ÞJÓÐTRÚ OG ÞJÓÐSAGNIR.
SAFNAÐ HEFIR ODDUR BJÖRNSSON.
JÓNAS JÓNASSON BJÓ UNDIR PRENTUN.
I. BINDI.
AKUREYRI. BÓKAVERZLUN OG PRENTSMIÐJA ODDS BJÖRNSSONAR. 1908.
Anna Sigurðardóttir á Fjöllum 46, 88.
Anna Sveinsdóttir í Húsavík 116, 176.
Ari Jóhannesson, skólapiltur, á Ytra-Lóni 316.
Árni Davíðsson á Gunnarsstöðum 38, 77, 166, 231.
Árni Stefánsson í Litladal 112, 134, 153, 162, 203, 257.
Ásgrímur Pétursson í Hofsós 208.
Baldvin Sigurðsson í Garði 29.
Baldvin Stefánsson á Geirastöðum 175, 229.
Benedikt G. Blöndal í Hvammi 28.
Bessi Steinsson í Kílholti 20.
Bjarni Bjarnason í Húsavík 41.
Bjarni Jóhannesson á Sellandi (Geldingsá) 257.
Bjarni Jónsson á Sjávarborg 104.
Björn Einarsson frá Bólu 173.
Björn Guðmundsson á Hallgilsstöðum 38.
Björn Jónasson á Reykjum í Hjaltadal 126, 127, 236, 303.
Björn Schram 172.
Einar Andrésson á Minnaholti (Bólu) 103.
Einar Einarsson í Garði í Þistilfirði 231.
Einar Guttormsson frá Ósi 44, 55.
Einar Jónsson á Brimnesi, hreppstjóri 68.
Einar Jónsson á Hóli 166, 167.
Erlendur Árnason í Dakóta 272.
Friðleifur Jóhannsson í Háagerði 74, 148, 156, 220.
Friðrik Jóhannsson í Nesi 246.
Gísli Bjarnason í Ási 43, 84.
Gísli Konráðsson 105, 107.
Guðmundur Friðjónsson á Sandi 23, 32, 33, 36, 41, 50, 67.
Guðmundur Guðmundsson í Landakoti 92, 93, 170. 244.
Guðmundur Jónsson í Hrísey 65, 177.
Guðmundur Þorvaldsson, Rangvellingur 21, 57.
Guðríður Jónasdóttir á Hrafnagili 152.
Guðrún Einarsdóttir í Húsavík 294.
Guðrún Jóhannesdóttir 56.
Guðrún Jónsdóttir á Fossi 129, 154.
Guðrún Sigurðardóttir í Svínafelli 58.
Guðrún Símonardóttir á Oddeyri. 210.
Halldór Friðjónsson, búfræðingur 221.
Halldór Þorgrímsson í Hraunkoti 23, 32, 36, 50, 67, 118.
Hallgrímur Kráksson, Fljótapóstur 129.
Hannes Jónsson í Hleiðargarði 74, 134, 161, 246, 257.
Hannes Ó. Magnússon á Akureyri 21, 52, 62, 137, 263.
Helga Jóhannesdóttir 51.
Helgi Jónasson á Gvendarstöðum 168, 282.
Helgi Jónsson í Felli 77.
Herdís Bjarnadóttir á Reykjum 236.
Hólmfríður Þorsteinsdóttir á Kálfaströnd 73.
Hreiðar E. Geirdal í Húsavík 91.
Ingibjörg Benjamínsdóttir, frú, á Akureyri 66
Ingibjörg Hallgrímsdóttir í Flatey 91.
Ingibjörg Jóhannesdóttir, barnakennari 44, 51, 56, 78, 83, 122.
Ingibjörg Markúsdóttir í Ási í Vatnsdal 122.
Jakob Háldanarson í Húsavík 36, 49, 65, 71, 81, 94, 102, 116, 176, 232, 250, 294.
Jakob Jónsson á Árbæ á Tjörnesi 149, 247.
Jóhann Guðmundsson, gullsmiður 104.
Jóhann Jak. Einarsson í Mýrarkoti 52.
Jóhanna Jónasdóttir, frú, á Oddeyri 34.
Jóhanna Soffía Jónsdóttir, frú, í Viðvík 68, 98, 157.
Jóhannes Jónsson, bátasmiður 97.
Jón Jakobsson á Árbæ á Tjörnesi 144, 149, 214, 221, 247,
Jón Jónsson, blindi, á Mýlaugsstöðum 62, 118, 137, 207, 208, 227, 263.
Jón Jónsson frá Veðramóti 100.
Jón Magnússon í Utanverðunesi 172, 182.
Jón Pálsson, smiður, í Húsavik 65, 71, 81, 94.
Jón Tómasson í Hofdölum 28, 44, 100.
Jónas Jónasson, prófastur, á Hrafnagili 29, 35, 97, 118, 152, 162, 173, 192, 194, 216, 233, 236, 240, 286, 310, 324.
Jónas Jónasson, skólapiltur, á Hrafnagili 197.
Jónas Jónsson í Hriflu 168.
Jónína Sigurðardóttir á Lækjamóti 47.
Jósías Rafnsson á Kaldbak 144, 149.
Karítas Sveinsdóttir á Miklahóli 184.
Katrín Sveinsdóttir á Kaldbak 144.
Kristín Kristjánsdóttir í Kálfskinni 40.
Kristján Einarsson á Akureyri 54.
Kristján Ingi Sveinsson í Djúpadal 75, 158, 236.
Kristján Kristjánsson í Ytri-Tungu 247.
Kristjana Árnadóttir 84.
Kristjana Magnúsdóttir 43.
Loftur Jónsson á Oddeyri 212.
Magnús Jóhannsson í Ytra-Kálfskinni 40, 60, 61, 72.
Magnús Vigfússon í Utanverðunesi 157.
Margeir Jónsson á Ögmundarstöðum 254.
Margrét Eiríksdóttir á Lækjamóti 47.
Oddný Sigurðardóttir á Hvoli 160.
Oddur Björnsson, prentari, á Akureyri 26, 28, 34, 44, 65, 66, 86, 96, 100, 121, 123, 129, 134, 145, 154, 172, 177, 178, 181, 207, 208, 212, 219, 227, 229, 242, 253, 257.
Páll B. Schram 151.
Páll Pálsson frá Æsustaðagerðum 135.
Pálmi Jóhannsson á Sæbóli 86, 103, 173, 233.
Pétur Hafsteinn Ásgrímsson 207.
Ragnheiður Guðnadóttir 158.
Rannveig Sigurðardóttir á Prestsbakka 96, 100.
Rósa Bjarnadóttir á Þverá 44.
Rósa Vormsdóttir 157.
Sigfús Sigfússon á Eyvindará 267.
Sigríður Andrésdóttir 221.
Sigríður Jónsdóttir á Geirastöðum 22, 25, 26, 39, 73, 85, 89, 175.
Sigríður Þorsteinsdóttir 92, 93.
Sigtryggur Þorsteinsson á Möðruvöllum 34, 121.
Sigurbjörn Sigurðsson á Laugum 27, 42.
Sigurbjörg Hallgrímsdóttir á Ósi 26.
Sigurður Bjarnason á Garðsá 90.
Sigurður Jónsson í Árgerði 181.
Sigurður Jónsson á Máná 214.
Sigurður Pálmason á Æsustöðum 162, 173, 247.
Sigurjón Jónasson 74, 220.
Sigurlaug Jónasdóttir frá Hróarsdal 205.
Snorri Pálsson á Siglufirði 153.
Spítala-Þórður = Þórður Guðmundsson.
Stefán Eiríksson á Refstöðum 87, 249, 250.
Steinólfur Geirdal á Húsavík 91.
Steinunn Magnúsdóttir frá Ey 107.
Sumarliði Guðmundsson, póstur 178.
Sveinn Jónsson í Mósgerði 245.
Sæmundur Jónatansson 221.
Sölvi Ólafsson, skipstjóri 145, 219.
Teódór Friðriksson á Sauðárkrók 216, 227.
Tómas Jónasson í Lónkoti 29, 223.
Tryggvi Indriðason á Hóli 27, 41, 42, 46, 88, 205, 206.
Una Sigurðardóttir á Reykjum 127.
Vilborg Friðfinnsdóttir 282.
Zófonías Halldórsson, prófastur, í Viðvík 20, 184.
Þórarinn Grímsson í Garði 135.
Þorbergur Björnsson á Þingeyrum 161.
Þorbergur Eiríksson í Syðri-Tungu 149.
Þórður Guðmundsson frá Móbergi 17, 18, 31.
Þorlákur Ólafsson í Ólafsfjarðarhorni 242.
Þorsteinn Guðmundsson í Skaftafelli 58.
Þorsteinn Hannesson á Hjaltastöðum 75.
Þorsteinn M. Jónsson, barnakennari 34, 210.
Þorsteinn Þorkelsson á Syðra-Hvarfi 87, 186, 272.
Þorsteinn Þorsteinsson á Skipalóni 253.
Þórunn Stefánsdóttir, frú, á Hrafnagili 29, 35, 324.
Óðara er þjóðirnar og mannkynið í heild sinni fór að komast til meðvitundar um sjálft sig, og gera sér grein fyrir því, að maðurinn væri hugsandi vera, runnu upp fyrir mönnunum ótölulegar gátur, sem þeim var með engu móti auðið úr að leysa. Þekkingin náði skamt, og vísindaleg rannsókn og sundurliðun fyrirbrigða þeirra, sem fyrir augun bar, var þá alls ókunn. Reynslan lagði upp í hendur manna ótal atvik og ótal fyrirbrigði, sem þeir gátu ekki skýrt eða skilið með sömu ráðum og menn skýra og skilja hlutina nú. En því meiri og flóknari sem mönnum urðu þessar ráðgátur tilverunnar, því meira reyndu menn samt að gera sér grein fyrir þeim. Það varð að þörf fyrir hvern þann, er nokkuð var við tilveruna riðinn – og það verður hver sá, sem er fullu viti gæddur – að reyna að átta sig á þessu, bæði því, hvað með manninum bjó, og hvernig því var varið, sem fyrir utan hann var.
Ímyndunaraflið og skáldgáfan tóku við þessum viðfangsefnum, og reyndu að gera sér þau á einhvern hátt skiljanleg. Flest það, sem fyrir bar, urðu þeir að setja í samband við einhver öfl, sem stóðu fyrir utan það, er sýnilegt var eða þreifanlegt. Það varð þannig í þeirra augum annar heimur á bak við þennan, sem þeir lifðu í sem þeir sáu ekki né fundu nema endrum og sinnum, þegar hann verkaði eða starfaði samhliða eða í og með hinum daglegu atburðum, eða vann og starfaði á bak við þetta daglega, stjórnaði því og leiddi það á ýmsa vegu ýmist til ills eða góðs. Með þessu móti fundu menn margvíslegar skýringar á fyrirbrigðum tilverunnar, og þær urðu svo að trúaratriðum þjóðanna öld eftir öld. Það birtist í trúarbrögðum og goðasögnum þjóðanna, bæði að fornu og nýju, skýringum þeirra á sálar- og hugsunarlífi manna, á náttúrunni og atburðum þeim, sem fyrir bera hvervetna innan hennar endimarka, og á samböndum viðburða og atvika í lifinu. Mannsandinn leitar ætíð að orsökum og samhengi viðburðanna, og býr sér það til, þar sem hann megnar ekki að finna það á annan hátt; upp úr því skapast svo og lagast viðburðirnir sögusögnunum, nýjar sagnir myndast, og heil kerfi af sögum og ævintýrum verða til upp úr öllu þessu. Þjóðtrúin og þjóðsagnirnar mynda þannig alt aðra mannfræði, náttúrufræði og sögu, samhliða þeirri sem vísindin hafa fundið. Og sú efnisfærsla er hvorki bundin við stað né stund, heldur á hún rót sína að rekja til hugmyndaflugs og þankabrota mannsanda í reifum, sem horfir út yfir tilveruna, tekur það, sem fyrir augun og eyrun ber, og yrkir utanum það umgerðir, eftir því sem hver er til fær, jafnar það og gerir það ljóst, skiljanlegt og sögulegt á hvern þann hátt, er bezt gengur.
Margt í þjóðtrúnni er barnalegt og grunnhugsað – sumt aftur svo háfleygt og djúphugsað, að sumar þjóðsagnir eru djúp skáldverk, samboðin hinum dýpstu og andríkustu skáldum sögunnar. Sumt í henni er jafnvel háfleygast og dýpst þar sem það er einfaldast og óbrotnast. En jafnframt er það þá vant að vera elzt, og lengst búið að ganga í gegnum hugi manna, kynslóð eftir kynslóð, og þannig búið að fá á sig það snið, sem gefur því ævarandi gildi.
Síðan farið var að gefa þjóðtrú og þjóðsögnun gaum meðal vísindamannanna, – en það eru ekki hundrað ár síðan – hefir opnazt fyrir mönnunum heill heimur, sem þeim var áður með öllu ókunnur; það sem áður hafði verið kallað að eins hjátrú og hindurvitni, er ætti að brjóta niður eftir megni, varð nú skoðað á annan veg; þjóðtrúin og þjóðsagnirnar urðu nú í augum vísindamannanna mikilsvarðandi þáttur í menningar- og þroskasögu mannsandans, einn höfuðbálkurinn í skáldskap þjóðanna, og efni þeirra hefir orðið síðan oft og einatt tilefni til djúpra ransókna í þjóðafræði og mannfræði – og stórskáldin hafa tekið þau til meðferðar í skáldritum sínum.
Við þessar ransóknir hefir það fundizt, að þjóðtrú, þjóðsagnir og ævintýri fjarlægra og enda óskyldra mannflokka eru í mörgu lík, og enda að sumar sagnir og sagnaefni má rekja frá þjóð til þjóðar, langt upp í tímann, jafnvel svo langt, sem elztu sagnir ná til. Bendir það á það, að bæði kemst mannsandinn á fleirum stöðum og öðrum á sömu niðurstöður, þótt hvorugir hafi haft nein kynni af öðrum, og svo hitt að sagnirnar hafa gengið í arf frá þjóð til þjóðar öld eftir öld: Þannig eru þjóðsagnir lifandi enn í dag hér úti á Íslandi, sem voru sagðar austur á Indlandi þúsundum ára fyrir Krists burð.
En hér er hvorki tími né hentugleiki á að fara út í það nákvæmara að sinni. Þjóðsagnafræðin (Folkloristik) er ný vísindagrein, og ekki fullkomnuð enn, enda er margt ófundið og óþekt enn, sem getur leiðbeint á niðurstöður, sem enn eru ekki komnar fram.
En eitt er það, sem hefir mikla þýðingu: Það er sá blær, sem þjóðtrúin og þjóðsagnirnar hafa fengið hjá hverri þjóð fyrir sig. Blær sá, er þjóðtrú og þjóðsiðir, þjóðsagnir og ævintýraveröld hverrar þjóðar hefir á sig fengið, hefir breyzt og lagazt margvíslega eftir þjóðarlunderninu og skilyrðum þeim, sem hver þjóð hefir átt við að lifa. Hafi þjóðin átt við bág kjör að búa, verður þjóðtrú hennar og þjóðsagnir með ömurlegum blæ, eða þá hún skapar sér glæsilega töfraheima, þar sem ímyndunaraflið svalar sér á gnótt allrar fegurðar og fullsælu, sem daglega lífið neitar því um. Skapast þá inndæl ævintýri, en þau bera oft sorgar og raunablæ; er það undiralda þjáðrar hugsunar og lífsbaráttu. Lifi þjóðin við andlega og líkamlega kúgun og harðrétti, verður þjóðtrúin myrk og döpur, og sagnirnar svartar og sorglegar, og halda sér mest við það sem ljótt er og djöfullegt og vonzkan og ranglætið hefir þar þá oftar yfirhöndina. Aftur á móti, ef þjóðunum líður vel, verður þjóðtrúin bjartari og blíðari, og fögur og indæl ævintýri spretta upp, og trúin á réttlætið og sigur hins góða verður þá yfirsterkari. Á þeim tímum, er trúarmyrkur og trúarofsi ríkja mest, og hneppa hugi manna í fjötra ógnar og skelfingar, þá hefir djöfullinn og árar hans mest að segja, en þegar mildari og þýðari trúarskoðanir ryðja sér til rúms, léttir aftur yfir þjóðtrúnni, lífsskoðanirnar verða bjartari og fegri, og vonin fer að skína í gegnum ævintýrahjúp sagnanna. Þjóðtrúin og sagnirnar eru því eitt af hinum órækustu merkjum þess, hvernig hverri þjóð hefir liðið á hverri öld. En eigi skal nú farið út í það meira að sinni.
Um það leyti sem byrjað var að safna þjóðsögnum og þjóðtrúarmenjum meðal þjóðanna á fyrra hluta næstliðinnar aldar, var þegar mjög tekið að dofna um trú á slíku. Margir hinna „upplýstari" manna töldu það minkun að halda slíku á lofti, og voru helzt á því, að þjóðinni væri gerð vanvirða með því, að halda því á lofti, er hjátrú og fákænsku hennar væri að kenna. En slíkt var ekki rétt. Þjóðtrúar- og þjóðsagna-fróðleikurinn hefir við meiri og fleiri rök að styðjast en margur ætlar, og gefur í mörgu vísindalega undirstöðu undir margt það, er ekki verður skýrt eða skilið á annan hátt. Enda eru nú flestir hinna betri manna komnir á þá trú, að slíkum menjum beri að safna, því að með því fáist æ meira og meira efni, bæði til menningarsögu þjóðanna, hugsunarsögu hennar, og til þeirrar mentagreinar, sem enn er að mestu ný, og kölluð er sálarfræði þjóðanna.
En þótt bæði lærðir menn og leikir hafi gert sitt til um tíma, að bæla niður öll hin þjóðlegu vísindi, hefir það ekki tekizt. Þjóðtrúin og þjóðsagnirnar hafa legið í blóðinu, og hugsanir og skoðanir, sem orðnar eru ættgengar mann fram af manni, upprætast ekki á fáeinum áratugum; en þær breyta að nokkuru blæ sínum; en innra með mönnum lifir enn hin forna þjóðtrú og þjóðsagnir, og endurtekst og endurvaknar enn í dag með degi hverjum. Sagnir og trú vorra tíma á það að eins eftir, að ganga mann fram af manni tvo—þrjá ættliði, til þess að verða að jafngóðum þjóðsögum og margar enar eldri og betri sagnir vorar. Má af því sjá, hvernig nærfelt daglegir viðburðir verða að afmörkuðum sögum, þegar tíminn og skáldskaparandi þjóðarinnar hefir tekið þá til meðferðar. Fyrir þetta er það, að enn má safna slíku ógrynni af þjóðsögnum og þjóðtrúar frásögnum eins og áður, og það frá allra síðustu áratugunum. Og það verður altaf svo. Eldri sagnirnar gleymast, eða færast yfir á seinni tíðar menn, og aðrar nýjar myndast. En altaf er undirstaðan hin sama, sem áður var; hjúpurinn breytist að nokkuru, eftir því sem menningin breytist og hagur þjóðarinnar batnar, en sami er kjarninn þegar öllu er á botninn hvolft, og sama auðlegðin fæst enn, innra með þjóðinni, af þjóðlegum fræðum og þjóðlegum skáldskap, sem aldrei verður tæmd.
Og þess vegna er það, sem hægt hefir verið að safna þjóðsagnasafni í einum landsfjórðungi á fáum árum, sem er miklu stærra en allar þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Þjóðtrúin hefir tekið alt til meðferðar sem hún náði til, og hún náði til alls þess, sem dagleg reynsla, dagleg fyrirbrigði og dagleg hugsun lætur fyrir koma. En það er fleira sem fyrir ber en þetta daglega; það ber ótal sinnum eitt og annað fyrir augu og eyru manna, sem er afbrugðið og óvenjulegt. Og það er enn meiri þörf á því fyrir mannsandann að reyna að gera sér grein fyrir því, grafast eftir því, hvað það er, af hverju það sprettur, og að hverju það leiðir. Ímyndunaraflið fær þá ný svæði og nýja reiti að leika sér um, skáldlundin nýtt viðfangsefni, til þess að brjóta upp á nýjum hugmyndum og nýrri meðferð efnisins, og hugsunin fær nýjar hvatir til þess að komast að einhverjum þeim niðurstöðum, sem henni geti fullnægt eftir því stigi, sem hún er þá á. Alstaðar hafa þessi efni verið fyrir hendi, og þessar gátur verið bornar upp fyrir mönnunum, og eru það enn. Og alþýðufróðleikurinn, þjóðtrúin forna og hin óbrotna hugsunarlist fólksins hefir farið með þetta efni eftir sínu höfði og aldrei látið sér verða að spyrja vísindamennina og efunarspekingana um það, hvort hún mætti skilja þetta eða þetta atriði svo. Það verður því einskonar heimspeki fólksins, sem birtist í þjóðtrúnni og þjóðsögnunum, og ber þar því alt að sama brunni og áður. Það er ekkert smáræði af hugsun sem fólkið á bak við allan þenna sæg af sögnum; það er heil mannfræði, náttúrufræði, sagnfræði, landafræði o.s.frv., sem í þeim felst, og því meira sem finst og þekkist af þessum sögnum, venjum og trúargreinum (kreddum), því meira samhengi fer að finnast í því, það bindur eitt annað í þessum undarlegu og barnalegu kreddum og sögnum, og þó að oss finnist margt í því vera undarlegt og hjákátlegt, þá liggur einatt svo mikil alvara á bak við, jafnvel svo mikill sannleikur, að það sem oss virðist hlægilegt, verður alvarlegt og þess fyllilega vert, að því sé gaumur gefinn.
Í öllum menningarlöndum hefir þegar verið af alúð og áhuga safnað alþýðlegri fornfræði. Fyrstir og frægastir meðal þeirra allra voru bræðurnir þýzku, Jakob og Wilhelm Grimm; þeir söfnuðu þjóðsögum sínum af munni þjóðarinnar og gáfu þær út í 5 böndum (1812-1822). Þeir létu sögurnar halda sér, bæði að máli og búningi, eins og karlarnir og kerlingarnar sögðu þær, enda er safn þeirra frægt orðið um heim allan, og útlagt á flestar tungur. Eftir þeirri fyrirmynd hefir síðan sögum verið safnað um heim allan, og hafa mörg þeirra safna síðan orðið fræg fyrir ágæti sitt, svo sem ævintýri þeirra Asbjörnsens og Moe í Noregi. Hér á landi söfnuðu þeir Jón Árnason og síra Magnús Grímsson þjóðsögnum og þjóðlegum fræðum, og kom það safn út í Leipzig 1862-64 í tveim stórum bindum.1 Er það safn vandað mjög, og talið með hinum beztu þjóðsagnasöfnum í heimi. En annar alþýðlegur fróðleikur varð þá eigi gefinn út að sinni, og kom ekki út fyrri en Ólafur heitinn Davíðsson frá Hofi († 1903) safnaði honum saman, og studdist við safn Jóns Árnasonar, og gaf hann út í 4 bindum 1887-1903, (Gátur, skemtanir, þulur, þjóðkvæði o.s. frv.). Er þar afarmikill fróðleikur saman kominn, enda var Ólafur allra manna glöggskygnastur á þau fræði og hamhleypa að vinna. Er í þessum báðum ágætu söfnum flest það að finna, er að öllum höfuðdeildum alþýðlegrar fornfræði lýtur, þótt ýmislegt vanti enn; má þar til telja skrýmslasögur og hafmanna, flest eiginleg þjóðkvæði, og alt um gamla þjóðsiði og alþýðulækningar o.m. fl. Þjóðlögum hefir safnað síra Bjarni Þorsteinsson í Siglufirði, með svipaðri elju; er það mikið safn og merkilegt, en því miður enn óprentað.
Önnur þjóðsagnasöfn, er síðan hafa verið gefin út, eru þessi hin helztu:
Huld, í 6 heftum (Rvík 1890-98), Þjóðsögur og munnmæli Jóns Þorkelssonar (Rv. 1899) og Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar (Rv. 1895). Sagnakver Bj. Bjarnasonar frá Viðfirði (Ísaf. 1900) og lítið kver eftir Þorstein Erlingsson (Rv. 1906).
Auk þessa hafa einstakir menn safnað miklum söfnum; má þar til nefna safn mikið í landsbókasafninu frá Jóni Árnasyni, þjóðsagnasafn Ólafs Davíðssonar, og svo safn Sigfúsar gagnfræðings Sigfússonar á Eyvindará; það er einkum úr Austlendingafjórðungi, og er talsvert meira að vöxtum en alt það sem prentað er í þeim fræðum á íslenzku.
Fyrir rúmum tveim árum fór útgefandi safns þessa að safna þjóðsögum og þjóðfræðum, í því skyni að gefa út eitt bindi til reynslu, og meira, ef það gengi vel út. Sást það brátt á, að ekki er enn svo komið, eins og sumir hafa ætlað, að náman væri tæmd. Það er síður en svo. Á því, sem safnazt hefir, má sjá það, að forðinn er enn nógur fyrir, og þjóðtrúin er fyllilega með lífi meðal þjóðarinnar, og þjóðsagnirnar myndast enn þann dag í dag – með degi hverjum að kalla má. Þjóðin er minnug á fornar venjur, sem betur fer, og lætur fróðleik sinn uppi, þegar vel er eftir leitað. Það er undravert, hvað enn er til, og það í þeim sveitum, þar sem mentunarstefnan hefir lengst reynt að ryðja því burt, er hún kallar hjátrú og bábiljur. Hefir þannig safnazt mikið safn, og sumt í því með nýjum efnum og hliðum, og er það að því leyti merkilegt. Höfum vér nú þegar þjóðsagnir úr flestum héruðum Íslands, nema Vestfjörðum; þaðan höfum vér enn fátt fengið; það er sáralítið þaðan í þjóðsögum Jóns Árnasonar, og annarsstaðar er mér heldur ekki kunnugt um að sagnir þaðan sé að nokkurum mun. En það er enginn efi á því, að þar muni vera mikill fjársjóður fólginn af ýmsum fornum alþýðufróðleik, þar sem sumar sveitir þar eru enn að mörgu leyti enn minna snortnar af nýrri mentastraumum en víða annarstaðar á landinu. Mætti því ætla að þar væri hreinni og óblandaðri þjóðtrú og þjóðsagnir að finna en víða annarstaðar. Annars munu Sighvatur Grímsson Borgfirðingur og Finnur hreppstjóri Jónsson á Kjörseyri hafa safnað nokkuru saman af sögum þaðan, en að líkindum þó ekki tæmt Hornstrandir svo sem vera ber.
Svo sem kunnugt er, raðaði Jón Árnason efninu í þjóðsögum sínum eftir þeirri fyrirmynd, sem prófessor Konráð Maurer hafði viðhaft í hinu íslenzka þjóðsagnasafni sínu. Sömu niðurröðun hefir og Ólafur Davíðsson í sínu safni, en bætti að eins við einum þætti. Þessi niðurskipun er nú gömul og úrelt, og verða einatt ýmsar sagnir, er saman eiga, að sundrast milli margra flokka, af því að einstök atriði skipa þeim þar sæti. Eg hefi því gert tilraun til þess að leggja annan skiftingargrundvöll, hversu sem það tekst. En að gefa safn af slíkum sögum út í graut, hvað innan um annað, veldur allmiklum glundroða fyrir þá, er sögurnar vilja nota, nema því að eins, að nákvæmt registur fylgi bókinni.
Hér skal gerð grein fyrir, hvernig eg hefi hugsað mér tilraun þá, sem hér er gerð til þess að skifta sögunum niður eftir fastri reglu, og er það á þessa leið:
1. Manneðlissögur. Mennirnir hafa á marga vegu reynt til þess að gera sér grein fyrir sínu eigin eðli, og fyrirbrigðum þeim, sem fram koma, bæði innra með sjálfum þeim og einnig hið ytra með þeim: þar hefir margt borið fyrir menn, sem þeir, hafa ekki skilið, og því fært í frásögur á ýmsan hátt. Má þar fyrst tilfæra draumana, með öllum þeim tilbreytingum, sem fram koma í þessu óskiljanlega og ósjálfráða lífi og starfi í svefninum; kemur það bæði fram sem berdreymi, draumspár og ótalmargt, sem grípur inn í hið daglega líf vort. Þá eru og ýmis undarleg og ósjálfráð fyrirbrigði, sem munu hafa komið fram við menn í vöku; lagast margt af því mest eftir skilningarvitum vorum, og birtist oss sem undarlegar sjónir, skygni, fjarsýni og ofsjónir, eða þá að menn heyra undarlega hluti, sem ekki getur verið einleikið um, svo sem köll, hljóð, dunur, glugga klapp, vábrestir, náhljóð o.m.fl.; stundum finna menn lykt, sem engi von er til að finnist; stundum finna menn högg eða þreifingar, þar sem ekkert er. En eigi eru hin andlegu vit manna siður starfandi en hin líkamlegu; menn órar fyrir hlutum og viðburðum, spá fyrir um atburði, vita og sjá feigðarmörk, geta verkað með huga sínum langar leiðir, ýmist til ills eða góðs, talað áhrínsorðum o.m.fl. sem eigi þýðir að fara lengra út í að sinni. Menn geta líka beitt yfirnáttúrlegum gáfum og þekkingu, og fengið þannig vald yfir ýmsu í náttúrunni, og geta enda orðið svo magnaðir, að þeir hafa Satan sjálfan í vasa sínum og geta látið hann þjóna sér eins og þræl; en til þess þarf mikla og margskonar kyngi og kunnáttu. Skáldskapargáfan gerir suma færa til þess að hafa náttúruna í hendi sér. Mennirnir standa og í sambandi við hinar æðri og fullkomnari andlegu verur tilverunnar, Guð, engla og helga menn, og svo eigi síður við hinar óæðri og verri. Mennirnir eru ódauðlegir; birtast þeir oft eftir dauðann, annaðhvort sem meinlausir svipir, eða þá sem vondir andar, fylgjur og afturgöngur, sem ekki hafa lifað svo, að þeir hafi frið í gröfinni, eða þá ganga aftur til þess að gera lifandi mönnum ilt. Fyrir utan oss mennina lifa og aðrar mannlegar verur hér á jörðunni, þótt þær birtist sjaldan augum vorum. Sumar þeirra búa í hólum og björgum og nefnast huldufólk eða álfar. Eru þeir ýmsrar tegundar, og lifa í öllu eins og menn. Sumar hafast við hellum í óbygðum, og eru miklu stórvaxnari en menskir menn; það eru kölluð tröll. Sumir lifa aftur í sjónum, og heita marbendlar og hafmenn, eru þeir óskyldir að öllu. Þá eru og til ýmsir loftandar, sem stundum reyna að komast í samband við mennina. Þessi flokkurinn er fjölskrúðugastur allra, af því að mannseðlið er svo margbrotið og fyrirbrigðin svo fjölbreytt.
2. Náttúrusögur. Þar hafa menn reynt að skýrar frá því, sem fyrir ber í náttúrunni í kringum þá, og er það ærið margt og margvíslegt. Náttúrufræði alþýðunnar er mjög merkileg, og margt í henni afarfornt, enda eru sumir hlutir þeir í náttúrunni, sem yfirnáttúrlegir kraftar fylgja, og er ekki ónýtt að kunna að nota sér þá: Þá er og margt það til innan endimarka náttúrunnar, sem er mjög undarlegt og þarf skilnings og skýringa við, og hefir ransóknarandi alþýðunnar fengizt við það á marga vegu. Þannig hafa myndazt sagnir um dýr, fugla, fiska, og smærri kvikindi, og er einkanlega merkilegar sagnir manna um nykra, skrýmsli, bæði í sjó og vötnum, og aðrar kynjaverur. Þá eru plönturnar ekki síður merkilegar, og steinarnir með öllum sínum náttúrum. Þá koma og höfuðskepnurnar til greina, með öllum þeim undrum, sem þær hafa ráð á, bæði jörðin, vatnið og sjórinn, eldurinn og loftið. Fylgja þeim margir fyrirburðir og fyrirboðar, veðurboðar og veðurfylgjur, bál og brestir, haugaeldar og vafurlogar, sjávarhljóð og mörg önnur undur. Þá eru og sagnir um himinhnöttu, sól tungl og stjörnur, vígabranda, vígahnetti og önnur loftundur. Kemur þar margt til greina, sem enn er lítt kunnugt eða alls ekki.
3. Viðburðasögur eða sögusagnir. Þessi bálkurinn er einna víðtækastur og efnismestur allra. Er þar fyrst að tilnefna örnefnasögur, eða sagnir um einstaka staði á landi hér; þá eru og sagnir út úr sögu landsins, bæði um fornmenn, kirkjur og klaustur og helga menn, og síðan um merka menn á síðari öldum, bæði lærdómsmenn, galdramenn, afreksmenn að afli og áræði, eða þá, er að einhverju leyti hafa verið einkennilegir eða öðruvísi en fólk er flest, og borið hafa af öðrum, annaðhvort að viti eða heimsku, orðvísi, hnittni, hyggindum eða sérvizku. Er afarmikið til af slíkum sögum um land alt. Hefir Gísli Konráðsson safnað mörgum þáttum um slíka menn og síðan ýmsir fleiri. Þá eru og aðrar sagnir, sem ekki hafa við sannsöguleg rök að styðjast, nema að mjög litlu leyti, og heyra þar til ræningjasögur, útilegumannasögur og ævintýri um kónga og drotningar í ríki sínu; þessum flokki fylgja og kýmnisögur og skrípisögur, sem ekki eru neinum ákveðnum mönnum bundnar. Allar þessi bálkur er mjög fyrirferðarmikill og hinn fjölskrúðugasti; kennir þar margra grasa, og kemur fram í honum flest það, er annars kemur fram í hinum bálkunum og ræður efni þeirra og skipun. En ef þær greinir væri teknar út úr, mundu þær slíta samhengið, og er þeim því skipað öllum á einn stað.
4. Venjur, þjóðsiðir og þjóðtrú. Þjóðsiðir að fornu og nýju hafa enn ekki verið í neinu verulega ransakaðir á landi hér, og er það skaði mikill, og allar líkur til að margt sé nú horfið og týnt, sem áður var. Siðir þessir standa í mörgu í sambandi við þjóðtrúna, og annan átrúnað, sem hafður hefir verið á ýmsu, og væri öll þörf á að leggja alúð við að safna leifum þeim, sem eftir eru af þeim menjum. Eru þar margvíslegar kreddur og atriði, sem um er vert að tala, en því miður lítið sem ekkert verið um ritað. Má þar meðal annars telja alþýðlegar lækningar, venjur við fæðingar og barnaskírnir, giftingar, dauða og útfarir o.m.fl. Margt í slíkum venjum má rekja til fornaldartíma, sumt til páfatrúartímanna og sumt til annara raka. Undir þenna flokk heyra víti öll og viðsjár, dagatrú, áheit, óskastund o.m.fl.
5. Þá er að síðustu að nefna þjóðkvæði, bæði helgimannakvæði, sögukvæði, langlokur, þulur, barnagælur, vítavísur og vers og vísur, sem einhver trú hefir verið á, gátur, barnavísur og lausar vísur ýmsar, sem sagnir fylgja eða eigi. Þetta hefir að sönnu að miklu verið tæmt í hinu mikla og ágæta safni Ólafs Davíðssonar, en margt mun þó enn vera ónumið. Alt þetta er mikils virði, hvað smátt sem er, því að kornið fyllir mælinn, og getur haft sína þýðingu þegar alt kemur saman, þó að það virðist ekki merkilegt eitt og eitt út af fyrir sig.
Í þessum 5 flokkum felast öll þjóðleg fræði þau, er gengið hafa hér á landi, mann fram af manni og öld eftir öld. Er enginn vafi á því að margt má enn finna, sem er fróðlegt og merkilegt, ef vel væri leitað um land alt; einkum þarf að gera gangskör að því að safna öllu því er 4. flokknum tilheyrir, því að í því mörgu má ef til vill finna heimildir fyrir vísindalegum niðurstöðum, sem enn eru ófundnar eða á reiki, ef hin samberandi þjóðfræðavísindi taka það og bera það saman við samskonar sagnir og þjóðtrúargreinir meðal annara þjóða.
Safn þetta er þannig til komið, að útgefandinn, Oddur Björnsson prentari, varð eigandi að hinu mikla og merkilega safni Sigfúsar Sigfússonar á Eyvindará 1906. En þar eð safn þetta er að mestu bundið við Austfjörðu, þótti það nokkuð einskorðað að gefa það út eingöngu eða úrval úr því. Sendi Oddur þá út boðsbref sama ár, og annað 1907, um þjóðsagnasöfnun út um land alt, og hafa margir snúizt vel við, og hefir þegar safnazt kynstur af sögnum, og eru enn að tínast að. Er margt af því sögur frá allra nýjustu tímum, og eru sumar þeirra merkar, þó að ekki séu þær efnismiklar. – Hefir nú verið afráðið að gefa út eitt dálítið bindi af sögum þessum, sem sýnishorn af þessu safni, og með efnisskiftingu þeirri, sem drepið er á hér að framan. Ef bókin nær því gildi, að hún fái góðar viðtökur meðal landsmanna, munu fleiri bindi koma á eftir, bæði eftir safni Sigfúsar og fleiri manna, og flokkunum þá haldið saman, og nákvæmari formálar og skýringar með hverjum flokki, en hér hefir verið gert. Í þessu bindi eru engar þær sögur, sem áður hafa verið prentaðar, nema því aðeins að þær sé með svo miklum missögnum, að þörf sé á að færa söguna í letur að nýju. Sumum greinum og atriðum er slept að mestu eða öllu leyti í bindi þessu, bæði vegna þess að ekki var rúm fyrir það, og svo vegna þess að enn var ekki komið svo mikið af þeirri grein, að nægilegt væri til þess, að fá ljósa hugmynd um stefnu þeirrar greinar, eða það var ofmjög í molum til þess að það tæki því að taka upp sagnir um það. Sérstaklega er kaflinn um þjóðsiði og venjur enn þá sérstaklega fáskrúðugur, og mun verða reynt eftir megni að bæta úr því áður en langt um líður. En mest er um það vert, að menn bregðist vel við að styðja útgefanda sem bezt með því að senda honum svör upp á fyrirspurnir þær er hann hefir í hyggju að senda út, til þess að safnið geti orðið svo áreiðanlegt sem auðið er og fullkomnast að öllu.
Undirritaður hefir haft röðun og meðferð sagnanna á hendi, og er því honum um alt það að kenna, er áfátt kann að vera í þeim efnum. Registur fylgir og bókinni, bæði yfir nöfn þau, er fyrir koma, og helztu atriði, er mikilsvarðandi kunna að þykja fyrir þá, er þjóðsagnafræði stunda.
Svo að síðustu á bók þessi að færa þakkir öllum þeim, sem vel hafa brugðizt við málaleitun útgefanda með að senda sagnir og ýmsan fróðleik til hans. Og mun verða framvegis með þökkum þegið hvert smáræði, sem oss berst í þá átt.
Hrafnagili, í júlí 1908.
Jónas Jónasson.
(Eftir handriti Spítala-Þórðar Guðmundssonar á Akureyri. 1906.)
Þennan draum dreymdi mig í sjúkrahúsinu á Akureyri 27. febr. 1906. – Eg þóttist ganga hér út á sléttuna fyrir utan sjúkrahúsið, og varð litið í landnorður. Sá eg þá bera yfir Látra-fjöllin einhvern svartan depil; sýndist mér hann smá-færast nær, þar til að hann var kominn gegnt Svalbarði. Eftir því sem þetta færðist nær, fór eg að geta greint það betur, hvers-konar verur það væru, og þegar það var komið hér andspænis Oddeyrartanganum, þá var ein þessi vera svo hátt uppi, að hún bar við loft, laust fyrir ofan brúnir Vaðlaheiðar hér fyrir austan Eyjafjörð, en þótt þessar verur væru svo hátt í lofti upp, gat eg glögt greint alla lögun þeirra.
Þetta voru þrír menn ríðandi, er bárust óðfluga um geiminn. Hestar þeirra voru afar-stórir, hvítir að lit, og riðu menn þessir hver á eftir öðrum, með á að gizka þriggja faðma millibili. Sá sem síðastur fór, var einna fyrirferðarmestur, bæði maðurinn og hesturinn. Það sem mig undraði mest við sýn þessa var það, að menn þessir voru í öllum herklæðum, og þeim heldur fornlegum; þó var ægilegastur allur útbúnaður þess, sem síðast reið. Mér þótti hann hafa sinn brandinn í hvorri hendi og veifaði þeim svo ótt og títt í allar áttir, að eg þóttist heyra þyt mikinn; eg heyrði þó að þeir mæltu þessi orð:
»Látum nú geisa gamminn.
Klæðum
fold fyrir sólu.«
Meira heyrði eg eigi, því að svo fljótt bar þá fram allan Eyjafjörð, og eg hugði í svefninum að þeir mundu fara suður yfir land alt, þetta hlyti að vera svokölluð gandreið sem oft átti sér stað fyr á öldum. Svo hurfu menn þessir algerlega, en eg þóttist standa langan tíma hér úti og vera að hugsa um, hvað þessi fyrirburður mundi þýða; þóttist eg þá sannfærður um, að hann boðaði nokkur stórtíðindi, en hverskonar tíðindi það yrðu, því gat eg eigi gert mér grein fyrir. Þá þótti mér alt í einu standa hjá mér maður einn; sá var í svörtum kyrtli með síðan hött á höfði og mælti:
»Nafn mitt er engum kunnugt, en þó fer eg um land þvert, og hygg að heimskra manna höldum, sem ekki hafa bjargráða. Þá byrgist fold fyrir sólu.«
Þá vaknaði eg, og sagði drauminn þegar sjúklingum sem voru í sömu stofu og eg, en eigi kom okkur saman um ráðninguna. Eg sagði að hann væri fyrir harðindum og skepnumissi þá um vorið, og tíminn sannaði mál mitt.
(Eftir handriti Spítala-Þórðar Guðmundssonar á Akureyri. 1907.)
Haustið 1906 lá hér á sjúkrahúsinu á Akureyri stúlka ein austan af Seyðisfirði, er Guðlaug hét, Sveinsdóttir. Þegar hún var komin á fætur, var það einn morgun, hér um bil 15. okt., að hún kemur inn til mín, þar sem eg lá í svokallaðri Norðurstofu. Hún var dapurleg í bragði, svo að eg fer að glensa við hana, segi sem svo, að nú liggi vel á henni, það sjái eg. Hún kveður »nei« við því; segir, að það sé alt annað, sig hafi dreymt svo leiðinlega í nótt. »Hvernig var það?« sagði eg. Hún svarar:
»Eg þóttist hér úti stödd og ganga umhverfis sjúkrahúsið; varð mér gengið lítið eitt hér út fyrir. Þótti mér þá á svipstundu verða skínandi bjart austur yfir Vaðlaheiði. Þessi bjarmi náði alla leið austur á Seyðisfjörð og yfir alt Seyðisfjarðar-hérað. Þótti mér öll þessi birta stafa af eldi, sem eg sá þó eigi. Þá vaknaði eg. – Eg er viss um að það er eitthvað að brenna – eða brennur bráðlega heima hjá mér.« – »Hvaða vitleysa,« sagði eg, »eldur er oft fyrir ófriði, og eg ræð þennan draum þannig, að Seyðfirðingar haldi stjórnmálafund, og að þar verði í engu samkomulag svo að alt fari í bál og brand.« Þetta sagði eg rétt að gamni mínu, án þess að það væri skoðun mín.
Guðlaug fór alfarin héðan af Akureyri á strandferðaskipinu »Hólum« um dagmál 17. okt. En þessa dags kvöld gaus sá eldur upp á Oddeyri, er olli enum mesta húsbruna, er orðið hefir hér á landi frá landnámstíð. – Birtan varð þá svo mikil yfir Vaðlaheiði af þessu ægilega báli, að héðan af Akureyri sást þar mjög skýrt hver smálaut og mishæð, og miklu skírara en í heiðskíru veðri og glaða sólskini. Eg veitti þessu nákvæma eftirtekt, þar sem eg stóð við glugga í Norður-stofunni í sjúkrahúsinu á Akureyri, meðan á brunanum stóð. Er það auðsætt, hvað draumur Guðlaugar hefir boðað, einkum vegna þess, að hún sá engan eldinn í svefninum, en þóttist þó vera viss um það, að þessi mikla birta stafaði af eldi; því að hún sjálf var farin héðan burt, þegar eldurinn kom upp.
(Sögn Bessa Steinssonar í Kílholti í Skagafirði. 1907. Handrit Zóphoníasar prófasts Halldórssonar í Viðvík í Skagafirði.)
Vinnumaður nokkur var á Hraunum í Fljótum nálægt 1850, er Jóhann hét. Hann var formaður. Eitt sinn dreymdi hann, að hann væri á sjó með hásetum sínum. Fórst þá skipið og druknuðu allir skipverjar; þóttist hann þá sjá stiga, er næði upp í loftið; gengu þeir upp stigann og komu í hús eitt, sem var svo forkunnar-fagurt, að hann hafði aldrei séð slíkt. En þegar hann fór að gá að, sá hann, að einn hásetann vantaði. En hvernig sem hann var spurður, var hann ófáanlegur til að segja, hver það var. Nokkurum tíma seinna ætlaði hann í róður ásamt hásetum sínum. Bað þá annar formaður, Þórarinn nokkur á Gili, hann að ljá sér mann, þar eð Þórarinn var liðfár, en Jóhann hafði góðan mannafla. Bað þá Jóhann fyrst mann, er Árni hét og var mesti þægðarmaður, að fara, en hann neitaði. Því næst bað hann annan að fara, en það fór á sömu leið. Sagði þá maður nokkur, er Jón Eiríksson hét og átti heima í Hrúthúsum: »Ætli að það sé ekki bezt að eg fari.« Þá sagði Jóhann: »Ekki ætlaði eg að lána þig, en það verður þá svo að vera.« Þenna dag kom ofsaveður og druknaði Jóhann og allir hásetar hans, nema Jón í Hrúthúsum, er lánaður var á hitt skipið. Engin vissa er fyrir því, að Jón hafi verið maðurinn, sem vantaði í draumnum, en líkindi eru til þess. Bessi í Kílholti var á áttunda ári, er þessir menn druknuðu, og man hann vel eftir ofviðrinu, þótt hann væri barn að aldri. Hann er alinn upp í Tungu í Fljótum, og var þar þangað til hann var fullorðinn. Maður er Steinn hét, og Bessi þekti vel, sagði honum drauminn eftir Jóhanni sjálfum.
(Sögn Guðmundar Þorvaldssonar Rangvellings. 1907. Handrit Hannesar Ó. Magnússonar á Akureyri.)
Árið 1878 átti eg heima á Bergþórshvoli. Kirkjustaður þaðan var á Krossi. Þá um veturinn dreymdi mig að eg væri staddur á Krossi og varð litið niður að Hallgeirsey, sem er næsti bær (en þaðan er veifað til ýmsra bæja í grendinni, þegar fara á fram í Vestmanneyjar). Sé eg þá að veifa er uppi á bænum. Eg þóttist vita að nú væri ekki til setu boðið og þaut af stað. Þegar eg er kominn spölkorn, verð eg þess var, að stígvél er komið á hægri fótinn, sem mér þótti ná mér í mitt læri; þótti mér þetta all-undarlegt, enda gangurinn erfiðari; en áður mig varði sá eg að blóð vall upp úr stígvélinu, og við það vaknaði eg.
Seinna um veturinn dreymdi mig að æskuvina mín, Ingibjörg Sigurðardóttir frá Búðarhóli, kom til mín og fengi mér að gjöf 18 krónur og nokkra aura framyfir. Sá draumur var ekki lengri.
Skömmu fyrir sláttinn sumarið eftir lagðist eg af svo kallaðri bólguveiki; bólgnaði og gróf í hægri fætinum upp á mitt læri, eða jafnlangt og stígvélið náði í draumnum. Rúmfastur lá eg í 18 vikur og nokkra daga.
(Sögn Guðmundar Þorvaldssonar á Akureyri. 1907. Handrit Hannesar Ó. Magnússonar.)
Fyrir og eftir 1870 var Jón Brandsson bóndi í Hallgeirsey í Landeyjum, efnamaður og umsýslumaður mikill um sveitamál o. fl. Hann var þau árin álitinn mesti sjósóknari og aflaði manna bezt. Það var eitt vor, er eg reri í Hallgeirsey, að við riðum til sjávar snemma morguns. Vorum við fleiri skipshafnir og fórum dreift til sjávar. Varð mér þá loks samferða sá maður, er Jón Eyvindsson hét, húsmaður í Hallgeirsey; hann reri á enn öðru skipi en við Jón Brandsson. Vekur hann þá máls á því, að sig hafi dreymt skrítinn draum í nótt. Eg inni hann eftir draumnum og segir hann mér þá það, sem hér fer á eftir:
»Eg þóttist staddur á kirkjustaðnum Krossi. Þykir mér þá eg líta niður með kirkjugarðinum og sjá Jón Brandsson með hásetum sínum, Sigurði Einarssyni í Hallgeirsey, Hróbjarti Gíslasyni og Guðna frá Hallgeirseyjarhjáleigu, koma með róðrarbát sinn á milli sín og hvolfa honum við kirkjuvegg utanverðan.«
Draumur Jóns var ekki lengri og héldum við þetta markleysu eina. Síðari hluta dags versnaði í sjóinn og gerði brim við sandinn. Hvolfdi þá bát Jóns Brandssonar í lendingu, en menn björguðust.
(Handrit Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum í Mývatnssveit. 1906.) Árið 1872-73 var eg vinnukona á Hólsfjöllum á bæ þeim er Fagridalur heitir. Þar bjó þá ekkja, er hét Rannveig, og var Sveinbjarnardóttir, vel greind og merk kona. Hjá henni var í húsmensku bróðir hennar, sem Kristján hét. Hann var ekkill og hafði brugðið búi vorið áður. Elzta barn hans var drengur tólf ára, er Friðfinnur hét. Hann var mesti myndar-unglingur, bæði fríður og vel greindur. Hann hafði þetta sama vor farið í Grímsstaði til Guðmundar bónda Árnasonar, sem þar bjó þá.
Á jóladaginn þennan vetur var eg að spila vist, og var Kristján, sem áður er nefndur, einn af þeim, sem spiluðu.
Þegar kom fram um dagsetur kom Rannveig húsmóðir mín inn með kaffi handa okkur, sem vorum að spila, en meðan við drukkum kaffið segir Rannveig: »Nú hefði eg getað trúað því, að einhver væri að verða úti, því eg hefi engan frið eða ró, hvar sem eg er í bænum.« Við sögðum öll í einu hljóði, að það væri ekki ólíklegt, því að grimmasta stórhríð var úti. Þó var ekki meira rætt um það að sinni.
Á annarsdagskvöld jóla á vökunni, dreymir Kristján að hann sé fram á Víðirhóli, – sem er næsti bær fyrir sunnan Fagradal – og þykir Friðfinnur koma til sín glaður í bragði og biðja sig að sækja farangur, sem hann eigi þarna fram í dalnum, – og benti honum hvar það væri, – það finni þetta ekki aðrir en hann. Á Gamalársdag var komið með þá óvæntu fregn, að Friðfinnur hefði lagt af stað á jóladaginn og ætlað út í Fagradal að finna föður sinn. Vissu menn þá að hann hefði orðið úti. Lík Friðfinns fanst ekki fyr en seint um veturinn. Kristján faðir hans fann það.
Áður um veturinn hafði Friðfinnur oft verið búinn að spá fyrir skammlífi sínu, og sagði hann það dreng, syni Guðmundar bónda á Grímsstöðum, Friðrik að nafni, og var haldið að hann hefði markað það mest af draumum. – Einu sinni hafði hann dreymt að til hans kæmu tveir menn hvítklæddir, og tækju hann með sér.
Þennan sama vetur fyrir jól dreymdi Rannveigu húsmóður mína, að móðir Friðfinns kæmi til sín, með hann í fanginu, allan snjóugan.
(Sögn Halldórs bónda Þorgrímssonar í Hraunkoti í Aðaldal, S.-Þingeyjarsýslu. 1908. Handrit Guðmundar Friðjónssonar á Sandi.)
Snemma á 19. öld bjó maður sá á Geiteyjarströnd við Mývatn, er Jóhannes hét, Þórsteinsson. Hann var dugandi maður og góður bóndi, átti margt barna og eru margir afkomendur hans hér um slóðir, og að Geiteyjarströnd býr enn sá ættleggur. Hann var móðurbróðir Þórsteins prests að Hálsi, en afabróðir Halldórs bankagjaldkera og Jóhanns dómkirkjuprests; eru þeir systrasynir. – Snemmendis á búskaparárum sínum fór hann frá Strönd vestur á Mývatnsheiði, að bæ þeim, er heitir að Stöng, en þar bjó hann eitt ár að eins, en langaði aftur í veiðiskapinn að Strönd og fluttist því þangað aftur. Sumarið eftir er hann kom að Strönd, tapaði hann tveim ám úr kvíum; struku þær norður fyrir Mývatn og vestur á heiðina við Stöng, gengu þar um sumarið og fitnuðu vel, því að þar eru sumarhagar góðir. Þar sáust ærnar af ýmsum fram um göngur, en komu ekki til skila um haustið. Jóhannesi þótti hvarf þeirra kynlegt og skaði mikill um ærnar, kví að þær voru metfé: önnur mókollótt en hin móhosótt. Leið svo haustið og veturinn fram í fyrstu viku jólaföstu. Þá dreymir Jóhannes á Strönd eina nótt: hann þykist sjá mann koma vestan yfir Mývatn og heim að bænum. Þekkir hann að þar er bóndi frá Víðum. Sá bær er á Mývatnsheiði nokkuð frá Stöng. – Bóndi þessi hét Hallgrímur og var kallaður Stóri-Hallgrímur. Þóttist Jóhannes tala til Hallgríms og sér hann þá höfuð ánna, sem hann vantaði, koma upp úr hempuvösum Hallgríms. Þau litu upp á Jóhannes og jörmuðu. Og við þetta: vaknaði hann.
Þennan draum segir hann systur sinni, er Guðrún hét, er þá átti heima þar að Strönd. Hann gat þess um leið, að sig grunaði að Stóri-Hallgrímur mundi vita eitthvað um hvarf ánna. – Næsta dag eftir þetta kemur Stóri-Hallgrímur að Strönd, var í silungsútvegum, því að margir, koma þangað í þeim vændum. Jóhannesi þótti þetta bera undarlega saman við drauminn. Hann vindur nú Hallgrími afsíðis og ber á hann ærstuldinn. En Hallgrímur þrætti fyrir fyrst lengi. En þó meðgekk hann að lokum að hafa tekið og skorið aðra ána. En hina hefði tekið nábúi sinn, er Andrés hét, og bjó í Máskoti. Sagðist Hallgrímur hafa hengt ketið af sinni á upp í eldhús og borðað af því í kvöldskattinn, þá um föstuinnganginn og lokið hafði hann við af síðasta beininu morguninn þennan, áður en hann fór að heiman. – Hann grátbændi nú Jóhannes að þegja yfir þessu og gerði Jóhannes það, að hlífa honum við refsingu.
Hallgrímur þessi varð auðnuleysingi: lenti á flækingi, og var þó af góðu fólki kominn. Hann var niðji Kálfa-Strandar Péturs, sem nafnkunnur er fyrir afl sitt. Afdrif Hallgríms urðu þau, að hann varð úti á heiðinni milli Reykjadals og Mývatnssveitar, ásamt Andrési félaga sínum, þeim sem fyrri er nefndur. Gisti hann að Andrésar nóttina áður en þeir urðu úti og lögðu af stað matarlausir. Sagt var, að Andrés hefði ekki tímt að eyða mat sínum í Hallgrím, og unnið það til að fara sjálfur fastandi. Veður var gott er þeir fóru af stað, fyrir dag, en brast á snögglega veðrið.
Draum Jóhannesar heyrði eg segja Guðrúnu systur hans, er lengi bjó að Hraunkoti í Aðaldal, og var hún merkileg kona.
(Handrit Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum við Mývatn. 1906.)
Árið 1882 bjuggu á Kálfaströnd við Mývatn hjónin: Sigurður Tómasson og Elín Jónsdóttir, en í búinu voru þá Halldór sonur þeirra, og kona hans Hólmfríður, sem enn býr þar.
Eina nótt, vorið 1882, dreymir Halldór að móðir hans kemur til Hólmfríðar og kastar til hennar lyklakippunni; segist ekki þurfa þeirra framar. – Daginn eftir lagðist móðir hans og andaðist nóttina eftir.
(Handrit Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum í Mývatnssveit. 1906.)
Þegar Björn prófastur Halldórsson bjó í Garði í Kelduhverfi (1812-1841), var vinnumaður hjá honum, sem Þorsteinn hét. Var hann fremur gáfusmár og óprúttinn.
Eina nótt dreymdi Hólmfríði – konu á Víkingavatni –, að Þorsteinn þessi væri dauður og kominn til Vítis. Daginn eftir voru vinnumenn síra Bjarnar að draga fyrir silung í svokölluðum Stórárósi, og hverfur þá Þorsteinn þessi í sandbleytu og druknar þar. Um daginn fréttir síra Björn þetta jafnsnemma: Lát Þorsteins og draum Hólmfríðar. Verður honum þá fremur felmt við. Segir sagan, að hann og síra Vernharður Þorkelsson prestur á Skinnastað, sem þar var staddur, hafi farið út í kirkju og beðið fyrir sálu Þorsteins alla nóttina.
(Sögn Sigurbjargar Hallgrímsdóttur á Ósi í Hörgárdal. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1862 var Sigurbjörg Hallgrímsdóttir, – sem nú, 1906, er á Ósi í Hörgárdal, – til heimilis á Laxamýri í Þingeyjarsýslu. Einhverju sinni um veturinn fór hún fram að Hraungerði að finna móður sína. Var hún þar um nóttina. Dreymdi hana þá, að hún væri stödd niður við Laxá í tunglsljósi. Vök var á ánni. Sér hún þá höfuðið á Sigurbirni Stefánssyni, beitarhúsamanni á Laxamýri, í vökinni og hund á vakarbarminum. Fanst henni maðurinn kalla á hjálp. En hún gat þó ekki hjálpað honum. – Daginn eftir frétti hún, að Sigurbjörn hefði druknað þá um morguninn. Hafði hann kallað á hjálp, alveg eins og henni þótti í draumnum að hann gera. — Sigurbjarnar var leitað í tvo daga, og fanst hann ekki. Aðfaranótt hins þriðja dags dreymdi Björgu, systur Sigurbjargar, sem þá var og á Laxamýri, að Sigurbjörn kæmi til sín og segði: »Það er ekki von að þeir finni mig, því að þeir leita ekki á réttum stað.« Sagðist hann vera á eyrinni fyrir framan Vökukofann, sem kallaður er (þessi kofi var hafður fyrir þá, sem gættu varpsins á vorin), og þar fanst hann, er þar var leitað eftir vísbendingu Bjargar. – Nokkrum dögum seinna var Sigurbjörg að þvo upp matarílát frammi í eldhúsi. Varð henni þá litið fram í dyrnar og sér hvar Sigurbjörn studdist með krosslögðum höndum fram á hurðina, því að hún var í hálfa gátt. Greip hana þá svo áköf hræðsla, að hún ætlaði að hníga niður, og ekki gat hún kallað, þó hún heyrði að gengið væri um göngin. Að lítilli stundu liðinni hvarf svipurinn.
(Sögn Sigurbjarnar Sigurðssonar að Litlu-Laugum í Reykjadal. 1906. Handrit Tryggva Indriðasonar.)
Seint á nítjándu öld bjuggu hjón í Laugaseli í Suður-Þingeyjarsýslu. Þau bjuggu á parti af jörðunni eða voru í húsmensku. Þau áttu dreng, 7 eða 8 ára gamlan, og sendu hann einu sinni upp yfir Mývatnsheiði að þeim bæ er Arnarvatn heitir; en hann kom ekki heim á þeim tíma, er von var á honum, enda var þoka um daginn. Svo var leitað alla nóttina og daginn eftir, en árangurslaust.
Þá bjó einnig í Laugaseli Kristín Jóhannsdóttir. Hún var systir Sigurbjarnar skálds, sem dó í Ameríku nú um aldamótin.
Næstu nótt dreymir Kristínu að hún þóttist stödd við Laxá, andspænis bæ þeim er Hofstaðir heita. Sá bær er talinn í Mývatnssveit, en er þó fremst í Laxárdal. Sér hún þar tvo menn og eru þeir að dýfa drengnum ofan í ána. Héldu þeir honum síðan niðri í.
Var nú leitað út með Laxá, og fundust þá hestspor sem lágu fram í ána, en drengurinn fanst druknaður út hjá Hólum í Laxárdal. Hefir hann að líkindum ætlað að ríða yfir ána í Hofstaði, en þar er hún straumhörð og óreið alla tíma ársins.
(Sögn umboðsmanns Benedikts G. Blöndals í Hvammi í Vatnsdal sumarið 1882, og margra fleiri. Handrit Odds Björnssonar.)
Sumarið 1882 voru harðindi mikil á Norðurlandi, því að hafís lá alt sumarið fyrir öllu Norðurlandi og komust skip ekki inn á hafnir fyr en seint í ágúst-mánuði. Snemma á því ári, áður en ís rak að landinu, dreymdi stúlku eina vestur í Miðfirði, að til sín kæmi mikilúðleg og harðneskjuleg kona og kastaði fram stöku þessari:
Eg á vald í vinnu stáls
viður kaldar dróttir;
landið faldar hér til hálfs
Herborg Skjaldardóttir.
(Sögn Jóns Tómassonar á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Síra Hallgrím Thorlacius, sem nú er prestur í Glaumbæ, dreymdi um sama leyti og Baldvin skáld Jónsson andaðist, en áður hann frétti lát hans, að Baldvin kæmi til sín og kvæði vísu þessa:
Eru læknuð öll mín sár,
engar nauðir þvinga.
Nú er Baldvin bleikur nár,
Bragi Skagfirðinga.
(Sögn Tómasar Jónassonar í Lónkoti í Sléttuhlíð. 1907. Handrit Jónasar prófasts Jónassonar.)
Árið 1881 var vetur harður, og er hann vanalega nefndur frostaveturinn. Þá bjuggu þau hjón, Guðmundur hreppstjóri Jónsson og Anna Bjarnadóttir, á Yztahóli Sléttuhlíð. Seint um veturinn var þar orðið heylítið mjög, sem annarstaðar, svo að af var ráðið að skera þar af heyjum 60 fjár, tvö hross og eina kú. Var búið að taka skepnur þessar frá. Nóttina áður en átti að skera dreymdi húsfreyju að hún þóttist standa í bæjardyrum frammi; sá hún mann koma sunnan túnið; var hann mjög fríður sýnum, svo að hún þóttist ekki hafa séð jafnfallegan mann. Hann heilsar henni og tekur hún kveðju hans, og býður honum að koma inn. Hann segir henni að hann megi ekki vera að því núna, »en að viku liðinni kem eg aftur,« sagði hann, »og þá verð eg úr því«. Þá vaknaði hún, og réð drauminn þegar svo, að bati mundi koma að viku liðinni, og var svo hætt við að skera. Að viku liðinni kom hinn bezti bati og öndvegistíð; héldu þau hjón öllu fé sínu fyrir drauminn.
(Heimildin í sögunni.)
Veturinn 1876-77 dreymdi Þórunni Stefánsdóttur, er þá var ung stúlka á Stóra-Fjalli í Mýrasýslu, að hún væri stödd inni í stóru húsi eða stofu; voru þar inni margir bekkir og borð; voru borðin og bekkirnir mjög löng og svört á lit. Mikið var af bókum á víð og dreif um borðin; einn maður sat þar inni, hár vexti, á dökkgráum fötum og heldur þurlegur og alvarlegur á svip; var hann þar að blaða í bókum. Þóttist hún þá ganga meðfram bekkjunum, og segja: »Hvað er hér gott að hafa?« en hugsa þó um leið: »Það er víst annars til lítils að tala glaðlega við hann, þennan.« En henni þótti hann þá líta upp, taka glaðlega undir og segja: »Eg veit ekki hvað þér þykir skemtilegast; þykir þér það skemtilegt, þegar vel er kveðið um ást og fegurð náttúrunnar?« – »Já,« þykist hún segja, »það þykir mér nú hreint skemtilegast af öllu.« Svo þóttist hún setjast þarna niður á stól; þá stóð þessi maður upp, gekk til hennar, að baki henni, seildist með hægri hendinni fram fyrir hana, milli handarinnar og síðunnar, klappaði á brjóstið á henni og sagði: »Það er bezt að eg klappi á brjóstið á þér, það hefir líklega aldrei verið gert fyrri.« Henni fanst sér hvorki verða vel né illa við, en hálfkynlega. Svo var ekki draumurinn lengri.
Um vorið eftir var hún um tíma suður í Reykjavík, og kyntist þar þá lítið eitt skólapilti einum, Jónasi Jónassyni frá Tunguhálsi; var hann þá í alveg eins fötum sem draummaðurinn, en að öðru leyti datt henni þó ekki hug að álíta, að hann hefði verið draummaðurinn. En skömmu eftir að hún var komin heim aftur um vorið, dreymdi hana, að hún væri úti í skemmu á Stóra-Fjalli, og væri eitthvað að taka til í fatakistu, er hún átti þar. Þá þótti henni Jónas Jónasson vinda sér inn úr skemmudyrunum, og að kistunni, opna handraðann og segja:
»Hér á eg átta aura.« – »Já, en þeir fást nú ekki núna,« þóttist hún segja í gletni, skella aftur kistunni, og svo var draumurinn á enda.
Vorið 1878 trúlofuðust þau Jónas Jónasson og Þórunn, áttust 1884, og hafa eignast átta börn saman.
Drauma þessa sagði hún mannsefni sínu stuttu eftir að þau hétust eiginorði, og hefir maður hennar ritað þá upp eftir henni sjálfri.
(Eftir handriti Spítala-Þórðar Guðmundssonar frá Móbergi í Húnavatnssýslu. 1906.)
Það var einu sinni, þegar eg svaf um miðjan morgun í rúmi mínu í sjúkrahúsinu á Akureyri, að eg þóttist vera staddur á mér ókunnum stað. Þar þóttist eg vera í mannfjölda miklum, sem var saman kominn á víðáttumiklum steinfleti, eggsléttum, umgirtum af húsa-þorpi, sem myndaði vel hálf-hring, er var opinn móti austri; þar þóttist eg vita að höfn væri nálægt.
Fólkinu var skipað í margsettar fylkingar, sem mynduðu hálfhring á sama hátt og byggingarnar, svo að útgangur var greiður til hafnarinnar. Innan í mannhringnum var auður flötur, girtur véböndum, og sást það á svip fólksins, að enginn mundi gerast svo djarfur að stíga fæti sínum inn fyrir þau.
Enginn mælti þar orð frá vörum, alvaran grúfði þar yfir öllum hlutum. Nú fer eg að gæta betur að hlutunum umhverfis mig. Sé eg þá á miðjum fletinum, innan vébandanna, steinstólpa tvo, er voru á að gizka ein alin eða ein alin og kvartil á hæð og hér um bil eitt fet á þykt, með þriggja feta milli-bili og voru í stefnu hvor frá öðrum frá suðaustri til norðvesturs. Ofan á þessa stólpa var lögð skálm ein mikil, er líktist brynþvara; lagið var eigi gott að sjá, því að hún var mjög ryðguð, og sýndust vera komin skörð í eggina, þegar til oddsins dró. – Þegar eg er búinn að veita öllu þessu athygli, þá hugsa eg að hér hljóti eitthvað hátíðlegt að eiga fram að fara, þar sem þessi einkennilegi viðbúnaður sé en í sömu andránni, sem eg er að hugleiða þetta, sé eg mann koma, að mér þykir, frá höfninni. Hann gengur óhikað inn í véin og þar að, sem skálmin liggur á steinstólpunum, snýr sér þá við, og segir með snjöllum rómi og valdsmannlegum: »Konungur Friðrik VIII.;« og þá lutu honum allir, en enginn mælti orð frá munni. Þá segir konungurinn: »Stíg eg á stokk og strengi þess heit,« og í sömu andránni lyfti hann sér upp á skálmina, sem var á milli stólpanna, og stóð þar teinréttur með uppréttar báðar hendur svo mælandi: »Eg strengi þess heit, að uppfylla óskir Íslendinga, að svo miklu leyti sem sjáanlegt er, að geti orðið þeim til sannra þjóðþrifa og fullkomnunar; annað er oss eigi fært á þessum tímum. Íslendingar eru menn, sem berjast við ís og eld, og þar á ofan afgirtir úti í reginhafi; hafa þeir því eigi af öðru að segja en óblíðu náttúrunnar, en þó er krafa þeirra eigi þyngri en það, að þeir óska að eins eftir sínu forna frelsi; og það er oss eigi sæmilegt, á þeim jafnréttisdögum sem vér nú lifum á, að synja þeim um fornan rétt þeirra.« – Lengri varð draumurinn eigi, því að hjúkrunarstúlkan opnaði dyrnar á stofunni, þar sem við sváfum fimm inni. Við vórum þar tveir íslenzkir, einn danskur, einn sænskur og einn norskur. Sagði eg hinum þegar draum þennan, og var það skoðun okkar allra, að hann mundi boða mikinn fögnuð, sem hans hátign, konungurinn yfir íslandi og Danmörk, mundi sjálfur birta okkur með hingaðkomu sinni á næsta sumri.
(Sögn Halldórs Þorgrímssonar í Hraunkoti. 1908. Handrit Guðmundar Friðjónssonar.)
Svo sem mörgum er kunnugt, brann kirkjan að Lundarbrekku í Bárðardal nóttina milli 9. og 10. apríl 1878; timburkirkja máluð, vandað hús og vel bygt af Jóni bónda Sigurðssyni er þar bjó lengi. Hann átti Lundarbrekku, meðan hann bjó þar, en seldi hana Jóni frá Grænavatni. Hann var einn af hinum nafnkunnu Reykjahlíðarbræðrum. Sagt er að Lundarbrekku-Jón hafi séð eftir sölunni, þegar hún var komin í kring, og farið þaðan sárnauðugur. – Nú víkur sögunni í aðra átt. Jón hét maður og var Einarsson. Hann bjó í Sandvík í Bárðardal og síðar á Jarlsstöðum, dáinn nú fyrir fáum árum. Hann var greindarmaður og sannorður. Árið áður en kirkjan brann, dreymdi hann draum einn. Hann þóttist staddur að Lundarbrekku og sá mannfjölda mikinn kringum kirkjuna; voru þeir að kinda bál við kirkjuvegginn, og höfðu að eldsneyti fjalabrot úr gömlum líkkistum. Engan þekti hann þessara manna, nema Jón heitinn sem áður bjó að Lundarbrekku og fór þaðan nauðugur. Jóni Einarssyni þótti nafni sinn ráða fyrir eldinum, og sneri sér því að honum og spurði hann, hvort hann væri ekki hræddur um kirkjuna. Þá svaraði Jón heitinn Sigurðsson: »Hún má brenna og hún skal brenna.« — Draum þennan sagði Jón Einarsson nágrönnum sínum, áður en kirkjan brann, og stóð honum stuggur af honum.
(Handrit Guðmundar Friðjónssonar. 1908.)
Baldvin Sigurðsson bónda í Garði í Aðaldal (1908) dreymdi draum einn, þá er hann var ógiftur maður frammi í Bárðardal. Hann þóttist koma vestan yfir Eyjafjörð og ganga á land á Svalbarðsströnd. Þar sér hann þá fjölda af höggspónum á víð og dreif um fjöruna. Nafn sitt sá hann vera skrifað á hvern spón, og þótti honum þetta kynlegt. – Tuttugu árum síðar, þegar hann var kominn að Garði, keypti hann norskt síldveiðahús vestan við Eyjafjörð, dró það í sundur, flutti viðuna yfir á Svalbarðsströnd, og ók öllu saman á sleðum austur yfir heiði og sem leið liggur austur að Garði. Þar bygði hann timburhús úr viðnum og þótti þetta vera í mikið ráðizt á þeim árum. Baldvin hefir sjálfur sagt mér drauminn og hugði hann verið hafa fyrir þessu starfi sínu. Annars er hann enginn trúmaður á drauma.
(Heimildin í sögunni. Handrit Odds Björnssonar. 1907.)
Þegar Þorsteinn bókbindari Þorsteinsson frá Hvassafelli, bróðursonur Jónasar skálds Hallgrímssonar, var vinnumaður á yngri árum sínum hjá Arnþóri Árnasyni, prests að Auðbrekku í Hörgárdal, þá dreymdi hann nótt eina um miðjan vetur, að inn í baðstofuna kemur maður, allur hélugrár, með hvítt skegg, sítt. Gekk hann innar eftir baðstofunni, inn í baðstofuhús í öðrum enda hennar, en kemur bráðlega aftur og gengur út, en um leið og hann gekk fram hjá rúmi Þorsteins grípur hann tveim höndum um báða fætur hans. Lagði svo megnan kulda af höndum komumanns, að Þorsteini hraus hugur við og þótti sem heltæki fæturna; stóð honum stuggur af komumanni, en hann fór leið sína. – Skömmu síðar um veturinn fór Þorsteinn vestur í Skagafjörð. Fór hann Hörgárdalsheiði, er hann kom að vestan. Varð hann votur á heiðinni og kól á báðum fótum.
Þorsteinn sagði draum þennan Sigtryggi syni sínum, en Sigtryggur sagði mér.
(Sögn frú Jóhönnu Jónasdóttur á Oddeyri, systur Steindórs. 1905. Handrit Þorst. M. Jónssonar.)
Árið 1888 var í skóla á Möðruvöllum piltur, að nafni Nikulás; var hann Þórðarson, sunnan úr Rangárvallasýslu. Þá var einnig í skólanum Steindór Jónasson frá Þrastarhóli í Hörgárdal.
Eitt sinn dreymdi Nikulás að hann gengi upp að Þrastarhóli, sem er bær skamt frá Möðruvöllum. Hann þykist þá sjá Steindór Jónasson þar í hlaðvarpanum og hefir hann húfu á höfði með gyltri stjörnu að framan, og ártalið 1902 með bláum stöfum í stjörnunni. Þenna draum réðu skólapiltar á Möðruvöllum þannig, að Steindór mundi giftast það ár, en það varð eigi svo, því að hann andaðist einmitt 9. marz 1902, og virðist draumur Nikulásar hafa verið fyrir fráfalli hans.
(Sögn frú Þórunnar Stefánsdóttur á Hrafnagili. Handrit J. Jónassonar.)
Þeir bræður, Pétur Ólafsson, sem nú er bóndi á Hranastöðum í Eyjafirði, dannebrogsmaður, og Jakob bróðir hans, voru vinnumenn hjá Jónasi prófasti Jónassyni á Hrafnagili 1894 og næstu ár þar á eftir. Sigríður Kristjánsdóttir, móðir þeirra bræðra, átti þar og heima. Hún andaðist á jólaföstu 1894. Vorið 1897 var svo fyrir hugað, að Jakob ætlaði að reisa bú á Hranastöðum, en Pétur ætlaði að vera kyr á Hrafnagili til næsta vors, og flytja þá að Hranastöðum. Voru þá þeir bræður að búa sig undir að taka jörðina síðara hluta vetrar. Einu sinni á útmánuðunum dreymdi frú Þórunni að Sigríður kemur til hennar, og er kát og glaðleg eins og hún átti vanda til. Kvaðst frú Þórunn þá segja við hana: »Og þeir ætla að fara að búa á Hranastöðum, bræðurnir; lízt þér ekki vel á það, Sigríður mín?« Þá þótti henni Sigríður svara: »Og ekki hann Jakob minn; hann fer til mín.« Lengri varð ekki draumurinn.
Jakob fluttist aldrei að Hranastöðum; hann lagðist í lungnabólgu fám dögum áður en hann ætlaði að flytja sig þangað, og dó úr henni 4. maí um vorið.
(Handrit Jakobs Hálfdanarsonar í Húsavík á Tjörnesi.)
Veturinn 1887 dreymdi mig, að eg væri úti staddur heima hjá mér; sá eg andfugl nokkurn á flugi hátt yfir húsum. Vita þóttist eg af skotmanni í nánd, enda reið þegar af skot og hitti fuglinn, svo hann datt fluglaus á jörð. Þar sá eg fjörbrot fuglsins og heyrði til hans; en nú var það sem mannsvein svo átakanlegt, að eg hrökk upp – og fanst ómurinn haldast við, þó eg vaknaði. – Drauminn sagði eg heimafólki mínu, og var orð haft á, að líklega væri einhver skammlífur.
Nú liðu vikur og dagar alt að páskum. Á páskadagsmorgun, er eg vakna, heyri eg vein veikrar manneskju; og það svo nákvæmlega endurtekið það sama, og eg hafði heyrt áður í svefninum, að mér varð að orði við rekkjunaut minn: »Eg veit, að hver sem þetta er, þá á sá eða sú lítið ólifað.« – Fólk svaf í fleiri herbergjum í húsinu og var ekki hægt að greina hvaðan hljóðið kom. – Í húsinu bjó öldruð veitingakona, að nafni Guðný Árnadóttir. Hún svaf ein sér í herbergi, hafði veikzt snemma nætur svo geysilega af lungnabólgu, að hún gat þaðanaf enga björg sér veitt. Hún lifði við mestu harmkvæli til næsta dags, og andaðist þá, á annan í páskum.
(Sögn Halldórs Þorgrímssonar í Hraunkoti. 1908. Handrit Guðm. Friðjónssonar.)
Friðjón bónda Jónsson á Sandi í Aðaldal dreymdi draum einn árið 1890. Hann þóttist vera á ferð fram í Aðaldalinn og koma að Hafralæk; þar var hann fæddur og alinn upp. Sér hann þá tvo menn vestur við svonefndan Hafralæk, og virtust þeir vera að leita að einhverju. Hann spyr hverjir þessir menn muni vera og er honum svarað því, að þar sé Árni frá Hólkoti og Jóhannes frá Fossseli. Honum þykir þeir koma heim að bænum, hafa rekur í höndum og fara að taka gröf fyrir lík niður í hól við bæinn. – Sá draumur var ekki lengri.
Þetta sama ár, um haustið, dóu þessir menn báðir um sama leyti og fóru í eina gröf báðir í Einarsstaðakirkjugarði í Reykjadal. Þá var Benedikt Sveinsson sýslumaður í Þingeyjarsýslu, og hélt hann uppboð í Fossseli á eignum Jóhannesar sáluga.
Þar var þá staddur, ásamt fleirum, unglingsmaður, Jón að nafni, Þorláksson, ættaður úr Köldukinn. Hann var lausamaður það ár. Benedikt sýslumaður var mannfár á þessum tíma, svo sem oftar, því að hann hafði stórt bú til lands og sjávar og margar framkvæmdir með höndum. Hann ræður nú til sín Jón Þorláksson, sem áður er nefndur, fyrir veturvistarmann, og lofaði Jón að koma út að Héðinshöfða um veturnætur. – Eg bjó þá á hálfum Hafralæk. Eitt kvöld nálægt veturnóttum bar svo við, að drengur frá næsta bæ kom inn til mín og sagðist hafa heyrt neyðarkall í vötnum, sem renna úr Laxá, þegar hún hleypur fram. Þá var hláka og myrkur. Eg fór þegar og tveir menn með mér að leita, en fundum ekkert, nema stafprik og vetlinga á skör, þar sem djúpur straumur rann út undir ís. Daginn eftir fundum vér þarna út undir ísnum mann, og kendum þar Jón Þorláksson, sem áður er nefndur. Vér bárum hann inn og lögðum hann á hólinn, þar sem Friðjón sá gröfina tekna í draumnum, og beið hann þar meðan farið var til næsta bæjar til að fá sæmilegt húsrúm handa líkinu til að standa uppi í, því að húsakynni skorti á bæ mínum, sem viðunandi þóttu. – Fáum dögum síðar fór eg út að Sílalæk; þar bjuggu þá tengdaforeldrar mínir, Jónas Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Eg kom þar snemma morguns, svo að fólk
(Sögn Kristínar Kristjánsdóttur á Syðra-Kálfskinni á Árskógsströnd. 1907. Eftir handriti Magnúsar Jóhannssonar á Ytra-Kálfskinni.)
Veturinn 1905 dreymdi mig draum þann, er nú skal greina.
Eg þóttist vera í baðstofuhúsi okkar á Syðra-Kálfskinni, og þótti mér Jón Guðjónsson bóndi á Ytra-Kálfskinni koma inn til mín og segja mér frá því, að maður nokkur væri eða hefði verið úti í bænum – Ytra-Kálfskinni –; gengi hann um alla bæi, og sagði hann mér að hann ætlaði að koma hingað; svo þótti mér hann fara.
Rétt á eftir þykir mér maður vera kominn í húsið, svo afar-hár, að mér alveg ofbauð. Hann var í svörtum fötum með hrafnsvart hár og skegg, en einkennilegast af öllu var andlitið; mér finst fara um mig hryllingur, þegar eg hugsa um það. Eg get eigi lýst því öðruvísi eða líkt því við annað en eltiskinn, svo gersneitt var það öllum eðlilegum hörundslit. – Maður þessi horfði með svo bitru og nístandi augnaráði á rúmið mitt, að mér fanst það smjúga í gegnum merg og bein, og hafði eg bæði ótta og viðbjóð á honum. Að lítilli stundu liðinni fór hann, en um leið og hann fór, þótti mér hann segja, að hann ætlaði ofan á bæi (Selá og Selárbakka) og suður og ofan á bæi (Ytri- og Syðri-Haga).
Þennan vetur, nokkru eftir að mig dreymdi drauminn, mistum við hjónin dreng, er við áttum, en um vorið dó Sigurður bóndi Jóhannsson að Selá, móðurbróðir minn. Haustið eftir dó gömul kona í Ytri-Haga, og næsta vetur drengur á Ytra-Kálfskinni.
(Handrit Guðmundar Friðjónssonar á Sandi. 1908.)
Þegar Bjarni sál. sölustjóri á Húsavík lá banalegu sína, sagði hann mér draum þennan:
Hann var heima í foreldrahúsum að Vestari-Krókum í Fnjóskadal, þegar mislingarnir gengu árið 1882. Þeir komu í Austari-Króka fyrri en veikin gerði vart við sig Vestari-Krókum, og lagðist þar stúlka, sem mig minnir að héti Jónína. Nú dreymir Bjarna eina nótt, að hann þóttist úti staddur heima hjá sér. Hann sér þá mann koma sunnan að bænum, illilegan og gustmikinn. Sá maður kemur heim að bænum og spyr Bjarni hann að nafni. Hann svarar á þessa leið: „Eg heiti nú Dauði." Bjarni man þá eftir því, að stúlkan í Austari-Krókum lá í veikinni og hugsar með sér, Dauði karl muni ætla að sækja hana. Hann segir þá við gestinn, að hann muni ætla að Austari-Krókum. »Nei!« svarar Dauðinn. »Þangað á eg ekkert erindi.« Hann lagði áherzlu á orðið »þangað«. – »Hvert ætlarðu þá?« spurði Bjarni. Dauðinn svaraði: »Eg ætla út á Flateyjardal.« — »Áttu erindi þangað?« spyr Bjarni. »Já, þangað á eg sannarlegt erindi.«
Mislingarnir fluttust síðan út á Flateyjardalinn og dóu þar úr þeim sex menn. Og um veturinn eftir fórst bátur af dalnum með fjórum mönnum. Þar á dalnum eru örfáir bæir og var þetta mikið mannfall í svo lítilli bygð. Stúlkan í Austari-Krókum lifði. – Bjarni var sannorður maður og ágætlega gefinn.
(Handrit Tryggva Indriðasonar frá Hóli í Kelduhverfi. 1908.)
Aðfaranótt hins 12. febr. 1899 dreymdi mig, að eg væri staddur í Keldunesskoti, – sem er næsti bær við Keldunes – þar sem eg átti heima, og var að ræða um hitt og annað við Hólmkel Bergvinsson, er þá bjó í Ási í Hverfinu; eigi sá eg þar fleiri menn. Þóttist eg vera í austurenda baðstofunnar og verður litið út um glugga, er horfði norður. Sá eg þá sól við hafsbrún skamt frá Tjörnesi. Vatnið við bæinn var spegilslétt; túnið var sprottið og döggu drifið, rauðgult af fíflum og sóleyjum og mjög fagurt í sólskininu. Leit eg nú aftur til sólarinnar, og sá þá tungl nokkuru austar við hafflötinn; sýndist mér það vera í fyllingu, en þó fölt mjög. þá vaknaði eg.
Nokkrum dögum síðar fréttist það, að Jóhanna Jónsdóttir, vinnukona frá Héðinshöfða á Tjörnesi, varð úti á leiðinni frá Húsavík heim til sín; og hafði það skeð 12. febr. Daginn eftir fórst Pétur Jónsson, búfræðingur frá Rauf, undir snjóhengju, þegar verið var að leita að stúlkunni.
(Sögn Sigurbjarnar Sigurðssonar á Litlu-Laugum í Reykjadal. 1906. Handrit Tryggva Indriðasonar.)
Seint á nítjándu öld bjuggu hjón í Laugaseli í Suður-Þingeyjarsýslu, er hétu Guðni og Kristín. Þau voru í basli og bjuggu lakar en þar var búið næst á undan, og bjó þó Guðni á föðurleifð sinni.
Haust eitt, eftir grasleysissumar, dreymdi Kristínu að faðir hennar – sem þá var dáinn – kemur til hennar og ráðleggur henni að slá af hest, sem þau áttu, gamlan og magran, og um leið sagði hann henni nákvæmlega, hvað þau skyldu setja á vetur. Hún segir manni sínum drauminn og vildi, að hann færi að ráðum draummannsins, en hann tók því fjarri og kvað það markleysu eina. Síðan ánýjaði hún þetta við hann nokkrum sinnum, en hann sat við sinn keip, svo að ekkert varð af hestdrápinu, né að öðru leyti farið að ráðum draummannsins. Leið nú veturinn og var fremur harður. Mistu þau voðalega af skepnum sínum sakir heyskorts og sáu sárt eftir, að hafa ekki farið að ráðum draummannsins.
Kristín þessi var Jóhannsdóttir, systir Sigurbjörns skálds, er dó í Ameríku nú um aldamótin. Hún var mjög berdreymin.
(Heimildin í sögunni. Handrit Gísla gagnfræðings Bjarnasonar í Ási á Þelamörk í Eyjafirði.)
Bóndi sá bjó á Féeggstöðum í Hörgárdal, er Þorlákur hét, Þorláksson. Vorið 1870 varð hann heylaus. Bóndi lá veikur og var vinnumaður hans að koma niður fé hans, nema fáeinum kindum og tvævetru trippi, sem bónda þótti mjög vænt um. Þegar vinnumaður kom heim, var bóndinn að skilja við. Þá var mokhríð. Höfðu konur hirt kindurnar um daginn, og trippið, og byrgt hús. Um nóttina brestur á blindbylur. Þá nótt dreymir Kristjönu Magnúsdóttur, sem þá var þar á heimilinu, og nú (1906) segir mér sögu þessa, að Þorlákur kemur til vinnumannsins, sem var sonur Kristjönu, og segir: »Það fer illa um trippið okkar, Steini minn,« og lítur um leið til Kristjönu og bætir við brosandi: »Hún Kristjana hjálpar okkur til að gera við það.« Kristjana hrekkur upp og segir við Steina: »Það fer eitthvað illa um trippið.« Hann rýkur út. Þegar hann kemur inn aftur, segir hann: »Þið hafið byrgt húsið hroðalega fyrir trippinu, stúlkur.« Húsið hafði verið orðið fult með snjó, og stóð að eins höfuðið á trippinu upp úr snjónum; sagði vinnumaður, að það hefði ekki orðið lengi að kafna, ef ekki hefði komið hjálp í tíma.
(Sögn Elínar S. Gunnlaugsdóttur húsfreyju að Ósi í Hörgárdal. 1906. Handrit sonar hennar Einars Guttormssonar prentsveins.)
Þorkel Guðmundsson á Syðra-Fjalli í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu, móðurbróður Guðmundar skálds Friðjónssonar, dreymdi eitt sinn, um það leyti, er Brasilíuferðir voru sem tíðastar, og hann hugði á vesturför, að til sín kæmi kona, er réði honum til þess að hætta við Brasilíuferðina og kvað að skilnaði við hann vísu þessa:
Mér er ekki mikið ant
munað holds að reyna;
nær þar er komið, þér mun vant
þeirra sterku beina.
Og fór Þorkell hvergi.
(Sögn hans. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Síðari hluta vetrarins 1902-3 þurfti Jón Tómasson í Syðri-Hofdölum í Skagafirði að fara yfir Heljardalsheiði. Nóttina áður en hann lagði á heiðina, dreymdi hann, að til sín kæmi kona ein og vildi spenna utanum hann hvítan linda; en þó tókst henni það ekki til fulls. Morguninn eftir lagði hann á heiðina og viltist mjög á henni, því að dimmviðri var á, en þó komst hann að lokum á rétta leið og til mannabygða.
(Sögn Rósu Bjarnadóttur frá Þverá á Staðarbygð. 1908. Handrit Ingibjargar R. Jóhannesdóttur barnakennara.)
Þegar þau Ari skáld Jónsson og Rósa Bjarnadóttir kona hans bjuggu í Víðirgerði í Eyjafirði var kona nokkur öldruð, er Sigríður hét, Grímsdóttir, vinnukona hjá þeim. Einn vetur hnignaði heilsu hennar svo, að hún þoldi ekki útivinnu næsta sumar. Kom þá til kasta hreppsnefndarinnar, því að Sigríður var öreigi. Hún kaus að vera þar kyr, og hjónin ætluðu að taka hana með ofurlítilli meðgjöf. En hreppsnefndin vildi freista, hvort Sigríður gæti ekki haft ofan af fyrir sér fyrst um sinn. Hún kunni ögn til sauma, og átti hún því að fara um bæi og sauma þar tíma og tíma. Hún fór því frá Víðirgerði, og sagði Rósa henni, að hún ætlaði að víkja henni svo sem þriggja dala virði einhverntíma á sumrinu. »Já, ef þú gerir bað, þá langar mig til að þú látir það vera sjal« segir Sigríður.
Nú leið og beið, og altaf dróst þetta með sjalið, þangað til komið var fram á vetur. Þá var Sigríður á Uppsölum hjá Randver bróður Rósu. Þar veiktist hún og dó. Þetta fréttist að Víðirgerði, og þótti hjónunum fyrir að hafa ekki verið búin að koma þessu í kring með sjalið. Skömmu síðar dreymdi Rósu Sigríði. Henni þótti börnin koma inn og segja að hún Sigríður Grímsdóttir sé komin og vilji finna hana. Hún þóttist muna að Sigríður væri dáin, og varð bilt við, og hafði orð á því við bónda sinn, að hún þyrði ekki fram. »Gerðu henni orð að koma inn,« sagði Ari. Rósa þóttist gera svo, og kom Sigríður inn í sparifötunum, brosleit, og að öllu, sem hún átti vanda til. Þá hvarf Rósu allur geigur, og þóttist hún taka henni vingjarnlega og vísa henni til sætis. »Ósköp er að hugsa um, hvað mörgu er logið,« þóttist Rósa segja, »eg var búin að frétta, að þú værir dáin og hefðir verið jörðuð rétt fyrir jólin.« – »Þetta er nú satt,« segir Sigríður. »Nú, hvernig stendur þá á því að þú ert hér – hvernig getur þú það?« segir Rósa. – »Ja, það kemur nú til af dálitlu,« segir Sigríður; »mig langaði svo til að tala við þig áður en eg dó. Þess vegna er eg nú komin. Það var um þessa þrjá dali; sem þú ætlaðir mér. Eg ætlaði að biðja þig að láta ekki hreppsnefndina ná í þá, eg vil það hreint ekki. Heldur ætla eg að biðja þig að láta hana Fínu litlu fá þá (hún var dóttir Sigríðar, og lifir enn); mér sárnar svo mikið, að hún skuli ekki mega njóta neins af þessu litla, sem eg átti.« – »Já, Sigríður mín, það skal eg gera fyrir þig; eg held eg hefði ekki farið að fá hreppsnefndinni þetta.« »Já, eg vissi það nú, hefði eg getað beðið þig fyrir það,« segir Sigríður. Lengri varð draumurinn ekki. En Jósefínu voru færðir dalirnir með fyrstu ferð.
Litlu seinna kom Randver, bróðir Rósu, að Víðirgerði, og sagði hún honum drauminn. »Skrítið er það,« sagði Randver, »hún var altaf að tala um þetta, á meðan hún lá, að hún hefði þurft að biðja þig að láta hreppsnefndina ekki fá dalina, sem þú hefðir ætlað sér. »Eg held eg geti skilað því til hennar,« kvaðst Randver hafa sagt. »Já, ef það gleymist þá ekki,« sagði hún og var ekki vel ánægð.
(Sigríður Grímsdóttir dó rétt fyrir jólin 1872, og var jörðuð á annan í jólum.)
(Sögn Önnu Sigurðardóttur að Fjöllum í Kelduhverfi. 1907. Handrit Tryggva Indriðasonar.)
Árið 1872 dreymdi móður mína, Guðrúnu Erlendsdóttur, er þá átti heima á Ingjaldsstöðum í Bárðardal, að til hennar kom maður hennar, Sigurður Eiríksson, er þá var fyrir skömmu dáinn, og mælti: Hvernig stendur á því, elskan mín, að þú skulir vera búin að gleyma dölunum, sem hann Jóhannes á Rauðá á hjá okkur?«
Þegar hún vaknaði, fór hún fram í Rauðá, sem er næsti bær, hitti Jóhannes þennan, segir honum drauminn og spyr, hvort hann hafi lánað manni sínum nokkuð. Jóhannes var lengi tregur til að svara því, en segir að lokum að hann hafi lánað Sigurði, haustið áður en hann dó, tíu dali, og kvaðst eigi hafa ætlað sér að minnast á þá.
Jóhannes þessi var áreiðanlegur og vandaður maður; voru honum því greiddir peningarnir.
(Sögn frú Margrétar Eiríksdóttur á Lækjamóti. 1907. Handrit dóttur hennar, ungfrúr Jónínu Sigurðardóttur.)
Síðasta vetrardag vorið 1873 var eg á dansleik, er stúdentar héldu, í húsi Sigfúsar Eymundarsonar ljósmyndara í Reykjavík. Eg dansaði mikið, og spilaði líka dálítið fyrir dansinum, og var því þreytt mjög, er eg lagðist til svefns undir morguninn. Faðir minn var þá dáinn fyrir tveim árum. Þegar eg var sofnuð, dreymdi mig, að eg væri að drekka vatn, og gleypti ofan í mig tvær brúnklukkur. Eg varð hrædd við þetta í svefninum, og reyndi til að selja þeim upp, en eg gat ekki losast nema við aðra þeirra á þennan hátt; hin fanst mér vera að rífa og slíta mig innan, en gat með engu móti selt henni upp.
Litlu síðar kom upp mannskæð kvefsótt í Reykjavík. Eg lagðist sem aðrir fleiri og lá nærri hálfan mánuð. Þegar mér fór að batna, lagðist móðir mín, Guðríður Jónsdóttir, lá rúmföst í tíu daga, og andaðist 30. maí.
Þá fanst mér ráðinn draumurinn. Eg var búinn að losa mig við það sárasta við andlát föður míns2, en hitt átti eg eftir, að missa móður mína, þegar mig dreymdi drauminn.
Lík móður minnar stóð uppi í stofuhúsi einu niðri, en eg svaf í herbergi einu á loftinu þar uppi yfir. Runólfur bóndi í Arabæ, sem var góður vinur okkar, baðst eftir að mega vaka yfir líkinu á nóttunni, því að hann hefði oft haft ánægju af að sitja hjá móður minni í lífinu, og óskaði nú hins sama þessar nætur, þangað til hún yrði kistulögð. Það gekk seint með að fá kistuna smíðaða, því að hvítasunnan var í nánd, og átti eg ekki von á henni fyrri en á fimtudaginn eftir hvítasunnu. Runólfur kom nú á hverju kvöldi, og gætti þess vel að vaka á nóttunni, og sama gerði hann á miðvikudagskvöldið. Eg fór þá seint að hátta, eins og vant var, því að eg átti bágt með að sofa. Eftir að eg var háttuð, heyri eg að Runólfur er altaf að ganga út og inn um stofuna, og var hann þó ekki vanur því. Svo hefi eg sofnað skömmu eftir lágnættið. Þá dreymir mig að móðir mín kemur gangandi upp stigann. Hún var hálfóánægjuleg á svip, eins og henni hefði líkað eitthvað miður, og segir: »Það er leiðinlegt að vera þarna einsömul niðri, og enginn skuli hugsa um mann.« Eg hrökk óðara upp, og þegar eg opnaði augun, sýndist mér hún standa þarna frammi fyrir mér í lágnættishúminu, en hverfa svo smátt og smátt augum mínum. Mér varð hverft við, en varð skjótt rólegri, kví að eg þóttist vita að Runólfur væri niðri og vekti. Eg lá kyr litla stund, en gat ekki sofnað, og fór því léttklædd ofan að stofudyrunum, og ætlaði að hitta Runólf; opnaði eg stofuna, en þar var þá enginn, nema líkið. Varð mér þá svo ilt við, að eg man ekki eftir að eg hafi annan tíma orðið eins hrædd. Eg fór þá að leita að Runólfi, og fann hann loksins uppi á lofti, svo fast sofandi, að eg ætlaði ekki að geta vakið hann. Eg bað hann umfram alt að reyna að vakna, og reyna að vaka niðri hjá líkinu, en hann sagði sig hefði syfjað svo mjög, að sér hefði verið alls ómögulegt að vaka niðri hjá líkinu. Hann fór ofan, en átti mjög bágt með að vaka, enda sofnaði eg ekki framar um nóttina.
Móðir mín hefir viljað gera mér aðvart um, að hún væri orðin ein. Daginn eftir var hún kistulögð, og eftir bað dreymdi mig hana ekki langan tíma.
(Fyrri hluti þessarar sögu er draumspá, en eigi þótti við eiga að slíta söguna í sundur, og er hún því öll sett hér.)
(Handrit Jakobs Hálfdanarsonar í Húsavík.)
Á útmánuðum 1884 var eg við fjórða mann í svefnherbergi einu nýsmíðuðu í Húsavík. – Í einu rúmi allnærri mér sváfu bræður tveir. Gunnlaugur hét hinn eldri og svaf við stokk. Hinn hét Þorsteinn. Þegar eg vakna morgun einn, er Gunnlaugur vaknaður, en hinn steinsefur. Þá sagði Gunnlaugur við mig: »Þig dreymdi víst eitthvað skrítið – þú kallaðir svo hátt og skýrt: »Við þurfum að fá mat okkar eins og aðrir.« – Eg segi fljótt, eins og var, að eg muni ekki vitund eftir neinum draum; fórum við svo að tala um eitthvað annað. – Þarna á eftir vaknar Þorsteinn, – var líklega vakinn, því mál mun hafa þótt að klæða sig. — Þorsteinn var glaðvær unglingur; segir hann þá undireins er hann var vaknaður: »Það var leiðinlegt að þurfa að vakna frá því, sem mig var að dreyma.« – Okkur Gunnlaug forvitnaði að heyra hvað það hefði verið; segir þá Þorsteinn svo frá: »Mér þótti að við allir, sem hérna höldum til í húsinu, vera staddir á einhverju miklu heimili, og var þar verið að halda veizlu. Þótti mér sem við tækjum okkur óboðnir sæti í anddyri fyrir veizlusalnum, og væru þar í gegnum anddyrið bornar lengi, lengi allskonar krásir fram hjá okkur inn í veizlusalinn. – Nú fór okkur heldur en ekki að langa í, og tókum við til að pískra um það okkar á að þetta ætlaði ekki að verða þolandi; við yrðum að kveða skýrt og skorinort þurftar okkar. – Það kom okkur saman um að þú, Jakob, yrðir endilega að hreyfa við erindinu. Já, svo kallaðir þú upp: 'Við þurfum að fá mat okkar eins og aðrir' – og gekk það vel fyrir sig; var nóg sælgæti, glaumur og gleði upp frá þessu, þangað til friðurinn var úti og eg var vakinn.« – Okkur Gunnlaugi þótti þetta einkennilegt. Sagði hann, að enginn hefði getað efast um, að Þorsteinn hefði verið steinsofandi, þegar eg kallaði þessi orð upp úr svefninum.
(Sögn Halldórs Þorgrímssonar. 1907. Handrit Guðm. Friðjónssonar.)
Vorið 1877 flutti Baldvin bóndi Sigurðsson að Garði Aðaldal. Það vor fór til Baldvins gamall maður, er Sigmundur hét, og annar maður ungur, sem Jóhannes hét, Kristjánsson. Skömmu eftir fráfærurnar þetta vor, var þvegin ull vestur við Núp, sem er alllangt frá bænum, við svokallað Syðra-Gil, og var hún breidd þar til þerris.
Eitt kvöld var Sigmundur karl beðinn að vaka yfir ullinni, og gerði hann það, en Jóhannes fór með ánum norð-vestur í Aðaldalshraun og sat þar hjá þeim. Þegar Sigmundur kom heim, segir hann fólkinu, að sig hafi sótt svefn um sólaruppkomuna og hafi hann blundað lítið eitt. Þá dreymir hann að Jóhannes kæmi norðan Núpsklappirnar og læddist niður eftir gilinu og að ullarflekknum og þótti honum Jóhannes mundi ætla að stela af ullinni. Hann þóttist verða reiður, hlaupa á Jóhannes, reka hann undir sig og taka upp kníf til að skera hann á háls; við þetta vaknaði hann. Litlu síðar kemur Jóhannes heim með ærnar og var þá Sigmundur sofnaður. Jóhannes segir þá fólkinu, að sig hafi syfjað svo mikið um sólaruppkomuna, að hann hafi fallið í svefn, og hafi sig þá dreymt undarlega. Hann þóttist fara suður Núpsklappirnar og suður í Syðra-Gil, og ætla að finna Sigmund gamla. En þegar hann kom að ullarflekknum, þótti honum Sigmundur rjúka á sig, skella sér flötum, leggjast ofan á sig, taka upp kníf og ætla að skera sig á háls. Við það vaknaði hann. Þessa sögu hefir sagt Guðný Jónsdóttir frá Þverá, húsfreyja Baldvins bónda Garði, hin merkasta kona, og eru þau hjón enn á lífi; hefi eg aldrei heyrt fyr né síðar, að tvo menn hafi dreymt sama efni á sama augnabliki.
(Handrit Ingibjargar R. Jóhannesdóttur. Sögn Helgu, systur hennar.)
Þegar Þorvaldur Gunnlaugsson í Bændagerði var unglingur, átti hann heima að Kífsá í Kræklingahlíð. – Veturinn 1893 vildi svo til, að hestur sló hann í fótlegginn. Varð af þessu áverki nokkur, svo að bólgnaði og gróf í. Varð hann draghaltur og lá stundum í rúminu. Einn dag var hann með hitaveiki og svaf mikið. Um fjóstíma um kvöldið stendur hann upp í nærklæðum einum og gengur fram; er hann þá óhaltur. Undraðist fólkið þetta, en lætur þó kyrt. Nú kemur bóndi inn úr fjósinu og spyr, því bærinn hafi verið opinn. Vita nú allir að Þorvaldur muni hafa farið út. Bóndi og vinnumaður ganga út, og sjá lítið frá sér, því á var hríð mikil. Ganga þeir að fjárhúsum uppi á túni, og finna þar óhespaðar dyr, ætla inn, en geta ekki lokið upp hurðinni. Húsið var tví-dyrað. Þeir fara inn um hinar dyrnar. Sjá þeir þá hvar Þorvaldur liggur á hurðinni þannig, að hann stendur með sinn fót út í hvorum kampi, en setur bakið á hurðina. Hann var þá sofandi. Vekja þeir hann og fara heim. Hafði Þorvaldur gengið þetta í svefni, en dreymt að illræðismenn nokkrir væru komnir, og ætluðu að drepa alt fólkið. Þóttist Þorvaldur sleppa þarna inn og lá nú á hurðinni til þess að varna þeim inngöngu. Ekki sakaði hann ferðalagið, en haltur var hann eftir sem áður.
(Handrit Jóh. Jak. Einarssonar í Mýrakoti austan Skagafjarðar.)
Þegar eg var á 15. árinu, þekti eg dreng, sem átti vanda til að ganga í svefni og tala við fólk sofandi. Hann átti heima á Hamri í Stíflu, en fluttist þaðan að Þverá í Ólafsfirði. Þegar hann var búinn að vera þar nokkrar vikur fór að fiskast í Ólafsfirði. Bað hann þá að lofa sér að róa með, og fekk hann það. Hann reri úr Ólafsfjarðarhorni með Jóhannesi Jóhannessyni, er seinna bjó á Höfn í Siglufirði. Þeir reru um kvöldið út hjá Hvanndölum, og fiskuðu lítið, sigldu síðan austur hjá Hrólfsskeri og síðan heim. Kvöldið eftir fór drengur þessi til gistingar að Brimnesi, og varð hann að leggja sig þar fyrir á baðstofugólfi. Hann sofnaði skjótt, því að hann var óvanur sjóvolkinu, því að þá hafði hann fyrst á sjó komið. Hann dreymdi þá, að hann þóttist staddur í myrkvastofu; sá hann þar inni mann einn sofandi; þóttist hann vita til víss, að maður þessi yrði banamaður sinn, ef hann vaknaði áður en hann kæmist út úr stofunni. Fór hann þá þegar að leita dyranna, og gat komist út eftir nokkurar tilraunir. Þóttist hann þá hlaupa sem fætur toguðu, þangað til hann kom að djúpu gili, sem hann þóttist þurfa yfir. Hann fór ofan í gilið; rann eftir því lækur einn mikill; gat hann ekki stokkið yfir lækinn, og varð því að vaða hann. Þóttist hann vaða út í lækinn og detta kylliflatur – og vaknaði allur rennvotur, og óð aftur til sama lands. Sá hann þá að hann hafði farið þetta sofandi. Fór hann að reyna að klifra upp úr gilinu, en það var torfært mjög, bæði móhella og lausagrjót; komst þó loks upp á barminn. Varð hann þá hræddur við hættu þá, er hann hafði verið í, og lofaði guð fyrir vernd sína og hlífð. Síðan fór hann heim að Brimnesi aftur, og lagðist niður í ból sitt, og lét á engu bera. Upp frá þessu hefir hann aldrei gengið í svefni.
(Fyrirburðir, feigðar- og dáinsboð.)
(Handrit Kristjáns Einarssonar á Akureyri. 1906.)
Eins og kunnugt er, er altítt á Suðurlandi að róa til fiskjar um nætur, og það á ýmsum tímum. Við vorum þrír karlmenn, sem rerum af mínu heimili; tveir þeirra reru í sama skiprúmi, en eg í öðru. Svo bar við sem optar á vetrarvertíð 1890 að hinir piltarnir reru snemma nætur; veður var allgott; bjóst eg þá við kalli frá formanni mínum á hverri stundu, og lá eg því vakandi í rúmi mínu og vildi ekki sofna. Svo leið og beið, enginn kom; eg sneri mér fram í rúminu. Húsum var þannig háttað, að baðstofan var þiljuð sundur í miðju, og svaf eg í fremri parti hennar, og stóð rúmið mitt beint á móti bæjargöngum. Þannig lá eg nokkra stund vakandi, þar til eg sé dreng nokkurn, sem eg þekti, Svein Pálsson að nafni, frá Lónshúsum, sem var næsti bær við Akurhús, þar sem eg átti heima; hann var um 9 ára gamall; eg sá er hann gekk innfyrir í innri hluta baðstofunnar, þar sem húsfreyja og vinnukona sváfu. Eftir nokkra stund heyrði eg að húsfreyja fer á fætur og vekur stúlkuna því hún brauzt mjög um, og lét illa svefninum, en gat þó ekki vaknað sjálf. Húsfreyja spyr hana, hvað valdi þessum ókyrleik hennar; kvaðst hún hafa fundið að eitthvað væri að leggjast ofan á sig og hefði það helzt ætlað að hengja sig; eftir litla stund finn eg eitthvað leggjast léttilega ofan á rúmfötin mín; lyfti eg þeim þá upp og hverfa þá þessi þyngsli alveg, en ekkert sá eg í það sinn; en fljótlega gerði þetta vart við sig aftur, og legst þá enn þyngra en fyr ofan á mig. Eg sneri mér hvatlega við, dustaði fötin og hrækti fram á gólfið, svo ekki varð meira af þeirri viðureign. Eftir litla stund sé eg hvítan strók, sem fyllir upp göngin, frá gólfi til rjáfurs; ekki sá eg neitt verulegt sköpulag á þessu, en nokkra stund dvaldi það þarna, þar til það hvarf aftur jafn skyndilega eins og það kom. Svo var alt kyrt um hríð, þangað til eg sé göngin fyllast aftur með eldglæringum, framan úr dyrum og nálega inn að rúmi mínu. Eg horfði á þetta stundar korn, en gat ekki áttað mig á þessu, þar til það hvarf sjónum mínuni. Þess skal getið að áður-nefndur drengur kom til okkar daginn áður; hann hafði vetlinga meðferðis, sem hann gat hvergi fundið, þá er hann ætlaði heim aftur; eg leitaði með honum, en þeir fundust samt ekki; sagði eg honum því, að hann skyldi koma daginn eftir og mundu þeir þá finnast. Drengurinn kom snemma um morguninn að vitja vetlinganna; fundust þeir um síðir í rúmi vinnukonunnar, undir sænginni.
(Sögn Elínar Gunnlaugsdóttur á Ósi. 1906. Hdr. Einars Guttormssonar.)
Fyrir hér um bil 18 árum, að sumar leyti, varð sá atburður er hér fylgir.
Einn dag eftir að eg var búin að gefa miðaftanskaffið, gekk eg suður fyrir bæ að gamni mínu og horfði suður eftir veginum; þá sá eg koma dökkklædda konu í hærra lagi. Mér kom undir eins til hugar, að þetta væri frú Sigríður á Hofi, kona Davíðs prófasts Guðmundssonar († 1905). Eg fór því inn og ætlaði að vita, hvort ekki væri heitt á könnunni, því eg bjóst við að hún mundi koma heim. Þegar mér fór að lengja eftir konunni gekk eg aftur út og sá hana þá hvergi.
Dóttir mín, sem hét Margrét, var lítið eitt lasin um daginn, en er tók að kvölda versnaði henni svo snögglega, að áður en dagur var að kvöldi kominn var hún dáin.
Þegar stúlkurnar, sem voru að raka upp í Hestalág svo kallaðri, komu heim um kvöldið, spurði eg þær, hvort nokkur kona hefði farið um veginn. Neituðu þær því; en ef einhver hefði farið þar um, hefðu þær hlotið að verða varar við það.
(Hdr. Ingibjargar R. Jóhannesdóttur. Sögn Guðrúnar systur hennar.)
Fyrir aldamótin 1900 var gamall maður, sem Ólafur hét, í Kambfelli í Djúpadal. Einn dag í desembermánaðarlok var hann á heimleið frá Strjúgsá. Ís var á Djúpadalsá. Þegar Ólafur kemur fram á svokallaða Stóru-skriðu, sér hann eitthvað svart koma fyrir Skiphólinn, sem er nokkuru framar. Þetta færist út ána, hægt og hægt og fer smá króka. Honum datt í hug tík, sem hann átti, og fór að kalla, en gekk brátt úr skugga um, að það var ekki hún. Eiginlega líkti hann þessu aldrei við neitt, en sagði að sér hefði sýnzt það ýmist styttra eða lengra. Svo hvarf honum þetta eftir dálitla stund.
Þegar hann sagði frá þessu, var ekki laust við að hlegið væri að honum, og þótti honum miður. Einkum féll honum illa að Einar húsbóndi hans skyldi álíta þetta missýning eina og gekk á einmæli við hann. Hann sór og sárt við lagði, að hann hefði séð þetta í raun og veru og bað hann að trúa sér.
Síðar um veturinn andaðist Ólafur. Líkkista hans var flutt út Djúpadalsá. Einar setti sýn þessa í samband við það ferðalag.
(Sögn Guðmundar Þorvaldssonar Rangvellings. 1907. Handrit Hannesar Ó. Magnússonar.)
Nokkuru fyrir jól veturinn 1881-82 var heimili mitt að Saurbæ í Eyjafirði. Þá var þar prestur Guðjón sál. Hálfdanarson, bróðir Helga lect. Hálfdanarsonar. Þá var það eitt kvöld að mér varð reikað suður fyrir bæinn, og þegar eg vildi heim aftur, varð mér litið á leið til kirkjunnar; sé eg þá að ljós er, að mér virðist, í sunnanverðum kórnum, og að af þessu ljósi bar eðlilegt skin um alla kirkjuna niðri. Eg horfði á þetta um stund, en datt í hug að Guðbjörg Björnsdóttir, sem þá var vinnustúlka þar, myndi vera að ná þvotti úr kirkjunni. Gekk eg síðan beina leið heim, en þegar inn kom, sé eg að Guðbjörg er við sængurumbúnað, og allir aðrir, sem til heimilisins töldust, voru hver að sínu verki. Við það, að sjá alla inni, kom mér óðara í hug: »Hver hefir verið með ljós í kirkjunni?« Kom við það í mig geigur ekki alllítill, en af því eg vildi ganga úr skugga um, af hverju þetta ljós stafaði, kvaddi eg Jóhann vinnumann Friðfinnsson, sem þá var í Saurbæ, mér til fylgdar. – Þegar við komum út, urðum við einskis varir.
Skömmu eftir nýárið dó yngsta barn prestsins, Stefán, úr barnaveiki. Þegar það var jarðsett, var kistan borin í sunnanverðan kór í kirkjunni.
(Sögn húsfreyju Guðrúnar Sigurðardóttur að Svínafelli í Öræfum í A.-Skaftafellssýslu. 1907. Hdr. Þorsteins Guðmundssonar í Skaftafelli.)
Árið 1893 andaðist hér í Öræfum öldruð kona, sem Guðný hét. Hún var dóttir Magnúsar bónda Þorsteinssonar á Hnappavöllum, og konu hans, Sigríðar Þorsteinsdóttur. Önnur dóttir þeirra hjóna, en systir Guðnýjar, var Ingunn, kona Bjarna óðalsbónda Pálssonar á Hnappavöllum (er dó 1892). — Guðný þessi þótti vera mjög einkennileg. Var hún skygn, og bar því fyrir hana ýmislegt, er aðrir sáu eigi. Hún var vönduð kona, bæði til orða og verka.
1. Árin 1860-1865 var Guðný vinnukona að Tvískerjum í Öræfum, hjá ekkju, er Kristín hét, Þorsteinsdóttir. Önnur vinnukona var þar og, er Þórunn hét, Pálsdóttir, systir Bjarna á Hnappavöllum, sem fyr um getur.
Það var að vorlagi, einn dag um miðaftans-leyti, að Guðný gekk fram úr baðstofu, til þess að sækja eitthvað, er geymt var fram í svefnhúsi, og kemur aftur bráðlega inn í baðstofudyrnar, kallar til Þórunnar og biður hana að koma með sér í svefnhúsið, því að sér þyki heldur leiðara að fara þangað inn ein. Þórunn gerir þetta; ganga þær svo báðar í svefnhúsið og sækja þangað það, sem Guðný ætlaði að sækja. Þegar þær eru komnar út aftur, spyr Þórunn Guðnýju hvers vegna að hún hafi eigi viljað fara ein inn í svefnhúsið núna á björtum degi, »þú sem altaf ert svo huguð«. Þá segir Guðný: »Var eigi við því að búast? Þegar eg kom fram í bæjardyrnar, sá eg þar inni Árna sýslumann, síra Sigbjörn, Gísla að Fagurhólsmýri, Runólf á Bakka, Björn Stefánsson og ungan kvenmann og karlmann, sem eg þekti eigi. Voru þeir Sigbjörn að togast á um svipu.« Þær töluðu eigi meira um þetta, en fóru inn í baðstofu aftur til þess, sem þær höfðu verið að vinna. En síðar, þetta sama kvöld, komu allir þessir menn að Tvískerjum.
2. Nokkuru síðar fluttist Guðný að Hofi í Öræfum, til Þórarins Sveinssonar, er þar bjó, og varð þar bústýra. Á þeim árum fóru Öræfingar oft skreiðarferðir suður á Eyrarbakka. Þórarinn þessi Sveinsson fer nú einu sinni sem oftar, og nokkrir Öræfingar með honum suður á Eyrarbakka. Þeir fengu slæma tíð, og voru því mikið lengur en þeir voru vanir að vera, eða höfðu gert ráð fyrir, og var því fólk þeirra heima orðið hrætt um að þeir mundu hafa druknað í einhverju vatninu á leiðinni, eða farizt á annan hátt. Þórarinn átti föðursystur, sem Vilborg hét, Þórarinsdóttir, og bjó hún einnig að Hofi í næstu húsum við Þórarinn frænda sinn. Einn morgun hittust þær Vilborg og Guðný Magnúsdóttir sem oftar. Spyr þá Vilborg Guðnýju, hvort hún sé nú eigi hrædd um að þeir Þórarinn séu dauðir, fyrst að þeir séu eigi komnir. Guðný segir að annaðhvort sé Þórarinn og allir félagar hans dauðir, eða að þeir kæmu heim í dag; »því að fyrst þegar eg leit út í morgun, sá eg Þórarinn koma upp af Kirkjutúni, og teymdi hann Bleik sinn, en samferðamenn hans fóru austur veginn fyrir utan.« Þetta rættist einnig alveg; því að seinna þennan sama dag kom Þórarinn heim, en þeir samferðamenn hans fóru austur fyrir utan, sama veg sem Guðný sá þá fara um morguninn; en Þórarinn kom upp af svo kölluðu Kirkjutúni, sem er rétt fyrir neðan bæinn.
3. Nokkru eftir þetta brá Þórarinn búi og gerðist vinnumaður Haralds Briem, sem þá bjó á Rannveigarstöðum í Álftafirði eystra; en Guðný verður þá vinnukona hjá Bjarna Pálssyni mági sínum á Hnappavöllum. – En ofarlega á næsta vetri segir Guðný eitt sinn við Magnús, son Bjarna: »Annaðhvort kemur nú Þórarinn Sveinsson, hingað í dag, ella mun hann dáinn vera.« »Hvers vegna heldurðu það?« segir Magnús. Þá segir Guðný: »Eg sá hann standa við rúmið mitt í nótt og sýndist hann vera heldur dapur, og því gæti eg trúað því, að hann væri dáinn.« Af því að Magnúsi þótti þetta nokkuð undarlegt, þá skrifar hann hjá sér þennan dag, er þau töluðust þetta við; en nokkrum dögum síðar kom maður austan yfir Breiðamerkursand, og sagði lát Þórarins. Kom það þá upp, að hann hafði andazt kvöldið áður en Guðný sá svip hans við rúm sitt.
4. Þegar síra Sigbjörn Sigfússon var prestur hér í Sandfelli í Öræfum, var lengi hjá honum vinnumaður sá, er Snjólfur hét, Teitsson. Guðný var þá vinnukona nokkur ár hjá síra Sigbirni. En þegar síra Sigbjörn fluttist á Kálfafellsstað í Suðursveit, fór Guðný aftur til Bjarna Pálssonar á Hnappavöllum, en Snjólfur fór með síra Sigbirni á Kálfafellsstað. Þá kom það fyrir einn dag um sumarið, að Guðný segir við heimilisfólkið á Hnappavöllum: »Eg gæti trúað því að Snjólfur kæmi hingað í dag, nema ef hann væri þá dáinn, því að eg sá hann koma hér inn í baðstofuloft í nótt.« En sá dagur leið svo, að enginn kom þar, hvorki Snjólfur né aðrir, en það fréttist næst, þegar ferð varð austan yfir Breiðamerkursand eftir þetta, að Snjólfur hefði andazt hina sömu nótt, sem Guðný sá hann koma inn í baðstofuna á Hnappavöllum.
Guðný sjálf hefir sagt mér fyrstu sögnina, en hinar hafa sagt mér áreiðanlegir og sannorðir menn.
(Að mestu eftir sögn Magnúsar Jóhannssonar á Ytra-Kálfskinni. 1907.)
Í janúarmánuði 1907 fórum vér Árskógsstrendingar inn á Akureyri. Vér vorum sex á báti, fjórir karlmenn og tvær stúlkur. Um daginn var vestan stormur og gekk á með hríðar-éljum. Þegar vér komum inn að Skjaldarvík, var farið að rökkva. Þá sjáum vér gufuskip norðaustur af Hörgárgrunni, og var það á innleið. Skipið sýndist grátt að lit; vér sáum það eins og í móðu, en þó sáum vér það öll greinilega. Annar bátur var örskamt á undan oss, og sáu þeir, er á þeim báti voru, ekkert skip, að því er vitnaðist daginn eftir. Vér töluðum um, hvaða skip þetta mundi vera, og héldum helzt, að það mundi vera »Mjölnir«, því suma minti að hann ætti að koma í þeim mánuði. Vér gáfum gætur að skipi þessu tímakorn, en bæði var það að dimdi af nóttu og hríðardimman óx einnig, svo að þetta hvarf. Vér héldum að skipið hefði farið að Svalbarðseyri, þegar það kom eigi inneftir um kvöldið; en eins og kunnugt er, kom eigi neitt skip til Eyjafjarðar þetta ár fyr en í marz. – Er það trú manna, að sjón þessi hafi verið fyrirboði þess, að gufuskipið »Tryggvi konungur« fórst 22. marz austur af Langanesi. Var hann og grár að lit, eins og þetta skip, og eign sama félags sem »Mjölnir«. – Einnig má geta þess í sambandi við þetta, að þegar skipverjar af »Tryggva konungi« voru á Akureyri í þessari síðustu ferð hans, höfðu þeir orð á því við menn á Akureyri, að skipið mundi farast þá á heimleiðinni. Mörkuðu þeir það þó eigi af þessum fyrirburði, því að þeim var hann ókunnur.
(Eftir handriti Magnúsar Jóhannssonar á Ytra-Kálfskinni. 1907.)
Það var eitt kvöld, veturinn 1893, er faðir minn kom út í Stærra-Árskógi – þá stóð kirkjan í kirkjugarðinum –, að hann sá ljós í kórglugganum að sunnan. Hann furðaði sig á þessu, því að allir menn voru inni; einnig furðaði hann sig á því, að enginn geisli sást út úr glugganum. Svo hverfur ljósið úr kórglugganum, en kemur í miðgluggann, og enn sést enginn geisli af því. Nú hverfur það úr miðglugganum, og kemur í vestasta gluggann; þá leggur svo skæra birtu suður í garðinn, að honum þótti það með ólíkindum, eftir því sem ljósið var dauft. Þetta varaði að eins örstutta stund; svo hvarf alt. Þá snýr hann inn, en í bæjardyrum var og er stofa, á hægri hönd þegar inn er gengið. Þegar hann kemur andspænis stofuganginum, þá verður alt í einu svo bjart í honum, að hann sér vel handgripið á hurðinni og alla hurðina. Síðan fer hann inn. Móðir mín spyr hann þá, hvort hann hafi orðið var við nokkuð, því að hún sá að honum var brugðið, og sagði hann að eins að hann gæti trúað því, að Rósa Jónsdóttir í Litla-Árskógi ætti eigi langt eftir ólifað. Hún var þá orðin gömul, en eigi sjúk. Þau voru mikið skyld og ættfólk beggja var grafið í garðinum, þar sem birtuna lagði á. Þennan vetur hinn sama dó Rósa og var grafin þarna í garðinum, og hann sjálfur nokkurum árum síðar.
(Sögn Jóns blinda Jónssonar á Mýlaugsstöðum. 1907. Handrit Hannesar Ó. Magnússonar.)
Jón bóndi Jónsson bjó á Þórustöðum í Kaupangssveit um miðja 19. öld; hann var bróðir Stefáns alþm. á Steinsstöðum – sem giftur var Rannveigu systur Jónasar Hallgrímssonar – og Ólafs hreppstjóra á Stokkahlöðum. Það var um haustið 1856 að fisklítið var hér innfirðis, en talsverður afli ytra við Hrísey og þar um kring. Jón, sonur Jóns bónda á Þórustöðum, var ráðinn á skip á Akureyri, og tveir aðrir úr Kaupangssveit; var annar þeirra frá Skálpagerði; allir voru þeir ungir menn, um tvítugt. Skipinu var haldið út frá Hrísey og komu þeir inn til Akureyrar á laugardegi hverjum með aflann, en þangað var hann sóttur á hestum, og fór hver háseti með hann heim til sín um helgar. Það var einn laugardag að Jón bóndi á Þórustöðum fór með hesta, til þess að sækja afla sonar síns; en af því Eyjafjarðará var í vexti, tók hann það ráð að fara til Varðgjár, en þaðan fekk hann smábát (byttu) lánaðan yfir fjörðinn og reri honum einn yfir til Akureyrar. Þetta sama kvöld komu þeir vermennirnir seint utan úr Hrísey og var orðið skuggsýnt þegar þeir lentu við Havsteinsbryggju; Havsteinsverzlun var þá inst í kaupstaðnum, þar sem nú er, landsímastöðin. – Þegar þeir voru búnir að kasta yfir Varðgjárbátinn aflanum, var báturinn svo hlaðinn, með fjórum mönnum, – því Kaupangssveitarmennirnir ætluðu allir með – að flaut með lista. Nú var komið myrkur og sunnankul, svo þeir þorðu ekki að leggja af stað, nema alveg væri kaldalaust og blæjalogn, en því bjuggust þeir við undir morguninn. Réðu þeir af að hafast við um nóttina í timburskúr, sem var rétt við bryggjuna og alment kallaður Naust. Bjuggu þeir þar um sig eftir föngum og sofnuðu. Um nóttina dreymir Jón yngra frá Þórustöðum að kallað er á alla þá sem í kofanum voru með nafni, nema hann sjálfan, og vaknaði hann við það, og varð ónotalega við. Fór hann þá á fætur og lítur til veðurs; er enn myrkur og aðeins lítill sunnan-andvari; legst hann þá til svefns, en vaknar jafnharðan við að mennirnir, sem hjá honum voru, eru aftur kallaðir með nafni. Þótti honum þetta kynlegt, en reynir að sofna. Í þriðja skiftið heyrir hann enn kallað sem fyr; hugsar hann þá að þetta sé einhver úti og rís á fætur og skundar út. Kallar hann hátt og spyr hver svona láti, en hann fær ekkert svar. Við þetta vakna þeir hinir, sem í kofanum sváfu, og komu út, en hann lét þess ekki getið við þá, hvað fyrir sig hafði borið. Enn var niðamyrkur, en alveg kyrt. Búast þeir þá af stað, en þegar þeir voru allir komnir ofan í bátinn, var hann sökkhlaðinn. Biður yngri Jón þá að róa inn, á Leiruna, því þar væri betra að bjarga sér, ef illa færi; svöruðu þeir því fáu, en sneru þó heldur inn á við, en í þessu kom dálítið fjallkast af suðri, sem ýfði sjóinn, og fór þá að gefa á byttuna. Biður Jón þá að róa lengra inn og móti vindinum, en þeir gegndu því engu; kom nú hver smáaldan á fætur annarri inní bátinn; ætluðu þeir þá að ausa, en austurtrogið fanst ekki, eða var alls ekki til í bátnum; tekur þá Jón yngri hatt sinn og býst til að ausa með honum, en í því sökk báturinn. Jón yngri kunni lítið sund, en þó svo, að hann gat haldið sér uppi, en maðurinn frá Skálpagerði var mjög vel syndur. Tvisvar var tekið í Jón og hann færður til botns. Loksins kemst hann upp á yfirborðið í þriðja skifti og gat náð í bátinn, sem hann sá á hvolfi þar rétt hjá, og komst á kjöl. Æpti hann þá sem aftók, ef ske kynni að það heyrðist til lands. – Þessi árin var á Akureyri kona nokkur, er Vilhelmína hét (kölluð Mína), rausnarkona mikil, efnuð vel og stundaði verzlun. Þessa nótt verður henni ekki svefnsamt, svo hún fer á fætur og út; heyrir hún þá neyðaróp úti á firðinum, og grunar hana þegar, að þar muni einhver í háska staddur. Vekur hún vinnumenn sína tvo, og vakti síðan upp fleiri; hraðaði hún svo fyrir ferð þeirra, sem henni var unt. Hrundu mennirnir fram báti og reru sem mest þeir máttu á hljóðið og náðu Jóni af kilinum. Hinir voru allir druknaðir. Jón yngri varð veikur eftir og hélt til hjá Mínu í nokkra daga, og naut hinnar beztu aðhlynningar og fór þaðan alheill heilsu.
(Sögn Jóns trésmiðs Pálssonar í Húsavík. Hdr. J. Hálfdanarsonar.)
Hreiðar hét maður, er bjó í Austur-Skaftafellssýslu eftir 1700; hann flutti sig Bólu-árið til Vestur-Skaftafellssýslu, út á Síðu. Um veturinn fór hann að skoða bújörðina, sem hann ætlaði að flytja sig á, og sem Jón man ekki né veit hver var; þá gisti hann að Kirkjubæ á sunnudagsnótt. Í vökulok á laugardagskvöldið gengur Hreiðar út og afsíðis. Þegar hann kemur inn aftur sér fólkið að honum hefir brugðið; spyr það hann, hvort nokkuð gangi að honum. Hann segir þá hvað fyrir sig hafi borið. Kirkja stóð skamt frá bænum. Hann kvaðst hafa heyrt frá kirkjunni töluð þessi orð: „Hér munu falla tvennir tíu, tólf og níu, átta og ellefu." Daginn eftir var messað í kirkjunni og var fjölment – var og Hreiðar þar. Eftir messu er hann enn með heimafólki á Kirkjubæ, og fer nú að spyrja um margt af fólki, sem hann tók eftir í kirkjunni, hver þessi og þessi væri, eftir því sem hann gat tilbent að þeir hefðu setið; spurði hann þannig um fimtíu og níu, en lét uppi, að ekki kæmi hann fyrir sig að benda á fleiri, sem hann lángaði til að vita um, og þó fyndist sér einn vanta enn. Næsta sumar gekk Stóra-bóla. Sextíu manns af söfnuðinum dóu, og voru grafnir þar að Kirkjubæ; það voru allir þeir fimtíu og níu, sem Hreiðar hafði um spurt, og hann sjálfur sá sextugasti.
(Sögn Guðmundar Jónssonar, bónda í Hrísey. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Um miðja síðastliðna öld var Jón faðir minn til heimilis hjá Jóni eldra, bróður sínum, í Haganesi í Fljótum. Var það á yngri árum hans. Hafði hann skotkofa þar úti í Borginni, því að hann var refaskytta. Vetrarkvöld eitt lá hann sem oftar í skothúsinu með byssu sína í skotgatinu, og beið þess að refur kæmi í skotfæri, því að agn hafði hann þar skamt frá. Frost var og heiðskírt loft. Þegar faðir minn hafði legið þarna nokkra stund, verður hann þess var, að eitthvað kvikt er á kreiki fyrir utan kofa hans. Var gengið fram og aftur á snjónum umhverfis kofann langa hríð, en þó aldrei fyrir skotgatið. Heyrir hann glögt, er skelin á snjónum brotnar undir því, sem þar er á ferð og veður fönnina, því að stokkfenni var. Beið hann svo lengi með byssuna til taks að skjóta, því að af þessum aðförum þóttist hann skilja að hér væri eitthvað óvanalegt á seiði. – Loks hætti brölt þetta í snjónum. Síðar um nóttina skaut faðir minn ref. En ekkert sá hann óvanalegt, jafnvel alls ekkert traðk eða spor í fönnina og furðaði hann það mest. – Daginn eftir fréttist að Haganesi, að tveir menn hefðu druknað í Miklavatni, þar skamt frá, kvöldið áður, um sama leyti sem gengið var í snjónum hjá skotkofanum. – Frá þessu heyrði eg föður minn segja.
(Heimildin í sögninni. Handrit Odds Björnssonar. 1907.)
Veturinn 1878-79 ætlaði ung stúlka, Arnfríður Benjamínsdóttir, sem þá átti heima í Hvammi í Ytri-Laxárdal í Skagafjarðarsýslu, að fara vestur yfir Kolugafjall að Neðra-Skúfi í Norðurárdal, en varð úti á fjallinu. Þrjá daga mátti hún vera að heiman. En er leið fram yfir þann tíma, er Arnfríði var leyft að vera burtu, og hún kom ekki, var maður sendur vestur að Skúfi, til þess að grenslast eftir, hvað hana tefði. Þó datt engum hug, að hún hefði orðið úti, því veður var meinlaust, þegar hún lagði af stað. – Enginn maður á Skúfi hafði hugboð um ferðalag Arnfríðar, né að hana vantaði.
Nóttina áður en sendimaður frá Hvammi kom að Skúfi, hrökk húsfreyjan (Elín, móðir síra Árna Björnssonar á Sauðárkróki) upp við það, að sagt var á glugganum yfir rúmi hennar: „Helið svart nístir mitt hjarta." Sagði hún frá þessu um morguninn, áður en sendimann frá Hvammi bar þar að garði.
Sömu nóttina dreymdi Ingibjörgu Benjamínsdóttur á Neðra-Skúfi, systur Arnfríðar, að Arnfríður systir sín kæmi ríðandi af grasa-fjalli á svörtum hesti; var hún fálát mjög, og bað Ingibjörgu að koma og leggjast í farið sitt á fjallinu; Ingibjörg var treg til þess. Sagðist Arnfríður þá verða að fara; lét Ingibjörg þá til leiðast, fór upp á fjallið, sá farið og lagðist í það. En jafnskjótt og hún var lögst í farið, varð hún gagntekin af nístingskulda, svo að hún hélzt þar ekki við, og sneri heim aftur. Fór Arnfríður þá, og sagðist verða að leggjast í farið sitt aftur. – Draum þennan sagði Ingibjörg þegar um morguninn. Síðar um daginn kom sendimaður frá Hvammi að Neðra-Skúfi, og spurði eftir Arnfríði. Fundu leitarmenn hana örenda á fjallinu nokkurum dögum síðar, og lá hún eins og Ingibjörgu hafði dreymt að farið hennar væri.
Sögn þessi er eftir konu minni, Ingibjörgu, er þetta dreymdi.
(Sögn Halldórs Þorgrímssonar. 1907. Handrit Guðm. Friðjónssonar.)
Vorið sem eg var fermdur, árið 1875, var eg í Garði í Aðaldal hjá foreldrum mínum, sem bjuggu þar. Þar var þá til heimilis gamall maður, er Sveinn hét, og bjó hann áður í Garði og víðar þar í dalnum; var hreppstjóri og myndarbóndi, greindur maður og sannorður. Eg svaf hjá föður mínum inni í baðstofu. En Sveinn svaf einn frammi á stofulofti. Eina nótt vakna eg við það að Sveinn situr á nærfötunum á rúmstokk föður míns og er að hljóðskrafa við hann. Fara þeir síðan fram og koma ekki aftur þá nótt. Daginn eftir var eg í skógi með Sveini að kolagerð, og spurði eg hann þá, hvers vegna hann hefði verið fáklæddur inni í baðstofu um nóttina. Hann sagði mér að sig hefði dreymt illa um nóttina »og vaknaði eg þess vegna og vakti um stund«. Heyrir hann þá að kallað er til hans með nafni og virtist honum kallið koma úr bæjardyrum. Hann tók undir, því að honum kom til hugar að heimamaður einhver mundi hafa á sig kallað. Nú leið lítil stund og var þá kallað á hann aftur á sama hátt, en þá virtist honum kallið koma úr stofunni fyrir neðan hann. Enn var á hann kallað, í þriðja sinn, og líktist þá kallið neyðarópi og þótti honum það kall koma úr uppgöngunni að loftinu, sem hann lá í. Þá beið hann ekki lengur boðanna, fór á fætur og hljóp inn í baðstofuna. Faðir minn og Sveinn gættu að því, að allir menn í baðstofunni sváfu rúmum sínum, og var bær lokaður. Sveinn fekst nú ekki til að sofa frammi eftir þetta. — Sveinn átti börn í Ameríku, þegar þetta var, og voru þau fulltíða. En seint um sumarið fekk Sveinn bréf frá börnum sínum í Ameríku, og þá frétt með, að Páll sonur hans, sem þar var, hefði druknað þetta vor. Og eftir því sem skrifað var, hafði hann druknað sama sólarhringinn, sem kallað var á Svein.
(Sögn Einars hreppstjóra Jónssonar í Brimnesi, er var unglingur á Heiði, er saga þessi gerðist. Handrit frú Jóhönnu Soffíu Jónsdóttur í Viðvík. 1907.)
Árið 1876 var sá vinnumaður á Heiði í Sléttuhlíð, sem Erlendur hét, Jónsson. Um veturinn milli jóla og nýárs var hann sendur út á bæi. Á heimleiðinni gerði dálítið dimmviður og hraðaði Erlendur ferð sinni, með því hann hafði kinda að gæta heima hjá sér. Það bar svo við hjá lækjargili nokkuru, eins og að hálfnaðri leið, að hann sér á bakkanum hinumegin lækjarins gangandi mann með poka bundinn á bak sér og staf í hendi. Þessi maður þekkir Erlendur að er Níels nokkur Níelsson, þáverandi vinnumaður á Brúnastöðum í Fljótum, og áður hafði verið vinnumaður á Heiði, honum samtíða, og var þar til vina. Erlendur vissi einnig að Níels þessi hafði ætlað sér upp í Kílholt í Viðvíkursveit og vera þar um nýárið, því þar hafði hann líka verið vinnumaður, og átti vinum að mæta þar sem hann var kunnugur; þetta styrkti einnig vissu Erlendar um, að svo væri sem sér sýndist; kallaði hann til hans og bað hann að bíða sín. Maðurinn leit við og þekti þá Erlendur hann fyrir víst, en hann sinti ekki neinu kalli, heldur hélt áfram. Með því Erlendur var mesti göngumaður, hugsaði hann sér, að Níels skyldi ekki komast fyr heim en hann, og herti því ferðina sem mest mátti. En brátt sá hann þetta þýddi ekkert, því að jafnlangt var á milli þeirra, hversu hart sem hann fór. Þegar heim að vellinum kom, bar á milli þeirra hól; sá hann ekki manninn framar. Hugsaði hann að Níels hefði farið inn í bæ á Heiði og áleit sjálfsagt að hann mundi gista þar. Ætlaði hann sér að jafna á honum um kvöldið fyrir gabbið. En þegar heim kom, varð hann þess vísari að þangað hafði enginn komið. Segir hann fólkinu frá sýninni, og furðaði alla á að Níels færi hjá, þar sem það hafði aldrei borið við áður; gerði heimafólkið gys að honum og sagði honum hafa missýnst; mundi sækja að honum feigð, þar sem hann var bæði þektur að orðvendni og glöggskygni. Þetta sama kvöld bar svo við í Kílholti í Viðvíkursveit, að eftir dagsetur er barið að dyrum, en ekki heyrast nema tvö högg. Talar heimafólk um, að þessi náungi sé ekki ofgóður að fara upp á glugga og guða, eins og tíðkast í sveitum á vetrum eftir dagsetur. Var svo barið aftur, og þá um leið heyrðist fólkinu að farið væri upp á bæinn, og beið þess að kallað yrði á gluggann, en það varð ekki. Hugkvæmdist einhverjum af fólkinu, þetta skyldi nú vera Níels, sem ætlaði að koma þangað um nýárið, og gera þetta hark að gamni til að hlægja að, þegar inn kæmi, því að hann var mjög gamansamur. Fóru piltar þá út og leituðu, en fundu engan. Heyrðist hark við og við á vökunni. Tveim dögum síðar fréttist lát Níelsar Níelssonar, og hafði hann druknað í Miklavatni í Fljótum daginn áður en þetta bar við, sem hér er að framan ritað, var hann á leið upp að Kílholti, en hafði ætlað sér að koma að Heiði.
(Sögn Jóns trésmiðs Pálssonar í Húsavík. Hdr. J. Hálfdanarsonar.)
Þegar eg bjó í Kvígindisdal í Reykjadal, fór eg oft inn á Akureyri, bæði vetur og sumar. Eg var einu sinni á útmánuðum snemma dags að fara vestur yfir Vaðlaheiði. Var eg einn á ferð á ný-skaflajárnuðum hesti, og var beitihjarn. Uppi á heiðinni finn eg snögglega til máttleysis og deyfðar; dettur mér í hug, að það muni vera af sulti, því eg hafði ekki neytt neins, nema kaffis, síðan eg fór að heiman; fer eg því af baki og fer að spenna hnakkólina af tösku minni, til þess að ná mér í nestisbita. Þegar eg hefi að eins losað um ólina, verð eg einhvers var í nánd við mig; hefir það þau áhrif á mig, að máttleysið hverfur. Eg spenni ólina aftur, fer á bak sem hraðast, og ríð nú alt hvað af tekur niður að Geldingsá. Bóndinn þar, Bjarni að nafni, var mér kunnugur, og átti eg hann vísan að fara með mér yfir á Akureyri. Eg segi svo við Bjarna: »Eg ætla að biðja þig að minna mig á það í dag á Akureyri að kaupa heftiplástur.« Síðan förum við eins og venja er til yfir um, og segir ekki af þeirri ferð fyr en um kvöldið, að við erum báðir að fást við að leggja á hestinn, Bjarni að gyrða, en eg að spenna töskuna aftan við; fanst mér þá hnakkurinn lausgyrtur, og vík hálf-ónotaorði til Bjarna. Rann honum í skap, grípur móttakið aftur og setur kné í hestinn. Hesturinn hratar að mér, svo að skaflinn á skeifunni kom á ristina og fór inn úr öllu, í stóra æð, og blóðbunan í háa loft. Flýtti eg mér þá úr soknum; hafði eg þá heftiplásturinn í vasanum; bý hann út og legg þegar eg ætlaði að hreyfa mig aftur, tók að blæða, svo að eg varð að halda kyrru fyrir til næsta dags. Svo var blóðrásin áköf, að eg held að læknir hefði eigi komið nógu snemma til hjálpar, og hygg eg að heftiplásturinn, svona við hendina, hafi borgið mér. – En hversvegna keypti eg heftiplásturinn, vöru, sem eg hefi aldrei keypt, hvorki fyr né síðar á æfinni? Það er svo frá því að segja, að þegar eg var að handleika sömu ólina á heiðinni um morguninn sem um kvöldið, þegar slysið vildi til, þá bregður fyrir mig óljóst einhverri veru fast hjá mér, sem hefir tak á staf með hvössum atgeirsbroddi; sýnist mér broddurinn koma, sem skotið væri, beint niður í ristina á mér. Við þetta varð mér svo bilt sem áður er sagt, og settist þá í mig svo sterk trú, að eitthvað þessu líkt mundi koma fyrir mig að eg keypti heftiplásturinn, til þess að vera við öllu búinn.
(Eftir handriti Magnúsar Jóhannssonar á Ytra-Kálfskinni. 1907.)
Þegar eg var á Hinriksmýri á Árskógsströnd, var það einn morgun snemma, sumarið 1898, að eg fór suður að Götu, til þess að slá þar um daginn. Þegar eg kom suður og upp undir brúna á Þorvaldsdalsá – hún var þá ofar en hún er nú –, þá sá eg stúlku, sem sat skamt neðan við brúna, með stórröndótt sjal yfir sér og dökkklædd annars; eg gekk fáa faðma frá henni. Eg var að hugsa um að heilsa henni, en af því varð þó ekki, því að eg var að flýta mér. – Svo gekk eg yfir brúna og suður á melbarð eitt, sem er sunnan við ána; þaðan sést ofan með ánni að utanverðu. Þá leit eg við til þess að gá að stúlkunni, en þá sá eg hana hvergi, og var þó enginn sá staður til, er hún gæti dulizt á. En mest sá eg eftir því, að eg talaði eigi neitt við hana.
(Sögn Hólmfríðar Þorsteinsdóttur á Kálfaströnd í Mývatnssveit. 1907. Handrit Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum.)
Eg er fædd og uppalin að Miðfirði á Langaness-ströndum. Þegar eg var á fjórtánda ári, var eg send með bréf til næsta bæjar, Djúpalækjar, sem var í austurátt frá heimili mínu. Þurfti eg að fara yfir mýrar og á, sem var á milli bæjanna. Gekk mér ferðin vel; eg skilaði bréfinu og tafði um stund, fór svo sömu leið heim aftur. Þegar eg var komin nokkuð frá bænum, skall á þoka, en þó ekki mjög dimm. Eg gekk svo litla stund beint, áfram, að mér fanst, en kom þá alt í einu að stórum læk með háum brekkum beggja megin, og voru þar margskonar blómjurtir og berjalyng, og þótti mér það undur fagurt. Eg gekk dálítið niður með læknum og sá þá til árinnar, og heyrði brimhljóð í sjónum. Eg sá að eg gat vaðið lækinn; samt var hann straumharður og stórgrýttur; en þá var eg eigi orðin viss að rata, svo að eg áræddi eigi að fara lengra, sneri því við og náði aftur sama bænum. Eg var þarna vel kunnug og vissi upp á mína tíu fingur að lækur þessi var alls eigi til, og eigi gat eg hafa farið mjög langt, því að eg var eigi í burtu nema rúma klukkustund. Enginn maður þarna í grendinni vissi af þessum læk, og hefir víst enginn séð hann, hvorki fyr né síðar. Eg hefi aldrei verið góð að rata síðan. – Man eg þetta mjög vel, og er eg nú nær hálf-sextug.
(Heimildin í sögunni. Handrit Friðleifs Jóhannssonar í Háagerði. 1906.)
Nálægt 1875 bjó bóndi sá, er Jónas hét, í Sauðakoti á Upsaströnd, vestan Eyjafjarðar; einn son átti hann, er Sigurjón hét; báðir voru þeir feðgar vel greindir og sannorðir menn. – Svo bar við einu sinni sem oftar, að þeir feðgar voru báðir staddir niðri við sjó, í júnímánuði 1875 eða 6, að gera að veiðarfærum sínum að nóttu til eftir háttatíma, en þá var albjört nótt, sem venja er til um það leyti árs. Svo er þar háttað við lendingu, að skerjagarður mikill er fyrir framan vörina, sem lent er í, og ef háflæði er, má róa á smáförum á milli skerjagarðsins og lands, en með fjöru er það alt þurt. Nú sjá þeir feðgar að smábytta svört, með tveimur mönnum, kemur róandi norðan með landinu, því mótvindur var þéttur; nálguðust mennirnir óðum, því þeir sóttu knálega róðurinn. Hugðu þeir feðgar, að menn þessir kæmu úr Ólafsfirði, og mundu ætla sér að hvílast þar í lendingunni hjá sér. Gengu því fram á fremstu steina fjörunni og ætluðu að draga byttuna á land, ef hinir vildu hvílast þar. Báðir voru mennirnir fullorðnir; sýndist annar vera nokkuð við aldur, en hinn miklu yngri; báðir voru þeir á rauðum skyrtum og svörtum vestum, með mórauðar húfur á höfðum, og berhentir, nema sá yngri reri við mórauðan hálstrefil, sem hann hafði um hálsinn, en vafði endunum um árarhlummana. Þannig reru þeir með fjörunni inn áður nefndan vog, á milli skerjagarðsins og lands, en vildu ekki snúa til lands, heldur horfðu þeir báðir á djúpborða; þó voru þeir svo nærri landi að árin, er að landi vissi, kendi oftsinnis grunns. Þannig reru menn þessir áfram, án þess að mæla eitt orð hvor við annan, þar til þeir voru komnir rúmlega hundrað faðma suður fyrir lendingu þeirra feðga; þar rendu menn þessir að landi til að hvílast, en þar voru háir hamrar og ekkert uppsátur fyrir nokkurn mann; furðaði þá feðga mjög á þessu, og vildu veita þeim eftirtekt, og gengu upp á háan bakka fyrir ofan fjöruna, til þess að sjá betur til þeirra; en þeir ýttu fljótlega frá landi aftur, og reru síðan fyrir klettahlein, er gengur fram í sjóinn, og þar með á hvarf hinum megin; en þeir gengu suður bakkann, til þess að sjá, hvort hinir mundu halda, en þá sáu þeir þá hvergi, og höfðu þeir þó engan tíma til að róa hinum á hvarf. Síðan héldu þeir feðgar spurnum fyrir um, hvort nokkrir menn hefðu farið þar um þessa nótt, en til þess vissi enginn. – Saga þessi er skrifuð eftir Sigurjóni, syni Jónasar, sem er enn á lífi í Svarfaðardal, en faðir hans er nú dáinn fyrir nokkrum árum.
(Sögn Þorsteins bónda Hannessonar á Hjaltastöðum í Blönduhlíð, borin saman við Sölva skipstjóra Ólafsson á Akureyri 1908, og segir hann sagan sé nákvæmlega rétt. Handrit Kristjáns I. Sveinssonar í Djúpadal í Skagafirði. 1907.)
Nálægt 1874 gerðist atburður sá, er nú skal greina. Sögumaður minn var þá við sjóróðra hjá Sölva Ólafssyni, hákarlaformanni í Þönglaskála á Höfðaströnd við Skagafjörð. Fyrirburður þessi kom fyrir á jólaföstu. Vorið áður druknaði bóndinn frá Höfða á Höfðaströnd af hákarlaskipi. Hann hét Jón og var Jónatansson, alþektur maður á þeirri tíð, mesti sjósóknari og afbragðs selaskytta. Hafði hann sérstaka byttu, sem hann reri á, þegar hann var á selaveiðum. Var það far alment nefnt »selabyttan frá Höfða«. Kona Jóns hét Rannveig, Hákonardóttir (Espólíns). – Sögumaðurinn segir svo frá atburði þessum:
»Það var eina nótt á jólaföstunni að vér ætluðum að róa til fiskjar frá Þönglaskála. Vaknaði formaður vor um nóttina og vakti oss háseta sína, þrjá að tölu. Þegar út var komið, sáum vér að það var kafaldshríð af norðri, og var því eigi unt að róa í því útliti. – Fórum vér svo allir inn aftur og lögðumst til svefns. En er búið var að slökkva ljósið bar jafnskjótt fyrir augu mín mjög kynlega sjón. Eg sá Jón sálaða frá Höfða koma róandi á selabyttunni sinni utan með austurlandinu og var hann kominn nokkuð inn fyrir svonefnda Bæjarvík, sem er lendingin á Bæ á Höfðaströnd. Er sú vegalengd, þaðan og að Þönglaskála, tæp hálf vika sjávar. Byttuna og manninn þekti eg mjög vel, því eg hafði oftar en einu sinni róið hjá Jóni heitnum. Eg sá eigi að eins bátinn og manninn, heldur sá eg líka alt landslagið í þessari átt. Eg sá hríðardimmuna, bylgjurnar á sjónum o.s. frv. Fjarlægðinni til mannsins get eg varla lýst; mér virtist hún í raun og veru vera eðlileg, en þó sá eg bæði manninn og byttuna svo glögt, að mér virtist fjarlægðin til þeirra eigi vera meiri, en sem svaraði tveimur eða þremur föðmum. – Eg reyndi að bylta mér á ýmsar hliðar, en það kom fyrir ekki. Eg sá altaf sömu sýnina, og var alveg sama, hvort eg hafði augun aftur eða opin. Horfði eg á þetta lengi, og gat alls eigi sofnað. Var Jón sálaði kominn nærri inn á móts við hlein eina, sem er rétt utan við Þönglaskálalendingu. – Í því bili vaknaði Sölvi aftur, og bað oss háseta sína að skygnast til veðurs. Þá var kveikt ljós og í sama bili hvarf mér sýnin. Hríðin var hin sama. Eg sagði þá við þá félaga mína, að það væri maður á ferð þar utan með landinu, og mundi hann innan skamms koma að lendingu okkar, ef hann héldi eigi beina leið inn í Hofsós, því hann hefði verið þar út og fram undan hleininni, þegar kveikt hefði verið. – Þeir hlógu allir að mér, nema formaður minn, Sölvi. Eg kvaðst vilja fara niður að lendingunni til að grenslast eftir manninum. Sölvi var undir eins til með að fara með mér, og var hann þó haltur þá, og gekk við hækju, því fótur hans hafði gengið úr liði um hnéð. Hinir fylgdust með. – Eigi gat eg neitt um það við þá, hver mér hefði sýnzt maðurinn vera, en sagði að hann væri á »selabyttunni frá Höfða«. – Þegar vér komum ofan undir lendinguna (þangað var átta til tíu mínútna gangur), sáum vér að maður var að berjast við að lenda, og gekk honum það illa. – Þetta var selabyttan, eins og eg hafði sagt, en maðurinn, sem á henni var, hét Sveinbjörn, og var úr Hofsós. Hann var selaskytta fyrir Óla Hafstein, sem þá var í Hofsós, og var á heimleið. – Litlu eftir nýár þann sama vetur druknaði Sveinbjörn þessi af »selabyttunni frá Höfða«, skamt frá Hegranesi, innan til á Skagafirði.«
(Sögn Helga Jónssonar á Felli á Langanesströnd. Eftir handriti Árna Davíðssonar á Gunnarsstöðum í Þistilfirði.)
Þegar eg var rétt orðinn fullorðinn, var eg vinnumaður á Ljósalandi í Vopnafirði, og annar maður til, sem Stefán hét; hann fór síðar til Ameríku. Við vorum góðir vinir og nákunnugir. Um veturinn fór eg eitt sinn inn í Selárdal, og gisti á Hróaldsstöðum á heimleiðinni. Þar átti Stefán vinur minn unnustu. Um morguninn kallaði stúlka þessi mig á eintal, og gengum við dálítið afsíðis frá bænum. Var það erindið, að hún bað mig að skila fyrir sig uppsögn til Stefáns. Eg neitaði að færa honum svo illar fréttir, og skildum við svo að því. Þegar eg kom heim, sátu allir inni, og tóku glaðlega kveðju minni, nema Stefán; hann var áhyggjufullur mjög og dapur. Lítilli stundu síðar kallaði hann á mig fram í skála, fór ofan í kistu sína og fór að gefa mér þar brennivín með sér. Spurði hann mig þá að því, hvað eg og stúlkan sín hefðum verið að tala saman fyrir utan bæinn á Hróaldsstöðum í morgun; eg bar á móti, að við hefðum nokkuð talað þar saman, en hann bað mig að segja sér ekkert af því, því að hann hefði séð varirnar á okkur bærast, en ekkert vissi hann hvað við hefðum sagt. Komst eg svo ekki undan að segja honum hið sanna.
(Heimildin í sögunni. Hdr. Ingibjargar R. Jóhannesdóttur í Árnesi við Glerá. 1907.)
Einu sinni þegar Ari Jónsson frá Strjúgsá, sá er samdi leikinn Sigríði Eyjafjarðarsól, bjó í Víðirgerði í Eyjafirði, fór hann í kaupstað. Þegar hann kom heim, varð hann þess var, að hann hafði tínt skjóðu, með tveimur pundum af hvoru, kaffi og sykri. Þetta þótti mikið mein heima, því kaffilaust var og Ari fátækur í þá daga, þótt hann auðgaðist síðar. Tíu ára gömul stúlka var þar á bænum, Guðný að nafni, Sveinsdóttir. Hún heyrði talað um skjóðuna og hugsaði mikið um, að gaman væri að finna hana fyrir Rósu húsfreyju.
Nú var hálfur mánuður liðinn frá þessum atburði og hætt að minnast á hann. Þá var það eitt kvöld, er Guðný var háttuð, að henni fanst hún sjá skjóðuna liggja upp við þúfu á einum stað, sem hún þekti, skamt þar frá. Hún gat varla sofið um nóttina, og um morguninn bað hún móður sína, Signýju, að lofa sér að sækja kaffiskjóðuna; hún vissi hvar hún væri. Móðir hennar bannaði henni heimskurugl þetta, og við það varð að sitja. Næsta kvöld fór á sömu leið, Guðný sá skjóðuna svo greinilega, og þriðja kvöldið eins. Daginn eftir gat móðir hennar ekki aftrað henni, enda sagði húsfreyja að bezt væri að lofa henni að fara, og sagðist skyldi gefa henni sætt kaffi og lummur, kæmi hún með skjóðuna.
Nú hljóp Guðný eins og hún vissi að leiðir lágu, þar til hún kom í Páls-lág, sem kölluð er, þar út og niður undir þjóðveginum. Hún hljóp ofan lágina, þangað til henni fanst sem hvíslað væri að sér: »Þú ert komin of langt.« Þá sneri hún við uppeftir; og er hún hefir gengið lítinn spöl, verður fyrir henni skjóðan og hún þekkir alt, nákvæmlega eins og fyrir hana bar.
Það má nærri geta að hún var glöð, þegar hún kom heim með fundinn, og fólkið varð heldur en ekki hissa.
Guðný Sveinsdóttir er enn á lífi og á heima á Hjalteyri. Hún hefir sagt mér söguna, og fullyrðir að hún hafi verið glaðvakandi, þegar hún sá skjóðuna. Einnig hafa þau hjón, Ari og Rósa, sagt mér söguna og ber þeim saman við frásögn Guðnýjar.
(Gamlar sagnir í Eyjafirði. Handrit Hannesar búfræðings Jónssonar í Hleiðargarði. 1906.)
Svo er sagt að fyrir löngu hafi búið á Úlfá í Eyjafirði maður sá, er Jón hét. Helga hét kona hans, og þótti hún forn í fari, og eigi við alþýðu skap. Var það eitt, að hún sá ýmsa atburði, er gerðust í öðrum sveitum og landshlutum. Jón bóndi hennar var ferðalangur hinn mesti, og var oft í skreiðarferðum, ýmist vestur undir Jökul, sem kallað var (Snæfellsjökul), eða á Suðurland, því að þær ferðir voru þá mjög tíðar úr Eyjafirði. Var þá vani að fara Eyfirðingaveg hinn forna, eða Vatnahjallaveg, sem nú er kallaður. Vissi þá Helga ætíð hvað karli hennar leið í þeim ferðum, og sagði heimafólki á Úlfá, og reyndist það ætíð rétt, er Jón kom heim. Einhverju sinni er svo sagt, að Jón færi í suðurferð seint á vetri. Hafði tíð verið hin bezta, og fór Jón því ásamt fleirum Eyfirðingum suður Vatnahjallaveg til skreiðarkaupa. Meðan þeir voru í ferðinni breyttist tíðarfar, og gerði hríðar og snjóa. Var það um það leyti, að líklegt þótti að þeir félagar væru komnir á heimleið. Þá var það eitt kvöld, að alt fólk sat í baðstofu á Úlfá. Var kerling venju fremur svipþung, og horfði oft til veggjar fyrir ofan rúm sitt. Loks tekur hún til máls og segir: »Illa er nú ástatt fyrir þeim félögum; eru þeir nú í Gránunesi, og er hríðin og harðviðrið svo mikið, að varla fá þeir ratað, eða áfram haldið.« Leið nú enn stund. Er þá alt í einu sem kerlingu hnykki við, og kallar hún upp: »Guð hjálpi honum Jóni mínum! nú fauk af honum lambhúshettan.« Líður svo enn lítil stund, og segir kerling þá: »Hamingjunni sé lof, nú fann Jón minn aftur hettuna.« Tók nú að glaðna yfir henni, og skömmu síðar segir hún, að nú sé hríðina að birta og muni þeim óhætt úr þessu. Reyndist það og rétt, sem hún sagði, því nokkru síðar kom Jón heim heill á húfi og allir þeir, er með honum höfðu farið. Hafði alt gengið svo til, sem kerling sagði.
Einhverju sinni er svo sagt, að alt heimilisfólk á Úlfá sæti við vinnu sína í baðstofu. Horfði kerling þá oft til veggjar, og þóttust menn þá vita, að einhverja sýn bæri fyrir hana, en enginn dirfðist að spyrja hana. Leið svo löng stund. Loks segir kerling: »Bágt eiga aumingja mennirnir, sem eru að villast; þeir eru átta saman, og hafa nú gengið þrisvar í kringum sama hólinn.« Líður nú enn stund, og tekur þá kerling enn til máls og segir: »Nú eru þeir stanzaðir.« Að stundarkorni liðnu segir hún: »Nú eru þeir búnir að grafa sig í fönn, og mun enginn þeirra lifa af.« Nokkru síðar fréttist, að menn þessir hefðu orðið úti, eins og kerling hafði sagt.
Um þessar mundir var vinnumaður einn á Vatnsenda, en ekki er nafns hans getið. Var hann í kunningsskap við stúlku í Hólum, og fór hann einatt að finna hana. Einhverju sinni er svo sagt, að hann færi að heiman að vanda að finna stúlkuna. Segja sumir, að það væri á aðfangadagskvöld jóla. Hvarf hann þetta kvöld og var hans víða leitað, en alt kom fyrir ekki. Héldu margir að hann hefði druknað í Hólavatni, en það er á milli bæjanna, Vatnsenda og Hóla, og er oft gengið á ísi yfir það á vetrum. Aðrir töldu það með öllu ólíklegt, því að ís hafði verið traustur á vatninu, enda líklegra að hann hefði fylgt veginum, sem lá þá, og liggur enn, fyrir ofan vatnið. Veður hafði verið bjart og gott, og var því mörgum getum að því leitt, hvað um mann þennan hefði orðið. Loks kom mönnum saman um að leita til Helgu á Úlfá, ef vera mætti, að hún vissi betur um þetta en aðrir. Var nú þetta gert; en kerling varð fá við, og lézt ekki vita meira um þetta en aðrir. Þó sagði hún að síðustu, að hefði hún leitað mannsins, mundi hún fyrst hafa farið upp í Hólaskorur; eru það klettar vondir uppi í fjallinu upp undan Hólum. Töldu menn þetta skæting úr kerlingu og lögðu engan trúnað á. Þó fór svo, að nokkurir menn tóku sig til og gengu upp í klettana. Fanst þar maðurinn dauður, og hafði hann hrapað, og beðið bana af. Vissi enginn hvers vegna hann hafði þangað farið, og aldrei vildi Helga neitt um það segja.
Margar eru fleiri sögur af kerlingu þessari, þó þær séu ekki hér fleiri greindar.
(Sögn sonar hans, Jóns trésmiðs í Húsavík. Hdr. J. Hálfdanarsonar.)
Haustið 1859, á föstudag í 21. viku sumars, var Jón, sonur Benedikts Vigfússonar prófasts á Hólum í Hjaltadal á ferð norðan frá Sauðanesi með konuefni sitt, Sigríði, dóttur síra Halldórs prófasts á Sauðanesi. Þau höfðu gist um nóttina á Einarsstöðum, hjá Sigurjóni og Margrétu, sem þá bjuggu þar. – Um morguninn héldu þau af stað upp á Fljótsheiði, og fylgdu þau Sigurjón og Margrét þeim upp á heiðina; þegar þau eru komin vestur á heiðina, kemur það atvik fyrir, að fugl flýgur skyndilega úr fylgsni, eins og oft ber við, svo hestur Sigríðar hrekkur til, og hún úr söðlinum. Kom hún niður á hendina, og hrökk úr liði önnur framhandleggspípa við úlnlið. Fólkið tekur síðan það ráð, að það snýr aftur ofan í Reykjadal, að Breiðumýri, til Jakobs gamla Péturssonar, því hann var mjög laginn og ráðagóður skottulæknir. – Jón Pálsson var svo fenginn til að leggja hjálparhönd að því, að koma í liðinn, og tókst það vel. Segir svo ekki af ferðum þessa fólks frekara.
Um þessar mundir hafði Jón Pálsson ráðið ferð, suður á land yfir Sprengisand. Þessa ferð byrjar hann á sunnudagsmorguninn næsta eftir að það bar við, er áður er sagt, og hélt þann dag að Mýri í Bárðardal; síðan suður með nokkurum kaupamönnum úr Árnessýslu. Ferð Jóns var heitið um alla Rangárvallasýslu, alt í Hörgsdal austur á Síðu, til föður hans, því þar hafði hann aldrei komið síðan hann fór til Reykjavíkur að læra smíði – en síðan voru nú liðin fimm ár. – Jón hélt fullum og frekum dagleiðum, og náði frá Breiðumýri að Hörgsdal; var það síðla á þriðjudagskvöld í 22. viku sumars, að hann var kominn þangað.
Næsta morgun, er þeir feðgar sitja að morgunverði, kemur það atvik fyrir, sem er aðalatriðið í sögu þessari, og Jóni er minnisstætt. Hann tekur nú eftir föður sínum, hvernig hann hleypir brúnum og horfir hvössum augum í gaupnir sér, eins og sá, sem er að grufla eða rifja eitthvað upp, og segir: »Var það mikið sem hún Sigríður Halldórsdóttir meiddi sig, þarna á Fljótsheiðinni?« Jóni verður hverft við, sem von var, því hann vissi að engin fregn gat borizt á undan honum um þetta, og segir: »Hver hefir sagt þér þetta?« – »Hvað varðar þig um það, drengur minn?« segir prófastur. Jón leysir svo úr spurningunni og lýsir meiðslinu. Ekki spyr prófastur um nokkurt atvik að þessu, og er því tali lokið. Aldrei hafði síra Páll komið á Norðurland, og að líkindum aldrei séð neina þá manneskju, sem var hér við riðin, nema Jón, son sinn.
(Heimildin í sögunni. Handrit Ingibjargar R. Jóhannesdóttur barnakennara. 1907.)
Þegar eg var barn, var eg á Nýjabæ í Hólasókn Eyjafirði, hjá foreldrum mínum, Jóhannesi Jónassyni frá Strjúgsá og Rannveigu Þorsteinsdóttur frá Hvassafelli.
Ekki var þar annað fólk en þau, og við börnin. Sumarið 1879 tókum við Valgerður systir mín (dáin 1893) upp á því, að fara leyfislaust burtu frá bænum, þegar okkur sýndist, og hlýddum hvorki boðum né banni í því efni. Þá var eg á sjöunda en Valgerður á fimta ári.
Einu sinni sem oftar höfðum við verið meiri hluta dags úti á Arnarstöðum, sem er næsti bær; vorum við að leika okkur við börnin þar. Þegar við fórum heim, var komið að sólarlagi. Þegar við komum suður fyrir túnið, segir Valgerður að móðir okkar komi, sé komin út fyrir tún heima. Eg sá hana ekki, því að eg er nærsýn. Við þóttumst vita að hún væri að sækja okkur og áttum heldur en ekki von á áminningu. Við urðum nú hálf-smeykar, og eg lagði það til að við skyldum ganga göturnar, því þá hittum við hana ekki, vegna þess að hún gekk út með fjallinu, en var nærsýn, eins og eg. Systir mín félst ekki á þetta, og eftir ofurlitla mótspyrnu af minni hendi, gengum við á móti henni.
Þegar við mættum mynd þessari, sem við töldum víst að væri móðir okkar, gekk hún svona á snið við okkur og svo skamt frá, að jafnvel eg sá greinilega að þetta var engin annar en hún mamma. Limaburður og útlit alt hið sama og klæðnaðurinn eins og um morguninn, þegar við fórum frá henni. Henni var þungt fyrir brjósti, svo hún var ætíð móð, þegar hún var á gangi og andardráttinn heyrðum við og þektum, eins og annað. Þegar við sáum að hún leit ekki við okkur, heldur hélt áfram, stönzuðum við og varð ekki um sel, héldum að nú væri hún svo reið, að hún vildi ekki sjá okkur. Systir mín fór að kjökra og kallaði í sífellu: »Mamma, mamma!« Konan hélt áfram hægt, hálfleit um öxl og rétti höndina lítið eitt í áttina til okkar. Þá ætlaði barnið að þjóta á eftir henni, en ekki get eg gert mér grein fyrir, hvernig á því stóð, að eg stóð eins og staur og hélt í hana, svo hún komst ekki. Nú fórum við að gráta og hlupum heim, en þegar við komum inn í göngin, heyrðum við móður okkar vera að skrafa og hlæja inni í baðstofu. Það var komin kona af næsta bæ, og móðir okkar hafði ekkert farið út að leita okkar.
Ekki sögðum við frá þessu strax, komum okkur ekki að því; en þetta var víst í síðasta skiftið, sem við fórum burtu í leyfisleysi. – Eg man eftir að móðir mín sagði mér löngu seinna að hún hefði haldið sýn þessa feigðarsvip sinn; en hún dó ekki fyr en níu árum síðar en þetta gerðist.
(Heimildin í sögunni. Hdr. Gísla Bjarnasonar í Ási á Þelamörk. 1906.)
Nálægt árinu 1855 bjó Árni Kristjánsson á Krossastöðum á Þelamörk, gildur bóndi og hagur vel.
Einu sinni bar það við, að vorlagi, að hann var í smiðju sinni, og krakkar hjá honum. Sjá þau þá öll hvar kona kemur gangandi utanað túninu, og þykjast kenna þar húsfreyju Sigríði Halldórsdóttur á Laugalandi, systur Margrétar, konu Árna. Þau gefa henni svo eigi meiri gaum, en eftir litla stund sjá þau, hvar hún gengur fyrir smiðjudyrnar, en leit ekki inn í smiðjuna, og þótti þeim það kynlegt, þar sem hún þó hlaut að hafa heyrt hamarshögg og skarkala innan úr smiðjunni, en þá þóttust þau fyrir víst sjá, að þetta var Sigríður á Laugalandi. – En nú skal geta þeirra, sem inni í bæ voru; er þá sérstaklega að tilgreina Margrétu, systur Sigríðar, og móður þeirra, sem líka hét Margrét, þá gömul orðin. Þær voru báðar inni baðstofu, og vita eigi fyr til en baðstofuhurðin er opnuð, og inn lítur kona, eins og hún væri að hyggja að einhverju; sýndist þeim báðum það vera Sigríður á Laugalandi. Hún mælti ekki orð, en lagði aftur baðstofuhurðina og hvarf. En þá stendur Margrét eldri upp, og segir: »Hún vill líklega finna mig.« Gengur hún síðan fram, leitar um allan bæinn og úti kringum bæ, en finnur konuna hvergi. En síðar fréttist það með vissu, að Sigríður á Laugalandi hafði ekki stigið fæti sínum út af heimilinu þennan tiltekna dag, og vissu menn aldrei hverskonar vera þetta var.
Þessa sögu segir Kristjana, dóttir Árna og Margrétar á Krossastöðum mér, og telur hún hana áreiðanlega sanna.
(Eftir handriti Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum. 1907.)
Árið 1896 var eg vinnukona á Kálfaströnd. Var það þá eitt kvöld að eg gekk fram í eldhús, og heyri einhvern dæmalausan ógang í búrinu, allra líkast sem bollaparabakka sé hent með bollum eða glösum á. Eg fer svo inn og sæki ljós, lít nú inn í búrið, en sá þar ekki rót á neinu. En næsta dag kemur maður, sem segir okkur söguna um það, hvernig gekk til bardaginn í gestahúsinu á Akureyri. Þar voru þeir Sveinbjörn Guðjóhnsen og Lúðvík frá Laxamýri, og mun flestum það kunnugt, að þeir hentu bollabakka á þá, sem voru að fljúgast á. Þótti mér því undarlegt að þetta skyldi bera fyrir mig hér upp í sveit.
(Sögn Pálma Jóhannssonar að Sæbóli í Laufássókn, austan Eyjafjarðar. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Skömmu eftir 1890 var eg til heimihttp://profork.rafbokavefur.is/projects/projectID50afb5b77a79c/0100.pnglis í Garði í Fnjóskadal. Var eg þar beitarhúsmaður uppi í svokölluðu Sellandi, en það er fyrir handan ásinn fyrir ofan Garð. Þar í fjallinu er svonefnt Uxaskarð. Þriggja til fjögra stunda ferð er um skarðið úr Fnjóskadal yfir í Köldukinn utarlega. Fyrir neðan Uxaskarð, að vestan, er skál ein mikil. – Það bar við úr hádegi dag einn fyrir jól, að eg stóð yfir lömbum uppi í fjalli fyrir sunnan og neðan Skálina. Veður var gott og hvítalogn, en þykt þokuloft. Heyri eg þá alt í einu all-hvellan lúðurhljóm frá Uxaskarði. Færist hljómur þessi eigi hratt í loftinu til suðvesturs yfir höfði mér og féll niður vesturyfir Hálsinum, en svo er ásinn nefndur, er inn dregur í dalinn. Varð mér hverft við og leit til lofts eftir hljóðinu, en ekkert gat eg séð, og vildi því ógjarna trúa, að eg heyrði rétt. Leið svo örstutt stund áður eg heyri aftur sama hljóminn utan og ofan úr Skálinni eða Skarðinu. Færist hann einnig á sama hátt, nákvæmlega sömu leið sem fyr, beina stefnu yfir mig, til þess staðar, er hann datt niður áður. Þar beygir nú ferð hljómsins til norðurs og því næst til vesturs og hverfur svo. Hlaut eg nú að reka mig úr skugga um, að þetta gat eigi verið misheyrn ein eða hugarburður, heldur einhver óskiljanlegur veruleiki, enda var hljómurinn mjög skær og varaði í fyrra skiftið eigi skemur en tvær mínútur og síðara sinnið á að gizka þrjár mínútur. En ekkert sá eg óvanalegt, þar sem hljóðið var á ferðinni. – Að alt sé sagt eftir beztu vitund og þekkingu er undir eiðstilboð.
(Handrit Þorsteins Þorkelssonar á Syðra-Hvarfi í Svarfaðardal.)
Það bar til á Syðra-Hvarfi í Skíðadal á Þorláksmessu (23. des.) 1889, að húsfreyja var í búri að skamta kvöldverð, og vinnukonur þar hjá henni; voru þær þá nýkomar úr fjósi, en sjö eða átta menn sátu í baðstofu við ýmislegan tóskap og fleira. Þá heyrðu allir er inni voru alt í einu hljóm svo fagran, að furðu sætti. Líktist hljómur þessi að nokkru leyti ómi af klukknahljómi, eða þó öllu heldur lágum en skærum hljómi í mjög raddfögru hljóðfæri. Menn fóru að hugsa um hvað þetta gæti verið, og datt fyrst í hug, hvort það gæti verið í olíulampa, er hékk þar í baðstofunni. En brátt komust menn að raun um, að það gat ekki verið, því að öllum virtist sem ómur þessi færðist í hvirfing sólarsinnis yfir baðstofuþekjunni. Var þá skjótlega hlaupið út og farið í kringum bæinn og baðstofuna, og sást þá ekkert, er bar til nýlundu. Veður var ekki heiðskírt, og þó ekki dimt í lofti, en lítið hríðarhrím nýfallið á jörðu. Varð því ekki ætlað að hljómur þessi stafaði af veðrabreytingum í lofti. Varð með engu móti skilið í, hvaðan ómur þessi stafaði. Hann stóð hér um bil þrjár mínútur og dó út síðan. Eg var sjálfur sjónar- og heyrnar-vottur að þessu.
(Handrit Stefáns H. Eiríkssonar. á Refsstöðum í Svartárdal. 1906.)
Bærinn Bólstaðarhlíð í Svartárdal hefir lengi verið höfuðból, og hýstur eftir því. Um og eftir miðja nítjándu öld bjó þar efnaður bóndi, er Klemenz hét. Hann var smiður mikill og reisti þar kirkju og bygði bæ reisulegan um miðja öldina. Maður þessi dó laust eftir 1880. Fór þá að búa þar sonur hans, Guðmundur, og býr hann þar enn (1906). Skömmu síðar reif hann bæinn og bygði þar aftur timburhús. Kjallari er undir mestöllu húsinu. – það var siður Guðmundar að höggva kjöt á haustum og framan af vetri niðri í kjallaranum, og hætta því laust fyrir háttatíma, og var eftir það enginn þar niðri, nema ef að eins var gengið snöggvast niður, sem sjaldan mun hafa við borið, því ekki þótti það sérlega fýsilegt. Góðri stundu eftir að húsbóndi hætti að höggva kjötið, svona um og eftir háttatíma, fóru að heyrast högg af nýju niðri í kjallaranum, rétt eins og aftur væri farið að höggva þar kjöt, og heyrðist það um stund, unz þau hættu eða dóu út fyrri hluta nætur. Eigi voru þar menn niðri, og ekki gekk á kjöthöggið að heldur. Þetta heyrðist kvöld eftir kvöld, og jafnvel vetur eftir vetur, af öllum á bænum. – Guðmundur húsbóndi kvað svo að orði, er tilrætt var um, hvað þetta mundi vera, að það væri einhver, sem hefði hug á að hjálpa sér, en orkaði litlu.
(Sögn Önnu Sigurðardóttur að Fjöllum í Kelduhverfi. 1907. Handrit Tryggva Indriðasonar.)
Árið 1889 var það einu sinni á Góu, að við Guðný Davíðsdóttir, sem þá áttum hér heima að Fjöllum, vorum að verki okkar, sem vant var, við borð undir stafnglugga í baðstofunni. Börnin voru framan við húsdyrnar og voru að kveða og syngja, og undir borðinu hjá okkur lá hundur. Heyrðum við þá snögglega afar-hátt, hvínandi hljóð, sem helzt líktist neyðarópi; virtist það koma úr nokkurri fjarlægð, sunnan úr fjöllunum. Við þetta hljóð stökk hundurinn upp geltandi, hljóp fram yfir börnin og fram í bæ, en komst ekki út, af því að bærinn var aftur. Sum af börnunum tóku eftir þessu þótt kvæðaskapurinn væri þar mikill. Á þilinu andspænis glugganum var klukka, og við þetta hljóð tókum við eftir því, að það söng í henni, svo var hljóðið hvelt. Nú fór eg út, til þess að vita hvort nokkuð gengi að piltum, sem voru þar í fjárhúsunum; en það var ekki, og höfðu þeir ekkert heyrt. Dagana næstu á undan höfðu gengið hríðar, og héldum við því, að hér nálægt gæti verið einhver maður, sem ætti eitthvað bágt, og var því leitað suður með brekkum og upp um fjöll, þegar um daginn og daginn eftir, en enginn fanst. Hafði og enginn ferðamaður farið hér um þá, að því er frézt hefir síðan. – Þetta er hið eina óskiljanlegt, sem fyrir mig hefir borið.
Anna Sigurðardóttir, húsfrú að Fjöllum, er bæði gáfuð og minnisgóð, auk þess hin sannorðasta, og mun hún því hafa greint rétt frá þessum atburði.
(Eftir handriti Sigríðar Jónsdóttur frá Geirastöðum. 1908.)
Á jólaföstu veturinn 1873 fór piltur nokkur, Björn að nafni, Kristjánsson, til heimilis í Reykjadal, austur á Hólsfjöll að finna bræður sína, er þar áttu heima. Fór hann Reykjaheiði í Kelduhverfi og þaðan í Axarfjörð. Lagði hann frá Landi snemma morguns á Hólssand, nestislaus og ókunnugur; mun þar vera nær þingmannaleið vegar á milli bæja. Var honum sagt til vegar svo sem kostur var á. Veður var gott, en dimdi, þegar á daginn leið. Þegar hann hugðist kominn á miðjan sandinn tók að hvessa með fjúki; var þá og farið að dimma af nóttu. Treystist hann þá eigi að halda áfram lengra, og grefur sig í fönn. Situr hann þar til næsta morguns, og var þá veður enn verra. Ræður hann þá af að sitja í skýli sínu þar til hríðina birti svo, að glóri til fjalla. En er minst varir heyrir hann kallað hátt: »Haltu áfram!« Honum verður bilt við, rífur sig út og heldur af stað. Ráfar hann allan daginn undan hríðinni, án þess að vita, hvert hann fer, en um kvöldið hittir hann Ás, yzta bæ á Hólsfjöllum.
Hríðin hélzt þrjá sólarhringana næstu, og taldi hann því víst, að hann hefði orðið úti, ef hann hefði ekki haldið áfram þennan dag.
(Eftir sögn og handriti Sigurðar Bjarnasonar bónda á Snæbjarnarstöðum í Fnjóskadal, nú á Garðsá í Kaupangssveit. 1908.)
Fjórtánda dag febrúarmánaðar 1905 fór eg að heiman eitthvað út í Fnjóskadal, og á heimleiðinni um kvöldið kom eg að Reykjum, sem er fremsti bær við mynnið á Bleiksmýrardal, vestan megin Fnjóskár. Eg þurfti austur yfir ána, til þess að komast heim til mín, og spurði því beitarhúsamanninn frá Reykjum, sem kom framan með ánni, hvort eg mundi geta komizt yfir hana á ís. Hann kvað þrjár spengur vera á ánni; eina þar skamt fyrir framan, undan Reykjaklifi, aðra undan Lambanesi fyrir utan Tungu, sem er bær austan árinnar, en þó nokkuð framar en Reykir, og þriðju spöngina kvað hann vera sunnan við Reykjaselið, sem er beint á móti Tungu. Nú held eg leiðar minnar og kem að spönginni undan klifinu; áin rann þar ofan á ísnum, svo að eg komst ekki yfir um, og hélt því fram með ánni, og ætlaði að komast yfir á spönginni við Lambanes. Þegar eg kom að henni, sýndist mér hún mjög óálitleg og nam staðar lítið eitt, til þess að athuga, hvar bezt væri að komast yfir. Þá heyrði eg glögt að sungið var rétt hjá mér, og heyrðist mér söngurinn koma neðan úr vatninu; heyrði eg þegar, hvað sungið var, en það var vers úr sálminum »Alt eins og blómstrið eina«, þetta: »Eg veit minn ljúfur lifir.« Það var sungið skýrt og hægt til enda, átakanlega raunalega og alvarlega. Eg varð mjög hissa á þessu, virtist þetta vera merkilegur fyrirburður, því að eg var alveg viss um, að enginn maður var þar nálægur, og misheyrn gat það ekki heldur verið, því að eg heyrði það glögt og skilmerkilega sungið með vanalegu lagi. Síðan sneri eg frá ánni og komst yfir hana sunnan við Reykjaselið, og fór sem leið liggur austur yfir Tunguháls og heim til mín.
(Heimildin í sögunum. Handrit Hreiðars E. Geirdals í Húsavík. 1908.)
Ingibjörg Hallgrímsdóttir sagði mér þessa sögu; hún var þá á sjötta árinu, þegar saga þessi gerðist, að hana minnir, og átti heima í Nýjabæ í Flatey á Skjálfanda.
»Eitt kvöld um hávetur, rétt fyrir 1890, sátum við öll inni í baðstofu, og hver við sína vinnu; þá heyrum við alt í einu að farið er að hamast að mala í kvörn, sem var frammi í eldhúsi. Nú fórum við að tala um, hvernig þessu mundi vera varið, og gátu sumir þess til, að einhver frá næstu bæjum væri að gera þetta til þess að hræða okkur. Spanst þetta orð af orði, þar til afráðið var að fara fram, og sjá, hvað um væri að vera. Nú lögðum við öll af stað með ljós; þegar í eldhúsið var komið, sást enginn maður við kvörnina, en hún snerist með talsverðum hraða, en ekkert mél kom þó út undan kvarnarsteinunum. Meðan við stóðum þarna hélt kvörnin altaf áfram að mala, og sömuleiðis þegar við fórum inn í baðstofu aftur, en ekki man eg, hve lengi hún hélt áfram að mala eftir að við vorum komin inn, en það var víst æði stund. Eg man glögt eftir þessu.«
Steinólfur Geirdal lærði söðlasmíði hjá Jóni Jónssyni í Tröllatungu í Steingrímsfirði; hann segir frá því, er hér fer á eftir.
Við vorum við söðlasmíði í stofu undir baðstofunni, en fyrir framan var eldhús, og stóð kvörn í einu horninu rétt hjá glugga, sem sneri út að kirkjugarðinum. Þar var karl á bænum, er Halldór hét, og var hann vanalega látinn mala; hann var visinn annars vegar og gat því ekki malað, nema hægt, svo að Jón, húsbóndi minn, var vanur að hrista kvörnina fyrir karl seinast á kvöldin, um leið og við hættum á verkstæðinu.
Eitt kvöld sátum við sem oftar að vinnu okkar; þá heyrum við að kvörnin er hrist skarplega; við hugsum svo, að piltar muni hafa hrist kvörnina fyrir karl, en fórum þó að tala um þetta, og kom okkur saman um það, að »þá bæri eitthvað nýrra við«, ef þeir færu að mala. Eg lagði nú af stað til að vita, hvers eg yrði vísari; enginn var við kvörnina, enda var nú hætt að mala; eg heyrði að fólkið var að tala saman uppi á lofti og hlerinn var aftur. Eg hljóp upp á loft og spurði, hvort allir væru uppi; því var játað; þá spurði eg, hvort enginn hefði farið ofan til að hrista kvörnina, og var því neitað. Þá spurði eg, hvort það hefði ekki heyrt neitt. Jú! Það sagðist hafa heyrt það, að kvörnin hefði verið hrist. Eg gekk svo úr skugga um, að þetta var satt. Svo fór eg ofan til Jóns, og við fórum báðir með ljós og lýstum í kvarnarstokkinn, og virtist okkur þá að kvörnin væri óhrist. Jón hristi svo kvörnina, og reyndist það þá svo, því að mikið mél var á milli steinanna.
Þetta bar við eitthvað rétt um 1896.«
(Sögn Sigríðar Þorsteinsdóttur frá Holtsmúla á Landi. Handrit Guðmundar Guðmundssonar í Landakoti á Vatnsleysuströnd.)
Maður nokkur, Vigfús að nafni, var á ferð á gamlaársdag; hann var fátækur og hafði verið að reitla sér. Leið hans lá fram hjá Klofa á Landi; þar hafði verið kirkja (fram um 1875?), en hún var flutt burtu þaðan, þegar saga þessi gerðist. Kirkjugarður var þar eftir. Vigfús var orðinn þreyttur; réð því af að hvíla sig litla stund og settist með bagga sinn undir kirkjugarðinn í Klofa. Þegar hann hafði setið þar litla stund, byrjaði mjög indæll söngur í kirkjugarðinum. Vigfúsi varð mjög bilt við, mest vegna þess, að hann þóttist þekkja rödd föður síns, sem hafði verið forsöngvari í Klofakirkju í mörg ár, en var nú dáinn. Hann leit um öxl sér og sýndist þá skyggja í mikinn mannfjölda í kirkjugarðinum; svo leið hann í ómegin, og vissi ekki, hve lengi hann lá þannig, en um nóttina skreiddist hann þó heim til sín. Versið, sem Vigfús heyrði sungið, var: »Heiður sé guði himnum á.« Eftir þetta lagðist hann veikur og varð jafnvel aldrei samur og áður. Hann hafði verið galgopi, gjarn á að herma eftir fólki, en hætti því gersamlega og varð stiltur og alvarlegur eftir þetta. Vigfús mun vera enn á lífi.
(Sama heimild.)
Þegar sögukonan, Sigríður Þorsteinsdóttir, bjó á Þúfu á Landi, var hún svo hrædd og ístöðulaus fyrstu árin þar, að hún þorði ekki að ganga um bæinn, jafnvel þó að hún væri með ljós. Bar það til, að hún heyrði oft gengið um bæinn þungum skrefum, þó að þar væri enginn maður, og ýmislegt fleira heyrði hún, t.d. að hringlað var í ýmsu, sem geymt var í bæjardyrum, en aldrei sá hún neitt. – Hjá henni vistaðist gömul vinnukona, er Ásdís hét, og telur Sigríður víst, að hún hafi verið skygn. Ásdís fór altaf fram, ef þær heyrðu eitthvað undarlegt, og bar þá ekki á neinu. Aldrei vildi hún segja húsmóður sinni neitt um, hver væri orsökin til þess, er þær heyrðu. Hún sagði að eins: »Það er hann kunningi okkar; hann gerir okkur ekkert mein.« – Einu sinni sem oftar heyrðu þær óvenjulega mikinn umgang úti fyrir; vildi þá Sigríður fara fram með Ásdísi, en hún vildi það ekki, og um leið og hún fór, greip hún eitthvað af sillu fyrir ofan rúm sitt. Sigríður kveðst ekki hafa getað séð, hvað það hafi verið, hnífur, skæri eða eitthvað annað, sem hún tók með sér. Í þetta sinn elti Sigríður Ásdísi, hvað sem hún sagði; kvaðst hún hafa séð hana opna bæjarhurðina, en þó ekki til hálfs, og þá hafi allur skarkali hætt.
Ásdís þessi gat venjulega sagt húsbændum sínum fyrirfram, hvaða gestir mundu koma um daginn, ef hún þekti þá. Einn morgun, þegar hún lauk upp bæjarhurðinni, sagði hún samt, að nærri hefði legið, að sér brigði, því að þegar hún opnaði hurðina hefði mannshönd verið borin svo nærri andlitinu á sér, að hún hefði næstum snortið sig.
(Sögn Jóns trésmiðs, sonar Páls, í Húsavík. Hdr. J. Hálfdanarsonar.)
Sá atburður varð í Hörgsdal á sunnudaginn fyrsta góu 1847, þegar eg var á sextánda ári, að síra Páll, faðir minn, var venju fremur árla á fótum. Það hafði fallið mikill snjór á föstudag og laugardag, en undir hafði verið hjarn. Faðir minn hyggur til veðurs og segir við vinnumann sinn, er gæta átti geldsauða, sem að vísu lágu úti við borg langt upp til fjalla: »Farðu til sauðanna, Páll,« svo hét maðurinn, en til mín sagði hann: »Farðu til og láttu út ærnar og rektu þær.« Eg tók eftir því að Páli þessum brá svo, að hann hvítnaði og skalf, enda bætti faðir minn við, »og farið í Guðs bænum varlega, því nú er snjóflóða-hætt«. Eg fór þegar að láta út, og kemur þá Páll til mín, og vill reka með mér ærnar, og að eg fari svo með sér til sauðanna. Þetta sagðist eg ekki mega, því að menn yrðu hræddir um mig, og fer því Páll þegar einn af stað. Þegar eg er kominn frá ánum, sé eg ókyrleik á föður mínum, en þó var ekki um kirkjuferð að ræða í þetta sinn, því ófært var á hesti, en öðruvísi ekki hægt að komast fyrir hann, því hann var svo fatlaður, að hann gekk við tvær hækjur. Einni stundu fyrir hádegi segir faðir minn, að það sé ekki einleikið, að Páll komi ekki, samt tekur hann húslestrar-bækur og les, og fer þó að því í hraðara lagi. Að svo búnu segir hann við Pál eldra, son sinn, og mig: »Farið nú strax af stað að leita að Páli,« og fórum við jafnskjótt. Páll gengur nú svo hart, að mér veitir ervitt að fylgja honum. Fann eg það á honum að hann var hræddur, og óánægður með, að hafa ekki fullkominn mann með sér. Loks komum við á gilbrún eina uppi í fjárgeymslu-svæðinu, og fundum þar slóð eftir Pál vinnumann, þar sem hann hafði verið eins og að gægjast fram af, en hengja sprungið undan, og hálffylt gilið. Þar fundum við hund Páls og hatt. Nú fórum við að kanna með fjögra álna stöng, sem við höfðum með okkur. Það leið ekki á löngu áður við fundum til mannsins, en nú höfðum við ekki annað að moka með en hendurnar. Við kröfluðum samt upp snjóinn með höndunum, alt að þrem álnum niður, og komum þá í iljar manninum. Þegar við sáum hvernig um hann fór, þóttumst við vissir um, að maðurinn væri dauður, enda unnum við minna en ekkert á, eftir því sem dýpra varð og snjórinn tróðst undir okkur. Hættum við því og hröðuðum okkur heim. Faðir okkar kom brátt á móti okkur út, og sögðum við honum tíðindin. Þá segir hann: »Maðurinn er ekki dauður – slíkt hefir aldrei fyrir mig komið. Farðu, Jón, undir eins austur að Hörgslandi, og fáðu tvo menn til hjálpar, og komdu inn, Páll.« Svo gerði hver, sem skipað var; Páll tók við Hoffmanns- eða kamfórudropum hjá föður okkar, sem hann sagði honum að koma ofaní manninn, og fór svo tafarlaust einn uppeftir, og nú með reku; var hann að ná nafna sínum upp, þegar eg kom við fimta mann; við höfðum hest og mikinn aðbúnað. Brátt sást að maðurinn var lifandi. Hann talaði að kalla strax, er hann náðist upp, en hvorki hafði hann heyrn né sjón, en þetta lagaðist von bráðara. Meðvitund hafði hann mist um tíma, svo að ekki hafði hann vitað neitt um það, þegar við grófum ofan á fætur hans. – Páll hrestist furðu fljótt, hann klæddist daginn eftir og fór á flakk. Það voru sem næst ellefu stundir, sem hann var snjóflóðinu.
(Sögn Rannveigar Sigurðardóttur á Prestbakka á Síðu í V.-Skaftafellssýslu. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1862, 2. marz, fórst við Gjögur á Ströndum, í ákaflegri norðanstórhríð, hákarlaskip, er Ásgeir alþingismaður Einarsson á Þingeyrum í Þingi átti. Formaður á skipinu var Sigurður Gunnarsson, er þá bjó á Breiðabólstað í Vesturhópi á móti síra Ólafi Thorberg. Sigurður var sjógarpur mikill og árum saman formaður á hákarlaskipum Ásgeirs bónda. – Einn af hásetum Sigurðar var Magnús á Heiði í Gönguskörðum, sonur Sigurðar hreppstjóra á Heiði, Guðmundssonar, þess er orti »Varabálk« og fleira, afi alþingismannanna, síra Sigurðar í Vigur og Stefáns skólakennara á Möðruvöllum. Magnús var gáfumaður mikill og bezti hagyrðingur. Hann kvað nokkru áður en hann druknaði á Húnaflóa, og þeir ellefu saman, vísur þessar:
Mér eg fyrir sjónir set,
samt vill margt á skyggja,
nokkur mín ófarin fet,
fyrir mér sem liggja.
Forlaganna fjörðurinn
frekt sig gerir ygla;
fyrir óláns annnesin
ekki er hægt að sigla.
Þótt eg sökkvi' í saltan mar,
sú er eina vörnin:
ekki grætur ekkjan þar,
eða kveina börnin.
(Heimildin í sögunni. Handrit J. Jónassonar.)
Jóhanna Jóhannesdóttir, er lengi bjó með manni sínum á Látrum við Eyjafjörð, þótti bæði forspá og draumspök. Sonur hennar, Jónas, er lengi bjó á Látrum, fór á vori hverju til hákallaveiða til Grímseyjar á áttæring, er þau hjón áttu, og Felix hét. Var það vandi Jóhönnu á vori hverju að ganga ofan til skipsins, og gera bæn sína yfir því, daginn áður en af stað var farið til eyjarinnar. Eitt skifti spyr hún Jónas, hver sitji á aftara andófi á stjórborða. Jónas kveðst ekki vera búinn að raða niður mönnunum, og því ekki vita það. Sagði þá Jóhanna að það gerði ekki til, en sá maður, er þar ætti sæti, mundi feigur vera. Síðan er lagt af stað, og ber ekkert til tíðinda alla vorvertíðina. Loftur hét maður sá, er sat á aftari andófsþóftu, Jónsson, frá Grund í Höfðahverfi, frískleikamaður á bezta aldri, fóstursonur Gunnars hreppstjóra Loftssonar á Grund.
Þegar vertíð var lokið, fluttu menn sig heim; gengu til þess ýmist tvær eða þrjár ferðir, eftir því sem aflaðist. Í síðustu ferðinni til eyjarinnar um vorið fengu þeir barning í land. Veiktist þá Loftur og dó áður en þeir náðu lendingu á Látrum; sönnuðust þá ummæli Jóhönnu, og þótti það merkilegt.
Öðru skifti var Jónas ferðbúinn til eyjar í góðu sunnanleiði. Gerði þá Jóhanna bæn sína að vanda yfir skipinu, sama daginn og það fór; en þegar hún kom heim aftur frá skipinu, sagði hún við Jónas son sinn: »Ekki gistið þið í Grímsey, hróin mín, í nótt.« Eigi vildi Jónas, sem var formaður, leggja trúnað á það. Síðan sigldu þeir af stað í blásandi byr út fyrir Gjögur, og fyrstu vikuna frá landi, en þá dettur leiðið niður, og snýst í einni svipan í grenjandi norðvestan hríð og stórsjó. Neyddust þeir til að hleypa inn til Flateyjar á Skjálfanda; lágu þeir þar í viku fyrir stöðugum stórhríðum, og mintust þá ummæla Jóhönnu gömlu, og þótti hún hafa orðið helzt til getspök.
Sögu þessa segir nú (1906) Jóhannes Jónsson bátasmiður á Akureyri, systursonur Jóhönnu; var hann þá einn af hásetum Jónasar á Felix.
(Handrit frú Jóhönnu S. Jónsdóttur í Viðvík. 1907.)
Þegar Pétur prófastur Pétursson var prestur í Miklabæ, bjuggu hjón nokkur í Víkurkoti í Miklabæjarsókn Blönduhlíð. Bóndinn hét Sigfús, en eg man ekki nafn konunnar. Hún hafði áður verið vinnukona hjá síra Pétri. Einn vetur lá hún lengi rúmföst og kom þá prófastur stundum til hennar. Einu sinni þegar hann var þar staddur, segir konan við hann: »Eg vildi að þér segðuð mér, hvað liggur fyrir börnunum mínum.« Prófastur sagði, að það væri ekki margt af því að segja, þau mundu koma til með að hafa nóg handa sér, en svo bætti hann við: »En hvergi sé eg börnin þeirra, nema hennar Elínar.« Mig minnir, að börnin væru fjögur. Elín þessi var þá hér um bil 12 ára, og heyrði hún þetta viðtal móður sinnar og prófasts. Ekkert af börnum konunnar eignaðist afkvæmi, nema Elín þessi; átti hún tvær dætur, sem lifðu báðar og áttu börn. Önnur þeirra var Kristín heitin Björnsdóttir, móðir Sigurbjörns A. Gíslasonar guðfræðings. Hún var mjög gáfuð kona, fróð og minnug. Elín móðir hennar sagði henni þessa sögu, en hún mér.
Faðir minn heitinn sagði mér, að einu sinni hefðu þeir hitzt, Pétur faðir hans og Bogi Benidiktsson á Staðarfelli. Sagði þá Pétur prófastur við Boga, að börn þeirra mundu giftast saman. Síra Pétur hafði þá enn ekki eignast neitt barn, og sagðist Bogi hafa hugsað með sér: »Þú skyldir þá geta átt barn.« Seinna kvæntust þeir Jón og Pétur, synir síra Péturs, dætrum Boga, sinni systurinni hvor.
Bogi sagði föður mínum þetta sjálfur.
(Sögn Rannveigar Sigurðardóttur á Prestbakka, Jóns Tómassonar í Hofdölum og Jóns Jónssonar frá Veðramóti í Gönguskörðum. Handrit Odds Björnssonar.)
Maður er nefndur Jón og var kallaður písl, þvíað hann var smár og lítill fyrir mann að sjá, en þó var hann nornalegur mjög í sjón og forn í skapi. Hann átti heima »suður með sjó«, og þar dó hann síðari hluta 19. aldar. Hin síðari ár æfi sinnar var hann sturlaður, að því er Jón frá Veðramóti segir, er talaði við hann gamlan. – Sumarið 1839 var Jón písl kaupamaður hjá Þorsteini í Haga í Þingi, góðum bónda. Um sumarið komst Jón í kynni við systur Þorsteins, og ætlaði hún suður með honum um haustið. Fóru þau öll í Grímstungurétt í Vatnsdal, þvíað þá var safnið réttað þar, en síðar var réttin flutt að Undirfelli. Í réttunum aftekur Þorsteinn með öllu, að systir sín fari lengra, og skilur hann þau Jón þar. Aðrir segja, að Jóni hafi þótt kaup hennar vangoldið. Reiddist Jón þessu mjög, en tók þó að skilnaði í hönd bónda, og kvaddi hann með vísum þessum:
Fyrir hrelling háðungar,
handarsvella viður,
þar sem fellur flóð í mar
feldu elli niður.
Auðs fyrir beðju útlátin,
af því gleðjast máttu. –
Þarna' er kveðjan, Þorsteinn minn!
Þér vel geðjast láttu.
Vorið eftir (1840) reri Þorsteinn vertíðina úti á Hafnabúðum í Nesjum (Skaga); var hann formaður á skipi. Í vertíðarlok fluttist hann á skipinu inn í Þingeyrasand; fórst skipið í lendingunni, í Húnaós, – að því, er Rannveig hyggur, í góðu veðri, en brimi. Druknuðu menn allir, nema einn, sá er óknástur þótti, Eiríkur Árnason, bróðir Sigurðar bónda í Þerney. Einn manna þeirra, er fórust þar með Þorsteini, var Steinn Guðmundsson, er þá átti heima á Geithömrum í Svínadal; er getið um hann Þjóðsögum Jóns Árnasonar, I, 400. – Þetta er einkum sögn Rannveigar, og þó einnig þeirra Jóna beggja. Rannveig heyrði og sá Jón písl í Grímstungurétt, þegar hún var ung, nokkru eftir 1840. Man hún vel druknun Þorsteins.
Jón frá Veðramóti segist hafa farið að tala um druknun Þorsteins í Haga, þegar hann hitti Jón písl fyrir sunnan, en karl ekkert viljað um það tala; sýnilega hefði það umtalsefni verið honum mjög ógeðfelt. Getur Jón sagt frá Jóni písl nokkru gerr, en hér er gert.
Jón písl var bæði fauti og heiftrækinn mjög; þótti kraftur fylgja orðum hans, hvort sem hann kastaði þeim fram í bundnu máli eða óbundnu. Segir Jón í Hofdölum þessu til sönnunar, að eitt sinn fyrir sunnan hafði Jóni písl sinnast við mann einn, er þeir voru báðir staddir í smiðju hjá bróður Jóns. Segir Jón þá í bræði við manninn, er hann stældi við, að hann þurfi ekki að láta mikið, því að þess sé skamt að bíða að hann detti útbyrðis af skipi og drukni og tilgreinir nákvæmar hvar það verði. Nokkru síðar var maður þessi í fiskiróðri í hægri golu. Var hann þá eitthvað að hagræða segli, féll útbyrðis og druknaði. Sakir ókunnugleika getur Hofdala-Jón eigi gert nákvæmari grein fyrir atviki þessu. Honum sagði Bjarni, bróðursonur Jóns píslar.
(Missagnir um Jón písl og aðdraganda að vísum hans eru prentaðar í Huld, V., 63-65, og VI., 75-77. En af því hér er miklu öðruvísi frá sagt, er það prentað hér til samanburðar, enda munu þessar sagnir sannari.)
(Heimildin í sögunni. Handrit Jakobs Hálfdanarsonar.)
Benedikt sýslumaður Sveinsson sagði mér einu sinni frá atviki þessu: Hann var sem oftar á ferð til alþingis og voru með honum tvær stúlkur. – Hann kom að morgni dags að Stóradal í Húnavatnssýslu þreyttur og svefnþurfi; hafði ásett sér að hvíla þar til miðaftans; leggja síðan upp á Kúluheiði og síðan Stórasand. – þegar Benedikt kom þarna, var þar fyrir merkur maður úr Skagafjarðarsýslu, er gist hafði þar í Stóradal um nóttina, og var nú með einhverju sínu samferðafólki að búa sig til ferðar sömu leið suður. – Benedikt biður nú mann þennan að bíða á meðan hann hvíli sig með sitt samferðafólk, svo það geti orðið alt samferða. Þetta er ófáanlegt af Skagfirðingnum, hvað vel sem Benedikt biður; reiðist hann að lokum, og segir á þessa leið: »Það væri betur, að þú yrðir ekki fyrri suður samt.« – Fer nú Skagfirðingur af stað, en Benedikt að hvíla sig. Hefir hann það eins og ásett hafði verið, leggur upp aftur um kvöldið og heldur í áfanganum alt suður að Arnarvatni. Þar hvílir hann sig vel, og mun hafa verið að áliðnu næsta dags eða nær kveldi, þegar hann var að taka sig upp. Þá verður honum litið til baka, og sér fólk koma; sér hann brátt að þar er sami flokkur á ferðinni, sem fór á undan honum daginn áður úr Stóradal. Hafði það fengið þoku, og vilzt svo stórkostlega, sem ráða má af þessari sögu.
Ekki sagði Benedikt að sér væri hægt að trúa því, að orð sín hefðu beinlínis verkað þetta, en geta mætti þess til að manninn, er fyrir þeim varð, hefði ekki gilt einu um þau, eða hvernig skildi með þeim, og að tilfinning fyrir því og umhugsun hefði átt þátt í að glepja fyrir honum aðgæzluna á veginum.
(Heimildin í sögninni. Eftir handriti Pálma Jóhannssonar á Sæbóli.)
Þegar eg var unglingur á Dölum bjó bóndi sá á Minna-Holti í Austurfljótum, er Einar hét, og var Andrésson. Kom hann oft að Dölum, því að þar var margt að fá, er búandi menn í sveit vanhagaði um, enda hafði Þorvaldur, er þar bjó þá, nóg af ýmsu til sölu. Einhverju sinni sagði Einar okkur drengjunum frá því, að þegar hann hefði verið unglingur innan við tvítugt, hefði hann farið suður á land til sjóróðra um nokkra vetur, eins og tízka var á þeim árum. Bær einn, sagði hann, hafði verið á leiðinni, sem hefði verið svo langt frá bæjum, að þar hefðu allir vermenn orðið að gista. Á bæ þessum sagði hann hefði búið karl einn, sem hefði vitað töluvert frá sér, að menn héldu. Einu sinni voru þeir hríðteptir þar heilan dag, nokkrir vermenn að norðan, og var Einar einn þeirra. Var karl að gera að heymeis um kvöldið; kvaðst Einar hafa verið að kýma að karli við og við á meðan, því að sér hefði sýnzt karl fara heldur óhöndulega að því, þangað til karl hefði kallað til sín og sagt: »Komdu hérna, drengur minn;« en þegar hann kemur til karls, segir karl honum að stíga á tréspóninn, sem þarna liggi á gólfinu. Einar segist hafa gert það, enn þá hafi brugðið svo við, að hann hafi ekkert séð í kringum sig, nema einlægt haf, og hafi sér fundizt hann vera þar að velkjast á ofur-litlum fleka. Þarna stóð hann ráðalaus, þangað til karl tók í hendina á honum, og kipti honum til sín, og spurði hann um leið, hvort honum fyndist ekki að hann væri búinn að vera þarna nógu lengi. Engin önnur orð hafði karl um þetta. Einar sagðist oft hafa gist á bæ þessum eftir þetta, og stundum verið þar um kyrt einn eða tvo daga, en aldrei orðið fyrir neinni gletni framar, enda hefði hann og karl orðið góðir vinir.
(Sögn merkisbóndans Bjarna Jónssonar að Sjávarborg í Skagafirði. Eftir hdr. Jóhanns gullsmiðs Guðmundssonar á Akureyri. 1906.)
Einu sinni fór Bjarni bóndi verzlunarferð í Hólaneskaupstað; það var þegar Schram var þar verzlunarstjóri. Bjarni lagði þar inn vörur sínar og tók út, sem vandi er til, en þegar hann er að enda við að taka út, kemur hann auga á byssu þar í einu búðarhorni, sem hann langaði til að eiga, en verzlunarstjóri kvaðst eigi vita hvort hann mætti farga henni, vegna þess, að maður nokkur á Hornströndum ætti hana lofaða, en hefði þó átt að vera búinn að taka hana fyrir tólf vikum. Samt verður það úr að Bjarni fær byssuna. Þegar kaupin eru afgerð, kemur Ströndungurinn og vill fá byssuna hjá Bjarna, en hann vill eigi láta hana; þá segir Ströndungurinn að það geti skeð að hann njóti hennar eigi lengi. Að því búnu fer Bjarni heimleiðis. En svo var mál með vexti, að Bjarni átti skotbyrgi eitt á sandinum fyrir utan Borg, sem hann var vanur að stanza við, þá er hann átti leið um, og brá hann eigi vana sínum í þetta sinn, þótt næstum væri dagsett. Legst Bjarni síðan niður við byrgið, slítur silfurhnapp úr peysu sinni og lætur í byssuna; en þá er hann er nýbúinn að þessu, sér hann svarta flyksu koma í loftinu, sem honum þótti all-ískyggileg, og lét því skotið fara úr byssunni á kynjaveru þessa. Féll hún niður á augabragði og gekk Bjarni til staðarins, en fann ekkert vegna myrkurs; labbaði síðan heim. Morguninn eftir fór hann á sama blettinn og fann þá mannsherðarblað með gati á miðju, og var það trú Bjarna, að það hefði verið sending frá Ströndungnum til sín.
(Að mestu eftir handriti Gísla Konráðsonar, fært í letur 1849.)
Björn hét prestur, og er kallaður gamli í Árbókum. Hann var Jónsson. Hélt hann Hvanneyri í Siglufirði. Mælt er að hann væri fjölkunnugur, og ætti hann margar glettingar við bónda þann, er Höskuldur hét, og bjó í Höfn í Siglufirði. Var það lengi, að þeir beittust ýmsum brögðum og vann hvorugur lítt á annan. En svo kom að lyktum, er þeir Höskuldur og prestur tóku að eldast fast, og Höskuldur vænti sig eiga skamt ólifað, að hann hugðist að fara bygðum inn í Fljót. Vildi hann fyrir engan mun eiga legstað að kirkju Bjarnar prests að Hvanneyri. Ætlaði hann nú með öðrum manni, er sumir segja son hans verið hafa, að ganga inn til Fljóta um veturinn. Prestur vissi til ferða Höskuldar, því allskamt er milli Hafnar og Hvanneyrar. Er þá mælt að prestur gerði að honum galdrahríð mikla, svo þegar Höskuldur kom í Skarðsdal og fylgdarmaður hans, var engi kostur lengra að fara. Settust þeir þá fyrir. Dasaðist Höskuldur skjótara en von væri til, og dró af mætti hans. Jafnan er sagt að Höskuldur hefði á sér saltarann, Aronsvönd og innsiglin til varnar, ef til þurfti að taka. Lagðist hann nú fyrir og bað fylgdarmann sinn að setjast í hnipur ofan á sig og lesa það er hann kynni, því þar mundi hann látast. Kvað margt mundi nú óhreint að sækja og óvíst, hvort drýgra yrði. Bað hann það til marks hafa, ef heiddi af, er hann væri látinn, mundi hann vel fara. Bað hann og þess, að fyrir því að leg mundi hann nú hafa verða að Hvanneyri, öndvert vild sinni, að hann væri jarðaður innan til við sáluhlið, þar sem flestir gengi yfir leiði sitt; mundu þá margir hyggja gott til sín – því mælt er hann væri ör af fé, einkum við snauða menn, en jafnan verið gildur bóndi. – Fylgdarmaður hans þóttist var verða eldglæringa mikilla í hríðinni, og þótti sem flyksur illar slæddust að þeim; en hann las jafnan bænir sínar. Dró meira og meira af mætti Höskuldar, þar til hann lézt; en þá þegar rofaði til lofts og sáust stjörnur glitra við. Fylgdi því næst blítt veður. Er þá ei annars getið, en að líki Höskuldar var veittur umbúnaður, kista að ger og til kirkju flutt. En eigi vildi prestur leyfa Höskuldi legstaðinn, þar sem hann hafði ákveðið, og lét jarða hann út við kirkjugarð, þar sem mest var afskekt og aldrei um gengið. En þá bar svo við, er snjóhríð mikla rak á, að snjóskafl lagði svo mikinn yfir kirkjugarðinn, að hvergi varð að kirkjunni komizt, nema yfir leiði Höskuldar var sem gata ein snjólaus, og gengu menn hana um leiðið. Lítt var presti um það gefið, og vildi hann stökkva yfir leiðið, – kvaðst ekki snerta vilja »leiði hins illa Höskuldar«, – hljóp til og skopraði yfir. Er þá sagt að ormur eða naðra hröktist af því á fót presti, er honum varð svo meint við, að hann tók fótarmein, og lézt úr því áður ár liði. Er þetta sögn Siglfirðinga og Fljótamanna. Björn hét sonur Bjarnar prests, er prestur varð eftir hann á Hvanneyri. Magnús var annar son Bjarnar, er sýslumaður var vestra. Björn prestur var í brúðkaupi Gísla biskups Þorlákssonar með öðrum prestum árið 1658. –
Skamt fyrir sunnan Höfn í Siglufirði er kallaður Hafnastekkur; þar rétt fyrir neðan er ker eitt eða fen mikið, sem kallað er Höskuldarfen. Er það sögn manna, að þar hafi Galdra-Höskuldur sett niður peningakút sinn. Tilraun hefir verið gerð til þess að ná peningunum, sem mælt er að hella ein mikil hvíli yfir, en það hefir ekki tekizt, því fenið er djúpt og hellan þung.
(Mest eftir Steinunni Magnúsdóttur frá Ey. Hdr. Gísla Konráðssonar.)
Jón hét maður, og var Sigurðsson. Hann bjó að Sæunnarstöðum í Hallárdal. Guðrún hét kona hans. Jón var haldinn fjölkunnugur, og lítt er hann talinn þokkaður með grönnum sínum flestum.
Finnur hét maður, er bjó að Syðri-Ey, Jónsson, Tumasonar. Guðrún hét kona Finns, Einarsdóttir bónda frá Vallholti úr Vallhólmi. Hún var kvenskörungur og hin mesta búsýslukona. En Finnur var smiður mikill og vel þokkaður. Áttu þau Guðrún margt barna, er enn verður talið. Sigríður hét ekkja fátæk, er bjó að Vakursstöðum, og þótti Jón á Sæunnarstöðum beita hana mjög. Hann átti og graðung mannýgan; er trúað að jafnan liggi það í landi á Sæunnarstöðum.
Var það nú eitt sumar, að graðungur Jóns kom á Vakursstaði, er Sigríður var ein heima með barn sitt ungt. Hræðist hún, er hún sá bola, og lokaði bænum að sér, en svo var graðungurinn ýgur, að hann braut upp hurðir með hornum, og kom inn í baðstofu. Hræðist Sigríður þá enn meir, sem von var, tók þó það ráð, að binda barnið í poka við skammbita upp, en fekk rifið sig út um baðstofuglugga; en út var boli kominn, er hún kom út á bæinn. Vildi hann þá að henni. Varð það þá fangaráð hennar, að hún greip orf eitt með ljánum í, er þar lá á veggnum, og tvíhendi á bola, svo að ljárinn gekk á kaf inn milli rifjanna. Laust varð henni orfið, en boli snautaði á braut, með ljáinn í undinni, en mæddi blóðrás, og drapst, áður langt leið, á milli bæjanna, Vakursstaða og Sæunnarstaða. En Sigríður fekk borgið barni sínu, og kom að Syðri-Ey, og bað Finn ásjár, er hún hafði sagt honum, hversu að barst um dráp graðungsins. Og kom svo, fyrir umtölur Guðrúnar konu hann og nauðsyn Sigríðar, að hann tók við henni og kvikfé því, er hún átti, og flutti til Eyjar. En Jón kærði graðungsdrápið, og kallaði Sigríði hafa strákskapur til gengið að drepa hann. En fyrir því, að bæði Finnur og aðrir báru það af henni og töldu hana nauðsyn hafa til rekið, reiddist Jón að meira, og hafði heitingar um, að hefnt skyldi verða bola.
Förustrákur einn fór þar um Ströndina og víðar; saug búpening, og fram fór ýmsum óknyttum. Sá hét Jón og var kallaður snærill, því að jafnan reyrði hann upp brækur sínar og um sig snærum, því lörfum einum var hann búinn. Kom svo, að hann fanst frosinn úti, og var borinn heim að Vindhæli, og skyldi þíða í fjósi. Teitur hét þá bóndi á Vindhæli, Magnússon, eigi alllítill fyrir sér. Þá er sagt að Sæunnarstaða-Jón færi um nótt til fjóss á Vindhæli, og vekti Snæril upp; segja það og sumir, að hann væri eigi með öllu dauður. En það var síðan, að hann drap tvær kýr fyrir Teiti bónda; en það segja menn, að eigi tjáði Jóni annað en gjalda Teiti fult verð fyrir kýrnar. Eftir það sendi Jón Snæril að drepa ær Sigríðar ekkju að Ey, og að kvelja hana sjálfa. En þó var ekki að henni ráðið, þá Finnur var í námunda. Tók hann þá ær Sigríðar og hafði undir palli í baðstofu inni. En engi var Finnur kallaður fjölkyngismaður, en hugaður vel. Leið þá nokkur stund, að eigi varð að Sigríði né ánum; en þá var það nokkru síðar í alglaða ljósi, að þrjár fjalir spruttu upp úr pallinum, og var þar upp kastað tveimur ám Sigríðar, varpað fram á gólf og hálsbrotnuðu báðar, er niður komu. Eftir það treystist Finnur eigi að halda Sigríði. – Jón hét prestur, er hélt Hjaltabakka. Hann var Grímsson, föðurbróðir Grímólfs prests í Glaumbæ. Jón prestur kvað einn með öðrum Skautaljóð móti Guðmundi Bergþórssyni. Það var og mælt, að hann væri margfróður, en ynni þó fáum eða engum mein með. Þeir Finnur og Jón prestur voru vinir, og bað Finnur hann að taka við Sigríði. Og varð það, að hún fór til, Hjaltabakka. Er það í sögnum, að prestur verði Sigríði með þeim hætti, að hann vekti upp, eða hefði aðra til þess, karl þann er Háleiti-Bjarni var kallaður, og sendi hann á móti Snæril, svo eigi fengi hann mein unnið Sigríði. – En svo sagði frá Finnur á Ey og bóndi sá, er Sigurður hét, frá Ytra-Hóli, að þeir sæu drauga þá fljúgast á með þeim hætti, að Sigurður var kominn að Ey, með smíðarefni til Finns; sáu þeir úr smiðjunni, að flyksa nokkur fór óðfluga neðan Höskuldsstaða út á leið. Við það gengu þeir út, og skygndust að betur; kom þá önnur ofan úr Hallárdal, og mættust þær á hóli eða hæð lítilli, en óglögt sáu þeir sameign þeirra fyrir eldglæringum einum. Bað Finnur þá Sigurð vera þar um nóttina, því eigi mundi dælt á ferðum vera, og þá Sigurður það. Það er sagt, að oft væru draugar þessir með Jóni á Sæunnarstöðum og markaði hann þeim svið í steingerði nokkru við bæ sinn, og svo í kofa einum. Því það sögðu heimamenn hans, að oft heyrðist mönnum þar dynkir og skrækir á kvöldum. Var það og einu sinni, að Jón kallaði til þeirra, þá dynkirnir voru sem mestir: »Hafið þið ekki grjótið í gamninu, piltar!« Og höfðu margir það síðan fyrir orðtak.
Maður hét Guðmundur, og var Konráðsson, er bjó á Skagaströnd. Hann átti konu þá, er Þuríður hét, Guðmundsdóttir. Sýktist hún af máttleysi; en fyrir því að óþokki var á með þeim Sæunnarstaða-Jóni og Guðmundi, kölluðu þau hjón, og sú kona með þeim, er Sigríður Jónsdóttir hét, Jón valdan að meini Þuríðar með göldrum. Má vera, að Sigríður ekkja, sú áður er getið, væri in sama og nú bar Jóni galdra. Guðmundur bjó að Stenjastöðum. Var stefnt og hingað í máli þessu á Vindhæli af Jóni, lögsagnara Húnvetninga, Illugasyni, og síðan til Alþingis stefnt (1711), en þar urðu þær málalyktir, að engi þótti lögmæt rök fram koma, er mættu fella Jón; gengu honum allir vitnisburðir betur, og var dæmt, að eigi þyrfti hann eið að vinna að vettugi. Var þá og mjög tekinn að slæfast ákafi í galdramálum, frá því er fyrri hafði verið.
Jón átti tvö börn með Guðrúnu konu sinni, Ásgrím og Sigríði; var hún svarkur hinn mesti. En er Jón var andaður, fór móðir þeirra með þau systkin á Ytra-Hól og bjó bar um hríð. Er það til dæma talið um orðgífni Sigríðar, að griðkona sú, er Guðrún hét, var á vist með þeim, er hún ætlaði, að vildi ná til Ásgríms bróður síns, að hún sagði, að of gott væri að höggva höfuð af Gunnu, og eigi mætti hún leggjast í kristinna manna reit; það ætti að brenna bölvaðan skrokkinn. Eigi mætti sökkva öskunni niður á fiskimiðum, heldur upp leita hafsauga og sökkva þar. Einu sinni sagði hún við Sigríði Finnsdóttur á Ey, að nú hefði Gunna grýtt móður sína í hel í morgun. Sigríður Finnsdóttir lét sig furða, og spurði hvort eigi yrði sýnt líkið. Sigga kvað hana eigi með öllu dauða. En þetta var hin mesta lygi. Sigríður þessi giftist þeim manni, er Pétur hét, og bjuggu þau í Ytra-Lækjardal. Eigi áttu þau barna; en er einhver lét sig furða, að þeim yrði eigi barna auðið, kallaði hún þess engar vonir, því Pétur maður sinn væri sem tappi í altunnu. – Þau Pétur og Sigríður fóstruðu Skúfs-Jón, föður Fjárdráps-Péturs.
Synir Finns á Syðri-Ey voru Jón og Einar, en Sigríður dóttir, er átti Magnús Arason frá Stenjastöðum. – Mikil var þá álfatrú, og hefir lengi síðan haldizt við. Hólar tveir litlir eru í Eyjartúni, er Finnur vildi aldrei að slegnir væru. En það var nú eitt sumar, að þeir bræður, Finnssynir, slógu hólana; en þegar um nóttina dreymdi Finn, að álfkona kæmi að sér, heldur reiðuleg, og mælti: »Þú lézt sonu þína slá híbýli barna minna; þarft þú eigi til að ætla, að eg gæti skips þíns í vetur.« Og þótt að Finnur byggi sem vandlegast um það um haustið, fauk það og brotnaði um veturinn, og var það kent hólaslættinum. – Mörg voru systkin Guðrúnar frá Vallholti, konu Finns. Eru hér nefndar tvær systur hennar, Einarsdætur, Borghildur og Ingibjörg. Var Borghildur á vist með Finni og systur sinni. Lék orð á, að hún væri vitur og mjög fresk. Það var eina jólanótt, er allir voru til kirkju farnir frá Ey, nema Borghildur ein, kom hún út öndverða nótt, og sá fjölda fólks ríða, konur og karla. Sá hún lengi á reiðina, áður allur flokkurinn hvarf í Spákonufellsborg. Trúðu þessu allir, því hún þótti svo réttorð vera. Ingibjörg, systir þeirra Guðrúnar og Borghildar, giftist vestur á Ása, og bjó að Tindum. Átti hún son, er Gunnlaugur hét. Var hann allungur hinn efnilegasti, áður hann hvarf eitt sinn frá bænum. Var hans lengi leitað og fanst að lyktum, og var þá mjög um hann skift, því nú mátti hann ekkert nema. Stór varð hann og sterkur. Ætluðu menn hann umskifting, sem kallað var. – Einar Finnsson giftist Sigríði Þorbergsdóttur, Illugasonar. Var þeirra dóttir Katrín, er átti Davíð hreppstjóra Guðmundsson á Spákonufelli. Einar hét son Davíðs og Katrínar. Hvarf hann á jólanótt, er hann kom neðan úr Höfðakaupstað, og fanst aldrei síðan. Ætlaði Katrín móðir hans víst vera, að heillaður væri hann í Spákonufellsborg. – Guðrúnu, dóttur Magnúsar Arasonar, sem áður er nefndur, átti sá maður, er Jón Vilhjálmsson hét. Var þeirra dóttir Steinunn, er átti Þorbergur, spónasmiður á Vakursstöðum, Arason úr Vatnsdal, Gissurssonar og Sigríðar Tómasdóttur frá Hjallalandi; en Halldóra hét móðir Sigríðar, kona Tómasar. Um hana er það sagt, er þau bjuggu á Hjallalandi, að það var einn vetur, að hún setti þriggja marka ask, með nýmjólk, fram fyrir húsdyr á hverju kvöldi, og var mjólkin horfin úr honum að morgni. En nær sumarmálum, dreymdi Halldóru, að kona kæmi að henni, legði hjá sér rautt pils, og teldi það litla borgun fyrir lífsbjörg barna sinna í vetur. Er sagt, að pilsið lægi hjá Halldóru, er hún vaknaði, og þóttist engi hafa séð jafn góðan vefnað, þeim á því var.
(Eftir handriti Árna Stefánssonar bónda í Litla-Dal í Eyjafirði.)
Eins og kunnugt er, liggur ey ein á Skagafirði, fram undan Sléttuhlíð, viku sjávar undan landi, sem kölluð er Málmey. Suður frá eynni liggja malarrifs-grynningar alt suður til Þórðarhöfða; hann er einnig ey, langt undan landi, en úr honum til lands liggja tvö malarrif; annað frá suðurenda, en hitt frá norðurenda höfðans. Á milli höfðans og lands er stöðuvatn, sem kallast Höfðavatn. Nú fyrir skömmu hefir vatnið rofið skarð í mölina og myndað þar ós. Mælt er að í fyrndinni hafi grynningarnar frá eynni staðið upp úr sjó, svo að fær vegur hafi verið þar á þurru.
Á fimtándu öld bjó í Málmey maður kvongaður, er Björn hét. Hann var maður auðugur og talinn nokkuð fjölkunnugur. Lengi framan af hjúskap þeirra hjóna varð þeim eigi barna auðið; þótti þeim það mikið mein, og leituðu allra ráða til þess að það mætti verða; samt fór lengi svo fram, að þess varð eigi auðið. Efldi hann þá seið til þess, og hina næstu nótt kom að honum í draumi maður nokkur, sem hann þekti ekki. Hann var eineygður og mjög forneskjulegur álitum. Hann mælti til Bjarnar: »Heyrt hefi ek seiðmál þín, en þar á liggr mikit torveldi, eru þér allar vættir mótfallnar til þess er þú beiðisk, ok þótt þú mættir afkvæmi geta, mundi því verða byrlað eitr til bana; vil ek því ráða þér, ef þess verðr auðit, at þú fyrir mitt tilstilli eignisk afkvæmi, at þat sé fyrst á eitri nært, þá mun því eigi síðar eitr granda, en eigi grandar eitr nýöldum börnum.« – Litlu seinna varð kona Bjarnar þunguð, og fæddi meybarn eitt mikið. Var það vatni ausið og nefnt Guðrún. Var það fyrst nært á eitri, eins og draummaðurinn hafði fyrir sagt, og varð því eigi meint við það. Óx Guðrún þar upp með foreldrum sínum í eynni, og varð fríð sýnum, mannvæn, og nam fjölkyngi af föður sínum. Líður nú þar til er hún verður frumvaxta. Deyr þá faðir hennar, en hún tekur við búi hans og varð búsýslukona mikil. Margir urðu til þess að biðja hennar, því að hún var bæði fögur og auðug. Í fyrstu var hún mjög treg til þess að giftast, en þó fór svo, að hún gekk að eiga mann einn. Eigi lifði hann hjá henni fult ár. Síðan giftist hún aftur, og fór á sömu leið með þann mann, að hann andaðist skömmu eftir að þau giftust. – Mælt er, að hún hafi tuttugu sinnum gifzt og allir menn hennar dáið á fyrsta hjúskapar-árinu. Hugðu menn því valda eitur það, er hún var á nærð, þegar hún var barn.
Einhverju sinni, er Guðrún bjó í eynni, bar svo við, að afli var lítill á Skagafirði, svo að mjög skorti búendur skreið; en í Málmey var meir en gnótt, skreiðar, bæði fisks og hákarls, en Málmeyjar-Gunna (svo var hún venjulega kölluð) vildi eigi selja skreið sína. Þótti mönnum það meinbægni mikil, og varð svo gramt í geði til Gunnu, að nokkrir bændur úr landi fóru á náttarþeli með hestalest mikla fram Höfðamöl og síðan út Málmeyjarrif, og stálu miklu af fiski og hákarli úr hjöllum Gunnu. Næsta morgun varð hún vör stuldarins, og sá að svo mikið var tekið, að því mundu margir í samtökum valda, og mundi sér ofvaxið að etja kappi við þá alla, með því einnig að hún þóttist hafa þungan málstað, er hún hafði eigi viljað miðla neinu af mat sínum, þegar marga skorti; lét hún því þetta falla niður án málssóknar, en leitaði sér annars ráðs, að eigi færi svo aftur, og efldi seið magnaðan, til þess að hafrót yrði svo mikið, að malarrifið rótaðist undir sjó. Þótti henni seint láta að seiðinum og hét að lokum að gefa illum vættum hverja þá húsfreyju, sem væri tuttugu árum lengur í eynni. Kom þá voða-mikið sjórót og rauf ofan af mölinni alt frá eynni suður til Þórðarhöfða; hefir þar síðan verið sjór yfir, en svo grunt, að þegar lágsjávað er, er bátum eigi fært yfir rifið, nema inst við Þórðarhöfða; sér þar þó í botn, þegar logn er. Er þess eigi síðan getið að Gunnu yrði stuldur að meini, enda er mælt að hún hafi skömmu síðar látizt þar í eynni.
Mælt er að Guðrún hafi átt mörg börn með mönnum sínum, en þau hafi öll dáið á fyrsta árinu, nema einn drengur, er Björn hét. Varð hann fulltíða og jók kyn sitt þar í eynni. Alt fram á næstliðna öld, hafa þar verið menn með Bjarna og Björns nafni; hafa allir verið miklir vexti og gildir til karlmensku. Á fyrri hluta nítjándu aldar bjó í eynni bóndi sá, er Björn hét. Hann var mikill vexti og ramur að afli. Hann var talinn fornfróður mjög. Sú saga gengur um hann, að einhverju sinni hafi hann siglt á bát sínum utan við eyna fram hjá hollenzkri duggu, og kveðið, þegar hann fór fram hjá henni:
»Siglum vér með segl úr ullu,
sízt af hinum þiggjum lið.
Úr háðulegri hundadrullu
helzt bið eg að kafnið þið.«
En er vísan var kveðin, undu duggarar upp segl og sóttu eftir Birni, en þá sló yfir þoku-myrkva, svo að Björn dró undan. Er svo mælt, að hann muni með fjölkyngi hafa valdið þokunni, og hafa menn fyrir satt, að á duggunni hafi verið íslenzkur maður, sem skildi vísuna.
Á dögum Hálfdanar prests Narfasonar3 bjó í Málmey bóndi, er Björn hét. Hann undi þar vel hag sínum, og hafði þar verið nær tuttugu árum. Þá vildi kona hans fara úr eynni, því þá lá sú trú á álögum Gunnu, að ekki mætti þar konur vera tuttugu árum lengur, en Björn kvað það hégóma einn og mundi ekki til saka, og væri sér mjög nauðugt að fara úr eynni. En er tuttugu árin voru liðin, hvarf húsfreyja og fanst hvergi. Varð bónda það mikill harmur, því hann hafði unnað henni mikið, og vildi alls til freista, að vita hvar hún væri niður komin. Með því Hálfdan prestur var talinn rammgöldróttur, fór bóndi til hans, og bað hann komast eftir með fjölkyngi, hvar kona sín væri niður komin. Prestur tók því fálega, og kvað hann þaðan af mundu ekki hafa hennar nytjar, svo honum væri betra að sjá hana aldrei. En bóndi knúði því fastara á, er hann heyrði að prestur taldi hana enn á lífi; kvað hann sér hugarhægð að fá að sjá hana. Loks kvað prestur hann mega finna sig að mánuði liðnum. Að þeim tíma liðnum kom bóndi aftur til prests og kvaðst eftir ummælum hans vilja leita frekari úrlausna um konuhvarfið. Prestur bað hann þá fylgja sér, en ekki mætti hann æðrast, þó nokkuð bæri ægilegt fyrir, og sízt af öllu nefna guðs nafn. Bóndi hét góðu um það. Gengu þeir svo frá Felli ofan á Áróssmöl. Þar stóð ofan við mölina, í svokölluðum Fjallsteig, hestur, grár að lit, óvanalega stór. Prestur kvað þá nú báða verða að fara á bak hestinum; stigu þeir svo á bak. Reið prestur síðan fram á mölina, á sjó út, fram á Málmeyjarsund. En er hann kom nær að eynni, viðraði hann í ýmsar áttir, sneri síðan hestinum til norðurs, og reið út fjörðinn, fyrir framan Fljótavík á Úlfsdali; en er hann var þar fyrir framan, ruggaði hesturinn nokkuð á sundinu. Kallar þá bóndi upp og biður guð að vera sér næstan. Segir prestur þá í mjög höstum rómi: »Haltu á þér helvítis kjaftinum; það skriplaði á skötu.« Síðan héldu þeir leið sína fyrir framan Siglufjörð, Siglunes, Héðinsfjörð, Hvanndali og Ólafsfjörð, alt undir Ólafsfjarðar-Múla; þar sneri prestur Grána til lands og að klettabrík sléttri, sem þar stendur upp með bjarginu og sló á hana sprota sínum; gekk þá bríkin frá sem hurð væri. (Þar er síðan kölluð Hálfdanarhurð.) Þar komu til dyra ýmsar illar vættir; skipaði prestur þeim að láta bónda sjá konu sína; annars mundi hann vígja bjargið og banna þeim þannig að vera þar. Kom þá til dyra kona, blá sem hel og digur sem naut. »Þar er nú kona þín,« segir prestur, »og má eg vel fá hana héðan, ef þú vilt hafa hana heim með hér; en ekki er hún nú ásjáleg orðin.« Bónda brá svo við, að hann bað prest sem skjótast frá hverfa og fóru þeir síðan sömu leið heim aftur.4
Ekki er þess getið að fleiri konur hafi horfið úr Málmey; en alt fram á vora daga hefir sú trú haldizt, að ekki mættu þar konur vera tuttugu árum lengur, þá mundu þær hverfa.
(Sögn Önnu Sveinsdóttur að Húsavik. Hdr. Jakobs Hálfdanarsonar.)
Um sömu mundir og Hermann bjó í Firði, bjó að Stóra-Sandfelli í Skriðdal maður sá, er Hallgrímur hét. Hann var móður-afi Sigurðar Gunnarssonar prófasts í Stykkishólmi. Hann þótti blendinn í ýmsu. Bróðir hann var Indriði að Borgum í sömu sveit, föður-afi Páls skálds og Jóns ritstjóra Ólafssonar. Báðir munu bræður þessir hafa verið skáldmæltir, en einkum bar þó á því um Hallgrím. Indriði þótti forn í skapi, dulur, en þó fjölfróður.
Einhverju sinni fór Hallgrímur á vetrardag ofan í Eskifjörð, í góðu veðri og gangfæri. Engin fregn barst Indriða af þeirri ferð bróður síns. En er Hallgrímur var í ferð þessari brast í dimmviðris-hríðarbyl. Indriði var að, fjárhirðingu við heimili sitt. Þá er hríðin hafði staðið nokkurn tíma, kemur Indriði inn til konu sinnar, búinn að verkum sínum, og settist að miðdagsverði. – En er konan vildi taka af honum snjóplögg, færðist hann undan, kvað eigi á liggja og át mat sinn. Að lokinni máltíð stendur Indriði upp og biður um vetlinga sína; spyr konan þá, hvað hann ætli, hvort hann hafi eigi verið búinn að úti-verkum. »Jú,« kvað hann, »en vitja þarf eg um Hallgrím bróður, því að hann liggur undir stórum steini austur, vestast á Þórdalsheiði og kemst hvergi.« Hélt Indriði þegar af stað og hittir þar bróður sinn, að fram kominn og mállausan. Bar Indriði hann síðan á herðum sér niður og heim til sín að Borgum. Hallgrímur var svo langt leiddur, að hann lá lengi á eftir og varð aldrei jafngóður. Þjáðist hann einkum af hjartveiki, sem von var, því eigi var ætlað einleikið um hríðina; fylgdi henni, að sögn, sending frá Hermanni í Firði, er hvorutveggja réði, hríðinni og sendingunni, og var sendingin svo búin að þrengja að kverkum Hallgríms, að hann gat aldrei komið niður bita, nema með vökvun, upp frá þessu, meðan hann lifði. Kviðlingar, sem farið höfðu á milli Hallgríms og Hermanns, var ætlað að hefðu magnað þannig fólsku Hermanns.
(Eftir frásögnum Halldórs Þorgrímssonar í Hraunkoti, Jóns Jónssonar blinda o. fl. Handrit J. Jónassonar.)
Um aldamótin 1800 var prestur sá í Garði í Kelduhverfi (1797-1808), er Vigfús hét, Björnsson, prófasts á Grenjaðarstað († 1766), kominn í beinan karllegg frá Guðbrandi biskupi Þorlákssyni á Hólum. Móðir síra Vigfúsar var Elín Benediktsdóttir, lögmanns, komin af Bustarfellsættum. Var hann því af stórmennum kominn í báðar ættir, enda er sagt að hann hafi stórmenni verið, bæði í lund, vexti og ásýnd. Getur Espólín þess í Árbókum sínum, að hann »hafi verið vel fjáreigandi, mikill álitum og þykkur«. Síra Vigfús var tvíkvæntur; er hér að eins þess getið, að seinni kona hans var Kristín Þórðardóttir, Árnasonar hins ríka á Arnheiðarstöðum á Jökuldal. Hún var mikil kona fyrir sér, og talin fjölkunnug. Síra Vigfús var miðlungi vel vinsæll. Var hann ágengur, og þorðu fáir að vera öðruvísi en hann vildi vera láta, og það ekki sízt af því, að það orð lék á, að hann væri fjölkunnugur.
Á þeim tímum bjó bóndi sá í Skörðum í Reykjahverfi, er Gísli hét, gáfumaður, skapmikill og orðheppinn. Hann var faðir Gísla skálds, er lengi bjó í Skörðum, og víða er kunnur nyrðra fyrir kveðlinga sína. Annan son átti Gísli, er Árni hét, efnilegur maður, og á tvítugsaldri, er saga þessi gerðist. Eitt haust um aldamótin (1800) kom síra Vigfús inn á Húsavík með sláturfé, og margt Keldhverfinga með honum. Þar var þá Gísli í Skörðum fyrir og margir úr Reykjahverfi, og höfðu líka sláturfé. Var Gísli fyrir þeim. Þá var að eins ein verzlun á Húsavík, ein fjárrétt og lítill útbúnaður til sláturstarfa. Var þá hverri sveit ákveðinn einn dagur til slátrunar, og er mælt að þessi dagur væri ætlaður Reykhverfingum. Nú vildi síra Vigfús komast að réttinni og fá að verða á undan hinum, enda voru þeir lengra að komnir, og áttu yfir fjallveg að sækja. En Reykhverfingar vildu ekki láta undan, og lenti þeim saman út af þessu. Þó fór alt skaplega með þeim, þangað til þeim lenti saman, síra Vigfúsi og Gísla. Rifust þeir lengi, og var sú skammarimma lengi að minnum höfð. Síra Vigfús nefndi Gísla í Skörðum jafnan »góðgerðamanninn«, og svo gerði hann enn. »Ekki þarf þeim orðum um mig að fara,« segir Gísli, »enda þekkjumst við vel.« Þá segir prestur: »Einu sinni kom eg í Skörð, og fekk úldna blöndu að drekka.« Gísli svaraði: »Og var hún ekki fullgóð í andskotann á þér, til þess að míga henni undir?«. Svo fór að Reykhverfingar héldu réttinni, en Keldhverfingar urðu að bíða. Síra Vigfús reiddist Gísla ákaflega og hézt við hann, en flestum ofbauð, hvað Gísli lét flakka við jafnmikinn mann, og reis þeim hugur við, því að flestir voru hræddir við prest.
Maður hét Jón og var Magnússon, og bjó á Hólmavaði í Aðaldal, afi Friðjóns bónda á Sandi. Hann var dulur maður í skapi, en hygginn, hló sjaldan, en hló hátt og mikið, þá sjaldan hann hló. Hann var þarna staddur, og hló tvo hlátra stóra að viðureign þeirra Gísla og prests, einkum að orðum Gísla. Prestur leit við honum, og spurði hver sá væri, er hlægi svo mikið; var honum sagt það. Síra Vigfús sagði að það væri betur, ef hann hlægi altaf svo það haust.
Nokkru síðar um haustið voru tveir menn sendir norður í Kelduhverfi eftir því fé innanmanna, er þar hafði komið fyrir í réttum. Árni Gíslason frá Skörðum var annar, en hinn hét Jón. Segja sumir að þá væri Árni átján vetra. Þeir gistu í Kelduhverfinu um nóttina, en komu ekki í Garð. Þeir lögðu upp snemma morguns, og var þá veður hið bezta, heiðríkt og gangfæri gott; nokkrar kindur höfðu þeir meðferðis. Um hádegisbil dró skýhnoðra upp úr hafi. Stækkaði hann óðfluga, og var á skammri stundu brostinn á blindbylur með fádæma frosti og fannkomu. Stóð bylur þessi alla nóttina og fram á dag. En nú er segja af síra Vigfúsi; hann fer til vinnumanna sinna um daginn tímanlega, og biður þá að byrgja fé sitt í hús, því að þó veður sé gott nú, þá geti það breyzt. Var svo gert. Þegar leið á daginn gekk prestur um gólf á baðstofulofti, og þótti heldur þungbrýnn. Heyrðist hann þá tauta fyrir munni sér: »Skyldi ekki gemlingnum hans Gísla míns í Skörðum fara að kólna á kjúkunum?« Eftir að hríðina birti upp var farið að leita að sendimönnum; kom þá í ljós að þeir höfðu orðið úti og flestar kindurnar farizt, sem þeir höfðu með sér. Höfðu þeir komizt langt vestur á heiðina, og fundust lík þeirra beggja. Lík Árna fanst þar, sem síðan heitir Árnahvammur, en Jóns við Jónsgnípu. Var það almenn trú, að síra Vigfús hefði gert þessa hríð að Árna til þess að hefna sín á Gísla fyrir viðskiftin í Húsavík. Styrktust menn og í þeirri trú við það, að Jón bóndi á Hólmavaði misti tvo hesta í þessum byl; hrakti þá í svonefndan Hrútalæk. Hestaganga er góð þar í dalnum, og hefir hestum aldrei slysazt í Hrútalæk í manna minnum, nema þá. Þótti þá fullvíst, að síra Vigfús hafi ætlað að launa Jóni hlátrana báða um haustið með þessu.
Jón Árnason, afi Halldórs Þorgrímssonar, sagði honum söguna; mundi hann þessa atburði. Sagði hann að þeir, sem úti voru í hríð þessari, hefðu sagt, að hún hefði verið með eldglæringum.
(Heimildin í sögunni. Handrit Odds Björnssonar.)
Þegar Þorsteinn Þorsteinsson, Hallgrímssonar prests í Hrauni (föður Jónasar skálds Hallgrímssonar), var unglingur hjá föður sínum í Hvassafelli í Eyjafirði, smalaði hann kvíaám eitt sumar. Þá bar svo til einn dag, að Þorsteinn hafði sofnað í holu einni mikilli, er var austan í steini eða kletti. Þykir honum þá kona koma til sín úr steininum og segja: »Nú, geturðu ekki farið úr glugganum, strákur!« Þorsteinn rumskaðist, en sofnar þegar aftur. Kemur konan þá í annað sinn, og er allófrýnileg, og segir með bjósti: »Ætlarðu ekki að fara?« Vaknar Þorsteinn við það, en skeytir þessu engu og sofnar á ný. En þegar kemur kona þessi í þriðja sinn, og er nú afar-reið að sjá. Þrífur hún til hans og segir: »Ef þú getur ekki farið, þá skal eg hjálpa þér.« Hrekkur Þorsteinn upp með andfælum, og er hann þá kominn úr þeim skorðum, er hann lá í, enda vildi hann nú víst ekki liggja þar lengur. Leitaði hann sér ekki skjóls í steini þessum eftir það. – Draum þennan sagði Þorsteinn syni sínum, Sigtryggi, skýrum manni og réttorðum, en Sigtryggur sagði mér. Hann á nú (1907) heima á Möðruvöllum í Hörgárdal, hjá Stefáni kennara Stefánssyni.
(Handrit Ingibjargar R. Jóhannesdóttur í Árnesi. 1907.)
Í Eyjafirði fram er lítið bygðarlag, sem í daglegu tali nefnist »Upp undir fjöllum«. Inn af því ganga dalir nokkrir; eru það afréttir bygðarmanna, nema einn (Djúpidalur). Afréttardalirnir heita Strjúgsárdalur, Hvassafellsdalur og Hraunárdalur. Fagrir eru dalir þessir og að mörgu einkennilegir; einkum er Hvassafellsdalur á orði sakir fegurðar. Nyrzt í honum að vestan breytist fjallið í lágan en brattan háls; eru þar rústir af tveimur seljum. Þau hafa staðið með stuttu millibili á sléttri grund undir hálsinum. Þarna var fyrrum haft í seli frá Hvassafelli; því voru selin tvö, að stundum var tvíbýli í Hvassafelli.
Um tuttugu ára bil (fyrir og lítið framyfir miðja nítjándu öld) bjuggu þar bændur tveir: Kristján Benediktsson, einn af hinum svonefndu Hvassafellsbræðrum, og Þorsteinn Hallgrímsson, bróðir Jónasar skálds Hallgrímssonar.
Það var eitthvert vor, að Hvassafellsbændur ráku ásauðinn fram á sel og færðu þar frá. Börn og unglingar sátu lömbin í hvammi nokkrum fyrir handan hálsinn; þar er hálsinn þverhníptur út að Hrauná, sem fellur suðvestan um Hraunárdal. Á hálsendanum slútir klettur út yfir ána, sem heitir Prestsklettur.
Einhvern dag í lambasetunni skipuðu börnin sér á hálsröðulinn. Verður Þorsteinn Þorsteinsson yztur. Sezt hann framarlega á Prestsklett og fer eitthvað að dunda; sígur að honum svefnmók, en þó finst honum sem hann vaki. Þykist hann þá sjá konu nokkra koma til sín á bláum klæðum; var hún stór vexti og mikil í fasi. Verður henni þetta að orði: »Mátulegt væri – .« Hrökkur Þorsteinn þá upp, en sofnar von bráðara; dreymir hann hið sama og ekki lengra, því jafnharðan hrökkur hann upp. Enn þá sofnar hann; konan stendur yfir honum sem fyr og mælir öllu hvatskeytlegast: »Mátulegt væri að hrinda hér fram af,« og myndar sig til að ýta við honum, en í því hrökkur hann upp, og er þá glaðvaknaður, og virðist sem hann sjái svip konunnar, í því hún hvarf.
Að kvöldi þessa dags sáu öll börnin kvenmann koma á hálsinn, og heyrðu hana kalla, að þau mættu koma með lömbin. Það var vanalegt að segja þeim svona til. Reyndar furðaði þau á því, hve hún kom sunnarlega. Svo sáu þau, hvar hún hélt suður og upp í svokallaða Fögruhlíð og héldu þá að þetta væri Ingibjörg húsfreyja í fremra selinu, og ætlaði í viðar-mó. Síðan ráku þau lömbin af stað heim.
Ekki sést heim á selin fyr en komið er nærri heim. En fólkinu leizt ekki á blikuna, þegar börnin komu með lömbin, rétt í því að ærnar voru að koma heim. Alt hljóp saman, og það varð að standa í miklu stímabraki við að færa frá á ný. Aldrei hafði verið kallað á börnin, því ekki var kominn tími til þess. Enginn hafði heldur farið upp í Fögruhlíð.
(Sögn Ingibjargar húsfreyju Markúsdóttur í Ási í Vatnsdal. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1848, laugardag einn í ágústmánuði, var fólk alt við heyvinnu suður og niður á engjum hjá merkisbóndanum Jóni Skúlasyni á Haukagili í Vatnsdal. Þá var ráðsmaður hjá honum Jóhann Einarsson, bróðursonur hans, er síðar varð sjálfseignarbóndi á Kistu í Vesturhópi, og bjó þar til dauðadags. En ráðskona var þar Ingibjörg Markúsdóttir, sögukona mín, fósturdóttir Jóns, þá um tvítugt; voru þau Jóhann uppeldissystkin. Síðar giftist hún Guðmundi Jónassyni, hreppstjóra, í Ási; hún er merk kona, skýr og fróð. – Um hádegisbilið sækir svefn svo mikill á Jóhann, að hann segir við Ingibjörgu, að hann haldi að hann verði að leggja sig fyrir. Sefur hann svo lengi, að Ingibjörgu tekur að undra svefn sá; fer hún þá og vekur hann og spyr, hvað hann sé að hugsa; en Jóhann bregzt önugur við og legst aftur til svefns. Furðar alla, hve lengi Jóhann svæfi, því að eigi var hann maður værugjarn. Jóhann gat eigi um drauma sína við menn; en síðar um daginn urðu menn þess varir, að hann gengur suður og upp á Háls, sem fjalllendið vestan Vatnsdals nefnist, og kemur eigi aftur fyr en einhvern tíma um nóttina, er menn voru gengnir til náða. Gat hann eigi um það við nokkurn mann, hverra erinda hann hefði farið. – Um kvöldið þennan sama dag rakst Ingibjörg á blað uppi á hillu; vóru þrjár vísur skrifaðar á það. Litlu síðar kvað hún vísurnar, svo Jóhann heyrði. Spurði hann þá, hvaða vitleysu hún væri að kveða. Kvaðst Ingibjörg hafa fundið vísurnar umrætt laugardagskvöld, skrifaðar með hendi Jóhanns, enda hefði Steinvör, gömul kona, er á heimilinu var, sagt sér, að hann hefði skrifað vísurnar, þegar hann kom heim að borða miðdegismatinn þennan laugardag. Gat Jóhann eigi borið á móti því. Fekk Ingibjörg þá að vita, hvernig á vísunum stóð. Sagði Jóhann, að þegar hann hefði sofnað um daginn á engjunum, er svefninn sótti fastast á hann, þá þóttist hann vera staddur vestur á milli Kvísla, en svo nefnist flatneskjan uppi á hálendinu milli Kornsár að austan, er rennur út með Hálsinum að vestan, og Gljúfurár að vestan, er rennur út með Víðidalsfjalli að austan, en langdrægt stundar gangur er milli Kvíslanna. Þóttist Jóhann vera hjá svo nefndri Hofselsvörðuflá.5 Kemur þá til hans kona ein, dökkklædd; hún var áhyggjufull og kvað vísu þessa:
Hestur hefir horfið mér,
hér frá greina má eg beimi;
hundar éta hræ hans hér,
holtadýr og fugl í geimi.
Þá var það, að Ingibjörg vakti Jóhann. Var hann þá svo máttdreginn og svefnþrunginn, að eigi fekk hann staðið upp. Kemur þá enn hin sama kona til hans og kveður vísur þessar:
Geng eg hér um grýtta grund
grátandi og styn af mæði.
Komdu nú með karska lund
klár að bjarga úr foræði.
Fyrir mig kom fárleg þraut,
forlög munu valda;
bjargaðu úr blautri laut,
bur ótregur skjalda.
Vaknaði Jóhann þá. Hafði draumur þessi svo mikil áhrif á hann, að hann mátti eigi kyrru fyrir halda. Lagði hann því af stað, svo fljótt sem hann fekk því við komið, og hélt á þær stöðvar, er hann þóttist staddur á, í svefninum. Hittir hann þar fyrir brúnan stóðhest, afbragðs fallegan; hafði hann sokkið í dý og fekk engan veg komizt. Tókst Jóhanni að kippa hestinum upp úr dýinu. Eigi þekti hann markið; setti hann það á sig og ætlaði að fá nánari vitneskju um hestinn, er stóði yrði smalað þá um haustið. En það kom fyrir ekki, því að aldrei framar varð hann hestsins var, né gat haft neinar spurnir af honum eða markeigandanum.
Þess má geta, að Jóhann var alls eigi skáldmæltur og gat aldrei gert vísu, hvorki fyr né síðar, svo að menn viti.
(Handrit Bjarnar Jónassonar, búfræðings á Reykjum í Hjaltadal.)
Vorið 1864 flutti Sigurður bóndi Jónsson sig búferlum frá Reini í Hegranesi í Skagafirði í Garð í sömu sveit. Sigurður var smiður góður, og vann töluvert að smíðum, þegar hann gat, vegna annarra búsanna. Um vorið, skömmu eftir að hann var kominn í Garð, var hann einn dag við smíðar úti í skála. Bregður þá venju fremur svo undarlega við, að hann týnir og tapar af ýmsum smáverkfærum, sem hann notaði við smíðarnar. Hann leitar að þeim, og finnur sum af þeim, en þá er eins og hann tapi af öðrum í staðinn. Finst honum sér vera mjög mislagðar hendur við smíðarnar, og veit eigi, hvað veldur. Hættir hann nú við smíðarnar, en ekki segir hann neitt ljótt út af því að þurfa að hætta við verk sitt, heldur gengur hann þegjandi heim.
Nóttina eftir dreymir hann, að kona kemur til hans, og leiðir dreng við hlið sér. Hún segir þá við hann: »Þakka þér mjög vel fyrir, að þú blótaðir ekki drengnum mínum í gær, þegar hann var að rífa til verkfærin þín í smíðaskálanum. Þetta er óþektar-hnokki, svo að eg er í vandræðum með hann, þar sem eg kem, því handæðið er svo mikið, að hann rífur alt smávegis, sem hann nær til.« Svo fór konan, en Sigurður mundi draum sinn, og sagði hann heimilisfólkinu um morguninn.
Nú líður þar til í átjándu viku sumars; þá gerði snögglega hríð einn dag. Veður var þó allgott um morguninn, og kýr því alstaðar úti. Í Hegranesinu er landslagi þannig háttað, að þar eru mestmegnis hamrabelti og klettaborgir, með grasdældum og mýrarsundum á milli. Sumstaðar hafa myndazt stöðuvötn í dældunum. Landslagið er því mjög einkennilegt, en jafnframt skjólasamt og leitótt, og því ilt að finna þar fé og gripi dimmviðri. Þennan áðurgreinda hríðardag fundust ekki kýr á mörgum bæjum í Nesinu, hvernig sem leitað var, og lágu þær því úti um nóttina.
Sigurður bóndi í Garði leitaði lengi að sínum kúm, en fann hvergi; hugði hann um kvöldið að þær hefðu lagt af stað til sinna fyrri heimkynna í Reini, því þaðan hafði hann flutt sig um vorið. Hann varð svo, nauðugur viljugur, að hætta leitinni, fyrir myrkur, þótt hann væri eigi ánægður með það, þar sem hann vissi af kúnum úti í þessu veðri. Um nóttina dreymir hann að sama konan kemur til hans og um vorið, og er með óþæga drenginn með sér. Hún mælti: »Þú þarft eigi, Sigurður, að vera óánægður út af kúnum þínum; það amar ekkert að þeim, og þú munt finna þær í fyrra-málið.« Svo fór konan. Snemma um morguninn fer Sigurður að leita að kúnum. Hann finnur þær þegar rétt sunnan við völlinn, hjá svo kölluðu Ás-tagli. Koma þær þar á móti honum, og eru vel útlítandi, alveg þurrar, og að öllu eins og þær hefðu verið inni um nóttina. Kúnum varð ekki að neinu leyti meint við þennan hrakning, ekki svo mikið sem að mjólkin minkaði í þeim, en alstaðar annarstaðar í Hegranesinu, þar sem kýr lágu úti, urðu meiri eða minni vanhöld á þeim, fyrst og fremst geltust þær mjög, og sumar létu kálfunum.
(Sögn Unu Sigurðardóttur á Reykjum í Hjaltadal. 1908. Handrit Bjarnar Jónassonar á Reykjum.)
Um 1880 átti eg heima á Ytri-Hofdölum í Skagafirði; var eg þá sextán eða sautján vetra að aldri, og var hjá bróður mínum, sem Jón heitir. Um þetta leyti kyntist eg konu nokkurri, sem var nokkrar vikur í Hofdölum. Hún hét Friðbjörg, og var Indriðadóttir; átti hún þá heima á Hrauni í Unadal. Friðbjörg þessi var mjög ráðvönd og sannorð kona, svo á orði var haft, og gat eg því ekki annað en trúað merkilegri sögu, sem hún sagði mér af sjálfri sér. Þegar Friðbjörg var ung stúlka, átti hún heima á Svalbarðsströnd austan Eyjafjarðar (Þingeyjarsýslu); eg man ekki á hvaða bæ. Hún svaf ein í litlu húsi í öðrum baðstofuendanum á bænum, sem hún átti heima á. Eina nótt dreymir hana að það er komið með konu inn til hennar, og hún beðin að hjálpa henni, því hún geti ekki fætt. Þeir, sem báru sjúku konuna, lögðu hana fyrir framan Friðbjörgu í rúmið. Svo þóttist Friðbjörg geta hjálpað henni, og tók hún á móti barninu, en óðara en það er búið, vaknar hún; segist hún þá hafa séð á eftir konunni, og þeim sem með henni voru, út úr húsinu. Hún hugsar nú draum sinn og þykir hann einkennilegur. – Svo fer hún að skoða rúmið, hvort þar sjáist nokkur verksummerki, og sagðist hafa orðið heldur en ekki hissa, þegar hún sá þrjá blóðdropa í rekkjuvoðinni fyrir framan sig. Hún strýkur nú einn blóðdropann burtu með fingrinum, af því hún trúði varla sínum eigin augum, og sannfærist þá enn betur, því hún fann bleytuna af honum á fingrinum á sér. Henni dettur þá í hug, að þetta hafi ef til vill verið rangt gert af sér, og þetta fólk hafi ef til vill viljað láta dropana vera kyrra. Hún lofar því hinum tveimur blóðdropunum að vera, og sá hún þá altaf á hverjum degi, þar til þeir molnuðu burtu. Eftir þessa nótt fer henni fyrst að detta í hug að sitja yfir. Ekkert lærði hún til þess, en alt fyrir það tók hún yfirsetukonustarfið fyrir sig, og hélt því til dauðadags. Var hún annáluð yfirsetukona, eða ein af þeim fáu, sem aldrei mistókst að hjálpa konu í barnsnauð.
(Sögn Hallgríms Kráksonar, Fljótapósts á Akureyri. 1907. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1896, að vetrarlagi, var eg í póstferð á vesturleið, einn míns liðs og gangandi á skíðum. Eg fór upp úr Svarfaðardal, svokallaðar Grímabrekkur, sem eru á leið ofan í Ólafsfjörð.
Þegar eg fer ofan Kálfsárdal, og er lítið kominn áleiðis, verða fyrir mér slóðir, að því er mér virtist, alveg nýjar, eftir börn á ýmsu reki, og stórfurðar mig á þessu. Svo leit út, sem þau hefðu verið að leika sér. Eg fer að reyna að rekja slóðirnar, og kemst að þeirri niðurstöðu, að þær liggja þar að árgili í dalnum, sem er klettagil með köflum, og hurfu ofan í það.
Gat eftirgrenslun í þessu efni ekki náð lengra, því að óhugsandi var, að þetta væri úr bygð, svo langt var það frá öllum bæjum.
(Sögn Guðrúnar Jónsdóttur að Fossi í Kaupangssveit. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1846 var Guðrún Jónsdóttir, sem frá þessu segir, ung stúlka að Hóli í Siglufirði. Svaf hún hjá Katrínu, dóttur Þorfinns bónda á Hóli. Þá var það eina vetrarnótt, en nokkur birta af tungli í baðstofunni, að Guðrún vaknar við það, að henni finst þröngt í rúminu; sér hún að maður liggur fyrir framan sig, undir rúmfötunum, alt að höndum upp. Maður þessi var einungis á nærfötunum. Hann var í hvítri ullarskyrtu, og var hún feld undir líningu, en eigi rykt. Hægri hönd sína hafði hann í skyrtuklaufinni, hin var undir fötum. Hann lá á bakinu og sýndist sofa. Maðurinn var unglegur og eigi sprottin grön, hvítleitur í andliti, munnnettur, réttnefjaður, með jarpt hár, stýft fyrir neðan eyrun. Hann lá svo nærri Guðrúnu, að hún fann velgju leggja af líkama hans. Guðrúnu varð heldur bilt við, en stillir sig þó, og virðir manninn fyrir sér. Þekti hún alla fullorðna menn í Héðinsfirði, á Siglunesi, í Siglufirði, Úlfsdölum og Fljótum, og var hann þar hvergi til, og enginn, sem heyrði lýsinguna af manninum, kannaðist við að hafa séð hann; enda var bærinn að Hóli harðlokaður og enginn gestur kominn. Reis Guðrún upp við ölnboga og vildi athuga manninn enn betur; snýr hann þá höfðinu við, svo að hnakkinn vissi að Guðrúnu. Hljóðar hún þá upp yfir sig, biður guð að vera sér næstan og hendist upp að þili. Hverfur maðurinn þá um leið og fanst hvergi, hvernig sem leitað var.
(Handrit Eyjólfs Guðmundssonar á Hvoli í Mýrdal. 1907.)
Eyjarhólar heitir bær einn í Mýrdal; stendur hann vestanvert við hátt fjall, er heitir Pétursey. Fleiri bæir eru við fjallið, og heita þeir einu nafni allir Pétursey, samnefndir fjallinu. – Áður var enginn bær þar, sem nú eru Eyjarhólar, heldur stekkatún frá hinum bæjunum, og þótti vera þar reimt, og ekki heiglum hent, að dvelja þar í dimmu, sízt að næturlagi. – Þá voru sjö bændur í Pétursey, er saga þessi gerðist, og bjuggu allir í einu þorpi, hver bærinn fast við annan. Þetta var um það leyti, er Katla gaus, árið 1823. Féll þá svo mikil aska yfir vestasta hluta Mýrdalsins, að aftók haga á sumum bæjum. Þá hafði nýlega, eða árið áður, byrjað búskap í Pétursey Ólafur Högnason og Ingveldur Jónsdóttir frá Drangshlíð við Eyjafjöll. Ólafur var mesti dugnaðar maður og ráðsettur í öllu. Þegar askan féll, flutti hann bú sitt undir Eyjafjöll, og gat á þann hátt borgið bústofni sínum, en svo flutti hann aftur árið eftir að Pétursey. Bar þá þegar á því, að Ólafi leiddist fjölbýlið í Pétursey. Stakk hann því uppá að flytja býli sitt í stekkatúnið. Ekki þótti vinum hans það ráðlegt, en Ingveldur kona hans var þess þó fremur hvetjandi. Margar ófagrar sögur gengu um stekkatúnið, og ísjárvert þótti að flytja bygð sína þar ofan í álfabygðir. – Ólafur trúði lítt álfasögunum, og árið 1827 byrjar hann að kljúfa klettana í stekkatúninu; voru þeir bæði margir og stórir; vinnur hann að þessu grjótverki nætur og daga, og með dæmafárri atorku, sem enn þá er í minnum höfð. Fær hann svo leyfi sambýlismanna sinna, að reisa sér bæ í stekkatúninu, og græða þar út tún, mót því að láta þó nokkuð af túnum sínum heima til endurgjalds fyrir stekkatúnið. Bygði hann sér þar fyrst fjósbaðstofu, veggina alla úr klofnu grjóti; stóð hún óhögguð þangað til árið 1888; þá var hún rifin til grunna, en veggirnir þá alveg óbilandi. Síðan flutti hann bú sitt þangað vorið 1827, og nefndi býlið Eyjarhóla. Byrjaði hann þegar að byggja fleiri bæjarhús; lauk hann við að byggja eldhús, bæjardyr, skemmu og búr fyrir sláttinn. Einu sinni var það þetta sama vor, að alt fólk fór til kirkju að Sólheimum á sunnudegi, en Ingveldur var ein heima með tvö börn þeirra hjóna ung. Voru þá bæjardyrnar í tóft, og lágu tveir steinar á tóftargólfinu. En um tóftina var gengið inn í fjósið. Þegar fólkið er farið til kirkju, bregður Ingveldur sér fram, til þess að gæta að túninu, og ber annað barnið á handlegg sér. Sér hún þá tvo hvolpa, flekkótta á lit, vera að leika sér við steinana á bæjardyra gólfinu. Stökkva þeir og hoppa við steinana á ýmsa vegu, eins og hvolpa er siður. Ekki skiftir hún sér neitt af leik þeirra, enda þótti henni þetta undarlegt, því hún vissi vel að engin hvolpur með þessum lit var til í Pétursey, og annarstaðar gátu þeir ekki verið að komnir. Gengur svo, að þeir halda leik sínum allan daginn, þangað til rétt áður en fólkið kom heim frá kirkju, þá hurfu þeir. Ekki gat Ingveldur um þetta við mann sinn, en nóttina næstu dreymir hana að til hennar kemur kona, vel, búin og tíguleg í framgöngu; hún gengur að rúmi þeirra hjóna, og réttir Ingveldi hendina og segir: »Vel er hann Ólafur giftur, og getur ekki stiltari og betri konu.« Þykir henni hún þá sleppa hendinni og segja: »Það voru börnin mín, sem léku sér í bæjardyrunum hjá þér í gær. En þú skalt ekki bera þungan hug í brjósti fyrir búskap ykkar hér á Eyjarhólum; því svo lengi sem þú sér um, að siðferði sé gott á heimili ykkar, og börnin láta ekki illa, þá mun ykkur vegna hér vel. Og óhætt er Ólafi, svo lengi sem hann klýfur ekki. Skarðstein.« – Við þetta vaknar Ingveldur, og sýnist henni hún sjá svip konunnar hverfa um pallstokkinn. Hún segir Ólafi draum sinn, svo og um hvolpana daginn áður, en hann gerir lítið úr slíku.
Milli fjallsins og hóls þess, er bærinn stendur á, er grasi vaxið skarð, og í skarðinu stendur afarhár klettur, sem nefndur er Skarðsteinn. – Oft höfðu menn frá Pétursey heyrt söng í steini þessum, kvarnarhljóð, séð ljós þar og önnur afbrigði. Ingveldur þóttist nú viss um, að í steini þessum ætti hún grannkonu, og vildi alls ekki styggja hana í neinu. – Liðu svo nokkur ár, að ekki bar neitt sérlegt til tíðinda í nýbýlinu. Var þá Ólafur búinn að gersópa öllum steinum úr stekkatúninu, nema Skarðsteini, og tveimur öðrum afar-stórum klettum, er stóðu þar ofar í brekkunni. Þá var það seinni hluta dags, að hann labbar með sleggju sína og fleyga, og tekur að kljúfa klettinn, er stendur næst Skarðsteini. En Ingveldur hafði beðið svo fyrir Skarðsteini, að Ólafur ætlaði sér ekki að kljúfa hann. Þegar hann hafði fest fleygana í steininum, bar gesti að garði, og varð ekki meira af verki þann dag. En um nóttina dreymir Ingveldi, að kona kemur til hennar, sem hún þykist þegar sjá, að sé huldukona. Kona þessi víkur sér að henni og segir: »Láttu ekki bónda þinn kljúfa steininn minn; eg á mér ekkert annað hæli. Ef þið lofið steininum mínum að standa, mun bygð ykkar standa hér með blessun og blóma, jafnlengi og steinninn; annars er vanséð, hvernig fara muni.« – Að svo mæltu hvarf konan, en Ingveldur sagði draum sinn og bað Ólaf að kljúfa ekki steininn. Næsta dag dró Ólafur fleygana burt úr steininum, og sést enn vel merki til þess á steininum, hvar fleygarnir voru settir í hann. –
Ólafi blessaðist vel búskapurinn í Eyjarhólum; græddi hann þar út tún mikið með frábærum dugnaði og girti það alt. Einnig bygði hann heyhlöður tvær, mikil og snotur heimahús og fjenaðarhús. Veggir,voru allir bygðir úr klofnu grjóti, og rekaviður í öllum máttartrjám; standa enn þá óhaggaðir veggir, er hann bygði þar. Á hólnum, sem bærinn stendur í, bygði hann heyhlöðu, og gróf fyrir henni ofan í topp hólsins, sjö álnir niður. Var það ervitt verk og ilt viðfangs, því víða varð að brjóta klöpp og sandberg, svo og að draga grjót í veggina upp hólinn. Hann tók þar einnig afar-djúpan brunn, sem enn þá er með hans ummerkjum. Auk alls þessa var Ólafur fenginn í byggingar alstaðar í grendinni, og má alveg ótrúlegt þykja, hve miklu hann áorkaði og vann. Hafa elztu menn hér í Mýrdal það líka í minnum, hver frábær dugnaðarmaður hann var og listfengur í öllu. Hreppstjóri var hann nokkur ár í Dyrhólahreppi, en ekki lét honum það starf, og þótti hann trassa embættið, enda sagði hann því fljótlega af sér. En forsöngvari var hann mörg ár í Sólheimakirkju, kirkjuhaldari og meðhjálpari, og var skyldurækni hans viðbrugðið. Kona hans, Ingveldur, studdi hann í öllu, og sýndi engu minni dugnað við heimilið, og ógleymanlega rausn. – Þau hjón bjuggu saman í fimmtíu ár og eignuðust tólf börn. Eru tveir synir þeirra enn þá lifandi: Guðmundur Ólafsson, fyr bóndi í Eyjarhólum, og Guðmundur Ólafsson, bóndi í Sólheimakoti.
Blágrýtissteinn stendur í túninu í Eyjarhólum með þessu letri áhöggnu: »Ó.H.S. reisti hér bygð 1827.« Stein þennan hefir engin mannleg hönd megnað að hreifa í þá daga, er rutt var öllu grjóti úr túninu. Hafði Ólafur oft talað um það við kunningja sína, að steinn þessi skyldi verða legsteinn sinn, og lét Guðmundur son hans, er eftir hann bjó í Eyjarhólum, höggva letrið á steininn. – Þegar Ólafur eltist, gerðist hann þunglyndur, og kendi brjálsemi með köflum; kendu menn þá veiki huldufólki, sem hann átti að hafa flæmt burtu úr stekkatúninu, en hvorki hann né kona hans höfðu trú á þessu. – Ólafur dó í Eyjarhólum árið 1869, og Ingveldur mörgum árum síðar, nálægt 1890.
(Sögn Páls Pálssonar frá Æsustaðagerði. 1907. Eftir handriti Árna óðalsbónda Stefánssonar í Litla-Dal í Djúpadal og Hannesar búfræðings Jónssonar í Hleiðargarði. Handrit Odds Björnssonar.)
Þegar Páll Pálsson, er lengi bjó í Æsustaðagerðum í Eyjafirði fram, var í Möðrufelli í sömu sveit, bar það fyrir hann, er hann segir frá, á þessa leið:
»Eg svaf, ásamt öðrum manni, í dyralofti, frammi bænum. Var gluggi á framstafni loftsins og sá úr honum fram á hlaðið. Nótt eina að vortíma vakna eg við það, að hart er komið við bæjarhurðina, en gaf því engan gaum. Þá er snögglega gripið til hurðarinnar aftur, og tekið í keng, sem á hurðinni var, svo harkalega, að hrikti í hverju tré í dyrunum. Þá fór eg á fætur, tók opinn gluggann og leit niður á hlaðið. Sá eg þá að allir hundar heimilisins voru í þvögu með urri og gelti við hrúgald nokkurt á hlaðinu. Get eg ekki líkt því frekar við annað en að þar væri stórvaxin kvenmaður, er gengi á fjórum fótum og hefði steypt pilsum fram á höfuð sér. Mjakaðist hrúga þessi með hægð suður hlaðið, því næst suður völlinn, og hundarnir á hælum þess, með illum látum og grimd mikilli. Einstöku sinnum sýndist höfuð gægjast undan pilsaþvælunni og líta aftur; hörfuðu þá hundarnir nokkuð frá, en þyrptust aftur að með gelti og grimd. Hélt öll þvagan áfram suður fyrir ofan Gilsbakka, alt suður í Skjóldalsárgil: Skömmu síðar komu hundarnir aftur. – Eftir þetta reyndum við piltar að taka í hurðarkenginn og hrista af fremsta megni, en gátum ekki svipað því látið hrikta eins mikið í dyrunum og gerði hjá ófreskjunni.«
(Almenn sögn í Kelduhverfi. 1907. Handrit Þórarins Grímssonar í Garði.)
Eigi alllangt suðvestur af Ingveldarstöðum í Kelduhverfi er stór hraunhóll, er heitir Kerlingarhóll. Vestan í hólinn er jarðfall mikið, og holur innan hóllinn. Í fyrndinni bjuggu í hól þessum nátttröll tvö, karl og kerling, en fyrir löngu eru þau nú orðin að steini. Stendur steingjörfingur kerlingar skamt norðaustan við hólinn; líkist hann mjög kvenmanni til að sjá, er stefni í hólinn. En í lágum mó, skamt frá Ingveldarstöðum, er einstakur drangur, og á það að vera karlinn. Þessir steindrangar eru um fimm álnir á hæð, og eru þeir einkennilegir, því engir líkir eru nærri þeim. Sú sögn er um dranga þessa – eða réttara sagt tröllin í Kerlingarhól, – er hér skal greina.
Nátttröll þessi voru hinar mestu óvættir. Stóð Keldhverfingum mikill ótti af þeim, og var það ekki að ástæðulausu, því að hverja jólanótt sóttu tröllin mann í bygðina, og höfðu hann í soðið um jólin. Sérstaklega var það Uppsveitin – eða eystri hluti Kelduhverfis, er varð fyrir óskunda af tröllunum, því að þar fram af er Kerlingarhóll. Um þessar mundir bjó bóndi í Uppsveit; nafns hans er eigi getið. Átti hann heima í Oddagerði; sá bær er nú fyrir löngu í eyði. Bóndi þessi var mesta karlmenni og rammur að afli. Aldrei komu tröllin á bæ hans, en altaf rændu þau mönnum af bæjunum þar í grendinni, og svo fóru leikar, að allir bæir í Uppsveit lögðust í eyði, nema Oddagerði.
Þá bar það við eina jólanótt, að tröllin fóru á kreik, eins og þau voru vön. Skiftu þau með sér verkum þannig að karl fór til bygða að sækja í soðið, en kerling sótti vatnið; var það litlu betra, því vatn er hvergi að fá nærri hólnum, og þurfti kerling að sækja það í gjá, sem er skamt frá Ingveldarstöðum. Það er frá karli að segja, að hann fer um alla bæi í Uppsveit og finnur engan mann. Seinast kemur hann í Oddagerði, og fer þar á gluggann. Bóndi var einn heima. Kallar tröllið til hans, og bað hann út ganga og fylgjast með sér. Bóndi segist hvergi fara. Verður tröllkarlinn þá reiður mjög, og heyrir bóndi nú að þungt er stigið niður úti, og svo er komið inn göngin og er brothljóð í öllum hurðum. Bóndi legst nú á baðstofuhurðina að innan, en þó getur tröllið um síðir brotizt inn. Glímir bóndi við það lengi. Berst nú leikurinn víða um bæinn, og að lokum út á hlað. Er þá bóndi orðinn bæði móður og þreyttur, og svo endar viðureign þeirra, að bóndi ber lægra hlut. Bindur nú tröllkarlinn hann á höndum og fótum, og snarar honum svo á bak sér og stefnir nú með hann heimleiðis og hraðar ferðinni, sem mest hann má. En þegar tröllið er skamt komið, verður bónda litið um öxl; sér hann þá að dagur ljómar. Kallar hann þá af öllum mætti: Gáðu að þeim sem kemur þarna!« Fer þá tröllið að skima í allar áttir, og sér nú dagsskímuna. Rak það þá upp öskur mikið og varð þegar að steini. Verður nú bóndi fegnari en frá megi segja.
Nú er að segja frá kerlingu. Hún fer ofan í gjána eftir vatninu, og leggur svo á stað með það heimleiðis. Fer hún nú í hægðum sínum. Bæði er það að föturnar eru nokkuð þungar, og svo býst hún við því að bóndi sinn muni ná sér, nemur hún oft staðar til þess að skygnast að honum, því að nátttröll sjá eins vel myrkri og menskir menn í björtu. Skilur hún ekki í því, hvað tafið geti hann svo lengi. Seinast sér hún að nú muni ekki annað duga en flýta ferðinni, því bráðum fari að daga. En þegar hún en nærri komin að hólnum, heyrir hún voðalegt öskur. Verður henni þá litið í kring um sig, og sá hún þá dagsbrúnina. Fór þá fyrir henni einsog bónda hennar, að hún varð að steini, og vatnsföturnar líka, er hún var með. Sjást ennþá steinar tveir, líkir fötum í lögun, sinn hvoru megin við steindrangann.
(Sögn Jóns blinda. 1907. Handrit Hannesar Ó. Magnússonar.)
Árið 1754 bjó bóndi sá á Grænavatni við Mývatn er Sigmundur hét; hann var ríkastur manna af gangandi fé í sinni sveit og vinsæll af þeim, er hann þektu. Um sumarið, það ár, bjóst hann í kaupstaðarferð til Húsavíkur. Var það í sláttarbyrjun og vildi hann því ekki kveðja neinn af vinnumönnum sínum til fylgdar við sig í kaupstaðinn, en sveitungar hans buðust til að hlaupa undir bagga með honum, þegar á lægi, því lestin var stór, og honum langt um megn. Þegar til Húsavíkur kom, tók Sigmundur út vörurnar, en sveitungar hans tóku á móti og bundu í bagga. Mél fluttist þá alt í tunnum, sextán fjórðungum mjöls, voru það þungar klyfjar, og ekki ætlandi nema þeim hestum, sem eitthvað höfðu í köglum; voru þeir kallaðir »tunnuhestar«. Sigmundur á Grænavatni átti einn hest, sem treystandi var til að lyfta þeim böggum, og var hann kallaður »Tunnu-Brúnn«; voru honum líka nú, sem endrarnær, ætlaðar þessar klyfjar. Þegar Sigmundur kom út úr búðinni, voru sveitungar hans búnir að búa uppá hestana, og ljet hann vel yfir, en mjöltunnurnar voru ekki komnar á klakk, og sagði Sigmundur í skopi, að nú yrðu átta um fífuáttunginn, því enginn einn treystist að láta þær upp. »Ekki mun það meir en mannsverk,« var þá sagt að baki Sigmundar. Hann sneri sér við og leit þar ungan mann um tvítugt, meðalmann að hæð, en herðabreiðan mjög og þrekvaxinn. Spyr Sigmundur hann að nafni, og kveðst hann Brandur heita, Andrésson, og eiga heima í Aðalreykjadal að Knútsstöðum; vera sonur Andrésar bónda þar og Randíðar. »Þú segir það mannsverk vera, að láta tunnurnar á klakk,« sagði Sigmundur, »eða viltu reyna?« »Vel má eg það,« svaraði Brandur. Var þá »Tunnu-Brúnn« leiddur milli klyfjanna. Brandur gengur að annarri tunnunni og snarar henni á klakk svo léttilega, sem öðrum er að láta upp »trúss«. Spyr hann þá menn þá, sem hjá voru, hvort þeir vildu standa undir tunnunni, meðan hann tæki til hinnar, »eða,« sagði hann við Sigmund, »þú vilt máske að eg geri hvortveggja, að láta upp og standa undir?« Sigmundur bað hann gera það, ef hann gæti. Brandur brá sér þá yfir um, tók annarri hendi yfir um til þeirrar, sem upp var komin, en hinni hendi um silann á þeirri, sem upp skyldi láta, og rykti henni á klakk. Þótti öllum, sem á horfðu, þetta hið mesta þrekvirki, en einkum fanst Sigmundi mikið um. Spyr Sigmundur um ætt hans og annað honum viðvíkjandi, og leysti Brandur úr því, er hann vissi. Kom svo loks samtali þeirra, að Sigmundur spyr Brand, hvort hann eigi mundi vilja koma í vist til sín; skal eg gera þér svo vel til; að þú verðir ánægður; er nú venjulegt kaup í minni sveit, að vinnumenn fái eitt hundrað um árið, en þér vil eg bjóða tvöfalt og gjalda þér tvö hundruð. Brandur tók því ekki allfjarri, en spurði hvort nokkur vandkvæði væru á þeirri vist. »Beitarhús hefi eg látið nýlega byggja að Melhúsum uppi undir fjalli (Bláfjalli),« svaraði Sigmundur. »Er vegur þangað langur og yfir hraun að fara; eru í hrauninu margar gjár og tvær allra verstar; eru þær illar yfirferðar og hættulegar í snjóum, ef yfir hylmir, en því hefi eg látið byggja beitarhús þessi á þeim stað, að beitiland er þar hið bezta og sjaldan gjafaþörf, og því mjer til hins mesta heysparnaðar.« – »Eru engir aðrir annmarkar á?« sagði Brandur. »Ekki verður því neitað,« sagði Sigmundur, »því síðastliðin tvenn jól hafa fjárgæzlumenn mínir horfið, sinn í hvort skiftið.« Brandur spyr, hvað valda mundi, en Sigmundur kvað þá mundu hafa hrapað í gjárnar. Brandur innir eftir, hvort ekkert annað muni valda. Segir Sigmundur að heyrzt hafi fleypur nokkurt um það, en slíkt sje markleysa ein. Brandur kvaðst mundu hætta á að fara í vistina, en þó með þeim skilyrðum, að hann verði við bón, er hann vilji bera upp við hann í einrúmi. Hætta þeir þá talinu að sinni. Fara nú sveitamenn af stað, aðrir en Sigmundur; þeir Brandur báðir saman bíða þess, að hinir hverfi. Gengur þá Brandur með Sigmundi í svo kallaða Mundlaugarlág. Spyr þá Sigmundur, hver væri kvöð sú, er hann setti. Brandur svarar: »Andrés bóndi á Arnarvatni á dóttur, sem Randíður heitir; vil eg biðja þig að stuðla að því, að hún vistist að Grænavatni um líkt leyti og eg, og eg fái hana fyrir konu. Veit eg að þetta mun verða torsótt við Andrés, því hann er maður ríkur, en eg félaus. Veit eg, að ef hún er látin sjálfráð, þá muni lítil fyrirstaða.« Sigmundur heitir að gera það, sem í hans valdi stæði til þess, að þetta gæti orðið honum til geðs, og kvaðst mundu láta hann vita um það síðar. Að því búnu skildu þeir og hélt hvor sína leið.
Um haustið fær Brandur bréf frá Sigmundi, er segir, að Randíður sé vistuð á Grænavatni og heitmey Brands, segir hann það ekki hafa verið fyrirhafnarlaust að fá samþykki Andrésar, en sér hafi tekizt það að lokum.
Um vorið kom Brandur með pjönkur sínar á bakinu til Grænavatns, stóðst það á endum, að þá reið Randíður með Sigmundi í neðanvert hlaðið, er Brandur kom þar að sunnan, og fagnaði Sigmundur hjúum sínum hið bezta. Leið nú sumarið og líkaði öllum Brandur vel, og var hann talinn tveggja manna maki að hverju verki. Þess urðu menn brátt varir, að Randíður fór ekki einsömul og um haustið ól hún piltbarn, sem nefndur var Jón; það var haustið 1755. Veturinn eftir, þegar hríðar gerði og hagleysu ið neðra, kom Sigmundur að máli við Brand, og segir að nú sé komið að þeim tíma, að sauðina verði að flytja til beitarhúsa; vilji hann að þeim sé hleypt í haga þegar er dagar, og ekki látnir í hús fyr en dagsett væri; fengi hann því dimt í hrauninu. Brandur kvað það ekki mundu saka. Sigmundur biður hann að vera hjá sér áfram næsta vor og skuli hann hafa fyrir þetta ár tólf ær með lömbum; eigi hann þá yfir tuttugu fjár um haustið, og skuli það vera fóðurfrítt um veturinn; auk þess skuli hann hafa föt öll ókeypis. Barnið skuli og verða þar vel haldið meðgjafarlaust. Samkykkir Brandur þessar ráðstafanir og skiljast þeir Sigmundur að því. Brandur tekur við sauðageymslunni og gengur alt að óskum, þangað til á Þorláksmessu; fór Brandur þá að venju fyrir dag á fætur; er þá norðanhríð, með mikilli fannkomu, en hægur. Myrkur var á og óratandi. Leit Randíður út og bað hann hvergi fara, en Brandur lét ekki telja sér hughvarf. Randíður bað hann grátandi að hætta sér ekki til húsanna, en hann lét ekki letjast, og kvaddi hana. Hann hafði sporreku mikla í hendi; var það eintrjáningsreka úr rauðaviði, járnbrydd að neðan. Líður dagurinn svo, að veðrið helzt það sama, dimmviðri mikið með fannkomu, og eigi fært milli húsa, sem á vellinum voru. Varð þó enn dimra, þegar dagsett var, og tungl ekki á lofti. Þegar komið var fram á vökuna, fóru menn að verða órólegir, þeir sem heima voru, því ekki kom Brandur; einkum var Randíður mjög sorgbitin. Þegar á leið kvöldið, hægði og stytti upp kafaldinu, en niðamyrkur var á. Í vökulok bað Randíður Sigmund að senda vinnumenn sína að leita Brands, en hann taldi þar á öll tormerki, og ekki til annars en kasta þeim í gjárnar. Um nóttina um óttuskeið fór Randíður enn á kreik, að líta til veðurs. Var þá komið blæjalogn, en myrkrið engu minna. Setti þá að henni grát mikinn, og vildi halda inn í baðstofu aftur, en þegar hún hafði lokað hurðinni, heyrir hún að marrar í snjónum og eitthvað þungt legst að bæjarþilinu. Hún flýtir sér að ljúka upp, og sér hún þá að Brandur liggur þar og hallar herðum að þilinu. Henni verður bilt við, að sjá hann svona á sig kominn, og ávarpar hann blíðlega, en hann mátti ekki mæla. Verður hún þá þess vör, að snjórinn, sem hafði hlaðist á hann, var alblóðugur, og Brandur hræðilega útleikinn. Reynir hún með öllum kröftum að koma honum í rúm og tókst henni það loks með hinum mestu erfiðismunum. Kom nú heimafólk til hjálpar. Bað Randíður Sigmund að sjá, hversu útleikinn vinnumaður hans væri. Varð Sigmundi mjög hverft við, er hann sá, hvernig komið var Brandi, því þegar nánara var aðgætt, var holdið víða klipið frá beinunum og víða rifið skinnið og hjekk í tætlum; allur var hann helblár og marinn; mállaus var hann með öllu. Um nóttina andaðist Brandur og hafði þá um fjóra um tvítugt.
Morguninn eftir safnaði Sigmundur mönnum frá Baldursheimi, Skútustöðum og Garði, svo þeir urðu tólf saman. Var þá veður bjart og kyrt. Héldu þeir til Melhúsa og sáu að féð var alt hýst; hafði Brandur gengið frá öllu, eins og vant var, og sáust þar engin afbrigði frá því vanalega. Sáu þeir för Brands í snjónum og rekja þau niður fyrir efstu gjána. – Sáu þeir, að þar lágu mannsspor úr suðurátt í leið fyrir Brand; þau spor voru svo stór, að leitarmenn gátu haft báða fætur sama spori. Sjá þeir að þar hafa orðið ryskingar miklar, unz stóru sporin lágu í brott, til suðurs; lá þar reka Brands í þrem hlutum; sporin röktu þeir í boga, þar til þau lágu enn í veg fyrir Brand. Höfðu þá enn orðið sviftingar miklar að nýju, sem þó hafði lokið svo, að óvætturin hafði hörfað enn til suðurs. Í þriðja skiftið komu þau í veg fyrir Brand, og höfðu þá orðið inar hörðustu sviftingar; var grjót víða gengið upp og sporin eða traðkurinn allur litaður blóði. Þar hafði slitið til fulls með þeim Brandi. Hafði óvætturin snúið enn til suðurs. Röktu þeir blóðferilinn alla leið upp í Bláfjall. Brast þá suma leitarmanna hugur að fara lengra, og hurfu þá allir frá við svo búið. Það þóttust þeir sjá af sporum Brands, að hann hafði hvílt sig oft, fyrst framan af nokkrum sinnum og að altaf varð æ styttra og styttra milli sporanna, unz að hann hafði seinast orðið að skríða alllanga leið, sem eftir var heim að bænum. Blóðið hafði víða sigið í polla, þar sem hann hafði hvílt sig, og var það alt hin hryggilegasta sjón.
Eftir að Brandur var jarðaður, fekk Sigmundur ámæli sveitunga sinna fyrir að hafa ekki farið að ráðum Randíðar, og leitað um kvöldið, og töldu þeir ekki ólíklegt, að þeir hefðu þá getað bjargað lífi Brands; en svo féll sá orðasveimur niður; var mælt að Sigmundur hefði mútað leitarmönnum, að þegja yfir því, sem gat að nokkru skert álit hans og virðingu, er menn alment báru til hans á undan þessum viðburði.
Þessa sögu sagði mér Jón bóndi Eiríksson á Hofsstöðum í Mývatnssveit, en hann bar föður sinn, Eirík, fyrir henni, en Eiríkur var bróðir Randíðar, unnustu Brands. Jón, sonur Brands, var afi sögumannsins, Jóns blinda. Randíður syrgði Brand alla æfi, og dó ekki gömul á Grænavatni. Sigmundur ól Jón upp og fórst við hann vel í alla staði.
Eftir dauða Brands varð Sigmundi illa til að fá sér sauðamann, þar til Jón sterki Þorláksson, Einarssonar sterka, réðst til hans, það sem eftir var vetrarins. Þegar Jón vitjaði húsa, bar hann jafnan birkiklumbu mikla, með rótinni á öðrum enda, og var það ekkert barnameðfæri. Eitt kvöld sagði hann Sigmundi, að þá hefði kerlingarskepnan heimsótt sig við beitarhúsin; hafi þar orðið fátt um vinakveðjur, en hefði kylfunnar ekki notið við, mundi hún hafa orðið sér yfirsterkari. Með henni sagðist hann hafa brotið annan handlegg hennar. »Lauk svo okkar viðskiftum, að hún steyptist í efstu gjána.« — Eftir þann tíma hefir engra óvætta orðið vart úr Bláhvammi.
Bláfjall er hæst fjalla á Mývatnsöræfum, afrétti fram austur af Mývatnssveit. Í fjallinu er hvammur, sem kallaður er Bláhvammur. Var það ætlan manna áður, að þar hafi vættir verið, sem hafi gert ýmsan óskunda mönnum og skepnum. En eigi hefir þeirra orðið vart síðan Brandur og Jón lentu í kasti við þær.
(Eftir sögn Jósíasar sál. Rafnssonar, konu hans og Katrínar yfirsetukonu Sveinsdóttur á Kaldbak. 1900. Handrit Jóns Jakobssonar á Árbæ á Tjörnesi. 1908.)
Sigmundur Jónatansson, sem eitt sinn var veitingamaður á Húsavík við Skjálfanda, og nú er í Ameríku, var hár maður og þrekinn, karlmannlegur og kjarkmaður, og ágæt selaskytta, enda reri hann í sel á hverju vori, og varð oft gott til fanga.
Einhverju sinni, þegar Sigmundur var á Húsavík, reri hann fram á flóa snemma morguns seint um vor, en sótþoka var á. Hásetar hans voru Kristján Jónsson, er kallaður var Grímseyjarfari, og Indriði Davíðsson frá Helgugerði við Húsavík. Þeir vissu ógerla hvar þeir fóru, af því að þokan var svo dimm, en héldu þó áttum, af því að við og við grisjaði til sólar. Fátt sáu þeir af sel, og fóru því víða yfir.
Einhverju sinni hægðu þeir róðurinn og skimuðu í kringum sig, ef verða mætti að selur ræki upp höfuðið í námunda. Sigmundur sat á bita, og hugði fram yfir farið, en andófsmennirnir gættu afturaf. Alt í einu segir Kristján: »Hann er kerlegur, þessi!« og benti aftur fyrir farið. Þeim Sigmundi og Indriða varð báðum í senn litið þangað, sem Kristján horfði, og hugðu að hann ætti við sel, en brá ekki alllítið í brún, er þeir sáu hvers kyns var. Rétt fyrir aftan bátinn, í stuttu skotfæri frá honum, stóð eitthvert ferlíki upp úr sjónum, að lögun sem maður væri, en þó langt um meira að allri fyrirferð. Stóð það upp úr niður á herðar. Höfuðlögunin var öll sem á manni, og eins það, sem sást af herðunum, en húðar- eða hörundsliturinn var afardökkur, og líkastur sem hvelja væri. Ekki hreyfði það sig að öðru en því, að það skók hausinn og ranghvolfdi augunum á meðan það horfði á þá. Við þessa sýn varð þeim svo hverft að þeir lögðust á árar og tóku þegar lífróður til lands; var það afarlöng leið, því að þeir voru komnir langt út og vestur í flóa, og höfðu óljósa hugmynd um, hvar skemst mundi að landi. Tóku þeir fyrst Bakkahöfða, sem eru nokkru fyrir utan Húsavík.
Þegar þeir voru komnir inn í Húsavíkurfjöru, var Indriði orðinn svo þjakaður, bæði af þreytu og hræðslu, að honum varð mannhjálp af skipi og var studdur upp á bakkann. Þar lagðist hann veikur í koti einu, lá þungt en eigi lengi, og dó þar 26. júní 1873.
(Sögn Sölva skipstjóra Ólafssonar á Akureyri. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Um 1830 bjó faðir minn, Ólafur Hallsson, á Mannskaðahóli á Höfðaströnd austan Skagafjarðar. Þá bjó í Naustum í sömu sveit Guðmundur nokkur, sem mig minnir að væri Eiríksson. Var hann heljarmenni að burðum og glímumaður annálaður. Þegar saga þessi gerðist, var Guðmundur upp á sitt hið bezta. Systir hans var gift Nikulási bónda í Þönglaskála, næsta bæ fyrir utan Naust. Fór Guðmundur oft útí Þönglaskála, til þess að finna systur sína. Dag einn snemma vetrar fór hann sem oftar útí Þönglaskála, og dvaldi þar fram á kvöld. Gekk Guðmundur að vanda suður Stekkjarmóa, er hann fór heimleiðis, og ofan Röðulinn, niður í Þönglaskálafjöru, þvíað sú leið er skemst. Þegar hann hafði farið lítinn spöl eftir fjörunni, verður fyrir honum birkirengla, nýrekin af sjó, og fylgdi rótin. Gekk hann framhjá henni fjóra eða fimm faðma. Þá er sem að honum sé hvíslað, að hann skuli taka viðarkylfuna og ganga við hana, þótt hún sé eigi á hans landareign; snýr Guðmundur því við og hefir hana fyrir göngustaf. Heldur hann svo leiðar sinnar, þangað til hann kemur suður að landamerkjum Þönglaskála og Nausta. Þar er svonefnd Syðri-Gróf; er það grashvammur allmikill uppaf fjörunni. Liggur þjóðvegurinn yfir efri enda hvammsins, og er þægilegt að komast upp úr honum þar. Neðantil í miðjum hvamminum eru steinar tveir, stórir, og rennisléttur grasbali fyrir framan þá, fram að fjöru. – Þegar Guðmundur kemur suður hjá grófinni, sér hann uppi á bakkanum, fyrir neðan steinana, ferlíki eitt í mannsmynd; hávaxið er það ákaflega og digurt að sama skapi. Sér Guðmundur að óvættur þessi gerir sig þegar líklega til þess að hefta för hans; svifar hann sér því frá sjónum og uppí hvamminn. Kemur ófreskjan þá í veg fyrir hann. Þykist hann sjá, að þetta muni martröll vera, og eigi frýnilegt. Strýta ein stóð upp úr bolnum og sá þar í glirnur tvær. Arma hafði sæmaðurinn afarlanga og gilda; fremst á þeim voru stúfar, en hendur eigi, og var sem úttroðnir sjóvetlingar væru dregnir á þá og bundið fyrir ofan. Eitt sinn í viðureign þeirra gat Guðmundur bitið í aðra skjóðu þessa, og hugðist að draga hana fram af stúfnum; en svo var sem hann biti í harða skel, og lét ekkert undan, þótt hann rykti í. Ræðst meinvættur þessi umsvifalaust á Guðmund, og sækjast þeir af hinni mestu grimd. Naut Guðmundur nú viðarkylfunnar, og lamdi sæbúann miskunnarlaust með klumbunni, en svo var sem í trjástofn væri slegið. Hugði Guðmundur harða hvelju yzta, er hlífði sæbúanum. Ver hann Guðmundi landgönguna, og leitast við að taka hann fangbrögðum og færa á sæ út. Varðist Guðmundur svo langa hríð, að martröllið fekk eigi tekið hann og eigi hrakið hann í sjóinn, en þó færðist viðureign þeirra nær flæðarmálinu. Tekur nú mæði að sækja Guðmund en engan bilbug var að finna á martröllinu. Fer Guðmundi því að þykja sinn hagur óvænlega standa. Gerir hann nú harða hríð að sæbúanum og veitir honum mörg högg og stór með rótarhnyðjunni. Gerðist Guðmundur þá svo þunghöggur, að hann tvíbraut að lokum viðarklumbuna á skrokki og örmum tröllsins. Hafði honum vafalaust tekizt að laska til muna aðra hlið þess og annan arm. Stóð Guðmundur nú með tvær hendur tómar og móður mjög. Er sæbúinn þá eigi seinn á sér að þrífa hann hryggspennutökum, og gerir sig líklegan til þess að bera hann í sjóinn. Fann Guðmundur að sig skorti mjög afl við martröllið. En nú varð honum það til lífs, að annar armur tröllsins var lamaður, og var það alt óstyrkvara þeim megin; varð hann því þar yfirsterkari, og gat með harðfengi snúið sig úr helgreipum ókindar þessarar. Réðst hún þegar á hann aftur og greip utanum hann, en Guðmundur vatt sér af henni með snöggu bragði. Fór svo fjórum sinnum, að Guðmundur slapp, en tröllið hremdi hann jafn-harðan aftur. Kom hvorugt öðru af fótum, enda hefði verið úti um Guðmund, hefði hann fallið. Loks tókst honum með miklum snarleika að sleppa frá tröllinu. Veitti það honum nú ekki eftirför, enda mun það hafa verið all-mjög þrekað; mæddi það og blóðrás.
Úr Syðri-Gróf mun vera um fimm mínútna leið heim í Naust. – Guðmundur komst heim í vökulok, nær dauða en lífi, allur marinn, blár og blóðugur. Lá hann í mánuð á eftir, og varð eigi jafngóður aftur fyr en löngu síðar, hafi hann orðið það nokkurntíma.
Daginn eftir viðureign þessa fóru menn útí grófina og sáu þar verksummerki – snjór var víða blóði drifinn og traðk svo mikið, að vart urðu aðgreind spor sæbúans, en allur var hann á brottu.
Upp frá þessu gekk Guðmundur aldrei fjöruna, eftir að skyggja tók.
Faðir minn var mjög vel kunnugur Guðmundi og kunni því vel að greina frá atburði þessum; heyrði eg hann segja sögu þessa í ungdæmi mínu.
(Heimildin í sögunni. Hdr. Friðleifs Jóhannssonar í Háagerði. 1906.)
Um 1820-30 bjuggu hjón í Sauðárkoti á Upsaströnd vestan Eyjafjarðar, er hétu Jón og Guðrún. Þau áttu fjögur börn á lífi, er saga þessi gerðist. Öll voru börn þeirra ung, og ekki fær um að hjálpa til við vinnu utan bæjar. Eitt sinn að haustlagi fór bóndi fram í sveitina, og gerði svo ráð fyrir, að koma heim kvöldið eftir. Ekki var annað fólk í bænum en kona hans og börn. – Nú líður sá dagur og nóttin. Seinni daginn fer útlit að verða mjög ískyggilegt, þungbúið loft og skuggalegt. – Ræður konan það af, að fara að leita að fé sínu, þar sem bóndi hennar var enn ókominn, því hún áleit, að hann mundi koma of seint, til þess að smala fénu, þegar myrkur og illviðri væri skollið á. Skilur hún börnin eftir í bænum, og segir þeim að bíða rólegum þar til hún komi heim með féð. Heldur hún svo af stað, fyrst til fjalls, og finnur þar nokkrar kindur, sem hún hóar heim. Sér nú að allmargt vantar enn af fénu, og hyggur að það muni í fjörunni. Gengur hún þá niður fjallshlíðina og niður að sjó. Fyrir ofan fjöruna er mjög hár og brattur melbakki, en stór skerjagarður er skamt frá landi; má ganga þurrum fótum fram á hann, ef fjara er. Á þessum skerjum er mjög mikið af þangi, og sækir fé þangað mjög. Nú sem konan kemur í fjöruna, er nokkurnveginn þurt fram í skerin. Er þá farið að dimma af nóttu og rigna, svo útlitið er ekki glæsilegt. Sér hún þá að fé það, er hana vantaði, kemur af áðurnefndum skerjum með ofsa flýti, hleypur til lands og síðan heim til fjárhúsa sinna. – Veit konan ekki af hverju slík stygð muni koma; lítur fram á skerin, þaðan sem féð kom, og sér þá ógurlega stóran mann koma gangandi til lands af skerjunum. Sýndist henni hann vera nakinn og glampa á skrokkinn á honum, líkt og hvelju á hval. Hárflókar héngu niður í andlit hans. – Sýndist henni ekki ráðlegt að bíða lengur, tekur til fótanna og hleypur heim á leið sem fætur toga; en leiðin er mjög torsótt, snarbrattur melur og lausagrjót. Sér hún að mannskepna þessi eltir sig, og herðir því enn meir á hlaupunum. – Þegar hún kemur upp á bakkann, kemur maður hennar þar á móti henni. Sjá þau þá bæði að ófreskja þessi, sem elti hana, er komin upp í miðjan bakkann, en þegar hún sér manninn koma, snýr hún við og til sjávar aftur, en hjónin halda til bæjar. Hafði maður hennar komið heim á meðan hún var í burtu, og fundið börnin. Sögðu þau honum að mamma þeirra hefði farið að leita að fénu. Sneri bóndi þá fljótlega út og hugsar sér að hjálpa henni heim með féð, enda kom hann í tæka tíð henni til hjálpar, því að óvíst var, að hún hefði komizt heim á undan ófreskju þeirri, er elti hana. – Konan lá lengi í rúminu, og varð aldrei jafngóð eftir þetta. Sögn þessi er eftir einu barninu er heima var í bænum og hafði móðir þeirra oft sagt þeim frá þessu. Barnið, sem þá var, er nú (1906) 66 ára gömul kona, er þetta er skrifað, og er talin sannorð.
(Eftir sögnum Jakobs sál. Jónssonar á Árbæ, Jósíasar sál. Rafnssonar á Kaldbak og Þorbergs Eiríkssonar á Syðri-Tungu. Eftir handriti Jóns Jakobssonar á Árbæ á Tjörnesi. 1908.)
Sigtryggur hét maður, Sigurðsson, ættaður úr Eyjafirði; var hann bróðir þeirra Sigurðar járnsmiðs eldra á Akureyri, Jónasar bónda í Bakkaseli í Öxnadal og Jóns bónda í Kristnesi, föður séra Magnúsar, sem var í Laufási. Sigtryggur var lengi verzlunarmaður á Húsavík, fyrst hjá Jakob Johnsen (Húsavíkur-Johnsen), og síðan hjá Ludvig Schou. Var hann vinsæll mjög og vel látinn í þeirri stöðu. Hann var með stærstu mönnum, þrekinn og burðalegur, enda var hann talinn sterkastur maður á Húsavík um sína daga. Hann var maður hægur og stiltur, en þéttur í lund, manna áreiðanlegastur í öllum viðskiftum, en fastur fyrir, ef á hann var leitað, eða honum þótti.
Sigtryggur kvæntist á Húsavík árið 1847. Hét kona hans Sigríður Sigurðardóttir. Það haust kom hann henni fyrir inni á Kaldbak hjá Hans Bering og konu hans. Þar ól Sigríður fyrsta barn þeirra. Sigtryggur hélt þar og til sjálfur, en gegndi verzlunarstörfum úti á Húsavík sem áður. Fór hann snemma á morgna, og kom seint heim á kvöldin, enda er fullur hálfrar: stundar gangur frá Kaldbak út á Húsavík.
Eitt kvöld í nóvembermánuði kom Sigtryggur mjög síðla heim á Kaldbak. Þótti þá mjög undrum sæta, hve illa hann var útleikinn. Fötin utan á honum voru öll tætt og rifin, en hann sjálfur marinn, blár og blóðugur, og stirður mjög. Hann var venju fremur fálátur, en ekki fekst hann til að gefa neinar skýringar á því, hvað fyrir hann hafði komið það kvöld.
Næsta dag á eftir lá hann í rúminu. Sást að hann var víða meiddur; en þegar farið var síðar að ganga á hann með, hvað hefði komið fyrir hann, svaraði hann litlu til þess; vildi hann eigi hleypa þessu í hámæli. Þeir, sem greinilegastar sögur höfðu af Sigtryggi, og sagan er höfð eftir, hafa skýrt þannig frá:
Sigtryggur fór seint frá Húsavík um kvöldið, eins og vant var. Gekk hann, að vanda, inn fjörurnar, því að honum þótti betra að ganga þar. Þegar hann kom inn hjá Haukamýrardals-læknum, sem er skamt utan við Kaldbak, sér hann að einhver skepna kemur framan frá sjónum og stefnir í veg fyrir hann. Sýnist honum það helzt í mannslíki, en þó nokkru stærra en maður. Hann átti hér engar mannsvonir, og þóttist líka sjá, þó myrkt væri, að hér væri ekki menskum manni að mæta. Snýr hann þá upp að torfunni, en þar var spýtna-bulungur, og grípur þar raftspíru, er honum virtist handhæg sem vopn. Stóðst það á endum, að þegar Sigtryggur hafði náð sér raftinum, var ófreskjan komin að honum, og réð þegar á hann. Tókst þar þegar hinn harðasti bardagi. Barði Sigtryggur með raftinum, sem honum vanst, en ófreskjan sótti ákaft á. Svo virtist Sigtryggi, sem ófreskja þessi hefði handleggi; barði hún með þeim á móti, og veitti honum mörg högg og stór; en ekki fann hann að hún linaðist neitt í sókninni, eða léti undan, hversu fast sem hann barði á henni. Húð hennar fanst honum hál og líkust hvelju. Tók honum þá að lítast illa á blikuna, því að hann tók fast að mæðast, en fekk mörg högg og þung. Loks kom hann þó höggi á annan handlegg ófreskju þessarar; lét hún þá undan síga. Rann hún undan og stefndi til sjávar. Þóttist hann viss um, að hann hefði brotið handlegg ófreskjunnar, því hann sá hann druslast til, þegar hún sneri undan. Hefði hún fyrir það eitt látið af sókninni. Sigtryggur hafði sig nú hið skjótasta upp á bakkann og hélt heimleiðis, og var þá svo útleikinn sem fyr greinir.
Enginn þeirra, sem nokkuð þektu Sigtrygg, hefir efazt um að saga þessi sé sönn. Enda sást daginn eftir viðureign þessa spark mikið hjá viðar-bulungnum, rafturinn allur blóðugur, og blóðslettur á öðrum spýtum.
(Sögn Guðríðar Jónasdóttur á Hrafnagili. 1908. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Oddur hét maður; hann var Oddsson, og oft auknefndur hinn langi, þvíað hann var með hæstu mönnum. Helga hét kona hans. Þau áttu heima á Hofi í Vesturdal í Skagafirði og víðar, og voru bæði hnigin að aldri, þó eigi mjög. Þau voru fátæk, og héldu til í húsmensku á bæjum. Vorið 1872 fluttist Jónas Jónsson læknir og Guðríður Jónasdóttir kona hans norðan úr Eyjafirði að Tunguhálsi í Vesturdal; var þar illa húsað, er þau komu þangað, og þurfti því húsabóta með. Var Oddur þar oft bæði vor og haust í moldarverkum og fleiru, þvíað hann var laginn verkmaður. Varð hann þar því mjög kunnugur. Vorið 1875 fóru þau Oddur og Helga að búa á Úlfsstaðakoti í Blönduhlíð. Leið svo fram á vetur og fram yfir nýár. Lagðist þá Helga, kona Odds í taugaveiki; hann leitaði henni meðala fram Tunguháls, en þau dugðu eigi, svo að Helga dó úr veikinni; Oddur bauð svo þeim Tunguhálshjónum í erfi hennar; kom hann sjálfur til þess að bjóða þeim, en var þá lasinn. Tíð var þá hörð, norðanhríðar og harðneskja. Var Oddur þá svo búinn, að hann var í hríðahempu mikilli, með stórt net um hálsinn og niðurfletta húfu á höfði. Hélt hann síðan heimleiðis aftur. Nú leið og beið; tíðin hélzt hin sama, og þau fóru ekki í erfið, og höfðu engar fréttir af Oddi eða heimili hans. Rúmri viku síðar var húsfreyja frammi í búri eitt kvöld að skamta fólkinu kvöldmatinn við koluljós, en vinnukonur báru inn matinn. Var þá búrið opnað – hurðin gat ekki staðið upp á gátt af sjálfri sér – og hélt hún það væru vinnukonurnar, og hélt áfram verki sínu. En þær gáfu sig ekki fram. Leit hún þá við, og sér hún þá hvar Oddur stendur á miðju búrsgólfinu, snjóugur upp undir hné og að öllu eins klæddur eins og hann var seinast, er hann kom. Stóð hann þarna þegjandi og glotti við. Eigi varð henni neitt bilt við, en þó greip hana einhver óbeit, og sagði í snöggum róm: »Skammastu heldur inn í baðstofu en hanga þarna.« Við það sneri Oddur upp á sig, og gaut til hennar augunum, hörfaði fram í búrsdyrnar og hvarf. Varð hún þá hálfhrædd. Rétt á eftir komu stúlkur fram að sækja skálar; var heldur felmtur á þeim, og sögðu: »Það er einhver fjandinn í göngunum,« en ekki höfðu þær séð neitt. Skömmu síðar fréttist lát Odds, en ekki varð fullvíst hvort hann dó þetta sama kvöld eða ekki, en mjög lét það nærri.
Guðríður er enn á lífi, og er nú sagan rituð upp eftir henni.
(Handrit Árna Stefánssonar í Litladal. 1907. Eftir sögn Snorra Pálssonar sjálfs.)
Þegar Snorri Pálsson – sonur síra Páls skálds Jónssonar á Völlum og síðast í Viðvík – var verzlunarstjóri á Siglufirði, átti kerling ein heima þar á Siglufjarðareyrinni, sem Sigríður hét. Hún var í mörgu einkennileg í háttum: bjó ein sér í kofa, er kallaður var Dalabúð, var sí-óhrein og sóðaleg til fara, enda flestum hvimleið; var hún líka skapstygg, en óheimsk. Ýmist var hún kölluð Sigga kápa eða Dala-Molda. Um þær mundir var fyrir nokkru farið að smíða þilskip við Eyjafjörð og Siglufjörð, og var þeim haldið út til hákarlaveiða. Byrjaði Þorsteinn Daníelsson á Skipa-Lóni fyrstur að smíða þau, og átti sjálfur eitt eða fleiri. Formaður á skipi hans hét Gunnlaugur, og var frá Hellu á Árskógsströnd. Skip þetta fórst með öllum mönnum, tólf saman, í stórhríðargarði fyrir Langanesi. Daginn eftir að skipið fórst, kom Sigga kerling til Snorra og segir: »Það var gestkvæmt hjá yður í gærkvöld, Snorri minn!« Snorri kvað engan hafa komið, enda hefði ekki veðrið verið líkt því, að neinir væru á ferð. »Þér þurfið nú ekki að segja mér neitt um það,« segir kerling; »eg sá tólf menn skinnfataða koma hér neðan eyrina í gærkvöld, og ganga inn í búðina til yðar«. Lýsti hún þeim síðan öllum svo nákvæmlega, að lýsingin bar algerlega saman við Gunnlaug, og menn þá, sem með honum vóru, er þeir fórust; en allir vissu að hún gat ekki þá verið búin að fá neina vitneskju um það, að skipið hefði farizt.
(Sögn Guðrúnar Jónsdóttur að Fossi í Kaupangssveit (1906), sem var vinnukona á Hóli, er saga Þessi gerðist. Hdr. Odds Björnssonar.)
Á síðari hluta 19. aldar fóru Siglfirðingar eitt sinn inn á Eyjafjörð, til þess að skila bát, sem þeir höfðu fengið léðan á Böggvisstaðasandi, og var formaður í för þeirri Ólafur Þorsteinsson, bóndi í Leyningi. Með honum var Jónas Jónsson, móðurbróðir Bjarna skipasmiðs Einarssonar, sem nú er á Akureyri, en var þá heimilismaður á Hóli, og tveir menn aðrir þar úr firðinum. En þegar þeir komu þar inn eftir, hafði rekið byttu á Böggvisstaðasandi; þekti Ólafur að hún var af Siglunesi, og hafði farið tveimur dögum áður í hákarlalegu; hafði verið formaður fyrir henni Steinn Sæmundsson, vinnumaður á Siglunesi. Fóru þeir Ólafur gangandi heimleiðis, og segir ekki af ferðum þeirra, fyr en þeir eru komnir á leið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, því þeir ætluðu að stytta sér leið með því að ganga fyrir botn Héðinsfjarðar. Í Ámárdal eru þrjár brekkur upp að svo kölluðu Hólsskarði. Þegar þeir félagar voru komnir í Ámárdal vestanverðan, gengu þeir Ólafur og Jónas hina af sér, svo að þegar þeir voru komnir í mið-brekkuna, eru hinir neðan við þá neðstu. Settust þeir því niður og ætluðu að bíða félaga sinna.
Þegar þeir höfðu setið litla stund, sjá þeir mann koma upp á neðstu brekkuna, og gengur hann norðar upp en þeir höfðu farið. Standa þeir þá upp, því þeim datt í hug að það væri annar félagi þeirra, og ætlaði að komast á undan þeim, en þá kenna þeir að það er Steinn Sæmundsson, sem fyr er getið, að var formaður á byttu þeirri, er rekin var, og allir höfðu druknað af. Sjá þeir nú til félaga sinna, að þeir koma upp á neðstu brekkuna, og bíða þeir Ólafur eftir þeim. Halda nú allir leiðar sinnar; en þegar þeir koma upp á miðbrekkuna, var Steinn kominn upp á þá efstu, og héldu þeir svo áfram, að þegar þeir voru á öðru leitinu, þá var hann á hinu.
Vestanvert við Hólsskarð er svipað landslag og að austan, nema brekkurnar eru þar að eins tvær. Þegar þeir komu á þá neðri, var Steinn kominn á svokallaðar Þverárbrúnir. Fóru þeir þá á skíði sín, og á þeim ofan með fljúgandi ferð, því bratti var nógur. Þegar þeir komu ofan á Stórhól, sem kallaður er, var Steinn kominn niður á eyrar og hafði stefnu heim að Leyningi. Halda þeir svo áfram ofan á jafnsléttu. Kallar þá Ólafur á Stein og segir: »Farðu heim til Jóns og segðu, að við komum.« En þar í Leyningi voru Jónar tveir vinnumenn, annar ungur, en hinn gamall.
Litlu áður en þeir komu, tekur Jón yngri að láta illa í svefni, og þegar hann var vakinn, segir hann að Steinn Sæmundsson hafi komið og ætlaði að kyrkja sig.
Nú segir frá þeim félögum, að þegar þeir komu heim að Hóls-stekk, skildu þeir, og fór Jónas heim til sín. segir Ólafur: »Það er líklegt að Steinn fylgi þér heim.«
Nú víkur sögunni að Hóli, að þar er komið upp á glugga og kallað á Þorstein bóndason, og hann beðinn Guðs bænum að opna bæinn sem fljótast; hljóp hann fram þegar og opnaði, en þá var Jónas ekki kominn ofan af bænum. Sagði hann, að þegar hann kom heimundir, hefði Steinn verið þar fyrir og varið sér bæinn, þar til Jónas loks henti sér í einhverju hræðslu-ofboði hálfgert á hann og komst svo á gluggann.
(Sögn og handrit Friðleifs Jóhannssonar í Háagerði. 1906.)
Haustið 1883 druknuðu tveir menn í lendingu á Böggvisstaðasandi; hét annar Sveinn, og var giftur maður og bjó frammi í Svarfaðardalnum, en hinn hét Jóhann, unglingsmaður ógiftur. Lík Sveins heitins rak á land og var jarðað við Upsakirkju, en hinn náðist aldrei. Nokkru síðar um veturinn var kona ein á bæ, sem er skamt frá bæ þeim, er Sveinn sálaði bjó á, frammi við eldhúsverk sín, í rökkri. Stóð hún við hlóðirnar, og ætlar að ganga fram úr eldhúsinu; sér hún þá, hvar Sveinn sálaði stendur í einu horni eldhússins, og í öllum skinnklæðum, svo að henni sýndist renna úr þeim bleyta; stóra vetlinga hafði hann á höndum. Konan þekkir manninn þegar, og starir á hann, og ætlar að fara að tala við hann; í því hverfur hann burtu, en henni varð svo bilt við þetta, að hún komst með naumindum til baðstofu og sagði bónda sínum frá hvað hún hefði séð. Líður svo fram að háttatíma, og þegar konan er sofnuð, dreymir hana að Sveinn sálaði komi til sín og sagði við sig: »Ekki ætlaði eg að gera þér svona ílt við í kvöld fram í eldhúsinu,« með það hvarf hann frá henni, og hún sá hann aldrei framar.
Þessi kona hét Anna, og er nú dáin fyrir nokkrum árum, og var mjög sannorð og vönduð kona. Hún var mágkona Rósu Vormsdóttur frá Lækjarbakka, sem þessi sögn er tekin eftir, og staðhæfir hún, að sagan sé sönn.
Nokkru fyrir 1870 gekk eg vetur einn á beitarhúsin frá Ögmundarstöðum í Staðarhreppi í Skagafirði. Þurfti að fara yfir Staðará, þegar farið var á beitarhúsin. Venjulega var farið yfir hana þannig, að gengið var á tveimur borðum, sem lögð voru eins og brú yfir ána; var torfi hlaðið upp beggja megin við ána og borðin lögð ofan á, og svignaði brúin mjög, þegar gengið var um hana. Beitarhús voru einnig frá Vík, og voru þau sama megin árinnar og beitarhúsin frá Ögmundarstöðum og var gengið yfir sömu brúna. Vorið áður en eg gekk á beitarhúsin frá Ögmundarstöðum, hafði beitarhúsamaðurinn frá Vík, er Benedikt hét, druknað í Staðará, þegar hann kom af húsunum. Ekkert hafði samt verið gert við brúna. Eitt kvöld sem oftar um veturinn var eg á leið heim af húsunum og var kominn yfir ána. Varð mér þá litið við, og sé hvar maður einn kom gangandi upp með ánni; hugði eg að þetta væri beitarhúsamaðurinn frá Vík, því að beitarhúsin frá Vík voru nær árbakkanum, en húsin frá Ögmundarstöðum. Ætla eg nú að bíða eftir honum; sezt því niður, og tek upp hjá mér matarbita, sem eg átti eftir af dagverði mínum. Sá eg að manninum miðaði óðum áfram; kom hann að brúnni og gekk út á hana, en þegar hann var kominn á hana miðja, steyptist hann út af ofan í ána. Fór mér þá eigi að lítast á blikuna. Þóttist eg vita, að þetta mundi hafa verið svipur Benedikts, og að dauða hans mundi hafa borið þannig að. Hélt eg því sem fljótast heimleiðis.
(Heimildin í sögunni. Hdr. Kr. I. Sveinssonar í Djúpadal. 1907.)
Maður hét Eggert og var Jóhannesson, ættaður frá Vindheimum í Skagafirði. – Hann var kvæntur og farinn að búa á einhverjum bæ í Eyjafirði. Árið 1856, um haustið, fór hann kynnisför vestur í Skagafjörð, til að finna föður sinn og aðra ættingja. – Í þeirri ferð druknaði hann í Héraðsvötnunum ofan undan Mið-Grund í Blönduhlíð. – Þar var þá ferjustaður, og kom hann, ásamt öðrum manni, að Vötnunum að vestan seint um kvöld. Kölluðu þeir ferjuna nokkra stund, en var eigi gegnt. – Reið þá Eggert út í Vötnin og ætlaði að sundríða, en svo er háttað, að bakkar eru að Vötnunum að austan, og heyrði samferðamaður hans það síðast til hans að hann hottaði á hestinn austur undir eystri bakkanum. Hesturinn fórst einnig og fanst hvorugur um haustið, þrátt fyrir mikla leit. – Kona sú, er þessa sögu segir, og heitir Ragnheiður Guðnadóttir, er nú er í Víkurkoti, var vinstúlka Eggerts þessa frá því þau voru börn. Fann hún hann þegar hann var á leiðinni vestur um haustið, og töluðust þau þá töluvert við. Ragnheiður var í Eyhildarholti í Skagafirði þann vetur, og fór hún þaðan um vorið á vinnuhjúaskildaga eða um það bil. Litlu áður en hún fór um vorið gerðist sá atburður er nú skal greina og hún segir svo frá:
»Að kvöldi hins 11. maí 1857 háttaði eg ofan í rúm mitt sem aðrir. Gat eg eigi sofnað, og lá vakandi í rúmi mínu fram eftir nóttunni. Nóttin var björt sem um hádag væri, eins og vanalegt er á vorin. Enginn svefnhöfgi seig á augu mín, og var eg að horfa innan um baðstofuna og hugsa um ýmislegt. Sá eg þá alt í einu að baðstofuhurðin opnaðist og maður gekk inn. Þekti eg þegar að það var Eggert sálaði. Hann var berhöfðaður, og lak niður úr fötum hans, að mér sýndist. Eigi varð eg vitund hrædd. Í einu rúmi í baðstofunni sváfu saman fjögur börn. Gekk hann fyrst að því rúmi, og laut ofan að þremur börnunum, og sýndist mér því líkast sem hann kysti þau. Síðan gekk hann að rúmi smalans, er Sölvi hét, og laut niður að honum og nam það dálítilli stund. Gekk hann því næst að rúmi því, er eg svaf í, og laut ofan að barni, sem svaf fyrir ofan stúlku, sem hjá mér svaf, en eg lá til fóta þeirra í rúminu, og var efst. Svo gekk hann innar eftir baðstofunni og að hurð, er var fyrir húsi í öðrum enda baðstofunnar. Sú hurð var ætíð læst um nætur, og einnig þá. – En er hann kom að henni laukst hún upp, og fór hann inn í húsið. Þar var hann góða stund inni, og vissi eg eigi hvað þar gerðist. Síðan kom hann fram úr húsinu og staðnæmdist þá ekkert í baðstofunni, en gekk rakleiðis út. – Eftir að hann var kominn fram úr baðstofunni, fann eg til dálítillar hræðslu. – Ekki heyrði eg neitt, hvorki hurðaskelli, fótatak eða neitt því um líkt. En kona nokkur, sem lá vakandi í rúmi sínu í húsi í hinum enda baðstofunnar, sagði svo frá um morguninn, að sér hefði heyrzt vera gengið inn í baðstofuna og um hana nokkra stund, og heyrðist henni fótatakið lýsa því, að maðurinn væri rennvotur.
Daginn eftir (12. maí) fanst lík Eggerts heitins af mönnum frá Eyhildarholti,, og sváfu þeir menn í húsi því um nóttina, sem eg sá Eggert sálaða ganga inn í.
Um sumarið dóu öll fjögur börnin, sem eg sá Eggert heitinn lúta ofan að, en barnið, sem hann laut eigi ofan að, lifði og varð fulltíða. Smalamaðurinn, Sölvi, druknaði í kvísl úr Héraðsvötnunum, sem rennur rétt hjá Eyhildarholti, sama sumarið.«
(Sögn Oddnýjar Sigurðardóttur á Hvoli. 1907. Handrit Eyjólfs Guðmundssonar á Hvoli í Mýrdal.)
Nálægt miðri 19. öld bjó bóndi sá í Presthúsum í Mýrdal, er Hannes hét. Hann var vin mikill Brynjólfs bónda á Þykkvabæjarklaustri í Áltaveri, og gengu þeirra gjafir á milli. Hannes þessi druknaði í fiskiróðri í Reynishverfi í Mýrdal á síðasta vetrardag, og öll skipshöfn, fjórtán eða fimtán manns. Öll fundust lík þessara manna rekin, nema lík Hannesar. Leið svo alt sumarið.
Um haustið næsta á eftir dreymir Brynjólf bónda á Þykkvabæjarklaustri, að Hannes vinur sinn komi til sín og biðji sig að hirða bein sín. Brynjólfur man drauminn, en hirðir ekki um, hvað hann hafi að merkja. Næstu nótt dreymir hann aftur, að Hannes kemur aftur og er dapur í bragði, og biður Brynjólf enn að grafa bein sín. Þóttu Brynjólfi draumar þessir einkennilegir, en veit þó engin ráð til að gera að beiðni hans. Þriðju nóttina kemur Hannes enn, og er nú sýnu daprari en fyr; spyr hann Brynjólf, hvort vináttan sé nú kólnuð, eða hvers vegna hann geri ekki þessa síðustu bón sína, að hirða bein sín og grafa þau. Þegar Brynjólfur vaknar, dettur honum í hug að fara á fjörur og leita beina Hannesar. Á fjörunni finnur hann beinagrind af manni, nærri heila. Lætur hann bein þessi í poka, og flytur heim að Þykkvabæjarklaustri. – Á klaustrinu var vinnukona, sem þótti bæði athlægin og kerskin. Þrífur hún til beinapokans hjá Brynjólfi, og hlær mjög að rekanum, sem hann flytur heim. Ekki gaf Brynjólfur sig að því, en lét jarða beinin í kirkjugarðinum. Svo er sagt, að vinnukona þessi yrði vör við sveim Hannesar eða svip næstu nótt, og hafi henni orðið svo bilt við, að hún var lengi utan við sig á eftir, og varð aldrei jafngóð síðan.
(Almenn sögn í Eyjafirði. Handrit Hannesar búfræðings Jónssonar.)
Svo er sagt að bóndi einn hafi búið í Kaupangssveit í Eyjafirði; eigi getur um nafn hans, eða á hvaða bæ hann bjó. Dóttur hafði hann eignazt með konu sinni; andaðist hún ung, og var grafin í Kaupangsgarði. Sagt er að bóndi þessi hafi haft fram hjá konu sinni, en ekki vissi konan af því. Einhverju sinni var mannfundur einn fjölmennur haldinn í Kaupangi að vetrarlagi. Var bóndi þar og hjákona hans. Hittust þau, er dimma tók, undir kirkjugarðinum, og fór hann þar að sýna henni ástaratlot. Hittist svo á, að leiði dóttur hans var þar rétt innan við garðinn. Heyrir hann þá sagt úr leiðinu, og þekti hann þar málróm dóttur sinnar: »Gerðu þetta ekki, pabbi, mundu eftir henni mömmu.« Brá bónda svo við, að hann lét lausa hjákonuna; breytti hann ráðlagi sínu eftir það, og var konu sinni trúr, það sem eftir var ævinnar.
(Sögn Þorbergs sál. Björnssonar, trésmiðs á Þingeyrum. Eftir handriti Páls B. Schram.)
Um miðja næstliðna öld gengu tveir menn einu sinni vestur Miðfjarðarháls í Húnaþingi, hálfum mánuði fyrir jólaföstu. Þegar þeir koma nokkuð upp á hálsinn, þá mæta þeir tólf sauðum fullorðnum. Einn þeirra var mórauður með klukku, annar grár, þriðji svartur, og hinir allir hvítir. Hrukku sauðir þessir á undan þeim ofan að Reykjum í Miðfirði, og furðuðu þeir sig á, hve kindur þessar voru langt frá bygð, því að fé var þá alstaðar haft við hús. Þegar menn þessir koma að Reykjum, er komið fram yfir dagsetur, og biðjast þeir gistingar, og fengu þeir hana. Ferðamenn spyrja, þegar þeir eru komnir inn, hvort þar hafi eigi vantað neitt af fé um kvöldið. Heimamenn segja nei við því. Kona ein á bænum spyr komumenn hvort þeir hafi orðið varir við fé. Þeir segja frá því, sem þeir urðu varir á hálsinum, og lýsa sauðunum með lit, eins og áður hefir greint verið. Urðu heimamenn þá hissa, er þeir heyrðu lýsingu sauðanna, og sögðu, að fyrir stuttu hefðu verið skornir þar tólf sauðir með þessum lit, og voru þeir að raka gærurnar þetta kvöld. Þetta þótti undarlegt, því alstaðar var búið að taka kindur fastar, og var því talið víst, að þetta mundu hafa verið svipir Reykja-sauðanna, sem skornir vóru.
(Eftir handriti Árna bónda Stefánssonar í Litladal og Sigurðar búfr. Pálmasonar á Æsustöðum í Langadal; Árni er uppalinn í Felli í Sléttuhlíð. Handrit J. Jónassonar.)
Draugur þessi kom upp á Bakka á Bökkum, milli Sléttuhlíðar og Fljóta, á fyrri hluta 19. aldar, og fer tvennum sögnum um uppruna hans. Önnur sögnin er þessi:
Maður er nefndur Jón; bjó hann á Krákustöðum í Hrolleifsdal (aðrir segja á Bræðrá í Sléttuhlíð, en hitt mun réttara). Þá bjó á Róðhóli í Sléttuhlíð bóndi, er Björn hét; segja menn hann væri Guðnason, og ættaður úr Svarfaðardal. Báðir vóru þeir lítt vinsælir og fjölkunnugir mjög, og vóru þeir lengi hinir beztu vinir. Er sagt að Björn hafi lært forneskju af Jóni, en ekki er þess getið að hann hafi gert öðrum ilt með þeirri kunnáttu sinni. Jón var kvæntur, og var hinn versti við konu sína; gekk hún oft í burtu, en komst aldrei út úr landareigninni; sneri jafnan aftur, er kom að merkjunum. Trúmaður var Jón enginn, og kom aldrei til kirkju. Þegar fram í sótti, tók að kólna vinátta þeirra Björns, og endaði svo, að svo varð kalt á milli þeirra, sem áður var dátt. Tók þá að bera á því, að Jón varð holdsveikur; ágerðist veiki hans mjög, svo að hann hætti búskap. Þá bjuggu hjón á Heiði6 í Sléttuhlíð, er hétu Jóhann og Lilja. Jón biður hjón þessi að taka sig nú, og lofa sér að vera þangað til hann deyi, en Lilja var ófáanleg til þess, hvað fast sem karl lagði að þeim hjónum. Sagði þá karl um leið og hann kvaddi hana: »Eg vildi að svo gæti farið, að þér þætti jafnmikið miður og mér nú, og mun eg líka reyna að sjá til þess, annaðhvort lífs eða liðinn.« Síðan fór karl heim til sín, lagðist í rúmið, lá þar rúman mánaðartíma og dó síðan síðla sumars.
Þegar Björn á Róðhóli frétti, hvenær ætti að jarðsyngja Jón, kom hann og bað að lofa sér að fylgja líkinu úr landareigninni; baðst hann eftir að mega sitja hjá kistunni á kviktrjánum; var honum leyft það. Þuldi hann eitthvað yfir kistunni út fyrir landamerkin, og sneri þar aftur. Fara svo ekki meiri sögur af jarðarför Jóns.
Einn sunnudag um haustið var fjölmenni mikið við kirkju í Felli. Ætlaði þá margt fólk að vera til altaris, og þar á meðal hjónin frá Heiði. En er þau höfðu meðtekið sakramentið, og voru að ganga frá grátunum, þóttist fólk sjá Krákustaða-Jón koma inn kirkjugólfið, og stökkva í fang konunni. Hún hljóðaði upp, bað guð að varðveita sig og féll í ómegin. Þegar hún raknaði við aftur, var hún orðin brjáluð, og var svo í þrjú ár; ekki talaði hún um annað í brjálseminni, en að Jón væri að ofsækja sig. Jón var og farinn að venja komur sínar á næsta bæ við Heiði, en eigi er þess getið að aðrir sæi hann þar en konan, og var hún nærri orðin brjáluð. Var nú farið til Björns á Róðhóli, og hann beðinn að afstýra þessum vandræðum og ráða af afturgöngur Jóns. Björn kvaðst skyldu reyna, en lét þó í veðri vaka, að ekki mundi dælt við Jón að eiga, því að hann hefði verið fjölkunnugur í lífinu. Segja þá sumir að hann hafi lesið yfir leiði Jóns, en aðrir að hann hafi fyrst komið að Heiði, og tafið þar litla stund; síðan hafi hann farið út fyrir Stafá, og þar að stórum steini, vel mannhæðarháum, og miklum um sig; steinn þessi er kallaður Lurkasteinn. Dvaldi Björn hjá steininum nokkra stund, og fór svo heim. Er sagt að Björn hafi bundið drauginn þar við steininn. Aldrei varð Lilja söm eftir; þó að henni batnaði nokkuð, kom síðar að henni brjálsemi og fásinna. – Þegar kom fram á jólaföstu, fór að verða vart við reimleika á Bakka, næsta bæ við Heiði að telja. Þar bjuggu þá bræður tveir, og hét hvortveggi Jón, Oddssynir. Kona Jóns eldra hét Sigríður, en Þorbjörg hins yngra. Sótti reimleikinn mest að Sigríði, þótt aðrir yrði hans líka varir. Hugðu menn þá helzt, að Krákustaða-Jón hefði losnað frá steininum og vilzt að Bakka.
Hin sögnin um upphaf Bakkadraugsins segir svo frá, að Jón yngri á Bakka hefði átt barn með stúlku, er hann var talinn trúlofaður, en ekki hafi orðið af því að hann ætti hana. Gekk hann síðan að eiga aðra stúlku Þótti þá barnsmóður hans hann hafa svikið sig í trygðum. Fór hún þá til Björns á Róðhóli, og bað hann að vekja upp draug, senda hann að Bakka og láta hann æra Þorbjörgu, konu Jóns. Er svo sagt, að Björn hafi gert það, og sent drauginn, en draugurinn hafi farið kvennavilt, og ráðizt að Sigríði, konu Jóns eldra, og sótt svo að henni, að henni lá við vitfirringu. Magnaðist draugagangur þessi svo, að engum heimilismanna þótti sér óhætt heima að vera, úr því að rökkva tók, og eigi þorðu afbæjamenn að koma að Bakka, nema um hábjartan dag.
Þá var prestur í Felli í Sléttuhlíð séra Stefán Árnason7. Hann var kjarkmaður mikill á yngri árum, og talinn mjög bænheitur. Sigríður á Bakka hafði verið í sókn hans, og kom það í hug, að hann mundi geta létt af sér þessum ófögnuði eða enginn ella. Bað hún því bónda sinn að finna prest og biðja hann að koma úteftir. Jón bóndi brá skjótt við, fór til prests og tjáði honum vandræði sín, og bað hann að koma að tilmælum konu sinnar. Prestur tók því dauflega, og kvaðst lítt fær til þess að bæta úr vandræðum hennar, en lét þó tilleiðast að koma, og reyna hvað hann gæti. Litlu síðar gerði hann sér ferð á Bakka. En er hann var þar kominn, gekk hann nokkra hringi kringum bæinn, og ræddi við Sigríði um stund. Kvaðst hann hafa góða von um að geta ráðið bót á meini hennar, og fekk henni tvo litla miða með nokkrum orðum árituðum; skyldi hún ávalt bera þá á sér, annan á baki, en hinn á brjósti. Síðan gekk prestur umhverfis bæinn um leið og hann fór. En er hann kom á leiti það, sem er fyrir sunnan bæinn, sá fólkið frá bænum að hann teymdi drauginn með sér suður af leitinu. Síðan létti af draugaganginum á Bakka.
Löngu síðar var eg, segir Árni, samtíða syni Sigríðar á Bakka; hafði hann verið í æsku, þegar draugurinn var þar. Hann kvaðst muna vel eftir því, og hafa séð það sjálfur, ásamt hinu fólkinu, þegar presturinn teymdi drauginn; var hann svo sannfærður um það, að ekki var við það komandi, að það hefði verið missýning.
Aths. – Öll líkindi eru á, að Björn hafi leyst Krákustaða-Jón frá steininum, og sent hann að Bakka í þarfir stúlkunnar, og sé því alt saman einn og sami draugurinn. (Björn á Róðhól mun hafa dáið 1860.)
(Sögn Einars Jónssonar frá Hóli; eftir hdr. Árna Davíðssonar á Gunnarsstöðum.)
Seint á 18. öld bjó maður sá, er Guðbrandur hét, Pétursson, á Heiði á Langanesi. Hann var hreppstjóri í Sauðaneshreppi, kjarkmaður mikill og dugnaðarmaður á sinni tíð, og búhöldur hinn mesti. Eitt haust, rétt eftir móðuna 1783, fór hann um hreppinn með Torfa í Hlíð, sem líka var hreppstjóri, til að líta eftir bjargræði manna og meðferð á sveitarómögum. Þegar þeir komu að Tunguseli, insta bæ á Langanesi, stóð svo á, að konan þar, er Guðrún hét, hafði nýalið barn, og var enginn í bænum hjá henni, nema unglingsstúlka og niðursetningur, er hafði verið farið illa með, að sagt er; bóndi var úti við fé. Þeir félagar vildu fá að sjá matarbyrgðirnar, og heimtuðu lyklana, og vönduðu um meðferð á ómaganum. Síðan fóru þeir leiðar sinnar. Konunni féll þetta allþungt, og það svo, að henni sló niður, og hún dó litlu síðar.
Óðara en Guðrún var dáin, fór að bera á reimleika á Heiði. Var mest sótt að konu Guðbrands, og ágerðist það svo, að hún hafði engan frið, hvorki nótt né dag. Var það Gunna, sem ásótti hana. Svæfi hún fyrir framan Guðbrand, var Gunna framan við rúmstokkin með allskonar ógnunum og skrípalátum, en svæfi hún fyrir ofan Guðbrand, var Gunna milli þils og veggjar og lét sömu látum. Gerðist konan svo ringluð af þessu, að hún varð ekki mönnum sinnandi, og heimtaði að láta flytja sig vestur í sveitir til ættfólks síns, og var það gert; en þegar hún var komin yfir Skjálfandafljót, hvarf aðsóknin frá henni. Varð hún alheil síðan, en aldrei kom hún á slóðir austur þar eftir þetta. Jafnframt því að æra konu Guðbrands, ásótti hún og dætur hans, Lísibetu og Katrínu, svo að þær urðu hálf-frávita báðar alla ævi síðan. Þær dóu báðar nokkuð aldraðar (Katrín ekki fyrri en rétt fyrir 1850), barnlausar, og höfðu aldrei gifzt. Dó ættleggur Guðbrands þannig alveg út.
Ekki lét Gunna þar við sitja að ásækja Guðbrand og ættfólk hans, heldur ásótti hún engu síður Torfa í Hlíð og fólk hans. Kvað svo ramt að því, að hún gekk þar ljósum logum, og réðst á Torfa nokkrum sinnum, bæði í vöku og svefni, og var honum svo harðskiftin að hann komst oft nauðulega úr klóm hennar. Þegar Torfi var gamall orðinn, varð hann blindur, en var þó enn vel ern. Hafði hann þá meðal annars þann starfa á sumrum að berja harðfisk, er mikið var til matar hafður á þeim tímum. Var fiskurinn barinn við stein úti á hlaði, svo sem þá var alsiða. Eitt sinn, er að var komið, lá Torfi dauður við fiskasteininn; var Gunnu um kent, að hún hefði farið undir sleggjuhausinn, sett hann í höfuð karli og rotað hann.
Eftir þetta fór heldur að draga úr afturgöngum Gunnu, en altaf hélt hún til í Hlíð. Einar Jónsson8, er saga þessi er eftir höfð, sagði, að hún hefði mjög oft látið sjá sig, bæði í vöku og svefni; lýsti hann henni svo, að hún væri lág vexti, í gráu pilsi, stuttri, hvítleitri skyrtu, lögðum bol og með krakka á handlegg, eða þá framsett sem ólétt kona. Í hvert sinn, sem einhver kona eða stúlka af Hlíðarættinni varð ólétt, kvaðst hann hafa séð Gunnu; leit hún þá út eins og hún væri komin á steypinn; hefði hún þá otað að sér bambanum; eins hefði hann séð hana á undan öllum stórviðburðum; hefði hún þá verið með ýmsum tilbrigðum. Aldrei sagði hann hún hefði gert skaða á gripum eða munum, en oft hræddi hún fólk með skrípalátum sínum, því að altaf fylgdi hún allri Hlíðarættinni.
(Sögn Helga Jónassonar á Gvendarstöðum í Kinn. Handrit Jónasar kennara Jónssonar frá Hriflu.)
Maður er nefndur Jón og var kallaður kerri að auknefni. Hann bjó um tíma í Bárðardal og bygði þar nýbýli, sem heitir Brenniás og er nú (1906) fyrirmyndarjörð. Seinna fluttist Jón út í Köldukinn og var húsmaður í Hólsgerði, og leið þar nauð allmikla. Dó hann þar háaldraður (um 1840) og var grafinn í Þóroddsstaðagarði. Heldur þótti Jón forneskjulegur, og héldu menn hann fjölkunnugan. Árni hét bóndinn í Hólsgerði, og var hann drykkjumaður mikill. Jónas hét þá hreppstjórinn í Yztafelli. Þótti hann harðdrægur í garð fátæklinga, er leituðu styrks af sveitarfé. Kerri hafði beðið um sveitarlán, en Jónas þverneitaði; reiddist Jón, sem von var og kvaðst skyldu launa grimmilega, þótt seinna yrði.
En er liðinn var nokkur tími frá dauða Jóns, ber svo, til að Jónas hreppstjóri kemur frá kirkju á Þóroddsstað, og er ölvaður. Ríður hann heim í Hólsgerði og falar vín hjá Árna. Drekka þeir saman um stund, og var dagur að kveldi kominn, er Jónas reið frá Hólsgerði. Það var um haust. Tungl óð í skýjum og veður milt. Ríður Jónas vestur göturnar og sem leið liggur fram móts við Gvendarstaði. Dró þá ský frá tunglinu og sér Jónas mynd afarstóra færast á móti sér eftir götunni. Sér hann brátt að þar er Kerri kominn, og er heldur gustillur. Draugurinn þrífur í taumana og stöðvar hestinn og mælti: »Nú skal eg gjalda þér skuld mína, og mætti svo fara, að hér yrði þitt endadægur.« Kreppir draugurinn hnefann, og sýndist Jónasi sem hvert augnablik væri sitt síðasta. Grípur Jónas þá hægri hendi dauðahaldi í tauminn, en svipuna í hina vinstri og snýr hestinum við á svipstundu og hleypir á leið heim í Hólsgerði, en svo sýndist honum sem draugurinn héldi enn í tauminn. Koma þeir að síðustu heim undir bæinn í Hólsgerði. Þar fellur hesturinn, en Jónas kemur niður standandi. Hleypur hann undir drauginn og gangast þeir að sterklega, en það finnur Jónas, að eigi fær hann rönd við reist og var því líkast, sem helkaldur draugurinn frysti hvern blóðdropa í líkama hans. Sér Jónas að svo búið má eigi standa, og þylur »Faðir vor« í hálfum hljóðum. Finst honum sem undarlega dragi af draugnum, og þegar hann hefir lokið við blessunarorðin, varð Kerri að þokustólpa og hvarf síðan með öllu. Vill nú Jónas freista að ná tali af mönnum í Hólsgerði, og skríður upp á baðstofuvegginn, en svo var af honum dregið að hann mátti ei mæla.
Þegar Jónas fór úr Hólsgerði höfðu heimamenn lagzt til svefns í ljósaskiftunum. En er menn hafa sofið um stund, heyrir kerling ein gömul þrusk á glugga sínum og vekur Árna. Gengur hann út og finnur Jónas meðvitundarlausan á baðstofuveggnum. Raknaði hann skjótt við og varð alheill, en engum varð meint af Kerra framar, svo sögur fari af.
(Handrit Guðmundar Guðmundssonar í Landakoti.)
Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur Jónsson fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið, að fyrir mörgum árum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu, og var þess því getið til, að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinti hann ekki, en mig minnir að hann hætti við að grafa kjallarann. Svo var bærinn bygður, og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum, og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið alt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði alt fólkið (nema húsbóndinn) við það, að hurðunum að herbergjunum niðri var skelt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, fámálug og sannsögul, sem enn lifir, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona, og hefir hún sagt mér þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði eg í ungdæmi mínu sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekti engan þeirra. Kona þessi hét Sigríður, og var mjög orðvör og vönduð kona. – Móðurbróðir minn, Jón, var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var bygður. Ekki man eg hvort það var hann, eða einhver annar af vinnumönnunum sem fór ofan í stigann, einhverju sinni, þegar mikið gekk á niðri, um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn.
Húsbóndinn sjálfur, Jón Jónsson, varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það alt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni.
Guðmundur Guðmundsson bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón bygði bæ þann, er að framan er getið; var hann þá farinn að róa. Með honum reri vinnumaður eða lausamaður, sem átti heima á bænum, að nafni Magnús Ólafsson, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Guðmundur kvaðst stundum á sjónum hafa spurt hann um það, sem við bar á heimilinu. Karlinn vildi lítið um það tala, en sagði honum þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu. Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn. »Varð þér ekki bilt við?« spurði Guðmundur. »Ekki svo mjög,« svaraði hann. »Maður er orðinn þessu svo vanur,« bætti hann við.
Guðmundur segir mér að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minsta kosti eitt ár. Það var þá, er Sigríður sú, sem fyr er getið, skygndist inn í stofuna í gegnum gluggann um albjartan dag, og sá þar inni sex menn óþekta.
Sú saga gekk hér um þessar mundir, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.
(Sögn Jóns Magnússonar á Utanverðunesi og Björns Schrams. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Á fyrri hluta nítjándu aldar bjó maður sá á Illugastöðum í Laxárdal nyrðra (en hvort það var í þeim ytri eða fremri fer tvennum sögum), er Finnbogi hét. Ingibjörg hét kona hans og áttu þau margt barna. Finnbogi þessi var þrifamaður hinn mesti, bráður í skapi og lét fátt fyrir brjósti brenna. – Seint á engjaslætti einhverju sinni deyr niðursetukerling hjá Finnboga. Er líkið látið út í skemmu, er var á hlaðinu, og lætur húsfreyja hnakksessu bónda síns undir höfuðið á líkinu; það voru kallaðar yfirsessur. – Þegar liðin er vika, segir konan við bónda sinn einu sinni, hvað hann hugsi, að láta ekki fara að smíða utan um kerlinguna. Finnbogi heldur það liggi ekki á; það sé ekki farið að slá í kerlinguna. Þó verður það úr, að hann fer að leggja á hest og ætlar af stað, en þá vantar yfirsessuna. Leitar hann alstaðar að henni, en finnur eigi; verður nú óðamála, og spyr hvern fjandann sé búið að gera af henni. Konan segir: »Því lætur þú svona, maður; eg lét hana undir höfuðið á líkinu.« Karl segir það sé ekki ónýtur fjandi, að láta hana undir dauðan kerlingarhausinn; rýkur út í skemmuna og kippir sessunni undan höfðinu á líkinu, svo hnakkinn skall ofan í bekkinn. Ríður hann nú af stað á hesti bráðfjörugum. Segir ekki af ferðum hans fyr en hann kemur að ánni, sem rennur fyrir neðan bæinn, á heimleiðinni um kvöldið, er dimt var orðið. Þegar hann ríður út í ána, kemur hann hestinum alt í einu ekki úr sporunum. Sér hann þá að kerling er þar komin og stendur fyrir hestinum, svo hann kemur honum ekkert áfram, hvernig sem hann berst um og bölvar. Verður hann loksins að fara af baki, vaða ána og teyma hestinn, og það alla leið heim á hlað. Finnbogi hafði sterka, járnbúna svipu í hendi. Hleypur hann nú að kerlingu, sem altaf flækist fyrir honum, með reidda svipuna, en hún líður undan og inn um skemmuhurðina, þar sem hún stóð uppi; en skemman var læst. Karlinn var nú orðinn fokvondur. Rýkur hann á hurðina og mölvar hana í spón; hleypur að líkinu og rekur því rokna löðrung og segir: »Þú skalt ekki gera mér þetta oftar, bölvað kvikindið þitt!«
Eftir þetta var kerling grafin, og bar aldrei á henni framar.
Frá þessu sagði Ingibjörg, ekkja Finnboga, Birni Schram, sem sagði söguna áreiðanlega sanna.
(Sögn Pálma Jóhannssonar á Sæbóli, Bjarna Einarssonar frá Bólu, og eftir handriti Sigurðar búfr. Pálmasonar á Æsustöðum. 1908. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Svo er sagt, að á Úlfsdölum hafi fyrrum búið maður sá, er Rafn hét. Er í munnmælum að hann hafi sökt kút með peningum ofan í dý eitt, sem er skamt fyrir sunnan bæinn á Dölum, og látið stóra hellu ofan á, og mælt svo um, að engum skyldu verða peningar sínir að liði fyrri en fúnir væru úr sér jaxlarnir. Sunnan við bæinn er aflangur hóll, er liggur frá suðaustri til norðvesturs, og er nefndur Höfði. Neðst í hólnum er stór steinn, og neðan undir honum er dýið. Efst á hól þessum var skemma, þegar eg var á Dölum. Svo hagaði húsum á Dölum þá, að sunnan við bæjardyr var smiðja; sneri það hvorttveggja til vesturs; en á móti smiðjunni var skemma á hlaði, og 3-4 faðma breitt sund á milli. Þegar komið var utan hlaðið, sást ekki til dýsins fyrir skemmunni, en skemman á hólnum sást aðeins við smiðjuhornið. Einn dag um haustið komum við úr róðri sem oftar, en komum fyrri að en vant var, svo að enn var albjart af degi; lentum við í Dalabæjarvör; eg átti þá heima á Máná, næsta bæ við Dali, og er skamt á milli. Þeir, sem með mér voru, gengu heim að Máná, en eg fór heim að Dalabæ. Þegar eg kem utan hlaðið, sé eg mann ganga frá skemmunni á höfðanum, ofan hólinn. Sá eg þegar að þetta var ekki heimamaður, svo var búningur hans frábrugðinn. Hann var í mósvörtum buxum, sem náðu rétt ofan fyrir sokkabandsstað, en að ofan var hann í hempu eins litri, með uppbrotna lambhússhettu á höfði. Eg flýtti mér suður hlaðið, til þess að sjá hvað af honum yrði, en hann hvarf fyrir skemmuna, sem stóð á hlaðinu. Eg gekk þegar suður fyrir skemmuna, en sá þá ekkert. Áleit eg á eftir, að þetta mundi hafa verið svipur Rafns þessa. (Sögn Pálma.)
Það heyrði eg og sagt, að Rafn þessi hefði hvolft undir sér smáfari með öðrum manni undan Dölum, og hefði þeir druknað þar. Er almenn sögn, að stundum hefði hann sézt þar framundan í ýmsum myndum, stundum sem skip á hvolfi, stundum sem stórtré með hrúgaldi á báðum endum, eða þá sem uppborinn haugur. Var á fólki að heyra, að þegar þetta sæist, væri ætíð von á hálfsmánaðar illviðri. Aðrir segja að Rafni hafi þótt synir sínir tveir sækja slælega sjóinn; hafi þeir einu sinni komið heim í björtu, og verið létthlaðnir. Reri karl þá með þeim að vitja um selanætur í illu veðri, og fórust allir.
(Sögn Sigríðar Jónsdóttur á Geirastöðum í Mývatnssveit. 1906. Handrit manns hennar, Baldvins Stefánssonar.)
Árið 1873 var eg vinnukona í Ási á Hólsfjöllum. Þann vetur varð úti (um veturnætur) vinnukona frá Víðirhóli þar á Fjöllunum, sem Kristjana hét. Faðir hennar hét Kristján og átti heima í Ási, sama bæ og eg. Honum var tilkynt þetta, og fór hann að leita að líkinu degi síðar en hann fekk tilkynninguna; en um kvöldið, áður en hann fór, þegar allir voru seztir að, vóru barin fjögur stór högg í hurð, sem var milli bæjardyra og gangna og heyrði eg glögt, þegar hurðin skall upp að veggnum og aftur að dyrastafnum, en eigi varð neins annars vart þá nótt. Allan veturinn eftir þetta heyrðist glögt, að gengið var um bæjarsundin og baðstofuþakið. Eitt kvöld voru í Ási tveir næturgestir, og segir þá annar þeirra upp úr þurru: »Gamli Grettir farinn að ríða húsum.« – Tekur þá vinnukona undir og segir: »Glámur var það, en Grettir eigi!« – »Já, já, Glámur þá,« segir gesturinn. Seint á einmánuði um veturinn (á skírdag) var þessi Kristján, sem áður er nefndur, ekki heima, en von á honum heim um kvöldið. Eg sat inni í baðstofu og Jón húsbóndi minn; það var um nónbil. Þá heyrðum við að komið var upp á gluggann og töluð þar tvö orð; héldum við að einhver mundi vera kominn, og var farið út að gá að því; þar var enginn og ekkert sást, hvorki spor né annað, er bent gæti á, að einhver hefði komið. En um kvöldið stundu eftir miðaftan, kemur Kristján, fer upp á þennan sama glugga, og guðar þar.
(Sögn Önnu Sveinsdóttur að Húsavík nyrðra. Eftir handriti Jakobs Hálfdanarsonar.)
Einu sinni var eg á ferð um hásumar, fyrir hér um bil tuttugu árum, og kom að næturlagi í Saltvík, sem er skamt frá Húsavík. Bjuggu þar þá Jóhannes og Jóhanna, sem nú eru í Ytri-Tungu. Eg hitti þar tvö börn, Jónas og Guðrúnu, sem vöktu yfir túni. Þau tóku mér vel, gáfu mér að drekka og vísuðu mér svo til rekkju í stofu, því eg var ferðlúin og syfjuð, og vildi gjarnan hvíla mig. Inn í stofuna var gengið úr skemmu eða skála norðan við bæjardyrnar. Í skálanum voru amboð og ýmisleg stórgerð búsgögn. – Þegar eg hefi litla stund hvílt í rekkjunni, heyri eg rótað í einhverju í skálanum, kastað til amboðum og gengið að með ýmsu umfangi, eins og þar séu menn nokkrir, svo eg get eigi sofnað; dettur mjer þá í hug, að þar muni vera börnin, og eg skuli biðja þau að vera úti, svo að eg geti sofið; fer því á fætur og litast um í skálanum. Þar sést þá enginn maður. Ætla eg þá, að þau hafi getað snarað sér svo skyndilega út, er þau urðu þess vör, að eg hreyfði mig. Eg fer því fram og út, til þess að ganga úr skugga um það, og sé þá bæði börnin vestur á Langholti, sem er langt vestan við túnið, svo óhugsandi var, að þau hefðu verið þar í skálanum. Eg fer því inn og legst aftur til svefns, en það fer á sömu leið, að enn er tekið til að ruska um skálann, svo að mér dettur eigi annað í hug, en að einhver sé kominn á fætur, og sé að athuga þar eitthvað. – Mér sárnar ónæðið að fá eigi að sofa; fer því enn á fætur, lít fram í skálann, og er þá sem fyr; ekkert kvikt sjáanlegt og alt rótlaust. Legst eg nú fyrir af nýju, en þá tekur ekki betra við. Heyrist þá til skálans vein mikið, er síðan snýst upp í hrot, sem helzt við og ágerist, – verður furðu hátt, og ámátlegt í mesta lagi. Þá vaknar upp fyrir mér hvað vera muni. – Maður sá, er Jónas hét, og nefndur var grjótgarður, alþektur fyrir garðlagningu sína á ýmsum stöðum, hafði fyrir skömmu verið fluttur, eftir byltu af hesti, dauðrotaður inn í þennan skála; hafði hann haft þar þetta hrot um sinn og dáið út úr því. – Eg hafði kynzt Jónasi nokkuð; rís nú enn upp, vind mér fram í dyrnar í vondu skapi og segi: »Þér er eigi til neins að vera að þessu, Jónas grjótgarður, eg þekki þig, og er ekki lifandi ögn hræddari við þig nú, heldur en fyrri. Láttu mig hafa frið til að sofna, ella skaltu hafa verra af.« – Að þessu búnu legst eg í rekkjuna, hrotið dettur niður, og ber ekki neitt á neinu framar.
Þegar fólk kemur á fætur um morguninn, tekur Jóhanna húsfreyja mér vel; segir, að vel hafi eg gert, að þora að vera þarna ein í stofunni, því enginn fáist til þess með góðu, síðan fráfall Jónasar kom fyrir. – Eg kvaðst eigi hafa orðið neins vör, því að eg vissi að það mundi heimilisfólkinu hollast. Sá það glögt á að húsfreyju þótti vænt um. – Liðu svo fram tímarnir, að eg sagði engum fyrirburð þennan.
(Sögn Guðmundar bónda Jónssonar í Hrísey. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Haustið 1889 reri hjá mér ungur maður og skýr vel, er Stefán hét Sigurðsson, bróðir Sigmundar úrsmiðs á Akureyri. Héldum vér til í sjóbúð suður og niður af Syðstabæ í Hrísey. Nótt eina gengur Stefán út í búðardyrnar. Tunglslýsi var nokkurt og hjarn. Sér Stefán þá þar suðaustur frá búðinni á hæð nokkurri, sjötíu til áttatíu faðma burtu, einhverja einkennilega þústu á kviki, og virtist hún helzt vera í mannsmynd. Tvær búðir vóru þar á leiðinni milli Stefáns og veru þessarar, þó ekki í beinni stefnu. Færist þetta nú að þeirri búðinni, er nær því var, en dvelst þar eigi; heldur það svo í áttina til þeirrar næstu. Á þeirri leið staldrar náungi þessi við lítið eitt, og lækkar alt í einu mjög mikið, en verður afar-digur. Heldur síðan áfram og hefir þá hið fyrra sköpulag sitt. Frá þeirri búð til búðar minnar vóru nálægt fjörutíu faðmar. Þar hefir þetta litla viðdvöl, og stefnir nú til Stefáns, og ber þá ótrúlega fljótt yfir. Var líkara að það svifi áfram en gengi, og er í einni svipan komið til Stefáns, og er sem svarar fjórum föðmum frá honum. Lízt honum þetta nú eigi frýnilegt. Var sem slæða væri utan um það, er flaksaðist frá því, og var ekki annað að sjá innifyrir en eitthvað er líktist beinagrind. Riðaði það alt og skjögraði, og var svo ófélegt ásýndum, að með orðum verður því eigi lýst. Langaði Stefán lítið til þess að komast í nánari kunningsskap við óskapnað þennan, og var hann þó engin veimiltíta, skellir því aftur hurðinni og legst á að innan. Stóð svo litla stund, lauk hurðinni aftur upp og leit út. Var þá vera þessi horfin, jafn-hljóðlaust og hún kom. – Frá þessu sagði Stefán mér um morguninn. Var hann sannorður maður, eins og hann átti ætt til. Dó hann nokkrum árum síðar.
Sólheima-Móri.
(Sögn Sumarliða pósts, Guðmundar á Ásláksstöðum í Kræklingahlíð við Akureyri. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Móri var upprunalega sendur stúlku einni á Skriðnes-Enni í Strandasýslu. – Þóttist maður sá, er Móra sendi, eiga stúlku þessari grátt að gjalda í ástamálum. – Páskadagsmorgun einn kemur stúlkan inn, og ætlar að fara að borða þykkan graut úr aski sínum, eins og þá var títt. En er hún hafði borðað tvo spæni, kom blóðgusa upp úr henni, og hné hún örend niður um leið. – Þetta var fyrsta afreksverk draugsins, en mörg spellvirki vann hann síðar, því að eftir þetta fylgdi hann ættmönnum stúlkunnar og fluttist með þeim að Sólheimum, fremsta bæ í Laxárdal í Dalasýslu. Gerði Móri mikið ilt af sér, bæði þar á heimilinu og víðar, jafnt mönnum sem málleysingjum, þó að hér verði fátt eitt talið. Hlaut hann nú nafnið Sólheima-Móri, þvíað þar mun hann hafa haft mestan viðloða, og fylgdi Finni bónda, sem lengi bjó á Sólheimum, og þótti hann sækja illa að, enda var Móri ætíð kominn á undan honum, og gerði eitthvert skammarstrik af sér. Sáu hann jafnt óskygnir sem skygnir, svo jarðefldur var draugur þessi. Fekk hann þá oft þær viðtökur hjá gömlu konunum, að þær skvettu úr hlandkoppum sínum á hann; snautaði hann þá burtu lúpulegur. – Einu sinni sáu menn að Móri labbar inn á bæ þar í grendinni, og innar eftir baðstofu. Þar stóð borð með kaffiáhöldum og leirílátum. Hann smokrar sér innundir borðið og rekur hausinn uppundir svo að alt fór ofanaf því og brotnaði mélinu smærra. Að því starfi loknu fór Móri út. Kom Finnur rétt á eftir og sá viðskilnað Móra. Varð fátt um veitingar.
Einhverju sinni sá séra Búi Jónsson á Prestbakka Strandasýslu (1836-48) Sólheima-Móra inni í kór, meðan hann var að embætta. Kvað hann þá vísu þessa:
Gæða-spar mér þussinn þótti
þils hjá bjórnum;
sá eg hvar hinn sólheimótti
sat í kórnum.
Mun það með fádæmum, að draugur sé svo magnaður, að hann þoli að sitja í sjálfum kórnum undir helgum tíðum.
Vinnumannahald gekk eigi vel á Sólheimum eftir að Móri settist þar að. Varð snögt um þá fjóra eða fleiri, hvert árið eftir annað, af völdum Móra. Vildu fáir verða til þess að fara þangað. Loks gaf einn sig fram og hélt hann hræddist ekki Móra. Gekk það lengi vel, að hann varðist draugnum. Kvöld eitt kom hann þreyttur frá fjárgeymslu, og hallar sér afturábak upp í rúm sitt og sofnar, án þess að viðhafa vanalegar varúðarreglur, því að maðurinn hafði gleymt Móra þá stundina. Kemur draugurinn þá og slær vinnumann voða-högg fyrir brjóstið og sprengir hann. – Þegar lík manna þeirra, er Móri sá fyrir, vóru færð til kirkju, vóru hafðir tveir hestar til skiftis undir líkið, því að kirkjuvegurinn að Hjarðarholti er hálf þingmannaleið frá Sólheimum. Sáu menn á bæjunum í dalnum, að líkhestinum sem átti að ganga laus, var riðið, og gat þar eigi annar verið en Móri. Á heimleið frá kirkjunni sligaðist ætíð annar líkhesturinn, er kom fram á móts við Leiðólfsstaði, sem er bær austan árinnar. Þar bjó um þessar mundir bóndi sá, er Jón hét. Hirti hann hrossskrokkana og egndi fyrir refi við skothús sitt. Græddist honum fé. Hann átti annálaðan skeiðhest, jarpan að lit. Fóstra mín, Guðrún Magnúsdóttir, ólst upp hjá Jóni bónda, og var vel kunnug atburðum þessum, og mörgum fleiri óknyttum Móra, sem hér verða eigi taldir. Var hún greind kona og athugul; sagði hún mér af athæfi Móra það sem hér er tilfært, og fleira, þótt eg hirði eigi frá að segja að þessu sinni.
(Sagnir um Móra eru og í Sagnakveri B.B., II, bls. 12-13.)
(Sögn Sigurðar Jónssonar á Árgerði í Eyjafirði. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Séra Björn Jónsson (prestur í Bólstaðarhlíð 1784-1825) var merkur maður og valmenni. Það var siður hans á kvöldvökum á vetrum að ganga út í kirkju. Eitt kvöld, sem oftar, gengur prestur fram úr baðstofunni, en rétt á eftir honum fer fram ein vinnukona hans, er Guðbjörg hét, Pálsdóttir, til þess að vitja um nýþveginn fatnað. Þegar hún kemur fram til bæjardyra, sér hún að prestur stendur innan við dyrnar og styður sinni hendi á hvorn dyrastaf. Hún heyrir að hann mælir eitthvað, en þó eigi hvað það er. Hún ætlar þá að smeygja sér út hjá honum, en hann bannar henni útgöngu og skipar henni að fara inn aftur. Hún veit eigi hvað veldur þessu, en þorir þó eigi annað en að ganga inn aftur. Eftir nokkurn tíma kemur prestur inn í baðstofuna, þar sem vinnufólkið var, og kveðst þá banna öllum að fara nokkuð út úr bæ það kvöld og næstu nótt, nema að hann viti af, og var því hlýtt. Um morguninn fer Steingrímur, vinnumaður prests, fyrst á fætur. Hann gengur þá til hesthúss, lætur út hrossin og rekur þau á leið til haga. Þegar komið er út fyrir túnið, lá leiðin hjá gömlum tóftar-brotum; en er Steingrímur kemur þangað með hrossin, rís einn hesturinn snögglega upp á aftur-fætur, fellur jafnskjótt niður og er þegar dauður. Steingrími verður bilt við þetta, ýtir samt hrossunum eitthvað frá, bregður sér svo heim og segir presti sínar farir eigi sléttar. Prestur þegir um stund og segir síðan: »Mér kemur þetta má ske eigi á óvart, að eitthvað kynni að koma fyrir undarlegt.« Spyr hann þá Steingrím, hvort hann viti til þess, að hann hafi gert svo mikið á hluta nokkurs manns, að hann verðskuldi hegningu fyrir. Steingrímur verður seinn til svars, en prestur biður hann að segja sér satt um þetta; þá segir Steingrímur, að fyrir all-löngu hafi hann orðið ósáttur við mann einn undir Jökli út af viðskiftum þeirra, og eftir hans reikningi eigi hann hjá sér nokkra dali, sem hann segist hafa neitað að borga, en þá hafi viðskiftamaðurinn heitið því, að hann skyldi fá makleg málagjöld áður langt um liði. »Hefðir þú sagt mér þetta,« mælti prestur, »þá hefði eg ráðið þér til að borga, og eg hefði hjálpað þér, ef þess hefði þurft,« og svo bætir hann við: »Það sem kom fram við hestinn, átti að lenda á þér, en því var mér hjálpað til að afstýra.«
Guðbjörg sú, sem áður er nefnd, er dáin fyrir fáum árum hér í Árgerði. Hún varð níutíu og níu ára gömul, og sagði mér sögu þessa á síðustu árum æfi sinnar. Þess skal getið að Guðbjörg hafði merkilegt minni og mikið sálarþrek. Hún var vel greind og vönduð kona í orðum og athöfnum.
(Eftir hdr. Jóns Magnússonar í Utanverðu-Nesi í Hegranesi. 1907.)
Á árunum 1845-1860 bjó bóndi sá í Utanverðu-Nesi Hegranesi í Skagafirði, er Jón hét; hann var Markússon, og var kona hans Sigurlaug Gísladóttir, sterka, prests frá Hafsteinsstöðum. Vinnumaður var hjá honum, er Pétur hét, nafnkunnur glímu- og kraftamaður. Eitt ár bar svo til í Nesi á jólaföstu, að þrír menn komu utan af Skaga og beiddust gistingar; var hún þeim velkomin. Daginn eftir var norðan stórhríð, og fóru þeir því hvergi, en á þriðja degi var komið gott veður, og héldu þá Skagamennirnir áfram út á Austurland: Höfðaströnd eða Óslandshlíð. Nóttina eftir að þeir fóru, og Pétur ætlaði að fara að sofa (hann svaf í rúmi gegnt baðstofudyrum), hrekkur hann upp við það, að honum sýnist strákur á mórauðum fötum koma að rúminu og ætla ofan á sig, en hörfar frá, er hann vaknar. Gengur þetta þrisvar sinnum, að strákur kemur jafnharðan og Pétur ætlar að sofna; hrekkur hann þá upp að nýju, og kom svo ekki dúr á auga alla nóttina. – Kvöldið eftir, þegar átti að fara að hátta, segir Pétur Jóni frá þessu. Býðst Jón því til að sofa hjá Pétri; verður það úr að Jón háttar fyrir framan Pétur. En þegar Jón er sofnaður, hrekkur hann upp við það, að Pétur lætur illa í svefni, og brýzt um á hæl og hnakka, en þegar Jón vaknar, ber ekkert á því. Varð svo Jón að vaka alla nóttina, því að með því móti gat Pétur sofið. Daginn eftir sendi Jón yfir að Áshildarholti. Þar bjó þá Guðmundur Jónsson, sonur Jóns sterka, er lengi bjó á Hryggjum. Guðmundur þessi var karlmenni að burðum og yfirsetumaður með afbrigðum, og álitinn ramskygn. Þeir vóru vinir miklir, Jón og Guðmundur, og óðara en Guðmundur fekk orðin að koma fór hann yfir að Nesi.
Þegar átti að fara að hátta um kvöldið, segir Jón að það sé réttast að þeir Guðmundur sofi saman í rúmi Péturs um nóttina, og var það látið svo vera. Háttar svo Jón fyrir ofan Guðmund. Þegar Jón er nýsofnaður, hrekkur hann upp við það, að Guðmundur er kominn ofan úr rúminu og er að opna baðstofuhurðina, hastar á einhvern í ákafa og skirpir mikið. Jón fer ofan á eftir karli í nærfötunum, en þegar hann kemur í bæjardyr, þá er Guðmundur kominn út og upp á tún, og er alt af að skamma einhvern og sveia. Þegar Guðmundur kemur aftur, segir hann Jóni, að fjandinn hann Skaga-Eiríkur hafi verið kominn hér. Það hljóti að hafa komið hér einhverjir utan af Skaga, sem hann hafi orðið eftir af; segir Jón það satt vera. Þetta sama kvöld bar svo við í Áshildarholti, að þegar kona Guðmundar er nýháttuð, tekur eitt barnið sem hjá henni var, að hljóða, og segir það sé strákur á mórauðum fötum að glenna sig og skæla framan í sig. Gengur þetta alla nóttina, að konan má ekki sofna, því að þá tekur barnið til að hljóða, en næstu nótt á eftir, þegar Guðmundur var heim kominn, bar ekki neitt á neinu.
(Sögn Karítasar Sveinsdóttur á Mikla-Hóli. Hdr. Zóphoníasar prófasts Halldórssonar í Viðvík. 1906.)
Þessi Karítas, er segir frá, var sjö ár vinnukona hjá séra Benedikt Vigfússyni á Hólum í Hjaltadal og þar í fjósi með annari stúlku. Einu sinni, er Karítas kom í fjósið, bað hin fjóskonan hana að fara á undan sér, þar eð hún var í bráð vant við komin. Í þá daga vóru eigi hafðar eldspýtur, eins og nú, en ljósið var borið í íláti, er haft var lok yfir. En er hún er komin af stað, heyrir hún að einhver gengur hart í myrkrinu á undan sér. Hláka var úti og bleyta mikil. Fann hún, hversu uppá sig slettist bleyta af hinum harða gangi þess, er á undan gekk. Kallaði hún þá, hver þar væri, en enginn gegndi. Fór hún samt alla leið í fjósið, og heyrði þennan gang alla leið. En er hún fer að taka ljósið upp úr kollunni, er það slökt fyrir henni. Fór hún þá heim aftur og kveikti, lagði aftur á stað, og varð hún þá alls hins sama vör og fyr, og hélt að þetta væri einhver heimamanna, er ætlaði að hræða sig. Verður hún því reið, og hugsar sér, að láta ekki undan. Og er ljósið sloknar, fer hún enn eftir ljósi heim, og heldur enn með það áleiðis í fjósið. Sýnist henni þá maður fara á undan sér í mórauðri kápu. Að öðru leyti fór alt sem fyr. Kemur hún nú enn heim í bæinn, og var þá hin stúlkan tilbúin, og fara þær nú báðar. Verða þær nú einskis varar. En er þær fara að brynna kúnum, vill ein kýrin alls eigi fara inn í brunnhúsið, en lét eins og óð. Morguninn eftir var þessi kýr fár-veik, og engin mjólk í henni, en kveldið áður voru í henni fimtán merkur. Var leitað ráða hjá nærfærnum manni, og batnaði henni aftur. En um morguninn, er komið var úr fjósinu, komu menn utan af Höfðaströnd að fjósinu, og var álit manna, að þetta hefði verið draugurinn »Eiríkur góði«, eða »Strandagesturinn«, er hefði fylgt þeim, eins og mörgum Höfðstrendingum.
(Eftir handriti Þorsteins Þorkelssonar á Hvarfi.)
Einu sinni vóru hjón nokkur auðug einhverstaðar hér á landi. Þau áttu son einn barna. Varð hann snemma gróðamaður mikill, og eignaðist jarðir nokkrar, auk þeirra, er hann fekk eftir foreldra sína. Þegar hann var fulltíða, bað hann sér bóndadóttur einnar, er var talin mesta búkonuefni, en hafði það í skilyrði, ef hún ætti sig, mætti hún engum manni gefa ölmusugjafir. Tók hún því vel, og sagði sér fyndist hún ekki vera sköpuð til að gefa. Síðan áttust þau, og fóru að búa, og græddu á tá og fingri; féll vel á með þeim, enda þóttu þau bæði vera lík að nízku; eigi áttu þau barna. Bóndi var vanur að fara á ári hverju að heimta saman landsskuldir af jörðum sínum, og vóru sumar langt frá. Eitt vorið fór hann eina þessa ferð; en meðan hann er burtu, kemur förukona ein á heimili hans; var hún mjög illa til reika, bæði svöng og klæðlítil. Í þann tíma var tízka meðal kvenna að ganga í hempum, er kallaðar vóru, þegar þær fóru út af heimilinu, og enda stundum heima fyrir. Förukonan gerir nú boð fyrir húsfreyju og sýnir henni hempu sína, en hún var ekki nema »rífandi ræksni« eitt, og að öllu ónýt. Biður hún nú húsfreyju að gefa sér nú lélegustu hempuna, sem hún eigi til. Húsfreyja tekur þessu ekki illa, og gefur henni hempugarm, sem vel mátti í vera. Bað förukonan guð innilega að launa henni líknsemi hennar og fór svo leiðar sinnar.
Nú kemur bóndi heim; það var venja hans, er hann kom heim, að spyrja, hvort enginn flækingurinn hefði komið, og hvort honum hefði þá ekki verið vikið einhverju. Svo gerði hann og í þetta sinn. Húsfreyja sagði sem var, og kvaðst hafa gefið klæðlausri förukonu lakasta hempugarminn sinn. »Já,« sagði bóndi, »það kann lagið á því, þegar eg er ekki heima. Þessi hempa var fullgóð til þess að vera í henni í fjósið.« Eigi alllöngu eftir þetta lagðist húsfreyja sjúk, og dó síðan. Nú þótti bónda ekki vel fara, og ófært að búa konulaus. Var hann nú maður nær miðaldra. Bað hann nú bóndadóttur einnar, er hann þekti í næstu sveit, og setti upp hið sama og við hina fyrri; ekki kvaðst hún taka nærri sér að ganga undir það skilyrði. Giftust þau og fóru að búa, gáfu engum neitt, en græddu þó lítið. Liðu svo nokkur ár. Eitt vor fór hann í landsskuldaheimtur, sem venja hans var til, og lagði áður ríkt á við konu sína að gefa engum, þó að þeir kynnu að flækjast þar að garði og beiðast ölmusu. Lofar hún góðu um það. – Þar í túnjaðrinum var kot eitt lítið; bjó þar ekkja ein bláfátæk með mörg börn. Um þessar mundir veiktist eitt barnið, og þyngdi fljótt, svo að ekkjan þóttist sjá eitt kvöldið, að það mundi ekki lifa af nóttina. Þetta var snemma vors, og nótt enn dimm. Fór hún þá heim á höfuðbólið, og ætlaði að biðja húsfreyju að hjálpa sér um ljós til að láta lifa hjá barninu um nóttina. Þegar hún kom, var húsfreyja háttuð. Fann hún þá vinnukonur, og bað þær að bera þessa bæn sína fram fyrir húsfreyju. Hún sagði þeim að fá henni lýsi og fífu, og gæti hún hagnýtt sér það sjálf. Hún fer nú með ljósmetið, og hrökk það vel til næturinnar, en barnið dó við dægramótin.
Þegar bóndi kom heim, spyr hann hins sama og vant var. Húsfreyja sagði að enginn hefði komið, nema ekkjan í kotinu hefði beðið sig um ljós til að hafa hjá barninu, á meðan það væri að deyja. »Það hefði nægt eitt kvöld í fjósið,« sagði bóndi. Skömmu síðar lagðist konan veik og dó. Vóru þau barnlaus, og höfðu arfleitt hvort annað.
Nú þótti bónda alt ætla að ganga erfiðlega; hann var orðinn hniginn á efra aldur, og þótti ósýnt hann fengi nú aftur kvonfang við sitt hæfi, en með ráðskonum treystist hann ekki að búa. Hann hafði heyrt getið bóndadóttur einnar í næstu sveit, er mikið var af látið; ekki vissi hann um það, hvort hún væri greiðug eða ekki, en ef svo væri, var það hans mesta mein. Stúlkan var einbirni, og stóð til að erfa eignir nokkrar. Hann ræður nú af að finna foreldra hennar, og ber upp erindi sitt. Þau vísa til hennar, og segja hún ráði um gjaforð sitt. Hann kallar svo stúlkuna á eintal, og ber upp fyrir henni bónorðið. Hún tekur því ekki illa, en setur eitt skilyrði, og spyr hvort hann setji nokkur slík. »Eg vil ekki láta gefa,« segir hann. Hún setur þá upp að mega hafa með sér fóstursystur sína fyrir vinnukonu, því hún kveðst annars varla mundu una sér hjá öllum ókunnugum. Er nú þetta að ráði gert, að bóndi fær stúlkunnar. Tók hún við búsforráðum, er heim kom, og sást brátt á að hún var búsýslukona mikil, og vinsæl. Stúlku þá, sem með henni kom, hafði hún til að útbýta gjöfum þeim, er hún gaf fátækum, og leið svo að árum skifti, að bóndi vissi ekkert um örlæti hennar. Að lyktum komst hann þó á snoðir um, að hún mundi gefa. Nefnir hann þá við hana, að hún megi ekki gefa, þó með hægum orðum, því hann unni henni mjög. Hún segist lítið gefa, en mannorðsins vegna megi maður ekki hafna allri greiðasemi. Líður svo enn um stund, og kemst nú bóndi að fullu fyrir gjafmildi hennar. Hún segist þá verða að gefa á meðan hún lifi, því eigi sé að vita hve lengi hún þurfi á að halda, enda hafi bú þeirra ekki gengið saman síðan hún kom til hans, enda sé þau nógu rík, ekki sé börnin til að hugsa þeim fyrir arfi, og muni hún þess vegna gefa eins og áður. Bóndi svarar engu, en gengur burtu, og fer að gráta. Eftir þetta jók hún gjafir sínar til fátækra sem mest hún mátti, og bjuggu þau svo saman í mörg ár. Þá var það eitt sinn að áliðnum vetri að húsfreyja lagðist veik, lá nokkrar vikur og dó síðan; saknaði bóndi hennar mjög. Tók hann nú að þreytast af áhyggjum sínum, og eiga bágt með svefn; fór hann oft einförum og undi illa. Líður svo fram á næsta vor. Eitt kvöld er bóndi lengi andvaka í rúmi sínu, og hugsar um hagi sína. Að lyktum sígur að honum svefn. Dreymir hann þá að hann er kominn í land, sem hann þekkir ekki; var þar bæði hrjóstrugt, dimt og kalt, og einlægar gjár og gjótur yfir að fara. Að lyktum grillir hann í þústu eina; þegar hann kemur nær, sér hann að þetta er fyrsta kona hans. Þykist hann þá segja við hana: »Því ert þú hér?« »Eg var látin í þetta land forsmánarinnar,« segir hún, »af því að eg gerði aldrei neinum manni gott. Eina skjólið mitt hér er hempugarmurinn, sem eg gaf förukonunni, því að hún slitnar aldrei. Og hingað átt þú nú að koma.« Bónda varð heldur hverft við draum þennan, og hrekkur upp, vakir um stund, en sofnar aftur. Var hann þá aftur kominn á sama landið, og sér einhverja skímu álengdar, og reynir að klöngrast þangað yfir allar torfærurnar. Sér hann þá, að hér er miðkonan hans. Spyr hann hana, því hún sé hér. »Eg var látin hér í þetta land svívirðingarinnar, af því að eg gerði engum manni gott,« segir hún; eina skemtunin, sem eg hefi hér, er ljóstýran, sem eg gaf fátæku ekkjunni, því að hún sloknar aldrei. Og hingað átt þú nú líka að koma.« Bóndi hrekkur upp við þetta, og þykir draumar sínir þungir, og vakir um stund, en sofnar þó enn. Var þá nær miðri nóttu. Þá dreymir hann, að hann er kominn á land svo fagurt, að aldrei hafði hann slíkt séð. Vóru þar skemtigarðar og aldinreitir, og úði þar alt og grúði af fólki í hinum skrautlegustu klæðum. En sjálfur þóttist hann svo tötralega til fara, að hann skammaðist sín fyrir að vera innan um hitt fólkið. Honum fanst hann vera að leita að einhverju, en vissi ekki að hverju. Að lyktum kemur hann í aldingarð einn mjög fagran, og var þar fult af prúðbúnu fólki. Þar kemur síðasta kona hans á móti honum, og er alúðleg mjög. »Því ert þú hér?« segir hann. »Eg var látin á þetta land sælunnar, af því að eg gerði svo mörgum gott,« segir hún. »En hingað fær þú eigi að koma, nema þú breytir ráði þínu, og gefir fátækum eigur þínar, mest þó einum fátækum barnamanni, og biðjir hann síðan að vaka yfir þér dauðum, og síðan þrjár nætur yfir leiði þínu. Ef þú hlýðir þessu, færðu að koma hingað, en annars ekki.« Hann ætlaði að tala eitthvað meira við hana, en hún hvarf honum í mannþröngina, og hann vaknar. Vakti hann svo það er eftir var nætur, og íhugaði drauma sína og æviferil sinn, og þóttist vita að hann væri brátt á enda. Íhugar hann nú, að hann þráði að eiga nízka konu, fekk tvær þeirra, og þá þriðju greiðuga, og hafði grætt mest með henni. Það fann hann og, að þriðja kona hans hafði unnað honum, og svo mundi hún enn gera. Líka þóttist hann vita, hvaða barnamann hún hefði átt við í drauminum; þá gætti hann og þess, að eigur sínar færu til fjarlægra útarfa, ef hann ráðstafaði þeim ekki á annan hátt. Velti hann þessu lengi fyrir sér, oft og mörgum sinnum, og komst seinast á fasta niðurstöðu, hvað af skyldi ráða.
Bóndi nokkur bláfátækur var þar í sveitinni, er átti fjölda barna. Gerði hann honum boð að finna sig snemma um vorið, og tjáir honum að hann sé að hugsa um að hætta að búa, og vill fá honum í hendur ábýlisjörð sína með öllu búinu, dauðu og lifandi, en sjálfur kveðst hann vilja fá að hýrast í húsunum, og biður hann bónda að sjá um sig, meðan hann lifi, og svo um útför sína, gegn fullu endurgjaldi, vaka yfir líki sínu, þegar hann sé látinn, og síðan þrjár nætur yfir leiði sínu. Bóndi tekur þessu með þökkum, og flytur á jörðina í fardögum. Gamli bóndinn hvarf nú með öllu frá veröldinni, gaf fátækum vel og hyggilega og gerði alt gott sem hann gat. Liðu svo fjögur ár. Þá veiktist hann og andaðist vel og kristilega. Gerði bóndi útför hans með heiðri og sóma, vakti yfir líki hans meðan hann stóð uppi, og varð engrar nýlundu var. Síðan vakti hann fjórar nætur yfir leiði hans, eftir að hann var grafinn. Fyrstu nóttina sá hann að púki nokkur kom með gogg í klónum, líkan heykrók, og fór að krafsa ofan í leiðið, en varð ekkert ágengt; hvarf hann svo að stundarkorni liðnu. Aðra nóttina kom hann aftur með nokkra púka með sér; fóru þeir eins að, en það fór á sömu leið; hurfu þeir svo að nokkrum tíma liðnum. Þriðju nóttina komu þeir enn, og vóru þá enn fleiri, en engu fengu þeir áorkað. Bóndi stóð álengdar í garðinum, og sá allar aðfarirnar. Seint um nóttina glenti foringi þeirra, er við leiðið vóru, upp glirnurnar, og sér hvar bóndi stendur. »Ekki skal mig furða,« segir þá púkinn, »þó oss gangi lítið á, þegar kristins manns augun eru hjá og horfa á.« Bóndi snarast þá í einum svip að klukkunum, og hringir í ákafa, og hurfu þá allir púkarnir í einu vetfangi. Fjórðu nóttina vakti hann enn, og varð einskis var, og hætti svo að vaka.
Bóndi þessi varð mesti lánsmaður síðan; kom hann öllum börnum sínum vel til manns, og bjó þarna á jörðinni vel og lengi til dauðadags.
(Sunnlenzk sögn. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Einhverju sinni var piltur einn í Skálholtsskóla; var hann prestsson, og átti presturinn heima einhversstaðar langt í burtu; var hann auðugur af gripum og gangandi fé. Seinasta veturinn, sem hann var í skóla, andaðist faðir hans, og þegar hann hafði lokið prófi um vorið, fór hann heim til sín, og seldi allan arf sinn fyrir peninga; var það mikið fé. Síðan tók hann svo mikið af peningum þessum, sem hann hugði að mundi nægja til utanferðar, en lét hitt í böggul, innsiglaði hann, og fór með hann til hjóna nokkurra þar í sveit, sem höfðu verið aldavinir föður hans. Bað hann þau að geyma böggulinn, þangað til hann kæmi aftur úr siglingunni. Hann var nú þrjú ár á háskólanum, og kom síðan hingað til lands aftur. Ríður hann nú þegar til þeirra hjóna, og biður þau nú að skila sér aftur peningunum. Þau þverneituðu, að nokkrir peningar sem hann ætti, væru í sínum vörzlum, og hefðu þeir aldrei í sínar hendur komið; varð hann svo að fara svo búinn heim aftur. Þótti honum ilt að láta svo búið standa, og fór til sýslumanns, og kærði þau fyrir þjófnað. Var þeim svo stefnt, og málið rannsakað. Þverneituðu þau, bæði saman og sitt í hvoru lagi, að þau hefði nokkurntíma við neinum peningum tekið, enda hafði stúdentinn fengið þeim peningana í hendur vitnalaust, og gat því engar sönnur fært á mál sitt. Hófu þau hjónin síðan mál á hendur honum, og varð hann sekur um álygi, að reyna að koma stórþjófnaði á saklausa og heiðvirða menn. Féll hann á málinu, og var dæmdur til lífláts, og átti að fullnægja dóminum daginn eftir. Nóttina áður en lífláta skyldi manninn, sat hann í fangelsi sínu og var dapur í bragði. Kom þá til hans maður að luktum dyrum, klæddur gráum kufli, og spurði hann, því hann væri svo angurvær. Pilturinn sagði hið sanna. Þá sagði grákuflinn við hann, að á morgun, þegar menn væru saman komnir, til þess að vera við líflát hans, skyldi hann biðja sýslumanninn að spyrja hjónin að nýju, því að þau mundu verða við stödd, til þess að horfa á líflát hans. Því sagði hann að sýslumaður mundi neita, en þá skyldi hann kalla á sig, og nefna sig Grákufl. Með það hvarf hann út aftur. Um morguninn var pilturinn sóttur í fangelsið og fluttur til aftökustaðarins. Var þar kominn sýslumaðurinn, hjónin, og fjöldi fólks, til þess að vera við. Pilturinn bað nú sýslumann að gera hina síðustu bæn sína, og rannsaka málið að nýju, og spyrja hjónin enn. Sýslumaður tók því illa, sagði það væri ekki til neins, enda væri búið að ljúka málinu, og yrði ekki farið að hreyfa við því aftur. Þá kom Grákufl þar alt í einu fram, og sagði, að það skyldi nú samt verða svo, og bað sýslumann leyfis, að hann mætti spyrja hjónin ögn sjálfur, áður en pilturinn yrði líflátinn. Lét sýslumaður það eftir. Síðan gekk Grákufl til hjónanna og mælti: »Viljið þið standa fast við það, að þið hafið ekki tekið við peningunum?« Þau játtu því djarflega. »Viljið þið þá gefa ykkur fjandanum upp á það?« segir Grákufl. Þau játuðu því líka. Þá vatt Grákufl sér að sýslumanni og sagði: »Leitið þið undir koddanum þeirra, áður en þið líflátið manninn.« Svo sneri hann sér að hjónunum, tók þau sitt við hverja hönd sér, og leiddi þau út úr hópnum, og hefir hvorugt þeirra sézt síðan. Peningaböggullinn fanst undir koddanum þeirra, eins og til var vísað, og var innsiglið ósnert fyrir honum. Nærri má geta að ekkert varð af lífláti piltsins.
(Sunnlenzk sögn. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Einu sinni var bóndi nokkur vellauðugur, sem bjó á kirkjustað; hann var svo vinnuharður og ónærgætinn við hjúin, að engin vinnukind toldi hjá honum ári lengur. Hann var kvæntur, og átti eina dóttur barna, gjafvaxta, er saga þessi gerðist. Eitt vorið gat hann engan vinnumann fengið; var hann þá ráðalaus, og reið af stað um krossmessuleytið, til þess að reyna að útvega sér einhvern. Þegar hann var búinn að ríða lengi, og leita víða fyrir sér, og hafði engan fengið, mætti hann manni gangandi og heilsar honum. Maðurinn tók kveðju hans, og spurði hann, hvert hann væri að fara. Bóndi sagði sem var. Maðurinn sagði það væri óþægilegt fyrir hann að vera vinnumannslaus, og lét bónda heyra á sér að hann væri á lausum kjala. »Viltu verða vinnumaður hjá mér?« segir bóndi. Eg er ekki frá því,« svaraði maðurinn, og hvað sem þeir töluðu um þetta lengur eða skemur, þá réðst maðurinn í vinnumensku til bónda. »En hvaða kosti ætlar þú þá að setja,« segir bóndi. »Eg set það upp, að þú giftir mér dóttur þína, ef þér líkar við mig,« segir maðurinn. »Jæja,« segir bóndi, það getur vel verið, að eg gefi hér hana, ef mér líkar við þig.« – »Og svo set eg það upp,« segir maðurinn, »að konan þín skipi mér aldrei nokkurt verk.« – »Það held eg sé hægast,« segir bóndi, »eg hefi víst nóg til að þræla þér út við, þó að þú farir ekki að vinna fyrir hana.« Síðan fóru þeir heim, og var bóndi heldur en ekki hróðugur yfir vinnumanninum. Kona hans spurði hann nú, þegar hann kom heim, hvort hann héldi að það væri nokkurt lið í þesum manni. Bóndi kvaðst halda að svo væri, »því að eg hafði varla við honum á honum Grána mínum, þó að hann væri gangandi, og er þó Gráni nokkuð sprettharður. »Vinnumaður reyndist líka hinn ötulasti, og rak af hvert verkið á fætur öðru á svipstundu, svo að enginn skildi í því, hve miklu hann gat afkastað. Hann var bónda þægur, og gerði alt sem hann vildi, og hafði lag á að gera það ævinlega eins og hann vildi, og þótti því bónda dag frá degi vænna um hann. Ekki töluðu þau saman, konan og vinnumaðurinn og ekkert áttu þau saman að sælda nema það eitt, að hann tók við mat sínum af henni. Því tók konan eftir, þegar fram leið á vorið, að vinnumaður svitnaði aldrei, hvað sem hann gerði; fór hana þá að gruna margt, og að þetta mundi ekki vera einleikið. Þó talaði hún fátt um það fyrst. Eitt laugardagskvöld undir slátt kom vinnumaður til bónda, og spurði hvað hann ætti að gera í kvöld. »Mér þætti gott,« segir bóndi, ef þú gætir skroppið hérna upp í fjallið og svipazt að hellu, sem eg gæti haft fyrir varinhellu við bæjardyrnar hérna.« Vinnumaður hélt það mætti takast, og brá sér upp í fjall, og kom að stundu liðinni með hellu svo mikla á bakinu, að engum menskum manni var hún bær, og reisti hana upp við bæjarkampinn. Ekki var hann sveittur að heldur. Spurði hann bónda, hvort hann ætti að koma niður hellunni, en kona bónda var þar við, og bað bónda að láta svo vera í kvöld. Döknaði þá vinnumaður í framan og fór á burt, en konan hélt áfram og sagði við bónda: »Mér lízt ekki á mann þennan, ekki sízt þegar hann hefir komið þessu bákni heim fyrirhafnarlaust, og ekki svo mikið sem svitnað við það. Nú ætla eg að biðja kirkjufólkið á morgun að skoða helluna og vita, hvort það heldur að menskur maður hafi getað rogað henni.« Bóndi lét það vera. Svo eftir embætti daginn eftir kom konan út, og leiddi kirkjufólkið að hellunni, og spurði það, hvað það héldi um þessa hellu. Skoðaði það helluna í krók og kring, og varð það álit manna, að ef hún væri brotin í sundur yrði hún nógar klyfjar á 30 hesta. Um kvöldið lét bóndi vinnumann koma fyrir hellunni, og var hann ekki lengi að því fremur en að öðru. Um kvöldið, þegar þau vóru háttuð, hjónin, sagði konan: »Með hvaða kjörum fór þessi vinnumaður til þín?« – »Hann áskildi sér það,« segir bóndi, »að eg gæfi sér dóttur mína, ef mér líkaði vel við sig, og eg verð líklega að gera það, því að eg get ekkert út á hann sett, og hefi aldrei fengið ákjósanlegri vinnumann á ævi minni.« – »Mikill ólánsmaður ertu,« segir konan; »eg er hér um bil viss um, að þetta er enginn annar en Satan sjálfur, og vona eg þú viljir ekki láta barnið okkar í hans hendur.« Það fór heldur en ekki að fara um bónda, en konan hélt áfram »Nú ætla eg að biðja þig eins: það er að gefa mér verkin hans á morgun.« – »Hann setti það líka upp,« segir bóndi, »þegar hann réðst til mín, að þú skyldir ekkert verk skipa sér, en þó skal það svo vera.« Morguninn eftir kom vinnumaður inn til bónda, og spurði hvað hann ætti að gera. Bóndi sagði að konan sín ætlaði honum eitthvert verk í dag, og kvaðst hann biðja hann að gera það fyrir hana. Vinnumaður döknaði mjög og svaraði: »Ekki á það að vera eftir samningi okkar.« – »Það verður nú samt svo að vera,« segir bóndi, »eg skipa þér það.« Vinnumaður fór þá til konunnar, og spyr hana hvað hann eigi þá að gera, og er heldur styggur. »Og það er nú hægt verk og lítið,« segir hún, og er þér óhætt að borða morgunskattinn fyrst. Leið svo dagur til hádegis. Þá kom konan að máli við vinnumann og sagði: »Eg hefi ætlað þér það verk í dag, fyrst sólskinið er, að taka messuklæðin og kirkjubækurnar út úr altarinu, breiða það út í kirkjugarð og viðra það vandlega, taka það síðan saman aftur, og láta það hreinlega inn í altarið aftur. Það er ekki erfitt karlmannaverk.« Vinnumaður varð svartur af reiði, en fór þó og mælti ekki orð. Fór hann svo til vinnu sinnar, og var allan daginn að bauka við þetta, og var altaf löðrandi sveittur. Þó kom hann inn undir háttatímann, og var þá búinn. Konan bað um að hún mætti eiga verkin hans á morgun líka, og kvaðst ekki skyldi biðja um það oftar. Bóndi lét það eftir. Vinnumaður kom inn um morguninn eftir vanda, og spyr, hvað hann eigi að gera. Bóndi vísaði til konu sinnar. Vinnumaður varð sótsvartur í framan, en stökk þó til konunnar, og spurði, hvað hann ætti þá að gera. »Eg skal segja þér það bráðum,« svaraði hún, »það liggur ekkert á; það verður engin stritvinna.« Leið svo dagurinn fram undir miðaftan. Þá kallaði konan á bónda sinn, og bað hann að vera við verk það, er hún ætlaði vinnumanni að gera. Hann var til með það. Kallar hún nú á vinnumann, og biður hann að koma með sér út í kirkju. Þegar þangað er komið, sagði hún honum að fara inn í gráðurnar; gerði hann það með semingi. Þá tók hún bók upp úr vasa sínum og sagði: »Lestu nú þetta fyrir okkur, en lestu rétt, og haltu viðstöðulaust áfram.« Vinnumaður fór að lesa, þó mjög dræmt, og vildi altaf lesa skakt og snúa út úr, en hún skipaði honum með harðri hendi að lesa rétt og viðstöðulaust. Þetta var píningarhistorían. Öðruhverju varð vinnumaður að hætta fyrir þyngslum og mæði, en hún rak hann jafnharðan til að halda áfram. En þegar kom að orðunum: »Það er fullkomnað!« stóðst vinnumaður ekki lengur, heldur sökk þar niður fyrir altarinu, ofan um kirkjugólfið, en bókin varð eftir í gráðunum. Bóndi varð nú fegnari en frá verði sagt, enda leitaði kölski aldrei á hann framar. Bóndi varð allur annar maður eftir þetta, og fór ágætlega með fólk sitt, enda varð hann aldrei í vinnumannahraki upp frá því; en að vorverkunum hans kölska bjó hann allan sinn búskap.
(Sögn skólapilta í Rvík. Handrit Jónasar Jónassonar, yngra. 1908.)
Jón hét maður og var kallaður Húsavíkur-Jón; ekki er getið um ætt hans né uppruna, né hvar hann átti heima. Jón þessi var hið mesta illmenni og orðhákur, svaðalegur og ráðríkur fram úr hófi og hélzt ekkert fyrir honum. Þegar hann var orðinn gamall, dó hann, eins og lög gera ráð fyrir, og jafnskjótt sem hann er kominn yfir um, arkar hann af stað áleiðis til himnaríkis; hann kom þangað að kvöldi dags og barði að dyrum. Sankti Pétur kom þegar til dyra; heilsar Jón honum kompánlega og beiðist gistingar. »Eg verð að gá að, hvort nafn þitt er ritað hjá mér,« mælti Pétur, og dró fram afarstóra skræðu þar í bæjardyrunum; var hún hálfslitin upp úr bandinu og auðséð, að í henni var blaðað daglega; »í þessari bók eru nöfn flestra þeirra, sem eiga að fá vist hjá mér.« Pétur fór að blaða, en ekki fann hann nafn Jóns þar. »Nafn þitt er ef til vill í litlu bókinni,« mælti Pétur og sótti aðra skræðu miklu minni; hún var rykug, og auðséð, að sjaldan var blaðað í henni; »í þessari bók eru nöfn velgerðamanna mannkynsins, presta, biskupa og réttlátra leikmanna; þú, hlýtur að vera þar á meðal, góðurinn minn.« En ekki fann Pétur nafn Jóns þar, hvernig sem hann leitaði. »Einhverstaðar hlýt eg þó að vera,« mælti Jón og fór að verða svipþungur. »Eg veit ekki hvernig þetta fer,« mælti Pétur og klóraði sér á bak við eyrað, »nema ef svo væri, að nafn þitt sé í litla kverinu.« Sótti þá Pétur lítið kver og fornfálegt, rykugt og svo myglað, að blöðin loddu saman; var auðséð, að því hafði ekki verið flett í hundrað ár. »Í þessu kveri eru að eins nöfn postulanna, píslarvottanna, kristniboðanna og helgra manna, en þú ert ef til vill einn af þeim.« — »Það þykir mér vel líklegt mælti Jón; en ekki fann Pétur nafn hans þar. Þá fór Jón að verða vondur og kvað það dónaskap mikinn að úthýsa sér, vegmóðum manni, en Pétur færðist undan með hægð og mælti að lokum: »Eg kannast ekkert við þig, Jón minn, en ekki vænti eg þú getir sagt mér neitt um ætt þína eða æviatriði þín, eða miðað við eitthvað sérstakt, þá gæti verið, að eg kannaðist eitthvað við þig.« Jón svaraði stuttur í spuna: »Eg heiti Jón og er kallaður Húsavíkur-Jón.« – »Nú, þá þekki eg þig,« mælti Pétur. »Þú átt að gista annarstaðar en hér. Líttu á, þarna fyrir utan og neðan moldarbarðið, langt niðri í sortanum, er staður, sem þér er ætlaður; biddu þar um gistingu,« og um leið smeygði Pétur sér inn fyrir dyrastafinn og skelti í lás.
Jón heldur nú sem leið liggur norður og niður fyrir moldarbarðið, og kemur að lokum til helvítis; kom hann þar um háttatíma og barði að dyrum. Svartur púki kom til dyra; heilsar Jón honum og spyr, hvort húsbóndi sé heima; púkinn kvað svo vera, og fer inn aftur. Djöfsi kemur brátt út í eigin mynd, heilsar Jón honum með kossi og handabandi og beiðist gistingar, segir, að sér hafi verið úthýst í himnaríki og vilji hann nú leita á náðir hans. »Eg verð fyrst að gá að nafninu þínu í bókunum mínum,« mælti kölski, og þrífur geysiþykka skræðu undan torfu þar í bæjarsundinu; »hér eru nöfn minna sauða.« Ekki stóð nafn Jóns þar. »Þá er að gá í litlu bókina,« mælti kölski og sótti inn minni bók, »hér eru rituð nöfn hinna ranglátu, svikara, þjófa, ræningja, hórkarla og hinna meiri guðleysingja.« Ekki fann hann heldur nafn hans þar. »Hvernig í fjandanum stendur á þessu,« mælti kölski og hringaði rófuna hugsandi, »nafn þitt hlýtur þá að vera í kverinu á meðal nafna helztu gæðinga minna.« Sótti hann þá inn lítið kver; vóru spjöldin orpin og virtist kverið hafa verið geymt á hlóðarsteini mánuðum saman; »í þessu kveri eru nöfn hinna argvítugustu bófa og illmenna, morðingja, meinsærismanna og trúvillinga; verið gæti, að þú værir þar einn á meðal«. »Ekki mundi eg roðna, þó það kæmi upp úr kafinu, en gistingu vil eg hafa,« mælti Jón. En ekki var nafn Jóns ritað þar. »Fæ eg þá ekki að vera?« sagði Jón og fór að síga í hann. »Eg er hræddur um ekki svaraði kölski og var hugsi. »Það er þá skárri gestrisnin hérna megin,« mælti Jón; »sagt var mér þó í lifanda lífi, að þú hýstir alla þá, sem reknir væru út á gaddinn í himnaríki og veittir þeim húsnæði ókeypis, – og værir þú ekki fjandinn sjálfur, mundi eg vísa þér norður og niður. Það verður skárri skemtunin að liggja úti í annari eins tíð og núna.« »Vertu hægur, vinur minn,« mælti kölski blíðlega; »ættfærðu þig, og segðu mér eitthvað um ævi þína, þá kannast eg ef til vill eitthvað við þig.« – »Eg heiti Jón, og er kallaður Húsavíkur-Jón,« svaraði Jón, alveg fokvondur. »Nú-ú,« mælti kölski, »þá kannast eg við piltinn; það var ekki von að þér væri veitt gisting í himnaríki, þér var ætluð vist hjá mér, en eg hefi heyrt þín að illu getið, og er sannfærður um, að ef þú kemst einu sinni inn í ríki mitt, verð eg ekki framar konungur þar, heldur þú. Eg vil vera húsbóndi á mínu heimili, og þess vegna þorði eg ekki að rita nafn þitt í mínar bækur. Nú veiztu, hvernig stendur á öllu þessu.« – »Einhverja úrlausn verður þú að veita mér,« mælti Jón. – »Já, vinur, – svaraði kölski, það skal eg gera. Þarna lengra norður og niður, þar sem sortinn er þykkastur, er hola, og þar skaltu búa um þig. Þar skaltu stofna nýtt helvíti og taka við þeim, sem eg þori ekki að taka í vist hjá mér. Eg skal líka gefa þér einn lítinn eldköggul.« – »Það verður nú aldrei mikið bál úr honum,« mælti Jón. »Stíktu þá á þig þessari taðflögu,« mælti kölski, »með minna byrjaði eg.«
Jón þá köggulinn og flöguna og fór að ráðum kölska; hann fann holuna, sem til var vísað, og stofnaði þar annað helvíti. Tekur hann þar enn í dag á móti þeim, sem kölski þorir ekki að vista hjá sér, og segja menn, að Jón hafi þar nóg til að bíta og brenna.
(Eftir handriti Árna Stefánssonar í Litladal. 1907.)
Í Fells landareign í Sléttuhlíð í Skagafirði er lækur, sem kallaður er Knappstaðalækur. Hann rennur úr Knappstaðavatni suður í Hrollleifsdalsá; hann er nálega straumlaus, vatnið er mjög gruggugt, svo að óvíða sér í botn, og sumstaðar eru grængolandi, djúpir hyljir. – Á læknum er sú trú, að í honum eigi heima óvættur nokkur eða vatnahestur, og þykjast menn hafa séð hann í hylum þeim hinum miklu.
Einhverju sinni bar það við, þegar Hálfdan prestur var í Felli, að illa voraði, og urðu menn seinir fyrir að koma taði á tún; svo var og í Felli. En er illviðrum létti, komu húskarlar prests að máli við hann, og kváðu það seint mundu ganga að koma mykju á túnið, er væri stórt, en hestar fáir og magrir undan hörðum vetri og vori. Prestur sagði að það væri dagsanna, »og vil eg,« kvað hann, »leita ráðs, til þess að það geti gengið sem greiðast. – Nú skuluð þér smíða mykju-kláfa, afarsterka, og svo stóra, að í þá komizt tíu hestburðir, en eg mun útvega hest undir burðinn.« Þegar kláfa-smíðinu var nærfelt lokið, hvarf prestur vestur fyrir hæðina, en kom bráðlega aftur með gráan hest í taumi; sá var ferlega mikill og illilegur. Var nú lagður á hann reiðingur og kláfarnir miklu, en prestur kvaðst sjálfur ætla að teyma. Gengu nú húskarlar rösklega að verki, og um náttmál var lokið að bera á alt túnið; var þá sprett af klárnum sunnan undir kirkjugarðinum, en prestur bað þá að slá ekki til hans, þegar honum væri slept. Einn húskarla brá þó á sitt ráð, sló beizlinu í lend hestinum, þegar hann tók út úr honum. Klárinn brá skjótt við, sló aftur undan sér og vildi ná til mannsins, en hann varp sér til hliðar, svo höggið nam hann ekki, en hófarnir lentu í kirkjugarðinum með svo miklu afli, að mikill hluti hrundi til grunna. – Síðan tók hesturinn til fótanna upp tún og hvarf vestur fyrir hæðina. Hefir hann eigi séðst síðan. Er talið víst að hestur sá hafi verið nykurinn úr Knappastaðalæk.
Oft hefir verið hlaðið upp í skarðið í kirkjugarðinum, en ávalt hrunið úr því bráðlega aftur. – Þegar Stefán prestur Árnason var í Felli, var skarðið sjáanlegt og illa toldi í því, þó upp í væri hlaðið.
Nokkrir segja að einn af heiðingjum þeim, er drepnir vóru í flóanum10, hafi steypt sér í lækinn og aldrei komið upp síðan, en eftir það hafi vætturin sézt í læknum.
Þegar Stefán prestur Árnason var í Felli (1848-50), var það eitt vor, að út var haldið báti til fiskiróðra af Árósmöl, en á leiðinni þaðan til bæjar er Knappstaðalækur. Einu sinni var piltur, nær því fullvaxinn, sendur ofan á mölina, til þess að hagræða þar fiski, en hann kom aftur með mesta flýti og sagðist hafa séð hest niðri í læknum; hefði hann brotizt þar um og ekki komizt upp úr. Húskarlar brugðu skjótt við, og hlupu sem fætur toguðu til lækjarins, en þá sást þar enginn hestur, og enginn merki til, að nokkur umbrot hefðu orðið, þar sem pilturinn sagði að hesturinn hefði verið.
Einnig hafði sézt hestur langt frá uppi í hvömmum, rétt um það bil sem piltinum sýndist hann í læknum. Geta menn þess til, að það hafi verið hinn sami. Piltur þessi er sannsögull og hrekkjalaus, og enginn grunar hann um að hafa skrökvað þessu.
(Sögn Sigurlaugar Jónasdóttur í Hróarsdal. Hdr. Tryggva Indriðasonar.)
Jón Benediktsson afi minn, var sjötugur, þegar hann dó, laust fyrir 1880. Hann lá í rúminu síðustu tvö árin, sem hann lifði. Eg var látin vera inni hjá honum, til þess að láta vita, ef hann þyrfti einhvers með. Mér leiddist að geta ekki leikið mér úti með systkinum mínum á sumrin, og stytti hann mér stundir með því að segja mér sögur. Hann byrjaði á þessa leið eina söguna:
Þegar eg var um tvítugt, tók eg við búi af föður mínum í Hróarsdal. Það var eitt sumar að flóð lá óvanalega lengi á enginu, svo ekki var hægt að fara að slá það, þegar túnið var búið. Mér kom þá til hugar að fara austur í Torfadal, í hvamminn við Hólmavatnið.
Eg gekk nú af stað. Veður var heitt, sólskin og logn. Þegar eg kom ofan að vatninu, hugði eg að byrja þar að slá, því þar var gott gras; en þegar eg er hálfnaður að slá hvamminn, sækir mig svo mikill svefn, að eg get ekki vakað. Lagði eg mig því til svefns, og sofnaði fljótt. Mig dreymdi að það kom að mér stór skepna, eg þóttist eg vita að það væri nykur, en þó talaði það og sagði: »Ef þú hættir ekki að slá hvamminn minn, skal eg draga þig út í vatnið.« Eg þóttist sjá að skepna þessi ætlaði að efna orð sín, því að hún beit í buxnaskálmina mína og dró mig af stað. Mér þótti eg reyna að losa mig, en gat ekki; eg reyndi að hljóða, en það kom ekki heldur að liði. Loks vaknaði eg, og var þá hálfur úti í vatninu. Eg hætti að slá og fór heim, og ekki hefir verið slegið í hvammi þessum síðan. – Hólmavatn er kippkorn fyrir austan bæinn Hróarsdal í Skagafirði og veiðist mikill silungur í því. Þegar afi minn vitjaði um net sín, sagðist hann oft hafa séð stóra skepnu rauðkinnótta í vatninu. Er það trú manna að nykur sé í vatni þessu. Áræðir enginn (þegar það er lagt), að ganga þvert yfir það, því að þegar komið er svo sem þrjá faðma út á vatnið, fer að orga í því, eins og ísinn ætli að springa undan fótunum. Vatn þetta er stöðuvatn langt uppi í landi, umgirt klettum og flóum, og er haldið að sjór renni í það undir jörðunni, því að nýrunnin ljósnál veiðist þar oft.
(Sögn Ásgríms verzlunarmanns Péturssonar að Hofsós. 1906. Eftir handriti sonar hans Péturs Hafsteins. Hdr. Tryggva Indriðasonar.)
Árin 1868-78 var eg á Grund í Svínadal í Húnavatnssýslu. Man eg glögt eftir því, að oft var þar talað um skrýmsli, er ættu að vera í syðstu tjörninni í hinum svonefndu Grundarskálum. Í tveim ytri tjörnunum var, og er víst enn, mikil silungsveiði; en í hinni syðstu alls engin veiði, enda er alt annar litur á vatninu í henni en í hinum.
Síðasta árið sem eg var á Grund sat eg búpening ásamt öðrum dreng um daga, og var þar í skálunum. Oft vórum við af ýmsum varaðir við, að koma eigi of nærri syðstu tjörninni, því að þar væri óvættir, sem gætu gert okkur mein. Af þessu fengum við megna óbeit á tjörninni og hleyptum ánum aldrei viljandi í nánd við hana.
Eitt skifti sem oftar vórum við um miðjan dag með ær okkar í stórum mó utan við yztu tjörnina, og vórum að ýmsum leikum. Alt í einu urðum við varir við lítið, grábröndótt dýr, sem var álíka langt og tvegggja mánaða gamall hvolpur og eins digurt og það var langt Hausinn var eins og varta framan á því, því að hálsinn var enginn og rófulaust var það. Við hættum að glíma og tókum að elta dýrið; var sem það ylti áfram og fanst okkur það mjög frátt.
Eftir talsverðar eltingar mistum við af því á milli þúfna og fundum það eigi aftur; hugðum við að það mundi hafa smogið í jörðina.
Þegar við komum heim um kvöldið, sögðum við frá þessu. Var þá ýmsum getum um það leitt, hvað þetta hefði verið. Sumir hugðu það verið hafa skrýmsli eitt úr tjörninni, sem hefði vilzt of langt frá henni, en aðrir töldu það tilbera eða snakk, sem sendur hefði verið til þess að sjúga ærnar, og þótti sú tilgáta öllu líklegri.
(Sögn Jóns blinda. 1907. Hdr. Odds Björnssonar.)
Höfði einn gengur fram í Mývatn, er kallaður er Stekkjarnes. Það er að norðvestanverðu. Á nesinu ofanverðu er gjá stór, og full af vatni að neðan: Á tímabilinu frá 1840-1850 var eg á Geirastöðum, er standa vestanvert við vatnið. Gekk eg oft fram hjá gjá þessari. Sáu þá menn þeir, er með mér vóru, oft silung í gjánni, þektu þeir að það var ævinlega hinn sami. – Sögðu kunnugir menn að silungur þessi mundi hafa sézt um fleiri áratuga bil áður, því faðir minn, er kom ungur að Geirastöðum 1805, kvaðst hafa séð hann frá því fyrsta. Silungurinn sýndist vera loðinn. Lékum við okkur oft að því, eg og bróðir minn, er við komum frá silungsveiði ofan af ís, að beita öngul okkar, og fá silunginn til að gleypa. En hann snerti aldrei við beitunni, og vék heldur frá. Reyndum við að lokka hann á allar lundir, en tókst aldrei.
Það er almenn trú, að sá silungur sé ekki ætur, er ekki hefir blöðku á baki, litlu framan við sporð. Hún er kölluð ætiblaðka.
(Sögn Jóns blinda. 1907. Hdr. Odds Björnssonar.)
Einn dag var það, að aflaðist einn silungur í net í Haganesi við Mývatn. Virtist fólkinu hann mjög einkennilegur. Var silungurinn soðinn og borðaður. Á bænum var sjö manns. Tveir af heimilismönnum neyttu einskis af silunginum, en þeir fimm, er höfðu borðað af honum, lágu dauðir morguninn eftir. Eftir lýsingu þeirra tveggja, er eftir lifðu, mun silungur þessi hafa verið svo kallaður öfuguggi. Er það allra manna mál, er til þekkja, að hann sé eitraður.
(Svipuð sögn í þjóðsögum Jóns Árnasonar. I. 636-637.)
(Sögn Jóns blinda. 1907. Hdr. Odds Björnssonar.)
Jón Brandsson afi minn bjó á Kálfaströnd við Mývatn. Eitt sinn var hann að draga silunganet í Mývatni með öðrum. manni. Þegar þeir vóru nær búnir að koma netinu á land, sá Jón að einn silungur var í því. Sýndist honum hann vera loðinn. Er sagt að það sé einkenni loðsilunga, að loðnan sjáist ekki er þeir eru komnir á þurt. Jón tók vetling á hönd sína, greip silunginn, og lagði á klett einn, er þar var nærri. Lá silungurinn þar lengi, en svo var hann eitraður, að ekkert hrækvikindi vildi róta við honum. Enda vantaði hann ætiblöðkuna. Það er sögn manna, að þegar loðsilungur fæst í net, muni enginn annar silungur vera nærri.
(Hdr. Sigurðar Sumarliðasonar, eftir sögn föður hans, en hann er bróðir Helga Nikulássonar.)
Veturinn 1857 var fólk í Álftaveri í tvö skifti búið að heyra á kvöldin, þegar dimt var orðið, eins og riðið væri skaflajárnuðum hesti eftir ísunum sem lágu á mýrunum þar. Eitt kvöld, þegar dimt var orðið, nálægt miðjum vetri, fór Helgi Nikulásson í Holti, harðfrískur maður, á stað að heiman til að sækja hest suður á svokallaða Vatnsbakka. Heyrist honum, þegar hann er kominn nokkuð langt suður á mýrina, eins og maður komi ríðandi á skaflajárnuðum hesti á móti sér. Þegar það kom nær, sá hann að það var ekki svo, þó hann gæti þá ekki þekt, hvað það var. Það var dökt á lit, með fætur dálítið lengri en selshreifa, með klær á; hausinn mjög líkur selshaus. Snögt hár var á öllum skroknum, og svo var hann fljúgandi háll, að varla var auðið að festa hendur á honum. Þegar dýrið kom að honum, rauk það á hann, og reisti sig um leið upp á afturfæturna; var það þá á hæð við mann. Það klóraði með framlöppunum og reyndi að bíta með kjaftinum. Hann átti lengi við það, en seinast kom hann því undir. Reyndi hann þá að ná í vasahnífinn sinn, en á meðan skrapp það útundan honum, því það var svo hált, en þá skildi það strax við hann. Það reif að mun utan af honum fötin, en lítið skemdi það hann annað. Ekkert varð honum um viðureignina við það. Helgi var sá fyrsti, sem sá það og átti við það, en litlu seinna varð Símon Símonarson á Jórvíkurhryggjum var við það. Hann var á ferð frá Herjólfsstöðum og heim til sín; að Jórvíkurhryggjum, seint að kvöldi til. Bæir þessir eru í Álftaverinu (í Vestur-Skaftafellssýslu). Heyrir hann þá, eins og komið sé ríðandi á móti sér á skaflajárnuðum hesti. Þegar það kom nær, sá hann að það var ekki, en datt strax í hug, hvað það væri, því hann var búinn að heyra söguna af Helga Nikulássyni. Undir eins og það kom að honum, rauk það á hann. En þessi Símon var mesta karlmenni; skifti það því engum togum fyrir honum að koma því undir. Ætlaði hann þá að ná í vasahníf sinn, til að vinna á því með, en gat ekki haft nema aðra höndina á því á meðan; en sökum hálkunnar, sem á því var, skrapp það út undan honum, og beið þá ekki boðanna, svo þar skildi með þeim.
Einnig varð Jón Símonarson, bróðir áðurnefnds Símonar, var við dýr þetta. Hann átti heima á Jórvíkurhryggjum hjá bróður sínum. Einu sinni ætlaði hann, að kvöldi til í hálfrökkri, að fara að sækja kindur, sem vóru skamt í burtu frá bænum; heyrði hann þá til þess og sér hvar það kemur. Hann varð undir eins yfir sig hræddur, tekur á rás heim á leið og átti fótum sínum fjör að launa, því það náði honum eigi. Ekki urðu fleiri varir við það um veturinn; en eftir þetta var alveg hætt að fara um mýrarnar að kvöldi til. Oft heyrðist til þess og lá það á mýrunum fram eftir öllum vetri. Eigi lagðist það á neinar skepnur, eða gerði skaða neinstaðar. Menn þóttust fullvissir um að þetta væri sjóotur, þó hann héldi sig upp á mýrunum langt frá sjónum, en efalaust hefir hann haldið til í Kúðafljóti á daginn, sem er rétt við mýrarnar.
(Sögn Guðrúnar Símonardóttur á Oddeyri. Að mestu eftir handriti Þorsteins M. Jónssonar frá Útnyrðingsstöðum. 1906. Aukið og lagað að nýju eftir samanburði við hana sjálfa, 1908.)
Lengi höfðu menn tekið eftir því, að í lónum nokkrum nálægt bænum Jórvíkurhryggjum, þar sem eg ólst upp, lifðu vættir, sem menn nefndu otra. Þeir vóru á stærð við hund í stærra lagi, snöggir mjög, og ýmist gráir eða mórauðir á lit. Fitjaðir vóru þeir og syntu vel, en það héldu menn að þeir væru sjódýr, þótt þeir gætu lifað í ósöltu vatni. Sáust þeir tíðum, en vóru sjaldan drepnir, enda vóru þeir eigi barnameðfæri. Gengu þeir stundum á land í rökkrum og glettust við ferðamenn. Vóru þeir undarlega sterkir og svo fljótir, að fullröskvir hestar drógu naumast undan þeim.
Þegar faðir minn, Símon Símonarson á Jórvíkurhryggjum, var ungur, var hann eitt sinn á heimleið úr kaupstað að vetri til. Hann bar allstóran bagga og sóttist seint ferðin, því að færð var ill og hríðarveður dimt. Um háttatíma á hann skamt eftir heim, og lá leiðin fram með lóni austan við túnið. Alt í einu finst honum einhver koma á eftir sér og lítur um öxl. Sér hann þá einhverja óvætt koma aftan að sér; en áður en hann hefir tíma til að snúast til varnar, rís skrýmsli þetta upp með baki hans og grípur um háls honum með framlöppunum. Finst honum þá hann muni skamt eiga eftir ólifað, því að svo hélt óvætturin fast um háls honum, að honum lá við köfnun. Brýzt hann nú um, sem óður væri, og losnar bagginn skjótt við hann. Getur hann að síðustu snúið sér við og grípur dýrið hryggspennutökum, og skifti þá um, því að faðir minn var gildur tveggja manna maki að burðum. Kemur hann skepnunni undir sig, og sér að það er otur. En aldrei vildi hann segja frá því, hvernig hann banaði otrinum, enda má það á sama standa.
Síðan liðu mörg ár. Faðir minn var dáinn, en afi minn, Símon Jónsson, ól mig upp. Þá vildi það til að haustlagi árið 1878, þegar eg var þrettán vetra, að afi minn sendi mig með langviðarsög til næsta bæjar. Hann átti reiðhest, bleikan að lit, sem verið hafði allra hesta beztur, en var nú roskinn, en þó lítið farið aftur. Lét afi mig fara á Bleik, en bað mig að ríða ekki hart. Segir nú ekki af ferð minni fyr en á heimleiðinni. Var þá skuggsýnt, en veður blítt og fagurt. Eg lét hestinn lötra, því að mér lá ekki á. Eg leit yfir lónin austur af túninu, og lá við að hrollur færi um mig, því að mér höfðu verið sagðar margar sögur af óvættum, sem réðust á börn á kvöldin. Alt í einu fer Bleikur á sprett og veit eg varla hvað hélt mér við hann, svo að eg datt eigi af baki. Eg slepti taumunum, greip í faxið og hélt mér dauðahaldi. Sé eg þá ókennilegt dýr, sem teygir sig fram með hesthliðinni og þykist eg vita, að það sé otur. Bleikur stökk alt hvað af tók, en eg lafði hálfdauð af hræðslu í faxinu, og vissi ekkert hvað hesturinn fór. Það eina, sem eg vissi, var það, að oturinn teygði opið ginið fram með hestnáranum, og að líf mitt hékk á þræði, því að hvorki dró sundur né saman með otrinum og Bleik. En við vallargarðinn stanzaði oturinn, en Bleikur linti ekki sprettinum fyr en heima á hlaði. Var það hin mesta guðs mildi, að hesturinn skyldi ekki fælast og hlaupa úr götunni. Mundi þá hafa verið úti um mig, því til beggja handa vóru illfærir flóar og mýrarfen.
Kvikindi þessi halda til í ósum og vötnum í Álftaveri og víðar í Vestur-Skaftafellssýslu. Fara þeir helzt á land á nóttum og á haustum, en stinga sér í vötn, þegar er sér til morgunbirtu og sólar á morgna. Einkum fara þeir á land undan illum veðrum.
(Sögn Lofts Jónssonar á Oddeyri. 1908. Hdr. Odds Björnssonar.)
Loftur var hjá móður sinni á Rauðhálsi í Mýrdal, þegar saga þessi gerðist; en sá bær stendur við Geitafjallsenda, beint upp af Dyrhólaós. Var Loftur þá þrettán ára gamall; var hann bráðþroska og tápmikill eftir aldri. Segir hann svo frá atburði þeim, er hér fer á eftir.
Á úthallandi sumri 1875 var það kvöld eitt, að eg var sendur að leita að sex kvíám, er vöntuðu. Fann eg ærnar upp á Geitafjalli; rak þær ofan af fjallinu, Dyrhólaóss megin, og heim á leið, meðfram fjallinu. Er þar skamt til Óssins; myndazt hann aðallega af þessum vatnsföllum: Hvammsá, Deildá og Brandslæk. Flæðir sjór að jafnaði upp í Ósinn. Flóð og fjara er í honum og útfiri mikið. Milli Óssins og fjallsins er mýrafláki allmikill. Frá Rauðhálsi er hálfrar til heillar stundar gangur til Óssins. – Fór eg svo um hríð, að eigi bar til tíðinda og var farinn að nálgast bæ minn. Þurfti eg að fara yfir tagl fjallsins. Var eg á þeirri leið, er eg tók eftir því, að frá Ósnum kom kvikindi nokkurt, svart að lit, hlaupandi upp yfir mýrarnar og stefndi til mín. Hélt eg fyrst að þetta væri hundur. En er það tók mjög að nálgast, þá fóru ær mínar að ókyrrast, svo að eg fekk vart hamið þær. Veitti eg því dýri þessu minni athygli. Tvístruðust nú ærnar sín í hverja áttina. Er þá dýr þetta komið fast að mér og sækir aftan að mér. Sé eg nú, að þetta er eigi hundur, heldur einhver mér ókunn skepna. Ekkert skifti hún sér af ánum, en réðst að mér. Eg hafði með mér nýtt kjálkabeizli með koparkjálkum, því að eg reið nokkuð af leiðinni, þóað eg væri nú gangandi. Sló eg því til dýrsins með beizlinu, þegar það kom með opinn kjaftinn og reis upp á afturlappirnar. Hrataði það við, en snerist þegar að baki mér. Var þetta hjólliðugur fjandi, snöggur og snar, svo að mér veitti mjög örðugt að verja mig. Sótti það jafnan að komast aftan að mér, og hljóp í einlægum hringum. Varð eg því að hringsnúast til varnar svo ótt, að mig snarsundlaði og lá við falli. Það hjálpaði mér mikið, að skap var í mér, svo að mig bilaði ekki kjark eða áræði. En hvernig sem eg barði kvikindi þetta, var engan bilbug á því að finna, og sótti það að mér með jöfnum ákafa. Hafði það æ hið sama lag, að það reis upp á afturfæturna og reyndi að bíta mig, en skrapp aftur fyrir mig, er það fekk höggið. Tannsmátt mun það hafa verið, því að mig rekur eigi minni til tanna í opnum kjaftinum; skolótt var það um trýnið, en það var stutt og digurt, líkast sem á sel. Augun lágu djúpt. Rumdi lítið eitt því, sem í svíni. Hálsdigurt var það, eða því líkast, að hausinn stæði fram úr búknum. Eyrun minnir mig að stæði upp, líkt og á íslenzkum hundi. Skott var ekki á því, en getur þó hafa verið dindill lítill. Búkdigurt var það og sívalur skrokkurinn; stirndi á hann, sem á hrafntinnu. Dró það skrokkinn næstum með jörðu, svo lappalágt var það, en fætur digrir; hrammar vóru á því, sem á hundi, en miklu stærri, og klær á. – Átti eg við það lengi nætur. Loks hafði eg barið upp alt höfuðleðrið, svo að slitur eitt var eftir, er fylgdi kjálkunum. Sá eg brátt, að svo búið mundi eigi mega standa. Gat eg smáþokað mér að grjótskriðu einni, er þar var skamt frá. Loks komst eg í skriðuna og lét þá grjóthríðina dynja á kvikindi þetta. Varð því nú óhægra um að snúast að baki mér, enda var það stirðara í grjótinu, og eigi svo liðugt í snúningum, sem áður; gat eg því varizt hringsnúninga-lítið. Loks um sólarupprás snautaði skepna þessi frá mér og dragnaðist í hægðum sínum á leið til Óssins. – Eg komst heim laust fyrir miðjan morgun; hné eg örmagna niður, er eg komst í bæinn. Lá eg rúmfastur á annan sólarhring og bjó lengi að viðureign þessari við sjóoturinn.
(Eftir handriti Sigurðar bónda Jónssonar á Máná, föður drengsins, er dýrin sá. Hdr. Jóns Jakobssonar á Árbæ. 1907.)
Haustið 1906, 26. október var sonur minn, Aðalgeir, tíunda ári, sendur austur með sjó frá Máná á Tjörnesi – þar sem hann á heima, – stundu fyrir nón. Þegar hann var kominn um fimm hundruð faðma frá bænum út að sjónum á svonefnt Stekkjarleiti, þá sér hann þar eitthvað sem hann vissi ekki hvað var, einhver skjóttur hnúður á ofurlitlu kviki. Drengurinn gengur á snið við þetta, sjávarmegin, nokkra faðma frá því, þar sem það stóð uppá hárri þúfu. En alt í einu tekur það undir sig stökk austur með sjónum, framhjá drengnum og á hvarf út af malarkambinum, mjög skamt frá honum. Tók hann þá spýtustúf og kastaði á eftir því, en grenslaðist ekkert frekar um það, hvað af því varð, – var og hálf skelkaður við þetta. Samt heldur hann áfram þangað, sem féð var, en það var fullrar hálfrar stundar gangur. Þegar hann er aftur kominn á heimleið, mæta honum tvö þessi dýr, og þekkir hann þar sama dýrið aftur; var það skjótt, rautt að framan, en svart að aftan, eða sá endi þess, sem aftur vissi, þegar það hreyfði sig. Hitt var alrautt og sýndist gljá á skrokkinn; var það mun stærra og réð altaf ferðinni. Þau vóru þá komin 300-400 föðmum austar á bakkana, en dýrið var, sem hann hitti fyrst. Þegar þau sáu fjárhópinn, stukku þau á undan fénu vestur bakkana, þar til þau komu á sömu stöðvar, sem það fyrra var fyrst á, þá stökk það rauða á móti forustusauð, sem rann á undan fénu. Sauðnum varð bilt við og hrökk undan til baka og allur hópurinn þegar með honum. Drengnum þótti ilt að koma fénu ekki áfram, þangað sem það átti að fara; var nú líka orðinn hugrakkari en fyrst; treysti á hund þann sem fylgdi honum, ef á þyrfti að halda, og tunnustaf úr eik, er hann hafði í hendinni. Fór hann fyrir féð og keyrði það áfram vestur bakkana, en dýrin stukku upp og ofan frammi fyrir hópnum og héldu þó áfram. Gekk svo æði lengi, unz komið var að nefi eða nesi, sem gengur lengra norður í sjóinn; þá rann féð ofar, en dýrin urðu neðan við hópinn – nær sjónum – og drógust aftur úr. Þá lofaði drengur seppa sínum — er altaf hafði vælt af löngun eftir að mega hlaupa í dýrin – að stökkva af stað. En við það tóku dýrin svo snögt viðbragð fram að sjónum, að seppi náði þeim ekki. Fram við sjóinn vóru þrír steinar afar-stórir með fimm eða sex álna millibili, hoppuðu þ3au á þeim, af steini á stein og svo á kaf í sjóinn.
Dýrin virtust drengnum á lengd við stóran hund, en mikið gildari og eins fæturnir, sem vóru stuttir; á þeim sýndust honum þrjár klær á hvorum. Helzt sýndust honum fæturnir liðamótalausir, tveir afturfætur og einn framfótur, og hoppuðu þau í hvert skifti, sem þau hreyfðu sig, en gengu ekkert. Engan sá hann haus á sjódýrum þessum, augu eða nokkuð það, sem líktist kjafti; aðeins lítilsháttar hnúð, er slútti fram yfir þennan eina framfót. Skrokkurinn var hárlaus og húðin líkust hvelju. Rófa lítil var aftan á dýrum þessum.
(Sögn Teódórs Friðrikssonar. 1907. Hdr. Jónasar Jónassonar.)
Haustið 1886 áttu unglingspiltar nokkrir í Flatey á Skjálfanda að reka saman fé á áliðnum degi; það var um veturnáttaleytið. Vórum við fimm saman: tveir bræður nær tvítugu, Kristján og Benedikt að nafni, myndarlegir menn og vel greindir, og þrír drengir innan við fermingu: Sigfús Eiríksson í Uppibæ og Kristján Sigurpálsson, nú búfræðingur á Húsavík, báðir tíu ára, og eg, tólf ára að aldri.
Við röðuðum okkur niður eins og í göngur á holti einu, sem er skamt utan við túngarðinn; varð minn hlutur að ganga eftir holtinu; þeir bræður gengu nær sjónum, en drengirnir ofar. Urðum við nú engra kinda varir þar á vanalegum stöðvum, en sáum fáeinar langt til vesturs, og var ein þeirra stök. Hundur einn var með okkur, er Tryggur var nefndur. Ætluðum við félagarnir að senda Trygg fyrir stöku kindina, og koma henni saman við hitt féð. En Tryggur brást öðruvísi við en hann var vanur, því að hann var hinn vænsti fjárhundur. En nú bylti hann sér á hrygginn hvað eftir annað, og spangólaði ámátlega. Skildum við ekkert í þessu, en þó fór okkur að þykja vafasamt, hvort þessi staka skepna væri sauður, eða þá einhver ókind, því að ekkert sáum við það bæra á sér, hvernig sem hundurinn spangólaði. Líka sýndist okkur skepna þessi nokkru stærri og hvítari en fjögra vetra sauður, en þá vóru þeir til í eynni. En þeir bræður vóru á því, að þetta gæti ekki annað verið en kind, og yrði annarhvor okkar Sigfúsar að sækja hana; beið eg svo enn um stund, meðan félagar mínir vóru að raða sér. Svo tókum við allir á rás í einu vestur eyna, hóandi og sigandi. Aldrei bærði kindin á sér; bjóst eg við að Sigfús tæki hana, því að hundurinn fylgdi honum, en hann mun hafa ætlað mér það. En þegar nokkuð dró lengra til vesturs, urðu fyrir mér sauðir nokkrir heimanvert við holtið, og rak eg þá heim á tún, og hljóp svo upp á holtið aftur til þess að sjá, hvort Sigfús hefði tekið kindina. Þótti mér ilt, ef hún yrði eftir og mér yrði kent um. Þegar upp á holtið kom, var þessi skepna enn grafkyr, og Sigfús og Kristján komnir fram hjá henni. Heyri eg þá að Kristján kallar og segir mér að láta þetta vera – það sé ekki kind. En eg hafði reiðzt af því, að Sigfús hafði ekki tekið kindina, og skeytti því ekki orðum Kristjáns og hljóp úteftir sem fætur toguðu, því eg gat ekki betur séð en þetta væri kind. En eigi leið á löngu áður en eg sá að þetta var eigi alt með feldu. Sá eg þá glögt að þetta var engi sauðkind, heldur einhver skepna, sem eg hafði aldrei séð áður. Varð eg hálfhræddur, en langaði þó til að sjá, hvernig þessi skepna væri. En Kristinn var altaf að kalla, svo að eg sneri fljótlega vestur til þeirra, og dró þá ekki af mér.
Eigi get eg gert nákvæma lýsingu á skepnu þessari, en, eftir því sem hún kom mér fyrir sjónir, var hún mjallahvít, og gljáði á skrokkinn líkt og hvelja væri. Hún hallaðist upp við stóra þúfu, og sneri í út og suður. Fætur sá eg enga, og engan hala eða rófu. Augun vóru afarstór, og langur skoltur eða trjóna fram af hausnum. Sýndist mér hún opna ginið eða geispa, og varð eg þá svo hræddur að eg hljóp burt. Kom eg svo til félaga minna, og þóttust þeir mig úr helju heimt hafa. Hafði Sigfús ætlað að taka kindina, er hann hugði vera, og hlaupið allnærri henni, og enda ætlað að slá í hana með prikinu sínu, en sá þá hvers kyns var, og hljóp burt hið skjótasta, og var hálfærður af hræðslu.
Allir vóru á því, að skepna þessi hefði ekki getað annað verið en sjávarskrýmsli; um kvöldið sló yfir þokumyrkri; var þá ráðgert að safna mönnum með byssur og vinna skrýmslið; var það gert í skyndi, og var ein byssa í förinni, en þegar af stað var komizt, var allmjög tekið að dimma bæði af kvöldi og þoku. Eg var með í förinni. Lenti þá í vafningum með að finna skrýmslið, svo að piltar héldu, að við drengirnir og félagar okkar hefðu logið upp allri sögunni, eða þá að skrýmslið væri búið að fá máttinn við myrkrið, og léki nú lausum hala um alla eyna. En rétt í þessu sáum við skrýmslið skamt frá okkur, sem svaraði skotmáli, og var ekki frýnilegt. Var það þá staðið á fætur, og heyrðist okkur hringla í því, og eins og það væri að reyna að hrista sig. Sýndist okkur það nú standa á fjórum fótum, allháum, teygja fram hausinn og gapa; stærðin var lík og á tvævetru trippi. Eigi þorði sá, er byssuna hafði, að skjóta, en eg og annar drengur til vórum sendir heim eftir fleiri mönnum og byssum. En rétt þegar við vórum að komast yfir túngarðinn, komu hinir allir á eftir sem fætur toguðu, og vóru móðir mjög. Hafði skrýmslið gert sig líklegt til að hlaupa á þá, og opnað kjaftinn; sýndist þeim hann allur glóa innan af maurildi. Stóðust þeir þá eigi lengur mátið og lögðu á flótta.
Að morgni var farið að gæta að skrýmslinu, en þá var það horfið, og engin verksummerki var þar að sjá. En eyin var þá rauð, og engra slóða von. – Eigi hefir heyrzt, að skrýmsli hafi dagað uppi síðan í Flatey.
(Sögn Sölva skipstjóra Ólafssonar á Akureyri. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Fyrri hluta nítjándu aldar bjó á Þönglaskála á Höfðaströnd í Skagafirði langt ára skeið bóndi sá, er Nikulás hét. Var hann talinn góður bóndi og merkur. Einhverju sinni á fyrstu búskaparárum hans þar, nálægt 1820, bar það við kvöld eitt, seint um haust, þegar búið var að hýsa fé, að Nikulás gekk niður að sjóbúð, sem hann átti niður við lendinguna á syðra búðarnefinu, til þess að sækja fiskmeti. Gekk hann í búðina, en skildi dyrnar eftir opnar; tók þar hákarlaskálm mikla og fór að skera niður hákarlsbeitu, er þar hékk. Skyggir þá alt í einu í búðinni og verður honum litið til dyra. Sér hann þá ókennilega skepnu í dyrunum. Er hún að troða sér inn um þær, en gengur illa, því að hún var mjög skrokkmikil og fremur fótahá, en fætur grannir. Snögghærð var hún. Þóttist Nikulás sjá, að þetta væri sjávarskrýmsli. Er honum lítið um það gefið, að það komist í búðina og ræðst móti því. Leggur hann til dýrsins með skálminni af öllum mætti. Kom lagið fyrir framan bóginn, og gekk á kaf skálmin. Rak skrýmslið þá upp öskur ámátlegt og brauzt um svo fast, að Nikulási varð laus skálmin; sá hann hana ekki síðan. Snarast dýrið út og til sjávar. Lognfönn var nýfallin, og sást morguninn eftir slóð þess ofan frá búðinni og niður í vörina. Hafði skrýmslið farið beina sjónhending yfir lónið, en það er grunt, og upp úr því upp á Þönglaskálahlein; hún er ávöl eða með aflíðandi halla þeim megin (að austan), en að vestan er hún standberg þverhnýpt í sjó niður, og dýpi mikið fast við hana; lá slóðin, öll blóði drifin, þvert yfir hleinina í skarði, sem í hana er, og hafði skrímslið steypt sér vestur af í hyldýpið.
(Heimildin í sögunni. Hdr. Friðleifs Jóhannssonar í Háagerði á Upsaströnd.)
Nokkru eftir 1830 bjó bóndi sá á Sauðanesi á Upsaströnd, er Sigurður hét, vel fjáður maður, og fremur harðger. Vinnumann hafði hann, er saga þessi gerðist, þann er Jónas hét, sá sami er síðar bjó í Sauðárkoti, og fyr er getið11; hann var þá rúmlega tvítugur að aldri, er hann var vinnumaður Sigurðar bónda. Eitt kvöld að haustlagi í rauðri jörð vantaði Sigurð bónda einn sauða sinna, er hann sjálfur hirti. Biður hann þá Jónas vinnumann sinn, sem var mesti skarpleikamaður, að leita að sauðnum. Fer Jónas þegar að leita hans, og hyggur helzt, að sauðurinn hafi orðið eftir af hinum sauðunum út í Ytrivík, því að þangað vóru þeir vanir að fara, til þess að ná sér í þang, er þar rekur, en víkin er lukt háum björgum, og aðeins í einum stað hægt að fara upp og ofan, þó mjög snarbrattan móhellubakka. Nú gengur Jónas niður bakkann í víkina og niður á mölina fyrir neðan bjargið. Dimt var orðið, en þó sást stundum til tungls. Gengur Jónas eftir fjörunni fáa faðma, þar til hann heyrir að gengið er á móti sér, en sá engan fyrir myrkrinu. Hugsar hann nú með sér að þarna sé nú sauðurinn, sem hann sé að leita að. Nú hygst hann að hremma sauðinn og koma honum heim til húsanna. En í þessum svifum rífur frá tunglinu svo að allgóð birta verður í kringum Jónas. Sér hann þá að ógnarstór skepna er komin mjög nærri honum, og sýndist hún vera því líkust, að hún gengi á átta fótum, og öll gljáandi utan af skeljum og kuðungum. Sér nú Jónas, að sér er ekki til setu boðið, og snýr hið fljótasta sömu leið aftur; svo sem nærri má geta fór hann með feikna hraða yfir mölina, upp bakkann, þó brattur væri, og gaf sér aldrei tíma til að líta við, fyr en hann var kominn upp á bakkann. Sá hann þá að skrýmslið var komið vel upp í miðjan bakkann. Vill Jónas ekki bíða eftir því, tekur til fótanna heim að Sauðanesi og hleypur á hurðir, hrindir þeim upp og til baðstofu. Er þá búið að kveikja ljós. En um leið og hann kemur inn í birtuna, hnígur hann í óvit í rúm sitt. Fer bóndi að reyna til að hressa Jónas við aftur, og spyr hvað fyrir hann hafi komið. Eftir nokkurn tíma raknar Jónas við og segir hið sanna frá ferðum sínum. Vita menn ekki frekara hvað langt sjóskrýmslið hefir elt hann, en líkur eru til, að það hafi snúið við, þegar Jónas hvarf upp af bakkabrúninni, en engin spor sáust, því bakkinn var svo harður. Þessa sögu sagði Sigurjón sonur Jónasar mér, og er hann enn á lífi, er þetta er skrifað, 1906.
(Sögn Sæmundar Jónatanssonar á Sveinsstöðum í Grímsey. 1906. Hdr. Halldórs búfræðings Friðjónssonar.)
Haustið 1868 þóttust menn oft verða varir við sjóskrýmsli út með Eyjafirði vestanverðum. Hvað svo ramt að þessu, að sjómenn treystust varla að fara á milli bæja og sjóbúða, þegar dimma tók. Tóku sumir það ráð, að fara ríðandi til búða sinna og frá þeim.
Þegar þetta gerðist, var Sæmundur Jónatansson, er frá þessu segir (1906) vinnumaður hjá Bernharð A. Steincke, verzlunarstjóra á Akureyri. Var Sæmundur þetta haust við sjóróðra út í Hrísey. Hélt hann til, ásamt fleiri sjómönnum, í sjóbúð niður af Syðstabæ.
Þá bjó á Syðstabæ Jörundur bóndi Jónsson; vóru þeir Sæmundur og félagar hans oft heima hjá Jörundi á kvöldum, og eyddu tímanum með spjalli og spilum.
Eitt kvöld, rétt eftir leitir, var Sæmundur og einn félagi hans, Jóhann Guðmundsson frá Hornbrekku í Ólafsfirði, heima hjá Jörundi bónda, og gengu seint ofan til búðar sinnar aftur. Veður var hið bezta, þykt loft og örlítil gola af norðaustri. Lagði reyk frá bænum ofan að sjónum.
Þegar þeir félagar koma ofan að búðunum, tekur Sæmundur eftir þústu nokkurri niðri í sjávarmáli; hefir hann orð á þessu við Jóhann og sér hann hið sama. Var því líkast að sjá, sem þríhyrndur borðahlaði væri hlaðinn upp í fjörunni; ruggaði þetta til eftir ölduhreyfingunni, en hreyfðist ekki að öðru leyti. Þykjast þeir þegar sjá, að þetta muni sjóskrýmsli vera, og hlaupa í næstu búðir og segja sjómönnum frá. Hópa þeir sig allir að tveimur traustustu búðunum og bíða þar átekta.
Eftir fjórðung stundar, á að gizka, bröltir dýrið upp úr sjónum, teygir úr hálsinum og þefar í allar áttir, tekur því næst undir sig stökk mikið upp á kamb. Er svo að sjá, sem dýrið hafi fimm fætur og stingi sér áfram á staka fætinum, þegar það stekkur.
Af kambinum fór það í þremur stökkum heim að Syðstabæ, og er það þó um hundrað faðmar. Vöxtur dýrsins sást mjög óljóst, vegna myrkursins, en stórt var það mjög og klubbslegt.
Sjómenn vöktu alla nóttina og var órótt mjög, en ekki urðu þeir varir við, er dýrið fór til sjávar aftur, og engin verksummerki sáust eftir það um morguninn.
(Handrit Tómasar Jónassonar í Lónkoti. 1907.)
Hinn 31. október 1907 fór smaladrengur frá Lónkoti í Sléttuhlíð, Pálmi að nafni, að reka saman fé, og gekk suður með lóni því, sem bærinn dregur nafn af. Þar finnur hann nokkuð af fénu, fer með það aftur, og rennur það á undan honum norður með sjónum, en hann gengur upp við lónið (því svo hagar til, að malarkambur skilur lónið frá sjó). Hann veit þá ekki fyr til, en féð snýr við, og ætlar suður eftir, svo hann fer fyrir það, en þegar hann kemur fram á kambinn, sér hann að eitthvert dýr er í flæðarmálinu, á stærð við ársgamalt naut. Það var alsvart á lit, og sýndist honum það hafa horn, eða rana fram úr hausnum. Ekki gat hann séð að það hefði hala, eða neitt sem líktist skotti. – Þegar féð sneri við, tók hann stein og ætlaði að senda fyrir það, og nú, þegar hann sá dýrið, henti hann steininum dálítið fyrir aftan það. Þá rekur það upp mikinn skræk og hvarf í sjóinn, en ekki heyrði hann neitt skvamp.
(Heimildin í sögninni. Handrit Jóns Jakobssonar, Árbæ. 1908.)
Benedikt hét maður; hann var Andrésson, sonur Andrésar Helgasonar frá Héðinshöfða á Tjörnesi. Benedikt var bróðir Hólmfríðar á Hóli, konu Helga Þorkelssonar, Guðrúnar frá Glerá í Kræklingahlíð, konu Kristjáns Ásmundssonar og þeirra fleiri systkina. Benedikt var tvö ár á Hóli 1868 og '69. Hann var þá um hálfþrítugt að aldri, harðger maður og röskur. Hann var nýkvæntur. Var hann í húsmensku á Hóli hjá Helga mági sínum, sem þá var nýfluttur (vorið 1866) út á nesið framan úr Kinn. Benedikt var þessi haust við sjóróðra inn á Bakka, en þaðan var þá sjósókn mikil.
Þau Helgi og Hólmfríður fóru eitt sinn – annaðhvort haustið – kaupstaðarferð til Húsavíkur. Þau urðu síðbúin af Húsavík og komu ekki fyr en myrkt var orðið út í Bakka. Hest höfðu þau undir áburði, er ógreiddi för þeirra. – Hólmfríði var krankt, og vildi fólk á Bakka, að hún yrði þar eftir um nóttina, en hún vildi fyrir hvern mun komast heim. Benedikt bróðir hennar bauðst þá til að fylgja þeim úteftir, og var það ráð tekið. Hann fekk sér hross lánað á Bakka; það var brún hryssa, er kölluð var Bakka-Brunka, ágætis hross.
Ekki segir af ferðum þeirra fyr en þau koma út í Hól. Þá vildi fólk Benedikts fyrir hvern mun, að hann yrði heima þar um nóttina. Þess var þó enginn kostur; vildi hann komast inneftir, til þess að missa ekki af róðri næsta dag. Benedikt fór frá Hóli um eða eftir háttatíma. Hann fór sem leið liggur inn með bæjum, suður í Hallbjarnarstaði, en þar ofan í fjörurnar. Það er alllangur vegur frá Hallbjarnarstaðakambi inn að Köldukvísl, en þar þrjóta fjörurnar. Mun láta nærri að þær séu klukkutíma klyfjaferð. – Ytri-Tungufjörur eru nyrztar, frá Hallbjarnarstaðaá að Skeifá, þá Hringversfjörur, frá Skeifá að Rekaá, og instar Syðri-Tungu- og Tungugerðisfjörur frá Rekaá að Köldukvísl. Ytri-Tungufjörur eru mestallar fremur ógreiðar umferðar, grýttar. Hringversfjörur eru aftur á móti sléttar og meiri hlutinn af Syðri-Tungufjörum. Þó er kafli, ekki langur, utan við Köldukvísl, ógreiður og illur yfirferðar; er það stórgrýtisurð. Bakkarnir eru alstaðar háir að fjörunum og undirlendi víðast ekki annað en fjaran. Uppgöngur víðast snarbrattar og ekki árennilegar ókunnugum, sízt í myrkri, nema í Hringvershvilft. Hún er grasgróinn hvammur framan í bökkunum og gott að fara þar upp og ofan.
Benedikt reið nú inn fjörurnar, án þess að nokkuð bæri til tíðinda. En þegar kom rétt inn fyrir Skeifá, fór hundurinn, sem fylgdi honum, að gelta og skrækja og sótti inn undir hrossið. Einnig fór sú brúna að ókyrrast, reisa eyrun, frísa og bera sig ólmlega; sótti hún á að ganga sem allra næst sjónum og bar hausinn út undan sér, og þegar hann vildi aftra henni frá, gekk hún út á hliðina sem ótemja. Í fyrstu vildi þó Benedikt ekki trúa öðru, en að þetta væri kenjar einar úr Brunku og seppa. Hann gat ekki séð neitt, enda var afarmyrkt. En svo fóru leikar, að hann fekk ekki ráðið við Brunku, og varð að gefa henni eftir. Tók hún þá sprettinn og geystist áfram sem óð væri. Þannig þaut hún áfram inn allar fjörur, og þó Benedikt gerði tilraun til þess að stilla hana, var það árangurslaust; hún virtist verða æ ólmari eftir því sem spretturinn lengdist. - Þegar kom inn í klungrið, hélt Brunka áfram með jöfnum ákafa, eða engu minni, en þrátt fyrir það ógreiddist henni heldur flýtirinn í grjótinu. Átti Benedikt fult í fangi með að halda sér kyrrum í hnakknum og hrökkva ekki af baki, því svo vóru rösklegar sviftingar Brunku, þegar hún þandi sig yfir urðina. – Hann var að smálíta í kring um sig og aðgæta, ef hann sæi nokkuð, en það hafði þó ekki orðið. En þegar kom inn í mitt klungrið heyrði þann að smágrjót valt niður úr melnum, og hlaut það að vera undan einhverri skepnu. Hann fór að rýna upp fyrir sig í melinn, og virtist þá sem hann sæi þar svarta þústu stóra þjóta áfram samleiðis við sig og örskamt fyrir ofan sig. – Á þessum takmörkum fann Benedikt að Brunka tók á því sem hún hafði til, og skeytti því ekkert, þó urðin væri þar ill undir. Kom Benedikt þá í hug að þar væri einhver óvættur úr sjó á ferðinni, og leist síður en vel á blikuna. Þegar Brunka náði brúnni, sem er á kvíslinni, þaut hún yfir hana sem elding og í einni roku upp kambinn sunnan við; er hann þó brattur og örðugur að fara hann hart upp. Loks, þegar kom upp á höfðann, fekk Benedikt Brunku til þess að lina á sprettinum.
Af seppa Benedikts er það að segja, að þegar Brunka fyrst tók sprettinn út í fjörunum, dróst hann aftur úr og þandi sig geltandi í humáttina á eftir. Meðan Benedikt var að fara upp kambinn, heyrði hann að seppi var kominn innarlega í klungrið og gelti þar, eins og hann stæði þar framan í einhverri skepnu. En alt í einu skifti hann um. Heyrði Benedikt að hann tók að hljóða og skrækja svo fárlega að engu var líkara en verið væri að slíta hann sundur kvikan. Hraus Benedikt svo hugur við að hlýða á hljóð rakkans – er hann sá sér ekki fært að liðsinna neitt – að hann hleypti þegar á sprett til að fjarlægjast þau sem fyrst.
Ekki varð Benedikt neins var það sem eftir var leiðarinnar, og komst hann heilu og höldnu inn í Bakka um nóttina.
Tregur var Benedikt að minnast á atburð þennan og mun hafa sagt fáum.
Einum eða tveimur dögum síðar en þetta varð, kom hundur út í Hallbjarnarstaði og þektu menn að það var hundur Benedikts Andréssonar. Var hann illa til reika, því hann skreiddist áfram á framfótunum og dró afturhlutann á eftir sér. Og þegar farið var að aðgæta, var rakkatetur þetta allur brotinn aftan og kominn nær dauða. Vissi enginn hverju sæta mundi, fyr en kvisast fór um svaðilfarir Benedikts nótt þá, sem frá er skýrt hér að framan.
Það ímynduðu menn sér, að sjódýr hefði þetta verið, og að það hefði ráðizt á seppa, þegar það sá sig vera búið að missa bráð sína.
Frá þessu hefir sagt mér Sigríður sáluga Andrésdóttir. Var það veturinn 1899,-'00. Benedikt bróðir hennar hafði sjálfur sagt henni frá atburðinum. Hann druknaði á »Bakka-Veturliða« 12. apríl 1870, ásamt fimm öðrum mönnum, á Kotsvík á Héðinshöfðakrók. Benedikt var etju og röskleikamaður, aðeins 27 ára, er hann dó.
(Sögn Jóns blinda. 1907. Hdr. Odds Björnssonar.)
Sagt er að hvalur sá sé í sjó, er Hrytur er nefndur. Hann er svo kallaður vegna þess, að hann blæs líkt því er menn hrjóta, en þó miklu meir. Hefir hans orðið vart eitt skifti hér norðanlands. Það var á milli veturnátta og jólaföstu. Kom hann þá vestanfyrir. Fór hann á milli Flateyjar á Skjálfanda og lands; það sund mun vera full hálf vika sjávar. En þó að þar sé hafskipaleið, þá tók þó hvalurinn niðri. Vóru umbrot hans og hrotur svo skelfileg, að tveir bæir féllu í landi en einn í eynni. Hvalur þessi hefir aldrei sézt norðanlands, svo sagnir fari af, fyr né síðar. Er það trú manna, að þetta muni hafa verið fyrirboði þess, að Svarti-dauði geisaði yfir Ísland ári síðar, og varð þá mannfall mikið.
(Handrit Teódórs Friðrikssonar á Sauðárkrók 1907.)
Eg man vel eftir því, þegar eg var að alast upp Flatey á Skjálfanda, að sjómenn þar í eynni vóru ákaflega hræddir við illfiska, og kom eigi sjaldan fyrir, að þeir yrðu að flýja til lands undan þeim úr fiskiróðrum, nær dauða en lífi.
Haust eitt bar það við sem oftar í Flatey, að sex menn reru til fiskjar á stórum og góðum bát. Héldu þeir nú inn og austur fyrir eyna, og áttu sér einskis von. Vita þeir þá ekki fyrri til, en illfiskur kemur upp nokkra faðma frá bátnum, með opinn kjaftinn. Grípa þeir nú til ára og róa lífróður upp að eynni. Sjá þeir hvar illhvelið legst á eftir þeim; er það nú fyrsta sprettinn að hvorki dró sundur né saman, en eftir svo sem tíu mínútur er svo af þeim dregið, að þeir sjá ekki annað fyrir en að illhvelið muni þá og þegar granda bátnum, og nálgast hann nú óðum. Verður þá sjómönnunum litið til djúps austur á flóann, og sjá hvar þrír stórir hvalfiskar koma vaðandi eftir illfiskinum; náðu þeir honum svo sem tuttugu faðma frá bátnum, og skeltu sér yfir hann hver á fætur öðrum. Tafðist nú illfiskurinn svo mikið við þetta, að hann gat ekki náð bátnum. Sluppu Flateyingar í land örmagna af þreytu og mæði. Sagðist þeim svo frá síðar, að illfiskur þessi hefði verið næstum því eins stór eins og allir hinir hvalfiskarnir þrír, og hafði hann hvað eftir annað kastað þeim af sér, er þeir slengdu sér yfir hann.
Lýstu Flateyingar illfiskinum þannig, að hann hefði verið kolsvartur á lit, með tveim gríðarstórum hornum upp úr bakinu, og hefðu þau sletzt til fram og aftur á sundinu, líkast því að hann hefði slegið með þeim öðru hvoru til hinna fiskanna. Einnig hafði Flateyingum sýnzt rauðar rákir liggja út frá báðum kjaftvikum fisksins, alt aftur að fremra horninu. Kölluðu þeir hann Rauðkembing.
– Einhverju sinni man eg eftir því í Flatey, eftir að eg var orðinn stálpaður, að mikill stórfiskavaður var þar austur í flóanum (í síld og átu); færðist þetta síðan smátt og smátt upp að eynni, og alla vega í kringum hana, á örstuttum tíma. Hélzt síðan við upp á grynstu fiskimiðum í þrjá daga samfleytt, og vóru Flateyingar svo hræddir við ófögnuð þennan, að þeir þorðu ekki að róa til fiskjar. Einkum var það einn fiskur, er mönnum ógaði við, og lagðist upp á grynsta fiskimiðið, austan undir eynni. Lá hann þar sem dauður væri í tvo sólarhringa samfleytt. Var hann mjallhvítur að sjá, en ákaflega stór. Heyrði eg að Flateyingar kölluðu hann Mjaldur. Sögðu þeir, að hann hefði þá náttúru að liggja sem dauður væri, en um leið og farið væri að eiga við hann og leggja að honum, brygði hann við og grandaði farinu í einu vetfangi.
– Í öðru sinni man eg eftir því í Flatey, að illfiskur nokkur var þar í flóanum, sem öskraði svo hátt, að heyrðist inn í baðstofur. Líktust öskur þessi því, er naut drynja og láta sem allra verst í moldarflagi. Sögðu Flateyingar að þetta væri nauthveli, enda var það fyrsta daginn, sem heyrðist til nauthvelisins, að allar kýrnar í eynni urðu vitlausar, og ætluðu að stökkva í sjóinn. Náðust þær við illan leik, og varð komið inn í fjós. Vóru þær síðan ekki látnar út í þrjá daga á eftir. Sagði mér það gamall maður í eynni, að mikil mildi hefði það verið að menn gátu náð kúnum, því sú væri náttúra nauthvelisins, að trylla allar kýr og hafa þær í sjóinn. Kvaðst hann einnig hafa sjálfur verið með á því þingi, þegar hann var strákur, að sjá á eftir þremur beljunum hlaupa í sjóinn, er þær hefðu heyrt til nauthvelis. Kvaðst hann ekki vilja horfa upp á slíkt í annað sinn.
(Sögn Baldvins Stefánssonar á Geirastöðum. 1906. Handrit Odds Björnssonar.)
Árið 1884 var eg ráðinn til fiskiróðra í þrjár vikur á Vopnafirði. Þá var eg vinnumaður í Teigi í Hofsárdal. – Einn morgun, snemma í október, rerum við tveir, eg og Sigurður Erlendsson Gottskálkssonar frá Garði í Kelduhverfi, í sólskini og bjartasta veðri, á fjórrónum bát. Við rerum suðaustur, á að gizka hálfa mílu undan Krossavíkurfjöllum, og eina mílu frá Vopnafjarðarkaup: stað, og lögðum þar línuna. Vórum við svo eina stund í andófi, eins og venja er til; fórum síðan að draga línuna. En þegar við vórum sem næst hálfnaðir, fór hún að koma tvöföld og þreföld, og seinast verður hún nærri blýföst við botninn, en losnar þó um síðir, og koma þá á henni margir partar af kili úr hafskipi, grautfúið tré og ryðgaðir naglar. Hlóðum við bátinn af þessu rusli, og hentum þó miklu aftur í sjóinn, en fengum mjög lítinn fisk. – Þegar við vórum að enda við að ná upp línunni, urðum við varir við undarlega stóran boða á sjónum; því að ládeyða var. Sáum við jafnframt einhverja óttalega skepnu koma upp skamt sunnan og vestan við okkur. Stefndi meinvættur þessi á bátinn, og var auðséð að hún vildi gleypa okkur, þvíað hún hafði opinn kjaft, voða-mikinn; hefði auðsjáanlega getað gleypt bátinn með öllu, sem í honum var. En af því að sléttur sjór var og okkur var lengra líf ætlað, tókst okkur að róa undan henni í land, með því að róa fjórum árum og fara í einlægum krókum. Við breyttum ætíð stefnunni þegar þessi óvættur stakk sér, eða réttara sagt seig niður, en hún kom ætíð úr kafinu þar sem lykkjan var á kjölfarinu; hélzt þessi eltingarleikur alt til lands. Við höfðum heyrt, að þannig væri helzt að róa undan illhvelum, og því neyttum við þess.
Hausinn á kvikindi þessu var líkastur upphlöðnum, hringmynduðum kofa, margir faðmar að ummáli. Stór slakki var aftan við hausinn og stór strýta upp úr hausnum miðjum, og digur horn eða eyru beggja megin við hana. Slakki var fremst við kjaftinn, en þó miklu meiri, þar sem okkur sýndust vera nasir. Engin trjóna virtist á því, heldur snubbóttur haus. Afturhlutanum get eg síður lýst, því að við sáum hann svo óglögt. Engin sundfæri sáum við á ferlíki þessu, bægsli né sporð. Eigi spýtti það vatni, sem eg hefi séð hvali gera, og hljóð heyrðist ekki neitt til þess.
Allir töldu þetta illhveli verið hafa, eða þá skelfilegasta sjóskrýmsli. Svo var það geigvænlegt, að eg hefi aldrei orðið fegnari að ná landi en eg varð þá, hvorki af sjó, ám eða vötnum.
(Sögn Einars bónda Einarssonar að Garði í Þistilfirði. 1906. Hdr. Árna Davíðssonar á Gunnarsstöðum.)
Seint í júnímánuði 1899 rerum við þrír á bát til fiskjar frá Þórshöfn á Langanesi. Vórum við komnir langt frá landi, norður af Grenjanesi, og sátum við færi. Sagði einn okkar alt í einu: »Hvað er þetta?« Hann kvaðst hafa séð eitthvað taka uppi skamt frá bátnum og stinga sér í áttina til okkar. Við höfðum ekki fundið þarna fisk, og drógum nú upp færin; varð okkur þá lítið ofan í sjóinn. Sáum við þá, hvar hvalur lá skamt niður, rétt undir bátnum, og sneri upp kviðnum. Segir þá formaður okkar, sem var mörgu vanur: »Við höfum þá fengið þennan gest.« Segir hann að við skulum róa, en ekki með neinum ákafa, í veg fyrir skútu, sem kom siglandi hægan byr utan úr flóanum. Við rerum nú þangað um hálfa stund, og lá hvalurinn altaf undir bátnum, en nú fór hann að ókyrrast og sveiflaðist ýmist fram eða aftur fyrir bátinn, en þá vórum við einnig búnir að ná skútunni og fórum upp á hana, en bundum bátinn við hlið hennar. Við þetta var sem hvalurinn ærðist, því hann hamaðist nú alt í kringum skútuna, en stýrimaðurinn setti stórt skot í byssu, og eitt sinn, er hvalurinn kom upp rétt við skipshliðina, setti hann skotið í höfuð hans; var það aðeins fárra álna færi.
Eftir skotið varð sjórinn blóðlitaður, en hvalurinn hvarf og sást ekki framar.
Hvalurinn var hvítur á kviðnum og synti altaf undir bátnum á bakinu.
(Eftir handriti Jakobs Hálfdanarsonar á Húsavík.)
Gestaflugu munu flestir kannast við, enda þótt þeir séu orðnir færri en var, sem eru henni vanir, því að henni fer óðum fækkandi í híbýlum manna. Nafnið bendir á það, að fólk hefir þá trú, að hún boði gestkomur, og skal hér ein saga tilfærð, er bendir á, að það er á nokkrum rökum bygt. Sagan gerðist í Bárðardal nálægt 1896. Þar er afarlangt á milli fremstu bæjanna, er þá vóru, Mýrar og Íshóls. Á bæjum þessum voru stúlkur tvær, er vóru mjög til vina. Hét önnur Anna Margrét Indriðadóttir og átti heima á Mýri, en hin hét Rannveig Magnúsdóttir, og var til heimilis á Íshóli. Anna hafði gert Rannveigu boð um það um haustið, að hún ætlaði að heimsækja hana einhvern sunnudag um veturinn. Þar kom að, að Anna leggur af stað einn sunnudag í bærilegu veðri, og ætlar suður að Íshóli. En leiðin er löng, meira en dönsk míla; brast þá á hana ofsa landsynningsbylur, svo dimmur, að illratandi varð, enda var þá farið að dimma af nóttu, og ilt að finna bæinn, því að hann stendur á flatneskju. Nú er að segja af Rannveigu, að hún tekur eftir því, þegar líður að rökkri, að melfluga heldur sig ákaft að henni; dettur henni þá í hug, að ekki væri óhugsandi, að Anna væri nú á leið til sín. Tekur hún þá ljós, fer í framhýsi með það og setur það þar í glugga. Eigi leið á löngu, að Anna náði bænum; hafði hún séð ljósið, einmitt þegar henni var að þrjóta von með það að hún fyndi bæinn, og vissi varla, hvort hún ætti að halda. Það var svo að sjá, að flugan, eða trúin á hana, yrði stúlkunni til lífs.
Það hefir sagt mér skynsöm kona – segir sögumaður – á Húsavík, að ævinlega gæti hún vitað fyrir, hvenær einn af kunningjum sínum í fjarlægri sveit mundi koma, af flugu, sem ávalt kæmi á undan honum.
(Eftir sögnum frá Pálma Jóhannssyni á Sæbóli. 1908. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Gil eitt mikið og djúpt er á milli bæjanna Dalabæjar og Engidals í Úlfsdölum, er Herkonugil heitir; ræður það landamerkjum á milli bæjanna. Eru það gömul munnmæli, að tröllskessa ein hefði átt að stíga fram gilið, til þess að gera landamerki á milli bæjanna, og á nafnið að vera dregið af henni (herkona = tröllskessa). Ætla sumir að það hafi verið Skráma, sem bjó í Skrámuhelli, þegar Úlfur, sem Úlfsdalir eru við kendir, nam þar land og reisti Dalabæ. Hann er heygður á Dölum. Skrámuhellir var neðarlega í fjalli því, sem liggur austanvert við dal þann, er liggur upp frá Engidal. Fyrir svo sem mannsaldri síðan var op allmikið á helli þessum, en síðan hefir hrunið fyrir hann mikið af lausagrjóti, og mun hann vera horfinn nú.
Lengi var trú á því, og er enda enn, að ekki muni alt vera hreint í gili þessu, og hefir fram undir þetta verið venja að láta engan fara einsamlan yfir gil þetta að nóttu til eða kvöldi eftir dagsetur, nema því að eins, að engin ráð væri með mann til að fylgja honum.
Þegar Sigfús, faðir Þorvaldar hins ríka á Dölum, bjó þar, fór hann einhverju sinni yfir gil þetta seint að kvöldi; þegar hann var kominn ofan í gilið, kom yfir hann eins og þokustólpi, grár á lit; hélt hann áfram í gegnum þenna mökk, og virtist honum við og við vera eldglæringar í mekkinum. Þegar hann kemur upp í miðjan kinnunginn hinumegin, hverfur þetta alt í einu; fer hann svo heim um kvöldið. Þegar hann var háttaður um kvöldið og ætlar að fara að sofa, þá getur hann ekki sofnað fyrir einhverri aðsókn. Gengur þetta þangað til hann klæðir sig, og leggur sig svo fyrir í fötunum. Ber þá ekki neitt á neinu, og hann sefur vel um nóttina. Næsta kvöld fer á sömu leið. Heldur þessu áfram í viku, að hann getur ekki sofnað, nema klæða sig aftur. Svo hætti að bera á þessu. Sigfús var maður einhuga og hræddist ekkert. Þorvaldur, sonur Sigfúsar, sagði Pálma þessa sögu.
Þegar Bessi Þorleifsson, er síðar var veitingamaður á Siglufirði, var vinnumaður hjá Páli heitnum, syni Þorvaldar, fór hann einu sinni í kaupstað um vetur með mönnum frá Engidal. Á heimleiðinni fór hann fylgdarlaust yfir gilið seint um kvöld. Vissi enginn fyrri til en hann kom inn í baðstofuna á Dalabæ, og var þá eins og brjálaður maður. Í kaupstaðnum hafði hann tekið hlekki, sem hafðir eru í hákarlasóknir; hafði hann vafið öllum festunum utan um sig, og barði alt og lamdi í kringum sig, svo að það varð að halda honum. Kom hann svo til sjálfs sín eftir nokkra stund. Sagði hann þá svo frá, að þegar hann kom suður í gilið, hefði eitthvað komið að sér og viljað bægja sér ofan gilið; hefði þetta gengið spölkorn heim fyrir gilið, heim á Hrafnaskriðu, sem kölluð er. Hefði það altaf haldið sig þeim megin við sig, er frá sjónum vissi; en ekki gat hann sagt hvað það var eða hvernig. (Eftir föður Pálma.)
Móðir Pálma segir og þá sögu, að einu sinni hafi vinnumaður á Dölum verið látinn fylgja manni frá Engidal yfir gilið að kvöldi dags. Urðu þeir samferða ofan í gilsbotninn, og skildu þar, og fóru sinn upp á hvorn barminn. Venja var, þegar fylgt var yfir gilið, að menn hóuðu eða kölluðu hvor til annars, þegar upp úr gilinu var komið á báða vegu. Nú stanza þeir báðir, eins og vant er, til þess að gefa merkið, en þá sáu þeir báðir að gilið var fult með eldglæringar upp undir barma. Svo fara þeir heim báðir, hvor til síns bæjar, og vissi hvorugur, hvað hinn hafði séð, fyrri en þeir fundust næst. Báðir voru þeir sannorðir menn, og þekti sögumaður þá báða í æsku.
Þrautalendingin frá Dölum er rétt við gilskjaftinn. Einu sinni, þegar kvika var, lentu þeir Dalapiltar þar á tveim bátum; Pálmi var þá á Dölum, og einn í róðrinum. Þetta var að hausti til. Bátarnir voru settir upp í bakkann. Síðan gerði ógæftir, svo að bátunum varð eigi náð; svo kom einn logndagur, en þá voru þeir ekki sóttir vegna annríkis heima. Daginn eftir fór Pálmi út að Engidal, og kom að bátunum; var þá brotin bitakistan úr þeim bátnum, er neðar stóð; liggur hún í skutnum, og steinn hjá henni, á að gizka fjögra eða fimm fjórðunga þungur. Gat hann þessa heima; en næstu daga voru stormar og ósjór, svo að eigi varð náð bátunum. Svo lygndi einn dag, en ekki varð enn úr því að bátarnir væru sóttir. Næsta dag fór einhver þarna um; var þá bitakistan brotin úr hinum bátnum, og liggur eins aftur í skut, og steinn hjá henni; var hann nokkru meiri en hinn fyrri, sjálfsagt sjö eða átta fjórðunga þungur. Var þá samdægurs brugðið við og bátarnir sóttir. Undarlegast var það, að hvergi var brotið eða svo mikið sem marið undan steinum þessum, nema þetta eina, að bitakisturnar voru brotnar frá. Pálmi var sjónarvottur að þessu.
Páll eldri á Dölum var seinni maður Valgerðar, móður Þorvaldar ríka; bjó hann lengi á Dalabæ, og var stjúpi og fóstri Þorvaldar. Þá var Engidalur í eyði, og hafði Þorvaldur hann með. Einn dag um heyskapartímann lét hann stúlku vera þar, til þess að þurka nokkra flekki, sem lágu þar flatir. Bað hann hana að muna sig um það, að vera komin suður fyrir Herkonugilið áður en sólsett væri. Góður þurkur var um daginn, og fullþornaði heyið. Stúlkan fór því að taka saman flekkina að aflíðandi nóni, en um náttmál átti hún eftir þrjár flekkpentur; þótti henni ilt að skilja, þá eftir flata, og heldur áfram. Þegar hún er að enda við að saxa upp fyrsta flekkinn, heyrir hún dynk mikinn; gefur hún sig ekkert að því, og heldur áfram. Þegar hún er að enda við annan flekkinn, kemur annar dynkurinn, sýnu meiri en hinn fyrri. Þó byrjar hún á þeim seinasta, en þegar hún er nýbyrjuð, kemur þriðji dynkurinn; fanst henni hann helzt rétt undir fótum sér, og var hann svo mikill að jörðin skalf og titraði. Við þetta hættir hún, leggur frá sér hrífuna og heldur heim á leið. Þegar hún er komin að gilinu, mætir Páll henni; var hann þá kominn að leita hennar. Þorvaldur mundi þetta vel.
(Eftir hdr. Kr. I. Sveinssonar í Djúpadal, og Björns Jónssonar búfræðings á Reykjum í Hjaltadal, eftir sögnum Herdísar Bjarnadóttur, ekkju á Reykjum; eftir ýmsum sögnum, þar á meðal frá Þorsteini á Hvarfi o.fl. Hdr. Jónasar Jónassonar).
Hálfdanartungur heitir kot eitt í Norðurárdal í Skagafirði; það er að sunnanverðu í dalnum, frammi undir botni, þar sem leið liggur upp á Hörgárdalsheiði. Kot þetta, fór í eyði rétt um eða fyrir 1875, og hefir engin bygð verið þar síðan. Orð leikur á því, að eigi sé þar alt sem hreinast, og skal hér sagt nokkuð af því eftir frásögnum skilorðra manna.
Svo er sagt að systkin tvö hafi komið frá Noregi, og numið Norðurárdal til forna. Hétu þau Hálfdan og Silfrún, og voru bæði forn í skapi. Bygði Silfrún á Silfrúnarstöðum og Hálfdan í Hálfdanartungum. Þegar fram liðu stundir fór Silfrún að sjá það, að landkostir voru betri í Hálfdanartungum en hjá sér. Öfundaði hún bróður sinn mjög af því. Einhverju sinni kom hún fram að Hálfdanartungum að finna bróður sinn. Sýndi hann henni þá meðal annars málnytuna, og svo það, hvað rjóminn var þykkur ofan á trogunum. Lagði hann þá vetling sinn ofan á rjómann, og tók hann síðan af aftur; loddi þá ekkert af rjómanum við vetlinginn, svo var hann þykkur. Sárnaði Silfrúnu mjög, því að rjóminn hjá henni var ekki nærri því eins þykkur, og sagði að ilt mætti það vera, ef ekki gæti hún sent honum eitthvað, sem drægi kjarnann úr landi hans. Skömmu síðar sást gráskjótt trippi í landi Hálfdanar, sem enginn þekti, og enginn gat höndlað. Hálfdan þóttist vita hvaðan sending þessi væri komin; fór hann og gat höndlað það af kunnáttu sinni, og bundið það við stein í síki einu neðan undir móbarði fyrir utan og neðan Hálfdanartungur; mælti hann svo um, að það skyldi ekki losna fyrri en allar tönnur úr sér væru fúnar. Um miðja nítjándu öld fór að bera á trippinu; sást það oft heiman frá Hálfdanartungum snúast í hálfhring í síkinu eða á síkisbakkanum, og lá frá því taug ofan í síkið að stórum steini, sem í því stendur. Var það sem grá flyksa til að sjá, en þegar að var komið, sást það aldrei12.
En þótt ekki verði álitið, að trippið sé laust enn, þá hefir þó fylgt þessu svæði ýmislegt óhreint, og skulu hér greind tvö dæmi af mörgum.
Friðfinnur Bjarnason, bróðir Herdísar, ekkju á Reykjum í Hjaltadal, ólst þar upp með foreldrum sínum13. Þegar hann var rúmlega tvítugur, einhverntíma á árunum 1850-60, var hann sendur eitt haustkvöld frá Reykjum suður í Silfrastaðaafrétt, til þess að taka fé úr Hjaltadal, sem finnast kynni í Silfrastaðarétt. Þetta var á mánudagskvöld, og dimt yfir, þegar hann fór af stað frá Reykjum. Hafði hann verið í göngum um daginn, og var hálfbreyttur undir ferðina. Leiðin sem hann fór, er heldur sjaldfarin; fór hann fyrst fram Suðurárdal, sem liggur út úr Hjaltadalnum, skamt fyrir framan Reyki. Dragið að honum liggur nærfelt saman við dragið á Norðurárdalnum; er aðeins hryggur einn á milli, er kallast Þröskuldur. Eru þar urðir miklar og stórgrýti. Leiðin frá Reykjum að Fremri-Kotum í Norðurárdal er um tíu stunda ganga í góðu færi. Þegar hann var kominn af stað, dimdi mjög af nótt, og skall á þoka. Hundur var með Friðfinni, er Lappi var nefndur; hann var vitur mjög og tryggur, og yfirgaf Friðfinn aldrei. Þegar kom upp á urðirnar, er skilja dalina, tók Lappi að ókyrrast mjög, og bera sig illa, hlaupa frá honum og til hans aftur, gelta og urra, og reis á honum hvert hár. Alt í einu heyrir Friðfinnur hljóð. Heldur hann það sé maður, og hóar á móti. Þá hljóp hundurinn frá honum, og kemur ekki aftur, hvernig sem hann kallar. Þykir honum það undarlegt, því að því var hann óvanur af Lappa. Stundu síðar heyrir hann annað hljóð að mun hærra en hið fyrra, og hóar hann enn á móti, en enginn gegnir. Þegar Friðfinnur er að fara ofan í Norðurárdalinn, heyrir hann þriðja hljóðið; var það þeirra hæzt, og svo skerandi og vælulegt, að hann þóttist viss um, að þar væri enginn maður við riðinn. Hóar hann því ekki í móti, enda sagði hann sér hefði verið orðið hálfónotalegt, og var hann þó ekki myrkfælinn maður. Komst hann svo innan stundar að Hálfdanartungum, og hvíldi sig þar um tíma, áður en hann fór í réttina. Ekkert sá hann fyrir sig bera. Hundurinn kom heim um nóttina, og vildi ekki fylgja Friðfinni fyrst um sinn á eftir.
Eitt haust, skömmu fyrir 1880, rétt eftir að Hálfdanartungur fóru í eyði, fóru gangnamenn margir úr Blönduhlíð fram í afrétt til gangna. Voru sumir þeirra á Fremri-Kotum um nóttina, en sumir fóru að Hálfdanartungum; voru sumir kofar þar enn með baki. Áttu þeir Kotamenn að koma snemma morguns frameftir, og hitta þar félaga sína. Fleiri voru þeir, er lágu í Hálfdanartungum. Voru sumir í tjaldi rétt við bæinn, en sumir í bæjarkofunum. Sumt af hestunum var hýst þar í fjárhúsatóttum, en sumir voru heftir við bæinn. Þegar allir voru lagstir fyrir, nema tveir menn, er voru þar uppi í bæjarsundi, heyrðist dynur afarmikill í norður frá bænum, eins og fjöldi manna kæmi ríðandi neðan grundirnar. Þóttust og sumir heyra hringla í beizlum. Stukku þegar upp allir hundar og þutu í áttina með gelti og ógangi. Flestir gangnamenn þutu og á fætur, og héldu að Kotamenn mundu vera að koma, þótt þeir skildu ekki í því. Dynur þessi stóð að eins örstutta stund, en hundarnir ólmuðust lengi, þutu ýmist út að tóttarbroti einu þar á túninu með gelti og urri, eða komu þaðan aftur ýlandi og skrækjandi.
Eigi var laust við að geigur kæmi í suma gangnamennina, enda voru margir þeirra óharðnaðir unglingar. Einn gangnamannanna gekk þó út að tóttarbrotinu, og sagði hann að það hefði verið líkast því, sem hundunum hefði verið kastað á móti sér. Þegar hann var kominn rétt að tóttarbrotinu, sýndist honum hann sjá þar einhverja dökkleita skepnu, en enga lögun sá hann á henni, enda var þá koldimm haustnótt. Enginn var með honum, og þorði hann því ekki inn í tóttarbrotið, enda höfðu hundarnir aldrei farið lengra en að því.
Seinna um nóttina komu einhverjir af gangnamönnunum að tótt þeirri, er hestarnir voru inni í. Voru þeir tryltir mjög, og einn þeirra troðinn undir, og illa útleikinn. En hestar þeir, er úti vöru, voru allir þotnir burtu, flestir inn á heiði, alveg í öfuga átt við það, sem búast mátti við að þeir strykju. – Enginn hefir enn getað ráðið í hvað þetta hefir verið, en aldrei hafa gangnamenn náttað sig síðan í kofunum á Hálfdanartungum.
(Kr. I. Sveinsson hefir ritað sögu þessa eftir Valdemar Jónssyni, bónda í Djúpadal og Jóhanni Hjálmssyni trésmið á Vöglum í Akrahreppi. Þessir voru báðir með í göngunum, og voru í Hálfdanartungum um nóttina.)
(Handrit Jónasar Jónassonar.)
Efst í túninu á Kvíabekk í Ólafsfirði er dys ein líkust upphlöðnu leiði, nema hvað hún er nálægt því helmingi stærri um sig en leiði gerast. Dys þessi heitir Bjarnaleiði, og hvíla á henni þau ummæli, að aldrei megi slá hana. En sú er sök til þess, er nú skal greina:
Fyrir löngu, löngu síðan var vinnumaður hjá prestinum á Kvíabekk, er Bjarni hét;, þótti hann vera heldur hrottamenni bæði til orða og verka, og láta heldur vaða með súðum. Einhverju sinni var Bjarni á ferð með öðrum manni vestur í Fljótum, og ætlaði Ólafsfjarðarskarð, því að það er skemst leið milli Fljóta og Ólafsfjarðar, en ill er sú leið og hættuleg á vetrum í hríðum og dimmviðrum. Getur þar verið um fleiri skörð að villast. Þegar þeir félagar komu að vestan aftur, skall á þá stórhríð á Holtsdalnum; vissu þeir óglögt hvert þeir fóru, nema þeir vissu að þeir fóru í rétta átt. Vestan við Ólafsfjarðarskarð er hnúkur, og fjall vestur af og svo í suður. Kemur þar skál ein mikil eða skvompa í fjallið; eru háir klettar í kring, en stórgrýtt mjög fyrir neðan þá, og svo skálin öll. Um dagsetursbil komu þeir félagar fram á skálarbrúnina, og var ekki annað að sjá fyrir fótum þeirra en myrkur og iðulaust kafald. Var eigi árennilegt að fara þar fram af. Þá setti Bjarni skíðin undir fætur sér, og segir við félaga sinn: »Þú ræður hvað því gerir, en nú fer eg til helvítis,« og hljóp fram af fluginu. En félaga hans leizt eigi á blikuna, og hvarf aftur; segir eigi annað af honum en hann komst einhvern veginn til bygða.
Nú er þess að geta, að prestur á Kvíabekk gekk fram um miðja vöku þetta sama kvöld. Mætti hann þá Bjarna í miðjum göngum, og var hann þá heldur gustmikill. En prestur var ekki blár. Hann sneri Bjarna við, og gat flæmt hann á undan sér efst upp á tún, og þar fór hann niður að lokum. En ekki kom prestur inn fyr en í vökulok. Þegar hríðina birti, og fregnir fóru að berast um ferðalag þeirra félaga, var Bjarna leitað. Fanst hræ hans í skálinni, og heitir hún síðan Bjarnaskál. Var það heim flutt, og dysjað þar sem afturganga hans hafði niður farið. Gekk prestur sjálfur frá leiðinu, og sagði síðan, að ekki mundi mein verða að afturgöngu Bjarna, en enginn skyldi verða svo djarfur að slá leiði hans.
Síra Emil Guðmundsson, er síðastur var prestur á Kvíabekk, og dó þar 1907, hataði allar hégiljur og hjátrú; sagði hann mér sögu þessa, og sagði mér, að eitt sumar hefði hann látið slá leiðið og hirða heyið með annari töðu. Um veturinn kom upp fár mikið og dauði í fé hans, svo að hann beið þá þann skaða, að hann beið þess aldrei bætur. Eigi vildi hann samt eigna þetta ummælum prests. – En leiðið kvaðst hann ekki mundu slá oftar.
(Sögn Þorláks útgerðarmanns Ólafssonar í Ólafsfjarðarhorni. 1908. Handrit Odds Björnssonar.)
Vestur úr Eyjafirði utarlega gengur fjörður eigi mikill suðvestur í landið, er Ólafsfjörður heitir. Bær er þar sá, er Kálfsá nefnist. Nokkuð frá bænum upp með Kálfsánni að sunnan er tuttugu hesta slægnateigur, er Álögublettur heitir. Hvílir sú trú á teig þessum, að eigi megi slá hann. Er það og eigi gert, nema þá sjaldan að vantrúaðir menn í þessum efnum hafa haft bann þetta að engu og talið það markleysu eina og hjátrú og ráðist á slægjurnar í Álögubletti. En hált hefir þeim orðið á því, og illa hafa þeir rekið sig á bannlögin óskráðu, svo að enginn hefir vogað að endurtaka árásina á Álögublett. – Skulu nú sagðar tvær sögur máli þessu til sönnunar.
Snemma á öldinni sem leið bjó sá bóndi á Kálfsá, er engann trúnað lagði á bannið á Álögubletti. Bóndi þessi átti hest þann, er talinn var afbragð annara hesta Ólafsfirði, og þótt víðar væri leitað. Þótti bónda mjög vænt um gripjnn. Sumar eitt hleypur bóndi í að slá bannblettinn; segir það hindurvitni ein, að ilt muni af hljótast. Heyið var kjarngott og hafði bóndi það til eldis reiðhesti sínum. Morgun einn snemma vetrar þess næsta á eftir að bóndi sló Álögublett, fer hann að vanda í hesthús að hirða eftirlætishest sinn. Bregður honum í brún, er hann kemur í húsið, því að hesturinn liggur þar dauður og illa út leikinn. Sást á honum, að hann hafði orðið fyrir misþyrmingum miklum, áður en hann lét líf sitt. – Við þessa aðvörun lét bóndi sér segjast og sló Álögublett eigi upp frá því.
Árið 1895 bjó sá bóndi á Kálfsá, er Jón hét, og var Guðmundsson; kaupamann hafði hann sunnlenzkan þá um sumarið. Morgun einn hafði kaupamaður rokið í að slá Álögublett, án þess honum væri sagt það. Að vísu var hann látinn hætta slættinum á þessum stað; en þó var það hirt sem slegið var, og látið í fjárhústóttina. Morgun einn snemma vetrar fanst ein kindin dauð í fjárhúskrónni, en eigi gátu menn fundið úr hvaða veiki kindin hafði drepizt. Allur var skrokkurinn með bláum blettum, en í miðju hvers bletts var einsog svört stunga. Annað sást ekki á kindinni. – Síðan hefir Álögublettur eigi verið sleginn. Þorlákur Ólafsson var þá á Kálfsá hjá Jóni bónda og fann kindina dauða umræddan morgun.
Margir eru fleiri bannstaðir í Ólafsfirði, svo sem á Kvíabekk, og gætu Ólafsfirðingar sagt um þá mergjaðar sögur, ef þeir vildu leysa frá skjóðunni.
(Eftir handriti Guðmundar Guðmundssonar í Landakoti. 1907.)
Árið 1876 eða 77 keypti eg þilskip, er lá á Reykjavíkurhöfn, sem hét »Örnen«. Það var lítil skúta, sautján eða átján tonnar. Fekk eg þegar skipstjóra fyrir hana, Hannes Hafliðason, sem nú er í Reykjavík; hafði hann þá nýlokið stýrimannaprófi í Höfn. Sigldi hann skútunni suður hingað um nótt um Jónsmessuleytið um vorið. Sá eg til skútunnar nokkru áður en hún kom, og réð af að vaka eftir henni. Þegar hún var lögst við akkeri, fór eg út í hana á bát með öðrum manni, og af því svo var langt liðið á nótt, komið nær lágnætti, fór eg ekki í land aftur, en réð af að sofa í skipinu til morguns. Lagðist eg fyrir í flet í afturlyftingu, og skipstjóri á móti mér. Sofnaði hann þegar, en eg gat ekki sofnað.
Þegar eg var búinn að liggja vakandi nokkra stund, fanst mér eg ætla að sofna, en í hvert skifti, sem að því var komið, að eg ætlaði að festa blund, hrökk eg upp við bað, að gengið var á stígvélum fram og aftur um þilfarið. Eg skildi ekkert í þessu, fór ofan og gægðist upp til að sjá, hvort nokkur væri uppi, en þar var enginn. Blæjalogn var, svo að ekki bærðist hár á höfði. Eg gætti að, hvort nokkuð væri til lauslegt, er valdið gæti skrölti, blökk eða kaðalendi, en það var ekki. Skútan bærðist ekki, og sjórinn var sléttur sem spegill. Að lyktum sofnaði eg um sólaruppkomu. Um hádegi daginn eftir var komið skafningsrok.
Það bar oft við á þessari skútu, að menn heyrðu skrölt og umgang, sem enginn skildi í. Þannig sagði mér einn vinnumaður minn frá því, að einu sinni, þegar skútan var lögð upp í vetrarlegu í Gufunesi, fór hann þangað með henni, og ætlaði að sofa í henni stundarkorn, eftir að hún var lögð upp. En lítið eða ekkert sofnaði hann, því að honum heyrðist vera verið að kasta til kössum og tunnum í farmrýminu (lestinni), og öllu lauslegu, sem þar var; var því hent enda á milli, og varð af því svo mikill hávaði, að hann gat ekki sofnað, enda tók undir í allri skútunni. Sagt var, að danskur skipstjóri, Markmann að nafni, er lengi hafði verið fyrir henni, en dáið stuttu áður en hún var seld hingað, mundi halda til í henni við og við. En ávalt, þegar vart varð við þetta, mátti eiga það víst, að hvassviðri var í nánd.
Skúta þessi var mesta happaskip. Átti hún mörg ár heima í Hafnarfirði, var seld þaðan til Keflavíkur, og rifin þar í fyrra (1906).
(Eftir hdr. Sveins trésmiðs Jónssonar frá Mósgerði í Fljótum. 1908.)
Á Sjöundastöðum í Flókadal í Vestur-Fljótum er síðan úr fyrri tíð gamall heygarður fyrir utan bæinn, rétt við tún sem heitir Fjósvöllur. Sagði mér gömul ekkja, sem enn er á lífi, og Una heitir, Bjarnardóttir frá Róðhóli, að eitt sinn í norðan bleytuhríð hafi hún verið að láta inn fé sitt í Borgargerði, næsta bæ við Sjöundastaði. Heyrir, hún þá þrjú hljóð mikil og ámátleg, og svo hræðileg, að hún ætlaði ekki að ráða við sig, svo óstjórnleg hræðsla greip hana; var hún þó ekki hugdeig kona eða skrumari neinn. Hljóð þessi hin miklu virtust henni koma frá nefndum heygarði; er mál manna, að það hafi verið útburður. Hljóðið er haldið að hafi verið fyrir veðri því, er þá hélzt lengi.
(Sögn Friðriks bónda í Nesi í Eyjafirði fram. Handrit Hannesar Jónssonar í Hleiðargarði.)
Þegar Jóhann († 1902), faðir Friðriks bónda í Nesi, var unglingspiltur á Hranastöðum í Hrafnagilshreppi, var hann eitt haust sendur í dalagöngur með tveim mönnum öðrum, Jóni bónda, er þá bjó í Víðirgerði, og Jóni bónda í Hólshúsum. Ganga þeir göngurnar eins og lög gera ráð fyrir, og átti daginn eftir að rétta í hinni svo nefndu Stóruborgarrétt, og draga í sundur fé manna. Gistu þeir félagar þess vegna á bæ þeim, er Vellir heitir, og er hann skamt frá réttinni. Um kveldið, er þeir koma þangað, ganga þeir Jónarnir þegar inn, því báðir vóru þeir þar vel kunnugir, en Jóhann sezt að úti, og gætir að hrossum þeirra. En ekki eru þeir fyr komnir inn, en hann heyrir óhljóð mikil fram með Djúpadalsá, en hún rennur rétt hjá bænum. Hlustar hann á þetta um stund, og virðast honum hljóðin koma nær og nær. Getur hann ekki skilið, hvað þetta sé, því að það heyrir hann, að hljóð þessi eru ekki lík neinu, er hann hefir heyrt áður. Þegar þetta er komið svo nærri, að hann veit það er komið heim á túnið, dettur honum í hug að þetta muni vera Hleiðargarðs-Skotta. Biður hann þá ekki boðanna, en leggur á stað inn, þó ókunnugur væri, því að ekki vildi hann bíða Skottu. Þegar hann kemur að baðstofudyrum, heyrir hann seinasta hljóðið í bæjardyrunum, og var það öskur voðalega mikið. Ekki nefndi hann þetta, er inn kom, við nokkurn mann. Líður svo kveldið. Um háttatíma er Jóhanni og Jóni frá Víðirgerði vísað til rekkju frammi í bæ. Þegar þeir eru orðnir tveir einir, spyr Jón Jóhann, hvort nokkuð hafi borið fyrir hann um kvöldið, er hann var einn úti, og segir, að sér hafi sýnst hann mjög rauður í andliti, er hann kom inn. Segir Jóhann honum þá, hvað hann hafi heyrt. Jón segir, að líklega hafi þetta verið Skotta, og undri sig ekki, þó annað veður yrði komið að morgni. Þetta kvöld var veður hið bezta og blíðasta, og ekki sýnilegt að það breyttist um nóttina, en um morguninn, er þeir vakna, var kominn blindbylur á norðan. Þótti líklegt að Skotta hafi viljað leita sér náttstaðar fyrir þetta illviðri.
(Þessi viðburður mun ranglega vera settur í samband við Skottu, heldur sýnist þetta hafa verið almenn veðurfylgja, sem margar sagnir eru til um.)
(Handrit Sigurðar Pálmasonar búfr. á Æsustöðum í Langadal.)
Árið 1873 var faðir minn, Pálmi Sigurðsson, við sjóróðra á Kálfshamarsnesi á Skaga. Eitt kvöld snemma vetrar komu þeir út allir, sjómennirnir. Heyra þeir þá allir þrjú eymdarleg og átakanleg hljóð þar út með sjónum. Formaður þeirra, Jón Guðmundsson, sagði þeim, að þau heyrðust oft á undan norðanveðrum, og væru frá dys á Einarsnesi; hefðu þar verið dysjaðir Spánverjar, sem rænt hefðu á Skaga, og verið drepnir þar fyrir löngu. Þetta var orð, og að sönnu; daginn eftir var norðanstórhríð.
(Sögn Jakobs Jónssonar á Árbæ og Kristjáns Kristjánssonar í Ytri-Tungu. Handrit Jóns Jakobssonar á Árbæ. 1908).
Haustið 1871 var gæftakafli góður síð um haustið og fiskafli góður hér við Tjörnes. Sóktu menn sjóinn meðan stillingarnar entust, og fiskuðu vel. Það ár var faðir minn, Jakob Jónsson, á Ísólfsstöðum hér á nesinu; Jóhann Jónsson, ættaður úr Hrísey á Eyjafirði, bjó þá líka á Ísólfsstöðum. Hann var sjómaður góður og formaður á bát þeim, sem þá gekk úr Kerlingarvík. – Enn var sá maður þar á Ísólfsstöðum, er Kristján hét, Kristjánsson, Sigurðssonar; hann dó fyrir einu ári í Húsavíkurþorpi. Kristján var gætinn sjómaður, og oft einkennilega glöggur að segja fyrir um veður. Það var kvöld eitt um haustið að þeir gengu út, piltar – áður þeir fóru til svefns – að gá til veðurs, því ætlað hafði verið að róa næsta morgun, eins og undanfarna daga, ef til gæfi. Loft var hrein-heiðríkt, tunglskinslaust, en stjörnuljós, dimt til jarðar, því jörð var snjólaus, logn og frost. Á hlaðinu úti fara piltar að ræða um veðrið, og þykir þeim líklegt, að bezta sjóveður verði næsta dag. En meðan þeir eru að talast við þar á hlaðinu, heyra þeir hljóð, eða þó öllu heldur væl nokkurt, í norðaustur átt frá bænum. Þykir þeim það allmikilli furðu sæta, ganga því allir norður fyrir bæinn til að grenslast frekara um þetta. Þaðan heyra þeir hljóðið glögt, og var það líkast veiklulegum barnsgráti; heyrist það stundum glögt, stundum nær ekkert, og stundum tekur fyrir það með öllu. Þannig hlýða þeir þessu um stund og talast ekki við, en svo tekur það af með öllu. Biðu þeir þá enn tímakorn, en án þess að heyra til þess frekar. Þá hefst Kristján Kristjánsson máls og segir: »Hann er að láta heyra til sín, útburðurinn, núna. Og þó ykkur þyki ekki líklegt, þá gæti eg þó bezt trúað því, að stórhríð verði komin í fyrramálið.« Ekki vildu hinir fallast á það og hlógu að. Þó fór svo, að spá Kristjáns rættist. Næsta morgun var komin iðulaus norðaustan stórhríð.
Næsti bær fyrir neðan Ísólfsstaði er Hóll. Skamt sunnan við bæinn á Hóli er lækur, sem nefndur er Kerlingará; Þar sem áarspræna þessi rennur fram í gegnum melholt þau, sem eru suður og niður af Hólsbænum, hefir myndast lágar-kvos nokkuð djúp; hún heitir Torfdalur. Neðst í lág þessari, rétt sunnan við ána, er stór melhóll, sem stendur einstakur þar í mýrinni, laus frá holtunum; hann er kallaður Grýtuhóll, og er í Ísólfsstaðalandi. – Sagt er að einhverntíma í fyrndinni hafi verið borið barn út á hól þessum, og að það hafi dáið þar. Áttu þaðan að hafa heyrzt hljóð og grátur lengi síðan. Sagði Kristján Kristjánsson mér 1904, að hann hefði oft heyrt talað um útburðinn í Grýtuhól og hljóð hans. Sagðist hann og sjálfur hafa heyrt þau oftar en í þetta skifti, sem hér er greint, og hafði það æfinlega verið fyrir vondum veðrum, illviðrum eða hríðum.
(Sögn og handrit Stefáns H. Eiríkssonar á Refsstöðum. 1906.)
Veturinn 1905 var, sem kunnugt er, mjög góður til jóla eða vel það, oftast stilt veður og milt. Menn vóru því úti seint og snemma, og gátu séð gerla það, er fyrir augun bar um hauður og himin. Vil eg hér geta um einkennilegt ljós, er eg og fleiri sáu í fyrra vetur. Einn morgun, stundu fyrir dagmál, kom eg út á hlað; sá eg þá ljós í norður átt eða norðvestri, svo sem eins og miðja vega milli venjulegra búmannsnáttmála og miðnættis; bar það héðan frá Refsstöðum yfir nyrzta endann á Langadalsfjalli og jafnframt vestustu hnjúkana af Laxárdalsfjallinu, fyrir ofan Skrapatungu eða Höskuldsstaði, og að eins skamt yfir fjöllunum. Ljós þetta var líkt og stór, skær stjarna, mjög rauðleitt, eldrautt á litinn. Himininn var með hulu yfir sér, dökkur mjög, og mun það hafa verið hita- eða góðviðrismóða, svo hvergi sást stjarna á lofti annarstaðar. Stjarnan sást stundarkorn, hvarf svo smátt og smátt. Ljós þetta sást aftur næsta morgun og kveldið eftir, og var í hvorugt skiftið heiðríkt loft. Síðan eigi framar. Á þetta horfði eg, kona mín og alt heimafólkið, einu sinni eða tvisvar. Sömuleiðis hefi eg síðan sannspurt, að þetta sama ljós sást frá Mánaskál hér yzt í dalnum. Mun það hafa verið í eitt skiftið er við sáum það, þótt því miður hafi ekki verið hægt að setja upp daginn. Ekki gat eg gert mér grein fyrir, hvaða ljós þetta var; eg hefi aldrei séð svo skæra eða svo lita stjörnu í þessari átt, eða svo nálægt jörðu, og aðrar stjörnur sáust heldur ekki. Mér þótti því líkast, að kynt væri bál á fjöllunum, en þó mun það eigi hafa verið gert. Ekki minnist eg veðrabrigða eða neinna stórviðburða á eftir.
(Sögn og handrit Stefáns Eiríkssonar á Refsstöðum. 1906.)
Björn Bjarnason er maður nefndur, stiltur maður og skynugur. Hann var á Refsstöðum í Húnavatnssýslu haustið 1906. Eitt kvöld rétt fyrir háttatíma kemur hann út og sér friðarboga í suðvestri, allgreinilega, þó skuggsýnt væri.
(Sögn og handrit Jakobs borgara Hálfdanarsonar á Húsavík. 1907.)
Þetta nafn finst mér réttast að velja því eina óskiljanlega, sem fyrir mín augu hefir borið um dagana. Skal eg reyna að lýsa því svo vel, sem eg get. Að vísu eru nálægt þrjátíu ár liðin síðan, en þó er mér fyrirburður sá einatt í fersku minni, því eg var vel vakandi og alls ekki af neinu, mér vitanlega, glapinn.
Eg átti þá heima á Grímsstöðum við Mývatn. Bær sá stendur nyrztur allra bæja við vatnið, og á bakka að kalla, við vík allmikla, er liggur norðan við Slúttnes. Allskamt austan við bæinn byrjar hið nýja hraun, sem rann úr Kröflu 1725 og árin þar á eftir. Hraunið hefir fallið í vatnið alla leið þaðan frá, austur að Reykjahlíð, sem mig minnir að sé nálægt 1800 faðmar. Miðsvegar milli bæjanna skagar hraunið lengst fram í vatnið, og er þar nefndur Hrauntangi. Hraunströnd þessi frá jaðrinum að vestan liggur til suðausturs, alt á Hrauntangann, en síðan þvert austur, alt að Reykjahlíðartúni. – Á vetrum, þegar ís er á vatninu, er þarna gang- og reiðvegurinn milli bæjanna, og er þá fyrst stefnt á Hrauntangann.
Það var um vetur á góu, að eg kom að áliðnu dags frá Gautlöndum. – Eg reið léttum hesti; ísar og beitihjarn var yfir alt. Þegar eg var kominn á svonefnda Neslandsmýri, var orðið svo dimt af nótt, að eg sá ekki bæinn; en af kunnugleika var eg nægilega viss á stefnunni, þar sem veður var gott og fjallasýn glögg. Þessi leið mín heim að Grímsstöðum er til norðausturs, og eg mun enn hafa verið á að gizka átta- til níuhundruð faðma burtu, þegar þá furðusjón bar fyrir mig: að eldstólpi kemur upp, að vísu smástækkandi, enn þó fljótt stærri enn nokkurt heyhlass, sem títt er að flytja á sleðum um Mývatnsís – en heyæki varð mér að koma í hug af því, að bálköstur þessi fór þegar af stað, þaðan sem hann kom upp –; sá eg það var allskamt frá bænum, þó að eg gæti ekki greint það nákvæmlega vegna náttmyrkurs. En eg gat ekki betur miðað, enn að eldhlassið héldi á gönguslóðina suðaustur að Hrauntanga. Eftir að það fór af stað, smá herti það á ferðinni og svo, að það fór með líkum hraða og nú sjást hjólreiðir á götum. – Þegar komið var suðaustur undir Hrauntangann, smá-hægði það ferðina, unz það stöðvaðist sem snöggvast, og hélt síðan af stað til baka, nákvæmlega sömu leið, og með líkum hraða og áður, þar til kom á sama stað og eg sá það fyrst; hvarf það þá að fullu. Eg vík á, að það hafi verið stærra en æki – já, fimm eða sex álna hátt, og sex til sjö álna langt; – að mestu eða öllu var það óbreytt frá því fyrsta til hins seinasta, þó mishæðir, líkt logatoppum, væri upp úr því; þó leiftruðu þeir ekki neitt til, og enga skímu sá eg leggja frá því, þó það kæmi mér fyrir sjónir sem glóandi bál, ljósgult að lit. – Eins og eg vona að skilja megi af lýsingunni að framan, gekk þessi sýn þvert fyrir minni stefnu; fyrst til hægri handar og svo til vinstri. – Mig greip strax ákafasta löngun til að komast nær þessu, og sló í mestu flónsku í hestinn og fór hvað eg komst, en leit ekki af undrinu, meðan það var uppi, en það þýddi lítið, því varla mun það hafa verið meira en ein mínúta í alt – leiðin sem það fór nálægt sjö hundruð faðmar. – Eg miðaði, svo vel sem eg gat, við fjöllin, stefnu mína á depilinn, þar sem það kom upp og hvarf á, og hélt henni vel. Það hjálpaði líka, að einu sinni eða tvisvar þóttist eg sjá ljósglampa á sama stað, og þar kom, að eg var við svonefnda Lambhúsvík, sem er suðvestan við túnið á Grímsstöðum. Vík þessi er auð allan veturinn með kaldavermslisuppgöngu-augum. – Kofi, með nokkrum kindum í, var þarna á bakkanum, og voru nú tveir menn þar með ljós, við að baða eða bera þrifabað í kindurnar; ljósglampi frá þeim hafði það verið, sem mér sýndist bregða fyrir á eftir hinni miklu sjón. – Ekki höfðu þeir neitt séð, enda verið inni í húsinu, og ekki komið út með ljós. – Sjón þessi var svo glögg og, að mér fanst, svo veruleg, að eg furða mig á, ef náttúrufræðin getur ekki gert hana skiljanlega.
(Sögn Þorsteins Þorsteinssonar að Skipalóni í Hörgárdal. 1907. Handrit Odds Björnssonar.)
Miðvikudaginn 19. des. 1906 var suðvestan rosaveður; þá riðum við hjónin til Akureyrar. Nokkru eftir dagsetur komum við heim aftur. Þegar við riðum heim túnið, segir Gunnlaug: »Hvaða illviðrisglóra er þetta, þarna fram í dalnum?« Eg veitti þessu enga eftirtekt, því mér var kalt og hugsaði mest um að komast heim. Þegar við komum heim á hlaðið, fer kona mín inn, og biður pilta að koma fram, og hjálpa mér til að spretta af hestunum. Þegar við vórum nýkomin inn, verður Gunnlaugu litið út um glugga á suðurstafni hússins og kallar: »Sjáið þið bálið!« Hlupu þá allir út til þess að sjá þetta sem bezt. Eftir nákvæma athugun kemur okkur Ólafi Þórðarsyni (sambýlismanni mínum) saman um, að það hljóti að vera að brenna á Möðruvöllum. Bjuggu sig þá tveir menn í snatri af stað, til þess að bjarga við brunann, Ólafur Þórðarson, og vinnumaður minn, Einar Jónsson. Litlu eftir brottför þeirra kem eg út aftur að athuga bálið. Þegar eg hefi horft á það litla stund, er líkast að sjá, sem breytt sé úr stórum loganda hrískesti, og dettur það niður og hvarf að heita mátti samstundis.
Einkennilegt var það, að þótt hvast væri, þá lagði eldstrókinn beint í loft upp, og sást ekki að vindurinn hefði minstu áhrif á hann. Enginn reykur sást; bálið var mjög hvítt, og svo mikið, að við töldum víst, að þar væri íbúðarhús Stefáns kennara að brenna. Bálið sást fulla hálfa stund, engri birtu sló frá því, og var það, meðan það var mest, turnmyndað. – Sendimenn sáu brunann langt á leið, þangað til leiti bar á milli; en er þeir sáu aftur heim að Möðruvöllum, var bálið horfið og þar hafði ekkert brunnið.
(Eftir handriti Margeirs Jónssonar á Ögmundarstöðum í Skagafirði. 1908. Sögn föður hans.)
Foreldrar sögumanns bjuggu á Dynjanda á Jökulfjörðum í Ísafjarðarsýslu. Vóru þeir þrír, bræðurnir, þar hjá foreldrum sínum, Jón, er söguna sagði, Halldór og Friðbjörn. Bæjardyrnar á Dynjanda snúa til vesturs. Tún er þar lítið, en sunnan við túnið er gil alldjúpt, og sunnan við gilið mýrarfláki mikill.
Eitt kvöld að vetri til gengu þeir út bræðurnir, Friðbjörn og Halldór. Gekk Halldór suður fyrir bæinn, en Friðbjörn út fyrir. Þegar Halldór kemur suður fyrir bæinn, sér hann eldsloga suður hjá gilinu; blossaði loginn upp við og við, en smádofnaði á milli. Hann furðaði sig á þessu, og hleypur þegar af stað suður að gili, og sleppir aldrei augum af sjón þessari. Þegar hann kemur suður á gilbarminn, þá sér hann þetta er á syðri gilbarminum, í mýrarjaðrinum; sér hann og að eldarnir vóru tveir; á milli þeirra var maður á hnjánum, og rekur hann ölnbogana í eldana á víxl; tendrast þeir upp við það í hvert skifti.
Halldór ætlaði þegar að hlaupa suður yfir gilið, en lítur af þessu um leið. En þegar hann lítur þangað aftur, sér hann ekkert. Varð hann þá hræddur, og hljóp heim og inn í baðstofu, og var þá fölur af hræðslu. Gat hann ekki sagt frá þessu fyrri en hann hafði nokkuð náð sér.
Grunur manna var, að einhver maður á fyrri öldum hefði grafið þarna peninga sína, og verið að leika sér að þeim. En engar sagnir vissu menn um það.
(Eftir gömlu handriti Bjarna Jóhannessonar á Sellandi í Fnjóskadal og handriti (1906) Hannesar Jónssonar í Hleiðargarði. Almenn sögn í Eyjafirði og Skagafirði. Hdr. Odds Björnssonar.)
Fram af Eyjafjarðarhéraði er afdalur einn, er gengur inn í hálendið til útsuðurs. Eftir honum endilöngum fellur Torfufellsá, og austur í Eyjafjarðará milli bæjanna Torfufells og Leynings; hefir hún upptök sín inni í óbygðum. Suðaustan árinnar liggur dalurinn allur undir Torfufell, og er þeim megin nefndur Torfufellsdalur. Að vestanverðu í dalnum stendur bærinn Syðri-Villingadalur, og á hann land þar skamt fram fyrir, alt að Svartá; þar fyrir framan heitir kjálkinn að vestan Leyningsdalur, alt að Galtá, og er það Leyningsland. Fyrir framan ána heita Galtártungur. Upp með Galtá að sunnan liggur vegur yfir svonefnt Nýjabæjarfjall að Nýjabæ í Austurdal í Skagafirði. Var hann áður fjölfarinn, en nú er vegur þessi sjaldfarnari; þó er hann stundum farinn, einkum á haustum, er menn þurfa að fara héraða á milli.
Á einum stað á Torfufellsdal eru dysjar margar; eru þær á sléttri grund og sjást þeirra glögg merki; kallast þær Draughólar. Saga sú, er hér fer á eftir, sýnir hvernig á dysjum þessum stendur. – Þar sem sagnir þeirra Bjarna og Hannesar eru all-ólíkar, verða þær báðar tilfærðar, og sögn Hannesar fyrst, en sagnir Skagfirðinga síðast.
Einhverju sinni fyrir löngu reis upp deila mikil milli Eyfirðinga og Skagfirðinga út af fjöllunum fram af þessum sveitum, og fjárleitum þar. Þóttust hvorirtveggja hafa rétt til landsins alt fram að Laugafelli og Þjórsárkvíslum. Vildu hvorugir undan láta, og varð kur mikill milli héraðanna, og að lokum fullur fjandskapur. Sáu menn að svo búið mátti eigi standa, og varð það að ráði, að nokkrir valdir menn úr báðum sveitum skyldu hittast á Nýjabæjarfjalli og skera þar úr þrætu þessari; komu allir hinir tilkvöddu menn á mótið og ræddu málið; en svo var fjandskapurinn mikill, að engir friðsamlegir samningar gátu tekizt, og lá við sjálft, að sendimenn berðust þar á fjallinu. Þó varð sá endir á, að Skagfirðingar og Eyfirðingar skyldu hittast á tilteknum degi á fjallinu, og skera úr misklíðinni með vopnum. Áttu þeir að hittast þar á jafnmörgum hestum. Leið nú fram að stefnumótinu, og bjuggust hvorirtveggja hið bezta. Eyfirðingar tóku það ráð, að þeir tvímentu allir, og gekk því ferðin seint. Vóru þeir komnir á slétta grund á Torfufellsdal, er þeir sáu að Skagfirðingar komu ofan af fjallinu; hafði þeim leiðst biðin. Stönzuðu þá Eyfirðingar og biðu þeirra og bjuggust fyrir. Var liðsmunur mikill, því allir Skagfirðingar einmentu, og höfðu ekki búizt við svikum. Eigi vildu þeir þó undan snúa að óreyndu, og laust því í bardaga. Er svo sagt, að þar féllu Skagfirðingar allir, og séu þeir dysjaðir á grundinni.
Mjög hefir þótt reimt í kringum dysjar þessar; hafa smalamenn frá Villingadölum, og ferðamenn, er farið hafa Nýjabæjarfjall, séð þar eldglæringar á kveldum, er dimt hefir verið, og nokkrum sinnum hafa menn þótzt heyra vopna-gný til dysjanna. – Ekki hefir verið grafið í þær, svo menn viti, nema einu sinni lítilsháttar. Vóru það smalapiltar, er sátu yfir ám eða lömbum. Grófu þeir með mathnífum sínum í eina dysina, og gekk það verk seinlega, sem nærri má geta. Þó kom svo, að þeir komu ofan á hellu eina, er þeir gátu ekki bifað. Sýnist þeim, sem hella þessi lægi yfir hleðslu. Var og ekki trútt um, að þeir óttuðust að eiga mikið við þetta, og héldu að ilt kynni að hljótast af þessari forvitni þeirra. Hættu þeir því við svo búið.
Bjarni segir svo frá:
Fyrir mjög löngu, meðan landið var í heiðni, er sagt að Skagfirðingum hafi litist vel á Galtártungur og viljað ná þeim undan Eyfirðingum. Í því skyni komu þeir eitthvert sinn vestan Nýjabæjarfjall með liðsafnað mikinn. Tveir menn vóru fyrir liðinu, hét annar Ísleifur en hinn Sverrir.
Þegar Skagfirðingar komu ofan í dalinn, skiftu þeir liði. Fór Sverrir ofan Leyningsdal, en Ísleifur Torfufellsdal, og skal fyr sagt af honum og afdrifum hans.
Eyfirðingum hafði borizt njósn af för Skagfirðinga. Söfnuðust þeir nú saman og héldu á móti þeim. Nokkru framar en gegnt Syðri-Villingadal er grund ein mikil; rennur lækur eftir henni. Þar mættu Eyfirðingar Ísleifi, og tókst þar með þeim allharður bardagi. Eyfirðingar fylktu liði sínu beggja megin lækjarins, og er bardaginn var sem harðastur, komu konur eigi allfáar úr Eyjafirði; gengu þær þegar að og báru klæði á vopn Skagfirðinga. Tók þá bardaginn að hallast á þá, er þeir fengu eigi viðkomið vopnunum. Féllu þeir hver um annan þveran. Sjást þar enn á grundinni alt einir smáhólar, sem virðast líkastir dysjum, og eru nefndir Draughólar.
Þegar nú alt lið Ísleifs er fallið, lagði hann á flótta, og rennur sem mest hann má fram allan Torfufellsdal, en Eyfirðingar sóttu fast eftir. Eltu þeir Ísleif fram fyrir Lambá, og náðu honum að lokum ofarlega í fjallinu, í skál nokkurri. Drápu þeir hann þar og kösuðu, og heitir sú skál síðan Ísleifsskál.
Nú er að segja af Sverri, að hann heldur með lið sitt heim Leyningsdal. Veit hann ekki fyrri til en Eyfirðingar koma þar á eftir honum framan dalinn. Slær þegar í bardaga. Koma þá konur, sem fyr, og bera klæði á vopn Skagfirðinga. Tekur þá Sverrir að hopa heim dalinn, en lið hans stráfellur. Sjást þar margir smáhólar meðfram fjallshlíðinni, sem sagt er að séu dysjar þeirra, er féllu þar.
Þegar Sverrir er kominn yzt í Leyningsdal, er lið hans alt fallið. Tekur hann þá á rás og rennur upp í dal einn lítinn, sem liggur undir Syðri-Villingadal. Þar náðu Eyfirðingar honum og drápu hann. Sést þar enn haugur hans, og heitir Sverrishaugur, en dalurinn er nefndur Sverrisdalur (Svardalur).
Eftir þennan sigur héldu Eyfirðingar heim til sín, og er ekki annars getið, en þeir hafi hagnýtt sér Galtártungur síðan í góðum friði, og liggja þær nú undir Leyning.
Frásögu þessa skrásetti Bjarni eftir sögu gamals bónda í Fnjóskadal, sem alizt hafði upp fram í Hólasókn Eyjafirði; heyrði sá maður hana þar í ungdæmi sínu. –
Um atburð þennan ganga og gamlar munnmælasagnir í Skagafirði. – Fremsti bær í Austurdal er nú Ábær síðan Nýibær lagðist í eyði um 1880. Austan árinnar milli bæja þessara heitir Ófriðarstaðabakki, en Ófriðarstaðahlíð þar fyrir ofan. Hólar tveir einstakir eru á bakkanum, sem mælt er að sé dysjar fallinna manna, einkum Eyfirðinga, því að Eyfirðingar hafi komið með her manna á hendur Skagfirðingum og orusta mikil og mannskæð verið háð á Ófriðarbökkum. Þar á bökkunum er áttkantaður stuðlabergssteinn, tveggja eða þriggja manntak, sem nefndur er Letingi. Er sú grjóttegund þar hvergi nærri. Segir sagan að hent hafi þeir steini þessum á milli sín, Eyfirðingar og Skagfirðingar. Brast loks flótti í liði Eyfirðinga og eltu Skagfirðingar flóttann austur á Torfufellsdal. Þar snerust Eyfirðingar til varnar og lauk þeirri sennu sem fyr segir.
(Eftir hdr. Árna Stefánssonar í Litladal.)
Þegar Hálfdan prestur Narfason var prestur í Felli í Sléttuhlfð († 1568), bjó bóndi sá, er Jón hét, á Fjalli; sá bær stendur vestan undir felli því, er prestssetrið er við kent. Jón þessi var auðugur að gripum og gangandi fé; þar á meðal átti hann graðung og uxa; vóru þeir báðir gamlir og feitir og metfé. Eitt sumar bar svo við að þá vantaði báða, og fundust hvergi, þótt leitað væri. Höfðu nautin gengið þá um daginn, er þau vantaði, niðri á Gjávíkurbökkum, en þaðan sézt glögt frá bænum. Um sömu mundir var stúlka frá Kappastöðum, næsta bæ, á gangi utarlega á Hrolleifshöfða, og sá þar mann, sem hún þekti ekki; var hann óvanalega búinn. Maður þessi veitti henni eftirför, en hún flýði upp í Gjávíkurmóa, náði þar í röskvan hest, og dró því undan, en engir urðu hans aðrir varir. Þetta þótti undarlegt. Jón bóndi undi illa nautahvarfinu, og þótti skaði sinn mikill. Einhverju sinni dreymir hann, að hann þykist úti staddur; sér hann þá fellið opnast, og kemur þar út maður mikill vexti, gengur í leið fyrir hann og segir við hann: »Þú unir illa tjóni þínu, og er þér vorkunn; lengi hefi eg haft gætur á fénaði þínum, en þó get eg ekki við ráðið, því að þar eiga þeir heiðingjar hlut að máli, er svo eru göldróttir, að eg fæ ei við ráðið. Liggja þeir í skútu sinni inni í Selvík, sunnan við Raufarberg14; hafa þeir varpað hulinsblæju yfir skip sitt, svo að þeir sjást eigi. En ef þú fer hljóðlega utan að berginu á kænu þinni, og kemst inn í raufina, muntu geta séð skipið; en fara skaltu sem hljóðlegast, svo þeir verði þín ekki varir. Er ekki þitt meðfæri að eiga við þá, en hitta skaltu Hálfdán prest og biðja hann fultingis, því að svo er hann fjölkunnugur, að það er á hans eins færi að eiga við þá.« Síðan hvarf maðurinn inn í fellið aftur. Næstu nótt fór bóndi á kænu sinni – hana geymdi hann í Gjávík – inn með Löngufjöru, og utan að Raufarbergi, og fór að öllu sem hljóðlegast. Náði hann í raufina, og sér þá að þar liggur við bergið skip eitt mikið; verður hann þess var, að þar eru tveir menn á verði, en ekki verða þeir hans varir. Hverfur hann síðan heim aftur. Daginn eftir fer hann á fund prests, og segir honum, hvers hann er orðinn vísari; biður hann og prest að leggja sitt fulltingi til, að ránsflokkur þessi verði af dögum ráðinn. Prestur kvaðst þegar hafa fengið grun um, hvernig standa mundi á hvörfum heim, er þar hefði orðið í sveitinni, og mundi illræðismenn þessir vera búnir að gera meira tjón en menn vissu alment. Reyndar hefðu þeir ekkert frá sér tekið, og óvíst að þeim tækist það, en full nauðsyn bæri til að stemma stigu fyrir ránskap þeirra, enda mundu þeir ekki hlífast við að drepa menn, ef þeir kæmust í færi við þá; »mun eg gera hvað eg get til þess að ráða þá af dögum,« sagði prestur, »en eigi er dælt við þá að eiga. Nú eru það mín ráð, að allir sveitarmenn komi sér upp vopnum, hið fyrsta og þeim er auðið, svo að allir vopnfærir menn í sveitinni hafi vopn nokkurt. Mun eg síðan gera boð um sveitina, þegar er eg hygg færi á þeim.« Líða svo nokkrir dagar, þar til prestur heimtar saman alla fulltíða menn í Sléttuhlíð, og mælir svo fyrir, að þeir skuli allir vera komnir saman árdegis á næsta morgni í flóa heim, er liggur vestan við Kappastaðavatn. Sveitarmenn bregða skjótt við, og eru þar komnir á tilteknum tíma. Sjá þeir þá, að þar eru fyrir um 30 manna; fara þeir mjög rasandi, og hröklast aftur og fram um flóann sem blindir væru, nema tveir, sem reyndu að halda hópnum saman. Sveitarmenn veittu þeim þegar aðgöngu, og drápu hvern sem þeir náðu; veitti þeim það hægt, því að ræningjarnir vóru sjónlausir, og fengu eigi forðað sér. Tveir einir af þeim höfðu sjón, og leituðu þeir undan, og komust upp fyrir Kappastaðalæk, og þar í skóginn. Þar náðust þeir á hólum tveimur, og urðu þar barðir til bana. Hinir vóru drepnir hvar sem þeir náðust; vóru hinir seinustu drepnir hjá Melkoti, sem nú er eyðikot í Fells landareign. Síðan vóru þeir allir kasaðir þar á grundinni, og sér enn grjóthrúgurnar upp af dysjunum; en þeir, sem náðust á hólunum, og vóru drepnir þar, vóru brendir á hólunum, og heita þar síðan Brennuhólar. Hálfdan prestur sagði, að þeir hefðu ætlað til rána um nóttina, en um kvöldið hefði alt fé sitt verið rekið ofan í Lambhaga við vatnið. Þegar þeir hefðu komið á land, hefðu þeir allir mist sjónina af sínum völdum, nema þessir tveir, sem á skóginn hefðu komizt. Mundu þeir hafa verið göldróttastir þeirra allra, og því getað varizt ákvæðum sínum. Þætti sér því óhultara að hræ þeirra væru brend, svo að ekki yrði mein að afturgöngum þeirra. Flói sá, sem heiðingjarnir biðu aldurtila sinn í, er síðan nefndur Heiðingjaflói.
(Sögn Jóns blinda. Hannes Ó. Magnússon hefir skrifað.)
Um miðja átjándu öld voru harðindi mikil, sem kunnugt er, og gengu yfir land alt; fyrir Norðurlandi vóru ísalög mikil, svo birnir gengu víða á land og gerðu óskunda, hræddu menn og drápu fé sér til bjargar. Í þeim sveitum, sem afskektar vóru, og á framnesjum, bjuggu flestir við sult og seyru, og urðu margir hugdeigir og dáðlitlir, sem von var. Ein af þeim sveitum, sem birnir gerðu sig heimakomna í, var Flateyjardalur í Þingeyjarsýslu. Þar vóru þá flestir fátækir, nema bóndinn á Eyri, sem telja mátti ríkan; hafði hann sjávarútveg mikinn, og mátti svo að orði kveða að hann byggi fyrir alla þá, sem í dalnum vóru. Eitt sinn verða menn varir við það, að þar er kominn stór björn á dalinn; gerir hann þegar usla mikinn í fénaði bænda og drepur það niður unnvörpum; einni kerlingu varð hann líka að bana, sem ekki hafði orðið nógu fljót að koma sér undan. Eitt sinn varð bangsa reikað um á Eyri, en óðara en menn sáu til ferða hans, þutu menn sem hraðast þeir máttu til dyra og byrgðu sig inni. Bangsi kemur auga á skála nokkurn, sem var fullur af ýmsu fiskæti, og stóð nokkuð frá bænum; gerir hann sig heimakominn og tekur til snæðings; hefir honum virzt þar vera all vistlegt, því hann sezt þar að og fer ekki þaðan nema rétt til þess að breyta um viðurværi og fá sér nýtt kindakjöt. – Bóndinn á Eyri sér að svo búið má ekki standa, og gerir því menn út inn í Fnjóskadal að fá mannhjálp til þess að vinna björninn; verða þeir saman alls þrjátíu, hið valdasta lið. – Þegar þeir komu að Eyri, var á krapaveður, en þeir létu það ekki á sig fá, en þustu til skálans. Bangsi kom út, þegar hann heyrði undirganginn, og sér að menn þessir láta allófriðlega. Sezt hann þá niður, en grípur með framhrömmunum stór snjóstykki, hnoðar þau milli hrammanna og kastar í þá, sem að sóttu. Varð bangsi svo heppinn, að hann hitti nokkra með þessum köglum; þótti þeim ekki fýsilegt að fá fleiri kveðjur frá bangsa, en drógu sig í hlé. Fór nú bangsi að láta sjá á sér, að honum væri ekki geðfeld koma svo margra manna og bjóst til stökks; en þegar hinir sjá það, vita þeir að bangsi muni engum þyrma, og snúa á flótta heim til bæjar; rak bangsi flóttann og fór ekki til skálans aftur fyr en hurðum öllum var vandlega lokað og gluggar byrgðir að innan. Fréttist þetta víða um sveitir, og þótti sem von var hin verstu tíðindi. Leið svo fram um hríð.
Jón Pétursson sterki var þá bóndi á Kálfaströnd. Það var einn sunnudag, að hann var við kirkju á Skútustöðum. Barst þá í tal meðal kirkjufólksins bjarnarsagan úr Flateyjardal. Lögðu ýmsir þar til málanna, en Jón sagði lítið vera eftir af fornri hreysti Íslendinga, þegar björn einn skelfdi svo marga menn; gaf hann sig ekki frekara umræður um það mál, en hélt heimleiðis. Gengur hann þegar í smiðju og kveikir upp eld; smíðar hann þá flein einn mikinn, sem nema mundi íslenzkri alin; var hann gerður úr bezta stáli, sem hann hafði völ á. Bjó hann skefti til skálmarinnar hæfilega langt, og bjó sem vandlegast um. Var þetta biturt vopn og allægilegt. Kona hans spurði, hvað hann hefði í huga að vinna með þvílíku vopni, en hann talaði fátt um, og bað hana hafa til reiðu mat snemma morguns. Daginn eftir í dögun vaknar Jón og klæðist, etur mat sinn, kveður konu sína, og segir henni, að hún þurfi naumast að vænta sín heim aftur þann dag. Steig hann á skíði sín og hóf göngu sína sem beinast leið liggur, og kom að Eyri síð dags; var þá fólk inni í húsum sem vant var, síðan björninn kom, og varð Jón að guða á glugga; vóru þeir þá allir byrgðir, eins og áður hefir verið frá sagt. Heyrir hann aðeins líkast hundsurri inni fyrir, en enginn svarar. Skorar hann þá á bónda að ljúka upp, og er það gert með allmiklum ummælum. Nær hann loks tali af bónda, og spyr hann hvort saga sú sé sönn, sem borizt hafi sér til eyrna, að björn geri óskunda þar um slóðir; bóndi segir mikil brögð vera að því, og saga sú sé aldrei ofsögð. Jón settist niður meðan hann talaði við bónda; hann var móður eftir gönguna, enda var það eigi að undra, því það sem Jón hafði þá gengið, er álitin full tveggja daga ferð. Setti þá brátt að honum, því hann var sveittur mjög, og spyr þá bónda, hvort hann vilji ekki koma með sér og sýna sér, hvar björninn héldi til. Bóndi taldi öll tormerki á því, og kvað lítið mundi batna, þó hann sæi. Biður Jón hann þá um vinnumenn hans að vísa sér þangað, og þó að það væri talið allmikið úr, varð það að lokum, að bóndi fór með Jóni og tveir vinnumenn. Gengu þeir með Jóni þar til ekki var meir en svo sem örskotslengd til skálans; vildu heimamenn þá með engu móti fara nær skálanum, en Jón bað þá ekki hræðast, kvað nægan tíma fyrir þá að hlaupa undan, meðan björninn rifi sig í sundur, en við það var ekki komandi. Í þessum svifunum kemur bangsi út, og leit á komumenn. Þefaði hann í átt til þeirra, en Jón bar brátt að – snýr bangsi inn í skálann aftur og sýnist Jón óárennilegur. Jón bar í hendi fleininn þann hinn mikla, sem hann hafði smíðað, og leggur honum til bangsa við bóginn hægri aftanverðan. Bangsi reif sig af fleininum og hélt inn í skálann. Kallar Jón þá til bónda og húskarla þeirra, sem með honum höfðu fylgzt, og biður þá koma, bannsettar bleyðurnar; sjálfur gekk hann eftir birninum í skálann. Heyrir bóndi, þegar hann kemur að dyrunum, að Jón talar til bjarnarins og segir það óþarfa fyrir hann dauðvona að leggjast í fiskihlaðann og láta sér blæða þar út, ef ske kynni, að þar væri eitthvað enn óétið. Þrífur hann þá til bjarnarins og varpar honum til dyra; er þá björninn dauður. Biður Jón þá að lofa sér að liggja þar um nóttina. Á heimleiðinni spyr bóndi Jón að heiti, en hann sagði hið sanna. Það þóttist Jón sjá, að heimilisfólk þar væri engu óhræddara við hann, en það hafði áður verið við björninn, og vóru allir fáir við hann. Bóndi vísaði honum á rúmbæli vinnumannanna, og gaf honum grautarspón í aski. – Svaf Jón þar um nóttina í öllum fötum. Um morguninn snemma þreifaði hann á bónda og vakti hann; bað hann flá björninn og herða feldinn vel, og senda sér í greiðaskyni fyrir bjarnardrápið; bað hann bónda að gera sér kjötið að góðu, og kvaddi. Hann fór heim að Kálfaströnd um kvöldið. – Síðan var Jón nefndur Eyrarfari.
(Eftir sögnum af Norðurlandi, sumt eftir hdr. Sigfúsar Sigfússonar á Eyvindará. Hdr. Jónasar Jónassonar.)
Sæmundur sterki bjó lengi á Víðimýri í Skagafirði á átjándu öld. Hann var Magnússon, og var sá Magnús bróðir Þorleifs prófasts Skaftasonar, er vígði Siglufjarðarskarð. Magnús var heljarmenni til burða, og fylginn sér, og Sæmundur eigi síður; báðir þóttu þeir ójafnaðarmenn, ef því var að skifta, en þó raungóðir. Sæmundur var svo sterkur, að fáir vissu afl hans; kölluðu hann sumir trölla. Báðir vóru þeir auðugir, feðgar. Margar sögur hafa gengið af svaðilförum Sæmundar, og skulu hér tíndar saman þær, er enn eru ekki glataðar.
Magnús á Víðimýri fór jafnan suður til fiskikaupa á hverju sumri, sem þá var títt. Þegar hann tók fast að eldast, hætti hann suðurferðum, og sendi þá Sæmund í sinn stað. Fyrsta sinn, er hann lét hann fara, var Sæmundur 16 vetra; átti hann að fara með tólf hesta undir reiðingi. Þegar fullbúið var til ferðar fær faðir hans honum eina sölupeisu, og segir honum að kaupa fisk upp á hestana fyrir hana. Sæmundur spyr, hvernig hann eigi að fara að því – ekki dugi peisan fyrir fisk upp á tólf hesta. »Það verður þú að segja þér sjálfur,« segir Magnús, »en aldrei hefi eg haft meira, og hefi þó fengið á drógarnar mínar.« Varð svo að vera, sem karl vildi. Segir nú ekki af því, fyrri en suður kemur, og Sæmundur fer að kaupa fiskinn. Hefir hann peisuna jafnan á boðstólum og kaupir fyrir hana, gerir síðan ilt úr kaupunum, og lauk svo jafnan, að hann hélt bæði fiskinum og peisunni. Fekk hann svo upp á hestana, og heldur heim með félögum sínum. Afhendir hann föður sínum fiskinn og peisuna. Þegar karl sá peisuna, sagði hann: »Þetta ertu þó mér verri, strákur; alténd lét ég þann seinasta hafa hana.«
Stundum fór Sæmundur líka vestur undir Jökul til skreiðarkaupa. Í einn þeirri ferð kom hann að Búðum; var þá Jakob Eiríksson kaupmaður þar, föðurafi Jóns Espólíns. Sæmundur kom í búðina, og var svakalegur að vanda, og lenti skjótt í orðahnippingum milli þeirra kaupmanns og hans, og síðan í handalögmáli. Jakob var heljarmenni, eins og þeir frændur. Gat Jakob slegið stígvélinu utan á fót Sæmundar og fótbrotið hann. Við það doðnaði yfir Sæmundi, og komu félagar hans honum út. Lét hann síðan binda spelkur við fótinn, og reið heim í Víðimýri. Leið svo til næsta sumars. Safnaði Sæmundur þá saman tólf hinum illvígustu kraftamönnum í Skagafirði, reið með þá vestur að Búðum og hugði á hefndir. Átti þar alt að brjóta og bramla. Kaupmaður tók þá Sæmundi hið bezta; var alt á takteini, og skildu þeir með vináttu. Sagt er að kaupmaður hafi keypt af sér ófrið þeirra með peningum.
Margar sögur hafa gengið hér í landi af óskammfeilni og yfirgangi danskra kaupmanna á Íslandi á einokunartímunum, og munu margar þeirra á rökum bygðar. Svo er sagt, að eftir miðja 18. öld hafi danskur kaupmaður verið í Höfðakaupstað á Skagaströnd er Knudtson hafi heitið; undirkaupmaður var með honum í búðinni, en ekki getur um nafn hans. Báðir vóru þeir feitir, og höfðu ístru mikla. Þeir höfðu þann sið, eins og fleiri kaupmenn á þeim tímum, að hafa eigi búð sína opna, nema þegar þeim sýndist, og hleypa þá að eins tveim eða þrem að á dag. Lokuðu þeir þenna eina jafnan inni hjá sér á meðan þeir afgreiddu hann. Beittu þeir þá stundum við þá þrælabrögðum, ekki sízt ef það vóru heldur vesalmenni, hrundu þeim á milli sín og léku þá grátt á marga vegu. Einu sinni tóku þeir upp á því, að gefa þeim í staupinu, sem inn komu, og reka þeim svo duglegt kjaftshögg á meðan þeir vóru að drekka úr því og mölva það þannig upp við tennur þeim. Skárust margir illa af glerbrotunum. Þótti þeim kaupmönnum þetta mjög gaman. Sæmundur frétti þessar aðfarir þeirra, og þykir ilt, ef ekki væri hægt að venja þá af þessum óvanda. Býr hann sig í vondar flíkur, og ríður um haustið vestur í Höfðakaupstað, og vill kaupa eitthvað. Var honum hleypt inn eftir langa bið. Þegar inn var komið, læstu þeir búðinni, og bjóða honum síðan í staupinu. Sæmundur var fyrir framan búðarborðið, en kaupmenn fyrir innan. Meðan Sæmundur var að renna út úr staupinu rekur undirkaupmaður honum rokna kjaftshögg, svo að staupið fór í mola, og skar út úr munnviki Sæmundar. Sæmundur gerir sér hægt um hönd, og seilist innfyrir, og tekur undirkaupmann eins og fífuvetling, og leggur hann á bakið á búðargólfið. Síðan settist hann klofveg ofan á ístrubambann, og fór að hossa sér þar í makindum; gengur svo góða stund, en kaupmaður veinar og dæsir undan átökum hans. Altaf var Sæmundur að spyrja hann, hvernig honum líkaði, og hvort hann vildi ekki ögn meira, og hossaði sér þá nokkru harðara á milli. Kaupmaður stóð ráðalaus fyrir innan borðið, og þorði hvorki að æmta né skræmta. Loks hélt Sæmundur að undirkaupmaður mundi vera orðinn fulldasaður, og baðst útgöngu, og var það auðsótt. Undirkaupmaður lá lengi eftir ráðningu þessa, og dó síðan um veturinn. Eftir þetta vóru landsmönnum ekki sýndir hrekkir eða ójafnaður í Höfðakaupstað, og þökkuðu menn Sæmundi vel fyrir verk þetta.
Sæmundur var drykkjumaður mikill, og svakamenni við vín. Hest átti hann ágætan, bleikan að lit, allra hesta mestan. Reið hann honum lengi í svaðilförum sínum. Reið hann Bleik á sund yfir Héraðsvötnin hvar sem hann kom að þeim; komust báðir jafnan klaklaust yfirum. Einhverju sinni bar þá báða á sundinu undir háan holbakka, og var hvergi upp fært. Skreið þá Sæmundur upp á bakkann, seildist síðan ofan fyrir, náði í faxið á Bleik, og tók hann upp á bakkann. Hélt hann svo áfram leiðar sinnar.
Þegar Hofsósskipið kom á vorin, beið ekki Sæmundur boðanna, heldur lagði þegar á Bleik og reið út í Hofsós. Reiddi hann þá átta potta kút undir hendi sér. Þegar úteftir kom, reið hann á sund fram að skipinu, og heimtaði brennivín á kútinn og munntóbaksrullu; kastaði hann um leið kútnum upp á biljur. Síðan reið hann á sund í kringum skipið á meðan verið var að láta á kútinn og taka til tóbakið. Síðan var hvorutveggja kastað fyrir borð; henti Sæmundur það á lofti, og sundreið í land. Sumir segja hann hafi kastað spesíu upp á þilfarið með kútnum, en aðrir segja hann hafi hótað því að koma upp í skipið, brjóta þar og bramla, og berja þær dönsku bleyður til óbóta, ef eigi væri hlýtt. Vitum vér eigi, hvort sannara er. Þegar í land var komið, rakti hann tóbaksrulluna alla í sundur, og sívafði vinstri handlegg sinn með henni ofan frá öxl og fram að hendi, og lét endann lafa. Kútinn hafði hann undir hinni hægri hendi, og reið svo af stað. Gerði hann svo ýmist, að hann beit tóbakið eða saup á kútnum. Reið hann síðan grenjandi um héraðið, eins og berserkir gerðu í fornöld; reið hann þá á alt sem fyrir varð, og stundum fram af hjöllum og hömrum. Meiddist hann oft mjög í ferðum þessum, og því var hann allur orðinn hnýttur og bæklaður á efri árum; hafði skalli hans verið allur hnútóttur eftir svaðilfarir hans. Þótti ekki smámennum hent að mæta honum í þessum ham, enda hræddust hann flestir. Mest hafði hann þó gaman af að hræða Dani, og var mjög uppsigað við þá.
Margar sögur eru um það, hvað Sæmundur hafi unnið til að fá í staupinu. Einhverju sinni kom hann á kaupstaðarferð að tjaldi einu. Rétti hann þá potttunnu inn fyrir tjaldskörina, og bað um brennivín á hana, og lét fylgja með spesíu. Félagar hans sögðu þetta væri mikilstil ofmikið. »Tölum eigi um það,« sagði Sæmundur, »guði sé lof það fæst. Tjaldbúar ætluðu að greiða það er ofborgað var, en hann þá það ekki. Önnur saga er sú, að einhverju sinni var Sæmundur brennivínslaus heima og leiddist. Gekk hann þá ofan í nes, og fann þar í stóði hryssu eina afgamla og fylfulla, sem hann átti. Hnýtir hann snæri upp í bikkjuna, sezt á bak og ríður austur að Vötnum. Vóru þau þá í foráttu, og alls ófær. Hann fer á hryssunni út í vötnin, og þegar á sund. Brátt dapraðist hryssunni sundin og leið ekki á löngu áður hún kafnar. En þar eð hún var fylfull, sökk hún ekki. Lætur Sæmundur svo berast á skrokknum, þar til straumurinn kastaði báðum að bakkanum. Lét þá Sæmundur ferjuna eiga sig, en gekk til bæja, þar sem hann vissi að eitthvað var til í staupinu.
Sæmundur hélt suðurferðum á meðan hann var til fær, en ekki er þess getið að hann hafi haft verzlunaraðferð föður síns. Hafði hann með sér ket, smér, tólg, ull, vaðmál og prjónles, og keypti fyrir það fiskæti og fleira. En oft var það er hann mætti skreiðarlestum, þá vildi hann þegar skifta vörunum við lestamenn, og ef það gekk ekki með góðu, skifti hann um klyfjarnar, hvað sem hver sagði; borgaði hann það þá oft ríflega síðar, og bætti til.
Eitt sinn fór hann suður við annan mann; var hann þá orðinn gamall og hrumur. Mættu þeir þá tveim Sunnlendingum með skreiðarflutning. Var annar maðurinn ungur og knálegur, en hinn eldri. Sæmundur vildi fá skifti, en pilturinn neitaði, og kvaðst eiga að færa skreiðina vissum mönnum fyrir norðan. »Eg skal yfirborga, segir Sæmundur. Það er það sama,« svarar pilturinn. »Þú gerir mig ekki verri mann, þótt eg hafi þetta,« sagði Sæmundur, og kipti klyfjunum ofan af einum hesti þeirra.
»Bjóddu þeim það, er því taka,« segir pilturinn, »en ekki mér, og ekki skaltu ræna mig því, sem mér er trúað fyrir meðan eg get haldið í það.« Ræður pilturinn síðan á Sæmund; urðu þar sviftingar miklar, og vóru ýmsir undir, og var mjög líkt um þá. Mæddist Sæmundur fyr, því að hann var maður gamall og lúinn, og fer svo, að hann fellur. Losnað hafði um bróklinda hans í viðureign þeirra; neytti pilturinn þess, færði ofan um hann fötin, og hætti eigi fyrri en hann gat hýtt Sæmund. Síðan stóð pilturinn upp og sagði: »Farðu nú með þetta, og segðu Norðlendingum, að einn átján ára gamall strákur á Suðurlandi hafi rassskelt Sæmund sterka á Víðimýri.« Sæmundur staulaðist á fætur, þreifaði ofan í vasa sinn, kemur upp með átta spesíur, fær piltinum þær og segir: »Það hefir enginn gert fyr, og hafðu þetta fyrir bragðið. En hvað heitir þú, drengur minn, máske eg megi vita það nú?"« Áður hafði pilturinn ekki viljað segja honum til nafns síns. Pilturinn kvaðst heita Bjarni; var hann talinn launson síra Snorra Björnssonar á Húsafelli; en síra Snorri var alkunnur að karlmensku og fræknleik. Síðan skildu þeir vinir. Þegar þeir vóru skildir, horfði Sæmundur um stund á eftir piltinum, andvarpaði við og sagði klökkvandi: »Skaði er það að svona hraust bein skuli eiga að fara fljótlega í sjóinn.« Sagt er að Bjarni þessi hafi farizt af skiptapa á næstu vertíð, og hafi svo ræzt spádómur Sæmundar.
Sæmundur sterki dó á Æsustöðum í Langadal árið 1783, og var þá kominn um eða undir áttrætt.
(Eftir sögnum frá Þorsteini Þorkelssyni frá Hvarfi og Erlendi Árnasyni í Garðar, Dacota, sonarsyni Jóns læknis. Ritað eftir honum 1896, 86 ára gömlum. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Jón Pétursson var fjórðungslæknir í Norðurlandi 1776-1801. Var hann svarfdælskur að ætt, kominn af Oddi sterka (Melaætt). – Jón lærði í Hólaskóla, en fór síðan til Bjarna Pálssonar landlæknis og var til kenslu hjá honum um tvö ár. Síðan fór hann til háskólans í Höfn og nam þar læknisfræði. Varð hann þá herlæknir í sjóliði Dana, eða að minsta kosti læknir á skipi einu, er sigldi eitthvað langt suður í lönd. Skipið komst í hendur sjóræningja, og var áhöfnin höggvin fyrir borð. Jón var líka tekinn, og átti að gera honum sömu skil, en þegar þeir vóru að bylta honum niður, hrutu bartskeraskærin úr tólahylki því, er hann bar í vasa sínum, og féllu ofan á þilfarið. Hættu þá skipsmenn við áform sitt, að vega að honum, er þeir sáu að hann var læknir, því að fáar þjóðir eru svo grimmar að drepa lækna, þó herteknir sé. Í þessu ferðabraski er sagt hann hafi eitt sinn komið í aðsetursstað Tyrkjasoldáns. Soldán átti dóttur eina vaxna; var hún veik mjög af ókendum sjúkdómi, er engum tókst að lækna, og þótti soldáni það mikið mein. Soldán frétti að læknir íslenzkur væri þar á skipum Dana, og hefði mikið orð á sér. Sendi hann þegar eftir honum; þekti Jón þegar, hvað að henni gekk, og gat þegar læknað hana. Soldán vildi svo endilega að hann settist þar að og giftist dóttur sinni, og gaf honum einkennisföt gullbúin; átti Jón þau til dauðadags. En eigi langaði hann til að verða tengdasonur soldáns, og strauk fram á skip. Var þegar létt akkerum, og komust þeir svo undan.
Jón var læknir með afbrigðum. Einhverju sinni, meðan hann var hertekinn, var hann að skera upp sár á manni í bardaga. Bað hann þá lærisvein sinn, er með honum var, að rétta sér verkfæri eitt oddhvast, er lá á borði bak við hann. En í sömu svifum kom fallbyssukúla á skipið; tók þá skipið svo snöggvan kipp, að þeir hrukku við, og stakst oddurinn á verkfærinu upp í augað á Jóni, og varð hann sjónlaus á því. Seinna tók hann þetta auga úr sér sjálfur, og setti glerauga í staðinn; var það svo líkt, að það sáu ekki nema kunnugir menn, að öðru en því, að hann gat ekki lokað því. Sagt er að Jón hafi einhventíma tekið bóg af svartri kind og hvítri, og grætt síðan bógana við aftur þannig, að svarti bógurinn kom á hvítu kindina, og hinn hvíti á hina svörtu, og lifðu báðar kindurnar. Heyrt hefi eg samt, að einhverjum öðrum lækni væri eignað þetta.
Þegar Jón Pétursson hafði verið lengi ytra, kom hann út hingað til Íslands, og varð fjórðungslæknir í Norðurlandi. Sagt er að hann hafi komið út í Höfðakaupstað, og riðið þaðan norður í Skagafjörð. Kom hann þá við á Fagranesi á Reykjaströnd. Var þar þá prestur sá, er Árni hét, Jónsson († 1778). Hittir Jón prest úti, og heilsar honum. Var prestur fálátur mjög og dapur í bragði. Jón spyr hann, hvort honum líði að nokkru illa, og segir prestur honum þá, að dóttir sín sé nýsáluð, efnileg stúlka á bezta aldri; hafi hún andazt þá um nóttina. »Er búið að bera hana fram?« segir Jón. »Já,« segir prestur. »Hún mun vera í stofu?« segir Jón. Prestur játti því. »Ætli hún sé dauð?« segir Jón. Prestur heldur það. »Má eg ekki fá að sjá hana?« segir Jón. Prestur var heldur tregur til þess, en þó verður það úr, að prestur leiddi Jón til stofu; þegar Jón sá stúlkuna, þóttist hann sjá að hún væri með lífi. Jón hafði fylgdarmann og trússahest, því að hann hafði með sér bækur, meðul og fleira. Opnar hann þá lyfjaskrínur sínar, og spyr prest, hvort hann megi ekki reyna lífgunarráð við stúlkuna. Leyfði prestur það. Leið þá ekki á löngu áður en stúlkan raknaði við aftur. Jón var síðan yfir henni nokkra daga, á meðan hún var að hressast. Stúlka þessi hét Margrét. Skömmu síðar bað Jón prestsdóttur; var það mál auðsótt. Giftust þau síðan og reistu bú í Viðvík.
Einhverju sinni reið hann í lækningaferð norður í Þingeyjarsýslu; það var snemma sumars. Reið hann Hjaltadalsheiði; en er ofan kom í Hörgárdalinn, vóru hestar hans farnir að lýjast; vildi hann þá fá lánshest, en þess var engi kostur. Getur svo ekki um ferð læknis, fyr en hann kemur að Þríhyrningi. Þar sér hann jarpskjóttan hest nálægt bæ, og lízt vel á folann. Bóndi stóð á hlaði úti. Læknir heilsaði honum, og tók bóndi vel kveðju hans. Læknir spyr, hvort bóndi geti ekki léð sér hest til reiðar norður yfir heiði mót fullu gjaldi. Bóndi kvað nei við því. »Hér er þó hestur nærri bæ þínum« segir læknir, »er hann ekki fáanlegur, annaðhvort til láns eða kaups?« »Nei,« segir bóndi, »það er foli, fjögra vetra gamall, og er hann engum falur.« Læknir hafði farið af baki, en fór nú á bak aftur, og kastar kveðju á bónda; hafði hann heldur þykzt við hann, og ætlaði að ríða burt í fússi. En rétt í því að læknir var að fara, kallar bóndi til hans og segir: »Ráðlegðu mér nú eitthvað við bakinu á mér.« »Eg hefi nú ekki ráð á því núna,« segir læknir, »eða hvað gengur að þér í bakinu?« »Eg held það sé gigt,« segir bóndi. »Þú hefir þá meðalið þarna hjá þér í hlaðvarpanum – það eru sóleyjarnar þarna.« »Á eg að leggja þær við bakið,« segir bóndi. »Ójá,« segir læknir. »Hvað eiga þær að liggja lengi við?« segir bóndi. »Þangað til þig fer að svíða,« segir læknir og er allur á burt. Þetta var seint á degi. Bóndi fer nú til konu sinnar, og segir henni, hvað læknirinn hafi ráðlagt sér. »Heldurðu þú hafir nú lag á þessu?« segir húsfreyja. »Það held eg,« segir bóndi, »og ljáðu mér nú stóra klútinn þinn.« Húsfreyja átti stóran klút, bláan; fer bóndi með hann út í hlaðbrekkuna, og lætur mikið af sóleyjum og brennigrasi í klútinn. Húsfreyja hélt þetta væri fullmikið, en bóndi heldur það sé ekki um of, það muni þurfa meira en lítið, ef sér eigi að batna af því. Hátta þau hjón um kvöldið, og leggur bóndi sóleyjarnar við bakið á sér, áður en hann legst útaf, og bindur þétt að. Nær miðri nóttu vaknar húsfreyja, og spyr bónda, hvort ekki ætti að taka sóleyjarnar frá. Bóndi neitar því, og kvaðst ekkert finna til. Um fótaferðartíma vaknar húsfreyja aftur,« og skipar honum nú að taka sóleyjarnar; gerði bóndi það, því að nú kvaðst hann vera farinn að kenna sviða. Þegar leið á daginn, roðnaði brunasárið mjög; hljóp þá blástur í búkinn á bónda, og varð hann svo veikur, að honum var varla hugað líf. Liðu svo nokkrir dagar. Var nú setið fyrir er hann kæmi að norðan aftur. Náðist til hans, en er hann kom til bónda, lízt honum ekki á blikuna. Vakti hann yfir bónda í þrjá daga, og var þangað til að með jurtabökstrum og bólgueyðandi meðulum, að bónda fór að skána. Að skilnaði gaf bóndi lækni hestinn skjótta, og átti hann þann hest lengi síðan. Bónda fór smábatnandi úr þessu, en aldrei kendi hann gigtar í bakinu síðan; varð hann maður gamall, og hélzt æ síðan vinátta á milli læknis og hans.
Öðru skifti fór Jón læknir Pétursson yfir Hjaltadalsheiði, og kom að bæ einum í Hörgárdalnum. Húsfreyja var sjúk, og lá í rúminu. Hafði hún verið að reita gras frá steini, þar sem ljá varð ekki við komið, en særzt við nöglina á einum fingri, annaðhvort á strái eða steini. En rétt um leið skreið inn í sárið ormur einn lítill, er brattinrassi heitir; ætlaði hún að reyna að ná orminum, en hann smaug þá enn lengra inn í fingurinn. Þá var borið járn að sárinu, en þá tryltist ormurinn, er hann fekk veður af járninu. Blánaði nú fingurinn og tók að bólgna. Varð nú konan viðþolslaus. Nokkru síðar um daginn bar Jón Pétursson þar að garði, sem áður er sagt. Var honum þá sýndur fingurinn. Hann tók pappír, vætti hann í sýru, og vafði um fingurinn; dró þá heldur úr kvölinni. Síðan sló hann til þunna blýplötu, og vafði henni í hólk utanum fingurinn, þar sem ormurinn var, og nokkuð þar upp fyrir, og batt þétt um með hörtvinna. Sagði hann að láta þetta sitja nokkra daga; mundi þá ormurinn deyja. Sagði hann og, að ef járn væri borið að ormum, yrðu þeir vitlausir, en blýið drægi úr þeim allan mátt. Konunni batnaði fljótlega, og er sagt hún hafi gefið honum smérfjórðung fyrir viðvikið.
Þegar Jón Pétursson kom síðast í Fljót, var komið til hans með unglingspilt, er Sigurður hét, Hákonarson. Hafði hann orðið blindur út úr veikindum. Sagði Jón að vagl væri á augum hans. Fór hann þá með hníf sinn undir augnalokið, komst fyrir vaglhimnuna, og gat þokað henni ofurlítið til. En þá var hann orðinn svo skjálfhentur, og farinn að missa sjón, að hann misti af henni aftur, og kvað þess engan kost að hann reyndi þetta aftur. Sigurður varð maður gamall og blindur til dauðadags. Það hafði hann sagt að hefði tilfinnanlegast fyrir sig komið, er hann sá snöggvast til himinsins út með vaglhimnunni, þegar læknirinn gat fært hana til, en verða svo aftur að missa af þeirri sjón, og sjá hana aldrei framar.
Jón læknir Pétursson var í afarmiklu áliti sem læknir nyrðra, og fór orð af honum víða um land, en ekki þótti hann handlaginn að sama skapi. Þegar hann var orðinn gamall, veiktist Magnús Stephensen í Viðey af sjúkleika nokkrum, sem hann gat hvergi fengið bót við. Sendi hann þá eftir Jóni lækni Péturssyni og fór hann suður um haustið. Gisti hann á Mælifelli hjá síra Bjarna Jónssyni, vini sínum. Um morguninn bað læknir síra Bjarna að ríða spölkorn með sér á leið. Þegar þeir skildu bað Jón prest að skila fyrir sig kveðju til ekkjunnar í Viðvík; svo hélt Jón áfram suður, þangað til þeir komu að Reykholti. Þar fór Jón heim, og baðst gistingar. Var það velkomið. Jón bað um séstakt herbergi handa sér um nóttina. Fekk hann afhús lítið út úr stofunni. Ekkert þáði hann gott. Sat hann þar og skrifaði um kvöldið. Seint um kvöldið kom prestur til hans aftur, og bauð honum að borða, en hann þáði ekki annað en mjólk. Síðan kvaðst hann vilja finna fylgdarmann sinn. Kom hann þegar. Sagði hann fylgdarmanninum, að ef hann gæti ekki orðið honum samferða á morgun, skyldi hann taka bögla tvo, annan úr kápuvasa sínum, en hinn úr buxnavasa; mundi hvorttveggja hanga þar á veggnum. Í böglum þessum væri meðul og bréf um notkun þeirra til Magnúsar, og mundi honum batna, ef hann brúkaði þau rétt, eins og hann sagði fyrir. Hefði enginn hingað til þekt, hvað að honum gengi. Morguninn eftir kom prestur snemma fram að vitja um lækni; lá hann þá í rúminu og var andaður. Það var 9. október 1801. Fylgdarmaður hans hélt áfram til Leirár, og skilaði böglunum. Þegar Magnús Stephensen frétti lát hans, sendi hann þegar eftir líki hans upp að Reykholti, og lét flytja það út að Leirá, og gerði hann þar virðulega útför hans.15 Magnús varð albata af meðulunum.
(Sögn Sumarliða Ólafssonar á Akureyri. Handrit Sigurðar Sumarliðasonar. 1906.)
Á síðustu árum átjándu aldar gerðist það eitt vor, sem hér segir: Það var verið að fara kaupstaðarferðirnar; enginn karlmaður var heima að Svartanúpi í Skaftafellssýslu, nema smaladrengurinn, sem var á seytjánda ári. Þokur höfðu gengið þrjá undanfarna daga. Nálægt miðjum degi kemur drengur, á að gizka sextán ára gamall, að Svartanúpi. Var hann á prjónafötum sauðsvörtum, með prjónahúfu á höfði; eigi heilsaði hann neinum manni, en gekk þegjandi inn í bæjardyrnar, og stóð þar. Var hann mjög þreytulegur; vinnukonurnar, ávörpuðu hann eitthvað, en hann anzaði því eigi; kom svo húsfreyja fram og spurði hann, hvaðan hann væri, hvað hann héti og hvernig á ferðum hans stæði. Strákur anzar því engu; verður húsfreyja þá byrst og segir: »Ertu mállaus, geturðu eigi opnað á þér helv... kjaftinn?« Gaf hann því engan gaum. Skipar hún þá einni vinnukonunni, sem Sigríður hét, að sletta skyri í strákinn, og var honum sagt að koma inn í baðstofu; þáði hann það, og borðaði með góðri lyst skyrið. Fekk hann svo mat seinna um daginn, og var svo vísað á rekkju, til þess að sofa í um nóttina. Hann tók þá af sér skóna og fleygði sér svo í öllum fötum upp í rúmið. Ekkert orð fekst upp úr honum, þó það væri reynt. Um morguninn var létt upp þokunni; fór þá smaladrengurinn frá Svartanúpi löngu fyrir sólaruppkomu að smala. Þegar hann er kominn dálítið frá bænum, kemur strákurinn á eftir honum; gengur hann upp á hól og skimar þaðan í allar áttir, hleypur svo af stað beint í norður, fram allar heiðar, og sá smaladrengurinn frá Svartanúpi það síðast til hans, að hann hvarf fram á heiðarnar.
(Sögn Jóns blinda. Eftir hdr. H. Ó. Magnússonar.)
Um aldamótin 1800 og þrjá tugi ára fram á nítjándu öld var sá maður uppi í ofanverðum Flóa í Árnessýslu, er Jón hét, Semingsson. Honum er svo lýst, að hann hafi verið vel að sér ger um marga hluti, fjörmaður og knár, þótt afburðamenni gæti hann ekki kallast. Hann var tvígiftur; síðari kona hans var ung og átti hann með henni tvo sonu, sem enn vóru á unga aldri. Um þessi árin var aflalítið úr sjó, og áttu því ýmsir þröngt í búi, þó efnaðri væru taldir en Jón. Það er sagt að vor eitt hafi Jón komið að máli við konu sína og kveður sig fýsa til grasatekju; hafi sér það oft vel gefizt áður í fyrri búskap sínum, og orðið til mikilla hagsmuna til búdrýginda. Hún tekur lítt á og afréð ferðinni, en hann sat við sinn keyp. Áður hafði hann ávalt haft með sér einhverja mannlýu sér til aðstoðar á þeim ferðum, og enn vildi hann hafa það svo. Að þessu sinni réði hann í förina mann þann er Hallgrímur hét, efnalítinn, kvongaðan bónda þar úr sveitinni. Jón átti hest þann, er Helsi var kallaður, en svo kalla menn þá sunnanfjalls, sem hvítir eru að lit, en hafa svartan kraga um hálsinn. Þessi hestur var talinn að vera skjótastur þeirra hesta, er þá vóru í þremur næstu sýslum. Þótti Jóni vænt um hestinn, sem von var. Jón hafði Helsa með í förinni, ásamt fleirum en Hallgrímur einn undir reiðingi, auk reiðskjóta. Kvaðst Jón í brott verða um vikutíma. Væri þriggja daga reið til Arnarfells; því þar væri grasatekja bezt. – Að viku liðinni fóru menn að vonast eftir þeim Jóni; en svo liðu þrjár vikur, að ekkert fréttist til ferða þeirra. Annan dag fjórðu viku var kona Jóns úti stödd. Sýnist henni þá sem upp komi jóreykur mikill úr þeirri átt, er Jón hvarf síðast í, þvíað þangað varð henni tíðlítið. Það leið heldur ekki á löngu, að jóreykur þessi nálgaðist svo, að hún þekti, að þar var Jón kominn á Helsa. Eins og nærri má geta, varð þar mikill fagnaðarfundur. Spurði hún hann spjörunum úr um ferð hans, og hvað hefði dvalið hana svo lengi, hvar samfylgdarmaður, hestar og grasatekja væri. Varðist Jón að gera nokkra skíra grein fyrir því. Eftir því tók kona Jóns, að úlnliðir og öklar vóru marðir, bláir og bólgnir, eins og eftir bönd; annarra meiðsla varð hún ekki vör. – Kona Hallgríms frétti um komu Jóns, og fór þegar á fund hans, að spyrja um mann sinn. Kvaðst hann ekkert geta af honum sagt, sem henni yrði til hugléttis. Leið svo um hríð, að Jón varðist allra frétta; kom þar að lokum, að kona Hallgríms fekk sýslumann til að stefna Jóni og rannsaka málið um hvarf Hallgríms. Var stefnt saman þingi og mætti þar Jón. Var hann spurður hvað ylli hvarfi Hallgríms, en hann varðist allra sagna, sem fyr; kvað hann mundi dauðan vera, en eigi af sínum völdum. Jón var sýknaður að því sinni, en flestum þótti mjög breytt um skapferli Jóns. – Það er mælt að Jón hafi farið til kirkju haustið næst á eftir. Hafi þá maður nokkur gengið að Helsa, sem var með í förinni, og strokið hann: »Fallegur er Helsi og frár mun hann vera.« – »Lítt er yfir því að láta,« sagði Jón, sem þar var nærstaddur; »mannfrár er hann ekki.« – Jón lifði ekki lengi eftir þessa ferð. Áður hann dó, bað hann konu sína þess lengstra orða að senda ekki sonu sína í Arnarfell. Jóni var gjarnt til að tala við sjálfan sig, og ágerðist það mjög eftir þetta ferðalag. Sagði kona hans hann oft biðja guð þess, að vernda stúlku, sem hún vissi ekki deili á. Var það hald manna, að hann hefði lent í klóm útilegumanna og að einhver kvenmaður hafi losað hann úr klóm þeirra, með því skilyrði, að hann þegði yfir atferli þeirra og bústað.
(Sögn Vilborgar Friðfinnsdóttur. Hdr. Helga Jónassonar á Gvendarstöðum í Köldukinn. 1907.)
Einu sinni var biskup á Hólum í Hjaltadal; ekki er getið um nafn hans. Hafði hann hjá sér marga sveina, sem títt var um biskupa. Fjósamann hafði hann er Jón hét; var hann auknefndur Jón styr eða Jón fjósamaður. Þótti sveinum biskups fremur lítið til hans koma og drógu oft dár að honum. Lét Jón það lítið á sig fá, enda var hann talinn óheimskur.
Það var vani biskups að senda mann suður að Skálholti hvern vetur fyrir jól, að sækja peninga. Þrjá vetur í röð höfðu menn þessir ekki komið aftur. Fjórða veturinn fekk biskup engan til þessarar ferðar; bauð hann þó mikil laun. Einkum eru sveinar hans ófúsir til ferðarinnar. Ráðleggja þeir honum, að hann skuli fá Jón styr til þessarar ferðar. Þótti biskupi þetta vera óskaráð og vekur máls á þessu við Jón, og segir að ef hann komizt heill á húfi til baka aftur, megi hann kjósa hvern grip úr eigu sinni, sem hann vildi. Jón kvaðst víst skyldi fara, en ekki þó vegna launanna. Sagðist hann halda, að ekki mundu sveinar biskups gráta lengi, þótt hann kæmi eigi aftur. Var hann svo útbúinn með nesti og nýja skó. Lagði hann því næst á stað upp á fjöll, svo sem leið lá. Kom þá yfir hann þoka, svo hann viltist lengi og vissi ekki hvað hann fór. Er hann hafði gengið lengi fór loks að halla undan fæti og þokan að þynnast. Sér hann að hann er kominn ofan í dalverpi ofurlítið. Þar sér hann kotbæ lítinn, og drepur hann á dyr. Kom út ung stúlka. Spyr hann hana, hvort hann fái þar gisting. Hún gengur inn, en kemur fljótt aftur og segir honum heimila gisting, og biður hann fylgja sér eftir. Leiðir hún hann til baðstofu. Sá hann ekki annað manna þar en gömul hjón. Heilsaði hann þeim. Var honum vísað til sætis. Leið svo dagurinn að kveldi, að enginn yrti á hann og ekki var honum boðinn matur; þrátt fyrir þetta leizt honum allvel á fólkið, er hann hafði séð. Um kvöldið komu tveir menn, ungir að sjá, inn í baðstofuna. Fór þá stúlkan fram, sú er Jón sá fyrst, og kom aftur með fullt trog af hangikjöti og setti það fyrir þessa menn. Tóku þeir ósleitilega til matar síns. Hentu þeir hverju beini, er þeir höfðu étið af því, til Jóns, en hann henti þeim jafnharðan til þeirra aftur. Er þeir höfðu lokið úr troginu, stóð hinn yngri á fætur og bauð Jóni í glímu. Tókust þeir á og feldi Jón hann brátt. Kom þá sá eldri til og bauð Jóni glímu. Fór það á sömu leið, að Jón feldi hann líka. Reis þá karlinn á fætur og réðst að Jóni. Getur Jón um síðir felt hann á annað hnéð. Stóð karl þá á fætur og kvað þetta hafa verið gaman eitt. Hafi þeir gert það til að reyna karlmensku hans. Eftir þetta er Jóni veittur sæmilegur beini og var fólkið skrafhreyfið við hann. Svaf hann vel um nóttina. Um morguninn, er Jón vaknaði, kom húsráðandi til hans og segir, að hann muni vilja halda áfram ferð sinni, og kveðst hann ekki muni hindra það. »En svo er mál með vexti,« segir karl, »að hér í dalnum, býr kerling ein, og er hún hið versta forað. Hefir hún fyrirkomið sendimönnum biskups, þeim er horfið hafa, þá er þeir hafa komið að sunnan, og rænt þá. Þá er eg kom fyrst í þennan dal til að setjast hér að, vóru hér önnur hjón fyrir. Gerðum við bændurnir þann samning með okkur, að hvorugur skyldi gera hinum mein á nokkurn hátt. Var vinátta góð með okkur meðan hann lifði, en nú er hann dáinn fyrir nokkrum árum. Eftir dauða hans hefir kerlingin lagt á okkur fjandskap og gert okkur alt ilt, sem hún hefir mátt. Hefi eg eigi viljað ráða henni bana, þótt eg hafi átt ráð á lífi hennar, vegna vináttu minnar við bónda hennar. Eigi hefir hún aðrar lifandi skepnur hjá sér, en ketti tvo. Eru þeir stórir og grimmir mjög. Vildi eg, Jón, að þú réðir hana af dögum. Skal eg ljá þér hund minn, mun hann duga þér vel.« Jón kveðst muni gera þetta. Kveðjast þeir svo. Biður bóndi Jón að koma við hjá sér, er hann komi aftur. Hét Jón því. Fer hann síðan að tilvísun bónda til bæjar kerlingar. Stóð kerling úti, er hann kom. Býður hún honum inn og þá hann það. Ganga þau í bæinn. Sá hann þar ketti hennar. Þótti honum þeir ærið stórir og illilegir. Réðst kerlingin á Jón, en kettirnir á hundinn. Stóð það heima að þegar hundurinn hafði drepið kettina, þá hafði kerlingin komið Jóni undir sig, og ætlaði að bíta hann á barkann. Í því kom hundurinn og veitti Jóni lið. Hjálpast þeir að og drepa kerlinguna. Hélt Jón svo áfram ferð sinni og gekk vel. – Á heimleiðinni kom hann til bóndans, svo sem hann hafði lofað. Dvaldi hann hjá honum í viku í góðu yfirlæti. Einn dag kom karl að máli við Jón, og sagði að nú mundi honum ekki veita af tímanum, ef hann vilji ná heim til sín fyrir jól. Býst Jón þá til ferða og gekk bóndi með honum. Spurði hann hvort biskup hefði ekki lofað honum launum, ef hann færi þessa ferð, og kæmi lífs aftur. »Ekki skorti loforðin, en minni ætla eg að efndirnar muni verða, enda munu sveinar hans ekki hvetja hann til þess,« sagði Jón. »Hvern hlut mundir þú kjósa?« spurði bóndi. Ekki kvaðst Jón hafa hugsað um það. Spyr bóndi þá enn, hvort biskup eigi ekki dóttur. Jón segir það, hann eigi eina dóttur. »Hvort mundir þú ekki vilja kjósa þér hana fyrir konu?« spyr karl. »Annar ráðahagur mun henni ætlaður, en að eiga Jón styr, enda mun hún ráða mestu um það sjálf,« svarar Jón. »Vera má að eg megi litlu ráða um vilja hennar, en freista mun eg þó,« segir karl. Tók hann upp hjá sér glas með einhverjum vökva í og fekk Jóni. Segir hann Jóni, að ef svo fari, sem sig gruni, að hann hitti biskupsdóttur eina, er hann komi heim; þá skyldi hann bjóða henni að súpa á glasinu. Skyldi hann svo biðja biskup um hana og sjá hvernig tækist til. »Ef svo fer, sem mig grunar, að þú munir verða nokkru ráðandi,« sagði karl enn fremur, »vona eg að þú munir þá eftir mér, og komir mér í sátt við bygðamenn, og leyfi þeir mér að flytjast í bygð. Svo stendur á að eg er í þessari útlegð, að við vórum tvö systkin og var faðir okkar prestur. Varð systir mín þunguð af mínum völdum. Urðum við þess vegna að flýja bygð, til þess að komast ekki undir mannahendur. Ól systir mín tvíbura er við vórum komin hingað. Er það stúlkan og eldri drengurinn, sem þú sást hjá mér. Yngri drenginn áttum við síðar. Erum við búin að vera hér í nítján ár. Langar okkur mjög að komast í sátt við menn og fá að deyja í bygð. Vona eg að þú verðir mikill maður og reynist mér vel.« Kveðjast þeir svo með vináttu. Kom Jón heim að Hólum á aðfangadag jóla. Vill þá svo til að biskupsdóttir var ein úti að taka inn þvott, er Jón kom í hlaðið. Heilsar Jón henni. Tók hún kveðju hans vel og biður hann heilan heim koma. Er Jón kátur mjög og læzt vera drukkinn. Segir hann, að það sé reyndar ekki vani sinn að drekka, en í þetta skifti hafi hann haft vín með sér. Býður hann henni að súpa á vasapela sínum, en það var glasið, sem hann fekk hjá útilegumanninum. Tók hún við því og drakk alt úr, og fór inn síðan; en Jón gekk fyrir biskup, og þóttist hann heimta Jón úr helju. Segir Jón fátt af ferðum sínum. Leið svo nóttin. Á jóladagsmorguninn kallaði biskup Jón fram í stofu. Kom þá allur sveinaskari biskups á eftir honum og gerðu þeir hróp mikið að Jóni, og höfðu margar getur um, hvað hann mundi kjósa að launum fyrir ferðina. »Líklega einhverja kúna úr fjósinu,« sögðu þeir. Segir biskup við Jón, að hann muni líklega, hverju hann hafi lofað honum, ef hann færi þessa ferð, að hann mætti kjósa hvern grip úr eigu sinni, er hann vildi, og væri nú kominn tími til að standa við það loforð sitt. – Segist Jón þá kjósa dóttur hans. – Biskupi varð mjög hverft við, en segir þó, að eigi hafi dóttir sín verið undanskilin loforðinu, því sér hafi ekki dottið í hug, að hann mundi kjósa hana. En sjálf ráði hún sér, og eigi muni hann standa á móti því, ef það sé vilji hennar sjálfrar. Kallar hann á dóttur sína og segir henni hvað í efni sé. Tók hún þessu máli vel og sagði, að þar við lægi heiður föður síns, að hann stæði við það, sem hann hefði lofað Jóni, og sagðist hún mundi taka honum. Síkkaði heldur brún á sumum sveinum biskups, er þeir heyrðu þetta, og þótti það ill tíðindi og óvænt. – Setti biskup Jón til menta og gifti hann síðan dóttur sinni. Tókust með þeim ástir góðar. Gerðist Jón merkur maður. – Mintist hann nú útilegumannsins. Útvegaði hann honum leyfi til að koma til bygðar, og fjölskyldu hans; dó hann í friði og sátt við alla menn. – Endar svo sagan af Jóni styr.
(Sögn af Suðurlandi. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Einu sinni var vinnumaður hjá Skálholtsbiskupi, er Bergljótur hét. Hann var afarmenni til burða, en annars mesti gæfðarmaður. Eitt haust kom Bergljótur að máli við biskup og segir honum, að sig langi til að fara í eftirleit, því að marga vantar nú fé af heiðum með meira móti, sem enginn veit hvað af er orðið,« sagði hann. Biskup gaf hvorki af né á í það sinn. Bergljótur var altaf að ala á hinu sama, og var þangað til að, að biskup gaf honum fararleyfi. Lét nú Bergljótur búa sér til nesti og nýja skó. Í nesti heimtaði hann jafnt af hverju, keti, sméri, osti og fiski; bjó hann um það í malpoka sínum, og var hann þá vættar þungur. Krækti hann pokanum um krókinn á staf sínum, vatt honum yfir öxl sér og gekk af stað. Biskup fylgdi honum út fyrir túngarð og sagði við hann að skilnaði: »Það vildi eg, Bergljótur, að þú vildir hætta við þessa ferð.« – »Það get eg ekki,« svaraði Bergljótur. – »Eg vona þú verðir ekki nema svo sem viku í burtu,« segir biskup. »Eigi þurfið þið að búast við mér hin næstu sjö ár,« segir Bergljótur; »en ef eg verð þá ekki kominn, þegar þau eru liðin, þá þurfið þið ekki að búast við mér framar.« Skildu þeir svo tal sitt.
Nú er að segja af Bergljóti, að hann gengur norður um öll fjöll og firnindi, og heldur svo áfram um hálfan mánuð, og fer bæði dagfari og náttfari. Loksins kemur hann að garði einum miklum og rammgervum. Lágu fannir miklar með garðinum. Gekk hann meðfram garðinum, þangað til hann kom að hliði einu; var í því grind sterkleg af timbri á járnum, og lás fyrir. Bergljótur mölvaði grindina úr hliðinu, og henti brotunum víðsvegar um fönnina; gekk síðan eftir harðspora einum heim að bæ einum, er þar stóð. Yddi aðeins á bæjarbustina upp úr fönninni, en gat var að líta niður með bæjarþilinu, eins og ofan að sjá í eldhússglugga. Bergljótur gekk að gatinu, kallar niður og spyr: »Á hér nokkur heima? – »Já,« er svarað niðri í mjóum róm. – »Eg ætla að biðja að lofa mér að vera,« segir Bergljótur – »Eg veit ekki hvort það fæst,« var svarað niðri í mjóa rómnum. Þá var tekið undir þar niðri í digrum róm: »Segðu honum hann verði þá að moka upp bæinn.« – »Eg er nú göngumóður,« segir Bergljótur, »en fáið þið mér samt eitthvert verkfæri, því að ekki get eg mokað hann upp með stafprikinu mínu.« – »Fáðu honum rekuna hans yngsta sonar míns,« var svarað niðri í digra rómnum. Litlu síðar var kastað upp til hans reku. Bergljótur mokar með henni tvo eða þrjá hnausa, og brýtur hana síðan. »Fáið þið mér aðra reku,« sagði Bergljótur. Þá var sagt í digra rómnum: »Fáðu honum rekuna hans miðsonar míns.« Var þá kastað út til hans reku. Mokar hann með henni nokkra hnausa og brýtur hana síðan. »Fáið þið mér aðra reku,« segir Bergljótur. Þá var svarað niðri: »Fáðu honum rekuna hans elzta sonar míns.« Var þá kastað út til hans þriðju rekunni. Bergljótur mokar með henni góða stund og brýtur hana síðan. »Fáið þið mér aðra reku,« segir hann svo, »þetta eru alt saman bráðónýtar rekur«. – »Fáðu honum þá rekuspaðann minn,« var svarað í digra rómnum; kom þá út reka ein mikil og sterkleg, og var járnfleinn í tindinum. Bergljótur lauk nú við að moka upp bæinn með reku þessari, en þegar hann var búinn, setti hann skákarnar á milli tveggja steina og braut þær af tindinum. Síðan gekk hann inn og sagði, að búið væri að moka upp bæinn, en brotin væri rekan. Þar var inni karl einn gamall og ljótur, og ung stúlka lagleg. Karl segir henni að fara fram og veita Bergljóti beina. Færði hún honum két að borða. Borðaði hann þar af nægju sína. En er hann var hættur, sagði karl: »Linlega borðar þú, sveitarmaður, og vera þó jafnmikill fyrir þér og þú ert. Lítið mundi þetta verða handa þeim sonum mínum.« Skömmu síðar vísaði stúlkan Bergljóti til hvílu í fleti einu. Fór Bergljótur af öllum fötum, nema nærfötum og lagðist þar niður.
Þegar hann hafði legið þarna góða stund, heyrir hann hark og skóhljóð frammi í bænum. Litlu síðar komu inn þrír karlmenn og heilsa. Segir einn þeirra undir eins og þeir eru komnir inn: »Hér er víst einhver kominn.« – Hann er víst ribbaldi mikill,« sagði annar hinna yngri bræðra, »hefir mölvað garðshliðið og grýtt brotunum út um alt, og átti þó að vera frá því gengið – og svo er búið að moka upp allan bæinn; hefir hann gert það?« »Já,« svaraði karlinn, »það hefir hann gert, og megið þið nú verða fegnir, fyrst þið nentuð aldrei að moka hann upp, hvernig sem eg jagaðist í því við ykkur; en allar rekurnar braut hann á meðan hann var að því.« – »Það var engi furða, þó að þær biluðu,« segir elzti bróðirinn, »slíka kögla, sem hann hefir pælt upp úr hjarninu og hent út um alt tún.« Síðan fara þeir bræður að borða graut og ket, og þótti Bergljóti þeir, taka hraustlega til matar síns. En altaf, á meðan þeir vóru að snæða, vóru þeir yngri bræðurnir að ala á því, að gaman væri að reyna sig við hann, þennan nýkomna, og vita hvað hann gæti, sveitarskræfan, en hinn elzti þaggaði niður í þeim, og sagðist vera búinn að sjá það, að þeir hefðu ekkert að gera í hendurnar á honum. En þeir héldu áfram, og gutu óhýrum augum til fletsins, þar sem Bergljótur lá, en hann bærði ekki á sér. En en þeir höfðu matazt, vatt Bergljótur sér fram úr rúminu og sagði, að það væri þá bezt þeir fengi að reyna sig við sig. Þeir tóku því vel, og flaug hinn yngsti þegar á Bergljót, en hann hristi hann af sér eins og fífuvetling. Síðan komu hinir bræðurnir, og fór það eins, að þeir stóðu honum ekki snúning. Þá stóð karl upp, rétti hinum elzta þeirra bræðra rokna löðrung og sagði af mikilli reiði: »Ofvel hefi eg alið ykkur, lyddurnar, til þess að þið réðuð ekki við einn bygðastrák.« Síðan fleygði karl af sér burunni, og flaug á Bergljót, en hann stóð fast fyrir, og setti karl niður eftir nokkrar sviftingar. Þá kallaði karl til þeirra sona sinna og sagði: »Gerið honum ekkert ilt,« en þeir svöruðu: »Hver ætli geri það, nema þú?« Síðan lét Bergljótur karl lausan, og svo fór hver í sína hvílu.
Um nóttina vaknar Bergljótur við það, að einhver fer á fætur og ofan. Bergljóti þótti þá varlegra að gæta sín, og fór inn undir rúmið. Þegar hann er nýkominn undir það, kemur einhver að framan, gengur að rúminu og höggur ofan í það högg mikið. Síðan fer þessi frá rúminu og í ból sitt. Bergljótur beið um hríð undir rúminu, en skreið síðan framundan því aftur. Fann hann þá í rúminu öxi eina, og hafði hún skorið rúmfötin sundur. Bergljótur hirti öxina, og hugsaði sér, að öxi þessa skyldi hann rjóða í blóði þeirra feðga. Um morguninn sýndi hann öxina, og spurði, hver vildi gangast við illræðinu, en allir bræðurnir báru það af sér, og sögðu: »Ekki eg,« en karl þóttist brögðum beittur og svaraði engu. Vildi þá Bergljótur höggva hann banahögg, en hinn elzti bræðranna, er Surtur hét, bað þá Bergljót að vægja föður sínum; »vil eg biðja þig,« sagði hann, »að gefa föður mínum líf, og skal eg heita þér vináttu minni í staðinn; en illan hug mun hann bera til þín, og skaltu því sofa fyrir ofan mig, þangað til eg get komið þér óhultum héðan á burt aftur.« Bergljótur lét það að orðum hans. Líður svo til morguns.
Daginn eftir kemur karl til þeirra, og býður þeim öllum að rífa við til eldiviðar; »hefir það nógu lengi dregizt fyrir ykkur, eins og annað, sem hefir þurft að koma í verk. Skal nú hver ykkar rífa svo stóra byrði, sem hann getur, og bera heim, og skal sá heita mestur maðurinn, sem kemur með stærsta byrðina«. Fóru þeir síðan, og Bergljótur með þeim, að rífa hrísið. Þegar þeir vóru búnir, sagði Surtur við Bergljót: »Eg hefi nú rifið stærstu byrðina; skal eg nú bera hana heim undir, en síðan skaltu taka við henni og bera hana heim. Mun þá faðir okkar standa í dyrunum og segja: »Hraustlega er borið.« Þá skaltu taka byrðina, og varpa henni í fang honum inn í dyrnar og segja: »Taktu þá ekki óhraustlegar á móti;« skal eg þá standa að baki þér, og hjálpa þér ef með þarf.« Gekk það alt eftir, sem Surtur sagði fyrir, og varð þá karl að kannast við, að Bergljótur væri þeirra mestur maðurinn. Eftir þetta lagði karl ekki til Bergljóts, og kom honum vel saman við þá bræður.
Þarna var nú Bergljótur í sjö ár, og sá sér aldrei færi til að komast á burt. Var hann jafnan með Surti til hvers, sem vera skyldi, og urðu þeir hinir mestu aldavinir. Einn dag kemur Surtur að máli við Bergljót og segir: »Nú er svo komið, vinur, að við munum verða að skilja, þó að þungt falli mér það. Í dag hefir karlinn, faðir okkar, orðið þess var, að systir okkar er farin að þykna undir belti, og kennir hann þér um það, enda mun hann þar fara nærri um sann. Hingað til hefi eg með engu móti getað komið þér undan, því að skamt héðan frá bjó seiðmaður nokkur. Lagði faðir okkar undir við hann að drepa þig með göldrum, ef þú færir burt héðan. En hér heima fyrir gat eg ónýtt öll banaráð hans, og launaði honum svo kinnhestinn forðum. En nú er seiðmaðurinn dauður, og er þér því óhætt fyrir honum. Nú vil eg ráða þér til að hátta í rúminu hjá mér í kvöld eins og vant er, en undir eins og fólk er sofnað, skaltu fara hljóðlega á fætur og ganga út, og á hól þann, er hér er í austur frá bænum. Þar skaltu bíða mín.« Bergljótur þakkar honum ráð hans, og líður svo til kvölds. Um kvöldið hátta þeir eins og venja er til, en litlu síðar klæðist Bergljótur hljóðlega og gengur út. Í bæjardyrunum var stúlka hans fyrir. Fekk hún honum þar böggul með fötum hans í, og bað hann vel fara. Bergljótur kvaddi hana, og gekk til hóls þess, er til var vísað, en hún stóð eftir í dyrunum og flóði í tárum. Óðara en Bergljótur var farinn, tók Surtur föt nokkur, vöðlaði þeim saman og lét í ból hans. Rétt á eftir verður hann þess var, að karl staulast á fætur, þreifar til öxar sinnar, tekur hana, gengur að rúmi þeirra félaga, og höggur með henni mikið högg í fataböggulinn; og fer síðan burt aftur. Litlu síðan klæðist Surtur, fer út og kemur þangað, er Bergljótur var, og segir honum af tiltektum föður síns, og biður hann nú að koma með sér. Ganga þeir nú lengi um nóttina, þangað til Surtur segir honum, að hann muni ekki lengra fara. Vísar hann honum eftir fjallasýn skemstu leið til Skálholts. Að skilnaði sagði Bergljótur við Surt: »Þess vildi eg biðja þig, vinur, að þú sjáir um það, að barn það, sem eg á með systur þinni, fái að halda lífi.« – »Því má eg engu um ráða,« segir Surtur, »en reyna má eg það.« Að svo mæltu skildu þeir og bað hvor vel fyrir öðrum. Surtur fór nú heim aftur, og lagðist í rúm sitt, og lá til morguns. Um morguninn sást Bergljótur hvergi, en öxi karls stóð föst í fataböglinum fyrir ofan Surt. Spurði þá karl, hvort nokkur vissi til hans, en Surtur kvaðst ekki annað til hans vita en það, að hann hefði háttað þar í gærkvöldi. Skipaði karl þá Surti að fara og leita Bergljóts; fór hann og kom aftur að stundu liðinni, og kvaðst hvergi finna hann. Brást þá karl við hinn reiðasti, og bað hann að snauta á burt aftur, og koma ekki fyrir sín augu fyr, en hann hefði drepið Bergljót, ella kvaðst hann mundu drepa hann. Fór svo Surtur af stað aftur, og er lengi í burtu. Hagaði hann þá svo ferð sinni, að hann fór eitthvað nokkuð langt í burtu frá bænum, og beið þar langan tíma. Síðan reif hann á sér fötin, tók hund sinn og hjó hann til bana og rjóðraði öxina í blóði hans. Síðan kom hann heim aftur, og sagði þau tíðindi, að Bergljótur væri dauður; varð þá karl allshugar feginn og réð sér ekki fyrir gleði. Notaði þá Surtur sér það, að betri flöturinn vissi upp á karli, og sagði: »Fyrst eg hefi nú fært þér tíðindin um bana Bergljóts, þá vil eg nú biðja þig í þess stað að lofa mér því, að barn það, er systir mín gengur með, fái að lifa.« – »Ekki veit að það,« sagði karl; ef það verður stelpa, er það hreint frá, en verði það efnilegur strákur, veit eg ekki hvað eg kann að gera.« – Leið svo og beið, þangað til dóttir karls varð léttari; var það sveinbarn, og lofaði karl því að lifa. Þegar sveinninn eltist, tók karl miklu ástfóstri við hann.
Nú er að segja af Bergljóti, að hann heldur til sveita, eftir tilvísun Surts; komst hann klaklaust heim í Skálholt; þóttist biskup hann úr helju heimt hafa, og spurði hann eftir, hvað drifið hefði á daga hans. Bergljótur sagði um það það, er honum sýndist. Nokkru eftir þetta vildi Bergljótur fara að staðfesta ráð sitt og fara að búa. Gaf þá biskup honum jörð til ábúðar; vóru það Bergsstaðir í Biskupstungum, og er sagt að bærinn beri nafn af honum.
Tólf árum eftir þetta var Bergljótur eitt sinn í verzlunarferð niðri á Eyrarbakka, og var að taka út niðri við búðir. Sá hann þar þá tvo menn, sem vóru að binda; var annar þeirra unglingsmaður. Bergljótur gekk til þeirra, og sá að eldri maðurinn var Surtur, fornvinur hans. Heilsuðust þeir þar, og sagði Surtur honum að hér væri nú kominn sonur hans og systur sinnar, og væri hann nú tólf vetra. Bergljótur vildi þá hafa son sinn með sér, en það sagði Surtur að eigi dygði að sinni, því að karlinn, faðir sinn, mætti ekki af honum sjá. En þegar karl væri dauður, væri hugsandi, að pilturinn kæmi, svo framarlega sem hann gæti þá fest yndi í sveit. Skildi svo með þeim að sinni. Átta árum síðar kom maður tvítugur á Bergsstaði, stór og mikilfengur, og settist þar að. Var þar kominn sonur Bergljóts og fjallastúlkunnar. Var hann þar hjá föður sínum þangað til hann dó. Tók hann þá við jörðinni eftir hann og bjó þar alla ævi síðan. Þótti hann jafnan viðsjálsgripur og til í tvent, en þó var hann góður vinur vina sinna og þótti í mörgu mikið að honum kveða. – Kunnum vér svo ekki þessa sögu lengri.
(Sögn Guðrúnar Einarsdóttur á Húsavík. 1905. Eftir handriti Jakobs Hálfdanarsonar á Húsavík.)
Í fyrndinni, þegar biskupsstóll var á Hólum í Hjaltadal, sat þar að stóli einn merkur, stjórnsamur og vel látinn biskup, sem ekki verður hér nafngreindur. Hann var kvæntur og átti eina dóttur barna er Ástríður hét. Hann hafði, sem venja var, mikið um sig. Vinnumenn hafði hann átta, er stunduðu heimavinnu, og tólf menn til sjóróðra, er venjulega komu úr verinu viku fyrir jól. – Drangey lá þá undir biskupsstólinn, og vóru allir geldsauðir búsins látnir ganga þar sjálfala alt árið. Hæfilegt skip var haft í uppsátri við þá lendingu, sem næst fekst eyjunni út með firðinum, til þess að geta farið út þangað eftir þörfum.
Drengur, er Kristján hét, ólst upp hjá biskupi. Faðir hans, Þorsteinn, hafði þjónað biskupi nokkur ár, og dáið á Hólum. Hafði hann beðið biskup á dánar-dægri að sjá um, að drengurinn færi ekki á hrakning. Af því að ekki vóru fleiri börn á staðnum en biskupsdóttir og þessi drengur, urðu þau að vera leiksystkin; hún var að vísu lítið eitt yngri. Drengurinn kom sér vel, og var mannvænlegur. – Þegar þar er komið, að Kristján er tólf ára, hafði hann þann starfa, að gæta búfjár biskups á sumrum, en vatna eldishestum á vetrum. – Oft hafði drengur orð á, að sig langaði til Drangeyjar, þegar þangað væri farið. Þetta haust var honum lofað því, að hann skyldi við næsta tækifæri fá að fara með piltum til eyjarinnar. Þegar leið að jólum, átti að sækja sláturfé í eyjuna til jóla-veizlu. – Ástríður biskupsdóttir latti Kristján fararinnar í það sinn, og vildi að hann drægi að fara þangað til um vorið, að farið væri út til þess að rýja sauðina, og ætlaði hún þá að fá að fara með. Einnig latti biskupsfrúin þess, að hann, sem þyrfti nú að stunda bóknám, væri nema sem minst í pilta-fjölmenninu, sem gjarnan dró til að nota hann sem mest og jafnframt að beita glettum við hann. – Eftir vanda komu nú vermennirnir heim viku fyrir jólin; þá var umförukona, Anna að nafni, búin að sitja þar á Hólum nokkra daga. Hún var ófríð, svipmikil og forneskjuleg að sjá. Beininga-fé hennar var orðið allmikill flutningur, enda bætti biskupsfrúin nokkru við. Nú gengur biskupsfrúin til heimamanna og biður þá að fylgja Önnu gömlu til næsta bæjar, en hún bjóst þá til ferðar og stóð þegar yfir föggum sínum fyrir dyrum úti. Piltar ganga til dyra, glaðværir að vanda, og sáu kerlingu þarna og Kristján litla á hlaðinu. Þeir ávarpa þá Kristján og segja hann hæfilegastan til að fylgja kerlingu, enda skyldu þeir þá veita honum nafnbót, og kalla hann síðan kerlinga-vísir. Kristján brá sér hvergi, en sagðist mundi geta fylgt Önnu og ekki þykja nein skömm að, aðeins ef hægt væri að binda farangur hennar ofan á litla sleðann þeirra barnanna. Kerling kvað sér það vel líka, svo þeir þyrftu ekki að lýja sig á þessu, hún gæti tekið í taug með honum. Síðan bundu þeir trússin á sleðann, hleyptu öllu úr hlaðinu og hrópuðu á eftir: »Húrra! kerlinga-vísir.« Gamla Anna sneri að þeim hörðum svip og sagði: »Aldrei fylgir þessi nafnbót Kristjáni, og hugsið til orða minna, að nokkrir ykkar, sem standið hér nú, munuð fá að standa fyrir honum með kinnroða, og ekki einu sinni geta skýlt ykkur með því að biðja hann fyrirgefningar.« Kristján fylgdi kerlingu og lét vel yfir; hún gaf honum hveitiköku og kandís.
Nú líður að jólum, og á Þorláksmessumorgun eru sex menn ferðbúnir til Drangeyjar að sækja til jólaveizlu. Þeir hittu Kristján litla við hesthús norðarlega á túninu. Hann spyr, hvort þeir ætli nú til eyjarinnar, og játa þeir því; biður þá drengur að þeir hinkri við á meðan hann bregði sér heim og fái leyfi og klæði sig betur, til þess að fara með þeim. Þeir kalla hann bjána og huglausan, ef hann hiki nú við að fara, eins og hann standi, með þeim, fyrst hann hafi leyfi; en enga bið sé að orða. Hann ræður af að fylgjast með, þótt hann finni, hvað rangt það er að láta engan vita það. – Ferðin til eyjarinnar gengur vel; veður var bjart og glaða tunglsljós er kvöldaði. Á leiðinni sögðu piltar Kristjáni margar sögur af huldufólki í eyjunni og sjóskrýmslum, er gengju þar á land. – Þegar kom til eyjarinnar, smöluðu þeir saman sauðunum og ráku í borg, sem hafði verið bygð handa sauðunum að leita í undan óveðrum. Hún var bygð milli dranga, er gerðu að nokkru leyti veggina. Kristjáni þótti gaman að skoða sig um í borginni, og skjótast inn í skútana í dröngunum. Þarna matast piltar, og færa síðan sauðina, er þeir tóku, til skips. Þegar þangað er komið, vantar þá nestismal sinn, og þykjast þeir hafa gleymt honum á borgarvegnum; og biðja nú Kristján að hlaupa eftir honum.
Hann hljóp skjótlega af stað og fann malpokann; en er hann sneri aftur, sá hann að þeir vóru komnir af stað og reru fastan til lands. Hann hrópaði og bað að þeir skildu sig ekki eftir, en það kom fyrir ekki. Hann heyrði aðeins ágreining milli manna á bátnum. – Það er hægra að hugsa sér, en lýsa því með orðum, hver hörmung var fyrir tólf ára barn, að vera eitt þarna í svarta skammdegi á eyðiey, og hafa þar á ofan á meðvitundinni að hafa hlaupið burtu á laun við alla þá, sem honum voru kærastir. – Þarna stóð drengurinn; og þó nú væri hungur og kuldi að sjálfsögðu fyrirbúið, vissi hann ekki að hugsa um það af hræðslunni við draugana, huldufólkið, sjóinn og sjóskrýmslin. Þegar Kristján litli hafði nú mænt grátandi um hríð eftir félögum sínum og mist alla von, leit hann upp á eyjuna, sem glitraði nú með tilbreytilegum myndum, hrími þakin í tunglsljósinu, og segir við sjálfan sig: »Hvað á eg nú að gera? Ekki kasta eg mér í sjóinn, því það vill guð ekki að eg geri; ekki fer eg inn í sauðaborgina, því þar hlýtur huldufólkið að búa; ekki ætla eg að halda mig fast við sjóinn, því þaðan má eiga vís sjóskrýmslin, eins og piltarnir sögðu; eg ætla að leita mér aðseturs uppi á einhverjum dranganum, þar sem eg sé bezt yfir, þaðan sé eg einnig blessaða sauðina.« Þetta gerði hann, fekk sér þar lítið skýli fyrir efri hluta líkamans. Þarna barst hann fyrir og nóttin dróst yfir. Ekki sá hann huldufólkið og engin sjóskrýmsli, var honum það mikil bót. Hann las alt gott, er hann kunni, og hugsaði, að – »guð á nógu marga vegi til að hjálpa mér úr þessum voða«. Undir daginn blundaði hann, en vaknaði skjálfandi, og með birtunni hafði hann sig á kreik um eyjuna, og hélt sig helzt hjá sauðunum. Hugurinn var nú að sjálfsögðu heima á Hólum, um hvarf hans, um frásögn piltanna, er svona höfðu leikið hann, um jóla-gleðina, sem þar átti að vera, um fallegu, nýju fötin hans o.fl. Dagurinn leið, og hann hugði á sama náttstað og hann hafði áður. Nú fann hann sárt til sultar. Ósjálfrátt hafði hann einatt haldið á malpokanum. Hann leitar í honum og finnur eina brauðköku þurra, og mikið af beinum. Með þetta fer hann upp í aðsetur sitt í dranganum, og segir við sjálfan sig: »Þetta læt eg vera jóla-kökuna mína; eg er hér einsog hirðararnir forðum, og Guðs-birtan mun ljóma hér kring um mig.«
Nú kom þessi nótt, sjálf jóla-nóttin; en er lítið var liðið á hana, varð honum litið á rif eitt við sjóinn, skamt frá sér; og bar þá fyrir hann ein mikil þústa, er honum sýndist koma úr sjónum upp á rifið. Taldi hann þetta sjóskrýmsl, og varð hræddur mjög. Hann hljóp ofan í borgina, er hann hafði þó hræðst, mest vegna huldufólksins; þar hitti hann skúta einn inn í drangann og faldi sig þar. Nú þótti honum ekki taka betra við. Hark og háreysti nálgaðist óðum borgina. Hann gægðist þó fram úr fylgsni sínu, og sá menn fyrir dyrum borgarinnar; samt faldi hann sig sem bezt. Þeir komu skyndilega inn með ljós og ljósbera og slógu þar skrautlegum silkitjöldum innaní alla borgina. – Honum til hamingju kom ein samanhneppingin á tjaldinu rétt fyrir skútann, sem hann var inn í. Knúður af forvitni ræðst Kristján í, að afhneppa þrjá hnappa, til þess að fá rifu að gægjast um eftir athöfnum mannanna; sér hann þá að þeir eru að skreyta tjöldin og festa upp ljósker alt í kring, er sýndust vera gerð af gulli og silfri, svo sauða-borgin var þegar orðin öll uppljómuð. Síðan færðu þeir inn borð, bekki og stóla, og alskipuðu borgina með þessu; báru þeir þar á allskonar vistir og vín, og angaði ilmurinn af því fyrir vitum veslings drengsins í skútanum. Nú varð borgin þegar full af skrautbúnu, mjög fríðu og góðlegu fólki, körlum og konum, sem röðuðu sér sem þéttast á bekkina. Sérstaklega vóru þar maður, og kona, sem báru af að tíguleik í klæðaburði, og varð að telja það konung og drotningu yfir þessari þjóð. Borðhaldið fór fram með mikilli viðhöfn og glaðværð. Að lokinni máltíð vóru öll borð og bekkir fært að þeim veggnum, þar sem drengurinn hafði fylgsni. Fólkið kastaði af sér mötlum og kápum, og tók að dansa og syngja með hinni mestu gleði og fjöri. Ekki skildi Kristján orð af sem nokkur sagði eða söng. Gekk svo um hríð, þar til það fór aftur að hressa sig á víninu; þá vill svo til að Kristjáni svelgist svo á munnvatni sínu, að hann fær mikinn hósta. Í sama bili bregður alt fólkið við og ryðst svo skyndilega sem það getur út úr borginni, en hann hneppir frá sér tjaldið og hleypur hiklaust fram og út að horfa á eftir fólkinu; sér hann þá að það fer alt niður,að sama sandrifinu og áður er nefnt, tekur þar stóran feld, fleygir honum fram á sjó, stígur þar alt fram á, og er jafnharðan horfið Kristjáni.
Þarna stóð nú aumingja drengurinn enn sem einbúi, jafn ráðþrota og áður, en hálfringlaður af undrun yfir þessari sýn; segir hann þá við sjálfan sig: »Ekki vóru þetta sjóskrýmsl, menn vóru það, en hvaða menn?« Þá sneri hann aftur inn í borgina og leit yfir alla þá dýrð, er þar var; spyr hann þá enn sjálfan sig: »Er þetta draumur, eða er eg að fæðast inn í annað líf?« Hann leit yfir borðin, og sá þar nóg af ýmsum réttum og víni, sem eftir hafði orðið, og segir: »Af þessu verð eg að næra mig lítið eitt í þeirri trú og trausti að drottinn minn hafi sent mér það,« og svo gerði hann. Óvanur var hann víni, svo það hreif þegar á hann, og hann gleymdi í bráð ástandi sínu. Varð hann þá svo glaður, að hann valdi fallegan möttul er þar lá, fer í hann og syngur og tónar sem mest hann má eftir biskupinum.
Nú víkur sögunni heim að Hólum, er Kristján litli kemur ekki til máltíðar á Þorláksdag, og enginn veit hvað af honum er orðið. Eftir nokkra fyrirspurn og leit, verður niðurstaðan sú, að hann hafi farið með piltunum út í eyju. – Á aðfangadagsmorgun vóru eyjarfararnir komnir heim, varð það þá ljóst að drengurinn var ekki með þeim, og að þeir vissu ekkert um hann, eftir því sem þeir sögðu, og vandaðist nú málið. Biskup skipaði þegar að leita þar heima og í kring, því drengurinn hefði orðið bráðkvaddur, ef allir segðu satt. Þetta var gert, en árangurslaust, sem eðlilegt var. – Öllum aðfangadags-verkum var snemma lokið, því aftan-söngur átti að verða. Nú vóru sett fram borð um alla Hólabaðstofu, þar sem alt fólk staðarins átti að sitja að, eftir vanda á jólanóttina. Var biskup vanur að ganga sjálfur um, er sezt var undir borð, veita vín og telja fólkið. – Konur báru nú laufabrauðs- og kerta-trog til baðstofu, en piltar vóru allir komnir saman þar að þvo sér. – Þá kemur biskup fram; var hann sjáanlega mjög hnugginn og alvarlegur; segir að nú verði skerð fyrir sér, og líklega fleirum þar, jólagleðin, þar sem litla vininn sinn vanti í hópinn; »og vildi eg,« sagði biskup, að eg mætti vona að enginn af þessum álitlega hóp geymdi þann mann í brjósti, að hann vissi um drenginn og segði ekki til.« – Þá tekur einn maður til orða, sá er hafði á hendi lambahirðingu – hafði hann aldrei verið við, er drengsins var leitað, og segir: »Hvað er þetta? er það satt, að Kristján litla vanti? Á Þorláksdags-morgun var eg í hálfbjörtu eða fyr að reka lömbin hérna upp fyrir; þá vóru piltarnir að fara úteftir, og eg þóttist sjá drenginn hlaupa á eftir þeim út og ofan úr túninu. En birtan var lítil og þori eg því ekki að fullyrða þetta.« Við þessi orð brá einum manninum, sem verið hafði í Drangeyjarförinni, svo greinilega, að biskup var nógu aðgætinn til að sjá það. Kallar hann þá þessa félaga alla inn í skrifstofu sína, en þurfti lítið fyrir að hafa, áður þessi hinn sami opinberaði sannleikann. Hann sagði glögt frá öllum atvikum frá byrjun ferðarinnar, eins og sagt er hér að framan, og svo, að hann einn hefði verið á móti því, eftir mætti sínum, að svona væri skilið við drenginn; sér væri óþolandi að hafa þetta á meðvitundinni, og yrði feginn að mega þannig segja frá öllu, eins og komið var. »En nú verð eg,« segir hann, »að njóta verndar yðar, herra, gegn varmennum þessum.« – Jafnskjótt lætur biskup taka þá alla (fimm), og setja í höft, skipar að bera allar vistir burtu, »og skulu hvorki eg né aðrir neyta neins af þeim, fyr en fengin er sönn fregn um, hvernig Kristjáni líði.« – Skipar hann nú átta mönnum að taka jafnmarga eldishesta og ríða til skips. Klæðnað og fæði lætur hann fara með, ef Kristján litli kunni að hittast lifandi, og ullarábreiður til þess að vefja utan um hann.
Er ekki að segja af ferðum þeirra, fyr en þeir koma til eyjarinnar. Ber þá heldur en ekki kynlega sjón fyrir þá, er þeir sjá hina ljómandi birtu í sauðaborginni. Þeir verða hræddir og undrandi, því þeir skilja ekki, hvernig drengurinn geti hafa haft ráð á að kveikja sér eld. Ganga þeir nú að borginni og verða ekki minna undrandi, er þeir sjá Kristján litla þarna, búinn dýrindis guðvefjarmötli, og tónaði og söng alveg eins og biskupinn.
Þeim leizt nú ekki á blikuna, þó pilturinn væri fundinn; héldu að hann væri búinn að missa vitið að miklu leyti. En hann gat sagt þeim í stuttu máli sögu sína, og sagðist vilja að þeir neyttu þess að nokkru, sem á borðunum var, og það gerðu þeir. Engu öðru hreyfðu þeir, en slöktu öll ljósin og bjuggust sem skjótast til heimferðar.
Á jóladagsmorgun komu sendimenn aftur heim að Hólum. Hófst þar gleði mikil, þegar sást, að Kristján var í förinni, auðþektur til að sjá, í stórri loðskinnskápu af biskupi. Þá gekk biskup um gólf fyrir kirkjudyrum, er flokkurinn reið heim. Gengur Kristján auðmjúkur fyrir biskup og bað hann fyrirgefningar á burthlaupi þessu, og var það auðfengið; sagði honum síðan alla söguna, og þótti biskupi mikils um vert; sagðist mundi fara með honum til eyjarinnar eftir nýárið; þess, sem í borginni væri, mundi verða vitjað á nýársnótt, annars aldrei.
Nú vildi biskup að Kristján gengi til hvílu, en drengur var ófús til þess; heldur vildi hann klæðast nýju fötunum sínum og ganga í kirkju, og fekk hann að ráða því. – Að þessu búnu settust menn að jólaveizlu, og vóru nú glaðir, nema hinir fyrnefndu fimm menn, er sátu í höftunum, enda var biskup þeim hinn reiðasti. Undir borðum lagði biskup þá spurningu fyrir Kristján, hvernig hann mundi hafa dæmt þessa menn, ef hann hefði verið lögmaður. »Eg hefði sjálfsagt dæmt þá svo vægt, sem mætti,« sagði drengur. – »Láttu mig heyra,« sagði biskup, »hvernig heldurðu að þú hefðir dæmt þá?« – »Eg hefði fyrst lofað þeim að sitja við jólaveizluna í kvöld.« – »Svo skal gert,« sagði biskup, og lét sækja þá. Þegar þeir vóru seztir niður, sagði biskup þeim, hvers drengurinn hefði óskað. Urðu þeir þá mjög sneyptir og báðu hann nú fyrirgefningar. Hann kvaðst gera það fyrir sig, en það mundi þeim ekki vera nóg. Að svo mæltu tóku þeir þátt í veizlunni; en er staðið var upp frá borðum, spyr biskup Kristján litla enn, hvernig hann mundi hafa dæmt þá. »Ekki mundi eg,« segir drengur, »hafa sótt eftir lífi þeirra, þótt þeir sæktu eftir mínu, en óhelga hefði eg dæmt þá ævilangt innan ummerkja yðar biskupsdæmis, herra.« Þá klappaði biskup á koll hans og sagði: »Þú ert efni í lögréttumann, Kristján litli.« – Sagan segir, að dómur yfir mönnum þessum hafi fallið eins og hann kvað hér á.
Eftir nýárið fór biskup til eyjarinnar, og var Kristján litli í förinni. Þar var alt óhreyft, eins og þeir skildu við. Varð biskupi að orði, er hann leit inn í borgina: »Hvort er sauðaborg mín orðin konungleg höll? Undir þínu nafni, Kristján litli, slæ eg hendi yfir alt, sem hér er.« Þeir höfðu þegar heim með sér alt það af góssinu, er þeir gátu; en hitt var síðar sótt. Var mikill vandi að koma því óskemdu.
Þegar það var komið heim, sagði biskup, að hann léti alt þetta skraut fara til útlanda, því það væri samboðið konungahöllum einum, og mundi þar þó sjaldséð annað eins. Einn bikar undantók hann samt, er hann gaf Hólakirkju, og er hann sagður enn til. Var hann að eins notaður meðan biskupar vóru þar, og þegar þeir sjálfir tóku sakramenti.
Kristján litli Þorsteinsson varð eigandi alls þess, er fekst fyrir dýrgripi þessa, og var það enginn smáræðis skildingur; hafði biskup umsjón þess. Fór þá drengur að stunda bóknám til prests, því það vildi hann verða, af því hann langaði svo til að syngja og tóna. Fór svo að lokum, að hann varð prestur. Veitti biskup honum gott brauð, er lá allnærri stólnum, og gifti honum Ástríði dóttur sína.
Síra Kristján varð góður prestur, og prófastur í mörg ár, og átti mörg mannvænleg börn með konu sinni. – Gamla Anna, sem hann fylgdi forðum, naut styrks og athvarfs hjá honum í elli sinni. Og er þá lokið sögunni.
(Eftir handriti Bjarnar Jónassonar á Reykjum.)
Einu sinni var karl og kerling í koti. Þau áttu ekkert barn; þótti þeim það mjög leiðinlegt, en gátu ekki að gert. Þeim varð oft sundurorða út af þessu, og kendu hvort öðru um. Að lokum varð fullkomið ósamlyndi á milli þeirra og rifrildi, því að hvorugt vildi meðkenna, að það væri sér að kenna, að þau gátu ekki eignast krakka. Karlinn fór þá í burtu í reiði sinni, og kvaðst skyldi ganga næst lífi hennar, ef hún yrði ekki komin í burtu, þegar hann kæmi heim aftur. Þegar hann var farinn, lagðist kerling upp í rúm og grét beisklega, því að henni þótti vænt um bónda sinn. Þegar hún hugði að tími væri kominn til þess að sjá fyrir miðdegismatnum, reis hún á fætur og fór að sækja vatn í á, sem rann nálægt kotinu. Þegar hún kemur að ánni, sér hún lágan mann, rauðskeggjaðan, sitja á steini í miðri ánni. Hann kastar kveðju á kerlingu og spyr: »Hversvegna liggur svo illa á þér?« Hún svarar: »Bóndi minn er svo vondur við mig, af því að við eigum ekkert barn og nú hefir hann skipað mér í burtu. Þetta hryggir mig mjög mikið. – »Viltu að eg hjálpi þér?« segir hann. – »Eg held eg verði fegin,« segir kerling, en ekki hafði eg ætlað að hafa fram hjá karli mínum.« – »Ekki muntu þess þurfa, þó að eg hjálpi þér,« segir Rauðskeggur og glottir við. Seildist hann þá ofan í ána og tók þar silung og fekk henni. Síðan sagði hann: »Þú skalt sjóða silunginn og eta; en þú mátt hvorki drekka soðið af honum né eta beinin. Þegar þú hefir etið silunginn, munt þú verða barnshafandi, og eignast son. Hann verður þú að gefa mér, þegar hann er sjö ára, og mun eg þá vitja hans.« Kerling lofaði að gera alt, eins og hann vildi, og með það skildu þau. Kerling fór svo heim með silunginn, sauð hann, og át síðan. Henni þótti hann góður, og langaði í beinin og soðið. »Það getur ekki gert neitt til, þó eg smakki á soðinu og bíti í beinin,« hugsaði hún; »þetta hefir náttúrlega verið eintóm sérvizka úr honum Rauðskegg mínum,« og með það át hún hvorttveggja. – Þegar þessu var lokið, lagðist hún upp í rúm og lá þar, þar til karl hennar kom heim. Þegar hann sá hana, varð hann afar-reiður, og segir: Þú ert þá hér enn, ólukku dækjan.« – »Vertu góður við mig, karlinn minn, því að nú finst mér vera skift um hagi mína,« segir hún. »Vertu mér þá velkomin,« segir hann.
Nú líður að þeim tíma, að kerling verður léttari, og fæðir sveinbarn frítt og efnilegt. – Þetta varð til mikillar gleði fyrir karl og kerlingu, og kom þeim nú mjög vel saman, eftir að barnið kom til sögunnar. Það var mjög frábært, og hét Báráður: eftir vilja foreldranna; var hann yndi þeirra og augasteinn. Segir nú ekki af þeim, fyr en drengurinn var nærri því sjö ára. Þá tekur móðir hans ógleði mikla. Þeir feðgar spyrja, hvað valdi hrygð hennar. Hún var lengi treg til að segja, en þó fór svo, að hún sagði þeim frá rauðskeggjaða manninum og kaupum þeirra. Báráður hló að þessu og sagði, að þau mætti verða fegin að losast við sig, því að hann væri þeim að eins til þyngsla. – Karl og kerling eru nú mjög hnuggin og sorgbitin út af því, ef þau þurfi nú að sjá á bak syni sínum, sem þeim þótti svo vænt um. – Nú líður þar til afmælisdagurinn kemur. Þá segir Báráður, – að það sé bezt fyrir þau karl og kerlingu að fara út í skóg í dag, því að þeim þyki líklega ekki svo skemtilegt að sjá, þegar Rauðskeggur fari með sig í burtu; en til þess að þau geti eitthvað gert, sagði hann þeim að fara með rekkjuvoðirnar úr rekkjum sínum og tína úr þeim flær og lýs. Þau kvöddu þá son sinn með miklum harmi, og lögðu af stað með rekkjuvoðirnar. Þegar þau vóru farin, fór Báráður inn, settist á pallinn og var alls ókvíðinn. Að stundu liðinni var drepið á dyr, og gekk Báráður til dyra. Sá hann þá að lágur maður rauðskeggjaður stóð við bæjardyrnar. Hann kastar kveðju á Báráð og segir: »Heill sértu, sonur góður.« – »Svo sértu líka; en eg er ekki þinn sonur, heldur karls og kerlingar,« segir Báráður. – »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át, því að hvorki ætlaðist eg til að yrði í þér aflið né vitið,« segir Rauðskeggur. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir strákur. »Eru karl og kerling heima núna?« spyr Rauðskeggur. »Nei,« svarar Báráður. »Hvar eru þau?« – »Þau eru út í skógi,« segir strákur. »Hvað eru þau þar að gera? – »Þau ætluðu að skilja eftir það, sem þau fyndu, en koma með það, sem þau fyndu ekki,« sagði strákur. »Að koma með það, sem þau finna ekki, en skilja það eftir, sem þau finna, það skil eg ekki, eða hvernig getur þú heimfært mér það, sonur góður?« segir karl. »Ekki er eg þinn son, og ekki segi eg þér neitt um þetta, nema þú lofir mér að vera sjö ár hjá móður minni enn þá,« segir Báráður. »Það má eg ekki,« segir karl. »Jæja þá, þú færð þá ekkert að vita,« segir strákur. Þeir þráttuðu dálítið um þetta, en svo lauk að Rauðskeggur lofaði Báráði að vera sjö ár hjá móður sinni enn þá, ef hann fengi að vita það, sem hann spurði um. »Jæja þá, segir Báráður. »Þau fóru með rekkjuvoðirnar sínar út í skóg, og ætluðu að tína úr þeim flærnar og lýsnar, og eins og þú getur skilið, skilja þau eftir það, sem þau finna, en koma heim með það, sem þau finna ekki í rekkjuvoðunum.« – »Ó, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át: hvorki ætlaðist eg til þess, að í þér yrði aflið né vitið,« segir karl um leið og hann fór.
Um kvöldið koma karl og kerling heim. Urðu þau glaðari en frá megi segja, þegar þau sjá son sinn kyrran heima. Spurðu þau hann, hvort enginn hefði komið. – »Jú,« segir hann. »Hann kom, þessi rauðskeggjaði maður, sem þú sagðir okkur frá; en hann ætlar að lofa mér að vera sjö ár enn þá hjá ykkur.« Þau urðu mjög glöð af þessum tíðindum, og óskuðu, að þau þyrftu aldrei að sjá af honum. – Nú liðu árin, tíðinda lítið, þar til Báráður er langt kominn á fjórtánda árið, þá taka þau karl og kerling ógleði mikla, og kvíða því, ef þau þurfi nú að missa Báráð. Hann hughreysti þau eftir mætti, og sagði, að þau mættu verða því fegin, að hann færi frá þeim, en þau tóku því allfjarri.
Nú kemur afmælisdagurinn, þegar Báráður er fjórtán vetra gamall. Var hann nú talinn afbragð allra annarra ungra manna, bæði að líkamlegu atgervi og vitsmunum. Má því nærri geta, að þau karl og kerling unnu honum hugástum. Segir þá Báráður við foreldra sína, að það sé bezt fyrir þau að fara út í skóg, og vera þar um daginn, því að þeim þyki að líkindum lítil skemtun, þegar Rauðskeggur fari með hann. Ennfremur sagði hann þeim að fara með svínin þeirra með sér. Þau vóru ellefu að tölu, og vóru höfð í stíu undir baðstofupalli. »Ekki þurfið þið samt að hleypa þeim út, því það geri eg sjálfur.« Þegar hann hafði þetta mælt, skundaði hann til stíunnar, og tók öxi mikla í hönd sér. Hjó hann þá eitt svínið sundur í miðju, og batt annan helminginn á bakið á öðru svíni, en hinum helmingnum kastaði hann í stíuna. Síðan héldu karl og kerling af stað með svínin, en Báráður settist í mestu makindum inn á pall. Eigi leið langt áður drepið var á dyr; Báráður gengur út, og sér hann þá hvar Rauðskeggur er kominn, sem hann átti tal við fyrir sjö árum. Hann kastar kveðju á Báráð og segir: »Heill sértu, sonur góður.« — »Það sértu líka, en ekki er eg þinn son, eg er sonur karls og kerlingar.« – »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að í þér yrði aflið eða vitið,« segir Rauðskeggur. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður. »Ósköp ert þú nú orðinn stór, sonur góður,« mælti Rauðskeggur. »Ó, ekki held eg það geti nú heitið,« segir Báráður.
»Eru þau heima, karl og kerling?« spyr Rauðskeggur. »Nei.« – »Hvar eru þau« – »Þau fóru út í skóg í morgun.« – »Hvað starfa þau þar?« – »Þau fóru með hálft ellefta svín þangað, og ætluðu að gæta þeirra.« – »Með hálft ellefta svín,« segir Rauðskeggur; »það er ómögulegt; annaðhvort hafa þau hlotið að vera tíu eða ellefu, eða hvernig getur þú fullvisað mig um það, sonur góður, að það hafi verið hálft ellefta svín, sem þau fóru með?« – »Eg segi þér það ekki, nema þú lofir mér að vera sjö ár enn hjá móður minni,« segir Báráður. »Það má eg alls ekki,« mælti Rauðskeggur, »því að þá verður þú orðinn mitt ofurefli.«
Hvort sem þeir þráttuðu lengur eða skemur um þetta, þá fór svo að lokum, að Rauðskeggur lofaði Báráði að vera sjö ár enn hjá móður sinni, ef hann segði sér hvernig það væri lagað með svínin. Báráður er þá ekki seinn á sér, hleypur inn í svínastíuna, tekur hálfa svínið, fleygir því í Rauðskegg og segir: »Þarna er hálft svín, hinn helminginn batt eg á bak á einu lifandi svíni, svo að þau fóru með hálft ellefta svín út í skóginn.« – »Ó, svei kerlingunni sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að í hér yrði aflið né vitið,« segir Rauðskeggur, og rýkur af stað. »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður, og sat nú inni þar til karl og kerling komu heim. Urðu þau mjög glöð, þegar þau sáu Báráð, og spurðu hvort enginn hefði komið. Hann sagði þeim, sem var, og það með, að Rauðskeggur ætlaði að lofa honum að vera hjá þeim sjö ár enn. Gleði þeirra karls og kerlingar var ósegjanlega mikil yfir þessu óvænta láni.
Skamt frá kotinu var kóngsríki; þangað gekk Báráður oft, því að honum þótti dauflegt heima; bar þar margt fyrir augu hans, sem honum þótti gaman að sjá, en sérstaklega hafði hann gaman af að líta eftir öllu smíði, einkum húsasmíði. Einu sinni fór hann til kóngsins og bað hann að gefa sér spýtur. Kóngur spurði hvað hann ætlaði að gera með þær. Báráður kvaðst ætla að reyna að smíða hús úr þeim. Konungur gaf honum þá eins mikinn við og hann vildi í húsið, og smíðatól. Tekur Báráður þá að flytja viðinn heim að kotinu og byrjar á hússmíðinu. Er hann að þessu smíði í sjö ár. Húsið var fremur óbrotið og lítið, með einum glugga, og lágu stigar tveir upp í hann; annar inni í húsinu, en hinn úti, og náðu þeir saman uppi í glugghúsinu.
Þegar þessi sjö ár eru liðin, og afmælisdagurinn kemur, þegar Báráður er 21 árs, segir hann við karl og kerlingu: »Nú verður sjálfsagt ekkert undanfæri; eg verð að fara með Rauðskegg þegar hann kemur. Eg held að það sé bezt, að þið séuð heima í dag, því að í sjálfu sér gildir það einu, hvort þið sjáið mig fara eða ekki.« Þau kváðust það gera mundu fyrir hans orð, og óskuðu nú af heilum hug að hann þyrfti ekki að fara frá þeim. Þau sitja nú öll inni og bíða átekta. Áður langt er liðið á daginn, er barið, Báráður fer til dyra, og sér að Rauðskeggur er kominn. »Heill sértu, sonur góður,« segir hann. »Það sértu einnig, en eg er ekki þinn son, því að eg er sonur karls og kerlingar,« segir Báráður. »Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át; hvorki ætlaðist eg til að yrði í þér aflið né vitið.« – »Blessuð veri móðir mín fyrir það,« segir Báráður. »Ósköp ertu búinn að smíða þarna fallegt hús, sonur góður,« segir Rauðskeggur. »Og, ekki held eg það geti nú heitið,« segir Báráður; »eg hefi verið að dunda við þetta að gamni mínu.« – »Hvað ætlarðu annars að gera með húsið?« segir Rauðskeggur. »Eg ætla að hafa það til þess að tala við hálfan inni og hálfan úti,« segir Báráður. »Tala við hálfan inni og hálfan úti; hvernig ferðu að því, sonur góður?« – »Það skal eg sýna þér. Gáttu hérna upp stigann,« segir Báráður við Rauðskegg, en hljóp sjálfur inn í húsið og upp stigann, sem inni var, og var fljótari upp en karl. Þegar karl kemur upp í gluggann, beygir hann sig inn í húsið, en þá höggur Báráður með öxi um þvert bakið, svo að sundur tók manninn í miðju, en sinn veg féll hvor hlutinn. »Svona er nú farið að tala við hálfan inni og hálfan úti,« segir Báráður.
Eftir það fór hann inn og sagði karli og kerlingu hvernig komið var, og bað þau að hjálpa sér að brenna karlinn. Þau urðu glöð við þetta, og þökkuðu Báráði mjög vel fyrir verkið. Var síðan gert bál mikið og Rauðskeggur á það lagður, og brendur upp til kaldra kola. Síðan fréttist þetta um kóngsríkið og kom, til eyrna konungi. Honum þótti þetta svo snjalt af strák, að hann býður honum heim til sín, og lætur kenna honum alt það, sem þá þótti fróðleikur í. Gekk það alt vel. Féll kóngi mjög vel við Báráð, og svo fór, að hann gaf honum dóttur sína. Báráður tók svo við ríkisstjórn eftir tengdaföður sinn og ríkti vel og lengi. Þau kóngshjónin unnust hugástum, áttu börn og buru, og svo kann eg ekki þessa sögu lengri.
(Sunnlenzk sögn. Handrit Jónasar Jónassonar.)
Einu sinni var kóngur og drotning í ríki sínu; þau áttu sér einn son barna; sá hét Þorsteinn. Einhverju sinni tók drotning sótt og andaðist, og sá konungur mjög eftir henni. Sat hann þó að völdum eftir það um nokkurn tíma, en gætti ekki svo vel landa sinna sem áður; þótti ráðgjöfum konungs þetta hið mesta mein og komu því í tal við kóng, hvort hann vildi ekki að þeir færi að reyna að útvega honum aðra drotningu, því það væri ófært að landið væri svona í reiðileysi. Hann hélt það. Svo bjuggu ráðgjafarnir sig af stað, og sigldu á haf út; lengi, lengi sigldu þeir, og komu loksins að strönd, sem þeir þektu ekkert. Þar gengu þeir á land. Þegar þeir vóru komnir á land, heyrðu þeir fagran hörpuslátt og gengu á hljóðið. Sáu þeir þá fjórar konur, sem sátu þar í rjóðri einu; var ein þeirra roskin, en hinar ungar. Allar litust þeim konurnar mannvænlegar. Þeir heilsuðu þeim og spurðu, hvernig á veru þeirra þar stæði; konan aldraða varð fyrir svörum og sagði: »Eg er ekkja eftir kónginn í landinu því arna. Þegar hann var dauður ætlaði ráðgjafinn hans endilega að reka mig til að eiga sig og verða svo konungur. Eg vildi það ómögulega því að eg átti ríkið, og svo tók hann mig þá og dætur mínar og lét flytja mig hér út á skóg. Svona stendur á því, að við erum hérna.« Þeir litu þá hver upp á annan, og sýndist, að hér mundi vera ráðsvon fyrir konung sinn og hófu bónorð við drotningu. Drotning sagði það væri nú ekki að eyða orðum að því við sig; en það væri heldur, ef það væri reynt við einhverja af dætrum sínum. Þeim leizt einna bezt á þá yngstu, og spurðu hana að heiti. Hún kvaðst heita Helga. Þeir spurðu hana, hvort hún vildi fara með þeim, og talaðist svo til með þeim, að hún færi. Helga vék sér þá ögn frá með þeim mæðgum og talaði eitthvað við þær; svo fór hún með þeim og gekk þeim vel heim. Tók kóngur við þeim með mestu gleði, og innan skamms var drukkið brúðkaup þeirra Helgu og kóngs; en þess óskaði Helga sér, að enginn maður skyldi koma inn til sín fyrstu þrjár næturnar eftir að þau giftust. Um kvöldið bað hún að bera á borð mat handa fimm mönnum í svefnhúsi sínu, og bað svo að læsa því vandlega, og sjá um að enginn gerði sér ónæði. Var svo gert. Nú er að segja frá Þorsteini konungssyni. Hann var svo mikið ærslaskrípi, að hann hló að öllu, og var hann því kallaður Þorsteinn glott. Hann komst á snoðir um þetta, sem drotning lagði fyrir, og hugsaði sér þegar að komast fyrir, hvernig á þessu stæði, hvað sem það kostaði. Hann laumaðist inn í svefnherbergi drotningar, og faldi sig þar, þangað til hún var komin inn, og var búin að læsa að sér. Kom hann þá fram og rak upp skellihlátur og sagðist nú ætla að vera hérna hjá henni í nótt. Það bað drotning hann ekki gera; »getur það orðið okkar beggja bani, eða verra,« sagði drotning. »Á það verður nú að hætta,« sagði Þorsteinn, »en héðan skal eg ekki fara, hvað sem kostar.« Og hvað sem drotning bað hann, lét hann ekki undan að heldur, og varð svo að vera, sem hann vildi. Lét hún hann þá fara inn undir rúmið, og bað hann nú að passa sig að hlæja ekki, þó eitthvað komi fyrir. Hann lofar því. Að litlum tíma liðnum heyrist undirgangur mikill, og spretta upp fjalir úr gólfinu; kemur þar upp skessa ein ófrýnileg, og segir: »Heil og sæl, systir!« Helga tók kveðju hennar. »Það er maður hér hjá þér,« sagði skessan. »Skiftu þér ekki af því,« svaraði Helga; »farðu þarna í matinn og éttu hann og farðu síðan í burt.« Skessan fór að borðinu og reif í sig alt sem á því var, og fór síðan. Þorsteinn kvaldist af hlátri undir rúminu, en hló þó ekki upp úr. Kvöldið eftir bað drotning að bera inn til sín mat handa tíu mönnum, og gæta þess vandlega, að enginn kæmist inn til sín. En hvað vandlega sem að því var gætt, komst Þorsteinn þó inn, og tjáði svo sem ekki fyrir drotningu að ætla sér að koma honum burtu. Lét hún hann nú fara niður undir höfðalagið sitt, og vera þar þversum, og lagði ríkt á við hann að hlæja nú ekki; hann lofaði góðu um það. Skömmu síðar heyrist undirgangur mikill, og hrikti og brakaði í öllu rúminu. Kom þá upp úr gólfinu skessa ein, miklu tröllslegri en hin fyrri. »Heil og sæl systir,« sagði hún. Helga tók kveðju hennar. »Það er maður hér hjá þér,« sagði skessan. »Skiftu þér ekki af því,« svaraði Helga, en farðu þarna í matinn og éttu í þig, og hafðu þig svo á burt.« Skessan fór að rífa í sig og gerði það svo áfergjulega, að Þorsteinn ætlaði að hlæja upp úr; tísti einu sinni í honum, en þá tróð hann upp í sig rekkvoðarhorninu, svo að það varð ekki meira; en skessan át svo græðgislega, að hún varð ekki vör við hann; síðan fór hún burt, þegar hún var búin. »Nú lá nærri, að þú kæmir okkur báðum í ólukku,« sagði drotning, þegar skessan var farin, »og væri okkur báðum betra, að þú hefðir ekki hingað komið.« Þorsteinn hló að því og fór. Næsta kvöld bauð drotning að bera mat inn til sín handa fimtán mönnum, og gæta nú vandlega dyranna, að enginn kæmizt inn. Samt komst Þorsteinn inn, enn sem fyrri, og leyndist þar, þangað til drotning var farin að hátta. Þá kom hann enn fram, og varð þá drotning húðvond við hann, og bað hann bæði með illu og góðu að fara aftur. Þorsteinn hló að því, og fór hvergi. Drotning reif þá upp úr rúminu, og setti hann neðst, og síðan þrjár sængur ofan á hann, og bað hann nú að hlæja ekki, því að undir því væri komin velferð þeirra beggja. Þorsteinn lofar því, og svo legst drotning ofan á hann í rúminu. Litlu síðar fór að heyrast hark mikið og undirgangur; rúmið skalf alt og nötraði, og brast og brakaði í hverju tré, svo Þorsteinn vissi varla, hvort hann ætti heldur að gera hlæja eða hræðast. Loksins kom upp úr gólfinu tröllskessa ein ferleg og drundi í henni. »Heil og sæl, dóttir.« Helga tók kveðju hennar. »Það er maður hér hjá þér,« sagði skessan og þefaði í allar áttir. »Skiftu þér ekkert af því,« svaraði Helga, »en farðu þarna í matinn og éttu í þig og hafðu þig svo á burt«. Skessan fór að borðinu, og fór svo áfergjulega að rífa í sig, að hún gerði bæði að ropa og reka við, og láta öllum illum látum, þangað til Þorsteinn rak upp skellihlátur. Kerlingu varð hverft við, og snerist síðan að þeim og sagði: »Svona vildirðu ljúga að mér, dóttir mín, þvert ofan í það, sem við höfum talað um. Skaltu nú héðan af verða hin grimmasta úlftík, og leggjast út á vegu og gatnamót, og drepa menn og fénað, þangað til menn kóngsins þíns geta unnið þig með mannsöfnuði, og skaltu þá verða brend á báli, án þess að þér geti neinn bjargað. En á þig, Þorsteinn, legg eg það, að þú skalt verða að fara til trölla þeirra, er geyma lausnargull. Gull þetta geyma fimtán þussar í helli einum, og ekki nærðu því, nema þú gangir af þeim öllum dauðum. Ef þú nær gullinu, og getur komið því undir tungurætur tíkarinnar, munu álögurnar hverfa, en ef þér tekst það ekki, skaltu brendur á sama báli og hún.« – »Mikið er talað,« sagði Þorsteinn og hló, »en þá legg eg á þig, að á sömu stundu og eg kem lausnargullinu undir tungurætur tíkarinnar, skaltu springa í sundur og falla dauð niður.« Við þetta fór skessan í jörð niður með miklum dunum og dynkjum.
Þegar kerling var farin, talar Helga til Þorsteins og segir: »Illa er nú komið, Þorsteinn, en nú dugar ekki að sakast um orðinn hlut. Verðum við nú að gera bæði hvað við getum; hér eru gullhringar tveir, er eg vil gefa þér, og gullbelti, og skaltu fara með gripi þessa af stað og leita tröllanna.« – »Veiztu nokkuð hvar þeirra er að leita?, sagði Þorsteinn. »Nei,« svaraði drotning, »en til þess verður samt að hætta. Skaltu ganga héðan þangað til þú að kveldi hins fyrsta dags hittir kletta mikla; þar er hellir einn, og býr þar tröllskessa, sem mun liðsinna þér, ef þér liggur á, en lengra get eg ekki vísað þér.« Fór nú Þorsteinn frá drotningu, og var nú allur hlátur úr huga.
Daginn eftir var drotningin horfin og vissi enginn, nema Þorsteinn, hvað af henni var orðið; þótti öllum það hið mesta mein og kóngi þó verst, því að öllum féll vel við drotningu. Næstu daga fréttist inn í kóngsríkið, að tík ein væri lögst á vegu, og væri grimm mjög, dræpi hún bæði menn og fénað, og gerði margt ilt af sér. Þetta þóttu hin verstu tíðindi, enda skildi enginn neitt í því. Þorsteinn sá nú að ekki var lengur til setunnar boðið, og lagði af stað gangandi, og vissi enginn af ferð hans. Gekk hann þann dag allan til kvölds; kom hann þá að hömrum nokkrum, fann hellinn og hitti skessuna; bað hann hana næturgistingar, og sagði henni af ferðum sínum, og bað hana leiðbeiningar. Kerling sagði honum velkomna næturgisting, og var hann þar um nóttina við bezta beina. Um morguninn kom kerling til hans og sagði: »Ekki get eg nú gert þér þann greiða sem eg vildi, en eg ætla að vísa þér til hennar systur minnar; er hér hnoða, sem mun vísa þér leið til hennar og svo alla leið, hvað sem þú skipar því að velta.« Þorsteinn þakkaði kerlingu vel hjálpina. Fór hann nú að klæða sig, og þegar hann girti að sér kufl sinn, lét hann annan gullhringinn detta. »Hvað datt?« sagði kerling. »Hafi það verið nokkuð, hefir það verið það, sem þitt er,« svaraði Þorsteinn. Kerling tók þá upp hringinn og varð heldur léttbrýn við, og sagði: Ef þú þarft liðs með, þá skaltu nefna mig.« Þorsteinn kvaddi nú kerlinguna, og hélt áfram; rann hnoðað á undan honum til kvölds. Nam það þar staðar, og hitti Þorsteinn þar aðra kerlinguna, og er ekki að orðlengja bað, að það fór alveg eins og hjá hinni kerlingunni. Hún vísaði honum til systur sinnar; hann gaf henni hinn gullhringinn á sama hátt, og hún gaf honum sverð, sem hvergi nam í höggi staðar, og engi galdur gat staðið á móti. Hélt hann enn áfram eftir liðbeiningu hnoðans og fann svo þriðju kerlinguna. Hún sagði honum hvar þussarnir byggi, og sagði honum, að hann yrði að drepa þá alla, annars næði hann ekki gullinu. Gaf hún honum þá húfu, sem var svo notagóð, að hann sást ekki, ef hann hafði hana á höfðinu. Fór hann þá að klæða sig og lét beltið detta til jarðar. »Hvað datt?« spurði kerling. »Hafi það verið nokkuð, hefir það verið það sem þitt er.« Varð þá kerling heldur hýrleit, og sagði: »Ef þú þarft liðs við, skaltu nefna mig.« Síðan kvaddi Þorsteinn kerlingu með mestu vináttu og hélt áfram eftir hnoðanu, og alt að dyrunum á afarmiklum helli. Hann gekk inn í hellinn, og sá þar fimtán flet afarstór, en engan mann. Settist hann þar niður, og beið átekta. Að stundu liðinni heyrði hann hark mikið og undirgang, og ruddust þá inn allir þussarnir, og vóru ekki frýnilegir. Ekki sáu þeir Þorstein. Fóru þeir nú að búa sig til að borða, og hjó þá Þorsteinn einn þeirra banahögg; varð þeim þá mjög hverft, og fóru að fálma og leita innan um hellinn að þessum banamanni, en sáu hann hvergi; gat Þorsteinn þá drepið fimm þussa, en þá sló einn þeirra af honum húfuna, er hann var að þreifa fyrir sér, og sáu þeir hann þá allir. Sá þá Þorsteinn ekki annað vænna en að nefna kerlingarnar; komu þær þegar á bak þussunum, og drápu þau þá þegar alla. Síðan könnuðu þau hellinn, og fundu loksins gullið í stærsta fletinu. Þakkaði nú Þorsteinn kerlingunum liðveizluna, og hélt heimleiðis. Þegar hann kom heim var búið að vinna tíkina með miklum mannsöfnuði, og var búið að kveikja bál mikið til að brenna hana á. Hann bað um að mega sjá tíkina áður en hún væri brend; og sóttu hana þá fjórir menn, og drógu hana að eldinum, og réðu varla við hana. Þorsteinn tók við henni, og gat loksins komið gullinu undir tungurætur henni, og beit hún hann og reif á meðan. Brá þá skjótt við, og lá drotning þar í ómegni, en engi tík, en nokkuð frá heyrðist niðri í jörðinni brestur einn og vein mikið. Drotning raknaði skjótt við. Var nú eldurinn slöktur og Þorsteinn fór heim með drotningu og þóttist kóngur hafa heimt bæði úr helju. Sögðu þau það sem þeim sýndist frá álögunum. Var drotning síðan lengi þar í landi og var vel látin af öllum, og bar aldrei neitt á neinum tröllskap hjá henni, og kunnum vér svo ekki þessa sögu lengri.
(Handrit Ara Jóhannessonar, skólapilts frá Ytra-Lóni. Fleiri Handrit eru til af sögunni, en þetta er bezt; eitt er eftir Gísla Konráðsson, sett í fornaldarsögustíl og konunganöfnum aukið inn í.)
Einusinni var kóngur og drotning; þau réðu fyrir ríki, og áttu einn son, er Sigurður hét. Ekki var Sigurður konungsson nein hetja eða íþróttamaður, eins og títt var um kóngasonu á þeim tíma, og kjarklítill var hann. Einhverju sinni lagðist drotning veik af banvænum sjúkdómi. Þegar henni elnaði sóttin, lét hún kalla á Sigurð son sinn, og mælti við hann: »Eg býzt við að þetta verði seinasti fundur okkar, son minn, og hryggir það mig, að þú ert eigi nógu fullkominn að ganga út í lífið, og hefir heldur ekki fullkominn leiðtoga, þar sem faðir þinn er, en þó gleður það mig jafnframt, að eg á einn dýrgrip, sem eg vil gefa þér.« Sigurður spurði hvað það væri. Drotning mælti: »Þegar eg er önduð, skaltu ganga út í fjós; þar er rautt naut, og er ólíkt öðrum fyrir stærðar sakir. Þetta naut vil eg gefa þér, og mun þetta verða upphaf gæfu þinnar.« Síðan dó drotning og harmaði hana allur landslýður, en konungur þó mest, og lagðist hann í sæng af harmi og sinti engri ríkisstjórn. – Ráðgjafar hans komu hver um annan þveran og reyndu að telja um fyrir honum á allar lundir, en alt varð árangurslaust. Loks buðu þeir honum að leita honum kvonfangs, en hann kvað enga konu jafnast við drotningu þá, er hann hafði mist. – Samt varð það úr, að þeir lögðu af stað á fríðu skipi og fóru víða um lönd, en hvergi var þá mey að finna, er þeim þótti við konungs hæfi. Loks lentu þeir í hafvillur og komu að eyðiey einni. Þeir gengu upp á eyna. Heyrðu þeir þá fagran hljóðfæraslátt, og gengu, unz þeir fundu mey eina, svo afbragðs fríða og væna, að þeir þóttust aldrei slíkt séð hafa. Þessa mey færðu þeir konungi og varð hann þegar svo ástfanginn, að hann neytti hvorki svefns né matar, fyr en hún var orðin drotning hans. – Nú leið nokkur tími, þar til drotning legst veik, og virtist öllum hún að fram komin. Konungur bar sig mjög illa, og spyr drotningu, hvort það sé enginn hlutur í ríki sínu, er henni geti batnað af. »Jú,« stundi drotning upp; »eg hefi heyrt að Sigurður son þinn ætti naut, rautt að lit; ef eg fengi að eta úr því hjartað, þá mundi mér batna.« Konungur rauk óðara til sonar síns, og sagði honum, að það ætti að drepa rauða nautið hans á morgun. Sigurður fór að gráta, er hann heyrði þetta, skundar út í fjós, þekkir nautið sitt og segir: »Það á að drepa þig á morgun, boli minn.« – »Já, já,« segir boli. Sigurður rak upp stór augu, er hann heyrði tudda mæla, en nautið heldur áfram: »eða hvort eru þetta ráð stjúpu þinnar?« Sigurður segir alt af létta. »Eigi skaltu óttast þetta,« segir boli, »skalt þú vakna snemma á morgun, taka vopn og nokkurt nesti, fara út á skóg og bíða mín þar til hádegis; ef eg verð þá ekki kominn, verð eg dauður.« Sigurður lofar þessu, og gerði það líka. Næsta morgun komu hirðmenn út í fjós, leiddu bola út á völl og fjötruðu hann þar niður með afarsterkum járnfestum. Tuddi var mjög þægur og lét sér þetta vel líka. – En er drotning heyrði að alt væri tilbúið, bað hún um að láta bera sig út; kvaðst hún hafa gaman af að horfa á dráp bola. Það var gert og var mannhringur um hann. En er nautið leit drotningu, stóð það upp og hristi af sér hlekkina eins og kveik, stökk síðan að mannhringnum og yfir hann, og að drotningu og rak hana í gegn, varð hún þá að trölli í dauðateygjunum. Nautið stökk í sömu svipan út á skóg. Varð þar fagnaðarfundur, er það fann Sigurð, og spurði hann hvað gerzt hefði, en boli sagði sem var. – Síðan segir boli: »Farðu á bak mér, Sigurður,« og gerði Sigurður það. Heldur nú boli áfram þann dag. En er halla tók degi, segir boli: »Veiztu hvar við komum í kvöld?« – »Nei,« segir Sigurður. »Við komum að stórri eirhöll,« segir boli, »með eirgarði í kringum og eru þar í garðinum hin fegurstu blóm. Þar er búið rúm og matur á borðum, óskablað með einni ósk á borði, og brynja hangir uppí loftinu, og hefir hver ferfalt afl, sem er í henni. Þú skalt fara þangað heim í kvöld, hagnýta þér matinn og rúmið, taka blaðið og brynjuna, en snerta ekki á neinu utan húss.« – Sigurður gerir þetta, er þeir koma að höllinni, en boli lagðist hjá garðshliðinu. Um morguninn, er Sigurður gekk út, þótti honum blómin í garðinum svo falleg, að hann gat ekki stilt sig um að taka eitt. Þá heyrðist brak og brestir, og upp kom þussi einn úr jörðunni og ræðst á móti Rauðabola. Var þeirra atgangur langur og harður, en svo lauk að boli drap hann. Boli ávítti Sigurð fyrir óhlýðnina, og kvað það ef til vill myndi koma þeim á kaldan klaka einhverntíma. Annan dag komu þeir að silfurhöll, og var þar einnig óskablað og sex manna brynja; hundur var einnig í höllinni, sem boli bað Sigurð umfram alt að taka, annars fór alt á sömu leið. Þriðja daginn komu þeir að gullhöll, er var miklu stærri en hinar. Rauðiboli legst hjá gullgarðinum og áminnir nú Sigurð um að snerta ekki á blómum í garðinum er litu út eins og úr gulli væri. Sigurður gekk í höllina, svaf þar af um nóttina. En um morguninn tekur hann með sér óskablað, tólfmannatreyju og tík, er var í höllinni, eftir tilvísun Rauðabola. En er hann gekk út úr höllinni, gat hann ómögulega stilt sig um að taka á einu blómi. Þá heyrðist voðalegt brak og hræðilegir brestir, og upp kom úr jörðinni þríhöfðaður þussi og ræðst á móti Rauðabola. Var þeirra atgangur á hann veg, að Sigurði sýndist boli fara stórum halloka, en þegar minst varði rak boli horn sitt gegnum hann. Síðan segir boli: »Illa gerðir þú að óhlýðnast mér, og mundu nú eftir því að vera ekki óhlýðinn aftur. En er þeir höfðu haldið áfram um stund, spyr boli: »Veiztu hvar við erum nú?« – »Nei,« segir Sigurður. »Nú, erum við nálægt konungsríki einu, og þarf eg að segja hér sögu, til þess þú vitir, hvað við eigum að gera. Fyrir þessu ríki ræður konungur nokkur; er hann ekkjumaður og á þrjár dætur. Ráðgjafa hefir hann, sem Rauður heitir, og er hann bæði mannleysa og illmenni. Fyrir nokkru var kóngur í siglingum, en lenti í pokum og hafvillum, og var orðinn úrkula vonar um að komast heim. Eitt sinn kemur kolsvartur haus upp úr sjónum og kallar til kóngs: »Á eg að vísa þér heim?« Kóngur játar því. »Viltu þá gefa mér það sem fyrst fagnar þér, er þú stígur á land?« Kóngur játar því einnig, skjálfandi af hræðslu. Fleira töluðust þeir við þessu viðvíkjandi, og lofaði konungur öllu, svo var hann hræddur við haus hann hinn ljóta, og svo hafvillurnar. – Þá birti þokuna og konungur komst heim, en þegar hann sté á land, komu dæturnar þrjár hlaupandi móti honum.« Sigurður hlustaði með athygli á þessa sögu, en boli hélt áfram: »Nú á elzta dóttirin að deyja í dag; á að koma risi neðan úr undirheimum og taka hana, og á nú Rauður að vinna risann, en er ekki fær um það. Nú átt þú, Sigurður, að frelsa stúlkuna.« Sigurður heldur að sig skorti áræði og krafta, en Rauði boli lét hann drekka blóð úr sér og fara í fjögra manna brynjuna og taka sverð sitt. En er Sigurður hljóp á stað kallaði boli: »Mundu það að nefna ekki nafn mitt, hvað sem á liggur.« Sigurður gengur nú ofan að sjó og sér stúlku sitja á steini í flæðarmálinu og mann hjá, er var að reyna að hugga hana, og var það Rauður. En er hann sá Sigurð, hljóp hann upp í tré og faldi sig. Sigurður gekk að stúlkunni og reynir að hugga hana; honum tekst það, og gefur hún honum gullhring, sem hann festi á hjálm sinn. Eftir litla stund kemur ógurlegur jötunn upp úr sjónum og ætlar að grípa stúlkuna. Sigurður ræðst á móti honum og var þeirra atgangur langur og harður, áður Sigurður drap hann. Síðan fór Sigurður aftur til Rauðabola. Þá kom Rauður ofan úr eikinni og var búinn að særa sig einlægum smásárum með sverði sínu, skreiddist til stúlkunnar og sagðist skyldi kvelja hana og pína, ef hún særi sér ekki eið þann, að hún skyldi segja að hann hefði frelsað hana. Hún þorði ekki annað en gera það. Annan dag fór á sömu leið; þá kom önnur dóttirin og þá vann Sigurður á miklu stærri risa og var þá í sexmannabrynjunni. Þriðja daginn átti Rauður að frelsa þá yngstu, eins og hinar, og eignast hana svo fyrir tilvikið. Þennan morgun sagði boli við Sigurð: Nú skalt þú vera í tólfmanna brynjunni og mun ekki af veita, því þessi risi er torveldastur viðureignar. En mundu nú eftir að nefna mig ekki á nafn. Þegar Sigurður kemur ofan að sjónum, sér hann stúlkuna sitja á steininum og var Rauður að hugga hana, en stökk upp í tréð, þegar Sigurður kom. Hann gengur þá að henni og huggar hana, er hún grét; hún gaf honum einnig hring og hann mintist við hana. Eftir litla stund kom jötunn upp úr djúpinu, og skalf jörð og haf við. Sigurður réðst þá móti honum, og fann þegar, að hann hafði ekki hálft afl við hann. Þeir börðust afar lengi og var Sigurður orðinn ákaflega móður og kallar upp: »Ó, það vildi eg hann Rauðiboli væri kominn!« Þá brá risinn við, þreif stúlkuna og sökk með hana í sjóinn; en Rauðiboli kom hlaupandi. Þegar hann var kominn, segir hann: »Illa gerðir þú, Sigurður, að nefna nafn mitt, en fyrst þú gazt ekki drepið hann áðan, er hann ódræpur, nema með fjöreggi, en nú verðum við að sækja stúlkuna ofan í undirheima.« Því næst sezt Sigurður á bak tudda, tekur upp óskablaðið eitt, og óskar að þeir væru komnir ofaní undirheima; þeir svífa þá gegnum sjóinn, eins og reyk, og koma á slétta og fagra völlu, og tekur þá boli á rás; þeir fóru fram hjá tveimur kofum, og sagði boli að þetta væri bústaðir risanna, sem hann hafði drepið. Nú stanzar boli, og segir Sigurði að fara af baki og halda fyrir eyrun. Öskrar boli þrisvar sinnum svo hátt, að undir tók í öllum undirheimum. Nú sér Sigurður annað naut koma, afarstórt, og ræðst það á móti Rauðabola. Sigurður bregður sverði og hjó á huppinn á aðkomubola, þá datt hann dauður niður, en lifandi fugl flaug út. Þá segir Rauðiboli: »Nú verðurðu að taka annað óskablaðið og óska, að fuglinn væri í hendi þér.« Sigurður gerir það; drap hann og krufði og fann egg innan í honum. Nú halda þeir áfram um hríð, þangað til þeir koma að afarstórum kofa. Þá segir Rauðiboli við Sigurð: »Horfðu nú inn um dyrnar, og sjáðu hvað títt er, en láttu ekki risann verða varan við; reyndu svo að sæta lagi og kasta egginu milli augna honum.« Sigurður gerir þetta, og sér þá að risinn situr undir stúlkunni og er að reyna að hugga hana, því hún grét mjög. Sigurður kastar nú fjöregginu og sprakk það milli augna honum, og féll þá risinn dauður niður. Stúlkan rak upp hátt hljóð, en Sigurður hefir engin orð, nema tekur hana og ber hana út, setur hana á bak Rauðabola og sezt svo sjálfur fyrir aftan. Rauðiboli tók nú á rás, unz hann var kominn þangað, er þeir höfðu staðnæmzt á niðurleiðinni. Sigurður tekur nú óskablaðið þriðja, og óskar að þeir væru komnir upp í mannheima. Þeir svífa því næst gegnum sjóinn, eins og reyk, og staðnæmast hjá steininum, og setur Sigurður kóngsdótturina á steininn, og svo gengu þeir Rauðiboli í burtu. En Rauður hafði beðið allan tímann upp í eikinni og var nú búinn að skera svo í sig og særa sig svo, að hann gat varla gengið. Samt skreiddist hann að stúlkunni og sagðist skyldi pína hana og kvelja öllum hugsanlegum kvölum, ef hún segði nokkrum manni annað, en að hann hefði frelsað hana. Hún var lengi treg, en þorði þó að lokum ekki annað. Nú ganga þau heim, og segir Rauður langa frægðarsögu af sér, að hann hefði drepið risann, og sýnir sárin til sannindamerkis, eins og hann var vanur. Vildi hann giftast sem fyrst. Kóngsdóttir grét mjög, er hún vissi það, og þótti mönnum það undarlegt. – Einn dag kemur maður og biður konung veturvistar. Konungur veitir það. En er systurnar sáu hann, hnykti þeim mjög við, því þar var Sigurður kominn, eftir tilvísun Rauðabola. Hafði Sigurður hann með sér, og einnig hundinn og tíkina, og hirti þau í húsi nokkru skamt frá. – Nú vildi Rauður alls ekki draga brúðkaupið lengur, enda sagði nú faðir hennar að nú væri ekkert undanfæri, »eða það væri undarlegt að hún skyldi ekki vilja eiga þann, er hefði frelsað hana. Var nú stofnað til brúðkaups. Ekki skifti Sigurður sér af því. En er brúðkaupið stendur sem hæst, stendur Sigurður upp í öllum herklæðum og segir: »Hvort viltu hlusta á mál mitt, konungur?« Konungur segir að hann vill víst. »Það er í rauninni eg, sem á að eiga kóngsdóttur, því eg frelsaði þær allar systur, en Rauður er svikari og dauðaverður. Nú varð dauðaþögn í höllinni. Þá stóð upp Rauður og spurði, hvort ekki ætti að taka fól þetta og drepa. Þá tekur Sigurður ofan hjálminn, sýnir hringana og spyr konung og dætur hans, hvort þau kenni þetta. Konungur verður fár við, og spyr systurnar, hverju þetta sæti. Þá stóð yngsta kóngsdóttirin upp, gekk að kakalofni einum, sem var þar í höllinni og sagði: »Eg segi þér það, kakalofn, að þessi maður einn hefir hjálpað okkur systrunum úr höndum risanna, en Rauður hefir ekki þar við hendi snert.« Var þá farið að spyrja þær úr spjörunum, og sögðu þær upp alla sögu, og svo það, að Rauður hefði neytt þær til að þegja með hótunum. Þá urðu skjót umskifti, Rauður var drepinn, Sigurður varð brúðgumi, og brúðurin varð hin glaðasta. En að loknu brúðkaupi, og brúðhjónin ætluðu að fara að hátta, heyrði Sigurður eins og óm af öskri í fjarlægð. Þá stekkur hann burtu og til Rauðabola. Þá segir boli: »Illa gerðir þú; nú hefir þú ekki komið til mín í tvo daga, og átti eg þó varla skilið að þú gleymdir mér. Nú verðurðu að lofa mér og hinum tveimur skjólstæðingum þínum að sofa inni hjá ykkur í nótt, því eg veit hvernig komið er.« Þetta varð, alt sem boli bað. En um nóttina vöknuðu brúðhjónin við eitthvert þrusk. Þau fóru þá á fætur og sáu þá á gólfinu tvo sveina og eina meyju í öngviti, en dýrahamirnir þrír lágu á gólfinu. Sigurður lét þau öll þrjú upp í rúm sitt og stökti vatni framan í þau og röknuðu þau þá við úr öngvitinu. Þá tók stærri sveinninn til orða: »Eg þakka þér, Sigurður, fyrir frelsi mitt og systkina minna úr álögum þessum, sem stjúpa þín, er eg drap, hafði lagt á okkur. Risarnir allir, sem við drápum, vóru bræður hennar. – Varð nú hinn mesti fögnuður um alt ríkið, er menn fréttu alt þetta. Síðan féll alt í ljúfa röð. Þetta vóru börn konungs nokkurs, og giftust konungssynirnir seinna tveim eldri dætrum konungsins. En þar eð hann var ekkjumaður, eins og áður er á minst, giftist hann systur þeirra bræðra. Síðan tók Sigurður við hálfu ríki tengdaföður síns, og öllu eftir hans dag, en bræðurnir unnu aftur sitt ríki.
Svo kann eg ekki þessa sögu lengri.
(Sögn frú Þórunnar Stefánsdóttur. Hdr. Jónasar Jónassonar.)
Einu sinni var karl og kerling í koti; var það stutt frá kóngsríki einu. Kerling var vön að taka vefnað af drotningu, færði henni svo voðirnar og tók á móti ágjöfinni. Einn dag lögðu þau af stað bæði, karl og kerling, með stóra voð til drotningar. Skamt fyrir utan kóngsríkið var áarspræna, og þegar þau komu að ánni, var komið glaðatunglsljós. Kerling sá þá skuggann sinn hinumegin árinnar, og hélt þar væri drotning, og fór að þerra vaðmálsstrangann til hennar yfir ána og sagði: »Hérna er voðin yðar, heillin góð.« En drotning var ekki fljót til svars. Karlinn sá að þetta var ekki annað en skugginn kerlingarinnar, varð reiður og hratt kerlingunni í ána, og hélt svo heim aftur. Lét kerlingin þar líf sitt. Þau karl og kerling áttu eina kú í eigu sinni. Karlinn tekur kúna, mýlir hana, og röltir af stað með hana heim í kóngsríki. Á leiðinni kom karl á kletta nokkra, batt beljuna við fót sér, og lagðist niður til að hvíla sig. Síðan fór hann að tala við sjálfan sig og sagði: »Nú fer eg heim í kóngsríki, og gef kónginum kúna; þykir honum svo vænt um það, að hann gerir mig að fjósamanni hjá sér. Þá berst það til konungs, að eg sé svo vel í fjósinu, og þar sé alt svo þrifalegt, að kóngurinn heldur að eg geti verið í garðinum. Þegar eg er búinn að vera æði tíma í garðinum, kemur kóngsdóttirin út í heygarð, og sér hún þá, að þar er alt vel um gengið. Fer hún þá til föður síns og segir honum, að það sé svo prýðilega umgengið í garðinum, að hún haldi, að eg geti orðið lægsti ráðgjafi. Svona smáhækka eg í tigninni, þangað til eg er orðinn æðsti ráðgjafi hjá kónginum. Svo býður kóngurinn mér dóttur sína, og svo á eg hana, svo á eg einn son með kóngsdótturinni, og svo verð eg kóngur. Og svo þegar við, drotningin mín og eg, erum að ganga úti í garðinum, þá ber eg barnið á handleggnum; þá munu þjónar mínir kalla til mín og segja: »Barnið er að bía yður út, herra;« en þá segi eg: »O, sussu, það er ekki neitt –« og þá dustaði karlinn með hendinni af erminni á skinnstaknum, svo skrjáfaði í; fældist þá kýrin, og hraut fram af klettunum, og dró karlinn með sér; létu bæði þar líf sitt. Var svo lokið konungdómi karls, og sögunni.
Aðaldalur 25, 36, 44, 50, 67, 119, 138.
Aðalgeir Sigurðsson, Máná 214.
Akureyri 17-19, 31, 60, 61, 62-4, 71, 85, 98, 149, 253.
Akurhús 54.
Álftafjörður 59.
Álftaver 160, 209, 212.
Ámárdalur 155.
Ameríka 43, 68, 144.
Anna förukona 295, 303.
Anna, kona 157.
Anna Bjarnadóttir 29.
Anna Sigurðardóttir 89.
Andrés á Arnarvatni 189.
Andrés á Knútsstöðum 138.
Andrés í Máskoti 24-6.
Andrés Helgason 223.
Arabær 48.
Árgerði, bær 182.
Ari Gissurarson 112.
Ari Jónsson, Þverá 44, 78-9.
Árnahvammur, örnefni 120.
Arnarstaðir 83.
Arnarvatn, bær 27, 139.
Arnarvatn, stöðuvatn 102.
Arnarfell 281.
Árnessýsla 280.
Arnfríður Benjamínsdóttir 66-7.
Árni sjómaður 20.
Árni í Hólkoti 37.
Árni í Hólsgerði 168-9.
Árni Björnsson, prestur 67.
Árni Gíslason, Skörðum 118-20.
Árni Gíslason, sýslumaður 58.
Árni Jónsson, prestur 274.
Árni Kristjánsson 84.
Árni Stefánsson, Litladal 135.
Ás á Hólsfjöllum 90, 175.
Ás í Kelduhverfi 42.
Ás í Vatnsdal 124.
Ásar, sveit 111.
Ásdís í Þúfu 93-4.
Ásgeir Einarsson, alþingism. 96.
Ásgrímur Jónsson 110.
Áshildarholt, bær 183.
Ástagl, örnefni 127.
Ástríður biskupsdóttir 294, 303.
Auðnir, bær 171.
Austurdalur í Skagafirði 257, 260.
Austurfljót 103.
Axarfjörður 39, 89.
Bakka-Brunka, hross 224-6.
Bakkadraugur 162, 164.
Bakkahöfði, örnefni 145.
Bakkar 162.
Bakkasel, bær 149.
Bakka-Veturliði, skip 226.
Bakki á Bökkum 162, 164-5.
Bakki í Skagafirði 58.
Bakki á Tjörnesi 223-4, 226.
Baldvin Jónsson, skáld 28.
Baldvin Sigurðss. Garði 33-4,50,51.
Baldursheimur 141.
Báráður 303-309.
Bárðardalur 32-3, 46, 82, 163, 232.
Benedikt í Vík 157-8.
Benedikt í Uppibæ 216.
Benedikt Andrésson 223-6.
Benedikt Sveinss. sýslum. 37,102-3.
Benedikt Vigfússon, próf. 81, 184.
Bernhard A. Steincke 221.
Bergljótur 286-93.
Bergstaðir 293.
Bessi Steinsson, Kílholti 20.
Bessi Þorleifsson 234.
Biskupstungur 293.
Bjarnaskál, örnefni 241.
Bjarni 272.
Bjarni, bróðir Jóns píslar 102.
Bjarni á Kvíabekk 240-1.
Bjarni Bjarnason, sölustjóri 41.
Bjarni Einarsson, skipasmiður 154.
Bjarni Jóhannesson, Geldingsá 71-2, 257, 259-60.
Bjarni Jónsson, prestur 277.
Bjarni Jónsson, Sjávarborg 104-5.
Bjarni Pálsson, Hnappav. 58-9.
Björg Stefánsdóttir, Laxamýri. 26.
Björn í Málmey 112-13.
Björn í Málmey, yngri 114-15.
Björn í Skógum 39.
Björn Bjarnarson, prestur 106.
Björn Guðnas., Róðhóli 163-4, 166.
Björn Halldórsson, próf. 26.
Björn Kristjánsson 89.
Björn Jónsson, pr. í Bólst.hl. 181.
Björn Jónss.,pr. á Hvanneyri 105-7.
Björn Schram 173.
Björn Stefánsson 58.
Bláfjall 139, 143.
Bláhvammur, örnefni 143.
Bleiksmýrardalur 90.
Bleikur, hestur 269-70.
Blönduhlíð 98, 152, 158, 238.
Bogi Benediktsson Staðarf. 99.
Bólstaðarhlíð 87, 181.
Borg = Sjávarborg.
Borgargerði í Fljótum 245.
Borghildur Einarsdóttir 111.
Borgir í Skriðdal 117.
Brandur Andrésson sterki 138-43.
Brandslækur 213.
Breiðabólstaður í Vesturhópi 96.
Breiðamerkursandur 60.
Breiðamýri 82, 167.
Brenniás, bær 168.
Brennuhólar 263.
Brimnes í Ólafsfirði 52-3.
Brúnastaðir í Fljótum 69.
Brunka = Bakka-Brunka.
Brynjólfur bóndi á Þykkvabæjarklaustri 160-1.
Bræðraá, bær 162.
Búðir 268.
Búi Jónsson, prófastur 179.
Bæjarvík 76.
Bær á Höfðaströnd 76.
Böggvisstaðasandur 154-6.
Dalabúð 154.
Dalabær = Dalir.
Dala-Molda =Sigríður í Dalabúð.
Dalasýsla 179.
Dalir, bær 103, 173-4, 233-6.
Danmörk 32.
Davíð Guðmundsson, próf. 56.
Davíð Guðmundsson, Spákf. 111,
Deildá 213.
Djúpadalsá 56-7, 246.
Djúpidalur 56, 122.
Djúpilækur, bær 73.
Drangshlíð við Eyjafjörð 130.
Draughólar 256, 259.
Drangey 295, 300.
Dynjandi, bær 254.
Dyrhólahreppur 133.
Dyrhólaós 212-14.
Eggert Jóhannesson 158-61.
Einar í Kambfelli 56-7.
Einar Andrésson í Holti 103-4.
Einar Davíðson, Spákonufelli 111.
Einar Finnsson í Ey 110-11.
Einar Jónsson, Hóli 167.
Einar Jónsson, Lóni 253.
Einarsnes, örnefni 247.
Einarsstaðir 37.
Eiríkur Andrésson 143.
Eiríkur Árnason 101.
Elín á Skúfi 67.
Elín í Víkurkoti 99.
Elín Benediktsdóttir 118.
Elín Jónsdóttir 25.
Emil Guðmundsson, prestur 241.
Engidalur, bær 233, 235-6.
Erlendur Gottskálksson 229.
Erlendur Jónsson 68-9.
Eskifjörður 117.
Espólín (Jón) 118.
Ey = Syðri-Ey.
Eyfirðingar 258-60.
Eyfirðingavegur 79.
Eyhildarholt, bær 158, 160.
Eyjafjarðará 63, 257.
Eyjafjöll 130.
Eyjafjörður 17, 18, 33, 35, 57, 73, 78-9, 83, 97, 121-2, 128, 134, 148-9; 152, 154, 158, 161, 221, 242, 348, 257, 260.
Eyjarhólar, bær 130-34.
Fagrahlíð, örnefni 123.
Fagranes, bær 274.
Fagridalur 22.
Fagurhólsmýri, bær 58.
Féeggsstaðir 43.
Felix, skip 97-8.
Fell í Sléttuhlíð 115, 163, 165, 203-4, 261, 263.
Finnbogi á Illugastöðum 172-3.
Finnur, bóndi á Sólheimum 179.
Finnur Jónsson 107-9.
Fjall, syðra 44.
Fjall, bær 261.
Fjallsteig, örnefni 115.
Fjárdráps-Pétur 110.
Fjöll í Kelduhverfi 88-9.
Fjörður í Norðfirði 116.
Flatey á Skjálfanda 91, 216, 219, 227-9.
Flateyingar 228-9.
Flateyjardalur 41, 263, 265.
Fljót 65, 69, 105, 130, 162, 240, 265, 277.
Fljótamenn 106.
Fljótavík 116.
Fljótsheiði 81-2.
Flókadalur 245.
Fnjóskadalur 41, 86, 90, 264.
Fnjóská 90.
Fosssel 37.
Friðbjörg Indriðadóttir 128.
Friðbjörn á Dynjanda 254.
Friðfinnur Bjarnason 237.
Friðfinnur Kristjánsson 22-3.
Friðjón Jónsson, Sandi 36, 38, 119.
Friðrik 8. konungur 8, 32.
Friðrik Jóhannsson, Nesi 246.
Galdra-Höskuldur – Höskuldur í Höfn.
Galtá 257.
Galtártungur 257, 259-60.
Garður í Aðaldal 33, 50, 67.
Garður í Fnjóskadal 86.
Garður í Hegranesi 126-7.
Garður í Kelduhv. 26, 118-19, 229.
Garður við Mývatn 142.
Gata, bær 72.
Geirastaðir 207.
Geitafjall 212-13.
Geiteyjarströnd 23.
Geithamrar, bær 101.
Geldingsá, bær 71.
Gilsbakki, bær 135.
Gísli á Fagurhólsmýri 58.
Gísli í Skörðum 118-20.
Gísli Gíslason, Skörðum 118-20.
Gjávík, örnefni 262,
Gjávíkurbakkar, örnefni 261.
Gjögur við Eyjafjörð 97-8.
Gjögur á Ströndum 96.
Glámur 175.
Glaumbær í Skagafirði 28, 109.
Glerá, bær 223.
Gljúfurá í Víðidal 124.
Gránunes 80.
Grákufl 193.
Grenjaðarstaður 118.
Grenjanes, örnefni 231.
Grettir Ásmundarson 175.
Grímabrekkur, örnefni 129.
Grímólfur (Illugason), prestur 109.
Grímsey 97-8.
Grímsstaðir við Mývatn 22-3,251-2.
Grímstungurétt 100-1.
Grund í Höfðahverfi 97.
Grund í Svínadal 206.
Grýtuhóll, örnefni 249.
Guðbjörg Björnsdóttir 57.
Guðbjörg Pálsdóttir 181-2.
Guðbrandur Péturss., Heiði 166-7.
Guðbrandur Þorlákss, biskup 118. Guðjón Hálfdanarson, prestur 57.
Guðlaug Sveinsdóttir 18, 19.
Guðmundur Árnason, Grímstungu 22-3
Guðmundur Bergþórsson 109.
Guðmundur Eiríksson 145-7.
Guðmundur Friðjónsson, skáld 44.
Guðmu. Guðmundss., Auðnum 171.
Guðmundur Klemensson 87-8.
Guðmundur Jónasson, Ási 124.
Guðm. Jónsson, Áshildarh. 183-4.
Guðm. Ólafsson, Eyjarhólum 134.
Guðm. Ólafsson, Sólheimakoti 134.
Guðm. í Laugaseli 43.
Guðný Árnadóttir, Húsavík 36. Guðný Jónsdóttir í Garði 51.
Guðný Magnúsd., skygna 55-60.
Guðný Sveinsdóttir 78-9.
Guðríður Jónasdóttir 152-3.
Guðríður Jónsdóttir 47.
Guðrún í Sauðakoti 148.
Guðrún í Saltvík 176.
Guðrún á Sæunnarst. 107, 110.
Guðrún í Tunguseli 166-8.
Guðrún á Ytra-Hóli 110.
Guðrún Andrésdóttir, Glerá 223.
Guðrún Björnsd., Málmey 113-15.
Guðrún Davíðsdóttir, Fjöllum 88.
Guðrún Einarsdóttir, Syðri-Ey 107-8, 111.
Guðrún Erlendsd., Ingjaldsst. 46.
Guðrún Jónsdóttir, Fossi 129-30.
Guðrún Jónsdóttir, Sílalæk 37-8.
Guðrún Magnúsdóttir 180.
Guðrún Magnúsd., Stenjast. 111,
Guðrún Þorsteinsd., Strönd 24-5.
Gufunes 245.
Gunna = Hlíðar-Gunna.
Gunnar Loftsson 96
Gunnlaug á Lóni 253.
Gunnlaugur frá Hellu 154
Gunnlaugur á Húsavík 49
Gunnlaugur á Tindum 111
Gvendarstaðir 169.
Gönguskörð 96.
Haganes í Fljótum 65-6.
Haganes við Mývatn 208.
Hafnabúðir 101.
Hafnarfjörður 245.
Hafnastekkur, örnefni 107.
Hafralækur, bær 36, 38.
Hafsteinsstaðir 182.
Hagi, ytri og syðri, á Árskógsströnd 40.
Hagi í Þingi 100, 101.
Háleiti-Bjarni, draugur 109.
Hálfdan í Hálfdanartungum 237.
Hálfdan Narfason, prestur í Felli 115-16, 203-4, 261-3.
Hálfdanarhurð, örnefni 116.
Hálfdanartungur 236-40.
Hallárdalur 107, 109.
Hallbjarnarstaðaá 224-6.
Hallbjarnarstaðakambur 224.
Hallbjarnarstaðir 224.
Halldór á Dynjanda 254.
Halldór á Einarsstöðum 81.
Halldór í Tröllatungu 92.
Halldór Bjarnarson, prófastur 81.
Halldór Sigurðsson, Kálfastr. 25.
Halldór Þorgrímsson 120.
Halldóra á Hjallalandi 112.
Hallgeirsey, bær 21-2.
Hallgrímur 280-81.
Hallgrímur í Sandfelli 116.
Hallgrímur á Viðum 24, 26.
Hallgrímur Thorlacius, pr. 28.
Hamar í Stíflu 52.
Hannes Hafliðason, skipstjóri 244.
Hannes Jónsson, Hleiðargarði 257.
Hannes í Presthúsum 160-61.
Hans Bering, Kaldbak 150.
Haraldur Briem 59.
Haukagil í Vatnsdal 123.
Haukamýrardalslækur, örn. 150.
Havsteinsbryggja 53.
Havsteinsverzlun 53.
Héðinsfjörður 116, 130, 155.
Héðinshöfðakrókur 226,
Héðinshöfði 37-8, 42, 223.
Hegranes 77, 182, 126-7.
Heiði í Gönguskörðum 96.
Heiði á Langanesi 166.
Heiði í Sléttuhlíð 68-70, 163-4.
Heiðingjaflói 263.
Helga, kona Odds 152.
Helga, drotning 310, 313.
Helga á Úlfá 79-81.
Helgi Hálfdanarson, lektor 57.
Helgi Nikulásson, Holti 209.
Helgi Þorkelsson 223-4.
Helgugerði, bær 144.
Heljardalsheiði 44.
Hella, bær 154.
Helsi, hestur 280, 281.
Herdís Bjarnadóttir, Reykjum 237.
Héraðsvötn 158-60, 269, 271.
Herjólfsstaðir 209, 210.
Herkonugil 233-6.
Hermann Jónsson í Firði 116.
Hestlág, örnefni 56.
Hinriksmýri, bær 72.
Hjallaland, bær 112.
Hjaltabakki 109.
Hjaltadalsheiði 274, 276.
Hjaltadalur 81, 184, 237-8, 294.
Hjalteyri 79.
Hjarðarholt í Dölum 180.
Hleiðargarasskotta, draugur 246-7.
Hlíð á Langanesi 166-7.
Hlíðar-Gunna 166-8.
Hnappavellir, bær 58-60.
Hof í Hörgárdal 56.
Hof í Vesturdal 152.
Hof í Öræfum 59.
Hofdalir, syðri 44, ytri 127-8.
Hofsárdalur 229.
Hofselsvörðuflá, örnefni 124.
Hofsós 76-7, 270.
Hofstaðir 27-8.
Hólaneskaupstaður 104.
Hólar í Eyjafirði 80-81.
Hólar í Hjaltadal 81, 184, 282, 285, 294-5, 299-301.
Hólar í Laxárdal 28.
Hólaskorur, örnefni 81.
Hólasókn 83, 260.
Hóll á Langanesi 167.
Hóll í Siglufirði 129-30, 155-6.
Hólkot 37.
Hóll á Tjörnesi 223, 248-9.
Hólmavatn, örnefni 205.
Hólmfríður á Hóli 223-4.
Hólmfríður á Kálfaströnd 25.
Hólmfríður á Víkingavatni 26.
Hólmkell Bergvinsson 42.
Hólsfjöll 22, 89-90, 175.
Hólsgerði í Kinn 168-9.
Hólshús, bær 246.
Hólssandur 89.
Hólsskarð, örnefni 155.
Holt í Álftaveri 209.
Hornbrekka, bær 222.
Hornstrandir 104.
Hrafnagil í Eyjafirði 30, 35.
Hrafnaskriður í Hofsdölum 234.
Hranastaðir 35, 246.
Hraun í Fljótum 20.
Hraun í Unadal 128.
Hraun í Öxnadal 121.
Hrauná 122.
Hraunárdalur 122.
Hraunkot í Aðaldal 25.
Hrauntangi, örnefni 251.
Hreiðar, bóndi 65.
Hringversfjörur 224.
Hringvershvilft 224.
Hrísey 62-3, 177, 222, 248.
Hróaldsstaðir 77-8.
Hróarsdalur 205-6.
Hróbjartur Gíslason 22.
Hrólfssker 52.
Hrolleifshöfði 261.
Hrolleifsdalsá 203.
Hrolleifsdalur 162.
Húnaflói 96.
Húnaós 101.
Húnavatnssýsla 102, 206, 250.
Húnaþing 161.
Húnvetningar 110.
Húsafell 272.
Húsavík 41-2, 118,120, 137, 144-5, 149-50, 175, 216, 232, 248.
Húsavíkur-Jón 197-200.
Hvammsá 213.
Hvammur í Laxárdal 66-7.
Hvanndalir 52, 116.
Hvanneyri í Siglufirði 105-7.
Hvarf, syðra, í Svarfaðardal 87.
Hvassafell í Eyjafirði 34, 83, 121-2.
Hvassafellsdalur 122.
Höfðahverfi 97.
Höfðakaupstaður 268-9, 274.
Höfðamöl 113.
Höfðavatn 112.
Höfðaströnd 75-6.145,182,185,219.
Höfði á Höfðaströnd 75-77.
Höfði í Úlfsdölum, örnefni 174.
Höfn = Kaupmannahöfn.
Höfn í Siglufirði 52.
Hörgárdalsheiði 34, 236.
Hörgárdalur 26,34,43,122,274,276.
Hörgárgrunn 60.
Höskuldarfen, örnefni 107.
Höskuldsst. í Húnavatnss. 109, 249.
Höskuldur í Höfn 105-7.
Illugastaðir í Laxárdal 172.
Illugi Torfason í Hlíð 167.
Indriði á Borgum 117.
Indriði Davíðsson, Helgugerði 144.
Ingibjörg í Hvassafelli 123.
Ingibjörg á Illugastöðum 172.
Ingibjörg Benjamínsd., Skúfi 67.
Ingibjörg Einarsd., Tindum 111.
Ingibjörg Hallgrímsdóttir 91.
Ingibjörg Markúsdóttir, Ási 123-5.
Ingibjörg Sigurðardóttir Búðarhrauni 31.
Ingjaldsstaðir 46.
Ingveldarstaðir í Kinn 135.
Ingveldur Jónsd., Eyjarhól. 130-34.
Ísafjarðarsýsla 254.
Íshóll, bær 232.
Ísland 32.
Ísleifsskál 259.
Ísleifur 259.
Ísólfsstaðir á Tjörnesi 248.
Jakob Eiríksson, Búðum 268.
Jakob Jóhnsen, kaupm. 150.
Jakob Jónsson, Ísólfsstöðum 248.
Jakob Ólafsson, Hrafnagili 35.
Jakob Péturss., Breiðumýri 82, 167.
Jarlsstaðir 33.
Jóhann á Heiði 163.
Jóhann á Hraunum 20.
Jóhann í Nesi 246-7:
Jóhann í Svarfaðardal 156.
Jóhann Einarsson, Haukagili 123-5
Jóhann Friðfinnsson 57.
Jóhann Guðmundss., Hornbr. 222.
Jóhann Jónsson 248.
Jóhanna í Tungu 176.
Jóhanna Jóhannesd., Látrum 97-8.
Jóhanna Jónsd., Héðinshöfða 42.
Jóhannes í Fossseli 37.
Jóhannes á Rauðá 45-7.
Jóhannes í Tungu 176.
Jóhannes Jóhannesson 52.
Jóhannes Jónsson, bátasmiður 98.
Jóhannes Jónsson, Strjúgsá 33.
Jóhannes Kristjánsson, Garði 50.
Jóhannes Þorsteinsson, Geiteyjarströnd 23-5.
Jón vinnumaður 119-20.
Jón Eyrarfari Jón Péturss. sterki.
Jón kerri 168-9.
Jón písl 100-102.
Jón snærill 108-9.
Jón á Dynjanda 254.
Jón á Fjalli 261.
Jón frá Grænavatni 32.
Jón í Haganesi 65.
Jón í Haganesi, yngri 65.
Jón á Krákustöðum 162-4, 166.
Jón á Leiðólfsstöðum 180.
Jón Leyningi 156.
Jón Sauðakoti 148.
Jón á Vatnsleysu 170.
Jón á Úlfá 79-80.
Jón Árnason 120.
Jón Benediktsson, Hólum 81.
Jón Benediktsson, Hróarsdal 205.
Jón Brandsson, Hallgeirsey 21-2.
Jón Brandss. sterki 140, 143, 208.
Jón Einarsson, Sandvík 33.
Jón Eiríksson, Hofstöðum 143.
Jón Eiríksson, Hrúthúsum 20.
Jón Espólín 268.
Jón Finnsson á Ey 110.
Jón Grímsson, prestur 109.
Jón Guðjónsson, Kálfskinni 40.
Jón Guðmundsson, form. 247.
Jón Guðmundsson, Kálfsá 242-3.
Jón Illugason, lögsagn. 110.
Jón Jónatansson, Höfða 75-6.
Jón Jónsson, blindi 143.
Jón Jónsson, Hólshúsum 246.
Jón Jónsson, Tröllatungu 91-2.
Jón Jónsson, Vatnsleysu 170-72.
Jón Jónss. frá Veðramóti 100-101.
Jón Jónsson Þórustöðum 62-4.
Jón Jónss., Þórust, yngri 62-4.
Jón Magnúss, Hólmavaði 119-20.
Jón Markúss., Utanverðunesi 182-3.
Jón Oddsson, Bakka 164-5.
Jón Oddsson, Bakka, yngri 164.
Jón Ólafson, ritstjóri 117.
Jón Pálsson, Húsavik 71, 82-3, 95-6.
Jón Pétursson, háyfirdómari 99.
Jón Pétursson, læknir 272-8.
Jón Pétursson, sterki 265-6. j,
Jón Semingsson 280-1.
Jón Sigurðsson, Hofdölum 127.
Jón Sigurðsson, Kristnesi 149.
Jón Sigurðss, Sæunnarst. 107-10.
Jón Símonarson 210.
Jón Skúlason, Haukagili 123.
Jón styr 282-6.
Jón Tómass., Hofdölum 44, 101-2.
Jón Vigfússon, Víðirgerði 246.
Jón Vilhjálmsson 111.
Jón Þorláksson 37-8.
Jón Þorláksson sterki 143.
Jónas grjótgarður 177.
Jónas á Látrum 97-8.
Jónas í Saltvík 176.
Jónas í Sauðakoti 74, 220-21.
Jónas í Yztafelli 168-9.
Jónas Hallgrímss., skáld 32, 62, 121-2
Jónas Jónasson, prófastur 30, 35.
Jónas Jónsson, læknir 150.
Jónas Jónsson á Hóli 154-6.
Jónas Sigurðsson Bakkaseli 149.
Jónína í Krókum 41.
Jónsgnípa, örnefni 120.
Jórvíkurhryggir, bær 209-11.
Jökulfirðir 254.
Jökull (Snæfells-) 268.
Jörundur Jónsson, Syðstabæ 222.
Kaldakinn 37, 86, 168.
Kaldakvísl, á 224.
Kaldbakur, bær 150.
Kálfafellsstaður 60.
Kálfastrandar-Pétur 25.
Kálfaströnd, bær 25, 85, 20S, 265-6.
Kálfsá, bær 242-3.
Kálfsárdalur 129.
Kálfshamarsnes 247.
Kálfskinn, syðra og ytra 40.
Kambfell, bær 56. Kappastaðalækur 263.
Kappastaðavatn 262.
Kappastaðir 261.
Karítas Sveinsdóttir 154.
Katla 130.
Katrín Einarsdóttir, Spákonuf. 111.
Katrín Guðbrandsdóttir 167.
Kaupangssveit 62, 161.
Keflavík 245.
Keldhverfingar 118-19, 135.
Kelduhverfi 28, S9, 135-6, 229.
Keldunes, bær 41.
Kelduneskot 41.
Keldur í Sléttuhlíð 163.
Kerlingará, örnefni 24S.
Kerlingarhóll, örnefni 135-6.
Kerlingarvik, örnefni 24S.
Kerri = Jón Kerri.
Kífsá, bær 51.
Kílholt, bær 69-70.
Kirkjubær á Síðu 65.
Kirkjutún, örnefni 59.
Kista, bær 123.
Klemens í Bólstaðarblíð S7.
Klofi á Landi 92-3.
Knappstaðalækur 203-4.
Knappstaðavatn 203.
Knudtson, kaupmaður 268.
Kolugafjall 66.
Kornsá, bær 124.
Kot, fremri 23S.
Kotsvík 226.
Krafla 251.
Krákustaðir í Sléttuhlíð 162.
Krákustaða-Jón = Jón á Krákust.
Kristín Björnsdóttir 99.
Kristín Jóhannsd. Laugaseli 27, 42-3.
Kristín Þórðardóttir, Garði 118.
Kristín Þorsteinsd, Tvískerjum 58.
Kristján í Ási 175.
Kristján í Uppibæ 216.
Kristján Ásmundsson, Glerá 223.
Kristján Benediktss., Hvassaf. 122.
Kristján Kristjánsson 248-9.
Kristján Jónss., Grímseyjarfari 144.
Kristján Sigurpálss, búfr. 216-17.
Kristján Sveinbjarnarson 22-3.
Kristján Þorsteinsson 294-303.
Kristjana Árnadóttir 85.
Kristjana Kristjánsdóttir 175.
Kristjana Magnúsdóttir 43.
Kristnes í Eyjafirði 149.
Krókar, austari og vestari, 41.
Kross í Landeyjum 21-2.
Krossastaðir á Þelamörk 84-5.
Krossavíkurfjöll 229.
Kræklingahlíð 51.
Kúðafljót 210.
Kúluheiði 102.
Kvígindisdalur 71.
Lambá 259.
Lambanes, örnefni 90.
Lambhagi 263.
Lambhúsvík, örnefni 252.
Land, bær 89.
Land, sveit 92-3.
Langadalsfjall 249.
Langanes 61, 73, 154, 166, 231.
Langholt, örnefni 176.
Langidalur 272.
Lappi, hundur 238.
Látrafjöll 17.
Látur við Eyjafjörð 97.
Laugaland á Þelamörk 84-5.
Laugafell 258.
Laufás 149.
Laugasel 27, 43.
Laxá í Þingeyjarsýslu 26-8.
Laxamýri 26-7, 85.
Laxárdalsfjall 249.
Laxárdalur, Dalasýsla 179.
Laxárdalur, ytri, Skagafjs. 66, 172.
Laxárdalur, Þingeyjarsýsla 27.
Leirá 278.
Letingi, örnefni 260.
Leiðólfsstaðir 180.
Leyningsdalur 257, 259-60.
Leyningur í Eyjafirði 257, 260.
Leyningur í Siglufirði 154-6. Lilja á Heiði 163-4.
Lísibet Guðbrandsdóttir 167.
Litliárskógur 62.
Ljósaland, bær 77.
Loftur Jónsson, Grund 97-8.
Lónkot í Sléttuhlíð 223.
Lónshús, bær 54.
Lúðvíg Schou 150.
Lúðvík Sigurjónsson 85.
Lundarbrekka 32.
Lurkasteinn, örnefni 164.
Lækjarbakki, bær 157.
Magnús Aras., Stenjastöðum 111.
Magnús Bjarnason, sýslum. 106.
Magnús Bjarnason, Hnappav. 59.
Magnús Jónsson, prestur 249.
Magnús Ólafsson, Vatnsleysu 171.
Magnús Sigurðsson, Heiði 96.
Magnús Stephensen, Viðey 277-8.
Magnús Skaftason, Víðimýri 267.
Magnús Þorsteinss., Hnappav. 58.
Málmey 112-15.
Málmeyjar-Gunna = Guðrún Björnsdóttir, Málmey.
Málmeyjarrif 113.
Málmeyjarsund 116.
Máná á Tjörnesi 214.
Máná í Úlfsdölum 174.
Mánaskál, bær 250.
Mannskaðahóll, bær 145.
Margrét á Einarsstöðum 81.
Margrét á Krossastöðum 84-5.
Margrét Árnadóttir 274.
Margrét Guttormsdóttir 56.
Markmann, skipstjóri 245.
Melhús, örnefni 139, 142.
Melkot 262.
Miðfjarðarháls 161.
Miðfjörður, bær 73.
Miðfjörður, sveit 28, 162.
Miðgrund í Blönduhlíð 158.
Miklavatn í Fljótum 66.
Miklibær í Blönduhlíð 98.
Minnaholt í Fljótum 103.
Mjölnir, skip 61.
Móri = Sólheima-Móri.
Mundlaugarlág, örnefni 145
Mýrasýsla 29.
Mýrdalur 130, 133, 160, 212.
Mýri í Bárðardal 82, 232,
Mývatn 23-5, 137, 207-8, 251.
Mývatnsheiði 24, 27.
Mývatnssveit 25, 143.
Mývatnsöræfi 143.
Mælifell 277.
Möðrufell, í Eyjafirði 134.
Möðruvellir, í Hörgárdal 253.
Naust á Höfðaströnd 145-7.
Nes í Eyjafirði 246.
Nes á Skaga 101.
Nes = Utanvertnes.
Neslandsmýri, örnefni 251.
Níels Níelsson, Brúnast. 69, 70.
Nikulás, bóndi 219.
Nikulás á Þönglaskála 145.
Nikulás Þórðarson 34-5.
Norðurárdalur í Húnavatnss. 66.
Norðurárdalur í Skagafirði 236-8.
Norðurland 28, 263, 272.
Noregur 236.
Núpsklappir 51.
Núpur, örnefni 50
Nýibær í Austurdal 257, 260.
Nýibær í Flatey 91.
Nýibær í Hólasókn 83.
Nýjabæjarfjall 257-9.
Oddagerði í Kelduhverfi 136.
Oddeyri 17.
Oddur sterki 272.
Oddur Oddsson, langi 152-3.
Ófriðarstaðabakki 260.
Ófriðarstaðahlíð 260.
Ólafsfjarðarhorn 52.
Ólafsfjarðarmúli 116.
Ólafsfjarðarskarð 240.
Ólafsfjörður 52, 74, 116, 129, 155, 222, 240, 242-3.
Ólafur í Kambfelli 56-7.
Ólafur Hallss, Mannskaðahóli 145.
Ólafur Högnas. Eyjarhólum 130-34.
Ólafur Jónsson, Stokkahlöðum 62.
Ólafur Thorberg, prestur 96.
Ólafur Þórðarson, Lóni 253.
Ólafur Þorsteinsson, Leyningi 154.
Óli Havstein 77.
Ós í Hörgárdal 26.
Ósinn = Dyrhólaós.
Óslandshlíð 182.
Páll, eldri, á Dölum 235-6.
Páll, vinnum. í Hörgsdal 95-6.
Páll Jónsson prestur Völlum 153.
Páll Ólafsson, skáld 117.
Páll Pálsson, próf. Hörgsd. 83, 94-6.
Páll Pálsson, yngri, Hörgsdal 95-6.
Páll Pálsson, Æsustaðagerði 134.
Páll Sveinsson, Ameríku 68.
Páll Þorvaldsson, Dölum 234.
Pálmi í Lónkoti, 223.
Pálmi Jóhannsson, Sæbóli 234-5.
Pálmi Sigurðsson, Æsust. 247.
Pálslág, örnefni 79.
Pétur í Utanverðunesi 182-3.
Pétur í Ytrilækjardal 110.
Pétur Jónsson, Rauf 42.
Pétur Ólafsson, Hranastöðum 35.
Pétur Pétursson, biskup 99.
Pétur Pétursson, prófastur 98-9.
Pétursey, bær 130-2.
Pétursey, fjall 130.
Presthús, bær 160.
Prestsbakki 179.
Prestsklettur, örnefni 122.
Rafn á Úlfsdölum 173-4.
Ragnheiður Guðnadóttir 158.
Randíður á Knútsstöðum 138.
Randíður Andrésdóttir, Grænavatni 139-41, 143.
Randver Bjarnas., Uppsölum 45-6.
Rangárvallasýsla 34, 82.
Rannveig Hallgrímsd., Steinsst.62.
Rannveig Hákonard, Espólín 75.
Rannveig Sveinbjarnardóttir 22.
Rannveig Magnúsdóttir 232.
Rannveig Þorsteinsd Hvassaf. 83.
Rannveigarstaðir 59.
Rauðá, bær 46.
Rauðháls 212-13.
Rauðiboli 318-22.
Rauður ráðgjafi 319-23.
Rauðskeggur 304-9.
Rauf, bær 42.
Raufarberg, örn. 261-2.
Refstaðir 249-50.
Rekaá 224.
Reykholt 277-8.
Reykir í Fnjóskadal 90.
Reykir í Hjaltadal 237-8.
Reykir í Miðfirði 162.
Reykjadalur 25, 37, 71, 82, 89, 127.
Reykjaheiði 89.
Reykjahlíð 251.
Reykjahverfi 118-19.
Reykjahlíðarbræður 32.
Reykjahlíð 90.
Reykjasel 90-91.
Reykjaströnd 274.
Reykjavík 30, 47, 82, 244.
Reykjavíkurhöfn 244.
Reynir, bær 126.
Reynishverfi 160.
Rósa Bjarnad., Víðirgerði 44-6, 78-9.
Rósa Jónsdóttir, Litlaárskógi 62.
Rósa Vormsdóttir 157.
Róðhóll, bær 162, 164, 245.
Runólfur í Arabæ 48.
Runólfur á Bakka 58.
Saltvík, bær 176.
Sandá 39.
Sandur í Aðaldal 36.
Sandvík, bær 33.
Sauðakot 74, 148, 226.
Sauðanes á Upsaströnd 220.
Sauðaneshreppur 166.
Sauðárkot = Sauðakot.
Sauðárkrókur 67.
Saurbær í Eyjafirði 57.
Schram, verzlunarstjóri 104.
Selá, bær 40.
Selárbakki, bær 40.
Selárdalur í Vopnafirði 77.
Selland, örnefni 86.
Selvík, örnefni 261.
Síða, sveit 65, 82.
Sigbjörn Sigfúss, prestur 58, 60.
Sigfús á Dölum 234.
Sigfús í Víkurkoti 98.
Sigfús Eymundarson Rvík 47.
Sigga kápa-Sigríður í Dalabúð.
Siglfirðingar 106, 154.
Siglufjarðareyri 154.
Siglufjarðarskarð 267.
Siglufjörður 52, 105-7, 116, 129-30, 154-5, 234.
Siglunes 116, 130, 155.
Sigmundur í Garði 50.
Sigmundur á Grænavatni 137-43.
Sigmundur Jónatanss Húsavík 144.
Sigmundur Sigurðss., úrsmiður 177.
Signý í Víðirgerði 78.
Sigríður 170-72.
Sigríður á Bakka 164-5.
Sigríður í Dalahlíð 154.
Sigríður á Svartanúpi 279.
Sigríður á Vakursstöðum 107-10.
Sigríður Andrésdóttir 226.
Sigríður Finnsdóttir, Ey 110.
Sigríður Grímsd., Víðirgerði 44-6.
Sigríður Halldórsd., Hólum 81-2.
Sigríður Halldórsd., Laugal. 84-5.
Sigríður Jónsd., Ytrabóli 110.
Sigríður Kristjánsdóttir 35.
Sigríður Ólafsdóttir, Hofi 56.
Sigríður Sigurðardóttir 150.
Sigríður Tómasdóttir 112.
Sigríður Þorbergsdóttir 111.
Sigríður Þorsteinsd., Hnappav. 58.
Sigríður Þorsteinsd., Þúfu 93-4.
Sigtryggur Sigurðss. Húsav. 149-51.
Sigtryggur Þorsteinsson 34, 121-2.
Sigurbjörg Hallgrímsdóttir 26.
Sigurbjörn Á. Gíslason guðfræð. 99.
Sigurbjörn Jóhannss, skáld 27, 43.
Sigurbjörn Stefánsson 26-7.
Sigurður á Sauðanesi 221-2.
Sigurður á Ytrahóli 109.
Sigurður í Ærlækjarseli 39.
Sigurður Árnason, Þerney 101.
Sigurður Einarsson 22.
Sigurður Eiríksson 46.
Sigurður Erlendsson 229.
Sigurður Guðmundss., Heiði 96.
Sigurður Gunnarss., prófastur 116.
Sigurður Gunnarss., Breiðabólst. 96
Sigurður Hákonarson 277.
Sigurður Jóhannsson, Selá 40.
Sigurður Jónsson, Garði 126.
Sigurður kóngsson 316-32.
Sigurður Sigurðss., járnsmiður 149.
Sigurður Stefánsson, prestur 96.
Sigurður Tómasson 25.
Sigurjón Jónass, Sauðak. 74-5, 221.
Sigurlaug Gísladóttir 182.
Sigurveig í Skógum 39.
Sílalækur, bær 37.
Silfrastaðaafrétt 238.
Silfrún á Silfrúnarstöðum 237.
Silfrúnarstaðir 237.
Símon Jónsson 211.
Símon Símonarson 209-11.
Sjávarborg 104-5.
Sjöundastaðir 245.
Skaftafellssýsla 65, 279.
Skaga-Eiríkur, draugur 187.
Skagafjarðarsýsla 102.
Skagafjörður 35, 75, 77, 112-13, 127, 152, 157-8, 182, 203, 206, 219, 236, 257, 267, 274.
Skagaströnd 109, 26S.
Skagi 101, 182, 247.
Skálholt 292.
Skálholtsskóli 192.
Skálpagerði, bær 62, 64.
Skarðsdalur, bær 105.
Skarðssteinn, örnefni 105.
Skautaljóð 109.
Skeifá 224.
Skíðadalur S7.
Skipalón, bær 154.
Skiphóll, örnefni 56.
Skjaldarvík 60.
Skjálfandafljót 167.
Skjálfandi 91, 144, 216, 227.
Skjóldalsárgil 135.
Skinnastaðir 102.
Skógar í Axarfirði 39.
Skriðdalur 116.
Skráma, tröllkona 233.
Skrámuhellir 233.
Skrapatunga, bær 249.
Skriðness-enni, bær 178.
Skúfs-Jón 110.
Skúfur, bær 66-7.
Skútustaðir 265.
Skörð, bær 118-20.
Sléttuhlíð 29, 112, 162-3, 165, 203, 223, 261-2.
Slúttnes, örnefni 251.
Snjólfur. Teitsson, Sauðafelli 60.
Snorri Björnsson prestur 272.
Snorri Pálsson, Siglufirði 153-4.
Snærill = Jón snærill
Sólheimakot 134.
Sólheima-Móri 178-80.
Sólheimar í Dalasýslu 179-80.
Sólheimar í Mýrdal 131, 133.
Spákonufell 111.
Spákonufellsborg 111.
Spánverjar 247.
Sprengisandur 82.
Staðará 157.
Staðarfell 99.
Staðarhreppur 157.
Stefán alþingism. í Fagraskógi 165.
Stefán á Ljósalandi 77.
Stefán Árnason, prestur 165-6, 204.
Stefán Guðjónsson 67.
Stefán Jónsson, alþingismaður 62.
Stefán Sigurðsson 177-8.
Stefán Stefánss, kennari 96, 122, 253.
Steindór Jónasson 34-5.
Steingrímsfjörður 91.
Steingrímur í Bólstaðarhlíð 181-2.
Steini 43.
Steinn Guðmundsson 101.
Steinn Sæmundss, Siglunesi 155-6.
Steinólfur Geirdal 91.
Steinsstaðir í Öxnadal 62.
Steinunn Jónsd., Vakurstöðum 112.
Stekkjarleiti, örnefni 215.
Stekkjarmóar, örnefni 145.
Stekkjarnes, örnefni 207.
Stenjastaðir 110-11.
Stífla 52.
Stóra-Fjall, bær 29.
Stórárós 26.
Stóra-Sandfelli í Skriðdal 116.
Stóraskriða, örnefni 56.
Stórhóll, örnefni 155.
Stóridalur í Húnavatnss. 102-3.
Stóru-Borgarrétt 246.
Stórisandur 102.
Strandasýsla 179.
Strandir 96.
Strjágsá 56, 78, 83.
Strjágsárdalur 122.
Strönd = Geiteyjarströnd.
Ströndúngur 104-5.
Stykkishólmur 116.
Stærriárskógur 61.
Stöng, bær 24.
Suðurárdalur 238.
Suðurland 54, 79.
Suðursveit 60.
Surtur, útilegumaður 290-3.
Svalbarð, bær 17.
Svalbarð í Þistilfirði 39.
Svalbarðseyri 61.
Svalbarðsströnd 33, 128.
Svardalur 260.
Svarfaðardalur 74, 129, 156, 163.
Svartá 257.
Svartárdalur í Húnavatnss. 87.
Svartinúpur, bær 279-80.
Sveinbjörn í Hofsós 77.
Sveinbjörn Guðjóhnsen 85.
Sveinn í Garði 67-8.
Sveinn úr Svarfaðardal 156-7.
Sveinn Pálsson, Lónshúsum 54.
Sverrir 259-60.
Svínadalur í Hánavatnssýslu 206.
Syðragil, örnefni 50-51.
Syðri-Ey 107-9.
Syðrigróf, örnefni 146-7.
Syðstibær í Hrísey 177, 222.
Sæunnarstaða-Jón = Jón Sigurðsson, Sæunnarstöðum.
Sæunnarstaðir 107-9.
Sæmundur Jónatansson 221-2.
Sæmundur Magnúss. sterki 267-72.
Sölvi, smali 159, 160.
Teigur í Hofsárdal 229.
Teitur Magnússon 108.
Tindar á Ásum 111.
Tjörnes 42, 214, 223, 247.
Torfadalur, örnefni 20-5.
Torfdalur, örnefni 249.
Torfi í Hlíð 166-7.
Torfufell, bær 257.
Torfufellsá 257.
Torfufellsdalur 257.
Tryggur, hundur 216-17.
Tryggvi konungur, skip 61.
Tröllatunga 91.
Tunga, ytri 176.
Tunga í Fnjóskadal 90.
Tungugerðisfjörður 224.
Tungufjörur, ytri og syðri 224.
Tunguháls, örnefni 91.
Tunguháls, bær 30, 152.
Tungusel, bær 166.
Tvísker í Öræfum 58-9.
Tyrkjasoldán 273.
Úlfá í Eyjafirði 79-81.
Úlfsdalir 103, 116, 130, 173, 233.
Úlfstaðakot 152.
Úlfur, landnámsmaður 233.
Una Bjarnadóttir 245.
Unadalur 128.
Undirfell 100.
Uppibær í Flatey 216.
Uppsalir í Eyjafirði 45.
Uppsveit í Kelduhverfi 136.
Upsakirkja 156.
Upsaströnd 74, 148, 220.
Utanvertnes, bær 182.
Uxaskara 86.
Vaðlaheiði 17, 71.
Vakurstaðir 107-8, 112.
Valgerður á Dölum. 235.
Valgerður Jóhannsdóttir 83.
Vallhólmur 107.
Vallholt, bær 107.
Varðgjá, bær 63.
Vatnsbakki, örnefni 209.
Vatnsdalsá 124.
Vatnsendi í Eyjafirði 80-81.
Vatnsleysa, stóra 170-72.
Veðramót, bær 100.
Vellir í Eyjafirði 246.
Vellir í Svarfaðardal 153.
Vernharður Þorsteinsson, pr. 26.
Vesturdalur í Skagafirði 152.
Vesturhóp, sveit 96, 123.
Vestur-Skaftafellssýsla 209, 212.
Viðey 277.
Víðidalsfjall 124.
Víðimýri 267-8, 272.
Víðirgerði, bær 44, 78, 246-7.
Víðirhóll, bær 175.
Viðvík 153.
Viðvíkursveit 69.
Vigfús 92-3.
Vigfús Björnsson, prófastur 118-20.
Vigur 96.
Vík, bær 157-8.
Víkingavatn 26.
Víkurkot í Blönduhlíð 98, 158.
Vilborg Þórarinsdóttir 59.
Villingadalur, bær 257-8.
Vindheimar, bær 158.
Vindhæli 108-110.
Vopnafjörður 77, 229.
Vötnin = Héraðsvötnin.
Ytri Hóll, Húnavatnssýslu 109-10.
Ytri Lækjardalur, bær 110.
Ytri-Vík, örnefni 224.
Yztafell í Kinn 16S.
Yztihóll í Sléttuhlíð 29.
Þelamörk 84.
Þerney 101.
Þing 96, 100.
Þingeyrar 96.
Þingeyrarsandur 101.
Þingeyjarsýsla 37, 42, 44, 263.
Þistilfjörður 39.
Þjórsárkvíslar 258.
Þórarinn á Gili 20.
Þórarinn Sveinsson, Hofi 59.
Þorbergur Arason, Vakurst. 112.
Þorbjörg á Bakka 164-5,
Þórðarhöfði 112, 114.
Þorfinnur á Hóli 129.
Þorkell Guðmundsson 44.
Þorlákur Einarsson 143.
Þorlákur Ólafsson, Kálfsá 243.
Þorlákur Þorláksson 43
Þorleifur Skaftason, prófastur 267.
Þóroddstaður í Kinn 168.
Þorsteinn í Garði 26.
Þorsteinn glott 310-16.
Þorsteinn í Haga 100-101.
Þorsteinn á Hóli 156.
Þorsteinn í Húsavík 49-50.
Þorsteinn Daníelsson, Lóni 154.
Þorsteinn Hallgrímsson 121-2.
Þorsteinn Pálsson, prestur 24.
Þorsteinn Víglundsson 38-9.
Þorsteinn Þorsteinsson, Hvassafelli 34, 121-2.
Þórshöfn á Langanesi 231.
Þórunn Pálsdóttir, Tvískerjum 58.
Þórunn Stefánsdóttir, Hrafnagili 29-30, 35.
Þórustaðir í Kaupangssveit 62-3.
Þorvaldsdalsá 72.
Þorvaldur Gunnlaugsson, Bandagerði 51-2.
Þorvaldur Sigfússon, Dölum 103, 234, 236.
Þrastarhóll, bær 34.
Þríhyrningur, bær 275.
Þrúgsá = Strjúgsá.
Þúfa á Landi 93.
Þuríður Guðmundsdóttir 109.
Þverá í Laxárdal 51.
Þverá í Ólafsfirði 52.
Þverárbrúnir, örnefni 155.
Þykkvabæjarklaustur 160.
Þönglaskáli, bær 75-6, 145-6, 219.
Þönglaskálahlein, örnefni 220.
Ærlækjarsel, bær 39.
Æsustaðagerði 134.
Æsustaðir 272.
Ögmundarstaðir 157-8.
Örnin, skip 242.
Öræfi 58-60.
Öræfingar 59.
Öxarfjörður = Axarfjörður.
Öxnadalur 149.
Registur
hugmynda og hluta.
aðfangadagur jóla 299.
afturgöngur 167-178, 241.
áhrínsorð 101-3, 163.
ákvæði 101.
álfar 73, 74, 121-134; í dýrslíki 131; villa fyrir 123; leita hjálpar 124; hjálpa öðrum 127-8; beita hótunum 133; hefna sín 111, 123, 134; heilla 111, 115.
álfareið 111.
álfaslóðir 129.
álög 115, 237, 313, 323.
ártal í draumi 35.
ásókn 71, 234, sjá hefndir.
bál 33, 251, 253, 254.
bannstaðir 111, 205, 240-3.
bardagi 258-260, 262.
barið að dyrum 69, 175.
beinagrindarvofa 178.
berdreymi 17-28.
berserksgangur 270.
bjarndýr 264-266.
blóðdropar 128.
blý 276.
brattinrassi 276.
brjálsemi 164, 165, 167.
bústaðir álfa 121, 132.
dagur ljómar 136, 137.
dánarboð 27, 28, 38, 60, 66-8.
draugar 108, 109; drepa fé, 109, 181; drepa menn 179, 180; fljúgast á 109; eru settir niður 164, 165, 241.
draumálfar 121, 122,124, 128, 132.
draumar 17-53.
draumbendingar 43, 44.
draumagöngur 51-3.
draumspár 29-42.
dynkir 88, 236.
einhuga menn buga drauga 173, 177.
eitur gefið barni 113.
eldglæringar 55, 106, 120, 234, 235, 258.
feigðarboð 35, 36, 38-42, 47, 55-57, 61, 63, 65, 76, 159.
feigðarsvipur 159.
fjárdauði 241-3.
fjarheyrn
fjarsýni 76-82, 117.
fé 107, 173, 254.
formælingar 110.
forneskja = kyngi.
forspár, 23, 94-99, 272, 277, 287, 295.
forynjur 237, 239.
forynjustöðvar 233-240.
framsýni = forspár.
friðarbogi 250.
fylgjur 245.
fyrirboði 72.
fyrirbænir 26, 97.
galdrahríð 105, 116, 120.
galdramál 110.
galdramenn 163-5, 291.
galdur = kyngi.
gandreið 18, 115-16, 239.
gestafluga 232.
gjafir frá álfum 112.
grasaferðir 280.
guðað á glugga 69.
hafmenn = martröll, sæbúar. hefnd eftir dauðann 163-4, 166, 168, 173.
heiftarorð 101-2, 163.
helvíti 199.
heyrnarfyrirbrigði 62-70.
hestur 204, 205, 237.
himnaríki 198.
hljóð 36, 88, 238, 245-8.
hljómur 86, 87.
hótanir 163, 168.
hreinsunareldurinn (?) 189.
hrytur 227.
huldufólk = álfar.
hulinsblæja 261.
hvalir = illhveli.
hvolpar 131.
illhveli 227-31; elta skip 231.
járn 276.
jóladagur 22, 285.
jólanótt 136, 298.
kallað með nafni 63, 68; til lífs 89.
kaupmenn 268-9.
kaupstaðarferðir 118, 137, 293.
kettir 284.
keyta fælir drauga 179.
kraftamenn 138, 263, 267.
kvarnarhljóð 91-2.
kvöldskattur 25.
kyngi 103-20, 261.
kölski 192, 194, 199.
lambhúshetta 80.
lifandi manna svipir = tvímenni.
ljós í kirkju 57, 61.
loðsilungur 207, 208.
lúðurhljómur 86.
lækningar 273-6.
magnleysi 71.
mannabein fundin 170.
mannætur (tröll) 136.
martröll 144, 145, 149.
maurildi 219.
messuklæði 196.
mjaldur 228.
mjólk gefin álfum 112.
myrkvastofa 52.
mökkur 234.
nátttröll 135-7.
naut, mannýgt 107.
nauthveli 229.
nykur 203, 205.
ormur 106, 276.
otur 209-14.
óskablað 318-19, 321.
óvættir 134, 234, 237, 239.
píningarhistorían 197.
púkar 191.
ráðstafanir í draumi 45, 46.
ránskapur 261.
rauðkembingur (taumafiskur ?) 228.
reimt 130, 258.
réttir 100.
riðið húsum 175.
Samdreymi 49-51.
seiðmaður 291.
seiður 112, 114.
sendingar 105, 117, 17S-85.
silfurhnappur 105.
silungur 304.
sjónhverfingar 103.
sjónir 54-62.
sjóskrýmsli 214, 217, 219-26.
skemdir 235.
skepnur álfa 125.
skreiðarferðir 79, 267-8, 271.
skrýmsli 203-7, 216-26.
skygni 58-60, 71-85, 152, 154.
sláturtíð 118-19.
slóðir 129, 142.
spor = slóðir.
sterkir hugir 54.
stjarna 249.
svefngöngur 51-3.
svipir 27, 60, 69, 76, 152-62, 170-2; skepna 162; skips 60, svipur beitir illu 156; hefnir sín 161; afsakar sig 157.
sæbúar 144-51, 298-9.
söngur 90, 93.
tilberi 207.
tröll 134-43, 233, 311-14, 319-22.
tunnuhestur 138.
tvímenni 54, 59, 83, 84.
tvö högg barin 69.
töfradrykkur 285.
Umförukona 295.
umgangur 66, 93, 17S, 244, 245.
umhyggja fyrir jarðneskum leyfum 160.
umkvartanir framliðinna 48.
umskiftingur 111.
uppvakningar 108, 178-85.
útburðarvæl 248.
útburður 248, 249.
útilegumenn 279-93.
Veðurfylgjur 174, 245-49.
vein 36, 6S, 8S, 248.
verferðir 103.
vísað á hluti 78.
viðvaranir 42, 43, S9, 90, 161, 189.
vísur 28, 44, 97, 101, 114, 125. 179.
vættir, illar, 114, 303-9; sjá óvættir.
þoka 73, 114, 282.
Þorláksmessa 140, 296, 299-300.
ætiblaðka 208.
öfuguggi 208.
Orðið skrýmsli á að vera skrímsli16
1 Próf. Konráð Maurer hafði gefið út á þýzku eitt bindi íslenzkra þjóðsagna 1860 („Isl. Volkssagen der Gegenwart"), en það var mest eftir sögum, er hann hafði fengið hjá Jóni Árnasyni og Magnúsi Grímssyni. (Sbr. J. Á. Í. þ. o. æ., I., form. bls. 27-31.)
2 Nær virðist liggja, að brúnklukkan, sem hún gat selt upp, merki kvefveikina, sem hún átti eftir að leggjast í, en batnaði aftur.
3 Hálfdan prestur fekk Fell í Sléttuhlíð árið 1502 og dó þar 1568; leiði hans er hlaðið hátt upp utan-megin sáluhliðsins. Hafði hann mælt svo fyrir að leiði sitt væri hátt, til þess það yrði ekki grafið upp.
4 Sbr. J. Árn. Þjóðs. I. 516-517, en þar liggja atvik nokkru öðruvísi að.
5 Þar var fyr meir haft í seli frá Hofi, þó að sá bær sé austan Vatnsdalsár og utar í dalnum, en nú er sel það löngu lagt niður.
6 Sigurður Pálmason segir þau hafi búið á Keldum.
7 Prestur á Felli 1848-1860, síðan á Kvíabekk og Hálsi; † 1890. Árni í Litladal og Stefán alþm. í Fagraskógi eru synir hans.
8 Einar Jónsson var ættaður úr Reykjadal, hálfbróðir Jakobs umboðsmanns Péturssonar á Breiðumýri. Hann kom tvítugur austur á Langanes 1822, og giftist nokkru síðar dóttur Illuga Torfasonar í Hlíð, og var þar nokkur ár, en bjó lengst á Hóli á Langanesi. Hann dó 1882. Hann var síglaður, fróður um margt og minnugur.
9 Sbr. Þjóðsögur og munnmæli, bls. 307-308.
10 Um þann atburð hefir Árni skrifað (sjá síðar).
11 Bls. 74 (»Róðrarbáturinn«).
12 Alt önnur sögn um uppruna hestsins er í þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, bls. 35–37.
13 Friðfinnur dó árið 1905.
14 Selvík er yzt við Hrolleifshöfða; er hún djúpur vogur, og ganga klettabríkur fram með beggja vegna. Er standberg alt í kringum víkina. Gat er í gegnum ytri bríkina, og fellur þar sjór í gegnum. Sú brík nefnist Raufarberg.
15 Sbr. Esp. Árb. XI. D., bls. 120-121.
16 Misletranir sem voru tilteknar í þessum kafla hafa verið leiðréttar nema orðið skrýmsli sem er í raun ekki misletrun því báðir rithættirnir eru gildir.