HELREIÐIN

SAGA EFTIR

SELMU LAGERLÖF

Kjartan Helgason
þýddi.

Prentað hjá Columbia Press Limited.
WINNIPEG. MAN.
1924

I.

Það er upphaf sögu þessarar, að lítil stúlka lá fyrir dauðanum. Hún hét Jódís og hafði verið "systir" við ræfilmenna-hæli Hjálpræðishersins.

Hún hafði fengið lungnatæringu svo bráða og svæsna, að ekki varð viðnám veitt, nema eitt ár. Í lengstu lög hafði hún verið á ferli og gegnt vana-verkum sínum. En þegar mátturinn var alveg á þrotum, var hún send í heilsuhæli. Þar var henni hjúkrað nokkra mánuði; en henni batnaði ekki. Og þegar hún sá loksins, að öll lífsvon var úti, fór hún heim til móður sinnar. Hún átti heima í húskytru, sem hún sjálf átti, í einu úthverfi borgarinnar. Þar lá nú Jódís í rúminu sínu, í sama litla herberginu, sem hún hafði sofið í áður, meðan hún var barn og heimasæta. Nú beið hún þar dauða síns.

Móðir hennar sat við rúmstokkinn, hnuggin og kvíðin, en grét þó ekki. Hún gaf sér ekki tóm til þess. Hún var alt af að hjúkra og hagræða dóttur sinni. Þar var hugurinn allur við.

Við rúmgaflinn til fóta stóð önnur "systir", María að nafni, stallsystir Jódísar, og grét í hljóði. Hún horfði framan í Jódísi með mikilli ástúð og hafði ekki augun af henni, nema þegar þau fyltust tárum, og flýtti hún sér að þurka þau af.

Stóll var hjá rúminu, lítill og lélegur. Jódís hafði haft miklar mætur á honum og flutt hann með sér, hvert sem hún fór. Á honum sat nú kona, mikil vexti. Í hálsmálið á kjólnum hennar var saumað stórt S.1 Hún hét Anna, og var höfuðsmaður í Hjálpræðishernum. Henni hafði verið boðið annað betra sæti, en hún fékst ekki til að skifta um; rétt eins og það væri gert sjúklingnum til þægðar, að sitja á þessum stólgarmi.

Þetta var á gamlárskvöld. Úti var dumbungs-veður og þykt í lofti. Þeim fanst kalt og hráslagalegt, er inni sátu. En ef út var komið, fanst veðrið vera furðu milt og mollulegt. Jörðin var auð og aldökk. Ein og ein hvít flyksa féll í hægðum sínum niður á jörðina, en varð að vatni, er niður kom. Úrkomulegur var hann, en hékk þó þurr, að kalla. Vindur og snjór virtust ekki nenna að eyða átökum sínum til þess að gera meiri óskunda gamla árinu, en hugsuðu nýja árinu þegjandi þörfina.

Og mennirnir voru ekki ólíkir veðrinu. Þeim fanst ekki gerandi meira í kvöld. Úti við enginn á ferli; inni við ekkert handtak. Andspænis litla húsinu, þar sem Jódís var að deyja, var hússtæði. Þar var byrjað að reka niður staura til undirstöðu. Um morguninn höfðu nokkrir karlar komið, dregið upp rekhnyðju-báknið með sönglandi ópi og óhljóðum að vanda, og látið það síðan skellast niður aftur. En þeir léku það ekki lengi; þeir gáfust upp von bráðar, og héldu heim.

Svo var og um alt annað. Konur nokkrar höfðu skotist fram hjá með körfur í hendi, til að kaupslaga fyrir hátíðina. Þeirri umferð linti eftir lítinn tíma. -- Börn höfðu verið á götunni að leikjum, en það var kallað á þau inn, til að fara í sparifötin, og úr því urðu þau að hýrast inni. -- Hestar, sem dregið höfðu flutningsvagna, voru fluttir í hús utanborgar, til að hvílast þar þrjú dægur. -- Alt af varð hljóðara og hljóðara eftir því, sem á leið daginn. Og það var blessaður léttir hvert skifti, sem eitthvert óhljóðið þagnaði.

"Það er dýrmætt, að hún fær að deyja svona undir hátíðina," sagði mamma hennar. "Bráðum heyrist ekkert úti, sem raskað getur ró hennar."

Jódís hafði verið rænulaus frá morgni. Hún heyrði ekkert, sem talað var í kring um hana. Þó var auðséð, að hún lá ekki í dái. Svipbrigði höfðu sézt á henni, hvað eftir annað. Stundum hafði svipurinn lýst undrun, stundum hræðslu, stundum grátbeiðni, stundum sárum kvölum. Nú, að síðustu, mátti sjá, að henni svall móður, og gerði það yfirbragð hennar meira og fegurra en áður.

Breytingin var skýr og vakti athygli. María við fótagaflinn laut að Önnu, sem á lága stólnum sat, og hvíslaði: "Sko, hvað Jódís "systir" er orðin falleg. Hún er rétt eins og drotning."

Anna stóð upp til þess að sjá betur.

Hún hafði víst aldrei séð Jódísi nema með auðmýktar-brosinu, sem alt af lék henni á vörum upp á síðkastið, hve þreytt sem hún var og þjáð. Hún var forviða á þessari svipbreytingu, svo að hún settist ekki aftur, heldur stóð kyr í sömu sporum.

Jódís litla hreyfði sig. Henni var órótt. Hún spyrnti sér hærra upp á koddann, svo að hún sat til hálfs uppi. Óumræðilegum tignarsvip brá á andlitið. Varirnar bærðust ekki, en þó var svo að sjá, sem þær vildu tala ógnar orð og ávítunar.

Móðir hennar sá hinar konurnar standa forviða, og sagði: "Hún hefir verið svona utan við sig hina dagana líka. Var hún ekki vön að fara í vitjunarferðir sínar einmitt um þetta leyti dagsins?"

Vasaúr Jódísar, lítið og slitið, lá á borðinu við rúmbríkina og gekk. María leit á það og sagði: "Jú, í þetta mund var hún vön að fara út að vitja um aumingjana." Hún þagnaði snöggvast og bar klút að augum. Óðar en hún reyndi að segja eitthvað, greip gráturinn fyrir.

Móðir Jódísar greip um hönd hennar og gerði gælur við. Höndin var lítil, en hörð. "Hún hefir lagt helst til mikið á sig til að hjálpa þeim að halda hreinum kofunum, og kenna þeim mannasiði," sagði hún, og mátti heyra á rómnum, að hana hrylti við. "Þegar menn hafa lagt á sig það starf, sem þeim er ofraun, þá veitir þeim erfitt að slíta hugann frá því. Nú finst Dísu minni, að hún sé enn að vitja um ræfla."

"Það fer stundum svo fyrir þeim, sem taka of miklu ástfóstri við skylduverkin sín," sagði Anna.

Þær sáu, að Jódís hnyklaði brýrnar; og efri vörin kipraðist upp. Þær áttu ekki á öðru von, en að augun mundu ljúkast upp og skjóta eldingum af reiði.

"Hún er svo reiðuleg sem refsi-engill," sagði Anna, og var frá sér numin af undrun.

"Hvað skyldu þeir niðri í ræflahæli vera að hafast að í dag?" hugsaði María og braut heilann um það. Hún tróð sér fram hjá hinum konunum, þangað til hún náði að strjúka hendi yfir ennið á Jódísi. "Jódís 'systir'," sagði hún, "hættu nú að hugsa um þá," og aftur klappaði hún á ennið. "Þú ert búin að gera nóg fyrir þá"

Þetta ávarp virtist vekja sjúklinginn, og leysa hana frá þeim draumsjónum, er tekið höfðu hug hennar fastan. Stælingin linaðist, reiðisvipurinn og tignarblærinn hvarf af andlitinu. Yfirbragðið varð aftur blíðlegt og tók á sig sama raunablæinn og þreytusvipinn, sem það var vant að hafa síðan hún lagðist.

Hún lauk uppi augunum, og þegar hún sá stallsystur sína lúta ofan að sér, lagði hún hönd sína á handlegginn á henni og reyndi að toga hana að sér betur. En svo var átakið lítið, að María gat varla af því ráðið, hvað hún vildi, en hún las það út úr augum hennar, hvers hún beiddist, og beygði sig alveg niður að vörum hennar.

Þá hvíslaði Jódís: "Davíð Hólm." María hristi höfuðið hún var ekki viss um, að hún hefði heyrt rétt.

Þá sagði Jódís eins skýrt og hún gat – og varð að hvíla sig við hvert orð:

"Láttu – sækja – Davíð – Hólm."

Hún horfði framan í stallsystur sína, þangað til hún var viss um, að hún hafði skilið hana. Þá lagðist hún út af aftur, og eftir litla stund var hún fallin í leiðslu. Hún sá í huganum sömu sjónina og áður en hún vaknaði, einhverja viðbjóðslega sjón, sem fylti sál hennar reiði og hryllingi.

María rétti úr sér. Hún var hætt að gráta. Hún hafði fengið þá geðshræringu, er bægðu tárunum frá.

"Hún vill að við sendum eftir Davíð Hólm!"

Það virtist vera eitthvað frámunalega hræðilegt, sem sjúklingurinn hafði beðið um. Anna komst líka í uppnám eins og hin.

"Davíð Hólm, þó, þó," segir hún. "Það er óhugsanlegt. Enginn maður hleypir Davíð Hólm inn til dauðvona manns."

Húsfreyja hafði verið að horfa á dóttur sína, hvernig andlit hennar tók smátt og smátt á sig reiðulegan dómarasvip. Síðan sneri hún sér að herkonunum og vildi vita, hvað um væri að vera; hún sá, að þær voru svo vandræðalegar.

"Jódís vill, að við sendum eftir Davíð Hólm; en við vitum ekki, hvort það er gerandi."

Húsfreyja gat ekki áttað sig. "Davíð Hólm?" segir hún, "hvaða maður er það?"

"Það er einn af þeim, sem Jódís hefir haft mikið fyrir þarna niðri í hælinu. En Guð hefir ekki látið henni takast, að ráða neitt við hann."

"Hver veit," segir María hálf-hikandi; "hver veit, nema það sé tilætlan Guðs, að láta Jódísi auðnast á síðustu lífsstundum sínum að hafa áhrif á Davíð?"

Húsfreyja leit til hennar og segir með nokkurri þykkju: "Þið hafið nú fengið að ráða yfir stúlkunni minni, meðan nokkur líftóra var í henni. Lofið mér nú að eiga hana, meðan hún er að deyja"

Þar með var málið útkljáð. María fór aftur á sinn stað við fótagaflinn. Anna settist á litla stólinn, lagði aftur augun og sökti sér niður í bæn, sem hún bar fram í hálfum hljóðum, Hinar heyrðu orð og orð á stangli, og af því mátti ráða, um hvað hún var að biðja. Hún bað Guð að lofa nú litlu "systurinni" að leysast héðan í friði, að láta hana ekki lengur hafa áhyggjur og ónæði af þeim sýslunum og skyldum, sem á hana voru lagðar í reynsluskóla þessa heims.

Hún var með allan hugann við bæn sína; þangað til hún hrökk upp við það, að María lagði höndina á öxl henni.

Sjúklingurinn hafði aftur fengið ráð og rænu. En nú var hún ekki eins blíðleg og auðmjúk eins og þegar hún vaknaði áður. Hún var þungbúin á svip.

María beygði sig þegar niður að henni og heyrði hana segja all-skýrt þessi ávítunarorð: "Af hverju hefirðu ekki látið sækja Davíð Hólm, María 'systir'?"

Vera má, að María hafi haft einhverjar mótbárur á reiðum höndum. En hún las eitthvað það í augum Jódísar, sem þaggaði niður í henni. "Eg skal sækja hann til þín, systir," sagði hún. Þá sneri hún sér að húsfreyju til að afsaka sig, og segir: "Eg hefi aldrei enn neitað Jódísi dóttur þinni um nokkra bón, og ég get ekki heldur neitað henni í þetta sinn."

Jódís lagði aftur augun, varpaði öndinni, eins og henni hefði létt mikið. María fór út. Alt varð hljótt eins og áður. Anna bað í hljóði, mjög áhyggjusamlega. Jódísi þyngdi fyrir brjósti. Mamma hennar færði sig nær henni, eins og hún ætlaði að reyna að verja barn sitt fyrir þjáning og dauða.

Jódís leit upp aftur snöggvast. Sami óþols-svipurinn var á henni og áður. En þegar hún sá, að María var horfin frá rúmgaflinum, skildist henni, að ósk hennar væri í þann veginn að rætast, og þá glaðnaði yfir henni. Hún reyndi ekki að segja neitt, en hélt sér vakandi og vissi af sér.

Gengið heyrist um útidyr, og hún rís nærri því upp í rúminu. Maria kemur í stofugættina, en lýkur ekki upp til fulls. "Eg má ekki koma inn," segir hún. "Það stendur kuldi af mér. Viltu ekki finna mig utarfyrir, Anna?" Henni varð litið á Jódísi og sá, hverjum vonar-augum hún starði til dyra. "Hann finst ekki enn," segir María þá. "En eg hefi fundið Gústaf og nokkra fleiri af okkar mönnum og þeir lofa að hafa uppi á honum. Eg er ekki hrædd um, að hann Gústaf færi þér hann ekki, Jódís mín, ef þess er nokkur kostur." Óðar en hún slepti orðinu, var Jódís lögst út af með augun aftur, og draumsjónirnar komu af nýju, sem höfðu staðið henni fyrir augum allan daginn.

María tók eftir því, og virtist verða gröm af. "Það vantar ekki, að hún sjái hann," segir hún, en tók sig svo á: "Guði sé lof; ekki getur verið ólán að það verði, sem Guð vill."

Hún fór úr dyrunum út í ytri stofuna og Anna á eftir.

Þar stóð þá kona, á að gizka þrítug að aldri eða tæplega það. En hún var svo mögur og skorpin, sem karar-kerling væri, grá og guggin, hárið þunt, hrukkurnar á andlitinu harðar. Þar á ofan var hún töturlega til fara, aumasti húsgangs-ræfill.

Önnu varð starsýnt á konu þessa og fyltist skelfingu. Sök sér var um tötrana og ellimörkin. Hitt var átakanlegra, hve andlitið var sviplaust, eins og hún vissi ekki í þenna heim né annan. Þó að hún stæði þarna, hreifði sig og gengi til, var svo að sjá, sem hún vissi ekki hvar hún væri. Hún hafði auðsjáanlega tekið svo mikið út, að hún var að því komin að missa vitið.

"Það er Una, konan hans Davíðs Hólm," sagði María. "Eg fór til að kalla á hann, kom heim til þeirra og fann hana þá svona á sig komna. Hann var farinn út, en hún var þar inni á róli, og gegndi mér engu orði, hvernig sem eg spurði hana. Eg þorði ekki að yfirgefa hana, og fékk hana svo með mér hingað."

"Er þetta konan hans Davíðs?" segir Anna. "Eg hefi áreiðanlega séð hana áður, en eg þekki hana ekki aftur. Hvað skyldi hafa komið fyrir hana?"

"Það er svo sem auðvitað," segir María, og gat ekki orðum að því komið hve sár-reið hún var. "Maðurinn hennar er að kvelja úr henni lífið."

Anna virti konuna fyrir sér vandlega. Augun stóðu út úr höfðinu og störðu út í bláinn. Hún neri saman fingrunum í sífellu og við og við heyrðust tennurnar nötra saman.

"Hvað hefir hann gert henni?" sagði Anna.

"Eg veit ekki," segir María. "Hún hefir engu getað svarað mér. Hún nötraði svona, þegar eg kom til hennar. Börnin voru ekki inni. Engan var að spyrja. Guð minn góður, að þetta skyldi nú vilja til í dag! Hvernig á eg að sinna henni nú, þegar eg ætlaði ekki um annað að hugsa, en hana Jódísi okkar?"

"Skyldi hann hafa barið hana?"

"Verra en svo. Eg hefi nú séð þær nokkrum sinnum, sem hafa verið barðar. Þær eru ekki svona. Nei, þetta er eitthvað verra en það. – Við sáum það líka á henni Jódísi, að eitthvað hræðilegt var að gerast."

"Já", segir Anna, "nú skiljum við, að það var þetta, sem hún sá. Og Guði sé lof og þakkir fyrir það, að hún sá það, svo að þú María, komst þangað í tæka tíð. Guði séu þakkir. Það er víst tilætlun hans, að okkur auðnist að varðveita hana frá því að missa vitið."

"Hvað á eg til bragðs að taka við hana? Hún kemur með mér, þegar eg tek í hana og leiði hana, en hún heyrir ekki til mín. Sálin er úr henni. Hvernig á eg að koma henni í hana aftur? Eg ræð ekki við hana. Vera má, að þér takist betur, Anna mín."

Anna tók nú í höndina á Unu, og fór að tala við hana bæði blíðlega og alvarlega, en engin sáust merki þess, að konan vissi af sér.

Meðan á þessum tilraunum stóð, kemur húsfreyja fram í dyrnar og segir: "Jódís er að verða óróleg. Það er bezt að þið komið inn."

Báðar stúlkurnar flýttu sér inn í svefnherbergið. Sjúklingurinn bylti sér í rúminu. En óróleiki hennar virtist fremur stafa af einhverju hugstríði, en af líkamlegum þjáningum. Þegar hún sá vinkonur sínar koma á sinn vanastað við rúmið, varð henni rórra og hún lagði aftur augun.

Anna gaf Maríu merki um, að vera kyr hjá rúminu, en sjálf ætlaði hún að læðast aftur utar fyrir. En í því bili var hurðinni lokið upp og Una kom inn.

Hún gekk að rúminu og stóð þar kyr. Augun störðu í óráði, eins og áður, tennurnar nötruðu, fingurnir nerust saman svo að brakaði í.

Langa lengi sást þess enginn vottur, að hún vissi hvað fyrir augun bar. En smátt og smátt mýktist augnaráðið ofurlítið. Og hún laut niður að Jódísi, nær og nær andlitinu. En þá kom einhver ægileg trylling yfir hana. Fingurnir kreptust. – Stúlkurnar spruttu upp, þær voru ekki óhræddar um, að hún ætlaði að ráðast á sjúklinginn.

Þá lauk Jódís upp augunum, og horfði framan í þetta hálfvitstola andlit og hræðilega; hún reis upp og vafði hana örmum. Hún togaði hana að sér með öllu því afli, sem hún átti eftir, og kysti hana á ennið, á kinnarnar, á munninn, og sagði þar milli í hálfum hljóðum: "Æ, Una mín, auminginn, auminginn!"

Konugarmurinn ætlaði fyrst að hörfa undan, en alt í einu kiptist hún við, linaðist upp og fékk ekka. Og hún hneig niður við rúmstokkinn á hnén og lagði höfuðið upp að vanganum á Jódísi.

Þá hvíslaði Anna að Maríu: "Hún er farin að gráta; hún grætur; þá verður hún ekki vitskert."

María kreysti fast tárvotan vasaklútinn, harkaði af sér svo sem hún gat og átti þó fult í fangi með að hafa vald á röddinni. "Annað eins og þetta," sagði hún, "megnar enginn nema hún. Hvað verður úr okkur, þegar hún er farin?"

Rétt á eftir urðu þær þess varar, að móðir Jódísar horfði á þær bænaraugum.

Anna varð fyrir svörum. "Já, það er sjálfsagt," sagði hún, "við verðum að koma henni burt. Það dugar ekki heldur, að maðurinn hennar hitti hana hér, ef hann skyldi koma. Vertu kyr, María, hjá vinstúlku þinni. Eg skal fara burt með hana."

II.

Þetta sama gamlárskvöld sitja þrír menn í litla gróðurreitnum hjá kirkjunni og drekka öl og brennivín. Þá var orðið áliðið og dimt af nótt. Þeir höfðu valið sér ból í sinunni á litlum grasgeira undir nokkrum linditrjám, en svartgljáandi trjágreinarnar hvelfdust yfir þá. Áður um kvöldið höfðu þeir haldið til í kjallara, en þegar honum var lokað, urðu þeir að vera úti. Þessum mönnum er það full-ljóst, að gamlárskvöld er komið, og þess vegna velja þeir sér staðinn í kirkjureitnum; þeir vilja vera svo nærri kirkjuklukkunni, að þeir hljóti að heyra hvenær mál er að drekka skál nýja ársins.

Þeir sitja ekki í myrkri. Rafmagnslamparnir af götunni rétt hjá bera allgóða birtu um kirkjureitinn. Tveir af mönnum þessum voru ellilegir og óhraustir, landshorna-menn, er lifðu á vergangi. Nú höfðu þeir slangrað inn í borgina undir hátíðina, til þess að drekka út aurana, sem þeim höfðu áskotnast. Þriðji maðurinn var rúmlega þrítugur að aldri, hár maður og laglegur á velli, hraustur og óveiklaður að sjá. En allir voru menn þessir töturlega til fara. Þeir sátu þétt saman, til þess að heyra hver til annars, þó að lágt væri talað. Þeir hvísluðust á, til þess að lögreglan yrði þeirra ekki vör; ella kynnu þeir að verða reknir burt.

Yngsti maðurinn tók til máls, en hinir hlustuðu svo gaumgæfilega, að þeir snertu ekki á flöskunum langa hríð. Hann talaði í þeim róm, sem frá alvarlegu leyndarmáli væri að segja, en lymskan skein úr augunum. "Ég átti einu sinni lagsmann," segir hann, "sem varð eins og annar maður á hverjum gamlársdegi. Ekki svo að skilja, að hann gerði þá upp reikninga og væri óánægður með ársgróðann. Hitt var orsökin, að hann hafði heyrt talað um eins konar voða, mjög hryllilegan, er borið gæti að höndum á þeim degi. Hann sat hljóður og hugsjúkur þann dag allan, frá morgni til kvölds, og þáði ekki svo mikið sem í staupinu. Það er eins satt og við erum hérna. Annars var hann ekki fálátur, en ekki var nærri því komandi, að hann gerði sér glaða stund á gamlársdag, ekki fremur en að lands-höfðinginn færi að drekka þú-skál við okkur.

Jæja, þið skiljið ekki, hvað hann hræddist. Það var nú ekki auð-veitt upp úr honum, en einu sinni sagði hann mér það samt. En ykkur langar ef til vill ekki að heyra það í nótt. Það er dálítið ískyggilegt, að fara með það hérna í kirkjureitnum, sem líklega hefir áður fyr verið grafreitur. Eða hvað lízt ykkur?"

Þeir voru fljótir til svars, kváðust ekki hræðast forynjur. Hóf hann þá sögu sína.

"Þessi lagsmaður minn, sem eg nefndi," segir hann, "var af heldra fólki kominn, hafði leikið sér í Uppsölum og stundað þar háskólanám, svo að hann vissi meira en við, skal eg segja ykkur. En sér er nú hvað! Á gamlársdag hafði hann hægt um sig og bragðaði ekki dropa, til þess að vera viss um, að lenda ekki í handalögmáli eða verða fyrir slysum, er leitt gætu til bana. Hann kærði sig kollóttan, þó að hann dræpi sig einhvern annan dag. En ef hann dæi á gamlársdag, bjóst hann við, að verða að aka Helreiðinni."

"Helreiðinni?" átu þeir eftir, báðir tilheyrendurnir, í einu hljóði.

Unga manninum þótti gaman að ala á forvitni þeirra, svo að hann spurði þá aftur, hvort þeim væri það alvara, að vilja heyra söguna, og vera þó staddir á þeim stað sem þeir voru. Þeir báðu hann blessaðan að halda áfram.

"Jæja", segir hann þá, "lagsmaður minn stóð á því fastar en fótunum, að til væri æfagömul kerra, af sömu gerð og þær, er bændur hafa til vöruflutninga, en svo af sér gengin, að slíkt skrapatól væri skömm að sjá á alfara vegi. Svo er hún útötuð, að ekki sér í hana fyrir leir og leðju. Hjólásinn er brotinn og hjólgjarðirnar skrapa lausar. Hún skröltir svo að það ærir mann, því að aldrei hefir verið á hana borið frá ómunatíð. Kerrugólfið er grautfúið, sætið brotið og bramlað, sessuræfillinn gauðrifinn. Fyrir kerru þessari gengur haltur jálkur, eineygður og grár fyrir elli, á tagl og fax. Svo er hann magur, að telja má rifin og svo harðhryggjaður, sem klósagarblað væri reist á rönd eftir bakinu. Hann er stirðfættur, latur og kargur og hefir ekki ferð á við ungbarn á fjórum fótum. Aktýgi eru á klárnum, slitin og tætt, þar er engin hringja á, en hnýtt saman með snærisspottum og bastað með tágum. Allar leggingar og önnur prýði er af: í stað þess koma slýjulegir hampspottar, svo óþverralegir að skömm er að, en ekki skraut, og alt eftir þessu; aktaumarnir slitrur einar, hnútur við hnút, svo að þar verður ekki einum bætt við framar."

Þegar hér var komið sögunni lét sögumaður verða hlé nokkurt og seildist til flöskunnar. Hann vildi láta félaga sína hafa tíma til að hugsa sig um og átta sig á sögunni.

"Ykkur kann að þykja þetta lítt í frásögur færandi," segir hann. "En bíðið þið við. Nú er þess að geta, hver í kerrunni situr, í taumana heldur, og klárinn keyrir. Sá er ekki burðugur. Hann situr hokinn og hnipinn. Varirnar svartbláar, kinnarnar fölar, augun brostin. Hann er í svartri úlpu, síðri og nærskorinni. Við hana er fest hetta mikil og slútir fram yfir andlitið. Í hendi hefir hann sigð ryðuga og ekki biturlega. Þessi, sem í kerrunni situr, er ekki algengur ökumaður, skal eg segja ykkur, hann er í vinnu hjá öðrum og á harðan húsbónda, sem heitir Dauði.

Dag og nótt verður hann að vera á erli og reka erindi húsbóndans. Hvenær, sem einhver á að deyja, verður hann að vera til taks, eins og þið skiljið. Og þá drattast hann líka við að koma eins hratt og hann getur í skröltandi kerrunni með skjögrandi jálkinn fyrir."

Hér lætur sögumaður aftur verða málhvíld og reynir að sjá framan í félaga sína. Hann sér, að þeir taka eftir, svo vel, að ekki verður betur á kosið. Tók hann þá aftur til máls.

"Sjálfsagt hafið þið," segir hann, "einhvern tíma séð einhverjar myndir af dauðanum. Og þá hafið þið tekið eftir því, að hann er oftast látinn vera gangandi. En þessi í kerrunni er ekki dauðinn sjálfur, heldur vinnumaður hans. Eg get hugsað mér, skal eg segja ykkur, að dauðinn, svo mikill höfðingi, vilji ekki heyja nema á beztu blettunum, veigamestu grösin, en lætur vinnumanninn um ýlustráin og annað smágresi á útskefjunum. En nú kem eg að því, sem mér þykir mest um vert í sögunni. Eg býst við að þessi vinnumaður sé ekki rígfastur í vistinni. Klárinn er alt af sá sami og kerran sú sama, sem höfð er að þessum erindum, en hjúaskifti verða þar stundum. Sá maður, er síðast deyr á árinu, sá, sem skilur við í því bili að klukkan er tólf á nýársnótt, hann er sjálfsagður að verða ökumaður dauðans. Lík hans er grafið eins og annara manna, en svipurinn hans verður að fara í svörtu kápuna, taka sigðina í hönd, setjast í kerruna og aka frá einni banasæng til annarar – árið út – þangað til hjúaskifti verða aftur næstu nýársnótt."

Sögumaður þagnar og horfir á félaga sína, til að sjá, hvernig þeim verður við, en fláræðið skein út úr sjálfum honum. Hann sér að þeir líta upp fyrir sig til klukkunnar í kirkjuturninum, eins og þeir byggjust við að sjá hana í myrkrinu. Þá segir hann: "Klukkan sló nýlega þriðja stundarfjórðunginn til tólf, svo að þið getið verið óhræddir, háskastundin er ekki komin enn. En nú skiljið þið, vona eg, hvað það var, sem lagsmaður minn var hræddur við. Ekkert annað en það, að hann kynni að deyja undir miðnætti á nýársnótt og verða síðan neyddur til að aka Helreiðinni. Eg held honum hafi fundist hann heyra skröltið í henni allan gamlársdaginn, því að alt af var hann eins og á nálum. Og – viti menn – eg heyri sagt, að hann hafi dáið í fyrra, einmitt á gamlárskvöld, það er nú það merkilegasta við söguna."

"Dó hann þá rétt undir miðnættið?" "Ekki hefi eg heyrt, hve framorðið var. Hitt veit eg, að hann dó á gamlárskvöld. Nú, eg hefði getað sagt honum það fyrir, að sá dagur yrði dauðadagur hans af því hvað það tók alt af upp á hann að lifa þann dag. Ef þið tækjuð uppá því að gera ykkur sömu grýlurnar, þá gæti vel farið eins fyrir ykkur."

Gömlu mönnunum hafði báðum orðið sama fyrir. Þeir tóku um sinn flöskustútinn hvor og fengu sér drjúgan sopa. Síðan tóku þeir að staulast á fætur. Nú þóttist sögumaður sjá, að honum hafði tekist, að gera þeim geig, og fram yfir það, sem hann hafði ætlast til. Hann tók því enn til máls.

"Nei," segir hann, "ykkur dettur þó ekki í hug að skerast úr leik, og það fyrir miðnætti? Ekki skal eg trúa því, að þið leggið trúnað á kerlingabækur. Hann lagsmaður minn, sem eg var að segja ykkur frá, var veikur fyrir, skal eg segja ykkur. Hann var ekki af gömlum og góðum Svía-ættum eins og við. Hana nú, við setjumst aftur og súpum á." Þeir gerðu svo.

"Feginn verð eg," segir hann þá, "að mega sitja hér. Í allan dag hefi eg hvergi fengið að vera í friði fyr en hér. Hvar sem eg hefi komið, hefir Hjálpræðisherinn verið á hælunum á mér. Þeir vilja fá mig til að finna hana Jódísi, "systurina," sem eg heyri sagt, að liggi fyrir dauðanum. En eg þakka fyrir. Sjálfkrafa geng eg ekki á þeirra fund og óneyddur sit eg ekki undir þeirra andstygðar ræðuhöldum."

Flækingarnir höfðu tekið langa teyga úr flöskunum og var nú farið að svífa á þá. En þegar sögumaður nefndi Jódísi á nafn, tóku hinir báðir viðbragð "Er það hún," segja þeir, "sem stendur fyrir ræflahælinu hér í bænum?" "Svo er víst," segir hann. "Hún hefir sýnt mér þann sóma, að leggja mig í einelti, alt þetta ár. Eg vona að hún sé ekki vandabundin ykkur, svo að þið þurfið að taka ykkur nærri."

Eitthvað gott hlaut að hafa rifjast upp fyrir flækingunum, er þeir heyrðu Jódísi nefnda, eitthvað, sem hún hafði gert þeim gott. Þeir létu báðir þá skoðun sína í ljósi, að það væri sjálfsögð skylda hvers manns, sem Jódís gerði boð eftir, að fara á fund hennar, hver sem hann svo væri. Um það voru þeir sammála og stóðu fast á því.

"Það er svo", segir hann, "þið teljið sjálfsagt, að eg fari. Eg er til með að gera það. En þið vitið nokkurn veginn hver maður eg er, og ættuð þá að geta sagt mér, hvaða ánægju Jódís "systir" mundi hafa af að finna mig."

Hvorugur hinna réðist í að svara þessari spurningu. En báðir hertu þeir á honum að fara. Hann færðist undan og tók að erta þá. Urðu þeir þá svo æfir, að þeir kváðust mundu reka hann með harðri hendi, ef hann færi ekki með góðu. Og þeir standa upp, bretta upp treyjuermarnar og búast til atlögu. Hinn situr kyr. Hann vissi sem var, að hann var stærstur maður og sterkastur í öllum bænum; og hann kendi í brjósti um þessa veslinga, sem ekki höfðu við honum. "Ef þið viljið fara út í þá sálma," segir hann, "þá er eg vitanlega til í það. En eg verð að segja, að mér finst við ættum heldur að gera út um þetta í góðu, ekki sízt þegar við hugsum út í söguna, sem eg var að enda við að segja ykkur."

Flækingarnir voru svo druknir, að þeir mundu nú varla lengur, hvað í efni var. En í bardagahug voru þeir komnir, og réðust nú að félaga sínum með steyttum hnefum. Hann hafði ekki svo mikið við, að hann stæði upp; hann vissi, að hann átti alls kostar við þá. Hann sat flötum beinum á jörðinni, rétti út handleggina, stjakaði við körlunum og hratt þeim sínum í hvora áttina, eins og hundum. En eins og ólmir hundar ruku þeir á hann aftur og annar þeirra kom á hann höggi fyrir brjóstið. Í því bili finnur hann eitthvað volgt renna upp um hálsinn og fylla munninn. Hann man þá, að hann hafði skemd í öðru lunganu og dettur í hug, að nú sé hann að fá blóðspýju. Hann gefur þegar upp vörnina, fleygir sér niður á grúfu, og blóðið fossar út um munninn.

Þetta var ekki efnilegt. Og þó versnaði sagan enn meir. Þegar karlarnir sáu beljakann hníga út af og fundu hendur sínar löðra volgu blóði, þá urðu þeir hræddir, hugðu, að þeir hefðu orðið honum að bana, lögðu á flótta, og skildu hann einan eftir.

Blóðspýjan rénaði smám saman, en tók sig upp aftur hvað lítið sem maðurinn hreyfði sig til þess að reyna að rísa á fætur.

Þarna lá hann endilangur á jörðinni, og honum fór að verða ónotalegt af raka og kulda, enda þótt frostlaust væri. Hann finnur að það er að verða úti um hann, ef enginn kemur honum til hjálpar og flytur hann í húsaskjól. Hann er staddur, svo að segja í miðjum bænum og fjöldi manna er á ferli, því að þessi nótt er nýjársnótt: hann heyrir umganginn um göturnar kringum kirkjureitinn, en enginn kemur inn. Hann heyrir glögt klið af mannamáli í öllum áttum, og honum finst hastarlegt, að verða að deyja af hjúkrunarleysi – og mannhjálpin þó svona nærri.

Hann þrokar enn við stundarkorn, en kuldinn er að verða óþolandi. Hann finnur, að ekki er tiltök að geta staðið upp. En hann hugsar sér að reyna þó að minsta kosti að kalla á einhvern.

En lánið er ekki með honum. Í sama bili og hann rekur upp óp sitt, tekur klukkan til að slá tólf í turninum uppi yfir. Og sterkur málmhljómurinn yfirgnæfir svo gersamlega mannsröddina, að enginn tekur eftir henni. Og engin leið er að kalla í annað sinn. Því að eftir áreynsluna tekur blóðið að renna af nýju upp úr honum, og það með þeirri ákefð, að honum fanst að alt blóðið í æðum hans vera að hóta að ganga úr vistinni, og framkvæma þá hótun, eins ótt og hugur hans gat hugsað. "Það getur varla átt sér stað," hugsar hann með sér, "að eg deyi nú rétt á meðan klukkan er að slá miðnæturslögin." En í bili þykir honum sem hann slokni líkt og útbrunnið skar. Myrkur og ómegin sígur yfir hann á því augabragði, er síðasta slagið dunar frá klukkunni og boðar, að nýárið sé komið.

III.

Óðar en turnklukkan hefir slegið sín tólf dynjandi miðnæturslög, kveður við annað hljóð í lofti, snögt, hvelt og ýskrandi.

Það kemur aftur og aftur með augnabliks millibili, alveg eins og það kæmi af hjólási, er snýst í ósmurðu vagnhjóli. En aldrei hefir menskur maður ekið því skrapatóli, er gefið gat af sér svo óþolandi óhljóð, því fylgir angist og ofboð; það vekur upp kvíða fyrir öllum kvölum, er hugsast geta.

Sem betur fer virðist það vera óheyranlegt flestum þeim, sem á ferli eru. Á götunum kringum kirkjuna hafa unglingar og krakkar verið að spígspora alt kvöldið, og nú eru þau að bjóða hvert öðru gleðilegt nýjár með kæti og köllum. Ef þau hefðu heyrt óhljóðið, mundu allar heillaóskirnar hafa breyzt í kvein og kvíða fyrir alls konar böli, sem þeim væri búið og vinum þeirra. Í kristniboðskirkjunni var dálítill söfnuður að fagna áramótunum og var nú að byrja nýjárssálminn með lofgerð og þakklæti til Guðs. Ef söfnuðurinn hefði heyrt óhljóðið, mundi hann hafa þótzt heyra hæðnisorg og óp illra anda blandast við sönginn. – Maður nokkur stóð með kampavínsglas í hendi í veizlusal og var að flytja ræðu fyrir minni nýja ársins. Ef hann hefði heyrt óhljóðið, mundi hann hafa þagnað og hlustað á það eins og andstyggilegan hrafnagaldur og illspár fyrir öllu, sem hann vildi og vonaði. – Margir vöktu þessa nótt heima hjá sér og hugsuðu í hljóði um háttalag sitt og athafnir árið, sem leið. Ef þeir hefðu heyrt óhljóðið, mundu hjörtu þeirra allra verða stungin nístandi örvænting út af vanmætti þeirra og breiskleika.

En, sem betur fór, hljóðið var ekki heyranlegt nema einum manni, og þessi eini maður þurfti þess með að kenna sárinda, fá samvizkubit og óbeit á sjálfum sér, ef þess væri kostur.

IV.

Maðurinn, sem liggur í blóðspýjunni, er að berjast við að átta sig. Honum finst eitthvað vera að vekja sig, skrækróma fugl fljúga gjallandi yfir höfuð sér, eða eitthvað þvílíkt. En hann er hniginn í blíða værð og notalega, er hann getur ekki af sér hrist.

Brátt kemst hann að þeirri niðurstöðu, að ekki sé það fugl, er svo skræki, heldur sé það gamla Helreiðin, sem hann var að segja flækingunum frá. Þarna sé nú verið að aka henni inni í kirkjureitinn með því skrölti og ýskri, að engin leið var að sofa. Í hálfgerðu rænuleysismóki er hann að velta þessu fyrir sér og aðra stundina fellur hann frá því, að þetta geti verið Helreiðin; það sé ekki annað en hugarburður og komi til af því, að hann var rétt áður að hugsa um Helreiðar-söguna. Hann blundar aftur; en óhljóðið er þrálátt; það kemur aftur hvínandi í loftinu og lætur hann ekki í friði. Nú fer honum að verða það ljóst, að þetta, sem hann heyrir, sé í raun og veru vagnskrölt, það sé enginn hugarburður, og þá ekki heldur nein von um, að það hverfi. Þá sér hann, að hann má til að reyna að vakna til fulls, það er eina ráðið.

Hann verður þess var undir eins, að hann liggur kyr á sama stað og að enginn hefir hjálpað honum. Alt er eins og áður, nema hvað þetta hvella tíst berst að eyrum. Það virðist koma langt að, en er svo ónotalega ýskrandi, að hann telur víst, af af þess völdum hafi hann vaknað.

Honum þætti fróðlegt að vita, hvort hann hefir legið lengi meðvitundarlaus. Það er ekki líklegt. Fólk er svo nærri, að hann heyrir til þess og það er að kallast á nýjárskveðjum. Þar af ræður hann, að ekki sé langt af miðnætti.

Alt af heldur áfram að ýskra, og nú hefir maður þessi alt af átt ilt með að þola alt ýskur og tíst. Honum finst því, að gott væri að mega rísa á fætur og hypja sig burt, til þess að forðast þennan ófögnuð. Tilraun gat hann gert að minsta kosti. Honum líður prýðilega, síðan hann vaknaði. Hann finnur ekki lengur til þess, að honum blæði opið sár inni í brjóstholinu. Hann finnur hvorki til kulda né máttleysis, hefir enga líkamlega tilkenningu fremur en alheilbrigður maður.

Hann liggur enn í sömu skorðum eins og þegar blóðspýjan byrjaði. Nú ætlaði hann að byrja á því að velta sér við, til þess að vita, hvað hann þoli að reyna á sig. "Fyrst rís eg á olnboga með allri varúð," hugsar hann, "sný mér og legst niður aftur."

Þegar hugurinn segir: "Nú geri eg þetta eða hitt," þá er sú hin sama hreyfing venjulega gerð í sama bili. Því hafði þessi maður vanist, eins og allir aðrir. En nú brá undarlega við. Limirnir láta ekki að stjórn; líkaminn liggur kyr og hrærist hvergi. Gæti það verið, að hann hefði legið þarna svo lengi, að hann hefði haft tíma til að gegn-frjósa? Nei, ef svo væri, þá hlyti hann að vera dauður. En lifandi er hann, og bæði sér og heyrir. Auk þess er ekki kalt í veðri; vætan seitlar og drýpur ofan trén uppi yfir honum.

Meðan hann er að velta því fyrir sér, hvernig á þessu magnleysi standi, getur hann ekki öðru sint, og gleymir þá óhljóðinu, sem áður kvaldi hann. En áður en langt um líður heyrir hann það aftur. "Jæja, Davíð minn," segir hann þá við sjálfan sig. "Nú þarftu ekki að hugsa til að leggja á flótta undan þessum ófagra söng; nú verður þú að taka á því, sem til er, og reyna að þola hann."

Það er hart aðgöngu heilbrigðum manni, sem kennir sér einskis meins, að verða að sætta sig við að liggja kyrr og geta ekki hreyft legg né lið. Hvað eftir annað reynir hann fyrir sér, hvort hann get ekki svo mikið sem krept einn fingur eða deplað augunum. En það tekst ekki. Allar hreyfingar eru jafn-ógerlegar. Hann fer að velta því fyrir sér, hvernig hann áður hafi farið að, meðan hann mátti hrærast. Honum finst svo sem hann hafi einhvern veginn týnt aðferðinni.

Alt af er óhljóðið að færast nær og nær. Það er nú ekki lengra frá en svo, að hann heyrir glögt, að vagnskrölt er það, og færist hægt og hægt ofan Aðalstræti í áttina til torgsins. En mikið hræðilegt skrapatól hlýtur það að vera, sem þar er á ferð. Ekki er nóg með það, að járnin ýskri og tísti; nú heyrir hann líka marra og braka í hverju tré, og klárinn skrikar í hverju spori á steinlagðri götunni. Það gæti ekki verra verið, þó að Helreiðarfjandinn væri að koma, sem hann gamli kunningi hans hafði mestan ýmugust á.

"Við erum ekki vanir því. Davíð minn," segir hann við sjálfan sig, "að hafa mikið dálæti á lögreglumönnum. En nú skyldum við

þakka fyrir, ef þeir sýndu rögg af sér og gerðu enda á þessum ólátum."

Davíð hafði oft stært sig af því, að hann væri léttlyndur. En nú uggir hann, að alt sitt léttlyndi sé að fara út um þúfur; það stenzt ekki þennan söng og alt annað, sem fyrir hann hefir borið þetta kvöld. Hann gerir sér herfileg heilabrot um það, að nú finnist hann þarna, verði talinn dauður og borinn burt, kistulagður og grafinn. "Og þá fær þú að heyra alt, sem sagt verður yfir líkinu, og hæpið er, hvort það lætur betur í eyrum, en hitt, sem þú nú verður af hlusta á."

Út úr þessu dettur honum Jódís "systir" í hug. Ekki svo að skilja, að hann ásakaði sig fyrir neitt hennar vegna, heldur sárnaði honum, að hún skyldi vinna eins konar sigur á honum.

Óhljóðið skefur innan eyrun og sker í hjartað. Enga iðrun vekur það þó fyrir það, sem hann hefir ilt gert öðrum mönnum, heldur ýfir gremju hans út af öllu því, er aðrir menn hafa gert honum til miska.

Þegar hann er sem óðast að barma sér um þetta, setur hann alt einu hljóðan og hlustar gaumgæfilega drykklanga stund. "Nei, það bregzt mér ekki," segir hann við sjálfan sig. Kerran er komin Aðalstræti á enda, en hefir ekki haldið áfram niður á torgið. Klárinn er hættur að skrika á kúptum götusteinum og er kominn á mölborinn stíg. Hann er á leiðinni hingað. Hann er kominn inn á kirkjureitinn.

Það glaðnar yfir Davíð. Hver veit, nema nú komi hjálp. Og enn gerir hann tilraun til að setjast upp. En það fer á sömu leið og áður. Hugurinn einn getur hrært sig.

En það er bót í máli, að kerruskriflið kemur. Alt af brakar í hverju tré, hriktir í aktygjum og tístir í ósmurðum hjólásum. Svo hrörleg heyrist honum kerran vera, að hann er ekki óhræddur um, að hún liðist öll í sundur áður en hún komist alla leið þar að, er hann liggur.

Hún mjakast áfram ótrúlega seint. Og af því að Davíð hafði nú legið lengi einmana og hjálparlaus, þá brast hann svo biðlund, að honum fanst leiðin enn lengri, en hún var. Og ekkert skilur hann í því, hvaða kerra það geti verið, sem ekið er þarna inn á kirkjureitinn um há-nýárs-nótt. Ökumaðurinn kynni að vera fullur, úr því að hann velur sér þennan veg, og þá væri engrar hjálpar von af honum.

"Það er skröltið, sem gerir þig ístöðulausan, Davíð," hugsar hann með sér. "Kerran heldur ekki ofan stiginn eins og þú ímyndar þér; hún stefnir beint á þig."

Kerran getur nú varla verið lengra frá honum, en fáein fótmál. En þetta hræðilega skröngl, á hann svo bágt með að þola, að það dregur úr honum allan kjark. "Ólánið eltir þig í kvöld, Davíð minn," segir hann við sjálfan sig. "Þú munt sanna, að það er eitt ólánið enn, sem nú steðjar að. Þetta er eitthvert valtara-bákn, eða þess háttar, og verður dregið yfir þig."

En í sömu andránni fær hann að sjá, hvað þetta er, sem hann var orðinn svo langeygður eftir. Og þó að það væri ekki valtari, til að merja hann sundur, lá þó nærri, að hann slepti sér af hræðslu, er hann sá það. Hann gat hvorki litið við, né rent til augunum, og sá því ekki nema beint fram undan sér. En skrapatólið stefndi á hann sniðhalt. Hann sá það því ekki, fyr en jafn-óðum og það kom á móts við hann. Fyrst kom nú í ljós hrosshöfuð, illilegt og gráhært, blint á því auganu, er að honum snýr. Þá koma bógarnir og framhlutinn allur. Annar framfóturinn er ekki nema stuttur stúfur. Aktygin karbætt með snærum, birkitágum og hampsnærum. Því næst kemur allur klárinn í ljós og alt kerruskriflið, brotið og bramlað, með skjögrandi hjólum. Það var flutninga-kerra af venjulegri gerð, en svo illa til reika, að ónýt sýndist vera til alls. Ökumaður sat á setubekknum og hafði höndur á taumunum, en lét hettuna slúta niður fyrir augun. Hann var lotinn mjög, virtist beygður af þreytu og lúa, og ekki eiga viðreisnar von. Alt var þetta nákvæmlega eins og Davíð hafði sjálfur lýst því rétt áður, klárinn og kerran, ekillinn og aktygin.

Þegar Davíð féll í ómegin eftir blóðspýjuna, hafði honum fundist svo sem sál hans liði á burt eins og ljós, sem slokknar. Nú eru þau umskifti orðin, að honum finst sálin hrjáð og hrist, og svo ringluð, að engin leið er að átta sig. Víst hafði honum lauslega flogið það í hug, að ekki væri alt einleikið, sem fyrir hann bar áður en kerran kom í ljós, svo að sú kynjasjón hefði ekki átt að koma alveg flatt upp á hann. En svo fór honum þó. Þegar honum nú bar það fyrir augu, er hann áður hafði heyrt getið um í þjóðsögu, gat hann ekki samrýmt það við neitt, er hann áður hafði reynt.

"Þetta ætlar að gera mig vitlausan," hugsar hann. "Það er ekki nóg með það, að skrokkurinn er orðinn ónýtur. Nú er vitið líka á förum." Og hann veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Þá vill honum það til, að hann sér framan í ökumanninn. Hesturinn hafði numið staðar fyrir framan Davíð og ökumaðurinn réttir úr sér, svo sem hann vaknaði af draumi, þokaði hettunni letilega frá andlitinu og skimaði í allar áttir. Þá mættust augu þeirra og Davíð sá, að þarna var gamall kunningi.

"Það er enginn annar en hann Grímur," hugsar hann. "Reyndar er hann skrítilega úr garði gerður. En eg kannast við hann. Eg þekki hann." Og hann heldur áfram að tala við sjálfan sig. "Segðu mér nú, Davíð minn, hvar skyldi hann hafa alið manninn allan þennan tíma? Mig minnir, að við höfum ekki séð hann í heilt ár. En Grímur er laus og liðugur. Hann er ekki bundinn konu og börnum eins og þú, Davíð. Hann hefir líklega lagt í langferð, og kemur nú, ef til vill, norðan frá heimskauti, því að kuldalegur sýnist mér hann vera og grár í gegn."

Hann virðir manninn vandlega fyrir sér, því að eitthvað er óviðfeldið í svip hans. En Grímur hlaut þetta að vera, gamli kunninginn og svallbróðirinn. Þar var ekki um að villast. Hann kannaðist svo sem við þetta stórskorna höfuð með arnarnefið; yfirskeggið mikið og svart og toppur á höku. Þó það væri nú, að hann þekti hann, gamlan vin sinn, og það svo svipmikinn mann, að hver hershöfðingi hefði verið fullsæmdur af.

Og enn tekur hann til að tala við sjálfan sig. "Hvað ertu nú að segja, Davíð? Hefirðu heyrt, að Grímur sé dáinn, að hann hafi dáið á gamlárskvöld í fyrra í sjúkrahúsi í Stokkhólmi, Mig minnir, skal eg segja þér, að eg hafi heyrt það líka. En það er ekki í fyrsta sinnið, sem við vöðum reyk. Því að hér er nú Grímur kominn bráðlifandi. Gerðu ekki nema að líta á hann núna, þegar hann réttir úr sér. Er það svo sem ekki hann Grímur sjálfur? Væskilslegur á vöxt. Hans höfðingja-haus hefir alt af borið ofurliði hans vesaldar-búk. Já, hvað segir þú um þetta, Davíð? Sástu, þegar kápan flaksaði frá, að hann er enn í gamla frakkanum, skósíða og gauðrifna, hneptum upp í háls? Og í hálsmálinu sést á rauða klútinn, sem hann hefir bæði fyrir brjósthlíf og vesti, alveg eins og í fyrri daga."

Davíð var orðinn svo hreifur, þótt lémagna væri, að honum var skapi næst að hlæja – ef tiltök hefðu verið að koma upp hlátri.

"Ef við einhvern tíma náum okkur, Davíð minn, þá skulum við borga Grími þessar brellur. Þarna var hann rétt búinn að splundra allri minni skynsemi með þessum útbúningi sínum. Það var honum einum líkt, að finna upp á því, að útvega sér slíkan hest og slíka kerru, og aka síðan hingað til kirkjunnar. Enginn annar – og jafnvel ekki þú, Davíð, hefði getað fundið upp á öðru eins tiltæki og þessu. Þú hefir aldrei komist í hálfkvisti við hann."

Ökumaður er nú kominn ofan úr kerrunni og stendur uppi yfir Davíð og horfir á hann alvarlegur. Ekki brá hann svip. Það var auðséð, að hann vissi ekki hver sá var, er þarna lá fyrir fótum honum.

"Tvent er það, sem eg ekkert skil," hugsar Davíð. "Annað er það, hvernig Grímur hefir komist að því, að við félagarnir sátum hér á grasblettinum," svo að honum gat dottið í hug, að koma hingað og hræða okkur. Og hitt er mér jafn-óskiljanlegt, að hann skyldi þora að taka sér þetta gervi. Hann hefir alt af verið skíthræddur við ökumann dauðans."

Komumaður beygir sig niður yfir Davíð, en ekki vottar enn fyrir, að hann þekki hann. Davíð heyrir, að hann tautar við sjálfan sig: "Það glaðnar líklega ekki mjög yfir honum, manngarminum þessum, þegar hann kemst að því, að hann á að taka við af mér."

Hann hallast fram á ljáinn og beygir sig nær og nær. Alt í einu þekkir hann kunningja sinn. Honum bregður í brún. Hann beygir sig alveg niður að honum, fleygir af sér hattinum í fáti, starir framan í hann og segir: "Æ, það er hann Davíð Hólm, sem hér liggur. Það var nú það eina, sem eg hafði von um, að mér yrði hlíft við."

Hann hrindir frá sér ljánum og fellur á kné hjá vini sínum, og tekur að tala við hann af sárri hrygð og heitri alúð. "Að það skyldi vera þú," segir hann. "Að það skyldi vera þú, Davíð minn. Alt þetta ár hefi eg verið að óska mér þess, að fá að segja nokkuð við þig, áður en það væri um seinan. Einu sinni lá við, að eg gæti það, en þú stóðst á móti því, svo að eg náði ekki til þín. En eg taldi víst, að mér lánaðist það stundarkorni hér eftir, þegar eg verð laus úr vistinni. Og nú ert þú lagstur hér. Nú er um seinan að koma til þin og biðja þig að vara þig."

Davíð hlustar á þessa ræðu, og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. "Hvað er maðurinn að þvaðra?" hugsar hann með sér. "Hann lætur svo sem hann sé dauður. Hann þykist hafa nálgast mig, en eg hafi hrundið honum frá mér. Hvenær skyldi það hafa verið? En bíðum við," segir hann og lætur sefast. "Hann verður að haga orðum eftir gerfinu, sem hann hefir tekið sér."

Þá tekur Grímur aftur til máls, og röddin skalf af geðshræringu. "Heldurðu að eg viti ekki," segir hann, "að það er mér að kenna, að svona fór fyrir þér að lokum? Hefðirðu ekki komist í tæri við mig, mundir þú alt af hafa verið sæmdarmaður og útsláttarlaus. Þá hefðuð þið hjónin haft ykkur áfram og komist í efni. Þið voruð bæði tvö ung og ötul, og ekkert hefði ábjátað fyrir ykkur. Eg segi þér satt, Davíð minn, alt þetta ár, sem aldrei ætlaði að enda, hefir enginn dagur liðið svo, að eg hafi ekki hugsað til þess með skelfingu, að eg tældi þig af réttri braut og kendi þér mína ósiði." Hann stundi við, og brá hendinni yfir andlitið á Davíð. "Og eg er hræddur um," segir hann, "að þú hafir farið afvega enn þá hrapallegar en eg veit til. Eða hví væru annars þessar voða-rúnir ristnar á andlit þér, í kring um augu og munn?"

Nú var Davíð nóg boðið, þótt hann góðlyndur væri. "Hættu nú, Grímur minn, að gera að gamni þínu," hugsar hann. "Farðu heldur og sæktu einhvern til að hjálpa þér að koma mér upp í kerruna þína, og farðu með mig í sjúkra-hælið hið bráðasta."

"Þú veizt víst, Davíð minn," segir Grímur, "hvað eg hefi haft fyrir stafni árið sem leið. Þú þekkir víst hestinn og kerruna, sem eg kem á. Og eg þarf víst ekki heldur að fræða þig um það, hver sá er, sem af mér tekur við ljánum og aktaumunum. En mundu það, Davíð, að ekki er það eg, sem hefi ákveðið, að þetta skuli lenda á þér. Eg veit, að þú átt hræðilegt ár í vændum. En eg ætla að biðja þig, að láta þér aldrei til hugar koma, að mér hafi verið í sjálfs vald sett að sleppa þér í nótt. Þú mátt reiða þig á, að eg hefði gert mitt til, ef þess hefði verið nokkur kostur, að þú þyrftir ekki að lenda í því sama sem eg."

"Vera má," hugsar Davíð, "að Grímur sé í raun og veru orðinn brjálaður. Að öðrum kosti ætti honum að skiljast það, að um líf mitt er að tefla, og engin mynd á að tefja svona tímann."

Í sama bili, sem honum datt þetta í hug, leit Grímur á hann með sorgarsvip. "Ekki þarftu þess að sakna, Davíð, að þig vantar læknishjálp og hjúkrun. Þegar eg vitja sjúklinga, þá er um seinan, að vitja annars læknis."

"Eg held, að allir djöflar og forynjur leiki lausum hala í nótt," hugsar Davíð. "Þegar loksins maður rekst á mig, sem ráð hefir á að bjarga mér, þá er hann annað hvort vitlaus eða svo vondur, að hann lætur sig engu varða, þó að eg drepist hér."

Grímur tók til máls. "Eg vildi mega minna þig á nokkuð," segir hann, "sem bar við í sumar. Það var á sunnudagskvöld. Þú komst gangandi þjóðveginn eftir breiðum dal; á báðar hendur voru akrar stórir, og fallegir bæir í allar áttir með blómlegum trjálundum. Það var um há-sumar og steikjandi hiti. Eg held að þú hafir tekið eftir því, að enginn var á kreiki í öllum dalnum, nema þú einn, hvorki menn né skepnur. Kýrnar hímdu í högunum og héldu sig í skugga trjánna. Og fólkið hafði flúið undan hitanum í húsaskjól. Var ekki svo, Davíð? Manstu ekki eftir þessu?"

"Það má vel vera," hugsar Davíð, "eg hefi ekki sett það á mig. Eg hefi svo oft verið úti á gangi, bæði í heitu veðri og köldu."

"Jæja, Davíð minn. Og þegar kyrðin og þögnin var sem mest, heyrðir þú skrölt á veginum að baki þér. Þú leizt við og hugðir, að einhver kæmi akandi á eftir þér, en sást engan. Þú leizt við hvað eftir annað, og þér fanst þetta vera undarlegast af öllu, sem fyrir þig hafði borið. Þú heyrðir skröltið skýrt og greinilega. En hvaðan kom það? Þetta var um hábjartan dag. Ekkert gat skygt á, á neinn veg, og ekkert annað hljóð heyrðist. Þar gat ekki verið um að villast. Þú skildir ekki, hvernig það gat átt sér stað, að þú heyrðir skrölt og hjólatíst, en sást engan vagninn. En þú vildir alls ekki kannast við, að neinar kynjar væru á seiði. Hefðirðu hugsað á annan veg, þá hefði mér tekist að láta þig sjá mig, áður en það var unn seinan."

Davíð mundi nú glögt eftir öllu saman. Hann mundi, hvernig hann hafði skimað í allar áttir, gægst yfir girðingar og leitað skurðum, til þess að komast á snoðir um, hvað væri að elta hann. Loksins hafði gripið hann geigur, svo að hann flúði undan þessum ófögnuði heim á einn bæinn. Þegar hann kom út þaðan aftur, var alt þagnað.

"Þetta var nú í eina skiftið, sem eg sá þig árið sem leið." segir Grímur. "Eg leitaði allra ráða, sem eg kunni, til þess að þú fengir séð mig; en eg komst ekki nær þér en svo, að þú heyrðir skröltið. Það var eins og bundið væri fyrir augun á þér."

"Það er satt, sem hann segir," hugsar Davíð; "eg heyrði skröltið. En hvað sannar það? Ætlast hann til að eg trúi því, að það hafi verið hann, sem ók á eftir mér á veginum? Hver veit nema eg hafi haft orð á þessum fyrirburði við einhvern, og sá aftur sagt Grími frá?"

Grímur laut nú ofan að Davíð og talaði við hann svo innilega, sem hann væri að koma vitinu fyrir óværan krakka.

"Davíð minn," segir hann. "Þér er ekki til neins að þverskallast. Það er til of mikils ætlast, að þú skiljir, hvað fram við þig er komið sjálfan. Hitt veiztu fullvel, að eg, sem nú á tal við þig, er ekki lifandi maður. Þú hefir sannfrétt látið mitt, en vilt ekki kannast við það. Og þó að þú hefðir ekki frétt það, þá hefirðu nú séð mig koma akandi í kerrunni þarna. Þú veizt, Davíð, að í henni ferðast enginn maður lifandi."

Og hann bendir honum á kerruskriflið sitt "Horfðu ekki á kerruna eina út af fyrir sig," segir hann. "Líttu um leið á trén hinu megin við hana."

Davíð gerir svo; og þá fyrst verður hann að kannast við það með sjálfum sér, að það er dularfult, sem fyrir hann ber. Því að hann sér trén í gegn um kerruna.

"Þú hefir heyrt málróminn minn mörgum sinnum," segir Grímur. "Þú hlýtur að taka eftir því, að nú er hann öðruvísi en áður."

Davíð verður að kannast við það. Grímur hafði alt af haft fallegan málróm, og það hafði þessi ökumaður líka, en þó með alt öðru móti. Rómurinn er nú, mjór og veikur, svo að varla heyrist. Hljóðfærið er orðið annað, þó að sá sé hinn sami, sem á það leikur.

Grímur réttir frá sér höndina, og Davíð sér lítinn vatnsdropa leka niður á hana af trjágrein uppi yfir þeim. En dropinn stöðvast ekki, heldur fellur gegn um höndina til jarðar.

Rétt hjá þeim liggur hríslu-angi. Grímur bregður ljánum sínum undir hann og upp í gegn um hann. En hann var heill eftir sem áður.

"Reyndu nú að skilja þetta og skoða rétt," segir Grímur. "Þú sér mig og þér sýnist eg vera sjálfum mér líkur. En nú er þó líkami minn svo úr garði gerður, að þeir einir geta séð hann, sem annað hvort eru dauðir eða í andarslitrunum. En ekki máttu fyrir því ímynda þér, að líkami minn sé ekki neitt. Hann er bústaður sálar, eins og áður, eins og líkami þinn og allra manna. En þú mátt ekki hugsa þér hann þungan, þéttan viðkomu, né sterkan. Þú skalt hugsa þér, að hann sé áþekkur mynd, sem þú sér í spegli, og að myndin hafi losnað frá glerinu og geti talað hreyft sig sjálf."

Hugsun Davíðs hættir að mótmæla og þverskallast. Hann horfist í augu við sannleikann og reynir ekki framar að víkja sér undan honum. Þetta, sem við hann talar, er dauðs manns svipur og líkami sjálfs hans er steindauður. En um leið og hann verður að láta undan, finnur hann hve hræðilega reiðin tekur að sjóða í honum. "Eg vil ekki vera dauður," hugsar hann. "Eg afsegi, að vera svipur einn eða ekki neitt. Eg vil hafa hnefa til höggs og munn til að matast."

Það heldur áfram að þykna í honum, svo að honum verður ómókt af að byrgja inni bræði sína. Reiði-ofsinn verður áþekkur óveðurs-skýi, er byltist um í huga hans og bíður færis að hella úr sér.

Grímur tók til máls. "Eitt vildi eg biðja þig um," segir hann, "af því að við vorum áður góðir kunningjar í lifanda lífi. Þú veizt það eins vel og eg, að þar að kemur fyrir hverjum manni, er líkami hans liggur út slitinn og ónýtur, og sálin, sem þar bjó, er tilneydd að segja skilið við hann. En þá skelfur sálin og nötrar. Hún kvíðir því að kanna ókunnuga stigu. Henni fer eins og barni, sem á að fara í sjóbað í fyrsta sinn og kveinkar sér við köldum bylgjunum. Þá kemur sálinni það vel, að einhver sá láti til sín heyra, sem áður er kominn inn í eilífðina, að einhver rödd uppörvi hana og láti henni skiljast, að enginn voði er fyrir höndum, svo að hún áræði að slíta sig lausan. Slík rödd hefi eg verið árið sem leið. Og slíkt hið sama er þér ætlað, Davíð, árið sem kemur. Og það er nú bón mín til þín, að þú þverskallist ekki við því, sem þér er ákvarðað, heldur takir því með undirgefni. Að öðrum kosti veldur þú sárri þjáningu, bæði sjálfum þér og mér."

Og Grímur laut höfði, er hann hafði þetta mælt, og vildi líta inn í augu Davíðs. En honum brá í brún. Þar var ekki öðru að mæta, en þráa og þvermóðsku.

Grímur leggur sig því meir í líma til að sannfæra hann. "Þú verður að athuga það," segir hann, "að hér er ekki um það að ræða, er hjá megi sneiða. Eg er enn ekki mjög fróður um það, hvernig hagar til hinu megin. Eg er enn, að kalla má, milli vita. En svo mikið hefi eg séð og heyrt, að eg veit, að hér er enga tilslökun að fá. Við verðum að hlíta því, sem áskapað er, hvort sem okkur er ljúft eða leitt.

Aftur horfir hann inn í augu Davíðs. En þar var ekki annað að sjá, en ferlegt myrkur og fok-vonzku.

"Því verður ekki neitað," segir hann, "að engum hefir verið falið ógurlegra verk en það, að sitja í kerrunni þarna og keyra klárinn þenna bæ frá bæ. Og hvar sem hann kemur, bíða hans kvalir og kveinstafir. Aldrei fær hann annað að sjá, en sjúkleik og sóttarfar, böl og blóðug sár. Og þó er þetta ekki það versta. Hitt er enn sárara að sjá, sem innan rifja er: ótta, iðrun, og kvíða fyrir því, er koma muni. Og eitt er þó allra verst: Eg hefi sagt þér, að ökumaðurinn er enn milli vita. Honum finst eins og mönnunum, að ekki sé annað að sjá en óréttvísi, misgrip og misdæmi, ráðleysi og rugling. Hann sér ekki svo djúpt inn í annan heim, að hann finni þar vit og handleiðslu. Hann grillir í það stöku sinnum, en oftast verður hann að feta sig áfram í myrkri óvissunnar og efans. Og eitt er athugavert, Davíð. Ökumaðurinn er víst ekki dæmdur til að aka Helreiðinni nema eitt ár. En hér er tíminn ekki mældur eftir jarðnesku tímatali, og til þess að ökumaðurinn komist yfir að vitja allra, sem honum er ætlað, verður að teygja svo úr tímanum, að eina árið hans verður á við hundrað önnur, eða þúsund. Ofan á alt þetta bætist það, að ökumaðurinn hefir andstygð á athöfnum sínum, enda þótt hann geri ekkert annað en það, sem honum er skipað. Enginn getur lýst þeim viðbjóð, sem hann fær á sjálfum sér og embætti sinu; honum finst hann vera afhrak annara sálna. En eitt er þó ökumanninum allra – allra sárast, Davíð. Afleiðingar þeirra illræða, er hann sjálfur hefir framið á jarðlífsgöngu sinni, verða svo oft á vegi hans. Því að, hvernig yrði hjá því komist," segir hann, og rödd hans varð nærri því eins og vein, og hann neri saman höndunum af angist. En í sama bili hlýtur hann að hafa veitt því eftirtekt, að ekki var öðru að mæta hjá kunningja hans gamla, en kaldranalegu háði. Þá sveipaði hann að sér kápunni, eins og hann næddi.

Enn talar hann þó innilega til hans. "Davíð minn." segir hann. "Hvað erfitt, sem það kann að verða, er þú átt í vændum, þá ættirðu ekki að þrjóskast. Eg segi þér satt; með því gerir þú ilt verra, og spillir fyrir okkur báðum. Því að eg má ekki skilja svona við þig og láta þig afskiftalausan. Það er mér ætlað, að kenna þér verk þitt, og eg er hræddur um, að það ætli að verða þyngsta þrautin, sem fyrir mig er lögð. Þú getur, ef þú vilt, orðið mér svo óþægur, að eg megi ekki sleppa ljánum úr hendi mér vikum saman eða mánuðum; meira að segja, þú getur haldið í mig til næsta nýárs. Árið mitt er á enda, en eg fæ þó ekki lausn, fyr en eg hefi kent þér að gegna embættinu góðmótlega."

Alt af, meðan Grímur var að tala um fyrir Davíð, lá hann kyr á hnjánum við hlið honum, og alt varð það enn átakanlegra, sem hann sagði, fyrir það, hve innilega hann talaði og af fastri sannfæringu. Enn biðleikar hann lítið eitt, í von um að sjá þess einhvern vott, að orð hans hafi hrifið. En gamli lagsmaður hans virðist vera staðráðinn í því einu, að þrjózkast í lengstu lög. "Vera má, að eg sé dauður," hugsar hann með sér; "við því er ekkert að gera. En aldrei skal eg láta kúga mig til að taka við Helreiðinni og heljar-jálknum. Þeir verða að finna mér annað verk að vinna. Hitt tek eg aldrei að mér."

Grímur ætlar að fara að standa upp, en þá dettur honum enn eitt í hug, sem hann á ósagt. "Vita skaltu það, Davíð," segir hann, "að til þessa er það Grímur vinur þinn, sem við þig hefir talað. Hér eftir er við ökumann dauðans um að eiga. Þú manst frá fornu fari, hver sá er, sem aldrei 'hopar eitt strik'."

Að svo mæltu rís hann upp og réttir úr sér, tekur ljáinn í hönd sér og lætur hettuna síga. Og hann kallar hátt og snjalt: "Kom út, kom út úr fangelsi þínu."

Í sama bili rís Davíð á fætur. Hann veit ekki, hvernig það hefir atvikast, en hann stendur alt í einu uppréttur. Hann riðar, hann sundlar, en nær þó brátt jafnvægi. "Líttu í kring um þig, Davíð Hólm," heyrir hann sagt við sig nokkuð harkalega. Hann hlýðir, og getur þó ekki áttað sig. Hann sér mann nokkurn liggja endilangan fyrir fótum sér á jörðinni. Hann er mikill vexti og íturvaxinn, en óhreinn og illa til fara. Hann er moldugur og ataður blóði; í kring um hann liggja nokkrar tómar flöskur. Andlitið er rauð-flekkótt, þrútið og torkennilegt. Augun hálf-opin og glitti illúðlega í þau við glætuna frá götuljósunum.

Uppi yfir þessum liggjandi skrokk stendur hann sjálfur og er líka hár vexti og íturvaxinn, og hann er í sömu óþverragörmunum sem hinn, er dauður liggur. Uppi yfir honum stendur hann sjálfur og er lifandi eftirmynd hans.

Og þó er hann ekki til fulls lifandi eftirmynd, því að hann er ekki neitt. Ef til vill er reyndar of mikið sagt, að hann sé ekki neitt. En hann er svipur, svipur hins, eins og spegil-mynd, sem losnað hefir frá glerinu, og lifir og hrærist sjálfkrafa.

Hann snýr sér við og lítur til Gríms, og sér, að hann er líka ekki neitt, nema svipur af skrokknum, sem hann eitt sinn átti.

Nú tók Grímur til máls. "Þú andi, sem mistir yfirráðin yfir líkama þínum í því bili, er klukkan sló tólf á nýársnótt, þú skalt taka við af mér. Þú skalt þetta árið leysa sálirnar úr jarðarfjötrunum."

Davíð var nú farinn að átta sig og kominn í essið sitt aftur. Hann ræðst á Grím í heiftar-reiði, þrífur til hans annari hendi og ætlar að rífa sundur kápu hans, en með hinni hendinni ætlar hann að hrifsa af honum ljáinn og brjóta.

Þá finnur hann, að tekið er fast um hendur hans, og fótunum kipt undan honum. Hendurnar eru heftar saman og einhverju ósýnilegu reyrt um úlnliðina, og slíkt hið sama um fæturna.

Því næst er honum lyft upp og varpað harkalega niður í kerrukassann, eins og dauður hlutur væri. Þar verður hann að liggja, og enginn spyr eftir því, hvort hann hafi meitt sig í fallinu.

Í sömu svifum er Helreiðin komin á kreik.

V.

Nú víkur sögunni aftur í litla húsið í útjaðri borgarinnar. Það hús er svo lítið, að í því eru ekki nema tvö herbergi. Annað langt og mjótt, all-rúmgott, og inn af því lítið svefnherbergi. Í stærra herberginu hangir lampi niður úr loftinu og ber góða birtu um alla stofuna. Þar er vel um gengið, þokkalegt og hlýlegt. En þar að auki er stofan svo skemtilega skrítin, að varla geta þeir varist brosi, er inn koma ókunnugir. Heimafólkið hefir auðsjáanlega gert það að gamni sínu, að, búa þessa einu stofu svo út, sem heilt íbúðarhús væri. Úti-dyrnar eru á gaflinum. Öðru megin við þær er ofurlítil eldstó. Þar í kring eru öll eldhúss-áhöld saman komin. Miðhluti stofunnar er í borðstofu-líki: kringlótt matborð á miðju gólfi, og nokkrir tréstólar; klukka á veggnum, og lítill skápur með borðbúnaði í. Lampinn hangir yfir kringlótta borðinu. Insti hluti herbergisins er viðhafnarstofa. Þar er legubekkur úr rauðviði, vandað borð, ljómandi ábreiða á gólfi, pálmaviður í skrautlegri postulínskrukku og fjöldi ljósmynda.

Margt gamanyrði hafði verið sagt um þessa tilhögun, og oft brosað að. – En ekki var þeim hlátur í hug, gestunum, sem komu þar inn laust eftir miðnætti á nýárs-nótt. Þeir voru tveir saman. Svo ræfilslegir voru þeir til fara, sem réttir og sléttir flökkumenn. En sá var þó munur á, að annar þeirra var í svartri kápu utan yfir tötrunum og hafði ljá í hendi, langan og ryðgaðan; og er það ekki flökkumanna háttur. Annar var þó háttur hans enn kynlegri. Hann kom inn án þess að snúa lykli og ljúka upp hurð. Hann fór rakleiðis gegn um hurðina harðlæsta. Hinn maðurinn bar engin embættis-einkenni, er stuggur stæði af, en þó var hann öllu hræðilegri. Hann kom ekki gangandi. Hann var bundinn á höndum og fótum. Félagi hans hafði hann í eftirdragi og draslaði honum einhvern veginn inn og fleygði honum á gólfið með fyrirlitningu. Þar lá hann fyrir fótum honum, sem hrúgald væri af tuskum og tötrum. En heiftin brann honum úr augum og afmyndaði ásjónu hans, svo að ógurlegt var á að sjá.

Komumenn sjá þegar, að þar eru menn fyrir í stofunni. Við kringlótta borðið í miðstofunni sitja piltur og stúlka. Pilturinn er fríður sýnum og svip-mildur sem barn. Hann er í rauðri prjónatreyju, og saumað í letur framan á brjóstinu. Þar stóð fullum stöfum orðið: Hjálpræðisherinn. Stúlkan er nokkru eldri og þó lítil og grönn. Hún er svartklædd og einkennalaus. En á borðinu liggur hattur hennar og er af sama tæi og þeir, er "systurnar" við ræflahælið eru vanar að bera. Það er vottur þess, að hún er líka í "hernum".

Bæði eru þau stallsystkin hrygg í bragði. Stúlkan grætur í hljóði, og þurkar sér um augun aftur og aftur með velktum vasaklút og votum af tárum. Pilturinn er líka voteygður af gráti, en stillir sig nú, af því að stúlkan er nærstödd.

Við og við sögðu þau eitthvað hvort við annað; og mátti af því heyra, að þau voru bæði með hugann í herberginu innar af, hjá sjúklingnum, sem þar lá. Þau höfðu farið þaðan, utar fyrir, til þess að húsfreyja fengi að vera ein hjá dóttur sinni stundarkorn. En þó að þau séu með allan hugann hjá sjúklingnum, mátti þó undarlegt virðast, að þau skuli engan gaum gefa að gestunum. Auðvitað hafa þeir hægt um sig. Annar stendur upp við dyrastafinn, en hinn liggur fyrir fótum hans, þar sem hann var látinn, og báðir stein-þegja. En hinum, sem inni voru fyrir, hefði þó átt að bregða í brún, er slíkir gestir komu inn að luktum dyrum um hánótt.

Svo fanst að minsta kosti honum, sem á gólfinu lá. Hann furðar stórlega á því, að menn skuli ekki verða þeirra varir, lagsmannanna, og hafa þó hvað eftir annað haft þá beint fyrir augum. Sjálfur sá hann alt, og þegar hann fyrir skömmu var á leiðinni um borgina, sýndist honum alt vera sjálfu sér líkt, alveg eins og þegar hann áður hafði á það horft menskum augum. En enginn sá hann. Hann hafði í bræði sinni viljað skjóta þeim skelk í bringu, sem honum var í nöp við, með því að birtast þeim í þessum ham. En þess var enginn kostur. Þeir sáu hann ekki.

Aldrei hafði hann komið í þetta hús fyr en nú. En hann kannast við þau bæði, sem við borðið sitja, og er því ekki í neinum vafa um, hvar hann er niður kominn. Ekki bætti það skap hans. Þangað hafði hann verið þrábeðinn að koma þetta kvöld, en hann hafði þverneitað. Nú var hann dreginn þangað nauðugur. Og reiði hans ýfðist enn af nýju.

Alt í einu tekur ungi hermaðurinn viðbragð. "Nú er liðið fram yfir miðnætti" segir hann. "Konan bjóst við, að hann mundi koma heim um þetta leyti. Eg skal reyna að fara þangað enn og biðja hann að koma." Hann sendur upp, og heldur seinlega, eins og hann væri ekki fús fararinnar. Hann tekur yfirhöfn sína og myndar sig til að fara í hana.

"Eg skil það, Gústaf, að þú býst við að það hafi ekkert upp á sig, þótt þú reynir enn að sækja hann," segir stúlkan, og á í herkjum með að bæla niður grátinn. "En mundu það, Gústaf, að þetta er síðasta bónin, sem Jódís biður þig."

Gústaf hikar við að fara í utan yfir sig og svarar Maríu: "Það mun satt vera, María," segir hann, "að þetta er síðasti greiðinn, sem eg get gert henni Jódísi. En eg get þó ekki að því gert, að eg vildi óska, að Davíð Hólm yrði ekki heima, eða fengist ekki til að koma. Eg hefi leitað hann uppi aftur og aftur í dag, eins og þið Anna sögðuð mér; en eg hefi alt af orðið feginn, að hann neitaði og að hvorki eg né aðrir hafa getað komið honum hingað."

Sá, sem á gólfinu lá, hrökk við, er hann heyrði nafn sitt nefnt. Síðan tautar hann fyrir munni sér og lítur með illúðlegasta háðsglotti til Gústafs. "Sko til," segir hann. "Hann þykist vera svolítið skynsamari en hinir."

María lítur líka til Gústafs og tekur nú all-hressilega til máls og klökkvalaust. "Þér er nú bezt, Gústaf, að skila boðunum til Davíðs svo rækilega í þetta sinn, að honum skiljist það, að hann megi til að koma."

Gústaf þokast nær dyrunum, eins og hann ætli að hlýða, þótt honum nauðugt sé. "Á eg að koma með hann, þó að hann sé dauða-drukkinn?" segir hann.

"Komdu með hann, hvort sem hann er dauður eða lifandi, liggur mér við að segja. Heldur en alt um þrotni, látum við hann þá sofa úr sér vímuna hér inni. Um að gera, að við náum í hann."

Gústaf er í þann veginn að ljúka upp hurðinni. Þá snýr hann alt í einu við og gengur inn að borði. "Það er mér mjög á móti skapi, að annar eins maður og Davíð Hólm komi hingað," segir hann og fölnar af geðshræringu. "Þú veizt eins vel og eg, María, hver maður hann er. Finst þér, að honum hæfi hér að vera? Finst þér honum hæfa, að fara þarna inn?" segir hann og bendir á svefnherbergisdyrnar.

María ætlaði að svara, en komst ekki að fyrir Gústaf. "Skilurðu það ekki, María, að hann kemur ekki hingað til annars, en að storka okkur? Og eftir á stærir hann sig af því, að ein af "systrunum" hafi þá ást á honum, að hún geti ekki dáið, nema hún fái að sjá hann áður."

Maríu er mikið niðri fyrir og ætlar aftur að svara, en hættir við og hugsar sig um.

"Eg get alls ekki þolað það," segir Gústaf, "að hann fari að þvaðra um hana, allra sízt, þegar hún er dáin."

María hefir nú svar sitt á reiðum höndum. Hún er alvarleg og leggur áherzlu á orð sín. "Ertu nú viss um það," segir hún, "að Davíð Hólm fari með ósannindi, þó að hann segði þetta, sem þú nefndir?"

Bandinginn, sem liggur á gólfinu fram við dyrnar, verður hálfhvumsa við. Alt í einu fær hann þar orð að heyra, sem gleðja hann, og hann veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Hann lítur til Gríms, til þess að vita, hvort hann taki eftir því, hve mjög þessi orð hafa fengið á hann. Ekki er svo að sjá, sem Grímur hafi nokkurn gaum gefið þar að. En til vonar og vara tautar Davíð þó eitthvað á þá leið, að sér þyki leitt, að hann skyldi ekki vita þetta fyr, í lifanda lífi; um það hefði hann getað verið drjúgmæltur við lagsmenn sína.

Spurning Maríu kom flatt upp á Gústaf, og hann vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Hann mælti: "Hvernig geturðu spurt, María? Þú ætlast þó ekki til, að eg trúi því, að ..."

Maríu var skapþungt. Hún kreppir hnefann um vasaklútinn og tekur til máls og var nú bæði fastmælt og fljótmælt, eins og henni lægi á að koma því út, er henni var innanbrjósts, áður en hik og varfærni tæki aftur í taumana.

"Hvern ætti henni að þykja vænt um annan?" segir hún. "Okkur báðum, Gústaf, og öllum öðrum, sem hún hefir kynst, hefir hún náð á sitt band, og komið okkur á rétta leið. Ekki höfum við veitt henni mótstöðu með þrákelkni. Ekki höfum við hlegið að henni og hætt hana. Ekki þarf hún okkar vegna að kveljast af iðrun og samvizkubiti. Og hvorugt okkar á sök á því, að nú er svo komið fyrir henni, sem er."

Þegar Gústaf heyrir þessa ræðu, virðist honum hægja, og hann segir: "Mér skildist svo áðan, sem þú værir að tala um annars konar ást, en kærleik til bágstaddra syndara."

"Og það var rétt skilið," segir María.

Svipurinn við dyrnar gat ekki að sér gert, að finna af nýju til fagnaðar út af þessari fullyrðing Maríu, og skildi hann þó ekki í því og reyndi að hrinda frá sér þeirri tilfinning. Því að hann var hræddur um, að honum væri að renna reiðin og að ekkert ætlaði að verða úr þeirri hamslausu tilhneigingu til mótþróa, sem hann hafði haft. Þetta hafði komið svo flatt upp á hann. Hann hafði verið við því búinn, að mæta hér áminning og umvöndun, og engu öðru. Hann hugsar sér, að gæta sín betur framvegis.

María bítur á vörina og reynir að harka af sér. Hún virðist hafa tekið eitthvað í sig, og segir einbeitt: "Heyrðu, Gústaf. Einu gildir, þó eg tali um það við þig. Nú gildir alt einu, úr því að hún er komin í dauðann. Viltu setjast niður stundarkorn? Þá skal eg segja þér, hvað eg hugsa."

Gústaf leggur af sér yfirhöfnina og sezt við borðið. Hann starir hljóður á stúlkuna, fullur eftirvæntingar, og einlægnin skein út úr fallegu augunum hans.

María hóf svo sögu sína.

"Fyrst verð eg þá að segja þér, hvað á daga okkar dreif um nýárið í fyrra. Haustið áður hafði yfirstjórnin ákveðið, að stofna skyldi ræflahæli hér í bæ. Og okkur Jódísi var falið, að koma því á laggirnar. Við höfðum haft ósköpin öll að gera, en "bræðurnir" og "systurnar" veittu okkur alla þá aðstoð, sem þau megnuðu. Og á gamlársdag var svo langt komið, að við máttum sjálfar setjast þar að. Eldhúsið var komið í lag og svefn-salirnir. Við höfðum gert okkur von um, að mega opna hælið á nýársdag. En það tókst þó ekki, af því að sótthreinsunarofn var ekki tilbúinn, né þvottahús."

Maríu var erfitt um mál í fyrstu, en er á leið frásögu hennar og hugurinn hvarf frá því, er yfir stóð, hvarf og gráthljóðið úr rödd hennar smátt og smátt.

"Þú varst ókominn í herinn þá, Gústaf," segir hún. "Annars hefðir þú lifað skemtilegt gamlárskvöld í það sinn. Nokkrir af "bræðrunum" og "systrunum" komu til okkar, og við buðum þeim te, í fyrsta sinn á nýja heimilinu. Þú getur ekki ímyndað þér, hve vel lá á Jódísi af því, að henni skyldi auðnast að koma upp ræflahæli hér í bæ, þar sem hún var heimagangur og þekti hvern fátækling og fór nær um þarfir þeirra. Hún var á randi um alt húsið, leit yfir dýnur okkar og dúka, spán-ný matarílát og eldhús-gögn, og nýfágaða veggi. Alt fékk henni svo mikils fagnaðar, að við gátum ekki annað en hlegið að henni. Hún var glöð eins og barn. Og þú kannast við það, Gústaf, að þegar vel liggur á Jódísi, þá eru allir aðrir glaðir."

"Já, eg þekki það," segir Gústaf. "Guði sé lof og dýrð."

María hélt áfram sögunni: "Gleði og ánægja hélzt, meðan gestirnir stóðu við. En þegar þeir voru farnir, setti að henni kvíða og hræðslu við alt hið illa, sem til er í veröldinni, og hún bað mig að biðja þess með sér, að það yrði okkur ekki ofurefli. Við krupum á kné og báðum fyrir hælinu okkar, fyrir sjálfum okkur og fyrir öllum þeim, sem við vonuðum að fá bjargað. Og einmitt meðan við lágum þarna á bæn, þá var dyrabjöllunni hringt.

Gestirnir voru svo til nýfarnir og við sögðum hvor við aðra, að einhver þeirra hefði líklega gleymt einhverju, og ætlaði nú að sækja það. Til vonar og vara fórum við þó báðar saman til dyranna. Þegar við lukum upp, sáum við, að ekki var komumaður neinn af vinum okkar, heldur einn af þeim, sem ætlað var hæli í því húsi.

Þarna stóð hann í dyrunum, óþrifalegur svoli að sjá, skjögurdrukkinn. Og eg skal segja þér, Gústaf; eg varð svo hrædd við hann, að mér fanst sjálfsagt að skorast undan að veita honum viðtöku og kenna því um, að hælið væri ekki opnað enn. En Jódís systir varð fegin, að Guð hefði sent henni gest. Hún leit svo á, að með því væri hann að votta okkur velþóknun sína á því, sem við höfðum fyrir stafni. Hún bauð manninum inn. Síðan bauð hún honum kvöldmat. Hann bölvaði matnum, kvaðst vilja leggja sig, og annað ekki. Þá var honum fylgt inn í svefnsal. Hann fleygir þegar af sér treyjunni, varpar sér upp í rúm og að vörmu spori var hann sofnaður."

"Sér er nú hvað, stúlka mín," tautar Davíð Hólm; "að þú skyldir vera hrædd við mig þá. Þú ættir að sjá mig í þeim ham, sem eg er nú. Þá spái eg, að þú yrðir það smeyk, að þú þyrftir ekki meira." Þetta tautaði Davíð við sjálfan sig, en ætlaðist þó til, að sá heyrði, er að baki honum stóð, svo að hann mætti af því ráða, að Davíð væri enn samur maður og áður.

"Jódís hafði hug á því," segir María, "að taka þeim manni sérlega vel, sem fyrstur gisti í hælinu okkar, og eg sá, að henni þótti miður, er hann sofnaði svo fljótt. En þó glaðnaði brátt yfir henni aftur, er henni varð litið á treyjuermina hans. Það segi eg satt, Gústaf, að aldrei hefi eg séð svo óhreina flík og illa til reika. Ólykt lagði af henni, bæði víns og tóbaks, og það svo, að eg tók nærri mér að vera nálægt henni. Jódís skoðaði hana í krók og kring. Þá gat eg ekki að því gert, að hræðslan greip mig aftur, og eg bað Jódísi að láta treyjun vera, því að við hefðum engin tæki til sótthreinsunar né þvotta, og gætum því ekki drepið í henni sóttkveikjurnar.

Þú skilur, Gústaf, að frá því er Jódís sá þennan mann, leit hún svo á, sem hann væri henni sendur af Guði. Og henni var sönn ánægja að fá að minsta kosti að gera við eitthvað af görmum hans. Það var ekki til neins fyrir mig að malda í móinn. Og ekki fékk eg heldur að hjálpa henni til. Nei, eg hafði sjálf drepið á það, að treyjan kynni að vera sóttnæm; því var ekki tiltök, að eg fengi að snerta hana. Jódís kvaðst bera ábyrgð á mér – því að eg var undir hana gefin – , hún yrði að sjá um, að eg tækist ekki neitt það á hendur, er spilt gæti heilsu minni. En sjálf sat hún við treyjuna liðlanga nýársnóttina og stagaði og bætti."

Þegar hér var komið frásögu Maríu, varð Gústaf svo hugfanginn, að hann hóf upp hendur sínar í algleymingi og hrópaði: "Guði sé lof og þakkir fyrir Jódísi 'systur'."

"Amen, amen," segir María, og var einnig frá sér numin. "Guði séu þakkir fyrir Jódísi; það er það sem við getum alt af sagt af heilum hug, hvort sem vel liggur á okkur eða illa. Guði séu þakkir, að hún var svo gerð, að hún sat ánægð heila hátíðisnótt yfir treyjunni þeirri, og þótti svo mikið til hennar koma, sem konungsskrúði væri."

Svipur Davíðs finnur einkennilegan frið og hvíld fara um sig, er hann hugsar til ungu stúlkunnar, sem situr í næturkyrðinni, önnum kafin í að gera við fataræfla flakkarans. Það græðir og mýkir, eftir alt sem áður hefir sært hann og reitt til reiði. Hann hefði feginn viljað hugsa um þetta lengi, lengi, ef Grímur hefði ekki staðið þarna að baki honum, staurslegur og steinþegjandi, og haft vakandi auga á honum og hverri geðshræringu hans.

Og enn segir María: Guði sé lof fyrir það, að Jódísi systur hefir aldrei iðrað þess, að hún sat uppi nóttina þá, festi hnappa og stagaði saman rifur til klukkan 4, og lét sig engu varða alla þá ólykt og allar þær sóttkveikjur, sem hún gleypti í sig. Guði sé lof, að hún iðraðist þess aldrei, að hún sat þar sem vetrarkuldinn og næturkiljan náðu að komast inn, svo að nístingskuldi var orðinn í herberginu, áður en hún háttaði.

Þegar hún loksins var búin, var hún steindofin af kulda. Eg heyrði hvernig hún bylti sér í rúminu og neri sig alla til að hita sér. Og ekki sofnaði hún fyr en undir fótaferðartima. Þegar eg fór á fætur, bað eg hana að liggja kyrra og láta mig annast næturgestinn, ef hann skyldi fara á fætur áður en hún væri útsofin. Hún gerði það fyrir mig, en eg sá, að hún tók það nærri sér. En það var ekki löng stund, sem hún fékk að lúra. Þegar eg færði gestinum morgunkaffið, spurði hann mig, hvort eg væri sú, sem gert hefði við treyjuna hans. Eg neitaði því. Þá bað hann mig að sækja þá systurina, sem að honum hefði hlynt.

Þá var hann ódrukkinn og hæglátur. Og hann hagaði betur orðum, en slíkir menn eru vanir. Eg vissi, að Jódís mundi hafa mikla ánægju af að heyra þakklæti hans, svo að eg sótti hana. Það sá ekki á, að hún hefði vakað alla nóttina. Þarna kom hún rjóð í kinnum og svo fögur og vonglöð, að eg sá ekki betur, en að manninn ræki í roga stanz. Hann hafði staðið út við dyr og beðið, og svo illúðlegur var hann þá, að eg var hrædd um, að hann ætlaði að berja hana. En þegar hún kom inn, hýrnaði hann snöggvast. "Öllu er óhætt," hugsaði eg; "hann gerir henni ekkert. Hana getur enginn maður móðgað viljandi." En þegar hún kom til hans, lét hann aftur brýrnar síga. Og hann tók til að rykkja frá sér treyjunni, sem hann var kominn í, og það svo hastarlega, að hnapparnir slitnuðu af, þótt nýfestir væru. Hann keyrði hnefana ofan í vasana svo óþyrmilega, að við heyrðum brakið, þegar botnarnir rifnuðu og saumarnir spruttu. Hann endaði með því að rífa treyjufóðrið í henzla. Treyjan var öll orðin enn þá gauðrifnari, en þegar hann kom. Og hann tók til orða: "Sko, stúlka mín, svona er eg vanur að vera til fara. Eg kann bezt við það; það fer mér bezt. Það var ljótt, að ungfrúin skyldi hafa svona mikið fyrir mér. En það er ekki mín sök."

Nú er frá svipnum að segja, sem á gólfinu liggur. Honum stendur fyrir hugskotssjónum stúlkuandlit, sem ánægjan skein út úr, en varð alt í einu raunalegt á svip. Honum liggur við að kannast við það með sjálfum sér, að þetta hafi verið illmannlega gert, grimmlega og óþakklátlega. En þá dettur honum Grímur í hug, og hugsar með sér: "Það er gott, að Grímur fær að heyra, hver maður eg er, ef hann hefir ekki vitað það fyr. Davíð Hólm er ekki sá maður, að hann léti sig við fyrstu atrennu. Hann er harðsnúinn og illur viðskiftis, og hefir gaman af að erta aulabárða."

María segir: "Eg hafði ekkert hugsað um það, hvernig maðurinn var í sjón. En mér varð starsýnt á hann, þar sem hann stóð og reif og sleit það, sem Jódís hafði lengi verið að laga og hugsað margt fallegt yfir. Eg fór að virða hann fyrir mér. Eg sá, að maðurinn var hár vexti og svo íturmannlegur, að furðu gegndi, tignarlegur á velli og mjúkur í hreyfingum, höfuðið mikið og vel vaxið. Andlitið hafði og auðsjáanlega verið frítt, en nú var það þrútið og rauðflekkótt, og yfirbragðið óskýrt, svo að ekki mátti sjá, hvernig það átti að sér að vera.

Þó að hann nú hagaði sér eins og hann gerði, og hlægi við hryssingslega, og þó að augnaráð hans væri illúðlegt, augun gul og hvarmarnir sollnir og rauðir, þá held eg að Jódís hafi ekki um annað hugsað en það, að hér var mikið og gott mannsefni að fara forgörðum. Eg sá, að fyrst hopaði hún hæli, alt eins og henni hefði verið gefið utan undir. En að vörmu spori brá fyrir björtu leiftri í augum hennar. Hún gekk nær og sagði ekki annað en þetta, að þess vildi hún biðja hann, áður en hann færi, að koma aftur heim til hennar næstu nýársnótt. Hann varð hvumsa við og starði á hana. Þá sagði hún: "Eg skal segja yður nokkuð. Í nótt bað eg Jesúm, að gefa þeim manni gott ár, er fyrstur gisti í hæli þessu. Og því vil eg fegin sjá yður aftur, svo að eg viti, hvort hann hefir bænheyrt mig."

Nú áttaði hann sig og skildi. Hann blótaði og ragnaði, en sagði svo: "Já, því lofa eg. Eg skal koma, og færa yður heim sanninn um það, að hann lætur sig ykkur engu skifta og alt ykkar bænaþvaður."

Með þessari frásögn Maríu var sá, sem á gólfinu lá, mintur á loforð, er hann eitt sinn gaf, en gleymdi aftur. En nú hafði þó atvikast svo, að loforðið var ent. Honum flaug í hug: Skyldi þá öll mín mótspyrna vera til einskis? Er eg ekki annað en veikt strá í hendi annars, sem mér er sterkari? En hann vísar þeirri hugsun á bug. Hann vill ekki gefast upp; aldrei að eilífu skyldi hann undan láta.

Frásögn Maríu um atvikin á nýársdagsmorgun hafa fengið mjög á Gústaf, og því meir, er á leið söguna. Nú getur hann ekki orða bundist lengur. Hann sprettur upp og segir: "Þú hefir ekki enn sagt mér nafn næturgestsins, er mér skilst, að verið hafi Davíð Hólm."

María samsinnir því. Þá hóf Gústaf upp hendur sínar og hrópaði: "Guð minn góður! En hví vilt þú þá, María, að eg sæki hann hingað? Veiztu til þess, að hann hafi tekið stakkaskiftum síðan? Svo er að sjá, sem þú viljir til þess fá hann hingað, að Jódís gangi úr skugga um það, að guð hafi ekki heyrt bæn hennar. Og hví vilt þú hryggja hana með því?"

María leit til hans heldur stygglega, og segir: "Sagan er ekki á enda."

En Gústaf greip fram í fyrir henni og segir: "Við verðum að vara okkur, María; við verðum að varast, að láta blekkjast af hefnigirni. Minn verri maður segir mér, að eg skuli sækja Davíð Hólm í nótt, láta hann sjá Jódísi í andarslitrunum, og segja honum, að hann sé sök í því, að við verðum að missa hana. Svo mun vera til ætlað, María, að segja Davíð frá því, að hún hafi sýkzt banvænum sjúkdómi við handarvikin, sem hún vann í hans þarfir og hann var svo óþakklátur að ónýta jafnharðan. Eg hefi heyrt, að Jódís hafi aldrei á heilli sér tekið eftir þá nýársnótt. En við verðum að gæta okkar, María; við, sem höfum verið með Jódísi, og erum enn í návist hennar, við ættum ekki að ala með okkur harðýðgi og hefndarhug."

María laut yfir borðið. Hún tók til orða og leit ekki upp – eins og hún væri að tala við rósirnar á borðdúknum.

"Hefndarhug?" segir hún. "Er það hefnd, að gefa manni að skilja, að hann hafi átt það, sem dýrmætast er af öllu, og glatað því? Eða, ef eg læt ryðugt járn í eld, til þess gera það aftur skírt og skygnt, er það hefnd?"

Gústaf er hinn ákafasti og svarar: "Það var sem mig grunaði. Þið hafið vonast eftir að fá snúið Davíð Hólm til afturhvarfs með því að gera honum samvizkubit og sárar kvalir. En hafið þið athugað nógu vel, hvort ekki sé það hefnigirni sjálfra okkar, sem við erum að svala með því? Þar er okkur launsátur búið. Okkur er hætt við hrösun."

Aumingja María leit til Gústafs, og sá hefði verið blindur, er ekki sæi, að nú var hún ekki að hugsa um að svala sjálfri sér. Eldhugi sjálfsafneitunar og ósíngirni skein úr augum henni. Hún svaraði, og var þungi í orðum hennar: "Í þessu máli er fleiri hættuleg launsátur að varast."

Gústaf blóðroðnaði. Hann reynir að svara, en kemur engu orði upp. Þá grúfir hann sig niður, tekur höndum fyrir andlit sér og grætur. Hann lét loks bugast af harmi þeim, er hann hafði lengi búið yfir og dulið.

María lét hann gráta í næði, en varir hennar bærðust til bænar.

"Drottinn, guð minn," segir hún. "Jesús Kristur, legðu okkur lið í nótt. Gef mér, mátt til að hjálpa vinum mínum öllum, þó að eg sé veikust allra og viti minst."

Bandinginn við dyrnar gaf því lítinn gaum, þó hann heyrði sér kent um sýking Jódísar; en þegar hann heyrir Gústaf fara að gráta, tekur hann viðbragð. Þar hefir hann komist að nokkru, sem honum þykir mikils um vert, og þess hirðir hann eigi að dylja Grím. Hann er upp með sér af því, að Jódís hefir tekið hann fram yfir Gústaf, hinn fríða svein, er felt hefir ástarhug til hennar.

Grátur Gústafs sefast smátt og smátt. María hættir að biðja og segir við hann með hægð:

"Þú ert að hugsa um það, sem eg sagði áðan um þau Jódísi og Davíð Hólm."

"Já," segir Gústaf og talar í gaupnir sér. Hann hristist allur af geðshræringu.

"Og þú tekur það nærri þér," segir María. "Eg skil það. Eg veit af öðrum manni, sem hefir ofurást á Jódísi. Hún komst að því og sagði við sjálfa sig, að í því gæti hún ekki skilið. Ef mér ætti að geta þótt vænt um einhvern, þá held eg, að sá hinn sami yrði að vera mér fremri. Og sama finst Gústaf. Að vísu getum við varið lífi okkar í þarfir aumingjanna bágstöddu. En alla ást okkar getum við ekki gefið neinum þeirra. Svo er okkur farið, Gústaf. En eg segi þér satt, að Jódísi er annan veg farið. Þér finst það vera henni til niðrunar, og þér sárnar það, sem eg segi."

Gústaf lét ekkert á sér bæra, lá kyr með höfuðið í gaupnum sér. En ósýnilegi gesturinn er farinn að reyna að fikrast nær, eins og hann langi til að heyra betur. En Grímur skipar honum með harðri hendi að hreifa sig ekki, og segir: "Ef þú hreyfir þig, þá legg eg þar við þyngri refsingu, en þú veizt dæmi til." Og Davíð þorir ekki annað en vera kyr. Hann veit, nú orðið, að Grímur efnir hótanir sínar.

María virðist eiga bágt með, að hafa taumhald á tilfinningum sínum. Alt í einu segir hún: "Guði sé lof, hans er mátturinn og dýrðin! Það sæti ekki á okkur, Gústaf, að fella dóm um Jódísi. Hefir þú ekki veitt því eftirtekt, að þegar hjörtun eru full ofmetnaðar, þá gefa þau æfinlega ást sína einhverjum af gæðingum þessa heims og stórmennum. En það hjarta, sem ekki hefir af öðru að segja en hógværð og líknsemi, hverjum ætti það að gefa heitustu ást sína öðrum en einmitt þeim manni, sem lengst er kominn í vonzku og harðúð og alls konar spillingu?"

Þessi orð komu við Davíð Hólm. Þau stungu hann. Þá segir hann við sjálfan sig: "Nú bregður kynlega við, og illa er mér aftur farið. Hvað ætli mig varði um, hvað þetta fólk segir um mig? Átti eg svo sem von á, að það hefði miklar mætur á mér?"

Nú lítur Gústaf upp og segir: "Það er fleira, sem mér er óráðin gáta," og horfir spurnaraugum til Maríu.

"Já, eg skil hvað þú átt við. En þú verður að minnast þess, að fyrst hafði Jódís ekki veður af því, að Davíð væri kvæntur. Og hvað sem því líður, þá tel eg víst, að öll ást hennar hafi að því snúist, að koma honum á rétta leið – annað get eg að minsta kosti ekki hugsað mér," segir hún dálítið hikandi. "Glöð hefði hún orðið, ef henni hefði auðnast að sjá hann standa uppi á pallinum og "vitna" að hann væri hólpinn."

Það var eins og steini væri létt af Gústaf, er hann heyrði þetta. Hann tók í hendina á Maríu og segir: "Ást hefir það þá aldrei verið, eins og eg vissi. Það sérðu sjálf."

María ypti öxlum blés við mæðilega út af þessari einþykni Gústafs.

"Eg hefi aldrei átt nein launmæli við Jódísi sjálfa um þetta mál. Það má vel vera, að eg vaði reyk."

"Svo framarlega sem Jódís hefir ekki sagt þér það sjálf, þá er það trú mín, að þér hafi missýnst."

Svipurinn frammi við dyrnar yglir sig og hleypir brúnum. Honum þótti nú sagan versna og óvænlega horfa.

María svarar: "Eg fullyrði ekki, að Jódís hafi felt annan hug til Davíðs, en líknarhug, í fyrsta skifti, sem hún sá hann. Og aldrei hefði hún átt að gera það, hvorki fyr né síðar. Því um einn tíma varð hann oft á vegi hennar og alt af til bölvunar. Konur komu til okkar og kvörtuðu undan því, að menn þeirra væru steinhættir að vinna, síðan Davíð Hólm kom til bæjarins. Ýmiskonar ósvífni fór í vöxt, ofbeldisverk og ódygðir. Alstaðar rákum við okkur á það, hvar sem við vorum á ferð meðal aumingjanna. Og upptökin þóttumst við æfinlega geta rakið frá Davíð Hólm, það var segin saga. En Jódís er svo skapi farin, að þetta hlaut einmitt að eggja hana til að sækja það sem fastast, að vinna hann guði til handa. Hann var eins og dýr, sem hún var að veiða. Þegar dýrið snerist á móti henni og veitti mótstöðu, greiddi hún þeim mun skarpari atlögu. Hún trúði því, að hún væri sterkari, og mundi þess vegna vinna sigur að lokum."

Gústaf gall fram í: "Og hún var sterkari, guði sé lof. Manstu eitt kvöld, María? Þið Jódís komuð þá inn í drykkjukrá og voruð að útbýta auglýsingum um ræflahælið. Þá kom Jódís auga á Davíð. Hann sat að drykkju með ungum manni, og var að gjöra gys að "ræfla-systrunum"; og þeir hlógu báðir. Jódís gaf unglingnum auga, kendi í brjósti um hann og vék að því nokkrum orðum við hann, að hann skyldi ekki láta spilla sér. Unglingurinn svaraði engu, og ekki fór hann með henni þá. En upp frá því gat hann ekki fengið af sér, að hlæja með lagsmönnum sínum, þótt kyrr sæti hann hjá þeim. Og þó að fylt væri glasið hans, gat hann ekki af sér fengið, að setja það á munn sér. Davíð hló að honum, og hinir lagsmennirnir; sögðu, að "ræfla-systirin" hefði skotið honum skelk í bringu. En það var ekki satt, María. Það var ekki hræðsla, það voru brjóstgæði stúlkunnar, sem fengu svo á hann. Hún gat ekki að sér gert, að vara hann við. Og því gat hann ekki að sér gert að segja skilið við lagsmenn sína og fara út á eftir henni. Þú veizt, María, að þetta er satt. Þú veizt og, hver maðurinn var."

María kinkaði kolli vingjarnlega og sagði: "Já, já. Eg veit hver maðurinn sá var, sem upp frá því hefir verið bezti vinur okkar. Eg get ekki borið á móti því, að Jódís bar einstaka sinnum hærra hlut í viðskiftunum við Davíð Hólm. En lang-oftast beið hún ósigur. Hún fór sér líka að voða á nýársnótt í fyrra. Óhræsis hóstinn hefir kvalið hana síðan. Heilsuleysið hefir dregið kjark úr henni. Síðan hefir hún ef til vill ekki barist með eins glöðum sigurvonum."

Gústaf tók til máls. "En, góða María mín," segir hann. "Af öllu þessu, sem þú hefir sagt mér, er ekkert, sem á það bendir, að henni hafi þótt vænt um hann."

"Satt er það, Gústaf. Ekkert benti á það, til að byrja með. Eg skal segja þér, hvernig eg komst á snoðir um það. Við þektum saumakonu eina fátæka. Hún hafði lungnatæringu, gerði alt, sem hún gat, til að varðveita heilsuna, og sérstaklega var hún svo vör um að sýkja frá sér, að varla voru dæmi til annars eins. Hún átti barn – því var það – og langaði ekki til að það sýktist. Hún sagði okkur frá því, að einu sinni hefði hún fengið hósta-hviðu úti á götu, og farið varlega með, svo sem hún var vön. Einhver umrennings-ræfill víkur sér þá að henni og setur ofan í við hana fyrir andhælisskapinn. "Eg hefi líka lungnatæringu," segir hann, "og læknirinn vill, að eg fari varlega. En það verður ekki af því. Eg hósta beint framan í menn, í þeirri von, að það bíti á þá. Hvers vegna ætti að fara betur fyrir þeim en mér? Það þætti mér gaman að vita."

"Annað sagði hann ekki. En saumakonuna hnykti svo við honum, að hún bjó að því það sem eftir var dagsins. Hún lýsti þessum manni svo: Hann hafði verið tígulegur á velli, en tötrum búinn. Andlitsfallið mundi hún ekki vel, en augunum gat hún ekki gleymt. Þau voru gul og illúðleg, en hvarmarnir sollnir. En það, sem henni stóð mestur stuggur af, var það, að maðurinn var ódrukkinn að sjá og ekki algert úrþvætti. Og þó hafði hann getað látið þessi orð út úr sér, er lýstu svo megnu mannhatri."

Jódís var ekki lengi að kannast við Davíð Hólm, eins og nærri má geta, eftir lýsingunni. En á hinu furðaði mig, að hún tók málstað hans. Hún reyndi að telja konunni trú um, að hann hefði sagt þetta að gamni sínu, til þess að láta ganga fram af henni og hræða hana. 'Þú sér það sjálf,' sagði hún, 'að ekki getur sá maður verið berklaveikur, sem er eins hraustlegur útlits og hann. Eg get trúað honum til þess, að hafa viljað hræða þig. Slíkar brellur eru alveg eftir honum. En að sýkja fólk, rétt að gamni sínu, það myndi hann ekki gera, þó að hann aldrei nema væri sýktur sjálfur. Heldurðu, að hann sé það ómenni?'

"Við hinar mölduðum í móinn, töldum ekki líklegt, að hann gerði sig verri en hann væri í raun og veru. En Jódís hélt vörnum uppi af miklu kappi, og jókst orð af orði. Henni mislíkaði stórum, að við skyldum ætla honum svo ilt."

Alls einu sinni hafði Öku-Grímur látið á sjá, hann tæki eftir því, sem gerðist þarna inni. En er hér var komið frásögu Maríu, lét hann aftur á sér bæra. Hann laut ofan að lagsmanni sínum, horfði framan í hann og sagði: "Eg er á sama máli og stúlkan. Víst hefir þeirri þótt vænt um þig að marki, sem ekki gat trúað um þig öllu illu."

Enn segir María: "Vera má, að ekki sé mark takandi á þessu. Og ef til vill er það enn markleysa, sem eg tók eftir nokkrum dögum síðar. Eg ætla að segja þér það samt. Einu sinni var Jódís á leið heim til sín að kvöldi dags. Hún var þreytt og hnuggin. Skjólstæðingum hennar höfðu borið ýms bágindi að höndum. Þá gekk Davíð í veg fyrir hana og tók hana tali að fyrra bragði, fullur af ertni og háði, eins og hann var vanur. Hann kvaðst ekki eiga annað erindi við hana í það sinn, en að færa henni þau gleðitíðindi, að nú fengi hún náðuga daga og góða, því að hann væri í hann veginn að fara burt úr bænum.

"Mér datt ekki annað í hug, en að Jódís yrði fegin þessari fregn. En það var öðru nær. Og hún sagði honum það í einlægni, að heldur vildi hún að hann færi hvergi, svo að hún fengi að stríða við hann enn um hríð.

"Hann lét sem sér þætti það leitt, að hann yrði að fara; hann væri langferðamaður; hann væri að leita að manni, sem hann mætti til að finna; hann ætlaði að leita landið á enda, og mætti hvergi dvelja til langframa, og einskis næðis njóta, fyr en maður sá væri fundinn.

"Og Jódís tók að spyrja og spyrja. Þú hefðir átt að sjá þá áfergju. Það leyndi sér ekki, að henni stóð ekki á sama, hver sá eða sú væri, sem Davíð vildi finna. Mér lá við að hvísla að henni, og biðja hana að gæta sóma síns, þar sem slíkur maður ætti í hlut. Sjálfur virtist hann ekkert sjá né skilja, kvaðst skyldu láta Jódísi vita, ef leit sín lánaðist, og þá vonaði hann, að hún myndi samfagna sér, því að þá þyrfti hann ekki framar að flakka eins og landshornamaður.

Að svo mæltu gekk hann burt. Um ferðalag sitt hefir hann víst sagt satt, því að við sáum hann ekki lengi á eftir. Eg var að vona, að við þyrftum aldrei framar að eiga neitt við hann, því að svo leizt mér, sem alstaðar mundi ólán af honum stafa, hvar sem hann léti sjá sig. En svo bar við nokkru síðar, að kona nokkur kom inn í ræflahælið. Hún vildi finna Jódísi, og spurði hana eftir Davíð Hólm. Hún trúði Jódísi fyrir því, að hún væri kona Davíðs. Hún hefði haft svo megna óbeit á drykkjuskap hans og ólifnaði, að hún hefði skilið við hann; stolist burt í laumi, tekið börnin með sér og sezt að hér í bæ. Þar hefði honum ekki dottið í hug að gera gangskör að leita hennar. Það er svo langt frá hinu fyrra heimkynni þeirra. Hún hefði nú fengið vinnu í verksmiðju og það mikið kaup, að hún lifði góðu lífi og börn hennar. Konan var vel til fara og bauð af sér góðan þokka. Hún var orðin nokkurskonar forsprakki hinna ungu kvenna, er unnu í verksmiðjunni, og allvel efnum búin, hafði útvegað sér laglegt heimili og alt, sem hafa þurfti. En fyrrum, meðan hún var í hjónabandinu, hafði bæði hún og börnin gengið hálf-nakin og soltið heilu hungri.

"Nú kvaðst hún hafa heyrt þess getið, að maður hennar hefði sézt í bænum, og mundu "systurnar" í hælinu þekkja hann. Því væri hún nú hingað komin, til þess að grenslast eftir, hvernig honum liði.

"hefðirðu þá verið nærstaddur, Gústaf minn, og bæði séð Jódísi og heyrt, það hefði verið þér minnisstætt. Þegar konan kom í fyrsta sinni og sagði, hver hún var, þá brá Jódís litum og svo var að sjá, sem banvænn harmur biti hana. En hún náði sér brátt aftur og þá varð hún að yfirbragði líkari engli en manni. Það leyndi sér ekki, að hún hafði sigrað sjálfa sig og krafðist einskis sér til handa af gæðum þessa heims. Og hvernig hún talaði við konuna! Þeirri blíðu get eg ekki orðum lýst, enda fékk það svo á konuna, að hún grét. Ekki álasaði Jódís henni einu orði, en þó kom hún svo sínu máli, að konan iðraðist þess að hafa skilið við mann sinn, og varð hissa á sjálfri sér, að hún skyldi hafa verið svo harðbrjósta. Og meira að segja, Jódís hafði lag á því, að láta það rifjast upp fyrir konunni, hve vænt henni hefði þótt um mann sinn á yngri árum, um það leyti sem hún giftist honum. Hún veiddi þetta upp úr henni, og vakti þannig upp fornar ástir og fyrntar. Konan fór þá að þrá mann sinn. Ekki svo að skilja, að Jódís drægi neinar dulur á, hvernig Davíð væri, eða berði í brestina. En hún blés konunni í brjóst sömu brennandi löngun, sem hún sjálf hafði, til þess að reisa hann úr rústum."

Meðan á þessu samtali stóð, laut Grímur enn einu sinni niður að bandingja sínum og virti hann fyrir sér. En í það sinn yrti hann ekki á hann, heldur hrökk frá. Eitthvað svo ískyggilegt og ógeðslegt lagði af honum, að Grími ofbauð. Hann hallaði sér aftur upp að veggnum og lét hettuna slúta niður fyrir augu, til þess að þurfa ekki að sjá hann.

Og enn mælti María:

"Sjálfsagt hefir ekki verið örgrant um, að konan hafi þegar áður fundið til samvizkubits út af því, að skilja við mann sinn og láta hann einan eftir í syndinni og spillingar-vilpunni. En sú tilfinning fékk nýjan vöxt og viðgang af viðtalinu við Jódísi. Þegar þær fundust í fyrsta sinn, kom það þó ekki til tals, að hún skyldi láta mann sinn vita, hvar hún var niður komin. Það var síðar afráðið, eftir margar og ítarlegar ráðagerðir. Eg skal ekkert um það segja, hvort Jódís hefir beinlínis talið hana á það, og ekki mun hún heldur hafa gefið henni neinar glæsi-vonir. En hitt veit eg, að það var fullkominn vilji hennar, að konan kallaði mann sinn heim. Hún latti þess ekki, því að hún var sannfærð um, að það mundi bjarga manninum. Mér er því óhætt að segja, að það var af hennar völdum, að þetta var afráðið. Mér er óhætt að segja, að það var Jódís, sem sameinaði Davíð aftur konu sinni og börnum, en hann var manna vísastur til að steypa þeim í glötun. Eg hefi velt þessu fyrir mér, og skil ekkert í því, að hún skyldi þora að hætta á það, er svo var mikill ábyrgðarhluti; eg skil það ekki, nema því að eins, að hún hafi haft ást á honum."

María talaði af heitri sannfæringu. Gústaf sat kyrr og skygði hendi fyrir augu. Gestirnir létu nú ekkert á sér bæra, þótt áður fengi mikið á þá að heyra, hversu Jódís unni Davíð fram í dauðann. Sá, sem á gólfinu lá, var nú aftur orðinn jafn-hatursfullur að sjá, sem hann hafði verið er hann fyrst var dreginn inn um dyrnar.

María tók aftur til máls: "Enginn af okkur vissi nú, hvert á land Davíð var farinn. En Jódís gerði honum boð með öðrum umrenningum; bað þá segja honum, ef þeir rækjust á hann, að nú gætum við gefið honum vitneskju um konu hans og börn. Og litlu síðar kom hann. Þá var það fyrsta verk Jódísar, að hún sá honum fyrir sæmilegum fötum og útvegaði honum atvinnu hjá húsgerðarmönnum. Síðan fylgdi hún honum til konu sinnar. Hún fór ekki fram á neinar skuldbindingar af hans hendi og lét hann engu lofa. Hún vissi, að loforð binda ekki slíka menn. En hún ætlaði sér að rækta nú í góðri jörð það, sem áður hafði vaxið meðal þyrna. Og hún var örugg um, að það mundi takast."

"Og hver veit, nema Jódísi hefði tekist það? En nú steðjaði ólánið að. Jódís lagðist sjúk. Fyrst fékk hún lungnabólgu. Þegar hún var afstaðin og við vonuðumst eftir bráðum bata, þá tók henni að hnigna, og við urðum að senda hana til heilsuhælisins.

"Eg þarf ekki þér að segja, Gústaf, hvernig Davíð hefir verið við konu sína. Þú veizt það eins vel og við öll hin. Jódís er sú eina, sem við höfum reynt að fara í kring um og dylja hins sanna. Þá líknsemi vildum við auðsýna henni. Við höfðum þá von, að hún fengi að deyja, áður en hún frétti það. En nú er eg ekki viss um, hvort sú von ætlar að rætast. Bezt get eg trúað, að hún viti alt saman."

"Hvernig ætti hún að hafa komist að því?"

"Þau bönd eru sterk, sem binda hana við Davíð Hólm. Eg gæti bezt trúað, að hún fái vitneskju um alt, sem honum við kemur, á þann veg, sem ekki er öðrum gefið. Hún veit alt. Því er það, að hún hefir í allan dag verið að falast eftir að fá að tala við hann. Hún hefir leitt konu hans og börn út í botnlaust ólán. Nú eru síðustu forvöð, að bæta úr því, er hún á svo stutt eftir. En við erum þeir aumingjar, að geta ekki gert henni þann lítilfjörlega greiða, að koma Davíð hingað."

"En til hvers væri það?" segir Gústaf, og sat við sinn keip. "Hún getur ekkert við hann talað. Hún er of veik til þess."

María var hin öruggasta: "Eg get talað við hann í hennar stað. Og hann mundi gefa því gaum, er til hans væri talað við banabeð hennar."

"Hvað mundir þú segja við hann, María? Mundir þú segja honum, að Jódís bæri ástarhug til hans?"

María stendur upp, spennir greipar um brjóst sér, lítur upp, lætur aftur augun og biður á þessa leið:

"Drottinn minn og Guð minn. Gef þú, að Davíð komi, áður en Jódís skilur við. Gef þú, að hann megi komast að raun um það, hve heitt hún ann honum, og að sá hiti fái þítt ísinn af hjarta hans. Guð minn góður, hefir þú ekki svo til ætlast, að kærleikurinn, sem þú gafst henni, skyldi vinna hjarta hans. Guð minn góður, gef mér það þrek, að eg hlífist ekki við, að leggja sál hans inn í þann loga. Guð minn góður, láttu ást hennar fara um huga hans eins og blíðan blæ, eins og þyt af englavængjum, eins og morgunroða, er rekur náttmyrkrið á flótta. Guð minn góður, láttu hann ekki halda, að mér sé hefnd í hug. Lát honum skiljast, að Jódís ann ekki öðru en því góða, sem dýpst liggur falið í sál hans –, því, sem hann er að reyna að gera út af við. Guð minn...."

María lét hér staðar numið, því hún heyrði, að Gústaf stendur upp. Hann var að fara í yfirhöfn sína. Hann tók til orða, og var tregt um mál: "Eg skal sækja hann. Eg skal ekki koma svo aftur, að hann verði ekki með mér."

En það er frá hinum að segja, sem á gólfinu liggur, að hann snýr sér að Grími og segir við hann:

"Er nú ekki nóg komið af svo góðu? Fyrst eftir að eg kom hér inn, þótti mér mikið koma til þess, sem þau þarna voru að tala um. Hefði því haldið áfram, veit eg ekki nema eg hefði mýkst svo í skapi, að eg hefði orðið þér eftirlátur. En þú hefðir átt að vara þau við því, að fara að minnast á konuna mína."

Grímur lét sem hann heyrði ekki, en benti með hægð innar eftir stofunni. Þar kemur gömul kona út úr svefnherberginu innar af stofunni. Hún gengur hljóðlega til þeirra Maríu og Gústafs og ávarpar þau, en röddin titraði, svo alvarlegur var sá boðskapur, er hún hafði að flytja. Konan sagði:

"Hún vill ekki liggja lengur þarna inni. Hún vill láta flytja sig hingað. Nú er stríðið bráðum á enda."

*

Nú er þar til að taka, sem fyr var frá horfið, að Jódís litla liggur í rúmi sínu, og finnur hvernig mátturinn minkar með hverju andartaki. Hún er ekki sár-þjáð; en hún berst við dauðann, líkt og hún marga nóttina áður hefir barist við svefninn, þegar hún átti að vaka yfir sjúklingum. Hún hafði þá stundum sagt við svefninn: En hvað þú laðar ljúflega og seiðir, en þú mátt ekki taka mig á þitt vald; og þó að hún léti þá stundum undan, eitt og eitt augnablik í einu, þá spratt hún upp jafnharðan og gegndi skyldu sinni.

Henni finst nú svo sem hún sjái uppbúið rúm. Það er í svölum sal með yndislega hreinu lofti og tæru, sem unun væri sjúkum lungum að anda að sér. Sængurnar í rúminu eru þykkar og dúnmjúkar, belgjast upp sem froðukúfur væri. Hún veit, að þessi hvíla er henni ætluð; hún þráir að mega láta fallast niður í þau mýkindi og sofa úr sér alla þessa óskaplegu þreytu. En hún finnur á sér, að þá mundi hún sofna svo fast, að hún gæti aldrei vaknað aftur. Hvíldin er til boða, og freistar, en hún vísar þeirri freisting frá sér. Enn er ekki tími til kominn, að mega þiggja hvíldina.

Hún lítur í kring um sig. Á svip hennar má sjá, að henni mislíkar. Hún er þungbúnari, en nokkru sinni áður. Ætla mætti, að hún hefði í huga að segja sem svo: "En hvað þið eruð ónærgætnar við mig, að vilja ekki gera fyrir mig þetta eina, sem eg þrái. Hefi eg ekki gengið svo margt sporið fyrir ykkur, meðan eg var á faraldsfæti, að þið ættuð ekki að telja eftir ykkur, að kalla á manninn, sem mig langar til að finna?"

Oftast hefir hún augun aftur og hlustar og hlustar. Enginn getur hreift sig svo á heimilinu, að hún verði þess ekki vör. Svo var athygli hennar skörp. – Alt í einu finst henni, sem gestur sé kominn í stofuna fyrir utan, og bíði þess að fá að koma inn til hennar. Hún lítur upp og horfir bænaraugum til móður sinnar: "Hann er þarna fyrir utan," segir hún, "þú veizt það, mamma. Viltu ekki lofa honum inn,"

Móðir hennar stendur upp og gengur til dyra, lýkur upp og lítur utar fyrir. Hún kemur aftur, hristir höfuðið, og segir "Þar er enginn, Dísa mín; enginn, nema María og Gústaf."

Jódís stynur við og lokar aftur augunum. En aftur finst henni gestur bíða við dyrnar. Hún óskaði, að fötin sín væru nú komin á sinn vana-stað, á stólinn við rúmgaflinn. Þá skyldi hún klæða sig, svo hún gæti sjálf farið til dyra og talað við manninn. En fötin voru ekki á stólnum, og auk þess er hætt við að móðir hennar lofaði henni ekki á fætur.

Hún brýtur heilann um það, hvernig hún eigi að komast fram fyrir. Hún er ekki í neinum efa um, að maðurinn sé kominn. "En mamma getur ekki fengið af sér, að hleypa honum inn; ekkert annað. Henni lízt líklega hræðilega á hann, og vill ekki láta mig tala við annan eins mann. Mamma heldur líklega, að það hafi ekkert upp á sig, að eg finni hann. Mamma heldur líklega, að mér sé sama hvað um hann verður, úr því eg er að deyja."

Loksins datt henni ráð í hug, og fanst það vera frábærlega slungið. "Eg skal biðja mömmu," hugsar hún með sér, "að fá rúmið mitt flutt fram í stofuna, og liggja þar. Eg segi henni, að mig langi til að sjá stofuna einu sinni enn. Ekki getur mamma meinað mér það." Og hún bar þetta erindi upp, en furðaði sig á því, hvað móðir hennar hafði margt á móti því, rétt eins og hún sæi út úr henni, hvað henni gengi til. "Fer ekki vel um þig, þar sem þú ert?" sagði hún, "þú hefir gert þig ánægða með að hýrast hérna til þessa." Og hún hreifði ekki hönd né fót til þess að verða við bón hennar. Jódís tók því eins og hún gerði, þegar hún var lítið barn og rellaði við mömmu sína um eitthvað, sem hún vildi ekki láta eftir henni. Hún tók nú að nauða á henni, eins og kenjóttur krakki.

"Mig langar svo til þess, mamma mín. Mig langar til að vera í stofunni. Þau Gústaf og María eru vís til að bera mig þangað, ef þú nefnir það við þau. Það verður ekki lengi, að rúmið mitt þurfi að standa þar, mamma mín."

"Þú mátt trúa því," sagði móðir hennar, "að þú munt von bráðar fegin vilja komast hingað inn aftur." En þó stóð hún nú upp og sótti þau Maríu og Gústaf.

Rúmið var lítið og létt, og veitti þeim þremur ekki erfitt að bera það utar fyrir með Jódísi í.

Þegar fram úr dyrunum kom, inn í stofuna, skimar Jódís í kring um sig, en sér ekki þann, sem hún átti von á. Hana furðar á því, því að hún þóttist áður hárviss um, að hann væri þar. Hún hættir að horfa, og lætur aftur augun. Þá finst henni óðar, að einhver gestur sitji fram við dyr og sé að bíða. "Ekki getur hjá því farið," hugsar hún. "Einhver er þar, hvort sem það er hann eða annar."

Hún lýkur aftur upp augunum og horfir nú fast og gaumgæfilega. Með naumindum kemur hún þá auga á eitthvað fram við dyr. Það er ekki eins greinilegt og skuggi. Henni fanst það líkast því, að það væri skuggi af skugga.

Móðir hennar lýtur niður að henni og spyr, hvort henni líði nú betur. Jódís kinkar kolli og segir, að sér þyki vænt um að vera komin inn í stofuna. En hún er ekkert að hugsa um stofuna með öllum gömlu mununum, sem þar voru inni. Hún horfir stöðugt utar að hurð. "Hvað skyldi vera þarna utar frá?" hugsar hún; og henni finst sér liggja lífið á að fá vitneskju um það.

Rúmið hennar stóð nú í innri enda stofunnar. Þegar hún hefir legið þar litla stund, hvíslar hún til móður sinnar: "Nú hefi eg séð mig um hérna; viljið þið nú ekki flytja mig lengra utar eftir."

Hún sér, að móðir hennar og hin tvö líta hvert á annað, hrista höfuðin og eru áhyggjufull. Hún skilur það svo, að þeim sé ekki um það gefið, að færa hana nær vofunni við útidyrnar. Hana er nú farið að gruna, hver sá skuggi sé, og vill gjarnan koma nær honum. Hún lítur bænaraugum til móður sinnar og vina sinna, og þau láta þá undan orðalaust, og bera hana fram í miðja stofu. Þegar hún er komin það nær dyrunum, getur hún vel greint, að einhver skuggaleg mannsmynd stendur við hurðina og heldur á einhverju verkfæri í hendinni. Þetta getur ekki verið hann, en einhver er það, sem henni ríður á að finna. Hún má til, finst henni, að komast nær honum. Henni tekst að gera þá ósk sína skiljanlega og reynir að brosa, svo sem til að afsaka kvabbið.

Þetta fær svo á móður hennar, að hún tárfellir. Jódís sér, hve bágt hún á, að hún er að bugast af sorg. En nú dugar ekki að hugsa um það. Nú má hún ekki um annað hugsa, en erindið, sem henni reið á að ljúka. Tíminn var orðinn svo naumur.

Rúmið hennar var nú komið nær því fram að dyrum. Þá sá hún loksins glögt vofuna hálf-ósýnilegu við hurðina. Það var mannsmynd í svartri kápu, með hettu á höfði, er skygði á andlitið, og ljá í hendi. Ekki var um að villast, hver þar var kominn.

"Það er dauðinn," hugsar Jódís, og henni bregður, því að henni þótti hann koma of snemma; að öðrum kosti hefði hann engan geig gert henni.

Bandinginn, sem á gólfinu lá, hafði altaf verið að hnipra sig saman og gera minna og minna úr sér, eftir því, sem Jódís var flutt nær og nær. Hann tók eftir því, að hún starði alt af utar eftir, og honum virtist hún verða þar einhvers vör. En hann vildi ekki láta hana sjá sig – það hefði verið ljóta niðurlægingin. Henni varð ekki heldur litið til hans. Hún hafði ekki augun af hinum. Annað hvort var það Grímur einn, sem hún sá, eða enginn ella.

Þegar Jódís hafði horft á Grím litla stund, gaf hún honum bendingu um að koma nær. Hann sveipar kápunni að sér, eins og honum væri kalt, og þokast að rúminu. Hún lítur upp á hann og brosir blíðlega og segir í hljóði: "Þú sér, að eg er ekki hrædd við þig. Ég er fús að koma, er þú kallar; en fyrst vildi eg spyrja þig, hvort þú getir ekki gefið mér frest til morguns, til þess að eg geti lokið mikilvægu erindi, sem guð hefir falið mér."

Meðan þessu fer fram, hefir Davíð reist höfuðið það hátt, að hann sá framan í Jódísi. Sér hann þá, að hún er fegurri en nokkru sinni áður. Hugur hennar, hreinn og göfugur, hafði sett á hana þann tignarsvip, að unun var á að horfa; og svo var nú yfirbragð hennar mikið og frítt og laðandi, að Davíð gat ekki af henni litið eftir það.

"Heyrirðu ekki til mín?" segir Jódís við Grím. "Beygðu þig niður að mér. Ég þarf að tala nokkuð við þig, sem aðrir mega ekki heyra."

Grímur beygði sig niður, svo að hettan hans nam við koddann hennar, og segir: "Þú þarft ekki að tala hærra en þú vilt; eg heyri vel."

Jódís tók þá til máls og talaði svo lágt og veikt, að enginn þeirra, er við rúmið sátu, hafði grun um annað en að hún steinþegði. Það voru ekki aðrir en Öku-Grímur og hin vofan, sem nú máttu heyra mál hennar.

"Ég veit ekki hvort þú skilur," sagði Jódís, "hve áríðandi mér er að fá frest til morguns. Ég má til að finna mann; eg þarf að tala um fyrir honum. Þú veizt ekki, hve illa eg hefi farið að ráði mínu. Ég hefi verið svo einþykk og ógætin. Hvernig ætti eg að geta látið guð sjá mig? Af mér hefir hlotist svo hræðilegt ólán,"

Henni var þungt um andardráttinn meðan hún sagði þetta og augnaráðið lýsti hryllingi. En hún beið ekki eftir neinu svari, og hélt máli sínu áfram.

"Eg verð, held eg, að trúa þér fyrir því, að sá, sem eg þarf að finna, er maðurinn, sem eg hefi ást á. Skilurðu mig ekki? Maðurinn, sem eg hefi ást á?"

"Heyrðu, systir," segir Grímur; "sá maður" ...

En hún vildi ekki heyra svar hans, fyr en hún hefði lokið fortölum sínum.

"Þú skilur, að eg á bágt, úr því að eg segi þér frá þessu. Það er mér enginn hægðarleikur að játa, að eg hefi felt ástarhug til þessa manns. Eg hefi skammast mín að hugsa til þess, að eg skyldi vera svo gjörspilt að fá ást á manni, sem er annari konu bundinn. Eg hefi varist eftir megni, og barist á móti. Eg átti að leiðbeina og hjálpa þeim, sem illa eru komnir. En mér hefir fundist eg vera orðin verri en þeir verstu af þeim."

Grímur brá annari hendinni um enni Jódísar, eins og hann vildi gera henni hughægra; en hann sagði ekkert, og lofaði henni að tala áfram.

"En versta niðurlægingin er þó ekki það, að eg ann kvæntum manni. Hitt er enn verra, að hann er vondur maður og ómenni. Eg veit ekki hvernig á því stóð, að eg feldi hug til hans. Eg var að vona, og eg trúði því, að eitthvað gott væri í honum. En hann hefir brugðist öllum vonum mínum. Eg hlýt að vera vond sjálf, úr því að hugur minn fór svo villur vegar. Skilurðu nú ekki, að það er ógurlegt fyrir mig að fara héðan, nema eg fái að gera eina tilraun enn, og nema eg fái að sjá hann verða annan mann?"

Nú maldar Grímur í móinn og segir: "Þú ert víst búin að gera allmargar slíkar tilraunir."

Jódís lygnir aftur augunum og hugsar sig um. En brátt lítur hún upp aftur og er þá upplitsbrattari, eins og hún hafi fengið nýja von.

"Þú heldur, að eg sé að biðja þig mín vegna eingöngu. Og þú heldur, eins og aðrir, að mér megi á sama standa um þennan mann; eg sé hvort sem er að fara frá öllu þessu hérna megin. En nú langar mig til að segja þér nokkuð, sem hefir komið fyrir mig í dag; og þá muntu skilja, að frestinn þarf eg að fá í annara þarfir en mín.

"Eg veit ekki vel hvernig það gat atvikast, að í morgun var eg á ferð úti, með körfu á handlegg og átti víst að færa mat einhverjum fátækling. Eg var komin að húsabaki, þar sem eg hafði aldrei komið áður. Þar voru stórhýsi alt í kring, vel hirt og prýðileg útlits. Svo var að sjá, sem þar ættu efnamenn heima. Eg skildi ekki, hvert erindi eg gat átt þangað. En þá tók eg eftir því, að á einum húsveggnum var dálítið útskot; það virtist hafa átt að vera hænsnahús. Nú hafði verið reynt að breyta því í manna-híbýli. Það var karbætt að utan með borðabútum og pappa; gluggarnir skakkir og skældir; strompurinn úr járnplötu.

"Eg sá reykjareim leggja upp úr strompinum; af því réði eg, að þar væri mannaíbúð, og sagði við sjálfa mig: 'Hingað hefi eg auðvitað átt að fara'.

"Brattur stigi lá upp að dyrunum; var hann sjáanlega fremur ætlaður fuglum en mönnum. Eg gekk upp stigann, tók í læsingarjárnið, fann að hurðin var ólæst, heyrði mannamál inni og gekk rakleiðis inn."

"Enginn leit við mér, þegar eg kom inn. Eg hypjaði mig því út í horn og beið þess, að á mig væri yrt; því að það þóttist eg vita víst, að þarna biði mín eitthvert brýnt erindi.

"Þá kom mér nú til hugar, að hér væri eg komin í eitthvert úthýsi, en ekki mannahíbýli. Húsgögn voru þar nærri engin, ekki svo mikið sem rúmstæði. Í einu horninu lágu nokkrar rúmfatadruslur. Enginn stóll var þar, nema brotin skrifli, en eitt borð úr ólitum fjölum.

"Alt í einu datt mér í hug, hvar eg var niður komin. Því að eg sá Unu, konu Davíðs Hólms, standa á miðju gólfi. Þau hafa þá flutt sig, hugsaði eg, meðan eg var í hælinu. En hvernig stóð á, að hér var svo sár-fátæklegt? Hvar voru húsgögnin, sem þau

höfðu átt? Hvar var fallega dragkistan, saumavélin og.... Nei, það var ekki til neins að telja upp. Hér vantaði alt.

"En hvað er að sjá konuna? hugsaði eg, hvað hún er niðurbæld og garmaleg! Hún hefir tekið stakkaskiftum síðan í vor.

"Það var að mér komið að hlaupa til hennar og spyrja hana. En eg hætti við það af því að hjá henni stóðu tvær ókunnugar frúr, og þær voru allar sokknar niður í einhverja samræðu.

"Konurnar voru allar þrjár mjög alvarlegar, og mér skildist innan skamms, hvað um var að vera. Það átti að fara að flytja bæði börnin þeirra Davíðs á barnahæli, til þess að þau sýktust ekki af föður sínum. Hann var talinn hafa lungnatæringu.

"Eg átti bágt með að trúa því, að eg hefði heyrt rétt. Óhugsandi er, að Davíð Hólm sé berklaveikur, hugsaði eg; að vísu hafði eg einhvern tíma heyrt þess getið, en eg trúði því ekki.

"Annað var og, sem mig vantaði skýringu á. Eg heyrði ekki talað nema um tvö börn; en eg þóttist muna, að börnin hefðu verið þrjú. Ekki leið á löngu, þangað til eg heyrði hvernig í því lá. Una Hólm hafði farið að gráta, þegar talað var um börnin. Önnur aðkomu frúin hafði sagt eitthvað vingjarnlega við hana, á þá leið, að svo vel skyldi fara um börnin hennar á hælinu, sem á góðu heimili væri.

"Þá heyrði eg Unu svara: 'Frúin þarf ekki að setja það fyrir sig, að eg græt', sagði hún. 'Eg mundi gráta sárara, ef eg gæti ekki komið börnunum í burtu. Yngsta barnið mitt er í sjúkrahúsinu; og þegar eg hefi séð, hvað hann á bágt, auminginn, þá hefi eg heitið því, að verða fegin og þakklát, ef eg gæti forðað hinum börnunum burt héðan að heiman.'

"Þegar eg heyrði þetta, greip mig sár harmur. Hvernig hafði Davíð farið með heimili sitt, konuna og börnin? Eða, réttara sagt, hvernig hafði mér farist við þau? Það var eg, sem hafði komið honum inn í heimilið aftur.

"Eg tók að gráta, og grét hátt, þar sem eg stóð í stofuhorninu. En ekkert skildi eg í því, að hinar konurnar virtust ekki taka eftir því; engin þeirra gaf mér neinn gaum.

"Eg sá, að húsfreyja gekk til dyra, sagðist skyldu fara út á götuna að kalla á börnin; þau væru ekki langt í burtu.

"Hún gekk fram hjá mér, og það svo nærri mér, að fatagarmarnir hennar strukust við mig. Þá fleygði eg mér á kné, tók í pilsið hennar, bar það upp að vörum mér og kysti það grátandi. En eg kom engu orði upp; rangsleitnin gekk svo fram af mér, sem eg hafði haft í frammi við þessa konu.

"Það undraði mig, að hún skyldi alls ekki taka eftir mér. Og gat skilið það þó, að hún vildi ekkert við mig tala, sem steypt hafði heimili hennar í ógæfu.

"Una hætti við að fara út, því að önnur frúin sagði við hana, að enn væri nokkuð ógert, sem gera þyrfti, áður en kallað væri á börnin. Hún dró skjal upp úr tösku sinni, og las það hátt. Það var yfirlýsing, sem báðir foreldrar barnanna áttu að skrifa undir, þess efnis, að þau fælu frúnni börnin sín á hendur, meðan heimili þeirra væri sýkt af berklum.

"Þegar hér var komið, var hrundið upp hurð, sem var á öðrum vegg stofunnar, og inn gekk Davíð Hólm. Eg gat ekki varist þeim grun, að hann hefði staðið á hleri bak við þessa hurð, til þess að geta komið í opna skjöldu, þegar verst gegndi.

"Hann var jafn-sóðalega til fara og hann var vanur, og illgirnin skein út úr honum. Hann leit í kring um sig með sýnni ánægju, að mér virtist, rétt eins og hann fagnaði öllu volæðinu, sem hann var sokkinn í.

"Hann hóf máls á því, og fór um það mörgum orðum, hve elskur hann væri að börnunum sínum; þegar nú eitt af þeim væri komið í sjúkrahúsið, þá tæki hann sárt að verða þar á ofan að láta hin bæði frá sér fara.

'Aðkomu-frúrnar skeltu skolleyrunum við þessu, og létu þess getið, að meiri hætta væri á, að hann misti börn sín, ef hann héldi þeim heima.

"Meðan Davíð lét dæluna ganga, varð mér litið á konu hans. Hún hafði hörfað út að vegg, og starði á Davíð. Svo fanst mér, að sá maður mundi horfa á böðul sinn, sem væri að taka út meiðsli og misþyrmingar.

"Þá fór mér að skiljast það, að eg hafði unnið meira illvirki, en mér hafði til hugar komið áður. Eg þóttist sjá, að undir niðri bæri Davíð hatur til konu sinnar, og að hann hefði tekið saman við hana aftur, til þess að hefna sín á henni, en ekki af því, að hann fýsti að endurreisa heimili sitt.

"Eg heyrði, hvernig hann masaði við frúrnar um föðurást sína. Þær svöruðu honum því, að rækt sína við börnin gæti hann bezt sýnt með því, að hlýða boðum læknisins og varast að sýkja frá sér; ef hann gætti þess, sæju þær ekkert á móti því, að börnin fengju að vera kyrr heima.

"En hvorug þeirra hafði enn grun um, hvað undir bjó. Það var eg, sem fyrst skildi það. 'Hann ætlar sér að halda börnunum heima," hugsaði eg, 'og gildir einu, þó að þau sýkist.'

"Þetta sama sá líka konan hans út úr honum. Hún hljóðaði upp, og var sem frá sér numin. 'Morðinginn þessi', sagði hún, 'hann vill ekki láta mig koma börnunum burt; hann ætlar að sýkja þau og láta þau deyja. Með því hefir hann hugsað sér, að hefna sín á mér'.

"Davíð ypti öxlum, sneri sér frá henni og sagði við frúrnar: 'Það er satt, að eg vil ekki skrifa undir skjalið ykkar'.

"Um þetta var þjarkað af kappi og reynt að koma viti fyrir Davíð. Húsfreyja var stórorð, og jafnvel aðkomu-konunum spratt roði í kinnar. En hann brá sér hvergi og sagði með hægð, að hann gæti ekki séð af börnunum.

"Eg heyrði á alt þetta, og varð hræddari en frá megi segja. Engin af hinum konunum gat fundið eins sárt til og eg, því að eg var sú eina, sem elskaði illvirkjann. Eg vonaði og vonaði, að þeim hugsaðist að segja eitthvað það, er honum gengist hugur við. Mig langaði til að spretta fram úr skotinu, þar sem eg stóð. En það var eins og eg væri einhverjum furðulegum fjötrum reyrð, og gat ekkert. 'Til hvers er að þjarka við hann?' hugsaði eg, 'annar eins maður og hann gengst ekki fyrir öðru en ógnunum.' Hvorki konan hans, né hinar, höfðu nefnt guð á nafn, né hótað honum reiði hans. Mér fanst eg hafa refsivönd guðs í hendi mér, en eg megnaði ekki að reiða hann til höggs.

"Loksins féll talið niður. Frúrnar stóðu upp og ætluðu að fara. Þær höfðu engu á orkað; og húsfreyja ekki heldur; hún hafði lagt niður vopnin og var hnigin í örvilnan.

"Eg neytti enn einu sinni allrar orku, til þess að fá hreift mig og tekið til máls, og þótti mér það meiri þrekraun en aðrir menn mundu í hafa komið. Orðin brunnu mér á vörum. 'Þú, hræsnari!' vildi eg sagt hafa; 'heldurðu að eg sjái ekki, hvað þú hefir í hyggju? Eg er nú að deyja, og eg stefni þér fyrir dómstól Guðs. Eg ásaka þig fyrir hinum æðsta dómi um morð barnanna þinna. Eg skal bera vitni á móti þér.'

"Eg rétti úr mér, og ætlaði að hreyta fram þessum orðum. En þá var eg ekki lengur stödd heima hjá Davíð Hólm; þá var eg horfin hingað heim, og lá magnlaus í rúmi mínu. Og síðan hefi eg kallað og kallað, en hann kemur ekki."

Jódís hafði legið með lokuðum augum, meðan hún hvíslaði að Grími allri þessari sögu. Nú hvessir hún á hann augun með hræðslu og kvíða og segir: "Geturðu nú fengið af þér, að láta mig deyja, áður en eg næ tali af honum?" Hún grátbænir hann, og biður hann að minnast barnanna og konunnar.

Sá, sem á gólfinu liggur, undrast atferli Gríms. Auðvitað hefði hann getað friðað Jódísi með einu orði, sagt henni, að Davíð Hólm væri úr sögunni og gæti ekki framar orðið meinsmaður konu og barna. En Grímur leynir hana þeim fréttum. Í stað þess tekur hann að auka á hugstríð hennar og segir:

"Hvað mundir þú fá ráðið við Davíð Hólm? Hann er ekki sá maður, að hann láti telja sér hughvarf. Árum saman hefir það verið dægrastytting hans, að hugsa upp hefndarráð. Í dag hefir þú séð, hvernig hann kom þeirri hefnd fram."

"Æ, nei, segðu ekki þetta," segir Jódís, "segðu ekki þetta."

"Eg þekki hann betur en þú," segir Grímur. "Og nú skal eg segja þér sögu, söguna um það, hvernig Davíð varð sá maður, sem hann nú er orðinn."

"Gjarnan vil eg hlusta á það," segir hún. "Gott væri mér, ef eg gæti lært að skilja hann."

"Þá víkur nú sögunni til annarar borgar," segir Grímur. "Við skulum nema staðar hjá fangelsinu þar. Þar inni situr maður, sem dæmdur hafði verið fyrir drykkjuslark, í viku eða hálfsmánaðar fangelsi. Nú er síðasti dagurinn liðinn að kveldi, og honum er hleypt út. Enginn bíður hans við fangelsisdyrnar; en hann nemur þar staðar og litast um. Hann á von á, að einhver komi; hann hafði þráð það heitt.

"Svo var mál með vexti, að hann hafði nýlega orðið fyrir mikilli geðshræringu. Meðan hann sat inni, hafði bróðir hans, ungur að aldri, misséð sig hræðilega; hann hafði orðið mannsbani í ölæði, og verið settur í fangelsi. Eldri bróðirinn hafði ekkert um það mál vitað, fyr en fangelsis-presturinn tók hann með sér inn í klefa morðingjans og sýndi honum þennan unga mann, er sat þar í handjárnum, því að hann hafði sýnt mótþróa, þegar hann var tekinn höndum. 'Sérðu hver það er, sem situr hér?' hafði presturinn sagt. Þegar maðurinn sá, að þetta var bróðir hans, hafði honum orðið ákaflega skapþungt, því að hann unni mjög bróður sínum. 'Nú verður það hann,' hafði presturinn sagt, 'sem hér fær að dúsa í mörg ár, en öllum kemur saman um það, Davíð Hólm, að þú ert maðurinn, sem ætti að taka út hegninguna í hans stað, því að enginn annar en þú hefir leitt hann á þá glapstigu, að hann varð fylliraftur og viti sínu fjær.'

"Davíð hafði átt fult í fanga að stilla sig, þangað til hann kom aftur inn í sinn klefa; en þá setti að honum grát mikinn; og svo hafði hann aldrei grátið, síðan hann var barn. Eftir þetta hafði hann heitið því sjálfum sér, að snúa við blaðinu og bæta ráð sitt. Hann hafði aldrei skilið það áður, hvernig það var á bragðið, að reynast þeim verst, er hann unni mest. Og hugurinn hvarflaði til konu og barna. Á þeirri stundu varð honum það ljóst, að þau mundu eiga við bágt að búa. Og þá hét hann því, að þau skyldu aldrei framar þurfa undan honum að kvarta. Því var það, að hann þráði að sjá konu sína kveldið, sem hann var látinn laus; hann hlakkaði til, að mega segja henni, að hann ætlaði sér að byrja nýtt líferni.

"En hún kom ekki til móts við hann að fangelsisdyrunum, og ekki mætti hann henni heldur á heimleiðinni. Annað var þó verra. Þegar hann kom heim og barði að dyrum, þá lauk hún ekki upp, hratt ekki hurðinni á víða gátt, eins og hún var vön að gera, þegar hann hafði verið lengi að heiman. Illan grun setti að honum í bili, en hann vísaði honum á bug. Hvernig mætti það vera, að illa tækist til nú, þegar hann hafði ásett sér að verða nýr maður?

"Konan var vön að stinga lyklinum undir fótaþurkuna, þegar hún fór að heiman. Davíð beygir sig og þuklar, og finnur lykilinn á sínum stað. Hann lýkur upp, og sér inn í híbýli sín. Honum flýgur í hug, hvort hann hafi farið húsavilt, því að stofan hans var galtóm; reyndar ekki að öllu tóm; flest húsgögnin voru kyrr; en þar var enginn maður. Enginn matur var þar heldur, né eldiviður; og engin gluggatjöld; stofan öll rykug og óvistleg, eins og enginn hefði komið þar í marga daga.

"Hann fer til nágranna sinna, og spyr, hvort nokkuð hafi orðið að konunni sinni, meðan hann var að heiman. Því að hann var að reyna að ímynda sér, að hún kynni að hafa farið í sjúkrhúsið. 'Nei, nei; það gekk ekkert að henni, þegar hún gekk í burtu hérna um daginn', sögðu þeir. 'En hvert hefir hún þá farið?' Það er nú það, sem enginn veit,' sögðu þeir og hann sá, að þeir hlökkuðu yfir, og voru þó fullir forvitni. Hann sá því, að ekki gat verið nema um eitt að gera. Konan hlýtur að hafa neytt færis, meðan hann var í haldi, og strokið. Hún hefir haft börnin með sér, og annað það, sem hún gat sízt án verið, gerir honum ekki aðvart á nokkurn hátt, en lætur hann bara koma heim að tómum kofanum – hann, sem hafði hlakkað svo ákaft til heimkomunnar; hann hafði tekið saman og kunni, það sem hann ætlaði að segja við hana; hann ætlaði hreint og beint að biðja hana fyrirgefningar. Hann átti sér vin, mann, sem hafði verið í heldri manna röð, en var orðinn gerspiltur drykkjumaður. Davíð hafði ásett sér að slíta öllu félagi við þann mann, og var hann þó bæði mentaður og fróður, og fyrir því hafði Davíð gengist, engu síður en hinu, sem lakara var í fari hans. Næsta dag hafði hann hugsað sér að fara þangað, sem hann áður hafði haft atvinnu, og beiðast viðtöku aftur. Hann var staðráðinn í að vinna baki brotnu fyrir konu og börnum, það skyldi fá að vera vel til fara upp frá því og ekki vanhaga um neitt. – Og nú, þegar hann hefir hugsað þetta alt útí æsar, þá er hún – strokin.

Honum kólnar og hann svitnar; hann hryllir við þessum ódrengskap og harðýðgi. Hann hefði getað sætt sig við það, að hún hefði sagt skilið við hann, hreint og beint. Það hefði verið vorkun; við því hefði ekkert verið að segja; því að hann hafði verið henni vandræðagripur. En að laumast í burtu, og láta hann grípa í tómt heima og gera honum alls enga viðvörun, það var níðingsverk, fanst honum. Það mundi hann aldrei fyrirgefa. Hann væri smánaður í allra augsýn. Nú væri hlegið að honum um alt nágrennið.

"En hann hét því, að þeir skyldu hætta að hlæja. Hann skyldi finna konuna aftur, og þá skyldi hann gera hana eins volaða og hann var sjálfur og fram yfir það. Hann skyldi láta hana finna, hvernig það er að kala á hjartað, eins og hann hafði nú sjálfur reynt.

"Það var eina fróunin, sem hann nú gat veitt sér, að velta því fyrir sér, hvernig hann ætlaði að refsa henni, þegar hann fyndi hana. Síðan hefir hann verið að leita að henni í þrjú ár, og í sífellu kynt undir hatrinu, með því að hugsa um það, er hún hafði til saka unnið. Sök hennar var í hans augum orðin að þeim glæp, að ekki átti sinn líka. Hann hefir gengið einmana á eyðivegum, og alt af hefir hatrið verið að hitna og hefnigirnin að harðna. Svo lengi stóð á leitinni, að honum vanst tími til að leggja ráðin á um það, hvernig hann skyldi kvelja hana, ef þau tækju saman aftur."

Alt til þessa hafði Jódís þagað, en svipbreytingarnar á andliti hennar höfðu sýnt hve vel hún tók eftir. Þegar hér var komið sögunni, tók hún fram í.

"Segðu ekki söguna lengri," sagði hún; "það yrði mér ofraun að hlýða á. Hvernig á ég að geta varið aðgerðir mínar? Betur væri, að eg hefði aldrei miðlað málum þeirra á milli! Ef ég hefði aldrei komið til, þá væri sekt hans ekki eins þung."

Grímur svarar "Eg skal ekki segja söguna lengri. Það eitt var mér í hug, að koma þér í skilning um, að þér er ekki til neins, að biðja um frest."

"Það vildi ég þó," segir hún. "Ég get ekki dáið, get það ekki. Gef mér fáein augnablik, þó að ekki sé meira! Þú gerir það, því að þú veizt, að ég elska hann. Ég hefi aldrei elskað hann jafn-heitt og í dag."

Vofan við dyrnar tekur viðbragð. Aldrei hafði hann haft augun af Jódísi, meðan hún talaði við Grím. Hann hafði teygað hvert orð af vörum hennar, og gefið gaum að hverjum drætti í andliti hennar, eins og hann væri staðráðinn í að gleyma þeim ekki að eilífu. Alt hafði verið ljúft að heyra, sem hún sagði, jafnvel það, sem harðast kom við hann sjálfan. Svölun og sáralækning hafði honum verið að sjá hluttekningu hennar og hugstríð út af sögunni, sem Grímur sagði. Hann hefir ekki gert sér neina grein fyrir því sjálfur hvern hug hann bar til Jódísar; hann veit ekkert nafn á því hugarþeli. En það finnur hann, að fyrir hana gæti hann alt þolað. Og það finst honum sæla, meiri sæla en menskir menn megi njóta, að hún skuli elska hann eins og hann hefir verið, hann, sem varð orsök í dauða hennar. Í hvert sinn, sem hann heyrði hana játa ást sína til hans, fór svo heitur fögnuður um sál hans, að annað eins hafði hann aldrei áður getað ímyndað sér. – Hann leitast við, að leiða athygli Gríms að sér, en það tekst ekki; Grímur lítur aldrei við honum. Þá reynir hann að rísa á fætur, en finnur þá til svo ógurlegra sárinda, að hann fellur flatur.

Hann sér, að Jódís ber sig hörmulega; hún réttir báðar hendur að Grími og biður hann. En hann bregður sér ekki og er ósveigjanlegur. "Ég skyldi gefa þér frest," segir hann, "ef það væri til nokkurs. En eg veit, að þú ræður ekkert við manninn, sem þú vilt finna."

Að svo mæltu lýtur hann niður að Jódísi, til að mæla þau orð, er leysa sálina úr reifum líkamans.

En í sama bili kemur skuggi skríðandi eftir gólfinu að rúminu. Hann hafði slitið af sér böndin, þó að það kostaði hann meiri áreynslu og sársauka, en hann hafði áður þekt, og þó að hann byggist við, að þær kvalir yrðu látnar verða endalausar í refsingarskyni fyrir tiltæki hans. En hann hugsaði sér, að hvað sem það kostaði, skyldi Jódís nú ekki þurfa að bíða lengur né biðja, úr því að hann var þar staddur í sama herbergi. Hann hefir smeygt sér fram með rúmstokknum þeim megin, sem Grímur, óvinur hans, var ekki. Og hann kemst svo langt, að hann nær í aðra höndina á henni.

Ekki var nokkur leið að því fyrir hann, að koma svo fast við hana, að hún fyndi handtakið. En einhvern veginn varð hún þó vör við návist hans. Hún sneri sér snögt við, og sér Davíð Hólm við rúmstokkinn. Hann lá þar á hnjánum og laut höfði niður undir gólf, því að ekki dirfðist hann að líta upp á hana. Með hendinni einni, sem hann hafði lagt utan um hönd hennar, reyndi hann að láta í ljós ást sína og þakklæti, og sýna henni, að hjarta hans var að mýkjast.

Þá brá á svip hennar bliku af unaðslegri sælu. Hún leit upp á móður sína og báða hina vini sína. Fyr hafði hún ekki haft tíma til að sinna þeim. Nú vildi hún, að þau fögnuðu með sér þeim heilla-atburði, er þar var orðinn, og hún benti þeim á Davíð, þar sem hann lá fyrir fótum henni, auðmjúkur og fullur iðrunar. Það vildi hún láta þau sjá. Þá fádæma-gleði vildi hún gefa þeim með sér. En í sama bili beygir sá svartklæddi sig yfir hana og segir:

"Blessuð stúlka mín! kom út, kom út úr fangelsi þínu!"

Þá hneig höfuð hennar á koddanum. Hún tók andköfin, og lífið fjaraði út.

Í sama vetfangi var rykt í Davíð Hólm. Böndin, sem hann fann, en sá ekki, hnýttust af nýju um hendur honum, en fæturnir voru lausir. Grímur var reiður, og lét Davíð á sér skilja, að hann hefði unnið til óskaplegrar refsingar; hann nyti nú ekki annars en þess, að vingott var með þeim í fyrri daga.

"Komdu nú með mér héðan," segir hann, "hér hefir hvorugur okkar neitt að gera. Hinir eru komnir, sem nú eiga að taka við henni." Og hann dregur Davíð út á eftir sér, heldur óvægilega.

Davíð þykist sjá, að húsið er alt í einu orðið fult af björtum verum; þær eru allsstaðar; hann mætir þeim á tröppunum og á götunni. En honum er dröslað áfram með þeim ógnar-flýti, að hann fær ekki áttað sig á neinu.

VII.

Davíð hafði verið slengt niður á botn í Helreiðinni. Þar liggur hann nú og er reiður við allan heiminn, og sárgramur við sjálfan sig líka. "Hvað kom að mér áðan?" hugsar hann með sjálfum sér. "Var eg vitlaus? að eg skyldi falla á kné fyrir Jódísi, eins og eg væri auðmjúkur syndari og iðrunarfullur! Grímur er vís til að hlæja að mér. Annar eins karl í krapinu og eg ætti að geta ábyrgst gerðir mínar. Eg veit, hvað eg hefi gert, og í hverju skyni. Eg ætti ekki að verða uppnæmur og leggja árar í bát, þó að stelpugrey segi, að henni þyki vænt um mig. – Hvað kom annars að mér? Var það ást? En eg er dauður, og hún er dauð. Hvers konar ást ætti það svo sem að vera?"

Jálkurinn var nú lagður á stað með kerruna, og haltrar eftir götu, sem liggur út úr bænum. Húsaraðirnar urðu smátt og smátt gisnari og götuljósin strjálli. Davíð horfir út fyrir borgina, þar sem ekkert ljós er að sjá. En þegar hann nálgast yzta ljóskerið, setur að honum einhverja undarlega hrygð og hræðslu, eins og hann taki nærri sér að fara burt úr bænum. Honum finst svo sem verið sé að stía honum frá einhverju því, sem hann hefði aldrei átt við að skilja.

En í sama bili og þessi hræðsla greip hann, heyrir hann orðaskil í gegn um alt ískrið og skröltið í kerrunni; það var ómur af samtali fyrir aftan hann. Hann lítur við og hlustar.

Grímur er þá að tala við einhvern, sem virðist vera í kerrunni hjá þeim, einhvern farþegja, sem Davíð hafði ekki vitað af áður.

Þessi ósýnilegi samferðamaður talar lágt og þítt, og svo raunalega sem hann geti varla orði upp komið fyrir sorg og kvöl.

"Nú má eg ekki verða samferða lengur," heyrir Davíð sagt við Grím. "Eg hafði svo margt að segja honum, en hann liggur hér með vonzku og heift í huga, og eg get hvorki látið hann sjá mig né heyra. Eg verð að biðja þig að skila kveðju minni til hans, og því með, að eg hafi verið hér í för með ykkur til þess að hitta hann. En nú verð eg að fara, og héðan af get eg ekki látið hann sjá mig í þeirri mynd, sem eg nú er."

"En ef hann iðrast og bætir ráð sitt?" segir Grímur.

"Þú hefir sjálfur sagt, að um hann sé engin batavon," segir röddin og titrar af harmi. "Eg bið að heilsa honum. Eg hélt, að við ættum að vera saman um alla eilífð, en héðan í frá má hann aldrei sjá mig. Segðu honum þetta frá mér."

"En ef hann gæti bætt fyrir brot sín?" segir Grímur.

"Berðu honum kæra kveðju mína," segir röddin. "Eg má ekki fylgja honum lengur til þess að reyna að láta hann taka kveðju minni. Segðu honum það."

"En ef hann skyldi geta orðið allur annar maður?" segir Grímur.

Röddin svarar, og er nú enn raunalegri en áður, og þó blíðari: "Þú mátt skila til hans," segir hún, "að eg skuli alt af elska hann. Það er eina vonin, sem eg get gefið honum."

Davíð hafði brölt upp á kné í kerrunni. En þegar hann heyrði þessi síðustu skilaboð, tók hann rögg á sig, rykti sér upp, og stóð alt í einu beinn. Hann ætlar að þrífa í eitthvað, en það svífur burt út úr höndunum á honum, enda voru þær bundnar. Hann gat ekki vel greint þetta, en það var eitthvað skínandi bjart, og eftir á fanst honum, að aðra eins fegurð hefði hann aldrei augum litið. – Hann langar til að slíta sig lausan, og elta þetta, sem flúði út úr höndunum á honum. En þá kom á hann eins konar herfjötur, og reyrði hann fastan, rammlegar en nokkur bönd geta reyrt.

Það var ástin, sem þannig náði nú tökum á honum aftur, eins og áður við banasæng Jódísar. Það var ást andanna; en í sambandi við hana er jarðnesk ást eins og svipur hjá sjón. Hún hafði verið að grafa um sig í honum, eins og eldur, sem er að magnast í kolagröf; enginn sér aðfarir hans, fyr en blossunum fer að bregða upp við og við; þá eru kurlin vel á veg komin að verða alelda.

Það var þess konar blossi, sem gaus upp í sál Davíðs. Það var ekki eldur, sem lýsir með tærum loga, en þó birti Davíð svo fyrir augum, að honum auðnaðist að sjá Jódísi, og hann sá hana svo himinfríða, að hann varð að hníga niður lémagna, og dirfðist ekki að koma nær henni, vildi það ekki og gat ekki fengið það af sér.

VIII.

Helreiðin mjakaðist áfram í niðamyrkri. Á báðar hliðar er þykkur skógur og hár, og stígurinn svo þröngur, að ekki sér til lofts. Klárinn virðist fara þar enn hægara en ella, hjólatístið lætur enn ver í eyrum, huganum svíður enn sárara, örvæntingin verður enn átakanlegri í dauðakyrð skógarins. Alt í einu tekur Grímur í taumana, stöðvar skrapatólið sitt og segir hátt og snjalt:

"Hvað eru allar þrautir, sem eg þoli, og hvað er alt það böl, sem kann að biða mín, í samanburði við það lán, að eg er nú ekki lengur í óvissu um það eina, sem vert er að vita. Eg þakka þér, Guð minn, að eg er kominn út úr myrkri jarðneska lífsins. Eg lofa þig og vegsama í allri minni eymd, því að nú veit eg, að þú hefir sæmt mig gjöf eilífs lífs."

Kerran skrönglaðist aftur á stað. En orð Öku-Gríms hljómuðu lengi á eftir í eyrum Davíðs. Og þetta var í fyrsta sinn, að hann kendi ofurlítið í brjósti um gamla lagsmanninn sinn. "Hann er hraustur maður", hugsaði Davíð, "hann barmar sér ekki, þó að hann eigi þess enga von, að verða leystur frá starfi sínu."

Þetta varð langt ferðalag og virtist aldrei ætla að taka enda.

Þegar þeir höfðu ferðast langa lengi, og Davíð hugði að þeir hefðu verið að minsta kosti sólarhring á leiðinni, þá komu þeir út á víða velli. Himininn var orðinn heiður, tunglið skein glatt og stóð mitt á milli fjósakarlanna og sjöstjörnunnar.

Klárinn þumlungaðist á þremur löppunum yfir sléttuna, hægt og sigalega. Þegar þeir loksins voru komnir yfir hana, leit Davíð upp og ætlaði að gá að, hvað tunglinu hefði miðað áfram. Þá sá hann, að því hafði alls ekkert miðað, og varð hvumsa við.

Þeir héldu áfram. Við og við leit Davíð upp, og sá alt af, að tunglinu þokaði ekki um þumlung. Það var enn þá mitt á milli fjósakarlsins og sjöstjörnunnar.

Nú mintist hann og þess, að aldrei hafði hann séð birta af degi og aldrei kvelda síðan hann lagði af stað, þó að honum fyndist tíminn lengri en sólarhringur.

Þeir óku og óku, stundunum saman, að því er Davíð fanst. En vísirinn á stundaklukku tímans stóð grafkyrr.

Hann hefði verið til með að trúa því, að stundaklukka veraldarinnar stæði. En þá mundi hann eftir því, að Grímur hafði sagt honum, að tíminn væri teygður og þaninn, svo að hann entist ökumanninum til þess að vitja allra þeirra, sem honum var ætlað. Og þá fór honum að skiljast það, að sá tími mundi ekki vera nema fáein augnablik, eftir tímatali mannanna, sem honum væri dægur, eitt eða fleiri.

Á æsku-árum hafði Davíð heyrt þess getið, að einu sinni hefði maður nokkur dvalið um tíma í bústöðum sælla anda. Þegar hann kom aftur, til mannheima, hafði hann sagt að hundrað ár í himnaríki væru ekki lengur að líða en einn dagur á jörðu.

Hver veit nema einn dagur í Helreiðinni sé aftur jafnlengi að líða og hundrað ár á jörðu. Davíð blöskraði þessi hugsun. Og í annað sinn fór hann að kenna í brjósti um Grím og hugsaði með sér: "Ekki er furða, þótt hann langi til að losna. Langt hefir árið verið honum."

Leiðin lá upp eftir hárri hæð. Þá sáu þeir mann á ferð á undan sér, og fór hann svo hægt, að þeir náðu honum. Þetta var þá gömul kerling, hrum og hokin og staulaðist, þó bar hún böggul allþungan, og lá við sjálft, að hann riði slig á hana í hverju spori.

Svo var að sjá, sem gamla konan kæmi auga á Helreiðina, því að kerling vék úr vegi og staldraði við, þegar kerran náði henni. Síðan greikkaði hún sporið lítið eitt og gekk um stund samsíðis kerrunni og skoðaði hana í krók og kring.

Það leyndi sér ekki í glaða-tunglsljósinu, að hesturinn var eineygð bikkja, aktygin stagbætt með snærisspottum og tágum, og kerran sjálf öll af göflum gengin, og hjólin skjögrandi svo sem þau mundu þá og þegar liðast frá.

Kerling tautaði fyrir munni sér og ætlaðist ekki til að ökumennirnir heyrðu. "Það er furða," segir hún, "að nokkur maður skuli geta fengið af sér, að aka í þessu skrifli og beita þessari bikkju fyrir. Eg var búin að hugsa mér, að biðja þá að kippa mér upp dálítinn spöl, en hér sýnist mér ekki vera á bætandi, hvorki á hest né kerru."

En Grímur hafði heyrt, hvað hún var að tauta, vék sér að henni og tók svari akfæranna sinna.

"Þau eru ekki svo léleg, sem þú heldur, kelli mín," segir hann, "hvorki hesturinn, né kerran." Með þessum tækjum hefi eg ekið um ólgandi höf og háreistar öldur, þar sem mörgu góðu skipi var grandað, en geiglaust var það mér og mínum tækjum."

Kerling varð hálf-hvumsa; en henni datt í hug að karlinn væri að gera að gamni sínu, og lét ekki standa á svarinu.

"Vera má, að svo sé," segir hún, "að tækin þín séu betri í sjó að leggja, en á landi að aka, því að hér sýnist mér talsvert vandhæfi á. því, að koma þeim áfram."

"Eg hefi ekið um snarbrött námugöng, niður í iður jarðar," segir Grímur, "og aldrei hefir hestur minn hrasað. Eg hefi ekið um borgir, sem stóðu í björtu báli; þar var inn að koma, sem í ofn glóandi, og eldur á allar hliðar. En klárinn minn deplar ekki auganu, þó að hann sæki lengra fram móti eldi og eimirju, en nokkurt brunalið hefir nokkuru sinni sótt."

"Þú hefir gaman af því, maður minn," segir kerling, "að gera gys að gamalli konu."

En Grímur lét dæluna ganga. "Stundum hefi eg liðið yfir hæstu fjöll," segir hann, "þar sem enginn ruddur vegur er til. Og klárinn minn hefir klifrað upp og ofan hamra og hengiflug, og kerran hefir ekki bilað, þó að hún hafi ekki haft á öðru að velta, en urð og grjóti. Eg hefi ekið um fen og foræði, þar sem engin þúfa var svo föst fyrir, að barn mætti fóta sig á. Eg hefi ekið í lausamjöll, mannhæðar djúpri. Það hefir ekki staðið fyrir mér. Mér, finst eg ekki þurfa að kvarta undan farartækjum mínum."

"Ekki skal mig kynja," segir kerling, "þótt þú sért ánægður, ef alt er svo sem þú segir. Þú ert sjálfsagt líka einhver berserkur, úr því þú átt þessi afbrigði farartækja."

Grímur svarar, og er alvarlegur og fastmæltur. "Eg hefi máttinn og valdið yfir mannanna börnum," segir hann. "Þau verða að láta undan mér, hvort sem þau búa í höllum eða hreysum. Eg gef þrælum lausn, og steypi konungum af stóli. Ekkert vígi er svo ramgert, að það standi fyrir mér. Ekkert mannvit er svo mikið, að því hafi tekist að stemma stigu fyrir mér. Eg kollvarpa þeim, sem ugglausir sitja í allsnægtum, og fátækum mönnum, sem ekki hafa málungi matar, gef eg arf og eignir."

"Svo var, sem mig grunaði, að þar væri manni að mæta sem þú ert," segir kerling, og hló. "En ekki vænti eg, að þú viljir nú lofa mér uppí til þín, lítinn spöl, úr því að þú ert svo mikill maður og átt þennan ágætavagn? Eg ætlaði að finna dóttur mína á gamlársdag, en fór afvega og tafðist, býst við að verða nú að ganga í alla nótt, nema þú liðsinnir mér."

"Ekki skaltu biðja mig þess," segir Grímur; "þér er betra að ganga veginn, en aka með mér."

"Eg er nú ekki frá því," segir kerling. "Sannast að segja, held eg, að hesturinn hneyktist, ef mér væri bætt á. En hitt væri það, að eg legði böggulinn minn uppí kerruna. Það er ekki til mikils mælst."

Hún beið ekki eftir leyfi, en fleygði bögglinum upp í. En það var engu líkara en því, að hún hefði lagt böggulinn í reykjarmökk, eða þokubólstur, því að hann féll viðstöðulaust til jarðar.

Í sama bili hlýtur hún að hafa mist ófreskisgáfuna, því að hún hímdi þarna á veginum, vandræðaleg og skalf á beinunum, og bar ekki við að ávarpa kerrumanninn einu orði upp frá því.

Davíð hafði heyrt alt samtalið; og bætti það enn um fyrir Grími. "Sá hefir nú ratað í ýmislegt," hugsaði Davíð, "og ekki skal mig kynja, þó að hann sé orðinn ráðsettari, en hann var."

IX.

Nú er þar til að taka, er þeir Grímur og Davíð eru komnir inn í sal nokkurn. Þar voru gluggar hátt frá gólfi, og járngrindur fyrir; veggir alauðir; á þá var ekkert hengt upp til prýði. Meðalalykt nokkur var þar inni. Með fram öðrum hliðveggnum stóðu nokkur rúm; öll voru þau auð, nema eitt og hjá því situr maður í einkennisfötum fangavarðar. Af þessu réði Davíð, að nú væri hann kominn í sjúklingasal í einhverju fangelsi.

Rafmagnslampi hékk niður úr loftinu. Við birtuna af honum sér hann, að í rúminu liggur ungur maður, fríður sýnum, en grindhoraður. Óðara en Davíð kom auga á hann, gleymdi hann því alveg, að dálítið var farið að draga saman með þeim Grími. Nú var hann þess albúinn, að slást upp á hann með sömu heiftarreiði og áður.

"Hvaða erindi átt þú hingað?" segir hann. "Það skaltu vita, Grímur, að ef þú leggur nokkuð til hans, sem þarna liggur, þá erum við fjandmenn upp frá því."

Grímur leit við honum, og var auðséð, að hann kendi í brjósti um Davíð, en var ekkert reiður.

"Nú skil eg, Davíð minn, hver það er, sem þarna liggur," segir Grímur. "Eg vissi það ekki, þegar við komum hingað."

"Hvort þú vissir það, eða ekki," segir Davíð, "það varðar mig ekkert um. En það vil eg að þú skiljir, Grímur..."

Hann þagnaði alt í einu. Grímur hafði bandað til hans með hendinni. Það dugði; svo mikil ógn stóð af honum, að Davíð þorði ekki að æmta né skræmta.

"Við, báðir tveir, eigum ekki annars úrskosti, en að hlýða og vera þægir," segir Grímur. "Þú átt einskis að óska né krefjast. Þú átt að þegja og bíða eftir vísbendingum; það er alt og sumt."

Að svo mæltu dró Grímur hettuna fyrir andlitið, til merkis um, að hann ætlaði ekki að eyða fleiri orðum við Davíð. Varð þá þögn þeirra í milli. En Davíð heyrir, að sjúklingurinn er farinn að tala við fangavörðinn.

"Haldið þér," segir hann, "að eg geti aftur orðið maður með mönnum?" og var engin hrygð né ólund á honum að heyra.

"Mikil ósköp, eg held nú það," segir fangavörðurinn vingjarnlega, en þó var ekki auðheyrt á honum, hvort hugur fylgdi máli. "Þú þarft ekki annað en hressa þig dálítið upp og losna við sótthitann."

"Þér vitið, að eg er ekki að hugsa um heilsuna," segir sjúklingurinn. "Mig langar til að vita, hvort þér haldið, að eg eigi viðreisnar von. Það var víst hæpið um mann, sem uppvís var orðinn að manndrápi."

"Það gengur vel fyrir þér, vona eg," segir fangavörður, "því þú átt eitthvert athvarf. Að minsta kosti hefirðu látið það á þér heyra, að þú vitir af einum stað, þar sem vel verði tekið við þér."

Sjúklingurinn brosir unaðslega út undir eyru, og segir síðan:

"Hvernig leizt lækninum á mig í kveld?"

"Engin hætta á ferðum, engin hætta. Læknirinn segir alt af þetta sama: 'Ef eg hefði hann undir hendi einhvers staðar utan þessara steinveggja, þá skyldi honum ekki vera lengi að batna'."

Sjúklingurinn þenur út brjóstið og sogar að sér loftið, og segir í hálfum hljóðum: "Já, utan þessara steinveggja!"

"Þetta er það, sem læknirinn er vanur að segja við mig," segir fangavörðurinn. "En heyrðu, Hólm, þú mátt ekki taka það svo, sem hann sé að gefa þér undir fótinn, að þú skulir strjúka frá okkur, eins og þú gerðir í fyrrahaust. Þú veizt, að það væri ekki til annars en að teigja tímann."

"Ekki þurfið þér það að óttast," segir sjúklingurinn. "Eg er nú orðinn skynsamari, en eg var þá. Nú er mér það eitt í hug, að ljúka mér hér af sem fyrst, og síðan byrja eg nýtt líf."

"Það segir þú satt; það verður nýtt líf," segir fangavörðurinn, og var nú hátíðlegur í máli.

Meðan þessu fór fram, tók Davíð meira út, en sjúklingurinn sjálfur og bar sig miklu ver. Hann iðaði allur af óþreyju og angist. "Þeir hafa látið hann sýkjast hér í fangelsinu. Og nú er úti um hann – hann, sem var svo fríður, og hraustur, og glaðlyndur!" Á þessu stagaðist Davíð við sjálfan sig.

Sjúklingurinn tók aftur til máls: "Hafið þér ekki tekið eftir..." segir hann, en þá verður honum litið á fangavörðinn og þykist sjá á honum einhvern misþokka eða óþolinmæði, og spyr skyndilega: "Það kann að vera á móti reglugerðinni okkar, að eg masi svona mikið, eða hvað?"

"Nei, nei; í nótt máttu masa eins og þú vilt."

"Í nótt..." segir sjúklingurinn og hugsar sig um. "Jæja, má eg það vegna þess eins, að nú er nýársnótt?"

"Já," segir fangavörðurinn, "einmitt vegna þess, að nú er þér að renna upp gott nýtt ár."

"Karl-hjassinn situr þarna og veit, að bróðir minn deyr í nótt. Það kemur ekki til af góðu, að hann er svona eftirlátur við hann," segir Davíð, og hann tók það sárt, að geta nú ekkert aðhafst.

Sjúklingurinn hafði nú aftur upp spurninguna, sem hann hvarf frá áður: "Hafið þér ekki tekið eftir því, að breyting sé orðin á mér, síðan eg strauk forðum? Þér hafið ekki haft neina mæðu af mér síðan, eða hvað?"

"Nei, þú hefir verið eins og lamb síðan. Eg hefi ekkert haft út á þig að setja. En eg segi þér samt, til vonar og vara, eins og áður: Gerðu það ekki aftur."

Sjúklingurinn brosir. "Viljið þér ekki vita," segir hann, "hvernig á þessari breytingu stendur? Þér hafið ef til vill hugsað, að hún stafaði ekki af öðru en því, hve veikur eg varð eftir flóttann?"

"Já, við ímynduðum okkur eitthvað þess konar," segir fangavörðurinn.

"En það kom alls ekki til af því. Orsökin var alt önnur. Eg hefi aldrei þorað, að tala um það fyr, en nú í nótt vildi eg feginn mega segja yður frá því."

"En nú er eg reyndar orðinn hræddur um, að þú talir of mikið," segir fangavörðurinn, en hann sér þegar hrygðarsvip á sjúklingnum, tekur sig því á. "Ekki svo að skilja," segir hann vingjarnlega, "að mér leiðist að heyra þig tala, en þú mátt sjálfur ekki við því."

"Þótti ykkur ekki kynlegt," segir sjúklingurinn, "að eg skyldi koma aftur sjálfkrafa? Enginn hafði neitt veður af því, hvar eg ól manninn. En eg labbaði upp á lögregluskrifstofu og sagði til mín sjálfur. Hvað haldið þér, að mér hafi gengið til, að fara svo skrítilega að ráði mínu?"

"Við héldum auðvitað, að þú hefðir átt svo illa æfi, að þér hefði þótt skárra að koma aftur."

"Satt er það, að mér leið illa fyrstu dagana. En eg var í burtu þrjár vikur samfleytt. Hélduð þið allir, að eg hefði legið úti á regin-skógum allan þann tíma, og það um hávetur?"

"Við máttum til að trúa því, því að þú sagðir okkur sjálfur, að svo hefði verið."

Það leyndi sér ekki, að sjúklingurinn hafði dæmalaust gaman af að rifja þetta upp. "Stundum verður að telja háyfirvöldunum trú um annað eins og þetta, til þess að koma ekki öðrum í bobba. Það er sjálfsögð skylda, eins og þér sjáið sjálfur. Þeir, sem hafa haft þrek í sér til þess að taka við strokumanni og gera honum gott, þeir eiga skilið alt hið bezta, sem unt er að láta þeim í té. Eruð þér ekki á sama máli um það?"

"Nú spyr þú um meira, en eg megi svara," segir fangavörðurinn, og er jafn-góðlátlegur og áður.

Sjúklingurinn varpar öndinni mæðilega og segir með mikilli áhyggju, "Það vildi eg, að mér entist líf og heilsa til þess að komast þangað aftur! Það var fjölskylda, sem átti heima rétt við skógar-jaðarinn."

Hann þagnaði og barðist við að ná andanum. Fangavörðurinn horfir á hann; honum verður órótt, og hann þrífur meðalaglas, en sér að það er tómt. Þá stendur hann upp og segir: "Eg verð að sækja viðbót af þessu," og gengur út síðan.

Óðar en hann var genginn út, settist Grímur í sætið hans við rúmstokkinn. Hann faldi ljáinn sinn, svo að sjúklingurinn sæi hann ekki, og bretti upp hettuna.

Davíð getur nú ekki af sér borið, og barmar sér eins og barn, þegar hann sér voðagestinn koma svo nærri bróður sínum. En bróðir hans bregður sér ekki hót. Hann liggur með mikilli ólgu í blóði, og tekur ekki eftir mannaskiftunum, sem orðin eru á stólnum hjá rúmi hans, veit ekki betur, en að fangavörðurinn sitji þar kyrr, og fer að tala við hann aftur, en verður að taka sér hvíld við hvert orð.

"Það var ofurlítið hús," segir hann.

"Þú ættir ekki að reyna það á þig, að tala," segir Grímur. "Yfirvöldin hérna vita það alt út í æsar, sem þú býr yfir, þó að við höfum ekkert látist vita."

Sjúklingurinn hvessir augun; hann rekur í roga-stanz.

"Þú rekur upp stór augu," segir Grímur. "Bíddu við, þú skalt fá að heyra. Heldurðu að við vitum ekki um flóttamanninn, sem kom eitt kveld að litlum kofa, og laumaðist inn? Það var yzta húsið í bænum, og hann hélt, að þar væri enginn heima. Hann hafði legið lengi í skógarjaðrinum og beðið eftir því, að húsfreyjan færi að heiman. Húsbóndinn þóttist hann vita, að vera myndi einhversstaðar við útivinnu, og barna hafði hann ekki orðið var. Loksins gekk húsfreyja út, með mjólkurfötu í hendi. Flóttamaðurinn tók eftir, hvar hún stakk lyklinum, og skauzt inn."

"Hvernig veit fangavörðurinn þetta?" segir sjúklingurinn, og reis nærri því upp í rúminu af undrun.

"Ligðu rólegur, góði minn", segir Grímur einstaklega góðlátlega. "Þú skalt ekki vera hræddur við vini þína! Við erum menn, fangaverðirnir hérna, ekki síður en aðrir. Nú ætla eg að segja þér áfram, það sem eg kann af sögu þinni. – Þegar nú flóttamaðurinn var kominn inn, brá honum í brún, því að húsið var ekki mannlaust, eins og hann hafði ætlað. Þar lá veikt barn í stóru rúmi við annan vegginn, og starði á hann. Hann gekk nær, í hægðum sínum, en þá lét barnið aftur augun og lá, kyrt eins og liðið lík. 'Af hverju liggur þú í rúminu um hádaginn?' segir komumaður; 'er þér ilt?' En barnið bærði ekki á sér. 'Þú þarft ekki að vera hræddur við mig', segir hann; 'þú þarft ekki annað en segja mér, hvernig eg geti fengið mér matarbita, þá skal eg óðara hafa mig á burt.'

"Barnið lá grafkyrt og svaraði engu. Þá dró komumaður strá út úr heysænginni, og kitlaði barnið með því fyrir neðan nefið. Barnið fór að hnerra, og þá hló komumaður. Barnið leit fyrst upp stórum augum, en rak síðan upp hlátur líka. 'Mér datt í hug, að látast vera dauður,' sagði það. 'Já, eg þóttist sjá það,' segir komumaður, 'en til hvers varstu að því?' Hefirðu ekki heyrt það,' segir barnið, 'að ef þú mætir bjarndýri úti í skógi, þá áttu að leggjast niður og látast vera dauður; Þá fer bjarndýrið að grafa gröf til að jarða þig í, og á meðan geturðu skotist undan.' Komumaður roðnar. 'Jæja,' segir hann, 'þú hefir þá haldið, að eg mundi fara burt og fara að taka gröfina að þér?' 'Já, en það er vitleysa af mér,' segir barnið, 'því að eg hefði ekki komist undan, hvort sem var. Eg er bagaður í mjöðminni, svo að eg er ekki rólfær'."

Sjúklingurinn í fangelsinu vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið, og var alveg forviða.

"Viltu ekki láta mig segja söguna lengri?" spyr Grímur.

"Jú, eg vil feginn heyra hana; mér þykir gaman að rifja upp einmitt það, sem þarna gerðist. En eg skil ekkert í..."

"Æ, það er ekkert merkilegt við það; það var flakkari, sem hét Grímur; þú hefir sjálfsagt einhvern tíma heyrt hans getið. Hann komst að sögunni einhvern tíma þegar hann var á ferð, og hann hefir borið hana út; þannig komst hún líka hingað í fangelsið."

Nú féll talið niður stundarkorn, þangað til sjúklingurinn spyr, með veikum mætti; "Hvernig fór svo fyrir strokumanninum og barninu?"

"Það skal eg segja þér. 'Hann fór aftur að biðja um mat, og segir: 'Kemur það ekki stundum fyrir, að fátæklingar komi hér við og biðji um mat?' segir hann. 'Ójú, víst ber svo við stundum,' segir barnið. 'Og er þá ekki mamma þín vön að víkja einhverju að þeim?' 'Jú, ef hún á eitthvað til, þá gefur hún það.' Þarna sérðu; segir strokumaður; 'það er ekkert annað, sem eg er að fara fram á. Eg er ekki annað en fátækur ræfill, sem kem til að biðja að gefa mér að borða. Vísaðu mér nú á eitthvað matarkyns; þá skal eg ekki taka meira en eina fylli mína.' – Barnið horfði á hann dálítið hróðugt og íbyggið, og segir: 'Þegar mamma fór út, mundi hún eftir strokumanninum, sem sagt er að sé á flangri hér um skóginn. Þess vegna lét hún allan mat inn í skápinn og læsti aftur.' – 'En sástu þá ekki, hvar hún lét lykilinn, svo að þú getir vísað mér á hann. Annars neyðist eg til að stinga upp skápinn?' – 'Það er nú hægra sagt en gert,' segir barnið. 'Þeir eru nokkuð vel læstir, skáparnir okkar.'

"Komumaður tók til að leita um alt að lyklinum. Hann gáði í borðskúffuna og í kringum eldstóna, en fann engan lykil. Á meðan settist barnið upp í rúminu og fór að horfa út um gluggann. Alt í einu kallar það upp: 'Hér eru menn að koma; mamma kemur með heilan hóp manna með sér.' Strokumaðurinn brá við skjótt og hentist út að dyrum. Barnið kallar til hans og segir: 'Ef þú hleypur út, lendirðu beint í flasið á þeim. Þér væri betra að fela þig í skápnum okkar.' Strokumaður hikaði. 'Vera má, að svo sé, en þú veizt,' segir hann, að eg fann ekki lykilinn að skápnum.' – 'Hér er hann,' segir barnið og réttir fram höndina með lykli í lófanum.

"Strokumaður tók við lyklinum, hljóp að skápnum og lauk upp. 'Fleygðu nú aftur í mig lyklinum,' segir barnið, 'og skeltu svo hurðinni í lás á eftir þér.' Hann hlýddi, og var að vörmu spori horfinn í skápinn og hurðin skelt í lás.

"Ekki var trútt um, að hjartað berðist í brjósti honum, þar sem hann húkti nú inni byrgður og heyrði til sporhundanna, sem voru á hælum honum. Fyrst heyrði hann að útidyrnar opnuðust, og inn komu margir menn. Því næst heyrði hann konurödd segja hátt og hvelt: 'Hefir nokkur komið hingað?' 'Já,' segir barnið, "hér kom maður, þegar þú varst nýfarin út, mamma' Konan hljóðaði upp yfir sig: 'Guð hjálpi mér', segir hún, 'þá hefir það satt verið, sem þeir sögðu, að þeir hefðu séð hann skjótast hingað úr skóginum.'

"Skápbúi bölvaði í huga sér barninu, sem hann hugði að nú væri að svíkja hann; þarna hefði þessi litli hrekkjalómur gint hann inn í gildru. Hann var að því kominn, að sprengja upp hurðina, gera útrás, ef vera kynni, að hann gæti rutt sér braut. Þá heyrir hann einhvern spyrja, hvert strokumaðurinn sé nú farinn, og barnið svarar skýrum róm: 'Nú er hann allur á brott héðan. Honum skaut skelk í bringu, þegar hann sá ykkur koma.'

'Tók hann ekkert?' segir húsfreyja. – 'Nei, hann bað um mat, en eg hafði ekkert að gefa honum.' – 'Og gerði hann þér þá ekkert heldur?' – 'Jú, hann kitlaði mig á efri vörinni með hálmstrái,' sagði barnið og skellihló. – 'Nú gerði hann ekki annað en það?' sagði húsfreyja og lét sefast, og hló líka.'

'Ekki skulum við standa hér lengur og glápa á veggina, úr því að hann er á brott,' heyrist einhver segja af komumönnum, og því næst er gengið til dyra. Rétt á eftir heyrist einhver segja: 'Jæja, ætlar þú að verða eftir heima, Helga mín?' – 'Já, eg fer ekki aftur frá honum Vernharði mínum þennan daginn.'

"Skápbúi heyrir því næst, að lokum er hleypt fyrir útidyrahurð, og honum skilst, að nú séu þau ein eftir inni mæðginin. 'Hvað skyldi nú verða um mig?' hugsaði hann. 'Á eg nú að bíða átekta, eða reyna að komast undan?' En þá heyrir hann, að gengið er að skápnum og sagt: 'Láttu þér ekki bregða, þú, sem þarna ert inni; en komdu út, svo að eg megi hafa tal af þér.' Og lyklinum er stungið og lokið upp hurðinni. Hann skreiddist út, heldur uppburðalítill, og segir við húsfreyju: 'Það var drengurinn þarna, sem leyfði mér að fela mig hér,' og hann benti á barnið.

"Vernharði litla þótti heldur en ekki gaman að þessu æfintýri, hann hló og klappaði saman lófum. En mamma hans sagði: 'Hann er að verða slóttugur, drengurinn sá arna; hann liggur svona lon og don – því er það – og er einn um hugsanir sínar. Eg fer að eiga fult í fangi með hann?' Heyra mátti, að hún var hróðug af drengnum. – Strokumanninum skildist svo, sem hún mundi ekki selja hann fram, fyrir þá sök, að drengurinn hafði skotið skjólshúsi yfir hann.

'Já, það er víst satt og rétt,' segir hann. 'Hann gerir þeim skömm til, mörgum hverjum, sem heilfættir eru. 'Eg skal segja þér, að eg kom hingað til að útvega mér ögn að eta, en eg náði ekki í neitt; það var ekki við það komandi, að drengurinn léði mér lyklana. – Húsfreyju þótti hólið gott um drenginn, og skildi til hvers mælt var. 'Eg skal þá gefa þér eitthvað í bráðasta sultinn,' segir hún.

Strokumaður tók til matar síns, en drengurinn tók að spyrja hann spjörunum úr. Strokumaður var greiður í svörum, og sagði alt af létta um flóttann, frá upphafi til enda. Hann kvaðst ekki hafa ráðið það með sér fyrir fram, að strjúka, heldur hefði hann alt í einu neytt færis, er bauðst einu sinni, þegar hann var að vinna niðri í dýflissu-garði og hliðið hafði verið opnað til þess að aka inn kolahlassi. Vernharður spurði og spurði, vildi alt af fá meira og meira að vita um það, hvernig gengið hefði að komast undan, fyrst gegn um allan bæinn og síðan út í skóginn. – Við og við hafði strokumaður orð á því, að hann ætti að fara að hafa sig á burtu, en það mátti Vernharður ekki heyra nefnt. Og móðir hans tók í sama strenginn. 'Þú getur alveg eins setið hér í kveld og spjallað við Vernharð,' segir hún. 'Það eru svo margir menn á kreiki til þess að snuðra eftir þér, að þú verður víst tekinn, hvort sem þú bíður hér eða laumast burt.'

"Og það varð úr, að hann sat kyr, og sagði sögur af sér, fram í rökkur. Þá kom húsbóndinn heim. Af því að skuggsýnt var inni, hélt hann fyrst, að það væri einhver af kunningjum þeirra, sem kominn væri og sæti á tali við drenginn. 'Ert þú þarna, Pétur, að segja Vernharði mínum sögur?' segir hann. – Drengurinn rak upp hlátur; það lá svo einstaklega vel á honum. 'Nei, pabbi,' segir hann. 'Það er ekki hann Pétur. Hér er nú annað betra efni. Komdu hérna, þá skal eg segja þér það.' Bóndi gekk að rúminu, en fékk enga úrlausn málsins fyr en hann lagði eyrað niður að vörum drengsins. Þá hvíslaði hann að pabba sínum: 'Það er strokumaðurinn.' – 'Hvað ertu að segja, Vernharður! Hvaða bull er í þér!' segir bóndi. – 'Það er eins satt og eg er hérna," segir drengurinn. 'Hann er búinn að segja mér alt um það, hvernig hann stalst út um dýflissuhliðið, og lá síðan úti þrjár nætur í eyðikofa úti í skógi. Eg kann alla söguna.'

"Húsfreyja kveikti ljós í snatri, og bóndi leit til komumanns. En hann var staðinn upp og hélt sig í námunda við hurðina. 'Þið verðið að skýra mér frá öllum málavöxtum,' segir bóndi. Og mæðginin tóku til frásagnar, hvort í kapp við annað. Bóndi var gamall maður, gætinn og greindarlegur að sjá. Hann virti strokumanninn fyrir sér gaumgæfilega, og hugsaði með sjálfum sér: 'Eg er handviss um, að hann er fárveikur, aumingja maðurinn. Ef hann liggur úti eina nótt enn í skógarkofanum, verður það hans bani.'

"Þegar mæðginin höfðu lokið frásögn sinni, tók bóndi til máls: 'Margir leika þeir lausum hala, sem mér sýnast hættulegri en þú,' segir hann, 'og dettur þó engum í hug að hafa hendur í hári þeirra.' 'Eg er ekki heldur neinn háskagripur í raun og veru,' segir strokumaðurinn; 'en eg var reittur til reiði, þegar eg var drukkinn.' – Bóndi vildi ekki láta hann tala meira um þetta, svo að Vernharður litli heyrði, og tók því fram í fyrir honum. 'á, eg átti von á því', segir hann, 'að það hefði atvikast einhvern veginn á þá leið.' Og þar við féll talið niður.

"Bóndi hugsaði málið, en hin horfðu á hann með mikilli áhyggju; ekkert þeirra dirfðist að leggja honum ráð. Loksins víkur, hann sér að konu sinni og segir: 'Mér fer eins og þér. Úr því að barnið okkar á annað borð tók hann að sér, þá get eg ekki úthýst honum.'

"Það var þá afráðið, að flóttamaðurinn skyldi fá þar að vera næturlangt, en fara snemma morguninn eftir. En daginn eftir var hann altekinn af sótt, og tók ekki höfuðið af koddanum. Þannig atvikaðist það, að hann varð þar kyr, og liðu svo nokkrar vikur."

Þegar hér var komið frásögn Gríms, er flóttamaðurinn ílengdist í bóndakofanum, þá var ekki líkt á komið með þeim bræðrum, er á söguna hlýddu, sjúklingnum og Davíð. Sjúklingurinn lá kyr, í ró og værð, og virtist vera þjáningalaus, en hafa allan hugann við liðnar stundir og ljúfar. En Davíð var enn fullur tortrygni og grunaði Grím um einhver svik í tafli. Hvað eftir annað reyndi hann að gera bróður sínum bendingu um það, að hann skyldi ekki liggja svo ugglaus og óvar um sig.

Grímur hélt áfram sögunni: "Læknis þorðu þau ekki að vitja, og ekki þótti þeim heldur óhætt, að sækja neitt í lyfjabúð. Gesturinn þeirra varð að fara alls þess á mis. Þegar til mannaferða sást, og einhver sýndist ætla að koma inn, gekk húsfreyja til dyra, og lét þess getið, að Vernharður litli hefði fengið einhver torkennileg útbrot um hörundið, hún væri ekki óhrædd um, að úr því kynni að verða flekkusótt, og þá væri ábyrgðarhluti að hleypa nokkrum manni inn.

"Eftir nokkrar vikur var gesturinn orðinn skriðknár. Þá fór hann að hugsa með sér, að nú mætti hann ekki vera lengur á þessu góða heimili; það væri fátækt, og hann mætti fyrir engan mun vera því lengur til þyngsla; nú yrði hann að fara.

"En um sama leyti tók heimafólkið að ympra á nokkru við hann, sem honum féll þungt. Það atvikaðist á þá leið, að Vernharður spurði hann einu sinni, hvað hann ætlaði fyrir sér, þegar hann færi þaðan. 'Sjálfsagt út í skóg aftur,' hafði hann svarað. Þá tók húsfreyja til orða og segir: 'Það er lítið vit í því fyrir þig, skal eg segja þér, að leggjast nú aftur út á óbygðir. Ef eg væri í þínum sporum, skyldi eg reyna að gera upp reikninginn við "réttvísina". Það hlýtur að vera auma lífið, að láta elta sig um merkur og skóga eins og villidýr.' – 'Það er líka auma lífið, að sitja inni stengdur', segir hann. – 'Já', segir hún, 'en ef ekki verður hjá því komist, þá er illu bezt af lokið'. – 'Eg átti ekki mjög langt eftir, þegar eg hljóp á brott', segir hann, 'en nú verður tíminn líklega lengdur'. – 'Já, það var ljóta flanið, þetta brotthlaup þitt', segir húsfreyja. – 'Nei', segir hann, 'það er það bezta, sem eg hefi gert á minni æfi', og leit til Vernharðar og brosti. Drengurinn hló við honum og kinkaði kolli. Mikil gersemi er þetta barn, hugsaði gesturinn og óskaði þess að mega taka það upp úr rúminu og leggja það á herðar sér, þegar hann færi, og aldrei við það skiljast.

"Ekki verða ykkur Vernharði mörg færi gefin til að finnast hér eftir', segir húsfreyja, `ef þú ætlar þér að vera útlagi alla æfi'. – 'Og ekki verða færin þau fleiri, ef eg sit inni stengdur', segir hann.

"Bóndi sat við eldinn. Hann tók nú til orða með þeirri hægð og gætni, sem honum var lagin. `Góð hefir okkur þótt hérvist þín', segir hann; en nú getum við ekki leynt þér lengur fyrir nágrönnum okkar, þegar þú ert á fótum og á ferli. Það væri annan mál, ef hegningartími þinn væri út runninn eins og lög gera ráð fyrir'. – Sá grunur greip gestinn, að hjónin vildu láta hann ganga sjálfkrafa í greipar lögreglunni, til þess að þau slyppu úr öllum klípum. Hann svaraði því: 'Eg er nú orðinn svo hress, að eg get farið burt á morgun'. – 'Ekki voru það mín tilmæli', segir bóndi, `en hitt er það: ef þú værir frjáls maður, þá vildi eg bjóða þér að vera hér og aðstoða okkur við búhokrið'.

"Strokumanninn setti hljóðan. Hann vissi það hve erfitt þeim er að koma sér í vist, sem nýsloppnir eru úr hegningarhúsi; hann komst því við, er honum voru gerðir svo góðir kostir. En honum hrylti við að hverfa aftur til fangelsisins.

"Þetta sama kveld var Vernharður í lasnara lagi. Gesturinn spurði, hvort ekki ætti að koma honum á sjúkrahæli til hjúkrunar. `Hann hefir verið þar mörgum sinnum. En þeir segja alt af þar, að það sé ekki til neins; hann þurfi að komast í baðstað við sjó; sölt sjóböð séu það eina, sem við eigi. En hverjir hafa efni á því?' – `Væri það afar-löng ferð?' segir gesturinn. – `Það er sök sér um ferðina, en allan kostnaðinn til fæðis og húsnæðis – hvar ætti að taka hann?' – `Já, auðvitað er það engin leið', segir hann, og á meðan lofaði hann huganum að leika sér að þeim vonum, að einhvern tíma kynni hann að verða sá maður, að geta lagt Vernharði fé til fararinnar.

"Eftir stutta stund víkur hann aftur að því, er bóndi hafði áður á minst, eins og hann vildi sannprófa, hvort það væri af alhuga talað. 'Það leikur sér víst enginn að því, að ráða sér hjú beint úr betrunarhúsinu.' – 'Ekki skal standa á því', segir bóndi. 'En þú ert, ef til vill, einn af þeim, sem ekki kunna við sig uppi í sveit og tolla hvergi nema í borginni?' – 'Mér datt aldrei borgin í hug, þegar eg sat í fangaklefanum; hugurinn var þá allur úti um grænar grundir og skóga'.

'Þegar þú hefir úttekið hegningu þína,' segir bóndi, 'þá mun þér finnast miklu fargi af þér létt, sem nú liggur þungt á þér'. Og húsfreyja tók í sama strenginn.

"Viltu ekki syngja fyrir okkur, Vernharður minn?," segir móðir hans, 'eða ertu of lasinn til þess í kveld?' – 'Nei, nei', segir drengurinn. – 'Eg spái, að honum vini þinum þyki vænt um það', segir hún. En vinur hans, gesturinn, kveið fyrir, og var að því kominn að biðja drenginn að syngja ekki í þetta sinn. En hann var þá tekinn til fyr en varði. Hann söng vel; röddin var hrein og þíð. Þegar Vernharður söng, þá fundu það allir, að hann var í æfilöngu varðhaldi og þráði lausn og frelsi, en annars gleymdist það oft.

"Gesturinn greip báðum höndum fyrir andlitið, en tárin hrundu niður um greiparnar. 'Úr sjálfum mér getur aldrei neitt orðið', hugsaði hann, 'En eg verð að finna einhver ráð til þess að hjálpa drengnum hérna'.

"Daginn eftir kvaddi hann og fór. Enginn spurði, hvert hann ætlaði að halda. Þau sögðu ekki annað en þetta: 'Eg hlakka til að sjá þig aftur'. Það sögðu þau öll þrjú.

"Já, það gerðu þau," segir nú sjúklingurinn í fangelsinu, en Grímur þagnaði. "Veiztu það, fangavörður, að þetta er það eina, sem fallegt er, af öllu því, sem eg hefi átt þátt í um æfina?" Hann liggur þegjandi meðan fáein tár eru að síga ofan vangana. Síðan tekur hann aftur til máls. "Mér þykir vænt um, að þú veizt það," segir hann. "Nú get eg talað við þig um Vernharð ... Mér finst eins og eg hafi verið látinn laus – Mér finst eg hafa verið hjá honum – Eg átti ekki von á, að mér liði svona vel í nótt –

Grímur lýtur ofan að sjúklingnum og segir: "Heyrðu, góði, ef eg gæti nú komið því til leiðar, að þú fengir að fara til vina þinna þegar í stað – reyndar nokkuð öðru vísi, en þú hefir hugsað þér – hvernig myndir þú taka því? Ef eg gæfi þér kost á að hlaupa yfir árin öll, sem þú átt enn eftir að bíða, og þrá og vona, og gæfi þig lausan nú í nótt, værir þú þá fús til að ganga að því?"

Meðan Grímur er að segja þetta, þokar hann hettunni upp og tekur ljáinn í hönd sér.

Sjúklingurinn starir á hann stórum augum, og smátt og smátt fer löngunin að skína út úr þeim.

"Skilur þú mig?" segir Grímur. "Skilur þú, að eg er sá, sem lýk upp öllum lokum, að eg er sá, sem get látið þér verða þeirrar undankomu auðið, að engir sporhundar mega ná þér?"

"Eg skil þig," segir sjúklingurinn lágt. "En væri það ekki rangt af mér, vegna Vernharðar? Þú veizt, að eg kom hingað aftur í því skyni, að verða frjáls maður að lögum, og geta síðan orðið honum að liði."

"Þú gazt ekki lagt meira í sölurnar fyrir hann, en þú gerðir," segir Grímur. "Nú nýtur þú þess. Það er þess vegna, að tími þinn er styttur, og lausnin mikla og frelsið fullkomna stendur þér til boða þegar í stað. Þú þarft ekki að hafa áhyggju um Vernharð."

"En eg ætlaði að útvega honum sjóböðin," segir sjúklingurinn. "Eg hvíslaði því að honum, þegar við skildum, að eg skyldi koma aftur og flytja hann til sjávar. Og barni skyldi enginn maður bregðast."

"Ætlarðu þá ekki að þiggja frelsið, sem eg býð þér?" segir Grímur og réttir úr sér.

"Æ jú, æ jú," segir sjúklingurinn með áfergju, og grípur í kápulaf Gríms. "Farðu ekki. Þú veizt ekki hve sárt eg þrái. Eg væri ánægður, ef eg vissi af einhverjum öðrum, sem bjargað gæti Vernharði. En hann á engan að, nema mig."

Honum verður litið upp, og hann reynir að reka upp ofurlítið gleði-óp. "Davíð! bróðir minn! Hann situr þá þarna," segir hann.

"Þá er eg ekki á flæðiskeri staddur. Eg get beðið hann fyrir Vernharð."

"Davíð bróðir þinn!" segir Grímur háðslega. "Nei, hann getur þú ekki beðið fyrir barn. Þú ættir að vita, hvernig hann fer með sín börn."

En í sama bili er Davíð kominn á rúmstokkinn andspænis honum, og lýtur ofan að bróður sínum, með allan hug á því að hjálpa honum.

"Davíð minn," segir sjúklingurinn. "Nú blasa við mér grasi vaxnar grundir og glitrandi reginhaf. Þú skilur, Davíð; eg hefi verið hér svo lengi. Eg stenzt ekki mátið, þegar mér er boðið að koma út í fegurðina og frelsið að ósekju. – En þá er nú drengurinn, Davíð minn. Þú veizt, að eg hefi lofað...

"Vertu rólegur," segir Davíð skjálfandi röddu. "Barninu og hjónunum, sem bezt dugðu þér, þeim skal eg duga. Því lofa eg þér. Þigg þú frelsið, sem þér er boðið. Far þú þinna ferða. Eg skal annast þau. Far þú í friði út úr fangelsi þínu."

Áður en hann slepti orðinu, hneig sjúklingurinn örendur.

"Þú hefir flutt honum lausnar-orðið," segir Grímur. "Komum nú héðan. Okkur er mál að fara. Sá, sem lausnina fékk, á nú öðrum að mæta, en okkur, sem erum ánauðugir þrælar og eigrum í myrkri."

X.

"Ef þess væri nokkur kostur, að láta til sín heyra fyrir skaki og skrölti, þá skyldi eg nú segja eitt orð við Grím í þakkar-skyni fyrir það, hver bjargvættur hann reyndist þeim báðum, Jódísi og bróður mínum, þegar þeim lá mest á. Eg vil ekki verða við þeirri ósk hans, að leysa hann af hólmi. En hitt vildi eg feginn sýna honum, að eg kann að meta það, sem hann hefir fyrir þau gert."

Þetta var Davíð að hugsa með sjálfum sér. En það var eins og Grímur heyrði hugsanir hans. Hann tók í taumana og stöðvaði klárinn, og svaraði Davíð.

"Eg er ekki annað en vesall vinnumaður og kann lítt til verka", segir hann. "Stöku sinnum tekst mér að greiða fyrir einum og einum; en hitt er eins oft, að mér mistekst. Það var hægðarleikur, að koma þeim yfir landamærin, þessum tveimur, sem þú nefndir. Hún var svo full af farfýsi til himnaríkis, en hann átti svo fátt, sem batt hann við þessa jörð.

"Á eg að segja þér nokkuð, Davíð?" segir Grímur, og gerir sig nú alt í einu eins kunnuglegan við hann og í fyrri daga. "Margoft, þegar eg sit í kerrunni minni og hlusta á það sem gerist, þá hugsa eg með mér: 'Eg vildi, að eg hefði ráð á góðum sendiboða til mannanna. Þá skyldi eg gera þeim boð'."

"Því trúi eg vel," segir Davíð.

"Þú þekkir það, Davíð, að ekki er leiðinlegt að vera sláttumaður, þegar túnin eru fullsprottin. En að standa á teig, og hjakka litlu stráin áður en þau eru hálfsprottin, það er óþokkaverk. Húsbóndi minn þykist líka upp úr því vaxinn, að vinna þau verkin. Hann lætur mig um þau. Eg er ekki nema réttur og sléttur vinnumaður, því er það."

"Mér hefir skilist, sem þetta muni satt vera," segir Davíð.

"Það vildi eg, að mennirnir vissu," segir Grímur, "hve auðvelt er að hjálpa þeim út úr heimi þessum, þegar þeir hafa lokið störfum sínum, gegnt skyldum sínum og losað sjálfir um böndin, sem við heiminn binda; og á hinn bóginn, hve erfitt er að leysa þá, þegar alt er ógert, eða hálfklárað, og alt í reiðileysi eftir skilið, sem þeir höfðu mestar mætur á. Ef þeir vissu þetta, þá held eg þeir yrðu til með að gera ökumanni Helreiðarinnar ofurlítið hægra fyrir."

"Og hvernig ættu þeir að fara að því?" segir Davíð.

"Eg skal benda þér á eitt, Davíð minn. Síðan þú komst til mín, hefirðu ekki komist í tæri við nema einn sjúkdóm, og eg segi þér satt, að svo hefir verið um mig alt árið sem leið. Það kemur til af því, að sá sjúkdómur legst einkum á hálf-vöxnu jurtirnar, einmitt þær, sem mér er ætlað að kroppa. Fyrstu dagana, sem eg ók Helreiðinni, hugsaði eg með mér: 'Mikil fyrirhöfn mundi sparast, ef þessi sjúkdómur væri úr sögunni'."

"Er það þetta, sem þú vilt láta skila til mannanna?" segir Davíð.

"Ónei, Davíð minn. Nú veit eg betur en áður, hvað mennirnir megna. Að því mun reka, fyr eða síðar, að þeir vinna sigur á þessum óvini með vopnum þekkingar og þrautseigju. Þeir hætta ekki fyr en þeir eru lausir bæði við hann og aðra verstu vágestina, sem nú leggja menn að velli á bezta aldri. En það er ekki þetta, sem mig varðar mestu."

"Með hverju móti ættu þeir þá að gera ökumanninum hægra fyrir?" segir Davíð.

"Mennirnir eru svo ötulir að búa sem bezt í haginn fyrir sig í þessum heimi," segir Grímur. "Eg gæti bezt trúað, að þar komi að lokum, að fátæktinni verði útrýmt og drykkjuskapnum og allri þeirri eymd, sem nú styttir mörgum aldur. En eg er ekki viss um, að ökumaður dauðans hafi minna amstur og erfiði fyrir það."

"Hvað er það þá, Grímur minn, sem þú vilt láta skila til þeirra?"

"Bráðum er nú nýársdagur upp runninn," segir Grímur. "Bráðum vakna mennirnir og fara að hugsa um nýja árið, og alt, sem þeir óska og vona að það hafi þeim að færa, svo og um alla æfina, sem fram undan er. En þá vildi eg láta skila til þeirra, að þeir eigi ekki að óska sér ástasælu, gæfu og gengis, auðæfa og valda, langlífis og góðrar heilsu. Eg vildi að þeir krypu á kné, og létu allar óskir sínar verða að þessari einu bæn:

"Guð minn, láttu sál mína verða fullvaxna, áður en sláttumaðurinn kemur."

XI.

Tvær konur sitja á tali, og hafa verið niður sokknar í það mikinn hluta gamlársdagsins. Reyndar skruppu þær til kveld-bæna í Hjálpræðishernum, en tóku til óspiltra málanna, þegar þær komu þaðan aftur. Önnur konan er að reyna að hughreysta hina, og virðist henni lítið verða ágengt. Hún segir:

"Það er sannfæring mín, frú Hólm, þó að þér þyki ótrúlegt, að hér eftir fer að rakna úr fyrir þér. Eg held, að vonzkan í honum sé nú komin það sem hún kemst. Hann hefir tekið þetta í sig, til þess að koma fram þeirri hefnd, sem hann hefir alt af verið að hóta þér síðan þið tókuð saman aftur. En þú skilur það, að það er sitt hvort, að hleypa snöggvast í sig hörku og banna að taka börnin í burtu, eða að standa við það til lengdar og búa yfir barna-morði dag eftir dag. Hann endist ekki til þess, trú mér til."

"Það er vel gert af þér, að leitast við að hughreysta mig," segir Una, en heyra má á henni, að hún hugsar sem svo: Þó að þú þekkir engan mann, sem líklegur væri til að endast til annars eins, þá þekki eg einn, sem er trúandi til þess.

Anna herkona hafði tekið á því, sem hún hafði til, og virðist nú ekki hafa fleiri fortölur á takteinum. En alt í einu dettur henni nýtt ráð í hug.

"Nú ætla eg að biðja þig, að athuga eitt enn. Eg dæmi ekki um það, hvort það var stór synd af þér, er þú yfirgafst manninn þinn fyrir nokkrum árum, en yfirsjón var það auðvitað. Þú skildir hann eftir einmana og allslausan; enda varð þess ekki langt að bíða, að það drægi illan dilk á eftir sér. En árið sem leið hefir þú reynt að bæta það upp. Nú hefir þú breytt eins og guð vill að við breytum, og þess vegna er eg sannfærð um, að nú kemur á breyting til batnaðar. Óveðrið var svæsið, sem á skall, og ekki við að búast, að því sloti í einu vetfangi. Gott verk hafið þið Jódís systir færst í fang; þið verðið ekki látnar vinna fyrir gíg, heldur en aðrir, sem að góðu starfa."

Þegar Anna sagði þetta, voru þær konurnar ekki orðnar einar inni. Þar var Davíð sjálfur kominn og Grímur lagsmaður hans, eða, réttara sagt, svipirnir þeirra höfðu komið inn um luktar dyr, meðan á samtalinu stóð, og numið staðar frammi við hurð.

Davíð var óbundinn, bæði á höndum og fótum. Hann var farinn að fylgja Grími nauðungarlaust. En þegar hann sér, hvar hann er nú niður kominn, hleypur aftur í hann þjóstur og þvermóðska. Hér er enginn að deyja, hugsaði hann; hvers vegna er hann þá að storka mér með því að sýna mér heimilið mitt og konuna? Hann var að því kominn að vaða upp á Grím og kryfja hann sagna. En Grímur gaf honum bendingu um að hafa sig hægan.

Una Hólm sýndist hressast lítið eitt af orðum Önnu og því sannfæringar-afli, er í þeim lá. Hún laut höfði, varpaði öndinni og sagði: "Gott væri að mega treysta því, að þetta sé satt."

"Það er satt," segir Anna og brosir til hennar. Á morgun skiftir um. Þú sannar það, að hjálpin kemur með nýárinu."

"Nýárið," segir hin; "það er satt, nú er nýársnóttin komin. Því var eg búin að gleyma. Hvað heldurðu að sé framorðið?"

"Nýja árið er byrjað," segir Anna og lítur á úrið sitt. "Hún er langt gengin tvö."

"Þá skaltu nú ekki sitja lengur yfir mér, Anna mín. Þú verður að fara heim og hátta. Nú er eg svo róleg, eins og þú sér."

Anna horfði á hana með nokkurri efasemi. "Ekki veit eg nú, hvað segja skal um rósemina þína," segir hún.

"Jú, þú mátt vera alveg ugglaus um mig," segir konan. "Eg hefi verið þungorð í kveld, eg veit það. En nú er eg betri."

"Heldurðu þá," segir herkonan, "að þú getir falið alt guði á hendur og treyst því, að hann stýri öllu til góðs?"

"Já, það get eg," segir hin.

"Eg væri fús að vera hjá þér til morguns, en eg sé, að þú vilt heldur að eg fari."

"Þú ert búin vel að gera. Mér hefir komið vel að hafa þig hjá mér. En nú kemur hann bráðum heim, og þá er bezt að eg sé ein."

Þær skiftust enn á nokkrum orðum og gengu síðan báðar út. Húsfreyja fylgdi Önnu út að garðshliðinu til að ljúka upp fyrir henni. Síðan kom hún inn aftur og sýndist ætla að fara að hátta. Hún settist á stólgarm og fór að leysa af sér skóna. Þá heyrir hún hurðina í garðshliðinu skellast. Hún rýkur upp og hlustar. "Það er víst hann, sem er að koma."

Hún hleypur út að glugga og reynir að sjá út; en myrkur var í húsagarðinum. Hún stendur þarna stundarkorn, heldur niðri í sér andanum og horfir út í myrkrið. Þegar hún snýr sér við aftur, er henni undarlega brugðið. Hún var náföl í framan; augun, varirnar og alt andlitið grátt, rétt eins og stráð væri á það ösku. Henni er stirt um hreifingar, hefir ekki handastjórn, og tennurnar heyrast nötra í munninum.

"Eg stenzt það ekki," segir hún, "nei, eg stenzt það ekki. – Eg á að treysta guði. Þær segja mér að treysta guði. Ætli þær haldi, að eg hafi ekki beðið hann og grátbænt. En hvernig á eg að fara, hvað á eg að gera, til þess að hann leggi mér nokkurt lið?"

Hún tárfeldi ekki, en alt tal hennar var eins og grát-snökt. Hún var svo altekin af örvæntingu, að auðsjáanlega réði hún ekkert við sig.

Hún gengur – eða öllu heldur – hröklast einhvern veginn að flatsænginni í horninu; þar lágu börnin hennar bæði sofandi.

"Það er hart aðgöngu," segir hún, og beygir sig yfir þau. "Þau eru svo falleg."

Hún sezt á gólfið hjá þeim og horfir á þau til skiftis.

"Eg verð að fara," segir hún; "eg get ekki skilið þau hér eftir."

Hún strýkur hendinni ófimlega, líkt og loppin væri, um höfuð barnanna, og segir: "Þið megið ekki taka mér það illa upp, sem eg ætla að gera. Það er ekki mér að kenna."

Enn heyrist hurðin skellast í hliðinu. Konan hrekkur við, en situr grafkyr þangað til útséð er um, að það var ekki hennar maður, sem heim kom. Þá flýtir hún sér að standa upp og hvíslar til barnanna, eins og enginn megi heyra: "Eg verð að hafa hraðan á. Nú skal eg ekki verða lengi. Eg vildi að hann kæmi ekki á meðan, svo að það fari ekki út um þúfur."

En hún hefst þó ekki að, gerir ekki annað en ráfa um gólfið og tautar fyrir munni sér: "Það er eins og því sé hvíslað að mér, að eg skuli bíða til morguns. En til hvers er það. Ætli alt verði ekki eins á morgun og aðra daga? Ekki er hætt við, að hann verði sveigjanlegri þá, en í kveld."

Davíð er að hugsa um dauða flikkið, sem liggur á kirkjureitnum og bráðum verður grafið niður eins og ónýtt hræ. Það er ekki laust við, að hann langi til þess, að konan fengi nú eitthvað um það að vita, að ekki þurfi hún að vera hrædd við hann framar.

Enn heyrist skellur. Nú er það hurð inni í húsinu, sem skelt er aftur. Og konan tekur enn viðbragð, og rankar við því, sem hún hefir á prjónunum. Hún drattast að eldstónni, nötrandi, og fer að leggja að eldinum. "Það gildir einu, þó hann komi að mér meðan eg er að kveikja upp," segir hún, rétt eins og hún þurfi að halda uppi vörnum fyrir sjálfa sig. "Því ætli eg megi ekki hita á katlinum á nýársnótt? Með einhverju verð eg að halda mér vakandi, meðan eg er á fótum og bíð eftir honum."

Þegar Davíð heyrir þetta, léttir honum mikið. Og hann tekur aftur að brjóta heilann um það, í hvaða skyni Grímur hafi verið að fara með hann þangað heim. Þar lá þó enginn fyrir dauðanum. Þar var enginn veikur.

Grímur stendur alt af í sömu sporum og lætur hettuna slúta. Hann er svo þungbúinn og þegjandalegur, að Davíð finst ekki árennilegt að spyrja hann neins.

"Hann hefir ætlað að lofa mér að sjá konuna og börnin í síðasta sinn," hugsar Davíð með sér. "Hver veit, hvort eg kem nokkurn tíma í nánd við þau framar."

"En mig gildir það nú einu," segir hann síðan, og honum fanst þá í bili, að það væri ekki nema ein af öllum mannlegum verum, sem nokkurt ítak ætti í hjarta hans. Samt þokar hann sér út í skotið, þar sem börnin liggja og horfir á þau um hríð. Þá varð honum hugsað til litla drengsins, sem bróðir hans hafði tekið því ástfóstri við, að hann gekk hans vegna sjálfkrafa í fangelsi aftur. Og Davíð saknar nú þess, að honum skuli ekki geta þótt svo vænt um börnin sin.

"Eg vildi samt óska, að þeim farnaðist vel um æfina," hugsar hann, og viknaði lítið eitt við. "Nú glaðnar yfir þeim á morgun, þegar þau frétta, að ekki sé mig að óttast framar."

"Fróðlegt væri að vita, hvað úr þeim á að verða," hugsar hann enn, og er nú farinn að bera meiri umhyggju fyrir þeim, en nokkru sinni áður. En um leið grípur hann kvíði fyrir því, að þau kunni að verða sams konar menn og hann sjálfur var. "Því að eg hefi verið ólánsmaður að marki."

"Eg veit ekki," hugsar hann, "eg skil ekki hvernig á því stendur, að mig skuli aldrei hafa tekið sárt til þeirra fyr. Ef mér væri afturkomu auðið, mundi eg taka því fegins hendi, til þess að koma þeim til manns."

Hann staldrar við og skoðar huga sinn. "Kynlegt er það, að eg hefi engan ýmugust á henni lengur," tautar hann. "Eg vildi feginn, að henni liði nú vel og væru allar þrautirnar afstaðnar. Ef þess væri kostur, skyldi eg útvega henni aftur húsgögnin hennar; og eg vildi sjá hana ganga vel klædda í kirkju á helgum dögum. Og það kann að rætast. Það raknar úr fyrir henni, þegar eg er úr sögunni. Grímur hefir líklega komið með mig hingað, til þess að eg skuli fara að sætta mig við það, að vera kominn í tölu framliðinna manna."

"Það sýður; vatnið sýður," segir Una alt í einu og hrekkur við, eins og hún sé hrædd. "Alt er tilbúið. Nú verður að hrökkva eða stökkva. Nú er ekki til setu boðið."

Hún tekur krukku ofan af hillu og hellir úr henni möluðu kaffi í ketilinn. Síðan tekur hún úr barmi sínum litla öskju með hvítu dufti í, og steypir því líka í vatnið.

Davíð starir á hana, og vill ekki láta sér skiljast, hvað hér sé í brugggerð.

"Þú munt sanna það, Davíð, að þetta hrífur," segir hún, og snýr sér við, rétt eins og hún sæi hann. "Þetta dugar bæði börnunum og mér. Þú sérð það sjálfur, að eg stenzt þetta ekki lengur, að hýrast hér og horfa á þau veslast upp. Eg vildi, að þú tefðir nú úti dálitla stund enn. Þá skal alt verða um götur gert, þegar þú kemur heim, og þér verður að ósk þinni."

Nú heldur Davíð ekki kyrru fyrir lengur. Á þetta tal getur hann ekki hlustað. Hann vindur sér að Grími.

"Grímur!" segir hann. "Guð hjálpi mér. Grímur, heyrirðu ekki?"

"Jú, Davíð minn," segir Grímur. "Eg er til taks. Eg verð hér að vinna, eins og þú veizt. Og eg svíkst ekki um."

"En þú hefir víst ekki skilið hana, Grímur. Það er ekki hún ein. Það eru börnin líka. Hún ætlar að taka þau með sér."

"Já, Davíð minn; hún ætlar að taka börnin þín með sér," segir Grímur.

"En hún má það ekki, enda er það óþarfi. Getur þú ekki sagt henni, Grímur, að það sé óþarfi?"

"Eg get ekki látið hana heyra til mín. Það er svo langt á milli okkar," segir Grímur.

"En geturðu ekki kallað á einhvern, Grímur, einhvern, sem geti sagt henni, að þetta sé óþarfi?"

"Nú ertu nokkuð heimtufrekur, Davíð minn," segir Grímur. "Hvaða vald heldurðu að eg hafi á lifandi mönnum?"

En Davíð er ekki af baki dottinn. Hann fellur á kné til fóta Grími og segir: "Minstu þess, að þú varst fyrrum vinur minn og góður félagi. Gerðu það fyrir mig, að afstýra þessu. Láttu ekki þau ósköp yfir mig dynja. Bjargaðu lífi aumingja sakleysingjanna."

Hann mænir upp á Grím og bíður svars. En Grímur hristir höfuðið og lætur engan bilbug á sér sjá.

"Eg skal gera þér alt til geðs, sem eg get," segir Davíð. "Eg neitaði þér áðan um það, að verða eftirmaður þinn á Helreiðinni. Nú geng eg að því með ánægju, ef þú forðar mér við þessu. Þau eru svo ung, bæði tvö; og eg var rétt áðan að óska þess, að eg mætti lifa og koma þeim til manns. Og hún..., sérðu ekki, að hún er ekki með sjálfri sér nú í nótt? Hún veit ekki sitt rjúkandi ráð. Vertu miskunnsamur við hana."

Grímur bregður sér hvergi, og er ósveigjanlegur. Þá snýr Davíð sér frá honum og talar við sjálfan sig: "Eg á engan að. Eg veit ekki til hvers eg á að leita. Eg veit ekki, hvort "eg á að biðja guð eða Krist. Eg er nýgræðingur hérna megin. Hver hefir valdið og máttinn? Getur enginn sagt mér, hvert eg á að snúa máli mínu?

"Eg, allslaus auminginn, sekur og syndugur, eg bið þig, sem vald átt á lífi og dauða. Víst er eg ekki sá maður, að mér hæfi að ganga fram fyrir þig. Eg hefi brotið öll þín boð. Varpaðu mér út í hin yztu myrkur. Láttu mig glatast með húð og hári. Gerðu við mig, hvað sem þú vilt, en vægðu þessum þremur!"

Hann þagnar, og hlustar. En hann heyrir ekkert svar. Hann heyrir ekki annað en það, sem konan er að tala við sjálfa sig: "Nú er það leyst upp. Nú er ekki annað eftir, en að láta það rjúka dálitla stund, og kólna."

Þá beygir Grímur sig niður að honum, yftir hettunni og horfir framan í hann, hýr og brosleitur. "Davíð minn," segir hann. "Ef þér er þetta alhugað, þá veit eg ekki nema enn sé vegur til bjargar. Þú, og enginn annar, verður sjálfur að segja konunni þinni, að hún þurfi ekki þig að hræðast."

"En ekki get eg látið hana heyra til mín", segir Davíð; "eða heldur þú að eg geti það?"

"Nei, ekki slíkur sem þú ert nú," segir Grímur. "Þú verður að hverfa aftur til hans Davíðs, sem liggur á kirkjureitnum. Treystirðu þér til þess?"

Davíð brá í brún. Hann hrylti við mannlífinu. Honum fanst leggja af því drepandi óþef. Ef hann yrði aftur maður, mundi þá ekki allur vöxtur sálarinnar kyrkjast? Ef hann ætti sér nokkurrar gæfu von, þá fanst honum hún bíða sín hinu megin. En á einu augabragði var hann þó alráðinn og svaraði hyklaust:

"Eg held nú það. Eg treysti mér til þess, ef eg má... En eg hélt, að eg yrði að..."

"Já, þú hefir rétt að mæla," segir Grímur, og yfirbragð hans er alt af að verða bjartara og bjartara. "Það er satt, þú yrðir að vera ökumaður Dauðans þetta ár, ef enginn annar leysti þig af hólmi."

"Annar?" segir Davíð. "Hver mundi verða til þess, að leggja sjálfan sig í sölurnar fyrir annan eins ræfil og mig?"

Grímur svarar: "Þú veizt það, Davíð, að til er maður, sem alt af hefir harmað það, að hann leiddi þig afvega. Sá maður kynni að vilja leysa þig af hólmi, í þakklætis skyni fyrir það, að hann þarf ekki lengur að bera kvíðboga fyrir þér." Og hann gaf Davíð engan tíma til að átta sig betur á þessu svari, laut að honum og horfði framan í hann. En gleðin og góðvildin skein af augum honum.

"Davíð, fornvinur minn," segir hann. "Vertu nú eins góður og þú getur. Eg bíð hér, þangað til þú kemur aftur. Þú hefir nauman tíma."

"En heyrðu, Grímur, –" Grímur vildi ekki heyra meira. Hann gefur Davíð þessa herralegu bendingu, sem hann var búinn að læra að hlýða, réttir úr sér og segir hátt og snjalt:

"Bandingi, hverf aftur, hverf aftur inn í fangelsi þitt."

XII.

Davíð reis upp á olnboga og leit í kring um sig. Öll götuljós voru slokknuð, en það hafði birt í lofti, og tunglið skein. Honum var fullljóst, að hann lá kyrr á kirkjureitnum í bleikri sinunni undir dökkum greinum linditrjánna.

Hann fór umsvifalaust að brölta á fætur. En hann var máttlaus eins og slytti, kaldur og stirður, með svima í höfði. Þó tókst honum að standa upp og hann fór að staulast fram trjágöngin. En honum lá við falli og hann varð að styðja sig við tré.

"Eg get þetta ekki," hugsar hann. "Eg kemst ekki í tæka tíð; það er engin leið að því." Ekki bólaði á neinni grunsemd í huga hans um það, að það kynni að vera hugarburður einn, sem fyrir hann hafði borið. Hann mundi skýrt og ljóst alt, sem fyrir hafði komið um nóttina.

"Helreiðin bíður heima hjá mér," hugsaði hann. "Eg verð að flýta mér."

Hann sleppir trénu, sem hann studdist við, og staulast áfram nokkur spor. En hann er svo hræðilega óstyrkur, að hann dettur á hnén, og er alveg ráðalaus.

Þá finnur hann eitthvað koma við ennið á sér. Hann vissi ekki, hvort það var hönd, eða varir, eða ef til vill ekki annað en lafið af einhverri undra-léttri flík. En hvað sem það var, þá var það nóg til þess, að einhver sæla fór um hann allan. "Hún er komin til mín aftur," segir hann fagnandi. "Hún er nærri mér. Hún hefir sífelt augastað á mér."

Hann fórnaði höndum til himins, frá sér numinn af fögnuði. Hann fagnaði því, að ástúð skyldi geta fylt hjarta hans slíkum unaði, og það nú, þegar hann var aftur orðinn jarðneskur maður.

Hann heyrir fótatak að baki sér í næturkyrðinni. Kvenmaður var þar á ferli, lítill vexti, með Hjálpræðishers-hatt á höfði. "María 'systir'," segir Davíð, þegar hún er komin á móts við hann. "María 'systir', viltu ekki hjálpa mér?"

Systirin hafði víst kannast við málróminn. Hún varð hrædd og hélt viðstöðulaust áfram.

"María 'systir'," segir hann enn, "eg er ekki drukkinn. Eg er veikur. Viltu ekki hjálpa mér að komast heim?"

Hún trúði honum víst tæplega. En orðalaust gekk hún til hans, hjálpaði honum til að rísa á fætur og studdi hann til gangs.

Þarna var hann þá aftur lagður á stað heimleiðis. En seint sóttist ferðalagið. Honum þótti við því búið, að hann væri orðinn of seinn, og alt um garð gengið heima.

"Dæmalaust gerðirðu mér mikinn greiða, María, ef þú vildir hlaupa heim á undan mér og geta þess við konuna mína, að –"

"Á eg að fara á undan til þess að gera konunni aðvart um það, að þú komir heim fullur eins og vant er? Ætli hún sé ekki við því búin?" segir María.

Hann bítur á vörina og staulast áfram þegjandi. Hann herðir sig alt hvað af tekur, til þess að greikka sporið, en fæturnir láta illa að stjórn, þeir eru svo stirðir og dofnir af kulda.

Hann gerir aðra atrennu til þess að fá Maríu til að fara á undan. "Eg sofnaði úti," segir hann, "og mig hefir dreymt. Eg þóttist sjá Jódísi 'systur' deyja. Þig sá eg þar hjá henni. – Og eg hefi séð heim til mín. Hún er ekki með sjálfri sér, sem stendur. Eg segi þér satt, María; ef þú flýtir þér ekki, þá fer hún sér að voða."

Hann talaði hægt og með hvíldum. María gegndi honum ekki. Hún hélt enn, að hann væri drukkinn.

En trúlega hjálpaði hún honum að komast áfram. Og Davíð vorkendi henni það, hve nærri hún mundi taka sér að hjálpa honum, því að hún vissi, hvern þátt hann átti í dauða Jódísar.

Loksins komust þau heim að garðshliðinu, og María hjálpaði honum að ljúka upp. "Ætli þú sért nú ekki sjálfbjarga úr þessu?" segir hún og ætlar að snúa við.

"Ekki vænti eg, að þú viljir nú gera svo vel að kalla á hana, og biðja hana að koma ofan og hjálpa mér?" segir hann.

María ypti öxlum. "Í annan tíma hefði eg verið til með að snúast eitthvað fyrir þig, en eins og nú stendur, hefi eg enga löngun til þess. Eg skifti mér ekki meira af þér í þetta sinn," segir María, og grátur tók fyrir mál hennar, og hún hljóp í burt.

Meðan Davíð var að brölta upp brattar tröppurnar, hvarf honum öll von um það, að hann kæmi í tíma. Og þó að svo vel tækist til, hvað mundi það þá gagna? Hvernig mundi hann geta fengið konuna til að trúa sér? Ekki hafði María trúað honum.

Hann var að því kominn að leggjast fyrir í tröppunum af þreytu og örvilnan. En þá fann hann aftur sömu atlotin og áður; það var komið við enni hans mjúklega. "Hún er hjá mér," hugsar hann. "Hún vakir yfir mér." Og hann fékk nýjan mátt til að komast alla leið upp að húsdyrunum.

Þegar hann lauk upp, mætti hann konu sinni í dyrunum, rétt eins og hún hefði hlaupið til og ætlað að verða fyrri til að reka slá fyrir hurðina, svo að hann kæmist ekki inn. Þegar hún sá, að það var um seinan, hörfaði hún undan, og upp að eldstónni og breiddi sig fyrir hana, eins og þar væri eitthvað, sem hún vildi fela eða verja. Svip hennar var í engu brugðið frá því sem var, þegar hann fór, andlitsdrættirnir líkastir því, að hún væri öll kalin í framan.

Davíð varð litið til barnanna í horninu. Þau sváfu væran. "Þau sofa enn þá," segir hann við sjálfan sig. "Þá er það ógert enn. Eg hefi komið í tæka tíð."

Hann rétti fram höndina þangað, sem Grímur hafði staðið, og hann fann ekki betur, en að önnur hönd tæki í á móti. "Eg þakka þér," segir hann lágt og röddin skalf. En í sama bili sortnaði honum fyrir augum. Hann reikaði að stól, og lét fallast á hann. Hann sá, hvernig konan horfði á hann. Svipað því mundi hún hafa horft á óarga dýr, sem brotist hefði inn til hennar. "Auðvitað heldur hún, eins og fleiri, að eg sé drukkinn," hugsaði hann.

Og enn lætur hann hugfallast. Hann var svo dauðþreyttur, en mátti ekki taka sér hvíld. Rúm var í kompu innar af; hann sárlangar að fleygja sér upp í, svo að hann þyrfti ekki að halda sér uppréttum lengur, en hann þorði það ekki. Konan gæti gert hvað sem hún vildi, ef hann sneri við henni bakinu. Hann mátti til að halda sér uppi og hafa vakandi auga á henni.

Hann reyndi að taka til máls. "Nú er Jódís 'systir' dáin," segir hann. "Eg kom til hennar og hét henni því, að eg skyldi verða þér góður og börnunum. Á morgun máttu senda þau á hælið."

"Hvers vegna ertu að ljúga?" segir konan. "Gústaf sagði Önnu lát Jódísar, og það með, að þú hefðir ekki komið til hennar."

Þá var Davíð öllum lokið; hann lét alveg bugast. Það setti að honum grát, og kom það þó flatt upp á sjálfan hann. Hann grét af þeirri tilhugsun, hve gagnslaust væri að vera aftur horfinn í þann heim, þar sem gengið er með lokuðum augum og loppnum hugsunum. Hann grét af þeirri meðvitund, að hafa með athæfi sínu hlaðið um sig þann varnargarð, er hann fengi sjálfur aldrei yfir komist. Hann grét af þrá, óslökkvandi þrá til þess, að fá tafarlaust að ná samfundum við þá sál, sem var á sveimi í kring um hann, þótt ósýnileg væri.

Meðan hann sat þarna og hristist af ekka, heyrir hann, að konan segir: "Er hann að gráta?" og var auðheyrt, að hana stórfurðaði á því. Og skömmu síðar segir hún aftur: "Já, hann grætur." Og hún gekk frá eldstónni og að honum og var þó hik á henni.

"Grætur þú, Davíð?" segir hún við hann.

Hann lítur á hana tárugum augunum og segir: "Eg ætla að verða betri maður héðan í frá," og hann beit á jaxlinn, svo að ætla hefði mátt, að hann væri reiður. "Eg ætla að verða góður maður, en enginn trúir mér til þess. Er ekki von, að eg gráti?"

"Sjáðu, Davíð; það var svo ótrúlegt," segir hún, og virðist vera á báðum áttum. "En eg trúi þér. Fyrst þú grætur, þá trúi eg þér."

Og það var eins og hún vildi færa honum heim sanninn um það, að hún tryði honum, því að hún sest á gólfið fyrir framan hann og leggur höfuðið á kné honum. Hún sat þar hljóð, en eftir litla stund fór hún að snökta líka.

Hann hrekkur við, er hann heyrir það, og segir: "Grætur þú líka?"

"Eg má til," segir hún. "Mér léttir ekki fyr en eg hefi grátið út hrygðina, sem inni fyrir er."

Þá finnur Davíð enn þá einu sinni strokið um enni sér. Það svalaði. Honum þornuðu tárin og hló hugur í hljóði.

Hann hafði lokið fyrsta verkinu, sem beið hans á nýju brautinni. Eftir var að hjálpa drengnum, sem bróðir hans hafði tekið ástfóstri við. Eftir var að sýna Maríu "systur", og hennar líkum, að Jódís hafði ekki rent alveg blint í sjóinn þegar hún lagði hug á hann. Eftir var að reisa heimili sitt úr rústum. Eftir var, að fara með skilaboð Öku-Gríms til mannanna. Síðan, þegar þessu öllu væri lokið, þá myndi hann fá að koma til hennar, sem hann þráði.

Honum fanst hann vera orðinn eldri en alt, sem gamalt er. Hann var orðinn þolinmóður og auðsveipur eins og gömlum mönnum er títt. Hann dirfðist einskis að vona né óska. Hann gerði ekkert annað en að spenna greipar og hafa yfir í hljóði nýársbæn Öku-Gríms:

"Guð minn, láttu sál mína verða fullvaxna, áður en sláttumaðurinn kemur."

1Merki Hjálpræðishersins.