum sínum yfir hjörðinni. Og hann kveikti nýtt líf og kjark í hrakningsliðinu hvar sem hann kom nærri. Móri var eins og hershöfðingi, sem leiðir þreyttar og örmagna sveitir upp á móti óvininum, hvernig sem fer og hvað sem fellur, snýr þeim við á flóttanum og heldur öllu saman sem lifandi kemst yfir valinn.

Hópurinn hraktist óstöðvanlega, lengra og lengra úr vegi, og loks fór allt saman, smalinn og fénaðurinn, út á ísinn á hraðri leið út í straumstrenginn. Smalinn fótaði sig við bakkann og leit út yfir fénaðinn, sem hafði drjúgum týnt tölunni, og nú lágu sauðirnir sumir á hliðinni, sumir á hnjánum, allir með höfuðin á móti veðrinu og beittu seinustu orku sinni til þess að forðast skörina. — Þá var það að smalinn sá Móra rísa upp í neðstu sauðaröðinni, og hann heyrði bjöllurnar hringja gegnum ofviðrið yfir kindunum, og sauðina ennþá einu sinni snúa eftir foringja sínum. Sumir ultu á hliðina og veltust út á skörina og niður í ána, en nokkrir komust upp undir háan bakka, þar sem þeir lögðust niður, hver út af öðrum, í skjóli fyrir veðrinu.

Smalinn hljóp út á ísinn til þess að komast fyrir það sem eftir var, en hann gat ekki fótað sig og hefði sjálfur hrokkið út af skörinni, ef hann hefði ekki getað haldið sér við broddstafinn, sem hann stakk niður í ísinn. En Móri fór aðra ferð út á ísinn og ætlaði enn að reyna að leiða eitthvað af hjörðinni upp á móti veðrinu, upp undir bakkann. Ennþá hringdu bjöllurnar hans yfir hópnum, og ennþá risu nokkrir sauðir upp til að fylgja honum eftir, en þá kom stormhrina, óviðráðanlegri en nokkur önnur, og feykti öllu sem lifandi var á ísnum út á skörina, — öllu nema smalanum, sem lá á ísnum með báðar hendur á broddstafnum.

Móri sneri enn snoppunni upp í storminn og smalanum sýndist hann renna augunum rólega til sín, eins og hann vissi að honum væri engin bjargarvon þaðan. Hann var efstur á skörinni, og þegar allt hitt var hrakið niður í strenginn stökk Móri enn upp og komst fáeinar lengdir sínar upp á ísinn, en þá voru síðustu kraftar hans þrotnir, og ofviðrið bar hann út yfir ísinn, út í valinn til hinna félaga hans.

Smalinn komst loksins sjálfur upp undir bakkann og beið þar fram eftir deginum; þá linnti veðrinu nokkuð, og hann komst heim með fáeina sauði, sem eftir voru lifandi. — Hann unni Móra svo mikið, að hann kjökraði þegar hann sagði frá afdrifum hans og hraustlegu baráttu móti dauðanum á skörinni.

Bóndinn var ekki mönnum sinnandi út af sauðatapinu, en þegar hann hafði náð sér eftir missinn, talaði hann einatt um hina síðustu frægðarför Móra, og endaði söguna oft þannig:

Það versta var að Móri var orðinn holdgrannur. Við urðum að „korta“ gjöfina þennan vetur, og hann hefur ekki verið í fullum krafti, sauðurinn, — annars hefði hann kannske komizt lifandi upp undir bakkann, með fleiri af hinum með sér.

TÓBAKSPUNDIÐ

BROT ÚR GÖMULU HANDRITI

Ég man alltaf eftir honum Þórði gamla með skreiðina; hann fór aldrei svo í kaupstað, að hann kæmi ekki aftur með kúfóttu merina sína klyfjaða af skreið. — Væri skreið ekki að fá í verstöðinni, fór gamli Þórður alls ekki í kaupstað.

En færi gamli Þórður á annað borð, fékk hann sér oftast á pyttluna sína um leið og bætti við sig tóbaksenda; — „tárið“ og „talan“ voru hans sárustu ástríður.

Þegar Þórði gamla höfðu gengið vel allar útvegurnar, var gaman að sjá, hvað vel lá á karli á heimleiðinni. Hann lallaði hægt og hægt á eftir Kúfu með þá hálsmjóu í treyjufikkanum og spýtti drjúgum mórauðu, einkum ef einhver varð á vegi hans. Hann vildi láta sjá, að hann kæmi úr kaupstað. — Stundum tók hann að kveða rímnaerindi eða aðrar stökur með rámum, hálfskjálfandi róm og alls konar ringjum og löngum lotum. Það var auðheyrt, að hann hafði haft góð hljóð í æsku, en nú voru þau líkust því sem slegið væri í sprungið pottbrot.

Kúfa vék aldrei úr vegi fyrir neinum, en rambaði með skreiðina sína á beinustu og beztu götuslóðinni — og þeir, sem ekki vildu meiða sig á leggjunum, urðu að gjöra svo vel og ríða á svig við merina og gamla Þórð, þegar hann kom frá kaupmanninum og verstöðinni, þar sem þau voru hárviss að fá hausa og herta sundmaga, ef nokkuð slíkt var þar til.

— Ég mætti Þórði og Kúfu margoft á sumrin, þegar ég var á heimleið frá frændfólki mínu, er bjó rétt fyrir utan verstöðina.

Þegar hann sá mig koma yfir leitið, byrjaði karl að kyrja og stúta sig af pyttlunni, og hann sætti lagi, þegar ég sveigði fyrir skreiðarklyfina, að draga langan enda af munntóbaki upp úr vasanum til þess að láta mig sjá, hvað birgur hann væri.

En einkum er Þórður mér minnisstæður vegna þess atviks, er ég ætla nú að segja frá.

Ég var staddur í krambúðinni einn dag sem oftar. Þar var Þórður gamli þá einnig kominn, vel slompaður af víni og kampahýr. — Ég sá, að skreiðarklyfjarnar lágu kirfilegar og vel bundnar úti á „plássinu“, og Kúfa stóð þar hjá með hangandi haus í sumarhitanum og beið þolinmóð eftir byrðinni. Tóbaksendinn stóð upp úr hægri vasanum — en pyttlan var tóm.

Það var sú brúnkollótta, sem karl átti eftir að fá sér seytil á til ferðarinnar. — Annars var hann albúinn.

Við hliðina á Þórði gamla stóð unglingsstúlka 12— 13 vetra, þokkalega, en þó fátæklega klædd og beið eftir afgreiðslunni með honum. Ég fékk seinna að vita, að þetta var sonardóttir hans, og fór hún þá í fyrsta sinn í kaupstað með afa sínum.

Þórður hampaði pyttlunni tómri í annarri hendi og studdi hinni á búðarborðið. Sá, sem afgreiddi, var ungur, laglegur maður, danskur í aðra ætt, sem var nýkominn þangað frá einhverri annarri verzlunarstöð langt í burtu.

Láttu mig fá á glerið, lagsi, segir Þórður og kinkaði kolli framan í búðarmanninn. En vertu nú ekki alla ævina að mylkja lekanum á pelaskömmina. Kúfa biður eftir okkur.

Við höfum ekki drukkið dús, mundu það næst, segir sá, sem er fyrir innan borðið, og hrifsar flöskuna heldur hvatlega af Þórði um leið.

O, aðra eins peja held ég nú að ég hafi þúað um dagana, segir Þórður gamli og hallar sér fram á búðarborðið. Þú hefur held ég lítið að reigja þig af.

Piltungi, sem var að vega gráfíkjur rétt hjá, hló hátt að þessu og deplaði augum um leið framan í Þórð gamla, svo hann fór líka að hlæja með rámum, djúpum karlahlátri, sýnilega mjög ánægður með orðaskiptin.

Sá hálfdanski svaraði ekki, en gekk að brennivínskrananum og fyllti flöskuna. Svo lét hann tappa í hana og bar hana á hálsinum út þangað, sem Þórður stóð. En þegar hann rétti höndina út eftir flöskunni, lyfti búðarþjónninn hendinni og sló flöskunni af afli í höfuðið á Þórði gamla.

Karlinn hrökklaðist frá borðinu, og blóðið rann niður eftir andlitinu á honum, en brennivínið flaut út yfir gólfið innan um flöskubrotin.

Litla stúlkan rak upp hljóð og hljóp til afa síns — en þeir, sem voru fyrir framan búðarborðið, litu illilega til krambúðarþjónsins. Hann stóð í sömu sporum, sótrauður í framan, með glerstútinn í hendinni.

Svo rak búðarþjónninn allt í einu út úr sér tunguna eins langt og hann gat, og skein í hvítar tennurnar á honum. Síðan gekk hann inn að tóbaksskúffunni og tók upp óskertan fjórðungsvafning af tóbaki, sló stórri sveðju, er lá í skúffunni, á vafninginn og mældi af honum á að gizka pund.

Hann gekk með tóbakið út þangað, sem Þórður stóð, og rétti það fram fyrir borðið.

Þórður gamli þagði og strauk blóðið af sér. — Það kom hik á þann gamla, er hann sá rulluna, digra og safamikla, liggja á borðinu — og fann tóbaksþefinn anga um búðina. — Þó rétti hann ekki höndina út; aðeins sást, að það kom hik á hann og hann hugsaði sig um.

En þá man ég eftir því, að litla stúlkan kippti afa sínum frá borðinu, tyllti sér á tá, svo að hún sýndist hærri en hún var, og svo þreif hún tóbakspundið til sín, smellti því niður á gólfið og trampaði á því, þegjandi og föl eins og snjór — en það var fullorðinssvipur á andlitinu, og allir, sem við voru, horfðu á hana steinþegjandi og grafkyrrir. — Þórður gamli strauk sér enn einu sinni um andlitið, og svo sneri hann sér frá búðinni, tók í höndina á sonardóttur sinni og leiddi hana út úr búðinni án þess að segja eitt orð, þangað sem Kúfa stóð og beið þolinmóð eftir byrðinni.

KISI

Hann átti ekkert sérstakt nafn til aðgreiningar frá öðrum köttum. Hann var bara kallaður Kisi, líklega af þvi að hann var fyrirmynd annarra katta að fimleik, mjúku skinni og háralit.

Hann var ættaður sunnan af Nesjum, þar sem blágráa kattakynið er til, og var seldur þaðan ásamt þrem systkinum, þegar hann var kornungur kettlingur, til eins af verzlunarstöðunum sunnan lands.

Systkin hans voru seld aftur með nokkrum hagnaði innan lands á fjarlægar stöðvar, og þau dreifðu síðan blönduðu kattakyni hvert út yfir sitt umdæmi — en fyrir Kisa þeim, sem hér er sagt frá, lágu önnur forlög.

Þegar hann var nýkominn heiman að, gekk hann eitt sinn laust eftir morgunverð út fyrir dyrnar á nýja heimilinu sínu til að gá til veðurs. Sólin skein hátt á loftinu og breiddi svo mikinn yl og birtu út í yztu afkima jarðarhvelsins, að Kisi varð gagntekinn af sæld og fögnuði yfir því að vera til í svona indælum heimi.

Með frábærlega léttum og fimum fótaburði trítlaði hann fyrst út fyrir götustéttina til þess að sjá enn betur upp í sólina, sem hafði komið upp að húsabaki. Svo teygði hann sig upp og rétti úr öllum fótum, rak út úr sér tunguna og hringvafði skottið á sér. Þetta gjörði hann einum tvisvar sinnum. Þá sá hann hefilspón lyftast upp af götunni af morgunandvaranum — og eins og ör væri skotið af boga var Kisi í einu stökki búinn að hremma spóninn og læsa framfótaklónum í gegnum hann.

Hann beið eftir því, að herfangið kvikaði, en þegar hann fann, að það lá rótlaust undir hramminum, fleygði hann spæninum frá sér, horfði aftur upp í loftið og lét sólarhitann streyma um feldinn á sér, sem glitraði í geislunum svo mjúkur og hreinn eins og dýrasta silki.

Kisi lygndi augunum og fór að mala — irr-arr-irr-arr. Hann settist á endann og lagði eyrun aftur af sældinni. Þá fann hann mjúka, heita hönd strjúka sig eftir hryggnum, og hann lagði þá augun alveg aftur og malaði svo, að belgurinn gekk upp og ofan.

Það var enski, strandaði skipstjórinn, sem strauk Kisa svona vel. Hann hafði horft á köttinn, frá því að hann kom út í dyrnar, og gat ekki haft augun af því, hvað Kisi hreyfði sig fallega og hvað þessi einkennilegi, blágrái litur fór honum vel í sólskininu.

Kapteinninn komst að því, hver átti Kisa, bar hann þangað á handlegg sér, og svo var sá blágrái seldur í annað og síðasta sinn.

Kisi var sjóveikur á leiðinni til Englands og ekki með hýrri há fyrstu vikurnar, eftir að hann var kominn þar á land. Þar var nóg sólskin, en Kisi brá ekki neinni lykkju á skottið á sér og sleikti ekki nema rétt fremstu kampabroddana, hvað heitt sem veðrið var og þó allir heimilismenn strykju honum og væru góðir við hann.

En smátt og smátt moltnaði fýlan úr Kisa, og hann fór að haga sér eins og annar köttur. Þegar hann kom út í morgundöggina, setti hann kryppuna svo hátt upp og teygði svo úr fótunum, að lengstu stráin á garðbölunum þurftu ekki að hugsa til þess að ná upp í kviðinn á honum, og ef sólin þá var reglulega í essinu sínu — einkum eftir að Kisi hafði lapið morgunmjólkina sína — þá settist hann nú við og við á endann á steintröppunum, sem lágu austan við húsið, vafði skottið að síðunum á víxl og fór svo að mala upp á íslenzku.

Allir voru mjög góðir við hann í nýju vistinni. Hann þótti svo fallegur, og skinnið á honum glitraði með svo dæmalaust einkennilegum grá-bláma, að frúin gat beinlínis hælt sér af því að eiga útlendan kött, ólíkan öllum öðrum, sem hún hafði séð eða spurt til. Henni voru boðin tíu, henni voru boðin fimmtán pund fyrir hann, en hún vildi ekki láta hann, en sagði þó, að maðurinn sinn hefði keypt hann fyrir 2-3 enska skildinga einhvers staðar langt úti í heimi á hálfgerðri eyðiey, þar sem stormur hefði eitt sinn hrakið skip hans að landi og grandað meir en helmingnum af hásetum sínum.

En svo skeði það einn dag, sem gjörði út um forlög blágráa Kisa.

Hann sat einu sinni sem oftar snemma morguns úti á steintröppunum og var að bíða eftir því, að vinnukonan kæmi með morgunmjólkina, eins og hún var vön. Hann var ekki kominn í góða skapið sitt og datt ekki í hug að mala — enn sem komið var. Þá slangraði bróðir kapteinsins, yngsti sonurinn í húsinu, inn um hliðið, ósofinn og þéttfullur eftir vökunótt einhvers staðar úti í bænum, þreif í hnakkadrambið á Kisa og þeytti honum af hendi niður í garðinn svo hart, að hann gat ekki brugðið fótunum fyrir og meiddi sig á annarri síðunni.

Kisi stóð upp svo fljótlega sem hann gat og stökk út að grindunum, en þegar hann sá að hann var ekki eltur, sneri hann sér við og horfði á óvin sinn. Hann var að reyna að koma lyklinum í götudyraskrána og sneri bakinu að Kisa — en Kisi þekkti hann vel og gleymdi honum ekki.

Þeim blágráa leið illa eftir þetta; hann yarð skapillur og vildi ekki láta strjúka sig — en innst inni í kattarsálinni þróaðist hefndargirndin, festi þar dýpri og dýpri rætur, þangað til allt hans innra líf snerist um það eitt að launa þessa einu mótgjörð, sem hann hafði orðið fyrir um dagana.

Og svo hefndi hann sín einn dag.

Það var í sterkustu hitatíðinni. Menn lásu daglega í blöðunum að sjúklingar væru lagðir inn á spítalana, bitnir af hundum og völskum — og þó Kisi læsi ekki blöðin, fann hann á sér, að nú var tíminn kominn.

Undarlegur hiti læsti sig í gegnum taugar hans og æðar þessa dagana. Hann hafði enga matarlyst, var meira að segja hættur að lepja mjólkina sína, en bara urraði, ef einhver kom nálægt honum. — Svo kom sonur hússins heim eitt kvöld, slompfullur eins og hann var vanur, og þegar hann steig á tröppuna, einmitt þá sömu sem Kisi sat á morguninn góða, þá læsti kötturinn tönnunum aftan í fótinn á honum gegnum brækur og sokk inn í hásinina.

Þetta kvöld var pilturinn í betra skapi, og hann bara hló að Kisa og ætlaði að fara að strjúka hann. En sá blágrái var kominn úr skotfæri — og stóð hvæsandi og blásandi með gneistrandi augu og hárin úfin eins og galtarstrý lengst úti í garði.

Svo versnuðu Kisa verkirnir dag frá degi, og hann engdist sundur og saman af kvölum, þar sem hann lá fyrir utan húsið. Það bráði bara af honum rétt sem snöggvast einum tveimur dögum seinna, þegar hann sá þann, sem hann hafði bitið, hrökkva saman í glugganum bara af því að heyra hann mjálma; — hann fann, að hann hafði hefnt sín.

En sama kvöldið komu tveir menn inn um hliðið, annar var húslæknirinn, en hinn hár, þrekinn maður með gyllta hnappa á frakkanum.

Kisi leit við, og sá með gylltu hnappana lyfti svartri, langri járnpípu fram undan sér og miðaði á köttinn.

Og svo gleymdi Kisi sér og mundi aldrei eftir sér frá þeirri stund.

JÓREYKUR

Eins og vant er, draga hæðirnar mann að sér hærra og hærra upp, fjær öllu þvi, sem neðar býr, þó allt sé á fótinn og sólin leggist eins og svefndrungi í alla limi. Andhrein sveitagola streymir í breiðri, hægri loftmóðu út á hafið og flytur með sér ilm af ungu grasalífi, óteljandi þúsundum blóma og jurta, sem kærleikur og afl sumarsins elur, skreytir og styrkir.

Milli grárra, heitra grjótása gljáir og stirnir á vötnin, eins og þar sé leikið við sólina með ómælandi mergð fægðra spegla. Flugurnar suða af sæld, og fuglarnir baða sig með hægum, léttum sundtökum í þessum líðandi straumi af tæru lofti. Það er eins og þrótturinn og æskan í náttúrunni sjúgi djúpt að sér andann og fálmi í hálfgerðum draumi eftir sínu eigin eðli niður dýpstu rætur þess með opin, sofandi augu.

Hvað sárt og sætt þó er að lifa í sjálfum sumargróðrinum, hlusta á hljóð vatnsins, sem aldrei hættir að renna, sjá haf loftsins og sævarins, sem hvergi endar, og finna ilm grasanna, sem vita ekki af því, að þau eru til. Maður finnur með öllum taugum, að hin hærri skynjan er ekki síður til saknaðar en fagnaðar, og ósjálfrátt dregst hugurinn dýpra inn að lindum lífsins, sem lyftir öllum þessum frjálsu fjöðrum, bindur alla þessa blómvængi.

Fjallabláminn breiðir mjúkar slæður yfir alla tinda. Vellir og engi vefja grænum og gulum gimsteinalit inn í strandbaugana, sem leggja sig utan um flóann í löngum, bognum og brotnum línum. Það er hásumarsblær yfir landinu, og hafið bælir sitt eigið afl og ókyrrð langt niðri í dýpstu álum. Það örlar varla á steini, þar sem bylgjur lofts og lagar mætast.

En niðri á alfaraveginum sést lágt moldarský þjóta hart upp eftir, beint á móti andvaranum — eins og reykur af eimskipi, sem skrúfan knýr upp í vindinn. Stundum hægir það á sér og kembir aftur af sér langan mökk niður eftir öllum brautum, en aðra stundina herðir það sig aftur og skýzt í snöggum kippum upp eftir veginum.

Það er jóreykur af tveim hestum, sem fara samhliða, oftast fast hvor við annan, en stundum með lengra bili á milli, svo að moldarskýið aftur af þeim klofnar í tvo mjóa skúfa.

Svo færist skýið nær og nær, þangað til ég þekki þá, sem sitja á hestunum.

Það eru nýgift hjón, sem ég hef talað við nokkrum sinnum niðri í bænum bæði saman og hvort í sínu lagi. Þau eru að létta sér upp frá erfiði vikunnar og hafa verið svo heppin að fá tvo hesta, sem vilja sjálfir hlaupa. Þau eru eins og valin saman, og það er mesta ánægja að sjá, hvað þau sitja laglega á hestunum, sem tyggja mélin með freyðandi munnum. — Þau taka bæði undir, þegar ég yppti í hattinn, og fara hægt fram hjá mér. Ég sé mjótt mitti fyrir neðan breiðar, vel fylldar kvenmannsherðar og dálítið íboginn karlmannshrygg. Svo er aftur hleypt á hraðari gang, og rykhjúpurinn leggst utan um hann og hana.

Þessi dagur var ekki góður fyrir heitar, sterkar hvatir. Maður hlaut að fyrirgefa þessum ungu, nýju hjónum, að þau riðu svona eins og með ósýnilegan vegg á milli sín. Hitinn og fegurð heimsins þurrkuðu burt allar óskir manns aðrar en þá einu að mega lifa svo um allar aldir án þess að þurfa að hverfa og án þess að kuldi og myrkur þyrfti að breiðast yfir allt þetta auðuga, þroskaða líf, sem umhverfði augað á allar hliðar.

Löngunin til þess að lifa — lifa sífelldlega — sprettur upp úr innstu fylgsnum hjartans á slíkum degi. Það er eins og allar hinar ýmislegu hræringar hugans, sem daglegir viðburðir og atvik vekja, safnist saman undir þessum sterku geislum í eina einustu meginhvöt, eins og allir hinir mörgu straumar sálarlífsins snúi sér frá hinu ytra inn á við og renni í einum farvegi aðra leið á móti óþekkta hafinu, eilífðinni sjálfri, á líkan hátt og allar vatnslindir þessara hæða og ása keppa að sjónum, þar sem þær eiga að hverfa.

Hjónin eru nú horfin upp fyrir leitið. Aðeins örlítið mistur af jóreyknum sést fljóta yfir hæðarbarmana og dreifa sér með landáttinni út yfir móa og mela. Þar eru hinar jarðnesku leifar hjónaferðarinnar að hverfa aftur til þess dufts, sem þær eru komnar af.

Sólin er hæst á lofti. Ormarnir flýja dýpra og dýpra niður í moldina til þess að varðveita sitt auma líf fyrir sjálfum lífgjafa sínum. Það brakar í lynginu, og blöð smáblómanna rétta sig upp eins og þurrar tungur, sem beiðast eins dropa af vatni til svölunar. En yfir allt þetta sígur loftmóðan, breið og gagnsæ, fram hjá sálum þess, sem kvikar á jörðunni.

Ilmurinn af grösum og blómum fylgir henni til hafsins, og þöglar, óljósar hugsanir líða í sömu átt. En eftir verður þó þessi svíðandi þrá, þessi vonlausa, sára löngun til þess að komast út yfir takmörkin.

Geislarnir geta ekki skinið í gegnum draumalönd sálarinnar — og þorstinn eftir öðru sterkara ljósi lifir, byrgður innst inni hjá upptökum allra hugsana, þó maður drykki sig saddan af öllum þessum tæru vötnum, sem gljá og glitra undir hádegissólinni.

STRÆTAPENTARINN

Ég hef nokkrum sinnum gengið fram hjá honum á breiðri, eggsléttri stétt, norðarlega í borginni, á leið til kunningja míns þar, sem ég á erindi við daglega.

Hann er ekki gamall og heldur ekki ungur, en lífið hefur merkt hann skarpt og skýrt — handa ruslakistunni. Léttúðarlestir, vonzkulausir, banvænir, hafa ritað sögu sína á þetta gulbleika, svartbrýnda andlit með smá, hvöss augu undir háu, hvelfdu enni.

Heimurinn hefur teiknað skugga og drætti í svip hans dag og nótt — meðan hann ýmist bar liti í draummyndirnar sínar, eða bar koparaurana, sem fleygt var til hans á götunum, til torgsins fyrir brauðmola og víneitur, eða bylti sér fram og aftur í lausum, óhollum svefni í einhverju fátækrahælinu. Þessi er ekki líkur öðrum af sama tagi sem ég hef séð liggja á strætastéttunum hér og þar og kríta út steinana með ógeðslegum, feitum ómyndum af öllum hlutum milli himins og jarðar. Hann málar einungis andlit, aldrei neitt annað — og hann á ekki heima á götunni að réttu lagi.

Andlitin hans eru stundum undarlega skæld og illa teiknuð, þau eru jafnvel stundum afskræmd svo að þau sýnast ómennsk, en alltaf bera þau einhvers staðar, þó ekki sé nema í einum eða tveimur dráttum, efalaust merki þess, að höfundurinn á til þennan fágæta guðdómlega neista ósvikinnar, skapandi listar, sem svo fáum er gefinn.

Menn stöðvast oft hjá honum og horfa á myndirnar hans. Hann hefur vakið eftirtekt, — en hefur ekki reist sig upp af götunni. Þessi augnabliksverk hans, andlitin, horfa öll á mann svo kynlega, eins og með fyrirlitning, haturslausri en þó djúpri og ólæknandi. Það er einasta svar hans til þeirra, sem koma og fara hjá honum, og kunna að varpa augum undrunar eða aðdáunar á list strætapentarans, einstöku sinnum.

Meistarasniðið, þessi óttalausi, frjálsi leikur handar og auga við drætti og liti, sem þeir frægu fáu málverkasmiðir eiga sér til ágætis, það brýzt fram einhvers staðar í hverri mynd þessa manns, innan um óskiljanlegar syndir á móti lögum listarinnar, ásetningsbrot og skrípislegan klaufahátt.

Og annað er þó enn einkennilegra. Hver einasta andlitsmynd, sem hann dregur upp, fljótur eins og elding, og þurrkar út svo að segja jafnótt, ber í sér einn og sama svipinn, hvort það er heldur mynd barns eða öldungs, mynd engils eða djöfuls.

Þessi undarlega líking allra myndanna, sem veltur á einhverju örsmáu viðviki, á einhverri hárgrannri línu einhvers staðar í uppliti eða yfirbragði andlitsins, virðist vera lykillinn að gátunni um þetta eydda líf. —

Hann pentar alls konar andlit, svipi æskunnar og ellinnar, alvöru og lauslætis, svipi syndara og altarisdýrlinga — allt nema eitt. Hann málar aldrei andlit meyja eða ungra kvenna öðruvísi en svo, að þau séu afskræmd af spilling eða gjörð að skrípum. Líkingin í andlitunum er svo falin undir öllum þessum grímum, að enginn getur séð, af hverju hún er dregin — svipi karls eða konu, en hann málar karlmannsandlit í alvöru, hrein og svipgóð — og af því má ráða hvaðan hann ber minninguna um þennan eina svip með sér.

Fyrirlitningin sem horfir á mann út úr draummyndunum hans, er hans eigin örmagna, vonlausa og eilífa óvirðing á því öllu, sem hann hefur útskúfað sér frá. — Hann ber það utan á sér, þar sem hann liggur fyrir fótum mannanna, að í honum er gott blóð, dýrt — vel ættað og þóttafullt blóð mannaðrar stéttar. Og leikfangið í höndum hans, litkrítin, sem hann skrifar sögu sína með á þennan kynlega hátt — það sannar arfsrétt hans að öðrum betri, göfugri kjörum. En hann hefur farið inn á þessa braut — og vill ekki eiga þaðan afturkvæmt þó hann gæti. Hann fleygir öllu sínu lífi fram fyrir múgann, sem traðkar draumana hans niður í sorpið; aðeins einu fleygir hann aldrei fyrir mennina, sinni eigin innstu, djúpu ógæfusorg. — Hann dregur aldrei mynd af kvenmanni með fegurð, tign og óspilltum svip.

Hitt allt vill hann láta þá eiga — og hann réttir það að þeim með háðsaugum, hvössum og smáum oftastnær, undir brá og svip sem líkist honum ekki — en líkist alltaf sjálfum sér. —

Skuggarnir síga dýpra og dýpra yfir staðinn, þetta kvöld sem ég stöðvast lengst og horfi á myndirnar hans. Hann fer með vinstri höndina í vasann og hringlar í fáeinum koparskildingum. Með þeirri hægri þurrkar hann og þurrkar út öll andlitin fyrir framan sig — með svipnum sem þau bera — og réttir úr sér. Ég fæ honum einn smáskilding og hann tekur við honum þegjandi og rís upp. Dagsverki hans er lokið.

Heimurinn stendur á höfði í augum þeirra, sem lífið hefur fleygt til jarðar — án þess þó að taka frá þeim yfirburðina yfir hinum sem standa uppi yfir þeim. Allt þetta skein út úr honum svo skýrt meðan hann lá flötum beinum við þetta einkennilega myndasmíði sitt. En nú þegar hann rís upp, virðist mér hann sem annar maður. — Þungur þreytusvipur fellur yfir andlitið og hann þurrkar yfir ennið.

Ég sé hann ganga hægt af stað með limaburði og hreyfingum, sem sýna glöggt, hvað djúpt hann hefur fallið.

Þessi maður á ekkert til í eigu sinni nema sína eigin sorg. Fyrirlitningin er dulargervi, sem hann varpar yfir óbætanlegan ósigur lífs síns — og hann fleygir því af sér, þegar augu fjöldans líta af honum.

ÞYRSKLINGURINN

Foreldrar hans — og líklega margir forfeður — höfðu búið undir stórum steini norður af Sölvhól. Þar voru önnur minni björg í kring, skógi vaxin, með líðandi blæ, logni eða stormi í greinum og blöðum, eftir því sem stóð á veðri í seltunni.

Hann var farinn að synda hraðara en faðir hans. Sporðurinn á þeim gamla var orðinn stirðari, auk þess sem stór rifa kom á hann einu sinni þegar eitt loftfarið hafði ginnt hann undir skuggann sinn með gljáhreistruðum bita af nýdrepinni smásíld. Pabbi reif hálfan bitann af, en krókurinn straukst aftur með roðinu, festist í sporðinum, og rétt aðeins náði að rifna út úr.

Ungi, uppvaxandi þyrsklingurinn fór að kanna dýpið, en þegar hann kom út fyrir gróðrarlandið, sneri hann aftur og hélt inn með fjörunni fram að Rauðará. Þar klóraði hann sér upp við gamla, meinlausa grásleppu, því dálítil marfló hafði útvalið hann meðal annarra þyrsklinga og skreið um hann við bakuggann, svo að hann sárklæjaði.

Annars sagði ekki af ferðum hans fyrr en hann kom inn undir Laugarnes. Þá var sjórinn orðinn svo ljómafagur og sléttur uppi yfir loftinu hans, að hann reisti sig sem snöggvast beint á endann og stakk sér upp í drekkingarhylinn. Enginn minnsti öldugangur var í hylnum og allt kargadýpið var svona glæra tært, að hann sá niður í dökkbláan botninn, þar sem stóru, gráu flókarnir lágu grafkyrrir, eins og heljarbjörg á víð og dreif.

Eðlið og uppruninn gerðu sín vart. Hann var kominn af frábærlega vel gefinni ætt, sem hafði dafnað og þróazt að þorskaviti við þaraströnd höfuðstaðarins. Örlítil úrkynjun, aðeins til þess að gera heilann fín-fínan, hafði smogið inn á milli kvarnanna. Hugmyndaflug hans og ímyndunarafl var meira en svo, að það gæti komizt fyrir með góðu móti í andrúmslofti þyrsklingsins. Óglögg, hálf-dularfull nasasjón um önnur æðri tilveruskilyrði hafði laumazt inn í þetta sleipa, flatstrenda gáfnahöfuð.

En honum fannst óbragð að sjávarhylnum fyrir ofan. Hann lét sig sökkva beint niður á sporðinn aftur, og skyrpti loftinu út úr sér. Svo hvíldi hann kjammann dálitla stund á hálfdauðum þöngli niðri við botninn, en svo stakk hann sér aftur upp í hafið uppi yfir sér, og þannig fór hann að venjast smátt og smátt. Hann drap ekki tittlinga, þó eldvofan mikla blíndi beint í augað á honum gegnum sjávarborðið. Hann sá alls konar fyrirbrigði, svo sem risavaxna kletta með ófreskjulega stór, útþanin þarablöð, svífa fram og aftur. Hann sá stóra fiska, klofna fram undir ugga, þramma með lappirnar upp í loft, og með niðursnúandi, stóra, ljóta loðhausa. En hann vandi sig við fyrirbrigðin. Hann var að nema andatrú af sjálfum sér. Heimspekilegar ályktanir, reynsluvísindi hans sjálfs og stöðugar, ómótsegjanlegar staðhafnir fléttuðust saman í eina bendu í þorskhausnum. Hann fór einförum upp frá þessum fyrsta degi, nótt eftir nótt, meðan glóðaraugað mikla í eldvofunni lýsti honum. Smátt og smátt myndaðist lífsskoðun þyrsklingsins. Hann engdist sundur og saman til þess að geta séð á sjálfum sér uggana.

Innst inni við kvarnirnar var einhver dögun af grun um það í þyrsklingskindinni, að þessir uggar ættu eitt sinn að verða að fjöðrum, sundfærum, sem gætu fleytt honum fram og aftur í djúpinu þar sem draugarnir bjuggu yfir honum. Og upp frá þessari stund fór hann að verða lítt þolandi í þaranum. Aðrir meinhægir og dagfarsgóðir smáþorskar leituðu ýmist undan loftskyggna, dulspaka kóðinu fram undan Sölvhóli, — eða þeir reyndu að nudda sér upp við hann og reyndu að góna eins og hann, með tómri, kaldri, langsýnni glerglyrnu fram og upp, og út og niður.

Þeir voru seinast farnir að apa eftir honum þessa einkennilegu óþorsklegu hreyfing með hausnum, til þess að sjá sína eigin smáu og vanmáttugu ugga.

Svo skeði það einn dag, að spánýr og gljáandi öngull með glitrandi síldarroði glóði fyrir framan þessar heimspekilega útflenntu nasir yfirþyrsklingsins, sem lengi höfðu verið ótti og aðdáun annarra borgaralegra þaraþorska. Gin hins dulspaka opnaðist vísindalega, eins og hann ætlaði að fara að metja í æðra andrúmslofti. En þá sökk krókurinn niður í kverk þessa mikla fyrirbrigðis meðal flæðarkindanna og hann hvarf „yfir um“ — fór þangað sem kallað er „hinum megin“ á máli allra, sem vita af sinni eigin takmörkun.

Aðeins örfáir þorskar urðu örstutta stund dálítið langleitari en þeir áttu að sér, rétt á meðan hann var að hverfa. En allur fjöldinn fann sér stórlétta, og sjókalda glottið, sem stöku sinnum breiðist yfir þorskkjamma, geti þeir lifað í friði fyrir rannsókn á sínum eigin uggum, leið yfir þyrsklingalýðinn allan, frá Sölvhóli til Laugarness.

AURRIÐINN

Hann vissi að mikið djúp var staðfest milli heimsins og hans sjálfs. Hann treysti sér ekki til þess að brúa þetta gljúfur, og guð einn veit, hvort hann hefði viljað gera það, þó hann hefði getað það.

En hann hafði einhverja óglögga nasasjón af því, að hann mundi ekki geta lagt heiminn undir sig. Hann var svo fjarska lítill sjálfur og heimurinn var svo afskaplega stór, að hann, auminginn, játaði fyrir sjálfum sér, að hann væri ekki fær um að skilja eða skynja stærð og mikilleik þessarar víðu veraldar, sem litlu, skammsýnu augun hans höfðu dirfzt að horfa á.

Og innst inni í smáheilanum hans var eilíft ráðabrugg, margendurtekið frá kyni til kyns, um það, hvernig hann ætti að halda trúnni á sjálfan sig, sem var svo lítill, vesall og einskis verður í heiminum mikla, sem hann viðurkenndi, hataði og óttaðist.

Og ráðabruggið allra aurriðanna frá kyni til kyns hafði að lokum lyktað svo, að hausnum var stungið inn í aurinn. Þá sá hann ekki heiminn, aumingja aurriðinn. Og sú líkn var honum lögð, að hann hélt þá að heimurinn sæi heldur ekki hann sjálfan.

Hann stakk ekki hausnum dýpra en svo, að augun hurfu aðeins inn í leðjuna. Allur litli, væskilslegi og vanmáttugi kroppurinn var öllum sýnilegur og vitanlegur, sem renndu augunum þangað, sem hann hafðist við, nema honum sjálfum.

Þannig dreymdi aurriðann um sinn eigin mikilleik með því að hann hafði blindað sín eigin augu. Það var ómögulegt að heimurinn sæi hann, úr því að hann sá ekki heiminn. Stórbrjálaðar ofsjónir á eigin verðleikum flæktust hver fyrir annarri inni í kornsmáa heilabúinu. Heil veröld af misskilningi, vanþekkingu og sannleikshatri hvelfdi himnana í sjónlausu sjálfbirgingsverunni, sem flúði ljósið niður í sorpið.

Aurriðinn einn í eigin hæstu oflátungsgleði yfir sjálfum sér bylti sér og velti, sem harðstjóri, hegningarlaus og ábyrgðarlaus, yfir þessum smádepli af meðvitund, sem fannst, þrátt fyrir allt, í silungshausnum.

Meðan hann faldi sig sjálfan fyrir veröldinni, fóru fram miklir atburðir, en ekkert gerðist hjá honum, annað en það, að sporðurinn, skilningar- og skynjunarvitalaus, stóð aftur í tímann og eilífðina, án þess að vita nokkuð hvað var að verða.

Veröldin hélt áfram að breyta sér. Voldugar, skínandi stjörnur komu og hurfu á himni þeirra augna, sem þorðu að halda sér opnum og horfa á leiksviðið mikla. Örlög sköpuðust, líf og dauði léku saman og sálir hurfu úr hlekkjum holdsins. Allar skapaðar og mögulegar myndir lífsins liðu fram eftir sinni ákvörðun og urðu að þola afleiðingar síns eigin breyskleika og vanmáttar. En aurriðinn einn flúði frá sinni eigin skyldu, með því að stinga augunum inn í leirinn.

Þetta gekk svo langa lengi og hamingja og ánægja aurriðans hélzt sífelldlega, en heimurinn þekkti sig sjálfan og lét sig sjást eins og hann var. Í heiminum var óþolinmæðin og óánægjan ævinlega ráðandi, en einmitt fyrir það knúðist allt það áfram á einhvern veg, sem þar lifði og hrærðist.

Auðvitað gat aurriðinn ekki lifað á því einu að fela á sér augun, og einstöku sinnum varð hann að leggja í leiðangur, til þess að ná sér í æti. Það sem hann lagði sér helzt til munns voru hrognin hans sjálfs og var það vel samkvæmt öllu eðli hans. Þannig streymdi vatnið ár eftir ár í gegnum tálknin á honum, án þess að nokkur breyting yrði á högum hans. Grimmdin og óttinn voru þær tvær hvatir, sem gátu hreyft hann. Í hræðslunni átti hann þetta fangaráð, að stinga höfðinu inn í leirinn, en grimmdinni gat hann svalað á hrognunum.

En einmitt á þessu tímabili, meðan jörðin var að velta sér í ljósvakanum með litla, dagfælna silunginn, þá urðu óhemjumiklar framfarir uppi á bakkanum yfir hylnum, þar sem hann átti heima. Lítill, kvikur smáhnokki var nýlega orðinn að stórum manni með grá, köld augu og glettinn hrekkjasvip. Hann hafði gengið nokkrum sinnum fremst fram á bakkann og séð silungssporðinn standa út undan hnausi, sem fallið hafði úr árbakkanum niður í bústað aurriðans.

Einn dag var gljáandi sólskin og blæjalogn. Gamlir, ryðgaðir silungsönglar og hálffúin net lágu úti í horni. Sá gráeygði sparkaði fæti í þessi úreltu verkfæri og tók ofan af nöglum í veggnum dálitla, mjóa, sveigjumjúka stöng. Svo glotti hann í barm sinn og tók upp úr vasa sínum örsmátt, dautt fiðrildi og gekk niður að hylnum.

Stöngin lyftist þráðbeint upp og var svo mjó, að varla bar skugga af henni, en færinu var svo fimlega kastað, að línan kom hvergi við vatnið og agnið datt niður á vatnsborðið, hljóðlaust og hægt, eins og dauðu vængirnir hefðu verið lifandi. Skugginn af agninu brauzt inn í annað aurriðaaugað, þar sem það skimaði undan hnausnum. Hann hafði lært af sjálfum sér og af kynslóðavana að forðast maðköngulinn og möskvann, en heiminum hafði farið fram, meðan hann stóð kyrr.

Hann gein við flugunni og þar var lokið sögu aurriðans.

TUDDI

Ó, hvað hann hafði nú gaman af lífinu. Hann þjáðist ekki af ofviti, og einhvern veginn hafði hann nautslega staðfesta og óbifanlega sannfæring um það, að lífsgleðin er ekki komin undir speki og framsýni, heldur undir fjörstraumunum í skrokknum.

Og aðsetur gáfnafarsins hjá honum var rétt fyrir aftan svæfingarstaðinn — en laumaðist aftur eftir mænunni til hinna lægri líkamsfæra, þar sem allar hans tuddalegu hvatir léku sér lausbeizla.

Þessu var þar á móti ekki að heilsa um höfuðstaðinn á nautinu. Hann var hnýttur með óslítandi ólarmúl aftan í taglið á skáldaðri, grindmagurri bikkju — sem var svo þrælsterk aftur í yzta brodd á stertinum, að skepnan með blóðlituðu, djúpu og þráu illúðaraugun, er aftan í hékk, varð í öllum meginatriðum að fylgja þeirri stefnu, sem húðarjálkurinn fór.

En samt sem áður hafði tuddi fullan rétt til þess að gleðjast — því hann gat gjört svo marga alóþarfa smáhlykki á vegferð sinni, að það hlaut að valda eiganda taglsins bæði gremju og jafnvel ótta um, að allt kynni þá og þegar að falla niður í forarsíki, er lá fram með brautinni svo langt sem augað eygði, en hvarf loks inn í fjarlægar hillingar, sem skulfu yfir landinu í vestri. —

Afturhald mátti ekki við framsókninni meðal þessara tveggja ólíku dýra, þar sem þau álöppuðust saman, tengd af órannsakanlegum örlögum, áleiðis í áttina til loftspeglanna. En af þessu tvennu var það þó afturhaldið, sem var byggt á ósvikinni festu og vilja hlutaðeigandi nautgrips, þar sem hinn málsaðilinn sótti fram, þver-beint ofan í sína eigin ósk. Það var aðeins húsbóndinn, sem togaði hann eftir veginum, sárnauðugan, með því að hann hafði haft vit á því að hnýta þannig upp í jálkinn, að hann hlaut að hlýða.

En tudda var skemmt, þrátt fyrir allt. Hann hafði lært það í fjósinu að leggja kollhúfur eins og sá, sem þegir, en hefur valdið. Hann lagði annan hnýfilinn í skáhorn við þá línu, sem hugsa hefði mátt dregna eftir miðri framsóknarbrautinni; svo lyfti hann skallanum örlítið aftur, sömuleiðis eftir því fasi, sem hann hafði tamið sér í fjósinu, og fitjaði um leið á grönina, eins og þegar um það er að ræða að dæma ágæti þess, sem stendur til boða, samkvæmt lyktinni. Þegar hann var kominn í allar þessar nefndu stellingar, setti hann framklaufirnar á víxl niður á veginn, á þann hátt sem þarf til þess að valda þeim óþæginda, er dregur á eftir sér taglhnýting.

Og svo hleypti hann sér stundum í herðarnar, þá var boli ekki neitt barnaglingur. Taglið stóð eins og þverlagt stýri til skiptis á bæði borð framsóknarvaldsins. Einatt sýndist aðeins hársbreidd milli ferðarinnar og forarsíkisins — en þá var gotið auga aftur fyrir kaupstaðarbúnar herðar húsbóndans, og þá var kippt svo í hljóðfærið á „þarfasta þjóninum“ að einhvern veginn varð lestinni haldið á löppunum.

Tuddi var ekki læs og þekkti ekki þýðing samtengingarmerkisins. Hann sá aðeins ólarspottann fyrir framan blóðrunnu nautsaugun og lét aldrei slakna á honum; en veruleg samvinna við þann, sem átti taglið, var alls ekki að hans skapi.

En þó tók út yfir allt, þegar lestin varð fyrir andstreymi á veginum og mótstefnandi stórgripahersingar geystu inn á þetta kynlega samband milli þykkskinnungs og jórtrara. Það sem húsbóndinn hefur sameinað mega „óviðkomendur“ ekki sundur skilja, var tautað undir þungum brúnum og hvikulum aðgætnum augum. Og lengi vel hélzt sameiningin þrátt fyrir allt. Boli reigði að vísu hnakkann hærra, eins og hann ætlaði að fara að hneggja, og klárinn dró niður hausinn, eins og hann væri að rembast við að kyngja sinni eigin jórturtuggu — en þó héldu tækin lengi vel.

Þangað til allt í einu að einn þrautfullur musterismaður hleypti þverreiðum fola inn á samtengingarmerkið. Með öllu því sem hin vanhelga þrenning átti til af afli varð það úr, að síkið tók við sameiningunni.

Örvæntingarafl hinna tveggja óskyldu skepna varð samtaka í lífshættunni — og þau slitu sína ónáttúrlegu samvist. En í austri risu þungir skýjamekkir og önduðu móðu á loftspeglana. Húsbóndinn stóð á veginum með slitna ólarspotta í höndunum og leit í augun á hesti og nauti á víxl.

Heimspeki nautsins var að gagntaka hann. Bikkjan var farin að velta sér — og eigandinn var að búa sig undir að breyta um stefnu.

DAVÍÐ

Hann hét í höfuðið á mikla manninum og var ekkert. Hann var ekki fæddur af útvöldu þjóðinni, og hann kunni ekki að slöngva. Þegar hann ætlaði, ásamt kristilegum meðbræðrum sínum, að grýta náungann, þá hröpuðu smásteinarnir hans niður á hans eigin tær og meiddu hann sjálfan, einan allra.

En hann átti Davíðs eilífa, göfuga ætterni við alheimsandann. Skaparinn hafði hjá honum, sem fleirum, látið framfætur forföðurins verða að höndum á niðjanum. Hann stóð uppréttur og sá himininn.

Og hann sá, að barátta var milli hans, jarðarormsins, og andans mikla, sem hafði gefið sjálfum sér ódauðleik. Og Davíð fór að gruna, að af þeim tveimur, honum og höfundi eilífðarinnar, mundi hann, litli Davíð, ekki vera sá, sem hafði á réttu að standa.

Nú fór hann að þjást af heilasulti. Hann sat við lífsborðið og mataðist þar, ásamt öðrum sínum líkum, með þessum venjulegu olnbogaskotum, sem kallast dugnaður í borgaralegu félagi — en hann gat ekki saðzt á sálinni. Davíð fór að temja sér þann óvana, að góna upp í loftið, þar sem hann hélt, að guð ætti heima.

Svo leið og beið. Olnbogarúm hans fór að þrengjast af sjálfu sér, út af einskærri eigin hógværð Davíðs. Og sessunautur hans vinstra megin, óðalsbóndinn með eldri máldagann, var farinn að mjaka sér, með kristilegri þrautseigju við rangan málstað, inn yfir þessar ósýnilegu hugsuðu línur, sem hafa enga þykkt, en eru kallaðar landamerki — og gjörði þetta þeim megin, sem mótspyrnan var minni — Davíðs megin. — Þetta er aðeins eitt dæmi þess, hvernig menn fylltu út, stig af stigi, það rúm við lífsborðið, sem sérvizka og þolinmæði hans lét autt á báðar hliðar.

En svo kom eitt af þessum litlu atvikum fram í ævi hans, sem mennirnir halda að valdi öllum örlögum, en eru í raun og réttri veru aldrei annað sjálf en afleiðingar frumorsakarinnar, upp til æðstu og elztu heimildar. Hann sat sem oftar einn dag við borðið sitt — og þá leið fram hjá honum kynlegur, hálfviðbjóðslegur þefur.

Þefurinn dró auga hans að dálítilli þverlagðri rifu á sessunauti hans hægra megin, sem niðjar skógardýranna kalla munn. Þessi rifa opnaði sig vinsamlega og með þakklæti og efnið, sem þefurinn fylgdi, leið hægt og þægilega, en þó með miklum ásetningi inn í umbúðirnar utan um rifuna.

Þetta var hið fyrsta sinn, sem Davíð fann lykt af víni — en það varð ekki það síðasta.

Nasir hans höfðu orðið snortnar og þar varð hann þess nú var, sem löngum hefur verið kennt, að meginþróttur minningargáfunnar á sér höfuðból. Því var ekki breytt þegar mannskepnan skipti um göngulag. Og viðbjóðurinn hálfgerði á þessum skrýtna þef snerist upp í aðra kennd hjá Davíð, sem var miklu líkari forvitni og þorsta í sameining heldur en nokkru öðru.

Sú hönd, sem hafði rétt sig fram með vínskálina til nágrannans, var hóglega snert af Davíð. Mjög skilningsríkt bros leið yfir granirnar á hinum síreiðubúna flutningsmanni forboðna varningsins. Þefnæmi og bragðvísi litla mannsins, sem kunni ekki að kasta steinum, en var skapaður til þess að grýtast af öðrum, lögðust á eitt með það að gróðursetja vínþrána í heilafrumlum hans — þeim sem ráða hvötunum og eru í stöðugu uppreisnarástandi á móti hversdagslífi borgaralegrar dyggðar.

Þannig varð það, að þjófalykillinn að Paradís komst í hendur Davíðs. Það sem borgararnir segja að maður eigi að eignast með dauðanum einum, því náði hann í lífinu — og hélt áfram að depla augunum og andvarpa, án þess að andast.

Nú góndi hann á himininn með allt annarri sjón. Hann fór að verða áleitinn fyrir framan tjöldin, sem hylja leyndardóma lífsins. Hann fór að haga sínum innra manni, inni í þeim heimi sem haushvolfið byrgist um, eins og útarfi sem á erfðarétt, en hefur gleymzt við skiptin. Hann stal smámolum af hamingju himnaríkis inn að lífsborðinu.

En þá fór hann að þekkjast fremur en áður í samsætinu og nágrenni hans jókst svo að segja á báða bóga. Menn, sem voru þannig settir í félagsskapnum, að þeir gátu ekki haft neinn beinan hagnað af því að seilast yfir efnaleg landamæri Davíðs, fóru að senda honum loftskeyti óvildar og áleitni — vegna þess, að þeim sýndist honum vera farið að líða betur, án þess að hann hefði unnið til þess á þeirra mælikvarða.

Menn hnipptust á og gotruðu augum. Skemmtiferðir Davíðs inn í sæluheiminn voru loks teknar til athugunar af mjög fjölmennri nefnd, sjálfkjörinni meðal þeirra, sem láta sig meiru skipta borðsiði bróður síns — heldur en sína eigin. — Vald fjöldans lagðist með jarðnesku ofurefli yfir litla manninn með mikla þorstann. —

Sverðenglarnir með brugðnu eldnaðina við Edenshlið þurftu nú ekki að gæta þess svo mjög að hann gengi ekki yfir þröskuldinn — inn til þeirrar veraldar, þar sem löngunin og skyldan ganga ekki á misvíxl, heldur eru hið sama og táknast með einu og hinu sama, sem sé framkvæmd hins ófjötraða vilja. Davíðs var gætt svo vel af umönnun sinna eigin óvildarmanna, að hann þorði varla að taka upp lykilinn, sem hann bar í vasanum.

Þessu fór nú fram um nokkurn tíma. Smátt og smátt fór að bera minna á þeirri birtu, sem áður hafði náð að skína inn til hans, og athuganir og skoðanir, sem lágu geymdar hingað og þangað undir höfuðskelinni, hættu að fara í kynnisför hver til annarrar til þess að skapa nýjar myndir í hug Davíðs. Það var sjaldan, að hann ávarpaði menn, en ef það skeði, þá var það oftast til þess að gjöra eins og hinir og þá opnaði hann kokið á víða gátt, til þess að sleppa út einhverri stórvægilegri, sjálfsagðri andleysu.

En einn góðan gæfudag fór þó svo enn, að englarnir urðu að snúa alsýnu augunum að Davíð með lykilinn, og tildrögin voru þau, að hann hafði sjálfur beitt sinni takmörkuðu nasasjón um það, hvað rétt er og heiðarlegt, gagnvart ráðamönnum sínum meðal borgaranna.

Eitt kvöld síðla, þegar fjöldinn var lagztur á kodda samvizkunnar, ráfaði sá litli ósyfjaður, en dasaður undir oki siðalögmálsins, inn eftir einu smáhýstu þverstræti borgarinnar. Þetta var um skammdegið og ljósin drápu tittlinga og dóu eitt af öðru í litlum, litblæjuðum rúðum. Óheyranleg rödd hvíslaði því í eyra Davíðs, að leggjast á einn stofugluggann þar sem einn kunningi hans nokkur eyddi sandkornunum úr hálftæmdu stundaglasi.

Það fyrsta sem hann kom auga á var blóðrautt, pungmyndað nef á einum helzta siðgæzlumanni ríkisins. Þetta framúrskarandi líffæri var að dýfa sér niður að djúpri, gagnsærri skál, með drungarauðan vökva. Nasir Davíðs flenntust á rúðunni. Hann vissi, að hér var að ræða um fágæta víntegund, sem enginn átti á staðnum nema breyskur bróðir biskupsins. — Aldrei hafði hann séð fögnuð syndarinnar ljóma skærar úr augum, brosum og svipum sinna hneykslunarfullu meðbræðra heldur en nú, þar sem þeir þéttskipuðu bekki og stóla utan um litla borðið með áfengislindinni, varðveittri í bóluþunna brothætta glerinu. Þessi rauðu og blánandi nef, þessi munnvíðu glott og þessi meltingarfró yfir hvelfdum, hláturiðandi mögum gat hvergi átt heima nema í sjöunda himni.

Davíð sneri sér frá hópnum og horfði inn að meginhluta borgarinnar. Hann varpaði öndinni djúpt og með velþóknun. Göngulag hans frá þessu musteri leyniblótsins líktist fótataki gamals fjörfáks, sem óvart hefur verið klyfjaður, en hefur sprengt af sér gjarðirnar.

Lítil en fremur þéttbyggð hönd krepptist fast um Paradísarlykilinn í vasanum — og sá, sem skírður var í höfuðið á stórsyndaranum eftir guðs hjarta, stefndi rakleitt til takmarksins.

En eldnaðirnir í hliði Edens lyftust hátt, og bjartir svipir litu niður til jarðarinnar — þar sem nauðungardyggðin er einkisverð og þar sem byggingameistarinn mikli skildi eftir ávöxtinn fræga frá upphafi — til þess að geta þekkt hjörtu mannanna og göfgað sálir þeirra, með baráttu og sigri yfir freistingunni.

HEILÓ

Enginn milljónamæringur átti betri ráð á því að breyta um bústað, eftir eðlisins innstu vild. Hún sá þá á ýmislitum fötum, eftir því hvernig sólargeislinn hallaðist á þá, um leið og hún þaut fram hjá þeim, með snöggum dýfum og mjúkum sundtökum, frí og frjáls á moldinni, sem batt þá svo fast við sig.

Hún öfundaði þá ekki. Hennar eigin klæði voru eftir hennar innstu hjartans ósk, þó að hún hvorki hefði unnið þau né spunnið. En stundum hafði hún einhvern óljósan fuglsgrun um það, að hún væri öfunduð. Hún heyrði stundum eins og andvörp saman við vindniðinn, þar sem hún leið fram hjá þeim jarðbundnu, og þá fannst henni eins og hún þyrfti að setjast dálítið nær þeim, sem andvörpin komu frá. Ótti hennar minnkaði og sefaðist, og aumingja litla hjartað varð fullt af kærleik, sem hún hefði sýnt öllum, ef hún hefði aðeins þorað. Undir háum, þéttum laufhjálmum, þar sem sumarþýður vetrarblær leið hjá, og yfir smáum, skjálfandi greinum í krækluðu kjarri á frostköldum sumardögum bar hún alltaf tryggðina með sér, yfir allar óraleiðir. Enginn maður veit hvert mál hún hefur talað við ættingja og vini af sínum eigin flokki. En allir vita, að afl tryggðarinnar mælist við þá fjarlægð, sem hún nær yfir. Og heiló átti heima á kalda hólmanum á sumrin, en á veturna í sólskinslandinu. Milli beggja þessara stöðva bar tryggðin hana fram og aftur og óx jafnan, til þess sem hún skildi við, við hvert vængjatak, sem fjarlægði hana frá því.

Þannig hafði hún byggt sína ósýnilegu, löngu loftbrú milli tveggja heimshluta, um nokkrar árstíðir. — Enginn þurfti að segja henni um stöðu stjarna né hnatta. Það var allt skrifað óafmáanlega inn í smáheilann og hvernig sem stormurinn stóð, og hvernig sem loftbeltin glímdu hvert við annað, með hita og kulda, þá fór hún jafnan þráðbeint milli brúarstöplanna og skeikaði aldrei. Hún mundi vel eftir því, hvað hún hafði sjálf orðið forviða í fyrsta sinn, sem hún tók hafflugið. Hún var fædd og upp alin á Bláskógavegi, nálægt fáeinum bjarkarrunnum, með eitthvert víðasta og fegursta útsýnið, sem sést á Íslandi. Á dálítilli mosasyllu, inni í hraunsprungu, sem var rétt að segja gróin upp, hafði móðir hennar búið um hana, og þar sá hún systkini sín gera það sama og hún gerði sjálf og fann að hún átti félagsskap við aðra sem voru henni líkir. Hún átti ekki að vera ein. Hún var félagsfugl og farfugl.

En þetta sumar, þegar hún sá heiminn fyrst, var kalt á Norðurlandi. Refirnir voru farnir að treina sér það, sem þeir gátu náð í af kindakjöti, og sóttu fast á fuglana. Það haustaði fljótt og farþráin laumaðist inn í lóuhjörtun, fyrr en venjulegt var. Þá var það einn dag, þegar leið á sumarið, að móðirin kom með undarlegum vængjaburði til barnanna, þar sem þau voru að kroppa smáagnir úr lyngi og mosa. Og allir skildu, að hætta var á ferðum. Heiló heyrði refstannirnar smella saman rétt fyrir neðan sig, þegar hún hentist upp í loftið, ásamt systkinum sínum og móður.

Hún varð óttalega hrædd og flaug eitthvað út í loftið til þess að forða unga lifinu. Og þegar hún loksins áttaði sig, þá var hún ein, glataður frávillingur. Svo flaug hún fram og aftur yfir átthaganum, en forðaðist þó blettinn þar sem hún hafði heyrt refshvoftinn glepsa. En hún var týnd úr fjölskyldunni, og þó hún sæi ókunnugar lóur, gaf hún sig ekki að þeim.

Og einhvern veginn fór það svo, að hún varð síðbúin og fann engan flokk til að fylgja. Norðurlandsloftið léttist og þynntist og tók hörðum tökum á fiðraða brjóstinu, þar sem tryggðin geymdist. Hún leit yfir fjallahringinn. Þessi svipmikli hrjósturheimur ljósmyndaðist inn í lífsfrumur hennar, og hún drakk að sér endurminning, sem hún vissi, að hún átti aldrei að gleyma. En svo sneri hún bringunni til annarrar áttar og eðlið knúði hana beina leið fram. — Því var hún forviða á, þegar hún kom til fyrsta landsins og hvíldi sig stutta stund, að hún skyldi hafa ratað beina leið yfir djúpið, án þess að eiga nokkurn efa.

Næst valdi hún sér sjálf verustaðinn, nálægt alfaraveginum á upprunastöðvum sínum. Þar sá hún stundum menn, svo ólíka þeim, sem bjuggu nálægt stóru trjánum. En einstöku sinnum heyrði hún varpað öndinni á Bláskógaveginum rétt þar hjá, sem hún flaug, um leið og hún sleppti seinasta tóninum í ljóðinu sínu. Þá dró hún sig nær og skoppaði af einni þúfu á aðra. Það var eins og hún fyndi, að hún kom og hvarf með sárar mannlegar minningar, þar sem hún fór með snöggu, litlu vængina, lagða saman eða breidda út. Enginn maður reyndi nokkru sinni að gera henni mein.

En svo varð það eitt haust, að hún kom við sunnarlega á hólmanum á leið til sólarlandsins. Þar sá hún mann, sem hún hefði viljað svo gjarnan gleðja, og hún kvakaði og dró augu hans að sér. Maðurinn stóð kyrr og brá upp einhverju, sem glampaði á í dagsljósinu. Heiló óttaðist ekki neitt og hélt, að sér mundi berast þetta sama hljóð, sem hún hafði heyrt svo oft frá brjóstum mannanna, þegar þeir urðu hennar varir.

Svo leið eitt augnablik. Hún fann höfuðið leggjast niður á þúfuna, sem hún stóð á — og litla augað, sem geymdi í sér myndina af fjallahringnum mikla, lokaðist að eilífu.

SELVEIÐIN

Þessi hyldjúpu andköf úthafsins, sem aldrei hverfa úr minni neins Norðlendings, liðu langar leiðir inn yfir landið og drógu hugi og hjörtu með sér í ómælandi fjarlægðir, fram í fjallageima og út yfir djúpmið. — Ég var að raða skotfærunum í dálítinn skinnpoka og var albúinn af stað, vestur á flóa, þar sem ég bjóst við, hálft í hvoru, að ég mundi hitta útsel, því að mikill vaður hafði sézt fara geysandi yfir sjóinn, á leið að austan, fyrir fáum dögum. En þennan morgun var himneskt vorveður og sjórinn spegilfáður, þó að landbárur og boðar létu þrumuraddirnar dynja fram með öllum ströndum.

Við vorum þrír á kænunni, kátir, ungir og vel nestaðir. Hvað á dauðlegt líf ágætara að bjóða en slíkan dag og þvílíka volduga, dragandi fegurð? Eilífðin brosti í þessari skínandi skuggsjá, hafi öræfanna, og átti um leið náðargeisla handa þeim minnsta smælingja, sem leita vildi upp í ljósið frá myrkrum djúpsins. Rétt við vörina vöktu birtingarnir og létu heila heima glitra á hreistrinu. Hrognkelsi sveimuðu á grunni, milli landsteinanna, með blakka, hrjúfa hryggi í vatnsborðinu, til þess að dýrð sólarinnar mætti líta þá og snerta. Landkóparnir iðuðu í látrunum, sælir og glampandi, með síopin augu. Veldi og skraut norðlenzkrar náttúru ríkti yfir öllu á sjó og landi.

Við rerum þegjandi langa leið vestur án þess að verða varir þeirrar veiði, sem við leituðum eftir. Hafsogið heyrðist dýpra og þyngra í allri kyrrðinni. Ómælisvídd þessarar kvikandi, hyldjúpu veraldar greip okkur og gjörði okkur hljóða. Engan svartan koll var að sjá í speglinum. En við námum staðar við og við og hvíldum á árunum. Því að nú vorum við komnir á þær stöðvar, þar sem búast mátti við, að útselir kynnu að sveima á stangli.

Hádegið ljómaði á fjallahringunum, og við höfðum nú róið nálægt tveim vikum. Sjávarloftið og róðurinn hafði þegar um stund dregið augu annars af hásetum mínum að hringgerðu opi á afturþóftunni, sem kallast biti, þar sem nestið var geymt. Ég hafði veitt þessu eftirtekt, og allt í einu voru árarnar lagðar upp með þegjandi samþykki allra. Fararbirgðirnar voru reiddar fram. ―

Við höfðum matazt um stund, þegar annar ræðarinn lagði harðfiskinn snöggt frá sér og þaggaði okkur með bendingu. Ég leit við og sá, á að gizka í tvö hundruð faðma fjarlægð, svart og mikið höfuð, sem var að dýfa sér undir lognborðið. Ég lagði stýrið um og beindi bátnum þangað, sem bráðinni var ætlað að koma upp.

Selurinn kafaði afarlangt, en ekki í þá átt, sem okkur sýndist hann taka dýfuna. Fjarlægðin var enn meiri en áður milli okkar og hans, þegar kollinum loksins skaut upp aftur. Við stefndum nú beint á hann. Þegar svo er róið, verður selurinn oft varari um sig og flýr beint undan. En þá er að herða róðurinn af ýtrasta megni og reyna að komast í færi þegar kafaranum skýtur upp. Hann hefur synt af alefli undirsjávar og verður að taka nokkur djúp andartog áður en hann dýfir sér á ný. Sé maður heppinn, fæst oft gott færi með þessum hætti, eftir annað eða þriðja kaf.

Í þetta sinn vorum við enn óheppnir. Selurinn kom upp langt fyrir aftan bátinn. Ég tók þá það ráð að leggja upp árar og hafast ekki að. Ég hafði séð, að þetta var afarstór útselur, af því kyni, sem kallast kampur, en þeir eru haldnir ganga næst landsel að skynsemd og forvitni. Selurinn tók nú dýfu frá bátnum, en ekki mjög langa. Annar hásetinn var neftóbaksmaður, og ég lánaði af honum rauðan vasaklút, sem ég lét lafa aftur af stýrinu. Svo biðum við kyrrir, án þess að láta neitt minnsta hljóð heyrast.

Eftir nokkur köf fór kampurinn að færast nær, og loksins kom ég skoti á hann, en hitti illa. Hann tók fyrst langa dýfu, en nú gátum við séð, hvert róa átti. Bráin á sjónum sagði til og svo fór óðum að draga saman með okkur. Selurinn var auðsjáanlega særður til ólífis. En þá kom það fyrir, sem ég get aldrei gleymt.

Kampurinn tróð marvaða og rétti sig upp, á að gizka fimmtíu faðma frá bátnum. Þetta færi var heldur langt fyrir högl, en samt miðaði ég og ætlaði að fara að hleypa af. En þá greip selurinn til sunds beint á bátinn. Ég hafði oft heyrt sagt frá því, hvernig selir réðist á báta, þegar líkt stóð á. En það var eins og eitthvert óskiljanlegt hik kæmi yfir okkur alla. Við hreyfðum okkur ekki í bátnum og kampurinn rétti sig aftur upp örfáa faðma frá kænunni.

Blóðið lagaði úr sári á kverkinni og yfir granirnar. Mér sýndist hann einblína á mig, þarna sem ég stóð í skutnum á selabyttunni með morðvopnið til taks á móti þessum saklausa, forvitna einstæðing hafsins, sem var viðskila við sitt eigið kyn, sjálfur aðeins óvopnaður meinleysingi.

Eflaust hefur sú breyting verið áður að ná tökum á mér, smátt og smátt, að aumkva dýrin eins og mennina, þegar þau eru í nauð eða verða fyrir meiðslum og dauða. Mér finnst það nú til dæmis með öllu óskiljanlegt, hvernig ég hef getað fengið af mér að drepa saklausa fugla mér til gamans, án þess að nein neyð kreppti að mér. Endurminningar um þetta fylla mig oft viðbjóði og andstyggð á minni eigin tilgangslausu og léttúðugu grimmd. En í þetta skipti opnuðust fyrst augu mín. Þessi blóðuga, mállausa ákæra stendur mér oft fyrir hugskoti — en ég hef aldrei fyrr komið mér til þess að færa neitt um það í letur.

Kampurinn gjörði enga tilraun til árásar á bátinn — og svo leið þetta andartak, sem verður að notast, með skutli eða áróðri, ef veiðin á ekki að mistakast. En selurinn steinsökk í sama svip — og eitthvert hulið afl lagði þögn og kyrrð yfir þessa litlu bátshöfn, sem fremur hafði lagt af stað í þessa veiðiför af leik heldur en þörf.

Maður í álögum, segir gamla sagan! Ég get ekki gjört mér grein fyrir, hve oft ég hef, síðan þetta kom fyrir, hugsað um lið Faraós og sækonur þjóðsagnanna. En óendanlegur tregi og iðrun kemur upp hjá mér, þegar ég minnist þess augnaráðs, sem selurinn beindi á mig, þegar hann hvarf í djúpið.

— Ég hef ætíð orðið staðfastari með árum og reynslu í sannfæringu minni um algjört orsakasamband, milli alls og allra. Þessi viðburður, sem er mér svo minnisstæður, hefur sjálfsagt átt að vera mér bending, samkvæmt æðri ráðstöfun. Ef til vill hefur mér verið ætlað, þegar á þessu skeiði æsku minnar, að innrætast einhver neisti af miskunnsemi við aðra, sem máttu sín miður eða báru þyngri byrði.

En hvílíkur óteljanlegur fjöldi atvika birtist í örsnöggri svipan fyrir athugulum augum í borgum þúsunda og milljóna, í kvikmyndastraumi strætalífs og skemmtihalla, — þar sem ætíð og alls staðar endurtekur sig hin sama saga. Er ekki hamingja heimsins grundvölluð á samanburði eigin auðæfa, yfirburða, fegurðar og fróðleiks gagnvart þeim snauðu, grunnhyggnu, miður menntuðu og óásjálegri, er byggja umhverfi staðanna, margir við eymd og tötra? Hver ómælisgeimur af örbirgð og læging þarf að hlaðast undir stétt hinna æðri, sem svo kallast, til þess að þeir geti þóknast sér sjálfum og fundið sinn eigin mikilleik.

Hve ótölulega mörg bleik, deyjandi andlit sökkva í þetta friðaða, lygna yfirborð mannhafsins, sem geymir dauða og glötun? Gangi ég fram hjá tötruðum beiningamanni, sný ég stundum aftur. Er það blóðuga myndin, sökkvandi við borðstokkinn sem gægist upp í öræfum minninganna?

UNDAN KROSSINUM

ÓFULLGERT SÖGUBROT

I

Haustmánuðurinn var nýgenginn í garð, og það var kolsvart kveldmyrkur yfir bænum og öllu umhverfis hann. — Hlýr landsynningur, með regnslitrum og ójöfnum köstum, þaut hart við burstir og horn á húsunum og hvarf svo út í hafið, sem rann saman við rökkurvegginn fyrir auganu — en landbárugjálfrið og vindþyturinn niðaði fyrir eyranu með einum og sama rómi.

Eitt og eitt götuljós klauf sig í gegnum regnið, veðrið og myrkrið og brá skímu yfir stræti og stéttir, með breiðum skuggabeltum milli ljósrákanna. — Það var liðið fram að síðasta háttatíma og örfátt lifandi að sjá á gangi — svefnherbergin lýst, en stofugluggar flestir myrkir.

Nú sérðu Reykjavík, stúlkan mín, sagði rám og djúp karlmannsrödd, um leið og nokkrir klyfjaðir hestar brokkuðu inn í fyrstu ljósrákina á efstu götu bæjarins. Og í sömu andrá var blásið fast í sterkan koparlúður, rétt fyrir aftan hestana.

Sú, sem talað var til, var ungleg stúlka með kolllágan stráhatt á höfði og í dökkri, stórgerðri olíukápu með regnhettu yfir. Hún reið við hliðina á póstinum og bretti hettuna frá andlitinu til þess að sjá betur. — Húsin komu nú fram úr myrkrinu, eitt og eitt til hvorrar handar, og það tók undir í veggjum og stöfnum af hestatraðkinu. En einstaka síðfara göngumaður mætti lestinni og vék út á götubrúnirnar. Svo var hornið þeytt aftur, enn hvellara og með afarlangri lotu, svo að það heyrðist út í hvern afkima á bænum — en hálfsofnaðir borgarar byltu sér önuglega á sængunum. Hvern fjandann varðaði þá um það, þó Norðanpósturinn væri kominn og hefði getað „haldið áætlun“?

— Nokkuð títt úr sveitinni? spurði sá, sem tók á móti koffortunum við pósthúsið, og nuggaði augun með handarbakinu.

O, fari í helvíti — svaraði sá rámi. Ekki nema nokkur skipströnd á Eyjafirði. Svo drap sig maður með sauðaklippum á Mýrunum, nýverið. Einhvers staðar í norðursýslunum hrapaði meri niður í opna gröf í kirkjugarði og hálsbrotnaði. Presturinn dró hana sjálfur upp á taglinu.

Nú ertu að ljúga eins og þú ert vanur, sagði pósthúsþjónninn og glotti þó við, hálfnauðugur. — Mikill póstur?

Onei, ekkert meir' en sum so. En ég er kappánægður með það handa truntunum. Þær hafa haft nóg pakkveti að dragnast með, blindandi, í þessari helvízkri súrtansíu. — En, hvað ég vildi segja. Mundi, farðu með stúlkunni þangað, sem hún ætlar að vera. Henni veitir víst ekki af því að fara að hvíla sig.

Samkvæmt þessum fyrirmælum póstsins tók piltur nokkur, er verið hafði með í ferðinni, í taumana á hesti stúlkunnar og sneri honum við, þangað sem hann vissi að hún hafði heitið ferðinni. Það var í einni af smágötum Vesturbæjarins, sem hún átti að nátta sig.

Hún lét hestinn ganga fót fyrir fót á eftir fylgdarmanninum, og þannig fór hún í gegnum bæinn endilangan, fyrsta sinn, án þess að sjá mikið annað en ljóstýrurnar, sem depluðu augunum út í myrkrið hér og þar eða létu þau aftur, hvert eftir annað.

Leiðsögumaðurinn staðnæmdist loksins fyrir framan lágt og óásjálegt hús, er stóð langt frá götunni, inni á milli hálffallinna grjótgirðinga og rófureita. Húsið var gamalt og flest fornfálegt að sjá í kringum það.

Hérna eigum við nú víst að berja að dyrum, sagði pilturinn. Það er bezt, að þér komið af baki. — En harkið fyrir utan dyrnar hafði vakið eftirtekt einhvers, sem enn var á ferli inni fyrir, og íslenzkt skóhljóð heyrðist nú við dyrnar. Svo var þeim lokið upp, og gömul kona, fremur fátæklega klædd, steig út á efsta þrepið á tröppunni, sem var hálfbrotin og fúin, svo að hún bar varla mannsþunga.

Ert það þú, barnið gott? Komdu sæl og velkomin, Fríða mín. Við áttum öll von á þér fyrr í kvöld — en ég hef beðið lengur en hitt fólkið. Mig grunaði alltaf, að þú mundir koma í dag. — Allt þetta var sagt í þægilegum málróm og blíðlega, en röddin var ekki hrein og skalf við.

Komdu sæl, góða frænka mín, var nú svarað með þýðri og skærri kvenmannsrödd fyrir neðan tröppurnar, og svo var heilsazt með löngum kossum, eins og íslenzk tízka er til. — Mér fellur það illa, að ég hef látið ykkur bíða. En hvað á ég nú að gjöra við hestinn minn?

Þú gjörir svo vel og tekur hestinn, drengur minn, og lætur hann vera með hestunum ykkar þangað til á morgun. Reiðverið og beizlið geturðu látið hérna inn í skúrinn. En komdu nú inn, Fríða litla, og láttu okkur annast þetta allt, bætti gamla konan við. Þú þarft að fá mat, og svo þarftu að sofa.

II

Má ég hafa þann heiður og ánægju að nefna fyrir yður einn af mínum tryggu vinum og meðbræðrum í alls konar vísindalegri iðkan, stúdíósus í handlækningum og meðalafræði, Harald Þórarinsson? — Fröken Hólmfríður Stefánsdóttir! — Það er sjaldan, sem mér gefst færi á að auðsýna þér slíkan velgjörning, Haraldur, eins og þann að koma þér í svo góð kynni. Fröken Hólmfríður er frændkona stjúpu minnar, nýkomin norðan af landi.

Sá, sem talaði, var ungur, gildvaxinn maður, um tvítugt, ekki fríður, en kviklegur, með fjörugu yfirbragði. — Hann bar nemendahúfu íslenzka á höfði og stokk í hendi. Um leið og hann sagði síðustu orðin, brosti hann til Hólmfríðar, sem stóð rétt fyrir framan hann á götunni, nálægt húsi því, er hún hafði fyrst komið til fyrir rúmum mánuði síðan.

Ef ég væri ekki orðin svo vön þessu skrýtna orðfæri, sem þér hafið, Valdemar, þá er ég viss um, að ég roðnaði í hvert skipti, sem þér talið til mín, svo ókunnugir menn heyra. Ég skil ekkert í því, hvernig stendur á því, að ég get ekki reiðzt við yður; það er eins og ég geti það ekki fyrir innvortis hlátri. Mér finnst rétt líkast því sem þér séuð að kitla mann nauðugan, þegar þér komið með þessar undarlegu, skrúfuðu klausur.

Já, mér finnst oft það sama, sagði Haraldur; en í þetta sinn þótti mér hann orða hugsanir sínar alveg eins og vera ber ― bætti hann við og beygði sig kurteislega, um leið og Hólmfríður rétti honum höndina.

Og mér heyrist þú sömuleiðis vera farinn að tala bókmál, mossjö. En annars ætla ég að láta þig og aðra vita, að það er ekki svo gott að dæma um, hvernig ég orða hugsanir mínar ― sagði Valdemar og sendi félaga sínum miður gott auga um leið. Það var auðséð, að honum líkuðu ekki athugasemdirnar.

Eigum við ekki að ganga eitthvað fram eða aftur? Það er svo undarlegt að standa svona lengi á götunni í sömu sporum, sagði Hólmfríður og sneri sér á hæl með regnhlífina eins og göngustaf í annarri hendi.

Jú, það væri synd að leyfa ekki fleirum íbúum staðarins að sjá okkur, svaraði Valdemar. Við skulum ganga austur í bæ og vita, hvað við fáum að sjá í staðinn.

Svo gengu þau þrjú saman niður Vesturgötu, áleiðis til aðalbæjarins.

Það varð ekki séð á göngulagi Hólmfríðar né framkomu, að hún væri nýkomin úr sveitinni. Hún hafði á þessum stutta tíma, frá því að hún heilsaði frænku sinni á gömlu, fúnu tröppunum, numið ótrúlega fljótt allar þessar smálistir í fasi, limaburði og uppliti, sem auðkenna bæjarvanar stúlkur frá hinum, sem alizt hafa upp fyrir innan túngarðinn og lítið farið út fyrir hann. Hún lagði fæturna mátulega mikið út og gekk með beinu baki. Handleggina rétti hún niður með sér og beygði þá ekki í olnbogaliðnum. Hún leit ekki á þann, sem gekk með henni, en horfði beint fram; það voru aðeins augun, sem hún lét hafa frelsi til þess að snúa að eða frá því, sem fyrir þau bar, eftir því sem þau lysti. Og piltarnir sögðu, að hún kynni að beita þeim.

Hólmfríður var álitin af öllum einhver laglegasta stúlka, sem sézt hafði í Reykjavík, ekki einungis vegna andlitsfallsins sjálfs — sem menn líta einatt allt of mikið á eitt sér — heldur af því að hún var öll, hvar sem á hana var litið, alveg eins og auga manns óskaði. Um þetta voru menn óvenjulega samdóma.

Hún var í meðallagi há og fremur grönn, fölleit með dökk, glampandi augu og sítt, þykkt hár, skoljarpt, sem hún bar mörgum fléttum. Höndin var ekki smá — það var það eina, sem óprýddi hana — en fóturinn var hæfilega stór og vöxturinn allur, milli handar og fóts, af því tagi, sem hrífur hvert karlmannsauga þegar í stað. Mitti, herðar, brjóst og limir voru hvað eftir öðru og algerlega fullkomið, eins og úthöggið listaverk hvert fyrir sig, en þó ekki með þessu kalda, reglubundna sniði, sem minnir á myndablöð skraddara eða uppbúnar glerbrúður.

Skólapiltar, stúdentar og aðrir, sem þekktu þá Valdemar og Harald, tóku allir ofan fyrir þeim á leiðinni, og Hólmfríður hafði nóg að gjöra að heilsa til beggja handa. Hún gjörði það létt og kvenlega, hvorki með of miklum hneigingum né of þurrlega — sem svo mörgum Víkurkonum hættir við, en slík ókurteisi kvenfólksins sýnir meðal annars glögglega, að hið almenna uppeldi í þessum stað er á mjög lágu stigi.

Haraldur Þórarinsson var álitinn reglusamur og iðinn nemandi, enda þótt sumir vel kunnugir vissu, að hann átti það til að slá sér lausum, helzt heima hjá sér innan fjögra veggja. En Valdemar hafði annað orð á sér í bænum, og menn töluðu margt um líferni hans. Hólmfríður hafði skjótt komizt á snoðir um þetta og var ekki vön að ganga með honum á götunum, og hún hefði heldur ekki gert það í þetta sinn, ef hún hefði ekki haft aðra fylgd með, sem hún vissi af afspurn að var góð.

Ýmsir góðkunningjar Valdemars, sem mættu þeim á veginum, litu til hans svo og svo eins og menn gjöra, þegar þeir hugsa margt, en hann lét sem hann sæi það ekki, enda mátti segja honum það til hróss, að hann var grafþögull um alla viðkynning sína við kvenfólk og dulur í öllum slíkum sökum, þó hann væri í sinn hóp; og því héldu menn að hann ætti helzt að þakka, hvað hann virtist vel metinn af ýmsum stúlkum bæjarins, helzt þeim, sem voru léttúðugar og ekki hissa á tíðinni.

Mikil skelfing er úti af fólkinu í dag, sagði Hólmfríður. Ég man ekki eftir að hafa mætt svo mörgum á svo stuttri stund.

Veðrið er svo óvenjulega gott. Það er næstum því of mollulegt, sagði Haraldur.

Mér er heldur ekki um þennan nýmjólkurvolga vind, sagði Valdemar. En það er nú alls ekki vegna veðursins, sem svo margir eru úti í þetta sinn. Ég þekki andlitin flestöll og veit, hvers konar fólk það er. Þetta er bezti tími dagsins, það er hvorki dagsbirta né dimmt af kvöldi, heldur svona mitt á milli og beggja blands, rétt eins og þeir vilja hafa það. Sjáið þið þessa, sem kemur á stéttinni til vinstri. Hún er sannarlega ekki neitt ljóssins barn — en þó of góð til þess að ganga mikið í myrkrinu.

Þekkið þér hana?

Ég þekki alla hér í bænum — og allir þekkja mig, sagði Valdemar, það þarf heldur ekki neitt stálminni til þess að kannast við það helzta af fólkinu hérna, sálnaregistrið er ekki svo langt. Að minnsta kosti þarf engum að blöskra mergðin af laglega fólkinu, sem hefur ástæðu til þess að fara út til þess að sjá og sýnast. Ég þekki, bókstaflega talað, ekki nema eina einustu stúlku í bænum núna, sem ég hef neitt yndi af að horfa á.

Það er skrambi handhæg setning — þú getur alltaf notað hana hvar sem er, án þess að hún slitni, sagði Haraldur. Ég hef heyrt þig segja hana áður.

Og hún er alltaf jafnhreinskilnislega meint.

Jú, jafnhreinskilnislega, því trúi ég vel, tók Hólmfríður fram í hálfhlæjandi. En hver er þessi eina? Er það of djarft af mér að spyrja?

Sú sem ég tala við, svaraði Valdemar alvarlegur á svipinn og vék Hólmfríði undan grjótsleða, sem kom á móti þeim.

Vel svarað, sagði Haraldur. Þér megið ekki spyrja frekar, fröken, það væri synd. Hann hefur komizt ágætlega út úr þessu. — En þarna sé ég einn, sem sannarlega er að bíða eftir myrkrinu. Hvað hugsar maðurinn?

Sá, sem Haraldur átti við, gekk beint í veg fyrir þau. Það var ungur maður, vel klæddur, af öðrum æðri skóla bæjarins. Hann var auðsælega mjög drukkinn — rétt svo að hann gat gengið nokkurn veginn beint eftir götunni. — Ah so, kallaði hann hátt á móti þeim Valdemar og Haraldi, sem viku strax undan yfir á hina götustéttina. Ein ný! — Hem. — Og svo rak hann upp háan rustahlátur og hikstaði við. Menn sneru sér við og horfðu á hann — og þá, sem hann talaði til.

Hólmfríður varð fyrst blóðrauð í framan og svo drifhvít. — Þetta hefur maður fyrir það að verða ykkur samferða, þessum kunningjum allra mögulegra manna, sagði_hún hálfreiðulega, um leið og hún leit til Valdemars.

Þessi kumpán er ekki neinn félagi minn — og það er ekki mér að kenna, þó hann þegði ekki í þetta sinn, sagði Valdemar og sendi Haraldi augað aftur. Annars skulum við ekki vera að fást um þetta, því hann er nú kominn fyrir hornið, og enginn hefur tekið eftir þessu.

Þau gengu öll nokkra stund þegjandi austur eftir. Loftið var að þyngjast og dökkna meir og meir. Það var eins og svartur dúkur væri breiddur yfir jörðina einhvers staðar hæst uppi hvolfi og að hann væri látinn síga niður hægt og hægt, svo að menn gætu búið sig undir það í tíma að útvega sér aðra birtu stað dagsins. Hæg sunnangola andaði við og við yfir bæinn með löngum lognhvíldum á milli og bærði naumast fjaðrirnar á kvenhöttunum.

Hvað átti hann við? spurði Hólmfríður eftir langa þögn. Ein ný! Það var einhver svo ófyrirleitinn tónn í orðunum — og eins og hann þættist vita eitthvað, sem hann kærði sig ekki um að segja.

Ein ný! — O, það eru nú reyndar ekki mikil bein í því, sagði Valdemar, þó það væri ófyrirgefanlegt af honum að leyfa sér að yrða á okkur. Hann meinti náttúrlega, að þér væruð nýkomin til bæjarins — og svo bætti hann við í sinum venjulega stíl — en eins og aðrir innbyggjarar þessa staðar, hefur athygli hans eðlilega vakizt af fegurð þessarar nýju stjúp-frænku minnar, sem talað er um með svo almennri aðdáun.

Hólmfríður lézt vera reið enn, en undir niðri gat henni ekki þótt annað en vænt um að heyra þetta — því hana grunaði, að það mundi vera satt, enda þó það kæmi frá Valdemari. Og svo var hún heldur ekki alveg laus við að gleðjast yfir því, að honum leizt vel á hana. Valdemar var sá fyrsti menntaði bæjarmaður, sem hún hafði kynnzt, og hann var langt frá því að vera óálitlegur í sjón. Hann var ræðinn og skemmtilegur og útbúinn flestum þeim eiginleikum, sem nauðsynlegir eru til þess að þóknast kvenmönnum, sem þekkja heiminn ekki of vel, en óska þó að þekkja hann, án þess að þær viti af því sjálfar.

Þau voru nú komin austur fyrir lækjarbrú, og Hólmfríður vildi snúa aftur — en Valdemar lagði til, að þau gengju alla leið upp fyrir bæinn, þá mundu þau verða komin mátulega vestur eftir aftur. Og svo héldu þau áfram upp allan veg, upp fyrir efstu húsin. — Þegar þau sneru við, var farið að skyggja töluvert, og einn og einn regndropa sleit úr loftinu. Eftir nokkur augnablik var komið steypiregn.

Hólmfríður spennti upp regnhlífina, og þeir brettu upp kragana; svo flýttu þau sér, allt hvað þau gátu, vestur eftir — en rigningin byltist yfir þau í straumum, og allar götur og rennur flóðu í vatni á örstuttri stund.

Við megum til að stinga okkur inn hjá þér, Haraldur, sagði Valdemar. Við verðum annars hundvotir — og þér hljótið Líka að verða blaut, fröken. Það er ómögulegt, að neinn geti hneykslazt á því, þó maður láti undan höfuðskepnunum.

Nei, ég vil ekki fara inn neins staðar, sagði hún fljótt; ég ætla að komast heim. En farið þið inn — þið þurfið ekki að fylgja mér. Nei, við þökkum yður fyrir. Við tökum þetta þá eins og hvert annað ókeypis bað hér að ofan — og afhendum yður í hendur stjúpu minnar með góðum skilum. — March.

Þau héldu enn áfram nokkra stund þegjandi. Svo spurði Hólmfríður án þess að horfa á Harald: Hvar eigið þér heima?

Rétt fyrir handan hornið, svaraði hann. Ekki faðmslengd frá veginum, sem við göngum á.

Hólmfríður staðnæmdist á götunni, eins og hún vissi ekki, hvort hún ætti heldur að gjöra, en regnið hélt áfram að fossa niður, og nú sást enginn maður á götunni. Allir voru komnir undir þak, sem áttu sér hæli.

Verið þér ekki að þessu, fröken. Komið þér inn. Við erum engir stigamenn; yður er alveg óhætt að sitja af yður skúrina inni, sagði Haraldur og vék um leið fyrir hornið.

Svo gekk Hólmfríður inn og Valdemar á eftir.

III

Daginn eftir lá Hólmfríður í rúmi sínu nokkuð lengur fram eftir en hún var vön. — Hún hélt höndunum undir höfðinu og horfði út í loftið. Hún var að hugsa um það, sem skeð hafði kvöldið áður, inni hjá þessum Haraldi, sem hún hafði aldrei talað orð við fyrr en í gær og var þó orðin svo kunnug nú, miklu kunnugri, fannst henni, heldur en Valdemar, sem hún hafði þó þekkt í margar vikur.

Þau höfðu setzt þarna inn öll saman og farið að tala um heima og geima. Valdemar hafði verið óvenjulega skemmtilegur og leikið á alls oddi, en Haraldur fálátari að sönnu, en þó þægilegur í viðmóti og blátt áfram. Henni hafði fallið eftir því betur við hann sem þau sátu lengur saman.

Rigningin hélt alltaf áfram í nokkra tíma, misjafnlega áköf, en það stytti þó ekki alveg upp fyrr en seint um kvöldið — og þá var þetta skeð, sem hún var að hugsa um.

Herbergi Haralds var laglegt og snyrtilega gengið þar um allt. Bókaskápur var í einu horninu, fullur af alls konar námsbókum, spegill og myndir á veggjunum, kringlótt borð, sófa og stólar, og svo var þar einhver svo hrein og þægileg lykt inni. Það var öðruvísi en herbergi Valdemars, sem hún hafði einu sinni litið inn í sem allra snöggvast. Þar var allt á tjá og tundri, varla nokkur bók að sjá, einir tveir hálfbrotnir stólar og rúm í sama herberginu. Hjá Haraldi var ekkert rúm. Hann hafði annað herbergi til að sofa í innar af.

Þau höfðu svo verið þarna saman talsvert lengi. Henni leið einhvern veginn svo vel þar — og kærði sig heldur ekki um að fara út, fyrr en vel dimmt væri orðið. Hún vildi ekki láta sjá sig koma þaðan — úr því að hún hafði verið svo heppin, að enginn tók eftir því, þegar hún fór inn.

Svo hafði Haraldur stungið upp á því að drekka eitt glas af víni — eða kannske var það Valdemar, sem hafði fyrst fært það í tal. Hún var enginn Good-Templar, og henni hafði alltaf þótt vín gott — en hún hafði aldrei drukkið nema eitt glas sama daginn fyrr en þetta kvöld.

Haraldur hafði spurt hana svo kurteislega um leyfi til þess að mega taka eitt glas með henni, að hún hafði einhvern veginn ekki getað neitað því, þó hún í rauninni hefði helzt ekki viljað láta hafa neitt vín um hönd, meðan hún var þarna inni. En hún gat ekki skilið, að það sakaði neitt — og svo flaug það henni í hug sem snöggvast, að hún væri frjáls, sinn eigin herra að öllu leyti — og þyrfti engan að spyrja leyfis. En það var ekki nema snöggvast — því hún fann, að þann veg mátti hún ekki hugsa. Allir verða að spyrja alla leyfis um allt — hafði Valdemar einhvern tíma sagt við hana, þegar hann var að atyrða Reykjavíkurbúa fyrir söguburð og afskiptasemi hvers af annars högum. — En endinn á þessu öllu saman varð sá, að hún drakk af glasi því, sem Haraldur hellti á fyrir hana.

Hún þekkti ekki vínið, en það var sætt og þykkt með einhverjum sterkum kryddkeimi. Henni fannst það, strax eftir að hún hafði drukkið niður í mitt glasið, knýja blóðið upp til höfuðsins og læsa sig út í allar taugarnar. Valdemar kallaði það einhverju frönsku nafni.

Þeir höfðu drukkið glas eftir glas og aðeins buðu henni meira hvert skipti, sem þeir helltu á, en neyddu hana alls ekki til að þiggja það. Hún hafði alls drukkið tvö eða þrjú glös, en þeir drukku mikið meira, og það, sem hana furðaði mest á, var, að Haraldur sýndist drekka mikið örar en hinn. Svo höfðu þeir kveikt og látið gluggatjöldin niður, og hún hélt áfram að sitja þarna hjá þeim — hún vissi hreint ekki, hvað það var, sem hélt í hana að fara ekki. Því hún fann, að hún hefði átt að fara — helzt strax, og allra helzt, að hún hefði aldrei átt að stíga þangað fæti.

En það var nú einhvern veginn svo, að hún sat kyrr, og þeir voru alltaf að verða kátari og kátari — og hún sjálf með, því varð ekki neitað. Þeir voru raunar mjög kurteisir í öllu sínu tali og framkomu, en þeir voru farnir að hlæja miklu háværar og lengur, og sumt af því, sem þeir sögðu, skildi hún alls ekki. — Vínið og eimurinn af þessum sterka hengilampa gjörði loftið svo heitt í herberginu, en þó ekki neitt óþægilegt. Henni fannst hún vera eins og í öðrum heimi — og þá var það ekki af því, að hún fyndi á sér af víninu. Það var eitthvað annað nýtt, sem hún hafði aldrei orðið vör við fyrr.

Þegar hún hafði drukkið niður í mitt þriðja glasið, þá stóð hún upp og sagði þeim hreint og beint, að nú færi hún heim. Það var eins og hún vaknaði af draumi. Hamingjan góð, að sitja þarna ein með tveimur hálfkenndum stúdentum og drekka glas eftir glas af sterku áfengu víni — og vera sveitastúlka, nýkomin til bæjarins. — Henni datt í hug, hvað sá drukkni hafði sagt: Ein ný! Og um leið var hún staðin upp ósjálfrátt, áður en hún vissi af því.

Þeir höfðu hvorugur haft eitt orð á móti því, en hún sá þó á þeim báðum, að þeim féll illa að slíta samsætinu. — Svo tóku þeir á sig yfirhafnirnar þegjandi og bjuggu sig báðir til þess að fylgja henni heim. En hún setti sig nú þvert á móti því, að Haraldur færi hennar vegna að heiman frá sér. Hún vissi ekkert, af hverju hún gerði það — en hún hafði nú tekið í sig að ráða þessu.

Hún tók eftir því, að það kom eins og nýtt líf í augun á Valdemar, þegar Haraldur tók af sér kápuna; og hún var næstum farin að biðja hann aftur um að verða með þeim vestur eftir. En það dugði þó ekki, það fann hún strax. — Valdemar gekk á undan út, en Haraldur stóð í innri dyrunum.

Þá atvikaðist það svo, að ytri hurðin hallaðist aftur, þegar hún sneri sér við, því forstofan var svo þröng. Það var aðeins eitt augnablik — en í sama vetfangi fann hún, að það var tekið fast utan um hana, og heitt, skegglaust karlmannsandlit kyssti hana beint á varirnar, fast og hljóðlaust, aðeins eitt augnablik. Svo var henni sleppt, og það var eins og hún þyrfti ekki að hreyfa sig til þess að komast út. Hún stóð úti á götunni hjá Valdemar, svo að segja í sömu svipan, en Haraldur hneigði sig í ytri dyrunum og lét aftur.

Þau Valdemar töluðu fátt saman á leiðinni. Hún hafði átt von á því, að hann mundi segja eitthvað við sig, sem hún vildi ekki heyra, stinga upp á því, að þau skyldu leiðast, eða einhverju þess háttar, en hann gjörði það alls ekki, heldur gekk þegjandi mestallan veginn heim. Svo tók hann mjög kurteislega ofan fyrir henni, þegar þau voru komin heim að dyrunum, þar sem hún átti heima, og bauð góða nótt. Hún rétti höndina fram að fyrra bragði, og hann tók í hana, en hann hélt henni ekki lengur en almennt gjörist, og svo fór hann heim.

Hún skildi ekkert í Valdemar, hvernig hann var — allt öðruvísi heldur en hún hafði gjört sér í hugarlund og ekki líkur því, sem menn töluðu um hann.

Hún ásetti sér að ganga með Valdemar hér eftir, þegar svo bæri undir, án þess að fara neitt eftir því, sem sagt var honum til lasts.

En Haraldur. Hvað hafði hann leyft sér að gjöra? Hún stokkroðnaði, þegar henni datt það í hug, hvað hann hafði verið ósvífinn — ekki í rauninni af því, sem hann gerði, í sjálfu sér, heldur af því, að henni fannst það lýsa því, að hann virti hana svo lítils. Að taka utan um hálfókunnuga stúlku, af góðu fólki, og kyssa hana beint á munninn, án þess að segja eitt orð á undan eða eftir. Hann hafði farið með hana rétt eins og ósiðlega vinnukonu, sem engu getur reiðzt.

Hún spratt fram úr rúminu og fór að klæða sig. — Hún hugsaði sér að láta Harald finna það næst, þegar þau hittust, að hún virti hann ekki meira en hann hana. — Hún greiddi hárið niður fyrir andlitið og skyggndist í spegilinn, sem hékk á veggnum. Kinnarnar voru kófrjóðar ennþá. Og þó var hún eiginlega ekki reið af því, að hann kyssti hana — hefði hann aðeins haft leyfi til þess!

Þegar hún kom niður til frænku sinnar, lét hún ekkert bera á neinu, og þessi dagur leið og næsti dagur leið á sama hátt sem vant var, án þess að neitt markvert gerðist í ævisögu hennar og án þess, að henni gæfist færi á að hegna Haraldi á þann hátt, sem hún hafði hugsað sér.

Hún hafði eiginlega komið til Reykjavíkur í því skyni að mennta sig, en hún hafði þó ekki byrjað á neinu reglulegu námi ennþá. Hún hafði ekki ráðið það við sig, hvort hún ætti að ganga á skóla eða taka sér tímakennslu, og var í rauninni hálfóviss í því, hvernig hún mundi nota tímann í Reykjavík. Henni fannst hún eiga nóg eftir af vetrinum og hafði lítið annað gjört, síðan hún kom, heldur en að sauma ýmislegt smávegis handa sjálfri sér og gjöra við fatnað sinn.

Hún hafði síðastliðin ár skrifazt á við frænku sína Solveigu Tómasdóttur, sem átti þetta hús og var ekkja eftir gamlan skipstjóra, sem hafði gifzt henni um miðjan aldur. Þau áttu ekkert barn saman, en Valdemar var sonur þessa skipstjóra af fyrra hjónabandi. Hann hafði látið eftir sig nokkur efni, þar á meðal þetta hús með nokkurri lóð þar í kring, en nú var mikið farið að ganga af ekkjunni í þau sjö ár, sem hún hafði staðið ein uppi. En þegar Hólmfríður missti móður sína fyrir tveimur árum síðan, fékk hún bréf úr Reykjavík frá þessari frænku sinni, sem hún hafði ekki heyrt nefnda fyrr, með tilboði um að vera hjá henni í kosti og húsnæði einn vetrartíma eða svo. Hún var aðeins lítið eitt skyld Hólmfríði í föðurætt hennar, svo að hana hálffurðaði á þessu tilboði — en bréf þessa fjarlæga ættingja hennar hafði verið einhvern veginn svo hlýtt og innilega skrifað, að hún gat ekki annað en svarað því með þakklæti á þá leið, að hún hefði gjarnan viljað þiggja boðið, ef faðir hennar hefði mátt missa hana frá sér og heimilinu fyrir norðan.

Þessi faðir hennar var prestur á rýru brauði norðan lands og hafði þjónað því jafnlengi og Hólmfríður hafði lifað. Hann var fyrir löngu slitinn og farinn að heilsu af áhyggjum og drykkjuskap, og það var aðeins komið upp í vana fyrir sóknarbörnum hans að þola óreglu hans; annars mundi hann að líkindum hafa misst hempuna, þegar kirkjustjórnin fór að hlutast betur til um atferli presta og kærum tók að fjölga yfir líferni ýmsra hneykslisklerka hér á landi.

Prófasturinn í umdæminu sagði reyndar, að það væri ómögulegt að setja mann af embætti, sem skrifaði svo ljómandi fallegar skýrslur eins og síra Stefán Ögmundsson; — því hann var listaskrifari og teiknaði svo vel, þó hann hefði hvergi lært neitt í þeirri grein, að menn sendu honum grafskriftir og erfiljóð langar leiðir að, til þess að láta hann skrautrita þau og draga upp alls konar rósir og myndir á spássíurnar. Og margir í sókninni, þekktu það og vissu, að hann var framúrskarandi hjartagóður, og menn játuðu einnig, að hann gat haldið gullfallegar ræður við einstök tækifæri. En hvað hefði þetta allt dugað, ef kirkjustjórnin hefði fengið opinbera vitneskju um öll þau hneyksli, sem hann gerði jafnvel í messunum sjálfum og við önnur embættisverk? — Sumt af þeim var þess eðlis, að ekki var segjandi frá því — en sem betur fór komu þessi stórhneyksli ekki fyrir nema stöku sinnum, stundum ekki nema einu sinni eða tvisvar á ári. En drykkjuskapur hans utan kirkju gerði fjárhagnum og álitinu enn meira tjón. Það bar varla svo gest að garði, sem einhvern dropa hafði meðferðis af áfengi, að presturinn væri ekki samstundis búinn að hella því í sig, og svo var sent út í kaupstað eftir meiru, hvernig sem stóð á, og haldið áfram sukkinu stundum tvo, þrjá daga, þangað til síra Stefán varð veikur og lagðist í rúmið. — Á milli þessara drykkjukasta liðu svo oft nokkuð langir tímar.

Hólmfríður hafði átt tvö systkini, en þau dóu bæði ung, og hún var nú, eftir að móðirin loksins hafði fengið að deyja frá þessum auðnulausa heimilishag, einasta stoðin, sem hélt búi síra Stefáns saman. Því síðustu árin, sem hann lifði, keyrði svo fram úr hófi með drykkjuskap hans, að hann komst naumast úr rúminu. Þar lá hann marga daga út til enda með brennivínskút við höfðalagið og lét allt afskiptalaust heima fyrir. Hún mundi aðeins einu sinni eftir honum alódrukknum síðasta misserið, sem hann lifði. Það var einn morgun snemma, að honum var fært bréf í rúmið með stóru, bláu umslagi, og var skrifað utan á „embættiserindi“. — Hann las bréfið yfir hvað eftir annað og lá í rúminu með hendur undir höfði nokkra stund á eftir. Svo fór hann á fætur og leitaði lengi frammi í gömlu skattholi að hreinni pappírsörk, settist niður og skrifaði einn eða tvo tíma. Hún leit yfir öxlina á honum, og hún sá, að það, sem hann skrifaði, var dánarskýrsla. — Enginn hafði látizt í prestakallinu síðasta ár, en allir dálkarnir, línurnar og yfirskriftirnar stóðu svo ljómandi fallega af sér, og hver eyða var fyllt út með svo mikilli nákvæmni, eins og það hefði verið prentað. Stafagerðin var enn sú sama, einkennileg og smekkleg — en höndin var orðin ellihrum og skjálfandi, og henni rann til rifja að sjá, hvernig hann brosti til hennar, þegar hann lagði örkina frá sér.

Þetta er seinasta skýrslan, sem ég skrifa, Fríða mín, sagði hann svo — og eftir klukkutíma var hann orðinn dauðadrukkinn. Nokkrum vikum seinna lá hann örendur í rúmi sínu, þegar menn komu á fætur, með annað munnvikið lafandi niður og hægra augað lokað, en hitt opið. Hann hafði dáið af heilablóðfalli, sem hann hafði fengið í svefni um nóttina.

Áður en síra Stefán dó, hafði Hólmfríður skrifað mörg bréf til Solveigar frændkonu sinnar um hitt og þetta — sagt henni frá högum sínum öllum og, svo að segja, talað við hana eins og móður sína, um líf sitt og framtíð. En nú, þegar hún var orðin ein eftir, réði hún strax við sig að fara suður, því nú var það ekkert, sem batt hana við átthagana lengur. — Þegar selt hafði verið búið og skuldir goldnar, átti hún dálítið á 5. hundrað krónur í arf, og með þessa eign sína varð hún svo samferða póstinum suður til Reykjavíkur, fáum mánuðum eftir að faðir hennar dó.

Solveig gamla tók á móti henni að öllu leyti eins og dóttur sinni og var henni eins góð eins og hún gat óskað sér. Frelsið og áhyggjuleysið kom eins og langvarandi helgidagur yfir allt líf Hólmfríðar, og allir eiginleikar hennar komu nú fram eins og þeir voru. Menntun hennar var fremur áfátt, en hún hafði ósjálfrátt og meðfætt heldra kvenmanns snið á sér í látbragði og allri framgöngu, enda var hún komin af ágætri ætt í móðurkynið. Faðir hennar var bóndason, sem hafði verið sendur í skóla á sínum tíma á kostnað óskyldra manna sökum þess, hve gáfaður og efnilegur hann þótti vera. Móðirin var einnig allvel greind, hafði góða söngrödd og unni öllum listum og skemmtunum, en allt þetta hafði kúgazt úr henni í hjónabandinu við þennan drykkfellda, viljalausa og eyðilagða mann, sem hún átti.

Hólmfríði hafði lengi furðað á því, hvers vegna Solveig lagði svo mikla kærleika á hana, og það jafnvel löngu áður en þær höfðu sézt. Þessir kærleikar milli þeirra höfðu vaxið og þróazt gegnum bréf þau, sem þær skrifuðu hvor annarri, því báðar voru einstæðingar, hvor á sinn hátt, og það tengdi þær fastar saman. En eftir að Hólmfríður kom suður og sá Solveigu gömlu, sem henni fannst svo ólík öllu sínu fólki, er hún hafði séð, fór hún fyrst að undra sig alvarlega á því, hvernig stæði á því, að þessi efnalitla ekkja hafði lagt svo mikla rækt við hana. Og þegar hún vissi, að hagur frænku hennar var ekki betri en svo, setti hún það upp sem beint skilyrði, að hún mætti borga fyrir dvöl sína þar í húsinu, meðan hún væri þar, og við það varð að sitja.

Valdemar fékk mestallt það, sem stjúpa hans gat látið af mörkum, og hafði hann verið ærið þungur í skauti alla leið, síðan hann byrjaði nám í latínuskólanum. Hann átti enn tvö ár eftir á læknaskólanum og þótti ekki hafa lesið mikið, svo gamla konan hafði þar mikla áhyggju ofan á allt annað — en eina bótin var sú, að Valdemar bjó í öðru húsi og gætti þess vandlega að koma ekki fyrir augu stjúpu sinnar á þeim tíma, þegar séð varð, að hann hafði notið víns, og aldrei hafði hann heldur í frammi neitt léttúðartal, svo hún heyrði.

En allt þetta ástand og horfur þess heimilis, sem hún dvaldi nú á, minntu Hómfríði stundum á eitthvað óþægilegt, eitthvað, sem lá geymt undir niðri í huga hennar — og einstöku sinnum kom yfir hana einhver óljós grunur um það, að gæfuleysið væri ekki umflúið, þó hún væri komin hingað, að heiman. Var það ef til vill sama rótin til þessa alls, sama ættarfylgjan, sem eyddi allri æskugleði hennar og hryggði Solveigu gömlu í elli hennar? Nei — Solveig og hún voru allt of fjarskyldar til þess.

En það var ekki nema einstöku sinnum, sem þessar hugsanir leituðu á hana, og oftast nær naut hún þeirrar gleði og friðar, sem meðvitundin um að vera frjáls og engum skylduboðum annarra háð veittu henni.

IV

Síðan kvöldið, sem Valdemar fylgdi Hólmfríði heim frá herbergjum Haralds Þórarinssonar, hafði viðmót þeirra hvors gegn öðru breytzt töluvert. Valdemar var alvarlegri og kurteisari heldur en hann hafði verið áður, en hún var mikið alúðlegri við Valdemar og forðaðist aldrei að vera ein með honum, eins og hún hafði gjört fyrst, eftir að hún kynntist honum.

Annars breytti Valdemar ekki háttum sínum í neinu, og það var hægt að sjá, að framkoma hans gegn stjúpfrænkunni var önnur nú en áður, aðeins fyrir ytri atvik, en ekki af því, að Valdemar Jónasson væri ekki sami maðurinn sem fyrr.

En það var eins og Hólmfríður fengi því meiri mætur á honum sem hann var fálátari — og þannig leið og beið, þangað til að Valdemar gat ekki annað en trúað augum sínum til þess, að Hólmfríður mundi vera ástfangin af sér — og þótti honum það að sönnu ekki nema eðlilegt og sjálfsagt.

Það sanna var, að Valdemar hafði tekið eftir yfirbragði Hólmfríðar, þegar hún steig út af þrepskildinum hjá Haraldi kvöldið góða, og séð augað, sem hún sendi kunningja hans að skilnaði. Hann þekkti hurðina á þessari sömu forstofu frá fyrri tíð og vissi strax, hvað mundi hafa orðið. En jafnframt því, sem hann áleit þetta vináttubrot af Haraldi, reiddist hann þá einkum Hólmfríði, af því að hún þagði um þetta tiltæki Haralds, og það þótti honum verstur votturinn um það, hve skjótfengin væri blíða þessarar ungu, fríðu stúlku, sem hafði sýnt honum svo mikinn kulda frá því fyrsta.

Hann hætti að mestu allri umgengni við Harald og forðaðist að leiða hann á vegi Hólmfríðar — en eftir því sem lengra leið, fór honum að verða erfiðara að halda sér í skefjum, því Hólmfríður var nú beinlínis, að því sem honum sýndist, farin að sækjast eftir honum — því meir sem hann talaði alvarlegar og ókunnuglegar til hennar.

Svo var það eitt kvöld, er Valdemar hafði drukkið nokkur glös af öli sem oftar og var fullur af sjálfstrausti og fögnuði yfir lífinu, að hann hitti Hólmfríði á leið heim til sín og fylgdist með henni. Stjúpan var ekki heima, en stofan var upphituð og björt kolaglóð í ofninum, þegar þau komu inn. Hólmfríður tók af sér sjalið, áður en hún kveikti, og Valdemar fann kuldann og ilminn af henni um sig allan. Honum flaug í hug, hvað Haraldur mundi hafa gjört, þegar fordyrahurðin lagðist aftur — og hann gekk að henni og lagði höndina utan um mittið á henni, þrýsti henni að sér og hallaði sér fram til þess að kyssa hana.

Hólmfríður gat fyrst ekki áttað sig á því, hvað var að fara fram. Henni fannst líkast því sem hún sjálf væri einhvers staðar langt burt og að hún væri aðeins áhorfandi eða þögull vottur þess, sem skeði. En það var aðeins eina sekúndu. Þegar hún fann andlit Valdemars nálgast, vaknaði hún til ljósrar meðvitundar um, hvar hún var stödd — og á veggnum beint á móti, þar sem ofnljósið lék fram og aftur, sást risavaxinn skuggi af kvenmanni, sem rétti upp handlegginn, og svo heyrðist stuttur, snöggur smellur af vel útilátnum löðrungi.

Örskammri stund síðar gekk Valdemar burt frá húsinu, kviklegur á fæti, með nemandahúfuna lítið eitt halla á höfðinu — og leitaði til félaga sinna og þess gleðskapar, sem hann var vanur að taka þátt í.

Þetta atvik varð til þess að hraða Hólmfríði inn á þá braut, sem lá fyrir henni.

Þegar hún nú þóttist hafa fundið og sannfærzt um, hvers konar maður Valdemar var í raun réttri, þó hann kæmi fram við hana nokkurn tíma með kurteisu yfirskini, fór hún aftur að líta öðrum augum á það, sem þeim Haraldi hafði farið á milli. Honum hafði orðið það á, örum af víni og gleði, sem Valdemar hafði gjört án alls tilefnis, eins og hann hefði ásett sér það lengi og aðeins beðið eftir tækifærinu. Og hún gat heldur ekki gleymt því, hvernig hann tók löðrunginum. Hann var kaldur og rólegur, með hálfgerðu háðsbrosi, þegar hann fór út; — það var líkast því sem hann hefði lagt tíu aura bit í kaupanóló. — En Haraldur var alvarlegur, eins og hálfhryggur á svipinn, þegar hann hneigði sig í útidyrunum. Ef til vill elskaði Haraldur hana, en Valdemar stóð allt á sama, það sá hún nú.

Þessi hugsun, að Haraldur kynni ef til vill að elska hana, flaug inn í hugskot hennar eins og örlítill neisti, sem verður að sterkum eldi á skammri stund vegna þess, að efnið er fyrir og bíður þess aðeins, að einhver kveiki í því. Hún fann nú, að öll sú alúð, sem hún hafði sýnt Valdemar síðan, var ætluð öðrum. Þegar hún hafði talað til Valdemars, hafði hún í rauninni hugsað til Haralds án þess að vita af því — þá. En nú vissi hún það.

Og allt það, sem búið hafði þannig undir í breytni hennar, orðum og hugsunum, meðan hún forðaðist þann, sem styggði hana af breyskleika, en reyndi að geðjast hinum, sem gjörði það af ásetningi — það safnaðist nú saman eins og straumur í öldu, sem hefur sogazt út svo langt sem hún kemst, en rís svo aftur, sterk og há, til þess að falla og brotna við ströndina.

Hún gat alls ekki skilið það sjálf, hve fljótt þetta kom yfir hana og með hve miklu afli þessi nýja tilfinning gagntók hana alla. Hún fann aðeins, að einhver öfl störfuðu í henni, sem hún þekkti ekki og hafði ekki vald yfir.

Og hún hafði þó aðeins talað við þennan unga mann eina kvöldstund. Var það ekki hreint undur, eða réttara sagt, var það ekki hóflaust og ókvenlegt að varpa ást sinni þannig allt í einu á ókunnan mann, sem hafði ekkert annað unnið til þess en að sýna henni lítilsvirðingu? —

Og þegar hún spurði sjálfa sig að því, gat hún ekki eiginlega sagt, að Haraldur væri laglegur maður. Hann var vel vaxinn, það var satt, en fríður var hann ekki. Hún mundi svo glöggt eftir andliti hans og svip, þar sem hann sat undir lampanum andspænis henni. Það var rétt eins og hún gengi með mynd af honum í auganu. Hann var móleitur á hörund, með hátt, kúpt enni og smá augu, brún að lit. Hakan var breið og sterk, varirnar þykkar, og þegar hann brosti, sáust tennurnar, drifhvítar eins og í barni, nokkuð langar og gisnar. Hárið var kolsvart, þétt og fallegt, og sló slikju á það við ljósbirtuna, rétt eins og hrafnsfiður. Hann var snöggklipptur jafnt yfir enninu sem annars staðar, og Hólmfríður hafði tekið eftir því, þegar hann beygði sig inn í skápinn eftir glösunum, að hárið óx langt niður eftir hálsinum, sem var sívalur og digur.

Hún lét aftur augun og hætti að hugsa — en rafmagnshiti hinnar fyrstu ástar streymdi í gegnum hana alla og hreyfði hjartað ótt og hart.

Það atvikaðist ekki svo, að þau Haraldur hittust að máli fyrr en nokkuð löngu síðar. Hólmfríður sneiddi sig hjá því að sjá Valdemar eða tala við hann, og hún kom aðeins í örfá hús í Reykjavík, til hinna eða þessara stúlkna, sem hún kynntist í bænum smátt og smátt. Haraldur mætti henni alloft á götunni og tók þá mjög djúpt ofan fyrir henni.

Það var fyrst undir jólin, eitt kvöld er hún var á skautum með kunningjakonu sinni einni, að hún talaði við Harald. Hann vék sér að henni að fyrra bragði, og hún svaraði kveðju hans svo blátt áfram sem hún gat. Nokkru seinna kom einhver ungur maður, sem hún þekkti ekki, og leiddi stúlku þá, sem hún var með, eitthvað burt — og svo kom Haraldur og bauð henni það sama. Hún sagði ekki nei, og svo renndu þau sér saman eitthvað út á ísinn, sem lá sléttur og spegilháll fyrir framan þau.

Haraldur talaði til hennar, eins og þeim hefði ekkert farið milli — og minntist ekki með einu orði á neitt af því, sem hún hugsaði mest um.

Taugar hennar urðu aftur rólegri, og henni leið einhvern veginn svo vel í nærveru hans, alveg eins og fyrsta kvöldið, sem þau voru saman, og á þennan hátt leiddust þau fram og aftur um ísinn, þangað til hún varð að fara heim.

Hann fylgdi henni ekki af tjörninni og bauð henni það ekki heldur, en áður en þau skildu, hafði hún, án þess að hún vissi, hvernig talið leiddist að því, gjört ráð fyrir því við hann að verða á ísnum næsta kvöld um sama leyti.

Kunningjastúlka hennar var enn með henni, og enn kom einhver þjónustusamur andi og skildi þær að. Svo leið ekki á löngu, áður en Haraldur renndi sér að henni og heilsaði henni vinsamlega eins og fyrri daginn. Þetta kvöld voru þau lengur saman, og hún fann með enn meiri vissu en áður, að Haraldur hafði náð valdi yfir hugsunum hennar og vilja. Hún fann hitann af höndum hans gegnum skinnglófana og hálflagði aftur augun, þegar hann sagði eitthvað með þessum djúpa, mjúka bassaróm, sem gjörði hana svo undarlega rólega.

Og þannig leið kvöld eftir kvöld. — Þau voru alltaf saman á tjörninni — en hittust síðar og síðar kvölds og renndu sér sunnar og sunnar, eftir því sem á leið. Hún sá aðra gjöra það sama, jafnt æðri sem lægri, og henni datt ekki í hug, að neinn mundi hneykslast á því — enda hefði hún að líkindum ekki farið neitt eftir því, þó svo hefði verið. — Sama hugsunin um það, að hún væri frjáls og sjálfráð, sem hafði gripið hana, þegar Haraldur hellti á vínglösin, kom upp aftur og aftur eftir því, sem hún fann, að hann nálgaðist hana meir og meir.

Þau höfðu ekki talað neitt enn um ástamál — ekki einu sinni minnzt á kossinn, sem Haraldur tók í leyfisleysi, en hann fann, að tíminn var bráðum kominn og að þessi gullfallega, ómenntaða prestsdóttir var komin svo langt sem komizt verður, án þess að fara yfir mörkin.

Hann fylgdi henni fyrst heim. Svo gekk hann með henni langar göngur úti um afskekkta stíga, eftir að þau fóru af tjörninni, og loks hagaði hann því svo, að þau gengu fram hjá herbergjum hans á hentugum tíma. Svo vafði hann hana að sér — allt í einu, hvíslaði einhverju að henni, sem hún heyrði ekki, hvað var, og dró hana inn með sér.

V

Eins og annað þess konar, sem allir vilja komast á snoðir um — og gjarnan láta aðra vita með sér, tók það skjótt að kvisast um bæinn, að Haraldur Þórarinsson og þessi fallega prestsdóttir að norðan mundu vera í allmiklum kærleikum, og þótti hún skeyta lítið um, hvað menn töluðu um hana, því hún sást oft ganga inn í herbergi hans, fylgdarlaust, að vísu ekki nema þegar dimmt var, en þó svo, að margir menn höfðu veitt því eftirtekt.

Valdemar Jónasson var einn sá fyrsti, sem fékk vitneskju um það, hvernig komið var — og þó hann væri að sönnu of kaldlyndur og eigingjarn til þess að geta hryggzt af því, þótti honum það illt, að Haraldur hafði orðið honum hlutskarpari. Honum líkaði það vel, að orðrómur Hólmfríðar fór stöðugt dagversnandi, og blés að því með hentugum dylgjum og hálfyrðum, hvenær sem gott færi gafst, að sögurnar um hana breiddust út og yrðu færðar á versta veg. Hann þekkti nákvæmlega, hverjum hann átti að snúa sér að, til þess að sögurnar bærust sem hraðast og svertu sem mest, því hann var alinn upp í Reykjavík og var nákunningi tveggja eða þriggja skæðustu málskrafsmannanna í bænum.

Haraldur var sonur ríks prófasts og átti að taka embættispróf vorið eftir, svo margir munnar meðal hinna giftingarfúsu borgaradætra í Reykjavík voru til taks að rétta söguna til þess næsta og leggja sinn skerf til í viðbót. En af því að fegurð Hólmfríðar hafði vakið svo mikla eftirtekt í bænum og flestir hinir þekktustu fjörmenn bæjarins höfðu litið augum sínum til hennar, hver um sig ekki með öllu vonlaus um, að hann mundi ef til vill geta haft einhver áhrif á hana, lagðist öfund karlmannanna á eitt með óvild keppinautanna af hinu kyninu og sótsverti svo mannorð Hólmfríðar á stuttum tíma, að hún neyddist til þess að veita því eftirtekt. — Henni hafði stundum dottið það í hug, að bærinn mundi sjálfsagt verða þess var, að hún heimsótti Harald, en allt aðrar hugsanir sátu í fyrirrúmi hjá henni — og hún hélt áfram, án þess að líta um öxl og án þess að nema staðar á þeim vegi, sem Haraldur leiddi hana út á.

Menntun hennar og þekking á lífinu var á of lágu stigi til þess, að hún fyndi til fulls, hvað hún var að gjöra, eins og það var. Í henni voru að sönnu öll efni til fullkomins og göfugs kvenmanns, en uppeldi hennar og öll lífskjör höfðu ekki verið við hennar hæfi, og ættarmerki lágmannaðra forfeðra höfðu einnig skilið eftir mörg spor í innra eðli hennar, að sínu leyti á líkan hátt eins og þessi stóra hönd, sem sýndist alls ekki eiga heima á henni, var arfur frá slitnum og þreyttum erfiðishöndum einhvers staðar frammi í kyni hennar.

Hún sá og fann til þess, að margir, sem áður höfðu heilsað henni vinsamlega og með þeirri virðingu, sem fegurðin, ein sér, getur unnið kvenmönnum, tóku nú dræmt í hattana eða jafnvel létust ekki sjá hana, þegar þeir mættu henni á götunum. Kvenfólkið sendi henni auga og brosti sín á milli, þegar hún gekk hjá, og hún fann pískrið og spottið alls staðar utan að sér, þó hún heyrði það ekki. Og þó allt þetta biti hana ekki mjög sárt í fyrstunni, safnaðist það að henni smátt og smátt, gróf um sig og sló svo niður í henni allt í einu eins og elding. — Einn morgun, þegar hún vaknaði heima hjá sér eftir óvenjulega langa útivist kvöldið áður heima hjá Haraldi, fann hún, að hún hafði fellt sig úr áliti allra manna framan í opnum augum hvers, sem hirti um að taka eftir því.

Hún hafði glatað kvenmannsæru sinni — og gat aldrei unnið hana aftur.

Hún lagði hendurnar fyrir andlitið og stundi. — Hún þoldi ekki að hugsa um þetta. Hún mátti til að fara beint heim til Haralds og tala við hann — því hann gat þó í rauninni bætt úr þessu. Hann mátti til að bera af henni þetta högg, sem allur bærinn reiddi að henni.

Hún klæddi sig í snatri og neytti ekki morgunverðar. Hún varpaði aðeins stuttri kveðju á Solveigu gömlu, sem stóð við dyrnar, þegar hún fór út, og kinkaði kolli til hennar vingjarnlega, en raunamædd að sjá og með þreytumerkjum ellinnar, sem vekja svo sára meðaumkvun hjá þeim, sem veitir þeim rétta eftirtekt.

Hólmfríður vissi vel, að Solveigu höfðu borizt sögurnar til eyrna, en þær höfðu aldrei minnzt á þetta efni. Og viðmót Solveigar var allt hið sama, sem það hafði verið áður.

Hólmfríður gekk rakleitt upp þangað, sem Haraldur bjó, og það festi hana í ásetningnum, að hún sá tvo búðarmenn líta á eftir henni hlæjandi, þegar hún gekk að dyrunum.

Hún barði á hurðina, sá, að húfa Haralds hékk í forstofunni og opnaði dyrnar, án þess að svarað væri að innan. — Hún sá utan á hliðina á Haraldi, þar sem hann stóð í hvítri segldúkstreyju og var að skafa upp taugar í mannsúlnliði úti við gluggann. Hann leit til hennar, þegar hún kom inn, og lagði strax frá sér handlegginn og hnífinn. — En hann var ekki neitt glaður yfir þessari heimsókn, það var auðséð á öllu.

Hún átti von á að hann segði eitthvað, sem hughreysti hana, eða réttara sagt, hún átti von á, að hann skildi, hvers vegna hún var komin þar — en hann þagði og horfði aðeins á hana, eins og hann væri forviða á komu hennar.

Hún vissi ekkert, hvað hún átti að segja eða gjöra. Henni fannst eins og hún væri að sökkva í jörðina, því nú fyrst sá hún til fulls, með opnum augum, lánleysið og glötunina rétta út hendurnar eftir sér.

Hann lét stól fyrir framan hana og settist sjálfur niður, en hann sagði ekki eitt orð enn. Hún sá, að hann vildi, að hún byrjaði og gerði grein fyrir því, hvers vegna hún heimsækti hann á þessum óvenjulega tíma. Og það jók enn vandræði hennar; — hún gat ekki komið sér að því að segja neitt að fyrra bragði. — Loksins stundi hún upp með skjálfandi, lágum málrómi: Við verðum að trúlofast opinberlega.

Hann leit aftur til hennar eins og hann hafði gjört, þegar hún kom inn. Augað var hvasst og brýrnar hálfbrettar.

Til þess að opinbera trúlofun sína verður maður þó fyrst að trúlofast, sagði hann og spennti hendurnar yfir knéð. En þú veizt, að við höfum aldrei gjört það, og ég ætla mér ekki að binda mig, hvorki þér né neinum öðrum kvenmanni, fyrst um sinn.

Já, hún mundi nú eftir því, að hann hafði sagt henni það kvöldið, sem hún kom fyrst ein til hans, að hún mætti ekki búast við því, að hann giftist henni. En hann hafði ekki sagt þetta, fyrr en of seint var orðið að snúa aftur. Og hún hafði heldur ekkert hugsað um neitt þess háttar þá. — Hún tók heldur ekki svo mjög eftir sjálfri meiningunni í því, sem hann sagði nú, eins og tóninum og auganu, sem hann sendi henni.

Henni sýndist hann allt í einu vera orðinn breyttur, alveg eins og annar maður, og það var eins og hún fyndi til einhvers léttis af því um leið, að hún leit nú á hann með öðrum augum heldur en hún hafði gjört. Geðshræringar hennar breyttust svo fljótt milli ýmsra öfga, og hugsanir hennar voru hver annarri andstæðar eins og veður, sem blæs af öllum áttum. Hún hafði sjálf óljósa meðvitund um það, að hún hefði gengið á vald Haralds, af því að hún var of auðunnin, og að það mundi þurfa jafnlítið til þess að losa huga hennar frá honum aftur.

Hún stóð upp og lagði höndina á hurðarlásinn. Hún leit ekki við honum og fannst hann vera langt í burtu. En rétt í því gekk ungur kvenmaður hjá, sem Hólmfríður þekkti af götunni, og leit inn. Haraldur stökk upp, tók um höndina á henni og bað hana að bíða; hann vildi ekki láta hana sjást af þeim, sem væru að ganga fyrir. Hólmfríður horfði aftur á hann, og hann féll hratt niður úr tignarstólnum á þessum fáu augnablikum. Henni sýndust augu hans hvikul og stingandi við dagsbirtuna og munnurinn dýrslegur; og hún tók nú eftir því sem hún hafði aldrei veitt athygli áður, að eyrað var alveg gróið fast við kinnina. Það voru engir eyrnasneplar á honum. Þetta var auðvitað lítilfjörlegt atriði — en þó gat hún ekki annað en játað, að það felldi útlit hans í augum hennar. — Það lá við, að henni byði við honum.

Svo gekk Haraldur frá hurðinni, og hún skildi, að nú mætti hún fara.

Var það „ein ný“, sem gekk fyrir gluggann? spurði hún, um leið og hún gekk út í forstofuna.

Það kom dálítið hik á Harald, áður en hann svaraði. Nei, sagði hann svo; það var ein — gömul.

Hólmfríður steig út úr ytri dyrunum og sneri sér við, um leið og hún lét aftur. Hún leit einu sinni enn á Harald, sem var að loka innri hurðinni. Hann brosti að því, sem hann sagði sjálfur síðast, og hún sá tanngarðana báða, drifhvíta, koma fram undan vörunum.

Hún gekk af stað leiðar sinnar og leit hvorki til hægri né vinstri. Henni var alveg sama um það, hvort menn veittu henni eftirtekt. Hún var aðeins að furða sig á því með sjálfri sér, að það var einkum eyrnalagið og tanngarðarnir á Haraldi, sem ekki gátu farið úr huga hennar; hvernig stóð á því, að hún gat naumast hugsað um annað en þessa viðbjóðslegu smámuni? Var hún að brjálast — eða hafði hún aldrei haft neina ást á Haraldi, heldur leiðzt út í þetta af samkyns hvötum eins og hann, blinduð af einhverri sjónhverfing?

Hún sá fyrir sér tennurnar í honum eins og þær voru, þegar hann brosti síðast í dyrunum — og þær minntu hana á gamlan hund heima á prestssetrinu, sem horfði svo oft á hana, þegar hún var að skammta í búrinu, fitjaði upp á trýnið og teygði tunguna út undir eyrun á víxl, langa og mjóa eins og þveng.

VI

Næstu mánuðina eftir að Hólmfríður skildi sig frá Haraldi, leitaði sú örvæntingarhugsun stöðugt á hana, að hún hefði glatað mannorði sínu fyrir fullt og allt, og kvaldi hana svo, að hún neytti hvorki svefns né matar og hélt sig inni eins og sjálfviljugur fangi. Hún talaði varla orð frá munni dögum saman, og yfirbragð hennar allt varð mörgum árum eldra.

Solveig gamla vissi vel, hvað henni leið, og reyndi til að hugga hana á sinn hátt án þess að víkja nokkurn tíma beinlínis að því, hvað komið hafði fyrir hana. En það var allt árangurslaust eins og að hella vatni á jurt, sem visnar af því að rótin er skemmd.

Eðlisfar Hólmfríðar var þannig og bygging hennar öll var svo hraust, að hún stóð lengi upprétt undir þessari nagandi kvöl að vita framtíð sína lagða í eyði af sér sjálfri með svo mikilli léttúð og hugsunarleysi. — Og þetta hafði hún gjört vegna svo auðvirðilegrar, einkisverðrar freistingar, sem var allt of lág og lítil fyrir hana, það fann hún svo vel. — En smátt og smátt þyngdist byrðin; sömu hugsanirnar leituðu á hana sífellt stöðugar og stöðugar, óbreyttar og ekkert nýtt í þeim annað en beiskjan. Þær átu sig inn í meðvitund hennar nætur, daga og yfirgáfu hana loksins ekki.

Hólmfríður var á leið til þess að sturlast á geði.

Sú hugsun, sem ríkti yfir öllum öðrum í huga hennar og var orðin þar rótgróin, eins og nokkurs konar ófráskiljanlegur hluti af andlegu lífi hennar, var sú, að hún hefði fallið í snöruna hjá Haraldi — ekki af ást, heldur af annarri lægri tilfinningu, sem siðað kvenfólk bælir niður og lætur ekki ráða yfir sér — en hún kunni ekki að gera sér rétta grein fyrir. Hana vantaði þekking á sjálfri sér og eðli sínu til þess að skilja út í æsar, hverjar voru orsakirnar til þessa, en hún fann óljóst til þess, að það var uppeldi hennar í sveitinni innan um vinnuhjú og drykkjugesti og svo ættararfurinn, sem hafði gjört hana að svo auðveldu herfangi fyrir afvegaleiðslu þessa Haralds.

Þannig leið fram á veturinn, og Hólmfríður sneri sér dýpra og dýpra inn að sjálfri sér og fjær umheimi og öðrum mönnum. — Augnaráð hennar var orðið hvasst, og hún horfði lengi út í loftið, þó hún sæi ekkert fyrir augunum. Hreyfingar hennar voru stundum hálfhvatvíslegar, og yfir andlitið var kominn þessi einkennilegi, hálfharðneskjulegi blær, sem oft sést á geðveiku fólki. En einmitt um það leyti, sem hún var að komast út að hinum yztu mörkum, kom atvik fyrir hana, sem beindi huga hennar nokkuð á aðra leið og bjargaði henni frá vitfirringu.

Það var eitt kvöld seint, að hún sat uppi í loftherbergi sínu ein sér — með auðar hendur og hafði lagt frá sér vinnu sína, sem hún hafði átt æ erfiðara með að hafa milli handa eftir því, sem lengra leið. Frænka hennar hafði setið hjá henni tímum saman þennan dag og reynt að leiða tal að hinu og þessu, sem hversdagslegt var eða sem hún hélt, að Hólmfríður mundi vilja heyra, en allt var til einkis. Og svo hafði hún loks gengið niður í stofu til sín — og skilið Hólmfríði eftir, því hún hafði látið Solveigu skilja, að hún vildi það helzt.

En þegar hún var orðin ein, kom einhver ófriður og ókyrrð yfir hana, sterkari og óviðráðanlegri heldur en nokkru sinni áður, og hún fann, að hún gat ekki haldizt við í herberginu. — Hún varð hrædd við sjálfa sig og opnaði hurðina. Hún fann blóðið streyma til höfuðsins, og það suðaði fyrir eyrum hennar eins og lækjarniður eða hvísl af mörgum mönnum; hún mátti til að sjá og tala við einhvern til þess að missa ekki vitið.

Hún hljóp niður stigann og ætlaði inn í stofuna, þar sem hún vissi af frænku sinni, en staðnæmdist fyrir framan hurðina, sem var opin í hálfa gátt. Birtu lagði af litlum lampa, sem stóð á kommóðu í einu stofuhorninu, og hún leit inn. Þar stóð gamla Solveig beygð yfir eina skúffuna, sem var dregin út til hálfs, og horfði á bréf, gult af elli, sem skalf í höndunum á henni.

Hólmfríður læddist inn yfir gólfábreiðuna án þess að gjöra vart við sig. Það var eins og henni væri stjórnað af vilja einhvers annars, sem hún hlýddi án þess að ráða yfir sjálfri sér. Svo leit hún yfir öxlina á frænku sinni og á blaðið, sem hún hélt á. Hún þekkti strax drættina og stafagerðina. Það var hönd föður hennar.

Solveig hrökk saman og leit skjálfandi og mjög óttaslegin á Hólmfríði, sem horfði eins og út í loftið, gegnum hana, á eitthvað langt, langt í burtu. Hárið féll ófléttað niður um hana. Efstu pörin á treyjunni voru ekki krækt, og svipurinn var harður og torkennilegur. — En svo var eins og einhver annar blær smáfærðist yfir augun, og drættirnir í andlitinu mýktust. — Hún studdi annarri hendinni á stólbak, sem varð fyrir henni, leit aftur á blaðið, sem Solveig hélt á enn í sömu sporum, og svo settist hún, hallaði sér fram á borðið með handleggina undir höfðinu og grét hátt, óstöðvanlega og lengi, eins og sá, sem grætur frá sér djúpa, vitfirrandi hugarkvöl.

— Hvorug þeirra sagði neitt, og Sólveig lét frænku sína gráta í næði. — Hún strauk aðeins hendinni um hár Hólmfríðar nokkrum sinnum og lét svo gamla blaðið, vandlega brotið saman, niður í skúffuna, þar sem það var áður. — En þegar Hólmfríður hafði grátið út, kom sagan frá gömlu konunni — einföld og blátt áfram eins og líf hennar allt hafði verið.

Faðir Hólmfríðar var ofarlega í latínuskólanum, þegar Solveig sá hann fyrst. Hún var þá komin nokkuð yfir tvítugt, en hann var yngri. Þau höfðu kynnzt einn sumartíma uppi í sveit hjá foreldrum Solveigar, en þangað hafði faðir Hólmfríðar farið í kaupavinnu næst síðasta ár sitt í skóla. — Hún hafði aldrei gleymt honum síðan, en hann hafði aðeins skrifað henni eitt bréf, þar sem hann lét hana vita, að hann væri trúlofaður annarri stúlku. Það var um vorið, þegar hann skrifaðist út úr latínuskólanum. — Svo hafði Solveig flutzt til Reykjavíkur og lifað í ýmsum högum og kjörum, þangað til hún giftist Jónasi skipstjóra. Hafði hún jafnan haft afspurn af því, hvernig síra Stefáni leið og hvernig hann fluttist frá einu brauðinu á annað, þangað til að hann settist að á síðasta prestakallinu, þar sem Hólmfríður fæddist. — Hún mundi eftir því, að þau höfðu talið ættir sínar saman í gamla daga, eitt sunnudagskvöld, er þau sátu saman í túnbrekkunni — og þá blasti lífið svo fagurt við þeim báðum; en svo hafði syrt að smátt og smátt, og loks var ekkert að sjá nema myrkur yfir öllum vonum hennar. Hún hafði alltaf fengið að vita af skólapiltum úr byggðarlagi Hólmfríðar, sem þekktu og heimsóttu Valdemar, hvernig háttaði högum hennar og foreldranna, og hún hafði svo, eftir því sem lífið varð einmanalegra fyrir henni, bundið hugann fastar við þessa fjarlægu og fjarskyldu frændkonu sína, án þess að hún skildi sjálf, af hverju það kom. Það var eins og kærleikur hennar frá yngri dögunum, sem hún hafði borið svo lengi, lifnaði upp aftur í annarri mynd og knýði hana til þess að reyna að kynnast þessari dóttur þess einasta manns, sem hún hafði unnað um ævina. —

Hólmfríður hlustaði á allt það, sem frænka hennar sagði frá, og skildi nú fyrst til fulls þessa einmana og óeigingjörnu konu, sem hafði tengzt við hana og forlög hennar með ósýnilegum böndum. En jafnframt því flaug hugur hennar einnig til föður hennar, og blaðið, sem hún hafði séð nýlega, minnti hana á það, sem hún sá hann skrifa síðast. — Þetta er seinasta skýrslan, sem ég skrifa, Fríða mín — hljómaði í eyrum hennar, og hún sá fyrir sér andlit föður síns, sem var bleikt og máð eins og blaðið í kommóðunni. — Ekkinn kom að henni aftur, og hún grét á ný, en léttar heldur en áður og hélt í höndina á Solveigu — sem einnig hafði liðið skipbrot hamingju sinnar, á annan hátt, áður en Hólmfríður varð til — og trúði henni nú aftur fyrir sinni sögu, sem lesendur þessara blaða þekkja.

VII

Það varð Hólmfríði til líknar, að endurminningin um föður hennar og ógæfu hans hafði á síðasta augnabliki leyst sorg hennar úr fjötrum og snúið því í tár og ekka, sem annars hefði orðið henni að tjóni. — Hún klæddist ekki nokkra daga og var sjúk á sál og líkama, en nú stefndist hugur hennar í aðra átt, að vísu ekki á almannavegi, en þó út af þeirri braut, sem mundi hafa leitt hana til brjálsemi innan skamms.

Hún var í fyrstu klökk og grátgjörn — en brátt snerist þetta upp í sterka þrá eftir því að heyra og lesa guðsorð. Hún sleppti varla sálmabókinni úr höndum sér, og það var aðeins óttinn fyrir því að koma á almannafæri og láta mörg augu horfa á sig, sem hélt henni enn frá því að sitja í kirkjunni við allar messur og guðsþjónustur.

Eftir því sem lengra leið frá því, að hugur hennar beindist fyrst í þessa stefnu, varð guðrækni hennar dýpri og alvarlegri og náði loks yfirhönd yfir ótta hennar við áfellisdóm annarra og hin hálfforvitnu fyrirlitningaraugu, sem henni voru send, hvar sem hún gekk.

Einn sunnudag tók hún sálmabókina sína, sem hún hafði látið binda í gylltu sniði, með krossi framan á og fangamarkinu sínu undir, og gekk inn í kirkjuna við síðustu hringingu.

Hún sat framarlega í kirkjunni og lét sem hún sæi ekki, að fjöldi augna horfði á hana, bæði af þeim, sem sátu framar og aftar. Hún skalf, og hjartað sló hart, en hún lét storminn líða yfir sig án þess að víkja fyrir honum.

Hún grét, þegar orgeltónarnir hljómuðu um kirkjuhvelfinguna, og þá sá hún menn hnippast á allt í kringum sig og líta hvorn til annars. — Eitt augnablik datt henni í hug að flýja út, en svo varð fyrir henni einhver hending í sálmi þeim, er átti að syngja, sem hughreysti hana, og hún sat kyrr, og upp frá þessari stundu var brotinn sárasti broddurinn af háðsaugum og fyrirlitning þeirra, sem hún mætti á vegi sínum. —

Svo var það einn heitan vordag, þegar grös voru farin að gróa í túnum og nýtt líf var að færast yfir alla náttúruna, að henni varð reikað út á afskekktan stíg, þar sem lágreistir og hrörlegir bæir stóðu, einn og einn á stangli, með stórum, óræktuðum grjótflákum á milli. Þar sá hún allt í einu koma fram úr einu hreysinu lágan, síðskeggjaðan mann í blóðrauðri treyju, með lúður í annarri hendi og bænabækur í handarkrikanum. Hann bar einkennisbúning sáluhjálparhersins, og á eftir honum komu fáeinir liðsmenn á ýmsum aldri, bæði karlar og konur. Þetta kynlega og nýstárlega herlið sló hring um foringja sinn — og svo byrjaði söngurinn með rámum og skrækum hljóðum og ekki vel stilltur saman — og undir var leikið á lúðurinn og gamlan guitar með fölskum strengjum. — En alvaran á andlitunum vakti eftirtekt manns af því, að allar hreyfingar og tilburðir liðsins voru ómótstæðilega hlægilegir fyrir hvert óvant auga.

En Hólmfríði stökk ekki bros. — Hún staðnæmdist og hlýddi á sönginn og spilið — ekki vegna þess, að hún vildi gjöra gys að þessari einkennilegu guðsþjónustu, heldur af því, að hún varð strax gripin af sterkri löngun til þess að taka þátt í henni sjálf, ásamt með hernum. — Himinninn var svo hreinn og bjartur, og sólin skein hátt, með nýjum vorgeislum, eins og hún vildi fá alla til að gleyma vetrinum á einum degi. — Var ekki himinninn ein einasta voldug kirkjuhvelfing? — — —