BÓKASAFN "LÖGBERGS"

Rupert Hentzau

EFTIR

ANTHONY HOPE

WINNIPEG

PRENTSMIÐJA LÖGBERGS

1908

RUPERT HENTZAU.

I. KAPÍTULI.

Sá maður, sem hefir veitt því athygli hversu næsta smávægilegir viðburðir, að því er sýndust, geta leitt af sér aðra stærri, víðtækari og langgæðari, svo að menjar þeirra standa aldarlangt eða meir, mundi varla hafa ímyndað sér, að vandræði þau, er spruttu af ofdirfskufullu samsæri Michaels svarta, yrðu fyllilega til lykta leidd við fall hertogans af Streslau og við það, að Rúdolf konungur var leystur úr varðhaldi og settur í hásæti sitt. Mikið hafði verið í húfi og deilan snörp, ástríðueldur glæddur og fræi fjandskaparins sáð. En átti deilan nú ekki að vera á enda kljáð, með því að Michael svarti hafði látið líf sitt fyrir að hafa seilst eftir konungstigninni? Michael var dauður, prinzessan eiginkona frænda síns, sagan vel geymd og Mr. Rassendyll hafði aldrei látið sjá sig í Rúritaníu síðan. Átti þessum málum því ekki að vera lokið? Ég lét það í ljósi við vin minn, borgarstjórann í Zenda, er við ræddum um þetta við rúm Strakencz marskálks. Gamli maðurinn átti þá skamt eftir, og við mistum brátt hjálpar hans og hollra ráða. Hann beygði höfuð sitt til samþykkis. Þrá friðarins blæs hinum aldurhnigna og þjáða í brjóst von um hann. En Sapt beit í gráa granaskeggið sitt, sneri svarta vindlinum milli varanna og sagði: "Þú ert bjartsýnn, Fritz vinur minn. En er Rúpert Hentzau dauður? Ég hefi ekki heyrt það?"

Þetta var vel mælt og líkt Sapt! En samt má maðurinn sín lítils, ef hann skortir færi til að beita sér, og Rúpert átti nú naumast hægt með að raska ró okkar. Glæpur hans var honum til hindrunar svo að hann þorði ekki að stíga fæti sínum inn í konungsríkið. Hann hafði sloppið burt þaðan fyrir stökustu hepni, og flakkaði nú fram og aftur um Evrópu og hafði ofan af fyrir sér með vitsmunum sínum, og að því er sumir sögðu með ástabralli, er hann var óbágur á að hafa fé upp úr ef þess varð auðið. En hann lét okkur stöðugt vita hvað sér leið, og hann var alt af að leita hófanna um að fá leyfi til að snúa heim aftur til að taka við eignum þeim, er honum höfðu hlotnast við dauða frænda hans. Þeim óskammfeilnu kröfum kom hann á framfæri að eins fyrir tilstilli frænda síns Luzau-Rischenheim greifa. Hann var ungur maður, ættgöfugur og vellríkur. Hann var mikill vinur Rúperts. Greifinn rak erindi hans vel. Hann kannaðist við að afbrot Rúperts væru mikil, en hann færði honum æsku hans til málsbóta og það, hve Michael hertogi hefði haft mikil áhrif á þenna aðstoðarmann sinn, og hann hét því, að Rúpert skyldi trúr og tryggur eftirleiðis. Þetta sagði hann með svo einkennilegum orðum að líkast var sem Rúpert hefði hvíslað þeim í eyra honum. Mergurinn málsins var: "Greiðið honum launin, þá heldur hann sér saman." Eins og við mátti búast, þá léði hvorki konungurinn eða þeir, sem hann sótti ráð til um þetta mál bænum þessum eyru. Þeir þektu greifann frá Hentzau of vel til þess. Við héldum fast í eignir Rúperts og höfðum góðar gætur á öllu atferli hans, því að við höfðum ráðið það við okkur að honum skyldi aldrei leyft að hverfa aftur til Rúritaníu. Að líkindum hefði okkur tekist að fá hann framseldan og hengdan fyrir glæpi hans, en nú á dögum verður svonefnd rannsókn að fara fram um sakamál hvaða úrþvættis sem er, þó að það eigi ekki betra skilið en að vera hengt í það tréð sem hendi er næst. Við vorum því hræddir um að ef Rúpert kæmist í hendur lögreglunnar í Streslau og yrði dreginn fyrir rétt, þá mundi leyndarmál það, sem við varðveittum svo vandlega, verða uppskátt þar í borginni og jafnvel breiðast út um alla Evrópu. Svo að Rúpert var órefsað, að öðru leyti en því, að hann var gerður landrækur og leigur hirtar af landeignum hans.

En samt gat Sapt honum nærri. Þó að hann virtist hjálparvana, þá datt honum aldrei í hug að leggja árar í bát. Hann lifði í voninni að færi mundi sér einhvern tíma bjóðast til að koma fram fyrirætlunum sínum og hann var reiðubúinn að grípa það. Hann bruggaði brögð sín gegn okkur eins og við til að verja okkur. Ef við veittum atferli hans athygli, þá hafði hann ekki síður auga á okkur. Hann náði enn fastara tangarhaldi en áður á Luzau-Rischenheim, eftir að þeir höfðu hist frændurnir í París. Eftir þá fundi fór ungi greifinn að styrkja hann með fégjöfum. Þegar féð var fengið réði hann sér spæjara marga er fluttu honum fregnir um alt sem við höfðumst að, og sérhvað það sem gerðist við hirðina. Honum var kunnugra um ýmislegar fyrirætlanir stjórnarinnar heldur en öllum öðrum utan hirðar í ríkinu. Og honum var enn fremur þaulkunnugt um heilsufar konungsins, og höfðum við þó gert okkur far um að halda því leyndu. Ef þar við hefði lent, þá mundi þetta eigi hafa orðið að tjóni, þó að það væri leiðinlegt og ylli okkur áhyggju. En Rúpert lét sér ekki þetta nægja. Vegna kunnugleika síns um stjórn Mr. Rassendylls komst hann að leyndarmáli því, sem okkur hafði hingað til tekist að dylja konunginn. En er hann hafði fengið það að vita, hugði hann það færi komið, er hann hefði beðið eftir. Hann varð að eins að neyta þess djarflega, sem hann hafði fengið að vita. Ég skal ekkert um það segja, hvort meira hvatti hann löngun hans til að ná aftur stöðu sinni í ríkinu, eða gremja sú, er hann bar til Mr. Rassendylls. Hann unni völdum og fé, og eigi var honum hefndin síður kær. Vafalaust hefir hvoru tveggja hvatt hann fram, og víst mun honum hafa þótt vænt um að vopnið, sem honum barst í hendur var tvíeggjað. Með því bjóst hann við að geta bæði rutt sér braut, og sært manninn sem hann hataði vegna konunnar, sem sá maður unni. Í stuttu máli, Hentzau greifi hafði lævíslega komist að þeim hlýja hug, sem þau drotningin og Rúdolf Rassendyll báru hvort til annars. Hann hafði sent spæjara sína á stað og heitið þeim ríflegum verðlaunum, ef þeir kæmust að því, hver ástæða væri til funda þeirra er við Mr. Rassendyll ættum á ári hverju. Loks tókst honum að fá að vita hana. Það nægði honum. Hann lét ekki á sér standa að reyna að færa sér þetta í nyt.

Hjónabandið það, var nú orðið þriggja ára gamalt, sem fylt hafði alla Rúritaníubúa svo innilegri gleði, og virtist vera sigurfögnuður yfir Michael svarta og samsærismanna á hans bandi. Flavía prinzessa hafði nú verið drotning í þrjú ár. Ég er nú kominn á þann aldur þegar menn líta þannig á lífið, að ofurvald tilfinninganna blekkir þeim ekki sýn. Þeir dagar eru horfnir þegar eldmóður bernsku ástarinnar brann mér í brjósti. Samt sem áður er ég ekki þakklátari almáttugum guði fyrir neitt meir en ást konu minnar. Hún hefir verið atkeri mitt í stormum lífsins, og stjarnan mín þegar heiðríkt var. Við sem ekki erum konungborin getum farið eftir okkar eigin vild í ástamálum. En er það rétt af mér gömlum karlskröggnum að leggja þeim það til lasts, sem eigi fara þannig að. Frelsið, sem við eigum að fagna í þessu efni, nær ekki til konungborna fólksins. Við þurfum ekki að bíða eftir hamingju okkar þangað til í öðru lífi; við eigum kost á henni hér. Þeir sem hátt eru settir verða að gjalda sinn skerf fyrir ríkisvöld, auð og virðingu, að því skapi mikinn sem að þessu þrennu kveður. Það sem okkur virðist auðvirðilegt, kann þeim sem fátækir eru að virðast sveipað dýrðarblæju og unaðar. Ef þessu væri ekki þannig varið, þá mundi mörgum verða ósvefnsamt. Mér var vel kunnugt um það, hve byrði lífsins hvíldi þungt á Flavíu drotningu. Ég hygg að enginn karlmaður hafi vitað það betur en ég. En fullkomna þekkingu á slíku hygg ég engum öðrum en konum auðið að fá; jafnvel nú fyllast augu konunnar minnar tárum, þegar hún minnist á það. Samt gat drotningin risið undir þessari byrði, og þó að hana kunni að hafa brostið þrek stundum, þá undrar mig hve sjaldan það kom fyrir. Það var ekki nóg með það að hún hafði aldrei unnað konungingum, en elskað annan mann af öllu hjarta. Heilsa konungsins var alveg biluð. Ógnir og harðrétti fangavistarinnar í Zenda höfðu farið með hana. Hann dró að eins fram lífið. Hann sinti reyndar veiðum og gaf sig að nokkru leyti við stjórnarstörfum. Frá því að hann var leystur úr varðhaldinu var hann geðillur aumingi, gagnólíkur káta og glaðværa prinzinum, er þorparalýður Michaels handsamaði í skothúsinu. En þó var annað verra. Þegar frá leið hvarf honum úr huga aðdáunin og þakklátsemin er hann hafði borið til Mr. Rassendylls. Hann var sífelt að brjóta heilann um hvað gerst hefði meðan hann sat í varðhaldinu. Hann angraði eigi eingöngu sífellur ótti af Rúpert Hentzau — Rúpert hafði leikið hann harðast í fangelsinu — heldur og fyltist hann beiskri og óhemjulegri afbrýði gegn Mr. Rassendyll. Rúdolf hafði leyst hreystiverkin af hendi meðan hann lá hjálparvana. Það voru frægðarverk Rúdolfs, sem þegnar hans voru að hrósa honum fyrir í höfuðborg ríkis hans. Það var lárviðarsveigur Rúdolfs sem hann bar sjálfur óánægður um enni. Hann var of göfuglyndur til að geta gert sér gott af lofi því, er öðrum bar, og hann hafði enga hreysti sýnt til að eiga skilið. Það tók hann sárast er vitnað var heima fyrir til aðferða Rúdolfs. Sapt var stundum vís til að segja honum, að þegar svona og svona hefði staðið á, þá hefði Rúdolf ráðið fram úr því á þenna hátt eða hinn og að það besta sem konungurinn gæti gert, væri að fara að hans dæmi. Drotningin nefndi Mr. Rassendyll sjaldan á nafn, en þegar hún mintist hans gat hún hans eins og látins mikilmennis, er léti þann orðstír eftir sig, sem yfirskygði frægð allra lifandi manna. Ég ímynda mér, að konungurinn hafi ekki vitað um þann sannleika, þessu viðvíkjandi, er drotning hans duldi hann stöðugt. Samt féll honum mjög illa, er hann heyrði okkur Sapt minnast á Rúdolf, en hann þoldi alls ekki að drotningin gerði það. Ég hefi séð hann fá ástríðuflog að eins við að heyra nafnið eitt.

Vegna þessarar angrandi afbrýði var hann sí og æ að neyða drotninguna til at sýna honum ástarmerki og umönnunar, og langt fram yfir það sem flestir eiginmenn eiga að fagna, eða þeir hafa rétt til, að því er mér allra auðmjúkast virðist, og hann margkrafðist þess af henni sem hann óttaðist að hún mundi ekki geta í té látið. Hún varð oft við bænum hans fyrir skyldu sakir og meðaumkvunar; en það kom þó fyrir, eins og skiljanlegt er um sérhverja stórlynda manneskju, að hún gat það ekki. Sú mótspyrna af hennar hendi eða kuldi henni óafvitandi varð til þess að skap sjúka mannsins æstist, og hann miklaði þetta fyrir sér svo að honum fanst það óbærileg mótgerð og móðgun, sem henni var ómögulegt að bæta fyrir aftur. Þau höfðu reyndar aldrei getað felt hugi saman, en af þessu fjarlægðust þau enn meir hvort annað. Hann var einn með grun sinn og veikindi, hún hrygð sína og endurminningar. Þau eignuðust ekkert barn er brúað gæti djúpið sem staðfest var á milli þeirra, og þó að hún væri drotning hans og eiginkona, þá umgengust þau hvort annað eins og óviðkomandi manneskjur. Hann virtist vilja hafa það svo.

Þannig lifði hún í þrjú ár. Það líf var enn ömurlegra en þó hún hefði verið ekkja. Að eins einu sinni á hverju ári sendi hún manninum, sem hún elskaði, skeyti. Það voru þrjú orð, og fékk aftur önnur þrjú frá honum. En loks brast hana þrek. Þeim varð sundurorða, konunginum og henni. Það var út af einhverju lítilræði. Ég er búinn að gleyma hvað það var. Í votta viðurvist ámælti hann henni með þeim orðum, sem hún gat ekki hlýtt á ein án kinnroða. Litlu augun í borgarstjóranum tindruðu af reiði og hann tautaði: "Mig langaði til að taka fyrir túlann á honum." Nú var svo langt gengið, að hann gat ekki þolað það lengur, hversu konunginum fórst við drotninguna, jafnvænt og honum hafði samt þótt um hann. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þann atburð, en hann bar við eitthvað tveim dögum áður en ég átti að fara að hitta Mr. Rassendyll. Í þetta skifti átti ég að hitta hann í Vintenberg, því að ég hafði þekst árið fyrir, þegar við fundumst í Dresden. Vintenberg var minni bær, og færra þar um ferðamenn, svo að óhultara var talið að velja þann stað. Ég man glögt hversu hún var ásýndum, þegar hún kallaði mig til herbergja sinna, fáum stundum eftir að hún átti tal við konunginn. Hún stóð við borð þar inni. Á því voru öskjur, og ég vissi strax að rauða rósin og skeytið var í honum. En í þetta skifti fylgdi meira með. Umsvifalaust fór hún nú að skýra mér frá aðalerindinu.

"Ég verð að skrifa honum," sagði hún. "Ég þoli þetta ekki lengur. Ég verð að skrifa. Fritz, kæri vinur minn, vilt þú fara með bréfið, svo að ég megi vera óhrædd um það? Ég veit, Fritz, að þetta er rangt af mér, en ég er yfirbuguð, yfirbuguð! Og þetta verður í síðasta sinni. Því að ég veit, að ef ég sendi eitthvað eftir þetta, þá verð ég að senda meira, svo að eftir þetta sendi ég aldrei neitt. En ég verð að senda honum kveðju mína, og fá aftur kveðju frá honum og hún verður að nægja mér það sem eftir er æfinnar. Því bið ég þig um þetta, Fritz, í þetta eina sinni."

Tárin streymdu niður eftir kinnunum á henni. Venjulega var hún föl, en nú var hún fagurrjóð. Hún horfði á mig hvatningar og bænaraugum. Ég laut henni og kysti á hönd hennar.

"Með guðs hjálp ætla ég að koma bréfinu til hans og hans til yðar, drotning mín," svaraði ég.

"Og segðu mér hvernig hann lítur út. Taktu vandlega eftir honum, Fritz. Vittu hvort þér sýnist hann hraustur. Æ, reyndu að gleðja hann og hughreysta hann; Komdu honum til að brosa og augunum hans til að tindra. Taktu eftir þegar þú minnist á mig við hann, hvort þér sýnist hann unna mér enn þá." En svo hrópaði hún upp og sagði: "En þú mátt ekki láta hann vita, að ég hafi sagt þetta. Honum mundi þykja fyrir, ef hann héldi að ég efaðist um ást hans. Ég efast ekki um hana. Ég segi það alveg satt; en segðu mér samt hvernig þér virðist hann, þegar þú minnist á mig. Ætlarðu að gera það, Fritz? Líttu á, hérna er bréfið."

Hún tók það svo úr barmi sínum og kysti á það áður en hún fékk mér það. Svo lagði hún mér fyrir fjöldamargar varúðarreglur, um það hvernig ég skyldi fara með bréfið, hvaða leið ég skyldi fara, og hvaða leið aftur koma, og að ég skyldi ekki stofna mér í neina hættu, vegna þess að Helga, konan mín, ynni mér eins heitt eins og hún myndi hafa elskað mann sinn, ef ráðahagur sinn hefði orðið giftusamlegur. "Að minsta kosti eins og ég hefði átt að gera, Fritz," sagði hún að lokum og brosti með tárin í augunum. Hún gat ekki trúað því, að nokkur kona gæti elskað eins og hún elskaði.

Ég kvaddi drotninguna og fór að búa mig undir ferðina. Ég var vanur að hafa einn þjón með mér, og sinn manninn hvert ár. Enginn þeirra hafði vitað, að ég hitti Rassendyll, en haldið að ég færi í mínum eigin erindum, því að ég hafði látið það heita svo, er ég fékk fararleyfið hjá konungi. Í þetta sinn hafði ég ásett mér að hafa með mér ungan mann svissneskan; hann hafði gengið í þjónustu mína fáum vikum áður. Hann hét Bauer. Daufur var hann og fremur heimskur að því er sýndist, en dyggur var hann og hinn auðsveipasti. Hann hafði haft með sér bestu meðmæli, þegar hann kom til mín, og ég hikaði því ekki við að taka hann. Það var einkum vegna þess, að hann var útlendingur, að ég kaus hann til fararinnar. Ég hélt að hann mundi því síður en aðrir þvaðra mikið um ferðina þegar heim kæmi. Eg get ekki gert að því, að ég sé forsjáll, en ég játa það samt, að mig tekur það alt of sárt, hversu þessum óslæglega unglingi tókst að leika á mig. Rúpert hafði sem sé komist að því, að ég hitti Mr. Rassendyll árið fyrir í Dresden. Rúpert hafði gefið öllu því, sem fram fór í Streslau, nákvæmar gætur. Rúpert hafði útvegað pilti þessum öll þessi góðu meðmæli, sem hann hafði með sér og sent hann til mín, í þeirri von að hann kæmist að einhverju markverðu hjá húsbónda sínum. Vera má að hann hafi jafnvel búist við því að ég kynni að hafa hann með mér til Vintenberg, en það er þó naumast líklegt. Þetta var að eins slympilukka, er ósjaldan greiðir fyrir fyrirætlunum ráðslingra manna.

Konungurinn sat álútur við arininn, þegar ég kom að kveðja hann. Það var kalt þann dag, en það sýndist svo sem hann væri gagntekinn af fangavistarkvölunum. Hann var óánægður yfir brottför minni og spurði mig vandlega um erindi mitt í þessari ferð. Ég reyndi að seðja forvitni hans sem best ég gat, en tókst þó ekki að gera hann léttari í skapi. Honum fanst víst að hann hafa verið helst til nærgöngull við mig, og eins og til að bæta úr því og réttlæta það um leið hrópaði hann hálft í hvoru styggilega:

"Þú segist fara í þínum eigin erindum! Það á svo að nægja til að fá fararleyfi hjá mér. Ég segi það satt, að ég efast um að nokkrum konungi hafi verið ver þjónað en mér! Hvers vegna voruð þið að stríða við að losa mig úr varðhaldinu í Zenda. Enginn kærir sig um að hafa mig, enginn hirðir um hvort ég lifi eða dey."

Við slíka skapsmuni dugðu engar röksemdir. Ég lét því nægja að fullvissa hann um að ég skyldi hraða mér heim aftur eins og ég gæti.

"Já, mér þykir vænt um það. Ég þarf á manni að halda, sem hugsar nákvæmlega um mig. Hver veit hvað Rúpert þorparinn kann að taka til bragðs gegn mér? Og ég er ekki fær um að verja mig. Ég er ekki annar eins maður og Rúdolf Rassendyll. Ertu mér ekki samdóma um það?"

Þannig ávítaði hann mig hálfkvartandi og með særandi háði. Ég stóð þegjandi undir því og beið þess, að honum þóknaðist að skipa mér brott. Þrátt fyrir alt var ég ánægður yfir því, að hann grunaði ekkert um erindi mitt. Ef ég hefði minst á Mr. Rassendyll með einu orði, hefði hann ekki leyft mér að fara. Hann hafði áður veitt mér þungar ákúrur af því hann hafði komist að því, að við Mr. Rassendyll skrifuðumst á. Svo gersamlega hafði afbrýðin útrýmt þakklátseminni úr brjósti hans. Ef hann hefði vitað hvað ég hafði meðferðis ímynda ég mér að hann hefði hatað mig enn meir en Rúdolf. Þótt slíkt flygi manni í hug, var það ekkert ónáttúrlegt, en jafnþungbært fyrir mig samt sem áður.

Þegar ég skildi við konunginn, fór ég að finna borgarstjórann í Zenda. Hann vissi um erindi mitt. Ég settist niður hjá honum og sagði honum frá bréfinu, sem ég hafði meðferðis. Hann var ekki í góðu skapi þann dag. Konungurinn hafði líka gefið honum ofanígjöf, og þolinmæði Sapts ofursta var ekki takmarkalaus.

"Ef við verðum ekki búnir að drepa hvorn annan, þá verðum við komnir til Zenda í það mund er þú kemur til Vinterberg," sagði hann. "Hirðin fer héðan á morgun, og ég verð þar meðan konungurinn heldur þar til."

Hann þagnaði og bætti svo við: "Eyðilegðu bréfið, ef nokkur hætta verður á ferðum."

Ég kinkaði kolli.

"Og líf þitt verðurðu að leggja í sölurnar, ef eigi er annars úrkostar," mælti hann enn fremur og brosti raunalega. "Ég skil síst í því, hvers vegna hún er að senda önnur eins leiðinda skeyti og þessi, en úr því að hún gerir það, þá hefði hún átt að láta mig fara með þau."

Ég vissi að Sapt henti skop að öllum tilfinningamálum, og ég skeytti því engu hvað hann sagði um bréf drotningarinnar. Ég lét mér því nægja að svara því, sem hann sagði síðast.

"Nei, það er betra, að þú sért hér," sagði ég. "Því að, ef ég skyldi missa bréfið — þó að varla sé hætta á því — þá gætir þú komið í veg fyrir að það kæmist konunginum í hendur."

"Ég gæti reynt það," sagði hann og kýmdi við. "En að eiga annað eins á hættu að eins vegna lítilfjörlegs bréfsnepils! Bréf er þó létt á metunum í samanburði við friðinn í heilu konungsríki!"

"En því ver og miður er það hið eina, sem um getur verið að ræða að einn sendiboði geti farið með," sagði ég.

"Jæja, snáfaðu þá á stað," tautaði ofurstinn. "Segðu Rassendyll frá mér, að honum hafi farist vel. En segðu honum líka, að hann ætti að gera enn betur. Komdu þeim til að kveðjast fyrir fult og alt. Er ekki aumt til þess að vita, að hann skuli eyða öllu lífi sínu í það að hugsa um konu, sem hann sér aldrei?" Sapt var mjög gramur, þegar hann sagði þetta.

"Hvað á hann að gera fyrir okkur?" spurði ég. "Er ekki hlutverki hans hér lokið?"

"Já, því er lokið. Líklega er því lokið," svaraði hann. "Að minsta kosti er það honum að þakka að við höfum fengið aftur konunginn okkar, eins góður og hann er."

Það hefði verið öldungis rangt að kenna konunginum sjálfum um það, hvernig hann var orðinn. Sapt datt það ekki í hug, en það gramdist honum, að þrátt fyrir allar tilraunir okkar sat nú engu betri stjórnari að ríkjum í Rúritaníu en áður. Sapt var þjónustufús, en hann kunni betur við að húsbóndi, hans væri maður, sem eitthvað kvæði að.

"Jú, ég er hræddur um að hlutverki Rúdolfs sé lokið hér," sagði hann og hristi höfuðið um leið og við tókumst í hendur og kvöddumst. En svo kom alt í einu glampi í augun á honum. "Vera má þó ekki," tautaði hann. "Hver veit?"

Varla er hægt að segja að maður hafi ofurást á konu sinni þó hann langi til að snæða með henni miðdegisverð í ró og næði áður en hann leggur á stað í langferð. Þetta fanst mér að minsta kosti, og því varð mér ekkert vel við að Anton Strofzin frændi Helgu, hafði komið óboðinn, til að sitja að miðdegisverði með okkur rétt áður en ég færi á stað. Það óð alt á honum eins og vant var. Flest léttvægt sem hann sagði, en um allar slúðursögur í Streslau vissi hann. Hann sagði að sagt væri að konungurinn væri veikur, að drotningin væri reið af því að fara til Zenda, að erkibiskupinn ætlaði að prédika á móti "flegnum" kvenfatnaði, að kanslarinn ætti að missa embættið, að dóttir hans ætlaði að giftast o. s. frv. Ég tók lítið eftir þessu fyr en hann sagði síðast:

"Þeir voru að veðja um það í klúbbnum, að Rupert Hentzau yrði kallaður heim aftur. Hefir þú heyrt nokkuð um það?"

Óþarfi er að geta þess, að þó ég hefði eitthvað vitað um þetta mundi ég síst hafa farið að segja Anton frá því. En þetta var svo gagnstætt fyrirætlunum konungs að ég hikaði ekki við að segja ósatt, og þóttist líka geta það með góðum rétt. Anton leit til mín íbygginn og sagði:

"Þetta getur verið, og ég þori að segja að þú átt að halda þessu fram. En það sem mér er kunnugt í þessu efni, er það, að Rischenheim gaf Markel ofursta þetta í skyn fyrir tveim dögum."

"Það sannast þá á Rischenheim, að það mæla börn sem vilja," sagði ég.

"En hvert er hann farinn?" spurði Anton alt í einu. "Hversvegna er hann skyndilega horfinn frá Streslau? Ég segi þér satt að hann hefir farið til að hitta Rupert, og ég þori að veðja hverju sem vera skal um það, að hann kemur aftur með einhverskonar tilboð. Þú ert ekki alvitur. Fritz, kunningi."

Vitanlega var það satt að ég var ekki alvitur. Ég játaði það umsvifalaust. Ég vissi jafnvel ekki að greifinn var farinn brott, og því síður hvert hann var farinn," sagði ég.

"Kemur að því sem ég sagði," hrópaði Anton. Svo bætti hann við í aðvarandi rómi: "Þú ættir nú að hafa góða gát á öllu, drengur minn, svo að það sjáist að þú eigir skilið þau laun, sem konungurinn greiðir þér."

"Ég býst við ég geti það," svaraði ég, "því hann greiðir mér ekkert." Það var satt. Þá vann ég á engri stjórnarskrifstofu, en hafði að eins það heiðursembætti að vera kammerherra Hennar Hátignar. Öll ráð, sem konungur þurfti að sækja til mín, voru í té látin utan skrifstofu.

Anton hélt áfram að þvæla um þetta, og fanst ég ekki vilja gegna skyldu minni. Ég gat ekki fallist á það. Það gat verið, að Luzau-Rischenheim greifi hefði farið að finna frænda sinn, og hitt jafnlíklegt líka, að hann hefði farið í alt öðrum erindagerðum. Hvað sem því leið, kom mér það ekkert við. Ég hafði öðru þýðingarmeira verki að sinna. Ég skeytti þessu því engu, en skipaði skenkjara mínum að segja Bauer að fara á stað með farangur minn, og láta vagn minn vera til taks við dyrnar. Helga hafði verið önnum kafin eftir að gesturinn fór að taka til ýmislegt smávegis til ferðarinnar handa mér; nú kom hún til að kveðja mig. Þó hún reyndi að leyna því, að henni væri órótt, sá ég það samt á henni. Henni geðjaðist illa að þessum sendiferðum mínum, og taldi þær hættulegar, þó að ég sæi enga ástæðu til þess. Eg reyndi að hughreysta hana og sagði að hún mætti vonast eftir mér eftir nokkra daga. Ég sagði henni jafnvel ekki frá þeirri nýju og enn varúðarverðari sendingu, er ég hafði nú meðferðis, enda þótt ég vissi að drotningin bæri fult traust til hennar.

"Berðu Rúdolf konungi, þeim rétta konungi Rúritaniu, kæra kveðju mína," sagði hún, "þó að ég viti reyndar að þú hefir það meðferðis, er honum þykir meir um vert, en þann kærleika, sem ég ber til hans."

"Mig langar ekki vitund til þess að hann hugsi alt of mikið um kærleika þinn, góða mín," sagði ég.

Hún tók um hendurnar á mér og horfði framan í mig.

"Finst þér ekki, að þú vera skrítinn vinur, Fritz?" spurði hún. "Þú tignar Mr. Rassendyll. Ég veit að þér finst, að ég ætti að gera það líka, ef hann færi þess á leit. En ég gerði það ekki. Ég er nógu einföld til að hafa kosið vissan hjáguð fyrir mig. Þó að ég liti ekki stórt á mig datt mér ekki í hug að efast um hver þessi hjáguð hennar væri. Ég held ást okkar hafi þá blásið henni nýrri hugsun í brjóst, því að hún færði sig alt í einu nær mér og hvíslaði að mér:

"Sjáðu til þess, að hann sendi henni ástúðlega kveðju, Fritz. Segi eitthvað það í bréfinu, er huggi hana. Hún getur ekki haft hjáguðinn sinn hjá sér eins og ég."

"Já, ég veit, að hann sendir henni huggunarorð," svaraði ég. "Og guð varðveiti þig, elskan mín."

Ég vissi, að hann mundi vafalaust svara bréfinu, sem ég var með, og ég hafði lofað því hátíðlega að koma því í hendur drotningarinnar. Ég lagði því vongóður á stað með litlu öskjurnar og bréfið drotningarinnar í frakkavasa mínum. Og ég einsetti mér að eyðileggja hvorttveggja og leggja líf mitt í sölurnar fyrir það, ef á þyrfti að halda, eins og Sapt hafði sagt við mig.

II. KAPÍTULI.

Áður en Mr. Rassendyll fór frá Englandi höfðum við skrifast á um og ákveðið fund okkar nákvæmlega. Hann ætlaði að vera kominn til gistihússins "Gylta ljónsins" að kveldi 15. Okt. klukkan ellefu. Ég bjóst við að koma til bæjarins milli kl. átta og níu það kveld. Ég ætlaði þá að setjast að á öðru gistihúsi, en skjótast svo út seinna um kveldið undir því yfirskyni að ganga mér til skemtunar og finna Mr. Rassendyll þá á ákveðnum tíma. Þá ætlaði ég að ljúka erindi mínu, taka við svari hans og ræða við hann stundarkorn mér til skemtunar. Svo var til ætlast að hann legði á stað frá Vintenberg snemma næsta morguns, og ég til Streslau. Ég vissi, að það mundi ekki bregðast, að hann kæmi, og sjálfur bjóst ég við að geta komið í tæka tíð. En samt hafði ég útvegað mér viku brottfararleyfi, ef einhver ófyrirsjáanleg atvik skyldu hefta ferð mína. Ég hafði nú svo um búið sem best ég gat, og sté því inn í járnbrautarlestina nokkurn veginn rólegur. Ég hafði öskjurnar í vasa innanklæða og bréfið í bréfaveski mínu. Ég var ekki í einkennisbúningi, en skammbyssu mína hafði ég á mér. Þó að ég hefði enga ástæðu til að búast við neinum farartálma, þá gleymdist mér það ekki að verja varð það, sem ég hafði meðferðis hvernig sem á stóð og hvað sem það kostaði.

Ferðin var þreytandi um nóttina, en loks lauk henni þó. Um morguninn kom Bauer til mín, gerði ýmislegt smávegis fyrir mig, gekk frá handtösku minni, færði mér kaffi og skildi svo við mig. Klukkan var þá um átta. Við höfðum komið til einnar aðalstöðvarinnar og ætluðum ekki að stanza aftur fyr en um miðdegi. Ég sá að Bauer fór inn á annað farrými. Þar hélt hann til. Ég settist niður í vagninum mínum. Ég held að það hafi einmitt verið þá, sem mér datt Rischenheim í hug, og ég fór að undra mig yfir því hvernig á því stæði, að hann skyldi vera að stríða við að koma Rúpert heim aftur jafn vonlaust og það var. Ég furðaði mig líka á því, hversvegna hann hefði farið burt úr Streslau. Samt sinti ég lítið um þetta, en sofnaði vært, því að ég var þreyttur eftir nóttina. Ég var einn í vagninum, og gat því sofið án þess að þurfa að óttast nokkuð. Eg vaknaði við það, að lestin nam staðar um nónbil. Þá sá ég Bauer aftur. Ég borðaði einn disk af súpu, og fór svo til símskeytastofunnar til að senda konu minni skeyti; þegar hún fengi það skeyti, mundi hún bæði verða rólegri og drotningin einnig fá fullvissu um að mér gengi ferðin að óskum. Þegar ég kom inn í skrifstofuna mætti ég Bauer. Hann var þá að fara út þaðan. Honum virtist verða hverft við að mæta mér, en sagði mér þó undir eins að hann hefði verið að síma eftir herbergjum í Vintenberg. Slíkt var reyndar óþarfa varkárni, með því að engin hætta gat verið á því, að gistihúsið væri fult. Mér varð satt að segja illa við þetta, því að mér var umhugað um að koma mín þangað færi leynt. En eftir að svona óheppilega hafði tekist til, gat það að eins verið til hins verra, að hann færi að grafast eftir því hvernig á því stæði að ég vildi ferðast með leynd. Ég svaraði honum því engu, en kinkaði kolli og fór fram hjá honum. En nú fór ég að verða hræddur um, að Bauer hefði sent annað skeyti, þar að auki, þó ég vissi ekki til hvers eða hvert það var sent.

Lestin stanzaði einu sinni áður en hún kom til Vintenberg. Ég rak höfuðið út um gluggann og sá Bauer standa við dyrnar á flutningsvagninum. Hann hljóp strax til mín og spurði mig hvort ég æskti nokkurs. Ég kvað nei við. En hann fór ekki í burtu eins og ég hafði búist við, en braut upp á tali við mig. Ég varð skjótt þreyttur á því og settist aftur niður í sæti mitt og beið þess óþolinmóður að lestin héldi áfram. Á því varð fimm mínútna bið og svo lagði hún á stað.

"Hamingjunni sé lof," hrópaði ég, hallaði mér ánægjulega aftur á bak og tók vindil upp úr kassa mínum.

En ég misti vindilinn á gólfið af fáti sem á mig kom, um leið og ég spratt upp og rauk út að glugganum. Rétt um leið og lestin var að leggja á stað, hafði ég séð burðarsvein fara fram hjá með ferðatösku mjög svo líka minni. Bauer hafði átt að sjá um tösku mína, og hún hafði verið látin í flutningsvagninn eftir fyrirskipun hans. Það virtist ólíklegt, að hún hefði nú verið tekin þaðan í misgripum. Samt sem áður hafði taskan sem ég sá verið nauðalík minni. En ég var ekki alveg viss um að það væri taska mín, og þó svo hefði verið, þá gat ég ekkert við gert. Lestin átti ekki að stanza aftur fyr en í Vintenberg. Og þangað hlaut ég að komast um kveldið, með töskuna eða töskulaus.

Við komum á stöðina á tilteknum tíma. Ég sat kyr í vagninum stundarkorn, og beið þess að Bauer kæmi til að bera litlu handtöskuna mína. En hann kom ekki, svo að ég fór út. Það leit svo út, sem samferðamenn mínir væru fáir, og þeir hurfu skjótt, annað hvort fótgangandi eða í vögnum er biðu þeirra á stöðinni. Ég stóð kyr og var að svipast um eftir þjóni mínum og farangri. Veðrið var milt um kveldið. Ég hafði handtöskuna að bera og þunga loðkápu. Hvorki bólaði á Bauer eða farangrinum. Ég beið þarna fimm eða sex mínútur. Lestarstjórinn var horfinn, en rétt í þessu sá ég stöðvarformanninn. Hann virtist vera að svipast um og líta eftir hvort alt væri í reglu. Ég gekk til hans og spurði hann hvort hann hefði séð þjón minn. Hann vissi ekkert um hann. Ég hafði engan farangursmiða, því að Bauer hafði haft hann, en ég bað um að fá að líta eftir tösku minni í farangrinum sem komið hafði. Hún var þar ekki. Ég held helst að stöðvarformaðurinn hafi hvorki trúað því að ég hafi haft þjón með mér né ferðatösku. Hann sagði að þjónninn hefði hlotið að verða eftir af tilviljun. Ég sagði, að ef svo hefði verið, þá mundi hann ekki hafa tekið með sér ferðatöskuna. Hún hefði þá átt að vera í lestinni. Stöðvarvörðurinn neitaði því reyndar ekki, en hann ypti öxlum, og gaf það í skyn með látbragði sínu, að hann fengi ekkert við þessu gert.

Þá fyrst vaknaði hjá mér sterkur grunur um ótrúmensku af Bauers hendi. Ég mintist þess þá, hve lítið ég þekti manninn, og hve mikil ábyrgð hvíldi á mér. Ég þuklaði á mér í flýti á þrem stöðum, og fann að bréfið, öskjurnar og skammbyssan var hvert á sínum stað. Ef Bauer hefði farið að leita í ferðatöskunni mundi hann hafa lítið upp úr því. Stöðvarformaðurinn tók ekki eftir neinu, hann var að blína á gaslampann, sem hangdi niður úr þakinu. Ég sneri mér að honum.

"Jæja, segið honum þegar hann kemur – " tók ég til máls.

"Hann kemur ekki í kveld eftir þetta," greip stöðvarformaðurinn fram í alt annað en kurteislega. "Það kemur engin önnur lest í kveld."

"Segið honum samt þegar hann kemur, að hann eigi að fara strax á eftir mér til Vintenbergbæjar. Ég fer þangað strax." Tíminn var orðinn naumur og ég kærði mig ekki um að láta Mr. Rassendyll bíða. Og vegna grunarins, sem vaknað hafði hjá mér, var mér umhugað um að ljúka af erindinu sem fyrst að hægt var. En hvað hafði orðið af Bauer? Grunur minn jókst á ný, og í sambandi við hann og ferð mína kom ný spurning upp í huga mínum. Hvers vegna og hvert hafði Luzau-Rischenheim greifi lagt á stað frá Streslau, degi áður en ég fór til Vintenberg?

"Ef hann kemur, skal ég segja honum þetta," sagði stöðvarformaðurinn og um leið leit hann í kring um sig á stöðinni.

Þar var engan léttvagn af sjá. Ég vissi að stöðin var allra yst í bænum, því að ég hafði komið við þarna á brúðkaupsferð minni fyrir nálega þremur árum. Mér varð enn gramara í geði en áður þegar ég sá þá annmarka að ég þurfti að ganga, og tíminn hlaut að dragast enn meir við það.

"Hvernig stendur á því, að þið hafið ekki nóga léttvagna?" spurði ég reiðulega.

"Vanalega er nóg af þeim, herra minn," svaraði hann kurteislegar en fyr og í afsökunarrómi. "Það er að eins fyrir tilviljun að enginn vagn er hér í kveld."

Önnur tilviljun! Það virtist vera sem atvikin ætluðu að verða miklu ráðandi um þessa ferð mína.

"Rétt áður en lestin, sem þér voruð með, kom," mælti hann enn fremur, "bar bæjarlestina að. Vanalega koma sárfáir farþegar með henni, en í kveld komu samt með henni milli tuttugu og þrjátíu farþegar. Ég tók við farseðlunum þeirra sjálfur og þeir komu allir frá fyrstu stöð á brautinni. Það er ekkert undarlegt, því að þar er öflugt vínsöluhús. Hitt var aftur á móti skrítnara, að sérhver þeirra leigði sér vagn, og svo óku þeir á stað æpandi og hrópandi hver til annars. Þannig atvikaðist það, að hér voru að eins fyrir einn eða tveir léttvagnar þegar lestin, sem þér voruð með, kom, og þeir voru leigðir á augabragði.“

Um þetta var ekkert að segja; en ég spurði sjálfan mig hvort það væri af sama toga spunnið að ég hefði mist þjón minn og hitt að ég stæði nú uppi vagnlaus.

"Hverskonar menn voru þetta?“ spurði ég.

"Allskonar menn, herra minn,“ svaraði stöðvarformaðurinn, "en flestir þeirra voru tötralega til fara. Mig furðaði á því, að sumir skyldu hafa efni á að kaupa sér akstur.“

Mér varð síður en svo rórra við þetta. Þó að ég reyndi að herða mig upp, líkti mér við hjartveika kerlíngu og kallaði mig heigul, þá verð ég að játa það að mér flaug í hug að biðja stöðvarformanninn að ganga með mér. En bæði þótti mér minkunn að því, og svo var mér heldur ekki um það gefið, að athygli manna drægist að mér út af þessu. Ég vildi með engu móti gefa ástæðu til þess að nokkrum gæti dottið í hug, að ég hefði nokkuð verðmætt meðferðis.

"Jæja, það er ekkert við þessu að gera,“ sagði ég og hnepti að mér þungu kápunni. Ég tók því næst handtösku og staf minn og spurði mig til vegar heim til gistihússins. Stöðvarformaðurinn var farinn að sjá aumur á mér sakir óhepni minnar, og vísaði mér mjög vingjarnlega til vegar.

"Haldið beint áfram eftir þjóðveginum, herra minn,“ sagði hann, "milli espitrjánna, hér um bil hálfa mílu. Þá komið þér að ystu húsunum. Gistihúsið, sem þér ætlið til, er í fyrstu húsaþyrpingunni til hægri handar.“

Ég þakkaði honum stuttlega (því að ég var ekki búinn að gleyma ókurteisi hans fyrst), og lagðí á stað gangandi og var helst til þungt um gönguna í loðkápunni og með handtöskuna. Þegar ég kom út úr stöðvargarðinum, sem var ljósum lýstur, sá ég að skuggsýnt var orðið í meira lagi, og ekki síst milli háu trjánna reglulegu. Ég gat naumast séð niður fyrir fæturna á mér, og fetaði áfram mjög varlega og hrasaði þó oft um steina og ójöfnur á brautinni. Vegarljósin voru dauf, fá og langt á milli þeirra. Engan mann sá ég, svo að að því leyti mátti ætla, að ég hefði verið þúsund mílur frá bygðu bóli. Þó að ég reyndi að harka af mér jókst alt af kvíði minn fyrir einhverri hættu. Ég fór að rifja upp fyrir mér sérhvert smá atvik á ferðinni, mikla fyrir mér annmarkana, telja mér trú um, að hvert smáatvik, grunsamlegt, gæti haft mikla þýðingu, og velta því fyrir mér hvernig Bauer hefði litið út í það og það skiftið, og brjóta til mergjar hvert orð sem hann hafði sagt. Mér var ómögulegt að fallast á annað en að ég væri í hættu staddur. Ég hafði bréf drotningarinnar á mér og ég hefði viljað gefa mikið til að gamli Sapt, eða Rúdolf Rassendyll hefðu verið horfnir til mín.

Þegar maður býst við hættu, þá ætti maður aldrei að eyða tíma í það, að spyrja sjálfan sig hvort veruleg hætta sé á ferðum, eða ásaka sjálfan sig um hugleysi, heldur gangast strax við heigulskap sínum og búast svo við sem verulegrar hættu sé von. Ef ég hefði farið þannig að, og haft augun hjá mér, veitt nákvæmar gætur skóginum til beggja handa og brautinni fram undan mér, í stað þess að sökkva mér ofan í gagnslaust grufl, þá hefði ég kannske haft tóm til að forðast gildruna, eða að minsta kosti til að ná í skammbyssuna mína og verja mig, eða að eyðileggja það, sem ég hafði meðferðis, áður en tjón hlytist af. En ég var hugfanginn af öðru, og alt virtist verða í einni svipan. Ég var nú samt farinn að halda, að ótti minn væri ástæðulaus, og var að safna í mig nýjum kjarki, þegar ég heyrði mannamál. Það var lágt pískur. Ég sá þá líka tvo eða þrjá menn standa undir espitrjánum við veginn. Á næsta augabragði þutu þeir að mér. Ég vildi ekki berjast meðan ég gat flúið. Ég tók undir mig stökk og slapp undan mönnunum, sem ráðist höfðu að mér, og hljóp nú sem hraðast í áttina til ljósanna og húsanna í bænum. Ég átti fjórðung mílu eftir þangað. Ég kann að hafa hlaupið tuttugu eða þrjátíu skref; ég veit það ekki. Ég heyrði að hlaupið var jafnhratt á eftir mér. Þá hentist ég flatur niður, og vissi að ég var veiddur. Þeir höfðu strengt taug þvert yfir veginn. Um leið og ég datt, spratt sinn maðurinn upp við hvora hlið á mér, og ég fann að slakað var á tauginni sem undir mér lá. Þarna lá ég á grúfu. Einn maðurinn kraup niður hjá mér, aðrir héldu höndunum á mér. Andlitið á mér var klemt ofan í forarleðjuna á veginum svo að mér lá við köfnun. Handtöskunni var svift af mér. Svo heyrði ég að sagt var:

"Snúið honum upp í loft."

Ég þekti röddina. Þegar ég heyrði hana, staðfestist óttinn, sem ég hafði rétt áður verið að telja mér trú um að ástæðulaus væri. Við að heyra hana staðfestist hugboð Anton's von Strofzin, og sömuleiðis skýrðist það hvers vegna Luzau-Rischenheim greifi hafði þurft að bregða sér burt. Þetta var rödd hans.

Þeir þrifu nú til mín og veltu mér á bakið. Þarna bauðst mér færi; ég tók snögt viðbragð, lyfti mér upp og hristi þá af mér. Ég var nú laus svo sem andartak; óvinum mínum virtust fallast hendur, vegna þess hve snögt og óvænt ég brá við. Ég komst á hnén. En það var skamma stund, sem ég mátti betur. Einn maður til sem ég hafði ekki áður séð, hentist nú á mig með svo miklu afli, að ég hrökk alls ekki við. Ég féll aftur, og í þetta sinn á bakið, og nú var tekið fyrir kverkar mér með heljarafli. Samstundis var gripið um hendurnar á mér og þær teigðar niður. Maðurinn, sem lá ofan á mér beygði sig ofan að mér, og þó að dimt væri orðið gat ég þekt að þetta var Rúpert Hentzau. Hann var lafmóður vegna áreynzlunnar að halda mér, en hann brosti samt og þegar hann sá það á mér að ég þekti hann, sauð í honum hláturinn og var auðheyrt að hann hældist um.

Þá tók Rischenheim til máls og sagði:

"Hvar er taskan, sem hann bar? Það kann að vera í töskunni?"

"Þú ert asni. Heldurðu að hann hafi það ekki á sér?" sagði Rúpert fyrirlitlega. "Haldið honum niður og leitið."

Báðar hendur mínar voru teigðar fast niður, og Rúpert hélt vinstri hendi fyrir kverkarnar á mér. En hann hafði hægri hendina lausa og með henni þuklaði hann og leitaði á mér. Ég lá þarna án þess að geta borið hönd fyrir höfuð mér og var yfirkominn af gremju. Rúpert fann skammbyssuna mína, dró hana upp háðslega og rétti Rischenheim, er stóð rétt hjá honum. Svo fann hann öskjurnar og tók þær upp úr vasa mínum og þá tindruðu augu hans af ánægju. Hann þrýsti knénu fast ofan á brjóstið á mér, svo að ég var við að missa andann, svo slepti hann hendinni af kverkunum á mér og opnaði öskjurnar með ákefð.

"Komið hingað með ljós," hrópaði hann. Annar þorpari kom með dauflýsandi skriðljós, og lýsti að öskjunum. Rúpert opnaði þær, og þegar hann sá hvað í þeim var þá hló hann aftur, og stakk þeim svo í vasa sinn.

"Flýtið ykkar, flýtið ykkar!" hrópaði Rischenheim. "Við höfum náð í það, sem við þurfum, og menn geta komið á hverri stundu."

Ofurlítill vonarneisti vaknaði hjá mér. Það var auðvitað ilt að missa af öskjunum, en ég hrósaði þó happi, ef þeir fyndu ekki bréfið. Rúpert gat ímyndað sér, að ég hefði sendingu meðferðis svo sem eins og öskjurnar, en um bréfið gat hann ekkert vitað. Skyldi hann fara eftir því, sem Rischenheim lagði til? Nei. Hentzau greifi gekk ekki frá neinu hálfgerðu.

"Það er eins gott að leita á honum almennilega," sagði hann og hélt áfram leitinni. Von mín sloknaði aftur, því að nú hlaut hann að rekast á bréfið.

Hann fann það líka í sömu andránni, benti ljósberanum óþolinmóðlega að færa sig nær, og fór svo að rannsaka hvað í því væri. Mér er enn í minni svipurinn, sem kom á andlitið á honum, þegar geislinn frá skriðljósinu féll á skuggalega, föla, fallega andlitið á honum, brosbærðu varirnar og augun sem sem drambið og sjálfsálitið skein úr. Nú var hann búinn að ná í bréfið, og fagnaðarglampinn leiftraði úr augum hans þegar hann opnaði það. Hann sá skjótt hve mikill fengur þetta var. Samt settist hann niður kaldur og rólegur og fór að lesa það, og skeytti hvorki um þó að Rischenheim ræki í sífellu eftir honum, því hann var orðinn órólegur, né þó að ég starði á hann heiftaraugum. Hann las bréfið í hægðum sínum, rétt eins og hann hefði setið í hægindastól heima hjá sér. Hann brosti háðslega, þegar hann las síðustu orðin, sem drotningin hafði ritað elskhuga sínum. Honum hafði fénast meira en hann hafði búist við.

Rischenheim lagði höndina á öxl honum.

"Fljótt, Rúpert! fljótt," sagði hann með ákefð.

"Láttu mig í friði, maður. Ég hefi ekki lesið neitt svona skemtilegt langa lengi." svaraði Rúpert. Svo rak hann upp skellihlátur og hrópaði: "Lítið á! Lítið á!" og benti um leið á neðanverða blaðsíðuna síðustu. Ég var hamslaus af reiði. Heiftin léði mér nýjan þrótt. Í fögnuði sínum hafði Rúpert gleymt varkárni sinni. Hann lá nú léttar ofan á mér en áður, og um leið og hann benti Rischenheim á endann á bréfinu sem honum fanst svo hlægilegur, leit hann af mér í bili. Þarna fékk ég færi. Ég brást við fast og þeytti honum ofan af mér. Með hörkubrögðum tókst mér að losa hægri höndina. Ég fálmaði til hans með henni og gat hrifsað af honum bréfið. Rúpert var ekki um að missa af því og stökk á mig. Ég spratt á fætur um leið og hristi af mér manninn, sem hélt vinstri hendinni á mér. Andartak stóðum við Rúpert andspænis hvor öðrum; svo rauk ég á hann. Hann varð mér of viðbragðsskjótur. Hann vatt sér aftur fyrir manninn, sem hélt á skriðljósinu og hratt honum á mig. Ljósið datt niður.

"Fáðu mér stafinn þinn!" heyrði ég Rúpert segja. "Hvar er hann? Svona, það er gott."

Svo heyrði ég Rischenheim segja hræddan og kvíðandi:

"Rúpert, þú lofaðir að drepa hann ekki!"

Svarið var stuttur grimmúðugur hlátur. Ég hratt manninum frá, sem hrint hafði verið í fangið á mér og stökk áfram. Ég sá Rúpert Hentzau. Hann hafði reidda kylfu í hendi. Ég veit ekki hvað næst gerðist. Alt varð á einni sjónhending: Rúpert hreytti úr sér blótsyrði, og stökk áfram, stimpingar heyrðust eins og reynt væri að stöðva einhvern, og svo kom hann þjótandi að mér. Ég fékk þungt högg á ennið og svo misti ég meðvitundina. Svo man ég að ég lá á bakinu og hafði voðalegan verk í höfðinu, og einnig hafði ég óljóst hugboð um að hópur af mönnum stæði uppi yfir mér og að þeir töluðust við með mikilli háreisti.

Ég gat ekki heyrt, hvað þeir voru að tala um; ég hafði enga löngun til að heyra það. En ég hafði eitthvert veður af því, að þeir voru að tala um mig; þeir litu til mín og bentu á mig öðru hvoru. Ég heyrði Rúpert hlæja og sá að hann reiddi kylfuna að mér. Þá greip Rischenheim um úlfnliðinn á honum. Ég veit nú að Rischenheim var þá að minna Rúpert á heit hans um að drepa mig ekki, en að eiðar Rúperts voru ekki stráþyngd á metunum, en hann hikaði eingöngu við að drepa mig fyrir þá sök, að hann var í efa um hvort hægra væri að losast við mig lifandi eða dauðan. En þá hafði ég enga hugmynd um þetta, en lá þarna sinnulaus. En svo virtust mér mennirnir hætta að tala, skugga draga yfir þá og þeir verða að ógurlegum óskapnaði, er virtist krunka og tauta yfir mér áþekkustum þesskyns ferlíkum, er menn sjá í draumi. Mér ofbauð að horfa á þetta og lagði aftur augun. Krunkið og tautið hljómaði stundarkorn fyrir eyrunum á mér og fylti mig óróa og ógleði. Loksins þagnaði það. Mér létti við það og varpaði öndinni feginsamlega; og svo fanst mér alt eins og verða að engu.

En svo varð ég var við eina hugarhræring til, er alt í einu rauf meðvitundarleysi mitt. Ég heyrði kallað með sterklegri röddu: "Það veit guð að ég ætla að gera það!" "Nei, nei," hrópaði einhver annar. Því næst kallaði einhver: "Hvað er þetta?" Rétt á eftir heyrðist hratt fótatak, reiðuleg óp og háreisti, svo skot hvert á eftir öðru, blót og stimpingar. Að lokum dó fótatakið út í fjarska. Ég gat ekkert skilið í þessu. Ég varð þreyttur af að brjóta heilann um þetta. Skyldu þeir ekki ætla að vera rólegir. Ég þurfti að fá ró. Loksins varð alt rólegt. Ég lokaði augunum aftur. Sársaukinn var nú minni. Alt var rólegt. Ég gat sofnað.

Þegar menn líta aftur í tímann, og virða fyrir sér hverfulleik hamingjunnar og færin, sem buðust til að varðveita hana, þá verður flestum það að ímynda sér, að þeir hefðu getað farið öðru vísi og haganlegar að en þeir fóru. Það kemur jafnvel fyrir nú þegar ég ligg vakandi á nóttum, að ég brugga kænleg ráð, er ég hygst mundu hafa kollvarpað með öllum fyrirætlunum Rúperts. Þá er ég í meira lagi ráðslingur. Þvaðrið í Anton von Strofzín vekur margskonar grun hjá mér, og ég leiði af því skjótar og áreiðanlegar ályktanir, eins og leynilögreglumaður í skáldsögum. Bauer er verkfæri mitt, ég ekki hans. Ég handsama Rischenheim, rek Rupert á flótta og skýt hann í handlegginn, og kem sendingunni dýrmætu sigrihrósandi í hendur Mr. Rassendylls. Ég er töluvert upp með mér þegar ég er búinn að þaulhugsa þetta ráðabrugg til enda. En það segi ég satt — já dagsatt — að ég er dauðhræddur um að fara mundi hér um bil eins fyrir mér aftur, nema drottinn gæddi mig nýjum og betri sálargáfum. En ekki mundi ég samt láta Bauer leika á mig í annað sinn, það heitstrengi ég! en svona fór það. Þeir léku á mig. Ég lá eftir á veginum blóðugur á höfði, og Rúpert Hentzau fór með bréfið drotningarinnar.

III. KAPÍTULI.

Vegna þess að mönnum er gjarnt til að þakka forsjóninni það, sem betur má fara, þá segi ég að handleiðsla hennar eða hamingjulán mitt bjargaði lífi mínu, en ekki eiðstafur Rúperts Hentzau. Hræringar heila míns þó sjúkur væri studdust við veruleikann; stimpingarnar, hlaupin og brottförin voru ekki tómur draumur.

Maður nokkur heiðvirður á nú heima í Vintenberg og lifir þar góðu lífi sakir þess að svo vildi til að vagn hans, með fjórum hraustum piltum, bar að í það mund er Rupert var í þann veginn að slá mig banahögg. Þegar vagnstjórinn og sveinar hans sáu manna hópinn þustu þeir niður úr vagninum og að fjandmönnum mínum. Þeir sögðu að einn bófinn — ég fór nærri um hver það var — hefði viljað berjast og heitið á förunauta sína að veita viðnám; en þeir höfðu verið hyggnari, gripið til hans og dregið hann á brott með sér hvað sem hann sagði, áleiðis til járnbrautarstöðvarinnar. Í þá átt var engin bygð og viss von um undankomu. Hjálparmenn mínir sóttu eftir þeim. En þeim leist ráðlegast að fara varlega, er flóttamenn skutu tveimur skammbyssuskotunum, sem ég hafði heyrt, þó að ég vissi þá ekki hvernig á þeim stóð. Þetta voru miskunnsamir Samverjar þó að þeir væru engir hermenn, og nú sneru þeir þangað sem ég lá meðvitundarlaus á veginum, og prísuðu bæði mig og sig sæla fyrir það, að fjandmenn svo vel vopnaðir skyldu flýja en eigi þora at halda velli. Þeir fengu helt ofan í mig ofurlitlu af víni, og rétt á eftir opnaði ég augun. Þeir ætluðu að flytja mig á sjúkrahúsið. Ég vildi ekki heyra það nefnt. Þegar ég fór að átta mig, og vissi hvar ég var staddur, þá margendurtók ég í sífellu: "Gylta ljónið. Gylta ljónið! Tuttugu krónur fyrir að bera mig til Gylta ljónsins!"

Og með því að þeir héldu, að ég væri maður, sem ráðið gæti ráðum sínum sjálfur og vissi hvert ég vildi fara, þá tók einn þeirra handtösku mína, en hinir lyftu mér upp í vagn þeirra og lögðu á stað til gistihússins þar sem Rudolf Rassendyll hélt til. Eina hugsunin, sem gat fest sig í mínum veiklaða heila var að komast á fund hans svo fljótt sem auðið yrði og segja honum hve klaufalega hefði tekist fyrir mér að ég hefði látið leika á mig og ræna mig bréfi drotningarinnar.

Hann var þar. Hann stóð í dyrum gistihússins, og virtist vera að bíða eftir mér, þó að eigi væri alveg kominn ákveðni tíminn. Þegar þeir óku mér að dyrunum, sá ég hann standa þar, háan og beinvaxinn og glampa á rauða hárið á honum við skinið af dyraljósinu. Og það segi ég satt að þá varð ég eins feginn og týnt barn af að sjá móður sína! Ég rétti honum höndina út úr vagninum og tautaði: "Ég hefi mist það."

Hann tók viðbragð, þegar hann heyrði þetta og hljóp til mín. Svo sneri hann sér snarlega að vagnstjóranum og sagði:

"Þessi maður er vinur minn. Fáið mér hann í hendur. Ég skal tala betur við ykkur síðar." Hann beið meðan verið var að lyfta mér út úr vagninum, tók svo sjálfur við mér og bar mig inn. Ég var nú búinn að fá alt ráð og vissi gerla hvað gerðist. Það voru tveir eða þrír menn í anddyrinu, en Mr. Rassendyll lét sem hann sæi þá ekki. Hann bar mig hvatlega upp stiga og inn í setustofu sína. Þar setti hann mig niður í hægindastól og nam staðar fyrir framan mig. Hann var brosleitur, en ég sá samt á augum hans að honum var órótt.

"Ég hefi mist það," sagði ég aftur, og leit framan í hann í meiralagi aumur.

"Það verður að sitja við það," svaraði hann og kinkaði kolli. "Eigum víð að láta það bíða, eða getur þú sagt mér það strax?"

"Já, en gefðu mér kognak fyrst," svaraði ég.

Rudolf gaf mér ofurlítið af kognaki mikið vatnsblandað, og því næst fór ég að búa mig undir að segja honum hvað gerst hafði. Þó að mér lægi við yfirliði, var ég ekkert ruglaður, og sagði honum sögu mína, stuttlega, í flýti en allgreinilega. Hann var hinn rólegasti þangað til ég mintist á bréfið. Þá brá honum.

"Og bréf líka?" hrópaði hann og röddin bar vott um undarlegt sambland af ótta og óvæntri gleði.

"Já, bréf líka; hún skrifaði bréf og ég fór með það ásamt öskjunum. Ég hefi mist hvorutveggja! Rupert hefir náð bréfinu líka!" Ég hefi líklega verið býsna veikur eftir höggið, því að nú misti ég stjórn á sjálfum mér. Rudolf kom til mín og tók í höndina á mér. Ég náði mér þá strax aftur og leit framan í hann, þar sem hann stóð hjá mér þungt hugsandi og strauk hendinni um nýrakaða hökuna. Nú er ég var kominn til hans aftur fanst mér sem við hefðum aldrei skilið; mér fanst rétt eins og við vera enn saman í Streslau eða á Tarlenheim-slotinu, og værum að taka ráð okkar saman um að leika á Michael svarta, senda Rupert þangað sem hann átti vísan sama stað, og koma konunginum aftur í hásæti, því að Mr. Rassendyll var ekkert breyttur síðan við hittumst síðast, og jafnvel ekkert heldur síðan hann ríkti í Streslau, nema að því að gráir toppar sáust í hári hans.

Mér var dauðilt í höfðinu. Mr. Rassendyll hringdi bjöllunni þrisvar og kom þá inn lágvaxinn gildur maður miðaldra. Hann var í tweed-fötum og látbragð hans bar vott um dugnað þann og trúmensku, sem einkennir enska þjóna.

"James," sagði Rúdolf. "Þessi maður hefir meiðst á höfði. Þú verður að stunda hann."

James fór út. Eftir litla stund kom hann aftur, með vatnsfat, þerridúk og umbúðir. Svo beygði hann sig ofan að mér og fór að þvo sár mitt mjög vandlega. Rudolf gekk um gólf.

"Ertu búinn að binda um sárið, James?" spurði Rudolf litlu síðar.

"Já, herra," svaraði James og tók saman þing sín.

"Komdu þá með símskeytaeyðublöð"

James fór út og kom með þau rétt á eftir.

"Vertu tilbúinn þegar ég hringi." sagði Rúdolf. Svo sneri hann sér að mér og spurði: "Líður þér betur, Fritz?"

"Ég get hlustað á það sem þú hefir að segja," sagði ég.

"Ég sé hvað þeir ætla sér." sagði hann. "Annar hvor þeirra, Rúpert eða Rischenheim, munu reyna að koma bréfinu til konungs."

Ég spratt á fætur.

"Það má þeim ekki takast," sagði ég, og hné aftur niður í stólinn, því að mér fanst eins og glóandi eldskörungur hefði verið rekinn í höfuðið á mér.

"Þú ert nú líka fremur líklegur til að koma í veg fyrir það, gamli kunningi," sagði Rúdolf brosandi og tók um hönd mína; svo hélt hann áfram og sagði: "Þeir trúa nú ekki póstinum, vertu viss. Annar hvor þeirra fer sjálfur. Hvor heldur þú?" Hann stóð fyrir framan mig og hugsaði af kappi.

Ég vissi það ekki, en ég bjóst við að Rischenheim færi. Það var svo mikil áhætta fyrir Rúpert að fara inn í konungsríkið, og hann vissi gerla að erfitt mundi að fá konunginn til að veita honum viðtöku, jafnvel þó erindið væri mikilvægt, sem hann teldist hafa að flytja. Hins vegar var ekkert misjafnt kunnugt orðið um Rischenheim, og tignarstaða hans mundi veita honum, og meira að segja heimila honum viðtalsleyfi við konung undandráttarlaust. Fyrir því taldi ég það sjálfsagt, að Rischenheim mundi fara með bréfið, eða fregnina um það, ef Rúpert vildi ekki skilja það við sig.

"Eða eftirrit af því," sagði Rúdolf. "Þeir verða komnir á stað, Rischenheim eða Rúpert á morgun, eða jafnvel kannske í kveld."

Ég reyndi til að rísa upp aftur, því að mér var afarhughaldið að koma í veg fyrir þessar hættulegu afleiðingar af heimsku minni. Rúdolf ýtti mér aftur niður í stólinn og sagði: "Nei, nei!" Því næst settist hann niður við borðið og tók upp símskeyta eyðublöðin.

"Hafið þið Sapt ekki komið ykkur saman um dulletur?" spurði hann.

"Jú. Skrifa þú skeytið; ég skal dulletra það."

"Ég hefi skrifað þetta: "Skjölin töpuð. Láttu engan sjá hann, ef mögulegt er." Mér er ekki um að tala ljósara. Þú veist, að hægt er að lesa flest dulletur."

"Ekki okkar," sagði ég.

"Jæja, en dugir þetta?" spurði Rúdolf brosandi.

"Já, ég held að hann skilji þetta." Svo dulritaði ég skeytið, og það var rétt svo að ég gat haldið á pennanum.

Hann hringdi svo bjöllunni, og James kom inn undir eins.

"Farðu með þetta," sagði Rúdolf.

"Skrifstofunum er lokað, herra."

"James, James."

"Jæja, herra minn, en það gengur heil klukkustund í að fá einhverja þeirra opnaða."

"Ég skal gefa þér hálfa klukkustund til þess. Hefirðu peninga?"

"Já, herra."

"En nú er best fyrir þig að fara að hátta," sagði Rúdolf og sneri sér að mér.

Ég veit varla hverju ég svaraði, því að mér lá við að líða þá aftur í ómegin og ég man það að eins, að Rúdolf bar mig í rúm sitt. Ég sofnaði, en ég held að hann hafi jafnvel ekki lagt sig fyrir í legubekkinn, því tvisvar sinnum þegar ég rumskaðist heyrði ég að hann var að ganga um gólf. En þegar leið undir morguninn sofnaði ég fast, og vissi þá ekki hvað hann hafðist að. Klukkan átta kom James inn og vakti mig. Hann sagði að læknirinn kæmi til gistihússins eftir hálfa klukkustund, en nú langaði Mr. Rassendyll að tala við mig fáein orð, ef ég treysti mér til þess. Ég bað James að kalla strax á húsbónda sinn. Það varð að sitja við það, hvort ég treysti mér til þess eða ekki.

Rúdolf kom rólegur og stillilegur. Hættan og erfiðleikarnir verkuðu á hann eins og gott vín á gamlan drykkjumann. Þá naut hann sín. Hæfilegleikar hans komu þá best í ljós, og afskiftaleysið, er einkendi hann annars, hvarf þá. En í dag þá varð ég var við annað meira; mér verður helst að nefna það eins konar geislabjarma. Ég hefi séð hann svífa um andlit ungra ásthrifinna yngissveina, þegar stúlkurnar, sem þeir unnu, komu inn um dyrnar á danssalnum, og ég hefi líka séð þetta geislablik, þó daufara hafi verið, í augum ungra stúlkna, þegar piltar, er mér virtust reyndar ekkert nema rétt í meðallagi, buðu þeim í dans. Þessi undarlegi bjarmi hvíldi yfir andliti Rúdolfs þar sem hann stóð hjá mér við rúmstokkinn. Ég þori að segja, að eitthvað þvílíkt hefir mátt sjá á svip mínum, þegar ég var að biðla til konunnar minnar.

"Fritz, gamli vinur minn," sagði hann, "það er komið svar frá Sapt. Ég þori að segja, að símritarar hafa orðið fyrir óþægindum í Zenda, eins og hér í Vintenberg þegar James fór að láta opna. Og ég skal segja þér nokkuð. Rischenheim hafði beðið konunginn um viðtalsleyfi áður en hann fór frá Streslau."

Ég reis upp á olnboga í rúminu.

"Skilur þú?" mælti hann ennfremur. "Hann fór á mánudag. Í dag er miðvikudagur. Konungurinn hefir veitt honum viðtalsleyfi kl. 4 á föstudag. Sérðu til —"

"Já, þeir hafa búist við heppilegum úrslitum," hrópaði ég, "og Rischenheim tekið við bréfinu!"

"Eftirriti af því, ef ég þekki Rúpert Hentzau rétt. Já, þetta var klóklega að farið. Þeir sáu um, að allir léttivagnar væru leigðir! Hvað eru þeir langt á undan nú?"

Ég vissi það ekki, en ég efaðist ekki um það frekar en Rúdolf, að vagnaskorturinn var af þeirra völdum.

"Jæja," mælti hann ennfremur, "ég ætla nú að síma Sapt um að tefja fyrir Rischenheim í tólf klukkustundir, ef hann getur; hepnist það ekki, þá að koma konunginum burt frá Zenda."

"En Rischenheim hlýtur að fá viðtalsleyfið fyr eða síðar," sagði ég andmælandi.

"Fyr eða síðar — það gerir allan muninn!" hrópaði Rúdolf Rassendyll. Hann settist á rúmstokkinn hjá mér, og sagði skýrt og snjalt: "Þú getur ekki hreyft þig héðan í einn eða tvo daga. Sendu Sapt kveðju mína. Biddu hann að láta þig vita um alt, sem gerist. Strax og þú ert orðinn ferðafær þá farðu til Streslau, og láttu Sapt vita greinilega um hvenær þú kemur. Við þurfum á hjálp þinni að halda."

"En hvað ætlar þú að gera?" spurði ég og einblíndi á hann.

Hann horfði á mig stundarkorn, og ég sá á svipbreytingunni á andliti hans, að gagnólíkar tilfinningar skiftust á í huga hans. Ég sá þar votta fyrir fastri ákvörðun, mótþróa, fyrirlitning á hættu; sömuleiðis kæti og ánægju; og loks sá ég bregða fyrir sama bjarmanum, sem ég mintist á fyr. Hann hafði verið að reykja vindling. Nú fleygði hann endanum af honum inn í ofninn og reis upp af rúmstokknum.

"Ég ætla að fara til Zenda," sagði hann.

"Til Zenda!" hrópaði ég forviða.

"Já," svaraði Rúdolf. "Já, ég ætla til Zenda, Fritz vinur. Ég segi þér það satt að ég bjóst við, að að því kæmi. Nú hefir það ræst."

"En hvað ætlarðu að gera þangað?"

"Ég ætla að ná í Rischenheim áður en hann kemst þangað, eða vera þar rétt á hælunum á honum. Ef hann verður fyrri, þá hugsa ég að Sapt tefji fyrir honum þangað til ég kem. Og ef ég kemst þangað, skal hann aldrei sjá konunginn. Betur að ég að eins kæmist þangað í tæka tíð. En heyrðu! Hefi ég breyst frá því, sem ég var áður? Get ég ekki enn leikið konunginn? Já, ef ég kem í tæka tíð, þá skal Rischenheim fá að tala við konunginn í Zenda, og konungurinn mun taka honum mjög feginsamlega, og veita bréfinu viðtöku! Já, Rischenheim skal fá að tala við Rúdolf konung í kastalanum í Zenda; það skal ekki bregðast."

Hann stóð þarna hjá mér og starði á mig til að vita hvernig mér geðjaðist að fyrirætlun sinni; en ég var svo forviða á því, hve ofdirfskufull hún var, að ég lá kyr og þagði.

Ákafinn, sem komið hafði í Rúdolf, hvarf jafnskjótt og hann hafði komið í hann; hann var aftur orðinn sami, rólegi, athuguli, óhlutsami englendingurinn þegar hann kveikti í næsta vindlingi og tók aftur til máls og sagði:

"Þú sérð, að þeir fylgjast báðir að málum, Rúpert og Rischenheim. Næstu tvo daga getur þú ekkert hreyft þig héðan; það er öldungis víst. En tveir okkar manna verða þá að vera í Rúritaníu. Rischenheim á víst að leita hófanna fyrst; en ef honum mishepnast, þá mun Rúpert leggja sig í hvaða hættu sem er til að ná fundi konungsins. Ef honum tekst að fá að tala við konunginn í fimm mínútur, þá er óhamingjan vís. En til að koma í veg fyrir þetta, þá verður Sapt að tefja fyrir Rúpert meðan ég á við Rischenheim. Undir eins og þú getur hreyft þig, þá skaltu fara til Streslau og láta Sapt vita um komu þína.

"En ef að þú sæist, ef að þú skyldir þekkjast?"

"Það er betra að ég sjáist, en bréfið drotningarinnar," svaraði hann. Því næst tók hann um handlegginn á mér og sagði með hægð: "Ef bréfið skyldi komast í hendur konungsins, þá er ég sá eini, sem get gert það, sem gera þarf."

Ég vissi ekki hvað hann átti við; vera má að hann mundi hafa tekið drotninguna brott með sér heldur en láta hana vera kyrra, eftir að bréfið var orðið heyrinkunnugt; en hægt var og að leggja annan skilning í þetta, sem ég, tryggur þjónn konungsins, þorði ekki að spyrja um. En ég svaraði þessu engu, því að hvað sem öðru leið var ég öllu öðru fremur þjónn drotningarinnar. Samt sem áður á ég bágt með að trúa því, að hann hafi ætlað sér að vinna konunginum nokkurt mein.

"Vertu hughraustur, Fritz, og ekki svona daufur í bragði," mælti hann; "þetta er ekki annað eins stórmál og hitt, sem við réðum farsællega til lykta." En ég býst við að lítið hafi létt yfir mér, því að hann hélt áfram og sagði óþolinmóðlega. "Jæja, ég fer, hvað sem öðru líður. Geturðu ímyndað þér, maður, að ég sitji hér kyrr, meðan verið er að koma þessu bréfi í hendur konungsins?"

Ég gat auðveldlega getið því nærri, hvernig honum var innanbrjósts, og ég vissi að hann mat lífið lítils á borð við það, ef opinbert yrði um bréf Flavíu drotningar. Ég hætti því að telja hann af að fara. Þegar ég félst á tilmæli hans glaðnaði strax yfir honum og hann fór að tala í fáum og ljósum orðum um öll aukaatriði þessarar fyrirætlunar.

"Ég ætla að skilja James eftir hjá þér," sagði Rúdolf. "Hann getur orðið þér mjög þarfur, og þú mátt full-treysta honum. Þú skalt fela honum að fara með öll þau skeyti, sem þú þorir ekki að eiga undir neinum öðrum. Hann mun koma þeim til skila. Hann er líka góð skytta. Ég skal líta aftur inn til þín áður en ég fer," sagði hann og stóð á fætur um leið, "og vita hvað læknirinn segir um þig."

Ég lá þarna og fyltist kvíða yfir háskanum og áhættunum ægilegu, eins og mönnum er títt, sem sjúkir eru á sálu og líkama. Hjá mér gat nú ekki vaknað sú von, er dirfskan blæs hraustum manni og með fullum sönsum i brjóst. Ég þorði ekki að treysta ályktunum þeim, sem Rúdolf hafði dregið af símskeyti Sapts, og fanst að þær mundu bygðar á helst til veikum grundvelli. En þar skjátlaðist mér, og mér þykir vænt um að geta nú látið hann njóta þeirrar skarpskygni sinnar. Rúdolf hafði getið rétt til um fyrsta þátt fyrirætlana Rúperts. Meðan ég lá þarna hafði Rischenheim lagt á stað til Zenda, og hafði meðferðis eftirrit af bréfi drotningarinnar og ætlaði að nota sér viðtalsleyfið við konung til að koma því á framfæri. Að þessu leyti höfðum við getið rétt til; en að því er annað snerti vorum við í óvissu, því að við gátum alls ekki gizkað á hvar Rúpert mundi bíða úrslita þessa tiltækis, eða til hverra ráða hann mundi grípa, ef þetta mishepnaðist. En þó að ég hefði enga hugmynd um fyrirætlanir hans eftirleiðis, þá hafði ég rent grun í hvað hann hafði síðast haft fyrir stafni, og reynd varð síðar á því, að ég hafði getið mér rétt til um það. Bauer var verkfæri hans. Piltar þeir sem vagnana leigðu á járnbrautarstöðinni höfðu verið keyptir til þess fyrir fáeina skildinga hver, og haldið að það væri að eins saklaus hrekkur. Rúpert hafði farið nærri um það, að ég mundi hinkra við eftir þjóni mínum og farangri og fyrir þá sök missa af vögnunum sem eftir voru. En þó að mér hefði tekist að ná í einhvern vagn, átti að ráðast á mig eigi að síður, þó að það yrði þá vitanlega erfiðara. Síðast er þess að geta – en það fekk ég ekki að vita fyr en löngu seinna – að grípa átti til annara ráða, ef mér tækist að sleppa úr greipum þeirra með sendinguna, og skila henni af mér. Þá ætlaði Rúpert að snúa sér beint að Rúdolf. Rúpert gerði ráð fyrir, að ástin yrði hygninni yfirsterkari og Mr. Rassendyll mundi ekki eyðileggja bréfið frá drotningunni, og hafði hann því gert ráðstafanir til að veita Rassendyll eftirför, þangað til að færi gæfist á að ræna frá honum bréfinu. Til að koma þessari fyrirætlun fram, sem mér er nú kunnugt um, þurfti á dirfskufullri ráðkænsku að halda. Rúpert sjálfur lagði á ráðin, en féð átti hann að þakka frænda sínum og undirtyllu, Luzau-Rischenheim greifa.

Ég varð að hætta að hugsa um þetta, því að nú kom læknirinn. Hann bretti brýr og blés mæðilega yfir mér, en spurði mig alls ekkert um það hvernig ég hefði orðið fyrir þessu slysi og furðaði mig mikið á því. Hann fór þess ekki heldur á leit að lögreglunni væri tilkynt þetta, en fyrir því hafði ég kviðið. Þvert á móti skildi ég það á honum einu sinni eða tvisvar, að mér væri óhætt að treysta því að hann ætlaði ekki að flíka því neitt, að þetta slys hefði komið fyrir mig.

"Þér getið ekki hugsað til að hreyfa yður neitt næstu tvo daga," sagði hann, "en þá vonast ég til að þér verðið orðinn svo frískur, að þér getið komist á stað héðan."

Ég þakkaði honum; hann lofaði að líta inn til mín aftur; ég fór þá að minnast eitthvað á borgun við hann.

"Þakka yður fyrir. Ég hefi fengið greitt fyrir ómak mitt. Vinur yðar, herra Schmith, hefir séð um það. Við erum líka góðkunningjar."

Hann var naumast horfinn út úr dyrunum þegar "vinur minn, herra Schmith", öðru nafni Rúdolf Rassendyll, kom inn. Hann brosti þegar ég sagði honum hve læknirinn hefði verið óhlutsamur.

"En gáðu að því," svaraði Rúdolf, "að hann heldur að þú hafir verið hlutsamur í meira lagi. Ég neyddist til, Fritz minn góður, að varpa ofurlitlum skugga á mannorð þitt. En þetta gerir þó lítið til á við það, að konan þín hefði komist að því.

"En hefðum við ekki getað látið taka bófana fasta?"

"Og Rúpert með bréfið á sér? Þú ert býsna lasinn, kunningi."

Ég hló að sjálfum mér, og fyrirgaf Rúdolf þenna hrekk, þó að mér sýndist að hann hefði getað sagt þessa ástargyðju, sem hann bjó til handa mér, vera eitthvað af skárra tagi en bakarakonu. Það kostaði hann ekkert meira, þó að hann hefði látið hana vera greifafrú, og ég hefði vaxið í augum læknisins við það. En Rúdolf hafði sagt, að bakarinn hefði barið mig á höfuðið með kökukefli sínu, og annað veit læknirinn ekki alt til þessa dags.

"Jæja, ég fer þá," sagði Rúdolf.

"En hvert?"

"Til sömu stöðvanna, sem tveir vinir mínir kvöddu mig á einu sinni áður fyrri. En hvert heldurðu, Fritz, að Rúpert hafi farið?"

"Ég vildi að ég vissi það."

"Ég þori að, segja, að hann er ekki langt undan."

"Ertu vopnaður?"

"Með sexhleypu. Jú, með hníf líka, ef þig langar til að vita um það, en ég gríp ekki til hans, nema barist verði við mig með því vopni. Þú lætur Sapt vita hvenær þú kemur."

"Já; ég kem strax og ég get staðið."

"Það þurftirðu ekki að segja mér, gamli vinur."

"Hvaða leið ætlarðu frá járnbrautarstöðinni?"

"Gegnum skóginn til Zenda," svaraði hann. "Ég ætla að verða kominn á stöðina kl. níu annað kveld, á fimtudaginn. Ég verð því kominn í tæka tíð, ef Rischenheim fær ekki fyr viðtalsleyfið en ákveðið var."

"Hvernig ætlarðu að ná í Sapt?"

"Um það hugsa ég ekki óðar en á dettur."

"Guð fylgi þér, Rúdolf."

Svo varð ofurlítil þögn og við tókumst í hendur. Þá kom blíðlegi glampinn aftur í augu hans. Hann brosti þegar hann tók eftir því hve fast ég horfði á hann.

"Ég hélt, að ég mundi aldrei fá að sjá hana aftur," sagði hann. "Nú býst ég við að það verði, Fritz. Það er vert að stofna sér í dálitla hættu fyrir það að fá að eiga við þrælmennið og sjá hana aftur."

"Hvernig býstu við að sjá hana?"

Rúdolf hló og ég hló líka. Hann greip aftur um hönd mína. Ég held að hann hafi langað til að blása mér í brjóst gleði þeirri og góðum vonum, sem fyltu hug hans. En það tókst honum ekki. Í brjósti hans hreyfðu sér tilfinningar, sem ég varð alls ekki var við – það var sterk þrá, og eftirvæntingin eða vonin um uppfyllingu hennar gerði það að verkum, að hann leit smáum augum á hættuna og örvænting kom honum alls ekki í hug. Hann sá að ég hafði orðið var við þetta og lesið í huga hans.

"En bréfið verður að ganga fyrir öllu," sagði hann. "Ég bjóst við, að ég mundi ekki sjá hana áður en ég dæi; en ég skal fúslega láta lífið án þess að sjá hana, ef þess þarf til að koma bréfinu undan."

"Ég veit það," sagði ég.

Hann þrýsti að hönd minni aftur. Í því að hann sneri sér frá mér kom James inn.

"Vagninn er kominn að dyrunum, herra," sagði hann.

"Líttu eftir greifanum, James," sagði Rúdolf. "Þú skalt ekki skilja við hann fyr en hann sendir þig frá sér."

"Sjálfsagt, herra."

Ég reis upp í rúminu.

"Góða ferð," hrópaði ég og saup á sítrónuvatnsglasinu, sem James hafði fært mér.

"Verði guðs vilji!" sagði Rúdolf og fór út.

Nú fór hann, til að leysa af hendi verk sitt og þiggja laun sín: Að ná bréfi drotningarinnar og sjá hana sjálfa. Þess vegna fór hann til Zenda í annað sinn.

IV. KAPÍTULI.

Fimtudagskveldið 16. Október var borgarstjórinn í Zenda í miðlungi góðu skapi; svo hefir hann sagt mér síðan. Honum hafði aldrei þótt það viturlegt að stofna hallarfriðnum í hættu fyrir þá tillátssemi að lofa elskendum að kveðjast, og hann var í hæsta máta óánægður yfir örlaga pílagrímsförinni "asnans hans Fritz". Kveðjubréfið taldi hann nýja heimsku, er líkleg væri til stórtjóns. Nú var svo komið að við lá að þetta hugboð hans rættist. Stutta símskeytið, sem honum barst frá Vintenberg, gaf það fyllilega í skyn, þó að það væri óljóst. Hann var jafnvel ekki viss um frá hverjum skeytið var, en það skipaði honum að láta viðtalsleyfi Rischenheims dragast, eða koma konunginum burt frá Zenda, ef hitt tækist ekki. En það var látið ósagt, hvernig hann átti að fara að því. Hinsvegar var honum jafnkunnugt um það eins og mér að Rischenheim var algerlega í höndum Rúperts, og ekki gat heldur hjá því farið, að hann grunaði að eitthvað hefði farið aflaga í Vintenberg, og að Rischenheim kæmi til að færa konunginum þær fréttir er hann mætti ekki heyra. Í fljótu bragði sýndist hlutverk það, er honum var falið, auðvelt, en það var öðru nær. Hann vissi ekki hvar Rischenheim var og gat ekki komið í veg fyrir að hann kæmi; auk þess hafði konungi þótt mjög vænt um að heyra að hann mátti bráðlega eiga von á heimsókn greifans, því að hann langaði til að tala við hann um hundakyn nokkurt, sem greifanum tókst ágætlega að ala, en konunginum ekki nema rétt í meðallagi. Fyrir því hafði konungurinn lýst yfir því, að ekkert skyldi verða því til fyrirstöðu, að tekið yrði á móti Rischenheim í höllinni. Það hafði engan árangur þó að Sapt segði konunginum frá því að afarstór villigöltur hefði sést í skóginum, og að búast mætti við góðri skemtan ef farið væri á veiðar daginn eftir. "Ég yrði þá ekki kominn aftur í tæka tíð, til að taka á móti Rischenheim," sagði konungurinn.

"Yðar Hátign gæti komið aftur fyrir rökkur," sagði Sapt.

"Ég yrði of þreyttur til að taka móti honum, og ég hefi um margt að ráðgast við greifann."

"Mig langar til að sjá hann eins fljótt og hægt er." Og svo leit hann framan í Sapt, því að grunsemd sú, sem sjúkum mönnum er svo eiginleg, hafði gripið hann, og hann spurði: "Hversvegna skyldi ég líka ekki mega sjá hann?"

"Það er verst að missa af villigeltinum, herra konungur," sagði Sapt. Konungur skeytti því lítið.

"Villigölturinn má fara til fjandans!" sagði hann. "Mig langar til að vita hvernig greifinn fer að gera hundana svona fallega í hárbragði."

Um leið og konungurinn sagði þetta, kom þjónn inn og færði Sapt símskeyti. Ofurstinn tók við því og stakk því í vasa sinn.

"Lestu það," sagði konungurinn. Hann var nýbúinn að snæða, og ætlaði að fara að hátta. Klukkan var nærri tíu.

"Það þolir að geymast, herra konungur," svaraði Sapt. Hann vissi ekki nema það væri frá Vintenberg.

"Lestu það," sagði konungur með áherzlu. "Það kann að vera frá Rischenheim. Vera má að hann geti komið hér fyr en hann ætlaðist til síðast. Mig langar til að fræðast af honum um hundana. Lestu það því fyrir mig."

Sapt var nauðugur einn kostur að lesa skeytið. Hann var farinn að brúka gleraugu upp á síðkastið, og hann eyddi löngum tíma í að þurka þau, og hugsa um hvað hann ætti að gera, ef konungurinn mætti ekki heyra hvað í skeytinu stóð. "Flýttu þér maður, flýttu þér!" hrópaði konungurinn óþolinmóðlega.

Sapt var nú búinn að opna umslagið, og auðséð var á honum, að hann bæði undraðist og honum létti við það sem hann sá.

"Yðar Hátign hefir getið undarlega rétt til. Rischenheim getur komið hingað klukkan 8 í fyrramálið," sagði hann og leit upp.

"Ágætt!" hrópaði konungurinn. "Hann skal snæða með mér morgunverð klukkan 9 og eftir að við höfum talast við ætla ég að ríða á stað að leita villigaltarins. Ertu nú ánægður?"

"Í fylsta máta, herra konungur," sagði Sapt og japlaði granaskeggið.

Konungurinn stóð geispandi á fætur og bauð Sapt góða nótt. "Hann hlýtur að hafa einhver undrabrögð við hundana, sem ég þekki ekki," sagði hann um leið og hann fór út. Og "fjandinn hafi alla hunda!" hrópaði Sapt þegar hurðin laukst aftur á eftir konunginum.

En ofurstinn var ekki sá maður, er yndi því vel, að snúið væri á hann. Nú hafði verið flýtt fyrir viðtalsleyfinu sem hann átti að sjá um að drægist; í stað þess að hann átti að koma konunginum burt frá Zenda, aftók hann að fara neitt fyr en hann hefði hitt Rischenheim. Samt sem áður eru ýmis ráð til að koma í veg fyrir samfundi manna. Það má gera með brögðum, og eigi er Sapt gert rangt til þó sagt sé, að hann hafi gripið til þeirra stundum. Einnig má beita ofbeldi til þess, og ofurstinn var neyddur til að líta svo á, að öðru hvoru yrði að beita.

"Það má sjálfsagt ganga að því vísu, sagði hann við sjálfan sig, "að konungurinn verður hamslaus, ef eitthvað kemur fyrir Rischenbeim áður en hann hefir frætt Hans Hátign um hundana."

Þrátt fyrir það fór hann að brjóta heilann um hvernig hann ætti að fara að því að gera greifann óhæfan til að láta þá þjónustu í té, er konunginn sárlangaði svo til, og koma í veg fyrir að fyrnefndur kæmi fram erindi sínu. Borgarstjóranum fanst að morð vera eina úrræðið. Deila og einvíg var ekki nógu trygt. Sapt stóð heldur ekki í sporum Michaels svarta og hafði ekki bófaflokk á að skipa, er reiðubúinn væri til að handtaka og hafa á brott að ástæðulausu nafnkunnan tíginmann.

"Mér kemur ekkert ráð í hug," tautaði Sapt, reis upp af stólnum og gekk yfir að glugganum til að anda að sér hreinu lofti, því að það verður mörgum að gera í því skyni að skerpa hugsanina. Hann var staddur í herbergjum sínum. Herbergið, sem hann var í var í nýju kastalahöllinni, rétt hægra megin við vindubrúna og vissi út að sýkinu andspænis gamla kastalanum. Það var herbergið sem Michael hertogi hafði búið í, og það var rétt andspænis staðnum þar sem stóra pípan hafði legið að glugganum á fangaklefa konungsins. Brúin var nú niðri, því að nú var fullur friður í Zenda; pípan var horfin; járnslárnar voru enn fyrir fangaklefaglugganum, en enginn hleri var fyrir honum. Það var bjart og gott veður og glitraði á spegilslétt vatnið öðru hvoru, en hálft tunglið óð í skýjum og varpaði bjarma sínum á það. Sapt stóð kyr og starði út um stund daufur í bragði. Hreina loftið skorti eigi, en hugsunin virtist ekkert skerpast að heldur.

Alt í einu beygði borgarstjórinn sig áfram og teygði höfuðið eins langt út úr glugganum og niður á við og hann gat. Það sem hann sá eða þóttist sjá óglögt, var þó ekki annað en það sem mjög er altítt, að menn sjái á vatni; stækkandi ölduhringar út frá sama miðpunkti. Þeir geta komið á vatnið, sé steini kastið, eða ef fiskur vakir uppi. En Sapt hafði engum steini kastað, og fiskar voru fáir í sýkinu, og gátu ekki verið upp í vatnsbrún þá. Ljósið féll á Sapt og hann sást því gerla. Konungsherbergin voru hinu megin; það voru engin ljós í gluggunum þeim megin við brúna, en að eins í sumum gluggunum þar sem lífvörðurinn og þjónarnir héldu til. Sapt beið þangað til ölduhringirnir hurfu. Þá virtist honum hann heyra ofurlítið skvamp eins og maður hefði látið fallast hljóðlega ofan í vatnið. Eftir drykklanga stund kom mannshöfuð upp úr sýkinu beint neðan undir honum.

"Sapt!" var sagt með lágri og skýrri röddu.

Gamli ofurstinn hrökk við; svo tók hann báðum höndum á gluggasillunni og beygði sig áfram, svo að við lá að hann misti jafnvægið.

"Komdu fljótt að múrveggsbrúninni hinumegin. Þú skilur," sagði röddin og höfuðið snerist frá honum í vatninu. Svo synti maðurinn hljóðlega yfir sýkið þangað til hann kom í skugga hornsins sem vindubrúin myndaði við vegginn á gamla kastalanum. Sapt horfði á eftir honum höggdofa af undrun af að heyra þessa rödd berast sér til eyrna í næturkyrðinni, því að konungurinn var genginn til hvílu, og slíka rödd hafði enginn nema konungurinn og einn maður annar.

Svo hraðaði hann sér út að herbergisdyrunum, bölvandi sjálfum sér fyrir biðina. Hann opnaði hurðina og þegar hann kom út í ganginn rak hann sig á Bernenstein, unga lífvarðarforingjann, sem var þar á varðgöngu. Sapt þekti hann vel og treysti honum, því að hann hafði verið í umsátinni um Zenda, þegar Michael hélt konunginum í varðhaldi og Bernenstein bar mörg ör á sér eftir bófa Ruperts Hentzau. Nú var hann orðinn lífvarðarforingi konungsins.

Hann sá, að Sapt var á hraðri ferð, og sagði við hann í lágum hljóðum: "Gengur nokkuð að?"

"Hér er alt í röð og reglu, Bernenstein minn. Farðu að framhliðinni og stattu þar á verði grafkyr," sagði Sapt.

Liðsforinginn varð öldungis hissa eins og von var. Sapt greip þá til hans og sagði:

"Nei, vertu annars kyr hér. Heyrðu, stattu við dyrnar, sem liggja til konungsherbergjanna. Hreyfðu þig hvergi þaðan og leyfðu engum að fara út eða inn. Skilurðu mig?"

"Já, herra."

"Og líttu ekki við, hvað sem þú kant að heyra."

Bernenstein undraðist nú enn meir en áður; en Sapt var borgarstjóri, og á herðum hans hvíldi ábyrgðin á Zenda og öllum sem þar voru.

"Ég heyri herra," svaraði hann, ypti öxlum, dró sverð sitt úr slíðrum og nam staðar við dyrnar. Hann gat hlýtt, þó að hann skildi ekki.

Sapt æddi áfram. Hann opnaði hliðið út að brúnni og hljóp yfir hana. Svo fór hann út af henni öðrumegin, sneri fanginu að veggnum og gekk niður tröppurnar ofan að múrveggsbrúninni er lá hér um bil 6 til 8 þumlunga ofan við vatnsyfirborðið. Nú var hann kominn í skuggann í horninu við brúna og þar vissi hann að maður stóð uppréttur, töluvert hærri en hann sjálfur. Rétt á eftir fann hann að gripið var þétt fast í hönd sína. Rúdolf Rassendyll var þarna fyrir í rennblautum nærbuxum og sokkum.

"Ert það þú?" hvíslaði hann.

"Já," svaraði Rúdolf. "Ég synti hinu megin frá hingað. Svo kastaði ég kalkmola, en ég var ekki viss um að þú hefðir orðið var við það, svo að ég fór sjálfur á eftir. Styddu mig andartak, meðan ég fer í ytri buxurnar. Ég vildi ekki bleyta fötin, svo að ég batt þau í bagga. Haltu fast í mig; það er sleipt.

"En hvernig í dauðanum stendur á ferðum þínum hingað?" hvíslaði Sapt og tók um handlegg Rúdolfs, eins og hann var beðinn.

"Ég kem til að hjálpa drotningunni. Hvenær kemur Rischenheim?"

"Í fyrramálið klukkan 8."

"Hver skollinn. Það er fyr en ég bjóst við. Og hvað segirðu um konunginn?"

"Hann er hér, og hefir fastákveðið að sjá Rischenheim. Það sýnist ómögulegt að hafa hann ofan af því."

Svo varð stundarþögn. Rúdolf steypti yfir sig skyrtunni og girti hana ofan í buxurnar. "Réttu mér vestið og frakkann minn," sagði hann. "Mér er nógu hrollkalt af að vera blautur að neðan verðu."

"Þú þornar bráðum," svaraði Sapt háðslega. "Þú færð að hita þér."

"Ég hefi mist hattinn minn."

"Ég held helst, að þú hafir mist vitið líka."

"Þú ert vís að hjálpa mér um hvorttveggja, Sapt."

"Já, og fult eins gott og þitt," tautaði borgarstjórinn.

"Réttu mér nú skóna, og þá er ég búinn." Því næst spurði hann alt í einu: "Hefir konungurinn séð eða fengið skeyti frá Rischenheim?"

"Nei, ekki nema fyrir milligöngu mína."

"Því er honum svo ant um að hitta hann?"

"Til að fá að vita hvernig eigi að fara að því að gera hunda fallega í hárbragði."

"Er þér alvara? Mér er ómögulegt að sjá framan í þig."

"Já, fylsta alvara."

"Þá er öllu gott. Er hann skeggjaður núna?"

"Já."

"Fjandinn hafi hann! Geturðu ekki farið eitthvað með mig þangað sem við getum talast við?"

"En til hvers fjandans ertu hingað kominn?"

"Til að hitta Rischenheim."

"Til að hitta –"

"Já. Hann hefir meðferðis eftirrit af bréfi drotningarinnar, Sapt."

Sapt strauk skeggið.

"Ég bjóst alt af við þessu," sagði hann eins og honum þætti hálf vænt um. Hann þurfti ekki að taka þetta fram, því það hefði verið menskum manni ofvaxið, ef hann hefði ekki hugsað á þessa leið.

"Hvert geturðu farið með mig?" spurði Rúdolf óþolinmóðlega.

"Í hvaða herbergi, sem skrá er fyrir," svaraði gamli Sapt. "Ég er húsbóndi hér, og þegar ég segi: "Verið þið hér úti, þá fer enginn inn."

"Og konungurinn ekki heldur?"

"Konungurinn er háttaður. Komdu með mér." Að svo mæltu steig borgarstjórinn upp í neðstu tröppuna.

"Er nokkur hér í nánd?" spurði Rúdolf.

"Já. Bernenstein, en hann snýr að okkur bakinu."

"Þú hefir þá enn góðan aga á hér, ofursti."

"Já, dágóðan, eftir því sem nú er um að gera, Yðar Hátign", tautaði Sapt í því hann fór upp á brúna.

Þegar þeir komu yfir hana fóru þeir inn í kastalahöllina. Þar var enginn nema Bernenstein. Breiða bakið á honum skygði á dyrnar, er lágu til konungsherbergjanna.

"Hérna inn." hvíslaði Sapt og tók í hurðina að herberginu, sem hann hafði komið út úr.

"Ágætt", svaraði Rúdolf. Bernenstein krepti hnefana, en leit ekki við. Það var góður agi í kastalanum í Zenda.

En þegar Sapt var að stíga inn fyrir þrepskjöldinn og Rúdolf ætlaði að fara á eftir honum, þá voru dyrnar, sem Bernenstein gætti opnaðar hratt en hljóðlega. Bernenstein lyfti upp sverði sínu. Sapt hraut blótsyrði af gremju en Rúdolf greip andann á lofti. Bernenstein leit ekki við, en lagði sverðið niður við hlið sér. Flavía drotning stóð í dyrunum hvítklædd frá hvirfli til ilja, og fölnaði nú svo að hún varð jafnhvít í framan eins og búningurinn sem hún var í. Hún hafði komið auga á Rúdolf Rassendyll. Þannig stóðu þau fjögur stundarkorn. En svo vatt Rúdolf sér frá Sapt, veik Bernenstein frá (hann hafði ekki litið við enn þá), féll á kné fyrir drotningunni, greip hönd hennar og kysti hana. Nú gat Bernenstein séð það sem fram fór án þess að líta við, og ef undrun gæti orðið manni að bana, hefði hún drepið hann. Hann hné eða kastaðist upp að veggnum og glápti á þau opnum munni. Hann vissi að konungurinn hvíldi í sæng sinni, og var skeggjaður; samt var konungurinn þarna alklæddur og nýrakaður, og hann var að kyssa höndina á drotningunni, en hún starði á hann kvíðafull, en glöð og ánægð. Hermenn eiga að vera við öllu búnir, en ég get ekki tekið hart á Bernenstein þó að honum yrði hverft við þetta.

En þó var það reyndar ekkert undarlegt, að drotningin skyldi koma til að finna Sapt þá um kveldið, né heldur að hún skyldi leita hans þarna. Hún hafði þrívegis spurt hann um, hvort ekki væru fréttir komnar frá Vintenberg, en hann hafði alt af komið sér hjá að svara því. Nú hafði hún ásett sér að fá að vita hjá honum hvort nokkur hætta væri á ferðum, og hafði því lagt á stað frá herbergjum sínum, án þess að vart yrði við, til þess að finna hann. En þá olli það henni ekki lítilli gleði að finna Rúdolf Rassendyll þarna sjálfan heilan á hófi, en ekki að eins í anda, og finna hann kyssa innilega hönd hennar.

Elskendur taka hvorki tillit til tíma eða hættu, en Sapt tók tillit til hvorstveggja, og að andartaki liðnu benti hann þeim óþolinmóðlega að fara inn í herbergið. Drotningin hlýddi því og Rúdolf fór á eftir henni.

"Hleyptu engum inn, og hafðu ekki orð á þessu við nokkurn mann." hvíslaði Sapt, um leið og hann fór inn og skildi við Bernenstein. Ungi maðurinn var enn sem höggdofa af undrun, en hann gat séð það á augnaráði Sapts, að hann yrði fyr að láta líf sitt, en hleypa nokkrum inn í herbergið. Hann brá því sverði sínu og staðnæmdist utan við dyrnar.

Klukkan hafði verið ellefu, þegar drotningin kom, og stóra kastalaklukkan sló tólf, áður en Sapt kom út. Hann hafði ekki brugðið sverði sínu, en hélt á skammbyssu sinni í hendinni. Hann lokaði dyrunum hljóðlega á eftir sér og fór að tala við Berneinstein í hálfum hljóðum, en alvarlegur á svip. Bernenstein hlýddi á hann með athygli og tók hvergi fram í. Sapt var að tala í átta eða níu mínútur. Svo þagnaði hann og spurði litlu síðar:

"Skilurðu nú?"

"Já, þetta er undarlegt," svaraði ungi maðurinn og stundi við.

"Pú!" sagði Sapt."Ekkert er undarlegt, en sumt er óvanalegt."

Bernenstein gat ekki fallist á það og ypti öxlum.

"Jæja, hvað segirðu?" mælti Sapt og leit fast á hann.

"Ég vil láta líf mitt fyrir drotninguna, herra," svaraði hann og sló saman hælunum eins og hann væri við heræfingar.

"Það er gott," sagði Sapt. "Hlustaðu þá á," og svo hóf hann ræðu sína á ný. Bernenstein kinkaði kolli öðru hvoru. "Þú mætir honum við hliðið," sagði borgarstjórinn, "og fylgir honum beint hingað. Hann á ekkert annað að fara, skilurðu mig?"

"Fyllilega, ofursti," svaraði Bernenstein brosandi.

"Konungurinn verður í þessu herbergi – konungurinn, taktu eftir. Þú veist hver konungurinn er?"

"Fyllilega, ofursti."

"Og þegar viðtalið er á enda, og við göngum til morgunverðar –"

"Þá veit ég hver verður konungur, ofursti."

"Það er gott. En við gerum honum ekkert mein, nema –"

"Nauðsyn krefji."

"Rétt hjá þér."

Sapt veik sér undan og stundi við. Bernenstein var næmur lærisveinn, en ofurstinn var eftir sig eftir alla þessa fræðslu. Hann drap ofurlítið högg á dyrnar. Drotningin bauð honum að koma inn, og hann fór inn. Bernenstein varð eftir einn í ganginum, og var að hugsa um það hvað hann hafði heyrt og hversu hann ætti að leysa hlutverk sitt af hendi. Hann þóttist meir en lítið upp með sér af því. Verkið virtist svo mikilvægt og virðingin svo há, að hann óskaði einskis frekar en að mega láta lífið er hann væri að vinna þetta. Að láta lífið þarna fanst honum enn dýrðlegri dauðdagi, en hann hafði nokkurn tíma órað fyrir í hermenskudraumum sínum.

Klukkan 1 kom Sapt aftur út.

"Farðu nú og sofðu til klukkan 6," sagði hann við Bernenstein.

"Ég er ekki syfjaður."

"Einmitt það. En þú verður sofandi klukkan 8, ef þú ferð ekki að hátta núna."

"Kemur drotningin bráðum, ofursti?"

"Á augabragði, liðsforingi."

"Mig langar til að kyssa hönd hennar."

"Þú getur það, ef þér finst tilvinnandi að bíða í heilt kortér eftir því!" sagði Sapt brosandi.

"Þú sagðir, að hún kæmi á augabragði, herra minn."

"Svo sagði hún mér," svaraði borgarstjórinn.

Samt sem áður leið fult kortér áður Rudolf Rassendyll opnaði hurðina og drotningin kom fram í dyrnar. Hún var mjög föl og hafði grátið, en hún var róleg og ánægjuleg á svip. Undir eins og Bernenstein sá hana féll hann á kné og kysti á hönd hennar.

"Alt til dauðans, frú mín," sagði hann lágt og með skjálfandi röddu.

"Ég vissi það, herra minn," svaraði hún blíðlega. Svo leit hún til þeirra allra þriggja og sagði: "Herrar mínir, þjónar mínir og kæru vinir! Líf mitt og heiður er í ykkar hendi, og Fritz, er nú liggur særður í Vintenberg, því að ég vil ekki lifa eftir að bréfið hefir komist í hendur konungsins."

"Konungurinn skal ekki ná í það, frú mín," sagði Sapt ofursti.

Hann greip um hönd hennar og klappaði henni dálítið hrottalega eina og honum var lagið. Hún brosti og rétti Bernenstein hönd sína vingjarnlega. Þeir stóðu svo báðir kyrrir og kvöddu hana að hermanna sið, en Rúdolf leiddi hana yfir í endann á ganginum. Þar staðnæmdust þau bæði. Bernenstein og Sapt horfðu í aðra átt og sáu því ekki að hún greip hönd Rúdolfs og kysti hana hvað eftir annað. Hann reyndi að draga að sér höndina, því að honum fanst það ekki viðeigandi, að hún skyldi vera að kyssa á hana, en það var eins og hún gæti ekki slept henni. En loks gekk hún aftur á bak inn um dyrnar, en augu hennar hvíldu stöðugt á honum og hann starði á eftir henni.

"Nú er best að byrja á nauðsynjamálunum," sagði Sapt þurlega, en Rúdolf fór að brosa.

Rúdolf fór inn í herbergið. Sapt sneri til herbergja konungsins, og spurði lækninn hvort Hans Hátign svæfi vel. Þegar hann hafði fengið þau svör, að konungurinn væri í fasta svefni, fór hann að finna bryta Hans Hátignar, vakti hann harkalega og skipaði honum að hafa til morgunverð handa konunginum og Luzau-Rischenheim greifa stundvíslega kl. 9 í morgunverðar-borðsalnum, er vissi að götu þeirri er lá að inngangi nýju kastalahallarinnar. Þegar hann hafði skipað þetta sneri hann til herbergisins, sem Rúdolf var í, bar stól inn í ganginn, bauð Rúdolf að loka dyrunum, settist niður með marghleypu í hendinni og fór að sofa.

Bernenstein var nú háttaður, og borgarstjórinn hafði sjálfur leyst hann af verði, af því að Bernenstein hafði orðið veikur. Svo átti það að heita, ef eitthvað þyrfti um þetta að segja. Þannig var ástatt í Zenda næstu fjórar klukkustundirnar frá tvö til sex.

Þegar klukkan var sex vaknaði Sapt og drap á dyrnar. Rúdolf Rassendyll opnaði fyrir honum.

"Hefirðu sofið vel?" spurði Sapt.

"Ekki vitund," svaraði Rúdolf glaðlega.

"Ég hélt að þú værir taugastyrkari en þetta."

"Það var ekki vegna taugaóstyrks að ég vakti," svaraði Mr. Rassendyll.

Sapt ypti öxlum með meðaumkvunarsvip og leit í kring um sig. Gluggablæjurnar voru hálfdregnar niður. Borðið var fært yfir að veggnum, og hægindastóll settur við það í skugganum fast við gluggablæjuna.

"Þú kemst vel fyrir þarna á bak við," sagði Rúdolf. "og þegar Rischenheim er sestur á stólinn þarna á móti mér, þá þarftu ekki annað en rétta út handlegginn til að bera skammbyssuhlaupið að enninu á honum. Og ég get vitanlega gert það sama."

"Já, þetta er vel til fundið," sagði Sapt og kinkaði kolli.

"En hvað er um skeggið að segja?"

"Bernenstein á að segja honum, að þú hafir rakað þig í morgun."

"Ætli að hann trúi því?"

"Því þá ekki? Honum er það sjálfum fyrir bestu að trúa öllu."

"En ef við skyldum nú þurfa að drepa hann?"

"Við verðum að eiga það á hættu. Konungurinn mundi verða afarreiður."

"Er hann kær konungi?"

"Þú hefir gleymt því, sem ég sagði. Konungurinn vill fræðast af honum um hundana."

"Það er satt. Þú manst eftir að vera kominn á þinn stað í tæka tíð."

"Vitanlega."

Rúdolf Rassendyll fór svo að ganga um gólf. Það var auðséð að það, sem fyrir hafði komið um nóttina, hafði raskað rósemi hans. Sapt var um annað að hugsa.

"Þegar við erum búnir að sjá hann þennan náunga, þá verðum við að hafa upp á Rúpert," sagði hann.

Rúdolf hrökk við.

"Rúpert? Rúpert? Það er satt. Ég var búinn að gleyma. Já, vitanlega verðum við að gera það." sagði hann í flýti.

"Sapt leit háðslega til hans. Hann vissi að félagi sinn hafði verið að hugsa um drotninguna. En hann hætti við að ámæla honum, ef hann skyldi hafa ætlað að gera það, því að klukkan sló 7.

"Hann verður kominn eftir klukkutíma."

"Við erum reiðubúnir til að taka á móti honum." sagði Rúdolf Rasendyll. Fjörglampi kom í augu hans og hrukkurnar hurfu af andlitinu við tilhugsunina um að verk var fyrir hendi. Þeir litu nú hver framan í annan, hann og gamli Sapt og báðir brostu.

"Þetta er eins og í gamla daga, finst þér ekki, Sapt?"

"Jú, herra konungur, rétt eins og á ríkisstjórnarárum Rúdolfs konungs góða."

Þannig bjuggust þeir við að taka á móti Luzau-Rischenheim greifa, meðan ég varð að liggja í Vintenberg vegna sársins, sem ég hafði fengið. Ég sé enn þá eftir því að hafa ekki getað vitað um það sem gerðist nema af sögusögn annara, og hafa ekki getað átt hlutdeild í þeim heiðri að taka þátt í því. Samt sem áður gleymdi Hennar Hátign mér ekki, en mintist þess, að ég mundi hafa unnið minn skerf, ef ég hefði átt kost á. Og víst er um það, að ég hefði gert það með glöðu geði.

V. KAPÍTULI.

Þegar hér er komið sögu minni, liggur mér við að leggja frá mér pennann og láta ósagt frá því hversu ofboðsleg atvik virtust hrífa okkur með sér, án þess að við yrði ráðið, frá því að Mr. Rassendyll kom aftur til Zenda, og bera okkur með sér hvort sem við vildum eða ekki; og knýja okkur stöðugt út í ný æfintýri, gera okkur svo ófyrirleitna, að ekkert stóðst við okkur og glæða svo hjá okkur velvildarhuginn, sem við bárum til drotningarinnar og mannsins, sem hún elskaði, að alt annað varð að lúta í lægra haldi. Fornmenn höfðu þá trú, að til væru forlög, er hlytu að rætast, þó að af leiddi harmur kvenna og bani karlmanna, og enginn gæti um það sagt hvers sökin væri, né heldur hver saklaus félli. Þannig áfeldu þeir ranglega guðlega forsjón. En reyndar erum við jafnblindir þeim að undanteknu því, að okkur er kent og við trúum því, að öllu sé stjórnað, og enn hljótum við að undrast, hvernig á því stendur, að alt, sem satt er og göfugt, og ávextir kærleikans sjálfs skuli svo oft snúast í harm og smán, og verða orsök tára og blóðsúthellinga. Að því er sjálfum mér við kemur vildi ég láta ósagt frá þessu, ef að nokkurt orð af því virtist kunna að rýra heiður hennar, sem ég þjóna; en eftir ósk hennar rita ég svo þetta verði opinbert þegar tími er til kominn, og þeim sem syndlausir eru, gefist þá kostur á að kveða upp fyrirdæmingar-dóminn, en hinum að sýna meðaumkvun sem átt hafa í samskonar stríði við tilfinningar sínar. Þetta læt ég nægja um hann og hana, en um okkur er færra að segja. Okkur bar ekki að meta gerðir hennar. Við vorum þjónar hennar. En við höfðum þjónað honum. Hún var drotning okkar, og við vorum forsjóninni ekkert þakklátir fyrir að hann skyldi ekki vera konungur okkar. Við höfðum ekki bruggað það lakasta af því, sem síðar kom fram, og ekki höfðum við heldur vænst eftir því. Það skall á okkur eins og þruma úr heiðríku lofti, það var sending frá Rúpert er hann varpaði að okkur milli blóts og hláturs. Og þegar hana bar að flæktumst við enn fastar heldur en áður í neti atvikanna. Þá vaknaði hjá okkur sú undarlega og óviðráðanlega löngun, er ég verð síðar frá að skýra, og hún fylti okkur eldmóði til að ná markmiði okkar og þröngva Mr. Rassendyll til þess, sem við æsktum. Þetta var stjarnan, sem beindi brautir okkar, er við keyrðum áfram í myrkrinu þangað til svo mjög syrti að, að við urðum að nema staðar. Við eigum dóm skilið eigi síður en hann og hún. Ég ætla því að halda áfram sögunni, en ég ætla að skrifa skýra og stutta frásögu, segja að eins frá því sem ég má til, og engu öðru. Samt ætla ég að leitast við að draga upp rétta mynd af þeim tímum, sem þá voru, og geyma eins lengi eins og hægt er mynd þess manns, sem ég veit ekki til að átt hafi sinn líka. En samt er ég alt af kvíðandi fyrir því, að mér takist ekki að gera mönnum skiljanlegt hve hugfangnir við urðum af honum að öllu leyti, þangað til að okkur fanst það eitt rétt að styðja hann, og við töldum það æðstu skyldu okkar og hjartfólgnustu ósk að hefja hann upp þangað, sem hann átti að sitja. Hann var fáorður og gagnorður þegar hann tók til máls. Ég man ekki eftir neinum háfleygum setningum eftir hann. Samt hreif hann svo hugi karla og kvenna með tilliti sínu og tali að menn vildu fegnir leggja líf sitt í sölurnar fyrir hann. Er ég að rugla? Þá er Sapt líka ruglaður, því að hann gekst manna mest fyrir öllu sem við gerðum.

Þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í átta var Bernenstein kominn á sinn stað utan við aðaldyrnar á kastalanum. Hann var mjög smekklega og vel búinn, og hann barst svo mikið á þar sem hann var að stika fram og aftur frammi fyrir vörðunum, er stóðu hræringarlausir, að monti gekk næst. Hann þurfti ekki að bíða lengi. Þegar sló átta kom maður vel ríðandi og einn saman upp akveginn, sem lá til kastalans. Bernenstein mælti stundarhátt: "Þarna kemur þá greifinn!" og hljóp til móts við hann. Rischenheim steig af baki, og rétti unga liðsforingjanum hendina.

"Sælir, kæri Bernenstein minn!" sagði hann, því að þeir voru nákunnugir áður.

"Þér komið stundvíslega, kæri Rischenheim minn, og það vill vel til, því að konungurinn bíður yðar óþreyjufullur."

"Ég bjóst ekki við, að hann mundi vera kominn á fætur svona snemma," svaraði Rischenheim.

"Á fætur! Hann er búinn að vera á fótum í tvær klukkustundir. Við höfum svei mér fengið að hafa á spöðunum í morgun. Þér skuluð tala varlega við hann, kæri greifi, því að hann er í slæmu skapi, eins og stundum á sér stað. Ég skal segja yður t.d. – en ég má ekki vera að tefja fyrir yður. Gerið svo vel og komið inn með mér."

"Nei, ég ætla að biðja yður að segja mér það. Annars kynni ég kannske að segja eitthvað, sem ekki kæmi sér vel."

"Jæja, hann vaknaði klukkan sex. Og þegar rakarinn kom til að stífa skegg hans þá sáust sjö hærur í því, skal ég segja yður, herra greifi. Konungurinn varð óður og uppvægur. "Rakaðu það af mér!" sagði hann. "Rakaðu það af mér! Ég kæri mig ekki um að ganga með hæruskegg! Rakaðu mig, maður!" Jæja, hvernig líst yður á? Auðvitað er hver og einn sjálfráður um það hvort hann gengur með skegg eða ekki, þá ekki síst konungurinn. Svo hann var rakaður."

"Var hann rakaður?"

"Já, hann var rakaður, herra greifi. Þegar það var búið lofaði hann sinn sæla fyrir að vera laus við skeggið og sagðist vera tíu árum unglegri. Rétt á eftir hrópaði hann: "Luzau-Richenheim greifi snæðir með mér morgunverð í dag. Hvað verður á borðum? Svo lét hann drífa hirðbrytann upp úr rúminu – En hamingjan hjálpi mér, ég lendi í skömm ef ég verð lengur að þvaðra við yður. Komið þér nú." Svo tók Bernenstein utan um handlegginn á greifanum og leiddi hann hratt með sér inn í kastalann.

Luzau-Rischenheim greifi var ungur maður. Hann var engu vanari þess kyns brellum en Bernenstein og varla eins. Hann var óvenjulega fölur í þetta skifti. Honum var órótt og hann var skjálfhentur. Hugrekki skorti hann ekki, en það var honum ekki gefið, að geta verið kaldur og rólegur. Og vegna þess hve mikið var komið undir málinu eða bragðinu, sem hann átti að koma fram brast taugastyrkur hans. Hann tók naumast eftir því, hvert með hann var farið, og hann leyfði Bernenstein að leiða sig skyndilega og beint til herbergjanna þar sem Mr. Rasendyll beið og efaðist ekki um, að verið væri að fylgja sér til konungsins.

"Það er gert ráð fyrir að morgunverður verði snæddur klukkan níu," sagði Bernenstein. "en hann vill fá að sjá yður áður. Hann þarf að tala við yður um eitthvert áríðandi efni; og vera má að eins standi á fyrir yður?"

"Mér. O-o-o nei. Það er lítilfjörlegt atriði – en – samt heimuglegt."

"Rétt er það, rétt er það. Ég ætlaði ekki að grenslast eftir því, herra greifi."

"Skyldi ég hitta konunginn einan" spurði Rischenheim og var eins og á nálum.

"Ég býst ekki við að neinn verði hjá honum. Nei, enginn, sem ég veit um," svaraði Bernenstein mjög alvarlegur.

Nú voru þeir komnir að dyrunum. Bernenstein nam þar staðar.

"Mér hefir verið skipað að bíða hér þangað til Hans Hátign kallar á mig," sagði hann í hálfum hljóðum eins og hann væri hræddur um að skapstyggi konungurinn heyrði til sín. Ég ætla að opna og tilkynna að þér séuð kominn. Blessaðir reynið þér að halda honum í góðu skapi, okkar allra vegna." Svo opnaði hann hurðina upp á gátt og sagði: "Herra konungur! Luzau-Richenheim greifa hefir hlotnast sú sæmd að vera kominn til funda við Yðar Hátign." Því næst lokaði hann hurðinni þegar í stað og hallaði sér upp að henni. Þaðan hreyfði hann sig ekki nema til þess að taka upp skammbyssu sína og athuga hana vandlega.

Greifinn fetaði inn eftir gólfinu, laut konungi virðulega og reyndi að dylja það hve órótt honum var. Hann sá að konungur sat á hægindastól. Konungurinn var í dökkum tweed-fötum (þau litu alls ekki betur út eftir að hafa verið reyrð saman í bagga kveldið fyrir); skuggi féll á andlitið á honum, en Richenheim þóttist viss um það, að satt var að hann hafði látið raka sig. Konungurinn rétti Richenheim höndina og benti honum að setjast á stól gagnvart sér svo sem eitt fet frá gluggatjöldunum.

"Mér er það mjög mikil ánægja að sjá yður, lávarður minn," sagði konungurinn.

Rischenheim leit upp. Rödd Rúdolfs hafði einu sinni verið svo lík konungsins að enginn hafði getað heyrt mun á. En á síðasta ári hafði konungurinn orðið nokkuð veikraddaður, og nú virtist svo sem Rischenheim furðaði sig á raddstyrkleikanum þegar konungur ávarpaði hann. Hann leit upp, og þá kom ofurlítil hreyfing á gluggatjöldin rétt hjá honum; en þau hættu brátt að bærast þegar greifinn sýndi engin frekari grunsemdarmerki, en Rudolf hafði tekið eftir því hversu greifanum brá við og þegar hann tók aftur til máls, var röddin mýkri og lægri.

"Koma yðar er mér sérlega mikið ánægjuefni," mælti Mr. Rassendyll ennfremur, "því ég er orðinn dauðarmæddur út af þessum hundum. Mér er ómögulegt að fá þá til að vera fallega í hárbragði. Ég hefi reynt alla skapaða hluti, en ekkert dugir. En nú er mér sagt að yðar séu prýðisfallegir."

"Ég er yður mjög þakklátur, herra konungur. En ég hafði ætlað að fá viðtalsleyfi til að –"

"En þér verðið endilega að segja mér frá hundunum, og við ættum að ljúka af að tala um þá, áður en Sapt kemur, því að ég kæri mig ekki um að neinn heyri það annar en ég."

"Á Yðar Hátign von á Sapt ofursta?"

"Já, eftir svo sem fjórðung stundar," sagði konungurinn og leit um leið á stundaklukkuna á arinhillunni.

Þá varð Richenheim ólmur í að ljúka af erindinu áður en Sapt kæmi.

"Loðnan á hundunum yðar," mælti konungur, "er svo ljómandi falleg og –"

"Ég bið yður margfaldlega fyrirgefningar, herra konungur en –"

"Hún er löng og silkimjúk svo ég get ekki annað en öfundað–"

"Ég hefi afaráríðandi mál að flytja," sagði Rischenheim með ákefð.

Rúdolf hallaði sér aftur á bak í stólnum önuglega.

"Jæja, ef þér þurfið endilega að flytja það nú, þá megið þér það. Hvaða áríðandi mál er það greifi? Við skulum flýta okkur að ljúka því af, svo þér getið sagt mér frá hundunum."

Rischenheim leit í kring um sig í herberginu. Þar var enginn. Gluggatjöldin voru hræringarlaus; konungurinn var að strjúka skegglausu hökuna með vinstri hendinni, en hægri hönd hans sá gesturinn ekki, því konungur hélt henni undir borðinu, sem stóð á milli þeirra.

"Herra konungur, frændi minn, Hentzau greifi, hefir falið mér að fara með sendingu til yðar."

Rúdolf varð alt í einu mjög alvarlegur á svip.

Ég ætla mér ekki, að hafa neitt saman við Hentzau greifa að sælda, hvorki persónulega eða fyrir milligöngumann," sagði hann.

"Ég bið yður margsinnis fyrirgefningar, herra konungur. En greifanum hefir borist skjal, sem er mjög svo áríðandi fyrir Yðar Hátign að vita um."

"Hentzau greifi hefir áunnið sér ónáð mína í hæsta máta, lávarður minn."

"En hann hefir sent mig hingað í dag, herra konungur, í þeirri von, að geta nú afplánað afbrot sín. Það er verið að brugga það, að hnekkja heiðri Yðar Hátignar."

"Hver er að því, lávarður minn?" spurði Rúdolf kuldalega í efasemdarrómi.

"Það eru þeir að gera, sem nákomnir eru Yðar Hátign og þér unnið mikið."

"Segið hverjir þeir eru."

"Ég þori það ekki, herra konungur. Þér munduð ekki trúa mér. En Yðar Hátign mun trúa skriflegum vitnisburði."

"Sýnið mér hann, fljótt. Það getur verið að við verðum truflaðir."

"Herra konungur, ég er með eftirrit–"

"Hvað þá, eftirrit, lávarður minn?" hreytti Rúdolf út úr sér.

"Frændi minn hefir frumritið, og lætur það af hendi eftir skipun Yðar Hátignar. Ég er með eftirrit af bréfi, sem Hennar Hátign hefir skrifað."

"Drottningin?"

"Já, herra konungur. Bréfið er til –" Rischenheim þagnaði.

"Nú, nú, lávarður minn, til hvers er það?"

"Til Rúdolfs Rassendylls nokkurs."

Þarna lék Rúdolf hlutverk sitt snildarlega. Hann lét ekki sem sér stæði þetta á litlu, heldur gætti þess að vera ákaflega skjálfraddaður í því að hann rétti fram höndina og sagði lágt og í höstum rómi: "Fáið mér það, fáið mér það."

Augun í Rischenheim tindruðu. Nú var hann búinn að ná takmarki sínu. Konungurinn var á hans bandi. Nú var hann búinn að gleyma hundunum. Það var áreiðanlegt að hann var búinn að vekja grunsemd og afbrýði hjá konunginum.

"Frændi minn telur það skyldu sína," mælti hann, "að fá Yðar Hátign bréfið í hendur. Hann náði í það–"

"Gerir minst til hvernig hann náði í það! Fáið mér það!"

Rischenheim hnepti frá sér treyjunni og síðan vestinu. Þá sást glytta á skammbyssu í belti, sem hann hafði um sig. Hann lyfti upp loki á vasanum á vestinu og fór að draga upp pappírsörk.

En þó að Rúdolf hefði gott taumhald á tilfinningum sínum, var hann samt ekki nema maður. Þegar hann sá pappírsörkina beygði hann sig áfram og stóð til hálfs upp úr stólnum. Þá féll ekki skugginn af gluggatjöldunum á andlit honum, en dagsbirtan skein á það. Richenheim leit upp um leið og hann tók bréfið úr vasa sínum. Honum varð litið á andlitið sem blasti við honum. Þeir horfðust í augu, hann og Rassendyll. Þá vaknaði strax grunsemd hjá Rischenheim, því að úr andliti mannsins, sem á hann horfði, skein alvarleg ákvörðun og það bar órækan vott um þrek og þrótt, sem konungurinn átti ekki til, þó að andlitsskapnaðurinn væri eins og á konunginum. Á því vetfangi rendi Rischenheim grun í, að nokkru leyti að minsta kosti, hvernig í öllu lá. Hann rak upp ámátlegt væl. Hann kreisti aðra höndina utan um bréfið, en fór að fálma með hinni eftir skammbyssunni. En það var of seint. Rúdolf var búinn að grípa utan um vinstri höndina á honum og hélt þar heljartaki, og skammbyssuhlaupi Rúdolfs var þrýst að enni hans. Þar að auki kom handleggur fram undan gluggatjaldinu og annað byssuhlaup var borið að andliti Rischenheims, og um leið sagt með kuldalegri röddu: "Það er best fyrir yður að hafa yður hægan." Og um leið kom Sapt fram á gólfið.

Rischenheim stóð alveg orðlaus, svo felmt hafði honum orðið við það hve snögg breyting hafði orðið á samtalsfundi þessum. Það var eins og hann gæti ekkert nema starað á Rúdolf Rassendyll. Sapt lét tímanum eigi eytt að óþörfu. Hann hrifsaði skammbyssu greifans og stakk henni í vasa sinn.

"Taktu nú af honum bréfið," sagði hann við Rúdolf, og miðaði á Rischenheim svo að hann þorði ekki að hreyfa sig, meðan Rúdolf var að rétta upp á honum hnefann og ná af honum, þessu mikilvæga skjali. "Gáðu að því, að þetta sé það rétta. Nei, vertu ekki að lesa það; líttu bara á það. Er það rétt? Jæja, gott. Miðaðu nú skammbyssunni aftur á höfuðið á honum. Ég ætla að leita á honum. Standið upp, herra minn!"

Þeir neyddu greifann til að standa upp, og Sapt leitaði af sér allan grun um að greifinn hefði nokkurt annað eftirrit eða bréf á sér. Svo létu þeir hann setjast niður aftur. Hann starði á Rúdolf Rassendyll öldungis höggdofa.

"Ég held samt að þér hafið séð mig áður," sagði Rúdolf brosandi. "Það er eins og mig minni að ég sæi yður í Streslau þegar þér voruð ungur piltur og ég var þar. Segið okkur nú, herra minn, hvar þér skylduð við frænda yðar." Áformið var, að komast að því hjá Rischenheim hvar Rúpert væri, og fara að elta hann (Rúpert) undir eins og búið var að ganga frá Rischenheim.

En meðan Rúdolf var að tala um þetta, var sterklega barið að dyrum. Rúdolf hljóp til og lauk upp hurðinni. Sapt sat í sömu skorðum og áður með skammbyssuna sína. Bernenstein stóð í dyrunum órólegur mjög.

"Herbergisþjónn konungs kom hér rétt áðan, hann var að svipast um eftir Sapt, og einn varðanna sagði honum að Rischenheim væri kominn. Ég sagði þjóninum að þér hefðuð farið að ganga með greifanum eitthvað hér í kring um kastalann, og að ég vissi ekki hvar þér væruð. Hann sagði, að konungur mundi koma hér að lítilli stundu liðinni.

Sapt hugsaði sig ofurlítið um, færði sig svo að greifanum og sagði:

"Við verðum að talast betur við síðar," sagði hann lágt en hvatlega. "Nú farið þér rétt bráðum að snæða morgunverð með konunginum. Við Bernenstein verðum þar viðstaddir líka. Þér skuluð muna eftir því að minnast ekki á erindi yðar einu orði við konunginn, né segja neitt um komu þessa manns hingað! Ef þér gefið nokkuð slíkt í skyn með orðum, dylgjum, bendingum, látbragði eða á annan hátt, þá hleypi ég skammbyssukúlu í höfuðið á yður, svo sannarlega sem ég heiti Sapt ofursti. Heilt þúsund konunga mundi ekki fá hindrað mig í því. Farðu á bak við gluggatjöldin Rúdolf. Ef eitthvað ilt kemur fyrir, þá verðurðu að stökkva út um gluggann í sýkið og bjarga þér á sundi."

"Sjálfsagt." sagði Rúdolf Rassendyll. "Þar get ég lesið bréfið mitt."

"Brendu það, kjáninn þinn."

"Ég skal gleypa það, þegar ég er búinn að lesa það, ef þig langar til, en fyr ekki."

Bernenstein leit inn aftur.

"Fljótt, fljótt! Maðurinn kemur bráðum," hvíslaði hann.

"Heyrðirðu það, sem ég var að segja við greifann, Bernenstein?" sagði Sapt.

"Já ég heyrði það."

"Þá veistu hvað þú átt að gera. Jæja, herrar mínir, þá er næst að taka á móti konunginum."

"Hvernig stendur á þessu?" heyrðist spurt reiðulega utan við dyrnar. "Hvers vegna er ég látinn bíða svona lengi?"

Rúdolf smaug á bak við gluggatjöldin. Sapt stakk skammbyssunni sinni í vasann. Rischenheim stóð á miðju gólfi, með hendurnar lafandi niður og vestið hálfhnept. Bernenstein stóð í dyrunum og laut konunginum djúpt, og færði það til afsökunar að herbergisþjónninn væri nýfarinn og þeir hefðu verið að búast við að Hans Hátign kæmi þá og þegar. Konungurinn gekk inn. Hann var fölur, en alskeggjaður.

"Sælir greifi. Það er ánægjulegt að sjá yður," mælti hann. "Ef mér hefði verið sagt, að þér væruð kominn, skyldi ég ekki hafa látið yður bíða neitt. Þú hefir dimt hér inni, Sapt. Hvers vegna eru gluggatjöldin ekki dregin frá?" Um leið og konungurinn sagði þetta, gekk hann að gluggatjaldinu er Rúdolf var á bak við.

"Látið mig gera það, herra konungur!" sagði Sapt og snaraðist fram fyrir hann og tók um tjöldin.

Illmannlegt glott kom á andlitið á Rischenheim.

"Svo ég segi eins og er, herra konungur," sagði Sapt og hélt um tjöldin, "þá vorum við svo hrifnir af að heyra greifann segja frá hundum sínum, að –"

"Frá hundunum! Já, því er ver; ég var rétt búinn að gleyma þeim!" hrópaði konungur. "Jæja, herra greifi! Látið mig nú heyra –"

"Fyrirgefið, herra konungur," mælti Bernenstein, "morgunverðurinn bíður."

"Já, já! Jæja, það er þá best að fá hvorttveggja í senn, morgunverðinn og að heyra um hundana. Gerið svo vel að koma, herra greifi." Konungurinn tók um handlegg greifans til að leiða hann með sér, og sagði við Bernenstein: "Farið á undan okkur, lífvarðarforingi, en þú gengur með okkur, Sapt."

Þeir fóru út. Sapt nam staðar og lokaði dyrunum á eftir sér.

"Hvers vegna eruð þér að loka dyrunum, ofursti?" spurði konungur.

"Ég geymi verðmæt skjöl í skúffunni þarna."

"En hvers vegna lokarðu ekki skúffunni?"

"Ég hefi verið sá klaufi, eins og fyrri, að týna lyklinum, herra konungur," sagði ofurstinn.

Luzau-Rischenheim snæddi heldur lítið. Hann sat andspænis konungi. Sapt ofursti stóð hjá konungi að stólbaki og Rischenheim sá að skammbyssuhlaup hans hvíldi á stólbríkinni að aftan, rétt við eyrað á konunginum. Bernenstein stóð hnarrreistur og hermannlegur við dyrnar. Rischenheim leit einu sinni til hans og varð strax fyrir augnaráði, sem hann gat ekki misskilið.

"Þér bragðið ekki á matnum," sagði konungur. "Eruð þér kannske lasinn?"

"Mér er dálítið ómótt, herra konungur," sagði Rischenheim stamandi, og það var víst engin lygi.

"Jæja, segið mér frá hundunum meðan við erum að snæða, því að ég er matlystugur enn þá."

Rischenheim fór þá að reyna að segja frá leyndarmáli sínu. En frásögn hans var öldungis óskiljanleg. Konungur varð þá óþolinmóður.

"Ég skil yður ekki," sagði hann alvarlega, og um leið ýtti hann stól sínum svo hastarlega aftur á bak að Sapt hrökk frá og fól skammbyssuna fyrir aftan sig.

"Herra konungur!" hrópaði Rischenheim og stóð upp til hálfs. Bernenstein fór að hósta svo Rischenheim þagnaði.

"Segið mér þetta aftur," sagði konungurinn.

Rischenheim gerði það sem honum var skipað.

"Já, nú skil ég það betur. Skilur þú það ekki, Sapt?" sagði hann og sneri sér að ofurstanum. Sapt hafði að eins tíma til að fela skammbyssuna. Greifinn hallaði sér áfram að konungi. Bernenstein hóstaði. Greifinn hné niður á stólinn aftur.

"Ég skil þetta fyllilega, herra konungur," sagði Sapt ofursti. "Ég skil alt sem greifinn hefir að segja Yðar Hátign."

"En ég skil það ekki nema að hálfu leyti," sagði konungur hlæjandi. "En ef til vill er ekki þörf á að skilja meira."

"Engin þörf, herra konungur," sagði Sapt brosandi.

"Þegar hundamálið, jafnmikilvægt og það var, var þannig til lykta leitt, mintist konungur þess, að greifinn hefði beðið um viðtalsleyfi í öðru skyni.

"Jæja, hvað var það annað, sem þér ætluðuð að tala við mig um?" spurði hann þreytulega. Það hefði verið skemtilegra, að tala um hundana.

Rischenheim leit til Sapts. Skammbyssan var á stólbríkinni. Bernenstein hóstaði aftur. En honum kom ráð í hug.

"Fyrirgefið, herra konungur," sagði hann. "Hér get ég ekki talað við yður í einrúmi."

Konungur hóf augabrýrnar.

"Er erindi yðar svo heimullegt?" spurði hann.

"Ég vildi helst mega segja yður það einum," sagði greifinn í bænarrómi.

En Sapt var búinn að einsetja sér, að gefa Rischenheim aldrei færi til að tala við konunginn einan, því þó greifinn hefði ekki framar nein gögn í höndum, og gæti því ekki gert neitt mein með bréfinu, þá mundi hann sjálfsagt segja konungi frá því, að Rúdolf Rassendyll væri í kastalanum. Sapt laut því fram og hvíslaði í eyra konungi:

"Það lítur út fyrir, að skilmæli frá Rúpert Hentzau séu of háfleygt efni fyrir eyru mín jafnlítilmótlegs manns."

Konungur roðnaði.

"Er erindi yðar þess kyns, lávarður minn?" spurði hann Rischenheim alvarlega.

"Yðar Hátign veit ekki hvað frændi minn –"

"Er það gamla bænin?" greip konungur fram í. "Vill hann komast heim aftur? Er það mergurinn málsins? Eða er um eitthvað frekara að ræða?"

Þögn fylgdi á eftir Þessum orðum konungs. Sapt einblíndi framan í Rischenheim og rétti upp hægri hendina brosandi. Hann hélt skammbyssunni á lofti. Bernenstein hóstaði tvisvar. Rischenheim sat, fitlandi með fingrunum ráðaleysislega. Honum var það ljóst, að þeir mundu ekki ætla að líða sér að koma fram erindinu né láta konung vita um komu Mr. Rassendyll. Hann ræskti sig og opnaði munninn til að tala, en þagði þó.

"Jæja, lávarður minn, er það gamla sagan, enn, eða eitthvað nýtt í viðbót?" spurði konungur óþolinmóðlega.

Rischenheim þagði.

"Eruð þér búinn að missa málið, lávarður minn?" hrópaði konungur mjög svo óþolinmóðlega.

"Það – það er – bara það, sem þér kallið gömlu söguna, herra konungur."

"Þá ætla ég að láta yður vita, að yður hefir farist mjög illa, að fá viðtalsleyfi mitt í því skyni." mælti konungur. "Yður var kunnugt um ákvörðun mína, og frændi yðar veit um hana." Að svo mæltu stóð konungur upp. Sapt rendi skammbyssunni ofan í vasa sinn, en Bernenstein dró sverð sitt til kveðjumerkis að hermanna sið; hann hóstaði um leið.

"Kæri Rischenheim!" mælti konungur nokkru blíðlegar, "ég kann að virða frændrækni yðar. En yður er óhætt að treysta því, að hér fer hún með yður í gönur. Gerið svo vel hreyfið þessu máli ekki aftur við mig."

Rischenheim var bæði reiður og skömmóttulegur, en hann gat ekkert gert nema lotið konungi til viðurkenningar á réttmætri ofanígjöf.

"Lítið eftir því, Sapt ofursti, að greifanum sé allur sómi sýndur. Hestur minn ætti nú að vera kominn að dyrunum. Í guðs friði, greifi. Leiðið mig brott, Bernenstein."

Bernenstein leit snöggvast til ofurstans. Sapt kinkaði kolli borginmannlega. Bernenstein slíðraði sverð sitt og tók um handlegg konungs. Þeir fóru út um dyrnar og Bernenstein skelti hurðinni í lás á eftir sér. En rétt um leið tók Rischenheim, undir sig stökk og hljóp til dyranna. Hann var óður og ær af því hve hann var brögðum beittur, og þóttist nú víst betur staddur, þar sem nú var að eins við einn mann að eiga. Hann komst til dyranna og náði í hurðarsnerilinn. Þá bar Sapt að og setti skammbyssuhlaupið við eyrað á honum.

Konungur nam staðar í ganginum.

"Hvað gengur á á milli þeirra inni?" spurði hann, því að hann heyrði hávaðann af þessum snöggu viðvikum.

"Ég veit ekki, herra konungur," svaraði Bernenstein og ætlaði að halda áfram.

"Nei, hinkrið við, lífvarðarforingi, þér eruð að toga mig áfram!"

"Ég margbið yður fyrirgefningar."

"Ég heyri nú ekkert meira." Og ekkert heyrðist heldur, því að báðir mennirnir stóðu grafkyrrir innan við hurðina.

"Ég heyri ekkert heldur, herra konungur. Vill Yðar Hátign ekki halda áfram?" spurði Bernenstein.

"Þér eruð víst fastráðinn í að fá mig til þess," sagði konungur brosandi og lét lífvarðarforingjann leiða sig brott.

En inni í herberginu stóð Rischenheim og sneri baki að hurðinni. Hann greip andann á lofti, kafrjóður af æsingi. Sapt stóð beint frammi fyrir honum með skammbyssuna í hendinni.

"Meðan þér lifið skuluð þér aldrei komast nær honum en þetta, lávarður minn," sagði ofurstinn.

"Ef þér hefðuð lokið upp hurðinni, skyldi ég hafa skotið kúlu gegnum höfuðið á yður."

Í því hann sagði þetta var drepið á dyr.

"Ljúkið upp hurðinni," sagði Sapt hranalega við Rischenheim. Greifinn ragnaði í hljóði hlýddi þó. Utan við hurðina stóð þjónn með símskeyti í hendi. "Takið við því," hvíslaði Sapt, og Rischenheim rétti fram höndina.

"Fyrirgefið, lávarður minn, þetta skeyti er til yðar," sagði maðurinn kurteislega.

"Takið við því," hvíslaði Sapt aftur.

"Fáið mér það," tautaði Rischenheim eins og utan við sig, og tók við umslaginu.

Þjónninn hneigði sig og fór út.

"Opnið það," skipaði Sapt.

"Fjandinn hafi yður!" hrópaði Rischenheim og röddin skalf af geðshræringu.

"Æ! Það er ómögulegt að þér getið leynt nokkru jafngóðan vin yðar og ég er, lávarður minn. Hraðið yður að opna umslagið."

Greifinn fór til þess.

"Ef þér rífið það sundur eða kruklið það, þá skýt ég yður," sagði Sapt rólega. "Yður er kunnugt um, að ég stend við orð mín. Lesið það nú."

"Það veit guð að ég geri ekki."

"Lesið það, segi ég, eða farið að lesa bænir yðar."

Skammbyssuhlaupið var ekki nema eitt fet frá höfði hans. Hann fletti sundur símskeytinu. Svo leit hann til Sapts. "Lesið það," sagði ofurstinn.

"Ég veit ekki hvað þetta á að þýða," tautaði Rischenheim.

"Kannske ég geti hjálpað yður."

"Það er ekkert nema –"

"Hvað? Lesið það, lávarður minn, lesið það."

Þá las hann símskeytið. Það hljóðaði svo:

"Holf, Konungsstræti 19."

"Þakka yður margsinnis, lávarður minn. Og hvaðan er það sent?"

"Frá Streslau."

"Snúið því svo að ég geti séð það. Ó, mér dettur ekki í hug að rengja yður, en sjón er sögu ríkari. Þakka yður fyrir. Það er eins og þér segið. Eruð þér í vafa um, hvað það á að þýða?"

"Ég veit alls ekki hvað það þýðir."

"En hvað það er undarlegt! Ég get þó svo vel getið mér til þýðingarinnar."

"Þér eruð býsna skarpur, herra minn."

"Mér sýnist þetta ekki vandráðin gáta, lávarður minn."

"Viljið þér þá gera svo vel og segja mér af speki yðar hvað símskeytið þýðir," sagði Rischenheim háðslega og reyndi að sýnast rólegur.

"Ég held, lávarður minn, að símskeytið merki dvalarstað."

"Dvalarstað! Það datt mér alls ekki í hug. En ég þekki engan Holf."

"Ég held ekki að það merki dvalarstað Holfs."

"Hvers þá?" spurði Rischenheim, nagandi neglur sínar og leit flóttalega til ofurstans.

"Ég held það sé dvalarstaður Rúperts Hentzau, núna."

Um leið og hann sagði þetta leit hann fast á Rischenheim. Svo hló hann, harðneskjulega, stakk skammbyssunni í vasa sinn og laut greifanum.

"Þér eruð satt að segja einstaklega greiðvikinn, greifi minn góður," sagði hann.

VI. KAPÍTULI.

Læknirinn, sem stundaði mig í Wintenberg, var bæti óhlutsamur og fús á að verða mér að vilja. Ef til vill mun hann hafa séð það, að það mundi eigi flýta bata sjúklingsins að liggja í rúminu yfirkominn af leiðindum, út af því að komast ekki á fætur. Ég er hræddur um, að hann hafi ímyndað sér að kökukeflið bakarans hafi líka lamað skapsmuni mína, en hvað sem því leið fékk ég fararleyfi hjá honum og var kominn á stað frá Vintenberg rúmum tólf stundum eftir að Rúdolf Rassendyll skildi við mig.

Ég létti ekki ferðinni fyr en ég var kominn til heimilis míns í Streslau, og var það sama föstudagsmorguninn, sem Luzau-Rischenheim greifi átti tvívegis tal við konunginn í kastalanum í Zenda.

Undir eins og ég kom sendi ég James, því að ég hafði hann í þjónustu minni og reyndist hann mér mæta vel fyr og síðar, til borgarstjórans. Hann átti að flytja þær fregnir, að ég væri kominn og segja mig búinn til að hjálpa þeim svo sem auðið væri.

Sapt barst þessi fregn, þegar hann sat á ráðstefnu með félögum sínum, og olli fréttin töluverðu um það, sem þeir réðu af, Rúdolf Rassendyll og hann. Hér verður að skýra frá hvað það var, þó að ég sé hræddur um, að það verði ef til vill þreytandi lesendunum.

En samt var þessi ráðstefna í Zenda alls ekki venjulegur atburður. Þó að Rischenheim virtist öldungis yfirbugaður, þorðu þeir samt ekki að missa sjónar á honum. Rúdolf gat ekki farið út úr herberginu, því að Sapt hafði lokað hann inni. Konungurinn ætlaði ekki að vera burtu nema stutta stund og Rúdolf varð að vera farinn áður en hann kæmi. Enn fremur varð þá að vera búið að ganga frá Rischenheim og gera ráðstafanir fyrir því að bréfið sjálft lenti ekki í hendur þess, er eftirritið var ætlað. Ráðstefnan var haldin í stóru herbergi. Í einu horninu, því sem fjærst var dyrum, sat Rischenheim, vopnlaus, niðurdreginn og varð ekki betur séð, en að hann væri búinn að gefa upp alla vörn og mundi ganga að hvaða kostum sem honum væru boðnir. Rétt innan við dyrnar sátu þeir þrír, Bernenstein, Sapt og Rúdolf. Bernenstein var kátur og ósmeykur, Sapt stiltur og staðfestulegur, Rúdolf rólegur og glöggskygn. Þeir mundu hafa lagt líf sitt við að verja dyrnar, ef á hefði þurft að halda.

Drotningin beið úrslitanna í herbergjum sínum, og var við því búin að fylgja tillögum þeirra, en staðráðin í því að sjá Rúdolf áður en hann færi brott úr kastalanum. Þeir ræddust við í hálfum hljóðum. Þegar þeir höfðu ræðst við um hríð, tók Sapt blað og ritföng og fór að skrifa. Það var skeyti til mín, sem hann skrifaði, og bað mig að koma til Zenda um kveldið. Þar þyrfti bæði á ráðum og mannhjálp að halda. Svo ráðguðust þeir enn um stund og talaði Rúdolf mest því að hann hafði stungið sjálfur upp á þeirri djarflegu fyrirætlun, sem þeir voru að tala um. Sapt sneri upp á granaskeggið og efasemda bros lék honum um varir.

"Já, já," tautaði Bernenstein og augun tindruðu í honum af ákafa.

"Þetta er hættulegt, en það er snjallasta ráðið," sagði Rúdolf og gætti þess að lækka svo röddina, að fanginn skyldi ekkert heyra. "Sé þessu farið fram verð ég að vera hér þangað til í kveld. Er það mögulegt?"

"Nei. En þú getur farið héðan og falið þig í skóginum þangað til ég hitti þig," sagði Sapt.

"Þangað til við hittum þig," sagði Bernenstein með ákefð.

"Nei," sagði borgarstjórinn, "þú verður að vera kyr eftir og líta eftir vini okkar hérna. Mundu það, lífvarðarforingi, að þetta er alt gert í þjónustu drotningarinnar."

"Auk þess mundi hvorki ég eða ofurstinn gefa yður tækifæri til að ná í Rúpert, sagði Rúdolf brosandi. "Við ætlum okkur hann. Er ekki svo, Sapt?"

Ofurstinn kinkaði kolli. Nú tók Rúdolf ritföngin og skrifaði þetta:

"Holf, Konungsstræti 19, Streslau. – Alt í góðu lagi. Hann hefir fengið í hendur það, sem ég hafði, en langar til að sjá það, sem þú hefir. Ég og hann verðum í skothúsinu kl. 10 í kveld. Findu okkur þar og hafðu það með þér. Alt grunlaust. R."

Rúdolf fleygði blaðinu yfir til Sapts. Bernenstein leit yfir öxlina á borgarstjóranum og las með athygli.

"Ég efast um að ég hefði hlaupið eftir þessu," sagði gamli Sapt hlæjandi og fleygði blaðinu frá sér.

"En Rúpert Hentzau hleypur eftir því. Því þá ekki? Hann hlýtur að ímynda sér, að konungurinn vilji hitta sig án þess drotningin viti, og án þess þú vitir, vegna þess þú varst vinur minn. Hvaða stað mundi konungur fremur kjósa til þess, en skothúsið sitt? Hann sem er jafnan vanur að fara þangað þegar hann vill vera einn út af fyrir sig. Þú mátt vera viss um, að hann fer eftir þessu skeyti. Þú ættir að þekkja Rúpert Hentzau svo vel að þú vissir, að hann mundi fara, jafnvel þó að hann grunaði eitthvað. Og hvaða ástæða er fyrir hann að gruna nokkuð?"

"Verið getur að þeir hafi komið sér saman um dulletur. Rischenheim og hann," sagði Sapt og maldaði í móinn.

"Nei, því þá hefði Rúpert dulletrað sitt skeyti," svaraði Rúdolf stuttur í spuna. "Jæja. En ef hann skyldi nú koma?" spurði Bernenstein.

"Þá finnur hann fyrir sama konunginn sem Rischenheim, og Sapt þarna líka."

"En hann þekkir yður," sagði Bernenstein.

"Já, ég býst við því að hann þekki mig," sagði Rúdolf brosandi. "En við sendum svo eftir Fritz til að vera hér og líta eftir konungi."

"En hvað verður um Rischenheim?"

"Hlutverk yðar, lífvarðarforingi, verður að sjá um hann. Heyrðu, Sapt! Er nokkur á Tarlenheimslotinu?"

"Nei. Stanislas greifi hefir leyft Fritz það til allra afnota.

"Það er gott. Ég legg þá til að báðir vinir Fritz, þeir Luzau-Rischenheim greifi og Bernenstein lífvarðarforingi ríði á stað þangað í dag. Borgarstjórinn í Zenda gerir svo vel og gefur lífvarðarforingjanum 24 stunda brottfararleyfi, og báðir herrarnir verða þar það sem eftir er dagsins og sofa þar næstu nótt. Þeir skilja aldrei allan daginn, heyrið þér það, Bernenstein, og halda báðir til í sama herberginu um nóttina og annar þeirra sofnar alls ekki, og sleppir aldrei fingri af skammbyssugikk sínum."

"Rétt er það, herra minn!" sagði Bernenstein.

"Ef hann reynir að sleppa eða vekja háreysti, þá verðið þér að skjóta hann, ríða sem hraðast til landamæranna, komast í gott fylgsni, og láta okkur vita, ef yður er mögulegt."

"Já," svaraði Bernenstein með hægð. Sapt hafði kosið þar góðan dreng, því að ungi foringinn setti ekki fyrir sig hættuna eða stöðumissinn þegar um það var að gera að hjálpa drotningunni.

Nú kom eirðarleysiskast í Rischenheim; hann stundi þungan og drógst þá athygli þeirra að honum. Hann hafði lagt sig allan til að hlera hvað þeir voru að tala, en þeir höfðu verið varkárir, svo að hann hafði einskis orðið vísari um ráðagerðina.

Hann hafði því hætt að hlusta, og sat nú sinnulaus og eins og í leiðslu.

"Ég get varla ímyndað mér, að hann verði okkur erfiður viðfangs," hvíslaði Sapt að Bernenstein og benti með þumalfingrinum í áttina til hans.

"Hafið samt svo gát á honum, sem þér megið við öllu illu búast," sagði Rúdolf með áherzlu og lagði höndina á öxl Bernensteins.

"Já. Þetta er viturlega ráðið, eins þín var von og vísa," sagði borgarstjórinn og kinkaði kolli.

"Okkur var vel stjórnað, lífvarðarforingi, þegar Rúdolf þessi sat að völdum."

"Var ég ekki einn dyggra þjóna hans þá?" spurði Bernenstein.

"Jú, og særðist í þjónustu minni," mælti Rúdolf enn fremur, því að hann var pilturinn – sem skotið hafði verið á í grend við Tarlenheimslotið í misgripum fyrir hann sjálfan.

Þannig var ráðagerð þeirra.

Ef þeim skyldi takast að vinna bug á Rúpert, þá höfðu þeir Rischenheim á valdi sínu. Ef þeim tækist að hafa Rischenheim í haldi á meðan þeir voru að nota nafn hans til að koma fram brögðum þessum, þá voru mikil líkindi til að þeir gætu veitt Rúpert og ráðið hann af dögum. Já, ráðið hann af dögum, segi eg, því að það var beinlínis ætlun þeirra, eftir því sem borgarstjórinn sagði mér síðar.

"Já, við vorum ekki að vefja það fyrir okkur," sagði hann. "Heiður drotningarinnar var í veði, og þorparinn var morðingi í tilbót."

Bernenstein stóð upp og gekk út. Hann var hálfa klukkustund í burtu að annast um skeytasendinguna til Streslau, og á meðan fóru þeir Sapt og Rúdolf að skýra Rischenheim frá því, hvað þeir ætluðu sér að gera við hann. Þeir æsktu einskis loforðs af honum og hann bauð ekkert heldur. Hann hlýddi á það er þeir sögðu með þrákelknislegu kæruleysi. Þegar hann var spurður hvort hann vildi fara með góðu, hló hann gremjulega og spurði: "Hvernig á ég að geta veitt mótþróa? Ég mundi þá mega búast við að verða skotinn samstundis."

"Já, vitaskuld," sagði Sapt borgarstjóri. "Þér eruð hyggnismaður, lávarður minn."

"Leyfið mér að leggja yður eitt ráð, lávarður minn," sagði Rúdolf og leit til hans vingjarnlega. "Ef þér skylduð komast klaklaust úr þessum kröggum, þá vil ég ráða yður til að láta, heiðvirði haldast í hendur við hygnina. Það er enn nægur tími til fyrir yður að verða góður drengur."

Svo sneri Rúdolf sér frá honum og greifinn horfði reiðulega á eftir honum, en Sapt gamli kýmdi drýgindalega.

Rétt á eftir kom Bernenstein. Hann hafði lokið erindi sínu og hestar handa honum og Rischenheim voru til taks við kastaladyrnar. Eftir að hann hafði sagt fáein orð við Rúdolf, kvatt hann með handabandi og bent fanganum að fylgja sér, lögðu þeir báðir á stað, og varð ekki annað séð, en að þeir væru samfúsir förunautar og bestu vinir. Drotningin sjálf horfði á eftir þeim út um herbergisglugga sína og sá að Bernenstein reið fast á eftir greifanum og studdi þeirri hendinni, er hann hafði lausa, á skammbyssuna við hlið sér.

Það var orðið nokkuð framorðið um morguninn og áhættan af dvöl Rúdolfs í kastalanum fór nú vaxandi á hverju augnabliki. Samt hafði hann fastráðið að hitta drotninguna áður en hann færi. En á því voru ekki svo miklar bægðir vegna þess, að drotningin var vön að fara til herbergja borgarstjórans til að spyrja hann ráða um ýmislegt. Mestur vandinn var á því, að koma Mr. Rassendyll á brott eftir á svo að ekki yrði vart við. En til að gera hægra fyrir um það, hafði borgarstjórinn skipað svo fyrir, að hermannaflokkurinn, sem til varnar var hafður í kastalanum, skyldi halda heræfingar kl. 1 um daginn í skemtigarðinum, og að öllum þjónum í kastalanum skyldi veitt leyfi til að fara út í garðinn eftir miðdegisverð og horfa á æfingarnar. Á þenna hátt bjóst hann við að koma í veg fyrir það, að forvitnir náungar fengju séð ferð Rúdolfs til skógarins. Þeir mæltu sér mót á hentugum og afskektum stað. Það urðu þeir að eiga á hættu, að Rúdolf tækist að sleppa við það að hitta nokkurn meðan hann biði. Mr. Rassendyll þóttist fyrir sitt leyti viss um að geta dulist, eða ef til þess kæmi að einhver yrði hans var, þá að hylja andlit sitt svo að engar fregnir færu að berast um það til kastalans eða borgarinnar, að konungurinn hefði sést einn á gangi og skegglaus í skóginum.

Meðan Sapt var að gera ráðstafanir sínar fór drotningin inn í herbergið, sem Rúdolf Rassendyll var í. Klukkan var þá rétt að segja tólf, og Bernenstein var lagður á stað fyrir hálfri klukkustund. Sapt hafði fylgt henni til dyranna, sett vörð við endann á ganginum og lagt ríkt á við hann að sjá um að drotningunni yrði ekki gert ónæði, og sagði henni í heyranda hljóði, að hann skyldi koma svo fljótt aftur, sem hann gæti, og lokaði dyrunum á eftir henni. Borgarstjóranum var það vel ljóst, að þegar um leyndarmál var að ræða, þá hefir það mikið að segja í því sambandi að láta það óhikað uppi, sem opinskátt má verða.

Ekki veit ég um það, sem þeim fór á milli, drotningunni og Rúdolf, annað en það, sem Flavía drotning sagði mér sjálf, eða öllu heldur Helgu, konu minni. Drotningin hafði ætlast svo til, að ég fengi að heyra það, þó að hún gæti ekki komið sér að því að segja mér það sjálf, af því að ég var karlmaður. Mr. Rassendyll hafði þá fyrst sagt henni frá fyrirætlunum þeim, sem gerðar höfðu verið, og þó að hún skelfdist af hættunni, sem hann hlaut að stofna sér í, þegar hann hitti Rúpert Hentzau, þá bar hún svo mikið og innilegt traust til hans, að hún efaðist ekki um að hann bæri hærri hlut. Aftur á móti fór hún að ásaka sig fyrir að hafa skrifað bréfið og stofnað honum í þessa hættu fyrir þá sök. Þá tók hann upp úr vasa sínum eftirritið af bréfinu, sem Rischenheim hafði komið með. Hann hafði fengið færi á að lesa það, og nú kyssti hann á bréfið að henni sjáandi.

"Ef ég ætti jafnmörg líf og orðin eru í þessu bréfi, drotning mín," mælti hann blíðlega, "þá mundi ég láta líf fyrir hvert orð í því."

"En nú áttu að eins eitt líf til, Rúdolf, og ég tel mér það jafnvel meir en þér. Kom þér til hugar, að við mundum nokkurn tíma sjást aftur?"

"Ég veit varla," sagði hann; þau stóðu þá andspænis hvort öðru.

"En ég vissi það," sagði hún og glampi kom í augun. "Ég var þess alt af fullvís, at við mundum sjást einu sinni aftur. Ég hafði enga hugmynd um hvar eða hvenær, en ég vissi að eins að það mundi verða. Þess vegna gat ég lifað, Rúdolf."

"Guð blessi þig!" sagði hann.

"Já, ég gat lifað, þrátt fyrir alt." Hann þrýsti að hönd hennar og þagði, því að hann vissi, við hvað hún átti.

"Skyldi það verða svona alla tíð?" spurði hún alt í einu og tók þétt, um hönd hans. Litlu síðar tók hún aftur til máls og sagði: "Nei, nei, ég má ekki gera þig óhamingjusaman, Rúdolf. Mér þykir hálft í hvoru vænt um bréfið, og eins það að þeir stálu því. Það er svo ánægjulegt að vita þig vera að berjast fyrir mig —, í þetta sinn fyrir mig eingöngu — Rúdolf — ekki fyrir konunginn, heldur fyrir mig!"

"Já, víst er ánægjulegt, frú mín, sem mér er kærust allra. Vertu óhrædd. Ég mun sigra."

"Já, ég veit að þú sigrar. Og þá ætlarðu víst burt?" Hún kysti á hönd hans og huldi andlitið í höndum sér.

"Ég má ekki kyssa þig á andlitið," sagði hann, "en hendur þínar má ég kyssa," og það gerði hann, meðan hún hélt þeim fyrir andlitinu.

"Þú berð hringinn minn," sagði hún lágt. "Berðu hann alt af?"

"Já, auðvitað," svaraði hann undrandi yfir spurningunni.

"Og berðu engan — annan?"

"Hvernig spyrðu, drotning?" sagði hann og hló aftur.

"Nei, ég vissi það reyndar, Rúdolf, ég vissi það reyndar," mælti hún og rétti honum um leið báðar hendurnar, til að biðja hann fyrirgefningar. Svo fór hún að tala rólega og sagði: "Ég skal segja þér eitt, Rúdolf. Mig dreymdi draum í nótt. Hann var um þig, og mig dreymdi undarlega. Mér fanst ég vera í Streslau og þar voru allir að tala um konunginn. Og menn áttu við þig; þú varst konungurinn. Loksins varst þú orðinn konungur og ég drotning þín. En ég gat ekki séð þig nema mjög óljóst; þú varst einhversstaðar, en ég vissi ekki hvar, ég sá að eins framan í þig annað slagið. Svo var farið að segja þér, að þú værir konungurinn — og það gerðu jafnvel þeir Sapt ofursti og Fritz; lýðurinn gerði það líka. Hann kallaði upp og sagði þig vera konunginn. Hvernig stóð á þessu? En þegar ég sá framan í þig, komu engin svipbrigði á þig; þú varst mjög fölur, og virtist ekki heyra það, sem þeir voru að segja, og jafnvel ekki til mín heldur. Það leit helst út fyrir að þú værir andaður, en samt varstu konungur. Æ! þú mátt ekki deyja, jafnvel ekki til að verða konungur." sagði hún og lagði höndina á öxl honum.

"Elskan mín," sagði hann blíðlega, "í draumum blandast saman eftirlangan og ótti, svo að úr verða furðulegar sýnir. Þess vegna virtist þér ég vera bæði konungur og dauður maður. En eins og þú veist er ég enginn konungur, og ég er maður stálhraustur. En samt þakka ég drotningunni minni elskulegu fyrir að hafa dreymt um mig."

"En hvað heldurðu annars að þetta boði?" spurði hún aftur.

"Hvað heldurðu að það boði, að mig dreymir þig alt af, annað en það, að ég ann þér alla tíð?"

"Heldurðu að þetta boði þá ekkert annað?" spurði hún og var enn efablandin.

Hvað þeim fór svo frekar á milli veit ég ekki. Ég ímynda mér að drotningin hafi sagt konu minni fleira, en konur leyna stundum leyndarmálum annara kvenna jafnvel fyrir mönnum sínum; þó að þeim þyki vænt um okkur, þá erum við ætíð að vissu leyti sá sameiginlegi óvinur, er þær fylkja sér í móti. Jæja, ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, því að ég býst við að vitneskjan verði til álasts, og hver er svo sýkn saka, að hann mundi ekki kjósa að vera látinn umtalslaus þegar svo á stendur?

En ekkert það gat gerst, er miklum tíðindum sætti, því að rétt um það að þau hættu að tala um drauminn kom Sapt ofursti, og lét þess getið að hermennirnir væru búnir að skipa sér í raðir, og að alt kvenfólk væri streymt burt til að horfa á þá, en karlmennirnir ekki mátt annað en fylgja kvenfólkinu eftir, því að þeir óttuðust að þeim kynni annars að verða gleymt fyrir allri einkennisbúninga-dýrðinni úti í skemtigarðinum. Og víst var um það, að mikil kyrð var komin yfir gamla kastalann, og þögnina rauf ekkert annað en hörkulegi rómurinn hans Sapts, er hann skipaði Rúdolf að fylgja sér að húsabaki til hesthúsanna og stíga þar á bak hesti sínum.

"Nú má engum tíma eyða," sagði Sapt, og hann leit svo önuglega til drotningarinnar, að svo virtist sem hann ætlaði engan kost að veita henni á því að segja nokkurt orð frekar við manninn, sem hún unni.

En Rúdolf var ekki á því að hraða sér á brott frá henni þá strax. Hann klappaði á öxlina á borgarstjóranum hlæjandi og bað hann að hugsa um hvað sem honum þóknaðist svo sem andartak; því næst sneri hann aftur til drotningarinnar, og hefði sjálfsagt fallið á kné fyrir henni, ef hún hefði leyft honum það. En það vildi hún ekki, svo að þau stóðu þarna hvort hjá öðru og héldust í hendur um stund. Loks hallaði hún sér að honum, kysti hann á ennið og sagði: "Guð fylgi þér, Rúdolf, hugrakki riddarinn minn."

Svo sneri hún sér frá honum, og leyfði honum að fara. Hann gekk til dyranna, en þá heyrðist fótatak svo að hann nam staðar, og beið inni í herberginu, og hafði augun á hurðinni. Gamli Sapt snaraðist til dyranna, og hafði dregið sverð sitt til hálfs úr slíðrum. Það var gengið eftir ganginum og numið staðar við dyrnar þarna.

"Er það konungurinn."

"Ég veit það ekki," sagði Sapt.

"Nei, það er ekki konungurinn," sagði Flavía drotning hiklaust.

Þau biðu. Svo var drepið laust á dyr. Þau biðu enn stundarkorn. Þá var barið aftur og fastar.

"Við megum til að opna," sagði Sapt. "Hlauptu bak við gluggatjöldin, Rúdolf."

Drotningin settist niður og Sapt fleygði til hennar stórri hrúgu af skjölum, svo að sýnast mætti að þau hefðu verið að tala um einhver starfsmál. En meðan hann var að þessu var kallað harkalega en ákaft, og í hálfum hljóðum: "Fljótt! Fljótt! Í guðs nafni!"

Þau þektu rödd Bernensteins. Drotningin spratt upp, Rúdolf kom út undan gluggatjöldunum og Sapt sneri lyklinum í skránni. Liðsforinginn kom inn með hraða. Hann var fölur og stóð nærri á öndinni.

"Hvað er að frétta?" spurði Sapt.

"Er hann sloppinn?" spurði Rúdolf, því að hann gat sér strax til um að það slys ylli því að Bernenstein var kominn aftur.

"Já, hann er sloppinn. Rétt þegar við vorum komnir út úr bænum og vegurinn lá beinn fyrir okkur til Tarlenheim, sagði hann: "Eigum við að ríða þessa förukerlingarleið alla leiðina?" Ég hafði ekkert á móti því að fara dálítið hraðara, svo að við fórum að láta klárana brokka. Já, ég var ljóti bjálfinn!"

"Gerir ekkert til — hvernig fór svo?"

"Ég var að hugsa um hann og hlutverk mitt, og að hafa byssuna á reiðum höndum til að skjóta hann, og –"

"Alt annað en hestinn þinn?" tautaði Sapt gamli ygldur á svipinn.

"Já; klárinn rak í tána og datt. og ég hentist fram á makkann á honum. Ég hrifsaði aftur fyrir mig til að rétta mig við aftur, og misti þá niður skammbyssuna."

"Og sá hann það?"

"Já, fjandinn hafi hann, hann sá það og hægði ferðina ofurlítið; svo brosti hann, sneri við, rak sporana í síðurnar á hesti sínum og þeysti á stað í harða spretti í áttina til Streslau. Ég stökk af baki undir eins og skaut á eftir honum þrem skotum."

"Og hittuð þér?" spurði Rúdolf.

"Já, ég held það. Hann hafði handaskifti á taumunum, og strauk handlegginn. Ég stökk á bak og reið eftir honum, en hestur hans var betri en minn, svo að sundur dró með okkur. Menn fóru nú að verða á vegi okkar, svo að ég þorði ekki að skjóta aftur. Ég lét hann því eiga sig og reið hingað til að láta ykkur vita um málalokin. Ég ætla að biðja þig, borgarstjóri, af skipa mér aldrei nokkurt verk framar," sagði ungi maðurinn stúrinn mjög á svipinn, og hann gleymdi því að drotningin var viðstödd og fleygði sér niður á stól.

Sapt skeytti ekkert um samvizkubit Bernensteins. En Rúdolf gekk til hans, lagði höndina á öxl honum og mælti:

"Þetta var slysni ein. Yður er hér ekki um neitt að kenna."

Í því stóð drotningin upp og gekk til þeirra. Bernenstein spratt á fætur.

"Herra minn," mælti hún, "það er ekki verkhepnin heldur viðleitnin, sem þakklæti á skilið"; um leið og hún sagði þetta rétti hún honum höndina.

Hann var ungur að aldri, og ekki dettur mér í hug að lítilsvirða hann þó að grátstafur kæmi í kverkar honum, er hann svaraði drotningunni, og sagði innilega:

"Reynið mig á einhverju öðru."

"Mr. Rassendyll," tók drotningin til máls, "mér þætti vænt um ef þú fælir þessum unga manni einhver verk að vinna í mína þjónustu. Ég er komin í stórskuld við hann og hefi ekkert á móti því að hækka hana."

Svo varð stundarþögn.

"Jæja, hvað á nú að gera?" spurði Sapt ofursti. "Hann er víst kominn til Streslau."

"Getur verið og ekki."

"Öll líkindi eru á að hann hafi farið þangað."

"Við verðum að gera ráð fyrir hvorutveggja."

Þeir litu hvor framan í annan, Sapt og Rúdolf.

"Verður þú að vera hér?" spurði Rúdolf borgarstjórann. "Ég ætla að fara til Streslau." Svo brosti hann, leit til lífvarðarforingjans og sagði: "Það er að segja, ef Bernenstein vill lána mér eitthvað á höfuðið."

Drotningin lagði ekkert til mála, en hún gekk til hans og lagði höndina á öxl honum. Hann leit til hennar, hélt áfram að brosa og sagði:

"Já, ég ætla að fara til Streslau, já, og ég ætla að hitta Rúpert, og Rischenheim líka, ef þeir eru í borginni."

"Hafið mig með yður," hrópaði Bernenstein með ákefð. Rúdolf leit til Sapts. Hann hristi höfuðið. Bernenstein hrygðist við.

"Það er ekki svo að skilja, að við treystum þér ekki," sagði Sapt önuglega. "Þín þarf með hér. Setjum svo að Rúpert og Rischenheim kæmu hingað."

Engum hafði komið þetta í hug áður, en það var engan veginn ólíklegt.

"En þú verður hér, borgarstjóri;" mælti Bernenstein, "og Fritz von Tarlenheim kemur hingað að klukkustund liðinni."

"En þú mátt vita, drengur minn," svaraði Sapt og kinkaði kolli, "að mér dettur ekki annað í hug, en að hafa mann til vara, þegar ég á í höggi við Rúpert Hentzau," og svo hló hann kuldahlátur og lét sér á sama standa hvað Bernenstein kynni að hugsa um hugrekki hans. "Farðu nú og útvegaðu honum eitthvað á höfuðið," mælti hann enn fremur og lífvarðarforinginn hljóp á stað að boði hans.

En þá tók drotningin til máls og sagði:

"Ætlið þér að senda Rúdolf einan — aleinan á móti tveimur?"

"Já, frú mín, ef ég á að ráða atlögunni," svaraði Sapt. "Ég býst við að hann sé maður fyrir því."

Hann átti ekki hægt með að þekkja til fullnustu tilfinningar þær, sem henni bjuggu í brjósti. Hún tók höndum fyrir andlitið og sneri sér biðjandi til Rúdolf Rassendyll.

"Ég verð að fara," sagði hann blíðlega. "Við getum ekki mist Bernenstein, og ég má ekki vera hér."

Hún sagði þá ekki meira. Rúdolf gekk yfir til Sapts.

"Fylgdu mér út í hesthúsið. Hafið þið góðan hest handa mér? Ég þori ekki að fara með lestinni. Gott, þarna kemur lífvarðarforinginn með hatt handa mér."

"Þú kemst þangað á hestinum í kveld," sagði Sapt. "Komdu nú, Bernenstein, þú lítur eftir drotningunni."

Rúdolf nam staðar í dyrunum og leit um öxl til Flavíu drotningar, er stóð grafkyr eins og líkneski og horfði á eftir honum. Svo hélt Rúdolf áfram á eftir borgarstjóranum, er fylgdi honum þangað sem hesturinn var. Ráðstafanir Sapts um það að dylja brottför Rúdolfs tókust vel, og enginn varð var um þegar hann sté á hest sinn.

"Hatturinn er mér ekki sem mátulegastur," sagði Rúdolf.

"Þér mundi falla betur kórónan. Er ekki svo?" mælti ofurstinn.

Rúdolf fór að hlæja og spurði; "Hvað ætlarðu mér að gera?"

"Ríddu yfir fyrir sýkið og á veginn, sem liggur að baki kastalanum; haltu áfram eftir honum gegn um skóginn til Hofbau. Þaðan ratarðu. Þú ættir ekki að koma til Streslau fyr en dimt er orðið. Og ef þig vantar fylgsni - "

"Þá get ég farið til Tarlenheims, ójá! Þaðan ætla ég beint til Holfs."

"Já. Og - Rúdolf!"

"Já."

"Láttu nú skríða til skarar með ykkur."

"Já, það veit hamingjan. En ef hann skyldi nú vera farinn til skothússins? Hann hefir farið þangað nema Rischenheim hafi komið í veg fyrir það."

"Ég verð þar, ef svo yrði. En ég ímynda mér, að Rischenheim komi í veg fyrir að hann fari."

"En ef hann skyldi koma hingað?"

"Bernenstein lætur fyr lífið, en að hann láti hann ná fundi konungsins."

"Sapt."

"Já."

"Vertu henni góður."

"Já, vitanlega verð ég það, maður."

"Vertu sæll."

"Og farnist þér vel."

Að svo mæltu hleypti Rúdolf á stað yfir akveginn, sem lá frá hesthúsinu, beygði fyrir sýkið og stefndi til skógarins á bak við það; að fimm mínútum liðnum var hann kominn inn í skuggann af trjánum, og hélt vongóður áfram ferðinni án þess að aðrir yrðu á vegi hans en einstöku bændamenn með akneyti við jarðyrkju, og sintu þeir því engu, þó að maður hleypti fram hjá þeim, öðru en því, að óska að þeir mættu þeysa svo fljótt yfir foldina í stað þess að vera fastir við vinnu sína. Þannig hélt Rúdolf áfram gegn um Zenda-skóginn áleiðis til Streslau. En á undan honum svo sem einni klukkustund fyr hafði Luzau Rischenheim greifi farið þessa leið, hryggur og reiður og brennandi af hefndarlöngun.

Stríðið var hafið. Hvernig skyldi því ljúka?

VII. KAPÍTULI.

Klukkan var um að vera eitt þegar mér barst heim til mín í Streslau símskeytið, sem borgarstjórinn í Zenda sendi mér. Óþarfi er að geta þess, að ég bjóst þegar á stað að hlýðnast fyrirmælum hans. Konan mín hafði á móti því og — það ekki að ófyrirsynju — að ég færi, og sagði sem satt var, að ég væri ekki fær um að leggja meira á mig í svipinn, og að ég ætti helst af öllu að hátta og hvíla mig. Ég mátti ekki sinna því, og James, þjónn Mr. Rassendylls, kom inn að vörmu spori, því að ég hafði sent eftir honum, og færði mér spjald, þar sem upp voru taldar lestirnar sem fóru frá Streslau til Zenda. Hann rétti mér spjald þetta ótilkvaddur. Ég hafði átt nokkurt tal við þenna mann á ferðinni og komist að því, að hann hafði verið í þjónustu Topham's lávarðar fyrverandi sendiherra við rúritanísku hirðina. Mér var ókunnugt um það, hve mikið hann vissi um leyndarmál fyrverandi húsbónda síns, en það kom mér að góðu haldi hve kunnugur hann var í borginni og landinu umhverfis. Við urðum þess vísir, og þótti það hvergi gott, að engin lest lagði á stað fyr en kl. 4, og þá fyrst lest er fór helst til hægt. Af því leiddi það, að við gátum ekki náð til kastalans fyr en kl. rúmlega 6. Þetta var reyndar ekki alt of seint, en mér var mjög um það hugað, að komast sem fyrst þangað sem mín þyrfti nauðsynlega við.

"Ætli það væri ekki réttast að vita hvort ekki er hægt að ná í sérstaka lest, lávarður minn?" spurði James. "Ég skal hlaupa niður á stöðina og vita um það."

Ég félst á það. Vegna þess að það var kunnugt, að ég var oft í erindagerðum fyrir konunginn, þá gat ég heimtað sérstaka lest fyrir mig, án þess að nokkuð fyndist til um það. James fór á brott, og svo sem eftir fjórðung stundar ók ég niður á stöðina. Rétt í því að ég var að aka á stað, kallaði bryti minn til mín og sagði:

"Fyrirgefið lávarður minn. Bauer varð yður ekki samferða heim aftur. Er ekki von á honum."

"Nei," svaraði ég. "Bauer hegðaði sér mjög óviðurkvæmilega á leiðinni, og ég rak hann úr vistinni."

"Það er aldrei að treysta á þessa útlendinga, lávarður minn. En hvað líður farangrinum yðar?"

"Hvað þá! Hefir hann ekki komið?" hrópaði eg. "Ég skipaði honum að senda hann."

"Hann er ókominn, lávarður minn."

"Skyldi óþokkinn hafa stolið honum?" tautaði ég reiðulega.

"Ef yður þóknast, lávarður minn, þá skal ég gera lögreglunni aðvart um þetta."

Ég þóttist vera að skoða huga minn um þetta stundarkorn.

"Ónei, láttu það bíða þangað til ég kem aftur," sagði ég svo. "Það getur verið, að farangurinn komi, og ég hefi enga ástæðu til að gruna manninn um óráðvendni."

Ég bjóst við, að þetta yrði það síðasta, er Bauer kæmi við sögu mína. Hann var nú búinn að hlýðnast fyrirskipunum Rúperts, og var því líklegast að hér lyki frásögninni af honum. Það var enda sennilegast, að Rúpert vildi helst losna við frekari hjálp af hans hendi framvegis; en fáa átti hann fylgismenn, er hann gat treyst, og því varð hann að nota þá, sem hann hafði völ á oftar en einu sinni. Og ég komst brátt að því, að hann var ekki búinn að sleppa hendi sinni af Bauer. Heimili mitt er svo sem tvær mílur vegar frá járnbrautarstöðinni, og ég þurfti að aka í gegn um töluverðan hluta af gamla bænum. En þar eru strætin mjó og hlykkjótt og umferðin því ógreiðfær. Við vorum nýkomnir á konungsstræti og vorum að hinkra við meðan þungfermdur öltunnuvagn var að þokast frá, svo við kæmumst áfram (þá hafði ég enga hugmynd um, að neitt sérlegt væri á seiði á þessum stöðvum eins og menn muna), þegar ökumaður minn, er heyrt hafði hvað mér og brytanum fór á milli, beygði sig niður til mín og sagði hálf forviða:

"Lávarður minn! Bauer er hér, — hann er að fara fram hjá kjötsölubúðinni þarna!"

Ég spratt upp í vagninum, hann sneri að mér bakinu, og var að hraða sér áfram gegn um fólksstrauminn eftir götunni, og fór heldur laumulega. Ég ímynda mér að hann hafi verið búinn að koma auga á mig, og hafi viljað flýta sér burtu eins fljótt og hann gat. Ég var í efa um, að þetta væri hann, en ökumaðurinn átaldi mig fyrir að þekkja hann ekki og sagði:

"Það er Bauer — og enginn annar en hann, lávarður minn."

Ég beið þá ekki boðanna lengur. Ef ég gæti náð í þenna náunga eða fengið að vita hvert hann færi, þá voru mikil líkindi á, að ég gæti komist á snoðir um dvalarstað Rúperts og hvað hann hefðist að. Ég stökk út úr vagninum, skipaði ökumanninum að bíða og þaut á stað að elta þjón minn fyrrverandi. Ég heyrði að ökumaðurinn fór að hlæja. Hann ímyndaði sér náttúrlega, að ég hefði brugðið svona skjótt við vegna þess hve sárt mér hefði orðið um að missa farangur minn.

Númerin á húsunum í Konungsstræti byrja við járnbrautarstöðina við götuendann, eins og allir vita, sem kunnugir eru í Streslau. Konungsstræti er löng gata er teygist nærri því gegn um allan gamla bæinn. Þegar ég stökk út úr vagninum var ég á móts við húsnúmer 300 eða þar um bil, og þaðan var á að gizka þrír fjórðungar úr mílu að nr. 19 þangað flýtti Bauer sér eins og kanína til holu sinnar. Ég vissi ekkert, og skeytti því ekkert, hvert hann ætlaði. Ég vissi ekkert um það, að honum væri annara um að komast inn í húsið sem talan 19 stóð á heldur en 18 eða 20, eða hver önnur tala, sem væri; ég var ekki að hugsa um annað en að ná í hann. Ekki hafði ég gert mér grein fyrir því, hvað ég mundi gera við hann ef ég næði honum, en ég hafði samt eitthvert veður af því að ég mundi samt reyna að hræða hann til að láta uppi leyndarmál hans, með því að hóta honum að kæra hann fyrir þjófnað. Og satt var það, að hann hafði stolið farangri mínum. Ég þaut á eftir honum, og hann vissi, að ég var að elta hann. Ég sá hann líta um öxl, og herða svo ferðina. Hvorugur okkar þorði að hlaupa; það vakti nóga athygli samt hve ant okkur var um að komast áfram, og hvað við skeyttum því lítið, að forðast að reka okkur á þá sem við mættum. En að einu leyti stóð ég betur að vígi. Í Streslau þektu mig flestir, og viku því úr vegi fyrir mér, en slíka kurteisi datt engum í hug að sýna Bauer. Þess vegna dró saman með okkur, þó að hann flýtti sér eins og hann gat. Ég var svo sem fimtíu skref á eftir honum þegar við lögðum á stað, en þegar við vorum komnir að endanum á götunni svo að við sáum stöðina, átti ég ekki nema tuttugu skref eftir til að ná honum. Þá vildi slys til. Ég hljóp beint í fangið á þrekvöxnum öldruðum hermanni. Bauer var nýbúinn að rekast á hann, og hann stóð kyr og mændi á eftir mótmanni sínum er áfram hljóp eins og mönnum er títt, þegar svona stendur á. Nú þegar rekist var á hann í annað sinn, óx gremja hans enn meir, og varð mér það til meins, því að þegar ég loks komst fram hjá honum, þá var Bauer horfinn! Hann sást hvergi. Ég leit á húsnúmerið andspænis; þar stóð talan 23; en dyrnar voru lokaðar. Ég gekk áfram, fram hjá 22, fram hjá 21 og að 19. Nr. 19 var gamalt hús, óþrifalegt og framstafninn hrörlegur mjög, og lagði út úr því megnan ódaun. Þetta var sölubúð, þar sem ýmsar ódýrar vörur voru til sýnis í gluggunum. Það voru þess kyns matvæli, er menn ekki leggja sér til munns að jafnaði, en að eins hefir heyrst getið at etin væru. Dyrnar á búðinni stóðu opnar, en ekkert benti til, að Bauer væri þar. Ég tautaði eitthvað ljótt í bræði minni og var í þann veginn að halda áfram, þegar gömul kona rak út höfuðið og leit í kring um sig. Ég var þá rétt á móti húsinu. Ég er viss um, að gömlu konunni brá við að sjá mig, og mér brá líka, því að við þektum hvort annað. Þetta var gamla konan móðir Holfs; og það var Jóhann sonur hennar, er hafði sagt okkur frá dýblissunni í Zenda, en bróður hans hafði Mr. Rassendyll drepið við stóru pípuna er lá að herberginu sem konungurinn var geymdur í. Það gat skeð, að ekkert mark væri á þessu takandi, þó að ég rækist þarna á þessa kerlingu, en samt virtist eins og hún, sem flækt hafði verið inn í leyndarmálin fyrrum, væri að einhverju leyti riðin við vandamálið sem nú vofði yfir.

Hún áttaði sig skjótt, og kastaði kveðju á mig.

"Sælar. Mrs. Holt," sagði ég. "Hvað er langt síðan að þér fóruð að verzla hér í Streslau?"

"Sem næst sex mánuðir, lávarður minn," svaraði hún léttilega, og setti báðar hendur á mjaðmir sér.

"Ég hefi ekki séð yður hér fyr," sagði ég og hvesti á hana augun.

"Það er nú varla að búast við því, að jafnfátækleg sölubúð, sem búðin mín er, hafi vakið athygli annars eins manns og hér eruð, lávarður minn." svaraði hún með auðmýkt og virtist helst sem hún gerði sér hana upp.

Ég leit upp á gluggana. Þeir voru lokaðir og grindur fyrir úr tré. Húsið bar þess ekki merki, að neinn byggi í því.

"Það er dágott hús að tarna," sagði ég. "nema þyrfti helst að mála það. Búið þér hér einar með dóttur yðar?" Ég tók svo til orða, því að Max var dauður, Jóhann fjarverandi og gamla konan átti ekki fleiri börn að því er ég vissi best.

"Stundum, og stundum ekki," svaraði hún, "ég leigi hér einhleypum mönnum þegar ég get."

"Hafið þér öll herbergin leigð núna."

"Það er nú ekki þesslegt. Ég hefi alls engan leigjanda sem stendur."

Þá sagði ég upp á von og óvon:

"En hvaða maður var það sem fór hér inn rétt áðan? Var það kannske viðskiftavinur?"

"Betur að svo hefði verið. En ég varð ekki var um að neinn kæmi hér," svaraði hún og virtist verða hissa.

Ég horfði fast framan í hana; hún leit framan í mig og brá sér hvergi. Það er ekki eins ilt að sjá nokkuð út úr nokkurri manneskju eins og gamalli kerlingu, sem vill dyljast fyrir manni. Feiti skrokkurinn á henni fylti út í dyrnar og varði mér inngöngu. Ég gat ekki séð neitt inn í húsið, því að inn um gluggana varð heldur ekki séð, því að þar skygði á hangandi svínslæri og annað þess kyns góðgæti. Ef refurinn hafði sloppið inn þá var hann svo vel geymdur í greninu, að ég gat ekki náð til hans.

Í þessum svifum sá ég James koma hröðum fetum; hann var vafalaust að skygnast eftir vagni mínum og hafði leiðst að bíða. Rétt á eftir varð hann mín var.

"Lestin yðar verður fararbúin eftir fimm mínútur, lávarður minn." mælti hann: "ef hún kemst ekki á stað í það mund, verður hún að bíða hálfa klukkustund enn."

Ég sá að ofurlítill brosvottur kom á andlitið á gömlu konunni. Þá þóttist ég viss um, að ég var á réttri leið til að finna Bauer og líklega fleiri en hann. En mér var þó enn skyldara að hlýðnast skipunum er ég hafði fengið og fara til Zenda. Á það var og að líta, að mér var ekki hægt að brjótast inn í húsið með valdi, um hábjartan daginn, nema alt kæmist í uppnám, sem um yrði rætt um alla Streslauborg. Ég sneri því á brott óánægður með málalokin. Ég var als ekki viss um, að Bauer væri inni, og hafði því einskis orðið vísari, sem neinn fengur var í.

"Ég vildi þér vilduð geta mín að góðu, lávarður minn." sagði kerlingarnornin.

"Já, ég skal minnast þess," svaraði ég. "Og ég ætla líka að ráðleggja yður að vara yður á leigendum. Hér eru ýmsir misyndismenn á sveimi."

"Ég heimta borgunina fyrir fram," svaraði hún gletnislega, og ég var í engum vafa um að hún var í ráðabruggi með óvinum okkar.

En þarna var ekkert frekara hægt að gera: ég sá það á James að honum var mikið áhugamál að fá mig til að fara strax á járnbrautarstöðina. Svo lögðum við á stað frá húsinu. En í því heyrðum við að kvað við hvellur hlátur inni í húsinu. Í þetta skifti brá mér heldur en ekki. Gamla konan hleypti brúnum, en það var ekki nema sem snöggvast. Ég þekti hláturinn, og hún hefir hlotið að geta sér þess til. Samt reyndi ég að láta sem ég hefði einskis orðið var. Ég kinkaði kolli til hennar og sagði James að við skyldum hraða okkur á járnbrautarstöðina. Ég lagði höndina á öxlina á honum og sagði:

"Hentzau greifi er í þessu húsi, James."

Hann leit til mín, og varð ekki hissa. Það var litlu hægra að gera honum hverft við en gamla Sapt sjálfum.

"Einmitt það, herra minn. Á ég að bíða hér og hafa gætur á honum?"

"Nei, við skulum koma báðir," svaraði ég. Sannast að segja bjóst ég við að það væri það sama að skilja hann einan eftir í Streslau og að undirskrifa dauðadóm hans, og mér reis hugur við að stofna honum í lífshættu. Rúdolf gat sent hann þangað, ef honum sýndist; en ég þorði það ekki. Svo fórum við báðir í lestina, en ég ímynda mér að ökumaður minn muni hafa snúið heim, þegar hann var búinn að bíða sig leiðan. Ég gleymdi að spyrja hann um það eftir á. Honum hefir sjálfsagt þótt það góð skemtun, að sjá húsbónda sinn elta strokinn þjón sinn um götur Streslau, með stolinn farangur, um hábjartan daginn. Ef hann hefði vitað hvernig í öllu lá, þá mundi hann hafa haft meiri áhuga á málinu, en líklega minni skemtun.

Ég kom til Zenda kl. hálf fjögur, og var kominn til kastalans hálfri klukkustundu síðar. Ég ætla ekki að fjölyrða um þær góðu og vingjarnlegu viðtökur, sem drotningin veitti mér. Alt tal hennar og látbragð hafði þær verkanir á mann, að gera mann henni enn hollari heldur en áður og ég fann þá fyrst til þess fyrir alvöru hver skyssa mér hafði orðið á, er ég misti bréfið. En hún hughreysti mig og fór að hrósa mér fyrir það litla, sem ég hafði komið til leiðar, í stað þess að ávíta mig fyrir slysni mína stórkostlega. Þegar viðræðum okkar var lokið, fór ég beina leið til Sapts. Ég hitti hann í herbergjum hans og Bernenstein hjá honum, og þótti vænt um að heyra það, að Rúpert skyldi vera einmitt þar, sem ég hafði búist við. Þeir sögðu mér og frá öllu því, sem gerst hafði, og ég hefi þegar skýrt frá, um það hvernig leikið hefði verið á Rischenheim alt þangað til hann slapp frá þeim. En ég fyltist kvíða við að heyra að Rúdolf Rassendyll hefði farið einn til Streslau, og væri að rétta höfuðið inn í gin ljónsins í Konungsstræti.

"Þeir verða þar fyrir þrír, Rúpert, Rischenheim og Bauer þorparinn," sagði ég.

"Það er óvíst, að Rúpert verði þar," sagði Sapt. "Hann verður þar, ef Rischenheim finnur hann og getur sagt honum sannleikann í tíma. En við verðum líka að vera viðbúnir að mæta honum hér og eins í skothúsinu. Við höfum nú gert ráðstafanir til að taka á móti honum hvar sem er. Rúdolf verður í Streslau, en þú og ég ríðum til skothússins, og Bernenstein verður hér hjá drotningunni."

"Á hér ekki að vera nema einn?" spurði ég.

"Nei, en hann er áreiðanlegur," svaraði borgarstjórinn og klappaði á öxlina á Bernenstein. "Við þurfum ekki að vera burtu nema tvær klukkustundir og förum ekki fyr en konungurinn er í fasta svefni. Bernenstein þarf ekkert annað að gera, en að neita öllum um viðtalsleyfi við hann, og leggja líf sitt við því að enginn komist inn til hans fyr en við komum aftur. Ég vona að þú getir séð um þetta, lífvarðarforingi."

Ég er varkár maður að eðlisfari, og gjarnt til að vera heldur svartsýnn þegar einhverskonar hætta er á ferðum. En ég gat samt ekki séð, að hér væri völ á betri úrræðum en þessum, eins og á stóð fyrir okkur. Eigi að síður var mér mjög órótt vegna Mr. Rassendylls.

Nú fengum við loks næði um stund, eftir öll umsvifin. Við settumst þar að snæðingi, og var klukkan orðin rúmlega fimm þegar við stóðum upp frá borðum og fórum að reykja vindla okkar. James hafði borið á borð fyrir okkur, og tekið að sér starf matsveins ofurstans, svo að við höfðum getað talað það sem okkur lysti. Traustið, sem þessi þjónn bar til húsbónda síns og hamingju hans, dró úr kvíða mínum.

"Konungurinn ætti nú að fara að koma," sagði Sapt og leit á stóra gamla silfurúrið sitt. "Sem betur fer, verður hann of þreyttur til að vera lengi fram eftir á fótum. Við ættum að geta komist á stað kl. 9, Fritz. Ég vildi óska að Rúpert kæmi til skothússins." Ánægjusvipur kom á andlitið á gamla ofurstanum um leið og hann sagði þetta.

Klukkan sló sex og ekki kom konungur. Litlu síðar bárust okkur skilmæli frá drotningunni um að koma yfir að kastalahöllinni framan verðri. Þaðan mátti gerla sjá langt fram eftir veginum, sem konungurinn kæmi til baka. Þegar við komum þangað fundum við drotninguna þar og var hún að ganga þarna fram og aftur mjög svo óróleg, því að hana var farið að furða á því, hve lengi það drógst að konungurinn kæmi. Þegar líkt stendur á eins og fyrir okkur í þetta sinn, þá er gjarnan gert miklu meira en vert er úr sérhverjum óvanalegum og óvæntum atburði, og í hann lögð svo alvarleg þýðing að heimska mundi vera að í annað skifti. Sami kvíðinn kom í okkur eins og drotninguna. Við gleymdum því öldungis hve margir óverulegir atburðir hefðu getað komið fyrir og dvalið afturkomu konungs, en fórum að brjóta heilann um ýms lítt möguleg óhöpp, svo sem það, að hann hefði kunnað að hitta Rischenheim — enda þótt þeir hefðu riðið í gagnstæða átt —, að Rúpert hefði kunnað að verða á vegi hans — jafnvel þó Rúpert hefði engan veginn getað farið svo snemma til skógarins o.þ.u.l. Kvíðinn í okkur hljóp með hugsunina í gönur, svo að okkur duttu tómar fjarstæður í hug. Sapt varð fyrstur til að átta sig á þessari vitleysu, og setti ofan í við okkur fyrir hana, og við drotninguna jafnvel líka. Við fórum þá að líta skynsamlega á málið líka, og hálfskömmuðumst okkar fyrir ístöðuleysið.

"Það er samt skrítið, að hann skuli ekki vera kominn," sagði drotningin, skygði hönd fyrir auga og horfði fram eftir veginum yfir að stóru trjánum, er byrgðu útsýnið. Það var farið að skyggja, en ekki samt orðið svo dimt að við hefðum ekki séð ferð konungs undir eins og hann hefði komið út úr skóginum.

Með því að okkur þótti það furðu gegna, að konungurinn skyldi ekki vera kominn kl. 6, þá undraði okkur enn meira á því, að ekkert sást til hans kl. 7 og ekki kl. 8. Við vorum hætt að tala glaðlega saman fyrir löngu. Þegar hér var komið steinþögðum við. Sapt var nú hættur að ávíta okkar. Drotningin var í loðfötum því að kalt var, og sat nú kyr, en hafði þó lengst af verið að ganga þarna fram og aftur þreyjulaus. Dagur var af lofti, og við vissum ekkert hvað til bragðs skyldi taka, né heldur hvað við gætum gert. Sapt vildi reyndar ekki fallast á illspár okkar, en þögn hans og svipþungi bar vott um að honum var engu rórra innanbrjósts en okkur. Þolinmæði mín var nú á þrotum og ég hrópaði: "Við skulum taka eitthvað til bragðs, í guðs bænum! Á ég að fara og leita að honum?"

"Það er nú hægra sagt en gert," sagði Sapt og ypti öxlum.

En í sömu svifum heyrði ég hófdyn í áttinni til skógarins, og Bernenstein sagði: "Þarna koma þeir!" Drotningin stóð upp og við skipuðum okkur í kring um hana. Jódynurinn færðist nær. Nú gátum við séð ferð þriggja manna. Þetta voru veiðimenn konungs, og voru þeir glaðværir mjög og sungu veiðimannakvæði. Okkur létti við að heyra þetta. Enn hafði þá ekkert ilt komið fyrir. En hvernig stóð á að konungurinn var ekki með þeim?

"Konungurinn er líklega þreyttur, og hefir orðið ofurlítið á eftir, drotning mín," mælti Bernenstein.

Þetta virtist sennileg tilgáta, og félst ég á hana með lífvarðarforingjanum. Við vorum báðir næmir fyrir áhrifum, hvort heldur þau voru gleðileg eða sorgleg. En Sapt lét sér fátt um finnast og sagði: "Við skulum heyra fréttirnar." Svo stóð hann upp og kallaði til varðmannanna, sem nú voru komnir:

"Sæll, Símon, hvar er konungurinn?" spurði hann og reyndi af brosa.

"Konungurinn hefir sent mig með skilaboð til Hennar Hátignar, drotningarinnar."

"Jæja, Segðu mér hvað það er, Símon."

"Já, ég skal gera það, drotning mín. Konungurinn hefir skemt sér mjög vel á veiðunum; og ef ég má segja mína meiningu, drotning mín, þá hefi ég aldrei —"

"Þú mátt segja hvað sem þér sýnist af sjálfum þér, Símon kunningi," sagði Sapt og klappaði á öxlina á honum; "en hirðsiðirnir heimta, af skýrt sé frá skotmælum konungs fyrst."

"Já, rétt er nú það, borgarstjóri," svaraði Símon. "Þú ert síviðbúinn að særa mann. "Jæja, konungurinn skemti sér hið besta við veiðarnar, því að við rákumst á villigölt kl. 11, og —"

"Eru þetta skilmælin, sem konungurinn sendi?" spurði drotningin, brosandi, en óþolinmóðlega.

"Ónei, ekki beinlínis skilmæli hans, drotning mín."

"Jæja, reyndu þá að koma þeim út úr þér, maður, í hamingju bænum," tautaði Sapt alvarlegur, því að við biðum þarna fjögur með öndina í hálsinum, meðan mannbjálfinn var að rugla um skemtunina, sem þeir hefðu haft af veiðunum.

Símon varð fyrst hissa við ákúrur Sapts, svo sagði hann:

"Eins og ég var að segja áðan, drotning mín, þá eltum við villigöltinn langa leið, en loks náðu hundarnir honum samt, og Hans Hátign veitti honum banasár. En þá var orðið mjög áliðið, og —"

"Það er samt orðið áliðnara nú," tautaði borgarstjórinn.

"Og konungurinn var svo náðugur að segja, að enginn veiðimaður, sem nokkurn tíma hefði verið með sér áður, hefði veitt sér slíka skemtun —"

"Guð komi til!" orgaði ofurstinn.

Símon leit illilega til Sapts. Borgarstjórinn var hinn ófrýnilegasti. En þó að hér væri um alvarlegt mál að ræða, gat ég ekki varist því að brosa, og Bernenstein tók fyrir munn sér til að verjast því að hlæja upp hátt.

"Já, þú segir, Símon, að konungurinn hafi verið orðinn mjög þreyttur," sagði drotningin til að reyna að fá hann til að halda sér að efninu.

"Já, drotning mín, konungurinn var mjög þreyttur; og vegna þess að svo vildi til, að við feldum villigöltinn í grend við skothúsið —"

Ég veit ekki hvort Símon varð var við að okkur, sem á hann hlýddum, kom þetta á óvart. En drotningin leit upp alveg forviða og ég held við höfum allir fært okkur nær honum að minsta kosti um eitt skref. Sapt greip ekki fram í fyrir honum í þetta skifti.

"Já, drotning mín, konungurinn var mjög þreyttur; og vegna þess að svo vildi til, að við feldum villigöltinn í grend við skothúsið, bað konungurinn okkur að bera dýrið þangað og koma aftur í fyrramálið til að gera það til; þess vegna erum við komnir hingað – allir nema Herbert bróðir minn, sem konungur bauð að dvelja eftir hjá sér. Hann kaus Herbert til þess, vegna þess að hann er viðvikalipur og móðir mín, blessuð, kendi honum alls konar matreiðslu."

"Hvar varð hann eftir hjá konunginum?" tautaði Sapt.

"Nú, auðvitað í skothúsinu, borgarstjóri. Konungurinn verður þar í nótt, og kemur hingað aftur í fyrramálið með Herbert. Þessu átti ég að skila til Yðar Hátignar, drotning mín."

Þá höfðum við loksins fengið að heyra skilaboðin og þau voru alls ekki þýðingarlítil. Símon horfði á okkur á víxl. Ég sá að nauðsyn bar til að svara Símoni einhverju strax svo að ég tók það upp á mig, að koma honum á brott.

"Þakka þér fyrir, Símon, þakka þér fyrir; við höfum heyrt skilmæli konungs."

Hann laut drotningunni; hún stóð upp og þakkaði honum líka. Símon hafði sig því næst á brott og var hálf kindarlegur þegar hann fór.

Þegar hann var farinn varð stundarþögn. Loks sagði ég:

"Setjum nú svo að Rúpert —"

Sapt borgarstjóri fór að hlæja.

"Ég er öldungis hissa á því, hve atvikin geta borið einkennilega að. Við höfum sagt í blekkingarskyni að hann ætlaði til skothússins og það gengur bókstaflega eftir."

"En hvað á að gera, ef Rúpert fer og Rischenheim hefir ekki aðvarað hann?" spurði ég aftur.

Drotningin stóð upp og rétti frá sér hendurnar í örvænting og hrópaði:

"Bréfið mitt! herrar mínir."

Sapt eyddi engum tíma að óþörfu.

"Þú verður hér kyr, Bernenstein, eins og um hefir verið talað," mælti hann, "Þar á verður engin breyting. Hestar handa okkur Fritz verða að vera til eftir fimm mínútur."

Bernenstein þaut á stað eins og snæljós til hesthússins.

"Ráðagerð okkar hefir ekkert breyst við þetta," sagði Sapt við drotninguna, "nema að því leyti, að við verðum að vera komnir til skothússins á undan Rúpert greifa."

Ég leit á úrið mitt. Það var tuttugu mínútur eftir níu. Þvoglið í Símoni hafði tafið okkur um heilt kortér. Ég ætlaði að segja eitthvað á þá leið. En þegar ég leit á Sapt ygldi hann sig svo sem eins og hann vissi hvað ég ætlaði að segja, svo að ég þagði.

"Haldið þið, að þið komið nógu snemma?" spurði drotningin skjálfandi af kvíða.

"Vafalaust, drotning mín," svaraði Sapt og laut henni.

"Þið ætlið að sjá um, að hann nái ekki tali af konunginum?"

"Já, vitanlega," svaraði Sapt og brosti.

"Ég bið þess af öllu hjarta, herrar mínir, — af öllu hjarta," mælti hún með skjálfandi röddu.

"Nú eru hestarnir komnir," hrópaði Sapt. Hann greip um hönd hennar og kysti á hana í flýti, og eftir því sem ég gat best heyrt sagði hann:

"Við skulum gera það, yndisfagra drotning mín." Og hvort sem mér heyrðist það rétt eða ekki, þá hopaði hún frá honum hálfhissa, og tárin stóðu í augunum á henni. Ég kysti líka á hönd hennar; því næst stigum við á hestbak og riðum, eins hart og klárarnir komust, til skothússins.

Einu sinni leit ég aftur, og þá sá ég hana standa framan vert við kastalahöllina hjá Bernenstein.

"Skyldum við ná þangað í tæka tíð?"

"Ég er hræddur um ekki, en reynt skal það, ef hægt er," svaraði Sapt borgarstjóri.

Litlu síðar heyrðum við jódyn á eftir okkur. Við litum þegar um öxl, og það snarlega eins og mönnum er títt, sem eru á hættuferðum. Sá, sem þarna var á ferð nálgaðist okkur skjótt, því að hann reið gapalega hart.

Rétt á eftir náði maðurinn okkur. Sapt hraut blótsyrði af vörum, gramur yfir töfinni, en gat þó varla varist brosi.

"Ert það þú, James?" spurði ég.

"Já," svaraði þjónn Mr. Rassendylls.

"Hvern fjandann viltu? spurði Sapt.

"Ég kom til að þjóna Tarlenheim greifa, herra minn."

"Ég hafði ekki skipað þér neitt, James."

"Veit ég það, herra minn. En Rassendyll sagði mér að skilja ekki við yður fyr en þér vilduð ekki hafa mig lengur. Því flýtti ég mér á stað á eftir yður."

Þá tók Sapt til orða og sagði: "Hvað er að tarna? Hvaða hestur er þetta?"

"Það er besti hesturinn sem ég sá í hesthúsinu, herra. Ég var hræddur um, að ég myndi ekki ná ykkur."

Sapt japlaði granaskeggið, tautaði eitthvað, en fór svo að hlæja.

"Mér þykir annars vænt um vitnisburðinn, sem þú gefur hestinum, því að ég á hann."

"Einmitt það, herra minn," svaraði James, með mestu hæversku.

Svo þögðum við allir ofurlítið og Sapt fór að hlæja.

"Áfram!" sagði hann, og við hleyptum allir þrír inn í skóginn.

VIII. KAPÍTULI.

Þegar ég renni nú huga yfir atburðina og skýringarnar, sem ég hefi fengið á þeim, þá er mér auðgert að rekja alla viðburðina er gerðust þenna dag, klukkustund eftir klukkustund, mjög vandlega. Og nú sé ég gerla hversu atvikin gripu inn í ráðagerð okkar og ónýttu brögð okkar storkunarlega, og sneru ráðabruggi okkar þannig, að úrslitin eins og fyrirfram ákveðin urðu þau sem engum hafði komið til hugar og við sýknir saka af þeim, því að þau voru öldungis fjarstæð vilja okkar og tilætlun. Ef konungurinn hefði ekki farið til skothússins, þá mundi fyrirætlun okkar hafa orðið framkvæmd. Ef Rischenheim hefði hepnast að aðvara Rúpert Hentzau, þá hefði alt setið við það sama. En örlögin sneru því á annan veg. Konungurinn var þreyttur og fór því til skothússins, en Rischenheim tókst ekki að vara frænda sinn við. Það var að eins fyrir staka óhepni, því að ég hafði þekt hlátur Rúperts í Konungstræti þegar ég fór frá Streslau og Rischenheim kom þar kl. hálf fimm. Hann hafði farið inn í járnbrautarlestina á stöðinni við veginn, og því auðveldlega komist á undan Mr. Rassendyll, er neyddist til að fara ríðandi alla leið, til að koma í veg fyrir að hann þektist, og fara ekki inn í borgina fyr en rökkva tók. En Richenheim hafði ekki þorað að senda skeyti til að aðvara Rupert, því að hann vissi, að við vissum um dvalarstað Rúperts, og gat búist við, að við hefðum gert einhverjar ráðstafanir til að ónýta allar skeytasendingar. Fyrir því mátti hann til að fara með skeytið sjálfur. Þegar hann kom, var frændi hans farinn. Hann hafði fastákveðið að vera kominn á mótstaðinn í tæka tíð; fjandmenn hans voru eigi að eins í Streslau; engin skipun hafði verið gefin út til að taka hann fastan; og þó að samband hans við Michael svarta væri í hvers manns munni, þóttist hann þó öruggur um að hann yrði ekki tekinn höndum vegna leyndarmálsins, sem hann hafði komist yfir. Þess vegna fór hann á stað úr húsinu, á járnbrautarstöðina, keypti farbréf til Hofbau, lagði á stað með lestinni kl. 4 og kom á ákvörðunarstað sinn kl. hálf sex. Lestin, sem hann var í og hin, sem Rischenheim kom með, hafa hlotið að fara hvor fram hjá annari. Rischenheim fékk fyrst fregnir af frænda sínum hjá stöðvarstjóranum einum. Hann hafði þekt Hentzau greifa, og fór að óska Rischenheim til hamingju fyrir að frændi hans hefði fengið heimfararleyfi. Rischenheim svaraði engu, en hraðaði sér til hússins í Konungsstræti, og fékk þar allar fregnir að heyra hjá gömlu Mrs. Holt. En þá var hann í vanda um hvað hann ætti að ráða af. Trúmenskan við Rúpert hvatti hann til að fara á eftir honum og vara frænda sinn við hættunni, sem hann var að ana út í. En varkárnin hvíslaði að honum, að hann hefði enn ekki stofnað sér í neinn sérlegan vanda, og hann væri enn ekki opinberlega bendlaður við ráðagerð hans, og við sem hið sanna vissum í því efni, mundum fúsir til að kaupa hann til að þegja og láta hann óáreittan. Óttinn varð trúmenskunni yfirsterkari, og eins og úrskurðarseinum mönnum er gjarnt til, tók hann þann kostinn að bíða í Streslau, þangað til hann kæmist að því, sem gerst hefði í skothúsinu. Ef Rúpert yrði drepinn þar, þá gat hann sett okkur friðarkosti; ef frændi hans aftur á móti slyppi, þá gat hann tekið á móti honum í Konungsstræti og hjálpað þessum bíræfna æfintýramanni framvegis til að koma fram fyrirætlunum sínum; hann hafði og þær málsbætur, að Bernenstein hafði sært hann, svo að hægri hönd hans var honum ónýt; ef hann hefði farið þannig til reika, mundi hann hafa verið mjög liðléttur hjálparmaður.

En um þetta vissum við ekkert, þegar við vorum að ríða gegn um skóginn.

Við gátum getið okkur margs til, ímyndað okkur margt, vonað og kviðið; en við höfðum ekki fulla vitneskju um annað, en að Rischenheim hefði lagt á stað til Streslau, og að Rúpert var í höfuðborginni kl. 3. Það gat bæði verið og ekki, að þeir hefðu hist. Við urðum að fara að eins og við byggjumst við að að þeir hefðu farist á mis og Rúpert hefði farið að finna konunginn. En við vorum orðnir seinir. Meðvitundin um það herti á okkur, þó að við mintumst ekki á það okkar á milli. Þess vegna keyrðum við hestana sporum og riðum jafnvel harðara en hyggilegt var. Einu sinni datt hestur James, og hann hentist af baki. Og oftar en einu sinni rakst ég svo harkarlega á lafandi greinar, að við lá að ég rotaðist og félli af baki. Sapt skeytti þessu engu. Hann var á undan, sat álútur og eins og negldur niður í hnakkinn, leit hvorki til hægri né vinstri, en þeysti áfram, linaði aldrei á sprettinum og hlífði hvorki sér né hestinum. Við James riðum samhliða á eftir honum. Allir riðum við þegjandi, því að okkur fanst við ekkert hafa um að ræða. Myndin af Rúpert var rík í huga mínum. Mér var sem ég sæi hann hæversklega brosandi vera að rétta konunginum bréfið drotningarinnar. Nú var mótstíminn liðinn. Ef svo hefði borið til, hvað áttum við þá að gera? Það var reyndar hefnd í því að drepa Rúpert, en hvaða gagn var að því að öðru leyti, ef að konungurinn hefði fengið að lesa bréfið? Ég skammast mín fyrir að segja það, að ég álasaði Mr. Rassendyll fyrir að hafa dottið í hug þessi ráðagerð, er hafði leitt til þess, að við höfðum sjálfir lent í gildrunni, er ætluð hafði verið Rúpert Hentzau.

Loks leit Sapt um öxl í fyrsta sinni og benti fram fyrir okkur. Þar sáum við glitta í skothúsið, svo sem hálfa mílu fram undan okkur. Sapt stöðvaði hest sinn og við okkar líka. Svo stigum við af baki og bundum hestana við tré og héldum svo áfram fótgangandi, og gengum hratt og þegjandi. Okkur hafði komið saman um að Sapt skyldi ganga inn fyrstur og láta sem hann væri sendur af drotningunni til að aðstoða konunginn og greiða för hans heim daginn eftir svo að hann þreyttist þá ekki. Ef Rúpert hefði komið og væri farinn, mundi það auðséð á framkomu konungs; ef Rúpert væri ókominn, þá áttum við James, er úti fyrir biðum báðir, að hamla honum inngöngu. Þá gat og komið fyrir það þriðja: Að Rúpert væri enn fyrir hjá konungi. Við höfðum ekki ráðið neitt af um hvað gert skyldi, ef svo hefði viljað til; ætlan mín var, að svo miklu leyti sem ég hafði ráðgert nokkuð, að drepa Rúpert og sannfæra konunginn um að bréfið væri falsað — það var örþrifstiltæki, svo ólíklegt reyndar, að til halds kæmi, að við hurfum frá því aftur.

Nú nálguðumst við skothúsið, og áttum á að gizka fimtíu skref að því. Alt í einu fleygði Sapt sér niður flötum.

"Fáðu mér eldspýtu," sagði hann í lágum hljóðum.

James kveikti á eldspýtu og lýsti vel af henni, því að blæjalogn var. Þá sáum við ný för eftir hest og lágu þau frá skothúsinu. Við stóðum upp og héldum áfram, lýstum að förunum og röktum þau þangað til að við komum að tré, sem var svo sem tíu skref frá dyrunum á húsinu. Lengra gátum við ekki rakið þau, en þaðan sáum við tvær slóðir liggja fram og aftur eftir hann. Hann hafði farið heim að húsinu og til baka aftur. Hestaförin lágu að trénu, hægra megin. Þar hafði maðurinn stigið af baki og farið fótgangandi heim að húsinu, snúið aftur að trénu, stigið þar á bak aftur og haldið í þá átt, sem förin lágu, þau sem við höfðum verið að rekja.

"Það kann að vera, að einhver annar hafi komið," sagði ég; en þó býst ég við að enginn okkar hafi efast um, að þessi för væru eftir Rúpert. Þá var konungurinn búinn að fá bréfið; óhappið var orðið. Við vorum orðnir of seinir.

Samt hikuðum við ekki. Þegar óhöppin steðja að, dugir ekki annað en að taka mannlega á móti. Við James komum rétt á eftir borgarstjóranum og fórum nærri fast að dyrunum. Þar losaði Sapt um sverð sitt í skeiðunum, því að hann var í einkennisbúningi. Við James skoðuðum skammbyssurnar okkar. Ekkert ljós sást í skothúsinu; dyrnar voru aftur, alt var hljótt. Sapt drap á dyr með hnefa sínum, en enginn anzaði. Svo sneri hann hurðarsnerlinum, og laukst þá upp hurðin og blasti við dimmur og auður gangur inn af.

James rétti honum eldspýtustokk og svo sté hann inn yfir þrepskjöldinn. Við sáum til hans glögglega svo sem tvö skref, og svo hvarf hann sjónum okkar. Ég heyrði ekkert nema andardrátt minn óðan og tíðan. En svo heyrðist annarskonar hávaði, það var líkast veiku veini, hjálparákalli dauðvona manns; líka heyrðist sverð dragast eftir steinlagða ganginum. Við litum hvor til annars, og var sem hávaðanum inni væri ekkert skeytt; því næst heyrðist ofurlitið urg, er kveikt var á eldspýtu. Þá heyrðum við Sapt standa upp og glamraði sverð hans við steingólfið um leið; svo heyrðum við hann ganga fram ganginn og sáum hann koma fram í dyrnar.

"Hvað var þetta?" spurði ég.

"Ég datt," svaraði Sapt.

"Um hvað?"

"Komdu og sjáðu. Bíddu við, James."

Ég fór á eftir borgarstjóranum svo sem átta skref inn eftir ganginum.

"Er ekki lampi hér einhvers staðar." Spurði ég.

"Við getum séð það sem þarf við eldspýtuloga," svaraði hann. "Um þetta datt ég."

Áður en kveikt var á eldspýtunni hafði ég séð grilla í einhverja þústu í ganginum.

"Er það dauður maður?" spurði ég strax.

"Nei," svaraði Sapt og kveikti. "Það er dauður hundur, Fritz."

Ég rak upp óp af undrun og lagðist á hnén. Í því tautaði Sapt: "Þarna er þá lampinn", og teygði sig eftir honum yfir á grind, sem hann hékk í á veggnum. Hann kveikti á honum og fór að lýsa að dauða skrokknum. Við sáum þá gerla hvers kyns var og alt inn eftir ganginum.

"Þetta er Boris, villigaltahundurinn," sagði ég lágum hljóðum, þó að engin merki sæjust til að neinn væri að hlera það sem við sögðum.

Ég þekti hundinn vel; þetta var uppáhaldshundur konungs og fylgdi honum alt af á veiðum. Hann hlýddi hverju, sem konungur skipaði honum, en eigi var öðrum holt að treysta honum að jafnaði. Nihil de mortuis nisi bene...[*] Þarna lá hann nú steindauður í ganginum. Sapt tók á hausnum á honum. Það var kúlufar í gegn um hauskúpuna. Ég kinkaði kolli og benti á hægra herðablaðið á hundinum, því þar var gat eftir aðra kúlu.

[* Ekkert nema gott um hina dauðu. — Þýð.]

"Og sjáðu þetta," sagði borgarstjórinn. "Náðu í þetta."

Ég leit nú þangað, sem Sapt benti. Út úr kjaftinum á hundinum lafði grá tuska og á henni var yfirhafnarhnappur. Ég kipti í tuskuna, en Boris hélt henni þó að dauður væri. Sapt rak þá sverð sitt inn á milli tanna hundsins og glenti ginið svo sundur, að ég náði tuskunni.

"Stingdu þessu í vasa þinn," sagði borgarstjórinn. "Svona, komdu nú," og svo steig hann yfir villigaltahundinn með lampann í annari hendi og sverðið óslíðrað í hinni, og ég á eftir honum."

Við vorum nú komnir að dyrunum á herberginu, sem við höfðum snætt í kveldverð með Rúdolf Rassendyll, þegar hann kom fyrst til Rúritaníu, og fór til Streslau til að verða krýndur. Hægra megin við það var það herbergi, er konungurinn svaf í, og hinu megin við það nokkru fjær eldhúsið og kjallarinn. Förunautar konungs voru vanir að sofa hinu megin við borðstofuna.

"Ég býst við, að við verðum að leita betur fyrir okkur hér," sagði Sapt. Þó að ekki væri neina órósemi á honum að sjá, hljómaði tordulin ákefð í rödd hans. En í sömu svifum heyrðum við lágt vein framan úr ganginum vinstra megin, og því næst eitthvert urg, eins og maður væri að dragast um gólfið á fjórum fótum. Sapt lýsti í þá áttina, og þá sáum við Herbert förunaut konungs. Hann var náfölur, augun starandi, og gat að eins lyft efri búknum frá gólfi með höndum, og dró sig þannig áfram á maganum.

"Hver er þarna." spurði hann með veikri rödd.

"Hvað er þetta? Þekkirðu okkur ekki?" spurði borgarstjórinn og gekk til hans. "Hvað er það, sem fyrir hefir komið?"

Mannauminginn var ákaflega máttfarinn og ég held varla með öllu ráði.

"Ég er frá, herra minn!" tautaði hann; "ég er frá, það er svo sem víst. Ég fer aldrei á veiðar aftur, herra minn. Það er búið að fara svo með magann í mér. Æ! Æ! Drottinn minn!" Og um leið hné höfuðið á honum niður og skall á gólfið.

Ég hljóp til og reisti hann við aftur. Ég kraup á kné og setti fótinn undir hnakkann á honum.

"Segðu okkur hvað hér hefir gerst," mælti Sapt, stuttur í spuna og hörkulega; en ég reyndi að hagræða manninum sem best ég gat.

Hann byrjaði þá að segja frá. Oft varð hann af hafa upp aftur hið sama, svo gleymdi hann líka úr, ruglaðist, og varð hvað eftir annað að þagna til að safna nýjum kröftum. Við vorum samt ekki óþolinmóðir, en hlýddum á og hirtum ekkert um hvað tímanum leið. Einu sinni leit ég við, því að ég heyrði einhvern hávaða og sá þá, að James hafði laumast inn ganginn til okkar. Sapt tók ekkert eftir honum né neinu öðru en orðunum, sem særði manngarmurinn var að tína út úr sér. Frásögn hans var á þessa leið, og sýnir glögt hversu smá-atvik geta leitt til stórviðburða.

Konungur hafði snætt kveldverð, og að því búnu farið inn í svefnherbergi sitt. Þar hafði hann fleygt sér út af í fötunum og sofnað skjótt. Herbert var frammi og var að þvo upp ílát og sjá um sitthvað fleira. En þá vissi hann ekki fyrri til, en maður var kominn inn til hans. Hann þekti ekki hver þessi óvænti gestur var, því að hann hafði skamma stund verið í þjónustu konungs. Hann sagði að hann hefði verið meðalmaður á hæð, svarthærður, fríður sýnum, og "fyrirmannlegur að öllu leyti". Hann hefði verið í veiðimannakufli og borið skammbyssu við belti sér. Annari hendinni hefði hann stutt um beltisstað, en í hinni hendi hefði hann haldið á dálitlum öskjum ferhyrntum.

"Segðu konunginum, að ég sé kominn. Hann á von á mér," mælti ókunni maðurinn.

Herbert hopaði á hæli lítið eitt, því að bæði kom honum þessi gestskoma á óvart, þótti það grunsamlegt hve hægt gesturinn hefði farið inn, og líka hafði hann samvizkubit af að hafa gleymt því að setja slagbrand fyrir hurðina. Hann var vopnlaus, en vel að manni og bjóst að verja húsbónda sinn svo sem hann mætti. Það var enginn efi á að þetta var Rúpert. Hann hló og mælti: "Hann vonast eftir mér, maður. Farðu og segðu honum, að ég sé kominn." Að svo mæltu tylti hann sér upp á borðið og fór að dingla fótunum út af því. Herbert fór að færa sig aftur á bak í áttina þangað, sem konungur svaf, því að hinn talaði svo valdalega til hans. "Ef konungurinn spyr nokkurs frekar, þá geturðu sagt honum, að ég sé með öskjurnar og bréfið," sagði Rúpert. Maðurinn kinkaði kolli og fór inn í svefnherbergi konungs. Konungur var sofandi. Þegar hann var vakinn, var helst á honum að heyra, að hann vissi ekki neitt, hvorki um neinar öskjur eða bréf, og byggist ekki við neinum gestum. Þá vaknaði kvíði Herberts aftur; hann hvíslaði því að konungi að ókunni maðurinn væri með skammbyssu á sér. Hvað sem að konunginum mátti finna — og guð varðveiti mig frá að tala illa um mann, sem jafn-hörð örlög mættu og honum — þá var hann engin skræfa. Hann stökk fram úr rúminu, og í sömu svifum kom stóri villigaltahundurinn fram geltandi og urrandi Hundurinn var strax var við gestinn. Hann spenti eyrun og rak upp hátt gól og leit upp á húsbónda sinn. Í því kom Rúpert Hentzau í dyrnar, annað hvort af því að honum leiddist að bíða, eða til að líta eftir hvort skilmæli sín væru rétt fram borin.

Konungur var óvopnaður og Herbert líka. Vopnin, sem þeir höfðu brúkað á veiðunum voru inn í næsta herbergi, og Rúpert virtist verja þeim að komast þangað. Ég hefi lýst yfir því, að konungurinn var enginn hugleysingi, en samt ímynda ég mér, að þegar hann sá Rúpert hafi rifjast upp fyrir honum hörmungarnar í dyblissunni, og honum orðið hálffelmt við, því að hann hrökk aftur á bak og sagði: "Ert það þú?" Hundurinn skildi það á málrómi húsbónda síns, að ekki var alt með feldu og tók að gelta grimmilega.

"Áttuð þér ekki von á mér, herra konungur?" spurði Rúpert brosandi og kinkaði kolli. Ég vissi að hann hafði gaman af því að sjá hve konungi kom þetta óvænt. Það var hans líf og yndi að hræða menn, og það eru fæstir sem eiga kost á því að gera konunga af Elphenbergsættinni skelkaða. Rúpert Hentzau hafði oftar en einu sinni átt kost á því.

"Nei," tautaði konungur. Svo virtist sem hann næði sér aftur að nokkru leyti, því að hann sagði reiðilega: "Hvernig stendur á að þú dirfist að koma hingað?"

"Áttuð þér þá ekki von á mér." hrópaði Rúpert, og virtist nú sem honum alt í einu dytti í hug að hér hefði verið lögð gildra. Hann kipti skammbyssunni til hálfs úr belti sínu, að líkindum hálf-ósjálfrátt og eins og til að fullvissa sig um að hún væri á sínum stað. Herbert hrópaði hátt og fleygði sér fram fyrir konung, er hné niður í rúmið aftur. Rúpert varð hálfhissa en þótti þó víst gaman að, (því hann brosti, eftir því sem Herbert sagði frá), færði sig nær um nokkur skref og fór eitthvað að minnast á Rischenheim, – en um það gat Herbert ekki sagt neitt greinilega. "Ekki eitt skref nær," hrópaði konungur. "Ekki eitt skref nær." Rúpert nam staðar. En þá var sem honum kæmi eitthvað nýtt í hug alt í einu, því að hann hélt öskjunum sem hann hafði í vinstri hendinni fram og hrópaði:

"Jæja, lítið þér á þetta, herra konungur," og um leið rétti hann til hans höndina, sem hann hélt á öskjunum í.

Það var eins og konungi væri að renna reiðin, því að hann sagði: "Hvað er þetta? Farðu og taktu á móti því."

En Herbert hikaði, því að hann var hræddur við að skilja við konunginn, því að hann hlífði honum með líkama sínum eins og skildi. Þá brast Rúpert þolinmæði, því að hann bjóst við, að ef hér væri lögð fyrir sig gildra, þá væri hver stundin dýrmæt. Hann hló fyrirlitlega og hrópaði: "Jæja, grípið þið þær þá, ef þið eruð hræddir við að sækja þær," og um leið henti hann öskjunum til Herberts eða konungsins og ætlaði víst hvorum þeirra að grípa, sem gæti.

En þessi móðgunaraðferð hafði alvarlegar afleiðingar og skjótar. Stóri villigaltahundurinn hentist á sama vetfangi á ókunna manninn. Rúpert hafði annað hvort ekki séð hundinn eða veitt honum neina sérlega athygli. Hann hreytti úr sér blótsyrði, reif skammbyssuna frá belti sínu og skaut á hundinn. Kúlan hefir víst brotið herðablaðið í honum, en samt slepti hann ekki takinu, sem hann hafði náð á brjóstinu á Rúpert, svo að hann kiknaði við og féll á kné. Öskjurnar lágu þar sem Rúpert hafði fleygt þeim. Konungur varð óður og uppvægur af bræði við að sjá afdrif uppáhaldshunds síns og þaut fram hjá Rúpert og inn í næsta herbergi og Herbert á eftir. Um leið og þeir skutust fram hjá hafði Rúpert getað slitið hundinn, nær særðan til bana, af sér og hljóp til dyranna. Þar rak hann sig á Herbert, sem hélt á villigalta spjóti, og konunginn með tvíhleypta veiðimannabyssu í höndum. Hann brá vinstri höndinni á loft, sagði Herbert, og var enginn vafi á að hann vildi fá að segja eitthvað, en konungur miðaði á hann byssu sinni. Rúpert stökk aftur á bak og komst í hlé við dyrnar: kúlan þaut fram hjá honum og gróf sig inn í vegginn hinu megin. Þá réðst Herbert að honum með spjótið. Skýringar allar verða nú að bíða, því að hér var um líf eða dauða að tefla. Rúpert skaut hiklaust á Herbert, og hann féll til jarðar særður banasári. En þá var konungur búinn að leggja byssuna aftur upp að vanganum.

"Bölvaður asninn þinn!" hrópaði Rúpert, "fyrst þú endilega vilt hafa það, þá er best þú fáir það," og skotið reið úr byssunni og marghleypunni jafnsnemma. En Rúpert hitti, því að hann tapaði sér aldrei, en konungurinn ekki. Herbert sá greifann standa stundarkorn með rjúkandi marghleypuna hendinni og horfa á konunginn liggjandi á gólfinu. Því næst gekk hann til dyranna. Ég vildi óska, að ég hefði séð framan í hann þá! Skyldi hann hafa verið ygldur á svip eða brosandi? Skyldi hafa verið á honum að sjá drambsemi eða gremju? Eða eftirsjá? Nei, ekki á honum! Hann gekk til dyranna og fór út og sá Herbert það síðast til hans. En þá, þá kom sá fjórði, sem þátt hafði tekið í bardaganum, fram á leiksviðið. Það var hundurinn, sem reis upp skrækjandi af ilsku. Hann haltraði með blóðbununa úr herðakambinum út um dyrnar á eftir Rúpert, fram í ganginn. Herbert hlustaði og reis upp til hálfs. Hann heyrði urr, blót og sviftingar. Rúpert hefir líklega snúið sér við í tæka tíð til að taka á móti hundinum. Hundurinn, jafnsærður og hann var, náði ekki til að bíta Rúpert í andlitið, en hann hafði svift stykkinu úr kufli óvinar síns, svo sem tennur tóku, og það var tuskan sem við fundum upp í honum dauðum. Svo heyrðist skot, hlátur, gengið til hurðar, og henni skelt aftur. Þá þóttist Herbert vita að greifinn væri sloppinn undan, og skreiddist hann því með veikum burðum fram í ganginn. Honum hafði dottið í hug að hann kynni að hressast ef hann næði í brennivín og því leitaði hann í áttina til kjallarans. En hann hafði ekki þrótt til að komast þangað, og hné niður þar sem við fundum hann, og vissi ekki hvort konungurinn var lifandi eða dauður, því að hann gat ekki heldur komist inn í herbergið þar sem húsbóndi hans hafði legið á gólfinu.

Ég hafði hlustað á söguna eins og í nokkurskonar leiðslu. Þegar Herbert var nærri hálfnaður með hana hafði hann þokað sér lítið eitt áfram og hvíldist á handleggnum á mér. Ég heyrði að mannauminginn varð hvað eftir annað að væta varirnar með tungunni. Ég leit þá til Sapts. Hann var fölur sem nár, og hrukkurnar á andliti hans virtust hafa dýpkað. Hann leit upp og framan í mig. Hvorugur okkar mælti orð; við sáum hvors annars hugsanir þegar við horfðumst í augu. "Þetta er okkur að kenna," hugsuðum við báðir. "Við lögðum þessa gildru; þessir menn hafa fallið í hana og beðið bana. Ég man eftir þeirri stundu eins og það hefði verið í gær, þegar okkur fanst konungurinn hafa látið líf sitt fyrir tilstofnun okkar.

En var hann þá dauður? Ég greip í handlegginn á Sapt. Hann leit á mig spyrjandi. "Konungurinn," hvíslaði ég. "Já, konungurinn," svaraði hann. Við litum í kring um okkur og fórum að dyrunum á borðstofunni. Þar fanst mér ætla að líða yfir mig, svo að ég greip í borgarstjórann. Hann studdi mig og opnaði dyrnar upp á gátt. Púðurreyk lagði á móti okkur út úr herberginu. Það var eins og reykurinn héngi fastur á hlutunum þar inni. Hann vafðist í dökkum bugðum utan um ljósahjálminn er daufa birtu lagði af. James var nú kominn með lampann og lýsti okkur. En konungurinn var ekki þarna inni. Vonin vaknaði aftur í brjósti mínu. Hann hafði þá kannske ekki verið ráðinn af dögum! Nýr þróttur færðist í mig og ég þaut inn í herbergið og inn í næsta herbergi þar innar af. Þar logaði líka ljós, en mjög dauft, og ég sneri við til að kalla eftir lampanum. Sapt og James komu á eftir og gægðust inn um dyrnar yfir öxlina á mér.

Konungurinn lá flatur á gólfinu á grúfu, skamt frá rúminu. Hann hafði skriðið þangað, til að leita sér hvíldar, að því er við héldum. Hann lá hræringarlaus. Við horfðum á hann stundarkorn; þögnin, sem fylgdi, var þungbærri en hægt er að gera sér í hugarlund. Loks færðum við okkur áfram, allir í einu, eins og af sameiginlegu ráði, en við fórum hægt og varlega, eins og við værum að ganga fram fyrir hásæti dauðans sjálfs. Ég varð fyrstur til að krjúpa á kné og lyfta upp höfðinu á konunginum. Blóð hafði runnið út um munninn, en nú var það hætt að renna. Hann var dauður.

Ég fann að Sapt kom við öxlina á mér með hendinni; ég leit þangað sem hann var að benda mér. Hann var að benda mér á höndina á konunginum. Hún var krept utan um alblóðugar öskjurnar, sem ég hafði farið með til Vintenberg og Rúpert Hentzau nú komið með til skothússins um nóttina. Ég laut niður og rétti upp volga og blóðstorkna fingurna utan af öskjunum.

Sapt beygði sig áfram með ákefðarsvip.

"Eru þær opnar?" hvíslaði hann.

Spottinn var utan um þær; innsiglið á endanum var óbrotið. Leyndarmálið var geymt, og konungurinn hafði látið líf sitt án þess að komast að því. Ég bar þá höndina alt í einu upp að augunum — ég veit ekki hvers vegna — og ég fann að augnahárin voru vot.

"Eru þær opnar?" spurði Sapt aftur, því að hann gat ekki séð það, vegna þess, hve dauf birtan var.

"Nei," svaraði ég.

"Guði sé lof!" hrópaði hann. Og röddin var blíð af Sapts rödd að vera.

IX. KAPÍTULI.

Þegar dæmt er um atburði mitt í hita og æsingi tilfinninganna verður venjulega annað ofan á en við rólega yfirvegun síðar meir. Ég met nú ekki það stærsta afbrot Rúperts Hentzau, að hann réð konunginum bana. Reyndar var það verk, sem enginn nema ósvífinn þorpari mundi hafa unnið, sá, er ekkert lét sér fyrir brjósti brenna og enginn hlutur var helgur; en þegar ég hugleiði frásögu Herberts, og athuga það hvernig það atvikaðist að þetta skeði, svo og hvatir að því og allan aðdraganda, þá virðist svo, sem óbilgjörn örlög hafi að nokkru leyti neytt hann til þessa verks, samskonar örlög, sem lögðu okkur í einelti. Hann hafði ekki ætlað að gera konunginum neitt — það má meira að segja fullyrða, að hann reyndi til að þyrma lífi hans, hvað svo sem honum hefir gengið til þess, og hefði sjálfsagt ekkert mein unnið honum, ef hann hefði ekki átt hendur sínar að verja. En vegna þess konungur móti ætlun hans vissi ekkert um erindi hans, vegna þess Herbert hikaði af tómri trúmensku við húsbónda sinn og vegna þess, að hundurinn Bóris réðst á hann, neyddist Rúpert til að vinna það verk, er hann hafði aldrei ætlað sér, og honum til ógagns. Hann var að eins sekur um það eitt að kjósa heldur að konungurinn léti lífið en hann sjálfur. Það mun alment talið vera glæpur, en í siðfræði Rúperts var ekki að búast við að slíkt stæði. Nú get ég séð þetta alt saman, en þá um nóttina var mér ómögulegt að sjá það, þarna yfir líki konungsins, þar sem harmssaga Herberts, flutt með skjálfandi rödd og andköfum, hljómaði mér stöðugt í eyrum. Hefndarlöngun brann okkur í brjósti, þó að við ættum ekki lengur að þjóna konunginum. Vel getur það verið, að við höfum vonað að geta létt eitthvað á okkar eigin samvizku, með því að mikla misgerð annars, eða að okkur fýsti að reyna að afplána okkar eigin misgerðir við húsbónda okkar látinn, með því að koma fram refsingar-skyndidómi á hendur manninum er réð honum bana. Ég get annars ekkert um það sagt, hvað félögum mínum fanst, því það sem mér var ríkast i huga, var að kunngera þenna glæp tafarlaust og espa alla íbúa landsins til þess að elta Rúpert og fá hann drepinn. Ég ætlaði mér helst að fá hvern einasta mann til að leggja starf sitt á hylluna, eða láta af skemtunum sínum, meira að segja rífa menn upp úr rúmunum til að ná í Hentzau greifa dauðan eða lifandi. Ég man það, að ég arkaði yfir þangað sem Sapt sat, greip í handlegginn á honum og sagði:

"Við verðum að láta vita um þetta undir eins. Ef þú vilt fara til Zenda, þá legg ég strax á stað til Streslau."

"Láta vita þetta undir eins," át hann eftir mér, leit til mín og japlaði granaskeggið.

"Já, þegar þetta er orðið kunnugt, þá mun hver einasti maður í öllu kongsríkinu fara að svipast eftir honum og þá getur hann ekki sloppið."

"Svo að hann yrði tekinn höndum?" spurði borgarstjórinn.

"Já, vitaskuld," hrópaði ég í ákefð.

Sapt leit yfir til þjóns Mr. Rassendyll. James hafði hjálpað mér til að koma líkinu af konunginum upp í rúmið, og særða veiðihundinum upp á legubekk.

Hann stóð nú skamt frá borgarstjóranum búinn til hvers sem vera skyldi eins og hann var vanur. Hann þagði, en ég sá á því hvernig hann kinkaði kolli til Sapts, að þeir skildu hvor annan.

Þeir voru góðir saman, þessir tveir, ósveigjanlegir, svo að þeim varð ekki þokað frá því sem þeir höfðu ætlað sér, ef nokkur leið var til að koma því fram.

"Já, það er líklegt að hann næðist," sagði Sapt.

"Jæja, við skulum þá gera þetta," hrópaði ég.

"Og láta taka hann fastan með bréfið drotningarinnar í vasanum?" sagði Sapt ofursti.

Því var ég búinn að gleyma.

"Við höfum reyndar öskjurnar, en hann hefir bréfið enn þá," sagði Sapt.

Ég hefði getað hlegið jafnvel þá. Hann hafði skilið eftir öskjurnar (við vissum ekki hvort hann hafði gert það af fljótfærni, skeytingarleysi eða illvilja) en bréfið hafði hann haft með sér. Ef hann yrði tekinn höndum, mundi hann neyta þess vopns til að bjarga lífi sínu eða svala reiði sinni. Ef bréfið fyndist á honum þá væri þar skýr og ótvíræður vitnisburður gegn drottningunni. Það var honum nægileg vernd fyrir glæp sinn. Meðan bréfið var í hans höndum mátti enginn fá að eiga við hann nema við sjálfir. Þó að við vildum hann feigan, urðum við að verja hann fyrir árásum og jafnvel heldur að láta lífið í vörn fyrir hann, en að aðrir fengju að hafa hendur í hári hans, en við. Það dugði alls ekki að ganga opinskátt að verki, og enga hjálparmenn gátum við ráðið til liðveizlu. Mér flaug þetta alt í hug eftir að hafa heyrt orð Sapts, og sá þá að borgarstjóranum og James hafði strax verið þetta ljóst. En ég gat ekki séð, hvað við gætum tekið til bragðs, með því að nú var Rúritaníukonungurinn liðið lík.

Það var nú liðin klukkustund eða vel það, frá því að við höfðum komist að hinu sanna, og komið fast að miðnætti. Ef alt hefði gengið að óskum hefðum við átt að vera komnir góðan kipp heim á leið til kastalans. Rúpert hlaut nú að vera kominn langar leiðir brott frá skothúsinu. Mr. Rassendyll hlaut nú að vera farinn að leita óvinar síns í Streslau.

"En hvað eigum við að gera — eins og — eins og nú er komið?" spurði ég og benti á rúmið.

Sapt japlaði granaskeggið ótt og títt, studdi báðum höndunum á sverðshjöltun og hallaði sér áfram á stólnum.

"Ekki neitt," sagði hann og horfði framan í mig. "Við getum ekkert gert fyr en við erum búnir að ná í bréfið."

"En það er ómögulegt," hrópaði ég.

"Og því þá, Fritz," svaraði hann. "Það er ekki ómögulegt eins og nú stendur, en það getur orðið ómögulegt. En ef við getum náð í Rúpert á morgun, eða næstu tvo daga, þá náum við í bréfið. Og nái ég í það, þá skal ég ábyrgjast afleiðingarnar af því að leyna glæp þessum. Hvernig stendur á því að glæpum skuli aldrei haldið leyndum til að koma í veg fyrir fulla varkárni af hendi hins seka?"

"Þér gætuð orðið ágætur sagnaritari, herra minn," mælti James alvarlega og svo sem hann væri fyllilega sannfærður um það sem hann sagði.

"Já, James, ég gæti samið sögu mína, eða fengið húsbónda þinn til þess fyrir mig. En hvað sem sögunni líður, þá verður að ná í bréfið. Látum það gott heita þó að sagt verði að við höfum sjálfir drepið hann, en —"

Ég greip um hendina á honum.

"Þú efast líklega ekki um að ég fylgi þér?" spurði ég.

"Nei, ég hefi aldrei efast minstu vitund um það, Fritz," svaraði hann.

"En hvernig eigum við að fara að því?"

Við færðum okkur nær hvor öðrum; við sátum báðir við Sapt, en James hallaði sér yfir stólinn sem Sapt sat á.

Olían á lampanum var nærri brunnin upp, og ljósið var farið að verða mjög dapurt. Aumingja Herbert kveinkaði sér við og við. Okkur var ómögulegt að hjálpa honum að neinu leyti. Ég blygðast mín hálfgert er ég minnist þess, hve lítið við sintum um hann; en þegar menn standa í stórræðum sljófgast mannúðartilfinningin. Mannslífið er metið að litlu á við úrslit þess, sem verið er að berjast fyrir. Ekkert rauf þögnina í litla skothúsinu fyrir utan raddir okkar, nema veinin í honum og þau voru alt af að smálækka.

"Drotningin verður að fá að vita þetta," sagði Sapt. "Það er best að hún verði kyr í Zenda og láti það heita svo, að konungur ætli að dvelja í skothúsinu einn eða tvo daga. Því næst verður þú, Fritz, — því að þú verður að ríða strax til kastalans — að fara með Bernenstein til Streslau, eins fljótt og þú getur og hitta Mr. Rassendyll. Þið þrír ættuð að geta haft upp á Rúpert og náð af honum bréfinu. Ef hann er í borginni, þá verðið þið að ná í Rischenheim, og neyða hann til að segja til hans; þið vitið, að hægt er að fá Rischenheim til að láta undan. Ef Rúpert er þar, þá þarf ég engin ráð að leggja ykkur Rúdolf."

"Og hvað ætlar þú að gera?"

"Við James verðum hér eftir. Ef einhvern ber hér að, sem hægt er að hamla að komist hér inn, þá gerum við það, og segjum, að konungurinn sé veikur. Ef að alvarlegt kvis kemur upp um þetta mál, og einhver stórmenni koma hingað, þá verða þau að ná inngöngu."

"En hvað á að gera við líkið?"

"Í fyrramálið, eftir að þú ert farinn, þá gröfum við bráðabirgðagröf. Ég býst við að taka verði tvær grafirnar," sagði hann, og benti á veslings Herbert. "Eða jafnvel þrjár," sagði hann ennfremur og brosti harðneskjulega," því að gamli Boris má ekki heldur sjást hér."

"Ætlarðu þá að grafa konunginn?"

"Ekki svo djúpt, að ekki verði hægt að ná honum upp aftur, kunningi. Eða dettur þér nokkurt betra ráð í hug, Fritz?"

Mér hafði ekkert ráð komið til hugar, en mér féll ráð Sapts ekki vel í geð. En samt var sá kostur við það, að það veitti okkur tuttugu og fimm stunda frest. Þann tíma að minsta kosti leit út fyrir að leyndarmálið yrði ekki opinskátt. Við gátum varla búist við, að koma fram ætlun okkar nema það tækist. Að því búnu urðum við að segja til konungs; láta menn sjá hann lifandi eða dauðan. Það gat skeð að Rúpert yrði fallinn í hendur okkar, áður en sá frestur var útrunninn. Og um hvaða ráð annað var að gera, þegar á alt var litið? Nú var hættan sem sé orðin heldur meiri en þegar við gengum út í þessa baráttu. Þá kviðum við því mest, að bréfið mundi lenda í höndum konungs. Nú var það ekki framar að óttast. En nú gat það komið fyrir, sem verra var, að það fyndist á Rúpert, og að heyrinkunnugt yrði um alt konungsríkið, og jafnvel um alla Evrópu, að sú sem það hefði skrifað væri engin önnur en drotningin í Rúritaníu. Sjálfsagt var því að nota hvert færi, og neyta allra bragða hve áhættumikil sem væru til að fyrra hana þeim vandræðum. Síst skyldi ég, maðurinn, sem það var mest að kenna hversu komið var, verða til þess að hika. Ég segi það satt, að ég hefði feginn lagt líf mitt og heiður í sölurnar til að afplána þá slysni mína.

Þetta var því að ráði gert. Það átti að taka gröf, sem til væri til að leggja konunginn í. Ef á þyrfti að halda átti að leggja líkið í hana og staðurinn sem valinn var til þess var í gólfinu í vínkjallaranum. Þegar Herbert dæi, átti að grafa hann í garðinum að húsabaki. Þeir höfðu og kosið Bóris hvíldarstað undir trénu, sem hestar okkar voru bundnir við. Ég hafði þar nú ekkert lengur að gera, svo að ég stóð upp; en um leið og ég reis á fætur heyrði ég að veiðimaðurinn særði kallaði til mín veikri röddu. Mannauminginn þekti mig vel, og grátbað mig nú að setjast hjá sér. Ég held að Sapt hafi viljað, að ég sinti honum ekkert, en ég gat ekki neitað honum um þetta, jafnvel þó að tíminn væri mér dýrmætur. Hann var þá rétt að dauða kominn, og ég reyndi að létta þjáningar hans, eins og ég gat. Við undruðumst hve karlmannlega hann varð við dauða sínum og okkur óx öllum kjarkur við að sjá hve þessi atkvæðalitli alþýðumaður barst vel af í helstríðinu. Jafnvel Sapt virtist að síðustu gera sér það að góðu, að ég tafði hjá honum og skildi ekki við hann fyr en ég hafði veitt honum nábjargirnar.

En af þessu drógst tíminn, svo að klukkan var orðin nærri fimm um morguninn þegar ég kvaddi þá og reið af stað. Þeir tóku þá hesta sína um leið og teymdu þá inn í hesthúsið, sem var hjá skothúsinu. Ég veifaði til félaga minna hendinni og þeysti af stað til kastalans. Það var farið að roða fyrir degi og loftið hreint og svalt. Nýjar vonir vöknuðu í brjósti mínu með dagsbirtunni, taugarnar urðu styrkari og ég vel fyrir kallaður til að starfa. Hesturinn minn var léttur í spori og mér miðaði vel áfram eftir grasgrónum bölunum milli trjánna. Það var nærri ómögulegt að vera þá mjög örvæntingarfullur, efast um heppileg úrslit hyggilegra ráða, um líkamlegan þrótt og liðsinni hamingjudísinnar.

Loks sá ég heim til kastalans, og ég laust þá upp fagnaðarópi svo að undir tók í skóginum. En rétt á eftir brá mér heldur undarlega við og ég teygði mig upp í hnakknum og starði fast á kastalaturninn. Engin veifa sást nú á fánastönginni; konungsflaggið, sem þar hafði blaktað í golunni kveldið fyrir, var horfið. Sá siður hafði sem sé verið frá ómuna tíð, að láta fána vera dreginn á hún á kastalanum þegar drotningin eða konungurinn dvöldu þar. Fáninn mundi nú eigi framar blakta yfir Rúdolf V. En hvernig stóð á því, að hann blakti ekki yfir Flavíu drotningu? Ég lét fallast aftur ofan í hnakkinn, rak sporana í síðurnar á hesti mínum og hleypti sem hvatlegast til kastalans. Örlögin höfðu þegar leikið okkur all-hart og ég kveið nú fyrir nýju áfelli.

Eftir svo sem fjórðung stundar var ég kominn að dyrunum. Þjónn einn kom út og ég steig léttilega og hægt af baki. Svo dró ég af mér glófana, strauk af stígvélunum mínum með þeim, sneri mér að hestasveininum og bað hann að líta eftir hestinum. Því næst sagði ég við þjóninn:

"Komstu eftir því undir eins og drotningin er komin á fætur, hvort hún getur veitt mér áheyrn. Ég er með skilmæli frá Hans Hátign."

Maðurinn leit til mín undrandi, en í sömu svifum kom Hermann, æðsti hirðþjónn konungs, til dyranna.

"Er borgarstjórinn ekki með yður, lávarður minn?" spurði hann.

"Nei; borgarstjórinn varð eftir í skothúsinu hjá konunginum," svaraði ég eins og ekkert væri um að vera. "Ég er með skilaboð til Hennar Hátignar, Hermann. Reyndu að komast eftir hjá einhverri þernanna, hve nær drotningin getur veitt mér áheyrn."

"Drotningin er hér ekki," sagði hann. "Ég hefi ekki átt neitt næðissama nótt, lávarður minn. Klukkan fimm kom hún fram úr herbergjum sínum albúin til farar, sendi eftir Bernenstein lífvarðarforingja, og lýsti yfir því að hún væri að fara burt úr kastalanum. Eins og þér vitið, þá fer lestin hér um kl. sex." Hermann leit á úrið sitt og mælti enn fremur: "Já, hún er líklega nýfarin frá stöðinni, drotningin."

"Og hvert?" spurði ég eins og hálf-gramur yfir grillum kvenna.

"Nú, auðvitað til Streslau. Hún skýrði ekki neitt frá því hvers vegna hún færi. Með henni fór að eins ein hefðarkona og Bernenstein. Það var nú meira uppþotið, skal ég segja yður. Allir urðu að drífast á fætur. Vagn að vera til taks, og sendiboði að fara með skilmæli á járnbrautarstöðina, og —"

"Og lét hún þess ekkert getið, hversvegna hún færi?"

"Nei, lávarður minn. Hún skildi eftir og fékk mér í hendur bréf til borgarstjórans, er hún skipaði mér að afhenda honum sjálfum þegar hann kæmi til kastalans. Hún sagði, að bréfið væri um áríðandi málefni, er borgarstjórinn ætti að kunngera konunginum, og ég mætti ekki fá neinum öðrum bréfið í hendur, en borgarstjóranum sjálfum. Ég er hissa, að þér skylduð ekki taka eftir því, lávarður minn, að fáninn var dreginn niður af stöngum í kastalaturninum."

"Ég var ekki að glápa á turninn, maður. Fáðu mér bréfið," Ég sá glögt, að frá því mundi skýrt í bréfinu hvernig stóð á brottför drotningarinnar. Ég verð að færa Sapt þetta bréf og það sem allra fyrst."

"Á ég að fá yður bréfið, lávarður minn? Ég ætla að leyfa mér að láta yður vita, að þér eruð ekki borgarstjórinn," mælti hann og kýmdi við.

"Veit ég það," svaraði ég og brosti. "Það er satt, að ég er ekki borgarstjórinn, en ég er að fara á fund borgarstjórans. Konungur hafði skipað mér að koma aftur á sinn fund, undir eins og ég hefði hitt drotninguna að máli; og með því að Hennar Hátign er hér ekki, þá legg ég undir eins á stað til skothússins aftur, eftir að ég hefi haft hestaskifti. Og borgarstjórinn er í skothúsinu. Komdu, með bréfið!"

"Ég get ekki afhent yður það, lávarður minn. Skipun Hennar Hátignar var skýr og ákveðin."

"Þvættingur! Ef hún hefði vitað, að ég mundi koma í stað hans, þá hefði hún beðið mig að færa honum bréfið."

"Mér er ókunnugt um það, lávarður minn. Hún tók þetta skýrt fram við mig, og henni fellur ekki vel, ef skipunum hennar er ekki hlýtt."

Hestasveinninn var farinn burt með hestinn, þjónninn var horfinn, og við Hermann vorum þarna einir. "Fáðu mér bréfið," hrópaði ég, og ég veit með vissu að ákefðin hefir verið auðheyrð á rödd minni, og Hermanni varð auðsjáanlega hverft við. Hann hrökk aftur á bak, og greip í brjóstvasastað á aðhneptum slopp sínum. Hann kom því þannig upp, hvar hann hafði bréfið. Ég slepti allri varkárni, stökk á hann, þreif um hönd hans annari hendi og tók hinni fyrir kverkar honum. Eftir nokkra snúninga komst ég ofan í vasa hans og náði í bréfið. Svo slepti ég honum strax, því að mér sýndist augun ætla út úr höfðinu á honum. Ég tók því næst upp nokkra gullpeninga og rétti honum.

"Það er áríðandi að ég komi bréfinu til skila sem fyrst, asninn þinn," sagði ég. "Þegiðu svo um þetta." Ég flýtti mér svo á stað yfir að hesthúsinu og leit ekkert eftir því frekar hvernig andlitið á honum var útlits. Eftir fimm mínútur var ég kominn á bak ólúnum hesti, og kominn út fyrir kastalann kl. 6, og reið svo hart sem hesturinn komst til skothússins. Hermann man enn eftir hálstakinu sem ég tók á honum í þetta sinn, þó að hann sé sjálfsagt fyrir löngu búinn að eyða gullpeningunum.

Þegar ég kom aftur til skothússins bar mig þar að sem Bóris var heygður. James var að slétta úr moldarhaugnum með reku, þegar ég kom, og Sapt stóð þar hjá reykjandi. Stívélin þeirra beggja voru ötuð í mold og leir. Ég stökk af baki og sagði skjótt frá tíðindum. Borgarstjórinn hrifsaði bréfið í vonzku. James jafnaði úr moldinni mjög vandlega. Ég man ekkert um sjálfan mig að segja annað en það, að ég þurkaði svitann af mér og fann, að ég var orðinn sársvangur.

"Guð hjálpi mér, hún er farin á eftir honum!" sagði Sapt upp úr lestrinum. Svo rétti hann mér bréfið.

Ég ætla ekki að rita hér orð fyrir orð bréf drotningarinnar. Okkur, sem ekki gátum gert okkur fulla grein fyrir tilfinningum hennar, fanst bréfið samt mjög innilegt, en þó satt að segja gáleysislegt. Hún sagðist hafa reynt að dvelja í Zenda eins og til hefði verið ætlast. En hún hefði hreint ætlað að missa þar vitið. Hún sagði sér hefði ekki getað verið mögulegt að finna þar hvíld eða ró. Hún hefði ekkert vitað um hvernig okkur hefði reitt af, né heldur hvernig tekist hefði til í Streslau. Klukkustundum saman hefði hún legið vakandi; þegar hún loks hefði sofnað, þá hefði hana dreymt sama drauminn og fyrri. Hana dreymdi hann nú í annað sinn. Hún hefði nú séð hann (Rúdolf) mjög greinilega. Sér hefði virst hann vera konungur og vera kallaður það. En hann hefði hvorki svarað því eða hreyft sig. Sér hefði sýnst hann vera dauður, og því hefði hún enga ró getað fengið. Þannig skýrði hún frá og afsakaði sig, og marg endurtók það, að sér hefði fundist eins og eitthvert óskiljanlegt afl draga sig til Streslau og hvíslað væri að sér að hún yrði að fara, ef hún ætti að fá að sjá hann aftur lifandi. "Og ég verð – ég verð að fá að sjá hann! Ef konungur hefir náð í bréf mitt, þá er úti um alt fyrir mér, hvort sem er. Ef hann hefir ekki náð því, þá megið þið segja honum hvað sem ykkur sýnist. Ég verð að fara. Mig dreymdi þetta í annað sinn og dreymdi það svo skýrt. Ég sá hann. Ég segi það alveg satt. Æ, ég má til að sjá hann aftur. Ég sver það, að ég ætla að eins að sjá hann einu sinni enn. Hann er í hættu staddur – ég veit að hann er í hættu staddur. Eða hvað merkir draumurinn? Bernenstein ætlar að fara með mér, og ég ætla að sjá hann. Fyrirgefið mér, fyrirgefið mér! Ég get ekki beðið hér. Draumurinn var svo skýr." – Þetta voru niðurlagsorðin í bréfinu, og var auðséð að henni, sem það hafði ritað, leið óendanlega illa, og að hún var hálfrugluð af ofsjónum þeim, er truflaður heili og hrelt hjarta hennar hafði birt henni til að kvelja hana. Ég vissi þá ekki, að hún var áður búin að segja Mr. Rassendyll sjálfum frá þessum undarlega draumi. Sjálfur legg ég litla trú á drauma, því að ég ímynda mér að við leggjum til efnið í þá sjálfir, og smíðum úr von og kvíða í vökunni furðulegar sjónir, er sýnast svo í svefninum merkilegar, dularfullar opinberanir. En því verður samt ekki neitað, að sumt kemur þó fyrir sem manni er óskiljanlegt, og eigi dettur mér í hug að ég geti rakið guðs vegu af mínu eigin hyggjuviti.

En það olli okkur ekki kvíða hversvegna drotningin hafði farið, heldur hitt, að hún hafði farið. Við vorum nú komnir til hússins, og James var farinn að búa til morgunverð, því að hann var þess fullvís að menn þyrftu að eta þó að konungur dæi. Og satt að segja var ég matarþurfi, því að ég var dauðþreyttur; þeir voru líka lúnir orðnir eftir starf sitt eigi síður en eg. Við töluðumst við meðan við vorum að borða, og við vorum allir á því að ég þyrfti að fara til Streslau. Þar í borginni varð að leika þenna sorgarleik til enda. Þar var Rúdolf, þar var Rischenheim, þar var Rúpert Hentzau að öllum líkindum, og þar var drotningin nú. Og Rúpert vissi að minsta kosti og Rischenheim ef til vildi að konungurinn var dauður, og var kunnugt um hvernig alt hafði snúist eftir knýjandi nauðsyn örlaganna. Konungurinn hvíldi í friði í sæng sinni; það var búið að taka honum gröfina. Sapt og James vöktu trúlega yfir því leyndarmáli og mundu leggja líf sitt við að dylja það. Ég varð að fara til Streslau, segja drotningunni að hún væri orðin ekkja, og reyna að ráða niðurlögum Rúperts.

Klukkan 9 um morguninn lagði ég á stað frá skothúsinu. Mér var nauðugur einn kostur að ríða til Hofbau og bíða eftir lestinni, er ég færi með til höfuðstaðarins. Ég gat sent skeyti frá Hofbau, en ég mátti ekkert láta uppi í því skeyti annað en það, að ég væri á ferðinni, en ekkert skýra frá hvaða fregnir ég flytti. En Sapt gat ég sent skeyti hve nær sem mér sýndist, því að við höfðum komið okkur saman um dulletur, sem betur fór. Hann hafði beðið mig að spyrja Mr. Rassendyll, hvort hann (Sapt) ætti að koma okkur til hjálpar eða halda kyrru fyrir þar sem hann væri.

"Þetta verður alt at komast í kring á einum degi," sagði hann. "Við getum ekki leynt dauða konungsins lengi. Reyndu Fritz, í hamingju bænum, að koma þorparanum fyrir ætternisstapa og ná í bréfið."

Ég eyddi svo engum tíma í kveðjur og reið á stað. Klukkan 10 var ég kominn til Hofbau, því að ég reið afarhart. Þaðan sendi ég Bernenstein skeyti til hallarinnar og lét hann vita, að mín væri von. En ég tafðist þar samt. Engin lest var við, þegar ég kom.

"Ég fer þá ríðandi," sagði ég við sjálfan mig, en mintist þess jafnskjótt, að ef ég gerði það yrði ég miklu seinni að ná þangað sem ég ætlaði. Fyrir því var ekkert annað að gera, en bíða, og er hægt að gera sér í hugarlund hversu mér var innanbrjósts meðan á því stóð. Mér fanst hver mínúta klukkustundarlöng, og mér er enn óskiljanlegt hvað mér fanst tíminn sá langur. Ég át, drakk, reykti, gekk fram og aftur, sat og stóð. Stöðvarstjórinn þekti mig og hélt að ég væri að missa vitið, þangað til ég sagði honum að ég væri með afar-áríðandi skeyti frá konunginum, og það gæti stafað háski af, ef ég yrði að bíða lengi. Hann samhrygðist mér, en hvað gat hann gert? Engin sérstök lest var til á þeirri stöð, svo að ég varð að bíða, og ég gerði það, þó að ilt þætti.

Loksins kom lestin. Svo var lagt á stað og hún smáþokaðist nær borginni. Ég sá hana eftir klukkutíma ferð. Þá var lestin stöðvuð, mér til ósegjanlegrar gremju, og tuttugu mínútna eða hálfrar stundar viðstaða varð; þá var lagt á stað aftur; ef biðin hefði orðið lengri mundi ég hafa stokkið út úr lestinni svo að ég yrði ekki brjálaður af að sitja lengur. Að síðustu rann lestin inn á stöðina. Ég setti mér að sýnast rólegur þó ég ætti bágt með það. Ég hallaði mér aftur á bak í sætinu, og sat þar þangað til dyravörður lauk upp hurðinni. Ég bað hann ósköp letilega að útvega mér léttvagn og fylgdist út með honum og gegnum stöðvarhúsið. Hann vísaði mér á vagninn, og opnaði dyrnar fyrir mér. Ég gaf honum einhverja þóknun og steig upp í vagntröppuna.

"Segið manninum að aka til hallarinnar sem hvatlegast," sagði ég. "Ég er orðinn helst til seinn, og það er þessari lestarskömm að kenna."

"Hryssutötrið mitt verður ekki lengi að koma yður þangað, herra minn," sagði ekillinn.

Ég stökk svo upp í vagninn. En rétt í þessum svifum sá ég mann á stöðvarpallinum, sem veifaði til mín hendinni og kom hlaupandi. Ekillinn sá hann líka og beið. Ég þorði ekki að segja honum að aka á stað, því að ég óttaðist að slíkt yrði álitinn óviðurkvæmilegur flýtir, og það hefði þótt undarlegt ef ég hefði ekki mátt vera að tala fáein augnablik við frænda konunnar minnar, hann Anton Strofzin. Hann kom til mín og rétti mér höndina með perlugráum geitarskinnsglófanum á, því að Anton var einhver mesti skartsmaður í Streslau.

"Sæll, kæri Fritz!" sagði hann. "Ég hrósa happi yfir því að hafa engri stöðu að gegna við hirðina. Það eru beinlínis voðalegar annir, sem þið eruð í allir saman. Ég bjóst við að þið munduð verða í Zenda svo sem mánaðartíma."

"Drotningunni snerist fljótlega hugur," sagði ég brosandi. "Konur eiga þátt í því, eins og þér er kunnugt um; þú þekkir kvenfólkið svo dæmalaust vel."

Skjall þetta eða hnífilyrði komu honum til að snúa upp á granaskeggið brosandi.

"Jæja, ég bjóst nú hálfgert við að þú mundir koma hingað bráðlega, en ég hafði enga hugmynd um að drotningin væri komin."

"Á — vissirðu það ekki? Hvernig stóð á því að þú bjóst við mér?"

"Ó — ég ímyndaði mér að þú yrðir sendur hingað til eftirlits — eða í einhverjum erindagerðum, svo þú yrðir að koma. Varst þú ekki einn aðstoðarmannanna?"

"Drotningarinnar? Nei, ekki sem stendur."

"En konungsins þá?"

"Já, það var heldur," svaraði ég. "Ég fer nú að minsta kosti í erindum konungsins."

"Rétt er það," mælti hann. "Ég bjóst við, að þú mundir koma strax þegar ég heyrði að konungurinn var kominn hingað."

Ég hefði víst átt að varast að láta mér bregða; en ég hafði hvorki stillingu Sapts eða Rúdolf Rassendylls til að bera.

"Er konungurinn hér?" spurði ég, greip um handlegginn á honum og stóð á öndinni.

"Já, reyndar. Vissirðu það ekki? Já, hann er kominn til borgarinnar."

Ég sinti honum þá ekki meira. Fyrst í stað gat ég ekki komið upp nokkru orði, en þegar ég mátti mæla, kallaði ég til ekilsins og mælti:

"Aktu til hallarinnar eins hart og þú getur."

Við brunuðum á stað, en Anton stóð eftir sem höggdofa af undrun. En af mér er það að segja, að ég fleygði mér aftur á bak í vagnsætinu alveg utan við mig. Konungurinn lá dauður í skothúsinu, en samt var sagt, að hann væri í höfuðstaðnum!

Reyndar flaug mér í hug, hvernig í þessu lægi, en mér létti lítið við það. Rúdolf Rassendyll var í Streslau. Einhver hafði séð hann þar, og haldið að hann væri konungurinn. En bætti það um? Hvaða bót var að því, þegar konungurinn var dauður og gat aldrei komið og gengið í stað hins?

Satt að segja varð mér ver við en áður, eftir að ég hafði séð hvernig í öllu lá. Ef mér hefðu verið kunnir allir málavextir, mundi ég líklega hafa gert mér þetta að góðu. Því að það hafði ekki komist upp fyrir tilviljun að konungurinn væri í borginni. Það hafði ekki kvisast um það af því að einhver hefði þóst mæta honum á götu. Þessi fregn var ekki bygð á kviksögum, er bæla mátti niður aftur, og hún var ekki staðhæfð af einum eða tveimur mönnum að eins. Daginn þann leit mikill þorri borgarlýðsins svo á, að Rúdolf Rassendyll væri konungurinn, og styrktist í þeirri trú af tali og framkomu Mr. Rassendylls, og drotningar sjálfrar líka, en hvorugt þeirra vissi þá vitanlega neitt um dauða konungsins. Ég hlýt nú að skýra frá þeim furðulegu og erfiðu atburðum, er neyddu þau til að grípa til annars eins óyndisúrræðis, jafnhættulegt og það var. En þó að þetta væri háskaleg áhætta eins og á stóð, þegar þau réðust í það, þá var það þó enn ægilegra og geigvænlegra nú, eftir þá breytingu sem orðin var, og þau vissu ekkert um.

X. KAPÍTULI.

Mr. Rassendyll komst klaklaust frá Zenda til Streslau, og var kominn þangað kl. 9 sama daginn, sem óhappið varð í skothúsinu. Hann hefði getað náð þangað fyr, en fyrir varkárnis sakir dró hann það að fara inn í þéttbýlt úthverfi borgarinnar, þangað til rökkvað var, svo að hann þektist ekki. Nú var hætt að loka borgarhliðunum um sólsetur, eins og venja hafði verið til meðan Michael var hæst ráðandi, og Rúdolf komst inn um þau slysalaust. Til allrar hamingju var stormur og rigning í Streslau um kvöldið, þó að gott veður væri þar sem við vorum; þess vegna var fátt fólk á götum úti, og hann komst til húss míns, án þess að nokkur yrði var við hann. En þar var úr vöndu að ráða. Enginn þjóna minna vissi neitt um leyndarmálið; enginn nema kona mín þekti Rúdolf, því að drotningin bar fult traust til hennar, og hún átti enga von á honum, vegna þess að henni var ókunnugt um atburði þá, er gerst hefðu upp á síðkastið. Rúdolf var því í vanda staddur og saknaði nú illa þjóns síns hins dygga, er hann hefði getað sent inn á undan sér. Vegna illviðrisins var það ekkert tiltökumál þó að hann skýldi fyrir andlit sér og bretti kraganum upp um eyru, og þó að hann þrýsti hattinum sem best ofan fyrir augu: var það sýnilega gert til þess að missa hann ekki. Þannig til reika stöðvaði hann hest sinn framan við dyrnar á húsi mínu og steig af baki.

Þegar ráðsmaðurinn kom til dyranna, var hann beðinn í hörkulegum og dimmum rómi, að láta barónsfrúna vita, að maður væri kominn, sem vildi finna hana, og væri með skeyti frá manni hennar. Maðurinn hikaði við, eins og ekki var undarlegt, að skilja eftir fordyrið opið, þar sem ókunnur maður var við dyrnar, en margir fémætir munir rétt innan við hurðina. Hann tautaði eitthvað í afsökunarskyni, ef komumaður kynni að vera hefðarmaður, skelti hurðinni í lás og fór að leita að húsmóður sinni. Konu mína fór að gruna margt, þegar hún heyrði lýsinguna á þessum gesti, er svo bar síðla að garði, því að hún mintist þess strax að Rúdolf hafði einu sinni riðið frá Streslau til skothússins í samskonar dulargerfi. Þegar hún heyrði að hávaxinn maður með skýlu fyrir andliti og hattinn teygðan ofan fyrir augu, væri kominn, og kvæðist flytja fregnir frá manni hennar, kom henni strax í hug að þetta mundi vera Rúdolf Rassendyll. Helga vill aldrei meðganga það, að hún sé slungin, en þó tekst henni að hafa það upp úr mér sem hún ætlar sér. Samt er mér nær að halda, að hún eigi mjög auðvelt með að leyna mig ýmsum smáatriðum, er kvenleg þagmælska hennar telur mér óþarft að vita. Og með því að hún á svo hægt með að fara á bak við mig varð henni ekki skotaskuld úr að leika á ráðsmanninn. Hún lagði frá sér sauma sína með mestu hægð og mælti:

"Já einmitt það; ég þekki þenna mann. Þú hefir þó líklega ekki skilið hann eftir úti í rigningunni." Hún var helst til hrædd um, að Rúdolf hefði staðið of lengi í birtunni af fordyrislömpunum.

Ráðsmaðurinn stamaði einhverjar afsakanir, og lét þess getið, að hann hefði verið hræddur um eignir okkar í fordyrinu, og átt ómögulegt með að sjá tiginmensku á manni úti í náttmyrkrinu. Helga greip þóttalega fram í fyrir honum og hrópaði: "Ógnar sauður geturðu verið!" og hljóp til dyranna að svo mæltu og opnaði hurðina — ekki nema lítið samt. Undir eins og hún kom auga á Mr. Rassendyll sá hún að sig hafði grunað rétt, og kveðst hafa þekt augu hans undir eins.

"Eruð það þér?" hrópaði hún. "Og þjónsbjálfinn hefir skilið við yður úti í rigningunni. Gerið svo vel og komið strax inn! Og þér eruð ríðandi." Hún veik sér svo að ráðsmanninum, er auðmjúkur hafði fylgt henni, til dyranna og sagði: "Taktu hest barónsins og farðu með hann út í hesthúsið."

"Ég skal senda einhvern með hann, frú mín."

"Nei, nei, farðu með hann sjálfur — farðu með hann undir eins. Ég ætla að hugsa um baróninn."

Ráðsmaðurinn lagði þá á stað hikandi, en heldur skapvondur út í rigninguna. Rúdolf vék sér til hliðar og hleypti honum fram hjá sér, en hraðaði sér inn strax og hann var farinn og sá að enginn var inni í fordyrinu nema Helga. Hún gaf honum merki um að hafa hljótt og fylgdi honum síðan sem skjótast inn í lítinn sal á neðsta lofti, sem ég var stundum vanur að hafa fyrir skrifstofu, eða til að taka á móti mönnum er áttu við mig erindi. Salurinn vissi út að götunni, og regnið heyrðist dynja á breiðum gluggarúðunum. Rúdolf sneri sér að henni brosandi, laut henni og kysti á hönd hennar.

"Um hvaða barón voruð þér að tala, kæra frú?" spurði hann.

"Hann spyr ekki um það frekar," sagði hún og ypti öxlum. "Segið mér heldur hvernig stendur á ferðum yðar hér, og hvað hefir komið fyrir."

Hann skýrði henni þá frá öllu, sem hann vissi, í fáum orðum. Hún reyndi að dylja kvíða sinn yfir því að heyra að ég kynni að verða að eiga við Rúpert í skothúsinu, og hlýddi með athygli á hvert erindi Rúdolfs væri á fund hennar.

"Get ég komist héðan út úr húsinu og inn í það aftur, ef á þarf að halda, án þess að tekið verði eftir mér?" spurði hann.

"Dyrnar eru lokaðir á nóttunni og lyklana hafa þeir einir ráðsmaðurinn og Fritz."

Mr. Rassendyll varð litið á gluggana í herberginu.

"Ég er ekki orðinn svo feitur að ég komist ekki út og inn þarna," sagði hann. "Ég held, að það væri betra, heldur en þurfa að ónáða ráðsmanninn. Hann kynni að hafa orð á því."

"Ég skal sitja hér í alla nótt og sjá um að enginn fari hér inn."

"Það getur skeð, að ég verði eltur ef mér mishepnast hlutverk mitt og uppþot verður."

"Hlutverk yðar?" sagði hún og hrökk ofurlítið við.

"Já," svaraði hann. "En spyrjið ekki um hvað það er, barónsfrú. Ég er að starfa fyrir drotninguna."

"Fyrir drotninguna vil ég gera hvað sem er, og það vill Fritz líka."

Hann tók í hönd hennar og þrýsti að henni vingjarnlega og hughreystandi.

"Má ég þá segja frá skipunum mínum?" spurði hann brosandi.

"Já, þeim skal verða hlýtt."

"Þá vil ég fyrst fá þurran frakka, ofurlítið að borða og fá að vera einn í þessu herbergi, og að enginn komi hér inn nema þér."

Um leið og hann slepti orðinu, tók ráðsmaðurinn um hurðarsnerilinn að utanverðu. Kona mín hljóp til dyranna, opnaði hurðina og skipaði manninum að koma sem fljótast inn með kalt kjöt og fleiri matvæli, sem væru við hendina. Rúdolf sneri baki að þeim á meðan.

"Komið með mér," mælti húm við Rúdolf undir eins og þjónninn var farinn.

Hún fylgdi honum inn í búningsherbergið þar sem föt voru til handa honum. Þar næst leit hún eftir, að kveldverðurinn væri fram reiddur, skipaði ráðsmanninum að hafa til svefnherbergi handa gestinum, og sagði honum að hún hefði alvarlegt mál að ræða við baróninn, og ráðsmaðurinn þyrfti ekki að bíða eftir sér lengur en þangað til klukkan ellefu. Svo sendi hún hann burtu og lét Rassendyll vita, að honum væri óhætt að koma fram í salinn og setjast að snæðingi. Hann kom þá fram og hrósaði henni fyrir kjarkinn og fyrirhyggjuna. Og ég leyfi mér að halda því fram, að hún hafi átt það skilið. Hann hraðaði sér að borða. Svo fór hann að reykja og þau ræddust við. Klukkan varð ellefu. Enn var of snemt fyrir hann að fara. Kona mín opnaði dyrnar og leit út. Fordyrið var lokað, og dimt í því. Ráðsmaðurinn hafði lyklana. Hún lét aftur hurðina á salnum og tvílæsti henni hljóðlega. Þegar klukkan sló tólf stóð Rúdolf upp og depraði ljósið á lampanum. Svo opnaði hann gluggahlerana hljóðlega, dró upp gluggann og leit út.

"Lokið þeim aftur, þegar ég er farinn." hvíslaði hann. "Ef ég kem aftur, þá ætla ég að berja, svona, og þá opnið þér fyrir mér."

"Farið varlega, í guðs bænum," sagði hún lágt og greip um hönd hans.

Hann kinkaði kolli til samþykkis, sté með annan fótinn út yfir gluggakarminn og sat þar ofurlitla stund hlustandi. Það var sama hvassviðrið og enginn maður sást á götunni. Hann rendi sér svo niður á gangstéttina og hafði byrgt fyrir andlit sér eins og áður. Hún horfði á eftir honum þar sem hann fór hár og tignarlegur á velli, þangað til bugða kom á strætið og hann hvarf henni sjónum. Því næst rendi hún niður glugganum, lagði hlerana fyrir aftur og settist niður og fór að biðja fyrir honum, fyrir mér og fyrir vinkonu sinni, drotningunni. Henni duldist það sem sé ekki, að það var verið að vinna hættuverk þá um nóttina, og henni var það hulið hver eða hverjir mundu hættast komast eða tortímast.

Frá því að Mr. Rassendyll fór frá heimili mínu um miðnætti til að leita Rúperts Hentzau, skapaðist nýtt atriði á hverri klukkustund og jafnvel á hverju augnabliki í sorgarleik þeim, er gerði út um þetta stórmál okkar. Það er nú búið að skýra frá því, hvað við höfðumst að; Rúpert sjálfur var nú á leið til borgarinnar aftur, og drotningin var þreyjulaus og svefnlaus að ráða það við sig að fara til Streslau. Þó að þögul nóttin grúfði yfir, þá var verið að nota tímann. Því að þó Rúdolf færi hyggilega að og gætti allrar varkárni, þá hafði hann víð andstæðing að eiga, er ekkert færi lét ónotað sér í hag, og sá andstæðingur hafði náð í hagkvæmt og gagnlegt verkfæri þar sem Bauer var, en Bauer var eitthvert það lævísasta þrælmenni, sem ég hefi nokkurn tíma þekt. Og aðalyfirsjón okkar þegar frá upphafi var í því fólgin hve lítið við skeyttum um að vara okkur á þessum manni, enda varð okkur það gáleysi dýrkeypt að lokum.

Bæði Rúdolf og konu minni hafði sýnst strætið alveg mannlaust þegar hann fór út. Samt hafði bæði verið tekið eftir komu hans og eins þegar hann fór og gluggahlerunum var lokað á eftir honum. Við báða enda á húsi mínu voru útbyggingar; það er veggbogi á gestasalnum og annar stærri á borðsalnum. Veggbogar þessir mynda skugga öðru megin við sig, og í öðrum skugganum þar, — ég veit ekki við hvorn húsendann — leyndist maður og hafði gát á öllu alt kveldið. Hvar annars staðar sem hann hefði verið mundi Rúdolf hafa orðið hans var. Ef við hefðum ekki verið svo önnum kafnir við þau verk, sem voru okkur á höndum, þá hefði okkur sjálfsagt dottið í hug að Rúpert mundi hafa skipað Rischenheim eða Bauer að hafa auga á heimili mínu meðan hann var burtu; því þangað var auðvitað að hver okkar sem væri mundi leita, ef hann kæmi til borgarinnar. Og Rúpert hafði ekki gleymt þessu. Það var svo dimt að njósnarinn, er séð hafði konunginn einu sinni, en Mr. Rassendyll aldrei, þekti ekki gestinn. En hann hugsaði með sér, að hann mundi gera lánardrotni sínum þægt verk með því að njósna um ferðir þessa hávaxna manns, er kom dularbúinn og fór burt svo óvænt og laumulega. Þess vegna kom stuttur maður og saman rekinn út úr skugganum, þegar Rúdolf hvarf fyrir götuhornið og Helga hafði lokað hlerunum, og lagði á stað út í myrkrið og illviðrið á eftir Rúdolf Rassendyll. Þessir tveir, sá sem eltur var og sá sem elti, mættu engum nema lögregluþjónum hingað og þangað, er litu til þeirra heldur óvinsamlega. En þeir lögregluþjónar voru fáir, því að flestir þeirra höfðu heldur kosið að standa í skjóli undir einhverjum húsveggnum til að reyna að hafa einhversstaðar þurran þráð á sér, en að líta eftir vegfarendum.

Og þeir héldu áfram þessir tveir. Nú sneri Rúdolf inn í Konungsstræti. Þá um leið hraðaði Bauer sér á eftir honum svo að ekki urðu á milli þeirra nema svo sem sjötíu skref. Áður hafði hann verið um hundrað skref á eftir. Hann ímyndaði sér að það mundi vera nægilega langt millibil, um hánótt í öðru eins veðri, þegar vindurinn og regndunurnar hjálpuðust að, til að dylja ganghljóð manns á strætunum.

En Bauer hafði reiknað þar á mælikvarða bæjarmanna, en Rúdolf Rassendyll hafði þá næmu heyrn, sem er einkenni þeirra manna, er aldir eru upp til sveita og hafa reynt heyrn sína í skógum úti. Alt í einu hnykti hann höfðinu til ofurlitið. Ég kannast einkar vel við þá hreyfingu, þegar eitthvað nýtt vakti athygli hans. Hann hvorki nam staðar eða hægði á sér, því ef hann hefði gert það, mundi grunur hafa vaknað hjá þeim sem elti hann. En hann sneri yfir götuna og upp á gangstéttina sem fjær var húsinu, er strætistalan 19 var á. Um leið hægði hann ofurlítið á sér. Maðurinn sem á eftir honum kom hægði strax á sér líka. Ganghljóð hans heyrðist engu gleggra. Hann vildi ekki ganga fram á þann sem á undan var. En, sá maður sem er á sveimi á götum úti að næturlagi í öðru eins veðri, af því að maður, sem á undan honum gengur, er nógu vitlaus til að vera þá úti, hlýtur að hafa einhverja aðra ástæðu til þess en þá eina. Það rann Rúdolf Rassendyll í hug og hann hugsaði sér að komast að því hver sú ástæða væri.

Þá kom honum nýtt í hug, og hann gleymdi varkárni þeirri, er hann hafði áður sýnt, og nam staðar á steinstéttinni, hugsandi af kappi. Var það Rúpert sjálfur þessi maður, sem var að elta hann? Líkt var það Rúpert að elta hann, líkt var það honum að hefja atlögu með þessum hætti, líkt var það Rúpert að vera þess jafnbúinn að ganga framan að manni og veita tilræði með dirfskufullu áhlaupi, og laumast aftan að manni og skjóta mann níðingslega. Honum mundi alveg standa á sama hvora aðferðina hann veldi. Hann mundi kjósa þá sem hentari væri í það sinn. Mr. Rassendyll æskti einskis frekar en að fá að eiga við mótstöðumann sinn þarna úti. Þar gátu þeir barist svikalaust, og ef hann félli vissi hann að Sapt eða ég mundum halda uppi merkinu í aðalstríðinu, sem nú stóð yfir. Ef hann yrði hlutskarpari þarna myndi hann ná í bréfið. Bréfið mátti þá eyðileggja á svipstundu, og þá var drotningin leyst úr öllum vanda. Ég býst ekki við að hann hafi varið neinum tíma í að leggja það niður fyrir sér, hvernig hann ætti að sleppa við að verða settur í varðhald, því að lögreglan mundi sennilega verða vör við þenna bardaga. Ef hann hefir gert það, þá er líklegt að hann hafi helst ætlað að losna úr klípunni með því að lýsa hreinskilnislega yfir því hver hann væri, hlæja að því hve þá mundi furða á, hvað líkur hann var konunginum, og treysta á að við mundum bjarga sér undan hegningu laganna. En hvað var um alt þetta að fást, ef að eins yrði tími til að eyðileggja bréfið? Að minsta kosti sneri hann nú alveg við og gekk á móti Bauer. Hann hafði aðra hendina í vasanum, á skammbyssunni. Bauer sá hann koma, og hlýtur að hafa vitað að grunur var á sig kominn og að eftir sér hefði verið tekið. Þessi slungni refur skaut höfðinu aftur á bak og tók á rás áfram eftir strætinu, blístrandi á hlaupunum. Rúdolf nam á staðar á miðri götunni og fór að furða sig á hver þessi maður væri. Hann var í efa um hvort þetta væri Rúpert, og hann vildi eigi láta þekkja sig, eða það væri einn manna hans, eða það kynni að vera eftir alt saman einhver saklaus maður, sem ekkert vissi um leyndarmál okkar og hirti ekkert um þau. Bauer færðist nær, blístraði lágt og sletti löppunum hæverskulaust ofan í forina. Nú var hann kominn rétt að segja á móts við Mr. Rassendyll. Rúdolf þóttist nú viss um, að maðurinn hefði verið að veita sér eftirför, en hann vildi þó fá frekari vissu um það. Hann hafði ætíð miklar mætur og ánægju af öllu því, er reyndi á dirfsku og áræði. Það átti hann sammerkt við Rúpert Hentzau, og einmitt af því ímynda ég mér að sprottin hafi verið sú virðing, sem hann hafði á mótstöðumanni sínum. Hann gekk nú skyndilega í veg fyrir Bauer og ávarpaði hann í þeim rómi, sem honum var eiginlegur og um leið svifti hann skýlunni alveg frá andliti sínu.

"Þú ert býsna seint á ferli, piltur minn, í öðru eins veðri og nú er í nótt."

Þó að Bauer kæmi þetta ávarp á óvænt, tapaði hann sér samt ekki. Mér er ókunnugt um hvort hann þekti Rúdolf strax, en ég ímynda mér að hann hafi samt grunað hvers kyns var.

"Þeir sem húsviltir eru, og hvergi eiga höfði sínu að að halla verða að gera sér að góðu að hafast við úti, seint og snemma, herra minn," svaraði hann, nam staðar í forinni og leit upp með sama góðlátlega, bjálfalega augnaráðinu, er hann hafði leikið á mig með.

Ég hafði lýst honum mjög vandlega fyrir Mr. Rassendyll. Ef Bauer vissi eða gat sér til hver sá var er til hans talaði, þá var Mr. Rassendyll í engum efa um við hvern hann átti.

"Húsviltur! Átt hvergi höfði þínu að að halla!" hrópaði Rúdolf í meðaumkvunarrómi. "Hvernig stendur á því? En hvað sem því líður, þá forði hamingjan þér, og hverjum öðrum sem er, frá að hafast við á strætum úti í öðru eins veðri og nú er. Komdu, ég skal lána þér rúm. Komdu með mér, ég skal lána þér húsaskjól, piltur minn."

Bauer hrökk aftur á bak. Honum kom á óvart þessi greiðvikni, og auðséð var á augnaráði hans, er hann skimaði eftir strætinu til beggja hliða, að hann langaði til að flýja. En Rassendyll gaf honum ekkert tóm til að láta verða af því. Með kænlegri látalætis-góðvild smeygði hann vinstri handleggnum utan um hægri handlegg Bauers og sagði:

"Ég er maður vel kristinn, og rúm skaltu fá í nótt, eins og ég er lifandi, piltur minn, komdu með mér. Það er ekki gerandi að standa lengi í sömu sporum í þessu hundaveðri."

Það var bannað í Streslau að bera vopn á sér. Bauer langaði ekkert til að lenda í klónum á lögreglunni og þar að auki hafði hann ekki ætlað sér annað en að njósna í þetta skifti. Hann var því vopnlaus og eins og barn í höndunum á Rúdolf. Hann hafði ekkert undanfæri annað, en að láta Mr. Rassendyll leiða sig og þeir héldu því báðir áfram eftir Konungsstræti. Bauer hafði hætt að blístra og byrjaði ekki á því aftur. En Rúdolf raulaði öðru hvoru gamanvísur og "sló taktinn" með fingrunum á handleggnum á Bauer. Þeir beygðu svo alt í einu þvert yfir strætið. Auðséð var á því hve Bauer varð þá tregur í spori að honum þótti ekkert vænt um þann krók. En hann gat enga mótstöðu veitt.

"Þú mátt til með að fylgjast með mér, piltur minn," sagði Rúdolf hughreystandi og gat ekki varist brosi þegar hann leit framan í félaga sinn.

Þeir héldu áfram. Brátt komu þeir á móts við smáhúsin hjá járnbrautarstöðinni við endann á Konungsstræti. Rúdolf fór að veita búðunum þar nákvæma eftirtekt.

"Það er skrambi skuggsýnt," sagði hann. "Heldurðu að þú getir komið auga á nr. nítján fyrir mig, piltur minn?"

Í því að hann sagði þetta glæddist brosið á andliti hans. Örin hafði hitt. Bauer var sniðugur þorpari, en nú misti hann taumhald á tilfinningum sínum; handleggurinn á honum skalf og nötraði í höndunum á Mr. Rassendyll.

"Nítján, herra minn?" tautaði hann.

"Já, nítján. Þangað er það, að við eigum leið báðir, þú og ég. Þar vona ég að við finnum það, – sem við erum að leita að."

Bauer virtist vera orðinn alveg ruglaður. Hann hvorki skildi neitt í þessum djarflegu tiltekjum, né vissi hvernig átti að verjast þeim.

"Þarna lítur út fyrir að það sé," sagði Rúdolf, mjög ánægjulega, þegar þeir komu að litlu búðinni hennar Mrs. Holf. Stendur þarna ekki einn og níu yfir dyrunum, piltur minn? Já, og Holf! Já, það er nafnið! Gerðu svo vel og hringdu bjöllunni, ég hefi í báðum höndum."

Það var líka satt. Með annari hendi hélt hann um handlegg Bauers, og ekki lengur vingjarnlega, heldur heljartaki; en í hinni hendinni sá fanginn að hann hélt á skammbyssu, er hann hafði eigi áður orðið var við.

"Þú sérð það," mælti Rúdolf góðlátlega, "að þú verður að hringja fyrir mig. Fólkinu mundi koma það á óvart, ef ég færi að vekja það með skoti." Bauer þóttist geta séð það á því, hvernig skammbyssunni var haldið, hvar skotið mundi lenda.

"Hér er engin bjalla," sagði Bauer vesældarlega.

"O, jæja, þá verðurðu að berja."

"Ég býst við því."

"Á að berja með nokkuð vissum hætti, vinur minn."

"Ég veit ekki," tautaði Bauer.

"Ég ekki heldur. Getur þú ekki getið þér til um það?"

"Nei, ég veit ekkert um það."

"Jæja, við verðum samt að reyna það. Þú berð, og — hlustaðu á, piltur minn. Þú verður að geta rétt til. Skilurðu?"

"Hvernig á ég að geta getið rétt?" spurði Bauer og reyndi að sýna á sér þykkjusvip.

"Það veit ég reyndar ekki," svaraði Rúdolf, "en mér er illa við alla bið, og ef dyrnar verða ekki opnaðar eftir tvær mínútur, þá verð ég að vekja aumingja fólkið með skoti. Þú sérð þetta. Þú hlýtur að sjá þetta? Er ekki svo?" Aftur hófst skammbyssuhlaupið upp og sýndi Bauer glögglega hvað í orðum Mr. Rassendylls lá.

Við þessar harðlegu fortölur lét Bauer undan. Hann hóf upp höndina og sló á hurðina með hnefanum, þungt högg fyrst og svo létt högg. Þetta gerði hann fimm sinnum. Auðsætt var, að við honum var búist því að farið var að losa járnfestina án þess að nokkur heyrðist ganga til dyranna. Því næst heyrðist slagbrandur dreginn frá með hægð, og samstundis opnaðist hurðin lítið eitt og í því slepti Rúdolf af hendleggnum á Bauer. Svo greip hann snögt í hnakkann á Bauer og fleygði honum óþyrmilega út á strætið. Honum varð fótaskortur og hann lenti á grúfu ofan í forina og braust þar um. Rúdolf fleygði sér á hurðina og hún laukst upp, og hann komst inn. Hann skelti hurðinni aftur umsvifalaust og rak slagbrandinn fyrir en skildi Bauer eftir úti í göturæsinu. Því næst sneri hann sér við og hélt um gikkinn á skammbyssu sinni, því að hann bjóst við að sjá framan í Rúpert Hentzau, svo sem eitt fet fram undan sér.

En þar var hvorki fyrir honum Rúpert Hentzau eða Rischenheim, og jafnvel ekki gamla konan. En þarna rakst hann á hávaxna, laglega, dökkhærða stúlku, sem hélt á olíulampa. Hann þekti hana ekki, en ég hefði getað frætt hann um, að þetta var yngsta barn Mrs. Holf og hét Rósa. Ég hafði oft séð hana, þegar ég var að ríða um borgina í Zenda með konunginum, áður en gamla konan flutti sig til Streslau. Satt að segja leit helst út fyrir að stúlkan hefði sókst eftir að verða á vegi konungsins, og hann hafði oft hent gaman að því, hvað oft hún hafði reynt að láta hann taka eftir sér, og hve títt hún hafði mænt á eftir honum augum sínum stórum og dökkum. En það er hlutskifti atkvæðamanna, að vekja slíka undarlega velvild á sér, og konungurinn hafði ekki skeytt meira um þessa stúlku en hverja aðra af þeim rómantísku stúlkum, er höfðu barnalega ánægju af og fanst það töluverð vegtylla að sýna honum velvildarmerki. En velvild sú var oftast sprottin af því, hve álitlegur konungurinn hafði virst við krýninguna og hve hetjulega hann hafði komið fram í viðureigninni við Michael svarta, og sem betur fór var konungi ókunnugt um þær orsakir, sem svo særingarlegar voru fyrir hann. Þetta velviljaða fólk konungi stóð honum aldrei svo nærri að það fengi neina vitneskju um umskiftin sem urðu á átrúnaðargoði þess.

Velvildarhugur Rósu var því, að minsta kosti að hálfu leyti sprottinn af því, hve vel henni hafði litist á sjálfan manninn, er nú stóð frammi fyrir henni, manninn, sem horfði nú á hana undrandi við daufa skinið af rjúkandi olíulampanum. Lampinn hristist svo í hendinni á henni, að hún var rétt við að missa hann, þegar hún kom auga á þenna mann, því að skýlan huldi eigi framar andlit hans, og hún gat gerla séð framan í hann. Ótti, fögnuður og hrifning skiftist á í hugskoti hennar.

"Konungurinn!" sagði hún lágt og fagnandi. "Nei, en —" og hún starði undrandi framan í hann.

"Furðarðu þig á að sjá ekki skeggið, ungfrú?" spurði Rúdolf og strauk um hökuna. "Mega konungar ekki raka sig eins og aðrir menn, þegar þeim sýnist?" Undrun og efi skein enn úr svip hennar. Hann beygði sig þá ofan að henni og hvíslaði:

"Og má vera, að mig hafi ekki langað til að láta þekkja mig þegar í stað."

Hún roðnaði af ánægju við traustið, sem hann sýndi henni.

"Ég mundi þekkja yður hvar sem væri," hvíslaði hún og leit á hann stóru dökku augunum. "Allsstaðar, Yðar Hátign."

"Þá viltu kannske hjálpa mér?"

"Já, og leggja líf mitt í sölurnar til þess."

"Nei, nei, stúlka mín góð. Það eru að eins ofurlitlar upplýsingar, sem ég þarf að fá. Hver á þetta hús."

"Móðir mín."

"Einmitt það. Leigja nokkrir af henni herbergi?"

Stúlkunni virtist verða felmt við þessar nærgöngulu spurningar.

"Segið mér, hvað þér viljið fá að vita," sagði hún blátt áfram.

"Hver er þá hér?"

"Luzau-Rischenheim greifi, lávarður minn."

"Og hvað hefir hann fyrir stafni?"

"Hann liggur uppi í rúmi, bölvandi og andvarpandi, af kvölum sem hann hefir í handleggnum, því að hann er særður á honum."

"Og er enginn annar hér?"

Hún horfði í kring um sig varkárlega, og svaraði mjög lágt:

"Nei, nú er hér enginn annar."

"Ég var að leita að einum kunningja mínum," sagði Rúdolf. "Mig langar til að hitta hann einan. Það er ekki léður leikur fyrir konunga að ná tali af mönnum einslega."

"Ég býst við—?"

"Jæja, þú veist hvern ég á við."

"Já, en hann er farinn; hann fór til að hitta yður."

"Að hitta mig! Hver skollinn! Hvernig gastu komist að því?"

"Bauer sagði mér það."

"Ójá, Bauer! Hver er Bauer?"

"Maðurinn, sem barði að dyrum. Hversvegna lokuðuð þér hann úti?"

"Til þess að geta talað við þig í næði. Bauer segir þér frá leyndarmálum húsbónda síns."

Hún tók þessari gletni hans með ástleitnishlátri. Henni fanst ekki skaði skeður þó að konungurinn kæmist að því, að hún ætti biðla.

"Jæja. Hvert hefir greifabjálfinn hans farið til að hitta mig?" spurði Rúdolf glaðlega.

"Hafið þér ekki hitt hann?"

"Nei. Ég kom beint frá kastalanum í Zenda."

"En hann bjóst við að hitta yður í skothúsinu," hrópaði hún. "En nú skil ég! Rischenheim greifi var mjög argur yfir því, þegar hann kom, að frændi hans skyldi vera farinn."

"Svo hann var þá farinn! Nú skil ég! Rischenheim fór með skilaboð frá mér til Rúperts greifa.

"Og þeir hafa farist á mis, Yðar Hátign."

"Já; rétt til getið hjá, þér, stúlka mín góð. Það var sannarlega mjög hrapalegt!" Þarna sagði Rúdolf ekkert annað en hann meinti. "En hve nær býstu við að greifinn komi aftur?" spurði hann ennfremur.

"Snemma í fyrra málið, Yðar Hátign — klukkan sjö eða átta."

Rúdolf færði sig nær henni og tók nokkra gullpeninga upp úr vasa sínum.

"Ég kæri mig ekki um peninga, Yðar Hátign," tautaði hún.

"Jæja, láttu þá festa þá saman og berðu þá um hálsinn."

"Já, já, látið mig fá þá." hrópaði hún með ákefð og rétti fram höndina.

"Viltu þá vinna til þeirra?" spurði hann, og hélt þeim gletnislega frá henni svo að hún náði ekki í þá.

"Hvernig þá?"

"Með því að vera til taks og opna fyrir mér þegar ég kem kl. ellefu og ber að dyrum eins og Bauer."

"Já, ég skal gera það."

"Og með því að láta engan vita, að ég hafi komið hér í nótt. Viltu lofa mér því?"

"Má ég ekki segja móður minni það?"

"Nei."

"Og ekki Luzau-Rischenheim greifa heldur?"

"Honum allra síst. Þú mátt engum segja það. Ég er nú í leynilegum erindum, og Rischenheim veit ekkert um ferð mína."

"Ég skal gera alt, sem þér segið mér. En — en Bauer veit um þetta."

"Það er satt," sagði Rúdolf. "Bauer veit um það. Jæja, það verður að sjá um Bauer."

Um leið og hann sagði þetta, sneri hann til dyranna. Þá beygði stúlkan sig alt í einu áfram, greip um hönd hans og kyssti hana.

"Ég skal láta lífið fyrir yður," tautaði hún.

"Blessað barnið," sagði hann blíðlega. "Ég held að hann hafi átt bágt með að nota sér heimskulega velvild hennar, jafnvel þó það væri gert í þjónustu drotningarinnar. Hann tók á höndinni, og stóð við rétt á meðan hann sagði:

"Ef Bauer kemur, þá læturðu sem þú hafir ekkert sagt mér. Mundu eftir því. Ég ógnaði þér, en þú lést ekkert uppskátt."

"Hann segir þeim, að þér hafið verið hér."

"Það er ekki hægt að gera við því. Að minsta kosti fá þeir ekki að vita hvenær ég kem aftur. Góða nótt."

Rúdolf opnaði hurðina og snaraðist út og lokaði dyrunum hvatlega á eftir sér. Ef Bauer kæmist aftur til hússins, þá mundi það komast upp að hann hefði verið þar; en ef honum tækist að ná í Bauer og koma í veg fyrir að hann kæmist þangað, þá var óhætt að treysta á þagmælsku stúlkunnar. Hann nam staðar utan við dyrnar, hlustaði og skimaði út í myrkrið svo vandlega sem honum var auðið.

XI. KAPÍTULI.

Það var farið að vera áliðið nóttina, en vel hafði komið sér að hún var þögul og dimm. Innan skamms mundi fara að sjást rofa fyrir degi. Innan skamms mundi fara að sjást hreyfing á strætunum og fólk fara að streyma um þau. Rúdolf Rassendyll varð að vera kominn í felur fyrir þann tíma, maðurinn, sem ekki þorði að láta sjá framan í sig í Streslau. Að öðrum kosti mundu menn segja, að konungurinn væri þar kominn, og þessi fregn mundi þjóta yfir alt konungsríkið á fáum klukkustundum, og jafnvel (að því er Rúdolf óttaðist), koma þeim til eyrna, er oss var kunnugt að engin jarðnesk tíðindi gátu héðan af borist. En Mr. Rassendyll átti enn nokkurn tíma afgangs og honum varð eigi betur varið til annars, en að halda áfram viðureigninni við Bauer.

Hann greip til samskonar bragða og þorparinn sjálfur, þokaði sér inn í skuggann af húsinu og bjóst að bíða þar. Í versta lagi þá gat hann tafið fyrir því að þessi náungi næði tali af Rischenheim, nokkra stund; en hann bjóst við að Bauer mundi laumast þangað aftur eftir stundarkorn, og fullvissa sig um það með eigin augum hvort gesturinn óvelkomni væri farinn og Rischenheim gæti snúið brottu hættulaust. Rúdolf vafði skýlunni sem best um andlitið og reyndi að bíða eins þolinmóður og hann gat, þarna í rigningunni, er alt af var jafnmikil, og í litlu skjóli við vindinn. Nokkrar mínútur liðu; ekkert sást bóla á Bauer eða neinum öðrum á kyrláta strætinu. Ekki datt Rúdolf samt í hug að fara brott. Bauer mundi þá grípa tækifærið og þjóta inn. Vera kann að Bauer hefði séð hann fara út og væri að bíða þess að hann færi, eða það gat líka skeð, að þessi slungni njósnari hefði farið á fund Rúperts Hentzau og varað hann við hættunni sem búin væri í Konungsstræti.

Vegna þess að Rúdolf vissi eigi hið sanna í þessu efni og var neyddur til að byggja á öllum þessum líkum, þá beið hann þangað til byrjaði að lýsa af degi. En eftir það mátti hann lítt dyljast. Allan þennan tíma beið aumingja konan mín líka, sárhreld af þeim margvíslega kvíða, er tilfinningasamri konu getur dottið í hug og alið sér í brjósti.

Rúdolf skimaði í allar áttir til að reyna að koma auga á einhvern díl, dekkri en skuggann, og líkari manni. Hann hafði horft í kring um sig um hríð, án þess að verða nokkurs var, en loks kom hann auga á það, sem hann var að hyggja að — og sá jafnvel meira en hann hafði átt von á. Sama megin á strætinu til vinstri handar við sig sá hann þrjá skuggalega náunga koma frá járnbrautarstöðinni. Þeir nálguðust laumulega, en fóru þó hratt, fóru með varkárni en hikuðu þó aldrei eða námu staðar. Rúdolf ugði skjótt að hætta væri á ferðum. Hann þokaði sér fast að veggnum og fór að þreifa eftir skammbyssunni. Maklega gat verið, að þetta væru verkamenn, sem væru að hraða sér í vinnu, eða slarkarar, sem væru að flækjast úti um nóttina, en þó bjóst Rúdolf við öðru frekar. Hann hafði eigi séð Bauer enn þá, en við því var auðvitað að búast, að hann mundi eitthvað gera vart við sig. Hann fór þá að þoka sér afar-hægt út á hliðina meðfram veggnum fáein skref frá húsi Mrs. Rolf, og nam staðar á að gizka sjö eða átta fet hægra megin við það. Mennirnir þrír færðust nær. Hann reyndi að veita þeim sem nánasta eftirtekt. Vegna þess hve lítið var farið að birta var ómögulegt að sjá framan í þá, en sá er í miðið gekk gat gjarnan verið Bauer. Sá maður var líkur Bauer á hæð, á vöxt og í göngulagi. Ef þetta var Bauer, þá var honum ekki vinavant, og leit helst út fyrir, að hann færi í einhverjum vissum erindagerðum með þessum kunningjum sínum. Rúdolf færði sig enn hægt og gætilega ofurlítið frá búðinni. Þegar hann var kominn svo sem fimm skref brottu nam hann alveg staðar, tók upp skammbyssu sína og miðaði henni á þann manninn, sem hann hugði vera Bauer, og beið svo eftir því hverju fram yndi.

Það var nú auðsætt að Bauer — því þetta var hann, — mundi geta búist við tvennu. Hann vonaði að finna Rúdolf og að hann væri enn í húsinu, en þær fregnir biðu sín þar að Rúdolf hefði komið fram erindi sínu er honum var ókunnugt, og væri brott farinn heill á húfi.

Ef síðartöldu tíðindin biðu hans, þá áttu þessir tveir kunningjar hans, ráðnir til aðstoðar honum, að fá sínar fimm krónurnar hvor, og fara síðan heim í friði. En ef um hið fyrra væri að gera, þá áttu þeir að vinna verkið, sem þeim hafði verið falið og fá tíu krónur fyrir. Löngu seinna sagði einn þeirra mér frá þessu öllu án þess að fyrirverða sig minsta hót fyrir. En á þungu stöfunum, sem þeir voru með, og langa hnífnum, sem einn þeirra hafði lánað Bauer, mátti ljóslega sjá hvaða verk þeir áttu að vinna. En hvorki hafði þeim eða Bauer komið til hugar, að sá er þeir voru að leitast við að ná í, væri á næstu grösum og að hugsa um að ná í þá sjálfa. Ekki dettur mér samt í hug að ímynda mér, að þessir leigðu þorparar tveir hefðu hikað við að heldur fyrir þá sök. Það er undarlegt, en satt er það samt, að hámark hugrekkis er hægt að kaupa fyrir lítilræði eigi síður en fúsleikann til illvirkjanna. Slík voru mannhrök þau, er Bauer hafði náð í sér til fylgdar. Það voru þesskonar menn er líta svo á, að þá að eins sé mannsmorð viðurhlutamikið, er lögreglan er við hendina, og þó að þeir mættu eiga von á að komast í hann krappan í viðureigninni við manninn, sem þeir áttu að drepa, þá var það ekki nema venjulegur háski í sambandi við atvinnuveg þeirra.

"Hérna er húsið," hvíslaði Bauer og nam staðar við dyrnar. "Nú ætla ég að berja, en þið standið til búnir að slá hann í höfuðið, ef hann hleypur út. Hann hefir sexhleypta skammbyssu, svo að ekki skyldi eyða tíma til óþarfa."

"Skot úr þessari byssu fer með hann til himna," sagði maður í hásum og þvoglkendum rómi, og endaði setninguna á hlátri.

"En ef hann er farinn?" spurði stallbróðir hans andmælandi.

"Þá veit ég hvert hann hefir farið," svaraði Bauer.

"Eruð þið tilbúnir?"

Illmennin stóðu sinn hvoru megin dyra með upplyfta stafina. Bauer hóf upp höndina til að berja.

Rúdolf vissi að Rischenheim var inni, og að hann mundi fara að segja greifanum frá gestinum, sem komið hefði, er hann hefði fengið vitneskju um að hann var kominn á brott. Þá mundi greifinn aftur aðvara Rúpert Hentzau, og öll ráðagerðin um, að ná í aðalforsprakkann fara út um þúfur. Mr. Rassendyll var aldrei uppnæmur fyrir liðsmun, og í þetta skifti þóttist hann víst mundi geta ráðið niðurlögum þessara þriggja þorpara. Hann stökk að minsta kosti frá veggnum, áður en Bauer fékk tóm til að berja að dyrum og greip til þessa náunga. Þetta varð með svo skjótri svipan, að hinir tveir hrukku frá. Rúdolf greip fyrir kverkar Bauer þéttfast. Ég býst ekki við, að hann hafi ætlað að kyrkja hann, en gremjan, sem hann hafði bælt svo lengi niður kom fram í þessu átaki. Það var enginn efi á því, að Bauer hélt að síðasta stund sín væri komin, ef hann ekki reyndi að bera hönd fyrir höfuð sér. Hann reiddi upp langa hnífinn og lagði til Rúdolfs af miklu afli. Mr. Rassendyll mundi hafa verið dauðans matur, ef hann hefði ekki slept takinu og hörfað til hliðar. En Bauer veitti honum aftur tilræði og hrópaði til félaga sinna: "Sláið hann, sláið hann, asnarnir ykkar!"

Við þessa brýningu stökk annar þeirra fram. Þeir voru nú hættir að efa sig. Þó að hávaði væri af storminum og dynjandi rigningunni, var samt áhætta á að hvellur af skoti heyrðist. En dauðinn var vís, ef ekki var skotið. Rúdolf miðaði og skaut beint á Bauer. Bauer sá hvað hann ætlaði sér, og reyndi að skjótast bak við félaga sína. En hann varð of seinn, og hentist veinandi til jarðar.

Hinir þorpararnir hopuðu þá aftur frá, felmtraðir af því hve skyndilega og djarflega hér var gengið að verki. Mr. Rassendyll hló. Annar þeirra stundi upp ruglaður eins og í æði "Herra trúr!" Um leið starblíndi hann framan í Rúdolf, og hendur hans féllu eins og máttvana niður með hliðunum. "Drottinn minn!" stundi hann aftur og glápti á Rúdolf með opinn munninn. Rúdolf fór aftur að hlæja að felmtrun hans og starandi augnaráði.

"Er þetta kannske meira stórræði en þú bjóst við?" spurði hann og svifti skýlunni frá vanga sínum.

Maðurinn einblíndi á hann. Hinn mændi líka spyrjandi augum á Rúdolf, en hvorugur þeirra bar við að sýna nokkurt tilræði. Loks tók hinn fyr um ræddi til orða og sagði: "Satt er það, að það hefði verið helst til lítið að fá ekki nema tíu krónur fyrir þetta."

Vinur hans — eða félagi, því að slíkir menn eiga enga vini, — starði enn eins og höggdofa.

"Takið hann upp, þennan náunga, annar um herðahlutinn, hinn um fæturna," sagði Rúdolf. "Flýtið ykkur! Ég ímynda mér að ykkur langi ekkert til að láta lögregluna hitta okkur hér. Mig langar ekkert til þess heldur. Takið hann upp."

Um leið og Rúdolf sagði þetta, sneri hann sér að dyrunum, sem nr. 19 stóð á og bjóst að berja. En í sömu svifum rak Bauer upp org. Að réttu lagi hefði hann átt að vera dauður, en mér virðist svo, sem örlögin séu alt af gjarnari á að brottkalla afburðamennina, en skilja afhrökin eftir. Það hafði sem sé orðið honum til lífs, að hann stökk til hliðar, og hann hafði sloppið nærri ósár. Það lá rétt við að kúlan hitti hann ekki í höfuðið. Hún hafði að eins flumbrað hann á gagnauganu, og hafði hann rotast af því, en alls ekki beðið bana. Bauer var óvenjulega heppinn þá nótt. Ég hefði ekki viljað veðja einum á móti hundraði um að hann kæmist lífs af. Rúdolf hætti við að berja. Það dugði ekki að skilja Bauer eftir í húsinu ef líkindi væru til að hann fengi tekið til máls. Hann stóð stundarkorn og var að hugsa um hvað hann ætti að gera, en hann varð brátt truflaður í þeim hugleiðingum.

"Lögreglan! lögreglan!" hrópaði sá náunginn, hranalega, er eigi hafði fyr tekið til máls. Jódynur heyrðist. Neðan frá stöðinni sáust tveir menn koma ríðandi. Þorpararnir tveir hikuðu nú ekki framar við, heldur fleygðu Bauer niður ógætilega. Annar þeirra þaut þvert yfir götuna, en hinn tók á rás upp Konungsstræti. Hvorugur þorði að mæta lögreglunni, því hver gat átt undir því hvaða sögu þessi rauðhærði herra segði, eða hvað mikið vald hann kynni að hafa.

En sannleikurinn var sá, að Rúdolf var ekki um neina sögu að hugsa, né heldur um vald sitt. Ef hann yrði tekinn höndum, þá gat hann eigi við betra búist, en hann yrði látinn liggja í einhverjum fangaklefa meðan Rúpert væri að koma fram brellum sínum óáreittur. Bragð það, er hann hafði beitt við þorparana, var eigi unt að brúka við lögregluna, nema eins og óyndisúrræði. Hann ætlaði því að hlaupa á meðan hann gæti hlaupið. Fyrir því tók hann til fótanna og hljóp upp eftir Konungsstræti á eftir hinum manninum. En hann hafði ekki hlaupið lengi þegar hann kom að horni á nýju þverstræti. Hann hljóp ofan eftir því, og nam staðar að hlusta.

Lögregluþjónarnir höfðu séð hve fljótt hópurinn sundraðist og hertu reiðina því að þá grunaði að bófarnir væru að sleppa. Eftir drykklanga stund voru þeir komnir þangað sem Bauer lá. Þeir stukku af baki og hlupu til hans. Hann var meðvitundarlaus og gat vitanlega enga grein gert þeim fyrir því, hvernig stóð á því að þannig var komið fyrir honum. Dyrnar voru lokaðar og ljóslaust í öllum húsunum. Það var ómögulegt að sjá það, að maðurinn, sem þarna lá ætti nokkuð skylt við húsið, sem nr. 19 stóð á eða hin húsin þar í grend. Þar að auki voru lögregluþjónarnir ekki vissir um að maðurinn, sem þarna lá, væri sýkn saka, því að hann hélt enn á löngum og biturlegum hnífi. Þeir skildu ekkert í þessu. Þeir voru ekki nema tveir. Þarna var særður maður, sem þurfti að líta eftir. Þrjá menn þurfti og að elta og þeir höfðu flúið sinn í hverja áttina. Þeir litu á húsið, sem nr. 19 stóð á. Þar var ekkert ljós að sjá fremur enn áður og alls enga hræringu á neinu. Flóttamennirnir voru horfnir úr augsýn. Rúdolf Rassendyll var lagður á stað aftur, því að hann heyrði ekki neitt. En rétt á eftir heyrði hann blísturshljóð. Lögreglan var að kalla á hjálp. Það þurfti að koma manninum á stöðina og gefa skýrslu um atburðinn; en líklegt var að nú ætti að gera öðrum lögregluþjónum aðvart um það sem gerst hafði, og skipa þeim að veita flóttamönnunum eftirför. Rúdolf heyrði oftar en einu sinni svarað með blísturhljóði. Hann fór að hlaupa, og var að skima hvervetna eftir hliðargötu til vinstri handar. Á hana vildi hann snúa, til þess at komast nær heimili mínu. En hann gat enga götu séð í þá átt. Mjóu strætin lágu í einlægum krókum afar-ruglingslega, eins og er einkenni gamla borgarhlutans. Rúdolf hafði dvalið nokkurn tíma í Streslau áður fyrri; en konungar læra sjaldan nöfnin á bakstrætum, og hann varð þarna rammviltur innan skamms. Það var farið að birta og hann mætti mönnum hér og þar. Nú þorði hann ekki að hlaupa lengur, jafnvel þó að hann hefði getað það fyrir mæði. Hann vafði skýlunni þéttar að vöngunum, þrýsti hattinum ofan í augu og fór að ganga í hægðum sínum og var að velta því fyrir sér hvort sér mundi tjá að spyrja sig til vegar. Honum þótti vænt um það, að þess sáust engin merki að verið væri að elta hann, og hann reyndi að telja sér trú um, að þó að Bauer væri ekki dauður, þá væri hann samt ófær til að ljósta neinu upp. En honum var það full-ljóst í hve mikilli hættu hann var staddur vegna þess hversu hann var yfirlitum, og að á engu reið honum meira en að komast í eitthvert fylgsni áður en umferð hæfist fyrir alvöru í borginni.

Í þessum svifum heyrði hann riðið á eftir sér. Hann var nú kominn að endanum á strætinu, þar sem ferhyrnt flöt blasir við, og á standa hermannaskálarnir. Hann þekti sig nú, og hefði verið kominn í örugt fylgsni heima hjá mér eftir tuttugu mínútur, ef hann hefði mátt vera sjálfráður. En er hann leit aftur fyrir sig sá hann ríðandi lögregluþjónn koma á eftir sér. Hann virtist þegar hafa komið auga á Rúdolf, því að hann herti nú reiðina. Mr. Rassendyll var þá í miklum vanda staddur, og að eins þess vegna greip hann til þess óyndisúrræðis er hann var neyddur til. Þarna var annars vegar hann, maður, sem ekki gat látið upp hver hann var í raun og veru, með skammbyssu á sér, og nýskotið úr einu hlaupinu. Hins vegar Bauer, sem særður var, með skammbyssuskoti, fyrir fjórðungi stundar eigi langt þaðan. Það var jafnvel hættulegt að láta spyrja sig. En ef hann yrði tafinn, var það sama sem og að ónýta alla ráðagerðina. En hvað sem því leið, hafði lögreglan komið auga á hann meðan hann var að hlaupa. Kvíði hans var ekki ástæðulaus, því að lögregluþjónninn hrópaði upp; "Hæ! herra minn — stanzaðu þarna — snöggvast!"

Það var þýðingarlaust að sýna neina mótstöðu. Nú dugði ekkert ofbeldi; það varð að beita brögðum í þetta sinn. Rúdolf nam staðar og leit í kring um sig hálfundrandi. Því næst rétti hann sig upp drembilega og beið lögreglumannsins. Hann ætlaði sér ekki að láta það mishepnast síðasta óyndisúrræðið.

"Jæja, hvað viltu?" spurði hann kuldalega, þegar lögregluþjónninn átti fáein skref til hans, og um leið og hann tók til máls svifti hann skýlunni af sér svo að hún huldi ekkert nema hökuna. "Þú hrópar til mín eins og þú eigir töluvert undir þér," mælti hann ennfremur fyrirlitlega. "Hvað viltu mér?"

Maðurinn, sem leit út fyrir að vera liðsforingi, hrökk við og hallaði sér áfram á hestinum til að sjá sem best þenna mann, sem hann hafði skipað að nema staðar. Rúdolf þagði og hreyfði sig ekki. Maðurinn horfði fast á hann. Þar næst rétti hann sig upp og heilsaði að hermanna sið, stokkrjóður og utan við sig.

"Hvers vegna ertu nú að heilsa mér með virðingarmerkjum?" spurði Rúdolf háðslega. "Fyrst eltirðu mig og svo sýnirðu mér lotningarmerki. Satt að segja hefi ég enga hugmynd um hvers vegna þú ert að trana þér hér fram við mig."

"Ég — ég" — stamaði maðurinn. Svo reyndi hann aftur að taka til máls, og fékk stamað út þessum orðum: "Yðar Hátign, ég vissi ekki — og bjóst ekki við—"

Rúdolf færði sig nær honum, snarlega og þungur á svipinn.

"Og hvers vegna kallarðu mig, 'Yðar Hátign'?" spurði hann í sama hæðnisrómnum.

"Er — er — er þetta ekki Yðar Hátign?"

Rúdolf var nú kominn fast að honum og hafði tekið í makkann á hestinum. Hann leit fast framan í liðsforingjann og mælti:

"Þér skjátlast vinur minn. Ég er ekki konungurinn."

"Eruð þér ekki hann." spurði maðurinn öldungis forviða.

"Engan veginn. Og liðsforingi —?"

"Yðar Hátign."

"Herra, ætluðuð þér víst að segja."

"Já, herra."

"Dyggum embætismanni getur ekki orðið verri skyssa á, liðsforingi, en að villast á konunginum og manni, sem ekki er hann. Það mundi að líkindum verða frama hans til tálma, vegna þess, að ef konungurinn væri ekki þar sem liðsforinginn þættist sjá hann, þá mundi konungur ekki vilja að menn teldu sig þar. Skilurðu mig, liðsforingi?"

Maðurinn svaraði engu, en glápti á Rúdolf í sífellu. Eftir stundarkorn hélt Rúdolf áfram og sagði:

"Ef svo stæði á," mælti hann, "mundi þagmælskur hermaður ekki eiga neitt meira við hlutaðeigandi herramann, og alls ekki minnast á það einu orði, að hann hefði vilst á neinum mönnum. Og jafnvel þó að hann væri spurður mundi hann svara hiklaust, að hann hefði engan séð svipaðan konunginum, auk heldur hann sjálfan."

Ofurlítið bros fór að færast í munnvikin á liðsforingjanum.

"Þér hlýtur að skiljast, að konungurinn er jafnvel ekki í Streslau," sagði Rúdolf.

"Er hann ekki í Streslau?"

"Nei, hann er í Zenda."

"Á. Er hann í Zenda?"

"Já, auðvitað. Þess vegna er það ómögulegt — lífsins ómögulegt — að hann geti verið hér."

Nú loksins þóttist manngarmurinn viss um að hann skildi rétt.

"Já, það er þá öldungis ómögulegt, herra minn," svaraði hann og brosti nú drýgindalegar en fyr.

"Vitaskuld. Og þess vegna er það líka ómögulegt, að þú hafir séð hann." Um leið og Rúdolf sagði þetta tók hann gullpening upp úr vasa sínum og rétti hann að liðsforingjanum. Hann tók við peningnum, og deplaði augunum íbygginn. "En hvað þig snertir, þá hefir þú leitað hér allsstaðar og engan fundið," mælti Mr. Rassendyll að síðustu. "Ætli því að ekki væri best fyrir þig að leita annarsstaðar?"

"Vafalaust, herra," sagði liðsforinginn, og sneri brosandi sömu leið og hann kom. Hann langaði sjálfsagt til að rekast á herramann á hverjum morgni, sem ekki væri konungurinn. Það er óþarfi að geta þess, að honum var alveg horfið það úr huga að bendla þenna herramann við glæpinn, sem framinn var í Konungsstræti. Þannig hafði Rúdolf sloppið við þenna mann, en lausnin hafði orðið dýrkeypt — en um það vissi hann ekki hvað dýrkeypt hún hafði orðið. Það var líka næstum því alveg ómögulegt að ímynda sér að konungurinn gæti verið í Streslau.

Hann hélt nú tafarlaust áfram þangað, sem hann ætlaði að dyljast. Klukkan var orðin rúmlega 5, og nú dagaði skjótt. Bæði karlar og konur fóru nú að fara um strætin, bæði til sölubúða sem opnar voru og á torgið. Rúdolf flýtti sér yfir flötina hjá hermannabústaðnum, því að hann óttaðist að hermennirnir kæmu auga á sig, er þeir væru snemma á ferli við æfingar. Til allrar hamingju urðu þeir hans ekki varir, og komst hann slysalaust inn í stræti, þar sem lítið var um manna ferðir og hús mitt stendur. Satt að segja mátti hann nú heita sloppinn; en þá vildi til slys. Þegar Mr. Rassendyll átti ekki nema svo sem fimtíu skref eftir að dyrunum á húsi mínu, var vagni ekið skyndilega á móts við þar sem hann stóð, og nam hann þar staðar. Þjónn stökk út úr honum og opnaði vagnhurðina. Tvær konur stigu út. Þær voru báðar í viðhafnarbúningi, og voru á heimleið af dansleik. Önnur þeirra var miðaldra, en hin ung og næsta fríð sýnum. Þær stóðu stundarkorn á gangstéttinni unz sú yngri tók til máls og mælti:

"Er þetta ekki skemtilegt, mamma? Ég vildi óska að ég gæti alt af verið komin á fætur kl. 5."

"Þér mundi ekki finnast mikið um það, þegar til lengdar léti, dóttir mín," svaraði sú eldri. "Það er nógu gaman að þessu til tilbreytingar, en —"

Hún þagnaði alt í einu. Hún hafði komið auga á Rúdolf Rassendyll. Hann þekti hana. Það var hvorki meira né minna, en að þetta var frú Helsing kanzlara. Nú dugði ekki bragðið, sem neytt hafði verið við liðsforingjann. Hún þekti konunginn of vel til þess að hann gæti látið vera að kannast við hana; og hún var sjálf of nasvís til þess að taka ekki eftir honum.

"Hamingjan góða!" stundi hún upp hálfhátt, og greip í handlegginn á dóttur sinni. "Guð minn góður, þetta er konungurinn!"

Rúdolf var kominn í gildruna. Bæði hefðarkonurnar og þjónar þeirra líka störðu á hann.

Ómögulegt var að flýja. Hann gekk fram hjá þeim. Hefðarkonurnar heilsuðu honum og þjónarnir lutu honum berhöfðaðir. Rúdolf bar hendina upp að hattinum og hneigði sig ofurlítið. Svo hélt hann rakleitt áfram heim að húsi mínu. Þau höfðu ekki augun af honum. Hann vissi það. Hann bannsöng því sárt, hve fólk kemur seint frá dansleikum, en hann ímyndaði sér, að ekki væri hægt að koma með betri afsökun fyrir ferðalagi sínu, en að fara heim til mín. Hann hélt því áfram, en hefðarkonurnar störðu á hann undrandi, og eins þjónar þeirra, og fóru þeir kímandi að stinga saman nefjum um það, hvað því mundi valda, að Hans Hátign væri á ferð svona til reika (föt Rúdolfs og stígvél voru öll uppslett af forinni), og á þessum tíma, og það í Streslau, þegar allir bjuggust við að hann væri í Zenda.

Rúdolf kom að húsi mínu. Með því að hann vissi að nákvæmlega var eftir sér tekið, hætti hann alveg við að gefa merki það, er þeim hafði komið saman um, konu minni og honum, og eins að fara inn um gluggann. Það hefði annars orðið meira en smáræðis umtalsefni handa Helsing barónsfrú! Það var auðvitað miklu betra, að hver einn og einasti þjóna minna sæi hann fara inn í hús mitt hiklaust. En stundum vill nú svo til, að dygðin sjálf kemur mönnum í ógöngur. Konan mín elskuleg, hún Helga, hafði vakað alla nóttina og staðið á verði í þjónustu drotningarinnar. Nú stóð hún innan við gluggahlerana, og hlustaði með mesta athygli eftir sérhverjum skarkala, sem úti fyrir heyrðist og gægðist út um smuguna á hleranum. Undir eins og hún heyrði fótatak Rúdolfs lauk hún hljóðlega upp gluggahlerunum, rétti höfuðið út og kallaði ofurlágt:

"Öllu óhætt! Komið inn!"

Slysið var orðið. Augu þeirra konu Helsing og dóttur hans, og sömuleiðis þjóna Helsings störðu á þetta einkennilega æfintýri. Rúdolf leit um öxl og sá þau; rétt á eftir sá aumingja Helga þau líka. Hún hopaði aftur á bak, því að hún var óvön því að þurfa að leggja bönd á tilfinningar sínar eða sýna nein látalæti, og veinaði upp yfir sig af því að henni varð svo hverft við. Rúdolf leit aftur við. Hefðarkonurnar voru komnar upp á svalirnar á húsi sínu, en Rúdolf sá samt að þær stóðu á bak við súlurnar og mændu nýjungagírugar út á milli þeirra.

"Það er víst best að ég fari nú inn." sagði Rúdolf og snaraðist inn í dyrnar. Hann hljóp inn brosandi á móti Helgu, er stóð og studdi sig við borðið náföl og mjög eftir sig.

"Sáu þau yður?" spurði hún með öndina í hálsinum.

"Á því er enginn efi" svaraði hann, en svo varð kýmnistilfinningin öllum öðrum yfirsterkari, og hann fleygði sér niður á stól og fór að skellihlæja.

"Ég vildi gefa aleigu mína til að heyra, hvað barónsfrúin segir Helsing, þegar hún vekur hann og færir honum fréttirnar, eftir svo sem eina eða tvær mínútur," mælti hann.

"En brátt sá hann, að hér var alvörumál á ferðum, því hvort heldur hann var konungurinn eða Rúdolf Rassendyll, þá var virðing konu minnar í sömu hættu. Um leið og honum hugkvæmdist það, vildi hann fyrst af öllu koma í veg fyrir það. Hann sneri sér að henni og sagði í flýti:

"Þér verðið að vekja einhvern þjónanna undir eins. Sendið hann til kanzlarans og látið segja honum að koma hingað samstundis. Nei, skrifið honum heldur fáar línur. Segið honum að konungurinn hafi komið hingað eftir umtali til at hitta Fritz í heimullegum erindum, en að Fritz hafi ekki getað verið heima, og að nú þurfi konungurinn að fá að finna kanzlararann undir eins. Segið að það megi enga vitund dragast að hann komi."

Hún starði á hann undrandi.

"Sjáið þér ekki, hvað við liggur. Ef ég get náð í Helsing, þá má vera að hægt verði að taka fyrir munninn á þessu kvenfólki. Ef ekkert verður í því gert, þá getið þér ímyndað yður hvað langt líður um, þangað til allir Streslau-búar fá að vita, að kona Fritz von Tarlenheim tók konunginn inn til sín inn um glugga kl. 5 að morgni."

"Ég skil þetta ekki," tautaði aumingja Helga alveg utan við sig.

"Ég get ímyndað mér það, en gerið samt í öllum hamingju bænum það, sem ég er að biðja yður um. Það er nú ekki um neitt annað að gera."

"Ég skal gera það," sagði hún og settist niður að skrifa.

Þetta leiddi til þess, að rétt þegar barónsfrú Helsing var nýfarin að þylja þessi merkilegu tíðindi í eyra bónda sínum dauðsyfjuðum, barst honum ákveðin skipun um að koma heim til Fritz von Tarlenheim til fundar við konunginn.

Það var sannast að segja, að við höfðum freistað örlagadísarinnar helst til mikið með því að senda Rúdolf Rassendyll til Streslau í annað sinn.

XII. KAPÍTULI.

Mikil var áhættan og stórkostlegir erfiðleikarnir, sem samfara voru þeirri aðferð, er Mr. Rassendyll hafði valið. Ég efast ekki um, að hann hafi farið eftir bestu vitund þegar á það er litið, sem hann gat vitað um. Ætlan hans var að láta svo við Helsing sem hann væri konungurinn, til þess að fá hann til að halda ferð sinni leyndri, og fá hann til að sjá um að kona hans, dóttir og þjónar gerðu það sama. Það átti að þagga niðri í kanzlaranum með því að erindi konungsins hefði verið svo afar-mikilsvarðandi, og átti að heita honum því, að hann skyldi fá alt um það að vita eftir fáeinar klukkustundir; þangað til átti að treysta svo vel konunghollustu hans að hann sæi um að leyna þessu. Ef alt gengi að óskum þá um daginn, er nú var að renna upp, yrði búið að eyðileggja bréf drotningarinnar að kveldi, og leysa hana úr allri hættu, og Rúdolf kominn á stað brott frá Streslau. Þá átti að eins að láta það uppi, er nauðsyn krafði í sambandi við þetta mál. Helsing mundi þá verða sögð saga Rúdolfs Rassendylls og beðinn að þegja um þenna ófyrirleitna Englending (við ætlum Englendingum hvað sem er), sem hefði gerst svo djarfur að leika konunginn í Streslau. Gamli kanzlarinn var allra besti maður og ég ímynda mér, að Rúdolf hafi gert rétt í því að treysta honum. Honum skjátlaðist aftur á móti viðvíkjandi því, sem hann hafði ekki fengið vitneskju um. Alt sem vinir drotningarinnar og hún sjálf gerðu í Streslau kom ekki að haldi og varð jafnvel til tjóns vegna þess að konungurinn var látinn. Vafalaust mundu þau hafa farið alt öðru vísi að ráði sínu, ef þau hefðu vitað um þann mikilvæga atburð; en þau urðu að dæma eftir því sem þau vissu þessu viðvíkjandi og ekki öðru.

Í fyrsta lagi fór kanzlarinn hyggilega að ráði sínu. Áður en honum barst skeytið um að finna konung sendi hann eftir þjónunum tveimur, sem verið höfðu í vagninum og lagði ríkt á við þá að segja ekkert af því sem þeir hefðu séð, og hótaði þeim refsingu og burtrekstri, ef út af væri brugðið. Sjálfsagt hafði hann haft mildari orð við konu sína og dóttur, en skipun hans var þar samt mjög ákveðin. Honum gat eigi dulist, að erindi konungsins hlaut að vera mikilsvarðandi, er Hans Hátign hafði lagt það á sig að fara að vasla um strætin í Streslau á þessum tíma, einmitt þegar búist var við, að hann væri í Zenda, og um það bar líka hitt vott, að hann skyldi fara inn um glugga á húsi Fritz vinar síns svo árla morguns. Það var eitthvað dularfult í sambandi við þetta. Þar að auki hafði konungur látið raka sig — kona hans og dóttir voru vissar um það, og þó að það gæti nú hafa komið af öðrum orsökum, var eins líklegt að ætla, að þetta hefði verið gert vegna þess, að konungur vildi alls ekki láta þekkja sig. Þegar kanzlarinn var búinn að gefa þessar skipanir, hraðaði hann sér sem mest hann mátti að hlýðnast boðum konungs og var kominn heim í hús mitt klukkan 6.

Þegar sagt var frá því, að gesturinn væri kominn, var Rúdolf uppi á lofti. Hann hafði verið að baða sig og snæða morgunverð. Helga vissi hvað hún átti að gera, og tafði því fyrir gestinum þangað til Rúdolf kom. Hún bar sig illa yfir því, að ég skyldi ekki hafa verið kominn heim, en kvaðst með engu móti geta sagt, hvernig því viki við; hún þóttist heldur enga minstu hugmynd hafa um hvert erindi konungs væri við mann sinn.

"Ég veit ekkert frekar," mælti hún, "en að Fritz skrifaði mér það, að ég mætti búast við konungi og sér hér um bil kl. 5, og að ég skyldi vera við því búin að taka á móti honum inn um gluggann, vegna þess að konungi væri ekki um að þjónarnir vissu um ferðir sínar."

Konungur kom svo og heilsaði Helsing mjög vingjarnlega. Gaman og alvara var furðulega samtvinnuð á þessum dögum; jafnvel nú get ég varla varist brosi, þegar ég set mér Rúdolf fyrir sjónir með varirnar herptar af alvöru og einkennilegan gletnisglampa í augunum (ég þori að segja, að honum hefir þótt býsna gaman að tala við kanzlarann), setjast niður hjá gamla kanzlaranum í það hornið, sem dimmast var í herberginu, og fara að smjaðra fyrir gamla manninum, fara að ympra á ýmsum furðulegum og dularfullum atriðum, og láta sem hann ætti ómögulegt með að láta þau uppi þá strax, en lofaði hátíðlega að daginn eftir skyldi hann í síðasta lagi leita ráða þessa vitra og þrautreynda ráðgjafa síns, og skírskotaði til hollustu hans, að láta á engu bera þangað til. Helsing starði á konung gegn um nefklípugleraugu sín, meðan hann lét dæluna ganga um þetta, án þess að nokkuð ákveðið væri sagt, og hann hlýddi með mestu athygli á tilmæli konungs um að halda þessu leyndu. Hann var skjálfraddaður mjög er hann hét konungi að fara í öllu eftir hans vilja, og kvaðst geta ábyrgst að heimilisfólk sitt alt skyldi ekkert orð um þetta segja frekar en sjálfur hann.

"Þá eruð þér hamingjusamur maður, kæri kanzlari minn," mælti Rúdolf andvarpandi, svo sem eins og til að láta í ljósi að konungar ættu ekki því láni að fagna í höll sinni. Helsing réð sér ekki fyrir fögnuði. Hann brann í skinninu, svo mikið langaði hann að komast á stað til að segja konu sinni hve mikið traust konungur bæri til hennar sakir þagmælsku hennar og göfugmensku.

Rúdolf langaði heldur til einskis meira en að losna við þennan gamla góða mann; en vegna þess að hann vissi að það var afar-áríðandi að halda honum í góðu skapi, þóttist hann ekki mega heyra það nefnt að hann færi strax á stað.

"Hvað sem öðru líður, þá munu hefðarkonurnar ekkert um þetta segja fyr en eftir morgunverð. Þær eru nú nýkomnar heim, svo að það getur ekki átt sér stað að þær fari að snæða morgunverð fyr en eftir æðitíma," mælti hann.

Hann fékk Helsing því til að setjast niður aftur, og fór að tala við hann. Rúdolf mintist þess, að Luzau-Rischenheim greifi hafði furðað sig á því, hve fastmæltur hann hefði verið; hann gætti þess því í viðtali sínu við baróninn að tala heldur lágt, og gerði sér upp veiklulegan og þvoglkendan málróm, sem svipaðast því sem hann hafði heyrt til konungsins í herbergi Sapts í kastalanum. Honum tókst þarna að leika konunginn öldungis eins vel og í fyrra daga í Streslau. En ef hann hefði eigi lagt það á sig að halda í gamla Helsing svona lengi, þá hefði hann komist hjá öðru erfiðara og hættumeira hlutverki.

Þeir voru að tala saman tveir einir. Rúdolf hafði skipað konu minni að fara og leggjast til svefns og hvíla sig stundarkorn. Hún var orðin dauðþreytt og gerði því eins og hann mæltist til eftir að hafa lagt blátt bann fyrir að nokkur þjónanna færi inn í herbergið þar sem gestirnir voru, nema skipanir bærust frá "æðri stöðum". Þau höfðu orðið ásátt um það Rúdolf og hún að hafa það svona, og þótti sem það mundi síður vekja grun heldur en ef dyrunum væri lokað eins og gert hafði verið um nóttina.

En meðan þetta gerðist á heimili mínu voru þau Bernenstein og drotningin á leiðinni til Streslau. Vera má, að ef Sapt hefði verið í Zenda, þá mundi hann hafa komið í veg fyrir þessa viðurhlutamiklu ferð drotningarinnar. Bernenstein gat eigi hamlað þessu. Hann varð að eins að lúta skipunum og bænum drotningar. Síðastliðin þrjú ár, eða frá því að þau skildu Rúdolf og hún, þá hafði hún eiginlega aldrei verið sjálfráð ferða sinna eða athafna, eiginlega aldrei með skapa sínum, því að hún hafði aldrei getað farið eftir óskum og þrá hjarta síns. Hvernig má slíkt verða? Ég efast um að nokkur karlmaður lifi eftir slíkum lífsreglum. En það eru til konur, sem gera það. Nú var Rúdolf kominn aftur. Furðulegir atburðir höfðu gerst. Hann hafði fundið hana að máli og það hafði orðið henni til stórmikils fagnaðar að sjá hann. Alt þetta hafði stutt að því að slíta þá nauðungar fjötra, er bundu vilja hennar og athafnir. Þar við bættist draumurinn, sem hana hafði dreymt. Hann æsti huga hennar meir en alt annað, svo að hún hugsaði um ekkert nema það, að geta verið nærri Mr. Rassendyll, og gleymdi öllu öðru en þeirri hættu, sem hún hugði hann vera í staddan. Á leiðinni töluðu þau ekki um neitt nema háskann, sem yfir honum vofði; þau mintust alls ekki á voðann sem henni sjálfri var búinn; voðann sem við neyttum allra bragða til að bjarga henni úr og vernda hana fyrir. Hún var nú orðin ein með Bernenstein, því að hefðarkonan, sem lagt hafði á stað með henni til málamynda var orðin eftir af þeim, og drotningin var alt af að leggja að Bernenstein að koma sér sem allra fyrst á fund Mr. Rassendyll. Ég get ekki kastað mjög þungum steini á hana. Rúdolf var ljós og gleði lífs hennar, og hann var farinn til að berjast við Hentzau greifa. Var það þá nokkuð undarlegt, þó að hún sæi hann dauðan í draumi. En samt, sýndist henni í drauminum, sem menn veittu honum lotningu eins og hann væri konungur. Og það var ást hennar á honum, sem krýndi hann.

Þegar þau komu til borgarinnar, þá fór hún að verða athugulli, og margspurði Bernenstein að því, hvort hún mundi geta þekst. Eigi að síður var hún alráðin í því, að hitta Mr. Rassendyll einu sinni enn. Sannleikurinn var sá, að hún óttaðist að hún mundi koma þá og þegar að honum dauðum, svo föstum tökum hafði draumurinn náð á huga hennar. Bernenstein var hræddur um að hún mundi annað hvort deyja eða missa vitið í þessum æsingi, ef á móti henni væri mælt, svo að hann lofaði henni öllu, fögru og sagði hiklaust, þó að hugboð hans væri annað, að enginn vafi væri á því, að þau mundu hitta Mr. Rassendyll heilan á húfi.

"En hvar — hvar þá?" hrópaði hún með ákefð.

"Mest líkindi eru til, að við hittum hann á heimili Fritz von Tarlenheim," svaraði hann. "Hann ætlaði að halda þar kyrru fyrir þangað til að því kæmi að hann færi að eiga við Rúpert. Eða ef það er afstaðið, þá hefir hann sjálfsagt snúið þangað."

"Við skulum þá aka rakleitt þangað," sagði hún.

Bernenstein bað hana samt að aka fyrst til hallarinnar og láta það verða kunnugt, að hún ætlaði að heimsækja konu mína. Hún kom til hallarinnar kl 8, drakk þar einn bolla af súkkulaði, og heimtaði svo vagn sinn. Bernenstein var einn í fylgd með henni þegar hún lagði á stað til húss míns, hér um bil kl. 9. Hann var þá engu rólegri í skapi heldur en hún.

Allt til þessa hafði hún lítið um það hugsað hvað kynni að hafa gerst í skothúsinu. En Bernenstein hugði það ills vita, að við Sapt skyldum ekki hafa komið aftur á réttum tíma. Auðvitað bjóst hann við að við hefðum orðið fyrir slysi, eða að konungur hefði fengið bréfið í hendur áður en við komum til skothússins. Honum fanst að um annað en þetta tvent gæti ekki verið að ræða. En þegar hann var að segja drotningunni frá því, hvað hann héldi um þetta og hughreysta hana, þá varð henni aldrei annað að orði en: "Ef við getum náð í Mr. Rassendyll, þá lætur hann okkur vita, hvað við eigum að gera."

Þannig vildi það nú til, að vagni drotningarinnar var ekið heim að húsi mínu laust eftir klukkan níu um morguninn. Hefðarkonurnar á heimili kanzlarans höfðu eigi notið langrar hvíldar, því þegar hjólaskröltið heyrðist af vagni drotningarinnar, teygðu þær höfuðin út úr gluggunum. Nú var allmargt manna á strætunum og konungsvagninn vakti athygli æðimargra slæpingja eins og vant var. Bernenstein stökk út og rétti drotningunni höndina. Hún beygði höfuðið ofur lítið í kveðju skyni til þeirra, sem hópast höfðu saman þarna, flýtti sér svo upp litla riðið sem lá að fordyrinu og hringdi sjálf dyrabjöllunni. Þjónarnir inni höfðu þá rétt nýtekið eftir að vagninn kom. Herbergisþerna konu minnar flýtti sér til húsmóður sinnar. Helga var í rúminu. Hún spratt upp og klæddist skyndilega og flýtti sér ofan til að taka á móti Hennar Hátign og aðvara hana. En hún varð of sein. Það var búið að opna dyrnar. Þjónarnir höfðu gert það. Þegar Helga kom ofan í stigann var drotningin að fara inn í herbergið þar sem Rúdolf var. Þjónarnir höfðu vísað henni inn, og Bernenstein stóð þar hjá með hjálminn í hendinni.

Rúdolf og kanzlarinn höfðu stöðugt verið að tala saman. Þeir höfðu dregið niður gluggatjaldið, því að annars var hætt við að sæist inn í herbergið utan af götunni, og var því hálf skuggsýnt í herberginu. Þeir höfðu heyrt vagnskröltið, en hvorugan óraði fyrir því, að drotningin væri þar á ferðinni. Þeim brá því heldur en ekki við þegar hurðinni var lokið upp alt í einu. Kanzlarinn, sem var seinn í viðbragði, og mér er óhætt að segja heldur seinn að átta sig á hlutunum, sat stundarkorn rótlaus. Rúdolf aftur á móti þaut undir eins til dyranna. Helga var nú komin að dyrunum, og teygði höfuðið yfir öxlina á Bernenstein. Hún sá þá hvað orðið var. Drotningin hafði gleymt því að þjónarnir voru viðstaddir. Hún hafði ekki orðið Helsings vör og virtist reyndar ekki hika við neitt, og hugsa ekki um neitt nema það, að frammi fyrir henni stóð maðurinn, sem hún elskaði, og að hann var heill á húfi. Hún hljóp á móti honum, og áður en Helga og Bernenstein eða Rúdolf sjálfur gat aðvarað hana, eða datt í hug hvað hún ætlaði að gera, greip hún um báðar hendurnar á honum og hrópaði:

"Rúdolf! Guði sé lof, að þú ert lifandi og heill á húfi!" og um leið lyfti hún höndum hans upp að vörum sér og þrýsti á þær brennandi kossi.

Þá varð dauðaþögn um stund. Þjónarnir þögðu af lotningu, kanzlarinn þagði af því að hann var ekki búinn að átta sig á þessu, og Helga og Bernenstein af tómri gremju. Mr. Rassendyll þagði líka, ég veit ekki hvort heldur fyrir það, að honum varð hverft við, eða sökum þess að hann var hrærður eigi síður en hún. Annaðhvort hefir verið. En henni brá við þögnina; hún fór að líta í kring um sig og sá þá Helsing, er laut henni mjög virðulega þar sem hann stóð út í horninu. Hún leit þá við, og varð felmt við að sjá þjónana, hræringarlausa og auðmýktarlega. Þá sá hún hversu hún hafði hlaupið á sig. Hún stundi við, og andlitið á henni, sem venjulega var mjög fölleitt, varð nú nábleikt. Það var eins og andlitsdrættirnir stirðnuðu upp, hún riðaði á fótunum og hné áfram. Hún hefði fallið niður ef Rúdolf hefði eigi gripið til hennar og stutt hana. Þannig stóðu þau ofurlitla stund. Þá dró hann hana að sér með innilegu ástar og hlýleiks brosi á vörunum, lagði handlegginn um mittið á henni og studdi hana þannig. Svo laut hann ofan að henni, brosti enn og sagði lágt en þó svo skýrt að allir máttu vel heyra:

"Hér er ekkert að, elskan mín."

Konan mín greip í handlegginn á Bernenstein, en hann leit við og sá að hún var náföl líka. Varirnar skulfu á henni og augun tindruðu. Hann las úr augum hennar innilega bæn og skildi hana. Hann sá, að það var að láta það gott heita, sem Rúdolf hafði gert. Hann steig því fram fáein skref. Svo féll hann á kné og kysti á höndina sem Rúdolf rétti honum.

"Mér er mikil ánægja að sjá þig hér, Bernenstein lífvarðarforingi," mælti Rúdolf Rassendyll.

Þannig var þetta atvik leitt til lykta á svipstundu, komið í veg fyrir hættuna og henni afstýrt. Hér hafði stórmikið verið í húfi. Það hefði verið fyrir sig, þó að upp hefði komist, að þessi maður væri Rúdolf Rassendyll; þó að það væri enn fremur leyndarmál mikið að hann hafði eitt sinn verið staðgöngumaður konungsins, þá mundi hafa verið treyst á að trúa Helsing fyrir því, hefði í nauðirnar rekið; en það var enn annað og meira, sem leyna varð hvað sem það kostaði; en rétt var nú komið að því, að drotningin gerði það uppskátt með þessum innilegu blíðmælum. Þessi maður Rúdolf Rassendyll hafði verið konungur; en hitt varðaði þó miklu meira, að drotningin elskaði hann og hann hana. Engum mátti segja það; jafnvel ekki Helsing; þó að Helsing hefði eigi orð á þessu út í frá, mundi hann telja skyldu sína að segja konungi það. Rúdolf vildi því heldur eiga sérhverjum ókomnum erfiðleikum að mæta, heldur en láta uppi leyndarmálið þegar í stað. Hann kaus heldur að látast vera konungurinn og maður hennar, en að stofna virðing hennar, konunnar sem hann elskaði, í háska. Hún greip þetta eina ráð sem um var að gera fegins hendi. Það er mjög trúlegt, að hún þreytt og örmagna af raunum sínum, hafi fundið hæga hvíld í þessari blekking, því að hún lét höfuðið hvíla á brjósti hans, með aftur augun; friður og ánægja skein úr andliti hennar og fagnaðarstuna leið hljótt frá vörum hennar.

En hættan óx með hverri mínútu sem leið. Rúdolf leiddi drotninguna yfir á legubekk, og gaf svo þjónunum skipun um að geta ekki um það fyrst um sinn, að hann væri þar staddur. Hann gat þess, að eins og þeir hlytu að hafa orðið varir við, af hugaræsingi drotningarinnar, væri alvörumál mikið fyrir höndum; og vegna þess þyrfti hann að vera hér í Streslau, en þó mætti það eigi verða uppskátt, að hann væri þar staddur. Eftir örskamman tíma sagði hann að þeir gætu verið lausir við þessa kvöð, sem hann væri nú að leggja á þá og reyna á hollustu þeirra. Þegar þeir voru farnir, sneri hann sér að Helsing, tók hlýlega í hönd honum, endurtók beiðnina um þagmælsku og kvaðst mundi gera kanzlaranum orð að finna sig síðar um daginn, annaðhvort þangað, sem hann var nú, eða til hallarinnar. Því næst bað hann alla að fara út, svo hann gæti talað við drotninguna í einrúmi. Skipunum hans var tafarlaust hlýtt. En rétt þegar Helsing var kominn út úr dyrunum kallaði Rúdolf á þau Bernenstein og konu mína. Helga flýtti sér til drotningarinnar, því að hún var mjög hrærð og ekki búin að ná sér. Rúdolf tók Bernenstein afsíðis og sögðu þeir þar hvor öðrum fréttirnar. Mr. Rassendyll þótti ilt að heyra að engar fréttir skyldu hafa borist frá Sapt ofursta eða mér, en þó varð honum enn ver við að heyra þau óvæntu tíðindi, að konungur hefði sjálfur verið í skothúsinu nóttina fyrir. Hann var auðvitað í algjörri óvissu um hvar konungur var, hvar Rúpert var, og hvar við vorum. En sjálfur var hann í Streslau, og hafði látið í ljósi við milli tíu og tuttugu manns, að hann væri konungurinn, og varð að eins að treysta á þagmælsku þessara manna. Og hann gat búist við því á hverri stundu að upp kæmist um sig, þegar konungurinn kæmi eða boð frá honum.

En þrátt fyrir öll þau vandkvæði, og ef til vill enn frekar sakir þess hve óvissan var mikil, hélt Rúdolf fast við ásetning sinn. Það var tvent sem fyrir lá. Ef Rúpert hafði sloppið úr gildrunni, sem lögð hafði verið fyrir hann, með bréfið, og hann var enn á lífi, þá varð að hafa upp á honum. Þetta var fyrra atriðið, sem gera þurfti. Að því búnu var ekki um annað að gera fyrir Rúdolf, en að hafa sig á brott svo að sem allra minnst á bæri, og treysta því að manninum, sem hann hafði gengið í stað fyrir yrði aldrei kunnugt að hann hefði þar verið. En ef það yrði óhjákvæmilegt, þá mátti láta það uppi við konung hversu Rúdolf Rassendyll hefði leikið á kanzlarann, og að nú væri hann horfinn eftir að hafa gamnað sér á því. Alt mátti reyndar láta uppi nema það, er kastaði skugga á drotninguna.

Um þetta leyti barst skeytið, sem ég hafði sent frá Hofbau, heim til mín. Þar var drepið á dyr. Bernenstein opnaði og tók við símskeytinu. Utan á það var skrifað til konu minnar. Ég skrifaði alt sem ég þorði að láta fara í slíku skeyti, og var það á þessa leið:

Ég er á leiðinni til Streslau. Konungurinn fer ekki úr skothúsinu í dag. Greifinn kom, en var farinn þegar við komum. Ég veit ekki hvort hann fór til Streslau eða ekki. Hann færði konungi engin tíðindi.

"Þá hafa þeir ekki náð í hann!" hrópaði Bernenstein af mikilli gremju.

"Nei, en hann færði konungi engin tíðindi," mælti Rúdolf hróðugur.

Þau stóðu nú öll í hóp utan um drotninguna, sem sat á legubekknum. Hún var mjög máttfarin og þreytuleg að sjá, en róleg. Henni nægði það, að Rúdolf var að stríða fyrir hana og lagði á ráðin.

"Og gætið að þessu," sagði Rúdolf, "Konungurinn fer ekki úr skothúsinu í dag. Guði sé lof, að við höfum þá eins dags frest enn þá!"

"Já, en hvar er Rúpert?"

"Við skulum komast að því eftir nokkrar klukkustundir hvort hann er í Streslau eða ekki," og það var auðséð á svip Mr. Rassendyll að hann hlakkaði til ef honum tækist að hitta Rúpert þar í bænum. "Já, ég verð að leita hans. Ég hika ekki við að gera neitt til þess að ná í hann. Ef ég get náð til hans sem staðgöngumaður konungs, þykir mér sem ég hafi náð í konungdóm mér til handa. Við höfum ráð á deginum í dag!"

Skeyti mitt blés þeim nýjum hugmóði í brjóst, þó að margt væri þar ósagt. Rúdolf sneri sér að drotningunni og mælti:

"Vertu hughraust drotning mín. Eftir nokkrar klukkustundir verður búið að afstýra allri hættu."

"Og að því búnu?" spurði hún.

"Þarftu engan háska að óttast, og getur notið hvíldar," sagði hann og beygði sig ofan að henni blíðlega. "Og ég verð upp með mér af því að hafa bjargað þér."

"En hvað verður um þig."

"Ég verð að fara," heyrði Helga hann segja um leið og hann laut enn meira og Bernenstein og Helga færðu sig frá.

XIII. KAPÍTULI.

Háa laglega stúlkan var að taka hlerana frá búðargluggunum í Konungsstræti nr. 19. Hún fór sér hægt að því, en roðinn í kinnunum á henni og glampinn í augunum bar vott um að henni var mikið í hug þó að hún vildi dylja það. Gamla Mrs. Holf studdist fram á búðarborðið, og tautaði eitthvað í gremju sinni yfir því, að Bauer skyldi ekki vera kominn. En það var engin von til, að Bauer væri kominn inn, því að hann var enn í sjúkrahúsinu við lögreglustöðina, og þar voru einir tveir læknar að stumra yfir honum. Gamla konan vissi ekkert um þetta. Hún vissi að eins að hann hafði farið út að njósna. Ekkert vissi hún um hvar hann var að njósna, þó hana grunaði eftir hverjum hann væri að leita.

"Ertu viss um að hann hafi ekki komið aftur?" spurði hún dóttur sína.

"Ég varð aldrei vör við að hann kæmi," svaraði stúlkan, "og ég var þó hér í búðinni með ljós þangað til fór að birta."

"Hann hefir nú verið í burtu í tólf klukkustundir og engin boð komið frá honum. Og nú kemur Rúpert greifi bráðum, og það verður víst gaman að heyra til hans, eða hitt þó heldur, ef Bauer verður ekki kominn."

Stúlkan svaraði engu; hún var nú búin að því, sem hún var að gera og horfði út á strætið. Klukkan var orðin rúmlega átta, og margt fólk var á götunni, flest af því fátæklega til fara. Efnaða fólkið var enn ekki komið á kreik. Á akveginum mátti helst sjá sveitavagna. Bændur voru þar að flytja búsafurðir sínar til torgsins, í stórbænum. Stúlkan horfði á mannaferðina, en var þó alt af hugsa um tígulega manninn, sem komið hafði um nóttina og beiðst eftir hjálp af henni. Hún hafði heyrt skammbyssuskotið úti fyrir; í því að hún heyrði hvellinn slökti hún á lampa sínum, og þegar hún stóð og hlustaði innan við hurðina hafði hún heyrt fótatak flóttamannanna, og rétt á eftir að lögregluþjónarnir komu. Það var svo sem auðvitað, að lögregluþjónarnir mundu ekki hafa þorað að leggja hendur á konunginn; en um Bauer gerði minst til, hvort hann var lifandi eða dauður. Ekki var hún að fást um það, hún sem var að þjóna konunginum í baráttunni við óvini hans. Ef Bauer var í þeim óvinahópi, þá mundi henni bara þykja vænt um, ef sá óþokki hefði verið drepinn. En hvað konungurinn hafði gripið laglega til hans og fleygt honum út í forina! Hún hló með sjálfri sér yfir því, að móðir hennar skyldi ekkert vita um gestinn, sem átti tal við hana um nóttina.

Sveitakerrurnar dröttuðust hægt og hægt fram hjá. Ein eða tvær námu staðar úti fyrir búðinni og ökumennirnir buðu ávexti til sölu. Gamla konan vildi ekkert sinna þeim, og bandaði gremjulega hendinni til þeirra svo þeir skyldu fara. Þrír höfðu nú numið þar staðar og farið svo fram hjá, og gamla konan nöldraði ilskulega þegar hún sá fjórða vagninum lokuðum ekið að dyrunum.

"Við ætlum ekkert að kaupa; burt með ykkur, burt með ykkur!" hrópaði hún hranalega.

Ökumaðurinn stökk ofan úr sæti sínu, án, þess að anza henni, og gekk aftur með vagninum.

"Þá erum við komnir, herra minn," kallaði hann. "Þetta er Konungstræti nr. 19."

Nú heyrðist hvæs, og löng stuna, eins og til manns er réttir úr sér hálf-makindalega og hálfgramur við að vera vakinn upp af værum blundi.

"Gott og vel. Ég skal koma út," var svarað.

"Á, það er greifinn," sagði gamla konan við dóttur sína mjög ánægjuleg. "Hvað skyldi hann nú segja um Bauer ræfilinn?"

Rúpert Hentzau rétti höfuðið út um vagndyrnar, horfði til beggja handa eftir strætinu, gaf ökumanninum nokkrar krónur, stökk út úr vagninum og hljóp skyndilega yfir steinstéttina og inn í litlu búðina. Vagninum var svo ekið af stað.

"Það var gott, að ég skyldi rekast á hann," sagði Rúpert glaðlega. "Vagninn sá arna skýldi mér vel, og þó að ég sé fríður sýnum, þá má ég ekki láta alt of marga Streslau-búa sjá framan í mig. Sæl og blessuð, gamla konan. Hvað er að frétta? Og sæl vertu, unga blómarósin. Hvernig líður þér?" Hann strauk glófanum, sem hann var nýbúinn að taka af sér um vangann á stúlkunni. "Fyrirgefðu mér," mælti hann eftir litla þögn, "glófinn sá arna er ekki nógu hreinn til þessa," og um leið leit hann á gula glófann, er var ataður dökkum ryðlitum blettum.

"Hér er alt með sömu ummerkjum og þegar þér fóruð, Rúpert greifi," sagði Mrs. Holf, "nema að Bauer, bjálfinn sá arna, fór út í gærkveldi—"

"Einmitt það? En er hann ekki kominn aftur?"

"Nei, ekki enn þá."

"Hm. Hefir enginn annar komið hér?" spurði hann svona upp á von og óvon.

Gamla konan hristi höfuðið. Stúlkan sneri sér undan brosandi. Hún bjóst við að "enginn annar", mundi eiga við konunginn. Hún ætlaði að minsta kosti ekki að láta þau heyra neitt um það eftir sér. Konungurinn sjálfur hafði lagt að henni að þegja.

"En hefir ekki Rischenheim komið?" spurði Rúpert.

"Ójú, hann kom lávarður minn, rétt eftir að þér voruð farinn. Hann ber hendina í fatla."

"Svo!" hrópaði Rúpert hissa. "Eins og ég bjóst við! Fjandinn hafi hann! Bara ég gæti gert alt sjálfur, og þyrfti ekki eiga neitt undir mönnum, sem eru bjálfar og klaufar! Hvar er greifinn?"

"Hann er uppi á efsta loftinu; þér ratið upp."

"Ójá, en mig langar í morgunverð, húsmóðir."

"Rósa getur fært yður hann undir eins, lávarður minn."

Stúlkan fór með Rúpert upp hrörlegu stigana í þessu gamla háreista húsi. Þau fóru upp yfir þrjú loft og engin íbúð var á neinu þeirra. Síðast fóru þau upp mjög brattan stiga og voru þá komin að þakherberginu. Rúpert opnaði dyr rétt við uppgöngubrúnina, og sté kýmileitur inn í langt og mjótt herbergi og Rósa á eftir honum. Herbergið var hátt í miðjunni, en lækkaði eftir þakhallanum til hliðanna, svo að það var litlu hærra en sex fet við dyrnar og gluggann. Inni var eikarborð og fáeinir stólar; tvö járnrúm stóðu við vegginn hjá glugganum. Í öðru rúminu var enginn. Í hinu lá Luzau-Rischenheim greifi í öllum fötunum, og hægri höndin á honum var hjúpuð í smeyg úr svörtu silki. Rúpert nam staðar á þrepskildinum og leit brosandi til frænda síns. Stúlkan gekk inn og að skáp einum, tók þar út glös og diska og annan borðbúnað. Rischenheim spratt upp og stökk fram á gólfið.

"Hvað er að frétta?" spurði hann með ákefð. "Þú hefir þá sloppið frá þeim, Rúpert?"

"Það lítur út fyrir það," svaraði Rúpert léttilega, fór inn gólfið, tylti sér á stól og fleygði hattinum á borðið. "Já, það lítur út fyrir af ég hafi sloppið, þó við sjálft lægi að mér yrði heimska mannbjálfa eins að bana."

Rischenheim roðnaði.

"Ég skal segja þér greinilega frá því bráðum," sagði hann og leit hornauga til stúlkunnar, sem búin var að setja kalt kjöt og vín á borðið. Hún var nú að enda við að reiða fram matinn, en fór sér hægt að öllu.

"Ef ég hefði ekkert annað að gera, en að horfa á falleg andlit — ég vildi gjarnan að svo væri —, þá mundi ég biðja þig að vera hér kyr," sagði Rúpert og kinkaði kolli til hennar mjög hæversklega.

"Ég hefi enga löngun til að heyra, það, sem mér kemur ekkert við," svaraði hún fyrirlitlega.

"Það er sjaldgæfur og góður kostur á kvenmanni!" svaraði hann, opnaði hurðina fyrir henni og hneigði sig aftur.

"Ég læt mér nægja það, sem ég veit," kallaði hún til hans hróðug úr stiganum. "Og vera kann, að þér vilduð gefa töluvert til að vita það líka, Rúpert greifi!"

"Það er ekki ótrúlegt, því að það eru undursamlegir hlutir, sem kvenfólkið veit!" svaraði Rúpert brosandi; en hann lokaði hurðinni og gekk hratt yfir að borðinu og sagði úfinn á svipinn: "Jæja, segðu mér þá hvernig þeir fóru að blekkja þig, eða hvernig stóð á því, að þú blektir mig, frændi."

Rischenheim fór þá að þylja upp hvernig þeir veiddu hann og léku á hann í Zenda, en Rúpert snæddi á meðan með góðri lyst. Hann greip aldrei fram í og lét ekkert álit í ljósi, en þegar Rúdolf Rassendyll var nefndur, leit hann snöggvast upp, hristi höfuðið og augun tindruðu. Þegar Rischenheim hafði lokið sögu sinni, þá var hann aftur orðinn hýr og brosleitur á svipinn.

"Ó, já, gildran var laglega lögð," mælti hann. "Ég furða mig ekkert á því, þó að þú lentir í hana."

"En hvað er að frétta af þér? Hvað kom fyrir þig?" spurði Rischenheim með ákefð.

"Af mér er það að segja, að ég fékk skeyti þitt, sem ekki var þó frá þér, og ég fór eftir því, sem þar var skipað, þó að þú ættir engan þátt í því."

"Fórstu til skothússins?"

"Já, vitanlega."

"Og hittirðu Sapt þar? — Hittirðu nokkurn annan?"

"Ónei, ég sá Sapt alls ekki."

"Sástu ekki Sapt? En ætluðu þeir þá ekki að leggja gildruna fyrir þig?"

"Það er mjög sennilegt, en hún hélt mér ekki," sagði Rúpert, krosslagði fæturna og kveikti í vindlingi."

"En hvern fanstu þá?"

"Ég fann skógarvörð konungs, villigaltahundinn konungsins og — ég hitti reyndar konunginn sjálfan líka."

"Hittirðu konunginn í skothúsinu?"

"Skeytið þitt var ekki svo galið eftir alt saman."

"En þeir hafa hlotið að vera með honum Sapt, Bernenstein, eða einhver þeirra."

"Þeir voru hjá honum skógarvörðurinn og villigaltahundurinn eins og ég sagði þér áðan. Þar var enginn annar maður eða skepna."

"Og fékstu honum bréfið?" hrópaði Rischenheim skjálfandi af áfergi.

"Ónei, ekki gerði ég það frændi. Ég fleygði öskjunum til hans, en ég held að hann hafi ekki fengið færi á að opna þær. Það komst aldrei svo langt, að ég gæti sagt honum frá bréfinu, sem ég var með."

"Og hvers vegna?"

Rúpert stóð upp og staðnæmdist frammi fyrir Rischenheim, sneri sér á hæl, og leit framan í frænda sinn. Um leið blés hann öskuna af vindlingi sínum, og brosti ánægjulega.

"Hefirðu ekki tekið eftir því, að yfirhöfnin mín er rifin?" spurði hann.

"Jú ég sá það."

"Jæja, villigaltahundurinn ætlaði að bíta mig, frændi, og skógarvörðurinn ætlaði að reka mig í gegn — og konungurinn ætlaði að skjóta mig sjálfur."

"Nú, nú, og hvernig fór? Segðu það í öllum lifandi bænum."

"Ja, það fór svo, að engum þeirra tókst að koma því í verk, sem þeir ætluðu, frændi minn góður."

Rischenheim horfði á hann stórum augum. Rúpert horfði niður á hann góðlátlega.

"Eins og þú getur ímyndað þér," mælti hann enn fremur, "þá hélt forsjónin verndarhendi sinni yfir mér, svo að hundurinn bítur nú engan framar og skógarvörðurinn rekur engan í gegn. Það var líka satt að segja landhreinsun að þeim báðum."

Svo varð þögn. Þá hallaði Rischenheim sér áfram og sagði mjög lágt, eins og hann væri hræddur að heyra spurningu sína sjálfur:

"En hvað er af konunginum að segja?"

"Af konunginum? Nú ekki annað en það, að hann skýtur engan framar."

Rischenheim var stundarkorn álútur og starði á frænda sinn. Svo hné hann hægt aftur á bak á stólnum.

"Drottinn minn!" tautaði hann. "Drottinn minn!"

"Konungurinn var flón," sagði Rúpert. "Heyrðu, ég skal segja þér það alt saman." Svo dró hann til stól og settist hjá Rischenheim.

Rischenheim virtist varla fylgjast með því, sem hann var að segja. Frásögnin varð enn áhrifameiri vegna þess, hve léttúðugt Rúpert inti frá og óskammfeilni hans stæltist við að sjá hve fölur og skjálfandi félagi hans var. En þegar sögunni var lokið sneri hann upp á hrokkna granaskeggið, varð alt í einu alvarlegur og sagði:

"En samt sem áður er þetta býsna alvarlegt mál."

Rischenheim hafði orðið afarflemt við þessi tíðindi. Frændi hans hafði getað fengið hann til að vera með í bréfmálinu; en það gekk alveg fram af honum, að hamlaus óbilgirni Rúperts hafði leitt hann stig af stigi, þar til dauði konungs virtist svo sem eins og smáatvik í ráðabruggi hans. Hann spratt á fætur og hrópaði:

"En við verðum að flýja — við verðum að flýja!"

"Nei, við þurfum ekki að flýja. Það má vera, að við ættum að fara héðan, en við þurfum ekki að flýja."

"En þegar það kemst upp —?" Hann lauk ekki við setninguna, en hrópaði: "Hversvegna sagðir þú mér þetta? Hvers vegna komstu hingað?"

"Nú, ég sagði þér það, vegna þess að það var skemtilegt, og ég kom hingað af því að mig skorti fé til að fara nokkuð annað."

"Ég hefði sent þér peninga."

"Ég hafði komist að því, að mér innheimtist meira þegar ég bið um það persónulega. En er líka alt búið, sem gera átti?"

"Ég ætla engan hlut að eiga í þessu framar."

"Þú lætur hugfallast of snemma. Blessaður konungurinn er nú til allrar óhamingju skilinn við okkur, en drotningin okkar kæra er eftir. Og fyrir mildilega handleiðslu forsjónarinnar höfum við í höndum bréfið frá okkar kæru drotningu."

"Ég ætla engan hlut að eiga í þessu framar."

"Er þig farið að fiðra í hálsinn," og um leið hermdi Rúpert gletnislega eftir böðli, sem ætlar að leggja snöru um háls glæpamanns.

Rischenheim spratt skyndilega á fætur og reif opinn gluggann upp á gátt.

"Ég ætla ekki að ná andanum hér inni," tautaði hann armæddur á svipiun, og forðaðist að líta framan í Rúpert.

"Hvar er Rúdolf Rassendyll?" spurði Rúpert. "Hefirðu komist að því?"

"Nei, ég veit ekkert hvar hann er."

"Við verðum held ég að komast eftir því."

Rischenheim sneri sér snögglega að honum og mælti:

"Ég átti engan hlut í þessu, og ég vil ekkert meira við mál þín eiga. Ég var þar ekki. Hvað vissi ég um að konungurinn var þarna? Ég er saklaus. Ég vissi ekkert um þetta. Það segi ég satt."

"Þetta er alt rétt hjá þér," svaraði Rúpert og kinkaði kolli.

"Rúpert," hrópaði hann, "lofaðu mér að fara, og sjáðu mig í friði. Ef þig vantar peninga, þá skal ég láta þig fá þá. Taktu við þessu í öllum guðanna bænum, og hafðu þig burt úr Streslau!"

"Ég skammast mín fyrir að biðja um peningalán, frændi minn góður, en sannast að segja þá vanhagar mig um ofurlítið af peningum, þangað til ég get náð í mínar verðmætu eignir. Það er þó líklega á vísum stað? Já, það er hérna."

Hann dró bréf drotningarinnar upp úr brjóstvasa sínum. "Betur að konungurinn hefði ekki verið annað eins flón og hann var," tautaði hann gremjulega um leið og hann stakk því á sig.

Svo gekk hann yfir að glugganum og leit út. Hann sást ekki sjálfur utan af götunni, og engan var að sjá í gluggunum andspænis. Karlar og konur voru á gangi á strætunum ýmist að fara til vinnu, eða úti sér til skemtunar; það var ekki hægt að sjá neinn óvanalegan brag á borginni. Rúpert horfði yfir húsþökin og gat þá séð konungsflaggið blakta á stöng yfir höllinni og hermanna bústöðunum. Hann leit á úrið sitt. Sama gerði Rischenheim. Klukkuna vantaði tíu mínútur í tíu.

"Rischenheim," hrópaði Rúpert, "komdu hingað snöggvast. Líttu hérna út á þetta."

Rischenheim gerði sem honum var boðið, og Rúpert lét hann horfa stundarkorn áður en hann tók til máls.

"Sérðu nokkuð markvert?" spurði hann svo.

"Nei, ekki vitund," svaraði Rischenheim, stuttur í spuna og hnugginn af ótta.

"Ég ekki heldur. Og það er býsna undarlegt, því að heldur þú ekki að Sapt, eða einhver af vinum drotningarinnar hafi farið til skothússins í gærkveldi?"

"Það ætluðu þeir sér, ég þori að sverja það." sagði Rischenheim og fór nú að hugsa um þetta.

"Ef þeir hafa farið, þá hafa þeir hlotið að finna konunginn. Símastöð er í Hofbau, að eins fáar mílur burtu. Og nú er klukkan tíu. Hvernig stendur á því frændi, að Streslau er ekki farin að syrgja konung sinn? Hvernig stendur á því, að ekki er flaggað í hálfa stöng? Ég skil það ekki."

"Ég ekki heldur." tautaði Rischenheim og hafði ekki augun af frænda sínum.

Rúpert fór að brosa, og sló fingrinum á tanngarðinn.

"Mig skyldi ekki undra," sagði hann hugsandi, "þó að Sapt hefði annan konung á boðstólum í annað sinn. Ef svo væri —" Hann þagnaði og virtist hugsa af kappi. Rischenheim greip ekki fram í fyrir honum, en stóð og horfði ýmist á hann eða út um gluggann. Enn sást engin tilbreyting á götunum og enn blöktu flöggin dregin á hún. Það var ekki orðið kunnugt um dauða konungsins í Streslau.

"Hvar er Bauer?" spurði Rúpert alt í einu. "Hvar í fjandanum getur Bauer verið? Hann var þarfur snati. Hér sitjum við eins og fuglar í búri og vitum ekkert hvað er að gerast."

"Ég hefi enga hugmynd um hvar hann er. Það hlýtur eitthvað að hafa komið fyrir hann."

"Þar getur þú víst rétt til um, hygni frændi minn. En hvað hefir komið fyrir hann?"

Rúpert fór að ganga um gólf í ákafa og reykti annan vindling. Rischenheim settist niður við borðið og studdi hönd undir kinn. Hann var orðinn úrvinda af þreytu og æsingi. Hann kendi mikils sársauka í handleggnum sem særður var, og atburðurinn, sem gerst hafði kveldið fyrir, honum óafvitandi, fylti huga hans harmi og skelfingu.

"Ég vildi að ég væri laus við þetta," sagði hann loksins og stundi við.

Rúpert nam staðar frammi fyrir honum.

Iðrast þú yfirsjóna þinna?" spurði hann. "Ef svo er, þá skaltu fá að gera það. Meira að segja þú skalt fara og segja konunginum að þú hryggist af þeim. Ég verð að fá að vita, hvað þeir eru að hafast að, Rischenheim. Þú verður að fara og biðja um leyfi til að tala við konunginn."

"En konungurinn er —"

"Við fáum betur að vita um það, þegar þú ert búinn að biðja um viðtalsleyfið. Hlustaðu nú á það, sem ég segi."

Rúpert settist niður hjá frænda sínum og lagði honum fyrir lífsreglurnar. Hann átti reyndar ekki annað að gera, en að komast eftir því, hvort konungngur væri í Streslau, eða hvort eigi væri um annan konung að ræða en þann, sem dauður lá í skothúsinu. Ef engin tilraun hafði verið gerð til að leyna dauða konungs, þá ætlaði Rúpert að bjargast undan á flótta. Hann féll ekki frá fyrirætlunum sínum; en þegar hann væri kominn af landi brott, þar sem honum var óhætt, ætlaði hann að hóta því, að láta birta bréf drotningar, og með því móti tryggja sér í senn bæði frelsi og fá fullnægt sérhverjum þeim kröfum, sem honum dytti í hug að gera. En ef Luzau-Rischenheim greifi skyldi nú finna konung í Streslau, ef konungsflaggið héldi áfram að blakta dregið á hún, og Streslaubúar vissu ekkert um atburðinn, sem gerst hafði í skothúsinu, þá ætlaði Rúpert að nota sér annað leyndarmál. Hann vissi hver hann var, konungurinn sá, sem þá var í Streslau. Og er hann hafði fastákveðið þessa fyrirætlun, vaknaði í ofdirfskufullum huga hans nýtt og djarflegra ráðabrugg. Hann gat nú boðið Rúdolf Rassendyll það sama, sem hann bauð honum einu sinni áður — þrem árum áður – hlutdeild í glæp og hagnað af glæp. En ef þessu yrði neitað, þá ætlaði hann að lýsa yfir því, að hann mundi skýra frá dauða konungsins frá dyrum dómkirkjunnar í heyranda hljóði.

"Hver getur skýrt frá því," hrópaði hann og hoppaði upp af ánægju yfir því, sem honum hafði dottið í hug, "hver getur skýrt frá því, hvor okkar Sapts kom fyr til skothússins? Hvor okkar kom að konunginum lifandi, Sapt eða ég? Hvor okkar gekk frá honum dauðum, Sapt eða ég? Hvorum okkar var meiri hagur að lífláti konungsins, mér, sem að eins ætlaði að láta hann vita um málefni, eigin heiðri hans viðkomandi, eða Sapt, sem allur lék á valdi mannsins, er stolið hafði nafni konungsins, og tranar sér nú upp í hásæti hans, meðan lík hans er varla kólnað? Nei, þeir eru ekki lausir við Rúpert Hentzau enn þá!"

Hann þagnaði og leit á félaga sinn. Rischenheim var enn fölur mjög og skjálfti á höndunum á honum. En á svip hans mátti sjá, að hann veitti þessu mjög mikla athygli. Enn einu sinni hafði óbilgirni og kjarkur Rúperts verkað á frænda hans, sem hugminni var, og honum hafði orðið hughvarf í svipinn, móti vilja sínum.

"Þú hlýtur að sjá," mælti Rúpert enn fremur, "að það er alls ekki líklegt að þeir geri þér nokkurt mein."

"Ég geng á móti hvaða hættu sem er."

"Fallega sagt, og herramanni samboðið. Í versta lagi halda þeir þér sem fanga. Jæja, ef þú verður ekki kominn eftir tvær klukkustundir, þá get ég getið mér til hvernig í öllu liggur. Ég veit þá, að þeir hafa konung í Streslau."

"En hvar á ég að spyrja eftir konunginum?"

"Fyrst skaltu fara til hallarinnar, og því næst heim til Fritz Tarlenheim. Mér þykir líklegra, að þú finnur hann heima hjá Fritz."

"Á ég þá að fara þangað fyrst?"

"Nei, þá mundi líta út fyrir, að þú vissir helst til mikið."

"Ætlar þú að bíða hér?"

"Já, auðvitað, frændi — nema ég sjái færi á að sleppa burt."

"Og ætli ég geti þá fundið þig hér aftur þegar ég kem?"

"Já, þú finnur mig, eða ég læt liggja boð fyrir þér. Það er aldrei bagi að því að hafa fulla pyngjuna. Ég veit ekki hvernig fjandinn fer að komast af buxnavasalaus!"

Rischenheim gaf sér ekki tíma til að athuga frekar þessa einkennilegu hugmynd frænda síns, þó honum yrði það minnisstætt hve léttúðugt Rúpert fórust þarna orð. Hann var nú óður og uppvægur að komast á stað. Í stað örvæntingarinnar, sem grúft hafði yfir huga hans var nú kominn örugg eftirvænting um heppileg úrslit, og við það hughvarf gleymdi hann hættunni í svipinn.

"Okkur mun nú takast að koma þeim í bobba, Rúpert," hrópaði hann.

"Já, kannske. En það vill nú verða svo, að þegar óargadýr komast í kreppu, þá bíta þau illa."

"Betur að ég væri orðinn góður í handleggnum."

"Þú ert einmitt í minni hættu, af því að þú ert særður," sagði Rúpert brosandi.

"Þú skalt vita það, Rúpert, að ég er fullfær um að verja mig."

"Það er satt, það er satt, en nú þarf ég á vitsmunum þínum að halda, en ekki orku, frændi."

"Þú skalt komast að raun um, að ég er ekki blár á görnum."

"Betur að satt væri, frændi."

Rischenheim stældist við hvert háðsyrði Rúperts. Hann greip skammbyssu, sem lá á arinhillunni og stakk í vasa sinn.

"Skjóttu ekki, ef þú getur hjá því komist," sagði Rúpert í aðvörunarrómi.

Rischenheim svaraði engu, en hljóp til dyranna. Rúpert horfði á eftir honum, og sneri síðan að glugganum. Hann sá það síðast til frænda síns, að hann hraðaði ferð sinni brott hnarreistur og hvatur í spori. Enn sáust engin merki um uppþot í bænum, og enn blöktu flöggin dregin á hún.

Rischenheim hafði hrasað í stiganum, svo mikið hafði hann flýtt sér. Þegar hann kom niður, rakst hann á Rósu. Hún var að sópa ganginn, og gerði það mjög vandlega.

"Eruð þér að fara burtu, lávarður minn?" spurði hún.

"Ójá. Ég hefi í mörgu að snúast. Færðu þig þarna yfir að veggnum, það er annars varla hægt að komast fram úr þessari gangómynd."

Rósa var ekkert fljót til að víkja sér frá.

"Og ætlar Rúpert greifi kannske líka burtu?" spurði hún.

"Þú veist, að hann er ekki ég. Hann ætlar að bíða —" Rischenheim þagnaði í miðri setningu og spurði reiðulega: "Hvað kemur það þér við, stúlka? Færðu þig frá!"

Hún þokaði sér frá og svaraði engu. Hann þaut fram hjá henni. Hún horfði á eftir honum og þóttist vel hafa veitt. Svo hélt hún áfram að sópa. Konungurinn hafði beðið hana að vera til taks klukkan ellefu. Nú var klukkan orðin hálf ellefu. Innan skamms þurfti konungurinn á hjálp hennar að halda.

XIV. KAPÍTULI.

Þegar Rischenheim var kominn út úr húsinu nr. 19 gekk hann spottakorn upp eftir Konungsstræti og kallaði svo til ökumanns. En rétt í því að hann lyfti upp hendinni til að gera ökumanninum aðvart, heyrði hann kallað til sín. Hann leit við, og sá þá Anton Strofzin kominn að hliðinni á sér akandi. Anton keyrði sjálfur, og í vagnsætinu við hliðina á honum lá stór vöndur af úrvalsblómum.

"Hvert ert þú að halda?" spurði Anton og hallaði sér áfram í sætinu brosandi.

"Hvert ert þú að fara? Líklega að finna einhverja ungfrúna. Það dettur mér í hug að dæma af blómvendinum þeim arna," svaraði Rischenheim svo glaðlega sem honum var auðið.

"Ég ætla að færa Helgu frænku minni þessi fáu blóm, sem þarna eru, og er á leiðinni með þau sjálfur," svaraði Anton. "Get ég greitt nokkuð fyrir þér?"

Þó að Rischenheim hefði ætlað fyrst til hallarinnar, þá fanst honum tilboð Antons vera næg afsökun fyrir sig að halda beint þangað, sem líklegra var að hann kæmi fram erindi sínu.

"Ég ætlaði til hallarinnar til að fá að vita hvar konungurinn væri. Mig langar til að hitta hann að máli, ef ég gæti fengið að tala við hann fáein orð," sagði hann.

"Ég skal aka með þig þangað á eftir. Komdu upp í vagninn. Er þetta þinn vagn þarna? Gerir ekkert til. Hafðu þetta, ökumaður," sagði hann og fleygði krónu til ekilsins. Hann færði blómvöndinn svo til og lét Rischenheim setjast við hliðina á sér.

Anton var góður af hestum sínum, enda voru þeir ekki lengi á leiðinni heim að húsi mínu. Vagninn nam staðar við dyrnar og báðir ungu mennirnir stigu niður úr honum. Í það mund er þeir komu hittist svo á, að kanzlarinn var rétt að leggja á stað heim til sín. Helsing þekti þá báða og nam staðar til að hrósa Anton fyrir blómvöndinn. Anton var orðlagður fyrir blómvendi sína, því að hann var örlátur á að úthluta þeim á meðal ungra kvenna í Streslau.

"Ég var hálfgert að vonast eftir, að dóttir mín ætti að fá þau," sagði kanzlarinn gletnislega. "Mér þykir vænt um blóm, og kona mín er hætt að gefa mér þau; ég er líka hættur að gefa henni þau, svo að við hefðum engin blóm, ef ekki væri dóttir mín."

Anton tók gletni þessari vel, og lofaði að færa ungfrúnni blómvönd næsta dag, en kvaðst ómögulega mega svifta frænku sína þessum. Rischenheim greip þá fram í, er hann varð var við fólkið, sem þyrpst hafði saman þarna, og var alt af að fjölga, og spurði:

"Hvað er hér um að vera, herra kanzlari? Eftir hverju er alt þetta fólk að hanga hér? O — o — o, þarna er konungsvagninn!"

"Drotningin er inni hjá greifafrúnni," svaraði Helsing. "Fólkið er að bíða eftir, að sjá hana koma út."

"Það er alt af gaman að sjá hana," sagði Anton og tylti á sig nefklípugleraugum.

"Voruð þér að heimsækja hana?" spurði Rischenheim.

"Ójá, ég — ég skrapp þangað til að fagna henni, kæri Rischenheim."

"Það var æði tímanlega farið á stað í heimsókn!"

"Ég átti líka brýnt erindi."

"Ég er líka í brýnum erindagerðum. En erindi mitt er við konunginn."

"Ég skal ekki tefja þig nema andartak, Rischenheim," sagði Anton Strofzin og barði að dyrum með blómvöndinn í hendinni.

"Á, eigið þér erindi við konunginn?" spurði Helsing. "Já, einmitt það, en konungurinn –"

"Ég er á leiðinni til hallarinnar og ætla að fá að vita þar hvar hann er. Ef ég get ekki hitt hann strax, þá verð ég að skrifa. Mér bráðliggur á að koma fram erindi mínu."

"Rétt er það, kæri greifi! Rétt er það! Bráðliggur yður á?"

"Máske þér getið greitt fyrir mér? Er hann í Zenda?"

Kanzlarinn var kominn í bobba. Anton var kominn inn í húsið. Rischenheim spurði hann í þaula.

"Í Zenda? Já, og ég get ekki. – Fyrirgefið, hvert er erindi yðar?"

"Ég bið yður að afsaka það, þó ég geti ekki sagt yður það, kæri kanzlari; erindi mitt er heimulegt."

"Ég á fullri tiltrú konungsins að fagna."

"Þá stendur yður víst á sama um tiltrú mína," svaraði Rischenheim brosandi.

"Er það sem mér sýnist, að yður sé ilt í handleggnum?" spurði kanzlarinn til að leiða talið að öðru.

"Milli okkar sagt, þá á erindi mitt skylt við frá drotningunni, að henni þætti það leitt, en hún gæti ómögulega talað við greifann í þetta sinn. Rischenheim tók því vel. Hann stóð í gættinni, svo að ekki var hægt að láta aftur hurðina, og spurði Bernenstein hvort hann vissi hvar konungurinn væri.

Bernenstein langaði mjög mikið til að losna við þá Helsing og Anton, en hann þorði ekki að láta þá sjá neinn ákafa á sér.

"Viltu fá viðtalsleyfi við konung strax aftur?" spurði hann brosandi. "Voru síðustu samfundirnir svo ánægjulegir?"

Rischenheim lét sem hann heyrði háðið ekki, en sagði kuldalega:" Það er undarlega erfitt að ná tali af okkar góða konungi. Kanzlarinn þarna veit ekki hvar hann er, eða vill að minsta kosti ekki svara spurningum mínum."

"Vera má, að konungur hafi góðar og gildar ástæður til þess, að vilja ekki láta gera sér ónæði," mælti Bernenstein.

"Það er mjög sennilegt," hreytti Rischenheim út úr sér íbygginn.

"En þú gerðir mér mikinn greiða með því, að fara út úr fordyrinu, herra greifi."

"Er ég þér til óþæginda hér þar sem ég stend?"

"Já, ofurlítið, lávarður minn," svaraði Bernenstein í styttingi.

"Hvernig stendur á þessu, Bernenstein?" hrópaði Anton, því að hann sá það á þeim og heyrði það á mæli þeirra, að þeir voru orðnir reiðir.

Mannfjöldinn hafði líka heyrt háreystina og gremjuna í þeim, og hópurinn þokaðist nær. frá drotningunni, að henni þætti það leitt, en hún gæti ómögulega talað við greifann í þetta sinn. Rischenheim tók því vel. Hann stóð í gættinni, svo að ekki var hægt að láta aftur hurðina, og spurði Bernenstein hvort hann vissi hvar konungurinn væri.

Bernenstein langaði mjög mikið til að losna við þá Helsing og Anton, en hann þorði ekki að láta þá sjá neinn ákafa á sér.

"Viltu fá viðtalsleyfi við konung strax aftur?" spurði hann brosandi. "Voru síðustu samfundirnir svo ánægjulegir?"

Rischenheim lét sem hann heyrði háðið ekki, en sagði kuldalega:" Það er undarlega erfitt að ná tali af okkar góða konungi. Kanzlarinn þarna veit ekki hvar hann er, eða vill að minsta kosti ekki svara spurningum mínum."

"Vera má, að konungur hafi góðar og gildar ástæður til þess, að vilja ekki láta gera sér ónæði," mælti Bernenstein.

"Það er mjög sennilegt," hreytti Rischenheim út úr sér íbygginn.

"En þú gerðir mér mikinn greiða með því, að fara út úr fordyrinu, herra greifi."

"Er ég þér til óþæginda hér þar sem ég stend?"

"Já, ofurlítið, lávarður minn," svaraði Bernenstein í styttingi.

"Hvernig stendur á þessu, Bernenstein?" hrópaði Anton, því að hann sá það á þeim og heyrði það á mæli þeirra, að þeir voru orðnir reiðir.

Mannfjöldinn hafði líka heyrt háreystina og gremjuna í þeim, og hópurinn þokaðist nær.

Alt í einu heyrðist rödd inst innan úr fordyrinu. Röddin var skýr og hvell, en þó veiklublær á henni. Strax og hún heyrðist þögnuðu mennirnir, sem voru að þrátta, og eins hávaðinn í þeim, sem úti fyrir voru. Bernenstein varð hverft við, Rischenheim varð hróðugur og Anton glaður og kátur.

"Það er konungurinn!" hrópaði hann. Þú hefir haft hann fram, Rischenheim."

Fólkið úti heyrði hvað Anton sagði og laust upp fagnaðarópi. Helsing sneri sér við eins og til að þagga niður háreystina. Konungurinn sjálfur hafði sagt, að hann vildi dyljast. Það hafði hann sagt, en hann vildi alt heldur en sleppa Rischenheim, svo að hann gæti komist á fund Rúperts og látið hann vita hvernig komið væri.

"Er Luzau-Rischenheim greifi þarna?" spurði Rúdolf. "Ef svo er, þá fylgið honum inn og lokið fordyrinu.

Það var eitthvað í röddinni, sem skelfdi Rischenheim. Hann hopaði niður á riðið. En Bernenstein náði í hann.

"Fyrst að þig langar svo mikið til að koma inn, þá er best þú komir," sagði hann og brosti harðneskjulega.

Rischenheim skimaði í kring um sig eins og hann langaði til að flýja. Samstundis var Bernenstein ýtt frá. Hávöxnum manni sást bregða fyrir sem snöggvast í fordyrinu; mannfjöldinn sá hann að eins í svip, og laust upp fagnaðarópi á ný. Svo var gripið þétt um hönd Rischenheim, og honum kipt óviljugum, en án þess að hann gæti mótstöðu veitt, inn í fordyrið. Bernenstein hvarf inn á eftir og dyrunum var lokað. Anton sneri sér að Helsing þóttalegur á svipinn.

"Skárri er það nú launungin á því, sem ekkert er," mælti hann. "Hvers vegna mátti ég ekki fá að vita það, að hann væri hér, kanzlari?" Hann beið ekki eftir því, að kanzlarinn, sem var orðinn bæði reiður og undrandi, svaraði neinu, heldur þaut upp í vagninn sinn og ók á stað.

Mannfjöldinn var hinn kátasti yfir því, að hafa séð konunginum bregða fyrir, og menn voru að stinga saman nefjum um og spyrja hver annan, hvað því mundi valda, að konungur og drotning skyldu bæði vera komin heim í hús mitt. Menn bjuggust við, að þau mundu brátt koma aftur út þaðan og stíga upp í konungsvagninn.

En ef fólkið hefði séð það, sem gerðist innan við dyrnar, mundi það hafa fengið því enn meiri undrunar. Rúdolf hafði sjálfur gripið um handlegginn á Rischenheim, og leitt hann rakleitt inn fordyrið. Þeir fóru í gegn um langan gang, og svo inn í lítið herbergi, sem vissi út að garðinum baka til. Rúdolf hafði verið kunnugur húsaskipun heima hjá mér fyrrum og var ekki búinn að gleyma því.

"Lokaðu dyrunum, Bernenstein," sagði Rúdolf. Svo sneri hann sér að Rischenheim: "Lávarður minn!" mælti hann, "ég býst við að þú sért kominn til að verða einhvers vísari. Hefirðu þá fengið forvitni þína sadda?"

Rischenheim herti sig upp til að svara.

"Já, ég veit nú að hér er við svikara að eiga," sagði hann þrákelknislega.

"Hárrétt! Og svikarar eru ófúsir á að láta koma upp um sig."

Rischenheim varð náfölur. Rúdolf horfði fast framan í hann, en Bernenstein gætti dyranna. Hann var algerlega á þeirra valdi, og honum var kunnugt um leyndarmál þeirra. Skyldu þeir vita um leyndarmál hans — fréttina sem Rupert Hentzau hafði komið með?"

"Hlýddu nú á," sagði Rúdolf. "Í nokkrar klukkustundir enn verð ég konungur í Streslau. Á þessum fáu klukkustundum verð ég að gera upp reikning minn við frænda þinn. Ég verð að ná í vissan hlut, sem hann hefir. Ég er nú að leggja á stað að finna hann. Meðan ég er að því, verður þú hér hjá Bernenstein. Það getur hvorttveggja verið, að för mín mishepnist eða hepnist. Hvernig sem fer, verð ég kominn langt burt frá Streslau í kveld, og stend þá konungi ekkert í ljósi."

Rischenheim tók viðbragð og fögnuðurinn skein út úr honum. Þeir vissu ekki að konungurinn var látinn.

Rúdolf færði sig nær og starði fast á fangann.

"Mér er ókunnugt um," mælti hann enn fremur, "hvernig stendur á því, að þú hefir flækst inn í þetta mál, lávarður minn. Aftur á móti veit ég vel um hvatir frænda þíns. En mig furðar á því, að þér skuli hafa þótt svo mikils um þær vert, að þér virtist réttmætt að steypa ógæfusamri konu, drotningu þinni, í takmarkalaust ólán þeirra vegna. Þú mátt vera þess fullvís, að ég mun fyr láta lífið, en að bréfið komist konunginum í hendur."

Rischenheim svaraði engu.

"Ertu vopnaður?" spurði Rúdolf.

Rischenheim fleygði skammbyssunni ólundarlega á borðið. Bernenstein gekk fram og tók hana.

"Gættu hans nú, Bernenstein. Þegar ég kem aftur, skal ég láta þig vita, hvað frekar þarf að gera. Ef ég kem ekki aftur, þá líður ekki á löngu að Fritz komi, og þá verðið þið "að ráða af hvað gera skal."

"Ég skal ekki missa af honum í annað sinn," svaraði Bernenstein.

"Við þykjumst sjálfráðir um að gera við þig það sem okkur sýnist," sagði Rúdolf við Rischenheim. "En mig langar ekkert eftir að ráða þér bana, ef hjá því verður komist. Það er því hyggilegast fyrir þig að freista einkis um að fjandskapast gegn okkur fyr en búið er að ráða málum frænda þíns til lykta." Að svo mæltu kinkaði hann kolli til fangans, er hann hafði falið Bernenstein að gæta, og sneri aftur fram í herbergið þar sem drotningin var og beið hans. Helga var hjá henni. Drotningin stóð upp á móti honum.

"Ég má ekki tefja minstu vitund," sagði hann. "Allur manngrúinn hér úti fyrir veit að konungurinn er hér. Fregnin um það verður flogin út um alla borgina á svipstundu. Við verðum að senda Sapt skeyti um að dylja konunginn þessa, hvað sem það kostar. Ég verð að fara og afljúka verki mínu og hverfa héðan að því búnu."

Drotningin stóð og horfði á hann. Innileg ást skein úr augum hennar, en hún sagði ekkert nema: "Það verður svo að vera."

"Þú verður að fara til hallarinnar undir eins og ég er farinn. Ég skal láta skipa fólkinu að fara burtu, og svo verð ég að leggja á stað."

"Til að leita að Rúpert Hentzau?"

"Já."

Hún átti um stund í miklu stríði við þær ólíku tilfinningar, er stríddust á í huga hennar. "Farðu ekki," sagði hún skjálfrödduð. "Farðu ekki, Rúdolf. Hann gerir út af við þig. Við skulum ekkert hugsa um bréfið. Farðu ekki. Ég vildi þúsund sinnum heldur að konungurinn sæi það, en að þú yrðir ... elskan mín, farðu ekki!"

"Ég verð að fara," sagði hann blíðlega.

Hún reyndi aftur að telja honum hughvarf, en hann lét ekki undan. Helga færði sig að dyrunum, en Rúdolf kallaði til hennar.

"Nei, farðu ekki," sagði hann. "Þú verður að vera hér hjá henni; þú verður að fylgja henni til hallarinnar."

Rétt í því þau voru að tala um þetta, heyrðu þau skrölt í vagni, sem ekið var að dyrunum. Ég var þá búinn að mæta Anton Strofzin og hafði frétt hjá honum að konungurinn væri heima hjá mér. Og þegar ég ók að dyrunum, fékk ég fyllri sannanir fyrir að þetta var satt, þegar ég sá mannþyrpinguna þar og heyrði fagnaðarópin.

"Hann er að flýta sér," sögðu menn. "Hann hefir látið konunginn bíða eftir sér. Sá á von á ráðningu."

Ég sinti þessu engu eins og geta má nærri. Ég stökk út úr vagninum og hljóp upp riðið. Þá sá ég konu mína í glugganum og hún hljóp fram til að opna fyrir mér.

"Drottinn minn!" hrópaði ég. "Veit alt þetta fólk að hann er hér, og heldur það að hann sé konungurinn?"

"Já," svaraði hún. "Við gátum ekki gert við því. Hann lét sjálfur sjá sig í dyrunum."

Ver hafði nú farið, en mig hafði nokkurn tíma órað fyrir; það voru ekki að eins tveir eða þrír menn, sem vilst hafði sjónir, heldur allur þessi fólksfjöldi. Allur þessi manngrúi hafði heyrt, að konungurinn væri í Streslau — og meira að segja séð hann.

"Hvar er hann? Hvar er hann?" spurði ég og hraðaði mér á eftir henni inn í herbergið.

Rúdolf og drotningin stóðu þar hvort við annars hlið. Þeim hafði þá farið á milli það sem ég hefi skýrt frá áður eftir sögusögn Helgu. Rúdolf kom þjótandi á móti mér.

"Er alt í góðu lagi?" spurði hann með ákefð.

Ég gleymdi því að drotningin var viðstödd og sýndi engin lotningarmerki. Ég greip um handlegginn á Rúdolf og hrópaði: "Halda þeir að þú sért konungurinn?"

Já," svaraði hann. "Hvaða ósköp eru að sjá þig maður! Við skulum kippa því í lag. Ég get verið kominn í burtu í kveld."

"Kominn í burtu? Hvaða gagn væri að því, úr því að menn halda að þú sért konungurinn?"

"Ykkur er innan handar að láta konunginn ekki komast að því. Ég gat ekki komið í veg fyrir þetta. Ég get aftur á móti gert upp reikningana við Rúpert og horfið brottu að því búnu."

Þau stóðu þarna þrjú utan um mig og skildu ekkert í því, hvers vegna ég var svo æstur. Og þegar ég minnist nú þeirrar stundar, furða ég mig á að ég skyldi geta komið upp nokkru orði.

Rúdolf reyndi að hughreysta mig. Hann vissi lítið um orsök hugarangurs míns.

"Það fer aldrei langur tími í það að eiga við Rúpert," mælti hann. "Og við megum til að ná í bréfið, því annars kemst það konungi í hendur fyr eða síðar."

"Konungur fær aldrei að sjá bréfið," stundi ég upp og hné niður á stól.

Þau þögðu. Ég horfði á þau á víxl. Undarleg þróttleysismeðvitund gagntók mig, og mér fanst að mér væri ómögulegt annað en að láta þau umsvifalaust heyra sannleikann. Þau urðu að gera sér það að góðu. Ég gat ekki annað.

"Konungurinn fær aldrei að sjá bréfið," endurtók eg. "Rúpert hefir séð um það."

"Hvað ertu að segja? Hefirðu nokkurs staðar hitt Rúpert? Hefirðu náð í bréfið?"

"Nei, nei. En konungurinn getur aldrei lesið bréfið."

Þá greip Rúdolf í öxlina á mér og hnykti mér til. Það var heldur ekki að furða, því að sjálfsagt hefir helst litið út fyrir, að ég væri að tala eins og í draumi eða leiðslu.

"Því þá ekki, maður? Því þá ekki?" spurði hann lágt og með ákefð.

Ég leit framan í þau aftur, en í þetta skifti varð mér það að horfa mest á drotninguna. Ég hugsa að hún hafi fyrst rent grun í hvaða fréttir ég hafði að færa. Hún starði fast á mig með hálfopnar varirnar. Ég strauk hendinni um ennið, leit svo framan í hana ráðaleysislega og sagði:

"Hann getur aldrei lesið bréfið. Hann er dauður.

Helga hljóðaði upp yfir sig. Rúdolf stóð hræringarlaus og þagði og drotningin starði á mig sem þrumulostin af undrun og skelfingu.

"Rúpert drap hann," sagði ég. "Villigaltahundurinn réðist á Rúpert; svo gerðu þeir áhlaup á hann Herbert og konungurínn, og hann drap þá alla. Já, konungurinn er dauður. Hann er dauður."

Nú þögðu allir. Drotningin hafði ekki af mér augun.

"Já, hann er dauður!" sagði ég; og horfði stöðugt í augu drotningarinnar. Og lengi (eða mér fanst það lengi) horfði hún á mig. Loks leit hún af mér, eins og knúin af ómótstæðilegu afli. Ég leit eftir því, hvert hún rendi augunum þegar hún leit af mér og sá að hún leit til Rúdolfs og hann til hennar. Helga hafði tekið upp vasaklút sinn, og lá aftur á bak í lágum stóli, harmþrungin og grátandi yfir þessum hræðilegu fréttum; í tilliti drotningarinnar og elskhuga hennar, þó að það væri stutt, sá ég samt skiftast á hrygð, samvizkubit og fögnuð, sem þau gátu ekki gert að. Hann ávarpaði hana ekki, en rétti fram hönd sína og tók í hennar. Hún kipti snögt að sér hendinni og huldi andlitið með báðum höndum. Rúdolf sneri sér að mér.

"Hvenær gerðist þetta?"

"Í nótt sem leið."

"Og er ... er hann skothúsinu?"

"Já, og Sapt og James líka."

Ég var nú farinn að ná mér aftur.

"Enginn veit neitt um þetta," sagði ég. "Við óttuðumst að einhverjir kynnu að hafa vilst á þér og honum. En, guð minn góður, hvað á nú til bragðs að taka, Rúdolf?"

Varirnar á Mr. Rassendyll voru kipraðar fast saman. Hann hleypti brúnum lítið eitt, og bláu augun tindruðu einkennilega. Það virtist svo sem hann hefði gleymt öllu og jafnvel okkur sem hjá honum vorum, svo hugfanginn var hann af því, sem hann var að velta fyrir sér. Drotningin nálgaðist hann og snerti handlegginn á honum. Honum varð eins og hverft við í svip, en svo hélt hann áfram að hugsa eins og áður.

"Hvað á að taka til bragðs, Rúdolf?"spurði ég aftur.

"Ég ætla að drepa Rúpert Hentzau," sagði hann. "Um annað má síðar tala."

Svo gekk hann hvatlega fram gólfið og hringdi bjöllunni.

"Segið þessu fólki að fara burtu," skipaði hann. "Segið því, að ég vilji fá ró og næði. Sendið hingað lokaðan vagn handa mér. Hann verður að vera til eftir tíu mínútur."

Þjónninn hlýddi á þessar ákveðnu skipanir, laut mjög virðulega og fór. Drotningin hafði að þessu verið róleg að því er séð varð, en nú kom yfir hana ósegjanlegur kvíði og hræðsla, sem hún jafnvel gat eigi dulið fyrir okkur, er viðstödd vorum.

"Rúdolf má ekki fara, eftir að — eftir að þetta hefir komið fyrir —"

"Segðu þetta ekki, kæra drotning mín," hvíslaði hann. Svo hækkaði hann röddina og mælti ennfremur: "Ég ætla ekki að hverfa frá Rúritaníu í annað sinn og skilja Rúpert Hentzau eftir lifandi. Fritz, komdu orðum til Sapts, og segðu honum að konungurinn sé í Streslau — hann skilur það — og að frekari skipanir muni koma frá konungi um miðdegi. Þegar ég er búinn að fást við Rúpert, skal ég koma við í skothúsinu á leiðinni til landamæranna."

Hann sneri sér við til að fara, en drotningin kom á eftir honum og tafði enn för hans.

"Ætlarðu ekki að koma og sjá mig, áður en þú ferð?" sagði hún innilega.

"Ég ætti ekki að gera það," svaraði hann, og strangleikinn í augnaráði hans breyttist alt í einu.

"Ætlarðu ekki að gera það?"

"Jú, drotning mín."

Þá spratt ég upp, því að skyndileg skelfing greip mig.

"Guð stjórni þér, maður," hrópaði ég. "Hvernig fer ef hann drepur þig þarna í Konungsstræti?"

Rúdolf sneri sér að mér og leit á mig með undrunarsvip.

"Hann mun ekki drepa mig," svaraði hann.

Drotningin horfði enn á Rúdolf, og nú virtist sem hún hefði alveg gleymt draumnum, sem hafði skelft hana svo mikið. Hún sinti því engu, sem ég hafði sagt, en hrópaði:

"Ætlarðu þá að koma, Rúdolf?"

"Já, einu sinni enn, drotning mín." Svo kysti hann á hönd hennar í síðasta sinni og var horfinn.

Drotningin stóð enn stundarkorn í sömu sporum, róleg og tignarleg. Því næst gekk hún þangað, sem kona mín sat, varpaði sér á kné og fól andlit sitt í kjöltu Helgu. Ég heyrði, að þá setti að henni mikinn grát. Helga leit til mín og tárin runnu niður kinnarnar á henni. Ég sneri mér frá þeim og gekk út.

Helga gat kannske huggað hana. Ég bað til guðs, að hann virtist að senda henni hugsvölun, þó að hún vegna syndar sinnar gæti ekki beðið hann þess. Aumingja manneskjan! Ég vona, að ekkert verra eigi fyrir sjálfum mér að liggja.

XV. KAPÍTULI.

Borgarstjórinn í Zenda og James, þjónn Mr. Rassendyll, sátu að kveldverði í skothúsinu. Þeir voru inni í litla herberginu sem venjulega var notað fyrir svefnherbergi handa aðstoðarmönnum konungsins. Þeir höfðu sest þar að vegna þess, að þaðan sást best til mannaferða að húsinu. Dyrum hússins var lokað vandlega. Þeir voru við því búnir að hleypa engum inn. Ef eigi yrði hjá því komist að láta fara inn í húsið, þá var búið að gera allar ráðstafanir til að dylja lík konungsins og Herberts. Þeim sem kæmu þar að spyrjast fyrir átti að segja það, að konungurinn hefði riðið á stað í dögun með skógarverðinum, og hefði gert ráð fyrir að koma aftur að kveldi, en ekki skýrt neitt frá því hvert hann ætlaði; Sapt hafði fengið skipun um að bíða komu hans, og James var að bíða eftir frekari skipunum frá húsbónda sínum Tarlenheim greifa. Þannig ætluðu þeir að fara að, til að varna því að nokkuð yrði uppskátt og bíða svo eftir fregnum frá mér, áður en þeir hefðust nokkuð frekar að.

Það var eins og hvorugur þeirra vildi taka sér neitt fyrir hendur. Sapt var búinn að borða og reykti í stóru pípunni sinni með ákefð; James hafði loksins fengið sig til að kveikja í litlu svörtu leirpípunni sinni, og sat mjög makindalega með krosslagða fæturna. Hann hnyklaði brýrnar, og einkennilegt bros lék honum um varir.

"Hvað ert þú að hugsa um, James kunningi?" spurði borgarstjórinn milli tveggja reykjatoga. Honum var farin að leiðast þessi þögn og aðgerðaleysi, því að hann var enginn deyfingi að eðlisfari.

James hélt áfram að reykja um stund, og tók svo pípuna út úr sér.

"Ég var að hugsa um, að úr því konungurinn er dauður og —" Hann þagnaði.

"Það er enginn efi á því, að konungurinn er dauður, drengur minn," sagði Sapt og kinkaði kolli.

"Já, og úr því að hann er vissulega dauður, og úr því að húsbóndi minn, Mr. Rassendyll, er á lífi —"

"Já, við vitum ekki betur, en að hann sé það, James," skaut Sapt inn í.

"Við vitum ekki betur en svo sé. Jæja, úr því nú að Mr. Rassendyll er lifandi og konungurinn er dauður, þá var ég að hugsa með sjálfum mér, að það sé sorglegt, að húsbóndi minn skuli ekki geta sest í sæti konungsins." James leit til borgarstjórans eins og maður, sem borið hefir upp mikilvæga tillögu.

"Þetta er merkileg hugmynd, James," sagði borgarstjórinn brosandi.

"Ert þú þá ekki á sama máli, borgarstjóri?" spurði James ísmeygilega.

"Ég segi ekki að það sé ekki sorglegt, því að Rúdolf er góður konungur. En þú sér sjálfur, að það er ómögulegt. Finst þér það ekki?"

James strauk hnén með pípuna í munninum.

"Þú segir, að þetta sé ómögulegt," sagði hann með mestu hæversku; "en þar leyfi ég mér að vera á annari skoðun."

"Einmitt það. Jæja, við höfum gott næði núna. Láttu mig heyra, hvernig þú heldur að hægt væri að koma því í framkvæmd."

"Húsbóndi minn er í Streslau, borgarstjóri," tók James til máls.

"Já, það er mjög líklegt."

"Ég er viss um það. Ef hann er þar, þá hafa menn vilst á honum og konunginum."

"Það hefir viljað til áður, og getur náttúrlega komið fyrir aftur, nema —"

"Já, vitanlega nema ef líkið af konunginum skyldi finnast."

"Já, það er einmitt það, sem ég ætlaði að segja, James."

James þagði stundarkorn. Svo sagði hann:

"Það verður býsna torvelt að útlista það, hvernig konungurinn var ráðinn af dögum."

"Þá sögu verður að segja vel," sagði Sapt.

"Og það verður erfitt að koma því svo fyrir, að konungurinn hafi verið drepinn í Streslau; en ef húsbóndi minn skyldi verða drepinn í Streslau, þá verður þó -"

"Hamingjan afstýri því að það komi fyrir. Síst af öllu þar."

En þó að húsbóndi minn verði nú ekki drepinn, þá verður erfitt fyrir okkur að láta það líta svo út, að konungurinn hafi verið drepinn á réttum tíma, og svo að það verði tekið trúanlegt."

Sapt virtist nú fara að verða hugfanginn af þessu umræðuefni.

"Þetta er alveg satt. En ef Mr. Rassendyll á að verða konungur, þá held ég að óþægilegt og erfitt verði að koma fyrir líkinu af konunginum og þjóni hans, Herbert," svaraði hann og saug pípu sína.

James þagði stundarkorn áður en hann svaraði:

"Eins og þú getur skilið, þá er ég rétt að bollaleggja þetta til stundastyttis. Það mundi líklega ekki vera rétt, að koma neinni slíkri ráðagerð í framkvæmd."

"Verið getur það — en við skulum rabba um þetta til að stytta okkur stundir," sagði Sapt og um leið hallaði hann sér áfram, og leit framan í rólega og greindarlega andlitið á þjóninum.

Nú, jæja, ef þú hefir gaman að því, þá væri t.d. hægt að láta það heita svo að konungurinn hefði komið til skothússins í gærkveldi og hitt þar vin sinn Mr. Rassendyll."

"Og átti ég þá að hafa komið líka?"

"Þú, já þú komst líka til að aðstoða konunginn."

"En þú, James? Þú komst, en hvernig stóð á ferðum þínum?"

"Nú, ég kom hingað eftir skipun Tarlenheim greifa, til að taka á móti Mr. Rassendyll, vini konungsins. Jæja, konungurinn ... Ég er að eins að búa þessa sögu til. Þetta er bara tómur skáldskapur úr mér."

"Ég hefi gaman að þessari sögu þinni. Haltu áfram."

"Konungurinn fór út mjög snemma í morgun."

"Í heimullegum erindagerðum, eða hvað?"

"Já, svo hafði okkur skilist. En Mr. Rassendyll. Herbert og við urðum hér eftir."

"Hafði Hentzau greifi komið hingað?"

"Ekki svo við vissum. En við vorum allir þreyttir og sofnuðum fast mjög."

"Á, einmitt það?" sagði borgarstjórinn og brosti harðneskjulega.

"Já, það var satt, að við vorum allir yfirkomnir af þreytu — Mr. Rassendyll alveg eins og hinir - og þegar fór að birta lágum við allir sofandi í rúmunum. Og þar hefðum við verið til þessarar stundar, ef við hefðum ekki vaknað skyndilega við hræðilegan atburð."

"Þú ættir að leggja það fyrir þig að skrifa skáldsögu, James. Hvaða atburður var þetta, sem við vöknuðum við og var svo hræðilegur?"

James lagði frá sér pípuna, studdi höndunum á hnén og hélt áfram sögu sinni.

"Þetta hús er tréhús, því að það er alt úr tré utan og innan."

"Já, það er enginn efi á því. Það er alt úr tré utan og innan, James."

"Og með því að svo er, þá væri það helst til mikil óvarkárni að skilja logandi kertaljós eftir þar sem olían og viðurinn er geymt."

"Það væri glæpsamlegt."

"Hörð orð hrína ekki á dauðum mönnum, og eins og þú veist þá er Herbert dauður."

"Það er satt. Honum yrði ekki mein að slíku."

"En við — þú og ég — vöknuðum —"

"Eiga hinir þá ekki að vakna, James?"

"Ja, ég mundi satt að segja biðja þess, að þeir hefðu aldrei vaknað, því að þegar við vöknuðum stóð skothúsið í björtu báli. Við urðum að þjóta á stað að forða okkur."

"Hvað segirðu! Áttum við þá ekki að hafa gert neina tilraun til að bjarga félögum okkar?"

"Þvert á móti. Við gerðum alt, sem hugsanlegt er að mannlegur kraftur gæti gert í því efni, og það svo drengilega, að okkur lá við köfnun."

"En okkur mishepnaðist þrátt fyrir hugrakka framgöngu. Er ekki svo?"

"Hárrétt. Þrátt fyrir allar tilraunir okkar mishepnaðist okkur að bjarga félögum okkar. Eldurinn hafði læst sig um alt skothúsið; bæði húsbóndi minn ógæfusamur og aumingja Herbert fórust þar, og húsið brann til ösku og þeir með."

"Þú heldur það?"

"Já, vafalaust, ef olían, eldiviðurinn og kertið væri á sem hagkvæmustum stað."

"Ójá. Og væri þá ekki æfi Rúdolf Rassendyll lokið?"

"Ég skyldi taka það að mér að flytja ættingjum hans fréttina um dauðsfallið."

"En svo mundi Rúritaníukonungurinn —"

"Njóta langra og hamingjusamlegra lífdaga, með guðs hjálp."

"En hvað er að segja um Rúritaníudrotninguna, James?"

"Þú mátt ekki misskilja mig. Þau gætu gifst heimullega — eða eiginlega gifst í annað sinn."

"Já, það er rétt. Þau mundu giftast í annað sinn."

"Og trúverðugur prestur ætti að gifta þau."

"Ótrúverðugur, hefirðu víst ætlað að segja?"

"Það er eftir því, frá hvaða sjónarmiði það er skoðað." Og nú brosti James í fyrsta sinni undir frásögninni.

Sapt lagði nú frá sér pípu sína og japlaði granaskeggið. Hann var farinn að brosa líka og horfði fast framan í James. James horfði líka framan í borgarstjórann og var hinn rólegasti.

"Það er meir en lítil skáldskapargáfa, sem þú ert gæddur, James," sagði borgarstjórinn. "En hvernig færi nú ef húsbóndi þinn hefir verið drepinn líka? Það gæti hæglega hafa komið fyrir. Rúpert greifi er til alls vís."

"Ef húsbóndinn hefir verið drepinn, þá verður að jarða hann," svaraði James.

"Í Streslau, eða hvað?" spurði Sapt í flýti.

"Það stendur honum öldungis á sama."

"Það er satt, honum stendur það á sama, og því ættum við þá að láta okkur skifta það nokkru?"

"Nei. En að koma dauðum manni héðan til Streslau."

"Já, það er ekkert spaug, afar erfitt, eins og okkur kom saman um undir eins. Jæja, sagan þín er ágæt, en — húsbóndi þinn samþykkir hana aldrei. Ég á við, ef hann skyldi nú ekki hafa verið drepinn."

"Það er sama sem að berja höfðinu við steininn, að andmæla því sem orðið er; skeð getur samt, að honum falli sagan betur en sannleikurinn, þó að sagan sé engan veginn góð."

Báðir mennirnir horfðu nú fast og lengi hvor framan í annan.

"Hvaðan ertu?" spurði Sapt alt í einu.

"Upphaflega frá London."

"Þeir kunna að búa til skáldsögur þar? Er ekki svo?"

"Jú, og líka að gera þær að veruleika, stundum."

Rétt í því að James sagði þetta spratt hann upp og benti út um gluggann.

Ríðandi maður stefndi til skothússins. Þeir litu skyndilega hvor til annars, flýttu sér til dyranna og gengu nokkur skref móti komumanni. Þeir námu staðar við tréð, þar sem Boris var grafinn.

"En eftir á að hyggja, þú gleymdir hundinum," sagði Sapt og benti til jarðar.

"Sú uppáhaldsskepna á að hafa verið í herbergjum húsbónda síns og drepist þar."

"En hún verður þá að rísa upp, til þess að það geti orðið."

"Auðvitað. Það er ekki langrar stundar verk."

Sapt brosti harðneskjulega þegar sendimaðurinn kom til þeirra. Maðurinn hallaði sér áfram á hestinum og rétti Sapt símskeyti.

"Skeytið er mjög áríðandi, herra minn," sagði hann.

Sapt reif upp umslagið. Það var skeytið, sem ég sendi eftir fyrirskipun Mr. Rassendylls. Hann þorði ekki að eiga undir dulletri mínu, en satt að segja þurfti þess alls ekki með. Sapt hlaut að skilja skeytið þó ekki stæði annað á því en þetta: "Konungurinn er í Streslau. Bíddu frekari skipana í skothúsinu. Áhugamál okkar hér komið á góðan rekspöl, en ekki er því lokið. Símum seinna."

Sapt rétti James skeytið. Hann hneigði sig lítið eitt og tók við því. James las það vandlega, og rétti það aftur og kinkaði kolli.

"Ég skal sjá um að gera það, sem þarna er beðið um," sagði hann.

"Það er ágætt," sagði Sapt. "Þakka þér fyrir, maður minn," sagði hann við sendimanninn. "Hérna er króna handa þér. Ef eitthvert annað skeyti verður sent til mín, og þú færir mér það skjótt og vel, skaltu fá aðra krónu."

"Ég skal koma næsta skeyti eins fljótt og mögulegt er að komast hingað ríðandi frá járnbrautarstöðvunum."

"Skipanir konungsins má ekkert tefja. Þú veist það," sagði Sapt.

"Enginn dráttur skal verða á að koma þeim hingað," svaraði sendimaðurinn, sneri við hesti sínum og þeysti á stað.

"Nú sérðu," tók Sapt til orða, "að saga þín tjáir lítið, því að þessi maður getur borið um það, að skothúsið brann ekkí í nótt."

"Það er satt, en heyrðu —"

"Já blessaður haltu áfram James. Ég sagði þér satt áðan, að ég hefi gaman að þessu."

"Maðurinn gat ekki séð það, ef kvikna skyldi í kofanum í nótt. Eldsvoða getur borið að á hverri stundu."

Nú rak gamli Sapt upp skellihlátur.

"Ja, skárri eru það heilabrotin," tautaði hann, en James brosti ánægjulega.

"Það eru örlögin, sem segja hér til sín," sagði borgarstjórinn, "undarleg örlög. Maðurinn var fæddur til þessa. Við hefðum gert þetta áður, ef Michael hefði gert út af við konunginn í kastalanum. Við bjuggumst heldur við að hann gerði það. Já, við hefðum gert þetta eins og ég er lifandi! Já, okkur langaði meira að segja til þess! Guð fyrirgefi okkur, en með sjálfum okkur langaði okkur til þess. En Rúdolf vildi ná konunginum úr kastalanum. Hann vildi ná honum þó að hann misti konungstignina fyrir það — og það sem honum var margfalt kærara. Já hann vildi ná konunginum úr kastalanum. Með því móti frestaði hann forlögunum. En fyrir þau kemst þó enginn. Vera má að Rúpert greifi haldi að þetta sé alt fyrir sínar aðgerðir. Ónei, það eru forlög, sem nota hann eins og verkfæri í sinni hendi. Forlögin sendu Rúdolf hingað aftur, og forlögin vilja gera hann að konungi. Þú glápir á mig. Heldurðu að ég sé að ganga af vitinu, Mr. Valet?"

"Ónei, ég held að þú talir af viti og það af fullu viti, leyfi ég mér að segja," svaraði James.

"Af viti?" endurtók Sapt og hristist af hlátri. "Um það veit ég ekki. En þetta eru forlög, því mátt þú trúa."

Þeir voru nú báðir komnir inn í litla herbergið og inn úr því lágu dyrnar þangað inn, sem líkið af konunginum og veiðimanninum voru falin. James stóð við borðið, en gamli Sapt óð fram og aftur um herbergið, japlandi skeggið og vingsandi hendinni, loðinni og þreklegri í kring um sig."

"Ég þori ekki að gera það," tautaði hann, "ég þori ekki að gera það. Annað eins og þetta er svo vaxið, að maðurinn er þar vanmáttugur þó að hann vilji gera eitthvað. En forlögin gera það — forlögin gera það. Forlögin neyða okkur til þess."

"Þá ættum við víst að vera viðbúnir," sagði James rólegur.

Sapt sneri sér að honum snarlega og nærri reiðulega.

"Þeir voru vanir að kalla mig kaldráðan og óbilgjarnan, en hvað ert þú?"

"Það skaðar aldrei að vera við hlutunum búinn," sagði James.

Sapt gekk að honum og greip í öxlina á honum.

"Viðbúnir!" tautaði hann hálfhátt, en hranalega.

"Með olíuna, eldiviðinn og ljósið," sagði James.

"Hvar maður hvar? Hjá líkunum?"

"Nei, ekki þar sem þau eru núna. Þau verða að vera á réttum stað."

"Eigum við þá að færa þau til?"

"Já, og hundinn líka."

Sapt starði á hann. Svo rak hann upp hlátur.

"Látum svo vera," sagði hann. "Þú skipar. Já, við skulum vera viðbúnir. Örlagastundin nálgast."

Rétt á eftir tóku þeir til starfa. Það var líkast því að einhver töframáttur knýði Sapt áfram. Hann gerði sinn hluta af verkinu, eins og í leiðslu. Þeir lögðu líkin, hvort þeirra um sig, þar sem mennirnir mundu hafa hvílt, ef þeir hefðu verið lifandi — konunginn í gestaherbergið, en veiðimanninn í eldhúsið, þar sem hann var vanur að sofa. Þeir grófu upp hundinn nýmoldaða. Sapt hló á meðan svo að honum lá við að fá krampa, en James var alvarlegur eins og samboðnast var því ömurlega verki, sem þeir voru að vinna. Svo báru þeir gegnskotna, molduga hræið af skepnunni inn og lögðu það í herbergi konungsins. Svo báru þeir inn viðarhrúgur og heltu olíu yfir þær og settu vínflöskur fast hjá, svo að eldurinn skyldi magnast á ný, þegar flöskurnar springju. Sapt fanst stundum eins og þeir væru að leika einhvern meinlausan leik, sem einskis væri verður, þegar honum væri lokið, en stundum fanst honum aftur að þeir væru að hlýðnast leyndardómsfullu valdi, er héldi leyndu markmiðinu fyrir þeim, sem það hafði að verkfærum sínum. Þjónn Mr. Rassendylls skipaði fyrir öllu og fór eins rólega og lipurlega að því, eins og hann væri að brjóta saman fötin hans húsbónda síns eða hvetja skegghnífinn hans. Gamli Sapt kallaði einu sinni til hans þegar þeir mættust, og sagði alvarlegur á svip:

"Þú mátt ekki halda að ég sé heimskur bjálfi, þó að ég sé að tala um forlög."

"Nei, ég held það ekki," svaraði James, "ég veit ekkert um það, en mér þykir alt af gott að vera viðbúinn."

"Það er ekki nema sjálfsagt!" tautaði Sapt.

Látalætisbragurinn, sem á þeim var, þegar þeir byrjuðu, var nú horfinn. Hvort sem þeim var nú alvara eða ekki, þá var atferli þeirra alvarlegt. Þó að þeir hefðu ekki ætlað sér að framkvæma það, sem þeir voru að undirbúa, þá gátu þeir ekki neitað því, að þessi von um framkvæmdina var vöknuð hjá þeim. Þeir kynokuðu sér, eða Sapt að minsta kosti, að hreyfa því mikið; en þeir þráðu að forlögin færu að glæða betur þá von, og að hún fengi að rætast. Þegar þeir höfðu lokið þessu verki sínu, og voru sestir niður hvor andspænis öðrum í litla gaflherberginu, þá virtist svo sem alt væri undirbúið. Nú biðu þeir að eins eftir því að hin máttka hönd forlaganna tæki við af þeim, og breytti skáldsögu þjónsins í veruleika. Og þegar þessu hafði verið komið í verk, þá fór kjarkur og þrek aftur að færast í Sapt, manninn, sem svo sjaldan hafði orðið þorvant, fyr en við þetta lítilfjörlega og afar-einkennilega fyrirtæki. Hann kveikti í pípu sinni, hallaði sér aftur á bak á stólnum, og púðraði í ákafa yfir því sem hann var að hugsa um.

"Klukkan er nú orðin tvö," sagði James. "Nú hlýtur eitthvað að hafa verið gert í Streslau."

"Já, en hvað þá" spurði borgarstjórinn.

Í þessu heyrðu þeir að barið var að dyrum. Þeir höfðu verið svo niður sokknir í hugsanir sínar, að þeir höfðu ekkert tekið eftir því að tveir menn höfðu komið ríðandi til skothússins. Komumenn voru klæddir grænu og gulu búningunum, sem veiðimenn kóngsins báru vanalega. Sá sem barið hafði var Símon veiðimannastjóri. Hann var bróðir Herberts, sem nú lá dauður í einu herberginu í skothúsinu.

"Þetta ætlar að verða býsna ískyggilegt," tautaði borgarstjórinn í Zenda í því hann hljóp til dyranna og James á eftir honum.

Símon varð hissa þegar hann sá Sapt koma til dyra.

"Ég bið yður fyrirgefningar borgarstjóri. Mig langaði til að fá að sjá Herbert. Má ég fara inn?"

Um leið stökk hann af baki og kastaði taumnum til félaga síns.

"Hvaða gagn er að því fyrir þig að fara inn?" spurði Sapt. "Herbert er hér ekki."

"Er hann hér ekki! Hvar er hann þá?"

"Hann fór á stað með konunginum í morgun."

"Fór hann á stað með konunginum í morgun? Þá er hann líklega kominn til Streslau."

"Ef þú veist það, Símon, þá ert þú fróðari en eg."

"En konungurinn er í Streslau."

"Bölvuð vitleysa! Hann sagði okkur ekkert um það, að hann ætlaði til Streslau. Hann fór snemma á fætur og reið á stað með Herbert, og sagði að eins að hann ætlaði að koma aftur í kveld."

"Hann fór til Streslau. Ég er nýkominn frá Zenda, og það er orðið hljóðbært að Hans Hátign hefir verið í borginni með drotningunni. Þau voru bæði heima hjá Fritz."

"Mér þykir mjög vænt um að heyra það. En var ekkert sagt um það í símskeytinu að Herbert væri þar?"

Símon hló.

"Herbert er ekki konungur, eins og þér vitið," mælti hann. "Jæja, ég ætla að koma hingað aftur í fyrra málið, því að eq þarf að finna Herbert sem fyrst. Hann verður líklega kominn hingað þá. Haldið þér það ekki?"

"Jú, Simon, bróðir þinn verður kominn hingað á morgun."

"Eða það, sem eftir verður af honum, eftir annað eins verk og hann hefir nú mátt leysa af hendi," svaraði Símon í kátínu.

"Já, rétt," svaraði Sapt, japlaði skeggið og leit út undan sér til James.

"Ég ætla líka að koma með vagn til að draga villigöltinn á heim til kastalans. Ég býst að minsta kosti ekki við að þið séuð búnir að éta hann upp."

Sapt hló, og Símoni þótti svo vænt um, að hann veltist um af hlátri líka.

"Við erum ekki búnir að sjóða hann enn þá," sagði Sapt, "en ég vil ekki taka fyrir að það verði ógert á morgun."

"Jæja, jæja; ég ætla af koma. En eftir á að hyggja gleymdi ég að segja ykkur frá öðrum fréttum, sem símaðar voru. Það er sagt að Rúpert Hentzau greifi hafi sést í bænum."

"Rúpert Hentzau? Ó, sussu nei. Þetta hlýtur að vera vitleysa, Símon minn. Hann þorir aldrei að láta sjá sig þar."

"En þó gæti nú verið, að þetta væri engin vitleysa. Ef til vill hefir þetta dregið konunginn til Streslau."

"Já, nægilegt væri það, ef satt væri," svaraði Sapt.

"Jæja, í guðsfriði."

"Vertu sæll, Símon."

Báðir veiðimennirnir riðu á stað. James horfði á eftir þeim stundarkorn.

"Það er kunnugt orðið, að konungurinn sé í Streslau," tók hann til máls, "og það er líka orðið vitanlegt, að Rúpert greifi er þar einnig. Hvernig ætti Rúpert greifi að hafa drepið konunginn hér í Zendaskóginum?"

Sapt leit til hans nærri því skelkaður.

"Hvernig átti líkið af konunginum að komast út í Zendaskóginn?" spurði James. "Eða hvernig á að koma líkamanum af konunginum til Streslauborgar?"

"Hættu þessum bölvuðum gátum!" hrópaði Sapt. "Ertu, maður, fyrir alvöru að reyna að fá mig út í þetta?"

Þjónninn færði sig nær honum og lagði höndina á öxl honum.

"Þú lagðir út í mikla áhættu hér einu sinni fyrri," sagði hann.

"Það var gert til þess að bjarga konunginum."

"En þetta er til þess að bjarga drotningunni, og sjálfum þér, því að ef að við gerum þetta ekki, þá kemst sannleikurinn í ljós viðvíkjandi húsbónda mínum."

Sapt svaraði engu. Þeir sátu enn stundarkorn reykjandi og þegjandi, meðan þetta leiðinlega kveld var að líða, og skuggarnir af trjánum í skóginum að lengjast. Þeim datt ekki í hug að eta eða drekka; þeir sátu grafkyrrir nema á meðan James stóð upp og fleygði viði á eldinn. Nú var orðið skuggsýnt og James stóð aftur á fætur til að kveikja á lampanum. Klukkan var nú orðin nærri sex, og enn voru engar fregnir komnar frá Streslau.

Þá heyrðist hófdynur. Þeir hlupu báðir til dyranna, út um þær og spölkorn niður grasgrónu götuna, sem lá að skothúsinu. Þeir gleymdu að gæta þess, sem fyrir var í húsinu, og dyrnar stóðu galopnar á bak við þá. Sapt hljóp harðara en hann hafði gert langa lengi og komst á undan félaga sínum. Þarna komu loksins skeyti frá Streslau!

Borgarstjórinn hripsaði þegjandi umslagið af sendimanninum og reif það opið. Hann las það í flýti og tautaði: "Drottinn minn," standandi á öndinni. Svo sneri hann sér við og gekk hratt á móti James. En James hafði numið staðar þegar hann sá að hann hafði ekki við borgarstjóranum á hlaupunum. En sendimaðurinn sá um sig eigi síður en borgarstjórinn. Hann var ekki búinn að gleyma krónunni sinni, og kallaði nú önuglega:

"Ég hefi aldrei linað á sprettinum síðan ég fór frá Hofbau. Á ég ekki að fá krónuna, sem mér var lofað?"

Sapt nam staðar, sneri sér við og færði sig nær sendimanninum. Hann tók krónu upp úr vasa sínum. Um leið og hann leit upp þegar hann rétti hana að manninum var einkennilegt bros á breiða veðurtekna andlitinu á honum.

"Jú," sagði hann. "Sérhver sá, sem á skilið að fá krónu, skal fá hana, ef ég á hana til."

Svo sneri hann sér að James, sem nú var kominn og lagði höndina á öxl honum.

"Komdu þá, konungasmiður," sagði hann.

James starði framan í hann. Borgarstjórinn leit fast á hann á móti og kinkaði kolli.

Síðan sneru þeir inn í skothúsið, þar sem þeir láu látni konungurinn og veiðimaðurinn hans. Nú nálgaðist örlagastundin.

XVI. KAPÍTULI.

Ráðagerð sú, sem þjónn Mr. Rasendylls hafði hugsað upp, ráðagerðin, sem hafði verkað á huga Sapts eins og neisti á þurra hefilspæni, hún hafði óljóslega þó komið fleiri en einum okkar í Streslau til hugar. Við höfðum reyndar ekki hugsað þá ráðagerð út í æsar með rósemd og ráðnum huga eins og litli þjónninn hafði gert, né heldur aðhylst hana og sannfærst um nytsemi hennar eins skjótt og borgarstjórinn í Zenda. En samt var hún í huga mínum, ýmist í líking ótta, ýmist með vonarsvip. Stundum fanst mér eins og það væri sjálfsagt að forðast, aðra stundina eins og það væri eina úrræðið til að komast hjá enn ískyggilegri vandræðum. Ég vissi að Bernenstein var þetta jafnríkt í hug eins og mér; hvorugum hafði getað hugsast neitt sennilegt ráð til að láta þann konung, sem helmingur íbúa í Streslau hafði séð lifandi, hverfa, en koma dauða konunginum í hans stað. Þá breyting virtist ómögulegt að gera nema á einn hátt. Sannleikann varð að segja, eða betri hlutann af honum, og lofa svo hverjum sem vildi að slúðra og geta sér til um samband Rúdolfs og drotningarinnar. Mundi ekki sérhver sá, sem nokkra heimsþekkingu hefur hafa hikað við að taka það ráð? Ef til þess væri gripið, væri það sama sem að koma drotningunni næstum því í sama háskann sem búinn var af bréfmissinum. Við ímynduðum okkur, að bréfið mundi nást og munni Rúperts yrði lokað, og styrktumst í þeirri trú við það hve Rúdolf var einbeittur og vongóður um að sér tækist það. En nægilegt efni mundi þá samt verða til umtals og ágizkana, er hvorki heiðvirði eða hlífðarsemi gat þaggað niður. Og þó að okkur væru auðsæir erfiðleikarnir og áhættan mikla af því að leyna dauða konungs, þá fanst okkur það eigi óhugsandi, — og gáfum það í skyn hvert við annað — kona mín við mig, ég við Bernenstein og hann við mig — með augnaráði og ympruðum á því með hálfsögðum setningum er báru glögt vitni um hvað okkur var í hug, þó að við forðuðumst að láta það uppi með berum orðum. Hvað drotningunni við kom veit ekki. Ég ímynda mér að löngunin til að sjá Mr. Rassendyll hafi verið ríkust í huga hennar, og vonin um að hann mundi finna hana aftur eins og hann hafði lofað. Ekki höfðum við þorað að láta neitt af þessu uppi við Rúdolf. Ef hann átti að fást til að ganga að fyrirætlunum okkar, þá varð hann að gera það af sjálfsdáðum, vegna þess að forlögin, sem gamli Sapt talaði um, stýrðu ráði hans en ekki áeggjanir okkar. Sjálfur hafði hann sagt að hann léti alt annað bíða, en fylgdi sér nú að því einu, að ljúka af því óhjákvæmilega verki, er í hans hlut kom að vinna í skuggalega gamla húsinu í Konungsstræti. Okkur duldist ekki, að dauði Rúperts var enganveginn fullkomin trygging fyrir því að leyndarmálið kæmist ekki upp. Þó að Rischenheim væri fangi og til einskis fær þá stundina, þá var hann þó á lífi og eigi var hægt að geyma hann í fangelsi æfilangt. Við vissum ekki hvar Bauer var, og hann lék lausum hala og gat gert og sagt hvað sem honum sýndist. En þó óttuðumst við engan nema Rúpert, og efinn var ekki um það, hvort fyrirætlanir okkar væru mögulegar, heldur um það hvort við ættum að framkvæma þær. Það vill verða svo, að þegar tilfinning og hugaræsingur ber mann ofurliði, þá finst manni lítið til um bægðirnar á sérhverri fyrirætlun, þó að þær verði helst til miklar, við vandlega athugun, skoðaðar með rósemd og gætni.

Mestur hluti mannþyrpingarinnar hafði tvístrast eftir skipun konungs. Rúdolf hafði stigið upp í einn vagn minn og ekið brott. Hann stefndi ekki til Konungsstrætis, heldur í aðra átt. Ég þóttist vita, að hann mundi ætla að fara krókaleið þangað, til þess að koma þar heldur á óvart. Vagn drotningarinnar var enn við dyrnar á húsi mínu, því að ákveðið hafði verið, að hún skyldi fara til hallarinnar og bíða þar eftir tíðindum. Við hjónin áttum að fylgja henni þangað. Ég gekk nú þangað sem hún sat ein sér og spurði hana hvort henni þóknaðist að leggja strax á stað. Hún var þá róleg og hugsandi. Hún hlustaði á það sem ég sagði, stóð svo upp og mælti: "Já, ég vil fara strax." En svo spurði hún alt í einu: "Hvar er Luzau-Rischenheim greifi?"

Ég sagði henni þá að Bernenstein gætti hans í herbergi baka til í húsinu. Hún hugsaði sig ofurlítið um og sagði svo:

"Ég vil fá að sjá hann. Sækið hann og komið með hann hingað. Þú skalt vera hér meðan ég tala við hann, en enginn annar."

Ég vissi ekki hvað hún ætlaði sér, en ég sá enga ástæðu til að hafa á móti beiðni hennar, og þótti vænt um, að geta stuðlað að því að stytta henni stundir þenna tíma. Ég gerði því eins og hún bað og kom með Rischenheim til hennar. Hann fylgdi mér eftir seint og tregðulega. Viðkvæmur í lund eins og hann var, var hann nú orðinn bljúgur, þó að hann hefði verið djarfur og ósveigjanlegur fyr um morguninn. Hann var fölur og órólegur, og þegar hann kom í augsýn drotningarinnar, hvarf af honum mikilmenskusvipurinn, sem á honum hafði verið, meðan Bernenstein gætti hans, og hann var nú daufur og skömmóttulegur. Hann þorði ekki að líta framan í drotninguna er hún horfði á hann alvarlega.

Ég færði mig út í horn, en af því að herbergið var lítið, heyrði ég hvert orð, sem þeim fór á milli. Ég hafði skammbyssu mína á reiðum höndum, til að miða á Rischenheim ef hann skyldi sýna á sér merki til að hlaupast á brott. En hann var nú ekki þesslegur. Nærvera Rúperts verkaði á hann eins og æsingalyf, er hleypti í hann starfsþoli og sjálfstrausti, en nú var síðasti skamturinn af því hættur að verka, og venjulegt ósjálfstæði komið yfir hann.

"Lávarður minn," tók hún til máls með blíðlegri rödd og benti honum að setjast niður, "mig langaði til að sjá yður, því að mér er óljúft að jafntiginn maður og þér hafið of slæmt álit á drotningu yðar. Forsjóninni hefir þóknast, að leyndarmál mitt kæmist í vitund yðar, og þess vegna get ég talað opinskátt. Yður kann að virðast að ávirðingar minnar vegna ætti ég að þegja, en ég tek nú til máls til að smækka hana í augum yðar, ef ég get.

Rischenheim leit upp deyfðarlega, og skildi ekki hví hún talaði svona. Hann hafði búist við ofanígjöf, en ekki afsökunum.

"Og samt," hélt hún áfram, "leiðir það af mér, að konungurinn liggur nú dauður; og trúr og dyggur þjónn hefir sömuleiðis, hrifinn í net óhamingju minnar, látið líf sitt fyrir mig, þó að hann vissi það ekki. Það má og jafnvel vera, að nú meðan við erum að tala hér, að tigni maðurinn sem enn er eigi orðinn of gamall til að læra það að verða göfugur, missi lífið í baráttu háðri fyrir mínar sakir; en annar maður hættir þar lífi sínu mín vegna, og það er sá maður, sem allir honum kunnugir, mega lofa nema ég ein. Og yður, lávarður minn, hefi ég orðið tilefni til að gera rangt, með því móti að klæða ilt verk í afsökunarbúning, svo að þér þóttust vera að þjóna konunginum með því að fá mér hegnt."

Rischenheim leit niður fyrir sig og nísti saman höndunum titrandi af taugaóstyrk. Ég slepti takinu af skammbyssunni. Hann var ekki líklegur til að gera mikið af sér eftir þetta.

"Ég veit ekki," hélt hún áfram, nærri eins og í leiðslu, og meira eins og hún væri að tala við sjálfa sig en hann, eða hefði jafnvel gleymt því að hann var viðstaddur, "hvaða dóm, óhamingja mín hlýtur fyrir rétti drottins á himnum. Það má vera, að af því ég er sett flestum konum ofar, þá verði ég reynd meira en flestar aðrar. Og þá raun hefi ég ekki staðist. En þegar ég samt sem áður legg eymd mína og freisting á metin, finst mér eftir mannlegri sjón minni eins og mér hafi ekki mjög mikið yfirsést. Hjarta mitt er enn ekki orðið auðmjúkt, verk drottins er ekki fullkomnað. En blóðsekt hvílir yfir sálu minni. — Ég get jafnvel eigi séð ásýnd elskhuga míns nema í gegn um þá hárauðu móðu. Og þó að mér veittist nú það, sem ég taldi ánægju öllu meiri, þá mundi hún nú vera orðin rýrð og veil og beiskjublandin!"

Hún þagnaði og leit á hann aftur, en hann hvorki hreyfði sig eða sagði neitt.

"Yður var kunnugt um synd mína," mælti hún, "þá miklu synd hugrenninganna, er mér bjó í brjósti; og þér vissuð hve litlu var við hana aukið með athöfn minni. Hélduð þér, lávarður minn, að syndinni fylgdi engin refsing, úr því að þér gripuð refsingarvöndinn til að bæta smán ofan á harmkvæli mín? Er drottinn svo góður, að mönnum sé leyfilegt að freista náðar hans og miskunnar með illverkum? En nú veit eg, að af því að mér yfirsást, þá kynni yður að sýnast, enda þótt yður hafi yfirsést, að þér séuð saklaus, og yður finst að þér, jafnhliða því sem þér greidduð fyrir frænda yðar, hafið verið að gæta virðingar konungsins. Á þenna hátt hefi ég orðið yður tilefni til að vinna verk, sem yður hefði ekki getað fundist gott verk með sjálfum yður, né virðingu yðar samboðið, ef ég hefði verið saklaus. Ég er guði þakklát fyrir að þér hafið eigi haft meira ilt af því, en þegar hefir orðið."

Rischenheim fór at tauta í lágum rómi og loðmæltur mjög: "Rúpert taldi mig á það. Hann sagði að konungurinn mundi verða mjög þakklátur og mundi gefa mér —" Röddin dó út í miðri setningunni og hann sat aftur hljóður og nísti saman höndunum.

"Ég veit það — ég veit það," sagði hún. "En þér hefðuð ekki hlýtt á slíkar fortölur ef yfirsjónir mínar hefðu ekki blindað yður sýn."

Hún sneri sér skyndilega að mér. Ég hafði staðið úti í horni. Svo rétti hún mér báðar hendurnar, en tárin stóðu í augum hennar.

"Konan þín veit um þetta, og samt elskar hún mig, Fritz."

"Ég mundi ekki eiga konu, sem gerði það ekki," hrópaði ég, "því að bæði ég og alt mitt fólk óskar einskis meir, en að mega deyja fyrir Yðar Hátign."

"Hún veit þetta, og samt elskar hún mig," endurtók drotningin. Ég gladdist mjög af að heyra, að henni væri slík hugsvölun að vináttu Helgu. Konur dragast annað hvort hver að annari, eða óttast hver aðra. "En Helga skrifar engin bréf," sagði drotningin.

"Ónei." svaraði ég og brosti hörkulega. Rúdolf Rassendyll hafði aldrei biðlað til konu minnar.

Hún stóð upp og mælti: "Komdu, við skulum fara til hallarinnar."

Í því hún stóð upp, færði Rischenheim sig skyndilega nær henni nokkur skref.

"Lávarður minn," mælti hún og sneri sér að honum, "ætlið þér líka að fara með mér?"

"Bernenstein lífvarðarforingi gætir —" tók ég til máls. En ég þagnaði strax. Hún bandaði til mín hendinni um að þegja.

"Viljið þér fara með mér?" spurði hún Rischenheim aftur.

"Drotning mín!" sagði hann stamandi, "drotning mín —"

Hún beið við. Ég beið líka, þó að ég ætti bágt með það. Alt í einu féll hann á kné, en dirfðist þó ekki að snerta hönd hennar. Hún gekk sjálf til hans og rétti honum hönd sína og sagði raunalega: "Betur að ég gæti öðlast fyrirgefningu með því að fyrirgefa!"

Rischenheim greip hönd hennar og kysti hana.

"Það var ekki ég," heyrði ég hann tauta. "Rúpert lagði að mér og ég gat ekki staðist áeggjun hans."

"Viljið þér fylgja mér til hallarinnar?" spurði hún og dró að sér höndina brosandi.

"Luzau-Rischenheim greifi," mælti ég með nokkrum þjósti, "veit ýmislegt sem almenningur hefir ekki fengið að vita enn þá."

Hún leit við mér með tignarsvip og nærri því önuglega.

"Það er óhætt að treysta þagmælsku Luzau-Rischenheim greifa," sagði hún. "Við biðjum hann ekki að gera neitt, sem frænda hans verði til meinsemdar. Við æskjum einskis af honum nema þagmælsku."

"En hvaða tryggingu höfum við fyrir henni?" spurði ég og skeytti ekkert um óánægju hennar við mig.

"Drengskaparheit hans, lávarður minn." Ég fann glögt að vanþóknun hennar kom fram í því að hún kallaði mig lávarð, því að hún var alt af vön að kalla mig Fritz, nema við hátíðleg tækifæri.

"Drengskaparorð hans!" - nöldraði ég, — "það er drotning mín sannarlega —"

"Það er von hann segi þetta," greip Rischenheim fram í. "Það er von."

"Nei, það er rangt af honum," sagði drotningin brosandi. "Greifinn stendur við heit, sem hann vinnur mér."

Rischenheim leit til hennar og var í þann veginn að ávarpa hana, en svo sneri hann sér að mér og sagði með lágri röddu:

"Guð veit að ég ætla, Tarlenheim, — ætla að þjóna henni eins vel og mér er auðið."

"Lávarður minn," sagði hún ljúfmenskulega, en þó með raunasvip, "þér léttið byrðina, sem ég hefi að bera, jafnt með aðstoð yðar og því, að ég hefi nú vissu fyrir að heiður yðar skerðist eigi framar fyrir mína skuld. Komið, nú skulum við fara til hallarinnar". Og við hann sagði hún: "Við verðum öll samferða."

Það var ekki um annað að gera en að treysta honum. Ég vissi að hún var ófáanleg til að breyta áformi sínu.

"Ég ætla þá að fara og vita hvort vagninn er til reiðu."

"Já, gerðu það, Fritz," sagði drotningin. En um leið og ég fór fram hjá henni stöðvaði hún mig og hvíslaði: "Láttu hann finna að þú treystir honum." Ég gekk til hans og rétti honum höndina. Hann greip hana og þrýsti að henni.

"Við drengskap minn," sagði hann.

Ég fór út og hitti Bernenstein í fordyrinu. Hann sat þar á bekk. Lífvarðarforinginn var skyldurækinn og athugull maður; hann var að skoða marghleypu sína með mestu nákvæmni.

"Þú getur stungið henni á þig," sagði ég ólundarlega — mér hafði ekki komið til hugar að ég færi að handsala Rischenheim trygðir. "Hann er ekki fangi framar. Hann er nú einn okkar manna."

"Já, hann er það víst, eða hitt þó heldur!"hrópaði Bernenstein og stökk á fætur.

Ég sagði honum í fám orðum hvað fyrir hefði komið, hvernig drotningin hefði fengið manninn, verkfæri Rúperts á sitt band og gert hann að þjóni sínum.

"Ég vona að hann reynist dyggur," sagði ég að lokum, og ég ímyndaði mér það, þó að mig langaði ekkert eftir hjálp frá honum.

Glampi kom í augun á Bernenstein og höndin á honum skalf, þegar hann lagði hana á öxlina á mér.

"Þá er nú enginn eftir nema Bauer," hvíslaði hann. "Enginn nema Bauer, ef Rischenheim er með okkur."

Ég vissi vel við hvað hann átti. Ef Rischenheim þegði, þá væri Bauer eini maðurinn, sem vissi um leyndarmál okkar, fyrir utan Rúpert sjálfan. Já, hann var þá eini maðurinn, sem gat orðið fyrirætlun okkar mikilvægri til tjóns, þessari fyrirætlun, sem okkur varð enn hughaldnari fyrir það, að nú virtist öllum hindrunum rutt úr vegi. En ég varaðist að líta á Bernenstein, því að ég óttaðist að sjást mundi á augnaráði mínu, hve hugsanir mínar komu nákvæmlega saman við hans. Hann var djarfari, eða kæringarlausari, er ef til vill réttara.

"Já, ef við getum bara lokað munninum á Bauer—" hélt hann áfram.

"Drotningin bíður eftir vagni sínum," sagði ég í flýti.

"Já, auðvitað bíður hún eftir vagninum," sagði hann og vék mér við, svo að ég var neyddur til að horfa framan í hann. Svo brosti hann, og fór jafnvel að flissa. "Enginn nema Bauer," sagði hann.

"Og Rúpert," mælti ég önuglega.

"Ó, Rúpert er steindauður nú," sagði hann og ýskraði í honum hláturinn. Að svo mæltu fór hann út úr fordyrinu, og lét þjónana vita, að drotningin væri á leiðinni. Það mátti með sanni segja um Bernenstein, að hann var skemtilegur samsæris-félagi. Jafnaðargeð hans var nærri því eins mikið og Rúdolfs: þar gat ég ekki jafnast á við hann.

Ég ók til hallarinnar með drotningunni og konu minni, en hinir tveir komu í öðrum vagni. Ekki veit ég um hvað þeim fór á milli á leiðinni, en Bernenstein var mjög kurteis við félaga sinn þegar ég fann þá. Kona mín var málhreifust af okkur. Hún lét okkur vita, hvað Rúdolf hefði sagt sér og þannig fengum við vitneskju um ýmislegt, sem við vissum ekki, og hvað hann hafði haft fyrir stafni í Streslau um nóttina, og þegar við komum til hallarinnar vorum við búin að fá að vita um hvert einasta atriði. Drotningin var fámálug. Hugmóðurinn, sem hafði komið í hana þegar hún var að tala við Rischenheim, var nú horfinn, og kvíði og angist gagntóku hana aftur. Mér duldist það ekki, hvað hún var óróleg þegar hún greip alt í einu um höndina á mér og hvíslaði:

"Hann hlýtur að vera kominn til hússins nú."

Leið okkar lá ekki fram hjá húsinu, og við komum til hallarinnar án þess að fá nokkrar fregnir af fjarverandi foringja okkar (ég nefni hann svo, því að við litum svo á öllsömul, að drotningunni meðtaldri, að hann væri það). Hún mintist ekki á hann aftur, en hún leit ekki af mér, og virtist rétt eins og hana langa til að biðja mig um eitthvað; en ég gat ekki vitað hvað það var. Bernenstein var horfinn, og með honum greifinn iðrandi. Ég vissi að þeir voru saman, svo að ég var rólegur. Bernenstein gat litið eftir því, að félagi hans kæmi engum brögðum við. En ég skildi ekki hvað þögult og biðjandi augnaráð drotningarinnar þýddi. Ég brann sjálfur í skinninu eftir að fá fréttir frá Konungsstræti. Nú voru tvær stundir liðnar frá því að Rúdolf skildi við okkur, og engin skeyti höfðu borist frá honum eða um hann. Loks stóðst ég þetta ekki lengur. Drotningin sat, og héldust þær í hendur kona mín og hún; ég hafði setið úti í horni, því að ég ímyndaði mér að þær mundu vilja tala saman einar sér; enn hafði ég þó ekki séð þær talast við eitt einasta orð. Ég spratt upp í flýti og fór til þeirra.

"Þurfið þér mín við, drotning mín, eða get ég fengið leyfi til að víkja mér frá stundarkorn?" spurði eg.

"Hvert ætlarðu að fara, Fritz?" spurði drotningin, og varð hálfhverft við, rétt eins og ég hefði alt í einu komist að hugsunum hennar.

"Til Konungsstrætis," svaraði ég.

"Guð blessi þig, Fritz!" hrópaði hún. "Ég get varla ímyndað mér að ég hefði umborið þetta lengur. En ég vildi ekki biðja þig að fara. Farðu samt, kæri vinur minn, og komdu aftur með góðar fréttir af honum. Ó, Fritz, mér finst eins og mig sé að dreyma gamla drauminn aftur."

Kona mín leit framan í mig. Hún brosti kjarklega, en þó skulfu á henni varirnar.

"Ætlarðu inn í húsið, Fritz?" spurði hún.

"Nei, ekki nema ég sjái að þess þurfi, elskan mín," sagði ég.

Hún kom og kysti mig. "Farðu, ef þín þarf við," sagði hún. Hún reyndi að brosa til drotningarinnar, eins og hún væri fús af leggja mig í hættu.

"Ég hefði getað orðið svona kona, Fritz," hvíslaði drotningin. "Já, ég hefði getað það."

Ég mundi ekki eftir neinu til að segja, og þó ég hefði viljað segja eitthvað, mundi ég varla hafa getað það, þá stundina. Eitthvað það felst í hjálparvana hugrekki kvenna, er gerir mig viðkvæman. Við störfum og stríðum. Þær sitja og bíða. Samt láta þær ekki hugfallast. Ég er nú viss um það, af ef ég yrði að halda kyrru fyrir og velta fyrir mér áræðisverkum, þá yrði ég heigull.

En ég lagði á stað, og skildi við þær báðar saman. Ég fór úr einkennisbúning mínum og í almennan hversdagsfatnað. Skammbyssu stakk ég í treyjuvasa minn. Þannig útbúinn fór ég út og stefndi til Konungstrætis gangandi.

Það var nú komið afhallandi hádegi, og margir voru að snæða miðdegisverð, svo að ekki var mjög mannmargt á strætunum. Eitthvað tveir eða þrír menn þektu mig, en annars var ekkert eftir mér tekið. Engin mannþyrping sást, né ókyrrleiki, og flöggin blöktu hátt fyrir vindinum. Sapt hafði gætt leyndarmáls síns; Streslaubúar héldu að konungurinn væri enn á lífi, og mitt á meðal þeirra. Ég var hræddur um, að vart hefði orðið við Rúdolf á leiðinni, og að fjöldi fólks hefði hnappast saman utan við húsið. En þegar ég kom þangað, voru þar ekki nema tíu, eða ellefu slæpingar að rangla í kring. Ég fór að ganga þar fram og aftur, og reyndi að sýnast svo rólegur, sem mér var mögulegt.

Brátt varð samt breytingar vart. Verkamenn og umsýslumenn voru búnir að borða. Þeir sáust streyma út úr húsum sínum og frá matsöluhúsunum. Slæpingarnir fyrir utan nr. 19 tóku ýmsa þeirra tali. Sumir sögðu "Auðvitað!" hristu höfuðin og héldu áfram. Þeir höfðu engan tíma til að vera að horfa á konunginn. En margir biðu. Þeir kveiktu í vindlum sínum, vindlingum eða pípum, stóðu rabbandi og litu á úrin sín við og við, svo að þeir yrðu ekki of seinir frá miðdegisverði. Hópurinn smástækkaði, þangað til hann skifti hundruðum. Ég nam staðar, því að þröngin var orðin svo mikil á götunni, og stóð utarlega í hópnum. Meðan ég stóð þar, með vindilinn í munninum, fann ég að komið var við öxlina á mér. Ég leit við, og sá lífvarðarforingjann. Hann var í einkennisbúningi. Með honum var Rischenheim.

"Ert þú hér líka?" spurði ég. "Jæja, það hefir víst ekkert komið fyrir, sýnist mér."

Þess sáust engin merki, að neinn byggi í nr. 19. Hlerarnir voru lokaðir og dyrnar líka. Búðin var lokuð þann daginn.

Bernenstein hristi höfuðið og brosti. Förunautur hans sinti því engu, sem ég sagði. Honum var auðsjáanlega mjög órótt, og aldrei hafði hann augun af dyrunum. Ég var rétt í þann veginn að tala til hans, þegar ég kom alt í einu auga á mannshöfuð í hópnum, er athygli mín drógst strax að.

Maðurinn, sem ég sá, hafði barðastóran brúnan hatt á höfðinu. Hattinum var þrýst langt ofan á ennið, en samt glitti í hvítt bindi undir hattbarðinu. Ég gat ekki séð framan í hann, en mér fanst ég kannast við kúlumyndaða höfuðið. Ég þóttist vera viss um það frá því ég rak fyrst augun í manninn, með bindið um höfuðið, að þetta væri Bauer. Ég mintist ekkert á þetta við Bernenstein, en fór að laumast fram með mannþyrpingunni. Á leiðinni heyrði ég einhvern segja, að það væri alt tóm vitleysa, að konungurinn væri þar. Hvað átti konungurinn að vera að gera í öðru eins húsi? Einn letinginn, sem slæptist þarna í kring, fann ástæðu til að svara þessu. Hann sagðist játa það, að hann vissi ekki hvern fjandann konungurinn væri að gera þarna, en um það væri hann viss, að konungurinn eða lifandi líking hans hefði farið þarna inn, en ekki út aftur. Mig langaði til að gera kunnugt hver ég væri, og telja þá á að fara burtu; en nærvera mín hefði meir en vegið upp á móti fortölum mínum, og hún hefði verið, skoðuð víst merki þess, að konungurinn væri í húsinu. Ég hélt því áfram utan til í hópnum, og stefndi með hægð að mannshöfðinu með bindið. Bauer hafði augsýnilega eigi meiðst svo mikið, að hann hefði ekki getað losnað úr varðhaldinu, sem lögregluþjónarnir fóru með hann í. Nú var hann kominn til at sjá hver endir yrði á heimsókn Rúdolfs í húsinu á Konungsstræti, alveg eins og ég.

Hann hafði ekki komið auga á mig, því að hann horfði eins fast á nr. 19 eins og Rischenheim. Auðsætt var að hvorugur þeirra hafði séð annan. Annars hefði mátt sjá ókyrrleika á Rischenheim og æsing í Bauer. Ég smaug í flýti þangað sem þjónn minn fyrverandi stóð. Mér var fast í huga að ná í hann. Ég gat ekki gleymt ummælum Bernensteins: "Enginn nema Bauer!" Ef ég gæti náð í Bauer, þá væri öllu óhætt. Hverju var óhætt? Ég svaraði sjálfum mér ekki upp á þá spurningu, en gamla hugmyndin sótti fast á mig. Leyndarmálinu var óhætt, og okkur þá óhætt með ráðagerð okkar, ráðagerðina, sem okkur var öllum jafnrík í huga, bæði okkur í borginni og þeim í skothúsinu.

Líflát Bauers, handtaka hans, þögn hans, mundi verða til að hrinda helstu tálmununum úr vegi, hvernig sem þessu yrði komið í verk.

Bauer glápti í sífellu á húsið; ég laumaðist með varkárni aftan að honum. Hann hafði aðra höndina í buxnavasa sínum, og ég stakk handleggnum þar inn í handarkrika hans og tók föstu taki. Þá sneri hann sér við og leit á mig.

"Svona sjáumst við þá aftur," sagði ég.

Fyrst féll honum allur ketill í eld, og hann glápti á mig bjálfalega.

"Ert þú líka að vonast eftir að sjá konunginn?" spurði ég.

Nú fór hann að átta sig. Slægðarbross vottur fór að breiðast yfir andlitið á honum.

"Konunginn" spurði hann.

"Já, er hann ekki í Streslau?"

Bauer veik til handleggnum, eins og hann langaði til að losast við mig. En ég hélt fast.

"Hvar er ferðataskan mín?" spurði ég.

Ég veit ekki hverju hann hefði svarað, því að samstundis heyrðist háreysti innan við dyrnar í húsinu lokuðu. Það virtist eins og einhver hlypi í flýti til dyranna. Svo heyrðist skrækróma öskur, það var öskur í kvenmanni, en harðneskjulegt og grimmilegt. Því var svarað með gremjuhrópi ungrar stúlku. Ég slepti handleggnum á Bauer og stökk fram uppvægur af forvitni. Ég heyrði að skríkti í honum, og leit við; þá sá ég að höfuðið með bindinu var á hraðri ferð niður eftir strætinu. Nú hafði ég engan tíma til að líta eftir honum, því ég sá tvo menn hvorn á eftir öðrum troðast gegn um mannþröngina. Þeir skeyttu ekkert um hver fyrir þeim varð, eða á hvern þeir rákust eða hrintu. Þetta voru lífvarðarforinginn og Rischenheim. Hiklaust fór ég að brjótast áfram. Þeir mjökuðust áfram og ég líka. Allir þokuðu til fyrir okkur, ýmist með beinum mótþróa, eða óttablandinni tilhliðrunarsemi. Við þrír vorum næstir dyrunum, þegar þær voru rifnar opnar og stúlka kom þjótandi út. Hárið á henni var alt úfið, hún var náföl og augun full af skelfingu. Hún staðnæmdist á þrepskildinum frammi fyrir mannfjöldanum, er þegar í stað óx, svo að hann þrefaldaðist eins og af töfrakrafti. Stúlkan vissi naumast hvað hún gerði, en æpti hástöfum yfirkomin af hræðslu:

"Hjálp! hjálp! Konungurinn! Konungurinn!"

XVII. KAPÍTULI.

Oft sé ég Rúpert í anda standandi þar sem Rischeinheim skildi við hann, bíðandi eftir sendiboða sínum, og vera að líta eftir einhverju merki, sem gæfi Streslaubúum til kynna dauða konungsins, er látið hafði líf sitt fyrir honum. Ímynd hans geymist í huga manns skýr og óhögguð, þó að endurminning um meiri menn og betri dofni, og ástand hans þá um morguninn er nægilegt efni til heilabrota. Að undanskildum Rischenheim, sem heita mátti brotinn reyr, og Bauer, sem enginn vissi hvar var, stóð hann einn uppi móti konungsríkinu, sem hann hafði svift foringja sínum, og einn uppi móti flokki hugdjarfra manna, sem aldrei mundu fá frið né ró meðan hann væri lifandi. Til varnar hafði hann ekki annað, en skjótráðan huga, hugrekki, og leyndarmál sitt. Flúið gat hann ekki — hann var félaus meðan fé kom ekki frá frænda hans —, og hvenær sem væri gátu óvinir hans gert heyrinkunnan dauða konungs, og sigað borgarbúum á hann (Rúpert). Engrar fyrirgefningar er af slíkum mönnum að vænta; en vera má að hann hafi séð eftir því fyrirtæki, sem hafði leitt hann svo langt og neytt hann til svo eftirminnilegs ofbeldisverks; en nær mun þeim, sem þekti hann, vera að ætla, að brosið hafi glaðnað á vörum hans, þykkum og þóttalegum, er hann horfði ofan yfir borgina og íbúa hennar, sem ekkert vissu. Ég þori að segja, að ég hefði ekki borið af honum, en þó vildi ég óska, að ég hefði getað átt við hann þarna. Sjálfan hann hefði ekki langað til þess; því að ég ímynda mér, að honum hafi ekkert verið hughaldnara, en að eiga vopnaviðskifti við Rúdolf Rassendyll, og hætta lífi sínu í þeirri viðureign.

Niðri í húsinu var gamla konan að elda kjöt til miðdegisverðar. Öðru hvoru var hún að tauta við sjálfa sig, að Luzau-Rischenheim væri helst til lengi í burtu, og Bauer þorparinn mundi liggja augafullur á einhverri knæpunni. Eldhúsdyrnar stóðu opnar, og inn um þær mátti sjá Rósu, ungu stúlkuna, vera að þvo tiglagólfið í ákafa. Hún var rjóð í framan og augun tindruðu; við og við leit hún upp úr þvottinum og virtist vera að hlusta. Nú var komið fram yfir þann tíma sem hún átti að hjálpa konunginum, en hann var ekki kominn. En hvað gamla konan vissi lítið um það eftir hverjum hún var að hlusta! Gamla konan hafði alt af verið að tala um Bauer – hversvegna Bauer hefði ekki komið og hvað komið hefði getað fyrir hann. Það var dýrðlegt að varðveita leyndarmál konungsins, og hún ætlaði að leggja líf sitt í sölurnar fyrir það; hann hafði verið svo góður og alúðlegur við hana. Hún mat hann meira en nokkurn annan mann í Streslau. Bauer var lítilmenni; Hentzau greifi var fríður sýnum, en fríðleikurinn var djöfullegur. Konungurinn var maður eftir hennar höfði; fyr vildi hún lífið láta, en að honum yrði mein gert.

Vagnskrölt heyrðist úti fyrir — skrölt af vagni, sem var ekið hratt. Vagninn virtist stanza æðispöl frá dyrunum og því næst var ekið fram hjá þeim. Stúlkan lyfti upp höfðinu, en gamla konan hélt áfram við kjötsuðuna og tók ekki eftir neinu. Stúlkan gat heyrt fótatak úti fyrir. Loksins heyrði hún það, sem hún hafði beðið eftir, þungt högg og fimm smærri á eftir. Þetta heyrði gamla konan; hún slepti skeiðinni í pottinum, tók hann af eldinum, sneri sér við og sagði: "Þarna kemur hann loksins, ræfillinn! Opnaðu fyrir honum, Rósa!"

Rósa var lögð á stað fram ganginn, áður en hún tók til máls. Hurðinni var lokið upp og lokað aftur. Gamla konan vaggaði fram í eldhúsdyrnar. Það var dimt í fordyrinu og búðinni, því að hlerarnir voru aftur, en maðurinn, sem stóð við hliðina á Rósu var hærri en Bauer.

"Hver er þetta?" hrópaði Mrs. Holf snúðuglega. "Búðin er lokuð í dag. Þú getur ekki komist inn."

"Ég er nú kominn inn," var svarað og í því gekk Rúdolf til hennar. Stúlkan kom á eftir. Hún spenti greipar og augun tindruðu af geðshræringu. "Þekkirðu mig ekki?" spurði Rúdolf og staðnæmdist fyrir framan gömlu konuna brosandi.

Mrs. Holf stóð alveg höggdofa í dimma og lága ganginum. Hún hafði heyrt söguna um Mr. Rassendyll; hún vissi að hann var kominn aftur til Rúritaníu; henni datt því ekki í hug af furða sig á því, að hann væri Streslau; en hún vissi ekki að Rúpert hafði drepið konunginn, og hún hafði ekki séð konunginn nærri sér eftir að hann var veikur og skeggið, sem hann hafði þá, hafði helst dregið úr ásýndarlíkingunni undrunarverðu. Og það er skemst frá að segja, að hún vissi alls ekki, hvort heldur konungurinn var að tala við hana, eða hinn maðurinn, sem konunginum var svo nauðalíkur.

"Hver ert þú?" spurði hún í styttingi og hvatskeytslega, því henni varð mjög hverft við.

Stúlkan greip fram í og hló ánægjulega.

"Æ, þetta er -" Hún þagnaði. Það gat verið, að konungurinn vildi ekki láta segja til sín.

Rúdolf kinkaði kolli til hennar. "Segðu henni hver ég er," sagði hann.

"Æ, þetta er konungurinn, mamma," hvíslaði Rósa hlæjandi og kafrjóð. "Konungurinn, mamma."

"Já, ef konungurinn er, á lífi, þá er ég hann," sagði Rúdolf. Ég býst við að hann hafi viljað komast að því, hvað mikið gamla konan vissi.

Hún svaraði engu, en starði framan í hann. Í felmtrinu gleymdi hún að spyrja hvernig hann hefði komist að inngöngumerkinu.

"Ég er kominn til að finna Hentzau greifa," hélt Rúdolf áfram." Fylgið mér strax til hans."

Gamla konan hljóp strax fram fyrir hann og staðnæmdist þar þrákelknislega og setti hendurnar á mjaðmirnar.

"Það getur enginn séð greifann. Hann er hér ekki," hreytti hún út úr sér.

"Hvað þá? Getur konungurinn ekki fengið að sjá hann? Ekki einu sinni konungurinn."

"Konungurinn?" hrópaði hún og blíndi á hann. "Eruð hér konungurinn?"

Rósa rak upp hlátur.

"Mamma; þú hlýtur að hafa séð konunginn hundrað sinnum," sagði hún.

"Já, konunginn, eða vofu konungsins. Gerir það nokkurn mun?" sagði Rúdolf léttilega.

Gamla konan hrökk aftur á bak og varð reglulega skelkuð.

"Vofu hans? Er hann —"

"Vofu hans," tísti í stúlkunni flissandi. "Þetta er konungurinn sjálfur, mamma. Þér eruð ekkert sérlega líkur vofu, herra minn."

Mrs. Holf var nú farin að ná sér aftur, og hún horfði nú hvassara en áður. Ef til vill var hún farin að renna grun í að eitthvað hefði komið fyrir konunginn, og koma þessa manns stæði í sambandi við það, – þessa manns, sem var lifandi eftirmynd, og hefði vel getað verið vofa konungsins. Hún hallaði sér upp að dyrastafnum og brjóstið á henni gekk upp og niður undir kjólgarminum hennar. En var þetta nú samt ekki konungurinn?

"Guð hjálpi okkur," tautaði hún í mesta of boði.

"Hann hjálpar okkur, vertu óhrædd," sagði Rúdolf Rassendyll. "Hvar er Rúpert greifi?"

Stúlkan hafði orðið skelkuð við að heyra til móður sinnar.

"Hann er uppi á efsta lofti í húsinu, herra minn," hvíslaði hún með skjálfandi röddu, og augun hvörfluðu frá óttaslegna andlitinu á móður hennar og til Rúdolfs, sem var rólegur og brosandi.

En honum nægði það, sem hún sagði. Hann smaug fram hjá gömlu konunni og fór að fara upp stigann.

Þær horfðu báðar á eftir honum, Mrs. Holf eins og steini lostin af undrun, en stúlkan kvíðafull, en þó fagnandi, því að hún hafði nú komið því í verk, sem konungurinn bað hana. Rúdolf var nú kominn upp á neðstu loftsbrúnina og hvarf sjónum þeirra. Gamla konan staulaðist aftur inn í eldhúsið, nöldrandi og nuddandi eitthvað. Hún setti kjötið sitt aftur á eldinn, og starði í logann án þess að hugsa nokkuð um pottinn. Stúlkan horfði á móður sína um stund, og var að furða sig á því að hún skyldi geta verið að hugsa um kjötið, og vissi ekki að gamla konan hrærði í pottinum alveg eins og utan við sig; því næst lagði Rósa á stað upp stigann, hratt og hljóðlega á eftir Rúdolf Rassendyll. Hún leit einu sinni við, og sá þá, að gamla konan starði fram fyrir sig eins og áður og feiti handleggurinn á henni hélt áfram sömu reglulegu hringferðarhreyfingunni eins og áður. Rósa hélt svo áfram hálfbogin upp stigann, þangað til hún sá konunginn, sem henni fanst svo mikið til um að þjóna. Hann var nú kominn upp á efsta loftið og og að hurðinni á stóra loftherberginu, sem Rúpert Hentzau var inni í. Hún sá að hann tók annari hendinni um hurðarsnerilinn, en hina hafði hann í treyjuvasa sínum. Inni í herberginu var alt hljótt. Rúpert hefir líklega heyrt fótatakið úti fyrir og stóð grafkyr og verið að hlusta. Rúdolf opnaði dyrnar og fór inn. Stúlkan þaut í ofboði upp efstu tröppurnar, og kom að hurðinni rétt um leið og hún skall í lás. Hún kraup niður og fór að hlusta eftir því sem fram fór inni fyrir, og reyna að sjá hvað gerðist inn með hurðinni, því hún var forn og féll illa, og líka voru rifur á þilinu, sem hún gat gægst inn um.

Rúpert Hentzau var ekki að hugsa um vofur; þeir menn, sem hann lagði að velli, lágu kyrrir eftir að þeir féllu, og hvíldu þar sem þeir voru greftraðir. Og hann furðaði sig ekkert á því að sjá Rúdolf Rassendyll. Hann sá á því, að erindi Rischenheims hafði mishepnast. Yfir því undraðist hann ekki. Hitt var honum (eftir því sem ég ímynda mér) meira ánægju en hrygðarefni, að sjá framan í fornan fjandmann sinn. Þegar Rúdolf kom inn stóð Rúpert á gólfinu mitt á milli gluggans og borðsins; hann færði sig svo nær borðinu og drap tveim fingrum á plötuna ómálaða og óhreina.

"Ó, það er leikarinn!" sagði hann og brosti við svo að skein í tennurnar, og stakk hægri höndinni í vasann eins og Rúdolf.

Rúdolf hafði sjálfur játað það áður fyrri, að honum hefði þá jafnan runnið í skap þegar Rúpert kallaði hann leikara. Hann var nú orðinn eldri og hafði betra taumhald á tilfinningum sínum.

"Já, það er leikarinn," svaraði hann brosandi, "en nú er það ekki nema stutt hluterk, sem hann hefir að leika."

"Hvert er hlutverkið nú? Er það ekki það gamla, að leika konunginn með pappírskórónuna?" spurði Rúpert og settist á borðið. "Það er ekki ólagið á hérna í Rúritaníu: þú hefir náð í pappírskórónu, og ég, (ekki meiri maður en ég er) hefi hjálpað hinum til at öðlast himneska kórónu. En hvað það er dásamlegt! En kannske ég sé að segja þér nýjar fréttir?"

"Nei, ég veit hvað þú hefir gert."

"Ég þakka mér þetta ekki. Það er eiginlega meira hundinum að þakka heldur en mér," sagði Rúpert kæruleysislega. "En samt hefir þessu verið komið í verk, og úrslitin orðið þau, að hann er dauður. En hvert er erindi þitt, leikari"

Þegar hann endurtók þetta síðasta orð, sem stúlkan utan við dyrnar átti svo bágt með að skilja, fór hún að horfa enn fastar inn um rifuna og hlusta enn vandlegar. Við hvað átti greifinn, þegar hann var að tala um þenna "hinn" og "himneska kórónu."

"Hversvegna kallar þú mig ekki konungsnafninu?"

"Kalla þeir þig konung hér í Streslau?"

"Já, þeir sem vita, að ég er hér."

"Og þeir eru —?"

"Nokkrir tugir manna."

"Og þessvegna er það, að friður hvílir yfir borginni og fánar blakta dregnir á hún," sagði Rúpert og veifaði hendinni út að glugganum.

"Hefir þú verið að bíða eftir að þeir yrðu dregnir niður?"

"Öllum er svo farið, að þá langar til að það sé að einhverju haft, sem þeir gera," svaraði Rúpert. "En ég get að vísu fengið þá dregna niður þegar mér sýnist."

"Með því að segja fréttirnar. Skyldi það vera holt fyrir sjálfan þig?"

"Ég bið afsökunar — en það var ekki meining mín. Af því, að konungurinn er gæddur tveimur lífum, þá hlýtur hann að verða að deyja tvisvar."

"Og þegar hann er dáinn í annað sinn?"

"Þá fæ ég að lifa í friði, vinur minn, á vissum tekjum af eignum, sem ég á sjálfur," Svo drap hann fingrunum á brjóstvasa sinn og hló stuttan ögrandi hlátur. "Á þessum tímum," mælti hann, "verða jafnvel drotningarnar að fara varlega í bréfaskriftum. Við lifum á siðmenningaröld."

"En þú berð ekki ábyrgðina á því," sagði Rúdolf brosandi.

"Ég leyfi mér að mótmæla því með hægð. En hvert er erindi þitt, leikari? Mér finst þú helst til leiðinlegur."

Rúdolf varð þungbúinn á svipinn. Hann gekk að borðinu og sagði með lágri og alvarlegri röddu:

"Lávarður minn, þú stendur nú aleinn í þessu máli. Rischenheim er fangi; en fyrir óþokkanum Bauer, leigutóli þínu, sá ég í nótt, og molaði hausinn á honum."

"Á, gerðirðu það?"

"Þú veist hvað það er, sem þú geymir í fórum þínum. Ef þú lætur það af hendi, þá lofa ég því við drengskap minn að gefa þér líf."

"Þig þyrstir þá ekki í blóð mitt, fyrirgefningarfúsi leikari?"

"Ekki svo mikið, að ég geti ekki boðið þér líf," svaraði Rúdolf Rassendyll. "Heyrðu, herra minn, ráðabrugg þitt hefir mishepnast, láttu bréfið af hendi.

Rúpert starði á hann hugsandi. "Ætlarðu að sjá um að ég komist með heilu og höldnu á braut, ef ég fæ þér það?" spurði hann.

"Ég skal sjá um að þú verðir ekki drepinn. Já, og ég ætla að annast það að koma þér burt ósköddum."

"Hvert?"

"Yfir í kastala, þar sem trúverðugur maður verður látinn gæta þín."

"Hvað lengi, vinur minn?"

"Ég býst við æði mörg ár, kæri greifi."

"Líklega þá, eins lengi og —?"

"Forsjóninni þóknast að láta þig dvelja hér í heimi, greifi. Það er ógerningur að sleppa þér lausum."

"Er þetta þá tilboðið?"

"Hámark hlífðarseminnar er þetta," sagði Rúdolf.

Rúpert rak upp hlátur, hálf ögrandi, en hvellan af kátínu. Svo kveikti hann í vindlingi og sat um stund reykjandi og brosti.

"Það væri ekki rétt af mér að nota mér svo mjög velvild þína," sagði hann; og til að sýna Mr. Rassendyll hve mjög hann fyrirliti hann, og hve honum leiddist nærvera hans, teygði hann báða handleggina með hæðnislegri óskammfeilni upp fyrir höfuðið, eins og menn gera stundum þreyttir eða í leiðindum. "O - ó - ó!" sagði hann geispandi.

En í þetta skifti reiknaðist honum ekki rétt til. Rúdolf tók snögt viðbragð og stökk að honum. Hann tók um úlnliðina á Rúpert, og kendi þá aflsmunar svo að hann fékk beygt greifann aftur á bak þangað til hann lá flatur á borðinu. Hvorugur mælti orð frá munni; þeir heyrðu andardráttinn hvor í öðrum og fundu volgan andann leggja framan í sig. Stúlkan úti fyrir hafði getað séð hreyfingar Rúdolfs, en nú gat hún ekki séð þá gegn um rifuna: sem hún sat við. Hún kraup enn betur niður í þreyjulausri eftirvænting. Hægt og hægt fór Rúdolf að þoka höndum mótstöðumanns síns hvorri að annarri. Rúpert las út úr svip hans hvað hann ætlaði sér og streyttist á móti af öllu afli. Það var rétt eins og handleggirnir á honum ætluðu að brotna sundur, en loks fórst þeir að þokast saman, þumlung eftir þumlung; nú námu úlnliðirnir hvor við annan. Sviti spratt á enni greifans og draup niður brýrnar á Rúdolf. Úlnliðirnir láu nú saman, og löngu sterklegu fingurnir á hendi Rúdolfs, sem hann hafði spent um úlnlið Rúperts, fóru að smáfærast yfir hinn úlnlið greifans. Það var eins og handleggirnir á Rúpert hefðu dofnað til hálfs af átakinu, og umbrotin í honum fóru nú að verða minni. Sterku fingurnir mjökuðust alveg utan um báða úlnliðina og kreistu þá saman. Svo var smálinað á takinu með annari hendinni og loks alveg slept. Skyldi Rúdolf geta haldið báðum höndum greifans með annari hendi? Rúpert herti sig nú alt hvað hann gat til að reyna það. Bros á vörum Rúdolfs gaf svarið til kynna. Hann gat haldið báðum höndum með annari hendi. Ekki lengi, nei, að eins stundarkorn. En þá, þegar vinstri hendin loksins var laus, greip hann henni í treyjubarm greifans. Rúpert var í sömu treyjunni og þegar hann kom til skothússins, og hún var rifin og táin eftir villigaltahundinn. Rúdolf hnepti treyjunni frá honum í snatri og teygði hendina inn undir boðunginn.

"Djöfullinn steiki þig!" öskraði Rúpert Hentzau.

En Mr. Rassendyll brosti alt af. Rétt á eftir kipti hann upp bréfinu. Hann leit sem snöggvast á það og þekti innsigli drotningarinnar. Um leið gerði Rúpert nýja tilraun til að losa sig. Mr. Rassendyll var nú orðinn uppgefinn í hendinni, og misti af takinu, og hann hafði að eins tíma til að hopa frá með herfang sitt. Jafnskjótt greip hann til skammbyssunnar og mátti það ekki seinna vera, því að Rúpert Hentzau miðaði á hann marghleypu sinni, og þannig stóðu þeir hvor á móti öðrum, og voru ekki nema þrjú eða fjögur fet á milli skammbyssu-kjaftanna.

Satt er það, að margt mátti finna Rúpert Hentzau til foráttu, og vegna þess hversu hann var í raun veru, þá var erfitt að láta hann njóta þeirrar sanngirni í dómum, sem ætlast er til að sýnd sé öðrum mönnum. En hvorki ég eða neinn annar, sem þekti hann, varð þess nokkurn tíma var, að hann brysti hug í hættu, eða óttaðist dauða sinn. Engin þvílík tilfinning aftraði honum í þetta sinn, heldur róleg yfirvegun á því, hvað best mundi fyrir hann að gera. Jafnvel þó að hann sigraði í þessu einvígi, og þeir féllu ekki báðir, þá mundi hávaðinn af skotunum verða honum til mikils farartálma. Á það var og að líta að hann var nafnfrægur skilmingamaður, og ímyndaði sér, að hann væri Mr. Rassendyll snjallari í þeirri íþrótt. Ef barist væri með sverðum taldi hann sér bæði sigurinn vísan og undankomu öruggari, og fyrir því hleypti hann ekki af skotinu, en tók til máls og hélt þó byssunni í sigti:

"Ég er enginn slátrara-durgur, og legg ekki þesskyns óþverraverk í vanda minn. Vilt þú berjast eins og manni sæmir? Þarna eru sverð niðri í kassanum."

Mr. Rassendyll sá hins vegar gerla háskann, sem vofði enn yfir drotningunni. Þó að Rúpert væri drepinn, þá var hún eigi laus úr háskanum, ef hann sjálfur yrði skotinn og félli dauður, eða særðist svo mikið, að hann gæti ekki eyðilagt bréfið; og þess var enginn kostur, að hann gæti nú rifið það sundur, eða komið því í eldinn, er logaði í arninum hinu megin í herberginu, þar sem Rúpert miðaði byssunni á hann í hjartastað. Hann var heldur ekkert hræddur við að berjast með sverði, því að hann hafði æft sig stöðugt og farið mikið fram frá því að hann kom fyrst til Streslau.

"Sem þér sýnist," svaraði hann. "Ef við að eins bindum enda á þessa deilu hér og á þessari stundu, þá er mér sama hvernig farið er að því."

"Fleygðu þá skammbyssunni þinni á borðið, og ég skal svo leggja mína þar á eftir."

"Ég verð að biðja þig afsökunar," svaraði Rúdolf brosandi, "en þú verður að leggja þína frá þér fyrst."

"Það lítur út fyrir að ég eigi að treysta þér, þó þú þorir ekki að treysta mér!"

"Alveg rétt! Þú veist, að þér er óhætt að treysta mér, og hitt veistu jafnvel, að ég get ekki treyst þér."

Blóðið þaut fram í kinnarnar á Rúpert. Það kom fyrir, að hann gat séð á svip manna eins og í spegli, eða skilið á orðum þeirra, hvaða virðingu heiðvirðir menn báru fyrir honum; og ég ímynda mér að hann hafi hatað Mr. Rassendyll hvað mest fyrir það, að hann átti öðrum mönnum hægra með að sýna honum þá mynd. Hann hniklaði brýrnar og beit á jaxlinn.

"En þó að þú skjótir nú ekki, þá eyðileggurðu bréfið," hreytti hann út úr sér. "Mér er ekki ókunnugt um göfuglyndi þitt."

"Ég verð enn á ný að biðja þig afsökunar. Þú ert sjálfur þess fullvís, að þó að allir Streslaubúar stæðu við dyrnar, þá mundi ég ekki snerta við bréfinu."

Þá fleygði Rúpert skammbyssunni á borðið, bölvandi af gremju. Rúdolf gekk því næst að borðinu og lagði sína skammbyssu þar líka. Svo tók hann báðar upp og bar þær yfir að arninum og lagði þær á arinhylluna. Eldurinn skíðlogaði á arninum. Ekki hefði hann þurft nema að víkja hendinni ofurlítið til og láta bréfið falla í eldinn. En hann lagði það stillilega á arinhylluna, sneri sér svo að Rúpert, brosti ofurlítið og sagði; "Eigum við þá ekki að ljúka við leikinn þann, sem Fritz Tarlenheim tókst að skakka í Zenda-skóginum forðum?"

Alt að þessu höfðu þeir ræðst við í hljóði. Rödd annars alvarleg, hins þrungin gremju. En báðir höfðu með vild gætt þess að tala lágt. Stúlkan utan við dyrnar heyrði að eins orð og orð á stangli: nú sá hún alt í einu gegn um rifuna glampann af vopnunum. Hún stundi þungan og ýtti sér enn fastar að rifunni og skimaði þar og hlustaði. Nú hafði Rúpert Hentzau tekið sverðin úr kassanum og lagt þau á borðið. Rúdolf hneigði sig lítið eitt og tók annað og svo settu þeir sig í stellingar. Þá stakk Rúpert alt í einu niður sverðsoddinum. Gremjusvipurinn hvarf af andliti hans og hann fór að tala í hæðnisróminum, sem honum var svo eiginlegur.

"Eftir á að hyggja," mælti hann, "þá erum við ef til vill að láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur. Hefirðu meiri kjark nú til að verða konungur í Rúritaníu? Ef svo er, þá er ég reiðubúinn til að verða einn þinna dyggustu þegna."

"Þú gerir mér mikla sæmd, greifi."

"En það er þeim skilyrðum bundið, að ég verði einhver sá mest virti og ríkasti. Líttu nú á, flónið er dautt; hann lifði eins og flón og dó eins og flón, Sætið er autt. Dauðir menn eru réttindalausir, og finna ekki til mótgerða. Svei mér þá, þetta er heilbrigð lífsskoðun; finst þér ekki? Þú skalt eignast ríki hans og drotningu. Síðan getur þú borgað mér það sem ég set upp. Eða ertu enn þá jafnveglyndur og áður. En hvað sumir menn læra lítið á reynslunni af að lifa í þessum heimi! Ef ég stæði í þínum sporum —"

"Heyrðu, greifi! Ég mundi síst allra manna treysta þér, Rúpert Hentzau."

"En ef ég gæti nú sýnt, að það væri óhætt?"

"Það yrði aldrei óhætt. Hann mundi taka við kaupi sínu, og svíkja lánardrottinn sinn."

Rúpert roðnaði á ný. Þegar hann tók aftur til máls, var röddin harðneskjuleg, kuldaleg og lág.

"Það veit guð, Rúdolf Rassendyll," sagði hann, "að ég skal drepa þig hér á þessari stundu."

"Ég er ekki að fást um þó þú reynir það."

"Og að því búnu skal ég opinbera fyrir Streslaubúum, hvaða kvensnipt þeir hafa fyrir drotningu," Hann brosti og aðgætti Rúdolf vandlega.

"Verðu þig, lávarður minn," sagði Mr. Rassendyll.

"O, já, fyrir ekki meiri — Jæja, ég er tilbúinn." Rúdolf sló þá um leið sverði sínu við hans til að vara hann við.

Svo smullu sverðin glamrandi saman. Föla andlitið á stúlkunni var fast við rifuna á hurðinni. Hvað eftir annað heyrði hún sverðunum höggvið saman. Þau strukust svo á mis hvort upp eftir öðru og söng í hátt. Stundum sá hún bardagamönnunum bregða fyrir, ýmist þjótandi áfram í áhlaupi eða hopandi snarlega undan höggunum. Hún var við að falla í ómegin. Vegna þess að hún þekti ekki áræði og skapferli Rúperts gat henni ekki skilist það, að hann gæti verið að gera tilraun til að drepa konunginn. Samt höfðu orðin, sem hún hafði heyrt, virst bera vott um, að mennirnir væru að deila, en hún gat ekki skilið í því að jafntignir menn væru að berjast að gamni sínu. Nú voru þeir hættir að tala; en hún heyrði andardrátt þeirra harðan og óðan, og tíða fótatakið á ábreiðulausum gólffjölunum. Því næst heyrði hún hátt og skýrt hróp, þrungið af æstri sigurvon:

"Nærri því! Nærri því!"

Hún þekti rödd Rúperts Hentzau, og konungurinn svaraði: "Nærri því er ekki alveg."

Aftur fór hún að hlusta. Það leit út fyrir, að þeir hefðu tekið hvíld, því að enginn skarkali heyrðist, nema tíður andardráttur, eins og más í mönnum eftir afarmikla áreynslu. Því næst heyrði hún aftur sverðshöggin og vopnaglamrið, og annar bardagamaðurinn kom fyrir rifuna, svo að hún sá hann. Hún þekti að það var konungurinn. Hann virtist hopa aftur á bak, fet eftir fet, og færðist alt af nær og nær dyrunum. Loks var hann ekki nema svo sem fet frá stúlkunni. Þilgarmurinn hamlaði því að eins, að hún gæti náð til hans með hendinni. Aftur heyrði hún Rúpert hrópa með æðislegum fögnuði: "Nú á ég allskostar við þig. Farðu að lesa bænir þínar, Rúdolf konungur!"

"Farðu að lesa bænir þínar!" Þeir héldu áfram að berjast. Það var í alvöru en engu gamni. Og konungurinn — konungurinn hennar — konungurinn, sem henni var svo einstaklega kær — var þarna í voðalegri hættu. Hún lá enn um stund á hnjánum og horfði á þá. En svo rak hún upp lágt vein, spratt upp og hljóp sem fætur toguðu ofan stigann. Hún gerði sér ekki grein fyrir hvað hún ætti að gera, en samvizka hennar sagði henni að hún yrði að reyna að hjálpa konunginum. Þegar hún var komin niður neðsta stigann, hljóp hún með æðisglampa í augunum inn í eldhúsið. Potturinn var yfir eldinum og gamla konan hélt enn á skeiðinni, en hún var hætt að stara og hafði hnigið ofan á stól.

"Hann er að drepa konunginn! Hann er að drepa konunginn!" hrópaði Rósa, og þreif í handlegginn á móður sinni. "Hvað eigum við að gera, mamma? Hann er að drepa konunginn!"

Gamla konan leit upp róleg, og brosti slægðarlega.

"Við skulum ekki skifta okkur af þeim," sagði hún. "Það er enginn konungur hér."

"Jú, jú. Hann er uppi í herbergi greifans. Þeir eru að berjast, hann og Hentzau greifi. Rúpert drepur hann, mamma!"

"Við skulum ekkert skifta okkur af þeim. Heldurðu að hann sé konungur? Já, sá er nú konungur," tautaði gamla konan aftur.

Rósa stóð svo sem andartak og starði á hana ráðalaus og í örvæntingu. En svo brá alt í einu fyrir glampa í augum hennar.

"Ég verð að kalla á hjálp," sagði hún.

Þá var eins og gamla konan vaknaði af svefni. Hún spratt upp og greip í öxlina á dóttur sinni.

"Nei, nei!" hrópaði hún og bar ótt á. "Þú - þú veist ekki. Skiftu hér ekkert af þeim, kjáninn þinn! Þér kemur þetta ekkert við. Skiftu þér ekkert af þeim."

"Lof mér að fara, mamma! Lof mér að fara. Mamma, ég verð að hjálpa konunginum!"

"Ég ætla hvergi að láta þig fara," sagði Mrs. Holf.

En Rósa var ung og þrekmikil; hún var hálfóð af hræðslu, því að konungurinn var í hættu staddur.

"Ég verð að fara," hrópaði hún, og svo sleit hún sig af móður sinni, svo snögt, að gamla konan hentist aftur á bak á stólinn og skeiðin hraut úr hendinni á henni og glamraði við gólfið. En Rósa hljóp fram ganginn og gegnum búðina. Slagbrandurinn tafði hana, en henni tókst að ná honum frá, þó hún skjálfhent væri. Svo reif hún opna hurðina upp á gátt. Þá brá henni heldur en ekki við að sjá allan mannfjöldann úti fyrir. En svo kom hún auga á mig, þar sem ég stóð á milli Rischenheims og lífvarðarforingjans, og þá rak hún upp æðisgengna ópið: "Hjálp! Konungurinn!"

Ég brá hart við og var á svipstundu kominn að hliðinni á henni, inn í húsið; en Bernenstein hrópaði fyrir aftan mig: "Flýttu þér!"

XVIII. KAPÍTULI.

Það sem menn kalla fyrirboða, hugboð og því um líkt, er að mínu áliti hugarburður einn; orsök slíks er stundum sú að eins að sennilegir atburðir renna mönnum eðlilega í hug, og hjátrúarkend ímyndun gerir svo úr þeim guðlega aðvörun; oftar á þetta samt rót sína að rekja til sömu löngunarinnar, er krefst þess, að lokið sé við hafið starf, og draumsjónamaðurinn sér í árangri síns eigin starfs og vilja, leyndardómsfull úrslit, sem ekkert eiga skylt við framkvæmdarviðleitni sjálfs hans. En þegar ég minnist á þetta með ró og geri rökrétta grein fyrir þessari skoðun minni við borgarstjórann í Zenda, þá hristir hann höfuðið og segir: "En Rúdolf Rassendyll vissi frá byrjun, að hann mundi koma aftur til Streslau og fá að eiga vopnaviðskifti við Rúpert. Hví skyldi hann annars hafa verið að æfa sig í skilmingalist, svo hann yrði miklu fimari að fara með sverð en áður? Ætli guð geti ekki gert neitt, sem Tarlenheim skilur ekki? Það væri undarleg grilla!" Og svo þýtur hann frá mér og rymur í honum.

En hvort sem um innblástur eða blekking hefir verið að ræða – um það má lengi þræta – þá þótti mér vænt um að Rúdolf hafði æft sig. Því ef maður stirðnar á annað borð í íþrótt sinni, þá er nærri ómögulegt að bæta úr því aftur fullkomlega. Mr. Rassendyll hafði þrek, járnvilja og stilling til að bera, og vitanlega hugrekki líka. En það hefði að litlu haldi komið, ef augu hans hefðu eigi verið æfð við þessa íþrótt, og hönd hans eigi hlýtt boði þeirra eins greiðlega og járnás snýst í olíubornu auga. En sú varð raun á, að við lá að hin fimlegu tilræði og óviðjafnanlega sókn Rúperts riðu Rúdolf að fullu. Hann var í voðalegum háska staddur, þegar Rósa hljóp ofan til að kalla á hjálp. En sakir hinnar miklu æfingar, sem hann hafði fengið í skilmingalist, tókst honum að verja sig. Hann var heldur ekki að hugsa um annað, og hann bar af sér snarpleg áhlaup Rúperts, og slægleg skilmingarbrögð, með stillingu og nærri því án þess hann sæist hreyfa sig. Nærri því, segi ég, af því að engin hræring sást á honum önnur en sú, að hann bar ofurlítið til úlnliðinn á ýmsa vegu og varði með því líf sitt og limi.

Loksins fór Rúpert að gruna það, — Rúdolf sá það á augnaráði hans og gat þess við mig þegar hann var að segja mér frá bardaganum — að hann mundi eigi geta unnið bug á mótstöðumanni sínum. Undrun, gremju, gletni eða eitthvað því líkt, sýndist bregða fyrir í augnaráði hans. Hann skildi ekkert í því, hvernig á því stóð að öll tilræði hans voru brotin á bak aftur, og það var eins og þau strönduðu á járngirðingu óvinnandi og óbifanlegri. Af skarpleik sínum sá hann strax hversu horfði. Hann sá að hann gat ekki sigrað, nema vígfimi hans væri meiri, því að þol hans var minna. Hann var yngri og eigi eins sterkbyggður og mótstöðumaður hans; hann var farinn að veiklast af lífsnautnum; ef til vill gerir það líka sitt til, að hafa gott málefni að verja. Jafnvel í því hann var að kreppa Rúdolf upp að þilinu við dyrnar var honum ljóst, að hann hafði einskis frekari árangurs að vænta í viðureigninni. En hann ætlaði þá að bæta það upp með hrekkjabrögðum, sem hann skorti á við mótstöðumann sinn í vígfimi. Af tómri herkænsku fór hann að lina sóknina. Hann gerði meira því að hann hopaði eitt eða tvö skref aftur bak. Ekki var samvizkusemin slægðarbrögðum hans til fyrirstöðu, ekkert siðalögmál hamlaði honum að neyta þeirra vopna sem honum sýndist. Hann hopaði á hæli, og lét sem hann væri að missa kjarkinn; honum höfðu brugðist vonir sínar, en hann lét sem hann væri búinn að gefa upp alla von; hann var þreyttur, en lést vera alveg uppgefinn. Rúdolf sótti eftir honum jafnharðan, og rak sig þá á vörn engu síðri en hans sjálfs. Nú voru þeir komnir á mitt gólfið, fast að borðinu. Rúpert straukst rétt hjá því eins og hann hefði augun í hnakkanum. Hann dró andann títt og óreglulega, gekk upp og ofan af mæði, en sjónin var jafn skörp og höndin jafn höggvís og áður. Þróttur hans var nú á þrotum, en honum nægði ef hann kæmist þangað sem hann ætlaði og gæti framkvæmt brögð þau er hann ól í huga sínum, næmum á hverskyns illverknað. Að arninum hopaði hann, eins og tilneyddur, en í raun og veru til að koma fram svikræði sínu. Þar var bréfið og þar voru skammbyssurnar. Nú var ekki tóm til að meta hættuna, og Rúpert var ekki að vefja lengi við sig hvað heiðarlegt væri eða ekki. Ef hann gat ekki sigrað, með áhlaupi og listfengi sínu, þá ætlaði hann sér að sigra með kænsku og svikum. Skammbyssurnar lágu á arinhillunni: hann ætlaði sér að ná í aðra þeirra, ef honum yrði mögulegt að hrifsa hana.

Bragð hans var kænlegt mjög. Það var orðið of seint að biðja um hvíld. Mr. Rassendyll duldist eigi hve einvígið var að snúast honum í vil, og hreystin hefði komið að litlu haldi ef hann hefði eigi fært sér það í nyt. Rúpert var nú rétt kominn að arninum. Svitinn bogaði af andlitinu á honum og bringan gekk upp og ofan eins og hann væri að springa af mæði; hann átti samt enn eftir nægan þrótt í sér til að framkvæma ætlun sína. Líklega hefir hann verið farinn að halda lausara á sverðinu, því þegar Rúdolf hjó til hans næst og vopnin smullu saman, þeyttist sverðið úr hendi Rúperts, hálfaflvana af æsingi og mæði, fram eftir gólfinu. Rúpert stóð vopnlaus, en Rúdolf hreyfði sig ekki.

"Taktu það upp," sagði Rúdolf Rassendyll, því að hann grunaði ekki, að nein brögð væru í tafli.

"Já, og þú ætlar að reka mig í gegn á meðan."

"Asninn þinn! Þekkirðu mig ekki?" og því næst stakk Rúdolf niður sverði sínu svo oddurinn nam við gólfið, og benti Rúpert með vinstri hendi að taka upp vopn sitt. En það var eins og hvíslað væri að honum að vara sig, það getur verið að hann hafi séð það út úr augum Rúperts, eða orsökin hafi verið fyrirlitning fyrir varmensku óvinar hans, eða tómur metnaður um að bera af óskammfeilna óþokkanum. Rúdolf stóð kyrr og beið.

"Viltu sverja það, að þú skulir ekkert gera mér, meðan ég tek það upp?" spurði Rúpert og hörfaði ofurlítið aftur á bak, og þokaðist nær arninum svo sem tvo þumlunga.

"Ég er búinn að lofa því; taktu það upp. Ég bíð ekki lengur."

"Þú drepur mig þá ekki vopnlausan?" hrópaði Rúpert með fyrirlitlegum uppgerðar ákafa.

"Nei, en —"

Hann lauk ekki við setninguna, en rak upp hátt óp, og í sama vetfangi fleygði Rúdolf Rassendyll sverði sinu og stökk áfram.

Rúpert hafði þrifið annari hendinni aftur fyrir sig og náð um skeftið á annari skammbyssunni. Rúdolf sá strax alt svikræðið, stökk áfram og greip með hægri handleggnum utan um Rúpert. En Rúpert var þá búinn að ná skammbyssunni.

Það er líkast til að hvorugur þeirra hafi heyrt eða sint því neinu þó að mér fyndist að brakið og brestirnir í gamla stiganum væru nógu miklir til að vekja menn upp frá dauðum. Nú var Rósa búin að kalla á hjálp, og Bernenstein og ég — eða ég og Bernenstein (því ég var á undan, og get þess vegna nefnt mig fyr) vorum komnir upp á loftið. Rétt á hælunum á okkur var Rischenheim, og á eftir honum um tuttugu menn aðrir, sem tróðust áfram með stympingum og sparki miklu. Við sem á undan vorum komumst upp tröppurnar utan við dyrnar hindrunarlaust. En hópurinn sem á eftir var náði í Rischenheim og hann lenti í þrönginni þegar mennirnir voru að troðast inn. En brátt komu þeir á eftir okkur, og við heyrðum að þeir voru komnir upp á annað loft, þegar við vorum komnir upp á það efsta. Það tók undir og buldi í öllu húsinu og skarkalinn hlaut að heyrast út á strætið. Ég þóttist vita það, en ég gaf því engan gaum og var ekki að hugsa um neitt annað en að komast upp í herbergið þar sem konungurinn — þar sem Rúdolf — var. Nú var ég kominn að því og Bernenstein var á hælunum á mér. Hurðin stóð ekki lengi fyrir okkur. Ég þaut inn og hann á eftir mér. Hann skelti henni aftur og hallaði sér upp að henni á bakið, jafnsnemma og þeir, sem á eftir komu, höfðu komist upp í efstu tröppurnar. Og þá kvað við skammbyssuskot hátt og hvelt.

Við námum staðar, lífvarðarforinginn og ég. Hann við dyrnar og ég ofurlítið innar í herberginu. Það sem við sáum, var nægilegt til að stöðva okkur, og við störðum á það með mikilli undrun. Reykurinn af skotinu var að þyrlast burtu og hvorugur maðurinn virtist særður. Rúpert hélt á skammbyssunni og rauk úr hlaupinu. En hann var skorðaður upp við vegginn rétt hjá arninum. Rúdolf hafði teygt handlegginn á honum upp fyrir höfuðið og hélt honum fast við vegginn; hinni hendinni hélt hann um hægri úlnliðinn á Rúpert. Ég færði mig nær þeim hljóðlega; ef Rúdolf væri vopnlaus, þá gat ég hæglega stilt til friðar og séð um að þeir stæðu báðir jafnt að vígi. En ég nam staðar þegar ég sá framan í Rúdolf. Hann var mjög fölur og varirnar kipraðar saman harðneskjulega. Ég hafði aldrei séð hann slíkan áður. Ég leit af honum og til Hentzau's. Rúpert beit á vörina, svitinn lak af honum og æðarnar á enninu á honum voru bláar og þrútnar. Hann starði fast á Rúdolf Rassendyll. Ég færði mig nær undrandi. Þá sá ég hvað var að gerast. Handleggurinn á Rúpert fór að bogna þumlung eftir þumlung. Olnboginn drógst saman og höndin, sem snúið hafði beint að Mr. Rassendyll, sneri nú frá þeim báðum og vissi að glugganum. Höndin hélt áfram að hreyfast, og nú var höndin komin að handleggnum á Rúpert, og áfram hélt hún, því að aflið þverraði. Rúpert hafði beðið ósigur; hann fann það og vissi það; og ég las þá vissu út úr augnaráði hans. Ég gekk til Rúdolfs Rassendyll. Hann heyrði til mín, og leit til mín sem snöggvast. Ég veit ekki hvað hann hefir þóst sjá í svip mínum, en hann hristi höfuðið og sneri sér aftur að Rúpert. Skammbyssan sem hann hélt á, stefndi nú á hann í hjartastað. Nú var höndin hætt að hreyfast. Hún átti ekki að fara lengra.

Ég leit aftur á Rúpert. Nú var svipur hans rólegur; ofurlítill brosvottur sást á vörunum. Hann hallaði fallega höfðinu aftur á bak upp að þilinu og horfði spyrjandi á Rúdolf Rassendyll. Ég leit og þangað sem svarsins var að vænta, því Rúdolf þagði. Með skjótri svipan slepti hann takinu á úlnlið Rúperts og þreif utan um hönd hans. Nú hvíldi vísifingur Rúdolfs á vísifingri Rúperts, og Rúpert hafði hann beygðan um byssugikkinn. Ég er engin skræfa en ég lagði þó handlegginn á öxl Rúdolfs. Hann skeytti því engu; ég þorði ekki að gera meira. Rúpert leit til mín. Ég skildi augnaráð hans. En hvað gat ég sagt við hann. Aftur varð mér litið á fingur Rúdolfs. Hann var nú búinn að beygja hann utan um fingur Rúperts, áþekt því sem maður væri að hengja annan.

Um það ætla ég ekki að tala frekar. Hann brosti að síðustu; drembilega höfuðið á honum, sem aldrei hafði beygt sig fyrir neinni smán, beygði sig ekki fyrir hættunni. Ofurlítill þrýstingur kom á bogna vísifingurinn; glampi og hvellur fylgdi. Rúdolf hélt honum andartak við vegginn, en þegar hann slepti hné Rúpert niður í hrúgu, sem ekkert sýndist nema höfuð manns og hné.

En um leið og skotið reið af, rak Bernenstein upp óp. Honum var hrundið frá hurðinni, og inn um dyrnar ruddist Rischenheim og hópurinn á eftir honum. Þeir stjökuðu hver við öðrum til að komast áfram og vita hvað gerst hefði og hvar konungurinn væri. En hærra en allir hrópaði Rósa, aftarlega í hópnum. En undir eins og mennirnir voru komnir inn í herbergið, þá kom sama aðgerðarleysisfátið á þá og Bernenstein og mig. Rischenheim hljóðaði upp yfir sig og þaut þangað sem frændi hans lá. Hinir stóðu kyrrir og gláptu á. Rúdolf horfði á þá stundarkorn. En svo sneri hann sér frá þeim og sagði ekkert. Hann rétti fram hægri hönd sína, höndina sem hann var nýbúinn að drepa Rúpert með og tók bréfið af arinhillunni. Hann leit á innsiglið og reif það svo upp. Rithöndin tók af öll tvímæli. Hann reif bréfið í sundur í fjóra hluti, og síðan enn smærra. Því næst stráði hann bréfsneplunum í eldinn, en hann logaði glatt. Ég held að allir, sem inni voru, hafi horft á bréfsneplana þangað til þeir vori orðnir að dökkri fisléttri og ómeðfærilegri ösku. Þannig tókst loksins að eyðileggja bréf drotningarinnar.

Þegar Rúdolf þannig var búinn að reka smiðs höggið á verk sitt, sneri hann sér aftur að okkur. Hann skeytti ekkert um Rischenheim, sem stóð boginn upp yfir líki Rúperts; en hann leit til mín og Bernensteins og fólksins, sem stóð á bak við okkur. Hann þagði ofurlítið, áður en hann tók til máls, en þegar hann tók til máls, þá var hann rólegur mjög og virtist sem hann væri að velja orð sín vandlega.

"Herrar mínir!" mælti hann. "Fyrir því, sem hér hefir gerst, verður full grein gerð á sínum tíma. Í bráðina verður það látið nægja að segja, að þessi tigni maður, sem hér liggur dauður, reyndi að fá mig á fund sinn til að ræða um prívatmálefni. Ég kom hingað, af því að hann lét sem hann vildi að viðræður okkar færu fram svo ekkert á bæri. Og hér reyndi hans að ráða mér bana. Og úrslitin á þeirri tilraun hans sjáið þið hér."

Ég hneigði mig virðulega, Bernenstein sömuleiðis og svo allir hinir.

"Fullkomin grein skal gerð fyrir þessu síðar," sagði Rúdolf. "Nú vil ég að allir yfirgefi mig nema Tarlenheim greifi og Bernenstein lífvarðarforingi."

Nauðugir, með opna munna af undrun, fóru mennirnir að tínast út um dyrnar. Rischenheim reis á fætur.

"Þú getur verið hér eftir, ef þú vilt," sagði Rúdolf og greifinn kraup á kné hjá líki frænda síns.

Ég hafði komið auga á fornfálega rúmið við vegginn í herberginu, og snerti við öxlinni á Rischenheim og benti á það. Svo lyftum við báðir Rúpert Hentzau upp. Hann hafði enn krefta höndina utan um skammbyssuna en Bernenstein rétti upp fingurna og tók hana. Því næst lögðum við Risehenheim hann niður, veittum honum nábjargirnar, og breiddum ofan á hann yfirhöfn hans, blettaða moldarslettum eftir næturleiðangurinn til skothússins. Sami svipurinn var á andlitinu eins og áður en skotið reið af; hann var fallegasti maður í Rúritaníu, lífs og liðinn. Ég þori að ábyrgjast að mörg konan hefir hrygst og móða komið á margt tindrandi auga þegar fregnin um sekt hans og afdrif bárust út um landið. Það eru hefðarkonur enn þá í Streslau, sem bera gamla skrautgripi frá honum, af fornum velvildarhug til hans, sem þær geta ekki gleymt. Og ég, sem margra hluta vegna hafði ástæðu til að hata hann, ég strauk hárið frá enninu á honum. Rischenheim grét eins og barn en Bernenstein lét höfuðið hníga ofan á handlegg sér og studdist við arinhilluna, og vildi ekki horfa á þann dauða. Rúdolf einn virtist ekkert skeyta um hann. Undarlegi fagnaðarglampinn var horfinn úr augum hans, og hann var nú stiltur og rólegur. Hann tók skammbyssu sína af arinhillunni, stakk henni í vasa sinn en lagði Rúperts þar sem hans hafði verið, því næst sneri hann sér að mér og sagði:

"Við skulum fara til drotningarinnar og láta hana vita, að nú þarf ekki lengur að ugga um bréfið."

Ég gekk út að glugganum eins og í leiðslu, og leit út. Fólkið úti fyrir sá mig, og mér var heilsað með háum hrópum. Mannfjöldinn við dyrnar var stöðugt að aukast; fólkið streymdi að úr öllum áttum og eigi mundi á löngu líða að fjöldinn hundraðfaldaðist á skömmum tíma, því fregnirnar, sem þessir tuttugu menn, nýfarnir út úr loftherberginu, fluttu, bárust mann frá manni með skógareldshraða. Þær mundu verða komnar út um alla Streslau á fáum mínútum, út um alt konungsríkið á klukkustund og alla Evrópu litlu síðar. Rúpert var dauður og bréfið eyðilagt, en hvað áttum við að segja þessum manngrúa um konunginn? Undarleg hjálparleysistilfinning kom yfir mig og loks rak ég upp heimskulegan hlátur. Bernenstein var við hliðina á mér; en hann leit líka út og sneri frá glugganum í mikilli geðshræringu.

"Þú færð konunglegt föruneyti til hallar þinnar, sagði hann við Rúdolf Rassendyll.

Mr. Rassendyll svaraði engu; við fórum út og skildum við Rischenheim hjá líkinu. Ég mundi ekkert eftir honum. Bernenstein bjóst víst við því, að hann mundi halda loforðið sem hann gaf drotningunni, því að hann kom á eftir okkur, án þess að segja nokkurt orð. Enginn var fast við dyrnar. Alt var hljótt í húsinu, en við heyrðum hávaðann úti á strætinu álengdar. En þegar við komum í neðsta stigann mættum við tveimur kvenmönnum. Mrs. Holf stóð á þrepskildinum að eldhúsinu, og var bæði skelkuð og óróleg að sjá. Rósa hélt sér í hana; en undir eins og hún kom auga á Rúdolf, hljóp hún fram, fleygði sér á kné frammi fyrir honum og þakkaði guði hástöfum fyrir að hann skyldi vera heill á húfi. Hann laut niður og talaði til hennar hlýlega; hún leit upp og roðnaði af metnaði. Hann virtist hika lítið eitt; hann leit á hendurnar á sér, en hann bar engan hring nema þann, sem drotningin hafði gefið honum endur fyrir löngu; því tók hann upp gullúrið sitt og losaði festina. Hann velti við úrinu og sýndi mér fangamarkið R.R.

"Rudolfus Rex"[*] hvíslaði hann, brosti góðlátlega Og stakk úrinu í hendina á stúlkunni og sagði: "Eigðu þetta til minningar um mig."

[* Rúdolf konungur.]

Hún tók við því annari hendi og hló bæði og grét, en hélt með hinni í hönd hans.

"Þú verður að sleppa," sagði hann blíðlega. "Ég hefi mörgu að sinna."

Ég tók um handlegginn á henni og lét hana standa upp. Þegar Rúdolf var laus gekk hann þangað sem gamla konan stóð. Hann talaði til hennar alvarlega og í ákveðnum rómi.

"Mér er ókunnugt um," sagði hann, "að hve miklu leyti þú ert viðriðin samsæri það, sem bruggað var á heimili þínu. Sem stendur geri ég mig ánægðan með að vita það ekki, því að það er ekkert ánægjulegt að fá vitneskju um drottinsvik eða að refsa gömlum konum."

"En varaðu þig! Undir eins og þú gerir þig seka í einhverju, hvort heldur í orði eða verki við konunginn, þá verður skyndileg refsing látin dynja yfir þig. Ef þú verður mér til meins aftur, þá hlífi ég þér ekki. Þrátt fyrir alla sviksemi, er ég samt enn þá konungur í Streslau."

Hann þagnaði og horfði fast framan í hana. Varirnar á henni skulfu og hún varð niðurlút.

"Já," endurtók hann, "ég er konungur í Streslau. Haldið höndum ykkar frá illverkum og varist illmælgi."

Hún svaraði engu. Hann fór á stað, og ég líka. En þegar ég fór fram hjá gömlu konunni þreif hún til mín.

"Hver er hann, segðu það í guðsnafni! hvíslaði hún.

"Ertu orðin brjáluð?" spurði ég og hóf augabrúnirnar: "Þekkirðu ekki konunginn þegar hann ávarpar þig? Það er best fyrir þig að muna eftir því sem hann sagði. Hann hefir nóga þjóna til að líta eftir að honum sé hlýtt."

Hún slepti mér og hörfaði svo sem skref aftur á bak. Bernenstein brosti að henni; honum fanst að minsta kosti meiri ánægja að málalyktum en áhyggjuefni. Þannig skildum við við þær, gömlu konuna skelkaða, æsta og í vafa, en ungu stúlkuna rjóða á vangann og með tindrandi augu og hún hélt á menjagripnum, sem konungur hafði gefið henni, á milli handanna.

Bernenstein var skjótari til úrræða heldur en ég. Hann hljóp fram og komst á undan okkur að dyrunum og opnaði þær. Svo laut hann mjög virðulega og lét Rúdolf fara út. Gatan var nú full af fólki endanna á milli, og fagnaðarópi lustu nú upp mörg þúsund munnar. Höttum og vasaklútum var nú veifað með óhemjulegum ofsa og sigurfagnandi hollustu. Tíðindin um að konungurinn væri giftusamlega sloppinn úr lífsháska höfðu borist með leifturhraða út um borgina, og fólkið hafði safnast saman til að votta honum lotningu. Það hafði fært þangað skrautlegan vagn, sem einhver átti og beitt fyrir hann hestum. Vagninn var nú við dyrnar á húsinu. Rúdolf beið stundarkorn á þrepskildinum, og lyfti hattinum lítið eitt einu sinni eða tvisvar; hann var alveg rólegur og ég sá engan skjálfta á höndunum. Alt í einu voru einir tólf handleggir réttir til hans, og hann dreginn með hægð áfram. Hann steig upp í vagninn, við Bernenstein komum á eftir, berhöfðaðir og settumst á aftursætið á móti honum. Mannfjöldinn var eins og þéttur flugnasveimur, og helst leit út fyrir, að ómögulegt væri fyrir okkur að komast áfram nema að einhverjir træðust undir. Samt sem áður fóru hjólin að snúast og við þokuðumst á stað ofur-hægt. Rúdolf hélt áfram að lyfta hattinum og hneigja sig ýmist til hægri eða vinstri. En einu sinni varð okkur litið hvorum á annan þegar hann vék sér við. En þrátt fyrir það sem afstaðið og í vændum var brostum við allir þrír.

"Ég vildi að við kæmumst ofurlítið hraðara áfram," sagði Rúdolf í lágum hljóðum, hætti að brosa og tók á ný hollustukveðjum þegna sinna.

En hvað vissi þetta fólk um að nokkuð lægi á.

Það hafði enga hugmynd um hvað fyrir lá næstu klukkustundirnar, það þýðingarmikla atriði, sem nú þurfti að ráða skjótlega til lykta. Það var fjarri því að fólkið flýtti fyrir okkur, því að það lengdi ferðina með því að nema oft alveg staðar. Það stöðvaði vagninn úti fyrir dómkirkjunni meðan inn var farið og hringt fagnaðar-hringingu; enn fremur varð að nema staðar til að láta okkur taka á móti óvæntum blómvöndum frá ungum stúlkum, og taka í hendur áköfum konungssinnum. Þrátt fyrir þetta alt sást ekki á Rúdolf að honum félli það illa, heldur lék hann hlutverk sitt eins og hann væri fæddur konungur. Ég heyrði Bernenstein hvísla: "Það veit hamingjan, að framhald hlýtur að verða á þessu."

Loksins sáum við til hallarinnar. Þar var líka ókyrð mikil. Fjöldinn allur af liðsforingjum og hermönnum var þar. Ég sá að vagn kanzlarans stóð nærri hliðinu og margir vagnstjórar biðu þess að mega aka nær. Mannhestarnir okkar drógu okkur hægt upp að hliðinu. Helsing stóð á riðinu og heilsaði konungi með miklum fögnuði. Hávaðinn í fólkinu jókst enn mikið.

En loks sló öllu í dúnalogn; en það stóð að eins andartak og á eftir fylgdu ofsafengin óp. Ég horfði á Rúdolf, sá að hann leit við og augu hans fóru að tindra. Ég leit þangað, sem hann horfði. Þarna á efstu breiðu marmaratröppunni stóð drotningin, föl eins og marmarinn sjálfur og rétti hönd sína á móti Rúdolf. Fólkið hafði séð hana, og síðasta ópið var kveðja til hennar. Kona mín stóð fast hjá henni og fyrir aftan þær aðrar hefðarfrúr. Við Bernenstein stukkum niður úr vagninum. Rúdolf kastaði kveðju á mannfjöldann í síðasta sinn og kom svo á eftir okkur. Hann gekk upp á efstu tröppuna einn og þar féll hann á kné og kysti á hönd drotningarinnar. Ég kom á eftir honum og þegar hann leit framan í hana heyrði ég hann segja:

"Alt gengið vel. Hann er dauður og bréfið brent."

Hún lét hann standa á fætur. Varirnar á henni bærðust, en það var eins og hún gæti ekki komið upp einu orði. Hún smeigði hendinni undir handlegginn á honum og þannig stóðu þau stundarkorn. Fagnaðarópin kváðu við á ný, og Bernenstein stökk fram, veifaði hjálmi sínum í miklum ákafa og hrópaði: "Guð blessi konunginn!" Ég varð líka hrifinn af þeim eldmóði sem í honum var. Og mannfjöldinn tók undir ópið með takmarkalausum æsingi, og þannig heilsuðu allir háir og lágir í Streslau, Mr. Rassendyll eins og konungi. Aðrar eins fagnaðarviðtökur höfðu aldrei átt sér stað frá því að Hinrik ljón kom heim úr herferðum sínum fimtíu árum áður.

"Og samt segja æsingamennirnir," sagði gamli Helsing við hliðina á mér, "að Elphbergarnir eigi engri lýðhylli að fagna!" Og hann saug nokkur tóbakskorn upp í nefið háðslega en hróðugur.

Bernenstein hafði snöggvast hætt að hrópa og rak upp stuttan hlátur, en brátt fór hann að æpa aftur. Ég var nú orðinn rólegur aftur og stóð kyr og horfði stynjandi á mannfjöldann. Það var farið að skyggja og andlitin á mönnunum þarna í þyrpingunni sýndust eins og renna saman í hvítt haf. Samt fanst mér ég þekkja eitt andlitið úr í miðri þrönginni — það var andlit á fölum manni með bindi um höfuðið. Ég þreif um handlegginn á Bernenstein og hvíslaði: "Bauer", og benti um leið þangað sem hann var. En jafnskjótt hvarf þetta andlit. Það hafði birst þarna á leiksviði sigurfagnaðarins, eins og harðneskjuleg viðvörun, og hvarf eins skyndilega eins og það hafði komið, en minti okkur samt á hættuna. Mér fanst eins og ég væri lagður í hjartastað, og lá við að æpa á fólkið að hætta þessu leiðinda orgi.

Loks komumst við inn. Öllum þeim, sem ætluðu að komast inn og flytja hamingjuóskir var sagt það sama, að konungshjónin væru svo þreytt, að þau gætu engum veitt áheyrn; en eigi nægði það til að dreifa mannfjöldanum, er hékk þrautseigur og ánægður úti fyrir og umkringdi höllina eins og lifandi garður. Við heyrðum alt af ópin og köllin úti fyrir inn í litla salinn, þar sem við sátum, og sneri út að hallargarðinum. Við hjónin höfðum komið þangað eftir ósk Rúdolfs. Bernenstein hafði tekið að sér að gæta dyranna. Nú var farið að rökkva mjög, og þegar orðið býsna skuggsýnt. Kyrt var úti í garðinum; og bar enn meira á kyrðinni þar vegna mikla hávaðans í fólkinu framan við höllina. Rúdolf sagði okkur þar frá viðureign sinni við Rúpert Hentzau í loftherberginu í gamla húsinu, og fór hann þó sem lauslegast yfir þá sögu. Drotningin stóð við stól hans og vildi ekki að hann stæði á fætur; hann lauk máli sínu með því að segja frá því, að hann hefði brent bréfið, og þá laut hún niður að honum og kysti hann á ennið. Því næst leit hún beint yfir til Helgu, nærri því ögrandi; en Helga hljóp til hennar og greip hana í fang sér.

Rúdolf Rassendyll sat kyrr og studdi hönd undir kinn. Hann leit snöggvast upp og framan í þessar tvær konur; um leið kom hann auga á mig og benti mér að koma til sín. Ég kom til hans, en hann þagði fyrst stundarkorn. Hann gaf mér aftur bendingu, og þá tók ég um stólinn, sem hann sat á og laut fast ofan að honum. Hann leit aftur til drotningarinnar, eins og hann væri hræddur um að hún heyrði það, sem hann ætlaði að segja.

"Fritz," hvíslaði hann loksins, "undir eins og orðið er nógu dimt verð ég að leggja á stað. Bernenstein kemur með mér. Þú verður að vera hér eftir."

"Hvert getur þú farið?"

"Til skothússins. Ég verð að hitta Sapt, og ráða ráðum mínum við hann.

Ég gat ekki skilið, hvaða áform eða fyrirætlun hann hafði í huga. En þá stundina var ég lítið að hugsa um það; öll athygli mín var snúin að því sem mér bar fyrir augu.

"En hvað verður um drotninguna?" hvíslaði ég aftur að honum.

Þó að ég talaði lágt, þá heyrði hún til mín. Hún sneri sér hvatlega að okkur, en hélt samt í höndina á Helgu. Hún horfði spurnaraugum á okkur og vissi strax um hvað við höfðum verið að tala. Ofurlitla stund lengur stóð hún kyr og horfði á okkur. Því næst hljóp hún fram og varpaði sér á kné frammi fyrir Rúdolf og tók báðum höndum um axlir honum. Hún gleymdi því að við vorum viðstödd, og hún gleymdi öllu, öllu öðru en kvíðanum mikla um að missa hann frá sér.

"Ekki aftur, Rúdolf, elskan mín. Ekki aftur! Rúdolf, ég get ekki afborið það aftur."

Svo lét hún höfuðið hníga ofan á hnén á honum og grét.

Hann lyfti upp hendinni, og strauk um hárið á henni, gljáfagurt. En hann leit ekki á hana. Hann starði út í garðinn, sem myrkrið var að færast yfir í rökkrinu. Hann kreisti saman varirnar, og var fölur mjög og alvarlegur á svip.

Ég horfði á hann stundarkorn og kallaði á konu mína afsíðis. Við settumst niður við borð ofurlítið frá þeim. Að utan kvað enn við háreystin í mannfjöldanum, gleðidruknum. Ekkert heyrðist annað en sá kliður og ekkinn í drotningunni. Rúdolf hélt áfram að strjúka blíðlega fallega hárið á henni og starði út í náttmyrkrið þungbúinn og alvarlegur.

Hún lyfti upp höfðinu og leit framan í hann.

"Þú gerir út af við mig með þessu," sagði hún.

XIX. KAPÍTULI.

Rúpert Hentzau var dauður! Þrátt fyrir alla erfiðleikana, sem við höfðum við að stríða, var með vitundin um það undrunarverð raunabót fyrir mig. Vera má, að þeim, sem ekki hafa komist að raun um ofurmagn ofdirfsku hans og óstjórnlegra úrræða í baráttu við hann sjálfan, kunni að virðast það ótrúlegt að dauði hans skyldi verða slíkt huggunarefni einmitt þá, er enn var óséð fyrir endann á vandamálum okkar. En þó var þetta mér svo mikils virði, að ég gat varla áttað mig á því að nú væri svo komið að við hefðum losnað við hann. Satt var það að hann var dauður; en gat hann nú samt ekki vegið að okkur á einhvern hátt handan við hafið?

Eitthvað því um líkt hjátrúarkendar voru hugrenningar mínar þegar ég stóð og var að horfa á manngrúann, sem fylkti sér enn þrákelknislega í hring utan við höllina framan verða. Ég var einn; Rúdolf var hjá drotningunni; konan mín var að hvíla sig; Bernenstein hafði sest niður að borða, en ég gat ómögulega fengið mig til að gera honum það til samlætis. Ég gat nú komið skipulagi á hugsanir mínar og farið að athuga hvernig á stóð fyrir okkur. Erfiðleikarnir þrengdu að okkur á allar hliðar. Það var ekki á okkar valdi að hrinda þeim úr vegi, en hitt vissi ég hvað var, sem mig fýsti og ég þráði, Mig langaði ekkert til að finna upp ráð til að koma Rúdolf Rassendyll með leynd frá Streslau, og láta dauða konunginn verða aftur konung, og drotninguna sitja í örvæntingu í hásætinu. Það þurfti slægvísari mann en mig til að koma þessu öllu í kring. Mig fýsti þessa alls ekki, en mér var aftur kært að hugleiða stjórn hans, mannsins, sem nú var konungur í Streslau, og mér fanst að það væru frábær svik, of djarfleg til að komast upp að selja konungdóminn í hendur þeim manni. Á móti því mælti að eins grunsemd Mrs. Holt — ótti eða fé mundi loka vörum hennar — og svo var Bauer. Það yrði líka hægt að stinga upp í Bauer, og það ætti að vera hægt áður langt um liði. Hugleiðingar mínar hrifu mig fram í ókomna tímann. Ég sá í anda bregða fyrir margra ára árangri af stjórn viturs einvaldshöfðingja. Mér virtist að með ofbeldi og blóðsúthellingum þeim, sem við höfðum lent í, væru forlögin nú loks svo miskunnarvænleg að bæta fyrir það að Rúdolf var ekki fæddur konungur.

Langan tíma stóð ég þarna í þungum hugleiðingum eins og í leiðslu; ég hrökk upp við það að hurðinni var lokið upp og lokað aftur; þegar ég leit við sá ég drotninguna. Hún kom þar ein og nálgaðist mig hægt eins og hún væri kvíðandi. Sem snöggvast leit hún út, ofan á ferhyrnta svæðið og fólkið, en hrökk svo frá glugganum aftur hrædd við að hún kynni að sjást. Því næst settist hún niður og leit til mín. Ég þóttist geta séð á henni í hve miklu stríði hún átti við sjálfa sig; hún virtist vilja biðja mig um að sýna sér ekki mótspyrnu heldur samúð; biðja mig að taka ekki hart á misgerðum sínum, og finna til ánægju yfir hamingju sinni; sjálfsálas skygði á gleði hennar, en þó skein ánægjan í gegn um það. Ég horfði á hana spurnaraugum; hún mundi varla hafa verið þannig útlits ef hún hefði komið frá því að kveðja hann í síðasta sinni; því hún var sjáanlega ánægð, þrátt fyrir sorgina og kvíðann.

"Fritz," sagði hún blíðlega. "Ég er vond – dæmalaust vond. Heldurðu að guð refsi mér ekki fyrir að vera glöð núna?"

Ég er hræddur um að ég hafi lítið hugsað um hugstríð hennar og skil ég nú þó ekkert í því.

"Vera glöð?" hrópaði ég í lágri röddu. "Hefurðu, þá getað talið honum hughvarf?"

Hún brosti að mér ofurlítið.

"Ég á við hvort þið hafið getað orðið ásátt um —" stamaði ég.

Hún reyndi að horfa framan í mig og sagði lágt:

"Einhvern tíma verðum við það, ekki er það samt orðið enn þá. En einhvern tíma verður það, Fritz, ef guð verður ekki alt of harður við mig — og þá verð ég konan hans, Fritz."

Ég var að velta fyrir mér hugsjónum mínum, en ekki hennar. Ég vildi að hann yrði konungur; hún var ekkert að hugsa um hvað hann væri, bara ef hún fengi að eiga hann, og þyrfti aldrei að sjá af honum.

"Hann tekur við veldissprotanum!" sagði ég fagnandi.

"Nei, nei, nei. Ekki veldissprotanum. Hann fer burtu."

"Fer hann burtu!" Ég gat ekki leynt gremjunni í rödd minni.

"Já, núna. En hann fer ekki — ekki fyrir fult og alt. Hans verður langt — dæmalaust langt að bíða, en ég get þolað það, ef ég hefi vissu fyrir að á endanum —" Hún þagnaði og horfði stöðugt á mig eins og hún væri að biðja mig um að vera með sér.

"Ég skil þetta ekki," sagði ég ráðaleysislega, og ólundarlega að ég held.

"Þú gast rétt til," sagði hún; "ég gat talið honum hughvarf. Hann ætlar sér að fara burtu eins og fyrra sinnið. Átti ég að líða honum það? Já, já! En ég gat það ekki. Fritz, hefi ég ekki fengið nóg að líða? Þú veist ekki hvað ég hefi tekið út. En ég verð að þola enn meira. Hann ætlar að fara burtu núna, og langur verður tíminn að bíða eftir honum. En á endanum verðum við bæði eitt. Drottinn er miskunnsamur. Við verðum síðan bæði eitt."

"Hvernig getur hann komið aftur, ef hann fer núna?"

"Hann kemur ekki aftur; ég fer til hans; ég sleppi tilkalli til ríkisstjórnar og fer til hans, einhvern tíma, þegar starfi mínu hér er lokið."

Mér varð hverft við að sjá loftkastala mína hrynja þannig til grunna, en ég gat ekki tekið hart á henni. Ég sagði ekkert, en tók þétt í höndina á henni.

"Langaði þig til þess, að hann yrði konungur?

"Af alhuga, drotning mín!" sagði ég.

"Hann vildi það ekki, Fritz. Nei, og ég hefði heldur ekki farið að gera það."

Mér varð illa við að reka mig svo áþreifanlega á þann sannleika.

En hvernig getur hann komist héðan?" sagði ég.

"Ég veit það ekki. En hann veit það; hann er búinn að finna ráð til þess."

Við þögnuðum aftur; hún varð nú rólegri á svipinn og virtist ætla að bíða þolinmóð hamingju sinnar, er hún ætti í vændum. Mér fór líkt og manni, sem víma rennur af alt í einu og kom yfir mig nokkurskonar tilfinngaleysi.

"Mér getur ekki skilist, hvernig hann á að geta farið." sagði ég ólundarlega.

Hún svaraði mér ekki. Rétt á eftir var hurðin opnuð aftur. Rúdolf kom inn og Bernenstein á eftir honum. Þeir voru báðir komnir í reiðstígvél og yfirhafnir. Ég sá sama óánægjusvipinn á Bernenstein sem ég vissi að var á mér. Rúdolf virtist vera rólegur og jafnvel ánægður. Hann gekk beint til drotningarinnar.

"Hestarnir verða til eftir litla stund," sagði hann blíðlega. Því næst veik hann sér að mér og spurði:

"Veist þú ekki, Fritz, hvað við ætlumst fyrir?"

"Nei, sjóli"

"Nei, sjóli" endurtók hann í hálfgerðu glensi og skopi, því næst færði hann sig mitt á milli okkar Bernensteins og greip um handleggina á okkur. "Þið eruð báðir þorparar," sagði hann. "Þið eruð báðir óbilgjarnir þorparar! Þið eruð báðir geðillir eins og grábirnir af því að ég vil ekki verða þjófur! Var það ekki yfirsjón af mér að drepa Rúpert og láta ykkur, þessi illmenni, halda lífi?"

Ég fann að hann þrýsti vingjarnlega að handleggnum á mér, en mér var ómögulegt að gera hið sama. Við hvert orð, sem hann sagði, og hverja hreyfingu hans óx hrygð mín yfir því, að hann skyldi ekki vilja vera kyr. Bernenstein leit til mín og ypti öxlum vonleysislega. Rúdolf hló stuttum hlátri.

"Viljið þið ekki virða mér það til vorkunnar þó ég vilji ekki vera eins mikill þorpari og þið?" spurði hann.

Ég var orðlaus, en ég dró að mér handleggina og strauk um höndina á honum. Hann þreif fast utan um hönd mína.

"Nú þekki ég aftur gamla Fritz minn!" sagði hann; svo tók hann í hönd Bernensteins. Þó lífvarðarforingjanum væri það ekki ljúft, lét hann það svo vera. "Nú er að tala um ráðagerðina," sagði hann. "Við Bernenstein leggjum tafarlaust á stað til skothússins — já, svo að á beri, best að sem flestir viti um það. Ég ætla að ríða gegn um mannþyrpinguna þarna, og láta hvern sjá mig sem vill, og láta fólkið fá að vita, hvert ég ætla að fara. Við ættum að komast þangað snemma, áður en bjart er orðið. Við hittum Sapt þar og hann leggur smiðshöggið á það, sem eftir verður að gera, til þess að fyrirætlun okkar verði framgengt. Þey, hvað er þetta?"

Nýtt óp heyrðist kveða við frá mannfjöldanum, er enn beið utan við höllina. Ég hljóp út að glugganum og sá þá að hreyfing mikil var á miðri mannþrönginni. Í því heyrði ég kallað með hárri og hvellri röddu, sem ég kannaðist við:

"Lofið okkur að komast áfram, asnarnir ykkar, lofið okkur að komast áfram."

Ég sneri frá glugganum í ofboði.

"Það er Sapt sjálfur!" sagði ég. "Hann ríður eins og óður maður gegn um mannþyrpinguna, og þjónn þinn er rétt á eftir honum."

"Drottinn minn, hvað hefir komið fyrir? Hvers vegna hafa þeir horfið brott frá skothúsinu?" hrópaði Bernenstein.

Drotningin leit upp, óttaslegin; hún stóð á fætur og tók um handlegginn á Rúdolf. Þannig stóðum við öll og hlustuðum á vingjarnlegu fagnaðarópin, sem fólkið æpti, þegar Sapt kom, því það þekti hann, og glensyrðin um James, er það hélt að væri þjónn borgarstjórans.

Okkur fanst biðin óþolandi, og við stóðum þarna milli vonar og ótta. Þó við þegðum, lásum við það úr augnaráði hvers annars, að okkur var öllum það sama í hug: Hvað hefði getað komið þeim til að hverfa burt þaðan sem þeir áttu að standa á verði nema að alt hefði komist upp? Þeir hefðu aldrei horfið frá því, sem þeir áttu að gæta meðan mögulegt var að halda því leyndu. Sakir einhverrar slysni, einhverra ófyrirsjáanlegra atvika hafði lík konungsins hlotið að finnast. Þá var kunnugt orðið um dauða konungsins, og þá mátti búast við því á hverri stundu, að fregnin um þetta hleypti öllu í bál og brand í borginni.

Loks var hurðinni hrundið upp og þjónninn sagði að borgarstjórinn í Zenda beiddist inngöngu. Sapt var allur ataður í mold og ryki, og James engu síður, og kom inn rétt á eftir. Báðir höfðu þeir riðið ákaflega hart til borgarinnar, og voru jafnvel enn móðir eftir reiðina. Sapt hneigði sig til málamynda fyrir drotningunni og gekk svo beint til Rúdolfs.

"Er hann dauður?" spurði hann formálalaust.

"Já, Rúpert er dauður," svaraði Mr. Rassendyll. "Ég drap hann."

"Er búið að brenna bréfið?"

"Já, ég gerði það."

"Hvað er um Rischenheim að segja?"

Drotningin greip þá fram í og sagði:

"Luzau-Rischenheim greifi mun hvorki segja eða gera neitt sem mér er til meins."

Sapt hóf augabrúnirnar ofurlítið.

"Hvað er um Bauer að segja" spurði hann.

"Bauer leikur lausum hala," svaraði ég.

"Hm! Þá er Bauer einn eftir," sagði borgarstjórinn og virtist allvel ánægður. Þá varð honum litið á Rúdolf og Bernenstein. Hann rétti fram höndina og benti á reiðstígvélin. "Hvert skal nú ríða svo síða kvelds?" spurði hann.

"Við ætluðum fyrst að ríða báðir til skothússins og hitta þig, og þaðan ætlaði ég einn til landamæranna," sagði Mr. Rassendyll.

"Ekki verður gert fleira en eitt í senn. Förin til landmæranna verður að bíða. Hvað vildi Yðar Hátign mér í skothúsinu?"

"Ég ætlaði að tala um það þar, að ég yrði ekki lengur Yðar Hátign," sagði Rúdolf.

Sapt fleygði sér niður á stól og dró af sér glófana.

"Segið mér hvað gerst hefir í Streslau í dag," sagði hann.

Við þuldum það upp í mesta flýti. Hann hlýddi á það og gaf stöku sinnum ánægju eða óánægju sína til kynna, en ég sá ekki betur en að hann kættist meir en lítið við að heyra hversu allir borgarbúar hefðu hrópað fagnaðaróp fyrir Rúdolf, eins og konungi sínum, og að drotningin hefði tekið á móti honum eins og manni sínum að mannfjöldanum ásjáandi. Von fór aftur að kvikna hjá mér, því að ég hafði nærri mist hana við að sjá hvað Rúdolf var einbeittur að fara. Sapt sagði fátt, en það var auðséð á honum, að hann bjó yfir einhverri nýjung. Hann virtist vera að bera það saman sem við höfðum sagt honum við annað, er hann vissi en við ekki. En litli þjónninn stóð alt af kyr við dyrnar, hæverskur og þegjandi, en ég sá gerla á skarplega andlitinu á honum, að hann hlustaði með mikilli athygli á það, sem við vorum að segja.

Þegar frásögninni var lokið, sneri Rúdolf sér að Sapt og spurði:

"Og er ekki öllu óhætt um leyndarmál okkar?"

"Jú, þar er öllu óhætt."

"Hefir enginn séð það, sem þið áttuð að gæta?"

"Nei, og enginn veit, að konungurinn er dauður," svaraði Sapt.

"Hvers vegna eruð þið þá komnir hingað?"

"Við erum komnir í erindagerðum viðvíkjandi því sama, sem þið höfðuð í huga þegar þið ætluðuð til skothússins; áformið var það, að við gætum hist og talast við, konungur."

"En er þá enginn eftir að halda vörð í skothúsinu?"

"Ekkert þarf af óttast skothúsið," sagði Sapt ofursti.

Hér var um nýtt leyndarmál að ræða; vafalaust var, að það duldist bak við þessi stuttaralegu orð svo og ruddalega látbragðið. Ég gat nú ekki stilt mig lengur, en stökk fram og hrópaði: "Hvað hefir komið fyrir? Segðu okkur það borgarstjóri!"

Hann leit til mín, og svo á Mr. Rassendyll.

"Mér þætti gaman að heyra ráðagerð ykkar fyrst," sagði hann við Rúdolf. "Hvernig hefir þér hugsast að gera grein fyrir því að þú hefir verið hér lifandi í dag í bænum, en konungurinn hefir legið dauður í skothúsinu síðan í fyrrinótt?"

Við færðum okkur nær, þegar Rúdolf tók til máls. Sapt einn sat kyr og hallaði sér aftur á bak á stólnum. Drotning hafði sest niður aftur; hún virtist taka lítið eftir því, sem verið var að segja. Ég ímynda mér, að hún hafi enn verið að stríða við að lægja ólguhaf tilfinninganna í sinni eigin sál. Í huga hennar var nú tilfinningin uni syndina, sem hún ásakaði sig fyrir að hafa drýgt, að berjast við gleði sem gagntók drotninguna alla og hún átti ekki kost á að leyna, en báðar þessar hugarhræringar hjálpuðust að því að bægja öllum öðrum hugsunum frá.

"Ég verð að vera kominn héðan eftir klukkustund," sagði Rúdolf.

"Ef þig langar til þess, þá er það ekki vandgert," sagði Sapt ofursti.

"Láttu nú ekki svona, Sapt, vertu ekki með neina ósanngirni," sagði Mr. Rassendyll brosandi. "Snemma á morgun verðum við — þú og ég —"

"Á, — ég líka?" spurði ofurstinn.

"Já, þú Bernenstein og ég verðum þá komnir til skothússins."

"Það er ekki óhugsandi, en þó er ég samt búinn að fá nóg af harðri reið í bráðina."

Rúdolf leit fast á Sapt.

"Sjáðu til, konungurinn kemur til skothússins snemma morguns."

"Ég heyri herra konungur."

"Og hvað á að gerast þar, Sapt? Á hann að skjóta sig, óviljandi?"

"Það kemur fyrir að menn skjóta sig óviljandi stundum."

"Eða á morðingi að vega hann?"

"En nú ert þú búinn að sjá fyrir líklegasta morðingjanum."

Þrátt fyrir alt gat ég ekki varist brosi, yfir hæðni gamla mannsins og þolinmæði Rúdolfs.

"Eða á trúr og dyggur þjónn hans, Herbert, að skjóta hann?"

"Ertu að hugsa um að gera aumingja Herbert að morðingja?"

"Nei. Ég ætlast til, að honum hefði orðið það óviljandi á, og hann skyti sig svo sjálfan á eftir í örvæntingu."

"Þetta er ekki svo galið. En læknar eru býsna nærfærir um það, þegar þeir sjá lík, hve lengi menn hafi verið dauðir."

"Þú veist það, kæri borgarstjóri, að þeir hafa lófa ekki síður en þekkingu; ef nógu mikið er lagt í lófa þeirra, þá er hægt að skerpa og draga úr þekkingunni eftir vild."

"Ég held að báðar tillögurnar séu góðar," sagði Sapt. "Setjum nú svo, að við hölluðumst að þeirri síðari, hvað er þá að gera?"

"Jæja, þá verður sú fregn látin fljúga út um alla Rúritaníu — já, og um alla Evrópu — að konungurinn hafi í dag á dularfullan hátt —"

"Guð hjálpi okkur!" greip Sapt fram í og Bernenstein hló.

"Látist vofeiflega."

"Hann mun verða mörgum harmdauði," sagði Sapt.

"En á meðan kemst ég heill á húfi til landamæranna."

"Ertu alveg viss um það?"

"Fullkomlega. Og þegar undir kveld er komið næsta dag leggið þið Bernenstein á stað til Streslau með lík konungsins." Og eftir stutta þögn hvíslaði Rúdolf. "Þið verðið að muna eftir að raka hann. Og ef læknarnir ætluðu að fara að tala um hvað langt sé, síðan hann lést, þá munið þið eftir því, að það eru lófar á þeim eins og ég sagði."

Sapt sat stundarkorn þegjandi, eins og hann væri að hugleiða tillöguna. Hún var í alla staði glæfraleg, en hepnin hafði gert Rúdolf djarfan, og hann vissi það vel, hve seint vaknar grunur, þegar svikin eru nógu gapaleg. Það eru líklegu svikin, sem komast upp.

"Jæja, hvernig líst þér á þetta?" spurði Mr. Rassendyll. Ég tók eftir því, að hann mintist ekkert á það við Sapt, sem þau höfðu komið sér saman um að gera síðar, drotningin og hann.

Sapt hleypti brúnum, og ég sá að hann leit hornauga til James, og James gat varla varist brosi.

"Þetta er auðvitað áhætta," mælti Rúdolf ennfremur, "en ég held að þegar þeir sjá lík konungsins —"

"En á því strandar einmitt alt," greip Sapt fram í. "Þeir geta ekki fengið að sjá lík konungsins."

Rúdolf horfði á hann undrandi. Þá tók hann til máls og sagði í lágum hljóðum, til þess að drotningin skyldi ekki heyra það og verða óróleg: "Þú verður að sjá um að búast við þessu, eins og þú veist. Flyttu líkið í kistu, og varastu að láta nokkurn sjá það nema örfá embættismenn."

Þá stóð Sapt upp og nam staðar frammi fyrir Mr. Rassendyll.

"Tillagan er góð, en hún strandar á einu," sagði hann og var undarlegur blær á röddinni, og jafnvel enn hörkulegri en vanalega. Ég var eins og á glóðum, og ég hefði þorað að leggja höfuð mitt í veð fyrir því, að hann hafði einhverjar óvæntar fréttir að segja okkur. "Það er ekki um neitt lík að ræða," sagði hann.

Jafnvel Rassendyll gat nú ekki stilt sig lengur. Hann stökk fram og greip um handlegginn á Sapt.

"Er ekki neitt lík? Við hvað áttu?" hrópaði hann.

Sapt leit aftur hornauga til James, og því næst tók hann til máls með rólegri, áherzlulausri röddu, eins og hann væri að lesa upp lexíu, sem hann hefði lært, eða væri að leika eitthvert hlutverk, sem hann væri orðinn þaulvanur við.

Það vildi svo til, að aumingja pilturinn hann Herbert skyldi af óaðgætni eftir logandi kerti þar sem olían og viðurinn var," mælti hann. "Þetta kveld á að gizka klukkan sex lögðumst við James niður til að fá okkur ofurlítinn dúr eftir kveldverð. En kl. sjö kom James til mín og vakti mig. Herbergið, sem ég var í, var fult af reyk. Það var kviknað í skothúsinu. Ég stökk fram úr rúminu. Eldurinn var orðinn svo magnaður, að ekki var viðlit að slökkva hann; okkur datt báðum það sama í hug –" Hann þagnaði alt í einu og leit framan í James.

"Okkur datt báðum það sama í hug, að bjarga förunaut okkar," sagði James alvarlegur.

"Okkur datt báðum það sama í hug, að bjarga förunaut okkar," hélt Sapt áfram. "Við hlupum að dyrunum á herberginu, sem hann var í. Ég opnaði hurðina og reyndi að komast inn. Það hefði verið bráður bani. James reyndi, en hopaði út. Ég ætlaði þá að þjóta inn en James kipti í mig; það hefði ekki orðið til annars en að tveir hefðu farist í staðinn fyrir einn. Við urðum að forða sjálfum okkur. Svo komumst við út. Þá stóð skothúsið alt í björtu báli. Við gátum ekkert nema staðið og horft á, þangað til skotbrunni viðurinn var orðinn að ösku og eldurinn dauður. Hvað gátum við gert? Loks lagði James á stað að útvega hjálp. Hann fann nokkra brenslumenn og kom með þá með sér. Þá var eldurinn dauður, og við fórum í sameiningu að skoða rústirnar. Alt var brunnið til ösku. En" — hann lækkaði röddina — "við fundum nokkuð, sem líkt var hræi af hundinum Boris; í öðru herbergi var brunnið lík, og hjá veiðimannahorn bráðið í klessu, og sáum við að þar var Herbert skógarvörður. Og þar var annað lík, sem engin mynd var orðin á og öldungis óþekkjanlegt. Við sáum það, og kolabrennslumennirnir sáu það líka. Þá komu fleiri bændur að, því að þeir sáu eldinn. Enginn gat sagt, hver það var; enginn vissi um það nema ég og James. Og við stigum á bak hestum okkar og höfum riðið hingað til að segja konunginum frá þessu."

Sapt hafði nú lokið við lexíuna eða söguna, sem hann var að segja. Nú setti grát að drotningunni og hún huldi andlitið í höndum sér. Við Bernenstein vorum forviða yfir sögu þessari, við vissum ekki hvort þetta var gaman eða alvara, og gláptum á Sapt. Loks sneri ég mér að Sapt, þreif í handlegginn á honum, hálf kjánalega, og eins og í gáska, og spurði hlæjandi:

"Af hverjum var þetta lík, borgarstjóri?"

Hann leit á mig gáfulegu, litlu augunum alvarlegur og lét sér hvergi bregða.

"Það var af Mr. Rassendyll, vini konungsins, er beið í skothúsinu með James þjóni sínum eftir komu Hans Hátignar frá Streslau. Þjónn hans hérna er reiðubúinn að leggja á stað til Englands, og flytja ættingjum Mr. Rassendylls tíðindin."

Drotningin var fyrir nokkru farin að hlusta á frásögnina; hún leit ekki af Sapt, og hún hafði rétt hönd sína að Sapt, rétt eins og hún væri að biðja hann að ráða fyrir sig þessa gátu. En þessi fáu orð höfðu samt skýrt frá brögðum hans svo sem nægði. Rúdolf Rassendyll var dauður, lík hans brunnið til ösku, og konungurinn lifandi, heill á húfi og sat nú í hásæti í Streslau. Þannig hafði Sapt tekið brjálsemissýkina af James og hafði komið í framkvæmd tillögum þeim, sem litli þjónninn hafði verið að bera upp fyrir honum þeim til dægrastyttingar í skothúsinu.

Nú tók Mr. Rassendyll alt í einu til máls. Hann talaði hátt og snjalt.

"Þetta er lýgi, Sapt," sagði hann og kipraði varirnar fyrirlitlega.

"Það er ekki lýgi, að skothúsið er brunnið og líkin, sem voru í því, og að um fimtíu bændur vita það, og að enginn lifandi maður getur þekt að líkið þar sé af konunginum. En hvað hinu líður, þá er það lygi. En ég held að sannleikurinn í því dugi."

Mennirnir stóðu þarna báðir andspænis hvor öðrum og buðu hvor öðrum byrginn. Rúdolf hafði rent grun í, hvaða ofdirfskutiltæki Sapt og félagi hans höfðu ráðist í. Nú var ómögulegt að flytja lík konungsins til Streslau; jafnómögulegt virtist að lýsa yfir því, að maðurinn, sem brunnið hafði í skothúsinu hefði verið konungurinn. Sapt hafði þannig séð um, að Rúdolf væri bundinn í báða skó; sama hafði vakað fyrir Sapt eins og okkur, en tiltekjur hans bíræfnari og óbilgjarnari. Og þegar ég sá hvernig Rúdolf leit til hans, bjóst ég við engu frekar, en að þeir mundu ganga brott úr augsýn drotningar og fara að heyja blóðugt einvígi. En Mr. Rassendyll gat þó stilt skap sitt.

"Þið hafið allir haft samtök af því, að gera mig að þorpara," sagði hann kuldalega. "Fritz og Bernenstein hafa verið að eggja mig til þess, og nú ætlar þú, Sapt, að neyða mig. Og ég sé ekki betur, en að James sé í sama ráðabrugginu."

"Ég lagði á ráðin, herra minn," svaraði James hvorki ögrandi eða óvirðulega, heldur eins og hann væri að sýna húsbónda sínum sjálfsagða hlýðni með því að fræða hann um það, sem hann vildi vita.

"Þá eruð þið allir á einu bandi, eins og ég bjóst við. En ég ætla ekki að láta neyða mig til neins. Ég sé að hér er ekki nema um eitt að gera fyrir mig, og það verð ég að gera."

Við þögðum allir og biðum þess, að hann héldi áfram að tala.

"Ég þarf ekki og ætla mér ekki að minnast á bréf drotningarinnar einu orði," mælti hann ennfremur, "en ég ætla að láta fólkið vita, að ég er ekki konungurinn, heldur Rúdolf Rassendyll, og að ég lék konunginn í því skyni að eins að þjóna drotningunni og refsa Rúpert Hentzau. Þetta mun duga, og með þessu móti get ég losað mig úr netinu, sem Sapt hefir flækt mig í."

Hann sagði þetta rólega og kuldalega; mér brá því nokkuð við að sjá að titringur var á vörunum á honum og svitinn bogaði af enninu. Þá skildi ég í hve miklu stríði hann hafði átt við sjálfan sig, þangað til hann sigraðist á freistingunni og réð af hvað gera skyldi. Ég gekk til hans og tók blíðlega í hönd honum. Þá var eins og hann sefaðist.

"Sapt, Sapt," sagði hann, "þú varst rétt að segja búinn að gera mig að þorpara!"

Sapt svaraði engu þessu ávarpi, þó að það væri hlýlegra. Hann hafði verið að ganga um gólf í illu skapi. Þá nam hann skyndilega staðar frammi fyrir Rúdolf og benti á drotninguna.

"Ætlaði ég að gera þig að þorpara?" hrópaði hann. "En hvernig ætlar þér að farast við drotninguna, hana, sem við þjónum allir? Hvernig heldur þú að henni líði, þegar þú ert búinn að opinbera þessi sannindi? Heldurðu að ég hafi ekki heyrt hvernig hún heilsaði þér að Streslaubúum ásjáandi eins og manni sínum elskulegum? Heldurðu að fólkið trúi því, að hún hafi ekki þekt mann sinn? Þú getur sýnt þig, og þú getur talið því trú um, að það hafi ekki þekt þig. En heldurðu að það trúi því, að hún hafi ekki þekt þig? Var ekki hringur konungsins fingri þínum? Hvar er hann? Og hvernig stendur á því, að Mr. Rassendyll hefir dvalið hjá drotningunni klukkutímum saman í húsi Fritz Tarlenheim, þegar konungurinn er í skothúsinu? Konungur og tveir menn aðrir hafa þegar látið líf sitt, og það orðið til þess að vernda hana frá illu umtali. En þú – þú ætlar að verða maðurinn, sem hleypir á stað öllum slúðurberum í Streslau, og kemur hverjum einum til að benda á drotninguna með grunsemd!"

Rúdolf svaraði engu. Þegar Sapt hafði fyrst nefnt nafn drotningarinnar, hafði hann fært sig nær og lagði hendina á bakið á stólnum, sem hún sat á. Hún rétti hönd sína til að ná í hans. Þau héldu þannig höndum saman, og ég sá að Rúdolf var orðinn fölur mjög.

"Og hvað er um okkur, vini þína, að segja?" mælti Sapt enn fremur. "Við höfum fylgt þér jafnfast og drotningunni. Það veit hamingjan, bæði Fritz, Bernenstein og ég. Hver heldurðu trúi því, að við höfum verið hollir konunginum, ef þessum sannindum verður lostið upp, og að við höfum ekki verið við það riðnir að leika á hann — eða jafnvel að drepa hann? Ó, Rúdolf Rassendyll, ég bið guð að varðveita mig frá því, að bregðast konu sem ég elska, eða vinum, sem elska mig!"

Ég hafði aldrei séð gamla manninn jafnhrærðan; hann hreif mig með sér, eins og Bernenstein áður. Mér er það ljóst nú, að við vorum ekki sem fastastir fyrir; við þurftum þar eigi að verða fyrir áhrifum frá öðrum, því að hugurinn leiddist af eigin vild. Æsingakend áskorun Sapts fanst okkur vera sönnun. Og hættan, sem yfir drotningunni vofði, en hann fjölyrti mest um, var sönn og hún var mikil.

En svo kom snögg breyting á hann. Hann greip um hönd Rúdolfs og talaði til hans með lágri og óstyrkri röddu, og blíðleikinn í rómnum var mjög óvanalegur.

"Segðu ekki nei, góði vinur." mælti hann. "Hér bíður þín ástúðleg kona, og ann þér hugástum; hér er ákjósanlegasta land, er vill hafa þig réttilega að konungi, og hér eru bestu vinir — á því er enginn efi — er þrá að mega kalla þig þjóðhöfðingja sinn og drottinn. Ekkert veit ég um það, hversu samvizku þinni er háttað; en hitt veit ég, það, að konungurinn er látinn, og sæti hans er autt, og ég get ekki séð til hvers guð almáttugur hefir sent þig, ef hann hefir ekki gert það til þess að þú settist í þenna auða sess. Láttu tilleiðast, vinur minn, sakir vináttu okkar og heiðurs hennar! Meðan hann var lifandi, mundi ég fyr hafa gengið af þér dauðum, en láta þig ná þessu. Hann er dauður. Jæja, láttu nú tilleiðast — sakir vináttu okkar og heiðurs hennar, vinur minn!"

Ég veit ekki hvað Mr. Rassendyll hefir þá verið að hugsa. Svipur hans var staðfastlegur og alvarlegur. Hann stóð alveg hræringarlaus, kyr í sömu sporum æði stund eftir að Sapt hafði lokið máli sínu. Svo beygði hann höfuðið hægt áfram og horfði í augu drotningarinnar. En hún sat kyr, og horfði á hann líka. Svo spratt hún upp, knúin af sterkri fagnaðarvon, ást sinni á honum og metnaði yfir tignarstöðunni, er honum var boðin, og varpaði sér fyrir fætur honum og hrópaði.

"Já, já! Fyrir mínar sakir, Rúdolf — fyrir mínar sakir!"

"Ert þú líka á móti mér, drotning mín?" sagði hann lágt og strauk blíðlega um rautt hárið á henni.

XX. KAPÍTULI.

Við vorum hálfóðir þessa nótt, Sapt, Bernenstein og ég. Það var eins og þetta, sem við þráðum, væri runnið inn í blóð okkar og orðið að einum hluta af sjálfum okkur. Okkur fanst það óhjákvæmilegt, og því hlyti að verða framgengt. Sapt var að búa sig undir það sem best, að gera grein fyrir skothússbrunanum; fregnina átti að birta í blöðunum, og var mjög nákvæmlega sagt frá því í henni að Rúdolf Rassendyll hefði komið að heimsækja konunginn, ásamt James þjóni sínum. Konungurinn hefði skyndilega verið kallaður til bæjarins, en Mr. Rassendyll hefði ætlað að bíða hans, en beðið bana af. Þá var stutt lýsing á Rúdolf, lofleg ummæli um ætt hans, sæmileg hluttekningarorð til skyldmenna hans, og sendi konungur þeim samhrygðarskeyti með þjóni Mr. Rassendylls. Bernenstein sat við annað borð og reit eftir fyrirskipunum borgarstjórans frásögn um tilraun Rúperts Hentzau til að vega konunginn, og var þar lýst hugrekki konungsins og vörn hans. Þar var sagt að greifinn, sem ólmur var í að fá heimfararleyfi, hefði talið konunginn á að mæta sér, og undir yfirskyni að hann hefði með höndum ríkisskjöl stórmerk og afardularfull; djarfhugaður að vanda hafði konungur farið einn, og neitað skilmálum Rúperts Hentzau fyrirlitlega. Glæpamaðurinn óbilgjarni reiddist þessum óþægilegu viðtökum, og réðst skyndilega á konunginn og fóru svo leikar með þeim sem áður er sagt. Rúpert féll, en konungurinn brendi skjalið án þess að lesa það, að öllum viðstöddum ásjáandi, sem komu til að hjálpa honum, og kom þar fram göfugmennska hans alkunn, því að hann hafði orðið þess áskynja, að skjalið kastaði skugga á ýmsa merka menn; ég breytti þessu til bóta svo sem ég gat, og meðan við vorum að reyna að blinda augu forvitinna manna með þessu, gleymdum við aðal erfiðleikunum sem samgrónir voru málefni okkar. Við fundum ekkert til þeirra; það var alt af viðkvæðið hjá Sapt gegn öllum mótbárum, að þetta hefði verið gert einu sinni áður og væri því hægt að gera það aftur. Við Bernenstein vorum engu trúardaufari á það en hann. Við gátum geymt leyndarmálsins með hyggindum og orku og lagt lífið í sölurnar fyrir það, eins og við höfðum varið bréf drotningarinnar, er nú færi í gröfina með Rúpert Hentzau. Við gátum náð í Bauer og þaggað niður í honum; ójá, við gátum það, en hver mundi leggja trúnað á frásögn þess manns? Rischenheim var á okkar bandi; gamla konan hlaut að þegja um þó hana grunaði eitthvað, sjálfrar sín vegna. Rúdolf hlaut að vera dauður landi sínu og þjóð, en Rúritaníukonungurinn hins vegar halda áfram ríkisstjórn, viðurkendur af allri Evrópu, virtur og ólastanlegur. Auðvitað varð hann að giftast drotningunni í annað sinn. Sapt var reiðubúinn að sjá fyrir því, og vildi ekki heyra nefnt, að vandfenginn yrði maður til að vígja þau saman að réttum sið. Ef hugrekkið ætlaði að bila, þurftum við ekki annað en að virða fyrir okkur ástæður allar, ef við féllum frá þessum djarflegu áformum. Við þóttumst svo sannfærðir um, að ekki væri um neitt annað að gera, en að setja Rúdolf í hásæti, og datt ekki í hug að brjóta heilann um hvort það væri mögulegt, en reyndum að tryggja ráðagerð okkar á allan hátt.

Rúdolf sjálfur hafði ekkert um þetta sagt. Áskorun Sapts og grátbeiðni drotningarinnar hafði komið honum til að hika sig, en ekkí snúið hug hans; hann hafði linast en ekki látið undan. Ekki datt honum í hug að setja erfiðleikana eða hættuna fyrir sig, frekar en við; hann þagði ekki af ótta við slíkt. En hann hikaði vegna þess, að hann var óráðinn í hvort þetta skyldi gert eða ekki; við þurftum ekki að vera að reyna að telja kjark í kvíðafullan hug, heldur draga úr þeirri næmu heiðvirðismeðvitund, er eigi vildi nota annarleg réttindi til eigin hagsmuna. Hann hafði leikið konunginn áður fyrri til þess að bjarga honum, en honum geðjaðist ekki að því að leika konunginn, þegar hagnaðurinn af því féll honum sjálfum í skaut. Við þetta hélt hann fast þangað til umhyggjan fyrir heiðri drotningarinnar og ástúð vina hans lögðust á eitt um að fá hann ofan af þessu. Þá kom hik á hann; en ekki hafði honum snúist hugur. Sapt ofursti fór þó svo að ráði sínu, sem Rúdolf hefði þegar látið undan, og tók því með mesta jafnaðargeði, er sá tími leið, er mögulegt var fyrir Rúdolf að komast brott frá Streslau. Hvað lá á að láta Rúdolf segja af eða á? Með hverri stund sem leið varð honum torfarnara út úr gildrunni; því lengur sem hann var kallaður konungur, því erfiðara var fyrir hann að bera nokkurt annað nafn síðar. Fyrir því lofaði Sapt Rúdolf að velta þessu fyrir sér, meðan hann sjálfur var að semja umsögn sína og lagði á ráðin djúpsæu og viturlegu. Öðru hvoru kom James litli þjónninn inn, rólegur og hæverskur og skein ánægjan úr augum hans. Hann hafði samið skáldsögu til stundarstyttis, en nú var hún að verða sannur þáttur í veraldarsögunni. Og honum datt ekki í hug að skorast undan að vinna þar hlutverk sitt.

Drotningin var búin að yfirgefa ykkur fyrir nokkru, og höfðum við getað talið hana á að leggja sig út af og hvílast þangað til úrslit væru orðin á þessu máli. Þegar Rúdolf fór að hika við, hætti hún að biðja hann frekar með orðum, en í augnaráði hennar lá einlægari beiðni en í mæltu máli, og loks hafði hann leitt hana út úr herberginu og beðið Helgu að annast hana. Þegar hann kom aftur stóð hann þegjandi um stund. Við þögðum líka. Sapt sat og starði á hann og hniklaði brýrnar og japlaði skeggið.

"Jæja, vinur minn," sagði hann loksins og lagði mikla áherzlu á orðin.

Rúdolf gekk út að glugganum og virtist um stund gleyma sér, en starði út í næturkyrðina. Nú sást ekki nema maður og maður á stangli á götunum; tunglið skein glatt á ferhyrntu flötina mannlausu.

"Ég held ég vildi ganga stundarkorn hér úti fyrir meðan ég hugsa málið," sagði hann og sneri sér að okkur; og þegar Bernenstein spratt upp til að fylgja honum, sagði hann: "Nei. Aleinn."

"Já, gerðu það," sagði Sapt og leit á klukkuna, en hún var nærri því tvö. "Hugsaðu þig vel um."

Rúdolf leit til hans og brosti.

"Þú leikur ekkert með mig, Sapt gamli," sagði hann og hristi höfuðið. "Vertu viss um það, að ef ég ræð það af að fara, þá fer ég, á hvaða tíma sem er."

"Já, því er fjandans ver!" tautaði Sapt ofursti.

Þá skildi hann við okkur og var nú ráðgert af kappi og leið svo heil klukkustund. Rúdolf hafði ekki farið út um hallarhliðið, svo að við ímynduðum okkur, að hann væri í hallargarðinum að ráða ráðum sínum. Þá hafði gamli Sapt lokið við verk sitt og tók til máls:

"Tunglinu þarna," sagði hann og benti digra vísifingrinum á gluggann, "skyldi enginn treysta. Ég hefi vitað það vekja illverknaðarlöngun hjá mörgum þorparanum."

"Ég hefi vitað það vekja elskendur," sagði Bernenstein hlæjandi, reis upp frá borðinu, teygði úr sér og kveikti í vindli.

"Já, það er vel fallið til að koma breytingu á mann," sagði gamli Sapt. "Ef tunglið skín á rólegan mann, fer að koma í hann stríðshugur; sama er að segja um metorðagjarnan mann, tunglið gerir hann á svipstundu fúsan á að eyða lífi sínu til einskis. Ég treysti tunglinu illa, Fritz; ég vildi óska, að dimt væri í nótt."

"Hvaða verkanir skyldi það hafa á Rúdolf Rassendyll?" spurði ég hrifinn af þessari undarlegu mælgi Sapts gamla.

"Hann sér ásjónu drotningarinnar í tunglinu," hrópaði Bernenstein.

"Eða kannske guðs," sagði Sapt; og hann hristi sig til, eins og hann langaði til að losa sig við einhverja óþægilega hugsun.

Við þögnuðum við að heyra þessi síðustu orð ofurstans, og litum hver framan í annan. Loks rak Sapt hnefann ofan í borðið.

"Ég læt ekki undan," sagði hann ólundarlega og nærri því harðneskjulega.

"Ég ekki heldur," sagði Bernenstein og rétti úr sér. "Og þú ekki heldur, Tarlenheim."

"Nei, ég held þessu til streitu líka," svaraði ég. Svo varð aftur þögn.

"Tunglið gerir mann svampmjúkan," sagði Sapt, "eða harðan eins og stálslá. Ég væri ugglausari ef dimt væri úti. Ég hefi oft horft á tunglið, bæði frá tjaldi mínu og af bersvæði, og ég þekki það. Það var því að þakka, að mér var veitt heiðursmerki og einu sinni lá við að það ylli því að ég flýði. Mér er illa við tunglið, Bernenstein."

"Ég ætla líka að hugsa meira um fegurðargyðjurnar sem nær eru," sagði Bernenstein; hann var of léttúðugur til að festa hugann lengi á alvarlegu efni.

"Þér býðst líka færi nú, þegar Rúpert Hentzau er fallinn frá," sagði Sapt hörkulega.

Um leið og hann slepti orðinu var drepið á dyr og James kom inn.

"Luzau-Rischenheim greifi biður um leyfi til að tala við konunginn," sagði James.

"Við vonumst eftir Hans Hátign á hverri stundu. Biddu greifann að koma inn," sagði Sapt, og þegar Rischenheim kom benti Sapt honum á stól og mælti enn fremur: "Við erum, lávarður minn, at tala um hvaða áhrif tunglið hafi á menn."

"Hvað ætlið þið að gera? Hvað hefir verið ráðið af?" sagði Rischenheim óþolinmóðlega.

"Við ráðum ekkert af," svaraði Sapt.

"En hvað hefir Mr.— hvað hefir konungurinn þá ráðið af?"

"Konungurinn ræður ekkert af. Tunglið gerir það," sagði Sapt og benti út í glugann á þögulan mánann. "Nú er það annað hvort að skapa konung eða nema hann brott; ég get ekki sagt hvort heldur. Hvað er af frænda þínum að segja?"

"Þú veist, að frændi minn er dauður."

"Já, ég veit það, en hvað er samt af honum að segja?"

"Herra minn," sagði Rischenheim með alvörusvip, "látum hann hvíla í friði, úr því hann er dauður. Okkur ber ekki að dæma hann."

"Hann vildi þó líklega að svo væri, því að ég held satt að segja, að ég hefði slept þeim þorpara," sagði Sapt, "en ég er hræddur um, að dómari hans geri það ekki."

"Guð fyrirgefi honum; mér þótti vænt um hann," sagði Rischenheim. "Já, og það þótti mörgum fleirum. Þjónum hans þótti vænt um hann, herra minn."

"Bauer t.a.m.?"

"Já, Bauer þótti vænt um hann. Hvar er Bauer?"

"Ég vona, að hann sé kominn til helvítis með húsbónda sínum," tautaði Sapt, en þó svo lágt, að Rischenheim heyrði ekki.

"Við vitum ekki hvar hann er," svaraði ég.

"Ég er kominn til að veita drotningunni þjónustu mína allra lotningarfylst," sagði Rischenheim.

"Og konunginum?" spurði Sapt. "Konunginum? En konungurinn er dáinn."

"En: Lengi lifi konungurinn!" hrópaði Bernenstein.

"Ef konungurinn —" tók Sapt til máls.

"Ætlið þið að gera það?" greip Rischenheim fram í með miklum æsingi.

"Það er að ákveða það," sagði Sapt ofursti og benti aftur á tunglið.

"En það er óttalega lengi að því," sagði Bernenstein lífvarðarforingi.

Rischenheim sat stundarkorn þegjandi. Hann var fölur og skjálfraddaður þegar hann talaði. En rómurinn var einbeittur.

"Ég lofaði drotningunni hollustu minni, og jafnvel þó svo fari, sem þið ætlist til, mun ég þjóna henni til hvers sem hún skipar mér."

Bernenstein spratt upp og greip um hönd hans.

"Þetta þykir mér vænt um að heyra," sagði hann, og látum okkur á sama standa um tunglið, ofursti.

Hann var rétt að sleppa orðinu þegar dyrnar voru opnaðar og drotningin kom inn og furðaði okkur heldur en ekki á því. Helga kom á eftir henni; hún fórnaði höndum og hræðslan skein úr augum hennar, og leit út fyrir að hún kæmi óviljug. Drotningin var í langri hvítri skikkju aðhneptri með bandi. Látbragð hennar bar vott um mikinn ótta, og hún heilsaði engum, sem inni var en gekk rakleitt til mín.

"Það er draumurinn, Fritz," sagði hún. "Mig hefir dreymt hann aftur. Helga fékk mig til að leggjast út af, og ég var mjög þreytt og sofnaði. Þá dreymdi mig hann aftur. Ég sá hann, Fritz, — ég sá hann eins greinilega eins og þig. Fólkið alt kallaði hann konung, eins og það gerði í dag; en það hrópaði ekki fagnaðaróp. Fólkið var rólegt, og horfði á hann með raunasvip. Ég gat ekki heyrt hvað það sagði; það talaði svo lágt; ég heyrði ekkert nema: "konungurinn, konungurinn", og það virtist sem hann heyrði það jafnvel ekki heldur. Hann lá kyr, og hann hvíldi á einhverju skrauti, ég sá ekki hvað það var: og hann lá grafkyrr. Hann var fölur og heyrði ekki þegar fólkið sagði "konungurinn". Fritz, Fritz, hann virtist vera dauður. Hvar er hann? Hvert hafið þið látið hann fara?"

Hún sneri sér frá mér og rendi augum yfir hina.

"Hvar er hann? Hvers vegna eruð þið ekki hjá honum?" spurði hún og var snögg breyting á rómnum; "hvers vegna eruð þið ekki hjá honum? Þið ættuð að standa á milli hans og hættunnar, reiðubúnir að láta líf ykkar fyrir hann. Þið virðist, herrar mínir, satt að segja vera nokkuð sinnulitlir um skyldur ykkar."

Vera má að lítið vit hafi verið til í því, sem hún var að segja. Það leit ekki út fyrir að nein hætta vofði yfir honum, og þess utan var hann ekki konungur okkar þó að okkur langaði mikið til þess. En ekkert slíkt kom okkur þó til hugar. Okkur féllu þungt ákærur hennar og fanst við eiga það skilið, þó að hún væri okkur gröm. Við urðum niðurlútir, og það kom upp um Sapt að hann fyrirvarð sig, hversu ólundarlega hann svaraði.

"Hann hefir óskað eftir að fara út og ganga, drotning, einn sér. Hann skipaði okkur — segi ég, hann skipaði okkur að fara ekki með sér. Var okkur ekki skylt að hlýða honum? Háðið í rödd hans sýndi að honum fanst drotningin sýna helst til mikið óstýrilæti.

"Hlýða honum? Já. Þið gátuð ekki farið með honum, ef hann hefir bannað það, en þið gátuð fylgt honum eftir; þið hefðuð ekki átt að missa sjónar á honum."

Þetta sagði hún valdalega og ámælandi, en svo varð röddin aftur þýðari eins og fyrri. Hún rétti mér höndina og sagði blíðlega:

"Fritz, hvar er hann? Er honum óhætt? Findu hann fyrir mig, Fritz, findu hann."

"Ég skal finna hann fyrir þig drotning, mín, ef hann er ofan jarðar," hrópaði ég, því ég komst við af orðum hennar.

"Hann er ekki lengra í burtu en hérna úti í garðinum," tautaði gamli Sapt, og var enn gramur yfir ákúrunum og dutlungunum í drotningunni. Hann var líka reiður við Rúdolf sjálfan, af því að tunglið var svo lengi að skapa konunginn eða nema hann brott.

"Úti í garðinum!" hrópaði hún. "Við skulum þá fara og líta eftir honum. Ó, hafið þið látið hann fara að ganga einan úti í garði?"

"Hvað skyldi geta orðið að manninum þar?" tautaði Sapt.

Hún heyrði ekki hvað hann sagði því hún var komin út úr herberginu. Helga fór með henni, og við öll á eftir; Sapt síðastur og var æði súr á svipinn. Ég heyrði tautið í honum, þegar við hlupum niður stigann og komum, eftir að hafa farið gegn um gang inn í sal, er vissi út að garðinum. Þar voru engir þjónar, en við mættum næturverði, og Bernenstein greip skriðljós úr hendi hans, og furðaði maðurinn sig ekki all-lítið á því.

Engin birta var þar inni nema birtan af skriðljósinu. En úti fyrir varpaði tunglið björtum glampa á breiða sandstráða stíginn, og blómbeðin og stóru trén í garðinum. Drotningin fór strax út að glugganum. Ég fór á eftir henni, opnaði gluggann og nam staðir við hliðina á henni. Angandi ilm lagði á móti manni og það var notalegt að finna kaldan andvarann strjúkast um enni manns. Sapt hafði komið á eftir okkur og nam staðar á hina hönd drotningar. Kona mín og aðrir fleiri stóðu að baki okkar, og gægðust út yfir axlirnar á okkur.

Þarna í bjarta tunglsljósinu neðst í breiða hallanum, fast við há tré sem stóðu í röð og bryddu þannig hallann að neðan, sáum við Rúdolf Rassendyll ganga fram og aftur í hægðum sínum með hendurnar á baki sér og horfa fast mót tunglinu, er nú skyldi úr því skera, hvort hann yrði konungur eða færi eins og flóttamaður brott frá Streslau.

"Glatt skín það, tunglið, drotning," sagði Sapt. "Ekki ber á öðru!"

Drotningin svaraði engu. Sapt hafði ekki fleiri orð, og enginn okkar hinna sagði neitt. Við stóðum kyrrir og blíndum á Rúdolf þar sem hann var að ráða við sig hvað gera ætti í þessu mikilvæga máli; sjaldan mun nokkur maður hafa átt úr meiri vanda að ráða. Samt gat ég lítið séð út úr andlitinu á honum og skein tunglið þó glatt á það, svo að það sást gerla, en reyndar bar birtuna þannig á að hann virtist fölleitari en hann átti að sér, og vegna dökka limsins á bak við hann sýndist hann óvenjulega holdskarpur í andliti.

Ég heyrði, að drotningin dró mjög títt andann, en annars varð ég ekki var við neinn hávaða. Hún greip um hálsmálið á kjól sínum og losaði um það; annars hreyfði enginn í hópnum sig neitt. Það var of dimt þarna inni hjá okkur til þess að Mr. Rassendyll gæti séð okkur. Hann glímdi við að ráða ráðum sínum í garðinum, án þess að vita nokkuð um að við værum þarna.

Alt í einu rak Sapt upp ofurlítið óp: Hann rétti höndina aftur fyrir sig og gaf Bernenstein bendingu. Hann rétti borgarstjóranum skriðljósið, en hann setti það út í gluggakistuna öðru megin. Drotningin var alt af að horfa á elskhuga sinn og tók ekki eftir neinu öðru, en ég varð þess var, hvað vakið hafði athygli Sapts. Það sáust rispur á málinu og skorur í tréveggnum kring um skrána á hurðinni. Ég leit til Sapts, en hann kinkaði kolli. Það virtist helst eins og einhver hefði verið að reyna að brjótast inn um þessar dyr um nóttina og rispað tréð með hnífi. Okkur var þetta nægilegt áhyggjuefni þarna þar sem við stóðum og auðséð var á borgarstjóranum, að mikil grunsemd hafði vaknað hjá honum. Hver hafði verið að reyna að brjótast inn? Það hafði ekki getað verið vanur innbrotsþjófur. Sá hefði haft betri tæki.

En athygli okkar drógst nú aftur að öðru. Rúdolf hafði numið staðar. Hann horfði enn til himins; loks leit hann til jarðar, rétt niður fyrir fæturna á sér. Litlu síðar rétti hann upp höfuðið — hann var berhöfðaður, og sást stirna á dumbrauða hárið við þá hreyfingu — eins og maður, sem hefir fengið leysta torráðna gátu. Við eins og fundum það strax á okkur, að nú væri hann búinn að ráða við sig hvað hann ætlaði að gera. Konungur næturinnar, máninn, var búinn að skera úr málum. Titringur fór um okkur; ég fann að drotningin þokaði sér nær mér; Rischenheim hvíldi handlegginn upp við mig, og ég fann að strengdi á vöðvunum og þeir hörðnuðu. Sapt var mjög alvarlegur á svip, og japlaði skeggið þegjandi. Við þokuðumst hver nær öðrum. En loks gátum við ekki þreyð lengur. Sapt leit á mig og drotninguna og fór svo út. Hann ætlaði að fara og vita, hvað af væri ráðið, þá yrði þessari óþolandi bið loks lokið. Drotningin virtist ekki taka eftir því, að Sapt leit til hennar, eða hafa séð að hann fór burtu. Hún horfði stöðugt á Mr. Rassendyll og hugur hennar var allur þar sem hann var; hamingja hennar var í hans höndum, og var undir því komin hvað hann hafði ráðið af, þar sem hann stóð grafkyr á stígnum. Oft hvarflar hann mér fyrir hugskotssjónir, eins og hann stóð þarna, hávaxinn, þráðbeinn og tígulegur, líkur því sem vér hugsum oss mikilhæfa konunga á frægðartímum fornaldarinnar, þegar vér lesum nú um þá.

Það heyrðist nú marra í sandinum, því að Sapt var kominn ofan á stíginn. Rúdolf heyrði til hans og leit við. Hann sá Sapt og mig líka á bak við hann. Hann brosti ánægjulega og glaðlega, en stóð samt alveg kyr. Hann rétti báðar hendurnar móti borgarstjóranum og greip brosandi um hendurnar á honum. Ég var engu nær um hvað hann hafði ráðið af, þó að ég sæi að hann hefði komist að niðurstöðu óhagganlegri, sem veitti sál hans frið. Ef hann ætlaði sér að halda áfram nú, þá mundi hann gera það alt til enda, án þess að líta um öxl eða stanza á miðri leið; ef hann hefði hitt af ráðið, þá mundi hann skilja við okkur umyrðalaust og án þess að hika framar við það. Andardráttur drotningar var ekki eins tíður og áður; hún stóð kyr eins og líkneski; en Rischenheim þokaði sér til óþolinmóðlega eins og hann þyldi ekki við að bíða lengur.

Þá heyrðum við hörkulegan málróm Sapts.

"Jæja," sagði hann. "Ætlarðu að vera eða fara?"

Rúdolf þrýsti þéttara að höndum hans og horfði fast í augu honum. Drotningin greip í handlegginn á mér; það var eins og hún væri að missa máttinn, og hún hefði sjálfsagt fallið, ef ég hefði ekki stutt hana. Samstundis hljóp maður fram úr skugga háu trjánna rétt á bak við Mr. Rassendyll. Bernenstein rak upp hátt óp, ýtti drotningunni hörkulega frá sér og hljóp áfram. Hann greip skyndilega til þunga sverðsins, sem hann bar með lífvarðar einkennisbúningnum, og dró það úr slíðrum. Ég sá glampann af blaðinu í tunglsljósinu; en nú brá fyrir öðrum glampa enn bjartari. Skot heyrðist alt í einu gella þarna í þögula garðinum. Mr. Rassendyll misti ekki af höndum Sapts, en féll hægt á hnén. Sapt stóð sem þrumulostinn. Bernenstein hrópaði í annað sinn, og nú nefndi hann mann á nafn:

"Bauer. Guð hjálpi mér, það er Bauer," hrópaði hann.

Á svipstundu var hann kominn af stígnum og yfir að trjánum. Morðinginn skaut aftur, en hitti nú ekki.

Við sáum blika á sverðið fyrir ofan höfuðið á Bernenstein og heyrðum það þjóta hvínandi gegn um loftið. Það kom í hvirfilinn á Bauer, og hann hné til jarðar eins og höggvinn trjábolur, og var klofinn í herðar niður. Drotningin slepti takinu á mér og féll í fangið á Rischenheim. Ég hljóp fram og kraup niður hjá Mr. Rassendyll. Hann hélt enn í hendurnar á Sapt, og hélt sér þannig uppi. En þegar hann sá mig slepti hann því taki og lét fallast að mér og hvíldi höfuðið á brjósti mínu. Hann bærði varirnar, en gat ekki komið upp neinu orði. Skotið hafði komið í bakið á honum. Bauer hafði hefnt húsbónda síns, er hann hafði elskað, og var nú farinn að hitta hann.

Nú heyrðist alt í einu, ys og þys inni í höllinni Gluggahlerum og gluggum var lokið upp. Það var hægt að sjá okkur greinilega þarna þar sem við stóðum í hóp. Rétt á eftir heyrðist traðk mikið og svo umkringdi okkur fjöldi af liðsforingjum og þjónum. Bernenstein stóð nú hjá mér og studdist við sverð sitt. Sapt hafði ekki sagt eitt einasta orð, kvíði og gremja skein úr svip hans. Rúdolf hafði aftur augun og hvíldi höfuðið upp við mig.

"Það hefir verið skotið á konunginn," sagði ég hiklaust.

Þá varð ég þess var af James, þjónn Mr. Rassendylls var kominn til mín.

"Ég er búinn að senda eftir læknunum, lávarður minn," mælti hann. "Við skulum bera hann inn strax."

Svo lyftum við, hann, ég og Sapt Rúdolf upp, og bárum hann upp hallann og inn í litla salinn. Við fórum fram hjá drotningunni. Hún studdist við handlegg Rischenheim og hélt í hönd konu minni. Við lögðum Rúdolf á legubekk. Úti fyrir heyrði ég Bernenstein kalla: "Takið þið þenna náunga og farið með hann eitthvað burt úr augsýn manna." Því næst kom hann inn líka, og fólk á eftir honum. Hann vísaði því öllu burt, og við vorum einir inni og biðum eftir sáralækninum. Þá kom drotningin, og Rischenheim með henni.

"Rúdolf! Rúdolf!" hvíslaði hún mjög blíðlega.

Hann opnaði augun og reyndi að brosa. Hún varpaði sér á hnén og kysti hönd hans innilega.

"Sáralæknirinn kemur hingað undir eins," sagði eg.

Rúdolf hafði horft á drotninguna. Þegar ég sagði þetta leit hann til mín, brosti aftur, og hristi höfuðið. Ég leit undan.

Þegar sáralæknirinn kom hjálpuðum við Sapt honum til að skoða Rúdolf. Drotningin hafði verið leidd burt og við vorum einir. Rannsóknin á sárinu stóð ekki lengi yfir. Því næst bárum við Rúdolf í rúm í herbergi Bernensteins, því að það var næst; við lögðum hann þar og þar var honum hjúkrað svo sem hægt var. Meðan á þessu stóð höfðum við ekki spurt sáralækninn neins, og hann hafði heldur ekki sagt okkur neitt. Við vissum nægilega mikið og þurftum einskis að spyrja; allir höfðum við séð menn deyja áður, og þektum dauðamörkin á andlitinu, sem við horfðum á. Tveir eða þrír frægustu læknar í Streslau bættust nú við; þeir höfðu verið kallaðir í mesta flýti. Það var auðvitað ekki nema sjálfsagt að kalla þá, en að sama hefði dregið þó að þeir hefðu fengið að sofa kyrrir heima í rúmum sínum. Þeir gengu allir í einn hóp út í eitt hornið á herberginu og ræddust þar við í lágum hljóðum. James lyfti upp höfðinu á húsbónda sínum og gaf honum að drekka. Rúdolf drakk ofurlítið, en átti mjög bágt með það. Svo sá ég, að hann tók þétt í hönd James, því að litli maðurinn var mjög hnugginn, en þegar húsbóndi hans brosti nú fór hann að brosa líka.

Ég gekk til læknanna.

"Jæja, herrar mínir, hvað segið þið?" spurði ég.

Þeir litu hver til annars, og loks sagði sá stærsti þeirra alvarlega:

"Konungurinn getur lifað eina klukkustund, Fritz greifi. Skyldi ekki vera réttast að senda eftir presti?"

Ég gekk beint yfir til Rúdolfs Rassendyll. Hann leit til mín spurnaraugum. Ég vissi að hann var hugrakkur maður, og var því ekki með neinar vífilengjur eða undanbrögð. Ég beygði mig ofan að honum og sagði:

"Eina klukkustund halda þeir, Rúdolf."

Hann þokaði sér til eirðarleysislega, ég veit ekki hvort heldur vegna þjáninga eða í mótmæla skyni. Þá tók hann til máls, og talaði mjög lágt og með miklum erfiðleikum.

"Þá geta þeir farið," sagði hann, og þegar ég mintist á prestinn hristi hann höfuðið.

Ég fór aftur til læknanna og spurði þá hvort nokkuð frekara væri hægt að gera; þeir kváðu nei við því; ég gat samt ekki hlýðnast öðru vísi, en að senda þá alla að einum undanskildum yfir í næsta herbergi við. Rúdolf hafði látið augun aftur á ný; gamli Sapt hafði ekki sagt eitt einasta orð síðan skotið reið af; en nú þokaði hann magra andlitinu að eyranu á mér og sagði hörkulega:

"Það er víst best að við sækjum hana og látum hana koma til hans."

Ég kinkaði kolli.

Sapt fór burtu, en ég beið hjá honum. Bernenstein gekk til hans og kysti á hönd hans. Þessi ungi maður, er hafði sýnt svo óbilandi hugrekki og snarræði í öllum okkar málum, var nú alveg yfirbugaður, og tárin streymdu niður kinnar hans. Það var litlu betur ástatt fyrir mér, en ég harkaði af mér til að láta Mr. Rassendyll ekki sjá það. Hann brosti framan í Bernenstein. Þá sagði hann við mig:

"Kemur hún, Fritz?"

"Já, hún kemur, herra konungur," svaraði ég.

Hann tók eftir því hve ávarp mitt var formlegt; ofurlitlum glampa brá fyrir í augum hans eftirvæntingarfullum.

"Jæja, eina klukkustund verður það þá," sagði hann og hné aftur á bak á koddann.

Hún kom, þureyg, róleg og drotningarleg. Við þokuðum okkur öll frá: hún kraup á kné við rúmið og tók báðum höndum um hönd hans. En hann hreyfði strax til höndina. Hún slepti henni þá; hún sá skjótt hvað hann vildi og tók svo hönd hans og lagði hana á höfuðið á sér og beygði sig um leið ofan að rúminu. Þá strauk hann hendinni í síðasta sinni um gljáa hárið á henni, sem honum hafði þótt svo vænt um. Hún reis upp, lagði handlegginn um hálsinn á honum og kysti hann. Hún grúfði sig ofan að honum, og við héldum að hann hefði sagt eitthvað við hana, en þó svo hefði verið hefðum við ekki getað heyrt það; þannig leið löng stund.

Læknirinn kom og tók á lífæðinni og sneri brott aftur þögull og þungbúinn. Við færðum okkur dálítið nær, því að við vissum að hann átti nú skamt eftir að vera hjá okkur. Alt í einu virtist máttur færast í hann. Hann reis sjálfur upp í rúminu og sagði með skýrri röddu:

"Guð hefir skorið úr," sagði hann. "Ég hefi reynt að gera það, sem ég hugði réttast í öllu þessu máli. Sapt, og Bernenstein og þú, Fritz, vinir mínir, komið þið hérna og takið í hönd mína. Nei, kyssið ekki á hana. Nú eru öll ólíkindalæti óþörf."

Við tókum í hönd hans eins og hann óskaði, og drotningin á eftir okkur. Hún las aftur óskir hans í augnaráðinu og bar hönd sína að vörum hans.

"Þinn í lífi og dauða, yndislega drotning mín," sagði hann lágt.

Og síðan sofnaði hann.

XXII. KAPÍTULI.

Það er óþarfi að fjölyrða um það sem gerðist næst eftir lát Mr. Rassendyll, enda á ég bágt með að segja frá því. Ráðin, sem við höfðum lagt á til að tryggja honum konungdóminn, ef hann fengist til að taka við honum, komu nú að góðu haldi þegar hann var dáinn. Umtal af Bauers hendi þurfti ekki að óttast; gamla konan var of skelkuð til að hafa orð á því við nokkurn, sem hana kann að hafa grunað. Rischenheim hélt vel heitið sem hann hafði unnið drotningunni. Brunarústirnar að skothúsinu geymdu dyggilega leyndarmálsins sem þær fólu, og engum kom til hugar að vefengja að það væri brunnar líkamsleifar Rúdolfs Rassendyll, sem greftraðar voru í Zenda-grafreitnum við hliðina á Herbert skógarverðinum. Við höfðum algerlega fallið frá því að flytja lík konungsins til Streslau, og skifta um það og lík Mr. Rassendylls. Annmarkarnir sem á því voru máttu heita ókleifir, og satt að segja langaði okkur ekkert til að keppa við það. Rúdolf Rassendyll hafði andast eins og konungur og rétt að láta hann hvíla þar sem slíkum manni sæmdi. Eins og konungur hvíldi hann í höll sinni í Streslau, og þaðan barst fregnin um að einn samsærismanna Rúperts Hentzau hefði myrt hann, svo öllum þótti furðu sæta út um víða veröld. Við losnuðum úr öllum vanda, en dýrkeypt varð það; ýmsa kynni að hafa grunað eitthvað ef hann hefði lifað, en enginn grunaði hinn látna; grunsemdum, sem hefðu kunnað að koma upp ef hann hefði setið í hásæti, varð afstýrt við grafhvelfingarhliðið. Konungurinn var látinn. Mundi nokkur fara að spyrja um það, hvort það væri nú vissulega konungurinn sjálfur, er hvíldi í stóra hallarsalnum, eða hvort skartlausa gröfin í Zenda geymdi bein síðasta Elphbergsins? Allur grunur og umtal þaggaðist niður í grafarkyrðinni.

Allan daginn hafði fólk verið stöðugt á ferli fram og aftur um stóra hallarsalinn. Þar lá Rúdolf Rassendyll á viðhafnarmiklum líkbörum með kórónu yfir og tjaldað umhverfis konunglegum fánum. Æðsti embættismaður í höllinni hélt vörð um líkið; í dómkirkjunni söng erkibiskupinn messu fyrir sálu hans Hann hafði hvílt þarna í þrjá daga; þriðji dagurinn leið að kveldi og morguninn eftir var hann jarðaður. Á litla hápallinum í salnum, sem líkbörurnar höfðu staðið rétt neðan við, var ég þetta kveld með Flavíu drotningu minni. Við vorum þar tvö ein, og horfðum bæði ofan á rólega andlitið á dauða manninum. Hann var klæddur í hvítan einkennisbúning, sama einkennisbúninginn, sem hann hafði borið þegar hann var krýndur. Rauði rósadregillinn lá um brjóst hans. Í hönd hans var sannarleg rauð rós óvisnuð og ilmandi; Flavía sjálf hafði lagt hana þar, svo að hann skyldi jafnvel dauður fá að bera merkið um ást hennar. Ég hafði ekki yrt á hana frá því við komum þangað og hún ekki heldur á mig. Við horfðum á alla viðhöfnina umhverfis hann; og fólkið, sem var að streyma þarna að með blóm eða að líta á hann. Ég sá stúlku koma, og krjúpa niður hjá líkbörunum. Hún stóð upp grátandi og skildi eftir ofurlítinn blómvönd. Það var Rósa Holf. Ég sá konur koma, og ganga burtu grátandi, og karlmenn bíta á jaxlinn þegar þeir fóru fram hjá. Richenheim kom þangað fölur og hryggur í bragði. En meðan fólkið var að koma að og fara burtu, stóð gamli Sapt með brugðnu sverði, hermannlegur og hljóður við höfðalagið á líkkistunni, og starði beint fram undan sér. Þannig stóð hann klukkustund eftir klukkustund hræringarlaus allan þann langa dag.

Ofurlítill kliður barst þangið sem við vorum. Drotningin lagði hönd sína á handlegginn á mér.

"Þetta er draumurinn, Fritz," sagði hún. "Þey! Fólkið er að tala um konunginn. Það talar í lágum hljóðum. Það kallar hann konung. Þetta er einmitt það, sem ég sá í draumnum. En hann hvorki heyrir né sinnir því neinu. Nei, hann getur hvorki heyrt né sint því, þó jafnvel ég kalli hann konung minn."

Mér flaug alt í einu nýtt í hug, sneri mér að henni og spurði: "Hvað réði hann af, drotning? Ætlaði hann að verða konungur okkar?"

Hún hrökk ofurlítið við.

"Hann sagði mér það ekki," svaraði hún, "og ég mundi ekkert eftir því meðan hann var að tala við mig."

"Um hvað var hann þá að tala, drotning?"

"Um ekkert nema ást – um ekkert nema ást sína Fritz," svaraði hún.

Af þessu ræð ég það, að ástin sé dauðvona manni meira virði en konungsríki, og vera má, ef vel er að gáð, að hún sé lifandi manni engu minna virði.

"Um ekkert annað en þá miklu og innilegu ást, sem hann bar til mín," sagði hún aftur. "Og ást mín var það, sem bjó honum bana."

"Hann vildi engan veginn hafa það öðru vísi," sagði ég.

"Nei," hvíslaði hún; og hún hallaði sér fram yfir grindurnar á hápallinum og rétti hendurnar í áttina til hans. En hann lá kyr og rólegur, og heyrði hvorki né sinti því neinu þó hún segði lágt: "Konungur minn! Konungur minn!" Þetta var öldungis eins og í draumnum.

Það kveld skildi James, þjónninn, við okkur og húsbónda sinn látinn. Hann flutti munnlega – við þorðum ekki að skrifa – til Englands fregnina um Rúritaníu konunginn og Mr. Rassendyll. Hann átti að segja Burlesdon jarlinum, bróður Ródolfs, frá öllu, með þeim skilmála að hann héldi þvi leyndu; og alt til þessa dags er jarlinn sá eini, fyrir utan okkur, sem heyrt hefir þessa sögu. Þegar James hafði lokið þessu erindi sínu, sneri hann aftur til að ganga í þjónustu drotningarinnar og hefir verið hér síðan. Hann sagði okkur, að Burlesdon lávarður hefði setið hljóður um stund eftir að hann hafði heyrt söguna, og sagt síðan:

"Honum fór vel. Ég ætla einhvern tíma að fara og sjá gröf hans. Segðu Hennar Hátign, að enn sé einn Rassendyllanna á lífi, ef hún þurfi einhvers við."

Orðsending þessi var eftir manni, sem bar sama nafn og Rúdolf, en ég vonast samt til, að drotningin þurfi engrar annarar hjálpar en þeirrar, sem skylda og ást okkar lítilmótlegra getur henni í té látið. Það er hlutskifti okkar, að reyna að létta henni byrðina, sem hún hefir að bera, og draga, með vináttu okkar úr sorg hennar. Hún ríkir nú ein síns liðs í Rúritaníu, síðust Elphberganna; eina huggun hennar er að ræða um Rúdolf Rassendyll við þá, sem þektu hann, og eina von hennar er það, að fá að vera samvistum með honum einhvern tíma.

Við lögðum hann til hvíldar með mikilli viðhöfn í grafhvelfingu Rúritaníukonunganna í dómkirkjunni í Streslau. Þar hvílir hann ásamt konungbornum mönnum af Elphbergsættinni. Ég ímynda mér, að ef hinir dauðu hafa nokkra meðvitund eða vita nokkuð um það sem gerist í veröldinni sem þeir hafa horfið frá, þá muni þeir verða upp með sér af því að geta kallað hann bróður sinn. Það hefir verið reist vegleg myndastytta af honum og nú benda menn á hana er þeir vilja minna á Rúdolf konung. Oft verður mér reikað þangað, og minnist ég þá alls sem gerðist, þegar hann kom til Zenda, bæði í fyrra og síðara skiftið. Ég syrgi hann, eins og flokksmaður syrgir öruggan foringja og kæran vin, og einkis hefði ég framar óskað en að fá að þjóna honum alla æfi mína. En nú þjóna ég drotningunni, og að líkindum er elskhuga hennar það einkar kært.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Ólgulindir æskunnar streyma fram hjá, og elfir fullorðins áranna hníga að lygnu hafi. Sapt er nú orðinn hniginn að aldri; innan skamms verða synir mínir orðnir svo vaxnir, að þeir geta þjónað Flavíu drotningu sjálfir. Samt sem áður er endurminningin um Rúdolf Rassendyll mér í eins fersku minni eins og daginn, sem hann dó, og ímynd dauða Rúperts Hentzau svífur mér oft fyrir sjónir. Það getur verið að öll sagan komi einhvern tíma fyrir almennings sjónir, og getur þá hver felt þann dóm yfir henni, sem honum sýnist. Nú virðist mér eins og alt hafa farið vel. Ég vil að menn misskilji mig ekki. Mig tekur það enn sárt, að hafa þurft að sjá af honum. Mannorði drotningarinnar var bjargað, og atburðurinn vofeiflegi varð Rúdolf sjálfum eins og lausn frá of erfiðu kjöri: annars vegar um rýrð á virðing hans sjálfs, hins vegar á hennar. Þegar ég hugleiði þetta, þá verður það til þess að draga úr beiskjunni sem dauði hans olli mér, en ég harma hann eigi að síður. Enn í dag veit ég ekki hvernig hann kaus; nei, ég veit það ekki, og ég veit heldur ekki hvernig hann hefði átt að kjósa. En samt var hann búinn að því, því að friður og birta skein úr svip hans.

Nú hefi ég hugsað um hann svo lengi, að ég má til að fara að skoða myndastyttuna af honum. Ég tek með mér yngsta son minn, dreng á tíunda ári. Hann er ekki of ungur til að vilja þjóna drotningunni, og ekki of ungur heldur til að læra að elska og virða hann, sem sefur þarna í grafhvelfingunni og var meðan hann lifði sá göfugasti karlmaður, sem ég hefi þekt.

Ég ætla að taka drenginn með mér og segja honum það, sem mér sýnist um valmennið Rúdolf konung, segja honum hversu hann kunni að berjast hversu hann elskaði og hversu hann mat virðingu drotningarinnar og sína eigin, öllu öðru meira hér í heimi. Drengurinn er nógu gamall til að nema slíka lærdóma úr lífi Mr. Rassendylls. Og meðan við stöndum þar verð ég að þýða á rúritansku, – því eins og gengur þykir þessum snáða meira gaman að leika sér að tinsoldátum, en lesa latínu – letrið á myndastyttunni, en það reit drotningin með eigin hendi, og mælti svo fyrir, að það skyldi vera letrað á þróttmiklu tungumáli Rómverja yfir gröf hans: "Rudolfi, sem nýlega ríkti í borg þessari, og ávalt mun ríkja í hjarta hennar – Flavía drotning."

Ég sagði honum hvað þetta þýddi, og hann stafaði þessi stóru orð með barnsrödd sinni: í fyrsta sinni fipaðist honum, en í annað skiftið hafði hann það rétt, og las upp með fjálgleik og barnslegum málrómi:

RUDOLFO

Qui in hac civitate nuper regnavit In corde ipsius in aeternum regnat.

FLAVIA REGINA.

Ég fann hönd hans titra í lófa mínum, og hann leit framan í mig.

"Guð blessi drotninguna, pabbi," sagði hann.

Endir.