Fjórða saga herlæknisins MAÐUR HAFNAR HAMINGJU SINNI Vorið var liðið til loka, og sumarið slíkt hið sama. Septembernæturnar tóku að gerast æ dimmari. En því glaðara logaði bálið og snarkaði í skíðunum í opnu ofnunum í húsi ömmu gömlu, og læknirinn lét ekki sitt eftir liggja og kynti daglega eldinn hjá sér uppi á „kvistinum“, enda tók nú kulvísi hans mjög að aukast með aldrinum. Anna Soffía hafði trúlofast það sumar og setið lengst af í vefstólnum og ofið af kappi allánægjulegt verkefni: í brúðarfötin fyrir sjálfa sig; skyldi þó enn liða rúmur árshringur áður en ráðin tækust. Höfðu dagarnir liðið síðan tilhugalífið hófst ámóta liðugt eins og spólan flaug yfir uppistöðuna, enda álíka tilbreytingalitlir; hinn hvíti, sívali handleggur, sem spólunni skaut, hafði heldur lagt af, enda hirti línermin ekki hótið um að leyna því. En innra, í ungmeyjar barminum, sem hvelfdist og hreyfðist undir heimaofnum, röndóttum dúk, sló eins ferskt og ungt, hlýtt og trúfast hjarta eins og hjá nokkurri annarri nítján ára gamalli stúlku, meðan vonin vefur rósirnar í hið fagurbláa klæði framtíðarinnar. „Já, já“, sagði amma hennar stundum þegar hún leit inn í vefstofuna og leit vönum augum á vefinn, „farðu þér hægt, barnið gott; það eru fleiri mál en dagar; vefðu nú ekki í þig veikindi í lungun; betri eru stuttir dagar en stopul heilsa. Ég ímynda mér, að hann Karl þinn Friðrik kjósi heldur að sjá kinnarnar rjóðar á konuefninu sínu, heldur en drifhvítan dúkinn á borðinu sínu. Láttu þetta duga í dag“. „En hvernig, amma, á ég að breiða á borðið í heimkomugildinu, ef dúkurinn verður ekki búinn?“ „Hvaða bull, barn! Í skápnum mínum uppi á ég tvennar tylftir af fínustu borðdúkum frá Stokkhólmi. En heyrðu: nú förum við að hreinsa stöngulber“. „Nú hefi ég nýtt á prjónunum“, sagði Anna seint á degi í sama mánuði, þegar hún hafði fengið nýtt steypibað af áminningum hjá ömmu sinni. „Það er eintóm snyrtivinna, sem við eigum að gera í dag. Amma saxar tyrkneskar baunir, ég hreinsa bláber, og krakkarnir una sér við að taka hýði af ertum. Og þá finnst mér, að við ættum öll að fara upp til læknisins og biðja hann að halda áfram sögunum sínum, sem hann hefir ekki hreift við síðan í vor sem leið. Það var eitthvað í enda síðustu sögunnar hans, sem lofaði meiru, og mér er mikil forvitni á að heyra, hvernig það hafi farið. Hvað sýnist þér, amma?“ „En hvað heldurðu, að hann Bekk segi? Ég held, að hann setji upp æði stór augu, ef við æðum öll sömul upp á kvist til hans með okkar dóti, körfum og skærum. Karlinn verður reiður; hann er einrænn maður og vill ekkert ónæði hafa“. „Ég skal þá ábyrgjast það“, sagði Anna Soffía hróðug og var óðara en amma gat litið við þotin upp krókstigann upp á kvistinn, létt og kát eins og krakki; réðst svo á karlinn þar sem hann kúrði í einveru sinni. Hún vissi hvað hún mátti bjóða sér við hann, þekkti hvað að honum sneri, hvar hann var veikur fyrir. Hún þóttist hafa þurft endilega að sjá framan í hann „frænda sinn“ og forvitnast um hvernig kanarífuglinum hans liði. Síðan færði hún sig ósjálfrátt yfir í stjórnarmálin og fréttablöðin og bar svo loks upp erindið, eins og aukagetu, þegar karli var farið að volgna, enda var ekki liðin hálf klukkustund, áður en hún hafði fengið fullt leyfi herlæknisins til þess að ekki hún ein með ömmu sinni og börnunum, heldur og Karl Friðrik líka, mætti sækja hann heim ásamt öllum farangri þeirra, körfum og ílátum. Það er þó alllíklegt, að herlæknirinn hafi sjálfan grunað, hvernig Anna lék á hann, en látið eins og ekkert væri. Anna var hvort sem var uppáhald karlsins á kvistinum, eins og reyndar í öllu húsinu; hann lét sér því allt vel lynda, lét Söru gömlu bæta í ofninn og tók frá í snatri og faldi allt brothætt og fleira, sem börnin kynnu að hafa hendur á og skemma: bækur, sirkla, uppdrætti, tóbaksbréf og fleira, og síðan beið hann með rósemi þess, sem fyrir átti að liggja, að hans friðhelga borg yrði sett í herkvíar, borgin, sem engum lifandi var leyft að herja á nema músum og rottum einum. Loks kom að því, að fótaburður og hark heyrðist niðri í stiganum, og inn þyrptist fjölskyldan, gamla amma í broddi fylkingar, og Karl Friðrik rak lestina. Leið svo ekki á löngu áður fólkið hafði fengið sæti, eftir að hinn gamli maður hafði heilsað gestunum hæversklega; gamla konan prýddi öndvegið, sem var bakhár hægindastóll, þykkleðraður; setti hún trogið með baununum á borðið fyrir framan sig; næst henni sat Anna með bláberin, en börnin með ertukörfu þeirra sátu á kistlum og fótskörum, og læknirinn eins og húsfaðir sat innstur milli ofnsins og setubekksins; var verið á honum farið að bila svo bastið, sem í setuna hafði verið troðið, gægðist í toppum gegnum götin. Til þess að talan yrði toppfull bættust brátt við gestina þeir meistari Svenóníus skólakennari og Svanhólm kapteinn og póstmeistari — báðir í þetta sinn boðnir. Tíu manns alls voru aðkomnir, og fleiri komust ekki fyrir. Í fyrstunni varð hik á samræðunum, enda þótti Bekk auðsjáanlega nóg um margmennið. En póstmeistarinn var ekki lengi að gera kvöldið sögulegt. Var auðséð á svip hans óðara en hann kom inn úr dyrunum, að stór-tíðindi stæði í blöðunum; það brást ekki heldur, því þá barst einmitt í fyrsta sinn fregnin um friðinn í Adríanópel, 14. sept. 1829. Skruggur og eldingar! Frá hinum nafnkunna dagi við Karstúlu, þegar Svanhólm missti vinstri vísifingur sinn, og frá orustunni við Nóvarínó hafði enginn maður séð meiri vígahug loga í hans gráu augum. Hann réð sér ekki af bræði út af því að sleppt hafði verið svo ákjósanlegu færi að losast við Hund-Tyrkjann og reka hann öfugan út úr Evrópu; hann hamaðist í móti öllum ráðanautum Norðurálfunnar, skammaði England fyrir þess öfundsýki, að það hefði enn þá einu sinni sett spelkur við hina grautfúnu stólpa hins „ottómanska ports“. „Guð miskunni mér, hvað vægir við höfum verið við Hund-Tyrkjann! Hvers vegna tókum við ekki Miklagarð, þegar við þurftum ekki annað en út rétta höndina til að stinga Soffíu-kirkjunni í vasa okkar! Ég vildi bara, að sveitin hans Fieandts hefði þar verið komin og ráðizt fram eins og við Karstúlu! Ég man það enn þá, eins og það hefði skeð í gær...“. „Bróðir sæll!“ sagði Svenóníus, sem ætíð tók vel eftir þegar Karstúla kom til orða, „það er — eins og ég ávallt hefi sagt — blekið, sem ræður veröldinni, og það er blekið, sem nú hefir orðið ofan á í Adríanópel og dregið strik fyrir byssustingina og sagt: Kyrrir, drengir! Það má bróðir játa, að blekið er á vissan hátt vitið, sem segir við aflið: nú skal höggva, eða: nú skal stinga saxinu í slíðrin“. „Blek hér og blek þar!“ æpti kapteinninn; „sé blekið vit eða skynsemi — posito, ég set og segi svo, þá sver ég við mína sáluhjálp, að það vit sé svartara en sjálfur and...“. „Svanhólm frændi!“ sagði amma og benti með blíðu augnaráði til barnanna, og þá þagnaði kapteinninn. Herlækninum var nú farið að hitna innanbrjósts við pólitíkina og tók nú til máls með vanalegri rósemi; sýndi hann fram á, hver rök mælti með því að sýna Tyrkjanum biðlund með burtreksturinn, en þó til þess eins að lofa tímanum að sýna og sanna, að hús hans sé fúið og hljóti að hrynja af sjálfu sér. „Drottinn fylgir sinni tilætlun í þessu öllu“, sagði læknirinn og bætti við: „Hann sér, að kristindómurinn þarf að horfa á Islamstrúna smádofna og dvína við hlið sína, til þess að sannfærast til fulls um, að engin önnur trúarbrögð en hin sönnu og opinberuðu geyma eilíf lífsfræ, og megna því ekki að bera eða bjarga ríkjum og þjóðum. Sæjum við ekki þennan vesaling, Tyrkjann, liggja fyrir dyrum vorum, kynni okkur að koma í hug og segja: Kenning Múhameðs á eins marga játendur og kristindómurinn; hún hlýtur að vera skrattans góð, sú trúin líka“. „En frændi minn góður“, sagði þá amma dálítið gröm við lækninn, um leið og hún lagði baun ofan á baun undir hnífinn, „við sitjum nú ekki hér saman til þess að fræðast um Tyrkjann, heldur um Bertel og Larson og þeirra niðja. Fyrst að friðurinn er nú gerður, með guðs hjálp, í Adríanópel, ætti líka að vera fullur friður hérna á kvistinum. Ég held nú fyrir mitt leyti, að Tyrkirnir eigi einhverjar betri hliðar, tyrkneskar baunir, tyrkneskir klútar og tyrkneskur þráður, til dæmis...“. „Því þá ekki líka tyrkneskt tóbak?“ svaraði herlæknirinn brosandi og tók óðara tilefnið til að troða í pípu sína, sem bar tyrkneska andlitsmynd með túrbanfald skorna á hausinn, sem var úr tré. „Góði frændi minn“, sagði nú Anna Soffía og flýtti sér svo hún brenndi ekki fingurna að fá honum tréspón úr ofninum til að kveikja við, „ég er mjög svo forvitin orðin að fá að heyra, hverju töfrahringurinn kemur til leiðar í heiminum. Hvernig var það nú? Sérhverjum þeim, sem bar hann, skyldi vera óhætt fyrir eldi, stáli, vatni og alls konar háska, ef hann einungis yrði ekki meinsærismaður. Hann átti að eignast öll völd og auðæfi veraldar og engan annan óvin þurfa að óttast en sjálfan sig! En hann mundi líka sjálfur verða hættulegasti óvinur hamingju sinnar, sakir ofmetnaðar, ójafnaðar og ófriðsemi? Og bölvun og blessun áttu að berjast um líf hans“. „Rex Regi Rebellis“ — svo hljóðaði yfirskriftin“, sagði Svenóníus með spekingssvip. „Ég fyrir mitt leyti vildi nú sagt hafa: rebellis in regem, en hitt mætti meina, að þetta væri munkalatína“. „Já“, gall Andrés litli við með munninn fullan af ertum, „og þegar búið var að bera hringinn í þrjá liði mann eftir mann, áttu að koma fram höfðingjar og prófastar í ættinni, en yrði hann borinn í 6. lið af syni eftir föður, átti páfi að koma upp í kyninu“. „Andrés ætlar sér að verða prestur“, sagði læknirinn, „þess vegna vill hann hefja ættina til háæruverðheitanna. Þrír liðir í röð framleiða mikla hershöfðingja og stjórnarherra, sex liðir í röð volduga þjóðhöfðingja og keisara...“. „Bernadotte og Napóleon! Nú sé ég það!“ kallaði Anna Soffia hástöfum, en berin hrundu sem hráviði. Karl Friðrik flýtti sér, með sömu stimamýkt og einkennir heitbundna sveina, að tína upp berin — og eta þau. „Það sagði ég nú ekki“, sagði læknirinn með mestu hægð. „Svo eirðarlítil ætt, sem á í vök að verjast gegn sífelldum háskasemdum, er ekki líkleg til þess að varðveita ættar-gersemi í 6. lið. Ég vil biðja Önnu Soffíu að minnast þess, að alþýðuættin hans Larsons með hennar kyrrlátu nægjusemi, iðni og dugnaði á betri horfur til að halda sér uppi þegar til lengdar lætur“. „Það segir frændi til þess að villa okkar“, sagði Anna drýgindaleg. „Eins og ég tæki ekki eftir því, að frænda vorn tekur eitthvað sárara til fólksins með eldhugann, aðalsmannanna, þótt hann láti eins og hann fremur fylgi „vatns-sálunum“, alþýðunni okkar. Nú, hann Larson átti líka eins konar töfragrip, öxina með eikarskaftinu. Mér er forvitni á að heyra, hvað hann afrekaði með henni“. „Það fáum við að heyra“, svaraði herlæknirinn. „Kyrr börn!“ mælti nú amma um leið og hún útvaldi sér stórar baunir. „Kasti Jónatan ertum á hana Soffíu, þá munið hvað ég segi: Þá fer eins og síðast, þegar piltinum var vísað út fyrir. Svona, Bekk minn, ger nú svo vel að byrja“. Og nú hóf herlæknirinn sögu sína. 1. Fyrsta unnustan Fagran vordag seint í maímánuði árið 1656 mátti sjá mann nokkurn á reið eftir þröngri skógargötu í einni sjávarsveitinni á suðvestanverðu Finnlandi. Barðamikill hattur huldi mjög svo ásýnd hans tilsýndar, en ljósblá fjöður blakti fyrir vindinum, frá hattinum, og benti til, að maðurinn væri af háum stigum ellegar hermaður að minnsta kosti. Þann grun styrkti líka fagurlega saumað áreiði og silfurístöð, svo og gul stígvél með veiðisveinasniði og gylltir sporar á. Riddarinn hafði yfir sér heklu úr bláu flaueli, og sjá mátti glöggt á hans snöggu og mjúku hreyfing lima, er hann brá til hliðar birkigreinum, sem urðu fyrir honum, að hann væri ungmenni, er ekki væri búinn að læra að taka tálmunum lífsins með stilling og rósemi. En brátt varð skógurinn svo krappur og hinir hálfútsprungnu birkikvistir svo nærgöngulir, að riddarinn varð að stíga af baki og teyma hest sinn yfir fallna viðarboli og flóknar limar. Loksins blikaði vatnsflötur tilsýndar gegnum laufin, og opnaðist þegar eftir fyrir auganu fagur og sólbjartur fjörður — einn af þessum útúrdúrum hins hviklynda hafs, sem alltítt hittast á þessu svæði hinna finnlenzku stranda. Fjörðurinn líktist fremur stöðuvatni en hafsvík, svo hlykkjuðust bakkarnir umhverfis og mynduðu nes og mjósyndi, en utar blikaði á vatnið breitt og blátært með skógvöxnum hólmum. Riddarinn renndi bráðlátum augum yfir víkina, skimaði í allar áttir og hlustaði. Það leið og ekki á löngu áður hann heyrði hinum megin við grænan nesodda mjúka og hvella rödd kveða einn af hinum hálfglaðværu og hálfangurblíðu kveðlingum, sem vaxa eins og vatnsliljur á sjávarströndunum, án þess nokkur kunni frá að segja, hvernig eða hvenær. Þessa stöku mátti heyra: /# Löngum beið ég, ljúfi sveinn, sem lítill fugl á grein; og þegar ég hélt þín væri von, var ég ei lengur ein. #/ Óðara en unglingurinn heyrði lagið, tók hann ofan hattinn og veifaði honum í háaloft. Það var frítt höfuð, sem þá brosti við, í frumlífsins fegursta blóma; umhverfis andlitið liðaðist hrafnsvart hár í lausum lokkum, en milli þeirra tindruðu tvö augu tinnusvört, er loguðu af suðrænu fjöri, en kringum rósfagrar varir unglingsins bólaði á mjúkan og dökkan dún, og allur var sveinninn forkunnar fríður, því drættir hans í andliti, er með aldrinum voru eigi ólíkir því að geta orðið harðir og strangir, leiftruðu enn þá af æskunnar frumvori. Bát skaut nú eins og kólfi fyrir nesið. Í honum sat yngismær, sem söng þetta stef: /# „Sorg var mér í sinni og hjartað sló svo hart, sem hrynjandi fossinn í gili“. #/ En í sama bili kom hún auga á riddarann á bakkanum á móti sér; söngurinn þagnaði, en því óðara gengu árarnar, svo að freyddi fyrir stefninu. Létt eins og svanur sveif ferjan yfir sundið og þar að, sem hinn ungi maður stóð. Hann hafði bundið hest sinn við eikarstofn, tók ganginn af bátnum, stökk út í hann sjálfur og settist á mjóa þóttu við hlið meyjarinnar. Síðan tók hann aðra árina og fór að róa og stefndi á hólma einn þar andspænis. Ekki var skipt mörgum orðum, en svo gekk róðurinn skrykkjótt, að ýmist annað þeirra, eða hitt, ellegar bæði, gleymdu sér og honum. Hálf klukkustund leið áður en þau náðu hólmanum, það sem hún ein var vön að róa á tíu mínútum. Og einu sinni hætti sveinninn alveg að hirða árina, en þá reri hún eins og hetja, enda hringsneri ferjunni. „Nei“, sagði mærin og hló. „Þetta dugar okkur nú ekki. Junkerinn er ekki of vel æfður við árina, eða hví róið þér ekki?“ „Af því ég horfi á þig“, svaraði hinn ungi maður sakleysislega, og stökk þá blóðið fram í kinnar stúlkunnar, svo hún varð kafrjóð, af því hún sá, að honum var alvara. „Fá mér árina, ég ræ betur á tvær“. „Já, róðu, svo stýri ég“. Og að svo mæltu færði sveinninn sig um set og settist í skutinn. Þar sat hann með augun brennandi og dreymandi fest á hina ungu stúlku, með þeim blíðusvip, sem var alveg gagnstæður hans yfirbragði. Nú gekk róðurinn betur, svo ekki vantaði skriðið, en ekki þorði stúlkan að líta upp, því hún var hrædd við funann í augum þeim, sem horfðu á hana. Loksins herti hún upp hugann og sagði heldur önuglega: „Ég get ekki róið, ef þér horfið svona á mig. Hvers vegna gerið þér það?“ „Af því þú ert svo falleg“. „Svo, sýnist yður það?“ svaraði stúlkan og vatt dálítið við höfðinu. „Vitið þér, hvað móðir mín sagði, þegar ég var lítil og horfði á mig í speglinum? „Kötturinn er laglegur, en þú ekki, sagði hún“. „Þú ert orðin miklu laglegri heldur en þegar ég sá þig seinast. Gáðu að því, Gréta, að það eru liðin full tvö ár síðan ég seinast var í Mæníemí, og nú hefði ég ekki fengið að sjá þig, ef Hanna hefði ekki hvíslað því að mér heima við höllina, að þú mundir koma hingað í dag, eins og við vorum vön að gera í gamla daga. En þú talar ekki eitt orð við mig, þú ert reið, þú ert ljót í dag, þér þykir ekki vænt um mig eins og í gamla daga“. „Æ, það er ekki vert að tala um mig. Ungherrann, sem hefir verið svo lengi í Stokkhólmi, þjónustusveinn Kristínar drottningar og hirðsveinn hjá konunginum... Þér skylduð hugsa um alþýðustúlku, því get ég aldrei trúað!“ „Stokkhólmi... já, það er margt að segja um hann, ég skal segja þér frá því seinna. En veiztu það, að ég á þegar á morgun að leggja af stað til ófriðarins á Póllandi?“ „Hvað segið þér, ætlið þér í stríðið, þér, sem eruð svo ungur, ekki nema seytján ára. Ætlið þér að fara að lífláta manneskjur? Svei, það er óguðlegt, það er hryllilegt“. Og Gréta hætti að róa, og báturinn stöðvaðist. „Já, líttu nú á“, sagði sveinninn alvörugefinn, „nú höfum við ófrið, bæði utan lands og innan. Lewenhaupt fer til Wiborgar móti Rússum, og í fyrstu var sagt, að ég ætti þangað að fara. En þá skrifaði faðir minn frá Póllandi, að ég ætti að koma þangað; þú veizt, að hann er ofursti í fyrirliðasveit konungsins. Hinn daginn á skip að fara frá Ábæ til Ríga, og nú er ég hér til að kveðja þig og mínar bernskustöðvar. En þú vilt mig ekki, þú hatar mig... þú þúar mig ekki lengur!“ „Ætti ég að þúa ungherrann? Svo háan höfðingja... greifa, sem átti furstinnu fyrir móður“. „En föðurmóðir hans var bóndadóttir. Þú þekkir ekki ætt okkar. Já, það er satt, að faðir minn er kominn í háa stöðu fyrir hylli Kristínar drottningar, svo og fyrir afreksverk sín og auðæfi þau, er hann fékk í þýzka stríðinu og með móður minni. Það er satt, að hann er stórlátur, mjög stórlátur, og það má vel vera, að ég sé stórlátur eins og hann. En líti ég á þig og minnist ég þess, hvernig við lékum okkur saman börn og unnum hvort öðru, og hvernig ég í skrautlífi hirðarinnar bar þig fyrir brjósti eins og trygga unnustu, þá máttu vita, Gréta, að ég gleymi því, að þú ert ekki nema dóttir ráðsmannsins okkar og að ég heiti Bernharð, greifi af Bertelskjöld; þá hugsa ég ekki framar um, að ég stend til að erfa einhverntíma þrjár kirkjusóknir á Finnlandi, sem nú eru orðnar greifadæmi, og þrjá bæi á Líflandi, og titilinn þýzkur ríkisfursti, eftir móður mína! Hvað hirði ég um allt þetta, ef þér þykir ekki vænt um mig né kallar mig Bernharð þinn eins og áður og lofar, að þú eins og áður viljir vera elsku litla stúlkan mín og unna mér heitt meðan þú lifir? Segðu mér, er það satt, að þú hafir gleymt mér meðan ég var í burtu?“ Hinn ungi maður sagði þessi orð með svo dreymandi dökkum augum, suðræna arfinum sínum, og hann var á þessu augnabliki svo forkunnarfríður, að vesalings Gréta tók aftur til áranna af öllu afli, án þess að svara, svo bátinn að vörmu spori rak svo hart að landi, að sjórinn fyllti skutinn. Nú flýtti mærin sér að rétta riddaranum höndina og sagði við hann hlæjandi, að kápa hans væri orðin gagndrepa. En hversu kænlega sem hún duldist með því að bera hornið á klút sínum upp að augunum, kom hinn ungi greifi þó augum á tvö tár, sem stálust ofan eftir blómlegum kinnum hennar. „Við skulum fara upp að húsinu“, sagði hún fremur fljótlega og benti á hrörlegan kofa, sem skammt frá þeim gægðist fram í milli birkitrjánna. Hinn ungi sveinn lét hana sleppa og stjakaði bátnum frá landi og stóð sjálfur eftir í honum. „Farðu að finna Hönnu“, mælti hann, „hvers vegna ætti ég að fylgja þér, úr því þér þykir ekki lengur vænt um mig?“ „Hvað ætlið þér að gera?“ æpti stúlkan forviða, reið og ráðalaus í senn. „Báturinn er hálffullur af sjó; honum getur hvolft hvenær sem vera skal“. „Það gildir einu hvar ég dey, hér eða á Póllandi, úr því þú hirðir ekkert um mig“. Hann herti sig að rugga bátnum svo hann saup sjó á bæði borð og lá við að fara af kjölnum. „Hvernig getið þér verið svo slæmur!“ kallaði hún upp yfir sig og gat með engu móti stillt sig. „Komið aftur, komið og lofið mér að segja yður nokkuð“. „Ekki fyrr en þú þúar mig og lofar, að þér skuli þykja vænt um mig eins og áður“. „Jæja þá, jæja þá... Bernharð, þú ert sá hlálegasti piltur, sem ég þekki, og samt... er mér ómögulegt annað en þykja vænt um þig“. Nú stjakaði ungi greifinn að, en svo áfergislega, að bátnum hvolfdi við hleinina. Stúlkan hljóðaði upp yfir sig, en háskinn var ekki stór, því dýptin var lítið yfir alin. Yngissveinninn óð tveimur skrefum upp í fjöruna og hljóp upp um hálsinn á Grétu. Beggja tár streymdu út úr augunum eins ótt og títt sem auðið er ást og æsku, áður en seytjánda aldursárið er liðið. 2. Svarta Hanna í kofanum „Vatn, eintómt vatn!“ kallaði rödd á baki unglinganna. „Tár, sem eru þornuð áður en flauelskápan er orðin þurr! Ást, sem hverfur áður en nýgræðingurinn fölnar! Æska, sem gleymir hinni löngu ókomnu tíð yfir slögum hjartans á svipstund munaðarins!“ Unglingarnir slepptu hvort öðru og reyndu að dylja tár sín, því báðum varð heldur en ekki bilt. Fyrir aftan þau stóð gömul kona, undarleg sýnum. Hún hafði dökkleita klútdulu vafða um hárstrý sitt ísgrátt og hálft andlitið, sem var bleikt og visið; hún var í slitinni svartri peysu og pilsfati með sama lit og sýndist því andlit hennar og hendur því fölara og hvítara. En þótt klæðin væri fátækleg voru þau hvergi rifin eða bætt, og það virtist sem einhver nosturs-svipur og hreinlætisfas fylgdi henni, sem gaf grun um, að hún, þó örbyrg væri, hefði séð sælli daga. Svarta Hanna, eins og hún var venjulega kölluð af litnum á búningi hennar, hafði átt uppgjafa-hermann; hafði þá fyrir mörgum árum flutzt inn í byggðarlag þetta og leigt sér hólmann með kofanum hjá greifanum á Mæníemí. Engin gat í rauninni sagt nokkuð illt um hana; hún lifði helzt á því, sem hún vann sér inn á herragarðinum, en notaði eins og aukagetu að spá í lófa manna, segja til stolinna muna og fleira þess konar. En hin inngróna almenna hjátrú þurfti ekki meira en þessar brellur hennar og að horfa á hið kynduga augnaráð, sem þeim fylgdi, til þess að hneykslast á henni og taka hana fyrir, einkum þar sem hún var þýzkrar ættar og að ætlun manna kaþólskrar trúar. Gekk það kvis ljósum logum, að bóndi hennar hefði unnið einhver níðingsverk í þrjátíuára-stríðinu, fólgið í jörðu stóran fjársjóð, er hann hafði náð með ránshendi, að Hanna gamla byggi yfir þessu, kveldist því af samvizkubiti og væri nú í elli sinni að bæta fyrir syndir hans og sínar. Þó vissi enginn um sannleikann í þessu meir en annar; en það vissi alþýðan, að engin lifandi vera hafði áunnið hylli hennar og trúnað nema ráðsmannsdóttirin, Gréta hin fríða; hún hafði frá barnæsku verið augasteinn kerlingar og sú eina, sem velkomin var í kofann í hólmanum. En það vissu menn ekki, að ungi greifinn hafði eignazt sinn hlut í vinfengi Hönnu sakir vináttu hans og Grétu frá því er þau voru börn; höfðu þau því oftlega stefnt sér mót í kofanum. „Vertu ekki, fóstra gamla, að suða við okkur núna“, sagði Gréta, sem helzt vildi slá öllu upp í gaman. „Farðu nú með okkur upp í kofann, minna máttu ekki bjóða gestum, sem að garði koma“. Um leið þreif hún utan um kerlingu og hringsneri henni í kring um sig. „Æskan og ólætin!“ sagði Hanna, sem kippti sér ekki upp við gáskann hjá Grétu. „Jæja þá, komið þið þá heim. Það er ekki lakara en að leika valinn og dúfuna á víðavangi. En varla hygg ég, að honum föður þínum þætti þetta vel tilfallið, ef hann vissi það“, bætti hún við og leit framan í Grétu. „Faðir minn er farinn til Ábæjar og kemur ekki heim aftur fyrr en seint í kvöld“, sagði stúlkan dræmt. „Jæja nú, komið þá. Litli greifinn er alvotur eins og nýdreginn fiskur. Ég held, að hann sé ekki einu sinni þurr undir eyrunum“. „Litli greifinn“ horfði á Grétu og heyrði ekki nokkurt orð af því, sem kerling sagði. Nú komu þau til kofans, sem stóð á hóli og lauftré öllum megin. Heldur var hann fátæklegur bæði utan að sjá og innan. Eitt rúm, borð, tveir stólar og eikarkista; en á þilinu héngu tvö eirstungin spjöld, sem voru mikils virði; var á öðru Pappenheim á hestbaki, en á hinu Gústaf Adólf niður að mitti, málaður af van Dyck og eirstunginn af hinum fræga Pontíusi. Þar beint á móti hékk tréskurðarmynd lélega gerð frá Nürnberg; það var María með barnið. Hanna bar á borð eintóma heimarétti fyrir gesti sína: trönuber, einiberja-síróp og birkisafa. Síðan fór hún út og kvaðst ætla að sækja sér eldivið í ofn sinn. „Hvað heldur þú?“ sagði greifinn og horfði á eftir gömlu konunni, „ætli hún sé okkur einlæg og segi ekki eftir okkur við föður minn eða þinn? Því það yrði sama sem að setja eirgirðingu á milli okkar“. „Ég held, að Hanna hafi orsök til að sýna okkur fulla hreinskilni“, svaraði Gréta. „Henni er vel til okkar, — ég veit það, sem aðrir vita ekki. Fólkið heldur, að hún sé galdranorn, og þó er hún ekki nema manneskja, sem reynt hefir mikið og margt kannað, og sér því lengra framundan sér en aðrir. Faðir minn er henni sárreiður, og því þori ég aldrei hingað að koma, nema þegar hann er ekki heima. Annars gæti hugsazt, að hann léti brenna hana á báli fyrir galdra, ef hann vissi, að við finnumst hér í kofanum“. „En er það nú víst, Gréta, að þér þyki vænt um mig“, sagði sveinninn og hélt áfram því efni, sem honum lá þyngst á hjarta. „Gáðu nú að: á morgun ætla ég á stað, hundrað mílur í burtu! Ég má því til að fá að vita, fyrir hvað ég á að lifa og berjast“. „Þér eigið að gleyma mér, Bernharð“, sagði stúlkan hugsandi og marði ósjálfrátt eitt berið milli fingranna. „Ég get aldrei orðið yðar kona“. „Ef þú talar svona, fer ég óðara mína leið. Faðir minn var bóndadóttur-sonur og samt eignaðist hann furstadóttur. Því skyldi þá munurinn milli þín og mín vera meiri en var milli þeirra? Ertu ekki allra fegursta rósin, og...“. Gréta hló, en þó ekki eðlilega, því tvö tár blikuðu í augnakrókum hennar. „Jú, fremur er það fallegt!“ sagði hún. „Svona hafið þér aldrei fyrri talað, Bernharð; það er eitthvað nýstárlegt — hafið þér ekki lært það í Stokkhólmi? Ég skal segja yður nokkuð: hugsið til mín eins og systur yðar, meira er ekki vert, og ég skal hugsa um yður — eins og fuglinn á veturna hugsar um sumarið sem leið“. „Þú trúir mér ekki, en þú skalt fá að sjá. Hanna getur spáð fyrir okkur; hún skal spá. Eigum við að veðja?“ „Hvað eigum við að veðja um?“ „Sérðu þennan hring á fingri mínum? Hann blikar móti sólskininu eins og væri hann úr stjörnubliki og báruljóma. Þegar Kristín drottning fór úr landi, gaf hún öllum hirðsveinum sínum gjafir. Mér gaf hún þennan hring, hann kostar yfir þúsund ríkisdali. Nú veðjum. við. Spái Hanna, að mér nokkru sinni verði á að unna annarri en þér, þá áttu hringinn; en spái hún eins og ég veit, að hún hlýtur að spá, þá gefur þú mér... lát mig sjá... jú, þetta kornblóm, sem þú hefir fest með prjóni við hálsklút þinn, og það skal vera merki þess, að við lifum í voninni“. „Þetta væri fallegt veðmál! Hugsið þér, að ég þiggi demanta og drottningargjafir? Nei, en lofið þér heldur að gefa mér eirhringinn, sem ég hef séð, að faðir yðar ávallt ber á hendi; hann er mátulegur handa mér“. „Þú veizt ekki um hvað þú biður mig, Gréta! Föður mínum þykir afar vænt um þann hring, þó enginn viti af hverju það er. „Bernharð“, sagði hann einn dag við mig, „ég mun fyrr eða síðar deyja skyndilegum dauða eins og móðir þín. Þá skaltu umfram allt annað gæta vel þessa hrings; þar liggur öll hamingja þín í veði“. Meira fékk ég ekki að vita, en - hvað varðar mig um hamingju mína, eigi ég að lifa án þín! Þegar ég eignast eirhringinn skaltu fá hann, ef ég missi veðmálsins, ég sel þér hönd mína því til staðfestingar“. „En þess mun yður lengst iðra, Bernharð“. „Ég hefi selt þér hönd mína. En þá máttu heldur ekki meina mér kornblómsins“. „Vel, heitið er gefið. Og svo eru hér trönuber, borðið þér“. Nú kom Hanna með viðinn, og óðara skíðlogaði í ofninum. Kerling tók flauelsheklu greifans og hengdi til þerris. Síðan færði hún stól hans að eldinum og neyddi hann til að setjast þar, um leið og hún sagði: „Svona, nú þurrkum við fyrst stásstígvélin. Er það líka vit að velja vetrarveginn yfir sjóinn og koma svo í land eins og sjóbirtingur. Það er auðséð, að sumir ungu herrarnir eru orðnir vanir því að gera sem sjálfum sýnist. En hérna brúkast nú engin hæverska við höfðingjabörnin“. „Gjörið það sem yður gott þykir, gamla mín, ég hlýði eins og barn, ef þér einungis lofið mér einu. — Spáðu svolítið fyrir okkur Grétu“. „Spá fyrir ykkur? Nei, heyrið til: sleppið því, heillabörnin. Það er manneskjunum til engrar nytsemdar, heldur leiðir það til syndar og skaða að sjá fram í tímann“. „Og þetta segið þér, Hanna, sem spáið fyrir alla sveitina“. „Það er nú allt annað mál. Stúlkukindunum spái ég því, að þær eignist unnusta, og fyrir það fæ ég sokka. Gömlu konunum lofa ég löngu lífi, og gömlum körlum góðæri, og að launum gefa þeir mér brauðsnúð eða mjólkursopa. En fyrir ykkur, nei, sleppum þeim barnaskap... Það ræður ykkur sú, sem vill ykkur vel“. „En ég krefst þess, að þú spáir fyrir okkur, gerir þú það ekki, fer ég burtu og þú sér mig aldrei framar“. „Nú, nú, náðugi ungherra... heitur eins og eldsglæður! Réttið þá fram höndina og ábyrgist sjálfur, hvað upp kemur“. Greifinn rétti henni hönd sína — hún var enda ekki lítið sólbrennd, þótt fín og fögur væri. Kerling skoðaði hana vel og rækilega, taldi æðar og drætti og alla gára og bretti ýmist eða lét síga brýrnar. „Hamingja!“ æpti hún, og mælti svo smám saman: „metorð og meðlæti — alveg eins og fyrir föður yðar — já, enn þá stærri upphefð, ungi herra!... hátt munuð þér stíga; furstar og prinsar munu yður sinn líka telja... og samt munuð þér einhverntíma falla, og falla fyrir sjálfskaparvíti...“. „Það er nóg!“ æpti Bernharð óþolinmóður. „En seg mér, Hanna: mun ég gefa hjartað fleirum en einni unnustu, meðan ég dreg andann?“ Hanna gamla leit á hann spyrjandi og nálega spottandi augum. „Þér eruð seytján ára og ættuð að geta því nærri, en úr því þér spyrjið svo hreinskilnislega, skal ég svara á sama hátt. Já, það er víst, þér eigið eftir að elska þó nokkrar unnustur“. „Nei, það er ómögulegt; þú ert að stríða mér!“ mælti sveinninn í bræði sinni. „Og þó er það áreiðanlegt, því ég kann að lesa í lófa. Ein, tvær, þrjár...! Þetta strik þýðir prinsessu... fjórar, fimm... hér kemur ein konungborin... sex, sjö... annars manns kona! Fý, ungherra góður!... átta, níu, leikara-kvensnift, og þá eruð þér kvongaður... tíu, ellefu, tólf... ég sé trúi ég hvergi endann á unnustunum!“ „Hann á þá eftir að gefa hjarta sitt tólf!“ tók nú mærin til orða með breyttum rómi, þar sem hún stóð við hliðina á Hönnu, mitt á milli gamans og gremju, forvitni og ótta. „Heyrið þér það, Bernharð, tólf!“ „Þetta er ekki satt, þetta er lýgi, ellefu sinnum lýgi!“ æpti ungi greifinn utan við sig. „Viljið þér vita meira?“ spurði Hanna og lét sig ekki, „þrettán, fjórtán, fimmtán... en þá standið þér á háu hengiflugi. Sextán, seytján... Þetta strik rennur í hið fyrsta... Þér munið einhvern tíma aftur sjá yðar fyrstu unnustu, en þá uggir mig, að beggja hárin verði hvítleit orðin“. „Fimmtán sinnum lýgi! Sextán sinnum lýgi!“ æpti Bernharð greifi yfirkominn af gremju og vandræðum. „Gleypi þig allar illar vættir, þín arma norn!“ bætti hann við og rauk út úr kofanum, leit þó snöggvast við og sagði: „Vertu sæl, Gréta; við hittumst árla á morgun í hallarskóginum. Eirhringinn skaltu fá!“ Að svo mæltu hljóp hann niður að bátnum og reri svo hart yfir sundið, að við sjálft lá, að hann myndi hvolfa farinu. Þegar hann komst á land, leysti hann hest sinn, varp sér í söðulinn og hleypti á brott. Hanna og mærin störðu á aðfarir hans eins og steini lostnar. „Já, mikill er hitinn í blóðinu!“ mælti kerling áhyggjufull og dæsti við; „þeim pilti volgnar oftar undir uggum á ævinni“. „Ég er þér reið, Hanna“, sagði stúlkan við hana hálfkjökrandi. „Hefðir þú sagt tvær... það hefði verið sök sér, en seytján... það var ljótt, ljótt“. „Hvað get ég að því gert?“ svaraði kerling og yppti öxlum. „En nú er hann farinn og báturinn í burtu. Nú verður þú að hírast hjá mér til morguns“. „Það má ég með engu móti. Faðir minn kemur heim í kvöld, og frétti hann, að ég hafi hér verið, fæ ég mikla óþökk fyrir“. „En hvernig ferðu að komast yfir sundið?“ „Það mun ég sýna“, svaraði mærin óðara. Síðan varp hún sér úr fötum sínum, batt þau í bagga og festi við háls sinn. Rétt á eftir léku öldurnar um hennar drifhvítu herðar. Hún var sundfær eins og svanur, og lengi lýstu hennar gulllokkar yfirborð hins bjarta sunds, og að tæpum tíu mínútum liðnum var mærin á land stigin heil á húfi. 3. Mæníemí höllin Miðbik hinnar 17. aldar var glæsilegasta tímabilið hinna sænsku og finnsku aðalsmanna. Þeir áttu þá að hrósa gamalli ættgöfgi og nýrri nafnfrægð, auk einkaréttindanna, voru og aðrir stórauðugir eftir styrjaldirnar í útlöndum. Á dögum Kristínar Gústafsdóttur drottningar urðu þeir nú æ ofsafyllri í metnaðarkröfum og áleitni við ríkisstjórnina og höfðu aldrei orðið jafnsvæsnir síðan á þeim dögum þegar þeir réðu ríkiserfðum í Svíþjóð. Tóku þeir jafnvel að seilast eftir sjálfri kórónunni, en gleymdu þó ekki að handsama um leið það, sem hver mátti ná til af löndum og lénsvaldi. Stóðu þeir miðsvegar milli konungs og alþýðu og kúguðu hvorntveggja, eftir því sem þeir máttu sér við koma; enda sóttu hart eftir að ná aftur rétti til að kjósa konunga, en þrælka bændur. Breyttust þær horfur lítið í landinu þótt Kristín drottning hefði allt í sukki með eyðslu sinni og örlæti — nema þann hlut, sem hún var snauð af, en það var hjarta með heitu blóði. Hún býtti út á báðar hendur aðalstigninni, og það svo freklega, að hestasveinar og matreiðslumenn hlutu sæti á riddaraþingi Svíanna, hvort heldur menn höfðu nokkurn verðleik eða engan. Heimsmarkaðurinn lá þá svo opinn fyrir aðalsstéttinni, að ekkert hélt við ásókn manna, svo að við sjálft lá, að allt ríkið yrði gjörsamlega sömu stéttinni háð, og stoðaði ekkert mótstaða og andróður alþýðu; metorðakeppnin og ásælnin varð eins og að óstöðvandi vorleysing, sem flæðir yfir alla stíflugarða. Og þó átti allt þetta ofríkisvald — öll þessi óseðjandi höfðingjastétt, til að bera svo mikið af atgerfi og göfuglyndi í hjarta sínu og skjaldarmerki, að tveim öldum síðar deildu tveir beztu sagnfræðingar Svía, og deildu harðlega um það, hvor vogarskálin hefði meira hallast hjá höfðingjum Svía á 17. öldinni: sú, sem geymdi gagn ríkisins, eða hin, sem skaðsemina geymdi. Eftir fall Gústafs Adólfs gerðist þrjátíuára-stríðið enn þá óðara og skaðsamara en áður. Var þá allri þeirri vægð og vorkunn lokið, er Svíar höfðu áður kynnt sig að og sýnt sigruðum óvinum. Var þá og barizt um líf og dauða, og hirti sá, er betur hafði, allt, sem hann fékk hendur á fest, og flutti síðan ránsfenginn heim í land sitt. Nær því allir stór-hershöfðingjar þeir, er komust lífs af í ófriðnum eftir fall Gústafs og eigi eyddu herfanginu óðara í svalli, komu heim til Svíþjóðar með fullar hendur fjár, reistu sér skrauthallir í Stokkhólmi eða úti í héruðum og héldu sig stórmannlega meðan þeir lifðu og viðhöfðu æ sömu siði, sem þeir vanizt höfðu í hernaðinum. Fáeinir þeirra leituðu til Finnlands og létu byggja sér torsóttar herborgir á ströndum þess; en flestir urðu skjótt fullsaddir á hinu fábrotna veiðimannalífi og sveitasælunni, og á meðan þeir voru á léttu skeiði kusu þeir heldur hirðveizlur Kristínar drottningar og síðan herfarir Karls Gústafs, en létu Finnlandi nægja kvöldroðann af ellidögum sínum og varðveizlu beina sinna í grafklefum dómkirkjunnar í Ábæ eða í ættarlegstöðum við einhverja sveitakirkjuna. Enda eru og flest þeirra höfuðból nú horfin eða hrunin fyrir tönnum tímans eða eyðilegging hernaðarins, en allt um það geyma hundrað kirkjur á Finnlandi enn hinar síðustu raunalegu menjar þessarar stórfrægu kynslóðar: Grafkapellur, aðalsskildi, málverk, grafskriftir, kórónur, altarisbríkur og sjálfa legsteinana. Er letur þeirra flestra slitið orðið, en oftast má enn glögglega lesa 1 og 6, sem merkir öld Gústafs Adólfs. Eitt þessara stórauðugu og mikilfenglegu höfuðbóla, er síðan hefir týnt blóma sínum eins og aðallinn, var greifagarðurinn Mæníemí. Þá höll byggði Gústaf greifi Bertelskjöld á hinum fyrstu árum eftir vestfalska friðinn; var hún kennd við Maríu mey og kölluð Maríunes. En á tungu alþýðunnar undi nafn þetta illa í fyrstu og breyttist í nafnið Marjala, og síðan í Mæníemí; sem viðhélzt síðan. Þegar saga þessi hófst, árið 1656, stóð höllin í blóma sínum. Það var steinhús þrílyft með bröttu íbjúgu eirþaki og þótti geigur standa af turnum þess, er einnig skinu af eiri. Byggingin var öll í miðaldastíl og stakk heldur en ekki í stúf við hin lágu hreysi kotungsfólksins umhverfis. Hallartröppurnar voru lagðar hvítum hellum úr marmara og leiddu upp í háreista sali, alskreytta skjöldum, fánum, fangamörkum og elgsdýrshornum; lágu þaðan krókstigar upp í turnklefana, er gerðir voru með fáránlegu fornþýzku lagi, með útskorna bjálka og veggi, sem allt lýsti eyðslu og afkárasniði; máttu ókunnugir ætla, að þeir fremur hefði heimsótt háþýzkar höfðingjahallir, heldur en að þeir væri staddir á hinni fáskrúðugu Finnlands strönd, heimkynni sultar og seyru. Þegar menn líta í bók Dahlbergs: Svecia antiqva et hodierna og sjá hofgarða höfðingjanna á 17. öldinni á meðan þeir stóðu í fullum blóma auðs og oflætis, virðist eins og yfir þeim liggi einhver örlagadrungi ættardrambs og ofmetnaðar, er á vorum dögum á illa við og mjög sýnist úrelt orðið. Mæníemí höllin hafði, þó nýleg væri þá, svipuð áhrif á áhorfandann. Þó hún væri ekki eldri en 6 eða 7 ára, leit hún út sem hefði hún staðið öldum saman. Kom það ef til vill af því, að húsbóndinn og stofnarinn sjálfur hafði ekki búið í höllinni nema sárfá ár áður en kallið kom og hann hlaut aftur að neyta sinna öflugu armleggja í ófriði fyrir konung sinn og ættjörðu. Einnig gat því valdið, að engin snotur hönd huglátrar húsmóður breiddi þýðusvip og þokka yfir höllu þessa til að milda hennar harðvíga hrottasvip gagnvart örbyrgðarhreysunum umhverfis. Það var um miðmorguns skeið. Höllin speglaði sína háreistu múrveggi í morgunljóma vorsins og hinni lygnu vík, er náði alla leið að grundvelli hallarinnar. Ljúfar vorskúrir höfðu laugað landið í kring um nóttina; hló því náttúran af heilsukrafti og æskufjöri, en loftið bar að vitum manna þá óumræðilegu endurnærandi angan, sem gerir norræna vorblíðu svo unaðslega, fjörgandi og fagra. Lævirkjarnir gullu sín gleðiljóð í loftinu, en lægra sveifluðu svölurnar sér eins og sindrandi sólblik, og þrösturinn kvað kvæðin sín í hinu ljósgræna, nýsprottna laufi birkitrjánna. Við skógargerðið skammt frá höllinni stóð vinnufólk greifans að verki, karlar, konur og börn, hraklega klætt, magurt og soltið að sjá. Á miðöldunum þótti það ólán mikið í sveitum, ef hallir voru reistar. Tímarnir tóku að breytast og lögin leituðust við að stemma stigu fyrir yfirgangi lénsvaldsins; en á Finnlandi komu lögin þá enn að litlu haldi. Höfðingjarnir og ármenn þeirra gjörðu hvað þeim gott þótti, og umkvartanir urðu einungis til þess að steypa þeim í glötun, sem þeim ollu, þannig var því varið, að jafnvel hér, svo nærri Ábæ, þar sem æðsti dómstóll landsins, hirðrétturinn, var, gat undirokun og ójafnaður leikið lausum hala með vellíðan alþýðunnar. Bygging Mæníemí hallarinnar hafði gereytt efnum sveitarinnar, og viðhald garðsins saup sí og æ upp allt það, sem ófriðurinn og hallærið leifði. Ekki er ólíklegt, að Bertelskjöld greifi hafi enga hugmynd haft um allt það volæði, sem landsetar hans áttu við að búa. Þegar hann var í hernaði hirti hann lítið um hag þeirra og var vel ánægður yfir eignum sínum meðan ármenn hans sendu honum á réttum tímum hinar háu fjárhæðir, er hann eyddi og sóaði eins og aðrir aðalsmenn þeirra tíma, án þess að honum kæmi í hug, að fé það hefði verið pínt út úr örsnauðum landsetum hans, unz þeir stóðu slyppir eftir. Verkamennirnir áttu erfitt og umfangsmikið verk fyrir höndum. Í stað timburgirðinga áttu þeir að gera steinveggi í kring um allan veiðigarð greifans, sem geymdi nóg af elgsdýrum og hreinum, því hann var veiðimaður mikill. Frá því um sólaruppkomu höfðu þeir verið að viða að grjóti og hlaða úr því háa garða, en yfir þeim, sem unnu, stóðu aðrir menn, er ráðsmaðurinn hafði lagt í hendur mjúka stafi úr hesli eða úr reyniviði, til þess að greiða óðara hvínandi höggin hverjum þeim, er þeim þótti sýna leti eða þrjózku. Kona ein, er sýndist komin að niðursígi sakir sultar og elli, hafði ekki þótt eins vaskleg að verkinu eins og verkstjórinn vildi, en verkið var að aka hjólbörum fullum af smágrjóti til uppfyllingar; hún hlaut nú nokkur ósvikin högg og hneig við það niður. Þetta sá sonur hennar, piltur á 14. ári, og varð svo æfur, að hann hljóp á mannhundinn og lúbarði hann eins og af tók. Maður þessi var bæði mikill og sterkur og tók óðara til piltsins, fleygði honum hart til jarðar og tók að berja hann miskunnarlaust. Nokkrir þeirra, sem næstir voru, hættu að vinna og létu hótanir í ljósi við vinnustjórann. Hann barði þá til beggja handa með priki sínu, unz einn verkamaðurinn, sem hinn hitti framan á andlitið, hljóp undir hann, fleygði honum niður og barði duglega. Loks lenti allt fólkið í áflogum og allt komst í uppnám og uppreisn. Svöluðu verkamennirnir gamalli gremju, fleygðu frá sér því, er þeir héldu á, gripu garðstaura og felldu til jarðar alla sveina ármannsins og lömdu svo geyst og grimmlega, að þeir hefðu þar allir bana beðið, ef maður aðvífandi hefði ekki í sömu svipan komið til sögunnar. „Meistari Adam!“ kallaði einn af kotungunum, og nafn það hafði töfrandi áhrif á þvöguna. Garðstaurunum var þegar varpað, grið gefin hinum sigruðu, og allir tóku þegjandi aftur til vinnunnar, en gutu þó flóttalega augunum, eins og ekki væri von á góðu. Meistari Adam, ármaðurinn, sem allir óttuðust, kom gangandi eftir stíg þeim, er lá frá höllinni. Hann var hár maður vexti og sterklegur, á fimmtugsaldri, og var klæddur að hálfu leyti eins og fyrirmaður, en að öðru sem bóndamaður. Hann var að mestu hvítur fyrir hærum og bar hundskinnshúfu á höfði. Hann var varaþunnur, gráeygður og smáeygður, brúnaber, djarflegur og harðmannlegur á svip og lymskulegur um leið. Hann hafði þegar álengdar komið njósnaraugum á uppþotið, en flýtti sér ekki að heldur. Kom nú að vinnunni og hafði mjög hægt um sig, handviss um að hafa í hendi sér þetta hyski, sem lært harði að óttast hann árum saman. Meistari Adam hlustaði hljóður á kæru verkstjórans og var skjótur til úrskurðar. Svo mikill var ótti verkalýðsins, að enginn dirfðist orð að tala til varnar sínu máli, enda munu þeir hafa vitað fyrirfram, að slíkt mundi einungis spilla sök þeirra. Fjórtán ára pilturinn, sem olli uppþotinu, sleppti sér með öllu, og var öllum hinum meir en nóg boðið, þegar hann steytti hnefana framan í meistara Adam og æpti hástöfum: „Ef þú lætur ekki hana móður mína vera í friði, skal ég drepa þig, þegar ég er orðinn stór. Fyrst tókstu hann föður okkar, og hann fórst í stríðinu, svo tókstu elzta bróður minn, og hann kom aldrei aftur; svo tókstu hestinn okkar í skuldirnar. Svo neyddir þú hinn bróðurinn minn til þess að draga múrsteina-vagninn, af því við áttum þá engan hestinn; og svo gafst hann upp og dó af þreytunni. Og nú hefir þú nauðgað aumingja móður minni til að þrælka þrjá daga um vikuna kauplaust, þó við eigum engan brauðbita að borða. Og nú hafa karlarnir þínir barið bæði hana og mig. Þetta er ranglæti, meistari Adam. Þú getur látið hýða mig í hel, en ég segi samt, þetta er ranglæti“. „Hvað heitirðu?“ spurði ármaðurinn hálfglottandi og horfði hvasst á piltinn. „Eins og þú vitir það ekki“, svaraði pilturinn og lét sig ekki, „ég heiti Pétur, og Pétur hét faðir minn, og Lampi-fólkið erum við kölluð, af því kotið okkar liggur niður við sjóinn. Skrifaðu það í svörtu bókina þína; guð skrifar það líka einhverntíma í sína“. „Þú hefur góð lungu“, mælti ármaðurinn glottandi. „Það væri synd að lofa þér ekki að neyta þeirra. Setjið þið strák í mylluklefann“, sagði hann til þjóna sinna, „berjið hann duglega einu sinni á dag og segið mér svo til, þegar hann er búinn með þrjózkuna. Farið burtu með móður hans, til þess hún tefji ekki vinnuna; hún skal aftur vinna skyldudag á morgun. Þið hinir, sem hafið sýnt þrjózku! vitið þið, illþýðið ykkar, hvað það þýðir að standa upp í hárinu á húsbónda sínum og lánardrottni? Húfurnar af hausnum, skræfur! En þú, Níels, þú barðir fyrstur á þjóni mínum, ég þekki þig, kunningi! Færið hann lögreglumanninum, hann fer sem fangi beina leið til Ábæjar, þið hinir verðið sjálfir að koma ykkur aftur í mjúkinn við verkstjórana mína með sæmilegum sektarbótum og síðan varpið þið hlutkesti, því að átta af ykkur verða teknir í herinn og sendir til Póllands. Skiljið þið mig, skræfur?“ Tveir af verkstjórunum biðu ekki boðanna að grípa piltinn og Níels og leiða þá brott. Móðir piltsins, sem barinn hafði verið, gafst ekki upp, heldur hljóp ógnandi í flasið á verkstjórunum, en allt vinnufólkið, um fjörutíu að tölu, stóð í þvögu og starði ýmist á ármanninn eða hvert á annað með ótta og heift í augum. Meistara Adam leizt ekki á blikuna, því að hann sá yfirráð sín í veði. En heppnin kom að hjálpa karli. Hundagelt gall við í skóginum og í sama bili kvað við byssuskot. Allra augu litu þangað, því að á þeim árstíma, þegar dýrin eru að ala unga sína, var aldrei vant að veiða. Hundageltið færðist nær og nær, það brakaði í greinunum og ungur elgur kom æðandi og stefndi þar að, sem girðingin hafði verið rofin. Sumt af fólkinu æpti upp; elgsdýrið nam staðar, og aftur small skot, og við það ruddist hið fagra dýr blóðugt inn til fólksins, sem hopaði undan; það reikaði fáein skref og steyptist svo áfram og gaf upp andann með þeim undarlegu, biðjandi augum, sem allir veiðimenn kannast við. Óðara komu nú hundarnir, og eftir þeim ungi greifinn Bernharð ríðandi með byssuna á bakinu, er hann hafði skotið með. Hinn ungi maður nam staðar litla stund; var auðséð, að honum varð hverft við að sjá á svo óhentugum tíma og á meðan á veiðinni stóð hinn stranga ármann, er hann ósjálfrátt hafði nokkurn beyg af frá barnæsku sinni, þótt hann nú væri erfingi og húsbóndi óðalshallarinnar. En metnaður hans mátti sín brátt meira; hann steig af baki og gekk að elgsdýrinu og tók fram, eins og við sjálfan sig, að dýrið væri ekki kvendýr og fyrir því væri enginn kálfur í veði. Verkafólkið hneigði sig með lotningu og ármaðurinn tók ofan húfuna og mælti með eins konar auðmýktar-skopi. „Náðugur húsbóndinn hefir leyfi til að lóga dýrunum sínum, hvenær sem honum gott þykir“. Lengra komst ekki ármaðurinn, því í sama bili fleygði Lampi-konan sér fyrir fætur greifans og æpti: „Náðugi herra! miskunnið þér syni mínum! Þeir ætla að kasta honum í mylluklefann! Þér vitið ekki, hvað mylluklefinn þýðir. Yfir vatnshjólinu er koldimmt skot með rimagólfi, svo að löðrið slettist í sífellu upp. Þar lætur ármaðurinn fangana sitja dag og nótt matarlausa í myrkri og kulda, gagndrepa af vatninu og heyrnarlausa af niðinum í því. Miskunnið þér drengnum“. „Er þetta satt, sem hún segir?“ spurði greifinn og leit til ármannsins eins og hann tryði því ekki, og var nú ármaðurinn orðinn sá ákærði. Ármaðurinn lét ekki vanta að lýsa uppþotinu með sömu fyrirlitningarorðum um fólkið eins og hann hafði talað til þess áður. En áhrifin af þeim rómi hans urðu nú önnur. Hann gleymdi metnaðarhreyfingunum í blóði hins 17 ára manns; hann grunaði heldur ekki ef til vill, að unga greifanum þótti nóg að hafa orðið að gera hálfvegis afsökun fyrir óhæfileg veiðibrögð sín og vildi nú gjarnan grípa gefið færi til að láta þjón sinn þekkja myndugleik sinn. Greifinn leit velvildaraugum til verkafólksins: „Ykkur hefir stórum yfirsézt“, mælti hann, „og hvorki ég né faðir minn þolum slíkt hegningarlaust komi það oftar fyrir. Þó vil ég ekki, að mín stutta dvöl hér truflist af refsidómum. Ég fyrirgef ykkur í þetta sinn í þeirri von, að þið framvegis verðið hlýðnir þjónar. Ég gef ykkur upp allar sakir og sektir og frelsi frá vinnu í dag. Vil ég, að þið takið ykkur tyllidag. Þér, meistari Adam, sjáið um, að fólkinu sé gefinn miðdegismatur og tvær tunnur öls fyrir kvöldið“. Greifinn fór. Ármaðurinn fylgdi á eftir ófrýnn í framan, en verkafólkið æpti fegins-óp og Lampi-sveinninn fjórtán vetra veifaði karbættri húfunni og hrópaði: „Húrra fyrir unga greifanum góða! Þetta skal ég muna, þegar ég er orðinn stór!“ 4. Meistari Adam Garður ármannsins lá steinsnar frá höllinni á hæð einni við víkina; mátti þaðan vel sjá allt, sem fram fór. Það var og áríðandi ýmissa hluta vegna, en þó einkum sakir hatursins, er ármaður þessi hafði bakað sér. Þrír hinir áreiðanlegustu og sterkustu af þjónum hans mynduðu lífvörðinn á bæ hans; lá um hann plankavirki með járngöddum og var hann því eins konar útvirki til varnar höllinni. Efst á húsgaflinum hékk bjalla mikil, há og hvell. Mátti með henni heimta hjálparlið frá höllinni, ef ármanni lægi mikið á. Í garðinum voru nægar vopnabirgðir og bærinn var líkari vopnabúri en friðsömu ráðsmannssetri. Skömmu eftir að þetta varð til tíðinda, mátti einhverju sinni sjá meistara Adam koma frá bæ sínum og skima með njósnaraugum til skógarins. Það leið og ekki á löngu, áður en hann kom auga á tvær persónur þar inni milli trjánna: Það var Gréta dóttir hans og Bernharð ungi greifinn. Ekki var trútt um, að bros kæmi á varir ármannsins í því er hann þekkti þau. „Ekki er það verra“, umlaði hann. „Ungi örninn ætlar í tíma að treysta á vængina, en taug á ég, sem takmarka má flug hans“. Síðan gekk hann hægt og hægt upp að höllinni og lofaði unglingunum í næði að njóta skilnaðarstundarinnar. Meistarinn var nú orðinn óþekkjanlegur. Eins og allur annar maður gekk hann nú um kring meðal fólksins og býtti mat og bjór á báðar hendur og mælti hlýjum orðum við hvern mann, án þess að látast sjá haturs- og grunsemdaraugun, sem hvervetna litu storkandi á eftir honum. Lampi-pilturinn átti bágt með að stýra málbeininu: „Skál, meistari Adam!“ kallaði hann og teygði sig fram með bjórkrúsina. „Þetta öl er ekki úr mylluklefanum“. Ármaðurinn svaraði því brosandi: „Þú ferð skakkt, drengur minn, maltið kemur beint úr myllunni“. En æskan og ástin héldu beint sína ljúfu leið í lystiskóginum. Vorsólin gægðist niður milli greinanna á trjánum, skínandi eins og þau af fjöri og blíðu. Frumliljur vorsins, feimnar eins og fyrsta ástin, saklausar, ferskar og fullar vonar beygðu þær höfuð sín, en þau tóku ekki eftir því, og samt sem áður sáu þau allt og heyrðu, því að allir hlutir runnu í eitt fyrir þeim — í eina sýn og í einn og sama tón: sól og blómstur og fuglasöngur, allt tók sama lagið, það var auga elskandans, ómur hinnar ástúðlegu raddar, nú, þegar skilnaðarstundin nálgaðist, og gervöll ævin endurskein í einu einasta tári, eins og tilveran öll endurskín í einum einasta árdaggar dropa. Ættgöfgi, auður, metorð, frægð og framtíðarvonir, lán og ljómi, sæmd og sómi: hneigið hin stórlátu höfuð, því í hjartans heimi býr vald, sem er meira en yðar, það jafnar fjöll og dali og niðurbrýtur girðingarnar millum hins háa og lága, það megnar allt, af því það trúir öllu, og girnist þó ekkert nema sig sjálft. Þess vegna er ljómi hinnar fyrstu ástar svo fagur og lifir og leiftrar löngu eftir að hún er horfin, í ævinnar endurminning, eins og skáldið segir: /# Þú kemur aftur, árborni kraftur frumlífsins fagur --, fyrsti sumardagur. #/ Sólin var komin hátt á loft, þegar hinum unga greifa kom í hug, að hann átti að ná til Ábæjar þann sama dag og síðan kveðja land sitt. Hann þreif hönd stúlkunnar — hann, hinn ríki og stórættaði, hafði aldrei dirfzt að biðja um koss af hennar fersku vörum. Nú kyssti hann höndina, sem lá heit í hans, móða kom fyrir augu meyjarinnar; en þegar hún leit við, var sveinninn horfinn hinum megin við eikurnar. Einfeldningur! Hann kom frá draumalandi sínu, vonsæll og sérplægnislaus, en grunaði ekki, að heima við höllina beið hans ísköld eigingirnin. Hann hefði þurft að eiga þrek hins fullþroskaða manns og reynslu öldungsins til þess að standast, en átti tóma angurblíðu, sælu og söknuð. Meistari Adam beið hans í stóra salnum. Greifinn tók varla eftir honum, en ármaðurinn gekk á móti honum með djarfleik og auðmýkt, skrítilega samansetta og rétti hinum unga lánardrottni sínum pyngju með silfurpeningum og mælti með vel fyrirhugaðri áherzlu: „Þetta er allt og sumt, sem ég hefi getað samandregið handa herra greifanum til ferðakostnaðar“. „Vel er það, svaraði sveinninn, en leit ekki á peningana. „Leggið það í ferðakistu mína, ég skal síðar kvitta fyrir allt saman“. Nú brást ármanninum bogalistin. „Þetta eru einir 450 dalir í silfri. Þér getið ekki, náðugi herra, borgað ferðakostnað og fargerfi fyrir það í Ábæ“. „Vel, ég skil yður“, svaraði greifinn út í bláinn. „Þér ætlið að bæta við; látið allt í ferðakistuna“. „Nei, náðugi herra, til allrar óhamingju get ég ekki goldið yður meira í svipinn. Á morgun eða hinn daginn falla landsskuldir frá nyrztu jörðunum í gjalddaga, og verð ég að neyðast til að láta annan mann heimta þær fyrir mig. Ég bið yður, sem sé, náðugur herra, auðmjúklega, að gefa mig lausan úr vist minni nú þegar, með því ég þykist vita, að greifinn faðir yðar neiti ekki sínu samþykki“. „Hvað segið þér, meistari Adam?“ sagði sveinninn, sem tók eftir áherzlunni á orðum ármannsins. „Náðugi greifi“, svaraði ráðsmaðurinn. „Þér farið nú í hernaðinn og fáið þar sveit að stýra. Nú kann svo við að bera, að liðsmenn yðar geri mótþróa, ekki gegn yður, heldur undirforingjanum, sem á að sjá um, að hver og einn geri skyldu sína. Undirforinginn hegnir þeim fyrir ávirðing þeirra, er að öðrum kosti mætti eyðileggja agann í hernum. Nú kann yðar náð sjálfa þar að að bera. Þér heyrið einungis hina óhlýðnu segja sjálfa frá og gefið þeim seku upp sök þeirra — meira að segja: þér haldið þeim gildi og gestaboð. Undirmaður yðar dirfist ekki að mæla yður í móti; hann hlýðir, en gerir líka það, sem skyldan býður honum: hann segir af sér“. „En það er þó ekki meining yðar, meistari Adam, þér getið ekki heimtað, að ég, sem kem heim til ættjarðar minnar til að tefja fáeina daga, skuli bletta minningu þessa tíma með refsingum“. „En þá getið þér ekki, herra greifi, búizt við, að ég, sem hefi þjónað með trú og dyggð í 15 ár greifanum föður yðar, skuli halda þessu embætti, þar sem ég í frá þessari stundu mæti eintómri storkun og þrjózku frá hálfu undirmanna minna“. „Hverja viðreisn viljið þér þá fá?“ „Ég á ekki nema um tvennt að velja: annað hvort vík ég úr þjónustu yðar í dag, ellegar ég hlýt að fá leyfi til að refsa hinum þverbrotnu á morgun“. „Það er ómögulegt. Mitt orð er óbifandi, ekki síður en yðar. Þér hafið ekki farið vel með fólkið, ráðsmaður. Ég sé volæði og gremju á hverju andliti. Ég kenni í brjósti um það“. „Þér þekkið ekki hyskið, herra minn góður. Þeir eru þráir og þrjótlyndir og verða ekki hamdir nema með hörkunni. Látið þér taumana rakna og látist ekki sjá óhlýðni þeirra í dag, og óðara en á morgun eru þeir vísir til að rífa höllina yðar niður að grunni. Greifinn, hann faðir yðar, hlýtur að fá 30 þúsund dali um árið til að standast sinn kostnað. Þér sjálfur, náðugi herra, komist ekki af með minna en 10 þúsundir. Útgjöldin við höllina kosta jafnmikið. Hvar ætlið þér að fá allt það fé, sé fólkinu ekki haldið í skefjum. Sextán jarðir yðar eru veðsettar, þrjátíu eru í eyði sakir útboðanna til stríðsins. Í ár býr aðallinn hálfu fleira herlið en fyrr; hver áttundi kotungur fer í dátatreyjuna; hér við skerin eru tveir bændur af fimm teknir á skipin. Pestin er komin í Ábæ, og það er farið að kvisast, að ólyfjan sé komin í brunnana. Seyðkerlingar og galdramenn flakka um landið og æsa almenninginn með alls konar fjandafælum. Fyrirgefið gömlum og trúum þjóni, þó hann spyrji: er nú tími til að sýna mildi og miskun? Ég vil ekki dylja fyrir yður, góði herra, að sleppi ég tauminum af fólkinu í dag, getur hæglega komið almennt upphlaup á morgun. En ef þér heldur kjósið að fylgja tilhneigingum hjarta yðar en boðorði nauðsyninnar og hyggindanna, þá hefi ég ekki fleira að tala. Reikningar mínir eru í reglu og ég er albúinn að fara yfir í Svíþjóð með dóttur mína, jafnsnauður maður eins og ég kom“. „Kennið mér ráð til þess að ég komizt hjá að hegna“, sagði hinn ungi maður, sem bersýnilega fannst mikið um hina döpru lýsing ráðsmannsins, enda má vel vera, að hugsunin til þess, að hin fríða Gréta færi í fjarlægð, fengi líka á hann. „Þér þurfið ekki að hegna, herra minn“, svaraði ármaðurinn og glotti leynilega. „Þér farið í dag til Ábæjar og yður elta allra heillaóskir og feginslæti. En það er ég, sem fæ þakkirnar á morgun fyrir að hafa gert á móti vilja yðar. Ég, verð hataður enn þá meir en áður, því menn sjá einungis höndina, sem hegnir, en ekki höfuðið, sem skipar. En ég er alvanur því að vera misskilinn; hvað varðar mig um hatrið? Ég þjóna húsbónda mínum, það dugar, ég er albúinn að offra honum öllu“. Bernharð greifi var á báðum áttum. Loksins sigraði metnaður hans og sómatilfinning. „Nei“, mælti hann, „það verður svo að vera, hvað sem eftir kemur. Hittið annað ráð. Ég svík ekki orð mín“. Ráðsmaðurinn þagði litla stund, og mælti síðan: „Heitið mér einu, herra góður; að þér viljið, áður en þér leggið á stað, samankalla verkafólkið og áminna það um að vera mér hlýðið og auðsveipt í öllum greinum, eins og það vildi vera við yður sjálfan“. „Verðið þér þá kyrr?“ „Já, náðugi herra“. „Vel. Ég heiti því“. Hálfri stundu síðar var allt fólkið samankomið frammi fyrir húsbónda þess, og beið þá hestur hans óþolinmóður við hallarhliðið. Greifinn hafði uppfyllt ósk ármannsins og boðið öllum að hlýða honum skilmálalaust. Reyndar kom upp kurr saman við fagnaðarópin, en greifinn gaf því lítinn gaum, heldur hleypti þegar í brott veginn, sem lá til Ábæjar. Ein var sú, sem horfði með grátnum augum á þegar bláfjöðrin hvarf á leitinu; það var dóttir hins harða ármanns, hin blíða Gréta með gulllokkana. Óðara en greifinn var kominn á hvarf, kallaði ármaðurinn á sveina sína. „Brott með bjórinn!“ æpti hann. „Fram með fangakerruna og flytjið hann Níels í fangelsi! Átta verstu illhryssingarnir af ykkur skulu fara í stríðið. Lampi-strákurinn fer í mylluklefann, og móðir hans skal óðara borin út!“ Allir, sem nálægir voru, fylltust ótta og undrun. Lampi-konan einsömul áræddi að opna munninn til kveinstafa: „Vei, vei!“ hrópaði hún hástöfum. „Bölvan yfir þeim rangláta ráðsmanni!“
Árið 1656 var erfitt á Finnlandi með mörgu móti. Óvinir landsins höfðu brotizt inn í fylkið Karelen og herjað þar — það var það sinn, sem skólapiltarnir í Víborg lögðu á stað til að verja bæinn. Uppskeran hafði víða brugðizt, menn bjuggust við pestinni, og stríðið á Póllandi saup upp allt fólk, sem vopnfært var og með nokkuru móti gat heiman að farið. Konungur hafði — ekki alls kostar lögum samkvæmt — kallað til hersins ekki einungis þessa árs útboðalið heldur og næstkomanda árs. Alþýðan knurraði og var sums staðar til þess ginnt af leynisendlum. Trúnaður hennar við konung sinn var óbifandi, en knúðir af hallærinu leiddust menn í stöku sveitum, svo sem nærri Ábæ, til að hlýða á ræður þeirra, er sögðu, að hið síðasta útboð kæmi ekki frá konunginum, heldur eigingjörnum embættismönnum, er ætluðu sér að selja hermennina annað hvort Dönum eða Rússum. Afleiðingin varð sú, að órói kviknaði hér og hvar, og menn neituðu útboðsskipuninni, svo ýmist varð að neyða menn með valdi eða lokka með fögrum fortölum til að hlýða boði yfirvaldanna. Sveitin umhverfis Mæníemí hafði verið útsogin og pínd með margra ára kúgun, enda var alþýðan þar einna áfjáðust. Síðla hið sama kvöld, sem greifinn Bernharð hafði farið leiðar sinnar til Ábæjar, mátti sjá bát með tveimur karlmönnum og einni konu róa í skyndi yfir sundið til kofa svörtu Jóhönnu. Gamla konan svaf eða lézt sofa, en varð þó loks vakin með bumluhöggi á hurðina og lét þá tilleiðast að leyfa gestunum inngöngu. „Er fjandinn í ykkur?“ spurði kerling, „úr því þið látið ekki fólk vera í friði, þegar svo er framorðið. Vitið þið þá ekki, að svipa ármannsins mun vekja ykkur sjálfa fyrir miðjan morgun á morgun?“ „Það er beint fyrir þá sök, að við komum að finna þig“, svaraði Lampi-konan. „Svipa ármannsins skal aldrei oftar vekja okkur, og til þess átt þú að hjálpa okkur, Hanna“. „Ég!“ æpti kerling og lézt verða steinhissa, þótt hún að líkindum vel vissi í hverjum erindum þau væru komin. „Já, einmitt þú“, sagði konan. „Hér er enginn tími til að fjölyrða. Níels í Arvíó hefir verið settur í fangelsi í kvöld. Pilturinn minn, hann Pétur, er settur í mylluklefann, og ég er borin út úr kotinu, og þegar eftir sólaruppkomu verða sex og tveir sendir til Ábæjar og gerðir að dátum“. „Hvað varðar mig um þetta? Mér má nægja meðan ég er látin halda kofanum“. „Já“, svaraði konan einbeitt og þó heimulega: „Þú verður að gefa meistara Adam inn eitur í nótt!“ „Eruð þið frá vitinu? Svíkja ármanninn á eitri?“ „Heyrðu nú, Svarta-Hanna, það er ekki vert að þú viðhafir nein látalæti. Allir vita, að þú kannt heimuleg fræði, sem þú kannt að nota bæði til góðs og ills. Þú ert nær því eins víðfræg eins og Púú-Jómala, og margir telja þína kunnáttu fremri en Valborgar frá Tyrvis. Þér er því til einskis að látast ekkert vita. Þú skalt tilbúa töfraskot, og því skal verða kastað áður en nóttin er liðin inn í gegnum glugga ármannsins, þá getur hann legið dauður í rúmi sínu áður en dagur rennur á morgun“. „Farið burtu, þið hafið sopið ofmikið á ölinu, sýnist mér“, sagði Hanna æf af reiði. „Það er svona“, sögðu þá karlmennirnir, „heldurðu máske við séum komnir til þess að láta gera gys að okkur? Nei, kerling sæl, nú er neyð fyrir dyrum, og þú sleppur ekki úr þessum sporum. Gerir þú ekki vilja okkar óðara, leggjum við eld í kofaræfilinn þinn og kveikjum í hverju hans horni og steikjum þig á þinn eigin kostnað, þitt galdraskass“. Hanna leit fast framan í mennina og þóttist skynja, að þeir væru reiðubúnir að efna orð sín, knúðir af neyð og hjátrú. „Jæja þá“, mælti hún eftir nokkurt hik, „ég skal gera vilja ykkar, en ekki í nótt. Eða haldið þið, að hérna vaxi töfrajurtir, galdrastafir og drekablóð í baðstofunni? Dauðra bein kynni ég að geta átt í fórum mínum, og eðluhaus líka, frosklæri og fleira, en hvernig í dauðanum á ég að útvega kirkjugarðsmold, ugluhjörtu, höggormatungur og þess konar? Nei, biðjið guð um náð! Þið verðið að bíða róleg. Og svo er ekki hægt að aðhafast neitt nema með minnkandi tungli, því með því vaxandi missa jurtirnar kraftana og geta engan skaða gert, heldur eru þá eingöngu græðandi. Komið aftur eftir fjórtán daga“. Karlmennirnir stóðu eins og ráðalausir. „Eftir fjórtán daga verðum við á leiðinni til Póllands“. sögðu þeir. „Er það nú rétt, að við stöndum hérna skælandi?“ sagði Lampi-konan, sem æfust var þeirra og áfjáðust. „Dugi ekki kynngin, þá duga hnefarnir. Förum aftur í bátinn! Enn þá er stund til óttu. Áður en haninn galar tökum við hús á ármanninum, fjörutíu manns í einu, og tætum í sundur garðinn hans“. Mennirnir voru enn á tveim áttum. Hættuspilið ofbauð þeim. Hanna tók til máls og vildi miðla málum. „Mér sýnist“, sagði hún, „að bezt væri, að einhver ykkar færi í nótt til Ábæjar og kærði neyðina fyrir landshöfðingjanum. Þið kunnið þá líka að hitta þar unga greifann, og síðan gætuð þið fengið hluta ykkar réttan“. „Nei“, sagði Lampi-konan með gremju. „Þú gætir eins kært haglið, sem brýtur kornstangirnar og frostið, sem eyðileggur kornið okkar. Haglið og frostið munu fyrr rétta hluta þinn en einn höfðinginn vilji hreyfa við lafinu á skikkju sinni. Hvers getum við fávísir kotungar vænzt, þegar við munum hvernig fór fyrir kóngsfógetanum Króell, valmenninu, fyrir fáum árum síðan, hann, sem kærði hirðstjórann og mátti þakka sínum sæla, að hann slapp ómeiddur út úr fangelsinu, og þó með skömmina, en bændurnir græddu ekki skónálar virði. Nei, aumur er hver, sem ekki getur hjálpað sjálfum sér á þessum dögum, hann á skilið, að brauðið væri hrifsað út úr munninum á honum og barnið þrifið úr fanginu á honum. Svívirðilegar raggeitur eruð þið, sem þolið aðra eins ánauð og hafið ekki móð í ykkur til að slá þann með réttu, sem lúber ykkur með engum rétti!“ „Gætum við fengið allan Arvíó-bæinn og allt Lampi-fólkið vakið upp til liðs við okkur í nótt, yrðum við alls 50 til 60 manns“, sagði nú annar maðurinn. „Á garðinum eru þrír og fjórði er ármaðurinn, því ekki teljum við Grétu og vinnukonuna“, sagði hinn maðurinn, „en hringi hann ófriðarklukkunni fær hann til fylgis 10 eða 12 menn frá höllinni“. „12 og 4 eru 16“, svaraði Lampi-konan, „þeir 16 og þið 50 minnst! Er dropi af mannshug í ykkur! Þið megið kalla mig galdranorn, ef ég segi ekki á sunnudaginn öllu kirkjufólkinu, hvaða bleyður þið hafið verið, svo hvert barn í sókninni skal hlægja upp í opið geðið á ykkur“. „Ofan í bátinn!“ æptu báðir mennirnir, því nú var stirða blóðið finnska fyrst farið að volgna og lá nú við, að það hitnaði svo, að síður væri spurt um áhættuna en réttinn. Óðara voru þau þrjú aftur þotin yfir sundið. Hanna horfði á eftir þeim og hristi hugsjúk höfuðið. „Sá, sem til sverðsins tekur, mun fyrir sverði farast“, sagði hún við sjálfa sig. „Skyldi þá ekkert réttlæti vera lengur finnanlegt á Finnlandi nema hins blóðuga ofbeldis? En Grétu hlýt ég að bjarga; en guð má náða föður hennar, fái þeir fangaráð á honum“. Að svo mæltu leysti hún smákænu þá, sem falst þar við klettana í hálflýsunni þessa vornótt, og flýtti sér svo eins og af tók sömu stefnu sem hinn báturinn, en réri mjög hljóðlega. Það var blíðalogn. Í fjarska heyrðist þrastasöngurinn upp í skógunum, er blandaðist saman við bárukvakið við hinar sofandi sjávarstrendur. 5. Nætur-ókyrrð Svo sem tveimur klukkustundum áður en að samkoman varð í kofanum, stóð meistari Adam á tröppusvölunum við hús sitt á hæðinni. Var þaðan gott útsýni. Hann var manna bezt skyggn og hugði sem nákvæmast, ef nokkur nýbreytni væri sýnileg í nágrenninu; leit fyrst til hallarinnar og síðan til þorpsins Arvíó, sem lá lágt svo sem bæjarleið í burtu, og sást þar á húsaþökin; það var hægra megin, þar sem engin enduðu við skóginn. Hann sá hvar verkafólkið labbaði heim frá vinnunni, og virtist vel ánægður, þegar hann sá, að það gekk ekki í hópum, heldur fór hver sinn krókstíg yfir ekrurnar. Eftir þjóðveginum frá höllinni kom maður gangandi með tösku á baki. Hann gekk hratt og bar brátt að; óðara en varði var hann kominn að garðshliðinu og barði til dyra. Meistari Adam flýtti sér að lúka upp hurðinni. „Er þú það, Jóhannes?“ sagði hann stuttaralega, og þó með mýkri rödd en endranær. „Hvaðan ber þig að svo seint á degi? Væri þér ekki betra að hafa setið við grammatík þína í Ábæ en að flakka hér um sveitir með skreppu á baki?“ „Jú, en hvað á ég að gera?“ svaraði komumaðurinn, yngismaður rúmlega tvítugur, með gáfulegan og góðfelldan svip, en snemma hafði hann hrukkur fengið í andliti og var magur að sjá og fölleitur. „Hvað á ég að gera? Matskrínan var tóm, og margir hlaupadjáknarnir í Ábæ, svo góðsemi getur ekki alið og fætt þá alla. „Nauðsyn brýtur lög“, hugsaði ég. Hvítasunnan er í nánd, og því réð ég af að finna fólk í sveitunum, ef vera kynni, að mér fénuðust fáeinir aurar og nokkrir brauðhleifar, svo ég síðan gæti sigrað frúnnar Logica og Metaphysica um miðsumarið. Ég vona, að þér synjið mér ekki gistingar, meistari Adam? Hvernig líður Grétu? Það er orðið æðilangt síðan ég sá litla konuefnið mitt“. „Já, já, varla hygg ég, að jungherranum liggi lífið á brúðardjásninu. Reyndu nú fyrst að verða meistari (kandídat), og fá meiri mat í skreppuna, og sjáum svo hvað gerist. En komdu nú inn og taktu þér bita. Matarlyst hefirðu góða, vænti ég“. „Víst er svo, meistari; ég er búinn að ganga hálfa þingmannaleið í dag og hefi fundið upp á nýrri fræðisetning, sem mundi gleðja vorn hálærða Martinus Miltopæus. — An homo bestia sit? Svar: Certe, quia comedit similes suos[* ɔ: Er maðurinn dýr? - Vissulega, því að hann etur sína líka.], og á meðan ég var að hugsa duttu mér grísatærnar góðu í hug, sem þér ætlið að gæða mér á í kvöld, meistari góður“, bætti stúdentinn við og brosti heldur slóttugur. Ármaðurinn sýndist ekki gefa stóran gaum heimspekistalinu, heldur leiddi gest sinn inn í stórstofuna, sem tók allt gólfrúm hússins, ásamt tveim hliðarherbergjum. „Hvíldu þig“, sagði hann, „svo skal ég biðja Grétu að bera þér náttverð“. Gréta kom, og stúdentinn heilsaði og tók í hönd hennar og kreisti fast, en mærin leit niður augunum, líklega í því skyni að dylja hin ofberu merki þess, að hún hafði verið að gráta. „Hvað er að?“ sagði Jóhannes hlýlega. „Hefirðu verið að gráta, pullula mea?[* ɔ: unginn minn] Ég þori þó ekki að ætla, að þú hafir þráð svo heitt komu mína“. „Fuglinn hennar fríði flaug í dag“. flýtti faðir hennar sér að segja, áður en Gréta hafði skotið upp augunum. „Þú ert heimskingi, telpa mín, að vera volandi þó að sá páfugl flýgi. Talaðu nú eitthvert almennilegt orð við hann Jóhannes og færðu honum svo skyr í viðbót. Eða sérðu ekki, að hann er svo svangur, að hann gæti tekið upp á því að eta þig sjálfa?“ Og nú var hinn harðúðgi ármaður hinn blíðasti. Hann átti líka til mannlegar taugar, einkum var það samt ylurinn til dótturinnar og hugsunin að sjá hana á síðan orðna konu þessa stúdents og tilvonandi prófasts í prestakalli hennar. En Gréta þorði hvorki upp að lita né svara; hún flýtti sér út og kom inn aftur með vistir þær, er umbeðnar voru. Stúdentinn var fremur víðlesinn, en veraldarmaður, og trúði eins og ármaðurinn talaði viðvíkjandi tárum Grétu og tók nú með stóiskri rósemi að borða mjólkurmat sinn. „Í sannleika sagt, Adam meistari“, sagði hann, „þér eruð öfundsverður maður: eigið hlýja stofu, ríkulegt borð og mjúka meyjarhönd — numen domesticum — eða heimilisgyðju eins og við komumst betur að orði en dominus Bang, sem sí og æ talar um sín mala herba, illgresi sitt, sem sé, og sveitarsæluna ykkar, otium mentis, samvizkufriðinn og fólkið; tóma hjarðsveina og dalarósir, sem leiða til yðar lömbin í linda úr liljum og rósum; en lambakóngurinn yfir hjörðinni eruð þér...“. „Seg þú mér, Jóhannes“, sagði nú ármaðurinn, er að líkindum var ekki alveg sömu skoðunar eins og stúdentinn um hjarðsveinasæluna í sveitunum, „rífast menn enn þá eins og áður við háskólann?“ „Ég fyrirgef, meistari Adam“, svaraði stúdentinn og spændi djúpa gróf upp úr skyrinu, „þótt þér viðhafið heldur óþvegið orð, eins og að „rífast“, um það, sem vér köllum réttu máli að dispútéra. Víst er það, að enn hitnar mönnum oft við þær kappræður. Dominus Miltopæus sannar, að dominus Bang sé asni, og dominus Bang, að dominus Miltopæus sé heiðingi. Hvað mig snertir, þá kýs ég heldur að vera heiðingi heldur en asni, enda get ég sagt án þess að grobba, að vikuna, sem leið, hrakti ég og hlóð sem posterior opponens[* ɔ: orð, sem tákna atriði í dispútatinu.] bæði majorem, minorem og conclusionem fyrir dominus Bang. Bang gekk berserksgang og hótaði að stefna mér bæði fyrir galdra og kettarí[** ɔ: villutrú.], með því að hann þóttist geta sannað, að ég hefði fyrir löngu síðan fengið lánaðar bækur hjá dominus Stodius, en hann hefir, eins og þér vitið, verið illa ræmdur fyrir fjölkynngi. En... hvað varð af meistara Adam?“ Ármaðurinn hafði gengið út í því skyni að athuga enn þá betur frá svölunum, hvers hann kynni að verða vísari, áður en fulldimmt væri orðið. Hann varð einskis var; en áður en hann hyrfi inn, gætti hann að, hvort garðshliðið væri í lás, hvort reipið í klukkunni væri trútt, skoðaði lásana á báðum byssunum, sem hengu við dyrnar hlaðnar. Að svo búnu hvarf hann öruggur inn. Gréta hafði á meðan notað tækifærið og spurt Jóhannes, eins og til að segja eitthvað, hvort hann hefði mætt nokkrum ríðandi mönnum á veginum frá Ábæ, og stúdentinn hafði svarað með munninn fullan af brauði og sméri, að ungi greifinn frá Mæníemí ásamt tveimur þjónum hefði þeyst fram hjá sér og slett á sig auri. Til allrar lukku var orðið dimmt í stofunni, því loftið hafði mjög þykknað undir nóttina og leit út fyrir úrkomu. Hvorki ármaðurinn né Jóhannes gátu því tekið eftir því, hvernig kinnar Grétu stokkroðnuðu og brunnu við þessi orð eins og eldingar um nótt. „Klukkan er tíu“, sagði ármaðurinn með sinni skipandi rödd, sem hann einnig viðhafði á heimili sínu. „Góða nótt, börn. Á morgun sérðu, hvað ég get greitt fyrir þér, Jóhannes“. „Hafið beztu þakkir fyrir, meistari Adam“, svaraði stúdentinn. „Satt að segja, þá hefi ég ekki etið mig saddan síðan ég kom hingað seinast, og væruð þér dominus Bang skyldi ég skora yður á hólm með spánnýrri setning: Num homo Deus sit? Svar: Certe, quia Deus nihil desiderat. Ego autem nihil desidero (scilicet post coenam copiosam). Ergo Deus sum. Quod erat probandum[* ɔ: Er maðurinn Guð? - Vissulega, því Guð þarfnast einskis. Ég þarfnast einskis (með því ég hefi etið ríkmannlegan kvöldverð). Þess vegna er ég Guð - eins og átti að sanna.]. Góða nótt, meistari Adam“. Nú var Gréta búin að kyssa á hönd föður sínum og rétta Jóhannesi höndina. Gekk hún svo til sængur uppi á lofti; voru þar tvö eða þrjú kvistherbergi, og lá að þeim dimmur gangur á bakhlið hússins; svaf hún þar á sumrin ásamt vinnukonu. Ármaðurinn gekk til hvílu í öðru svefnherberginu niðri, en stúdentinn teygði sig makindalega í annarri hálmsæng þeirri, sem stóðu hvor upp af annarri með langvegg stofunnar beint á móti ofninum. Þar hneig hann óðara í arma svefnsins, fullur ofmetnaðar út af væntanlegum hólmgöngum, þeim, er ríða áttu dominus Bang að fullu. En alllíklegt er, að þessi harðsnúni, en heldur áleitni dispútatíu-berserkur vor hafi verið of stórhöggur við grísalappirnar og skyrmjólkina, því þrátt fyrir þreytu hans, svaf hann hálfilla og daprar draumfarir röskuðu ró hans um nóttina. Hann þóttist sitja við neðsta kennarastólinn í auditorium majus, en yfir honum og á bak við hann stóð Miltopæus með sitt síða, silfurhvíta hár vel kembt og skilið að yfir enninu, en fyrir framan hann gnæfði hinn risavaxni og dökkbrýndi guðfræðingur Bang, ískrandi af bræði sem opponens ex officio[** Svo heitir sá, sem kjörinn er til að fella þann, sem opinberlega dispútérar við háskóla. - Þýð.]. Jóhannes þóttist árangurslaust beita allri sinni mælsku og skarpleik. Hans digri og drambsami mótstöðumaður hellti þeirri heljarhríð af hebreskri kynngi og kirkjufeðra fræðum yfir höfuð honum, að vesalingurinn varð úrræðalaus, orðlaus og að engu gerður. Svartari og svartari varð svipur Bangs og búkur, hann belgdist út og tútnaði og varð loks eins hár eins og kirkjuturn, um leið og hann leit niður á hann með óumræðilegri fyrirlitning. Þá þótti Jóhannesi sér verða litið á borðið fyrir framan sig og sér, að það stóð í björtu báli; sótugir draugar stukku fram og aftur með logandi blys og kveiktu í hinu og þessu, og hvæsandi eldslogar hófu sig hátt í loft móti kolgráum himni. Í sama bili hrökk hann upp skelkaður og settist upp í sænginni. Kolamyrkur var í stofunni, því hlerar voru fyrir gluggunum að utan verðu, en svo leit út sem hinir hræðilegu draumórar ætluðu sér að ofsækja líka í vökunni. Hann þóttist glöggt heyra í næturkyrrðinni eitthvert kynlegt hvískur uppi á loftinu. „Aulabárður“, sagði hann við sjálfan sig, „það er farið að hvessa; það er stormurinn, sem hvín úti í skóginum“. Hann lagðist út af aftur með þeim ásetningi að láta dominus Bang ekki oftar sækja að sér. Þá nótt neitaði hinn mildi guð svefnsins samt sem áður að strá svefnkornum sínum yfir augnalok stúdentsins. Hvískrið hélt áfram að suða í eyrunum á honum, og nú þykist hann heyra álengdar eins og mannamál einhvers staðar blandað klukknahljóði. Hann settist upp í rúminu. Uppi undir loftinu yfir einum glugganum sá hann bjartan díl; smám saman varð hann stærri og birtan meiri, og í sömu svipan kom upp reykjarþefur í herberginu. Stúdentinn stökk fram úr rúminu. „Eldur!“ hrópaði hann og hljóp að dyrunum á herbergi ármannsins; þær voru læstar, en þar inni var allt í uppnámi. Ármaðurinn ruddist út hálfklæddur og ætlaði að lúka upp forstofuhurðinni. Hún var lokuð — slagbrandur fyrir henni að utan. Meistari Adam skildi óðara, hvílík hætta væri fyrir höndum. „Fantarnir“; æpti hann, „þeir hafa klifrað yfir skíðgarðinn, rekið slagbrand fyrir dyrnar og kveikt í þekjunni með tundurörvum. Bannsettir þorpararnir, sem haldið hafa vörð í nótt! Þeir hafa drukkið sig fulla af öli og sofið frá sér og okkur allar bjargir“. Grunur ármannsins var alveg réttur. Hinir hamslausu kotungar höfðu slegið hring um garðinn, hitt varðmennina sofandi og skotið með bogum sínum örvum með logandi hör og biki upp á þakið, þangað til í því kviknaði. Þótt veggir og þak væri vott af regninu, var háskinn samt bersýnilegur, því að hvassviðri var á. — Klukkan var nálægt tvö um nóttina og himinninn hulinn þykkum og dimmum bólstrum, sem seinkuðu birtunni. Meistari Adam var ekki sá maður, sem þegar væri uppnæmur. Honum datt fyrst í hug klukkan. Hann kippti í reipið — klukkan svaraði engu, og hann hélt eftir litlum spotta í hendinni. „Komdu hingað, Jóhannes“, kallaði hann, „þeir hafa skorið í sundur klukkustrenginn, en við skulum þó finna ráð til að merkja fantana og vekja menn okkar“. Hann tók í skyndi ofan hinar þungu tinnubyssur, rétti stúdentinum aðra þeirra og bjó sig vel út að púðri, kúlum og tundri. Síðan þutu báðir upp stigann til kvistloftsins, og var þaðan gott útsýni því gluggarnir voru opnir, er hlerum var hleypt frá. Bjarminn af eldinum í þakinu var ekki enn nægilegur til að lýsa langt út í grenndina, og bændurnir, sem ekki höfðu blys, héldu sér kyrrum og biðu þess, að höfuðskepnurnar kæmu fram hefndum þeirra. „Sérðu nokkuð?“ spurði ármaðurinn hljóðlega. „Ég get ekki greint annað en trén í heimaskóginum og þakið á hlöðugarðinum. En þey!... Þarna, rétt við skíðgarðirm sé ég skugga hreyfa sig“. „Þeir hafa sett menn í stöður til þess við skulum ekki komast undan. Skjátlist mér ekki, stendur heil þyrping af brennuvörgunum úti fyrir hliðinu. Þeir hljóta að vera þrjátíu upp að fjörutíu saman. Allt Arvíó-þorpið hefir lagt saman við Lampi-fólkið til þess að fyrirkoma mér; en gættu nú að, ég skal gefa þeim föntum þá ádrepu, sem þá skal reka minni til til þeirra dánardægurs“. Að því mæltu rétti ármaðurinn byssuhlaupið út úr glugganum, miðaði nákvæmlega og kveikti í púðrinu og hleypti af. Hvellurinn var hár og skotleiftrið lýsti upp allan garðinn og grenndina nálægt. Óðara kom þys upp, vein og óhljóð úti meðal kotunganna. Ármaðurinn núði höndum saman af ánægju og flýtti sér að hlaða morðvopn sitt aftur. „Verði ykkur að góðu!“ æpti hann, „hún var hlaðin fimmtán kúlum! Skjóttu, Jóhannes, skjóttu áður en fantarnir dreifa sér! Skjóttu í miðja þyrpinguna — þarna hægra megin við hliðið!“ Stúdentinn svaraði engu, en hönd hans skalf. Hann var lengi að miða og virtist vanda sig mjög; — svo skaut hann — og skaut í loft upp. „ónýt skytta!“ æpti ármaðurinn í bræði sinni, „ónýtur maður til þess að skjóta með öðru en málæði og hégóma. Hladdu aftur!“ „En hvernig á að fara að hitta blindandi í myrkrinu?“ svaraði stúdentinn gramur í geði — að sjá — og fálmaði eftir byssukrassanum; en við sjálfan sig gerði hann eftirfarandi ályktun: Skammirnar þarna fyrir utan eru meðbræður mínir og landsmenn; menn skjóta ekki meðbræður sína og landsmenn; ergo skýt ég ekki á skammirnar. Þey! Í sama bili heyrðist hvínandi hljóð, en þó enginn hvellur. Og í sömu svipan kom eitthvað þjótandi inn í gegnum gluggann, flaug fram hjá öðru eyra stúdentsins og sat fast í veggnum hinum megin. „Hvað er þetta?“ spurði Jóhannes. „Það var ör!“ svaraði ármaðurinn. „Bannsett illþýðið hefir ekki efni á að eignast byssur, kúlur og púður, enda er það stranglega bannað. Þess vegna veiða þeir enn þá með boga og örvum eins og forfeður þeirra og skjóta þeim eins beint og æfðustu skyttur með byssu. Boginn er ágætt vopn fyrir veiðiþjófa; enginn hvellur, einungis þytur og bráðin liggur dauð. Varaðu þig, stattu ekki við gluggann. Ég ætla nú að senda þeim, og um leið svefnpurkunum, sem áttu að vera á verði, aðra sendingu“. Í því hann þagnaði þutu tvær örvar í loftinu í einu; önnur lenti í kampinum við einn gluggann, en hin flaug inn og reif flís úr gluggagrindinni og hitti ármanninn í handlegginn, reif vaðmálstreyju hans og veitti honum mikinn áverka. Meistari Adam herti sig að æpa ekki af sársauka, miðaði aftur byssunni, sem rótast hafði, og hleypti af skotinu. Nýtt vein gall við frá hliðinu, sem sýndi, að það hafði gert góð áhrif. Nú var regnið, sem vofað hafði yfir, skollið á og helltist niður í bunum, til stórhjálpar hinu innibyrgða fólki því eldurinn í þakinu vildi seint magnast, þó að töluvert styrmdi. Nú gullu óhljóð, hávaði og blótsyrði niðri í garðinum, hvort heldur var, að bændurnir bjuggust þar til áhlaups, æfir yfir falli félaga sinna, ellegar að skotin höfðu vakið varðmennina í klefahúsinu við hliðið og þeir nú gripið til vopna. Bardaginn þar niðri varð æfari og æfari, en stundum smullu skotin ofan frá glugganum, en sakir óttans að hitta sína eigin þjóna þorði ármaðurinn ekki að skjóta nema í loft upp, til að kalla á hjálp frá höllinni. Loksins tók að birta aftur af degi. Bændurnir sáu sig sýnilega blekta í þeirri von að geta brennt ármanninn inni með leynd. Þeir höfðu nú fulla ástæðu til að sjá, að nú var annað hvort fyrir þá að hrökkva eða stökkva og fyrir því ásettu þeir sér að láta nú skríða til skarar, enda áttu þeir að hefna fimm fallinna og særðra. Lampi-fólkið hélt áfram að skjóta örvum upp á þakið, en Arvíó-mennirnir ruddust inn í garðinn með reiddar axir. Fyrsti vinnumaðurinn ármannsins, sem vaknaði og áræddi að verja garðinn, varð óðara bændunum að bráð og féll, en félagar hans urðu hræddir og fóru ekki spor úr húsinu, heldur reyndu til að verja sig innanað frá með því að hlaða fyrir dyr og glugga. Arvíó-mennirnir þurftu ekkert að óttast af þeirra hálfu og ruddust því að aðalstofunni, sprengdu hurðina og brutust inn, og nú var höfuð meistara Adams ekki álnar virði. En hann vænti statt og stöðugt hjálparliðs, og var sá maður, sem lét sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Óðara en hann sá, hvað bændur ætluðust fyrir, hljóp hann, blóðugur með dulu vafða um handlegginn, að stiganum, sem lá upp á loftið, og byrgði uppganginn með öltunnum og skrani. Stúdentinn fylgdi honum trúlega. Þegar hurðin að húsinu var sprengd, var uppgangurinn byrgður. „Á ég að segja yður nokkuð, meistari Adam“, sagði stúdentinn, „þetta fer ágætlega. Þér eruð præses (ɔ: framsögumaður) hér, en ég respondens (ɔ: fyrir svörum); en svo sýnist mér, sem eitt af tvennu sé hér í efni: annað hvort komast opponentarnir gegnum öltunnurnar, sem ég vil kalla okkar argumenta fundamentalia, og þá verðum við ofurliði bornir fljótara en kapelán, sem kominn er á knén við examensborðið, ellegar þá rekum við opponentana á flótta og þá verðum við steiktir lifandi hér uppi á kvistinum, en það mundi ég kalla judicium disjunctivum, ef þér skilduð einhverja vitund í logíkinni (ɔ: rökfræði)“. Meistara Adam þótti ekki taka því að svara þessari rökfærslu, heldur varð hann æ trylltari, er hann heyrði ólætin niðri þar sem þeir óðu um herbergin og mölvuðu og rændu öllu í reiði sinni yfir því að finna ekki þann, sem þeir vildu. Loks stekkur einn þeirra upp í stigann, en rekur sig á öltunnurnar. Öll þvagan þyrpist nú saman og sækir þangað, en stiginn var of þröngur, svo aðeins tveir eða þrír gátu komið öxunum við í einu við tunnurnar, og því gekk þeim aðsóknin afar seint, því að óðara en ein tunnan var brotin, valt að þeim önnur í staðinn. Bændur skiptust til verka með ópum og formælingum. En það var árangurslaust, ávallt kom ný tunna og fyllti stigagatið. Tíminn leið og það var kominn hábjartur dagur. Á hverri mínútu mátti búazt við fólki frá höllinni. Þá gall við óheillarödd gegnum háreystina: „Við skulum svæla skolla inni í hans eigin greni; nú skal hann ekki sleppa lifandi!“ Um leið ruddist þykk reykjarsvæla inn á loftið og var þá eldurinn loksins kominn inn í húsið. Bændurnir höfðu sig nú út með sigurópi og biðu hróðugir, að eldurinn ynni á fjanda þeirra. En nú er að segja frá ármanninum og hans lærða félaga uppi á kvistinum. Þegar reykurinn óx og Adam sá, að háskinn magnaðist, en engir komu til hjálpar, greip hann hönd Jóhannesar og sagði: „Þakka þú guði fyrir, drengur minn, að þú hefir soltið í Ábæ og ert orðinn eins mjósleginn og köngurló. Glugginn þarna horfir að heimaskóginum, smjúgðu út um hann; hann er of þröngur fyrir mig. Óðara en þú hefir sigið niður í reipi þessu, sem ég fæ þér, þá hlauptu upp á loftið, sem hún Gréta er í, bjargaðu henni úr bálinu og flyttu hana til bakarakonunnar, systur minnar í Ábæ. Þegar þú síðar nærð í brauð, þá eigðu stúlkuna — farðu vel með hana og vertu henni ávallt góður. Og guð sé svo með þér, sonur minn!“ Hinn harðráði ármaður strauk í laumi tár af hvarmi. „En hvað verður um yður, meistari Adam?“ spurði stúdentinn, „ég fer ekki spor frá yður“. „Engar vífilengjur, drengur!“ svaraði ármaður með hörðum rómi og hratt hinum nálega með ofbeldi út úr glugganum. Síðan hlóð hann enn löngu byssuna, miðaði á bændurna, sem ekkert uggðu að sér og stóðu í þyrpingu, og hleypti af. Skotið gerði ógurlegan usla. Fjórir eða fimm steyptust til jarðar, en hinir stukku skelkaðir til hliðar og hugsuðu, að menn frá höllinni væru komnir yfir þá ... næsta augnablik eftir var garðurinn mannlaus. Meistari Adam sætti færinu, og tókst honum að læðast niður í kjallarann, en þar var hann að minnsta kosti óhultur fyrir eldinum. Á meðan hafði Jóhannes skundað til útiloftsins. Þar greip hann í tómt. Gréta var horfin. En ekki vissi Jóhannes, að Hanna gamla hafði bjargað henni, og nú bilaði rökfræðin hans í fyrsta sinni. Garður ármannsins stóð nú í björtu báli, en loks eftir langa mæðu hafði háreystin vakið hallarmennina úr drykkjuvímunni eftir gærdaginn, enda var rykið ómælt eftir. Tólf vel vopnaðir menn og allir trúir ármanninum skunduðu nú honum til hjálpar. En þótt kotungarnir væru liðfleiri en þeir, höfðu þeir axir einar vopna og bogana og þorðu því ekki að veita viðnám, heldur flýðu þegar í allar áttir. Meistari Adam kom nú fram úr fylgsni sínu. Hafði hann nú látið garð sinn og góss, en mátti happi hrósa, að hann hafði undan komizt með lífinu. Til þess að lengja ekki sögu þessa, skal þess getið, að afleiðingar þessa atburðar urðu enn þá meiri eymd og örbyrgð í sveitinni umhverfis Mæníemí. Það voru gerð orð eftir hersveit frá Ábæ og voru dátunum fengnar vistir, sumum heima við höllina, en sumir settir á kost þeirra, sem uppþotinu höfðu valdið. Í stað átta, voru tuttugu og fjórir bændur reknir í pólska stríðið. Aðrir voru fluttir í fjötrum til Ábæjar-fangelsisins. Tveir forsprakkar upphlaupsins voru dauðadæmdir og teknir af lífi. Hinir mörgu aðalsmenn í grenndinni skoðuðu sem von var til höll greifanna á Mæníemí eins og sér viðkomandi, og fyrir þá sök beittu þeir hinni mestu hörku til þess að kæfa anda upphlaupsins. Vor þetta var hið versta, fullt alls konar eyðileggingar. Margir bæir lögðust í auðn; þorpið Arvíó varð nálega mannlaust, og í Lampi-kotunum sáust ekki eftir nema konur og börn og öldungar — og þetta í hinu auðugasta héraði á öllu Finnlandi, eins og þá stóð! 6. Orustan við Varsjávu (Warschau) Nú víkur sögunni frá hallærisneyðinni heima á Finnlandi suður á bóginn til fjarlægra landa, þar sem sóað var blóði og fjármunum þess til að leggja lönd undir ágjarnan konung. Í hásæti Gústafs Adólfs og Kristínar drottningar sat hinn hrausti bardagamaður, mikli herstjóri, göfugi og stórhugaði hetjukonungur Karl tíundi Gústaf. Stjórnvitringur var hann enginn. Þetta var í júlímánuði 1656. Hvílík stórræði, hvílíkar frægðarfarir, hvílíka sigurvinninga og tjón og ófarir hafði ein einasta árstíð alið og af sér getið! Karl konungur hafði í brennandi vígahug steypt sér yfir hið mikla Pólland, en það var sundrað af deilum og uppgjafaland sakir sérdrægni manna og flokkadrátta. Þriðja dag júlímánaðar hafði hinn hrausti og nafntogaði Finni, Arvid Wittenberg, lagt á stað frá borginni Stettin með tuttugu þúsundir æfðra hermanna eftir þrjátíuára-stríðið og brotizt inn á Pólland. Konungur sjálfur fylgdi á eftir honum, fljótur eins og stormbylur, og fyrir nóvember um haustið var hann búinn að vinna Varsjávu, Kraká og Thorn, lykla Póllands og höfuðborgir, sigra herskara landsins, eða ginna þá til landráða, þegar hann var áður búinn að tvístra þeim, reka hinn dáðlitla konung Pólverja eins og flóttamann yfir fjöll vestur í Slesíu, leggja undir sig meir en helming hins víðlenda ríkis og láta íbúa þess vinna sér hollustueiða. Karl Gústaf stóð þá á hæsta tindi hamingjunnar og hafði enga hugmynd um hennar brigðlyndi. „Konungur Svía“, stóð í einhverju flugriti frá þeim tíma, „álítur lukkuna ferhyrnda, en allir aðrir kalla hana kringlótta“. En síðan eftir þann tíma! Hvílíkt æ vaxandi hatur milli þjóðanna — tryggðarof og svik, lævísi, örvilnun, morð, ofstopi og blóðhefndir; en samfara því — ættjarðarást, hreysti, hugvit og drengskapur; hvílíkir mannskaðar svo hins vegar, sárkeyptir sigrar, háskasemdir, eymd og vandræði; hvílíkur örlagadómur yfir vopnum Svíþjóðar, sem á frægðardögum hennar hlaut að læra hvílík bölvun fylgi ranglátum hernaði, og hvílíkt æði gagntaki hverja þjóð, sem berjast á um líf sitt eða dauða! Miklu, glæsilegu, en jafnframt voðalegu ástríður manna! Undir árslokin 1655 höfðu Póllendingar loks skilið, hve djúpt þeir voru sokknir í ófarir og volæði. Neyðin var búin að fylkja þessari léttúðugu og riddaralegu þjóð undir merki konungs þeirra. Framundan, að baki og allt umhverfis Karl Gústaf vopnuðust borgir og bæir, hver kotbær sendi einn mann til hefndanna, hver hönd þreif sverðið, og Jóhann Kasimír hvarf aftur heim í hið auðnulausa ríki sitt. Hinn sænski her sótti fram, táldreginn af svikurum, og var nú líkur snjóflóði, sem bráðnar móti geislum vorsólarinnar. Karl Gústaf hafði valið sér hinn sama veg, sem Karl XII síðan stefndi, en það var leiðin til Jaròslaw. Þar varð hann að snúa við og hlaut að ryðja sér braut til Varsjávu; kostaði sú ferð ótrúlega erfiðismuni og háskasemdir; lá og við sjálft, að hann ekki mundi bjarga leifum einvalaliðs síns og sjálfum sér, þrátt fyrir hreysti þess og hugvit sjálfs síns, er nú var allt undir komið. En í stórborginni Varsjávu sat Wittenberg með þrem þúsundum manna, öðru æfðu og reyndu einvalaliði. En af því var allur helmingur sjúkur og sár. Var hann nú búinn að verjast þar með dæmafáum drengskap samfleytt í sex vikur og mátti berjast jafnt við svikræði og fjörráð innan borgar og herskara konungsins utan borgar, sem aftur og aftur var sagt að næmi 120 þúsundum. Hinn 20. júnímánaðar náðu svo Pólverjar seint um síðir Varsjávu, sumpart með áhlaupi, sumpart með drengilegum samningi af Wittenbergs hálfu. En hann var svikinn af Pólverjum í tryggðum og honum varpað í dýflissu. Þar lauk kappinn ári síðar hinu lofsæla lífi sínu. En dagar voru enn fyrir höndum, auðugir af stórum atburðum og skjótum hamingjubrigðum. Mikill hluti af herliði Jóhanns konungs brá hollustu við hann, er borgin hafði verið tekin. Þó fylgdu honum enn þá yfir 40 þúsund liðsmenn. En aftur hafði Karl, er hann komst svo nauðuglega úr kröggunum, bundið félag við Friðrik Vilhjálm kjörfursta af Brandenborg og skundaði nú í broddi 18 þúsund manna, er brunnu af gremju og heiftrækni, og bjóst þegar að vinna aftur Varsjávu. Í fyrsta sinn stóðu konungar þessir hvor öðrum öndverðir, og er fundur þeirra alkunnur í sögunni: Þriggja daga orustan við Varsjávu. Sendiherra Frakka réð frá að barist yrði og reyndi að semja til friðar. Jóhann Kasimír svaraði: „Ég vil gefa Törturum mínum Svíana í miðdegisverð“. Karl Gústaf mælti: „Ég vildi óska, að allir óvinir mínir væri hingað komnir andspænis mér, svo ég mætti sigra þá alla í einu“. Héldu honum engin bönd að ráðast á óvini sína þótt liðsmunur væri margfaldur. Hinn 18. dag júnímánaðar mættist hvorttveggja herinn á austurbökkum Veiksel-fljótsins og andspænis Varsjávu. Pólverjar höfðu fljótið sér til hlífðar vinstra megin og örugga víggarða að auki. Hægra megin létu þeir skóginn Bjallalenka gæta sín og fen nokkur, er þar voru. Svíar og Prússar sóttu fram í móti þeim á mjórri sléttu milli fljótsins og skógarins. Þann dag barðist eingöngu riddaraliðið af beggja hálfu og skreið lítt til skarar. Hafðist sambandsherinn við undir berum himni um nóttina, skjóllaus og vistalaus. Loks birti af degi hinn 19. júní. Var heitt veður um daginn, en þó sló vindgolu við og við yfir sléttuna, er rak ryk og reyk í augu Pólverja, svo varla varð vígljóst. Prússar réðust á hægri fylkingararm Pólverja, færðu fallbyssur sínar yfir fenin og náðu hæð einni og vörðust þaðan vasklega. Svíar ruddust þar og fram til liðs við þá. Sóttu óvinir þeirra hart fram öllum megin; fyrst réðust þeir á brjóstfylking Svíanna, en mættu svo skæðri haglskotadrífu, að þeir hörfuðu undan; hins vegar hlupu Tartarar fram úr skóginum, grenjuðu hátt og lögðu fram spjótunum, en sænskir og finnskir riddarar snerust hraustlega við þeim og ráku þá öfuga á flótta. Því næst kom Karli konungi það snjallræði í hug að ryðja sér braut gegnum skóginn Bjallalenka, og fylkti síðan liði sínu í boga með Prússum andspænis hægra fylkingararmi Pólverja. Þá ruddust til móts við hann hinir svonefndu Quartíanar og Húsarar Jóhanns konungs. Glóði sólin á hjálma þeirra og pansara, og hjuggu þeir bæði hart og títt. Þótti ekkert riddaralið skrautlegra í þann tíma. Móti þeim tóku riddarasveitir frá Upplöndum, Smálöndum og Austur-Gautlandi. Komu þeir hart saman; hleyptu Svíar heldur snemma af skammbyssum sínum og riðluðust sveitir þeirra, en Prússar æptu siguróp og sóttu eftir. En Finnar, er að baki voru Svíunum, stóðu fast. Fyrir þeim var Fabían Berndes, enda voru þar komnir margir af köppum þeirra Wittenbergs og Sinclairs. Varð nú höggorusta mikil, er maður mætti manni. Lauk svo, að Pólverjar hörfuðu undan og sneru síðan hestum sínum og flýðu. — Lágu eftir mörg hundruð fallnir hinna hraustustu þeirra. Þá og jafnsnemma varð Karl konungur að snúast við Törturum, er komnir voru í opna skjöldu og sóttu fram í riðlum. Varð konungur þá nálega fráskila sínu liði, sóttu hann í einu þrír Tartarar, en hann felldi þá alla. En þótt villimenn þessir berðust sem galnir væri, varð þeim þó komið á flótta. Var þá og nótt komin og sleit það bardaganum. Aftur lá allur herinn úti, vistalaus og hælislaus, beint fyrir vopnum óvina þeirra, með fallinn valinn fyrir fótum og fjölda sárra manna. Áttu nú enn eftir blóðuga þraut, er dagur rynni. Með slíkum drengjum má vinna heim allan. Þegar dagur rann 20. júní stóðu Svíar og Prússar aftur í fastri fylkingu. Vildu þeir nú verða fyrri til atlögu. Gerðu þeir fyrst áhlaup á skógarlund einn við forstaðinn Praga. Náðu þeir og þeirri stöðu eftir harða sókn. Höfðu Pólverjar gleymt að setja liðsveit til hlífðar stórskotaliði sínu, og tók nú kjörfurstinn fallbyssurnar. Fótgöngulið hægri fylkingar Pólverja kom á flótta, flýði yfir fljótsbrúna til borgarinnar og reif brúna af, er yfir hana var komið. Herinn vinstra megin sá þetta og skaut honum það skelk í bringu. Kom það fyrir ekki, að konungur sjálfur reið um fylkingarnar og bað menn duga sem bezt og hét þeim fé og fullsælu; né heldur stoðaði, að hin hugprúða drottning María Lovísa eggjaði menn fast til að berjast fyrir ættjörð og orðstír. Karl Gústaf hamaðist; fallbyssur hans sópuðu fljótsbakkana, Pólverjar flýðu sem fætur toguðu og höfðu nú sigrinum með öllu glatað. Í þessari snerru létu Pólverjar 4000 manna fallinna og særðra, 50 fallbyssur, allan farangurinn og borgina Varsjávu sjálfa, er næsta dag gafst upp orðalaust. Svíar og Prússar er talið að misst hafi 7 til 8 hundruð manna. En afleiðingar orustu þessarar urðu miklu síður glæsilegar. Pólverjar söfnuðu aftur liði sínu og buðu óvinum sínum aftur byrginn með óvígum her, fullum haturs og heiftrækni. Prússar og kjörfursti þeirra gerðu svo þungar kröfur, að Karl Gústaf neitti þeim, og skildust þeir engir vinir. Eftir það hélst Svíakonungur ekki við í Varsjávu, þar sem hann þá hafði einar 8-10 þúsundir manna eftir gegn slíku ofurefli, svikum og heiftrækni allra landsmanna. Hann lét því undan síga og hafði sig brott, en með mikilli gætni; lét sér nægja að verjast; varð því orustan fremur sá atburður, er bjargaði Póllandi en steypti því. En þegar hin glóðheita hásumarssól steikti sandana kringum Varsjávu, þar sem valur mörg þúsund manna og hrossa lá í kösum og rotnaði, varð loftið svo fullt af herfilegri ýldu og ólyfjani, að menn héldust lítt við í borginni eða í námunda við hana. Borgin var og sjálf full af dauðum mönnum, sjúkum og sárum. Gaus þá loks upp af allri þessari hroðalegu hrævastöð og ýldulofti ein af drepsóttum þeim, er jafnan hafði verið refsivöndur hins grimma þýzka ófriðartíma. Sópaði pest þessi brott hundruðum og þúsundum saman, þeim sem vopnin höfðu þyrmt. Frá eitur-héruðum þessum hóf drápsengillinn göngu sína og stefndi norður að Eystrasalti og herjaði síðan hlífðarlaust bæði árin 1656 og 1657 öll Norðurlönd með Finnlandi og austur um allt Rússland að norðanverðu. Á hinni nafntoguðu afturför Karls Gústafs frá Jaròslaw komst konungur og her hans oftar en einu sinni í vandræða-kröggur. Eitt sinn var herinn kvíaður inni í krók þeim, þar sem áin San fellur í Veiksel. Þótti þá nálega úti um hann, og svo hefði farið, ef snarvizka konungs, ofurhugi og hamingja hefði ekki fundið ráð til að komast yfir ána San, og í hendingskasti ráðizt á herbúðir Litháu-mannanna og tekið þær þegar. En óvinir hans héldu undan og bjuggust við að kvía konung og her hans aftur þar sem fljótið Vípert fellur í Veiksel. Konungur kvaddi saman alla yfirforingja hersins til ráðagerðar. Kom þeim saman um, að einka-úrræðið væri að villa sjónir fyrir óvinum sínum, svo þeir sæi ekki hersins réttu stefnu. Skyldi senda liðssveit á leið til Lublín, svo óvinirnir mætti trúa, að Svíar ætluðu að senda lið til bjargar setuliði því, er þeir áttu þar. Þessi liðssveit var fyrirfram ofurseld. Ætlunarverk hennar var að snúa öllum her óvinanna að sér og frelsa meginliðið með falli sínu. Þessi ráðagerð skyldi vera á laun við liðið, sem fara átti, en gat ekki dulizt fyrirliðunum. Hver átti nú að stýra fórnarliði þessu? Hinir hugprúðustu drógust í hlé. Þá bauðst ofurstinn Gústaf Bertelskjöld greifi til farar þessarar. Voru það 300 Líflendingar og Finnar, er fóru þessa forsending. Sveitin hélt þegar á stað og dró þegar, eins og til var ætlazt, athygli alls Litháu-hersins til sín. Í þrjá daga varðist hópur þessi móti fimmtugföldu ofurefli. Þar kom um síðir, að þeir urðu sigraðir og stráfelldir eftir dæmalausa vörn dag og nótt. Komst sveitin varla miðja vega áður en hver maður var fallinn; 4 eða 5 menn björguðu lífi sínu gegnum skógana alla leið til Varsjávu eftir ótölulegar þrautir og fáránleg ævintýri. Einn þeirra var Bertelskjöld greifi. Skömmu eftir orustuna við Varsjávu skildist Karl Gústaf við Prússa, eins og fyrr var frá sagt, og hélt nú liði sínu til Vestur-Prússlands. Konungi var þá allþungt í skapi. Hamingjan hafði þá skömmu áður sýnst honum „ferhyrnd“, en var nú hnöttótt orðin og völt eins og kúla. Hver borg og hvert hérað á fætur öðru féll frá hlýðni við hann, þrátt fyrir sigur hans. Sárast sveið honum að missa Litháaland; en þar börðust þeir de la Gardie og Lewenhaupt og höfðu nálega glatað allri von, þar sem þeir voru umsetnir jafnt af svikráðum innan hers og fólsku og heiftarhug fjandmannanna. „Gefið mér Litháaland aftur!“ æpti Karl Gústaf, „þeim manni, sem vinnur það, gef ég hertogakórónu“. „Yðar hátign“, svaraði rödd meðal hershöfðingjanna, sem sátu yfir ráðagerð í konungstjaldinu, „fáið mér tvær herdeildir, og ég skal þá setja höfuð mitt í veð, að þér skuluð eignazt aftur Litháaland!“ Konungur snerist við forviða til að sjá þann, er svo djarfmannlega talaði: „Og hver vill ábyrgjast mér, að ég glati ekki til engra nota bæði herdeildunum og höfði yðar, Bertelskjöld?“ „Hamingja mín, herra!“ svaraði greifinn einarðlega. Konungur brosti við og sneri sér að Slippenbak greifa, er stóð hjá honum. „Það er þá enn þá til sá maður, sem trúir á hamingju sína“, mælti hann. „Yðar hátign sjálfur hefir kennt heiminum þá trú“, svaraði Slippenbak, fremur hirðmannlega en hyggilega eins og þá stóð á. Konungur varð fár við og glotti biturlega svo hið síða örmjóa skegg hans á hinni afar-þykku efri grön hans ýfðist við, því vonbrigðin hin miklu voru rík í huga hans. „Þér skuluð heyra fyrirskipanir mínar árla á morgun“, mælti hann til Bertelskjölds, en aldrei þessu vant gat hinn ekki lesið út úr hinu skarplega augnaráði konungs, hvað hann hefði í huga. Hugur Karls Gústafs hélt aldrei kyrru fyrir og lét ávallt hverja ráðagerðina elta aðra og sást aldrei fyrir: var hann og æ hinn mesti ofurhugi í skapi; var og sem grunaði hann, að honum yrði ekki langlífis auðið, vildi fyrir því vinna sér sem mesta frægð, meðan hann til entist. Hann svaf lítinn svefn og lét oftlega vekja sig á nóttum. Hann reis snemma úr rekkju og gekk seint til hvílu og lagði ríkt á við menn sína, að hlífast ekki við að vekja sig. Þó kom fyrir, að hann sofnaði heldur fast, er vín hafði drukkið verið í tjaldi hans. Í þetta sinn sat hann lengi og vakti eftir að höfuðsmenn hans og aðrir liðsmenn voru sofnaðir. - Slippenbak trúnaðarmaður hans var einn hjá honum. Horfði konungur hugsjúkur og þungbrýnn á uppdrátt Póllands, er lá á borði hans — eintómt bréf, nafnið eitt, alveg þýðingarlaust eins og virkileikinn sjálfur var í þann tíma. „Bannsetti Brandenborgari!“ sagði hann og horfði á Austur-Prússland, landssvæðið, sem Friðrik Vilhjálmur hafði heimtað að fá úr skiptum, en Karl Gústaf neitaði að sleppa, og sem varð þeirra skilnaðarsök. „Gefið betlaranum smjör við kökunni, þá mun hann heimta ostinn í viðbót. Sú ósvífni! Eða hyggur hann, refurinn, að hann þurfi ekki fleira að vinna en að elta hæla ljónsins til þess að fá að seðja sig á þess bráð, og verða máske að lokum fyrstur til að naga hnútur húsbónda síns!“ Slippenbak, hinn slægi Kúrlendingur, fylgdi augnaráði konungsins og nam staðar við Austur-Prússland eins og hann. „Refurinn er hundaættar“, mælti hann, eins og hin sviksama stjórnlist þeirra tíma skaut honum í brjóst. „Haldið kjötbita að hundstrýninu, þá getið þér ginnt hann hvert sem þér viljið. “Loðvík ellefti var stjórnvitringur mikill. Hann fylgdi einni og sömu reglu öll sín ríkisár: að lofa, en efna ekki. Og Loðvík ellefti lagði undir sig allt Frakkland enda á milli“. „Þú hefir rétt að mæla“, mælti konungur, sem að mörgu leyti fylgdi ráðum Slippenbaks í stjórn sinni. „Svik móti svikum, bragð á móti bragði. Já, herrar mínir og furstar, það segir refsinornin. Þið skoðið mig eins og þá hönd, er heldur um meðalkafla sverðsins; ég skal sýna ykkur, að þessi höndin kann fleira en að höggva, að hún kann líka að láta ykkur dansa eins og barnabrúður í bandi mínu“. Ljóta ráðabrugg þeirra tíma, er aldrei gat náð svo hátt að verða að hugstóru hreinlyndi, er ekki neytir svika og pretta til að ná í fagrar og stórar fyrirætlanir! Það var ljótasta lýtið á Karli Gústafi, að hann ekki bar af samtíð sinni í þessu, enda reið það honum að fullu að lokum. Konungur leit nú aftur á hinn litla blett á landabréfinu, sem táknaði hið víðáttumikla Pólland. Þá mælti hann: „Hvað stoða hyggindin og hin mesta ráðsnilli, fylgi hamingjan ekki hverju spori dauðlegra manna? Far þú... vertu allra manna vitrastur, vertu mesta hetja veraldarinnar, en berstu um leið við þetta þrálynda dutlungavald, sem hamingja heitir: Þá hugsar þú til ónýtis, þá blæðir blóð þitt til ónýtis og þú ert ekki neitt. Seg mér, Slippenbak, er nokkur dauðlegur maður til, sem boðið getur lukkunni að vara eilíflega?“ „Yðar hátign“, svaraði gæðingurinn, „ég trúi ekki á stjörnulistina — hraustur maður trúir á mátt sinn og megin, en þó eru menn til, sem svo lengi og svo fastlega eru hamingjunnar óskabörn, að menn eins og neyðast til að trúa á áhrif stjarnanna. Þér, herra konungur, eruð einn þessara ástgoða auðnu-stjarnanna. Slái myrkva á þær rétt sem snöggvast, leiftra þær óðara aftur enn þá bjartari“. „Þessi Bertelskjöld“, sagði konungur, án þess að hlusta á orð Kúrlendingsins, „hann reiðir sig á hamingju sína, en það þoli ég ekki nú. Hvað mundi gefa honum tilefni til að tala svo?“ „Það er sannast að segja“, svaraði Slippenbak, „að Bertelskjöld greifi er engum manni líkur. Hann er enginn spekingur að viti og fátt hefir hann umfram aðra menn nema óbilandi ofurhug, en frá æsku hefir hamingjan hann á höndum borið. Hann hefir verið í hundrað orustum og ótal sinnum sloppið úr bráðum voða, en aldrei nokkru sinni verið sári særður síðan ráðizt var forðum að Tillý yfir Lech. Ávallt hefir hann vaxið að metorðum, nafnbótum, auðlegð og áliti; ætterni hans þykir allókunnugt, en það vita allir, að hamingjan eltir hann og að drottningin, fyrirennari yðar, jós yfir hann stór-sæmdum í sífellu. Lendur hans eru einhverjar hinar mestu í ríkinu, og mundi mér því kynlegt þykja, ef gamanyrði yðrar hátignar um gjöf hertogakórónunnar á Litháalandi félli ekki í skaut Bertelskjölds greifa“. „Þú segir satt“, sagði konungur eftir litla þögn. „Sá maður trúir ekki á lukku sína alveg ástæðulaust. Slíkra manna þarfnast ég. Og samt sem áður — eins og stendur — fyrirlít ég þá“. „Þessir menn eru smáir hjá snillingunum, herra, þeim er sjálfir eru sinnar lukku smiðir. Snillingarnir nota þá eins og blind verkfæri til að koma fram fyrirætlunum sínum, en varpa þeim síðan frá sér. En úr því um Bertelskjöld er að ræða, skal ég geta þess, að metnaður hans er jafnstór og hamingja hans. Engan af aðalsmönnum yðar hátignar stenzt hann við hlið sér; hann á bezt heima í nýunnu landi, þar sem engum hleypidómum þarf að þyrma“. „Allt að einu hlýt ég þess að freista að taka Litháaland“. „Menn lofa, en efna ekki. Menn klappa þeim fyrst eins og með mjúkri meyjarhendi, en aga þá síðar með svipu eins harðri og Bertelskjöld er. Vilji yðar hátign endilega halda landinu, græða sár þess og efla þess velgengni... vel og gott, þá skuluð þér senda Würtz eða Dahlberg þangað. En ef þér ætlið vægðarlaust að halda landinu lítinn tíma að veði, sendið þá Bertelskjöld þangað með fullnaðarvald í vasanum, og þá mun hann taka það, enda þótt bundið væri fyrir bæði hans augu. Manninum er svo varið, að það eru eins og álög hans, að hann sjálfur sí og æ stígur, en lætur aðra falla. Hamingjan, herra, heimtar ætíð þokkabót. Hún eys yfir Bertelskjöld velgerðum sínum gegn því að gera alla auðnulausa, sem nærri honum eru“. „Með vægð eða miskunnarlaust“, mælti konungur í þungu skapi. „Litháaland er að mestu farið en því verður aftur að ná. Lewenhaupt hefi ég kvatt þaðan aftur til að verja Karelenhéraðið. De la Gardie er umkringdur ólmum búendum og nálega ruddur. Hvað kemur framtíðin mér við? Litháarnir hafa þegar svikið mig tuttugu sinnum. Hafi þeir nú skömm sína í heimgjald; ég sendi þeim Bertelskjöld“. 7. Greifinn Gústaf Bertelskjöld Það var nálægt lokum septembermánaðar þetta sama ár 1656, að herdeild 1200 manna lagði á stað í leiðangur. Voru það ýmist Finnar eða Líflendingar, helmingur reiðmannalið og hitt gangandi. Lá fyrir þeim hin versta færð um auðnir Litháalands, því sífelldar rigningar höfðu gert allar götur botnlausar. — Skyldu þeir skunda til liðs og lausnar köstulum þeim, er halda áttu landinu í hlýðni við Svía. Þessi litli liðsstyrkur var allt og sumt af herafla, sem Karl Gústaf þá hafði á að skipa móti hamstola og heiftarfullri þjóð, þar sem hver einasti maður stóð búinn til að verja ættjörð sina gegn útlendum kúgurum. Höfðu þeir og vígbúnar yfir 100 þúsundir vígra manna. Var liðsmunurinn svo mikill, að ofdirfska þessa leiðangurs mátti virðast óðs manns æði enda var fyrirtækið gert í móti ráðum allra hinna æfðustu herstjóra, er álitu það ekki til annars en þess að útausa blóði hraustra hermanna. En að líkindum hefir það einmitt verið áhættan, sem espaði skap konungsins, má og vera, að hann hafi reitt sig á sundurlyndi óvina sinna, viðvaningsskap þeirra í hernaði og vesæla vopnabúnað - allt saman hentugt til hjálpar Svíum hefði öðruvísi á staðið, en hér gerðu landshættir og landslag slíkt að litlum notum. Svíar voru neyddir til að fara gegnum óþrotlega skóga, yfir fen og foræði og beljandi stórár, og um auðar sveitir, þar sem engra nauðsynja varð aflað nema með mesta lífsháska; varð og fanga að leita dag eftir dag og gekk það afar erfiðlega. Af fallbyssum gátu þeir ekki með sér flutt nema fáeinar litlar. Í broddi þessa liðs reið greifinn Gústaf Bertelskjöld, er nú hafði hlotið hershöfðingja tign. Að öðru leyti er hann fornkunningi vor frá tíma Gústafs konungs Adólfs. Hann, sem þá var grannvaxinn sveinn, var nú mikill maður og vörpulegur, bæði hár og þrekvaxinn, hálf-fimmtugur að aldri, bjartur á hár, bláeygur, sólbrenndur í andliti eftir hitann á Póllandi, og auðkenndur af ari því, er hann bar eftir bardagann forðum við Lech. Margt var það í svip hans og aðferð, er minnti á Gústaf konung, var það þó einkum augnaráð hans, hið háa, hvelfda enni og hans risavaxna vaxtarlag. Þó þótti vanta hinn einfalda tignarsvip hetjunnar og hið rólega og látlausa stórleiks-yfirbragð, sem öllum fannst svo mjög um, einmitt fyrir þá sök, að honum var það ósjálfrátt. Hinn þýði svipur unga mannsins hafði og breytzt í 25 ára styrjöldum og mannraunum og var nú orðinn harðlegur og minnti fremur á þrályndi en hetjuhug; var augnaráðið orðið fast og ósveigjanlegt og yfir hinni alskeggjuðu efrivör hans lágu rákir, er sýndust tákna óbifandi skapsmuni. Allur virtist hershöfðinginn líkari til að vekja ótta manna en yl og traust. En hvað sem þessu leið, var greifinn einhver hinn fríðasti og hermannlegasti maður, þar sem hann reið fram á hinum þreklega, stórvaxna, jarpa reiðfáki sínum; var hann mjög auðkenndur af hinum breiða skínandi panzara og fjaðurskúfaða hjálmi, einkum þar sem háski var eða bardagi stóð sem heitastur, og þekktist hann langt að. Fáum skrefum aftar reið grannlegur, svarthærður og dökkeygur sveinn, rúmlega 17 ára gamall; var auðséð á ásýnd hans, að hann bjó yfir sál, er hneigð var til draumsjóna. Bernharð Bertelskjöld — sá var maðurinn — virtist gefa lítinn gaum að því, er á gekk næst honum, enda reið liðið að mestu þegjandi um skóginn. Við hlið hans reið helzti hersveinn og þjónn föður hans, hinn gamli Pekka, alltorkennilegur fyrir ör sín, en oss vel kunnugur frá orustum við Breitenfeld og í Bæjaralandi. Við og við opnaði hann varir sínar til máls, með venjulegri einurð trúrra þjóna, til að lífga fábreytni ferðalagsins, en væri honum engu svarað, lokaði hann óðara munni sínum og varð heldur ófrýnn; heyrðist þá ekkert nema traðk hestanna, sem óðu jafnt og þétt bleytu vegarins, eða ef einhver æpti hátt og bað menn varast dý eða fen utan við götuna. Þannig hélt liðið áfram um hríð. Pekka gamli gat þó ekki að sér gert og umlaði við sjálfan sig, um leið og hann leit til hins unga húsbónda síns, sumpart með óánægju og sumpart með föðurlegri velvild: „Drengaulinn sér hvorki né heyrir. Hann ríður þegar hver vill beint í fenið án þess að verða þess var. Guð hjálpi mér; það hefir hann af móðurinni. Greifinnan sáluga var svona, hana dreymdi um hábjartan daginn; hún sá margt, ímynda ég mér, sú kona. Það er eitthvað skrítið við þess háttar fólk, en ekki skil ég það“ „Pekka“, sagði nú Bernharð, sem beint hafði huga sínum að nýju efni, „segðu mér, hvaða sögur ganga um látúns-hringinn hans föður míns?“ „Hvaða sögur, svo sem?“ svaraði Pekka og færðist undan. „Það er ein heima, sem vildi eignast hringinn, og ég hét að gefa henni hann, ef ég skyldi erfa hann eftir föður minn. Ég hugleiddi þetta ekki þá, en þegar ég sá hann í gærdag á hendi hans föður míns, spurði ég hann, hvers vegna hann bæri svo auvirðilegan hring. Þá styggðist hann við, leit til mín hvössum augum og spurði: „Veiztu ekkert um sögu þessa hrings?“ Ég neitaði því. „Þegar ég einhverntíma dey“, svaraði hann, „muntu finna erfðaskrá mína í hirðréttarsafninu í Ábæ. Þar færðu þá fræðslu, sem þú við þarft“. Síðan áminnti hann mig, að ég mætti aldrei nokkru sinni lóga honum, er ég hafði eignazt hann. Hvað þýðir nú allt þetta, Pekka?“ „Hvað veit ég um það?“ svaraði hinn eins önugur og fyrr. — „Óefað einhver tryggðapantur frá æskuárum greifans“. Bernharð greifi kippti af óþolinmæði í taumana. „Er það nú rétt, vildi ég spyrja, að fá aldrei að heyra eitt orð í trúnaði af vörum föður síns? Að finna aldrei neinn föðurkærleik. Ótti, hlýðni og aftur ótti og hlýðni og sífelld niðurlæging — það eru mín kjör. Hver og einn liðsmaður í hernum þekkir betur leyndarmál föður míns en ég“. „Hershöfðinginn er lukkunnar maður“, sagði Pekka, nálega óvitandi. Hamingja greifans var orðin að orðtaki um allan herinn. „Hann hamingjumaður!“ svaraði sveinninn nálega með gremju. „Já, sé það hamingja að stíga ávallt hærra og hærra í völdum, auðlegð og virðingum. En manstu það, að móðir mín dó aðeins 26 ára gömul, að tveir yngri bræður mínir fóru í gröfina á undan henni, að óhamingjan eltir og ásækir alla, sem við elskum og okkur tilheyra, að undirmenn okkar farast úr hungri og formæla okkur, og að jafnvel allur sænski aðallinn hatar og öfundar okkur? Eða veiztu, að milli föður og sonar hefir sí og æ verið vantraust af beggja hálfu og sú tilfinning, sem er líkari hatri en kærleik. Ó, ég er auðnulaus maður, og faðir minn engu síður! Blessanin stráir yfir okkur öllum ytri ljóma...“. „Það er blessan föðurmóður yðar“, sagði Pekka og strauk sér tár af vanga, er hann minntist Emmu hinnar góðu. „Já, en bölvanin er á hælum okkar og kastar volæði, hatri og grátþögulum gröfum fyrir fætur okkar“. „Það eru bölvunarorð föður ömmu yðar“, sagði Pekka og skók sínar gráu hærur. Bernharð varð æði fár og hugsjúkur við þessi orð. Sólin var að hníga og sendi síðustu geisla sína yfir þéttan bækiskóg, sem liðið átti þá að fara gegnum. Þar voru mörg vegamót á mörkinni, allar leiðir jafnillar, en sú, sem liðið fór, varð æ mjórri og mjórri, og æ verri og blautari. Hershöfðinginn lét staðar nema, kallaði leiðsögumanninn fyrir sig, ógnaði honum og spurði, hvort sá vegur lægi til kastalans Birzen, er þeir skyldu fara til. Maðurinn, er var Gyðingur, sór og sárt við lagði að svo væri og beygði sig beint til jarðar fyrir augnaráði hins stranga höfðingja. Síðan var haldið áfram. Nú gekk sólin undir bak við eikartoppana, en þrumuský byrgðu himininn með koldimmum bólstrum og gerði brátt óratljóst. Eftir því sem talizt hafði til áttu þeir að hafa náð kastalanum í björtu; tók því bæði fyrirliðum og liðsmönnum ærið að óróast í auðn þessari, þar sem þeir áttu víst, að öllum megin væru fjandmenn þeirra á verði til að svíkja þá. Hershöfðinginn bað menn því að hraða ferðinni og sendi forverði, 30 saman, til að rannsaka, hvar skógurinn hætti, svo þeir kæmist sem fyrst á víðan völl, áður en almyrkt yrði. En forvarðasveitin lét sín lengi bíða. Leiðsögumannsins var þá stranglega gætt, og gat hann skemmt sér við að horfa á reipi, er haft var til taks til að festa hann upp með í næstu grein, óðara en minnsti grunur gæfist um svikræði. Í því skall á þrumuveðrið og eldingarnar snörkuðu og leiftruðu uppi í bækitoppunum. Var nú kveikt á blysum og skotið á fylking, því búizt var við hinu versta. Þá small í skoti nærhendis gegnum Þórdunurnar, og nokkrir af forvörðunum komu aftur á harða stökki og fluttu þau ótíðindi, að hvergi þraut skógurinn, heldur varð æ þrengri og ófærari og loks endaði stígurinn við þvergirðing. Óvini kváðust þeir ekki hafa séð, en skotið hefði þeir þeim til aðvörunar, sem eftir hefðu orðið. Hershöfðinginn lét nú aftur staðar nema og leiðsögumanninn enn leiða fram. „Þræll!“ æpti hann, „þú hefir svikið oss. Kjós nú annað hvort“, mælti hann og hristi pyngju fulla af gulldölum að honum með annarri hendi, en benti á snöruna með hinni. Maðurinn grét og baðst friðar. Greifinn brá sér ekki. Reipið var fest um grein á hávöxnu linditré og lykkjunni smeygt um háls hinum seka, en síðan hringdu þeir pyngjunni við eyru hans eins og til storkunar. Óveðrið óx. Liðið var í sannleik illa statt. Í fyrsta lagi voru þeir villtir vegarins og sviknir inn í auðnir, svo óvinir á allar hliðar; það var þrumuveður og komin nótt; og þar á ofan uggðu þeir á hverju augnabliki, að hlaupið yrði á þá í opna skjöldu, en engin voru tiltök að skipa fylkingum sakir myrkurs og mýrlendis; regnið fossaði niður, og fallbyssur og byssur komu þar að engum notum. En svo var trúin á foringjanum örugg, að engum hafði enn fallizt hugur og einmitt þessi trú frelsaði herdeild þessa; án hennar hefði allt verið úti. Bertelskjöld greifi sýndi nú, að hann verðskuldaði þetta traust. Rödd hans hélt ávallt sama myndugleik og ró. Allt er hann fyrirskipaði bar ljósan vott um fyrirhyggju og fastlyndi. Tvö úrræði og ekki fleiri virtust reynandi. Annaðhvort að freista að snúa aftur hina sömu leið og búast fyrir eins og kostur væri hinu fyrsta skjóli, þar sem að minnsta kosti ekki yrði komið að baki þeim. Hinn kosturinn var að láta fyrirberast þar sem þeir þá voru komnir, höggva rjóður um sig, gera elda og bíða svo þess er lýsti. En bæði úrræðin virtust jafnháskasamleg, en þó sýndist enginn þriðji kostur vera fyrir hendi. Hershöfðinginn lét sér þó ekki bilt við verða og bjó yfir þriðja tiltækinu. Þegar hvorki dugðu góð hót né grimm við Gyðinginn lét hann taka lykkjuna af hálsi honum, kallaði hann á eintal og tók hann þar tali. Er það sumra manna mál, að greifinn héti að gefa honum hálfu meira fé, en hótaði hins vegar að láta leggja hann kvikan á glóandi kol. Aðrir segja, og þykir líklegra, að Gyðingurinn hafi fengið loforð um miklar réttarbætur handa trúarbræðrum sínum, og að Bertelskjöld hafi með eiði heitið að útvega þeim frjálsa vist í löndum Svía, er þeir aldrei höfðu áður haft. En afleiðing samtalsins kom öllum mjög á óvart. Hershöfðinginn bauð að kveikja skyldi bál mikið, lét færa saman fallbyssur, hesta og farangur þangað sem þurrast var við veginn, lét nálægt 300 manna verða eftir þar til varnar og ávarpaði síðan liðsmenn sína snjallt og skorinort, og hét þeim sigri, herfangi og góðri hvíld, ef þeir fylgdu nákvæmlega fyrirskipunum hans. Síðan dró hann sig með allt meginliðið lausbeizlað nokkur hundruð skref aftur á bak, lét slökkva blysin og gaf nýtt orðtak; stefndi síðan ásamt leiðsögumanninum eftir mjórri þvergötu, er lá til hægri í skóginum. Liðsmennirnir, sem vanizt höfðu á að hlýða blindandi, fylgdu eftir honum í röðum og gengu þrír og þrír saman og fóru hljóðlega. Vegurinn var hinn versti; datt liðið ýmist í holur eða fen svo margir stóðu í mitti; enginn mátti æpa né orðið mæla, og hvergi sást handaskil fyrir myrkri, nema þá er eldingu laust niður milli trjánna, og hellirigning dundi í sífellu. Gáfust þá ófáir upp, en aðrir villtust, en hinir héldu áfram í rauðan dauðann með óbilandi kjarki. Loksins voru þeir lausir við skóginn. Höfðu þeir þá komizt í kring um óvinina; þrátt fyrir myrkrið mátti eygja allmikla sléttu og álengdar heyra óm af mannamáli. Bertelskjöld kannaði nú liðið, eins og auðið var í myrkrinu, og lét það kasta mestu mæðinni og gefa hverjum manni vínbikar til hressingar. Að því búnu ítrekaði hann heit sín um herfang og sigur. „Þarna, piltar mínir, eru fjandmenn vorir“, sagði hann og benti þangað, sem ómurinn heyrðist „Þeir sitja um oss eins og úlfar um bráð; þykjast nú svo vissir að hafa hana í hendi, að þeir hirða ekki um að grípa hana. Nú skulum vér spara þeim ómakið og kasta á þá óvæntri kveðju. Ætlið ekki, sveinar, að illþýði þetta sé komið tómhent saman. Aðallinn hefir gert samtök við bændur og hefir með sér bæði vín og vistir og mun hvorttveggja í meira lagi munntamt. Og hér á sléttunum er fullt af aðalsmanna höllum. Þegar dagur rennur eru þær allar á voru valdi, og megið þér ræna þær og rupla eftir vild yðar. Ef vér vinnum sigur verðið þér allir að auðmönnum, en látum vér hugann bila, kemst enginn vor lífs undan“. Nú heyrðist gleðikurr um allar raðirnar. Háskinn, hefndin og ránsfýsnin lagðist allt á eitt til að æsa vígahug liðsins. Var nú haldið áfram, en með mikilli varúð. Síki varð á leið þeirra, en þeir óðu yfir það; tók þá við akur hálfskorinn og tróðu menn hann og stefndu beint sem horfði. Þeir fóru mjög hljóðlega, og Litháa grunaði ekkert fyrr en um seinan. Höfðu þeir allan hugann á skóginum og stíflunum og biðu þess, að þeir sæi eða heyrði Svía brjótast þeim megin fram. Hresstu þeir sig á meðan á mat og drykk, er þeir höfðu með sér haft. Í stað byssanna, sem regnið hefði gert ónýtar, hafði Bertelskjöld vopnað menn sína með löngum spjótum og björtum sverðum. Og þegar er þeir voru komnir að baki fjandmannanna og þó rétt að þeim, æptu þeir heróp og í sama bili hlupu Finnar og Líflendingar á herbúðir Litháa. Þeir höfðu fyrr búizt við, að himinninn hryndi niður yfir þá, og komust óðara í hið voðalegasta uppnám. Voru þeir að vísu tuttugu um einn, þeirra er að sóttu, en lentu í þvögu, ráðlausir og margir vopnlausir; vildi þá hver forða sér sem mátti og leituðu brott í allar áttir. Miskunnarlaus og voðaleg var aðferð Finnanna í því áhlaupi; það var engin sókn eða orusta, heldur múgasláttur af manndrápum. Fleiri en þúsund manna létu þar lífið á örstuttri stund og kom engri vörn fyrir sig, en hinir komust undan út á sléttuna. Eftir tæpa klukkustund höfðu Svíar náð öllum herbúðunum, sem flutu í blóði, hálfbyrgðar af valköstum, en innan fullar af vopnum, vistum og alls konar herfangi. Sigur var unninn, en háskinn hvergi búinn. Enn lifðu tvær stundir eða þrjár af nóttu. Bertelskjöld uggði, að svipað áhlaup kynni yfir sjálfum sér að vofa óðara en óvinir hans söfnuðust aftur saman, og lét því nokkurn hluta liðs síns skipast í fylking úti fyrir herbúðunum, meðan hitt liðið var sent til að höggva stíflugarðinn, er hindraði framkomu þeirra, sem skildir höfðu verið eftir í skóginum. Liðsmennirnir voru orðnir örþreyttir eftir gönguna, óveðrið, orustuna og manndrápin; vildu nú fyrir hvern mun byrja þegar að ræna. En foringjans drottinsorð stöðvaði alla óreglu. Hann var alls staðar kominn, óþreytandi, járnfastur fyrir. Hann var jafnskjótur til að umbuna og að hegna. Bertelskjöld var við þetta tækifæri sannnefndur lærisveinn hins mikla Gústafs Adólfs. Tókst honum á svipstundu með járnvilja sínum að festa aftur agans taum, þann er losnað hafði í uppnámi þessu á liði hans, og þegar loks dagurinn rann og lýsti, mátti sjá allan liðsstyrk Svía til samans kominn í hinum teknu herbúðum. Höfðu þeir misst að eins á þriðja tug manna, og jafnmargir voru sárir eða uppgefnir. 8. Meinsæri veldur hamingjubrigðum Þessi mannskæði bardagi, er Bertelskjöld nú hafði unnið á landvarnarher Litháa, var einungis eitt af ævintýrum hins hamingjulausa ófriðar — yfirleitt varð hann sögulegri fyrir sakir tjóns og hefndarverka heldur en árangurs og ábata fyrir Svía. Það, sem við mátti búazt, kom fram. Óðara en birti af degi gat það ekki lengur dulizt óvinunum, að Svíar höfðu sáralítinn liðsafla; heimtu þeir því í skyndi saman hersveitir sínar og sóttu fram með tvöföldum ofstopa, eins og brotsjór eltir kjölfar skips, er árætt hefir að kljúfa hann næsta augnablik áður. Bertelskjöld þurfti á öllum sínum viturleik að halda og allri þeirri herkænsku, er hann hafði numið, fyrst í Gústafs Adólfs skóla, en síðan hjá þeim Banér og Thorsteinsson, til þess að verjast þeim sæg, sem hvervetna sat um hann, komast yfir slétturnar, gefa hvíld liði sínu, hvetja hug þess með von um ránsfeng frá tveimur eða þremur stórgörðum, og svo loks að koma liðinu saman við herstyrk þann, er de la Gardie fór með, áður en þeir í sameining héldu hernum til Vilna: Þetta allt tókst honum líka fyrir framsýni sína og skarpvitra herskipan, heraga ágætan og þolgæði, svo og naut hann sundrungar óvina sinna og ránfýsi. Bændur landsins þoldu ánauð mikla af kúgun aðalsins og neyttu því hvers færis, sem gafst, til hefnda og rána í móti. Hvervetna þar sem landsherinn fór, skulfu menn í höllum og ríkismannasetrum af ótta fyrir bændum engu miður en fyrir Svíum; enda rændu hvorirtveggju, vinir og óvinir, allt sem af tók. Þá voru og drýgð alls konar illvirki, en hins vegar hittast og líka dæmi frá þessum miklu óaldartímum, er lýsa mikilli óeigingirni og trúmennsku bænda við góða landsherra. Sigursæld og ofdirfska Bertelskjölds vakti hina mestu undrun og furðu landsmanna. Og hugðu þeir slíkt alls ekki einleikið. Voru og þarlendir menn ærið hjátrúarfullir og í mörgu siðleysingjar. Rankaði þá við frásögum úr þrjátíuára-stríðinu um fjölkynngi Finnanna, var því nú kennt um ófarir landsins. Svo mikil brögð urðu að þessum ótta, að ef einn einasti finnskur liðsmaður lyfti upp handleggnum, eða hann þuldi nokkur orð fyrir munni sér, er enginn skildi, þá flýðu landsmenn hópum saman sem fætur toguðu. Bertelskjöld kunni vel að nota þetta. Hann lét fanga í herbúðunum oftlega, eins og óvart væri, vera sjónar- og heyrnar-votta að særingum, er vitaskuld voru þeirra vegna framdar. Það bar og við, að einhver löngu jarðsettur stórfursti Litháa kom skyndilega upp um op eða gat á gólfinu og rétti hershöfðingjanum stórfursta-kórónu; ellegar taminn örn, er á það hafði verið vaninn, kom fljúgandi og settist á öxl Bertelskjölds, svo fangarnir sjálfir sáu. Eitt sinn horfði greifinn fast á vissan stað á víðavangi, benti síðan með spekingssvip, að þar skyldi rannsaka, hvað fyrir væri, og fannst þá niðurgrafinn mikill forði vopna og vista. Öllum herteknum mönnum, er þess konar fyrirburði sáu, var óðara gefin lausn og sleppt. Kunnu þeir síðan frá mörgu ótrúlegu að segja. Þóttust allir sjá og skilja, að það var ekki mennskra manna færi að etja við slíkan ógnarbíld og töframann, sem réði jafnt yfir dýrum, mönnum, öndum og árum, og ekki þurfti annað að gera, ef á lá, en benda á jörðina til þess að finna vistir og vopn eftir vild sinni. En þótt Bertelskjöld hefði til sín dregið allt það lið, er laust var og fáanlegt, nam tala þess þó aldrei fullum 3000 manna. Með svo litlum her gat hann litlu áorkað er til lengdar lét. Hann ásetti sér því að ná marki sínu með brögðum; enda er búið, að hann í því efni hafi farið eftir fyrirskipunum, er rót hafa haft að rekja til stjórnkænsku Slippenbaks. Í fyrstu sneri hann máli sínu til ríkismanna landsins og tjáði þeim, að hin sænska stjórn væri fús til að auka enn þá betur einkaréttindi aðalsins þar í landi. En er þetta ráð mistókst, sneri hann sér með orðsendingum til bændanna. Hét hann að leysa þá frá ábúðarfestu þeirra, létta af sköttum, og leyfa þeim þar á ofan að ræna höfðingjasetrin. En þetta ráð sprakk einnig á þjóðarhatrinu. Þá tók Bertelskjöld til nýrra bragða og ærið frekra og ofdirfskufullra, en aldrei skorti hann áræðið. Hann lét sem væri hann stórreiður hinni sænsku stjórn fyrir það að hafa sig að verkfæri til að kúga hina hraustu og hugprúðu Litháa-þjóð; kvaðst því boðinn og búinn til samnings við „stéttir“ landsins; skyldu hvorirtveggja koma sér saman um sættir eins og bezt mætti falla, enda lét á sér skilja, að hann mundi ekki víla fyrir sér að bregða trúnaði í því máli gagnvart konungi sínum og landsmönnum, ef honum byðist sú umbun, er aðgengileg væri, í löndum eða lausum aurum. Litháa-menn héldu einmitt stéttaþing það haust í Vilna og sóru þar með ópum og óhljóðum dýra eiða, að þeir skyldu hjálpast að til að reka alla sænska menn út úr landi þeirra eða strá-drepa alla. Menn gáfu því í fyrstunni lítinn gaum að máli Bertelskjölds, enda ætluðu þeir að honum gengi ótti til og úrræðaleysi. En brátt snerist veður í lofti. Orðrómurinn um samninga hins útlenda höfðingja við fjandann var kominn til hvers manns eyrna og hafði vakið ótta og skelfing. Mátti það því sýnast heillaráð að losast við slíkan vágest með svo hægu móti. Fyrir allmörgum meðal aðalsins vakti og enn önnur ástæða. Þeir óttuðust bændur, að þeir kynni að snúa hefnd sinni þeim á hendur, þegar búið væri að hreinsa landið; myndu þeir þá krefjast bóta fyrir blóð það, er þeir hefðu í sölur lagt, og yrðu þá eignir og völd aðalsins í veði. Hinsvegar, ef sættin gengi saman við Bertelskjöld, myndi hann hjálpa þeim að halda búendum í skefjum, og yrði þá allt með felldu eins og áður var. Bertelskjöld sat í vel víggirtum herbúðum við fljótið Vilía milli borganna Vilna og Kovnó, og sat um færi til að ná hinni fyrrnefndu auðugu borg, er lá 3 eða 4 mílur frá herbúðunum. Eftir langan matning og þrætur milli Litháanna var að lokum ákveðið að stefna til samkomu milli hins sænska herstjóra og 6 stórhöfðingja og biskupa landsins til að ræða sáttaskilmálana. Þann dag var sólskin og hiti mikill, þótt komið væri að lokum septembermánaðar. Bráðabirgðabrú hafði verið gerð yfir fljótið, þar sem það var mjótt, og á henni miðri var tjald reist, og í því skyldi fundurinn vera haldinn. Hvorirtveggja mættu, eins og ákveðið var, og hvorirtveggja höfðu lagt hönd á helga bók og svarið að hinn fyllsti friður og hin helgustu grið skyldu standa af beggja hálfu, unz hvorir um sig kæmi heim til sinna. Til enn meiri tryggingar voru tvennir 12 menn settir á vörð, en vopnlausir, sínir við hvern brúarsporðinn. Sín megin fljótsins beint á móti herbúðum Svía höfðu Litháar slegið landtjöldum og héldu þar hátíð með hersöngum og dansleik; fögnuðu þeir mjög þeirri von að losast undan refsivendi útlendinganna. Lítið atvik, er hæglega hefði mátt varazt, hafði nær ónýtt samkomu þessa þegar í upphafi hennar. Sá kvittur kom upp meðal Finna og Líflendinga, að höfðingi þeirra væri ráðinn í að svíkja ættjörð sína og selja þá í hendur óvinum þeirra. Í fyrstunni fór þetta lágt, en smám saman magnaðist grunsemd þessi, unz búið var við upphlaupi. Herstjórinn sá, hvað um var að vera og flýtti sér að bæla kurrinn. Hann kallaði nokkra hinna helztu fyrirliða saman í tjald sitt og kunngerði þeim ráðagerð sína. Fyrirliðarnir fóru til sinna sveitunga og sögðu þeim í hámæli frá hinu sama og buðu höfuð sín í veð fyrir trúmennsku herstjórans. En liðsmenn voru óðir og æfir og fullir hjátrúar; vildu ekki láta sér segjast, heldur brugðu sverðunum og létust mundu þegar í stað brytja niður alla landráðamenn. Uppnámið óx og magnaðist; fé var framboðið, en ekkert dugði. Bertelskjöld var úrvinda af gremju. Þá hleypur ungur maður fram og upp á einn víggarðinn; hann var fríður sýnum og göfuglegur, en svartur á brún og brá og þótti honum eldur brenna úr augum. Þekktu hann allir liðsmenn og lofuðu fyrir sakir hreysti og örlætis. „Góðir félagar“, kallaði hann með viðkvæmri rödd, en þó snjallri, „hvort er hér enginn nærri staddur, sem barizt hefir með föður mínum við Breitenfeld, Lech og Lützen?“ „Ég! Ég!“ mæltu ýmsir í mannfjöldanum, því að þar voru margir liðsmenn, sem barizt höfðu í hundrað orustum allt frá 1630. „Hvar er þá sá á meðal yðar“, sagði sveinninn og blóðroðnaði af bræði og ákafa, „hvar er þá sá, er dirfist að bregða föður mínum, að hann hafi nokkru sinni á ævi sinni svikið drengskap sinn og ættjörðu? Þér skylduð blygðast yðar, félagar, að festa trúnað við kviksögur og róg um foringja yðar, sem þolað hefir allar þrautir með yður samfleytt í sex ár og tuttugu, sem hefir jafnlengi þjónað Svíakonungi með heiðri og sóma og þolað sverð og hungur, þjáning og þorsta til jafns við hinn minnsta meðal yðar. Og slíkan mann þorið þér að kalla svikara!“ Þessi orð sveinsins bitu menn óðara, svo liðsmenn sneyptust við og fyrirurðu sig, að þessi piltur, er ekki var grön sprottin, skyldi minna þá á skyldur og drengskap hermannsins. „Þetta eru verstu tímar“, nöldruðu menn sín á milli, „því enginn veit lengur hverju trúa skal“. „Faðir minn er sæmdarmaður, er allir mega treysta!“ gall Bernharð við aftur. „Hann hefir heitið yður því hinu sama, sem hann lofar óvinum vorum, að semja þessi mál með ströngustu réttvísi frá beggja hálfu. Þér hafið heyrt, að þetta hefir hann bundið svardögum, og hvern þann, er dirfizt að véfengja drengskap hans og haldinyrði, kalla ég lygara og skora á hann til einvígis með hverju vopni, sem vera skal, hvort heldur sá er fyrirliði eða liðsmaður ... í ófriði eru allir hermenn aðalsmenn. Þér þegið? Er hér enginn, er gegnir áskorun minni?“ Liðsmennirnir steinþögðu. Tunga sannfæringarinnar hafði kúgað upphlaupið. Dreifðist svo mannösin og brátt létu menn sér vel smakka kost þann og góðgæti, sem herstjórinn lét deila milli liðsmanna. Bernharð greifi gekk í tjald föður síns. „Ég hefi nú sett drengskap minn í veð fyrir yður“, mælti hann og leit til föður síns alláhyggjufullur og horfði fast á hann. „Far þú og hygg að því, er þú átt að vinna, en hirð ekki hót um mig, því til þess ætlast enginn“, mælti hershöfðinginn heldur ófrýnn. „Draum-æringi!“ bætti hann svo við, „þú ert og verður líkur móður þinni“. „Hvað hafist þér fyrir, faðir minn?“ „Ger sem ég skipa!“ mælti greifinn. Nú kom stefnutíminn til ráðagerðarinnar. Það stóð á hádegi. Litháarnir urðu fyrri til og stefndu til brúarinnar með skínandi skrauti. Komu þeir ríðandi og var allt áreiði þeirra gulli skotið, en gimsteinar glitruðu frá húfum þeirra og hermelíns-skikkjum. Riðu 4 höfðingjar fyrir með síðu skeggi og girtir bjúgum sverðum og með þeim biskupar tveir í kápum alskreyttum silfri og perlusaumi; hélt hver þeirra á bagal í hendi greyptum perluskeljum og dýrum steinum. Þeir voru göfgastir í förinni og lutu þeim allir. Þá er skrautflokkur þessi kom að brúnni stigu hinir 6 sáttagerðarmenn af baki og fengu hesta sína í hendur prúðbúnum þjónustumönnum, er teymdu þá brott. En hinir sex gengu inn í tjaldið og túlkur með þeim, en við brúarsporðinn námu staðar þeir tólf menn, er vörð skyldu halda, eins og um hafði verið samið. Bertelskjöld virtist með vilja draga komu sína, því hann vildi ekki, að svo skyldi líta út sem hans væri þágan, en þó var ekki lengi til setu boðið, því að ekki þótti honum ráð að æsa hið öra blóð óvina sinna fyrr en þyrfti. Þá var liðinn fjórðungur stundar frá hádegi er hann kom og með honum sonur hans og 4 foringjar aðrir; voru þeir allir búnir sem bezt, eins og sjálfur hann, eins og hermönnum sómdi, enda vildu þeir ekki, að óvinina skyldi gruna þröng í búi þeirra Svíanna, — þótt gullið og gimsteinarnir, er þeir báru, væri að ætla má mjög svo nýfengið við rupl og rán hinna þarlendu stórbýla. Stóðu nú í tjaldinu 7 hvorum megin, því að Bertelskjöld hafði einnig túlk með sér. Tókust nú kveðjur með mönnum og heldur fálegar, en samkvæmt siðvenju höfðingja. Síðan lögðu hvorirtveggja vopn sín frá sér við tjaldsdyrin til merkis um að full grið væri sett, og við það var tekið til óspilltra mála. Litháumenn frambáru fyrst kröfur sínar, og þó svo til orða tekið, að mjög mætti málum miðla. Skyldu Svíar niðurleggja vopn sín, skila aftur herfangi og föngum, fara úr landinu, sleppa köstulum öllum og vinna eið að því að bera aldrei framar vopn í móti konungi Póllands; skyldu þeir aftur í móti í friði fara, og hersveit fylgja þeim yfir landamærin. Þessi voru meginatriðin og báru Litháar þau fram fremur sem ívilnanir væri, heldur en samþykkt jafnborinna málsaðila. Bertelskjöld hlýddi með þolinmæði á, unz hin langa ræða var á enda. En síðan tók hann til máls og frambar sínar kröfur, er ekki voru heldur allsmáar. Skyldu Litháar uppleysa landvarnarlið sitt, fá Svíum borgina Vilna ásamt ýmsum öðrum bæjum og köstulum í kostnaðarveð, greiða 3000 gulldali um mánuðinn til viðurværis og tryggja með svardögum, að þeir næstu 8 mánuði eða vetrarlangt skyldu engan herskjöld hefja gegn Svíum. En hins vegar skuldbatt Bertelskjöld sig til að gæta stranglega heraga, enga brennuskatta heimta, heldur verja fé manna og fjör, og loks hét hann sinni umsjá við Svíakonung, að hann veitti þeim sanngjarna friðarkosti. Svo forviða og æfir urðu Litháar, er þeir heyrðu þessa kosti, að fremur má nærri geta en með orðum lýsa. Lá við sjálft, að þeir gæti ekki hamið sig meðan túlkurinn talaði. Þeir, sem ákafastir voru, gripu til vopna og vildu þegar slíta fundinum, en biskuparnir öftruðu, líklega í því skyni, að þeir ætluðu, að Bertelskjöld hefði gert slíkar kröfur einungis af yfirvarpi eða í því skyni að tryggja málstað sinn hjá förunautum sínum. Ekki var það tilgangur hershöfðingjans að sefa ofsa Litháanna. Óðara en biskuparnir höfðu með nauðung stöðvað landa sína, hellti hinn stórláti Svíi olíu í eldinn, því að nú frambar hann nýja kröfu, er vakti hinum enn þá meiri skapraun en hinar fyrri; en krafan var sú, að Litháar skyldu selja honum 12 göfgustu menn landsins í gisling, að friðarkostirnir væri vandlega haldnir. Nú varð allt í uppnámi. Því óðara en höfðingjarnir heyrðu slíkan skammarkost, setti þá dreyrrauða og gripu vopn sín. Urðu þeir og enn æstari við, er þeir sáu, að Bertelskjöld stóð grafkyrr og leit á þá storkunaraugum. Brugðu þeir þá allir sverðum og leituðu höggfæris við hinn útlenda ofstopamann. Eftir þessu beið Bertelskjöld. Brá hann óðara upp lítilli pípu og blés í hátt. Gall þegar við skot og fylgdi því brestur mikill. Brúarboginn undir tjaldinu hristist, sem hrynja vildi, en trékubbum og grjóti rigndi yfir tjaldið, gekk og víða í gegnum dúkinn og hitti þá hart, er inni voru, þótt fáum yrði að verulegum skaða. Í fyrstu varð Litháum svo felmt við, að þeir gleymdu vopnum sínum, enda greip þá alla hjátrúaróttinn við fjölkynngi Bertelskjölds. Þó varð einum þeirra að ganga út, en nam þegar staðar í tjaldsdyrunum sem steini lostinn. Sá brúarboginn, er næstur var Litháumanna megin, hafði verið sprengdur með púðri gegnum leynigöng. Tæp 4 skref frá tjaldinu gein við fljótið, sem þá var í ægilegum vexti, og var því engum auðið að flýja eða forða sér til þeirrar handar. Hafði meiri hluti lífvarðanna þeim megin verið sprengdur í loft upp með brúnni. Bertelskjöld beið ekki boða að færa sér í nyt uppnám óvina sinna. „Grípið svikara þessa, er rufu griðin að fyrra bragði!“ æpti hann. Var því boði hlýtt nálega mótstöðulaust. Voru Litháar settir í fjötra og fluttir í skyndi til sænsku herbúðanna. En er Bertelskjöld gekk frá tjaldinu, gekk Bernharð greifi sonur hans fram fyrir hann, snerist að honum rauður að sjá af reiði, og mælti svo: „Hershöfðingi! gefið mér óðara fararleyfi; synjið þér mér þess, brýt ég sverð mitt, varpa því fyrir fætur yðar og segi: Drepið mig, en neyðið mig ekki til að hlýða framar meinsærismanni, þótt faðir minn sé!“ Bertelskjöld varð forviða. Barðist honum sýnilega hugur í brjósti, því hann svaraði seint og nálega með mjúkum rómi: „Ég skil þig, Bernharð, en þú skilur ekki mig. Far, og haf þig hægan, svo ekki hljótist af verra. Tíminn er dýrmætur; ég skal segja þér síðar, hversu öllu er varið“. En Bernharð heyrði varla orð hans. Hann dró sverð sitt og kastaði því fyrir fætur föður sínum og æpti með grátkjökrandi röddu: „Ég hefi veðsett drengskap minn fyrir yður, faðir minn! Drepið mig, því þér hafið svívirt yðar nafn og mitt. Eftir þetta mun ég standa með kinnroða í augum hverjum liðsmanni, og hver og einn þeirra mun segja við mig: Brott, þú heitir Bertelskjöld, en Bertelskjöld hefir svikið sitt svarið orð!“ Kinnar herstjórans urðu fölvari og svipur hans dimmari en venja var til. „Grípið þennan segg!“ hrópaði hann. „Farið burt með hann, svo læti hans veki ekki hávaða í herbúðunum“. Skipuninni var hlýtt. Sveinninn þagði með társtokknum augum og lét leiða sig viljugan burt. „Ég hefi engan tíma til að gegna keipum þessa veikgeðja unglings“, umlaði hershöfðinginn eins og vildi hann sannfæra sjálfan sig um, að nauðsyn krefði slíka aðferð. „Allir menn í stöður!“ kallaði hann svo hástöfum. „Fram stórskotaliðið! skjótið!“ Óvina megin heyrðust óhljóð og ólæti. Skotvígi, sem byrgt hafði verið, var nú afklætt, og 12 til 15 fallbyssur tóku nú að sópa fljótsbakkann á móti, en þar var allt á riðli. Danslætin enduðu með skelfingu, en lík lágu þegar í hrönnum á bökkunum. Sænski herinn naut færisins, fór yfir fljótið, sumir á bátum, en sumir á trjám, er lögð voru yfir sprengdu brúna; var svo sótt að óvinunum, gert afar-mikið herfang og mörg hundruð fanga fluttir yfir. Hafði nú Bertelskjöld gert óvinum sínum aftur hinn mesta skaða. En leikslokin munu sýna, hvort hann hafi ekki bruggað sjálfum sér annan meiri. Ráðagerð Bertelskjölds var sú að ná Vilna að öllum óvörum áður en landsmenn kæmi til sjálfs sín eftir ófarir þessar. Hann hélt því tafarlaust liði sínu yfir ána Vilna og rak óvini sína á undan sér. En í fyrsta skipti á ævi sinni hafði honum yfirsézt, er hann treysti hóflaust hamingju sinni. Mátti og svo virðast sem hún hefði skyndilega tekið sinnaskiptum, því upp frá þessu sneri hún alveg baki við honum. Þegar flytja skyldi fallbyssuliðið yfir brú þá, er gert hafði verið við í flaustri, brotnuðu trén undir þyngslunum. Fjórar fallbyssur með mönnum og hestum fórst þar í fljótinu; eyddist heill dagur við það slys áður en hitt liðið komst yfir. Á meðan á þessu stóð hafði finnska riddarasveitin, er hugði, að fótliðið og fallbyssurnar kæmi óðara á eftir, hætt sér rétt að veggjum borgarinnar Vilna, og síðan dirfðust margir af hermönnunum, sem treystu því að hershöfðinginn væri ekki nærstaddur, að fara fámennir til rána út um nærsveitirnar. En Litháar, sem voru hamslausir af hefndarþorsta, gerðu rögg af sér, drógust saman í flokka svo þúsundum skipti og drápu hvern sem þeir stóðu, af þeim sem dreift fóru, og gerðu hinum fyrirsát. Þeim heppnaðist þetta allt of vel. Þeir kvíuðu heila riddarasveit og slógu hring um, og þegar hún vildi undan leita, lenti hún í þrengslum og lézt þar 100 manna fyrir sverðum og spjótum Litháa, en aðrir voru fangaðir og flestir drepnir. Milli 20 og 30 manna sluppu lífs af og komust um krókstigu gegnum skóginn og þó nauðuglega aftur til meginliðsins. Bertelskjöld lofaði með eiði að hefna sín. Hafði hann loks komizt yfir fljótið og skundaði síðan til Vilna. En það var um seinan. Óvinir hans vörðu leiðina með tíföldu ofurefli. Þrisvar sinnum réði hann á þá og varð jafnharðan að hörfa frá og missti æ fleiri menn í hverju áhlaupi, en að sama skapi óx hinum hugur. Tók nú og að bila traust Svía á hamingju höfðingja þeirra. Dugði nú engin hernaðarlist, engin brögð og enginn ofurhugi hetju þessari. Allt endaði í óförum. Á tæpum 6 dögum var einungis helmingurinn eftir af herstyrk hans, og 7. daginn eftir að brúin var sprengd, sá Bertelskjöld sig alla vega umkringdan af æfum fjandmönnum. Staða hans var hin versta. Fimmtán mílur fullar þurfti að fara til að ná til næsta kastalans, er var á valdi Svía. Til hvers var að brjóta gang út úr þessari kví, ef hann óðara lenti í annarri? Hershöfðinginn kannaði hinar hraustu, en þunnskipuðu raðir liðs síns. Hvergi heyrðist kurr eða kæra frá vörum hinna örmagna liðsmanna, en hver maður var dapur í bragði, og hvert hjarta vonum horfið. Bertelskjöld bað þá herða hugina. „Hví skyldum vér hræðast kotungaskræfur þær, sem þér hafið ótal sinnum tvístrað og tætt í sundur eins og strá í vindi?“ kallaði hann hátt og setti upp þann svip, er sýna skyldi, að hann vænti nýrra sigurvinninga. „Nei, hershöfðingi“, svaraði gráhærður hermaður frá Gústafs Adólfs dögum. „Vér óttumst ekki fjandmenn vora, en vér óttumst guð. Vér einfaldir liðsmenn kunnum lítt til launbragðanna; en hitt höfum vér ávallt heyrt, að meinsæri hefti hamingjuna“. Kynlegt glott lék um varir Bertelskjölds. „Já, þú hefir rétt að mæla“, mælti hann og lét sér ekki bilt við verða. „Óvinirnir sóru að halda hin settu grið, en þrátt fyrir það brugðu þessi varmenni sverðunum í móti oss. Af því sjáum vér, að guð hefir ofurselt þá í hendur vorar, hversu mjög sem þeir hælast um ófarir vorar“. Í þessu bárust þau tíðindi, að óvinirnir hefði brotizt inn fyrir yztu vígin og væri liðið hægra megin í háska statt. Bertelskjöld hljóp þegar á bak hesti sínum og hleypti þangað. Ný tíðindi komu. Það var ráðizt á miðfylkinguna bæði að framan og aftanverðu. Hér var ekki gaman á ferðum; var auðsætt, að óvinirnir fylgdust nú að einu ráði og höfðu ásett sér að sækja að öllum megin til þess að fyrirkoma Svíum með öllu. Rétt í miðjum herbúðunum var lítil hæð og hafði Bertelskjöld látið reisa þar nóttina á undan 7 gálga, sem glöggt mátti sjá frá óvinunum. Hafði hann frestað að grípa til þessa óyndisúrræðis fyrr en í síðustu lög — og nú þurfti á öllu að halda. Óvinirnir urðu æ æfari og raðir þeirra, sem vörðust, æ færri og þunnskipaðri. Hinir 6 föngnu Litháar og túlkur þeirra hinn 7. voru leiddir upp á hæðina, íklæddir skrautklæðum þeim, er þeir höfðu borið á sáttafundinum; mátti þá af því þekkja langt tilsýndar. Lúðursveinn var sendur yfir til móts við óvinaliðið að láta þá vita þá kosti, að svo fremi þeir frestuðu ekki aðsókninni og héti að semja um sæmilega friðarkosti, skyldu þessir göfugustu landsmenn þeirra verða þegar hengdir í augsýn þeirra. Hvort heldur sem var, að lúðursveinninn gat ekki látið Litháumenn heyra boðskap þennan sakir hergnýsins, ellegar þeir voru svo óðir og æfir, að þeir gegndu honum ekki, hélt áhlaupið áfram og varð æ voðalegra. Þrjú vígi Bertelskjölds voru og þegar tekin. Þá var túlkurinn festur upp. Óvinirnir hertu áhlaupið því meira. Mikill hluti Finnanna, sem settir voru að verja þar sem hættan var mest, voru fallnir. Nokkrir Líflendingar köstuðu vopnum sínum og hlupu til að ræna herbúðir sjálfra þeirra. Þá lét Bertelskjöld leiða fram helztu fangana og leggja snörur um háls þeirra, en sökudólgarnir, er þóttust sjá sigur sinna landa nærri, báðu glottandi, að Svíar vildu flýta sér, svo að þeir sjálfir mætti komast sem fyrst á gálgann á eftir sér. Þó var þessum blóðdómi ekki fullnægt. Nokkrir þýzkir og líflenzkir fyrirliðar óttuðust, að sér mundi engin grið verða gefin, heldur allir höggnir niður miskunnarlaust, væri fangarnir hengdir; þeir brugðu því við, gerðu opinbert upphlaup, fengu með sér flokk liðsmanna, réðust á og tóku hæðina; leystu síðan fangana og báðu þá útvega sér grið hjá löndum þeirra. Nú urðu allar herbúðir Bertelskjölds í uppnámi; nokkur hluti liðsins gafst upp og bað griða, aðrir voru höggnir niður, og enn aðrir leituðu undankomu í skógunum, en flestum þeirra varð náð og blóði þeirra úthellt til ræktunar ekrum og engjum, en til engra annarra nota. Hershöfðinginn sjálfur var einn hinna sárfáu, sem undan komst. Hin skuggalegu og fátíðu forlög, sem breiddu ógn og ófarir alla vegu umhverfis hann, en hlífðu sjálfum honum, höfðu enn þá einu sinni borgið honum og skotið undan því tjóni, sem stráfelldi menn hans. Úr dauðanum var hann sloppinn án þess að hafa fengið eitt einasta sár, en hvað hafði hann við það unnið? Her hans var eyðilagður, sonur hans hertekinn. Draumsjón hans um kórónu Litháalands var liðin eins og þoka fyrir augum hans. Hverju skyldi hann svara konungi sínum, er hann spyrði: Hvað er orðið af köppunum mínum? Bertelskjöld reikaði lengi um skógana. Hann var fallin stærð og einn um auðnu sína, er nú var ekki orðin öfundsverð. Eftir ótöluleg ævintýri náði hann loks einum hinna sænsku kastala. 9. Önnur ástin Nú höfum við fyrst um sinn fengið nóg af ólmum hergný og orustum — öllum þessum blóðugu afreksverkum og óförum, sem leiftra og lýsa við vorn sjóndeildarhring á næturhimni liðinna alda, eins og fjarlægir vitaeldar. En hví skulu hinir liðnu dagarnir svo auðugir vera af þessum grátlegu dæmum, sem töfra þann, sem á þau horfir, með litum og ljóma, en ofbjóða honum um leið með grimmd þeirra og gegndarleysi? Sviplíkar myndir mæta oss enn í sögu þessari, en þó viljum vér nú litla stund draga andann í vorloftinu milli blómanna — það endurnærir hug og hjarta. Við kvísl eina í fljótinu Wieprtz — það er eitt hinna ókristilegu pólsku nafna, sem ómögulegt er nokkurri mennskra manna tungu að bera fram — má enn þá á vorum dögum sjá tóftir hallarinnar Radzyn, er síðar hefir gefið bænum nafn. Sveitin umhverfis er nú slétta, sem auganu skemmtir með fríðum og frjósömum kornekrum, en var á þeim dögum vaxin háum eikar- og bæki-skógi; en hin starfsama mannshönd hafði hér og hvar rutt til rjóður og gert sáðekrur til að bæta úr dagsins nauðsynjum. Hið gamla hörðingjasetur gnæfði hátt og stórmannlega með virkismúrum umhverfis og varið af fljótinu, en turnar þess buðu eldingum himinsins byrginn — ímynd hins pólska aðals með hans auðsvald og ójafnað á þeim tímum. Því að þá var Pólland ættjörð þúsund fylkiskonunga og milljóna af þrælum. Hinir ofstopafullu ríkismenn bældu svo landið til beggja handa, að engin allsherjar stjórn stóð yfir þeim, og engin alþýða eða þjóð undir þeim. Það var snemma um vorið 1657. Þá stund sá hið örmagna Pólland engan óvin innan sinna víðu landamæra, en höll þessi hafði þó varnarlið um sig eins og á ófriðartíð. Stóðu menn í varðstöðum hér og hvar á virkisveggjum, á vegum og stígum. Óðara en göngumann bar að var kallað til hans og honum frá vísað. Engum aðkomanda var leyfð aðganga, hliðum var harðlokað og vindubrýr uppdregnar. Hver mundi orsök til svo strangrar varúðar? Það var óvinur einn, sem kvíaði sundur kot og hallir, og fór herskildi um byggðir og borgir, ófriðarseggur, sem skæðari var en hin sænsku vopnin, voðalegri en allt, sem ótta vekur: pestin! En innan girðinganna var aldingarður, lítill ummáls, en með fagurgrænum blettum móti sólblíðu frumvorsins, fullur af angani og ilmi rósanna, þar sem ástin átti griðastað og launfundir hæli. Í garði þessum var lundur af vafningsjurt og akasín, og sátu þar í kvöldsvalanum og hjöluðu saman ungur sveinn og yngismær. Hún var furstadóttirin Lódóiska, tvítug að aldri; en sveinninn var Bernharð greifi Bertelskjöld, 18 ára gamall. Skaplyndi karls og konu var öfugt hjá þessum unglingum; hún var brennheit og ákaflynd og sást ekki fyrir, en hann var blíður í lund og fullur vordrauma, en hæglátur hversdaglega. Þegar hann renndi augum til hennar var það sem þá er kvöldstjarnan lítur niður yfir lundinn meðan móða leggst yfir laufin; en liti hún á hann var augnaráð hennar brennandi eins og hádegissól heitu landanna, þegar allt lifandi hvílir sig. Hann sat við fætur hennar og hreyfði með mjúkum fingrum viðkvæma gígjustrengi; hún sat á grasbekk undir eikarlimi og plokkaði lauf eftir lauf af lægsta kvistinum með hægri hendi sinni, meðan vinstri höndin, eins og óafvitandi, hvíldi létt eins og hugurinn á lokkum sveinsins. „Syng þú aftur söng móður þinnar fyrir mig“, mælti furstadóttirin um leið og hún vafði einum hinna hrafnsvörtu lokka, er léku í hendi hennar, um baugfingur sinn. Bernharð söng: /# Þó forlög græti, og fátt mig kæti, hjá himnadrottning ég huggun mæti. Til angursbóta þá harmar hóta þér Drottins móðir ég fell til fóta. #/ Í sama bili leit hann djúpt í augu Lódóisku, en sló þó jafnharðan augum sínum niður, eins og hefði hann mætt — ekki „Drottins móður“, heldur yndisfríðu flagði. Furstadóttirin tók eftir því og brosti við með töfraglotti konu, sem þekkir veröldina gagnvart feimni yngismannsins. „Gæt þín vel, Bernharð, mælti hún, „þú syngur heitt um hina helgu mey, svo syngja kaþólskir einir. Sæi landsmenn þínir það, mundu þeir þig á báli brenna“. Bernharð þagði við. „En ef ég nú væri kaþólskur, Lódóiska!“ sagði hann stuttlega og lét gígjuna falla úr hendi sér. „Drauma-sveinn minn!“ hvíslaði furstadóttirin. „Það hefir þú oftlega sagt mér, að móðir þín hafi ávallt elskað kaþólsku trúna með brennandi ákefð. En þú, þú hefir víst ekki haldið öðru eftir af þeirri trú en eintómri meyjarmynd“. „Lódóiska“, svaraði Bernharð henni. „Við skulum heldur tala um þig. Hversu mikið þakklæti á ég þér að gjalda? Það varst þú, sem heimsóttir mig ásamt föður þínum í fangelsinu í Vilna og baðst um leyfi að annast vesalings særða fangann, sem ekki sá annað en dauðann fyrir sér ... Það varst þú, sem lést flytja hann heim til hallar ykkar, þú, sem græddir sár hans, þú, sem gafst honum þitt heita hjarta og storkaðir hans vegna strangleik föður þíns ... Hvers vegna gerðir þú þetta, Lódóiska? hvers vegna léztu mig ekki deyja?“ „Hvers vegna, spurull? Af því ég sá þig við tröppur fangelsisins í því ég þaut fyrir í vagninum hans föður míns; af því ég elskaði þig óðara en ég sá þig í fyrsta sinni, og af því ég gat ekki úr því án þín verið. Og svo spyrðu hvers vegna ég hafi ekki lofað þér að deyja!“ „En Lódóiska, hönd þín er ekki lengur frí. Hún tilheyrir fursta af ætt Radzivílanna. Ef hann sæi mig við hlið þína mundi hann deyða mig“. „Bernharð — ég elska þig!“ „Ef faðir þinn vissi það mundi reiði hans hamslaus verða. Hann mundi loka þig inni í köldu klaustri, láta þig visna í vist, sem er verri en dauðinn“. „Bernharð — ég elska þig!“ „Ég er fjandmaður fósturlands þíns, allt þitt fólk hatar mig, og maðurinn, sem er svipa alls Litháalands, ber nafnið Bertelskjöld. Að elska Bertelskjöld er sama sem að vera formælt og fordæmd af milljónum Póllendinga“. „Bernharð — ég elska þig; heyrirðu ekki? Hvað varðar mig um nauðungarloforð? Hvað hirði ég um harðan föður? Hvað gerir mér þó milljónir manna formæli mér? Skilurðu ekki enn, að ég elska þig? Til er maður, sem álítur réttinn meiri en kærleikann. En ég þekki annan, sem gæti átt meiri kærleik en rétt — ef hann þyrði að nota sér það“. „Heimtaðu af mér lífið — ég tilheyri þér!“ „Já, líf þitt, allt lífið þitt, en ekki dauða þinn, Bernharð! Þín vegna fórna ég öllu — manni, ætt og ættjörð. Allt gef ég þér — allt, því ég elska þig! Beiddu, og ég uppfylli óðara bæn þína! Skipaðu, og ég hlýði! Það er enginn hlutur til á himni eða jörðu, sem ég gæti synjað þér um — ekkert nema þú sjálfur. Fyrir allt, sem ég offra, krefst ég einna einustu launa, en stórra, dýrmætra launa: ég áskil mér þig og allt þitt líf!“ „Ég hefi sagt, að ég tilheyri þér“. „En heyrðu eitt orð: veiztu nú, hvað þú hefir sagt? Þú ert 18 ára. Á morgun máski, að ári, að 10 árum liðnum, ertu búinn að gleyma, að Lódóiska er til. Fríðari og yngri meyjar en ég munu hertaka hjarta þitt — ó, hvað þú ert stór og fríður! hví skyldu ekki hundruð meyjanna keppast um að leggja snörur fyrir fætur þínar! En það segi ég þér, Bernharð, ég deili þér ekki við neina; ég heimta þig allan óskiptan fyrir mig eina — óskiptan, óskiptan! Gleymir þú mér einhverntíma, kem ég til þín, dauð eða lifandi, og segi: Bernharð, ég elska þig; mundu, að þú ert minn að eilífu! Engin nótt skal vera svo dimm, enginn staður svo fólginn, að þú megir fela þig, þegar þar að kemur. Flýir þú yfir hafið, elti ég þig; dyljist þú í því dularfyllsta gervi, vopnir þú þig með harðasta hörkufrosti, og hrindir þú mér frá þér með bitrasta hatri: það þýðir ekkert, ég fylgi þér allt að einu, vef um þig örmum mínum, þrýsti kossum á þitt guðdómlega enni með svörtu lokkana — svo! svo! — og þó þú rekir daggarðinn í hjartað á mér, þá sleppur þú ekki — þá kem ég til þín með blóðugan barminn og með mitt óbreytta brennandi hjarta og þrýsti bleikum vörum við þínar — svo! svo! — ég segi við þig eins og nú, ávallt og að eilífu: Bernharð — ég elska þig!“ Aftur dirfðist Bernharð að líta snöggum augum í eld hennar djúpu og dökku augna, er horfðu á hann eins og tvær glóandi sólir og nístu hann í gegn. En hann stóðst þau ekki nema augnablik; höfuð hans hneig aftur í skaut Lódisku og hann svaraði með hrollblandinni ást: „Hvað heimtar þú af mér?“ „Eið, að þú skulir vera minn“. „Vara þú þig, Lódóiska. Tvöföld örlög hvíla yfir ætt minni. Það hvílir blessan yfir henni, sem færir oss sífellt meðlæti, með einni undantekning, þeirri, að vér megum ekki drýgja meinsæri, því þá erum vér heillum horfnir. En líka búum vér undir bölvan, skelfilegri og skuggalegri; hún veldur því, að þótt vér sí og æ miklumst og mögnumst að völdum og virðing, slær óhamingja allt umhverfis oss eins og grimmur gammur bráð og hremmir alla, sem oss eru háðir, og deyðir þá, sem elska oss. Nei, Lódóiska, svo grimmlyndur er ég ekki, ég vil ekki binda þín forlög við mín! Ég vil hverfa aleinn burt með ást mína, því ást mín er dauðinn — ég vil elska þig svo djúpt, að ég fagni farsæld þinni í faðmi annars manns ... Veiztu, Lódóiska, að hin hæsta og hreinasta ást er sú, sem einskis annars æskir en sælu þess, sem hún er helguð!“ Furstadóttirin stóð snögglega á fætur með fyrirlitningarsvip. „Ó, þið norðursins synir!“ sagði hún reiðugleg, „hve lítið skiljið þið, hvað það þýðir að elska fyrir allt lífið! Af því brjóst ykkar er úr snjó, þá er hjarta ykkar klaki; hugsið þið, að öll hjörtu láti sér nægja ykkar náfölu, hálfvolgu ástir, sem þó er ekkert nema eldur í sinu, sem fuðrar upp í dag, en er slokknaður á morgun án þess að hafa kveikt í nokkurri tilfinning að marki. Far, Bertelskjöld greifi; burt með yðar háa og hreina kærleika, sem þér kallið, og sem einskis krefst, þar sem honum er sjálfboðið allt — far, og finnið yður hjarta þar nyrðra, kalt og freðið sem yðar eigið; ímyndið yður, að þér elskið, ó, heimskingi, meðan þér eruð að prédika miskunnarlausa siðafræði, og huggið yður svo með þeirri afsökun, að þér hafið ekki þekkt né grunað né verðskuldað þá ást, sem ein á skilið að heita hin hæsta! Greifi, þér eruð mér of lítill og smár — þér eruð huglaus!“ Bernharð stökk upp rauður sem blóð. „Furstadóttir!“ kallaði hann hátt og leit nú djarflega beint í hin svörtu augun með fullt eins stórmannlegu augnaráði og hennar: „Gætið betur orða yðar, þegar þér talið við finnskan hermann! Það eru til orð, sem smán fylgir, þótt komi frá fegurstu vörum. Ég sver og særi, að þér treystið því um of, að þér eruð kona — kona, sem ég elska!“ „Ég ítreka það: þér eruð huglaus, Bernharð greifi. Þér færist undan að vinna eið, sem ég heimta, og nú skal ég segja yður fyrir hverja sök: Yður grunar, að eiður yðar verði meinsæri, og óttist, að það valdi yður hamingjubrigðum. Viti það allir heilagir, að slíkt er tvöföld svívirðing — tryggðarof og hugleysi í senn — og ég kona. Það er ég, og ella munduð þér ekki misbjóða mér refsingarlaust. „Brott, herra, brott!“ æpti hin ofsafengna mær, því hún réði sér ekki fyrir reiði — fremur en ást sinni. „Brott, brott! ég hefi aldrei elskað yður; ég hata, ég fyrirlít yður!“ Og yfirkomin af ástríðu hneig furstadóttirin niður á grasbeðinn, studdi höfuðið við eikarstofn og grét svo ákaft, svo gegndarlaust, eins og óstýrilátt og illa vanið barn, ef ekki er allt látið eftir því. Var þetta af ásetningi, eða var þannig skaplyndi hennar? Því er erfitt að svara. En hver er sá maður, sem aldrei hefir látið sigrast af tárum fríðrar konu? Bernharð var svo ungur og óvanur; hann skildi ekki bragðavef ástanna, þekkti eingöngu þeirra töfra og máttuga afl; allt, sem hann sá, var yngismær liggjandi við fætur hans grátandi út úr ótakmarkaðri ást á honum, sem rétt áður hafði ýtt henni frá sér — það dugði, hann sá hvorki meira né heyrði heldur kastaði sér á kné fyrir hinni hágrátandi mey, kyssti með ákefð hendur hennar, sór henni ótal eiða, að hann unni henni og elskaði eina í allri víðri veröldu — og Lódóiska hratt honum ekki frá sér, hún naut sigurs síns, lét hann fyrst biðja og biðja, og þegar hún loksins lyfti höfðinu frá eikarbolnum og leit á hann aftur svörtu augunum, þar sem eldurinn brann sem í hjörtunum kveikir, þá þurfti ekki nema augnabliks bending frá hinum síðu, svörtu augnahárum og þegjandi bæn frá brosinu, sem aftur fór um varirnar, til þess Bernharð segði: „Já, ég sver þér við alla ævi minnar hamingju, og við allt, sem mér er helgast og dýrast, að elska þig eina til dauða og grafar, og rjúfi ég eiðinn máttu koma dauð eða lifandi og krefjast hans af mér“. „Ég þigg eið þinn og ætla að halda honum“, svaraði Lódóiska með eld í augum. „Tak við mínu hjarta í staðinn og eig það um tíma og eilífð!“ Sólin var hnigin á bak við eikartoppana og tunglskinið lék á spegilfleti árinnar, og enn þá hljómuðu tónar frá gígju Bernharðs, þar sem hann lá við fætur Lódóisku í skuggum aldingarðsins. Þau voru sæl og sáu ekki, að á meðan ástin dró að sér vorsins ilm og angan, kom háskinn inn um hlið hallarinnar. Þerna Lódóisku kom allt í einu hlaupandi og kallaði: „Furstinn!“ og í því stóð Radzívíl fursti yngri við dyr laufskálans. Lódóiska fleygði sér í flasið á honum; hann hratt henni frá sér og virti hana einskis orðs. „Loksins hitti ég þig hér, svikuli sonur svikara!“ æpti furstinn hamslaus af bræði. Bernharð fékk varla ráðrúm til að bregða sverði sínu, því Radzívíl, sem annars var göfugmenni mikið, fylgdi hér spænsku reglunni að berjast ekki, heldur drepa. Sverðin mættust og sveifluðust í tunglskininu. Hendingin eða hamingjan réði sigri. Furstinn sá hvorki né heyrði annað en afbrýði sína og hefnd. Hamingjulausa hrausta ungmenni! Við annað eða þriðja frumhlaup hljóp Bernharð greifi til hliðar, en Radzívil rak sverð sitt í eikarstofn; og í sömu svipan gekk sverðsoddur Bernharðs gegnum brjóst hans og á hol. Radzívil féll og flaut í blóði sínu, en Bernharð flýtti sér til Lódóisku. „Flýðu, flýttu þér!“ hrópaði hún. „Tak við lyklinum að hliðinu bak við höllina! Flýðu, ella myrðir faðir minn okkur bæði!“ „Ofurselja þig hefnd hans! Aldrei!“ svaraði Bernharð æstur og trylltur eftir vígið, því hver sem ekki er eldri en 18 ára, vinnur ekki víg með köldu blóði. „Ætlarðu að fyrirfara okkur báðum?“ hvíslaði furstadóttirin. „Flýðu! Þegar faðir minn kemur, segi ég, að þú hafir neytt mig til að fá þér lykilinn til að frelsa þig, og að furstinn hafi fallið meðan hann hafi verið að verja mig. Far vel! Við sjáumst aftur. Mundu eið þinn!“ Og Bernharð skundaði brott með hörðum hjartslætti og Lódóisku síðustu kossa brennheita á vörunum, út í frelsið og — nýjar mannraunir. 10. Litla belti Aftur liðu vikur og mánuðir, og nú erum við komin að byrjun hins atburðaríka árs 1658. Hin „ferhyrnda“ hamingja hins sænska konungs hafði oltið eins og óstöðvandi kúla áfram allar götur, ýmist gegnum sigur eða ósigur, stundum móti ljómandi útsýni, en stundum gegnum sviknar vonir, en sí og æ yfir herjuð lönd, eydda bæi og borgir, rjúkandi rústir eftir horfna velgengni, yfir plógför pestar og sverðseggja, gegnum blóð og bál, eymd og ösku, tár og trega. Hverju hafði nú gripshönd drottnunargirninnar haldið eftir af draumunum um kórónur og konungsríki við Veiksel? Einungis minningunni um orustur og yfirgang, nokkrum glæsilegum, en blóði flekkuðum blöðum í sögunni, óvini sliguðum til bana fyrir ógurlega áreynzlu ættjarðarinnar sjálfrar, sem orðin var úttauguð og örþjáð. Beizka kenning hafði sigurvegarinn fengið: ævarandi viðvörun um sverðsins harðstjórn, sem send var Póllandi til höfuðs! Hve margir garpar stóðu enn þá uppi til að græða fósturjörðina og endurskapa hennar farsæld? Tæpar tíu þúsundir hálftrylltra ofstopamanna, sem í sífelldum orustum, háskasemdum, manndrápum, ránum og grimmdaræði höfðu gleymt að unna og meta kyrrð og farsæld friðsælla daga og sérhvern annan grundvöll siðaðrar sambúðar en ófriðarins harða heraga. Með hvílíkum tilfinningum hljóta þeir menn, sem heim komu til átthaga sinna, að hafa horft á kirkjunnar og grafarinnar frið, sem þeir höfðu raskað og saurgað í löndum óvinanna, eða hin friðsælu bændabýli, sem þeir höfðu hjálpað til að brenna, eða ástir mæðra og meyja, sem þeir höfðu svívirt eða séð aðra svívirða, eða akranna gullstengur og öll hin nytsömu sveitarstörf, sem þeir höfðu vaðið yfir og herjað líkir ólmum óargadýrum? Sumir af hinum betri hafa þá strokið hendi um hvarma eins og vöknuðu þeir eftir vondan draum, en allur þorri þessara manna hafa haldið víkingsvananum og jafnan verið óróaseggir, ódælir og ágjarnir. Á því fékk og ættjörð þeirra að kenna. Því að sá hernaður, sem háður er til þess að verja fósturjörðina, hann er góðs og göfugs eðlis og eflir þjóðanna þrif og þroska; en hernaður, sem rekinn er fyrir ofmetnaðar og ágirndar sakir og til að vinna annarra þjóða lönd og ríki, hann er ekki ósjaldan óargadýrið, sem hættir ekki fyrr, hafi það komizt á blóð, en það etur sitt eigið afkvæmi. Stríðið á Póllandi, er svo auðugt var af afreksverkum, en hamingjulaust að lokum, hafði aflað Karli Gústaf og Svíþjóð þriggja nýrra óvina, sem voru Rússland, Austurríki og Danmörk. Tvö hin fyrrnefndu voru tafin af tveim herdeildum, en konungur sjálfur var fljótur til bragðs eins og fyrri og leitaði sér lausnar með því að steypa Danmörku. Í því skyni brá hann sambandi við Ragoczi fursta í Sjöborgaríki, er herjað hafði Pólland með honum fram á vor 1657, hélt leifum hers síns vestur á Prússland, og síðan, þegar Danir höfðu með fljótræði sínu boðað þeim ófrið á hendur, fór hann inn í Pommern. Þeir konungur og Stenbock færðu Wrangel, þeim er þar sat og beið liðs þeirra með óþreyju, einar 6-8000 manna, en það voru stálhertir liðsmenn, reyndir í hundrað orustum, eintómir ofurhugar, bjargfastir í fylkingu — liðsmenn, sem treysta mátti móti tíföldu ofurefli og ekkert, og ekki örlögin sjálf létu fyrir brjósti brenna. Frá Pommern brauzt konungur með 13000 manna gegnum Mecklenborg og norður á Holsetaland, tók sér litla hvíld við Hamborg, og stefndi svo norður á Jótland — sama veg, sem Torstenson hafði forðum farið. Konungi fórst einkar vel og vaskmannlega. 23. júlímánaðar var hann kominn inn í Holsetaland, en við ágústmánaðarlok hafði hann lagt land það allt undir sig, Suður-Jótland og suðurhluta Norður-Jótlands, en rekið danska herinn saman og kvíað inni í kastalanum Friðriksodda, er síðar nefndist Friðricia, og frægur varð á vorum dögum (1849) af hinum mikla sigri Dana yfir hinum Holsteins-Sljesvíska uppreisnarher. En í þetta sinn, 1657, var Friðricia miður sigursæl. Kastalinn rammlegur og hafði nægar birgðir og 5000 manna til varnar, en hinn 24. október var hann tekinn af Wrangel. Réð hann til um nótt með fáheyrðri ofdirsku og gerði ofsa-áhlaup á kastalann með einum 3000 manna þeirra, er unnið höfðu Pólland, og vann hinn skörulegasta sigur. Þetta sló felmtri á Dani. En Karl Gústaf tók þegar að dreyma um að leggja allt Danaveldi undir. Frá Friðriciu yfir til Meðalfarar á Fjóni er beltið mjóst og að eins nokkur hundruð faðmar, þar sem allra mjóst er, en stríður straumur er í sundinu. Veturinn 1643—44 fann Torstenson upp það dirfskuráð að freista þess að fara með her sinn á ísum yfir beltin, en þá frægðarför hafði auðnan geymt lærisveini hans. Þá fórst það ráð fyrir af þeirri sök, að veturinn var mildur og beltin héldust opin. Karl Gústaf greip hugsun meistara síns og kom henni í framkvæmd. Nú skyldi Danmörk falla úr sögunni, en ríki Svíanna, umsetið af æfum óvinum öllum megin, skyldi sigur vinna og taka lönd og lýði í stað þess að líða til loka. En áður en vér tökum til þeirra stórtíðinda, munum vér nema staðar við bæinn Kolding, þrem mílum sunnar en Friðricia. Hittum vér þar þrjá af helztu mönnum frásagna vorra. Það var að kvöldi dags 26. janúarmánaðar 1658. Nálega allur sænski herinn var saman kominn skammt fyrir norðan Kolding, í þorpinu Heilse og þar í kring; urðu og þær stöðvar frægar 190 árum síðar. Konungur kannaði lið sitt á hinum freðnu og fannlögðu mörkum. Hann var þann dag heldur dapur í bragði; hafði þíðviðri komið á og sunnankæla og brotið aftur nokkuð af ísnum, þeim er átti að vera brú fyrir herskara hans og bera þá og hamingju hans yfir til Kaupmannahafnar. Hann var harður við her sinn þennan dag og hreytti ónotum í yfirmenn sem undirgefna. Konungi fylgdu hershöfðingjar hans, Wrangel, Dahlberg og fleiri. Allt í einu stöðvaði konungur hest sinn andspænis herdeild einni, er hafði verið í Pommern. Búningur liðsmanna var slitinn og lítt voru þeir álitlegir tilsýndar við hersýningu, en beinir stóðu þeir og ekki árennilegir í fylkingu. Hver maður horfði fast í augu konungi með ör og úfið skegg, og brugðu sér hvergi, enda þorðu vel að hreyfa sig eins og frjálsir menn, voru það og stálhertir víkingar einvalaliðs, er fyrir engu óuðust og ekki reiðisvip sjálfs konungsins. Þá birti yfir Karli Gústafi. Hann vék sér að Wrangel og mælti: „Lítið á þessa pilta og segið mér svo ekki oftar, að hafsjór sé á milli mín og Kaupmannahafnar“. Wrangel hafði sí og æ ráðið frá förinni yfir beltin og svaraði heldur stutt. „Til þess að aka Jótunum út í Eystrasaltið, þurfið þér ekki sjálfur að fara í hundana“. Konungur tók ekki eftir svari hans, heldur benti háum fyrirliða í föruneyti sínu. „Eru þetta yðar menn, Bertelskjöld greifi?“ „Já, yðar hátign“, svaraði greifinn hreykinn og heilsaði konunginum. „Vér sáumst síðast á Póllandi“, sagði þá konungur með þykkjusvip. „Hershöfðingi, hvað gerðuð þér við kappana mína í Litháalandi“. „Skyldu mína“, svaraði hinn skjótt. „En voru það ekki þér, sem vilduð ráða hamingjunni?“ „Yðar hátign hefir sýnt og sannað, að hamingjan styður hinn hrausta! Ég hefi dirfzt að feta í yðar fótspor. Ég hefi glatað Litháalandi, eins og yðar hátign Póllandi, en fylgt yðar dæmi og hreinsað Pommern, Bremen og Verden og borið hamingju til að vinna hundrað sinnum sigur í smá-bardögum eins og hátign yðar í höfuð-orustunum“. „Þér talið djarfmælt, greifi. Eða hvernig viljið þér sanna orð yðar um hamingjuna?“ „Með því að ríða fyrstur ísinn yfir beltin“. Konungur brosti og benti Wrangel. „Hér er efni í barefli á Jótann. Slíkra drengja þarfnast ég“. „Gölnu glópaldar!“ umlaði Wrangel. „Vel og gott, Bertelskjöld“, sagði konungur, „ég skal trúa yður, ef þér ríðið yfir beltið á morgun og færið mér þaðan fanga fyrir kvöld frá Fjóni“. „Svo skal verða, yðar hátign“, svaraði Bertelskjöld seint og drýgilega og hirti ekki um hæðnisglott Wrangels; en allir vissu, að blotinn hafði leyst ísinn austanvert í beltinu, svo ófært var að komast yfir að Meðalför. Svo mikinn hug hafði konungur á þessum punkti, að hann greip hvað eina feginshendi, sem styrkt gat vonir hans í þessa átt. Vera má og að eitthvað hafi verið líkt með skyldum, þeim konungi og Bertelskjöld, er því olli, að hann hlýddi með ánægju á djarfyrði greifans; það er víst, a.m.k. að báðir þóttust ástgoðar hamingjunnar og tefldu á tvær hættur þótt allt væri í veði. Liðskönnuninni var lokið, konungur reið leiðar sinnar, en liðið leitaði til gististaðanna til að mýkja hina köldu limi sína. Kotin og kofarnir tóku ekki alla, og voru eldar kyntir úti við, en flaskan gekk boðleið milli allra, sem sezt gátu að. Loks varð fjöldinn svo mikill, að opnuð var kirkjan í þorpinu. Ófriður þeirra hörðu tíma hlífði engum hlutum. Mátti sjá liðsmennina liggjandi í kösum í kórnum og kringum gráturnar með flöskur sínar, og alls konar keskivísur heyrðust kveðnar innan þeirra múrveggja, er rétt áður höfðu ómað af helgum sálmasöng. Karl Gústaf hafði herstjórastöð sína á prestssetrinu; naut hann þaðan opins útsýnis yfir ströndina og ísinn. Aftur og aftur sleit konungur tali sínu og ráðagerðum við hershöfðingjana og gekk eirðarlaus að glugganum og horfði út í héraðið, sem dimmdi óðum yfir, en allt fram að rökkrinu hafði mátt sjá opna rennuna yfir við ströndina hjá Fjóni. Hitamælirinn var þá ekki enn fundinn, en hið skýjum hulda loft og snjórinn sýndi honum glögglega, að hlákan hélzt og hló að óskum hans og vonum. Allt í einu lauk hann tali sínu við Dahlberg, lét kalla Bertelskjöld og mælti: „Greifi, segið mér hreint og beint: hafið þér gert samning við djöfulinn? Verið óhræddur, ég gef yður óbeðið syndakvittun“. „Ég skil ekki, yðar hátign“. „Ég vildi feginn læra af yður þá list að ríða yfir auðan sjóinn yfir að Meðalför“. „Ekkert er auðveldara. Vill yðar hátign líta út í gegnum gluggann“. Konungur gerði svo. Himinninn, sem rétt áður var skýjum hulinn, var nú orðinn heiður, og leit út fyrir að í vændum væri frost mikið. Þetta varð og óðara orð og að sönnu. Konungur klappaði á öxl Bertelskjölds og mælti: „Þessi tíðindi verðskulda heilan hrepp í laun austur á Finnlandi — ef yður tekst eftir því fyrirtækið“. „Það mun takast, herra“. Þegar sólin um morguninn eftir rann yfir hina beru bækitréstoppa á Fjóni skein allt Litlabelti með einnættum ísi. Svíarnir flykktust niður í fjöruna til að sjá, hvað vetrarnóttin væri dugleg að byggja brýr og hvort hamingjan kæmi, þegar hún væri kölluð. Konungur var í bezta skapi. Hann sá allar þrjár kórónur Norðurlanda tindra í móti sér og bera við himininn. Frostið var ákaflega mikið. Þegar um morguninn var ísinn fær fyrir fótgangandi menn. Um kvöldið bjóst Bertelskjöld að freista hins fífldjarfa fyrirtækis. Hann lagði frá sér hinn þyngri herbúnað sinn og fór í létta leðurtreyju; í stað hins risavaxna jarpa hests síns valdi hann lítinn og léttan hest frá Eysýslu. Tveir hestasveinar runnu með honum á skautum og rak hvor þeirra lítinn sleða á undan sér. Síðan lögðu þeir út á ísinn, en allur hinn sænski her stóð og horfði á. Í fyrstu var ísinn öruggur, og reið þá Bertelskjöld hægt og gætilega til þess að ofþreyta ekki hest sinn. En eftir því sem nær bar röstinni í sundinu, eftir því herti hann á reiðinni, svo skautasveinarnir áttu fullt í fangi með að fylgja honum. Nú færðist hin fjónska strönd nær og nær. Ísinn brakaði og gekk í bylgjum undir hestsfótunum, og steig hesturinn niður úr annað veifið svo sjórinn gaus upp úr götunum, en riddarinn reið því hvatara og loks eins og hesturinn gat harðast farið ... fáum augnablikum síðar stóð Bertelskjöld á þurri jörð heill á húfi, en hestur hans féll dauður niður í flæðarmálinu. Sólin seig til viðar bak við strendur Sljesvíkur föl og frostköld og tók því þegar að rökkva, enda var skammdegið byrjað. Var nú ekki lengur til setu boðið. Bertelskjöld hafði náð landi nálægt sveitarþorpi fyrir sunnan Meðalför. Margt danskt fólk var þar saman komið, karlar, konur og börn; vildu menn heyra, hvað hinn fífldjarfi ferðalangur hefði í fréttum að segja. Að líkindum hugðu þeir, að þar kæmi hraðboði Svíakonungs. Engan grunaði tilgang þessarar kynlegu farar. Bertelskjöld leit í kringum sig; fylgdarmenn hans með sleðana áttu enn þá kippkorn eftir. Hann gekk til fólksins og spurði eftir leiðinni til Óðinsvéa og gaf í skyn, að hann væri sendur til þess að semja frið. — Þessum nýmælum fögnuðu allir. Menn flykktust að honum þar við fjöruna án minnstu grunsemdar, og í þessu bili færði annar skautamaðurinn Bertelskjöld sleða sinn og skauta, eins og fyrirmælt hafði verið, og sneri þegar út á ísinn aftur. Bertelskjöld spurði, hvort ekki mætti fara til Meðalfarar eftir ísnum og spennti á fætur sér skautana. Bændur buðu honum í gleði sinni að lána honum nýjan hest í stað þess, er sprungið hafði. Allt fór með mestu vinsemd. Þá þreif Bertelskjöld 5 ára sveinbarn, er þar stóð, áður en nokkurn varði, fleygði barninu út á sleðann og stökk sjálfur út á ísinn eins og kólfi væri skotið og hafði með sér fanga sinn. Allt þetta gerðist í einni svipan. Bændur stóðu hremmdir og forviða og skildu ekkert í þessu, fyrr en þeir heyrðu hljóðin í drengnum úti á ísnum. Kona ein hljóp fram — það var móðir barnsins — og reif í hár sitt og var hin fyrsta, sem komst út á ísinn, en hún rann og féll óðara á hálkunni, stóð þó á fætur, datt aftur flöt og elti Bertelskjöld sem af tók, unz hún varð uppgefin og féll af mæði. Nokkrir ungir menn fylgdu henni. Allt kom fyrir ekki; ræninginn var þegar horfinn í hinni vaxandi dimmu, og hætti þá eltingin. Sneru þeir aftur með aumingja móðurinni og báðu hinum brögðóttu Svíum allra bölbæna. Bertelskjöld kom skjótt heill til baka með drenginn á sleðanum. Hafði máninn, sem tók að skína, töluvert greitt för hans. Höfðu Svíar talið hann af, því óðara dimmdi yfir — og eins yfir konungi. Iðraðist hann nú þessa glæfraspils; enda var ekki vöskum manni ofaukið í her hans, og svo bættist við það sem verst var, að allur herinn mundi þykjast sjá sín forlög fyrir í afdrifum Bertelskjölds. En hann skilaði sér! „Ég hefi riðið yfir beltið, yðar hátign, þótt ég hlypi til baka á skautum. Hér er mitt lifandi vitni frá Fjóni“. Fangni drengurinn var leiddur fram, rauður um nefið af kulda og tyggjandi hveitiköku, sem honum hafði verið gefin til friðunar. Konungur tók gullfesti af hálsi sér. Var þar með mynd Kristínar drottningar greypt gimsteinum. „Hershöfðingi, þiggið festi þessa til minningar um svaðilför yðar. Upp frá þessu skuluð þér og bera merki Fjóns í skildi yðar. Og svo“ — bætti konungur við hróðugur — „svo skulum vér heimsækja Friðrik bróður vorn í Kaupmannahöfn“. „Og svo“, hvíslaði Dahlberg að Klas Tott, „skal Bertelskjöld eignast heilan hrepp á Finnlandi til að eyðileggja“. „Já“, svaraði Tott í sama rómi, „sé nokkur sveit eða sókn eftir á Finnlandi ógefin. Ég efast um það“. Um kvöldið var liðsmönnum gefinn auka-kvöldverður og fyrirliðunum ekki síður. Eins og kunnugt er var Karl Gústaf engu minni drykkjumaður en hreystimaður. Þann slarkvana sinn hafði hann sumpart numið í þrjátíuára-stríðinu, þegar vínið rann í lækjum eins og blóðið, og sumpart á þeim tíma, þegar hann kaus að dvelja í útlegð í Eysýslu, þjáður af metnaðarhugsýki og löngun eftir konungdómi í Svíþjóð. Oftsinnis — síðast þá er þeir æddu saman, Ragoczi og hann, og brenndu allt og bældu á Póllandi — hafði konungurinn verið borinn alklæddur til hvílu, en þó mátti sjá hann önnum kafinn árla næsta dag. Nú streymdi líka ómælt hið ágæta Rínarvín, tekið í kjöllurum aðalssetra riddaranna í hertogadæmunum dönsku. Flestir hershöfðingjarnir fylgdu trúlega dæmi konungsins. Hvervetna drukku menn erfi Danmerkur fyrirfram þar sem foringjar sátu, og drukku í botn; heyrðist þá oftlega nafn Bertelskjölds um leið, þess manns, er fyrstur sýndi, að takast mátti að ríða yfir beltin. Skammt frá prestssetrinu höfðu 10-12 göfgir fyrirliðar fengið sér herbergi og sátu saman við vel skipað borð á bóndabæ einum. Vín og afreksverk gerðu menn brátt hreifa og örorða. Tíminn var auðugur af stórvirkjum og ævintýrum. Menn ræddu meðal annars um örlög Danmerkur — þessa gamla, hættulega granna, sem þrátt fyrir margan ósigurinn sat sí og æ á svikráðum við Svíþjóð. Nú skyldi Danmörk setja ofan. Skyldi af henni skorið Skán, Halland, Bleiking og Noregur; skyldu þau lönd sameinast Svíaveldi, enda mundi, ætluðu þeir, ekki á löngu líða, að Danir hyrfi úr sögunni sem sjálfstæð þjóð. Jótland og eyjarnar áttu að verða skattlönd Svía, og Kaupmannahöfn lýðskyldubær ríkisins. Kappar Karls Gústafs áttu að skipta sín á milli eignum hinna dönsku aðalsmanna og koma heim stórauðugir. Hvílík gæfa og gengi! Og hvílíkt tilefni til að tæma aftur og aftur bikarana. Nú tóku menn að gerast ölvaðir og að birta allt, sem hverjum bjó í brjósti. Hinn forni sænski aðall hataðist við hina nýju hirðmenn, er hlotið höfðu aðalstign og önnur metorð á ríkisárum Kristínar, sem ekki var spör á fé eða nafnbætur. Einn þeirra manna var Bertelskjöld; hafði hann það oftlega fengið að heyra, en nú mátti hann á því þreifa. Sten Bjelke, er taldi ætt sína upp fyrir margar aldir, laust bikar sínum svo hart við hans bikar, að vínið spilltist niður, og kallaði svo hátt, að allir máttu heyra: „Hvern fjandann hugsar þú, litli greifi af Litlabelti? Þú drekkur ekki nokkurn dropa! Heldurðu við séum að drekka tóman sjó?“ Bertelskjöld tæmdi bikar sinn og svaraði engu. „Hann hefir etið rófur yfir á Fjóni í dag“, bætti þá Bjelke við og leit til hinna. „Hann er uppalinn á rófum. Hann er æfður í að rækta kálhöfuðin“. „Og til að höggva af þeim höfuðin, ef þau kunna ekki hóf sitt“, mælti Bertelskjöld, sem hafði erft eftir föður sinn bráðlyndið. „Heldur er hann hreykinn, sveinar, beltis-greifinn“, sagði Bjelke enn í sama rómi. „Vitið þið hvaðan drambið hans kemur? Móðurfaðir hans bar tignarnafnið bændakonungur og drottnaði yfir 50 mýrarflákum og urðum norður á Finnmörk“. „Greifi!“ æpti Bertelskjöld og spratt upp. „Og móðir hans“, hélt hinn áfram, „móðir hans, herrar góðir, var kóngsdóttir, ein af þeim, sem situr yfir sauðum í sveitunum“. Óðara en Bjelke hafði þetta sagt, kastaði Bertelskjöld hanzka sínum beint í andlit honum. Þar bar meir í milli en svo að nokkrum þeirra, sem við voru staddir, kæmi til hugar að skilja þá, svo mjög var annar áreittur, en hinn eggjaður. Létu menn sér því nægja að koma á svo reglulegu einvígi, sem tveim riddurum sómdi að heyja að fornum sið. Var borðið fært til hliðar, kveikt fleiri ljós og skjaldsveinar valdir. Eftir fjórðung stundar var fyrirbúnaði öllum lokið til eins þessarra blóðugu leika, sem voru svo tíðir í herbúðum, að jafnvel sjálfur konungurinn gat ekki hindrað, því að þar, sem mannorðssök („æran“) var í veði, þar buðu aðalsmenn þeirra tíma konungsvaldinu byrginn. Báðir sakaraðilar voru afreksmenn að vígfimi, og í beggja brjóstum bjó gömul gremja og hatur þeirra í millum. Bjuggust nú hinir, er nærri voru, við allgóðri skemmtan og þótti þeim vel í veiði bera, að þessir menn reyndi sig; báru þeir allir gott skyn á listina og litu næmt eftir öllu. Lágt var í húsinu, svo sverðin rispuðu loftið, en báðir börðust með svo mikilli íþrótt, að ekki mátti í milli sjá, þótt ýmsum tækist betur og miður. Bertelskjöld hitti og mótstöðumann sinn nokkrum sinnum fyrri, svo Bjelke hafði fengið þrjú sár, en þó smá, áður en hann hitti. Beiddist loks Bjelke hvíldar í þrjár mínútur og var þá ærið móður og blóðugur allur. Námu þeir nú staðar. Þá æpti Bjelke: „Ég bið yður, góðir herrar, að vera þess vottar, að mannfýlu þessa bíta engin járn sakir galdra. Aldrei frá því er orustan var við Nördlingen hefir hann nokkra skeinu fengið, og hvaðan það stafar, vita bæði guð og menn. Hann ber hring Gústafs konungs Adólfs á vinstra baugfingri. Það er kraftur hringsins, sem hann treystir á, og fyrir þá sök dirfist hann að skipta vopnum við göfugan riddara“. Þessi orð urðu ekki áhrifalaus, svo var hjátrúin megn. Elzti fyrirliðinn mælti: „Hershöfðingi, vér erum menn kristnir og þolum enga fjandans forneskju meðal vor. Orð yðar eru á við eiða. Segið, að allt það, sem sagt er um hring yðar séu kerlingabækur, þá skulum vér trúa yður, eins og þér svarið hefðuð“. Bertelskjöld hikaði við lítið eitt, en reiðin og freistnin hafði betur ... hann bar ósigur. „Það er satt“, mælti hann, „að ég ber hring til minja um hinn mikla konung, en allt, sem Bjelke og aðrir um hann segja, það er hlægileg hjátrú“. „Byrji nú aftur einvígið!“ Og einvígið byrjaði, en hinn góði engill var vikinn frá hlið Bertelskjölds. Í fyrsta höggi klauf sverð Bjelkes vinstri hönd hans, og tveir yztu fingurnir féllu á gólfið. Honum sortnaði fyrir augum, og sverðið hraut úr hendi hans, hann riðaði til falls og hefði fallið að fótum fjandmanns síns, ef aðrir hefðu ekki stutt hann. Einn af fyrirliðunum hirti afhöggnu fingurna og dró dálítinn eirhring af öðrum þeirra. „Skyldi þetta vera hinn nafntogaði hringur?“ spurði hann. Þeir, sem hjá stóðu, hlógu. „Hann er þá ekki einu sinni úr gulli“, sögðu þeir, „ekki getur þetta verið sá rétti“. Sá, sem spurt hafði, fleygði hringnum með fyrirlitningu. Verður heiðni og forneskja ekki útrýmt úr mannshjartanu? Vér fæðumst og ölumst upp í trúnni á eilífa forsjón, sem ákvarði vor örlög með óskeikandi réttlæti; og þó hverfum vér ávallt aftur að trú fornaldarinnar á blind forlög, þetta vanstillta vald, sem útbýtir oss blessan og böli, kærleik og hatri, hverju um sig óverðskulduðu. Og einmitt trúin á þetta samvizkulausa vald, gefur því yfirráð yfir oss; spilamaðurinn tapar, sé hann hræddur við ólán sitt, og sæfarinn strandar, ef hann spáir sér óförum. Bertelskjöld, þessi ofurhugi, var orðinn þræll hamingjunnar sakir hinnar sífelldu hamingju. Á sama augabragði sem sverð Bjelke klauf vinstri hönd hans, bilaði hans hróðuga trú, eins og eikin þegar eldingin klýfur hana. Hann hneig ekki til jarðar sakir sársins eða sársaukans, heldur hneig hann, er hann fann, að hamingja hans var skyndilega fallin. Nú leið dagur og nótt, og frostið hélt áfram að brúa beltin; var allt á tjá og tundri í herbúðum Svía. Ísinn herti hvers manns hug. Bertelskjöld bar sig vel og sár hans greri skjótt; var hann hreystimaður að gerð og hafði ungur vanizt vosi. Og þrátt fyrir umbúðir og blóðmissi eirði hann ekki kyrru að halda; vildi hann víst ekki vera aftastur í sigurförinni yfir beltið, er hann áður hafði fyrstur allra yfir riðið. Kvöldið áður en leggja skyldi á stað gerði hann boð eftir syni sínum. Hafði hann æ síðan þeim bar á milli í Litháalandi sýnt honum sviplíka harðneskju sem bændakonungurinn hafði honum sjálfum sýnt forðum. Blind trú á horfna hamingju hafði nú heltekið sál þessa hreystimanns. Bernharð Bertelskjöld hitti föður sinn, hershöfðingjann, hljóðan og hugsjúkan; sat hann og starði á minnispening með andlitsmynd. Var það mynd Kristínar drottningar, sú, er konungur hafði svo mildilega sæmt hann fyrir skömmu? Nei, það var mynd fríðrar, svartlokkaðrar og svarteygðrar konu frá bökkum Mainfljótsins, það var mynd hinnar yndislegu, draumfögru Regínu af Emmeritz. Augu hershöfðingjans voru vot af tárum. Svo langt fram sem hann mátti muna, hafði hann aldrei grátið nema einu sinni. Það var við andlát Emmu móður hans. Þegar hann missti konu sína var honum synjað fróunar táranna. Bernharð var öðruvísi skapi farinn. Tárin í augum föðurins framleiddu óðara hans. Hershöfðinginn greip í hönd hans, — og án þess eitt orð væri mælt voru þeir feðgar sáttir. „Hún var móðir þín“, mælti Bertelskjöld með óvenju viðkvæmum rómi. „Verði þér, sonur minn, að unna konu, þá fest þig ekki við hana með óleysandi bandi. Að bindast oss er að bindast auðnuleysi. Bölvun Arons Bertílu fylgir oss“. „En blessun móðurinnar fylgir sporum óhamingjunnar og brýtur brodd þeirrar bölvunar“, svaraði Bernharð; „það hafið þér áður við mig sagt og það er hringur hennar, faðir minn, sem þér hafið á hendi“. „Nei, nei“, svaraði Bertelskjöld æfur, „ég ber hann ekki; ég hefi glatað honum, og með honum láni mínu. Móðir mín sagði mér það, enda veit ég nú, að það er satt. Þessum hring fylgir hamingja í friði og sigur í ófriði, ástir, upphefð og auðlegð; sá sem hann ber á hendi, hlýtur alla hamingju þessa heims, og þarf því engan að etja nema sjálfan sig, enda verður sjálfum sér verstur. Meinsæri, frændahatur, ofmetnaður og óseðjandi drottnunargirnd mun ávallt eta hans innra mann og búa honum tjón ... Bernharð, sonur minn, hringurinn var af mér höggvinn með fingrinum, þegar mér varð sú glópska að neita krafti hans ... spyr ekki eftir honum framar, heldur lát þér nægja jafnari hamingju, sem enga óheill ber í skauti ... Haf þú mitt dæmi að varnaði, ég hefi orðið mér sjálfum að óláni, níðzt á sjálfum mér, níðzt á hinu æðsta og helgasta ... hefi framið meinsæri, sonur minn, enda skal ég á morgun deyja“. „Þér, sem komizt hafið klakklaust af úr ótal lífshættum?“ „Það var í þá daga, þegar ég bar vissu sigursældarinnar í brjósti. Nú ber ég vissu ófaranna ... Heyr mig, Bernharð, ég eftirskil þér óðul mín, landseta mína snauða og brauðlausa, kúgaða og hrakta. Ver faðir þeirra betur en mér hefir auðnazt að vera. Á Mæníemí lifir ekkja ... þú munt kannast við hana svörtu Hönnu. Hún er sú eina á lífi, sem veit, hvar fjársjóður mikill er í jörðu fólginn. Við fjársjóð þann er bundið böl og tregi, því að hann er ránsfé frá hinni óðu styrjöld í Bæheimi forðum. Finn þú fé þetta, ég átti það frá upphafi. Haf það til þess að viðrétta hús og heimili, rækta hið auða land og girða ekrur og engi. Lát tár þakklætisins þvo blóðið af fjársjóði þeim“. „Því heiti ég þér, faðir. En...“. „Vertu sæll, sonur. Við sjáumst að morgni, og síðan ... hjá móður þinni“. Bernharð faðmaði föður sinn; hinn viðkvæmi unglingur grét eins og barn og gekk við það tafarlaust út. Nú rann dagur hins 29. janúarmánaðar. Þá var grimmdarfrost. Þegar í dögun stóð herinn á ströndinni albúinn til ferðar. Ísinn var og þegar búið að reyna. Hann var vel heldur. En hinn forsjáli Dahlberg treysti honum þó ekki til fulls. Hafði hann látið breiða hálm yfir þar sem veikast var, hella á vatni og bera borðvið á ofan. Hófst nú hinn ógleymanlegi dagur sögunnar, sem skáldið Gyllenstjerna orkti um hundrað árum síðar. Fremst í hernum fór reiðliðið og fallbyssusveitirnar, stefndi frá Heilse yfir Brandsæ og beint á vík á Fjóni sunnanvert við Ívarsnes. Þá fór næst hægri hluti hersins undir forustu þeirra Wrangels og Totts; þá vinstri hlutinn og með honum konungur og Berends. Fótliðið stefndi fram að norðanverðu við riddaraliðið. Það var kynleg för til að sjá á auðum bláís — hljóðlegt og hátíðlegt ferðalag, sem gengi menn yfir opna gröf. Þegar komið var að straumálnum, stigu menn af hestum sínum og teymdu þá og létu bil vera milli manna. En óðara en sloppið var yfir álinn skunduðu menn á bak, slógu upp herópi og hleyptu inn að ströndinni, þar sem þeir bjuggust við að mæta óvinum sínum. Fjóns megin voru 4000 danskir liðsmenn og 1500 bændur, er söguðu ísinn og gerðu vakir, og auk þess nokkrar þúsundir manna, er á horfðu; sendu þeir brennandi bænir til guðs, að hann drekkti hinum sænska her eins og Faraó forðum. En Svíar komust yfir heilir á húfi með öllu sínu ofurefli; gerði hið brynjaða reiðmannalið þegar hart áhlaup á hinn hugdeiga her Dana og dreifði honum óðara í allar áttir. Karl Gústaf, sem síðar reið, sá bardagann, en ekki hinn skjótfengna sigur. „Fylgið mér!“ kallaði hann hátt og teygði sinn fylkingararm og gerði krók á hægri hönd, ætlaði þar á land, sem hann gerði, og koma Dönum í opna skjöldu. Lið hans þusti þangað með honum. „Gætið þér yðar, Bertelskjöld!“ æpti Dahlberg til hershöfðingjans, er hleypti fram í broddi liðsins með handlegg sinn í bindi. „Gætið þér yðar! Skiljið riddarana að, því þér ríðið of þétt saman“. En Bertelskjöld heyrði hvorki né sá annað en ströndina fram undan sér og hin nýju afreksverk, er vinna skyldi fyrir augum konungsins. Tvær fremstu sveitirnar hleyptu fram í þéttum röðum yfir álinn — í því sama brestur feigðarbrúin með voðalegum bresti, og sökk þar sveitin niður. Svo skjótt og óvænt varð þessi atburður, einmitt meðan sigurópin dundu, að menn tóku varla eftir, er menn og hestar voru að brjótast um í bárunum, enda stóð það á engum tíma áður en röstin tók þá og brá undir ísinn. Týndust þar báðar sveitirnar; fórst þar og vagn konungsins og kerra franska sendiherrans með hestum þeirra, en sjálfir komust þeir af. Konungur horfði á ófarir manna sinna og fékk ekki að gert. Kóróna Danmerkur benti honum aftur ... hann sneri augunum frá hinni geigvænu grábláu gröf, lagði lykkju á leið sína og komst heill á land með hitt af liði sínu. Var þá og orustan úti, Fjón tekið, Sjáland skjálfandi, og Friðrik þriðji sendi hvern hraðboða á fætur öðrum til að beiðast friðar, því að nú riðaði hið forna Danaríki undir fótum hans. En ljónið sænska neytti stökksins. Dahlberg eggjaði mjög, en Wrangel og Korfitz Úlfeldt, er við landráðin var kenndur og þá var hræddur um sig, réðu fastlega frá. Eftir hik nokkurt féllst konungur á hina djörfu ráðagerð Dahlbergs. Fyrir dag 26. febrúarmánaðar lagði riddaraliðið á stað frá Sveinsborg yfir eyna Þórsengi til Langalands. Það var daufleg og ljót för, segir sagnaritarinn Fryxell. Hrossahófarnir breyttu snjó þeim, er lá á ísnum, í vaðalsbleytu, svo leiðin líktist sundi til að sjá, breiðu og auðu. Var og víða tvískinnungur og vatnselgurinn í konungsnef hestunum; þótti liðinu mjórra muna vant að ekki brysti ísinn undir fótum þeirra. Villtust og nokkrir og týndust þar. En förinni var framhaldið tafarlaust; frá Langalandi til Láglands, þaðan yfir á Falstur og þaðan til Sjálands. Hið ótrygga haf sveik þar sín eigin börn, hinar dáfögru dönsku eyjar, og bar aðra óvini eins og Úfeldt sjálfan á baki sínu. Það var 12. febrúar, að herinn gekk í land hjá Vorðingborg. Stórvirkið var fullkomnað, afrek það, sem aldrei fyrnist í sögum. Afleiðingin varð friðargerðin í Hróiskeldu. Danmörk lét Skán, Halland og Bleiking. Karl Gústaf bar ekki virðing hins mikla Gústafs Adólfs fyrir mannslífinu. Þegar hann rifjaði upp fyrir sér, hve mikið þessi leiðangur hafði kostað hann og leit svo á hvað hann hafði unnið, hugsaði hann með sjálfum sér: „Danmörk fékk ég með vægu verði“. Einhverju sinni stóð hinn ungi greifi Bernharð Bertelskjöld nærri konungi og leit társtokknum augum út á hafið. Þá hugsaði konungur aftur með sjálfum sér: „Bertelskjöld var hraustur maður ... þessi fáeinu hundruð riddara, sem með honum fórust, voru einnig dugandi liðsmenn ... en samt sem áður eignaðist ég Danmörk með góðu verði. — Já, já, — og eignaðist hana þó ekki“. Karl tíundi Gústaf leit síðan oftlega yfir hin dönsku eyjasund með metnaðaraugum. Hvað mundi sá eftir eiga ógert, sem hefir yfirunnið heiminn? Að yfirvinna sjálfan sig. Karl Gústaf megnaði ekki að yfirvinna sjálfan sig. Það var nú hans mannlegi breyskleiki og það varð honum að falli.