SÖGUR HERLÆKNISINS ZACHARIAS TOPELIUS SÖGUR HERLÆKNISINS I GÚSTAF ADÓLF OG ÞRJÁTÍUÁRA-STRÍÐIÐ FRÁ DÖGUM ÞEIRRA KARLS X. GÚSTAFS OG KARLS XI. MATTHÍAS JOCHUMSSON ÞÝDDI ÚTGEFANDI: ÍSAFOLDARPRENTSMIÐJA H.F. REYKJAVÍK 1955 ÖNNUR ÚTGÁFA MEÐ MYNDUM SNORRI HJARTARSON BJÓ TIL PRENTUNAR EFNISYFIRLIT FORMÁLI ÞÝÐARANS 7 FORMÁLI EÐA ÆVIÁGRIP HERLÆKNISINS 11 Fyrsta saga herlæknisins HRINGURINN KONUNGSNAUTUR 23 Bardagi við Breitenfeld 24 — Nafnlaus öðlingur 34 — Jungfrú Regína 38 — Jungfrú Regína vinnur eiðinn 50 — Júdít og Hólófernis 57 — Finnar við Lech 75 — Nýtt ævintýri 80 Nürnberg og Lützen 88 Önnur saga herlæknisins SVERÐIÐ OG PLÓGURINN 98 Maður frá tímum kylfustríðsins 103 — Hann skammast sín fyrir bóndanafnið 113 — Suðurlandastúlka á Norðurlöndum 122 — Bóndinn, borgarinn og dátinn 128 — Jungfrú Regína kemur til Krosshólms 133 — Suðræn og norræn ást 140 — Umsátin við Krosshólm 145 Þriðja saga herlæknisins ELDUR OG VATN 155 Fundur á vígvellinum 161 — Tveir gamlir kunningjar 168 — Fjárhirzlu-hvelfingin 173 — Bernharð hertogi og Bertel 182 — Ást og hatur sættast heilum sáttum 186 — Orustan við Nörðlingen 194 — Hinn týndi sonur 199 — Flóttakonan 204 — Don Quixote af Mancha 211 — Kajanuborg 218 — Ríkisfanginn 222 — Freistarinn 230 — Abi, male spiritus 235 — Dómur dýrlinganna 240 — Bertel og Regína 243 — Hringurinn. Sverðið og plógurinn. Eldur og vatn 247 Fjórða saga herlæknisins MAÐUR HAFNAR HAMINGJU SINNI ... 258 Fyrsta unnustan 263 — Svarta Hanna í kofanum 268 — Mæníemí höllin 274 — Meistari Adam 281 — Nætur-ókyrrð 289 — Orustan við Varsjávu (Warschau) 301 — Greifinn Gústaf Bertelskjöld 310 — Meinsæri veldur hamingjubrigðum 317 — Önnur ástin 327 — Litla belti 334 Fimmta saga herlæknisins GALDRAKONAN ... 349 Veiðiför Karls konungs 353 — Prinsessan og prestskonan 363 — Tveir fornkunningjar 374 — Endalok veiðiskapar Karls konungs 379 — Börnin á Blokksbjargi 387 — Vatnsdómurinn 395 — Sakarreksturinn 405 — Erstans öldur 414 Sjötta saga herlæknisins MÆNÍEMÍ HÖLLIN ... 421 Ármaðurinn 428 — Hofmeistarinn 437 — Frúin Bertelskjöld 445 — Veizluhöld og hættuspil 456 — Haustgildið 463 — Óboðinn gestur 475 — Reduktionin 486 — Hinn ótrúi þjónn 494 — Bjarndýraveiðin 505 — Krónufógetinn 516 — Hin mikla hungursneyð 531 — Ættin Larson 539 — Gamli hermaðurinn frá Breitenfeld 548 — Höllin Mæníemí 556 — Hringurinn konungsnautur 566 Formáli þýðarans Þeir, sem ráðizt hafa í hið kostnaðarsama fyrirtæki að koma þessum frægu sögum á prent, hafa beðið þýðarann að fylgja úr garði I. bindi þeirra með dálitlum formála. Skal þess þá fyrst getið, að frá því ég (þýðarinn) fyrst las sögurnar fyrir 20 árum síðan, bjó mér sú löngun í brjósti að þýða þær á íslenzku, ef ske kynni, að einhver fengizt til að kosta útgáfu þeirra. Ég þýddi svo I. bindið, en allt um það fann ég engan, sem treysti sér til að ráðast í að prenta það – fyrr en ég fór til Chicagó sumarið 1893 og hitti Jón skáld og ritstjóra Ólafsson í Winnipeg. Hann, eða ritstjórn blaðs hans Heimskringlu, keypti handrit mitt, og sama ár kom bindið út í tímaritinu Öldin undir ritstjórn Eggerts Jóhannssonar. Sögunum var ágætlega tekið, og er því tímaritið nú nálega ófáanlegt hér á landi, þegar spurt er eftir sögunum. Þetta hefir loks vakið nokkra menntavini í Reykjavík og á Ísafirði til að semja við mig um þýðing ritverksins alls og síðan að byrja á prentun þess unz öll 5 bindin yrði búin. Er áform þeirra að flýta verki þessu eins og unnt er og selja síðan með sem vægustum kjörum. Þetta (I.) bindi af sögunum er endurprentun eftir þýðingunni í Öldinni, – en þýðingu annars bindis er lokið og þriðjungs þriðja bindis; en ærið fé og tíma þarf til að gefa út allt ritið. Hvað þýðinguna og íslenzkuna snertir er annarra um að dæma, en, tveimur reglum hefi ég fylgt, 1. að varðveita sem bezt frumleik, eða blæ og anda höfundarins – fremur en að elta hvert orð eða bókstaf, og 2. að rita liðugt og lifandi sögumál við alþýðu hæfi, en forðast öfgar í forna átt sem nýja, svo og ný heiti eða huggripsorð, sem alþýða má misskilja. Ég nota alkunn útlend heiti nálega ávallt heldur en nýgjörvinga, kalla apothek apótek, prins prins, general general og kaptein kaptein[* Að kalla kaptein (Ɔ: fyrirliða vissrar liðssveltar) „hersi“ eða „höfuðsmann“ veldur misskilningi á réttu heiti eða huggripi.]. Sömuleiðis verður þýðarinn að neyta sama réttar og kunna sömu list sem höfundurinn, að láta hverja dramatis persónu nota eigið málfæri og allt eins aldarblæ málsins þar sem þess þarf við. Annað mál er, þar sem höfundurinn ritar í eigin nafni og óháður tíma og persónum, að þá má mál hans og stíll halda einu og sama lagi. Nú fáein orð um sjálfar sögurnar. Þær eru hvorki meira né minna en tveggja alda saga Svía og Finna, eða landanna frá upphafi Gústafs Adólfs til Gústafs þriðja, framsett í skáldlegri búnings meðferð og með mikilli list og kunnáttu. Þær mynda samanofinn sagnabálk með einni og sömu umgjörð og eins og með einum og sama rauða þræði í miðri uppistöðu vefsins. Umgjörðina myndar hinn hugsaði gamli finnski fræðiþulur, herlæknirinn Bekk. Hann býr eins og húsmaður hjá góðu fólki í Ábæ, og segir því sögur (á finnskan hátt) í ljósaskiptunum, þegar öll veröldin er komin í kyrrð og „amma gamla“ og börnin ásamt fáeinum húsvinum er sezt að uppi á kvistlofti karls. Hverju bindi skiptir skáldið í þrjá höfuðkafla og köflunum í aðra minni. Fyrsta bindið hefir fyrirsögnina: „Gústaf Adólf og þrjátíuára-stríðið“; en 1. kafli þeirrar sögu heitir „Hringurinn konungsnautur“. Þessi hringur er rauði þráðurinn í vefnum. Höfundur hefir þar samanofið með miklu hugviti örlaga- og gjörningatrú Finna við eðlileg rök atburðanna – ofið saman inngrónar hjátrúarhugmyndir þjóðarinnar og tímans, og hina sönnu sögu verulegs lífs, svo að álög og örlagadómar sýnast samanfalla við sjálfræðisrök og réttar tilgerðir, svo varla má í milli sjá, hvað náttúrlegt sé, og hvað töfrum að kenna. En þótt fáfróðum lesanda finnist hringurinn forlagaríkur og æði magnaður, mun honum oftast að lokum skiljast, að það, sem ræður úrslitum og auðnukjörum manna, eru engin galdraöfl utan frá, heldur eðlileg „rás viðburðanna“, orð manna, eðlisfar og athafnir. Topelius var ágætur sögumaður og einn þeirra, sem lagði allan hug á sögunnar þjóðmenningarhlið; fyrir þá skuld eru frásagnir hans svo fróðlegar og skemmtilegar í alþýðlegum skilningi. Þó lýsir hann bardögum, konungum svo og hirð- og höfðingjalífi, jafnítarlega og snilldarvel fyrir það. Topelius var guðrækinn maður og hinn frægasti mannúðar og siðakennari og bera öll kvæði hans og rit beinan og sífelldan vitnisburð um mildar og guðlegar, háar og hreinar lífsskoðanir. Eru sögur hans sannar? Þær eru svo sannar, sem historiskar skáldsögur geta verið, og er óvíst hvort nokkrum öðrum höfundi hefir tekizt jafnvel í þeim skilningi Allt meginefnið er og beinlínis sann-sögulegt, svo og persónur flestar hinar stærri, nöfn þeirra, einkunnir og athafnir. En aftur er öðru máli að gegna um lýsingar skáldsins á alþýðulífinu og þær frásögur, sem sýna eiga kjör og hugsunarhátt almennings í daglegu lífi og viðskiptum. Þar hefir hann margmyndað menn og sögur, sem ekki eru sannsögulegar, en gætu hafa verið það. Skáldsagnahöfundurinn þarf margs með, sem hvergi finnst ritað eða nefnt í sögusögnum, til þess að tímar og menn komi fram með réttum litum og einkennum. Og þótt allar frásögur höfundarins séu ekki jafnskemmtilegar eða áhrifamiklar, hefir heildin fyrir löngu fengið þann dóm, að ritverkið sé með mestu meistaraverkum sinnar tegundar. Í formála þeim, sem ég samdi við Aldar-útgáfu þessa fyrsta bindis, stendur dálítill kafli um Finnland og Finna sér í lagi. En af því menn ógjarnan lesa langorða formála, sleppi ég þeim kafla hér. Er og löndum vorum síðan orðin nokkuð kunnari deili á Finnum, þótt harms og hryggðar kenni flest, sem spurst hefir hin síðustu ár um hag og hlutskipti hinnar margreyndu, ágætu og þrautseigu þjóðar. Mega allir vinir þjóðmærings þess, sem sögurnar samdi, fagna því, að þá var hann „kominn í ljós annað“, er Rússar sviku þjóð hans í tryggðum og tóku aftur frelsi þeirra. Má þó vel vera, að enn sannist, að skömm er óhófs ævi; og sé það sönn trú, sem Topelius bar jafnan í brjósti, sama trúin, sem eitt af fornskáldum vorum fól í þessum bænarorðum: ** „Heiðis haldi hárrar foldar hallar drottinn yfir oss stalli“, ** þá er óhætt að lesa menetekel eða svip æðri handar í hinum, ferlegu óförum, sem Rússar hafa mætt á þessu sumri. Um Finnland og íbúa þess nægir að benda á þetta. Landið er á stærð við Noreg, en nokkuru mannfleira og allþéttbýlt að sunnanverðu. Það liggur að austanverðu við Kyrjálabotn á móti norður-Svíþjóð, og er afar kalt og strjálbyggt, er langt dregur norður; það er kallað þúsundvatnaland; það er allt öldótt og víða skógi vaxið, hið fegursta land að sunnanverðu og þar víða blómlegt og vel yrkt. Akuryrkja, skógarhögg og veiðiskapur, svo og í seinni tíð ýmis konar iðnaður, eru atvinnuvegir þjóðarinnar. Borgir: Helsingfors, Véborg og Ábær. Finnar lutu Svíum frá 13. öld fram á 19. Bókmenntir fornar eiga Finnar ekki, utan sín frægu fornkvæði, og er Kalevala kunnust þeirra. Nú þykja Finnar standa Svíum jafnfætis að þjóðmenningu, enda er tunga þeirra loks orðin öndvegismál landsins. Skáldið Zacharius Topelius[* Árið 1871 sat sá, er þetta ritar, við hlið á manni til borðs í Khöfn í fjölmennu samsæti (á hinum 4. norræna kirkjufundi, er þá daga var haldinn í Khöfn). Við tókum tal saman, og ritaði hann nafn sitt á miða og rétti mér. Þar stóð: Zachris Topelius. Svo reit hann sjálfur nafn sitt. Hann var meðalmaður á vöxt og grannlegur, ekki fríður, en góðmannlegur, með grásprengt snöggt hár og varaskegg. Hann talaði lítið, og miklu færra en sá, er sat mér til vinstri handar. Sá var dr. Karl Rosenberg. Eftir að við stóðum upp, hvarf mér hið finnska skáld og sá ég hann aldrei síðan.] er fæddur 1818. Hann varð ungur háskólakennari í Helsingfors og kenndi þar lengi og vel sögu Finna, Svía og annarra Norðurálfuþjóða. Hann var og alllengi ritstjóri eins helzta menntablaðs í landinu. Hann hóf ungur að yrkja og var lærisveinn og vinur Runebergs; deila þeir nú frægðinni milli sín. Eins og flest önnur þjóðskáld síðari tíma orti Topelius fyrst lýrisk kvæði, en svo sjónarleiki og sögur — þar á meðal Fältskärens Berättelser — og varð snemma ástsæll rithöfundur, jafnt hjá Finnum og Svíum. Ekki minnsta frægð ávann hann sér fyrir Barnasögur sínar, í 6 bindum. Topelius var og ekki einungis mannvinur og barnavinur mikill, heldur dýravinur hinn mesti. Hann var trúmaður háleitur og siðaspekingur, en undir eins maður glaðvær, fyndinn, spaugsamur og skemmtilegur, eins og rit hans sýna. Hann naut góðrar og fagurrar elli á indælum búgarði, þar sem ótal vinir heimsóttu hann og sátu við fætur hins lýðsæla þjóðmærings. Hann andaðist 82 ára gamall árið 1900. Akureyri, 5. ágúst 1904. Matthías Jochumsson. Formáli eða æviágrip herlæknisins [011.png] Hann var borinn og barnfæddur í einum smábænum í Austurbotni 15. ágústmánaðar 1769, sama dag og Napóleon Bonaparte. Mér er líka sá dagur í ljósu minni, því að þann dag hélt hann ævinlega ofurlitla veizlu. Hún var í því fólgin, að hann bauð til sín tveimur eða þremur „systrum“ — svo kallaði hann allar gamlar konur, sem hann hafði bundið vinfengi við, og sem menn eru vanir að kalla frænkur, bæði í Svíþjóð og Finnlandi; og „bróðir sæll“ sagði hann við hvern þann, sem kallaði hann frænda sinn, — bauð, segi ég, tveimur eða þremur „systrum“, sem hann þá átti á lífi, og jafnmörgum „bræðrum`“ upp í dyraloft hjá sér og gaf þeim kaffi og kringlur. Til allrar lukku var loftið allmikið herbergi með tveim gluggum háum (og stóru, dimmu kvistskoti út úr sér), og þurfti líka á því að halda, því að auk bræðranna og systranna voru þar oft og einatt saman komnir heilir hópar af börnum með alls konar gauragangi, piltar og stúlkur, svo allt varð í uppnámi. Herlæknirinn hafði alla sína liðlanga ævi verið ótrúlega barngóður maður og leyfði okkur að hafa svo mikinn ljónagang og ólæti, að ráðið og roskið fólk þóttist alveg missa heyrnina. En ég sný aftur að afmælisdeginum, því sá dagur er þó ávallt sá fyrsti í röðinni, þegar afrek ævinnar skal telja, og afreka-rolla læknisins var lengri en margra annarra. Herlæknirinn átti sama afmælisdag og Napóleon, eins og ég segi, og taldi hann það langmestan frama sinnar ævi, enda lágu þaðan drög til margra þeirra hluta, sem á daga hans höfðu drifið; þótti honum jafnan þar í felast fyrirboði örlaga sinna, og hann æði-mikill og ísjárverður. Þótt hann aldrei yrði afreksmaður, eins og hann í æskunni kann að hafa ímyndað sér, að hann yrði, þá hvatti hann jafnan þessi fyrirboði til að leita frama og farsældar á ótal mörgum og ólíkum ævinnar refilstigum. Metnaður hans og metorðagirnd var mildrar og meinlausrar tegundar, sem brosir í laumi að sjálfri sér og vill ekki gera minnsta maðki mein; leiddi það hann til ýmissa saklausra ímyndana, svo sem að halda sí og æ á lofti ósjálfráðum yfirburðum og dásama þá allar stundir sem væru þeir öllu öðru meiri og dýrmætari, og láta sig aldrei fipa frá þeirri sannfæring, þó að virkileikinn sannaði honum þúsund sinnum, að allt því um líkt væri eintómur draumur. Hver sem þekkir hjörtun og lífið, hefði löngu áður getað sagt honum það fyrir, að með þess konar metnaðarfýsn mundi hann aldrei ná í mikið frægðargengi, þótt hann hefði hundrað sinnum verið fæddur sama dag og Napóleon. Sú metnaðargirnd, sem ryður sér braut til stórfrægðarinnar, stöðvar allt og brýtur alla þvergarða á leið sinni, hún er mjög annars eðlis. Venjulegast er það, að snillinni, áræðinu, ofurkappinu og öðrum stóryfirburðum fylgir kæruleysi í því að vanda og velja verkameðulin; hvenær telur ofureflismaðurinn og sigurvegarinn fórnir þær, sem fallið hafa á vígvellinum sakir frægðar hans, öll þau tár, allar þær öskurústir eyddrar og spilltrar auðnu, sem leið hans lá yfir til þess frægðarinnar vafurloga, sem öld eftir öld leiftrar og lýsir? Hefði herlæknirinn verið í heim þennan borinn sinn nafntogaða fæðingardag af Letizíu Bonaparte í bænum Ajaccíó, þá hefði að vísu getað orðið eitthvað annað úr honum en herlæknir, en trauðlega annað meira. Satt er það, að oft heyrðu menn hinn fræga matgerðameistara Napóleons segja, þegar honum fannst til frægðar sinnar, að „matreiðslumenn gætu menn orðið, en menn fæddust steikarasveinar“. En þó hann snillingur væri, gleymdist honum, að snilldin er fyrirhuguð: sé maður fæddur steikarasveinn, verður sjaldan annað úr manni, þótt maður fái gullbryddan kraga og nafnbótarbréf í vasann. Herlæknirinn var nú ekki fæddur Napóleon; ekki fyrir þá sök, að hann átti hið ótigna nafn Andreas Bekk — hann hafði numið latínu og skrifaði sig Andreas, en aldrei Andrés, — ekki heldur fyrir það, að faðir hans var óbreyttur liðsmaður, með „sérsants“-nafnbót[* Sérsant [sergeant] og korpóral kallast liðsmenn á fyrstu framastigum. – Þýð.], og hafði misst annan handlegginn í pommerska ófriðnum, heldur fyrir þá sök, að maður, sem er gæddur svo miklum yfirburðum af góðmennsku og staðfestuleysi, eins og herlæknirinn var, þótt hann hefði verið meiri gáfumaður en hann, þá hefði hann ef til vill mátt verða djarfur fríliðsmaður, en aldrei mikill hershöfðingi í ófriðarleiðangri þessa lífs. Í æsku sinni var herlæknirinn, að því er hann sjálfur sagði, mesti galgopi, en af því að hann þótti næmur í betra lagi, sendi móðurbróðir hans, sem var vel efnaður verzlunarmaður, hann á skólann í Vasa. Þegar hann var 18 ára, var hann kominn það áleiðis, að hann lagði af stað til Ábæjar með fulla smjörkirnu í kerrunni og 17 ríkisdali í vasanum, og ætlaði að afljúka þar stúdentsprófinu. Það tókst honum líka slysalaust, og skyldi nú hinn splunkurnýi stúdent uppfylla óskir frænda síns og fóstra og hætta ekki fyrr en hempan væri fengin. Hann settist því við hebresku biblíuna, en dæsti þó um leið í laumi; hugurinn þaut um víða veröld og augun eirðu illa við orðin helgu: „Bereschit bara elohim“[** Fyrstu orð biblíunnar. – Þýð.], og hvörfluðu út á torgið til hermannasveitanna, sem verið var að raða og reyna áður en þær færu út í ófriðinn. Gott á sá, hugsaði prestsefnið, sem fær að vera dáti, standa staurréttur í fylkingu, búinn til að berjast fyrir konung sinn og fósturjörð, eins og faðir minn sæll. En þar kom þröskuldur í götu; móðir hans hafði ekki gleymt því, að bóndi hennar hafði misst handlegginn í stríði, og hafði látið son sinn heita sér því hátíðlega, að hann aldrei skyldi hermaður verða. Bekk hinn ungi var góður sonur; hann hvarf því aftur frá heræfingunum til biblíu sinnar, en ekki var hann hálfnaður með fyrstu bók Móisesar, áður en sprengikúlu laust niður í hans hugmynda-göng. Þessi kúla var auglýsing í Ábæjar fréttablaðinu og stóðu þar undir þessi orð: „Eiríkur Gabríel Hartman, í nafni læknisfræði-deildarinnar“, en efnið var það, að stúdentar þeir, sem óska kynnu að fá sér stöðu sem herlæknar, meðan á ófriðnum stæði, þeir skyldu óðara leita sér aukatilsagnar í læknisfræði, og mætti þeir síðan — á skömmu bragði sem sé, því ófriðurinn stóð sem hæst — búast við, að þeir yrðu boðaðir til hersins fyrir 5-6 spesía kaup um mánuðinn, sem færi hækkandi. Nú gat piltur ekki lengur ráðið sér; hann skrifaði þau orð móður sinni, að herlæknar tæki að vísu oft og tíðum handleggina af öðrum mönnum, en þeir léti ekki sína, og eftir töluvert þref fékk hann ósk sína samþykkta. Hebreska biblían var nú óðara lögð á hilluna. Bekk las ekki, heldur gleypti handlækna-listina, og var að fimm mánuðum liðnum orðinn allt eins nýtur sáralæknir eins og ótal margir aðrir, enda vandlættu menn þá lítt um þá hluti. Bekk tók þátt í leiðangrunum árin 1788 og 89 á landi, en 1790 fylgdi hann flotanum, kom þá oft í krappan dans, gekk og vel fram, að því er hann sjálfur sagði þegar setið var að sumbli, og bútaði af mönnum hendur og fætur með mestu hjartans ánægju. Þá hafði hann enn ekkert af Napóleon að segja, eða því að þeir voru fæddir á sama degi, enda ætlaði hann sig þá ekki ákvarðaðan vera til neinna tiltakanlegra stórræða; en oftlega heyrðu menn hann síðarmeir segja frá því, þegar hann á Víborgar vík hinn minnistæða 3. júlí fór fram hjá skotvirkjunum á Krosserortsodda; hann var með Stedingk á skipinu Styrbirni í broddi skerjaflotans; laust hann þá ráarbrot og hitti kjálkabeinið, og bar hann örið meðan hann lifði. En sama kúlan, sem olli honum kinnarsársins, flaug stafna á milli og gerði mikinn skaða, hvein við þunnvanga skipstjórans og svipti hann á augabragði allri heyrn sinni. Bekk var þá ekki allfjarri með bíld sinn og bakstur og gaf það Stedingk heyrnina aftur eftir þrjár mínútur liðnar. Var þá bardaginn sem óðastur og skothríðin sem skæðadrífa. Í sömu svipan heyrðist óp mikið og steytti Styrbjörn á grunni. „Það er úti um oss, piltar!“ kallar einhver. „Og varla“, svaraði annar — það var hann Hinrik fuglari frá Úlfsbý — „fari allir fram í framstafn, skipið stendur að aftan“. „Allir fram í stafn!“ kallaði Stedingk; — Styrbjörn á flot og gjörvallur sænski flotinn fylgdi honum eftir í kjalfarið. Um þann atburð varð Bekk það oft að orði: „Hver skrattinn hefði orðið af flotanum hefði hann Stedingk verið heyrnarlaus?“ Skildu menn vel hvað karlinn fór; hann hafði sem sé bjargað öllum sænska flotanum; en yrði mönnum að brosa lítillega að þessu meinleysisgrobbi hans, þá hló hann sjálfur og sagði græzkulaust: „Jæja, bróðir góður, gættu að því, að ég var fæddur 15. ágúst, af því leiðir allt saman; ekki er það mér að kenna“. Þegar ófriðurinn var á enda, festi Bekk ekki lengi yndi á spítölunum, og með því að hann var í mestu hávegum. hjá Stedingk — eða svo sagði hann sjálfur — kvaddi hann flotann og fylgdi velunnara sínum til Stokkhólms sem húslæknir, trúi ég, að hann segði stundum, en eftir annarra sögn hafðist hann við á skrifarastörfum. Og með því að hann var fjölhæfur maður, úrræðagóður og áreiðanlegur, átti hann talsvert undir sér; höfðu margir hann að trúnaðarmanni, enda reyndist hann eftir því — eins og hann sjálfur sagði. Stóð hann um þessar mundir í miklu mangi og málabruggi við herbergisþjóna og þjónustumeyjar, handritara og aðra menn, sem þá tóku talsverðan þátt í stjórnmálabrögðum höfðingja og voru oftlega þær leynifjaðrir, sem lítið bar á ofan á, en undir niðri voru undirstaðan í þeim vélavef, sem ofinn var í myrkri þangað til hann hafði ánetjað hina æðstu stóreflismenn og steypt þeim af stóli. Aldrei hefi ég getað fengið fulla vissu um hluttöku herlæknisins í þeim hinum nafnkunnu samsærisvélum; það má vel vera, að hann hafi minna verið við þær riðinn en hann stundum lét á sér skilja. En hinu ætla ég mér að neita, að hann þar hafi farið með fals eða ódrengskap; til þess var Bekk of góður drengur allt til hans innstu tauga. Er því ætlan mín sú, að hann hafi rekið annarra erinda án þess að vita glöggt, hvert þeir stefndu í stjórnarbrögðunum, allt þangað til að úrslitin urðu deginum ljósari. Víst er það að minnsta kosti, að honum var trúað fyrir mörgu masi og munnflapri um þessar mundir, og að hann varð í mörgu fróður um ýmislegt stórmenni, bæði þá og í fyrri daga, og er margt af því fáum kunnugt, en þó mjög svo einkennandi. Læknirinn var Gústafs maður, á líkan hátt og öll meðalstétt manna í Stokkhólmi var það á þeim dögum; menn höfðu glýju í augum sakir ljóma hirðarinnar og endurskin hennar náði jafnvel til lægstu stöðva mannfélagsins; menn voru hrifnir af mildi Gústafs þriðja, þegar hann þurfti að hæna að sér alþýðuna. Bekk unni því konungi hugástum. Hvað kom honum við kurr sá, sem fyrir löngu var kominn upp kringum hásæti konungs og lét æ meir og meir til sín heyra? Hann var ungur maður og þurfti um enga ástæðu að spyrja fyrir hollustu sinni. „Mikill dýrðar konungur!“ hugsaði hann og lét sér það nægja. Hann var konungsmaður með lífi og sál og bæri svo við, að hann ræki annarra erindi, hvað launráðabrugg snerti, var það fyrir þá sök, að hann hugðist gera konungi greiða með því. Einhvern dag í byrjun marzmánaðar 1792 hafði læknirinn, sem þá var maður í fríðara lagi (að því er hann sagði sjálfur) komizt á snoðir um hjá herbergismeyju greifafrúarinnar Lantingshausen, (en mærin var aftur vinkona vildarþjóns greifans Klas Horns), að morðráð væri búin konunginum. Læknirinn ásetti sér að leika heilaga forsjón í sögu Svíaríkis og birta konungi allt, sem hann vissi, og dálítið meira ef til vildi. Hann reyndi að komast fyrir konung og bar fyrir beiðni nokkra, en honum var óðara vísað frá af „kammerherranum“ de Besche, sem hirðsiðanna gætti. Hann reyndi í annað sinn, en með þeim úrslitum, að honum var vísað á dyr. Þriðja sinn nam hann staðar fyrir vagni konungs við hallarhliðið og hélt játningarskjali sínu hátt á lofti. „Hvað vill sá maður?“ spurði Gústaf þriðji vildarmann þann, sem fylgdi honum, í því er hann kom út úr vagninum, og til allrar óhamingju var það aftur de Besche. „Það er afsettur herlæknir“, svaraði hirðmaðurinn í spotti, „hann beiðist þess, að yðar hátign vildi náðarsamlega byrja nýjan ófrið, til þess hann geti aftur fengið nokkuð að sýsla“. Konungur hló og læknirinn stóð sneyptur eftir við hliðið. Nokkrum dögum síðar var konungur skotinn. „Ekki gat ég að því gert“, var læknirinn vanur að segja, þegar hann minntist á þessa framgöngu sína. „Hefði ekki sá bölvaður Besche verið, þá ... nei, ég segi ekki meira“. Menn vissu, hvað hann fór. Hann hafði frelsað sænska flotann hjá Víborg; nú hefði hann líka frelsað líf Gústafs þriðja, hefði þetta „en“ ekki fram komið í mynd og líking hins illviljaða vildarmanns. Ofurlítil dagsbrún hins 15. ágústs fylgdi honum þó; að minnsta kosti trúði hann því sjálfur. Reuterhólms-stjórnin féll honum illa í geð. Hann hafði nú farið úr þjónustu Stedingks og lifði nú á lækningum sínum. Aldrei var hann meira háður mælgi og masi dagdómanna en þá, og gekk hann eins og reikandi palladómstóll milli góðbúanna. Hirðflokkurinn gamli notaði hann sem boðbera sinna rógkvitta. Hann fann hvern reykjarþef á undan öllum öðrum; hann bað herrana 1794 (að hann sagði) að vara sig, en enginn þeirra vildi trúa honum nema hinn norræni Alkibíades. Og þeirrar ánægju naut hann að hafa frelsað Armfelt[* Frægur hershöfðingi. – Þýð.], eins og sænska flotann og Gústaf þriðja. Það var hann, sem hjálpaði til, ásamt borgarhandlækninum Fröberg, læknislistinni til sóma, við aftöku jungfrú Rúdenschölds. Þessi grimmdarfulla aftaka gekk mjög til hjarta hinum góða herlækni, enda voru þar háar gáfur og forkunnar fegurð fótum troðið, en umhverfis úthellti fólkið tárum og enginn hrósaði sigri nema níðingslund fylgisflokksins. Læknirinn gat ekki stillt tungu sína, enda var hann því ekki vanur, og spurði hátt, svo allir máttu heyra, hvers vegna jungfrúin ekki fengi að sitja, þar sem móðurbróðir hins ágæta baróns Reuterhólms hefði þó fengið að sitja á aftökustaðnum. Þessi orð bárust skjótt baróninum til eyrna, og megi menn trúa lækninum, átti hann í vændum að fara ekki öllu betri för en jungfrúin. Hann átti eyra í hverju horni og auga í öllum gluggum borgarinnar, og sá skjótt hvar „þoku dró upp hið ytra“ og að sér mundi ekki vera til setu boðið, stingur því bíldinum í vasann og verkfæratöskunni undir hönd sér, stígur á skútu vindverska og siglir á fám dögum til Strælu. Ég ætla nú ekki að orðlengja um allt, sem á daga hans dreif. Að skömmum tíma liðnum lagði hann land undir fót sem skottulæknir og nemur ekki staðar fyrr en hann kom til Parísar. Þar stóð þá þjóðveldisstjórnin sem hæst; nýir og nýir herskarar voru kvaddir til vígsgengis, og hver einasti stúdent dró annað hvort sverðið eða bíldinn. Herlæknirinn kom mátulega: hann fær stöðu í ítölsku herdeildinni við hliðina á Napóleon í sama bili sem sigursól hans roðaði á Alpafjöllin. Nú fyrst hafði hann fengið að vita, hvernig af sér stæði með fæðingardag hans, og vaknaði óseðjandi metorðagirnd í hans brjósti. Einu sinni um nótt hvarf hann frá spítala sínum í Nizzu og skundaði til Mantúu. Hann vildi persónulega heilsa hershöfðingjanum, hann vildi vinna sér frama, vildi, skjótt að segja, gera sér ódauðleikans stiga úr 15. degi ágústmánaðar. Ekki veit ég, hvernig það var, en það staðhæfði hann, að hann hefði Napóleon fundið og beiðzt að mega vera læknir hans. En hvenær sem hann minntist þess merkilega dags, stundi hann við og sagði: „Bónaparte var í önnum, hann skildi mig ekki, spurði fylgiliða sinn hvað ég vildi“. „Borgari og hershöfðingi“, svaraði hann, „það er handlæknir, sem beiðist þeirrar háu hefðar að fá við fyrsta tækifæri að taka af yður fótinn“. „Rétt í sama bili“ — sagði herlæknirinn — „tóku fallbyssurnar að öskra, Austurríkismenn æddu fram á vígvöllinn, og Bónaparte bað mig fara norður og niður“. Herlækninum, sem svo mörgu stórgöfugu hjálpaði, auðnaðist því ekki að frelsa Napóleon. Í þess stað greip hann herbúðasóttin, svo að hann lá heilt ár sjúkur og illa til reika í Bresciu; þaðan fylgdi hann í hæla franska hernum og labbaði inn í Austurríki, strauk þaðan upp í Svissland og varpaði akkeri í bænum Súrik (Zürich). Hér varð hann ráðsmaður í apóteki, varð ástfanginn í ofurlítilli svissneskri blómarós og átti ekki annað eftir en að kvongast, þegar Korsakoff fursti, Massena, og svo Súvoroff seinast, veltu herflokkum sínum yfir hinn litla og friðsama bæ. Í því uppnámi flýði unnusta hans og kom aldrei aftur. Einhvern dag stóð hann dapur og angurvær við gluggann á apótekinu; komu þá tveir Kósakkar að húsinu, stigu af baki, tóku hann nauðugan og hleyptu burt með hann á harða stökki. Læknirinn hugsaði að sín síðasta stund væri komin og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. En Kósakkarnir fóru með hann óskemmdan að kotbæ einum; þar sátu fyrirliðar nokkrir og voru að drekka púns, og meðal þeirra allófrýnn maður í stórum stígvélum. „Lagsmaður“, sagði sá maður með harðri og skipandi röddu, „komdu með töng þína, ég hefi tannverk!“ Þar var ekki til setu boðið, læknirinn varð að taka töngina; þó dirfðist hann að spyrja hver tönnin það væri, sem honum væri illt í. „Engar vífilengjur!“ sagði maðurinn óþolinmóður og ógnandi. „Ég hefi þær ekki!“ sagði læknirinn og kippti út þeirri tönn, sem fyrst varð fyrir tönginni. „Það er gott, drengur minn, og svo af stað!“ Og svo var herlækninum sleppt með tíu dúkátum í ómakslaun. Hans afreksverkaskrá hafði fengið þokkalega viðbót; hann hafði þar dregið tönn út úr munni stórhetjunnar Súvoroffs. Þetta varð herlækninum hvöt til að leita lukku sinnar á Rússlandi. Hann ferðaðist til Pétursborgar og fór þar fyrst á fund ráðherrans Stedingks hershöfðingja, bróður aðmírálsins vinar síns. Hér fékk hann embætti við hermannaspítala, stóð sig vel og græddi þar fé til góðra muna. Liðu svo fjögur eða fimm ár þangað til að sú fregn kom upp, að Napóleon væri orðinn keisari. Nú vaknaði aftur hinn gamli metnaður herlæknisíns, hann sagði af sér og hvarf heim til ættjarðar sinnar 1804. Hann bjóst við að jafnframgenginn maður sem hann mundi verða borinn á höndunum, en stjórnardeild læknamálanna var þá tekin að harðna í kröfum og heimti að fá að sjá skjöl hans og skilríki. Honum varð illt við þetta, segir skilið við læknislistina, tekur fram meðmæli sín frá Súrik og kaupir apótek í Stokkhólmi. Herlæknirinn hafði nú fimm um þrítugt. Hann leit nú aftur yfir allt, sem á daga hans hafði drifið, og sýndist það vera æðisundurlaust og unggæðislegt. Hann sagði við sjálfan sig: „Það er ekki nóg að hafa frelsað sænska flotann, Gústaf þriðja og Armfelt, hafa talað við Napóleon og dregið tönn úr Súvoroff, því að maðurinn þarf að eiga sér stefnu og endimark í lifinu“, – honum kom það í hug, að hann ætti sér fósturjörð í veröldinni. Nú hófst ófriðurinn 1808. Læknirinn selur apótek sitt, lendir aftur í stríði við læknaráðið og náði ekki hærra hefðarsæti en undirlæknisstétt við einn finnska herflokkinn. En þetta stóð honum á sama, hann barðist ekki framar metorðanna vegna eða hins 15. ágústs. Þar voru lautinantar með silfurgráu granaskeggi, hví gat hann þá ekki verið undirlæknir, eftir 20 ára afreksbraut? Hann tók síðan þátt í hernaðinum 1808 og 1809; í hverjum bardaga hafði hann jafnan sína bækistöð í tjaldi eða kofa rétt við vígvöllinn. Þar barðist hann karlmannlega á sinn hátt við volæðið, veikindin og dauðann, sagaði af mönnum hendur og fætur, batt sár, plástraði, huggaði, skipti flösku sinni, brauði og pyngju milli særðra hermanna og það sem enn þá meira munaði um, gaf þeim óspart af sinni síglöðu og léttu lund og sagði þeim ótal hlægilegar fréttir og frásögur af ferðavolki sínu í fjarlægum löndum. Helmingur hersins þekkti hann á nafninu „tupakka tohtori“, tóbaks doktorinn, líklega fyrir þá sök, að vinir hans í Stokkhólmi létu hann aldrei vanta beztu „lauf“, og að hann var jafnan búinn til að bjóða hverjum dáta pípu sína eða gefa „upp í sig“. Kristilegur kærleiki getur líka sýnt og sannað sín gæði hvað tóbak snertir. Herlæknirinn var ekki svo stórlátur, að hann hefði eins og Konóws korpóráll ** „tóbakstuggur tvær af tignardrambi“ [* Úr Fänrik Ståls Sägner. – Þýð.], ** heldur hafði hann enga, þegar neyðin var stærst og einhver særður kunningi hafði fengið hjá honum seinasta rullu-molann upp úr vasanum á gula nankinsvestinu hans. Fyrir því unnu hermennirnir „tupakka tohtori“ hugástum, og Fieandt gamli blótaði því, ef hann ætlaði ekki að gera hann yfirlækni, því að næst púðri og kúlum ætti enginn hlutur í veröldinni meiri heiður og þökk skilið en tóbakslauf upp í sig og ögn af „fimm bláum bræðrum“ [** Eins konar reyktóbak. – Þýð.]. Ævintýri læknisins allan ófriðartímann voru fleiri en svo, að þau kæmust fyrir í einu rímnakveri. Ég ætla að sleppa þeim þetta sinn, en geta þess einungis, að árið 1808 hélt hann afmæli sitt 15. ágúst í Alavó. Eftir ófriðinn sleppti hann embættinu, eftirlaunalaust eins og nærri má geta. Þegar svo fjöldamargir Finnar fluttu yfir til Svíþjóðar eftir friðinn 1809, fannst honum fallegra að þola súrt og sætt með fósturjörð sinni, og varð hann kyrr. Hans gamla óstöðvunar-lund leyfði ekki að hann gréri neinstaðar í næði í mannlegum átthögum; fyrstu árin hafðist hann við á ferð og flakki með sína hermannalyfjabúð, gefandi ráð og reglur og græðandi gjörvöll manna mein með bíldi og blóðhornum, essentia dulcis og mixtura simplex. Þannig fór hann bæ frá bæ og byggða milli með sinn gamla klárhest og lyfjakistil, hvervetna velkominn og allt eins eftirþráður eins og Bolliger læknir á vorum dögum. Hann var frjáls og fleygur eins og fuglinn í loftinu, skemmtinn og skrafhreifur og kryddaði hverja dropa með skrítlum og skröksögum, enda brást honum aldrei að hitta tilreitt borð og þægilega húsmóður á hverjum kotbæ. Það voru dýrðardagar, og ég er viss um það, að herlæknirinn vann þá mörgum manni mikið gagn, en um það talaði hann aldrei. Ekki var lækni vorum samt lengi leyft að fara sinna ferða með flakk sitt og skottulækningar. Frá því árið 1788 hafði læknislistin riðið gandreið í framförunum. Læknastjórnin var tekin að toga fast í skottið á þeim mikla og margs konar læknasæg, sem fyllti landið í byrjun aldar þessarar, oftlega til skaða og skammar mannorði listarinnar að vísu, en jafnoft til líknar og liðsemdar í neyðinni, þar sem tala fullkomnari lækna var fjarskalega lág og lyfjasalanna sömuleiðis. En nú hafði herlæknirinn löngu áður átt í aga og ófriði við læknaráðið í Uppsölum og í Ábæ, og þurfti því ekki annað en að einhver vandlætingasamur embættisbróðir sendi skýrslu þeim herrum um ferðalag hans um sveitirnir. Lækni vorum var nú stefnt til Ábæjar að mæta þar við Colloquium familiare, en honum þóknaðist að þverskallast, sem þó í rauninni var óhyggilega gjört. Því sakir framgöngu sinnar á ófriðarárunum átti hann mörgum fremur skilið að fá héraðsembætti. En hann var staður í lund og sjálfræðið var honum fyrir öllu; hann mætti ekki, og leikslokin urðu, að lækningar voru honum þverbannaðar og þungar sektir við lagðar. Nú kvaddi þá herlæknirinn listina í þriðja sinn og settist að í fæðingarstað sínum og stundaði fiskiróðra. Það var skrítin atvinna og skemmtileg, en mögur var hún, því miður, fyrir þann mann, sem þurfti hvern dag að fá sinn kaffibolla og reykja sína góðu „fimm bláu bræður“. Læknirinn hefði á lánsárum sínum getað grætt töluverð efni, en til þess var hann of gjöfull og léttur til fótanna. Nú átti hann lítið annað í eigu sinni en forna frakkann sinn mórauða, nankinsvestið gula, glaðværðina og nokkur hundruð geddu-öngla. Það leið því ekki á löngu áður hann lét fá sig til að sækja um að verða bólusetjari, og fjekk hann skjótt þá sýslan fyrir bænastað gamalla liðsfélaga sinna. Og þar sem hann hafði lengi verið lausaliðsmaður í læknislistinni, undi hann allvel þeirri iðn, þótt staðan væri lág, því fyrir það mátti hann tvisvar á ári ferðast um sveitirnar, skrafa við kerlingarnar og láta hverjum degi nægja sína þjáning, eins og í fyrri daga. Enginn var heldur slyngari en hann að kjassa og spekja litlu krakkana um leið og hann rispaði þeirra mjúka hörund með nálinni; sárindin voru búin áður en þau vissu af, og jók þetta drjúgum vinsældir hans hjá mæðrum þeirra; fann og jafnvel enginn að því, þótt hann hefði þann ósið að tyggja tóbak; þann ávana gat hann nú ekki framar lagt niður. Og loks tók ellinnar fönn að falla yfir höfuð læknis vors, ofur hægt, en fyrri en varði. Hann var einn af þeim öfundsverðu mönnum, sem sloppið hafa gegn um hretviðri lífsins án þess að glata trú og trausti til mannanna; hann var síglaður og ánægður án þess að hjarta hans nokkru sinni harðnaði við mótlæti, eða ofmetnaðist þegar allt lék í lyndi. Hann var í raun réttri valmenni, sem oft hló að léttúð æsku sinnar, en var þó ekki laus við hana, þótt elliárin væri komin. Napóleon keisari — „bróðir hans“, sem hann kallaði sakir 15. ágústs — hafði verið fljótari að fara upp stigann og enn þá fljótari að hrapa hann ofan aftur, þar sem auðna herlæknisins hafði, líkt og hengill í klukku, verið að smádingla fram og aftur milli tveggja strika með lítilfjörlegu millibili: aldrei látið hann of hátt og aldrei fellt hann alveg flatan. Þótt hann alla ævi væri konulaus, frá því er hann slapp úr ástarinnar snöru í Sviss, hafði hann enga þá hleypidóma, sem einatt elta hans líka, þegar talað er um hjartans helgustu taugar. Hann hafði hlaupið of snemma frá bókinni til þess að hann mætti lærður maður heita, en fram hjá mikilli lífsreynslu hafði hann ekki farið, og að hans mannþekkingu dáðist ég stórum. Oftlega í bernsku og á fyrstu æskuárunum sátum við saman uppi á hinu gamla kvistlofti umhverfis stóra leðurfóðraða stólinn hans og horfðum beint í brakandi eldinn í arinhlóðunum, meðan hann var að segja sögurnar ýmist úr heimi hugmyndanna eður lífsins, minni hans bilaði aldrei nokkru sinni, og líkt og fornkvæðið finnska segir um fossinn, að ekki falli allar öldur hans í einu, eins átti hann ávallt nýjar sögur í fórum sínum. Enginn verulegur sagnfræðingur var hann, heldur voru sögur hans miklu fremur sundurlaus dæmi en samhangandi heildir. Seinna komst ég að því, að margt þurfti að fella úr, það sem við kom palladómum tímans og bakslettum eins flokks um annan. Einnig vantaði veglega og víðtæka veraldarskoðun, sem ekki fæst nema hugur og hjarta hafi stöðug afskipti af hinu háa og stóra í lífinu; en það sem fannst í sögum hans, var áreiðanleiki og hlýindi, og einkum svo ljósleg útmálun, að ég treysti mér ekki til að sýna það aftur eftir minni. Þegar við vorum lengi búin að hlusta á karlinn, tók hann stundum gamla rafvél, sem hann átti, snéri henni svo að gneisti fylgdi gneista, og sagði: „Svona fuðraði veröldin, þegar ég var ungur; það þurfti ekki annað en snerta hana með fingrinum, svo kom hvellur einhvers staðar. En þá var það nú guð almáttugur, sem snéri vélinni“. Fáar sögur hafði hann skrifaðar, eins og t.d. „Sögu hertogafrúarinnar í Finnlandi“; hann mælti helzt af munni fram. Mörg ár eru liðin, sumu er ég búinn að gleyma, sumt hefi ég saman borið við sagnir og bækur. Geti nú lesarinn haft skemmtun af sögum þessum, hefir herlæknirinn ekki ófyrirsynju sagt frá þeim. Fyrsta saga herlæknisins HRINGURINN KONUNGSNAUTUR [023.png] Lesari, þú sem situr á þínu friðhelga heimili umgirtur menntun og mannúð, mannstu hinar miklu og stundum sorgarfrjóu sagnir, sem enn þá lifa í manna minni eftir ár og aldir, og ýmist skína sólu fegri á sögunnar spjöldum, eða draga yfir þau dreyrabletti þá, er aldrei eyðast? Megnar hugur þinn, sem þungur er orðinn af hvíld og næði, að fljúga til baka til fyrri tíma skelfinga eða skemmtimála, ekki þannig, að hann flögri alvörulaust frá einu til annars af þeim hlutum, sem kitla forvitni þína, heldur svo að þú sjáir allt með lifandi litum, ljóst og hlýtt, rétt eins og þú sjálfur værir lifandi kominn þar sem menn stóðu og stríddu, flöktu í sárum, féllu eða sigur unnu; svo að þú finnir, hversu hjarta þitt hreyfist fyrir von eða ótta, eftir því, hvort heillir brostu eða brugðust? Megnar þú að setjast í sögunnar hliðskjálf og horfa yfir heima alla, líta þaðan niður yfir hrikaleik mannlegra örlaga, eða stíga niður í djúp hins umliðna tíma, djúp þess, sem líkamlega er dautt og fúið, en andlega ódauðlegt og ævarandi, sem er sögunnar innsta eðli og kjarni? Eða hefir þú nokkru sinni séð söguna setta fram í mynd og líking aldins manns með kórónu spekinnar á höfði, með köldu hjarta í brjósti og vegandi allt á vogarskál hyggindanna? Er ekki engill sögunnar miklu fremur fögur og síung mær með glóðheitu hjarta og guðmóði í anda, mannlega heit og mannlega fríð? Er þér gefið að geta glaðzt með kynslóðum, sem áður hafa lifað, geta hatazt með þeim, og elskað, verða frá þér numinn eins og þær, undrast, fyrirlíta, bölva og bannfæra með þeim, lifa með þeim, í einu orði að segja með heilum hjartslætti, en ekki með eintómum köldum og skoðandi skilningshyggindum? Kom þá og fylg mér eftir! Ég fer með þig niður í djúpið; hönd mín er veik, og dauf er mín skuggsjá, en hjarta þitt mun betur leiða þig; það reiði ég mig á — og tek svo til máls. 1. Bardagi við Breitenfeld Í sögu Þýzkalands og Svíþjóðar hefir nú öldum saman hljómað nafn, sem lætur hvern sænskan mann hefja upp höfuð sitt, og hvern frjálslyndan Þjóðverja lyfta hatti fyrir. Það er Leipzig, Breitenfeld og 7. september 1631. Gústaf konungur Adólf stóð með Svía sína og Finna á þjóðverskri lóð til varnar hinu hæsta og helgasta: frelsi manna og trú. Tillý, voðaseggurinn gamli, hafði vaðið inn á Saxland, og konungurinn veitti nú karli eftirför. Tvisvar sinnum hafði þá fundum þeirra áður borið saman; tígrisdýrið hafði skorað ljónið á hólm, en ljónið stóð kyrrt. Nú stóðu þeir í þriðja sinn hvor öðrum andspænis; nú skyldi til skarar skríða með þeim, og Þýzkaland skalf af kvíðahrolli fyrir afdrifunum. Árla morguns sóttu hinar sænsku og finnsku hersveitir suður yfir lækinn Lóder, skammt frá bænum Breitenfeld, og fylktu sér þar á völlunum. Þá fylkingarskipan hafði konungurinn sjálfur upp fundið: fótgönguliðinu var skipt í stórdeildir, hestliðinu sömuleiðis, en sér, og skotmenn á fæti mitt í milli; allur herinn í tveim fylkingarröðum nema Saxa-her, honum var fylkt sér í lagi. Nú reið konungur fram með fylkingarröðunum, renndi skörpum augum og lagaði skjótt, það er honum þurfa þótti, og mælti mörg orð til uppörvunar. Hann horfði með ánægjusvip á þessa hreystimenn; þar stóð Gústaf Horn vinstra megin með hestlið sitt; í miðfylkingunni var afreksmaðurinn Teuffel, og fyrir framan hann Thorstenson með leðurfallbyssurnar léttu, en voðaskæðu; í hinni fylkingunni stóðu þeir kapparnir, Banér með Líflendinga sína, og Hepburn með hinar hörðu skozku liðsveitir. Síðast reið konungur út að hægra armi hersins, sem hann sjálfur var fyrir. Þar stóðu fimm stórsveitir (regiment) af hestliðinu: Tott með sína menn, Soop með Vestur-Gauta, Stenbock með Smálendinga, og yztur allra Stálhanzki með Finnana. Svipur konungs varð æ bjartari sem hann reið lengra fram með röðunum og allir heilsuðu honum. „Stálhanzki“, mælti hann og stöðvaði hinn risavarna jarpa gæðing sinn frammi fyrir yztu röðum þeirra Finnanna, „yður mun fullljóst fyrir hverja sök að ég hefi skipað yður utast í fylkingu. Gagnvart oss stendur hann Pappenheim með Vallónana, — hann mun heldur en ekki hafa hug á að finna oss“, bætti hann við brosandi; „er það ætlan mín, að vér komumst í krappan dans, gangi hann hér megin að oss með sinn grúasæg. En ég treysti því, að þér og Finnar yðar takið snarplega í móti“. Síðan hóf hann raustina svo að heyra mátti um allan riddaraherinn: „Sýnið nú, sveinar, að þér höggvið ekki sverð yðar sljó á spangabrynjum þessara dólga, fellið heldur fyrst hesta þeirra, því að úr því verða hinir þungu riddarar yður auðunnir“. Finnska riddaraliðið skildi vel bæði háskann og heiðurinn, sem stöðu þess fylgdi, en þeir þóttust vaxa af hvorutveggja. Traust konungs fyllti alla hughreysti og sigurvon. Þar var enginn maður, sem hopað hefði þá á hæli fyrir sjálfum honum Pappenheim berserknum. Líti menn yfir þessa venjulega lágu og gildu menn, sem sátu á litlum og óálitlegum hestum, máttu menn í fyrstu ætla, að ekki væri þeirra færi að veita viðnám hinum risavöxnu Vallónum á hinum ólmu og sterklegu góðhestum. Svo komst Tillý sjálfur að orði í ræðu þeirri, er hann hélt fyrir liði sínu rétt á undan orustunni, sagði, að óvinir sínir væri bæði berir og soltnir, og hestar þeirra verri en verstu áburðarjálkar keisarahersins. „Hleypið þverbeint á þá“, sagði hann, „bæði menn og hestar munu óðara hníga undir hófana á yðar frísandi fákum“. En Tillý þekkti ekki eða lézt ekki þekkja óvin sinn. Það sem hestliðið finnska skorti í svip og sjón, það bættu upp til fulls stálvöðvar riddaranna, og hugrekki þeirra, sem ekki brá við banann sjálfan, en smáhestar þeirra voru gæddir því þoli, sem þeirra kyni fylgir, og studdi það mjög að sigrinum, þá er barizt hafði verið margar stundir senn í sífelldri höggorustu. Konungur sneri frá, en Finnar lustu upp gleðiópi á eftir honum. Stálhanzki sneri þá að sínum mönnum og sagði þeim orð konungsins á finnsku máli. Hljóp þá piltum heldur kapp í kinn sakir metnaðar og gleði. „Þú þarna, Bertíla“, mælti Stálhanzki og sneri sér að ungum manni, er sat á fríðum hesti hrafnbrúnum í fremstu röð liðsins, og bar af öðrum sakir vaxtar síns og limaburðar, „fýsir þig að vinna til riddarasporanna í dag?“ Sá, sem yrt var á, skipti þegar litum, og roðnaði í framan upp undir ennisskyggnið á stálhúfunni. „Ég hefi aldrei dirfzt að vænta mér slíkrar virðingar“, svaraði hann, og mátti þó renna grun í, að það var einmitt mark og mið hans leynilegustu drauma. „Ég“, bætti hann við hikandi, „bóndasonurinn!“ Stálhanzki hló. „Þrumur og þúsund eldingar! Roðnar ekki pilturinn eins og yngismær á brúðarbekknum! Bóndasonur! Hver skrattinn vorum við í fyrstu annað? Færir þú ekki fjóra hestmenn til hernaðarins? Eða hefir ekki skaparinn gefið þér hjarta í brjóst, en konungurinn sverð í hönd? Það er líka skjaldarmerki; hitt er þitt að ábyrgjast“. Ótal hugrenningar liðu sem leiftur gegn um sál riddarans. Hann minntist bernsku sinnar heima á Finnlandi í hinum fjarlæga Austurbotni. Hann minntist þess, hversu faðir hans, Bertíla hinn gamli, hafði verið einhver hinn helzti af fylgivinum Karls hertoga í Kylfustríðinu, en hafði seinna fengið fjögur stórbú að gjöf hjá Karli Munda, sem hvert um sig skyldi framleggja mann og hest til hernaðar, og að hann eftir það var talinn með ríkustu mönnum í þeim sveitum. Hann minntist æskuára sinna í Stokkhólmi, þangað sem faðir hans hafði sent hann sakir þeirrar metnaðargirndar, að hann skyldi afla sér heiðurs og hylli við hlið konungsins. Hann minntist þess, hversu hann, sem sjálfur var enn þá metnaðarmeiri, hætti við friðsamleg störf og lagði leynilega kapp á að kunna vígfimi og riddaraskap, allt til þess er hinn harðráði faðir hans lét undan og leyfði honum að taka stöðu í hinu finnska hestliði konungs. Allar þessar hugsanir hömuðust á einni og sömu svipstund í heila hins kornunga kappa, því að nú var sá tími kominn, að hann, almúgasonurinn, skyldi berjast um jafnt metorðasæti við hinn drembna aðalslýð, sem hingað til hafði horft með fyrirlitningu niður á hann og hans líka. Það var sú hugsun, sem beindi blóðinu upp í vanga hans; honum fannst sem hún mundi fylgja sér, þótt bráður bani væri búinn. En ekki hún eingöngu. Hans unga hjarta hló honum í brjósti, er hann bjóst nú að berjast andspænis fyrir augum konungshetjunnar, berjast í höfuðorustu fyrir frelsi trúar sinnar á guð, fyrir frægð sinnar fósturjarðar og allt hið dýrsta og æðsta, sem lífið á til, og þessi sannfæring, sem gagntók hvern mann í hernum, nema fáeinar útlendar málasveitir, hún fól í sér forsmekk og vissu sigursins, löngu áður en orustan hófst. Áður en hinn ungi hermaður hafði fengið tóm til að svara hinum göfuglynda yfirmanni sínum, heyrðist málrómur Gústafs konungs í fjarska, þar sem hann kallaði og bað menn biðjast fyrir. Hin riddaralega stórhetja tók ofan hatt sinn og beindi brandinum á sverði sínu til jarðar, og sömu aðferð hafði allur herinn umhverfis hann. Því næst mælti konungurinn með hárri röddu: „Algóði guð, í þinni hendi er sigur og ósigur, snú þinni ásjónu til vor þinna þjóna. Frá fjarlægum löndum og friðsælum heimkynnum erum vér hingað komnir til þess að heyja stríð fyrir frelsi, fyrir sannleik, fyrir þitt evangelíum. Gef oss sigur sakir þíns heilaga nafns! Amen!“ Háleit fullvissa gagntók og fyllti hvers manns brjóst, sem heyrði þessi orð. Lúðurþeytari Svía reið þá fram og skoraði á keisaraherinn, en Tillý svaraði drembilega, sagði, að konungur mundi vel vita hvar sig væri að hitta. Á hádegi var sænski herinn, sem sótti fram, kominn í skotmál stórskotaliðs keisarahersins, sem fylkt hafði verið á hæð einni á baki hersins. Sænska stórskotaliðið gegndi, og tókst nú orustan. Sólin skein beint í augu Svía; útsunnan vindur feykti ryki og reykjarsvælu yfir þá. Konungur lét herinn beygja við til hægri handar, til þess hann hefði vind og sól til hliðar sér; Pappenheim beiddist og fékk boð um að“ hindra það. Brauzt hann fram eins fljótt og elding, beygði skyndilega við og réðst á hlið hægra fylkingararms Svía. Í sömu andrá varpaði konungur í móti honum hersveit Rínargreifans og riddurum Banérs. Varð þar ógurlegur aðgangur; féllu menn og hestar unnvörpum, hvort á annað ofan. Pappenheim hopaði undan, en sneri aftur jafnharðan og hleypir beint á Finnana. Þustu þar fram Vallónar í löngum, dimmleitum röðum, keyrðu hestana, hjuggu og hömuðust; það kom fyrir ekki; þar stóð fyrir fastur járnveggur; fremsta röðin féll, en næsta röðin sneri undan; öðru áhlaupi var aftur hrundið. Pappenheim var sem æðisgenginn; í þriðja sinn geystist hann fram. Nú áttu Finnar Líflendinga og Kúra við hlið sér. Stálhanzki veitti fjanda sínum sömu viðtökur sem áður, stóð kyrr og blákaldur. Það var engra færi að brjóta þennan lifandi múrvegg. Finnar reiðast seint og höfðu allt til þessa varið hendur sínar með kaldri ró, en smám saman tók þeim að svella móður. Við fjórða áhlaupið fór í þá ofsi fjandmanna þeirra, og varð nú vart komið tauti við þá. Rödd Stálhanzka gall hátt í orustunni; enn þá einu sinni festist hin finnska hestliðsfylking; enn þá einu sinni var þeim Pappenheim varpað aftur á bak. Flakandi af sárum rak hann Vallóna sína fram til áhlaups í fimmta sinn. Þá rofnaði fylking Finna, en ekki lengi, heldur eingöngu til þess að loka þá, er að sóttu, í járnfaðmi sínum. Stóð þá maður á móti manni, og hestar Vallóna tóku nú að mæðast. En þó ósigur þeirra væri mikill, var æðisgangur þeirra að sama skapi. Sjötta áhlaupið fylgdi enn á eftir hinu fimmta; sama mannfall, og allt fór á eina leið. Sjöunda sinnið fylgdu Pappenheim ekki aðrir en hans tryggustu förunautar, og nú er þetta síðasta örvilnunar-áhlaup ekki varð til annars en þess, að völlurinn fékk hjá þeim nýja valkesti, orkaði hans ógnar-raust engu framar. Sá hópur Vallóna, sem eftir lifði, tættist sundur og flýði víðs vegar og stefndi á Breitenfeld. Nú drógu Finnar aftur andann, þar sem þeir stóðu ryki og dreyra drifnir. En óðara en orustureykurinn sveif frá, sáu þeir hvar fór herdeild ein af óvinum þeirra frálaus. Það var Holsetahertoginn með fótgöngusveit, er fylgt hafði Pappenheim. Nú var Finnum farið að volgna og varð þeim nú ekki lengur stýrt né stjórnað. Hlupu þeir þá fram og Austur-Gautarnir með þeim og slógu hring um Holseta, og hjuggu niður. Vörðust þessir vösku menn drengilega, svo að hver þeirra féll í sömu sporum, því enginn vildi flýja. Meðan þessu fór fram hægra megin, hafði hinn vinstri fylkingararmur lent í mikilli hættu. Þar hafði Fürstenberg með Króata ráðizt á Saxa og tóku þeir að hörfa á hæli. Tillý sá báða arma hers síns hafa nóg að vinna, og sækir nú loks sjálfur fram með miðherinn í 16 stórum sveitum. Breiddist þessi óvígi her eins og þrumuský yfir völluna. Thorstenson veitti honum varmar viðtökur. Kúlurnar úr skinnabyssum hans gerðu geilar inn í hersveitir keisarans. Tillý dró sig til hliðar, lét Pappenheim eiga sig, en réðst á Saxana. Ekkert snjóflóð orkar að vinna voðalegra tjón. Saxar riðluðust í fyrsta áhlaupi og flýðu í allar áttir og kjörfurstinn í broddi fylkingar, en þó rændu þeir á flóttanum öllu, sem þeir komu höndum yfir. Nú hafði Tillý lausar hendur og setur meginherinn á móti þeim Horn og Svíunum vinstra megin. Varð fylkingin þá ofurliði borin og lét undan síga til vinstri handar, en fet fyrir fet, og lá þó við sjálft, að flóttinn myndi bresta. Það sér konungur og skundar nú þangað. Hann kallaði hátt og bað Kallenbach að koma með varaliðs-sveitirnar og fyrir guðs skuld hlaupa inn á þá Tillý með höggorustu. Kallenbach hlýddi, en féll sjálfur í fyrsta áhlaupi. Sömu för fór Teuffel. Loks ræðst Hepburn til með Skota og Hoop með Smálendinga til liðs við þá Horn. Króatarnir þustu sem fjaðrafok í móti Hepburn; þá gerðu Skotar hlið á röðum sínum; leðurfallbyssurnar, sem fólgnar voru þar að baki, hófu sönglist sína og felldu menn unnvörpum. Þó sóttu aðrir fram er aðrir féllu, en Skotar gerðu þeim svo harða hríð með handbyssum, að heilar raðir manna féllu í senn. Reykur og ryk frá öllum hinum hernum féll þar yfir sem þéttast var; varð þar allt á riðli, vinir og óvinir, og börðust menn blindandi með byssuskeftum og sverðum, og sá enginn hver sigra mundi. Þá hófst ný fallbyssu-þruma frá hæðinni. Hafði konungur í broddi riddaraliðsins, með Finnana fremsta, unnið sigur á stórskotaliði keisarahersins og sneri nú fallbyssum þeirra móti sjálfum þeim. Þetta skipti sigrinum. Pappenheim hafði reynt að ná hæðinni aftur, en það tókst ekki. Hann varð undan að láta í áttunda sinn. Konungurinn kom í opna skjöldu óvinunum og æpti þá hægri armur hersins siguróp, en hjá óvinunum varð allt í uppnámi. Tillý grét af gremju. Pappenheim hafði með eigin hendi lagt fjórtán Svía og Finna við velli, en var nú sem hamstola maður. En hvorki dugðu bænir né ógnarorð; keisarans menn flýðu víðsvegar sem trylltir væri. Tillý missti hest sinn, hinn gráa og víðfræga, og hafði nærri að hann sjálfur yrði fangaður; sigur konungs var fullkominn. Þó fylgdi enn þá eftirleikur og hann allskæður. [030.png] Fjórar hersveitir af einvalaliði Tillýs höfðu haldið fullri skipan, en hörfað undan úr meginbardaganum; nam nú þessi her staðar og tók djarflega móti Svíum þeim, sem flóttann ráku. Konungur sjálfur sótti að þeim með hægra armi hers síns, Totts riddurum, Smálendingum og Finnum. Þar varð hið harðasta él. Vallónar börðust sem óðir menn og reyndu þeir, sem óvígir féllu, að leggja hesta óvina sinna í gegn, þá er riðið var yfir þá, þurfti þar og enginn maður griða að biðja. Loks barg nóttin leifum þessara hraustu manna, sem leituðu sér hælis í Leipzig. Var þá og lokið orustunni. Árangur þessa sigurs varð feikilega mikill. Gústaf vildi ekki spilla neinu sakir varúðarleysis og lét aftur skipa her sínum um kvöldið, þá er klukkan var sjö, í fylkingar og bíða svo í sömu sporum alla nóttina. En fyrst reið konungur frá einni röð til annarrar og þakkaði mönnum sínum hrausta framgöngu. „Stálhanzki“, mælti hann, þegar hann hitti Finnana, „þér og yðar menn hafið barizt eins og vaskir menn, og eins og ég hafði yður ætlað. Ég þakka yður, góðir synir; þér eruð minn sómi“. Flokkurinn svaraði konungi með fagnaðarópi. „En“, bætti konungur við, „hver af yður var það, sem stökk af hestbaki og fyrstur klifraði upp brekkuna til þess að ná í fallbyssur keisarahersins? Hvar er hann?“ Ungur maður reið fram úr röðinni. „Vægð, yðar hátign“, mælti hann hikandi, „ég gerði það óskipað, og hefi því unnið mér dauðasök“. Konungur brosti. „Hvað heitir þú?“ „Bertíla“. „Frá Austurbotni?“ „Já, herra“. „Vel og gott. Á morgun, þegar klukkan er sjö, mætir þú fyrir mér til að heyra dóm þinn“. Konungurinn reið leiðar sinnar, en riddarinn sneri aftur inn á sínar stöðvar. Nú breiddist nóttin yfir hinn alblóðuga orustuvöll, sem var þakinn limlestum líkum níu þúsund manna. Finnska hestliðið hafðist við á hæðinni þar sem fallbyssur Tillýs voru teknar. Búkum og leyfum hafði verið burtu velt til bráðabirgðar, og þar skíðloguðu eldar, því nóg var til að kynda með af byssuskeftum og öðrum brotaviði; sáust bálin víðsvegar, því þá var mild og hlý septembernótt, en himinninn svo heiður, að hinar eilífu stjörnur skinu gegnum hinn gisna reyk niður á þessa stóru skuggsjá lífs og dauða. Fyrsta verk hestliðsins var að gefa hestunum hafra og vatna þeim úr hinum grugguga Lóderlæk. Því næst höfðu menn sezt fyrir við eldana á hæðinni, hver þar sem hann átti að vera, og allir viðbúnir að spretta upp óðara en kallið kæmi, en jörðin var blaut af blóði og náttfalli. Svo voru menn þreyttir, að margur sofnaði óðara þar sem hann var kominn, en sumir héldu vöku fyrir sér með mat og drykk. Þeir höfðu góðan bjór og létu kerin ganga mann frá manni út til yztu forvarða, meðan deigur dropi var eftir; drukku þeir skál keisarans manna í skopi og voru allkátir. „Sálist þeir helzt af þorsta í nótt!“ „Ella drekki sitt eigið erfi“. „Elököön kuningas!“ Í sama bili heyrðist af vígvellinum, þar sem birtunni frá bálinu sló á, stynjandi rödd, sem bað sér aumkunarlega hjálpar. Liðsmenn, sem vanir voru við slíkt, þóttust heyra á málrómnum, að maðurinn væri ekki þeirra landi og gáfu þessu engan gaum. En vein þessi espuðust æ meir og skáru aumkunarlega innan á þeim eyrun. „Pekka, farðu og gerðu út af við þennan Austurríkisrakka“. Pekka var einn af hinum fjórum hersveinum, sem fylgdu Bertílu, lágur maður og þrekinn og ramur að afli; hann fór til, og þó nauðugur, að þagga niður í þeim, sem æpti. Hann var fullur hjátrúar eins og allir félagar hans og leizt ekki vel á blikuna, að vera einn í valnum á dimmu náttarþeli. Bertíla sjálfur sat hugsandi um forlög sín næsta dag og tók ekki eftir þessu. Að vörmu spori kom Pekka aftur og dró með sér dökkleita flygsu; varð mönnum hverft við, er þeir sáu, að þar var kominn munkur, sem auðséð var á krúnu hans og skalla. Hann var í kufli og girtur snæri um miðju, lafði þar við langt sverðslíður. „Munkur! Jesúíti!“ sögðu liðsmenn í hálfum hljóðum. „Já, hvað haldið þið ég hefði átt að gera?“ sagði Pekka ráðalaus. „Þegar ég reiddi til höggs við hann, bar hann af sér höggið með róðukrossi“. „Högg þú hann! Hann er einn af djöflum þeim, sem fara um í sauðarklæðum til að myrða konunga og koma á bálið sannkristnum sálum. Högg hann niður! Þegar við tókum hæðina, stóð þessi furtur þar með róðukross í hendi innan um keisaraliðið og hleypti af einni fallbyssunni“. „Við skulum sjá hvort gersemi hans er úr silfri“, kallaði einn og stakk hendinni inn undir kufl munksins og dró þar fram móti vilja hans logagylltan silfurkross. „Það hugsaði ég; ekki vantar Satan silfur“. „Lofið mér að sjá“, gall við gamall dáti; „ég kannast við munkaprettina“. Síðan skoðaði hann vandlega krossinn, en í því sama snerti hann fjöður á brjósti líkneskisins og hrekkur þar út hárhvass morðkuti. Dátinn hrökk við sem bitinn væri af nöðru og þeytti róðukrossinum frá sér langar leiðir. Ógn og viðbjóður hafði gagntekið alla, sem sáu þetta. „Hengið höggorminn í hans eigin ólarbandi!“ æptu hestliðarnir. „Hér eru engar eikur“, anzaði einn þeirra; „og svo má enginn yfirgefa stöðu sína“. „Drekkið honum þá!“ „Drepum hann með kylfu!“ Enginn kom sér að því sakir viðbjóðs við Jesúítann. „Hvað eigum við að gera við hann?“ „Misericordia! Gnade!“ sagði fanginn; hann hafði legið í svíma af höfuðsári, en var nú búinn að fá mál og rænu. „Gefið honum fetlengd af stáli og sleppið honum síðan“, sagði einn; „við erum menn kristnir og óttumst ekki illra ára vélar“. [033.png] „Ég vil þó merkja þig að minnsta kosti, minn verðugi abba faðir“, sagði maður frá Tavastbyggð, sem hét Wítikka, alþekktur ójafnaðarmaður og heljarmenni. Hann lét fyrst sverð sitt hvína aftur og aftur yfir höfði munksins og hjó síðan, fljótara en nokkur hefði mátt hindra það, bæði eyrun af honum svo fimlega, að hann snerti varla hár á höfði hans. „Sanki Pétur gerði það ekki betur!“ æpti hann hátt og hlæjandi. Þeir, sem næstir stóðu, litu undan, því þótt harðlyndir væru og vanir við illvirki ófriðarins, þótti þeim of grátt þetta gaman. Jesúítinn skreiddist burt á höndum og fótum, alblóðugur allur, og langa stund eftir heyrðist til hans gegn um næturmyrkrið: „Maledicti Fennones! maledicti! maledicti! Vos comburat ignis sempiternus“[* Bölvuðu Finnar! Bölvaðir, bölvaðir! Brenni ykkur eilífur eldur. – Þýð.]. „Faðir vor, þú sem ert á himnum!“ byrjaði þá einhver af Finnum að lesa, og tóku þá allir undir og þuldu. 2. Nafnlaus öðlingur Þegar í dögun 8. september var uppi fótur og fit í sænsku herbúðunum og flestir kátir. Sigurinn var óyggjandi og úr öllum áttum bárust fréttir af keisarahernum, að hann hefði gersamlega sundurtvístrast. Konungur lét nokkurn hlut hestliðsins elta óvinaflóttann, en á meðan hafði hinn herinn þann skemmtistarfa að ræna og rupla í herbúðum Tillýs, og var herfanginu skipt í reglulega hluti. Margur maður varð þá auðmaður og síðan alla ævi. Allt var á tjá og tundri; föllnum mönnum voru teknar grafir, en hinir sáru gleymdu verkjum sínum. Gervöll sléttan úði og grúði þennan bjarta morgun af syngjandi og sigurhrósandi hersveitum, sumum ríðandi, sumum gangandi, og ættu orð skáldsins Beskows nokkurs staðar við, þá áttu þau við þar: ** „Loftið var þeim svalt af sigurfánum“. ** Konungurinn hafði hafzt við í vagni um nóttina. Þegar hann hafði lesið bæn sína og skipað fyrir hvað starfa skyldi um daginn, lét hann kalla fyrir sig ýmsa þá menn, er bezt höfðu fram gengið. Fengu þar margir stórsæmdir fyrir afreksverk sín. En æðri allri umbun var ánægjan með sjálfum sér og þakklæti hetjunnar miklu, sem öll Norðurálfan hafði nú lært að undrazt. Einn þeirra, sem kvaddir voru til að mæta sérstaklega, var ungmenni það, sem mest kemur við sögu þessa. Gústaf Bertíla var þá tvítugur að aldri; sló honum nú hjartað harðara í brjósti en á meðan bardaginn var sem óðastur deginum áður. Hann grunaði að sönnu, að konungur myndi ekki gefa sér það að sök, að hann hafði brotið reglurnar í miðri orustunni, svo vel þekkti hann göfuglyndi hans, en þó roðnaði hann ýmist eða fölnaði af óvissu sinni um þennan konungsfund, enda var það ekki lítill sómi að vera kallaður af konungi sjálfum. Konungur hafði látið reisa tjald sitt undir álmtré einu háu hjá Gross Wetteriz, því að hvert hús þar í nágrenninu hafði verið brennt eða sundurskotið af vinum eða óvinum. Bertíla beið nú fyrst hálfa stund úti fyrir, en var þá vísað inn í tjaldið. Gústaf Adólf sat á tjaldstóli og studdi handleggjunum á borð, alsett skjölum og uppdráttum. Hann var bæði hár vexti og þrekinn og hinn nærskorni panzari hans gerði hann enn þá gildari og reknari sýnum. Í því Bertíla kom inn hóf konungur hin mildu en björtu augu upp frá dagskipun, sem hann hafði undirskrifað og virti skarplega fyrir sér hinn unga hestliða. Gústaf Adólf var mjög nærsýnn; það var eins og hann þyrfti áreynzlu til að þekkja menn aftur, og gaf það svip hans gagnvart miður kunnugum mönnum nokkurs konar hörku, sem þó óðara rénaði og hvarf. „Þú heitir Bertíla“, mælti konungur, eins og vildi hann vera viss um, að hann hefi tekið rétt eftir daginn fyrir. „Já, herra konungur“. „Hve gamall ertu?“ „Tuttugu ára“. Konungur horfði hvasst á hann með efasvip. „Þú ert sonur Bertílu?“ Hinn ungi maður laut og roðnaði. „Það er kynlegt“. Konungur mælti þetta eins og ósjálfrátt og sem hann gleymdi sér af djúpri hugsun. Síðan segir hann með fjöri: „Því hefir þú ekki leitað fundar míns fyrr? Faðir þinn hefir unnið stórhag fyrir föður minn og ríkið. Er hann enn á lífi?“ „Hann er á lífi og er yðar hátign þakklátur fyrir mildi yðar“. „Mun það vera?“ Þessi orð hrutu konungi líka eins og ósjálfrátt fremur en spurning. Hinn ungi maður fann blóðið hlaupa upp í kinnar sér, og konungur tók eftir því. „Faðir þinn og ég vorum einu sinni sundurþykkir“, mælti hann og brosti, og leið eins og lítið ský fyrir augabrúnir hans. „En allt er það nú fyrir löngu gleymt“, bætti hann við, „og ég fagna því, að jafnmikils háttar maður skuli eiga jafnvaskan son. Þú varst einn hinna sjötíu Finna við Demmín?“ „Já, herra konungur“. „Og þú hefir ekki enn verið nefndur til frama?“ „Ofurstinn minn hefir lofað því að minnast mín“. „Konungur þinn gleymir aldrei góðri fylgd. Gústaf Bertíla, ég var einmitt nýbúinn að undirskrifa skipunarbréf þitt sem fánasveinn (fendrik). Tak við því, og þjóna oss síðan með sóma!“ „Yðar hátign“ — stamaði Bertíla. „Ég hefi enn þá orð að segja þér. Aðferð þín í gær var móti lögskipaninni“. „Já, herra“. „Ég vil, að dátar mínir hlýði mér nákvæmlega. Nú hafa menn sagt mér, að þú hafir farið af baki við bröttustu hæðina til þess að komast því fyrr upp á hana“. „Það er satt, yðar hátign“. „Og svo hafir þú, meðan hestliðið reið krókinn, lagt að velli tvo Austurríkismenn og tekið fyrstu fallbyssuna“. Hinn ungi maður kom engu orði upp. Konungur komst við. „Kom nær mér, ungi maður“, sagði hann; „þú skalt nú vita, að einu sinni í æsku sýndi ég föður þínum mikinn ójafnað. Skaparinn þekkir iðran mína og hefir nú gefið mér færi á að bæta það syninum, sem ég hefi brotið við föðurinn. Fyrirliði (lautenant) Bertíla, þú ert hraustur sveinn og göfugur og hefir numið hernaðarlist, enda færðir þú fjóra hestliða með þér í mína þjónustu. Sem yfirmaður í liði mínu ertu nú orðinn jafnburða aðalsmönnunum. En til þess að enginn af fyrirliðum mínum, hversu ættgöfugur sem hann kann að vera, skuli kalla þig bóndason, óæðri sér, vil ég gefa þér nafn, skjaldarmerki og riddarakross. Far nú, ungi maður, far sonur minn“, mælti konungur og viknaði kynlega, „og sýn þig maklegan hylli konungs þíns“. „Til dauðans“, svaraði hinn og varð svo yfirkominn af tilfinningum sínum, að hann féll á bæði kné fyrir konungi. Konungur stóð þá upp, og sú geðshræring, sem snöggvast hafði brugðið fyrir á hans tígulegu og fríðu ásjónu, hvarf óðara fyrir konungs-svipnum og hershöfðingja-yfirbragðinu. Bertíla sá, að samræðan myndi vera á enda. Samt sem áður beið hann á knjánum og rétti konungi bréf, sem hann fram að þessum morgni hafði borið saumað við kufl sinn. „Virðist að lesa bréf þetta, herra. Þegar ég lagði af stað í leiðangurinn og kvaddi föður minn, fékk hann mér það og sagði: „Son minn, gakk nú og leitast þú við að vinna hylli konungsins fyrir hugprýði og trúleik. Og berir þú gæfu til að ávinna hana fyrir þinn eigin verðleik og ekki sakir föður þíns eingöngu, þá skaltu fá honum bréf þetta og segja honum, að það sé erfðaskrá mín. Hið mikla konungshjarta mun skilja hvað ég segi“. Konungur tók við bréfinu og braut það upp og las. Á svip hans sást, að hann komst allmikið við, þótt hann leyndi því. Hinn fljótlegi dimmroði, sem oft á seinni árum hans var hið eina ytra mark um geðbreytingar þeirrar sálar, er svo kunni að stilla sig, steig nú eins og skýflóki upp á enni hans og gerði það purpurarautt, en hvarf aftur þegar í næstu svipan. Þegar er hann hafði lesið allt bréfið, hvíldi hann augun um stund á svip hins fríða, glóhærða unglings, sem enn þá kraup við fætur hans. [037.png] „Stattu upp“, mælti hann loks. Bertíla stóð upp. „Þekkir þú efni bréfs þessa?“ „Nei, herra konungur“. Konungur leit fast á hann, og var sem honum litist vel á hinn hreina svip ungmennisins, er bar vott um sannleikann. „Ungi maður, faðir þinn er manna einrænastur. Hann hefir hatast við aðalinn síðan á dögum Kylfustyrjaldarinnar, en þá háði hann oftlega harða þraut í broddi bændaliðsins, og einkum þá er Flemmingshestliðið bauð sér sjálft heim á búgarð hans. Hann fyrirbýður þér að þiggja nokkru sinni aðalsnafnbót eða skjöld og leggur við föðurbölvan sína, ef þú hlýðir ekki“. Bertíla svaraði engu. Eldingu úr heiðu lofti hafði lostið yfir hans ungu hamingju, og allir hans metnaðardraumar um skjaldarmerkið og gullsporana voru sviplega að engu orðnir. „Vilja föðurins verða menn að hlýða“, mælti konungur. „Það aðalsnafn, sem ég hafði ætlað þér, máttu ekki bera. En vertu ókvíðinn, ungi maður, þú heldur sverði þínu og fyrirliðafremd þinni; með þessu og hraustum armlegg mun frægðarleiðin þér ávallt opin standa“. Að því búnu benti konungur, og hinn ungi maður gekk leiðar sinnar, heldur en ekki ýmis-hugsi. 3. Jungfrú Regína Svalan dag, er degi hallaði í októbermánuði árið 1731, þremur eða fjórum vikum eftir bardagann við Breitenfeld, sat uppi í turnherbergi einu í höllinni í Würtzborg hin fagra Regína af Emmeritz, systurdóttir biskupsins, ásamt nokkrum þernum sínum, og var hún að sauma mynd Maríu meyjar á hvítan silkifána, er hún vildi gefa setuliði kastalans sem sigurmerki. Hin unga mær ræddi með fullri einurð, því að dólgurinn kastalahöllinni, hinn fégjarni biskup, var nýlega burtu farinn og kvaðst mundi fara í sýslu sína, en í raun réttri vildi hann flýja hersveitir Gústafs Adólfs, sem óðum nálguðust bæinn. Var hann hræddur um fjárhirzlur sínar og hafði falið hinum hrausta hestliðsforingja Keller, með 1500 manna, gæzlu staðarins og hallarinnar; Keller treysti hinni öruggu afstöðu kastalans við ána Main, og hafði fullyrt við hinn virðulega biskup, að fyrr skyldi trúarvillukóngurinn brjóta hausskel sína við þessa múrveggi en nokkur maður af hans óguðlegu förunautum kæmist inn fyrir þá. Hin fríða Regína var tæplega 16 ára gömul, hafði hrafnsvarta lokka, rjóða vanga eins og morgunroðinn, augu dimmblá, djúp og leiftrandi, svo sem stjörnur tvær, er speglast um miðnætti í afskekktu stöðuvatni. Hún var augasteinn hins aldraða biskups, og var hann eins ófús að eftir skilja hana í kastalanum sem fjársjóðu sína, en Keller hafði staðhæft, að á slíkum óróatímum væri fastir múrveggir, alskipaðir fallbyssum, öruggust vörn fyrir fagrar konur, enda var Keller sæmdar- og trúleika riddari. Kaus hann heldur að verða til undir rústum kastalans en gefast upp meðan hann hefði slíkan dýrgrip að geyma. Jungfrúin lauk sínum dimmbláu augum upp frá saumunum og leit út um hinn litla turnglugga og yfir fljótið og kom auga á einstakan vagn, sem nokkrir riddarar fylgdu, og var á leiðinni yfir brúna milli bæjarins og hallarinnar. „Hver mundi þar vera á ferð?“ sagði hún og renndi dreymandi augum, sem sjaldan mændu á aðra hluti en hið fagra líkneski Maríu úr marmarasteini í bænaherbergi hennar. „Æ!“ sagði Katrín, yngsta og málgefnasta þernan, „æ, þú heilaga jungfrú, er það samt ekki gaman að lifa á ófriðarárum? Á hverjum degi koma ný og ný andlit, státnir riddarar og röskvir sveinar og svo við og við smáveizlur í bænum. Það er þó eitthvað annað en að sitja innilokaður í klaustri frá morgni til kvölds og hlusta á munkana tóna De profundis. „Já“, bætti hún við, „ég vildi sá náðugi biskup yrði sem lengst í burtu“. „Katrín litla“, sagði Regína, „varaðu þig á því að tala illa um messugerðir munkanna; mundu eftir því, að skriftafaðirinn, Híerónýmus, er félagi hins heilaga rannsóknardóms og að ríkisfangelsið er bæði djúpt og dimmt“. Katrín þagnaði snöggvast, en byrjaði aftur að vörmu spori gallhörð: „Væri ég í sporum jungfrúarinnar, skyldi ég heldur hugsa um laglega greifann af Lichtenstein en um grettna munkinn hann Híerónýmus. Greifinn er forkunnar fríður riddari; guð gefi honum að geta komið aftur með sæmd og sigri úr hernaðinum móti villutrúarmönnunum“. „Og að þeir mættu allir afmáðir verða með báli og brandi“, gall þá við önnur þerna með guðræknissvip. „Vesalings villutrúarfólkið!“ kallaði Katrín upp yfir sig hlæjandi. „Gættu nú að þér!“ sagði Regína með einfeldnis-alvöru. „Villutrúarmenn eiga enga vægð að fá. Sá, sem drepur villutrúarmann, fær sjö syndir fyrirgefnar, það hefir séra Híerónýmus sagt mér. Að hatast við villutrúarmenn er sjöunda sakramentið, og að elska einhvern þeirra, er að ofurselja helvíti sálu sína“. Hin svörtu augu Regínu urðu öll í loga við orð þessi; var það auðséð, að kenningar skriftaföðurins höfðu fest djúpar rætur í sálu hennar. [040.png] Katrín lét ekki hugfallast. „Menn segja, að konungur þeirra sé mildur og góðgjarn, að hann tali máli allra umkomulausra og leyfi ekki dátum sínum nokkurn yfirgang“. „Satan breytir sér oft í ljóssins engil“. „Menn segja, að hermenn hans séu bæði hraustir og mannúðlegir. Ég heyrði sjálf gamlan ítalskan riddara segja piltunum í vopnasalnum frá því, að sjötíu menn af villutrúarfólki, sem heita Finnar, hefðu varið konung sinn á móti 1500 mönnum frá Neapel í meira en heila klukkustund. Þegar flestir villutrúarmennirnir voru fallnir, fengu hinir, sem eftir voru, hjálp og unnu sigur; en seinna bundu þeir um sár óvina sinna undir eins og sinna eigin manna“. Jungfrú Regína stóð þá upp og vildi gefa skorinort svar, en í sömu svipan kom þjónn inn úr dyrunum og kunngerði, að greifinn af Lichtenstein væri þar kominn sjúkur og særður og beiddist gistingar. Hin unga mær, sem mestu réð í höllinn, þegar frændi hennar biskupinn var ekki heima, skundaði óðara ofan til að bjóða velkominn gest sinn, sem líka var nokkuð skyldur henni. Þernurnar litu hver framan í aðra, eins og þeim þætti þessi atburður miklum tíðindum sæta. Hafði það lengi verið hvískrað, að gamli biskupinn hefði kjörið greifann til eiginmanns handa jungfrúnni. En árangurslaust reyndu þær til að sjá roða bregða fyrir á kinnum hennar, þá er hún heyrði hver kominn væri. Hafi því jungfrú Regína haft hlýjan hug til hans, þá kunni hún að minnsta kosti að halda því leyndu. „Hvort er það satt“, spurði ein þernan, „að villukóngurinn hafi unnið stóran sigur yfir þeim rétttrúuðu og sé á leiðinni hingað með sínum óguðlega her?“ „Svo segja menn“, anzaði önnur, „en hingað getur hann ekki komizt. Okkar menn hafa sett líkneski af sænska dýrlingnum henni Birgittu rétt á miðja götuna í Thýringarskóginum, þar sem hann yrði að fara, og hún er handviss að stemma stigu fyrir honum“. Á meðan hafði jungfrú Regína látið búa eitt af herbergjum sjálfs biskupsins handa gesti sínum og bjóst að láta fara sem bezt um hann. Hinn ungi greifi af Lichtenstein var eitthvert hið göfugasta og fríðasta mannsefni, dökkur á brún og brá sem Spánverji, og augu hans brunnu og tindruðu nærfellt eins og Regínu. Hann gekk riðandi á fótum á móti sinni fríðu húsmóður, en þó með augnaráði, sem Regína ekki stóðst. „Mikið á ég skaparanum að þakka“, sagði hann, „að þessi sár mín skyldu útvega mér svo fagra þjónustumey“. Sár greifans voru mörg en smá. Hann hafði verið fangaður við Breitenfeld, en skömmu eftir og fyrr en sár hans voru gróin, hafði honum verið sleppt fyrir annan; hugðist hann nú að ná aftur heilsu og hreysti í nágrenni ástmeyjar sinnar. „En ill þykja mér þau tíðindi“, skýrði hann ennfremur sjálfur, „að óvinur vor, bráðsólginn sí og æ, sé nú að velta herskörum sínum eins og eyðandi elfustraumi hingað inn í hina frjóu dali Frankahéraðsins. Því fremur skundaði ég ferð minni til þess að láta eitt yfir mig ganga og yður, fagra Regína. Óttist ekki! Königshofen mun veita gott viðnám, og séra Híerónýmus, sem slapp særður eins og ég, frá Breitenfeld, er nú í óða önn að æsa landsfólkið til mótstöðu hvar sem óvinirnir ætla yfir að fara“. „Svo þér ætlið þá“, sagði Regína kvíðafull, „að þessir óguðlegu villumenn muni þora að fara alla leið hingað“. „Heilagir dýrðarmenn munu vaka yfir fegurðinni“, svaraði greifinn með undanfærzlu. „En nú fáum vér brátt ný tíðindi að heyra“. Í þessu varð Regínu litið í gegnum gluggann og kom auga á hóp ríðandi manna, sem stefndu til hallarinnar og riðu í loftinu. „Skjátlist mér ekki“, sagði hún, „kemur þar séra Híerónýmus sjálfur“. „Það lízt mér illa á“, umlaði greifinn við sjálfan sig. Jungfrúin hafði séð rétt. Séra Híerónýmus var þá að ríða vindubrúna. Klerkurinn var lítill maður og ekki álitlegur sýnum, fölur og magur, en skarplegur á svip og áfergjulegur; lágu augun djúpt og voru á sífelldu iði frá einum hlut til annars. Hann var girtur hampsnæri utan yfir kufl sinn, og hékk við það langt sverð. En krúnu-hárskurðurinn sást nú ekki; hann hafði sár á höfði og bar húfu eða hettu úr leðri, sem var svört, og stakk illa af við helbleikt andlitið. Aldrei hafði Jesúítinn litið eins fælulega út. Allir karlar lögðu byssur við öxl til virðingar við hann, en þjónarnir stóðu á nálum, ef hann skipaði eitthvað. Leynilegur ótti gagntók alla, sem nærri voru. Var það því líkast sem feigð og faraldur hefði fylgt honum inn fyrir hallarhliðið. Munkafaðirinn leit flóttalega á hið fylkta lið í hallargarðinum og heilsaði síðan brosandi jungfrú Regínu, og átti líklega það bros hans að bæta úr viðbjóð þeim, sem útlit hans vekti, en gerði það samt hálfu ljótara. „Hinn heilagi Patríkus og allir dýrlingar gæti yðar og geymi, góða jungfrú! Tímarnir eru illir, æði illir. Sú heilaga jungfrú hefir leyft heiðingjunum að brjótast fram alla leið að vorum borgarhliðum — sakir vorra synda“, bætti hann við, gerði krossmark og lygndi augunum. „Og Königshófen?“ spurði greifinn. „Hinn svikuli borgarvörður hefir gefizt upp“. „En bóndaliðið, sem veitti viðnámið á skóginum?“ „Flýði víðsvegar sem fis fyrir vindi — sakir synda vorra“. „En líkneski hinnar helgu Birgittu?“ „Hinir óguðlegu villumenn höfðu sett það á mörkina eins og fuglahræðu“. „En“, — og nú breytti munkurinn málrómi sínum og gerði hann grimman og ógnandi. „Hvað sé ég, dóttir góð? Eruð þér hér enn þá, og kastalinn fullur af konum og börnum, en óvinirnir eru þegar hver vill komnir að dyrunum?“ „Jungfrú Regínu skal aldrei vanta verndarmann meðan þessi armleggur má sverði valda“, tók Friðrik greifi fram í. „Höll þessi á heils árs byrgðir“, sagði Regína eins og til afsökunar. „En þér eruð þreyttur, verðugi faðir, þér eruð særður og þurfið hvíldar. Leyfið mér að sjá sár yðar; þér eruð sár á höfði“. „Smáskeina, dóttir, smáskeina! Hver hugsar um mig? Ég hlýt óðara að framhalda lengra, óðara lengra — til Aschaffenborgar, sem er víggirt“. „Mig uggir, að það sé um seinan“, svaraði greifinn, sem horfði út um gluggann yfir fljótið og bæinn. „Heilaga María! Eru þeir þegar komnir!“ Jesúmunkurinn og jungfrúin flýttu sér út að glugganum. Kvöldsólin sendi síðustu geislana yfir Würtzborg og sveitina. Hestliðssveitir voru á harðri reið eftir strætunum, og á leiðinni upp til kastalans sást stórhópur af bæjarfólkinu, munkum og nunnum, konum og börnum á ferðinni með fulla farangursvagna með búshluti, flýði allt, sem vettlingi gat valdið. Hinum megin, Sweinfúrter megin við bæinn, fyrir austan fljótið, sást til riddaraflokks, sem bæði sótti fram varlega og djarflega, og mátti þar auðveldlega þekkja ferðarbrodd sænska hersins. „Maledicti Fennones!“ æpti munkurinn, og brá ósegjanlegum heiftarhrolli á hans helbleika andlit. „Þessir villumenn hafa vængi. Mætti þó jörðin gleypa þá lifandi!“ Að svo mæltu skundaði hann að skipa sjálfur fyrir hversu verja skyldi höllina. Biskupssetur þetta, sem líka nefnist Maríuborg, gnæfir með sínum gömlu múrveggjum á hæð einni á hægri bökkum Mainfljótsins. Fljótsmegin er þverbrattur hamar, en hinum megin er halli og auðvelt aðgöngu. Þar stóð vígi, í laginu sem hálfur máni, og skyldi það verja borgarhliðið. Þegar óvinirnir höfðu þá hindran sigrað, beið þeirra gryfja mikil inni fyrir, grafin niður í bergið, og kæmist þeir yfir hana, varð fyrir þeim hæsti hliðveggur kastalans, alskipaður brynjuðum hermönnum, sem biðu búnir að hleypa af þungum tinnubyssum, ellegar, ef enn nær væri gengið, að leggja menn gegn með atgeirum, ellegar að mylja þá með grjóti, sem borið var saman á múrnum. Og þegar þar við bætist, að eina leiðin yfir fljótið var ein einasta mjó brú og að 48 fallbyssur vörðu gervallan bæinn og sveitina víðsvegar umhverfis hann, er það auðsætt, að Keller í broddi 1500 manna og með mesta vistaforða gat með fyllstu ástæðu beðið biskupinn, þegar hann fór, að vera góðrar vonar. En Gústaf Adólf hafði líka fyllstu ástæðu til að taka þennan kastala, hvað sem það kostaði. Tillý hafði aftur safnað nýjum her hvaðanæfa frá og var nú, fám vikum eftir bardagann við Breitenfeld, á leið frá Hessen í miklum vígahug, hafði 30,000 manna og skundaði fram til liðs við Würtzborg. Konungur skoraði á staðinn að gefast upp og tók þegar farstaði alla, en þá hallaði degi og varð að fresta áhlaupinu. Morguninn eftir gafst bærinn upp. En Keller notaði næturmyrkrið, flutti allan liðstyrk sinn, fjölda flóttamanna og stórmikinn farangur upp á kastalann, og sprengdi síðan tvo boga á brúnni yfir fljótið og stöðvaði svo óvini sína. En hverfum nú aftur til hallarinnar. Þessa nótt hafði engum nema ungbörnum komið svefn á auga í biskupshöllinni. Sí og æ komu nýir hópar af dátum, munkum og konum; ávallt skrölti í borghliðinu af vögnum; hvelfingarnar bergmáluðu köllin í varðmönnunum, skipanir fyrirliðanna og grátinn í börnunum, og innan um þessi ólæti heyrðist söngur munkanna frá kapellunni, þar sem þeir voru að ákalla hina heilögu guðsmóður og aðra dýrlinga og biðja um varðveizlu þeirra fyrir kastalann, hið sterkasta verndarskjól kaþólskra manna í öllu Frankalandinu. Til þess að rýma til fyrir þessum mannsæg hafði jómfrú Regína látið heimil herbergi sjálfs biskupsins og sömuleiðis tvær skrautlegar stofur, er hún sjálf bjó í neðst í höllinni, og hafði flutzt með þernum sínum upp í tvo klefa í eystra turninum. Kom það fyrir ekki að henni var sagt, að þar myndu skoteldar óvinanna fyrst kveikja í. Hún naut héðan hins bezta útsýnis úr öllum kastalanum og vildi þeim því ekki sleppa. „Meinið mér ekki þess“, sagði hún við munkinn, þegar hann aðvaraði hana. „Ég vil sjá, hversu villumönnunum fer að blæða, og sjá þá falla fyrir fallbyssum vorum; það verður dýrðleg sjón!“ „Amen“, sagði pater Híerónýmus. „Þú veizt, dóttir góð, að höll þessi er varin af tveimur máttugum Maríumyndum, og er önnur úr gulli, en önnur er úr gylltu tré. Ég vil hengja trémyndina upp í herberginu þínu, það mun bægja kúlunum frá turninum þínum“. Óðara en dagur rann, stóð Regína við turngluggann sinn litla. Það var ljómandi fögur sjón að sjá þegar sólin rann upp á hinum haustleitu hálsum með vínekrurnar enn þá hvarmgrænar, en Mainfljótið rann þar í bugðum í morgundýrðinni eins og skínandi gull- og silfurband. Niðri í bænum var allt á hreyfingu. Fjórar herdeildir af sænsku fótgönguliði æddu inn með blaktandi fána og bumbur og básúnur; mátti glöggt sjá, hvernig pansararnir blikuðu í sólskininu og fjaðraskúfar foringjanna bifuðust fyrir vindinum. Ótti og undrun háðu hólmgöngu í hjarta hinnar ungu meyjar. „Líttu á“, mælti hún við Katrínu, „líttu á riddarana tvo þarna með gula pansara í ferðarbroddi villumannaliðsins!“ „En hvað þeir eru drengilegir til að sjá! Nú beygja þeir fyrir hornið á strætinu — þar koma þeir aftur! Lítið á, hversu allir hliðra til fyrir þeim“. „Kalla þú á Friðrik greifa; hann hefir verið yfir hálfan mánuð í herbúðum Svíanna og þekkir helztu höfðingja þeirra“. Greifinn, sem ekki gat tekið þátt í vörn hallarinnar sakir sáranna, var feginn boði jungfrúarinnar. Nú voru Svíar búnir að taka bæinn og hvörfluðu nú hópar af þeim um fljótsbakkann og við sprengdu brúna. Í sama bili hófu fallbyssur kastalans sönglistina. Hér og þar laust niður kúlu þar sem Svíar stóðu, og reyndu þeir til að fá sér skjól bak við húsin á bakkanum. „Heilaga María! Þar féll einn maðurinn og stendur ekki upp aftur!“ æpti Katrín, og gat ekki dulið meðaumkun sína. „Sé hann sankti Fransiskur lofaður! Þar fækkaði um einn villumanninn í veröldinni“, sagði Dóróþea gamla, fóstra Regínu, sem séra Híerónýmus hafði sett til þess að vaka yfir hverju hennar fótmáli. „En það er óttalegt að skjóta menn til bana!“ Friðrik greifi brosti við og mælti: „Þá hefðuð þér, jungfrú Katrín, átt að sjá vígvöllinn við Breitenfeld. Níu þúsund fallnir!“ „Það er viðbjóðslegt!“ „Getið þér sagt mér, greifi, hverjir þeir riddarar eru, sem þarna nema staðar í miðri skothríðinni og virðast vera að njósna um ásigkomulag kastalans?“ „Afsakið mig, fagra frændkona; púðurreykurinn tekur að varna víðsýnisins. Þessir riddarar — eins og ég lifi er það sjálfur konungurinn og greifinn Pehr Brahe. Mér þykir illt þeirra vegna ef séra Híerónýmus skyldi þekkja þá, því þá myndi hann láta miða öllum borgarinnar byssum beint á þá“. Eftir þessi orð læddist Dóróþea gamla út úr stofunni. „Hvað sögðuð þér, frændi, þykir yður illt vegna villukóngsins?“ „Hversvegna brennur yður eldur úr augum, fagra Regína, þótt ég segði svo? Skiljið þér ekki, þér, sem eruð svo göfuglynd og viðkvæm í lund, að manni er leyfilegt að sýna hluttekningarsemi hraustum og hæverskum óvini. Konungur þeirra Svíanna er hetja mikil, sem verðskuldar vora aðdáun engu síður en heiftir vorar og hatur“. „Ég skil yður ekki, villutrúarmaður!“ „Skaparinn fyrirbjóði, að þér nokkru sinni fáið að sjá hann innan þessara múra, en þá munduð þér skilja mig — nú nú, þeir ætla að steypa sér yfir brúna; þeir varpa bjálkum yfir bogagötin! Það er fífldirfska!“ „Þar féllu fjórir í einu!“ æpti Katrín. „Ég þekki þá gerla!“ æpti greifinn og æstist æ meir við orustugnýinn, sem tekinn var að hrista kastalamúrana, „ég þekki þá, það eru Skotarnir. Það eru ekki til hraustari menn í öllum Svíaher. Skotar og Finnar eru ávallt fremstir þar sem mest er mannraunin“. „Nei, lítið á, frændi! Skotarnir yðar hopa undan, þeir þora ekki að hætta til hins voðalega hlaups!“ „Þar þarf meira til en mennskra manna hugrekki. 24 fet undir hinum örmjóa bjálka ólgar fljótið.“ „Tveir grannvaxnir fyrirliðar stökkva út á bjálkann“. „Það eru bræðurnir Romsay, báðir kornungir menn. Ég þekki þá á bláa silkibandinu þeirra, þeir unna báðir sömu konu og bera hennar lit, en unna þó hvor öðrum engu miður“. „Guð varðveiti þá! — Æ, María, þú hin heilaga, þetta er hræðilegt að sjá“. Katrín brá höndum fyrir andlit sér. Óðara en hinir hugprúðu Skotar höfðu náð miðjum bjálkanum, sáust þeir riða til falls, missa síðan jafnvægið og steypast niður í fljótið. Rétt á eftir sázt hvar þeir stríddu í iðunni. En brátt hittu þá kúlur óvina þeirra, fór þeim þá að förlast sundið, því herklæðin drógu þá niður. Á næsta augabragði luktist fljótið saman yfir þessum riddaralegu æskumönnum. „Þér leizt áðan svo vel á ófriðinn“, sagði Regína kuldalega, en hjarta hennar var samt heitt og barðist ákaflega. „Já, á fögru riddarana, hljóðfærin og veizluhöldin, en ekki á þetta“, æpti Katrín grátandi. „Skotarnir hopa!“ kallaði ein þernan. „Já“, sagði greifinn áhyggjufullur, „en Svíarnir eru að byrja yfirför á bátum“. „Skotarnir hlaupa aftur út á bjálkann“ „Það hugsaði ég lengi“, svaraði greifinn. „Guð hjálpi til, þeir komast yfir; þeir taka sér stöðu á bakkanum. Vorir menn eru að gera úthlaup“. „Farið þér gætilega, jungfrú Regína, beygið yður ekki út úr glugganum. Hinir sænsku miða byssunum á turninn“. „Eruð þér hræddur greifi?“ mælti Regína brosandi. Greifinn kafroðnaði. „Ég þykist hafa sýnt og sannað hið gagnstæða. Hlustið þér til og þá munuð þér heyra æ annað veifið dunur, sem þér vitið ekki hvar af koma, og hrun eins og eftir smágrjót. Ég skal segja yður hvað það er. Það eru fallbyssukúlur, jungfrú góð. Þér mynduð heyra betur þeirra sönglist, ef hávaðinn gerði yður ekki daufa. Síðan fyrir hálfri stundu hafa þær verið að rífa hvert stykki á fætur öðru úr turnmúrnum og sífellt á sama stað. Það eru ekki sykurkringlur, kæra frænka; þessir Svíarnir hafa lært listina af sjálfum töfra-veiðimanninum“. „Munduð þér trúa því —“. „Að Svíarnir ætli sér að skjóta niður þennan turn til þess að fylla kastaladíkið með því sem hrynur? Já, frænka, og ég trúi því, að þeim takist það. Yður er hér ekki óhætt eitt augnablik framar; þér hljótið héðan að fara“. „Undireins, náðugi herra, undireins! Komið, jungfrú!“ kallaði Katrín og vildi toga húsmóður sína burt með sér. En Regína var æst í skapi. Hún var vön að skipa öðrum, og þó gerði ef til vill meira að verkum þrályndið í hennar gersamlega andstæðilegu lund, sem fléttaðist saman við trúarofsann, þann er Híerónýmus hafði innrætt henni frá blautu barnsbeini. Hún hörfaði aftur á bak, þreif hina gylltu Maríumynd, er munkurinn gaf henni til varnar, og nam staðar úti í gluggaskotinu. „Far!“ sagði hún, „ef þér eruð svo trúarveikur, að þér efist um varðveizlu dýrlinganna. Ég verð hér kyrr og kúlur villumannanna skulu ekkert megna móti —“. Jungfrú Regína var ekki búin að segja það sem hún hugsaði þegar kúla small á turnveggnum á ská og braut skarð í gluggatóttina að utanverðu. Stórfjúk kom inn gegnum gluggann af möl og kalki, steypti um koll Maríumyndinni og huldi Regínu í ryki og rusli. „Burtu héðan! nú sjáið þér sjálf“, æpti greifinn. „Förum, förum!“ sögðu þernurnar utan við sig af hræðslu. En Regína varð einungis snöggvast forviða, en kom óðara til sjálfs sín aftur, laut niður, reisti upp myndina og sagði örugg: „Þeir orka engu í móti hinni heilögu jungfrú“. Hún sagði ekki satt. Sú heilaga mær var komin í fjóra parta. Um varir greifans lék vantrúarháðsbros og leiddi hann nú mótstöðulaust frændkonu sína, sem ekki leizt lengur á blikuna, út úr þessu voðaherbergi. Meðan á þessu gekk í turninum, hafði Keller tekið ráð sín saman til varnar kastalanum. Hann gat ekki varnað Svíum að komast yfir fljótið, en hvert fótmál, sem þeir stigu nær höllinni, leiddi þá líka nær fallbyssunum. Þær þynntu ógurlega hersveitir hinna hraustu drengja. Liðlangan þann dag gátu Svíar engu áorkað. Híerónýmus var á ferli aftur og fram á múrveggjunum með munkum sínum, sem stökktu vígðu vatni yfir fallbyssurnar og gerðu krossmark yfir byssulásunum. Dóróþea gamla hafði hvíslað einhverju í eyra honum og allri hans athygli var úr því beint að einum og sama stað, þar sem menn höfðu séð hina tvo menn með gulu pansarana. Hinn verðugi faðir tók nú sjálfur að bisa við eitthvert þyngsta báknið og miða á nefndan stað, en óðara en hann hleypti af skotinu, féll hann á kné og las fjórum sinnum Pater noster og fjögur Maríu-vers með. Síðan hlunkaði stórskotið, en ekki gat munkurinn séð, hvar það hafði við komið; riddararnir sýndust standa kyrrir í sömu sporum og fyrr, þegar reykurinn sveif frá. Hugsaði nú séra Híerónýmus að fjórum sinnum mundi ekki hafa verið nóg, og las nú átta sinnum hið sama og áður og hleypti síðan aftur af. En allt fór á einn veg; kúlurnar virtust krækja fram hjá þessum kjörnu blótfórnum. Forsjónin hafði ekki enn þá ákvarðað örlagastund Gústafs konungs, og Pehr Brahe var varðveittur fyrir Finnlands sakir. Hver getur sagt, hvað orðið hefði úr sigurvinningum Svía og menntun Finna, hefði morðkúla munksins hitt skotmark sitt? Pater Híerónýmus varð óður við þetta; hugsaði hann nú að lesa tólf sinnum og freista síðan á nýjan leik, en þá var klappað á öxl honum. Það var gamall liðsmaður, er sleppt hafði verið lausum af Svíum um leið og greifanum af Lichtenstein. „Hættið þér þessum leik“, mælti maðurinn aðvarandi. „Sá maður, sem þér viljið hæfa, verður ekki hæfður; það „lossar“ ekki á hann“. Hjátrú Jesúítans var meiri en hyggindi hans, þegar svo vildi til; hann sneri sér við og umlaði í lágum hljóðum: „Þetta mátti mig gruna. Af hverju veiztu, sonur, að ekki „lossar“ á hann?“ spurði hann og lækkaði róminn. „Það heyrði ég í sænsku herbúðunum. Konungurinn ber eirhring á hægri handar vísifingri, sem er allur ritaður bjargrúnum. Hring þann gaf honum galdrakona á Finnlandi þá er hann var ungur, og meðan hann ber hann á hendi, bítur hann hvorki blý né járn, hvorki eldur né vatn“. „Ekkert má á hann bíta, segirðu? Ó, maledicti Fennones! Því eruð þér hvervetna til slysa!“ „Hvorki járn eða blý má bíta á hann“, hvískraði dátinn, „en ef ég mætti koma upp með annað ráð —“. „Mæl þú, sonur! Syndakvittun fær þú fyrirfram“. „Æruverðugi faðir, ráðið er syndsamlegt“. „Í þjónustu heilags málefnis helgar augnamiðið hvert einasta meðal, og segðu frá, sonur góður“. „Gull af helgri mynd —“. „Nei, sonur, nei, slíkt má með engu móti snerta; hefðir þú sagt hníf úr gleri eða nefnt óvenju næma eiturtegund, þá mætti á það líta, en gull af dýrlingi! ekki það, sonur sæll; sleppum því, sleppum því“. Nú var náttmyrkrið dottið á og dagsins dauðastrit var á enda. Hinir örmæddu liðsmenn fóru nú að endurnæra sig á mat og drykk og Keller lét skenkja þeim dýrmætt vín til hressingar. Jungfrú Regína hafði flúið niður í herbergi sín og Friðrik greifi var genginn til hvílu. Bráðum heyrðist hvergi annað hljóð í kastalanum en kall varðmannanna þegar þeir skiptust um vörðinn, og þar saman við ómur af klúrum kviðlingum, sem drukknir dátar voru að syngja, eða ómur frá veizlunni, sem Keller hélt fyrirliðum sínum í vopnasalnum. En í hinni skrautlegu hallarkapellu uppi á sjálfu háaltarinu stóðu gull-líkneski Maríu meyjar og frelsarans, en postulanna þar utar frá úr silfri. Óttusöngurinn var á enda og munkarnir höfðu gengið sumir til sængur, en sumir til vínbikaranna. Einungis einn var enn þá á ferli og kraup nú við altarið, og frá lampanum, sem aldrei slokknaði, lagði bjarma á hið náföla andlit Jesúmunksins. „Heilaga mær“, mælti hann biðjandi, „fyrirgef þú þínum þræli, að hann dirfist að útrétta sína hönd og ræna skrúðafaldi þinnar gullnu skikkju. Ó, sanktissima, þú veizt, að það er gert í góðum og helgum tilgangi, til þess að fella svarinn óvin heilagrar kirkju, hinn mikla villukonung, sem hinir heiðnu Finnar hafa með guðlausum göldrum brynjað móti sverðum og kúlum rétt-trúnaðarmanna. Virstu nú að láta gull það, er ég klippi nú af kápu þinnar dýrðar, verða þér sjálfri til vegsemdar og gegnum smjúga hið sauruga hjarta villukonungsins; skal ég því heita þér, heilaga María, að gefa þér í þess stað, sem þú nú lætur, dýran skrúða úr flaueli og ekta perlum og láta nótt og nýtan dag logagyllt vaxkerti loga frammi fyrir mynd þinni. Amen!“ Þegar séra Híerónýmus hafði lokið þessari bæn sinni, leit hann upp skjálfandi og sýndist honum ekki betur en að myndin, sem skein móti lampanum, kinkaði kolli sem heyrði María þessa blindninnar bænagerð. 4. Jungfrú Regína vinnur eiðinn Næsti dagur eftir það, sem nú var frá sagt, var heitur og mannskæður. Svíar skutu á kastalann með mesta ákafa og grófu ganggrafir allt undir veggi hans. En hins vegar vörðust keisarans menn hraustlega. Hver stundin var hvorum tveggja dýr; innan fárra daga myndi Tillý vera kominn að baki Gústafs, Svíaher til beinustu eyðileggingar, en bráðrar bjargar hinum umsetnu mönnum. Jungfrú Regína og þernur hennar voru nú inniluktar í höllinni og höfðu nú útsýni miklu verra. En því meira höfðu þær að starfa. Sí og æ óx fjöldi sárra manna, er annast þurfti. Hin unga mær gekk eins og góður engill frá einum beði til annars í hinum mikla vopnasal, þar sem hinir sáru fengu rúm. Hönd hennar hellti viðsmjöri í sár þeirra, og hennar mildu orð veittu huggun hverju hjarta. Hún talaði um hið helga málefni, sem þeim blæddi fyrir; hún hét þeim, sem yrðu á lífi, gulli og gæfu, en hinum, sem féllu, eilífri sælu. Skotþruman hristi hinn forna kastala, svo var hún áköf. Jungfrú Regínu kom það í hug, að hún hefði gleymt talnabandi sínu uppi í turninum, því að þess þurfti hún nú við bænalestur hinna særðu. Hún var komin út á þröskuld vopnasalsins, en í því varð svo mikill brestur, að kastalinn allur frá grunni skalf og titraði. Hún fölnaði upp af ótta og nam staðar, en í því stökk inn greifinn af Lichtenstein. „Hvað gekk á?“ spurði jungfrúin. „Þakkið þér dýrlingunum, jungfrú, að þér fylgduð heilræði vinar yðar. Turninn er hruninn!“ „Og nú er úti um oss?“ „Ekki enn. Svíar gerðu ráð fyrir, að kastaladíkið myndi fyllast, þegar turninn hryndi. En hann hefir hrunið inn á við. Fjandmenn vorir virðast vilja storma[* [** öfugt c tákn]: hlaupa á vegg eða vígi með höggorustu.]. Gakk hingað að glugganum; héðan sjáum við hallarmúrinn. Lítið á séra Híerónýmus! Hann liggur þar á knjám við miklu fallbyssuna. Ég skal veðja um að hann hefir fengið Svíakonunginn í færi“. Greifinn hafði getið rétt. Jesúítinn hvessti hauksnör augun á sama depilinn, og hinar þunnu varir hans voru sí og æ að tauta sömu bænirnar. Njósnaraugu hans höfðu aftur þekkt konunginn, þar sem hann sat á hesti eins og hinn fyrra dag við hlið Braha; voru þeir nú við yzta vígið. Malarbarð eitt hlífði þeim við smáskotum, en það var ónýtt vígi fyrir stórskotum. Séra Híerónýmus reiddi sig nú á blýkúlu þá hina miklu, er hann hafði steypt utanum gullið af skikkju Maríu meyjar. Hann laut niður til að laga byssuna, augasteinar hans urpust saman, en nasirnar flenntust af heiftarhug og bænirnar féllu í boðaföllum af vörum hans — nú rétti hann úr sér skyndilega, sveiflaði tundrinu í kross og hleypti af. Glóð og reykur brauzt út úr fallstykkinu. Heift og hamfarir! Þegar reykurinn sveif frá, sáust riddararnir heilir á húfi hopa til hliðar. En það eina sinni hafði Gústaf Adólf átt lítið eftir, því kúlan kom á malarbarðið hjá honum og huldi hann allan og félaga hans þykku rykskýi. Jesúmunkurinn flýtti sér niður af múrnum, úrvinda og í illu skapi. „Bíð þú, Belíals kóngur!“ tautaði hann við sjálfan sig. „Eitthvað annað sinn tekst mér að stela hringnum, sem hlífir þér, og vei þér þá!“ [052.png] Nú skipaði konungur að storma skyldi útvígi kastalans. Þeir Axel Lilja, Axel Ramsay og Hamilton sóttu fram með sínar sveitir. Þar voru ótrúlegar torfærur fyrir. Þeir urðu að klifra upp hamarinn í kúlnahríðinni, stökkva síðan yfir díkið og klifra loks upp virkisvegginn. Fremstir allra óðu fram Austurbotnsmenn og Skotarnir; hélt þar ekki við er þeir fóru. Sáu menn þá, er fremstir gengu, falla með sprengd eða klofin höfuðin, en hina næstu klifra yfir þá með sverð sín milli tannanna. Konungur sjálfur reið svo nærri sem hann mátti, til þess að eggja fram menn sína. Byssukúla reif sundur leðurhanzka á hendi hans, en særði hann ekki. Því trúði alþýða, að Gústaf Adólf biti hvorki járn eða blý. Eftir tveggja stunda skæða hríð höfðu Skotar og Finnar náð vígjunum, en hinir hopuðu inn í kastalann. Þá var síðari hluti dags um fjórðu stund. Eftir þennan sigur tóku Svíar sér fáeinna tíma hvíld. Var þá haldin ráðstefna, og ákveðið að næsta morgun skyldi hin fræga bláa og gula herdeild storma höllina. Austurbotnsmenn voru til kjörnir af konungi að ganga fremstir í þessa raun, en Skotar, sem misst höfðu fjölda liðs, skyldu þá hvíla sig. Sagan bætir því við, að kappanum Hamilton hafi þótt þessari vorkunnsemi fylgja svo mikil sneypa fyrir sig, að hann hafi þegar í stað beiðzt orlofs og yfirgefið herinn. Hagur kastalans manna var hvergi nærri enn kominn í óvænt efni. Þeir höfðu nálægt þúsund vopnfærra manna og þurftu þeir nú síður að skipta því liði, er tekin voru útvígin. En þeir höfðu misst trúna á sigurinn, og það tjón munaði þá meiru en vígin. Keller reyndi að tala kjark í þá, en það tókst ekki. Ekki stoðaði heldur, að munkarnir gengu í prósessíu eftir veggjunum og báru hið gyllta Maríu-líkneski. Þegar myrkt var orðið, var allt orðið í uppnámi, liðsmenn hlýddu ekki framar skipunum, en sumir þeir, sem deigastir voru, héldu ráð um sín á milli, hversu þeir mætti undan komast og strjúka í myrkrinu. Um miðnætti lá jungfrú Regína á knjánum fyrir altari hallarkirkjunnar og baðst fyrir heitt og hjartnæmilega og hét á líkneski guðsmóðurinnar. „Heilaga María!“ mælti hún, „varðveittu höll þessa, varðveittu þína kaþólsku trú móti trúarvillingunum. En sé það vilji þinn, að þessi borg falli, gott og vel! láttu þá óvini vora og þína verða undir rústum hennar, og allra helzt þennan óguðlega konung og hans illu Finna, þá sem í dag og oftsinnis áður skæðast allra hafa barizt mót þínu heilaga málefni“. „Amen“, sagði rödd, og þegar hún leit upp, sá hún Híerónýmus standa hjá sér. Útlit hans var ískyggilega alvörugefið og gremjuglott lék um hans fölu og þunnu varir. „Veiztu nú, hvers þú beiðist, dóttir sæl“. „Um sigur fyrir kaþólska trú, en dauða fyrir villumennina“. „Þú ert ung og hugur manna og kvenna hverflyndur. Muntu hafa þrek til að hata fjandmann trúar þinnar, enda þótt þú einhverju sinni skyldir unna einhverjum þeirra sem kona?“ „Það á ég, faðir minn, það á ég vissulega“. „Þú ert skriftabarn mitt, og ég vil ekki vita af sál þinni í eilífri glötun. Hefir þú hugrekki til að fórnfæra þér, sakir sigurs hins heilaga málefnis, og ávinna þér um leið lífsins kórónu?“ „Já, faðir minn“. „Nú vel, vittu þá, að kastalinn verður ekki varinn; ég sé það fyrir, að hann fellur í hendur hinna sænsku. Þeir munu gera þig að fanga. Þú ert ung og fríð og munt vinna þokka villukonungsins. Þú skalt neyta þess að komast nærri persónu hans; hann mun ekki gruna þig, og gefi þér þá hin heilaga María færi, skaltu —“. Jesúmunkurinn tók fram silfur-róðukrossinn, brá fingrinum á brjóst myndinni og hljóp þar út morðhnífur svo bjartur og hvass, að af honum lýsti. „Vægð, faðir, þetta hlutverk er hræðilegt“. „Enga vægð! Hin heilaga kirkja heimtar blinda hlýðni. Perinde ac cadaver, eins og nár, sem engan vilja þekkir. Elskar þú guðs móður?“ „Þú veizt, að ég elska hana“. „Sjá þú: þetta stykki af sinni gullnu skikkju hefir hún misst í nótt. Það er jarteikn, sem boðar hennar reiði. Elskar þú einnig mig, dóttir mín?“ „Ég heiðra yður meira en nokkurn annan, faðir!“ „Líttu á þetta limlesta höfuð“, og munkurinn tók af sér skinnhúfuna og beraði stúfana eftir eyrun hin afhöggnu, og var ekki frítt að sjá. „Þannig hafa menn þessa guðlastandi konungs, Finnarnir, leikið vin þinn og skriftaföður. Hikar þú enn við að hefna guðs móður og hefna mín?“ „Hvers beiðist þér af mér, faðir minn?“ „Heyr mig! Villukonungurinn ber á hægra vísifingri lítinn hring úr eiri. Þessi hlutur gætir hans við feigð og fári, og þessum hring skaltu af honum ná leynilega, og finnist þér armleggur þinn of veikur, þá skaltu kalla mig. Við skulum nísta hans hjarta, þótt það sé drekans hreysti brynjað“. „Sé þetta vilji hinna heilögu: þá gott og vel!“ „Legg þú tvo fingur á þennan kross og vinn þann eið, sem ég fyrir les: Ég vinn eið og sver við þennan kross og alla heilaga að gera og framkvæma það, sem ég nú hefi heitið frammi fyrir líkneski hinnar heilögu meyjar Maríu. Og rjúfi ég nokkru sinni eið þennan, þá hvíli bölvanin yfir mér og mínu afkvæmi í sjöunda lið“. „Ég vinn þess eið og sver við þennan kross og alla heilaga að gera og framkvæma það, sem ég nú hefi heitið frammi fyrir líkneski hinnar heilögu meyjar Maríu. Og rjúfi ég nokkru sinni eið þennan, þá hvíli bölvanin yfir mér og mínu afkvæmi í sjöunda lið“. „Fiat voluntas tua, ut in cælis, sic etiam in terra[* Verði þinn vilji, svo á jörðu, sem á himni.] . Amen!“ Og næturkyrrðin innsiglaði þennan voðalega eiðstaf, sem með eirhlekkjum batt óbornar kynslóðir við hvikulan vilja sextán ára gamallar meyjar. Um sama leyti næturinnar söfnuðust saman Austurbotnsmenn og annað lið, er storma skyldi kastalann. Vínkerin gengu milli þeirra, og þó hófsamlegar en endranær, því að árvekni konungsins leyfði enga óforsjálni. Fjöldi manna kom úr ýmsum deildum hersins og beiddi leyfis að mega taka þátt í hinu djarfa fyrirtæki. Allir voru öruggir og væntu bæði fjár og frægðar. Síðastur þessara sjálfboða var ungur maður, hár og bjartur, djarflegur og glaðlegur á svip. „Skruggur og skoteldar! er þú það, Bertíla?“ kallaði hinn lági og gildi Larson, fyrirliði Austurbotnunganna, þegar hinn kom inn. „Eins og þú sérð“, svaraði unglingurinn og greip hönd hans og skók í fyllsta trúnaði. „Nei, nú gengur yfir mig! Pilturinn ætlar ekki að hlífa nýja lautenants-bréfinu sínu. Er það hugur! En ekki get ég að því gert, lagsmaður minn sæll, svei þeim dropanum, sem ég á eftir í flöskunni. En hvað gengur á fyrir þér, hefirðu breytt nafni þínu, Bertel? Hvaða hrærigrautur er það, hvorki sænska né finnska?“ „Það skeði við Breitenfeld“, svaraði Bertel og lá við að roðna, „lagsmenn mínir hafa lengi kallað mig svo, og — það er styttra“. „Það er rugl og hégómi; þú ert ekki of góður að bera bóndanafn, þótt þú sért orðinn fyrirliði“. „Er búið að varpa hlutunum?“ spurði hinn ungi maður, en svaraði ekki hinu. „Nei, þú kemur mátulega til að freista hamingju þinnar“. Það átti að varpa hlutum um yngri fyrirliðana, sem allir höfðu beiðzt þeirrar sæmdar að fá að gera hina fyrstu háskalegu njósnarför. Hjá því varð ekki komizt. — Hlutirnir voru hristir í stálhúfu; fjórtán hendur voru á lofti til að gripa þá, og hinn eini öfundsverði, sem hlaut, var Bertel. „Gáðu nú vel að þér, drengur minn“, sagði Larson. „Skruggur og skothlunkar! Mundu eftir því, að kastalinn er fullur af kristsmunkum. Við hvert fótmál þitt er fallhlemmur, í hverjum róðukrossi er fólginn daggarður, og í sama bili og æpt er siguróp, heyrist hvellur, sem sprengir sigurvegarann í loft upp“. Klukkan var yfir fjögur um morguninn og enn var hálf stund til dags. Bertel fékk sjö menn til forráða og skipun um að rannsaka kastalann, svo nærri sem hægt væri að komast. Á meðan biðu hersveitirnar inni í girðingunni, búnar til taks við fyrstu bendingu. Nóttin var niðdimm. Bertel og hans menn læddust að vindubrúnni og fóru svo varlega, að varðmenn keisarans urðu þeirra ekki varir. En hver vill lýsa undrun hans, er hann fann, að brúin lá kyrr yfir díkið?[* Sumir sagnamenn hafa ritað, að brúnni hefði ekki orðið lyft sökum mannabúka, sem lágu á henni eftir bardagann.] Hann nam staðar í fyrstu sem ráðvilltur, því hann minntist orða Larsons. Skyldi þetta vera veiðisnara? Allt var hljótt. Bertel gekk öruggt en þó hægt og hægt yfir brúna. „Wer da?“ (hver þar?) æpti varðmaður í keisarans liði með þrumurödd. „Sænskir menn!“ svaraði Bertel og klauf þann sem kallaði í heila niður. „Komið, félagar, kastalinn er unninn!“ Hinir sjö þustu yfir á hæla honum. Fyrir innan vindubrúna stóðu 200 hermenn keisaraliðsins á verði. Þeir urðu hremmdir og ráðvilltir og hugðu víst, að allur sænski herinn væri að koma yfir brúna. Þeir freistuðu í skyndi að ná aftur borghliðinu, en hinn hugprúði fyrirliði og menn hans hopuðu hvergi. Það var Bertel til liðs að svo var dimmt í hliðhvelfingunni, að enginn þekkti vin frá óvini, og hittu keisarans menn eins hverjir aðra sem óvini sína, hvar sem þeir hjuggu og stungu. Þröngin varð skjótt svo mikil við hliðið, að engu sverði varð viðkomið til höggs, og munaði litlu að hinir ofurhuguðu aðkomumenn yrðu nístir til bana við vegginn af þunga hinna járnklæddu hermanna, sem að sóttu. En í réttan tíma heyrðist kall þeirra Bertels og vopnagnýrinn út í vígið. Sótti nú allt sænska liðið inn til kastalans. Keller og hans lið bjóst og þegar niður til að verja innganginn. En Finnar voru nú komnir á kreik og sóttu fram; komust þeir og skjótt inn í hallargarðinn. Þeir Keller vörðust eins og óðir væru, og margur hraustur Svíi og Finni féll þar á hádegisstund sigursins. Fall þeirra eggjaði og hvatti aðra fram. Menn tóku að kalla hátt: „Sömu grið og í Magdeborg!“ en það óp þýddi vægðarlausan dauða fyrir hvern og einn keisarans mann. Varð þar hið hroðalegasta mannfall. Margir munkar tróðust inn í þröngina sakir trúarofsans, sumir með blys, en sumir með vopn í höndum. Flestir voru brytjaðir niður, en aðrir köstuðu sér niður sjálfir og létust dauðir vera. Tók nú óðum að birta yfir drápsæði þessu og valköstum. Þá hljóp fram Ljenharður Þorsteinsson (Lennart Thorstenson) og þreif höndum hinn óða Keller, gaf honum grið og bjargaði honum undan æði liðsmannanna. Þeir, sem þá voru á lífi eftir af liði keisarans, köstuðu vopnunum og var þá kastalinn unninn. 5. Júdit og Hólófernis Þegar sólarinnar fyrstu árgeislar léku sér á öldum Main-fljótsins, var kastalinn Maríuborg á valdi Svía. Konungur reið þá inn í hallarforgarðinn, sem fullur var af dauðum mönnum; fundust þar í valnum yfir 20 munkar. Konungi sýndist sem sumir þeirra, sem þar lágu fallnir, væri heldur fjörlegir í kinnum og kallaði hátt: „Standið upp! Ekkert illt skal yður gert verða“. Óðara spruttu þar á fætur margir, er menn hugðu steindauða, heilir og kátir og vottuðu þakkir sínar hinum göfuglynda villukonungi. Kastalinn var unninn með áhlaupi, og varð því að leyfa liðsmönnunum að ræna hann. Fengu menn þar hið mesta ógrynni herfangs í silfri og gulli, vopnum og alls konar góðum gripum. Konungur hélt sjálfur vopnabúrinu, er í var alvæpni 7000 fótgönguliðs og 4000 hestliða, 48 fallbyssur, 4 skothylki, þau er mörsar heita; enn fremur hesthús kastalans með hið bezta gæðingaval, svo og kjallarann, fullan dýrindis víni. Bókhlaðan var send að gjöf Uppsala-háskóla. Dýrlingalíkneskin hlaut ríkisfjárhirzlan. Þótt margir menn í staðnum fengju aftur eignir þær, er þeir höfðu flutt upp í kastalann, varð hlutskipti liðsmannanna svo mikið, að þeir mældu silfrið í höttum sínum. Loksins var Keller neyddur til að segja til fjársjóða biskupsins; fundust þeir undir hvelfingu einni niðri í herbergi því, er lá undir kjallara kastalans. Fryxell, hinn sænski sagnaritari, segir svo frá, að þegar liðsmennirnir voru að bera hin þungu peningaskrín upp úr jarðhúsinu, hafi botninn dottið úr einu þeirra, og gulldalirnir oltið um allt gólfið í forgarðinum. Hlupu þá dátarnir að og tíndi þar hver upp það er hann náði, sendu konungi lítið af yfirvarpi, en stungu mestu gullinu í sína vasa. Gústaf konungur tók eftir því og sagði brosandi: „Sleppum því, piltar; úr því það er nú komið í ykkar hendur, þá eigið þið það“. Svo var herfangið ríkulegt, að varla var nokkur sá liðsmaður til í öllum sænska hernum, að ekki fengi nýjan alklæðnað. Í herbúðunum fékkst heil kýr fyrir eina krónu, en sauður fyrir fáeina aura; og svo segir Salvíus hinn lærði: „Finnarnir okkar hérna eru nú orðnir hagvanir suður í vínlandinu góða, og hverfa víst eigi fyrst um sinn heim í Savólax aftur. Í hernaðinum á Líflandi urðu þeir að sætta sig við vatn og myglað brauð með óljukki, en nú hrærir okkar mörlandi sér kaldan graut í stormhúfu sinni, úr víni og hveitibrauði“. Meðal hinna herteknu var greifinn af Lichtenstein og jungfrú Regína. Skipaði konungur, að þeim báðum skyldi sýnd full virðing og vorkunnsemi; bauð hann jungfrúnni að fara, ef hún vildi, til biskupsins móðurbróður síns og seldi henni full grið. Jungfrúin þáði ekki boðið sakir þess, að vegir allir voru þá svo ótryggir, heldur kaus hún sér að dvelja fyrst um sinn á valdi konungs og undir hans hlífiskildi. Gústaf Adólf leyfði henni það, en þó sagði hann brosandi við markgreifann af Baden, sem reið við hlið hans: „Mér er ekki mikið um slíkt, yngisfrúrnar eru munaðarvara í herbúðum og rugla fánasveina mína í höfðinu. Nú, hún getur fylgt mér til Frankfúrt í gísling, því að með því bind ég hendur á biskupnum“. „Þér kunnið, herra konungur, þá list að taka alla fangaða, það gerir yðar göfuglyndi“, svaraði markgreifinn, sem dável kunni kurteisina. „Lautenant Bertel“, kallaði konungur og sneri sér að ungum fyrirliða, sem kom með finnska riddarasveit rétt á eftir. „Ég fel yður á hendur jungfrú Emmeritz, að þér verndið hana. Hún fær frelsi til að hafa hjá sér eina konu roskna, unga þernu og skriftaföður sinn. Gætið yðar nú, lautenant, að jungfrúin hertaki yður ekki, en umfram allt, hafðu vakandi auga á munkinum, þeim piltum skyldi enginn trúa“. Bertel laut konungi, en þagði. „Enn er eitt“, sagði konungur, „ég hefi ekki gleymt því, að þér voruð fyrsti maðurinn, sem náði inngöngu í kastalann. Þegar þér hafið komið jungfrúnni vel fyrir, mætið þér til þjónustu við lífvörð minn. Hafið þér skilið mig?“ „Já, herra konungur“. „Vel er þá“. Síðan sneri konungur sér að markgreifanum og sagði brosandi: „Það megið þér vita, að ekki hefði verið hættulaust að trúa Svíunum mínum fyrir þessari dökkeygu og fríðu drós, þeir hafa svo heitt blóðið. Þessi piltur er Finni, en þeir eru hinir mestu stillingarmenn sem ég þekki, ónýtir ástamenn; það kviknar ekki í þeim fyrr en eftir heilt ár. Ein smámey getur rekið þá á flótta á dansgólfinu, en þurfi þeir að berjast við hann Pappenheim, þá sæuð þér, herra markgreifi, til hvers þeir duga“. Fram eftir öllu því hausti hélt Gústaf Adólf áfram að vinna hvern sigurinn eftir annan. Tillý hafði orðið of seinn til hjálpar Würtzborg og þorði nú ekki að leggja til orustu, en var orðinn þreyttur á sífelldum smá-ósigrum og dró sig nú undan suður á landamæri Bæjaralands. Gústaf hélt niður með Main, brauzt inn í Aschaffenborg og neyddi hina varkáru borg Frankfúrt til að opna hlið sín. Hinn 6. október náði konungur með valdi yfirför yfir Rínfljótið við Oppenheim, og 9. dag desember brauzt hann inn í borgina Mainz, sem Spánverjinn de Sylva hafði heitstrengt að verja í móti þremur konungum frá Svíþjóð. Höfðu þá Svíar farið herskildi yfir gervallt norður- og vestur-Þýzkaland og lagt allt undir sig og kaus nú sigurvegarinn Frankfúrt fyrir vetraraðsetur sitt. Hér safnaðist utan um hetjuna hin skrautlegasta hirð; hér var það, að smjaðrið vildi fyrir tímann prýða höfuð Gústafs með keisarakórónunni; hingað var það að María drottning Eleónóra þaut á vængjum ástar og eftirlöngunar til þess að umfaðma bónda sinn. Konungur reið á móti henni, og í Hanau, er þau hittust, faðmaði hún hann að sér og sagði: „Loksins er þá Gústaf Adólf hinn mikli fagnaður!“ Einhvern dag í desembermánaðarlok 1631 hélt konungur hirðveizlu mikla til sæmdar drottningu sinni, er þá var nýkomin. Manngrúi mikill hafði flykkzt saman úti fyrir höllinni, en svo ljómuðu ljósin gegn um hina háu og hvelfdu hallarglugga, að allt umhverfis var sem dagsbirta. Vín og munngát stóð þar í fullum ámum handa hverjum, sem hafa vildi, og hrundu þar hverjir öðrum, verkamenn og liðsmenn, kringum hanana á tunnunum og tæmdu ker sín óðara en fyllt voru. Þeir Frankfúrtarmenn réðu sér varla, svo fannst þeim mikið um hinn ágæta konung. Kunni þar hver öðrum að segja dæmi um mildi hans og réttvísi; einn liðsmanna hafði hann látið hengja, er hænu hafði rænt frá einum bæjarmanni; á einum stað hafði hann numið staðar á miðju strætinu og átt viðtal við þá, sem fram hjá gengu. Þóttust þeir nú þekkja skugga hans, þar sem einhver gekk fyrir gluggann, þótt rúðurnar væru smáar, og lék þeim heldur en ekki hugur á að vita, hvort kóróna þýzka ríkisins yrði ekki sett á höfuð hans það sama kveld. Inni í hallarsölunum var allt fullt af konunglegu skrauti og kurteisi. Gústaf Adólf þekkti breyskleikahlið konu sinnar, að hún var skrautgjörn mjög, enda vildi hann þá um leið sýna höfðingjum Þjóðverja hvað hann ætti undir sér. Gólfin voru breidd dýrindis glitábreiðum frá Flandri, en yfir alla gluggana voru undnir upp purpurarauðir flauelsreflar með gulldúskakögri; loftin voru öll stöfuð gullnu rósaverki og héngu niður úr þeim í röðum þungar og stórar ljósakrónur úr silfri með þúsundum vaxkertaljósa. Menn höfðu þá nýlokið einhverjum hinna fornu, hægfara en tignarlegu spænsku dansa, sem hinum líkamaþungu Norðurlandabúum ekki gekk eins fimlega að stíga eins og hinum þýzku og frönsku aðalsmönnum. Konungur hafði boðið konu sinni arm sinn og reikaði með henni um hina ljómandi sali. Hann var bæði hár og þrekvaxinn, útlit hans og framganga bæði tíguleg og óbrotin, og vakti því jafnt lotning manna sem þokka. Þótti hann nú enn þá hærri og karlmannlegri, þar sem hann gekk við hlið hinnar grönnu og smávöxnu drottningar sinnar, sem studdi sig við armlegg hans með innilegri hollustu-tryggð. María drottning hafði þá tvo um þrítugt og hafði enn þá haldið hinu mesta af fríðleik sínum, sem svo mörgum hafði fundizt mikið til um á æskuskeiði hennar. Hún hafði svart hár í lokkum og var þeim brugðið upp yfir hinum björtu gagnaugum hennar, en á höfði hennar skein gulldjásn mikið, er konungur hafði þá nýgefið henni, og var það furðu dýrmæt gersemi. Hún gat varla haft hin fögru og bláu augu sín annars staðar en á konunginum, svo var ást hennar og aðdáun mikil; þótti og svo sem hún gleymdi sjálfri sér til þess að geta tekið fullan þátt í tilbeiðslu annarra á manni hennar. Á eftir þeim fylgdi flest, sem þá var til á Þýzkalandi af frægð og ágæti, og Lúthers sið fylgdi. Þar mátti sjá Friðrik fyrrum Bæheimskonung, hertogana af Weimar og Würtembergi, landgreifann af Hessen, markgreifann af Baden-Durlach, greifana af Wetterau og aðra ágæta höfðingja og riddara; þar voru ekki færri en 12 sendiherrar útlendra hirða, sem dregizt höfðu að þessum ógnarbíldi allrar Norðurálfunnar. Af konungsins eigin mönnum voru þeir Tott, Banér og Gústaf Horn annars staðar í þjónustu ófriðarins, en við hlið Gústafs konungs mátti sjá mann, mikinn eins og hann, einnig að ytri sjón, spekinginn og snillinginn Axel Oxenstjerna, og fyrir aftan hann annan, fölleitan og skarpleitan mann, grannleitan og hægan í fari, en með hauksnörum hershöfðingja augum. Það var Ljenharður Þorsteinsson; þar var enn hinn ríkiláti Finni, Wittenberg, sem þá var lautenantofursti, margir sænsku foringjarnir hinir, og flestir hinir finnsku. Stálhanzki, Rúth, Forbus og fl. þrifust ekki vel í viðhöfn hallarsalanna meðal hinna hávelbornu aðalsherra; þótti hinir hæversku hirðsiðir allófrjálslegir þessum harðvígu görpum, og höfðu þeir því snemma dregist aftur úr og héldu til í minni sölum, en nóg höfðu þeir til hressingar, því hirðsveinar í flauelskyrtlum gullsaumuðum skenktu þeim hið skírasta rínarvín í silfurkerum. Með þessu skrautlega fjölmenni má enn fremur telja staðarins ráðherra í Frankfúrt og fjölda ríkismanna úr borginni með frúm þeirra og dætrum, svo og margar hefðarkonur aðrar, frá hertogafrúnni til ráðherrahúsfreyjanna, er lítið minna létu til sín taka. Þar mátti og jafnvel sjá fáeina kaþólska yfirklerka; þeir voru allir með krúnur og því allir auðkenndir; vildi konungur í verki eins og í orði kunngera trúfrelsi, og þótt prestahöfðingjarnir þættust þar illa komnir og sér vera ofaukið, þótti þeim óráð að halda sig fjarri, úr því þeim hafði verið boðið. Hálfu meira ljómaði öll þessi viðhafnardýrð sakir þess skrauts og sundurgerðar í klæðaburði, sem þá tíðkaðist, en sem menn varla geta hugsað sér nú. Konungur sjálfur bar óbrotinn búning, nærskorinn úr dökku flaueli með silfurreimum; hann hafði á herðum spánskan stuttfeld úr hvítu silki, er drottningin sjálf hafði faldað og prýtt; hann bar stutt stígvél úr gulu leðri og brotin niður; hann bar breiða fellinga-kragann, er lagðist niður um háls og brjóst svo sem sést á myndum hans, og sama er að segja um snögga hárið og granaskegg hans og hökutoppinn. Búningur hans skrautgjörnu drottningar var skrautofinn allur og alsettur gimsteinum, mittið sat hátt og handleggir berir til miðs; jafnvel á silkiskóm hennar blikuðu dýrir steinar. Aðrar hinar tignustu frúr höfðu og prýtt sig og útflúrað eins og til kapps við drottninguna. Sást þar alls konar guðvefur, ofinn og gerður úr gulli og silfri, silki eða flaueli, og nóg af hinum dýru Brabantsknipplingum; sérstaklega voru hinar góðu frúr undrunarlega hneigðar fyrir að prýða sig utan með silkiböndum alla vega litum, skrúðknútum, lindum, dúskum og dindlum, sem léku í loftvaranum með öllum litum regnbogans. Furstar og riddarar báru ýmist víða þýzka búninga eða þrengri spænska, og á höttum sínum, sem þeir héldu á undir handkrika sér, höfðu þeir fjaðradúska mikla, og loks komu sveinar höfðingjanna, alskrýddir silfri og flaueli, og er þá gefið sýnishorn þess tíma, þegar menn enn ekki þekktu einkennisbúning (úniform). Ekki skorti að smjaðrið og aðdáunin hefði til taks sitt reykelsisoffur, hvert sem konungurinn sneri sér. „Herra“, sagði hinn blíðmálgi Bæheimskonungur, „yðar hátign verður ekki jafnað við nokkurn annan en Alexander frá Makedóníu“. „Nei, frændi góður“, svaraði Gústaf hlæjandi, „þér ætlið þó víst ekki að jafna saman hinum góða stað Frankfúrt og Babýlon?“ „Nei, yðar hátign“, svaraði franski sendiherrann Brezé, sem gekk við hlið hans, „hátignin frá Bæheimi vill einungis samanjafna Rín og Granícus, og vonar, að Hyphasis hins nýja Alexanders mikla fái að liggja hinum megin við landamæri Bæheims“. „Brezé greifi“, mælti konungur og vék að öðru efni, „játið þér, að vorar norrænu fegurðir, og eins yðar frönsku, hafi verið sigraðar í dag af einni þýzkri?“ „Herra, ég samþykki yðar skoðun, að hennar hátign drottningin þurfi ekki á sínum öfundsverða stað við hlið yðar að halda til þess að vinna sigur“, sagði hinn há-kurteisi Fransmaður. „Húsfreyja mín mun verða yður þakklát fyrir lofyrði yðar, kæri sendiherra, en hún afsalar sér forrétti þeim, sem æskunni tilheyrir, sem sé jungfrúnni af Emmeritz“. „Yðar hátign elur upp í oss þjóðarmetnaðinn svo úr hófi keyrir“, sagði hertoginn af Wittenberg og hneigði sig. „Fegurðin er allra landa dóttir, herra hertogi; en í sannleika var það kostulegt herfang, sem liðsmenn mínir náðu í Würtzborg“. Konungur nálgaðist nú jungfrú Regínu; bar enn meira á hennar ljómandi fríðleik fyrir það, að búningur hennar var fremur nærskorinn; var hann úr svörtu flauelsilki og alsettur hálfdaufum silfurstjörnum. „Jungfrú“, mælti hann vinsamlega, „ég teldi mig gæfumann, ef sorgarbúningur sá, er þér berið, skýldi því hjarta, sem gæti gleymt allri mæðu og mannraunum, en lifað í voninni um glaðari daga, þegar stríð og styrjöld fælir ekki framar roðann af yðar fögru kinnum. Trúið mér, jungfrú, sá tími kemur, og ég þrái komu hans af öllu hjarta eins og þér, og látið nú þá von mína leiða gleðina fram á þær varir, sem ættu að vera hennar sífelldi aðsetursstaður“. „Við hlið yðar hátignar gleyma menn öllu“, svaraði jungfrú Regína, um leið og hún stóð upp með lotningu úr hinum purpurarauða hægindastól, er hún sat á. En vangar hennar urðu þó enn fölari við þessi orð og vottuðu allt of berlega, að hún mundi vel eftir sínu umliðna og yfirstandandi ófrelsi. „Líður yður ekki vel, jungfrú?“ „Fullkomlega vel, yðar hátign“. „Máski hafið þér yfir einhverju að kvarta? Trúið mér alveg eins og vini“. „Yðar hátign, þér eruð svo góður —“. Regína átti í stríði við sjálfa sig. Loksins bætti hún við með niðurlútu bragði: „góðleiki yðar hátignar meinar mér nokkurs að æskja“. „Við sjáumst aftur“. Jungfrúin reikaði út í gluggaskot í næsta herbergi og brast í grát. „Heilaga María“, mælti hún; „fyrirgef þú mér, að þú átt ekki einsömul hjarta mitt. Þú, sem þekkir alla mína önd og sál, þú veizt, að ég hefi ekki kraft til að hatast við þennan villukonung, eins og þú heimtar af mér. Hann er svo stór, svo fríður! Vei mér, að ég skuli skjálfa þegar ég hugsa um það heilaga verk, sem þú hefir fyrir mig lagt“. „Vertu hughraust, dóttir!“ kom hljóð úr horni ekki langt frá, því að baki hennar stóð hennar sama fylgja, hinn föli munkur. „Tíminn nálgast“, sagði hann í lágum hljóðum. „Hinn góðlegi konungur er ástfanginn í fegurð þinni. Gleðstu, barnkind, því að hin heilaga hefir vígt hann glötuninni, á þessari nóttu skal hann deyja!“ „Æ, faðir minn, hvað heimtið þér af mér?“ „Heyr mig, dóttir! Þegar Hólófernes, höfðingi Assýra, sat um borgina Betúlín, bjó þar ekkja ein, er hét Júdit Meranídóttir, fríð eins og þú, barn mitt, guðhrædd sem þú. Hún fastaði þrjá daga og gekk svo út og fann náð fyrir augum óvinar fólks síns og sinnar trúar. Og hinir heilögu gáfu hans líf í hennar hönd, hún dró hans sverð, hjó höfuð hans af honum og frelsaði sína þjóð“. „Vægð, faðir minn!“ „Það var henni reiknað til ævarandi heiðurs og eilífrar sáluhjálpar, og nafn hennar var nefnt meðal hina æðstu í Ísrael. Eins mun þitt nafn á síðan verða talið, dóttir mín, meðal blessaðra dýrlinga heilagrar kirkju. Vit þú, að í fyrri nótt stóð við hvílu mína hinn heilagi Fransiskus og sagði: „Tíminn er kominn, gakk til Júditar og seg henni, að ég ætli að gefa höfuð Hólófernesar í hennar hönd“. „Hvað skal ég gera, faðir?“ „Gæt vandlega að hversu þér ber að fara. Nú þegar í kveld skalt þú biðja konung um launfund við þig“. „Ómögulegt“. „Þú skalt birta honum upplogin launráð gegn lífi hans. Þú skalt komast yfir hring hans. Náir þú honum, mun ég verða þér nærstaddur og hjálpa þér. En vilji hann ekki selja þér hringinn, skaltu — taka við bréfi þessu, í því er ólyfjan, sem hrífur. Hinn heilagi Fransiskus gaf mér það sjálfur. Lát þú það í næturdrykk konungsins“. Regína tók við hinu skæða bréfi, studdi sitt lokkaða höfuð upp við gluggaskotið og var sem hún heyrði eggjunarorð munksins. Spáný hugsun hafði hlaupið í hennar brennandi sál og var nú fyrir henni að skýrast. Munkurinn misskildi hana, hugsaði, að þögn hennar væri vottur um hlýðni við hans blinda vilja og kæmi af fögnuði yfir heilagleikans kórónu, sem henni stæði til boða. „Hefir þú skilið mig, dóttir?“ „Já, faðir minn“. „Viltu þá nú þegar í kveld biðja konunginn að eiga fund við þig?“ „Já, faðir minn“. „Benedicta, ter benedicta! Þríblessuð sértu, útvalda verkfæri, gakk til þinnar himnesku sælu!“ Að svo mæltu hvarf munkurinn í þrönginni. Hin mikla stundaklukka í krýningarsalnum sýndi miðnætti. Þegar hún sló tólf, ultu inn í salinn tvö feikilega mikil borð, hlaðin silfurbúnaði, og var sá umbúnaður eftir meistara í Nürnberg; komu þau eins og upp úr gólfinu. Síðan gaf siðameistarinn merki og nam þá konungur og drottning staðar frammi fyrir tveimur purpurarauðum hásætisstólum fyrir miðju efra borðinu, og skipuðu gestirnir sér síðan við borðin eftir því sem til sagði tign og virðing hvers um sig. Einn af hinum vígðu hörðingjum las borðbæn með hárri röddu, og hóf þá konungur að syngja lítinn sálm, og tóku aðrir undir og sungu vel. Varð nú allmikill ys og þys er menn settust niður, og fylgdu menn því frjálslegar hinum föstu reglum sem lengra leið á borðhaldið. Réttirnir voru bæði margir og góðir. Hafði Richelieu sent Gústafi franskan matgerðarmann, en með því konungur var lítill sælkeri, notaði hann sendisvein þann til lítils annars en að tilbúa stássrétti við stórveizlur eins og þessa; vera má og að hann tryði ekki betur en vel gjöf kardinálans, því mælt var það, að miðdegisveizlur hjá Richelieu væri litlu miður ísjárverðar en veizlurnar hjá Borgíunum forðum[* Cesare Borgía og aðrir frændur Alexanders páfa hins 6. voru alræmdir eiturbyrlarar.]. Auk þess þótti þá á tímum matgerðarlist Þjóðverja og Hollendinga vera fullkomnari en Frakka. Mesta prýði þessa borðhalds var steiktur villigöltur í heilu líki, skreyttur litblómstrum og lárberjum, svo og bakara-listaverk mikið, er bakararnir í Frankfúrt höfðu gefið, og táknaði sigurför rómverks keisara. Efst á kráskökunni gnæfði sigurvegarinn, spannarhár, og þóttust menn þar þekkja svip Gústafs Adólfs, og skiptust menn þar mörgum spaugsyrðum er hver þóttist þekkja annars svip á brauðmyndunum af hinum rómversku köppum. Drottningu var ætlað að leggja fyrstri sína smágervu hönd á þetta bakara-listarinnar furðuverk, og lagði hún brosandi aftasta fangann í sigurförinni á disk sinn, en konungur, sem ekki var við hjátrú kenndur og venjulega hafði góða matarlyst, er tími var nógur, lagði allómjúka hermannshönd á sjálfan sigurvegarann og stýfði hann drjúgum á disk sinn. Nú stóðu og silfurkerin ekki lengur tóm, heldur sífull af hinu dýrasta Rínar- og Spánar-víni; drakk konungur fyrstur minni drottningar, en síðan fylgdu aðrir hans dæmi; fylltu kerin óðara aftur hirðsveinar og jungherrar, er þar stóðu í glæstum röðum, einn bak við hvern stól hins efra borðs, en einn við hverja tvo við hið neðra. Konungur drakk heillaminni Frankfúrtarmanna, og stóð þegar eftir það upp frá borðum og bauð drottningu arm sinn og gekk upp til herbergja sinna. Gústaf konungur var hófsmaður mikill eins og hermanni sómdi. Hann sat skamma stund yfir borðum, en ef svo bar undir og fögnuður var á ferðum, sat hann þó stundum lengur að borði. En ekki heimti hann, að aðrir menn fylgdu sinni venju, heldur bað hann jafnan einhvern vildarmann sinn að vera eftir í sinn stað, þegar hann færi burt. Í þetta sinn hlaut þann heiður hinn káti gamli Skoti Patrik Ruthwen og leysti hann þann starfa af hendi með reyndum dugnaði. Oxenstjerna hafði kvatt veizlusalinn með konungi. Allar frúr gengu þá og einnig burt, en karlmenn sátu kyrrir og skemmtu sér við vínið og hnetur þær, er fram voru bornar í silfurskálum; voru nokkrar þeirra úr steinum og svo líkar hinum lifandi, að þær þekktust varla; er frá þeim tímum máltækið komið, að það sé „hörð hnot að brjóta“. Annars voru hetjur þrjátíu ára ófriðarins hinir mestu drykkjumenn; skyldi þá hver riddari tæma stórt ker af Rínarvíni í einu erindi, og þótti minna en meðalmanns verk. En í þetta sinn var þó samdrykkjan hóflegri en oftlega endranær; þekktu menn hina ströngu reglufestu konungsins og sáu því sjaldnar til botnsins á bikurunum en þeir ella hefðu gert. Þó sátu menn langt á nótt fram og nokkrir ofurstanna buðu hver öðrum að bragða dýrindi eitt, nýkomið frá Hollandi, svart á lit og snúið í þvengi; það var í smáöskjum, sem gengu í millum manna og bitu menn í; grettu þá sumir sig og hræktu frá sér jafnhraðan bitanum, en aðrir höfðu þetta uppi í sér og féllst vel á. Þessi krás var — eins og lesarinn sjálfsagt er búinn að geta til — tóbak. Meðan bikararnir voru á lofti í krýningarsalnum, hafði drottningin gengið til hvílu og með henni herbergisfrúr hennar, en konungur var þá enn nokkra stund á ferli og talaði við Oxenstjerna. Hvað þessir tveir miklu andans menn töluðu um, hershöfðinginn og spekingurinn, má fremur ímynda sér en frá segja. Má vera, að það hafi verið um féleysi Svíþjóðar, um keisarans ríki og guðs, um sigur ljóssins, um kórónu hins rómverska ríkis og um tilkomandi þýzkt prótestanta-keistaradæmi. Það veit enginn með vissu, því eftir dauða konungs fóru ráðagerðir hans í gröfina með Oxenstjerna. Það var nú liðið langt fram á nótt og vildi Oxenstjerna burtu ganga, en þá kom inn fyrirliði sá er vörð hélt, en það var Bertel, og kvað konu eina með blæju fyrir andliti beiðast þess ákaflega, að hún næði konungs fundi. Þetta þótti bæði konungi kynlegt og vildarmanni hans, er svo framorðið var orðið, en þar hann grunaði, að þar væri mikið launungarmál á seiði, skipaði konungur Bertel að leiða skyldi konuna inn til sín og bað Oxenstjerna að bíða þar inni. Bertel fór og kom þegar aftur með dökkklædda konu með andlitsskýlu; hún var hávaxin og grönn. Var sem henni yrði bilt er hún sá að konungur var ekki einsamall. Hún þagði og mælti ekki orð. „Frú!“ sagði konungur byrstur, því honum var ekki um næturkomur kvenna, er valdið gátu málæði við hirðina, og máski vakið ástagrunsemi drottningar. „Frú, koma yðar á þessum tíma hlýtur að eiga töluvert tilefni, og vil ég fá að vita hver þér eruð“. Konan þagði enn. Konungur þóttist skilja orsökina til þagnar hennar og mælti um leið og hann benti á Oxenstjerna: „Þetta er ríkiskanslarinn Oxenstjerna, vinur minn; ég held engum málum leyndum fyrir honum“. Hin dökkklædda kona varpaði sér niður fyrir fætur konungi og dró frá andliti sínu blæjuna. Konungi varð bilt við er hann sá, að þar var komin jungfrú Regína af Emmeritz, með eld í augum af innri loga, en fannhvít í sinni fríðu, hreinu ásjónu. „Standið upp, jungfrú“, sagði Gústaf Adólf blíðlega, rétti henni höndina og reisti hana á fætur. „Hvað kemur yður á minn fund á þessum tíma? Segið mér, ég bið yður, hvað yður liggur þungt á hjarta; gerið það, þér heyrið, að ég bið yður þess sjálfur“. Jungfrú Regína varpaði öndinni og hóf mál sitt með rómi, sem varla var heyranlegur, en sem hennar brennandi ákafi gerði fljótt fullan og snjallan: „Yðar hátign, ég kem til yðar fyrir þá sök, að ég hefi hatað yður, fyrir þá sök, að ég hefi langa lengi á hverjum einasta degi beðið þess hina heilögu Maríu, að hún skyldi tortíma yður og öllum yðar her. Yðar hátign, ég er veik kona, en rétttrúuð kaþólsk manneskja; þér hafið ofsótt vora kirkju, látið ræna vor klaustur, burtflæma vora helgu feður og niðurbræða heilög líkneski; þér hafið fellt vorar hersveitir og unnið oss óbætanlegan skaða. Fyrir þá sök hefi ég svarið þess dýran eið að ráða yður af dögum, hefi reitt mig á aðstoð hinnar heilögu meyjar og fylgt yður hingað frá Würtzborg með þeirri ætlan að ná lífi yðar“. Konungur renndi auga til Oxenstjerna, sem honum léki efi á, hvort mær þessi væri með fullu viti sínu. Jungfrú Regína tók eftir því og hélt áfram, æ stoltari og einbeittari í bragði: „Herra, þér ætlið mig örvita, þar sem ég dirfist slíkt að tala við sigurvegarann yfir Þýzkalandi. En heyrið mig til loka. Þegar ég sá yður fyrst í Würtzborgarkastalanum, sá hvernig þér sýnduð mannást og mildi við hina veiku og gáfuð hinum yfirunnu grið, þá sagði ég við sjálfa mig: Þarna er helvíti að hræsna og gera sér upp himinsins líknsemi. En þegar ég fylgdi yður hingað og kynntist yður betur og sá yðar sönnu stórmennsku og bar hana saman við mikilmennsku yðar sem hetju — herra, þá veiklaðist ég í áformi mínu; hatrið varð mér of erfitt og ég átti í stríði við sjálfa mig, og nú í kveld hefir manngæzka yðar niðurbrotið ásetning minn, sem áður var ósveigjanlegur. Herra, nú elska ég yður, eins og ég áður hataði yður — ég heiðra, ég dáist að yður“. Og ungmærin skaut niður augunum. „Nú?“ sagði konungur hrærður og hikandi. „Yðar hátign, ég hefi nú gert þessa játning fyrir þá sök, að þér eruð svo góður og göfuglyndur, að þér misskiljið hana ekki. En ekki er ég kominn á yðar fund á þessum tíma þess erindis einungis að birta yður tilfinningar ógæfusamrar stúlku. Ég er komin til að frelsa yður, herra —“. „Segið mér!“ „Heyrið mig, herra konungur. Ég er nú vopnlaus, en aðrir eru eftir hættulegri en ég er. Sex Jesúmunkar hafa svarið dýran eið að taka yður af lífi. Ó, þér vitið ekki hvað slíkir menn geta komizt! Þeir hafa varpað hlutkesti um líf yðar, og hin voðalegustu meðul þeirra eru daglega nærri persónu yðar. Yðar hátign mun ekki komast undan þeim. Í dag eða á morgun nær yður, ef til vill, morðhnífurinn eða eitrið. Dauðinn er yður ráðinn“. „Líf mitt stendur í guðs hendi, en ekki auvirðilegra morðingja“, svaraði Gústaf Adólf stillilega. „Hinir illu eiga minna vald en vilja. Verið róleg, jungfrú af Emmeritz, vitið ég hræðist þá ekki“. „Nei, herra, dýrlingarnir hafa dæmt yður til dauða. Ég veit, að þér setjið traust yðar á þennan hring“ — og Regína tók um hönd konungi — „en hann mun ekki frelsa yður. Herra, ég segi yður fyrir satt, að dauðinn er yður vís, og ég er ekki komin til að frelsa yðar líf með því að svíkja málefni vorrar heilögu kirkju“. „Og fyrir hverja sök standið þér þá hér?“ „Herra, ég er komin til að frelsa yðar sál. Ég get ekki þolað að hugsa, að hetja eins og þér eruð, svo hágöfug hetja, verði eilíflega glötuð. Heyrið mig, ég bið yður, ég særi yðar hátign við yðar eilífu sáluhjálp að ana ekki fram með dauðann beint fyrir augum í trúarvillu yðar, hverrar ávöxtur er fyrirdæming. Látið yðar segjast; snúið yður meðan enn er tími til, hverfið aftur í skaut hinnar einu sáluhjálplegu kaþólsku kirkju; afneitið með eiði yðar villutrú; farið á fund hins heilaga föður í Rómaborg, látið hann skrifta yður og beitið svo yðar sigursælu vopnum móti óvinum kirkjunnar, en ekki henni til eyðileggingar. Hún mun taka á móti yður með útbreiddum faðmi, og hvort heldur þér síðan lifið eða deyið, mun yðar hátign jafnan mega vera viss um yðar sæti meðal hinna útvöldu dýrlinga á himnum“. Konungur reisti nú annað sinn upp hina dreymandi yngismey, horfði stillt og fast í hennar tindrandi augu og mælti síðan alvarlega: „Þá er ég var ungur eins og þér eruð, jungfrú af Emmeritz, upp ól mig kennari minn, Skytta gamli, til sama brennandi vandlætis sakir hinnar evangelisku trúar, eins og þér berið sakir hinnar kaþólsku. Ég hataði í þá daga páfann af allri minni sál, eins og þér hatið Lúther, og ég bað til guðs að sá dagur mætti koma, að ég steypti antikristinum og sneri öllum hans játendum til hins sanna ljóss. Ég hefi ekki skipt um sannfæring síðan þá; en hitt hefi ég lært, að vegirnir eru margs konar þótt andinn sé einn. Ég held fastlega við trú mína, hina evangelisku, og er reiðubúinn að láta lífið á vígvellinum fyrir hennar sakir, ef það er guðs vilji. En ég virði kristins manns trú, enda þótt ólík kunni að vera minni eiginni að einhverju leyti, og ég veit, að guðs miskunnsemi megnar að leiða sálir til lífsins, enda þótt fullt sé af hættum og villum á veginum. Farið nú, jungfrú af Emmeritz; ég fyrirgef yður, að þér fylgið æsingum munkanna og leitizt við að leiða drottins hermann frá bardaga hans fyrir ljósið. Farið í friði, barn mitt, og látið guðs orð og lífsreynsluna kenna yður að treysta ekki dýrlingum, sem þó eru ekki nema syndarar eins og vér, né líkneskjum og hringum, sem ekki megna að leysa oss undan dómi hins æðsta. Ég þakka yður, því þér hafið viljað vel, enda þótt þér væruð leiddar af bernskulegri fávizku. Fyrir mínu lífi megið þér vera ókvíðnar; það er í hans hendi, sem veit til hvers hann ætlar mig“. Gústaf konungur var stórmenni, þegar hann talaði þessi orð. Jungfrú Regína stóð nú þar niðurlægð og upphafin í senn af konungsins frábæra umburðarlyndi. Ef til vill kom henni þá í hug svar hans til bæjarmanna í Frankfúrt, er þeir beiddust að mega sitja hlutlausir hjá ófriðnum. „Afskiptaleysi“, kvað hann, „er orð, sem mér alls ekki líkar, sízt í baráttunni milli frelsis og áþjánar“. Hún var alin upp í hatri við annarra trú og gat því ekki skilið í því, hvernig unnt væri að sama sverðið, sem steypti kirkjunnar veraldlega valdi, gæti vægt til og beygt sinn odd gagnvart hennar andlegu yfirráðum yfir hjörtum og samvizkum. Hin tilfinningasjúka stúlka leit tárvotum augum upp á konunginn – þá fölnuðu kinnar hennar, sem rétt áður loguðu allar af andans ákefð, og augu hennar störðu í dauðans ógn og angist á hið purpurarauða tjald fyrir konungssænginni. Oxenstjerna tók óðara eftir hennar skelfda augnaráði, enda hafði hann fylgt frá upphafi hverri hreyfingu hennar með mun meiri grunsemi en konungur. „Yðar hátign“, sagði hann á sænsku; „lítið vel í kring um yður, því að hér er eitthvað illt á seiði“. Og án þess að bíða eftir svari, dró hann sverð sitt og gekk rakleitt að sænginni, sem var kostuleg gjöf borgaranna í Frankfúrt, og hafði þó hetjukonungurinn skipt dúnsængunum fyrir hrosshársdýnur og snarpa ábreiðu úr saxneskri ull, sama kyns og hermenn hans höfðu í vetrarherbúðunum. „Kyrrt!“ kallaði Regína, því nær ósjálfrátt, en það var um seinan. Oxenstjerna hafði skyndilega dregið til hliðar tjaldið og glórði þá í nábleikt andlit með dimmum glóðaraugum undir síðri skinnhúfu. Nú dró hann betur frá og stóð þar þá heill munkur, sem spennti greipar um róðukross úr silfri. „Kom fram, verðugi pater“, sagði Oxenstjerna í háði. „Svo auvirðileg staða sæmir ekki svo verðugum manni. Yðar verðleikur hefir valið óvenjulegan stað til kveldbænahalds. Ef hans hátign leyfir það, skal ég útvega yður fleiri tilheyrendur“. Hann tók í klukkustreng og jafnskjótt kom Bertel inn með tvo menn úr lífverðinum og lét sinn standa hvorum megin dyranna. Konungur renndi augum til Regínu og lýstu þau fremur sorg en reiði. Honum sárnaði mjög að svo ung og fríð mær skyldi vera í vitorði með svo ljótum fjörráðum. „Grið, yðar hátign, grið handa skriftaföður mínum. Hann er saklaus!“ hrópaði hún grátandi. [071.png] „Leyfir yðar hátign, að ég spyrji í yðar stað fáeinna spurninga?“ spurði Oxenstjerna. „Gerið sem yður bezt líkar, kanslari“, svaraði konungur. „Gott og vel. Hvað hafið þér, séra munkur; hér að sýsla?“ „Að leiða stórsyndara aftur í skaut hinnar einu sáluhjálplegu kirkju“, svaraði hann og sneri upp á við sjáaldrinu í augunum. „Það er rétt! Það má segja, að yðar vandlæti er mikið. Og það mun vera vegna þess háleita ásetnings, að þér berið með yður mynd hins krossfesta frelsara?“ Munkurinn hneigði sig og gerði krossmark fyrir sér. „Þér eruð mjög guðhræddur maður, verðugi herra. Fáið mér krossinn, að ég megi dást að slíkri gersemi“. Munkurinn rétti honum hann nauðugur. „Fallegt smíði! Það hlýtur að hafa verið mikill listamaður, sem þessa helgu mynd hefir smíðað“. Á meðan fór kanslarinn höndum um allan krossinn nákvæmlega. Loks snart hann brjóst myndarinnar og hljóp þá fram hárhvesstur morðhnífur. „Þér kunnið þá líka, séra minn, að leika yður að meinlausu barnaglingri! Þetta er laglegur og laglega brýndur daggarður, ekki illa lagaður til að stinga gegnum hjarta í ágætum konungi! — Mannhrak!“ hélt hann áfram með ógnarrödd, „veizt þú, að níðingsskapur illræðis þíns er hundrað sinnum níðingslegri fyrir það guðlöstunarverkfæri, sem þú hugðist að beita?“ Gústaf Adólf var eins og allir konungar af Vasaættinni verið hafa, bráðlyndur maður í æsku sinni, svo það var oftar en einu sinni, að hann rasaði fyrir ráð fram. Þroskaárin og hin mikla lífsreynsla hans hafði gert hann nokkru stilltari, en þó kom enn fyrir, að Vasablóðið hitnaði um of hjá honum. Svo fór og í þetta sinn. Hann var það stórmenni í lund, að hann horfði með tignarlegum kulda á þessi níðings-fjörráð við sig, þar sem þó fall og viðreisn Þýzkalands voru undir honum einum komin, og hann horfði með rólegri fyrirlitningu niður á hinn opinbera svikara, sem stóð skjálfandi fyrir dómara sínum. En þessi guðlausa aðferð að hafa frelsarans mynd fyrir morðvopn á sig, á þann sem stóð búinn til að leggja lífið í sölurnar fyrir Jesú Krists hreina fagnaðarerindi, það sýndist honum að væri svo hræðilegt blygðunarleysi og guðlast gagnvart öllu því, sem honum þótti heilagt og dýrmætt í tilverunni, að kuldi hans umbreyttist á augabragði í ofsa-reiði. Þar stóð hann risavaxinn, eins og hamfara ljón, andspænis hinum helbleika Jesúíta, sem ekki dirfðist upp að líta fyrir hans brennandi augum. „Á kné!“ æpti konungur með þrumuraust og sló fætinum svo hart í gólfið að söng í hallarveggjunum. Jesúítinn steyptist áfram flatur, eins og eldingu slægi niður, og skreið í dauðans angist að fótum konungs, eins og eiturnaðra hlykkjast fyrir fótum máttugs særingamanns. „Þér nöðrukyn“, sagði konungur í ofsabræði, „hversu lengi ætlið þér að almáttugur guð þoli yðar smán og storkun? Guð veit, að ég hefi séð antikristinn og Rómaborg, séð babýlónsku hóruna drottna yfir veröldinni með öllum myrkranna vélum; ég hefi séð yður, munka og Jesúíta, eitri spúa yfir hrelldar samvizkur, með djöflalærdómi yðar um morð og níðingsverk, sem verandi guði til dýrðar, en ódæði sem þetta, guðlast, sem hrópar hátt gegn öllu hinu helgasta á himni og jörðu, hefi ég allt til þessa aldrei getað ímyndað mér. Ég hefi fyrirgefið yður allt; þér hafið búið mér fjörráð við Demmin og víða annars staðar; þér hafið ætt í gegn hinum saklausu Lúterstrúarmönnum verr en Tyrkir og heiðingjar; hvar sem þér hafið haft yfirráð, hafið þér farið herskildi, svívirt þeirra kirkjur, brennt þá lifandi á villumannabáli, hrakið þá frá húsum og heimilum, og það sem yfir allt tekur, þér hafið reynt að tæla þá með smjaðri og fagurgala frá trú þeirra til yðar hjáguðakenninga, þér sem tilbiðjið mannaverk og myndir fánýtar í stað hins lifanda guðs og hans eingetna sonar. Fyrir ekkert af öllu þessu hefi ég heimtað hefnd af kirkjum yðar, klaustrum og samvizkum. Þér hafið haft trú yðar í friði og frelsi og enginn hefir snert hár á yðar höfði fyrir hennar sakir. En nú loksins þekki ég yður, þér djöfuls þjónar!. Drottinn vor guð hefir gefið yður í mína hönd; ég skal tvístra yður eins og moldryki, ég skal skapa yður víti, þér helgi-þjófar; ég skal elta yður út á hjara veraldar, svo lengi sem þessi armleggur má lyfta drottins sverði. Hingað til hafið þér þekkt mig mildan og mannúðlegan; vel og gott, eftir þetta skuluð þér sjá mig harðan og hræðilegan; ég skal uppræta yður fyrir guðs kraft af jörðunni og sundurtæta yðar helvízku kenningar, og þar skal verða setið til dóms og sýndar þær ógna-atfarir, að þvílíkt hefir heimurinn aldrei heyrt né séð frá því er Rómaborgar-veldi til grunna hrundi!“ Og konungurinn óð aftur og fram um gólfið og virti ekki Jesúítann, sem lá fyrir fótum hans, nokkurs augnaráðs, og heldur ekki Regínu, sem stóð skjálfandi afsíðis úti í glugga og byrgði fyrir andlitið. Oxenstjerna, sem aldrei týndi gáti og gætni, óttaðist, að konungur mundi ekki geta hamið ofsa sinn og vildi nú beina honum í aðra átt og mælti: „Þóknast yðar hátign að bjóða Bertel lautenant að færa munk þennan í fast varðhald og láta herdóminn síðan segja upp sök hans til varanlegs varúðardæmis?“ „Vægð, vægð, yðar hátign!“ æpti Regína, af blindri umönnun og rækt fyrir skriftaföður sínum. „Vægð, vægð, ég ein er sek. Það var ég, sem taldi hann á þetta óhapparáð; ég ein á hegning skilið fyrir það“. Við þessa göfuglyndu sjálfsafneitun hennar fékk munkurinn aftur vonarskímu, en ekki þorði hann upp að standa. Konungur heyrði bænir hennar, en sneri sér nú reiður að varðmönnum sínum. „Bertel lautenant“, mælti hann byrstur; „þér áttuð að vera lífvarðarforingi minn í nótt; fyrir vangeymslu yðar hefir mannhrak þetta smeygt sér inn hingað. Þér færið hann þegar í fangelsi og ábyrgist með höfði yðar, að hann komist ekki undan. Að því búnu takið þér yður stöðu meðal hermannanna. Upp frá þessu augnabliki eruð þér úr tign yðar og orðinn umkomulaus dáti“. Bertel laut og svaraði engu orði. Sveið honum meira en niðurlæging hans að missa hylli konungs síns, og það því fremur sem hann hafði gætt skyldu sinnar með hinni ýtrustu nákvæmni. Hvernig munkurinn hafði komizt inn, var honum fullkomin gáta. Nú hafði munkurinn tekið hendinni um kné konungi og beðið vægðar, en það kom fyrir ekki. Konungur hratt honum frá sér og var hann leiddur út gnístandi tönnum og með heift í hjarta. Því næst sneri konungur sér að hinni skjálfandi ungmey við gluggann, greip hönd hennar og horfði fast í augu hennar. „Jungfrú“, mælti hann, „það er sagt, að í hvert sinn, sem höfðingi myrkranna vilji að drýgt sé eitthvert hraklegt níðingsverk á jörðunni, sendi hann upp þangað ára sína alskrýdda ljóssins englabúningi“. Jungfrú Regína hafði enn þá hugdirfð að horfa framan í ásjónu hins ógurlega. „Ég hefi ekkert að segja framar. Takið mitt líf, herra, en þyrmið lífi skriftaföður míns“, sagði hún með trúarofsans óbilandi sálarkrafti. Konungur horfði í augu hennar og gat varla stillt sig að reiðin brytist ekki út í annað sinn. „Hefði faðir yðar verið ráðvandur maður, jungfrú mín, þá hefði hann kennt dóttur sinni að óttast guð, heiðra konunginn og tala sannindi við alla. Þér hafið viljað snúa mér; ég skal nú í þess stað taka að mér uppeldi yðar, því að þess sýnizt þér við þurfa. Farið, þér eruð minn fangi þar til þér hafið lært hreinskilni og sannleika. Oxenstjerna, er hin gamla stranga Marta á Krosshólmi enn á lífi?“ „Já, yðar hátign“. „Hún fær konu í kost hjá sér til að aga. Þegar fyrsta færi gefst, skal stúlka þessi send norður á Finnland“. Jungfrú Regína gekk burt, stolt og steinþegjandi. 6. Finnar við Lech Áður en frásögnin heldur lengra áfram, verðum vér enn að minnast á borgina Frankfúrt. Jungfrú Regína sat nú til vors í ströngu varðhaldi eftir hina óhamingjusömu umvendunartilraun, en óðara en ísa leysti var hún send til Finnlands, og má vera, að vér hittum hana þar aftur síðar meir í þessari sögu. Það var ekki trúarhatur og því síður hefndargirni, sem gerði hinn hágöfuglynda Gústaf Adólf svo reiðan ungmeyju þessari; en svikið traust særir djúpt hinn sálargöfga, enda hirti Regína ekki hið minnsta um að koma konungi ofan af þeirri trú, að hún væri sek, heldur gerði hún hann enn þá vissari í sinni sök með blindum trúarofsa og hatrið barðist sífellt enn um fyrirrúmið í brjósti hennar, þar sem kærleikurinn aleinn hefði átt að eiga heima. Óskiljanlegur atburður jók og gremju konungs. Þá hina sömu nótt sem Bertel hafði farið með Jesúítann Híerónýmus og sett hann í ríkisfangelsið til þess að hann yrði hengdur hinn næsta dag, slapp þessi háskalegi maður og vissi enginn hvernig. Þessir myrkramenn eiga alls staðar áhangendur og opnar dyr; þegar hina sömu nótt fundust leynidyr, er gengu að svefnherbergi konungsins. Sakleysi Bertels varð við það augljóst að vísu, en þá kom hans nýja sök, að fangi hans slapp frá honum; kveikti það aftur gremju konungs og hlaut Bertel að standa í röðinni eins og óbreyttur liðsmaður. Þegar í miðjum febrúarmánuði 1632 bjóst konungur aftur af stað; eftir hálfsmánaðar umsát í marzmánuði tók hann kastalann Kreutznach og skildi eftir drottninguna og Oxenstjerna í Mainz. En á meðan hafði Tillý komið Gústafi Horn á óvart í Bamberg og gert þar hinn mesta usla og tjón. Konungur sótti nú fram á eftir honum, stefndi niður á móts við Dóná og skyldi fyrst fara yfir ána Lech og svo suður á Bæjaraland. Hershöfðingjar hans reyndu að telja hann frá því, en það tókst ekki; kváðu þeir ána vera ófæra, enda biði þeirra á hinum bakkanum Tillý, kjörfurstinn og Altringer og hefðu 22000 manna. Konungurinn svaraði þeim sviplíkt og Alexander sagði við Granikus: „Skyldi ég eiga að nema staðar við Lech, ég, sem komizt hefi áður yfir Saxelfi, Óderfljót, Rínarfljót og sjálft Eystrasalt?“ Var þá yfirförin fastráðin. Lengi reið konungur upp og ofan með ánni til að finna ferjustað og fann hann loks við bugðu eina. Einn maður af herliðinu tók sér bóndagerfi og gat veitt það upp úr trúgjörnum landsmönnum þar, að áin væri 22 fet á dýpt. Voru nú rofin nokkur bændahús og búnir til viðarbuðlungar og þeim sökkt niður í fljótið til að fá fætur undir brúna, fjórum skotvirkjum með 70 fallbyssum var ekið upp á árbakkann og leynigrafir gerðar handa hraðskyttunum, og um leið brenndu menn viði og hálmi og byrgðu allt það svæði í reyk og svælu. En Tillý var bæði gamall og ráðugur. Hann tók sér skjótt stöðu í skóginum hinum megin, gerði þar virki mikil og gróf djúpar grafir niður í hinn raka jarðveg og sendi þaðan byssulið hans banvæna haglhríð yfir til Svíanna. Þann 3. apríl hófu sænsku fallbyssurnar andsvör sín og sópuðu alla tunguna, sem lá andspænis fyrir handan. 5. apríl var búið að festa alla timburstafina, þrátt fyrir öll skot óvinanna; voru þá bjálkarnir lagðir á buðlungana og Finnum eins og vant var skipað að fara fyrstum yfir móti eldhríðinni; voru það 300 sjálfboðar og fyrir þeim hinn herðabreiði Larson og hinn hrausti Savólaksi, Pavó Lýdikäin; skyldu þeir ganga yfir á bjálkunum og hlaða skotgarð hinum megin til varnar brúarsporðinum, og var hverjum manni heitið að fá 10 ríkisdali að gjöf. Það var örlagaríkt augnablik fyrir allt Bæjaraland, því hvenær sem vildi, gat einhver kúla frá þeim Tillý hitt brúna og bannað yfirferðina. Finnarnir lögðu frá sér vopn sín, en tóku rekur og pálstafi í hönd og runnu yfir bjálkana með ópi miklu. Óðara var á einn stað miðað öllum skotum frá víggörðum þeirra Tillýs; féllu kúlurnar æ sem tíðast í ána, þyrluðu upp vatnsgusum eða skullu á hinni veiku brú og ýmist skoppuðu frá henni yfir á hinn bakkann, stundum í bogum hátt yfir höfðum Finna, en stundum hittu þær þá og stráðu búkum þeirra og limum eftir ánni beggja vegna. Ekki er þess getið, hve margir af hinum þrem hundruðum komust af og er nóg að geta þess, að þeir sem yfir sluppu, höfðu nógan annan starfa en að líta aftur og telja; tóku þeir þegar til verkfæra sinna og höfðu að vörmu spori sett upp garð, sem nokkurn veginn varði brjóst liðsins, þótt allt væri opið til beggja hliða fyrir skotunum frá bakkavirkjum Tillýs. Tillý sá glöggt, hve mikið hér var í efni, og gerði hálfu harðari hríðina. Svíar vissu eins, hvað við lá, og slöngdu yfir á skóginn andspænis haglhríð af kúlum, sem ýmist sló gneista úr grjótinu eða sópaði um koll eikartoppunum víðsvegar, svo trjálimar, bolir og spýtnarusl féll eins og skæðadrífa niður yfir höfuð Bæjara, sem biðu boða að sækja fram að ánni. Konungur hljóp sjálfur til skotvirkjanna, eggjaði menn sína fram og miðaði með eigin hendi 60 fallbyssuskotum. Skotþruman kvað við svo hátt, að hún skelfdi íbúa Bæjaralands á margra mílna svæði. Sá hópur Finna, sem í fyrstu hafði farið yfir tók nú heldur en ekki að þynnast, en ekki litu þeir, sem garðinn hlóðu, aftur fyrr en hann var fullgerr; sáu þeir þá, að helmingur þeirra var fallinn og lágu þar hundrað þeirra í blóði sínu. Í sömu svipan nefndi konungur til þann mann, er Karl Gústaf Wrangel hét og þá var ungur, en síðar varð svo frægur, og bað hann að fara yfir og veita þeim lið. Finnarnir í hernum réðu sér ekki af metnaði sakir hugprýði landa þeirra, enda voru hræddir um þá að sama skapi og kröfðust þess með ákefð að með þá yrði ráðizt í móti eldinum, og óðara en Wrangel hafði litið við, stóðu þar hjá honum um ný 300 manna og stökk hann þegar með þeim yfir brúna. Hinir, sem fyrir voru, fögnuðu löndum sínum með ópi. Nú fékk Bernharð hertogi, sem hafði eins og konungur blindan bardagaátrúnað á Finnunum, leyfi til að gera hreyfingarbragð þeim til fulltingis. Hann fékk sér finnskan hestmannaflokk, hitti sundvað á ánni skammt þaðan frá, réðst hann þar yfir og fórst vel, síðan ræðst hann með dæmafárri dirfsku á hægra fylkingararm óvinanna í opna skjöldu. Liðinu, sem allan hugann hafði á brúnni, varð bilt, svo vörnin varð í ólagi og síðan riðluðust raðirnar, þótt ofureflið væri mikið. Hjuggu þeir Bernharðs-menn þar til beggja handa, ruddu brautina fyrir sér og náðu til sinna manna við brúarsporðinn óðara en hinir gátu áttað sig. Það voru þessi djörfu drápskæðu riddaraáhlaup, sem gáfu Finnum viðurnefið Hakkapelitir, sem kemur af hakka pääelle, „höggðu hart og títt!“ því með því eggjuðu hverir aðra, þá er þeir hófu áhlaup og atreiðar. Nú tók hver fótgönguflokkur hersins, bæði Svía og Finna, á fætur öðrum að hefja hlaup yfir brúna, því þeir stóðust ekki afreksdæmi Finnanna. Tillý hafði nú lengi dregið að senda menn sína á móti opnum fallbyssum Svía; lét hann nú stórar hersveitir undir forustu Altringers vaða fram, og bauð þeim að taka vígið við brúarsporðinn og reka þá yfir, sem þar væri. Bæjarar runnu nú fram, en óðara hnigu heilar raðir af þeim til jarðar fyrir kúlum Svía. En þeir skyldu nú land sitt verja, allir, sem sig borið gátu, stukku óðir og æfir fram að virki Finna. Sló þá hart Wrangels unga hetjuhjarta, en menn hans bifuðust ekki. Nú var á hólminn komið. Óvinirnir ruddust fram eins og svartur skýflóki, voru margir fallnir, en þó voru milli fjórar og fimm þúsundir eftir. Finnar gáfu þeim varmar viðtökur; þeir hleyptu ekki af langbyssum sínum fyrr en á fimmtán skrefa færi; hafði þar hver kúla mann fyrir sig. Bæjarar námu staðar og kom á þá hik, voru þeir og flestir nýorðnir hermenn. Fengu Finnar fangrúm til að hlaða aftur og skjóta á hina, riðluðust þá þegar í stað sveitir þeirra og flýðu víðsvegar með endilangri ánni. Altringer hljóp þá til, safnaði liðinu á nýjan leik og leiddi það aftur í eldhríðina. Í sama bili hvein fallbyssukúla rétt við eyrað á honum og féll hann við það í óvit. Bæjarar runnu í annað sinn. Þetta sá Tillý frá sínum virkjum og sendi sitt gamla einvalalið, Wallónana, niður á árbakkann. Ekki heldur gátu þeir staðizt skothríðina, svo var hún skæð og óð. Þá þreif Tillý sjálfur herfána í hönd og rann sjálfur fremstur sinna manna móti skotvirkjum Finnanna. En vart hafði hann gengið mörg fet þegar stórbyssukúla hitti hann í fótinn og braut sundur. Báru menn hinn gamla hershöfðingja óvígan burt af vígvellinum og andaðist hann í Ingólfsstað hálfum mánuði síðar, 20. aprílmánaðar. Hinn bæverski her hafði þar misst sinn bezta oddvita og riðlaðist brátt allur. Kjörfurstinn, sem þar var sjálfur, komst undan í næturmyrkrinu með herinn á sundrungu, þrotinn að ráðum, skildi eftir 2000 fallinna manna; stóð nú Svíum opinn vegur suður á Bæjaraland. Næsta dag fór herinn allur suður yfir Lech. Veitti þá konungur örlátlega og gaf stórgjafir köppum sínum. Meðal þeirra var riddari (hestliði) einn, er fylgt hafði Bernharði hertoga og hann lofaði mjög fyrir framúrskarandi framgöngu. Sá maður var Bertel. Sönnuðu sögu hertogans þrjú sár, er hann hafði, en ekki hættuleg. Bertel fékk þá metorð sín aftur, en ekki hitt, er hann þráði mest: traust og hylli konungsins. Ásetti hann sér að vinna það aftur, þótt líf hans skyldi kosta. [079.png] Nú hélt Gústaf Adólf ferð sinni áfram suður til Ágsborgar; var honum þar svarinn trúnaðareiður og stórveizlur haldnar til minningar við hann. Orðrómurinn batt saman nöfnin Gústava og Ágústa og tók að hvískra, að konungur mundi setja þar höfuðstað sinn í hinu þýzka ríki og leggjast í sællífi eins og forðum Hannibal í Kapúu. En orðrómurinn fór skakkt. Gústaf Adólf var nú að draga andann og velta fyrir sér æ stærri og víðtækari ráðagerðum. En upp frá þessu tóku kynlegar fylgjur að gera vart við sig í för með konungi. Banagyðjan gekk úr þessu æ á undan honum með brugðnu sverði og lét ýmist hér eða þar einhverjum höggið skjalla, þeirra er með honum voru, svo sem hún vildi hvísla sí og æ í eyra honum: „Dauðlegur maður, mundu þó að þú ert enginn guð!“ Víst mátti ætla, að allar illar nornir hefðu nú að helmingi aukið fyrirsát sín þegar drottnunargirnin var tekin að fá yfirráð yfir hugskoti konungs og markmið hans var ekki lengur það eitt að berjast heilagri baráttu fyrir trúarbrögðin. Heimulegur en háskalegur óvinur stóð hvervetna á vegi hans, búinn til að hæfa hann og fyrirkoma honum; enn þá tókst það þó ekki. Við áhlaupið á Ingólfsstað, sem mistókst, segir Fryxell[* Sænskur sagnameistari.], að þar hafi legið á borgarvegg fallbyssa ein, er kölluð var Fíkjan, og verið fræg fyrir hve langt og beint hún flytti kúlurnar. Sá, sem stýrði byssunni, sá úti á mörkinni mann einn með mikinn blaktandi fjaðraskúf á höfði; hann reið fögrum hesti og var með honum þjónandi föruneyti. „Þar fer höfðingi mikill“, mælti fallbyssusveinninn; „en ég skal skjótt gera hefting á för hans“. Miðaði hann síðan Fíkjunni og skaut. Kúlan steypti um koll bæði hesti og manni; menn hlupu til hræddir, en konungur — því hann var það — stóð á fætur alblóðugur og ryki stokkinn frá dauðum hestinum, en óskaddaður. Þá mælti hann: „Enn er eplið ekki þroskað“. Seinna meir grófu Ingólfstaðarmenn hest þann upp og tróðu út belg hans til ævarandi menja. Skömmu síðar var hinn ungi markgreifi af Baden-Dúrlach í fylgd með konungi, hann, sem þá fyrir skemmstu hafði verið í dansveizlunni í Ágsborg einhver hinn tígulegasti riddari. Fallbyssukúla hvein og þaut fram hjá konungi, og er hann leit við, sá hann hvar markgreifinn hneig af baki höfuðlaus fáein fet frá hans hesti. 7. Nýtt ævintýri Frá Ingólfsstað stefndi konungur liði sínu til Landshut, lengra suður í land. Því lengra sem hann fór inn í land þetta, þar sem trúarvillumenn höfðu aldrei fyrr stigið fæti, því skuggalegri varð trúarofsi fólksins og því trylltari og skæðari mótstöðu sýndi það. Hvervetna sátu landsbúar hópum saman undir forustu munkanna í launsátrum fyrir Svíum, drápu hvern mann, sem þeir náðu, og píndu fanga sína með öllum hugsanlegum pyndingum. Menn konungs tóku því að gjalda líku líkt, hróðugir eins og þeir nú voru orðnir af sigurvinningum sínum og þreyttir af þessu grimmdaræði; fór nú og minnkandi þeirra fyrra frægðarorð fyrir góðan aga í hernaðinum, því þeir hefndu sín greypilega á landsmönnum, hvar sem þeir fóru yfir. Hver vetna elti sænska herinn morð og svikræði og var hver flokkur í veði, sem ekki átti öll ráð undir sjálfum sér, þótt fara skyldi einungis fáar örskotsleiðir frá meginhernum. Þar sem konungur nú var kominn langt inn í land þetta, vildi hann senda áríðandi skipanir til Banérs, sem seint og hægt skyldi fylgja konungshernum eftir og halda opinni afturfararslóðinni. Þar sem nú landið var svo herskátt, var sendiförin með þvílík boð hin mesta hættuför, enda vildi konungur ekki að fjölmenni færi hana. Þá bauð sig fram ungur Finni að reka erindið og hafa tvo eina hestliða til fylgdar. Konungur þekktist það, og seint um kveld í maímánuði lögðu hinir hugprúðu sveinar á stað í þessa svaðilför. Ungi fyrirliðinn var enginn annar en vor gamli góðkunningi Bertel; fylgdu honum þeir Pekka úr Austurbotni og Witikka frá Tavast. Nóttin var dimm og loft þykkt. Riðu þeir eins og leið lá og fóru varlega; óttuðust þeir, að þeir myndu villast er land var þeim ókunnugt, en alls staðar var að ugga kúlur Bæjara, sem sátu fyrir þeim í hverju skógarnefi. Vegur var mjög spilltur af umferð flutningsvagna, enda var þétt rigning á; máttu þeir búast við, að hestar þeirra myndu rasa um steina í hverju spori eða steypast niður í launpytti. „Heyrðu mér“, sagði Witikka við félaga sinn, „þú ert póhjalainen og kannt því að galdra“. „Já, annars væri lítið gagn í mér“. „Galdraðu okkur þá heim á Hattimala-háls og láttu okkur sjá ljósin á Hämeenlinna-slotinu, þar situr Tatara-telpa, sem einu sinni var kærastan mín, og ég vil heldur sofa við hliðina á henni í nótt en niðri í pollunum í þessum tröllaskógi“. „Annað eins smáræði ætti mér ekki að vaxa í augum“, svaraði Pekka drýgindalegur; „gáðu nú að, þarna sérðu nú ljósin í gluggunum á slotinu“. Hinn hvessti augun og var óviss í, hvort Pekka skrökvaði eða segði satt, enda áleit hann hið síðara allt eins sennilegt sem hið fyrra. Það stóð líka heima, að þeir sáu ljós fyrir neðan hæðina, en Tavastingurinn gekk þó brátt úr skugga um, að hann væri enn þá tvö hundruð mílur frá átthögum sínum. Hestarnir námu staðar allt í einu og fengust ekki úr sporunum. Höfðu viðarbolir verið felldir þvert yfir götuna og komst þar enginn ríðandi maður yfir. „Kyrrir!“ hvíslaði Bertel; „mér heyrðist skrjáfa í liminu“. Riddararnir riðu spölkorn til hliðar og grúfðu niður hljóðir á hestsbaki. Þá heyrðist mannatraðk og brak í liminu hinum megin götunnar. „Þeir hljóta að koma innan fjórðungsstundar“, sagði rödd með Bæjara framburði á orðunum. „Hve margir eru þeir?“ „Þrjátíu menn ríðandi með tíu eða tólf áburðarhesta. Þeir fóru frá Geisenfeld í rökkrinu og hafa með sér fangaða stúlku“. „Og hve margir erum við?“ „Nálægt fimmtíu skytturnar og 70 eða 80 menn með axir eða heytjúgu“. „Vel, enginn má skjóta fyrr en þeir eru þrjú skref frá okkur“. Í sama bili frísaði hestur Bertels, sem hét Lappi, og var frá Róvaníemí, litill vexti, en bæði viljugur vel og stinnur. „Wer da?“[* Hver er þar? - Þýð.] var kallað á götunni. „Svíar!“ svaraði Bertel öruggur eins og í Würtzborg, hleypti af skammbyssu sinni á hljóðið og sá við birtuna af skotinu bændahóp, sem stóð við þvergarðinn. Því næst sneri hann hestinum, kallaði á förunauta sína og hleypti aftur á leið til Landshut. En skotblossinn hafði líka lýst bændunum, svo að þeir höfðu eygt þá Bertel, og flýttu þeir sér að banna þeim götuna. Bertel komst undan, en hestur Witikku rasaði um viðardrumb, og hestur Pekku, sem var áburðarklár frá Stórkýró, varð fastur í feni og fékk þá lag í brjóstið af spjóti. Bertel sá nú menn sína í nauðum stadda, vildi ekki yfirgefa þá, snýr aftur, heggur niður fremstu bændurna og grípur í taum á hesti Pekku til þess að ná honum upp úr, en kallar til Witikku, að hann skuli skilja við sinn hest og hlaupa á bak fyrir aftan sig. Þetta snjallræði ætlaði vel að takast og voru þeir þrír félagar aftur komnir á veg, en þá kom slöngukast fram fyrir brjóst á Bertel, er steypti honum þegar af hestinum. Witikka féll af baki um leið. Lappi var nú laus við tvöfalda byrði sína, og rann áfram eftir veginum, og fylgdi Pekka honum eftir, nauðugur eða viljugur. Bertel og Witikka urðu skjótt ofurliði bornir, og síðan bundnir með hendur á bak. „Hengjum þá hunda áður en hinir koma!“ æpti einn þeirra. „Með hausinn niður!“ æpti annar. „Og kyndum svo ofurlítið undir“, sagði hinn þriðji. „Engan eld og engan hávaða!“ sagði hinn fjórði, sem virtist hafa mest ráð hjá þeim. „Heyrið mig, kunningjar“, sagði hann í hálfum hljóðum við fangana, þar sem þeir lágu bundnir, „var það ekki finnska, sem þið voruð að tala?“ „Farðu til fjandans!“ murraði Witikka. „Maledicti Fennones! Þið eruð mínir!“ kallaði hin röddin í myrkrinu. „Þar koma þeir!“ sagði einn í hópnum, og stóð það heima, að þá heyrðist jódynur á veginum frá Ingólfsstað; bændur steinþögðu og stungu til meiri varúðar upp í munn fanganna svo þeir gætu ekki talað. Komumenn höfðu blys og leit út sem væru þeir þýzkir hermenn, sem hleypt hefðu út á byggðina til rána og væru nú í heimför. Þeir riðu hart og urðu ekki við varir fyrr en skotin dundu yfir þá úr launsátrinni. Sáu menn þegar tíu þeirra eða tólf steypast af baki, hestana fælast og draga hina föllnu fasta í stigreipunum og allt verða í uppnámi. Sneru sumir aftur og riðu hver aðra um koll, en aðrir hleyptu af skammbyssum út í loftið, því hinir földu sig á bak við viðinn. Þá hlupu bændur upp og umkringdu þá, sem eftir stóðu, og steyptu þeim af baki með slöngvum. Hestliðarnir börðust sem óðir væri, en það kom fyrir ekki, því áður en tíu mínútur voru liðnar, var allur hópur þeirra eyddur, tíu höfðu undan komizt, fimmtán lágu þar í blóði sínu við götuna, og hinir voru fangaðir, sex eða sjö og farangur þeirra tekinn mest-allur. Af bændum höfðu einungis fallið fjórir. Nú tóku bændur greypilega hefnd. Þeir skutu lausapúðri í andlit fanganna og sviðu þá svarta, grófu þá upp að mitti niður í blauta jörðina og börðu þá síðan í hel með seinu steinkasti. En er þeim grimmdarstarfa var lokið, vildu þeir sjá ráð fyrir ránsfeng sínum. Bertel og förunaut hans var varpað bundnum á bak einum tekna hestinum og síðan var stefnt inn á mörkina. Þar komu þeir loks að garði, sem lá afskekktur. Fangarnir voru dregnir þar inn og lagðir á gólfið í sérstöku herbergi meðan bændur voru sjálfir í stofunni fyrir framan; voru þeir að fagna sigri sínum og hressa sig á víni því, er óvinir þeirra höfðu með sér haft. Þá kom nábleikur munkur inn til þeirra Bertels; hann var girtur hampsnæri og hékk í því sverð. Hann hafði blys og bar það með ánægjusvip að höfðum fanganna, tók keflin út úr þeim og athugaði vandlega svip þeirra. „Hvort er sem mér sýnist“, sagði hann loks glottandi, „er það ekki Bertel, lautenant í lífverði konungsins?“ Bertel leit upp og þekkti Jesúmunkinn Híerónýmus. „Velkominn til míns innis, herra lautenant minn, og þökk fyrir síðast. Þetta er nýr gestur, sem ætti skilið útvalinn greiða. Ég skyldi þá ekki þekkja förunaut hans líka“, sagði hann enn og benti á Witikka. Tavastingurinn lét sér ekki verða bilt, heldur hvessti hann augun á munkinn, beit á jaxlinn og sagði glottandi: „Hvað hefirðu gert af eyrunum, munkur? Rífðu hettuskömmina af hausnum á þér, hundskinns þjófurinn, og lofaðu okkur að sjá, hvort ekki eru vaxin á þig asnaeyru!“ Þegar munkurinn var á þessa leið minntur á valinn við Breitenfeld, varð hann heldur ófrýnilegur, eldroða brá á nábleikt andlitið og hann beit sig í vörina af bræði. „Hugsaðu, lagsi, um þín eigin eyru“, sagði hann. „Anathema maranatha! Þau hafa nú senn heyrt nóg í heiminum“. Jesúítinn sló tvisvar lófum saman, og kom þá inn járnsmiður með skinnsvuntu bundna á sig og eldrauða töng, sem hann lagði á eldinn, sem logaði í ofninum. „Hvort volgnar þér á eyrunum, lagsi?“ sagði munkurinn. Witikka svaraði gallharður: „Þú þykist vera æði-slunginn, en ert mesta flón og auli í samanburði við andskotann. Húsbóndi þinn og meistari hefir engar tangir, heldur lætur sér duga neglurnar“. „Hægra eyrað“, mælti þá munkurinn. Smiðurinn bar töngina að höfði Witikku. Tavastingurinn glotti af fyrirlitning, og brá snöggvast roða á hinar sólbrenndu kinnar hans, en það varaði ekki lengi og átti hann þó eitt eyra eftir. „Ef þú vilt afneita trú þinni með eiði, játa hollustu páfanum og bölva Lúther máttu halda öðru eyranu“. „Þinn húðarselur!“ svaraði Tavastingurinn, „húsbóndi þinn er vanur að bjóða ríki og lönd, en þú býður mér eitt vesalt eyra“. „Vinstra eyrað þá!“ mælti Jesúmunkurinn kuldalega. Smiðurinn gerði sem honum var boðið, en hinn píndi hermaður hló. „Þetta er skammarlegt, munkur“, sagði þá Bertel, sem lá þar hjá hinum. „Drep þú okkur ef þú vilt, en ger það skjótt“. „Og hver hefir sagt, að ég hafi í hyggju að drepa ykkur?“ svaraði Híerónýmus glottandi. „Það er nú beint undir sjálfum ykkur komið, hvort þið fáið grið og frelsi til þess að fara héðan óskaddaðir nú þegar í nótt, eða ekki“. [085.png] „Hvers krefst þú af mér?“ „Þér eruð hraust ungmenni, Bertel lautenant! Mér þykir illt, að konungur skuli hafa svipt yður metorðum yðar, þeim sem þér höfðuð keypt með blóði yðar“. „Nú fellur yður það illa, og svo?“ „Í yðar sporum mundi ég hefna mín“. „Hefna mín! Já, það hefir mér komið í hug“. „Þér eigið heima í lífverði Gústafs Adólfs. Vitið þér, ungi vinur, hve mikið rétttrúaðir kaþólskir þjóðhöfðingjar gefa að launum þeim, sem seldi þeim í hendur konunginn, lifandi eða dauðan?“ „Hversu má ég slíkt vita, verðugi pater“. „Furstadæmi, ef hann væri tiginborinn maður, en 50 þúsundir gulldala væri hann ótiginn“. „Það er þó helzt til lítil umbun fyrir svo mikið afrek, verðugi pater“. „Kjósið nú þá dauðann eða konunglega umbun“. „Þar kom það, sem þér vilduð, verðugi pater“. „Gerið sem yður sýnist. Þegar þér hafið ráðgast við sjálfan yður, megum við aftur talazt við. Í þetta sinn getið þér fengið fjör yðar og frelsi með léttara verði fyrir smámuni“. „Hvað mundi það vera, verðugi pater?“ „Heyrið mig. Ég krefst þess, að þér vinnið eið að því að gera lítið viðvik fyrir mig. Gústaf konungur ber á hægra vísifingri lítinn eirhring. Hann er honum lítilsvirði, en mér er hann, ungi vinur, meiri þýðingar, ég er ... ég safna fáséðum gripum og vildi gjarnan eiga menjagrip um konung, sem ég hlýt að hata sem óvin, en dásama sem mann“. „Og hringur þessi?“ „Hringinn sverjið þér að útvega og selja mér í hendur með einhverju móti fyrir næstu tunglkomu. Gerið það, og þá eruð þér laus“. „Það er þá ekki annað en smásynd á móti sjöunda boðorðinu? Og syndakvittanina gefið þér fyrirfram, er ekki svo? Vík burt, argur þjófur, og þakka máttu fyrir, að hendur mínar eru bundnar, því ella veit guð, að ég hefði kennt þér að þekkja betur þann drengskap, sem hermanni sæmir!“ „Hafið hægt um yður, ungi maður, munið eftir, að líf yðar er í minni hendi. Þegar ég er búinn að ljúka mér af við förunaut yðar, finnumst við aftur“. Bertel svaraði með fyrirlitningarsvip. „Til starfa þíns, smiður!“ rumdi munkurinn; smiðurinn dró þegar töngina út úr eldinum, hvítglóandi. Í sama bili heyrðist háreysti mikið til bændanna frammi í stofunni. „Til vopna! Svíarnir komnir!“ var kallað, og óðara var hurðinni hrundið upp á gátt. Nokkrir bændanna þrifu byssur sínar, en aðrir lágu á gólfinu dauðadrukknir og sofandi. Úti fyrir heyrðust glöggt fyrirskipanir sænska fyrirliðans: „Kveikið eld í húsinu, piltar, hér höldum við þeim öllum í gildrunni“. Jesúmunkurinn stökk í sama vetfangi út um gluggann. Nú urðu hörð en stutt vopnaviðskipti í fordyrinu. Urðu bændur innan stundar ofurliði bornir og beiddust griða. Hinir fremstu voru lagðir í gegn með spjótum og fengu ekki annað svar, en hinir voru bundnir; stofan með hinu nýfengna herfangi var rænd og rupluð og Bertel og hinn særði félagi hans voru þegar leystir úr böndunum. „Ert þú það, Larson?“ hrópaði Bertel fagnandi. „Þrumur og þórdunur! ert þú þetta, Bertel? Er það hér, sem þú ætlar að reka erindi konungsins?“ „Og sjálfur þú?“ „Já, skrattinn hafi það, veiztu ekki, að ég er mesti lánshnokki? Ég var sendur að gæta vistaflutnings, sem von var á, og rek mig á leiðinni á þorpara, sem sveimuðu eftir föngum; þeir voru að bulla um bænda-fyrirsát í skóginum. Ég á stað á eftir þeim og get bjargað röskum strák og laglegri telpu. Líttu á hana; kinnarnar eins og fífill í brekku, og augun þá!“ Bertel leit við og sá hvar hjá honum stóð skjálfandi stúlka, hálförmagna af hræðslu. „Nú, það er hún Katrín, þjónustumey hennar jungfrú Regínu!“ kallaði Bertel upp yfir sig, því hann hafði marg-oft séð þessa kátu stúlku hjá hinni alvörugefnu jungfrú. „Frelsið mig, lautenant, frelsið mig!“ æpti hún nú og greip í handlegg hans. „Ég var hrifin með ofbeldi úr húsi móðursystur minnar“. „Larson, láttu mér eftir stúlku þessa“. „Hvern skrattann ertu að hugsa? Viltu taka telpuna mína af mér?“ „Láttu hana lausa, gerðu það fyrir mig“. „Að fáum vikum liðnum — jú sjálfsagt. En slepptu henni segi ég, ellegar skal ég ...“. Hinn bráðlyndi, stutti hermaður brá sínu stóra sverði, sem hann var nýbúinn að stúta bændunum með. „Húsið brennur!“ var öllu megin kallað og kæfandi reykjarsvæla sannaði, að háskinn væri nærri. Bertel skauzt út með stúlkuna. Larson fylgdi eftir, og hvarf við það bræðinnar hiti fyrir bálinu. Þegar komið var út fyrir, sáu menn, að húsið stóð í ljósum loga; kom þá Bertel í hug, að húsið væri fullt af fólki, nálægt þrjátíu bænda, sem bundnir voru á höndum og fótum. „Komið, flýtið ykkur!“ æpti hann hástöfum, „björgum aumingjunum!“ „Ertu vitlaus?“ sagði Larson hlæjandi. „Það eru ekki aðrir en fáeinir þrjótar, sem rétt áður höfðu tekið af lífi marga röskva drengi af vorum mönnum. Bætið á eldinn, drengir, svo drykkjurútunum þar inni verði ekki kalt í samdrykkjunni“. Það var nú líka um seinan orðið að bjarga. Þessir vesölu Bæjarar létu þar lífið á fórnarstalli hinnar trylltu tíðar, þegar sá var siðurinn að láta eitt hryðju- og heiftarverkið yfirganga annað. Vér snúum oss því með viðbjóði frá slíkum og þvílíkum æðisgangi, sem tilheyrir tímalýsingunni, en hröðum oss til að skoða í skuggsjá sögunnar stærri mynd og háleitari: hið sænska ljón í þess síðustu fjörbrotum. 8. Nürnberg og Lützen Atburðirnir velta hver á annan ofan eins og alda eltir öldu í ólgandi iðu, og frásagan, sem hér hefir svo lítið svigrúm, hlýtur að hlaupa yfir með hraðfleygi fossins. Vér verðum að flýta oss fram hjá hinum markverðustu viðburðum hins merkilegasta tíma til þess að henda aftur hinn mjóa þráð sögu vorrar, sem spunninn skal gegn um mörg og mikil umskipti og margt aldarfar: hringinn konungsnaut. Wallenstein, hinn voðalegi maður, hafði nú gert sættir við keisarann og safnað óvígum her; stefndi hann nú liðinu til hins stórauðuga staðar Nürnberg, og vofði yfir honum sem koldimmt þrumuský. Gústaf Adólf nam staðar á miðri sinni sigurbraut á Bæjaralandi og skundaði til móts við hann, og stóð nú hvortveggja hér andspænis — ljónið og flekkudýrið, búnir báðir til stökks og starandi hvor á annars minnstu hreyfingu. Allar sveitir umhverfis voru rændar, ruplaðar og píndar til framfærslu báðum herum; varð sífellt að senda hleypiflokka í allar áttir og vistir að draga að úr fjarlægum héruðum. Í slíkum förum fengu þeir mest orð á sig, af keisarans mönnum, Króatarnir, sem Ísólani var fyrir, en af Svíaher „dragónar“ Taupadels og hestliðar Stálhanzka. Hallærissultur, hitar, farsóttir og rán og yfirgangur þýzka hersins steypti öllu landi í ógurlegustu eymd og volæði. Gústaf konungur hafði nú aukið her sinn með sveitum þeirra Oxenstjerna og Banérs, og hafði 50 þúsundir manna; bjóst hann hinn 24. dag ágústmánaðar til stóratlögu móti Wallensteini, er beið hans með 60 þúsundir manna innan óvinnandi virkisveggja. Löngu fyrir dag lét Thorsteinson fallbyssurnar hefja þrumuhríð sína móti víginu Alte Feste. Í náttmyrkrinu klifruðu 500 þýzkir skotliðar af hvítu herdeildinni upp hæðirnar og komust á veggina upp, þrátt fyrir hina banvænustu skothríð. Leit þá snöggvast svo út, að sigur mundi launa hugprýði þeirra; allt studdi fyrstu framhlaup þeirra: óvinirnir vöknuðu við illan draum, gátu ekki áttað sig og komust í uppnám, konurnar hljóðuðu, og kúlur Svía kollsteyptu mönnum og tjöldum. En Wallenstein hélt ró sinni og æðraðist ekki; hann sendi þegar kvenfólk burt, en lét hvern stórflokk á hæla öðrum hlaupa í flasið á þeim, er að sóttu. Herdeildin varð að hopa og lét margt lið. En konungur lét ekki undan; aftur veitti hin hvíta deild áhlaup; það fór enn á sömu leið. Þá kvaddi konungur til Finna sína, að þeir skyldu, eins og Schiller, þjóðskáldið segir, „gera þýzka hugleysinu skömm til með hinu norræna hugrekki“. Þar voru margir Austurbotnungar í liði; skyldu þeir ráðast beint í móti dauðanum, sem glotti við þeim með hundruð logandi ginum, en öruggt og óskeikandi klifruðu þeir upp berghjallann, þótt sleipt væri af regni og blóði. Hvorki hinir öruggu veggir né hið banvæna kúluél mátti stöðva þessa berserki. Innan um eldinn og dauðann þreifuðu þeir eftir fótfestu á veggjabrúnunum. En allt fyrir ekki. Þeir fáu, sem uppi stóðu eftir skot og atgeira urðu loks ofurliði bornir; og þá í fyrsta sinn sáu menn Finna Gústafs Adólfs fara á hæli, enda fór á eina leið fyrir því liði, sem nýja tilraun gerði. Keisaraliðið bjóst þegar að elta flóttann, en hinir snerust þegar í móti og ráku þá af höndum sér; þeir reyndu aftur til, en það fór sem fyrr. Stóð allan daginn hinn óðasti bardagi með miklu mannfalli, margir fyrirliðar féllu og banagyðjan miðaði aftur kúlu á konunginn, en hitti einungis annan stígvélasóla hans. Vinstra megin lenti saman riddaraliði keisarans manna og hinu sænska. Krónenberg með pansaralið sitt var þar kominn; þeir voru huldir járnhlífum frá hvirfli til ilja og kölluðust „hinir óvinnandi“; ráku þeir hessenska hestliðið á flótta. Þá komst landgreifinn af Hessen í gremju sinni svo að orði, að konungur vildi láta hið þýzka liðið ganga í súginn, til þess að hann sparaði sitt. „Gott og vel“, svaraði Gústaf Adólf, „ég skal senda Finnana mína og vænti ég, að þegar við skiptum mönnum, þá skipti og um sigurinn“. Var þá Stálhanzki sendur með Finnana móti Krónenberg og hinum „óvinnandi“. Milli þessa einvalaliðs úr hvorumtveggja hernum varð nú sú hríð, er svo var stórkostleg og fræg að æ mun uppi vera. Bar fundum þeirra saman í kjarrskóginum á bökkum Regnitzárinnar, og gekk þar maður á móti manni, hestur á móti hesti; sverðin urðu sljó í hjálmunum, skammbyssurnar leiftruðu og margur hraustur riddari barst út í leirinn í ánni. Líklega hafa hinir finnsku hestar þolað þófið eins og fyrri lengur og betur en hinir fríðu og fráu ungversku hestar, og hefir það nokkuð flýtt fyrir sigrinum. Hinn hrausti Krónenberg féll, og hans „óvinnandi“ garpar lögðu á flótta fyrir Finnunum. Í hans stað sótti Fúgger fram með allmiklu liði og létu þá Finnar undan og þokuðu nær skóginum, en sífellt héldu þeir uppi höggorustu og sneru aldrei baki við. Gerðu þá fótgöngusveitir Svía harða eldhríð. Þá féll Fúgger, og ráku Finnar þá, þó nálega væru uppgefnir orðnir, riddarana aftur á flótta. Þegar nóttin kom lágu 3000 manna dauðir á hæðunum og sléttunni. Í orustunni við Alte Feste, segir Schiller, að menn hafi kallað Gústaf Adólf sigraðan, af því hann sigraði ekki sjálfur. Daginn eftir sneri hann til Bæjaralands. 44.000 manna, bæði vina og óvina, hafði bráðasótt og ófriður sópað burtu á þessum fáu, skæðu vikum í Nürnberg og þar í grennd. Haustmyrkrið fór í hönd og þokur þess grúfðu yfir Þýzkalands blóðugu jörð, og enn þá var ekkert útlit fyrir endann á ófriðaræðinu. En ætlað var einni stórsál að komast eftir marga storma til friðsællar hafnar og fara úr haustmyrkri þessa lífs í heilagt og eilíft ljós. Nær og nær sveif engill dauðans yfir hinu göfuga höfði Gústafs og brá yfir það eins og því bjarmabliki frá æðra heimi, er menn stundum þykjast sjá fyrirbregða undir þann tíma, þegar hinir miklu og góðu hér á jörðu eiga skammt eftir. Múgurinn í kring um þá misskilur það, en sjálfa þá grunar margt. Tveim dögum fyrir dauða hans kallaði fólkið í Nürnberg og sagði, að Gústaf Adólf væri guðdómlegur. Sló þá sál hans það hugboð, að nú mundi braut hans brátt vera á enda, og mælti hann þá við hirðprestinn Fabricíus: „Vera kann, að guð láti þeim bráðlega hefnast fyrir þeirra guðlastandi heimsku, og mér sjálfum sem tilefni hennar, og að hann sýni, að ég er líka veikur og dauðlegur maður“. Konungur var horfinn norður á Saxland til þess að veita Wallenstein eftirför. Við Armstadt kvaddi hann Oxenstjerna, en í Erfúrt Maríu Eleónóru. Þar, eins og í Nürnberg mátti af mörgum ráðstöfunum hans ráða, að hann bjóst við því, er koma skyldi. Wallenstein hugði, að Gústaf hefði sett vetrarbúðir sínar og sendi Pappenheim frá sér með 12.000 manna til Halle; sjálfur bjóst hann fyrir við Lützen með 28.000 manna, en konungur sat í Nürnberg með 20.000. Hinn 4. nóvember hafði Gústaf Adólf frétt um burtför Pappenheims frá hernum; bjóst hann þá skyndilega og vildi koma á óvart óvini sínum, er nú var liðfærri orðinn. Mundi honum og hafa tekizt það hefði atlagan orðið hinn fimmta. En forsjónin lagði lítinn hlut fyrir þvera sigurbraut hans; það var lækurinn Rippach, því að það var hann og hinir uppbleyttu vegir, sem seinkuðu fyrir liði hans. Það var ekki fyrr en að kveldi hins 5. nóvember, að konungur náði í grennd við Lützen. Wallenstein fékk ráðrúm og kunni það vel að nota. Hann lét dýpka dýkin meðfram þjóðveginum sem lá til Leipzig og byggja brjóstvarnir, sem hann beggja vegna vegarins fyllti hraðskyttum og gátu þeir skotið frá báðum hliðum og fellt Svía unnvörpum, þá er þeir sóttu fram eftir veginum. Herráð konungs réð frá áhlaupi; Bernharð hertogi réði einn til þess, og hans ráði fylgdi konungur, því „það er bezt“, sagði hann, „að þvo sig vandlega, úr því komið er í baðið“. Nóttin var dimm og drungaleg. Konungur lét fyrirberast í fornum vagni ásamt Kniephausen og Bernharði hertoga. Hans sístarfandi sál hafði nógan tíma að hyggja fyrir öllu, og þá, segir sagan, dró hann af hægra vísifingri sínum lítinn eirhring, fékk hann Bernharði hertoga og bauð honum að svo framarlega sem eitthvað kæmi fyrir sig, skyldi hann fá hringinn ungum fyrirliða einum í finnska hestliðinu. Árla um morguninn reið Gústaf Adólf út til hers síns til að kanna skipan hans. Hann var í panzara úr elgshúð og bar gráleitan feld utan yfir. Þegar menn hans hvöttu hann til að hafa þann dag panzara úr málmi, svaraði hann: „Guð er mín hlíf“. Kafþoka frestaði bardaganum. Þegar dagur rann hóf allur herinn upp raddir sínar og söng: „Vor guð er borg á bjargi traust“, og er þokan hélt áfram, byrjaði konungur sjálfur sálminn: „Nú veri guð oss öllum hjá“, og „Þú skalt ei hræðast, hópur smár“, sem hann sjálfur hafði ort skömmu fyrir bardagann. Síðan reið hann fram með röðunum kallandi: „Í dag, piltar mínir, skulum vér gera enda á öllum vorum þrautum“; tvisvar rasaði hestur hans á leiðinni. Klukkan 11 var það fyrst að þokunni létti fyrir hægu vindkuli. Sænski herinn sótti þegar fram til áhlaups. Í hægra fylkingararmi, sem konungur stýrði, stóð enn Stálhanzki með Finnana, en næst þeim sænskar sveitir; í miðhernum voru Svíar, gula og græna herdeildin[* Brigade kalla ég herdeild, Regiment hersveit, en minni sveit nefni ég herflokk, flokk, hóp, riðul o.fl. eftir stærð. Eftir því nefni ég fyrirliðana: General hershöfðingja. Oberst ofursta; major sveitarstjóra [eða major]. Captain flokksstjóra [eða kaptein]; lieutenant [offiséra] kalla ég fyrirliða [eða lautenant]. Íslenzka tungu vantar mjög heiti og aðgreiningarnöfn í hernaði seinni tíma. – Þýð.] , og var þar Níels Brahe fyrir; vinstra megin var Bernharð hertogi fyrir þýzka hestliðinu. Móti hertoganum stóð Colloredó með bezta hestliðið; í miðju var Wallenstein sjálfur með fótgönguherinn í stórum deildum og sjö fallbyssum skipaði hann fyrir framan fylkinguna; beint í móti Stálhanzka stóð kappinn Isólani með sína trylltu og harðfengu Króata. Heróp hvortveggja voru hin sömu og við Breitenfeld. Þegar konungur gaf skipan sína að vekja skyldi bardagann, fórnaði hann höndum og hrópaði: „Jesús, Jesús, hjálpa þú mér í dag að stríða til dýrðar þínu heilaga nafni!“ Nú lögðu keisarans menn eld í bæinn Lützen og tók stórskotalið þeirra þegar að duna; sótti nú og sænski herinn fram, en fékk í hinni fyrstu svipan mikið mannspelli og skaða. Loks komst miðherinn yfir grafirnar, tók hinar sjö fallbyssur og riðlaði tvær fremstu herdeildirnar. Hin þriðja var líka að snúa undan, en Wallenstein tókst að stöðva hana. Riddaraliðið réðst á hlið fylkingu Svía, og Finnarnir, sem voru búnir að reka Króata og Pólverja á flótta, voru enn ekki komnir yfir dýkin. Þá hleypti konungur fram með Smálendingana; fáeinir menn höfðu svo frækna hesta, að þeir mætti fylgja honum. Það er sögn manna, að skotmaður einn í keisaraliðinu hafi skotið á hann með silfurkúlu; víst er það, að handleggur hans var brotinn og að hann reyndi til að leyna sári sínu, en brátt blæddi mjög og bað hann þá hertogann af Lauenborg, sem reið hjá honum, að fylgja sér með leynd út af vígvellinum. Í þessu bili stóð orustan sem hæst og í þeirri sömu svipan hleypti þar fram á Svíana albrynjað herlið, sem Götz stýrði; þar reið fremstur og stýrði liðinu Móritz af Falkenberg. Hann þekkti þegar konunginn og skaut kúlu gegn um hann miðjan, um leið og hann mælti hátt: „Þín hefi ég lengi leitað!“ [093.png] En í sömu svipan féll Falkenberg dauður til jarðar fyrir skoti. Þá riðaði konungur í söðlinum, og er svo frá sagt, að þá bæði hann hertogann að forða sjálfum sér; en hertoginn þreif um konung miðjan og vildi styðja hann, en í því sama bili steypti sér yfir þá múgur fjandmanna; skildi þar með þeim. Skot af skammbyssu sveið hárið af hertoganum; hestur konungs fékk skot í hálsinn og jós; féll þá konungur úr söðlinum, en hesturinn dró hann um stund fastan í stigreipinu, og er hann losnaði, lá hann kyrr. Hersveinn konungs, Leubelfingen frá Nürnberg, bauð honum hest sinn, en orkaði eigi að lyfta honum á bak. Nokkrir hestliðar úr keisarahernum riðu þar að og spurðu hver þar lægi, og er hersveinninn þagði, lagði einn þeirra hann í gegn með sverði, en annar skaut kúlu í gegn um höfuðið á konunginum, og enn fleiri aðrir skutu á þá, og lágu þeir þar báðir undir miklum valkesti. Þó lifði Leubelfingen enn þá nokkra daga og gat sagt eftirkomandi mönnum frá hinum hörmulega, ógleymanlega hetjudauða hins mikla Gústafs Adólfs. Á meðan þessi viðburður gerðist, hafði miðherinn orðið undan að hopa; lágu þar eftir þúsundir líka illa til reika, og höfðu Svíar enn ekki náð fetbreiðu svæði; stóðu hvorir tveggja nálega í sömu sporum og þá er orustan hófst. Þá sáu menn hvar hestur konungs, sár og með auðan söðul, stökk fram og aftur ær og alblóðugur um herinn. Æptu þá allir: „Konungurinn er fallinn!“ Fallega kemst Schiller að orði: „Lífið féll niður í spottverð þegar hið helgasta mannlíf var slokknað; dauðinn missti allar sínar ógnir í augum hins lítilmótlegasta, úr því hann hafði ekki þyrmt kórónaða höfðinu“. Bernharð hertogi hleypti frá einni röð til annarrar, „þér Svíar, Finnar, Þjóðverjar“, sagði hann, „verndari yðar, vor og frelsisins er fallinn. Vel og gott, hver sem hefir ást á konunginum, hann sæki nú fram og hefni hans!“ Sá fyrsti, sem fylgdi þessari áskorun, var Stálhanzki með Finnana. Hleypa þeir nú beint á dýkin og komast yfir með hinni mestu nauð og áreynslu, enda ráku þeir hinn mesta fjandasæg undan sér; stökk allt undan og engir þoldu eða stóðust þá þeirra heljarhögg. Ísólani sneri þá við á flóttanum og þar að, sem fyrir var farangurslið Svía, en varð aftur á flótta að leggja. Brahe með miðfylkingunni sótti og fram með sama harðfengi og komst yfir dýkin, en á meðan óð Bernharð hertogi yfir með lið sitt, hann fékk kúlu í handlegginn, sem braut hann, en hann gaf sig ekki að því og náði heilum skotgarði. Allur keisaraherinn riðaði, skalf og ruglaðist í þessari voðalegu atgöngu-hríð, púðurvagnar sprungu í loft upp, Wallensteins drottinsorð og Piccólóminis frábæra hreysti dugði ekki framar; flóttinn var óstöðvandi. Í sama bili dundi fagnaðaróp um alla sléttuna: „Pappenheim er kominn!“ Hann var kominn, hinn hraustasti hinna hraustu, allir hans riddarar. Hann spurði þegar: „Hvar er konungurinn sænski?“ Honum var bent á Stálhanzka og hleypti hann þangað. Tókst þar nú hinn harðasti bardagi og hin ógurlegasta höggorusta, sem verða má. Fékk nú keisaraherinn nýja hugdirfð, sneri allur við og sótti Svía á þrjá vegu. Hopaði þá enginn maður, voru nú þó nálega tveir menn um einn Svía. Brahe féll og um hann nálega öll hin gula herdeild. Winckel og bláa herdeildin féll alveg á sama hátt; lá hver í sínu rúmi í þráðbeinum röðum. Leifar fótgönguliðsins hopuðu aftur fet fyrir fet; virtist þá sigurinn brosa við hinum óstöðvandi Pappenheim. En Dessi Ajant samtíðar sinnar, hetjan með hundrað örin, átti ekki að sjá þann sigurdag allan. Þegar í byrjun orustunnar braut smáfallbyssukúla mjaðmarbein hans; tvær byssukúlur hittu hann í brjóstið; er það mál manna, að Stálhanzki sjálfur hafi orðið honum að skaða. Hann féll og gladdist deyjandi yfir falli Gústafs Adólfs; en fregnin um lát hans skaut skelk og ótta í brjóst hernum. „Pappenheim er fallinn, allt er farið“. Enn einu sinni sóttu Svíar fram. Bernharð hertogi, Kniephausen og Stálhanzki unnu þá ótrúleg afrek, en Piccólómini, sem hljóp nú á bak sjöunda hestinum, sjö sárum særður, var ekki eftirbátur þeirra og gengu menn hans berserksgang; hélt miðfylking keisarans manna stöðu sinni, þangað til nótt sleit bardaganum. Hélt þá Wallenstein undan, en hinn örmagna sænski her lagðist fyrir á vígvellinum. Lágu þar níu þúsundir dauðra manna á sléttunni hjá Lützen. Afleiðingar orustu þessarar urðu mjög tilfinnanlegar fyrir keisarans menn. Höfðu þeir látið gjörvallt stórskotalið sitt, Pappenheim og — orðstír Wallensteins, að hann væri ósigrandi. Hinn mikli harðstjóri réði sér ekki fyrir reiði; var og hans harðfenga hönd ávallt jafnboðin og búin til að vísa hinum huglausa á gálgann, sem til að rétta hinum hugprúðu gulldali. Nú var hann lasinn og niðurlútur og dró sig á leið suður til Bæheims með herleifarnar, nálægt níu þúsund manna; var það hans iðja um nætur að skoða stjörnur himinsins, en um daga að brugga svikræði, unz hann féll dauður fyrir hendi Buttlers og lauk svo hans frægu og stórfelldu ævi. Allt að einu gall óþrotlegt siguróp um allan hinn kaþólska heim, því að bæði Lúterstrúin og Svíar höfðu þar beðið ómetanlega meira tjón en óvinir þeirra. Nú var sá armleggur máttvana, er veifað hafði ljóssins og frelsisins sigursverði; allir mótmælendur voru því djúpum harmi lostnir, enda bættist við hryggð þeirra kvíði fyrir komandi tíð. Það var ekki ástæðulaust að sungið var Te deum í höfuðkirkjunum í Vínarborg, Brüssel og Madrid; nautaat var og haldið í Madrid í tólf daga samfleytt til minningar þess, að hin mikla hetja var fallin; en Ferdinand keisara fórst betur en samtíð hans, því að svo er sagt, að hann hafi úthellt tárum, þá er hann sá hinn blóðuga leðurstakk, er hinn fallni óvinur hans hafði borið. Margar frásagnir gengu um dauða Gústafs Adólfs. Ýmist kenndu menn hertoganum af Lauenborg, Franz Alberti, Richelieu eða Bernharð hertoga um vitorð með falli hans, en hin óhlutdræga saga hefir ekki styrkt eða staðfest neinar þær getgátur. Einn nýrri tíma rithöfundur[* Justinus Kerner. – Þýð.] segir svo látandi munnmælasögu: „Gústaf Adólf, Svíakonungur, hafði þá er hann var mjög ungur að aldri, átt unnustu eina, sem hann unni hugástum. Hún gaf honum hring úr járni og voru á hann grafnir stafir úr beggja þeirra nöfnum. Sjö dögum á undan falli hans hvarf honum hringur þessi, og vissi hann aldrei með hverju faraldri hann hafði misst hann“. Lesarinn veit, að þræðir þessara frásagna eru festir við hring þennan, en til þess eru ýmsar líkur, að hringurinn hafi verið úr eiri gerr. Um kveldið eftir orustuna sendi Bernharð hertogi liðsmenn sína með blysum og bauð þeim að leita uppi lík konungsins. Fundu þeir það flett og illa til reika undir kesti af dauðum mönnum. Var það flutt til bæjarins Meuchen og þar smurt; var liðsmönnum þá leyft að fara og sjá lík konungs síns, hetjunnar. Hrundu þar mörg bitur tár, en þó tár, sem líka voru full metnaðar; fannst jafnvel hinum lítilmótlegasta manni það vera stórsæmd fyrir sig að hafa barizt við hlið slíkrar stórhetju, sem sá konungur var. „Sjáir, mælti gamall liðsmaður úr liði Stálhanzka og snökti hátt. „Þeir hafa rænt hann gullfestinni og eirhringnum hans, ég sé þarna enn hvíta rák eftir hringinn á hægri vísifingri“. „Hvað áttu þeir að hirða um eintóman hring?“ spurði Skoti, sem nýkominn var til hersins og þekkti ekki sögur þær, er gengu um hringinn milli liðsmannanna. „Hringurinn hans!“ sagði liðsmaður einn frá Pommern æðiíbygginn. „Þú mátt reiða þig á, að Jesúítarnir vissu vel, hvað undir honum bjó. Hann var töfraður af finnskri seiðkonu; svo lengi sem konungurinn bar hann, beit hvorki á hann blý né járn“. „En lítið á, í dag hefir hann verið búinn að týna honum“, sagði hinn þriðji, „og því hefir ... þið skiljið mig“. „Hvað segir eplaætan frá Pommern?“ sagði Finnurinn reiður. „Guðs almætti en ekkert annað vald hefir varðveitt okkar mikla konung, en hringinn fékk hann hjá finnskri stúlku, sem honum í æsku þótti mjög vænt um; mér er þetta mál kunnara en ykkur, eplaprinsunum“. Bernharð hertogi, sem stóð þar hjá og horfði dapur og áhyggjufullur á hið nábleika konungshöfuð, leit þá upp og stakk hinni knálegu hendi sinni undir barm treyju sinnar, sneri sér að Finnanum og mælti: „Þekkir þú, lagsmaður, þann af fyrirliðum hans Stálhanzka, sem Bertel heitir?“ „Já, herra hertogi“. „Er hann á lífi?“ „Nei, herra hertogi“. Hertoginn virtist vera annars hugar og skipaði fyrir á tvær hendur. Fáum augnablikum síðar leit hann aftur á líkið og stóð sem í þönkum. „Var það hraustur maður?“ spurði hann. „Hann var einn af Stálhanzka-riddurunum“, svaraði Finnurinn tilgangslaust, „en það var metnaðarorð, sem fór honum vel“. „Hvenær féll hann, og hvar þá?“ „Í síðustu hríðinni móti þeim Pappenheim“. „Láttu leita hans“. Hinir örþreyttu liðsmenn gerðu eins og hertoginn bauð möglunarlaust, en á því furðaði þá þó að leita skyldi að líki einhvers hins yngsta fyrirliða, þar sem Níels Brahe, Winckel og svo margir rosknir herforingjar lágu enn þá í blóði sínu á vígvellinum. Um afturelding komu þeir aftur, sem sendir voru, og kváðust hvergi hafa fundið líkama Bertels. „Humm!“ mælti hertoginn, „miklir menn eru einrænir á stundum; hvað skal ég nú gera af hring konungsins?“ Og nóvembersólin kom eldrauð upp yfir slétturnar hjá Lützen. Ný öld var runnin upp; meistarinn var horfinn, og áttu nú lærisveinarnir eftir að sýna, hvernig þeir færu að til þess að fullgera hans verk.