ALEXANDRE DUMAS
(LES TROIS MOUSQUETAIRES)
(DE TRE MUSKETERER)
SAGA Í FJÓRUM HEFTUM
BJÖRN G. BLÖNDAL
ÞÝDDI
SIGLUFIRÐI
BÓKAÚTGÁFAN HEIMDALLUR
1923
PRENTSMIÐJA SIGLUFJARÐAR
Alexandre Dumas (Alexandr Dujma) er fæddur 1803 og dó 1870. Hann kom til Parísar tvítugur að aldri og fékk þar skrifarastöðu hjá hertoganum af Orléans með því að hann skrifaði frábærlega fallega hönd, en jafnframt beitti hann penna sínum og hugarflugi á annan hátt. Árið 1826 kom út eftir hann skáldsagnahefti, en ekki vöktu þær sögur mikla eftirtekt, og ekki heldur leikrit, er hann gaf út ári seinna. Þar á móti fékk fjörugt sögulegt leikrit, er kom út 1829 og nefndist »Hinrik 3. og hirð hans« góðar viðtökur og fylgdi því nú löng runa af hugmyndaríkum og ofsafengnum sögulegum leikritum, þar sem hann gaf tilhneigingum sínum til öfga og óstýrilætis lausan tauminn og var mörgum þeirra vel tekið bæði í París og erlendis. Dumas hlaut þó ekki heimsfrægð sína fyrir leikrit þessi, heldur fyrir skáldsögur sínar. Hann samdi slík feikn af þessum sögum, að hann varð að taka sér marga aðstoðarmenn og hafði oft undir 10-12 stóreflis sögur í einu. Eins og að líkindum lætur, var allur þessi sögufjöldi ekkert framúrskarandi að sannri list eða djúpsæjum sálarathugunum, en ekki skorti þær ótæmandi hugarflug, æsandi sögu-efni og hroðalegar lýsingar og því verður ekki neitað, að þær bera langt af venjulegum reyfarasögum að frábærri hugsjónagáfu og gallísku fjöri. Frægastar og snildarlegastar þeirra eru saga sú, sem hér birtist nú á íslensku, »Skytturnar« (Les trois mousquetaires) ásamt framhaldi hennar »Tuttugu árum síðar« og »Síðustu afreksverk skyttanna«, ennfremur »Greifinn af Monte Christo«, »Margot drotning« og »Hálsmen drotningar«. Sögur þessar voru – og eru sumpart enn – uppáhaldssögur als þorra manna víðs vegar um heim bæði á Frakklandi og erlendis og hefur verið snúið á flest mál, en á íslensku hefur engin þeirra birst áður.
Sífeld peningaþröng var þess valdandi, að Dumas samdi þessi ógrynni af sögum og leikritum, en sú peningaþröng stafaði aftur af hinni ótrúlegu og beinlínis barnalegu eyðslusemi hans. Í raun og veru vann hann sér inn ógrynni fjár með skáldsögum sínum, leikritum, tímaritum, endurminningum o. s. frv., en það fé hvarf jafnskjótt eins og dögg fyrir sólu og þessi heimsfrægi höfundur dó að lyktum í fátækt og vinum horfinn þegar skáldæð hans var þrotin.
Aths. Þess er að gæta við framburðinn á frönsku nöfnunum (ísl. framb. í svigum), að áherslan liggur ávalt á seinustu samstöfu.
Fyrsta mánudaginn í aprílmánuði 1635 leit helst út fyrir alvarlegt uppþot í þorpinu Meung (möng). Þar var alt á tjá og tundri og líkast því sem Húgenottar hefðu látið þar sömu látum og í Rochelle (rosél). Konur þustu eftir aðalgötu bæjarins og krakkar hrinu inni í húsunum, svo að allmargir borgarar bæjarins hervæddust, tóku sér byssu eða lagspjót í hönd og þrömmuðu að veitingahúsinu í miklum vígamóði, en þar hafði safnast múgur og margmenni með ópi og óhljóðum.
Á þeim dögum voru slík hræðslu-uppþot dagsdaglegir viðburðir og liðu sjaldan margir dagar svo, að ekki bólaði á þeim í bæjum og þorpum. Höfðingjarnir áttu í sífeldum skærum sín á milli, konungurinn átti í erjum við kardínálann og Spánverjinn við konunginn, bæði ljóst og leynt, en auk þess voru þjófar og beiningamenn, Húgenottar, úlfar og þjónustulýður höfðingja, sem áttu í ófriði við aðra landsmenn alla. Borgararnir vörðust eftir megni og réðust á þjófana, úlfana og þjónustulýðinn; oft og tíðum á höfðingjana og Húgenottana, einstaka sinnum á konunginn – en aldrei á kardínálann eða Spánverjann. En þennan mánudag í aprílmánuði 1635, sem áður er getið, heyrðist að vísu hróp og háreysti, en þar sem hvorki sást gulrauði fáninn né heldur þjónustubúningar hertogans af Richelieu (risjljö), kunnu borgararnir ekki annað til ráða en að þyrpast að veitingahúsinu.
Og þar urðu þeir þess líka brátt áskynja, hvað þessu uppþoti olli.
Það var ungur maður – en það er annars best að lýsa honum í fáum orðum. Hugsaðu þér, lesari góður, Don Quixote (kikkhót) á unga aldri, ekki klæddan í plötu og pansara, heldur aðeins í bláa ullarpeysu, sem var orðin svo upplituð, að hún sýndist helst einhvern veginn blámórauð. Andlitið var toginleitt, dökt yfirlitum og kinnbeinahátt, en það er slóttugleikamerki; kjálkavöðvarnir afar-rammgerir og er það ótvírætt einkenni Gaskognarans (-konj-), jafnvel þó hann hafi ekki húfu á höfðinu, en þessi ungi maður hafði flata húfu baskiska, prýdda fjaðraskúf. Augun voru greindarleg og hreinskilnisleg og nefið bjúgt, en vel lagað. Hann var heldur hár til að geta kallast unglingur, en aftur of smávaxinn til þess að teljast með fullvöxnum mönnum. Ókunnugir mundu hafa talið hann son einhvers leiguliða á langferðalagi, hefði hann ekki borið langt sverð, sem hékk í axlarfetli úr leðri og dinglaði um kálfana á honum og slóst í síðurnar á dróginni, sem hann sat á.
Þessi ungi maður var nefnilega ríðandi og hestur hans svo einkennilegur, að hann hlaut að vekja athygli manna. Það var lítill hestur frá Bearn, eitthvað tólf-fjórtán vetra, bleikur að lit með snoðið tagl og ekki laus við hófsprungur. Hann hengdi hausinn ofan á hné, þegar hann var á ferðinni og fór sér að engu óðslega, en samt sem áður þrammaði hann hálf-aðra þingmannaleið á dag. Það versta við klárinn, og það sem spilti öllum hans kostum, var það, að hann var rammvíxlaður og mjög undarlegur í gangi og þetta var aðalástæðan fyrir því, að eigandi hans vakti svona mikla og leiðinlega eftirtekt á sér, þegar hann hélt innreið sína í Meung.
Þessi óvenjulega eftirtekt var þeim mun leiðinlegri fyrir d'Artagnan (dartanjang) – svo hét ungi maðurinn – sem hann gekk þess eigi dulinn, að hann hlaut að verða að athlægi á þessum reiðskjóta, enda þótt hann væri í sjálfu sér reiðmaður góður. Honum hafði líka fundist fátt um þegar faðir hans gaf honum hann og það þótt hann vissi, að færleikurinn var tuttugu fránka virði að minsta kosti, en skilnaðarræðan, sem faðir hans hélt við það tækifæri var ennfremur gulls ígildi og meira en það.
»Sonur minn,« sagði hinn gamli aðalsmaður. »Þessi hestur er fæddur hér á heimili föður þíns fyrir eitthvað þrettán árum og hann hefur verið hér alta tíð síðan. Þess vegna vona ég, að þú kunnir að meta hann eins og vert er. Fargaðu honum aldrei. Láttu hann deyja rólegum dauða og heiðarlegum dauða í elli sinni og ef þú þarft að sitja á honum í ófriði, þá vertu honum hlífðarsamur eins og þú mundir vilja vera gömlum þjóni þínum. Hljótirðu nokkurn tíma þann heiður, að verða tekinn í hirðmanna tölu – en sá heiður ber þér með réttu sem góðum og gildum aðalsmanni – þá skaltu gæta vel aðalstignar þinnar, bæði sjálfs þín vegna og ættingja þinna, enda hafa forfeður þínir borið nafn sitt með heiðri og sóma í rúm fimm hundruð ár. Þoldu aldrei neinum neitt nema konunginum og kardínálanum. Á vorum dögum er vegur og velgengni aðalsmannsins eingöngu komin undir hugprýði hans – gættu þess vel, sonur minn! Sá, sem hugdeigur reynist, enda þótt ekki sé nema í svip, getur ef til vill af þeim ástæðum farið á mis við þá hylli, sem hamingjan annars hefði látið honum falla í skaut. Þú ert ungur enn. Vertu ávalt röskur og ófeilinn, því að fyrst og fremst ertu Gaskognari og í öðru lagi ertu sonur minn. Vertu ekki smeikur við að grípa tækifærið, þegar það gefst og hliðraðu þér ekki hjá gleði og gamansemi. ég hefi séð um það, að þú ert vopnfimur vel. Þú ert hraustbygður og hefir ærna krafta í köglum – þess vegna skalt þú heyja einvígi, hvar og hve nær, sem þér finst það við eiga. Einvígi eru að vísu bönnuð, en þess vegna þarf nú á dögum miklu meira hugrekki en áður til að heyja þau. – Sonur minn! ég hefi ekki aðrar gjafir að færa þér en hest minn, fimtán dali í peningum og þar að auki heilræði þau, sem ég hefi nú verið að ráða þér. Móðir þín mun fá þér lyfseðil um smyrsl, sem Tattarakona ein gaf henni einu sinni og kvað vera ótrúlega vel fallið til að græða sár og benjar, en þó ekki hjartasár. Reyndu að hafa einhvern hagnað af öllu, sem fyrir þig kann að koma og lifðu nú bæði vel og lengi. – ég skal nú ekki hafa mörg fleiri orð um þetta, en þó vil ég að síðustu benda þér á eitt, sem þú skalt hafa þér til fyrirmyndar á lífsleiðinni. ég ætla ekki að benda þér á sjálfan mig – ég hefi aldrei við hirðina verið og heldur ekki á vígvellinum nema sem sjálfboðaliði í trúarbragðastyrjöldunum. Nei, maður sá, sem ég ætlast til að þú takir þér til fyrirmyndar, er herra de Tréville (dutrevil), sem var nágranni minn í fyrri daga og hlotnaðist sá heiður á sínum tíma, að vera leikbróðir Hans Hátignar, Lúðvíks konungs þrettánda, sem guð varðveiti! Stundum varð leikur sveinanna að reglulegum áflogum og þá var það ekki ávalt konungurinn, sem betur hafði. En barsmíð sú, sem Hans Hátign varð þá að þola, innrætti honum virðingu fyrir herra de Tréville og vinarhug til hans. Síðan lenti herra de Tréville fimm sinnum saman við ýmsar persónur á fyrstu ferð sinni til Parísar. Hann háði sjö einvígi frá því að hinn hásæli konungur dó og til þess að hinn ungi konungur varð fullveðja, auk þess sem hann tók þátt í herferðum og umsátrum, og mér er nær að halda, að síðan konungurinn varð fullveðja og þangað til nú, hafi hann háð hundrað einvígi, eða vel það. – Jæja, þrátt fyrir lög og tilskipanir og bann er nú þessi maður samt orðinn höfuðsmaður skyttuliðanna, það er að segja höfuðsmaður hetjuflokks, sem konungurinn hefur miklar mætur á og kardínálinn óttast. Þetta síðasta atriði er mikils um vert, því að það vita bæði guð og menn, að Hans Hágöfgi er ekki sérlega smeikur við neinn eða neitt í þessum heimi. Mundu það líka, að herra de Tréville hefir tíu þúsund dali á ári. Já, það er nú maður í lagi! Taktu hann til fyrirmyndar – hann byrjaði með tvær hendur tómar, eins og þú. Færðu honum þetta bréf frá mér og mun þér þá vel vegna í veröldinni.«
Að svo mæltu gyrti herra d'Artagnan son sinn sverði sínu, kysti hann innilega á báðar kinnar og lagði yfir hann blessun sína.
Þegar hinn ungi maður lét dyrnar á herbergi föður síns aftur á eftir sér, stóð móðir hans fyrir utan þær og beið hans með hinn dásamlega lyfseðil. Var all-líklegt, að honum mundi ekki verða vanþörf á honum, ef hann fylgdi í öllu ráðum föður síns. Skilnaður þeirra mæðginanna varaði lengur og var talsvert hjartnæmari en kveðja sú, er faðir hans hafði kvatt hann með. Frú d'Artagnan grét hástöfum og – það veri sagt syni hennar til verðugs hróss! – þó að hann reyndi að harka af sér, eins og tilvonandi skyttuliða hæfði, þá átti hann bágt með að leyna tárum þeim, sem fyltu augu hans.
Sama daginn fór hann úr foreldra húsum. Gjafir þær, sem hann flutti með sér úr föðurgarði voru, eins og áður er sagt, hesturinn, fimtán dalir í peningum og bréfið til herra de Tréville og svo ennfremur heilræði þau og áminningar, sem d'Artagnan gamli lét í ofanálag af hjartagæsku sinni.
Með þessu vegferðarnesti var hinn ungi maður bæði að siðferði og lunderni nauðalíkur hetjunni í sögu Cervantes, (Don Quixote), er vér líktum honum, heppilega við, þegar skyldan bauð oss að gera ágrip af mannlýsingu hans. Don Quixote réðist á vindmylnur í þeirri trú, að þær væru risar og ætlaði sauðfjárhópa vera óvíga heri. – d'Artagnan þóttist sjá móðgun í hverju brosi og einvígisboð í hverju forvitnis augnatilliti. Af þeirri ástæðu reið hann með kreptan hnefann alla leið frá Tarbes (tarb) til Meung og var sí og æ að grípa til sverðsins og þó rakst krepti hnefinn ekki framan í neitt andlit né heldur var sverðið dregið úr slíðrum. Að vísu stökk mörgum, sem um veginn fóru, bros, þegar þeim varð litið á Bleik gamla, en með því að afarlangt sverð glamraði á síðu hans og þar fyrir ofan glórði í tvö tinnuhörð og grimdarleg augu, þá leist flestum að sitja á strák sínum eða að brosa ekki nema með öðru munnvikinu að minsta kosti. Og á þann hátt gat d'Artagnan farið leiðar sinnar í friði og rósemi, alt þangað til að hann kom inn fyrir hliðið á óheillaþorpinu Meung.
Söguhetja vor sté af baki hesti sínum, en ekki kom nokkur lifandi sál til að taka á móti honum, hvorki gestgjafinn né þjónn hans – það var ekki einu sinni svo vel, að hesthússtrákurinn kæmi til að taka við klárnum. Sá hann þá inn um hálfopinn glugga á neðstu hæðinni mann einn fríðan og föngulegan, er var að tala eitthvað við aðra menn þar inni, en þeir hlýddu á tal hans með mikilli lotningu. Maður þessi var all-þóttalegur á svip og háðslegur og var d'Artagnan ekki lengi að taka það til sín. Í þetta skifti var það heldur ekki með öllu ástæðulaust, því að raunar voru mennirnir ekki að hæðast að honum sjálfum, heldur að hesti hans. Það virtist svo sem þessi ókunni maður væri að telja upp alla kynjakosti Bleiks gamla, en áheyrendur hans hlóu dátt að allri þeirri lýsingu og háðglósunum. En þar sem ekki þurfti nema lítið bros til að hleypa d'Artagnan upp, þá er óþarfi að geta þess, hver áhrif þessi köpuryrði höfðu á hann.
En áður en d'Artagnan hefðist handa, vildi hann samt kynna sér betur útlit þessa ósvífna náunga. Hann leit á hann drembilega og sá nú, að þetta var maður um fertugt eða hálf fimtugt, dökkeygður og snareygður, bjartur á hörund, nefstór og með vel hirt yfirskegg. Hann var í fjólubláum kufli og fjólubláum stuttbuxum með samlitum borðum. Bæði kuflinn og stuttbuxurnar voru nýlegar, en allar hrukkóttar og volkaðar eins og ferðaföt verða, sem geymd eru lengi samanbrotin í ferðakoffortum. D'Artagnan veitti öllu þessu eftirtekt á einni svipstundu og það var eins og hann óraði eitthvað fyrir því, að maður þessi mundi hafa mikilvæg áhrif á framtíð sína.
Í sama bili heyrðust hlátrasköll út um gluggann; hafði ókunni maðurinn líklega tekið eftir einhverju nýju séreinkenni á gamla Bleik. Og nú var ekki lengur um neitt að villast: Tilgangurinn var auðsjáanlega sá, að misbjóða d'Artagnan. Hann þrýsti þá húfunni ofan að augum, setti upp sama svip, sem hann hafði séð á heldri ferðamönnum í Gaskogne (– konj) og gekk að ókunna manninum með aðra höndina á sverðshjöltunum, en hinni studdi hann á mjöðm sér. Því miður óx gremja hans við hvert skref, sem hann gekk. Hafði hann í fyrstunni ætlað sér að ávarpa manninn nokkrum vel völdum orðum, en í þess stað kom hann nú ekki upp nema fáeinum skammaryrðum og hristi sig allan og skók:
»Heyrið þér þarna, maður minn, sem hálffelið yður bak við gluggahlerann -- -- já, þér -- -- að hverjum fjandanum eruð þér að hlæja?«
Ókunni maðurinn rendi augunum með mestu hægð frá hestinum til eiganda hans, eins og hann þyrfti að hugsa sig vandlega um áður en hann fengi skilið, að þessi orð væru töluð til sín. En þegar hann var genginn úr öllum efa um það, hleypti hann brúnum, horfði á unga manninn og svaraði með ósegjanlegri hæðni og kuldaglotti:
»ég var als ekki að tala við yður, herra góður.«
»En ég var að tala við yður!« grenjaði d'Artagnan, froðufellandi af gremju og grimd.
Ókunni maðurinn horfði brosandi á hann augnablik, fór svo frá glugganum, gekk í hægðum sínum til d'Artagnan og staðnæmdist fáein skref frá hestinum. Stilling sú og hugarrósemi, sem hvíldi yfir honum öllum, samfara háðinu og spottinu í svip hans, ollu nýjum hlátrasköllum áheyrandanna.
D'Artagnan dró sverð sitt úr slíðrum.
»Þessi hestur,« sagði ókunni maðurinn um leið og hann skoðaði klárinn í krók og kring og sneri orðum sínum til áheyrandanna við gluggann -- »þessi hestur líkist, eða hefur réttara sagt einhvern tíma á sínum yngri árum líkst brennisóley á litinn. Sá litur er alþektur í grasafræðinni, en alt að þessu hefur það þótt afarsjaldgæfur hestalitur.
»Já, þér hæðist nú að hestinum, en mér þætti gaman að sjá framan í þann, sem dirfðist að hlæja að eiganda hans,« æpti d'Artagnan.
»ég hlæ ekki að jafnaði, herra minn,« svaraði ókunni maðurinn -- »það getið þér líklega séð á mér, en ég ætla að halda fast við rétt minn til að hlæja þegar mér þóknast.«
»Og ég, herra góður,« svaraði d'Artagnan, »þoli ekki að neinn sé að hlæja, þegar mér mislíkar það.«
»Nú, einmitt það!« sagði hinn með sömu óþolandi róseminni. »Það er rétt gert af yður.« Að svo mæltu sneri hann sér við og ætlaði að ganga aftur til gluggans, þar sem hann stóð áður.
En d'Artagnan var nú ekki alveg á því að láta mann, sem hafði verið svo ósvífinn að draga dár að honum, sleppa svona úr greipum sér. Hann brá sverðinu og hrópaði eftir ókunna manninum:
»Snúið þér yður við, herra gleiðgosi, eða ég skal klóra um hrygginn á yður með korðanum mínum.
»Hvað er nú?« sagði hinn, snerist á hæli og starði á unga manninn með ótvíræðri undrun og fyrirlitningu. »Þér hljótið að vera gengnir af göflunum, kæri vin!« -- og svo sagði hann við sjálfan sig: »Það er annars leiðinlegt. Hann væri ekki ófélegur liðsmaður í skyttulið Hans Hátignar!«
Um leið og hann slepti orðinu hjó d'Artagnan til hans með slíkri ofsabræði, að þetta hefðu að líkindum orðið hans seinustu orð í þessu lífi, hefði hann ekki stokkið til hliðar í einu vetfangi. Því næst dró hann einnig sverð sitt úr slíðrum, heilsaði andstæðing sínum og bjóst til varnar. En í sömu svipan réðust áheyrendurnir, tveir að tölu, á d'Artagnan ásamt gestgjafanum og lumbruðu á honum með prikum, öskuskúffum, eldtöngum og öllu því, sem þeir annars fengu hönd á fest. Þessi skyndilega árás kom svo flatt upp á d'Artagnan, að hann átti fult í fangi með að verjast þeim höggum og pústrum, sem buldu á honum. Ókunni maðurinn gat þannig komist út úr þessum sviftingum í ró og makindum, en tautaði þó um leið:
»Skrattinn hafi þessa Gaskognara! Fleygið þið stráknum upp á bleika jálkinn og látið hann svo fara leiðar sinnar!«
»Ekki fyr en ég er búinn að kodda þér, úrþvættið þitt!« æpti d'Artagnan, varðist svo rösklega sem hann gat og hopaði ekki eitt fótmál undan þessum þremur aðsækéndum, er létu höggin dynja á honum í sífellu.
»Þetta er ekki annað en Gaskognara-gort« sagði ókunni maðurinn. »Þeir eru alveg ótækir, sem ég er lifandi maður. Svona! Lemjið þið strákinn duglega fyrst hann vill það endilega. Hann segir sjálfsagt til, þegar honum þykir nóg komið!«
En d'Artagnan var ekki á því að gefast upp. Sviftingarnar vöruðu enn nokkra stund, þangað til hinn ungi maður misti sverðið úr hendi sér, örmagna og lúbarinn og var sverðið þegar gripið og mölvað sundur. Í sömu andránni fékk hann högg á ennið, sem gerði hann því nær meðvitundarlausan, svo að hann féll til jarðar og fossaði blóðið úr honum. Það var einmitt í þessu, sem mannfjöldinn streymdi að úr öllum áttum. Gestgjafinn varð nú alt í einu hræddur um, að þetta kynni að draga illan dilk á eftir sér og kom hinum særða inn í eldhúsið. Var honum veitt þar sú aðhjúkrun, sem honum var full þörf á.
En ókunni maðurinn færði sig aftur að glugganum og horfði þaðan óþolinmóður á allan mannfjöldann. Honum gramdist auðsjáanlega þetta uppþot og gauragangur.
»Já já! Hvernig líður svo þessum vitfirring?« spurði hann þegar gestgjafinn kom inn til að spyrjast fyrir um líðun hans sjálfs.
»Það gengur vonandi ekkert að yðar hágöfgi?« sagði hann auðmýktarlega.
»Nei, það gengur ekkert að mér, gestgjafi góður,« svaraði ókunni maðurinn, »en ég var að spyrja, hvernig unga manninum liði.«
»Honum líður nú betur,« svaraði gestgjafinn, »en hann lá í öngviti rétt áðan.«
»Ja, hvað er að tarna,« sagði maðurinn.
»En rétt áður en hann leið út af, virtist hann taka í sig allan þann kjark, sem hann átti í eigu sinni. Hann kallaði á yðar hágöfgi og skoraði yður á hólm.«
»Ekki nema það þó! Þessi slöttólfur er verri viðureignar en paurinn sjálfur« sagði ókunni maðurinn.
»Ja nei nei yðar hágöfgi! Hann er ekki svo hættulegur,« svaraði gestgjafinn brosandi. »Þegar hann féll í ómegin, fórum við að ransaka pjönkur hans og kom þá í ljós, að allur hans farangur var ekki annað en ein skyrta og tólf dalir í peningum. En haldið þér kannske ekki, að þessi lúsalubbi hafi hrópað hástöfum það, áður en hann misti meðvitundina, að hefði þetta komið fyrir hann í París, þá skylduð þér hafa fengið að finna smérþefinn af því -- en nú yrði það því miður að dragast, að hann fengi hefnt sín.«
»Ja, það er svo!« svaraði ókunni maðurinn. »Kannske þetta sé einhver dularklæddur prins eftir alt saman, sem við höfum átt í höggi við.«
»Ja, ég ætlaði nú bara að segja yður eins og er, náðugi herra, til þess að þér gætuð tekið yður vara.«
»Hefur hann ekkert nafn nefnt í þessu æðiskasti?«
»Jú, víst hefur hann gert það. Hann klappaði hvað eftir annað á brjóstvasann og sagði: Hvað skyldi herra de Tréville segja um þessa smán, sem skjólstæðingur hans hefur orðið fyrir?«
»Herra de Tréville,« tók ókunni maðurinn upp aftur og varð hugsi. »Hann klappaði á vasann, segið þér, um leið og hann nefndi herra de Tréville. -- -- Heyrið þér nú, gestgjafi góður! Þér hafið væntanlega gægst í vasa unga mannsins meðan hann var meðvitundarlaus. Hvað funduð þér þar?«
»ég fann bréf, sem skrifað var utan á til herra de Tréville, höfuðmanns skyttuliðanna?«
»Getur það verið?«
»Það er svo satt sem ég stend hérna, yðar hágöfgi!«
Gestgjafinn var ekki sérlega eftirtektasamur og sá því als ekki svipbreytinguna, sem skyndilega varð á andliti ókunna mannsins.
»Ja, hver rækallinn!« sagði þessi höfðingi í hálfum hljóðum. »Skyldi Tréville hafa sent þennan Gaskognara-slána á hælana á mér? Sverðstunga er aldrei annað en sverðstunga, hvort sá er ungur eða gamall, sem henni veldur, og menn gruna vanalega síður unglinga en fullorðna menn. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið.«
Hann varð aftur hugsi.
»Jæja, gestgjafi góður,« sagði hann. »Þér verðið að losa mig við þennan strákbjálfa. ég kann ekki við að ganga af honum dauðum, en hann skapraunar mér afskaplega. Hvað hafið þér gert af honum?«
»Hann liggur uppi í herbergi konunnar minnar og það er verið að binda um sár hans.«
»Hafa föt hans og farangur líka verið látin þangað upp? Færðuð þér hann ekki úr treyjunni?«
»Það er alt niðri í eldhúsinu. En fyrst að þessi strákbjáni er yður svona ógeðfeldur -- --«
»Já það er hann og hann hefur gert þann óskunda í yðar húsum, að heiðarlegt fólk mun kinoka sér við að gista hér. Fáið þér mér nú reikninginn minn og kallið á þjóna mína.«
»Hvað er að tarna? Ætlið þér, náðugi herra, að fara héðan strax?«
»Það gátuð þér líklega skilið þegar ég skipaði að söðla hestinn minn. Hefur það kannske ekki verið gert enn þá?«
»Jú, seisei jú! Hesturinn stendur söðlaður við aðal hliðið, eins og yðar hágöfgi getur séð. Það er alt tilbúið til fararinnar.«
»Það er gott. Gerið þér svo hitt, sem ég hefi skipað fyrir.«
»Skyldi náðugur herrann vera hræddur við strákhvolpinn?« hugsaði gestgjafinn með sjálfum sér.
Ókunni maðurinn leit á hann mynduglega, svo að hann gat ekki grenslast eftir þessu betur, en hneigði sig djúpt og gekk út úr stofunni.
»Nei. Þessi strákasni má ekki koma auga á »mylady1, (mæleidi)«, sagði ókunni maðurinn við sjálfan sig. »Hún ætti nú bráðum að fara að koma, en það lítur út fyrir, að henni ætli að dveljast. Það er víst best, að ég ríði á móti henni -- bara að ég gæti komist eftir því, hvað stendur í þessu bréfi til Tréville.«
Að svo mæltu gekk hann út í eldhúsið og var alt af að tala við sjálfan sig.
Gestgjafinn var nú ekki í neinum efa um, hvað það væri, sem ýtti ókunna manninum af stað. Hann gekk upp til konu sinnar og fann d'Artagnan þar; var hann nú búinn að ná sér nokkurn veginn eftir ryskingarnar. Gestgjafinn sagði honum þá, að lögreglan mundi kunna því illa, að hann hefði slegist upp á göfugan mann og gat hann að lokum fengið d'Artagnan til að lofa því, að hann skyldi reyna að hypja sig burt þó máttfarinn væri. D'Artagnan fór þá upp úr rúminu, þó að hann væri hálfringlaður, treyjulaus og höfuðið reifað og staulaðist ofan stigann með tilstyrk gestgjafans. Loksins komst hann ofan í eldhúsið og fyrsti maðurinn, sem hann kom auga á, var ókunni maðurinn, sem stóð á skörinni á stórum ferðavagni, er tveimur stærðarhestum var beitt fyrir, og talaði hljótt við kvennmann nokkurn.
Það grilti í höfuðið á þessum nýja gesti milli gluggatjaldanna fyrir vagnglugganum og var það ungur kvennmaður, um tvítugt á að giska. Vér höfum bent á það áður, að d'Artagnan var fljótur að ráða svip manna og sá þegar í stað, að konan var ung og fögur. Fanst honum þess meira um fegurð hennar, sem hún var gerólík öðrum konum í þeim hluta Frakklands, sem d'Artagnan var kunnugastur. Hún var björt á hörund og ljóshærð og liðaðist hárið ofan um herðar henni. Hún var bláeygð og augun stór, blíðleg og dreymandi, varirnar rósrauðar og hendurnar fannhvítar. Hún talaði fjörlega við ókunna manninn.
»Hans hágöfgi skipar mér þá -- --« sagði konan.
»Að snúa aftur til Englands þegar í stað og senda mér tafarlaust skeyti um, hvort hertoginn er farinn frá London eða ekki.«
»Og hverjum fyrirskipunum má ég búast við öðrum?« spurði hún.
»Þær eru í þessu skríni og það má als ekki opna, fyr en þér eruð komin yfir sundið.«
»Gott og vel. En hvað ætlið þér nú fyrir yður?«
»Eg sný aftur til Parísar.«
»Án þess að tyfta þetta strákflón?« spurði hún.
Í því að hann ætlaði að svara þessu kom d'Artagnan skyndilega út í dyrnar og hafði heyrt hvert einasta orð.
»Þarna er þessi ósvífni ferðalangur, sem kvað eiga að tyfta annað fólk,« kallaði hann »og í þetta skifti vona ég, að hann renni ekki eins og raggeit, eins og hann gerði áðan.«
»Nú, einmitt það!« sagði ókunni maðurinn og hnyklaði brýrnar.
»Já, ég vona að þér skammist yðar fyrir að leggja á flótta í návist kvennmanns.«
»Munið umfram alt eftir því, að hin minsta töf getur haft skaðlegar afleiðingar,« sagði konan þegar hún sá, að ókunni maðurinn greip til sverðsins.
»Þier hafið rétt að mæla,« svaraði hann. »Leggið þér bara af stað -- svo skal ég fara minnar leiðar.«
Hann kinkaði kolli til konunnar að skilnaði og fleygði sér á hest sinn, en vagnstjórinn lamdi sína hesta með svipunni af alefli. Ókunni maðurinn og konan þeystu síðan burt, sitt í hvora áttina.
»En reikningurinn!« æpti gestgjafinn og snerist auðmýkt hans fyrir hinum ókunna ferðamanni, þegar í dýpstu fyrirlitningu, þegar hann sá hann rjúka burt án þess að borga fyrir sig.
»Borgaðu, þrællinn þinn!« hrópaði ókunni maðurinn til þjóns síns, en hann fleygði tveimur eða þremur silfurpeningum í gestgjafann.
»Fjandans úrþvætti, níðingur, falsgreifi og uppgerðar-aðalsmaður!« æpti d'Artagnan og hljóp á eftir þjóninum.
En sár hans voru svo mörg og mikil, að hann var enn of máttfarinn til að þola þá áreynslu. Hann var varla kominn tíu skref áleiðis þegar hann fékk suðu fyrir eyrun, sortnaði fyrir augum og svimaði svo, að hann datt um koll og stundi enn einu sinni með veikum burðum:
»Níðingur, níðingur, níðingur!«
»Já, það er sannarlegur níðingur« tautaði gestgjafinn nú líka. Hann gekk brosandi að d'Artagnan, auðsjáanlega í þeim tilgangi að smjaðra fyrir honum, eins og hegrinn fyrir sníglinum í dæmisögunni.
»Hann var níðingur,« sagði d'Artagnan aftur, »en hún var falleg!«
»Hvaða »hún«?« spurði gestgjafinn.
»Mylady,« svaraði d'Artagnan og leið svo í ómegin aftur.
»Nújæja« sagði gestgjafinn. »Þau fóru sína leið en þessum held ég þó eftir í einn eða tvo daga. Það það verða þó altént þeir ellefu eða tólf dalirnir.«
Lesarinn man víst, að það var alt það fé, sem d'Artagnan hafði handbært.
Gestgjafinn gerði ráð fyrir ellefu daga sjúkdómslegu og einum dal á dag fyrir hjúkrunina, en hann varaði sig ekki á gesti sínum. Klukkan fimm morguninn eftir fór d'Artagnan á fætur, gekk ofan í eldhúsið, heimtaði vín, olíu, rósmarín og fleiri lyfefni, sem vér kunnum ekki nöfn á. Hrærði hann svo smyrsli úr þessu og rauð á sár sín og batt síðan um höfuðið á ný. Ekki vildi hann þiggja neina læknishjálp og hvort sem það var nú smyrslunum að þakka eða því, að enginn læknir skifti sér af honum, þá var d'Artagnan risinn á fætur sama kvöldið og búinn að ná sér nokkurn veginn aftur daginn eftir.
Rósmarínið, olían og vínið var alt og sumt, sem d'Artagnan hafði þegið þar í veitingahúsinu, en gestgjafinn fullyrti að Bleikur gamli hefði étið þrefalt meira en maður skyldi ætla eftir stærð hans. Þegar d'Artagnan ætlaði að fara að borga þetta, fann hann ekki annað í vösum sínum en ofangreinda ellefu dali í slitinni flauelspyngju. Bréfið til herra de Tréville var alveg horfið.
D'Artagnan vildi leita af sér allan grun. Hann sneri við vösunum hvað eftir annað, grannskoðaði ferðatöskuna og opnaði pyngjuna aftur, en þegar hann loks var orðinn sannfærður um, að bréfið væri hvergi að finna, fyltist hann ofsabræði í þriðja sinn. Og það var ekkert líklegra, en að hann mundi þurfa að halda á nýjum birgðum af víni og öðrum lyfjum, því þegar gestgjafinn sá, hve æfur hinn ungi maður varð aftur og heyrði hótanir hans, að brjóta og bramla alt innan stokks ef hann fengi ekki bréfið aftur, þá greip hann sér í skyndi spjót í hönd, en kona hans gólfsóp og þjónarnir náðu sér í prikin, sem þeir höfðu haft daginn áður.
»Bréfið mitt, bréfið mitt!« æpti d'Artagnan. »Komið þið með bréfið mitt, eða ég skal reka ykkur í gegn, hvert einasta eitt, sem ég er lifandi maður.«
En það vildi nú svo til, að eitt var því til fyrirstöðu, að hinn ungi maður gæti framkvæmt hótanir sínar. Eins og áður er sagt, hafði sverð d'Artagnans verið mölvað í sundur þegar honum lenti saman við veitingahúss fólkið, en því hafði hann gleymt í bræði sinni. Nú kom það í ljós, að það var ekki nema lítill stúfur eftir af hinu langa lagvopni, tæprar hálfrar alinnar langur, og honum hafði gestgjafinn stungið í slíðrin af lævísi sinni. Hinn endann geymdi hann á afviknum stað og ætlaði að nota hann síðar sem flesknál.
Þetta óvænta verjuleysi hefði þó tæplega aftrað d'Artagnan frá að lumbra á fólkinu, en þá datt gestgjafanum það alt í einu í hug, að krafa hins unga manns væri fyllilega réttmæt.
»Hvað í dauðanum getur hafa orðið af bréfinu?,« sagði hann alt í einu og fleygði spjótinu frá sér.
»Já, hvað hefir orðið af bréfinu?« spurði d'Artagnan líka. »En ég ætla að eins að láta ykkur vita það, að bréfið er til herra de Tréville og það verður að finna! Ef þið hafið ekki upp á því, þá er herra de Tréville treystandi til að komast fyrir, hvar það sé niður komið.«
Þessi hótun gerði gestgjafann logandi hræddan. Næst konunginum og kardínálanum var enginn nefndur jafnoft og með jafnmikilli lotningu sem herra de Tréville og það jafnt af hermönnum sem öðrum landslýð. Það skyldi þá vera séra Jósef (Richelieu), en nafn hans þorðu menn ekki að nefna nema í hljóði – svo mikill ótti stóð öllum af hans gráu hágöfgi, eins og kunningjar kardínálans kölluðu hann.
Gestgjafinn grýtti spjótinu út í horn og skipaði konu sinni og þjónum að gera slíkt hið sama við gólfsópinn og prikin og fóru þau svo öll að leita að bréfinu dyrum og dyngjum.
»Var nokkuð verðmætt í bréfinu?« spurði gestgjafinn þegar hann var árangurslaust búinn að leita hátt og lágt að þessu óheilla bréfi.
»Mikil ósköp! Það skyldi ég ætla!« svaraði d'Artagnan. »Öll mín framtíð er undir því bréfi komin.«
»Voru það ávísanir á Spánverja?« spurði gestgjafinn, allsmeikur.
»Nei, en það voru ávísanir á einkaféhirslu konungs,« svaraði d'Artagnan. Þetta meðmælabréf átti að hjálpa honum til að komast í skyttulið konungs og áleit hann því, að hann skrökvaði ekki neinu í raun réttri, þó að hann svaraði þessu.
»Hvert í logandi!« sagði gestgjafinn sáraumur.
»Nújæja!« sagði d'Artagnan með öllu því sjálfstrausti og yfirlæti, sem öllum ættmennum hans var gefið. »Peningana er mér alveg sama um – ég kæri mig ekki um annað en bréfið. ég vildi ekki hafa glatað því fyrir þúsund gullpeninga.«
Hann hefði eins vel getað sagt tuttugu þúsund, en það var einhver unggæðisfeimni, sem aftraði honum frá því.
Alt í einu datt gestgjafanum nokkuð í hug, »Bréfið hefur ekki horfið af sjálfu sér,« sagði hann.
»Við hvað eigið þér?« spurði d'Artagnan.
»Því hefur verið stolið.«
»Stolið! Hver ætti að hafa farið að stela því?«
»Ókunni maðurinn, sem hér var í gær. Hann skrapp inn í eldhúsið, þar sem treyjan yðar lá og var þar lengi aleinn. ég þori að hengja mig upp á það, að hann hefur stolið bréfinu.«
»Haldið þér það?« spurði d'Artagnan hálfefins. Það vissi enginn nema hann sjálfur, hvað í bréfinu stóð —- það var einskis virði fyrir alla, nema hann sjálfan.
»Þér grunið þá þennan ósvífna ferðalang, sem var hér í gær,« sagði d'Artagnan.
»Já, ég er alveg sannfærður um það,« sagði gestgjafinn. »Hann varð mjög órór þegar ég sagði honum, að yðar hágöfgi væri skjólstæðingur herra de Tréville og að þér auk þess hefðuð bréf meðferðis til þessa volduga höfðingja. Hann spurði mig, hvar þetta bréf væri og fór strax út í eldhúsið, þar sem treyjan yðar var geymd.«
»Þá er hann þjófurinn, tvímælalaust,« sagði d'Artagnan. »ég skal kæra hann fyrir herra de Tréville og Tréville kærir hann svo fyrir konunginum.« Að svo mæltu tók hann tvo dali upp úr vasa sínum með rembilæti miklu og fékk gestgjafanum þá, en hann fylgdi honum til dyra með hattinn í hendinni og sté hann svo á bak Bleik gamla. Hann seldi Bleik þegar hann var kominn að St. Antoine (angtoan) hliðinu í París án fleiri hindrana og fékk fyrir hann þrjá dali, en það mátti heita vel borgað þegar þess var gætt, að d'Artagnan var nærri búinn að sprengja hann seinasta kaflann af veginum. En hestaprangarinn, sem keypti hann, dró heldur enga dul á það, að hann borgaði hann svona vel eingöngu af því, að hann væri svona fáranlegur á litinn.
Herra de Troisville (troavíl), eins og ættingjar hans í Gaskogne kölluðu sig, eða herra de Tréville, eins og hann sjálfur skrifaði nafn sitt, hafði byrjað veru sína í París nákvæmlega á sama hátt og d'Artagnan, það er að segja, ekki með einn einasta eyri í vasanum, en með óbilandi kjark, hygni og snarræði, er fyllilega jafngiltu þeim peningapyngjum, sem aðalsmennirnir frá Perigon eða Berry gátu státað með. Fádæma hugrekki og einstök hundahepni á þeim tímum, sem sverðshögg og stungur voru dagsdaglegt brauð, hófu hann hröðum skrefum efst upp á þá tröppu, sem konungshylli er nefnd, enda tók hann minst fjögur þrep í einu stökki.
Garðurinn við höll hans í Vieux-Colombier (víö-kólongbíe) götunni líktist einna mest herbúðum. Frá því klukkan sex á morgnana á sumrin – klukkan átta á veturna – söfnuðust þar saman 50 - 60 skyttuliðar, rigsuðu þar fram og aftur alvopnaðir og háværir mjög og virtust vera til í alt eftir útlitinu að dæma. Upp og ofan eitt hið breiða rið, sem var svo mikið um sig, að vel hefði mátt reisa heilt hús á grunni þess, streymdu heilir hópar alskonar umsækénda úr Parísarborg og aðalsmenn utan af landi, sem ekki óskuðu annars en að verða teknir inn í skyttuliðið og auk þess mesti fjöldi af prúðbúnum þjónum í marglitum búningum, sem fluttu boð og bréf til herra de Tréville. Í forsalnum sátu hinir útvöldu, þ.e.a.s. þeir sem höfðu fengið boð um að koma. Þarna var óslitinn ys og þys frá morgni til kvölds, en í einka herbergi sínu, sem var inn af forsalnum, sat herra de Tréville, tók við heimsóknum, hlustaði á kærur, gaf fyrirskipanir og þurfti ekki annað en að ganga út að glugganum ef hann vildi kanna lið sitt, alveg eins og konungurinn gerði á veggsvölunum á Louvre (lúvr) höllinni.
Daginn sem d'Artagnan kom þangað, var þessi mannsöfnuður óvenju skrautlegur. Einkum hlaut hann að ganga í augun á sveitapilti, sem nýkominn var frá kyrlátum átthögum sínum til þessarar stórborgar – enda þótt það væri í þá daga ekki hlaupið að því að ofbjóða Gaskognebúum. Þegar komið var inn um hliðið, afar rammbygt og járnvarið, lenti maður strax í miðjum hóp hermanna, sem skálmuðu fram og aftur hlæjandi og masandi og þrættust og þjörkuðu hver við annan svo hispurslaust og yfirlætislega, eins og væru þeir einu mennirnir í veröldinni og létu eins og þeir væru heima hjá sér. Sá, sem ætlaði sér að komast gegnum þessa mannþyrpingu, varð að vera herforingi, tíginn maður eða fögur kona.
D'Artagnan gekk hjá þessum glöðu og háværu mönnum fremur feiminn og uppburðalítill. Hann klemdi sverðslíðrin að fótum sér svo þétt sem hann gat, lyfti hattinum og brosti vandræðalega eins og sveitamönnum er tamt, þegar þeir vilja sýnast vera miklir á lofti. Í hvert skifti, sem hann slapp fram hjá einhverjum hópnum, var eins og þungu fargi væri létt af honum, en hann sá það vel, að þeir snéru sér við og horfðu á eftir honum og fanst honum hann vera að verða að athlægi í fyrsta skifti á æfinni.
Þó versnaði um allan helming þegar hann ætlaði að komast upp riðið. Þar stóðu fjórir skyttuliðar og voru að skylmast að gamni sínu, en tíu eða tólf félagar þeirra stóðu uppi á tröppupallinum og biðu þess, að röðin kæmi að þeim.
Á efsta þrepinu stóð einn af þessum fjórmenningum með brugðið sverð og varnaði hinum að ganga upp. Þeir lögðu blikandi sverðunum að honum og hélt d'Artagnan fyrst, að þeir hefðu að eins skylmingasverð með doppu á oddinum, en hann komst brátt að því að högg þeirra og lög ollu stórum rispum og sárum og hlóu bæði áhorfendurnir og skylmingamennirnir sjálfir dátt að þessum blóðsúthellingum.
Það var merkilegt að sjá, hvernig þessi eini maður uppi á tröppunni gat varnað hinum aðgöngu. Safnaðist utan að þeim fjöldi áhorfenda. Skilmálarnir voru þeir, að jafnskjótt sem einhver fengi lag eða högg, skyldi hann hætta leiknum og hafði þá mist sitt pláss í röð umsækéndanna í hendur þess, sem höggið greiddi. Skyttuliðinn á efsta þrepinu var búinn að koma sári á hina þrjá eftir fimm mínútur – hafði hann sært einn á úlnliðnum, annan á hökunni og hinn þriðja á annað eyrað, en sjálfur var hann ósnertur. Á þennan hátt hafði hann komist fram fyrir þrjá í umsækénda röðinni.
Þó að d'Artagnan þættist eiga allmikið undir sér, var samt hægt að ganga fram af honum og þessi skylmingaleikur fékk honum mikillar undrunar. Sveitungar hans þurftu að vísu ekki mikið til að rjúka hver í annan, en hann hafði samt vanist því, að ýmiskonar viðbúnaður færi á undan einvígum. En þetta dæmalausa kæruleysi, sem þessir fjórir skyttuliðar sýndu í því að bera vopn hver á annan, virtist honum taka öllu fram, sem hann hafði heyrt getið um – jafnvel í Gaskogne, þessu fyrirheitna landi allra æfintýramanna og stórgrobbara. Hann þóttist vera kominn á land risanna, sem Gúllíver heimsótti seinna meir og sá þar alskonar undur og býsn. Og þó hafði hann ekki aflokið því versta enn. Hann átti eftir að fara um tröppupallinn og komast inní forsalinn.
Á pallinum sjálfum voru engar skylmingar. Þeir sem þar biðu styttu sér stundir með kesknisögum um kvennfólk og í forsalnum mátti heyra margar sögur um hirðlífið. Fann d'Artagnan bæði til óbeitar og einhverskonar hræðslu eða hryllingi við þær sögur. Í heimahögunum hafði hann lent í ýmsum smáæfintýrum við herbergisþernur og stöku sinnum við reglulegar »dömur«, en hann hefði aldrei getað ímyndað sér, að slík ástaræfintýri, sem hér voru gerð að umtalsefni, gætu átt sér stað – og það var sannarlega ekki farið í neina launkofa með þau, þó að þau snertu tignasta fólkið í landinu og þeim var líka lýst út í hörgul -- sagt frá hverju smá-atviki. En þar sem siðgæði hans var ofboðið á tröppupallinum, þá þoldi hann önn fyrir skammirnar um kardínálann þegar inn í forsalinn kom. Þar heyrði d'Artagnan sér til mikillar undrunar hrokafulla palladóma um þá stjórnmálastefnu, sem öll Norðurálfan óttaðist og engdist undir. Og sömu ómildu og fífldjörfu dómar voru lagðir á heimilislíf kardínálans, sem margir háttstandandi menn höfðu reynt að kynnast til hlítar, en ekki fengið annað í staðinn en skömm í hattinn eða þá hreina og beina hegningu. Þessi voldugi maður, sem d'Artagnan eldri bar djúpa lotningu fyrir, varð hér, skyttuliðum Trévilles að aðhlátursefni. Þeir hæddust að því, hvað hann væri kiðfættur og hryggurinn boginn. Sumir gerðu gys að fylgikonu hans, frú d'Aiguillon (degujong) og frænku hans, frú de Combalet (kongbale), en aðrir lögðu ráð sín saman gegn þjónustusveinum og lífvörðum kardínálahertogans. Fanst d'Artagnan alt þetta tal vera í meira lagi ósvífið og frekjulegt.
En jafnskjótt sem nafn konungs barst á góma, sljákkaði snöggvast í þessum opinmyntu gorturum. Háðfuglarnir urðu hikandi og skimuðu í kringum sig, því að verið gat að væri »í holti heyrandi nær.« En þá barst talið aftur að kardínálanum og rigndi háðglósunum yfir hinn háa herra og varð enginn til þess að mæla honum bót fyrir neinn hans verknað.
»En hamingjan góða! Þessir piltungar verða allir saman hengdir eða hneptir í svartholið«, sagði d'Artagnan við sjálfan sig. »og ég fæ líklega sömu útreiðina, fyrst að ég hefi setið hér og hlustað á og ekki orðið að vegi að andmæla þeim með einu einasta orði. Hvað skyldi faðir minn segja, ef hann vissi að ég sæti á bekk með slíkum heiðingjum – hann sem lagði ríkt á við mig að bera lotningu fyrir kardínálanum.«
En svo var þess ekki lengi að bíða, að maður kom og spurði d'Artagnan, hvert erindi hann ætti þangað. Hinn ungi maður sagði kurteislega til nafns síns, reyndi að koma því að, að hann væri sveitungi herra de Tréville og bað um augnabliks áheyrn hjá hinum volduga herra. Þjónninn lofaði allra náðarsamlegast að koma honum á framfæri þegar röðin kæmi að honum.
D'Artagnan var nú farinn að átta sig svolítið eftir fyrstu undrunina og fór nú að virða fyrir sér andlitin og búningana í kringum sig.
Aðalpersónan í háværasta hópnum var hár og digur skyttuliði, drembilegur á svip og svo fáránlega búinn, að það vakti eftirtekt allra. Hann var ekki í einkennisbúningi, sem ekki var heldur fyrirskipað þeim tímum, þegar almenna frelsið var minna, en persónusjálfræðið meira en nú gerist. Í þess stað bar hann himinbláa, en upplitaða og slitna stutt-treyju og yfir henni gullofinn axlarfetil, sem glitraði eins og sjávarflötur í sólskini. Langur, lifrauður flauelskufl hékk í tígulegum fellingum um herðar hans og bak og huldi hann allan, svo að ekki sást í annað innan undir en glóandi axlarfetilinn, en í honum hékk gríðarlangt sverð.
Hann var nýkominn af verði, kvaðst vera kvefaður og hóstaði við og við fremur uppgerðarlega. Þess vegna sagðist hann hafa fleygt yfir sig rauða kuflinum og um leið og hann var að segja frá þessu, sneri hann yfirskeggið yfirlætislega og lét áheyrendurna dást að axlarfetlinum glitsaumaða, en enginn lét jafn eindregna aðdáun í ljósi og d'Artagnan.
»Ja, hvað skal segja«, sagði skyttuliðinn -- »maður verður að tolla í tískunni. Veit ég vel, að það er heimskulegt, en tískan er ráðrík og eftir henni verður að fara og þess utan verður að brúka peningana til einhvers.«
»Nei, hættu nú, Porthos!« kallaði einhver í hópnum. »Þú skalt ekki telja okkur trú um, að þessi fetill sé keyptur fyrir peninga föður þíns. ég er sannfærður um, að þú hefur fengið hann hjá kvennmanninum með andlitsblæjuna, sem ég sá vera á gangi með þér við St. Honoréhliðið á sunnudaginn var.«
»Nei, langt í frá. Svo sannarlega sem ég er aðalsmaður, þá er það satt, að ég keypti hann fyrir mína eigin peninga,« svaraði Porthos.
»Jú seisei, alveg eins og ég keypti þessa pyngju fyrir peningana, sem kærastan lét í gömlu pyngjuna.«
»Nei, það er heilagur sannleikur,« sagði Porthos, »og ég borgaði tólf gullpeninga fyrir fetilinn.«
Aðdáunin varð nú enn meiri, en efagirnin sama.
»Er það ekki satt, Aramis?« spurði Porthos og vék sér að öðrum skyttuliða.
Aramis var alveg gagnhverfur Porthos. Það var ungur maður, liðlega tvítugur, blíður og drengilegur á svip, dökkeygður og rjóður í kinnum. Yfirskegg hans var lítið en fallegt og stóð eins og svart strik á vörinni. Það var eins og hann þyrði ekki að láta hendurnar lafa af því að hann væri hræddur um, að kær kynnu þá að þrútna, og stundum kleip hann í eyrnasnepilinn til þess að eyrað héldi sínum rétta litblæ. Hann var fremur fámáll, talaði hægt, kastaði oft kveðju á menn, hló lágt og skein þá í mjallahvítar og tandurhreinar tennurnar, enda var hann þrifaköttur hinn mesti.
Hann svaraði ekki öðru en að kinka kolli við spurningu vinar síns.
En þetta svar virtist taka af allan efa um uppruna fetilsins. Aðdáunin var jafnmikil en samtalið snerist nú ekki lengur um hann og fóru menn að spjalla um eitthvað annað.
»Hvað segið þér um fréttirnar, sem skjaldsveinn Chalais (sjale) hefir flutt til bæjarins?« spurði annar skyttuliði þá sem í kring stóðu.
»Hvaða fréttir eru það?« spurði Porthos drembilega.
»Hann segist hafa hitt Rochefort (rosjfor), hinn »vonda anda« kardínálans, í Bryssel, dulklæddan múnkabúningi og enn fremur hafði þessi skálkur leikið á kjánann hann de Laigues (lek) vegna dularbúningsins.«
»Já, de Laigues er beinasni — það er engum blöðum um það að fletta,« sagði Porthos. »En ætli þetta sé nú satt?«
»ég hefi það eftir Aramis,« svaraði skyttuliðinn.
»Nú, einmitt það!«
»Það veistu sjálfur, Porthos,« sagði Aramis. »ég sagði þér það í gær, en við skulum ekki tala meira um það.«
»Nei, við skulum ekki tala meira um það — það er nú þín meining,« svaraði Porthos. »Ekki tala meira um það — og þar með slá botninn í söguna! Kardínálinn lætur njósnara vera á hælunum á aðalsmanni, lætur svikara stela bréfum hans, ræningja og hrekkjalóm — lætur fyrir tilverkað þessa njósnara og þessara bréfa höggva höfuðið af Chalais undir því yfirskini, að hann hafði ætlað að myrða konunginn og láta prinsinn giftast drotningunni! Þetta hefir enginn lifandi maður heyrt nefnt á nafn. Þú sagðir okkur það í gær, okkur til mikillar uppbyggingar og nú kemur þú hingað í dag, þar sem við stöndum allir sem steini lostnir yfir þessum ósköpum, og segir bara: Við skulum ekki tala meira um það!«
»Jájá, vertu nú rólegur — við skulum þá tala um það í hamingjunnar nafni,« svaraði Aramis hæglátlega.
»Svo framarlega sem ég væri skjaldsveinn þessa vesalings Chalais, þá skyldi herra Rochefort fá að kenna á mér.«
»Og þú fá enn þá betur að kenna á rauða hertoganum.«
»Rauða hertoganum! Ágætt, ágætt!« kallaði Porthos, skelti saman lófunum og kinkaði kolli. »ég skal sjá um að það nafn komist í hámæli — það máttu reiða þig á. Þú ert neyðarlega fyndinn, Aramis — það máttu eiga og það var illa farið, að þú skyldir ekki geta gengt köllun þinni og gerst ábóti, kæri vin!«
»ég verð það einhver tíma,« svaraði Aramis. »Þú veist það víst líka, Porthos,« að ég stunda stöðugt guðfræðina.«
»Já, víst veit eg það,« svaraði Porthos, »og einn góðan veðurdag, áður en langt um líður, verður Aramis vígður til prests.«
»Það skal ekki standa á löngu,« sagði Aramis.
»Hann er bara að bíða eftir einu, áður en hann fastræður að fara í »pokann,« sem hangir ofan við einkennisbúninginn hans, « sagði einn skyttuliðinn í háði.
»Og eftir hverju er hann að bíða?« spurði annar.
»Hann er að bíða eftir því, að drotningin eignist erfingja að frönsku krúnunni.«
»Við skulum ekki vera að gera gys að því herrar góðir,« sagði Porthos. Svo er fyrir að þakka, að drotningin er enn á þeim aldri, að hún getur alið börn.«
»Já, og Buckingham er einmitt staddur á Frakklandi núna, ef mér ekki skjátlast,« svaraði Aramis og hló við illkvitnislega.
»Nú fer þú ekki rétt með, kæri Aramis,« sagði Porthos, »og þú mundir komast að því fullkeyptu, ef herra de Tréville hefði heyrt þetta til þín.«
»Ætlar þú kannske að fara að siða mig, Porthos?« sagði Aramis allþóttalega og leiftruðu augu hans.
»Vertu annaðhvort skyttuliði eða prestur, kæri vin,« svaraði Porthos. »Ráddu við þig, hvort heldur þú ætlar að vera, en reyndu ekki að vera hvorttveggja í einu. Mundu hvað Athos sagði við þig á dögunum — hann sagði að þú ætir úr öllum jötum. Svona, svona! Farðu ekki að stökkva upp á nef þér — þú ætlar þó víst ekki að gleyma því, sem við Athos og þú höfðum komið okkur saman um. Þú heimsækir frú d'Aiguellon og gerir þér dátt við hana. Þú ert heimagangur hjá frú de Bois-Tracy (boatrasí), frænku frú de Chevreuse (Sévrös) og fólk er að stinga saman nefjum um, að þú sért mjög inn undir hjá þeirri konu. — Nei nei, þú þarft ekki að segja okkur, hvernig lukkan leikur við þig — við ætlum okkur ekki að rýna eftir þínum leyndarmálum og vitum vel, hvað þú ert þagmáll! En því í fjáranum heldur þú ekki fast við þá dygð, þegar um drotninguna er að ræða? Látum menn tala um konunginn og kardínálann, en persóna drotningarinnar er heilög — um hana má ekkert annað en gott segja.«
»Þú ert enn hégómlegri en Narcissus, Porthos minn,« svaraði Aramis. »Þú veist, að ég hata allar siðvendnisáminningar og þoli þær engum öðrum en Athos. En auk þess getur skyttuliði með jafnskrautlegan axlarfetil tæplega látið sér farast að vanda um við aðra. ég verð ábóti ef mér bíður svo við að horfa, en fyrst um sinn er ég nú skyttuliði. Sem slíkur segi ég, hvað sem mér dettur í hug og nú sem stendur er það meining mín, að þú sért óþolandi.«
»Aramis!« »Porthos!«
»Svona. herrar góðir. Verið þið nú rólegir!« hvað við úr hópnum.
»Herra de Tréville vill fá að finna herra d'Artagnan,« sagði þjónninn nú og opnaði dyrnar að innri dyrunum.
Meðan þjónninn var að segja þetta, stóðu dyrnar opnar og sló þá öllu í þögn frammi í forsalnum. Hinn ungi maður reis úr sæti sínu og gekk inn til hins volduga herra. Varð hann feginn að komast hjá að hlusta á enda þrætunnar.
Herra de Tréville var í illu skapi þessa stundina, en tók hinum unga manni kurteislega þrátt fyrir það og fór að brosa, þegar hann heyrði inngangsorð d'Artagnans, því að þau mintu hann í senn á æsku hans og heimahaga — og það tvent kemur hverjum manni til að brosa, hversu roskjnn og ráðinn sem hann er orðinn. En jafnskjótt sem d'Artagnan var kominn inn í herbergið, gekk Tréville fram að dyrunum og hrópaði út um þær með síhækkandi rödd:
»Athos, Porthos, Aramis!«
Báðir skyttuliðarnir, sem vér höfum minst á, yfirgáfu tafarlaust hópinn, sem kringum þá stóð og gengu inn í innra herbergið, sem undir eins var látið aftur á eftir þeim. Þó að þeir væru ekki sem allraöruggastir, dáðist d'Artagnan samt að manndómi þeirra samfara fyrirmensku og tilheyrandi lotningu. Virtust hinum unga manni þeir vera eins og einhverjir hálfguðir, en höfðingi þeirra slíkur sem hann sæi Seif á Ólympi, er slöngvaði eldingum úr hendi sér.
Þegar hurðinni var lokað á hæla skyttuliðunum, gekk herra de Tréville þegjandi fram og aftur um gólfið og hleypti brúnum. Hann gekk tvívegis fram hjá þeim Porthos og Aramis, er báðir stóðu teinréttir eins og við liðskönnun. Svo staðnæmdist hann alt í einu frammi fyrir þeim, hvesti á þá augun og sagði:
»Vitið þið, hvað konungurinn sagði í gærkvöldi - vitið þið það, herrar góðir?«
»Nei,« svöruðu báðir skyttuliðanir eftir stundarþögn.
»En ég vona, að þér sýnið okkur þann heiður að segja okkur það,« svaraði Aramis mjög svo ísmeygilega.
»Hann sagði, að héðan af ætlaði hann að velja skyttuliða sína úr lífverði kardínálans.«
»Úr lífverði kardínálans! Og af hvaða ástæðu?« spurði Porthos forviða.
»Af því að hann sér, að dreggjarnar þurfa bóta og endurnýjungar.«
Báðir skyttuliðarnir stokkroðnuðu uppí hársrætur. D'Artagnan leist ekki á blikuna og óskaði sér tíu álnir ofan í jörðina.
»Já,« hélt herra de Tréviile áfram fokvondur. »Það er eins og ég segi og Hans Hátign hafði rétt fyrir sér: Skyttuliðarnir eru sannarlega ekki til prýði við hirðina. Kardínálinn sat að skáktafli í gær og sagði þá með einhverri uppgerðar meðaumkvun, sem mér gramdist afskaplega, að einhverjir af þessum árans skyttuliðum, einhverjir af þessum miklu görpum — hann sagði þessi orð svo háðslega, að mér gramdist enn meir — að þessir veraldargortarar hefðu setið í veitingahúsi í gærkvöldi og að flokkur úr lifverði sínum — hann var kominn að því að hlæja uppí opið geðið á mér — hefði neyðst til að taka þá fasta fyrir óspektir á götunum. Herra trúr! — Þetta hljótið þið að vita eitthvað um! Taka skyttuliða fasta! Og að þarna voruð þið með, þið þrír — það er ekki til neins fyrir ykkur að neita því. Þið þektust og kardínálinn vissi nöfn ykkar. En þetta er auðvitað alt saman mér að kenna, því að ég hefi sjálfur valið mér þessa menn. Til dæmis þér, Aramis! Því í skrattanum fóruð þér að fara í hermannabúning úr því að prestshempan fór yður svo vel. Og þér, Porthos! Þér ættuð að hengja loddarabjöllu í þennan dýrindis axlarfetil yðar. En Athos! Hvað er þetta — ég sé Athos hvergi. Hvar er hann?«
»Hann er veikur, herra höfuðsmaður,« svaraði Aramis mæðulega. — »Mjög veikur.«
»Mjög veikur, segið þér. Hvaða veiki er það?«
»Menn eru hræddir um, að það sé bóluveiki, sem að honum gengur, herra höfuðsmaður,« svaraði Porthos, sem fanst nú, að hann þyrfti líka að leggja orð í belg. »Og það er ákaflega illa farið, því það eyðileggur andlitið á honum.«
»Bóluveikin! Það er svo! ég er nú ekki farinn að trúa því strax, Porthos góður. Bóluveikin á hans aldri! Nei, sleppum nú því. — En hann er náttúrlega særður — eða fallinn — bara að ég vissi það fyrir víst. Herra trúr, skyttuliðar góðir! ég skil ekkert í því, að þið skuluð vera að fara á knæpur, lenda í áflogum og bregða vopnum á strætum og gatnamótum. Og ég vona, að þið gerið ykkur ekki að athlægi í augum lífvarða kardínálans, því að þeir eru ágætismenn, stiltir og skikkanlegir. ég er viss um, að þeir vinna aldrei til þess að verða teknir fastir og láta heldur ekki taka sig fasta. Þeir mundu fyr falla í sömu sporum en hopa eitt skref á hæl. En skyttuliðar konungsins eru leiknir í þeirri list að leggja á flótta og hlaupa undan eins og hérar.«
Porthos og Aramis nötruðu af bræði. Þeir höfðu helst viljað hengja de Tréville í greip sér og þó vissu þeir með sjálfum sér, að það var eingöngu umhyggjan fyrir skyttuliðunum og velvildin til þeirra, sem kom honum til að tala svona. Þeir tifuðu fótunum, gripu fast um meðalkaflann á sverðum sínum, bitu á jaxlinn og bölvuðu í hljóði. Það hafði heyrst greinilega út í forsalinn, að herra de Tréville var öskuvondur, því að ekki var annað en þunt þil og veggfóðurshurð á milli. Tíu eða tólf forvitnir skyttuliðar lögðu hlustirnar fast að hurðinni, náfölir af reiði. Þeir heyrðu hvert orð og hvísluðu að hinum móðganir og atyrði höfuðsmannsins og innan fárra mínútna var höllin öll komin í uppnám.
»Skyttuliðar konungs láta lífverði kardínálans taka sig fasta!« — Herra de Tréville varð altaf æstari og orð hans sviðu áheyrendunum eins og svipuhögg. »Sex lífverðir kardínálans taka sex skyttuliða konungs fasta! Herra trúr! ég veit svo sem vel, hvað mér ber að gera! ég fer beint til Louvrehallarinnar, segi af mér stöðunni sem höfuðsmaður skyttuliðs konungs og sæki um að verða foringi lífvarðar kardínálans — og neiti kardínálinn mér um það, þá verð ég ábóti, sem ég er lifandi maður.«
Kurrinn í forsalnum varð að fullkominni háreysti þegar þessi orð heyrðust þangað og alstaðar kvað við bölv og formælingar. D'Artagnan fór að svipast eftir einhverju skoti, þar sem hann gæti hlaupið í felur og sárlangaði til að skríða undir borðið.
»Lofið mér nú að segja fáein orð,« sagði Porthos. »Það er satt, að við vorum jafnmargir að tölu — sex á móti sex, en það var svikist að okkur, tveir okkar voru þegar fallnir áður en við gátum brugðið sverðum og Athos því nær óvígur af sárum og mæði. Þér kannist við hann, herra höfuðsmaður! Hann reyndi tvisvar að rísa á fætur, en féll jafnharðan. Þrátt fyrir þetta gáfumst við ekki upp, ja neinei! — Þeir tóku okkur með valdi og ofbeldi og á leiðinni hlupum við svo frá þeim. Athos létu þeir liggja afskiftalausan — hafa líklega haldið, að hann mundi engum mein gera framar. Svona er nú málavöxtum rétt lýst, herra höfuðsmaður og þér hljótið líka að vita, að ekki sigra menn í öllum bardögum. Pompejus beið ósigur við Farsalos og Franz konungur I. við Pavía og held ég þó, að hann hafi ekki verið lakari herforingi en aðrir.«
»Og mér er ánægja að segja yður, að ég klauf einn af þessum kumpánum í herðar niður með hans eigin sverði,« sagði Aramis. »Sverðið mitt brotnaði í fyrstu atlögunni.«
»Þetta hefi eg ekki heyrt fyrri,« sagði herra de Tréville sýnu mildari. »Kardínálinn hefir líklega gert fullmikið úr þessu.«
»En með yðar leyfi, herra höfuðsmaður,« sagði Aramis heldur hugrakkari þegar hann sá, að farið var að sljákka í de Tréville — »þá vil ég biðja yður að geta ekki um það, að Athos sé særður. Honum mundi falla það fjarska illa og þar sem sárið er afar hættulegt — það nær alla leið frá öxlinni og ofan á brjóst — þá er ástæða til að óttast — — —«
Í sömu svipan opnaðist hurðin og sást í dyrunum frítt og göfuglegt, en náfölt andlit.
»Athos!« hrópuðu báðir skyttuliðarnir.
»Athos!« kallaði herra de Tréville.
»Já, þér höfðuð verið að kalla á mig, herra höfuðsmaður,« sagði Athos veikróma en skýrt og skilmerkilega -- »eða svo var mér sagt af einum félaga mínum og flýtti ég mér því hingað. Hvað þóknast yður, herra höfuðsmaður?«
Og Athos gekk föstum skrefum inn í herbergið, beinn og keikur að vanda. Herra de Tréville varð mikið um að sjá slíkt hugrekki og karlmensku og gekk á móti honum.
»ég var einmitt að segja þessum herrum,« sagði hann »að ég harðbanna skyttuliðum mínum að stofna lífi sínu í voða, nema full ástæða sé til, því að konungurinn hefur miklar mætur á hraustum mönnum og Hans Hátign veit betur en nokkur annar, að enginn tekur skyttuliðunum fram að hreysti og harðfengi. Réttið mér hönd yðar, herra Athos.«
Og án þess að bíða svars, greip Tréville hönd Athos og hristi hana innilega, en tók ekkert eftir því, að Athos kiptist við af sársauka þó að hann reyndi að harka af sér og varð sýnu fölari en áður.
Hurðin stóð í hálfa gátt, því að nú vissu allir, að Athos var kominn þar til að skýra frá málavöxtum. Létu menn gleði sína í ljósi yfir seinustu orðum höfuðsmannsins og ætlaði hann einmitt að fara að þagga niður í áheyrendunum, sem tróðust inn í dyrnar, þegar hann tók eftir krampadráttum í hönd Athos og sá þá, um leið og hann leit framan í hann, að hann var í þann veginn að falla í öngvit og á sama augabragði hné hinn hrausti skyttuliði ofan á gólfið og lá þar, sem dauður væri.
»Sáralækni — fljótt!« hrópaði de Tréville. »Annaðhvort minn eigin lækni eða konungsins — sækið þann besta, sem hægi er að ná í! Komið undir eins með sáralækni því að annars er úti um hinn hrausta Athos, sem ég, er lifandi maður!«
Við þessi köll ruddust allir inn í herbergið án manngreinarálits, en öll sú hjálpfýsi hefði lítið gagnað hinum særða manni hefði ekki staðið svo á, að hinn umræddi læknir var einmitt staddur í sjálfri höllinni. Hann tróðst nú gegnum mannfjöldann, gekk að Athos og skipaði þegar að flytja hann í annað herbergi þar sem allir þessir menn voru fyrir honum. Porthos og Aramis hófu félaga sinn upp og báru hann, en Tréville vísaði þeim leið. Læknirinn fylgdi þeim eftir og var svo dyrunum lokað.
Einkaherbergi herra de Tréville, sem annars var »heilagur staður« öllum óviðkomandi, var við þetta tækifæri eins og partur af forsalnum. Það var troðfult af mönnum, sem allir töluðu í einu, hrópuðu og kölluðu, bölvuðu og bölsótuðust og óskuðu kardínálanum og öllum hans lífverði norður og niður fyrir allar hellur.
Litlu síðar komu þeir Porthos og Aramis aftur, en læknirinn og de Tréville voru yfir sjúklingnum.
Loksins kom de Tréville líka. Hafði sjúklingurinn þá fengið meðvitund aftur og hélt læknirinn að þetta áfall mundi engin eftirköst hafa. Öngvitið orsakaðist af hinum mikla blóðmissi, sem Athos hafði orðið fyrir.
Að svo búnu bandaði de Tréville hendinni og fóru þá allir út úr herberginu að d'Artagnan undanteknum; hann gleymdi því ekki, að hann átti að fá áheyrslu og með þolgæði Gaskognarans hafði hann staðið kyr í sömu sporum allan þann tíma, sem á þessu stóð.
Herra de Tréville sneri sér við þegar allir voru farnir og stóð þá beint frammi fyrir hinum unga manni, er hafði fallið honum algerlega úr minni í öllu þessu uppþoti. D'Artagnan nefndi nú aftur nafn sitt og áttaði de Tréville sig þá strax.
»Fyrirgefið, kæri sveitungi,« sagði hann brosandi.
»ég var alveg búinn að gleyma yður. En hvað skal segja! Höfuðsmaðurinn er vanalega eins konar húsfaðir og hefur oft og tíðum þyngri ábyrgð að bera en fjölskyldumaðurinn. Dátarnir eru nokkurs konar börn, þótt vaxnir séu úr grasinu, en ég held því fast fram, að skipunum konungsins, og einkum kardínálans, sé hlýtt í smáu sem stóru — — «
D'Artagnan gat ekki varist því að brosa. Herra de Tréville tók eftir því og réði það svo, að þessi ungi maður væri enginn algengur sveitaglópur. Hann vék þá talinu að öðru og snéri sér beint að málefni þeirra.
»Mér þótti mjög vænt um föður yðar,« sagði hann. »Hvað get ég nú gert fyrir son hans?« Þér verðið að svara því fljótt og greiðlega, því að ég á ekki tíma minn sjálfur.«
»Herra höfuðsmaður,« sagði d'Artagnan. »Það var ætlun mín, þegar ég fór frá Tarbes, að biðja yður inngöngu í skyttuliðið — sökum vináttu yðar við föður minn. En það sem ég hefi verið sjónar- og heyrnar vottur að nú í tvo tíma, hefir fært mér heim sanninn um það, hver fádæma velgerð það væri og nú er ég orðinn hræddur um, að ég verðskuldi hana ekki.«
»Já, það er raunar til mikils mælt, ungi maður,« sagði herra de Tréville, en þó er það kann ske ekki eins ófáanlegt eða torfengið eins og þér haldið eða virðist halda. En Hans Hátign hefur séð fyrir slíka aðstöðu sem yðar og ákveðið — því miður fyrir yður — að enginn geti orðið skyttuliði, nema hann sé reyndur að dugnaði og karlmensku, annaðhvort með því að hafa verið í herferð eða sýnt af sér einhver hreystiverk, eða loks með því að vera tvö ár til undirbúnings í herfylki, sem ekki er metið jafnmikils og herfylki okkar.«
D'Artagnan hneigði sig þegjandi og varð nú enn hugleiknara að gerast skyttuliði þegar hann heyrði, hve miklum erfiðleikum það var bundið.
»En« sagði Tréville og hvesti augun á sveitunga sinn, eins og hann ætlaði komast eftir hans leyndustu hugsunum — »en ég skal samt gera eitt fyrir yður sem merki vináttu minnar við föður yðar. Hinir ungu menn frá Béarn eru sjaldnast mjög loðnir um lófana — og ég hugsa að litlar breytingar hafi orðið á því, síðan ég fór þaðan. Þér hafið líklega ekki meðferðis nein ósköp af peningum að heiman.«
D'Artagnan teygði úr sér mjög drembilega eins og til að gefa í skyn, að hann ætlaði ekki að biðjast neinnar ölmusu.
»Það er svo, ungi maður — rétt er nú það,« sagði höfuðsmaðurinn — ég kannast við! Sjálfur kom ég til Parísar með fjóra dali í vasanum og skyldi hafa ráðist á hvern þann, sem hefði dirfst að segja, að ég hefði ekki nóga peninga til þess að kaupa alla Louvrehöllina!«
D'Artagnan teigði úr sér aftur. Svo var gamla Bleik fyrir að þakka, að hann hafði byrjað veru sína í París með fjórum dölum meira en herra de Tréville.
»Auðvitað verðið þér að gæta þeirra peninga vel, sem þér hafið handbæra, hvort sem þeir eru nú litlir eða miklir. En jafnframt því verðið þér að iðka þær íþróttir, sem hverjum aðalsmanni ber að temja sér og ná fullkomnun í. ég skal þegar í dag skrifa forstöðumanni hins konunglega íþróttaskóla og getið þér þá fengið ókeypis kenslu í honum frá morgundeginum að telja. Þér skuluð ekki afþakka þennan litla greiða. Göfugustu og auðugustu aðalsmenn vorir sækja stundum um inntöku í þennan skóla án þess að fá hana. Yður verður kent þar að sitja á hesti, skylmast og stíga dans. Þér fáið þar góðan félagsskap og getið svo heimsótt mig við og við og sagt mér, hvað yður líður og hvort ég get gert eitthvað fyrir yður.«
Þó að d'Artagnan væri als ókunnugur hirðsiðum öllum, gat hann samt skilið, að þetta voru fremur fálegar viðtökur.
»Já, herra höfuðsmaður,« sagði hann. »Nú sé ég, hver þörf mér væri á meðmælingarbréfi því, sem faðir minn fékk mér og sagði mér að fá yður.«
»Þér hafið rétt að mæla,« svaraði de Tréville, »og ég hefi verið að furða mig á því, að þér gátuð komist þessa löngu leið án þess að hafa eitthvað slíkt millum handa — oft og tíðum eina verðmætið, sem við Béarnarar höfum meðferðis.«
»ég hafði líka slíkt bréf, herra höfuðsmaður, og það var að öllu leyti vel úr garði gert, hamingjunni sé lof,« sagði d'Artagnan, »en því var stolið af mér á leiðinni.«
Sagði hann síðan frá öllu því, sem fyrir hann hafði komið í Meung, lýsti ókunna manninum nákvæmlega og var slíkur sanninda- og hreinskilnisblær á allri frásögn hans, að de Tréville gast mjög vel að því.
»Það var undarlegt,« sagði höfuðsmaðurinn. »Þér hafið sjálfsagt nefnt mig á nafn.«
»Já, herra höfuðsmaður, auðvitað gerði ég mig sekan í þeirri óvarkárni, en nafn yðar átti að vera mér sverð og skjöldur á leiðinni hvort sem var og getið þér því eflaust skilið, að ég notaði mér það oft.«
Gullhamrar voru mikils metnir á þeim dögum og höfuðsmaðurinn hafði engu minna dálæti á þeim en konungurinn og kardínálinn. Hann brosti ánægjulega að þessum orðum, en það bros hvarf fljótt og vék hann aftur að viðureigninni í Meung.
»Segið þér mér eitt. Hafði þessi ókunni maður ekki lítið ör á annari kinninni?«
»Jú, það var svo að sjá, sem byssukúla hefði snert hann einhvern tíma.«
»Var það ekki fríðleikamaður?«
»Jú.«
»Og hár vexti?«
»Jú.«
»Fölur í andliti og dökkhærður?«
»Já það er sami maðurinn. En hvernig stendur á því, herra höfuðsmaöur, að þér skulið þekkja hann? Nú — en ef ég á eftir að hitta hann — og ég sver þess dýran eið, að ég skal hitta hann, þó ekki verði fyr en í Víti — — «
»Var hann að bíða eftir kvennmanni?« hélt de Tréville áfram.
»Að minsta kosti fór hann jafnskjótt sem hann hafði talað við þann kvennmann.«
»Vitið þér, um hvað þau voru að tala?«
»Hann fékk henni öskju, sagði að í þeirri öskju væru fyrirskipanir hennar og skipaði henni að opna hana ekki fyr en hún kæmi til Lundúna.«
»Var þessi kvennmaður enskur?«
»Hann kallaði hana Mylady.»
»Það er hann,« tautaði de Tréville, »og enginn annar en hann! Og ég sem hélt, að hann væri í Bryssel enn þá!«
»Æ, herra höfuðsmaður. Ef þér vitið hver þessi maður er, þá segið mér það og sömuleiðis, hvar ég geti hitt hann,« sagði d'Artagnan. »Þá krefst ég einskis meira af yður — og þá leysi eg yður frá loforði yðar um að taka mig í skyttuliðið. Því hefnd vil ég fá fyrst og fremst.«
»Gætið yðar vel fyrir þeim manni, ungi maður,« svaraði höfuðsmaðurinn. »Og ef þér rekist á hann einhvern tíma, þá er yður best að skjóta yður sem fyrst undan. Þér skuluð ekki renna höfðinu á jafnharðan stein — þér munduð sprengja það í þúsund stykki eins og það væri úr gleri.«
»En það skal nú samt ekki aftra mér frá að hefna mín þegar — —«
»ég ræð yður til þess að vera ekki að leita að honum,« sagði de Tréville.
Hann þagnaði skyndilega, því að nú grunaði hann nokkuð alt í einu. — Það skyldi nú ekki leynast eitthvert skelmisbragð undir þessu ofsahatri, sem ungi maðurinn bar til þessa ókunna manns, sem stolið hafði bréfi hans þó undarlegt væri. Skyldi þessi sveitadurgur kann ske vera útsendari kardínálans? Og var hann kominn í þeim erindum að leggja einhverja gildru fyrir hann? Það var ekkert líklegra en að þessi svo nefndi d'Artagnan, sem smeygt hafði verið inn til hans, ætti nú að ná tiltrú hans og steypa honum síðan í glötunina. Hann hvesti augun aftur á d'Artagnan og varð nokkru rólegri þegar hann leit á þetta andlit, sem bar ljósan vott um slægð og uppgerðar auðmýkt.
»Nújæja, hann er Gaskognari — um það er ekki neinum blöðum að fletta, en alt fyrir það getur hann eins vel tilheyrt flokki kardínálans eins og mínum,« hugsaði hann með sjálfum sér, »en nú er best að reyna piltinn. Kæri vin,« sagði hann hæglátlega. »ég býst við, að sagan sem þér sögðuð mér um bréfið sé sönn og til þess að bæta yður eitthvað þessar fálega viðtökur, sem þér hafið fengið hérna, þá ætla ég nú að gefa yður ofurlítið sýnishorn af pólitíkinni hérna. Konungurinn og kardínálinn eru trygðavinir og þó að þeir eigi í erjum stöku sinnum, þá er það alt græskulaust. ég vil ekki að sveitungi minn, fríður maður og gjörvilegur og líklegur til að hafa sig áfram, verði fyrir neinum blekkingum eða gangi í einhverja gildruna, eins og svo margir einfeldningar hafa áður gert. Munið það, að ég er báðum þessum voldugu herrum trúr og hollur og að alt, sem ég tekst á hendur, er gert í þeim tilgangi einum að rækja gagn konungsins og kardínálans, enda er hinn síðarnefndi einn hinn mesti spekingur, sem nokkurn tíma hefur uppi verið á Frakklandi. Hagið þér yður eftir þessu, ungi maður, og ef þér, annaðhvort sökum ætternis eða persónulegra tilfinninga, eruð andvígur kardínálanum, þá skuluð þér kannast við það hreinskilnislega. Okkar leiðir skilja þá undir eins. ég skal þó að vísu vera yður innan handar á ýmsan hátt, en án þess að taka yður sérstaklega að mér eða hleypa yður inn á heimili mitt. Að minsta kosti vona ég, að þér virðið hreinskilni mína og þér eruð eini ungi maðurinn, sem ég hefi talað svona skýlaust við.«
En með sjálfum sér hugsaði de Tréville:
»Ef svo skyldi vera, að kardínálinn hafi sent þennan unga bragðaref á mig, þá hefur sá hinn sami herra, sem veit vel hversu ég hata hann, heldur ekki gleymt að segja flugumanni þessum, hvernig haganlegast er að slá mér gullhamra. Og þá mun þessi kumpán eflaust segja, að hann hafi mestu andstygð á hans hágöfgi.«
En þetta fór nú samt á alt annan veg en de Tréville hafði búist við. D'Artagnan svaraði hiklaust og framúrskarandi sakleysislega:
»ég fór að heiman með sömu hugsun og sama ásetningi, herra höfuðsmaður. Faðir minn hefur ráðið mér til þess að þola engum neitt nema konunginum, kardínálanum og herra de Tréville, sem hann telur þrjá ágætustu mennina á Frakklandi.«
Eins og sjá má, tók d'Artagnan það upp hjá sjálfum sér að nefna höfuðsmann skyttuliðanna meðal landsins ágætustu manna — hélt, að það mundi ekki spilla til.
»Já, ég ber dýpstu lotningu fyrir kardínálanum,« sagði hann enn fremur, »og dáist að verkum hans. Ef þér talið við mig í hreinskilni, eins og þér segist gera, herra höfuðsmaður, þá hefi ég fulla ástæðu til að fagna því, því að þá sýnið þér mér þann heiður að kannast við samræmið í skoðunum okkar og tilfinningum. En ef þér hins vegar — sem ekki væri nema eðlilegt — hafið talað þannig vegna þess, að þér grunið mig um græsku, þá skil ég það vel, að ég vinn sjálfum mér mein með því að segja sannleikann. En þó svo væri, munduð þér ekki geta hliðrað yður hjá að unna mér virðingar yðar, og hana met ég mest af öllu í þessum heimi.«
De Tréville undraðist mjög. Slík hyggindi og slík fádæma hreinskilni var sannarlega góðra gjalda verð, en þó var efasemi hans ekki fyllilega niðurbæld. Þess fremri sem þessi ungi maður var öðrum ungum mönnum, þess meiri ástæða var til að gæta allrar varúðar ef hér væru brögð í tafli. Engu að síður tók hann í hönd d'Artagnan og sagði:
»Þér eruð dáða drengur, en nú sem stendur get ég ekki annað fyrir yður gert, en það sem ég var að bjóða yður áðan. Þér eruð alt af velkominn á heimili mitt og þegar fram í sækir, tekst yður sennilega að ná því marki, sem þér stefnið að. Þér getið snúið yður til mín, hve nær sem vera skal og að sjálfsögðu gripið hvert það tækifæri, sem yður kann að gefast.«
»Það er með öðrum orðum,« svaraði d'Artagnan »að þér ætlið að biða þangað til að ég hefi gert mig verðugan þeirrar stöðu, sem ég ætla að reyna að komast í. Gott og vel, hélt hann áfram með því hispursleysi, sem Gaskognaranum er meðfætt. Þér megið eiga það víst, að þér skuluð ekki þurfa lengi að bíða!«
Að svo mæltu hneigði hann sig djúpt og ætlaði að fara sína leið.
»Nei, bíðið þér svolítið!« sagði de Tréville. »ég lofaði yður að skrifa forstöðumanni íþróttaskólans. En kannske þér séuð of drembinn til að þiggja það, ungi herra?«
»Nei, engan veginn, herra höfuðsmaður,« svaraði d'Artagnan, »og ég skal sjá um, að það fari ekki eins fyrir þessu bréfi og hinu. ég skal geyma það vel og það skal komast til skila, hvað sem fyrir kann að koma. Vei þeim, segi ég, sem vill reyna að ræna því frá mér!«
D'TréVille gat ekki annað en brosað að þessum ákafa. Hann skildi sveitunga sinn eftir í veggskotinu, þar sem þeir höfðu talast þetta við, settist við borð sitt og fór að skrifa meðmælabréfið. D'Artagnan hamraði hergöngulag á gluggarúðurnar og horfði á skyttuliðana, sem voru nú að tínast í burtu hver af ögrum.
Þegar de Tréville hafði skrifað bréfið, innsiglaði hann það og gekk til d'Artagnans til að fá honum það. En í sömu andránni kiptist hinn ungi maður við, honum til mikillar undrunar, sótroðnaði af reiði og hentist út úr herberginu um leið og hann hrópaði:
»Hananú! Í þetta skifti skal hann ekki sleppa!«
»Hver þá?« spurði de Tréville.
»Sá sem stal bréfinu?« svaraði d'Artagnan. »Sá óþokki!«
Og svo var hann allur á burt.
»Skárri er það skrattans gláninn,« tautaði de Tréville. »Nema að þetta sé yfirvegað undanhald og af ásettu ráði gert, fyrst að hann fékk nú ekki það sem hann ætlaði sér.«
D'Artagnan þeyttist í bræði sinni gegnum forsalinn og út á tröppurnar, sem hann ætlaði að hlaupa í þremur eða fjórum stökkum, en rakst þá óþyrmilega á skyttuliða einn, sem kom þar út úr hliðardyrum. Áreksturinn var alltilfinnanlegur því að maðurinn hljóðaði hástöfum.
»Fyrirgefið þér,« sagði d'Artagnan og reyndi komast áfram. »Mér liggur voða mikið á.«
En hann var ekki fyr kominn ofan í efstu þrepin en að grypið var heljartaki í axlarfetil hans og honum haldið aftur.
»Einmitt það -- yður liggur fjarska mikið á!« sagði skyttuliðinn, sem var náfölur í framan, »Og svo hlaupið þér mig næstum um koll og ætlið síðan að skjótast undan, eftir að hafa gert lítilfjörlega afsökun. Nei, ungi maður — það dugar nú ekki! Þér haldið kannske að þér getið sparkað í mig eins og hund, af því að þér heyrðuð herra de Tréville tala heldur hvatskeytlega til okkar. En yður skjátlast, kunningi, ef þér haldið það. Þér eruð ekki herra de Tréville, höfuðsmaður skyttuliðanna.«
»ég gerði það sannarlega ekki viljandi,« svaraði d'Artagnan, sem kannaðist nú við manninn. Það var Athos. Læknirinn var búinn að binda um sár hans og hann var á heimleið þegar d'Artagnan dembdist á hann, »Og auk þess,« hélt d'Artagnan áfram, »bað ég yður undir eins afsökunar og það hélt ég að mundi nægja. Samt skal ég nú taka það upp aftur og legg þar við drengskap minn — þó að það sé kannske skakt af mér — að mér liggur afarmikið á. Gerið því svo vel að sleppa mér, svo að ég komist í tæka tíð þangað sem ég ætla mér.«
»Þér eruð ekki sérlega kurteis, herra góður,« sagði Athos og slepti honum. »Það er auðheyrt, að þér eruð langt að kominn.«
D'Artagnan var kominn nokkur skref burtu, en staðnæmdist þegar Athos sagði þetta.
Hvað er þetta, herra minn? Þó að ég sé langt að kominn, þá skal ég segja yður í eitt skifti fyrir öll, að það eruð sannarlega ekki þér, sem ég ætlast til að kenni mér manna siði.«
»Einmitt það,« sagði Athos.
»Ó, bara að mér lægi ekki svona mikið á!« sagði d'Artagnan.
»Heyrið þér nú, æðikollur minn,« svaraði Athos. »Þér getið altaf náð í mig þegar yður sýnist.«
»Og hvar þá, með leyfi að spyrja?«
»Við Karmelítaklaustrið Deschaux.« (dessjó)
»Hve nær?«
»Rétt fyrir klukkan tólf í nótt.«
»Jæja — ég skal koma þangað.«
»Látið þér mig ekki þurfa að bíða. Ef þér komið ekki fyr en klukkan er farin að ganga eitt, þá sníð ég af yður bæði eyrun.«
»Jaseisei« — sagði d'Artagnan. »ég skal vera kominn þegar klukkuna vantar tíu mínútur í tólf.«
Að svo mæltu hljóp hann burt eins og fætur toguðu. Hann vonaðist eftir að ná ókunna manninum, því hann virtist ganga í hægðum sínum.
En niðri í hliðinu stóð Porthos og var að skrafa við varðmanninn. Stóðu þeir svo þétt samann, að það var rétt með naumindum, að einn maður gat smeigt sér á milli þeirra. Að minsta kosti ætlaði d'Artagnan sér þetta, en í sama bili kom vindhviða, sem þandi út hina löngu og víðu yfirhöfn Porthos eins og segl og flæktist d'Artagnan í henni. Porthos kipti yfirhöfninni að sér bölvandi og ragnandi, en d'Artagnan vafðist innan í hana um leið og gat sig hvergi hreyft. Hann var hræddastur um að skemma axlarfetilinn dýrmæta og þegar hann loksins gat rekið höfuðið út undan yfirhöfninni, þá sá hann, að hann var einmitt að nudda sér upp við fetilinn.
En því var líkt varið með þennan fetil eins og flesta aðra hluti hér í þessum heimi: hann var ekki það sem hann sýndist vera nema að nokkru leyti. Hann var gullofinn og glitrandi að framan, en að aftan var hann ekki annað en nautsihúðar-reim. Með öllu sínu yfirlæti hafði Porthos ekki efni á að láta gera hann allan jafnskrautlegan og nú skilst lesaranum, hvers vegna Porthos þóttist vera kvefaður og þurfa að dúða sig í þessari stóru og miklu yfirhöfn.
»Hver fjandinn er þetta, sem á gengur?«, æpti Porthos og reyndi að losa sig Við d'Artagnan. »Eruð þér vitlaus, maður, að ráðast svona á saklaust og friðsamt fólk?«
»Fyrirgefið þér,« sagði d'Artagnan og gat nú loksins skriðið undan kápunni, »en mér liggur svo afskaplega mikið á og er að elta mann.«
»Nújá! Þér eruð að elta mann, en gleymið alveg að líta í kringum yður,« sagði Porthos.
»Ónei,« svaraði d'Artagnan þóttalega. »Einmitt af því ég lít í kringum mig, þá sé ég það, sem aðrir ekki sjá.«
Vér skulum ekkert um það segja, hvort Porthos skildi sneiðina eða ekki, en nokkuð er það, að hann varð öskuvondur.
»ég skal láta yður vita það, herra góður,« sagði hann, »að ef þér framvegis nuddið yður svona upp við skyttuliða, eins og þér nú hafið gert, þá verðið þér lúbarinn.«
»Þetta kalla ég nú stóryrði í frekara lagi,« sagði d'Artagnan.
»Já, en þau hæfa manni, sem er vanur að horfast í augu við fjandmenn sína,« svaraði Porthos.
»Jú, því skal ég trúa og nú skil ég líka ofur vel, hvers vegna þér snúið aldrei baki að neinum!«
Að svo mæltu gekk d'Artagnan leiðar sinnar, skellihlæjandi að sinni eigin fyndni.
Porthos nötraði af bræði og stökk áfram eins og hann ætlaði að ráðast á d'Artagnan.
»Seinna, seinna!« æpti d'Artagnan, »þegar þér eruð yfirhafnarlaus!«
»Jæja, við skulum þá segja klukkan eitt, bak við Luxembourg (lujxangbúr) höllina.«
»Gott og vel!« svaraði d'Artagnan og snéri fyrir götuhornið.
En nú var ókunna manninn hvergi að sjá framar, enda var nú dregið mjög sundur með þeim og líka gat verið, að hann hefði farið inn í eitthvert hús. D'Artagnan spurði alla um hann, sem hann mætti, en enginn þóttist hafa séð hann. Hann hafði það þó upp úr hlaupunum, að hann varð löðursveittur og við það rann af honum mesta reiðin.
Hann fór nú að hugsa um það, sem fyrir hann hafði komið seinustu klukkutímana. Það var nú ekki svo fátt, en flest af því fremur leiðinlegt. Klukkan var ekki enn orðinn ellefu, en samt var hann búinn að baka sér óvild herra de Tréville. Höfuðsmanninum hlaut að þykja framkoma hans og brotthlaup í meira lagi ósvífnislegt.
Þar næst hafði hann flækst inn í tvö einvígi og það við tvo skyttuliða; með öðrum orðum við menn, sem voru honum fullkomlega tvígildir hvor um sig. Að minsta kosti mat hann þá svo mikils sjálfur, að hann áleit þá fremri öllum öðrum mönnum.
Það var ekki glæsilegt útlit, en þar sem hann var viss um að falla fyrir sverði Athos, þá kærði hann sig auðvitað kollóttan um Porthos. En með því að vonin er það seinasta, sem víkur úr brjósti manns, þá komst hann brátt að þeirri niðurstöðu, að ekki væri með öllu óhugsanlegt, að hann kynni að vinna bæði einvígin, en vitanlega alþakinn sárum og í þeirri von sagði hann við sjálfan sig:
»ég er annars skárri skýjaglópurinn! Þarna hleyp ég eins og bandóður maður á vesalings Athos og lenti náttúrlega á særðu öxlinni! ég er bara mest hissa á því, að hann skyldi ekki reka mig í gegn þegar í stað. Það hefði verið mér maklegt, því ég hlýt að hafa valdið honum hræðilegum sársauka. En þessi árekstur á Porthos -- það er nú raunar ekki til annars en að hlæja að því!«
Og þar með rak hinn ungi maður upp skellihlátur, en leit samt alt í kringum sig, ef vera kynni einhver í nánd, sem tæki það illa upp, að hann væri að hlæja svona aleinn á götunni.
»Já, það er nú ekki til annars en að hlæja að þessum árekstri á Porthos, en ég er nú dæmalaus glanni samt sem áður! Þarna hleyp ég beint á fólk án þess að gera því aðvart -- og fer svo að gægjast undir yfirhafnir manna! En samt hefði hann líklega ekki tekið mér þetta neitt illa upp, hefði ég ekki farið að minnast á fetilskömmina -- jæja, það var nú annars hálf-tvírætt, sem ég sagði. Já, ég er nátttúrlega forhertur Gaskognari -- það er enginn efi á því -- og gæti sjálfsagt ekki að mér gert, að snara ekki út einhverri háðglósunni þó að ég væri kominn í opinn dauðann! Jæja-nú, lagsmaður! Ef þú kemst lifandi út úr þessu -- sem er mjög svo ósennilegt -— þá skaltu gæta þess framvegis að vera manna kurteisastur við alla. Héðan af verð ég að láta dást að mér og gerast fyrirmynd annara manna. Það er enginn bleyðiskapur að vera kurteis og alúðlegur. Til dæmis eins og Aramis -- hann er ekkert annað en blíðan og ljúfmenskan og hver svo sem skyldi dirfast að leggja honum bleyðiorð á bak? Nei, víst ekki, það vara sig líklega flestir á því —- og nú ætla ég framvegis að taka mér Aramis til eftirbreytni. En skoðum til -- þarna er hann þá sjálfur!«
Meðan d'Artagnan var að rausa þetta við sjálfan sig, hafði hann komist alla leið að d'Aiguillon-höllinni og þar kom hann alt í einu auga á Aramis, er stóð þar fyrir utan hliðið og var að skrafa við þrjá aðalsmenn í einkennisbúningi hins konunglega lífvarðar. Aramis tók líka eftir d'Artagnan, en mintist þess um leið, að sá maður hafði verið heyrnarvottur að ávítunarræðu þeirri, sem herra de Tréville hélt yfir skyttuliðunum um morguninn og lét þá sem hann sæi hann ekki. En d'Artagnan var nú einmitt staðráðinn í þvi að sýna hverjum manni kurteisi og umburðarlyndi og vék sér því að þessum fjórum ungu mönnum, hneigði sig djúpt fyrir þeim og brosti mjög alúðlega. Aramis hneigði sig lítið eitt a móti, en brosti ekki og allir hættu þeir samtalinu þegar í stað.
D'Artagnan var nú ekki svo einfaldur, að hann sæi ekki undir eins, að honum var ofaukið þarna, en hann var ekki enn þá orðinn svo innlifaður háttum og siðvenjum heldri manna, að hann kynni að bjarga sér út úr þess háttar klípum svo að sem minst bæri á, en þarna var hann kominn í hóp manna, sem hann þekti als ekki neitt og ekki voru að tala um neitt það, sem honum gat komið við. Hann var nú að brjóta heilann um, hvernig hann ætti að bjargast út úr þessu en tók þá alt í einu eftir því, að Aramis hafði mist vasaklútinn sinn ofan á götuna og að hann – sjálfsagt óafvitandi – stóð á honum með annan fótinn. D'Artagnan hélt nú, að þarna gæfist sér gott tækifæri til að sýna kurteisi sína og greiðvikni, laut niður og kipti vasaklútnum til sín, þó að Aramis stæði æði fast á honum og rétti honum hann svo mælandi:
»ég býst við, að þér vilduð síður týna þessum vasaklút, herra minn.«
Þetta var líka prýðis fallegur klútur, allur útsaumaður og skreyttur kórónu í einu horninu. Aramis sótroðnaði og þreif klútinn bálvondur úr hendi Gaskognarans.
»Hæhæ, þú dularfulli Aramis!« sagði einn lífvarðarliðinn. »Ætlarðu enn að staðhæfa, að þú sért ósáttur við frú de Bois-Tracy? Hún hefir þó lánað þér vasaklút að minsta kosti!«
Aramis leit þeim augum á d'Artagnan, að hann þurfti ekki að vera í neinum vafa um, að þar hefði hann eignast magnaðan hatursmann. Síðan sagði hann jafn blíðlega og hann var vanur:
»Ykkur skjátlast, herrar góðir -- mér kemur þessi vasaklútur ekkert við og ég skil ekki, hvers vegna þessi maður er að fá mér hann í staðinn fyrir einhverjum ykkar. En ef þið trúið mér ekki, þá getið þið sjálfir séð hérna, að ég er með minn eigin klút í vasanum.«
Og um leið tók hann upp sinn eigin vasaklút, sem einnig var mjög vandaður, en samt ekki allur útsaumaður og heldur ekki með kórónu í horninu – að eins með upphafsstöfum eigandans.
D'Artagnan sagði ekki eitt einasta orð og sá, að sér hafði orðið á hraparleg skyssa. En kunningjar Aramis vildu ekki láta sannfærast og einn þeirra tók nú til máls og sagði mjög hátíðlega:
»Ef að þetta er svona, eins og þú segir, Aramis góður, þá neyðist eg til að biðja þig að fá mér vasaklútinn. Þú veist eflaust, að Bois-Tracy er einn besti vinur minn og ég læt það ekki viðgangast, að nokkur maður haldi hjá sér hlut, sem kona hans á, eins og einhvers konar sigurmerki.«
»ég get ekki orðið við þeirri bón þinni,« svaraði Aramis, »enda þótt ég viðurkenni, að hún sé ekki ósanngjörn í raun réttri, en þú berð hana fram á þann hátt, að ég verð að neita henni.«
»Já,« dirfðist d'Artagnan að segja. »ég skal játa, að ég sá ekki vasaklútinn detta upp úr vasa Aramis – ég sá að eins, að hann sté ofan á hann og það eitt kom mér til að halda, að hann ætti hann.
»En það var misskilningur, kæri herra,« svaraði Aramis þóttalega. Hann var ekkert sérlega þakklátur d'Artagnan fyrir að vera að reyna að breiða yfir klaufaskap sinn.
Því næst vék hann sér að manni þeim, sem sagt hafði að Bois-Tracy væri vinur sinn og sagði:
»ég held nú annars, að Bois-Tracy sé eins mikill vinur minn og þinn og vasaklúturinn hefði alveg eins getað dottið upp úr þínum vasa og mínum.«
»Nei, sem ég er lifandi maður!« hrópaði lífvarðarliðinn.
»Já, þú segir nú þetta og ég segi hitt – þar af leiðandi segir annar hvor okkar ósatt, en nú sting ég upp á einu, Montaran (mongtarang) við skulum taka sinn helminginn hvor.«
»Af vasaklútnum?«
»Já!«
»Það er ágætis uppástunga,« sögðu lífvarðarliðarnir og reglulegur Salómons dómur. – Þú ert mikill spekingur Aramis!«
Ungu mennirnir fóru allir að hlæja og þar með var þessari þrætu lokið. Tókust þeir síðan í hendur og skildust lífvarðarliðarnir og skyttuliðinn.
»Nú verð ég að reyna að sættast við Aramis,« hugsaði d'Artagnan með sér og gekk til hans.
»ég vona, að þér þykkist ekki af þessu, herra góður,« sagði hann.
»Jæja, en ég verð nú samt að benda yður á, að þér hafið ekki komið fram við þetta tækifæri eins og prúðmenni sómir.«
»Hvað er nú?« sagði d'Artagnan. »Haldið þér að --«
»ég geri ekki ráð fyrir, að þér séuð neinn skynskiftingur, herra minn og býst heldur ekki við – jafnvel þótt þér séuð frá Gaskogne, að yður sé ókunnugt um, að menn stíga ekki ofan á vasaklúta að ástæðulausu. ég veit nefnilega ekki til þess, að götur Parísar séu alþaktar vasaklútum!«
»Það er ekki rétt af yður, herra góður, að reyna að gera svona lítið úr mér,« svaraði d'Artagnan og fór nú að fjúka í hann þrátt fyrir öll hans góðu áform. »Að vísu er ég frá Gaskogne og þarf þá tæplega að segja yður, að Gaskognarar þola mönnum yfirleitt illa að misbjóða sér. Þegar þeir hafa einu sinni gert afsökun sína, ef þeim hefur eitthvað yfirsést, þá eru þeir fyllilega sannfærðir um, að þeir hafi gert réttum helmingi meira en skyldan býður.«
»Það er als ekki meining mín, að slást upp á yður, herra minn,« svaraði Aramis. »ég er enginn áflogakragi, hamingjunni sé lof og þar sem ég er skyttuliði að eins um stundarsakir, þá er ég ekki vanur að berjast, nema ég sé neyddur til þess og þó alt af sárnauðugur. En í þetta skifti er um alvarlegt mál að ræða, þar eð þér hafið gert tíginni konu hneisu,«
»Þér eigið víst við, að við höfum báðir gert henni hneisu,« hrópaði d'Artagnan.
»Hvernig gat yður dottið sú heimska í hug, að rétta mér vasaklútinn?«
»Hvers vegna voruð þér sá klaufi að missa hann?«
»ég er búinn að margsegja það og segi það einu sinni enn, að klúturinn hrökk ekki upp úr mínum vasa.«
»Nú, þá hafið þér líka marglogið, herra minn, því að ég sá þegar hann datt.«
»Ef þér ætlið að tala í þessum tón, Gaskognari góður, þá skal ég fljótlega kenna yður mannasiði.«
»Og ég skal sjá svo um, að þér fáið brátt messu að hlýða, herra ábóti! Upp með sverðið – undir eins!«
»Nei, kæri vin – ekki hérna að minsta kosti. Sjáið þér ekki, að við stöndum fyrir utan d'Aiguillon-höllina og þar er alt af fult af þýjum kardínálans. Og hver er kominn til að segja, að Hans Hágöfgi hafi ekki einmitt falið yður á hendur að færa sér hausinn af mér? En ég met nú hausinn á mér hlægilega mikils og finst hann sitja ágætlega á herðum mér. ég skal vissulega reka yður í gegn – þér megið vera óhræddur um það – en ég ætla mér að gera það í kyrþey og á einhverjum afviknum stað, svo að þér verðið ekki alt of grobbinn af dauða yðar.«
»ég sé ekkert á móti því, en verið þér nú ekki alt of öruggur og takið þér vasaklútinn með yður, hvort sem þér eigið hann nú eða ekki. Það er ekki að vita nema að þér þurfið ef til vill á honum að halda.«
»Eruð þér ekki Gaskognari, herra minn?«
»Jú, ég er það,« svaraði d'Artagnan, »en verið þér nú heldur ekki svo var um yður, að koma als ekki til einvígisins.«
»Varkárni er nokkurn veginn óþarfur kostur á skyttuliðum, en ómissandi fyrir kirkjunnar þjóna og þar sem ég er nú skyttuliði að eins til bráðabirgða, þá ber mér að vera varkár. Klukkan tvö skal ég bíða fyrir utan höll herra de Tréville og skal þá enn fremur velja hæfilegan stað til þess að gera út um þetta mál okkar.«
Hinir tveir ungu menn hneigðu sig hvor fyrir öðrum að skilnaði og gengu svo sinn í hvora áttina. Aramis gekk áleiðis til Luxembourg-hallarinnar, en d'Artagnan hélt í áttina til Karmelítaklaustursins. Á leiðinni þangað tautaði hann í sífellu við sjálfan sig:
»Auðvitað slepp ég ekki lifandi út úr þessu, en ef ég fell, há fell ég að minsta kosti fyrir skyttuliða.«
D'Artagnan var öllum ókunnugur í París. Hann hélt því til fundar við Athos án þess að hafa nokkurn einvígisvott og ætlaði að láta sér þá nægja, sem andstæðingur sinn veldi. Hafði hann ásett sér að gera Athos allar þær afsakanir, sem hægt væri að heimta með sanngirni, án þess að þær yrðu talinn hugleysis vottur, en að öðru leyti var hann hræddur um, að þetta einvígi yrði sér ekki til mikils frama, eins og vant er að vera þegar ungur maður og hraustur á að berjast við særðan mann og máttfarinn. Ef hann biði lægra hlut, þá yrði það tvöföld frægð fyrir mótstöðumann hans og ef hann færi sigrandi af hólmi, þá yrði sér brígslað um ódrengskap.
Annars má oss hafa tekist hraparlega að lýsa lundarfari hins unga manns ef lesarinn er ekki þegar orðinn sér þess meðvitandi, að d'Artagnan var als enginn miðlungsmaður. Þó að hann væri að tauta þetta við sjálfan sig, að hann ætti sér dauðann vísan, þá var það engan veginn ásetningur hans að selja líf sitt litlu verði, eins og margur hugdeigari og óstiltari æskumaður kynni að hafa gert í hans sporum. Hann fór að hugsa betur um lundareinkenni andstæðinga sinna og fór þá aðstaða hans sjálfs að skýrast betur fyrir honum. Hann vonaðist eftir að ná vináttu Athos með því að færa honum afsakanir sínar í einlægni og alvöru, því að honum geðjaðist einstaklega vel að þessum göfuglega og alvörugefna manni. Hann hélt sig geta hrætt Porthos með því að hóta honum að segja söguna um axlarfetilinn, því ef hann félli ekki undir eins, þá gæti hann sagt söguna, hverjum sem heyra vildi, og væri hún meinlega sögð, þá mundi Porthos engan stundlegan frið fá fyrir aðhlátri annara. Aramis óttaðist hann ekki svo mjög, þótt slóttugur væri og ef honum annars entist aldur til að eiga við hann, þá hélt hann að sér mundi takast að vinna á honum eða særa hann á andliti að minsta kosti og spilla þannig andlitsfegurð þeirri, sem hann einkum taldi sér til gildis.
Loksins veitti það heilræði föður hans, að þola engum neitt nema konunginum, kardínálanum og herra de Tréville, honum ósegjanlegt þrek og djörfung. Hann gekk hratt til Karmelítaklaustursins, er var gluggalaus bygging, umkringd eyðilegum grasbölum. Voru menn vanir, þeir er ekki höfðu af miklum tíma að sjá, að mæla sér þar mót til að gera út um málefni sín.
Þegar d'Artagnan var kominn svo langt, að hann sá auða svæðið fyrir framan klaustrið, hafði Athos að eins beðið hans í fáar mínútur og sló klukkan þá tólf. Kom d'Artagnan því svo stundvíslega, að ekki var hægt með neinni sanngirni út á það að setja.
Athos hafði alt af gífurlegar þrautir í öxlinni. Hann sat þar á steini og beið mótstöðumannsins með þessari hátignarlegu ró og þolinmæði, sem honum var eiginleg. Hann stóð upp þegar hann kom auga á d'Artagnan og gekk kurteislega á móti honum, en d'Artagnan tók ofan og gekk til hans með hattinn í hendinni.
»Herra góður,« sagði Athos. »ég hefi beðið tvo vini mína að vera einvígisvotta, en þeir eru ókomnir enn. ég er hissa á því, hvað seint þeir koma — þeir eru ekki vanir því.«
»ég hefi enga einvígisvotta, herra minn,« sagði d'Artagnan. »ég kom fyrst til Parísar í gær og þekki hér ekki aðra menn enn sem komið er en herra de Tréville, er ég hafði meðmæli til frá föður mínum, en hann nýtur þess heiðurs að vera gamall vinur hans.«
Athos hugsaði sig um stundarkorn.
»Þekkið þér ekki aðra hér en herra de Tréville?« spurði hann.
»Nei, ég þekki að eins hann.«
»Einmitt það,« sagði Athos hálfpartinn við sjálfan sig og hálfpartinn við d'Artagnan. »Ef ég ber nú banaorð af yður, þá lítur það út eins og ég væri hreinasti barnsmorðingi.«
»Nei, engan veginn,« svaraði d'Artagnan og hneigði sig allfyrirmannlega, »því að þá sýnið þér mér þann sóma að bregða sverði gegn mér þó að þér séuð sjálfur særður því sári, sem hlýtur að valda yður miklum óþægindum.«
»Já, miklum óþægindum — það er aldrei nema satt. Þér gerðuð mér árans glennu, skal ég segja yður, en ég get brugðið fyrir mig vinstri hendinni og er vanur því, þegar líkt stendur á. Þér þurfið ekki að vera hræddur um, að ég geri yður það til hægðarauka, því að ég er jafnvígur á báðar hendur. Það er öllu fremur yður í óhag, því að það er ekki vandalaust að skylmast við örfhenda menn fyrir þá, sem því eru óvanir, en mér þykir leitt, að ég hefi ekki bent yður á þetta fyrri.«
»Þér eruð svo kurteis og hugulsamur, herra minn, að ég get ekki þakkað yður nógsamlega,« sagði d'Artagnan.
»Og þér gerið nú alt of mikið úr því,« svaraði Athos prúðmannlega. »Við skulum heldur tala um eitthvað annað, ef yður er sama. Æ, hvert í logandi — hvað þetta er sárt! Það er eins og væri verið að brenna á mér öxlina með glóandi járni.«
»Með yðar leyfi — — « sagði d'Artagnan hikandi.
»Hvað þá?«
»ég hefi alveg ágæt sárasmyrsl. ég fékk þau hjá móður minni og hefi reynt þau sjálfur.«
»Núnú?«
»ég þori að fullyrða, að þessi smyrsl græða sár yðar á þremur dögum og þegar þér eruð orðinn albata, þá teldi ég mér það mikinn sóma að hitta yður aftur þegar yður þóknast.«
D'Artagnan sagði þetta svo blátt áfram, að það bar ótvíræðan vott um kurteisi hans og greiðvikni án þess að varpa nokkrum skugga á hugrekki hans.
»Mér hugnar þetta tilboð yðar mæta vel,« sagði Athos, »Það er gert eins og aðalsmanni sómir, en ég get ekki tekið því. Svona töluðu og breyttu hinir hugrökku riddarar Karls mikla, sem ég tel ávalt fyrirmynd allra ágætra riddara. En því er nú ver, að við lifum ekki á dögum hins mikla keisara, heldur á dögum kardínálans og hversu dult, senn við reyndum að fara með þetta, þá mundi það komast í hámæli innan þriggja daga, að við ætluðum að heyja einvígi og svo yrði komið í veg fyrir þar. En hvað er orðið af þessum slæpingum — því koma þeir ekki?«
»Ef þér eigið annríkt,« sagði d'Artagnan jafn hispurslaust og hann hafði boðist til að fresta einvíginu um þrjá daga, »og ef þér viljið heldur gera út um þetta strax, þá skuluð þér ekki vera að víla það fyrir yður.«
»Þetta líkar mér ekki síður að heyra,« sagði Athos vingjarnlega. »Mér geðjast vel að svona mönnum og ef annarhvor okkar gengur ekki af hinum dauðum, þá er ég sannfærður um, að við verðum hvor öðrum geðþekkur þegar fram í sækir. En við skulum bíða eftir einvígisvottunum; mér liggur ekkert á og það er langréttast. Þarna held ég að annar þeirra komi«
Hann hafði komið auga á Porthos langt niðri í Vaugirard (vósjírar) götunni.
»Hvað er að tarna?« hrópaði d'Artagnan. »Er herra Porthos annar einvígisvotturinn?«
»Já — eruð þér því mótfallinn að einhverju leyti?«
»Nei, engan veginn!«
»Og þarna kemur hinn!«
D'Artagnan sneri sér við, leit þangað sem Athos benti til og kom auga á Aramis.
»Hvað er nú!« hrópaði hann með enn meiri undrun. »Er herra Aramis hinn einvígisvotturinn?«
»Já — vitið þér ekki, að það sést aldrei einn okkar án þess að hinir séu til staðar líka og að skyttuliðar, lífvarðarliðar, hirðin og borgin öll kallar okkur þrjá hina óaðskiljanlegu? En fyrst að þér eruð nýkominn frá Dax eða Pau (pó) — —«
»Frá Tarbes,« sagði d'Artagnan.
»Þá leyfist yður auðvitað að vera þessu ókunnugur,« sagði Athos.
Porthos var nú kominn til þeirra og tók í höndina á Athos. Síðan snéri hann sér við og varð litið á d'Artagnan og stóð þar agndofa.
Þess skal getið hér um leið, að Porthos bar nú annan axlarfetil og var yfirhafnarlaus.
»En — — hvað á þetta að þýða?« spurði hann.
»Það er maðurinn, sem ég ætla að berjast við,« sagði Athos og benti á d'Artagnan.
»Jú, og ég ætla líka að berjast við hann,« sagði Porthos.
»Já, en ekki fyr en eftir klukkutíma,« svaraði d'Artagnan.
»Þar að auki ætla ég líka að berjast við þennan sama mann,« sagði Aramis, sem nú var kominn.
»Ekki fyr en eftir tvo tíma,« sagði d'Artagnan jafnrólega.
»En hvers vegna ætlar þú að berjast, Athos?« spurði Aramis.
»Já, það veit ég nú raunar ekki vel, en hann meiddi mig í öxlinni — nú, en þú Porthos?«
»ég ætla að berjast af því að ég vil berjast,« sagði Porthos og roðnaði við.
Athos gætti vel að öllu og tók eftir því, að Gaskognarinn brosti lítið eitt.
»Við urðum ósáttir út af klæðaburði.« sagði hinn ungi maður.
»Og þú Aramis?« spurði Athos.
»ég? ég ætla að berjast af því að okkur kom ekki saman um guðfræðiskenningu,« svaraði Aramis og benti d'Artagnan að geta ekki um ástæðuna til einvígisins.
Athos varð þess aftur var, að d'Artagnan brosti við.
»Nei — er þetta satt?« spurði Athos.
»Já, það var ein setning hjá Ágústínusi kirkjuföður, sem við vorum ekki sammála um,« sagði d'Artagnan.
»Þetta er sjálfsagt skýrleiks- og fræðimaður,« sagði Athos við sjálfan sig.
»En fyrst að við erum nú allir saman komnir, herrar góðir,« sagði d'Artagnan, »þá skal ég leyfa mér að bera fram afsakanir mínar.«
Um leið og hann nefndi orðið afsakanir, seig brúnin á Athos, Porthos glotti og Aramis hristi höfuðið.
»Þið misskiljið mig algerlega, herrar góðir,« sagði d'Artagnan og hóf upp höfuð sitt, en á það stafaði í sama bili sólargeisla, svo að bjarma sló á hina göfuglegu og djarfmannlegu andlitsdrætti hans. »ég bið afsökunar ef svo skyldi fara, að ég geti ekki afplánað það við ykkur alla, sem þið teljið mig hafa misgert við ykkur. Herra Athos hefur forgangsréttinn til þess að veita mér banasár, en það rýrir æði mikið kröfur yðar á hendur mér, herra Porthos, og gerir kröfur yðar því nær að engu, herra Aramis. Og nú, herrar góðir, endurtek ég þessa afsökun mína, en eingöngu að þessu leyti og komið þið nú!«
Að svo mæltu brá d'Artagnan sverði sínu að fullkomnum snyrtimanna sið.
Honum var orðið talsvert skapfátt og hefði hann á því augnabliki ekki vílað það fyrir sér að bregða sverði gegn öllum skyttuliðum landsins jafnhiklaust og hann gerði það nú gegn Athos, Porthos og Aramis.
Klukkan var liðugt tólf. Sól stóð hæst á lofti og varpaði geislaflóði sínu einmitt á sama blettinn, sem þeir höfðu kosið sér til vopnaviðskiftanna.
»Þetta er meiri hitinn,« sagði Athos og brá einnig sverði sínu, en ég þori samt ekki að fara úr treyjunni, því að ég fann rétt núna, að sárið er farið að blæða aftur og ég er hræddur um, herra minn, að yður falli miður að sjá blóð, sem þér hafið ekki úthelt sjálfur.«
»Þér hafið rétt að mæla,« sagði d'Artagnan, »og ég fullvissa yður um, að mér mun ávalt falla illa að sjá blóð annars eins ágætismanns og þér eruð, hafi ég ekki sært hann sjálfur. ég ætla því að berjast í treyjunni eins og þér.«
»Svona, hættið þið nú við þessa gullhamra,« sagði Porthos. »Munið eftir því, að við Aramis bíðum þess, að röðin komi að okkur.«
»Þér talið eingöngu í yðar nafni, Porthos, þegar þér komið með svona fjarstæður,« sagði Aramis. »Hvað mig snertir, þá fanst mér það, sem þessir herrar voru að segja, bæði vel sagt og samboðið aðalsmönnum.«
»Jæja — eins og yður sýnist,« sagði Athos og bjóst til varnar.
»ég bíð eftir því, að þér byrjið,« sagði d'Artagnan og þverbeindi sverði sínu á sverð Athos.
En jafnskjótt sem sverðkliðurinn heyrðist kom flokkur lífvarðarliða kardínálans í ljósmál við hornið á klausturmúrnum.
»Lífvarðarliðar kardínálans!« hrópuðu þeir Porthos og Aramis einum rómi. »Slíðrið sverðin, herrar góðir, slíðrið sverðin!«
En það var um seinan. Báðir hólmgöngumennirnir höfðu sést í þeim stellingum, að enginn vafi lék á því, hvað þeir höfðu ætlað sér.
»Halló!« hrópaði Jussac (sjujssakk) foringi lífvarðarliðanna, gekk að þeim og benti mönnum sínum að slá hring um þá. »Halló, skyttuliðar! Eruð þið að berjast hér? Og kærið ykkur kollótta um lögin!«
»Þið eruð dæmalaust velviljaðir, lífvarðarliðar góðir,« sagði Athos nötrandi af reiði, því að Jussac var einn af þeim, sem réðist á þá kvöldið áður. »Ef við sæjum ykkur vera að berjast, þá fullvissa ég ykkur um, að við skyldum ekki aftra ykkur frá því. Látið þið okkur nú afskiftalausa og þá getið þið skemt ykkur við að horfa á án þess að ykkur verði nokkurt mein gert.«
»Herrar mínir,« sagði Jussac. »Því miður verð ég að lýsa því yfir, að það er ómögulegt. Við rækjum skyldur okkar umfram alt. Slíðrið sverðin og fylgið okkur eftir.«
»Herrar mínir,« sagði Aramis og hermdi eftir Jussac. Okkur væri sérleg ánægja að þiggja ykkar ástúðlega boð, en það er ekki á okkar valdi og því miður ómögulegt. Herra de Tréville hefir bannað okkur það. Farið nú ykkar leið — það er það heppilegasta sem þið getið gert.«
Þetta hæðnissvar gerði Jussac bálvondan.
»Við veitum ykkur atgöngu ef þið hlýðið ekki,« sagði hann.
»Þeir eru fimm,« sagði Athos lágt og við erum þrír. Við verðum sigraðir einu sinni enn og látum þá lífið hér, því að ég segi fyrir mitt leyti, að ég ætla mér ekki að ganga yfirunninn fram fyrir höfuðsmann minn einu sinni enn.«
Athos, Porthos og Aramis skipuðu sér þétt saman meðan Jussac var að raða liði sínu.
Þessi svipstund nægði d'Artagnan til að taka sér afstöðu. Þetta var slíkur atburður, sem ræður sköpum manns — nú varð hann að kjósa um konunginn eða kardínálann og var neyddur til að halda fast við það kjör þegar það var afráðið. Að bregða sverði og berjast var sama sem að brjóta landslögin, stofna lífi sínu í hættu og gera sér að fjandmanni þann ráðherra, sem voldugri var sjálfum konunginum. Alt þetta leiddi hinn ungi maður sér fyrir sjónir í einni svipan og það veri sagt honum til heiðurs, að hann hikaði ekki eitt augnablik. Hann vék sér að Athos og vinum hans og mælti:
»Með ykkar leyfi, herrar góðir, verð ég að fá að leiðrétta sumt af því, sem þið sögðuð áðan. Þið sögðust vera að eins þrír, en ég sé ekki betur en að við séum fjórir.«
»En þér tilheyrið ekki okkar flokki,« sagði Porthos.
Satt er það,« svaraði d'Artagnan. »ég ber ekki sama búning en hugurinn er sami. ég finn að hann er í samræmi við skyttuliðana og það ýtir undir mig.«
»Yður er best að hafa yður á burt, ungi maður,« kallaði Jussac, því að hann grunaði eflaust, hver væri fyrirætlun d'Artagnans bæði af tilburðum hans og svipbrigðum. »Þér getið enn komist undan hindrunarlaust — forðið yður því, en flýtið yður að því!«
D'Artagnan hreyfði sig ekki úr sporunum.
»Þér eruð dáðadrengur,« sagði Athos og tók í hönd hinum unga manni.
»Flýtið yður nú að ráða þetta við yður,« endurtók Jussac.
»Þér verðið að afráða eitthvað,« sögðu Porthos og Aramis.
»Þér eruð eðallyndur maður,« sagði Athos.
En allir voru þeir að hugsa um, hvað d'Artagnan væri ungur og óreyndur.
»Við verðum bara þrír, þar af einn særður og unglingur að auk,« sagði Athos, »og það verður náttúrlega sagt, að við höfum verið fjórir.«
»Já, en við getum hætt við altsaman,« sagði Porthos.
»Það er nú ekki svo auðgert,« svaraði Athos.
D'Artagnan skildi vel, hvers vegna þeir voru svona hikandi.
»Þið getið altént reynt mig, herrar góðir,« sagði hann, »og ég legg þar við drengskap minn, að ég skal ekki víkja héðan ef við verðum sigraðir.«
»Hvað heitið þér, vaski vinur?« spurði Athos.
»D'Artagnan!«
»Nú jæja! Athos, Porthos, Aramis og d'Artagnan — áfram!« kallaði Athos.
»Hananú, herrar mínir!« hrópaði Jussac enn einu sinni. »Eruð þið búnir að ráða þetta við ykkur?«
»Já,« svaraði Athos.
»Og hvað hafið þið afráðið?« spurði Jussac.
»Við höfum komið okkur saman um að leggja til atlögu við ykkur,« svaraði Aramis, veifaði hattinum með annari hendi og brá sverðinu með hinni.
»Þið ætlið þá ekki að gefast upp!« hrópaði Jussac.
»Hvað er að tarna! Eruð þið nokkuð hissa á því?« Og nú hlupu þessir níu garpar saman af bræði mikilli, en þó eftir vissum reglum.
Athos snerist á móti Cahussac (ka-ujssakk) nokkrum, er var einn af vildarmönnum kardínálans, Porthos réðist á Bicarat (bíkara) og Aramis tveimur að mæta.
En d'Artagnan stóð andspænis Jussac.
Hjarta hins unga manns barðist ákaflega í brjósti honum, en ekki af hræðslu. Nei, svo var fyrir að þakka, að þeirrar tilfinningar varð hann als ekki var. En hann skalf af vígamóði, barðist eins og óarga dýr, hljóp alt í kringum mótstöðumann sinn og færði sig margsinnis stað úr stað. Jussac var vígreifur mjög, eins og þá var kallað, og alvanur einvígum. Samt átti hann fult í fangi með að verjast slíkum mótstöðumanni, sem ekki barðist eftir neinum reglum og veifaði sverðinu í allar áttir en gætti þess þó vel samt sem áður, að ekki yrði komið á sig lagi.
Loksins misti Jussac þolinmæðina. Honum gramdist að geta ekki komið höggi á þennan mann, sem hann áleit vera strákglanna einn og hvorki annað né meira. Hann varð óður og uppvægur og fór að gera glappaskot. D'Artagnan skorti raunar æfingu, en hann var vígfimur vel og lagði sig allan fram. Jussac ætlaði nú að láta skríða til skara og gerði snarpa atlögu að mótstöðumanni sínum, en hann brá sverðinu fyrir og áður en Jussac gat rétt sig við aftur, smaug d'Artagnan undir sverð hans eins og höggormur og rak sverð sitt þvert í gegnum hann. Féll Jussac þá til jarðar og bærði ekki á sér.
D'Artagnan litaðist nú um á vígvellinum.
Aramis hafði þegar felt annan mótstöðumann sinn, en hinn sótti hart að honum, Að öðru leyti stóð Aramis vel að vígi og gat enn varist nokkra stund.
Bicarat og Porthos höfðu komið sári hvor á annan. Porthos var særður á handlegg en Bicarat á læri. Sár þeirra voru þó lítilvæg og börðust þeir eftir sem áður án þess að sinna þeim.
Samkvæmt einvígislögum þeirra tíma bar d'Artagnan réttur til að veita einhverjum félaga sínum aðstoð. Þegar hann var að skygnast eftir, hver þeirra væri helst hjálparþurfi, varð honum litið á Athos og sá undir eins, hvers kyns var. Athos hefði fyr dottið dauður niður en að kalla á hjálp, en hann gat litið til annara og beðið aðstoðar með augnaráði sínu. D'Artagnan skildi hann, stökk fram hart og títt og kom Cahussac í opna skjöldu og hrópaði:
»Hingað, herra lífvarðarliði, og verjið líf yðar.«
Cahussac sneri sér við og það mátti ekki seinna vera, því að Athos hafði orðið að hafa sig allan við til að halda fótfestu, en kiknaði nú í knjáliðum. »Fyrir alla muni!« kallaði hann til d'Artagnans. »Drepið þér hann ekki, ungi maður. ég á honum grátt að gjalda þegar ég verð frískur aftur og get valdið sverði. Reynið að afvopna hann — sláið sverðið úr hendi honum! já, svona! Það var ágætt!«
Í sömu svipan þeyttist sverð Cahussac kippkorn í burtu. D'Artagnan og hann hlupu báðir eftir því og varð d'Artagnan fljótari og sté fæti sínum á það.
Cahussac hljóp þá þangað, sem lífvarðarliðinn lá, er Aramis hafði vegið, greip sverð hans og sneri á móti d'Artagnan, en á leiðinni mætti hann Athos, er var búinn að ná sér aftur og sótti nú fram á ný þareð hann óttaðist, að d'Artagnan mundi vega óvin sinn.
D'Artagnan skildist, að Athos mundi kunna því illa, að hann skifti sér nú meira af viðureign þeirra. Stóð ekki heldur á löngu að Cahussac féll óvígur af sverðshöggi á hálsinn.
Í sömu andránni lagði Aramis sverði sínu fyrir brjóst mótstöðumanni sínum, þeim er eftir var. Féll hann þá til jarðar og baðst griða.
Porthos og Bicarat áttust við enn. Porthos bar sig mjög yfirlætislega og var símasandi við mótstöðumann sinn, spurði hann hvað klukkan væri, kvaðst samfagna honum með stöðu þá, sem bróðir hans hefði fengið við herfylki í Navarra o.s. frv., en Bicarat lét það ekkert á sig fá. Hann var altaf jafnkaldur og rólegur og varðist ótrauðlega.
En einhvern enda varð að binda á þessa viðureign, því að þeir gátu búist við, að lífvörðurinn kæmi þá og þegar og tæki þá alla fasta, bæði særða og ósærða, skyttuliða og lífvarðarliða. Athos, Aramis og d'Artagnan slógu því hring um Bicarat og skoruðu á hann að gefast upp, en enda þótt hann væri einn á móti þeim öllum og væri orðinn sár á læri, tók hann því fjarri og vildi ólmur halda áfram. Reis Jussac þá upp á olboga og kallaði til hans að gefast upp. Bicarat var Gaskognari eins og d'Artagnan. Hann lét sem hann heyrði þetta ekki og hló við harkalega og alt í einu sá hann sér færi á að rista hring í kringum sig í jörðina með sverðsoddinum.
»Hér mun Bicarat falla að velli einn og yfirgefinn af félögum sínum,« sagði hann.
»Þú ert einn á móti fjórum. Hættu nú — ég skipa þér það!« kallaði Jussac.
»Fyrst að þú skipar það, þá er öðru máli að gegna,« sagði Bicarat. »Þú ert foringi minn og þér verð ég að hlýða.«
Síðan stökk hann eitt skref aftur á bak og braut sverð sitt í sundur um hné sér til þess að þurfa ekki að skila því í hendur mótstöðumönnunum. Brotunum kastaði hann yfir klausturmúrinn, krosslagði hendurnar og fór að blístra lag, sem þá var mjög algengt meðal manna kardínálans.
Hreystimenskan er ávalt mikils metin, jafnt af vinum sem óvinum. Skyttuliðarnir hyltu Bicarat með sverðum sínum og slíðruðu þau síðan og sama gerði d'Artagnan. Hann og Bicarat báru nú Jussac, Cahussac og þann mótstöðumann Aramis, sem særður var, að klausturhliðinu, lögðu þá þar og hringdu bjöllunni, sem var uppi yfir hliðinu. Lögðu þeir svo af stað til hallar herra de Tréville, sigri hrósandi og glaðir mjög.
Þeir leiddust allir, og á leiðinni slógust allir skyttuliðar, sem urðu á vegi þeirra, í för með þeim, svo að það var orðinn stærðarhópur á endanum. D'Artagnan gekk á milli Alhos og Porthos og lék við hvern sinn fingur.
Um leið og þeir gengu inn um hallarhliðið sagði hann við þessa nýju vini sína:
»Raunar er ég ekki enn orðinn skyttuliði, en að minsta kosti er ég þó orðinn lærisveinn þeirra — eða má ég ekki telja mig það?«
Þessi atburður vakti geysimikla eftirtekt. Herra de Tréville ávítaði að sönnu skyttuliða sína til málamynda, en með sjálfum sér var hann mjög ánægður með þá og flýtti hann sér nú til Louvrehallarinnar, þar sem nú reið á að komast á fund konungs áður en aðrir gætu tekið hann tali. En kom nú heldur seint, samt sem áður. Konungur var sestur á eintal við kardínálann og herra de Tréville varð að sætta sig við þau erindislok, að konungur væri í önnum og gæti ekki veitt honum áheyrn að svo stöddu. Hann kom aftur um kvöldið og var konungur þá sestur að spilum. Hann vann í spilunum og lá því vel á honum. Hann kom auga á de Tréville og mælti til hans:
»Komið þér hingað, herra höfuðsmaður — ég þarf að taka í lurginn á yður. Vitið þér það, að hans hágöfgi kom til mín og var að kvarta undan skyttuliðunum yðar og hann hefur tekið sér atferli þeirra svo nærri að hann er sárlasinn? Það eru aumu ofstoparnir, þessir skyttuliðar — þeir láta eins og einhverjir vargar.«
»Nei, yðar Hátign,« svaraði de Tréville og vissi undir eins, hvað í vændum var. »Janeinei! Þetta eru hæglætismenn og sauðmeinlausir. ég þori að fullyrða, að þeirra innilegasta ósk er sú — og eingöngu sú, að þurfa aldrei að bregða sverði nema í þeim tilgangi að gæta hagsmuna yðar Hátignar. En þegar lífvarðarliðar kardínálans slást upp á þá að ósekju, þá neyðast þessir ungu menn beinlínis til þess að verja sjálfa sig og halda uppi heiðri flokks síns.«
»Einmitt það, herra de Tréville!« sagði konungur. »Einmitt það! Það er rétt eins og þér væruð að tala um einhvern guðelskandi trúmálaflokk. Mér væri annars skapi næst, kæri höfuðsmaður, að víkja yður úr stöðu yðar og fá hana ungfrú de Chemerault (sémró) í hendur, en raunar var ég búinn að lofa henni klausturforstöðu. En þér skuluð ekki halda, að ég láti sannfærast af svona orðum. Menn kalla mig Lúðvík hinn réttláta og ég skal brátt færa yður heim sanninn um það, að ég ber það nafn með réttu.«
»ég bið úrskurðar yðar Hátignar með góðri samvisku og þolinmæði einmitt vegna þess, að ég reiði mig fastlega á þetta réttlæti.«
Nú snerist hamingjuhjólið. Konungur fór að tapa því aftur, sem hann hafði unnið og varð feginn að hafa einhverja átyllu til þess að hætta spilamenskunni. Hann reis upp frá borðinu og stakk þeim peningum í vasann, sem lágu fyrir framan hann.
»Þér getið sest í mitt sæti, La Vicuville (vjövíl), sagði hann. »ég verð að tala við herra de Tréville um þetta mikilvæga málefni. ég átti áttatíu gullpeninga á borðinu. Leggið þér nú annað eins fram svo að þeir, sem tapað hafa, hafi ekki um neitt að kvarta — réttlætið umfram alt!«
Að svo mæltu vék hann sér að de Tréville og gekk með honum út í gluggaskot eitt.
»Þér segið þá, að lífvarðarliðar kardínálans hafi slegist upp á skyttuliðana?«
»Já, yðar Hátign, nú sem endranær.«
»Og hvernig vék því við? Þér vitið, kæri höfuðsmaður, að hlýða ber á báða málsparta til þess að dómur verði upp kveðinn.«
»Hvaða ósköp — það var ofur einfalt! Þrjár bestu skytturnar mínar, sem þér þekkið persónulega, sem hvað eftir annað hafa sýnt hollustu sína við yður og eru framúrskarandi skylduræknir — þeir Athos, Porthos og Aramis voru á gangi með ungum Gaskognara, sem ég hafði nýlega beðið þá að taka að sér. ég held að þeir hafi ætlað til Saint Germain (seing sérmeing) og voru búnir að mæla sér mót við Karmelítaklaustrið. Þar urðu þeir fyrir óskunda af Jussac, Cahussac og Bicarat og tveimur lífvarðarliðum í viðbót og hefðu þeir fráleitt verið svo margir saman, hefðu þeir ekki ætlað sér að brjóta í bág við lögin«.
»Bíðum nú við,« sagði konungur. »Þeir hafa eflaust ætlað að berjast.«
»Ekki ætla ég mér að fara að ákæra þá, en yðar Hátign getið hugsað yður það sjálfur, hvaða erindi fimm menn alvopnaðir muni hafa átt á jafn afvikinn stað og þarna er hjá Karmelítaklaustrinu.«
»Þér hafið rétt að mæla, herra de Tréville — alveg rétt.«
»Þá komu þeir auga á skyttuliðana og breyttu nú áformi sínu — gleymdu sínum eigin erjum fyrir flokkahatrinu. Þér verðið sem sé að minnast þess, yðar Hátign, að skyttuliðarnir, sem eru konungsins menn og einskis annars, eru í eðli sínu svarnir fjandmenn lífvarðarliðanna, sem fylla flokk kardínálans og draga hans taum.«
»Já, Tréville,« sagði konungurinn dapurlega. »Það er sorglegt, að Frakkar skuli skiftast í tvo flokka — tveir konungar í einu ríki, en það tekur einhvern tíma enda. Þér segið þá, að lífvarðarliðarnir hafi slegist upp á skyttuliðana?«
»ég segi að það sé líklegt, að byrjunin hafi verið sú, en ekki þori ég að leggja eið út á það. Það er ætíð vandaverk að komast fyrir sannleikann, nema maður sé gæddur þeirri dásamlegu gáfu, sem hefur gefið Lúðvík þrettánda viðurnefnið: hinn réttláti.«
»Alveg satt, Tréville. En þeir voru ekki einir síns liðs, þessir skyttuliðar yðar, Var ekki maður með þeim — ungur maður?«
»Jú, yðar Hátign — og einn þeirra var særður. Þrír skyttuliðar konungs — þar af einn særður — og unglingspiltur að auki hafa þannig ekki að eins varist fimm lífvarðarliðum kardínálans, heldur einnig felt fjóra þeirra að velli.«
»En þetta er hrein og bein sigurvinning!« hrópaði konungur frá sér numinn.
»Já, yðar Hátign — það er hrein og bein sigurvinning.«
»Fjórir menn — þar af einn særður — og unglingspiltur að auki, segið þér?«
»Hann er ekki fullþroska enn að minsta kosti, en hann hefur við þetta tækifæri sýnt af sér þá hreysti og hugrekki, að ég vil leyfa mér að mæla fram með honum við yðar Hátign.«
»Hvað heitir hann?«
»D'Artagnan, yðar Hátign, Hann er sonur eins elsta vinar míns, sonur manns, sem tók þátt í borgarastyrjöldinni með föður yðar, hásællar minningar.«
»Og þér segið, að þessi ungi maður hafi gengið vasklega fram? Segið þér mér eitthvað meira um þetta, Tréville. Þér vitið, að mér er yndi að hlusta á sögur um hernað og orustur.«
Og Lúðvík 13. sneri upp á skeggið og hreykti sér öllum.
»Herra d'Artagnan getur varla annað en unglingur kallast, eins og ég tók fram við yðar Hátign og hann var ekki í einkennisbúningi með því að hann er ekki í skyttuliðinu. Lífvarðarliðar kardínálans sáu að hann var á unga aldri og ekki í flokki skyttuliðanna og skoruðu því á hann að hörfa undan áður en þeir legðu til bardaga.«
»Þá er það auðvitað mál, de Tréville,« sagði konungur, »að það voru þeir, sem atlöguna gerðu.«
»Það er enginn efi á því. Þeir skoruðu á hann að hörfa undan, en hann svaraði þeim, að hann væri skyttuliði í huga og sál og algerlega samhuga flokki konungsmanna; ætlaði hann því að láta eitt yfir sig og skyttuliðana ganga.«
»Vaskur piltur,« sagði konungur lágt.
»Hann brást þeim heldur ekki og lét sannarlega ekki sitt eftir liggja. Þar hefur yðar Hátign fengið dugandi liðsmann. Það var sem sé hann, sem veitti Jussac þennan hroðalega áverka, sem kardínálanum svíður svo mjög.«
»Var það hann, sem særði Jussac?« hrópaði konungur. »Þessi unglingspiltur — það getur varla borið sig, de Tréville!«
»Það er eins og ég segi, yðar Hátign.«
»Jussac er einhver vígfimasti skylmingamaður landsins!«
»Já, hann er það, en einn kemur öðrum meiri.«
Mig langar til að sjá þennan unga mann, herra de Tréville, og sé eitthvað hægt að gera fyrir hann, þá skal ekki standa á mér.«
»Hve nær mundi yðar Hátign þóknast að veita honum áheyrn?«
»Um miðjan dag á morgun.«
»Á ég að koma með hann einan?«
»Nei, komið þér með þá alla fjóra í einu — ég ætla að tjá þeim öllum þakklæti mitt. þeir menn eru sjaldgæfir, de Tréville, sem eru konungi sínum hollir og trúir og það er skylt að meta þá að verðleikum.«
»Við skulum koma hingað um miðjan dag á morgun, yðar Hátign.«
»En gangið þið samt upp litla riðið, de Tréville. Það er ekki vert að kardínálinn viti — —«
»Sjálfsagt, yðar Hátign.«
»Þér sjáið það líka sjálfur, de Tréville, að lögunum verður að hlýða og það er nú einu sinni bannað að heyja einvígi.«
»En þessi fundur getur als ekki kallast einvígi, yðar Hátign. Það var ekkert annað en almennar ryskingar og besta sönnunin fyrir því er sú, að þarna voru fimm lífvarðarliðar kardínálans móti þremur skyttum mínum og herra d'Artagnan.«
»Alveg rétt,« sagði konungur, »en samt sem áður skuluð þið ganga upp litla riðið.«
De Tréville brosti. Hann þóttist nú góðu bættur að vera búinn að fá þennan ungling til þess að rísa öndverður móti herra sínum. Kvaddi hann því konung virðulega og fór.
Sama kvöldið var skyttuliðunum tilkynt, hver sómi biði þeirra. Þeir höfðu kynst konungi alllengi og tóku þessu því með jafnaðargeði, en d'Artagnan þóttist hafa himin höndum tekið og dreymdi um þetta alla nóttina. Klukkan átta morguninn eftir var hann alklæddur og gekk að finna Athos að máli.
»Hann var einnig kominn á fætur þegar d'Artagnan kom til hans og var að búast til útgöngu. Hafði hann talað svo um við Porthos og Aramis, að þeir skyldu leika knattleik í veitingahúsi einu þangað til þeir færu á konungsfund. Athos spurði d'Artagnan, hvort hann vildi slást í för með þeim og þáði hann það þó að aldrei hefði hann knattleik iðkað, en hann vissi ekki, hvað hann ætti af sér að gera allan fyrri part dagsins.
Porthos og Aramis voru komnir og byrjaðir leikinn. Athos hafði tamið sér alls konar íþróttir og tók sér stöðu andspænis hinum ásamt d'Artagnan. En hann varð þess þegar var við fyrstu hreyfingarnar, að sár hans þoldi þær ekki, enda þótt hann léki með vinstri hendi. D'Artagnan varð þá einn á móti hinum, en þegar þeir sáu, að hann var leiknum alls óvanur, létu þeir sér nægja að varpa knettinum án þess að telja köstin saman. Eitt sinn varpaði Porthos knettinum af afli miklu og flaug hann þá svo nærri andlitinu á d'Artagnan, að hann hugsaði með sér, að ef knötturinn hefði snortið hann þá hefði naumast orðið tiltækilegt fyrir hann að ganga fyrir konung og þar sem honum fanst öll framtíð sín vera undir þeim fundi komin, þá hneigði hann sig kurteislega fyrir þeim Porthos og Aramis og kvaðst mundi hætta þessum leik þar sem hann væri ekki þeirra jafningi. Hann gekk svo út af leiksviðinu og tók sér sæti meðal áhorfendanna.
Til allrar óhamingju fyrir d'Artagnan var nú meðal áhorfendanna staddur einn af lífvarðarliðum kardínálans. Var hann æfur út af ósigri félaga sinna og hafði heitið því að hefna þess ósigurs hve nær sem færi gæfist. Hélt hann, að hér bæri nú vel í veiði, sneri sér að sessunaut sínum og sagði;
»Það er óheppilegt, að þessi ungi maður skuli hræðast knöttinn2 þar sem hann ætlar sér þó að gerast skyttuliði.«
D'Artagnan sneri sér við all snúðugt og hvesti augun á lífvarðarliðann.
»Hvað er að tarna!« sagði lífvarðarliðinn og sneri drembilega upp á skeggið — »horfið þér á mig eins og yður lystir, litli vinur. ég stend við það, sem ég hefi sagt.«
»Og þar sem þér sögðuð var svo ótvírætt, að það þarf engrar skýringar við,« svaraði d'Artagnan lágt.« Viljið þér gjöra svo vel að ganga með mér.« »Hve nær þá?« spurði lífvarðarliðinn jafn ósvífinn.
»Undir eins ef yður þóknast.«
»Þér vitið líklega hver ég er.«
»Nei, það veit ég ekki og mér stendur það líka algerlega á sama.«
»Hægan, hægan, ungi maður. Þér munduð varla vera svona framhleypinn ef þér vissuð nafn mitt.«
»Nú — hvað heitið þér þá?«
»ég heiti Bernajoux (bernasjú).«
»Jæja, herra Bernajoux,« sagði d'Artagnan rólega. »ég bíð yðar hérna fyrir utan hliðið.«
»Gott og vel. ég skal koma.«
»Það er líklega best, að þér séuð ekki rétt á hælunum á mér, því að það vekti kann ske eftirtekt ef við yrðum samferða. Þér skiljið það víst, að of margir áhorfendur mundu tálma fyrirætlun okkar.«
»Rétt er nú það,« svaraði lífvarðarliðinn og furðaði sig á því, að nafn sitt skyldi ekki hafa meiri áhrif en þetta á hinn unga mann.
Því að Bernajoux var alþektur. Hann var sem sé einn af þeim, sem oftast kom við sögur í þessum daglegu skærum, sem áttu sér stað þrátt fyrir bann konungsins og kardínálans.
Porthos og Aramis voru með allan hugann við leikinn og Athos horfði á með svo mikilli athygli, að enginn þeirra tók eftir því, að hinn ungi félagi þeirra gekk burtu. Hann staðnæmdist strax fyrir utan hliðið og kom þá lífvarðarliðinn að vörmu spori. D'Artagnan hafði nauman tíma vegna konungsstefnunnar. Skimaði hann nú alt í kringum sig, sá engan þar í nánd og kallaði þá til mótstöðumanns síns.
»Þó að þér heitið aldrei nema Bernajoux, þá er það samt miklu heppilegra fyrir yður, að þér eigið að eins við skyttuliðasvein að etja. En þér megið eiga það víst, að ég skal leggja alt mitt fram. Gætið að!«
»En mér finnst þetta hálfóhentugur staður. Það væri betra fyrir okkur að vera bak við Saint Germain klaustrið eða úti á Múnkavellinum.«
»Gætið að, herra minn!«
Bernajoux var nú ekki þannig gerður, að hann léti eggja sig lögeggjan hvað eftir annað. Hann brá þegar sverði og gerði snarpa atlögu að mótstöðumanni sínum og ætlaði að láta hann vorkennast.
En d'Artagnan var búinn að standast prófið. Hann fann enn þá til sigurvímunnar frá fyrri viðureigninni og ásetti sér að hopa hvergi. Sverðunum laust saman, en d'Artagnan stóð fastur fyrir, svo að mótstöðumaður hans varð að hörfa lítið eitt undan. Þetta notaði d'Artagnan sér, lagði sverðinu fram og gat sært Bernajoux á annari öxlinni. Nú sté d'Artagnan eitt skref aftur á bak og dró sverðið að sér, en Bernajoux kallaði, að sárið væri einskis um vert, sótti fram í ákafa og var þá svo óaðgætinn að flana beint á sverð d'Artagnans. Hann féll þó ekki til jarðar og ekki vildi hann heldur gefast upp, en vék að eins upp að hallarvegg Tréville-hallarinnar, þar sem einn ættingi hans átti heima. Vissi d'Artagnan ekki, hve hættulega hann var særður og sótti því að. Hann hefði líka lagt til hans í þriðja sinni ef hávaðinn utan af götunni og vopnagnýrinn hefði ekki heyrst inn á knattleiksvöllinn, svo að tveir kunningjar lífvarðarliðans, sem höfðu heyrt, hvað þeim d'Artagnan fór á milli, komu nú hlaupandi út frá veitingahúsinu með brugðin sverð og sóttu að d'Artagnan. En í sömu andránni komu þeir Athos, Porthos og Aramis að og neyddu þessa tvo lífvarðarliða, sem ráðist höfðu á félaga þeirra, til að hörfa frá, í sömu svipan féll Bernajoux að velli og þar sem lifvarðarliðarnir voru nú að eins tveir á móti fjórum, þá fóru þeir að hrópa og kalla á hjálp frá Tréville-höllinni. Komu þeir þá hlaupandi, sem í höllinni voru og réðust á þá félaga fjóra, en þeir kölluðu nú að sínu leyti og hétu á skyttuliðana sér til hjálpar.
Það var algengt að heyra þessi köll í þá daga, því að almenningur vissi, að skyttuliðarnir voru fjandmenn kardínálans og skyttuliðarnir voru vinsælir af því að almenningur hataði kardínálann. Lífvarðarliðarnir í þeim herfylkjum, sem tilheyrðu rauða hertoganum, sem Aramis svo kallaði, gengu venjulega í lið með skyttuliðunum, þegar til slíkra óeirða kom. Nú vildi svo til, að þrír lífvarðarliðar úr herfylki des Essart (desessar) áttu leið um götuna og hlupu tveir þeirra strax í lið með hinum fjórum félögum, en sá þriðji hljóp til Tréville-hallarinnar og hét á skyttuliðana þar til hjálpar. Þar var saman kominn fjöldi hermanna að venju og skunduðu þeir nú félögum sínum til aðstoðar. Reis af þessu senna allmikil, en skyttuliðar voru liðfleiri. Lífverðir kardínálans og mennirnir úr Trémouilles-höllinni urðu að hopa inn í hallargarðinn og fengu með naumindum lokað hliðinu áður en óvinir þeirra ruddust þar inn. Af Bernajoux er það, að segja, að það var búið að koma honum í hús áður og var hann mjög illa haldinn af sárum sínum.
Skyttuliðarnir og aðstoðamenn þeirra voru nú orðnir svo æstir, að þeir fóru að tala um að leggja eld í Trémouille-höllina í hefndar skyni fyrir móðgun þá, er þjónar La Trémouille höfðu sýnt þeim með því að gera aðsúg að skyttuliðum konungs. Uppástungan var borin upp og henni tekið með miklum fögnuði, en þá sló klukkan ellefu til allrar hamingju. D'Artagnan og félagar hans mintust þess þá, að þeir áttu að ganga fyrir konung og fengu nú sefað ákafann í sínum mönnum, enda hefði þeim þótt lakara, að geta ekki tekið þátt í slíku gamni. Létu menn sér þá nægja að láta grjóthríð dynja á hliðinu, en þeir sem helst máttu teljast hvatamenn brennunnar, voru farnir áleiðis til Tréville-hallarinnar. Höfuðsmaðurinn beið þeirra þar og hafði þegar fengið fréttir af uppþotinu.
»Nú verðum við að skunda tafarlaust til Louvre-hallarinnar,« sagði hann. »Við verðum að ná tali af konunginum áður en kardínálinn kemur til sögunnar. Við verðum að skýra konungi svo frá, að þetta uppþot hafi verið bein afleiðing viðureignarinnar í gær og fá úrskurð um bæði málin í einu lagi.«
Herra de Tréville hélt þá til Louvre með þessa fjóra félaga, en þegar þangað kom, frétti hann sér til mikillar undrunar, að konungur væri á dýraveiðum í Saint Germainskóginum. Lét hann segja sér þetta tvisvar áður en hann gat trúað því og varð nú ærið þungur á brún.
Hafði konungur ráðgert það í gær að fara á dýraveiðar í dag?« spurði hann.
»Nei, yðar hágöfgi,« svaraði þjónninn, »en í morgun komu boð frá yfirveiðistjóranum um það, að vart hefði orðið við hjartardýr í nótt. Svaraði konungur því fyrst, að hann gæti ekki farið, en loks stóðst hann ekki freistinguna og lagði af stað að loknum morgunverði.«
»Hefir konungur talað við kardínálann?« spurði herra de Tréville.
»Það tel ég víst,« svaraði þjónninn, »því að ég sá vagn hans hágöfgi í morgun og spurði, hvert hann ætlaði og var þá sagt, að hann ætlaði til Saint Germain.«
»Hann hefir orðið á undan okkur,« sagði de Tréville við skyttuliðana. — »ég ætla að fara á fund konungs í kvöld, en ykkur vil ég ráða að hætta ekki á það.«
Það var skynsamlega ráðið, enda maðurinn sem réði of kunnugur konungi til þess, að þeir færu ekki að ráðum hans.
Þegar hann var kominn heim til sín fór hann að hugsa um, hvað hann ætti nú til bragðs að taka til þess að verða fyrri til með ákæru sína. Hann sendi einn þjón sinn til La Trémouille með bréf þess efnis, að hann bæði hann að flytja lífvarðarlið kardínálans úr höll sinni og ávíta menn sína fyrir að hafa gert frumhlaup að skyttuliðunum. En La Trémouille var þegar búinn að heyra sögu þessa máls af skjaldsveini sínum, frænda Bernajoux eins og áður er getið. Sendi hann því de Tréville það svar, að hvorki bæri honum né skyttuliðum hans að kvarta, því að það væru skyttuliðarnir, sem hefðu átt upptökin og ætlað að leggja eld í höll sína. Leit helst út fyrir, að töluvert stapp ætlaði að verða út úr þessu, því að báðir þessir stórhöfðingjar héldu fast við sinn framburð. En þá datt herra de Tréville það snjallræði í hug að fara sjálfur heim til La Trémouille til að gera einhvern enda á þessari þrætu.
Hann fór þegar til hallar hans og lét gera aðvart um komu sína.
Þeir heilsuðust kurteislega, því þótt ekki væru þeir vinir neinir, báru þeir samt virðingu hvor fyrir öðrum. Þeir voru báðir heiðursmenn og þar sem La Trémouille var mótmælenda trúar, þá kom hann sjaldan á konungsfund og fylgdi engum ákveðnum flokki, en lét menn þá líka afskiftalausa, hverrar skoðunar sem þeir voru. Í þetta skifti var hann að vísu kurteis, en venju fremur fálátur.
»Herra de La Trémouille,« sagði de Tréville. »Við getum sjálfsagt láð hvor öðrum ýmislegt og kem ég nú til yðar, svo að við getum upplýst þetta mál í sameiningu.«
»Það er mér kært,« svaraði La Trémouille, »en ég segi yður það fyrir fram, að mér er málið vel kunnugt og að öll rangindin er hjá skyttuliðunum að finna.«
»Þér eruð svo sannsýnn maður og skynsamur, að þér munuð ekki hafna tilboði því, sem ég ætla að gera yður.«
»Hvaða tilboð er það?« — látið mig heyra.«
»Hvernig líður Bernajoux, frænda skjaldsveins yðar?«
»Honum líður illa. Sárið, sem hann fékk á öxlina, er mjög hættulegt, en svo fékk hann stungu þvers í gegnum annað lungað og læknirinn telur tvísýnu á lífi hans.«
»Hefir hann ráð og rænu?«
»Já.«
»Getur hann talað?«
»Hann á mjög bágt með það.«
»Jæja, við skulum koma inn til hans. Við skulum leggja fast að honum að segja okkur satt og rétt frá í nafni þess guðs, sem hann á ef til vill bráðum að koma fram fyrir. ég ætla að selja honum sjálfdæmi í hendur og leggja trúnað á það, sem hann segir.«
La Trémouille hugsaði sig um stundarkorn. En þar sem tæplega var hægt að koma með skynsamlegri uppástungu, þá gekk hann að þessu.
Þeir gengu svo báðir inn í herbergið þar sem hinn særði maður lá.
Hann reyndi að setjast upp í rúminu þegar þessir háu herrar komu inn, en hann hafði ekki þrótt til þess og hné út af aftur.
La Trémouille gekk til hans og hélt ilmsalti að vitum hans, er hresti hann við. De Tréville bað La Tremouille sjálfan að spyrja hann til þess að sér yrði ekki brugðið um neina hlutdrægni.
Það fór eins og de Tréville grunaði, Bernajoux vissi að hann stóð fyrir dauðans dyrum og hikaði ekki við að segja allan sannleikann. Lýsti hann fyrir þeim allri viðureigninni, nákvæmlega eins og hún hafði gerst.
Það var það, sem höfuðsmaðurinn vildi. Hann óskaði Bernajoux góðs bata, kvaddi La Trémouille, fór heim til sín og sendi hinum fjórum félögum boð, að þeir skyldu koma og borða hjá sér miðdagsverð.
Herra de Tréville umgekkst marga heldri menn og voru þeir allir af sama sauðahúsi, þ.e.a.s. andstæðir kardínálanum og fylgismönnum hans. Var því eðlilegt að samræðurnar yfir borðum hneigðust mest að hrakförum þeim, sem lífvarðarliðar kardínálans höfðu nú tvívegis farið. D'Artagnan hafði verið aðalmaðurinn í báðum þessum skærum og var því einkum í heiðri hafður, enda létu þeir Athos, Porthos og Aramis það óátalið.
Klukkan um sex kvaðst de Tréville ætla að fara til Louvre. Það var venjulegur viðtalstími og gekk hann því ekki upp litla riðið, en tók sér sæti í forsalnum ásamt hinum ungu mönnum. Konungur var ekki enn kominn af veiðum og urðu þeir að bíða fram undir hálfa klukkustund þangað til að dyrnar voru opnaðar og mönnum tilkynt, að konungur væri kominn.
Það fór hálfgerður hrollur um d'Artagnan þegar hann heyrði þennan boðskap. Það var mjög sennilegt, að þessi stund yrði þýðingarmikil fyrir alt hans líf og hann starði undrandi á dyrnar, sem vænta mátti að konungur kæmi inn um.
Lúðvík 13. kom í veiðibúningi, allur rykugur í háum stígvélum með svipu í hendi. D'Artagnan sá undir eins, að konungur var í afar illu skapi. Þó að auðséð væri á svip konungs, hvað inni fyrir bjó, skipuðu hirðmenn sér samt í raðir þegar hann gekk um — í forsal konungs er skárra að verða fyrir reiðilegu augnatilliti en als engu, Skytturnar þrjár stóðu í fremstu röð og d'Artagnan að baki þeirra, en þó að konungur þekti þá Athos, Porthos og Aramis, þá gekk hann fram hjá þeim án þess að líta við þeim eða yrða á þá, rétt eins og þeir væru bráðókunnugir. Hann leit hornauga til de Tréville, en maður sá leit aftur svo einarðlega á konung, að Hans Hátign varð feginn að líta undan. Gekk konungur svo inn í herbergi sitt.
»Þetta er ekki álitlegt,« sagði Aramis brosandi. »Við verðum naumast dubbaðir til riddara í þetta sinn!«
»Bíðið hérna í tíu mínútur,« sagði de Tréville, »og verði ég ekki kominn fram aftur innan þess tíma, þá er best að þið gangið heim til mín — það er þá ekki vert að bíða lengur eftir mér hér.«
Hinir ungu menn biðu tíu, fimtán og tuttugu mínútur, en ekki bólaði á höfuðsmanninum að heldur. Fóru þeir þá leiðar sinnar og sagði þeim þungt hugur um, hvað nú við tæki.
Herra de Tréville gekk djarflega inn í herbergi konungs og hitti Hans Hátign þar í illu skapi, eins og áður er sagt. Sat hann þar í hægindastól og sló svipuskaftinu á stígvélin. Alt fyrir það spurði höfuðsmaðurinn mjög rólega, hvernig honum liði.
»Mér líður illa, herra,« svaraði konungur — — »mjög illa. Mér leiðist.«
Það var líka það versta, sem fyrir Lúðvík þrettánda kom. Það bar oft til, að hann tók einhvern hirðmanninn út að glugga með sér og sagði: »Nú skulum við láta okkur leiðast saman.«
»Hvað er þetta — leiðist yðar Hátign?« sagði herra de Tréville. »Hafið þér ekki skemt yður við veiðarnar í dag?«
»Það er heldur skemtun! Það fer öllu aftur. ég veit ekki hvort heldur er, að veiðidýrin eru orðin þeflaus eða hundarnir lyktarlausir. Við sáum sjö ára gamlan hjört og eltum hann í sex tíma og þá var hann svo að fram kominn, að Saint Simon (símong) var að grípa veiðihornið og ætlaði að blása til atlögu, en þá urðu hundarnir varir við annan hjört og fóru að eltast við hann. Nei, ég verð náttúrlega að hætta við þessar veiðar eins og ég hefi orðið að hætta við fálkaveiðarnar. Þetta eru nú konungsdýrin mín, herra de Tréville! ég átti einn góðan veiðihauk eftir og hann drapst í gær.«
»ég skil vel, að yðar Hátign falli þetta illa. Það er verulega leiðinlegt, en ef mér ekki skjátlast, þá eigið þér marga hauka eftir enn.«
»Jú, en hér er ekki nokkur maður, sem kann að temja þá. Fálkarnir eru engir til lengur og ég er eini maðurinn, sem nokkuð kann til veiðiskapar. Þegar ég er dauður, er sú list úr sögunni og þá verða menn að gera sér að góðu dýraboga, snörur og fallgryfjur. Bara að ég kæmist til að kenna einhverjum! En það er nú eitthvað annað, því að þá kemur kardínálinn og lætur mig ekki hafa stundlegan frið. Hann fer þá að spjalla um Spán, Austurríki og England, svo að ég veit hvorki upp né niður. En meðal annara orða, fyrst að ég mintist á kardínálann — ég er mjög svo óánægður með yður, herra de Tréville.«
De Tréville hafði lengi átt von á þessum seinustu orðum. Hann þekti konung vel og vissi sem var, að allar þessar kvartanir voru ekki annað en eins konar inngangsorð að því, sem hann ætlaði að segja.
»Og hvernig hefi ég verið svo óheppinn, að baka mér óánægju yðar Hátignar?« spurði de Tréville og lét sem sig furðaði þetta stórlega.
»Er það nokkur mynd að rækja embætti sitt á þennan hátt!« hélt konungur áfram án þess að svara spurningu de Tréville beinlínis. »Hefi ég gert yður að höfuðsmanni skyttuliða minna í þeim tilgangi, að þessir þokkapiltar séu að drepa fólk, gera uppþot í heilu borgarhverfi og brenna París til ösku án þess að þér segið aukatekið orð? En ég þarf sjálfsagt ekki að vera að fást um þetta. Þér eruð náttúrlega búinn að setja þessa óróaseggi í varðhald og komið nú til þess að tilkynna mér, að réttvísinni sé fullnægt.«
»ég kem þvert á móti til þess að krefjast réttlætis,« svaraði de Tréville stillilega.
»Gagnvart hverjum?« hrópaði konungur.
»Gagnvart rógberunum,« svaraði de Tréville.
»Jájá — alt af kemur eitthvað nýtt,« sagði konungur. »En það er nú ekki til neins fyrir yður að ætla að segja mér annað, en að þessir fjárans skyttuliðar yðar, Athos, Porthos og Aramias, ásamt þessum þöngulhaus frá Béarn, hafa ráðist á vesalings Bernajoux og misþyrmt honum svo, að hann bíður bana af að öllum líkindum. Er ég ekki nýbúinn að heyra, að þeir hafi beinlínis setið um Trémouille-höllina og ætlað að brenna hana upp til agna? Það hefði nú ekki gert öll ósköp til á ófriðartímum, því að þetta er bannsett Húgenottabæli, en á friðartímum er það hreinn og beinn glæpur að ganga á undan öðrum með slíku eftirdæmi. — Getið þér kann ske borið á móti því að þetta sé satt og rétt með farið?«
»Og hver hefur nú frætt yðar Hátign á öllum þessum tröllasögum?« spurði de Tréville rólega.
»Auðvitað sá hinn sami, sem vakir þegar ég sef, sem vinnur baki brotnu þegar ég er að skemta mér, sem stýrir öllu og stjórnar innanlands og utan, Frakklandi jafnframt Evrópu.
»Yðar Hátign á sjálfsagt við Himnaföðurinn,« sagði herra de Tréville, »því að yður undan skildum veit ég engan nema hann, sem slíkt vald sé gefið.«
»Nei, herra — ég á við stoð og styttu ríkisins, minn eina þjón og eina vin, herra kardínálann.«
»Jú, en hans hágöfgi er þó ekki sama sem Hans Heilagleiki.«
»Hvað meinið þér með því?«
»Að það sé páfinn eingöngu, sem talinn er óskeikull og að sá eiginleiki geti ekki tileinkast kardínálanum.«
»Þér eigið þá við það, að hann blekki mig, þér eigið við, að hann svíki mig í trygðum — þér ákærið hann með öðrum orðum. Gott og vel! Teljið fram alt það, sem þér ákærið hann fyrir.«
»Als ekki, yðar Hátign. En ég segi, að honum skjátlist, að honum hafi verið sagt rangt frá; ég segi, að hann hafi undið of bráðan bug að því, að kæra skyttuliðana fyrir yðar Hátign, að hann geri þeim getsakir og að sögusögn hans sé af illum toga spunnin.«
»Það er hertoginn sjálfur, La Trémouille, sem hefur kært þá. Hverju svarið þér til þess?«
»ég gæti svarað því, að þetta mál sé honum svo nákomið, að hann geti ekki talist óvilhallur, en það vil ég nú ekki samt sem áður, yðar Hátign. ég skal trúa því, sem hann segir, en þó, með einu skilyrði.«
»Og hvaða skilyrði er það?«
»Að yðar Hátign geri boð fyrir hann og spyrjið hann — spyrjið hann sjálfur, augliti til auglitis og án allra votta — og að ég fái svo áheyrn hjá yðar Hátign, þegar þér hafið talað við hann.«
»Gott og vel,« svaraði konungur — »og svo ætlið þér að gangast undir það, sem La Trémouille segir?«
»Já, Yðar Hátign.«
»Og lúta úrskurði hans?«
»Já.«
»Og þér gangið að því að gera honum þær yfirbætur, sem hann kann að krefjast?«
»Já.«
»La Chesnaye!« kallaði konungur. »La Chesnaye (sésne)!«
Þessi vildarmaður Lúðvíks þrettánda stóð ávalt fyrir utan dyr hans og kom nú inn.
»La Chesnaye!« sagði konungur. »Farið þér undir eins til La Trémouille og biðjið hann að finna mig. ég vil fá að tala við hann í kvöld.
»Yðar Hátign lofar mér því statt og stöðugt að veita engum áheyrn fyr en þið La Trémouille hafið talast við?«
»Já, þér megið reiða yður á það.«
»Verið þér þá sælir, yðar Hátign! Við sjáumst þá aftur á morgun.«
»Já — verið þér sælir!«
»Um hvaða leyti má ég koma?«
»Hve nær sem yður þóknast.«
»ég þori ekki að koma mjög snemma. ég kynni að vekja yðar Hátign.«
»Vekja mig! Haldið þér kann ske að ég fái að sofa? ég sef aldrei, nú orðið — ég blunda bara svolítið endrum og sinnum — það er allur minn svefn. Komið þér svo tímanlega sem þér viljið — t.d. klukkan sjö — en varið þér yður ef skyttuliðar yðar reynast sekir — og svo er ekki meira um það!«
»Ef skyttuliðar mínir reynast sekir, yðar Hátign, þá verða þeir undir eins fengnir yður á vald, svo að þér getið gert við þá, hvað sem yður sýnist. Er það nokkuð fleira, sem yðar Hátign býður? ég er reiðubúinn að hlýða.«
»Nei, herra — janeinei! Það er ekki að ástæðulausu, að ég er kallaður Lúðvík hinn réttláti. Jæja. Þér komið þá á morgun.«
»Guð sé með yðar Hátign!«
Hafi konungur sofið lítið, þá svaf herra de Tréville enn minna. Um kvöldið gerði hann skyttunum þremur boð að koma til sín klukkan hálfsjö morguninn eftir. Ekki hughreysti hann þá neitt þegar þeir komu, lofaði þeim engu fögru og duldi þess þá heldur ekki, að hylli konungs, bæði fyrir þeirra og sitt leyti, væri alveg undir tilviljun komin.
Hann lét þá bíða neðan við litla riðið. Ef konungur væri þeim jafn reiður og áður, þá gátu þeir haft sig á burt án þess að vekja eftirtekt, en ef hann vildi veita þeim áheyrn, þá þurfti ekki annað en að kalla til þeirra.
De Tréville hitti La Chesnaye fyrir sér, þegar hann kom inn í forsalinn. Sagði La Chesnaye honum, að hann hefði ekki getað hitt La Trémouille hertoga kvöldið áður og hefði hann komið svo seint heim, að þá var orðið um seinan að fara til Louvre, en nú væri hann kominn og væri einmitt staddur inni hjá Hans Hátign.
Þetta líkaði de Trévilla mjög vel, því að nú var hann viss um, að engin annarleg áhrif gætu komið til mála og hindrað gerðardóm þeirra La Trémouille og hans.
Eftir tæpar tíu mínútur opnuðust dyrnar að herbergi konungs og kom La Trémouille út um þær og gekk til höfuðsmannsins.
»Herra de Tréville, sagði hertoginn. Hans Hátign hefur gert boð eftir mér til þess að komast fyrir, hvað við bar í gær fyrir utan höll mína. ég hefi sagt honum sannleikann, sem sé það, að menn mínir ættu sök á þessu uppþoti og að ég væri fús til að biðja yður afsökunar. Og fyrst að ég hitti yður nú hér, þá vil ég biðja yður að gera svo vel að taka við þeirri afsökun og skoða mig eftirleiðis sem vin yðar.«
»Herra hertogi,« svaraði de Tréville. »ég hafði svo óbifanlega trú á réttsýni yðar, að ég gat ekki kosið mér betri talsmann fyrir konungi en yður. Og ég sé, að mér hefir ekki skjátlast í þessu. ég er yður þakklátur fyrir það, að enn gefast þeir menn á Frakklandi, sem óhætt er að segja um, það sem ég hefi sagt um yður.«
»Svona — þetta er nú gott og blessað,« sagði konungur, sem stóð álengdar og hlustaði á allar þessar lofræður. »Segið þér honum, de Tréville, að ég vilji líka gjarnan vera vinur hans, en að hann gleymi mér alveg. Það eru víst bráðum þrjú ár, síðan hann hefir komið hingað og kemur ekki als ekki nema því að eins, að ég geri boð eftir honum, Segið þér honum þetta alt í mínu nafni því að konungar geta tæplega sagt slíkt sjálfir.«
»Þakka yður fyrir, yðar Hátign,« sagði hertoginn, »en þér megið ekki halda að þeir, sem umgangast yður dags daglega, séu endilega hollastir yður — og undanskil ég þó herra de Tréville.«
»Jæja — þér heyrðuð þá, hvað ég var að segja, herra hertogi — það var líka best,« sagði konungur og kom nú fram í dyrnar. »Nú nú, de Tréville, hvar eru nú þessar skyttur yðar? ég bað yður í gær að koma hingað með þá — hvers vegna hafið þér ekki gert það?«
»Þeir eru hérna fyrir utan. Kannske að La Chesnaye vilji gera svo vel, með yðar leyfi, að segja þeim að koma hingað upp.«
»Já, látið þá koma undir eins. Klukkan er bráðum orðin átta og klukkan níu á ég von á manni. Verið þér sælir, herra hertogi, og komið þér bráðum aftur. Gerið svo vel að koma inn de Tréville.«
Hertoginn kvaddi og fór. Um leið og hann opnaði dyrnar, komu skytturnar þrjár upp riðið ásamt d'Artagnan og gekk La Chesnaye fyrir þeim.
»Komið þið hingað, dáða drengir,« sagði konungur. »En fyrst þarf ég að taka í lurginn á ykkur.«
Skyttuliðarnir færðu sig nær og hneigðu sig djúpt. D'Artagnan gekk síðastur.
»Hvernig í skrambanum víkur því við,« sagði konungur og vék sér að skyttuliðunum, »að þið hafið á tveimur dögum gert sjö lífvarðarliða kardínálans óvíga? Það er of svæsið, herrar góðir, alt of svæsið. Ef þessu fer fram, neyðist kardínálinn til þess að endurnýja flokk sinn á þriggja vikna fresti og ég neyðist til að fylgja lögunum fast eftir. ég skal ekki fást um það, þó einn og einn maður falli úr sögunni, en sjö menn á tveimur dögum — það er of svæsið, segi ég enn og aftur.«
Þess vegna koma þeir nú líka iðrandi og auðmjúkir fyrir auglit Yðar Hátignar og vilja nú óðfúsir bera fram afsakanir sínar.«
»Auðmjúkir og iðrandi! Ojæja!« sagði konungur. »ég er nú ekki fjarskalega trúaður á þennan uppgerðar svip ykkar, einkanlega á Gaskognarasmettið þarna aftast. Komið hingað, herra!«
D'Artagnan þóttist vita, að þessi rúsína væri sér ætluð og varð afaraumur á svipinn.
»Þér hafið verið að geta um einhvern ungan mann, en þetta er bara drengur, herra de Tréville. Var það hann, sem veitti Jussac þetta hættulega sár?«
»Já, og særði Bernajoux tveim sárum, jafn viðsjárverðum.«
»Ja, hvað er þetta!«
»Að ég nefni ekki,« sagði Athos nú, að ef hann hefði ekki bjarga mér úr klónum á Bicarat, þá mundi ég vissulega ekki vera staddur hér hjá Yðar Hátign á þessari hátíðlegu stundu.«
»Það hlítur að vera skollinn sjálfur, þessi Gaskognari og það hljóta að vera skemdir á fötum og sverðum með svona áframhaldi, en Gaskognarar eru líklega peningalitlir eins og fyrri daginn?«
»Gull hefir ekki fundist enn í fjöllum okkar, svo að ég viti til, Yðar Hátign, og gæti þó vel hugsast, að skaparinn gerði eitthvert kraftaverk í þakklætis skyni fyrir aðstoð þá, sem við veittum föður Yðar Hátignar.«
»Það er með öðrum orðum, að ég á Gaskognurum konungdóm minn að þakka, fyrst að ég er sonur föður míns — er það ekki meining yðar, herra de Tréville? Nú jæja! ég skal ekkert um það segja. La Chesnaye! Leitið þér í vösum mínum og vitið, hvort þér finnið nokkra peninga og færið mér svo fjörutíu gullpeninga. Og heyrið þér nú, ungi maður! Nú skuluð þér leggja höndina á hjarta stað og segja mér, hvernig þetta alt saman vildi til.«
D'Artagnan sagði nú frá viðburðum þeim, sem orðið höfðu daginn áður: að hann hefði ekki getað sofið af tilhlökkun að fá að sjá Hans Hátign og að hann hefði gengið til þessara þriggja vina sinna þremur tímum áður en þeir áttu að fara á konungsfund, að þeir hefðu orðið samferða til veitingahúss eins, að Bernajoux hefði farið að hæðast að sér þar og naumlega komist lífs undan fyrir tilvirkið og að nærri hefði legið að La Trémouille sem kom þó hvergi nærri, yrði fyrir eldsvoða og misti höll sína.
»Rétt er það,« sagði konungur. »Hertoganum sagðist alveg eins frá þessu. Vesalings kardínálinn — að hafa mist sjö menn á tveimur dögum og það skástu mennina. En nú er komið nóg af svo góðu, herrar mínir, heyrið þið það! Meira en nóg. Þið hafið nú fengið hefnd fyrir hrakfarirnar í Férou (ferú) — götunni og ríflega það og nú hljótið þið að vera ánægðir.«
»Ef Yðar Hátign er ánægður, þá erum við það líka,« sagði de Tréville.
»Já, ég er það,« svaraði konungur, tók gullpeninga nokkra, sem La Chesnaye rétti honum og lagði þá í lófa d'Artagnans. »Þarna er sönnunin fyrir ánægju minni.«
Á þeim dögum voru menn ekki eins tiltektasamir og nú. Aðalsmaður gat þá þegið peningjagjöf af konungi sínum án þess það væri honum nokkur sómahnekkir. D'Artagnan stakk því gullpeningunum í vasa sinn umsvifalaust og þakkaði gjöfina.
»Nú er klukkan orðin hálf níu,« sagði konungur. »Þið verðið nú að fara, því að ég á von á manni klukkan níu, eins og ég sagði áðan. ég þakka ykkur fyrir auðsýnda trygð og hollustu, herrar góðir og má reiða mig á hana framvegis — er ekki svo?«
»Jú, Yðar Hátign,« svöruðu þessir fjórir félagar einum rómi. »Við erum fúsir til að láta brytja okkur í stykki fyrir Yðar Hátign.«
»Rétt er nú það, en helst vil ég hafa ykkur í heilu lagi. Það fer best á því og þið eruð mér gagnlegastir á þann hátt. De Tréville« sagði hann í hálfum hljóðum um leið og hinir gengu burt. »Það er ekkert autt pláss meðal skyttuliðanna, og þar sem vér höfum mælt svo fyrir, að sá sem vill ganga í skyttuliðið, verði að venjast herþjónustu áður, þá skuluð þér reyna að koma hinum unga manni inn í lífvarðarlið mágs yðar, herra de Essarts. Herra trúr! ég hlakka til að sjá framan í smettið á kardínálanum! Hann verður auðvitað óður og uppvægur, en það stendur mér á sama. ég hefi ekki gert annað en það, sem mér ber fullur réttur til.«
Konungur tók í höndina á de Tréville að skilnaði, en hann flýtti sér til skyttuliðanna og hitti svo á, að þeir voru að skifta þessum fjörutíu gullpeningum d'Artagnans á milli sín.
Kardínálinn varð óður og uppvægur, eins og konungur hafði giskað á. Hann varð svo hamstola, að hann settist ekki við spilaborð konungs í heila viku, en engu að síður spurði konungur hann í hvert skifti, sem þeir hittust:
»Jájá, herra kardínáli! Hvernig líður mönnum yðar? Vesalingarnir Bernajoux og Jussac!«
Þegar d'Artagnan var kominn út úr Louvre-höllinni, fór hann að ráðgast um við vini sína, hvað hann ætti að gera við sinn hluta af þessum fjörutíu gullpeningum. Athos réði honum til að kaupa þeim góðan miðdagsverð í »Grenikönglinum,« Porthos sagði honum að útvega sér þjón og Aramis eggjaði hann á að fá sér laglega lagskonu.
D'Artagnan veitti miðdagsverðinn sama dag, en nýi þjónninn gekk um beina. Athos hafði pantað matinn og Porthos útvegað þjóninn. Hann var frá Pikardí-héraðinu og Porthos vistréð hann sama daginn á La Tournelle (túrnell)-brúnni, en þar stóð maður þessi og var að hrækja ofan í fljótið.
Porthos þótti sem þessi dægrastytting hans bæri vott um rólyndi og gætni og réði hann til d'Artagnans án þess að grenslast eftir fleiru. Maðurinn hét Planchet (Plangsé) og lét hann ginnast af stærilæti Porthos. Þótti honum fyrir, að Porthos hafði þegar ráðið annan þjón til sín, er hét Mousqueton (Músketong). Porthos sagði, að heimili sitt væri raunar allumfangsmikið, en þó ekki svo, að hann þarfnaðist tveggja þjóna og eggjaði hann á að ráðast til d'Artagnans. Planchet gekk um beina, eins og áður er sagt, við miðdagsverðinn, sem hinn nýi húsbóndi hans veitti, og þegar hann sá, að þessi nýi húsbóndi þreif gullpeninga upp úr vasanum til þess að borga matsalanum, þá hélt hann, að sér væri vel borgið og þakkaði sínum sæla, að hann hefði ráðist í vist hjá slíkum gróssera. Og við þetta sat þangað til miðdagsverðinum var lokið og hann hafði sefað hungur sitt á afgangsleifunum. En allar þessar tálvonir brugðust herfilega þegar hann fór að búa upp rúm húsbóndans um kvöldið, því að ekki var annað innanstokks í íbúðinni, svefnherbergi og stofu þar fram af en þetta eina rúm. — Planchet hvíldist í framstofunni á ábreiðu, sem d'Artagnan tók af sínu eigin rúmi og brúkaði aldrei síðan.
Athos hafði sér þjón, er Grimund (Grímó) hét, og hafði Athos vanið hann á einkennilegan hátt. Hann var mjög fálátur, sá mikli maður, það er að segja Athos sjálfur. Hann hafði verið þeim Porthos og Aramis nákunnugur í sex ár og höfðu þeir að vísu oft séð hann brosa allan þann tíma, en aldrei heyrt hann hlæja. Hann var jafnan fáorður og gagnorður, sagði það sem hann ætlaði sér að segja og aldrei meira, hispurslaust og útúrdúralaust, hélt fast við efnið, hvað sem á góma bar og forðaðist allar málalengingar.
Athos var tæplega þrítugur að aldri, fríðleiksmaður og prýðis vel gefinn, en samt kunni enginn af ástamálum hans að segja. Hann mintist aldrei á kvennfólk, en lét afskiftalaust þó að aðrir væru að gaspra eitthvað um það. Samt var auðfundið, að honum var þess háttar hjal ógeðfelt og gaf hann sig lítt að því, nema þá helst með einhverjum beiskyrðum eða kvennhaturskendum athugasemdum. Þessi dulleiki hans, mannfælni og fámælgi ollu því, að hann virtist mönnum miklu eldri en hann var og til þess að bregða ekki af venju sinni, þá hafði hann vanið Grimund á að gæta vel að öllum bendingum sínum og skilja fyrirskipanir sínar þótt hann að eins bærði varirnar og aldrei yrti hann á hann nema að eitthvað sérlegt lægi við.
Grimund óttaðist húsbónda sinn og bar afarmikla lotningu fyrir honum og öllu því, sem honum kom við. En stundum bar það til, að hann hljóp erinda hans eins og fætur toguðu og var þá svo hjólviljugur og flumúsa, að hann gerði kann ske þvert á móti því, sem honum var skipað að gera. Þá ypti Athos öxlum og dustaði hann rækilega til án þess þó að bregða skapi að neinu leiti, en þá dagana fóru þeim ekki mörg orð á milli.
Porthos var gersamlega gagnstæður Athos, eins og lesarinn mun hafa tekið eftir. Hann var málrófsmaður mikill og hávær að því skapi, en annars mátti hann eiga það, að hann hirti lítt, hvort menn hlustuðu á hann eða ekki. Mælgi hans stafaði aðallega af því, að hann hafði gaman af að gaspra og heyra sjálfan sig tala. Hann geypaði um alla skapaða hluti nema mentir og vísindi, er hann hataði af alhug og kom það til af því, að hann hafði haft andstygð á lærðum mönnum frá blautu barnsbeini. Hann var ekki jafn höfðinglegur og Athos í framgöngu. Fann hann það vel sjálfur og var það til þess, að á fyrstu kunningsskapar árum þeirra gerði hann Athos oft rangt til og reyndi að vera honum fremri að klæðaburði. En enda þótt Athos gengi í einföldum skyttuliðabúningi, þá var öll framkoma hans svo ákveðin og ein beittleg, að hann settist brátt í það sæti, sem honum bar og varð Porthos að sætta sig við að vera settur skör neðar. En þá gerði hann sér gott af að segja hverjum, sem heyra vildi hjá de Tréville og varðstofunni í Louvre, hvað hann væri inn undir hjá kvennfólkinu, en slíkt mintist Athos aldrei á, eins og áður er getið. Eftir því sem Porthos sagðist frá sjálfum, þá var hann bæði í þingum við aðalsmannafrúr og konur háttstandandi embættismanna og nú þessa dagana var það hvorki meira né minna en útlend furstafrú, sem hann sagði, að væri bandvitlaus í sér.
»Eftir höfðinu dansa limirnir,« segir gamalt máltæki. Skulum vér nú minnast lítið eitt á þjón Porthos, þann er Mousqueton hét.
Mousqueton var frá Normandíinu og hét Bóníface réttu nafni, en húsbóndi hans breytti um nafn á honum og þótti Mousqueton vera fallegra nafn og viðkunnanlegra. Þegar hann réðist til Porthos, krafðist hann ekki annara launa en húsnæðis og klæða, en fötin vildi hann hafa skrautleg og af fínustu gerð og enn fremur vildi hann fá að ráða yfir tveimur klukkutímum á dag, til þess að nota þá til annara þarfa sinna. Porthos gekk að því og alt féll í ljúfa löð með þeim. Hann lét sauma upp aftur gamlar treyjur og kufla handa Mousqueton. Var hann hinn ásjálegasti í þessum búningi, því að skraddarinn, sem snéri fötunum og saumaði þau upp aftur, var leikinn í sinni list, en talað var, að kona hans kæmi Porthos til að gleyma sumum aðalsmanna kreddum sínum.
Hvað Aramis snertir, þá þykjumst vér hafa lýst lunderni hans allítarlega, en að öðru leyti munum vér síðar fá að kynnast honum betur og félögum hans. Þjónn hans hét Bazin (Baseng). Í þeirri von, að húsbóndi hans yrði einhvern tíma andlegrar stéttar, gekk hann ávalt dökk klæddur eins og sómir þjónum andlegrar stéttar manna. Hann var frá Berry, 35 til 40 ára að aldri, blíður, friðsamur og feitlaginn. Hann las guðsorðabækur í frístundum sínum og gat, þegar til átti að taka, framreitt miðdagsverð handa tveimur persónum með fáum en fyrirtaks góðum réttum. Að öðru leyti gat hann verið sjónlaus, daufur og dumbur þegar svo bar undir.
Vér höfum nú fengið nokkru nánari kynni af húsbændunum og þjónum þeirra og skulum nú bregða oss inn á heimili þeirra.
Athos átti heima í Férou-götunni, rétt hjá Luxembourg, Íbúðin var tvö lítil herbergi, en snotur og vel um gengin. Húsmóðir hans var ung og einkar lagleg, en ekki gekst hann fyrir því þó hún liti hann allhýru auga. Fáeinar leifar fornrar dýrðar og dásemdar prýddu enn þá veggina í herbergjum þessum, þar á meðal skrautsverð eitt, alt rósum greypt. Meðalkaflinn var alsettur gimsteinum og 200 gullpeninga virði að minsta kosti, en aldrei hafði Athos komið til hugar að selja það eða setja að veði, hversu mikill peningaskortur, sem að honum þrengdi með köflum. Porthos hafði lengi haft augastað á þessu sverði og hefði gjarnan viljað gefa tíu ár af æfi sinni til þess að fá það í sína eigu.
Einu sinni átti Porthos að fara á fund hertogafrúar nokkurrar og vildi þá fá sverðið að láni. Athos gengdi því engu, en tæmdi vasa sína, tíndi saman alla þá peninga sem hann átti í eigu sinni, gimsteina, nælur og gullkeðjur og bauð Porthos það altsaman, en sverðið skyldi hanga óhreyft á sínum stað og ekki takast ofan fyr en hann færi sjálfur alfarinn úr herberginu. Auk sverðsins var þar mynd af manni frá dögum Hinriks þriðja. Hann var klæddur skrautlegum búningi og bar Heilagsanda-orðuna á brjósti. Myndin líktist Athos að sumu leyti og svipaði til hans og mátti ráða af því, að hún mundi vera af einhverjum forföður hans.
Loks var skrín eitt á arinhillunni, gert af miklum hagleik og prýtt sama skjaldarmerkinu sem sverðið og myndin; stakk það mjög í stúf við aðra innanstokks muni, er þar stóðu inni og voru fremur fátæklegir. Athos bar jafnan á sér lykilinn að skríni þessu, en einhverju sinni, er Porthos var staddur inni hjá honum, opnaði hann það, og gat Porthos þá séð að í því var ekki annað en bréf nokkur og önnur skjöl — auðvitað ástabréf og ættarskjöl og skilríki.
Porthos hafði stóra íbúð í Vieux-Colombier-götunni og all-ríkmannlega eftir útlitinu að dæma. Í hvert skifti, sem hann gekk fram hjá húsinu með einhverjum kunningjum sínum, benti hann upp í glugga þar sem Mousqueton stóð í allri sinni dýrð og sagði: Þarna á ég heima! En aldrei var hægt að hitta hann heima og aldrei bauð hann neinum upp til sín, svo að ekki vissi neinn, hvernig umhorfs væri þar inni.
Íbúð Aramis var lítið sérherbergi, borðstofa og svefnherbergi. Herbergi þessi voru á neðstu hæð og svefnherbergið snéri út að litlum garði, snotrum og viðkunnanlegum og gátu forvitnir nágrannar ekki skygnst inn í hann.
Vér höfum fengið að litast um húsakynni d'Artagnas og sömuleiðis nokkur kynni af Planchet hinum nýja þjóni hans.
Þessi söguhetja vor var einstaklega hnýsinn að eðlisfari, eins og brögðóttum mönnum er gjarnt til að vera. Lagði hann sig mjög í framkróka til þess að forvitnast um, hverjir þeir Athos, Porthos og Aramis væru í raun réttri, því að þetta voru að eins gervinöfn þeirra, er þeir duldu með aðalheiti sín, að minsta kosti Athos, því að öll hans framkoma benti til þess, að hann væri af tignum ættum kominn. D'Artagnan leitaði til Porthos í því skyni að fá eitthvað að vita um Athos og Aramis og síðan til Aramis í sömu erindum viðvíkjandi Porthos.
En því miður vissi Porthos ekkert meira en aðrir um hinn þögla Athos. Menn sögðu, að hann hefði orðið fyrir einhverri ógæfu í ástarmálum og að svikráð og prettir annara hefðu eitrað líf þessa göfuga manns, en enginn vissi, hver þau svikráð hefðu verið.
Það var vandalítið að kynna sér lífsferil Porthos, að undanskildu hinu rétta nafni hans, því að það þekti enginn nema herra de Tréville og ef til vill hinir tveir vinir hans. Hann var svo hégómlegur og málugur, að alt hans líf blasti við öðrum eins og lesið væri á bók, en þó gat það verið varasamt að leggja trúnað á allar hans frægðarsögur um sjálfan sig.
Aramis gaf það hins vegar í skyn, að ekkert væri heimullegt í fari sínu, en í rauninni var alt hans líf ein ráðgáta. Hann svaraði fáu spurningum þeim, sem lagðar voru fyrir hann um aðra og kom sér hjá að segja nokkuð um sjálfan sig. Einhverju sinni hafði d'Artagnan spurt hann allítarlega um það hvort nokkur hæfa væri fyrir því, að Porthos væri í þingum við prinsessu eina og datt þá hug að grenslast eftir því um leið, hvernig ástatt væri um ástamál Aramis sjálfs.
»En hvað er af yður sjálfum að segja?« spurði hann alt í einu. »Þér minnist að eins á barónsfrúr, greifafrúr og prinsessur þær, sem aðrir eiga mök við.«
»ég bið yður að hafa mig afsakaðan,« sagði Aramis. »ég minnist á þetta vegna þess, að Porthos hefir haft orð á því sjálfur og verið að segja mér allra handa tröllasögur af sjálfum sér. En þér megið reiða yður á það, kæri d'Artagnan, að ég hefi þessar sögur frá öðrum, eða ef einhver hefði beðið mig fyrir þær, þá væru þær ekki betur geymdar hjá neinum en mér.«
»Það efast ég ekki um,« svaraði d'Artagnan. En það lítur þó út fyrir, að þér hafið sjálfur talsvert náin kynni af einhverjum aðalsættum, eftir vasaklútnum að dæma, sem kunningsskapur okkar byrjaði með.«
Í þetta skifti reiddist Aramis ekki, en setti upp ógnarlegan sakleysissvip og sagði einkar vingjarnlega:
»Kæri vin, gleymið því ekki, að ég ætla mér að verða kirkjunnar þjónn og forðast því freistingar þessa heims. Það lánaði mér enginn vasaklútinn, sem þér sáuð, heldur gleymdi einn vinur minn honum heima hjá mér, en ég varð að geyma hann til þess að hætta ekki mannorði hans og konu þeirrar, sem hann elskar. Hvað sjálfan mig snertir, þá hefi ég aldrei átt og mun aldrei eignast neina lagskonu og feta þar í fótspor Athos. Hann á enga heldur.«
»Jú, en þér eruð þó skyttuliði enn, samt sem áður — en enginn prestur.«
»ég er skyttuliði »ad interim« (Til bráðabirgða) eins og kardínálinn segir — skyttuliði þvert á móti vilja mínum en kirkjunnar þjónn í hug og hjarta — því megið þér trúa, kæri vin. Athos og Porthos hafa neytt mig út á þessa braut til þess að hafa eitthvað fyrir stafni. ég lenti í ónota klípu um það leyti sem ég átti að vígjast, en við skulum ekki tala meira um það. Annars er ég víst að tefja tímann fyrir yður — þér hafið víst nóg annað að hugsa.«
»Því fer fjarri,« sagði d'Artagnan. »Mér er þetta mjög hugleikið og hefi ekkert að gera, sem stendur.«
»Já, en ég þarf að líta í bænakverið mitt,« sagði Aramis. »Svo þarf ég að gera fáein vers, sem frú d'Aiguillon hefir beðið mig um og að því búnu þarf ég að fara út og kaupa litsmyrsli handa frú Chevreuse. Þér sjáið því, kæri vin, að ég á annríkt þó að þér eigið það ekki.«
Að svo mæltu rétti Aramis d'Artagnan höndina og kvaddi hann.
D'Artagnan varð einskis vísari um fortíð þessara nýju vina sinna, hvernig sem hann reyndi til þess. Hann tók því það ráð að trúa öllu sem menn sögðu um fyrri æfi þeirra og gerði sér von um að fá betri vitneskju þegar stundir liðu fram. En fyrst um sinn líkti hann Athos við Akkilles, Porthos við Ajax og Aramis við Jósef.
Annars lifðu þessir ungu fjórmenningar í glaðværð og glaumi. Athos var spilamaður, en mjög svo óheppinn í spilum. Samt lánaði hann aldrei peninga hjá vinum sínum, enda þótt pyngja hans stæði þeim ávalt opin. Og þegar hann tapaði og lagði við drengskap sinn, þá kom hann ávalt klukkan sex morguninn eftir til lánardrottins síns og borgaði honum.
Porthos var ekki eins jafngeðja. Þegar hann vann, var hann drembilátur mjög og jós út fé á báðar hendur, en ef hann tapaði, var hann æði skapstyggur nokkuð lengi á eftir. Þegar hann kom svo í sollinn aftur, var hann fölur í andliti og kinnfiskasoginn, en var þá ekki fjár vant.
Aramis snerti aldrei á spilum. Hann þótti lakur skyttuliði og enn lakari félagsbróðir og átti jafnan annríkt, að hann sagði. Stundum kom það fyrir þegar þeir sátu að sumbli og menn voru orðnir hreyfir af víni og göspruðu um alt og alla, að hann leit á úrið sitt, stóð brosandi upp frá borðum og kvaddi samsætið af því að hann þyrfti nauðsynlega að ráðfæra sig við einhvern sprenglærðan guðfræðing. Stundum þurfti hann endilega að fara heim til sín og setjast þar við ritstörf og bað þá vini sína að gera sér ekki ónæði.
Við þau tækifæri brosti Athos raunalega, en Porthos þreytti drykkjuna og bölvaði sér upp á, að Aramis kæmist aldrei hærra en að verða pokaprestur einhverstaðar upp í sveit.
Planchet, þjónn d'Artagnans, tók meðlætinu með hógværð og stillíngu. Launin voru 30 sous (Sú = fáeinir aurar,) á dag og allan fyrsta mánuðinn kom hann stundvíslega til allra verka, glaður og kátur og vildi alt fyrir húsbónda sinn gera. En þegar móti tók að blása og þrengjast fór í búi, með öðrum orðum, þegar gullpeningar Lúðvíks þrettánda voru gengnir til þurðar, þá fór Planchet að barma sér og þótti Athos það andstyggilegt, Porthos ósvífið, en Aramis sagði, að ekkert mark væri á því takandi.
»Já, það er nú hægt fyrir ykkur að segja það,« sagði d'Artagnan. »Þér Athos látist ekki heyra, þó að Grimund sé að nöldra eitthvað og á þann hátt er afarauðvelt að komast hjá ónotum. Þér Porthos lifið því lífi, að Mousqueton þjónn yðar tignar yður eins og eitthvert goð á stalli og þér Aramis eruð svo niðursokkinn í andleg fræði, að Bazin þjónn yðar ber dýpstu lotningu fyrir yður af þeim ástæðum. En ég er ekki í neinni stöðu og hefi engar tekjur, er ekki í skyttuliðinu og ekki einu sinni lífvarðarliði. Hvað á ég til bragðs að taka til þess að inræta Planchet auðsveipni, ótta eða virðingu?«
»Já, þetta er annars alvarlegt mál,« sögðu skyttuliðarnir — »eins konar einka mál og heimilisarmæða. Annars er hyggilegast að beita sömu aðferðinni við þjóna og kvennfólk. Það verður undir eins að sýna þeim í tvo heimana ef maður ætlast til að þeir séu sér hollir. Íhugið það vel.«
D'Artagnan íhugaði þetta vel og ásetti sér að lumbra duglega á þjóni sínum og það gerði hann líka með þeirri atorku sem hann sýndi við alt, sem hann lagði hönd á. Þegar hann var búinn að lúskra á Planchet eins og hann lysti, fyrirbauð hann honum að stökkva úr vistinni að sér fornspurðum, »því að framtíðin mun ekki bregðast mér,« sagði hann, »og það eru betri tímar í vændum. Hag þínum er vel borgið ef jú verður kyr hjá mér og ég er altof umhyggjusamur húsbóndi til þess að ég láti þig rata í ógæfu með því að segja þér upp vistinni, eins og þú nú ert að fara fram á.«
Þessi aðferð varð til þess, að skyttuliðarnir fengu sérlega mikið álit á d'Artagnan og hyggindum hans. Planchet fékk líka enn meiri virðingu fyrir húsbónda sínum og mintist aldrei framar á að ganga burt.
Lífernishættir þessara ungu fjórmenninga urðu brátt keimlíkir. D'Artagnan kom ofan úr sveit og hafði enga sérstaka lífsstefnu tekið sér. Honum voru það alt nýjungar, sem hér bar fyrir augu og eyru og samdi hann sig því bráðlega að siðum félaga sinna.
Þeir risu úr rekkju klukkan átta að vetrarlagi og klukkan sex á sumrin og gengu svo til de Tréville til þess að taka við fyrirskipunum til dagsins. Þó að d'Artagnan væri ekki enn genginn í skyttuliðið, hafði hann þó sömu störf á hendi og var skyldurækinn mjög. Hann var sífelt á verði, því að hann var jafnan með þeim félaga sínum, sem stóð á verði í það og það skiftið. Hann var farinn að kynnast mönnum í hermannaskálanum og töldu hann allir góðan félaga. Herra de Tréville hafði veitt honum athygli frá byrjun. Hann var honum einstaklega velviljaður og sparaði ekki að mæla hið besta fram með honum við konung.
Skyttuliðunum þremur féll mjög vel við þennan unga félaga þeirra. Tókst með þeim góð vinátta, svo að þeir voru saman öllum stundum og létu eitt yfir alla ganga, hvað sem fyrir kom, hvort heldur voru vopnaskifti eða annað. Var naumast hægt að hitta einn þeirra svo, að ekki væru hinir þar einhverstaðar í nánd.
Loforð de Trévilles og meðmæli fóru nú að sýna ávöxt sinn í verkinu. Einn góðan veðurdag skipaði konungur herra des Essarts að taka d'Artagnan sem námssvein í lifvarðarlið sitt. D'Artagnan klæddi sig hálfstúrinn í hinn nýja einkennisbúning og hefði viljað gefa tíu ár af lífi sínu til þess að mega fara í skyttuliðakuflinn. En höfuðsmaðurinn lofaði honum, að honum skyldi hlotnast það happ eftir tveggja ára námstíma, eða jafnvel skemri tíma ef hann sæi sér færi á að vinna konungi eitthvert hagsmunaverk eða sjáfum sér eitthvað til verulegrar frægðar.
Nú kom til þeirra kasta Athos, Porthos og Aramis að vera með d'Artagnan þegar hann stóð á verði. Daginn sem d'Artagnan var tekinn í flokk des Essarts, bættust honum því í raun réttri fjórir liðsmenn.
Gullpeningar Lúðvíks þrettánda gengu til þurðar, eins og flest annað í þessari veröld og upp frá því höfðu fjórmenningarnir næsta lítið fyrir sig að leggja. Í fyrstunni hélt Athos þeim uppi með einhverjum peningaleyfum, sem hann átti. Svo varð Porthos að taka við og gat hann séð fyrir þörfum þeirra allra í hálfan mánuð. Loks kom röðin að Aramis og var hann strax fús á að leggja sitt af mörkum til sameiginlegra þarfa. Hann kvaðst vera nýlega búinn að selja ýms guðfræðirit og eiga því nokkra gullpeninga í fórum sínum.
Loksins urðu þeir þó að leita á náðir herra de Trévilles eins og vant var og greiddi hann þeim fyrirfram lítið eitt af launum þeirra. En sú fyrirframgreiðsla hrökk næsta skamt, því að þeir voru þegar búnir að taka út á launin áður og auk þess urðu þeir að sjá lífvarðarliðanum farborða, því að hann fékk engin laun enn sem komið var.
Þar rak að, að þeir stóðu uppi allslausir og févana, en með mestu herkjum gátu þeir þó einhvernveginn nælt sér tíu gullpeninga, sem Porthos fékk í hendur til að leggja þá í spil og vinna á þeim. En til allrar ógæfu brosti hamingjan ekki við honum það skiftið. Hann tapaði öllum gullpeningunum og 250 frönkum að auki að viðlögðu drengskaparorði.
Nú voru þeim öll sund lokuð, Mátti sjá þessa hungruðu vesalinga með þjóna sína á hælum sér vera að flækjast á hafnarbökkunum og í varðstofunum í þeirri von, að hitta þar fyrir vini og kunningja, sem svo væri ástatt fyrir, að þeir gætu gefið þeim málsverð.
Athos hepnaðist þetta fjórum sinnum og lét í öll skiftin félaga sína og þjóna þeirra njóta góðs af. Porthos hepnaðist það sex sinnum og tók sömuleiðis félaga sína með sér. Og Aramis gat það átta sinnum. Hann var maður yfirlætislaus, eins og lesarinn hefir sjálfsagt tekið eftir, en þess meiri afkastamaður í kyrþey.
En d'Artagnan var öllum ókunnugur í höfuðstaðnum og áskotnaðist því ekki annað en súkkulaðiveisla hjá presti nokkrum úr átthögum hans og einn miðdagsverður hjá hornþeytara í lífverðinum. Hann fór með allan hópinn til prestsins og átu þeir upp alt, sem prestur hafði sér til lífsbjargar í tvo næstu mánuðina. Sama var að segja um miðdagsverðinn hjá hornþeytaranum. Hann mátti hafa sig allan við að sefa hungur allra þessara banhungruðu hermanna, en það var eins og Planchet komst að orði: það étur enginn nema einu sinni í einu, þó að hann éti mikið.
D'Artagnan fyrirvarð sig að geta ekki herjað út meira en hálfa aðra máltíð — súkkulaðið prestsins varð ekki talið nema hálf máltíð — til endurgjalds fyrir þær stórveislur, sem Athos, Porthos og Aramis höfðu útvegað þeim. Honum fanst hann vera ómagi á félögum sínum og gleymdi því í ungæði sínu, að hann hafði séð þeim öllum farborða í heilan mánuð og nú fór hann í öngum sinum að reyna að hugsa upp einhver úrræði. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að slíkur félagsskapur hraustra, einbeittra og ötulla ungmenna gæti gert eitthvað þarfara en að flækjast þetta fram og aftur, æfa sig í vopnaburði og aðhafast alskonar strákapör.
Fjórir slíkir trygðavinir, reiðubúnir að leggja alt, jafnvel líf og fjármuni, í sölurnar hver fyrir annan — fjórir menn, sem ávalt studdu hver annan, sem aldrei viku fyrir neinum eða neinu, sem framkvæmdu hver fyrir sig eða allir saman, alt það sem þeir höfðu afráðið í sameiningu — átta handleggir, sem útréttir voru í allar heimsins áttir, hlutu áreiðanlega að geta rutt sér braut leynt eða ljóst, og náð því marki, sem þeir keptu að, hversu margar hindranir, sem yrðu á vegi þeirra. Það var að eins eitt, sem d'Artagnan furðaði, og það var, að engum félaga hans skyldi hafa dottið þetta í hug.
Meðan d'Artagnan var að brjóta heilann um þetta og velta því fyrir sér á ýmsa vegu var barið á dyr, ógnarlega hægt og gætilega. D'Artagnan ýtti við Planchet og skipaði honum að opna dyrnar.
Þó vér tökum svo til orða, að Artagnan ýtti við Planchet, má lesarinn ekki halda, að þetta hafi verið að næturlagi. Janeinei! Klukkan var nýbúin að slá fjögur og það voru tveir tímar síðan, að Planchet hafði verið að biðja húsbónda sinn um eitthvað matar kyns. D'Artagnan svaraði því ekki öðru, en að hann skyldi fara að sofa og gleyma þannig sultinum og það lét Planchet sér að kenningu verða.
Sá, sem inn kom, var maður fremur einfeldningslegur á svip. Hann leit út eins og borgarar gerast flestir. Planchet virtist hafa löngun til að gæða sér á samtali þeirra eftir svefninn, en maðurinn skaut því að d'Artagnan, að það sem hann hefði að segja honum væri afaráríðandi trúnaðarmál, sem þeir yrðu að ræða í einrúmi.
D'Artagnan lét Planchet fara út og bauð komumanni sæti.
Þeir sátu þegjandi stundarkorn og störðu hvor á annan, en síðan hneigði d'Artagnan sig til merkis um, að hinn gæti nú farið að segja það, sem honum bjó í brjósti.
»ég hefi heyrt talað um herra d'Artagnan sem frækið ungmenni,« sagði borgarinn, »og þessi orðrómur hefur komið mér til að trúa yður fyrir leyndarmáli nokkru.«
»Haldið þér áfram, herra — haldið þér bara áfram,« sagði d'Artagnan og fanst einhvern veginn, að hér mundi vera til einhvers að vinna.
Maðurinn þagði stundarkorn og hélt síðan áfram.
»Kona mín hefur umsjón með líni drotningar og það er bæði hyggin og lagleg kona, skal ég segja yður. ég giftist henni fyrir tæpum þremur árum, þó að hún væri eignalaus að heita mátti, en hún er náskyld herra de la Porte, klæðaverði drotningar, og hann er hollvinur hennar og vill henni vel — —«
»Nú-já, og hvað svo meira?« spurði d'Artagnan.
»Hvað svo meira!« át maðurinn eftir. »Jú, sjáið þér til, herra d'Artagnan, konunni minni var rænt í gærmorgun, rétt í því hún gekk út úr vinnustofu sinni.«
»Og hver rændi konunni yðar?«
»ég get ekki sagt það með vissu, en ég hefi einn mann grunaðan.«
»Og hver er hann?«
»Það er maður, sem lengi hefir elt hana á röndum.«
»Ja, hver fjárinn!«
»En það sem ég vildi sagt hafa,« hélt maðurinn áfram, »er það, að ég held, að hér sé fremur pólitík en ástafar á bak við.«
»Fremur pólitík en ástafar á bak við!« tók d'Artagnan upp aftur og tók á sig spekingssvip. »Hvern hafið þér þá grunaðan?«
»ég veit ekki, hvort ég á að þora að segja það.«
»Heyrið þér nú, góði maður! ég skal benda yður á, að ég er ekki að heimta neinar upplýsingar af yður. Það eruð þér, sem komið hingað að fyrra bragði og segist ætla að trúa mér fyrir leyndarmáli. Gerið nú sem yður sýnist — enn er tími til að hætta við alt saman,«
»Nei, herra d'Artagnan. Mér líst svo á yður, að þér séuð sómamaður og ég treysti yður fyllilega. ég held þá, að það séu engin ástamál, sem valda því, að kona mín hefur verið numin burt, en að hér sé um aðra konu að ræða, sem er henni miklu tignari.«
»Nú — kann ske það sé eitthvað viðvíkjandi ástamálum frú Bois-Tracy?« sagði d'Artagnan, sem gjarnan vildi láta líta svo út, sem honum væri vel kunnugt um ástabrall hirðarinnar.
»Hærra, herra d'Artagnan — miklu hærra!«
»Frú d'Aiguillon?«
»Enn hærra.«
»Frú Chevreuse?«
»Enn hærra — miklu hærra!«
»Drotn — —« d'Artagnan hikaði.
»Já herra,« svaraði borgarinn skelkaður mjög.
»Og við hvern?«
»Við hvern annan en hertogan af — —«
»Hertogan af — —?«
»Já herra,« svaraði maðurinn mæðulega.
»En hvaðan hafið þér þetta altsaman?«
»Hvaðan ég hefi það?«
»Já, hvaðan hafið þér það? Engin hálfyrði, eða — — þér skiljið.«
»ég hefi það frá konu minni, herra — það eru hennar eigin orð.«
»Og hvaðan hefir hún það?«
»Frá herra de la Porte. Var ég ekki að segja yður, að hún væri nákomin honum og hann er vildarmaður drotningarinnar? Herra de la Porte hefir komið konunni minni fyrir hjá drotningunni, til þess að hún ætti einhvern að, sem hún getur trúað og treyst, þar sem hún er yfirgefin af konunginum, ofsótt af kardínálanum og prettuð af öllum.«
»Jájá — nú fer ég að skilja,« sagði d'Artagnan.
»Núnú! Fyrir fjórum dögum kom konan mín til mín — við höfum sem sé komið okkur saman um, að hún komi til mín tvisvar í viku, því að hún er mjög ástfangin í mér, eins og ég hefi drepið á. Jæja, hún kom og sagði mér í trúnaði, að drotningin væri mjög angistarfull.«
»Ætli það sé satt?«
»Já það lítur út fyrir, að kardínálinn ofsæki hana ver en nokkru sinni áður. Hann getur ekki gleymt spánska dansinum. Já, þér þekkið víst söguna um spánska þjóðdansinn?«
»Auðvitað kannast ég við hann,« svaraði d'Artagnan. Hann hafði raunar enga hugmynd um hana en lét sem hann þekti allar þessar sögur út í hörgul.
»Það er ekki eingöngu hatrið, sem nú ýtir undir hann, heldur hefndargirni.«
»Það er rétt.«
»Og drotningin heldur — —«
»Hvað heldur hún?«
»Hún heldur, að hertoganum af Buckingham hafi verið skrifað undir sínu nafni.«
»Undir nafni drotningarinnar?«
»Já, til þess að fá hann til Parísar — og þegar hann er kominn hingað á annað borð, þá á að lokka hann í einhverja gildruna.«
»Ja, hvert í logandi! En hvað kemur þetta alt saman konunni yðar við, maður góður?
»Það vita allir, hvað ant hún lætur sér um drotninguna og þess vegna hefur þótt ráðlegast að fjarlægja hana eða hræða hana til þess að koma upp leyndarmálum Hennar Hátignar eða kann ske að múta henni til þess að njósna um drotninguna.«
»Það er mjög svo trúlegt,« sagði d'Artagnan. »En þekkið þér þá manninn, sem nam hana burt.«
»ég er búinn að segja yður, að ég held að ég þekki hann.«
»Hvað heitir hann?«
»Það veit ég ekki. ég veit bara, að hann er einn af þýjum kardínálans, hans vondi andi.«
»Hafið þér séð hann?«
»Já, konan mín sýndi mér hann á dögunum.«
»Getið þér lýst honum fyrir mér?«
»Já, það get ég. Hann er drýldinn á svip, dökkhærður og dimmur á hörund, hvasseygður með hvítar tennur og ör á öðru gagnauganu.«
»Ör á öðru gagnauganu!« hrópaði d'Artagnan, »og hvítar tennur, hvasseygður, dimmleitur, dökkhærður og drembilegur — jú, það er maðurinn frá Meung!«
»Maðurinn frá Meung, segið þér!«
»Jajæja — en það kemur ekki þessu máli við. Ójú, víst kemur það því við og gerir það einmitt miklu einfaldara. Ef það er sami maðurinn, sem við eigum báðir við, þá vinn ég tvent í einu — það er alt og sumt. En hvar get ég hitt þennan mann?«
»Það veit ég ekki.«
»Vitið þér ekki, hvar hann á heima?
»Nei — einu sinni þegar ég fylgdi konunni minni til Louvre, kom hann út þaðan um leið og hún ætlaði inn í höllina.«
»Hver fjandinn!« tautaði d'Artagnan. »En þetta er alt saman svo óákveðið. Hver hefur sagt yður, að konunni yðar hafi verið rænt?«
»Herra de la Porte.«
»Sagði hann yður nánari atvik að því?«
»Nei, hann vissi ekkert um það.«
»Og þér hafið heldur ekki heyrt neitt úr annari átt?«
»Jú — ég hefi raunar fengið — —«
»Fengið hvað?«
»Ja, það er kann ske óvarlegt af mér að segja það.«
»Komið þér enn! ég skal þá benda yður á, að það er nú um seinan að hörfa undan.«
»ég ætla heldur ekki að hörfa undan – sem ég er lifandi maður og sem ég heiti Bonacieux (Bónasjö).« »Heitið þér Bonacieux?« spurði d'Artagnan.
»Jú, nafn mitt er það.«
»Sem þér heitið Bonacieux — ja, fyrirgefið þér, að ég tók fram í fyrir yður, en mér finst, að ég hafi heyrt það nafn áður.«
»Það er vel til herra minn. ég leigi yður nefnilega þessa íbúð.«
»Það er svo!« sagði d'Artagnan, stóð upp og hneigði sig. »Þér eruð þá húsbóndi minn.«
»Jú, svo á það að heita. Og þér hafið víst átt svo annríkt þessa þrjá mánuði, sem þér hafið verið hér í mínum húsum, að þér hafið alveg gleymt húsaleigunni. ég hefi nú heldur ekki verið að nauða neitt á yður með hana og hélt, að yður mundi ekki þykja það neitt lakara.«
»Auðvitað ekki, kæri Bonacieux,« sagði d'Artagnan. »Þér megið reiða yður á, að ég er yður mjög þakklátur fyrir þá nærgætni og er reiðubúinn að gera yður eitthvað til þægðar, eins og ég þegar hefi látið í ljós.«
»ég trúi yður – ég trúi yður mæta vel, en eins og ég ætlaði að segja — ég ber fult traust til yðar, sem ég heiti Bonacieux.«
»Segið mér þá alt sem yður býr í brjósti.«
Borgarinn dró bréf upp úr vasa sínum og rétti d'Artagnan það.
»Bréf!« sagði hinn ungi maður.
»ég fékk það í morgun.«
D'Artagnan opnaði bréfið og gekk út að glugganum, því farið var að skyggja. Borgarinn elti hann.
»Leitið þér ekki að konunni yðar,« stóð í bréfinu. »Hún kemur aftur þegar ekki er lengur þörf fyrir hana, en þér eruð glataður maður, ef þér gerið nokkra tilraun til að finna hana.«
»Það er mjög svo ótvírætt,« sagði d'Artagnan, »en í sjálfu sér er það þó ekki annað en hótun.«
»Jú, en það er hræðileg hótun, herra minn. ég er engin stríðshetja og er dauðhræddur við Bastilluna. (Fangelsi í París, alræmt á þeim dögum.)
»Nú-já,« sagði d'Artagnan. »ég er nú heldur ekkert hrifinn af Bastillunni. Ef ekki væri um annað en sverðshögg að ræða, þá væri þetta ekkert vandaverk.«
»En ég hefi gert mér vissa von um aðstoð yðar í þessu máli, herra minn.«
»Við hvað eigið þér?«
»ég sé yður altaf í sveit með nokkrum skyttuliðum, sem eru mjög hermannlegir útlits og ég veit, að þeir tilheyra herflokki de Tréville og eru þar af leiðandi fjandmenn kardínálans. Mér hefur nú komið til hugar, að þér og vinir yðar munduð með ánægju vilja gera vesalings drotningunni greiða og um leið fá tækifæri til að leika á kardínálann.«
»Já, það megið þið reiða yður á.«
»Og svo hélt ég, að fyrst að þér skuldið mér húsaleigu fyrir þrjá mánuði, og ég hefi aldrei gengið eftir henni –«
»Þá ástæðu eruð þér búinn að nefna einu sinni og tel ég hana ágæta.«
»Annars hafði ég hugsað mér að minnast aldrei framar á neina húsaleigu, ef þér viljið sýna mér þann sóma að eiga hér heima.«
»Ágætt – ágætt!«
»Og auk þess ætlaði ég mér, ef til kæmi, að bjóða yður fimtíu gullpeninga, ef svo ólíklega kynni til að vilja, að þér væruð í peningaþröng eins og stendur.«
»Það er stórágætt. Þér eruð þá auðugur maður, kæri Bonacieux?«
»Vegnar vel, herra — vegnar heldur vel. ég hefi lagt þá peninga fyrir, að ég hefi um 200 til 300 dali í rentur á ári og svo hefi ég verið svo heppinn að geta lagt nokkurt fé í seinustu kaupferð hins nafntogaða skipherra Jan Maquet, svo að – — Nei, en hvað er að tarna!« hrópaði borgarinn skyndilega.
»Hvað þá?« spurði d'Artagnan.
»Lítið þér á!«
»Hvar?«
»Þarna niðri á götunni, rétt á móti gluggunum yðar, inni í portinu — maðurinn í stóru kápunni!«
»Já, það er hann!« hrópuðu þeir báðir í einu.
Þeir höfðu báðir kannast við manninn.
»Jæja — í þetta skifti skal hann ekki sleppa!« hrópaði d'Artagnan.
Hann dró sverðið úr slíðrum og stökk út úr herberginu.
Í stiganum mætti hann Athos og Porthos, sem voru komnir til að heimsækja hann. Þeir viku sér til hliðar og d'Artagnan skaust út á milli þeirra eins og örskot.
»Heyrðu – hvert ætlarðu að stökkva?« kölluðu skyttuliðarnir.
»Maðurinn frá Meung!« svaraði d'Artagnan og var horfinn í sama vetfangi.
Hann hafði oftar en einu sinni sagt vinum sínum frá hinum undarlegu samfundum sín og þessa manns og hinni fögru konu, sem maðurinn fal áríðandi erindi.
Athos var á þeirri skoðun, að d'Artagnan hefði mist bréfið í sviftingunum. Það var óhugsandi að aðalsmaður — en það hlaut hann að vera eftir lýsingu d'Artagnans — hefði getað gert svo lítið úr sér að fara að stela bréfi.
Porthos hafði ekki gert annað úr þessu en stefnu mót með kvenmanni og elskhuga hennar. Hefði alt uppþotið stafað af því, að d'Artagnan hefði ásamt bleika hestinum hindrað fund þeirra.
Aramis sagði ekki annað, en að best væri að skifta sér ekkert af þess háttar leynifundum.
Af svari d'Artagnans réðu skyttuliðarnir, hvað hann hefði ætlað fyrir sér og héldu áfram upp stigann, með því að þeir þóttust eiga víst, að hann mundi snúa heim aftur þegar hann væri búinn að fást við manninn eða hefði mist sjónar á honum.
Þegar þeir komu inn í herbergi d'Artagnans, var enginn þar fyrir. Húseigandinn hafði álitið það heppilegast að hypja sig á burt með því að hann óttaðist þær afleiðingar, sem kynnu að verða af samfundum hins uppstökka unga manns og ókunnuga mannsins dularfulla.
1 Mylady = frú mín.
2 Franska orðið balle þýðir bæði knöttur og byssukúla.