Þriðja saga herlæknisins
ELDUR OG VATN
Þegar læknirinn næsta sinn sá til samans komna sína sólgnu
áheyrendur, unga og eldri, voru sex vikur liðnar síðan síðast.
Viðburður nokkur hafði milli borið og gengið Bekk gamla nærri.
Hver er við sína heimsku bundinn í heimi þessum, og ekki sízt
aldraðir einlífissveinar. Bekk hafði nú hugfest þann ásetning að
eiga gott í elli sinni; hann átti uppi á kvistlofti sínu allmikinn
poka með dúni í og við þann dún var hann vanur að bæta vor
og haust dúni af fuglum þeim, er hann skaut. En það sagði
hann engum manni, til hvers hann ætlaði dúninn; einhvern
tíma svaraði hann því til þá er hann var spurður að því: „Ég
ætla að fara líkt að og hann Possen gerði við Víborg; þegar
Finnland er í voða, fer ég upp í háan turn og hristi fiðrið mitt
út í loftið, svo úr því verði eins margir liðsmenn eins og dúnfjaðrirnar
í pokanum“.
„Skrattinn hafi mig ef þú talar ekki eins og aulabárður, bróðir“,
sagði þá Svanhólm, kapteinn og póstmeistari. „Það þarf meiri
merg til að mynda úr hermenn handa okkur nú á dögum. Fjandinn
hafi ef ég held ekki að þú haldir að við hermenn séum
hænuungar“.
„Já“, sagði læknirinn, þegar kapteinninn vildi halda áfram,
„ég skil hvað þú ætlaðir að segja: öldungis eins og hann Fieandt
við Karstúlu“.
Hvað um það fór læknirinn samt einn góðan veðurdag af stað
í aprílmánuði út í eyjar til að skjóta fugla og hafði úttroðnar
endur til að ginna með. Honum fylgdi gamall einsýnn korpóráll[* Yfirliðsmaður.],
sem hét Ritsi, þ.e. Fritz; hafði hann á æskuárum farið yfir
endilangt Þýzkaland með poka sinn á baki eins og aðrir iðnaðarmenn
gera, og ekkert flutt heim með sér nema sitt þýzka nafn.
Ísinn lá þá enn víða á sundunum, en vakir á milli. Þeir félagar
höfðust svo við nærri ísskörinni og skutu við og við, en lítil var
veiðin, enda voru báðir illa sýndir. Þá bar svo við eina morgunstund,
að Bekk þóttist sjá endur tvær við ísskör langt um utar
og varð hann að fara þangað alllangan krók. Þegar þangað kom,
sá hann, að endurnar sátu kyrrar; hann læddist þá svo nálægt
sem hann þorði, miðaði og skaut, bærðust endurnar að eins, en
sátu þó kyrrar sem áður. „Seigar eru þessar“, hugsaði Bekk, laut
niður, hlóð og skaut á þrjátíu skrefa færi. Það fór allt að einu.
Þetta þótti Bekk ekki einleikið, gengur því nær og sér, að hann
hefir verið að skjóta á úttroðnu endurnar sínar, sem vindurinn
hafði óvart rekið frá innri ísskörinni og út fyrir spöngina.
Nú ætlaði heiðurskempan að hverfa heim með fang sitt, en
þar var nú þrepskjöldur í vegi. Vindurinn hafði sprengt þann
ís, sem hann stóð á, frá hinum, sem Ritsi var á, og rak nú hans
jaka undan og út á auðan sjó. Hinir gömlu félagar litu raunalega
hver til annars, þar sem hver stóð á sínum jaka og varla
10 faðmar í milli, en þó gat korpórállinn með engu móti borgið
herra sínum og vini því enginn bátur var nærri. Bekk rak hægt
og hógværlega undan til hafs. „Hyvästi nyt, kumpani!“ hrópaði
læknirinn svo korpórállinn heyrði síðast. „Heilsaðu Svenóníusi
og Svanhólm og segðu, að erfðaskráin mín sé hægra megin í
handraðanum á dragkistunni minni; hún er læst. Segðu þeim að
hringja alminlega í minningu mína á sunnudaginn. Hvað útför
mína snertir þurfið þið ekki að ómaka ykkur, hana annast ég
sjálfur“.
„Jumala sinnakkoon!“ æpti korpórállinn, fór með fóðrið á
treyjulafinu upp að öðru auganu og gekk síðan ofur rólega leiðar
sinnar upp til strandarinnar, rétt eins og ekkert hefði í skorizt.
En það má óhætt segja til sæmdar þeim góða bæ, að öðrum
vinum læknisins varð meira um þessi tíðindi en korpórálnum.
Póstmeistarinn blótaði sér sjálfum í sand og ösku, skólakennarinn
lagði af stað með allan sinn drengjahóp og amma gamla sendi
út tvo duglega hafnsögumenn á bátum, til að leita hins glataða
læknis milli jakanna. Hálfur bærinn varð allur í uppnámi, með
hlaupum og köllum, og þeir, sem létu verst, gerðu minnst. Tveir
dagar liðu nú svo ekkert fréttist; þriðja daginn komu hafnsögumennirnir
heim aftur svo búnir sem þeir fóru. Þá hættu menn
leitinni og létu lækninn eiga sig. En bærinn syrgði hann hreinskilnislega,
sem von var; hinn gamli heiðurskarl fylgdi orðið
bænum eins og innstæða, frændi hvers manns og fulltrúi; hann
var sem ármaður hins litla bæjar svo ekki var hægt að sjá hvernig
hagur almennings átti að standast úr því hann var fallinn
frá. En hvað átti úr að ráða? Þriðja sunnudaginn eftir óhappadag
þennan hafði enn ekki frétzt hið minnsta um herlækninn, enda
var þá hafin hringing og hún heiðarleg fyrir hans fáráðu sál.
Svenóníus samdi réttsnotra grafskrift setta og smelta latneskum
og hebreskum mærðarglósum, og var hún síðan lesin í kirkjunni,
og bæjarins hávísu höfðingjar ákváðu dag í næstu viku, þegar
uppritun eigna hins látna skyldi fram fara. Ég vona nú samt,
að lesendur mínir, hvorki konur né karlar, sem tekið hafa eftir
fyrirsögn þessa þáttar, verði hræddir. Satt að segja væri það
vandræði, ef læknirinn skyldi falla frá einmitt nú, þegar Regína
situr í Krosshólmi undir geymslu hinnar ströngu frú Mörtu, og
Bertel liggur í valnum við Lützen. Og hvað skyldi verða af
Emmu, sem er svo ör á tárunum, af bændakónginum í Stórkýró
og mörgum merkismönnum öðrum í sögunni? Verið þolinmóð.
Herlæknirinn hefir oft komizt í krappari dans en þetta á lífsleið
sinni; hann fæddist ekki að gamni sínu sama dag og hann
Napóleon.
Nú átti uppskriftin að byrja. Loftherbergi Bekks var alveg
ummyndað orðið, ótrúlega fágað og prýtt, og það sem yfir tók
og engin trúir: Það hafði verið sópað og þvegið. Öllum hlutum
var raðað undursamlega, ferða-apótekið fágað og hreinsað, fuglahömunum
raðað og eggjafansins helgidómi upp lokið svo ómildir
sæi. Spanskreyrinn með silfurbólunni stóð í horninu og bærði ekki
á sér, parukið hékk hugsandi á snaga sínum. Jafnvel sjálfir
leyndardómarnir úr dragkistunni svo sem fölnaður lokkur frá
löngu liðnum tímum, voru teknir upp og virtir á rúblur og kópeka,
líklega með lágum upphæðum. Allt var með himnalagi: ráðsmaður
með embættissvip hafði valið sér sæti við gamla eikarborðið, og
lá nú stimpluð pappírsörk þar sem smíðatól gamla mannsins voru
vön að liggja; skrifari var að skerpa pennann sinn beint andspænis
ráðsmanninum, og amma gamla hafði sem húsráðandi
mætt og með votum augum gert grein fyrir munum Bekks, þar
eð hinn gamli maður átti hvorki ættingja né vandamenn.
Einn hlutur var þó eftir, sem enginn hafði enn þá við hreyft,
það var flata selskinnskúffortið undir rekkju læknisins. Ráðsmaðurinn
gaf því við og við auga og renndi huganum um leið
til rentunnar, sem arfurinn gæfi af sér, en hve stór hann væri
og hver hann skyldi hljóta, það vissi enginn. Nú skyldi embættisverkið
byrja. Svanhólm og Svenóníus voru kallaðir til að vera
virðingarmenn, ráðsmaðurinn ræskti sig einu sinni eða tvisvar,
setti upp fógetasvip, upplauk sínum munni og mælti svo:
„Fyrir því og með því að hinu velvísa borgarráði hefir borizt
til eyrna, að sálaði kóngsins herlæknir, velnefndur Andrés Bekk,
á ís-fugla-veiði-för til þess fugla að skjóta á ísi, hafi fyrir ólukkulegt
tilfelli líf sitt á sögðum ísi látið, og allt svo, þótt hans
líkami enn nú ekki fundizt hafi, þó hvað sálina áhrærir sé hann
rétt og löglega andaðan og afdauðan að reikna ...“.
„Það skyldi ég þó auðmjúklega mega afbiðja“, sagði í sama
bili rödd frá dyrunum og þessi rödd hafði áhrif. Hinn velvísi
bæjarfulltrúi fékk fát á sig, týndi embættissvipnum, og hans
liðuga tunga neitaði í fyrsta sinni hollustu. Skrifarinn, sem hafði
sekrítéra nafnbót og metorð, rauk upp eins og vígahnöttur og
rak undir með höfðinu hinn lærða mann, Svenóníus, sem heyrði
illa, og hafði hvorki heyrt þetta urðarorð raddarinnar né skildi
vitund í þessu fáti, en nú féll hann flatur fyrir höggi skrifarans.
En báglegast tókst til fyrir hraustmenninu honum Svanhólm;
það mátti sverja fyrir og sárt við leggja, að aldrei hafði hann í
verri klípu komizt, ekki einu sinni við Karstúlu. Hann fölnaði
skyndilega eins og skjallhvítt línlak, „kommanderaði“ hægri fætinum
„til vinstri“, sem væri hann í bardaga, en fóturinn stóð
kyrr og hlýddi ekki herboðinu. Gamla amma var sú eina, sem
barst af nokkurn veginn; hún, setti gleraugun á nef sér, gekk fyrst
fram í móti gestinum, hristi efablandin sitt heiðvirða höfuð svo
sem vildi hún segja það sem hún þó ekki sagði, að það sæti illa
á sáluðum manni að hafa slíka hegðun í frammi. En Bekk gamli
— því hver gat þetta annar verið? — lét ekki aftra sér. Hans
skap og tilfinningar fóru í allt aðra átt. Þegar hann sá sitt kæra
herbergi svo skammarlega uppdubbað, sína dýrmætu muni svo
djarflega tekna fram og tætta í sundur, og hið háa bæjarráð í
óða önn að handleika hluti, sem Bekk sýndist því ekki koma
við, varð honum það á, sem vorkun má virðast, að verða fokreiður,
enda þreif hann formálalaust í hálsmálið á báðum bæjarfulltrúunum
og hratt hvorum eftir annan hæverskulaust út úr
dyrunum. Þá tók bróðir Svenóníus við, því honum var ekki
heldur þyrmt, og loks kom bróðir Svanhólm til sögunnar og
fór hann, fyrr en hann kæmi einu orði fyrir sig, öfugur og
endilangur ofan allan stigann. Þetta gekk eins fljótt og hendi er
veifað, og var nú ruddur skálinn, nema amma gamla stóð eftir.
Þegar augu Bekks mættu hennar milda og ásakandi augnaráði,
rankaði hann við sér og sneyptist við. „Nú, nú“, sagði hann.
„nú, nú og þá, þá, frændkona góð, takið ekki hart á þessu, ég
skal kenna sópurum og tuskum að svína út mína stofu. — Nei,
sitjið þér, frændkona. Má slíkt ekki gera hvern dauðan stein úrvinda,
að vera vitni til annarrar eins vitleysu. Lítið á, þarna
hafa skammirnar farið að þvo fyrir mér gólfið og strjúka af
fuglahömunum. Þetta er til stórskammar!“
„Frændi góður“, tók amma fram í, bæði byrst og blíð, „allt
þetta er eftir mig, við gátum ekki trúað öðru en að þér væruð,
drukknaður, frændi góður“.
„Drukknaður, ekki nema það þó“, rumdi í lækninum. „Það
lifir lengst frænka góð, sem lýðum er leiðast. Það er satt, að mig
rak samfleytta þrjá sólarhringa á jaka skömminni, og hvorki hafði
ég hlýja sæng né dúkað borð, en slarkaði samt út úr því. Ég
hafði byssuna með mér og með hennar fulltingi tókst mér að
yfirstíga áleitinn sel. Lýsisbragð var af honum, heillin góð, en
mér datt í hug að betra væri að vera brauðlaus en ráðalaus;
eldfæri hafði ég og saltið vantaði ekki, ég kveikti í veiðitöskunni
og bjó mér til steik. Fjórða daginn rak mig inn að fasta ísnum
á Vesturbotni og þar skálmaði ég á land. Nú mun mál komið
að labba heimleiðis, hugsaði ég með sjálfum mér, seldi byssuna
og lagði af stað í ófærðinni. Og það verð ég að segja, að ekki hefðu
þeir svínað út stofuna mína með öllu hreinlætinu sínu og ekki
rekið nefið ofan í hirzlur mínar, hefði Svíarnir ekki ferfaldað
flutningsgjaldið síðan í mínu ungdæmi. Áður en ég náði Haparanda,
var Tómás kominn í pyngjuna mína. Nú, nú, hugsaði ég,
þá er að storka læknisráðinu enn þá einu sinni, og hóf mínar
gömlu skottulækningar með bíldinum og essentia dulcis, svo allar
kerlingar ... guð hjálpi yður, heillin, mér heyrðist þér hnerra
... allar kerlingar undruðust og sögðu sína gömlu daga aftur
komna. Með þessu lagi barðist ég fram, kom að sönnu heldur
seint heim, sýnist mér, en þó nógu snemma til að hrinda erfingjunum
ofan stigann“.
Það er auðfundið, að læknirinn átti erfitt með að fyrirgefa
þá húsvitjun, sem gerð var á hans friðhelgu stöðvum. Þótt þeir
hefðu rænt hann öllum hans gripum og gersemum, þótt þeir
hefðu spillt öllu hans mannorði, það hefði hann getað fyrirgefið
þeim, en það að þeir fóru að hreinsa stofuna hans, það mátti ekkert
mannlegt göfuglyndi afsaka. Ekki fyrr en smátt og smátt
tókst hinni hyggnu ömmu að semja svo frið að storminn lægði,
og þá kom loks sá tími, að fullar sættir voru vígðar með nýrri
sögu, hinni þriðju, sem lesarinn finnur hér næst á eftir. Reyndar
bar það við enn þá, að einfeldningar álitu lækninn afturgöngu,
og vafalaust efaðist bæjarstjórnin um rétt hans til að lifa; viðstöðulaust
blótaði póstmeistarinn bæði hrapallega og syndsamlega
í hvert skipti, sem hann minntist á bakið á sér, sem bar
merki eftir afturfund þeirra Bekks, og vissulega andvarpaði
Svenóníus yfir gatinu á tuttugu ára kjólnum sínum svarta, sem
hann var skrýddur í viðhafnarskyni við þetta hrapallega tækifæri.
En amma gamla brosti jafnblítt sem áður, Anna Sofía var
eins ástúðleg eins og áður, og krakkarnir eins óþægir, — og svo
kom sólin og dreifði þokunni og loftið glaðnaði til fyrir örlögum
hinnar ungu Regínu.
„Kæru vinir mínir“, byrjaði læknirinn, „ykkur kann að þykja
það óskiljanlegt, fyrir hverja sök ég kalli þessa sögu „Eldur og
vatn“. Þið skiljið vel án allra heilabrota, hvað hringurinn konungsnautur
var, og hvernig sverð og plógur áttu í ófriði saman.
Nú kunna sumir að ætla, að ég muni vilja kenna ykkur náttúrusögu,
úr því höfuðskepnurnar skálma fram í fyrirsögn minni á
sögunni. Vissulega mætti það meir en vel gera, því ég ber mestu
virðing fyrir náttúrunni, en ég er þeirrar skoðunar, að í hverri
sögu séu mennirnir aðalefnið. Skoði menn málverk geta menn
með mestu ánægju horft á máluð aldini, málaða fugla, málaðar
landsbyggðir, en eftir mínum skilningi eru mannlífsmálverkin
með fögrum mannamyndum þó enn þá betri. Ég vil því segja
ykkur fyrirfram, að minn ásetningur er ekki að lýsa fyrir ykkur
eldsbrunum og óðum vatnagangi, heldur hefi ég valið fyrirsögn
þessa fyrir þá sök, að skapferli mannanna er oftlega sviplíkt
höfuðskepnunum, stundum eldinum, stundum vatninu og stundum
enda hinu létta lofti. Ég ætla að segja ykkur frá fjórum
mönnum, og eru tveir þeirra líkir eldi en tveir vatni. Þó er
með því ekki sagt allt, sem segja má, því að flestar fyrirsagnir
hafa þann galla að lýsa að eins einni hlið af mörgum. Mér datt
í hug að kalla söguna „Skjaldarmerkið“, en hætti við það, því
ég sá, að ég hefði eins mátt kalla hana „Öxina“. Ég hefði hrætt
ykkur hefði ég kallað söguna „Bölvunina“, en sá líka, að ég
gæti allt eins nefnt hana „Blessanina“. Takið því til þakka með
titilinn og getið ykkur til hins sem vantar.
1. Fundur á vígvellinum
Hið fyrsta, sem menn verða að setja á sig — sagði herlæknirinn
— er það, að allur þátturinn um sverðið og plóginn fram
fór á undan orustunni við Lützen, en á henni endaði fyrsti þátturinn,
Hringurinn konungsnautur. Nú hverfum við aftur til
Lützen, 6. nóvember 1632, og megum nú um hríð alveg gleyma
plóginum og sverðinu, eins og aldrei hefði í milli borið; stöndum
því aftur við konungshetjunnar blóðuga nábeð í þorpinu Meuchen,
þar sem líkami Gústafs var smurður daginn eftir orustuna.
Það var dýrleg en voðaleg sjón að sjá þegar Pappenheimarnir
hleyptu á fylkingu Finnanna við austanverðan lækinn Rippach.
Brynjuriddararnir hinir sterku, allir stálhlífum klæddir, steyptust
yfir Stálhanzka; var atlagan svo geyst, að ekki hélt við, enda
voru hestar Finna orðnir afar þreyttir eins og þeir sjálfir voru
eftir alla hina löngu og ströngu sókn; hopuðu þeir nú á hæl, en
sumir féllu. Stálhanzki fylkti þeim þó allt fyrir það aftur að
vörmu spori, manni gegn manni, hesti móti hesti; skyldi nú til
skarar skríða, neyttu menn þeirrar orku, sem eftir var, til fulls,
enda hirti enginn né spurði um líf eða grið. Var þá óðlega barizt
og lenti allt í uppnámi. Þar féll Pappenheim dauður til jarðar
og með honum hans röskvustu kappar. Hafði þá Stálhanzki
látið helming riddaraliðs síns og tróðust þeir þar hrossafótum,
en ekki sefaðist þó orustan, heldur hélzt við unz nóttin sleit bardaganum.
Nú er þess getið, að Bertel reið fram á aðra hönd hershöfðingjanum
Stálhanzka og mætti sjálfum Pappenheim. En ofraun
var það tvítugum manni að reyna sig við slíkan stálarm
sem hann var; varð og marskálkurinn fyrri til og hjó með stórsverði
til Bertels; höggið kom á hjálminn, en sverðið beit ekki
og féll þó svo þungt, að Bertel féll í ómegin, en í því hann féll
af hestinum varð honum ósjálfrátt að grípa í fax Lappa, svo hét
hestur hans, og unni hvor öðrum mikið; sleppti Bertel ekki takinu,
en hesturinn varð óður og hljóp undan og hékk maðurinn
við faxið með annan fót sinn í stigreipinu.
Þegar Bertel lauk upp augunum, var náttmyrkur umhverfis
hann; mundi hann óglöggt eftir orrahríð sinni síðustu; það mundi
hann síðast, að hann sá, hvar sverð Pappenheims gein yfir höfði
honum; datt honum nú í hug, hvort hann ekki mundi dauður
vera og hvíla í gröf sinni, hann lagði höndina á brjóstið og fann
að hjartað sló, hann beit í fingur sér og kenndi til. Skildi hann
þá, að hann var enn á lífi, en hvernig á því stóð og hvar hann
nú var niður kominn, mátti hann með engu móti skilja. Hann
útrétti höndina og fann fyrir sér nokkur hálmstrá; hann fann
að blautt var í kring um sig, en loftið eintómt yfir sér. Nú
freistaði hann að setjast upp, en höfuð hans var þungt eins og
blý, það bar enn þá merki eftir sverð Pappenheims.
Þá heyrði hann rödd skammt frá sér, sem sagði á sænsku
bæði hress og kvartandi:
„Andskotinn og allar hans kúlur! Enginn deigur dropi í
staupinu! Þjófarnir þeir vallónsku hafa stolið pytlunni minni,
bölvaðar borurnar! Heyrðu, þú þarna, gef mér réttan dropa,
mér er sama, hvort þú ert Tyrki eða Gyðingur, ef þú kemur
með það“.
„Ert þú það, Larson?“ sagði Bertel með veikum rómi, því tunga
hans var lömuð af brennandi þorsta.
„Hvaða svefnpurka hvíslar til mín með nafni?“ sagði sá, sem
hjá honum lá í myrkrinu. „Fram, fram, piltar, hleypum, látum
stökkva! Hleypið fyrst af smábyssunum og kastið þeim svo til
skrattans, en höggvið með sverðunum. Brytjið þrælana; beint í
höfuðin; flettið þá úr híðinu eins og rófur; malið þá eins og
grjón! Konungurinn er fallinn, í dag skal öllum blæða. Í dag
eigum við að deyja, en hefna okkar áður. Þetta, þetta, drengir,
húrra! Austurbotnungar í höggorustuna, fram, fram!“
„Larson!“ sagði Bertel aftur, en félagi hans heyrði ekki; hann
hélt áfram í sjúkdómsæði að eggja pilta sína út í orustuna.
Nokkru síðar skímaði af degi gegnum ljórann á kofasmugu þeirri,
sem Bertel lá í. Nú gat hann grillt hálminn, sem lá á gólfinu,
því mold var undir, og í hálminum lágu tveir menn sofandi.
Hurðu var upp lokið og inn komu tveir ljótir menn, loðnir mjög
og illilegir. Þeir ráku byssuskeftin í þá, sem sváfu, og kölluðu
„raus!“ á lágþýzku, „það er blásið til brottlögu“; heyrðist og úti
fyrir lúðrablástur sá, sem á þeim tíma var hafður, þegar lið
skyldi leggja af stað,
„Ég vil láta troða mig fótum eins og frosk“, sagði annar
dólgurinn önugur, „ef ég fæ skilið, hvað vor æruverðugi faðir
ætlar að gera með þessa vantrúuðu hunda. Það væri eins gott að
gefa þeim fararleyfið til fjandans strax, úr því að hann er
þeirra herra og húsbóndi hvort sem er“.
„Aulinn þinn“, svaraði hinn, „veiztu ekki, að það á að halda
stór-hátíð á Ingólfsstað í minningu um dauða villukonungsins.
Hinn æruverði ætlar að heyja hátíðlegan brennudóm við það
mikla tækifæri“.
Sofandi mennirnir fóru nú að rumska og Bertel gat nú séð
við dagsbirtuna, að annar þeirra var hinn lági og digri Larson
fyrirliði hjá Austurbotnungunum, en hinn var Pekka, fylgdarsveinn
sjálfs hans. En þá var enginn tími til útskýringa; þeir
voru allir leiddir út, bundnir og settir á bændakerru, og síðan
hélt heil lest af stað af sárum mönnum og farangri; fóru þeir
hægt og seint og fylgdu þeim nokkrir Króatar.
Bertel skildi nú, að hann og landar hans voru keisarahersins
fangar. Endurminning hans tók að skýrast og sögðu nú félagar
hans honum frá tíðindunum. Þegar hinn trúfasti Lappi, hestur
hans, fann taumana lausa, hljóp hann með mann sinn meðvitundarlausan
aftur til herbúðanna. En þar voru Króatar að
ræna í ákafa, og óðara en þeir sáu hestinn koma með dauðvona
riddara á baki, tóku þeir hann og væntu að fá mikið lausnargjald.
Pekka vildi ekki yfirgefa húsbónda sinn og var því handtekinn
með honum. En frá Larson er það að segja, að hann hafði
hætt sér of langt inn á milli óvinanna og fékk lag í herðarnar af
spjóti og sverðshögg á handlegginn, gat fyrir því ekki höggvið
sér veg út úr þrönginni og fylgdi því straumnum. Ekki vissi hann
neitt, hver sigrað hafði. Þetta var nú þriðji dagurinn eftir bardagann;
höfðu þeir í heilan sólarhring verið á suðurleið og höfðu
síðan hvílzt í nokkra klukkutíma í auðum og rændum bæ.
„Bölvað hyskið!“ sagði lági kapteinninn, sem gleymdi ekki
glaðlyndi sínu þótt bændakerran hristi hann illilega, „hefðu þeir
ekki stolið flöskunni minni, þá hefðum við getað enn þá drukkið
Finnlands skál. En þessir Króatar eru rummungsþjófar; Tartaragreyin
heima eru heilagir hjá þeim. Ég vildi, að ég ætti mér
þó ekki væri nema tvö hundruð af þeim til þess að hengja á
virkisveggnum í Krosshólmi, eins og menn þurrka fatnað á hjallarimum
á Finnlandi“.
Nú hélt lestin áfram tvo eða þrjá daga með stuttum hvíldum;
þoldu hinir sáru allmikla nauð og sársauka, þar eð bæði voru
sár þeirra illa bundin og enginn mátti öðrum duga sakir fjötranna.
Fyrst lá leiðin um aleydd héruð, þar sem vart eða ekki
var nokkra hressing að hafa, enda flýðu allir sem fætur toguðu
hina illa ræmdu Króata. En síðan tóku við góð lönd og mættu
þeir þar kaþólsku fólki, þótt sjaldan mætti annað til þess heyra
en blót yfir villumönnunum og fögnuð yfir falli konungsins. Allur
hinn kaþólski heimur tók þátt í þeim fögnuði. Þess er getið,
að skrautleg skoðunarspil voru leikin í Madrid; var Gústaf Adolf
sýndur þar eins og dreki og Wallenstein látinn fella hann eins
og Jörundur helgi.
Eftir sjö daga sár-erfiða ferð ók vagninn með hina bundnu
Finna eitt kvöld yfir dynjandi hengibrú og nam staðar í þröngum
hallargarði. Fangarnir voru enn þá máttdregnir mjög af sárum;
voru þeir nú leiddir upp steintröppurústir upp í turnherbergi,
sem var hálfkringlótt í lagi. Svo þótti Bertel sem hann
hefði séð þann stað áður, en dimman og magnleysið meinaði
honum aðgreining hlutanna. Stjörnurnar skinu inn gegnum járnrima-gluggann;
var þá hverjum fanga gefinn vínbikar að drekka;
mælti þá Larson ánægður: „Ég skal veðja, að þjófarnir hafa
stolið víni þessu úr kjallaranum í Würtzborg, því betra vín hefi
ég ekki bragðað síðan við vorum þar“.
„Würtzborg“, sagði Bertel hugsandi. „Regína“, bætti hann
við nærri því ósjálfrátt.
„Og vínkjallarinn“, stundi Larson og hermdi eftir honum. „Ég
skal segja þér sögu, ungi vinur minn sæll.
**
Mörg er heimskan hér á storð,
hver vill trúa á meyjar orð?
Fagra drós á flugi hrepptu,
en flösku þinni aldrei slepptu!
**
Hvað hana Regínu snertir, þá situr hún nú við sokkaprjón
norður í Krosshólmi. Og ekki á ég von á því, að hún frú Marta
sé ein af þeim, sem tárast í tunglskininu. Síðan við sáumst síðast
hefi ég fengið heilsanir frá Vasa með Bent Kristinssyni káta.
Hann hafði komizt í áflog við hann föður þinn, sagði hann mér.
Þú mátt reiða þig á, að karlinn er kræfur, hann hafði lyft Bent
okkar í loft upp með beinum handlegg og varpað honum á
dyrnar hjá ykkur heima í Stórkýró. Bent sór og sárt við lagði,
að hann hefði óðara tekið karlinn og tólf piltana hans líka og
stungið þeim inn í vindmyllu og malað þá sundur í mél hefði
Emma ekki beðið fyrir þá. Röskur strákur hann Bent, berst eins
og finngálkn og lýgur eins og landeyða. Skál!“
„Hvað er annars tíðinda frá Austurbotni?“ spurði nú Bertel
og tók fram í, í því hann roðnaði með feimni tvítugs yngismanns
yfir því, ef hann kynni að láta sinn óskáldlega vin gruna
um ástir sínar á hinni dökkeygu, fögru en ólánssömu Regínu af
Emmeritz.
„Ekki annað en hálferfitt árferði, þunga herskatta og nærgöngul
útboð. Karlarnir á Bertílugarði, faðir þinn og minn, jagast
eins og vant er og sættast svo aftur. Emma volar út af þér
og kveður raunarollur. Manstu ekki eftir Katrínu í kofanum?
Skratti snotur telpa, hnöttótt eins og næpa, rjóð eins og reyniber
og mjúk undir hökunni eins og smjörskaka. Skál, drengur
minn, hún er nú hlaupin burt með einhverjum strák“.
„Ekki annað en það“, sagði Bertel hugsunarlaust.
„Ekki annað! Hvern skrattann á ég að segja þér, ef þú hirðir
ekki um að vita neitt um hnöttóttu telpuna í Stórkýró? Jo, noch
etwas, eins og Þýzkarinn segir. Það hafa orðið stór áflog úti í
Krosshólmi. Nýliðarnir höfðu látið koma í munn sér þeirri flugu,
að jungfrú Regína hefði ætlað að myrða konunginn með göldrum;
brutu þeir Krosshólm og brenndu stúlkuna lifandi. Andskoti hefir
það verið gaman! Skál villumönnunum! Við kunnum líka að brúka
brennudómana“.
Bertel hljóp upp, gleymdi sárum sínum, en sársaukinn tók
fyrir, svo hann hneig máttvana í faðm félaga sínum. Hinn hrekklausi
kapteinn varð bæði hræddur og reiður. Meðan hann þvoði
gagnaugu Bertels með því, sem eftir var af góða víninu og kom
að lokum lífinu í hann aftur, svalaði hann brjóstinu með eftirfarandi
orðum, sem stigu frá píanó til forte, frá moll upp í dúr.
„Nú, nú, Bertel, hver fjandinn er að þér? Ertu skotinn í stelpunni?
Já, já, eintóm mjólk í blóðinu, fellur í svima eins og
herbergisspáða. Nú, hertu þig upp. Sagði ég, að þeir hefðu brennt
hana? Ó-nei, unginn minn, þeir steiktu hana bara dálítið, að
hann Bent sagði, og síðan klóraði hún bæði augun út úr henni
frú Mörtu og klifraði eins og íkorn upp á kastalamæninn. Slíkt
og þvílíkt verður oft í ófriðnum. Hana, þar lýkurðu upp augunum!
Þú heldur þó samt lífinu, þín hveitikaka bökuð í nýmjólkinni!
Fyrirverðurðu þig ekki að bera þig eins og postulínspottur?
Ert þú hermaður? Dá-fallegur dáti! Þrumur og þórdunur, paurinn
og hann Pappenheim, þú ert smyrsla-buðkur, drengur minn.
Svei, svei, og nú er líka búið úr bikarnum!“
Hinn lágvaxni garpur hefði eflaust svalað sér betur en þetta
og látið dæluna ganga og það því heldur, sem huggunin var búin
úr bikarnum, hefði hurðinni ekki verið lokið upp og kvensnift
nokkur komið inn til fanganna. Við þessa sjón glaðnaði heldur
hið kjammalega andlit á kapteininum, sem nú var þó með sínu
lang-fölasta lagi. Hann ýtti Bertel til hliðar og laut áfram til
þess að geta séð betur til, því birtan af lampanum var lítil. En
árangur þeirrar skoðunargerðar sýndist varla að svara kostnaði.
„Nunna! hver skrattinn! á hún að fara að umvenda okkur?“
„Friður sé með yður“, sagði æskulegur rómur með þægilegum
og fjörlegum hreim undan hennar niðurdregnu andlitsblæju. „Ég
er út send af vorri æruverðu príórissu í Maríuklaustri til þess að
binda um sár ykkar og, ef dýrlingarnir vilja, græða þau“.
„Það var fallega gert, mín fagra vinkona, látum okkur þá
kynnast dálítið betur“, sagði kapteinninn blíðari og rétti fram
höndina til að lyfta upp blæjunni á nunnunni, en óðara hopaði
hún undan og tveir hermenn, allófrýnilegir sáust í dyrunum.
„Nú, það er svona, þá er að hafa það“, sagði Larson þá.
„Skratti eru nunnurnar stórlátar hérna. Þegar ég lá í Frankalandinu
hjá Würtzborg var ég vanur að fá að minnsta kosti fullt
kvígildi af kossum hjá klaustursystrunum þeim yngstu. Fyrir
þess konar syndir er aldrei neitað um aflausn“.
„Nú, nú“, sagði kapteinninn aftur, þegar nunnan stóð hikandi
við dyrnar, „yðar velæru-verðugheit megið ekki taka úrstint upp
fáein dáta djarfyrði. Nunquam nemo nascitur caballerus, segir
Spánverjinn. Yðar velæru-verðugheit sjáið, að þó ég sé vantrúaður
villumaður, þá kann ég samt að tala latínuna eins og rétttrúaður
munkur. Þegar við vorum í München, var ég í miklu
vinfengi við velvaxna bæjerska nunnu, 27 ára gamla, móeygða
en nefið rómverskt“.
„Haltu munni!“ hvíslaði Bertel óþolinmóður. „Þú rekur nunnuna
á dyr“.
„Ég segi ekki orð. Komið inn betur velæru-verða, komið og
verið óhræddar. Ég skal veðja, að það er langt liðið síðan þér
voruð 27 ára. Posito, eins og Fransmaðurinn segir, sé yðar velæru-verðugheit
gömul kerling“.
Nunnan kom aftur inn þegjandi og með henni tvær þjónandi
systur, og fóru að skoða Bertels illa bundna höfuð. Fín og fannhvít
hönd tók upp skæri og fór að klippa hárið í kring um farið
eftir Pappenheims sverðshögg. Eftir tuttugu mínútur var alvön
hönd búin að binda rækilega um sár hans. Unglingurinn var
hrærður af þakklæti og færði hönd nunnunnar upp að vörum
sínum og kyssti á hana.
„Við mína æru og trú, mín fríða húsfreyja“, sagði hinn gamansami
kapteinn, „liggur mér við að öfunda hinn unga vin minn,
sem er fimmtán árum yngri. Virðist nú einnig að útrétta yðar
náðarhönd og leggja plástur á þennan hrausta handlegg, sem
bugað hefir frómlyndi svo margra frómlyndra systra“.
Nunnan byrjaði, stöðugt þegjandi, að leysa hinar rifnu dulur,
sem huldu sár Larsons. Hún snerti því hönd hans með sinni.
„Donnerwetter — þrumuveður“, sagði kapteinninn, sem vel fann,
hvernig við hann var komið, „er það voðfeld, lítil og ljúfleg hönd
að tarna! Ég bið fyrirgefningar, ástúðlega frú mín og doktorinna.
Ex ungue leonem, segir sá heilagi Hómerus, einn kirkjufaðirinn
... því ég hefi stúderað kirkjunnar feður, það er að
segja á góðri sænsku: á klónni þekkist ljónið. Ég vil veðja tíu
flöskum af gömlu rínarvíni móti ónýtu ístaði upp á það, að þessi
smáa, hvíta höndin mundi miklu heldur vilja klappa einhverjum
riddara á kinnina, en fikta nótt og nýtan dag við bænabandið“.
Nunnan kippti snöggvast að sér hendinni og virtist vera á
báðum áttum, hvað gera skyldi. Hinn nærgönguli kapteinn tók
að óttast afleiðingar sinna ástamála. „Ég tala ekki orð framar,
heldur þegi eins og Kartensumunkur, en hitt segi ég, að sá, sem
dirfist að halda að svona silkimjúk hönd sé kerlingarhreifi ...
nei, nei, elskulegu velæru-verðugheit, þér heyrið ég steinþegi“.
Tempus est consummatum, itur in missam[* Tíminn er liðinn, nú skal til tíða ganga.], sagði draugaleg
rödd í dyrunum og nunnan flýtti sér að ljúka við umbúðirnar.
Skömmu síðar sátu fangarnir einir.
„Þá rödd hefi ég áður heyrt“, mælti Bertel hugsandi. „Erum
við hér þá umkringdir eintómum leyndardómum?“
„Svei því“, sagði kapteinninn, „það er sköllóttur, afbrýðissamur
munkur. Drottinn minn dýri, það var ljúf og lagleg hönd!“
2. Tveir gamlir kunningjar
Þegar haustsólin næsta morgun sendi geisla sína inn í gegnum
turngluggann, stóð Bertel upp og gægðist gegnum hann. Þar var
fögur útsjón. Niðri við rætur turnsins valt móða mikil í bugðum,
en á bökkum hennar andspænis lá bær með 30 turnum, en bak
við brostu hálsar, vaxnir vínviði, sem enn þá stóðu grænir.
Óðara en Bertel renndi augunum þekkti hann, að þetta var
Würtzborg. Höllin Maríuborg þar sem fangarnir sátu, hafði fallið
aftur í hendur furstanum, er einnig var biskup, þegar Svíar
höfðu haldið þaðan liðinu. Hinn náðugi fursti var ekki fluttur
þangað sakir hins sífellda ófriðar, heldur hafðist oftast nær við í
Vínarborg. Höllin hafði fengið stórskaða, þegar hún var unnin,
og síðan rænd; annar turninn hafði hrunið og borgarsíkið hafði
verið fyllt upp á ýmsum stöðum. Eins og þá stóð á var þar ekki
annað setulið en fimmtíu manna, en því fleiri sjúkir og sárir,
sem nunnurnar frá klaustrinu í bænum stunduðu og græddu.
Þegar nú Bertel fór betur að hyggja að fangelsi sínu, þóttist hann
þekkja, að þetta var herbergi Regínu, þar sem hin fríða jungfrú
hafði horft á bardagann með þernum sínum, og þar sem
sænska kúlan hafði brotið líkneski dýrlingsins í gluggatóttinni.
Þessi uppgötvun þótti hinum draumsæla yngismanni ómetanleg.
Hér hafði hún þá staðið, hin forkunnarfríða landflæmda furstadóttir;
hér hafði hún blundað nóttina fyrir áhlaupsstorminn.
Herbergið var helgidómur í augum Bertels; hann þrýsti vörunum
á ískaldan múrvegginn og hugðist kyssa förin eftir tár jungfrúarinnar.
Eins og leiftur flaug honum í hug, hvort nunnan, sem vitjaði
þeirra daginn fyrir, hefði ekki verið prinsessa í dularbúningi,
hvort höndin mjúka og smáa hefði ekki verið — Regínu hönd.
Það hefði verið kraftaverk, en ástin trúir kraftaverkum. Hjartað
í brjósti Bertels barðist hart. Umbúðir hins milda læknis höfðu
þegar stórum bætt hin illa hirtu sár hans; honum fannst hann
vera hálfu hraustari orðinn. Félagar hans voru þreyttir eftir
ferðina og sváfu enn. Þá opnuðust dyrnar og inn kom nunnan
ofurhægt til að færa föngunum svaladrykk. Bertel fannst sem
hann svimaði. Frá sér numinn af geðshræring féll hann á kné
fyrir nunnunni. „Seg mér nafn þitt, ljúfi engill, sem minnist
fanganna“, mælti hann. „Seg mér nafn þitt, sýn mér andlit þitt
... ó, ég hefði þekkt þig meðal þúsunda ... þú ert Regína
sjálf!“
„Þér farið skakkt“, sagði sama fjörlega röddin, sem hann hafði
heyrt deginum fyrir. Það var ekki Regínu rómur, en þó vel kunnur,
en hver gat það verið?
Bertel spratt upp og reif línið af höfði nunnunnar. Frammi
fyrir honum stóð hin fríða og milda Katrín með brosandi andlit.
Bertel fór hjá sér og hopaði aftur á bak. „Óvarkári maður!“
mælti Katrín og huldi andlit sitt í skyndi. „Ég hefði óskað að
mér hefði mátt hlotnazt að þjóna yður, en þér neyðið mig til að
eftirláta stöðu þá öðrum“.
Katrín var horfin. Sama dags kveld kom nunna aftur inn til
fanganna. Larson hélt fagra tölu, dró hönd hennar upp að vörum
sér og rak á hana smellandi koss. Rétt að því búnu heyrðist
hann bölva og ragna út úr öllu hófi: hann hafði nú kysst afgamla,
visna hönd, sem var eins og hundrað ára gamalt bókfellsskinn.
„Það er sannast að segja, Bertel góður“, sagði hinn blekkti
kapteinn með heimspekilegri rósemd, „þeir hlutir eru til í náttúrunni,
sem mannlegri skarpskyggni verða eilífar ráðgátur. Þessi
hönd t.d. manus, mana, manum, hönd, eins og hinir fornu Rómverjar
komust svo fallega að orði ... þessi hönd, vinur, mundi
hafa skipað öndvegissæti í ummyndunarkvæðunum hins hágríska
skálds Óvidíusar, sem við forðum lásum í Ábæjarskóla, þegar
hann faðir minn ætlaði að dubba mig til prests. Í gær hefði ég
gefizt fjandanum upp á það, að þar væri komin fínasta jungfrúar-hönd,
en í dag vil ég láta krúnuraka mig, ef þessa hönd
á ekki sjötug þvottakerling. Sic unde ubi apud unquam post, eins
og þeir gömlu að orði komust. Hvað eð útleggst: Þannig getur
yngisstúlka orðið að uglu eða norn áður en nokkurn varir“.
Sár fanganna gréru skjótt fyrir umönnun nunnunnar. Hinir
döprustu hauststormar hvinu nú á turnum kastalans, en úrkoman
small á rúðunum. Grænkan á vínviðarekrunum tók óðum að
dofna, en þétt kuldaþoka steig upp úr Mainfljótinu og fal útsýnið
yfir bæinn. „Þetta þoli ég ekki lengur“, kurraði Larson;
„þeir örgu þrjótar gefa okkur hvorki vín né teninga. Ég bið
heilaga Birgittu að halda til góða, en nunnunnar þeirra má skrattinn
í minn stað kyssa, á hönd eða munn, því habeo multum
respectum pro matronibus, hvað eð útleggst: ég ber mikla akt
og respekt fyrir kerlingunni. Nei, ég þoli ekki, ég stekk út gegnum
gluggann“.
„Gerðu það“, sagði Bertel önugur.
„Nei, vinur, ekki stekk ég út í gegnum gluggann“, svaraði
kapteinninn. „Nei, vinur minn, micus ameus, eins og við lærðu
mennirnir segjum ... ég vil í þess stað heiðra þennan vorn
félaga og spila við hann krónuspil“.
Og hinn fyndni kapteinn heiðraði Pekka í þrítugasta sinn með
þessu óbrotna spili, til þess að tíminn liði; notaði hann til þess
sexeyring frá tímum Karls níunda.
„Seg mér heldur“, mælti Bertel, „hvað eru þeir að byggja
þarna yfir á torginu í Würtzborg, beint á móti oss?“
„Kró“, svaraði Larson. „Króna!“
„Mér sýnist það vera líkara bálkesti“.
„Flatt“, sagði Larson og leit ekki við. „Skollans Limingubúinn
vinnur af mér hestinn, söðulinn og ístöðin“.
„Fyrsta morguninn eftir að við vorum fangaðir, heyrði ég
talað um brennudóm til minningar um bardagann við Lützen.
Hvað hyggur þú um það?“
Larson sperrti upp sín gráu augu, strauk granskeggtoppinn og
blótaði á þýzku: „Blitz-donnerkreutz ... fjandans Lerumunkarnir!
Þeir skyldu nú steikja okkur og eins og rófur, sigurvegara
hins heilaga rómverska ríkis ... Ég meina, Bertel minn, hvort
það yrði hraustum drengjum nokkuð til ámælis í slíkum kröggum
— in rebus desperatis á latínu — þótt þeir leituðu sér farborða
í laumi, til að mynda út í gegnum gluggann?“
„Það eru 70 fet hér yfir fljótið og það fellur beint undir
honum“.
„Dyrnar þá“, mælti kapteinninn hugsandi.
[171.png]
„Vopnaðir menn gæta þeirra nótt og dag“.
Kapteinninn varð nú alláhyggjusamlegur; leið svo dagurinn,
kvöldið og fram á nótt. Aldrei kom nunnan með kvöldverðinn.
„Veizlan endaði með vatnföstu“, umlaði kapteinninn önugur og
íbygginn. „Ég vil heita hundur, snúi ég ekki nunnu skömmina
úr hálsliðnum fyrir svikin óðara en hún sýnir sig“.
Í sama bili lukust upp dyrnar og nunnan kom inn og fylgdi
henni enginn í þetta sinn. Larson leit talandi augum til félaga
sinna, þreif um háls nunnunnar og þrýsti henni upp að veggnum.
„Hæg og hógvær, vor heiðarlega abbadís“, sagði hann í
spotti, „ef þú æmtir eða skræmtir, ertu farin. Ég ætti annars
að varpa þér út í gegnum gluggann og kenna þér sundtökin í
fljótinu, það er að segja punctum preciosum, sem þýðir að fylgja
föstum punkti í matreiðslunni. En enn gef ég þér grið fyrir
gjöld. En seg mér samt, þú bráðónýta búrkerling, þú miserabile
pecorale, hvað þýðir bálkösturinn ykkar þarna yfir á torginu,
og hvern á að steikja þar?“
„Í allra dýrlinga nafni, talið lágt“, hvíslaði nunnan svo varla
heyrðist. „Ég er hún Katrín litla og er komin til þess að frelsa
ykkur. Þið eruð í voða staddir. Á morgun kemur biskupsfurstinn,
og Híerónýmus, hinn svarni óvinur ykkar og allra Finna, hefir
svarið að brenna ykkur lifandi til dýrðar öllum heilögum“.
„Nei, þessi blessaða mjúka og smáa hönd“, kallaði þá Larson;
„mikið naut gat ég verið að kannast ekki óðara við hana. Jæja,
yndið allra bezta, til heiðurs heilagri Birgittu fæ ég mér nú
fallegan koss ...“. Það var orð og að sönnu, en Katrín sleit
sig af honum og sagði með skjótum orðum: „Vilji junkurinn ekki
hafa sig hægan, verður hann steiktur í bálinu, það má hann
reiða sig á. Flýtið ykkur, bindið mig hér við stólbrúðina og síðan
klút fyrir munninn á mér“.
„Binda þig?“ svaraði kapteinninn og glotti.
„Fljótt! Varðmennirnir hafa fengið vín og eru sofnaðir, en að
tuttugu mínútum liðnum kemur Híerónýmus að gá að þeim.
Þið takið kuflana af þeim og skundið út; varðmanna-svarið er
„Pétur og Páll“.
„En þú þá sjálf?“ spurði kapteinninn.
„Þeir finna mig bundna. Ég hefi verið gripin og kefld“.
„Sóma og blómarós, þú sem kórónar allar sanniðrandi systur í
þessu landi. Hefði ég ekki svarið, að ég aldrei skyldi kvongast,
þá ... nú, nú Bertel, fljótt! Pekka, letingi! Vertu blessuð,
stelpu snotra! einn koss í viðbót .... heil og sæl“.
Fangarnir þutu allir þrír út.
En óðara en þeir voru komnir niður í hinn dimma skrúfstiga,
sem gekk upp að dyrum klefans, voru þeir gripnir eins
og með járngreipum, felldir og fjötraðir. „Dragið hunda þessa
niður í hvelfinguna“, kvað þá við kunnug rödd. Það var Híerónýmus.
3. Fjárhirzlu-hvelfingin
Innan lítils tíma sátu hinir föngnu menn með hendur og fætur
harðlega bundnar í dimmum og rökum helli, sem höggvinn hafði
verið inn í hamarinn; hafði biskupsfurstinn af Würtzborg geymt
þar fjársjóðu sína áður en Svíar komu og léttu því starfi af
honum. Engin skíma af dagsbirtu komst niður í þetta myglaða
hvolf, þar sem rakinn úr berginu síaðist jafnt og þétt í dropatali
niður úr rifunum með sífelldum smellum.
„Þrumur og Króatar! Eigi og taki allir árar þennan fyrirdæmda
afeyrða illræðismunk!“ æpti kapteinninn þegar hann fann fasta
jörð undir fótunum. „Að loka okkur hér inni, okkur konungsins
og krúnunnar herforingja, í þessari músagildru! Diabolus infernalis
multum plus plurimum! Ertu lifandi, Bertel?“
„Já, til þess að láta brenna mig lifandi á morgun“.
„Heldur þú það?“ sagði kapteinninn næstum því klökkur.
„Ég kannast við hvelfinguna; berg á þrjár hliðar, en járngrindur
á eina, og sá maður, sem geymir okkur, er harðari en
járn og klettur. Við fáum aldrei aftur Finnland að sjá. Hana
sé ég aldrei framar“.
„Heyrðu, Bertel, þú ert röskur piltur, en samt sem áður verður
það ekki varið, að í aðra röndina ertu hugsjúk herfa. Þú ert
ástfanginn í dökkhærðu jungfrúnni, nú því hefi ég ekkert í
móti að mæla; Amor est valde lurifaxius, ástguðinn er útilegumaður,
eins og Óvidíus segir svo hnyttilega. En skælur þoli ég
ekki. Ef við lifum, eru stúlkur nógar til að kyssa, og ef við
deyjum, lofum við skrattanum að eiga þær. Svo þú ætlar víst
að okkur eigi að steikja eins og reytta rjúpukarra?“
„Það er undir ykkur sjálfum komið“, gall við rödd í myrkrinu.
Allir fangarnir hrukku við, svo bilt varð þeim.
„Djöfullinn sjálfur stendur mitt á milli okkar“, æpti Larson.
Pekka fór að þylja bænir sínar. Þá skein í myrkrinu birta frá
skriðbyttu, og sáu þeir þar allir kominn Jesúmunkinn Híerónýmus.
„Það er undir ykkur sjálfum komið“, sagði hann aftur. „Undankoma
er ykkur ómöguleg. Konungur ykkar er dauður, her ykkar
er sigraður, allur heimur viðurkennir kirkjunnar og keisarans
yfirvald, bálkösturinn er hlaðinn og þar skulu líkamar ykkar
brennast til dýrðar vorum heilögu. En í mildi sinni hefir heilög
kirkja hugsað ráð, sem enn þá mætti bjarga lífi ykkar, og sendir
mig nú til þess að bjóða ykkur líf“.
„Ekki nema það!“ svaraði Larson í háði. „Komið þá, æruverðugi
faðir, leysið bönd mín og lofið mér að faðma yður. Ég
býð yður fullkomna vináttu, ef þér einungis viljið trúa. Hvað
segir ekki hann Seneca; homo homini lupus, wir Wölfe sind alle
Brüder[* Vér úlfar erum allir bræður.].
„Ég býð ykkur líf“ sagði Jesúmunkurinn kuldalega, „með þrem
skilyrðum, sem þið sjálfsagt neitið ekki að fylla. Hið fyrsta er,
að þið kastið trú ykkar með eiði og játið trú hinnar einu sáluhjálplegu
kirkju í heyranda hljóði“.
„Aldrei!“ æpti Bertel með ákafa.
„Kyrr!“ sagði kapteinninn, „nú, setjum svo, að við afneitum
trúnni“.
„Því næst skulið þið“, hélt munkurinn áfram, „verða útleystir
móti því, að laus sé látin hin hávelborna jungfrú og furstinna
Regína af Emmeritz, sem konungur yðar sendi með grimmd og
gerræði langt norður í lönd eins og fanga“.
„Það skal verða“, svaraði Bertel með ákefð.
„Kyrr þú“, sagði Larson, „nú, nú, hvað er svo? setjum að hin
hávelborna jungfrú verði útleyst“.
„Svo er lítill hégómi eftir. Ég krefst þess, að Bertel lautenant
fái mér hring konungsins Gústafs Adólfs“.
„Pyngjuna eða lífið eins og spellvirkjarnir“, gall Larson við.
„Þér heimtið hlut, sem ég hefi ekki“, svaraði Bertel.
Jesúmunkurinn starði á hann með tortryggnissvip. „Konungurinn
hafði boðið Bernharði hertoga að fá yður hringinn og hljótið
þér því að hafa tekið við honum“.
„Það er mér alveg ókunnugt mál“, svaraði Bertel, eins og satt
var, en orðin komu honum óvænt og fylltu hann leynilegri
gleði.
Munkurinn setti aftur upp sinn glottandi svip og mælti: „Úr
því málinu er svo varið, synir góðir, skulum við ekki minnast
framar á hringinn. En hvað snertir umvendun ykkar til hinnar
rétttrúuðu kirkju ...“.
Bertel ætlaði að svara, en kapteinninn tók fram í, enda var
hann áður farinn að iða allur með efri kroppinn, en þar skein
ekki á hann skriðbyttan.
„Hvað það mál snertir“, sagði hann nú, „þá vitið þér vel, velæruverðugi
faðir, að tvær eru hliðarnar: questio an og questio
quomodo. Ef við skoðum nú fyrst questio an, þá var rektorinn
minn sálugi, hann Vincentius Flachseníus, ætíð vanur að setja
negare sem prima regula juris. Þykir yðar velæru-verðugheitum
ekki bæði nýstárlegt og skemmtilegt að heyra konunglegan kaptein
tala latínu eins og kardinála? Svo er mál með vexti, yðar
velæru-verðugheit, að við lærðum í Ábæjarskóla og lásum Ciceronem,
Senecam og Ovidium, sem líka kallast Naso; hvað mig
snertir, þykir mér Cicero karlinn mesta málæðisskjóða og Seneca
sérvitringstetur, en hvað Ovidius snertir ...“.
Munkurinn gekk fram að dyrunum um leið og hann sagði
kuldalega: „Þið kjósið heldur bálið“.
„Heldur það en háðung og smán afneitunarinnar!“ æpti Bertel,
sem gegndi ekki framar grettum og bendingum Larsons.
„Vinur minn“, flýtti Larson sér að segja, „hann meinar, eins
og bæði er eðlilegt og hyggilegt, að verst er, ef málið verður
hrópað út í almenning. Látum oss því, velæru-verðugi faðir,
snúa okkur að questio quomodo. Setjum svo, eða posito, að við
yrðum afbragðsvel kaþólskir og gengjum í þjónustu keisarans ...
en gerið svo vel og koma nær okkur, hann vinur minn hérna
heyrir heldur báglega síðan hann var svo heppinn að komast í
kunningsskap við hann Pappenheim heitinn mikla“.
Munkurinn gekk nær honum, en fór varlega og sá vel um,
að enginn stæði milli hans og dyranna.
„Það er ég, sem ræð málssókninni“, mælti hann regingslega.
„Segið já eða nei“.
„Já, já“, svaraði Larson tafarlaust og hélt áfram að skotra
sér til. „Við erum því greiðir að skera bæði úr questio an og
questio quomodo. Yðar velæru-verðugheit hafið mikið af mælskunni.
Nú tekur við questio ubi og questio quando, því eftir lógík
og metafýsík ... nei, ég bið yður, velæruverðugi herra, ekki
segi ég neitt, ég samþykki allt. En“, sagði kapteinninn og lækkaði
róminn, „viljið þér ekki líta á hægri vísifingur Bertels vinar
míns? Hérna okkur að segja, er þessi vinur minn mesti bragðakarl;
það má mikið vera, ef hann hefir ekki, þegar öllu er á botninn
hvolft, kóngs-hringinn“.
Þetta vakti forvitni munksins svo að hann gekk feti nær þeim.
Eins og áll veltir nú Larson sér, því sakir bandanna gat hann
ekki staðið upp, og kemst í einu augnabliki milli munksins og
dyranna; nú vildi Híerónýmus leita þeirra, en í sömu svipan
hafði Larson núið í sundur á steini bandið á hægri hendi sinni,
greip hann nú í fót munksins og fleygði honum ofan á sig. Híerónýmus
brauzt um sem óður væri, ljósið á skriðbyttunni slokknaði
og hömuðust þeir þar í myrkrinu. Bertel og Pekka gátu hvorugir
staðið upp, en veltu sér þó til þeirra og vildu duga Larson,
en gátu ekki að gert. Þá fann hinn djarfi kapteinn til sársauka
í öxlinni sem af hnífi, og vall þar þegar út varmt blóð. „Þrumur
og eldingar!“ æpti hann og náði óðara daggarði úr hendi fjanda
síns og brá honum. Skipti nú um; munkurinn bað þegar um
grið og líf.
„Sjálfsagt, sonur minn sæll“, sagði kapteinninn, „en með þremur
skilyrðum. Fyrst skaltu með eiði afneita honum Loyóla, meistara
þínum, og játa, að hann hafi verið mesta nátthúfa. Gengurðu
að því?“
„Ég geng að öllum kostum“, svaraði munkurinn og stundi við.
„Hitt skilyrðið er, að þú hengir sjálfan þig á fyrsta snaga, sem
þú finnur á veggnum“.
„Já, já, slepp mér þá“.
„Hið þriðja er, að þú farir beina leið til Belsebúbs, þíns skriftaföður“,
og að svo mæltu hratt hann munkinum með miklu afli á
múrvegginn, og bærðist hann ekki úr því; en Larson skar síðan
með morðhnífnum böndin af félögum sínum, og var nú einungis
eftir að finna útganginn úr prísundinni.
Þegar flóttamennirnir höfðu læst dyrum hellisins utan frá og
voru komnir upp í tröppugöng þau, er lágu upp í hallarloftin,
námu þeir staðar til ráðagerðar. Ástand þeirra var ekki öfundsvert,
því þeir vissu frá fyrri tímum, að tröppur þær lágu upp
að svefnherbergi biskupsfurstans; varð svo fyrst að fara þaðan
í gegn um tvö eða þrjú herbergi, en þá tók við vopnasalurinn
og þá kom hallargarðurinn, en þaðan lá leiðin yfir fljótsbrúna,
sem var varin af vopnuðum mönnum. Öll herbergin nema svefnherbergið,
sem munkurinn virtist einn hafa ráð yfir, voru full
af hermönnum, sjúklingum og gæzlukonum, þegar fangarnir
voru tveim stundum áður leiddir niður. „Einn hlut harma ég“,
mælti Larson, „að ég dró ekki belginn af rebba, þegar ég hélt
í eyrun á honum. Hefði ég haft guðrækninnar belg, hefði ég
getað gengið í gegnum endilangan hreinsunareldinn eins og
annar Sál meðal spámannanna. En nú spyr ég í einfeldni minni,
Bertel minn, hvernig við förum að komast héðan?“
„Við ryðjum okkur braut, varðliðið sefur og nú er reginnótt“.
„Ég játa, vinur, að skyldi nokkur, og þó það væri ég, Larson
sjálfur, kalla þig geit, þá skyldi ég kalla hann lygara. Það er
satt, að einu sinni tókstu nærri því solus, einn, alienus, aleinn,
þennan kastala, en þá hafðir þú þó sverð í hendinni og nokkur
þúsund röskva drengi fyrir aftan þig ... Þey, er nokkur að
trampa á tröppunum? Nei, þar er enginn; við verðum að tifa
eins og heimasætur; álfurinn hann Pekka slánast áfram eins og
heill ríðandi herflokkur sé í hælunum á honum“.
Þeir félagar voru nú komnir þrjátíu eða fjörutíu höft upp
tröppurnar og þá fyrst urðu þeir birtu varir hátt uppi á skörinni.
Þeir námu þá staðar og drógu andann, allt var hljótt og kyrrt.
Nú áræddi Larson að gægjast inn, stakk fyrst höfðinu inn, síðan
fætinum og loks öllum sínum digra búk. „Við erum á réttri leið“,
hvíslaði hann, „takið af ykkur stígvélin, allur herinn skal ganga
á sokkaleistunum, posito, að herinn sé í nokkrum sokkum. Fram!
fram!“
Svefnherbergi biskupsfurstans, sem þeir nú voru í komnir, var
stórt og hafði verið hlaðið skrauti. Hálfslokknaður lampi sló
daufum bjarma á hina gullnu refla á veggjunum; þar stóðu logagylltar
myndir af helgum mönnum, en sængin var úr íbenviði,
þar sem hinn gamli preláti hafði hvílt og sofnað frá sínu Rínarvíni.
Þar var ekkert kvikt inni, en gegn um einn gluggann, sem
sneri að hallargarðinum, mátti sjá hallarkirkjuna alla ljósum
lýsta og fulla af fólki. Garðurinn sýndist líka fullur af mönnum
og báru margir kerti.
„Það má salta mig niður í pækil eins og síld, ef ég get skilið,
hvað þetta fólk hefst að um hánóttina“, umlaði kapteinninn í
illu skapi. „Þeir hafa sjálfsagt samanstreymt til þess að horfa á
hvernig gengur að steikja þrjá heiðarlega Finna við seinan eld
allt eins og kola“.
„Við verðum að útvega okkur vopn og falla eins og hreystimenn“,
sagði Bertel og litaðist fyrir í herberginu. „Ágætt!“ æpti
hann hátt, „hér eru þrjú sverð og fleiri þurfum við ekki“.
„Og þrír daggarðar“, sagði Larson, sem fundið hafði dálítið
vopnabúr bak við líkneski eitt í veggjarskoti. „Þessir verðugu
feður fælast ekki daggarðana heldur en Austurbotnungarnir
púúkóinn[* Finnskur beltishnífur.] sinn“.
„Ég held nú“, sagði Pekka, sem sjaldan var margmáll, og
benti á flösku mikla þar í horni einu, „ég held, að fyrst þetta
er jólanóttin sjálf, þá ...“.
„Dáðadrengurinn“, sagði kapteinninn og varð allur á lofti, „þú
ert undarlega þefvís, þegar eitthvað er að fá í staupinu. Æruverði
Jesúíti, þú hefir unnið eitt góðverk á ævinni. Jólanótt
sagðirðu; hvers vegna sagðirðu það ekki fyrri, flónið þitt? Það
er allt í augum opið, að hálf Würtzborg hefir hlaupið upp til
hallarinnar til þess að hlýða messu hans Híerónýmusar. Samt
er ég svei mér hræddur um, að honum þyki ílengjast nokkuð
þeim góða manni. Sjáðu nú, vinur, nú drekk ég þína skál; fyrirliðinn
á ætíð að ganga á undan liðsmönnum sínum með góðu
eftirdæmi. Skál, drengir góðir ... en hver fjandinn ... Bölvaður
karlinn hefir skammarlega leikið á okkur ... ég hefi
drukkið ólyfjan, ég er bráðfeigur maður!“ og hinn ágæti kapteinn
varð náfölur í framan.
En þeir Bertel og Pekka gátu varla varizt hlátri þrátt fyrir
allar kröggurnar, þegar þeir sáu Larson hvítna af hrollinum,
en biksortna um leið af vökva þeim, sem hann hafði drukkið og
spýtt út aftur. „Taktu smærri sopana næsta sinn, þá þarftu ekki
að drekka blek“, sagði Bertel.
„Blek — það var eftir honum, þessum arga og ærulausa blekbullara,
að setja fram eitthvað fjandans glundrið. Tvennt svíður
mér meira en allir brennudómar, það að hún snotra Kata mín
með mjúku lófunum skuli hafa gabbað okkur, og það að ég
skuli hafa drukkið þann vökva, sem mest er ofaukið í heiminum[** Hér steig Svanhólm á tána á Svenóníusi, sem aftur tók í nefið æði
áhyggjusamlega.].
Skrattinn hafi hann — svei!“
„Ef við hefðum ekki annað að gera, gæti ég sýnt þér nokkuð,
sem blekið hefir afrekað“, sagði Bertel, sem var að blaða í
bréfahrúgu á borðinu: „Hér er bréf frá biskupsfurstanum ...
hann kemur á morgun ... Við eigum að brennast hátíðlega.
Fyrst skal fá okkur til að sverja frá okkur trúna með því að lofa
okkur griðum ... en þó á að brenna okkur allt að einu. Viðbjóðslegt!“
„Rómverskt“, svaraði kapteinninn.
Nú hafði Larson fundið þrjár munkakápur. Þeir klæddust
þeim og lögðu síðan upp til nýrrar glæfragöngu.
Tvö fyrstu herbergin voru mannlaus; einungis sáu þeir tvö
sængurrúm bæld, þóttust þeir vita, að þar hefðu sofið þjónustubræður
og gengið síðan út til messu. „Gott er þetta“, sagði Larson,
„menn munu ætla okkur úlfa í sauðaklæðum, sem ætlum líka út
til messu. Þey, þey! Heyrið þið ekkert? Kvenmannsrödd; kyrrir!“
Þeir námu staðar og heyrðu unga konu vera að biðjast fyrir.
„Heilaga mær, fyrirgef þú mér rétt í þetta sinn, og frelsaðu líf
mitt frá dauðum, þá skal ég á morgun vígjast nunna og þjóna
þér til dauðans“.
„Þetta er Katrínar rödd“, sagði kapteinninn. „Skyldi hún vera
saklaus, blessaður barnunginn? Sem ég lifi væri það ungum afreksmanni
hneisa að frelsa ekki líf svo félegrar stúlku, sem
hefir svo silkimjúka hönd“.
„Fljótt af stað“, hvíslaði Bertel í bræði. En kapteinninn hafði
fundið litlar dyr lokaðar utan frá; fyrir innan var klefi og í
klefanum skjálfandi stúlka. Augu hennar, sem vanizt höfðu
myrkrinu, þekktu munkakápurnar; hún varpaði sér fyrir fætur
kapteininum og hrópaði: „Líf, góði faðir, gefið mér líf! Ég skal
meðganga, ég hefi hjálpað föngunum til að flýja, því ég gaf
varðmönnunum vín. En þyrmið lífi mínu sakir miskunnar hinna
heilögu; ég er svo ung, ég vil ekki deyja enn þá“.
„Nú, nú, hver andskotinn hefir sagt, að þú eigir að deyja, mín
dáðríka dúfa?“ buldi í kapteininum. „Nei, lifa skaltu lengi með
lófana þína litlu og mjúku og varirnar heitu, og svo sannarlega
sem ég er enginn munkur heldur hann Lars Larson, kóngsins
hátignar og krúnunnar kapteinn í hernum, tek ég þig hér
með ... fyrir eiginkonu, heitandi þig að elska bæði í meðlæti
og mótlæti“, hélt hann áfram, því hann hugsaði að þessi alkunni
kirkjuformáli ætti að lesast allur úr því einu sinni var byrjað
á honum.
„Af stað, af stað með stúlkuna eða án hennar! Það kemur
einhver og nú er eftir að komast í gegn um vopnasalinn“.
„Heyrðu nú, Bertel minn, ég hefi aldrei þekkt jafnbráðlátan
mann og þig. Hvernig er það, dúfan góð, þú ert ekki klausturvígð
vænti ég, einungis nunnuefni? Jæja, það stendur mér nú
reyndar á sama. Þú verður konan mín samt ... ef ég nokkru
sinni kvongast. Hér liggur kápa, það er rétt, far þú í hana, og
vertu regingsleg“.
„Það er engin kápa, það er messuhökull“, hvíslaði Katrín, sem
varla var búin að ná sér eftir ofboðið og óttann.
„Hver skrattinn, messuhökull! Jæja, taktu kápuna, ég fer í
hökulinn. Ég skal tóna Dies iræ[* Dagur reiði, dagur voða, etc., frægur kaþ. söngur.] í eyrun á þeim, svo þeim skal
heldur finnast til“.
Í þessu heyrðist margra manna mál frá vopnasalnum og vakti
það Larson af hans prestlegu hugleiðingum.
„Menn sakna Jesúmunksins og það er verið að leita hans; það
er nú úti fyrir okkur og hlýzt það af þínu heimsku-masi“, hvíslaði
Bertel óður og uppvægur. „Nú ríður lífið á að segja ekki til
sín. Af stað öll fjögur“.
„Og latínan á undan“, sagði Larson.
Þau gengu út öll. Í vopnasalnum voru eitthvað þrjátíu sængur
með sjúkum í, en einar tvær systur yfir þeim. Þetta var stór
huggun, en því ófriðvænlegra var það, að þeim mættu tveir
munkar, sem skiptust ákaft orðum á í dyrunum, þegar hinir
ætluðu út. Þegar þeir sáu Larson með hökulinn og þrjá menn
með kufla á eftir honum, brá hinum góðu guðsmönnum í brún.
Kapteinninn hóf upp hönd sína til að blessa þá og mælti hátíðlega:
Pax vobiscum[** Friður sé með yður.] og vildi ganga hægt og stillilega fram hjá
þeim, en í því stöðvaði hann annar munkurinn, leit á hann hátt
og lágt og mælti síðan: „Æruverði faðir, hver er sá, sem heiðrar
höllu vora á svo óvenjulegum tíma ...?“
„Pax vobiscum“, svaraði hann aftur með guðhræddum málrómi.
„Guðsmaðurinn Híerónýmus skipar ykkur að syngja af öllum
kröftum — hans háæruverðugheit er veikur — hefir tannpínu“.
„Við skulum finna hans háæruverðugheit“, sagði hinn munkurinn
og gekk inn í innra herbergið. En hinn þreif í hökul Larsons
og leit framan í hann, svo hinum leizt ekki lengur á blikuna:
„Quis es et quid vultis?“[*** „Hver ertu og hvað viltu“. Larsons svar er vitleysa, eins og latína hans.] spurði munkurinn og hvessti á hann
augun.
„Quis vus et quid eltis!“ svaraði kapteinninn í fullkomnu fáti.
„Qui, quæ, quod, meus tuus suus. Farðu til fjandans, þinn sköllótti
hræfugl!“ grenjaði hann og gleymdi öllu gáti. Hann hratt
nauðugum munkinum inn í herbergið og lokaði dyrunum. Síðan
hlupu þau öll niður í garðinn. Þar var háreysti mikil, æptu
munkarnir með óhljóðum, en nunnurnar tóku undir og fólksfjöldinn,
sem fyllti garðinn, tók að hlusta.
[181.png]
„Við erum farin“, hvíslaði Katrín, „ef við komumst ekki á
bak við að brúnni!“ Þau runnu þangað — hávaðinn óx, þau
fóru fram hjá vörðunum við stóra hliðið. „Halt, wer da?“ „Pétur
og Páll“, svaraði Bertel skjótt. Þau sluppu út. Til allrar hamingju
lá gamla brúin niður. En allur kastalinn var í uppnámi. „Við
steypum okkur í fljótið, nóttin er myrk og þeir finna okkur ekki“,
sagði Bertel.
„Nei“, mælti Larson hátt, „ekki skil ég við stúlkuna mína,
þótt hálsinn sé í veði“.
„Hér standa söðlaðir hestar, af stað!“
„Á bak, þú hin indælasta allra nunna í Frankahéraði, í söðulinn!“
Að svo mæltu varp hinn vaski kapteinn sér í söðulinn og
sveiflaði Katrínu skjálfandi á bak fyrir framan sig. Síðan þeystu
öll af stað út í náttmyrkrið. En á eftir sér heyrðu þau óp og
háreysti, og herklukkurnar kváðu við í hverjum turní. Öll Würtzborg
hlustaði forviða og skildi ekki í hver ólæti hefði yfir dunið
sjálfa hina helgu nótt.
4. Bernharð hertogi og Bertel
Þrem mánuðum eftir þá atburði, sem frá var sagt í síðasta
kafla, hittum vér aftur Bertel lautenant í forsal einum við hina
herbúðalegu smáhirð, sem Bernharð hertogi af Weimar hélt ýmist
í Nassá eða annars staðar, þar sem hann þóttist þurfa að
sitja. Það er vordagur í marzmánuði 1633. Aðstoðarforingjar gengu
út og inn, og hraðboðar skunduðu í allar áttir, því að hertoginn
hafðí yfir að sjá mikinn hluta af Þýzkalandi sunnan og vestan
og tímarnir voru allískyggilegir. Hinn ungi fyrirliði varð fyrst
að bíða alllanga stund, en þá var honum fylgt inn til hertogans.
Hann leit annars hugar upp frá skjölum sínum og landsuppdráttum,
eins og hann biði eftir ávarpi, en Bertel þagði.
„Hver eruð þér?“ spurði hertoginn hart og þurrlega.
„Gústaf Bertel, við finnska riddaraliðið hans hátignar“.
„Hvað viljið þér?“
Ungmennið blóðroðnaði við og svaraði engu. Hertoginn tók
eftir því og leit við honum með óánægjusvip.
„Ég skil það“, sagði hann loksins, „þér hafið að venju verið
í barsmíði við þýzku fyrirliðana út úr kvennamálum. En ég þoli
ekki slíka hluti. Hermaðurinn á að geyma sverð sitt handa ættjörðu
sinni“.
„Ég hefi í engu barsmíði verið, náðugi herra“.
„Enn verra en það? Þá eruð þér kominn til að biðjast heimfararleyfis
til Finnlands. Það fáið þér ekki; ég þarf manna minna
við; þér verðið kyrr þar sem þér eruð, lautenant. Farið þér vel“.
„Ég kem ekki til að biðja um heimfararleyfi“.
„Nú, hvern fjandann eruð þér þá að erinda? Getið þér ekki
sagt það blátt áfram? Fljótt og fáort! Felið prestunum að lesa
bænir, og stúlkunum að roðna!“
„Þér hafið, náðugi herra, tekið á móti hring af Gústaf konungi ...“.
„Þess minnist ég ekki“.
„ ... sem hans hátign bað yður, herra hertogi, að skila fyrirliða
einum við lífvörð hans“.
Hertoginn strauk hendinni um sitt háa enni. „Sá fyrirliði er
dauður“, mælti hann.
„Ég er þessi fyrirliði, herra. Ég varð sár við Lützen og féll
óðara í hendur keisarans mönnum“.
Hertoginn benti Bertel að ganga nær sér, virti hann vandlega
fyrir sér og sýndist ánægjulegri eftir.
„Lokið dyrunum“, mælti hann, „og setjist hér hjá mér“.
Bertel hlýddi, og varð brennheitur í kinnum af óþreyju.
„Ungi maður“, sagði hertoginn, „þér berið vitnisburðinn um
kynferði yðar á enninu, enda krefst ég ekki annarra sannana.
Móðir yðar er bóndadóttir frá Stórkýró á Finnlandi og heitir
Emerentía Aronsdóttir Bertíla“.
„Nei, herra hertogi. Sú kona, sem þér nefnið, er elzta systir
mín, borin í fyrra hjónabandi föður míns. Ég hefi aldrei séð
móður mína“.
Hertoginn horfði á hann forviða. „Nú þá“, sagði hann seinlega,
um leið og hann blaðaði í skjalaveski sínu, „við skulum
samt tala um þessa yðar systur, Emerentíu Aronsdóttur. Faðir
hennar hafði sýnt Karli konungi níunda góða þjónustu og skyldi
sjálfur kjósa sér laun fyrir. Hann bað leyfis til að senda dóttur
sína, sem þá var hans einbirni, til Stokkhólms, til þess að hún
yrði upp alin ásamt tignum meyjum við hirð drottningarinnar“.
„Það er mér að mestu ókunnugt“.
„Þegar hún var þrettán ára gömul, var þessi unga bóndadóttir
send til Stokkhólms, þar sem hégómagirni og auður föður hennar
útvegaði henni uppeldi, miklu æðra en stétt hennar hæfði. Hann
brann af metorðagirnd og þegar hann gat ekki sjálfur náð skjaldarmerki,
skírskotaði hann til hinnar aðalbornu ættar dóttur sinnar,
því að fyrri kona Bertílu var foreldralaus jungfrú af ættinni
Stjarnkross; var hún og arflaus sakir Kylfustríðsins, enda vildu
hinir ríkilátu frændur hennar ekki við hana kannast úr því
hún gekk að eiga hinn auðuga bónda Bertílu. Þessi unga Emerentía
varð margt og mikið að þola sakir spotts og öfundar jafnaldra
hennar í Stokkhólmi; margar þeirra voru snauðari en hún og gátu
illa unað því að óaðalborin mær sæti við hlið þeirra sem jafnborin.
En fegurð hennar var jafnsjaldgæf sem kvenprýði hennar og
gáfur. Áður en tvö ár voru liðin hafði hún til fulls numið alla
hæverskusiði hirðarinnar, en geymdi þó um leið óspillt sakleysi
hjartans úr óbreytta lífinu. Þetta fáséða samband gæzku og fegurðar
minnti marga gamla menn á ástúðlega konu í ungdæmi
þeirra – Karenu Mánadóttur“.
Þegar hertoginn sagði þetta, horfði hann hvasst framan í hinn
unga fyrirliða. En Bertel lét sér hvergi bregða; allt þetta var
honum ókunnugt og óskiljanlegt.
„Nú vel“, mælti hertoginn eftir litla þögn, „það leið ekki á
löngu áður en menn tóku eftir fríðleik þessum. Kornungur maður
stórættaður varð brátt ástfanginn í þessari blómarós, sem ekki
var þá nema fimmtán ára og svaraði honum á sama hátt með
innileik frumástanna. Þessi samdráttur duldist ekki lengi fólki
hins tigna ungmennis. Stjórnvizkan varð hrædd, tignardrambinu
þótti sér vera misboðið, er slík virðing var veitt svo smáættaðri
stúlku. Menn tóku því þau ráð saman, að hana skyldi gifta fyrirliða
af ótiginni ætt, en frægum hreystimanni frá danska ófriðnum.
Þessi ráðagerð kom hinum ungu elskendum til eyrna. Vesalingar,
þau voru bæði svo ung, hann 17, en hún 15 ára, bæði
ókunnug reynslunni og unnust hugástum. Skömmu síðar fór hinn
ungi maður af landi burt til hersins á Póllandi, gjaforð meyjarinnar
fórst fyrir og hún var send með svívirðing heim til kotbæjanna
á Finnlandi. Viljið þér vita meira, Bertel lautenant?“
„Ég skil ekki, herra hertogi, hvað saga systur minnar getur
átt við ...“
„ ... hringinn, sem þér spyrjið um? Verið þolinmóður. Þegar
hinn ungi maður fór í herinn og gekk að finna unnustu sína í
síðasta sinni, gaf hún honum hring, en ekki er mér kunnug
hans fyrri saga; var það mælt, að fjölkunnugir Finnar hefðu
smíðað hann og fylgdi honum álög. Lagði hún ríkt á við unnusta
sinn að bera jafnan hringinn á fingri sínum, þá er hann
kæmi í hættur og mannraunir, og mundi hann þá aldrei verða
sári særður. Tvisvar gleymdist sú varúð, öðru sinni við Dirschá
...“
„Guð minn góður!“
Geðshræring Bertels var svo mikil, að allur roði hvarf úr
kinnum hans og stóð hann nú náfölur eins og marmari.
„Ungi maður, nú vitið þér nokkuð af þeim hlutum, sem yður
ber að vita, en ekki allt. Við höfum nú talað um systur yðar,
en nú víkur sögunni að yður sjálfum. Hans hátign, konungurinn
hafði í ráði að veita yður skjaldarmerki, sem hreysti yðar og
framganga hafði unnið til. En hinn gamli Aron Bertíla hafði
beiðzt þess af konungi, að hann sæi svo fyrir, að þér mættuð
vinna yður allan frama, en með engu móti mætti hann gera
yður að aðalsmanni, svo mikla heift bar hann til hinna tiginbornu.
Konungurinn þóttist ekki mega synja föðurnum þessarar
bænar hans ... fyrir þessa sök eruð þér enn maður ótiginn.
En ég, sem engu heiti er bundinn við föður yðar, ég gef yður,
ungi maður, kost á að þiggja bæði riddaraspora og skjaldarmerki“.
„Herra hertogi, — þessi mildi yðar gerir mig orðlausan,
hvernig hefi ég hana verðskuldað?“
„Hvernig?“ sagði hertoginn og brosti eitthvað kynlega, „ég
heyri, að þér hafið ekki skilið mig, vinur minn“.
Bertel þagði. „Gott og vel, hvort sem það er með eða móti
vilja yðar, skoða ég yður nú þegar í tiginna manna tölu. Við
tölumst við í annað sinn um þann hlut. Hringurinn yðar — ég
var búinn að gleyma honum — munið þér hvernig hann lítur
út?“ Og hertoginn leitaði ákaft í fórum sínum.
„Það er sagt, að konungurinn hafi borið eirhring og muni
vera grafið á hann innanverðan töframark og stafirnir R. R. R.“
„Vera má, að ég hafi týnt honum, því að ekki finn ég hann.
Hver fjandinn hefir tóm til að muna slíkan hégóma. Hringnum
hlýtur að hafa verið stolið úr leyniskríni mínu. Finni ég hann
aftur, skal ég fá yður hann; finnist hann ekki, vitið þér þó
það nú, sem meira er í varið. Farið nú, ungi maður, og sjáið
þér um að verðskulda trúnað minn og minning hins mikla konungs.
Enginn maður má vita þá hluti, sem ég hefi sagt yður.
Farið vel, við finnumst síðar“.
5. Ást og hatur sættast heilum sáttum
Aftur hverfum við frá vorblíðu Þýzkalands norður í kulda
vetrarins. En áður en við höldum lengra fram á þrjátíuárastríðsins
blóðugu braut, verðum við að bregða oss lengst norður
í Austurbotn og finna tvær höfuðpersónur sögunnar.
Það var um jólaföstubyrjun árið 1632. Ofsaveður með kafaldshríð
dundi á veggjum Krosshólms kastala og hleypti brimöldum
Kyrjálabotnsins upp á hinar ísbryddu strandir. Allar sjóferðir
voru úti það árið og enginn komst yfir hafið. Í júlímánuði höfðu
nýliðssveitirnar úr Austurbotni lagt af stað, fyrst til Stokkhólms,
en þaðan til Strælu, og biðu Finnar nú fréttanna frá ófriðnum
með óþolinmæði. Þá varð sá atburður í miðjum nóvembermánuði,
að fregn kom upp og flaug um landið, að konungurinn væri fallinn.
Þess konar fregnir berast í lausu lofti, og vita menn ekki
á hvern hátt eða hvaðan þær koma; enda órar menn jafnan
fyrir illtíðindum, þótt enn séu í fjarska, svo sem þegar jarðskjálftar
vekja ótta eða ókyrrleik í hugum manna, langt fyrir
utan svið þeirra. En þessi fregn hafði oftar en einu sinni áður
flogið fyrir, en verið borin til baka; treystu menn fastlega hamingju
Gústafs, og nú er þessi fregn var látin óstaðfest, gleymdist
hún aftur og var haldin skröksaga ein. Eftir því má oft taka
í lífinu, að eins og mönnum er oftlega illa til þess, er menn
hafa gert illt ósjálfrátt, eins er mönnum vel til þess, er menn
hafa fengið færi á að gera vel við. Frú Marta í Krosshólmi þóttist
töluvert af framkomu sinni, er hún varði kastalann móti hinum
ölvuðu dátum og þakkaði lengi hugprýði sinni, að honum varð
borgið. Og það, að hún barg lífi Regínu lét hana stórum vaxa í
augum frúarinnar, enda gat hún heldur ekki neitað því, að jungfrúin
hafði vakið fulla undrun hennar með snarræði og uppoffrun.
Þóttist hún mjög af því að geyma svo stórborinn fanga;
gætti hún hennar jafnstranglega sem fyrr, en fríðara herbergi
fékk hún henni, leyfði hinni gömlu Dóróþeu að þjóna henni
og hélt hana einkar vel með mat og drykk. Regína lét og minni
metnað og kulda í ljósi en fyrr; bar það nú stundum við, að
hún gegndi frú Mörtu litlu orði eða lyti með kollinum, en við
réttunum, sem fram voru settir, feitu kálfunum, tvígilda bjórnum
og öðru góðgæti, hreyfði hún lítið; var svo að sjá, sem hún
léti sér allt á líku standa, þuldi sí og æ á tölur sínar, en lét að
öðru leyti hvern dag koma og fara sem annan.
Frú Marta þóttist vera sannfærð um, að fangi hennar væri
einhver hin mesta prinsessa eða konungsdóttir, þótt hún ekki væri
skilgetin dóttir rómverska keisarans sjálfs. Henni kom því það
óheillaráð í hug að gera tilraun til að láta svo stórborna konu
kasta sinni kaþólsku trúarvillu; hugsaði hún sér að koma miklu
til leiðar með því móti síðar meir, er ófriðnum létti og Regína
yrði útleyst. Regína varð því fyrir trúarfortölum, sem hún sjálf
hafði boðið hinum mikla Gústaf konungi, en trúarboðstilraun frú
Mörtu var öll klúrari og stirðvirkari. Hún ruddi í hana hrúgum
af prédikunarbókum, sálmum og kverum, en stundum hélt hún
fyrir henni hrókaræður með orðskviðum og glósum, og þegar
það dugði ekki, sendi hún kastala-prestinn og lét hann prédika
fyrir fanganum. Við öllu þessu skaut jungfrúin skolleyrunum,
eins og nærri má geta. Hún var fastari fyrir í trú sinni en svo,
að hún gæti hlustað með þolinmæði á það, sem talað var; leiddist
henni mjög þær fortölur, svo að vistin í Krosshólmi varð
henni með hverjum degi leiðari, enda var henni vorkunn þótt
hún þreyði leynilega lausnardag sinn og frelsi. Dóróþea varð
aftur á móti æf og uppvæg í hvert skipti sem villupresturinn
eða hin harðvítuga húsfreyja hófu þeirra prédikanir; þuldi hún
þá blaðalaust langar bænir og bannsetningar, sumt á latínu, en
mest á lágþýzku, og varð oftast árangurinn sá, að hún var sett
í fangelsi kastalans og látin dúsa þar nokkra daga þangað til
henni tók að leiðast eftir jungfrúnni sinni og geðið mýktist.
Þannig leið misseri af fangavist Regínu.
Að betra haldi kom velvild frú Mörtu, þar sem hún leyfði
Regínu að vinna handavinnu, og var kostulegt verkefni í því
skyni fengið sent frá Stokkhólmi. Gat hún nú saumað Maríu mey
með barnið, úr gulli og silfri á silkidúk. Hugði frú Marta í einfeldni
sinni, að það ætti að verða altarisdúkur, sem Regína kynni
að gefa Vasakirkju eins og menjagrip til minnis um það, að
hugur hennar væri snúinn. En hvert hermannsauga hefði fljótt
séð hvers kyns var, að það var fáni fyrir hina kaþólsku trú,
sem fanginn bjó til í eftirvæntingu þess dags, þegar handaverk
hennar væri borið á stöng fyrir brjóstfylkingu hinna rétttrúuðu
herskara.
Ekki féll þó frú Mörtu alls kostar vel í geð þessi Maríumynd;
þótti henni hún bera of umfangsmikla dýrðarkórónu á dúknum
til þess hún gæti heitið fyllilega lúthersk. Fyrir því hugsaði hún
sér að útvega fanga sínum annan betur fallinn starfa. Svo bar
við á stundum, að þegar Emma, dóttir bændakonungsins í Stórkýró,
kom til bæjarins, gerði hún sér erindi upp til kastalans
og reyndi að vinna hylli jungfrúarinnar meðal annars með því
að gefa henni nokkrar hankir af hinu smæsta og mýksta hörgarni,
því, sem engin í því byggðarlagi gat spunnið eins og hún.
Frú Mörtu datt því einn dag það ráð í hug að kenna fanganum
sínum að spinna og fá Emmu til að kenna henni þá list. En í
laumi varð Emma þessu sárfegin. Það, að hin fangna jungfrú
hafði verið konunginum svo handgengin, gerði hana í augum
Emmu mjög svo merka og fræga. Hlakkaði hún til að heyra
hana tala um hann, hetjuna, konunginn, hinn mikla og ógleymanlega,
sem ljómaði í hugskoti hennar meira en mennskur maður;
girntist hún að fá að vita hvað hann hefði sagt, hvað hann hefði
gert, hvað honum hefði þótt vænt um og hvað hann hefði hatast
við hér á jörðu. Hún vildi í einu verða hrifin af ljóma frægðar
hans og deyja sjálf í gleymsku. Vesalings Emma!
Á þennan hátt komu aftur kunnugleikar með þeim Regínu.
Í fyrstu tók jungfrúin henni fálega og alllítt fannst hinni
stórlátu furstadóttur um spuna hennar, en smám saman vakti
hið hógværa og blíða fas Emmu velvild hennar og hin eðlilega
eftirþrá að skipta orðum við einhvern fyrir utan veggi fangelsisins
gerði hana opinskárri. Lítið spunnu þær að sönnu, en þær
ræddu saman eins og húsfreyja og þerna væri, einkum þá dagana
þegar Dóróþea beið innilokuð sakir tungu sinnar, og nú kom
Emmu í góðar þarfir, að hún á yngri árum hafði lært nokkuð
í þýzkri tungu. Hafði hún jafnan gott lag á að leiða talið til
konungsins; hún var kvenna vitrust og leiddi því skjótt grun í,
að Regína geymdi minning konungsins í djúpum ástardraumi. Hins
vegar renndi Regína hvergi grun í, hvað fyrr hafði drifið á daga
Emmu; hugði hana svo spurula sakir þeirrar venjulegu forvitni,
sem háleitir hlutir jafnan kveikja hjá ómenntuðu fólki. Oft
fannst henni mikið um svör og hugsunarhátt hinnar óbreyttu
bóndadóttur, svo að hana furðaði stórlega; virtist henni eitthvað
það í henni búa, sem fullt var mótsagna, svo hún spurði sjálfa
sig, hvort kona þessi mundi ekki vera njósnari, en þó iðraði
hana jafnskjótt eftir að henni skyldi detta slíkt í hug. Þegar spunakonan
leit til hennar sínum ljósskæru, mildu augum, bjó eitthvað
það í þeim, sem hvíslaði að Regínu og sagði: þessi stúlka
er enginn hræsnari.
Þannig sátu þær saman einn dag í byrjun desembermánaðar;
hafði Dóróþea þá enn þá einu sinni verið lokuð inni fyrir skammaryrði
við prestinn. Það var bersýnilega margt ójafnt á komið
með þessum tveimur konum, sem örlögin höfðu saman leitt um
langa vegu, og sem báðar höfðu hugann á sömu stöðvum. Önnur
barnung, fríð, stórhuga, hrafnsvört og hvöss á brá, furstainna
þótt fangi væri; hin miðaldra kona, björt á brá, fögur og blíð, hæg
og hæversk, frjálsleg en þó miklu lítilsigldari. Regína var 17 ára,
en margur mundi hafa ætlað hana tvítuga; Emma var hálffertug,
en svo æskuleg og saklaus á svip og í fasi, að stundum mættu
menn snöggvast hafa haldið, að hún væri ekki nema 17 ára.
Hún hefði getað verið móðir Regínu, og þó mátti skoða hana,
sem svo margt hafði reynt, eins og barn við hlið hinnar bráðþroskuðu,
suðrænu meyjar, sem hjá henni sat.
Jungfrúin hafði spunnið um stund og aftur og aftur slitið
fyrir sér þráðinn. Hún skaut nú rokknum frá sér, gröm og óþolinmóð
og tók til sauma sinna. Þetta hafði einatt áður komið fyrir
og kennslukonan var því alvön.
„Þetta er fögur mynd“, mælti Emma og leit á silkidúkinn,
„hvað á hún að þýða?“
„Sankti María, heilaga guðsmóðir“, svaraði Regína og gerði
krossmark, eins og vandi hennar var í hvert sinn, sem hún nefndi
nafn Maríu meyjar.
„Og til hvers á að hafa það?“ spurði hin aftur í einfeldni.
Regína leit við henni og tortryggni flaug henni aftur í hug,
en hvarf þó óðara aftur. „Ég sauma stríðsmerki hinnar heilögu
trúar handa Þýzkalandi“, svaraði hún einarðlega. „Þegar það
á síðan blaktir á lofti skulu villumennirnir flýja fyrir reiði guðs
móður“.
„En þegar ég hugsa til guðs móður“, svaraði Emma, „hugsa
ég mér hana milda, góða og friðsæla; ég ímynda mér hana eins
og móður, sem öll er þar, sem elska hennar er“.
„Guðs móðir er himnanna drottning, hún vill stríða við hina
óguðlegu og leggja þá að velli“.
„Þegar guðs móðir leggur til bardaga mun Gústaf konungur
Adólf ganga í móti henni með beru höfði og óbrugðnu sverði,
beygja kné fyrir henni og segja: Heilaga mær, ég stríði ekki þér
til dýrðar, heldur frelsaranum, syni þínum. Og þá mun sankti
María svara brosandi: Sá, sem stríðir sakir sonar míns, hann
stríðir einnig fyrir mínar sakir, því að ég er móðir“.
„Konungur þinn er trúarvillumaður“, sagði þá Regína reiðugleg,
því ekkert féll henni miður en mótsagnir móti þeirri trú,
þar sem himnadrottningin María er eitt mikið máttaratriði. „Konungur
þinn er harðstjóri og samvizkulaus maður, sem leitt hefir
reiði allra dýrlinga yfir höfuð sitt. Veiztu það, Emma, að ég
hata konunginn þinn?“
„Og ég elska hann“, sagði Emma svo lágt að varla heyrðist.
„Já“, sagði Regína, ,ég hata hann eins og dauðann, syndina
og glötunina. Væri ég karlmaður með hraustri hendi og héldi
á sverði, skyldi mitt ævimark vera að eyða herskörum hans og
verkum. Gott áttu Emma, sem ekki þekkir ófriðinn, þú veizt
lítið um hvað Gústaf Adólf hefir gert oss aumum kaþólskum þjóðum.
En ég hefi séð það, og land mitt og trú mín krefjast hefnda.
Það koma stundir yfir mig, að ég gæti tekið líf hans“.
„Og þegar jungfrú Regína bregður upp sinni hvítu hendi með
hvassa hnífnum móti lífi konungsins, þá berar konungurinn brjóst
sitt þar sem hans hrausta hjarta slær inni fyrir og hann lítur
til hennar með tign og rósemi í augum og mælir: þú hin smáa,
bjarta hönd, sem saumar mynd guðs móður, sting mig með
hnífnum, ef þú orkar, hér er hjarta mitt fyrir, hér slær það
fyrir frelsi veraldarinnar og hennar ljósi. Og þá mun höndin
hníga niður hægt og seint og daggarðurinn detta áður en nokkurn
varir úr henni, og þá mun guðs móðir á dúknum brosa, því
hún vissi vel, að svo mundi fara, því fyrir henni sjálfri fór á
sömu leið. Því að Gústaf konung má enginn deyða, enginn hata;
guðs engill gengur við hlið honum og snýr reiði mannanna í
elsku“.
Regína gleymdi vinnu sinni og leit framan í Emmu sínum stóru,
dökku, votu augum. Í orðum hennar var svo mikið óvænt og
henni þó svo kært að heyra; en hún þagði; loksins mælti hún:
„Konungurinn á töfragrip“.
„Já“, sagði Emma, „töfragrip ber hann, en það er ekki eirhringurinn,
sem mennirnir tala um, það er hans hugstóra mannelsku-hjarta,
sem afneitar öllu sakir hins góða á jörðinni. Þegar
hann var barnungur maður og hafði enga frægð eða afrek unnið,
átti einungis sitt gullbjarta hár og háu hvarma og sín mildu, bláu
augu, þá bar hann engin töfraþing, og þó gekk blessun og elska
og hamingja við hlið honum. Allir englar á himnum og allir menn
á jarðríki unnu honum“.
Það tindruðu tár í augum Regínu.
„Hefur þú séð hann meðan hann var ungur?“
„Hvort ég hef séð hann! Já“.
„Og þú hefir elskað hann eins og allir aðrir?“
„Meira, jungfrú, en allir aðrir“.
„Og þú annt honum enn þá?“
„Já, ég ann honum — mikið — eins og þér gerið. En þér
viljið deyða hann, en ég vil deyja fyrir hann“.
Regína hljóp upp, brast í grát, þreif Emmu í faðm sér og
kyssti hana. „Trú því ekki, að ég vilji deyða hann — ég, ó,
heilaga María, ég, sem vildi þúsund sinnum láta líf mitt í hans
stað. En veiztu það, Emma, að það er kvöl, sem þú getur ekki
skilið, sundurliðandi kvöl, þegar maður elskar mann, stórhetju,
ímynd hins æðsta og fegursta í lífinu, og svo kemur vor heilaga
trú og býður oss að hata þennan mann, deyða hann, ofsækja
hann og elta að dyrum grafarinnar. Þú veizt ekki, þú ert sæl,
þú þarft ekki annað en að elska og blessa, þú veizt ekki hvað
það er að hrekjast milli ástar og haturs eins og skip á óðum
öldum; að neyðast til að bölva þeim, sem vér elskum og blessum
fram í dauðann, og sitja svo innan fangelsisins veggja, herfang
stríðandi tilfinninga, sem berjast um völdin innst í hjarta
voru. Æ, ég lifði þá nótt, þegar ég vildi sætta elsku mína og
trúarbrögð og leiða hinn volduga á rétta leið til sáluhjálpar. Hefðu
hinir heilögu þá látið mín veiku orð sannfæra hans vantrú -
þá hefði hin vesala Regína fylgt honum með gleði eins og hans
aumasta ambátt alla hans ævi gegn um, og tekið með brjósti sínu
móti öllum oddum, öllum kúlum, sem leita hjarta hans. En hinir
heilögu unnu mér ekki, óverðugri, svo mikillar frægðar, og fyrir
því sit ég nú hér fangi sakir trúar minnar og ástar, og þótt einhver
engill kæmi og niðurrifi þennan fangelsisvegg og segði við
mig: Flý, land þitt bíður þín, þá mundi ég svara: Það er hans
vilji, hans, sem ég elska, sakir hans líð ég þetta og fyrir hans
sakir verð ég kyrr þar sem ég er. Og enn trúir þú, að ég vilji
deyða hann!“
Og Regína grét ákaflega með afli og ofsa hinnar brennandi
ástríðu, sem svo lengi hafði verið innibyrgð. Emma strauk hina
svörtu lokka frá enni hennar og horfði með blíðu og ástúð í
hennar társtokknu augu og mælti með spámannlegri andagift:
„Grátið ekki svo, sá dagur mun koma, að þér fáið að elska hann
án þess að þurfa að óska honum ills um leið“.
„Sá dagur kemur aldrei, Emma“.
„Jú, hann kemur, þegar Gústaf konungur Adólf er látinn“.
„Ó, þá vil ég aldrei þann dag sjá! Heldur vil ég kveljast alla
ævi — það er þó fyrir hans sakir“.
„Jú, jungfrú, sá dagur kemur víst. Ekki fyrir því, að þér eruð
ung og hann eldri. En hafið þér aldrei heyrt sagt um barn, sem
er efnilegra en önnur börn: það lifir ekki lengi, það er of gott
fyrir þennan heim! þannig finnst mér því sé varið með Gústaf
konung. Hann er of mikill, of göfugur, of góður til þess að fá
að lifa lengi. Englar guðs vilja ná honum áður en líkami hans
visnar og sál hans dofnar. Trú mér, þeir taka hann frá okkur“.
Regína horfði á hana eins og óttaslegin.
„Hver ert þú, sem talar slíkum orðum? Hvernig ljóma þín
augu! Þú ert ekki sú, sem þú sýnist. Hver ertu þá? Heilaga guðs
móðir, geymdu mig!“
Og Regína stökk upp, hrifin af hjátrúar vantrú þeirri, sem
var einkenni hennar aldar. Vera má, að hún gerði sér enga verulega
grein fyrir hræðslu sinni, en ræða Emmu hafði ætíð sýnst
henni svo kynleg, að koma frá vörum ómenntaðrar bóndadóttur
í þessu tryllta landi.
„Hver ég sé?“ sagði Emma með sömu blíðu og áður. „Ég er
kona, sem elska, það er allt og sumt“.
„Og þú segir, að konungurinn muni deyja“.
„Guð einn ræður örlögum mannanna, og hinn mesti allra
manna er þó ekki meira en maður“.
Í sama bili tók einhver í hurðarlásinn, og frú Marta kom inn,
hátíðlegri í bragði en venja var til og fölari. Í stað hins venjulega
ljósröndótta ullarkjóls bar hún nú dökkan búning og allt fas
hennar benti á eitthvað óvenjulegt. Undanfarið samtal þeirra
Regínu olli því, að þær spruttu báðar upp við sýn hennar.
Emma bliknaði eins og nár, gekk beint í móti frú Mörtu, leit
skarpt framan í hana og sagði lágt, en með mikilli áreynslu:
„Konungurinn er dáinn!“
„Veiztu það nú þegar?“ sagði frúin undrandi. „Guð miskunni
oss. Þessi Jobs tíðindi ber hraðboði, sendur landveg kringum
hafið“.
Regína hneig niður í ómegin.
Emma hélt ráði og rænu, þótt hjartað væri hálfbrostið, og fór
að reyna til að lífga Regínu.
„Konungurinn hefir þá fallið á vígvellinum meðan stóð á
sjálfum sigrinum?“ spurði hún enn fremur hina undrandi húsfreyju.
„Á vígvellinum við Lützen þann 6. nóvember og var að vinna
hinn ágætasta sigur“, svaraði frúin og undraðist æ því meir, að
Emma skyldi líka vita það.
„Vaknið upp, náðuga jungfrú, hann hefir lifað og dáið eins og
stórhetja, maklegur aðdáunar allrar veraldarinnar. Hann hefir
fallið á stundu sigursins, í miðju sólskini sinnar frægðar; nafn
hans mun lifa allar aldir, og þetta nafn skulum við báðar blessa!“
Regína upp lauk sínum dreymandi augum og hóf hendur sínar
til bænar: „Ó, þú guðsmóðir“, sagði hún, „ég þakka þér, að þú
hefir kallað hann úr heiminum í öllum mikilleik sínum og burt
tekið um leið þá bölvun, sem bjó yfir hjarta mínu!“
Emma féll á kné og baðst fyrir við hlið hennar.
En fyrir utan kastalagarðinn stóð hávaxinn, hvíthærður öldungur
með ásjónu stirða og grettna af hryggð og örvilnun.
„Bölvun yfir verki mínu!“ sagði hann. „Endaslepp urðu ráðin
mín, og takmarkið, sem ég hefi barizt fyrir, er gengið mér úr
greipum! Heimskinginn ég, að reiða mig á örlagaþráð nokkurs
manns, að ég skyldi lifa í þeirri von, að konungurinn mundi ganga
við frændsemi þess, er hann átti með réttu, — að ég skyldi ætla
ég mundi lifa það, að dóttursonur hans Arons Bertílu yrði frægur
af afreksverkum og næði þeim metorðum, er gerðu hann jafnan
erfingja hinnar sænsku kórónu. Nú er konungurinn dauður og ættingi
minn umkomulaus unglingur, sem bráðum hverfur og gleymist.
Nú ætti það að bætast ofan á, að hann fái aðalsmerkið og
gangi í lið með blóðsugunum, sem setja sig upp á milli ríkisins
einustu stórvelda, konungsins og þjóðarinnar. Heimskur var ég,
heimskur var ég, nú er konungurinn allur! Far þú í gröf þína,
gamli Bertíla, til bróðurbanans Jóhanns konungs og aðalsmannsræningjans
Karls og geymdu ráðagerðir þeirra hjá ormunum, sem
nú þegar hafa lokið Gústafi kóngssyni og Karenu Mánadóttur!“
Og öldungurinn þreif hart í hönd Emmu, sem út kom í því,
og sagði:
„Komdu, við bæði eigum nú ekkert ógert hér í heimi“.
„Jú“, svaraði Emma, „við eigum enn þá son eftir bæði“.
6. Orustan við Nörðlingen
Þangað til hafði ljónið sænska fyrir Gústaf Adólf og kappa
hans unnið hvern sigurinn á fætur öðrum og steypt til jarðar
öllum sínum mótstöðumönnum með efldum hrammi. En loks
rann upp dagur óhamingjunnar; stórorusta sú var nú háð, er
hafði skæðan ósigur í för með sér fyrir hin sigursælu vopn
Svíanna.
Hinn aldrei metti en þó ómissanlegi Wallenstein var fallinn í
Eger fyrir landráð sín. Gallas, fylkingabrjóturinn, æddi yfir allt
Mið-Þýzkaland, tók Regensborg og hélt síðan þaðan og bjóst að
taka hinn frjálsa ríkisstað Nörðlingen. Bernharð hertogi og Gústaf
Horn skunduðu til liðs við borgina og höfðu einar 17 þúsundir
manna. En Gallas hafði 35 þúsundir.
„Hlaupum á þá“, mælti hertoginn.
„Bíðum fyrst“, svaraði Horn.
Þeir gerðu svo, og bættust þá 5 þúsundir liðsmanna við herinn,
en 14 dagar liðu hjá. Þá hófst hungur í borginni og gáfu
borgarmenn hernum merki um það með varðeldurn frá turninum
um nætur. Hertoginn vildi aftur berjast, en Horn vildi víggirða
herbúðirnar og bjarga borginni orustulaust. Var honum þá, kappanum
brugðið um hugleysi, en það féll Horn illa og bjóst til bardaga,
en spáði illum úrslitum. En flestir Svíar gengu fagnandi
í orustuna, því þeir voru hróðugir af sífelldri sigursæld og þóttust
vissir um að vel gengi.
Þessi orusta stóð 24. ágústmánaðar 1634. Skammt fyrir utan
Nörðlingen liggur fell eitt skógi vaxið, sem Arensberg heitir, en
milli þess og bæjarins liggja tveir lágir ásar. Á þeim höfðu keisarans
menn látið gera þrjá víggarða. Sænski herinn stóð á fellinu,
Horn fyrir hægra armi, en hertoginn var í hinurn vinstra. Herópið
var hið sama sem við Lützen og Breitenfeld: „Guð með oss!“
Árla morgunsins féll regn mikið. Hinn vitri Horn réð enn til
að fresta skyldi atlögunni, en hertoginn hafði á hendi yfirstjórn
hersins og skipaði að leggja til orustu; Horn hlýddi og lét hægri
arm hersins sækja fram niður í dæld þá er milli var ásanna. Riddaraliðið
varð þá óþolinmótt og hóf þegar bardagann; hallaðist
hann á Svía þegar í hinni fyrstu hríð. Fallbyssur keisarahersins
skutu óðara geilar í fylkingu riddaranna, og urðu þeir þá brátt
undan að hopa fyrir ofurefli óvinanna. Horn sendi tvær stórsveitir
til þess að taka mið-skotgarð óvina hans. Þeir gerðu svo
og eltu liðið. Piccólómíni stöðvaði það og rak aftur til vígisins.
Þá varð sá atburður, að eldur hljóp í púðurhúsið; sprakk þá allt
vígið með ódæma hvell og flaug í loft upp og með því nokkur
hundruð Svía og Finna. Þetta var hið fyrsta óhapp. Þetta vígi
réði leikslokum bardagans. Þar stóð allt tómt stundarkorn. Liðsmönnum
Piccólómínis hafði orðið svo felmt við hvellinn, að þeir
vildu ekki aftur fara inn í vígisbrotið; þó gerðu þeir það að lokum.
Þá sendi Horn eftir hjálp til hertogans og vildi taka það.
Hertoginn sendi Thurn, ungan mann frá Bæheimi, með gulu herdeildina.
Hann fór skakkt, réðst á annan skotgarð og hitti fyrir
ofurefli liðs. Gerði hann sautján atrennur, en varð jafnan frá
að hverfa. Horn sótti hæðina á meðan, en vann hvergi á. Villa
Thurns var annað óhappið. Vinstra megin vakti hertoginn bardagann
móti bæði stórskota- og riddaraliði. Í hinni fyrstu hríð
runnu keisarans menn, og hinar þýzku riddarasveitir hertogans
eltu þá með lausum taumum og fóru bæði hart og dreift. En
það var eins og andi gamla Tillýs væri þá kominn og blési hugmóði
í brjóst keisarahersins. Liðið nam staðar, fylkti sér og
neytti nú liðsmunar. Urðu hinir undan að flýja og misstu margt
manna. Þá vildi hertoginn senda liðsstyrk inn í borgina Nörðlingen,
en það mistókst. Hann renndi Gallas aftur og aftur, en allt
kom fyrir eitt, því nýir herskarar stöðvuðu hvervetna flóttann,
og bak við her Svía rændu Króatar farangrinum.
Nú var liðið nær miðmunda. Höfðu nú sveitir Horns staðið
fyrir eldi óvina sinna í átta stundir og voru nú þrotnar af sárum
og mæði; með hverjum klukkutíma, sem leið, dvínaði sigurvon
þeirra, en hugprýðin var hin sama, örugg og ósigrandi. Þeir
urðu nú varir við uppnám það, er orðið var vinstra megin í
hernum, en sjálfir voru þeir illa aðþrengdir, er þeir stóðu þar í
dalverpinu þar sem kúlum frá Piccólómíni sló æ niður í hrískjarrið
og sprengdi blóði hina sundur skotnu stofna. Þá réð Horn
til að láta undan síga og ná Arensbergi, og neyddist loks hertoginn
til að samþykkja það ráð, enda var hann þá kominn í
líkar kröggur. En í tvær klukkustundir hafði hann verið að
skoða huga sinn, en þær stundir hefði hann síðar feginn viljað
kaupa fyrir helming lífdaga sinna. Nú var klukkan orðin þrjú.
Horn lét finnska riddaraliðið gera málamyndar-áhlaup til þess
að dylja með því og verja undanhald hersins, og hóf það með
röð og reglu eins og sómdi vitrum herstjóra. En keisarans menn
skildu hvað í efni var og leituðu á þá með tvöföldu ofurefli. Tóku
þeir að vona það, sem þeir aldrei áður höfðu þorað að gera sér
í hugarlund, að Svíaher yrði sigraður; mátti þá sjá hinn gildvaxna
Piccólómíni þeysa meðal raðanna fram og aftur til að
eggja lið sitt; bauð hann heilum hersveitum að steypast á Svía
og koma þeim í opna skjöldu, leggja þá vægðarlaust að velli og
láta engan uppi standa.
Eftir dalverpinu milli beggja hæðanna rann lækur einn með
bröttum bökkum og var í honum vöxtur mikill eftir rigninguna.
Við smábæinn, Hirnheim, var brú á honum, en engin önnur,
og þar setti Horn í tæka tíð gæzlulið til þess að tryggja ferð sína.
Stórskotaliðið fór fyrst yfir brúna og komst klaklaust til Arensbergs.
Fremstu raðir hersins höfðu einnig náð bænum og hitt
liðið átti eftir fáein byssufæri til brúarinnar; en þá vildi nýtt
slys til, hið þriðja óhappið og skæðasta á þessum óláns degi,
Bernharð hertogi hafði lofað að tefja óvinaherinn meðan Horn
kæmi liðinu yfir lækinn. En nú sá hann skjótt, að þar hafði hann
fremur spurt hreysti sína en hyggindi til ráða. Óvinaherinn varð
æ þéttari og ásókn hans æ ákafari. De Werth gerði þrjú áhlaup
á hertogann, en honum var jafnharðan hrundið frá; í fjórða
áhlaupinu sprengdi hann lið hertogans. Hann sendi riddarasveit, er
ráða skyldi að baki De Werths manna, en til einskis kom það. Þá
varð hertoginn sem hamslaus, þreif hinn gullsaumaða herfána úr
hendi merkismannsins og hleypti hestinum inn í fylking óvinanna,
þar sem hún var þéttust, og fylgdu honum hans fræknustu liðsmenn.
Allt varð árangurslaust. Hinir vöskustu menn hans féllu,
hestur hans var skotinn, fáninn var þrifinn úr höndum hans; við
sjálft lá, að hann yrði tekinn höndum, sár og ofurliði borinn; en
ungur fyrirliði léði honum hest sinn, og slapp hann svo undan
nauðulega. Hafði þá og riðlazt fótgönguliðið á sléttunni, er barizt
hafði við riddaraherinn, og er hertoginn hleypti burt úr orustunni
alblóðugur, fylgdi honum öll herdeildin og flýði sem fætur
toguðu, enda var þá og öll sigurvon þrotin.
En rétt í sömu svipan var fótgöngulið Horns að fara yfir
brúna. Gall þá við óp mikið á baki þeirra, var kallað, að þeir
væru yfirkomnir og óvinaherinn á hælum þeim. Hleyptu nú að
brúnni fyrst einstakir riddarar hertogans manna, en síðan heilir
riðlar; riðu þeir inn á fótliðið, tróðu suma undir, en riðluðu
aðra, svo þar varð allt í uppnámi. Horn brýndi raustina, og þeir
sem honum fylgdu freistuðu að stöðva ofsagang manna, en fengu
ekki að gert. Á örmjórri brúnni lenti öllu saman í bendu, mönnum,
hestum og vögnum, dauðu og lifandi, og loks ruddist öll
herdeild hertogans niður að þesstun slysastað. Eins og elding flýgi
var þá Piccólómíni kominn á hæla þeim; ók hann nokkrum léttibyssum
upp á hæð eina og skaut sem tíðast á ösina, þar sem
hún var þéttust, og renndi hver kúla rák mikla af látnum og sárum
mönnum. Riddaralið keisarans hlóð og hræðilega valkesti með
hinum langskeptu spjótum sínum og breiðu sverðum. Þurfti þar
enginn sænskur maður né finnskur griða að biðja og féll hver
um þveran annan.
Gústaf Horn, hinn hrausti og vitri finnski herstjóri, er Gústaf
konungur hafði verið vanur að kalla hægri hönd sína, og í fyrstu
réð frá að barizt væri, hann var hinn síðasti, er í þessari skelfilegu
svipan hélt hug og hyggindum, hinn síðasti, sem ekki örvænti
um allt. Hann safnaði leifum þriggja herdeilda og hafði tekið þeim
stað við brúarsporðinn og þusti flóttinn þar fram hjá án þess að
hans menn léti bifast. Lögðu menn að honum alla vega að hann
skyldi frelsa líf sitt, en þeim áskorunum tók hann með sínu
finnska, járnseiga þrályndi og stóð kyrr. Trúðu óvinir hans varla
augum sínum, er þeir sáu hann ekki einungis veita viðnám, heldur
sækja fram til sóknar. Sjatnaði við það eftirsóknin litla hríð,
enda var það allt og sumt, sem Horn vildi með hinu fífldjarfa
áhlaupi sínu. Gallas sendi þá móti honum einhverja sína vöskustu,
spænsku riddaradeild; en henni renndi hann óðara með klofnum
höfuðbeinum. Þá hleypti De Werth, drukkinn af sigri sínum, í
móti honum með sínu liði, en fór sömu hrakför sem hinn. Öllu
megin sóttu nú herskarar þar að og réðust á hann þrem megin
í senn. Buðu menn honum líf, ef hann vildi gefast upp; hann
svaraði með sverðshöggi, og hið sama svar gáfu allir hans menn;
enginn einasti maður baðst griða. Loks voru allir fallnir þeir er
næstir honum höfðu staðið og varð hann þá ofurliði borinn og
handtekinn; gáfu þá og hinir fáu upp vörnina, er eftir stóðu.
Þá er sænski herinn flýði sem ákafast fram hjá Arensbergi
er svo sagt, að Bernharð hertogi hafi reytt hár sitt af örvilnun
og mælt svo margir heyrðu: „Ég er vitfirringur, en Horn er vitur
maður!“ Síðar meir fór svo, að hertoginn sætti sig við að fá
landið Elsaz, en þann dag er hér er frá sagt gafst honum full
orsök til að iðrast fljótræðis síns. Sex þúsundir Svía, Finna og
þýzkra bandamanna þöktu hinar blóðugu hæðir við Nörðlingen;
sex þúsundir voru teknir til fanga, og í því liði voru þeir Finnarnir
Horn og Wittenberg; mættu þeir allgóðri meðferð hjá óvinum
sínum. Af þeim tíu þúsundum, sem uppi stóðu, var fullur
helmingur sár, en af málaliðinu höfðu flestir, sem lífi héldu,
flúið undan merkjunum. Herinn missti 4000 flutningsvagna, 300
merki og allar fallbyssur sínar. Hörmulegar leifar hersins drógust
undan með nauð og gripdeildum til héraðsins Mainz. Enn meiri
þýðing en fall hinna 12000 manna hafði missir hinnar sænsku
herfrægðar og sú trú, að um skipt væri nú hamingjunni. Við
orustuna hjá Nörðlingen skiptist saga þrjátíuára-stríðsins; vakti
hún um alla Norðurálfuna ýmist mesta fögnuð eða mestu sorg,
allt til þess er ráðsnilli Banérs varp aftur ljóma frægðarinnar yfir
hin sænsku vopn.
Meðal þeirra, sem lengst stóðu uppi og börðust við hlið Horns
hjá brúnni voru Austurbotnungarnir og fornvinur vor kapteinninn
Larson. Hinn lági og riðvaxni kapteinn hafði það sinn ekkert
tóm né tíma til þess að opna sinn skrafhreifna munn, en það
varð honum þó sjaldan; allir hans smellnu vöðvar runnu niður
af svita í sólarhita sumarsins; hafði hann barizt frá því er dagur
rann og bar hvergi ör eða sár. Má hann þó eiga það, að þann dag
hugsaði hann jafnlítið um Rínar-vínið sem bæverskar nunnur,
heldur hjó hann og lagði samvizkusamlega eins og af tók; þó
skulum vér láta ósagt, hvort það var allsendis satt, er hann
sagði, að hann hefði svæft á sverðsoddi sínum þrjátíu keisarans
kappa. Hann var einn af þeim, sem teknir voru þá er Hom var
fangaður, en það sem síðar mest gramdist hinum vaska kapteini
var ekki fangavistin, heldur það að horfa á Króatana í makindum
tæma vínforða sænska hersins, sem þeir höfðu tekið ásamt farangrinum.
Annar vina vorra, Bertel lautenant, barðist við hlið
hertogans allan daginn og það var hann, sem bauð honum hest
sinn þá er hestur hertogans var skotinn. Vér munum síðar sjá,
að hertoginn gleymdi ekki þessum greiða. Bertel var eins og Larson
með í síðustu hríðinni, en slapp miður en hann, því hann
fékk mörg sár og lenti í flóttastraumi þeim, er sótti til Arensbergs.
Næsta dag var hann staddur langa leið frá vígvellinum
og vissi varla sjálfur með hverju faraldi hann var þangað kominn;
hélt síðan með leifum hersins til Mainz.
7. Hinn týndi sonur
Það er nú um þrettánda leytið 1635, og því um hávetur.
Í stofu Arons Bertílu í Stórkýró snarkaði eldur á skíðum á hinum
rúmgóða arni; skorti ekki þykkva skóga á þeim tímum allt
umhverfis hin frjóu sáðlönd. Úti dundi stórviðris bylur með
blindhríð og frosthörku; úlfar þutu úti á ísnum, sem lá á elfunni,
og í gjám og glufum snudduðu hinar soltnu gaupur.
Það var þrettánda kvöld jóla, einni stundu eða tveimur eftir
dagsetur. Bóndahöfðinginn í Stórkýró sat á öndvegisstóli sínum
með háa bakinu skammt frá arninum; hlustaði hann milli þess,
sem kom í hugann, á Emmu, sem var að lesa með hárri röddu
kapítula í nýja testamentinu finnska, sem Agricola þýddi; var þá
enn ekki búið að prenta alla biblíuna á finnsku. Bertíla gamli hafði
stórum elzt síðan vér hittum hann síðast. Hinar sífelldu, miklu
og þungu áhyggjur, sem hömuðust innan hans háu og snoðnu
höfuðbeina, gáfu honum hvorki grið né værð, en þó eru nú öll
hans metnaðarráð að engu orðin úr því konungurinn var fallinn
frá og eru nú á reiki eða reki eins og strandflekar eftir skipbrot
á næturtíma, sem rekast fyrir reginöldum á hafi úti. Miklir og
sterkir skapsmunir, eins og hans voru, verða venjulega engum
fyrr að bráð en sjálfum sér. Allar byltingar og áföll hans umbreytingasömu
ævi höfðu ekki getað bugað né bilað þennan
rammaukna mann, en gremja hans sakir vonbrigðanna eftir hans
fögru drauma, hans árangurslausu viðburðir að endurreisa hans
hugmyndasmíði, harmur hans yfir því að horfa á sína nánustu
niðurbrjóta það, er hann hafði byggt, allt þetta sundurtætti sál
hans eins og gráðugir gammar. Ein einasta hugsun hafði
nú á tveim árum gert hann tuttugu árum eldri og þessi hugsun
var svo ofdirfskufull, að hún líktist óvita æði. Hún hljóðaði svo:
„Hvers vegna er enginn mér nákominn nú orðinn konungur yfir
Svíaríki?“ Við og við leit Emma upp sínum blíðu og bláu augum
frá hinni helgu bók og leit hrædd og grunsamlega upp á
föður sinn. Hún leit nú líka út sem eldri væri orðin; hin hljóða
sorg er eins og haustið í hinum grænu lundum; hún brýtur ekki,
deyðir ekki, en laufið skrælnar á lífsins tré. Svipur hennar var
fullur friðar og auðmýktar. Sú hugsun, sem sífellt skín í sálu
hennar, er engin önnur en þessi: „Hinum megin grafarinnar
fæ ég að sjá hann, sem var máttur og megin míns hjarta, og
þar ber hann enga jarðneska kórónu“.
Utan frá henni situr gamli Larson, lágur og svipaður í vexti
eins og sonur hans. Hinn meinlausi og hýrleiti svipur hans var
nú hátíðlegri en vant var eftir lesturinn í hinni helgu bók, sem
hann hafði hlýtt á. Hélt hann saman höndum sem til bænagerðar,
en lagði þó við og við til spaugsyrði til þess að Emmu
gengi betur lesturinn. Bak við hann situr nokkuð af heimilisfólkinu
með guðræknissvip og lagði bjarmann frá eldinum á andlitin,
og svo að ekkert skyldi vanta sat þar grár köttur og malaði
en stórvaxinn og kafloðinn varðhundur hafði hringað sig niður
við fætur Emmu, sem væri hann hróðugur yfir því að vera skör
undir þeim.
Þegar Emma kom að þeim stað í bókinni, þar sem sagt er frá
hinum týnda syni, var sem dimmum glóðum brygði fyrir í augum
Bertílu gömlu. „Ættlerinn“ umlaði hann, „að sóa arfi sínum,
hvað er í það varið? En að gleyma föður sínum afgömlum ....
það er skammarlegt, já, skammarlegt!“
Emma hélt áfram að lesa: „Og hann stóð upp og gekk til
föður síns. En meðan hann var enn langt í burtu, sá faðir hans
hann, kenndi í brjósti um hann, féll um háls honum og kyssti
hann ....“.
„Mikill vesalingur hefir sá faðir verið“, sagði Bertíla hálfhátt
við sjálfan sig. „Hann hefði átt að flýta sér að binda hann, húðstrýkja
hann og reka hann út úr sínu húsi til skækjanna og
hinna tæmdu bikara“.
„Faðir minn“, hvíslaði Emma með mildri aðfinning, „vertu
líknsamur, eins og faðir vor á himnum er líknsamur og tekur
sín týndu börn sér í faðm“.
„Og komi sonur þinn nokkurn tíma ....“, sagði Larson í
sama tón, en hinn gamli tók óðara fram í:
„Haldið munni og skiptið ykkur ekki um mig. Ég á engan
son framar“, mælti hann reiðuglega, „sem varpar sér iðrandi
fyrir fætur mína“, bætti hann við, þegar hann sá tvær stórar
perlur af tárum í augum dóttur sinnar. Hún hélt enn áfram:
„En sonurinn sagði til hans: faðir, ég hefi syndgað í himininn
og fyrir þér og em ekki framar þess verður að kallast sonur þinn“.
„Hættu þessu“, æpti hinn gamli í illu skapi, „bú þú sæng
mína og fari fólk mitt til hvílu, því nú er langt liðið á kvöld“.
Í sama bili heyrðist hrossatraðk úti á veginum svo marraði snjórinn.
Þetta var ekki venjulegt á helgidags kvöldi, og gekk því
Larson að hinum lága glugga, blés á hina héluðu rúðu og skyggndist
út í bylinn. Hann sá hvar þrír hestar strekktust við að draga
sleða inn í garðinn. Þar stigu út tveir menn í rauðskinnsfeldum.
Það var eins og Larson grunaði óðara hvað um var að vera,
því hann flýtti sér til dyra, enda var Emma ekki seinni. Þau
þutu út svo marraði í hurðinni eftir þeim, og leið svo stundarkorn
þangað til henni var aftur lokið upp.
Ungur maður í hermannabúningi kom inn; hann gekk með
niðurlútu höfði, varpaði fjaðurskúfuðum hatti alsnjóugum frá sér,
gekk beint til Bertílu, beygði kné og laut enn dýpra sínu fríða
lokkum prýdda höfði og mælti: „Faðir minn, nú er ég kominn og
bið þig að blessa mig!“ Að baki hans stóðu þau Emma og Larson
með fórnandi höndum og horfðu biðjandi vonaraugum til hins
harða öldungs og mæltu sömu orð bæði: „Hann biður um blessan
þína“. Rétt sem snöggvast virtist Bertíla vera á báðum áttum,
því varir hans sáust skjálfa og hendur hans réttust ósjálfrátt
út eins og til að reisa upp hinn unga mann við fætur hans. En
jafnskjótt kerti hann aftur sinn háa skalla, kippti að sér höndunum,
en augun brunnu harðvítuglegar en nokkru sinni áður
og varir hans hættu að titra. „Farðu“, sagði hann með digrum
og hörðum rómi, „vertu á burtu„ týndi sonur, far aftur til bræðra
þinna, aðalsmannanna, og til systra þinna hinna tiginbornu!
Hvað viltu hingað í stofu bóndamannsins, sem þú fyrirlítur.
Farðu, ég á engan son framar!“
En ungmennið fór ekki. „Reiðstu mér ekki, faðir minn“, svaraði
hann, „þótt mér af framgirni æskunnar hafi orðið að breyta
á móti boði þínu. Hver sendi mig út í hina víðu, ljómandi
veröld til að vinna fremd og frægðarorð? Hver bauð mér að
halda í hernað og fegra bóndanafn mitt með riddaraskap og
afreksverkum? Hver varpaði mér meðal freistinga frægustu fyrirmynda
við hirð hins mikla konungs? Þú og enginn nema þú,
faðir, og nú rekur þú son þinn brott, eftir að hann tvisvar hefir
neitað að þiggja tignarskrá aðalsmanna“.
[202.png]
„Þú!“ gegndi öldungurinn og espaðist aftur, „þú skyldir neita
aðalsskránni, þú, sem hefir skammast þín fyrir að bera bóndanafnið
og tekið þér annað, sem átti að heita göfgara? Nei, á
knjánum hefur þú betlað og beðið um skjaldarmerkið; hvað veit
ég um, hvort þér hefir verið boðið það og hvað hirði ég um
að vita það? Hitt veit ég, að frá blautu barnsbeini þínu hefi ég
reynt til að innræta þér, ættlerinn, að engin önnur völd sé til
en konungurinn og þjóðin, og að allt, sem brýzt þar upp á milli,
hvort sem það kallast aðall eða klerkastétt, það sé óþolandi, sé
til tjóns og bölvunar fyrir land og ríki — allt þetta hefi ég
reynt til að innræta þér, og árangurinn af allri uppfræðslu minni
hefir orðið sá, að þú hefir smeygt þér inn í þennan aðal, sem
ég hata og fyrirlít, að þú hefir elt þeirra einskis verðar nafnbætur,
drambað af þeirra dáðlausu sundurgerð, sem ríkinu er
til skaða og skammar, og stendur nú í húsi föður þíns með lýgina
á vörum og aðals ofmetnaðinn í hjartanu. Burt, þú bónda skömm!
Aron Bertíla er hinn sami og hann ávallt verið hefir — bóndi;
hann hafnar þér og sveijar þér, svikarinn þinn!“
Með þessum orðum sneri hann sér við og gekk með fullum
fetum fattur og beinn inn í svefnklefa sinn og lét Bertel standa
einan á knjánum.
„Heyrðu mig, faðir minn“, kallaði Bertel eftir honum, og um
leið fletti hann frá sér kuflinum og tók þar út skjal; „þetta hafði
ég ásett mér að rífa í sundur fyrir augum þínum“. En hinn gamli
maður heyrði ekki til hans, skjalið datt á gólfið, og þegar Larson
rétt á eftir braut það upp og las það, reyndist skjalið aðalsskjal
samið eftir undirlagi Bernharðar Weimarshertoga af stjórninni í
Stokkhólmi; var þar í gefið skjaldarmerki og nafnið Bertelskjöld
fyrirliðanum við lífvarða-hestliðið Gústafi Bertel.
Meðan þannig allt var í uppnámi í stofunni, komu þar skyndilega
inn með harki miklu, þrír af húsvarðsveinum frúarinnar
Mörtu í Krosshólmi. „Heyrið okkur, piltakindur“, kölluðu þeir til
húskarla Bertílu. „Hafið þið ekki séð hana? Hér er til nokkurs
að vinna. Tvö hundruð dali reiðu silfurs fær hver sá, sem grípur
jungfrú Regínu af Emmeritz, ríkisfanga í Krosshólmi, og kemur
með hana dauða eða lifandi“.
Við óm þessa nafns hrökk Bertel upp frá sorgarleiðslu þeirri,
er komið hafði yfir hann; hann spratt upp og þreif í hálskraga
þess, er talað hafði.
„Hvað segir þú, hundurinn?“
„Nú, nú, hægt og gætilega, ungherra góður, þegar þið talið
við menn konunglegrar hátignar. Ég segi, að þýzka landráðastelpan
hérna, kaþólska nornin, jungfrúin frá Emmeritz, hafi
strokið úr kastalanum í Krosshólmi í nótt, og að hver sá, sem
hjálpar ekki til að ná henni aftur sé landráðamaður og ...“.
Maðurinn komst ekki lengra, því í sama bili skall hann endilangur
á gólfið fyrir hnefahöggi Bertels.
„Nú vel, faðir góður, úr því þú sjálfur vilt hafa það svo“,
mælti hinn ungi maður, og var óðara horfinn út úr dyrunum og
upp á sleðann; rétt á eftir heyrðu menn, hvar hann ók af stað
í hríðinni.
8. Flóttakonan
Nú víkur sögunni til jungfrú Regínu hvar hún lét fyrirberast
og hvað bar til að hún gat afsalað sér hinni notalegu hjúkrunarvist
hjá frú Mörtu, en lagði á tvær hættur að strjúka um hávetur
í ókunnu landi, sem fullt var af óbyggðum, þar sem hún
hvergi þekkti vegi né vindstöðu og þar sem hún ekki kunni svo
mikið í tungu landsins, að aðrir gæti skilið hana.
Nú mega menn ekki gleyma, að þegar sagan gerðist, stóð sem
harðast stríðið milli páfatrúarinnar og lútherskunnar og að meðan
svo stóð vægðu hvorugir trúarmenn hið minnsta fyrir öðrum. Frú
Marta var nú einu sinni fyrir allt búin að einsetja sér að snúa
jungfrú Regínu til Lútherstrúar og mátti enginn fá hana ofan
af þeirri óheppilegu viðleitni, sem hún og gerði í góðu skyni.
Hún hætti því ekki í tíma og ótíma að mæða og særa veslings
stúlkuna með þrákelkni sinni, ýmist af bókum eða með fortölum;
gaf hún henni ýmist loforð um lausn eða harðar hótanir, og er
Regína fékkst hvorki til að lesa í bókunum né til að hlusta á
prestana, lét hin vandlætingafulla frú halda bænagerðir í herbergi
hennar og messugerðir á helgum. En öll þessi viðleitni strandaði á
því skeri, sem frú Marta kallaði þrályndi Regínu; því áfjáðari
sem Marta varð, því rólegri, kuldalegri og fastari fyrir varð
fangi hennar. Skoðaði Regína sig sem píslarvott trúar sinnar og
bar með köldu tilfinningarleysi, að því er sýndist, alla niðurlæging
sakir hins helga málefnis. En inni fyrir vall og sauð í henni
hið vart tvítuga suðræna blóð, þótt hún reyndi að halda því
kyrru á yfirborðinu. Komu þær stundir fyrir, að Regína hefði
viðstöðulaust sprengt allan Krosshólma í loft upp, hefði hún mátt.
En hinir fölvu, gráleitu múrveggir storkuðu hennar þegjandi
hótunum, og var enginn undankomuvegur annar til en sá að
strjúka. Í liðlangt ár bjó í henni sú ráðagerð og loksins fann
hún færi til að leika á árvekni frú Mörtu. Í Kajaneborgar-kastala
sat um þessar mundir fangi hinn nafnfrægi mótlætismaður Jóhannes
Messeníus. Hann hafði uppalizt hjá Jesúítum í Bránsbergi
og ætluðust þeir til, að hann yrði postuli páfatrúarmanna
í trúarvillulandinu, Svíþjóð. Hafði hann samið níðrit og haft vélráð
ýmis fyrir stafni til styrktar Sigmundi konungi, og var nú
fyrir þær sakir búinn að sitja á nítjánda ár við harðan og herfilegan
kost í fangelsi, eins og moldvarpa í holu. Þá fyrst frétti
Regína, þar sem hún sat, frægð hans og ófarir og það hversu
trúr hann væri páfatrúnni. Frá þeim tíma hófst ráðabrugg mikið
í heila hinnar herteknu meyjar.
Það var dag nokkurn um nýjársleytið, að skottulæknir einn og
reikunarmaður þýzkur að kyni kom í Krosshólm; bar hann lyfjabúð
sína á baki á líkan hátt sem Gyðingaprangarar nú gera. Þess
konar læknar[* Kynlegt var það, að læknirinn, sem sjálfur hafði lengi borið lyfjatöskuna
áður fyrri, talaði ávallt háðsorðum um skottulækna.] og lyfjamenn í einni persónu gerðu góð kaup í
þá daga sökum trúgirni almennings, leituðu þeirra og oftlega
meiriháttar menn, enda lauk þá enginn læknisprófi og lyfjabúð
fannst hvergi í landinu nema í Ábæ, og var hún þó æði fáskrúðug.
Var því sízt að undra, þótt þessi maður fengi nóg að
gera í Krosshólmi, að lækna kýli og tök, kveisu og gigt, fékk
hann og beztu viðtökur hjá húsfreyju sjálfri, sem jafnan þá er
hún hafði þurft að leggja í einhvern pilta sinna, kvartaði um
innanflog og andarteppu. Varð hann þar að fám dögum liðnum
sem heimamaður, og þá var það, að hann var kvaddur til að
vitja Regínu, sem kvartaði um þrálátan verk í höfðinu.
Nú brást frú Mörtu hennar gamla gerhygli. Eftir tvo daga
var hennar göfuga jungfrú, gamla Dóróþea og skottulæknirinn,
öll í burtu. Járngrind hafði verið rofin að utan frá, og reipstigi,
sem þar dinglaði, leyndi því ekki, að skottulæknirinn hefði fulltingt
föngunum til að komast yfir veggi og vígi. Frú Marta
gleymdi bæði innantökum og andþrengslum sakir undrunar og
gremju; bæði kastalinn og bærinn komst í uppnám, og voru
þegar sveinar sendir í allar áttir til að leita strokufólksins. Hvernig
leitin tókst, munum við bráðlega fá að frétta.
Nú víkur sögunni sem snöggvast aftur til Bertels. Hittum við
hann á harðri reið með þjóni sínum Pekka; það er um kvöld
í stormi og illviðri, og er hugur hans allur í uppnámi.
Pekka var frómlunduð sál og gat hann með engu móti skilið
í þeirri heimsku að fara aftur af stað úr föðurhúsunum óðara
en inn í þau var komið og burt frá sjóðandi grautarpottinum og
hlýjum eldinum út í fannfergjuna og úlfana í skóginum. Og Bertel
skildi ekki í sjálfum sér. Hann hafði farið heimleiðis nyrðri leiðina
kringum flóann hjá Torneá; kom hann alla leið beint sunnan
úr Þýzkalandi, því, að hann hafði fengið til þess leyfisbréf;
lá herinn á meðan í vetrarbúðum; kom hann nú frá Stórkýró
og Vasa, en þangað var ferðinni heitið í laumi, en hafði hitt á
öðrum staðnum reiði föður síns, en á hinum tóma veggina, þar
sem hún hafði verið, en var nú ekki lengur. Enginn vissi, hvað
af þeim var orðið.
„Hvert á ég þá að aka?“ spurði Pekka önugur, þegar þeir voru
komnir á þjóðveginn.
„Hvert sem þér sýnist“, svaraði húsbóndi hans jafnönugur.
Pekka stýrði hestinum beint á Vasa, en þangað var lítið lengra
en þriggja mílna vegur. „Asni“, kallaði þá Bertel, „hef ég ekki
skipað þér að stefna í norður?“
„Í norður!“ át Pekka eftir honum eins stuttlega, stundi við og
stýrði nú á Nýja Karlabæ, en þangað voru 7 mílur að fara.
Þá voru hvergi til regluleg gestahús né flutningar fyrir ferðamenn.
En bæir voru með tilteknu millibili, þar sem krúnunnar
sendimenn máttu krefjast hesta, en aðrir umfarendur urðu að
semja við menn. Prestsetrin voru hinir venjulegu gistingastaðir
manna; var jafnan á þeim stofa til taks að kvöldi dags með
rekkju með hálmi í en borði fyrir framan og vistum á handa
kunnum og ókunnum. Því var ekki undarlegt þótt Pekka, er
hann þá harmaði grautarpottinn, dirfðist enn að frambera þá
spurning, hvort ekki myndi bezt að leita gistingar á prestsetrinu
Vörá.
„Ak þú til Ilíhermu“, svaraði sveitarfyrirliðinn heldur óþýður
og sveipaði að sér gærufeldi sínum, því að næmur næturkuldi
sótti að honum.
„Skollinn sjálfur skilur ekki hringlandann í höfðingjunum“,
muldraði Pekka við sjálfan sig og ók út á mjóan akveg, sem
liggur til landnorðurs frá Stórkýró til hins nefnda kirkjustaðar,
í Lappasókn.
Hér voru skaflarnir orðnir mannhæðar djúpir milli garðanna;
varð þar að fara fet fyrir fet. Eftir klukkustund voru hestarnir
yfirkomnir af þreytu og stóðu annað veifið kyrrir. En svo var
Bertel í þungu skapi, að hann tók lítið eftir því; voru þeir þá
komnir frá hinum stóru sléttum í Kýró inn í skóginn kring um
Lappó; var auðn á allar hliðar, sem stormurinn kvað sinn kvöldsöng
yfir, og hvergi var mannabyggð að sjá.
[207.png]
Pekka hafði nú um hríð gengið utan við sleðann og sett undir
hann sínar þreknu herðar, þar sem hann sökk svo djúpt í skaflana,
að hestarnir orkuðu ekki að draga hann. Loks lét sleðinn
ekki heldur undan afli hans og stóð fastur í stórdyngju.
„Nú, nú, hvað gengur á?“ spurði Bertel óþolinmóður.
„Ekki annað“, sagði Pekka og lét sér ekki bilt við verða, „en
það, að við þurfum hvorki prest eða líkmenn til að komast í
gröfina“.
„Hve langt er héðan til næsta bæjar?“
„Hér um bil míla, ef ég man rétt“.
„Sér þú ekki eitthvað, sem líkist ljósbjarma þarna lengst inni
í skóginum?“
„Jú, eitthvað er það held ég svipað því“.
„Taktu hestana frá sleðanum og ríðum við þangað“.
„Nei, herra góður, það er ekki ráðlegt; hér er mjög reimt
í skóginum, það þekki ég frá fornu fari, því það er síðan bændurnir
drápu fógetann sinn í kylfustríðinu og brenndu bæinn
hans hérna og blessuð börnin líka“.
„Hégiljumas! Við höldum nú þangað“.
„Nú, á sama stendur mér“.
Að vörmu spori höfðu þeir losað hestana og reyndu nú að
brjótast áfram og stefna eftir ljósinu, sem sýndist koma fram
eða hverfa aftur á bak við hin snjófgu furutré.
„Seg mér, Pekka“, tók nú Bertel til máls, „hvað veiztu um
óbyggðina þessa, því í æsku minni heyrði ég eitthvað um hana
talað“.
„Jú, það kann nú að vera, því hún móðir mín var hér fædd“.
„Hér var áður nýbyggð mikil í skóginum?“
„Mikil og stórmikil, mörg hundruð hundraða land; fógetinn
hafði umgirt það allt með mílnalöngum skurðum; þá var Gústaf
gamli kóngur; hjer spruttu þá mörg hundruð tunnur af korni;
sagði hann faðir minn sæll, að fógetinn hefði byggt stóran, nýjan
garð og lifað eins og konungur í óbyggðinni. En svo komu
bændurnir, eins og ég sagði, og lögðu eld í bæinn um miðja nótt
og brenndu inni fólk og fénað, allt nema ungu jungfrúna, sem
hann faðir yðar bjargaði og eignaðist síðan. Hann var líka einn
í þeim leik, sauðurinn“.
„Síðan hefir bærinn verið í eyði?“
„Jörðin var feit og frjó og nógir fundust fúsir til að flytja
þangað og leika á skollann. En skolli varð þeim slóttugri; hann
hóf hér þann grefils gauragang með reimleik og alls konar draugagangi
bæði nótt og bjartan dag svo enginn var óhræddur um líf
og limi, og allra sízt um sálina sjálfa. Sæti menn inni í baðstofu,
var sætinu kippt undan manni, grautaraskarnir ultu niður undir
borðið, þótt enginn kæmi við þá, steinarnir úr veggjunum sungu
um eyrun á mönnum. Væri menn úti í skógi, fór ekki betur,
því mestu varúð þurfti að hafa, ef trén áttu ekki að detta ofan
á höfuðin á mönnum, og það í blíða logni, eða þá að jörðin
sökk undir fótunum á þeim, sem þóttust ganga á harðvelli, svo
þeir sukku niður upp í klof. Og að hugsa sér, að við skulum vera
að gaufa í sama skóginum — — æ, æ, hvað er þetta! ég sekk!“
„Það er eintómur snjórinn, aulinn þinn. En svo undi hér enginn
framar, segir þú?“
„Nei, enginn hélst hér við, allir fluttu svo ekki svo mikið sem
einn köttur var eftir — jú, gamall húsmaður, en hann er sjálfsagt
dáinn fyrir löngu. Öll þessi nýbyggð varð aftur að eyðimörk,
skurðirnir sigu saman, engin urðu fen og flóar og furan
breiddist út yfir akrana. Það eru nú senn hvað líður 40 ár síðan“.
Og Pekka, sem ekki var vanur að hafa langar tölur á takteinum,
fór nú eins og að furða sig sjálfur á mælgi sinni; hann
steinþagnaði, enda hélt hann nú hestinum kyrrum og góndi.
„Hvað gengur nú á?“ spurði Bertel.
„Ég sé ekki lengur ljósið“.
„Ekki ég heldur, trén skyggja á það“.
„Nei, nei, góði herra, það eru ekki trén, það hefir sokkið, þegar
það var búið að ginna okkur inn í skóginn. Ég vissi strax, að svo
mundi fara; við komumst héðan aldrei lifandi“.
„Hver fjandinn er þetta! ríddu og haltu ekki hestinum kyrrum,
ella stirðnið þið báðir. Mér sýnist sem sjái ég eitthvað sviplíkt
húsi þarna“.
„Dáfallegt hús! það er stór steinn, grár á hliðunum, sem vindurinn
hefir blásið beran. Það er útgert um okkur“.
„Haltu munni og ríddu. Hér komum við á sléttu, vaxna
ungviði; þarna stingur eitthvað af við snjóinn“.
„Hjálpi okkur allir heilagir! Við erum komnr á staðinn
brennda bæjarins; sjáið þér skorsteinsbrotið upp úr fönninni?
Ekki spor lengra en þetta!“
„Mér bregst það ekki — — þar er húsið“.
Bertel og förunautur hans voru nú þar komnir, sem mjög torvelt
var að komast áfram, því hestarnir hrösuðu í hverju spori
um stórgrýti eða sukku niður í djúpar holur undir snjónum,
lágu þar og mannháar fannir og fallnir trjábolir í vegi og sóttist
þeim því seint að komast að hrörlegum húsmannskofa, sem
þeir sáu loks fram undan sér. Húsið stóð á bak við tvö grenitré
og lágu greinar þeirra allt niður að jörðu. Gluggi var einn og
hleri fyrir að utan, sem ýmist lagðist fyrir eða hrökk frá fyrir
veðrinu; fylgdi því skrölt mikið og skellir; var það orsök þess,
að ljósið, er þeir sáu, ýmist kom eða hvarf. Bertel steig af baki
og batt hest sinn við tréð, gekk að glugganum og vildi gægjast
inn. Leynileg von gerði hann léttan í spori; þótti honum það
alllíklegt, að svo framarlega sem flóttafólkið hefði í norður haldið,
þá hefði það ekki haldið lengi þjóðveginn, heldur leitað um þvervegu
að komast undan leitarmönnunum. En um þennan hluta
Austurbotns-sléttunnar lágu þegar í þá daga hundruðum saman
slóðar og smágötur til hinna eystri nýbyggða. En hver sagði
honum, að flóttaliðið hefði einmitt þennan veg farið?
Samt sem áður barðist í honum hjartað þegar hann gekk að
glugganum. Það var fjögra rúða gluggi og voru tvær úr horni,
sem haft var á undan glerinu, ein var brotin og bjarn-mosa
troðið upp í gatið, hin fjórða var heil glerrúða, en svo héluð og
snjóug, að ekkert varð greint í fyrstu. Bertel andaði á glerið,
en sá með gremju, að hélan var að innanverðu og hann fór jafnnær.
Þá hneggjaði hestur hans. Bertel þótti lítilmannlegt að
koma að húsmennskukofanum sem njósnarmaður, bjóst nú að
berja til dyra, en í sama bili sá hann, hvar skugga bar fyrir
eldinn og að hélan af rúðimni þiðnaði skjótt að innanverðu fyrir
hlýjum anda manns, sem eins vildi horfa út eins og hann inn.
Bertel sér nú í andlit með tindrandi augu, sem lá á rúðunni og
starði út til að sjá hvað kæmi til, að hestur hneggjaði þar í
óbyggðinni á náttarþeli. Við sjón þessa andlits hljóp eins og
rafleiftur um hinn unga riddara; hafði hann haft hugann á
Regínu og búizt við þægilegri sýn. En í þess stað sá hann nábleikt
andlit undir svartri og loðinni skinnhettu, og gerði hún
það enn hvítbleikara. Svipinn hafði Bertel séð áður og þegar
hann hugsaði sig um mundi hann eftir einni voðanótt, er hann
hafði lifað í skógi suður á Bæjaralandi. Hann hopaði frá ósjálfrátt
og nam staðar eins og í úrræðaleysi. Pekka tók eftir þessu
þar sem hann sat enn á hestbaki til að vera viðbúinn að leggja
á flóttann. „Héðan í burt sem hraðast!“ kallaði hann hátt. „Hefi
ég ekki sagt yður, að hér gengur fjandinn ljósum logum“.
„Þú hefir satt að mæla“, svaraði Bertel og brosti að sjálfs
síns ótta eða því, sem hann hugsaði að væri sinn hugarburður.
„Hafi skollinn nokkru sinni tekið sér mennskan búning, þá býr
hann í þessu húsi. En einmitt fyrir þá sök skulum við sjá framan
í höfðingjann og þrýsta honum til að gefa okkur gistingu. Heyrðu,
þú þar inni, ljúk upp fyrir okkur, við erum ferðamenn!“ Þessum
orðum lét hann fylgja nokkur harðfengleg högg á miðja bæjarhurðina.
9. Don Quixote af Mancha[* „Riddarinn í líkingu volæðisins“ í sögu Cervantes skálds.]
Þegar hann hafði langa stund beðið, var hurðu lokið upp og
út í dyrnar kom gamall maður boginn mjög fyrir elli, snjóhvítur
á skegg og hár. Bertel var vanur við í hernaðinum að taka það,
er hann þurfti, ef ekki var fúslega tillátið, ýtti öldungnum frá
og tróðst inn í hið lága hreysi hæverskulaust. En þar sá hann
engan mann og þótti kynlegt; lagði og daufa glætu um þetta
örbyrgðar-greni frá furuviðarblysi hálfbrunnu; engar aðrar dyr
sá hann en þær, sem hann kom inn um, og ekkert kvikt utan
gamla karlinn og úfinn og ljótan rakka, sem lá við hlóðakarlinn
og urraði að komumanninum.
„Hvar er maðurinn með skinnhettuna, sem áðan stóð hér inni?“
spurði nú Bertel hvatlega og heldur byrst.
„Guð hjálpi yður, herra góður“, svaraði karlinn auðmjúkur og
gætilega, „hver skyldi hér vera nema yðar náð sjálfur?“
„Út með sannleikann! Hér er einhver fólginn inni. Undir
sænginni — nei, bak við ofninn — nei. Þó hefir brunnið stærri
glóð hér inni. Hvað þá? mér sýnist hún hafa verið slökkt með
vatni. Svara mér!“
„Það er svo kalt í húsinu, herra, og það er svo gisið“.
Grunsemd Bertels var nú vöknuð, en lét ekki svæfa sig aftur
með útúrdúrum. Hann renndi augunum innan um allan kofann
og kom loks auga á lítinn hlut, sem dottið hafði undir bekkinn.
Það var fínn og mjúkur kvenhanzki, með héraskinnsfóðri. „Viltu
játa, þorparakarl?“ mælti Bertel í bræði sinni. Það kom heldur
fát á karlinn, en hann tók sig óðara aftur, breyttist allur í framan,
kinkaði kolli og benti á hornið inni hjá ofninum. Bertel fylgdi bendingu
hans, gekk tvö fet eða þrjú, en — í því lét gólfið undan.
Hann hafði þar hrapað niður um gat, sem ekki sást, í gólfinu,
því að ofninn skyggði á. Óðara var hlera skotið yfir lúkuna og
söng um leið í stórum járnkrók; við það var hinum innilokaða
alveg meinað upp að komast aftur eða lyfta hlemmnum neðan
frá. Bertel hafði dottið í eina af holum þeim, sem fátæklingar
hafa í gólfum til að geyma í rótarvexti og drykk sinn. Grófin
var ekki djúp og fallið ekki hættulegt, en bræði Bertels var ekki
minni fyrir það, sem vonlegt var. Litli vetlingurinn sagði honum
alla söguna. Hér hlaut hún að vera, hún, hin fríða, stolta, ógæfusama
furstadóttir, sú, er hann lengi hafði heimuglega eftir þráð.
Hver gat vitað nema hún hefði líka fallið í sömu svikaklær,
og einmitt nú, þegar hann var kominn henni svo nærri eftir að
hafa þráð hana árum saman, nú þegar hún þurfti helzt hans
hjálpar, nú einmitt skyldi hann falla í þessa smánarlegu gildru
og vera hnepptur eins og mús í holu og eiga enn þá verri vist
en uppi í hinum arga kofa yfir höfði honum. Hann freistaði að
lyfta gólffjölunum, en gat ekki, þær bifuðust ekki né viku fremur
en forlögin, sem svo lengi höfðu gabbað hans einkavonir.
Þó gat hann bráðum heyrt einhvern nið yfir sér í stofunni
eins og menn væru á reiki um gólfið og heldur fleiri en færri.
Rétt eftir það kom steinhljóð. Nú var Pekka einkavon Bertels;
hann hafði ekki árætt inn. En ekki heyrðist heldur neitt til hans
og þannig liðu þrír eða fjórir tímar með pínandi óvissu, enda
bættust þar ofan á fullar líkur til, að hann færist þar úr kulda
og sulti.
Þá heyrði hann aftur gengið um gólfið og krókinum kippt upp
og síðan hlemminum. Bertel var hálfstirðnaður, er hann skreið
upp úr hinni fúlu dýflissu; hélt hann nú, að Pekka hefði fundið
fylgsnið. En í hans stað sér hann aftur karlinn með hvíta skeggið;
hann var eins auðmjúkur og varkár sem áður og rétti Bertel
höndina þá er hann var að hefja sig upp um gatið. Hinn ungi hermaður
þreif nú reiðilega í öxlina á karli og ætlaði að úthúða
honum duglega. „Hundurinn þinn!“ sagði hann, „leiðist þér að
hjara, eða sér þú ekki, hvað þú gerir, vitfirringur? Hvað getur
aftrað mér frá að mylja þinn arga eymdar-skrokk við þinn eigin
hlóðarstein?“
Karlinn leit við honum án þess að lygna augunum. „Gerðu það,
dóttursonur hans Bertílu“, sagði hann, „dreptu gamlan þjónustumann
hennar ömmu þinnar, ef þér sýnist; hverja ánægju skyldi
hann eiga eftir í lífinu?“
„Þjónustumaður ömmu minnar, segir þú?“
„Ég er sá seinasti á lífi af öllum þeim, sem fyrr meir byggðu
í þessari frjósömu sveit, sem nú er eyðimörk. Það var ég, sem
sagði við hann Aron Bertílu, þegar garður húsbónda míns var
lagður í blóð og ösku: Frelsaðu jungfrúna fyrir mig! Bertíla
gerði það, bölvaður fari hann og blessaður líka! Hann bar jungfrúna
mína góðu og göfuglyndu út úr bálinu, og hún, þessi tigna
jungfrú, varð hógvær eiginkona hins drambláta bónda“.
„En ertu frá viti, karlkind? Ef þú, sem þú segir, hefir verið
þjónn móður-móður minnar, hví lokaðir þú mig þá inni í þinni
bannsettu gryfju? Vinsemd þín er æði einkennileg“.
[213.png]
„Drepið mig, herra góður, ég hefi níutíu ár á baki. Drepið
mig, ég er kaþólskur maður“.
„Þú? Já, það er annað mál, nú fer ég að skilja“.
„Ég er seinasti kaþólski maðurinn í þessu landi; ég er frá
dögum þeirra Jóhanns konungs og Sigmundar. Ég er einn af
fjórum, sem jörðuðu síðustu nunnuna í Náðardals-klaustri. Nú
í tuttugu ár hefi ég ekki heyrt tíðir sungnar né verið stökktur
helgu vígsluvatni. En lofaðir séu allir drottins dýrlingar fyrir
það, að einni stundu áður en þér komuð, fékk ég að neita hostíunnar[* Brauðsins í sakramentinu.].
„Það hefir munkur verið í kofa þínum?“
„Já, herra, einn af vorum mönnum“.
„Og með honum fylgdist ung kona og gömul þjónustukona
hennar? Svara mér!“
„Já, þær fylgdu honum“.
„Og þegar ég kom, faldir þú þau?“
„Já, uppi á loftinu, herra góður“.
„Og síðan ginntir þú mig niður í músaholuna, en lézt konurnar
og munkinn strjúka á meðan?“
„Ég neita ekki, að því er svo varið“.
„Og hver laun hyggstu að fá fyrir þetta?“
„Ég býst við öllu, dauðanum ef til vill“.
„Ég vil þyrma lífi þínu, en þó með skilyrði. Þú skalt sýna
mér leið þá, er þau fóru héðan“.
„Lífi mínu! Ég er búinn að segja yður, að ég sé níræður“.
„Og þú ert ekki hræddur við — pínubekkinn?“
„Guðs heilögu gefi, að ég væri svo hárrar æru verður!“
„En ef ég brenni þig lifandi í þínu eigin greni?“
„Þeir heilögu píslarvottar hafa á bálinu dáið“.
„Nei, gamli maður, ég er enginn böðull. Ég hefi lært í skóla
konungs míns að heiðra trúmennskuna“. Og Bertel tók hrærður
í hönd hins gamla manns. „En eitt ætla ég að segja þér“, bætti
hann við, „þú ætlar víst, að ég sé kominn til að flytja þetta flóttafólk
aftur í varðhald þess. Því fer fjarri. Ég sver þess eið við
mína riddarastétt, að ég skal með lífi og blóði verja frelsi jungfrú
Regínu og gera allt, sem í mínu valdi stendur til að létta flótta
hennar. Viltu nú segja mér, hvern veg hún flýði héðan?“
„Nei, náðugi herra“, sagði hinn gamli maður með rósemi.
Hin unga mær stendur undir verndarhendi helgra manna og
eins viturs manns. Þér hafið ungt og ólgandi blóð í æðum, þér
munduð steypa þeim öllum í glötun. Snúið því við, þér finnið
ekki för þessara manna“.
„Asninn!“ umlaði Bertel beisklega. „Far vel þá, ég þarf ekki
þinnar hjálpar“.
„Bíðið hér nú í ró til morguns, náðugi herra. Í dag stendur
yður til boða að vaða mannhæðar skafla til að komast bæjarleið.
Á morgun ferðist þér í hægðum yðar“.
„Óhræsið, þú hefir sent frá mér hestana mína?“
„Já, herra góður; þér hljótið að vera svangur. Lítið á, þarna
er ketill með soðnum rófum í. Verði þær yður að góðu“.
Bertel stikaði gólfið aftur og fram í æstu skapi og hugsaði:
Ekki vildi ég vinna til fyrir tíu Rínarvínsflöskur, að hann Larson
væri hér kominn og sæi til mín nú. Hann mundi líkja mér við
flökkuriddarann frá La Mancha sem vafðist í hin vesölustu
ævintýri, þegar hann var að leita uppi hana Dulcíneu sína fögru.
Hvernig má ég komast héðan gegnum mannhæðar djúpar fannir?
„En“, sagði hann hátt, „mér kemur nýtt ráð í hug, hvort ein af
mínum beztu bernskulistum gæti ekki orðið mér að liði. Hvar
eru skíðin þín, gamli maður?“
„Skíðin mín!“ svaraði karlinn og fór hjá sér, „ég á engin
skíði“.
„Víst áttu þau, það sé ég á þér; enginn Finnur í Austurbotni
er skíðalaus. Fá mér þau þegar í stað“. Og án þess að skipta sér
af undanfærslu karlsins, lauk Bertel upp lofthleranum og tók þar
óðara fram allra beztu skíði.
„Líttu nú á, karltetur“, sagði hinn ungi fyrirliði, „hvernig lízt
þér á nýju gæðingana mína — mína, segi ég, því ég veðja, að
þú selur mér þá fyrir þessa fögru silfurdali. Liprari vekringar
hafa sjaldan runnið yfir fannbreiður. Á ég annars ekki að bera
kveðju munkinum og jungfrú Regínu, því það vil ég gera með
ánægju?“
„Hættið yður ekki út í óbyggðina, ungi herra“, svaraði karlinn.
„Þér finnið hvorki för né veg; skógurinn er margar mílur á
lengd og fullur af úlfum. Það verður yðar bani“.
„Þú ferð skakkt, kunningi“, svaraði Bertel, „ég mun finna
tvenn för, sín í hvora áttina, önnur eftir hestana mína, en hin
eftir flóttamennina. Seg mér, hvort riðu þau eða óku?“
„Ég hygg þau riðu“.
„Þá er ég viss um, að þau óku. Þú ert óbetrandi bragðakarl,
en sakir skíða þinna fyrirgef ég þér. Lif nú vel; eftir tvær stundir
liðnar hefi ég náð þeim, sem ég leita“. Að svo mæltu stökk
Bertel út.
Þetta var mjög snemma morguns, tveim eða þrem stundum
fyrir sólaruppkomu, en til allrar hamingju var skafrenningurinn
hættur og vetrarstjörnurnar blikuðu tindrandi á heiðbláu himinhvolfinu.
Kuldinn hafði vaxið og brunafrost hafði stráð yfir trjálim
og fannir ís-demöntum þeim, sem bæði blinda og töfra augu
ferðamanna. Skógur og snjór undir stirndum himni á vetrarmorgni
vekur lifandi tilfinning í sálu norræns manns; sú náttúrusjón
felur í sér hátignarljóma, einhvern skærleik og nýfæddan
ferskleik, sem afturkallar indæli bernskunnar og æskulífsins fyrstu
sælunnar sjónhverfingar. Þá er ekkert, sem þrengir að hjartanu
og lamar vængi hins fleyga hugar; allt er þá svo óendanlegt, svo
hátíðlegt, svo alfrjálst; menn skyldu ætla, að náttúran lægi þá
andvana í faðmi vetrarins og næturinnar: og þó lifir hún, er
og hrærist í brjósti ferðamannsins. Það lítur þá út sem hefði
hún samandregið allt sitt óendanlega lífsfjör í einn einasta depil,
þetta eina hjarta í heilli eyðimörk, einungis til þess að láta það
njóta því fegurra lífs í stirðleikanum, þögninni, kyrrðinni, stjörnuljósinu
öllu megin umhverfis. Þessara áhrifa fjörs og ferskleika
naut nú einnig hinn ungi Bertel; þess konar áhrif áttu einkar
vel við hann. Honum fannst sem væri hann orðinn barn, þar
sem hann flaug áfram eins og hvassvindur milli stofna og snjóskafla;
honum fannst hann vera smápiltur sem í fyrri daga og
vera að renna sér á hjarninu yfir Stórkýró-slétturnar til þess að
snara fugla í skóginum. Í fyrstu reikaði hann að sönnu dálítið
til af óvana, þegar skíðin runnu fram af brekkunum, að vísu
stýrði hann þeim við og við skakkt og hrasaði nokkrum sinnum,
en brátt kunni hann aftur gamla lagið og hélt nú öruggt áfram
sem horfði yfir þúfur og þvergarða.
En að finna spor flóttaliðsins gekk ekki eins greiðlega. Hann
hafði nú stundarkorn stefnt á Ilíhermu og einskis var orðið,
enda hafði hinn síðasti skafrenningur fennt í sporin; hann sá
einungis nýleg úlfaför, og við og við hrökk upp stygg rjúpa flögrandi
milli skógargreinanna. Vökur, sultur og þreyta tóku nú að
angra og lýja ungmennið; kuldinn harðnaði undir sólaruppkomuna
og stráði hrími hans dökkleita yfirskegg og fjaðrahatt.
Loksins kom hann á veg í skóginum, þar sem limið hafði skýlt
fyrir vindinum, og sá hann þar ný spor eftir sleða og hesta.
Bertel herti sig þá upp og elti slóðann, týndi honum ýmist eða
rakst á hann aftur þar sem brautin lá í skjóli. Sólin rann rauðgul
í land-suðri yfir trjátoppunum; dagurinn var heiður og frostharður;
umhverfis sást ekkert nema skógur og hjarn. En lengst í
norðurátt kom upp reykjarstrókur, sem stakk vel af við gylltan
morgunhimininn. Þangað stefndi hann nú, herti á skíðunum
og batnaði þá og óðum vegurinn; náði hann seint um síðir afskekktum
bæ nálægt veginum. Hið fyrsta, sem þar mætti honum,
var Pekka og hestar þeirra; var hann að gefa þeim.
„Og þorparínn“, sagði Bertel, sem bæði varð feginn og forviða,
„hver hefir sent þig hingað?“
„Hver“, segir Pekka ekki síður feginn, „það skal ég segja
herranum, það gerði skollinn; meðan ég beið og beið við skógarkots-skrattann,
duttu aftur augun á mér í fönninni þar sem ég
sat. Skömmu seinna vaknaði ég við hnegg í hestunum, og hvað
sé ég? Sleða eins og okkar með tveimur hestum, sem rann áfram
eftir skógargötunni. Annað hvort er þetta húsbóndinn eða skrattinn,
sagði ég við sjáfan mig, en það stendur mér á sama, ég elti
hann samt; síðan skreiddist ég á bak og glorhungraður var ég
og langt fram yfir það, en hélt þó samt á eftir sleðanum. Loksins
urðu hestarnir þreyttir, ég missti sjónir á sleðanum og þakkaði
bæði kaþólskum og lútherskum dýrlingum fyrir, að ég náði þessum
bæ og komst í þunna grautarskál. Því þótt hitinn væri nógur
við Lützen og Nörðlingen, þá veit drottinn minn dýri, að það
er kalt hérna í Ilíhermu, það segi ég satt“.
„Vel og gott“, sagði Bertel, „þau skulu ekki komast undan
okkur. En á ég að segja þér sögu, Pekka, það koma þær stundir,
þegar sultur og svefnleysi verða ástinni yfirsterkari. Kom nú, við
skulum fara inn“.
Og Bertel gekk inn, lét hita sér mjólk og fleygði sér á heysæng,
því hann var yfirkominn af þreytu. Þar skulum vér nú
lofa farand-riddaranum að sofa í næði svo sem tvo eða þrjá
klukkutíma.
10. Kajanuborg
Lengst í norðurátt ólga hin miklu stórvötn undir ábreiðu ísanna;
hinir freyðandi fossar frjósa aldrei, hinn græni greniviður
fölnar aldrei, og aldrei bifast björgin gráu, sem binda hinar
beljandi elfur í þröngum gljúfrum. Hér hafa náttúruöflin hamazt
frá eimuna tíð og aldrei unnt sér eirðar né sátta. Elfan
þreytist ekki að glíma við hamrabjörgin, björgin þreytast ekki
að storka elfunni; fjöllin eldast ekki; hinir ómælilegu flóar gera
alla ræktun ómögulega; hinn frostheiði vetrarhiminn speglast enn
sem fyrr í bárubliki norðurljóssins og horfir í hátignarró niður
yfir hina strjálu kotbæi á bökkum fossanna.
Hér er heimkynni næturinnar og ógnanna; hér er skugginn
í hinum gullnu litmyndum hinna finnsku óðsöngva. Hér spinnur
hin ljóshrædda forneskja net sitt um trú manna; hér eru haugar
kappanna; hér eru hliðar hörmunganna. Hér eyddu hinir síðustu
jötnar sínu helstirða hamremmis-afli í öræfum fjallanna; hér
stóð herborg Hísa með hinum faðmháu tröppuhöftum við hallarhliðið.
Hér bjó forneskjan yfir sínum myrkustu ráðgátum og
hingað hopaði hún fet fyrir fet fyrir birtu betri tíma og hér
blæddi henni til ólífis í fólskunnar fjörbrotum. Heiðninnar öndvegi
hrundi fyrir löngu, en enn þá slæðist svipur hennar í sekt
og banni um byggðirnar, íklæddur kristninnar sauðargærum,
og fer með hjátrú og hindurvitni kringum kumbl og kirkjugarða.
Áður en stórvötnin þar norður frá, hamslaus orðin af æði ótal
fossa, leita andrúms-hvíldar í Úleárvatni, skeyta þau enn einu
sinni skapinu á tveim feiki-stórum fossum, er heita Koivúkoski
og Ammá, við smábæinn Kajenu. Eins og tveir felliboðar steypist
vatnsmegnið óstöðvandi niður tvö gljúfraskörð, og svo er vatnsfallið
stórkostlegt, að dirfska mannanna, sem vön er að eiga í
ófriði við náttúruna og sigra að lokum, hefir hér staðar numið
forviða og játað sig yfirkomna. Allt fram á þessa daga hafa allir
bátar, sem stefnt hafa til Úlenborgar ofan fossana, leitað hér
landsins og látið hesta draga sig gegnum bæjarstrætin í Kajenu.
Mitt á milli fossanna, Koivúkoski og Ammá, liggur flatur klettur
í móðunni og liggja að honum brýr frá báðum bökkum. Hér
gnæfa gráir múrveggir hins gamla kastala, sem nú er í rústum.
Það er Kajanuborg, byggð 1607, á dögum Karls níunda, til varnar
móti áhlaupum Rússa. Saga hennar er stutt og á ekki nema
einn hvítan blett, sem sé hennar eigið fall. Sá tími kann að koma,
að það komi við sögu þessa. Nú erum við á árinu 1635, og kastalinn
er í broddi lífsins. Í lögun er kastalinn líkur ör og horfir
oddurinn móti straumnum. Komi ekki hungursneyð og hafi óvinirnir
ekki því fleiri fallbyssur á hæðunum umhverfis, má hann
heita óvinnandi. En hvernig kemst óvinaher til Kajanuborgar?
Þar eru eyðimerkurflæmi á alla vegu og hvergi ruddur vegur
fyrir vagna á vetrardegi; á sumrum fara menn eftir gangstígum
og reiðgötum, en á vetrum rennur hreinninn á vatnaísum með
sleða sinn.
[219.png]
Það er há-vetur, þykkar ísskarir við löndin og slotsmúrana
sýna, að kuldinn hafi verið mikill, þótt ekki hafi frostið megnað
að fjötra hinn ákafa straum á miðbiki elfunnar. Nokkrir dátar
í gærukuflum með ullina inn, eru að aka heim viði frá skóginum
þar nærri. Þar er friður í landinu; vindubrúin liggur niðri
og hrosshófarnir glymja og dynja á brúnni yfir straumnum.
Þá rís upp deila í hallargarðinum með hörðum orðaskiptum. Roskin
kona, há vexti, harðleg á svip, en ekki fríð sýnum, hefir
handsamað eitt viðarhlassið og hrindir dátunum frá í því hún
sópar í fang sér svo mörgum kubbum sem hún fær borið og
skipar yngri konu, sem fylgir henni, að gera eins. Dátarnir ausa
yfir hana óþverraorðum, en kerla með hvössu augun mælir þeim
aftur út í fullum mæli. Undirforingi hefir heyrt hávaðann, kemur
að og spyr, hvað á gangi, og er hann veit tilefnið, átelur hann
konuna harðlega og skipar henni að skila viðnum; konan gegnir
ekki og skipar hann þá, að hendur skuli skipta. Konan hopar þá
undir múrvegg einn, reiðir upp einn staurinn og kveðst brjóta
skyldi haus hvers þess manns, sem að henni gengi. Dátarnir
blóta og hlæja; foringinn stendur ráðalaus; röskleikur kerlingar
yfirgengur alla.
Þá kemur fram á stéttina roskinn maður, sem allir rýma óðara
fyrir. Það er Vernstað landshöfðingi. Óðara en konan kemur auga
á hann, víkur hún úr vígstöðinni og lætur nú dæluna ganga um
ójafnað þann, er hún mætti þola. „Já, herra ofursti góður“,
segir hún, „þetta leyfa þeir sér að bjóða manni, sem er ljós og
auga Svíaríkis. Það er svo sem ekki nóg að byrgja hann í þessu
bannsetta greni, heldur láta menn hann frjósa í hel. Eins og
það sé eldsneyti, sem okkur er fengið! Drottinn minn, eintómir
blautir fúafauskar, sem fylla klefann með svælu og gefa ekki
svo mikil hlýindi, að blekið á borðinu hans geti þiðnað. En það
skal ég segja ofurstanum, að ekki heiti ég þá Lúsía Gróthúsen, ef
ég læt svínbeygja mig. Þetta er almennilegur eldiviður og þennan
við tek ég, eins og ofurstinn sér, rétt fyrir nösunum á þessum
landhlaupurum, sem allir og hver með öðrum ættu skilið að verða
hengdir upp í hæsta furutrénu hérna í Paldamóskógi. Smánist
þið burtu, landeyðurnar, ég á viðinn, heyrið þið og sjáið og
hana nú!“
Landshöfðinginn brosti. „Látið hana hafa viðinn“, sagði hann
til dátanna, „annars fær enginn lifandi maður frið í kastalanum.
En þér, Lúsía, vil ég það segja, að þú skalt gæta tungu þinnar
betur, því hún hefir mörgu illu af stað komið; ella mætti svo
fara, að ég léti setja þig í fúla skotið, sem þú kannast við, sem
Eiríkur héri setti ykkur í, þar sem elfan rann undir gólfinu. Eru
þetta þakkirnar fyrir linkind þá, sem ég hefi sýnt þér, að þú
vekur sífelld illindi hér í kastalanum. Í fyrradag hafðir þú munninn
uppi af því að þú þóttist ekki fá nóga þvottasápuna; í gær
tókstu með yfirgangi sauðarlæri úr matarbúrinu og í dag deilir
þú út úr eldiviðnum. Gæt þín nú, Lúsía, að þolinmæði mín ekki
þrjóti“.
Konan horfði beint í augu ofurstanum. „Þolinmæðin yðar“,
segir hún, „en hvað lengi haldið þér þá, að þolinmæðin mín þoli?
Nú erum við búin að sitja samfleytt í nítján ár í þessari úlfakreppu;
í samfleytt nítján ár hefir þessi háðungarblettur setið
á Svíaríkislandi, að þess mesti maður er hér grafinn og geymdur
eins og óbótamaður! — — Takið eftir mér, hvað ég er að segja:
Svíaríkis mesti maður, því sá dagur mun koma, þegar þér og ég
og allir þessir feitmetisbelgir, allir þessir landhlaupara-bjórblöndukútar
eru orðnir að maðkaveitu, að komandi kynslóðir muna
ekki eftir ykkur fremur en svíninu, sem slátrað var í dag. En
Jóhannesar Messeníusar[* Frægur sagnameistari og skáld (1579-1636); dæmdur til dauða 1616
fyrir páfatrú sína og landráð. Þó var honum gefið líf og sat hann síðan í
varðhaldi ævilangt. Hann sætti illri meðferð, en samdi þó mörg og víðfræg
rit í fangelsi sínu, og þótti vera hið mesta mikilmenni.] nafn mun allar aldir lifa í ljóma og
heiðri. Yðar þolinmæði, þó, þó! Hvaða þolinmæði hefi ég haft,
sem hefi sætt mig við í öll þessi eilífðarár að fljúgast á við ykkur
um hvern bita af brauði og köggul af eldiviði, um svæfil undir
höfuðið á þessum mikla manni, sem þið hafið níðzt á, ég, sú
eina manneskja, sem saman hefir haldið hans sár-auma líkama
og styrkt hans sál til stórræða, sem hann lýkur nú við þessa
dagana. — — Eða, vitið þér, hvað það er að þjást og þreyja
eins og ég, að vera allra hluta án eins og ég, að vera rifin frá
börnum sínum eins og ég, að ganga með örvæntinguna í hjartanu,
en bros á vörunum til þess að svo skuli líta út sem maður hafi
von, þótt vonin sé farin — — vitið þér, hvað það þýðir, ofursti
góður? Og svo komið þér til mín og talið um yðar þolinmæði!“
Skellihlátur dátanna tók nú fyrir málæði konunnar; og nú
fyrst sér hún, að landshöfðinginn hefir hitt það ráðið, sem snjallast
var, og hefir farið leiðar sinnar. Það er ekki í fyrsta sinn, að
Lúsía Gróthúsen hefir rekið kastalaforingja á flótta. Henni var
trúandi til að sópa heilu setuliði út á merkur og skóga. En þó
gremst henni nú að hafa ekki fengið að svala sér til fulls. Hún
hendir brennistaurnum í næsta háðfuglinn og skundar af stað
með hitt og inn um lágar bak-húsdyr. Dátinn, sem staurinn hitti
fótinn á, blótar í bræði og sendir hann á eftir henni um leið og
hún sleppur inn. Staurinn kemur í hælinn, hún æpir hátt af
sársauka og reiði, en við það hverfur hún inn fyrir, en hlátrasköllin
gjalla á baki hennar.
En meðan þetta sjónarspil var leikið og sjálfsafneitunin sýnd af
annarri hálfu og hroðaskapur af beggja, höfðu ferðamenn numið
staðar við vestari hallarbrúna og gerðu boð fyrir höfuðsmanninn.
Dátarnir forvitnast í kringum þá; þeir eru klæddir eins og
óbreyttir bændur, en þó ber látbragð þeirra vott þess, að þeir
séu útlendir. Fyrir þeim gengur roskinn maður, dökkeygur og
tileygur með gulleitt hörund; lítt má sjá í andlit honum undir
hvítri hundskinnshúfu, sú er með eyrum og svo síð, að hún hylur
nálega höfuðið. Næst honum gengur ung kona í röndóttu vaðmálspilsi
og nærskorinni treyju úr nýju, hvítu kálfskinni; andlitið
er að mestu fólgið undir stórgerðri flókahettu, bryddri með
íkornaskinni, og eru þess smágervu hár öll hélustokkin. Einungis
má sjá tvö fögur og hrafnsvört augu horfa undan hettunni, einkennilega
björt og blikandi. Hin þriðja í förinni er gömul kona,
lítil vexti og svo dúðuð í skinnfeldum, að hennar lági kroppur er
allur á þverveginn, svo hún sýnist í gangi sem væri hún vel
og fast troðin fiðurdýna. Maðurinn með hundskinnshúfuna sýnir
vegabréf og réttir landshöfðingjanum; eftir því heitir maðurinn
Albertus Símónis, settur af stjórninni liðsmannalæknir næsta vor
við liðsveitir þær, sem suður fara, og er hann nú með konu sinni
og dóttur á ferð frá Danzig til Stokkhólms norðurleiðina gegnum
Víborg og Kajenu. Landshöfðingi virðir vel fyrir sér bæði manninn
og bréf hans og álítur, að allt sé með felldu. Síðan lætur hann
vísa þeim til herbergja í eystri enda hallarinnar og skipar svo
fyrir, að þeim sé veittur allur sá forbeini, sem langferð á jafnhörðum
árstíma muni útheimta.
11. Ríkisfanginn
Herbergi það, sem við nú komum inn í, liggur í syðra turni
hallarinnar og er ekki gistilegt; það er stórt og dimmt. Þó að
það liggi sólar-megin, eiga vetrargeislarnir erfitt með að komast
margir samhliða gegn um hinn þrönga glugga þess með sterku
járngrindinni fyrir. Skorsteinn mikill, úr grásteini hlaðinn, fyllir
mjög eitt horn stofunnar; förfuð og klúr rekkja stendur þar
andspænis; þar eru bekkir tveir og tveir stólar, kista mikil, breitt
borð undir glugganum og hornskápur, annað er þar ekki af húsbúnaði.
Allt þetta sýnist vera nýlegt og gengur að því leyti betur
í augun þótt smíðið sé klúrt. Stofan lítur annars út sem hún gæti
heitið eldhús. Lærdómurinn hefir numið sér höfuðból í innanverðu
herbergi þessu, og næst glugganum; borðið er stráð blekbyttum
og fullt af máðum handritum og arkarbókum bundnum
í kálfskinn; hornskápurinn er opinn og sýnir, að hann er bókaskápur.
Hinn helmingur stofunnar nær skorsteininum hefir allt
annað útlit. Þar stendur þvottaker við hægrihlið á mélpoka, en
pottur mikill breiðir opinn faðm móti hertum geddum og fleskbitum
og deilir um rúmið við vatnsfötur og hillu með leirkerum á.
Þannig lítur híbýli það út, sem landshöfðinginn Vernstað hefir
fengið ríkisfanganum Jóhannesi Messeníusi, konu hans og þjónustukonu
í stað hins vonda klefa, sem kvalari Messeníusar, Eiríkur
gamli héri, hafði látið þau mótlætishjón sitja í. Þetta herbergi er
þó að minnsta kosti þurrt og full hátt; húsbúnaðurinn er og
vinargjöf landshöfðingjans; býr Messeníus í hálfri stofunni, en
konurnar í hálfri.
Við stóra, blekuga borðið situr maður boginn og gráhærður, í
loðkápu og hreinskinnsstígvélum, og hefir á höfði loðna ullarhúfu.
Hver sem séð hefði þennan mann meðan hamingjan lék
honum í lyndi, þegar hann var forseti í háskólaráðinu í Uppsölum
eða drottnaði hreykinn eins og konungur í ríki sínu yfir
öllum auði hinna sænsku ríkisskjala, hann mundi vart hafa þekkt
aftur í þessum visnaða líkama, sem boginn og hnýttur var orðinn
af árunum og hamingjuleysinu, manninn með ofurhugaða
andríkið, sem bauð byrginn þeim Rudbeck og Tegel, hinn hálærða,
hugvitssama og metnaðarfulla Jesúítapostula og samsærismann,
Jóhannes Messeníus. En liti menn betur eftir þessum
hvössu, órólegu augum, sem sí og æ virtust ætla sér að skima
jafnlangt fram í framtíðina, sem þau höfðu horft langt aftur í
hina liðnu tíð, og læsi menn þau orð, er hann nýlega hafði ritað
með skjálfandi hendi á bréf það, sem fyrir framan hann lá, orð,
sem svo voru full af sjálfsáliti, að þau máttu fífldjörf heita, þá
mátti mann óðara gruna, að í þessu niðurhrunda hreysi starfaði
sál, sem aldur og örlög höfðu ekki yfirbugað, heldur var há og
hreykin sem í fyrri daga, byggi metnaðarandi, sem aldrei mundi
vægja.
Gamalmennið horfði lengi á pappírinn þótt hann væri hættur
að rita. „Já“, mælti hann hugsandi og ályktandi, „svo á þetta að
vera. Meðan ég lifi troða þeir mig eins og orm í duftinu undir
fótunum, en þegar ég er dauður, skulu þeir sjá, hvern þeir hafa
troðið. Gloria, gloria in excelsis! Sá dagur skal koma, þótt hundrað
ár líði hjá, þegar vesall fangi, sem öll veröldin hefir gleymt nú,
og sem eyðir lífinu norður í óbyggðum, þegar hann verður kallaður
faðir Svíþjóðarsögu, þá“ ... hélt hann áfram með
beisku glotti, „þá geta þeir ekkert gert fyrir mig. Þá er ég
dauður. Er það ekki furðulegt? Að dauður maðurinn, hvers bein
eru að verða duft í gröfinni, skuli enn þá lifa í verkum sínum,
að andi hans skuli halda sínu striki öld eftir öld, frjóvgandi og
vekjandi andans gull og ágæti! Allt, sem hann hefir liðið meðan
hann lifði, öll forsmán, allar ofsóknir, allar dýflissugrindur, allt
er gleymt, búið, horfið, en nafnið hans leiftrar enn og lýsir eins
og stjarna aldanna næturmyrkur, og framtíðin með stutta minnið
sitt og langa registrið yfir óþakklæti mannanna segir þá í
hugsunarlausri aðdáun: Það var mikill maður“.
Meðan á þessu eintali stóð, kemur konan, sem við könnumst
við frá kastalagarðinum, inn. Hún lýkur gætilega upp hurðinni
og læðist á tánum svo sem væri hún hrædd um að vekja sofandi
barn. Síðan setur hún niður seint og hægt viðarbyrði sína, sem
hún ber í fanginu. Dálítið hark var þó óhjákvæmilegt; hinn
aldraði við borðið hrekkur upp úr draumórum sínum og snýr sér
uppvægur að gömlu konunni með viðinn og segir: „Kona, þú ert
svo djörf að ónáða mig! hefi ég ekki sagt þér iterum iterumque,
að þú eigir að flytja þína penates procul a Parnasso? Skilur þú
það ... lupa!“
„Kæri maður minn góður, ég er að færa þér ofurlítínn eldivið.
Þér hefir verið svo kalt þessa daga. Reiðstu mér nú ekki, þú skalt
eiga hlýtt og gott, það er allra bezta eldsneyti“.
„Quid mihi tecum? Far þú norður og niður! Þú ertir mig og
mæðir. Þú ert, eins og Gústavus sálugi sagði ætíð, Messenii mala
herba, malurtin mín, brenninetlan mín“.
Lúsía Gróthúsen var kona ákaflega bráðlynd, geðvond og jögunarsöm
við alla, en í þetta sinn steinþagði hún. Hve kynlega
hafði ekki hennar heimilisháttalag tekið stakkaskiptum? Hún hafði
aldrei séð sólina fyrir bónda sínum, en á meðan hann var heill
og hagur hans stóð í blóma, hafði hún, þessi sterka sál, beygt
hans órólega og hikandi anda eins og reyr. Stóð þá hinn óárennilegi
Messeníus alveg undir ríkisvendi konu sinnar. Nú höfðu þau
umskipt hlutverkunum. Eftir því sem að kraftar hans þverruðu
og það kom í ljós, að dagar hans mundu styttast, hafði hennar
ótakmarkaða ást lent í stríði við ofsa hennar og ráðríki og unnið
það ótrúlega þrekvirki að beygja slíka geðsmuni til auðsveipni.
Hún dekraði við hann eins og móðir við fárveikt barn; af ótta
fyrir að missa hans við, þoldi hún allt með hógværð, reyndi með
hlýjum orðum að mýkja hans önuglyndi og anzaði aldrei öfugu
orði aðfinningum hans og átölum. Jafnvel í þetta sinn bar ekkert
á henni, nema dálítill titringur í vörunum, hann sýndi, hvað
hún tók nærri sér að halda í skefjum skapinu, sem vildi brjótast
út. Hún gekk nú nær honum og sagðí hlýlega: „Vertu nú
góður, heillin mín, þú veizt, að heilsa þín þolir ekki, að þér
þyki fyrir; næsta sinn skal ég leggja ábreiðu undir eldiviðinn,
svo hann trufli þig ekki. Og í kvöld ætla ég að sjóða handa þér
allra bezta læri af lambi, en því máttu trúa, að það var enginn
hægðarleikur að útvega það. Ég sem sé náði því nærri því með
valdi úr eldhúsinu höfðingjans“.
„Hvað er þetta, kona, hefir þú lagt þig niður við að betla
beneficia af harðstjórans krásum? Júpiter! er ég þá hundur, sem
á að éta molana af þeirra borðum? Og svo ertu hölt; hví gengur
þú hölt? Svara þú mér! Þú hefir víst aftur borið kerlingarþvaður
í slotsfólkið og hefir svo skollið á tröppunum landshöfðingjans
meðan stóð á þínu málæði“.
„Er ég hölt?“ svaraði Lúsía og brosti utan við sig, „jú, skyldi
það ekki vera ... ég marði mig á fæti ... vanþakkláti maður“,
bætti hún við í lágum hljóðum, „það er þín vegna, sem ég
líð“.
„Farðu, og lát mig enda grafletur mitt“.
Lúsía fór hvergi, hún gekk nær honum, augun fylltust tárum,
hún brá höndunum um háls hins gamla manns. „Grafletur þitt!“
sagði hún með mildari rödd en nokkur skyldi halda að færi yfir
hennar fölvu varir, sem virtust ekki vera til annars gerðar en
grófra og harðra orða. „Guð minn góður!“ sagði hún í hálfum
hljóðum, „á þá allt hið stærsta og ágætasta á jörðinni að verða
að dufti? En sá dagur er enn þá langt í burtu, jú, hann hlýtur
að vera það, elskan mín. Lofa þú mér að sjá grafletur Jóhannesar
Messeníusar hins mikla“.
„Vissulega“, svaraði hann, sem sefaðist af smjaðrinu, sem talað
var í hreinskilni, „vissulega, Lúsía, ertu hin rétta persona executrix,
sem átt að lesa mitt epitaphium, fyrir því að þú ert sú,
er láta skal höggva það á mitt leiði. Lít þú á, góðin mín, hvað
segir þú um þetta?“
Hér undir hvíla Doctoris Johanni Messenii bein. Sál hans er
í guðsríki, orðstír hans alls staðar, sem lönd eru byggð.
„Aldrei“, sagði Lúsía grátandi, „hefir sannara letur verið sett
á legstein liðins stórmennis. En við skulum ekki orðlengja um
það. Látum okkur heldur tala um þitt stóra verk Scondia. Veiztu,
að grunur minn segir mér, að þess ágætis ljómi muni innan lítils
tíma færa þér frelsið?“
„Frelsið“, mælti Messeníus hálfraunalega, „jú, rétt segir þú
það, grafarinnar frelsi, til að verða duft hvar sem vill“.
„Nei“, sagði hún áköf og hrifin, „augu þín eiga enn eftir að
sjá frægðar þinnar tilkomu. Menn skulu lesa þitt mikla Scondia
illustrata, menn skulu prenta það, og nafn þitt á þess fremsta
blaði með gullstöfum, öll veröldin skal hrópa af hárri undrun:
Norðurlönd litu aldrei þess líka!“
„Og munu heldur aldrei það sjá“, bætti Messeníus við með
sjálfstrausti. „Ó, hver gefur mér frelsi mitt aftur, frelsið mitt,
svo að ég megi sjá verk mitt og sigri hrósa yfir mínum óvinum?
Exaudi me, Domine, porrigo manus meas coram facie tua! Libera
me a miseris; etenim dixisti: Prosternam inimicos tuos calcandos
pedibus tuis[* Heyr mig, drottinn, ég útrétti hendurnar fyrir augliti þínu; leys mig
frá volæði, því þú hefir sagt: ég mun leggja óvini þína til skarar fóta þinna,
svo þú megir troða þá undir fótum.]. Hver gefur mér frelsið, frelsið og tíu lífsár, svo
ég megi sjá mitt verk?“
„Ég!“ svaraði dimm rödd innar úr stofunni.
Við þetta hljóð hrukku bæði hjónin við af ósjálfráðum hjátrúarótta.
Einvera fangelsisins og hin hrikalega náttúra, sem á
öllum tímum er hjátrúarlífsins bezti jarðvegur, hafði magnað hjá
þeim aldarinnar almennu trú á yfirnáttúrlega hluti og gert hana
að fastri sannfæring. Hinn sírýnandi auðugi andi Messeníusar
hafði oftar en einu sinni verið að því kominn að sökkva niður í
undirgöng Kabbala-spekinnar og tálgryfjur töfravísindanna, og
frelsaði hann þar eingöngu hans mikla iðjusemi, svo og trúarfortölur
konu hans. Nú barst honum eins og óvænt svar upp á
spursmálsgátur hans — — frá himnaríki eða helvíti, það skipti
engu, það var svar samt, það var þó hálmstrá fyrir hans hverfandi
vonir.
Hinn frostharði vetrardagur var kominn að kvöldi og rökkrið
hafði breitt blæju sína yfir herbergið, næst dyrunum. Fram úr
þeim skugga gekk maður og mátti þar þekkja á svipnum hinn
sama dökkgula mann, sem fyrir stundu síðan hafði fengið leyfi
til að koma inn í kastalann undir nafninu Albertus Símónis, liðsmannalæknir.
Hafði hann að líkindum líka sem læknir fengið
inngönguleyfi til fangans, því ekki voru aðrir læknislistamenn
í kastalanum en einn bartskeri, er fékkst við handlækningar, og
gömul hermannsekkja, sem allmikinn orðstír hafði fyrir lækningar
á innvortis sjúkdómum, einkum þar sem hún líka kunni
þulur og formála, sem prestar að vísu mótmæla, en lukkast enn
í dag æskilega í baðstofugufunum sem töframeðal.
„Pax vobiscum!“ sagði komumaðurinn með hátíðlegri rödd og
gekk um leið nær glugganum.
„Et tecum sit Dominus!“ svaraði Messeníus jafnhátíðlega og
leyndi sér ekki forvitni hans blandin óþreyju.
„Procul sit a consilio lingva mulieris“[* Konur tala ekki á málþingum.], sagði hinn nýkomni.
Í æsku Lúsíu lásu dætur lærðra manna latínu með meiri
leikni en þær lesa frönsku á nítjándu öldinni. Hún vildi því ekki
heyra meira, heldur gekk út og setti um leið spyrjandi augu á
hinn kynlega gest.
Messeníus bauð gestinum til sætis við hlið sér. Samtal þeirra
fór fram á latínu.
„Heill sé þér, mikli maður, sem ólánið hefir einungis getað
göfgað“, sagði komumaður, sem af kænsku sinni vissi hins veikustu
hlið.
„Heill sé þér einnig, sem ekki forsmáir hinn yfirgefna“, svaraði
Messeníus með óvenjulegri kurteisi.
„Jóhannes Messeníus, þekkir þú mig?“ sagði hinn þá og lét
birtuna frá glugganum falla á andlit sitt.
„Mér þykir sem ég hafi áður séð yðar auglit“, svaraði fanginn
fremur seinlega, „en mjög langt hlýtur síðan að vera liðið“.
„Mannst þú eftir smásveini í Bránsbergi, sem var nokkrum
árum yngri en þú og ólst upp ásamt þér í skóla hinna helgu
feðra og síðar var í för með þér til Rómaborgar?“
„Ég man eftir honum — — fluggáfuðum sveini, efni í mikla
stoð og styttu kirkjunni — Híerónýmus Mathiæ“.
„Ég er sá Híerónýmus Mathiæ“.
Messeníus fann hrylling fara um sig; hve ákaflega hafði ekki
tönn tímans, reynsla ævinnar og sálarólyfjan Jesúíta-kenninganna
umverpt útliti hins blómlega sveins. Pater Híerónýmus — því
þetta var hann — tók eftir þessu og flýtti sér að segja: „Já, æruverði
vinur, þrjátíu og fimm ára stríð fyrir hina einu sáluhjálplegu
kirkju hefir sópað rósunum af þessum vöngum fyrir fullt
og allt. Ég hefi starfað og mikið þolað á þessum vonzkunnar tímum.
Ég hefi erjað í víngarðinum eins og þú, mikli maður, þótt
minni væri mínar gáfur, og engin önnur laun fyrir erfiði mitt
þegið en von um kórónu hinna heilögu píslarvotta í Paradís. Í
æsku okkar sýndir þú mér mikla vináttu; nú vil ég umbuna
hana, eins og mér er auðið. Ég vil leiða þig aftur til frelsisins
og lífsins“.
„Æ, minn æruverði faðir“, svaraði öldungurinn og stundi við,
„ég er þess ekki verður, að þú, hinn trúfasti sonur þeirrar heilögu
kirkju réttir mér, fráföllnum manninum, hönd þína. Þú veizt þá
ekki, að ég hefi afneitað trúnni, að ég hefi játað með munni og
hendi hina fyrirdæmdu kenning Lúthers, sem ég í hjarta mínu
smái, og að ég hefi jafnvel á sínum tíma ofsótt þína heilögu
reglu sjálfa með alls konar óheyrilegu guðlasti“.
„Skyldi mér vera nokkuð af þessu ókunnugt, minn heiðarlegi
vinur, skyldu ekki bækur og athafnir hins mikla Messenii hafa
náð Þýzkalandi fljúgandi á frægðarinnar vængjum? En það, sem
þú hefir gert, það hefir þú einungis gert af yfirbragði til þess
leynilega að efla velferð hinnar heilögu rómversku kirkju. Kennir
ekki ritningin oss að mæta vélum með vélum, á þessum óguðlegu
tímum: perinde ac serpentes estote, verið slægir sem höggormar
og einfaldir eins og dúfur; hin heilaga mærin mun yður
fyrirgefa og endurnæra með kvittun syndanna, þar þér fyrir
hennar sök unnið hafið. Já, þú, hinn háæruverði maður, þótt
þú sjö sinnum afneitað hefðir og sjö og sjötíu sinnum brotið móti
öllum helgum mönnum og öllum trúarinnar greinum, þá skyldi
þér það reiknað verða til verðskuldunar, en ekki áfellis, svo fremi
þú hafir það gert með þeim þögula fyrirvara og tilætlan að efla
hið góða málefni. Þótt þín tunga hafi logið og hönd þín mann
vegið, þá skal það heita gott og heilagt verk, þegar það miðaði til
að finna aftur og frelsa þá týndu sauði. Vertu hughraustur, mikli
maður, ég gef þér syndakvittun í kirkjunnar nafni“.
„Já, minn frómi faðir, þessum kenningum, sem þeir hinir
æruverðu feður Jesúítar í Bránsbergi innrættu mér í æsku minni,
þeim hefi ég dyggilega eftir breytt. En nú í elli minni þykir mér
þó sem samvizkan vilji þar ýmislegt í móti mæla“.
„Freistingar djöfulsins. Ekkert annað. Útrek þær“.
„Vera má, að svo sé, faðir sæll. Þó hefi ég nú til friðunar
samvizku minni samið bréflega játningu; kunngeri ég þar, að
fráfall mitt til Lúthers kenninga hafi yfirvarp verið og játa
aftur eins hreinskilnislega trú mína á hina rétttrúuðu rómversku
kirkju“.
„Geym þú þessa játning, sýn hana engum lifandi manni“,
sagði Jesúmunkurinn skjótt, „hennar tími kemur síðar“.
„Ég skil ekki ástæður þínar, góði faðir“.
„Heyr nú með eftirtekt og athygli það sem ég vil segja þér.
Hyggur þú, gamli maður, að ég hafi að nauðsynjalausu hætt
mér til ferðalags margra hundraða mílna veg norður í eyðilönd
þessi? Þar sem ég á daglega von á sulti, kulda, óargadýrum og
enn skæðari mönnum í þessu landi, sem mundu mig lifandi
brenna, ef þeir vissu hver ég er eða hvað ég hefst fyrir? Hyggur
þú ekki, að ég muni hafa ærið að starfa heima, eftir veikum
kröftum, ef ekki bæri það til, að fyrir mér vakir framkvæmd
hér, sem meiri þýðing hefir? Nú vel, ég vil segja þér í fám
orðum, hvað í efni er — — hér eru víst engin eyru nærri? Eru
nokkur leynigöng eða skot í veggjum hér?“
„Ver óhræddur. Enginn lifandi maður má heyra til okkar“.
„Vit þá“, mælti Jesúítinn með lægri röddu, „að vér höfum
enn á takteinum hina fornu ráðagerð að ná hinni vantrúuðu
Svíþjóð aftur og leiða hana í faðm hinnar rómversku kirkju.
Til eru eingöngu tvö veldi, sem nú mega veita oss viðnám, en
lof sé öllum heilögum, að þessi veldi verða með hverjum degi
óskaðvænni. Stúarta-ættin á Englandi liggur í voru veiðineti og
styður leynilega vorn hag af alefli, en Svíþjóð liggur enn þá í
svíma eftir hinn skæða ósigur við Nörðlingen og megnar ekki
án nýrra kraftaverka að halda lengur hinni háu og tvísýnu
stefnu fram á Þýzkalandi. Tíminn er kominn. Ráð vor eru til
taks; vér verðum að sæta færi við fjandmenn vora. Að fám
árum liðnum fellur England í hendur vorar eins og fullvaxið
aldini; Svíþjóð, þótt enn sé sigurdrukkin, mun neydd verða til
sömu uppgjafar. Meðalið til þess verður stjórnendaskipti“.
„Kristín, dóttir Gústafs konungs —?“
„Er níu ára gamalt barn og þar hjá kvenmaður. Oss skortir ekki
fylgismenn í Svíþjóð, þeirra, sem enn þá minnast hinnar útlægu
konungsættar. Hinn lingerði konungur, Sigmundur, er látinn,
sonur hans, Ladislás, réttir nú út hendurnar með bráðlyndi æskunnar
eftir kórónu feðra sinna. Hann skal fá hana“.
12. Freistarinn
„Ladislás í hásæti Svíaríkis! Ég efast um, að við lifum þann
dag“, mælti Messeníus.
„Heyr mig til enda máls míns“, svaraði Jesúmunkurinn, sem
var allur á lofti sökum ráðagerðanna, sem fylltu hans vélráða
höfuð. „Það ert þú sjálfur, mikli Messeníus, sem átt að gera
þetta undraverk“.
„Ég — einn vesæll fangi! Ómögulegt!“
„Hinum heilögu og snillingunum er ekkert ómögulegt. Svíinn
er maður konunghollur; dæmi konungs síns fylgir hann í illu
sem góðu. Einkum ber hann mikla lotning fyrir minni Gústafs
hins gamla. Nú, ef það verður sýnt og sannað, að sá Gústaf hafi
í banalegu sinni yfirlýst því, að kenning Lúthers væri villukenning
og neitað þeirri trú með eiði og fyrirdæmt hana, einnig, að
hann hafi þá beðið yngri son sinn, vin páfans, Jóhann, að hann
skyldi bæta það, sem faðirinn hefði brotið, ef hann yrði konungur — —“.
„Hvað dirfist þú að segja?“ mælti þá Messeníus fljótlega og
dró ekki dulur á undrun sína. „Sú bersýnilega lýgi stríðir á móti
fulltrúanlegum staðfestum orðum Gústafs konungs og öllum hans
viðskilnaði!“
„Hægur, minn góði vinur!“ mælti Jesúítinn stuttaralega. „Nú
má ennfremur sanna, að annar grundvallari lútherskunnar og
vinur, Karl níundi, hefir líka lýst því í sinni banalegu, að siðabótin
væri guðlast og óhamingja —“.
Messeníus leit framan í munkinn undrandi.
„Og þegar nú loksins má sanna, að Gústaf Adólf sjálfur hafi
áður en hann gaf upp andann í orustunni við Lützen, verið snortinn
af andans hræringu og dáið eins og villumaður, en þó með
miklu samvizkubiti og sálarstríði — —“.
Messeníus varð rauður í andliti.
„Þá eigum við“, hélt Jesúítinn áfram með óbifandi dirfsku,
„þá eigum við engan eftir af Vasaættinni nema hinn brjálaða
Jóhann þriðja og hinn sann-kaþólska Sigmund, sem ekki þarf
að ómaka oss. Þegar nú hin sænska þjóð sannfærist um, að
þessir mestu konungar hennar hafa annað hvort verið eða orðið
að lokum páfans vinir, mun hreistrið um síðir falla frá augum
hennar, og mun hún þá með iðrun og yfirbót játa synd sína og
hverfa síðan aftur í skaut hinnar einu sáluhjálplegu kirkju“.
„Og hvernig hyggst þú, æruverði faðir, að geta sannfært Svíana
um fráfall konunga þeirra, þvert ofan í bersýnilegar sannanir?“
„Ég hefi þegar sagt“, sagði Jesúítinn vingjarnlega, „að það
afreksverk geti enginn gert nema hinn spakvitri Jóhannes Messeníus.
Menn vita, að þú ert lærðasti maður Svíaríkis og þess mesti
sagnameistari. Menn vita, að þú hefir haft með höndum og hefir
enn ýmisleg skjöl og skilríki, sem enginn annar hefir. Neyt nú
þessa færis með kænsku og skarpleik; set skjöl saman, sem
aldrei hafa verið til, smíðaðu atburði, sem aldrei hafa skeð — —“.
„Hvað dirfist þú að segja?“ varð Messeníusi að orði, og brá
mjög við.
Jesúítinn misskildi geðshræringu hans. „Já“, sagði hann, „þetta
er hættuspil mikið, en fjarri því að ekki megi takast. Skyndilegur
flótti til Póllands kemur þér og úr allri hættu“.
„Og það er ég — — ég, sem þú skorar á að gera þetta?“
„Já“, svaraði Híerónýmus í sama tón. „Ég skil vel, að Gústaf
Adólf verður torveldast við að eiga, og fyrir því tek ég hann að
mér sjálfur. Þú hefir svo á þinni könnu einungis þá Gústaf af
Vasa og Karl níunda og hlýtur að gefa þeim þann svip og útlit,
sem dugi til hjálpar voru helga málefni og til nytsemdar kirkjunni“.
„Abi a me, male spiritus!“[* Vík frá mér, illur andi!] sagði Messeníus, óður og uppvægur,
og kom sú bræði hans Jesúítanum mjög á óvart, allt hvað
slægur sem hann var. „Erkifantur, lygari, níðingur! sem leggur
hendur á hið helgasta; hyggur þú, að ég, Jóhannes Messeníus, hafi
ár eftir ár leitað þeirrar frægðar að verða fyrsti sagnameistari Norðurlanda,
til þess allt í einu á svo svívirðilegan og dæmalausan
hátt að níðast á þeim sögunnar sannleika, sem ég hefi komið
fótum undir með svo miklum erfiðismunum? — Far þú burt,
burt á augabragði, burt in Gehennam! —“ og um leið þeytti
öldungurinn í hamslausri bræði í höfuð munkinum bókum, skjölum,
blekbyttu og sandbyttu. Híerónýmus hopaði forviða, en bleikari
í kinnum en vant var; teygði síðan úr sér, nam staðar og
reif upp hina víðu spænsku flauelstreyju sína á brjóstinu. Í sama
bili blikaði í myrkrinu róðukross í hendi hans settur tindrandi
gimsteinum. Síðan skrefaði Jesúítinn aftur nær Messeníusi og
hvessti nú sín undra-augu, sem engu líktust eins og höggormsins.
„Manstu enn þá, gamli maður“, sagði hann hægt og seint, en
ógnandi, og þagnaði milli hverra málsgreina, svo hinn skyldi
betur taka eftir, „manstu enn þær refsingar, sem kirkjan og
lög vorrar heilögu reglu leggja á syndara slíka sem þú ert? Fyrir
fráfall: dauðann — og þú hefir sjö sinnum frá fallið! — fyrir
guðlöstun: dauðann — og þú hefir sjö sinnum guðlastað! — fyrir
óhlýðni: dauðann — og þú hefir sjö sinnum þrjóskazt! — fyrir
synd móti heilögum anda: fyrirdæming — og hver hefir syndgað
sem þú! — fyrir villutrú: bálið — og hver hefir til þess unnið
sem þú! — fyrir hneyksli og háð mót helgum mönnum: hinn
eilífa eld — og hver hefir hneyksli gert sem þú!“
„Vægð, vægð, heilagi faðir!“ hrópaði Messeníus og engdist
saman eins og maðkur fyrir ógnamálum Jesúmunksins. En Híerónýmus
hélt áfram:
„Nikulás Pragensis, hinn nafntogaði maður, snerist til villukenninga
Kalvíns og dirfðist að storka stórmeistara vorrar reglu.
Hann leitaði í felur á hinum afskekktasta stað í Bæheimi, en
hefndin náði honum þó. Hundar sundurslitu hans líkama, en
helvítis árar hans sálu“.
„Náð og miskun!“ stundi fanginn yfirkominn.
„Nú vel“, hélt hinn áfram drembilega, „ég hefi gefið þér kost
á að kjósa annað hvort kórónu dýrðarinnar eða kvalir fordæmingarinnar;
ég gef þér sama kost enn, þótt þú ómaklegur sért.
Hyggur þú, vesæli frávillingur, að ég, höfuðsmaður Jesúmunka
Þýzkalands og Norðurlanda, ég, sem álít engan mér efri nema
hinn heilaga föður í Rómaborg hyggur þú, að ég hafi lagt mig
í ótal þúsund hættur til þess að finna þig í þínum arga klefa, til
þess að ég láti mig, hinn ósýnilega drottnara allra Norðurlanda,
leiða af þinni þvermóðsku og bleyðiskap. Ég spyr þig enn einu
sinni í nafni vorrar heilögu reglu: Viltu, Jóhannes Messeníus,
breyta samkvæmt eiði þeim, er þú sórst í æsku þinni, og nauðugur
viljugur hlýða mínu, yfirmanns þíns og dómara, boði og banni?“
[233.png]
„Já“, svaraði fanginn skjálfandi, „já, heilagi faðir, ég vil það“.
„Heyr þá refsing þá, er ég á þig legg. Þú segist alla ævi hafa
sótzt eftir einu og sama takmarki, því að verða kallaður mesti
sagnfræðingur Norðurlanda, og ætlar að þú nú hafir náð því
markmiði“.
„Já, heilagi faðir, það var mitt takmark og ég hefi náð því“.
„Þitt takmark er lýgi og svik!“ hrópaði Jesúítinn æfur í annað
sinn. „Þitt takmark er syndarinnar og satans, því þú vinnur fyrir
þinni eigin frægð, en ekki sakir dýrðar heilagrar kirkju, eins og
þú hefir svarið. Fyrir þá sök skipa ég þér, að þú sjálfur eyðileggir
hjáguð þíns lífs, þitt frægðarnafn hjá komandi kynslóðum
með því móti, að þú umsnúir sögunni og ritir hana, ekki eins
og hún er, heldur eins og hún ætti að vera. Ég vil, að þú varpir
til hliðar allri frægð og komandi tíð og þjónir markmiði tímans
í dag, þjónir sigri hinnar rómversku kirkju á Norðurlöndum. Ég
vil, að þú semjir sögu Gústafs fyrsta og Karls níunda á þann hátt,
að allt, sem þeir hafa unnið fyrir siðabótina, sannist að hafa
orðið þeim og ríki þeirra til tjóns og glötunar. Og enn vil ég, að
þú skulir rökstyðja þessa þína nýju sögu með svo áreiðanlegum
skjölum, að hún, að áliti almennings, storki öllum rengingum.
Slík heimildarskjöl finnast ekki, það veit ég vel, en þau skaltu
sjálfur tilbúa — skjöl, sem ef til vill, verða full-ljós að mannsaldri
liðnum, en gera fulla nytsemi eins og á þarf að halda nú“.
„Og ég á þá“, svaraði Messeníus með málrómi, sem skalf af
alls konar sárindum, ótta, reiði og undirokun, „ég á þá að standa
í augum komandi kynslóða eins og versti falsari, eins og sá, sem
blygðunarlaust hefir svívirt sögunnar heilaga sannleika“.
„Já, hvað er að því?“ svaraði Jesúítinn glottandi. „Hvað er að
því þótt þú, vesælt ker og verkfæri, ofurseljir nafn þitt, ef kirkjan
sjálf vinnur frægan sigur? Hvað stoðar þig mannanna lof,
þegar sál þín brennur í logum helvítis? og hvað getur mannanna
óvirðing gert þér, þegar þú fyrir þessa fórn hefir unnið píslarvottanna
kórónu í himnaríki?“
„En sannleikans málefni — sögunnar strangi dómur — —“.
„Svei! hvað er sögunnar málefni? Er það hinn auðsveipni þræll,
sem eltir hleypidóma mannanna, sá páfagaukur, sem bullar eftir
þeim alla þeirra heimsku og vitleysu? Er það ekki miklu fremur
virkileikinn, eins og hann á að vera hreinsaður eftir villur og
vélar, frelsaður frá synd og fyrirmunun — guðs ríki á jörðunni,
eins áreiðanlegt sem almáttugt, eins gott, heilagt og áreiðanlegt“.
„En erum vér þá þeir, sem eigum að lesa guði fyrir hvað gott
sé og áreiðanlegt? Hefir hann ekki sjálfur í virkileikanum sagt
oss, hvað virkileikinn er?“
„Ístöðulausi undanvillingur! Dirfist þú enn þá að þrátta við
þinn yfirboðara um rangt og rétt? Kjós þinn kost og hlýð síðan!
Kjós um stundlegan og eilífan dauða annars vegar og hins vegar
himnaríkis sælu og dýrlinganna samneyti. Enn þá eitt orð og
undir því er líf þitt eða glötun; viltu hlýða skipan minni?“
„Já, ég hlýði!“ svaraði fanginn skjálfandi og yfirgenginn.
Og Jesúítinn gekk burtu þegjandi og kalt og laut höfði eins
og harðstjórinn, sem lætur þræl sinn vita, að hann væri til náðar
tekinn.
13. Abi, male spiritus
Það var liðinn vikutími frá þessu leynilega samtali. Jesúmunkurinn
hafði ekki sleppt augunum af ríkisfanganum nokkra stund
síðan. Mátti daglega sjá hvar hann læddist inn til hans og dvaldi
þar tímunum saman; lést hann vera að hyggja að heilsu fangans.
Hann var of slægvitur maður til að treysta ístöðuleysi hins
lærða manns. En enginn maður í kastalanum, og ekki landshöfðinginn
sjálfur vissi hvað þeir höfðust að, og grunaði þá enginn
maður. Kajanuborg lá svo afskekkt frá heiminum, að Vernstað
hafði engan andvara á sér. Þótti honum gaman að sitja á tali
við hinn útlenda lækni, sem honum fannst fullur fróðleiks og
lífsreynslu.
En þó var þar einn, sem sí og æ elti hinn ókunna mann með
árvöku auga. Það var Lúsía kona Messeníusar. Hún var kaþólsk
að uppeldi og af sannfæringu og hafði lengi stutt bónda sinn í
hans páfatrúarbruggi. Þetta vissi Jesúítinn gerla og fyrir því ætlaði
hann að óhætt væri að gera ráð fyrir hennar fulltingi, enda
þótt hann væri of varkár til að eiga ráð sín undir lausri konutungu.
En oftlega rekur slægvizkan sig á hinar huldu hvatir
hjartnanna, einkum þó kvennanna, sem stefna einatt í allt aðra
átt en hin kalda hyggja karlmannsins. Jesúítinn hafði misskilið
Lúsíu, þrátt fyrir allt sitt lymskuvit. Hann sá ekki við því, að
þar sem ofsinn í höfði hennar sagði: skjóttu! þar kallaði elskan
í hjarta hennar: kyrrt! — og elskan hefir ávallt betur í hjarta
konunnar.
Lúsía var allra kvenna skarpvitrust; hafði hún séð hvað í
Jesúítanum bjó, áður en hann grunaði það. Hún sá það stríð,
sem svall í manni hennar eins og eyðandi eldur, svo líf hans
var í veði, stríðið milli trúarofsans, sem skipaði honum að ofurselja
orðstír og eftirmæli fyrir sigur kirkjunnar og metorðagirni
hans hins vegar, sem sí og æ hvíslaði í eyra hans; viltu þá niðurrífa
allt þitt ævistarf? viltu í blindni þinni svívirða musteri mannorðs
og sögu? viltu framselja nafn þitt forsmáninni, nafnið, sem
í náttmyrkri fangelsisins hefir verið aleiga þín og andans þróttur?
Allt þetta sá Lúsía með skarpskyggni sinni; hún sá, að sá
maður, sem hún unni og hafði helgað ævi fulla sjálfsafneitunar
og þolinmæði, mundi ekki standast þetta voða-stríð, og hún einsetti
sér að frelsa hann með djörfu og skjótu úrræði. Á áliðnu
kvöldi logaði lampinn á ritborði Messeníusar, höfðu þeir Híerónýmus
setið þar og starfað saman frá því um morguninn. Lúsía
hafði fengið leyfi til að leggja sig til hvílu í sæng, er stóð nærri
dyrunum í hinni löngu stofu þeirra, lá hún þar nú og lét sem
hún svæfi. Báðir mennirnir við borðið höfðu nú lokið verki sínu
og sátu og saman ræddu í hálfum hljóðum á latínu, en þá tungu
skildi Lúsía til fullnustu.
„Ég er ánægður með þig, vinur“, sagði Jesúítinn í góðu skapi.
„Þessi heimildarskjöl bera sannleikans svip og einkunnir og munu
nægja til að sanna afturhvarf konunganna Gústafs og Karls, og
þessi formáli, með þinni undirskrift, mun enn þá betur styrkja
trúleikann. Ég legg nú af stað yfir Svíaríki suður til Þýzkalands
og læt prenta skjölin, annað hvort í Stokkhólmi af vorum fulltingismönnum
þar, ellegar, sé það ekki unnt, í Lýbeku eða
Leyden“.
Messeníus varð ósjálfrátt að útrétta hönd sína eins og vildi
hann hrifsa dýran grip úr ræningjahendi.
„Heilagi faðir!“ hrópaði hann í ráðaleysi, „er enginn frestur
mögulegur? — nafnið mitt — mannorðið mitt — miskunnið mér,
heilagi faðir, og gefið mér nafnið mitt aftur!“
Jesúítinn glotti.
„Gef ég þér ekki nafn“, sagði hann, „miklu stærra og dýrðlegra
en það, sem þú missir, nafn í árbókum vorrar heilögu
reglu, nafn meðal kirkjunnar píslarvotta og velgerara, nafn, sem
kannske á sínum tíma verður nefnt meðal kirkjunnar heilögu
dýrlinga?“
„En með þessu öllu saman nafn fráskilið sóma, nafn lygara
og falsara!“ svaraði Messeníus með örvilnun fangans, sem bent
er á himnaríki á bak við höggstokkinn.
„Veiki og hégómlegi maður, sem veizt ekki, að há og stór
markmið nást ekki gegnum lof og last mannanna!“ mælti Jesúítinn
með fyrirlitningu. „Þú værir búinn til að taka orð þín
aftur og afsala þér rétti til þakklætis hjá kristninni. En, sem
betur fer, er þér það nú ómögulegt. Þessi skjöl eru nú í minni
hendi, og sú höndin mun kunna að halda þeim föstum og neyta
þeirra móti vilja þínum til sigurs trúarinnar og til lausnar þinni
sálu“.
Híerónýmus var ekki búinn að sleppa síðasta orðinu, þegar óvænt
hönd að baki hans kom fram og greip skjölin, sem hann hóf
upp sigri hrósandi, úr hendi hans, bögglaði þeim saman og reif
þau sundur í hundrað snepla og stráði þeim út um stofugólfið.
Þessi hreyfing kom svo sviplega, Jesúítinn var svo grunlaus, að
hann gleymdi í þessari svipan sinni venjulegu festu, undrun hans
varð meiri en snarræðið, svo að hin fífldjarfa ofríkishönd fékk
lokið við sitt hervirki. En óðara en sneplarnír á gólfinu höfðu
sannfært hann um tjón hans, gnísti hann tönnum af æði, brá
upp höndunum og stökk eins og ólmasta tígrisdýr á hinn yfirgefna
spellvirkja, sem dirfzt hafði að afmá hans stórræði á sömu
stundu sem sigurinn hló við honum.
Lúsía — því hennar var þessi skaðræðis hönd — tók á móti
munkinum með því hugrekkis tápi, sem er aðall konunnar, þegar
hún berst fyrir það, sem henni er heilagt. Í æsku sinni var hún
svo hraust, að hún gat boðið karlmönnum byrginn, enda hafði
hún oftar en einu sinni þurft að halda á þessum miður kvenlegu
kröftum sínum í skærum hennar við hina klúru kastaladáta.
Hún spennti járngreipum sínum um armleggi munksins
og hélt honum föstum eins og með smiðjutöngum.
„Nú, nú!“ sagði hún háðslega, „farið spönn frá mér, góður
herra; hvað ætlizt þér fyrir?“
„Band-vitlausa — — þú veizt ekki hvað þú hefir gert! Þú
arga þjófkind, þú hefir stolið kóngsríki frá kirkju þinni og Paradís
frá manni þínum!“ öskraði Jesúítinn froðufellandi.
„Og frá þér hefi ég stolið bráð þinni, frá úlfinum lambinu, er
ekki svo?“ svaraði Lúsía og sýndi rómur hennar, að eldurinn
var farinn að lifna í hennar bráða skapi. „Munkur“, hrópaði
hún með vaxandi bræði og skók og hristi hinn volduga óvin,
sem með engu móti mátti losa sig, „ég þekki þjóf, sem kominn
er í sauðarklæðum kirkjunnar til að stela mannorðinu af miklum
manni, sögunni frá heilli þjóð, og frá fátækri og munaðarlausri
konu hennar einkayndi, bónda hennar sálarfriði, æru og
lífi. Seg mér, frómi og heilagi munkur, hverja refsing á slíkur
þjófur skilið? Væri Ammár-foss of djúpur fyrir líkama hans og
sá eilífi eldur of heitur fyrir sálu hans?“
Jesúítinn leit óvart til gluggans því úti fyrir honum dundi fall
hins volduga foss æði ömurlega um miðja vetrarnóttina.
„Svei!“ sagði Lúsía og glotti beisklega, „þú ert smeikur við
mig, þótt þú ráðir yfir ríkjum og samvizkum. Þú ert hræddur
um, að undir þessum konuklæðnaði leynist karlmannsarmleggur,
sem gæti hent þér út í fossiðuna. Vertu rólegur, ég er eintóm
kona og berst með kvenna vopnum. Líttu á — út um gluggann
kasta ég þér ekki, ég læt mér nægja að byrgja þig bak við loku
og lás. Skjálfa máttu, munkur, því ég veit hver þú ert. Hún
Lúsía Gróthúsen hefir fylgt þér fet fyrir fet. Þú ert svikinn,
og það er hún, sem hefir svikið þig“.
„Svikinn!“ át Jesúítinn eftir; hann skildi glöggt hvað það orð
þýddi. Á þessum heiftartímum, þegar tvenn trúarbrögð börðust
um ríki og samvizkur, þegar svikræði Jesúítanna höfðu kynt
sem mestan hatursloga meðal Svíanna, hefði hverjum félaga
þeirrar reglu, sem náðzt hefði dularbúinn innan takmarka ríkisins,
verið bráður bani búinn. En háskinn, sem yfir vofði, setti
óðara fulla stælingu í skap þessa skaðvæna manns.
„Svikinn af þér, dóttir góð!“ sagði hann aftur og sleppti niður
höndunum og yfir andlit hans flaug efasemdasvipur og mild
gremja. „Nei, það er ómögulegt“.
Lúsía starði á hann með hatri og grunsemi.
„Ég þín dóttir!“ æpti hún og hratt munkinum með viðbjóði
frá sér. „Lygin er dóttir þín og lymskan móðir þín, þær eru
þér nákomnastar“.
„Lúsía Gróthúsen“, sagði Jesúítinn og var þá hinn blíðasti,
„þegar þú varst barn og fylgdir föður þínum, Arnoldi Gróthúsen,
sem rekinn var úr landi með Sigmundi konungi, þá bar þig einn
dag á flótta þínum og vonarvöl, að litlu koti. Þér var synjað
gistingar og hótað að framselja þig. Þá sá þitt barnsauga úti í
skoti í kofanum dálitla Maríumynd, leifar fyrri daga, vanhelgaða
eins og leiksmíði fyrir smápilta. Þú tókst myndina, kysstir
hana, réttir hana að hinu harðbrjóstaða heimilisfólki, og sagðir:
Lítið á, hérna er hún María mey, hún hjálpar okkur!“
„Nú, nú, og hvað svo?“ sagði Lúsía með mildari málrómi en
hún vildi kannast við.
„Þitt barnslega trúartraust — nei, hvað ég vildi segja, hin
heilaga jómfrú hrærði kotungana. Þeir gáfu þér húsaskjól, þeir
komu þér undan. Og meira en það, þeir gáfu þér myndina, sem
þú síðan átt og hefir geymt sem verndargoð, og þarna hangir
hún enn þá á veggnum. Það, sem þú sagðir þá, það segi ég nú:
Lítið á, hér er hún María mey, hún hjálpar mér“.
Lúsía reyndi að hrinda viðkvæmninni frá sér, en gat ekki.
Hún beit á vörina og svaraði engu.
„Þú hefir rétt“, hélt munkurinn áfram og vissi hvað hann fór,
„ég er kaþólskur eins og þú, ofsóttur eins og þú; sæi menn í
gegn um minn dularbúning, yrði það minn bani. Líf mitt er í
þinni hendi; seg til mín, ég flý ekki; ég dey fyrir trú mína og
fyrirgef þér, sem veldur dauða mínum“.
„Flý héðan“, sagði Lúsía hálfsigruð. „Ég gef þér frest til morguns;
en þó með því skilyrði, að þú sjáir mann minn aldrei
framar“.
„Nú vel“, svaraði Jesúítinn raunamæddur, „ég flý, en ég eftirskil
hér minn fagra draum um betri framtíð. Æ, ég hafði hugsað
mér hinn mikla Messeníus og hans göfugu konu sem endurreisendur
hinnar kaþólsku kirkju á Norðurlöndum; ég hafði hugsað
mér þann tíma, þegar milljónir manna mundu segja: Vér gengum
í myrkri og blindni, en sögunnar sól er upp runnin fyrir
oss, hinn mikli Messeníus hefir birt oss fals og blekking siðabótarinnar“.
„Já, ef það mætti verða án þess að misbjóða sannleikanum“,
hrópaði Lúsía, því hennar fjöruga sál komst á loft af að hugsa
til frægðarinnar, sem Jesúítinn dró upp á himni framtíðarinnar.
„Sannleikinn“, sagði hann blíðlega sannfærandi. „Ó, mín kæra,
sannleikinn er vor trú, lygin er villumannanna trú. Yrði nú hægt
að sannfæra þig um, að ég einungis krefst sannleikans af manni
þínum, mundir þú þá vilja hætta að rífa niður kirkjuna, en í
þess stað byggja hana heldur upp?“
„Já, það mundi ég vilja“, svaraði hún með lífi og sál.
„Heyrðu þá“, hélt hinn áfram, en í því tók Messeníus fram
í; hafði hann setið á meðan eins og milli heims og helju, en nú
var sem hann vaknaði við illan draum.
„Abi, male spiritus!“ æpti hann með ofsa-bræði, eins og hann
óttaðist, að höggormstunga Jesúítans mundi enn þá einu sinni
sigri hrósa. „Abi, abi, þú ert enginn mennskur maður, þú ert
faðir lýginnar, þú ert höggormurinn í Paradís! Abi, abi in æternam
ignem, habitaculum tuum, in regnum mendacii, imperium
tuum![* Brott, illur ár, í hinn eilífa eld, bústað þinn, í lýginnar ríki, þitt
keisaradæmi.] Með þessu ávarpi hratt hann munkinum á undan sér
til dyranna, en Lúsía stóð kyrr og horfði á.
„Insanit miser![** Vesala fífl.] sagði Jesúítinn í því hann hvarf.
„Hafðu sæll gert, heillin“, sagði Lúsía létt fyrir hjarta, eins
og væri hún vakin af illum töfra-draumi.
„Ég þakka þér sjálfri“, sagði Messeníus, og hafði ekki lengi
talað svo vingjarnlega við konu sína.
14. Dómur dýrlinganna
Snemma næsta dag gekk faðir Híerónýmus inn í herbergi það,
sem jungfrú Regína af Emmeritz og hin gamla þerna hennar
bjuggu í. Hin fríða mær var náföl af næturvökum og sat nú
við sængurstokk Dóróþeu. Þegar hún sá Híerónýmus stóð hún
þegar upp.
„Frelsið þér Dóróþeu, faðir!“ sagði hún hátt og með mikilli
ákefð. „Ég hefi alls staðar leitað yðar og þér hafið yfirgefið
mig“.
„Þey“, svaraði hann hvíslandi, „talið lágt, því veggirnir hafa
eyru. Nú — svo er það — er Dóróþea sjúk? Auminginn gamli,
það er slæmt, ég get ekki hjálpað henni. Menn renna grun í
dulklæði okkar, tortryggja okkur. Við verðum að flýja nú þegar
í dag, á þessum sama tíma“.
„Ekki fyrr en þér hafið gert Dóróþeu heila, ég bið yður, góði
faðir, þér eruð lærður og þekkið öll lyf og grös, gefið henni
lyfjadrykk í skyndi, sem verkar, og svo fylgjum við yður hvert
sem þér viljið“.
„Ómögulegt! Við megum ekki missa augnablik; kom!“
„Ekki án hennar Dóróþeu, faðir! Heilaga guðs móðir! ætti ég
að skilja hana eftir, hana fóstru mína, sem mér hefir verið í
móður stað!“
Jesúítinn gekk að sænginni, greip hönd hinnar sjúku, tók
enni hennar og benti á hana með þeim svip, sem Regína skildi
allt of vel.
„Hún er dáin!“ hrópaði hún með skelfingu.
„Já, áreiðanlega“, mælti Jesúítinn, og eitthvert kynlegt og
ískyggilegt glott barðist á vörum hans við uppgerðar sorgarsvip.
„Þú sérð, barnið gott“, sagði hann, „að hinir heilögu hafa viljað
hlífa okkar tryggðaríku vinkonu við vegarins þreytu og tekið hana
í þess stað upp til hinnar himnesku dýrðar. Komum, þar er ekkert
unnt við að gera“.
En augu Regínu höfðu tekið eftir glotti munksins, þrátt fyrir
tár sín, og það sló hana með ósegjandi skelfingu. Hún sat höggdofa
sem byggi hún yfir skuggalegu leyndarmáli.
„Kom“, sagði hann ákafari, „ég vil fela konu Messeníusar, sem
er kaþólsk, það starf að sjá um útför vinkonu okkar“.
Regína starði á munkinn harðlegum augum og hryllingur fór
um hana alla.
„Seint í gærkvöldi var Dóróþea heilbrigð, en óðara en hún hafði
drukkið drykk þann, sem þér hafið blandað henni á hverju kvöldi
af styrkjandi jurtum, kenndi hún meins — tíu klukkustundum
eftir liggur hún lík“.
„Þreytan á ferðalaginu — kalda — flog, ekki þarf annað,
kom!“ svaraði Jesúítinn órór.
En Regína kom ekki.
„Munkur“, sagði hún með röddu, sem titraði af ótta og viðbjóði,
„þér hafið gefið henni eitur!“
„Barn mitt, dóttir mín bezta, hvað dettur þér í hug? Sorgin
hefir ruglað vit þitt, kom, ég skal fyrirgefa þér“.
„Hún var yður til þyngsla — ég horfði á óþolinmæði yðar,
þegar við vorum á leið hingað. Og nú ætlið þér að láta mig vera
eingöngu á yðar valdi án allrar verndar. Heilög María hjálpi
mér! Ég kem ekki!“
Hið breytilega andlit munksins setti nú óðara upp strangleikasvipinn,
sem hann hafði sigrað Messeníus með.
„Barn“, sagði hann, „baka þér ekki reiði hinna heilögu með
því að hlusta á hvað óvinurinn að þér hvíslar, sem er djöfullinn.
Gættu að hvar þú ert, vesalingur, og hver þú ert. Ef þú hikar eitt
einasta augnablik lengur, skil ég þig eftir eins og bráð fyrir
nauðir, fjötur og dauða, eins og leiksopp í höndum trúarvillinganna,
eins og villuráfandi lamb, sem hin heilaga jungfrú hefir
yfirgefið. Veldu nú: hér er glötun og eyðileggingin — hinum
megin á fósturjörð þinni, frelsið, lánið, trúarinnar huggun, helgra
manna friður. Veldu, en veldu snarlega, hesturinn er spenntur
fyrir sleðann, það morgnar óðum og dagsbirtan má ekki sjá okkur
framar í þessu villubæli“.
„Sver þú — vinn mér eið að því, að þú sért sýkn í dauða
Dóróþeu“, sagði Regína.
„Ég sver þess eið“, æpti Jesúítinn, „við þennan kross og við
bein Loyólu. Rifni jörðin undir fótum mínum og gleypi undirdjúpin
mig lifandi, hafi ég nokkru sinni rétt þessum kvenmanni
annan drykk en heilsu og heilnæmis!“
„Vel og gott“, svaraði Regína. „Hinir heilögu hafa heyrt yðar
eið og ritað hann í dómsins bók. Far vel, Dóróþea, vinkona mín
og móðir. Förum nú“.
Þau skunduðu út; það var enn þá myrkur úti. Bleik dagsræma
stóð yfir furuskóginum á bökkum Koivúkoski-fossins. Sleðinn beið
búinn; varðmaður í portinu stóð syfjaður og sleppti Jesúítanum
út því hann hafði jafnan séð hann reika eins og vin við hlið
höfuðsmannsins.
Jesúítinn hugðist nú sloppinn úr allri hættu, en þá mætti
þeim sleði, sem kom af meginlandinu, og rákust sleðarnir á
á miðri hinni mjóu fljótsbrú. Sleði munksins steyptist og einungis
veik og hálffúin rimagrind á brúarröndinni hélt við, að
ekki hrapaði allt ofan í fljótið. Regína rak upp hljóð. Við hljóð
það stökk maður upp úr hinum sleðanum og hljóp til þeirra
Regínu.
„Regína!“ hrópaði rödd, sem titraði af undrun.
„Þér farið skakkt, vinur“, flýtti munkurinn sér að segja í
breyttum málróm. „Gefið rúm doktor Albertus Simónis, herlækni
konungsins!“
„Svei, ert þú það, argi Jesúíti!“ æpti hinn ókunni. „Varðmenn!
komið! takið, grípið hinn versta fant, sem gengur um jörðina“,
og um leið og hann talaði þreif hann í loðfeld munksins. Fyrst
reyndi Hierónýmus í snatri að losa sleðann og láta hestinn koma
sér undan. En þegar það tókst ekki, sleppti hann feldinum og
sleit sig lausan frá óvini sínum, fleygði sér yfir rimarnar og
stökk niður á ísinn, sem í frostgaddinum hafði lagt elfuna milli
kastalahólmans og meginlandsins. Rétt að því búnu var hann
horfinn út í hálfrökkrið. Varðmaðurinn hafði heyrt kallið, kom
hlaupandi og skaut á eftir flóttamanninum, en hæfði hann ekki.
Nokkrir dátar bjuggust til að elta hann.
„Farið ekki út á ísinn, piltar“, sagði skeggjaður yfirliðsmaður;
„það kom þíðviðri í nótt og straumurinn hefir skemmt ísinn að
neðan; elfan ryður sig í dag, hugsa ég“.
„En þarna stökk strokumaðurinn niður á hann“, kölluðu aðrir.
„Skrattinn hirðir hann“, svaraði yfirdátinn rólega. „Ég ímynda
mér, að nú sé hann kominn í fossinn Ammá“.
„Hvað ertu að segja?“ spurði maðurinn við sleðann felmtraður.
„Ég segi, að kerlingin[* Amma (á, finnsku) þýðir kerling.] hafi fengið árbita í dag“, svaraði dátinn
með sömu rósemi. „Heyrðu, veiztu það? Hún geyr eins og
grimmur hundur; nú er hún ánægð“.
Allir hlustuðu forviða á dunur vatnanna. Þótti þeim sem hinn
tröllslegi foss fengi nýjan berserksgang þá í birtingunni. Yfirliðsmaðurinn
gat rétt til: niðurinn lét sem spangól í soltnum hundi,
sem fengið hefir bráð eða bita.
15. Bertel og Regína
Við hurfum frá farandriddaranum okkar af La Mancha, þar
sem hann lá lúinn eftir ævintýr sín og armæðu og svaf á kotbænum
Ilihermu. Nýlega hittum við hann á brúnni við Kajanuborg,
þar sem honum förlaði takið á hinum illa og öllum leiða
Jesúíta, sem hann þegar hafði þekkt gegnum rúðuna í skógarkotinu.
Hvernig Bertel hafði gengið ferðalagið alla þessa tíu eða
tólf daga, frá því hann kom heim, er auðvelt að ímynda sér.
Hann hafði villzt við eltingaleik sinn eftir strokufólkinu og
hringsólað síðan um allar götur í Austurbotni, komizt alla leið
til Úleáborgar og loks, er hvert spor var hætt og horfið, hafði
honum komið það áræði í hug, að leita þeirra austur í Kajenuóbyggðum.
En hvers vegna hefir hinn ungi riddari lagt slíkt
kapp á að elta þau Regínu? Það munum við nú bráðum sjá.
Nokkrum stundum eftir atburðinn við brúna, hittum við Bertel
í nýju herbergi, sem landshöfðinginn hafði fengið Regínu, og
skyldi frændkona sjálfs hans veita henni vernd og þjónustu. Nú
voru meira en þrjú ár liðin síðan þau Bertel höfðu fundizt; var
það í Frankafurðu við hlið hins mikla konungs; höfðu tímar
stórum breytzt síðan. Þá var Bertel ungur viðvaningur, tvítugur,
en Regína sextán ára mær. Hafði síðan margt á beggja þeirra
daga drifið; hafði brunahiti æskublóðsins kólnað töluvert hjá
báðum við þrautir og þunga harma. Fjarlægðin milli furstadótturinnar
og hins lítt kunna lautenants hafði síðan minnkað til
góðra muna sakir þess frægðarorðs og nýja skjaldarmerkis, sem
Bertel hafði getið sér, enda gat hún jafnvel, eins og nú stóð
hennar hagur, talið sér sæmd í að sitja á tali við tiginn riddara,
þar sem hún var fangi. En mundi fjarlægðin milli skoðana þeirra,
skaplyndis og innra manns hafa minnkað við allar þrautirnar, sem
venjulega stálherða skoðanir manna í stað þess að veikja þær.
Bertel nálægðist hina ungu meyju með allri þeirri hæversku,
sem kurteisi samtíðarinnar hafði enn þá geymt sér sem arf eftir
riddarasiði hinnar næstliðnu aldar.
„Jungfrú“, mælti hann og skalf rómur hans lítið eitt, „eftir
það að von mín um að hitta yður í Krosshólmi hafði brugðizt,
hefi ég veitt yður eftirför yfir markir og óbyggðir, elt yður eins
og óbótamann. Má vera, að yður gruni hver orsök mér hafi til
þess gengið“.
Hin síðu, hrafnsvörtu augnahár Regínu smáhófust upp og horfði
hún á Bertel spyrjandi augum. „Riddari“, svaraði hún, „hvað
sem yður hefir til þess gengið, þá er ég viss um, að ástæður yðar
hafa verið góðar og göfugum manni samboðar. Þér hafið ekki
viljað færa vesæla stúlku aftur í fangelsi hennar; þér hafið einungis
ætlað að hrífa hana frá völdum manns, sem hún, eins og
svikinn aumingi, hefir skoðað frá barnæsku eins og heilagan
dánumann, en hvers inngrónu illsku hún hefir nú loks fengið
að sjá og fyrirlíta“.
„Þér farið skakkt“, svaraði Bertel með fjöri og blíðu. „Mig
hryllti við að vísu, þegar ég sá, að þessi maður fylgdi yður, því
hans sönnu mynd hafði ég séð fyrri en þér; enda kvatti ég þá því
heldur sporið til að geta náð yður úr hans höndum. En áður en
mig grunaði um nokkurn háska frá þeirri hlið, flýtti ég mér
til að finna yður og færa yður fagnaðar-fréttir um réttlætisathöfn
eina; koma þær seint, en þó ekki of seint, að ég vona“.
„Réttlætisathöfn, segið þér?“ mælti Regína, og varð henni svo
hverft við, að hún roðnaði.
„Já, jungfrú“, mælti Bertel og horfði hugfanginn á yndis-fríðleik
hinnar hávöxnu meyjar, „loksins hefir mér auðnazt, eftir
árangurslausa viðleitni árum saman, að koma til leiðar þeirri
réttlætis viðurkenning fyrir óverðskuldaðar raunir. Þér eruð
frjáls; þér hafið fullan rétt til að hverfa heim aftur til yðar
ættjarðar undir varðveizlu sænskra vopna; og sjáið hér“, -
Bertel beygði kné og rétti að Regínu skjal með innsigli ríkisráðsins
— „hér er skjal, sem tryggir yður frelsi yðar“.
Regína hafði niðurbælt sína fyrstu geðshræringu og tók við
hinu dýra skjali með nærfellt drambsamlegri rósemi. „Herra
riddari“, mælti hún fálega, „ég veit, að þér krefjist ekki þakklætis
af mér, þótt þér breytið líkara göfugmenni en aðrir landsmenn
yðar“.
Bertel stóð upp skjótt og þótti honum nóg um slíka stórmennsku,
sem hann þó mátti hafa búizt við. „Það, sem ég hefi gert“, sagði
hann með kaldari rómi, „það hefi ég gert til að bæta ójafnað,
er kasta hefði mátt skugga á minning mikils konungs. Sérhver
landa minna mundi hafa gert hið sama, hefðu eigi vandræði
ófriðarins látið þá gleyma þeim bótum, sem yður bar að gjalda.
En fyrstur allra hefði hinn hugstóri Gústaf konungur Adólf flýtt
sér að bæta bráðlæti lítillar stundar, hefði forsjónin ekki klippt
svo skjótlega hans örlagaþráð. En“, tók Bertel fram í hjá sjálfum
sér, „ég gleymi, að þann konung, sem ég elska og tigna, hann
hatið þér, góða jungfrú“.
Við þessi orð hans skaut aftur djúpum roða upp í kinnar
Regínu. Hafði Bertel óafvitandi snert viðkvæmasta strenginn í
þessu brennandi kvenhjarta. Ný uppgötvun, ný undarleg líking
í vexti, í máli, í látbragði, í hugsunarhætti, líking, sem hún hafði
aldrei tekið eftir, en sem skapast hafði á þessum þremur árum
hjá Bertel, gerði ósegjanleg áhrif á þessa suðrænu meyjarsál.
Henni fannst sem sæi hún hann þar sjálfan, hinn lang-mesta
allra mennskra manna, sól og sælu hennar draumalífs, hennar unað
og ofraun, hann, sem hún unni mest og óttaðist mest, sigurvegara
hjarta hennar og trúar, — og var það ekki eins og hann talaði
sjálfur og segði: Regína, þú hatar mig. Þessi hræring kom
svo skjótt, svo skarpt, svo ómótstæðilega, að Regína allt í einu
bliknaði, riðaði og neyddist til að styðja sig við hönd Bertels,
sem hann rétti fram. „Heilaga María“, hvíslaði hún eins og í
óráði, „ég skyldi hata yður, ég, sem elsk...“.
Bertel greip við þessu hálfa, óskiljanlega og þó svo þýðingarríka
orði, með þeirri undrun, sem eins kom skyndilega yfir hann
eins og hana. Frá sér numinn af furðu, ótta og von, stóð hann
þar þegjandi, en var ofmikið göfugmenni til þess að nota sér
hennar óvöru játningu. Hann fylgdi þegjandi og hæversklega
jungfrúnni til fylgdarmeyjar hennar; náði hún sér brátt aftur
við hjúkrun hennar eftir aðsvif þetta, sem svo óvart hafði heltekið
hana með afli fornrar og innibyrgðrar ástríðu; var henni sem
loksins byðist líkn og svölun. Bertel hafði útvegað sér umboð
til að flytja Regínu til Stokkhólms; skyldi hún svo síðan, þegar
ísa leysti, þaðan halda suður í sitt land. Varð hann nú að bíða
kyrr í Kajanuborg þangað til jungfrú hans yrði ferðbúin; liðu
svo tímar, að ferðin dróst, helzt fyrir þá sök, að ekki var við
höndina hæfileg fylgdarkona handa svo stórborinni stúlku. Meðan
þessi tími leið fram eftir vetrinum, spunnust nýir samhugir,
sem engan mátti þó gruna þeirra, er sáu hið stórláta fas Regínu
gagnvart lausnarmanni hennar. En sá kuldinn var ísskán ein yfir
eldheitum gíg; með hverjum degi, sem leið yfir, bráðnaði hún,
með hverjum degi varð stærilæti Regínu regingslegra á sama
tíma og það reikaði á grunni sínum, og loks kom að því, að ekki
stóð eftir nema einn þilveggur byggingarinnar, en að vísu sterkasti
veggurinn, hið bitra trúarstríð. Heimskulegi múrveggur! Loksins
hrundi hann sömu leið fyrir eldi hinnar suðrænu ástríðu, og
áður en þrjár vikur voru liðnar, hafði hin nítján ára gamla
stúlka og tuttugu og þriggja ára gamli yngismaður gleymt öllum
trúar og tignar ágreiningi og unnið hvort öðru trúnaðareið fyrir
alla ævidaga. Mundi Bertel hafa vitað, að hann átti að þakka
minning Gústafs konungs Adólfs fyrir sína gullfögru, stórmannlegu
svarteygu unnustu?
Kynleg forlög innsigluðu þessi einkamál á óvæntan hátt og
undarlegan. Bertel hafði lengi og árangurslaust reynt að komast
eftir afdrifum Jesúítans, eins og leynilega hræddur um hlutskipti
hamingju sinnar. Allt frá þeim morgni, þegar munkurinn
hljóp yfir rimarnar á brúnni, hafði enginn heyrt hið minnsta
hans getið, þangað til bóndi nokkur, þrem vikum seinna, kom
og bar þau tíðindi, að menn hefðu fundið í vök einni skammt
fyrir neðan fossinn Ammá lík af manni, eyrnalausum, með útlendum
klæðaburði; hafði bóndamaðurinn fötin með sér, og kenndust
menn við, að það voru klæði Híerónýmusar. Þar með færði
þessi ráðvendnismaður lítinn og óásjálegan eirhring; hafði hann
hangið á taug á brjósti hins látna innan klæða. Bertel tók við
hringnum með óvæntri gleði. „Loks á ég þig“, sagði hann, „þennan
hring hefi ég lengi þráð — og um leið vissa fregn um dauða
hins óttalega manns“.
„Dómur hinna heilögu yfir meinsærismanninum!“ hrópaði
Regína forviða.
„Dómur hinna heilögu staðfestir okkar heill og hamingju“,
svaraði Bertel og setti á fingur Regínu:
hringinn konungsnaut.
16. Hringurinn. Sverðið og plógurinn. Eldur og vatn
Við snúum nú við til Stórkýró, til bæjar Bertílu, hins gamla
bændakonungs. Það er vetrardagur, í marzmánuði 1635. Vorsólin
var farin að bræða snjóinn, það draup niður af þekjunum
sólarmegin; gaddskorpan liggur enn kyrr á snjónum norðanvert
í hverri hæð, en rifnar sunnan í þeim. Aron Bertíla er nýlega
kominn heim frá kirkju með öllu fólki sínu; hið hvíta höfuð hans
slútir nú sem vilji detta, og styður hann sig við hönd dóttur
sinnar. Við hina hlið hans ganga tveir kýmilegir, lágir og sívalir
menn, Larson hinn eldri og sonur hans, hinn vaski og lærði
kapteinn, nafni föður síns og lifandi eftirmynd nema að aldrinum
til. Við hlið hans gengur kona hans, snotur, ung og glaðleg, og
er hún líka okkar góðkunningi; er þar Katrín litla komin, hin
röskva og káta snót með mjúku lófana, þá, er eitt sinn í fyrri
daga rugluðu kollinn á kapteininum. Síðan þann dag hefir hann
svarið við alla gríska og rómverska rithöfunda, sem hann hafði
lesið í Ábæjarskóla forðum — Sic unde ubi apud unquam post,
eins og þeir gömlu komust svo bráðheppilega að orði — að hið
mjúkhenta nunnuefni frá Würtzborg, úrval allra nunnusystra,
skyldi verða konan sín. Og þegar umbrot ófriðarins hafði aftur
lofað þeim að hittast, og Katrín var varnarlaus og hafði hins
vegar ekkert á móti kátum og drenglyndum dáta, voru þessi glöðu
og góðfelldu hjónaefni saman gefin í borginni Strælu, og héldu
þau síðan ferðinni fram til fundar við hinn sívala, vinsamlega
föður og tengdaföður, Larson í Stórkýró; var þar sem bezt mátti
við þeim tekið og settust þau þar að sem heimilisins óskabörn.
Því þess má einnig geta, að Larson hefir nú kvatt hernaðinn
og náð burtfararleyfi, eftir allmikið undangengið þref og þóf,
en hærri nafnbót hlaut hann ekki. Ekki hefir honum lánazt,
fremur en mörgum öðrum hans líkum, að eignast eða spara eyris
virði af öllu herfanginu á Þýzkalandi. Allt það, sem hann hefir
aflað — og megi trúa hans eigin orðum, hafa það verið heilar
milljónir — hefir það farið sama veg aftur; hvað ætli hafi orðið
af því? Það fór til skrattans við Nörðlingen, segir hann. Jú, jú,
það gerði hitt heldur: það fór í dufl og drabb með sveitungum
hans og sínum líkum. En nú ætlar hann að fara að verða stilltur
og stöðugur eins og stafur í búri, fylgja föður sínum í ráðsmanns-embættinu
yfir hinum miklu óðalseignum Bertílu; nú
ætlar hann að plægja, sá, uppskera og pro modulo virium prolem
copiosam in lucem proferre[* Eiga börn og buru.], eins og þeir gömlu gátu svo einstaklega
vel að orði komizt. Bertíla gamli sýnir honum auðsjáanlega
mikla hylli. Hefir hinn aldni nýlega látið á sér skilja, að
hann sé búinn að afhenda yfirvaldinu erfðaskrá sína. Hvað
Emmu snertir, visnar hún eins og blómstur, sem rótina vantar og
hangir við lífið á veikasta þræði hjarta síns, hinum útskúfaða
Gústafi Bertel, nú aðalsmanninum Bertelskjöld.
Þetta sundurleita heimilisfólk situr nú saman í stóru stofunni,
ásamt vinnufólkinu; er nú Larson gamli í leynilegri samvinnu
við Emmu að reyna til að milda skap gamla Bertílu til sonar
hans. En allar bænir þeirra og tillögur stranda á þrályndi karlsins.
Larson snýr sér undan önugur, en Emma felur tárin sín þar
sem dimmast er í stofunni. Þá heyrist aftur bjölluhringl eins og
áður á þrettánda degi. Rúmgóður sleði er kominn inn í garðinn
og stíga þar út tveir menn, fyrirliði í víðum feldi og ung, dáfríð
kona í dökkri, ljómandi flauelskápu fóðraðri með dýrum skinnum.
Emma og gamli Larson blikna við þessa sjón. Larson skundar
út, en verður of seinn: Bertel og Regína koma inn í stofuna.
Þeir Larson feðgar og Emma heilsa Bertel hlýlega, en þó eins
og hálfsmeik. Katrín gleymir hversdagsbúningi sínum og ljómandi
kápunni hinnar og fleygir sér í fangið á Regínu, sem faðmar
að sér trúfasta æskuvinkonu sína.
Bertel losar sig blíðlega úr faðmlögum vina sinna og gengur
beint og óskjálfandi þar að sem gamli Bertíla situr í háa bríkarstólnum
við borðsendann, kaldur og hljóður og virðir þau hvorki
viðlits né kveðju. Allir nálægir horfa hremmdir á þessa samfundi,
því hver maður finnur á sér, að þá mundi til skarar
skríða. Hinn ungi fyrirliði hefir sett frá sér feld sinn og hatt;
hið prúða, glóbjarta hár hans liðast í lokkum yfir hinu háa enni
hans, hann er fölur um kinnar, en hin bláu og björtu augu hans
horfa fast og stöðugt í hið stálharða andlit hins aldraða afarmennis.
Bertel beygir kné sitt sem í fyrra skiptið og segir undir eins
með auðmjúkri og fastri röddu: „faðir minn!“
„Hver ert þú? ég þekki þig ekki, ég á engan son“, sagði hinn
gamli ískaldur.
„Faðir minn“, sagði Bertel aftur og æðraðist ekki. „Ég er enn
kominn, og í síðasta sinni, til að biðja um blessun og fyrirgefningu.
Hrind mér ekki frá þér! Ég kveð fósturjörð mína til þess,
ef til vill, að deyja suður á Þýzkalandi. Það er undir þér komið,
hvort ég kem nokkru sinni aftur. Mundu, faðir, að blessun þín
gefur þér son þinn aftur, en bölvun þín gerir hann að landrækum
flóttamanni“.
Gamalmennið á stólnum breytir í engu svip sínum, en rómur
hans ber vott um innvortis baráttu. „Ég átti son; hann gerðist
mín óverður og smáði þá reglu, sem ég hefi fylgt alla ævi. Hann
brást málefni þjóðarinnar, en aðhylltist hið skaðvæna aðalsvald,
sem ég hata og forsmái. Ég hefi í dag gert hann arflausan“.
Þeir, sem nærri stóðu, skiptu nú litum; en Bertel roðnar minnst
og segir: „Ekki bið ég um auðlegð þína, faðir minn, gef hana
þeim, sem þér þykir vera hennar verðari. Ég bið um fyrirgefning
þína — um föðurblessan þína“.
Allir nema Regína slá nú hring um öldunginn, falla á kné og
hrópa: „Náð fyrir Bertel! Vægð og náð syni þínum!“
„Og ef ég nú ætti son“, svaraði hinn gamli, „haldið þið þá,
að hann mundi fyrir mínar sakir afleggja fýsn sína eftir aðalsmannanna
metorðum? Haldið þið, að hann mundi vilja verða
bóndamaður eins og ég er, alþýðuvinur eins og ég, búinn til að
lifa og deyja fyrir þjóðina? Haldið þið, að hann með skrauthanzkana
myndi vilja fara að plægja jörðina, ellegar að hann
vildi velja sér konu af minni stétt, óbreytta en ráðsvinna konu,
eins og sæmir heiðursmanni án hóls og hroka?“
„Faðir minn“, mælti Bertel nú með linari málrómi en fyrr,
„það, sem þú heimtar er ómögulegt þegar af þeirri ástæðu, að
þú hefir veitt mér allt öðruvísi uppeldi. Ég vil virða og heiðra
stétt þína, en ég hefi upp alizt við hernaðarins iðn og henni vil
ég ekki kasta. Jafnómögulegt er mér hitt að kjósa mér konu eftir
þínu skapi. Hér stendur kona mín. Hún er furstadóttir, faðir
minn, en hún blygðast sín ekki þótt hún hafi átt bóndason. Lát það
vera þér sönnun þess, að hún mun ekki blygðast við að kalla
þig föður sinn“.
Í þessu bili gengur Regína innar, auðmjúk í bragði sem ætlaði
hún að kyssa á hönd hins gamla manns. En ofsi bændakóngsins
rauk þá upp í sömu svipan; hann æpti í bræði sinni með þrumurödd:
„Sagði ég það ekki, stendur ekki þarna ættlerinn, sem fæddist
bóndi, en varð aðalsins þræll? Svei, ég hefi séð mikið stríð
um dagana og mikla keppni milli sverðs og plógs, en aðra eins
þverúð hefi ég hvergi fyrirfundið. Strákurinn, sem kallar sig minn
son, dirfist að leiða fram fyrir mín augu furstalega skækju og
kalla hana konu sína“.
Bertel stekkur upp og styður Regínu, sem við orð þessi nær
hafði dottið. „Gamalmenni“, mælti hann og skalf rödd hans af
mikilli reiði, „þakka þú föðurnafninu og hinum gráu hærum
þínum, að þú hefir fengið þau orð að tala, sem enginn annar
hefði talað og lifað stundu lengur. Hér er hringurinn, sem ég
hefi dregið á hönd minnar lögfullu konu“, og í því tók hann
konungsnautinn af fingri hennar, „og nú vinn ég þess eið, að
þessi hönd er svo hrein og makleg sem dauðleg hönd getur verið
til að bera þennan hring, sem setið hefir mörg ár á fingri hins
mesta konungs“.
Augu Emmu hafa séð hringinn, djúpur roði hleypur í hennar
fölvu kinnar, og á hún í miklu stríði við sjálfa sig. Loks gengur
hún innar, tekur hringinn og þrýstir á hann föstum kossi og
segir með titrandi röddu og svo mikilli viðkvæmni, að tárin
byrgjast inni: „Þú, hringur minn, sem hann hefir borið, — hringur
minn, sem hefir varðveitt hann, ekki ert þú sök í hans dauða;
hann gaf þig öðrum, og svo komu kúlurnar, svo kom dauðinn.
Þekkir þú, Gústaf Bertel, eða þú, kona hans, mátt þessa hrings?
Í æsku minni ráfaði ég einhverju sinni á víðavangi og hitti deyjandi
mann, sem beiddist drykkjar. Ég færði honum bergvatn
úr lindinni, ég kældi tungu hans með safa berjanna. Hann þakkaði
fyrir og sagði: „Ég dey og á ekki annað til að gefa þér til
launa en þennan hring. Ég fann hann eitt sinn á Maríu-líkneski,
sem lá stráheilt í Stórkýrókirkju innan um margar brotnar leifar
eftir hina kaþólsku tíð, og í því ég tók hringinn af fingri líkneskjunnar,
féll hún öll í sundur og varð að dufti. Þessi hringur
hefir í einu heilagra manna kraft og forneskjunnar magn, því
með mér gengur hið gamla töfraríki og þess frægðarsaga til grafar.
Sá, sem ber þennan hring, er öruggur fyrir eldi, vatni, stáli
og öllu fári, en þó með því skilyrði, að hann aldrei sverji meinsæri,
því að þá hverfur máttur hringsins. Með honum fylgir hagsæld
í friði og sigur í stríði, ástir, auður og orðstír; berist hann
í þrjá liði, mann eftir mann, munu í þeirri ætt upp koma ljómandi
hetjur og spekingar“. Hér nam Emma staðar; allir hlustuðu
á með eftirvænting.
„En“, hélt hún áfram, „beri menn hringinn í sex liði hver
eftir annan, þá framkemur af þeirri ætt mikið konungakyn. Þó
skaltu vita, sagði maðurinn, að með miklum gáfum fylgja miklar
hættur. Meinsæri og ættarígur mun lengi freista þeirra, er hringinn
eiga, og reyna mjög á kosti hans. Ofmetnaður og ágirnd til
fjár og frægðar mun jafnan berjast í brjósti eigandans til að
brugga honum óhamingju og þarf fastlyndi hárrar og hugstórrar
sálar, og að auki auðmýkt og frómlyndi, til að sigra þær freistingar.
Sá, sem á og ber þennan hring, á allt lán lífs og veraldar
og hefir engan nema sjálfan sig að yfirstíga, enda mun hann og
verða sér sjálfum hinn skæðasti óvinur. Til þess benda stafirnir
R R R, sem greyptir eru á hringinn innanverðan, og þýða: Rex
Regi Rebellis, konungurinn er konunginum mótsnúinn. Hinn farsælasti,
hinn voldugasti maður geymir í eigin brjósti sinn aðalháska“.
[252.png]
„Og þessi hringur er okkar, Regína“, hrópaði Bertel með ótta
og gleði. „Hvílíkur auður og hvílík ábyrgð hvílir í hring þessum!“
„Völdin, orðstírinn, ódauðleikinn!“ hrópaði Regína.
Gamli Bertíla horfði á hringinn og hina ungu með fyrirlitning
og glotti að. „Falsgull“, sagði hann, „hégómi, glingur, svikametnaður
tómur! Komdu, Larson ungi, þú ert líka bændum borinn,
og þú hverfur heim til þinnar stéttar, þó þú hefir verið í
hernaði; ég ætla að gefa þér nokkuð, sem hvorki er gull né ónýtt
glingur, en sem veitir þér ef til vill meiri blessun en konungshringur
þessi. Taktu við gömlu öxinni með eikarskaftinu, þarna
af veggnum; já, ekki þarftu að óttast, ekki eru galdrar í henni;
faðir minn smíðaði hana sjálfur á dögum Gústafs gamla. Með
henni hefi ég og minn faðir unnið mörg þrekvirki í skógunum,
rutt margar nýbyggðir. Láttu hana ganga að erfðum í ætt þinni,
og því heiti ég þér, að honum, sem ber mína öxi, skal fylgja
lán og ánægja í ærlegri stétt og stöðu“.
„Þökk fyrir, faðir sæll“, svaraði kapteinninn ánægjulegur og
reyndi egg axarinnar með íbyggnum svip. „Væri allt undir því
komið að rista rúnir á hana, skyldi ég tiltaka stafina R R R, það
er: Ruris Rusticus Robustus, sem stuttlega útskýrt mundi þýða:
Skratti er skollinn skeinuhættur! Ekki er að efa orðavalið hjá
þeim gömlu“.
Larson gamli hugði nú, að tími væri til kominn að beina þessu
bitra stríði til betra samkomulags. Hann gekk nú fram fyrir
öldunginn með hin ungu og nýkomnu hjón við hönd sér og
mælti: „Við skulum, húsbóndi góður, ekki deila við drottin.
Strákarnir, þinn og minn, eru mestu þorparar, það skal ég játa,
en ætli þeir geti gert að því, að skaparinn hefir gert annan úr
eldi en annan úr vatni? Bertel er eins og eldsloginn, heitur, háfleygur,
blossandi, leiftrandi, lýsandi, og sést ekki fyrir, og ég
þori að veðja, að frúin litla og ljúfa, sem hann á, er sama kyns.
Minn strákur er úr eintómu vatni gerður — —“.
„Bíddu við!“ æpti kapteinninn, „vatnið hefir ætíð verið mín
veika hlið“.
„Haltu þér saman! Minn strákur er eintóm vatnsbuna, rennandi,
syndandi, léttur á kvakinu, ánægður að vera við jörðina og
einungis vel lagaður til að slökkva hinn skáldlega eld hins annars
ungherra með sinni óskáldlegu, lygnu lífsspeki. Hvað konu hans
snertir, þá eru þau samvalin og úr einu efni ofin bæði. Sérðu nú
ekki, húsbóndi gamli, að strákarnir eru af skaparanum ætlaðir til
að vera vinir, að eldurinn á að ylja vatnið, en vatnið að sefa
eldinn, — og svo hyggstu að gera þá óvini með því að taka frá
öðrum og gefa hinum. Nei, lát það vera, það er mitt ráð, og gef
syni þínum hvað hans er; ekki mun minn sonur svelta fyrir þá
sök“.
Bertíla þagði stundarkorn; síðan mælti hann æfur: „Ekki skaltu
segja mér, hver verið hafi drottins vilji. Hugsar þú, að hann, nýbakaði
aðalsmaðurinn hérna, sem þú jafnar við eldinn, myndi
vilja láta af hendi hringinn og í hans stað taka við öxinni?“
„Aldrei!“ gegndi Bertel og rauk upp.
Emma greip hönd hans og leit til hans biðjandi. „Gefðu hringinn“,
sagði hún, „þú veizt nú hættur þær, sem honum fylgja,
en það er enn ein, sem ég þorði ekki að segja þér frá. Hver sá,
sem þennan hring ber, deyr fyrir örlög fram“.
„Hvað er að því? Dauði hermannsins á vígvellinum er fagur
og frægðarríkur. Ég bið einskis betra“.
„Heyrið á endemi“, gall við Bertíla gamli. „Þetta grunaði mig;
hann eltir hylli hernaðar-lukkunnar allt að grafarbakkanum.
Friðsamur dauðdagi er honum sama andstyggðin eins og friðsamlegt
líf. En þú, Larson, seg þú mér, hvort þú vilt láta öxina,
en taka hringinn?“
„Hm!“ svaraði kapteinninn hugsandi; „væri gull í hringnum,
gæti ég selt hann í bænum og fengið mér tunnu fyrir hann af
góðum bjór, en nú er eir einn í honum, — fari hann og veri
eða eigi hann skrattinn fyrir mér, ég tek öxina; með henni get
ég þó höggvið spýtur undir pottinn“.
„Vel er það“, sagði Bertíla. „Það er eins og hann faðir þinn
segir, að slá vatni á glæður. Það er ekki ég, sem gert hefi eld
og vatn að óvinum um aldur og ævi. Komdu, Larson, þú ert maður
með heilbrigðri skynsemi, maður með áþreifanlegri nytsemd,
vert þú minn sonur, og tak þú á sínum tíma við eigum mínum í
arf, þá er ég er allur. Blessun fylgi þér og þínum niðjum. Megi
þeir aukast og erfiða eins og mauraflugur í moldjörð, og sé og
veri sí og æ fullur fjandskapur milli þeirra og hinna tiginbornu,
aðalsins, fólksins með eldskapið. Megi ófriður æ haldast milli
þeirra og ykkar, allt til þess að glingur og gljái hverfur úr félagi
mannanna; megi öxin og hringurinn ávallt eiga í aga og ófriði
unz bæði bráðna í sama eldi. Þegar sá tími er kominn, eftir
hundrað ár, eða enn lengri tíð, þá fyrst er mál að segja: Stéttamunurinn
er nú á enda, og ágæti mannsins er nú hans einka
skjaldarmerki“.
„En faðir minn“, hrópaði Bertel enn einu sinni með bænarröddu,
„áttu þá enga blessun mér að gefa né mínum niðjum á þeirri
stundu, sem aðskilur okkur að fullu og öllu?“
„Þér!“ æpti hinn gamli maður og var enn þá hinn reiðasti.
„Farið þið, fortöpuðu, hégómlegu, ormétnu kvistir af fólksins
stóra stofni, farið brott með ykkar auvirðilega stát og stór-gort,
til ykkar vissu eyðileggingar. Allt til þess dags, þegar það skeður,
sem ég sagði, að öxin og hringurinn, svikanna gull og sannleikans
stál, samanbráðnar, — allt þangað til gef ég ykkur mína
bölvun í arf í tíunda lið, og með henni skal fylgja sundrung,
hatur, agg og ófriður, og að lokum fall og hrun með háðung og
skömm!“
„Bíddu við, karl minn“, hrópaði Larson hinn ungi, „náð handa
Bertel!“
„Enga náð handa aðlinum“, svaraði bændaköngurinn.
„Varaðu þig, óskaplegi faðir!“ hrópaði þá gamli Larson. „Dómurinn
vofir yfir þínum höfuðsvörðum“.
„Ég bið engrar náðar framar“, sagði Bertel náfölur en rólegur
tilsýndar. „Far þú vel, þú sem áður varst faðir minn. Far þú
vel, föðurland mitt. Ég fer og lít ykkur aldrei framar“.
„Bíð enn eitt augnablik“, hrópaði Emma og stemmdi stigu
fyrir hann, þótt hún réði sér varla. „Þú fer, minn hjartans elskhugi,
vonin mín, lífið og aleigan, — far þú, ekki skal ég lengi
vera þér í vegi. En fyrr en þú ferð, þá tak með þér þann leyndardóm,
sem einu sinni varð mér mesti fögnuður lífsins og líka
þess þyngsta kvöl“.
„Hlustið ekki á hana“, æpti þá Bertíla með breyttum rómi
og sýnilegum skelk. „Hlustaðu ekki á hana, það er óráð, sem
hún talar. — Mundu minn sóma og þinn!“ hvíslaði hann harðlega
í eyra hinnar nábleiku dóttur sinnar.
„Hvað hirði ég um þinn og minn sóma“, svaraði hún með meiri
ákafa en nokkur maður vissi af í hennar fari. „Sér þú ekki, að
hann fer burtu, — gleði lífs míns fer og kemur aldrei aftur.
Hann fer, og þú, harði, hjartalausi faðir, vilt að ég láti hann
fara til framandi landa með bölvan þína á baki. Fyrir hverja
bölvan, sem þú syngur yfir hans höfði, gef ég honum hundrað
blessanir, og skulum við sjá, hvort meira gildir fyrir hásæti
hins hæsta, þitt hatur eða minn kærleiki, móðurföðurins formælingar
eða móðurinnar fyrirbænir ...“.
„Móðir mín!“ hrópaði Bertel frá sér numinn. Orð Bernharðar
hertoga urðu honum nú í einu vetfangi ljós.
„Trú henni ekki, hún veit ekki, hvað hún segir!“ æpti Bertíla
og herti sig að enginn sæi, hvað þetta gekk honum nærri.
[256.png]
Emma var fallin í faðm Bertels. „Nú er það sagt“, hvíslaði
hún svo varla heyrðist. „Gústaf, — son minn! Æ, það er svo
óvenjulegt, svo sæluríkt að kalla þig þessu nafni. Nú veiztu
leyndardóm allrar minnar ævi — en ekki mun ég lengi þurfa
að blygðast mín sakir hans. Elskar þú mig? — Já, já, nú kveð
ég ánægð þetta líf — fortjaldið er fallið — birtan kemur. Faðir
minn, ég fyrirgef þér — að þú hataðir og formæltir þínum
dóttursyni. Fyrirgef þú mér — að ég elska, blessa — soninn
minn!“
„Móðir mín!“ hrópaði Bertel, „heyrðu mig, móðir mín, ég
þakka þér, ég ann þér og elska þig — þú skalt fylgja mér og
ég skal aldrei skilja við þig. En þú heyrir mig ekki — þú ert
svo föl. Guð komi til! hún er sáluð!“
„Dóttir mín! mitt einkabarn!“ hrópaði Bertíla, hinn járnharði,
gamli bændakóngur, og nú var honum öllum lokið.
„Dæmið ekki, svo þér verðið ekki dæmdir“, sagði gamli Larson
og fórnaði höndunum. „En þið, börn vor, farið út í lífið með
sáttgjörnum hjörtum. Blessun og bölvun eiga í stríði saman um
ykkar framtíð, og ekki um ykkar einungis, heldur og um niðja
ykkar allt í tíunda lið. Biðjið drottin, að blessanin megi sigra“.
„Amen“, svaraði yngri Larson og Katrín.
„Verði það svo“, sögðu þau Bertel og Regína.