Önnur saga herlæknisins SVERÐIÐ OG PLÓGURINN Þegar læknirinn hafði lokið sinni fyrstu frásögu, sátu allir, sem á hlýddu, góða stund hljóðir, hvort heldur það kom af því, að þeir voru að hugsa um fráfall hins mikla konungs, ellegar af því, að þeir ætluðu, að sagan væri enn ekki öll á enda. Þar sat amma gamla á hægindinu í legubekknum skinnfóðraða, með mórenda ullarmöttulinn yfir sér og hjá henni hinn lærði meistari Svenoníus, skólakennarinn, með bláa vasaklútinn og látúnsbúnu gleraugun; hægra megin sat herkapteinninn Svanhólm, póstmeistarinn, sem misst hafði hægri vísifingurinn í seinasta stríðinu; til vinstri hliðar var Anna Sofía, sem þá var 18 vetra og lagleg stúlka; hún bar skjaldbökukamb í hárinu, en það var vel þétt hár og fagurt og dökkt að lit; en framar á gólfinu sátu á fótskörum, og til og frá 6 eða 7 smátrippi, heldur ódæl, piltar og stúlkur, öll með opinn munn, eins og þau hefðu verið að hlusta á draugasögu. Sá fyrsti, sem rauf þögnina, var Anna Sofía; hún rak upp hljóð, þaut upp frá stólnum, rasaði og féll beint upp í fangið á meistara Svenoníus. Þetta gerði sviplík áhrif á hitt fólkið, sem um þetta leyti var með hugann suður við Lützen, eins og ef allir Króatarnir hans Isólana hefðu hleypt í einu beint inn í hið friðsæla herbergi. Póstmeistarinn rauk upp glóðvolgur enn úr stríðinu og setti járnsleginn hælinn á veiku ristina á ömmu gömlu. Skólameistarinn fetti sig og gretti og lét sér alls ekki skiljast hve dýra byrði hann bar í fangi sér, án alls efa hina fyrstu og fríðustu, sem honum hafði hlotnazt. – Krakkafansinn komst í uppnám, fleygði fótskörunum og faldi sig bak við háa stólbakið læknisins – nema Andrés, hann var þá nýbúinn að hleypa á harðastökk yfir grafirnar með riddurunum hans Stálhanzka, greip nú stóra spanskreyrprikið læknisins með silfurknappinum, setti sig í stellingar og bjóst að taka í móti Króötunum með brugðnum byssusting. Bekk gamli var hinn eini, sem ekki lét sér bilt við verða; hann tók upp dósirnar sínar aflöngu, náði sér í munntóbaksspotta, beit af honum ofurlítinn mola og sagði síðan stillilega: „Hvað gengur að þér, Anna litla Sofía?“ Anna litla Sofía losaði sig úr örmum meistarans, rauð út undir eyru, skimaði eftir óbótamanninum og gerði kunnugt, að einhver hefði stungið sig með nál í handlegginn. Amma gamla, sem enn var nógu einbeitt þegar hún vildi, setti óðara sökina í dóm, og er rannsókn var hafin, komst það upp, að Jónatan hafði stungið títuprjón upp í mjórri enda spanskreyrpriksins og með því unnið mein elztu systur sinni meðan orustan við Lützen stóð sem allra hæst. Hér urðu skjót og greið lögskil, rétt eins og siður er í hermannamálum; var sá dómur lesinn yfir höfði okkar góða Jónatans, að hann skyldi óðara fara útlægur niður í krakkastofu og læra þar viðbót til morgundagsins. – Nú er fullur friður var á kominn, fyrir tilstilli stórveldanna og án verulegra blóðsúthellinga, fengu menn frið og næði til að tala frekar um frásögn læknisins. „Það er allt of mikið af háreysti í sögunni þinni, frændi góður“, sagði amma gamla, um leið og hún renndi til sögumannsins hinum mildu og talandi augum, sem áunnu henni enn í ellinni allra hjörtu, enda skein út úr þeim greindin og góðleikinn. „Allt of mikið af háreysti, eða það finnst mér; það er eins og mig taki enn þá í eyrun eftir stórskotahríðina. Það er eitthvað skelfilega hryllilegt við þessa bardaga, þegar menn ímynda sér allt þetta mikla blóð á vígvöllunum og öll þessi mörgu tár þeirra, sem heima sitja. Hvenær skyldi sá dagur koma, að menn hætta að rífa hver annan í sundur, en fara að skipta bróðurlega milli sín bæði jörðunni og öðrum guðs góðu gáfum?“ Við þessi orð komst vígahugur póstmeistarans heldur en ekki í hreyfingu. „Skipta? Sættast? Engir bardagar? Sei, sei, frændkona, eða vill hún breyta veröldinni í eina mauraþúfu? Það yrði dáfallegt! Pennavíkingarnir mundu ata allan heiminn út í bleki; bleyður og lyddur færu að vaða ofan í vaskleikamenn, og þegar ein þjóðin sýndi annarri svívirðing, ættu menn að hneigja sig hæversklega, þakka auðmjúklega og setja upp volæðissvip. Nei, skrattinn taki mig, slíkir drengir eins og Napóleon og Gústaf Adólf, þeir kunna að dusta upp veröldina; þó þeir láti henni blæða dálítið af dauðablóði eftir bannsett bílífið, þá bætir það henni heilsufarið. Ég man vel eftir því enn þá við Karstúlu; Fieandt stóð vinstra megin, en ég hægra megin ...“. „Og ef ég mætti taka fram í, frændi góður“, sagði meistarinn, því nú skyldi hann hlusta á Karstúlu-söguna í hundrað og sjötugasta sinnið, um það, þegar Svanhólm hafði misst sinn fræga vísifingur, „þá vildi ég sýna þér og sanna, að hægra myndi verða að koma lagi á veröldina með bleki en með blóði. Inter arma silent leges[* Í ófriðnum þegja lögin. – Þýð.] . Mætti hernaðurinn ráða, sætum við ekki hérna við eldinn og púnsið í Bekks stofu, heldur við fallbyssumunnana á virkisveggjunum með logandi tundrið í höndunum, en engin pocula, hefðum við púður í töskum, en ekki eitt tóbaksnef í dósum. Eða er það ekki blekið, sem hefir komið frænda í póstmeistara-embættið? Hann lifir í bleki og blekið er hans atvinna og daglega brauð, og hvað yrði úr frænda með tómt blóð, en ekkert blek, ef ég mætti spyrja?“ „Hvað ég væri? Fjandinn fjærri mér! Ég ...“ „Svanhólm góður“, sagði gamla amma og leit alvarlega yfir börnin. Póstmeistarinn steinþagði óðara. Nú sá læknirinn, að nauðsyn bar til að semja frið milli blóðsins og bleksins. „Það er mín skoðun“, sagði hann, „að þjóðirnar lifi líf sitt hér um bil á sama hátt eins og við önnur mannanna börn. Í æskunni eru þær villtar og trylltar, fljúgast á og hamast og hver tætir annan í sundur. En síðan verða þær ráðnari og rosknari; þá finna þær upp púðrið, sem setur fylking móti fylking og lætur menn drepa á löngu færi náungann með köldu blóði. Loksins fer veröldin að sansa sig, hleður fallbyssurnar með lausapúðri eins og við Jónsmessugleði, og svo þrífur hún pennann, sem er nógu oddhvass þegar á þarf að halda. Þá byrjar nú yfirstjórn hinnar almennu skynsemi, og skyldi ég ætla að hún sé hin hyggilegasta, eftir því sem mér er hægt að skilja“. „Steintroðnar tíu tunnur af andsk... nú, nú, frændkona góð, ég skal steinþegja“, varð póstmeistaranum að orði. „Ég vildi einungis spyrja: Hvaða maður var hann Napóleon? Hvaða maður var Gústaf Adólf? Voru þeir báðir trumbuslagarar? Hvað haldið þið? Villtir og trylltir? Nei, ég þakka! Frændkona heyrir, að ég er hættur að blóta, en þá hefði frænka átt að heyra til hans Fieandts, hvernig hann hábölvanlega fór að bölva við Karstúlu“. Læknirinn hélt áfram sínu tali án þess að skipta sér af póstmeistaranum: „Því er það, að æskusaga allra þjóða byrjar á ófriði, og fyrsti liðsmaðurinn í fyrstu hermannaröðinni í heiminum hét Kain. En með því að hernaðurinn er jafngamall heiminum, mun hann haldast meðan heimurinn stendur. Ég trúi ekki á hinar nýju og fögru hugsjónir um eilífan allsherjar frið. Ég trúi því, að svo lengi sem tveir menn eiga að skipta jörðunni á milli sín, svo lengi sem maðurinn heldur sinni gömlu eigingirni, verður hann háður ófriðarins óblessun. Þið megið trúa mér, að þessi allsherjar friður verður allur í því fólginn, að mönnum helzt ekki uppi að berjast lengur blindandi, eins nauðugt og vitlaust eins og áður, heldur með glöðum hug, svo hverjum manni sé full-ljóst fyrir hverja sök það sé og geti bölvað sér upp á það að barizt sé fyrir réttu máli, og þá má hver hamast með hjartans yndi og ánægju“. „Það mun heita að berjast fyrir hugsjón“, sagði meistarinn ígrundandi. „Jú, jú, fyrir hugsjón. Það er, lítið á, heiður og frami finnska dátans, að hann hefir á öllum tímum barizt fyrir því góða málefni að verja landið sitt án þess að rjúfa heimilisfrið annarra þjóða. En einu sinni lagði hann af stað í leiðangur til framandi landa, og þá hagaði drottinn svo hlutunum, að þá barðist hann fyrir hinu stærsta og réttlátasta málefni, sem sé því að verja hið hreina evangelíum og samvizkufrelsi allrar veraldarinnar. Þetta vissi Finnurinn vel í þrjátíuára-stríðinu og fyrir þá sök lét hann svo til sín taka. Hann fann það á sér, að í hans brjósti sló sams konar hjarta og í Gústaf Adólf, sem þó, að því er ég kemst næst, var hinn mesti hermaður, sem uppi hefir verið, því að hann barðist og vann sigur fyrir hið bezta málefni, sem vert er að falla fyrir“. „Segðu meira um hann Gústaf Adólf“, sagði Andrés, sem ekki skildi annað af orðum læknisins en þetta nafn. „Elsku góði frændi, ofurlítið enn um hann Gústaf Adólf“, sögðu öll börnin í einu; hafði hið strangasta augnaráð ömmu þeirra, og aðstoð Önnu Sofíu, varla getað haldið þeim í skefjum. „Nei, ég þakka kærlega fyrir það. Nú er mikli konungurinn dáinn, og skulum við nú lofa honum að hvíla í friði undir hvelfing riddarakirkjunnar. Hafi sagan baga af því, þá bætist henni það aftur, því hinar persónurnar koma því betur fram á skoðunarsviðið; hingað til höfum við varla haft augun á öðru en hetjukónginum, og amma gamla hefir rétt fyrir sér í því, að okkur er orðið illt í eyrunum af skothvellunum. Af því kemur, að bæði jungfrú Regína og Jesúmunkurinn, og ekki sízt hann Bertel, sem er aðalmaðurinn í sögunni, hafa liðið fram hjá okkur eins og svipir, sem hvorki hafa hold né blóð“. „Og hún Katrín“, sagði amma„,mig langar nú helzt í að heyra meira um þetta glaðlynda og góða telputetur. Ég segi ekkert um hana Regínu, en það segi ég, að ég býð lítið fé fyrir slíka kolsvarta kattar-óhemju, sem á hverri stundu er vís til að klóra úr manni augun“. „Og um fallega greifann af Lichtenstein, sem við höfum ekki séð síðan í Würtzborg“, sagði Anna Sofía; „ég spái nú, að hann á endanum verði unnustinn hennar Regínu“. „Á, var það! Þetta átti við eyrun á frænku litlu“, sagði póstmeistarinn og brosti glettinn. „En um það vil ég biðja þig, Bekk frændi, að fara ekki út í þess konar óveruskap, segðu okkur heldur meira um hann Stálhanzka, Lyydikäin, lága og digra Larson og hann Witikka karlinn frá Tavast. Hvernig í skrattanum skyldi hann bjarga sér svona afeyrður báðum megin? Ég man það enn, það var þann 21. ágúst, að korpórállinn einn við Karstúlu ...“. „Bekk frændi“, sagði skólakennarinn, sem ævinlega var til taks óðara en Karstúla var nefnd, „Bekk frændi, sem hefir í hendi justitia mundi, réttvísinnar sverð, hann kemst aldrei hjá að hengja Jesúmunkinn Híerónýmus á hæstum toppi einhverrar eikarinnar í Harsfjöllunum“. „Varaðu þig, Svenoníus frændi“, sagði póstmeistarinn til að erta hann, „munkurinn var sprenglærður karl, sem kunni vel latínuna“. „Um Finnana skal ég segja ykkur það, sem ég kann“, sagði læknirinn, „en það hlýt ég áður að segja ykkur, að það er langt um of lítið. Bíðum við enn svo sem 20 ár, þá hefir eflaust einhver starfsemdarmaðurinn tínt saman afreksverk landa vorra úr fornum árbókum. Þangað til verðum við að láta okkur nægja sundurlausar sagnir og dæmi ... stundum kannske kryddað svolítið“, bætti læknirinn við, en svo lágt, að börnin heyrðu það ekki, því hann vildi endilega, að þau skyldu standa stöðug í trúnni á sögunnar áreiðanleik. „Og hvað varð svo af hringnum konungsnaut?“ „Það fáum við að heyra annað kveld“. 1. Maður frá tímum kylfustríðsins Norður af hinum frjósömu sléttum Þýzkalands liggur langa vegu ólgandi haf, sem ekki hefir umskipti flóðs og fjöru; bryddir það árlega ís á vetrum allt í kring og við hefir borið, að hin opnu beltissund þess hafi borið her manns í einu á svignandi ísbrúm. Í meira en þúsund ár hafa þjóðirnar umhverfis barizt um eignarráðin yfir þessu hafi og litað bárur þess með blóði sinu, en þegar þessi saga gerðist, réði eitt einasta ríki yfir níu tíundu hlutum þess víðu stranda, enda var það ríki um þær mundir hið lang-voldugasta á Norðurlöndum. Eystrasalt mátti þá nálega telja með stöðuvötnum Svíaríkis. Og Eystrasaltið teygir sína dimmbláu jötunarma norður og austur, og innilykur í sínum ólgufulla faðmi hafsins dóttur, báranna land, sem hefir vaxið upp úr skauti þeirra, vex enn til þessa dags og teygir snarbrött björg hátt yfir hjarta móður sinnar. Finnland er óskabarn Eystrasalts; enn í dag tæmir það auðævi stórvatna sinna í kjöltu móðurinnar, og hin volduga Rán hreykir sér ekki fyrir það né hækkar, heldur þokar hægt og blíðlega undan eins og eftirlát móðir til þess að dóttir hennar megi vaxa og sumar eftir sumar klæða nýjar og nýjar strendur með grösum og gróðri. Farsælt er það land, sem vaggar þúsund vatna öldum í skauti sínu og girðir hafið með 140 mílna strandlengju. Hafið elur fé og frjálsræði, hafið elur völd og vellíðan, menntir og manndóm; hafið er hin hvíldarlausa höfuðskepna heimsmenningarinnar, og sé eitthvert land í þess bandalagi, deyr það aldrei né dofnar af örbirgð og neyð, nema það sjálft baki sér böl sitt og bágindi. Og lengst norður á Finnlandi liggur stórhérað eitt, sem fremur öllum öðrum er fósturbarn hafsins, með því að þar hallar öllu landi jafnt, en lítið, og hefir frá alda öðli verið að vaxa upp af öldunum. Ótal grænar eyjar girða strendur þess. „Í mínu ungdæmi“, segir hinn gráhærði sjómaður, „sigldu stórskip þar, sem nú verður báti varla róið“, og að fáum árum liðnum hafa hjarðir hagbeit á hinum gamla hafsbotni. Barnið leikur sér að bera á bát sinn í fjörunni; gá nú vel að, unginn minn, og settu merki við, þar sem báruskúmið markar rákir á sandinum; þegar þú ert orðinn stór, verður þar ekki sjávarmálið ... lengst þarna fyrir utan grænu sléttuna muntu heyra hans nið. Og þegar þú loksins stendur þar sem öldungur, blasir þar við fögur byggð, þar sem þú lékst þér barn! Kynlega landsbyggð, þar sem bæirnir forðum völdu sér svo hyggilega hafnir við hyldjúp sund eða elfur, en eftir tvær aldir liðnar liggja heila mílu frá næstu höfn, og kilir og skipaakker eru dregin upp úr mýrlendinu átta mílur upp við skógbyggðirnar. Þetta hérað er Austurbotn. Ummáls er það meira en margt kóngsríki og skagar lengst í norður, allt til Lapplands marka, þar sem sólin aldrei gengur undir um hásumarið, né kemur upp um jólaskammdegið. Þrjá mánuði ársins vakir þar allt við sífelldan ljóma, og máttu þá um miðnætti lesa hið smæsta letur; þrjá mánuði varir nóttin, en nótt með stjörnum og norðurljósi, nótt með tunglskini og snjóbirtu, frostköld, helg og heið. Fegurð blómstranna fölnar þar fyrr en fögnuður mannsins; sjö mánuði byrgir slétturnar blikandi snjór og vötnin landfastur ís; en aldrei gerist vorið mildara en eftir frost og snjó þvílíks vetrar; þó er þess mildi blönduð blíðu angri, sem hjartanu er hægt að skilja. Við strendur hafsins í þessu norræna landi búa tveir þjóðflokkar, hvor innan um annan, en óblandaðir og ólíkir mjög; finnast þar í margbreyttum myndum þjóðleg og sérstakleg einkenni í tungum, siðum og skapsmunum, í hverri sókn og sýslu. Þó má hjá þeim öllum finna sameiginlegar einkunnir, hvatleik, þrek og ódula einurð í skapi, sem þeir hafa umfram alla aðra landsmenn. Landslagið eitt veldur því ekki, að hinir mestu og mannskæðustu bardagar í sögu Finnlands hafa háðir verið í héruðum Austurbotnunga. Fjórar mílur fyrir austan bæinn Vasa liggur Stórkýrósókn, á hinum flötu bökkum Kýró-elfarinnar, það er eitthvað hið auðugasta prestakall í Austurbotni og landsins kornskemma. Þar vex hinn nafntogaði sáðrúgur í frjórri leirmold, og er stórmikið af honum árlega flutt sjóleiðis til Svíaríkis; öll sóknin er því nær ein samfelld akurslétta og kvikandi kornstangamóða, og er það gamalt máltæki, að „Stórkýró-akur og Limingó-engi eigi hvergi sína líka að lengd og breidd“. Íbúar sveitarinnar eru finnskir, af Tavast-kyni. Hin hrörlega forna kirkja, byggð 1304, er eitt af fornmenjum landsins. Hingað biðjum vér nú lesarann að fylgja oss. Ekki var hérað þetta um þær mundir, sem saga þessi gerðist, nær því eins vel yrkt og ræktað sem það síðan er orðið. Hernaðaræði kylfustríðsins hafði stórum spillt velmegun þess, og þótt heill mannsaldur væri síðan liðinn, sáust víða stórar menjar eftir ófarir og illvirki þess ófriðar, enda töfðu sífelld stríð og útboð fyrir öllum umbótum. Um sumarið 1632 stóð því enn þá margur bær í eyði upp við skóglöndin, engin náðu skammt frá árbökkunum og óheilnæmar mýrarþokur grúfðu yfir sveitinni þegar nóttin var köld. Skógarnir voru þá þegar teknir úr sér að ganga, en gáfu þó nóg efni til tjörubrennslunnar. Nokkur hluti almennings hafði veiðistöðvar úti á Mikaeliseyjunum, og ekki hafði hinn velvirði sóknarprestur, séra Georgíus Thomæ Patur, fjögur þúsund silfurrúblur í hreinar árstekjur eins og eftirmaður hans nú hefir. Mönnum varð því ósjálfrátt að leita augunum hvíldar við bæinn Bertílu; hann stóð í nágrenni við kirkjuna og var betur húsaður en aðrir, og frjósöm engi alla vegu umhverfis. Sumarið var liðið fram að miðjum ágústmánuði og uppskeran nýbyrjuð. Þar voru yfir sextíu manns, karlar, konur og börn — konur í Austurbotni vinna útivinnu gjörvallan sumartímann — í óðaönn að skera hinn gullnaða rúgakur, safna skúfunum og raða þeim með hagvirkum höndum í háar og snotrar bríkur. Það var heitt þann dag, og urðu menn móðir af að vinna hálfbognir, sást og einn eða annar verkamaður, sem gjarnan hefði þegið að fara sér hægt, við og við teygja úr sér og mæna augunum á hina mjúku akurrein, sem bauð svo æskilegt hvílurúm. En sá hinn sami gleymdi ekki að renna undir eins stolnu auga til gamalmennis í grárri víðri vaðmálsúlpu, verkstjórinn auðsjáanlega, og í hvert skipti, sem nokkur hægði á sér, hvíslaði sá, sem næstur stóð: „Þarna er hann Larson!“ og fylgdi því undarleg verkun, ekki ólík forsmekk, sem fylgir keyrishöggi. Larson var lágur maður og riðvaxinn og lét glytta í fremur glaðlegt og góðmannlegt en hörkulegt augnaráð milli hinna kafloðnu kinna og brúskóttu brúna; hafði hann nú nóg að gera að líta eftir einni vinnukonunni, sem af hita og þreytu hafði hnigið í ómegin á gryfjubarminum. Eftir hinu föla útliti hennar að dæma, var kona þessi komin af æskuskeiði, ef til vill hálffertug eða eldri, en liti menn einungis á hennar beina vaxtarlag eða upp í hennar mildu bláu augu, myndu menn vart ætla hana eldri en tvítuga. Allt hennar útlit bar merki fornrar en snemma fölnaðrar fegurðar, svo og mikils andstreymis og kúgunar. Hún var í smágerðri hvítri ullartreyju, en sem hún hafði nú farið úr sakir hitans, og var því með berar skyrtuermar úr mjallhvítu líni; hún bar rauðan upphlut eins og alþýðukona og var í stuttu, röndóttu vaðmálspilsi; um höfuð sér hafði hún bundið klút og brotið undir hann hárið, sem var mikið og hörbleikt á lit. Hún hafði unnið eins og allir aðrir, en kraftar hennar veiktust fyrr en þeirra; hafði hún hnigið niður þar sem hún stóð með sigðina í hendinni, og þeir, sem næstir henni voru, höfðu borið hana frá með auðsærri virðingu og elsku og lagt hana þar sem grasið var mýkst, sótt henni ferskt blávatn úr lind og reynt að endurlífga hana. „Si-so, Emma (Emerentia)!“ sagði Larson gamli, þar sem hann hélt með föðurlegri nákvæmni höfðinu á henni í kjöltunni og var að dreypa á hana og baða gagnaugu hennar í vatninu. „Svona barnið mitt, vertu nú ekki sá einfeldningur að fara nú að deyja frá vini þínum í elli hans ... hvað ætti hann úr því eftir til að una sér við? Hún heyrir ekki til mín, auminginn. Hvar er annan eins föður að finna sem hennar? Að reka annan eins vesaling til vinnu í slíkum steikjandi hita! Drekktu ofurlítið, svona ... nú, vel var það gert ... þar slærðu fallegu augunum upp aftur! Þú skalt ekki þurfa að óttast, Emma, við förum nú heim, þú skalt fá að hvíla þig, þú þarft ekki að vinna framar í dag“. Hin veikbyggða, föla kona reyndi nú til að standa á fætur og taka sigðina aftur. „Ég þakka fyrir, Larson“, sagði hún með veikum en hljómfögrum rómi, „mér er nú skánað, ég ætla að vinna, faðir minn ætlast svo til“. „Faðir þinn!“ svaraði gamli maðurinn byrstur, „en ég ætlast ekki til þess; ég fyrirbýð þér að vinna, Emma; þó að hann faðir þinn ræki mig úr vistinni svo að ég færi á vonarvöl, færðu ekki leyfi til að vinna í dag. Nú, nú, barnið gott, vertu ekki svona hrædd, svo heimskur er hann faðir þinn þó ekki. Hann hlýtur þó að skilja, að þú hefir ekki eins hrausta handleggi eins og við; því getur þú ekki gert að, þú hefir það af henni móður þinni sálugu, sem var fædd jungfrú, og af uppeldi þínu í Stokkhólmi. Nú, nú, við skulum nú koma heim, vertu nú ekki svona þrá, Emma mín“. „Slepptu mér, Larson, hann kemur þarna sjálfur!“ sagði Emma, reif sig lausa, þreif sigðina og fór að höggva hin gulu strá. En í því hún beygði sig niður, sortnaði henni fyrir augum af nýjum svima og í annað sinn hneig hún í ómegin innan um blikandi rúgöx. Í sama bili herti allt verkafólkið sig um helming, því þarna kom hann nú sjálfur, hinn strangi húsbóndi á Bertílugarði, sem allir voru smeikir við. Eins og svartur skýflóki færðist hann nær og nær eftir stígnum; það var maður um sjötugt, en því nær beinn og allsköruglegur að sjá. Klæðnaður hans var ekki frábreyttur þeim, sem bændur báru á þeim tímum um sumartímann; hann bar víðar skyrtuermar og rauðröndóttan bol síðan, stuttar léreftsbrækur, ljósbláa sokka og skó haglega gerða úr birkiberki. Þó bar hann á hinu hvíthærða höfði uppháa húfu prjónaða úr rauðri ull, og sýndist hinn reisulegi maður töluvert hærri fyrir það. En þrátt fyrir hinn einfalda klæðaburð stóð af honum mikill ótti. Hann var hár og beinvaxinn og manna bezt á sig kominn, hvasseygur og snareygur, og ráðríkið og strangleikinn, sem lá um varir hans, er beygðust inn að munninum, sýndu þar bæði höfðingjann fyrir flokki sínum og hinn ríka landsdrottinn, sem vanur var að ráða kosti mörg hundruð undirmanna. Hver, sem leit á þennan öldung, mátti vel skilja, hvernig á því stóð, að hann hafði lengi í mörgum nálægum sveitum verið kallaður bændakóngurinn. Hinn gamli Aron Bertíla gekk hægt og kuldalega þar að sem einkadóttir hans lá á akrinum. „Akið henni heim á rimlavagninum“, sagði hann við vinnumennina, „eftir tvær klukkustundir skal hún verða komin til vinnu sinnar aftur“. „En, Bertíla“, sagði þá Larson, sem ekki gat stillt sig. Bertíla leit við honum heldur ómjúkt, enda steinþagnaði Larson. Síðan reikaði hann um akur sinn, eins og ekkert hefði í skorizt, hugði nákvæmlega að dugnaði hvers manns, hældi einum en atyrti annan og braut sér við og við ax og skoðaði, taldi og mældi þunga kornsins. Frá þerrihlöðunni mátti sjá yfir gervallan hinn gullna kornakur; var það nýræktuð spilda, yfir hundrað tunna land, umgirt af svörtu dýki í miðju hinu jarðfrjóa mýrlendi. Hann horfði hreykinn og ánægjulegur yfir hinar kviku gullöldur akursins, og varð enn þá brattari að útliti og bringumeiri, benti Larson að koma til sín og mælti: [108.png] „Manstu enn þá, hvernig hérað þetta leit út fyrir fjórum árum og þrjátíu síðan? Flemingsriddararnir höfðu hamazt eins og heiðingjar, byggðin var ein öskuhrúga, engin í flagi eftir hrossasparkið; þar sem við stöndum lá eyðimörk og náði alla leið upp að bænum; hálfbrunnir, berir stofnar stóðu hér og þar milli dýa og kviksyndis, engin gata né stígur lá hér um þessar slóðir, og skógarins úlfur gat ekki af sér fengið að eiga hér greni“. „Það man ég fyllilega glöggt“, svaraði Larson seinlega. „Og líttu nú í kring um þig, gamli kunningi, og seg mér: Hver reisti bæ þennan úr ösku, fegurri en hann var nokkru sinni áður? Hver ruddi eyðimörk þessa, hver lagði vegu og stillur, hver mældi akrana, gróf kring um mýrarnar, hver plægði þessa ágætu frjósemdarjörð, hver sáði í allt þetta engi, sem nú gárast fyrir vindinum og mun um fáa daga metta mörg hundruð manna með afurði sínum? Segðu mér, Larson, hver hefir unnið þetta stórvirki?“ Og augu öldungsins tindruðu af tilfinningu. En hið lágvaxna gamalmenni, sem hjá honum stóð, sýndist vera snortinn af annarri geðshræring. Hann tók auðmjúkt ofan, lagði saman hendurnar og sagði alvörugefinn: „Sá, sem sáir er ekkert, og sá, sem vatnar, er ekkert, það er einungis guð, sem vöxtinn gefur“. Bertíla heyrði vart, hvað hann sagði, svo var hann niðursokkinn í sínar hugsanir, og hélt áfram sínu tali. „Já, guð veit, að ég hefi lifað illa daga, tíma eymdar og örvilnunar, sem sverðið hefir leitt yfir jörðina. Og sjálfur hefi ég sverðinu brugðið og herjað garð óvina minna, og sigur hefi ég fengið, enda líka beðið ósigur, hvorttveggja til ills og óláns. Fyrir það hefi ég fullan rétt til að fagna yfir friðarins iðju, ég veit hverju sverðið veldur og hvað plógurinn orkar. Í stáli sverðsins býr óhreinn andi, sem liggur í leyni og leitar færis til að fylla sig á blóði og tárum; sverðið myrðir, sverðið eyðileggur. En plógurinn gefur líf og lán. Líttu á, Larson, þetta engi hefir plógurinn smíðað. Í Krosshólmi er skjöldur og á hann er dregið merki Finnlands, það er leó með brugðnu sverði. Væri ég konungur, mundi ég segja: burt með sverðið og komi plógurinn! Plógurinn er Finnlands skjaldarmerki; ef vér eigum brauð, eigum vér nægar hendur, og ef vér eigum hendur, rekum vér fjandmennina af höndum oss. En ef brauðið vantar, Larson, hvað stoðar oss þá stál og púður?“ „Bertíla“, sagði Larson með semingi, „þú ert kynlegur maður. Þú hatar hermenn og ófrið, og það fæ ég vel skilið; þeir brenndu bæ þinn og ráku fyrri konu þína með börnunum ungum og smáum út á merkur og skóga til að deyja. Þú hefir sjálfur barizt broddi bændanna og slappst með nauðung úr blóðbaðinu á ísnum á Ilmóla. Að þú mannst eftir þessu, þykir mér full vorkunn. En það, sem ég ekki get skilið, er það, að þú, bændavinurinn og hermannahatarinn, fyrst tekur mig að þér allslausan útslitinn liðsmann, og gerir mig að ráðsmanni hjá þér, gerir síðan út hann Lassa minn — guð blessi hann, greyið — til hernaðar, og loksins lætur þú son hennar Emmu dóttur þinnar, drenginn skegglausan, hann Gústa, fara í stríðið með konungs riddaraliðinu ...“. Svipur Bertílu gamla varð æði ískyggilegur við þessi orð, sem höfðu komið nærri viðkvæmu kauni; hann leit flóttalega í kring um sig, eins og hann óttaðist, að einhver stæði á hleri bak við vegginn á hlöðunni. „Hver er að tala um barnið hennar Emmu?“ sagði hann í hálfum hljóðum. „Ég kannast ekki við annan en son minn, hann Gústaf, sem seinni konan mín ól í Stokkhólmsferðinni, og guð hjálpi þér, ef þú nokkru sinni ... Við skulum gleyma þessu. Hvers vegna hefi ég tekið þig að mér? Hvers vegna sendi ég drenginn til hersins? ... Nú, það kemur þér ekki við“. „Þegiðu þá um það. Ég veit fleira en ég vildi vita“. „Segðu, ef þú getur, Larson, hvað ærleg og kristileg landstjórn útheimtir?“ Larson leit undrandi framan í hann. „Það skal ég segja þér. Í sverðinu eru tveir hlutir, blaðið og meðalkaflinn. Tvennt er líka sem tilheyrir plógnum, einn sem dregur og annar sem rekur á eftir. Tveir hlutir til samans mynda kristilega landsstjórn, sem sé fólkið og konungurinn. En það, sem þar í milli er, það er til sundrungar og skaðræðis, það hrifsar til sín vald konungsins og eignir bændanna. Það er til bölvunar“. „Ég veit, að þú hatar aðalsmennina“. „Og fyrir þá sök“, sagði Bertíla og herti svo á orðunum hálfglottandi, að það var svipað því sem hann væri að gera að gamni sínu, „fyrir þá sök, sérðu, skal minn sonur annað tveggja verða bóndi eða konungur; hvorki meira né minna“. Larson horfði á hann forviða. Hann hafði ekki haft grun um það metnaðardjúp, sem þangað til hafði brunnið eins og eldur undir ösku í brjósti bændahöfðingjans. Honum reis hugur við að trúa því, sem hann, eins og von var, áleit hina botnlausustu heimsku og ofdirfsku. „Þú getur þó aldrei búizt við því“, sagði hann smeikur, „að Emmu afspringur ...“ Augu hins stórhuga öldungs brunnu og leiftruðu, orðin, sem hann mælti, heyrðust varla, og það var eins og hann vildi verjast, en gæti ekki, þeirri löngun að tala nú einu sinni, segja nú kannske í fyrsta og síðasta sinni frá sinni dirfskufullu hugmynd, sem lengi var búin að grafa um sig í hans geðríka brjósti. „Gústaf konungur Adólf á einungis eina dóttur“, sagði hann loksins með breyttum rómi. „Já, hana jungfrú Kristínu“. „En ríkið á í aga og ófriði við hálfan heiminn, og krefst þess, að karlmaður komi til valda eftir konunginn liðinn“. „Bertíla ... hver meining er í þessu?“ „Meiningin, hún er sú, að í ungdæmi mínu heyrði ég sagt, að sonur Eiríks konungs og Karenar bóndadóttur væri kjörinn ríkiserfingi“. „Ert þú frá vitinu?“ Aftur flaug glottið um varir hins gamla manns. „Skilurðu nú“, mælti hann kuldalega, „hvernig það er hægðarleikur að hata hermenn og aðal og senda son sinn til hersins, skemmstu leið til frægðar og frama fyrir augunum á konunginum?“ „Ég bið þig, Bertíla, að hrinda frá þér þessum blinda hugarburði; þú ert vitur maður, þegar andi oftmetnaðarins fær ekki vald yfir þínu óstillta skapi. Ráð þín munu misheppnast, þau hljóta að misheppnast“. „Þau geta ekki misheppnast“. „Hvernig þá? Geta það ekki?“ „Nei. Ég er búinn að segja þér, að hann Gústaf skal annað hvort verða konungur eða bóndi. Ég hefi ekkert á móti hvorugu. Vilji hann vera bóndi, eins og ég, þá má hann það“. „En ef hann nú vill og getur ekki orðið bóndi; hafi hann nú tekið það í sig að verða aðalsmaður, og berjast til þess að ávinna sér skjaldarmerki? ... Mundu, þú hefir sent hann skemmstu leið til aðalstignarinnar. Sem fyrirliði er hann orðinn jafnhár og aðalsmaður“. Bertíla hugsaði sig um. „Nei“, sagði hann svo, „það er ómögulegt. Hans ættarblóð ... Hans uppeldi ... Minn vilji ...“. „Hans ættarblóð! Manstu ekki, að aðallinn rennur í æðum hans til hægri og vinstri? Uppeldi hans! Þú, sem hefir sent hann til Stokkhólms, þegar hann var 12 ára, þú, sem hefir látið hann alast upp meða1 aðalborinna sveina, sem dagsdaglega tala svo hann heyrir með háði og spotti um ófrjálsu stéttirnar. Þinn vilji! Heimskur er sá faðir, sem heldur, að hann geti með valdboði stýrt vilja æskumanns frá þeim vegi, sem hin voldugustu áhrif hafa lagt fyrir hann“. Gamli maðurinn þagði nokkra stund. Síðan sagði hann með uppgerðar kulda: „Larson, þú ert auðtrúa eins og flón; þú skilur það sem alvöru, sem ég segi að gamni mínu og á glaðværðarstundu. Ég skal ábyrgjast strákinn. Við skulum ekki tala um þetta meira ... en varaðu þig ... ekki eitt orð um það, sem nú hefir verið sagt! Skilurðu það?“ „Ég er gamall vinur þinn. Frá þeim degi að ég var fylgdarmaður Sviðu-Kláusar og ég bjargaði þér á flóttanum frá Ilmóla, hefir þú margfaldlega umbunað mína liðsemd; þig mun ég aldrei svíkja. En, líttu á, ég elska börnin þín, eins og ef ég ætti þau, og meira en það. Ég get ekki þolað, að þú gerir piltinn að auðnuleysingja, og svo er hún Emma ... Ertu faðir hennar, Bertíla? Hvernig ferðu með barnið þitt? Þína einkadóttur, sem gegnir öllum þínum duttlungum, og sem allt gerir með auðsveipni og undirgefni til að bæta fyrir æsku-óvirðing sína, hana ferðu verr með en vesölustu vinnukind þína; þú lætur hana netta og veikgerða eins og hún er, vinna þyngstu stritvinnu; þú horfir á hana hníga til jarðar, og reisir ekki upp barnið þitt. Þú ert grimmur maður, Bertíla ... meira en það: þú ert ónáttúru-faðir!“ „Það er hlutur, sem þú berð ekkert skyn á“, svaraði hinn gamli maður, heldur ófrýnn. „Jafnblautgeðja karl og þú ert, skilur ekkert hvað það er að ganga rakleitt og líta hvorki til hægri né vinstri. Emma líkist móður sinni; hún sækir eitthvað í aðalsættina, og það skal verða afmáð. Ekki verður hún drottning, eins og hún Karen Mánadóttir; vel og gott, þá skal hún vera bóndadóttir frá hvirfli til ilja. Konungur eða fólkið ... ég er búinn að segja, hvað ég meina um ruslið þar í milli, og nú skilur þú hvers vegna ég breyti eins og ég breyti. Kom nú, snúum nú aftur til vinnufólksins“. „Og hún Emma ... hlífðu henni í dag að minnsta kosti“. „Vinnur með fólkinu seinni partinn“. 2. Hann skammast sín fyrir bóndanafnið Bæjarhús Austurbotnunga eru rúmbetri á vorum dögum en þau finnast í nokkrum öðrum héruðum Finnlands. Stundum er íveruhúsið tvíloftað, eða með kvistloftum; oftlega eru gluggarnir þriggja rúða háir, húsið nær því alltaf farvað, oftast rautt, hornin stundum hvít svo og gluggahlerar, enda á stundum sumt prýtt með gulum olíulit. Ber það allt vott um hagleik í trésmíði eigi síður en velmegun, enda styður að því líka, að Austurbotnungar byggja aldrei eins stóra og fjölskipaða bæi eins og sumir Tavastlendingar og Ábæjarmenn, en hins vegar aldrei nema í mestu viðlögum eins strjála bæi eins og aðrir Finnar byggja. Þegar saga þessi gerðist tíðkuðust reykskálar nær því alls staðar meðal landsmanna, sem finnskir voru að kyni; þeir sem sænskir voru að ætt voru þeir einu, sem höfðu arinhlóð með reglulegum reykpípum. En þegar á þeim tíma mátti þó sjá í finnskum sóknum næst við sjóinn hús og hús, sem byggt var eftir lagi sænsku nágrannanna. Þar í grennd var þá nýtekið að koma upp kaupstöðum og ginntu þeir menn til að færa byggðir sínar frá uppsveitunum niður til strandanna; vöndust þeir þar brátt við betri aðbúnað, og eftir því sem bændur urðu efnaðir, eftir því batnaði óðum útlit bæði bæjanna og þeirra sjálfra. Reyndar fannst ekki sá munaður, sem 17. öldin átaldi svo mjög fyrir, nema á stórbúum höfðingjanna og hjá auðugum borgurum í Ábæ; en þó freyddi heimahitaður bjór eins í keri bóndans, og í skáp sínum geymdi hann hollenzkar kryddjurtir til hátíðabrigðis. Frá þeim tímum að logar kylfustríðsins höfðu afmáð reykskálana í Stórkýró-kirkjubæ, mátti sjá hús og bæi með ýmist sænsku eða finnsku lagi í friðsömu nágrenni hvert hjá öðru. Garður Bertílu, hinn stærsti og auðugasti í bænum, var byggður með hinu nýja lagi, hafði tröppurið og fordyri, svo og hvílugólf tvö innar af almannastofunni, annað handa húsbónda, hitt handa dóttur hans. Allir aðrir heimamenn bjuggu að mestu saman í stofunni, en nú um sumartímann svaf yngra fólkið úti á loftum eða í útihúsum. Þá sáust ekki stundaklukkurnar miklu í rauðum eða bláum trévirkjum, sem nú er helzta prýðin á hverjum efnuðum bæ. Í innri enda stofunnar, gegnt dyrum, stóð langborð fyrir þverum gafli og bekkir við, en hásæti húsbóndans fyrir miðju borði. Það leið nú að miðmunda, og grauturinn sauð og bullaði í pottinum, sem stóð þar á hlóðum við skorsteininn. Stofan var enn þá nærri því tóm, nema hvað kötturinn sat malandi á bekknum, stúlka á 14. ári hrærði í pottinum og Emma sat við hannyrðir ekki langt frá hlóðunum. Veslings Emma hafði náð sér aftur eftir yfirliðið, en var þó enn þá æði-fölleit. Hið síða ljósgula hár hennar féll laust niður um herðar hennar, hún renndi við og við stórum augum til dyranna, eins og hún kviði því, að faðir hennar kæmi þá og þá. En jafnskjótt leit hún aftur niður á vinnu sína; hún saumaði belti með hinum fegurstu litum og söng um leið sænska fornvísu: ** „Gefa skal beltið græna gullinu mínu væna, haldi hann heilu lífi og heim komi' úr grimmu kífi“. ** Vér höfum getið þess áður, að Emma var af æskuskeiði. Merkin eftir mótlætið á kinnum, sem áður voru svo fagrar, sýndu allmörg sorgarár, en í þessu augnabliki meðan hún var að hyggja að beltinu, brá á ásýnd hennar nálega eins og barnasvip af innilegri ánægju. Það var auðséð, að henni þótti vænt um verk sitt og að hún átti þann vin, sem henni var einkar-kær. Ævi hennar í höndum hins harðlynda föður var mjög gleðisnauð, en meðan hún horfði á beltið, þóttist hún í glitsaum þess geta lesið um langa framtíð af friðsælli ánægju. Hún lifði öll í þessu belti sínu, það var henni sama sem hugsunin um hennar einustu gleði — gleði, sem var hennar hjáguð — hugsunin um soninn hennar. Og aftur mátti heyra, hvernig hún söng: ** „Perlur og purpura gljáann, pilturinn minn skal fá hann; betri skal enginn binda bragningur um sig linda“. ** Í þessu bili kom faðir hennar, Bertíla, inn úr dyrunum og Larson á eftir með allt vinnufólkið. Hinn aldraði húsbóndi var ófrýnn á svip; hann gat ekki dulið sjálfan sig þess, að spásögur Larsons væri of mjög sennilegar. Sonur hans aðalsmaður! Þessi möguleiki, sem var svívirðing í hans augum, hafði honum aldrei til hugar komið. Emma var að sleppa allra síðasta orði vísunnar, þegar faðir hennar kom; hún stakk beltinu undir svuntu sína, en hin grunsömu augu föður hennar komust þó að leyndarmálinu. „Ertu nú aftur dottin í draumórana, letiblóðið þitt, í staðinn fyrir að skammta grautinn?“ sagði hann og ýgldi sig. „Hvað hefir þú undir svuntunni? Sýn mér það!“ Emma hlaut að sýna sinn kæra leyndardóm og breiða hálfsaumaða beltið fyrir allra augu. Faðir hennar leit fyrst á það með fyrirlitningu, reif það síðan í smá agnir og fleygði upp fyrir ofninn. „Ég er margoft búinn að segja þér það, að heiðvirða bóndakonu varði ekkert um hannyrðadekrið hjá aðalsfólkinu. Látum oss nú lesa borðbænina“. Öldungurinn krosslagði hendur sínar að fornum sið og svo gerðu allir. En áður en nokkur gat byrjað bænina, steig Larson fram á mitt gólfið; andlit hans, sem oftast hafði meinleysis svip, var blóðrautt af bræði, og þótt hann stæði þar stuttur og feitur brosti enginn að honum, svo var rödd hans og orðalag einarðlegt og drengilegt. „Þú mættir blygðast þín, Bertíla“, mælti hann djarflega, „að auvirða svo dóttur þína í allra augum. Hún vinnur eins og ambátt nótt og nýtan dag, meira en nokkur okkar hinna, og þó kallar þú hana leti-blóð! Ég segi þér nú upp í opið geðið á þér, þótt þú sért aldrei nema húsbóndi minn, og þótt ég lifi af þínu brauði og ætti ella um fátt að velja nema vonarvölinn, að jafnrangsleitinn faðir á ekki skilið að eiga slíka dóttur. Og heldur en að horfa á slíka hörmung dag eftir dag fer ég af stað og betla mér brauð. Og nú máttu lesa borðbæn þína, ef þú getur, og taka síðan til matarins. Ferðu vel, Bertíla, ég stenzt ekki lengur þetta athæfi“. „Fleygið út fantinum, sem storkar húsbónda sínum!“ æpti Bertíla með óvenjulegri ákefð. Enginn maður hreyfði sig. Það var í fyrsta sinni, að bændakóngurinn lifði það, að boði hans var ekki hlýtt. „Húsbóndi góður“, tók elzti vinnumaðurinn til máls, „okkur og öllu fólkinu finnst að ...“. Áður en hann komst lengra var hann lostinn því höggi, sem fleygði honum flötum á gólfið. Árangurslaust bauðst Larson til að fara burt viljugur, og árangurslaust reyndi Emma að koma á sáttum; svo rík var réttlætistilfinning þessa fólks, að allir, samráðalaust nema við samvizkuna, risu eins og einn maður væri upp á móti harðstjórn húsbóndans. Fjórtán karlmennskumenn stóðu þar albúnir og buðu karli byrginn, sem stóð þar ógnandi í miðri þvögunni. Óðara en hann hefði látið annað höggið skella, hefðu þeir allir sagt upp vistinni og kannske lokað hann inni í litlu stofunni þangað til honum hefði verið runnin reiðin; því lengra sem norðar kemur því hörundsárari er hinn finnski bóndi að þola barsmíði. Bertíla þekkti menn sína og var svo vitur maður, að hann sá, að reiðin hafði fært hann helzt til langt frá hófi. Hann leitaði nú ráðs að sjá sér farborða án þess að þurfa sinn hlut að láta með óvirðingu. „Hvað er það, sem þið viljið?“ spurði hann eins og ekkert væri. Það leit hver upp á annan, en loksins tók einn til máls: „Húsbóndinn gerir rangt; húsbóndinn hefir svívirt hana Emmu saklausa, húsbóndinn vildi reka hann Larson í burt, og hefir barið Símon; húsbóndinn gerir rangt“. „Emma, komdu til mín!“ Emma gerði svo. „Þú ert ekki lengur barn, Emma. Getir þú ekki unað við að vera hjá föður þínum í elli hans, gef ég þér fullt frelsi til að búa á garðinum í Ilmóla. Þú ert frjáls ... farðu, barnkind“. Bertíla þekkti dóttur sína. Þessi einu orð: farðu, barnkind! töluð með mildari rómi en hún var vön að heyra, þau voru nóg til þess að snúa hjarta dótturinnar. „Rektu mig ekki frá þér, faðir minn; ég yfirgef þig aldrei“. Þessi orð komu verndarmönnum hennar til að hopa, og nú sá karl, að hans hlutur var ofan á. „Hingað með hústöfluna!“ kallaði hann með þrumurödd. Gréta, telpan á 14. árinu, kom með boðorðakverið, eins og siður var á helgum dögum, og las þetta í hústöflunni: „Þér þjónustumenn, verið yðar veraldlegu drottnum auðsveipir með ugg og ótta í allri hjartans einfeldni! Þér þjónar hlýðið yðar húsbændum með öllum ótta, ekki einungis þeim, sem góðir eru og meinhægir, heldur og hinum hörðu og ströngu“. Þessi orð í tíma töluð urðu ekki árangurslaus. Á þeim tímum hélt húsbóndarétturinn og yfirráð foreldra enn sinni fornu ströngu helgi; þau völd voru meira en nafnið tómt, þau voru það í eðli sínu, og „af guðs náð“ gefin. Hjálpaðist hér allt að, orð þessi innrætt frá barnsbeini, hinn einbeitti strangleiki gamla mannsins og dæmið, sem Emma gaf um fullkomna undirgefni undir föðurins vilja og vald — allt studdi til að sefa skap fólksins, enda var þá og þessari uppreisn lokið. Borðbænin var lesin, og hver maður settist í sitt rúm möglunarlaust. Larson gamli einn stóð dapur í bragði og hélt hendinni á hurðarlokunni. Í sömu svipan opnuðust dyrnar skyndilega og ókunnur maður kom inn. Komumaður var alskeggjaður með barðabreiðan hatt á höfði, prýddan arnarfjöður, sem laglega var fest við hattkollinn; hann var í gulum kyrtli úr ull, eins og dátum var títt, girtur belti og hékk við það sverð mikið; hann var í kragastígvélum og bar í hendi kvistóttan göngustaf. „Já, já, sankti Lúsifer“, sagði hann kátur og keskinn, „ég hitti dável á, sem boðinn væri. Heilir, kotungar sælir, og þokið ykkur til, ég er eins svangur og munkur í messunni, ég get ekki dregið mig heim á prestssetrið í þessum bannsetta hita. Ekki hafið þið öl?“ Húsbóndinn í öndveginu, sem enn þá sauð í undir yfirborðinu, stóð til hálfs upp, en settist aftur niður. „Seztu niður, landi“, sagði hann með spekt, „sjálfboðnir eiga líka sæti undir borðum hjá Aroni Bertílu“. „Jæja þá“, sagði gesturinn og tók ófeimlega til eins og vanur væri að láta til sín taka, „jæja þá, þú ert hann Bertíla. Það er gott, lagsi. Virðing þeim, sem virðing veitir, og vil ég því segja þér, að ég er hann Bent Kristinsson frá Limingó, yfir-undirforingi í Austurbotnungaliði hans hátignar og hingað sendur til þess að líta eftir útboðinu. Dálítið meira í könnuna, karlar, af ölinu ... nú, nú, verið óhræddar stúlkukindur, ég bít ekki ... Bertíla“, sagði hann svo með fullan munninn. „Hver fjandinn, ert þú, bóndinn, faðir hans Bertels lautenants?“ „Það nafn þekki ég ekki“, svaraði hinn gamli húsbóndi, sem áður var nóg boðið sakir frekju liðsmannsins. „Ertu vitlaus, karl? Þú skyldir ekki þekkja hann Gústaf Bertel, sem hét Bertíla fyrir tæpu missiri síðan!“ „Son minn! Son minn!“ hljóðaði gamli maðurinn upp yfir sig með óttalegri rödd. „Ég vesall faðir! Hann skammast sín fyrir bóndanafnið!“ „Bóndanafnið!“ sagði káti hermaðurinn og rak upp roknastóran hlátur, svo að ölkannan dansaði á borðinu. „Eigið þið líka nafn, kotungarnir? Þá held ég, að ég fari að leggja niður að bera nafn. Þú ert féleg skepna, karltetur, hvern fjandann sjálfan átt þú að gera með nafn ... segðu mér það?“ Og um leið og hann sagði það, horfði hann framan í húsbóndann með svo frómlyndislegu gikksæði, að svívirðingin, sem lá í orðum hans, fékk töluvert mildari blæ. Bertíla gamli leit ekki við honum sakir fyrirlitningar. „Heimskur var ég að senda drenginn skegglausan út í veröldina í því trausti, að hann væri orðinn maður“, sagði hann með beiskjubragði við sjálfan sig. En yfir-undirforinginn, sem hafði eflaust áður sopið á ferðapela, og bætti nú drjúgum á sig úr könnunni, var ekki á því að sleppa svo góðu efni. „Því ertu svona grettinn, gamli minn?“ sagði hann með sömu ertninni. „Þið bændagarmarnir eruð þangað til að þvættast innan um kýr og kindur, að þið verðið nauts og sauðahöfuð sjálfir. Kynnirðu minnstu mannasiði, létirðu einhverja laglega stelpu skenkja á könnuna fyrir mig; hún er tóm, líttu á, alveg galtóm eins og hauskúpan á þér. En þið, rófuskrælingjarnir ykkar, hafið ekki hálft vit til að sjá, hver sómi ykkur er sýndur, þegar konunglegur yfirforingi heimsækir ykkur. Sérðu, hróið mitt, nú á dögum er dátinn fyrir öllum; hann ber nafn, sem syngur, af því að hann ber sverð, sem syngur í. En þið, bikkjuböðlarnir, hafið ekki annað en hráan graut í hausnum og rófu í brjósti. Skál, karlfugl ... heill og heilsu hinum hrausta lautenant, honum Bertel! Hvað þá? Vilt þú ekki drekka minni góðs og göfugs jungherra? Bóndadurgur, svei þér lengi!“ Og yfir-undirforinginn þóttist ekki minni maður en það, að hann í oflætinu sló hnefanum í borðið og það svo ósleitulega, að trédiskarnir dönsuðu og jafnvel tréfötin sjálf komust á flugstig að fjúka ofan á gólf með því sem í þeim var. Fyrsti árangurinn af þessu hermannaglensi var það, að þar spruttu upp sex eða átta vinnumenn og sýndu sig albúna að kenna hinum óboðna gesti að bera virðing fyrir bóndanafninu. En Bertíla gamli varð fyrri til. Hann stóð upp sem ekkert væri um að vera, gekk fram að liðsmanninum, steig seint og fast, mælti ekki orð, en tók annarri hendi aftan á háls honum, en hinni hægri í bakið, hóf hann hátt á loft og bar Bent okkar Kristinsson til dyranna og skaut honum út í tréspónahrúgu, sem lá þar úti fyrir fordyrinu. Hinum glensmikla liðsmanni kom þetta svo á óvart, að hann varla hreyfði sínar þreknu hendur, því hefði hann gert það, er ólíklegt, að sjötugt gamalmennið hefði borið sigur úr viðskiptunum. „Farðu“, kallaði Bertíla á eftir honum, „og haltu veizlu hvar þú vilt í minningu bændanna í Stórkýró!“ [119.png] Ekkert finnst ómenntuðum manni jafnmikið um sem snarræði samfara hraustri hendi. Óðara en Bertíla gamli kom aftur inn á gólfið, slógu menn hans hring um hann af ánægju; var þá og allri óvináttu lokið og allur ágreiningur milli húsbóndans og hjúa hans dottinn úr sögunni. Keppnin milli sverðsins og plógsins er jafngömul sem heimurinn. Kylfustyrjöldin hafði og átt þá undirrót og alið og aukið matninginn; var það nú allt í fersku minni. Þessi bændalýður hafði gengið undir oki aðalsmanna, eins og svo margir aðrir Finnar, og horfðu því hróðugir á hversu metorð þeirra og manngildi var varið gegn ofsa hermannsins; þeir gleymdu því í þeirri svipan, að innan skamms kynni einhver þeirra að verða færður í liðsmannatreyjuna og látinn leggja af stað til þess að verja land sitt. Sjálfur bændahöfðinginn var nú og svo hreykinn yfir framgöngu sinni og sigri, að hann gleymdi líka allri reiði sinni og lét nú í fyrsta sinni eftir langan tíma sjá sér bros á vörum og fór nú í lok dögurðarins að segja gamlar sögur til skemmtunar fólki sínu. „Ég gleymi því aldrei, þegar við dustuðum þrælinn hann Abraham Melkíorson, hann, sem lét fanga beztu bændurna í Stórkýró og hjólbrjóta eins og illræðismenn. Hann var þá á norðurleið og hafði 50 sveina; það var um vetur og hann „fínn“ maður, trúi ég, svo að hann fékk kvef í kuldanum og ók þó í úlfhéðni, bezta skjólfati, og barst mikið á. En þegar hann var kominn nálægt Karlabý gerðum við karli fyrirsát, komum honum á óvart eins og Jehú og felldum tuttugu og tvo af sveinum hans, en sjálfan börðum við hann bláan og bleikan, en við hvert högg dró hann vargsbelginn upp yfir eyrun og beit þá engin kylfa þann svikaref. „Bíðum við“, sagði þá Hans Kranki frá Limingó, fyrirliði okkar, „hýðum úlfskömmina úr húðinni“. Síðan dustaði hann Abraham svo duglega, að hann varð að sleppa kjörgrip sínum, stakkinum. Kranki var snöggklæddur, en kalt var í veðri, þótti honum feldurinn félegur og fór í. Og nú með því að þetta var í rökkri, tókum við hinir ekki eftir því, að Hans hafði farið í feldinn og byrjuðum nú á nýjan leik að dangla og dengja okkar varg, og víst var það, að þá var tekinn hrollurinn úr honum Kranka. En það er frá Abraham að segja, að þegar hann komst úr hýðinu, varð hann svo léttur á sér, að hann tók til fótanna og hljóp snöggklæddur hálfa þingmannaleið til Húseyjar. Þar var hann tekinn af Sáku-Jakobi í Karlabý; var fanturinn síðan fluttur til Stokkhólms, en ekki fékk hann lengi næði til að syrgja feldinn góða, því hertoginn lét innan stundar ganga milli bols og höfuðs á honum“. „Já“, sagði Larson, sem jafnan hélt taum Flemings og hans manna, „í það sinn höfðuð þið betur. Ellefu sveinar höfðu eftir verið á lífi, en látist vera dauðir; þá flettuð þið bera. Og um miðnætti skriðu þeir hálfdauðir af kulda til hringjarahússins og fengu þar hæli, en um morguninn ætluðuð þið að troða þeim lifandi undir ísinn, eins og þið gerðuð á Lappfjarðará. Þið voruð vargar, en ekki mennskir menn. Áin var svo grunn, að þið ýttuð mönnunum með stöfum inn undir vakarbarminn og þegar hvergi gekk, börðu konur ykkur þá með vatnsfötum á höfuðin“. „Haltu þér saman, Lassi, þú veizt ekki allt og allt, sem hann Sviðu-Kláus hafðist að“, svaraði Bertíla og varð æfur; „ég nefni ekki á nafn alla þá, sem hann og hans liðar hafa drepið og lifandi hjólbrotið, en manstu hann Severín Sigfreðsson við Sorsankoskí? Þegar hann hafði slegið hring um bændurna, skipaði hann fylgdarsveini sínum að höggva þá einn og einn með öxi, en sveinninn gafst upp, þegar hann var búinn með 24, og bað jungherrann sjálfan að höggva hina. Þá reiddist jungherrann, lét bændurna fyrst höggva sveininn í stykki, en þrengdi þeim síðan sjálfum til að búta í sundur hver annan, á meðan nokkur stóð lífs uppi“. „En hvernig fórst ykkur við garðinn hans Péturs Gumsa, illskufantarnir ykkar? Fyrst rændu ykkar menn garðinn, brutu gluggana, slátruðu öllum fénaðinum, röðuðu höfðunum með uppspertum ginum í gluggana eins og draugum. Síðan söguðuð þið í sundur alla máttarviði í skálanum nema fjórða partinn, til þess að húsið skyldi hrynja ofan yfir fólkið, þegar það kæmi heim. Og hvenær sem þið náðuð einhverjum riddaranum, höfðuð þið hann fyrir skotmark til að hæfa með örvum“. „Ekki er ráð fyrir þig, Larson, að taka málstað hans Sviðu-Kláusar. Manstu eftir konunni, sem varð fyrir einum af riddurunum hans Axels Kurks, þegar hann drap börnin hennar fyrir framan augun á henni? Það stóðst konugarmurinn ekki, heldur tók þennan drukkna dóna hryggspennu og kom honum undir með tilstyrk dóttur sinnar, hálfvaxinnar telpu; síðan barði hún hann í rot með burðarstöng og stakk honum svo í vökina. Í því bar þar að Sviðu-Kláus og lét hann hluta konu þessa í tvo parta“. „Tómur þvættingur, sem aldrei hefir verið sannaður“, sagði Larson önugur. „Þeir dauðu þegja eins og þægu börnin. Fimm þúsundirnar, sem drepnar voru við Ilmóla, kvarta ekki“. „Þú skyldir heldur hafa spurt liðsmanninn frétta frá syni þínum og mínum, heldur en að fara í illt við hann“, sagði Larson nú til þess að komast frá þeirra sífellda þrætuepli, kylfustríðinu. „Já, ... satt er það, ég hlýt að fá meira að heyra um strákinn og um stríðið. Ég bregð mér í ferð til Vasa á morgun“. „Kemur hann bráðum heim?“ spurði Emma hálfhrædd. „Hann Gústi? Víst mun hann láta sín lengi bíða“, svaraði faðir hennar beisklega. „Hann er sem sé orðinn aðalsmaður, hann skammast sín fyrir föður sinn ... skammast sín fyrir bóndanafnið!“ 3. Suðurlandastúlka á Norðurlöndum Fáar mílur fyrir sunnan Vasa, um 63. breiddarstig, snýr strönd Finnlands frá sínu beina striki í hánorður og stefnir til landnorðurs. Hinn víði, blái Helsingjabotn stefnir sömu leið, mjókkar snöggvast við „Kverkina“, breikkar þá aftur, og hallar sinni háu brún að brjósti landsins. Norðanvindurinn, sem kemur frá íshafinu, nær þar til að næða og blása með fyllra frelsi en annars staðar, engist saman í dragsúg milli stranda Kverkarinnar og hrindir öldunum með ógnaræði inn á sjávarklettana. Í miðju þessu stórviðrahafi liggja hin graslausu Gaddasker með vitaturninum og löngu sandrifi. Þegar fjallstormurinn hristir vængina yfir þessum hættulegu skerjum, þá er hvert far í veði, sem hættir sér inn gegnum mjósundið við Undirstein, hafi það ekki öruggan stjórnara og liðuga sigling. En um hásumarið, þegar vindurinn stendur móti sólu, boðar norðanáttin, þótt undarlegt þyki, hið hagstæðasta veðurlag og hina fegurstu daga, heiðríkjur í sífellu og sólbráð, þá svífa skipin hundruðum saman út frá ströndunum gegnum eyjar og grynningar til að leggja net fyrir síldartorfurnar, og hin vanstillta Rán hjalar þá sem mildust móðir við dætur sínar, hinar fagurgrænu eyjar, sem hvíla við brjóst hennar. Þegar Áland líður, er ekkert hérað á Finnlandi jafnauðugt af frjósömum eyjum sem Kverkin og ströndin næst fyrir austan hana. Ótal eyjar og hólmar — stærst er Vallgrund og Bjarkey — liggja þar á víð og dreif, eins og grænir dropar á bláum feldi, og mynda sérstaka sókn, sem kennd er við Replót, eintómir hólmar og sker, og búa þar fiskimenn einir. Svo margir eru þessir eyjaklasar, svo breytileg eru sundin og leiðirnar slíkir refilstigar, að út úr einum þessara klasa, Mikaelseyjunum, sem mörg hundruð smáhólmar mynda, mundi enginn lifandi maður rata, ef inn væri kominn, sem ekki hefði með sér þar innborinn mann til leiðsagnar. Þrjátíu gæzluskútur myndu ekki duga þar til að varna tollsvikum; það er einungis eitt meðal til, sem bætir þá erfðasynd allra strandbyggja, og það er mild og væg tollskrá með fáum banngreinum, og þetta hefir Finnland reynt á seinni árum með stórum hagnaði. Á sama tíma og þeir atburðir gerðust, sem sagt var frá í næstu köflum að framan, var það að í miðjum ágústmánuði 1632 risti herskipið María Eleónóra öldur Helsingjabotns; kom það frá Stokkhólmi og stefndi norður til Vasa; skyldi það sækja útboðslið frá Austurbotni og flytja til þýzka ófriðarins. Það var heiður og fagur sumardagsmorgun. Á hinum víttþanda haffleti lék hið óumræðilega sólblik, sem í einu er svo gagntakandi, áhrifamikið og gagntakandi blítt. Ómælandi snjábreiður, sem sólin skín á, má við það jafna hvað fegurðarskraut snertir, en snærinn er kyrrð og dauði, en særinn líf og hreyfing. Hafið með hvíld og ljóma er ímynd stórleikans með yndisbrosi, það er sofandi jötunn, sem dreymir um ljós og liljur. Bringa hans bifast hægt og hægt; skipsfjölin skelfir þig ekki þótt hún vaggi þér; hægt ætti hann með að soga þig niður í sitt gin, en hann er hógværðin sjálf og breiðir sinn silfurfeld undir kjöl þinn, og hann, tröllið, ber þig, sinn vesala dverg, sem barn á örmum. Sólin var nýlega runnin upp. Á þiljum briggskipsins var allt þegjandalegt eins og venja er til á morgunvökunni, þegar allt er með felldu. Nokkrir af skipverjum sváfu þá enn undir þiljum niðri; æðsti stýrimaðurinn var þó á rjátli og hafði sveipað að sér hollenzkum feldi; reikaði hann aftur og fram í lyftingunni; sá, sem stýrði, stóð kyrr á sínum stað, sá, sem gætti leiðar, sat uppi í reiðanum og horfði þaðan þegjandi; á framþiljum sást skipsmaður, sem var að festa reipisenda, og annar, sem fágaði fallbyssurnar, því að bráðum skyldi heilsa kastalanum Krosshólma með skotum. Sú stjórn, sem nú tíðkast á herskipum, var þá ekki kunn; voru þá hvorki til einkennisklæði né nokkur þessi merkiorð og ótal yfirboðarareglur, sem nú ganga nálega úr hófi. Herskip voru þá í fáum greinum frábreytt kaupskipum, nema að stærðinni til, vopnaburðinum og fjölda yfir- og undirgefinna manna. Og þegar nú þess er gætt, að þá fékkst á skipum hvorki brennivín né kaffi til morgunhressingar, en af Hollendingum höfðu menn þá lært að tyggja tóbak í því skyni — er hægt að skilja, að sjólífið á Maríu Eleónóru var allólíkt því, sem nú tíðkast á sams konar skipum sem hún var. Út við hinn grænfarvaða aftur-hástokk lyftingarinnar stóðu konur tvær og höfðu vafið svörtum ullarhettum um höfuð sín. Önnur þeirra var lág vexti, og sást í ellilegt og hrukkótt andlit undir hettunni; hún hafði grá augu og nokkuð flóttaleg og var öll vandlega sveipuð þykkum og fóðruðum möttli úr Nürnbergardúki. Hin konan var há, beinvaxin og grönn, og var í nærskorinni kápu úr svörtu flaueli, fóðraðri með dýrum skinnum. Hún hallaðist út á borðstokkinn og starði með hugsandi raunasvip á bárurnar, sem fram hjá fóru, og á hið gljáandi kjölvatn skipsins. Ekki sást í andlit hennar frá þilfarinu, en hefðu menn getað séð mynd hennar í skuggsjá aldanna, hefði þar mátt sjá undur-fríða en fölleita ásjónu og þar á tvö kolsvört og tindrandi augu með því bliki, sem bar af skini hins bjarta hafflatar. „Heilaga María!“ kallaði gamla konan og talaði beina og hreina flat-þýzku, „hvenær skyldi þessum hörmungum linna, sem þeir heilögu hafa lagt á oss sakir vorra synda? Seg mér, jungfrú, í hvert hérað heimsins erum við komnar? Mér finnst eins og væri heilt ár liðið síðan við sigldum frá Strælu og síðan við kvöddum villumannabælið í Stokkhólmi, hefi ég ekki fylgt dagatölunni. Hvern morgun, þegar ég rís upp, les ég mér sjö Maríu-vers og sjö Paternostra (faðir vor), eins og sá æruverðugi faðir Híerónýmus hefir sagt okkur að gera til varðveizlu mót forynjum og fítonskrafti. Það er ekki hægt að segja nema veröldin sé á enda, þegar minnst varir, úr því við erum komnar svo langt út úr hinni heilögu sanntrúuðu kirkju og frá kristnum mönnum. Þetta haf ætlar aldrei að taka enda — ó, hvað það haf er andstyggilegt! Þá þykir mér vænna um blessað Main-fljótið, sem rann svo rólega fram hjá litla turnglugganum okkar í Würtzborg. Segið mér, jungfrú litla, skyldi það ekki vera heimsendinn, þarna sem hafið ber við himininn, svo að við máske séum að sigla með öllum seglum beint inn í hreinsunareldinn?“ Hin háa og granna stúlka í flauelskápunni hlustaði, að sýndist, lítið á orðmælgi fóstru sinnar. Hennar dökku, tindrandi augu undir svörtu augnahárunum horfðu draumfögur á hafflötinn, eins og ætluðu þau að lesa í bárum hans þýðing hennar hugskotsdrauma. Og í því nú að stöku undiralda eftir gamla storma ólgaði og svall innan um smákvikurnar og skipinu hallaði svo að öldustokkurinn kyssti sævarflötinn, og skuggsjármynd meyjarinnar kom nærri henni sjálfri, brá angurblíðu og þó metnaðarfullu brosi á hennar fríða og fölva andlit; varir hennar bærðust og það var sem hún hvíslaði svo enginn heyrði að öldunum sínum dýpstu hugsunum: „Það er einungis hið stóra og hátignarfulla í lífinu, sem verðskuldar að vera elskað!“ Síðan bætti hún við, hrifin af þessari hugsun: „Hví skyldi ég ekki elska hinn mesta mann?“ Hún hvíslaði þessi orð með óumræðilegri undirgefni. En að vörmu spori fór hrollur gegn um hennar grönnu limi og hin tindrandi, kolsvörtu augu gusu svörtum leiftrum um leið og hún sagði hálftitrandi: „Það er einungis hið stóra og hátignarfulla í lífinu, sem verðskuldar að vera hatað!“ „Hvers vegna skyldi ég ekki hata? ...“. Hún lauk ekki málsgreininni. Hún beygði höfuðið að öldustokknum, leiftrið hvarf í augunum, en tár komu fram í þess stað. Tveir andar áttu í ófriði og börðust um þessa eldheitu sál. Annar sagði við hana: elskaðu! Hinn sagði: hataðu! Og hjarta hennar blæddi til ólífis í þessu voðalega stríði milli engilsins og árans, sem einvígið háðu. Þess er óþarft að geta, sem lesarinn þegar veit, að hin grannvaxna mærin á skipinu Maríu Eleónóru var engin önnur en jungfrúin Regína af Emmeritz, hin fagra draumleiðslu-mær, sem í Frankfúrt við Main ætlaði sér að snúa Gústafi konungi Adólf til páfatrúarinnar. Konungurinn, hinn mikli mannþekkjari, hafði ekki að ástæðulausu álitið þessa ofstopastúlku búna í allt, ef hún skyldi framvegis vera sem varnarlaust fórnardýr á valdi Jesúmunkanna. Það var því ekki í hefndarskyni, því hefnigjörn var ekki Gústafs hugstóra sál, heldur af mannúðarfullu veglyndi og hluttekningarsemi við unga, fluggáfaða stúlku, að hann ásetti sér að senda hana um tíma til fjarlægs lands, þangað sem hinir myrklyndu munkar næðu ekki lengur til hennar. Lesarinn man eftir, að konungurinn tók þessa fyrirætlun sína fram þegar hina minnisstæðu nótt eftir veizluna miklu í Frankfúrt, og þegar kom fram á sumarið var jungfrú Regína send yfir Strælu og Stokkhólm til hinnar gömlu frú Mörtu Úlfsparra í Krosshólma. Hinum hugstóra kom ekki til hugar, að hið sama voðavald, sem hann hugðist mundi leysa sinn fríða fanga undan, elti hana alla leið til Finnlands fjarlægustu stranda, því jungfrú Regínu hafði verið leyft að velja þá konu sér til þjónustu, sem hún tryði bezt, og hún valdi ekki hina glaðlyndu, björtu Katrínu, sinn betri engil, sem var látin fara heim til sín suður á Bajaraland, heldur kjöri hún fóstru sína, gömlu Dóróþeu, sem leynilega stóð í þjónustu Jesúmunkanna og lengi hafði kolum kynt undir trúarofsa hinnar ungu meyjar. Þannig var þessi vesalingur eftir sem áður varnarlaus og ofurseld því myrkravaldi, sem frá barnsbeini hafði saurgað og svikið hennar auðuga og viðkvæma hjarta með þess hræðilegu kenningum. Og í móti þessu valdi átti hún einungis eina, en þó máttuga tilfinning að setja, og það var hennar aðdáun, hennar djúpi ástadraumur um hinn mikla Gústaf Adólf, sem hún elskaði og hataði undir eins, — sem hún hafði treyst sér til að taka af lífi og líka að láta sitt líf í sölur fyrir. Hin slóttuga Dóróþea þóttist geta lesið hvað jungfrúnni hennar bjó í brjósti; hún beygði sig áfram, deplaði sínum smáu augum og sagði með trúnaðarrómi, sem laginn er þernum í hennar stöðu: „Á, já, já ... er því svona varið? Koma nú aftur fram þær syndsamlegu hugmyndir um villukónginn og allt hans stórglæpahyski. Þarna er fjandinn kominn; hann veit hvað hann ætlar sér. Þegar hann hyggst að veiða lítið og léttúðarfullt stúlkukorn, eins og almennt gerist, sendir hann í veg fyrir hana ungan og alrjóðan gorthala, með síða og fríða lokka og vasklegan á velli að sjá. En vilji hann tæla vesalings munaðarleysingja með stórar og háleitar hugmyndir og göfuga sál, kemur hann fram í líking skrautlegs sigurvegara, sem vinnur borgir og bardaga, og aumingja barnið er búið, hirðir úr því ekkert um þótt hinn vegsamlegi sigurvegari sé svarinn fjandmaður hennar trúar og kirkju og ætli hvorttveggja að eyðileggja“. Regína sneri tárvotum og skínandi augum frá hafinu og leit við ráðanaut sínum með ósegjanlegri efasýki. „Segðu mér“, sagði hún nærri því byrst í málinu, „er það hugsanlegt, að maður geti undir eins verið engill að eðallyndi og óvættur af illsku? Er nokkrum unnt að vera hinn allra mesti maður og allra versti í einu?“ Regína horfði aftur út á hafið. Morgunsins friðsæla kyrrð hvíldi yfir hinum skínandi sæ og svæfði alla ólgustorma hjartans. Hin unga mær stóð og þagði. En Dóróþea sagði: „Af þeirra ávöxtum skuluð þér þekkja þá. Minnist þess, kæra jungfrú, hve mikið tjón hinn óguðlegi konungur hefir gert oss og vorri kirkju. Hann hefir líflátið mörg þúsund liðsmanna vorra, hann hefir rænt og ruplað klaustur og borgir, hann hefir út rekið nunnur og heilaga feður úr þeirra guði vígðu griðastöðum, og hinn guðhrædda Híerónýmus hafa menn hans, hinir heiðnu Finnar, hræðilega útleikið. Okkur sjálfar hefir hann rekið í útlegð og út á enda veraldarinnar“. Aftur leit Regína yfir eyjar og sund, sem blöstu við í morgundýrðinni. Meðan myrkranna andi hvíslaði hatur í eyra hennar, sýndist henni hin skínandi náttúra vera að boða henni eilífa ást og elsku. Og sú hugsun var nærri orðin hjá henni að orðum, sem sagði: „Hvað gerir það, þótt hann hafi tekið þúsundir manna af lífi, þótt hann hafi útrekið nunnur og munka, þótt hann hafi vísað okkur í útlegð, hvað hefir það allt að þýða, ef hann er stórmenni í öllu og breytir samkvæmt boðum trúar sinnar?“ En hún þagði sakir ótta, hún þorði ekki að brjóta um þvert frá öllu sínu undangengna lífi. Í stað þess greip hún til eins orðs, sem Dóróþea hafði sagt, eins og hún vildi burt leiða þrumuský þeirrar heiftar og fyrirmununar, sem dró saman dimman þokumökk utan um hjarta hennar mitt í þessari lygnu og indælu skuggsjá hafsins, sem skín af sumarmorgunsins fersku dýrð. „Veiztu, Dóróþea“, sagði hún, „að Finnarnir, sem þú hatar, búa við strendur þessa hafs? Sérðu þessa rönd, sem kemur þarna upp í austrinu? Það er Finnland. Ég er ekki enn búin að sjá strönd þess og þó get ég ekki fyrirlitið það land, sem laugast af svo björtu hafi. Eg get ekki hugsað mér að illir menn megi vaxa upp við hjarta slíkrar náttúru“. „Allir heilagir náði okkur!“ hrópaði hin gamla, rétti sína mögru hönd og gerði krossmark. „Er þá þetta Finnland? Sá heilagi Patrekur varðveiti okkur frá að setja okkar fætur á þá fordæmdu strönd. Þér hafið þá kæra jungfrú aldrei heyrt, hvað sagt er um þetta land og þess heiðna fólk? Þar er sífelld nótt, snjórinn bráðnar þar aldrei, og hin villtu dýr og enn villtari menn sofa þar saman í gjám og gryfjum. Í skógunum er svo fullt af árum og óvættum, að kalli maður á einn þeirra með nafni líða óðara fram hundrað ófreskjur undan limi og greinum. Og sín á milli ofsækir þar hver annan með göldrum á alla vegu, svo í hvert sinn sem einhver hatar annan, galdrar hann óvin sinn og færir hann í úlfsham, og hvert orð, sem þeir tala, er svo magnað, að þegar þeir vilja búa til bát eða öxi, segja þeir að svo skuli verða, og svo fá þeir hvað sem þeir vilja“. „Það er dáfögur mynd, sem þú málar“, sagði Regína og hló í fyrsta sinn eftir langan tíma, enda hafði heilnæmi hafsins stórum hresst við hennar draumsjúku sál. „Farsælt er það land í sannleika, þar sem menn geta veitt sér allt, sem þeir óska sér með einu orði! Ef ég er svöng óska ég að fá fallegt aldini og segi: Aldini! Þá er það komið. Ef mig þyrstir segi ég: Lækur! Þá rennur þar óðara lækur við fætur mína. Ef ég ber sorg í hjarta, þá segi ég: Von! Og vonin kemur óðara aftur. Og ef mér leiðist eftir ástkærum vini nefni ég hann á nafn, þá stendur hann hjá mér. Finnland er ágætisland, sé það eins og þú ímyndar þér það. Því enda þótt við byggjum í helli milli villidýranna og undir eilífum snjó, myndum við líta hvor til annarrar og segja: Fósturjörð! Þá myndum við í sömu svipan sitja og haldast í hendur á bökkum Mainfljótsins í skugga linditrésins, þar sem við svo oftlega sátum, þegar ég var barn, og næturgalar átthaga okkar mundu dilla okkur með þeirra sæta söngklið sem á fyrri dögum“. Dóróþea sneri sér undan með ólund. Briggskipið stefndi nú inn um skerin, sveif fyrst hægt og seint fram hjá útskerjunum, og stóðu mörg þeirra hátt upp úr sjó í þá daga, sem nú eru sífellt hulin söltum bárum. „Hvað heitir hið langa skógi vaxna land á vinstri hönd?“ spurði Regína þann sem hjá henni stóð við stýrið. „Það heitir Úlfey“, svaraði maðurinn. „Þar heyrið þér nú, góða mín“, sagði Dóróþea, „Úlfey! Það er fyrsta örnefnið, sem fyrir okkur verður á Finnlandi, og af því sjáum við hvað í vændum er“. Skipið beygði nú í norður, stefndi milli Langaskers og Sundalands, beygði svo aftur austur á, fór fram hjá Brandey, gekk rakleitt yfir grunn það, sem nú stemmir stigu fyrir stórskipum og lokar fyrir innleiðina, og sveif loks inn á höfnina við bæinn Vasa, sem þá var ágæta góð, og heilsaði Krosshólms virkisveggjum með sextán skotum. 4. Bóndinn, borgarinn og dátinn Þegar hinn stór-auðugi Aron Bertíla steig upp í hina ríkmannlegu kerru sína og ætlaði á einum degi að afljúka ferð sinni til Vasa, skyldi það vera sáttarmerki milli þeirra feðgina, að Emma fékk að fara með honum og sitja við hlið hans; skyldi hún kaupa síld og humal og nokkrar kryddtegundir, svo sem ingifer og kanelbörk, sem hinir velmegandi bændur voru þá teknir að brúka. Hvort um sig þeirra feðgina átti sérstakt erindi fyrir sig, en hvorugt sagði það öðru, en það var að því leyti hið sama, sem bæði þráðu, að fá fréttir frá Þýzkalandi. Larson hafði á meðan á hendi hina venjulegu stjórn og eftirlit heima. Þetta bar til á þeim tíma, þegar Gústaf stóð beint andspænis Wallenstein hjá Nürnberg. Þurfti þá liðsmanna við meir en nokkru sinni áður, enda ritaði Oxenstjerna bréf eftir bréf til þess menn skyldu flýta fyrir styrktarsveitum að heiman. Þó að sláttur og uppskera stæði þá sem hæst, olli ófriðurinn, sem líka þurfti að slá og uppskera, að fjöldi ungra útboðsliða úr héruðunum umhverfis streymdi til Vasa; skyldi lið það óðara flytjast sjóveg til Stokkhólms og þaðan jafnharðan áleiðis móti herskörum Wallensteins á Þýzkalandi. Á þeim tímum voru heræfingar allar miklu óbrotnari en nú gerist; aðalvandinn var að kenna að gæta rétt stöðu sinnar í fylkingu, vaða beint sem horfði móti óvinunum, höggva hart og skjóta beint, og það höfðu Austurbotnungar þegar áður numið við selveiðar sínar. Og þar sem þessu var þannig varið, er auðskiljanlegt, að margir þeirra bændasona, sem þá bjuggust að heiman, náðu nógu snemma til að falla með konungi sínum á orustuvellinum hjá Lützen. Bærinn Vasa var þá 20 ára gamall og miklu minni ummáls en nú; var það bæði að hann var þá svo ungur, enda stöðvuðu Krosshólms konungsjarðir útfærslu hans að sunnanverðu. Umhverfis gömlu kirkjuna Mústasári og nálægt Stóralangstræti norðan-megin, voru nokkrar húsaraðir; það voru einloftuð, rauðmáluð hús og meðal þeirra 6 eða 7 sölubúðir. Við höfnina stóðu forðabúr og sveitin umhverfis var alskipuð fiski- og farmannahverfum. Bæir með beinum strætum þóttu óþarfi á 17. öldinni; því þéttara sem húsin stóðu, því tryggari þóttust menn vera á þeim óróatímum. Þorp eins og Vasa þá var, skoðaði sig eins og eitt heimili, og íbúarnir töldu sér virðingu að hinum háreistu, grænu virkisveggjum á Krosshólmi, sem stungu af við hin lágu hús bæjarins. Það var gömul sögn manna og sannar hana sagnaritarinn Messeníus, að Birgir jarl hafi byggt kastalann Krosshólm; hafi hann fengið nafn sitt af trékrossi, er þar var reistur og tákna skyldi sigur og griðastað; fylgir þar með jafnforn saga, er segir, að hinn ágæti jarl hafi þar fyrst á land gengið, þá er hann vann Finnland. Síðari rannsóknir hafa nú dregið efa á þær sagnir og um leið á uppruna Krosshólms, en víst er um það, að kastalinn er ævagamall, og það svo, að menn minnast hans ekki öðru vísi en eins og leifa einhvers enn þá eldra. Hann hefir að vísu aldrei veitt landinu neina vörn, þar eð lega hans gerir hann ónýtan til landvarnar, og eftir að kastalaborgirnar í Úleá og Kajana voru byggðar, hættu menn að skoða Krosshólm sem hervarnarstað. Nú var hann notaður sumpart fyrir aðsetur höfðingjans yfir norðurfylkjunum, sumpart fyrir aðra konungsmenn; þar var og fangelsi, og hinn svo nefndi Hlöðugarður, er bæta átti í búi höfðingjans. Þá hafði þar setið hirðstjórinn Jóhann Mánason Úlfsparre frá Túsenhúlt, og fór hann nú frá, en í stað hans kom ofurstinn Ernst Creutz af Sarvelax, því Úlfsparre sat þar ekki nema við og við, enda segir sagan að í fráveru hans hafi móðir hans, hin sjötuga frú Marta, verið ráðskona bæði yfir kastalanum og búgarðinum, og skort hvorki skap né strangleik. Milli bænda og bæjarmanna var mikill og undarlegur rígur á þeim dögum, hvorum tveggja til skaða; kom hann mest af viðleitni konunganna til að efla bæina með því að bæla alla landverzlun og skapa og setja bernskulega vörutaxta og viðskiptareglur. Þegar hinn gamli, ríki bændahöfðingi ók með dóttur sína inn í bæinn landmegin, hitti hann að vísu nokkra menn, sem kinkuðu kolli eða heilsuðu hinum nafnkunna manni sakir auðlegðar hans, en ofrembingarnir meðal konungsmanna, sem óttuðust fortölur Bertílu og gengi hans hjá konunginum, renndu til hans hornauga og létu óvild sína í ljós með háðsyrðum og töluðu svo hátt, að hinn gamli maður heyrði gerla: „Þarna kemur“, sögðu þeir, „bændaskörungurinn frá Stórkýró, og bærinn hefir ekki byggt neitt borgarhlið honum til heiðurs! Hann þykist víst of góður til að þreskja á hlöðugólfinu; hann ætlar nú út í stríðið og lætur óðara gera sig að hershöfðingja. Varið ykkur, eldhúskonungurinn er allófrýnn á svip að sjá. Fái hann full ráð í hendur, pælir hann allan Vasabæ upp í akurland“. Bertíla gamli var svo bráðlyndur maður, að reiðin gaf honum sjaldan langt ráðrúm; keyrði hann nú harðlega hest sinn og vildi sem fyrst komast til sjómannsekkju þeirrar, sem hann var vanur að gista hjá í bænum. En óðara en hann ók inn í strætið, sem nú heitir Kaupmannagata og enn þykir vera fremur þröngt, en þá var afar mjótt, hefti þar för hans hópur drukkinna manna; voru það nýir liðsmenn, sem þá höfðu fest félagsskap sinn á einni ölstofunni þar nærri, áður en þeir leggðu upp í leiðangurinn. Tveir eða þrír undirforingjar höfðu fylgt hópnum sem sjálfkjörnir fyrirliðar og ruddust þeir nú allir fram í móti komumanni og kölluðu: „Úr vegi, kotkarl!“ Bertíla, sem þegar áður hafði verið nóg boðið, gat þá ekki stillt sig lengur, heldur reiddi upp svipu sína og laust fyrirliðann högg mikið, svo að hinn barðabreiði hattur hans með arnarfjöðrinni hraut af höfði honum. Nú var friðnum slitið til fulls. Sá, sem höggið hlaut, réðst óðara á kerruna og allir hinir með honum. „Já, já, karlkind!“ æpti fyrirliðinn, sem var enginn annar en undirforinginn Bent Kristinsson, sem Bertíla hafði svo illa leikið í Stórkýró, „hér ertu nú kominn milli þils og veggjar, og skal ég nú launa þér takið góða í gærdag. Farið þið frá, piltar, látið mig einn um karlinn, þar er fiskur, sem ég einn skal rífa úr roði!“ Bertíla var of gamall orðinn til þess að hætta sér út í meira handalögmál, leit hann nú í kringum sig, hversu hann mætti undan komast. Kerran hafði stöðvazt við búðardyr einar, og stökk nú Bertíla úr henni og á stétt hússins, en gaf hestinum keyrishögg um leið, svo hann rann á stað með kerruna og dóttur hans, rauf mannhringinn og fór stökkvandi niður strætin. En hafi sú verið ætlan Bertílu að leita vígis í búðinni, brást það illa, því að húsbóndinn skellti hurðinni þegar í lás fyrir vitum hans. Sá nú hin eldrauða hetja að lokuð voru sund öll, nam því staðar og lét hurðina gæta sín, en snerist við fjandmönnum sínum, stóð keipréttur og reiddi hina löngu svipu. „Lúberjum karl-ofrembinginn frá Stórkýró!“ kallaði sveinstauli frá Læhelu, sem tæpa viku var búinn að bera byssuna og hafði nú gleymt bóndanafninu, þótt bóndans tungumál kynni hann. „Faðir þinn var betri maður, Matti Hinriksson“, sagði Bertíla með fyrirlitningu. „Í stað þess að hafa uppi kjaft við sína líka, hjálpaði hann okkur eins og sannur bóndi til þess að dusta skrokkinn á riddurunum hans Péturs Gumsa hérna um árið“. „Heyrið þið, piltar“, sagði einn af undirforingjunum, „karlhundurinn hælist um að hafa lúbarið vaska dáta!“ „Við þolum enga skömm eða ójafnað!“ „Við skulum kenna honum að dansa eftir okkar keyri!“ „En við dönsum ekki eftir hans!“ Að svo mæltu hlupu til fimm eða sex af þeim fremstu, sem nýlega höfðu borið bændastéttar-peysuna, og vildu toga Bertílu fram af stéttinni. Hefði þá verið úti um hann, hefði ekki mótstöðumaður hans frá því daginn fyrir, hinn glaðværi undirforingi, gengið í milli. „Hættið, piltar!“ æpti hann með þrumurödd. „Hvern fjandann eruð þið að hugsa? Þykist þið vera heiðarlegir hermenn? Sjáið þið ekki, að karl þessi er sjötugur, og samt eruð þið sex á móti einum. Blitz-Donner-Kreutz-Pappenheim![* Þ. e. elding-þruma-kross-P. Pappenheim var einhver hinn harðasti víkingur í þrjátíuára-stríðinu. Þýð.] (þá formæling hafði undirforinginn lært á Þýzkalandi og brást sjaldan þar í landi hennar verkan), er þetta hermannaháttur? Hvað haldið þið, að konungurinn segði um þetta? Farið þið frá, strákar, ég á karlinn og ég á einn með að gefa honum ráðningu. Þið skylduð hafa séð, hvernig hann hóf mig á loft í gær eins og vettling og kastaði mér út úr dyrunum. Það var ósvikið handtak og það skal ég nú launa“. Karlmennska og drengskapur gerir nær ætíð góða verkan. Þeir, sem næstir stóðu, viku óðara frá. Undirforinginn gekk að stéttinni. Bertíla hefði vel getað náð til hans, en sló ekki; hann vissi við hverja hann átti. „Veiztu, bóndi, hvað það þýðir“, sagði nú hinn í svo einbeittum rómi, að sæmt hefði Stálhanzka hershöfðingja sjálfum, „veiztu hvað það þýðir að kasta út fyrir dyr hermönnum hans konunglegu hátignar og krúnunnar? Veiztu hvað segist á því að slá hatt af höfði verndarmanns hinnar evangelisku trúar og sigrara hins stórmektuga rómverska keisara, manns, sem með eigin hendi hefir unnið sigur í fjórtán fólkorustum og klofið í herðar niður sextán eða sautján stríðs-marskálka? Veiztu það, karltetur? Væri ég í þínum sporum ...“. „Væri ég í sporum hermanna hans konunglegu hátignar“, sagði Bertíla og brá sér ekki, „þá mundi ég kunna að virða heiðarlegan mann í húsi hans og gamals manns hærur. Og væri ég Bent Kristinsson og þó ég hefði yfirunnið rússneska keisarann og klofið í herðar sautján lifandi stríðs-marskálka, þá mundi ég engu síður muna, að faðir hans Bents Kristinssonar hét Kristinn Níelsson, var bóndi í Limingó og féll á Ilmóluísi sem vaskur maður, móti harðstjóranum honum Fleming“. Undirforinginn stóð litla stund eins og áttaviltur. Síðan gekk hann beint að mótstöðumanni sínum. „Veiztu, bóndi, að ég er búinn til að negla þig, sko!“ mælti hann með grimmdarsvip og dró til hálfs úr slíðrum sinn skelfilega langa sköfnung. Bertíla brá sér hvergi og krosslagði hendur á brjósti. „Ertu ekki smeikur, karl?“ sagði sigurvegari hins rómverska ríkis, sem hinn gamli sló af laginu með einurð sinni. Fann Bertíla nú, að hann hafði yfirtakið. „Hvenær sástu finnskan mann verða hræddan?“ sagði hann. Undirforinginn var ekkert illmenni. Það var að honum komið að gerast göfuglyndur, grimmdin í svip hans breyttist í hið hranalega kátínu-fas, sem fór honum miklu betur. „Vitið þið það, piltar“, sagði hann og leit til sveitunganna, „þennan afgamla uxa vantar hvorki horn né klaufir. Það hefði víst mátt verða eitthvað úr honum hefði hann fengið að vera með stórhöfðingjum. Í gær, þegar þeir voru fimmtán um einn — því það megið þið vita, að fullir fjórtán voru þeir um að koma mér upp á bakið á karlinum, og merki bera þeir allir eftir mig — já, það segi ég, ég hefði lúbarið karlinn til óbóta í gær, hefði kvenfólkið ekki verið, því stelpurnar sátu líka við borðið. En í dag erum við fimmtán um einn, mér sýnist að við lofum karlinum að hlaupa“. „Hann er vellríkur eins og skrattinn“, kallaði einn í hópnum, „hann á að gefa okkur öltunnu“. Bertíla tók upp litla leðurpyngju og úr henni nokkra silfurpeninga frá dögum Karls níunda; þeim þeytti hann út í ösina með fyrirlitningarsvip. Þetta espaði aftur dátana, ýmsir hnefar komu á loft og það lá við, að allt færi aftur í bál, en í því sneri allur flokkurinn við og hlupu þeir sem fætur toguðu niður til hafnarinnar. Menn heyrðu fallbyssuskot; það var herskipið María Eleónóra, sem heilsaði Krosshólmi. 5. Jungfrú Regína kemur til Krosshólms Allir, sem fætur höfðu í Vasa, flykktust niður til hafnarinnar til að sjá nýkomna herskipið; slíkt var þar sjaldséð sjón. Fimm eða sex hundruð manns stóðu þar í fjörunni, réru út á bátum, klifruðu upp í siglutrén á skútunum á höfninni, en sumir fóru upp á þökin á forðabúrunum, til þess að fá sem bezt útsýni. 200 nýir liðsmenn horfðu með undrun og metnaði á skip það, sem skyldi flytja þá frá fósturjörðinni, ef til vildi fyrir fullt og allt. Og bak við þá stóð stór hópur af mæðrum, systrum og unnustum og grétu beiskum tárum, svo kviðu þær fyrir skilnaðinum. Úlfsparre var í Svíaríki. Hans næsti undirmaður, fógetinn Pétur Thún, ásamt fyrirliðum liðsins, tóku á móti komumönnum. Nýju hermennirnir stóðu í röðum og foringinn af herskipinu bauð jungfrú Regínu hæversklega arm sinn, að hann leiddi hana til kastalans. En í þeirri svipan fann hin stórlynda ungmær, að hún var fangi. Hún þáði ekki hönd foringjans, heldur gekk óstudd, bein og skörugleg sem drottning, og eftir henni hennar aldraða þerna gegnum hermannaraðirnar og hinn forvitna mannfjölda. Svo nýstárleg sjón vakti voðalega forvitni í Vasa. Óðara flugu alls konar undrafregnir um allt. Sumir sögðu, að hún væri úr Austurríki, dóttir keisarans, sem hefði verið hernumin úr stríðinu og send til Finnlands til geymslu. Aðrir fullyrtu, að þar þekktu þeir Maríu Elenóru drottningu; en hvað átti hún að gera í Krosshólmi? „Það skal ég segja ykkur“, hvíslaði könnusteypir einn með spekingssvip, „hún hefir gert samsæri við landa sína Þýzkarana móti konunginum og ríkinu; þess vegna skal hana loka inni, því hér er öllu óhætt í Krosshólmi“. „Það er ekki satt“, sagði annar, sem af skrafi sínu við einhverja heimkomna liðsmenn hafði heyrt ávæning af fjörráðunum við konunginn. „Það er“, sagði hann í hálfum hljóðum, eins og væri hann hræddur um, að sú, sem hann talaði um, heyrði til hans, „það er nunna af Vallandi, sem Jesúmunkarnir höfðu keypt af að gefa konunginum eitur. Sex sinnum hefir hún byrlað honum ólyfjan, og sex sinnum hefir hann fengið vitrun í draumi, að hann skyldi ekki drekka hana. Þegar hún rétti að honum eiturbikarinn í sjöunda sinn, dró konungur sverð sitt og neyddi hana til að drekka sitt eigið eitur“. „En hvernig getur hún þá verið komin hingað heil og lifandi?“ spurði gömul kona í grandleysi. „Heil og lifandi?“ svaraði hinn og lét sér ekki bilt við verða; „já, það kemur nú an upp á. Þess háttar manneskjur geta brugðið sér svo ... hvað þá? Munið þið ekki eftir Hollendingnum í fyrra, sem drakk bráðið blýið? Ég segi ekkert, en gerið ekki nema gáið að svarthærðu nunnunni, hún er bleik eins og nár“. „Hefir hún gefið konunginum eitur?“ gall við skjálfandi kvenmannsrödd þar rétt hjá. Það var Emma, sem hafði haldið andanum og heyrt hvert orð. „Hvaða bull er þetta“, sagði stýrimaður einn, sem auðsjáanlega þóttist fróðari en aðrir. „Þegar ég í vor lá í Strælusundi, sá ég þessi augu, og þeim gleymir enginn auðveldlega. Stúlkan var þá á leiðinni til Stokkhólms, og einn af varðliði hennar sagði mér alla söguna. Hún er spönsk seiðkona, sem hefir gefið sig fjandanum til þess að hún væri í sjö ár hin fríðasta kona á jörðunni. Lítið á hana, þá sjáið þið, að satans-óvinurinn hefir staðið við orð sitt. En gætið ykkar, því í þeim augum er eitthvað dökkleitt, sem brennir og töfrar. Þegar hún var nú orðin svo fríð og fögur eins og þið sjáið, fór hún til sænsku herbúðanna og gaf konunginum ástadrykk svo að hann í samfleyttar sjö vikur heyrði hvorki né sá annað en hana. Það þótti hershöfðingjum hans bæði skaði og skömm, þar sem óvinaherinn þrengdi þá mest að þeim; tóku þeir hana því um nótt og sendu hingað, og skal hún nú eyða sínum sjö fegurðarárum hér í Krosshólmi“. „Hefir konungurinn elskað hana?“ spurði Emma skjálfandi. „Það ábyrgist ég“, sagði sjómaðurinn stuttlega. „Elskar hún líka konunginn?“ „Nú, forvitnari skepnur eru ekki til en kvenfólkið. Hvernig í skrattanum geturðu ætlazt til að ég viti það? Fjandinn er brögðóttari en annað fólk, það er áreiðanlegt. Hún hefir gefið konunginum koparhring ...“. „Með sjö hringum hvern utan yfir annan og þrjá stafi grafna í stéttina“. „Hver skrattinn, þú hefir þá heyrt það. Stéttina hefi ég ekki heyrt um, heldur um hringana sjö“. Emma varpaði öndinni mæðilega. „Hann ber hann enn þá“, sagði hún lágt með leynilegri gleði. Emma var hjátrúarfull eins og öll hennar samtíð. Henni kom ekki til hugar að efast um að til væri galdur og galdrakonur, alls konar töfrar og ástadrykkir, en þessi útlenda stúlka, sem elskaði konunginn og sem hann unni ... gat hún ekki verið sýkn og saklaus af þeim hryllilegu glæpum, sem á hana voru bornir? Auminginn yfirgefni fann til brennandi löngunar eftir að hitta þessa dularfullu aðkomukonu, sem hafði verið svo nálægt konunginum mikla: Hver stundin var henni dýrmæt, innan fárra tíma skyldi hún hverfa heim aftur til Stórkýró. Hún herti því upp hugann og fylgdi hinni ókunnu konu til Krosshólms. Hinn gamli aðsetursstaður innan virkisins var fremur dauflegur, þótt útsýnið væri hið hýrasta. Höfðu þar orðið sífelld hirðstjóraskipti og hafði því lítil rækt verið lögð við steinhúsið, sem var tvíloftað, með vængjum eða lengjum til beggja enda fyrir fangana; leit því byggingin ellilega út, og líkari fangelsi en hallargarði voldugs höfðingja. Þessi ellimörk gerðu íbúar kastalans þá enn þá meiri, en þeir voru: hin stranga frú Marta með gamalli þernu, nokkrir uppgjafa hermenn og skeggjaðir fangaverðir. Hefði Gústaf konungur munað eftir ástandi kastalans, er óvíst, að hann hefði vísað hinum unga fanga sínum til svo óyndislegs samastaðar. Frú Marta var viðbúin að taka á móti gesti sínum; hafði Regínu verið lýst fyrir henni svo að hún væri háskagripur, ung að aldri en gerspillt, svo að enginn lás væri öruggur og enginn múrveggur tryggur fyrir henni. Hún hafði því látið búa handa henni dimman klefa inn af svefnherbergi hennar sjálfrar og ætlaði síðan sjálf með Argusaugum að vaka yfir hverri hreyfingu þessarar óstýrilátu skepnu. Frú Marta var í rauninni hin heiðarlegasta kona, en hörð var hún og einræn á gamlan hátt, hafði uppalið öll sín börn með vendinum og haft þá föstu skoðun, að aldrei yrðu þau vaxin upp úr tilhlýðilegum aga. Henni kom ekki til hugar, að einmana, yfirgefin og munaðarlaus stúlka, fjarri fósturjörð sinni, þyrfti og þráði hughreystandi hönd og móðurlega umhyggju. Frú Marta hugsaði, að aginn temdi bezt illa vanið barn, enda væri þá síðar meir nægur tími til að hugsa fyrir mildari meðferð. Jungfrú Regína, sem orðin var vön við hið frjálsa líf á hafinu, steig nú inn yfir þrepskjöld hins dapra húss og gekk þá óvart hrollur gegnum hennar grönnu limi. Bætti ekki um, þegar hún í tröppunum mætti gömlu frúnni með þrönga línhúfu á höfði og í svartri síðhempu úr vaðmáli. Vera má að hneiging jungfrúarinnar hafi verið heldur stutt og stirð og allt fasið nokkuð svo stærilátt, þegar hún var að heilsa frú Mörtu þar á tröppunum. Frúin tók sér það þó ekki til. Hún tók um báðar hendur jungfrúarinnar, skók þær duglega og kinkaði að henni kolli, rétt eins og hún heilsaði henni og hótaði hörðu um leið. Því næst skoðaði hún hana hátt og lágt og að þeirri skoðunargerð endaðri, sagði hún í lágum rómi: „Vaxin eins og kóngsdóttir ... ekki skaðar það; hrafnsvört augu eins og í tatarakind ... ekki skaðar það; hvít á hörund eins og rjómatrog ... ekki skaðar það; drambsöm vel ... já, já, það er nú verri sagan ... það skulum við báðar bítast um, góðin mín bezta“. [137.png] Regína varð óþolinmóð og ætlaði að halda áfram, en frú Marta var ekki á því að sleppa takinu. „Bíddu við, ljúfan mín“, sagði hin stranga frú og var að tína saman þau fáu þýzku orð, sem hún gat fundið í ruslakistu minnis síns. „Með hægð kemst eggið í humalpokann. Enginn, sem stígur hér inn yfir þrepskjöld minn, má vera höfði hærri en dyratréð. Betra er að beygja sig í æskunni en að skríða í elli sinni. Svona fer unglingurinn að heilsa þeim, sem eldri er og vitrari“. Og áður en jungfrú Regína varaðist, hafði hin sterkbyggða frú lagt hægri höndina á hnakka hennar, en hina á hana miðja, og neytt sinn stórláta gest til að hneigja sig eins djúpt eins og með sanngirni varð heimtað. Hinar fölu kinnar jungfrúarinnar roðnuðu eins og kvöldský, sem spáir ofviðri. Hún leit á frúna enn hærri vexti og ríklátari en áður og lét hin dökku augu sín gjósa eldingum, sem hin brá sér þó ekki við. Regína þagði, en gömlu Dóróþeu fannst án efa tími til kominn að bjóða frú Mörtu dálitla tilsögn í kurteisi; hún tók nú til máls með fjörlegu látbragði, fettum og brettum, að sið kvenna á Suðurlöndum, steig tveim stigum hærra upp og æpti þaðan með hamslausri bræði: „Þú argvítuga finnska galdraskass, ekki skammastu þín fyrir að fara svo svívirðilega með stórborna jungfrú. Veit ekki þín arma fangakerling, hverri þú hefir þá æru að heilsa í þínum húsum? Þá skal ég segja þér það: það er hin hávelborna, stórfurstalega jungfrú Regína af Emmeritz, fædd furstainna af Emmeritz, Hóhenlóhe og Salfeld, greifainna af Wertheimi og Biskupshæð, erfingi Dettelbachs og Kissingens, og svo framvegis, og svo framvegis. Faðir hennar var hinn stórborni fursti af Emmeritz, sem átti fleiri slot en þú, hin arma norn, átt kofa í þínum stað; móðir hennar var prinsessa af Würtenberg, náskyld hinni bæversku kjörfurstaætt, og móðurbróðir hennar, sem enn lifir, er sá háæruverði og stórgöfugi fursti og biskup af Würtzborg, höfðingi yfir Maríuborg, staðnum Würtzborg og löndum, sem þar liggja til. Þú skákar í því hróksvaldi, að villukonungurinn þinn hefir tekið okkar land og borg og okkur sjálfar til fanga; en sá dagur mun koma, að Sankti Georg og hin heilaga María niðurstíga til að tortíma ykkur, þið heiðingjar, og snertir þú eitt hár á okkar höfðum, skulum við jafna þetta slot ykkar með jörðunni og afmá þig, hin illa seiðkerling, og allan þinn bæ og hyski“. Það er mjög líklegt, að mælska gömlu Dóróþeu hafi átt töluvert eftir, ef frú Marta hefði ekki gefið bending mönnum sínum; tóku þeir kerlu umsvifalaust, þó að hún brytist um, og færðu hana niður í klefa undir lægra lofti kastalans; var hún þar látin ein og henni gefið nóg næði til að brjóta betur heilann um hinn stórborna ættarhring jungfrúar sinnar. En frú Marta tók jungfrúna nauðuga viljuga við hönd og leiddi hana í hús það, sem henni var ætlað, inn af herbergi húsfreyju; mátti þaðan sjá yfir bæinn. Þar skildi hin stranga frú við gest sinn fyrst um sinn og þó fannst henni full þörf á að gefa henni frá dyrastafnum eftirfarandi heilræði: „Ég vil láta þig vita, góða mín, að það er betra að hlýða en gráta; sá fugl, sem of snemma fer að syngja, lendir í klóm hauksins áður kvöld er komið. Maður skal landssiði fylgja eða land flýja. Nú er klukkan sjö, þegar hún er orðin átta, verður kvöldverður inn borinn, klukkan níu fer þú til sængur, klukkan fjögur rís þú úr rekkju, og kunnir þú hvorki að kemba né spinna, skal ég fá þér lín og léreft að sauma, þarf þér þá ekki að leiðast. Síðar getum við talazt við, og þegar þerna þín er búin að læra að halda munni, færðu hana aftur. Góða nótt og væran svefn; gleymdu ekki að lesa kvöldbænir þínar; þarna liggur sálmabók á náttborðinu“. Að svo mæltu læsti frú Marta dyrunum og jungfrú Regína var einsömul. Alein, fangi í afskekktu, ókunnu landi, ofurseld harðri ráðakonu ... þessar hugleiðingar voru ekki lystilegar. Jungfrú Regína kraup á kné og ákallaði dýrlinga, las ekki bænirnar í villubókinni, heldur á talnaband úr rúbínsteinum, sem biskupinn, frændi hennar, hafði gefið henni í skírnargáfu. Hvað þuldi hún? Það veit himinninn einn og hinir dimmu veggir á Krosshólmi, en hlutdeildarsamt hjarta fer nærri um bænir hennar. Hún bað um aðstoð hinna heilögu, um sigur trúarinnar og um villumannanna ófarir; hún bað einnig þess, að hinir heilögu mættu snúa sál Gústafs konungs til hinnar einu sáluhjálplegu kirkju og að hana eins og nýr Sál mætti verða annar Páll. Loksins bað hún um frelsi og varðveizlu ... og tímarnir liðu, náttverðurinn var borinn inn, en hún tók ekki eftir því. Jungfrú Regína horfði út gegnum hinn smáa glugga. Fyrir augum hennar lá hérað, sem kvöldsólin gyllti, og dálítil vík, sem glóði móti sólunni. Þetta var ekki hið frjósama Frankahérað með vínberjum sínum, sem komin voru að fullum þroska; þetta var ekki hið ólgandi Mainfljót, og bærinn þar niður frá var ekki hin auðuga Würtzborg, með klaustrunum í röðum og háa turna. Það var hið fátæklega og fölleita Finnland og vík af þess hafi; það var Vasa, nýbyggði bærinn með gömlu kirkjunni, Mústasári, hinni elztu í Austurbotni; það var glöggt hvernig sólin tindraði í hinum hvasshyrndu, máluðu smárúðum frá páfatíðinni, og Regínu sýndist sem hinir sælu dýrlingar renndu augum frá þessu þeirra fornmusteri. Og var ekki hin undirgangandi sól sjálf orðin á þessari stundu að heilögu auga, sem með himneskum friði horfði niður á heimsins stríð? Allt var svo rólegt og friðþægjandi kyrrt, — kvöldsólin, hið ferska, græna land, hinir nýskornu akrar með reinaraðirnar, smáhúsin rauðu með blikið í gluggunum, — allt hvatti til guðrækni og friðar. Þá heyrði jungfrú Regína álengdar mjúkan og mildan sorgarsöng, fjarri allri viðhöfn og eins og kominn frá hjartarótum sjálfrar náttúrunnar einverulega aftanstund við sólsetur á ströndu kyrra vatna, meðan allar mildar endurminningar vakna í vonarríku brjósti. Í fyrstu hlýddi hún ekki til, en söngurinn færðist nær. Ýmist bar vegg í milli eða birkirunna, svo að dró úr hljóðinu, eða söngurinn heyrðist hár og hreinn og loks gat hún greint orð fyrir orð. 6. Suðræn og norræn ást Þegar hin einmanalega söngrödd færðist nær, mátti smám saman koma orðunum saman. Söngurinn kom frá mildu hjarta og lýsti löngun og sorg þar á ströndu hafsins í kvöldsól hánorðursins, í ósléttum erindum, en þó hjartnæmum: ** Hvern morgun skín sólin á löður og lönd og ljómar á stráið sem eik, hvert kvöld brosir mánans hins reikandi rönd og rýnir á hverfulan leik; en aldrei skín sólin á brosandi brá, því brúðurin drúpir nú ein; ó, máni, sem flýgur um festingu há, hvar finnur þú trúfastan svein? Því vinurinn stóri, sem einum ég ann, sér unir í ljómandi borg; á jörðunni er ekkert, sem jafnast við hann, en ég geng hér alein í sorg; hann á alls staðar vini, einn einasta ég, hann á alls staðar borgir og lönd; en ég kasta perlum á koldimman veg og kveð fyrir bárur og strönd. Og smáfuglinn svífur á suðræna grund og situr hjá vinar míns borg, þá kvöldmáninn rennur með kyrrð yfir lund hann kveður um einveru og sorg. Og riddarinn hlustar á hljóð hans og söng, og hjartað svo kynlega slær, en kveldið er stutt eins og gæfunnar göng og gleðin, sem ástin oss ljær. ** Því lengur sem jungfrú Regína hlustaði á þennan einfalda söng, sem bæði var henni óvanalegur og þó svo alkunnur sakir hans innilegu angurblíðu, því dýpra greip hana sá hugtregi, sem lá í kvæðinu og hún líka bjó sjálf yfir. Hún fann óstöðvandi löngun hjá sér til að opna gluggann og anda að sér fersku kveldloftinu. Lengi stríddi hún við gluggann að geta losað hann; en öll varkárni frú Mörtu hafði ekki séð fyrir, að krókarnir voru nálega í sundur komnir af ryði og létu því loks undan átökum hinnar ungu meyjar. Hún var varla búin að vera tvo eða þrjá tíma í þessu fangelsi, en þó drakk hún lífsloftið eins þyrst eins og lífsfanginn frelsisins loft. Hjarta hennar fékk útþenslu, augu hennar kveiktu eld sinn upp aftur, og hugsun hennar hitti aftur sína leiðslu-drauma, og hún hóf upp söng, með lágum hljóðum, svo gæzlukonan ekki skyldi heyra, en samt með hreinum og dillandi rómi; var þetta meiningin í söng hennar, því kvæði hennar er torvelt að þýða vel: ** Hugsjúk ég hneigi höfuð og segi: Heilaga guðsmóðir, sár er minn tregi; kenn mér að stríða, styrk mig að líða, styð mig og reis mig úr dauðans kvíða. Sveinn minn er sjóli, slíkur á stóli séður var aldrei á jarðarbóli, stór þegar hræðir, stór þegar æðir, stærstur þá brotlegum líknar og græðir. Þó hlaut ég heita hiklaust að leita hjarta míns vinar og morðstáli beita. – Guðsmóðir, vægðu! Guðs reiði lægðu; guðsmóðir, háska frá lífi því. bægðu! Lát þú hann læra lof þér að færa, þá skal ég aldregi önnur mein kæra. Heyr, drottning alda, heill hans margfalda; leyf þú mér skuld hans með lífinu gjalda. ** Konan hin einförla, sem sungið hafði hinn fyrri sönginn, nálgaðist smám saman og var nú komin undir kastalavegginn. Það var alþýðukona, föl í sjón, en sem hafði verið kvenna fríðust, og skein gæzka mikil af svip hennar. Hún girntist mjög að skilja söng aðkomustúlkunnar, en henni tókst það ekki sakir þess, hve tónarnir voru lágir, enda var ómur málsins henni ókennilegur. Hún settist á stein skammt frá múrnum og horfði sínum mildu augum upp á fangann í hallarglugganum. Regína starði líka sínum dökku og hvössu augum á hana; hefðu menn mátt halda, að þær skildu vel hvor aðra, því tungumál söngsins þarf ekki aðra orðabók en hjartað. Eða sagði þeim einhver grunur, hinni sautján ára gömlu mey og hinni hálffertugu konu, að þær ynni sama manni, að báðar syngju um skipbrot láns og lukku á fjarlægri strönd, en þó á svo kynja-ólíkan hátt? Þar í norðrinu eru sumarnæturnar bjartar fram til þess er ágústmánuður byrjar; þá er það, að gagnsæ hula fer eftir sólarlagið að breiðast yfir strönd og voga. Í miðjum ágústmánuði er þessi hula orðin allþétt og hylur lauf og lund miklum og mjúkum skugga. Þegar máninn rís yfir hinum bládimma grænviði, á náttúran fátt til fegurra að vekja með angurblíðu hugans en slíkt ágúströkkur, þegar augað, sem vanizt hefir sífelldri dagsbirtu í þrjá mánuði, kvíðir þessu myrkri, og þó mætir þetta myrkur í sinni allra mildustu mynd, eins og ofurmild angursemi, krydduð yndisgeislum æðri veraldar. Þessi áhrif ítrekast ár frá ári, þótt menn lifði öldum saman. Það er ljósið og myrkrið, sem tefla um heiminn og hjarta mannsins í einu. Báðar hinar einmanalegu konur fundu glöggt þessi náttúruáhrif. Þær sátu báðar hljóðar og bærðust ekki og virti hvor aðra fyrir sér í rökkurkyrrðinni: hvorug mælti orð frá munni og þó skildi hvor annarar hjartans launmæli. Þá stóð upp skyndilega hin fölleita konan, sem úti fyrir sat, sneri sér til bæjarins og leit svo út sem hlustaði hún eftir hljóði, sem raskaði hinni heilögu kvöldró. Jungfrú Regína gaf nákvæmar gætur að hreyfingum hinnar ókunnu konu og teygði sig út frá ljóranum svo hún sæi betur. Kvöldið var kyrrt og hljótt og einungis mátti heyra áratök úti á sjónum eða þunglynda, langa tóna í smalahorni. Á kyrrðina jók hið óvenjulega hálfrökkur hinna fyrstu haustdaga, sem ósjálfrátt vakti eins og helga lotningu. Því meir brá illa við, þegar allt í einu gall við gnýr mikill frá bænum. Sá hávaði var hvorki brimniður né fossaniður né snark frá skógarbrennu, þótt svipað væri hljóðið einhverju af þessu. Það líktist helzt kliði frá mannös, þegar bæði er ógn og æði á ferðum, enda brá í sama bili blikandi birtu yfir norðanverðan bæinn. Óðara hvarf hin einförla kona frá kastalaveggnum og þaut burt í þá átt, hvaðan hættan sýndist ógna. Vér skulum nú samt skunda þangað og verða dálítið fljótari að bragði. Koma herskips þess, er sækja skyldi hið nýja útboðslið, hafði vakið mikinn óróa hjá dátunum og jók söknuðinn, vígahugurinn og ölið hann um allan helming. Höfðu þeir nú hópum saman flykkzt til drykkjustofanna, og á þeim tímum, þegar hermennirnir voru helzta stéttin, neyddust menn einatt til að afsaka og þola ráðríki þeirra og ofsa til að hafa þá góða. Hinir æðri yfirmenn létu því sem þeir sæi ekki, þótt tvö hundruð ungir menn með ribbaldabrag Austurbotnunganna, drykki sig ölóða, enda má vel vera, að það ráðlag hefði gefizt vel einnig í það sinni, hefði ekki það atvik fyrir komið, sem friðnum var sérstaklega hættulegt og sem líka óðara kveikti til fulls upp ofsann, sem kominn var vel á veg. Hinn vaski Bent Kristinsson, undirforingi, hafði enn fengið sinn fulla kraft við þetta tækifæri. Hafði nú minnst metorða sinna og afreksverka og stokkið upp á stofuborð og sannað sveitungum sínum allsköruglega, fyrst það að rétt skilið væri hann sá, sem unnið hefði Þýzkaland; því næst það, að þegar fyrir löngu myndi hann hafa rekið Ferdinand keisara með húð og hári út í Duná, ef sagður keisari hefði ekki gert samninga við djöfulinn og galdrað allan Svíaher og fyrst og fremst sjálfan konunginn, og loks leiddi sú röksemd beint til þeirrar þriðju setningar Bents, að lán og ólán alls ríkisins og allrar veraldarinnar væri í höndum galdrakonunnar, sem byggi eins og fangi innan Krosshólms kastalaveggja. „Sannið þið til, þessi svarthærða djöfulsdrós steypir bráðasótt yfir bæinn“, sagði Malaxbúi, lubbalegur karl og hvítur fyrir hærum. „Þetta er ófreskja“. „Já, og konungamorðingi“. „Eigum við að una því, að hún sitji þarna í friði og fullum náðum og kollvarpi konungi og landi með göldrum og gjörningum?“ kallaði drukkinn þingskrifari, sem slæðzt hafði í hópinn. „Eigum við ekki að kaffæra kindina, piltar?“ sagði annar. „Við skulum drepa hana með kylfum þegar í stað“, kallaði þá Lappabúi með arnarnef og dökkar, ljótar brúnir. „Og ef þeir ekki sleppa henni með góðu, leggjum við eld í Krosshólm og brennum ugluna og hreiðrið í einu“, gall við tröllslegur Læhelubúi. „Það er betra en að allt ríkið eyðileggist“, sagði selaskytta frá Replot með spekingssvip. „Sækið þið eldibranda, piltar“, æpti Vörábúi. „Út í Krosshólm.!“ æpti öll þvagan. Og óðara þustu allir fram, óðir og uppvægir við sín eigin orð, eins og vant er að ganga. Þeir þrifu með sér alla branda, sem þeir fundu í eldhúsinu. Það var mikið hús, og héngu þar hörflygsur stórar. Einn veifaði brandi heldur hátt í ölæði sínu og kveikti í hörnum; leið svo ekki á löngu þangað til öll ölstofan stóð í björtu báli. Mannösin sinnti því engu, heldur streymdi á stað. „Galdur, tómur galdur!“ æptu sumir sem óðir væri. „Flagðið í Krosshólmi skal kenna á því!“ æptu aðrir, og allur hinn vitstola múgur hélt á stað með hlaupi beina leið til hins gamla kastala. 7. Umsátin við Krosshólm Óðara en Emma – því hún var konan við kastalavegginn – hafði skilið ásetning múgsins, flýtti hún sér og hljóp sem fætur toguðu leyniveg aftur til Krosshólms. Máninn skaut silfurbjarma yfir sveitina, og hún sá skýrt hvar Regína stóð með svörtu lokkana við gluggann, leit höfuð hennar út sem skuggi í skugganum inni í dimmu herberginu. En undir lokkahárinu leiftruðu augu, djúp og draumsæl eins og stjörnuskin á lygnu vatni í næturkyrrðinni. Málið dó á vörum Ernmu, því hinar mörgu kynjasögur fylltu ímyndun hennar alls konar ofsjónum. Var þá ekki þessi unga kona þarna uppi í hinni dimmu gluggatótt einhver seiðkona af Suðurlöndum, norn í álögum, sem harmaði örlög sín, þau er neyddu hana til að eyða sínum sjö fríðleiksárum innan þessara múrveggja, þangað til hún yrði aftur, eins og hún áður var, flagð og fordæða, hálf kona og hálf höggormur? Emma stóð eins og steini lostin undir kastalaveggnum. En nær og nær færðist niður og læti hins óða mannfjölda, og bráðum mátti sjá bjarmann af bröndunum, sem bárust að kastalanum. Þá herti hin hjátrúarfulla bóndadóttir upp hugann og tók til máls, en ekki hærra en svo, að hin mátti heyra, er við gluggann stóð: „Flýið þér, jungfrú“, sagði hún á sænska tungu, „flýið, því þér eruð í bráðum voða, hermennirnir koma óðir og uppvægir, segja, að þér hafið viljað myrða konunginn, og ætla að heimta líf yðar!“ Regína sá hina fölleitu konumynd í tunglskininu, og einnig hennar ímyndun varð óðara uppvæg af öllum þeim sögum, sem hún hafði heyrt um þetta töfraland. Hún hafði nú dvalið tíu mánaða tíma meðal sænskra manna og numið tungumál þeirra svo, að hún skildi það að mestu; þó skyldi hún nú ekki í fyrstu orðasambandið, en eitt einasta orð var nóg til að vekja alla hennar athygli. „Konunginn“, hafði hún eftir henni. „Hver ert þú, og hvað vilt þú segja mér um hinn mikla Gústaf Adólf?“ „Hikið eitt augnablik, háa jungfrú“, sagði Emma, án þess að gegna Regínu, „þeir eru komnir að portinu og frú Marta með sex varðmönnum getur ekki varið yður móti tveimur hundruðum manna. Flýtið yður! Ef þér komizt ekki út um dyrnar, skuluð þér hnýta saman rekkjuvoðir og dúka og sigið í því niður frá glugganum. Ég skal taka á móti yður“. Nú fór Regína að skilja, að hér var hætta á ferðum, en því fór svo fjarri, að hún yrði óttaslegin, að það olli henni leynilegri gleði. Var hún ekki píslarvætti sinnar heilögu trúar, rekin norður í þetta villuland fyrir ákefð sína að snúa kirkjunnar volduga óvini? Því var, ef til vill, tíminn kominn að dýrlingarnir unnu henni kórónu dýrðarinnar, ef hún keypti hana með lífi sínu. Hvers vegna skyldi hún flýja þá frægð, sem hún lengi hafði lofsungið? Var það ekki freistarinn sjálfur, sem í konu líki vildi tæla hana til að glata djásni dýrðarinnar? Og Regína mælti hátt: „Et dixit diabolus: da te præcipitem ex hoc loco, nam scriptum est: angelis suis mandavit de te, ut te tueantur, ne ullo modo lædaris“[* Og djöfullinn sagði: Fleyg þér hér ofan af, því að skrifað stendur: Guð mun bjóða englum sínum, að þeir beri þig á höndum sínum, svo að þú eigi steytir fót þinn við steini. Matt. 4. 6.] . Meðan hún var að mæla þetta, kom máninn fram hjá veggjarbrúninni og skein töfralega á andlit hinnar fögru meyjar, vangar hennar glóðu og augun brunnu af kynlegum eldi. Emma starði á hana með ógn og undrun og aftur flaug henni í hug, að ekki væri einleikið með annað eins augnaráð og annan eins róm og orðalag. Hún varð frá sér numin af ótta og skelfingu og flýði sem fætur toguðu burt til bæjarins aftur. Nú þegar heyrði Regína háreysti niðri í garðinum. Hinn ölóði mannfjöldi hafði numið staðar við kastalahliðið, sem var harðlega lokað, og stóð þar með óhljóðum og heitaðist að láta ekki stein yfir steini standa af kastalanum, ef galdrakonan væri ekki þegar í stað ofurseld í hendur þeim. En hún frú Marta, sem hafði vaknað við vondan draum, lét sér ekki bilt við verða, Hún hafði á yngri árum sínum reynt ófrið og umsát oftar en einu sinni og vissi ekki síður en vitur borgarvörður, að kastalar falla ekki fyrir stóryrðum einum. Sá, sem tímann vinnur, vinnur allt, hugsaði hún; lét því fara að semja um uppgjöf kastalans og beiddist að fá að vita, hvað þessir ófriðarmenn vildi og hverjar sakir væri til. Á meðan lét hún leita uppi sex ryðgaðar byssur og selja þær í hendur uppgjafaliðsmönnum í kastalanum; sex fangaverðirnir voru og vopnaðir kylfum og spjótum, og stúlkunum sjálfum voru fengnar burðarstengur, sem notaðar höfðu verið í kylfustríðinu til að leggja með að velli fleiri en einn af Flemingsriddurunum. Eftir þenna fyrirbúnað þóttist frú Marta geta boðið óvinunum byrginn og hætt við friðgerðina; gekk hún nú út úr borgarhliðinu alsköpuð og hóf snjalla ræðu án þess að spara ómjúk orð og einurð fulla: „Þið nautheimsku slæpingjar og slóðar!“ þannig byrjaði húsfreyja mál sitt með fremur mergjuðum orðum en hæversklegum. „Andskotinn hafi ykkur alla saman með tölu, þið blindfullu svín! Smánist þið burt aftur þegar í stað, annars megið þið eiga það víst, ef ég heiti Marta Úlfsparre, að hann Klóalangur skal klóra ykkur til blóðs á baki, þið bannsettir drabbarar, erkidónarnir, ærulausu óreglu- og uppnáms-óaldarhundarnir, sem brjótið frið á fólki um miðjar nætur!“ Klóalangur var sem sé vöndur allmikill fléttaður úr spænskum tágum; lét Marta húsfreyja hann oftast hendi fylgja, enda báru allir íbúar kastalans staka virðingu fyrir hans siðakenningum. En hvort heldur það kom af því, að hinn háværi skari þekkti miður kenningar Klóalangs, eða af hinu, að orð húsfreyju heyrðust ekki fyrir hávaðanum nema af þeim, sem næstir stóðu, þá héldu menn áfram umbrotunum og ógnamálunum svo að furuviðarhurðin brakaði og svignaði í öllum samskeytum. „Hingað út með galdranornina!“ æptu hinir óðustu og sumir voru enda farnir að kasta eldibröndum á borgarhurðina í því skyni að kveikja í kastalanum. Frú Marta hafði tvær luralegar fallbyssur á kastalaveggnum; þær voru frá dögum Gústafs Vasa, og hétu Haukur og Dúfa. Þeirra meinlausa ákvörðun hafði þá fyrir löngu verið eingöngu sú að svara skipum, sem heilsuðu og svo á stórhátíðum, svo sem á nafndögum og við brúðkaup, að votta fögnuð manna og hollustu. Nú lá virkið raunar fyrir utan sjálft kastalavígið, sem þá var, en það var hár furuviðar skíðgarður settur járnbroddum, og var það því hægra fyrir óvinina sjálfa en þá sem vörðu, að ná byssunum. En frú Marta reiknaði dæmi sitt rétt, að skothríð frá virkinu mundi bæði gera áhrif á óvinina og um leið kalla liðstyrk til hjálpar frá herskipinu og bænum. Hún lét því tvo dátana læðast út í myrkrinu, hlaða Haukinn og Dúfuna, hleypa úr þeim skotunum — lausu púðri, auðvitað — og smjúga síðan inn í kastalann aftur. Árangurinn kom óðar í ljós. Köllin og öskrið hættu þegar í stað og frú Marta lét ekki færið vera ónotað. „Heyrið, þjófar og ræningjar!“ æpti hún og var komin upp í háan stiga svo nátthúfa hennar fannhvít blasti við í tunglsljósinu hálfri alin ofar en porthliðið, „ef þið snautið ekki burtu þegar í stað frá hátignarinnar og krúnunnar kastala, skal ég láta fallstykkin mín saxa ykkur í sundur eins og skarfakál. Lygalaupar og svín! vitið þið ekki að oft fá grimmir hundar rifið skinn, og að hænuunganum er betra að gá að höfðinu áður en hann ætlar ofan í refinn. Ég læt brytja ykkur niður í spað, beaðir böðlarnir!“ bætti hún við með vaxandi ákefð, „ég saxa úr ykkur svínastöppu og fleygi ykkur fyrir ...“. Til allrar óhamingju fékk ekki kvenskörungurinn að botna sína tölu, því einhver af óvinaliðinu hafði fundið fúna rófu, gripið hana og miðað á nátthúfu húsfreyju í tunglsskininu. Rófan kom rétt í ennið og í fyrsta sinn fór nú svo, að frú Marta fékk ekki mál sitt að enda, heldur varð að hopa undan og forða sér. Kom nú upp óstöðvandi hlátur og við það rénaði stórum ríki og yfirburðir frúarinnar. Urðu nú óvinirnir hálfu ósvífnari, hertu meir og meir að hliðinu, hjarirnar létu undan, bjálkarnir svignuðu, og loks brast annar hliðvængurinn með ógnar-braki, og óvinasægurinn ruddist í einni bendu inn í hinn innri garð kastalans. Nú hefðu margir þorað að leggja þrjá móti einum til veðs um, að frú Marta þættist yfirkomin. En því fór fjarri. Hún hopaði á hæli með her sinn inn í herbergin, setti vígása í dyrnar og setti skyttu við hvern glugga og skipaði þeim að skjóta á hvern þann, sem ætlaði inn að brjótast. Við sérhvert annað tækifæri hefði svo einbeitt hugrekki mátt til að duga, en sægurinn heyrði hvorki neitt né sá neitt framar fyrir ofsa og ofmetnaði. Hinir fremstu voru nú farnir að ljósta hallarhurðina með járnstöng ... Þá kom upp kurr mikill og óhljóð meðal þeirra, sem utastir stóðu; hinir í miðju litu við og sáu gegn um brotna hliðið svo langt sem sást í tunglsljósinu hvar um allan veginn var höfuð við höfuð, byssa við byssu. Það leit út eins og heill óvígur her væri kominn beint upp úr jörðinni til að eyðileggja alla friðrofa. Eða gengu þar ljósum logum svipir allra hinna gömlu Krosshólmskappa, sem fyrrum höfðu fallið og höfðu nú gengið út úr gröfum sínum til að hefna fyrir ofbeldið, sem haft var í frammi við hina fornu herborg. Til þess að þýða þessa óvæntu sýn, sem birtist þessum óaldarsæg, verður að geta þess, að allur hávaði alþýðunnar úr sveitunum umhverfis bæinn hafði streymt þangað til að sjá og kveðja nýliðana. Þess má einnig geta, að bændakonungurinn frá Stórkýró hafði gist þá nótt í bænum, líklega með þeirri leynilegu von að geta fengið fréttir af Bertel sínum hjá skipshöfn herskipsins Maríu. Nú hafði bruni ölstofunnar og herhlaup dátanna út í Krosshólm sett í uppnám allan Vasabæ, og svo kom Emma hlaupandi og sárbað föður sinn að frelsa hina fögru ungfrú; fékk hún alls staðar hina beztu áheyrn. Austurbotnungar eru jafnan skjótir til stórræðanna, og óðara en bændur heyrðu um hrakning Bertílu, höfðingja þeirra, vaknaði þeirra forni heiftarhugur til hermannanna. Þeir gleymdu, að margir af sonum þeirra og bræðrum voru nýfærðir í dátakuflinn, enda vildu þeir með engu móti missa svo æskilegs færis til að lúskra þeim piltum, bæði í nafni alls mannkynsins og til að vernda hús krúnunnar. Þeir lögðu því af stað, eitthvað tíutíu að tölu undir forustu Bertílu, til að bjarga kastalanum, en það sem sýndist vera byssur og spjót í tunglsljósinu, það voru mestmegnis staurar og stafir, hin venjulegu vopn manna þar í héraði þegar skærur urðu og skyndilega þurfti til að taka. Áður en ribbaldasveitin sá, að ófriður var búinn úti fyrir, reyndu þeir að dylja skálk sinn með ópum og hótunum. Vissu þeir ekki, hve mikið aðkomuliðið mundi vera og fóru þá þegar sumir að hugsa um óvissa undankomu yfir skíðgarðinn með járnbroddana efst uppi, aðrir ætluðu að þar færi heill herskari af afturgöngum, sem hin útlenda galdranorn hefði sært til sín og skaut það skelk í bringu jafnvel ofurhugunum sjálfum. Samt rönkuðu þeir brátt við sér, því þeir heyrðu glöggt hinn alkunna hljóm sænskunnar frá Malaxasveit og finnskunnar frá Litlukýró, svo þeim duldist ekki, að þær raddir komu frá mennskum verum en ekki vofum. Í sama bili sem aðkomuliðið fyllti ytra hliðið varð allt hljótt á báðar hliðar sem með þegjandi samþykki, en meðan á kyrrðinni stóð heyrðist rödd frá hallarglugga kastalans og önnur frá ytra virkisveggnum og mæltu báðar í senn. „Hefi ég ekki sagt ykkur það“, æpti frú Marta einarðlega gegnum gluggann, „hefi ég svo sem ekki sagt ykkur, þjófar og drykkjusvín! að ráðlegra sé að líta niður fyrir sig áður en nefið er neglt í rifunni, og að bezt sé að bíta af sér skottið þegar í dýrabogann er komið. Drembnum hæfa digrar herðar, verið svo góðir, gjaldið nú greiðalaunin!“ Að svo mæltu hélt frú Marta heim til sín, á að gizka af ótta fyrir því að einhver kynni aftur að heilsa henni með úldinni rófu. Hin röddin, sem kom utan frá virkinu, var einarðleg öldungsrödd, er mælti til hermannanna: „Ef þið leggið niður vopnin og framseljið ykkar fyrirliða, megið þið fara burt héðan í griðum. En ef ekki, skal hér hafinn sá dans, sem Krosshólmur hefir aldrei áður séð, og ekki skal feitina vanta á fiðlubogana”. „Allur árinn eigi þig, karlskratti!“ svaraði rödd inni í garðinum, og duldist ekki, að hún kom frá vörum hins káta Bents Kristinssonar. „Ef þú værir kominn á milli hnúanna á mér, þá skyldi ég, skruggur og eldingar, paurinn og Pappenheim! kenna þér að bjóða drenglyndum dátum að gefast upp eins og gungur. Áfram, piltar, ryðjum portið og rekum þetta ruslaralið heim til kjötkatlanna aftur!“ Til allrar lukku bar enginn dátinn skotvopn og einungis fáeinir höggvopn við hlið, því nýliðarnir áttu eftir að taka við sverðum sínum. Flestir höfðu ekki aðrar verjur en brandana, brot úr mölvuðuna plógum og viðarstaura, sem þeir höfðu þrifið í hönd sér. Með þessum vopnum ruddust þeir nú fram á portið. Óðara en þeim lenti saman rigndi svo tíðum stafahöggum yfir dátana, að margir hopuðu undan með blóðugum höfðum. En innan stundar urðu þrengslin svo mikil í portinu, að enginn mátti armi lyfta svo allt lenti í óðum áflogum; héldust hinir fremstu hryggspennu, en hinir hrundu hver öðrum svo allt varð í reiðingi og loks gat enginn hreyft hönd eða fót og lá þá við sjálft, að menn træðust til bana. Reyndu sumir með járngreipum að fella fjandmenn sína, en aðrir höfðu herðar og axlir fyrir fleyg og vildu sprengja þröngina, en hvergi gekk. Loks sprungu raðirnar fyrir þrýstingnum og hér um bil helmingur dátanna gat brotizt út fyrir virkið, en hinn helmingurinn varð aftur umkringdur og innibyrgður í kastalanum. Nú fyrst hófst regluleg atlaga. Börðust menn þá í ákafa með bareflum, staurum, keyrum og knúum. Greiddust þar þá mörg högg, sem heldur hefðu átt að lenda á Króötunum hans Ísólana, og margt þrekvirkið var þar unnið, sem sæmt hefði betur Þýzkalands vígvöllum. Dátarnir voru að vísu fleiri, en hliðið skipti þeim í tvær sveitir og fyrir því urðu þeir að lúta. Nokkrir þeirra, og það voru hinir yngstu, lögðu á flótta og leituðu til bæjarins, aðrir urðu ofurliði bornir og voru lúbarðir, en hinir, og það voru hinir gömlu og reyndu hermenn, hopuðu á hæli og létu virkisvegginn hlífa bökum sínum, veittu svo viðnám og vörðust sem óðir væri. Og nú er svo þótti sem bændur hefði sigurinn í hendi sér, kom óðara breyting á bardagann, því að þeir, sem gæta áttu úthliðsins höfðu gleymt óvinunum, sem inni voru í garðinum, en nokkrir þessara ruddust á þá og báru ofurliði og þustu þá allir út til liðs við þá, er vörðust við veggina. Nú skipti um, því dátarnir hlupu nú á bændurna með enn meiri ofsa og mátti nú ekki í milli sjá, þóttust hvorirtveggja eiga sín í að hefna og gerðust því æstari sem jöfnuðurinn varð meiri á báðar hliðar. Og ofan yfir þennan hrikaleik, hávaða, högg og slög, óp og æðisgang, skein máninn og horfði eins og himneskt auga niður yfir jarðarinnar sjálfskaparvíti, eymd og örvinglan. Allar víkur skinu í tunglsljósinu; í laufi trjánna og röku grasinu glóðu daggirnar eins og ótölulegir gimsteinar á sumarsins græna feldi; öll náttúran angaði frá sér óumræðilegum friði; mildan andvara lagði vestan frá hinu kyrra, blikandi hafi inn yfir strandbyggðir landsins; heyrðust í fjarska dunur sjávarbrimsins við ströndina meðan kveldstjörnurnar spegluðu sig í hinum lygnu öldum. Nú, er garðurinn var manntómur, dirfðist frú Marta að ganga með fangavörðum sínum út fyrir til að horfa á bardagann. Þóttist hin röskva húsfreyja þurfa að taka sinn tiltölulega þátt í stríðinu, því glöggt mátti heyra rödd hennar: „Rétt er það, piltakindur, sparið ekki hnefana og lofið staurunum að leika sér, margur hefir dansinn stigið eftir stirðari fiðlunum“. Og til dátanna kallaði hún: „Verði ykkur lurkarnir að góðu, börnin góð; sýnið lítillæti, þótt ekki sé of mikill kvöldskatturinn í Krosshólmi. Verið þið rólegir, nornin ykkar er geymd í góðum höndum. Krosshólmur á nóga lása og lokur fyrir ykkur líka, óþokkarnir!“ En rétt eins og einhver glettin örlaganorn vildi gera hina virðulegu frú að minni manni fyrir ósannindi og öll hennar varúðarráð að engu, sást á sömu stundu hávaxin og dökkklædd kona koma fram á virkisvegginn og bera við hinn heiðbjarta næturhimin. Orðin dóu á vörum frúarinnar af undrun og skelfingu, þegar hún þekkti þar hinn vel geymda fanga sinn. Hvernig jungfú Regína hafði farið að komast út gegnum harðlæstar dyr og lokaða glugga, það var óskiljanleg gáta hinni góðu konu og varð hún því á sömu stundu sigruð af hjátrú samtíðarinnar um töfrakraft stúlkunnar og vélabrögð myrkravaldsins. Hún gleymdi öllum viðburðum til að handsama strokukonuna og bjóst rétt við, að hún þá og þá sæi svarta vængi vaxa út frá öxlum kvenmyndar þessarar og hana síðan hefjast frá jörðu eins og heljarmikinn hrafn og bera við stjörnuhimininn. Lesarinn á hægara með að skilja, að hér fór allt með felldu. Hergnýrinn og skotin höfðu heyrzt upp í hið afskekkta herbergi Regínu. Hún bjóst við á hverju augnabliki að verða gripin og dregin af böðlum til aftökunnar og svo dýrmætt þótti henni þá sitt hlutfall, að fá að deyja fyrir trú sína, að hún þoldi ekki við af óþreyju, einkum þar gnýrinn óx æ meir og meir en enginn maður kom til hennar dyra. Loks hreif hennar draumasál sú hugsun, að höfðingi myrkranna mundi ekki unna henni svo fagurs hlutskiptis, væri því bardaginn þar niðri af hans völdum stofnaður í því skyni að baka henni langra og þreytandi daga í lokuðum klefa án allrar gleði og afnota, í stað hins dýrðlega píslarvættisdauða. Hún minntist ráða hinnar syngjandi konu, að síga niður frá glugganum í dúkum og rekkjuvoðum; hún tók óðara sinn ásetning og að svipstundu liðinni stóð hún á virkisveggnum í augsýn þeirra, sem voru að berjast. Jafnóðum og menn komu auga á hina hávöxnu konu þarna uppi móti tunglinu, greip þá alla hinn sami hjátrúaróttinn, sem stöðvaði orðastraum frú Mörtu. Bardaginn hætti smátt og smátt af sjálfu sér nema utarlega á stöku blettum; vini og óvini sló sami óttinn og nærri virkisgarðinum varð brátt svo kyrrt að vel mátti heyra sjávarniðinn við malarkambinn. Nú hóf jungfrú Regína raust sína og talaði skýrt og hvellt; mundu allir hafa heyrt glöggt og skilið hvert orð, þeir sem nálægir voru, ef hún hefði kunnað réttari framburð hinna sænsku orða. „Belíals börn!“ sagði hún með rödd, sem skalf lítið eitt í fyrstu, en brátt varð róleg og föst, „þér villutrúarmenn, hví hikið þér að taka líf mitt? Hér stend ég án vopna og varna með himinhvolfið yfir höfði mínu og jörð og haf við fætur mér og segi til yðar: Yðar Lúther er falsspámaður; það er enga sáluhjálp að finna utan í hinni einu sáluhjálplegu kirkju. Snúið yður því og trúið á hina heilögu mey og guðs helgu dýrlinga og játið, að páfinn sé Krists umboðsmaður, eins og hann vissulega er, svo að sverð hins heilaga Jörundar falli ekki yfir yðar höfuð. Mig megið þér lífláta svo ég innsigli trú mína með mínu blóði; hér stend ég, hví hikið þér? Ég er reiðubúin!“ Það varð jungfrú Regínu til lífs, að þeir, sem hún talaði til, skildu ekki orð hennar. Svo var mikill kraftur lútherskunnar á þessum glóðheita trúartíma, þegar ríki og þjóðir fórnuðu lífi og farsæld fyrir kenningu þessa, að jafnvel hinir heimskustu og auvirðilegustu menn voru fullir brennandi vandlætingar og blindu hatri til páfans og hans fylgjara; sýna það bezt og sanna hinir harðorðu en kjarnmiklu fornsálmar, sem geymdir hafa verið í sálmasöng Finna og Svía allt til þessa dags. Hefði mannös þessi heyrt og skilið orð Regínu, þar sem hún lofaði páfann og kallaði Lúther falsspámann, hefðu bæði bændur og liðsmenn eflaust óðir orðið og rifið meyna sundur lið fyrir lið. En mál hennar fór sem suða fyrir eyru þeirra; þeir sáu hvar hún stóð keiprétt, og sú virðing, sem hugrekki og hamingjuleysi í sameiningu ætíð vekur, gerði óðara áhrif á hinn æsta sæg, er nú stóð á tveim áttum og vissi ekki hvað úr skyldi ráða. Jungfrúin beið enn þá búin, en enginn kom til að draga hana til dauðans. Hún steig niður af virkisveggnum, gekk inn í ösina, sem þokaði smeik til hliðar, allir máttu sjá, að hún var alveg vopnlaus og þó hreyfði enginn hönd eða fót til að grípa hana. „Þetta er ekki manneskja með holdi og blóði, heldur svipur“, sagði gamall sveitabóndi, heldur en ekki smeikur, „mér sýnist ekki betur en að tunglið skíni beint í gegnum hana“. „Það verðum við að prófa“, gall annar við, og lagði hreifann heldur fast á öxl jungfrúnni. Það var ískyggilegt augnablik. Jungfrúin leit við og horfði á manninn með sínum djúpu, dimmu og tindrandi augum, en hinum brá svo kynlega við, að hann sleppti óðara takinu og hörfaði undan sem hundur væri sneyptur. Með honum hopaði fjöldi manna, sem nærri stóðu; enginn þóttist skilja hvað undir bjó þessum svörtu augum þarna í tunglsljósinu, en allir fundu einhvern kraft af þeim standa. Eftir fáar mínútur var svæðið autt þar sem Regína stóð, orustan hætt, enda kom þá varðliðssveit og greip nokkra menn, er mestan mótþróa sýndu. En lengi eftir þetta hélzt viðsjá og matningur frá kylfustríðinu gamla milli bænda og liðsmanna, milli hins starfsama plógs, sóma Finnlands, og hins sigursæla sverðs, sem á þessum tíma lagði í leiðangur til þess að temja hinn rómverska keisara. Um Regínu er þess einungis getið í þetta sinn, að hún lét mótstöðulaust leiða sig aftur inn í sinn dimma einveruklefa, þótt sárt þætti henni að missa kórónu dýrðarinnar. Tók frú Marta aftur við gæzlu hennar. En frá Bertílu er það að segja, að hann hvarf heim til Stórkýró með dóttur sína, hann með hugann bundinn við ókomna upphefð og frægð, en hún með minni horfinnar hamingju í hjarta. Og það skulu menn muna, að allt þetta hafði viðborið á einum og sömu tveim dögum sumarið 1632 og því á undan falli Gústafs konungs, sem frá var sagt í enda hins fyrsta þáttar. Og nú liðu dagar og mánuðir og örlög manna breyttust, og hið skjótfæra orð verður staðar að nema um stund í von um kveld, sem eftir koma. Söguþættir læknisins vöruðu, eins og barnanna gleði og grátur, einungis eina kvöldvöku — heldur stutt fyrir þá, sem í vinsemd hlýða til, en líklega hinum heldur lengi. En aldrei slitnaði þráðurinn í miðju efni án þess ungir og gamlir hugsuðu með sjálfum sér: eitthvað er eftir enn þá. Og því varð læknirinn að lofa. Hann átti svo margt ósagt í fórum sínum um örlög tveggja ætta, þátturinn var ekki nema hálfspunninn, næsta sinn verður hann lengri — ef ekki á enda þá samt snælduna fulla og fulla lengd uppistöðunnar.