Næstum ótrúlegt. Næstum ótrúlegt. Sönn saga frá Chicago eptir Mark Twain. Þegar vinur minn Mc. Cracken sagði mér, að hann hefði yfirgefið konu sína og væri farinn til Chicago, vissi ég strax, hvað hann ætlaði sér. Hann ætlaði að skilja við hana. Undireins og hann kom til borgarinnar, og jafnvel áður enn hann var kominn alveg út af járnbrautarstöðinni, réði hópur af smádrengjum að honum, sem stungu að honum nafnspjöldum ýmsra málfærslumanna, og kölluðu um leið: »Skilnaður ... Viljið þér fá skilnað ... Gjörið þér svo vel, þessi málfærslumaður útvegar algjörðan skilnað á 15 mínútum!« Mc. Cracken stóð næstum agndofa yfir þessu fjarskalega háreysti; hann kreysti ósjálfrátt nafnspjald, sem einn af þolnustu strákunum hafði komið inn í lófann á honum og leitaði sem fljótast til næsta hótels, bað um herbergi og læsti að sér; hann datt niður á stól þar og fór að lesa spjaldið. Á spjaldinu voru óneitanlega mörg fögur loforð. Maðurinn, sem stóð á því þóttist vera agent og bauðst ekki einungis til þess, að útvega hjónaskilnað og að senda karlmönnum nýjar konur, heldur auglýsti hann á spjaldinu, að hann leysti vel og vandlega allskonar morð af hendi, og að hann hefði á boðstólum allskonar eiturtegundir. Vini mínum Mc. Cracken hafði náttúrlega aldrei komið til hugar, að íbúar Chicagoborgar væru dyggðugri og siðprúðari enn allir aðrir menn -- það dettur engum skynsömum manni í hug -- en hann furðaði sig þó á auglýsingum borgarbúa og auglýsingaraðferð þeirra. Honum þótti ráðlegast, að hafa vopn á sér á meðan hann dveldi í borginni; hann stóð þess vegna upp og hringdi. Lagleg vinnukona kom og spurði, hvað hann vildi, en bað hann um leið fyrir alla muni að segja fljótt til, af því að hjónaskilnaðarmál hennar ætti einmitt nú eptir fáar mínútur að koma fyrir réttinn, og hún vildi ekki tapa þessu máli, eins og hún hefði tapað öðrum samskonar málum áður, af þeirri orsök að hún hafði ekki mætt í réttinum. Mc. Cracken spurði, hvar næsta byssubúðin væri, og eptir tilsögn stúlkunnar fann hann hana; yfir búðardyrunum stóðu þessi undarlegu orð: Leyfi til þess að skjóta í og út úr búðinni. Þegar hann hafði borið upp erindi sitt, sýndi kaupmaðurinn honum strax nýja patent-skammbyssu og fullyrti, að hún væri hið langbezta vopn af því tagi, sem væri á boðstólum. »Hinn síðastliðna tveggjavikna tíma hafa ekki verið skotnir með henni færri enn tvö hundruð og tuttugu af heiðarlegustu borgurum bæjarins,« sagði kauðinn við Mc. Cracken, »og ég get fullyrt að skammbysan mun reynast vel ... ég skal sýna yður, hvað hún dugar«. Um leið og hann sagði þetta gekk hann fram að dyrunum og miðaði á gamlan heiðvirðan mann, sem gekk hinu megin við götuna, hleypti úr byssunni og steindrap manninn. »Nú? fór ekki vel?« spurði kauðinn um leið og hann sneri sér að vini mínum, sem stóð utan við sig af ótta, og aðeins gat stunið upp orðunum »hjálp! ... morð! ... lögregla« og öðrum slíkum kátlegum hrópum. »Þér skulið ekki kippa yður upp við þetta«, sagði skammbyssumaðurinn, til þess að hughreysta hinn. »ég hef fengið leyfi til þess, að skjóta úr búðinni, og þegar mikil verzlun er, drep ég að minnsta kosti 14 eða 15 menn á dag ... Guð varðveiti yður! hvað kærum við í Chicago oss um það, þó við skjótum einn eða tvo menn?« Vini mínum var nú nóg boðið; hann stökk út úr búðinni og hljóp svo hratt hann gat til járnbrautarstöðvarinnar. Á leiðinni þangað hljóp hann yfir fjögur lík, sem láu á götunni, datt um tvo dánumenn, sem börðust með hnífum, og varð optsinnis að krækja í gegnum hliðargötur, til þess að komast hjá hinum grimmilegu slagsmálum, sem voru víðsvegar um borgina. Hann keypti sér farmiða, fór upp í vagninn og hrósaði happi að geta haldið heim til hinnar saklausu höfuðborgar vorrar. þýðingin eptir Björn Bjarnarson.