[0001.png]
ÞÚSUND OG EIN
NÓTT
ARABISKAR SÖGUR
I
ÍSLENZKAÐ HEFUR
STEINGRÍMUR THORSTEINSSON
FIMMTA ÚTGÁFA
Myndirnar eru eftir F. Gross, teknar eftir þýzkri útgáfu af
Þúsund og einni nótt, Stuttgart Verlag der Classiker 1838
Setning og umbrot:
PRENTSMIÐJAN HÓLAR H•F
Endurprentun:
PRENTSMIÐJAN ODDI HF.
EFNISYFIRLIT
Formáli eftir Steingrím Thorsteinsson
Inngangur ... BLS. 1
Asninn, uxinn og bóndinn ... BLS. 13
Kaupmaðurinn og andinn ... — 20
Sagan af fyrsta karlinum og hindinni ... BLS. 26
Sagan af öðrum karlinum og báðum svörtu hundunum ... — 31
Sagan af þriðja karlinum með múlinn ... — 35
Sagan af fiskimanninum og andanum ... — 37
Sagan af gríska konunginum og Dúban lækni ... BLS. 43
Sagan af hinum fjörutíu vezírum og drottningunni ... — 47
Sagan af Sjabeddín fróða ... — 53
Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn ... — 64
Sagan af Saddyk hestaverði ... — 65
Sagan af barninu fundna ... — 71
Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum ... — 73
Mamúð soldán og vezír hans ... — 74
Sagan af indverska spekingnum Padmanaba og hinum unga mjöðsölumanni ... — 75
Sagan af Aksjíd soldáni ... — 84
Sagan af kóngssyninum frá Karisme og kóngsdótturinni frá Georgíu ... — 91
Soldáninn, vitringurinn og yfirklerkurinn ... — 111
Konungurinn á Tattaralandi, munkurinn og blóðtökumaðurinn ... — 114
Kóngsdóttirin og skóarinn ... — 116
Sagan af viðhöggvaranum og konu hans ... — 119
Páfagaukur konungur ... — 121
Sagan af skraddaranum og Gylendam konu hans ... — 122
Sagan af málaranum Mamúð frá Ispahan ... — 126
Sagan af vezírnum ... — 128
Framhald sögunnar af fiskimanninum og andanum ... — 132
Sagan af hinum unga konungi á svörtu eyjunum ... — 138
Sagan af daglaunamanninum, hinum fimm konum í Bagdad,
og hinum þremur konungbornu munkum ... BLS. 149
Sagan af hinum fyrsta förumunki og kóngssyni ... BLS. 170
Sagan af hinum öðrum förumunki og kóngssyni ... — 177
Sagan af öfundarmanninum og hinum öfundaða ... — 189
Sagan af hinum þriðja förumunki og kóngssyni ... — 203
Sagan af Sobeide ... — 228
Sagan af Amíne ... — 238
Saga Sindbaðs farmanns ... — 250
Fyrsta ferð Sindbaðs ... BLS. 252
Önnur ferð Sindbaðs farmanns ... — 258
Þriðja ferð Sindbaðs farmanns ... — 264
Fjórða ferð Sindbaðs farmanns ... — 272
Fimmta ferð Sindbaðs farmanns ... — 281
Sjötta ferð Sindbaðs farmanns ... — 286
Sjöunda og síðasta ferð Sindbaðs farmanns ... — 293
Hin þrjú epli ... — 299
Sagan af hinni drepnu konu og manni hennar ... BLS. 303
Sagan af Núreddín Alí og Bedreddín Hassan ... — 307
Sagan af krypplingnum litla ... — 350
Sagan, er hinn kristni kaupmaður sagði ... BLS. 356
Sagan, er fleskmangari soldánsins í Kasjgar sagði ... — 370
Sagan, er Gyðingurinn sagði ... — 381
Sagan, er skraddarinn sagði ... — 393
Saga rakarans ... — 410
Sagan af hinum elzta bróður rakarans ... — 412
Sagan af hinum öðrum bróður rakarans ... — 417
Sagan af hinum þriðja bróður rakarans ... — 423
Sagan af hinum fjórða bróður rakarans ... — 427
Sagan af hinum fimmta bróður rakarans ... — 430
Sagan af hinum sjötta bróður rakarans ... — 439
Sagan af Alí Sjak eða falskalífanum ... — 448
Kvennaslægð ... — 467
Sagan af Abúlhassan Alí Ebn Bekar og Sjemselníhar ... — 470
Sagan af Kamaralsaman kóngssyni og Badúr kóngsdóttur ... — 514
Sagan af Amgíad og Assad ... BLS. 568
Sagan af Neama og Nóam ... — 598
Niðurlag sögu Amgíads og Assads ... — 611
FORMÁLI
TIL þess að skilja Þúsund og eina nótt rétt, verður að gæta þess, hvaðan hún er upprunnin
og á hverjum tíma. Hún heyrir til hins mahómedanska skáldskapar, sem blómgvaðist
einkum hjá Aröbum og Persum (en miklu síður hjá Tyrkjum), mest frá tímum Mahómets (f. 570, † 632)
og fram á 13. öld. Er kveðskapur þessi næsta auðugur af hugmyndum og samlíkingum,
en þó gera menn meira orð á því, heldur en í raun og veru er. Því sömu samlíkingarnar
koma fyrir aftur og aftur, líkt og kenningarnar í hinum forna kveðskap vorum[* Þannig minnast persnesk og arabisk skáld varla nokkurn tíma á kvenlega fegurð, svo
að þau nefni ekki næturgala um leið, eður einhvern gimstein. Andlitinu er ætíð líkt við tungl,
eða við daginn og er þá hárinu líkt við nóttina.]. Mikið í skáldskap
Araba og Persa er skýrt og djúpt hugsað og því nær allur er hann fræðandi (didaktisk).
Af skáldaverkum Araba frá tímum Mahómets er merkastur Kóraninn, trúarbók átrúenda hans,
full af skáldlegu fjöri og andagipt. Montenebbi var mikið skáld og orkti um hernað (f. 915, † 965)
og Hairíri er eitt hið hagorðasta skáld, sem verið hefur (f. 1054, † 1121). En þessari gullöld
skáldskapar vísindanna lýkur með Þúsund og einni nótt, að því leyti sem hún var síðast
færð í letur eins og hún er nú. Mahómet hafði að sönnu í Kóraninum bannað að segja ævintýri,
því hann hélt að þau mundu spilla eingyðistrúnni; má af því sjá, að Aröbum hefur þá
þegar þótt gaman að þeim, enda hefur bann Mahómets orðið til lítils. Meðan þeir voru að
brjóta undir sig lönd með herskildi, hefur mikið af sögum þessum myndazt, og margar þeirra
sverja sig í ættina til þjóða þeirra, sem þeir áttu í stríði við.
Það er eftirtektarvert, að líkir söguflokkar hafa myndazt hjá öðrum þjóðum, þegar skáldskapur
þeirra hafði lifað sitt fegursta. Þannig varð til hjá Indverjum sögubókin Vrithakatha
og ein hjá Kínverjum, sem Kinkuhikhuen heitir, og Metamorphoses Ovidiusar hjá Rómverjum.
Hinum beztu dæmisögum, ævintýrum, ferðasögum og ástasögum var safnað í Þúsund og
eina nótt (á arabiska tungu heitir hún Elf Leila eða El Kharafa). Bera sögurnar það sjálfar með
sér, að þær eru víða upprunnar, bæði í Persíu, Kínalandi, Indlandi, Sýrlandi, Grikklandi og
Egiptalandi, og nærri því hver þjóð í Austurálfu heims hefur lagt sitt til og kemur þar fram
með sérstaklegu þjóðerni og einkennilegum siðum. Hvort að nokkur einn rithöfundur hafi
samið Þúsund og eina nótt er ómögulegt að vita. Að vísu er getið um einn persneskan mann,
sem Rasti hét, og átti hann að hafa safnað sögunum saman fyrstur manna. En þá hét bókin:
Þúsund nætur, og voru sögurnar sagðar konungi einum í Austurpersíu, Sjerasade sagði þær
ekki, heldur Dínarsade fóstra hennar. Hinn arabiski sagnaritari Messúdi († 957) nefnir Elf
Leila meðal nafnfrægra persneskra bóka, sem snúið hafi verið á arabiska tungu. Þar að auki
nefnir hann Bók vezíranna og Ferðir Sindbaðs, en það finnst nú hvorttveggja í Þúsund og
einni nótt. En líklega hafa þessar sögur, sem komnar eru til Araba á ýmsum öldum, og frá
ýmsum þjóðum, gengið mann frá manni, þangað til Elf Leila var samin. Mun það, eftir því
sem næst verður komizt, hafa verið gert á Egiptalandi á ofanverðri þrettándu öld, þegar
Mamelúkar sátu að völdum, því að á hirð þeirra var mikill munaðar og gleði bragur, líkt og
kemur fyrir í Þúsund og einni nótt. Og hefur hér farið eins og oft verdur um sögusagnir, að
þær ganga kynslóð eftir kynslóð þangað til einhver, sem gæddur er skáldskapargáfu, skapar
úr þeim heild og gefur þeim það snið, sem þær hafa ávallt síðan, meðal komandi manna.
Allt í Þúsund og einni nótt er miðað við vizkuna, eins og hið æðsta afl í heiminum, og
er sú aðferð oft viðhöfð, sem Austurálfu þjóðum er töm, að sanna einhvern málshátt eða
lífsreglu með því að segja sögu, sem getur heimfærzt til þeirra, og eru oft um leið tilfærðir
staðir úr Kóraninum. Alstaðar kemur fram hatur á harðstjórn og kúgun, á ranglæti dómaranna
og hræsni munkanna, en hinsvegar lýsir sér virðing fyrir iðjusemi, skírlífi, þar sem talað
er um ástir, og einlæg lotning fyrir dyggðinni. Hefur því Þúsund og ein nótt ætíð, meðal
allra þjóða og stétta, verið álitin ágæt og lærdómsrík bók fyrir unga og gamla. Margir kunna
að vísu að snúa huganum til hins holdlega og munaðarlega, því hún er full af lýsingum á
heimslegum fögnuði, glæsilegum höllum og inndælum aldingörðum, ljómandi auðæfum, tælandi
dansmeyjum og söngdísum, og hinu dáðlausa ástarlífi hinna austurlenzku konunga. En
frá öllu þessu er sagt með svo saklausri einfeldni, að engin óspillt tilfinning getur hneykslazt
á því. Eins kann sumum að hætta við, að taka einungis eftir hinu óstjórnlega í ímynduninni,
þar sem ræðir um risa, anda og ýmsar stórkostlegar hugsmíðar, sem eiga skylt við hið indverska
hugmyndalíf og jafnvel hina fornu trú forfeðra vorra. Særingar, álögur, galdramenn og
óumflýjanleg forlög koma þar fyrir eins og í frásögum vorum, og hvet getur lesið um hinar
stórkostlegu sjónhverfingar svo, að honum detti ekki í hug ferð Þórs til Útgarða-Loka? En
hið kynlega og töfralega ræður aldrei svo miklu, að hin andlega þýðing komi ekki fullkomlega
í ljós, og hver sem les með athygli getur ekki misst sjónar á hinni siðferðislegu stefnu,
sem er hin sanna sál og líf frásagna þessara.
Þegar sögur þessar mynduðust, var berserksgangurinn farinn af átrúendum Mahómets
og komin mannúð og menntun í stað harðfengi og grimmdar, því er þar mest lofað: mildi,
réttlæti og göfuglyndi. Í þessu eru þeir kalífinn Harún Alrasjid, og Salómon konungur andanna
teknir til fyrirmyndar. Í forlögum mannanna, svo flókin sem þau virðast vera og full
af mótsögnum, lýsir sér jafnan stjórn guðs, með réttlæti og miskunnsemi; en hið arabiska þjóðerni
kemur fram í því, hvað lífsþekkingu og skynsamlegri lífsnautn er þar haldið fram. Þúsund
og ein nótt lýsir heimslífi þeirra, eins og Kóraninn lýsir trúarlífi þeirra. Frásagan er skýr,
einföld og lifandi, og sögunum aðdáanlega niður skipað; þær eru eins og marglitar perlur,
sem dregnar eru upp á mjóan þráð. Sögunum er svo skipt, að þær hætta í hvert skipti, þar
sem forvitni lesandans er mest, svo hann hlýtur að halda áfram eins og sá, sem villist inn í
inndælan skóg og fær ekki af sér að snúa aftur, heldur gengur áfram í unaðssamri leiðslu.
Ímyndunin leikur sér þar eins og barn, jafnt að hinu ógurlegasta sem hinu inndælasta, og
sökkvir sér í djúp sinnar eigin auðlegðar, en alvara vizkunnar og reynslunnar er annars vegar
og bendir á hverfulleik og fallvelti lífsins, og sýnir ætíð, hvernig hið góða sigrast á öllu,
og hið illa á sjálfu sér.
STEINGRÍMUR THORSTEINSSON
INNGANGUR
Í NAFNI guðs hins miskunnsama, líknarfulla. Dýrð sje guði konunginum,
gjafaranum góðra hluta, skapara heimsins, sem uppreist hefur
himininn án stoða og breitt út jörðina sem ábreiðu. Friður og blessun
sé með heilsuboðanum, vorum drottni og herra Mahómet og þeim, sem
hans eru; blessun og friður æ og ævinlega, allt til efsta dags.
Að svo fyrirmæltu víkjum vér til efnisins. Ævi fyrri kynslóða er fróðleg
fyrir seinni menn og ber manninum að taka eftir forlögum annarra
og hafa sér til eftirdæmis eða viðvörunar. Skal hann hyggja að sögu hinna
fyrri þjóða og því, sem drifið hefur á daga þeirra, og vera af hjarta lítillátur.
Lofaður sé algjörleiki þess, sem svo hefur stýrt sögu fyrri tíða og
manna, að hún er orðin hinum seinni til fróðleiks. Þess konar eru líka
frásagnirnar og hin kynlegu ævintýri í Þúsund og einni nótt.
Það er segin saga — en einn guð er alvitur, alvís, almáttugur og algóður
— að einu sinni hafi í fyrndinni verið konungur yfir Indlandi og Kína;
hafði hann fjölda hermanna og varðmanna, þegna og þjóna. Þótti hann
umfram alla konunga á sinni öld, og var af ætt Sassaníða, þeirra er í
fornöld réðu yfir Persíu; hann átti tvo sonu, var annar fullorðinn en
hinn unglingur. Voru báðir kóngssynir riddaralegir, og þó einkum hinn
eldri, er Sjarjar hét og erfa átti ríki að konungi liðnum. Hann stýrði ríki
sínu svo réttvíslega, að allir þegnar hans unnu honum hugástum. Yngri
bróðirinn Sjasenan átti ekkert tilkall til nokkurs hluta af ríkinu, eftir því
sem lög voru til, og varð hann því að vera metorðalaus. Lék honum samt
engin öfund á láni bróður síns, og reyndi hann á allar lundir að vera honum
að skapi. Varð Sjarjar honum enn vinveittari fyrir þetta, því honum
hafði jafnan verið hlýtt til bróður síns, svo að hann lét af hendi við hann
konungsríkið Samarkand, og fór Sjasenan þangað óðara.
Báðir bræðurnir stýrðu nú löndum í rúm tíu ár, vel og réttvíslega, þegnum
sínum til heilla og hamingju. Þá varð hinum eldra hugur á að finna
bróður sinn. Ráðgaðist hann því jafnskjótt um þetta við stórvezír sinn,
eða æðsta ráðgjafa, og bauð honum því næst að búast til ferðar til Samarkand.
Lét hann velja til dýrustu gjafir, ágæta hesta með gullbúin reiðtygi,
alsett gimsteinum, egipzka riddara, fríðar ambáttir og kostuleg klæði og
skrifaði bróður sínum til, hversu mjög hann þráði hans fund. Innsiglaði
hann bréfið og fékk vezírnum ásamt gjöfunum og lagði ríkt á við hann að
flýta sér, bæði á þangaðferðinni og heimleiðinni. Vezírinn svaraði: „Ég
heyri og hlýði,“ bjó sig síðan til ferða og varð tilbúinn á þriðja degi. En á
fjórða degi tók hann orlof af Sjarjar og lagði með fjölmenna sveit út á
öræfi og óbyggðir. Fór hann dagfari og náttfari, og er hann kom í námunda
við aðsetursstað eins af undirkonungum Sjarjars, þá kom hann til
móts við vezírinn með dýrindis gjafir í gulli og silfri og hélt honum veizlu
í þrjá daga, svo að uppfylltist boðorð spámannsins. Á fjórða degi fylgdi
hann vezírnum eina dagleið og skildu þeir að svo búnu. Fór vezírinn leiðar
sinnar unz hann kom í grennd við Samarkand; gerði hann þá boð á undan
sér, til þess að láta Sjasenan vita um komu sína. Reið sendimaður inn í
borgina og lét vísa sér á höll konungsins, og er hann náði hans fundi,
kyssti hann jörðina frammi fyrir fótum hans og sagði að vezír bróður hans
væri á leiðinni og farinn að nálgast. Bauð þá Sjasenan óðara æðstu hirðmönnum
og stórhöfðingjum ríkisins að fara eina dagleið til móts við hann.
Þeir gerðu svo, og er þeir fundu vezírinn, heilsuðu þeir honum og gengu
með ístöðum hans alla leið til borgarinnar. Gekk vezírinn þar fyrir konung,
heilsaði honum og beiddi honum guðs hjálpræðis og kyssti jörðina
frammi fyrir fótum hans og sagði honum, að bróðir hans beiddi hann að
finna sig. Rétti hann honum þá sjálft bréfið, en konungur tók við því og
las, og svaraði því, að hann væri fús að taka boði bróður síns. „En ekki
fer ég fyrr,“ þessum orðum mælti hann til vezírsins, „en þú hefur gist mig
í þrjá daga.“ Vísaði hann honum þá á höll eina til íbúðar, gaf öllum vín
og vistir og veitti stórmannlega. Liðu svo þrír dagar, en á fjórða degi fór
konungur að búa sig til ferðar og aflaði góðra gjafa, hæfandi tign bróður
hans. En er konungur var tilbúinn, sendi hann tjöld sín, múlasna og
úlfalda á undan sér út úr borginni, fól vezír sínum ríkisstjórnina á hendur
í fjarveru sinni; lagði hann svo af stað frá aðsetursborg sinni. En um
miðnætti hugkvæmdist honum, að sér hefði legizt nokkuð eftir í höllinni,
sem hann þurfti að gera; sneri hann því aftur um hæl til hallarinnar og
flýtti sér. Fór hann þangað einn og læddist sem hljóðlegast um herbergi
sín, og er hann kom að rekkju sinni, sá hann að drottningin, sem hann
unni hugástum, og svartur þræll lágu þar saman í fasta svefni. Honum
sortnaði fyrir augum við sjón þessa. Hann stóð grafkyrr allra snöggvast
og starði á þetta, eins og hann tryði ekki sínum eigin augum. En er hann
var genginn úr skugga um það, segir hann við sjálfan sig: „Varla hef ég
snúið bakinu við höll minni, og meðan ég enn er undir múrum Samarkands,
dirfast menn að svívirða mig svona! Upp á hverju ætli þessi kvenskratti
taki, þegar ég er kominn til bróður míns? En ekki skal glæpur þinn
óhegndur vera, flagðið þitt!“ Svalaði konungur ofsabræði sinni þegar í
stað, brá sverðinu og svipti báðum úr svefni í dauða, fleygði því næst
hverju líkinu ofan á annað út um glugga ofan í gryfju eina, sem grafin
var kringum höllina, og fór síðan eins og hann var kominn.
Þegar hann var kominn til föruneytis síns, bauð hann því að taka sig
upp, en nefndi ekki á nafn við nokkurn mann, hvað í hafði skorizt. Urðu
menn skjótbúnir og varla kominn dagur, þegar lestin fór af stað með
bumbnahljóm og lúðraþyt og alls konar hljóðfæraslætti, svo að öllum
varð skemmt nema konunginum. Hann gerðist þunglyndur út af ótryggð
drottningar sinnar og rættist aldrei af honum alla ferðina. Nálægt höfuðborg
Indlands mætti hann Sjarjar soldáni; kom hann á móti honum með
alla hirð sína og tók við honum báðum höndum. Stigu bræðurnir báðir
af baki og féllust í faðma og fóru ekki á bak aftur fyrr en þeir höfðu sýnt
hvor öðrum mikil vinahót og ástúðleik; æpti ótölulegur manngrúi fagnaðarópi
meðan þeir riðu til borgarinnar. Var hún hátíðlega skreytt eftir
boði soldáns; er það siður við slík tækifæri í Austurlöndum, að kaupmenn
setja fram til sýnis hinn fegursta varning, láta mála hús sín og tjalda yfir
borgarstræti. Fylgdi soldán bróður sínum um borgina í höll eina, sem
hann hafði ætlað honum. Var hún áföst við höll sjálfs hans og aldingarður
á milli; var höllin þeim mun skrautlegri sem hún líka annars jafnaðarlega
var höfð til hátíða og hirðskemmtana og nú nýlega prýdd með mestu
viðhöfn. Skyldi Sjarjar þar við bróður sinn, svo að hann hefði tíma til að
taka laugar og skipta um klæði; en er Sjasenan var búinn að því, fór hann
til hans aftur. Settust þeir þá í legubekk, en hirðmennirnir stóðu álengdar
með lotningu; ræddu konungarnir þá margt, sem verða má, þegar tveir
bræður, sem alúðarvinir eru, hittast eftir langvinnar fjarvistir. En er tími
var kominn til kvöldverðar, borðuðu þeir saman og sátu á tali langt fram
á nótt, þangað til Sjarjar fór, svo bróðir hans gæti hvílt sig. Hafi nú
harmur Sjasenans sefazt nokkuð við samfundi og viðurtal þeirra bræðranna,
þá er hitt víst, að hann ýfðist á ný. Honum kom ekki dúr á auga þó
hann legðist fyrir, því í stað svefnsins stríddu á hann beisklegar hugleiðingar
út af ótryggð drottningarinnar. En er hann gat ekki sofnað, reis
hann upp aftur og gaf nú hryggð sinni svo algerlega tauminn, að soldáni
gat ekki dulizt um morguninn, hvað raunalegur og bleikur hann var í
yfirbragði. Fór hann að velta fyrir sér, hvað valda mundi þessari hugsýki,
og með því að hann gat ekki ásakað sjálfan sig um neitt, hvernig
hann hefði tekið Samarkands-konunginum og farið með hann, þá hélt
hann það kæmi til af fjarveru hans úr ríkjum sínum. Lét hann því daginn
eftir fá honum nokkuð af gjöfum þeim, er honum voru ætlaðar og
valdar voru af því, sem Indland á til dýrast og sjaldgæfast, svo að hann
gæti farið heim til Samarkands, þegar honum litist. En allt fyrir það leitaðist
hann við að hafa af fyrir honum með nýjum skemmtunum á degi
hverjum.
Soldán sat nú á sér nokkra stund og stillti sig um að spyrja bróður
sinn, hvað að honum gengi, þangað til hann segir einn dag: „Ég sé það,
bróðir, hvað þú ert sárhryggur og bliknar upp dag frá degi.“ — „Ég
bý yfir stórri hugraun“, svarar hann, en skýrði soldáni ekkert frá því,
sem hann hafði áskynja orðið um níðingsskap drottningar sinnar. Soldán
hafði efnt til stórkostlegrar veiðifarar og bauð bróður sínum til hennar,
en hann barði við heilsulasleik sínum og gekk soldán ekki frekara á hann
um það, heldur lét hann gera sem honum líkaði. Fór því Sjarjar einn
með hirð sinni að skemmta sér við veiðarnar, og sem hann var farinn,
gekk Sjasenan til herbergis nokkurs, sem vissi út að aldingarðinum, og
settist þar við glugga. Var hvergi huggunar von, ef ekki væri þar, því
garðurinn var inndælisfagur og kvað við af kliði ótölulegs fuglagrúa í
laufi og forsælu trjánna og runnanna. En hann leit varla við garðinum,
heldur mændi augum til himins, biðjandi huggunar í raunum sínum.
Svo sturlaður sem hann var af harminum, þá duldist honum samt ekki
eitt atvik og vakti það fljótt athygli hans; það lukust semsé skyndilega
upp leynidyr á höll bróður hans og gengu þar út tuttugu konur og
drottningin mitt á meðal þeirra; var hún auðþekkt á limaburði sínum.
Hélt hún að konungurinn frá Samarkand hefði farið á veiðarnar líka,
gekk því hvergi smeik inn undir gluggana, þar sem hann sat og var að
horfa á alltsaman óséður. Sá hann þá að fylgidrósir drottningar, til þess
að allt væri sem frjálslegast, tóku af sér andlitsblæjurnar og fóru úr hinum
síðu klæðum, sem voru utan yfir stuttklæðunum og drógust á eftir.
En hreint varð hann hissa, er hann sá tíu kolsvarta þræla í þessum söfnuði,
þar sem hann hélt að væru tómar konur. Hver þræll kaus sér lagskonu
og drottningin sat ekki heldur hjá; hún skellti saman lófunum og
kallaði: „Masúð! Masúð!“ og í sama vetfangi stökk svertingi einn ofan
úr tré, hljóp í fangið á drottningu og vafði hana að sér með flýruskap.
Eins gerði hitt fólkið hvað eftir annað og var þar með kjassi og blíðulátum
fram á miðnætti; því næst baðaði það sig í stórri laugardæld, sem
var einhver hin mesta prýði aldingarðsins, fór aftur í fötin og svo inn í
höllina um leynidyrnar. En Masúð var kominn að utan yfir garðsvegginn
og fór sama veg burt. Af því nú að konungurinn frá Samarkand
sá þetta með eigin augum, varð hann næsta hugsandi. „Það veit Allah“,
segir hann við sjálfan sig, „að það var rangt af mér, að gera svo mikið
úr óláni mínu; þetta liggur svo fyrir öllum einhvern tíma, fyrst soldáninn
hann bróðir minn kemst ekki hjá því, sem er voldugastur konungur
í heimi. En hvílíkur aumingjaháttur er það, að láta þetta ganga svo
nærri sér? Ég skal ekki gera mér lífið svo þungbært fyrir þetta slys, sem
er svo almennt.“ Hann setti það ekki heldur stundu lengur fyrir sig, og
lét nú bera á borð fyrir sig, því ekki vildi hann eta kvöldverð meðan
að fram fór leikurinn fyrir utan gluggann hjá honum. Borðaði hann nú
með betri lyst en nokkurn tíma fyrr, síðan hann fór frá Samarkand, og
hlýddi jafnvel með ánægju á sönginn og hljóðfærasláttinn yfir borðum.
Var hann í bezta skapi næstu dagana eftir þetta, og er hann heyrði, að
soldán væri heim kominn, gekk hann á móti honum með glöðu yfirbragði
og heilsaði honum.
Sjarjar tók ekki í fyrstu eftir þessum umskiptum og ætlaði að eins
að kvarta yfir því við bróður sinn í allri vinsemd, að hann hefði ekki
farið með sér á veiðarnar, lét hann því ekki ná að tala, en fór að segja
honum, hvílíkan fjölda hann hefði drepið, bæði af hjörtum og öðrum
dýrum og hvað vel hann hefði skemmt sér. Sjasenan hlýddi á með athygli
og tók svo loksins sjálfur til máls; voru honum nú ekki skapþyngslin
að meini og sagði hann margt kýmilegt og skrítið, því hann var,
vel fyrirkallaður. Hafði soldán búizt við að hitta hann í sama skapi og
þegar þeir kvöddust og varð sárfeginn að sjá hann svo glaðan. „Bróðir
minn!“ segir hann, „þegar við skildum, varstu bleikur í andliti, en nú
hefurðu fengið fullkominn heilbrigðislit. Guði sé lof fyrir þessa breytingu,
sem orðið hefur í fjarveru minni. En einnar bænar verð ég að
biðja þig og ég særi þig að veita mér hana.“ „Hvers ætti ég að synja
þér“, segir konungurinn frá Samarkand, „þú átt yfir Sjasenan að segja;
seg þú til, mér er ótt um að heyra bæn þína.“ „Alltaf meðan þú hefur
dvalið hér við hirðina“, segir Sjarjar, „hefurðu verið þjáður af megnu
þunglyndi og leitaðist ég við að hafa það af þér með allskonar skemmtunum.
Ég gerði mér í grun, að þér félli þungt að dvelja fjarvistum úr
landi þínu og jafnframt mundu ástir valda nokkru og það væri aðalorsök
trega þíns, að þú saknaðir drottningarinnar í Samarkand, því þú munt
hafa kosið þér hana afbragðs fríða. Veit ég að vísu ekki, hvort ég á kollgátuna,
en því hef ég ekki viljað ganga á þig, að ég var hræddur um
að þér kynni að þykja fyrir. En nú sé ég, nýkominn heim frá veiðunum,
að þú leikur við hvern þinn fingur og hef ég þó ekkert stuðlað
til þess. Ég ætla því að biðja þig að segja mér, hvers vegna þú varst svo
hryggur og ert það nú ekki framar.“ Konungurinn frá Samarkand þagði
nokkra stund hugsandi, eins og hann vissi ekki, hverju svara skyldi;
loksins tók hann þannig til orða: „Þú ert soldán minn og herra, en
hlífðu mér við að gera grein fyrir þessu.“ „Nei, bróðir minn!“ svarar
soldán, „þú verður að gera það nú þegar, það er ósk mín, þú mátt ekki
neita mér um hana.“ „Jæja þá,“ segir Sjasenan, sem gat nú ekki lengur
staðið af sér beiðni bróður síns; „verði þá þinn vilji!“ Því næst sagði
hann honum frá ótryggð drottningarinnar í Samarkand og lauk svo sögunni:
„Þetta olli þunglyndi mínu; var mér láandi þó ég bugaðist af
því?“ „Skelfileg saga er þetta, bróðir minn!“ kallaði soldán upp og var
auðheyrt að hann samhryggðist af hjarta. „Ég lofa þig fyrir refsinguna
á þeim, sem glæpinn drýgðu og misgerðu svo stórlega við þig. Það ætti
enginn að lá þér; það var aldrei nema maklegt og hefði ég líklega haft
minni stillingu í þínum sporum; ég hefði ekki látið mér nægja líf einnar
konu, og hefði ég ef til vill drepið þúsund til hefndar. Nú þykir mér
engin furða þó illa lægi á þér, fyrst tildrögin voru svona sárgrætileg.
Drottinn minn, hvílík forlög! ég trúi því ekki, að neinum hafi viljað slíkt
ólán til, nema þér. En lofaður veri guð, að hann hefur sent þér huggun;
mun hún víst af einhverju góðu getin og ætla ég að biðja þig að trúa mér
fyrir því líka.“ Var Sjasenan tregur til þess, því bróður hans var málið
skylt, en varð þó að láta eftir þrábeiðni hans. „Ég hlýði, fyrst það er eindreginn
vilji þinn,“ sagði hann, „en hræddur er ég um að auðsveipni mín
geri þér enn meiri skapraun en mín var. En þú verður að eiga það upp á
sjálfan þig, fyrst þú neyðir mig til að koma því upp, sem ég ella mundi
leynt hafa með eilífri þagmælsku.“ „Þú gerir ekki annað en æsa forvitni
mína,“ greip Sjarjar fram í, „segðu mér sem fljótast þetta launungarmál,
hvernig svo sem það er.“ Konungurinn frá Samarkand gat nú ekki færzt
lengur undan og sagði honum allt út í hörgul, sem hann hafði séð til svertingjanna
dulklæddu og drottningarinnar og hans Masúðs í aldingarðinum
og lauk hann sögunni með þessum orðum: „Þegar ég hafði verið sjónarvottur
að þessari svívirðingu, sannfærðist ég um það, að allar konur hafa
þessa tilhneigingu af náttúrunni og geta ekki staðið á móti henni. Fannst
mér þá heimska að láta hugarró sína vera komna undir trúleika þeirra.
Hugsaði ég mál þetta enn betur og varð sú niðurstaðan, að ég sá ekki
annað vænna en að huggast; það var reyndar ekki tekið út með sældinni,
en samt heppnaðist mér það og vildi ég að þú gerðir að mínu dæmi.“
Ekki leizt soldáni á heilræði þetta, heldur varð hann hamslaus og
mælti: „Drottningin á Indlandi gat þá haft svo fúlan níðingsskap í
frammi; nei, bróðir minn! ég trúi því ekki nema ég sjái það með mínum
eigin augum; þér hefur missýnzt og þetta er svo mikið vandamál, að ég
verð að ganga úr öllum skugga um það.“ „Hægast er það,“ segir Sjasenan,
þarft ekki annað en að búast til nýrrar veiðiferðar og þegar við erum
komnir út úr borginni með hirð okkar og fylgdarliði, látum við fyrirberast
í tjöldum okkar, förum svo þegar nátta tekur einsamlir til herbergja
minna í höllinni, og skal ég ábyrgjast, að þú næsta dag sér það,
sem ég sá.“ Soldán féllst á vélræðið og bauð mönnum að búast til nýrrar
veiðifarar; var á tilteknum tíma búið að tjalda á fyrirskipuðum tjaldstað.
Daginn eftir fóru báðir konungarnir þangað út úr borginni með föruneyti
sínu og voru þar um nóttina. Kallaði Sjarjar á stórvezírinn og bauð
honum að vera í sinn stað, meðan hann væri í burtu, og sleppa engum
manni úr tjöldunum, hvað sem fyrir væri borið, en ekkert lét hann uppi
við hann um áform sitt. Stigu síðan báðir konungarnir á bak og riðu innan
um tjöldin í dularbúningi heim í borgina. Fóru þeir síðan til hallarinnar,
sem Sjasenan hafði til íbúðar, og lögðust þar til svefns; um morguninn
lá vel á þeim og settust þeir við gluggann, þar sem Sjasenan hafði séð
aðfarirnar í aldingarðinum. Sátu þeir þar góða stund í morgunkælunni
og ræddust við; varð þeim oft litið á meðan til leynidyranna á höllinni.
Loksins lukust þær upp, og gekk út drottningin með ambáttum sínum og
tíu svertingjum dulklæddum, rétt eins og í fyrra skiptið. Hún kallaði á
Masúð og er óþarfi að orðlengja það frekara, að soldán sá meira en nóg
til þess, að hann sannfærðist um svívirðingu sína og ólán. „Guð minn!“
kallaði hann upp, „hvílíkur níðingsskapur, hvílík andstyggð. Að drottning
slíks konungs, sem ég er, skuli geta haft sig til slíkrar endemis óhæfu!
Hver konungur getur talið sig fullsælan, þegar annað eins hefur drifið
á daga hans? Bróðir minn, segjum skilið við veröldina, því öll æra og trú
er þaðan horfin. Smjaðri hún á brjóst, þá svíkur hún á bak. Fyrirlátum
ríki og konungdóm, köstum okkur á bak öllum hégóma, sem við lifum
í, og förum í önnur lönd til þess að leyna sjálfum okkur og óláni okkar.“
Sjasenan geðjaðist reyndar ekki að áformi þessu, en þorði ekki í móti
að mæla; svo var bróðir hans óður. „Ég veit engan vilja annan en þinn,
bróðir!“ anzaði hann soldáninum, „og ég er reiðubúinn að fylgja þér í
öllu. En lofaðu mér því að snúa heim á leið aftur, þegar við finnum einn,
sem ólánssamari er en við.“ „Því lofa ég,“ segir soldán, „ég efast um að
það heppnist.“ „Þá er ég annarrar trúar,“ segir konungurinn frá Samarkand,
„og þurfum við, ef til vill, ekki að fara svo langt.“ Fóru þeir nú
úr höllinni með leynd og voru að tala um þetta og fóru aðra leið en þeir
voru komnir. Héldu þeir áfram meðan bjart var, og voru fyrstu nóttina
undir trjám nokkrum. Stóðu þeir upp í aftureldingu og fóru eftir sama
vegi, þangað til þeir komu á fagurt engi fram með sjávarströnd; stóðu
þar stöku tré mikil og þéttlaufguð. Settust þeir niður undir einu þeirra
og voru að tala saman um ótryggð drottninga sinna. Höfðu þeir þar
skamma stund setið, þegar þeir heyrðu af hafi, ekki allfjarri, óttalega
skruðninga og hræðilegt öskur, og urðu þeir við það mjög felmtsfullir.
Sjórinn klofnaði í sundur og reis þar upp ógurlega stór strókur kolsvartur,
og svo hár, að hann tók til himins. Við sjón þessa brá þeim enn meira og
spruttu þeir þá upp og klifruðust upp í trétoppinn; leizt þeim þar vera
bezt fylgsni. Varla voru þeir komnir upp þangað, þegar þeir sáu, að strókurinn
færðist inn að landi eftir sjónum; gátu þeir ennþá ekki skynjað,
hvers kyns var, en urðu þess brátt vísari, því þar var kominn einn af öndum
þeim, sem fullir eru af ergi og skelmisskap, og eru svarnir óvinir
mannanna. Var hann í líki óskaplegs risa, svartur og afskræmislegur og
bar á höfðinu stóra glerkistu læsta með fjórum stállásum. Fór hann með
hana upp á engið og lagði hana niður við tréð, sem báðir konungarnir
höfðu falið sig í; þóttust þeir nú sjá sér opinn dauðann vísan. Andinn
settist hjá glerkistunni og er hann hafði lokið henni upp með fjórum
lyklum, sem héngu við belti hans, þá kom upp úr henni hlaðbúin kona
tignarleg í vexti og forkunnar fríð. Setti óvætturinn hana við hlið sér
og tók til orða: „Ó, þú hin algjörvasta meðal allra kvenna, sem aðdáanlegar
þykja fyrir fríðleiks sakir, yndislega vera, þig strauk ég með á heiðursdegi
þínum og hef síðan trúlega elskað; viltu lofa mér að sofa hjá þér
ofurlitla stund?“
Að því mættu drap andinn sínum tröllslega hausi niður í kjöltu konunnar
og teygði úr sér sem hann var langur til, svo að fæturnir tóku ofan
í sjávarmál, og rétt samstundis tók hann að hrjóta svo gríðarlega að allt
ætlaði ofan að keyra. Þá vildi svo til að konan fagra leit upp fyrir sig, og
óðara en hún varð vör við báða bræðurna uppi í trénu, gerði hún þeim
bendingu, að þeir mættu koma ofan, en skyldu fara sem hljóðlegast. Datt
þeim heldur en ekki ketill í eld, er þeir sáu sig fundna; bentu því með
bænarsvip, að þeir mættu vera kyrrir í fylgsninu. En konan lagði höfuðið
á andanum varlega niður á jörðina, stóð upp og mælti í hljóði, en þó
reiðilega: „Komið þið ofan til mín; ekki er annað vænna.“ Þeir gerðu
henni hræðslu sína skiljanlega með bendingum, en það hjálpaði ekki hót.
„Komið þið,“ sagði hún enn á ný, „og ef þið ekki gegnið þegar í stað, þá
skal ég vekja hann sjálf og láta hann drepa ykkur.“ Þegar bræðurnir
heyrðu þessi ógnunaryrði, þorðu þeir ekki annað en hlýða og renndu sér
ofan sem gætilegast, svo andinn skyldi ekki vakna. En er þeir voru komnir
ofan, leiddi konan þá við hönd sér á einn afvikinn stað undir trjánum;
þar bauð hún þeim ástaratlot sín með blíðu, en er þeir vildu ekki til
leiðast, hótaði hún þeim á ný; sáu þeir ekki annað sýnna en að gefa sig.
Þegar góð stund var liðin og hún ætlaði til andans aftur, heimtaði hún
innsiglishringana af konungunum, sem þeir höfðu á hendinni, og er hún
hafði tekið við þeim, tók hún upp úr skríni sínu snúru eina alsetta margvíslegum
hringum og sýndi þeim og spurði, hvort þeir vissu, hvað hringarnir
ættu að þýða. „Nei,“ sögðu bræðurnir, „þú munt bezt geta leyst úr
því sjálf.“ Þá mælti hún: „Allir þessir hringar eru af karlmönnum, sem
hafa hjálpað mér til að leika á gætni og varhyggð þessa viðbjóðslega
anda. Ég geymi hringana til menja og hérna eru þeir níutíu og átta, og
bað ég um hringana ykkar til að fylla hundraðið. Svona hefur mér tekizt
að hafa samfarir við hundrað karlmenn og andinn ekki fengið aðgert.
Má hann upp á það að gera, læsa mig niður í glerkistuna eins og honum
líkar og hylja mig á mararbotni; aldrei hætti ég að fara í kringum hann.
Af þessu getið þið séð fram á, að enginn kvongaður maður eða elskhugi
þarf að hugsa til að tálma því, sem kvenmaður hefur tekið í sig. Karlmönnunum
væri nær að gefa kvenfólkinu lausari tauminn; þá kynni það
heldur að lagast.“ Að svo mæltu smeygði konan hringunum upp á snúruna,
settist í sitt fyrra sæti og hóf upp í kjöltu sína höfuðið á andanum,
sem hraut í fasta svefni, en konungunum benti hún að hafa sig á burt.
Þeir fóru nú sama veg og þeir voru komnir, og er andinn og fallega
konan voru komin í hvarf, mælti Sjarjar: „Nú, nú, bróðir! hvernig lízt
þér á ævintýrið að tarna? Er hún ekki einstakt tryggðablóð, konan andans
þess arna? Geturðu borið á móti því, að ekkert kemst til jafns við kvennavélar?“
„Það er nú mála sannast, bróðir minn!“ anzaði konungurinn frá
Samarkand. „Þú verður líka að vera mér samdóma um það,“ mælti soldán
ennfremur, „að andinn er enn þá verr farinn og brjóstumkennanlegri en
við. Höfum við nú fundið það, sem við leituðum að; látum okkur því
halda heim í lönd okkar og þessa reynslu ekki aftra okkur frá nýju kvonfangi.
Ég veit fyrir mig, hvernig ég skal fara að koma í veg fyrir tryggðarof
við mig. Skal ég ekki eyða að því fleirum orðum, en þú munt spyrja
það einhvern tíma og skal ég ábyrgjast, að þú gerir að mínu dæmi.“
Héldu þeir nú báðir heimleiðis og komu aftur á tjaldstaðinn að áliðinni
nótt hins þriðja dags, síðan þeir fóru. En er koma soldáns spurðist, gengu
hirðmennirnir fyrir tjald hans með morgunsárinu. Hann bauð þeim inn
að ganga, fagnaði þeim venju betur og sæmdi alla gjöfum. En er hann
hafði kunngjört, að hann ætlaði ekki lengra að fara, bauð hann mönnum
að stíga á bak, og hvarf í skyndi til hallar sinnar. Þegar þangað var komið,
flýtti hann sér til herbergis drottningarinnar, lét setja hana í fjötra og
binda fyrir augu henni, fékk hana síðan vezírnum og skipaði honum að
láta kyrkja hana. Hlýddi vezírinn því og spurði ekki að, hvað hún hefði
misgert; en soldán var svo óður, að hann lét sér ekki þetta nægja, heldur
hjó hann sjálfur höfuðið af öllum hirðmeyjum drottningarinnar.
Af því hann nú þóttist sannfærður um, að engin kona væri skírlíf til,
þá ásetti hann sér eftir þessa grimmilegu refsingu að kvongast þaðan í frá
einungis til einnar nætur og koma í veg fyrir allan ótrúleik með því að
láta kyrkja hverja konu morguninn eftir brúðkaupið. Hann sór þess dýran
eið, að láta lög þessi ganga í gildi þegar kóngurinn frá Samarkand væri
farinn; var þess ekki langt að bíða, að hann fór heim sæmdur hinum
dýrustu gjöfum. En er hann var farinn, bauð Sjarjar stórvezírnum að
færa sér dóttur einhvers herforingja sinna, og skyldi hún verða kona hans.
Vezírinn hlýddi. Morguninn eftir skilaði soldán honum henni aftur og
skipaði honum að lífláta hana og leita upp aðra konu handa sér til næstu
nætur.
[1011.png: Sjerade og Dinarsade]
Hvað mikið sem vezírinn hryllti við að framkvæma slíkt boð, var
honum samt nauðugur einn kostur að hlýða, því hann var soldáninum
herra sínum um blinda hlýðni skyldugur. Færði hann honum því dóttur
eins af hinum óæðri embættismönnum og hlaut hún sömuleiðis að deyja
morguninn eftir. Því næst kom dóttir eins borgara, og hver dagurinn
sá eina nýgifta og eina líflátna. Þegar þessi guðlausa grimmd spurðist um
höfuðborgina, urðu allir dauðhræddir og heyrðust ekki nema hljóð og
harmalæti. Ýmist harmaði einhver faðirinn missi dóttur sinnar, eða ástrík
móðir stundi af kvíða, að sama lægi fyrir dóttur sinni. Og þar kom, að
allir þegnar soldáns bölvuðu honum, sem áður hafði hlotið tóma sæmd
og sigur.
Nú átti stórvezírinn, sem var nauðugt verkfæri í hendi óréttvísinnar,
tvær dætur; hét hin eldri Sjerasade, en hin yngri Dínarsade. Hafði hin
yngri að vísu marga góða kosti til að bera, en hin var gædd þeirri hugprýði,
sem fágæt er með konum, frábærum vitsmunum og aðdáanlegri
dómgreind. Hafði hún lesið margs konar bækur, fullar af sögum fyrri
konunga og kynslóða og dregið að sér eitthvað þúsund bindi af þess
kyns ritum og kvæðabókum. Hún orti betri vísur en þjóðfrægustu skáld
á hennar tíma, hafði hún og stundað heimspeki og lækningar og heppnazt
vel. Auk þess var hún stálminnug og gleymdi engu, sem hún hafði
lesið einu sinni; en óbifandi kvendyggð var eins og kóróna allra hennar
afbragðs kosta.
Vezírinn unni þessari ágætu dóttur sinni hugástum. Það var einhverju
sinni að hún sat á tali við hann og sagði: „Hvað kemur til þess, faðir
minn, að þú ert orðinn svo umbreyttur, svo gugginn og sorgbitinn? Svo
segir þó eitt af skáldunum okkar:
„Hugga þann sem hryggðin sker, hún ei stendur lengi; kviðinn hverfull
allt eins er, og ánægjunnar gengi.“
Þá sagði vezírinn henni upp alla söguna af viðskiptum þeirra soldáns,
en hún mælti: „Faðir minn, ég ætla í allri auðmýkt að biðja þig, að veita
mér mildilegast eina bæn.“ „Ég skal ekki synja þér hennar,“ segir vezírinn,
en rétt og skynsamleg verður hún sjálfsagt að vera.“ „Hana þá, faðir
minn“, segir hún, „gefðu mig soldáninum til eiginkonu; verð ég þá eitt
af tvennu líflátin og frelsa svo að minnsta kosti dóttur einhvers rétttrúaðs
manns frá dauða, eða mér verður lífs auðið og tekst að leysa allar aðrar
undan grimmd hans.“ Vezírinn greip fram í óttasleginn: „Guð hjálpi
mér, þú ert gengin frá vitinu barn! getur þú beðið mig að stofna þér
í slíkan háska, þegar þú veizt, að soldáninn hefur svarið, að hafa enga
konu nóttu lengur, heldur láta drepa þær að morgni í hvert skipti? Hefurðu
gleymt því, hvað leitt getur af svo fjarskalegu flasi?“ „Faðir minn!“
anzaði hin veglynda mær, ekki er ég í neinum vafa um háskann, en hitt
er það, að ég hræðist hann ekki. Deyi ég, þá dey ég við sæmd, og hafi ég
mitt fram, þá geri ég landi voru mikinn velgjörning.“ „Nei, nei,“ mælti
vezírinn, „hvernig sem þú leitast við að fá mig til að fallast á það, að þú
hleypir þér út í slíkan voða, þá er það ekki til neins, ég samþykki það
aldrei. Ef soldán skipaði mér að reka hnífinn í hjarta þitt, yrði ég að hlýða.
Hvílíkt skelfilegt verk er annað eins fyrir þann, sem er faðir! Þó þú sjálf
ekki hræðist dauða þinn, þá hlífstu samt við að gera mér þá dauðans skapraun
að flekka hendur mínar á blóði þínu.“ Allt fyrir þetta ítrekaði Sjerasade
bæn sína og mælti þá vezírinn: „Þú egnir mig til reiði með þrái þínu.
Því viltu hrapa viljandi í ógæfuna? Sá, sem ekki sér fyrir endann á háskalegri
fyrirtekt, hann má vara sig, að hún verði honum ekki um megn.
Ég er hræddur um, að það fari fyrir þér eins og asnanum, sem átti góða
daga, en þoldi það ekki.“ „Og hvaða slys henti asnann?“ spurði Sjerasade.
„Nú skaltu heyra“, mælti vezírinn og sagði eftirfylgjandi dæmisögu:
Asninn, uxinn og bóndinn
„Einusinni var ríkur kaupmaður, sem átti fjölda jarða og hafði þar
ógrynni af alls konar kvikfénaði. Flutti hann á eina af jörðum þessum
með konu og börnum og ætlaði að standa þar fyrir búsýslu sjálfur. Hann
skildi dýramál, en sá meinbugur var á gáfu þessari, að hann mátti engan
láta vita af því, og lá líf hans við. Mátti hann því ekki segja frá neinu,
sem hann komst að á þenna hátt. Hann hafði á heimili sínu einn uxa
og einn asna og stóðu þeir saman. Það var einn dag að hann var staddur
nærri þeim og skemmti sér við að horfa á leik barna sinna; heyrir hann
þá að uxinn segir við stallbróður sinn: „Mikil lánsskepna ert þú, að eiga
svona náðugt og hafa svo lítið að gera. Einn maður er útgefinn við að
stunda þig; hann þvær þig, færir þér sáldaða hafra og tærasta uppsprettuvatn.
Þú reynir það mest á þig, að bera hann húsbónda okkar, þegar hann
þarf að bregða sér bæjarleið; annars þyrftirðu aldrei að gera neitt. En ég
er látinn erja og sveitast, strita og streitast, og ég á eins illt og þú átt
gott. Óðara en miðnætti kemur, er mér beitt fyrir plóginn; verð ég að
draga hann liðlangan daginn og rista jarðveginn, og er það þvílíkt strit,
að ég verð stundum alveg uppgefinn og magnþrota. Þar á ofan er bóndinn
jafnt og stöðugt á eftir mér, lýr og lemur mig. Svírinn á mér er drepmeiddur
og skinnlaus af eilífum plógdrætti. Þegar ég nú er búinn að
þræla frá morgni til kvölds, þá snara þeir í mig skráþurru baunarusli og
hafa ekki einu sinni svo mikið við, að vinza úr því sandinn, eða þeir
gefa mér eitthvert fóður, sem ekki er betra. Þegar ég hef fengið fylli
mína af þessu hrakfóðri, þá verð ég að liggja í mykjunni á næturnar, og
er það yfirtak hörmunganna. Nú sérðu sjálfur hvort ég hef ekki ástæðu
til að öfunda þig.“
Asninn hlýddi á með spekt, meðan uxinn lét dæluna ganga, en er hann
var þagnaður, tók hann svo til orða: „Það er hvorttveggja að þú ert
heimskur kallaður, enda kafnarðu ekki undir nafni. Þú ert allt of einfaldur,
lætur þá fara með þig eins og þeim líkar og getur aldrei tekið
neitt hyggilegt til bragðs. Hvað hefur þú gott af svívirðingunni, sem þú
þolir? Þú brýtur þig í mola fyrir mennina, þeim til hægðarleika, gagns
og skemmtunar og þeir kunna þér engar þakkir fyrir. Þeir færu ekki
svona með þig, ef þú hefðir áræði að því skapi, sem þú hefur burði. Því
verðu þeim ekki að binda þig við jötuna? Því stangarðu ekki með hornunum?
Því stapparðu ekki með klaufunum og sýnir af þér reiði? Því
hræðirðu þá ekki með ógurlegu öskri? Náttúran hefur útbúið þig með
öllum tækjum til að afla þér virðingar og þú notar þér það ekki. Gefi
þeir þér vondar baunir og slæmt hey, þá fýldu grön yfir því. Ef þú
fer að mínum ráðum, muntu sjá að vel bregður við, og muntu þakka
mér fyrir heilræðin.“ Uxinn tók ráðum asnans feginshendi og kvað
hann hafa gert sér mikinn greiða. „Ég ætla“, segir hann, „að gera allt,
sem þú hefur sagt, og skaltu nú sjá, hvernig mér tekst.“ Því næst
þögnuðu þeir báðir, en kaupmaðurinn hafði heyrt hver orð, sem þeir
töluðu saman.
Daginn eftir kom bóndinn, leiddi uxann út úr húsi og beitti honum
fyrir plóginn eins og vant var. Uxinn hafði ekki gleymt ráði asnans
og var þenna dag fjarska óþekkur. En um kvöldið, þegar bóndinn kom
með hann að jötunni og ætlaði að binda hann eftir vanda, þá otaði hann
hornunum, reis upp á afturfæturna, gekk aftur á bak og gerði sig líklegan
til að reka bóndann undir, í fám orðum, hann fór í öllu að ráðum
asnans. Þegar bóndinn kom morguninn eftir og ætlaði að beita honum
fyrir plóginn, lágu baunirnar ósnertar í jötunni og hálmurinn, sem hann
hafði hrist þar niður kvöldið áður, en uxinn lá á gólfinu og blés mæðilega,
svo bóndinn hugði hann fárveikan. Hann kenndi í brjósti um uxann
og þóttist sjá, að ekki mundi til neins að þröngva honum til vinnu,
fór því til kaupmannsins og sagði honum, hvernig ástatt var. Skildi kaupmaðurinn,
að hér voru komin fram ráð asnans og vildi því refsa honum
sem maklegt var; skipaði hann bóndanum að hafa nú asnann í stað uxans
og gefa honum ekkert. Bóndinn gerði svo og varð asninn að draga
plóginn daglangt; féll honum það því þyngra sem hann var slíku óvanur,
og varð hann svo lúinn og lémagna, að hann varla gat staðið á löppunum;
þegar heim kom. En uxinn átti beztu daga á meðan; hann hafði lokið
úr jötunni og hvílt sig allan daginn. Var hann ákaflega glaður yfir því,
að hann skildi hafa farið að ráðum asnans, margblessaði hann fyrir lán
það, er hann hafði hjálpað honum til að öðlast og þakkaði honum fyrir,
er hann kom heim. Var þá asnanum svo gramt í geði út af meðferðinni
á sér, að hann anzaði engu. „Þetta ólán á ég upp á sjálfan mig,“ hugsaði
hann með sér, „ég átti svo gott og allt gekk mér að óskum. Ég hef sjálfur
kornið mér í þetta hörmulega ástand og mér er dauðinn vís, ef ég ekki
tek eitthvað til bragðs, sem dugar.“ Var hann þá svo yfirkominn af þreytu,
að hann hné hálfdauður niður fyrir framan jötuna.
„Þú fer að eins og asninn sá arna“, segir vezírinn við Sjerasade, „þú
stofnar þér í glötunina af ofviti þínu. Hlýddu mér og vertu kyrr. Sækstu
ekki eftir dauða þínum yfir forlög fram.“
„Faðir minn!“ mælti Sjerasade, „dæmisagan, sem þú sagðir mér, aftrar
alls ekki ásetningi mínum. Ég læt aldrei af að særa þig, þangað til þú
lætur eftir mér, að fara með mig til soldánsins, að ég verði eiginkona
hans.“ Þegar vezírinn sá að hún stóð svo fast á bæn sinni, mælti hann:
„Fyrst þú þverskallast svona með þrái þínu og einþykkni, þá neyðist ég
til að fara með þig eins og kaupmaðurinn, sem ég var að tala um, fór
eftir á með konuna sína. Því þegar hann komst að því, að asninn var
aumlega útleikinn, var honum forvitni á að heyra, hvernig orð færu milli
hans og uxans. Gekk hann því eftir kvöldverð út með konu sinni í tunglskininu
og settist niður rétt hjá þeim. Þegar hann kom, segir asninn við
uxann: „Heyrðu, bróðir! hvað ætlarðu að gera í fyrra málið, þegar bóndinn
kemur með gjöfina?“ Uxinn svaraði: „Þá ætla ég að fara öldungis
eins að og þú kenndir mér ráð til. Ég ætla að ganga aftur á bak, bjóða
honum hornin eins og í gær, gera mér upp veiki og láta sem ég sé í andarslitrunum.“
„Slepptu því,“ segir asninn, „það færi alveg með þig. Þegar
ég kom heim í kvöld, heyrði ég kaupmanninn, húsbónda okkar, segja
nokkuð, sem gerði mig dauðhræddan um þig.“ „Hvað heyrðirðu?“ spurði
uxinn áfjáður, „leyndu mig engu, asni minn góður!“ „Heyrðu þá“, segir
asninn, „húsbóndi okkar sagði við bóndann: „Fyrst uxinn étur ekki og
kemst ekki úr sporunum, þá skal slátra honum á morgun. Kjötið af honum
gefum við aumingjum í guðs þakka skyni, en á húðinni þurfum við
sjálfir að halda og skaltu fara með hana til sútarans. Gleymdu nú ekki
að segja slátraranum að koma.“ Mér er sjálfum annt um að þú lifir, og
við erum svo góðir vinir, að það væri ekki meira en skylt, að ég gerði
þig varan við og gæfi þér nýtt ráð. Þegar þeir færa þér baunirnar og muslið,
skaltu spretta upp og rífa það í þig með græðgi; þá ræður húsbóndinn
af því, að þér sé batnað og mun þá vafalaust taka dauðadóminn aftur;
gerirðu ekki þetta, þá ertu frá.“ Asninn hafði allt sitt fram með fortölum
þessum; uxinn varð dauðhræddur og baulaði af angist. En kaupmaður,
sem hlýtt hafði með athygli á allt samtalið, rak upp skellihlátur,
svo konan hans vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Hún spurði, hvernig
á hlátrinum stæði, til þess að hún gæti tekið undir með manni sínum,
en kaupmaður lét hana skilja, að hún yrði að láta það vera sér nóg, að
heyra hann hlæja. „Nei, nei,“ sagði hún, „ég vil vita, að hverju þú hlær.“
„Ég má ekki láta það eftir þér“, sagði kaupmaður, „en svo mikið skal ég
þó segja þér, að ég hlæ að því, sem asninn okkar sagði við uxann; hitt
er launungarmál, sem ég má ekki gera þér uppskátt.“ „Og því ætli þú
megir það ekki?“ segir konan. „Því líf mitt liggur við, ef ég geri það“,
anzar kaupmaðurinn. „Þú ert að gera gabb að mér,“ mælti konan; „það
getur engin hæfa verið í því, sem þú ert að telja mér trú um. Ef þú ekki
lætur uppi þegar í stað, að hverju þú hlóst, og skorast undan að segja
mér, hvað asninn og uxinn töluðu saman, þá viti það guð almáttugur á
himnum, að ég segi allri sambúð slitið við þig.“ Að svo mæltu fór hún
inn, hnipraði sig saman út í horni og var hágrátandi alla nóttina. Svaf
nú maðurinn einn, en er hann sá um morguninn að hún var óhuggandi,
sagði hann: „Þú gerir illa við mig, að hryggjast svona; það er ekki þess
vert og það er eins lítilsvarðandi fyrir þig að vita, eins og það er mikilsvarðandi
fyrir mig að leyna því. Ég bið þig fyrir hvern mun: gleymdu
því.“ En konan svaraði: „Því fer svo fjarri, að ég geti gleymt því, að ég
skal aldrei hætta að gráta fyrr en þú seður forvitni mína.“ En kaupmaðurinn
sór og sárt við lagði: „Ég segi þér það satt: líf mitt liggur við,
ef ég læt undan áfergjuskapnum í þér.“ „Hljótist af því hvað sem guð
vill“, sagði hún, „ég fer aldrei ofan af því.“ „Ég sé það,“ mælti kaupmaður,
„að engin leið er að því að koma fyrir þig vitinu; ég sé það fyrir,
að þú vilt drepa þig með þrákelkni þinni; vil ég því kalla á börn þín, að
þau hafi þá hugfró að sjá þig einu sinni áður en þú deyr.“ Kallaði hann
þá á börnin og frændur og foreldra konu sinnar. En er allir voru komnir
og hann hafði sagt þeim frá öllum málavextum, lögðu þeir sig til að tala
sem snjallast, svo konunni skildist, að hún gerði rangt, að láta ekki af einþykkni
sinni. En hún daufheyrðist við öllu og kvaðst heldur vilja deyja
en láta undan manni sínum í þessu. Stoðaði það ekkert að foreldrar
hennar töldu um fyrir henni og sögðu að þetta stæði henni á engu, sem
hún vildi vita; hún vildi hvorki heyra það, né hlýða. Þegar börnin
sáu að hún þverskallaðist við öllum skynsamlegum fortölum, tóku þau
að gráta beisklega. Og sjálfur kaupmaðurinn var eins og milli heims og
helju. Hann settist einsamall fram í húsdyrnar og fór að velta fyrir sér,
hvort hann ætti ekki að fórna sínu eigin lífi til að frelsa konu sína. Og
sannarlega ætlaði hann að senda eftir „kadi“ (dómara) og vottum til að
semja erfðaskrá sína, segja síðan konu sinni leyndarmálið og deyja, því
hann unni henni harðla mjög.
Nú átti kaupmaður þessi líka fimmtíu hænur, einn hana og einn
árvakran hund. Meðan hann sat þarna í dyrunum hugsandi, sá hann
hundinn hlaupa til hanans, sem setzt hafði upp á eina hænuna, og heyrði
að hann sagði við hann: „Hani minn! ég held þú sért feigur: skammastu
þín ekki að vera að gamna þér í dag?“ Haninn réttist allur upp, snerist
að hundinum og sagði: „Því skyldi mér ekki vera það eins heimilt í dag
og endranær?“ „Þá skaltu vita,“ segir hundurinn, „ef þú veizt það ekki
áður, að húsbóndi okkar er í mestu vandræðum. Konan hans heimtar,
að hann segi sér eitt leyndarmál; geri hann það, verður það hans bani.
Því er, satt að segja, helzt kvíðandi, að hann hafi ekki nógan stöðugleika
móti þrái hennar, því hann elskar hana og viknar af tárunum, sem hún
úthellir án afláts. Það fer með hann á endanum, og við erum öll kvíðafull
á heimilinu; þú einn ósæmir okkar sorg og ert svo blygðunarlaus að
vera að leika dátt við hænurnar þínar.“ „Guð veit, að húsbóndi okkar er
meira en meðalheimskur“, þannig svaraði haninn átölum hundsins, „hann
hefur einungis eina konu og ræður ekki við hana, en ég hef fimmtíu,
og gerir engin annað en minn vilja. Hann ætti nú að hugsa sig um, þá
mundi hann fljótt finna ráð til að komast úr þessum bobba.“ „Hvað
lízt þér hann eigi að gera?“ spurði hundurinn. „Hann ætti“, segir haninn,
„að binda sér hrísvönd og fara inn í herbergi konu sinnar, loka að
sér og lemja hana þangað til hún drepst, eða lætur undan. Hún mun ekki
upp frá því pína hann til að segja sér það, sem hann á að leyna.“
Varla hafði kaupmaðurinn heyrt hvað haninn sagði fyrr en hann þaut
upp, tók stafprik og gekk inn til konu sinnar, sem alltaf var að gráta.
Hann lokaði að þeim og lúbarði hana þangað til hún kallaði upp og
sagði: „Það er nóg, elskan mín! það er nóg, vertu nú góður, ég skal aldrei
framar spyrja þig um neitt.“ Þegar hann heyrði að hún iðraðist eftir
hina ofsalegu forvitni, hætti hann að lemja hana og lauk upp. Kom þá
allt skyldfólkið inn og gladdist yfir því að konunni var bötnuð einþykknin
og samfagnaði kaupmanninum, að hann hafði tekið upp á slíku heillaráði, til að koma henni til sannleikans viðurkenningar. En þú, dóttir
mín, ættir skilið, að ég færi með þig eins og kaupmaðurinn fór með konuna
sína.“ „Fyrirgefðu mér, faðir minn,“ sagði Sjerasade, „fyrirgefðu mér
og vertu ekki vondur, þó ég sé fastráðin í fyrirætlun minni? Mér hefur
ekki snúizt hugur af sögunni, sem þú sagðir mér um konuna. Ég gæti sagt
þér margar aftur, svo að þú sannfærðist um, að þú átt ekki að vera áformi
mínu mótfallinn. Það segi ég þér líka — og bið þig fyrirgefa — að þér
er til einskis, að standa á móti því, því synjirðu mér um bæn mína af
föðurlegri elsku, þá mun ég sjálf framselja mig í hendur soldánsins.“
Vezírnum var nauðugur einn kostur að láta undan stöðugleika dóttur
sinnar. Þó honum dauðsárnaði, að geta ekki talið hana af þessu óttalega
áformi, þá fór hann samt að vörmu spori til Sjarjars og sagði honum, að
hann ætlaði að færa honum Sjerasade til næstu nætur. Varð soldán forviða,
að stórvezír sinn skyldi færa sér slíka fórn og sagði: „Hvernig gaztu fengið
þér geð til að færa mér þína eigin dóttur?“ „Herra!“ svaraði vezírinn,
„það er vilji hennar sjálfrar; hin hryggilegu afdrif, sem hún á yfir höfði
sér, hafa ekki hrætt hana frá því, og betri þykir henni sú sæmd en lífið
sjálft, að vera eiginkona yðar hátignar, þó ekki sé nema eina nótt.“ „En
huggaðu þig bara ekki við neina svikula von, vezír!“ mælti soldán;
„þegar ég fæ þér Sjerasade aftur á morgun, heimta ég, að þú líflátir hana.
Gerirðu það ekki, þá sver ég að láta drepa þig sjálfan.“ „Herra!“ svaraði
vezírinn, „blæða mun hjarta mínu, þegar ég á að hlýðnast skipun
þinni, en hvað sem náttúran möglar í móti, þá máttu samt treysta þessum
höndum, þó föðurhendur séu.“
Sjarjar tók boði ráðgjafa síns og skipaði honum að færa sér dóttur
sína hið bráðasta. Fór vezírinn heim aftur með þessi tíðindi til Sjerasade,
en hún tók þeim svo glaðlega, sem væru þetta hin mestu gleðitíðindi.
Þakkaði hún föður sínum, að honum hefði svo vel farizt; var hann
yfirkominn af harmi, en hún huggaði hann með því, að hann þyrfti ekki
að iðrast þess, að hún yrði drottning soldáns og væri honum nær að fagna
því alla ævi. Hugsaði hún nú ekki um annað en að búast á fund soldáns;
en áður hún færi af stað, tók hún Dínarsade, systur sína á eintal og mælti:
„Elsku systir, mér liggur lífið á fulltingi þínu og ætla ég að biðja þig
að synja mér þess ekki. Faðir minn færir mig soldáni til eiginkonu; láttu
samt ekki hugfallast af þessari frétt, heldur heyrðu mig með stillingu.
Þegar ég er komin til soldánsins, mun ég biðja hann leyfis, að þú sofir
í hvílusal okkar, svo ég megi hafa skemmtun af þér þessa nótt. Verði mér
þessi miskunn sýnd, sem ég vona, vektu mig þá snemma morguns, einni
stundu fyrir birting og segðu: „Elsku systir! ef þú ert vakandi, þá ætla
ég að biðja þig að segja mér einhverja af fallegu sögunum, sem þú kannt,
þangað til dagur er. Mun ég þá undir eins gera það, og er ég vongóð um,
að mér takist með þessu móti að létta á þjóðinni þeirri angist, sem nú er
yfir henni.“ Dínarsade kvaðst fús til hvers, sem vera skyldi. En að ákveðinni
stund um kvöldið fór stórvezírinn með Sjerasade til hallarinnar,
leiddi hana í herbergi soldáns og gekk síðan burt. En er hún og soldán
voru tvö ein, bauð hann henni að taka blæjuna frá andlitinu, þótti honum
hún þá svo fríð, að hann varð öldungis frá sér numinn; það sá hann
líka, að hún grét, og spurði, hvað að henni gengi. „Herra!“ svaraði Sjerasade,
„ég á eina systur og ann ég henni hugástum, sem hún mér. Nú sárlangar
mig til, að hún væri hérna í herberginu þessa nótt, svo ég sjái
hana og megi kveðja hana einu sinni enn þá. Leyfið þetta mér til huggunar,
svo ég geti sýnt henni þenna síðasta vott elsku minnar.“ Þessu
játti Sjarjar og var sent eftir Dínarsade; kom hún þá þegar. Þau soldán
og Sjerasade háttuðu uppi á háum palli, eins og er siður konunga í Austurlöndum,
en Dínarsade var búin rekkja til fóta þeim. Vaknaði hún einni
stundu fyrir dag og mælti eins og Sjerasade hafði undir lagt við hana:
„Elsku systir! ef þú ert vakandi, þá ætla ég að biðja þig að segja mjer einhverja
af fallegu sögunum, sem þú kannt; það er svo í síðasta skipti, sem
ég hef þessa skemmtun.“ Í stað þess að anza systur sinni veik Sjerasade
sér að soldáni og mælti: „Þóknast yðar hátign mildilegast að leyfa mér
að láta eftir ósk systur minnar?“ „Gjarnan“, segir hann; beiddi þá Sjerasade
systur sína að taka eftir, og hóf þannig söguna.
[1019.png]
[1020.png]
Kaupmaðurinn og andinn
1. NÓTT. Herra! einu sinni var kaupmaður vellauðugur bæði af fasteignum,
varningi og peningum; hafði hann fjölda af undirkaupmönnum,
búðarsveinum og þrælum. Samt varð hann öðru hverju sjálfur að taka
sér ferð á hendur, til að ráðgast við skiptavini sína og svo bar því til einhverju
sinni, að hann varð að fara langferð í áríðandi erindi. Reið hann
því af stað og lét dálítið nesti í mal sinn, brauð og döðlur, því leið hans
lá um eyðimörk, en þar er allt viðurværi ófáanlegt. Komst hann stórslysalaust
þangað sem ferðinni var heitið, og er hann hafði aflokið erindi
sínu, reið hann af stað heimleiðis. Á fjórða degi ferðarinnar varð honum
svo óhægt, því veður var heitt af sól og vegurinn brennheitur, að hann
beygði út af veginum til að svala sér í forsælunni undir trjám nokkrum.
Fann hann þar undir hnottré einu tæra uppsprettulind, fór af baki og
batt hest sinn við grein, tók síðan brauð og nokkrar döðlur upp úr mal
sínum, settist hjá lindinni og fór að snæða, og fleygði döðlusteinunum
í ýmsar áttir. En er hann hafði lokið þessari einföldu máltíð, þvoði hann
sér úr lindinni um andlit, hendur og fætur eftir sið sanntrúaðra Mahómetsmanna
og gerði bæn sína. En rétt í því hann var að ljúka við bænagjörðina,
liggjandi á knjánum, sá hann anda, afskaplega stóran og snjóhvítan
fyrir hærum; óð hann að kaupmanninum með brugðið sverð og
sagði með ógurlegri rödd: „Stattu upp, að ég drepi þig, eins og þú drapst
son minn.“ Bæði grenjaði ófreskjan hræðilega og var hryllileg að sjá, svo
að kaupmaðurinn varð dauðhræddur og svaraði titrandi: „Voldugi herra!
hvernig á ég að hafa misgert svo við yður, að ég sé dauða verður?“ „Ég
skal drepa þig eins og þú drapst son minn,“ mælti andinn. „Guð hjálpi
mér,“ segir kaupmaðurinn, „hvernig á ég að hafa drepið son þinn, sem
ég þekki ekki og hef aldrei séð?“ „Hefurðu ekki setið hérna síðan þú
komst,“ mælti andinn, „hefurðu ekki etið döðlurnar hérna og þeytt steinunum
sínum í hverja áttina?“ „Það hef ég gert,“ svarar kaupmaður, „ekki
get ég borið á móti því.“ „Sé svo,“ segir andinn, „þá skaltu vita, að þú
ert sonarbani minn. Hann sonur minn gekk hérna fram hjá, þegar þú
fleygðir steinunum; einn kom í augað á honum, og þá datt hann niður
dauður. Fyrir þá sök skal ég drepa þig.“ „Æ, væg mér, góði herra,“ æpti
kaupmaður. „Enga vægð,“ segir andinn, „enga miskunnsemi; er ekki rétt
að sá sé drepinn, sem drepið hefur?“ „Það er meira en satt,“ anzaði kaupmaður,
„en ég segi það satt, ég hef ekki drepið son þinn, en ef svo er, þá
hef ég gert það í grandleysi. Ég bið þig því á knjám mínum, fyrirgef mér
og gef mér líf.“ „Nei, nei,“ svaraði andinn, og var ekki minnsta lát á
honum; „ég verð að drepa þig, eins og þú hefur drepið son minn.“ Því
næst þreif hann í handlegginn á kaupmanninum, slengdi honum til jarðar
með andlitið á grúfu og reiddi upp sverðið til að höggva af honum höfuðið.
En kaupmaður flóði allur í tárum og margsór sig um, að hann væri
saklaus, barmaði sér sáran út af konu og börnum og talaði mjög hjartnæmlega.
Andinn hafði svo mikla þolinmæði, að hann beið með sverðið
reitt til höggs þangað til aumingja maðurinn hafði komið upp öllum
kveinstöfum sínum, en alls ekki komst hann við. „Allar þessar harmatölur
eru til einskis,“ sagði hann; „þó þú grétir blóðugum tárum, það aftraði
mér ekki frá því að drepa þig, eins og þú hefur drepið son minn.“ „Bítur
þá enginn skapaður hlutur á þig?“ byrjaði kaupmaðurinn á ný, „ætlarðu
að drepa mig, saklausan aumingjann? Ég fel þá sök mína guði á hendur.“
Því næst tók hann í hugarangist sinni að mæla fram vísur þessar:
„Deild í tvenna daga er tíð, dimma og birturíka; eins í sælu og eymdar
stríð ævin skiptist líka.
Hermdu þeim, sem hæðist að harmakjörum bágum; eins er bölið
ákvarðað aumum jafnt sem háum.
Sérðu ei morið ofan á ægisgeimi sveima, en dýrstar perlur djúpt und
sjá duldar eiga heima?
Önnur klappar aldar mund, ei skal hinni trúa; lukkan kossa lengir
stund, lánið burt að sjúga.
Meiri sæg en sand í mar sérðu um uppheims bólin, og samt myrkvast
aldrei þar annað en tungl og sólin.
Græn og þurr, sem gróa á rein, greinast trén að vera, en steinum þeytt
er á þau ein, sem ávextina bera.“
Þegar kaupmaður hafði mælt fram vísur þessar til enda, segir andinn:
„Til einskis er þulið; ekki er nú annað fyrir en dauðinn.“ Í því hann
sagði þetta ...
Þá sá Sjerasade að dagur var á lofti; vissi hún að soldán fór snemma á
fætur til að biðjast fyrir og starfa með ráðgjöfum sínum; sagði hún því
ekki söguna lengur. „Guð veit það, systir mín,“ segir Dínarsade, „að þetta
er undarleg saga.“ „Ennþá undarlegra er samt framhaldið,“ anzaði Sjerasade,
„og leggst þú því líklega á eitt með mér, að biðja soldáninn að lofa
mér að lifa í dag og segja svo söguna áfram í nótt er kemur.“ Sjarjar hafði
verið skemmt undir sögu Sjerasade og hugsaði hann með sér: „Það skal
bíða til morguns, en deyja skal hún, þegar ég er búinn að heyra, hvernig
sagan fer.“ Réð hann því af, að drepa ekki Sjerasade þann dag; reis nú á
fætur til að biðjast fyrir og fara á fund ráðsins.
Meðan á þessu stóð, hafði stórvezírinn verið alveg frá sér af angist og
kvíða. Honum kom ekki dúr á auga, því hann var alla nóttina að kveina
og barma sér yfir grimmd forlaganna, að hann skyldi vera böðull dóttur
sinnar. En hafi hann kviðið fyrir að sjá soldán, þegar hann átti von á slíkri
hörmung, þá má nærri geta, hvort honum hefur ekki brugðið vel við,
þegar lánardrottinn hans kom á ráðstefnu og skipaði honum ekki að vinna
grimmdarverkið. Varði soldán þeim degi öllum til stjórnarstarfa, eins og
hann var vanur, en er náttaði, fór hann aftur til Sjerasade. En morguninn
eftir fyrir birtingu gleymdi Dínarsade ekki að biðja systur sína að segja
sér það, sem eftir væri af sögunni, sem hún byrjaði á nóttina fyrir. Soldán
beið þess ekki, að Sjerasade beiddi leyfis, heldur sagði hann: „Vel á
minnzt, ljúktu við söguna um andann og kaupmanninn, ég er bráðsólginn
í endirinn.“ Sagði þá Sjerasade söguna áfram á þessa leið:
2. NÓTT. Herra! þegar kaupmaðurinn sá að andinn ætlaði að höggva
af honum höfuðið, hljóðaði hann upp yfir sig og sagði: „Bíddu við, lofaðu
mér að segja rétt eitt orð, gerðu það fyrir mig, vægðu mér og gefðu mér
frest. Gefðu mér tíma til að kveðja konu mína og börn og ráðstafa arfskiptunum
eftir mig með erfðaskrá, svo að þau flækist ekki í málaferli að
mér látnum. En þegar ég hef annazt það, skal ég óðara koma hingað aftur
og gefa mig undir þinn vilja í öllu.“ Þá mælti andinn: „Ég er hræddur
um að þú komir aldrei, ef ég gef þér frestinn.“ „Viljir þú leggja trúnað á
eið minn,“ anzaði kaupmaður, „þá sver ég við guð himins og jarðar, að
ég áreiðanlega skal vitja þín hérna aftur.“ „Og hvað langan frest viltu fá?“
spyr andinn. „Ég bið um eins árs frest,“ svarar kaupmaðurinn, „mér er
ómögulegt að ráðstafa öllum mínum efnum á skemmri tíma, og búa sjálfan
mig svo undir, að ég geti tregalaust skilið við þessa lífs fögnuð. Skal ég þegar
ár er liðið frá þessum degi vera kominn hingað aftur undir þessi tré og
gefa mig þá orðalaust undir vald þitt og vilja.“ „Viltu kalla guð til vitnis
að þessu heiti þínu?“ spurði andinn. „Já, ég kalla hann enn á ný til vitnis
og máttu treysta eið mínum,“ svaraði kaupmaðurinn. Í sama bili hvarf
andinn og kaupmaðurinn sat einn eftir hjá lindinni.
Þegar hann var búinn að jafna sig eftir hræðsluna, sté hann á bak aftur
og fór leiðar sinnar. Var hann nú að einu leytinu glaður, að vera sloppinn
úr svo gífurlegum háska, en hinsvegar fylltist hann dauðans kvíða, er
hann hugsaði til hins ógurlega svardaga, sem hann hafði unnið. Þegar
hann kom heim, fögnuðu honum konan og börnin af öllu hjarta, en hann
tók ekki faðmlögum þeirra, heldur fór hann að gráta beisklega, svo að
þau máttu vel skilja, að honum hefði viljað eitthvað sérlegt til. „Við
gleðjumst af heimkomu þinni,“ tók kona hans til orða, „en þú gerir
okkur hrædd, að láta okkur sjá þig svona á þig kominn. Ég ætla að biðja
þig að segja okkur, hvað veldur harmi þínum.“ „Æ, hvernig á ég að vera
í öðru skapi,“ anzaði kaupmaður, „þegar ég á ekki nema eitt ár eftir ólifað?“
Því næst sagði hann henni frá viðskiptum sínum og andans og að
hann hefði skuldbundið sig til að koma aftur að eins árs fresti til þess að
láta lífið fyrir hendi andans. Við þessi harmatíðindi fóru þau öll að
kveina. Konan hljóðaði upp yfir sig, lauzt sig í andlitið og hárreitti sig;
börnin flóðu í tárum og ætluðu að rífa húsið með hljóðunum og faðirinn
grét þegjandi með þeim. Það var einhver sú hryggilegasta sjón, sem hugsazt
gat. Þegar á hinum næsta degi og stöðugt upp frá því, hugsaði kaupmaðurinn
um ekkert annað en að ráðstafa málefnum sínum og umfram
allt að borga skuldirnar. Hann gaf vinum sínum gjafir og fátæklingum
stórar ölmusur. Þrælum sínum og ambáttum gaf hann frelsi, skipti eigum
sínum milli barnanna og setti þeim fjárhaldsmenn, sem ekki voru fullveðja.
Konu sinni seldi hann allt það í hendur, sem henni bar eftir kaupmálanum
og dró alla þá hagsmuni undir hana, sem lög leyfðu.
Nú var liðið árið og varð hann að fara. Hann lét niður í ferðatöskuna
sína og tók með sér náklæði[* Sá er siður Mahómetsmanna, er þeir fara í hernað eða langferðir.] sitt, og enginn getur grátlegra séð en skilnaður
hans var við konu og börn. Það var eins og þau tryðu ekki, að þau
ættu að missa hann, og vildu því fylgja honum öll saman, til þess að deyja
með honum. Hann varð því að neyta allrar hörku sinnar til þess að
skiljast við slíkt ástríki, og mælti: „Börnin góð, ég skil við ykkur af hlýðni
við guðs boð. Lærið af mér að lúta þessari nauðsyn með hugprýði og
minnist þess, að eitt sinn skal hver deyja.“ Að svo mæltu sleit hann sig af
þeim, grátandi og harmandi, fór af stað og náði að ákveðnum degi þangað,
sem andinn hafði vitrazt honum. Fór hann undir eins af baki og beið
andans með slíkri hryggð, sem nærri má geta. Meðan stóð á þessari kvalafullu
bið, sá hann koma til sín vingjarnlegan karl, sem teymdi hind í
bandi. En er þeir höfðu heilsazt, tók öldungurinn til máls: „Mætti ég
spyrja þig, bróðir, hvað þú ert að gera á þessa eyðistaði, þar sem ekki er
annað neitt en vondir andar og hvergi er óhætt; mætti ráða það af þessum
fögru trjám, að hér væri mannabyggð, en það er sönn eyðimörk og
háski að vera hér til lengdar.“ Kaupmaður leysti úr spurningum karlsins
og sagði honum frá ævintýrinu, sem skyldaði hann til að vera á þessum
stað; en hinn heyrði og undraðist og mælti síðan: „Þetta er einhver hinn
kynjalegasti viðburður og þig bindur hinn órjúfanlegasti svardagi. Ég fer
ekki héðan úr sporunum fyrr en ég sé, hvernig fer á milli þín og andans.“
Svo mælti hann og settist niður hjá kaupmanninum, en meðan þeir voru
að tala saman ...
„En ég sé það er kominn dagur,“ mælti Sjerasade og felldi niður frásögnina,
„en það sem bezt er í sögu minni, kemur ekki fyrr en seinna.“
Hafði soldán ásett sér að heyra endirinn og lét því Sjerasade lifa þenna
dag.
3. NÓTT. En er hallaði út hinni þriðju nótt, beiddi Dínarsade systur
sína eins og að undanförnu að segja sér einhverja af fallegu sögunum, sem
hún kynni, ef hún væri vakandi. En soldán heimtaði sjálfur framhald
sögunnar af kaupmanninum og andanum; hjelt því Sjerasade henni
áfram.
Herra! Meðan kaupmaðurinn og karlinn, sem teymdi hindina, voru
þarna að tala saman, sáu þeir, hvar enn kom annar karl, og fylgdu honum
tveir svartir hundar. Hann kom rétt að þeim, kastaði á þá kveðju og
spurði, hvað þeir væru að gera á þessum stað. Karlinn með hindina sagði
honum þá frá viðskiptum kaupmannsins og andans og svardaganum, og
að fresturinn væri á enda með þessum degi; kvaðst hann ennfremur ætla
að bíða þarna og sjá, hvernig færi. Hinum karlinum þótti það líka tilvinnandi
og ásetti sér að gera eins; settist hann því niður hjá hinum og
gaf sig á tal við þá, en í því kom þriðji karlinn og hafði hann múldýr
meðferðis. Hann spurði báða hina fyrri, hvers vegna kaupmaðurinn þarna
hjá þeim væri svo sorgbitinn í yfirbragði, og sögðu þeir honum, hvernig
á því stæði. Þótti honum eins og hinum þetta tilfelli svo einstakt, að hann
vildi líka vera við, þegar þeir hittust, kaupmaðurinn og andinn. Leið ekki
langt um áður þeir sáu allfjarri þykkan rykmökk, sem þyrlaðist upp eins
og fyrir vindi. Hann kom alla leið til þeirra og klofnaði í skyndi; sást
þá andinn og heilsaði hann þeim ekki, heldur óð hann að kaupmanninum
með sverð í hendi, greip hann í handlegginn og mælti: „Stattu upp, að
ég drepi þig eins og þú hefur drepið son minn.“ Kaupmaðurinn og karlarnir
þrír fóru að gráta og hljóðuðu hástöfum upp yfir sig ...
Þá sá Sjerasade að dagur var kominn og hætti hún við söguna, sem hafði
æst forvitni soldáns svo mjög, að hann frestaði lífláti Sjerasade ennþá
einn dag; svo hugleikið var honum að heyra endirinn. Stórvezírinn varð
því fegnari en frá megi segja, að soldán skipaði ekki heldur á þessum
morgni að lífláta Sjerasade. Allir furðuðu sig á því, heimafólk hans, hirðin
öll og hver maður út í frá.
4. NÓTT. Undir lok hinnar næstu nætur tók Sjerasade þannig til
máls með leyfi soldáns: „Herra! Þegar karlinn með hindina sá að andinn
hafði tekið kaupmanninn og ætlaði að drepa hann miskunnarlaust, féll
hann fram fyrir óvættinn, kyssti á honum fæturna og mælti: „Anda drottinn,
ég bið þig með auðmýkt að stilla bræði þína; sýndu mér þá náð, að
taka eftir því, sem ég segi. Ég ætla að segja þér söguna af mér og hindinni
þeirri arna. Skyldi þér þykja hún undarlegri og kynjalegri en ævintýrið
kaupmannsins þarna, sem þú ætlar að drepa, mætti ég þá ekki vona, að
þú gæfir upp þessum veslings aumingja þriðjung þess, sem hann hefur
misgert?“ Andinn hugsaði sig um nokkra stund, og loksins svaraði hann:
„Hana þá, látum oss heyra, ég læt það svo vera.“
Sagan af fyrsta karlinum og hindinni
[1026.png: Breytti hún honum í kálf ...]
„Ég skal þá byrja á sögu minni,“ tók karlinn til máls, „og takið nú
vel eftir. Hindin þarna er ekki það, sem hún sýnist vera; hún er frænka
mín og þess utan kona mín. Hún var tólf ára, þegar ég gekk að eiga
hana og er mér því óhætt að segja, að hún mátti kalla mig föður fullt eins
vel og frænda sinn eða bónda. Við vorum þrjátíu ár saman barnlaus og
lét ég hana ekki gjalda þess, að hún var óbyrja, heldur var ég henni góður
og hollur. Var það af engu öðru en því, að mig langaði til að eignast afkvæmi,
að ég fékk mér ambátt til samlags; átti ég við henni einn son, sem
líkur var að fríðleik fullu tungli, eygur vel og brúnafríður og fallega limaður.
Út af því varð kona mín afbrýðisfull og fékk andstyggð, bæði á
móðurinni og barninu, en leyndi svo hugarþeli sínu, að ég komst ekki
að því fyrr en allt var um seinan. Óx nú sonur minn upp og var orðinn
eitthvað tíu ára; þurfti ég þá að taka mér nauðsynlega ferð á hendur.
En áður en ég færi, fól ég barnið og ambáttina konu minni á hendur,
því ég tortryggði hana alls ekki; bað ég hana að annast þau meðan
ég væri burtu, en það var í heilt ár. En hún hagnýtti þann tíma til
þess að stunda fjölkynngi, og er hún hafði svo mikið numið af þessari
helvízku íþrótt, sem henni nægði til illræðis þess, er hún hafði
fyrir stafni, þá leiddi hún son minn á einn afvikinn stað. Þar breytti
hún honum í kálf með særingum sínum og fékk hann því næst leiguliða
mínum til fóðurs, og kvaðst hafa keypt hann. En svo var hún hefndargjörn,
að illvirki þetta var henni ekki nóg, heldur töfraði hún ambáttina
líka og gerði hana að kú, og fékk hana einnig leiguliða mínum.
Þegar ég nú kom heim og spurði eftir móðurinni og barninu, sagði
hún: „Ambáttin er dáin, en son þinn hef ég ekki séð í tvo mánuði, og
veit ég ekki, hvað orðið er af honum.“ Féll mér það nærri að ambáttin
var dáin, en sonur minn hélt ég væri að eins horfinn og mundi fljótt
finnast aftur. En svo liðu átta mánuðir, að hann kom ekki, og ekkert
spurðist til hans. Var nú komið að stóra Bairam[* Bairam (Beiram) er tyrkneskt nafn á tveimur stórhátíðum Mahómets-manna. Fyrri
Bairamshátíð er haldin snemma í októbermánuði og er þríheilög. Seinni Bairamshátíð er
haldin sjötíu dögum síðar til minningar um fórn Abrahams og skal þá hver Mahómets átrúandi
færa í sláturfórn; stendur sú hátíð fjóra daga og er haldin með meiri viðhöfn en hin fyrri.] eða fórnarhátíðinni;
bauð ég þá leiguliða mínum að koma með einhverja feitustu kúna til
fórnfæringar. Hann gerði svo, en kýrin sem hann kom með, var aumingja
ambáttin, móðir sonar míns. Batt ég hana þá, en er ég myndaði
mig til að slátra henni, rak hún upp aumkvunarlegt baul, og sá ég að
tárin runnu úr augum henni. Brá mér kynlega við þetta og hrærðist ég
ósjálfrátt til meðaumkvunar, svo ég gat ekki fengið af mér að slátra
henni, og sagði leiguliðanum að sækja aðra. Kona mín, sem var viðstödd,
espaðist af þessum brjóstgæðum og stóð í gegn skipan minni, sem
lét illsku hennar til skammar verða; „hvað ertu að hugsa, heillin mín?“
segir hún, „offraðu þessari kú, leiguliðinn þinn á enga, er fallegri sé eða
betur til þess fallin.“ Ætlaði ég því að gera þetta konu minni til þægðar,
gekk að kúnni og reyndi að bæla niður meðaumkvun þá, er áður
hafði gagntekið mig, en í því ég ætlaði að bregða hnífnum á barkann,
þá grét hún og baulaði hálfu meira en áður, svo að mér féllust hendur
í annað sinn. Rétti ég því hnífinn að leiguliðanum og sagði: „Taktu
þarna við og offraðu henni sjálfur; baulið í henni og tárin ætla að slíta
sundur í mér hjartað. Leiguliðinn var ekki eins brjóstgóður og banaði
hann kúnni, en er við gerðum hana til, sáum við að hún var ekki annað
en skinnið og beinin, þó okkur sýndist hún feit áður. Sárnaði mér
það og sagði ég því við leiguliða minn: „Eigðu hana sjálfur, ég læt þér
hana eftir; gefðu þeim ölmusugjafir af slátrinu, sem þér lízt, en hafirðu
fyrir hendi vel feitan kálf, þá færðu mér hann í staðinn. Ég spurði aldrei
frekar um það, hvað hann gerði við kúna, en undir eins og hann hafði
fært hana burt, kom hann aftur með spikfeitan kálf. Þó ég vissi þá
ekki, að þessi kálfur var sonur minn í álögum, komst ég samt einhvern
veginn við, er ég sá hann; en jafnskjótt og hann sá mig, brauzt hann
svo fast um, til þess að komast til mín, að hann sleit sundur taugina,
sem leiguliðinn leiddi hann í. Hann fleygði sér niður fyrir fætur mína,
með hausinn á grúfu, eins og hann vildi hræra mig til miskunnar og
særa mig, að vera ekki svo grimmur að drepa sig. Þetta gekk nú meira
yfir mig og fékk meira á mig en gráturinn í kúnni. Mér rann sáran til
rifja, eða öllu heldur, mér rann blóðið til skyldunnar. Sagði ég því við
leiguliðann: „Farðu burt með kálfinn aftur og gættu hans vandlega,
en komdu undir eins með annan í staðinn.“ Þegar kona mín heyrði mig
tala svona, var hún ekki sein til að segja: „Hvað ertu að hugsa, elskan
mín! Láttu að orðum mínum og offraðu engum kálfi öðrum en þessum.“
„Það geri ég ekki, hjartað mitt!“ anzaði ég, „ég ætla að gefa honum
líf og biðja þig að ybbast ekki á móti því.“ En flagðið gerði ekki
sem ég beiddi; hún hafði meira hatur á syni mínum en svo, að hún
leyfði mér að gefa honum líf; gekk hún svo fast eftir fórninni við mig,
að ég neyddist til að láta eftir henni. Batt ég þá kálfinn og tók sláturshnífinn ...
5. NÓTT. „Herra!“ mælti Sjerasade og byrjaði þar á sögunni, sem
hún hafði hætt við nóttina áður, — „karlinn með hindina hélt þannig
áfram sögunni í viðurvist andans, beggja hinna karlanna og kaupmannsins:
„Ég greip þá hnífinn og ætlaði að skera son minn á háls, en í því
leit hann til mín slíkum bænaraugum, fljótandi í tárum, og hrærði svo
hjarta mitt, að ég var ekki maður til að fórna honum. Fleygði ég þá
hnífnum og sagði við konu mína, að það væri ekki að hugsa til, að ég
slátraði þessum kálfi, heldur tæki ég einhvern annan. Hún hafði sig
alla við að telja mig af fyrirtekt minni, en ég lét hvergi þokazt, nema
hvað ég lofaði henni að offra kálfinum næsta ár á Bairamshátíðinni,
og gerði ég það einungis til að þagga niður í henni ofsann. Morguninn
eftir beiddist leiguliði minn, að tala við mig einslega. „Ég kem,“ mælti
hann, „til þess að segja þér nokkuð, sem þú munt kunna mér þakkir
fyrir. Svo er mál með vexti, að ég á dóttur, sem ber nokkurt skyn á
töfra. Í gærdag, þegar ég kom aftur með kálfinn, sem þú ætlaðir að
fórna, tók ég eftir því, að hún hló þegar hún sá hann, en fór í sömu
andránni að gráta. Spurði ég hana þá, því hún gerði tvennt svo ólíkt
í einu. „Faðir minn,“ segir hún, „kálfurinn, sem þú kemur þarna með
aftur, er sonur hans húsbónda okkar. Ég hló af fögnuði að sjá hann
lifandi ennþá, og grét þegar ég hugsaði til hennar móður hans, sem
slátrað var í gær, því henni hafði verið breytt í kú með töfrum. Hvorumtveggja
álögunum veldur konan hans húsbónda okkar, því hún hataði
jafnt móðurina og barnið.“ Þetta hefur dóttir mín sagt mér, og hingað
fór ég til að segja þér þessi tíðindi.“
„Andi góður!“ sagði karlinn með hindina enn fremur, „þú getur
því bezt nærri, hvað mér brá í brún við þessi orð. Fór ég að vörmu
spori með leiguliðanum, til að tala við dóttur hans sjálfur. En er ég
var kominn heim til hans, gekk ég fyrst út í fjósið, þar sem sonur
minn var. Gat hann að vísu ekki tekið faðmlögum mínum, en svo varð
honum við þau, að ég sannfærðist algjörlega um það, að hann væri
sonur minn. Dóttir leiguliðans kom þar að okkur, og sagði ég við hana:
„Barnið gott, getur þú breytt syni mínum í sína sönnu mynd?“ Hún
kvað já við, og ég sagði enn fremur: „Ef þér heppnast það, skaltu ráða
yfir helming eigna minna.“ „Þú ert húsbóndi okkar,“ anzaði hún og
brosti við, „og veit ég vel, um hvað ég er þér skyldug. En það segi
ég þér samt, að ekki breyti ég syni þínum í sína sönnu mynd, nema
með tveimur skilmálum. Hinn fyrri er sá, að þú lofir mér að eiga hann,
en hinn annar, að þú leyfir mér að refsa þeirri, sem hefur breytt honum
í kálf.“ Svaraði ég því um, að ég gengi fúslega að fyrri skilmálanum,
og sagði: „Ég lofa þér þar á ofan að gefa þér töluverðar eignir auk þess,
sem ég ætla syni mínum. Í stuttu máli, þú skalt komast að raun um,
hvort ég ekki virði við þig þenna mikla velgjörning, sem ég vænti mér af
þér. Hinum skilmálanum, konu minni viðvíkjandi, tek ég líka. Hver, sem
getur haft sig til annars eins ódæðis, á refsingu skilið. Gerðu við hana
hvað þér líkar, en eins bið ég þig, lofaðu henni að lifa.“ „Ég ætla að
gera til hennar,“ anzaði stúlkan, „eins og hún gerði til sonur þíns.“
„Það læt ég mér lynda,“ segi ég, „en gefðu mér son minn aftur um
fram alla hluti.“ Tók nú stúlkan ker, sem fullt var af vatni, og þuldi
yfir því einhver orð, sem ég skildi ekki, því næst veik hún sér að kálfinum
og mælti: „Kálfur! hafi einn guð almáttugur, konungur veraldarinnar,
skapað þig í þeirri mynd, sem þú nú hefur, þá hafðu hana framvegis,
en sért þú maður, töfraður í kálfs líki með fjölkynngi, taktu þá aftur
á þig þína náttúrlegu mynd og líkingu, ef hinum allsvaldanda skapara
þóknast svo.“ Svo mælti hún og jós yfir hann vatninu, og breyttist hann
samstundis í sína upphaflegu mynd. „Sonur minn! ástkæri sonur minn!“
hrópaði ég undir eins, og faðmaði hann upp að mér með slíkri geðshræringu,
að ég varla réði mér, „guð hefur sent okkur þessa mey til
þess að svipta af þér hinum skelfilegu álögum, sem þú varst í, og til
þess að hefna illsku þeirrar, sem þú og móðir þín höfðuð fyrir orðið.
Ég efa því ekki, að þú munir ganga að eiga stúlkuna, eins og ég hef
lofað henni.“ Þessu tók hann fegins hugar, en áður en brúðkaup þeirra
var haldið, breytti mærin konu minni í hind, og í því líki sjáið þið
hana hérna. Var það fyrir minn bænastað, að hún hlaut þessi hamskipti
heldur en önnur ljótari, svo okkur væri minni viðbjóður að hafa hana
kringum okkur. Síðan er sonur minn orðinn ekkjumaður og hefur farið
í langferðir. Hef ég ekkert frétt til hans í nokkur ár, og er því lagður
af stað sjálfur, til að vita, hvort ég ekki kynni að verða einhvers vísari
um hann. Trúði ég engum fyrir að varðveita konu mína, meðan ég
væri burtu, til að komast fyrir þetta, og leizt mér ráðlegast að hafa
hana með mér hvarvetna. Og lýk ég nú að segja af mér og hindinni;
er það ekki einhver hin einstakasta saga?“ „Því játa ég,“ segir andinn,
„og hennar vegna gef ég þér þriðjung af lífi þessa kaupmanns.“
„Þegar fyrsti karlinn,“ þannig hélt Sjerasade sögunni áfram, „hafði
lokið við sína sögu, sagði annar karlinn með tvo svörtu hundana við
andann: „Ég ætla líka að segja þér, hvað mér og hundunum þeim arna
hefur viljað til; er ég sannfærður um, að þér mun þykja mín saga undarlegri
en sú, sem þú nú heyrðir. En viltu þá gefa mér annan þriðjunginn
af því, sem þú átt í lífi þessa kaupmanns?“ „Já,“ sagði andinn, „með
því móti, að hún taki fram sögunni af hindinni.“ Þegar hann hafði
lofað þessu, byrjaði annar karlinn þannig ...
6. NÓTT. Undir lok hinnar sjöttu nætur, sem soldán og Sjerasade
hvíldu saman, vakti Dínarsade systur sína, eins og vant var; en Sjarjar
varð fyrstur til að vekja máls og segir: „Ég vil heyra söguna af öðrum
karlinum og báðum svörtu hundunum.“ „Forvitni þína, konungur!,“
segir Sjerasade, „skal ég fljótt seðja; annar karlinn byrjaði sögu sína á
þessa leið:
Sagan af öðrum karlinum og báðum svörtu hundunum
[1031.png: Báðir þessir svörtu hundar eru bræður mínir ...]
„Þú skalt þá vita, mikli höfðingi andanna, að báðir þessir svörtu
hundar eru bræður mínir. Faðir okkar lét hverjum okkar eitthvað þúsund
sekkínur[* Þeir peningar eru almennir í Feneyjum og kringum Grikklandshaf, og eru eitthvað
4 króna virði.] eftir sig. Völdum við okkur allir sama atvinnuveg og
gerðumst kaupmenn. Undir eins og ég hafði opnað sölubúð mína, réði
eldri bróðir minn, annar hundurinn þarna, það af, að ferðast til annarra
landa í verzlunarerindum. Keypti hann fyrir aleigu sína þann varning,
sem honum var hentastur, og lagði af stað. Þegar liðið var heilt ár
frá því hann fór, var það einn dag, að þurfamaður nálægði sig sölubúð
minni og virtist biðja ölmusu. Sagði ég þá við hann: „Guð blessi þig!“
og svaraði hann: „Guð blessi þig líka! hvernig stendur á því, að þú
kannast ekki við mig?“ Virti ég hann þá betur fyrir mér og kannaðist
við hann; „bróðir minn!“ kallaði ég upp og hljóp um háls honum,
„hvernig átti ég að þekkja þig, þegar þú varst svona til fara?“ Fór ég
síðan með hann í hús mitt og spurði, hvernig honum liði og hvernig
honum hefði heppnazt. „Æ, vertu ekki að spyrja að því“, segir hann,
„þú þarft ekki annað en að líta á mig, þá veiztu allt. Það væri ekki
til annars en að ýfa upp raunir mínar, ætti ég að rekja upp öll þau slys,
sem mig hafa hent á þessu ári, og komið mér í það ástand, sem ég er í
núna.“ Lét ég jafnskjótt loka búðinni, og gleymdi öllu öðru en bágindum
hans; fylgdi ég honum til laugar og gaf honum beztu fötin mín.
Síðan tók ég verzlunarbækur mínar og reiknaði út gróða minn á hinu
umliðna ári. Sá ég þá, að fjármunir mínir höfðu vaxið um helming,
og að ég átti tvö þúsund sekkínur. Gaf ég honum þá helminginn og
sagði: „Bróðir minn! með þessu geturðu unnið upp tjón þitt.“ Hann
tók fegins hendi við sekkínunum, byrjaði aftur að verzla og vorum við
saman eins og áður. Nokkru eftir þetta tók hinn bróðir minn upp á
því að selja eign sína, og var okkur lífs ómögulegt að telja hann af því.
Fyrir peninga þá, sem honum guldust fyrir hana, keypti hann sér vörur
til að verzla með erlendis, því hann ætlaði sér að stunda þess konar
verzlun, og fór hann af stað með kaupmanna lest einni. Að ári liðnu
kom hann aftur, eins til reika og eldri bróðir minn. Lét ég þá líka
klæða hann, og hafði ég grætt aðrar þúsund sekkínur, og gaf honum.
Fékk hann sér þá aftur sölubúð og hélt áfram að verzla.
Það var einn dag, að báðir bræður mínir komu til mín og slógu upp
á því við mig, að ég færi með þeim í kaupferð. Í fyrstunni tók ég því
fjarri. „Þið hafið ferðazt,“ sagði ég, „og hvað hafið þið grætt? Hver
ábyrgist mér að ég fari betri för?“ Var það ekki til neins, að þeir voru
að leiða mér fyrir sjónir það sem þeir héldu, að helzt gæti glapið mig
og ginnt til að eiga undir heppninni; ég skoraðist undan allri hlutdeild
í fyrirætlun þeirra. En þeir nauðuðu svo óaflátanlega á mér, og linntu
ekki látum fyrr en ég lét til leiðast, og hafði þá hafnað ráði þeirra í fimm
ár. En er við vorum ferðbúnir, og kaupa átti varning þann, er þörf
var fyrir, þá kom það upp úr kafinu, að hvorugur átti nú neitt eftir
af þúsund sekkínunum, sem ég hafði gefið hvorum þeirra. Veitti ég
þeim samt engar átölur fyrir þetta, en þá átti ég sex þúsundir sekkína;
tók ég helminginn af þeim, og gaf þeim hverjum sinn part, svo mælandi:
„Bræður mínir! meiru en þessum þremur þúsundum sekkína
megum við ekki hætta, en hinar þrjár þúsundirnar verðum við að fela
á vísum stað, svo við megum huggast og taka upp vora fyrri iðn, ef
þessi ferð fer ekki betur en ykkar fór.“ Fékk ég þeim þá, hvorum um
sig eina þúsund sekkína, en hinar þrjár þúsundirnar gróf ég niður í
skúmaskoti einu í húsi mínu. Því næst keyptum við vörur og tókum
skip á leigu undir þær, og sigldum burt þegar byr gaf ...
7. NÓTT. Þegar við höfðum verið mánuð á leiðinni, komumst
við farsællega til hafnar; fórum við þar á land og flaug varningur okkar
út. Einkum gekk svo vel út hjá mér að ég græddi tíu á einum. Keyptum
við þarlendar afurðir í staðinn, til að flytja heim og verzla með þar.
En er við vorum tilbúnir að stíga á skipsfjöl og sigla heim, mætti ég á
ströndinni konu einni, sem var næsta fagursköpuð, en mjög fátæklega
til fara. Hún ávarpaði mig, kyssti á hönd mína og sárbændi mig, að
eiga sig, og taka sig út á skipið. Taldi ég tormerki á því, en hún talaði
svo mikið um fyrir mér, til þess að sannfæra mig um, að ég mætti
ekki hneykslast á örbirgð sinni, og að ég mundi verða ánægður með
hegðun hennar, svo að ég lét til leiðast. Lét ég gera handa henni sæmileg
klæði, og er hún var orðin kona mín eftir löglegum kaupmála, létum
við í haf. Á leiðinni komst ég að raun um, að kona mín var svo ágætum
mannkostum búin, að elska mín til hennar fór dagvaxandi. En báðir
bræður mínir ólu hatur til mín, því þeir sáu ofsjónum yfir heppni
minni. Kvað svo rammt að þessari blindni þeirra, að þeir sátu um líf
mitt, og eina nótt, er við hjónin sváfum, tóku þeir okkur bæði og
fleygðu okkur í sjóinn. Undir eins og kona mín vaknaði, hristi hún
sig og brást í álfkonu; megið þið af því vita fyrir víst, að hún drukknaði
ekki. Ég hefði fortakslaust týnzt, en í sömu svipan og ég féll í sjóinn,
tók hún mig upp, fór með mig til eyjar einnar og hvarf. En er
lýsti af degi, kom hún aftur og mælti: „Sjáðu nú, elskan mín, að ég
hef ekki launað illa velgjörðir þínar, þar sem ég bjargaði lífi þínu.
Skaltu vita að ég er álfkona, og fyrst þegar ég sá þig á sjávarströndinni,
hneigðist hugur minn frá guði til þín; því ég er líka rétttrúuð. Kom
ég til þín í dularbúningnum, eins og þú manst, til þess að freista hjartagæzku
þinnar. Hefur þér farizt drengilega við mig, og er ég fegin að
geta sýnt þér þakklátssemi mína. En ég er afarreið við bræður þína, og
getur ekkert fullnægt mér nema líflát þeirra.“ Þegar ég heyrði þetta,
undraðist ég stórlega, og þakkaði álfkonunni, sem ég bezt gat, fyrir hinn
mikla velgjörning, er hún hefði auðsýnt mér; en þessu bætti ég við:
„Ég verð að biðja þig að fyrirgefa bræðrum mínum. Svo miklar orsakir,
sem ég hef til að kvarta undan þeim, er ég þó ekki svo grimmur, að
óska þeim líftjóns.“ Því næst sagði ég henni frá, hversu ég hefði greitt
fyrir þeim, en það var ekki til annars en að æsa reiði hennar. „Ég verð
að leita upp þessa vanþakklátu bófa,“ mælti hún, „þessa svikara, og
hefna á þeim tafarlaust. Ég skal sökkva skipinu undir þeim og steypa
þeim sjálfum niður á hafsbotn.” „Nei, mín elskulega,” mælti ég í móti,
„gerðu það ekki fyrir guðs sakir, stilltu reiði þína. Það eru bræður
mínir, og minnstu þess, að oss ber að launa illt með góðu.“ Lét álfkonan
sér þetta segjast, en þá svipti hún mér í einu vetfangi frá eynni,
og setti mig niður á hið flata þak á húsi mínu og hvarf aftur. Fór ég
þá ofan, lauk upp dyrunum, og gróf upp aftur hinar þrjár þúsundir
sekkína, sem ég hafði fólgið. Að því búnu fór ég að heimsækja nágranna
mína; samfögnuðu þeir mér vegna heimkomu minnar; keypti ég því
næst vörur, hóf aftur verzlun og opnaði sölubúð mína. En þegar ég
kom heim um kvöldið, voru þar fyrir báðir svörtu hundarnir þarna,
og komu á móti mér með auðmýktar látum. Vissi ég ekki, hvað þetta
átti að þýða, og furðaði mig á því, en ég varð þess skjótt vísari, því
álfkonan kom og sagði: „Undrastu ekki, þessir tveir hundar, sem hér
eru komnir, það eru báðir bræður þínir.“ Varð ég óttasleginn við þessi
orð, og spurði, fyrir hvern kraft þeir væru komnir í þetta ástand. „Ég
hef gert það,“ anzaði hún, „eður öllu fremur systir mín, sem ég fól
það á hendur; sökkti hún skipi þeirra um leið. Þú misstir líka varning
þinn, sem þar var á, en ég skal sjá svo um að þú verðir skaðlaus. En
bræður þína hef ég lagt það á, að þeir verði í þessum álögum í tíu ár;
eru þeir helzt til maklegir þessarar refsingar, vegna níðingsskapar síns.“
Þegar hún hafði enn fremur sagt mér til, hvar ég seinna meir gæti frétt
til hennar, hvarf hún. Eru nú liðin tíu ár síðan, og er ég á leið til álfkonunnar.
En þegar ég fór hér um, hitti ég kaupmanninn og hinn æruverðuga
öldung þarna með hindina, og staldraði við hjá þeim. Veizt þú
nú sögu mína, höfðingi andanna?“ Þannig lauk karlinn með svörtu
hundana sögu sinni: „Þykir þér hún ekki vera einhver hin fáheyrilegasta?“
„Það er sannarlega undarleg saga“, svaraði andinn, „og afsala
ég mér fyrir hana einum þriðjungi af lífi þessa kaupmanns.“
Tók þá þriðji karlinn jafnskjótt til máls og lagði að andanum með
hina sömu bæn sem hinir fyrri, að hann gæfi kaupmanni upp þann
þriðjung saka hans, sem eftir væri, ef sagan, sem hann ætlaði að segja
honum, reyndist enn þá undarlegri en báðar hinar fyrri. Andinn lofaði
því, og byrjaði karlinn á sögunni, og mælti:
Sagan af þriðja karlinum með múlinn
8. NÓTT. „Vittu þá, anda drottinn, að múll þessi er kona mín. Svo
margan vott elsku minnar, sem ég sýndi henni, felldi hún þó girndarhug
til eins svertingja; það var einu sinni, að ég kom heim úr langferð
á náttarþeli; gekk ég þá undir eins til herbergis hennar og ætlaði að
láta fögnuðinn koma flatt upp á hana. Kom ég þar að henni sofandi
í hvílu sinni, og lá þrællinn hjá henni; varð mér svo hverft við þessa
sjón, að ég æpti upp yfir mig. En hún var ekki fengi að átta sig, heldur
tók hún vatnskrukku og las yfir galdraþulur, því hún var leikin í
töfralist, stökkti á mig vatninu, og breytti mér þannig í hundslíki. Svona
á mig kominn var ég flæmdur af heimili mínu. Kom ég rétt á eftir í
slátrarabúð eina. Slátraranum gazt vel að mér, og fór hann með mig
heim til sín. En er dóttir hans, sem bar skyn á töfra, sá mig, huldi hún
ásjónu sína, og taldi á föður sinn, að hann skyldi koma inn með karlmann,
svona að óvörum. Slátrarinn vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið
og spurði, hvar maðurinn væri, sem hún talaði um. Benti hún þá á mig
og sagði, að ég hefði verið svona töfraður af konu minni, og skyldi
hún gefa mér mína upphaflegu mynd, svo að hann fengi sannfærzt um
það. Tók hún þá vatnsker, las yfir því galdraþulur og skvetti síðan á mig
úr því, og mælti: „Sé þetta hundslíki þín sanna mynd, sem drottinn vor
almáttugur, hefur skapað þig í, þá fylgi það þér framvegis; en hafi því
verið brugðið yfir þig með töfrum, meðtaktu þá þína sönnu mynd fyrir
náð hins háleita skapara.“ Breyttist ég þá í mannsmynd mína og margþakkaði
stúlkunni fyrir velgjörning sinn. Sagði hún mér þar að auki,
hvernig ég skyldi fara að breyta konu minni í þá mynd, sem mér litist,
og lét mig í því skyni fá nokkuð af sama vatninu, sem hún hafði stökkt
á mig. Fór ég heim með það og fann konu mína í fasta svefni. Dreypti
ég á hana, eins og dóttir slátrarans hafði fyrir mig lagt, og heillaði hana
í múls líki. Snerist hún samstundis í sömu sköpun, sem þið sjáið að hún
nú hefur. Hefur þú nú, andi, heyrt sögu mína,“ sagði þriðji karlinn, „og
vona ég að þú gefir mér fyrir hana þriðjunginn af lífi þessa kaupmanns.
Sá var gæddur guðlegri andagift, sem þetta sagði: „Góðu skalt þú niður
sá, þó jarðvegurinn sé vondur, því það mun aldrei fyrirfarast, hvar
sem þú sáir því.“
En er karlinn þagnaði, hristi andinn sig af undrun og ánægju, og
afsalaði hann sér líka því síðasta tilkalli, sem hann átti í lífi kaupmannsins,
og hvarf eins og hann var kominn, urðu þeir félagar guðsfegnir.
Kaupmaður þakkaði þremur körlunum af hjarta, og þeir aftur samfögnuðu
honum, að vera sloppinn. Því næst beiddi hver annan vel að
fara, og fór sinn í hverja áttina. En það er af kaupmanninum að segja,
að hann fór heim til konu og barna, og lifði með þeim í kyrrð og ró,
það sem eftir var ævinnar.
„En minn hái drottinn,“ hélt Sjerasade áfram, „svo fallegar sem þær
sögurnar kunna að vera, er ég hef sagt yðar hátign hingað til, jafnast
þær samt ekki við söguna af fiskimanninum.“ Svo mælti drottningin,
en Dínarsade tók til máls: „Elsku systir! segðu okkur þá söguna af
þessum fiskimanni, við höfum nógan tíma og soldáninum mun víst
líka það vel.“ Sjarjar lét samþykki sitt í ljósi.
[1036.png]
[1037.png]
Sagan af fiskimanninum og andanum
„Einu sinni, herra! var fiskimaður, aldraður og örsnauður; gat hann
varla haft ofan af fyrir sér og sínum, og voru þó ekki á heimilinu, nema
kona hans og þrjú börn. Allt fyrir það gerði hann sér að reglu, að kasta
ekki út netinu oftar en fjórum sinnum á dag. Það var einhverju sinni
að hann fór ofan að sjávarströnd árdegis, eins og hann var vanur, og
var þá tunglskin; fór hann þar úr fötunum og varpaði út neti sínu.
En er hann síðan ætlaði að draga það á land, fann hann að það var
heljarþungt og orkaði ekki að toga það upp úr sjónum. Rak hann því
hæl niður í jörðina og batt við netstrenginn; síðan kafaði hann til grunns
allt umhverfis netið, og dró það smám saman og ýtti undir, gat hann
loks með herkjum komið því upp á ströndina. Var hann nú ekki lengi
á sér að kanna aflann, en í stað fiska var þar ekki nema hræ eitt af asna.
En er hann sá það barst hann aumlega af, og mælti: „Tarna er hjákátleg
veiði; hvergi er vald né máttur, nema hjá guði, hinum mikla og
háleita,“ og hafði hann vísu þessa á munni:
##
„Þú, sem húmi og hættum í
hörðu sætir, láttu af því;
fyrir strit þér fær og raun
forsjón engin verkalaun!“
##
9. NÓTT. Herra! Fiskimaðurinn, sem var sár og gramur út af því,
hvað illa veiddist, tók nú úr netinu og bætti það, því víða hafði það
slitnað af asna-hræinu, síðan kallaði hann: „Í guðs nafni!“ og kastaði út
netinu. Beið hann þangað til það var sokkið til botns og sjórinn kyrrðist
aftur í kringum það; en er hann ætlaði að draga það upp aftur, fann
hann að það var enn þyngra og rígfastara, en í fyrra skiptið. Hélt hann
nú fyrir víst, að það væri fullt af fiski. En þegar hann loksins hafði
komið því upp á ströndina með mestu fyrirhöfn, sá hann ekkert í því,
nema einn stóran vandlaup, fullan af sandi og leðju. Við sjón þessa varð
honum enn skapþyngra, og hafði hann þessar vísur skáldsins yfir í öngum
sínum:
**
Heiptug forlög hættið mér svo hart að þjaka,
eða virðist ögn til slaka.
Hvorki stoðar heppni grand, né handa minna
að neinu gagni verður vinna.
Örðug varð mér aflaferð og engin notin,
lindin mín var þurr og þrotin.
Hví skal heimskra seggja sægur sólar njóta,
en vitrir dvöl í húmi hljóta
**
„Ég hef engan annan bjargræðis veg“, sagði veslings fiskimaðurinn,
„og þrátt fyrir alla kostgæfni mína, get ég varla fullnægt hinum allra tilfinnanlegustu
þörfum mínum og minna. En ég á engan rétt á að bera
mig upp undan þér! Þú hefur gaman af að misþyrma hinum ráðvöndu
og fela mikla menn í myrkrunum, en þú dregur taum hinna vondu og
upphefur þá, sem enga verðleika hafa.“ Með þessum möglunaryrðum
þeytti hann vandlaupnum til hliðar, og þvoði netið vandlega. Síðan bað
hann guð fyrirgefa sér óþolinmæði sína, og kastaði netinu út í þriðja sinn.
En er það var sokkið til botns og sjórinn orðinn lásléttur, dró hann það
upp, og fann ekkert í því nema skeljar, steina og óþverra. Við það örvinglaðist
hann, svo að hann var nærri genginn af vitinu. En er ljóma
tók af degi, lét hann samt ekki hjá líða, að gera bæn sína, eins og sannur
múselmaður[* Þ.e. átrúandi Mahómets.], og mælti enn fremur: „Drottinn! Þú veizt, að ég kasta
ekki út neti mínu oftar en fjórum sinnum á dag. Nú hef ég gert það
þrisvar, og hafa erfiðismunir mínir engan ávöxt borið. Nú er eftir í seinasta
skipti, því bið ég þig: láttu hafið snúast mér í hag, eins og það snerist
Móses í hag fyrrum.“ Því næst kastaði hann í guðs nafni netinu út hið
fjórða sinn. Þegar honum þótti tími til kominn að taka það upp, fannst
honum það þyngra en nokkurn tíma áður. Loksins tókst honum það með
mestu aflraun, en þá var heldur enginn fiskur í því, heldur messingar
flaska ein; var ólíklegt að hún væri tóm, því hún var þung. Var blýi rennt
yfir stútinn og hafði verið sett fyrir innsigli. Var nú fiskimaðurinn fundi
sínum feginn og ásetti sér að selja hann málmvöru mangara einum, og
kaupa sér einn mæli korns fyrir andvirðið. Var hann lengi að virða flöskuna
fyrir sér, og hristi hana, til að vita, hvort ekki gutlaði á, en heyrði
ekkert. Réði hann nú, bæði af þessu og blýinnsiglinu, að eitthvað mundi
vera fémætt í flöskunni. Tók hann upp hníf sinn, til að vita þetta, og
krotaði frá blýið, hélt síðan stútnum niður. En ekkert kom úr flöskunni,
og gekk það yfir hann. Setti hann hana þá fyrir framan sig, og horfði á
hana með eftirtekt; sá hann þá að upp úr henni lagði þykka gufu, svo
hann varð að hopa undan nokkur fet. En gufan reis upp til skýjanna og
færðist yfir sjóinn og ströndina, eins og þykk þoka, svo að hann rak í
rogastanz. En er öll gufan var rokin úr flöskunni, dró hún sig saman
og þéttist og tók á sig líki anda; bar höfuðið við skýin, en fæturnir stóðu
á jörðinni. Fætur hans voru sem siglutré, hausinn eins og stöpulkúpa,
munnurinn sem hellisskúti, augun sem skriðljós, en hárið úfið og úlfgrátt.
Varð fiskimaðurinn að gjalti, er hann sá þenna óvætt; hann ætlaði að
flýja, en var svo lamaður af hræðslu-ofboðinu, að hann gat ekki hrært
sig úr stað. En það heyrði þó fiskimaður, að andinn, í því er hann sá hann,
kallaði hárri rödd og sagði: „Enginn er guð nema einn guð; Salómon er
spámaður drottins. Miskunna mér, miskunna mér, mikli spámaður! Ég
skal aldrei framar sýna þér mótþróa, heldur hlýðnast öllum boðum þínum.“
[1039.png: Hann ætlaði að flýja, en gat ekki hrært sig úr stað ...]
10. NÓTT. Jafnskjótt sem fiskimaðurinn hafði heyrt orð andans,
herti hann upp hugann og mælti: „Hvað sagðirðu ofdrambsfulli andi?
Það eru meira en átta aldir síðan Salómon dó, og sígur fyrir oss á seinni
hlutann. Seg mér sögu þína og hvers vegna þú varst byrgður í flöskunni
þeirri arna.“ Við þetta ávarp horfði andinn drembilega niður á fiskimanninn
og mælti: „Talaðu kurteislega við mig, mér þykir þú furðu
djarfur, að kalla mig ofdrambsfullan anda.“ „Ætli það væri kurteislegra,“
anzaði fiskimaðurinn, „að kalla þig greppatrýni forlaganna?“ Þá mælti
andinn: „Talaðu kurteislegar, segi ég, áður en ég drep þig grimmilegum
dauðdaga.“ „Því viltu drepa mig?“ spurði fiskimaðurinn, „þú værir
þá þess maklegur, að almáttugur guð sleppti af þér verndarhendi sinni.
Hef ég ekki dregið þig upp frá mararbotni og leyst þig úr flöskunni?
Ertu undir eins búinn að gleyma því?“ „Nei, vel man ég það,“ svaraði
andinn, „en ekki aftrar það mér frá að drepa þig. Einungis eina ívilnun
veiti ég þér.“ „Og hver er hún?“ spurði fiskimaðurinn. „Að þú mátt kjósa
um, hvernig ég ræð þig af dögum,“ segir andinn. „Hvað hef ég þá gert á
hluta þinn,“ segir fiskimaðurinn, „ætlarðu að launa mér svona það, sem
ég hef gert þér gott?“ „Ég get ekki farið öðruvísi með þig,“ anzaði andinn,
„svo þér skiljist það, skaltu heyra sögu mína:
Ég er einn af hinum uppreisnargjörnu öndum, sem stóðu í móti guðs
vilja. Allir andar lutu hinum mikla Salómon, og gengu honum til handa,
nema ég og andinn Sakar; vildum við ekki lítillækka okkur svo. Þá lagði
hinn voldugi konungur verk það fyrir vezírinn Assaf, son Barkhíya, að
handtaka mig. Það varð svo. Assaf fékk höndlað mig, og fór með mig fyrir
hásæti herra síns, svo nauðugur sem ég var. Salómon, sonur Davíðs, bauð
mér að breyta líferni mínu, kannast við vald sitt, og gefa mig undir stjórn
sína. En ég harðneitaði, að veita honum hlýðni, og þótti mér betra, að láta
alla heipt hans lenda á mér, en að vinna honum trúnaðar- og hollustueiða.
Í hegningarskyni fyrir það lét hann mig í þetta messingar ílát og setti á
blýlokið innsigli sitt, með nafni guðs á, svo að ég ekki skyldi geta sprengt
fangelsi mitt. Síðan fékk hann flöskuna einum af sínum þjónustusömu
öndum, og skipaði honum, að kasta henni í sjóinn; gerði hann svo, mér
til stórrar skapraunar. Á fyrstu öldinni, sem ég var í fangelsinu, sór ég, að
gera þann stórríkan, bæði lífs og látinn, sem leysti mig þegar öldin væri
liðin. En svo leið sú öld, að enginn gerði mér þenna mikla velgjörning.
En á hinni næstu öld sór ég, að uppljúka allri auðlegð jarðarinnar fyrir
frelsisgjafa mínum; en ekki fór þá betur. Á þriðju öldinni hét ég að gera
hann að voldugum konungi, vera honum ætíð nálægur, og uppfylla þrjár
óskir hans á degi hverjum, hvers konar sem væru. En þessi öldin leið eins
og báðar hinar fyrri, og varð ég að sæta sömu kjörum. Varð ég loksins
óhuggandi eða réttara sagt sárreiður út af því, að vera svona lengi í prísundinni,
svo ég vann þess eið, að drepa þann, sem frelsaði mig, þrátt fyrir
allar bænir, og sýna honum enga góðvild aðra en þá, að kjósa um dauðdaga
sinn. Þú hefur nú frelsað mig í dag, segðu því til, hvernig ég eigi
að drepa þig.“ Við þessi orð hryggðist fiskimaðurinn mikillega: „Mér til
óhamingju er ég hingað kominn, til að gera þeim mikinn velgjörning,
sem er vanþakklátur. Hyggðu að rangsleitni þinni og taktu aftur þenna
óskynsamlega eið. Fyrirgefðu mér, og mun þá guð einnig fyrirgefa þér;
ef þú ert svo drenglyndur, að gefa mér líf, mun hann og gæta þín fyrir
öllum svikum óvina þinna.“ „Nei, þér er dauðinn vís,“ segir andinn,
„segðu einungis til, hverjum dauða þú vilt deyja.“ Þegar fiskimaðurinn
sá að andinn var staðráðinn í að drepa hann, varð hann yfirkominn af
dauðans angist, og þó ekki svo mjög sjálfs sín vegna, sem þriggja barna
sinna, því fyrir þeim lá mesta eymd og volæði, ef hans missti við. Gerði
hann því ennþá eina atreiðina til að mýkja andann og mælti: „Miskunna
mér samt vegna þess, sem ég hef gert fyrir þig.“ „Ég er búinn að segja þér,“
anzaði andinn, „að það er einmitt það, sem skyldar mig til að drepa þig.“
„Það er merkilegt,“ segir fiskimaðurinn, „að þú endilega vilt launa gott
með illu, en ekki lýgur máltækið, sem segir: Gott höfum vér gert þeim,
og þeir launuðu oss með illu, og svo breytir í sannleika sá guðlausi. Fyrir
þeim, sem auðsýnir ómaklegum góðvild, fer eins og þeim, sem hjálpaði
hýenunni. Ég játa það, að allt til þessa hefur mér þótt það ranghermt, en
nú sé ég af sárbeittri eigin reynslu að það er helzt til satt.“ „Eyðum ekki
tímanum til ónýtis,“ greip andinn fram í, „þú telur mér ekki hughvarf
með orðum þínum. Segðu fljótt til, hvernig þú vilt ég drepi þig.“
Neyðin kennir naktri konu að spinna; fiskimaður hugsaði upp bragð.
„Þetta er andi,“ segir hann við sjálfan sig, og ég er maður. Guð hefur
gætt mig heilbrigðri skynsemi og því ætla ég að reyna að steypa honum
í glötunina með hyggindum og slægð, eins og hann beitti svikum og lævísi
við mig.“ Sagði hann þá við andann: „Þú hefur fastráðið dauða minn.“
„Já,“ var svarið. „Gott og vel,“ segir fiskimaður, „þá gef ég mig undir
guðs vilja. En áður en ég kýs dauðdaga minn, særi ég þig fyrir hið mikla
nafn drottins á innsigli Salómons, að segja mér satt og samvizkusamlega
einn hlut, sem ég ætla að spyrja þig um.“ Þegar andinn heyrði, að hann
var svo kröftuglega spurður, að hann varð að veita skýrt og skýlaust andsvar,
skelfdist hann og mælti: „Spurðu um það, sem þú vilt vita, og vertu
stuttorður.“
Þá sást ljóma af degi og hætti Sjerasade að segja söguna.
11. NÓTT. Nóttin var því nær liðin á enda, sem hinar undanförnu;
kallaði þá Dínarsade til systur sinnar og beiddi hana að segja framhald
sögunnar af fiskimanninum og andanum. „Ég skal gjarna,“ segir hún,
„láta eftir þér, ef soldáninn leyfir,“ og tók þegar til frásagna: „Þegar
andinn hafði lofað að segja sannleikann, sagði fiskimaðurinn: „Mér þætti
gaman að vita, hvort þú í raun og veru hefur verið í flöskunni þeirri arna;
viltu sverja það við nafn hins mikla guðs?“ „Já,“ segir andinn, „ég sver
við það, að ég var í henni.“ „Satt að segja,“ mælti fiskimaðurinn, „get ég
ekki trúað því. Þú kemst með hvorugan fótinn í flöskuna, og þú skyldir
hafa komizt í hana allur?“ „Ég sver þér það,“ anzaði andinn, „að ég var
í henni slíkur, sem þú sér mig núna. Trúirðu ekki orðum mínum, þegar
ég hef unnið svo dýran eið?“ Og jafnskjótt hristi andinn sig, en líkami
hans þandist út og þynntist, og varð að þoku, sem lagði fyrst upp til himins,
en dróst síðan saman og skrapp niður í háls flöskunnar, þangað til
allt hvarf gjörsamlega. Þá var sagt innan í flöskunni: „Lítiltrúaði fiskimaður!
Nú er ég í flöskunni; ertu nú genginn úr skugga um það?“ Í stað
þess að anza honum, brá fiskimaðurinn sem fljótast blýlokinu yfir flöskuna
og mælti: „Andi! Nú kemur til þinna kasta, að biðja mig miskunnar,
og kjósa um, hvernig ég eigi að fyrirkoma þér. Nei, nei, það er bezt
ég kasti þér hérna út í sjóinn á sama hátt sem ég dró þig. Ég læt þá gera
mér kofa hérna, til að vera í, og vara alla fiskimenn við, sem hér kasta út
netjum sínum, að slæða upp þann anda, sem er svo vondur, að hann hefur
svarið, að verða þess manns bani, sem frelsar hann.“ Þegar andinn heyrði
storkunaryrði þessi, neytti hann allrar orku, til að komast upp úr flöskunni,
en innsigli Salómons stóð fyrir. Sá hann þá, að hann var í valdi
fiskimanns, bældi því niður reiði sína og mælti blíðlega: „Varaðu þig,
fiskimaður, á því að gera það, sem þú ert að tala um; þetta, sem ég átti
við þig, var aldrei nema gaman, og þú mátt ekki taka það svona í fullri
alvöru.“ „Andi minn!“ svaraði fiskimaðurinn, „þú, sem fyrir svipstundu
varst allra anda mestur, og nú ert allra minnstur, hér dugar engin flærð
né fals, þú verður að fara ofan í sjóinn aftur. Úr því þú ert búinn að kúra
þar svo lengi, sem þú sagðir mér, þá held ég þú getir setið þar þangað til
á dómsdegi. Ég bað þig fyrir guðs sakir að gefa mér líf, en þú þversynjaðir
mér; nú geld ég líku líkt.“ Leitaði nú andinn allra ráða til að blíðka
fiskimanninn. „Ljúktu upp flöskunni,“ sagði hann, „ég sárbæni þig,
gefðu mér frelsi; ég lofa að verða þér að skapi.“ „Þú ert svikari,“ anzaði
fiskimaðurinn, „ég væri dauða verður, ef ég væri það flón að trúa þér.
Þú færir vafalaust með mig eins og konungur einn á Grikklandi fór með
Dúban, lækni sinn. Ég ætla að segja þér þá sögu, taktu eftir.
[1043.png]
Sagan af gríska konunginum og Dúban lækni
Einu sinni var konungur í landinu Súman, í Persaríki; voru þegnar
hans ættaðir af Grikklandi. Konungur þessi var líkþrár, og höfðu læknar
hans leitað við hann allra meðala og ekki dugað. Voru þeir orðnir uppnæmir
og vissu ekki, hvað reyna skyldi við hann; þá kom til hirðarinnar
bezti læknir, sem Dúban hét. Hafði hann numið allan fróðleik sinn af
grískum, persneskum, tyrkneskum, latínskum, sýrneskum og ebreskum
bókum. Auk þess var hann djúpvitur heimspekingur, og þekkti góða og
illa náttúru alls konar jurta og kryddtegunda. Undir eins og hann frétti
um sjúkleika konungs, og heyrði að læknarnir voru úrkula vonar um
heilsu hans, fór hann í beztu klæði sín, og varð honum eigi ráðafátt, né
vits vant, til að ná konungs fundi. Ávarpaði hann konung þannig: „Mildasti
herra! Ég hef frétt að enginn lækna þeirra, sem yðar hátign hafa stundað,
geti læknað líkþrá yðar. Ef þér vilduð unna mér þeirrar sæmdar, að
þjóna yður, skuldbind ég mig til að gera yður heilan heilsu, án alls áburðar
og ábergingar læknismeðala.“ Konungur svaraði boði þessu þannig:
„Ef þú ert slíkur snillingur, að þú getur ent það, sem þú lofar, þá skal ég
gera sjálfan þig ríkan, börn þín og barnabörn. Auk þess að ég mun gefa
þér gjafir, skaltu vera hinn kærasti vildarmaður minn. Þú lofar þá að
lækna holdsveiki mína, svo að ég hvorki þurfi að bergja á meðulum né
láta bera á mig smyrsli.“ „Já, konungur,“ svaraði læknirinn, „og er ég
vongóður um að mér takist það með guðs hjálp, og ætla ég að byrja lækninguna
á morgun.“ Fór Dúban síðan heim til sín og bjó sér til knattdrepu.
Holaði hann handfangið að innan og fyllti læknislyfjum þeim, sem hann
ætlaði að nota. Því næst bjó hann til knött með jafnri kunnáttu, og fór
svo með hvorttveggja til konungs daginn eftir, fleygði sér fyrir fætur honum,
og kyssti á gólfið“...
12. NÓTT. „Herra! Fiskimaðurinn hélt þannig áfram, að segja andanum
söguna, þar sem hann sat innibyrgður í flöskunni: „Dúban stóð þá
upp aftur, og er hann hafði hneigt sig djúpt, sagði hann konungi, að sér
litist það hentast fyrir hans hátign, að stíga á hestbak og fara í knattleik.
Fór því konungur af stað með gjaldkerum sínum, emírum og vezírum
þangað sem til var tekið. Þegar hann var þangað kominn, gekk læknirinn
til hans með knattdrepuna og knöttinn, fékk honum hvorttveggja og
mælti: „Takið, herra, við knattdrepu þessari, haldið þarna um og hverfið
undir yður hestinum á ýmsar hlíðar á skeiðvellinum, og leikið að knettinum,
þangað til þér svitnið um lófana og allan líkamann. Þá munu
læknislyfin, sem ég hef fólgið í handfanginu, hitna og kraft þeirra fyrst
leggja um hönd yðar, en síðan um allan líkamann. En þegar þér eruð
orðinn kófsveittur, skuluð þér fara heim aftur til hallarinnar og taka
laugar, láta þvo yður vandlega og núa allan, og leggjast síðan til svefns.
Munuð þér þá rísa upp heill heilsu í fyrra málið.“ Tók nú konungurinn
knattdrepuna, og var þar með hirðmönnum sínum að fleygja knettinum
fram og aftur, þangað til hann var allur í einu svitalöðri. Hætti hann þá
leiknum og sneri aftur til hallarinnar, tók laugar og gerði allt nákvæmlega,
sem læknirinn hafði fyrir hann lagt. Varð honum þetta til bata, því
þegar hann vaknaði morguninn eftir og leit á sig, sáust engin sára merki
og var hörund hans hreint og þriflegt. Fylltist hann þá undrun og fögnuði,
og jafnskjótt sem hann hafði klætt sig, gekk hann til hins opinberlega
áheyrnarsals, settist þar í hásæti og sýndi sig hirðmönnum sínum. Höfðu
þeir komið þangað saman snemma um morguninn, því bráðlætið var
mikið, að vita hvern ávöxt þessi undarlega, nýja lækningaaðferð hefði
borið, og er þeir sáu að konungur var alheill, létu allir ánægju sína í ljós
með háværum fögnuði. Kom þar einnig Dúban læknir og ætlaði að leggjast
flatur fyrir framan hásætið, en konungur stóð upp, er hann sá hann
koma, og bauð honum að setjast við hlið sér. Setti hann upp mesta hól á
hann í viðurvist allrar hirðarinnar, en lét ekki þar við sitja, heldur lét
hann Dúban borða einn með sér við sama borð þenna dag, því hann hélt
allri hirð sinni veizlu.“
13. NÓTT. Undir lok hinnar næstu nætur hélt Sjerasade, með leyfi
soldáns, áfram sögunni af gríska konunginum og Dúban lækni: „Gríski
konungurinn,“ þannig sagði fiskimaðurinn áfram söguna, „lét sér ekki
nægja að setja lækninn við sitt eigið borð, og láta hann vera hjá sér
sem gest sinn liðlangan daginn, heldur gaf hann honum þar á ofan um
kvöldið tvær þúsundir gullpeninga, og tignarklæði, lét hann stíga á bak
hesti sínum og fara heim til sín, svona úr garði gerðan. Minntist konungur
aldrei læknisins svo, að hann ekki tæki til frábærrar kunnáttu hans; kvað
hann það vera skyldu sína, að auðsýna honum svo mikla sæmd og góðvild,
sem unnt væri, og hafa hann fyrir félaga og trúnaðarmann, meðan þeir
lifðu. Gekk hann til rekkju, guðsfeginn heilsubata sínum, og er hann var
vaknaður og kominn á fætur morguninn eftir, settist hann aftur í hásæti
sitt. Sátu emírar hans og vezírar til beggja hliða honum; gerði hann þá
boð eftir vitringnum Dúban. Kom hann og kyssti gólfið frammi fyrir
fótum konungs; stóð konungur þá upp og bauð Dúban að setjast við hlið
sér, og lét hann borða með sér einum. Gaf hann honum nýjan tignarklæðnað
og aðrar gjafir, og var að spjalla við hann þangað til náttaði,
þá skipaði hann, að fá skyldi lækninum fimm tignarklæðnaði og þúsund
gullpeninga; fór læknirinn síðan til híbýla sinna.
Nú hafði konungur stórvezír einn, sem borinn var undir vondri fæðingarstjörnu
og illsvitandi himinteiknum; var hann ágjarn og öfundsjúkur
og mesta þrælmenni. Þegar hann sá að konungur kaus Dúban lækni
fyrir vin og sýndi honum nýjan náðarvott á degi hverjum, varð hann
öfundsjúkur og fór að hugsa um, hvernig hann gæti steypt honum í glötun;
sannaðist þar máltækið: „að enginn flýr öfund“, og það annað: „að
grimmdin leynist í hugskoti manns, mátturinn leiðir hana í ljós, en vanmátturinn
kæfir hana niður.” Það var einn dag að vezírinn gekk til konungs,
og bjó yfir illræðum; kyssti hann gólfið frammi fyrir fótum hans
og sagði honum, að hann hefði komizt að mikilsvarðandi hlut. En er konungur
spurði, hvað það væri, anzaði vezírinn: „Herra! Það er hættulegt,
að setja traust sitt á þann, sem óreyndur er að trúnaði. Þér látið rigna
velgjörðum og vinahótum yfir Dúban lækni, og vitið ekki, að hann er
drottinssvikari og hefur laumazt í hirðsveit yðar, til einskis annars en að
myrða yður.” „Hvernig veiztu það, sem þú þar dirfist að mæla?” svarar
konungur, „gáðu að því, að þú átt tal við mig, og að þú segir þar nokkuð,
sem ég er tregur að trúa.” „Herra!” segir vezírinn, „ég veit þetta fyrir
víst, sem mín er æran að gera yður varan við. Látið ekki blindast af svo
háskalegu oftrausti. Ef yðar hátign sefur, kunnið þér að vakna, því ég
ítreka það: Dúban er kominn úr innsveitum Grikklands, fósturjarðar
sinnar, til þess að framkvæma hið hryllilega áform, sem ég nefndi.” „Nei,
nei, vezír,” mælti konungur, „ég er óhræddur um þenna mann, sem þú
kallar níðing og drottinssvikara, hann er sá ráðvandasti og vænsti maður
sem hugsazt getur. Mér er við engan mann á jörðinni eins vel og hann.
Þú veizt það sjálfur, með hvílíku meðali, eða öllu heldur kraftaverki, hann
læknaði líkþrá mína. Hafi hann viljað svipta mig lífi, því skyldi hann þá
frelsa mig fyrst? Ég stóð með annan fótinn í gröfinni, og hefði hann ekki
þurft annað en að láta sjúkdóminn vinna á mér. Vertu því ekki að reyna
til að kveikja hjá mér ranga grunsemd. Fer því fjarri að ég trúi þessu, og
læt ég þig þvert á móti vita, að ég upp frá þessum degi borga honum svo
sem svarar einni þúsund sekkína, á mánuði, meðan hann er á lífi. Og þó
ég skipti til jafns við hann öllum auðæfum mínum, og jafnvel ríkinu
sjálfu, mundi honum þó vera vanlaunað, svo mikið gott á ég honum upp
að inna. Ég skil hvernig á öllu stendur; þið sjáið ofsjónum yfir verðleikum
hans. En verið ekki þau börn, að halda, að ég láti spilla milli okkar.
Ég man of vel hvað vezírarnir sögðu Sindbað, konungi sínum og herra,
til þess að telja hann af lífláti sonar síns“...
14. NÓTT. „Herra!“ tók Sjerasade til máls og sneri orðum sínum til
soldánsins, „það, sem gríski konungurinn drap á vezírana hans Sindbaðs
konungs, æsti svo mjög forvitni vezírsins, að hann mælti: „Fyrirgef mér,
yðar hátign, að ég leyfi mér að spyrja svo djarft, hvað báru vezírar Sindbaðs
konungs upp fyrir herra sinn, til að aftra honum frá lífláti sonar
hans?“ Gríski konungurinn var svo náðugur, að hann leysti úr spurningu
vezírsins út í hörgul, og sagði honum þessa sögu:
Sagan af hinum fjörutíu vezírum og drottningunni
Einhver hinn voldugasti af drottnum Persíu í fornöld var Sindbað
konungur, því að öll austurálfa heims var honum undirgefin. Hann var
hinn auðugasti og voldugasti konungur í veröld, og hraustur að því skapi.
Hefði hann verið svo metnaðargjarn, að hann hefði viljað brjóta undir
sig alla veröldina, mundi hann hafa getað það. En hann lét sér nægja
að drottna yfir stóru og blómlegu ríki, og kom honum ekki til hugar að
kasta eign sinni á nágrannalöndin. Hann hafði velferð þegna sinna fyrir
aðal mark og mið, og blessuðu þeir stjórn hans á degi hverjum. Öfunduðu
allar aðrar þjóðir þá að slíku láni og óskuðu sér einskis betra. Þessi
nafnkunni konungur átti son, er hver maður dáðist að, sem hann sá; hann
hét Núrgehan, það merkir: ljós heimsins. Auk þess að kóngsson var tígulegur
í vexti og gæddur himneskri fegurð, hafði hann aðrar gáfur til að
bera, svo að þessara fyrirtaks kosta gætti enn meira. Kunni hann vel að
rita mörg mál og var afbragðs bogmaður. Að öllu samtöldu var varla sú
fræði til, sem hann var ekki heima í, eða að minnsta kosti hefði fullkomna
hugmynd um. Hann var lifandi eftirmynd móður sinnar, drottningarinnar;
jafnaðist hún að fríðleik við hinar orðlögðu konur í Kasmir, og
elskaði Sindbað konungur hana heitt. Sýndi hann þess einlægan vott með
sorg sinni, þegar drottning andaðist eftir þunga legu, svo sem henni var
fyrirhugað af forlögunum. Hryggðist hann svo ákaft, að því verður ekki
með orðum lýst. En tímalengdin græddi sár þetta, sem oftast mun verða;
konungur lét huggast og fékk sér aðra konu, svo að hann gleymdi hinni
fyrri. Gekk hann að eiga dóttur eins konungs í nágrenninu; hún hét Kansade
og var forkunnar fríð og vel viti borin, en kunni ekkert hóf á girndum
sínum og tilhneigingum. Óðara en drottning þessi sá Núrgehan,
kóngsson, fékk hún brennandi ást á honum, og var því fjarri, að hún
reyndi að þagga niður ástríðu þessa, heldur gaf henni miklu fremur lausan
tauminn. Ætlaði hún því að játa kóngssyni ástarhug sinn, svo fljótt
sem tækifæri gæfist. Hann sökkti sér um þessar mundir niður í vísindi og
iðkaði stjörnuspár; tók hann beztu framförum í þeim. Hann hafði fyrir
meistara hinn djúplærða Abúmasjar, sem var fróðasti stjörnuspámaður
í Austurálfu. Það var einn dag að fræðimaður þessi hafði stillt stjörnumátið
lærisveini sínum viðvíkjandi, sá hann þá af óyggjandi merkjum, að
hann átti ógurlega hættu yfir höfði. Segir hann því við kóngsson: „Ég
hef spurt stjörnurnar um ókomna ævi þína, og hafa þær ekki verið hagstæðar.
Fyrir þér liggur hryggilegt hlutskipti, og fær það mér mikillar sorgar,
eins og þú mátt sjá á mér.“ Kóngsson setti bleikan við orð þessi, en lærifaðir
hans hughreysti hann svofelldum orðum: „Þú skalt samt ekki halda,
að elska mín þér til handa né íþrótt mín kviki eða hörfi undan hinum
hræðilegu forlögum, sem vofa yfir þér. Að vísu stendur glötun þín skrifuð
í stjörnunum, en það er ekki ómögulegt að koma í veg fyrir hana; ég hef
fundið ráð til þess í bókum mínum. Þú mátt ekki tala orð í fjörutíu daga.
Hvernig sem yrt verður á þig, skaltu ekki anza og varast að brigða þögninni,
hvað sem að höndum ber, því líf þitt liggur við.“ Lofaði þá Núrgehan,
að þegja eins og steinn í fjörutíu daga. Síðan skrifaði fræðari hans
nokkur helgra manna nöfn á bókfell, og hengdi það um háls honum. Að
því búnu fór han niður í jarðhús, sem enginn vissi af, nema hann einn;
faldi hann sig þar, svo að hann yrði ekki neyddur til að segja konungi
það, sem hann vildi þegja yfir. Var það soldáni jafnan mikil ánægja að
hafa son sinn hjá sér, og hafði því gert boð eftir honum; spurði hann son
sinn að mörgu og svaraði hann engu. Varð konungur hlessa á þessu og
mælti: „Sonur minn! ertu búinn að missa málið? hvað hefur þér verið
gert? hvað hefur þig hent? Talaðu og láttu mig ekki kveljast af áhyggjum
út af þögn þinni.“ En spurningar þessar og fortölur urðu árangurslausar
sem fyrri. Kóngsson horfði harmþrunginn á föður sinn, leit síðan til jarðar,
og talaði ekki orð. Veik þá konungur sér að siðameistara sonar síns og
mælti: „Sonur minn hlýtur að búa yfir einhverri nagandi sorg, sem hann
vill engan láta af vita. Farðu með hann til drottningarinnar, stjúpmóður
hans; hver veit nema hann birti henni hugarþel sitt?“ Siðameistari gerði
eins og konungur bauð, og leiddi kóngsson inn í herbergi Kansade drottningar.
„Lafði mín!“ segir hann við drottningu, „svo virðist sem kóngsson
hafi misst málið, og eitthvert hörmulegt hrygglyndi læst sig í hjarta hans,
sem ómögulegt er að fá hann til að gera uppskátt um, hver orsök sé til.
Sendir konungur hann til yðar, af því hann vonar, að hann slái frá sér
ólundinni í návist yðar.“ Þegar drottning heyrði þetta, kom yfir hana
gleðiblandin óró; hún hugsaði með sér: „Nú má ég ekki sjá mig úr færi,
fyrst svona vel ber í veiði; ég á ekkert á hættu, þó ég játi fyrir honum ást
mína. Hafi Núrgehan týnt málinu, þá getur hann ekki borið það í konung,
sem ég segi við hann. En sé hann svo ófyrirleitinn, að ljóstra upp ást minni,
þá ber ég því í vænginn, að ég hafi talað svona við hann, einungis til þess
að fá úr honum orð.“ Þótti Kansade sem sér mundi aldrei bjóðast betra
færi til að ná áformi sínu; bauð hún því öllum, sem viðstaddir voru, að
fara burt úr herbergi sínu, svo að þau yrðu tvö ein, hún og kóngsson.
[1049.png]
Faðmaði hún hann að sér með brennandi fjöri og mælti: „Kóngsson minn
elskulegur! hvað veldur hugsýki þinni? leyndu mig því ekki, ég sem elska
þig heitar en þó þú værir sannborinn sonur minn.“ Komst kóngsson við
af því, að stjúpa hans skyldi samhryggjast honum svo hjartanlega, og leitaðist
við að gera henni skiljanlegt með augnaráði sínu og bendingum,
hvað sér sárnaði að geta ekki talað við hana. En drottningin rangskildi
augnaráð hans og látbragð, og ímyndaði sér að hann brynni af sömu munaðarlífs
girnd og hún sjálf; að honum hefði verið ómögulegt annað en að
elska hana, að sínu leyti eins og hún gat ekki staðið af sér, og hefði ekkert
aftrað honum frá að játa ást sína, annað en lotning sú, sem hann bar fyrir
föður sínum. Þetta var henni ljúf villa og lét hún hana því hlaupa með
sig í gönur, eins langt og konur geta frekast villzt, þegar þær missa sjónar
á dyggðinni og skynseminni. „Ó, þú konungur minn og líf mitt,“ tók
hún til orða, „láttu af þessari grimmu þögn, sem er báðum okkur til kvalar.
Þú veizt að allt vald konungsins er mér innan handar. Viljirðu leggjast
á eitt með mér og fallast á mín ráð, muntu innan skamms öðlast allt
það, sem þú framast óskar. Við erum bæði ung, kóngsson minn! ég ætti
betur geð við þig en hann, sem skapar mér hörmulega og leiðindafulla
lífdaga með elli sinni. Þú þarft ekki annað en segja til. Skyldaðu þig með
óbrigðanlegum svardaga til þess að taka mig til löglegrar eiginkonu, og
þá lofa ég þér því, að þú skalt undir eins verða konungur, með þeim hætti,
að ég flýti fyrir dauða öldungsins, hans Sindbaðs. Ég sver þér við hinn
mikla guð, skapara himins og jarðar, að engin svik búa undir orðum
mínum. Viltu nú vinna mér líkan eið og lofa mér statt og stöðugt, að
leggja þína hönd í þá hönd, sem setur á þig kórónuna?“ Núrgehan svaraði
ekki einu orði, og af því að auðséð var, að hann skildi ekki í þessu,
lét drottningin dæluna ganga. „Ég sé það vel, kóngsson, að uppástunga
mín kemur flatt upp á þig. Þú efar, að ég geti komið því til leiðar; en
nú skal ég segja þér, hvernig ég mun ráða konunginn af dögum. Í féhirzluhúsi
ríkisins er alls konar eitur, sumt drepur á mánuði, sumt tveimur
mánuðum, og sumt enn þá lengri tíma eftir að það er drukkið. Nú munum
við kjósa það, sem seinvirkast er. Sýkist þá konungur og bíður sitt
skapadægur, þannig að engin grunsemd fellur á okkur. Síðan stígur þú
í hásætið, allt ríkið sér drottinn sinn og herra, þar sem þú ert, og allt
herliðið hlýðir boðum þínum.
Þó að nú konungsson hefði viljað tala, hefði honum verið það ómögulegt,
svo forviða varð hann að heyra þessi hryllilegu fádæmi.
15. NÓTT. Þegar Kansade drottning gat ekki togað orð úr Núrgehan,
og það var eins og hann sæti í þungum hugsunum, byrjaði hún á ný:
„Ef þú ekki sér út úr þeim vandræðum, hvernig þú eigir að fá ekkju föður
þíns, þá skaltu senda mig heim aftur til föðurlands míns, en skipa
einhverjum af höfuðsmönnum þínum að veita mér eftirför með nokkrum
hermönnum, ráðast á mig, eins og þeir væru ræningjar, og strjúka burt
með mig. Mun þá koma upp sá kvittur, að ég hafi verið drepin á leiðinni,
og nokkrum dögum seinna kaupir þú mig af höfuðsmanninum,
eins og tízka er að kaupa ambáttir. Svona getur þú orðið maðurinn minn,
og við búið saman í mestu kærleikum og blíðu.“
Að svo mæltu þagnaði drottning, svo að kóngsson kæmist að, til að
rjúfa loksins þögnina. En er þar var steinhljóð sem fyrri, gleymdi hún
öllu hófi og þrýsti honum upp að sér með blíðubrögðum og brennandi
kossum. Þá varð Núrgehan uppvægur út af ósvífni stjúpu sinnar, sleit sig
af henni og laust hana svo hart í andlitið, að blæddi úr vörunum. Á augabragði
kom hatrið í stað ástarinnar í hjarta drottningar; nú skein ekki
ástin úr augum hennar, heldur brann úr þeim heiptar eldur, og kallaði
hún þá upp: „Þú hinn armi! svona ferðu með drottningu þá, er ann
þér af öllum hug, misbauð ég þínu siðlausa vandlæti, að ég gerði þér kost
á að stíga í hásæti föður þíns, þrælmennið þitt? Þó ég yrði viðbjóðsleg
í augum þínum, þegar ég hafði gert þér þetta uppskátt, gaztu samt ekki
vorkennt konu, sem er blekkt og blinduð af óviturlegri ást? Ég hefði verið
þess maklegri, að þú sæir aumur á mér, en að þú gerðir svo svívirðilega
til mín. En þér er það ekki of gott mannhrakið þitt, beittu allri þinni
grimmd við mig, margfaldaðu hatur þitt á mér, það kemst samt ekki í
hálfkvisti við það hatur, sem ég ber til þín. Snáfaðu burt og komdu aldrei
fyrir mín augu, en hræðast skaltu reiði þeirrar konu, sem bauð þér eftirlæti
sitt, en þú forsmáðir.“ Kóngsson hafði farið undir eins, þegar hann
hafði rekið drottningunni löðrunginn og ekki einu sinni beðið eftir því að
Kansade vísaði honum burt, heyrði hann því ekki meira en helminginn
af brigzlunum og heitununum. Drottningu brunnu nasir af vonzkunni,
og ásetti hún sér að fyrirkoma Núrgehan. Í því skyni reif hún sundur
klæði sín, flækti á sér hárið, og reið á andlitið blóðinu, sem lagði úr
munninum, hljóðaði upp yfir sig og bar sig aumlega. Kom þá Sindbað
skömmu á eftir og ætlaði að vita, hvort málleysið hefði farið af syni sínum.
En skyldi honum ekki hafa orðið illt við, þegar hann sá drottninguna
með strúað hárið og blóðugt andlitið í legubekknum? Unni hann drottningu
mjög og varð því æfareiður og harmsfullur. „Ó þú sætasta ljós augna
minna,“ mælti hann, „hvað er þetta, sem ég sé? Hver hefur vogað að fara
svona með þig? segðu mér það undir eins, og skaltu ekki bíða hefndanna.“
Við þetta setti drottning upp hálfu meiri grát en áður: „Ó þú konungur!
Óláns faðir! En, hvað ég skuli ekki mega dylja þig þess, sem þú vilt
vita! Undristu yfir því, að sjá mig svona útleikna, þá held ég þér megi
bregða við að heyra, að þetta eru handaverk sonar þíns.“ „Sonar míns?
Mikli guð!“ greip Sindbað fram í, „gat það verið, að hann sleppti sér
svo í hatrinu á stjúpu sinni, að hann svívirti þig svona? Og hann lét
ekki þá lotningu aftra sér, sem hann er mér um skyldugur?“ „Herra!“
anzaði Kansade, „hann er miklu sekari en þú heldur. Æ, hver kona ætli
að hefði tortryggt það skin dyggðarinnar, er skein svo skírt og skýlaust af
yfirbragði hans. Ég sat í legubekk þessum, þegar hann kom inn. Bauð
ég þá öllum, sem við voru, að fara burt, svo að hann mætti því frjálslegar
skýra frá þögn sinni. En þessi útskýring varð heldur áþreifanleg. Jafnskjótt
sem hann sá að við vorum tvö ein, settist hann niður hjá mér og
tók þannig til orða: „Drottning, ég verð að brigða þeirri þögn, sem ég
hef tekið fyrir mig, og sem enginn veldur nema þú. Ég elska þig út af
lífinu, og af því að ég örvænti um, að geta talað við þig einslega, kom í
mig hugsýki, svo að lá við sjálft, að ég veslaðist upp. Hvílíkt lán er það,
að fá þetta tækifæri til að standa frammi fyrir þér vottalaust! Ef þú tekur
elsku minni, þá er ég staðráðinn í því, að drepa föður minn og ganga að
eiga þig. Ég held að þegnunum sé farin að leiðast stjórnin hans, ekki
síður en mér.“ Þú mátt nú ekki misvirða, þó ég segi þér það, sem hann
talaði orð fyrir orð; það er yfir mér skjálfti og hryllingur af því enn. Þér
er nóg að vita, að þú átt verstan son allra konunga í veröld. En er hann
varð þess áskynja, að mér ofbauð uppástunga hans, ætlaði hann að taka
mig nauðuga. Ég varði mig, hann reif sundur klæði mín, lamdi mig og
mundi hafa drepið mig, og gefið mér dauðri sök á því, sem ég nú kæri.
En hann var hræddur um að þjónustukonur mínar mundu koma að sér,
þegar ég hljóðaði upp, flýði hann því burt, þegar hann var búinn að
fara svona með mig.“ Allt þetta bar Kansade svo náttúrlega fram, að
Sindbað konungur trúði henni fullkomlega. Svo sem hann unni syni
sínum, lét hann sér samt svo mikið um finnast, að undir eins og hann
var skilinn við drottningu, gerði hann boð eftir böðlinum. Bauð hann
honum, að hafa allt á reiðum höndum til aftöku Núrgehans. Spurðu nú
vezírarnir fljótt þetta grimmdarboð konungs, og undruðust, að hann
skyldi láta taka son sinn af lífi og ekki hafa þá í ráðum. Komu þeir því
saman og gengu allir fyrir hinn reiða konung; hafði einn orð fyrir þeim
og mælti: „Ó, þú konungur veraldarinnar, vér biðjum þig einungis að
gefa okkur líf sonar þíns þenna dag, og segja oss, hvern stórglæp hann
hefur unnið slíkan, að hönd föður hans hefur snúizt upp í móti honum;
skyldu feður fara varlega að refsa börnum sínum.“ Síðan sagði konungur
þeim allt, sem drottning hafði kært fyrir honum. En er hann hafði
talað út, mælti elzti vezírinn: „Gáðu að þér, herra, að láta eftir þeirri
reiði, sem kona hefur í brjósti sínu, og varastu að brjóta móti guðs
boðum og réttlætis lögmáli spámannsins. Drottningin hefur ákært son
þinn og hefur engin vitni móti honum; hún krefst þess, að hann sé drepinn
af því hann elski hana, og hafi viljað svala girnd sinni með ofbeldi.
En hvaðan kom konum það, að hafa skírlífi sitt svo í hávegum, að þær
óski þeim mönnum dauða, sem leggja hendur á þær? Það játa ég, að
sumar eru svo hreinlífar, að þær stökkva upp á nef sér, ef lagt er að þeim
með ófeilnar bænir; en það sem skírlífi þeirra sakfellir, það afsakar hégómagirndin
undir eins, og fyrirgefa þær fúslega þau afbrot, sem fríðleikur
þeirra veldur. Varist því yðar hátign, að framselja son yðar fyrir
rógs sakir, og ef til vill í hefndarhendur þær, sem vilja steypa honum
í glötun, af því hann lét ekki leiða sig afvega. Hugsið eftir því, hvað
konur eru slungnar; sagan af spekingnum Sjabeddín er ljós vottur um
hvað illska þeirra er viðsjárverð.“ Sindbað konungur kvaðst vilja heyra
sögu þessa.
Sagan af Sjabeddín fróða
16. NÓTT. „Það var einhvern dag, að soldán Egiptalands stefndi öllum
fræðimönnum ríkisins í höll sína; hófst þá þræta á milli þeirra. Svo
er mælt, að engillinn Gabríel hafi burtnumið Mahómet úr hvílu sinni,
og sýnt honum allt, sem er í hinum sjö himnum, í paradís og í helvíti.
En er spámaðurinn með þessum hætti hafði átt níutíu þúsund samtöl
við drottinn, flutti engillinn hann aftur ofan í rúmið hans. En þetta
hafði allt orðið með svo skjótri svipan, að Mahómet fann sængina volga
og gat reist upp vatnskrukku, sem oltið hafði um, þegar hann var burtnuminn,
og var ekki farið niður allt vatnið, sem í henni var. Soldán var
forseti á samkomu þessari, og stóð á því fastara en fótunum, að þetta væri
ómögulegt. „Eftir því sem þið fullyrðið,“ mælti hann, „eru sjö himnar til,
og er fimmhundruð ára vegur milli hvorra tveggja, og er þar á ofan hver
himinn eins djúpur, og langt er bilið milli himnanna. Hvernig gat það
þá átt sér stað, að Mahómet skyldi finna sængina volga, þegar heim kom,
og vatnið ekki vera alveg runnið úr krukkunni, sem oltið hafði, og þá
var hann búinn að fljúga gegnum alla himnana og tala níutíu þúsund sinnum
við guð. Hver ætli sé svo auðtrúa að halda, að svo hlægileg skröksaga
geti verið sönn? Eða vitið þið ekki, að þegar þið fellið niður fulla vatnskönnu,
og takið hana upp á augabragði, þá er varla neitt vatn eftir í
henni?“ Vitringarnir svöruðu því, að slíkt væri ekki einleikið og yrði ekki
á náttúrlegan hátt; en guðs almætti væri enginn hlutur ómáttugur. Soldán
var trúmaður enginn og gerði sér það að aðalreglu, að trúa engu, sem
stríddi móti skynseminni. Hann vildi því ekki kannast við þetta undur,
og fóru vitringarnir hver heim til sín, en þræta þessi hafði samt vakið athygli
manna í öllu landinu. Það barst þá líka til eyrna Sjabeddíns fróða,
en gildar orsakir höfðu hamlað honum að eiga sæti á samkomunni. Fór
hann nú til hallar soldáns, þegar dagshitinn var megnastur. En er soldán
varð þess vís, hver kominn var, gekk hann sjálfur til móts við hann og
leiddi hann inn í skrautlegt herbergi. Bauð hann honum að setjast niður
og mælti: „Það var óþarfi fyrir þig, vitringur, að fara hingað, þú hefðir
ekki þurft annað en að senda einhvern af þjónum þínum, og mundum
vér fúslega hafa veitt honum allt, sem hann hefði beðið um í þínu nafni.“
Vitringurinn svaraði, að aðalerindi sitt væri, að hljóta þá sæmd, að tala
stundarkorn við hans hátign. Soldán vissi að það orð fór af vitringnum,
að hann væri stoltur og stórlátur, þegar konungar væru við; var hann því
viðfeldinn og alltilegur við hann. Nú voru fjórir gluggar á herberginu,
sem þeir voru í, og sneri í sína áttina hver. Beiddi vitringurinn soldán
að loka þeim, og er það var gert, sátu þeir góða stund og voru að tala
saman. Síðan lét vitringurinn ljúka upp aftur einum glugganum, sem
vissi út að fjallinu Kiseldaghi (þ.e. hið rauða fjall) og spurði konung,
hvort hann vildi ekki líta út.
Soldán gekk þá út að glugganum og sá að fjallið og sléttlendið var
alþakið riddurum, brynserkjuðum og skjölduðum, og var það slíkt ógrynni
sem stjörnur himinsins. Þeystu þeir að höllinni með brugðnum
sverðum. Þegar konungur sá þessa sjón, skipti hann litum og hrópaði
dauðhræddur: „Hvaða ógurlegur her er þetta, sem fer að höll minni?“
„Sláið ekki slíku á yður, herra,“ segir vitringurinn, „þetta er markleysa.“
Svo mælti hann og lokaði sjálfur glugganum, sá þá soldán ekkert kvikt
á fjallinu eða sléttlendinu. Annar glugginn vissi að borginni, og lét nú
vitringurinn ljúka honum upp; sá þá soldán, hvar öll borgin Kaíró stóð
í björtu báli og tóku logarnir til himins. „Mikill ógurlegur eldsvoði,“
kallaði konungurinn upp forviða, „þarna brennur borg mín, hin fagra
Kaíró, til kaldra kola.“ „Sláið ekki slíku á yður, herra,“ mælti vitringurinn,
„þetta er markleysa.“ Lokaði hann þá undir eins glugganum, lauk
honum upp aftur, og var eldurinn horfinn.
Nú lét vitringurinn ljúka upp þriðja glugganum og sá þá soldán,
hvernig Nílfljótið flóði yfir bakka sína og velti bylgjunum að höllinni
eins og í hafróti. Hefði nú soldán ekki átt að óttast þetta nýja undur, því
hann hafði séð að ekkert varð úr herliðinu og eldsvoðanum, en samt gat
hann ekki að sér gert að hræðast og æpti upp yfir sig: „Við erum frá,
þetta skelfilega vatnsflóð sópar höll minni burt með sér og uppsvelgir
mig og alla þegna mína.“ „Sláið ekki slíku á yður, herra,“ mælti vitringurinn
enn á ný, „þetta er markleysa.“ Og er hann hafði lokað glugganum
og lokið honum upp aftur, sást Nílfljótið og rann á milli bakkanna
eins og vant var.
Síðan lauk hann upp fjórða glugganum, sem vissi út að hrjóstugri
eyðimörk, og svo sem konungur hafði orðið óttasleginn af því, sem hann
sá fyrri, eins varð hann unað fanginn af sjón þeirri, er nú bar fyrir hann.
Hann var ekki vanur að sjá annað út um þenna glugga en hrjóstur og
harðbala og því brá honum vel við þau umskipti, er hann sá ekki annað
en vínbrekkur og lystigarða, fulla af hinum ágætustu aldintrjám, runnu
niðfagrir lækir smátautandi milli bakka sinna, sem voru alþaktir rósum,
basilíkum, balsamsrunnum, hyasintum og narissum, sem ljómuðu fyrir
augun og ilmuðu fyrir vitin. Innan um blómin sást ógrynni af turtildúfum
og næturgölum, voru sumir fuglarnir uppgefnir af fluginu og kvakinu,
en sumir fylltu loftið með sætum og angurblíðum kliði. Varð konungurinn
öldungis frá sér numinn af því, er hann sá, og hélt að Eramsgarður
eða hin jarðneska paradís væri upplokin fyrir sér. „Ó, hvílík umskipti“,
kallaði hann upp, utan við sig af undrun, „hvílíkur ljómandi
garður, mikið yndi væri að vera hér, hvílík skemmtun væri að reika þarna
á hverjum degi!“ „Kætist ekki um of,“ segir vitringurinn, „þetta er markleysa.“
Að því mæltu lokaði hann glugganum. En er hann lauk honum
upp aftur, sá soldán ekkert nema eyðimörkina gömlu í stað hinnar inndælu
sjónar.
„Herra!“ mælti vitringurinn, „ég hef nú látið yður sjá nokkur furðuverk,
en þau eru ekkert hjá einu frábæru undri, sem ég ætla að sýna
yðar hátign. Þóknast yður að skipa, að borið sé hingað ker fullt af vatni.“
Skipaði soldán einum af þjónum sínum að gera það, og er kerið var
komið inn, mælti vitringurinn: „Leyfið, herra, að þér séuð afklæddir,
bundinn dúkur um mjaðmir yðar og þér síðan settir niður í vatnið.“
En er þessum viðbúnaði var lokið, segir vitringurinn: „Náðugi herra,
gerið svo vel og dýfið höfðinu niður í vatnið og hefjið það upp aftur.“
Soldán dýfði sér niður í vatnskerinu...
17. NÓTT. Soldán Egiptalands fór í kaf með höfuðið í vatnskerinu,
og í sama bili vissi hann ekki fyrri til en hann stóð undir fjalli einu
við sjávarströnd. Undraðist hann yfir þessu fáheyrða stórmerki enn þá
meira en hinum fyrri, en varð þar á ofan hamslaus af reiði og kallaði:
„Hrekkjafulli vitringur! Þú sem hefur svo grimmilega leikið á mig, komi
ég nokkurn tíma aftur til Egiptalands, sem þín hin djöfullega íþrótt hefur
flæmt mig af, þá vinn ég þess dýran eið, að ég skal hefna mín á þér.“
Hann var nú stundarkorn að formæla vitringnum, en sá þó fljótt að hér
dugðu engar heitanir né harmatölur. Herti hann því upp hugann og gekk
til manna nokkurra, sem voru að höggva við á fjallinu. Þótti honum samt
óráð að láta uppskátt, hver maður hann væri, því hann hugsaði með sér:
„Ef ég segist vera soldán, trúa þeir mér ekki og halda ég sé falsari eða fábjáni.“
En þeir sem voru að höggva viðinn, spurðu, hver hann væri, og
svaraði hann: „Ég er kaupmaður, bræður góðir, og hef brotið skip mitt,
og komst sjálfur af á fjöl einni. Þegar ég sá ykkur, gekk ég undir eins til
ykkar, og veit ég að þið munuð kenna í brjósti um mig, þegar þið sjáið,
hvað hörmulega ég er til reika.“ Þeir hrærðust líka til meðaumkvunar af
óláni hans, en voru sjálfir svo bágstaddir, að þeir áttu nóg með sjálfa
sig. Samt gáfu þeir honum allir eitthvað, því þetta voru góðir menn. Einn
gaf honum gamla flík, og annar gaf honum skógarma, og þegar þeir
höfðu klætt hann með þessum hætti, svo að hann gat farið skammlítið
inn í borgina, sem var fyrir handan fjallið, þá fylgdu þeir honum þangað.
En er þangað var komið, báðu þeir hann vel að fara og fólu hann guðs
forsjón á hendur, en sjálfir héldu þeir heimleiðis. Var þá soldán aleinn.
En svo unaðssamt sem mönnum þykir að horfa á nýstárlega hluti, þá var
soldán áhyggjufyllri um hagi sína en svo, að hann liti eftir því, sem kringum
hann var. Ráfaði hann hingað og þangað um borgarstrætin eins og í
leiðslu. Var hann nú þegar orðinn þreyttur og fór að sjást um, hvar hann
gæti hvílt sig, og nam staðar hjá húsi hestajárnara nokkurs. Sá hann það
á aðkomumanni að hann mundi þurfa hressingar við og bauð honum
inn að ganga. Kom soldáni það vel og þáði boðið og tyllti sér niður á
bekk, yzt við dyrnar.
„Ungi maður,“ spurði húsbóndinn, sem var farinn að eldast, „má ég
spyrja: hvað leggur þú fyrir þig, og hvernig stendur á því að þú ert kominn
hingað?“ Soldán gaf honum sömu andsvör og mönnunum á skóginum
og sagði ennfremur: „Ég hitti góða menn, sem voru að höggva við; voru
þeir svo drenglyndir að gefa mér þessa fornfálegu yfirhöfn og þessa skógarma.“
Hestajárnarinn svaraði, að sér þætti vænt, að hann hefði komizt
af, er hann braut skip sitt. „Settu ekki fyrir þig fjárlát þitt,“ mælti hann,
„þú ert enn á bezta aldri, og hver veit nema þú verðir uppgangsmaður
hérna í borginni? Hér er í mörgu hlynnt að útlendum mönnum, sem
vilja taka sér bólfestu hér, eða hefur þú það ekki í hyggju?” „Jú!“ anzar
soldán, „ég óska einskis fremur en að mega ílengjast hérna, ég á við, ef
allt heppnast vel.“ „Farðu þá að mínum ráðum,“ tók karlinn aftur til
máls. „Far þú til hins opinbera kvennabaðhúss, seztu við dyrnar og spurðu
hverja konu, sem út gengur, hvort hún sé gift. Þá verður sú kona þín,
sem nei segir, eftir því sem hér er landssiður.“ Soldán hugsaði sér að nota
þetta ráð, kvaddi karlinn og gekk til dyranna á baðhúsinu og settist þar
niður. Þegar hann hafði setið þar ofurlitla stund, kom út kona forkunnar
fögur. Hugsaði hann með sér, þegar hann sá hana: „Ó, mikill lánsmaður
væri ég, ef þetta gull af kvenmanni væri ógift. Fyrir hennar sakir gæti
ég unað óláni mínu. Því næst gekk hann að henni og spurði: „Fagra kona,
eigið þér mann?“ „Mann á ég,“ svaraði hún, og soldán mælti: „Það er
illa farið, þér hefðuð getað orðið gæfulánið mitt.“ Fór þá konan leiðar
sinnar, og kom skjótt önnur, en sú var herfilega ljót. Varð soldán skelkaður,
er hann sá hana og hugsaði með sér, að betra væri að deyja af
hungri en að eiga sambúð við slíka ófreskju. „Ég ætla að sleppa að spyrja
hana, hún kynni að segja nei. En hestajárnarinn hefur sagt mér, að yrða
á allar konur, líklega er það regla, og verð ég að hegða mér eftir henni.
En ef hún skyldi nú vera ógift, hver veit samt nema einhver slysinn útlendingur,
sem ill forlög hafa hrakið hingað, hafi átt hana.“ Réði því
soldán það af, að spyrja hana líka, hvort hún væri gift, og er hún kvað
já við því, gladdist hann að sama skapi, sem hann hryggðist af svari
fyrri konunnar. Nú kom þriðja konan, og var hún viðlíka ófrýnileg og hin
önnur, og stundi soldán þungan er hann sá hana. „Drottinn minn! hér
er hver annarri andstyggilegri. En ekki dugar að hætta í miðju kafi. Sé
þessi gift, veit ég það, að þeir eru til, sem brjóstumkennanlegri eru en
ég.“ Spurði hann þá, í því hún gekk framhjá, og var heldur skjálfraddaður:
„Fagra kona, eruð þér giftar?“ „Já, ungi maður!“ anzaði hún, og stóð
ekkert við, en soldán varð guðsfeginn svarinu. „Mikil heppni var yfir
mér, að ég skyldi verða óhultur fyrir báðum þessum konum!“ sagði hann
við sjálfan sig, „en enginn dagur er til enda tryggur.“ Það eru ekki allar
konur gengnar frá laugum enn þá, og á ég eftir að sjá þá, sem mér er
ætluð. Hver veit nema ég verði heppnari?“ Var hann nú viðbúinn að
sjá einhverja, sem ljótari væri en báðar hinar, en þá kom hin fjórða, og
var fríðari en hin fyrsta, þó hún væri undurfögur. „Hvílíkur mismunur!“
kallaði hann upp, „dagurinn er ekki eins ólíkur nóttinni og þessi er
báðum hinum, sem komu næst á undan. Geta englar og djöflar verið á
sama stað?“ Lagði hann sig nú allan til og gekk á móti henni og mælti:
„Yndislega kona, eigið þér mann?“ „Nei“, svaraði hún, og virti hann
fyrir sér frá hvirfli til ilja með aðgætnum, en þóttalegum augum; gekk
hún burt og lét soldán sitja einan eftir öldungis forviða. Hann vissi ekki,
hvað hann átti að halda, og fór að gruna að hestajárnarinn hefði gert
sér grikk. „Ef ég á að eiga þessa konu“, hugsaði hann, „eftir landslögum
hér, því gekk hún þá svo snúðugt burt? Því leit hún á mig með slíkum
þótta og fyrirlitningu? Hún virti mig fyrir sér í krók og kring, og ég
sá það út úr henni, að henni þótti ég lítill fyrir mann að sjá. Það er líka
sannast að segja, að henni er vorkunn. Þessi yfirhafnar ræfill, sem allur
er í sundur, er ekki þesslegur, að hann geri mig álitlegri og útgengilegri
í augum kvenfólksins. Ég skal aldrei lá henni, þó hún þættist geta valið
sér betri mann.“ Meðan soldán Egiptalands var að hugleiða þetta, kom
þræll til hans og ávarpaði hann þannig: „Herra! Ég er að leita að útlendingi
nokkrum, sem allur er rifinn og tættur, og lízt mér svo á yður,
að þér munið vera maðurinn. Gerið svo vel, ef þér eruð viðlátnir, að
fara með mér, ég á að fylgja yður á einn stað, yðar er beðið þar með
óþolinmæði.“ Fór soldán nú með þrælnum og kom í stórt hús, var honum
þar vísað inn í stórt og þokkalegt herbergi, og var hann beðinn að bíða
þar. Var hann þar svo tvær stundir, að hann sá engan mann, nema þrælinn,
sem var að smákoma til hans og biðja hann að verða ekki óeirinn.
En loksins komu fjórar konur skrautlega búnar með hinni fimmtu, sem
öll ljómaði af gimsteinum, og þó öllu fremur af óviðjafnanlegri fegurð.
Undir eins og soldán gat að líta hana, sá hann að þar var komin sú,
sem seinast gekk frá laugunum. Hún gekk til hans vinaleg og brosandi
og mælti: „Fyrirgefðu mér, að ég hef látið þig bíða nokkra stund, en ég
vildi ekki koma hirðulauslega búin fyrir augu herra míns. Þú ert í þínum
eigin húsum; allt, sem þú sér í kringum þig, er þitt. Þú ert maðurinn
minn og þarft ekki annað en skipa, ég er boðin og búin að hlýða.“
„Fagra kona,“ anzaði soldán, „fyrir skemmstu harmaði ég forlög mín,
og nú er ég allra manna sælastur. En fyrst ég er nú orðinn maðurinn þinn,
segðu mér þá, hvers vegna þú leizt svo drembilega til mín? Ég var hræddur
um, að þér hefði ekki litizt á mig, og sannast að segja, þér var vorkunn.“
„Herra!“ svaraði konan, „ég gerði það með ásettu ráði, því í þessari borg
verða konur að vera þóttalegar, þegar þær koma opinberlega fram. Þetta
er landssiður, en því ljúfari og viðfeldnari erum við á heimilinu.“ „Og
því elskuverðari,“ greip soldán fram í. En fyrst ég nú er húsbóndi, ætla
ég að byrja hússtjórn mína á því að skipa, að skraddari og skóari verði
sóttir handa mér. Ég fyrirverð mig að standa frammi fyrir þér í þessum
tötrum, og svo langt man ég, að mér hæfði ekki slíkur klæðnaður.“ „Ég
hef orðið skjótari að bragði með þessa skipun,“ sagði konan, „ég var búin
að senda þræl einn til Gyðings, er selur tilbúin föt, hefur hann allt
undir eins á reiðum höndum, sem þú kannt að þarfnast. En komdu nú
á meðan og fáðu þér hressingu.“ Svo mælti konan og leiddi hann við hönd
sér inn í sal einn, var þar uppbúið borð, hlaðið ávöxtum og ýmsum
súrsuðum réttum. Settust þau nú til borðs. En meðan þau neyttu matar,
stóðu fjórar aðrar konur bak við þau, og sungu nokkur kvæði eftir skáldið
Bada Saoudäi, og léku á ýmisleg hljóðfæri. Loksins greip húsmóðirin
gígju eina og skemmti soldáninum með strengjaleik og söng. En þá kom
Gyðingurinn, svo að hún varð að hætta þeirri skemmtun. Fylgdu honum
þjónar og báru stranga, sem margskonar klæðnaður var í. Var því nú
öllu flett í sundur og skoðað, og síðan valið úr, gullrósað silkivesti og
lifrauð klæðiskápa, og er Gyðingurinn hafði látið af hendi önnur föt,
sem nauðsynleg eru til fullkomins klæðnaðar, fór hann burt með þjónum
sínum. Þótti konunni nú soldán búast um og fannst mikið um vöxt
hans og yfirbragð; voru þau bæði jafn-ánægð, hvort með annað. Hann
bjó saman við hana í sjö ár og gat við henni sjö sonu og sjö dætur. En af
því bæði voru útsóunarsöm og hugsuðu ekki um annað en að eiga gott
og skemmta sér, eyddust fljótt fjármunir konunnar. Þau urðu að vísa
þjónustustúlkum og ambáttum úr vistinni, og selja húsgögnin, hvert á
fætur öðru, til þess að halda við lífinu. En þegar kona soldáns sá ekki
út úr bágindunum, segir hún við mann sinn: „Meðan eigur mínar entust
til, varstu óspar á þeim; þú hefur lifað í iðjuleysi og átt góða daga. Nú
kemur til þinna kasta að vinna fyrir heimili þínu.“ Hryggðist konungur
við þessi orð og leitaði upp hestajárnarann gamla, og ætlaði að fá hjá
honum heilræði. „Faðir góður,“ segir hann við hann, „nú er ég enn þá
volaðri en þegar ég kom í þessa borg. Nú á ég konu og fjórtán börn, en
hef ekkert til að veita þeim fæðslu.“ „Kanntu þá enga iðn?“ segir karlinn
og er soldán kvað nei við, tók hann upp hjá sér tvo peninga og gaf honum
og sagði: „Farðu og kauptu þér undir eins tvo létta, og gakktu síðan
innan um daglaunamennina á torginu.“ Soldán hlýddi ráðum hestajárnarans
og beið litla stund innan um hina verkmennina, þangað til
maður kom til hans og beiddi hann að bera nokkuð fyrir sig. „Til þess
er ég hingað kominn,“ segir soldán, og varð nú að rogast með stóreflis
poka, sem hann orkaði varla að bera, og meiddist hann á öxlunum af
byrðar-bandinu. Hann fékk einn Aktsja (pening) í kaup og fór með
hann heim, en kona hans sagði honum, að ef hann ekki ynni sér tífalt
meira inn á dag en þetta, mundu þau öll svelta í hel á heimilinu.
Daginn eftir fór aumingja soldáninn ekki á torgið, heldur rölti hann
niður að sjó, gekk þar fram og aftur og var að hugsa um ólán sitt. Hann
starblíndi á staðinn, þangað sem hann hvarf fyrir kunnáttu Sjabeddíns
fróða, og er hann rifjaði upp fyrir sér þetta merkilega ævintýri, gat hann
ekki tára bundizt. En er hann hafði þvegið sér eins og fyrirskipað er,
áður en hann gerði bæn sína, kafaði hann með höfuðið niður í sjóinn,
og er hann hóf aftur höfuðið upp úr, sá hann hvar hann stóð í vatnskerinu
í höll sinni, og allt hirðfólkið í kring. Þá gekk hreint fram af
soldáni. Sá hann að Sjabeddín stóð frammi fyrir sér, í sömu sporum
og þegar hann hvarf frá honum, hrópaði hann þá í reiði: „Grimmi
vitringur! Hræðist þú ekki refsingu drottins, að þú skulir gera soldáni
þínum og herra slíkan grikk?“ „Herra,“ segir vitringurinn, „því reiðist
yðar hátign mér svo, þér hafið rétt að eins stungið höfðinu niður í vatnskerið
og tekið það upp aftur, embættismenn yðar, sem hér eru viðstaddir,
geta vitnað það.“ „Yðar hátign!“ æptu allir í einu hljóði, „vitringurinn
segir satt!“ En soldán lét sér ekki nægja þenna vitnisburð, heldur
svaraði bálreiður: „Þið eruð lygarar! Þessi bölvaði vitringur hefur haldið
mér föstum með fjölkynngi í öðru landi í sjö ár. Ég kvongaðist þar
og eignaðist sjö sonu og sjö dætur, en þó þykir mér ekkert sárgrætilegra
en það, að ég skuli hafa verið daglaunamaður. Þú meinbölvaði vitringur!
Því varstu svo djarfur, að láta mig ganga með burðarkarls létta?“
„Herra,“ segir vitringurinn, „úr því þér ekki leggið trúnað á orð mín,
skal ég færa sönnur á mál mitt áþreifanlega.“ Svo mælti hann og afklæddi
sig, batt dúk um mjaðmir sér, fór í vatnskerið og kafaði niður.
En soldáninn var enn síreiður og mundi svardaga sinn, að hefna sín á vitringnum
undir eins og hann kæmi aftur til Egiptalands, brá hann því
sverðinu, til að höggva af honum höfuðið í því hann rétti það upp úr
vatninu. En vitringurinn vissi, hvað soldán hafði í hyggju, því hann
kunni fræðina Mekasjefa, sem getur sagt leyndustu hugsanir annarra.
Hann brá á sig huliðshjálmi eftir listinni Algáib-analabsar, og hvarf til
Damaskus. Þaðan skrifaði hann soldáni svo látandi bréf:
„Vita skaltu, herra, að báðir við, þú og, ég, erum ekki annað en vesalir
þrælar guðs. Þú stakkst höfðinu snöggvast niðrí vatnið og tókst það upp
í sama vetfangi, samt fórstu á meðan sjö ára ferð, fékkst þér konu, eignaðist
sjö dætur og sjö sonu og rataðir í miklar raunir. Þrátt fyrir þetta
viltu ekki trúa því, að vor mikli spámaður Mahómet hafi fundið sæng
sína volga, og ekki allt runnið úr vatnskönnunni, sem oltið hafði um.
Láttu loksins á það sannast, að þeim er enginn hlutur ómáttugur, sem
skapað hefur himininn og jörðina af engu, heldur einungis með almættisorðinu:
verði!”
Þegar soldán Egiptalands fékk bréf þetta, trúði hann að sönnu, en
ekki rann honum reiðin við vitringinn. Skrifaði hann þá konunginum
í Damaskus til og beiddi hann að handtaka vitringinn og lífláta, og senda
sér af honum höfuðið. Var konungurinn í Damaskus boðinn og búinn
til þess og sparði ekkert til að verða við tilmælum soldáns. Og er hann
frétti, að vitringurinn hefðist við í helli nokkrum, nokkuð langt frá
borginni, skipaði hann kvennavörðum sínum, að fara þangað, handtaka
vitringinn og koma með hann. Fóru þeir af stað í þeirri von, að hægðarleikur
mundi þeim að höndla vitringinn, en þeim brá heldur en ekki í brún,
þegar þeir sáu að fjöldi riddara á góðum hestum, albrynjaðir og vel
vopnaðir, vörðu hellisdyrnar. Sneru þeir því aftur og sögðu konungi allt
hvernig farið hafði. Safnaði hann þá liði, reiður út af mótstöðu þessari,
og fór sjálfur í broddi fylkingar til móts við vitringinn. En hann hafði
þá slíkt ofurefli liðs, að konungurinn varð hræddur og sneri aftur.
Gramdist konungi, að hafa farið svo háðulega för, en vildi þó ekki uppgefast.
Spurði hann þá vezírana, hvað af skyldi ráða, úr því sem komið
var. Svöruðu þeir, að hversu voldugur konungur sem hann væri, skyldi
hann aldrei hugsa til að yfirstíga þann, sem neytti guðlegs fulltingis. „En
ef yðar hátign,“ mælti elzti vezírinn, „skyldi ná tangarhaldi á vitringnum,
látið þá segja honum, að þér viljið gera frið við hann. Veljið fríðustu
ambáttirnar úr kvennabúri yðar og gefið honum. En skipið þeim
áður að komast fyrir, hvort engar séu þær stundir, sem vitringurinn
missir sinn vanalega töframátt.“ Þetta þótti konungi óskaráð og lét hann
bjóða vitringnum vináttu sína og senda honum ambáttir, fyrirtaks fríðar.
Vitringurinn hélt þá líka, að konungurinn í Damaskus iðraðist eftir
að hafa ofsótt sig saklausan, og gekk því í gildruna. Hann tók við ambáttunum
í grandleysi og lagði ákafan ástarhug á eina þeirra. Þegar hún
varð þess áskynja, sá hún sig ekki úr færi og mælti: „Kærasti vitringur!
mér leikur forvitni á að vita, hvort þú ekki átt þér þær stundir, að þú
getur engin undur gert.“ „Fagra mey!“ anzaði vitringurinn, „ég bið þig
að inna mig ekki frekar eftir því. Hugsum heldur um að stytta okkur
stundir, þér stendur þetta á engu, sem þú spyr um.“ Ambáttin lét eins
og sér sárnaði þetta svar, og gerði sér upp óhuggandi hryggð. Og er
vitringurinn ætlaði að gera sér dátt við hana, fór hún að gráta og mælti:
„Þetta blíðlæti kemur ekki frá hjartanu. Ef þér í rauninni þætti vænt
um mig, mundirðu engu leyna mig.“ Í stuttu máli, hún fékk talað svo
um fyrir honum, að honum varð sú skyssa á, að segja henni allt. Játaði
hann henni, að í hvert skipti, sem hann væri búinn að hafa samfarir við
kvenmann, yrði hann vanmáttugur á eftir, þangað til hann tæki hreinsunarþvott
þann, sem fyrirskipaður er í lögmálinu eftir slíka athöfn. Lét
ambáttin konunginn í Damaskus vita þetta, og skipaði hann kvennavörðum
sínum að fara leynilega til húsdyra vitringsins eina tiltekna nótt. Átti
þá ambáttin að ljúka upp í tækan tíma, og þeir að brjótast inn og handsama
vitringinn. Hann var því vanur að láta stóra vatnskönnu standa við
höfðalag sitt á hverri nóttu; hafði hann hana til að þvo sér úr, þegar svo
bar undir. Þessa nótt, sem ákveðin var, hafði ambáttin hellt út vatninu,
áður en hún lagðist niður, svo að vitringurinn vissi ekki af. Fann hann
því könnuna tóma, þegar hann ætlaði að þvo sér. Var þá flagðið óðara
til taks og bauð honum að sækja vatn, tók könnuna og gekk út, og lauk
um leið upp fyrir kvennavörðunum. Ruddust þeir nú inn með harki
og háreysti, og skildi nú vitringurinn, að þetta voru svik ambáttarinnar.
Þreif hann þá í skyndi tvö ljós, sem loguðu í kertastikum, og tók að
snúast í hring með þau, og talaði til kvennavarðanna einhver orð, sem
þeir ekki skildu. Við bæði þessi atvik urðu þeir felmtraðir og hlupu burt,
því þeir voru hræddir um, að hann mundi beita við þá einhverri háskalegri
fjölkynngi. Vitringnum varð það fyrst fyrir, sem mest reið á, að
loka að sér dyrunum og þvo sér. Því næst tók hann í hefnda skyni á sig
líki ambáttarinnar, en brá sínu yfir hana, hljóp síðan eftir kvennavörðunum
og kallaði: „Bleyðurnar ykkar, framkvæmið skipun konungsins,
sem er drottinn ykkar og herra! Hann lætur drepa ykkur alla, ef þið
komið svo til Damaskus, að þið hafið ekki vitringinn. Því hlaupið þið
þá burt? Hafið þið séð skrípi eða hermenn koma honum til hjálpar?
Snúið þið aftur, farið þið óhræddir inn í hellinn, ég skal vera það karlmannlegri
en þið, að ég skal handtaka hann og fá ykkur hann í hendur.“
Fyrir áeggjan þessa létu kvennaverðirnir staðar numið og hertu upp
hugann. Þeir sneru aftur og fylgdu vitringnum, sem gekk á undan þeim
í líki ambáttarinnar, inn í hellinn. Handsömuðu þeir þar ambáttina,
sem var í líki vitringsins. Bundu þeir á henni hendur og fætur, og gat
hún ekki komið upp hljóði, því að vitringurinn hafði gert hana mállausa.
Fóru þeir þá með hana til konungsins í Damaskus. Hélt hann að þar
væri kominn vitringurinn og lét undir eins hálshöggva bandingjann. En
óðara en höfuðið losnaði við bolinn, fékk hvort um sig aftur sína sönnu
mynd, og sá konungurinn þá og öll hirðin, að þetta var ambáttin. Vitringurinn,
sem þar var nærstaddur í líki hennar, kom nú í sinni réttu
mynd og talaði þessum orðum til konungsins í Damaskus: „Ó þú konungur,
sem hefur ólmazt með hnúum og hnefum til að fyrirkoma mér,
soldáninum í Egiptalandi til þægðar, þú skalt vita, að manni ber ekki
að styrkja rangsleitnar hefndir. En lofaðu guð fyrir, að ég læt hefndir
mínar lenda við það, að hegna þessari svikafullu ambátt.“ Að svo mæltu
hvarf vitringurinn, og lét konunginn og alla, sem sjónarvottar voru að
þessum kynlega atburði, sitja eftir með ótta og undrun.
„Svona er nú sagan af Sjabeddín fróða,“ mælti ennfremur hinn æðsti
vezír Persakonungs, „má yðar hátign af því marka, að karlmenn geta
aldrei goldið fullan varhuga við konum. Leyfið því að Núrgehan verði
prófaður til fullrar rannsóknar, áður en hann er tekinn af lífi. Hver veit
nema hann færi okkur sönnur á sakleysi sitt.“ „Svo skal vera,“ mælti
konungur. „Ég fresta dauða sonar míns þangað til á morgun.“ Meðan
nú að vezírarnir fóru til kóngssonarins í díblissunni, reið konungur á
veiðar. Kom hann heim um kvöldið og borðaði með Kansade drottningu.
Sætti hún lagi, þegar þau höfðu lokið máltíðinni, að segja við
hann: „Herra! Ég er hrædd um, að þú iðrist einhverntíma eftir að hafa
frestað dauða sonar þíns. Kóraninn segir, að maðurinn eigi tvo óvini,
sem hann hafi eftirlæti á, og það séu börn hans og fjármunir. Sonur
þinn er óvinur þinn, því hann þorði að taka til hins andstyggilega verks,
sem hann hafði áformað. Flýttu þér því að refsa honum. Vertu ekki að
hlýða lengur á árnaðarorð föðurástar þinnar og manngæzku. Illska hans
hlýtur að þagga niður rödd föðurástarinnar. Láttu ekki ráð né ræður
hirðmannanna glepja þér sjónir, því slíkt er mikill breyskleiki, að ljá
hverjum manni eyru sín, og ætla að gera öllum að skapi. Dæmisagan
af garðyrkjumanninum, syni hans og asnanum sannar það bezt. Það er
vísast þú kunnir hana ekki, og ætla ég því að segja hana ef þú leyfir.
Garðyrkjumaðurinn, sonur hans og asninn
Dæmisaga:
18. NÓTT. Einu sinni fór gamall garðyrkjumaður út í garðinn sinn
með syni sínum, reið drengurinn asna, en karlinn gekk. Undruðust það
allir, sem mættu þeim, og margir kölluðu til þeirra: „Sjáið þið karlinn
vitlausan, sem er það flón að ganga, en lætur son sinn vera að spjátra
sig á asnanum.“ Vegna þessara ámæla lét karlinn son sinn fara af baki,
og fór sjálfur á bak. En ekki leið á löngu, að þeir mættu öðrum og heyrðu
glöggt að þeir sögðu: „Hann er orðinn ær, gamli karlinn, hann sæti ekki
einn á asnanum annars.“ Þá lét garðyrkjumaðurinn piltinn setjast fyrir
aftan sig, og tvímenntu þeir svo spölkorn, þangað til þeir heyrðu menn
segja, sem fram hjá gengu, að þetta væri mesta ósvinna, að drengurinn
skyldi sitja svona fyrir aftan föður sinn. Höfðu þeir feðgar þá sætaskipti,
en það varð ekki til annars en að þeir fengu að heyra hjá þeim, sem urðu
á vegi þeirra næst: „Karlinn sá arna er ósóminn sjálfur, að hann skuli
ríða svona með þennan ungling fyrir framan sig.“ Hvernig sem aumingja
garðyrkjumaðurinn reyndi á alla vegu, gat hann aldrei gert svo öllum
líkaði. Getur yðar hátign,“ sagði Kansade ennfremur, „ráðið af því, að
enginn sleppur hjá ámælum annarra, og að það er heimska, að ætla sér að
hlýða hvers eins ráðum. Framkvæmdu því hið fyrsta áform þitt, og láttu
hegninguna koma yfir son þinn fyrir vanþakklæti hans og guðlausan
níðingsskap.“
Morguninn eftir settist Sindbað konungur í hásæti, gerði boð eftir
böðlinum og skipaði honum að drepa Núrgehan. Þá gekk annar vezírinn
fram og mælti: „Ó þú konungur veraldarinnar, lát ekki ginna þig til
slíks bráðræðis, að úthella svo dýru blóði. Mistryggðu þann munn, sem
æsir þetta haf svikanna. Konur verða aldrei uppnæmar að rægja. Þær
sitja í legubekknum með krosslagða fæturna og fingurna leikandi á tánum,
og gera ekkert annað liðlangan daginn en að hugsa upp vélræði til
að leika á karlmennina. Minnist yðar hátign þeirra orða, sem Mahómet
sagði í andarslitrunum: „Ég skil svo við mannkynið, að ein sundrungar
uppspretta er eftir, og hefur hún upptök sín hjá konum. Ég gekk ríkt
eftir að minna boðorða væri gætt, og leitaðist við að útrýma syndinni
úr heiminum, en ég gat ekki rifið upp hina dýpstu rót hennar, sem er
kvenkynið, því það er friðarspillir mannkynsins, og þó nauðsynlegt til
að halda því við.“ Ef ég mætti segja þér söguna af Saddyk hestaverði,
mundirðu ekki hlaupa svona á þig, að láta eftir hinni blóðugu bæn drottningarinnar.“
Svo uppvægur sem Sindbað konungur var, barðist þó föðurhjartað
í brjósti hans, og hlýddi hann fúslega á allt, sem hann hélt mundi
geta sannað sakleysi sonar hans. Bauð hann því vezírnum að segja hina
fyrrgreindu sögu.
Sagan af Saddyk hestaverði
„Konungi einum í Tattaralandi,“ tók vezírinn til máls, „var einhverju
sinni sagt, að einn maður væri í ríki hans, sem hataði svo lygi,
að hann segði aldrei ósatt orð. Langaði þá konung til að hafa þenna mann
hjá sér, og gerði hann að hestaverði við hirð sína. Nú varð ekki komizt
hjá því, að svo nýr hirðmaður fengi öfundarmenn; neyttu þeir allra
bragða til að steypa honum. En konungur var ekki svo gerður, að hann
léti koma slíkum flugum í munn sér, og rannsakaði hann allt sjálfur.
Lagði hann hverja freistnina eftir aðra fyrir hinn nýja hestavörð, og
reyndist hann þá svo einarður og hreinskilinn, að hann gaf honum viðurnefnið
Saddyk, þ.e. hinn sannsögli. Enginn af öllum fjandmönnum
hans lagði sig eins í framkróka til að steypa honum eins og vezírinn
Tangríbirdi. Hann neytti allrar hrekkvísi sinnar til að rægja hann við
konung, en það ætlaði ekki að heppnast. Það var einhvern dag, að hann
létti á illsku sinni með því að tala við dóttur sína. „Því ofsækir ólánið
mig svona?“ segir hann. „Ég er þó búinn að steypa ótal gömlum hirðmönnum,
og get ekkert grandað þessum hvítvoðung í hirðinni. Ég hef
unnið allt fyrir gíg hingað til, sem ég hef reynt til að fyrirkoma þessum
Saddyk.“ Dóttir vezírsins var enginn föðurbetrungur. Í stað þess að telja
föður sinn af því að spilla fyrir láni Saddyks, þá ýtti hún undir hann:
„Faðir minn góður!“ mælti hún, „vertu bara ekki hugsjúkur. Ef þú ert
áfram um að koma honum Saddyk í ónáð hjá konunginum, þá skaltu láta
mig eina um það.“ „Og hvernig ætlarðu að fara að því, barnið mitt?“
spurði vezírinn. „Láttu mig um það,“ anzaði hún, „leyfðu mér einungis
að fara til hestavarðarins, og lofa ég því, að svo mikið verði mér ágengt,
að hann segi ósannindi upp í opið geðið á konunginum.“ „Gerðu þá sem
þér líkar, dóttir mín,“ sagði vezírinn, því hann var blindaður af hatrinu.
„Ég leyfi þér allt, hvað dýru verði sem þú efnir heit þitt, ef það aðeins
heppnast.“
Nú hugsaði dóttirin ekki um annað en að framkvæma áform það, er
hún hafði í hyggju. Hún tók fram beztu föt sín, prýddi sig með gimsteinum
sínum, sverti á sér augabrúnirnar og neri á sér hendurnar úr hinna[* Svo nefnist jurt ein, er vex í Austurlöndum. Hefur kvenfólk blöð hennar til að lita
gular á sér neglur, góma og iljar.].
Er þar stutt frá að segja, að þegar hún hafði aukið náttúrlega fegurð sína
með öllum þeim töfrum, sem orðið geta með íþrótt og svikaprjáli, fór
hún úr húsi föður síns á náttarþeli og fylgdu henni ambáttir nokkrar.
Gekk hún til híbýla hestavarðarins, sagði hún ambáttunum þá að fara,
og drap á dyr. En er upp var lokið, bar hún það fyrir, að hún þyrfti að
tala við Saddyk um eitt mikilsvarðandi málefni. Var henni hleypt inn
og hún leidd inn í herbergi hestavarðarins, og hitti hún svo á, að hann
sat í legubekk. Heilsaði hún honum og kom nær, brá síðan upp blæjunni,
sem hún hafði fyrir andlitinu, og settist þegjandi niður í legubekkinn hjá
honum. Hafði Saddyk aldrei séð svo óumræðilega fegurð, jafnvel ekki í
draumum, og varð hann því öldungis frá sér numinn og líkt sem agndofa
af undrun. En stúlkan var ekki til annars komin en að æsa í honum
losta, og hafði hún breytni til þess á marga vegu. En er hún þóttist
hafa tælt og ginnt hestavörðinn, svo að hann mundi í ekkert horfa, til
að hafa eftirlæti hennar, kvað hún upp úr með svo felldum orðum:
„Saddyk, undrastu ekki að kona, sem elskar þig, kemur til þín á náttarþeli.
Ást mín synjar þér einskis, en þú verður um fram alla hluti að gera
eina bón mína.“ „Elsku lífið mitt,“ sagði Saddyk, upptendraður af ástarílaungun,
„þú þarft ekki annað en að segja til. Skipaðu þræl þínum.
Hvað heimtarðu af honum?“ „Ekki nema það, að mig langaði til að
borða með þér,“ anzaði dóttir vezírsins. „Mig blóðlangar í hrossakjöt.
Farðu því og slátraðu þegar í stað feitasta hestinum í hesthúsi konungsins,
við tökum úr honum hjartað og lifrina og neytum þess síðan
bæði saman.“ „Ó, biddu heldur um líf mitt,“ sagði Saddyk, „það er þér
velkomið. Ég má ekki snerta hendi á því, sem er eign konungs míns og
herra. En frestum máltíðinni til morguns, þá skal ég útvega hest, sem
rær í spikinu, og þá skulum við gæða okkur eins og kóngur og drottning.“
„Nei, nei!“ greip mærin fram í, „ég vil eta af konungs hesti. Þetta
er raunar skrítið uppátæki, en þú verður að láta það eftir mér.“ Ég get
samt ekki ráðizt í það,“ mælti Saddyk, „ég er hollari konunginum, drottni
mínum en svo, að ég vilji gera honum nokkuð mót skapi. Það mun ekki
heldur verða óhegnt, og væri ég svo breyskur að láta eftir ósk þinni,
mundi ég vafalaust fá þess að gjalda.“ „Vertu óhræddur!“ anzaði dóttir
vezírsins, „spyrji konungurinn, hvað orðið sé af hestinum, segir þú,
að hann hafi sýkzt af ólæknandi kvilla, og hafir þú drepið hann af framsýni
og fyrirhyggju, svo að hinir hestarnir ekki sýktust. Konungur hefur
gefið þér viðurnefni og kallað þig Saddyk sannsögla, og mun hann trúa
þér og hæla þér í tilbót fyrir forsjálnina.“ Nú fóru að renna tvær grímur
á hestavörðinn og hugsaði hann með sér: „Hvað á ég að gera? Annars
vegar aftrar mér lotningin fyrir konunginum og kvíðinn fyrir hegningunni,
en hins vegar tælist ég af yndisleik þessarar mánabjörtu ásjónu.“
Hún herti þá að honum með kjassi og þrálátum bænum, og það fór með
hann. Gengu þau þá síðan bæði út í hesthúsið kóngsins. Þar beiddi dóttir
vezírsins hann endilega að drepa svartan hest, sem stóð einn sér. Þá
byrjaði aftur fyrir hestaverðinum hugarstríðið milli ástríðunnar og
skyldurækninnar. „Hvað heimtarðu, drottning mín!“ kallaði hann upp,
„þú leiðir elsku mína, í of grimma freistni. Vita skaltu þá, að svarti hesturinn
þarna er sá af hestunum, sem konunginum þykir vænst um. Ég
get ekki gert vilja þinn. Kjóstu einhvern af hinum og óðara skal ég drepa
hann. Mér er ekki unnt að gera þér meira að skapi, og þú getur ekki
ætlazt til, að ég láti meira eftir þér.“ En yngismærin lét ekki þoka sér,
heldur hljóp hún um háls Saddyk og kjassaði hann með sætri rödd:
„Herra minn, hestavörður minn elskulegi, ég særi þig, gerðu það sem
ég bið þig. Ég veit það, að þessi ástarraun, sem ég hef lagt fyrir þig, kemur
nokkuð í bága við skyldu þína, en kvenfólkið tekur stundum upp á
ýmsum brekum og vill endilega hafa það fram, sem það hefur tekið í
sig. Haf því vorkunn með duttlungasemi minni, ég skal unna þér sem lífi
mínu og meira en það, ef þú gerir þetta, sem ég bið um.“ Þetta mælti
hún með sætasta fagurgala og ljúfustu ástaratlotum, svo að hestavörðurinn
mátti ekki lengur standast. Hann tók upp hníf og svæfði svarta gæðinginn
Tattarakonungsins. Tóku þau úr honum hjartað og lifrina og
steiktu, og át Saddyk það með dóttur vezírsins. Var hún hjá honum þangað
til undir morgun. En er birti af degi, kvaddi hún hann og fór heim
til föður síns og sagði honum allt hvernig farið hafði. Vezírinn varð svo
ákaflega glaður, af því hann þóttist sjá tortímingu Saddyks í hendi sér,
að hann íhugaði ekki hvað dóttir hans hafði lagt í sölurnar. Fór hann
undir eins á konungs fund og sagði honum frá þessum atburði, en gat
þess ekki, að kvenmaðurinn, sem hlut átti að máli, væri dóttir sín, og að
þau bæði hefðu sett þessi ráð.
Meðan vezírinn var nú að segja konunginum frá þessu með öllum
þeim illvilja, sem orðið getur, þegar útfarinn hirðmaður ætlar að steypa
þeim, sem hann öfundar, rankaði Saddyk við sér. Hann nagaði sig í handarbökin
út af tiltækinu um nóttina: „Mikla heimsku gerir maðurinn,“
hugsaði hann með sjálfum sér, „þegar hann lætur fýsnir sínar hlaupa
svona með sig. Það hefði verið miklu hyggilegra af mér, að vísa þessari
fögru konu burt með afsvörum en að slátra uppáhalds gæðingnum konungsins
henni til þægðar. Þá væri ég ekki bitinn og stunginn af þessum
hugarkvölum. Hvernig ætli nú fari fyrir mér? Hvað á ég að segja konunginum,
herra mínum, þegar hann heimtar hest sinn? Á ég að grípa
til lyginnar og segja honum ósannindi upp í opið geðið, þar sem ég hef
haft það fyrir óbrigðult lögmál, að tala aldrei ósatt orð? Með þessu
móti bæti ég nýjum glæp ofan á þann, sem drýgður er. En ef ég játa
hreinskilnislega ávirðing mína, verður það minn bani. Hvað á ég þá
að taka til bragðs af þessu tvennu? Ljúga — gott og vel! Ég fer til hallarinnar.“
Um leið og hann mælti þetta, tók hann ofan húfuna og lagði
hana á jörðina. „Látum nú sem þessi húfa sé konungur. Við skulum vita,
hvort við getum logið upp í opið geðið á honum. Nú geng ég inn og
hneigi mig, og hann segir: „Saddyk, söðlaðu svarta gæðinginn minn,
ég ætla að ríða út í dag.“ „Herra!“ svara ég þá og fleygi mér niður fyrir
fætur honum, „það hefur orðið snöggt um hann í nótt. Í gærkveldi var
ómögulegt að koma honum til að éta, og um miðnætti drapst hann, og
veit ég ekki, hverjum um er að kenna.“ „Hvað er þetta?“ mun konungur
segja, „er svarti gæðingurinn minn dauður, hann sem var svo ljónfjörugur
í gærdag, hvernig stendur á því, að það skyldi henda hann einan
innan um svo marga í hesthúsinu mínu? Snáfaðu burt. Þú ætlar að
frelsa þig með undanbrögðum og útúrdúrum, þú hefur selt hestinn minn
góða einhverjum útlending, sem hefur þeyst burt á honum, eða þú
hefur drepið hann sjálfur í fólsku. Þú skalt samt ekki hugsa, að þú sleppir
hjá hefnd minni, þér skal verða launað sem maklegt er. Heyrið, varðmenn!
Takið illmenni þetta og höggvið hann undir eins í stykki.“ Þetta
mun nú konungur segja, og gjalda mér þannig hina fyrstu lygi, sem
komið hefur yfir mínar varir. En ef ég nú segi satt, vitum til, hvort þá
fer betur. „Saddyk! Sæktu gæðinginn minn svarta, ég ætla að ríða út.“
„Ó, þú konungur! Hér stendur þræll þinn frammi fyrir þér, fullur angurs
og örvæntingar. Í nótt er var kom stúlka til mín og beiddi mig um hjartað
og lifrina úr svarta hestinum þínum, og ég gat ekki synjað henni.“
„Hvað segir þú? Þú lézt þá fallega hestinn minn fyrir eftirlæti kvenmanns.
Sækið þið böðulinn, að hann geri skyldu sína!” Þetta liggur fyrir
mér,“ sagði hestavörðurinn enn fremur við sjálfan sig, „hvort sem ég lýg
eða segi satt, er dauðinn óumflýjanlegur. Ó, mig auman! Bölvað sé hið
töfrandi flagð, sem kom mér í þennan bobba.“ Í því hann var þarna
þungt hugsandi, fékk hann boð frá konungi að koma. Hlýddi hann á
augabragði og fann þar vezírinn, fjandmann sinn. „Saddyk!“ sagði konungur,
„láttu söðla svarta gæðinginn minn, ég ætla að ríða út á veiðar.“
Við þessi orð brá hestaverðinum ógurlega og svaraði hann eins og í
fáti...
19. NÓTT. Hestavörðurinn svaraði þannig skipun konungs, að leggja
á svarta hestinn, og var nú dauðhræddur: „Konungur! Núna í nótt vildi
þjóni þínum mikil ógæfa til. Ef yðar hátign þóknast, skal ég útskýra
það betur.“ „Segðu það þá!“ anzaði konungur, og hélt Saddyk því áfram:
„Ég sat í gærkveldi heima hjá mér, þá kom stúlka til mín og hafði blæju
fyrir andlitinu. Hún settist í legubekkinn hjá mér. Síðan tók hún blæjuna
frá andlitinu og var það yndislega fagurt. Ég varð svo frá mér numinn,
að ég réði mér ekki. Ég sór henni elsku mína og mundi hafa gert
út af við hana með blíðlæti mínu, hefði hún ekki aftrað mér ástúðlega.
„Ég trúi því ekki“, sagði hún, „að elska þín sé einlæg, nema þú gefir mér
hjartað og lifrina úr bezta reiðhestinum konungsins.“ Svo hugfanginn,
sem ég var, svaraði ég því samt, að það væri ógjörningur fyrir mig og
óhæfa, að slátra skepnu, sem yðar hátigri þætti svo vænt um. En hin
töfrafulla mær lagði hendur um háls mér og talaði svo fögrum orðum,
að ég gat ekki lengur synjað henni. Játa ég þér, drottinn minn og herra,
afbrot mitt, einart og einlæglega, og ætla ég ekki að ljúga mig undan
maklegri hegningu, heldur sel ég sjálfan mig fram. Þarna er sverðið,
konungur, og hérna er höfuðið.“ Þá sneri konungurinn sér að vezír sínum
og bauð honum að segja, hvers Saddyk væri maklegur. Hann varð
léttbrýnn við og svaraði: „Herra! Að minni hyggju ætti að brenna hann
á seintlogandi eldi. Sá getur ekki átt neina miskunn skilið, sem gat haft
sig til að drepa uppáhalds gæðinginn yðar.“
„Þá get ég ekki verið þér samdóma, vezír!“ segir konungur, „ég held
það sé hyggilegra, að fyrirgefa hina fyrstu yfirsjón, en að refsa fyrir
hana.“ Því næst vék hann sér að hestaverðinum og mælti: „Ég dáist
að hreinskilni þinni og tek ekki hart á breyskleika þínum. Hefði ég
verið í þínum sporum, er vísast að ég hefði ekki einungis lagt svarta
hestinn í sölurnar, heldur hvert og eitt hross í hesthúsinu mínu. Ég fyrirgef
þér og virði það svo mikils við þig, að þú skyldir segja sannleikann
í þetta skipti, að ég nú skipa, að þér sé þegar í stað rétt tignarklæði.“
Þegar vezírinn sá, að hestavörðurinn hlaut verðlaun í stað refsingar,
og að dóttir hans hafði lagt sjálfa sig í sölurnar til ónýtis, tók hann sótt
af gremju yfir því og dó skömmu á eftir, en Saddyk sannsögli tók við
embættinu að honum látnum: „Herra!“ mælti vezír Sindbaðs konungs
ennfremur, „þú ættir að vera íhugasamur, ekki síður en konungurinn
á Tattaralandi. Fyrirgefðu hina fyrstu ávirðingu — en hvað segi ég? Hvar
er sönnun fyrir því, að kóngssyni hafi nokkuð á orðið? Þú hefur ekki
sakfellt hann eftir öðru en sögusögn drottningarinnar. Guð varðveiti þig
frá því, að úthella blóði sonar þíns, þar sem þú hefur ekki meira fyrir
þér. Skipaðu að minnsta kösti, að Abúmasjar verði leitaður uppi áður,
því hann mun víst geta sagt okkur með sanni, hvernig stóð á málleysi
Núrgehans, og mun það eitthvað vera af hans toga spunnið.“ Soldáni
litust fortölur þessar vera hyggilegar, skipaði að leita upp spekinginn
Abúmasjar, og sló lífláti Núrgehans á frest. Síðan reið hann út á veiðar
og borðaði með drottningu um kvöldið. Sat hún ekki af sér tækifærið,
að koma hefndar áformi sínu áleiðis, og sagði því við Sindbað: „Herra!
Það tekur engu tali, hvað þú dregur refsingu Núrgehans, og mun þig
iðra þess, eins og Bajasíd soldán iðraðist eftir miskunnsemi sína.“
„Hvernig þá?“ spurði soldán, og Kansade sagði honum söguna: „Það
var einhverju sinni, að konungurinn fann hund grindhoraðan og glorhungraðan,
og kenndi í brjósti um hann. Hann tók hann með sér og
flutti hann á einn stað, þar sem honum var nákvæmlega hjúkrað og gefið
vel að éta. Hundurinn náði sér og stækkaði, en einu sinni beit hann
af hvefsni sinni soldáninn, velgjörðarmann sinn. Sagði þá soldán í reiði:
„Þú áttir of gott, kvikindið þitt, ég gerði vel til þín, og því bíturðu mig
þá? Þá varð það með vilja allsvaldanda guðs, að hundurinn svaraði honum:
„Soldán! Örg náttúra batnar aldrei.“ „Hugsaðu vel eftir því,“ bætti
Kansade við, „afstýrðu því með framkvæmd hins réttláta dóms, að ekki
fari fyrir þér eins og hinum ólánsama konungi, sem ég ætla nú að segja
þér frá, ef þú leyfir:
Sagan af barninu fundna
Kvenmaður nokkur, sem átt hafði barn með ræningja, bar það út
og lét það við dyrnar á musteri einu. Þá vildi svo til, að konungur þar
í landi kom þann morgun og gerði þar bæn sína. Honum varð litið á
barnið og spurði, hvernig stæði á, að það væri þangað komið. Var honum
þá svarað: „Herra! Barnið hefur verið borið út, til þess að góðir menn
fyrir guðs sakir skyldu annast það og uppfæða.“ Komst konungur við
af meðaumkvun, eins og vænta mátti af góðgjörnum konungi, en hann
lét ekki þar við lenda. Hann fór af baki og tók sveininn hátíðlega sér
í sonarstað og mælti: „Fyrst ég á engan erfingja, ætla ég að láta uppala
þenna dreng, hver veit nema hann á síðan verði máttarstoð hásætis míns,
og kórónu mína skal hann erfa, ef hann á það skilið.“ Var nú farið með
drenginn í kvennabúrið, og var hann færður í nýja og fagra reifa. Síðan
var honum fengin barnfóstra og í öllu farið með hann eins og hann hefði
verið eigið barn konungs. Hann dafnaði vel og var hinn efnilegasti.
Þegar hann var fimm ára, var honum fenginn kennari í fögrum vísindum,
og seinna lærði hann vopnaburð og riddaralegar íþróttir. En einkum
þótti hann bera af öðrum í knattleik, og öllum fannst mikið um að
sjá hann leika þá list. Dáðust kennarar hans mjög að fimleika hans og
kröftum. Engum þótti samt eins vænt um og konunginum, sem gladdist
yfir því, að hann skyldi hafa fóstrað ungling, sem launaði þannig velgjörning
hans. Þó gafst honum enn meira gleðiefni seinna. Nokkrir nágranna
konungar herjuðu á hann, og sendi hann þá fósturson sinn með
allt herliðið til móts við þá, sigraði hann fjandmennina og vann svo
glæsileg afreksverk, að hann þótti mestur kappi í öllu liðinu. Það var
eins og ekkert stæði fyrir sverði hans og hugrekki.
Nú hafði konungur eignazt dóttur með einni af hjákonum sínum,
skömmu eftir að hann ættleiddi barnið fundna. Þroskaðist hún og þótti
fádæmis fögur. Átti fóstursonurinn frjálst um samvistir við hana, eins
og bróðir hennar, fékk hann því brennandi ást á henni. En allt í einu
tók soldán upp á því, að gefa hana einum kóngssyni í nágrannalöndunum
til eiginkonu og var rétt komið að því, er brúðkaup þeirra skyldi halda.
Varð þá fóstursonurinn sárhryggur, og þá var það einn dag, að hann
mætti munki einum og lagði fyrir hann þessa spurningu: „Faðir góður!
Á ekki eigandi aldingarðsins meira tilkall til ávaxtanna í honum en
hinn ókunni?“ Munkurinn vissi fyrir fræðina Mekasjefa (sem sýnir inn
í hugskot annarra), því hann spyrði hann svo og anzaði: „Kóngsson! Fyrst
og fremst þarf að vita, hvort ekki stendur tré í garðinum, sem almáttugur
guð hefur bannað að eta af, eins og hann áður hafði bannað það
Adam og Evu.“ Kóngssyni gazt ekki að þessu svari, heldur lét hann
fýsnina blinda sig, svo að hann strauk með brúðurina, kóngsdótturina,
og fór úr konungsaðsetrinu með eitthvað tvær þúsundir manna, sem
honum voru trúir. En er hinn gamli konungur frétti þetta, dró hann
undir eins lið saman og elti ránsmann dóttur sinnar. En þegar hann
hafði komið kóngsdótturinni á óhultan stað, lagðist hann í launsátur
við fjall eitt og réðist þar á konunginn óviðbúinn. Var þar drepið niður
allt liðið og konungur handtekinn, drap sigurvegarinn hann með eigin
hendi. Síðan sté hinn vanþakkláti fóstursonur í hásæti velgjörðarmanns
síns. „Herra!“ því bætti Kansade við söguna, „lærðu það af þessari sögu,
að skoða Núrgehan, son þinn, sem fjandmann. Honum býr hið sama í
skapi og fóstursyninum, og hann vill hafa líf þitt og mig fyrir eiginkonu.“
„Höfum engin orð,“ sagði konungur, „hann skal deyja á morgun.“ Því
næst gekk hann til herbergja sinna og háttaði.
Morguninn eftir sté Persakonungur í hásæti sitt og spurði vezírana,
hvort Abúmasjar hafði fundizt. En er þeir kváðu nei við, lét hann kalla
á böðulinn, og skipaði honum að höggva undir eins höfuðið af Núrgehan
og mælti: „Ég hef lofað drottningunni að láta taka hann af lífi í dag.“
Þá gekk fram þriðji vezírinn og mælti: „Ó, þú konungur veraldarinnar!
Láttu ekki blóð sonar þíns koma yfir þig, ljáðu fortölum vezíra þinna
áheyrn, þeir eru fiskimenn, sem slæða hinar útvöldustu perlur upp úr
djúpi mælskunnar, svo þeir megi leggja þær fram fyrir fætur þína. Mundu
þeir ekki standa í gegn fyrirætlan þinni, að lífláta son þinn, hefði spámaðurinn
ekki sagt með berum orðum: „Hver sem sér að konungur
ætlar að hafa óréttlæti í frammi, og leitast ekki við að aftra honum, skal
afmást úr tölu réttlátra.“ Forfeður vorir kenndu svo, að aldrei skyldi
trúa konu né nýjum þræli, því hvorttveggja væru smjaðurtungur og leituðust
við að framkvæma áform sín með lævísi og lygi. Leyfi mér yðar
hátign að segja söguna af kvongaða manninum og páfagauknum, þessu
til staðfestingar. Soldán samþykktist það og vezírinn byrjaði.
Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum
20. NÓTT. „Einu sinni var kaupmaður, sem átti konu fyrirtaks fríða,
elskaði hann hana með slíkum ákafa og afbrýði, að hann mátti aldrei
hafa af henni augun. En einhvern tíma neyddist hann til að fara ferð í
verzlunarerindi. En áður hann legði af stað, fór hann í sölubúð eina, þar
sem alls konar fuglar fengust til kaups. Keypti hann sér páfagauk, sem
bæði gat bullað vel og var gæddur þeim kosti að auki, að hann sagði
frá öllu aftur, sem fyrir hann bar. Hafði kaupmaðurinn hann heim með
sér í búri og beiddi konu sína að taka fuglinn í herbergi sitt og annast
hann, meðan hann væri burtu. Að því búnu fór hann af stað.
Þegar hann kom heim aftur, spurði hann páfagaukinn, hvað gerzt
hefði meðan hann var burtu; varð hann þá margs vísari af fuglsnefinu,
svo að hann ávítaði konu sína harðlega. Grunaði hana fyrst, að ein af ambáttunum
hefði komið upp um sig, en þær sóru allar og sárt við lögðu,
að þær væru saklausar, og bar þeim öllum saman um það, að páfagaukurinn
mundi hafa sagt eftir henni. Nú hugsaði konan sér ráð til að eyða
tortryggni manns síns og hefna sín á páfagauknum. Henni varð ekki
ráðafátt. Það var einu sinni í annað skipti að maðurinn var burtu eina
nótt, lagði hún þá fyrir eina ambáttina að standa undir fuglsbúrinu og
snúa handkvörn með ærnum hávaða. Annarri sagði hún, að skvetta vatni
ofan yfir páfagaukinn eins og rigning væri, og hinni þriðju að snúa spegli
móti ljósinu, svo að geislinn glampaði alltaf fyrir augum hans. Á þessu
létu nú ambáttirnar ganga mestalla nóttina, og þegar húsbóndinn kom
heim morguninn eftir, spurði hann páfagaukinn, en hann svaraði: „Blessaður
verið þér, húsbóndi góður! Það hafa gengið slík ósköp á í nótt af
þrumum, eldingum og rigningu, að ég tala ekki um hvað ég hef tekið
út.“ Kaupmaðurinn vissi það vel, að hvorki höfðu verið þrumur né
rigning um nóttina. Sannfærðist hann því um það, að páfagaukurinn
hefði sagt sér ósatt um konu sína áður, eins og hann gerði nú. Varð hann
þá svo gramur og reiður, að hann þreif fuglinn út úr búrinu, og grýtti
honum svo miskunnarlaust á jörðina, að hann dó af því. En eftir á gátu
nágrannarnir eitthvað frætt kaupmanninn um það, að páfagaukurinn
hefði minnstu logið að honum um háttalag konu hans, og sáriðraðist
hann þá eftir að hafa drepið fuglinn. „Ó, þú konungur veraldarinnar!“
mælti vezírinn, „af þessu máttu marka hvað konur eru slungnar. Já, láttu
ekki deyða Núrgehan fyrr en lærifaðir hans hefur fundizt. Eitthvað sérlegt
mun hér undir búa. Heldurðu ekki þig mundi taka það sárt, ef það
yrði uppvíst á síðan, að þú hefðir úthellt saklausu blóði?“
21. NÓTT. Sagan af kvongaða manninum og páfagauknum fékk
Persakonungi svo mikils, að hann lét ekki lífláta son sinn, heldur fara
með hann aftur í díblissuna. Reið hann síðan út á veiðar sér til skemmtunar,
og er hann kom heim, borðaði hann kvöldverð með drottningu
sinni eins og hann var vanur. Eftir máltíðina segir hún við hann: „Enn
er ekki búið að taka Núrgehan af lífi, og alltaf læturðu ástina ráða, sem
þú hefur á honum. Það væri betur þú létir þér segjast af því, sem ég
nýlega sagði þér af Bajasi soldáni og barninu fundna, og værir eins
ráðþægur og Mamúð soldán. Skal ég nú segja þér söguna af honum.
Mamúð soldán og vezír hans
Einu sinni kom munkur til Khas-Ayas, sem var vezír Mamúðs soldáns
og réði miklu, og beiddi hann að útvega sér féstyrk hjá soldáni. Vezírinn
kvaðst fús á það, en setti honum þann kost, að hann yrði að lofa
soldáninum því, að kenna sér, vezírnum, að skilja fuglamál. Munkurinn
lofaði soldáninum þessu, líklega með því skilyrði að efna það, þegar
hann sjálfur skildi fuglamál, og gaf soldán honum þá þrjú hundruð gullpeninga
í laun á mánuði. En er nokkur tími var liðinn, mundi soldán
eftir þessu á veiðum, kallaði á vezírinn og spurði, hvort hann væri búinn
að nema svo mikið af munkinum, að hann gæti sagt sér, hvað tvær uglur
væru að tala um, sem sátu á tveimur trjám þar hjá. Og er vezírinn sagði
svo vera, skipaði hann honum að hlusta á fuglana og segja sér svo, hvað
hann hefði heyrt. Vezírinn gekk undir trén, var þar dálitla stund og
hlýddi á með athygli. Síðan kom hann aftur til soldáns áhyggjufullur
í yfirbragði og mælti: „Herra! Ég hef heyrt nokkuð af samtali þessara
fugla, en ég bið yður fyrir alla muni að hlífa mér við að segja frá því.“
„Því viltu ekki segja mér það?“ spurði soldán. „Herra! Uglurnar voru
að tala um yðar hátign,“ anzaði vezírinn. Soldáninn varð því forvitnari,
sem von var, og mælti: „Hvað gátu þær sagt um mig? Ég skipa þér,
segðu mér orð fyrir orð hvað þú hefur heyrt.“
„Herra! Ég heyri og hlýði,“ segir Khas-Ayas. „Uglurnar voru að tala
um börn sín, son og dóttur, sem þær ætluðu að láta eigast. „Mér líkar
ráðahagurinn vel,“ sagði faðir sonarins við föður dótturinnar, ef þú lætur
fimm hundruð eydda staði fylgja brúðurinni í heimanmund.“ „Biðurðu
ekki um meira?“ anzaði faðir dótturinnar, „ég skyldi gjarnan gefa
henni þúsund í staðinn fyrir þau fimm hundruð, sem þú heimtar. Guð
gefi Mamúð soldáni langa og farsæla lífdaga. Meðan hann er konungur
Persíu verður varla ekla á eyðistöðum.“ Soldán skildi fljótt, hvað þessi
viturlega dæmisaga ætti að þýða, sem vezírinn sagði honum. Upp frá því
hafði hann allan hugann á að byggja upp eydda staði og lét sér um
ekkert annað hugað en að gera þegna sína farsæla. Hafa orðstír og ágætisverk
konungs þessa verið uppi síðan, lofuð og vegsömuð, sem þau eru
enn í dag.“
„Vertu því ekki lengur á báðum áttum,“ mælti Kansade enn fremur,
„því hverflyndið hlýtur aldrei sæmd, og ég hef fært þér nægilegar sönnur
á, að taka verður son þinn af lífi.“ Soldán lofaði, að það skyldi gert
verða morguninn eftir. Daginn eftir kom Sindbað soldán í áheyrnarsalinn
og skipaði böðlinum og mælti: „Sæktu son minn undir eins og
höggðu af honum höfuðið.“ „Ó, þú konungur veraldarinnar,“ kallaði
þá upp fjórði vezírinn og fleygði sér niður fyrir fótskör hásætisins, „allir
vezírar þínir, þínir tryggu þjónar særa þig, að fresta aftöku sonar þíns
þangað til þú ert búinn að heyra söguna af spekingnum Padmanaba.
Yðar hátign kynni að snúast hugur, ef yður þóknaðist að hlýða á hana
með athygli.“ „Ég leyfi þér að segja hana,“ anzaði soldán, „en allt fyrir
það mun ég á síðan láta drepa son minn“
Sagan af indverska spekingnum Padmanaba
og hinum unga mjöðsölumanni
22. NÓTT. „Herra! Einu sinni var í borginni Damaskus maður, sem
seldi rúsínumjöð. Hann átti son, sem Hassan hét, eitthvað fimmtán eða
sextán ára gamlan, og undraðist hver maður er hann sá. Hann hafði mánafagra
ásjónu og var réttvaxinn eins og sýpresviður, glaðlyndur og gæddur
fögrum gáfum. Hver maður, sem heyrði hann syngja, varð frá sér numinn
af sætleika raddar hans, og svo lék hann á fiðlu, að dauðir máttu vakna
til lífs. Þessir yfirburðir urðu ekki ónýtir föður hans, því ekki lét hann
aðra hafa skemmtun af syni sínum fyrir ekki neitt, og var hann ærið
dýr á vörum sínum. Fyrir hvern mæli, sem aðrir seldu á einskilding,
tók hann tvo. Komu fleiri í veitingahús hans, til að sjá son hans, en til
þess að drekka, og var því aðsóknin þeim mun meiri. Kvað svo mjög
að því, að hús hans var kallað Æskulind, af því gömlum mönnum þótti
þar svo skemmtilegt. Það var einhvern dag að sonur mjöðsölumannsins
lék á fiðlu, svo að öllum, sem viðstaddir voru, þótti unun á að hlýða, að
[1076.png]
þá kom hinn víðfrægi indverski vitringur Padmanaba að fá sér hressingu.
Það vantaði ekki, að honum þætti mikið til Hassans koma, gaf
hann sig því á tal við hann og varð hreint frá sér numinn. Voru svo
mikil brögð að því, að bæði kom hann þangað framvegis og hætti
jafnvel við störf sín, svo að hann gæti komið þangað á hverjum degi, og
þar sem aðrir borguðu einn skilding, greiddi hann eina sekkínu.
Þetta gekk nú lengi vel, þangað til drengurinn segir einhverntíma
við föður sinn: „Hingað kemur dags daglega maður, sem er fyrirmannlegur
ásýndum, og er hann svo sólginn í að tala við mig, að hann kallar
á mig á hverri stundinni, til þess að spyrja mig um eitthvað, og alltént
að skilnaði gefur hann mér eina sekkínu.“ „Bitti nú!“ segir karlinn,
„þar mun eitthvað búa undir. Það er vísast, að tilgangur þessa hefðarmanns
sé ekki sem beztur. Slíkir lærdómsmenn eru stundum gjörspilltir,
þó þeir séu alvörugefnir á svipinn. Segðu honum því á morgun, þegar
þú sér hann, að mig langi til að komast í kunningsskap við hann, og
láttu hann koma upp á loft til mín. Ég ætla að prófa hann, ég er svo
reyndur, að ég get ráðið það af orðum hans, hvort hann er svo vitur
sem hann þykist.“ Daginn eftir gerði Hassan eins og faðir hans hafði sagt
honum, neyddi hann Padmanaba til að fara upp á loft til karlsins, var
þar lystilegasti morgunverður á borð borinn. Sýndi mjöðsölumaðurinn
spekingnum alla þá sæmd, sem hugsazt gat, og tók hinn því svo kurteislega
og lét svo mikinn viturleik í ljósi, að enginn vafi gat verið á því,
að hann væri vandaðasti maður.
Eftir máltíðina spurði faðir Hassans spekinginn, hvaðan af landi hann
væri og hvar hann ætti heima, og er hann heyrði að hann væri útlendingur,
segir hann: „Ef þér vilduð flytja til okkar, þá get ég léð yður herbergi
í húsi mínu.“ „Því er mér þökk á,“ anzaði Padmanaba, „því það
er himnaríki á jörðu, að búa hjá góðum vinum.“ Flutti þá spekingurinn
til mjöðsölumannsins og gaf honum smátt og smátt góðar gjafir. Var honum
svo vel við Hassan, að hann segir við hann einhverju sinni: „Son minn!
Ég verð nú að opna fyrir þér minn hjartans hug. Ég sé að andi þinn hefur
tekið þeim þroska, sem nægir til að nema hin leyndardómsfullu fræði.
Þú ert, ef nokkuð væri, heldur fljótfærinn og skjótur til námsins, en ég
tel það víst, að þú munir breytast og leggja stund á alvörugefni þá og
djúphyggni, sem spekingum hæfir, því ég ætla nú að birta þér leyndardóma
þeirra. Ég mun gera þig að lánsmanni, og viljirðu ganga með mér
út úr borginni, skal ég þegar í dag sýna þér auðæfi þau, sem ég ætla
að gera þig eiganda að.“ „Herra!“ svaraði Hassan, „þér vitið, að ég er
föður mínum háður og má ekki fara með yður í óleyfi hans.“ Talaði
því spekingurinn við föður hans, og treysti hann veglyndi vitringsins, og
sagði, að hann mætti fara með son sinn hvert sem honum litist. Fór þá
Padmanaba með Hassan út úr borginni. Stefndu þeir á eina hrörlega
byggingu og fundu þar brunn, er fullur var af vatni upp á barma. „Taktu
vel eftir brunni þessum,“ mælti spekingurinn, „í honum er auðurinn,
sem þér er ætlaður.“ „Þá er ver ef svo er,“ anzaði unglingurinn og brosti,
„hvernig á ég að ná honum upp úr þessu djúpi?“ „Son minn!“ segir Padmanaba,
„ekki furðar mig á því, að þér lízt þetta svo erfitt, það hafa
ekki allir mínar gáfur. Engir aðrir en þeir, sem guð birtir stórmerki almættis
síns, hafa vald til þess að bjóða yfir höfuðskepnunum og raska fyrirskipaðri
reglu náttúrunnar.“ Því næst ritaði hann nokkra stafi úr sanskrít
málinu (hinni indversku forntungu), eins og tíðkast meðal töframanna
á Indlandi, Síam og Kína; fleygði hann síðan miðanum í brunninn.
Lækkaði þá vatnið og sjatnaði þangað til enginn dropi var eftir.
Stigu þeir nú báðir niður í brunninn, og voru í honum stallar til að
ganga niður á botninn. Þar fundu þeir koparhurð stóra og var hengilás
fyrir úr stáli. Þá skrifaði spekingurinn bæn, snerti með henni lásinn, og
laukst hann upp á augabragði. Hrundu þeir upp hurðinni, og komu niður
í hvelfingu, og sáu þar standa blámann, í svartara lagi; studdi hann
annarri hendinni við stóreflis marmarastein. „Ef við komum nær,“ mælti
unglingurinn, „kastar hann víst steininum í höfuðið á okkur.“ Enda hóf
hinn serkneski maður upp bjargið, þegar þeir komu nær, eins og hann
ætlaði að fleygja því í þá. En Padmanaba las þá stutta bæn og andaði á
blámanninn, stóðst hann þá ekki kraft orða hans né anda og hné aftur
á bak til jarðar. Fóru þeir nú fyrirstöðulaust leiðar sinnar gegnum hvelfinguna,
og komu í víðan hallargarð, og stóð kristalls musteri í honum
miðjum. En dyrnar vörðu tveir drekar, hvor andspænis öðrum, glenntu
upp ginið og spúðu eldi. Æpti þá Hassan af hræðslu: „Förum ekki lengra,
þessir ógurlegu drekar ætla að gleypa okkur.“ En spekingurinn brá sér
hvergi og mælti: „Vertu ókvíðinn, son minn, treystu mér og hertu upp
hugann. Stöðugleikurinn er ómissandi til að öðlast hina háleitu vizku,
sem ég ætla að kenna þér. Mér er gefið vald yfir öndum og ég get létt
af hverjum álögum, sem vera skal.“ Því næst mælti hann nokkur kabbalistisk
orð og skreiddust þá drekarnir inn í tvær holur, en dyrnar á musterinu
hrukku snögglega upp sjálfkrafa. Gekk Padmanaba þar inn með
unglingnum, og brá honum vel við, því nú sá hann annan hallargarð og
aðra höll, sem byggð var af tómum roðasteini. Efst uppi á henni var
karbunkelsteinn, sex fet á þykkt, kastaði hann svo björtu skini allt umhverfis,
að hann var í sólar stað þar undir jörðinni. Þetta musteri vörðu
ekki hræðileg ferlíki, eins og hið fyrra, heldur stóðu við dyrnar sex fögur
líkneski af yndislegum konum, sem slógu bjöllubumbur, og var hvert
líkneski gert af heilum demant. En gegnum dyrnar opnar, sem voru af
smaragð, sást inn í dýrðlegan sal, og ætlaði Hassan aldrei að verða leiður
á því, sem fyrir augun bar. En er hann hafði virt fyrir sér höllina og
líkneskin þar fyrir utan, svo sem honum lék lyst til, leiddi Padmanaba
hann inn í salinn, var gólfið þar úr skíru gulli, en loftið úr purpurasteini
og alsett perlum. Var þar margt fallegt að sjá, og hvað öðru merkilegra,
og hafði unglingurinn nóg að gera að skoða það. Síðan fór vitringurinn
með hann inn í stórt ferskeytt herbergi; var stór gullhrúga í einu horninu,
en í öðru var hrúga af roðasteinum, ljómandi fögrum; í þriðja horninu
stóð silfurker og í hinu fjórða var svört moldarhrúga. En í miðju
herberginu stóð glæsilegt hásæti með silfurlegri líkkistu ofan á, sem konungur
lá í með gullkórónu á höfði, fjölskreytta stórum perlum. Var breið
gullplata framan á kistunni og þetta grafið á með kabbalistiskum helgiskurði,
sem klerkar á Egiptalandi tíðkuðu fyrrum: „Maðurinn sefur meðan
hann lifir og vaknar ekki fyrr en á dauðastundinni. Hvað stoðar það
mig nú, að ég hef átt mikið ríki og öll þau auðæfi, sem hér eru saman
komin? Ekkert er skammvinnara en jarðnesk sæla og öll mannleg makt
er veikleikinn sjálfur. Fávísa moldarbarn, hrósaðu þér ekki af láni þínu
meðan vagga lífsins ruggast undir þér. Minnstu þess tíma, þegar Faraóarnir
ríktu, þeir eru ekki framar til. Innan skamms liggur sama fyrir þér.“
„Hvaða konungur liggur í þessari kistu?“ spurði Hassan. „Einn af fornkonungum
Egiptalands,“ anzaði spekingurinn. „Það er sá sami, sem lét
gera þessa hvelfingu undir jörðinni og þetta dýrðlega hús úr roðasteininum.“
„Það fær mér mikillar undrunar,“ segir unglingurinn, „sem þér
nú sögðuð mér. Hvaða einræði kom konunginum til þess að gera þetta
stórvirki undir jörðinni, sem virðist hafa tæmt alla auðlegð veraldarinnar?
Aðrir konungar, sem láta eftir sig minningarmark veldis síns, gera það
opinberlega, en hylja það ekki fyrir augum heimsins.“ „Satt er það,“
svaraði spekingurinn, ,en þessi konungur var kabbalisti[* Þ.e. kunnáttumaður eða töframeistari fyrir kraft kabbalafræðinnar (Kabbalistik),
sem upphaflega var gyðingleg guðspeki og dulfræði „rabbina“, en síðar á tímum aflaga
færð og með fram höfð til fjölkynngi og töfrabragða.] mikill, og fór
oft einförum á laun við alla hirð sína, til þess að uppgötva hulda dóma
náttúrunnar. Hann vissi marga leyndardóma og þekkti líka vizkusteininn,
sem ráða má af auðæfunum hérna, sem orðin eru til af svörtu moldarhrúgunni
í horninu þarna.“ „Hvernig getur það verið,“ segir unglingurinn,
„að þessi svarta mold skuli hafa slíkan kraft?“ „Efaðu það ekki,“
mælti spekingurinn, „til sannindamerkis skal ég segja þér tvær tyrkneskar
vísur, því í þeim er fólginn allur galdur vizkusteinsins:
/#
Wirgil Arus garby Schachsadey Khitaya.
Bir Tifl ola balardan sultan Khad ruyan.
#/
Það þýðir orðrétt: „Vesturheims brúð giftist syni Austurheimskonungs;
mun hún son fæða, er soldán verður yfir fögrum ásjónum.“ Sú er hin
dularfulla þýðing orða þessara: Leggðu í bleyti þurra Adams mold, sem
kemur frá Austurheimi, af gerð hennar myndast hinn heimspekilegi
Merkúríus, sem almáttugur er í náttúrunni og skapar sól og tungl, þ. e.
gull og silfur. Í silfurkerinu þarna í horninu hefur verið vatn, þ. e. lögur
sá, sem hafður var til að bleyta hina þurru mold í gegn og breyta henni
í það, sem hún er nú. Getur þú með einni lúku af henni, ef þér svo líkar,
breytt öllum málmum Egiptalands í gull og silfur og öllum steinunum,
sem húsin eru byggð úr, í demanta og roðasteina.“
„Ég hlýt að játa,“ tók Hassan til máls, „að slíkt er undursamleg mold,
og furða ég mig nú ekki á þessum miklu auðæfum, sem hér eru.“ „Samt
er hún miklu undursamlegri en ég hef sagt þér,“ svaraði spekingurinn,
„því hún læknar allskyns meinsemdir. Hvað langt sem sjúklingurinn er
leiddur og þó hann sé rétt að fram kominn, þarf hann ekki annað en að
taka eitt duftkorn af henni, mun hann þá allt í einu endurstyrkjast og
rísa upp aftur heill heilsu með fullu fjöri. Þó hefur hún eina þá náttúru,
sem mér finnst meira um vert en allar hinar. Hver, sem vætir hana og
nýr á augu sín, verður skyggn og sér anda og verur í loftinu og fær vald
til að bjóða yfir þeim. Máttu af þessu skilja, sonur, hvílíkt ógrynni auðæfa
hér er saman komið.“ „Það verður víst ekki verði virt eða tölu á
komið,“ mælti unglingurinn, „en eins ætla ég að biðja yður áður en
þér gefið mér það til eignar, má ég ekki taka dálítið af því með mér, til
að sýna honum föður mínum, hvílíkt lán er yfir okkur, að eiga slíkan
vin.“ „Það máttu gera,“ segir Padmanaba, „taktu eins og þú vilt.“ Hassan
sat ekki af sér tækifærið, klyfjaði sig gulli og roðasteinum og fór með
spekingnum burt úr herbergi Egiptalandskonungs. Gengu þeir þá enn á
ný gegnum fallega salinn, hallargarðinn og hvelfinguna, og lá blámaðurinn
þar ennþá í rotinu; síðan luku þeir eftir sér koparhurðinni og small
þá stállásinn fyrir, og jafnskjótt sem þeir voru komnir upp, fylltist brunnurinn
aftur upp á barma. Þegar spekingurinn sá, að það gekk yfir unglinginn,
hvað vatnið kom skjótlega aftur, sagði hann: „Hvað undrastu?
Hefurðu aldrei heyrt getið um verndargripi?“ „Nei,“ svaraði unglingurinn,
„mér þætti gaman, ef þér vilduð fræða mig á því.“ „Svo skal vera,“
anzaði Padmanaba, „og skal ég þar á ofan kenna þér einhverntíma, hvernig
þú eigir sjálfur að búa þá til handa þér. Fyrst ætla ég samt að fræða
þig um þá almennt. Tvennskonar verndargripir eru til, eru sumir kenndir
við kabbalista, en sumir við stjörnuspámenn. Eru hinir fyrrnefndu
merkari og hafa furðumikinn kraft með stöfum, og orðum og bænum, en
hinir hrífa fyrir tildrátt jarðstjarna málma innbyrðis. Ég nota hina fyrrnefndu,
eins og hinn mikli guð Visnu, drottinn allra indverskra mustera
í heiminum, hefur látið mér birtast í draumi. En það skaltu vita, að
stafirnir eru englum háðir, og að enginn stafur er til, sem ekki hlýðir
einhverjum engli. En spyrjir þú, hvað engill sé, þá svara ég því: að hann
er geisli guðs almættis og dropi hans dýrðar. Þeir englar, sem dvelja í
hinum ókunna heimi, drottna yfir þeim, sem í heiminum eru, og þeir
aftur yfir þeirri veröld, sem undir tunglinu er. Stafirnir verða að orðum
og orðin að bænum, og englarnir gera þannig þau stórmerki, sem allur
þorri manna undrast, því stafirnir tákna engla, og þeir sameinast í bænunum,
hvort sem þær eru mæltar af munni fram eða skrifaðar.“ Þetta
var nú Padmanaba að fræða unglinginn um á leiðinni heim til borgarinnar.
Komu þeir báðir heim til mjöðsölumannsins og varð hann stórlega
glaður, þegar drengurinn sýndi honum gullið og gimsteinana. Keyptu
þeir nú meiri rúsínumjöð og lifðu í unaði og allsnægtum.
En Hassan átti stjúpu, sem bæði var ágjörn og metnaðargjörn. Hafði
hún alltaf búksorg, þó hann hefði komið heim með dýrustu gimsteina.
Sagði hún því einu sinni við hann: „Sonur minn, ef við lifum svona
framvegis, þá erum við frá.“ „Kvíddu því ekki, móðir,“ anzaði hann,
„auðsuppsprettan okkar er ekki þrotin enn þá. Hefðirðu séð öll auðæfin,
sem öðlingurinn hann Padmanaba ætlar að gefa mér, þá mundirðu
ekki vera að kvíða svona ófyrirsynju. Næsta skipti sem hann fer með mig
til brunnsins, kem ég aftur með handfylli mína af svartri mold, mun þér
verða það hugfró um langan tíma.“ „Taktu heldur gull og roðasteina,“
anzaði stjúpmóðirin, „það kemur mér betur en öll mold sem til er. En
mér dettur nokkuð í hug, Hassan! Ef honum Padmanaba er alvara, að
gefa þér öll þessi auðæfi, því kennir hann þér þá ekki töfraþulurnar,
sem þörf er á, svo þú getir sjálfur aflað þeirra? Dæi hann nú snögglega,
þá væri öll von úti. Annað er það, að ekki vitum við, nema honum leiðist
að vera hjá okkur. Hver veit nema hann fari frá okkur þá og þegar, og
gefi öðrum auðæfi sín. Það er því mitt ráð, að þú biðjir Padmanaba og
leggir fast að honum, að kenna þér bænirnar, og þegar þú hefur numið
þær, að við þá drepum hann, svo að hann segi ekki öðrum leyndarmálið
um brunninn.“
Hinum unga mjöðsölumanni brá mjög við orð þessi. „Móðir mín!“
kallaði hann upp, „því stingurðu upp á slíku tiltæki? Hvernig geturðu
hugsað upp svo djöfullegt ráð? Spekingurinn ann okkur hugástum, eys
yfir okkur velgjörðunum og heitir mér slíkum auðæfum, að þau mættu
nægja til að seðja ágirnd voldugustu konunga í heimi, og þó viltu drepa
hann, er það þakklætið? Nei, þó ég ætti að búa við mín fyrri kjör og selja
rúsínumjöð ævilangt, þá get ég ekki fengið það af mér, að stuðla til dauða
þess manns, sem ég á svo mikið gott upp að inna.“ „Þú ert bezti drengur,
sonur minn!“ svaraði stjúpan, „en við megum ekki hugsa um annað en
okkar eigið gagn. Hamingjan býður okkur tækifæri til að verða rík ævinlega,
og við megum ekki sitja það af okkur. Hann faðir þinn, sem er
reyndari en þú, fellst á uppástungu mína, og þú verður líka að fallast á
hana.“ Hassan skoraðist lengi vel undan að eiga hlutdeild í þessu svívirðilega
áformi, en þar kom þó, að stjúpa hans gat talið honum hughvarf,
því að hann var ungur og hviklyndur. „Gott og vel!“ segir hann,
„ég skal leita hann Padmanaba upp og fá hann til að kenna mér bænirnar.“
Fór hann þá til hans og herjaði svo á hann með sárri bæn, að
kenna sér allt sem þyrfti, til að komast í hvelfinguna undir jörðinni, að
spekingurinn gat ekki synjað honum, því hann hafði fjarska mikið ástríki
á drengnum. Ritaði hann því hverja bæn á miða, sagði nákvæmlega
staðinn, hvar hann skyldi lesa, og allt þar að lútandi, og fékk honum
síðan. Að því búnu lét drengurinn föður sinn og stjúpu vita af þessu,
og tiltóku þau einn vissan dag, er þau skyldu öll saman fara að leita auðæfanna.
„Þegar við komum aftur,“ sagði stjúpan, „skulum við drepa
Padmanaba.“ Á ákveðnum degi fóru þau að heiman, en sögðu ekki Padmanaba,
hvert þau færu. Fóru þau til hinnar hrörlegu byggingar, og þegar
þangað var komið, tók Hassan miðann, sem fyrsta bænin var á, upp úr
tösku sinni. Óðara en hann kastaði honum í brunninn, hvarf allt vatnið.
Síðan gengu þau ofan stallana og niður að koparhurðinni, og laukst
upp hvorttveggja, hurðin og stállásinn, þegar þau voru snortin með hinni
annarri bæn. Blámaðurinn, sem fyrir stóð, og gerði sig líklegan til að
fleygja marmarasteininum, skaut mjöðsölumanninum og konu hans
nokkurn skelk í bringu, en Hassan var ekki lengi á sér að mæla fram
þriðju bænina, blés á hann og féll hann þá til jarðar. Síðan gengu þau
gegnum hvelfinguna inn í hallargarðinn, sem kristalshöllin var í, hræddi
Hassan þar drekana inn í fylgsni sín. Því næst komu þau inn í hinn garðinn
og fóru gegnum salinn inn í herbergið, þar sem roðasteinarnir voru,
gullið, silfurkerið og svarta moldin. Stjúpan gaf líkkistu Egiptakonungs
lítinn gaum, og tafði sig ekki á því að lesa hið fróðlega letur, sem á gullplötunni
stóð. Hún leit ekki heldur við svörtu moldinni, sem stjúpsonur
hennar hrósaði svo mjög, heldur fleygði hún sér yfir roðasteinana. Tók
hún svo marga af þeim, að hún rogaðist með byrðina og komst varla úr
sporunum. Maður hennar hlóð sig gulli, en Hassan lét sér nægja að taka
tvær lúkur sínar af svörtu moldinni til reynslu, þegar heim kæmi. Að
því búnu fóru þau þrjú saman út úr herbergi Egiptakonungs og riðuðu
af þyngslunum á fjármunum þeim, er þau höfðu þaðan með sér. Gengu
þau gegnum fyrsta hallargarðinn og lá vel á þeim, þangað til þau sáu þrjár
hryllilegar ófreskjur vaða á móti sér...
23. NÓTT. Þegar mjöðsölumaðurinn og kona hans sáu þrjár ófreskjurnar
gana móti sér í fremri hallargarðinum urðu þau dauðhrædd, litu
undan og á Hassan. En hann var eins felmtsfullur, því hann hafði engan
verndargrip, er dugði við ferlíkjunum. „Bölvuð sértu, vonda og vanþakkláta
stjúpa!“ kallaði hann upp, „við eigum alla glötun okkar upp á þig.
Hann Padmanaba vissi vafalaust að við fórum hingað, getur verið að
honum sé ekki það einu sinni ókunnugt, að við sátum um líf hans, því
hann kann hin leyndardómsfullu vísindi. Nú refsar hann okkur fyrir
djöfullegt vanþakklæti með því að láta þessi skrímsli gleypa okkur.“ Í
sama bili sem Hassan mælti þessi orð, heyrðu þau uppi yfir sér rödd spekingsins,
sem mælti: „Þið voruð ómakleg góðvildar minnar, öll saman
þrjú. Þið munduð hafa myrt mig, ef hinn mikli Visnu hefði ekki gert
mér vísbendingu um illræði ykkar. Skuluð þið nú hljóta makleg málagjöld:
Þú, kona, af því þú hugsaðir það ráð, að drepa mig, en þið hinir
fyrir það, að þið hlýdduð ráðum konunnar í stað þess að hafa andstyggð
á níðingsskap hennar.“ Þá þagnaði rödd spekingsins og hin þrjú skrímsli
rifu sundur Hassan, föður hans og hina vondu stjúpmóður.
„Þessi saga bendir þér, konungur, til þess,“ bætti vezírinn við, „að þú
ekki skulir ljá drottningunni eyra, þar sem hún særir þig að lífláta Núrgehan.
Því ef hann væri saklaus, mundi guð refsa þér, eins og þú værir
jafnsekur drottningunni, allt að einu og Padmanaba hegndi Hassan og
föður hans, þó þeir hefðu ekki annað til saka en það, að þeir féllust á
hið andstyggilega áform stjúpmóðurinnar.“
Sindbað konungi fékk sagan svo mikils, að hann mælti: „Sonur minn
skal ekki deyja, fyrr en það er sannað deginum ljósara, að hann hafi
drýgt glæpinn.“ Að svo mæltu fór hann burt og reið á veiðar sér til
skemmtunar. En er hann kom heim og fór til drottningarinnar, veitti
hún honum átölur. „Herra!“ segir hún, „hefurðu frestað refsingu Núrgehans
ennþá einu sinni?“ „Kæra kona!“ anzaði konungur, „ég vil ganga
úr skugga um, hvort hann er dauða verður, áður en ég læt drepa hann.“
„Nú, nú! herra!“ segir Kansade, „viljirðu ekki leggja trúnað á orð mín
og þyki þér minn vitnisburður ískyggilegur, þá skaltu vega hvað á móti
öðru, þögn sonar þíns og flótta kennara hans. Því hvarf hann Abúmasjar
frá hirðinni? Hann hefur án efa orðið var við illt hugarfar og ástríðu
Núrgehans og hefur verið hræddur um, að sér mundi verða kennt um,
af því hann hefði uppalið hann illa. Hverjar frekari sönnur geturðu
heimtað að færðar séu á glæp þann, sem leynilega er drýgður? Á glæpamaðurinn
að sleppa hjá hegningunni fyrir það, að engin vitni eru á móti
honum? Nei, herra, þegar þau vantar, verður að dæma eftir líkum og
jafnvel grunsemdum. Ég skal færa þér heim sanninn, ef þú lofar mér að
segja þér söguna af Aksjid soldáni.“ „Ég er reiðubúinn að hlýða á hana,“
anzaði konungur og sagði þá drottningin
Söguna af Aksjid soldáni
„Aksjid soldán í Egiptalandi var kominn að fótum fram, og fann að
hann átti skammt ólifað. Kallaði hann þá á þrjá sonu sína og mælti við
þá: „Börn mín, bráðum mun ég standa fyrir guðs dómstóli með verkum
mínum. En áður en engill dauðans leggur höfuð mitt út af, býð ég yður
að gera útför mína virðulega. Ég vil sjá hvernig þér munið gera hana
að mér látnum. Seðjið forvitni mína. Farið og skipið undir eins öllum
vezírum mínum í mínu nafni, að gera sem skjótast orðsending öllum jörlum
og konungum, sem eru nágrannar mínir, eða gjalda mér skatt, að
þeir verði nærstaddir við hátíðarhald þetta. Í stuttu máli, ekkert skal á
vanta, og skal útför mín fara fram með slíkri vegsemd, sem ég væri ekki
framar í lifenda tölu.“
Kóngssynirnir grétu, er þeir heyrðu þetta, en bjuggu sig samt til að
hlýða konunginum föður sínum. Vezírarnir létu boð út ganga um allt,
er þurfti til sorgarhátíðar þessarar, sem halda átti á ákveðnum degi. Hershöfðingjarnir
höfðu líka allan viðbúnað, sem vænta mátti af þeim, svo
allt var tilbúið á hinum fyrirskipaða degi. Höllin var öll tjölduð sorgardúkum,
en á flötinni fyrir framan hana gengu höfuðverðir konungs í
fylkingu. Voru það um fimmtíu þúsundir manna. Var málanum útbýtt
meðal þeirra í gullnum pyngjum. Síðan fóru hershöfðingjarnir inn í
herbergi konungs. Lá hann þar í hvílu sinni. Tóku þeir hann upp og
báru í hásætið, en fyrir framan það settu fjórir vezírar líkkistu undir
skrautlegu yfirtjaldi, sem fjórir kóngssynir báru. Því næst tóku sex hershöfðingjar
mold upp af hallargólfinu og dreifðu hvívetna, en undir moldina
höfðu verið lagðar óteljandi þunnsilkiblæjur, allavegalitar. Loksins
prýddu synir soldáns líkkistuna með ógrynni gimsteina og kórónu Aksjids.
Voru í henni stórir demantar og stóð af þeim blikandi ljómi. Þá komu
fjórir stórfurstar Tattara og tóku sinn um hvern fót kistunnar og lyftu
henni upp á armleggi sér. Vitringar og munkar gengu á undan kistunni
og sungu sálma, eftir þeim komu einsetumennirnir, reið einn þeirra
úlfalda og bar kóraninn með lotningu. Kóngssynir og konungbornir
menn, stórfurstar og synir þeirra gengu samsíða kistunni. Næst þeim
komu tvö hundruð menn, sem slógu bjöllubumbur og kváðu ljóð, konungi
til vegs og dýrðar, hættu síðan snögglega og æptu hástöfum: „Ó,
þér grimmu forlög, óláns dagur! Konungurinn er liðinn, sem var réttlátastur
allra konunga, sem braut undir sig ríkin, eyddi fjandmönnunum,
og ól vini sína.“ Eftir óp þetta stráðu þeir úr fullum höndum svartlituðum
möndlum yfir kistuna.
Næst mönnunum með bjöllubumburnar komu fimmtíu vezírar í síðum
sorgarbúningi, svörtum og bláum, og næst þeim hershöfðingjarnir,
allir saman með brotna boga í hendi. Því næst komu tíu þúsund hestar
með gullsöðla og gullbeizli og skorin tögl og teymdu þá tíu þúsundir
svertingja, voru þeir í bláum sekkjum. Loksins komu allar hjákonurnar
úr kvennabúrinu, blá- og svartpentaðar í framan, með flakandi hárið.
Þær voru aftastar í líkfylgdinni og veinuðu og hljóðuðu óskaplega. Við
þenna sjónarleik andvarpaði öldungurinn Aksjid soldán mæðilega
og mælti: „Ég er búinn að sjá útför mína í lifanda lífi.“ Bauð hann þá
að hjálpa sér ofan úr hásætinu, og er hann var kominn niður, þreif
hann upp handfylli af mold þeirri, sem hershöfðingjarnir höfðu dreift,
og neri með henni andlit sitt og skegg og mælti: „Að jörðin skuli hylja
mig, sem hef ríkt svo lengi og ekkert gert, það er haldið geti minningu
minni á loft meðal komandi mann!“ Að svo mæltu veik hann sér að
vezírunum og sagði: „Ég vil koma upp stofnunum: skrifið!“ Og er stórvezírinn
var tilbúinn, las konungur honum þetta fyrir:
„Það er þá fyrst, að ég gef í dánargjöf eina þúsund þúsunda og tvö
hundruð og tuttugu þúsundir aspra til að byggja spítala handa þeim átrúendum
Mahómets, sem sýkjast af stóru bólu. Í öðru lagi ætla ég viðlíka
mikið til að koma á fót íþróttaskóla, skal þar kenna knattleik og bogmanns
íþrótt. Það er hið þriðja, að ég skipa, að gert sé nýtt sæluhús
handa lestamönnum, skulu svartar ambáttir þjóna hinum hvítu ferðamönnum,
og býð ég að til fyrirtækis þessa séu fimmhundruð dúkatar
borgaðir úr sjóði mínum daglega. Í fjórða lagi skipa ég, að byggð séu
baðhús, sem séu hæli fyrir konur þær, er útskúfaðar verða af mönnum
sínum, þangað til þær fá sér Húlla[* Nær sem maðurinn skipar, verður konan að fara, og fær þá ekki að vera hjá honum
lengur. Þegar þau hafa verið skilin í þrjá mánuði, má hann eiga hana aftur, jafnvel móti
vilja hennar, en samt þarf þá nýrrar hjónavígslu. Getur hann það líka, þegar hann hefur
látið hana eina í annað sinn, en sé það í þriðja sinn, má hann ekki eiga hana nema hún
hafi verið öðrum manni gift eftir skilnaðinn, og er sá maður kallaður: Húlla.]
eður millimann, og ætla ég til þessa
níu hundruð þúsundir aspra.“
Þegar soldán hafði sett þetta á stofn, guði til velþóknunar og mönnum
til líknar, lét hann sækja kóraninn og lesa fyrir sig í honum. Gaf
hann lesaranum þúsund dínara, en hverjum einsetumanni og munki gaf
hann fimmhundruð. Hver maður, sem blindur var eða haltur, fékk
hundrað. Eftir þetta var haldið erfi. Réttirnir voru fram bornir á gulldiskum
og var sagt við hvern, sem við tók: „Þú átt líka diskinn og mátt
fara með hann.“ Að lokinni veizlunni gaf Aksjid öllum ambáttum
frelsi, sem innan hallar voru. Þannig var hátíð sú, er soldán hélt, og var
henni haldið áfram daginn eftir. Aksjid hafði semsé sýkzt daginn áður
og lagðist hann þá fyrir, og er hann fann að draga tók af honum, gerði
hann boð eftir sonum sínum: „Börn mín!“ mælti hann, „ég hef fólgið
kistil í herbergi mínu, í horninu vinstra megin við dyrnar, og eru í honum
hinir fegurstu gimsteinar í heimi. Þegar ég er viðskilinn og þið hafið
borið þá umhyggju fyrir jarðarför minni, sem skyldugt er, skipa ég ykkur
að skipta þeim jafnt á milli ykkar.“
Eftir það andast Aksjid. En yngsti sonurinn eirði sér ekki fyrir
bráðlætinu að sjá gimsteinana. Læddist hann því inn í herbergi föður
síns, fann kistilinn og varð svo blindaður af fegurð gimsteinanna, að hann
ásetti sér að eiga þá sjálfur. Þegar lokið var greftrun soldáns, tældi sama
forvitnin hina bræðurna til að fara í herbergi föður þeirra. Brá þeim
undarlega við, er þeir fundu ekkert, hvorki í horninu vinstra megin
dyranna, né neinstaðar, þar sem þeir leituðu. Kom þá yngsti bróðirinn
að og segir: „Nú, nú, bræður! Eru steinarnir fallegir?“ „Þér mun vera
kunnugra um það en okkur,“ anzaði hinn elzti, „þá er ég illa svikinn,
ef þú veldur ekki hvarfi þeirra.“ „Ekki nema það!“ anzar yngsti kóngssonurinn.
„þið hafið tekið þá sjálfir, og gefið mér það að sök.“ „Það
segi ég ykkur,“ tók sá til orða, sem var í miðið, „einhver okkar þriggja
hefur gert það, því enginn annar maður kemst í þetta herbergi. Ef þið
eruð mér samdóma, þá sendum við eftir einum dómara, sem talinn er að
vera skarpvitrastur og grandskyggnastur maður í Stóru-Kairó. Hann skal
spyrja okkur og er vísast að hann hafi upp þjófinn.“ Báðir hinir kóngssynirnir
féllust á þetta ráð og gerðu boð eftir dómaranum. Og er hann
hafði heyrt málavöxtu, mælti hann: „Kóngssynir! Áður en ég segi, hver
ykkar hefur tekið steinana, bið ég ykkur að hlýða með athygli á sögu,
sem ég ætla að segja ykkur“
24. NÓTT. „Einu sinni var unglingur, sem elskaði unga stúlku ákaflega
heitt, og hafði hennar ástir að því skapi. Langaði þau bæði til að ná
saman með góðri og farsællegri giftingu, en foreldrar stúlkunnar ætluðu
henni annað. Þau höfðu fastnað hana öðrum manni, og var einskis vant,
að hann gengi að eiga hana. Þá vildi svo til að mærin mætti elskhuga
sínum. „Æ, veiztu hvað er í ráði?“ sagði hún grátandi, „foreldrar mínir
ætla að gefa mig manni, sem ég hef aldrei séð. Öll von er úti, svo sæt
sem hún var, að ég fengi þig. Ó, hvað forlögin eru grimm!“ „Ó, þú
drottning mín!“ hrópaði unnustinn örvæntingarfullur, hvílíkt orð! Á
ég að trúa því, að þú verðir slitin úr óskafaðmi mínum? Guð minn,
hvernig á ég þá að lifa?“ Svo mælti hann og felldi tár af augum. Tóku þá
bæði að harma ólán sitt og gerðu hvort öðru enn skapþyngra. Meðan
nú unglingurinn hugsaði ekki um annað en að svala harmi sínum, var
unnustan svo hugul að hugsa upp huggun fyrir hann í raununum. „Sefaðu
þína miklu hryggð,“ tók hún til máls, „ég lofa þér, að vitja þín á
brúðkaupsnóttina áður en ég leggst niður hjá manni mínum.“ Elskhuganum
var ofurlítil huggun í loforði þessu og beið hann næturinnar með
óþolinmæði og tilhlökkun. Foreldrar stúlkunnar bjuggu til brúðkaups
og gáfu manninum stúlkuna, eins og þeir höfðu lofað. Nóttin var komin,
nýgiftu hjónin voru komin inn í brúðarherbergið. Sá þá brúðguminn
að brúðurin grét beisklega. Fór hann þá að ganga á hana: „Hvað gengur
að þér, elskan mín? Hvað kemur til að þú ert að gráta? Hafirðu verið
því mótfallin að eiga mig, því sagðirðu þá ekki til þess fyrr? Ég skyldi
alls ekki hafa þröngvað þér til þess.“ Brúðurin bar á móti því að hún
hefði óbeit á honum og hann tók aftur til orða og spurði: „Ef svo er,
því hryggistu þá svona? Segðu mér það, ég særi þig!“ Er þar stutt frá að
segja, að hann lagði svo fast að henni, að hún játaði honum, að hún ætti
elskhuga. Kvaðst hún samt ekki harma svo mjög eða gráta af elskunni
til hans, en það þætti sér sárast, að sér væri ómögulegt að efna nokkuð,
sem hún hefði heitið honum. Maðurinn, sem var ljúfmenni og í góðu
skapi, furðaði sig á hreinskilni konu sinnar og svaraði: „Ég virði svo
mikið við þig einurð þína, að ég lái þér ekki, þó þér yrði það glappaskot,
að lofa þessu, miklu fremur leyfi ég þér að efna það.“ Konan varð öldungis
hissa og segir: „Hvernig þá, herra minn? Leyfirðu mér að heimsækja
elskhuga minn?“ „Ég leyfi þér það,“ anzaði maðurinn, „með því
skilyrði, að þú komir hingað aftur fyrir birtingu, og heitir því, að lofa
aldrei slíku framvegis. Ég sé það, að loforð þín eru engin markleysa, og
er mér óhætt að trúa þér.“ Konan sór honum þá, að ef hann lofaði sér
út í þetta sinn, skyldi hún vera honum trú alla ævi, og skyldi þetta vera
hinzta og síðasta sinn, sem hún talaði við elskhuga sinn. Treysti maðurinn
þessum svardaga og lauk upp strætisdyrunum hljóðlega, því honum
var ekki um það, að neinn af þjónum hans vissi þetta. Fór konan þá
leiðar sinnar eins og hún var, í öllu brúðarskartinu, og prýdd með
margskonar gimsteinum og perlum. En er hún var komin nokkrar faðmslengdir
frá húsinu, sá hún ræningja koma á móti sér, sá hann hversu
glampaði á demanta hennar í tunglskininu og allt skartið. Réði hann
sér þá varla fyrir fögnuði og mælti: „Mikið blessað lán, þökk og heiður
séu yður, forlög mín, að þér létuð mér bjóðast tækifærið til að verða
ríkismaður allt í einu!“ Lagði hann þá undir eins hendur á hana og ætlaði
að ræna hana, en þegar hann sá framan í hana, þótti honum hún svo
fríð, að hann stóð eins og agndofa og hætti við: „Hvað sé ég, er það
tælandi draumvitrun? Drottinn minn, getur slík auðlegð og slík fegurð
orðið samfara? Hvílíkur yndisleikur, hvílíkt skart! Ég sé ekki hvar upphaf
er eða endir. En seg mér, sjónfagra kona, ef ég get trúað mínum
eigin augum, hvernig víkur því þá við, að svo ljómandi fögur og skrautbúin
kona skuli ganga alein á strætunum um þetta leyti?“ Sagði hún þá
ræningjanum blátt áfram frá öllu, og undraðist hann stórlega. „Hvernig
er því varið, fagra kona, að maðurinn yðar skuli vera svo góðsamur, að
eftirláta öðrum þá sælustu nótt á ævi sinni, til að þerra tár yðar?“ Hún
kvað svo vera og mælti þá ræninginn: „Þetta er sannarlega fáheyrt, ég
er frá mér numinn af því. Sjálfur er ég fús til fádæma, og skal því hvorki
skerða skart yðar né virðing. Þér megið fara leiðar yðar, og skal ég vera
eins einstakur stigamaður og maður yðar er einstakur brúðgumi. Farið
á fund elskhuga yðar, sem á mikla sælu í vændum. Ég skal fylgja yður
þangað, svo þér séuð óhultar, því svo gæti farið að þér yrðuð á vegi ræningja,
sem ekki er eins einstakur og ég.“ Þannig mælti hann, tók hana
við hönd sér, og fylgdi henni heim til elskhuga hennar, kvaddi hana þar
og fór burt, en konan drap á dyr. Var þeim upp lokið, og gekk hún upp
stigann og fann elskhuga sinn, og kom flatt upp á hann að sjá hana.
„Elsku vinur!“ tók hún til orða, „ég kem til að efna heit mitt, í dag var
ég gift.“ „En hvernig gaztu sloppið frá brúðgumanum?“ segir unglingurinn,
„hann hlýtur þó að hafa brunnið af óþolinmæði. Ég hélt þú
mundir núna hvíla í faðmi hans.“ Sagði hún honum þá hreinskilnislega
allt, eins og farið hafði milli þeirra hjónanna, og furðaði elskhuginn
sig ekki síður á því en ræninginn. „Hvernig stendur á því,“ mælti
hann, „að maðurinn þinn skyldi lofa þér að efna slíkt heit, sem svívirðir
hann og sviptir hann þeirri gersemi, sem ímyndunin hlýtur að hafa útmálað
fyrir honum með óumræðilegum sætleik?“
„Það gerði hann samt,“ svaraði konan, „en þessa gersemi áttu ekki
einungis manni mínum að þakka, heldur og veglyndi ræningja nokkurs,
sem ég mætti á leiðinni hingað.“ Sagði hún honum þá ævintýrið af sér og
ræningjanum, og undraðist elskhuginn þá hálfu meira en áður. „Á ég
að trúa því, sem ég heyri?“ mælti hann, „maðurinn þinn er svo góðsamur,
að samþykkja þvílíkt heit, og ræninginn svo göfuglyndur að láta
ganga sér úr greipum hið bezta færi, sem boðizt gat. Slíkt ævintýri er
eflaust nýtt, og væri vert að færa það í letur, mun komandi mönnum
þykja það undrunarvert. En svo að undrun seinni manna verði enn meiri,
ætla ég að keppast við mann þinn og ræningjann og gera að dæmi þeirra.
Ég leysi þig af heiti þínu, elskan mín, og bið þig leyfis að fylgja þér til híbýla
þinna.“ Síðan rétti hann henni hönd sína og leiddi hana til húsdyra
hennar. Skildu þau þar, konan fór inn, en hann sneri heim aftur.“
„Segið mér nú, virðulegu kóngssynir,- mælti dómarinn, „hver var
veglyndastur þessara þriggja: brúðguminn, ræninginn eða elskhuginn?“
Þá sagði elzti kóngssonurinn, að sér þætti mest til brúðgumans koma.
Annar kóngssonurinn stóð fast á því, að elskhuginn ætti mest lof skilið.
„Og þér, kóngsson minn!“ spurði dómarinn yngsta bróðurinn, sem
þagði, „hvað lízt yður?“ „Mér virðist ræninginn hafa sýnt mest veglyndi,“
svaraði þriðji kóngssonurinn, „ég skil ekkert í því, að hann skyldi
standast fegurð konunnar, og því síður, að hann skyldi geta stillt sig um
að ræna hana. Gimsteinarnir, sem prýddu hana, hljóta að hafa æst ágirnd
hans ákaflega, og það er furða, að hann skyldi vinna slíkan sigur á sjálfum
sér.“ Þá tók dómarinn til máls og hvessti á hann augun: „Þér dáizt
of mikið að valdi því, sem ræninginn hafði yfir sjálfum sér, til þess að
mig ekki gruni, að þér hafið dregið undir yður gimsteina hins hásæla
konungs, föður yðar. Gangizt við því, herra, og látið ekki hégómlega
blygðun aftra yður. Ef þér hafið verið svo breyskir, að láta eftir ágirndinni,
getið þér bætt úr breyskleikanum, með því að kannast við hann.“
Kóngsson roðnaði við þessi orð og meðgekk sannleikann.
Kansade sagði ekki sögu þessa árangurslaust. Hún þýddi hana á
verra veg, svo að Sindbað konungur varð á báðum áttum, og loksins
gat hún talið honum hughvarf með þessum orðum: „Herra!“ sagði
hún, „skapadægur þitt er nær en þú hyggur. Þú ert að lengja líf sonar
þíns fyrir hættulegar fortölur vezíranna, og hver veit nema illmennið
á morgun reki hnífinn í hjarta þitt. Æ, hvar er ég þá, ef þín missir
við? En því spyr ég, hvað um mig verði? Ég virði mitt líf að vettugi,
en ég er hrædd um líf konungs míns og elskulegs eiginmanns.“ Að því
mæltu fór hún að gráta, og hræsni hennar fékk svo mjög á Sindbað, að
hann sagði klökkvandi: „Ó mín fagra drottning! Þerraðu af þér tárin.
Nú skulum við ganga til hvíldar, en því lofa ég þér fyrir víst, að óðara
en hvíti hrúturinn (stjörnumerkið) hefur rekið hinn svarta yzt í vestur,
læt ég höggva höfuðið af fjandmanni okkar beggja.“ Morguninn eftir
stóð Sindbað konungur upp með þeim ásetningi, að gera drottningu
að skapi. Hann settist í hásæti sitt og skipaði böðlinum að sækja son
sinn. Þá gekk fram sjötti vezírinn til að biðja fyrir lífi Núrgehans, en
konungur skipaði honum að þegja og mælti reiðilega: „Það er til einskis
vezír, að bera í bætifláka fyrir son minn, dauði hans er fastlega og að
fullu ráðinn.“ Þá tók vezírinn samanbrotið bréf upp úr vasa sínum
og rétti konungi svo mælandi: „Vill yðar hátign láta lesa þetta fyrir
yður og taka eftir því með athygli? Eftir á getið þér gert sem yður þóknast.“
Sindbað konungur tók við bréfinu, braut það upp og las: „Ó þú
vitri og hamingjumikli konungur, ég hef eingöngu stundað stjörnuspár.
Þegar ég stillti stjörnumát sonar þíns, varð ég þess var, að hann mundi
verða í gífurlegum háska í fjörutíu daga. Varastu að láta drepa hann
áður en þeir eru liðnir.“ Allir vezírarnir lögðust á eitt að styrkja þetta
mál og sögðu: „Konungur! Bíddu fyrir guðs sakir, þangað til hinir
fjörutíu dagar eru liðnir; þú munt að lokum gleðjast yfir því, að þú
hefur haft þessa þolinmæði.“ „Svo mun verða,“ mælti sjötti vezírinn
enn fremur, „og ef yðar hátign leyfir mér, ætla ég að segja yður sögu, sem
er svipuð tilfelli Núrgehans; þá munuð þér játa, að þolinmæðin þrautir
vinnur allar.“ Konungur skipaði vezírnum að segja söguna og gerði
hann það á þessa leið:
Sagan af kóngssyninum frá Karisme
og kóngsdótturinni frá Georgíu
25. NÓTT. „Einu sinni var konungur í Karisme, hann var barnlaus
og leitaði guðs hjálpræðis án afláts með heitum og fórnfæringum,
að hann mætti barn geta. Hinn háleiti drottinn meðtók fórnir hans
og gaf honum son, sem var eins fagur og dagurinn er bjartur. Var fæðing
hans vegsömuð með dýrðlegasta hátíðahaldi. Konungurinn veitti
embætti og mannvirðingar og allir þegnarnir nutu einhvers góðs af
fögnuði hans. Lét hann ekki hjá líða að kalla saman alla stjörnuspámenn
í ríki sínu og skipaði þeim að taka eftir fæðingarstjörnum
sveinsins. En ekki urðu spár þeirra gleðilegar fyrir konung. Sögðu þeir
að fram að þrítugs aldri lægju ótal slysfarir fyrir syni hans, og guð einn
vissi, hverjar þær væru. Drógu spár þessar mikið úr fögnuði konungs,
og gerðist hann næsta hugsjúkur. Hafði hann varla augun af syni sínum
í uppeldinu, og lét hann allar varúðarreglur við hafa, sem hugsazt
gátu, til að gæta hans, og var sem hann ætlaði sér að yfirbuga hin illu
áhrif stjarnanna. Heppnaðist honum þetta þangað til kóngsson var orðinn
eitthvað fimmtán ára, og hafði honum ekkert hrakfall viljað til,
svo að ekki rættust stjörnuspárnar. En hér sannaðist það, að: „enginn
má sköpum renna,“ og einu sinni bar svo til, að kóngsson var að ríða
út sér til skemmtunar, og hafði þeyst ofan á sjávarströnd. Langaði hann
þá til að fara dálitla sjóferð. Lét hann því búa skip eitt til siglingar og
fór út á það með fjörutíu mönnum af föruneyti sínu. En óðar en þeir
voru komnir út á rúmsjó, réðust á þá víkingar frá Norðurálfu. Vörðust
þeir vel, en víkingar höfðu ofurefli og hruðu skipið og sigldu með
það til Samsara eyjar, og seldu það þar. Samsarar þessir voru ofboðslegar
mannætur, voru á þeim hundshausar, en kroppurinn sem á manni. Læstu
þeir kóngssoninn frá Karisme og félaga hans í hús og ólu þá nokkrar
vikur á möndlum og rúsínum. En á degi hverjum var farið með einn
þeirra í eldhúsið Samsara-konungsins; var hann þá brytjaður niður
og kjötið steikt, og smakkaðist konungi það vel. En er hinir fjörutíu
förunautar kóngssonarins voru uppétnir, bjóst hann við, að nú mundi
til sín tekið, enda hafði hann verið geymdur þangað til seinast, eins
og annað sælgæti. Þegar hann nú átti þessi hryllilegu afdrif fyrir höndum,
hugsaði hann með sér: „Ég veit, að ég get ekki umflúið dauðann,
en því skyldi ég láta slátra mér eins og blauð geit? Er ekki betra að ég
selji þeim líf mitt dýru verði? Já, ég skal verjast með hreysti, og mun þá örvænting
mín verða einhverjum skæð af þessum blóðsólgnu óvættum.“
Í því kóngsson var að ráðgera þetta með sjálfum sér, komu Samsararnir.
Lét hann þá fara með sig til matgerðarhúss konungs og sýndi engan
mótþróa. En er þangað var komið, sá hann hvar lá á borði stóra saxið,
sem átti að slátra honum með. Þá herti hann upp hugann, svipti sundur
handfjötrunum, greip saxið í skyndi og ruddist á Samsarana, sem
höfðu farið þangað með hann. Drap hann þar hvern á fætur öðrum.
Síðan óð hann fram í eldhússdyrnar og stóð þar fyrir, og átti hver vísan
bana undir höggum hans, sem að þorði. Komst höllin í uppnám af
þessu og glumdi undir af emjan og óhljóðum. Varð konungur hissa,
er hann heyrði, að einn maður hefði varizt svo mörgum, og kom hann
sjálfur fram í eldhúsið og mælti: „Ungi maður, ég dáist að hugprýði
þinni og gef þér líf. Berstu ekki lengur við þegna mína, því þau málalok
munu verða, að þú strádrepur þá, þó við ógrynni og ofurefli sé
að eiga. Segðu mér, hver er faðir þinn?“ En er kóngsson hafði sagt
honum, að hann var sonur konungsins í Karisme, mælti konungur Samsaranna:
„Þú ert nú svo reyndur að vaskleik, að nægar sönnur eru fyrir
því, að þú sért stórættaður. Kvíð þú nú engu, hirð mín skal upp frá
þessu vera þér gleðivist. Þú skalt verða mestur lánsmaður í heimi,
því ég kýs þig dóttur minni til handa, og er það vilji minn, að þú eigir
hana þegar í stað. Er það hin ástúðlegasta mey og hafa allir prinsar við
hirð mína slíkan ástarhug á henni, að þeim horfir til vandræða, en þú
einn ert hennar verður.“ Þetta var kóngssyni lítið fagnaðar boð og
svaraði hann: „Yðar hátign sýnir mér of mikla sæmd. En ég hélt, að
samsariskur prins ætti betur við skap dóttur yðar en ég.“ „Nei, nei!“
sagði konungurinn með ákefð, „ég krefst þess, að þú eigir hana; það
er vilji minn. Stattu ekki lengur í gegn boði mínu, þig kynni að iðra þess.“
26. NÓTT. Kóngssonurinn frá Karisme hugsaði með sér, að ef
hann veitti afsvör um að eiga kóngsdótturina, mundi konungurinn
á eynni verða æfareiður og ugglaust drepa sig; lét hann þá tilleiðast að
eiga hana. Gekk hann þá að eiga kóngsdótturina og hafði hún fallegastan
hundshaus á allri eynni. En samt var honum ómögulegt að venjast
henni og hafði hann hreinan viðbjóð á henni. Því betur sem hún
lét að honum, því andstyggilegri þótti honum hún vera, og hefði
frábitni þessi getað orðið hættuleg kóngssyninum. En engill dauðans
kom í veg fyrir það og birtist við hvílu kóngsdótturinnar; dó
hún fám dögum eftir brúðkaupið. Varð kóngsson guðsfeginn að losna
við svo hvimleiða konu, en þá heyrði hann, að það væri siður á þessari
ey eins og Sereneb (eynni Seylon), að kviksetja manninn með
líki konunnar, og ekkjuna með líki mannsins; væru jafnvel konungar
ekki undanþegnir þessum skelfilegu lögum, en Samsarar væru orðnir
því svo alvanir, að þeim óaði alls ekki fyrir útfarardegi sínum; þætti
þeim það fremur gleðidagur en sorgardagur, því allir, karlar og konur,
sem viðstödd væru við slíka greftrun, dönsuðu og syngju kvæði, sem
heldur væru til yndis en hryggðar.
Kóngssonurinn frá Karisme varð yfirkominn af harmi út af þessum
tíðindum, en hlaut samt að láta undan nauðsyninni. Voru þau hjónin
borin á líkbörum þangað sem bæði áttu að jarðast; var hvoru þeirra
um sig látið fylgja brauð og vatnskrukka. Hafði verið grafin djúp og
víð gröf þar á mörkinni handa þeim. Fyrst var kóngsdóttir látin síga
niður á strengjum og börunum sökkt niður í gröfina, en að því búnu
skiptist öll líkfylgdin í tvær raðir til söngs og dansleika. Öðrumegin
stóðu unglingarnir og unnustur þeirra, en hinumegin nýgiftu hjónin.
Elskendurnir tókust í hendur og slógu hring utan um einn ungling og
dönsuðu, en hann stóð í miðjum hringnum og söng þessar persnesku
vísur:
/#
Elskunnar yndisböndin
um eilífð binda hér,
þá hjúskaps engilhöndin
við heitmey tengir ver:
Eiðfast er ástarríki
eilífrar tryggðar gjöf,
því brúðar loks með líki
við leggjumst niðrí gröf.
#/
En nýgiftu hjónin dönsuðu, tvö og tvö saman, maður og kona, og
söng hver kona, þegar að henni kom að stíga dansinn, þessa vísu:
/#
Minn eiginn ver, ef ægir ei þér
mitt andargrand og þitt ei mér,
þá elskumst stöðugt, eg og þú,
með óbilandi hjartans trú,
svo hvorugt lysti lífið sitt
að lengja, þegar sálast hitt.
#/
Þegar lokið var söngnum og dansleiknum, sem kóngsson hafði lítið
gaman af, var hann látinn síga ofan til konu sinnar, og gröfin aftur lokin
með stóreflis hellu. Þegar kóngsson var kominn niður í hið skelfilega
djúp, kallaði hann upp: „Guð minn! Hvílíkar dauðans nauðir hefur þú
látið mig rata í; læturðu þetta verða afdrif kóngssonarins, sem rækti
boðorð kóransins af öllum hug? Bænheyrðirðu föður minn einungis til
þess að láta mig bíða grimman bana?“ Að svo mæltu tók hann að gráta
beisklega. En þó hann væri vonlaus um að sleppa úr þessum hræðilega
stað, hafði hann þá undir eins risið upp af líkbörunum og farið að þreifa
um múrinn, sem fyrir stóð. Og er hann hafði gengið eitthvað tíu faðmslengdir,
sá hann allt í einu hvar ljós logaði fram undan honum. Greikkaði
hann þá sporið og sá að þetta var kona, sem gekk með logandi kerti.
Gekk hann þá nær og nær, en þegar konan heyrði hann koma, slökkti
hún ljósið“...
27. NÓTT. „Þegar kóngssonurinn sá að aftur varð niðamyrkur í
kringum sig, mælti hann: „Guð minn, voru það missýningar, sá ég þá
ekkert ljós; var það ekki annað en draumórar minna sturluðu skapsmuna?
Það hefur ekki verið nema ímyndun. Ólánsami kóngsson, hugsaðu
ekki til að sjá sólina framar. Svona ertu þá stiginn niður í myrkur hinnar
eilífu nætur áður en þitt náttúrlega skapadægur bar að hendi. Ó,
þú konungur í Karisme, veslings faðir minn, vonastu ekki eftir mér
heim! Ó vei, sonur þinn mun ekki verða stoð elli þinnar, heldur mun
hann deyja hér hryllilegum dauða.“ Í því hann mælti þetta, heyrði hann
rödd, sem sagði: „Huggastu, kóngsson; sértu sonur konungsins í Karisme,
skaltu ekki láta líf þitt hér; ég skal bjarga þér, ef þú lofar mér því
fyrirfram að eiga mig.“ „Lafði mín!“ anzaði kóngsson, „það er að vísu
hryggilegt hlutskipti, að vera kviksettur á fimmtánda aldurs ári, en það
kýs ég heldur, þó hart sé aðgöngu en að gefa þér heitorð þetta, ef þú
ert lík konunni minni sælu. Ef það er hundshaus á þér líka, get ég með
engu móti fellt ástarhug til þín?“ „Herra, ég er ekki af Samsarakyni,“
anzaði konan, „þar til er ég ekki nema fjórtán ára og ég vona að þú
þurfir ekki að fælast andlit mitt.“ Því næst tendraði hún aftur ljósið með
kveik, sem hún hafði hjá sér, og lét kóngsson líta ásjónu sína; varð hann
hugfanginn af fríðleik hennar. Hann hrópaði frá sér numinn: „Hvílíkur
yndisleikur, ekkert jafnast við það, sem ég nú sé. Seg mér, sjónfagra vera,
hver þú ert. Þú hlýtur að vera álfkona, fyrst þú segist geta frelsað mig
úr þessu dauðans djúpi.“ „Nei, herra!“ svaraði yngiskonan, ég er ekki
álfkona, heldur er ég dóttir konungsins í Georgíu og er nafn mitt Dílaram
(þ.e. hjartafró). Skal ég lofa þér að heyra ævisögu mína í annað skipti,
[1095.png]
en nú segi ég þér í stuttu máli, að ofviðri hröktu mig til þessarar ósælu
eyjar; varð ég að giftast hér einum samsariskum höfðingja. Hann dó í gær
eftir þunga legu, og var ég grafin með einu brauði og vatnskrukku, eins
og hér er landssiður. En áður hafði ég falið á mér innanklæða, eldsvirki,
kveik og kerti. Undir eins og ég var látin hér niður og gröfin var byrgð
að ofan, reis ég upp úr kistu minni og kveikti á ljósinu. Kom ekki eins
mikil hræðsla og ofboð yfir mig, sem við mátti búast á þessum hryllilega
stað. Guði hefur þóknazt að varðveita mig, og hann blés mér áræði í
brjóst, svo ég hughreystist, og vissi ég ekki sjálf, hvaðan mér kom það.
Kom ég þá að göngum, fjarska þröngum, og gekk ég eftir þeim bæði til
að umflýja allar þær skelfingar, sem ógnuðu augum mínum, og líka til
hins, að vita, hvort hvergi yrði út komizt. Þegar ég hafði gengið svo sem
svaraði hundrað fetum, kom ég auga á eitthvað hvítt. Það var stóra
marmarahellan þarna fyrir framan okkur. Gekk ég þangað og varð ég
hreint forviða, þegar ég sá nafn mitt nefnt í letrinu, sem á henni stendur.
Komdu nær, kóngsson, og lestu letrið; það mun koma þér eins óvart
og mér.“ Að svo mæltu rétti hún kóngssyni kertið; gekk hann þá að
steininum og las þetta: „Þegar kóngssonurinn frá Karisme og kóngsdóttirin
frá Georgíu koma hingað, munu þau geta lyft þessum steini og gengið
ofan eftir stiga þeim, sem þar er undir.“ „Og við eigum að geta lyft
þessu heljarbjargi?“ sagði kóngsson, „það veitir ekki af hundrað mönnum
til þess.“
[1096.png]
„Þá er engu til spillt þó reynt sé,“ svaraði kóngsdóttirin; „hér
hefur einhver hönd í tafli, sem fróður er, og svo segir mér hugur um,
að við munum sleppa héðan heil á húfi.“ Kóngsson fékk Dílaram kertið
aftur og fór að hreyfa við hellunni. Þurfti þá ekki stórrar aflraunar, því
óðara en hann kom við hana, fór hún undan sjálfkrafa og lá stiginn niður
í steinsfarinu. Fóru þau þar ofan og komu niður í annað jarðhús; þaðan
komust þau eftir þröngum göngum út um helli, sem högginn var í hamrabelti
undir fjalli einu; var þaðan utangengt og komu þau loksins að
fljótsbakka. Jafnskjótt og þau voru komin undir heiðan himin, gerðu
þau bæn sína, eins og sannir átrúendur Mahómets, og eftir að þau höfðu
borið fram fyrir drottinn þökk og lofgjörð, svo sem skylt var, sáu þau við
bakkann dálitla ferju, sem þau höfðu ekki tekið eftir fyrr. Efuðu þau
ekki, að það væri nýtt stórmerki guðs miskunnar og urðu nú hálfu glaðari
en fyrr, og þó að hvorki væri stýri né árar á bátnum, fóru þau samt
hughraust út í, og kóngsson mælti: „Þenna bát leiðir víst einhver verndarengill;
mun hann flytja okkur til einhverra byggða. Látum okkur
berast með straumnum í fljótinu og hvergi hræðast.“ Þau gerðu líka
svo. En því lengra, sem skipið bar ofan eftir, því flughraðara varð straumfallið;
mjókkaði farvegurinn smámsaman, þangað til fljótið þrengdist
milli tveggja fjalla; náðu tindar þeirra saman efst uppi í geysistórri hvelfingu,
sem skútti yfir; var þar kolniðamyrkur, svo að hvorki sást himinn
né jörð. Keyrðist báturinn af slíku afli inn í svartnætti hvelfingar þessarar,
að kóngsson og kóngsdóttir sáu ekki annað fyrir en opinn dauðann.
Þau tóku að óttast, að guð hefði ekki borið svo mikla umhyggju fyrir
lífi þeirra, sem þau héldu. Ýmist fundu þau að bylgjurnar riðu undir
bátinn, svo að hann hófst upp að klettarjáfrinu, eða þær soguðu hann
niður í undirdjúpin. Meðan á þessum ósköpum gekk, báðust þau fyrir,
og guð bænheyrði þau. Bátnum skolaði aftur út undan fjöllunum, og
rak straumaldan hann að bakkanum. Stigu þau þegar á land og hughreystust
á ný. Lituðust þau nú um á alla vegu, hvort hvergi sæist hús,
þar sem þau gætu fengið hressingu. Sáu þau þá hvar stórt musteri með
hvolfþaki stóð á fjallsgnípu; var það líkt einu, sem Kubbay Khiramant
heitir. Þangað héldu þau, og er þau komu nær, sáu þau að það stóð
mitt í glæsilegri höll; var helgiskurðarletur á hallarhliðinu svolátandi:
„Það skalt þú vita, sem komast vilt inn í þessa glæsilegu höll, að þú fær
ekki inngöngu nema þú fórnfærir áttfættu dýri við dyr hennar.“ „Þá
bregzt mér illa vonin,“ mælti Dílaram, „ég var farin að hlakka til að
sjá höllina að innan.“ „Mér var líka forvitni á því,“ anzaði kóngsson,
„en okkur er ómögulegt að seðja hana, því að það væri þarflaus aflraun,
ef við reyndum að ljúka upp dyrunum. Myndirnar á þeim eru verndargripir,
sem tálma því.“ „Jæja,“ segir Dílaram, „við skulum þá hvíla okkur
ofurlítið á jörðinni hérna og tala um, hvað við eigum að taka til bragðs.“
„Kóngsdóttir,“ svaraði kóngsson, „segðu mér heldur sögu þína; ég er
órór af því, hvað mig langar til að heyra hana.“ „Herra,“ mælti kóngsdóttir,
„ég skal þá segja þér hana í stuttu máli....
28. NÓTT. Faðir minn, konungurinn í Georgíu, lét uppala mig í
höll sinni með slíkri umhyggju, sem ástúðlegur faðir getur framast borið
fyrir börnum sínum. Einn ungur kóngsson var í ætt við okkur og hafði
hann öðru hverju færi á að sjá mig; tók hann að leggja á mig ástarhug
svo mikinn að hann gerðist hugsjúkur. Hann elskaði mig og var þegar
farinn að verða mér vel að skapi, en þá kom vezír frá einum nágrannakonungi
til hirðarinnar í Georgíu, og beiddi mín fyrir hönd herra síns.
Líkaði föður mínum sá ráðahagur vel og gaf hann samþykki sitt; hlaut
ég að taka því, sem að höndum bar og fara með vezírnum. Burtför mín
fékk hinum unga kóngssyni svo mikillar hryggðar, að hann sprakk af
harmi í því hann kvaddi mig. Grét ég dauða hans svo, að hver hefði mátt
sjá, að mér mundi ekki hafa orðið kalt til hans um ævina. En af því ég
hafði það orð á mér, að ég væri næsta elsk að föður mínum, þá misskildu
menn tár mín og héldu að ég væri miklu ástríkari dóttir en ég var. Fór
ég síðan af stað með vezírnum. Stigum við á lítið skip til þess að fara yfir
fjörð nokkurn, sem var á leið okkar. En á leiðinni brast á geysilegt ofviðri,
svo að skipverjum féllust hendur; rak skipið undan landi í hafganginum
og hröktumst við að ey Samsaranna. En er koma vor spurðist,
þustu þessar ókindur ofan á ströndina og handtóku alla skipshöfnina, og
hryllir mig við að segja þér hvað eftir fór. Þeir átu vezírinn og allt föruneyti
okkar. En af mér er það að segja, að ég hugnaðist vel einum gömlum
samsarískum höfðingja; sagði hann mér að ég gæti umflúið vísan
dauða, ef ég vildi verða konan hans. Er satt bezt að segja, að mig óaði
svo við að verða uppétin, að ég kaus þann kost heldur að eiga hann, og
kom þó hrollur yfir mig í hvert skipti sem ég horfði á hundshausinn á
honum. Tveimur dögum eftir brúðkaup okkar varð hann veikur. Þjáðist
hann lengi, en í gær tók dauðinn“....
Þarna greip kóngsson fram í orð kóngsdótturinnar og kallaði upp:
„Varaðu þig, þarna skríður tarantúla[* Nokkurskonar könguló og á heima í löndum þeim er liggja að Miðjarðarhafi; er bit
hennar álitið háskalegt. Hafa menn þá trú, að það læknist, ef sá, sem bitinn er, heyrir
fagran söng, en sé ella ólæknandi.] á klæðum þínum.“ Spratt þá Dílaram
upp á augabragði og hljóðaði upp yfir sig og hristi hana af sér, því
hún vissi hvað háskaleg þessi kvikindi eru. Datt þá tarantúlan á jörðina
og marði kóngsson hana undir fætinum. Í sama bili heyrðu þau að glumdi
undir í höllinni og sáu að dyrnar hrukku allt í einu upp af sjálfu sér.
Urðu þau steinhissa á þessum kynlegu tilbrigðum og horfðu þegjandi
hvort á annað. Loksins datt þeim í hug að tarantúlan er áttfætt, og
mundi hún vera fórnardýrið, sem heimtað var í letrinu á hallarhliðinu.
Voru þau frá sér numin af fögnuði yfir ævintýri þessu og gengu inn í
höllina, sem nú stóð opin, og komu þau fyrst inn í stóran garð; voru þar
allar trjátegundir heimsins, sem hugsazt gátu. Sýndust greinarnar hlaðnar
alþroskuðum ávöxtum, en er kóngsson ætlaði að neyta þeirra til að seðja
hungur sitt, sá hann að þeir voru gull eitt. Lækur einn rann eftir miðjum
garðinum, með hreinum og tærum straumi, og sást ógrynni gimsteina
glampa á botninum. Þegar þau höfðu nú skoðað sig um í garðinum, sem
vert var, sneru þau að musterinu, sem þeim varð svo starsýnt á, þegar þau
stigu á land úr bátnum. Var það allt saman gert af fjallakristali.
[1099.png]
Fóru þau þar inn og gengu um mörg herbergi, sem ljómuðu af gulli, demöntum
og roðasteinum, en ekki mættu þau nokkrum manni. Loksins bar
þau að silfurdyrum; luku þau þeim upp og komu inn í glæsilegt herbergi,
þar sáu þau fjörgamlan öldung sitja í legubekk með smaragðskórónu
á höfði. Hann hafði snjóhvítt skegg og tók það niður á gólf,
en neglurnar á fingrum hans voru alin á lengd, fyrir víst. Þessi æruverðugi
öldungur horfði á kóngsson og kóngsdóttur og mælti: „Hverra
manna er yngisfólk þetta?“ Kóngsson varð fyrir svörum og mælti:
„Herra, ég er sonur konungsins í Karisme, en konungurinn í Georgíu er
faðir þessarar konu. Skulum við segja yður frá ævintýrum okkar, þegar
yður þóknast. Ég tel það víst, að þér munið kenna í brjósti um okkur,
og er vongóður um, að þér reynist svo veglyndur, að skjóta yfir okkur
skjólshúsi.“ „Já, kóngsson!“ svaraði öldungurinn, „það skal ég veita ykkur,
og verið bæði velkomin á minn fund. Fyrst þið eruð konungabörn
og báruð hamingju til að komast inn í þessa höll, þá er einungis undir
ykkur sjálfum komið, hvort þið viljið hljóta sömu sælu og ég. Verið þið
hjá mér; þið skuluð njóta hér óaflátanlegs fagnaðar. Dauðinn sjálfur, sem
öllum kemur á kné, mun hlífa ykkur hér. Ég var fyrrum konungur Kínlands.
Megið þið marka af nöglum mínum að ég er farinn að eldast. Ég
varð að flýja lönd mín sökum stjórnarbyltingar; komst ég þá út á eyðimörk
þessa og lét marga anda gera höll þessa, því ég er kabbalisti og
drottna yfir þeim. Hef ég nú dvalið í höllinni um þúsund ár, og hef
fastráðið að lifa hér að eilífu, því ég á vizkusteininn og er ódauðlegur.
Skal ég kenna ykkur hina undarlegu leyndardóma hans, þegar þið eruð
búin að vera hjá mér nokkra áratugi. Ég sé að þið fallið í stafi af orðum
mínum, en þetta er sannleikur. Hverjum manni, sem fær vizkusteininn
á vald sitt, getur ekki náttúrlegur dauði grandað. Að vísu má drepa hann,
það játa ég; leyndardómar hans varðveita ekki fyrir voveiflegum dauðdaga.
En til þess að sneiða fyrir allar slíkar hættur, þarf hann ekki annað
en að taka sér bólfestu undir jörðinni, eða láta reisa sér höll á eyðimörku
eins og ég. Hér er ég óhultur; öfund og ofbeldi sakar mig ekki
grand. Verndarletrið, sem þið sáuð á hliðinu, er með slíkum hætti samansett,
að ræningjar og illmenni geta ekki komizt inn, þó þeir fórnuðu
þúsund áttfættum dýrum, því hliðin ljúkast aldrei upp, nema þegar góður
maður færir fórnina.“ Svo mælti Kínlands konungur og bauð kóngssyni
og kóngsdóttur vináttu sína, og ásettu þau sér bæði að vera þar hjá honum
í höllinni. Síðan spurði hann þau, hvort þau þyrftu ekki að fá sér
hressingu, og er þau kváðu já við, benti hann þeim með fingrinum á
tvo lystihvera, sem gusu upp úr tveimur gullskálum. Annar gaus upp dýrindis
víni, en hinn nýmjólk, sem varð að ljúffengasta hlaupi, þegar hún
kom niður. Því næst kallaði hinn gamli konungur á þrjá anda og bauð
þeim að leggja á borð. Bjuggu þeir þá til borðs handa þremur og báru
fram mjólkurhlaup í þremur gullskálum. Neyttu þau kóngsson og kóngsdóttir
af því, og þótti það vera mesta hnossgæti, en öðru hverju báru andarnir
þeim vín í kristallskerum. Konungurinn gat ekki neytt handanna,
er hann borðaði, fyrir lengdinni á nöglunum; opnaði hann því munninn
og lét einn andann mata sig og drykkja sér eins og barni. En er borið
var af borði, beiddi hinn góði öldungur gesti sína að segja sér ævisögu
sína; urðu þau við tilmælum hans, bæði af góðvilja sínum og svo vegna
þess að gistivináttan hélt þeim til þess. En er þau höfðu sagt honum öll
ævintýri sín, tók hann til orða og mælti: „Huggizt og setjið ekki fyrir
ykkur það, sem á dagana hefur drifið; þið eruð bæði ung og elskuverð,
og ef þið heitið hvort öðru ástartryggðum, skal ég hér fyrirbúa ykkur
hina sælustu vist.“ Kóngsson og kóngsdóttir höfðu áður svarið hvort öðru
eilífar ástir, og endurnýjuðu þau nú eið sinn og giftu sig sjálf hvort öðru
í viðurvist hinnar kínversku hátignar, og kvöddu hana til vitnis að því.
Mundu hin ástfangnu hjón fegin hafa helgað ástinni hverja stund, en til
þess að gera hinum gamla konungi að skapi, sátu þau jafnan nokkurn
hluta dagsins á tali við hann, honum til skemmtunar; þreyttist hann
aldrei að segja þeim sögu sína, né þau að hlýða á.
Meðan á þessu stóð, fór kóngsdóttir ekki ein saman og ól hún tvíbura,
tvo sveina, fagra eins og tungl í fyllingu. Hafði hún þá á brjósti, og er
aldur og þroski leyfði, kenndi einn andinn þeim mörg undursamleg
fræði. Voru þeir orðnir sex ára; þá var það einhvern dag, að kóngsdóttirin,
móðir þeirra, sagði við mann sinn: „Ástkæri eiginmaður, það verð
ég að segja þér, að ég uni mér ekki lengur í höllinni þeirri arna. Allt það
sjóngaman er mér eins og ekkert, sem hún hefur að veita, og svo mörg
undur og furðuverk, sem hér eru, má ég þó ekkert yndi af þeim hafa,
úr því ég neyðist til að vera hér um aldur og ævi. Hvernig sem Kínlandskonungurinn
segist ábyrgjast okkur, að dauðinn nái okkur ekki, þá er
mér engin þægð í því. Leyndardómur hans afstýrir ekki ellinni og það
er vansæla öllu heldur en sæla, að verða örvasa. Þar á ofan langar mig til
að finna hann föður minn, ef sorgin og söknuðurinn eftir mig hefur
ekki riðið honum að fullu.“ „Drottning mín!“ svaraði kóngsson, „þar
sem okkur var heitið ódauðleika, hafði ég enga sælu fyrir augum aðra en
þá, að njóta þín um eilífð. Viti það guð á himnum, að mig hefur oft
sárlangað til að sjá konunginn, hann föður minn, og má ég varla hugsa
til hans ógrátandi. En hverja leið eigum við að fara, svo við komumst
til Georgíu?“ „Herra!“ anzaði kóngsdóttirin Dílaram, „báturinn okkar
liggur við fljótsbakkann, þar sem straumurinn bar hann að. Felum okkur
forlögunum á vald einu sinni enn þá. Við skulum láta straum ráða
stefnu, hver veit nema hann flytji okkur þangað, sem við finnum leið
til hallarinnar hans föður míns, eða til þinnar fósturjarðar?“ „Ég fellst
á tillögur þínar, elskulega kona!“ mælti kóngsson, „mér er það fyrir öllu,
að gera þinn vilja. Við skulum segja skilið við þessa höll, fyrst þar
sækir á þig óyndi, og skulum við fara út í bátinn með sonu okkar. En eftir
á að hyggja, hvílík skapraun mun það verða Kínlands konunginum, ef
við förum burt! Hann elskar okkur eins og börn, og kemur honum víst
ekki til hugar, að við munum yfirgefa sig; hann verður óhuggandi, ef við
skiljum við hann.“ „Við skulum tala við hann,“ mælti kóngsdóttir, „og
af vorkunnsemi láta eins og við munum ekki skilja við hann fyrir fullt
og allt.“
Nú sem þau höfðu talað sig saman um þetta, fóru þau til gamla konungsins
og leiddu honum fyrir sjónir, að þau þreyðu foreldra sína svo
ákaft, að þau eirðu sér ekki fyrir óyndi. Beiddu þau hann því orlofs, að
vitja átthaga sinna og lofuðu statt og stöðugt, að þau skyldu koma að
nokkurra ára fresti. Þegar hinn gamli konungur heyrði þetta, kom upp
fyrir honum mikill grátur. „Á ég þá að missa ykkur, börnin mín?“ sagði
hann, „æ, ég veit að við sjáumst aldrei framar.“ „Herra,“ mælti kóngsson,
„lofið okkur þangað, sem ást og ætterni dregur okkur, en síðan vitjum
við aftur þessarar eyðimarkar, til þess að njóta með yður ódauðlegrar
sælu.“ Sama sagði kóngsdóttirin, en það var til lítils að þau marglofuðu
að koma aftur, því konungurinn kunni fræðina Mekasjefa og las í
hjörtu þeim, að þau ætluðu sér ekki að efna heitið. Honum varð lífið
óbærilegt fyrir hryggðar sakir, að eiga nú að sjá þeim á bak, sem hann
elskaði svo innilega. Kallaði hann því á engil dauðans, sem hann hafði
haldið svo lengi burtu, fyrir kraft kunnáttu sinnar; var hann nú afhuga
allri umhyggju fyrir lífi sínu og andaðist svo sjálfviljugur....
29. NÓTT. Jafnskjótt sem hinn gamli konungur frá Kínlandi hafði
gefið upp öndina, komu þrír andar og báru hann þaðan; höllin var horfin,
kóngsson, kóngsdóttir og börn þeirra stóðu allt í einu á víðavangi. Þau
gátu ekki að sér gert að gráta, af því þau hefðu verið orsök í dauða konungsins;
en sorgin rættist skjótt af þeim, og urðu þau vongóð um, að
þau mundu finna aftur foreldra sína, og hugsuðu þau nú ekki um
annað en að komast áleiðis. Þau lásu nokkur aldin og báru út í bátinn;
það var eins og náttúran hafði látið þau vaxa þarna af miskunnsemi sinni
handa þeim, því hvergi var stingandi strá allt umhverfis. Báturinn var
bundinn við hælinn enn þá, og eins á sig kominn og þegar þau skildu við
hann. Leystu þau festina og fóru öll saman fjögur út í, og létu berast af
straumnum í fljótinu, og að lítilli stundu liðinni voru þau komin fram
í fljótsmynnið. Þar var víkingaskip að slaga fyrir framan, og sáu þeir bátinn;
kallaði foringinn til þeirra og sagði kóngssyni að gefast upp, ef þeir
ættu ekki að drepa hann. Kóngsson var vopnlaus, enda hefði honum verið
til lítils að berjast við fjölda vopnaðra manna. Sleppti hann því allri
vörn, úr því hún var til einskis, og gaf sig á náðir foringjans, en særði
hann um leið við allt, sem heilagt er, að hlífa sóma konu sinnar og lífi
sona sinna.
Þegar víkingarnir höfðu komið bandingjunum innanborðs, sigldu
þeir til eyjar einnar, og settu kóngssoninn frá Karisme þar á land. Því
næst létu þeir í haf með kóngsdótturina frá Georgíu og báða sonu hennar.
Því verður ekki með orðum lýst, hversu hjónin hryggðust, þegar þau
voru skilin svona. Þau grétu hástöfum og bárust aumlega af. Meðan
víkingaskipið var í augsýn kallaði kóngsson eftir því til fyrirliðans. „Níðingurinn
þinn,“ sagði hann, „hugsaðu ekki, að guð láti illvirki þitt
óhegnt. Hvar sem þú felur þig í veröldinni, sleppurðu ekki hjá refsingunni,
sem vofir yfir þér í hendi réttlætisins.“ Því næst leit hann augum
sínum til himins og mælti: „Og þú, sem ávallt hefur tekið mig undir
varðveizlu þína, réttláti drottinn! hefur þú yfirgefið mig? Gaztu látið það
viðgangast, að þeir rændu mig konu minni og börnum? Ef þú sýnir ekki
nýtt stórmerki og gefur mér aftur það, sem mér er kærast, þá er þín fyrri
líknsemd mér til meiri hryggðar en gleði. Því hefurðu frelsað mig úr
svo mörgum hættum? Frestaðirðu dauða mínum, til þess að ég skyldi
reyna alla þá sorg, sem hjúskaparást og föðurelska geta fyrir orðið?“
Meðan kóngssonurinn frá Karisme var að bera upp þessa kveinstafi,
sá hann drífa að sér úa og grúa af mönnum, sem honum virtust harðla
undarlegir. Höfðu þeir að vísu mannlegan líkama, en voru höfuðlausir
og höfðu í þess stað eitt auga á hvorri öxl, og víðan kjaft á brjóstinu.
Illþýði þetta tók hann höndum og fór með hann til konungs síns og
sagði við hann: „Herra! Þarna fundum við einn útlending heldur ófrýnilegan
á ströndinni: gæti vel verið, að hann kynni að bera oss nokkra
njósn af fjandmönnum vorum.“ „Gott og vel“, svaraði konungur, „hlaðið
upp bálköstinn og varpið honum á bálið, þegar ég hef spurt hann
úr spjörunum.“ Síðan sneri hann sér að kóngssyninum og mælti: „Ungi
maður, hver ert þú? Hvaðan ber þig hingað og hvernig ertu kominn til
þessarar eyjar?“
Kóngsson sagði honum þá hreinskilnislega ætt sína og ævintýri, allt
út í hörgul. Undraðist konungur mikillega og mælti: „Kóngsson! Ég sé
það, að sérleg guðs handleiðsla er yfir þér, því þó ég ekki léti sannfærast
af sögu þinni, sem einstök er og undrunarverð, þá tekur það af allan
efa, að guð snýr nú hjarta mínu til samhryggðar og meðaumkvunar með
þér. Ég læt þessa tilfinningu ráða; þú skalt hafa líf. Skalt þú hafa frjálsa
hirðvist hjá mér, og vona ég þú verðir mér til nota í stríði því, sem ég á við
konung einn á nágrannaeyjunum. Skal ég nú segja þér þrætuefnið. Hann
og þegnar hans eru ekki höfuðleysingjar eins og vér, heldur eru á þeim
fuglshausar og þegar þeir tala, þá er rödd þeirra áþekk fuglagargi, svo
þegar einhvern þeirra ber að eynni hérna, tökum vér hann fyrir sjófugl
og leggjum oss til munns. Þetta líkar konungi þeirra stórilla; gerir hann
því öðru hverju út flota í hefndar skyni og veitir landgöngur hér. Hefur
hann reynt það oftar en einu sinni og aldrei tekizt. En aldrei verður
hann því afhuga að gjöreyða oss, og vér verðum heldur aldrei vonlausir
um að éta upp hann og þegna hans. Svona er nú mál með vexti; vér
erum varir um oss, því vér búumst sífellt við árásum; höfum vér ávallt
til þessa borið hærra hlut.“ Kóngssonurinn frá Karisme bauð þá hjálp
sína, og tók konungur hann til hershöfðingja yfir liðið. Lá kóngsson heldur
ekki á liði sínu og sýndi það í öllu, að honum var fulltreystandi. Leið
ekki á löngu áður fjöldi skipa sást af eynni. Var þar kominn floti Fuglshausa-konungsins,
með einvalalið, og ætlaði að veita landgöngu á ný. Lét
kóngssonurinn frá Karisme hann skjóta liði sínu á land upp í góðu næði,
en veitti honum síðan snarpa atgöngu; riðlaðist þá lið Fuglshausa-konungsins
og varð að flýja aftur út á skipin. Féll þar ógrynni og fjöldi
drukknaði, og varð Fuglshausa-konungurinn að snúa aftur með það sem
af komst. Hafði her Höfuðleysingjanna aldrei unnið slíkan sigur, og
hlaut kóngssonurinn frá Karisme allan heiðurinn. Sögðu liðsmenn það,
að þeir hefðu aldrei haft jafngóðan fyrirliða og hefðu beztu foringjar
þeirra aldrei sýnt slíkan viturleik. Gladdist hinn nýi hershöfðingi af
slíkum lofstír og vildi afla sér enn meiri frægðar; stakk hann upp á því
við konung, að hann skyldi búa flota og hefja herskjöld í landi óvinanna
og gera þeim klaksárt. Lét hann þá smíða hundrað skip, búa þau og skipa
liði. Var kóngsson settur yfir þennan ógurlega flota, og sigldi nú til
Fuglshausa-eyjarinnar. Gekk hann þar á land með lið sitt á náttarþeli,
og fylkti því sem hljóðlegast. En með morgunsárinu sótti hann að borg
þeirra; — voru borgarbúar óviðbúnir áhlaupinu og kom heldur flatt upp
á þá. Var þar allt höggið niður, sem vörn sýndi, og konungur handtekinn;
fór kóngsson sigri hrósandi heim aftur til Höfuðleysingja-konungsins.
Tóku eyjarbúar þeir, sem eftir höfðu orðið, við honum með fagnaðar
ópi, og var hátíð haldin, sem stóð í heilan mánuð. Var hinum herteknu
útbýtt meðal Höfuðleysingjanna og voru þeir étnir með samkyns
ídýfu og höfð er með sjófugli. Varð konungurinn sjálfur að deyja þessum
dauðdaga og var hann framborinn í veizlu einni fyrir konungshyski
Höfuðleysingjanna.
Eftir stórvirki þetta, sem útkljáði stríðið gjörsamlega, fór nú kóngssonurinn
frá Karisme að eiga náðugt. Var hann níu ár við hirð höfuðlausa
konungsins og komst í svo mikla kærleika hjá honum, að hann
sagði einu sinni við hann: „Kóngsson minn! Ég er nú farinn að eldast
og á enga sonu; vil ég arfleiða þig að kórónu minni með því skilyrði, að
þú eigir dóttur mína. Að vísu er sköpulag þitt herfilega aflægislegt, en ég
vil samt feginn eiga þig fyrir tengdason.“
Kóngsson eyddi nú þessu fyrst í stað með kænlegri undanfærslu;
en konungur sat við sinn keip og vakti iðulega máls á því. En er hann
varð þess vísari, að kóngsson var ráðahag þessum frábitinn, kom í hann
annað hljóð, og mælti hann reiðilega: „Kóngsson! Það situr helzt á
þér að hafna sæmd þeirri, sem ég hef ætlað þér, en svo mikið sem þú
hefur gert fyrir mig, stendur það mér alls ekki fyrir, að ég láti þig kenna
á allri reiði minni, ef þú færist lengur undan að hlýða mér. Taktu nú
eftir: Þú verður að eiga dóttur mína á morgun, eða ég læt höggva af
þér þessa skringilegu ómyndarkúlu, sem rær og iðar milli axla þér.“ Þetta
mælti hann með slíkum svip að kóngsson sá það í hendi sér, að annaðhvort
væri að gera, að taka kvonfanginu eða láta lífið. Þegar hann var nú
í þessum kröggum, segir hann hryggur við sjálfan sig: „Ólans stjarna,
sem ég er borinn undir, verður þú þá aldrei uppnæm að sýna mér illvilja
þinn? Er það ekki nóg að hafa átt eina konu með hundshaus, á þá
að neyða upp á mig annarri ókindinni til? Dílaram, yndislega Dílaram!
Svo sárs saknaðar fær mér minning þín, að engin tímalengd getur eytt
honum. Hvernig ætti sá kóngsson, sem geymir þína elskulegu mynd í
hjarta sínu, að búa saman við konu, sem hefur augun á öxlunum og
kjaft á brjóstinu, og sem líklegri er til að gleypa mann en kyssa.“ Svo
mikinn viðbjóð, sem hann hafði á þessum kosti, réði hann það samt af
að taka honum. Var brúðkaupið haldið með slíkri viðhöfn, sem hæfði
tign og ættgöfgi beggja hjónaefnanna. Nóttina eftir brúðkaupið var
kóngsson leiddur inn í brúðarhúsið; var hún þar fyrir og urðu þau þar
tvö ein. Hún kom fyrst til hans og skalf hann þá af hrolli og viðbjóði,
því hann vissi ekki annað en að hún mundi ganga hart eftir skyldum
brúðgumans. En þetta fór á aðra leið, og henni fórust svo orð, að kóngsson
sá, að sér hafði skjátlazt, og fór af honum allur kvíði. „Herra,“ tók
hún til máls, „ég veit það, að þú hlýtur að hata þá konu, sem eins er
sköpuð og ég, og marka ég það á mér sjálfri, því slíka andstyggð hef ég á
þér, að þín getur ekki verið meiri. Þér sýnist ég vera ófreskja og þú mér,
og bæði börmum við okkur yfir því, að vera neydd til hjónabandsins;
þú til þess að umflýja dauðann, og ég til þess að hlýða föður mínum.
Samt skaltu vita það, að ég get gert þig að lánsmanni, ef þú sýnir mér
kurteislega nærgætni og afsalar þér því, sem er tilkall hvers kvongaðs
manns.“ „Kóngsdóttir!“ svaraði kóngssonurinn frá Karisme, „ég afsala
mér því af öllu hjarta, fyrst að þú krefst þess; en segðu mér fyrir alla
muni; geturðu gert mig að lánsmanni?“ „Heyrðu þá,“ tók kóngsdóttirin
höfuðlausa til orða, „ég elska anda nokkurn og hef ég kveikt í honum
brennandi ást til mín. Verði hann þess vís, að faðir minn hafi gift mig,
mun hann koma og nema mig burt. Skal ég þá biðja hann að flytja þig
til átthaga þinna, og það skal ég ábyrgjast þér, að hann verður svo feginn,
þegar hann veit að þú hefur virt sóma minn, að hann gerir allt, sem
þú biður hann um.“ „Það skal þá svo vera, fagra kóngsdóttir,“ anzaði
kóngsson frá sér numinn af voninni, „ég samþykki þetta, og eftirlæt hinum
sæla anda brúðfangið, með öllum þess gögnum og gæðum. Honum
er það guðvelkomið fyrir mér.“ Að svo mæltu lagðist hann niður í legubekk
einn og eins gerði kóngsdóttirin. En um nóttina kom andinn, unnusti
kóngsdótturinnar, tók þau bæði sofandi og bar þau undir hendinni
til eyjar einnar, sem þar var nálægt. Þar lagði hann kóngssoninn frá
Karisme niður á jörðina, en með unnustu sína fór hann niður í jarðhús,
sem hann hafði gert handa henni.
Þegar kóngsson vaknaði, varð honum hverft við að vera kominn á
ókunna ey. Honum datt raunar í hug, að andinn, unnusti höfuðlausu
kóngsdótturinnar, hefði flutt hann þangað sofandi, en ekki þótti honum
hann hafa reynzt eins þakklátur og kóngsdóttirin gerði ráð fyrir, þar sem
hann hafði flutt hann á þessa ey, sem líklegt var að eins viðbjóðslegar
ókindur byggðu, og Samsararnir voru, í stað þess að koma honum til
fósturjarðar sinnar. Meðan hann var að hugleiða þetta í öngum sínum,
sá hann hvar gamalmenni stóð í sjávarmálinu og var að þvo sér. Kóngsson
hljóp á augabragði til hans og spurði, hvort hann tryði á Mahómet.
Játaði öldungurinn því og mælti: „En hver ert þú? Þú munt ekki vera
af lágum stigum, því þú ert tígulegur í sjón og stórmannlegur.“ „Þá áttu
kollgátuna,“ anzaði kóngsson, „því faðir minn var konungur.“ „Og hvers
sonur ertu?“ spurði karlinn, „segðu mér allt, ég sver þér það við vorn
mikla spámann, að engin svik búa undir orðum mínum. Mér er miklu
meira um það hugað, að gera þér gagn en skaða; segðu mér það og dragðu
ekki dulur á neitt.“ „Fyrst þig fýsir að vita það,“ svaraði kóngsson, „þá
skal þig þess ekki dylja, að ég er sonur konungsins í Karisme.“ „Guð
minn,“ greip gamli maðurinn fram í, „ert þú hinn ólánsami kóngson,
sem víkingar frá Norðurálfu hertóku?“ „Hver hefur getað frætt þig um
þann atburð? spurði kóngsson. „Það mætti mér vera kunnugast um,“
anzaði gamalmennið, „Því ég var einn af spámönnum þeim, sem settir
voru til að taka eftir stjörnunum við fæðingu þína. Þau tíðindi skal ég
segja þér, sem þig skipta mestu, að missir þinn fékk konunginum föður
svo mikillar sorgar, að hann andaðist nokkrum dögum síðar. Grét
landslýðurinn hann lengi, því hann hafði verið hvers manns hugljúfi,
og er örvænt þótti, að þú mundir aftur koma, var einn af frændum þínum
til konungs tekinn. Stefndi þessi nýi konungur öllum stjörnuspámönnum
saman og skipaði þeim að spyrja stjörnurnar, hvernig stjórn
hans mundi fara. En honum líkuðu illa spár vorar, og lét oss gjalda óhamingju
þeirrar, sem yfir honum vofði á himnum, og ætlaði því að drepa
okkur alla. En vér komumst að áformi hans fyrir leyndardóma kunnáttu
vorrar, og flýðum úr landi. Fór hver þangað sem honum leizt, og hef
ég víða farið um veröldina áður en ég kom í ey þessa. Ræður yfir henni
drottning ein svo stórvitur, að engin þjóð er farsælli til en þegnar hennar.“
Meðan stjörnuspámaðurinn var að mæla þetta, útjós kóngsson beiskum
tárum. Féll honum svo nærri að frétta lát föður síns, að gamalmennið
varð að hætta sögu sinni til að hugga hann. „Herra!“ mælti hann, „hafi
ég sagt þér sorgarfrétt, þá get ég líka sagt þér gleðitíðindi. Ég man enn þá
glöggt eftir stjörnufarinu við fæðing þína. Það spáði þér láni allt frá
þrítugasta aldursári. Nú hefur þú einn um þrítugt og öll ólánsárin að
baki. Komdu nú með mér, ég skal fylgja þér á fund stórvezírsins, sem
er mesta valmenni. Hann skal leiða þig fyrir drottninguna; mun hún
fagna þér eins og tign þinni sæmir, þegar hún heyrir, hverra manna
þú ert.“
Kóngsson fór með stjörnuspámanninum til stórvezírsins, og óðara
en hann heyrði nafn kóngssonar varð hann forviða og mælti: „Guð minn!
Þú einn getur gert slík stórmerki“....
30. NÓTT. Þegar vezírinn, sem stjörnuspámaðurinn fylgdi kóngssyninum
til, hafði látið undrun sína í ljósi, mælti hann ennfremur:
„Herra! Komið með mér til drottningarinnar, þá skuluð þér verða þess
vísari, hvað veldur undrun minni.“ Svo mælti hann, og fór með kóngsson
til hallarinnar, og bað hann að bíða stundarkorn í salnum drottningarinnar,
því bezt væri að láta hana vita af því nokkru áður, og búa hana
[1108.png]
undir, að taka við manni, sem var henni jafntiginn. Var vezírinn æði
lengi inni hjá drottningunni. Loksins kom hún inn til kóngssonar, horfði
í andlit honum og kannaðist við hann. „Elskulegi maður minn!“ kallaði
hún upp og breiddi faðminn á móti honum, „er nokkur gleði til í
heiminum önnur eins og mín yfir því að sjá þig aftur?“ Horfði kóngsson
að sínu leyti eins á hana, og er hann kannaðist við yfirbragð Dílaram
konu sinnar, svaraði hann gagntekinn af undrun, elsku og fögnuði: „Ó,
þú drottning mín! Á ég að trúa því, að ég hafi fundið þig aftur? Svo
mikla hrakninga og raunir, sem guð hefur látið mig rata í, játa ég samt,
að miskunnsemi hans er miklu meiri en mótlætið, þar sem hann gefur þig
aftur elsku minni.“ Því næst föðmuðust þau hvað eftir annað með slíkri
ástúð og einlægni, sem hægra er að ímynda sér en að skýra frá. Síðan
spurði kóngsson eftir sonum sínum.
„Þú skalt sjá þá bráðum,“ mælti kóngsdóttir, „þegar þeir koma heim
af veiðunum.“ „En hvernig ertu orðin drottning hérna á eynni, elskan
mín!“ spurði kóngsson enn fremur.
„Það skal ég fljótt segja þér,“ svaraði Dílaram, „hvernig ég komst í
hásæti þetta, sem ég mun segja skilið við á morgun og fara burt með
þér, ef þegnar mínir ekki samþykkja, að þú setjist í hásætið með mér.
Þegar víkingarnir höfðu skotið þér á land í eynni, létu þeir aftur í haf.
En þegar við vorum komin nokkrar vikur sjóar undan landi, hljóp á
hvínandi rokviðri; voru góðir sjómenn á skipinu og neyttu allrar orku,
en það kom fyrir ekki, því stormurinn keyrði skipið svo hart upp í sjávarhamra
á ey þessari, að það brotnaði í spón. Björguðust nokkrir farmenn
á sundi, en hinir drukknuðu, og var fyrirliði víkinganna í þeirra
tölu. Þótti mér þá líf mitt svo lítilsvert og ólánsamt, að ég bað ekki til guðs,
að ég mætti af komast, heldur tók ég sonu mína í fang mér og ætlaði að
deyja með þeim. En rétt í því að holskeflurnar ætluðu að soga okkur
í sig, komu nokkrir eyjarmenn á bátum til að bjarga okkur, því þeir
höfðu séð þegar skipið fórst. Vorum við dregin hálfdauð upp úr sjónum,
og þegar þeir sáu að lífsmark var með okkur, fóru þeir með okkur heim
til sín og lifnuðum við þar á ný. En er konungur eyjarinnar heyrði,
hverju óláni við höfðum orðið fyrir, varð honum forvitni á að sjá okkur.
Hann var þá níræður og unnu honum þegnar hans eins og vert var.
Leyndi ég hann engu, heldur sagði honum ætt mína og allt sem á dagana
hafði drifið. Komst hann við að heyra raunir mínar og táraðist með
mér, því oft gat ég ekki að mér gert að gráta, meðan ég var að segja
honum ævisögu mína. Þegar hann hafði hlýtt á mig með athygli, tók
hann þannig til máls: „Dóttir mín, við eigum að bera andstreymið með
stöðuglyndi. Guð sendir það til að reyna dyggð okkar. Ef við berum
þrautirnar með þolinmæði, lætur hann gleðina ætíð koma á eftir. Vertu
hjá mér, ég skal annast þig og sonu þína.“ Hefði honum ekki getað
farizt það betur, þó þeir hefðu verið skilgetnir synir hans, og mér sýndi
hann frábæra kurteisi og virðingu. Hann lét sér ekki nægja að gera mér
sæmd á sæmd ofan, heldur spurði hann mig einnig ráða í landsstjórn
sinni. Lét hann mig eiga sæti á ráðstefnum og geturðu skilið af því, hvað
honum þótti til mín koma; hældi hann mér fyrir hvað eina, sem ég
sagði, eins og það væri heilög speki, þó það væri ekki talað nema af
meðalgreind. Svo liðu fimm ár, en þegar þau voru liðin, sagði hann einu
sinni við mig: „Kóngsdóttir! Það er tími til kominn, að ég segi þér frá
áformi einu, er ég hef í hyggju. Það er ósk mín, að þú setjist í hásæti
mitt, þegar ég er látinn, en til þess að eiga það víst, verður þú að giftast
mér. Þegnum mínum þykir mikið til verðleika þinna koma, og munu
þeir klappa lof í lófa og þakka mér fyrir, að ég arfleiði þig að ríkinu.“
Tók ég þessum ráðahag, mest vegna sona minna; fór brúðkaup okkar
vel fram, þegnum mínum til gleði og ánægju. Var fögnuðurinn ekki
minni skömmu síðar eftir andlát konungsins, þegar það spurðist, að
hann hefði skipað þeim að veita mér hollustu eins og drottningu sinni.
Hef ég stjórnað þeim síðan, og læt ég mér einungis um það hugað, að
stjórn mín verði þeim til farsældar.“
Í sama bili og kóngsdóttir mælti þetta, sá hún sonu sína koma af
veiðum og kallaði til þeirra: „Komið þið, drengir, komið þið og faðmið
hann föður ykkar, sem guð hefur varðveitt fyrir okkur.“ En þá var eins
og þeim rynni blóðið til skyldunnar og efuðust þeir alls ekki um þetta
undur. Þeir hlupu í fang kóngssonarins frá Karisme og faðmaði hann þá
að sér og kyssti á þeim augun, hvorum eftir annan. Þarna stóðu þau
fjögur, gagntekin af hinum viðkvæmustu tilfinningum náttúrunnar, með
gleðilátum og ástaratlotum. Því næst stefndi stórvezírinn eyjarbúum
saman til þings, eftir skipun drottningarinnar. Sagði hann þeim sögu
kóngssonarins frá Karisme og skoraði á þá, að taka hann til konungs.
Gerðu menn góðan róm að máli hans og tóku kóngssoninn frá Karisme
til konungs í einu hljóði. Stýrði hann þar landi með kóngsdótturinni
lengi og farsællega.“
„Herra!“ mælti enn fremur hinn sjötti vezír Sindbaðs konungs, „ég
ætlaði einungis að benda yðar hátign á það með sögu þessari, að börn
konunganna eru undirorpin illsvitandi stjörnum eins og hver annar.
Meðan óhamingjustjarnan hefur áhrif á oss, mundi gullið verða að
svartri mold í höndum vorum, og heilsudrykkir vorir að eitri. Núrgehan
sonur yðar á við sama ólán að stríða. Hann á allrar óhamingju von; hver
hönd er upp á móti honum og faðir hans er orðinn fjandmaður hans.
Herra! Kennið í brjósti um hann og varizt að láta deyða hann fyrr en
ólánstími hans er á enda.“
Saga þessi, og þó einkum það, að vezírinn heimfærði hana svona, kom
Sindbað konungi til að fresta lífláti Núrgehans, þó hann hefði lofað því.
Hlaut hann því harðar átölur um kvöldið af Kansade drottningu. Sagði
hann henni þá, að stjörnufróðir menn fullyrtu, að hann mundi iðrast
seinna meir, ef hann léti drepa son sinn áður en hinir fjörutíu dagar væru
liðnir, og að einn vezírinn hefði sagt sér sögu, sem fengi sér mikils
kvíða, að hann mundi baka sér með því guðs reiði. En drottning svaraði:
„Herra! Þú trúir á vezírana þína eins og þeir væru spekingar og lætur
glepjast af mælgi þeirra. Það fer eins fyrir þér og mahómedanska konunginum
og vitringnum við hirð hans. Skal ég segja þér frá því, ef þú
leyfir.“ Sindbað konungur lét sér það líka og hélt því drottning áfram:
Soldáninn, vitringurinn og yfirklerkurinn
„Einu sinni var mahómedanskur konungur, sem lét heimta skatta af
hinum kristnu þegnum í einu af skattlöndum sínum. Stefndu þá kristnir
menn munkum sínum og prestum á fund, til þess að spyrja þá, hvað
úr skyldi ráða. Þar var þá staddur yfirklerkur einn, vitur og velborinn,
og sagði: „Sendið þið mig til hirðar soldáns, ég ætla að stinga upp á
nokkru við hann. Ég ætla að segja við séum reiðubúnir að gjalda skattinn,
ef hann eða vezírar hans geti leyst úr einni spurningu, sem ég ætla
að bera upp fyrir þá.“ Þetta leizt öllum hinum kristnu óskaráð og fór
yfirklerkurinn af stað með stóran poka, sem skatturinn var í, og þar að
auki með gjafir til soldánsins. Fékk hann honum þær með lotningu í
nafni skattlandsins og mælti: „Drottinn minn og herra! Vér lofum að
greiða yðar hátign skattinn með því skilyrði, að vitringar yðar og vezírar
leysi úr einni spurningu, sem ég ætla að leggja fyrir þá.“ „Svo skal
vera,“ svaraði konungur, „margir fræðimenn og spekingar eru í hirð
minni og spurning þín er þá sérlega þungskilin, ef enginn þeirra getur
leyst úr henni.“ Síðan kallaði hann á vezírana og vitringana og sagði
við yfirklerkinn: „Kristni maður, hver er spurning þín?“ Þá gekk yfirklerkurinn
fram fyrir þá, rétti upp höndina og hélt lófanum fyrir augun;
síðan rétti hann hana beint niður að gólfinu og mælti: „Segið mér: hvað
þýðir þetta? Það er spurning mín.“ „Ég vil fyrir mitt leyti ekki fást við
þetta,“ svaraði konungurinn, „ég játa að ég skil ekkert í því, og satt að
segja, finnst mér því ekki svo auðsvarað.“ Fóru nú allir vezírarnir og
vitringarnir að brjóta heilann, en hvernig sem þeir rifjuðu upp fyrir
sér þýðingar kóransins, þá datt þeim samt ekkert í hug, sem þeir gætu
svarað yfirklerkinum. Þögðu þeir lengi vel og fyrirurðu sig, þangað til
einum þeirra gramdist að sjá svo mörgum þjóðkunnum mönnum verða
orðfall fyrir einum heiðingja; gaf hann sig því fram og mælti við soldán:
„Herra! Það var óþarfi, að stefna mönnum á svo mikla samkomu út af
öðru eins lítilræði. Yfirklerkurinn má bera upp spurningu sína fyrir mig
og skal ég leysa úr henni.“ Rétti þá yfirklerkurinn upp fingurna eins og
áður framan í vitringinn, en hann reiddi upp hnefann framan í hann, og
var það svarið. Síðan rétti yfirklerkurinn höndina beint niður, og svaraði
vitringurinn því svo, að hann opnaði höndina og rétti fingurna upp.
Dró þá sendiboði hinna kristnu pokann fram undan skikkju sinni, lagði
hann fyrir fætur soldáns og gekk á burt.
Þá spurði soldán vitring sinn, hvað handaburður þeirra hefði átt að
merkja. „Herra!“ svaraði hann, „þegar heiðinginn hélt lófanum framan
í mig, þá átti það að þýða: „Ég ætla að reka þér utan undir.“ Ég
bauð honum undir eins hnefann, til þess að láta hann skilja, hvers hann
mætti vænta af mér fyrir kinnhestinn. En er hann hélt hendinni niður,
átti það að þýða: „Ef þú gefur mér hnefahögg, mun ég troða þig undir
fótum mér og merja þig sundur eins og orm.“ Þá svaraði ég honum
með því að rétta upp fingurna, og benti honum til þess, að ef hann
dirfðist að gera slíkt, skyldi ég þeyta honum svo hátt í loft upp, að fuglar
himinsins ætu hann upp áður en hann kæmi niður á jörðina. Svona töluðum
við saman með bendingum, konungur, og misskildi hvorugur
annan.“
Í sama bili og vitringurinn sleppti orðinu, gall öll samkoman við og
lauk lofsorði á úrlausn hans. Hældu allir vezírarnir skarpsýni hans, og
vitringarnir játuðu, að hann væri vitrastur þeirra allra, og sárnaði þeim
þó undir niðri að hafa ekki skilið handaburð yfirklerksins. En konungurinn
sjálfur var samt ánægðastur allra og undraðist mest; hélt hann
að vitringurinn ætti engan sinn jafningja. Lét hann það ekki heldur sitja
við lofræður einar, heldur tók hann hundrað gullpeninga úr pokanum,
sem yfirklerkurinn hafði fengið honum, og gaf vitringnum svo mælandi:
„Taktu við þessu, vitringur! Fyrst það er þér að þakka, að hinir kristnu
guldu skattinn, þá er það sanngjarnt, að ég láti eitthvað af hendi rakna.“
Fór nú soldán til drottningar sinnar og sagði henni frá; var hann í bezta
skapi. Drottning hans var skýrleiks kona og kom upp fyrir henni óstöðvandi
hlátur, er hún heyrði sögu soldáns. „Það grunaði mig allténd, að
þér mundi þykja þetta skrítið,“ mælti soldán, en drottningin svaraði: „En
langskrítnast er það, að vitringurinn hefur leikið á þig.“ „Það er ómögulegt,“
greip soldán fram í, en drottningin sagði honum, að láta undir
eins leita upp yfirklerkinn, og leiða hann á þeirra fund; kvaðst hún sjálf
ekki eyða að því fleiri orðum fyrst um sinn. Sendi þá soldán einn af þjónum
sínum til að leita upp yfirklerkinn. Var hann um það leyti að leggja
af stað heimleiðis, þegar hann fannst og var boðaður á fund soldáns og
drottningar. „Kristni maður,“ talaði drottning til hans, „vitringurinn
okkar hefur að sönnu skilið spurningu þína og leyst úr henni, en það
er ósk okkar, að þú útskýrir það fyrir okkur einu sinni enn þá.“ Þá
svaraði hann: „Þegar ég rétti upp höndina, átti það að merkja þessar
spurningar: Eru hinar fimm bænir, sem átrúendur Mahómets tíðka, innsettar
af guði? Vitringurinn ykkar sýndi mér krepptan hnefann og sagði
með því: „Já, ég er reiðubúinn að verja það með handalögmáli.“ En
þegar ég rétti hönd mína niður til jarðar, spurði ég, hvers vegna regn
félli á jörð, og svaraði vitringurinn mér af andagift sinni með því að
rétta upp fingurna, að regnið væri til þess, að gras gæti vaxið og allt gróið,
sem jörðin gefur af sér, og stendur svar þetta einnig í ritningu yðvarri.“
En er yfirklerkurinn hafði sagt þetta, gekk hann á burt, en drottningin
skellti upp yfir sig að nýju. Sá nú konungur, að hún hafði rétt fyrir sér,
og kvaðst nú ekki framar skyldu leggja trúnað á orð vitringa sinna né
vezíra, eða spekingskap þeirra.“
„Herra!“ mælti Kansade drottning enn fremur: „Þessi saga ætti að
verða þér að varnaði við hinum marklausu fortölum vezíra þinna. Láttu
þá ekki gera þér villuljós og stöðva hefndarhönd þína, sem ég hef snúið
móti syni þínum, af framsýni minni og einlægri umhyggju fyrir þér;
hefur hann og helzt til miklar sakir.“ Á þessa leið var hin heiptrækna
drottning að telja um fyrir Sindbað konungi, þangað til hann lofaði
henni, að næsti dagur skyldi verða dauðadagur Núrgehans. En er konungur
kom á ráðstefnu höfðingja sinna morguninn eftir og hafði skipað
að taka son sinn af lífi, kastaði sjöundi vezírinn sér fram fyrir fótskör
hásætis hans og beiddi honum líknar, að minnsta kosti þann dag. „Ég
hef heitið drottningunni því,“ svaraði konungur reiðilega, „og mun
hún álasa mér með réttu, ef ég læt eftir bæn þinni,“ en vezírinn tók einarðlega
til orða og mælti: „Herra! Ætli þú mættir þó ekki gruna drottningu
þessa um græsku? Guð gæfi að ást hennar til þín væri eins einlæg
og þú hyggur; en konur eru ekki annað en fláræðið sjálft, og hvergi er
þeirra getið að öðru en svikum og prettum. Skal ég segja eina sögu, ef
yðar hátign leyfir, sem sýnir, hvílík heimska það er af karlmönnum, að
treysta þeim.“
„Látum oss heyra,“ mælti Sindbað konungur.
Konungurinn á Tattaralandi, munkurinn
og blóðtökumaðurinn
31. NÓTT. „Það var einhverntíma í fyrndinni, að konungur einn á
Tattaralandi reið út með hirð sinni sér til skemmtunar; mætti hann þá
munki nokkrum, sem kallaði hárri röddu og mælti: „Hver, sem gefur
mér hundrað dúkata, fær heilræði í staðinn.“ Þegar konungur heyrði
þetta, bauð hann föruneyti sínu að nema staðar og mælti: „Hvaða heilræði
er það, sem þú vilt láta fyrir hundrað gullpeninga?“ Þá svaraði
munkurinn: „Undir eins og þér skipið að fá mér féð, skal ég segja yður
það.“ Lét þá konungurinn telja honum það af hendi og bjóst við, að
fá eitthvað nýstárlegt að heyra fyrir það, sem hann hafði úti látið, en þá
mælti munkurinn þessi orð: „Herra! Í öllu, hvað sem þér takið yður
fyrir hendur, þá hugsið um endirinn; þetta er heilræði mitt.“ Fóru þá
hirðmenn konungs og höfðingjar að hlæja, og einn tók til orða: „Skárri
er það nýlundan, sem munkurinn sá arna hafði að segja.“ Annar sagði,
að það hefði verið hyggilegt af honum, að láta greiða sér gjaldið fyrir
fram. En þegar konungur sá, að allir hæddust að munkinum, segir hann:
„Það er þarfleysu glens af ykkur, að spottast að heilræðinu, sem þessi góði
munkur gaf mér. Þó að hver maður viti, að hann þarf rækilega að íhuga
áform sín og það, sem getur af þeim leitt, þá er þessa sjaldan gætt, og
sjáum vér á mörgu heimskulega byrjað dags daglega. Mér þykir heilræði
munksins mikilsvert. Skal ég ætíð hafa mér það fyrir augum og
skipa ég því, að það sé sett með gullnu letri á allar dyr hallar minnar
og veggi, alla diska, skálar og önnur húsgögn.“ Var nú boði þessu kostgæfilega
fullnægt.
Skömmu síðar ásetti sér einn stórhöfðingi í hirð Tattarakonungs, að
svipta hann ríki og lífi; gekk honum fremur til þess valdagirni en það,
að hann hefði nokkrar sakir við hann. Fékk hann sér því eitraðan bíld
og bauð blóðtökumanni konungs tíu þúsund gullpeninga, til þess að slá
honum æð með þessum bíld. „Þegar þetta er búið“, sagði hann, „kemst
ég í hásætið og skalt þú verða stórvezír hjá mér og stjórnum við þá báðir
jöfnum höndum.“ Blóðtökumaðurinn var ekki betri maður en svo, að
hann gekkst fyrir mútugjöfinni, lofaði svo þessu og ætlaði að ljá sig til
illræðisins. Fékk hann skömmu síðar boð frá konungi, að koma og taka
honum blóð. Batt hann fyrir um handlegg konungs, eins og hann var
vanur, og var sett undir skál, til að taka við blóðinu; því næst tók blóðtökumaðurinn
hinn banvæna bíld úr vefjarhetti (túrban) sínum. En
meðan hann var að setja sig í stellingarnar til að slá æðina, varð honum
litið niður í skálina og sá hann þetta grafið á: „Í öllu, hvað sem þú tekur
þér fyrir hendur, þá hugsaðu um endirinn.“ Kom þá undir eins á hann
hik og hugsaði hann með sér: „Ef ég nota þenna bíld, deyr konungur, og
þegar hann deyr, verð ég vafalaust tekinn fastur og líflátinn við gífurleg
harmkvæli. En hvað stoða mig þessir tíu þúsund gullpeningar, þegar
ég er dauður?“ Varð hann smeykur og laumaði eitraða bíldnum aftur
í vefjarhöttinn, og tók annan upp úr vasa sínum. Rak konungur augun
í þetta og spurði, því hann gerði svo. „Herra, hinn bítur ekki,“ svaraði
blóðtökumaðurinn. Skipaði konungur honum þá að sýna sér hann. Þá
varð blóðtökumaðurinn lafhræddur og stóð eins og dæmdur, en konungur
mælti af reiði: „Hvaða fát er á þér? Þessar vöflur koma ekki á þig orsakalaust;
seg mér, hverju þú býr yfir, eða þú skalt verða drepinn þegar í
stað.“ Blóðtökumaðurinn fleygði sér niður fyrir fætur konungs og stamaði
þessu upp, hnípinn og skjálfandi: „Herra! Ef yðar hátign þóknast að
hafa miskunn með mér, skal ég segja það.“ „Svo skal vera, seg þú sannleikann
og þá skal þér allt verða fyrirgefið,“ mælti konungur. Meðgekk
þá blóðtökumaðurinn, til hvers hirðmaðurinn hefði fengið hann, og sagði
konungi, að hann ætti líf sitt að þakka orðum þeim, sem stóðu grafin í
skálinni. Skipaði Tattarakonungur jafnskjótt, að taka drottinssvikarann
höndum og lífláta hann, og sneri sér síðan að höfðingjum þeim, er viðstaddir
voru, svo mælandi: „Ferst ykkur nú að gera gys að heilræði
munksins? Leitið hann upp tafarlaust og leiðið á minn fund. Þau ráð
verða aldrei of borguð, sem frelsa líf konunga.“
„Herra!“ mælti vezírinn enn fremur, „ég segi við þig eins og munkurinn:
„Í öllu, hvað sem þú tekur þér fyrir hendur, þá hugsaðu um endirinn.“
Varð þessi saga, eins og vezírinn heimfærði hana, til þess, að Sindbað
konungur frestaði lífláti Núrgehans enn þá einu sinni. Eftir hádegið
reið hann út á veiðar og er hann var heim kominn, borðaði hann kvöldverð
með Kansade drottningu. Eftir máltíðina fór hún að svala hatri sínu
á vezírunum og níða þá; tók hún þannig til máls: „Sonur þinn hefur
þá fengið frest einu sinni enn þá.“ „Ég get ekki borið á móti því,“ anzaði
konungur, „að sagan, sem einn af vezírunum sagði, kom mér til þess;
hún var um konung á Tattaralandi, sem munkur nokkur gaf það heilræði,
að hugsa jafnan um endirinn, hvað sem hann hefði fyrir stafni.“
„Þá stendur heima,“ mælti drottning, „þú hlustar á vezírana eins og ástríkur
faðir, en ekki sem réttlátur konungur; þú hefur látið þessa svikara
hræra í þér á ný. Ég veit upp á hár, hvað þeim gengur til; þeir vilja
svipta mig elsku þinni og trausti, af því þeir öfunda mig af því, hvað
ég ræð miklu hjá þér. Vilja þeir tálma lífláti sonar þíns af því, að ég
krefst þess. Það situr helzt á þessum þrælum, sem þú hefur tekið upp af
götu þinni og hafið til tignar, að vilja óvirða mig og skerða sæmd mína.
Hlýddu viðvörun minni, konungur! Skal ég nú segja þér sögu, sem líka
getur um heilræði munks nokkurs, til að færa þér heim sanninn um,
hvað ungir menn geta verið illviljaðir.“
Kóngsdóttirin og skóarinn
32. NÓTT. „Einu sinni var ungur skóari í Basra, sem Hassan hét;
var öllu til skila haldið, að hann gæti fleytt fram lífinu með iðn sinni.
Það var einn dag, að hann sá munk ganga fram hjá sölubúð sinni með
marggötótta skó, kallaði hann því til hans og mælti: „Þú ert illa gangandi,
munkur minn! Komdu hérna inn, ég skal bæta skóna þína!“ Þáði
munkurinn boðið og settist niður í búðinni og neytti matar, sem Hassan
bar á borð fyrir hann, meðan gert var að skónum. Þegar það var búið,
beiddi Hassan hann að gefa sér heilræði í launa skyni fyrir greiðann.
„Það er í mér ferðahugur,“ sagði hann, „og þú ert manna færastur
til að duga mér með góðum ráðum.“ Var munkurinn fús á það og mælti:
„Þrjár reglur skalt þú festa þér í minni um fram allt; ég veit það af
eigin reynslu, hvað mikið er í þær varið. Sú er hin fyrsta, að þú skalt
aldrei fara af stað, nema þú hafir góðan samferðamann, svo sem spámaðurinn
býður (lofaður sé hann um aldir alda): „Kjóstu þér fyrst förunaut,
og leggðu síðan af stað.“ Önnur reglan er þessi: Vertu aldrei lengi þar sem
vatnslaust er, og hin þriðja: Farðu ekki inn í neina borg eftir sólarlag.“
Þakkaði Hassan munkinum og fór hann leiðar sinnar.
Skömmu síðar kaus Hassan sér góða förunauta og hóf göngu sína.
Komu þeir eftir nokkurra daga ferð að borg einni stórri, eftir að dagsett
var. Fóru félagar Hassans þangað inn, en hann lét fyrirberast utan
borgar, eftir ráðum munksins; leizt honum hentugast náttból í greftrunarstað
einum, sem þar var nálægt. Lagðist hann þar fyrir, og er vart
lifði þriðjungur nætur, sá hann hvar tveir menn sigu ofan af borgarmúrnum
með eitthvað, sem hann gat ekki séð deili á; báru þeir það síðan
til einnar grafarinnar, sem næst var, og létu þar niður; gengu þeir
síðan burt. Hljóp Hassan þangað í sama vetfangi og gat svo lýst með
eldsvirkjum sínum, að hann sá líkkistu og rann víða úr henni blóð. Náði
hann af lokinu með nokkurri fyrirhöfn, og fann þá konu sveipaða í náhjúp,
forkunnar fríða, og flaut hún öll í blóði. Var ekkert lífsmark að
finna með henni, og er Hassan ætlaði að fletta af henni klæðunum til
að komast fyrir það, sagði hún með veikri rödd: „Fyrir guðs sakir, flettu
mig ekki klæðum.“ Tók hann þá að hugga hana og reif sundur yfirhöfn
sína til að binda um sárin, og lét daginn eftir bera hana inn í borgina
til gestaherbergis nokkurs; lét hann þar, sem hún væri systir sín, og hefði
hann sært hana þannig í bræði; þjónaði hann henni og hjúkraði nákvæmlega
í tvo mánuði. Varð hann einskis vísari, hver þessi unga kona
væri, allan þann tíma. Þegar hún var alheil orðin, fór hún til lauga, og
er hún kom aftur, beiddi hún Hassan um pappír, penna og blek; skrifaði
hún eitthvað og mælti síðan: „Farðu með blaðið að tarna í búðina
hans Yakúbs víxlara og taktu við því, sem hann fær þér.“ Fór Hassan
óðara þetta erindi og furðaði sig á því, að víxlarinn kyssti bréfið, þegar
hann hafði brotið það upp, og fékk honum poka með fimm hundruð
sekkínum í. Hafði hann aldrei séð svo marga peninga í einu, auk heldur
haft þá milli handa. Réði hann af lotningu þeirri, sem víxlarinn sýndi
bréfinu, að sú mundi vera tigin, sem það hafði skrifað. Var hann feiminn
og uppburðarlaus, er hann kom aftur; fékk hann henni pokann, og
skein þá út úr honum forvitnin. En yngiskonan gaf sig ekki að því og
skipaði Hassan að kaupa hús og sæmileg klæði. Gerði skóarinn eins og
hún bauð; keyptu þau sér líka þræla fyrir peninga þá, er víxlarinn lét
af hendi. En er þau voru lengi vel búin að lifa í bílífi fékk yngiskonan
Hassan pyngju og mælti: „Ég ætla að biðja þig stórrar bónar. Farðu
ofan á torgið og spurðu eftir búðinni hans Abdallah silkisölumanns, og
þegar þú finnur hann, skaltu kaupa hjá honum þykksilki og ekki þjarka
neitt við hann um verðið, heldur borga, hvað sem hann setur upp.“ Fór
Hassan líka þessa sendiferð og varð hann að fara fleiri slíkar ferðir öðru
hverju og kaupa hjá Abdallah; urðu þeir málkunnugir vel, svo að kaupmaður
bauð Hassan í veizlu. Þáði hann boðið, og lét yngiskonan hann
bjóða Abdallah á sama hátt; þótti honum það mesta virðing.
Nú lét konan efna til dýrðlegrar veizlu, en Hassan sagði hún, að undrast
ekki, hvað kynlegir hlutir sem fyrir hann bæru. Kom kaupmaðurinn
á tilteknum tíma og var búinn í skrautklæði sín. Tók Hassan við honum
með mestu gestrisni og voru þeir saman langt fram á nótt. En sem Abdallah
vildi fara að draga sig af stað, þá lofaði Hassan honum það ekki,
því svo hafði konan lagt undir við hann; en aldrei lét hún sjá sig. Herti
hann því fastara að honum að vera hjá sér um nóttina, sem langt var
áliðið. Lét kaupmaðurinn loksins á það fallast og lagðist í legubekk einn
til hvíldar. Meðan hann lá þar í fastasvefni, kom konan og rak tygilkníf
í hjarta hans. Hrökk Hassan upp við hljóðin og hljóp til, blöskraði honum
að sjá silkisölumanninn myrtan og mælti: „Guð hjálpi mér! Hversu
hroðalegan glæp hefur þú bendlað mig við! Ég skil við þig á augabragði.
Ég get ekki haldizt við undir sama þaki og þú; þú skalt fá aftur allt, sem
þú hefur gefið mér.“
„Stilltu þig, Hassan!“ greip konan fram í, „hér er ekki annað orðið
en að vondum svikara hefur í koll komið illvirki hans. Þú skalt vita,
að ég er konungsdóttir. Þetta vesalmenni þarna hafði kveikt í mér brennandi
ástarhug til sín, og tókst mér það fyrir tilhjálp fóstru minnar, og
með því að múta vörðum þeim, sem voru kringum mig, að fá honum
komið inn til mín í kvennahöllina. Þar að auki fór ég í dularbúningi til
hans hvað eftir annað og auðsýndi honum ótal velgjörðir. En þá var
það einu sinni, þegar ég kom að honum óvörum, að ég sá að hann hafði
hjá sér aðra konu. Brígzlaði ég honum í reiði og hafði svo litla stillingu,
að ég sló konuna. Kallaði þá illmenni þetta á tvo þræla sér til hjálpar.
Var þá annaðhvort, að hann óttaðist hefndir mínar, eða hann ætlaði að
svala heipt frillu sinnar, því þeir veittu mér mörg sár með hnífum. Síðan
ráku þeir saman kistu í mesta flýti, lögðu mig í hana eins og annað
lík og báru út á greftrunarstaðinn þar sem þú frelsaðir líf mitt. En
úr því ég hef hefnt mín, skaltu ekki eyða tímanum til ónýtis, heldur
far og seg konungi, að ég sé á lífi og hvar ég sé.“ Vissi Hassan varla, hvort
hann vekti eða dreymdi, en fór samt af stað og sagði tíðindi þau við hirðina,
að kóngsdóttir væri frelsuð, og varð þar þá mesti fögnuður. Var síðan
komið eftir henni og farið með hana til kóngshallarinnar og er soldán
vissi, hvað hún átti Hassan að þakka, þá gifti hann honum hana.“
Kansade heimfærði nú söguna upp á vonzku margra ungra manna og
fór um það mörgum kænlegum orðum. Fékk hún með slíkum hætti Sindbað
konung til að lofa því statt og stöðugt, að láta taka Núrgehan af
lífi daginn eftir. En er hann skipaði að gera það um morguninn, í viðurvist
allrar hirðarinnar, gekk enn einn vezírinn fram og bað kóngssyni
lífs. Studdi hann bæn sína með því að vitna til hinnar alkunnu
vonzku kvenfólksins, og beiddi konung að lofa sér að segja nýja sögu
til frekari sönnunar. Var konungur hálftregur í fyrstu, en leyfði honum
það samt.
Sagan af viðhöggvaranum og konu hans
33. NÓTT. „Einu sinni var viðhöggvari í Bagdad, sem Amed hét;
höfðu forlög hans ekki látið sér nægja að gera hann bláfátækan, heldur
höfðu þau þar á ofan gefið honum konu þrálynda, ágjarna og þrætugjarna.
Sat hún aldrei á sáttshöfði við hann og hafði allt af hugann á
því, að ná frá honum verkkaupinu, þó lítið væri. Einu sinni sá hún að
hann lét nokkra skildinga á afvikinn stað — hann ætlaði að kaupa sér
létta fyrir þá — sagði hún þá við hann: „Svei, óhræsið þitt! Þessa peninga
ætlar þú víst einhverri dækjunni, en bíddu við, ég skal halda í hemilinn
á þér; þú skalt héðan af ekki fara eitt fet út fyrir húsdyr, nema ég sé
með þér.“ Hafði Amed áður verið óhultur fyrir konu sinni, meðan hann
var við vinnu sína í skóginum, en daginn eftir fór hún á bak asna og
reið þangað á eftir honum. „Nú skal ég sjá, hverju þú ber í vænginn,“
mælti hún, „þegar þú svíkst um.“ Sá nú mannskepnan ekkert úrræði til
þess að sleppa hjá þessum félagsskap; en allt í einu datt honum þó gott
ráð í hug. „Heillin mín!“ mælti hann, „úr því þú ert komin hingað, þá
geturðu hjálpað mér til með nokkuð, sem ég allt til þessa hef látið ógert
af tortryggni við aðra. Það eru stór auðæfi þarna niðri í gamla uppþornaða
brunninum, og ég hef vitað af þeim lengi. Ég ætla að bregða um
mig þessum kaðli og getur þú látið mig síga ofan.“ „Nei, hugsaðu ekki
til þess,“ svaraði konan og var óðlát, „láttu mig síga ofan; ég get eins
vel gert það og þú, því líklega drægirðu allan fundinn undir þig.“ Fór
þetta öldungis eins og maðurinn ætlaðist til: Hann brá kaðlinum utan
um konu sína, og lét hana síga ofan í brunninn, og er hún var komin
niður, sleppti hann kaðlinum og kallaði: „Nú verð ég þó líklega í friði
fyrir þér, heillin góð! þangað til mér lízt að draga þig upp aftur; en þú
verður að bíða stundarkorn.“ Fór hann síðan til vinnu sinnar og lét
hana hamast og heitast eins og hana lysti. Lét hann nú líða góða stund,
og er hann hélt að farinn væri úr henni mesti ofsinn, renndi hann kaðli
niður í brunninn og kallaði til hennar: „Nú skaltu bregða um þig kaðlinum,
ég ætla að draga þig upp aftur.“ Fór hann nú að draga, en þá var
eitthvað svo þungt fyrir, að hann gat með hörkubrögðum togað það upp;
sá hann þá að þetta var andi, sem upp kom. „Þér á ég mikið að þakka,“
mælti hann, „ég er einn af öndum þeim, sem ekki hafa megn til að hefja
sig í loft upp, og bjó ég í brunni þessum. Einhver af óvinum mínum
hefur snögglega hleypt til mín þeim versta kvenskratta á guðs grænni
jörð, og hefur hún kvalið mig án afláts síðan hún kom niður. Ég veit
ekki, hvernig ég á að þakka þér þenna mikla velgjörning, að þú losaðir
mig við hana, en ekki skal hann samt verða ólaunaður. Heyrðu nú, hvað
ég get gert fyrir þig. Ég veit að Indlands konungur á yndislega dóttur;
mun ég þjóta í hana og gera hana óða. Leitar þá konungur allra lækna
og fær enginn að gert, en ég skal gefa þér grös nokkur; skaltu væta þau
í vatni, og þarf þá kóngsdóttir ekki annað til að verða alheil en að núa
þeim í andlit sér.“ Þakkaði nú viðhöggvarinn andanum fyrir og fór af
stað til aðseturs Indverjakonungs. Þegar hann kom þangað, heyrði hann
getið um æði kóngsdóttur og hafði konungur lofað að gefa hana þeim,
sem læknaði hana. Fór Amed þá til hans og bauðst til þess. Vætti hann
grösin og neri framan í kóngsdóttur og varð hún á augabragði alheil
meina sinna. Gifti konungur Amed hana og fór brúðkaup þeirra fram
með mestu viðhöfn.
Eftir að andinn var útrekinn, fór hann í kóngsdótturina á Kínlandi,
því hann hafði ástarhug til hennar. Frétti faðir hennar, hversu undursamlega
kóngsdóttirin á Indlandi hafði verið læknuð, og gerði því út
sendiboða, til að bjóða Amed til hirðar sinnar og biðja hann að lækna
dóttur sína. Var Amed fús til þess, en hnykkti heldur við, er hann sá,
að hann átti að fást við sama andann, sem hann dró upp úr brunninum.
„Ert þú þar, Amed, og getur verið svona vanþakklátur,“ mælti andinn.
„Eigðu ekki undir því, að reka mig út úr kóngsdóttur, sem ég elska. Ef
þú neyðir mig til að yfirgefa hana, þá hverf ég óðara til Indlands og drep
konu þína.“ Varð Amed þá svo hræddur, að við sjálft lá, að hann segði
konungi, að hann gæti ekki að staðið, en þá datt honum bragð í hug.
„Ljúfurinn minn!“ segir hann við andann, „ég kom hingað ekki til að
lækna kóngsdótturina, heldur til að biðja þíns fulltingis. Manstu eftir
konunni, sem ætlaði að gera út af við þig í brunninum? Það var konan
mín. Hefur einhver dregið hana upp aftur, og er hún nú allt af í hælunum
á mér. Hún kemur víst hingað bráðum og því ætla ég að biðja þig að
hjálpa mér.“ „Mig að hjálpa þér!“ anzaði andinn, „guð varðveiti mig frá
því, að koma oftar nærri annarri eins konu. Nei, Amed, góðurinn minn,
þar megna ég ekkert. Hjálpa þú þér sjálfur eins og þú bezt getur, ég ætla
að forða mér.“ Og í sama vetfangi flýði andinn úr kóngsdótturinni og
varð hún heil heilsu. Varð faðir hennar næsta glaður og gaf Amed ágætar
gjafir, og sæmdi hann í öllu; fór hann síðan heim til konu sinnar á
Indlandi.“
„Herra!“ mælti vezírinn enn fremur, „þetta sýnir, hvílík vonzka
býr í konum, að jafnvel andar skuli hræðast þær. Hvernig eiga þá
mennskir menn að vera óhultir fyrir þeim? Vezírar þínir, höfðingjar
ríkisins og öll þjóðin hafa verið í uppnámi nokkra daga, og er allt sprottið
af hrekkvísi einnar konu. Varaðu þig á svikræðum þessum og láttu ekki
spana þig upp til að rasa svo fyrir ráð fram, að þú líflátir Núrgehan.“
Lét þá konungur fara með Núrgehan aftur í dýblissuna, fór síðan á veiðar,
og var um kvöldið hjá drottningu sinni. Herti hún að honum að láta
nú verða úr aftöku Núrgehans, sem hann hafði lofað svo lengi, og sagði
honum sögu þessa:
Páfagaukur konungur
34. NÓTT. „Konungur nokkur á Indlandi hafði numið töfraþulu af
munki einum; gat hann fyrir kraft hennar farið úr líkama sínum og brugðizt
í dýra líkami. Hafði hann reynt fjölkynngi þessa margsinnis og einu
sinni, þegar hann var á veiðum með einum vezíra sinna, vildi hann sýna
honum kunnáttu sína, las þuluna, og fór í dauðan hjört. Varð vezírinn
hlessa, að sjá líkama konungs hníga niður, og hjörtinn fá líf aftur og
stökkva með fullu fjöri. Þegar konungur hafði breytzt aftur í sína náttúrlegu
mynd, beiddi vezírinn hann fyrir alla muni að kenna sér þessa
ágætu þulu, og varð konunginum það glappæði, að kenna vezírnum hana.
Nokkru síðar benti vezírinn konungi á dauðan páfagauk, sem lá undir
tré einu, spottakorn frá höllinni; spurði hann konung um leið, hvort
maður gæti líka brugðizt í fugls ham fyrir kraft töfraþulunnar. Kvað
konungur já við, og því til sönnunar lífgaði hann páfagaukinn og flaug
upp í tré. En óðara neytti vezírinn fjölkynnginnar, fór í líkama konungs,
sem hann hafði skilið við, en í sinn líkama setti hann sál úr þræl nokkrum.
Má nærri geta, hvort konungi hefur ekki orðið gramt í geði, þegar
hann sá hvernig vezírinn hafði leikið á sig. Flaug hann því þaðan burt,
en vezírinn gekk í stað konungs, bæði í hásætinu og kvennabúrinu og
hvarvetna annarsstaðar. Var nú konungur lengi á flakki í páfagauks haminum,
þangað til hann einu sinni flaug inn í hús til garðyrkjumanns
nokkurs, lét handsama sig viljandi, og loka inn í búr; var hann síðan
borinn til markaðar og boðinn til kaups. Hafði hann svo liðugt tungutak
og var svo hnyttinn í svörum, að allir stórundruðust og hækkaði hann
þangað til í verði, að enginn gat keypt, nema drottning. Lét hún þá
kaupa hann og var farið með hann í kvennabúrið, og var hann settur í
svefnherbergi drottningar. Ískraði oft í honum reiðin, þegar hann sá
úr búrinu, hvernig drottinssvikarinn gekk út og inn um herbergi drottningar
í líki hans. Einn morgun var vezírinn að ræða við drottninguna um
fjölkynngi, og kvaðst geta brugðizt í hvaða dýrshræ sem væri. Drottning
sagði sig dauðlangaði til að horfa á slík hambrigði, og beiddi hann að
sýna sér það til skemmtunar. Lét þá vezírinn sækja dauða gæs, fór úr
líkama konungs og lífgaði gæsina. Þá sá konungur sig ekki úr færi, heldur
fór hann úr páfagauknum, og hvarf aftur í sinn eigin líkama, þreif
um hálsinn á gæsinni og rotaði hana við vegginn. Varð drottning hrædd
og spurði, því hann reiddist svo, en því verður ekki með orðum lýst, hvað
hún furðaði sig og fyrirvarð, þegar hún heyrði konung sjálfan segja frá
óláni sínu og hennar. „En þú,“ mælti Kansade að lyktum, „ættir að sjá
af þessu, hvað vezírunum er treystandi.“ Herjaði hún á konung, þangað
til hann lofaði henni statt og stöðugt, að láta taka son sinn af lífi daginn
eftir.“
35. NÓTT. „Herra!“ tók drottning til máls, um það leyti sem nótt
var á enda, „þegar Sindbað konungur ætlaði að drepa Núrgehan morguninn
eftir, fékk einn af vezírunum hann til að veita áheyrn orðum sínum
um kvennasvik, og jafnvel leyfi til að segja honum þessa sögu eins
og dæmi:
Sagan af skraddaranum og Gylendam konu hans
„Einu sinni var skraddari, sem átti undurfríða konu, er Gylendam hét.
Elskuðust þau svo heitt, að maðurinn sór henni einu sinni, að ef hann
lifði lengur, skyldi hann gráta heilan sólarhring á leiði hennar. Lét
konan sér það ekki nægja, heldur hét hún að svelta sig í hel, ef hann
andaðist fyrri.
Það átti svo að fara, að Gylendam dó fyrr, og er hún var jarðsett, enti
ekkillinn heit sitt og lagðist harmþrunginn niður hjá leiðinu og bar sig
aumlega. Þá bar þangað að spámanninn Aysa; staðnæmdist hann þar,
virti skraddarann fyrir sér og spurði, því hann hryggðist svo ákaft. En
er skraddarinn, sem var óhuggandi, hafði sagt honum, hvernig á harmi
hans stóð, mælti hann: „Þú mundir þá verða stórglaður, ef þessi heittelskaða
kona þín vaknaði aftur til lífs?“ „Þá mun ég einskis óska framar,
ef drottinn birtir mér slíkt stórmerki miskunnar sinnar,“ sagði skraddarinn.
„Láttu þá huggast,“ mælti spámaðurinn, „ég vikna af sorg þinni, því
hún er mikil og innileg, og með vilja þess, sem gaf, og þess, sem tók, vil
ég gefa þér aftur konu þína.“ Því næst las hann bæn, og í sama bili reis
Gylendam upp og sté upp úr gröfinni. Varð skraddarinn frá sér numinn
og undraðist guðs almætti, og ætlaði að þakka spámanninum, en hann
skipaði honum að gefa guði dýrðina og gekk leiðar sinnar.
Þegar Gylendam raknaði við, spurði hún, hvernig stæði á slíku undri,
og er maður hennar leysti úr því, þakkaði hún honum elsku sína og
tryggð með blíðum og hjartnæmum orðum. Kvaðst hún ætíð skyldu
muna honum það, og væri sér lífið því dýrmætara, sem hún hefði öðlazt
það aftur fyrir hans bænastað. Skraddarinn var eins blíður við hana og
beiddi hana nú að fylgja sér heim. En þá fyrst datt honum í hug, að
Gylendam gæti ekki látið sjá sig í náhjúpnum, og mælti því: „Ég ætla
að fara og sækja þér sæmileg klæði, og verð ég því að láta þig hér eina
eftir; ég kem aftur að vörmu spori.“
Rétt í því hann var farinn, bar svo til, að leið kóngssonar þar í landi
lá hjá gröfinni; þótti honum undrum gegna að sjá konu sitja þar í líkhjúp.
Kom hann því nær með föruneyti sínu; leizt honum konan fríð og
lífvænleg og hrærðist hann til meðaumkvunar, og ekki trútt um, að honum
hlýnaði um hjartarætur. Sá það einn af fylgdarmönnum hans og
mælti: „Þetta er forkunnar fríð kona; við skulum fara með hana í kvennabúrið,
ef yður svo lízt.“ „Það væri ekki úr vegi,“ anzaði kóngsson, „ég á
enga svo fallega. Spyrjið hana samt áður, hvort hún sé gift, því ég vil
einskis manns konu taka.“ Spurði þá fylgdarmaður kóngssonar Gylendam:
„Fagra kona, ef þér eruð ekki giftar, þá er það undir yður komið,
hvort þér viljið njóta samvista kóngssonar.“ Var skraddarakonan skjót
til svars og mælti: „Ég er útlend og engum háð.“ Þá tók einn af förunautum
kóngssonar Gylendam undir skikkju sína og fór með hana í
kvennabúrið, og var hún þar færð í skrautleg klæði. En meðan þetta
gerðist, kom skraddarinn með kvenskyrtu og slopp; lá við hann gengi af
vitinu, er hann sá hvergi konu sína. Tók hann að kveina enn þá ákafar
en í fyrra skiptið, og særði drottinn að birta sér, hvað af henni væri
orðið. „Ætli spámaðurinn hafi vakið hana upp frá dauðum til þess, að
annar fengi hana?“ sagði hann við sjálfan sig, „ef svo væri, félli mér það
þyngra en dauði hennar. Og þó er enginn efi á því; einhverjum, sem
fram hjá hefur gengið, hefur orðið litið á frábæran fríðleik hennar, og
hefur hann ekki horft í að ræna henni. Ég veit það, Gylendam mín, að
þú hefur varið þig fyrir ræningjanum fram í rauðan dauðann, og hvar
sem þú ert, veit ég, að þú andvarpar, örvæntir og kallar eftir hjálp minni.
En ég skal heldur aldrei yfirgefa þig, ég skal leita þín alstaðar, og þó
þú værir falin djúpt undir jörðinni, skyldi ég grafa þig upp.“ Enda var
hann svo ótrauður að leita hennar, að hann komst fyrir það á endanum,
hvar hún var niður komin, fór hann þá til kóngssonar, fleygði sér
fram fyrir fætur honum og mælti: „Kóngssonur! Þér eruð veglyndari
vinur réttvísinnar en svo, að þér viljið halda því með valdi, sem er annars
eign. Kona mín hefur verið á yðar valdi í þrjá daga, og grátbæni ég
yður að skila mér henni aftur.“ „Gáðu að þér, hvað þú segir,“ anzaði
kóngsson, „engin kona er nauðug í kvennabúri mínu, og sízt nokkur sú,
er gift sé.“ „Því að eins segi ég þetta, að ég veit það með vissu,“ mælti
skraddarinn, og svaraði þá kóngsson: „Gott og vel, þú skalt fá að sjá allar
konur mínar; en gættu þess, að ef kona þín er þar ekki, þá verður það
þinn bani.“ „Það mun ég á hætta,“ segir skraddarinn, „því ég veit fyrir
víst, að hún er í höllinni. Þér munuð sjá, að undir eins og hún sér mig,
flýgur hún upp um háls mér, því engin kona er ástríkari né tryggari til
en hún.“ „Þú skalt þá hafa vilja þinn,“ mælti kóngsson og skipaði að
leiða fram allar konur sínar, og skyldi engin vera undanskilin. Kom ekki
nema ein í einu og spurði kóngsson skraddarann í hvert skipti, hvort þetta
væri hans kona. Kvað hann nei við, þangað til Gylendam kom loksins,
þá kallaði hann upp: „Þarna er konan mín blessuð, sem ég hef grátið
mörgum fögrum tárum.“ Spurði þá kóngsson Gylendam, hvort hún bæri
kennsl á manninn. „Víst þekki ég hann“ svaraði hún, „og ekki að góðu.
Það er sami stigamaðurinn, sem rændi mig og misþyrmdi mér; þér munið
hvernig ég var útleikin, þegar þér funduð mig. Þetta bölvað mannhrak,
sem guð láti tortímast, ætlaði á endanum að kviksetja mig, svo ég gæti
ekki ákært hann hjá dómaranum. Herra! Synja mér ekki réttlætis og lát
hegningu laganna koma yfir hann; ég hef engan frið fyrr en búið er að
hengja hann.“ Skraddarinn varð öldungis klumsa. Réði kóngsson það af
þögn hans og fáti því, er kom á hann, að hann mundi sekur vera, og
mælti: „Þú ert furðu ósvífinn, svikadólgurinn þinn! Þú kemur hingað
og gerir tilkall til konu, sem þú ekki átt, og sem þú þar á ofan hefur ætlað
að kviksetja. Þú værir þess verður, að nýr dauðdagi væri upphugsaður
handa þér; en ég ætla samt ekki að hafa meira við en láta hengja þig.
Festið hann undir eins á gálgann,“ kallaði hann til varðmannanna. Ætlaði
þá skraddarinn að stynja einhverju upp, en kóngsson þaggaði niðri í
honum og mælti: „Ég vil ekki hlýða á lygar þínar, þú ert svikari og mannhundur,
festið hann á gálgann, varðmenn, eða ég læt hengja ykkur líka.“
Voru þá skraddaranum bundnar hendur á bak aftur, og síðan farið með
hann til gálgans. En rétt í því böðullinn var að greiða snöruna, kom
spámaðurinn Aysa og skipaði honum að hætta, því skraddarinn væri saklaus.
Báru menn svo mikla lotningu fyrir þessum helga manni, að honum
var hlýtt. En varðmenn kóngssonar heimtuðu, að skraddarinn væri líflátinn,
því herra þeirra hefði skipað það. En Aysa kvað það skyldu vera
sinn ábyrgðarhluta og fór að vörmu spori til kóngssonar, og óðara en
hann hafði sagt honum allt hið sanna, tók hann aftur dauðadóminn. Og
hann gerði betri skil, því hann lét taka Gylendam og festa hana á gálgann
staðinn fyrir mann hennar. „Herra!“ mælti vezírinn enn fremur, „af
þessu sérðu, hversu hrekkvísar konur eru, og að vitur maður getur jafnvel
ekki treyst þeim, sem ráðvandastir sýnast. Skipaðu, konungur, að
miklu vandlegar sé leitað að Abúmasjar og varastu allt glappæði.“
„Svo skal vera,“ svaraði Persakonungur, „en finnist hann ekki í dag,
þá læt ég hálshöggva son minn á morgun.“ Þannig mælti konungur og
reið út á veiðar eins og hann var vanur.“
36. NÓTT. Þegar Dínarsade hafði vakið Sjerasade í sama mund og
vant var, hélt hún áfram sögunni á þessa leið:
„Herra! Gríski konungurinn, sem sagði vezír sínum sögu Sindbaðs
konungs, hélt þannig áfram: „Þegar Persa konungur kom heim af veiðum
og hafði neytt kvöldverðar með drottningu sinni, greip hún fulla eiturskál
og mælti: „Herra! Ef þú synjar mér alls réttlætis, drekk ég eitur
þetta og dauði minn komi yfir þig. Vezírar þínir eru allt af að telja þér
trú um hrekkvísi kvenna, en karlmenn standa okkur þar ekki að baki.
Skal ég segja þér nýtt dæmi því til sönnunar.
Sagan af málaranum Mamúð frá Ispahan
Einu sinni fór málari að finna kunningja sinn; sá hann þá hjá honum
mynd svo yndislegrar konu, að hann fékk á henni brennandi ást. Reyndi
vinur hans að leiða honum fyrir sjónir, hversu heimskulegt það væri, að
hafa svo ákafan girndarhug á blindri og mállausri mynd, sem einhver ef
til vill hefði gert eftir hugmynd sinni. Þá svaraði Mamúð: „Það er ómögulegt
að málaranum hafi tekizt að mynda þetta andlit, nema hann
hafi haft það fyrir sér.“ Lét hann vin sinn ekki hafa neinn frið fyrr
en hann komst fyrir það hjá málaranum og varð þess vísari, að myndin
var af söngmey nokkurri í kvennabúri stórvezírsins í Ispahan.
Þegar málarinn vissi, að stúlkan, sem hann elskaði, var í höfuðborg
Persíu, fór hann af stað þangað og ferðaðist dag og nótt. Þegar hann var
búinn að vera þar nokkra daga, varð hann gagnkunnugur lyfsölumanni
einum; var hann til húsa hjá honum og talaði við hann um margt, sem
hann þurfti að komast eftir, til að ná áformi sínu. Heyrði hann, að
konungur væri svarinn óvinur töframanna, og ef hann næði þeim, léti
hann kasta þeim niður í gjá nokkra fyrir utan borgina, svo þeir yrðu
þar hungurmorða. Fékk hann og fulla vissu um það, að söngmærin væri
ein af ambáttum stórvezírsins og hugsaði hann sér bragð til að ná henni.
Hann bjó sig út eins og ræningi og læddist til hallar vezírsins, og komst
með kaðalstiga, er hann hafði með sér, yfir múrinn og flatþakið niður í
garðinn. Sá hann þar herbergi skínandi bjart af mörgum ljósum; þangað
gekk hann og fór inn; sá hann þar konu, ljómandi af fegurð eins og
sól í heiði; lá hún þar sofandi í fílabeinsrúmi gullbúnu, og brunnu lampar
allt umhverfis; kenndi hann, að þar var sú, er hann leitaði að. Gekk
hann þá rétt að hvílunni og rispaði hægt í lófa hennar með daggarði
sínum, svo að ofurlítið dreyrði úr. Hrökk hún upp, en var svo hrædd, að
hún mátti ekki hljóði upp koma sér til hjálpar; hélt hún að þetta væri
ræningi og bauð honum blæju, sem hjá henni lá, margskreytta perlum
og gimsteinum, ef hann vildi gefa sér líf. Tók Mamúð við blæjunni, og
fór eins og hann var kominn. Daginn eftir bjóst hann í pílagrímsgervi,
stakk á sig blæjunni og fór til konungs. „Herra!“ tók hann til orða: „Eg
em guðhræddur pílagrímur frá Khórassan; hefur lofstír mannkosta þinna
og orðrómur réttlætis þíns dregið mig hingað, að ég mætti lifa í skjóli
þínu og vernd. Ég kom þegar skuggsýnt var orðið að borginni og voru
hliðin lokuð; varð ég svo að bíða þar til morguns. Meðan ég lá þar úti,
sá ég koma fjórar konur, reið ein hýenu, önnur hrúti, þriðja svörtum
hundi, fjórða lébarða; var auðséð að þetta voru fordæður. Ein þeirra
kom til mín og lamdi mig með keyri sínu, sem var eins og glóandi hrísla
á að líta. Nefndi ég þá nafn allsvaldanda guðs, og brá til hennar hníf
mínum, og skeindi hana á hendinni. Hvarf hún þá frá mér, en missti
þessa dýrindis blæju og tók ég hana upp; virði ég jarðneskan hégóma að
vettugi og legg hana því niður fyrir fætur þína.“ Að svo mæltu fór hann,
en konungur þekkti blæjuna; hafði hann gefið vezírnum hana áður, og
komst hann nú að því, að vezírinn hafði aftur gefið hana uppáhalds ambátt
sinni. Var hún leidd fram eftir skipun konungs og skoðuð; fannst
þá á henni sárið. Var hún dæmd til að verða hungurmorða fyrir fordæðuskap
og var henni sökkt niður í gjána fyrir utan borgina. En er Mamúð
spurði, hvernig bragðið hafði heppnazt, fór hann þangað, og beiddi varðhaldsmennina
að framselja sér ambáttina; gerðu þeir það, því bæði gaf
hann þeim gjafir og skemmti þeim með sögu sinni. Hélt hann síðan
heim á leið með ambáttina og fór dagfari og náttfari unz hann komst
þangað með hana.
Þetta er nú eitt af hinum óteljandi brögðum karlmannanna,“ mælti
Kansade að lyktum, en Sindbað svaraði: „Nú skal sonur minn orðalaust
deyja á morgun.“
Á þessu hafði nú gengið í fjörutíu daga, að Kansade rak eftir lífláti
Núrgehans, en vezírarnir töldu úr því. En að morgni hins fertugasta og
fyrsta dags settist konungur í hásæti, lét leiða fram son sinn og hina
fjörutíu vezíra, alla í fjötrum, og kom einn tugur í einu. Var böðlinum
skipað að taka til verks, og batt hann fyrir augu kóngssonar og brá sverðinu.
Spurði hann konung tvisvar, hvort hann skyldi höggva, og játaði
konungur því tvisvar. Samt spurði böðullinn í þriðja skipti og mælti:
„Herra! Hugsið eftir því, að ef ég framkvæmi skipun yðar, verður hún
ekki aftur tekin.“ Konungur ætlaði að skipa honum í þriðja sinn, en í
því bili var Abúmasjar dreginn fram fyrir hásætið svo fljótt, að fætur
hans komu varla við gólfið; höfðu varðmenn tekið hann fastan fyrir
utan höllina. „Mannfjandi!“ mælti konungur, er hann sá læriföður sonar
síns, „níðingsskapur þinn skal koma í koll þér. Er ekki svikum þínum
um málleysi sonar míns að kenna?“ „Svo er í sannleika, herra!“ anzaði
Abúmasjar, „það dró nauðsyn til, að sonur þinn þegði í fjörutíu
daga, svo að óláni því yrði afstýrt, er himintunglin spáðu honum. En
nú er hinn hættulegi tími á enda og nú má hann tala.“
Var þá bandið óðara leyst frá augum Núrgehans, og sagði hann hreinskilnislega
frá, hvað hann og drottningin, stjúpa hans, hefðu átt saman.
Báru þjónustumeyjarnar það með honum; höfðu þær staðið á hleri og
heyrt hvert orð, því þunnur veggur var á milli. Lét þá Sindbað konungur
son sinn setjast við hlið sér og kyssti á honum augun; en hinir fjörutíu
vezírar voru leystir úr fjötrunum og kysstu kné hans og fætur; fóru
þeir úr sorgarbúningnum, er þeir urðu að bera á hinum fjörutíu dögum,
og íklæddust dýrindis klæðum, sem konungur gaf þeim. En Kansade var
vægðarlaust líflátin.
Þegar gríski konungurinn hafði sagt vezír sínum sögu Sindbaðs Persakonungs,
mælti hann enn fremur: „Ég skal gjalda varhuga við því að
drepa eftir þínum ráðum hann Dúban, sem þú öfundar og ekkert hefur
gert þér. Ég vil ekki gera honum eins rangt til og konungurinn gerði syni
sínum.“
Þegar vezírinn sá að svona lá í konungi, mælti hann: „Því skyldi ég
bera slíkan kala til hins svikráða læknis, að ég talaði illa um hann, og
bruggaði honum banaráð, ef hann ekki sæti á svikráðum við þig? Mér
gekk ekkert annað til en dyggð og trúleiki þér til handa, að vara þig
við honum, og hafi ég ekki sagt satt, þá refsaðu mér eins og einum vezír
hefur verið refsað einu sinni áður.“ „Og hvað hafði hann til saka?“ spurði
gríski konungurinn, en vezírinn mælti: „Þóknast yður mildilegast að
hlýða á:
Söguna af vezírnum
Einu sinni var konungur, er son átti, sem hafði ákaflega gaman af
dýraveiðum. Þótti konungi ekkert að því, en skipaði vezír einum að
víkja aldrei frá hlið sonar síns, hvað sem í skærist. Þá var það einn dag, er
þeir höfðu riðið út á veiðar, að þeir sáu stórt villidýr langt burtu. Kallaði
þá vezírinn: „Hó! hó! áfram, áfram!“ og þeysti kóngsson svo ákaft
eftir dýrinu, að hann sá ekki að föruneyti hans varð á eftir og hvarf úr
augsýn. Leit hann ekki fyrr í kringum sig en villidýrið á eyðimörkinni
var horfið, og hann sjálfur vissi ekki, hvert fara skyldi. Meðan hann var
að ráfa þarna í vandræðum sínum, mætti hann konu, ekki svo óásjálegri
og grét hún mjög. Stöðvaði hann þá hest sinn og spurði, hver hún væri
og hvaðan, en konan svaraði: „Ég er dóttir konungs eins á Indíalandi. Á
leiðinni gegnum eyðimörk þessa varð ég viðskila við fylgd mína; sótti að
mér svefn, svo ég varð öldungis úrvinda og datt af baki, en hesturinn
hljóp frá mér. Stend ég hér einmana og veit hvorki upp né niður.“ Kóngsson
sá aumur á henni, tók hana og lét á bak fyrir aftan sig og reið áfram.
Komu þau að gömlum múrum; sagði þá kóngsdóttir að sig langaði að
fara af baki. Setti kóngsson hana niður, og fór síðan sjálfur af baki, meðan
hún gekk inn á milli múranna. En er honum þótti langt að bíða,
gekk hann á eftir henni og heyrði mannamál þar innar frá. Þótti honum
þetta kynlegt og brá heldur en ekki í brún, er hann heyrði konuna segja:
„Börnin góð! Í dag færi ég ykkur feitan dilk.“ Gullu þá við margar
raddir og æptu: „Láttu okkur þá fá hann, móðir góð, svo við getum
étið hann.“ Sá þá kóngsson að kvensniptin, sem þóttist vera kóngsdóttir,
mundi vera kona Ghúls[* Svo nefnist ein tegund illra anda er dvelja fjarri mannabyggðum, og taka menn til
sín og éta þá.] eins, og taldi sér dauðann vísan. Hljóp hann
þá titrandi af hræðslu og ætlaði að stökkva á bak, en í því kom konan að.
Sá hún hvað hann var hræddur og hnugginn og mælti: „Hvað hræðistu?“
„Illan óvin,“ anzaði kóngsson. „Léztu ekki vera kóngsson?“ spurði konan,
„því gefurðu þá ekki óvin þínum gull og kaupir þig í sátt? „Gull
stoðar ekkert,“ svaraði kóngsson, „honum nægir ekki minna en líf mitt
og því hræðist ég hann; æ, ég er dauðans matur.“ „Ef svo er,“ segir konan,
„þá feldu þig guði á hendur og biddu hann að hjálpa þér.“ Kóngsson
hélt fyrst að þetta væri Lokaráð, en leit samt upp til himins og mælti:
„Ó, þú, sem lítur niður til hinna nauðstöddu og eyðir hörmungunum,
hjálpa þú mér og lát hug óvina minna frá mér snúast, því þú einn ert
almáttugur.“ Jafnskjótt sem konan heyrði bæn þessa, hvarf hún að baka
til við múrana. Reið kóngsson síðan öræfi og eyðimerkur og komst farsællega
heim til konungsins, föður síns. En er hann heyrði hvílíkan háska
sonur hans hafði ratað í, og að hirðuleysi vezírsins væri um að kenna, lét
hann kyrkja vezírinn þegar í stað.
En svo ég víki aftur til Dúbans læknis, þá er þér dauðinn vís, ef þú
trúir honum lengur. Þú segir hann hafi læknað þig, en hvernig veiztu
það með vissu? Það er ekki sagt hann hafi læknað sjúkdóminn frá rótum
og hver veit nema meðulin hafi banvæn áhrif, þegar frá líður?“ Gríski
konungurinn var ekki bráðskarpur og trúði því vezírnum. „Þú segir satt,
vezír minn!“ mælti hann, „og þú ert mér trúr. Hann er kominn gagngert
til að ráða mig af dögum; hann læknaði mig með nokkru, sem ég
hélt á; hann þarf ef til vill ekki annað en að láta mig þefa af einhverju
og þá er ég dauður. Segðu mér, vezír, hvað á ég að taka til bragðs í þessum
vandræðum?“ „Herra!“ anzaði vezírinn, „svo þú verðir öldungis
óhultur fyrir svikum hans, er bezt að þú sendir undir eins eftir honum
og látir höggva af honum höfuðið; svíktu hann áður en hann svíkur þig.“
„Þetta er heilræði,“ segir konungur, og gerði boð eftir Dúban; kom hann
þegar og lá vel á honum. „Veiztu hvers vegna ég hef stefnt þér hingað?“
spurði gríski konungurinn Dúban. „Nei, herra!“ svaraði hann, „guð veit
það einn; hans nafn sé blessað.“ „Ég hef sent eftir þér,“ mælti konungur,
„til þess að láta drepa þig.“ Það verður ekki með orðum sagt, hvað lækninum
brá við þessi orð og tók hann þannig til orða: „Því viltu taka mig
af lífi, konungur? Hvern glæp hef ég drýgt?“ „Því hefur verið stungið
að mér,“ segir konungurinn, „að þú sért njósnarmaður og kominn hingað
til að drepa mig. Ætla ég að koma í veg fyrir það og læt því drepa þig
þegar í stað.“ Og í sama bili kallaði hann til böðulsins: „Höggðu höfuðið
af þessum svikara og frelsaðu mig frá vonzku hans“
37. NÓTT. Þegar Dúban hafði heyrt dauðadóm sinn, mælti hann:
„Miskunna mér, konungur, og guð mun miskunna þér; glata mér ekki
og guð mun ekki glata þér.“ Tók hann þessa bæn upp aftur, hvað eftir
annað, allt eins og ég gerði við þig, andi!“ mælti fiskimaðurinn, sem var
að segja andanum í flöskunni söguna af gríska konunginum og Dúban
lækni, „en þú vildir endilega drepa mig. Eins harðbrjósta var gríski konungurinn
og skipaði böðlinum aftur að höggva Dúban. Kenndu þá
nokkrir af hirðmönnunum í brjósti um Dúban og kváðust ekki vita, að
hann hefði neitt af brotið, því hann hefði ekki gert annað en að lækna
konunginn, þar sem allir aðrir læknar voru gengnir frá. En konungur
svaraði: „Þið vitið ekki hvernig í þessu liggur, líf mitt er í veði, ef
hann er ekki drepinn. Sá sem læknaði mig með nokkru, er ég hélt á í
hendinni, getur drepið mig með öðru, sem ég að eins þefa af. Ég er
hræddur um, að hann ætli sér þetta, og er líklegast að hann sé kominn
hingað til þess.“ Skipaði þá konungur í þriðja sinni að höggva hann.
Þegar Dúban læknir heyrði þetta, lagði hann alveg árar í bát og
mælti: „Herra! Hafirðu fastráðið dauða minn, þá gefðu mér lítinn frest,
að ég geti farið heim til mín, til að ráðstafa eignum mínum, kveðja
heimili mitt og kjósa mér legstað. Ég ætla líka að útbýta bókum mínum
milli þeirra, sem not hafa af þeim. Ætla ég að gefa þér eina, konungur,
og er hún slík gersemi, að vert er að hún sé vandlega geymd í féhirzlu
þinni.“ „Hvaða bók er það?“ spurði konungur, og svaraði læknirinn:
„Það er ómögulegt að skýra frá efni hennar, en einhver hinn lítilvægasti
leyndardómur hennar er það, að ef þú lýkur henni upp, eftir að ég
er hálshöggvinn, flettir í henni þremur blöðum og lest þriðju línu upp
á blaði í vinstri hendi, þá mun höfuð mitt tala og leysa úr hverri spurning,
[1131.png]
sem þú leggur fyrir það.“ Furðaði konungur sig á þessu og lét varðmenn
fylgja Dúban heim, og var hann þar að ráðstafa öllu sínu þangað
til daginn eftir. Var hann aftur sóttur til gríska konungsins morguninn
eftir; var þar saman komin hin glæsilegasta hirðsveit; höfðu flykkzt
saman emírar, vezírar og margt annað stórmenni, því þeir bjuggust við
að sjá eitthvert furðuverk. Kom þá læknirinn með gamla bók og lagði
hana fyrir fætur konungs og öskjur hjá, sem eitthvert duft var í. Lét
hann þá færa sér skál og hristi það niður í hana og mælti: „Konungur!
Þegar höfuð mitt er afhöggið, skaltu láta setja það niður í skálina og mun
þá blóðrásin stöðvast. Ljúktu síðan upp bókinni og gerðu eins og ég
hef fyrir sagt, og mun þá höfuð mitt tala. En leyf mér, heyra, að biðja
þig líknar einu sinni enn, svo að guð einnig líkni þér á síðan.“ „Hér
stoðar engin bæn,“ mælti konungur,“ þú skalt deyja, þó ekki væri nema
til að heyra höfuð þitt tala.“ Skipaði hann þá að hálshöggva Dúban og
var svo gert. En er höfuð hans var lagt í skálina, lauk konungurinn upp
bókinni; loddu blöðin saman og vætti hann því aftur og aftur fingurgóminn
á tungunni, svo hægra væri að fletta. Fletti hann fyrsta, öðru og
þriðja blaðinu, og er hann sá þar ekkert skrifað, mælti hann: „Þar
stendur ekkert, læknir!“ „Flettu nokkrum blöðum enn,“ svaraði höfuðið,
og gerði konungur það og varð allt af að drepa fingrinum á tunguna, því
blöðin tolldu saman. Hafði hvert blað verið bleytt í gegn með eitri; tók
það nú að hrífa, konunginum sortnaði fyrir augum og hné hann niður
úr hásætinu með andköfum í því hann mælti: „Ég dey af eitri,“ en
höfuðið talaði þessi orð á meðan:
„Þeir beittu valdi sínu, en þeir beittu því eins og harðstjórar, og því
var, sem þeir hefðu aldrei verið. Hefðu þeir verið sanngjarnir við aðra,
hefðu aðrir verið sanngjarnir við þá, en þeir voru kúgarar og því kom
þeim makleg hefnd. Guð refsar þeim, sem grimmur er og níðist á sakleysinu;
hann lætur hverjum og einum launað eftir hans verkum.“
Þegar þessi orð voru töluð, gaf gríski konungurinn upp öndina, og
höfuð læknisins missti einnig lífsmark það, sem var með því.
„Herra!“ mælti Sjerasade enn fremur, „svona lauk loksins viðskiptum
þeirra Dúbans læknis og gríska konungsins. Nú víkur sögunni til
fiskimannsins og andans.“
Framhald sögunnar af fiskimanninum og andanum
38. NÓTT. „Herra! Þegar fiskimaðurinn hafði sagt andanum, sem
var innibyrgður í flöskunni, söguna af gríska konunginum og Dúban
lækni, mælti hann enn fremur: „Þú sér af því, andi, að gríski konungurinn
hefði lifað, hefði hann gefið lækninum líf. En þú vildir tortíma
mér, þrátt fyrir allar bænir mínar, nú skal ég vera miskunnarlaus eins og
þú og sökkva þér í sjávardjúp.“
Þegar andinn heyrði þessi orð, andæpti hann og bað: „Fiskimaður!
Ég særi þig við nafn hins hæsta, gerðu það ekki. Láttu þér farast vel og
hugsaðu eftir því, að það er ódrengilegt, að hefna sín, og að mönnum ber
að launa illt með góðu. Hafi ég gert illa, þá breyttu við mig eins og
Immameh við Atikeh[* Immameh og Atikeh eru kvenmanna nöfn, en sagan er ókunn.].“ „Og hvernig breytti hún?“ spurði fiskimaðurinn,
en andinn kvaðst vera illa fyrirkallaður að segja sögur, þar sem
hann var innilokaður í flöskunni, hann skyldi gera það, ef hann sleppti
sér út. „Nei,“ sagði fiskimaðurinn, „ég hleypi þér ekki út svo fljótt. Ég
gerði þér gott, og þú ætlaðir að drepa mig, þó ég lægi flatur fyrir þér
á jörðinni og grátbændi þig að vægja mér. Þú skalt fara í sjóinn og kúra
á mararbotni þangað til á dómsdegi.“ „Láttu þér hug við ganga,“ svaraði
andinn, „vertu drenglyndur og gefðu mér frelsi; ég lofa að gera þér
aldrei mein, heldur skal ég hjálpa þér til að verða vellríkur.“ Þetta fagnaðarboð
sneri huga fiskimannsins og lét hann andann lofa sér því með
eiði að sverja við guðs nafn; síðan opnaði hann flöskuna. Rauk gufa upp
úr henni eins og áður, þangað til hún varð tóm; því næst þéttist gufan og
brást í líki ógurlegs anda; varð honum það fyrst að verki, að hann sparkaði
til flöskunnar svo að hún hraut langt út á sjó. Varð þá fiskimaður
skelkaður og hélt að þetta væri ekki góðs viti. Samt herti hann upp hugann
og sagði: „Ætlarðu að rjúfa eiðinn, sem þú sórst mér? Á ég að
segja eins og Dúban læknir við gríska konunginn?“ Andinn hló við og
mælti: „Vertu óhræddur, ég skal ekkert gera þér. En taktu netið þitt og
fylgdu mér.“
[1133.png]
Síðan héldu þeir af stað og var fiskimaður hálfsmeikur. Gengu þeir
fram hjá borginni og upp á hátt fjall og komu niður á víða völlu milli
fjögra hóla, lá stöðuvatn eitt á miðju sléttlendinu. Lét andinn þar
staðar numið, og sagði fiskimanninum að kasta út netinu. Hann gerði
það og var vongóður um veiði, því þar var krökkt af fiski í vatninu, en
það þótti honum kynlegt, að þeir voru allavega litir, hvítir, rauðir, bláir
og gulir. Veiddi hann og fjóra fiska, sinn með hverjum lit, og varð glaður
við. „Farðu með þá til soldáns,“ mælti andinn, „hann mun gefa þér
svo mikið fé fyrir þá, að þú verður ríkismaður. Annars bið ég þig virða
mér til vorkunnar, sem hef legið átján hundruð ár á hafsbotni, að ég
er orðinn svo ókunnugur á landi, að ég get ekki launað þér á annan
hátt. Þú skalt veiða hér á hverjum degi, en gerðu það aldrei nema einu
sinni á dag. Guð veri með þér!“ Að því mæltu stappaði andinn á jörðina
og laukst hún upp og gleypti hann.
Fiskimaður furðaði sig stórlega á ævintýri sínu og andans, og fór til
borgarinnar; gekk hann rakleiðis til hallar soldáns, og fékk honum hina
fjóra fiska...
39. NÓTT. Soldán lét sér mikið finnast um fiskana, sem fiskimaðurinn
færði honum. Hafði hann aldrei á ævi sinni séð neina slíka, og
skipaði að fá þá nýju eldabuskunni til matreiðslu; Grikklands keisari
hafði gefið honum eldabuskuna nokkrum dögum áður. „Hún skal nú
reyna sig á þessum fiskum,“ sagði soldán. Vezírinn fékk henni fiskana
sjálfur, og lagði ríkt á við hana að vanda sig. Þegar hann kom aftur til
soldáns, lét soldán gefa fiskimanni fjögur hundruð gullpeninga. Hafði
mannskepnan aldrei átt svo mikið fé í einu og fór því glaður og kátur
aftur heim til sín, því nú gat hann fullnægt öllum þörfum sín og sinna.
[1134.png]
En á meðan gerði eldabuska soldáns fiskana til og lagði þá á steikarapönnu
yfir glæður. En er þeir voru stiknaðir öðrumegin, sneri hún þeim
við. Óðara en hún var búin að því, klofnaði eldhússveggurinn og gekk
þar út kona há og vel vaxin og yndisleg að líta; voru augabrúnir og
augnahár hennar pentuð svörtum lit, en varir hennar sællegar og blómlegar.
Hún hafði bláan silkimotur á höfði, hún var prýdd eyrnagullum, armböndum
og dýrindis steinhringum, en í hendinni hélt hún á myrtusviðarsprota.
Drap hún honum á fiskana og mælti: „Fiskar, haldið þið sáttmálann
enn?“ Eldabuskan stóð forviða meðan vitrunin tók sömu orðin
upp aftur í annað og þriðja sinn. Þá teygðu fiskarnir upp höfuðin og
sögðu: „Þegar þú kemur, þá komum við aftur, þegar þú kemur, komum
við, þegar þú fer, förum við.“ Síðan velti konan pönnunni við og hvarf
eins og hún var komin, en veggurinn laukst aftur saman.
Nú herti eldabuskan upp hugann og ætlaði að taka upp fiskana í
skyndi, en þá voru þeir brunnir til kaldra kola. Kallaði hún þá upp,
grátandi og angistarfull: „Drottinn minn! Hvernig ætli að fari fyrir mér?“
Í því kom stórvezírinn að og skipaði að bera fiskana á borð. Sagði hún
honum þá grátandi, hvernig farið hafði; varð hann hlessa á því, sem von
var. „Sé þetta satt,“ hugsaði hann með sér, „þá er það eitthvað ekki einleikið.“
Til þess að komast eftir, hvernig á þessu stæði, bar hann eitthvað
fyrir soldán, hvers vegna fiskarnir væru ekki á borð bornir, en lét undir
eins sækja fiskimanninn, og skipaði honum að koma með fjóra fiska
aðra eins og hina fyrri. Lofaði fiskimaður að koma með þá að morgni
næsta dags, og gat hann efnt loforð sitt, því undir eins og hann hafði kastað
út netinu, fann hann fjóra samkyns fiska. Fór vezírinn til eldabuskunnar
með þá og skipaði henni að steikja þá að sér áhorfandi. Voru þeir
nú hreinsaðir og lagðir á steikarapönnuna yfir eldsglæður; en er þeir voru
stiknaðir öðru megin var þeim snúið við. Þá fór eins og fyrri, veggurinn
klofnaði, og sást sama konan koma með myrtusviðarsprota, drap hún
honum á fiskana og mælti hin sömu orð. Þegar hún hafði þrítekið þau,
teygðu fiskarnir upp höfuðin og svöruðu eins og í fyrsta skipti. Konan
velti pönnunni við og fór eins og hún var komin.
40. NÓTT. Vezírinn varð steinhissa, en datt þó ekki í hug, að efast
um, að svo væri, og sagði, að ekki mætti leyna soldán slíkum fádæmum.
Fór hann því og sagði herra sínum frá. Þótti honum sjón sögu ríkari,
og vildi hann ganga úr skugga um það; lét hann því skipa fiskimanninum
að koma aftur með fjóra samkyns fiska, að þremur dögum liðnum. Gerði
fiskimaður það og varð soldán glaður við og lét borga honum önnur
fjögur hundruð gullpeninga. Síðan skipaði hann stórvezírnum að steikja
fiskana sjálfur, að sér ásjáandi. Svaraði stórvezírinn: „Ég heyri og hlýði,“
hreinsaði fiskana og lét á steikarapönnuna og sneri þeim, þegar þeir voru
stiknaðir öðrumegin. Klofnaði þá veggurinn á ný og gekk þar inn svertingi
geysistór og digur. Hélt hann á grænni kylfu í hendinni og mælti
ógurlegri röddu: „Fiskar! Haldið þið sáttmálann?“ Réttu þeir þá upp
höfuðin og svöruðu: „Já, já! Þegar þú kemur aftur, komum við aftur,
þegar þú kemur, komum við, og þegar þú fer, förum við.“ Því næst
hvolfdi svertinginn pönnunni, fiskarnir brunnu, en hann hvarf út um
vegginn og luktist hann saman aftur. Þegar soldán var kominn til sjálfs
sín aftur eftir þenna mikla fyrirburð, ásetti hann sér að komast eftir
leyndardómi þeim, sem fiskar þessir voru háðir. Boðaði hann fiskimann
á sinn fund og spurði hann: „Hvar hefurðu veitt þessa merkilegu fiska?“
„Í vatni einu,“ anzaði fiskimaður, „sem liggur hinu megin fjallsins fyrir
framan borgina milli fjögra hólanna.“ „Hvað margar dagleiðir eru þangað?“
„Herra! það er lítil bæjarleið,“ segir fiskimaður. Furðaði hver maður
sig á þessu, því enginn vissi neitt til, að vatn væri í þeirri átt og á
því svæði, sem fiskimaður tilgreindi. En soldán sté jafnskjótt á hest sinn
og skipaði hirð sinni og föruneyti að fylgja sér á þenna stað. Tók nú öll
sveitin sig upp og fór fiskimaður í fararbroddi; lá leiðin yfir háfjallið og
þaðan ofan á hið víða sléttlendi, sem enginn maður vissi af. Að stundarkorni
liðnu kom sveitin að vatninu milli hinna fjögra hóla; úði það og
grúði af hinum ferlitu fiskum. Lét soldán þar staðar numið og undraðist
mikillega; síðan spurði hann, hvort nokkur hefði orðið var við þetta
vatn, svona nálægt borginni. Kváðu allir nei við og mælti soldán enn
fremur: „Viti það himinn, að ekki skal ég fyrr aftur heim snúa til borgarinnar
og setjast í hásæti mitt, en ég veit allt með sönnu, hvernig á vatninu
og fiskunum stendur.“ Skipaði hann þá, að setja þarna tjöldin, fór
sjálfur í sitt tjald og kallaði á vezír sinn til ráðaneytis. Var vezírinn vitur
maður og fróður, og trúði soldán honum einum fyrir leyndarmáli því,
að hann ætlaði sér að grennslast eftir vatninu og fiskunum um nóttina.
„Seztu við tjalddyr mínar,“ sagði hann við vezírinn, „vísaðu hverjum
manni burt og segðu ég sé veikur og vilji vera aleinn, en hinu skaltu
leyna.“ Gat vezírinn ekki haft á móti því, en soldán fór í dularbúning,
tók sverð sitt og gekk út í náttmyrkrið, einsamall og ókennilegur. Gekk
hann yfir einn hólinn og eftir flötinni, sem þar var fyrir neðan, þangað
til honum gerðist erfitt af sólarhita, og hann varð að hvíla sig. Síðan fór
hann leiðar sinnar, og að morgni hins annars dags kom hann auga á
eitthvað dökkt langt í burtu; sá hann skjótt að þetta var glæsileg höll úr
fáðum marmara. Var vængjahurð fyrir hliðinu og önnur upplokin, svo
að soldán hefði getað gengið inn hindrunarlaust, en samt drap hann
þrisvar á dyr. En enginn svaraði né kom til dyra, og gat honum þó ekki
„skilizt, að slík höll væri auð af mönnum. Fór hann þá inn í forgarðinn og
kallaði: „Þér íbúar þessarar hallar, hér er kominn ferðamaður og þarf
hressingar.
Þannig kallaði hann þrisvar og kom fyrir ekki; herti hann því upp
hugann og fór lengra, þangað til hann kom inn í víðan garð í miðri
höllinni. Var þar glæsilegur lystihver og stóðu þar fjögur ljón úr skíru
gulli, sem spýttu vatni upp úr gininu og var það eins og perlur eða gimsteinar
tilsýndar, þegar það féll niður. Var þar og fjöldi af ágætum fuglum,
og spennt út net hátt uppi, svo að þeir gætu ekki flogið burt. Undraðist
soldán enn meir, er hann sá allt þetta; þótti honum leitt að sjá engan
mann, er gæti gert hann nokkurs vísari. Settist hann niður í forgarðinum
þungt hugsandi, en þá heyrði hann allt í einu raunalega rödd, og
kvað hún þessar vísur:
/#
Þér, urðir grimmu, líkn ei ljáið
langþjáðum mér, né aumur sjáið
á þeim, er lengi lausnar beið!
Aumkvaðu beðja, milding mikinn
meinráðum ástar köldum svikinn,
auðmilding, sem á nú í neyð.
Fyrrum vinhlýja vestankælu,
um vanga þinn, er leið í sælu,
afbrýði sál mín ástarheit;
forlaga myrkur menn ei skilja,
margur blindast af þeirra vilja,
örlaga fjötur enginn sleit.
Gefst þá bogmanni hjálp að hljóta,
í háska sem að ör vill skjóta,
og strenginn slitinn sundur sér?
Þegar ofstopann ólán fellir
og aldan ströng oss flötum skellir,
segið mér þá, hvar athvarf er.
#/
Spratt þá soldán upp og gekk á hljóðið; kom hann að dyrum er tjald var
hengt fyrir. Lyfti hann tjaldinu og sá andspænis móti sér unglegan
mann, fríðan sýnum og skrautbúinn; sat hann á háum legubekk og
voru upp að honum tröppur. Hin fagra ásjóna hans var myrkvuð af
skugga sorgarinnar, og hafði hann svartan díl á annarri kinninni. En
svo segir skáldið:
/#
Merki svart
maður engi
lýti ljósra kinna;
blakkur blettur
blöðum skreytir
ungrar anemónu.
#/
Varð soldán feginn að hitta þar mann, og heilsaði honum. Hinn ungi
maður, sem var í gullsaumuðum klæðum, tók kveðju hans og sat grafkyrr,
en beiddi hann að fyrirgefa sér, að hann stæði ekki upp á móti
honum, og væri sér þess varnað af meinlegum kvilla. Soldán kvað það
alls ekki saka og mælti: „En eins bið ég yður, herra! Þiggið hjálp mína,
ef hún má yður nokkuð duga og létta hörmungum þeim, er þér kvartið
yfir, og segið mér enn fremur, hvernig stendur á vatninu hérna skammt
frá borginni, sem fullt er af ferlitum fiskum? Hvernig stendur á höllinni
og einlífi yðar á þessum stað?“ Svaraði þá maðurinn engu, heldur
tók að gráta beisklega. Þótti soldáni þetta kynlegt og mælti: „Segið mér,
hver er orsök yðar miklu sorgar, af hverju grátið þér?“ „Æ, herra!“ anzaði
hinn, „hver mundi sá vera, að ekki táraðist, ef hann væri í mínum
sporum?“ Að svo mæltu brá hann upp skikkju sinni, og sá þá soldán, að
hann var ekki sem aðrir menn lengra en ofan að beltinu, en fyrir neðan
var líkami hans svartur marmari.“
41. NÓTT. Soldáni brá ógurlega við, eins og nærri má geta, þegar
hann sá, hversu hörmulega hinn ungi maður var á sig kominn. Hann
dauðlangaði til að heyra sögu hans, því hann þóttist viss um, að hún
mundi eitthvað riðin við vatnið, sem ferlitu fiskarnir voru í. Kvaðst hinn
ungi maður líka fús á að segja honum sögu sína, svo sárþjáður sem hann
væri, og beiddi soldán að bregða sér ekki við; því næst byrjaði hann á
Sögunni af hinum unga konungi á svörtu eyjunum
„Faðir minn hét Mamúd, og var konungur í borg þeirri, er hér lá
áður, og ríkti hann yfir hinum fjórum svörtu eyjum. Andaðist hann á
sjötugasta aldurs ári, og er ég var setztur að völdum eftir dauða hans,
gekk ég að eiga bróðurdóttur mína. Hún hafði slíka ofurást á mér, að
þegar ég fór burt frá henni, neytti hún hvorki matar né drykkjar, fyrr
en ég kom heim aftur. En er fimm ár voru liðin, tók ég eftir því, að ást
hennar fór að kólna, og komst ég að þessu móti eigin vilja.
[1139.png]
Það var einhvern tíma eftir hádegi að hún var gengin til lauga og
hafði ég lagzt niður til svefns eins og ég átti vanda til; ég hafði skipað
tveimur ambáttum að svala mér um höfuð með veifum sínum og banda
burtu flugunum. En þegar þær héldu að ég væri sofnaður, fóru þær
að pískra saman; en ég hafði aðeins látið aftur augun og heyrði því hvert
orð, sem þær töluðu. „Er það ekki illa gert af drottningunni,“ sagði önnur,
„að hún skuli ekki vera slíkum öðlingi holl og trú, sem herra vor er?“
„það þykir mér,“ anzaði hin, „og ég skil ekki í því, hvers vegna hún
lætur hann einan á hverri nótt; verður hann þá einskis var?“ „Hvernig
ætti hann að verða nokkurs var?“ sagði hin ambáttin, „hún byrlar honum
á hverju kvöldi jurtadrykk, sem drepur honum í svo fastan svefn,
að hún getur farið allra sinna ferða fyrir honum. En á morgnana kemur
hún aftur og vekur hann með einhverju ilmgresi, er hún heldur fyrir
vit hans.“
Þér getið nærri, herra, hvað mér varð hverft við. En samt stillti ég
mig og lét eins og ég vaknaði af værum blundi og hefði ekkert heyrt.
Borðaði ég kvöldverð með drottningu minni eins og vant var; rétti hún
mér drykkinn áður en ég gekk til rekkju. En í stað þess að drekka, hellti
ég honum út um gluggann, svo hún ekki sá, og fékk henni aftur tóma
skálina. Síðan lögðumst við niður. En er hún hélt, að ég væri sofnaður,
reis hún upp, klæddist í skyndi og mælti í hálfum hljóðum: „Ó að þú
svæfir og vaknaðir aldrei framar!“ Því næst gekk hún út úr herberginu....
42. NÓTT. Óðara en kona mín var út gengin,“ þannig hélt hinn
ungi konungur svörtu eyjanna sögu sinni áfram, „spratt ég upp, klæddist
í snatri, greip sverð mitt og veitti henni eftirför. Náði ég henni skjótt
og gekk á eftir henni með mestu forsjálni. Gekk hún gegnum margar
dyr, er lukust upp sjálfkrafa, því hún mælti yfir þeim töfraþulur; loksins
kom hún að aldingarðinum. Hvarf hún þar inn í þykkan runn; voru þar
hávaxin hrísgerði beggja megin vegarins; en ég fór í sniðkróka og læddist
þangað líka og faldi mig þar sem langur skógargangur byrjaði, því eftir
honum sá ég að flagðið gekk sér til skemmtunar og hafði karlmann með
sér. Þar heyrði ég nú er þau komu nær, að hún var að afsaka sig við
friðil sinn, að hún hefði ekki getað komið fyrr, og fyrir utan öll elskumerki,
er hún áður hafði auðsýnt, hafði hún nýjan ástarvott á boðstólum
og voru mikil firn að heyra slíkt. „Þú veizt hvað ég megna,“ sagði hún,
„þú þarft ekki annað en að segja til. Ef þér svo líkar, skal ég, áður en sól
er á lofti, breyta þessari stóru borg og þessari glæsilegu höll í herfilegar
rústir, sem ekki skulu byggðar vera nema af úlfum, uglum og hröfnum.
Þú þarft ekki annað en að segja eitt orð og þá skal allt breytast.“ Í því
að drottning mælti þetta, var hún rétt hjá mér og ætlaði að ganga fram
hjá mér og beygja út á aðra götu. Ég hélt á sverðinu brugðnu, og þegar
friðillinn gekk fram hjá, hjó ég á háls honum svo hann féll til jarðar.
Hélt ég að ég hefði orðið banamaður hans, og flýtti mér í burt og lét
ekki drottninguna sjá mig; vildi ég hlífa henni fyrir frændsemis sakir.
Höggið var líka banvænt í raun og veru, en með töfrum sínum hélt hún
friðlinum í slíku ástandi, sem hvorki getur heitið líf né dauði.
Flýtti ég mér nú til hallar minnar gegnum lystigarðinn og heyrði enn
þá hljóð og harmalæti konu minnar; réði ég af því hryggð hennar og
þótti vænt um, að ég hafði gefið henni líf. En þegar ég var kominn til
herbergja minna, lagðist ég niður í þeirri trú, að ég hefði refsað illmenninu,
sem vogaði að svívirða mig, og sofnaði ég út af frá þessum hugleiðingum.
Þegar ég vaknaði morguninn eftir, lá drottning í rúminu hjá
mér, og vissi ég ekki hvort hún var vakandi eða sofandi. Stóð ég upp
hljóðlega, klæddist og gekk til ráðstefnu. En er ég kom heim aftur, fann
ég konu mína með skorið hár og íklædda sorgarbúningi. Tók hún þá
þannig til máls: „Herra! Veit mér eigi átölur fyrir, að ég hef tekið upp
á þessu, því ég hef spurt lát drottningarinnar, móður minnar, konungsins,
föður míns, sem fallinn er í orustu, og bróður míns, sem hrapaði fyrir
bjarg og lét þannig líf sitt.“
Ég gat ekki fengið af mér að brigzla henni, er hún átti um svo sárt
að binda; miklu fremur vorkenndi ég henni og reyndi að hugga hana.
Því næst lokaði hún sig inni í herbergi sínu og sat þar í heilt ár grátandi
og kveinandi. En er árið var liðið, beiddi hún mig leyfis, að hún mætti
láta gera sér legstað í höllinni, svo að hún gæti verið þar til dauðadags.
Þessa synjaði ég henni ekki og lét hún byggja skrautlegan legstað með
kúpumynduðum stöpli, eins og gert er eftir helga menn; getur maður
séð það héðan og kallaði hún legstaðinn Tárahöll. Fór hún þangað með
friðil sinn, sem hún hafði flutt á hentugan stað, nóttina, sem hann fékk
sárið. En ekki megnaði hún að lækna hann með kunnáttu sinni; gat
hann hvorki talað né hrærzt, og sást ekkert lífsmark með honum á neinu
öðru en augunum. Var það sú eina huggun, er drottning hafði, að sjá
hann og segja honum það, sem ástríða og viðkvæmni vitlausrar ástar blés
henni í brjóst. Vitjaði hún hans því tvisvar á degi hverjum og færði honum
mat og drykk, en þó ég vissi af öllu saman, lét ég sem ekkert væri.
Á þessu hafði nú gengið í tvö ár; þá var það einhvern dag, að ég
gekk til Tárahallarinnar, svo hún ekki sá; heyrði ég að hún grét og bar
upp kveinstafi sína á þessa leið: „Ég fyllist ógurlegri örvæntingu af því
að sjá þig svona til reika, og svíða mér hinar brennandi kvalir þínar ekki
síður en sjálfum þér. Elsku lífið mitt, ég tala sífelldlega til þín og þú
anzar mér aldrei; hvað lengi ætlarðu enn að þegja? Það eru hinar sælustu
stundir ævi minnar, sem ég kvelst og þjáist með þér. Fjarri þér get ég
ekki lifað, og heldur vil ég njóta þeirrar gleði, að sjá þig, en drottna yfir
allri veröld.“ Síðan mælti hún fram vísur þessar:
/#
„Sárt þinn hrellir missir mig,
munargleði letur,
því engan, nema einan þig,
elskað sál mín getur.
Lát af miskunn lík mitt því
lagt hjá beði þínum,
að ég sofnuð sælu í
sorgum gleymi mínum.
Ef þú nafn mitt nefnir þar
nærri köldum steini,
önduð þér ég inni svar
með andvörpum og kveini.“
#/
Slíkar ræður, sem voru þverskornar ekka og andvörpum, gengu loksins
fram af mér. Gerði ég hana vara við mig, óð að henni með brugðið
sverð og mælti: „Nú hefur þú grátið nóg, kona, og er tími til kominn,
að leggja niður slíkt ótrúnaðarhjal. Væri og betur að gröfin sylgi frillu
með friðli.“ Þá spratt hún upp sem hún væri bandóð og orgaði framan
í mig hrópandi: „Grimmdarseggurinn! Þú veldur einn öllum hörmungum
mínum, mig hefur lengi grunað, að þú værir morðinginn, sem steyptir
elskhuga mínum í þessa eymd, og enn ertu svo siðlaus, mannhrakið þitt,
að þú kemur hingað til að hælast um örvæntingu þeirra, sem elskast.“
Greip ég þá fram í og svaraði: „Það er aldrei nema satt, að ég var sá, er
refsaði níðingi þeim, sem maklegt var, og skyldir þú fara sömu leið. Þú
níðist helzt til lengi á góðmennsku minni.“ Brá ég þá sverðinu og ætlaði
að vega að henni. Hún hrærðist ekki úr sporunum og mælti með stillingu,
svo mér var storkun að: „Stilltu reiði þína,“ síðan hreytti hún úr sér
einhverjum orðum, sem ég ekki skildi og sagði: „Mæli ég um og legg ég
á: að vörmu spori vertu hálfur steinn og hálfur maður.“ Æ herra! Í sama
vetfangi varð ég eins og þér sjáið mig nú, vanfær til allrar hreyfingar,
hvorki lífs né liðinn“....
Þá ljómaði dagsbrún og hætti því drottning, er hingað var komið
sögunni.
43. NÓTT. Sjerasade sagði framhaldið fyrir tilmæli systur sinnar, og
tók þannig til frásagna:
„Herra, hinn ungi konungur yfir fjórum svörtu eyjunum sagði
soldáni áfram söguna með þessum orðum:
„Þegar hin grimma fordæða, sem ómakleg var að bera nafn drottningar,
hafði breytt mér svona, kom hún mér með gjörningum í herbergi
þetta; því næst töfraði hún einnig ríki mitt, þegna mína og borg mína.
Hún lét allt hverfa, hallirnar, húsin, múrana og torgin, og setti í staðinn
vatnið á eyðimörkinni, sem þér þekkið. En íbúarnir urðu að ferlitum
fiskum, Mahómets átrúendur urðu hvítir, eldsdýrkendur rauðir, Kristnir
menn bláir, en Gyðingar gulir. Úr fjórum eyjunum urðu fjórir hólarnir,
sem liggja umhverfis vatnið. En sjálf kom hún til mín, sagði mér, hvað
hún hafði gert og hældist um; lét hún ekki þar við sitja, heldur kemur
hún á hverjum degi og lemur mig hundrað högg á bert bakið með ólarsvipu,
þangað til ég verð alblóðugur undan. Síðan færir hún mig í hárklæði
og breiðir yfir mig þessa skrautlegu skikkju í háðungar skyni.”
Við þessi orð kom upp grátur mikill fyrir hinum unga konungi og hafði
hann yfir orð skáldsins:
/#
„Gef þú þolinmæði mér,
mótlætið að bera.
Guð minn! Allt er það frá þér,
því skal ég geðrór vera.
Kvala beð þó köldum á
kunni mér að sárna,
á himni sálir helgar þá
hrelldum líknar árna.“
#/
Soldáni fékk svo mikils það sem hann hafði heyrt og séð, að hann í
fyrstunni gat ekki upp komið orði til að hugga hinn unga konung. Loksins
mælti hann þannig með ákefð, því bæði vildi hann hjálpa konungi
og hefna á drottningu: „Segið mér, hvar er hið svikafulla flagð?“ „Ég
veit ekki, hvar hún hefst við um nætur,“ anzaði konungur, „en á daginn
er hún í greftrunarhúsinu með stöplinum í Tárahöllinni þar sem friðill
hennar liggur. Fer hún þangað daglega, er hún hefur húðstrýkt mig að
morgni; verð ég að þola það, því ég get ekki hrært legg né lið. Færir hún
honum þá mat og drykk og heldur svo lífinu í honum; lætur hún aldrei
af að barma sér yfir vesöld hans og málleysi.“
Soldán sagði nú konunginum, hverra manna hann væri og hvernig
stæði á ferðum hans þangað og lauk ræðu sinni með þessum orðum:
„Aldrei hafa meiri fádæmi drifið á daga nokkurs manns en yðar; en
eins er þó áfátt, og það er, að maklegri hefnd verði framgengt. Ég skal
gera allt, sem mér er unnt, til þess að oss verði hennar auðið.“ Sátu þeir
nú báðir saman þangað til náttaði, og voru að leggja niður ráðin, hvernig
þeir ættu að koma fram hefndum á drottningu; síðan lagðist soldán
stundarkorn til hvíldar. En um aftureldingu stóð hann upp, tók sverð
sitt og skildi yfirhöfn sína eftir á afviknum stað og gekk til Tárahallarinnar.
Brunnu þar raðir hvítra vaxljósa, og var þar hinn sætasti reykelsisilmur,
er lagði upp úr mörgum glæsilegum gullkerum. Sá hann þá hvar
friðill hinnar grimmu og fláráðu fordæðu lá í rúmi einu; gekk hann
þangað og drap hann í einu höggi með sverði sínu. En líkið dró hann
út í hallargarðinn og fleygði því niður í brunn. Þegar soldán var búinn
að þessu, lagðist hann niður í rúmið í stað friðilsins, faldi sverðið hjá
sér undir ábreiðunni og beið svo þess, er að hendi kæmi.
[1144.png]
Fordæðan kom um sama leyti og vant var til hins unga konungs
yfir svörtu eyjunum, færði hann úr fötunum og lamdi hann hundrað
högg með óheyrilegri grimmd. Tók undir í höllinni af hljóðum hans og
veini, en það kom fyrir ekki; hann grátbændi hana: „Hættu, ég er nógu
hart leikinn áður. Hafðu miskunnsemi með mér!“ En grimmdarnornin
hlífði honum ekki við einu höggi og svaraði: „Sýndirðu mér þá miskunnsemi
og kenndir þú í brjósti um elskhuga minn? Þú skalt ekki heldur
vænta þér neinnar vægðar af mér.“
44. NÓTT. „Þegar drottning hafði lamið hinn unga konung yfir
svörtu eyjunum hundrað högg, færði hún hann aftur í hárklæðið og
hina gullsaumuðu yfirhöfn. Síðan fór hún til Tárahallarinnar með mat
á disk og bikar fullan af einhverjum drykk, er hún hafði byrlað; gekk
hún þar inn grátandi og kveinandi og æpti hástöfum: „Ó, þú elskhugi
minn, svaraðu mér, talaðu við mig;“ síðan gekk hún að hvílunni, því
hún vissi ekki betur en að friðill hennar væri þar, mælti hún þá þessi
orð skáldsins:
/#
Nær mun linna harma hríð
og hryggðar slökkvast eldur?
Helzt til sárt er sálarstríð,
sem að ástin veldur.
#/
Því næst mælti hún þannig við friðilinn, sem hún hélt að væri þar:
„Ó, þú ljós mitt og líf mitt, ætlarðu eilíflega að þegja svona? Á ég að
skiljast svo við, að ég ekki heyri þau huggunarorð af vörum þínum,
að þú elskir mig? Hjartað mitt! Segðu eitt orð, ég sárbæni þig!“
Þá lét soldán eins og hann raknaði af dauðadái og mælti með annarlegum
málróm: „Hvergi er vald né máttur, nema hjá guði einum,
hinum allsvaldanda!“ Fordæðan rak upp gleðióp, er hún heyrði þessi
orð, sem hún átti sízt von á, og réði sér varla fyrir kæti. „Elskulegi unnusti
minn,“ mælti hún, „er þetta ekki hugarburður? Heyrði ég þig
tala?“ Svaraði þá soldán í hálfum hljóðum: „Óláns kona, ert þú svara
verð af mér?“ „Því máttu ámæla mér svo?“ segir drottning. „Af því þú
kvelur mann þinn sífelldlega,“ anzaði hann, „svo að ég get ekki sofið
fyrir hljóðum hans. Mundi ég vera heill heilsu fyrir löngu, ef þú hefðir
leyst hann úr álögum. Fyrir þá sök var mér varnað að mæla.“ „Ó, ef
það getur orðið þér að liði,“ anzaði flagðið, „þá skal ég gefa honum
aftur sína réttu mynd, viljir þú svo vera láta.“ „Gerðu það,“ mælti
soldán,“ gefðu honum sem fljótast frelsi, svo að óp og vein hans ónáði
mig ekki framar.“
„Ég heyri og hlýði,“ svaraði flagðið og gekk undir eins til hins
unga konungs yfir svörtu eyjunum, tók fulla vatnsskál, las yfir henni
galdraþulur og sagði síðan í því hún stökkti á hann vatninu: „Sértu
skapaður í þeirri mynd, sem þú nú hefur, eða ef þú ert orðinn fyrir
reiði hins hæsta, þá vertu sem þú ert, en hafirðu breytzt í þetta líki
sakir minna töfra, þá verðirðu aftur sem þú verið hefur!“ Og að vörmu
spori stóð hinn ungi konungur upp og kallaði, lofandi guð og vegsamandi:
„Enginn er guð nema guð og Mahómet er spámaður hans.“
Síðan mælti flagðið: „Snáfaðu héðan burt, og komdu aldrei aftur, eða
ég drep þig.“
Varð hinn ungi konungur þá að hafa sig á burt, en faldi sig nálægt,
til þess að sjá, hvernig síðan færi. Fordæðan gekk aftur til Tárahallarinnar
og sagði friðlinum, sem hún hugði vera, að ósk hans væri uppfyllt,
og stæði nú ekkert fyrir heilsubata hans. En soldán svaraði eins og
áður: „Hvað hefurðu gert? Þú hefur frelsað mig frá minnstu af því, sem
veldur eymdum mínum.“ „Elskan mín góð! Hvað áttu við?“ spurði
hún á ný og soldán svaraði: „Óláns kona, skilurðu það ekki, að ég á
við fjórar eyjarnar, borgina og íbúa hennar? Á hverri nótt um miðnætti
teygja fiskarnir höfuðin upp úr vatninu og biðja okkur báðum
hefndar. Fyrir þá sök færist aflið ekki aftur í limi mína. Farðu því til,
og settu allt aftur í sitt fyrra lag; komdu síðan aftur og réttu mér hönd
þína, að þú megir reisa mig á fætur úr hvílu þessari.“ Þegar fordæðan
heyrði þetta, varð hún stórglöð, því hún vissi ekki betur en að hún
ætti tal við friðil sinn, og mælti: „Drottinn minn og líf mitt, í guðs
nafni þá!“ Flýtti hún sér að vatninu, jós því upp með hendinni, tautaði
yfir því töfraþulur og stökkti því allt umhverfis.“
45. NÓTT. „Þegar galdranornin hafði stökkt vatninu umhverfis,
stóð borgin allt í einu, þar sem vatnið hafði verið; fiskarnir urðu að
körlum, konum og börnum, frjálsum og ánauðugum, Mahómets mönnum,
eldsdýrkendum, kristnum og Gyðingum; hús og sölubúðir fylltust
íbúum og eigendum og var þar allt eins og á undan töfrunum. Hið
fjölmenna föruneyti soldáns féll öldungis í stafi, þegar það sá allt í
einu kringum sig fagra og fjölmenna borg, því rétt áður hafði það
legið þar í tjöldum á víðum völlum. Fjórir hólarnir urðu líka aftur
að fjórum eyjum.
Galdranornin gekk nú í mesta flýti til friðilsins, sem hún hélt vera,
inn í Tárahöllina og kallaði upp fagnandi í því hún kom inn: „Elskulegi
maður minn! Réttu mér nú hönd þína, vilja þínum er framgengt
orðið.“ „Komdu nær,“ anzaði soldán, „betur nær“, og greip hið biturlega
sverð, er hann hafði hjá sér undir ábreiðunni. En er hún var
komin rétt að honum, spratt hann upp eins og elding, þreif um handlegg
hennar og hjó hana sundur í tvo hluti, áður en hún gat áttað sig.
Síðan fór hann og leitaði upp hinn unga konung svörtu eyjanna, er
beið hans með óþolinmæði; samfagnaði hann honum, að hann nú væri
óhultur framvegis. Hinn ungi konungur þakkaði honum og kyssti á
hönd hans, en soldán spurði hann, hvort hann vildi heldur vera þar
um kyrrt í sinni eigin borg, eða verða sér samferða til aðsetursborgar
sinnar sem væri þar í nánd; skyldi hann vera sér kær gestur. Anzaði þá
hinn: „Voldugi soldáni Vitið þér þá hvað langt er til aðseturs yðar?“
„Hálf þriðja dagleið,“ segir soldán, en ungi konungurinn mælti: „Þér
eigið árlanga ferð fyrir hendi áður en þér náið þangað, og því aðeins
komust þér hingað svo fljótt, að álögin voru. En það skuluð þér vita,
soldán, að ég aldrei framar mun skilja við yður.“ Undraðist soldán,
að hann skyldi vera svo fjarkominn ríki sínu, en þótti vænt um vinmæli
hins unga konungs og segir: „Hirðum eigi hót, lofaður sé guð, að
hann hefur fulllaunað langferð mína, þar sem hann lét fundum okkar
bera saman og mér þannig verða sonar auðið. Því fyrst að þér viljið
fara með mér og ég er barnlaus maður, þá tek ég mér yður í sonar
stað, og nefni yður til erfingja að ríki mínu.“ Föðmuðust konungarnir
síðan með blíðu; en eftir það bjóst konungur svörtu eyjanna til ferðar
og var tilbúinn að þrem vikum liðnum. Var hirðmönnum hans og þegnum
mikil raun, að sjá hann fara burt; en hann setti einn nákominn
frænda sinn til konungs yfir þá í sinn stað.
Með soldáni og konungi svörtu eyjanna fóru hundrað úlfaldar
klyfjaðir auðæfum og gersemum úr féhirzlu hans; hafði hann og með sér
fimmtíu veltygjaða riddara. Gekk þeim ferðin vel og náðu þeir loksins
í námunda þangað, sem förinni var heitið, til höfuðborgar soldáns;
hafði hann sent boðbera á undan sér og þeir borið tíðindi af ævintýrum
hans og heimkomu. Æðstu embættismenn komu til móts við hann og
sögðu honum, að hin langvinna fjarvera hans hefði alls engu raskað
né breytt í ríki hans. Allur landslýður streymdi á móti honum, tók við
honum með mesta fögnuði, og hélt honum veizlu, er stóð yfir í marga
daga.
Morguninn eftir að soldán var heim kominn, stefndi hann hirðinni
saman og skýrði greinilega frá, hver fádæmi hefðu því valdið, að
burtvera hans dróst svo lengi. Síðan gerði hann heyrum kunnugt, að
hann hefði tekið sér í sonar stað konung svörtu eyjanna, sem fúslega
hefði sleppt miklu ríki, til þess að fylgja sér. Gaf hann öllum þjónum
sínum góðar gjafir, hverjum eftir sinni virðingu, og launaði þeim þannig
trúleika sinn; skipaði hann vezír sínum, að kalla á fiskimanninn, sem
hafði komið með hina kynlegu fiska, og á þann hátt orðið frumkvöðull
þess, að konungurinn, borgin og þegnar hans leystust úr álögum.
Honum gaf soldán tignarklæði og er hann heyrði, að hann ætti einn
son og tvær dætur, tók soldán aðra dótturina og ungi konungurinn hina
í tölu hjákvenna sinna, en fiskimanni gáfu þeir svo miklar gjafir, að
hann varð einhver hinn vellríkasti maður á sinni öld, og dætur hans
voru konur þeirra konunganna allt til dauðadags.“
Þannig lauk sögunni af fiskimanninum og andanum, og lét Dínarsade
í ljósi við systur sína, hvílík unun og inndæli sér hefði verið að
hlýða á hana. En er Sjarjar lauk upp sama munni, kvaðst drottning
kunna aðra sögu, sem hún skyldi ábyrgjast, að væri fallegri, og sagðist
mundu segja hana næsta morgun, ef soldán leyfði, því nú væri farið
að birta af degi.
[1148.png]
[1149.png]
Sagan af daglaunamanninum, hinum fimm konum í Bagdad, og hinum þremur konungbornu munkum
46. NÓTT. „Herra! Í þann tíma, sem Kalífinn Harún Alrasjid sat
á völdum, bjó í Bagdad, aðseturstað hans, daglaunamaður einn, sem
var séður og slóttugur karl, þó iðn hans væri auðvirðileg og lítils
háttar. Það var einhvern morgun, að hann gekk út með burðarkörfina
sína og staðnæmdist á torginu, þar sem hann var vanur, og beið þess, að
einhver beiddi sig handtaks, þá kom til hans yngiskona, prýðilega vaxin,
með nettludúks blæju fyrir andliti, og kallaði til hans vinalega: „Heyrðu,
karl! Taktu körfina þína og gakktu með mér.“
Daglaunamaðurinn varð glaður við, er konan kastaði svo blíðlega
kveðju á hann, og lét hann körfina jafnskjótt upp á höfuð sér og gekk á
eftir henni, og mælti þetta fyrir munni sér: „Láns dagur, blessaður dagur,
að okkar fundum bar saman!“
Konan leiddi hann að luktum dyrum á húsi einu og kvaddi dyra.
Var þeim jafnskjótt lokið upp og kom út æruverðugur kristinn maður
með sítt skegg; fékk hún honum peninga en sagði ekki orð. Hann hefur
vitað, hvað hún vildi, því hann gekk burt og kom undir eins aftur með
brúsa fullan af ágætasta víni. Skipaði konan daglaunamanninum að láta
brúsann niður í körfina og fara með sér.
„Það veit hamingjan, að þetta er blessaður dagur,” mælti daglaunamaðurinn,
lét körfina með brúsanum í upp á höfuð sér og fylgdi konunni
til aldina- og blómakaupmanns. Valdi hún þar handa sér alls konar
epli, apríkósur, lemónur, myrtus, basilíkum, liljur og jasmínur auk fleiri
blóma og ilmjurta, skipaði daglaunamanninum að láta það í körfina og fylgja sér.
[1150.png]
Síðan gekk hún til slátrara nokkurs og lét hann vega sér út
tuttugu og fimm pund af hinu bezta kjöti, sem hann hafði til, og skipaði
hún daglaunamanninum að láta það í körfina líka. Í annarri sölubúð
keypti hún keisarasalat, litla agúrka og kryddjurtir, súrsaðar í ediki.
Í ennþá einni stórar og smáar hnetur, pinjur, möndla og þess konar
ávexti; möndlabrauð keypti hún og hjá kryddbakara einum.
Þegar daglaunamaðurinn sá að körfin smámsaman fylltist af öllu
þessu dóti, segir hann: „Frú mín! Hefðuð þér látið mig vita fyrir fram
að þér ætluðuð að draga svona til búsins, þá hefði ég tekið með mér
áburðarklár eða úlfalda og klyfjað þá. Ef þér kaupið meira, þá held ég
verði ofhlaðið á bakið á mér.“ Konan brosti að glensi hans, en skipaði
honum enn þá einu sinni, að fylgja sér til kryddara nokkurs; tók hún
þar út í búðinni alls konar ilmandi vatn, pipar, múskat, negulnagla, engifer,
stóran mola af grárri ambra og ýmsar indverskar kryddjurtir. Varð
þetta allt að fara ofan í körfina daglaunamannsins og fór konan nú með
hann að einu skrautlegu húsi; var það að framanverðu byggt á súlum og
á því fílabeinshurð. Þar drap konan hægt á dyr....
47. NÓTT. Meðan yngiskonan og daglaunamaðurinn biðu þess að
upp væri lokið, stóð hann hugsandi og var að brjóta heilann út af þessu.
Hann furðaði sig á, að önnur eins kona færi sjálf til slíkra kaupa, því
ekki gat hann trúað því, að hún væri ambátt. Hún bar of mikla fyrirkvensku
í yfirbragði sínu til þess, að hann gæti leitt sér í grun, að hún
væri ófrjáls og ættsmá. Ætlaði hann að spyrja hana um þetta, en í því
bili lauk önnur kona upp dyrunum. Þótti daglaunamanninum hún svo
yfirtaks fögur, að við sjálft lá, að hann missti körfina niður með öllu, sem
í henni var. Hafði hann aldrei séð svo fríða konu á ævi sinni, að í nokkurn
samjöfnuð kæmist við þessa, og kallaði hann því upp: „Þetta er sá mesti
heilladagur, sem ég hef lifað á ævi minni.“
Konan, sem hafði farið með hann þangað, sá hvað hann hugsaði
og skildi hann undir eins. Þótti henni gaman að og horfði framan í daglaunamanninn
með grandgæfilegri eftirtekt og tók ekki eftir kveðjunni,
þegar dyrunum var upp lokið. Hin fagra kona, sem upp lauk, minnti
hana á það og mælti: „Ætlarðu ekki að koma, elsku systir, hvað dvelur
þig? Sérðu ekki að manntetrið kemst varla úr sporunum með byrðina?“
Þegar hún var komin inn með daglaunamanninum, var dyrunum
lokað og gengu þau þrjú saman gegnum fagurt anddyri inn í víðan hallargarð,
og voru þar opnar loftsvalir; var þaðan innangengt til margra
skrautlegra herbergja. Lengst inni í garðinum var glæsilegur legubekkur
og upp af honum miðjum hástóll úr rafi, sem stóð á fjórum fílabeinssúlum;
var hann skreyttur undurstórum perlum og demöntum og breitt
yfir hárautt indverskt þykksilki, fagurlega gullsaumað. Í miðjum garðinum
var þró með hvítri marmara umgjörð, og yfir koparljón, logagyllt;
gaus upp úr gini þess hið tærasta vatn og féll niður í þróna. Svo erfitt
sem daglaunamanninum gerðist undir byrðinni, var honum ómögulegt
annað en að dást að skrautleika húss þessa og þrifnaði þeim, sem lýsti
sér þar í öllu. Þó varð honum öllu fremur starsýnt á hina þriðju konu,
er sat í hásætinu og þótti honum hún enn þá fríðari en önnur konan.
Þegar hún sá báðar hinar konurnar, sté hún niður úr sæti sínu og gekk
á móti þeim. Réði hann það af lotningu þeirri, er þær sýndu henni, að
hún mundi tignust vera, enda fór hann ekki villt í því. Hún hét Sobeide,
sú, sem mest hafði keypt, hét Amíne og sú, sem upp lauk, hét Safíe.
„Elsku systur mínar!“ tók Sobeide til máls, „sjáið þið ekki, að mannskepnan
ætlar að hníga niður undir byrðinni? Eftir hverju eruð þið að
bíða, að þið skulið ekki létta á honum?“ Því næst tóku þær Amíne og
Safíe körfina, önnur að aftan, en hin að framan, og Sobeide tók líka
hendi til og hjálpaði þeim til að taka hana ofan af daglaunamanninum
og setja hana niður. Síðan tóku þær allt úr henni og að því búnu borgaði
Amíne honum ríkmannlega og mælti um leið: „Nú máttu fara!“
Daglaunamaðurinn hefði nú átt að fara með körfina sína, en hann gat
ekki fengið það af sér. Hann stóð í sömu sporum, hallaðist upp við körfina
og undraðist fegurð hinna þriggja kvenna, sem honum þóttu allar
jafn yndislegar að líta, því Amíne hafði líka tekið af sér blæjuna og stóð
alls ekki á baki hinna. Því skildi hann ekkert í, að hann sá þar engan
karlmann; hæfðu þó mestöll matföngin, sem hann hafði borið, þeim,
sem ætluðu að drekka og vera glaðir, að minnsta kosti þurrkuðu ávextirnir,
kræsikökurnar og súrsuðu réttirnir.
Sobeide hélt í fyrstunni að daglaunamaðurinn ætlaði að kasta mæðinni
ofurlitla stund, en er hún sá að hann aldrei ætlaði að fara, spurði
hún hann: „Eftir hverju ertu að bíða?“
48. NÓTT. „Herra!“ tók Sjerasade til máls, „þegar nú daglaunamaðurinn
hýmdi þarna grafkyrr, spurði Sobeide hann, eftir hverju hann
væri að bíða og mælti enn fremur: „Þótti þér illa borgað?“ Síðan veik
hún sér að Amine og segir: „Elsku systir! Gefðu manninum eitthvað
svo hann fari glaður í burt.“ „Frú mín!“ anzaði daglaunamaðurinn, „annað
er það, sem mig dvelur; verk mitt er marg- margborgað. Það er sjálfsagt
ósiður af mér, að vera hér lengur, en þið væruð samt aldrei nema
vísar til að virða mér til vorkunnar, þó ég yrði hlessa á því, að sjá þrjár
konur karlmannslausar, sem eru svo ljómandi fallegar. Kvenfólkið á eins
bágt með að skemmta sér án karlmanna, eins og karlmennirnir án kvenfólksins.
Þið vitið, að turn stendur ekki fastur nema á fjórum múrum,
og það segja þeir hérna í Bagdad, að illa sé etið, ef ekki eru fjórir. Þið
eruð ekki nema þrjár, og vantar fjórða mann, eftirlitsmann og launhygginn,
sem gæti haldið því, sem að honum væri skotið.“ Síðan fór hann með
þessar vísur:
/#
„Fegurst veit ég fernan óm
að fegins glaumi kalla:
pípna, gígna, hörpu hljóm
og hreiminn fiðlu snjalla.
Fernan ilm þar eftir kjós
unaðsætan fanga:
lifku,[* Svo nefni ég ilmjurtina „Levkoj“ (mathiola].] myrtus, lilju, rós,
ljúft, sem vitum anga.
Fernt má njóta sælast sín,
ef saman hinu tengist:
auður, æska, ást og vín,
ó, að það jafnan fengist!“
#/
Þær systur hlógu dátt að ræðu daglaunamannsins, en síðan tók Sobeide
til máls og gerði sig alvörugefna á svipinn. „Ljúfurinn minn! Mér
þykir þú gera þér heldur dælt við okkur. En þú skalt ekki gjalda þess
og þó þú sért þess ómaklegur, að ég fari að gefa mig á tal við þig og
gera þér grein á nokkru, skal ég allt fyrir það segja þér, að við erum
systur, og förum svo huldu höfði, að enginn maður veit um okkar hagi.
Því meiri varhyggð verðum við að gjalda við, að gera það uppskátt
fyrir þeim, sem yfir engu geta þagað, og svo segir í góðri bók, sem
við höfum lesið: „Yfir leyndarmáli þínu skaltu þegja, og engum segja,
því sá glatar því, sem gerir það uppskátt. Getir þú ekki geymt það í
þínu eigin hjarta, hversu máttu þá ætlast til þess af öðrum?“
„Það veit heilög hamingjan!“ segir daglaunamaðurinn, „mér kom
þetta undir eins í hug, að þið munduð vera mikillátar, og ég hef getið
rétt til. Þó forlögin hafi aldrei látið mér auðnast að komast hærra en
að vera það, sem ég er, þá er ég samt skynugur og áreiðanlegur maður.
Ég hef reynt að nema allan fróðleik, sem mér var unnt, af fræðibókum
og sagnaritum og kann ég deili á, hvað segja skal og hverju skal þegja
yfir. Nú ætla ég með ykkar leyfi að tilfæra grein úr einni bók, sem ég
hef lesið; hefur sú grein ætíð verið mér föst í minni: „Geymdu launungarmál
þitt fyrir þeim, sem er frekur og framgjarn; hann mundi illa
með fara; vitrum manni skaltu óhræddur trúa fyrir því; hann getur
varðveitt það. Hjá mér eru leyndarmál læst niður, eins og í lokuðu
húsi með innsigluðum dyrum, sem lykillinn er týndur að.“
Sobeide þóttist af öllu mega ráða, að daglaunamanninum væri
ekki vits vant, og mundi hann feginn vilja vera gestur við máltíð þá,
er þær ætluðu að halda; segir hún því við hann brosandi: „Þú veizt að
við höfum töluverðu kostað til máltíðarinnar; það væri því ósanngjarnt
að þú skyldir njóta hennar og ekkert til gjalda.“
Safie var því samdóma og mælti: „Góðurinn minn, félaus vinátta
er léttari en sandkorn. Hefurðu ekki heyrt þetta: „Komirðu með nokkuð,
þá ertu nokkurs verður; komirðu tómhentur, þá farðu tómhentur.“
Þó að daglaunamaðurinn hefði lipurt tungutak, mundi hann þó að
lokum hafa orðið að hypja sig burt með kinnroða, hefði Amíne ekki
skorizt í leikinn fyrir hans hönd. „Elsku systur!“ tók hún til máls,
„ég sárbæni ykkur, lofið þið honum að vera hjá okkur. Ég þarf ekki að
segja ykkur, að við munum hafa skemmtun af honum, því þið hafið
sjálfar tekið eftir því, að hann vantar ekki gáfur til þess. Það megið þið
vita, að mér hefði verið ómögulegt að annast svo margt á jafnstuttum
tíma, hefði hann ekki komið mér að haldi með góðvilja sínum, lipurleika
og kröftum. Segði ég ykkur alla þá kurteisi og öll þau fagurmæli,
sem hann lét mig heyra á leiðinni, þá munduð þið ekki undrast, að
ég dreg hans taum. Ég skal því taka að mér að greiða hans tillag til
máltíðarinnar.“
Hinar systurnar svöruðu þessu: „Gott og vel, tylltu þér þá niður
og vertu velkominn!“
Daglaunamaðurinn varð frá sér numinn af þessum orðum Amíne,
féll á kné, kyssti gólfið frammi fyrir fótum hennar og mælti í því hann
stóð upp: „Yndislega kona, í dag létuð þér lán mitt uppbyrjast og nú
fullkomnið þér það með göfuglyndi yðar. Ég get ekki nógsamlega þakkað
yður fyrir það,“ mælti hann ennfremur og veik sér að hinum systrunum:
„Þið skuluð ekki ætla, að ég muni illa fara með þann mikla
sóma, sem mér er sýndur og þykist ég sjálfur enga verðleika eiga til
hans. Ég skal ætíð virða mér til sæmdar að vera ykkur auðmjúkasti
þræll.“ Síðan ætlaði hann að fá þeim aftur fé það, er hann hafði þegið,
en hin alvörugefna Sobeide sagði honum, að hann skyldi eiga það og
mælti: „Það, sem við einu sinni höfum látið af hendi fyrir gerðan greiða,
á ekki afturkvæmt til okkar“....
Dínarsade sárnaði mjög að morgunbirtan skein, þegar þangað var
komið sögunni. Varð Sjerasade þá að hætta.
[1155.png: Daglaunamaðurinn kyssti gólfið fyrir fótum hennar]
49. NÓTT. Undir eins og drottning var beðin framhalds á sögunni,
er hún hafði hætt við nóttina áður, tók hún þannig til frásagnar
á þessari nótt:
„Herra! Sobeide drap hendi við fénu, sem daglaunamaðurinn ætlaði
að fá henni aftur og mælti á þessa leið: „En gættu þess, kunningi, að
vér leyfum þér því að eins að vera hjá okkur, að þú bæði þegir yfir
öllu, og gætir vandlega allrar siðsemdar og kurteisi.“
Í því hin yndislega Amíne mælti þannig, tók hún af sér möttulinn,
er hún hafði farið í, þá er hún gekk út. Stytti hún klæði sín upp um sig
með beltinu, svo að henni væri léttara um allar hreyfingar og bjó hún
síðan til borðs. Bar hún fram ýmsa rétti og setti vínflöskur og gullbikara
fram á drykkjarborð. Síðan settust þær systur til borðs og buðu
daglaunamanninum að setjast hjá sér og réði hann sér varla fyrir fögnuði,
að sjá þrjár konur svo fallegar andspænis á móti sér. Tók þá
Amíne flösku og bikar, hellti á og drakk út eftir serkneskum sið; síðan
hellti hún á fyrir systur sínar eftir röð, og drukku þær sömuleiðis
og skenktu á sama bikarinn og réttu daglaunamanninum. Í því hann
tók við bikarnum kyssti hann á hönd Amine, og áður en hann drakk,
hafði hann vísu þessa yfir:
/#
„Sæl eins og sumargola,
sunnan of liljur runnin,
dreifist ilmhlaðin yfir,
angandi ljúft um vanga,
kýs ég mér svo hið svása,
sætar gómsker væti
vín, er sætt fram settu,
sundbáls lilju mundir.“
#/
Hendu systurnar gaman að þessu; síðan sungu þær og af víndrykkjunni
gerðist samsætið glaðara og glaðara og nokkuð glensmikið. Konurnar
slepptu sér öldungis í kætinni, eins og enginn karlmaður væri viðstaddur
og gekk það, sem eftir var dagsins, í gleði og gamni. En er komið
var undir nótt sagði Safie loksins við daglaunamanninn: „Farðu nú, og
láttu okkur sjá á bakið á þér, eins og það er breitt til.“
Það gat daglaunamaðurinn ekki fengið af sér og svaraði: „Nei, fallegu
systur! Mér mundi sannarlega verða léttara um viðskilnað sálar við
líkama en að fara frá ykkur. Hvert ætti ég þá að fara svo sem ég er til
reika? Ég er öldungis af göflum genginn bæði af víndrykkjunni og af
því að sjá ykkur, og mér mundi þykja óverandi á heimili mínu. Lofið
mér að vera hérna í nótt, svo að ég geti komið til sjálfs mín; ég skal
vera hvar sem þið viljið. En svo mikils tíma þarf ég að minnsta kosti
til þess, að komast í samt lag aftur. Og þó er ég hræddur um, að það
verði eftir af mér, sem bezt er.“
Amíne tók daglaunamanninn að sér í þetta sinn eins og fyrr og
mælti: „Elsku systur! Maðurinn hefur rétt að mæla, og hlýt ég að leggja
til með honum. Hann hefur skemmt okkur prýðilega, og ef ykkur
er nokkuð hlýtt til mín, og þið unnið mér, sem ég ætla, þá skulum við
hafa hann hjá okkur í kvöld.“ „Þér getum við ekkert á móti látið,“
sagði Sobeide og sneri sér síðan að daglaunamanninum og mælti: „Vér
auðsýnum þér líka þessa náð, en setjum þenna skilmála um leið: að
hvað sem hér kann fyrir þig að bera, að okkur eða öðrum nærstöddum,
þá máttu ekki einu sinni ljúka munni sundur til þess að spyrja okkur
um orsakir. Því ef þú ber upp fyrir okkur spurningar um það sem þig
varðar ekki um, þá kynnir þú að fá það að heyra, sem þér gætist ekki að.
Vertu því forsjáll og láttu þér ekki í hug koma, að vera forvitinn og reyna
að komast fyrir, hvernig á því stendur, sem við gerum.“
Daglaunamaðurinn svaraði: „Því lofa ég ykkur, að gæta þessa skilyrðis
svo samvizkusamlega, að þið hafið enga ástæðu til að átelja mig, og
enn síður til að áminna mig fyrir ókurteisi. Tunga mín skal vera stirð
sem tré og augu mín skulu vera skuggsjá, sem ekkert verður eftir í af
því, er hún speglar.“
„Svo þú gangir úr skugga um það,“ tók Sobeide til máls með mikilli
alvörugefni, „að þetta er ekki nýtt uppátæki, að við krefjumst þessa af
þér, þá stattu upp og lestu það, sem skrifað er þarna að innanverðu yfir
dyrunum.“ Daglaunamaðurinn gerði það og las þar þessi orð skrifuð
með gullletri: „Talaðu ekki um það, sem þig varðar ekki um, ella heyrirðu
það, sem þér illa líkar.“ Þegar hann kom aftur til systranna mælti
hann: „Ég vinn þess dýrstan eið, að þið skuluð ekkert það til mín heyra,
sem mig skiptir engu og ykkur kann að snerta.“
Nú sem þau höfðu komið sér saman um þetta, bar Amíne kvöldverð á
borð. Salurinn var lýstur mörgum ljósum; loguðu þau af olíu og reykelsi
og sendu frá sér sætan ilm; síðan settust þær systur til borðs með daglaunamanninum.
Var þá tekið á ný til matar og drykkjar, söngs og kvæðalesturs,
og systurnar lögðust á eitt, að drekka daglaunamanninn undir
borð, og gerðu það undir því yfirvarpi, að láta hann drekka minni þeirra.
Ekki vantaði heldur skrítnar og gamansamar ræður, og léku þau öll við
hvern sinn fingur; en í því var drepið á dyr að utan....
50. NÓTT. Þegar drepið var á dyr, stóðu allar þrjár systurnar upp.
En Safie, sem hafði þá sýslu, að gæta dyranna, varð fyrst og biðu því hinar
þangað til hún kæmi aftur og segði, hver erindi ætti á þeirra fund svo
seint á degi. Leið ekki á löngu áður Safie kom aftur og sagði: „Elsku
systur! Nú gefst bezta tækifæri til að hafa ágæta skemmtun nokkurn hlut
næturinnar, og ef ég má ráða, þá skulum við ekki sitja það af okkur. Hér
eru þrír munkar fyrir dyrum — að minnsta kosti ræð ég það af búningi
þeirra — og það mun ykkur þykja kynlegt, að þeir eru allir blindir á
hægra auga og hafa rakað af sér hár, skegg og augabrúnir. Segjast þeir vera
[1158.png]
rétt nýkomnir til Bagdad, og aldrei hafa komið hér áður. En af því nú
er komin nótt og þeir áttu sér engan náttstað vísan, þá börðu þeir að
dyrum hjá okkur upp á von og óvon, og biðja þeir okkur fyrir guðs sakir,
að gera það miskunnarverk, að taka við sér. Þeim stendur á sama, hvar
við hýsum þá, ef þeir að eins hafa þak yfir höfði, og mundu þeir verða
guðsfegnir að liggja í hesthúsi. Annars eru þeir ungir og ekki ljótir;
þeir munu ekki heldur vera skyni skroppnir; en ekki get ég að mér gert,
að hlæja þegar ég hugsa til þess, hvað undarlega og afkáralega þeir líta
út.“ Þá setti svo mikinn hlátur að Safie, að hún kom ekki upp orði, en
hinar systurnar og daglaunamaðurinn hlógu ósjálfrátt með henni.
„Systur sælar!“ tók Safie aftur til orða, „viljið þið ekki lofa þeim að
koma inn? Þegar við höfum hjá okkur slíka gesti, getum við endað daginn
betur en við byrjuðum hann. Við munum hafa af þeim mestu
skemmtun og ekki verða leiðar á þeim, því þeir beiðast ekki gistingar,
nema þessa nótt, og munu fara af stað fyrir sólaruppkomu.“
Sobeide og Amíne töldu tormerki á beiðni Safie og vissi hún vel, hvað
þeim gekk til; en hún lagði svo fast að þeim, að þær gátu ekki synjað
henni. „Það er þá bezt þeir komi inn,“ mælti Sobeide loksins, „en
gleymdu ekki fyrir alla muni, að leggja ríkt á við þá, að þeir ekki tali um
hluti, sem þá varðar ekki um, og að þeir lesi letrið yfir dyrunum.“
Safie fór nú ánægð til dyra og kom skjótt aftur með þrjá förumunkana;
hneigðu þeir sig djúpt þegar þeir gengu inn. Þeir staðnæmdust
frammi við dyr eins og er siður húsganga, en konurnar stóðu upp, báðu
þá velkomna með blíðu, og sögðu sér væri sönn gleði að því, að sér gæfist
færi á að greiða fyrir þeim og hressa þá eftir ferðahrakningana, og buðu
þær þeim að setjast niður. Förumunkunum fannst mikið um viðhöfn húsakynna
og hina göfuglegu látprýði þeirra systra. En áður en þeir settust
niður, ráku þeir augun í daglaunamanninn, og af því hann var líkt búinn
og sumir aðrir förumunkar, sem þeir áttu í deilum við um ýmsar
félagsreglur, af því þeir rökuðu hvorki skegg né augabrúnir, þá segir einn:
„Nei, sjáið, þarna er einn af hinum vantrúuðu arabisku munkum!“
Vínið var farið að svífa á daglaunamanninn og var hann hálfsofandi;
reiddist hann þegar þannig var talað til hans, horfði til þeirra ógnandi
augum og mælti: „Setjist þið niður og skiptið ykkur ekki um það, sem
ykkur varðar ekki um. Hafið þið ekki lesið letrið yfir dyrunum? Verið þið
ekki svo djarfir, að vilja þröngva öðrum til ykkar lífernishátta, heldur
lagið ykkur eftir okkar siðum.“
„Ljúfurinn minn,“ anzaði förumunkurinn, sem hafði móðgað hann
„verið ekki of bráður; okkur þætti sárillt að hafa valdið því á nokkurn
hátt. Þvert á móti erum vér boðnir og búnir til hvers, sem vera skal fyrir
yður.“ Gengu konurnar í milli og komu í veg fyrir alla þrætu, sem hefði
getað risið út af orðaþrasi þessu, og er förumunkarnir voru setztir niður,
var matur borinn á borð fyrir þá. Æringinn hún Safie lét sér einkum
annt um, að skenkja þeim óspart vín....“
51. NÓTT. „Þegar förumunkarnir höfðu snætt eins og þeir höfðu lyst
á og drukkið stinnt, tók daglaunamaðurinn til orða: „Heyrið, góðir hálsar,
kunnið þið ekki einhverja kynjafulla sögu, eða eitthvað þess konar
til að skemmta okkur?“
Vínið var nú þegar farið að svífa á förumunkana. Kváðust þeir gjarna
vilja leika saman á hljóðfæri, ef þar væru söngtól fyrir hendi. Systurnar
tóku fegnar þessu boði og Safie sótti óðara fiðlu, bjöllubumbu og persneska
hörpu. Tók sinn förumunkur hvert söngfæri og léku þeir saman
vísnalag. Kunnu þær systur vísurnar; það voru gamanvísur og sungu þær
undir með hljóðfærunum. En öðru hverju hlógu þær upp úr að orðunum,
svo að söngurinn hætti í miðju kafi, og var hin mesta gleði og glaumur í
samsæti þessu, en í því var drepið á dyr. Safie hætti undir eins að syngja
og gekk út til að sjá, hvað um væri að vera.“
Á þessum stað í sögunni veik Sjerasade sér að Sjarjar svo mælandi:
„Það væri ekki fjarri, að yðar hátign fengi að vita, hvers vegna svo seint
var barið á dyr hjá þeim systrum. En því veik svo við, að kalífinn Harún
Alrasjid fór oft út um nætur í dularbúningi, til þess að komast eftir,
hvort allt væri kyrrt í borginni og engin óregla hefðist að. Á þessari nótt
hafði hann nú í sama skyni tekið á sig dularbúning; fylgdu honum þeir
Gíafar, stórvezír, og Mesrúr, höfuðsmaður geldinganna. Voru þeir allir
búnir sem kaupmenn. Þegar þeir gengu gegnum strætið, þar sem systurnar
bjuggu, og heyrðu hljóðfærasláttinn, sönginn og hlátrana, mælti
kalífinn við Gíafar: „Berðu að dyrum á þessu húsi, sem hávaðinn og
glaumurinn er í; ég ætla að bregða mér þar inn og spyrja, hvernig á því
standi.“
Vezírinn leiddi honum fyrir sjónir, að þetta væru konur, sem gerðu
að gamni sínu og væru líklega orðnar góðglaðar af víni; væri ekki vert
að eiga undir þeim, þær kynnu að sýna af sér einhverja meingjörð, enda
væri þetta ótilhlýðilegur tími, og ætti ekki að glepja fyrir þeim skemmtun
þeirra, en kalífinn ítrekaði skipun sína allt fyrir það. „Hugsaðu um
það,“ mælti hann, „hvað við eigum að bera fyrir okkur, svo að okkur
verði lofað inn.“ „Ég heyri og hlýði,“ segir Gíafar, og það var því hann,
sem barði að dyrum hjá þeim systrum. Þegar Safie lauk upp, sá vezírinn
undir eins við ljósbirtuna að innan, að konan var forkunnar fögur;
hneigði hann sig djúpt og mælti með lotningarfullri kurteisi: „Lafði mín!
Hér erum við komnir, þrír kaupmenn frá Mússúl; eru tíu dagar síðan
við komum til Bagdad, og komum við varnings farangri okkur fyrir til
geymslu í einu gestaherbergi. En í dag vorum við boðnir til kaupmanns
nokkurs í veizlu; sátum við lengi saman yfir víndrykkju og villtumst á
leiðinni heim til herbergis vors í myrkrinu. Líklega er nú þegar búið
að loka þar, og verður þá fyrst lokið upp snemma á morgun. Réðum við
það af hljóðfæraslættinum og söngnum, að hér væri ekki háttað, og dirfðumst
við því bæði þess vegna og af því við erum ókunnugir, að berja á
dyr hjá yður, og biðja yður, að skjóta skjólshúsi yfir okkur til morguns.
Guð mun launa yður það. Þyki yður við vera þess verðir, að taka þátt í
skemmtun yðar, þá skulum við gera allt, sem í voru valdi stendur og
bæta þannig leikspjöllin. En að öðrum kosti, þá gerið okkur þann greiða,
að lofa okkur að vera frammi í húsi yðar.“
Meðan Gíafar talaði þetta, hafði Safíe nógan tíma, til að virða hann
fyrir sér og báða hina kaupmennina. Sýndist henni þeir ekki vera alþýðumenn
eftir útliti og sagði hún þeim því, að hún ætti þar ekki húsráð, en
kvaðst skyldu færa þeim svar, ef þeir vildu bíða stundarkorn. Fór Safie
þá til systra sinna og ráðgaðist við þær, hvað til bragðs skyldi taka. Voru
þær í fyrstunni á báðum áttum, en af því þær voru brjóstgóðar, og höfðu
veitt förumunkunum hina sömu bæn, urðu þær á það sáttar að taka við
kaupmönnunum....
52. NÓTT. Hin fagra Safie fór og lauk upp fyrir hinum þremur
gestum, er létust vera kaupmenn; spurðu þeir þá: „Leyfist oss inn að
ganga?“ „Komið þið inn,“ anzaði hún. Þegar hún nú kom með kalífann,
stórvezír hans og geldinga höfðingjann, heilsuðu þeir konunum og förumunkunum
vingjarnlega. Tóku þær systur að sínu leyti eins vel á móti
kaupmönnunum, sem þóttust vera; Sobeide var fyrir svörum, því hún
hafði fyrst talað við þá; mælti hún með siðprúðri alvörugefni: „Verið
velkomnir, gestir vorir! En fyrirgefið, að vér setjum yður einn lítinn
skilmála. Það er ósk vor, að þér hafið augu en ekki tungu, og hvað sem
þér sjáið, að þér ekki talið um það, sem yður varðar ekki um, að öðrum
kosti munuð þér fá það að heyra, sem yður líkar illa.“ „Vér heyrum og
hlýðum,“ anzaði Gíafar, „vér erum engir siðameistarar; eigi erum vér
framir né forvitnir, og höfum fullt í fangi, að gæta þess, sem oss varðar
um, þó vér ekki slettum oss fram í það, sem oss skiptir engu.“
Meðan Gíafar fórust þannig orð, gat kalífinn ekki þreytzt á, að dást
að frábærum fríðleik hinna þriggja systra, siðprýði þeirra og andríkri
fyndni. Eins komu hinir þrír förumunkar honum kynlega fyrir sjónir,
og langaði hann til að vita, hvers vegna þeir allir væru blindir á hægra
auga; en hann mátti ekki spyrja um það vegna skilyrðis þess, sem sett
var honum og förunautum hans. En er hann gætti að, með hvílíkri auðlegð
og fegurð öllu var skipað innanhúss, hvílíkur þrifnaður og þokki
lýsti sér í öllu, þá gat hann ekki öðru trúað en að þetta væri ekki einhama.
Nú voru allir setztir niður og var glatt á hjalla, báru konurnar
komumönnum bæði mat og drykk. En er Amíne byrlaði kalífanum vín,
afþakkaði hann það svo mælandi: „Ég er pílagrímur,“ og settist hann
að því mæltu afsíðis. Síðan breiddi Safie dúk á borð og bar fyrir hann
postulíns könnu, hellti í hana lindiblóms vatni, og lét í það sykur og
kældi með ís. Þakkaði kalífinn fyrir þenna greiða og hugsaði sér að endurgjalda
hann um morguninn.
Nú var aftur mesta gleði og glaumur í samsætinu. Förumunkarnir voru
uppstaðnir og stigu dans einn eftir sínum sið. Fengu konurnar enn betri
þokka á þeim en áður fyrir þetta, og urðu þeir einnig kalífanum og
fylgdarmönnum hans vel að skapi. En er þeir höfðu lokið dansinum stóð
Sobeide upp, tók um hönd Amíne og mælti: „Elsku systir! Stattu upp;
gestir vorir munu ekki taka það illa upp, þó við leggjum enga þvingun
á okkur, heldur gerum skyldu okkar eins og við erum vanar.“
Amíne skildi glöggt, hvað systir hennar átti við, stóð því upp og bar
út diskana, flöskurnar, bikarana, borðið og hljóðfærin, sem förumunkarnir
höfðu leikið á. Safie var ekki heldur aðgjörðalaus; hún sópaði
salinn, setti húsgögnin, hvert á sinn stað, gerði að ljósunum og kveikti
á nýju reykelsi. Síðan beiddi hún þrjá förumunkana að setjast öðrumegin
á legubekkinn, en þremur kaupmönnunum hinumegin, en daglaunamanninum
skipaði hún að standa upp; væri hann enginn gestur,
heldur heimilismaður og ætti því að vera hjálplegur með það, sem þær
væru að gera. Það var nú runnið dálítið af daglaunamanninum, var
hann því léttur á fæti, girti klæði sín upp undir beltið og mælti: „Hér er
ég, hvað er að gera?“
„Ekki liggur á,“ anzaði Safie, „bíddu þangað til þér verður skipað;
þú skalt ekki þurfa að standa lengi iðjulaus.“ Að vörmu spori kom Amíne
með stól og setti hann niður í miðjum salnum. Síðan gekk hún til hliðardyra
á herberginu og benti daglaunamanninum að koma með sér; fór
hann með henni út úr salnum og kom jafnskjótt aftur með tvær svartar
tíkur. Á hvorri þeirra um sig var helsi og keðja við; teymdi daglaunamaðurinn
þær við keðjurnar fram á mitt gólfið í salnum; voru tíkurnar þesslegar,
sem þær hefðu verið miskunnarlaust lamdar.
Nú stóð upp Sobeide, er setið hafði milli förumunkanna og kaupmannanna;
gekk hún með alvörugefnum svip til daglaunamannsins og
mælti með þungu andvarpi: „Gerum þá skyldu okkar!“ Því næst bretti
hún upp ermunum, tók við svipu, er Safie rétti henni, og segir við daglaunamanninn:
„Farðu með aðra tíkina til hennar Amíne, systur minnar,
en komdu til mín með hina.“
Daglaunamaðurinn gerði eins og honum var sagt; þegar hann kom
til Sobeide, fór tíkin, sem hann teymdi, að ýla aumkvunarlega og skrækja,
svo að undir tók í öllu húsinu, og mændi hún bænaraugum til Sobeide.
En hún skeytti því alls ekki, heldur barði veslings kvikindið þangað til
hún var uppgefin. Því næst fleygði hún svipunni, tók keðjuna úr hendi
daglaunamannsins, lét tíkina setjast á afturfæturna og horfðust þær síðan
í augu sorgbitnar og raunalegar og kom upp fyrir þeim mikill grátur.
Loksins tók Sobeide vasaklút sinn, þerraði tárin af tíkinni, kyssti hana
og sagði við daglaunamanninn: „Farðu aftur með hana þangað sem þú
sóttir hana, og færðu mér nú hina!“ Fór hann þá með hana inn í herbergi,
sem var þar til hliðar, og sótti síðan hina tíkina til Amíne, og
gekk með hana til Sobeide. Fór Sobeide allt að einu með hana eins og
hina fyrri, og er hún hafði grátið með henni, þerrað af henni tárin og
kysst hana, fékk hún hana daglaunamanninum. En Amíne tók af honum
ómakið, að fara með tíkina inn í herbergið og gerði hún það sjálf.
Förumunkarnir, kalífinn og fylgdarmenn hans urðu öldungis forviða
af þessari refsingu. Gátu þeir ómögulega skilið í því, að Sobeide skyldi
gráta með tíkunum og kyssa þær, þegar hún hafði lamið þær svo ákaft.
Þessu voru þeir nú að velta fyrir sér, hver í sínu lagi, en kalífinn var
þeirra óþolinmóðastur og brann af löngun til að vita, hvernig stæði á
svo fáheyrðu athæfi. Benti hann Gíafar hvað eftir annað, að hann skyldi
spyrja, en hann lét eins og hann sæi það ekki, og svaraði með bendingum,
að enn væri ekki tími til þess.
Sobeide stóð stundarkorn á miðju gólfinu í salnum, og var sem hún
kastaði mæðinni, er hún hafði fengið af því, að berja tíkurnar. Loksins
sagði Safie við hana: „Elsku systir! Viltu ekki setjast í sæti þitt, svo að ég
geti líka gert mína skyldu. „Jú,“ anzaði Sobeide og settist á legubekkinn
til vinstri handar kalífanum og hægramegin við þrjá förumunkana
og daglaunamanninn....“
53. NÓTT. „Þegar Sobeide hafði aftur setzt í sæti sitt á legubekkinn,
voru allir hljóðir um stund, þangað til Safie, er sat á stól á miðju salargólfinu,
sagði við Amíne: „Elsku systir! Fyrir alla guðs muni, stattu upp,
þú veizt hvað ég vil.“
Amíne stóð upp og gekk inn í annað herbergi en það, sem tíkurnar
voru sóttar í; hún kom skjótt aftur og bar kistil, lagðan gulu þykksilki,
sem var útsaumað gulli og grænum þræði. Gekk hún til Safie, lauk honum
upp, og tók upp úr honum strengja-hljóðfæri og rétti henni; hún var
nokkra stund að stilla það, en síðan hrærði hún strengina og söng svo
ununarlega sætt og fagurt, að kalífinn og allir, sem viðstaddir voru, urðu
hugfangnir þó kvæðið væri raunalegt, en það var svona:
/#
Ó, látið mína augabrá
aftur værðina sætu fá!
Segið, hví blunds er synjað mér,
Segið, hvert vit mitt flúið er.
Þegar ég lagði lag við ást,
líknsama hvíldin óðar brást;
nú verður augum aldrei rótt,
andvaka ligg ég hverja nótt.
Hrein vér áður þín hugðum stig,
hver ginnti af réttum vegi þig?
þín fögru augun ollu því,
að yfir dimma sorgar ský.
Þó að mig lékir þungt og kalt,
þér fyrirgefa skal ég allt;
mín var ei heldur mótgjörð smá,
magnaði skapraun harmur sá.
Djúpt í míns hugar skuggsjá skein,
skærari en sól, þín ásýnd hrein;
sá kveikti himinbjarmi bál
brennandi heitt í minni sál.
#/
„Nei“, mælti Safie við Amíne, „ég get ekki sungið meira, því mér förlast
raustin. Syng þú og leik á hljóðfærið í minn stað.“ „Það er velkomið,“
anzaði Amíne, tók við hljóðfærinu af Safie og settist í sæti hennar; fyrst
lék hún einungis á það, en síðan söng hún, líkt og Safie, vísur þessar:
/#
Í mínu hjarta áttu byggð,
en augað þig ei lítur;
hélztu eldheitrar ástar tryggð,
um eilífð, sem ei þrýtur?
Eða hugsarðu ei hót til mín,
hér sem grátandi minnist þín?
Sorgin mig sundur slítur.
Ó, hjartað nagar harmur sár,
er helzt ég vildi leyna,
og niðraf vöngum velta tár,
viljalaus hlýt ég kveina;
en hittumst dóms á degi við,
drottinn alvaldan þá ég bið,
prófa mitt hjartað hreina.
#/
„Guð bænheyri þig,“ mælti Sobeide, „þú söngst blítt og fagurt, og
það var auðheyrt, að sá harmur gekk þér til hjarta, sem þú lýstir með
svo hjartnæmum orðum.“ Amíne gat engu svarað; hún hafði sungið svo
ákaft og útausið svo hjarta sínu og tilfinningum, að hún fékk andköf og
lá við óviti. Hún losaði ósjálfrátt um klæði sín, til þess að sér yrði léttara,
en við það atvik brá mjög þeim, er viðstaddir voru, því þeir sáu háls
hennar og brjóst, og var allt afmyndað af örum. En hún hresstist alls
ekki og hné allt fyrir það í ómegin....“
54. NÓTT. „Meðan Sobeide og Safie hlupu til að stumra yfir systur
sinni, mælti kalífinn við Gíafar: „Sérðu örin á konunni þarna? Ég get
ekki þegjandi horft á það, og ég hef engan frið fyrr en ég veit, hvernig
hún er við riðin báðar tíkurnar.“ Í því heyrði hann einn af förumunkunum
segja: „Við mundum heldur hafa kosið að liggja úti en fara hér
inn, hefði okkur komið til hugar, að við mundum sjá slíka sjón.“
Þegar kalífinn heyrði þetta, gekk hann til förumunkanna og mælti:
„Hvað á allt þetta að þýða?“ „Herra! Við erum ekki fróðari en þér,“
svaraði sá, er fyrr talaði. „Þér eruð þá ekki heimamaður hér,“ segir kalífinn,
„getið þér enga úrlausn veitt um báðar svörtu tíkurnar og konuna,
sem féll í öngvit og var svo hörmulega útleikin?“
„Herra!“ svaraði förumunkurinn, „við höfum aldrei á ævi okkar stigið
fæti í þetta hús; við komum stundarkorni á undan yður.“
Kalífinn undraðist nú enn meira og mælti: „Hver veit nema maðurinn
þarna geti sagt okkur eitthvað um það.“ Benti þá einn af förumunkunum
daglaunamanninum að koma og spurði hann, hvort hann
ekki vissi hvers vegna báðar svörtu tíkurnar hefðu verið lamdar og hversvegna
svo mörg ör væru á brjósti Amíne. Svaraði þá daglaunamaðurinn
þessum orðum: „Herra! Það veit guð almáttugur, sem uppi yfir mér er,
að ef þér ekki vitið, hvernig á þessu stendur, þá förum við allir jafnnærri
um það. Raunar á ég heima hérna í borginni, en aldrei hef ég áður
verið undir þessu þaki fyrr, og þyki yður undarlegt að sjá mig staddan
hér, þá þykir mér undarlegt að sjá yður. Ég fyrir mitt leyti undrast
hálfu meir, að enginn karlmaður skuli vera hjá þessum konum.“
Kalífinn, fylgdarmenn hans og förumunkarnir höfðu haldið, að daglaunamaðurinn
ætti þar heima, og mundi geta satt forvitni þeirra. Kalífinn
hugsaði nú, að hann skyldi fyrir hvern mun komast fyrir, hvernig á
öllu stæði, og segir hann þá við hina: „Ég skal segja ykkur nokkuð, vér
erum sjö manns á móti þremur konum. Samt skulum vér fara að þeim
bónarveg um það, er vér viljum vita, en segi þær oss það ekki með góðu,
getum vér kúgað þær til þess með valdi.“ Móti þessu mælti stórvezírinn
og leiddi kalífanum fyrir sjónir, hvað af slíku mætti leiða, en stillti samt
orðum sínum svo, að förumunkarnir ekki vissu, hvern hann átti tal við.
„Herra!“ mælti Gíafar og hagaði máli sínu eins og hann væri að tala við
kaupmann, „ég bið yður gæta þess, að við megum ekki skerða lánstraust
vort. Vér erum gestir hér og þér munið, með hverju skilyrði var tekið á
móti oss. Það væri því illt til afspurnar, ef vér brygðum út af því. Og enn
ámælisverðari værum vér, ef nokkur óheill stæði af oss, því grunur minn
er það, að þessa loforðs hefði ekki verið krafizt af oss, nema ráð væru til
að gera oss þann óleik, að vér mættum iðrast afbrigðanna.“ Því næst tók
Gíafar kalífann afsíðis og hvíslaði að honum: „Herra! Nóttin er senn á
enda, og vildi ég, yðar hátign þóknaðist að hafa þolinmæði. Snemma
á morgun skal ég leiða fyrir hásæti yðar konur þessar, og munuð þér þá
fá allt að vita, sem þér viljið.“
Svo hyggilegt sem ráð þetta var, féllst kalífinn samt ekki á það; hann
skipaði vezírnum að þegja og kvaðst ekki geta beðið svo lengi, og vildi
hann undir eins komast fyrir, hvernig á öllu stæði. Nú var vandinn sá,
hver orð skyldi hafa fyrir þeim. Kalífinn leitaðist við að fá förumunkana
til þess, en þeir skoruðust undan. Loksins kom mönnum saman um, að
láta daglaunamanninn mæla fyrir þeirra hönd. Var nú rétt komið að
honum, að bera upp hina ískyggilegu spurningu, en í því gekk Sobeide
til þeirra — því nú var liðið af Amíne öngvitið — og af því hún hafði
heyrt til þeirra, spurði hún þá: „Heyrið, góðir hálsar! Hvað er um að
vera? Hvað eruð þið að tala um?“ Var þá daglaunamaðurinn skjótur til
svars og mælti: „Lafði mín! Hinir ókunnugu menn biðja yður að segja
sér, hvers vegna þér hafið grátið með tíkunum, þegar þér höfðuð barið
þær, og hvers vegna brjóstin á konunni, sem féll í óvit, eru alþakin örum.
Þessa bæn á ég að bera upp fyrir yður í þeirra nafni.“ Þegar Sobeide
heyrði þetta, kom á hana heiptar svipur; hún veik sér að förumunkunum
og hinum, sem þóttust vera kaupmenn: „Er það satt, að þið hafið falið
honum á hendur, að bera upp fyrir mig þessa bæn?“ Játuðu þeir því allir,
nema Gíafar einn, er þagði við; síðan mælti hún með þykkjufullri rödd,
svo auðheyrt var, hvað hún þóttist vera móðguð: „Þegar vér veittum
ykkur þann greiða, að ljá ykkur húsaskjól, vildum vér sneiða hjá öllu,
er valda kynni óánægju, og settum vér ykkur þess vegna þann skilmála,
að tala ekki um það, sem ykkur ekki varðar um, svo þið ekki skylduð fá
það að heyra, sem ykkur líkaði illa. Nú höfum vér tekið við ykkur og
beint ykkur, sem við bezt gátum, og samt gangið þið á bak orða ykkar.
Hlýzt þetta af góðfýsi vorri og greiðasemi, en ekki mælir það ykkur bót,
og hefur ykkur farizt ódrengilega.“ Svo mælti hún og stappaði fætinum í
gólfið, skellti þrisvar saman lófunum og kallaði: „Komið fljótt!“ Í sama
vetfangi hrukku upp hliðardyr og óðu inn sjö tröllslegir svertingjar með
brugðnum sverðum. Hver þeirra greip einn af hinum sjö aðkomumönnum;
þeir vörpuðu þeim til jarðar og drógu þá fram á mitt salargólf og
mynduðu sig til að höggva af þeim höfuðið. Var ekki annað fyrir að sjá
en að þeir allir mundu hreppa bráðan bana fyrir forvitni sína, en þó
spurði einn af þrælunum Sobeide og systur hennar: „Háleitu og tignu
frúr, skipið þér, að vér veitum þeim banasár?“ „Bíðið um stund,“ anzaði
Sobeide, „ég þarf að spyrja þá að nokkru.“
„Lafði mín!“ stundi daglaunamaðurinn dauðhræddur, „fyrir guðs
sakir, látið ekki deyða mig fyrir afbrot annarra. Ég er saklaus, hinir eru
sekir,“ Mælti hann enn fremur kjökrandi: „Æ, við vorum svo glaðir, öll
bölvunin stendur af þessum blindu förumunkum. Það er engin borg til,
sem ekki mundi eyðast og niður falla, ef slíkir ólánsseggir ættu þar dvöl.“
Því næst mælti hann fram vísu þessa:
/#
Vorkynna verum sterkum
veit ég drengskap heitið;
betur þó virða vitrir,
veikan mjúkt að leika;
ást ég okkri treysti,
annars mér verðit svanni!
(Sýknum synjattu líknar)
Sök að bana rökum.
#/
Svo reið sem Sobeide var, gat hún þó ekki að sér gert að hlæja upp úr
að harmatölum daglaunamannsins; gaf hún sig ekki að honum, en veik
sér að hinum: „Segið mér og játið,“ mælti hún, „hverjir þér eruð,
ella skuluð þér að vörmu spori deyja. Ég trúi því ekki, að þið hafið þótt
tignir og heiðursverðir menn í átthögum yðar, hvar sem þeir eru. Ef svo
væri, mynduð þér hafa verið stilltari og sýnt oss meiri lotningu.“
Enginn tók nálægt því eins mikið út og kalífinn, sem var óþolinmóður
af náttúrufari; sá hann nú að líf hans var á valdi konu, sem var ofsareið
og hafði fullkomna ástæðu til að vera það. Þó tók vonin að lifna
við hjá honum, er hann heyrði, að spurt var, hverjir þeir væru; taldi
hann víst, að hann mundi ekki verða drepinn, ef menn vissu tign hans.
Hann hvíslaði því að vezírnum, er stóð hjá honum, að hann skyldi undir
eins segja, hver hann væri. En vezírinn var hygginn og athugasamur og
vildi frelsa sóma herra síns og skýla vanvirðu þeirri, er hann hafði bakað
sér; svaraði hann því ekki öðru en þessu: „Okkur kemur makleg hefnd.“
En þó hann hefði viljað tala eins og kalífinn vildi, mundi Sobeide ekki
hafa gefið honum neinn tíma til þess. Hún hafði þegar snúið sér að
förumunkunum og spurði þá, hvort þeir væru bræður, fyrst þeir allir
væru eineygðir. Svaraði þá einn í nafni hinna: „Lafði mín! Ekki erum
við sambornir bræður; bróðerni okkar er í því innifalið, að við erum
allir förumunkar og gætum sömu lífernishátta.“
Síðan spurði hún einn sér í lagi, hvort hann væri fæddur eineygður:
neitaði hann því og mælti: „Það varð ég fyrir svo fáheyrt ævintýri, að það
mundi verða hverjum manni gagnlegt, ef það væri fært í letur. Af slysi
þessu lét ég raka skegg mitt og augabrúnir, tók þetta gervi á mig og gerðist
förumunkur.“
Sobeide spurði því næst báða hina förumunkana að hinu sama og
svöruðu þeir eins. En sá, sem síðast hafði talað, mælti þannig: „En svo
að þér megið vita, að við erum ekki ættsmáir og eigum nokkra virðingu
skilið, segi ég yður það, að við þrír erum konunga synir. Höfðum við
aldrei sézt fyrr en í gærkvöldi, en á þeim stutta tíma gerðum við þó hverjum
öðrum uppskátt, hverjir við værum og því megið þér trúa, að konungarnir,
feður okkar, hafa verið frægir um víða veröld.“
Þegar Sobeide hafði heyrt þetta, rann henni reiðin, og sagði hún við
þrælana: „Látið þá lausa, en verið hér kyrrir; grandið þeim ekki, er segja
oss sögu sína, og gera grein fyrir, hvernig þeir eru komnir til húsa vorra,
heldur látið þá fara, hvert sem þeir vilja. En hlífið engum, sem ekki vill
gera oss þetta að skapi“....
55. NÓTT. Þrír förumunkarnir, kalífinn og stórvezírinn, höfuðsmaður
geldinganna og daglaunamaðurinn sátu í miðjum salnum á ábreiðum,
sem lagðar voru á gólfið. Stóðu svertingjarnir upp yfir þeim allt umhverfis,
og biðu þess, er konurnar mundu skipa þeim, en þær höfðu setzt
niður á legubekkinn.
Þegar daglaunamaðurinn heyrði, að hann þyrfti ekki annað en að
segja sögu sína, til þess að sleppa úr svo fjarskalegum háska, tók hann
fyrstur til máls og sagði: „Lafði mín! Þér vitið sjálfar, hvað leiddi mig á
yðar fund; mun því saga mín verða stutt. Systir yðar leigði mig í morgun
á torginu, því ég hýmdi þar eins og hver annar daglaunamaður og beið
þess, að einhver byði mér vinnu, svo ég með því móti gæti fengið lífsbjörg.
Fór ég með henni til vínsölumanna, jurtasölumanna, aldinmangara,
kryddsölumanna og sætabrauðsbakara; þaðan gekk ég heim með
henni með körfina á kollinum, svo þungt klyfjaður sem orðið gat, og
hafið þér, blessaðar, lofað mér að vera hérna þangað til nú. Ég skal aldrei
gleyma slíkri náð og miskunnsemi að eilífu, og nú er mín saga á enda.“
Sobeide lét sér þetta vel líka og sagði við daglaunamanninn: „Hafðu
þig nú á burt og komdu ekki fyrir okkar augu framar.“ En hann svaraði:
„Lafði mín! ég ætla að biðja yður að lofa mér að vera. Það er engin
sanngirni, að ég skuli segja öðrum mína sögu, og ekki fá að heyra þeirra
sögu.“ Að svo mæltu tyllti hann sér niður yzt á jaðar legubekkjarins og
var guðsfeginn að vera sloppinn úr hættunni.
Tók nú einn af förumunkunum til máls og sneri sér að Sobeide, svo
sem hinnar tignustu af hinum þremur konum, og líka vegna þess, að
hún hafði skipað honum að segja sögu sína. Tók hann þannig til frásagna:
Sagan af hinum fyrsta förumunki og kóngssyni
„Lafði mín! Þessi voru tildrög til þess, að ég missti auga mitt, lét raka
skegg mitt og augabrúnir og gerðist förumunkur. Faðir minn var konungur
og átti bróður, sem líka var konungur yfir einu af nágrannalöndunum.
Átti þessi bróðir hans tvö börn, son og dóttur, og vorum við bræðrungarnir
jafngamlir.
Þegar ég var orðinn fulltíða og konungurinn, faðir minn, hafði gefið
mér svo mikið frjálsræði, sem aldri mínum sæmdi, heimsótti ég á hverju
ári konunginn, föðurbróður minn, og dvaldi einn eða tvo mánuði við
hirð hans. Á þessum orlofsferðum urðum við bræðrungarnir mestu ástvinir.
Þegar ég sá hann aftur í seinasta sinn, fagnaði hann mér með meiri
blíðu en nokkurntíma áður, og í veizlu einni, er hann hélt mér til sæmdar,
hafði hann stórmikið við. Var lengi matazt og drukkið og er vínið tók
að gera oss hlýtt um hjarta, tók hann þannig til orða: „Bezti frændi minn,
þér mundi veita örðugt að geta upp á, hvað ég hef haft til starfa síðan
við skildum seinast. Það er nú ár síðan, og þegar þú varst farinn, tók ég
fjölda verkamanna til að smíða hús; lét ég að öllu gera það með því
skipulagi, sem ég hafði hugsað fyrir. Er það nú fullgert og hent til íbúðar;
mun þér betur þykja séð en óséð, ef þú skoðar það; en þú verður fyrirfram
að sverja mér þagmælsku og óbrigðanlegan trúnað. Það tvennt
heimta ég af þér.“
Vinátta okkar og ástríki var meira en svo, að ég synjaði honum nokkurs,
og vann ég honum hiklaust eiðinn. Að svo mæltu sagði hann:
„Bíddu mín hér, ég kem undir eins.“ Enda kom hann óðara aftur með
skrautbúna konu og yfirtaks fríða. Hann sagði mér ekki hver hún væri,
og þótti mér ekki sæma að spyrja um það. Settumst við aftur til borðs
með henni, vorum þar stundarkorn, töluðum um heima og geima og
drukkum hvert öðru til. Loksins tók kóngsson til máls og segir: „Frændi
minn, við höfum nauman tíma, taktu konu þessa og fylgdu henni til
greftrunarstaðarins, þangað sem þú finnur nýtt greftrunarhús með stöpulkúpu.
Það er auðþekkt og standa dyrnar opnar. Farið þið bæði þar inn
og bíðið mín; ég skal ekki láta lengi standa á mér.“
Ég vildi ekki rjúfa svardagann og spurði einskis, heldur rétti ég konunni
hönd mína og gekk burt; fór ég þá leið, er frændi minn hafði vísað
mér og kom á réttan stað. Var þá glaða tunglskin. Óðar en við vorum
komin í greftrunarhúsið, kom kóngsson og bar lítinn poka fullan af gipsi,
krukku fulla af vatni og reku. Hafði hann rekuna til þess, að brjóta upp
gröf eina í miðjum legstaðnum, sem var tóm; reif hann ofan af henni
stein eftir stein, og hlóð þeim upp út í horni einu. Þegar hann var búinn
að því, gróf hann upp moldina og sást þá undir gröfinni hurð; lauk
hann henni upp og lá þar djúpt niður í jörðina undinn tröppugangur.
Þá veik frændi minn sér að konunni og mælti: „Þetta er vegurinn, sem
leiðir þangað, er ég hef sagt þér.“ Kom þá konan nær og gekk ofan
tröppurnar. Kóngsson var kominn af stað niður á eftir henni, en rankaði
við sér, leit aftur til mín og mælti: „Bezti frændi minn, svo að vináttumerki
það, sem þú hefur sýnt mér, verði fullkomið, þá bið ég þig einnar
bænar enn. Þegar ég er kominn niður, þá þektu aftur hurðina með mold,
eins og áður var. Taktu síðan gips þetta og vættu það í vatninu, leggðu
svo legsteinana yfir eins og þeir lágu áður, svo að enginn geti sagt, að
gröf þessari hafi nýlega verið upp lokið. Ég hef komið öllu þessu í lag
fyrir ári síðan og veit enginn af því, nema guð einn. En þetta er sú bæn,
er ég vildi biðja þig. Guð varðveiti þig og láti þig jafnan vera hjá ástvinum
þínum.“ Að svo mæltu gekk hann ofan riðið....
Ég kallaði eftir honum: „Bezti frændi minn! Hvað á þetta að þýða?“
„Láttu þér nægja þakklæti mitt og lifðu heill,“ svaraði hann og fór tafarlaust
leiðar sinnar.“
56. NÓTT. Förumunkurinn sagði Sobeide enn fremur, að hann hefði
ekkert framar heyrt til frænda síns. „Þegar ég hafði misst sjónar á
honum“ — sagði hann — „læsti ég hurðinni, mokaði yfir hana mold og
leitaðist við að koma gröfinni í samt lag, eins og frændi minn hafði beðið
mig. Síðan hvarf ég aftur til hallar föðurbróður míns, fór inn í herbergi
mitt og háttaði; var ég þá ekki laus við höfuðþyngsli, því vínið hafði
svifið á mig.
Þegar ég vaknaði morguninn eftir og rifjaði upp fyrir mér allt, sem
gerzt hafði um nóttina og öll atvik þessa fáheyrilega ævintýris, þótti mér
sem allt hefði verið draumur. Lét ég því spyrja, hvort kóngsson væri viðlátinn,
því ég vildi tala við hann. En er mér var svarað því, að hann hefði
ekki verið heima um nóttina, og vissi enginn, hvað af honum væri orðið,
og fengi það öllum mikils kvíða, þá skildi ég vel, að hinn kynlegi atburður
í greftrunarhúsinu var allt of sannur. Varð ég því sárhryggur
og læddist á laun til greftrunarstaðarins; var þar fjöldi legstaða og allir
líkir þeim, er ég hafði séð. Allan daginn var ég að virða fyrir mér hvern
eftir annan og gat ekki fundið þann, er ég leitaði að, og svo liðu fjórir
dagar, að ég hafði mig allan við að leita og kom fyrir ekki.
Þess ber að geta, að föðurbróðir minn, konungurinn, var fjarstaddur
um þessar mundir á veiðiferð. Leiddist mér loksins að bíða heimkomu
hans, beiddi ég því ráðherra hans að færa honum afsökun mína; því
næst fór ég heim aftur til föður míns og hafði ég nú verið lengur burtu
en nokkurntíma áður. Þegar ég fór, voru ráðgjafar föðurbróður míns í
mesta vafa og vandræðum, því þeir vissu ekkert um afdrif kóngssonarins,
frænda míns. Vildi ég ekki rjúfa eið þann, er ég hafði unnið, að
þegja yfir öllu, og þorði því ekki að gera þeim uppskátt það, er ég
vissi.
Þegar ég var kominn til höfuðborgarinnar, sem var aðsetur föður
míns, sá ég að fjöldi varðmanna stóð við hallarhliðin, en því var ekki
vant; slógu þeir hring um mig, er ég gekk inn. Þegar ég spurði, hvernig
þessu viki við, svaraði höfuðsmaðurinn: „Kóngsson! Herliðið hefur sett
stórvezírinn í hásæti föður yðar, sem nú er dáinn, og í nafni hins nýja
konungs tek ég yður fastan.“ Því næst köstuðu dátarnir mér í hlekki
og drógu mig fyrir harðstjórann. Þótti mér þá mjótt milli lífs og hels.
Vezírinn, sem hafði gert upphlaupið, hafði um langan tíma borið
til mín óslökkvandi hatur, en á því stóð þannig: Þegar ég var unglingur,
tamdi ég mig mjög við bogmanns íþrótt. Það var þá einn dag, að ég
stóð uppi á hallarþakinu og gerði hæfing eftir fugli einum, er ég sá
fljúga fram hjá. En ég missti hans og vildi svo óheppilega til, að örin
kom í auga vezírsins, þar sem hann stóð á húsþaki sínu, og lá augað
þegar úti á kinninni. Fær enginn maður við því gert, sem fyrirætlað er
af forlögunum, eins og skáldið kemst að orði:
/#
„Lögð er áður leiðin vor,
ljúfur bæði og tregur
í fyrirhuguð fetar spor,
fer, því nauðsyn dregur.“
#/
Þegar ég vissi, hvert slys hafði af mér hlotizt, lét ég biðja gott fyrir
mig hjá vezírnum, og gerði það síðan sjálfur. En þrátt fyrir það lagði hann
hann upp frá þessu brennandi hatur á mig, og lét hann mig nú kenna á
því, er tækifæri bauðst. Þegar hann hafði náð tangarhaldi á mér, svalaði
hann heipt sinni með guðlausri grimmd. Óðar en hann sá mig, flaug hann
á mig eins og óarga dýr, og sleit úr höfði mér hægra auga mitt. Á þann
hátt varð ég eineygður. En ekki lét hann sér nægja þetta grimmdarverk.
Eftir skipun hans var ég bundinn og látinn í kistu og afhentur böðlinum;
átti hann að flytja mig langan veg frá höllinni, höggva af mér höfuðið
og kasta líki mínu fyrir óarga dýr. Reið hann af stað með hundara sínum
og flutti kistuna langt frá borginni. Tók hann mig þar upp úr henni
og ætlaði að gera, sem fyrir hann hafði verið lagt. En er ég grátbændi
hann og minnti hann á allar velgjörðir, sem ég hafði auðsýnt honum,
hrærðist hann til meðaumkvunar, svo að hann mælti: „Farðu þá, og
skaltu hafa líf, en flýðu sem skjótast úr landi og varastu að koma hingað
aftur, því það yrði bani, bæði þinn og minn. Svo segir skáldið:
/#
„Flýðu hatur harðstjórans,
svo hann þér mein ei geri,
húsið tóma húsbóndans
háttum vitni beri.
Hvar sem ber þig auman að,
ei mun hæli þrjóta,
en önd í þinnar andar stað
aldrei muntu hljóta.“
#/
Ég kyssti hendur hans af þakklátssemi og þóttist ekki mega um frjálst
höfuð strjúka fyrr en ég væri kominn langa leið frá honum. Þótti mér
missir augans lítill, en hafði nú allan hugann á að sleppa úr greipum
dauðans. Gat ég þó ekki farið langa áfanga eins og ég var á mig kominn;
faldi ég mig því oftast um daga á afviknum stöðum, en ferðaðist um nætur
eins og kraftar mínir entust til. Náði ég loksins í ríki föðurbróður
míns og fór til aðsetursborgarinnar að finna hann. Skýrði ég honum út í
hörgul frá ógæfu föður míns, sagði honum, hvernig ég hefði misst augað
og forðað lífi mínu, svo að ég náði á hans fund. Tók hann þá að gráta
beisklega og mælti: „Þú hefur bætt böli á böl mitt ofan. Var ekki nóg,
að ég missti son minn, á ég nú þar á ofan að frétta lát ástkærs bróður
og sjá þig svo hörmulega útleikinn?“ Svo mælti hann og kom á ný upp
fyrir honum mikill grátur og ekki, þangað til hann kom til sjálfs sín og
mælti: „Son minn, verra hefði þó verið að láta lífið en augað og fór þetta
vel eftir því sem á horfðist.“ Síðan sagði hann mér, hversu sonur sinn
hefði horfið og ekkert til hans spurzt og komst ég svo við af harmi hins
ólánsama föður, að ég gat engu leynt framar. Mér var lífs ómögulegt að
halda eið þann, er ég hafði svarið kóngssyninum, frænda mínum.
Sagði ég þá föðurbróður mínum allt það, er ég vissi um þetta mál;
hann hlýddi á sögu mína með hrærðum hug og er hann hafði heyrt hana,
mælti hann: „Bróðursonur minn, saga þín glæðir hjá mér nokkra von.
Ég vissi það að vísu, að sonur minn lét gera handa sér legstað, og fer ég
nokkuð nærri um, hvar hann er; hygg ég að við munum finna hinn rétta
stað, þegar þú rifjar allt upp fyrir þér. En af því hann lét byggja hann
leynilega og þú lofaðir honum að þegja yfir því, þá er bezt að við séum
tveir einir um leitina, svo aðrir verði þess ei áskynja.“
En það kom seinna fram, að hann hafði aðra gilda ástæðu, sem hann
ekki gat um, til að leyna þessu máli. Fórum við nú báðir í dularbúning,
gengum út úr höllinni og svo út um dyr á aldingarðinum; gengum við
síðan til greftrunarstaðarins og vorum svo heppnir að finna það, sem
við leituðum að. Bar ég aftur kennsl á legstaðinn og þótti því vænna
um það, sem fyrri leit mín hafði orðið árangurslaus. Fórum við inn, tókum
burt grjótið og moldina og fundum hurðina; lukum við henni upp
og sáum riðið. Föðurbróðir minn gekk á undan og stigum við eitthvað
fimmtíu tröppur ofan og komum í forsal einn; lagði þar á móti oss illan
daun og þykka svælu og dapraðist því skinið af ljósahjálmi einum fögrum,
er hékk þar uppi. Mælti föðurbróðir minn orð þau, er eyða ótta
hvers, sem þau segir: „Hvergi er vald né máttur nema hjá guði einum,
hinum mikla og háleita.“ Síðan fórum við lengra og komum inn í stórt
hús; brunnu þar mörg ljós og hvíldi loftið á mörgum sterkum súlum.
Vatnsker stóð þar á miðju gólfi og var hlaðið upp alls konar vistaforða
umhverfis; en það þótti okkur kynlegast, að þar var enginn maður. Langt
innar stóð fyrir gafli hár legubekkur, og voru þrep upp að honum; var
þar og breitt hvílurúm og tjöld fyrir. Gekk konungur þangað upp,
tók frá tjöldin og sá þar son sinn og konuna, sem ég áður um gat; lágu
þau þar hvort hjá öðru, en voru því nær brunnin til kaldra kola, eins og
þeim hefði verið fleygt á mikið bál og verið bjargað áður en þau voru
gjörsamlega brunnin.
Ekkert af öllu þessu datt eins ofan yfir mig við þessa hryllilegu sjón,
eins og það, að föðurbróðir minn var svo fjarlægur því, að sýna á sér
nokkur hryggðar merki, þar sem sonur hans var svo hræðilega útleikinn,
að hann hrækti í andlit honum og mælti í bræði: „Óhræsið, þú áttir ekki
annað skilið; hér hefur þú úttekið refsingu þessa heims; annars heims,
muntu kveljast að eilífu.“ Lét hann sér ekki nægja, að sýna reiði sína með
þessu einungis, heldur þreif hann skóinn af fæti sér og rak syni sínum
rokna kinnhest.“
57. NÓTT. Hinn fyrsti förumunkur sagði enn fremur: „Ég fæ ekki
lýst því með orðum, hvað mér brá við, þegar ég sá, að konungurinn,
föðurbróðir minn, misþyrmdi svona syni sínum dauðum. „Guð á himnum!“
kallaði ég upp, „svo mikils harms sem þessi hryllilega sjón fær mér,
hlýt ég að spyrja yðar hátign, hvern glæp kóngssonurinn, frændi minn,
hefur drýgt, að lík hans skuli eiga slíka meðferð skilið.“
„Bróðursonur minn,“ anzaði konungurinn, „þessi sonur minn unni
systur sinni frá því hann var barn og unni hún honum aftur. Reyndi ég
alls ekki að slökkva hinn kviknandi kærleiksþokka milli þeirra, því ég sá
ekki ólánið fyrir, sem af því mátti hljótast. Hver mundi líka hafa getað
sagt það fyrir? Ást þeirra fór vaxandi með aldrinum og varð svo heit,
að ég tók að kvíða afdrifunum. Leitaðist ég nú við að fá svo mikið að
gert, sem mér var unnt, og veitti ég syni mínum einslega þungar átölur,
og varaði hann við slíkum fádæmis glæp, er svívirti oss og alla ætt vora
og gerði mér nauðugan einn kost, að láta taka hann af lífi! Sömu skil gerði
ég dóttur minni og lét ég stía henni frá öllum samgöngum við bróður
sinn. En djöfullinn var orðinn svo magnaður í þeim, að ástríða þeirra
æstist æ því fremur, sem meira var gert til að varna þeim að njótast. Þóttist
sonur minn vita fyrir víst, að systir sín hefði á sér sama ástarhug og áður.
Brá hann því á, að hann ætlaði að láta gera sér legstað og lét reisa þessa
hvelfingu undir jörðinni, til þess hann gæti farið hingað með unnustu
sína þegar færi gæfist. Enda notaði hann fjarveru mína til þess að taka
systur sína úr varðhaldinu með ofbeldi! Hef ég ekki látið á því bera, svo
ætt vor hlyti ekki svívirðingu af því.
Eftir þetta hegningarverða ódæði hefur hann falið sig hér og dregið
hingað alls konar forða, til þess að svala fýsn sinni sem lengst; en guð
leið ekki slíka andstyggð og lét réttláta refsingu dynja yfir þau, því hann
hefur brennt þau upp í eldi reiði sinnar.“ Að þessu mæltu kom upp
mikill grátur fyrir hinum gamla konungi og fékk ég ekki heldur tára
bundizt.
Nokkru síðar leit hann til mín og mælti um leið og hann faðmaði
mig að sér: „Bróðursonur minn, hafi ég misst hér óverðugan son, þá er
mér það að fullu bætt, þar sem þú ert. Þú skalt vera sonur minn í hans
stað.“ Þarna vorum við um hríð að tala saman; konungurinn harmaði
missi barna sinna og harðúð forlaganna, en ég rifjaði upp raunir mínar,
dauða föður míns, svik vezírsins og missi auga míns, og tárfelldum við
hvað eftir annað. Loksins gengum við upp tröppurnar, lukum eftir okkur
hurðinni, huldum hana moldu og komum gröfinni í samt lag, til þess
að hylja eilífu myrkri þenna skelfilega vott guðs refsingar. Komum við
að stundu liðinni til hallarinnar og höfðu menn eigi saknað okkar þar.
En þá heyrðum við lúðragang og bumbnahljóm og ýms önnur hernaðarhljóðfæri.
Þeystu fram hermenn og sást ekki í loftið fyrir jóreyk, er þyrlaðist
upp af mannareiðinni. Varð konungur forviða og spurði, hvað á
gengi, og komumst við nú að því, að vezírinn, drottinssvikarinn, sem
hafði svælt undir sig föðurleifð mína, fór að með óvígan her, og ætlaði að
brjóta undir sig ríki föðurbróður míns.
Hann hafði nú ekki annað lið hjá sér en innverði sína, eins og hann
var vanur, og gat því ekki reist rönd við slíku ofurefli. Hafði portum
borgarinnar verið upp lokið viðnámslaust, og var þá hægt að greiða atgöngu
til hallar föðurbróður míns; varði hann sig drengilega, og seldi
þeim líf sitt dýrt, þangað til hann féll við góðan orðstír. Barðist ég um
stund, en er ég sá, að ég mátti eigi við margnum, hugði ég bezt að forða
fjöri mínu og slapp ég heill á húfi til eins af embættismönnum föðurbróður
míns. Var ég nú yfirkominn af hugraun, margþjáður af forlögunum,
og átti vísan bana undir eins, ef lið hins svikafulla vezírs sæi mig;
sá ég þá ekki annað fangaráð en að bregðast í dularham og forða lífinu.
Lét ég raka skegg mitt og augabrúnir, fór í förumunksbúning og komst út
úr borginni, svo enginn þekkti mig. Sneiddi ég síðan hjá öllum borgum
og þjóðvegum og var mér úr því hægðarleikur að sleppa burt úr ríki föðurbróður
míns og ná inn í lönd kalífans, hins volduga konungs rétttrúaðra
manna; fór þá af mér allur kvíði. Þvínæst hélt ég til Bagdad, þessa
friðarheimkynnis, í þeirri von, að einhver mundi verða til, að fylgja mér
á fund hins víðfræga og volduga Harún Alrasjids. Ætla ég að fleygja mér
fyrir fætur þessa mikla konungs, sem hvarvetna er lofaður fyrir drengskap,
og segja honum hina fáheyrilegu ævisögu mína. Veit ég, að hugur
hans mun hneigjast til meðaumkvunar með mér, ólánssömum kóngssyni,
og mun ég ekki leita hans fulltingis árangurslaust.
Þegar ég fór inn um borgarhliðið var tekið að dimma af nótt. Meðan
ég staldraði við um stund og velti fyrir mér, hvert ég ætti að halda, kom
hingað þessi annar förumunkur, og kvaðst vera útlendingur, og enn kom
hinn þriðji förumunkur og kastaði kveðju á okkur og sagðist líka vera
útlendingur og nýkominn í Bagdad. Slógumst við síðan í samfélag eins og
bræður og urðum ásáttir um að halda hóp. Meðan þetta gerðist var orðið
áliðið og vissum við ekki hvar við gætum fengið húsaskjól, því við vorum
bráðókunnugir og höfðum aldrei verið í borginni. Nú átti svo vel til að
vilja, að okkur bar að húsi ykkar; leyfðum við okkur að drepa á dyr og
tókuð þér oss með slíkri góðfýsi og brjóstgæðum, að það verður aldrei
fullþakkað. Þetta, lafði mín, er það, sem þér hafið skipað mér að segja
frá: því ég hafi misst auga mitt, látið raka skegg mitt og augabrúnir og
hvernig ég væri hingað kominn.“
Þá mælti Sobeide: „Þetta er nóg; við erum ánægðar og máttu fara
hvert sem þér lízt.“ Förumunkurinn beiddi samt leyfis, hvort hann ekki
mætti vera kyrr til þess að heyra sögu beggja förunauta sinna, enda vildi
hann ekki vera þekktur að því að yfirgefa þá; langaði hann og til að heyra
sögu hinna þriggja annarra komumanna.
58. NÓTT. Öllum, sem viðstaddir voru, þótti sagan af hinum fyrsta
förumunki næsta undarleg, en þó kalífanum allra mest, svo þó svertingjarnir
stæðu upp yfir honum með brugðnum sverðum, gat hann ekki
að sér gert að hvísla að Gíafar: „Ég hef heyrt margar sögur, en enga, sem
kemst í hálfkvisti við þessa af förumunkinum.“ Í því hann mælti þetta,
byrjaði annar förumunkurinn að segja Sobeide sögu sína.
Sagan af hinum öðrum förumunki og kóngssyni
„Lafði mín!“ tók hann til máls, „ég skal hlýða boði yðar og segja yður
upp alla ævisögu mína, svo að þér fáið að vita, hver fádæmi voru þess
valdandi, að ég missti hægra auga mitt. Vitið því, að ég er konungssonur.
Þegar ég var kominn af bernsku skeiði, sparði konungurinn, faðir minn,
ekkert til að ég fengi fræðzt og menntazt, því hann sá, að ég var vel
gáfaður. Safnaði hann að sér öllum fjölvitringum og listamönnum í landi
sínu og jafnskjótt sem ég hafði lært að lesa og skrifa, lærði ég kóraninn utanbókar,
þá hina aðdáanlegu bók, sem hefur aðalreglur og boðorð trúar
vorrar inni að halda. En til þess að nema fræði þessa út í æsar, las ég
rit hinna frægustu þýðara kóransins og kynnti mér þar að auki allar þær
kenningar, er safnað hefur verið af hinum miklu mönnum, er lifðu á
tímum spámannsins, eftir hans eigin munni. Lét ég mér samt ekki nægja
að vita allt, sem laut að trú vorri, heldur lagði ég og stund á sögu vora
með miklum áhuga, varð fullnuma í fögrum vísindum og kveðskaparlist
og las kvæði skálda vorra. Ég lærði jarðarfræði og stjörnufræði, leitaðist
við að tala móðurmál mitt hreint, og varð mér í öllu þessu mikilla framfara
auðið; sló ég þó ekki slöku við öðrum íþróttum, er konunga sonum
sæma. Mesta löngun hafði ég til þess, að læra að skrifa fagra rithönd;
varð mér svo ágengt í því, að ég loksins bar af öllum hinum frægustu
skrifurum í ríki föður míns.
Nú fór mikið orð af mér og meira en ég átti skilið, og flaug orðrómur
íþrótta minna og atgjörvis út fyrir ríki föður míns allt til hirðar Indía
soldáns. Fýsti því þenna volduga konung að komast í kunningsskap við
mig, og gerði út sendimenn með dýrum gjöfum, er biðja skyldu föður
minn, að ég mætti koma til hirðar hans. Þótti föður mínum vænt um
þessi boð af mörgum ástæðum. Bæði var það sannfæring hans, að ekkert
væri gagnlegra fyrir kóngsson á mínum aldri en að ferðast til útlendra
konunga, og annað var það, að hann hugði sér til hreyfings, að komast
í vináttu við Indía soldán. Fór ég nú af stað með sendiboðunum og hafði
faðir minn látið búa handa oss skip; því vér urðum að fara nokkuð af
leiðinni sjóveg. Eftir eins mánaðar útivist stigum vér á land og tókum
með oss nokkra hesta og klyfjuðum tíu úlfalda með farangri vorum og
gjöfum þeim, er ætlaðar voru Indía soldáni. Síðan lögðum vér af stað
með litlu föruneyti, því vér áttum óraveg fyrir höndum og næsta erfiðan.
Þegar vér vorum komnir spölkorn áleiðis, sáum vér langt burtu, að þyrlaðist
upp þykkur rykmökkur; voru þar komnir sextíu riddarar vel vopnaðir.
Þetta voru ræningjar og þeystu þeir að oss hart sem elding flygi, óðlátir
eins og soltin ljón.“
Sjerasade minnti soldán á, að dagur væri kominn og þagnaði.
59. NÓTT. Þenna morgun vaknaði drottning nokkru seinna en vant
var; byrjaði hún þá á sögunni, þar sem hún hafði hætt við; var Sjarjar
mikill hugur á að heyra framhaldið.
„Herra!“ mælti hún, „annar förumunkurinn sagði þannig áfram sögu
sína: „Vér vorum liðfærri en svo, að vér gætum veitt viðnám, er þeir
riðu að oss með reiddar kesjur. Kölluðum vér til þeirra og sögðumst vera
sendiboðar á leið til hins volduga Indía soldáns, og væntum vér því, að
[1179.png: Var þar undursamt yfir að líta og eilíft vor]
þeir mundu sjá oss og eigur vorar í friði. En þeir svöruðu: „Hvorki erum
vér nú innan hans landamæra, né heldur erum vér þegnar hans;“
síðan réðust þeir á oss og drápu nokkra af föruneyti voru, og er ekkert
dugði fyrir ofureflis sakir, flýðu þeir, sem uppi stóðu, eftir hrausta vörn.
Ég hleypti þá undan sem aftók, þótt hestur minn væri mjög særður og
kvaldi ég úr honum síðasta sprettinn mér til frelsis. Loksins steyptist
hann dauður niður undir mér, mæddur af blóðrás og þreytu. Stóð ég þá
skjótt upp, litaðist um og voru engir á eftir mér. Ræningjarnir höfðu
ekki viljað skilja við herfangið til að elta mig....
60. NÓTT. Nú stóð ég einmana og hjálparlaus í ókunnu landi. Þorði
ég eigi að koma nærri þjóðvegum, því ég var hræddur um, að ég kynni
aftur að verða á vegi stigamanna. Hélt ég því áfram af handa hófi þangað
til ég kom að fjalli einu; var undir því hellisskúti. Fór ég þar inn og
snæddi nokkur aldin, sem ég hafði lesið á veginum; var ég um nóttina
þar í hellinum og sýtti hvergi. Morguninn eftir hélt ég áfram þaðan og
fann ég engan viðværilegan stað. Loksins að mánuði liðnum sá ég stóra
og fjölmenna borg, sem byggð var á fögrum og hentugum stað. Eftir
héraðinu allt umhverfis runnu mörg vatnsföll; var þar unaðssamt yfir að
líta og eilíft vor, og rættist því af mér um stund sú dauðans hryggð, sem
kom yfir mig, þegar ég hugsaði til míns auma ástands. Ég var sólbrenndur
á andliti, höndum og fótum, skór mínir voru gatslitnir af vegalengdinni
og varð ég að ganga berfættur, en föt mín voru öll saman rifin og
tætt. Gekk ég nú inn í borgina til að spyrja, hvar ég væri niður kominn,
ég fór ég til skraddara eins, er sat við vinnu í sölubúð sinni. Sá hann á hinu
unglega yfirbragði mínu og limaburði, að ég mundi vera annar en ég
sýndist vera; bauð hann mér því að setjast niður og spurði, hver ég væri,
hvaðan ég kæmi, og hverra erinda ég færi. Sagði ég honum allt, hvað
mér hafði viljað til og gerði honum uppskátt faðerni mitt. Hlýddi hann á
mig með athygli, en er ég hafði lokið sögu minni, þótti mér hann heldur
hryggja mig en hugga. „Trúðu engum öðrum fyrir því, sem þú hefur
sagt mér,“ mælti hann, „því að konungur sá, sem hér ræður ríkjum, er
svarinn óvinur föður þíns, og mundi hann vafalaust misþyrma þér, ef
hann vissi, að þú værir hér.“ Undir eins og hann hafði nefnt nafn konungs
þessa, kom mér ekki til hugar að tortryggja hann.
Með því nú fjandskapur sá, er faðir minn og konungur þessi áttu í,
á alls ekki skylt við ævintýri mitt, vona ég þér leyfið mér að fella hann
úr sögunni. Ég þakkaði skraddaranum fyrir vísbendingu þá, er hann
hafði gefið mér, og sagði ég honum, að ég skyldi hlýða heilræðinu og
aldrei gleyma greiðvikni hans. Af því hann hélt að ég væri svangur, lét
hann bera mat á borð og snæddum við saman. Loksins bauð hann mér
gistingu hjá sér og þáði ég það. Þegar ég hafði hvílt mig nokkra daga,
náði ég mér að mestu leyti eftir hina löngu og erfiðu ferð. Vissi skraddarinn
það, að flestir konunga synir, sem hafa vora trú, nema einhverja
iðn eða íþrótt sökum hverfulleika forlaganna, að það megi verða þeim
til bjargar, þegar neyðin ber að hendi; spurði hann mig því, hvort ég
kynni nokkurt það verk, að ég gæti haft ofan af fyrir mér. Svaraði ég
honum, að ég væri lögfróður maður, málvitringur og skáld gott og ritaði
fagra hönd. Þá sagði hann: „Með öllu þessu, sem þú hefur upp talið,
getur þú ekki unnið þér fyrir einum matarbita hér á landi; slíkur fróðleikur
er hér til engra nota. Farðu nú að mínum ráðum; þú ert heilbrigður
að sjá og hraustlega vaxinn, farðu í stuttklæði og sæktu eldivið
í skóginn hérna. Skaltu selja hann á torginu og á þann hátt getur þér
svo mikið áskotnazt, að þú verðir ekki upp á aðra kominn; getur þú þá
haft þolinmæði þangað til guð verður þér líknsamur og eyðir ólánsskýi
því, er skyggir yfir hamingju þína, svo að þú verður að leyna ætt þinni.
Bæði var ég nú hræddur um, að upp kæmist, hver ég væri, og annars
vegar var mér nauðugur einn kostur, að afla mér viðurværis, svo ég réði
það af, að taka þenna atvinnuveg fyrir mig, svo erfiður og auðvirðilegur
sem hann var. Daginn eftir keypti skraddarinn handa mér öxi, byrðarband
og stuttkyrtil, og beiddi nokkra fátæklinga, er lifðu á sömu vinnu,
að lofa mér að fylgjast með þeim út í skóg. Í fyrsta skipti kom ég með
stóra viðarbyrði á bakinu heim í borgina og fékk ég hálfan gullpening
fyrir, því þótt skógur væri nærri, var viður í háu verði, því fáir vildu
leggja á sig það neyðar strit, að höggva tré. Leið nú ekki á löngu, að ég
gat goldið skraddaranum það, sem hann hafði greitt fyrir mína hönd.
Svona leið nú eitt ár; en þá var það einn dag, að mér varð gengið
lengra inn á mörkina en ég var vanur; var þar næsta fagurt í skóginum
og fór ég að fella tré. Ætlaði ég að höggva ræturnar undan einu tré, en
öxin nam staðar við járnhring; mokaði ég þá moldinni frá og sá að
hringurinn var fastur í járnhurð, og lauk ég henni óðar upp. Sá ég þá
steintröppur, sem lágu djúpt niður í jörðina og fór ég þar ofan með
öxi mína. Kom ég niður í víða höll og undraðist mikillega, er þar var
svo bjart, sem hátt á jörð uppi. Ég gekk um sal einn; voru þar pallar,
er hvíldu á jaspissúlum, en súlurnar voru af gulli gjörvar að ofan og
neðan. Sá ég þá koma móti mér konu, sem var svo vegleg í limaburði og
framgöngu, svo kurteisleg og frábærlega fríð, að ég missti sjónar á öllu
öðru og einblíndi á hana“
61. NÓTT. „Ég tók ómakið af konunni,“ sagði förumunkurinn við
Sobeide, „að koma til mín; ég flýtti mér til hennar og hneigði mig djúpt
fyrir henni, og spurði hún mig: „Hver ert þú? Maður eða andi?“ „Ég
er maður,“ anzaði ég, „og hef ekkert samneyti við anda.“ „Hvernig
ertu þá kominn hingað?“ mælti hún og andvarpaði mæðilega, „ég hef
verið hér í tuttugu og fimm ár og hef allan þann tíma engan mann séð
nema þig.“ Var ég þegar orðinn hugfanginn af hinni frábæru fegurð
hennar, en nú óx mér hugur af kurteisi hennar, ljúfmennsku, viðmótsblíðu
og sætleika máls hennar, svo að ég mælti: „Lafði mín! Leyf mér,
áður en ég leysi úr spurningum þínum að láta í ljósi, hvað ég er feginn,
að hafa fundið þig, svona mér að óvörum, því bæði er mér það til huggunar
í eymdum mínum og getur ef til vill af því atvikazt, að hagur þinn
mætti nokkuð batna.“ Sagði ég henni því næst allt eins og var, hversu kynlega
á því stæði, að ég, sem var kóngsson, kæmi í svo herfilegum flíkum, og
hvernig ég eins og af tilviljun hefði rekizt að dyrunum á hinu glæsilega
fangelsi, sem henni mundi að líkindum þykja hvimleitt. „Kóngsson
minn!“ mælti hún og andvarpaði á ný, „þér skjátlast sízt, þar sem þú
heldur, að þetta skrautlega og ríkmannlega fangelsi sé hvimleiður samastaður.
Vér höfum óbeit á hinum inndælustu stöðum, þegar vér dveljum
á þeim með nauðung. Þú hefur vafalaust heyrt getið um hinn mikla
Epitímarus, konung Svartviðar-eyjanna, er draga nafn af þessum dýrmæta
við, sem þar er nægð af. Konungur þessi er faðir minn og hafði ætlað að
gifta mig kóngssyni einum, sem er frændi minn, en á hinni fyrstu brúðkaupsnótt,
áður en ég var seld í hendur manni mínum, kom andi nokkur
meðan hæst stóð á veizlunni og strauk burt með mig. Féll ég samstundis
í ómegin og varð með öllu meðvitundarlaus, en er ég vitkaðist,
var ég komin í þessa höll. Var ég lengi vel framan af óhuggandi, en tímalengdin
og nauðsynin hafa vanið mig við útlit og sambúð þessa anda. Það
eru tuttugu og fimm ár síðan, — eins og ég sagði — að ég kom hingað;
get ég fengið hér allt, sem ég óska og mér er þörf á; mundi hinni skartsömustu
kóngsdóttur þykja sér einskis vant, ef hún hefði mín kjör. Andinn
er hér aldrei nætur sakir nema einu sinni á tíu daga fresti og biður
virða sér til vorkunnar, að hann komi ekki oftar, því hann eigi aðra konu,
er verða mundi afbrýðisöm, ef hún kæmist að ótrúleika hans. En þurfi
ég andans við, hvort heldur á nótt eða degi, þarf ég ekki annað en að
snerta verndargrip einn, sem liggur við dyrnar í herbergi mínu og kemur
þá andinn undir eins. Nú eru fjórir dagar síðan hann var hér; vænti ég
hans því að sex daga fresti. Þú getur því verið hjá mér í fimm daga, ef
þér leikur hugur á, og skal ég reyna að gera til þín, sem tign þinni og
verðleikum sæmir.“ Mundi mér hafa þótt það frábært lán, að hljóta slíka
náð fyrir sára bæn, svo nærri má geta, að ég drap ekki hendi við því,
þegar mér bauðst það óbeðið. Leiddi kóngsdóttir mig síðan að bogadyrum,
og kom ég inn um þær í hið skrautlegasta baðhús, sem hugsazt
gat. En er ég ætlaði þaðan burt, fann ég í stað ræfla þeirra, er ég hafði
farið úr, hin prýðilegustu klæði og fór ég í þau, bæði vegna þess, hvað
þau voru falleg, en þó einkum til þess, að kóngsdóttur skyldi lítast betur
á mig. Því næst settumst við á legubekk með dýrðlegri ábreiðu yfir
og indverskum svæflum. Nokkru síðar bar hún dýrustu krásir á borð og
mælti fram vísur þessar:
/#
Mundi ég breitt hafa
blíðast hjarta,
hefða ég vænt þín, vinur!
og sjáaldur svartra
sjóna minna,
fyrir fætur þína.
Og á mold mjúkar
mínar kinnar
hefði ég lagðar látið,
að þú fótum
farið hefðir
augnalok mín yfir.
#/
Síðan sátum við saman til borðs; var okkur vel skemmt það sem eftir
var dagsins, og um nóttina samrekkti ég henni. Nú rann á mig hinn
sætasti óminnishöfgi og vaknaði ég við það, að hún kitlaði mig mjúklega
undir iljunum.[* Þannig eru ambáttir í Austurlöndum vanar að vekja herra sína.] Leitaðist hún á allar lundir við að vera mér sem
ljúfust og huglátlegust og setti hún fram handa mér eina flösku af ágætu
gömlu víni og drakk mér til með blíðu. En hinn ágæti drykkur sté mér
til höfuðsins og sagði ég hýrgaður af víninu: „Fagra mær, þú hefur helzt
til lengi verið hér kviksett; far nú með mér og gleð þig við hina sönnu
dagsbirtu, er þú hefur svo langan tíma þráð. Seg þú skilið við villuljós
það, er lýsir á þessum stað.“ Svaraði hún mér þá brosandi: „Kóngsson
minn! Látum það svo vera; ég skal ekki þreyja hinn dýrðlegasta dag á
jörð uppi, ef þú ert hjá mér í níu daga af hinum tíu, og eftirlætur andanum
hinn tíunda.“ „Kóngsdóttir!“ tók ég aftur til orða, „ég skil, að þú
segir þetta af hræðslu fyrir andanum, en ég hræðist hann ekki meira
en svo, að ég á augabragði skal mölva í sundur verndargripinn hans með
töfraletrinu. Hann er velkominn ef hann vill, ég bíð hans, og skal drepa
hann, því ég er fæddur í heiminn til að drepa anda. Ég sver þér það: alla
anda í veröldinni skal ég drepa og þenna fyrst.“ Kóngsdóttirin, sem vissi,
hvað eftir kunni að fara, beiddi mig í guðs bænum, að snerta ekki á
verndargripnum, „það væri hinn vísasti vegur til að steypa báðum okkur
í glötun; ég veit betur til hvers andarnir eru vísir.“ En vínið hafði svifið
svo á mig, að ég gaf hinum skynsamlegu fortölum kóngsdóttur engan
gaum og mölvaði verndargripinn sundur með fætinum.
62. NÓTT. Í sama vetfangi, sem verndargripurinn brotnaði, skalf
höllin og titraði, og kallaði kóngsdóttir til mín dauðhrædd: „Þarna kemur
andinn, sagði ég þér ekki þetta? Þú hefur steypt mér í glötun, en forða
þú þér og hirð ekki um mig; flýðu sama veg og þú komst.“ Rann nú
af mér á augabragði og sá ég um seinan heimsku mína. Ég hlýddi umhugsunarlaust
ráði því, er kóngsdóttirin gaf mér, og svo var ég hræddur,
að ég gleymdi öxi minni og skóm. Þegar ég hafði gengið upp örfáar
tröppur í steinriðinu, litaðist ég um og sá þá, hvar gólfið laukst upp og
kom þar upp andi, ógurlegur ásýndum. Sagði hann í reiði við kóngsdóttur:
„Því ónáðar þú mig með slíku harki? Hvert slys hefur viljað þér
til?“ „Æ, ekkert slys,“ anzaði hún, „nema mér varð flökurt og drakk
ég nokkra sopa af flöskunni þeirri arna, og þá varð mér fótaskortur og
datt ég ofan á verndargripinn, svo hann brotnaði.“ Þá brást andinn óður
við og svaraði: „Þú lýgur, óhræsið þitt!“ og skimaði nú í krók og kring
þangað til hann kom auga á skóna og öxina. „Hundsflugan þín!“ hrópaði
hann, „hvaðan eru þessir skór og öxin komin hingað?“ „Ég hef ekki séð
það fyrr en núna,“ segir kóngsdóttir, „það er vísast, þú hafir komið með
það í ógáti. Þú komst með svo miklum asa, að það hefði vel getað slæðzt
með þér.“ Andinn anzaði þessum útúrdúrum ekki með öðru en fáryrðum
og slögum og skipaði kóngsdóttur að gangast við sannleikanum. Hafði
ég ekki skap til að heyra grátekka og harmakvein hennar, er hann misþyrmdi
henni; fleygði ég því búnaði þeim, er hún hafði fengið mér, og
tók tötra mína, sem ég hafði lagt niður á tröppurnar, þegar ég gekk frá
baðinu; flýði ég nú upp riðið og lauk eftir mér fellihurðinni og jós mold
yfir; iðraðist ég þá beisklega eftir það, sem ég hafði gert. Hugsaði ég með
mér: „Raunar hefur hún verið í prísund í tuttugu og fimm ár, en að
fráskildu frelsinu var henni einskis á vant; ég hef fyrirgert láni hennar
með gapaskap mínum og ofurselt hana í grimmdarklær þessa miskunnarlausa
anda.“ Þegar ég nú hugsaði til þess, hvað kóngsdóttir var fríð og
hvað hún varð að þola mín vegna, þegar ég hugsaði til föður míns og ríkis
míns, og íhugaði, að ég var orðinn auðvirðilegur viðhöggvari, þá datt mér
vísa þessi í hug:
/#
Einn ef dagur yndi fól
ýmis konar skugga,
annar fagur sýnir sól,
sú skal vonin hugga.
#/
Batt ég nú viðarbyrði mína svo sorgbitinn, að ég vissi naumast, hvað
ég gerði, og sneri heim til borgarinnar. Varð skraddarinn næsta glaður, er
hann sá mig aftur kominn. Hann hafði beðið mín með mestu óþolinmæði
og verið sem á glóðum. „Ég varð fjarska áhyggjufullur“, mælti
hann, „þegar þú hvarfst, af því þú hafðir sagt mér ætterni þitt. Vissi
ég ekki, hvað ég ætti að halda, og var hræddur um að einhver hefði þekkt
þig. Guði sé lof að þú ert heill heim kominn!“ Þakkaði ég honum fyrir
hans ástríka hugarþel mér til handa, en sagði honum alls ekki frá ævintýri
mínu, eða hvernig ég hefði misst öxi mína og skó. Gekk ég síðan
til herbergis míns og nagaði mig sáran í handarbökin fyrir heimsku mína.
„Mér gafst kostur á að lifa í fullsælu með kóngsdótturinni,“ hugsaði ég
með sjálfum mér, „hefði ég aðeins getað stillt mig um að brjóta sundur
verndargripinn.“ Meðan ég sat þarna þungt hugsandi og harmandi, kom
skraddarinn inn til mín og mælti: „Það er kominn til mín ókunnugur karl
með öxina þína og skóna; segist hann hafa fundið hvorttveggja á leið sinni.
Hinir viðhöggvararnir hafa sagt honum, að þú ættir hér heima, og vill
hann nú sjálfur afhenda þér það. Komdu og talaðu við hann.“ Þegar
ég heyrði þetta, bliknaði ég upp og skalf allur og titraði. Skraddarinn
spurði mig, hvernig á því stæði, en í því klofnaði gólfið í herbergi mínu
og kom upp karlinn með skóna og öxina. Þetta var þá andinn, sem hafði
burtnumið kóngsdótturina frá Svartviðareyjum. Svo sem hann hafði misþyrmt
henni fram úr öllu hófi, gat hann samt ekki kvalið hana til að
gangast við neinu. Tók hann því öxina og skóna og mælti: „Svo sannarlega
sem ég er Dsjarsjaris og kominn af Íblis, höfðingja andanna, skal
ég hafa upp eigandann að öxi þessari og skóm.“ Þetta var erindi hans
og spurði hann því, hvort þetta væri öxi mín og skór.“
63. NÓTT. „Andinn gaf mér ekki málrúm til að svara spurningu
hans,“ sagði annar förumunkurinn Sobeide, „enda hefði ég ekki haft
rænu á að svara honum, svo mikil ógn stóð mér af þessari skelfilegu óvætt.
Hann þreif yfrum mig, dró mig út úr herberginu og sendist með mig upp
í háa loft með slíkri ofsaferð og flýti, að ég fékk heldur skynjað, hversu
hátt hann flaug, en hvað langt hann fór í einum svip. Allt í einu renndi
hann sér niður á jörðina, og er hann stappaði fætinum, laukst hún upp og
[1186.png: Kóngsdóttirin lá nakin á gólfinu]
samstundis vorum við horfnir í töfrahöllina til hinnar fögru kóngsdóttur
frá Svartviðareyjum. En hvílíka sjón átti ég þar í vændum! Það var eins
og sverði væri lagt gegnum hjarta mitt; kóngsdóttir lá nakin á gólfinu í
blóði sínu, nær dauða en lífi, og kinnar hennar flóðu í tárum. „Svikafulli
kvendjöfull!“ grenjaði andinn um leið og hann benti á mig, „er
ekki þetta friðill þinn?“ Kóngsdóttir horfði til mín og anzaði:
„Ég þekki ekki þenna mann, ég hef aldrei séð hann fyrr en nú.“ Furðaði
andinn sig á þessu og mælti: „Hann veldur því, að þú ert komin í þetta
ástand, sem maklegt er, en samt vogar þú að þræta fyrir, að þú þekkir
hann?“ „Úr því ég þekki hann ekki,“ anzaði kóngsdóttir, „því skyldi
ég þá segja ósannindi, og ráða honum þannig bana?“ „Gott og vel,“ svaraði
andinn og hélt brugðnu sverði framan í kóngsdóttur, „hafirðu aldrei
séð hann, höggðu þá af honum höfuðið með sverðinu.“ ,Hvernig ætti ég
að geta það, sem þú krefst af mér?“ mælti kóngsdóttirin kveinandi, „ég
er svo máttfarin, að ég get varla hreyft handleggi mína og þó ég gæti
það, hvaðan ætti mér að koma áræði til að drepa ókunnugan mann og
saklausan?“ „Þessi undanfærsla kemur upp um þig,“ sagði andinn, síðan
veik hann sér að mér og mælti: „Þekkir þú hana ekki?“ Hefði ég verið
allra manna armastur og vanþakklátastur, hefði ég ekki sýnt kóngsdóttur
slíka tryggð sem hún mér, þar sem mér var um ólán hennar að kenna.
Svaraði ég því andanum: „Hvernig ætti ég að þekkja hana, ég sem hef
aldrei séð hana fyrr en nú?“ „Ef svo er“, sagði hann, „taktu þá við sverðinu
og höggðu af henni höfuðið. Með því einu geturðu leyst líf þitt og
sannað orð þín.“ „Ég er til“, svaraði ég, tók við sverðinu og gekk að
kóngsdóttur“....
64. NÓTT. „Þér skuluð eigi ætla, að ég hafi gengið að kóngsdótturinni
frá Svartviðareyjum, til að hlýðnast skipun andans. Ég gerði það
ekki til annars en að láta hana sjá á augnaráði mínu og bendingum, eins
og ég fékk frekast við komið, að eins og hún hefði hug til að leggja lífið
í sölurnar fyrir mig af elsku sinni, svo vílaði ég ekki fyrir mér að láta
mitt fyrir hana af heitri ást. Kóngsdóttir skildi mig; svo mikil harmkvæli,
sem hún þoldi, gat ég þó séð það á hinu þakklætisfulla augnatilliti hennar;
gaf hún mér þannig í skyn, að hún dæi með glöðu geði fyrir mig
og væri sér hugfró, að ég hræddist ekki dauða minn hennar vegna. Þannig
kemst skáld nokkurt að orði:
/#
Augasteina eldar þylja
okkar heita kærleiks mál;
þeir, sem reyna, þetta skilja,
þannig leitar sál að sál.
Allt, sem tala tungan vildi
talað þýðu augun fá;
allt, sem falið öðrum skyldi,
elskan blíða skilur þá.
Sjónir ræða, þó við þegjum,
þeirra magnast loginn skær,
og þó bæði orðlaus þreyjum,
ástin þagnað samt ei fær.
#/
Ég fleygði sverðinu frá mér, hvarf aftur frá kóngsdótturinni og sagði
við andann: „Þá skal ég heita hvers manns níðingur, ef ég geri mig að
morðingja og drep þessa konu, sem ég ekki þekki og sem er svo hörmulega
útleikin og komin að dauða. Gerðu við mig hvað þú villt, andi, því
ég er á þínu valdi, en grimmdarboði þínu get ég ekki hlýtt.“ „Ég sé
að þið standið bæði upp í hárinu á mér,“ mælti andinn, „og storkið afbrýðisemi
minni, en þið skuluð verða þess vísari, hvers vænta er af mér.“
Því næst tók óvætturin sverðið og hjó hendurnar af kóngsdótturinni,
hvora eftir aðra. Var hún orðin máttvana áður og gat eigi átt langt eftir,
því hana mæddi blóðrás, og á þessari hinni síðustu stund mændu augu
hennar til mín. Sá andinn það og mælti: „Þar komu augun upp ótryggð
þinni!“ og hjó af henni höfuðið. Ég stóð sem steini lostinn yfir þessari
hryllilegu sjón og beið þess að nú kæmi að mér að deyja. Undir eins
og ég fékk orði upp komið, brigzlaði ég andanum, að hann léti mig svo
lengi kveljast af dauðaangistinni. „Höggðu!“ sagði ég, „ég er búinn við
banahögginu og bíð þess eins og hinnar mestu miskunnar, er þú getur
sýnt mér.“ Í stað þess að verða við bæn minni, veik andinn sér að mér og
sagði: „Þannig refsa andar konum þeim, er ótryggðar grunur liggur á,
hún hefur leyft þér að vera hér hjá sér, en ég veit ekki með vissu, hvort
hún hefur gert mér enn meiri svívirðingu, því væri svo, stæðir þú ekki
lífs uppi. Þú skalt samt ekki komast hjá refsingu, og kjóstu því um, hvort
ég eigi heldur að breyta þér í hund, asna eða apa.“ Þegar ég heyrði þetta
varð ég vongóður um að geta sloppið alveg og beiddi hann svo mælandi:
„Ó, þú voldugi andi, stilltu reiði þína, og fyrst þú vilt gefa mér líf, þá
gerðu það með drengskap. Ég skal aldrei gleyma mildi þinni, ef þú fyrirgefur
mér, eins og hinn vænsti maður fyrirgaf einum nábúa sínum, er
bar til hans óslökkvandi hatur.“
„Hvernig þá?“ spurði andinn og bauðst ég til að segja söguna, en hann
lét sér það líka. Væri yður það ef til vill, ekki á móti skapi, að ég segði
yður hana nú upp aftur.“
65. NÓTT. Sobeide lét annan förumunkinn skilja á sér, að hún vildi
líka fegin heyra sögu þá, er hann hafði sagt andanum; sagði hann hana
þá á þessa leið:
Sagan af öfundarmanninum og hinum öfundaða
„Í einni mikils háttar borg bjuggu tveir menn og stóðu hús þeirra
hvort hjá öðru; hafði annar þeirra beiska öfund á hinum. Voru svo mikil
brögð að því, að sá, sem fyrir öfundinni varð, réði það af að flytja burt,
því hann þóttist sannfærður um, að nábúi hans hefði ekki orðið hatursmaður
hans af öðru en því, að þeir bjuggu svo nálægt hvor öðrum, því
hann hafði tekið eftir því, að hvað mikinn og margfaldan greiða, sem
hann gerði honum, þá dró það ekkert úr úlfúð hans.
Öfundaði maðurinn seldi nú hús sitt og eigur, sem ekki voru miklar,
og fluttist til höfuðborgar landsins, sem var ekki allfjarri þaðan, og
keypti sér lítinn garð, sem lá eitthvað eina bæjarleið frá borginni. Fékk
hann þannig hentugt íveruhús, fagran laukagarð og síðan forgarð, en í
honum var djúp vatnsþró, sem nú var þornuð og gagnslaus.
Þegar hinn góði maður hafði fengið eign þessa, tók hann upp munkabúning;
lét hann gera margar kompur í húsi sínu og safnaði að sér mörgum
munkum. Fór nú brátt mikill orðstír af honum, og komu menn til
hans úr öllum áttum og af öllum stéttum, sem höfðu öruggt traust á
heilagleik hans og fólu sig honum á hendur til fyrirbæna. Hver, sem
frá honum kom, kvaðst hafa hlotið náð og hjálpráð af guðs miskunn fyrir
hans árnaðarorð. Barst frægð hans einnig til borgar þeirrar, sem
hann áður hafði dvalið í, og heyrði hinn öfundsjúki nábúi hans líka
um þetta getið. Varð honum svo gramt í geði út af þessu, að hann
fór frá heimili sínu og störfum, til þess að reyna að fyrirkoma honum.
Fór hann til hins nýja munklífis, og tók hinn fyrrverandi nábúi hans
við honum með mestu vinahótum. Sagði öfundarmaðurinn honum þá,
að hann væri kominn til þess að segja honum frá mikilsvarðandi máli,
en gæti það ekki nema einslega. „Við skulum ganga fram og aftur í forgarðinum
yðar,“ mælti hann, „svo að enginn geti hlerað eftir því, sem
við tölum, og ef yður svo lízt, þá ættuð þér að segja munkunum að ganga
til herbergja sinna, því nótt er fyrir hendi.“ Forstöðumaður munklífisins
gerði sem hann bað, og þegar öfundarmaðurinn sá, að þeir voru tveir
einir, tók hann að tala við hann um hitt og þetta, og gekk með honum
fram og aftur um garðinn. En er þeir gengu á þróarbarminum, sætti hann
lagi og hratt honum ofan í, og sá enginn maður þetta níðingsverk. Að
því búnu hafði hann sig undir eins í burt og er hann var heim kominn,
þóttist hann hafa farið góða ferð og var viss um, að nú væri sá af dögum
ráðinn, er hann öfundaði svo mjög. En í þessu skjátlaðist honum“...
66. NÓTT. Dínarsade var ekki sein á sér þegar hún vaknaði, að spyrja
systur sína, hvort hinn góði munkur hefði sloppið heill upp úr þrónni.
„Það skalt þú undir eins fá að heyra,“ anzaði drottning, „því nú segi
ég framhald sögu hins annars förumunks.“ Það gerði hún á þessa leið:
„Í hinni gömlu vatnsþró bjuggu álfkonur og andar; tóku þau við
munkinum er hann féll ofan og studdu hann, svo að hann kom ómeiddur
niður. Sá hann nú að þetta var ekki einleikið, að slík bylta varð honum
eigi að bana, en ekkert sá hann og einskis varð hann var, þó hann
þreifaði fyrir sér. En í sama vetfangi heyrði hann rödd, er spurði: „Vitið
þið, hver maður sá er, sem vér létum falla á hendur vorar?“ og er hinar
raddirnar höfðu kveðið nei við, mælti hin fyrsta: „Það skal ég segja ykkur.
Þessi öðlingur flýði borgina, sem hann bjó í, í bezta tilgangi og tók
sér bólfestu hér, því hann vonaði fastlega, að hann fengi þannig útrýmt
hatri eins af nábúum sínum. Hafði hann hér aflað sér svo almennrar
virðingar, að öfundarmaðurinn hafði ekki viðþol, og gerði sér ferð hingað
til að taka hann af lífi. Mundi honum hafa tekizt það, ef vér ekki
hefðum veitt þessu valmenni vort fulltingi. Er álit hans svo mikið, að
á morgun mun einn af konungum nágranna landanna vitja á hans fund,
til þess að láta hann biðja fyrir dóttur sinni.“ Þá spurði ein röddin,
hvers vegna kóngsdóttir væri komin upp á bænir munksins, og svaraði sú
hin fyrsta: „Veiztu ekki, að hún er óð af völdum andans Maimúns Dimdims
sonar, sem hefur ást á henni. Veit ég, hvernig hinn góði munkur
gæti læknað hana fyrirhafnarlítið, og skal ég segja ykkur það. Uppi í
klaustrinu er svartur köttur með hvítan díl á rófunni, ekki stærri en lítill
silfurpeningur. Þarf ekki annað en að slíta úr honum sjö hvít hár,
svíða þau og láta reykinn leggja yfir höfuð kóngsdóttur. Mun hún þá
samstundis verða alheil og laus við Maimún Dimdims son, svo að honum
mun aldrei til hugar koma, að verða henni svo nærgöngull í annað sinn.“
Munkurinn heyrði hvert orð, sem andarnir og álfkonurnar töluðu, en
nú steinþögðu þau það sem eftir var nætur. En er ljómaði af degi og
hann kunni að sjá deili á því, er í kringum hann var, sem var enn hægra
fyrir það, að þróin var víða hrunin og gengin í sundur, fann hann skarð
eitt og klifraðist upp úr því. Voru munkarnir þá farnir að leita hans
og urðu stórglaðir, er þeir sáu hann. Sagði hann þeim í stuttu máli frá
illsku gests þess, er hann hafði svo vel fagnað daginn áður, og gekk hann
því næst til herbergis síns. Leið eigi á löngu áður svarti kötturinn kom,
sem andarnir og álfkonurnar höfðu á minnzt, og flaðraði upp á hann
eins og hann var vanur. En hann tók köttinn, sleit sjö hár úr hvíta dílnum
á rófunni og geymdi þau vandlega.
Skömmu eftir sólarlag kom konungurinn að dyrum munklífisins, því
hann vildi af engu verða, sem hann hélt, að dóttir hans gæti læknazt af.
Skipaði hann lífvörðum sínum að bíða, en fór sjálfur inn með helztu
embættismönnum sínum. Tóku munkarnir á móti honum með djúpri
lotningu og tók konungur forstöðumann munklífisins afsíðis og mælti:
„Kæri vitringur! Þú munt þegar vita, hverra erinda ég er kominn?“ Svaraði
munkurinn kurteislega: „Já, konungur, ef ég get rétt, veldur sjúkleikur
dóttur þinnar, að ég hlýt þessa óverðskulduðu sæmd.“ „Svo er í
sannleika,“ anzaði konungur, „og þætti mér, sem þú gæfir mér líf mitt,
ef dóttir mín mætti verða heil heilsu fyrir árnaðarorð þín.“ „Ef yðar
hátign léti hana koma hingað,“ anzaði munkurinn, „er ég vongóður um,
að hún gæti farið héðan alheil fyrir guðs hjálpráð og miskunnsemi.“
Varð konungur næsta glaður og lét jafnskjótt sækja dóttur sína; kom
hún brátt með fjölmennu föruneyti kvenna og geldinga og hafði svo
þétta blæju, að andlit hennar var ósjáanlegt með öllu. Lét munkurinn
halda reykelsiskeri yfir höfði hennar og óðar en hann hafði sviðið sjö
kattarhárinu á hinum glóandi kolum, rak andinn Maimún Dimdims son
upp ógurlegt öskur og lét kóngsdóttur lausa, en ekkert sást. Hún brá þá
blæjunni frá andliti sínu, til þess að litast um, hvar hún væri og kallaði
upp: „Hvar er ég? Hver hefur flutt mig hingað?“ Þá réði konungurinn,
faðir hennar, sér ekki fyrir óumræðilegum fögnuði; hann faðmaði dóttur
sína að sér og kyssti á henni augun; hann kyssti á hönd munksins og
spurði þá, er með honum voru: „Segið mér, hvað yður lízt, hver laun á
sá skilið, er svo hefur læknað dóttur mína?“ Gullu allir við í einu hljóði
og sögðu, að hann væri þess verður, að eiga dóttur hans, og gaf konungur
honum hana og mælti: „Hið sama bjó mér í skapi og héðan af er hann
tengdasonur minn.“ Skömmu síðar dó vezír konungsins; lét hann þá
munkinn taka við embættinu eftir hann, og er konungur andaðist sjálfur
og lét engan erfingja eftir sig í karllegg, tók herliðið og klerkastéttin
hinn öfundsæla mann til konungs í einu hljóði.
67. NÓTT. Hinn góði munkur var nú setztur í hásæti tengdaföður
síns. Þá var það einn dag, að hann fór um borgina og fylgdi honum öll
hirðsveit hans; sá hann þá öfundarmann sinn í fólksgrúa þeim, er saman
flykktist. Hann benti þá undir eins vezír sínum og sagði við hann í hálfum
hljóðum: „Farðu og leiddu manninn þarna fram fyrir mig, en varastu
að gera hann hræddan.“ Hlýddi vezírinn, og er öfundarmaðurinn
kom, tók konungur til máls: „Vinur minn! Mikil gleði er mér að sjá
þig.“ Því næst sneri hann sér að einum af embættismönnum sínum og
mælti: „Tel þú manni þessum undir eins þúsund gullpeninga úr féhirzlu
minni. Skal hann þar að auki hafa tuttugu hesta klyfjaða hinum
dýrustu vörum úr forðabúrum mínum, og skulu heiðursverðir fara með
honum til húsa hans.“ Að því mæltu kvaddi konungur öfundarmanninn
og fór leiðar sinnar.
„Þegar ég hafði sagt andanum sögu þessa,“ mælti enn fremur hinn
annar förumunkur, „heimfærði ég hana þannig upp á hann: „Andi! Af
þessu sér þú, að hinn góðviljaði konungur erfði það ekki við öfundarmann
sinn, að hann reyndi að fyrirkoma honum, heldur gaf honum gjafir
þar á ofan og lét hann fara heim til sín við mikla sæmd.“ Í stuttu máli,
ég tók á allri málsnilld minni til að særa hann til þess, að breyta eftir
svo fagurri fyrirmynd og vitnaði ég einnig til vísna þessara:
/#
Tak þú mjúklega
á mínum sökum,
sem drenglyndum
drottnum sæmir;
lát mér, lávarður
líknar auðið —
hafi ég stórt brotið —
stórmannlega.
Hver, sem vorkunnar
vænta þorir
sér máttkari manna,
sá skal gumi
af góðum hug
sér veslari vægja.
#/
En andinn komst ekki við, heldur sagði hann: „Engin óþarfa orð!
Ég get ekki gert meira fyrir þig en gefið þér líf. Gleddu þig ekki í voninni,
að þú sleppir hegningarlaust; þú skalt kenna á mætti fjölkynngi
minnar.“ Að því mæltu hvarf hann með mig gegnum hallarhvelfingu,
er laukst upp undir jörðinni, svo hátt í loft upp, að mér þótti jörðin
sem lítið ský. Í sama bili steyptist hann ofan eins og elding og þusti niður
á háan fjallshnúk. Þar tók hann upp handfylli sína af mold og tautaði
yfir einhver orð, sem ég ekki skildi, stráði síðan yfir mig og mælti: „Legg
þú niður mannsmynd þína og bregztu í apa líki!“ Því næst hvarf hann
og var ég nú orðinn að apa, yfirkominn af harmi, einmana í ókunnu
landi, og vissi eigi hversu fjarkominn ég var ríki föður míns. Grét ég
yfir hinum hvimleiðu hambrigðum, er ég hafði fyrir orðið, en ásetti mér
samt að bera grimmd forlaganna með þolinmæði, því að ég vissi, að
enginn sætir henni eilíflega. Ég klifraðist nú ofan af fjallinu og kom
niður á sléttlendi, og er ég hafði gengið heilan mánuð, kom ég að sjávarströnd.
Meðan ég staðnæmdist þar og litaðist um, sá ég skip á uppsigling
í hagstæðum vindi. Vildi ég ekki sitja af mér svo gott tækifæri, braut
því grein af eik nokkurri, dró hana á eftir mér út í sjó, settist síðan upp
á hana klofvega og reri með tveimur hríslum, sinni í hvorri hendi. En
er ég kom að skipinu, þótti skipverjum skringilegt að sjá mig og horfðu
á mig með undrun. Greip ég nú í kaðal og klifraði upp á þilfar. Flykktust
ferðamenn og sjómenn í kringum mig og var ég nú í mesta háska og
vandræðum, því ég gat ekki talað. Kaupmenn voru hjátrúarfullir og
hræddir og héldu að ólán stæði af mér, ef ég væri liðinn innanborðs,
og einn þeirra sagði: „Fleygið þessari illsvitandi ókind útbyrðis.“ Sumir
sögðu: „Ég rota það með kylfu, ég rek það í gegn með spjóti — ég hegg
það sundur með sverði.“ Mundi hótunum þessum hafa orðið framgengt,
hafði ég ekki flúið á náðir skipstjórnarmanns; varpaði ég mér fyrir fætur
honum og tók um fald klæða hans með bænarsvip. Hrærðist hann svo til
meðaumkvunar af látbragði mínu og tárum þeim, er ég úthellti, að hann
tók mig undir vernd sína og sagði hátt, að hver, sem gerði mér mein,
ætti eftirmál við sig. Hann kjassaði mig og í orða stað lét ég þakklátsemi
mína í ljósi með bendingum. Fór hann ávallt síðan vel með mig, enda
gerði ég allt, sem hann skipaði mér, eins og þjónn, því ég skildi allt, er
hann sagði.
Þegar vér höfðum farið leiðar vorrar fimmtíu daga í hagstæðum byr,
sigldum vér farsællega inn á höfn fagurrar og fjölmennrar verzlunarborgar;
kvað því meira að henni, sem hún var höfuðborg mikils ríkis. Vörpuðum
vér akkeri og að lítilli stundu liðinni flykktust bátar kringum
skip vort; voru þar komnir menn, er fögnuðu vinum sínum, er heim
komu á skipinu, eða spurðu eftir kunningjum sínum þar sem skipið hafði
að borið, en mörgum gekk ekki annað til en forvitni, að sjá svo langt að
komið skip. Komu og með þeim nokkrir Mamelúkar og kváðust vilja tala
við hina aðkomnu kaupmenn í nafni soldáns, er sat þar í borginni. Samfögnuðu
þeir þeim, að hafa farið svo góða ferð og tók einn af þeim til
orða: „Soldán, herra vor, lætur boða fögnuð sinn yfir tilkomu yðvarri,
og beiðist þess, að hver og einn riti nokkrar línur á pappírslengju þessa,
eins og sýnishorn rithandar sinnar. En svo þér vitið, í hverju skyni
hann beiðist þessa, þá skal ég skýra yður frá því. Hans hátign hafði stórvezír
þann, er leikinn var í öllum stjórnarstörfum og ritaði óumræðilega
fagra hönd. Andaðist vezír þessi fyrir fáum dögum og liggur því sárilla á
soldáni. Hafði hann aldrei séð skrift hans svo, að hann eigi dáðist að,
og hefur því unnið þess dýran eið, að skipa aldrei hið auða sæti öðrum
en þeim, er jafnfagra hönd skrifi. Hefur til þessa enginn fundizt í ríki
hans, er verður sé að taka við tign hins framliðna vezírs.“
Síðan skrifuðu kaupmennirnir, hver eftir annan, þeir, er þóttust skrifa
svo vel, að þeir væru vaxnir hina háa embætti. Þegar þeir voru búnir,
gekk ég til og tók pappírslengjuna af þeim, er seinast skrifaði. Varð nú
mikill ys og háreysti, því allir, sem nærstaddir voru, og einkum kaupmennirnir,
vissu ekki annað en að ég mundi rífa lengjuna í sundur og
kasta henni í sjóinn. En þeir stilltu sig, þegar þeir sáu, að ég fór vel með
hana og gerði þeim skiljanlegt með bendingum, að ég ætlaði líka að skrifa
nokkuð. Snerist nú kvíði þeirra í undrun. En með því þeir höfðu aldrei
heyrt getið um apa, er skrifandi væri, og engin von var til, að þeir héldu,
að ég væri betur að mér en aðrir apar, vildu þeir taka af mér lengjuna.
Kom þá skipstjórnarmaður mér til hjálpar og mælti. „Lofið þið honum
það, látið hann skrifa. Óhreinki hann pappírinn, þá lofa ég ykkur, að
hann skal hitta sjálfan sig fyrir, en skrifi hann vel, sem ég vona — því
aldrei á ævi minni hef ég séð skynugri né fimari apa — mun ég taka mér
hann í sonar stað. Ég átti einu sinni son og vantaði á, að hann hefði gáfurnar
apans þess arna.“ Nú meinaði mér enginn að sýna list mína, tók
ég því pennann og lagði hann eigi frá mér fyrr en ég hafði skrifað sýnishorn
af sex arabiskum leturtegundum; voru í hverju sýnishorni tvær eða
fjórar línur, sem ég ritaði upp úr mér; var sumt hól um soldán, svo sem
þetta:
„Orðstírinn hefur ritað lofsverk göfgra manna, en þín lofsverk getur
enginn maður fært í letur. Ó, að guð svipti mannkynið aldrei slíkum
föður, því að þú ert uppspretta alls ágætis. Skrifarinn deyr, en það, sem
hönd hans hefur ritað, helzt við lýði; skrifaðu því aldrei annað en það,
sem þú getur staðið við á dómsdegi.“
Rithönd mín bar langt af skrift kaupmannanna og þori ég að ábyrgjast,
að aldrei hefur jafnfögur hönd sézt þar á landi. Þegar ég var búinn
að skrifa, fékk ég Mamelúkunum pappírslengjuna og fóru þeir aftur með
hana til soldáns, herra síns.
68. NÓTT. Soldáni þótti á enga skrift horfandi, nema mína; líkaði
honum hún svo vel, að hann sagði við menn sína: „Takið hinn fríðasta
og fagurbitlaðasta gæðing úr hesthúsi mínu og einhvern hinn skrautlegasta
klæðnað handa þeim, er skrifað hefur þessi sex sýnishorn, og látið
hann koma á minn fund.“ Við þessi orð soldáns ráku hirðmennirnir upp
skellihlátur, en hann brást reiður við og var að honum komið að refsa
þeim. Þá sögðu þeir: „Herra! Vér biðjum yðar hátign forláts, en þessi
skrift er ekki eftir mann, hún er eftir apa.“ „Hvað er þetta?“ kallaði
soldán upp, „hefur ekki maður skrifað þessa gullfallegu stafi.“ „Nei,
yðar hátign!“ svöruðu Mamelúkarnir, „við getum svarið, að þeir eru eftir
apa; hann skrifaði þá að okkur ásjáandi.“
Soldáni þótti tilfelli þetta merkilegra en svo, að honum væri forvitnislaust
að sjá mig. Sagði hann því við hirðmenn sína: „Gerið sem ég hef
skipað, og komið til mín með þenna sjaldgæfa apa.“ Fóru þeir þá aftur
út á skip vort, sögðu skipstjórnarmanni, hvað fyrir þá hefði verið lagt
og svaraði hann: „Soldán á yfir mér að segja.“ Færðu þeir mig þá í skrautlegan
klæðnað, fluttu mig til lands, létu mig á bak hesti soldáns og fóru
með mig til hallarinnar. Beið soldán mín þar og stóð í kringum hann
fjöldi hirðmanna, er saman hafði verið stefnt mér til sæmdar. Þegar vér
nú fórum um höfnina, torgin og strætin, úði og grúði hvívetna af fólki,
körlum og konum; sást varla í glugga eða húsþök fyrir mannfjölda, því
allt, sem vettlingi gat valdið, hljóp til handa og fóta úr öllum áttum borgarinnar,
til þess að sjá mig. Hafði fregn sú flogið um allt eins og elding,
að soldán hafði gert apa að stórvezír. En er borgarlýðurinn hafði haft
þetta sjaldfengna augnagaman af mér, sem heyra mátti af sífelldu ópi,
kom ég til hallar soldáns. Sat konungur þessi í hásæti og höfðingjar ríkisins
umhverfis hann; hneigði ég mig þrisvar sinnum djúpt fyrir honum,
og fleygði mér síðan fram fyrir fætur honum og kyssti gólfið. Síðan settist
ég fyrir framan hann eins og öpum er títt. Gláptu allir, sem viðstaddir
voru, á mig, og gátu sízt skilið, að ég vissi svo vel, hverja lotning bæri
að sýna soldáni. En enginn var eins hlessa á þessu og soldán sjálfur. Vantaði
ekkert á, að allt færi fram sem skyldi í áheyrnarsalnum annað en það,
að ég gæti talað, en það hefur engum apa látið, og var mér ekki tungan
tiltækari fyrir það, að ég áður hafði verið maður. Loksins bauð soldán
hirðmönnum sínum, að ganga út, og varð enginn eftir nema ég og höfuðsmaður
geldinganna, lítill og unglegur þræll. Fór soldán síðan með
oss til herbergis síns og skipaði að bera á borð. Þegar hann var setztur
til borðs, benti hann mér, að ég skyldi koma nær og borða með honum.
Kyssti ég þá gólfið frammi fyrir fótum hans til merkis um hlýðni mína,
færði mig síðan nær, settist til borðs og át með tærilæti og hæversku. En
áður borið væri af borði, hafði ég komið auga á skriffæri og lét ég skilja
á mér með bendingum, að ég vildi að mér væru færð þau. En er það
var gert, ritaði ég á stórt persneskt epli vísu eina, er ég sjálfur hafði ort.
Síðan rétti ég soldáni eplið og féll hann í stafi, er hann las áskriftina.
Þegar borð voru upptekin, var honum færður drykkur, sem var hans
aukageta; lét hann og rétta mér eitt staup af honum. Drakk ég það út og
ritaði því næst vísu þessa:
/#
Vildu mál mér
af munni toga,
og mér urpu
í eld heitan;
þrautir ég
þeigi mælti:
því ber mig nú
þjóð á höndum,
því minnist ég
við meyja varir.
#/
Þvínæst reis ég upp og settist á utanverðan legubekkinn, en soldán furðaði
sig á ný, er hann las það, sem ég hafði skrifað og mælti: „Getur apa
verið svo liðugt um orðfæri, getur hann skrifað slíka afbragðs hönd?
Það er undur allra undra.“ Þá færðu menn soldáni taflborð og spurði
hann mig með bendingum, hvort ég kynni skáktafl og vildi tefla við
hann. Kyssti ég á gólfið og lagði annan framhreifann upp á kollinn til
merkis um að ég væri allfús til slíkrar sæmdar. Fyrsta taflinu tapaði ég,
en vann hið annað og þriðja, en þegar ég sá, að honum líkaði miður,
ritaði ég á skákborðið:
[1197.png]
„Tvö herlið börðust liðlangan dag af ákafa, en undir nóttu gerðist
friður og sváfu hvorir tveggja vært á vígvellinum.“
Soldán las þetta, undraðist og mælti: „Væri maður fær um slíkt,
mundi hann taka hinum mestu mönnum fram.“ Nú átti soldán dóttur
eina, er kölluð var „Fríða“. Langaði hann til, að hún sæi mig leika nokkrar
afbragðs listir mínar og skipaði því höfuðsmanni geldinganna, sem viðstaddur
var: „Far þú til dóttur minnar og seg henni í mínu nafni, að
hún skuli koma hingað; þykir mér vænt um, ef hún hefur aðra eins
skemmtun og ég af þessum sjaldgæfa apa.“ Fór þá höfuðsmaður geldinganna
og kom skjótt aftur með kóngsdóttur; gekk hún inn og hafði
enga blæju fyrir andliti. En óðar en hún var inn komin huldi hún sig
blæjunni og mælti við soldán, föður sinn: „Það undrast ég, að yðar hátign
hefur gert boð eftir mér, þar sem ókunnugur maður er hér staddur.“
En soldán varð hissa og anzaði: „Hvað er þetta, barnið gott! Ég sé engan
nema litla þrælinn, höfuðsmann geldinganna og þig; er oss öllum heimilt
að sjá andlit þitt. Og þó hylurðu þig blæju og veitir mér átölur fyrir
að ég sendi eftir þér.“ „Faðir minn!“ anzaði kóngsdóttir, „þú munt játa,
að ég hef rétt fyrir mér, því þá api þessi sé dýr að öllu sköpulagi, er hann
í raun réttri konungborinn yngissveinn og sonur voldugs konungs. Honum
hefur verið breytt í apa með töfrum. Það hefur gert andinn Dsjarsjaris
Íblisson og hafði hann áður drepið dóttur Epítímarusar, konungs
í Svartviðareyjum með ógurlegri grimmd.“ Undraðist soldán mikillega,
er dóttir hans sagði þetta; veik hann sér að mér og sagði, því nú talaði
hann ekki lengur með bendingum: „Er þetta satt, sem hún segir um þig?“
Jánkaði ég með því að banda höfðinu, og tárfelldi; spurði soldán dóttur
sína, hvernig hún vissi, að mér hefði verið breytt í apa. „Það man víst
yðar hátign,“ anzaði hún, „að gömul kona þjónaði mér, þegar ég var
komin af barnsaldri. Hún bar gott skynbragð á töfra og kenndi mér
töfralist. Kann ég hundrað og sjötíu töfrareglur utanbókar og með hinni
lítilfjörlegustu get ég flutt borg þessa mitt út í meginhafið eða handan
fyrir Kákasusfjöll. Fyrir þessa kunnáttu get ég á augabragði þekkt alla
töfraða menn; veit ég hverjir þeir eru og hver hefur töfrað þá. Því skal
þér ekki kynlegt þykja, þó ég þekki kóngsson þenna, sem er í álögum, svo
að honum er meinað að birtast í sinni náttúrlegu mynd.“ „Á ég að trúa
því, dóttir mín,“ tók soldán til máls, „að þú kunnir svo fágæta hluti og
létir mig ekki vita af því.“ „Faðir minn!“ anzaði kóngsdóttir, „þetta eru
undarlegir hlutir og er gott að vera fróður um slíkt; en ekki vildi ég
segja mér það til ágætis.“ „Ef svo er,“ mælti soldán, „muntu geta leyst
kóngssoninn úr álögum.“ „Svo er víst, yðar hátign!“ anzaði kóngsdóttir,
„ég get gefið honum aftur sína fyrri mynd.“ „Þá særi ég þig fyrir nafn
drottins, að gera það,“ mælti soldán. „Þú getur ekki veitt mér meira
gleðiefni, því hann skal verða stórvezír minn og þú skalt verða konan
hans.“ Kóngsdóttir kvaðst vera boðin og búin að hlýða, hvað sem soldán
skipaði.“
69. NÓTT. „Fríða gekk burt,“ sagði hinn annar förumunkur, „og
sótti hníf til herbergis síns; voru grafin ebresk orð á blaðið; því næst fór
hún með soldán, höfuðsmann geldinganna, litla þrælinn og mig inn í
leynigarð einn í höllinni. Lét hún okkur bíða undir loftsvölunum, sem
voru þar allt umhverfis, en sjálf gekk hún út í miðjan garðinn, dró þar
víðan hring og ritaði innan í hann mörg orð með arabisku og ýmsu fornu
letri og stöfum þeim, er Kleópötru stafir nefnast. En er hún hafði myndað
hringinn þannig, sem hún ætlaði, settist hún í hann miðjan og las særingarþulur
og ljóðmæli úr kóraninum. Þá tók að slá myrkri yfir loft, sem
nótt væri komin, eða heimsslit væru fyrir hendi. Kom yfir okkur dauðans
ótti og bar þó bráðum enn meiri ógn að höndum, því að allt í einu kom
upp andinn, dóttursonur Íblis í skelfilegri mynd. Hendur hans voru eins
og ógurlegir forkar, fætur hans eins og siglutré, og augun sem brennandi
blys, og hryllti oss við að sjá hann. Kallaði kóngsdóttir upp: „Kom þú
aldrei heill!“ og breyttist þá andinn jafnskjótt í líki ógurlega mikils
ljóns. Mælti þá kóngsdóttir: „Ertu svo djarfur, hundgrey, að koma í svo
hræðilegri mynd og reyna að hræða mig, í stað þess að skríða fyrir fætur
mér?“ Þá svaraði ljónið: „Og þú svífist ekki, að bregða sáttmáli því, sem
við höfum samið og staðfest milli okkar með hátíðlegum svardaga, að
við skyldum hvorugt öðru mein gera?“ „Fyrir það einmitt,“ anzaði kóngsdóttir,
„áttu brigzlyrði skilið af mér, þú hinn bölvaði andi!“ Þá öskraði
ljónið og sagði: „Þú skalt gjalda þrauta þeirra, sem ég hef orðið að leggja
á mig til að komast hingað.“ Síðan glennti það upp hið ógurlega gin og
óð að henni til þess að gleypa hana í sig. En kóngsdóttir vissi á hverju
var von, stökk aftur á bak og fékk að eins tíma til að slíta eitt hár úr
höfði sér, mælti hún þá nokkur orð og á augabragði varð úr hárinu biturlegt
sverð og hjó hún með því ljónið sundur í miðju. Hurfu báðir hlutirnir
nema höfuðið, en það breyttist í digran sporðdreka. Þá brást kóngsdóttir
jafnskjótt í höggorms líki og átti snarpar sviptingar við drekann, en
er hann ætlaði að fara halloka, breytti hann sér í arnar líki og flaug burt.
En höggormurinn breyttist í annan örn svartan og enn meiri og elti hinn;
misstum vér þá sjónar á þeim báðum. En nokkru á eftir klofnaði jörðin
fyrir fótum vorum og kom upp svartflekkóttur köttur með úfið hár og
emjaði ofboðslega. Elti hann svartur úlfur og kvaldi hann án afláts;
breytti þá kötturinn sér í orm. Át ormurinn sig á augabragði inn í granatepli,
sem lá þar á jörð fallið úr apaldri, er stóð á bakka rennu nokkurrar,
djúprar, en eigi mjög breiðrar. Þrútnaði eplið og varð geysimikið um
sig; síðan stökk það upp á pallþakið, veltist þar fram og aftur og datt
loksins ofan í garðinn og hraut sundur í marga parta.
En á meðan var úlfurinn orðinn að hana, og fleygði hann sér yfir
epliskjarnana og gleypti í sig hvern af öðrum; en svo vildu forlögin, að
einn duldist honum yzt á rennubakkanum. En er hann sá ekki fleiri, galaði
hann, barði vængjunum og kom upp til okkar, var auðséð á látum
hans, að hann spurði einhvers, en vér skildum hann ekki. Þá gól hann
svo ógurlega, að vér héldum að höllin mundi hrynja niður; sneri hann
sér síðan við og kom auga á hinn síðasta kjarna eplisins. Flaug hann þangað
í sama vetfangi, en í því hann ætlaði að gleypa hann með nefinu,
hrökk kjarninn niður í vatnsrennuna og varð að litlum fiski....
70. NÓTT. Þegar skorað hafði verið á drottningu að segja framhald
sögunnar, tók hún þannig til máls:
„Herra!“ Hinn annar förumunkur sagði söguna þannig áfram: „Haninn
steyptist ofan í rennuna og snerist í geddu líki og elti hinn litla fisk,
sem skapaðist úr hinum síðasta epliskjarna. Voru báðir fiskarnir stundarkorn
niðri og vissum vér ekki, hvað orðið var af þeim. Loksins heyrðum
vér hræðilegt öskur, svo að oss varð felmt, og samstundis komu andinn
og kóngsdóttirin í augsýn, brennandi í ljósum loga. Hvæstu þau eldblástrum,
hvort á annað og flugust loksins á, varð þá eldgangurinn enn
meiri og veltist upp kafþykk reykjarsvæla með neistaflugi. Urðum vér
hræddir um, að höllin öll mundi loga ofan og lá oss við, að steypa oss í
rennuna, svo vér eigi brynnum upp. En þá bar enn meira hræðsluefni að
höndum. Andinn sleit sig af kóngsdóttur, flutti sig upp á pallana, þar sem
vér stóðum og fnæsti yfir oss eldstrokum. Hefðum vér týnzt þar, ef kóngsdóttir
hefði ekki óðar komið til vor og neytt hann til að sleppa oss og
eigast við sig. En eigi fékk hún við því gert, að neistar ruku á okkur af
eldi þeim, er stóð bæði af henni og andanum. Þeir neistar, er af henni
flugu, voru ósaknæmir, en hinir, sem komu frá andanum, sviðu skegg
soldáns og andlit hans og drápu höfuðsmann geldinganna. Kom einn
neisti í hægra auga mitt og hef ég síðan verið einsýnn. Urðum við soldán
þá afhuga allri lífsvon; en í því heyrðist hrópað: „Guð er hinn hæsti!
Hann hefur hjálpað oss, sigrað og afmáð þann, er afneitaði Mahómet,
höfði alls mannkyns.“ Var það kóngsdóttir, er kallaði svo, og birtist hún
allt í einu í sinni náttúrlegu mynd, og hafði hún brennt andann upp, svo
að öskuhrúga ein var eftir. Kom hún til okkar og beiddi um fulla vatnsskál.
Færði henni skálina ungur þræll, sem ekki hafði farizt af eldinum;
mælti hún nokkur orð yfir skálinni, stökkti á mig vatninu og mælti:
„Sért þú fyrir töfra orðinn að apa, þá skiptu líkjum og taktu á þig mannsmynd
þína, er þú áður barst.“ óðar en hún hafði úttalað, var ég aftur
maður, eins og á undan álögunum, nema hvað hægra augað vantaði.
Ætlaði ég þá að bera upp þakklæti mitt fyrir kóngsdóttur, en hún gaf
mér engan tíma til þess, heldur veik sér að föður sínum, svo mælandi:
„Andann hef ég sigrað, faðir, sem yðar hátign getur séð, en sigur þessi
varð mér dýrkeyptur. Ég á fá augnablik eftir ólifað, og ekki verður þér
þeirrar gleði auðið, að gera brúðkaup mitt, sem þú ætlaðir. Hefur eldurinn
læst sig um mig alla í þessum ógurlega bardaga og finn ég hversu
hann eyðir mér. Mundi ekki hafa farið svo, hefði ég komið auga á hinn
síðasta epliskjarna, þegar ég var í líki hanans, og gleypt hann eins og
hina. Andinn hafði flúið í hann eins og hið síðasta hæli, og undir kjarna
þessum voru málalokin komin, og hefði mér ekki þurft að verða hætt né
hamingju vant. En af vangæzlu þessari hlaut ég að neyta eldsins og berjast
með þessu volduga vopni milli himins og jarðar, svo sem þú hefur
séð. Hef ég að vísu sýnt andanum fram á það, svo hræðileg sem íþrótt hans
er og reynsla, að ég var þó honum fjölkunnugri, en dauðann fæ ég eigi
umflúið, er nú kallar að.”
[1201.png: Dóttir mín! Þú sér, hvernig faðir þinn er á sig kominn]
71. NÓTT. „Soldán lét Fríðu, dóttur sína, segja sér, hvernig bardaginn
hafði farið, en er hún hafði lokið sögu sinni, svaraði hann kjökrandi,
því hann var yfirkominn af áköfum harmi: „Dóttir mín! Þú sér, hvernig
faðir þinn er á sig kominn. Ég skil ekki, að ég skuli enn vera á lífi. Höfuðsmaður
geldinganna, siðameistari þinn, er dauður og kóngssonur sá
orðinn eineygður, er þú leystir úr álögum.“ Kom soldán ekki meiru upp
fyrir gráti, ekka og andköfum, og sárkenndum við í brjósti um hann,
dóttir hans og ég, svo að við tárfelldum með honum. En meðan við
börmuðum okkur þar, hvort í kapp við annað, tók kóngsdóttir að æpa:
„Ég brenn,ég brenn!“ Hún fann hversu eldur sá, er eyddi henni, heltók
líkama hennar og æpti hún án afláts: „Ég brenn,“ þangað til dauðinn
sleit hinum óbærilegu harmkvælum. En svo var eldur þessi yfirtaks magnaður,
að hún á svipstundu varð að ösku eins og andinn. Vil ég ekki fara
neinum orðum um það, hvað mér féll nærri að sjá þessa grátlegu sjón.
Ég hefði heldur kosið að vera hundur eða api alla ævi mína en að hún,
sem var lífgjafi minn, léti líf sitt svo hörmulega. En hryggð soldáns
keyrði fram úr öllu hófi; hann hljóðaði upp yfir sig aumkvunarlega,
lamdi í andlit sér, sleit það, sem eftir var af skegginu, og reif klæði sín í
sundur, þangað til hann varð magnþrota af örvæntingu og hné í ómegin,
svo vér hugðum honum ekki lífvænt. Hlupu geldingar hans og þjónar á
hljóðin og gátu nauðuglega komið honum til sjálfs sín. Sagði hann þeim
frá viðureign Fríðu dóttur sinnar og andans, og hryllti þá við, að sjá leifar
þeirra, báðar öskuhrúgurnar.
Undir eins og fregnin um þenna hryllilega atburð varð kunnug í
höllinni og borginni, hörmuðu allir ólán Fríðu kóngsdóttur og tóku einlæga
hlutdeild í harmi þessum. Konur og ambáttir kveinuðu hástöfum
og var sorgarhátíð haldin í sjö daga samfleytt með mestu viðhöfn. Var
ösku kóngsdóttur safnað saman og var hún látin í dýrindis byðnu, en þar
sem viðburður þessi hafði orðið, var reistur dýrðlegur legstaður eftir boði
soldáns og dóttir hans greftruð þar. En aska andans var ofurseld bölvun
hins hæsta, og dreift víðsvegar, til þess að vindar feyktu henni í allar áttir.
Soldáni féllst svo mjög um missi dóttur sinnar, að hann tók sótt og
var rúmfastur í mánuð. En áður en hann varð albata, gerði hann boð
eftir mér og sagði: „Kóngsson! Heyr skipun mína, er ég legg fyrir þig;
líf þitt er í veði, ef þú hlýðir ekki.“ Ég sór og sárt við lagði, að ég skyldi
hlýða samvizkusamlega, og mælti hann þá enn fremur: „Vér áttum óraskaðri
fullsælu að hrósa, þangað til þú komst, því þá snerist oss allt til hamingjuleysis.
Ó, að við hefðum aldrei séð þig og þína hvimleiðu mynd,
er mér hefur orðið til svo mikils tjóns. Dóttir mín er dauð, og vildi ég
heldur hafa látið hundrað menn og hún lifði, þar á ofan er ég stórum
örkumlaður af bruna, og höfuðsmaður geldinganna dauður. Þú einn veldur
öllum þessum slysum, en það stóð ekki í þínu valdi að afstýra þeim,
og far því héðan í friði. En haf þig tafarlaust á burt, því mér er sjálfum
glötunin vís, ef þú dvelur hér lengur; ég er handviss um, að af þér stendur
hin mesta óhamingja. Þetta var erindi mitt við þig; far nú og varast
að stíga fæti á mitt land framar, því ég mun allt til vinna, að þú iðrist
þeirrar farar.“ Ég ætlaði að svara einhverju, en hann þaggaði niður í mér
með fáryrðum, og hlaut ég að fara burt úr höllinni. Svona var ég útskúfaður
og hrakinn, yfirgefinn af veröldinni og vissi ekki, hvað af mér átti
að verða; gekk ég til baðhúss nokkurs áður en ég lagði af stað úr borginni.
Þar lét ég raka skegg mitt og augabrúnir og gerðist förumunkur.
Fór ég því næst af stað og harmaði síður ólán mitt en dauða hinnar fögru
kóngsdóttur, sem hlotizt hafði af mér. Hef ég flakkað um mörg lönd og
farið um margar borgir, en engum látið uppskátt, hver ég væri; ásetti ég
mér loksins, að fara pílagrímsferð til Bagdad, sem er heimkynni friðarins,
í þeirri von, að konungur rétttrúaðra manna mundi mér áheyrn veita
og hrærast til meðaumkvunar, þegar ég segði honum frá fádæmum þeim,
er drifið hafa á mína daga. Eg kom hingað fyrst í kvöld og mætti ég fyrstum
manna förumunkinum, bróður vorum, er sagði sögu sína nú á undan
mér. En hið annað vitið þér, lafði mín, og það einnig, hvernig mér varð
þeirrar sæmdar auðið, að dvelja undir húsþaki yðar.“
Þegar hinn annar förumunkur hafði lokið sögu sinni á þessa leið,
mælti Sobeide við hann: „Látum það gott heita, far þú nú leiðar þinnar,
þangað sem þér lízt; hefur þú mitt leyfi til þess.“ En í stað þess að fara
beiddist hann sömu náðar og hinn fyrsti förumunkur og tyllti sér síðan
niður hjá honum.
72. NÓTT. Undir eins og hinn þriðji förumunkur sá, að hann átti
að taka við, sneri hann sér að Sobeide eins og hinir og hóf sögu sína.
Sagan af hinum þriðja förumunki og kóngssyni
„Lafði mín! Það, sem ég ætla að segja yður af mér, er harla ólíkt sögu
beggja félaga minna. Forlögin og þeirra óraskanlega fyrirskipun hefur
látið slíka hluti drífa á þeirra daga, sem þeir fengu ekki að gert. En það
er af mér að segja, að ég missti auga mitt og lét raka skegg mitt og augabrúnir
af því, að ég skoraði óhamingjuna á hólm. En það atvikaðist þannig:
Ég heiti Agib og er sonur konungs, er Kassib hét; tók ég við ríkisstjórn
að honum látnum og sat í sömu borg og hann. Hún liggur á sjávarströnd,
og er þar einhver hin fegursta og öruggasta höfn; er þar svo mikið hergagnabúr,
að búa má hundrað og fimmtíu herskip, sem ætíð eru til taks,
ef á þarf að halda, og fimmtíu kaupskip og jafnmörg lystiskip. Lágu undir
ríki mitt mörg fögur héruð á meginlandinu og margar stórar eyjar og sást
til þeirra flestallra úr höfuðborginni.
Fyrst fór ég um skattlönd mín og síðan lét ég búa allan flota minn og
sigldi til eyjanna; ætlaði ég með þangaðkomu minni að ávinna mér hylli
þegna minna og festa þá í tryggðum. Nokkru eftir að ég var heim kominn
úr þessari ferð, fór ég þangað aftur, og tók mér að þykja gaman að
sjóferóum, enda varð mér og mikilla framfara auðið í siglingafræði. Ásetti
ég mér að kanna djúpið fyrir utan eyjar mínar. Ég lét búa tíu skip og
sigldi með þau. Urðum vér vel reiðfara í fjörutíu daga, en um aðfaranótt
hins fertugasta og fyrsta dags tókum vér andviðri og gerði að oss hvassviðri
svo mikið, að vér örvæntum oss lífs. Lægði veðrið undir morgun,
tók að heiða himin og kom sólskin og blíðviðri; lentum vér þá við ey
nokkra, og vorum þar tvo daga til að hressa oss eftir sjóvolkið. Því næst
létum vér aftur í haf. En mér hafði snúizt hugur vegna ofviðrisins og skipaði
ég að stýra heimleiðis til ríkja minna, en er til kom, vissi stýrimaður
ekki framar, hvar vér vorum staddir. Vonuðumst vér eftir að ná landsýn að
tíu daga fresti, enda rættist það, því á hinum tíunda degi klifruðust nokkrir
sjómenn upp í stórsigluna og sáust um; kváðu þeir á báðar hendur
oss vera himin og haf, en beint fyrir stafni sögðu þeir, að upp kæmi eins
og svartur veggur.
Þegar stýrimaður heyrði þetta, setti hann náfölan; hann reif með
annarri hendi vefjarhöttinn af höfði sér, en lamdi hinni í andlitið.
„Herra!“ kallaði hann upp, „dauðinn er okkur vís, enginn okkar getur
sloppið úr hættu þeirri, sem vér höfum ratað í. Svo reyndur sem ég er,
fæ ég ekki með nokkru móti afstýrt henni.“ Því næst tók hann að gráta
eins og fokið væri í öll skjól. Sló nú miklum ótta á alla skipverja, er þeir
sáu, hversu hann örvænti; beiddi ég hann að segja mér, því hann væri
svo óttasleginn. Svaraði hann þá; „Konungur minn og herra, ofviðri það,
er vér höfum afstaðið, hefur hrakið oss svo langt afleiðis, að vér munum
berast í námunda við hinn svarta vegg á morgun um hádegisbil, en veggur
þessi heitir öðru nafni Svarthamar eða Segulbjarg. Dregur það að
sér allan flota yðar, vegna nagla þeirra og annars járns, sem í skipunum
er, og ef vér færumst nær á morgun um vissa lengd, þá hrífur segulmagnið
svo sterklega, að allir naglar og járngaddar leysast úr skipunum og
festast við bjargið. Ganga þá skip yðar í sundur og týnast, því segulsteinn
hefur þá náttúru, að hann dregur að sér járn og eykur með því
aðdráttarafl sitt; er bjarg þetta þeim megin, sem veit út að hafi, alþakið
nöglum og göddum úr ógrynni skipa, er þar hafa farizt, og með þeim
hætti helzt við náttúra bjargsins og eflist. Er Segulbjarg sæbratt og stendur
uppi á tindi þess eirhöll og hvílir á samkyns súlum. En á höllinni uppi
er eirhestur og situr á riddari; hefur hann blýskjöld fyrir brjósti og eru
ristar á hann margskonar rúnar. Það er trú manna, að myndastytta þessi
valdi því, hvað mörg skip og menn farast á þessum slóðum, og muni hún
ætíð verða þeim til tjóns, sem svo eru slysnir að komast í nánd við hana,
allt þangað til henni verður varpað um koll.“ Að því mæltu tók stýrimaður
aftur að gráta og það gerðu allir skipverjar að hans dæmi. Ég
taldi mér og dauðann vísan; hugsaði nú hver maður um að bjarga sér, og
hafði allan þann viðbúnað, sem orðið gat. Arfleiddu þar hverjir aðra,
því ekki þótti alls örvænt, að einhverjum yrði lífs auðið og ráðstöfuðu
menn fjármunum sínum þeim í hag, sem af kæmust.
Morguninn eftir sáum vér glöggt fram undan oss svarta bjargið, og
vegna þess, sem vér nú höfðum heyrt af því sagt, þótti oss það enn voðalegra
að sjá en það var. Vorum vér um hádegi komnir svo nálægt, að
spádómur stýrimanns rættist. Naglar og allt, sem járnkyns var í flota vorum,
flaug upp í bjargið og festist þar af hinu geysimikla aðdráttarafli og
varð ógurlegur glymjandi af járninu. Gliðnuðu skipin í sundur og sukku,
því þar var aðdýpi svo mikið, að vér fengum eigi botnað með grunnsökku.
Drukknuðu þar allir félagar mínir, en með mér hafði guð miskunnsemi
og lét mig af komast; náði ég taki á skipsflaki einu og bar vindurinn það
rakleiðis að bjarginu. Varð ég fyrir engum meiðslum, því svo vildi heppilega
til, að mig bar þar að landi, sem stallar lágu upp að tindi bjargsins.
73. NÓTT. Þegar ég sá stallana, lofaði ég drottinn og ákallaði hans
heilaga nafn, í því ég sté fæti á land, því hvorki á hægri né vinstri hönd
var nokkur sá staður, að náð yrði fótfestu eða bjargtaki. Svo var riðið
bratt, mjótt og örðugt, að hefði stríður vindur staðið í fang mér mundi
ég hafa hrapað ofan í sjó. Náði ég þó slysalaust hæst upp á bjargs-tindinn,
gekk inn í höllina og fleygði mér til jarðar og lofaði guð fyrir miskunnsemi
þá, er hann hafði sýnt mér.
Um nóttina lét ég fyrir berast í höllinni, og birtist mér í svefni æruverður
öldungur, sem mælti þannig: „Sonur Kassibs! Þegar þú vaknar,
skaltu grafa upp gólfið undir fótum þínum og muntu finna eirboga og
þrjár blýörvar, sem hafa verið smíðaðar undir vissri stöðu himintungla,
til þess að frelsa mannkynið frá ýmsri óhamingju, er yfir því vofir. Skaltu
skjóta hinum þremur örvum á styttuna og mun þá riddarinn steypast
niður í sjó, en hesturinn mun detta niður í sömu sporum. Hestinn skaltu
grafa niður á sama stað, sem þú finnur örvarnar og bogann. Mun þá
hafið bólgna upp og hækka allt að grundvelli hallar þeirrar, er á tindinum
stendur. Þar muntu sjá mann lenda bát sínum og rær hann tveim
árum og er hvortveggja árin úr eiri; er þetta annar en sá, sem þú hefur
steypt ofan. Skaltu stíga á bát hans, en ekki nefna guðs nafn; skaltu fela
þig handleiðslu manns þessa. Mun hann að tíu dögum liðnum flytja þig
á annað haf og mun þér þaðan farsællegrar heimkomu auðið verða, ef
þú aðeins varast, sem ég fyrr sagði, að nefna guðs nafn á allri ferðinni.“
Þegar ég vaknaði, huggaðist og hughreystist ég af orðum gamalmennisins
og hlýddi ég undir eins ráðum hans. Gróf ég upp bogann og örvarnar og
skaut þeim á riddarann. Féll hann við þriðja skot ofan í sjó, en hesturinn
féll niður rétt hjá mér. Dysjaði ég hann þar sem boginn og örvarnar
höfðu legið; en meðan á því stóð, bólgnaði hafið upp smámsaman. En er
flóðið náði upp að grundvelli hallarinnar á tindinum, sá ég bát koma
til mín langt í burtu, og lofaði ég guð, þegar ég sá að allt gekk eftir því,
sem fyrir mig hafði borið í draumnum. Lenti báturinn loksins og sá
ég í honum eirmanninn eins og honum hafði verið lýst. Fór ég því út í
bátinn, varaðist að nefna guðs nafn og mælti ekki orð. Reri nú eirmaðurinn
áfram leiðar sinnar og það án afláts, unz ég á níunda degi kom
auga á eyjar nokkrar; varð ég þá góðrar vonar um að sleppa úr háskanum.
En í ofurkæti minni gleymdi ég, hvað mér hafði verið bannað og
mælti: „Lofaður sé drottinn, blessaður sé drottinn!“ En óðar en ég hafði
sagt þessi orð, sökk báturinn í sjóinn með eirmanninum, en ég volkaðist
einn eftir í bylgjunum.
Ég var góður sundmaður og synti ég því það sem eftir var dagsins og
stefndi á ströndina, þar sem mér leizt vænlegast til landtöku. En þá kom
nótt yfir með niðamyrkri og vissi ég ekki lengur, hvar ég var; synti ég
því blint áfram. En loksins tók að draga af kröftum mínum; örvænti ég
mér frelsis, mælti fram trúarjátningu mína og lét mér fallast hendur.
Var þá tekið að hvessa og kominn sjógangur mikill; vildi mér það til
láns, að allt í einu reis upp himinhá holgeifla, sem fleygði mér upp á
strönd og tók mig ekki út aftur. Spratt ég þá samstundis upp og rann
undan sem fætur toguðu, því ég var hræddur um, að annað ólagið mundi
koma og skola mér burt með útsoginu. Því næst varð mér það fyrst fyrir,
að ég fór úr vosklæðunum, vatt þau og breiddi til þerris á sandinum,
sem enn var volgur af hita dagsins voru þau alþurr daginn eftir, því að
þá var sólskin. Fór ég þá í þau aftur og tók að grennslast eftir, hvar ég
væri. Hafði ég skamma stund gengið, áður ég sá, að mig hafði borið að
lítilli ey óbyggðri, en harðla fagurri; uxu þar allskonar aldinviðir og
skógartré. En hún lá langt frá meginlandinu og dró það mikið úr gleði
minni yfir fjörlausninni. Gaf ég mig þó með auðsveipni undir guðs vilja
og fól honum allt ráð mitt framvegis á hendur; í sama bili sá ég litla
[1207.png: Reri nú eirmaðurinn áfram leiðar sinnar]
skútu sigla fullum seglum upp undir eyna. Efaði ég ekki, að hún mundi
lenda þar, en af því ég vissi ekki, hvort á henni væru vinir eða óvinir,
hugði ég mér fyrir beztu, að gefa mig ekki fram fyrst um sinn.
Klifraðist ég því upp í tré nokkurt þéttlaufgað og gat ég þaðan óhultur séð til
skipsins. Það lagði inn í litla vík og stigu tíu þrælar á land með rekur og
önnur áhöld. Gengu þeir upp á miðja eyna og grófu þangað til þeir komu
að hlemm einum. Að því búnu fóru þeir aftur til skips, skipuðu upp alls
konar matvæli og húsgögn og bar hver byrði sína af því, þangað er þeir
höfðu grafið. Hurfu þeir þar niður og réði ég af því, að þar mundi vera
jarðhús undir. Eftir það sá ég þá fara aðra ferð ofan til skips og komu
þeir að stundarkorni liðnu aftur með gamalmenni, sem leiddi við hönd
sér fagurskapaðan ungling, á að geta fjórtán eða fimmtán vetra. Gengu
þeir allir niður á sama stað og fyrr var getið; en er þeir komu upp aftur
var unglingurinn ekki í för með þeim. Létu þeir hlemminn falla niður,
jusu mold yfir og gengu aftur ofan til skips. Réði ég af þessu, að unglingurinn
mundi hafa verið skilinn eftir í jarðhúsinu, og þótti mér þetta
kynlegt.
Gamli maðurinn fór aftur út á skipið með þrælunum; sigldi það síðan
til meginlands. En er það var svo langt komið frá eynni, að ég gat
verið óhræddur um, að skipverjar sæju mig ekki, fór ég niður úr fylgsni
mínu í trénu og gekk þangað, sem grafið hafði verið. Mokaði ég upp
moldinni þangað til ég kom að hellu, sem var hér um bil hálft fet á
þykkt; velti ég henni frá og lágu þar steintröppur niður. Gekk ég niður
riðið og er það var á enda, var ég kominn í stórt herbergi; var þar ábreiða
á gólfi og legubekkur með áklæði og skrautlegu hægindi. Sat þar ungmenni
með veifu í hendi og hafði fyrir framan sig ávexti og ker full
af blómum; sá ég þetta allt, því að tvö ljós loguðu þar niðri. Þegar unglingurinn
sá mig, bliknaði hann upp, en ég heilsaði honum og mælti til
þess að hughreysta hann: „Herra! Verið óskelfdur, hver sem þér eruð:
ég, sem er konungur og konungsson, skal yður ekkert mein gera. Mun
gifta yðar valda því, að ég er hingað kominn, til þess að bjarga yður úr
gröf þessari; er það ætlun mín, að hér hafi átt að kviksetja yður, þó ég
viti eigi hvað veldur. En hinu skil ég ekkert í — því ég hef séð allt, sem
gerzt hefur síðan þér komuð í ey þessa — að þér létuð, svo sem mér virtist,
grafa yður mótstöðulaust.“
74. NÓTT. „Þegar unglingurinn heyrði, að mér fórust þannig orð og
hann sannfærðist um, að ég væri maður eins og hann, varð hann allt
spakari og bauð mér vingjarnlega að setjast við hlið sér. En er ég var
setztur, tók hann til máls: „Kóngsson! Ég ætla að segja yður nokkuð, sem
yður mun þykja kynlegt. Faðir minn er gimsteina-meistari og verzlar með
gimsteina og hefur aflað sér mikilla fjármuna með starfsemi sinni og
hagleik. Hefur hann undir sér fjölda þræla og erindreka, er fara sjóferðir
á skipum, sem hann á sjálfur, til þess að halda við skiptavináttu þeirri,
sem hann er í við marga konunga, því hann útvegar þeim og hirðfólki
þeirra allt, sem þeir þurfa með af gimsteinum og gimsteinaskarti. Hafði
hann lengi verið kvæntur og ekkert barn eignazt; þá dreymdi hann, að
honum fæddist sonur, en hann mundi verða skammlífur; hryggðist hann
af því, þegar hann vaknaði. Nokkrum dögum seinna sagði móðir mín
honum, að fjölgunar von væri, og níu mánuðum síðar ól hún mig og var
það öllu skyldfólkinu til mestu gleði. Hafði faðir minn grandgæfilega
athugað himintunglafar á fæðingarstundu minni, og spurði hann stjörnuspámenn
um það, en þeir svöruðu: „Sonur þinn mun ná fimmtánda aldurs
ári, en þá mun hann rata í lífsháska og er lítil von um að honum
verði bjargað. En ef hamingja hans þá varðveitir hann fyrir óláninu,
mun hann ná háum aldri. Um þenna tíma mun Agib, sonur Kassibs
konungs, steypa eirriddaranum á Segulbjargi í sjó fram, en stjörnurnar
spá því, að kóngsson þessi muni bera banaorð af syni þínum fimmtíu
dögum síðar.“ Brá föður mínum við, þegar saman bar spádómi þessum
og draumi sjálfs hans; fékk það honum mikillar sorgar. Hann uppfæddi
mig vel og kostgæfilega, þangað til ég var fimmtán vetra. En í gær frétti
hann, að Agib riddari hafði steypt eirriddaranum í sjóinn fyrir tíu dögum;
olli það honum svo mikils angurs og kvíða, að hann er nú orðinn
sem annar maður; svo hefur það gengið nærri honum. Hafði hann þó
hugsað sér ráð til að varðveita líf mitt, þrátt fyrir áhrif himintunglanna.
Er langt liðið síðan hann lét gera fylgsni þetta, svo að ég mætti leynast
hér hina fimmtíu daga, þangað til hann frétti, að eirriddaranum væri
steypt. En af því hann hafði frétt, að það gerðist fyrir tíu dögum, flutti
hann mig hingað skyndilega og lofaði hann að sækja mig að fjörutíu
dögum liðnum. Er ég fyrir mitt leyti óhræddur og hygg ég að Agib kóngsson
muni ekki leita mig uppi mitt í byggðri ey og undir jörð niðri. Þetta
var það, herra, er ég ætlaði að segja yður frá.“
Meðan sonur gimsteinamannsins sagði sögu sína, hló ég með sjálfum
mér að stjörnuspámönnunum, sem höfðu spáð honum dauða af mínum
völdum. Mér fannst ég vera svo fjarlægur því, að láta spádóm þeirra rætast,
að óðar en hann hafði úttalað, sagði ég við hann frá mér numinn:
„Kæri, treystið gæzku drottins og kvíðið engu. Skoðið það eins og skuld,
sem þér hafið átt að borga, en eruð nú laus við. Hrósa ég happi, að ég
kom hingað eftir skipbrot mitt, til þess að verja yður móti hverjum þeim,
sem situr um líf yðar. Skal ég ekki víkja eitt fet frá yður í þessa fjörutíu
daga, sem fávíslegir útreikningar stjörnuspámanna hafa gert yður hræddan
við. Meðan sá tími stendur yfir, er ég boðinn og búinn að vinna yður
allt það gagn, sem mér er unnt. Síðan vona ég að þér og faðir yðar leyfið
mér að nota tækifærið og fara til meginlands á skipi yðru. En þegar ég
er kominn heim í ríki mitt, mun ég ekki gleyma, hvað ég á yður að þakka,
og skal ég sýna yður þakklátssemi mína svo sem skylt er.“ Með slíkum
hætti hafði ég af fyrir syni gimsteinamannsins og varð ég trúnaðarmaður
hans, en ekki vildi ég hræða hann með því að segja honum, að ég væri
voðaseggurinn Agib, og varaðist ég grandgæfilega að vekja nokkurn grun
á því. Töluðum við margt og mikið saman þangað til náttaði og varð
ég þannig þess vísari, að unglingur þessi var vel viti borinn. Síðan
snæddum við saman af vistaforða hans, og var hann svo mikill, að leifar
mundu hafa orðið, þó fleiri gestir hefðu komið en ég. Þegar við höfðum
matazt sátum við nokkra stund á tali og lögðumst síðan til svefns.
Morguninn eftir færði ég honum þvottarvatn, þegar hann reis úr
rekkju; bjó ég þar næst til morgunverðar og bar á borð í hæfilegan tíma.
Síðan fann ég upp leik til þess að stytta okkur stundir, og eftir það bjó
ég til kvöldverðar, og að því búnu gengum við til hvíldar. Svona leið
hver dagurinn af öðrum og urðum við beztu vinir á þessum tíma. Sá ég
að honum þótti vænt um mig, en ég hafði svo mikla ást á honum, að ég
atyrti oft í huga mínum stjörnuspámennina, sem höfðu spáð honum
dauða af mínum völdum; þótti mér sem ómögulegt væri, að ég gæti drýgt
svo andstyggilegt verk. Þannig vorum við þarna í þrjátíu og níu daga
undir jörðinni og áttum beztu ævi; kom nú hinn fertugasti dagur að
hendi. Um morguninn sagði unglingurinn við mig og réði sér varla fyrir
kæti: „Kóngsson! Nú er fertugasti dagurinn kominn og þakka ég guði
og góðum félagsskap yðar, að ég er enn á lífi. Fer ekki hjá því, að faðir
minn mun sem fljótast votta yður þakklátssemi sína og veita yður allan
greiða og fararbeina, að þér komist heim í ríki yðar. Nú bið ég yður svo
vel gera, að hita vatn, að ég geti vandlega laugazt og skipt um klæði,
svo ég megi því sæmilegar fagna föður mínum.“ Setti ég þá vatn yfir eld,
og er það var heitt orðið, hellti ég því í laugarkerið. Settist unglingurinn
í kerið og þvoði ég hann sjálfur og neri, síðan fór hann úr baðinu og
lagði sig upp í rúm; hafði ég búið um og sveipaði um hann ábreiðunni.
Þegar hann hafði hvílt sig og sofið góða stund, sagði hann við mig:
„Kóngsson! Gerið svo vel og færið mér eina melónu og sykur, að ég
neyti þess mér til hressingar.“ Valdi ég nú hinar beztu melónur af þeim,
er fyrir hendi voru, og lét þær á disk; en er ég fann engan hníf til að skera
þær í sundur, spurði ég unglinginn, hvort hann vissi ekki af neinum hníf.
Svaraði hann þá: „Hérna liggur einn á syllu yfir höfðalaginu.“ Sá ég hnífinn
og flýtti mér að ná honum, en þegar ég hafði tekið hann og sté ofan,
flæktust rúmfötin um fót mér, og datt ég svo slysalega ofan á unglinginn,
að hnífurinn rakst í hjarta hans og dó hann að vörmu spori. Við þessa
sjón æpti ég upp yfir mig, barði höfuð mitt og brjóst, reif sundur klæði
mín og fleygði mér til jarðar með óumræðilegum harmi og örvæntingu.
„Æ,“ kallaði ég upp, „hann átti að eins fáar stundir eftir, og þá var hann
úr allri hættu, sem hann hefði flúið undan á þenna stað. Og jafnt sem
ég er sannfærður um það með sjálfum mér að ekkert sé að hræðast, hlýt ég
að verða morðingi hans og láta spádóminn rætast. Ó, guð minn!“ mælti
ég enn fremur, mænandi augum mínum og fórnandi höndum til himins,
„ég grátbæni þig að fyrirgefa mér og ég sver þér, að ég er saklaus af dauða
ungmennis þessa. Ó, að hann hefði heldur orðið minn banamaður!
Hversu lengi á ég að bera þraut á þraut ofan“....
[1211.png: ...hnífurinn rakst í hjarta hans og dó hann að vörmu spori.]
75. NÓTT. Eftir þetta slys mundi ég óskelfdur hafa gengið út í dauðann,
hefði hann borið mér að hendi; en vér hljótum hvorki lánið
né ólánið þegar vér óskum þess. Hugsaði ég nú með mér, að grátur minn
og harmur gætu ekki vakið unglinginn upp frá dauðum, en faðir hans
gæti vel komið að mér, þegar hinir fjörutíu dagar væru á enda. Fór ég
því úr jarðhúsinu, lagði helluna yfir og huldi hana moldu. Áður en ég
var búinn að því, litaðist ég um og sá skip það koma frá meginlandinu,
er sækja átti unglinginn. En er ég réðst um við sjálfan mig, hvað úr skyldi
ráða, hugsaði ég: „Ef ég læt sjá mig, mun öldungurinn víst láta taka mig
fastan og, ef til vill, einhvern af þrælunum drepa mig, þegar hann sér,
hvernig ég hef farið með son hans. Allt, sem ég ber í bætifláka fyrir mig,
mun ekki sannfæra hann um sakleysi mitt. Það er því bezt, fyrst færi
gefst, að forða sér heldur undan reiði hans en ofurselja sig henni.“
Þetta gerði ég og. Nálægt jarðhúsinu var mikið tré og þéttlaufgað og
leizt mér þar tiltækilegt fylgsni. Klifraðist ég þar upp og hafði komið mér
svo fyrir, að ég eigi sást, þegar skipið lenti á sama stað og í fyrra skiptið.
Öldungurinn og þrælar hans gengu á land og var auðséð á þeim, er þeir
gengu til jarðhússins, að þeir voru ekki vonlausir. En er þeir sáu, að nýlega
hafði verið hreyft við moldinni, brugðu þeir svip og þó einkum
öldungurinn. Veltu þeir samt hellunni frá, fóru ofan og kölluðu hátt á
unglinginn með nafni, en þar var steinhljóð. Urðu þeir enn kvíðafyllri
við þetta; leituðu þeir síðan og fundu hann loksins í rúmi sínu með hnífinn
í hjartanu, því ég hafði ekki haft hug til að kippa honum úr sárinu.
Við þessa sjón hljóðuðu þeir upp yfir sig af harmi og jók það á hryggð
mína, en öldungurinn hné í ómegin. Báru þá þrælarnir hann upp aftur
á örmum sér og lögðu hann niður undir tré því, er ég leyndist í. Lá
hinn ólánsami faðir lengi í óvitinu, þrátt fyrir alla viðleitni þeirra, og
hugðu þeir honum ekki lífvænt. Loksins vitkaðist hann samt eftir langa
bið. Báru nú þrælarnir þangað lík sonar hans, skrýtt hinum beztu klæðum,
og er gröfin var grafin, var því sökkt niður í hana. En öldungurinn,
sem flóði í tárum, og varð að hafa tvo þræla sér til stuðnings, kastaði fyrst
mold á líkið og fylltu þrælarnir síðan gröfina. Að því búnu voru húsgögnin
og matvælin borin úr jarðhúsinu ofan á skip. Hinn gamli maður,
sem varla gat staðið uppréttur fyrir harmi, var fluttur á börum út á skipið.
Því næst sigldi skipið burt aftur og hvarf það mér úr augsýn...
76. NÓTT. Þegar skipið var horfið, sem gimsteinamaðurinn og þrælarnir
voru á, sat ég aftur aleinn á eynni. Var ég nú um nóttina í jarðhúsinu,
því þeir höfðu ekki lokað því; en á daginn ráfaði ég til og frá
um eyna og hvíldi mig þegar ég var þreyttur. Þegar ég hafði lifað þessu
dauflega og tómlega lífi í heilan mánuð, fór ég að taka eftir því, að sjórinn
færðist góðan mun undan landi, en eyjan stækkaði. Það var eins og
meginlandið kæmi nær og varð sjórinn svo grunnur, að ekkert var á milli
nema örmjóir vaðlar. Óð ég þar yfir og tók sjórinn mér í kné; gekk ég
þar lengi eftir ströndinni á fjörum svo að ég varð dauðlúinn. Loksins
kom ég að þéttari jarðveg og hafði sjóinn langt að baki mér; kom ég þá
auga á bál mikið langt í burtu. Varð ég stórglaður, því ég hugsaði með
sjálfum mér: „Þar finnur þú einhvern mann, því ekki er þessi eldur
kviknaður af sjálfum sér. En er ég kom nær, sá ég að mér hafði skjátlazt,
því þetta var koparhöll, er mér hafði sýnzt vera eldur; og var hún
álengdar til að líta í sólskininu, sem hún stæði í ljósum loga. Dvaldi ég
um stund við höll þessa, bæði til að hvíla mig og virða fyrir mér svo
undrunarverða og snilldarfagra byggingu. Var ég ekki nálægt því orðinn
fullsaddur á því, að horfa á skrauthýsi þetta, þegar ég sá koma tíu fríða
unglinga; var sem þeir kæmu úr skemmtigöngu, og fylgdu þeir gömlum
manni, sem var mikill vexti og öldurmannlegur. Það þótti mér furða,
að þeir voru allir blindir á hægra auga. Undraðist ég mest að sjá svo
marga eineygða menn saman komna í einu, er alla vantaði sama augað
og skildi ég ekki, hvernig þeir hefðu fundizt hér. Fögnuðu þeir mér með
mestu vinsemd og er þeir höfðu heilsað mér, spurðu þeir, hvernig ég
væri þangað kominn. Svaraði ég þeim, að saga mín væri nokkuð löng,
en ef þeir vildu gera svo vel og setjast niður, skyldi ég segja þeim allt af
létta. Settust þeir þá niður og sagði ég þeim allt, sem mér hafði viljað til
síðan ég fór úr ríki mínu. Undruðust þeir mikillega og er ég hafði lokið
sögu minni, beiddu þeir mig að koma með sér inn í höllina. Þáði ég boð
þeirra og gengum við um marga fagurskipaða sali, stofur og herbergi,
þangað til vér komum í einn stóran sal. Stóðu tíu bláir legubekkir settir
í hring allt umhverfis; voru þeir gerðir til hvíldar um daga og svefns
um nætur. En í miðjum hringnum stóð hinn ellefti legubekkur, samlitur
hinum, en nokkuð lægri, og á hann settist gamalmennið, en unglingarnir
á hina tíu. Var ekki rúm nema fyrir einn á hverjum og var því
sagt við mig: „Vinur, seztu á ábreiðuna þarna í miðjunni og skaltu
jafnlítið hnýsast eftir nokkru, sem okkur snertir, sem hinu, hvað því
veldur, að vér allir höfum misst hægra augað. Láttu þér nægja það, sem
þú sér, en varastu að forvitnast um fleira.“
Að nokkrum tíma liðnum stóð gamalmennið upp og gekk út, en kom
bráðlega aftur með kvöldverð handa hinum tíu yngissveinum; fékk hver
þeirra sinn skammt fyrir sig. Færði hann mér og minn skammt og snæddi
ég einn að dæmi allra hinna, en að lokinni máltíð rétti sami öldungurinn
hverjum eina skál af víni. Varð ég því næst að segja þeim upp aftur
sögu mína, svo frábær hafði þeim þótt hún vera, og vorum við að tala
um hana langt fram á nótt, þangað til einhver tók eftir að áliðið var
orðið og sagði við öldunginn: „Þú sér, að kominn er tími til að hátta, og
færir okkur þó ekki það, sem vér þurfum til að gera skyldu vora.“ Stóð
öldungurinn upp að vörmu spori og gekk inn í næsta herbergi; bar hann
þaðan smámsaman tíu ker og voru breiddir yfir bláir dúkar. Setti hann
sitt fyrir hvern af hinum eineygðu og kerti með, en er þeir tóku dúkana
af, sá ég að í kerunum var aska, kol og svart litarefni. Hrærðu þeir allt
þetta saman og tóku að maka andlit sín í hræringi þessum, svo þeir urðu
viðbjóðslegir að sjá. Síðan grétu þeir hástöfum, veinuðu og æptu án afláts:
„Vér lifðum sældarlífi, en vor ósvífna forvitni spillti því fyrir oss.“
Héldu þeir þessu kynlega atferli áfram nær því alla nóttina; en er komið
var undir morgun, færði öldungurinn þeim vatn og þvoðu þeir þá andlit
sín og hendur. Síðan fóru þeir úr hinum saurugu klæðum og í önnur
hrein, svo engin merki sáust á þeim eftir hinar kátlegu aðfarir, sem ég
hafði verið sjónarvottur að.
Nú megið þér nærri geta, hvað ég átti bágt með að stilla mig. Oft
var rétt að mér komið, að bregða þögninni og spyrja hina eineygðu menn.
Kom mér ekki dúr á auga, það sem eftir var nætur. En er vér vorum
komnir á fætur morguninn eftir, gengum vér út til að viðra oss í morgunkælunni
og sagði ég við hina ungu menn: „Ég er ekki maður til að
halda lög þau, er mér voru sett í gær. Þér eruð allir skýrleiks menn og
vel viti bornir, að því er mér hefur virzt, en samt sá ég yður slíkt aðhafast
í gærkvöldi, sem vitlausum mönnum einum væri ætlandi. Hvaða
ólán sem af því kann að hljótast, þá get ég samt ekki stillt mig um að
spyrja yður, hvers vegna þér hafið svert andlit yðar og hvers vegna þér
eruð eineygðir. Hlýtur eitthvað sérlegt að valda þessu og því særi ég ykkur
að seðja forvitni mína.“ Svöruðu þeir spurningum mínum engu öðru
en því, að mig varðaði ekki um það, mér stæði á engu að vita það og
væri mér fyrir beztu að bæla niður þessa hnýsnis ástríðu. Töluðum vér
þenna dag um hitt og þetta og er vér höfðum snætt kvöldverð, og nótt
var fyrir hendi; sótti öldungurinn aftur hin bládúkuðu ker; svertu þeir
sig aftur og æptu: „Vér lifðum sældar lífi, en vor ósvífna forvitni spillti
því fyrir oss.“
En er á þessu gekk hverja nótt eftir aðra, þá gat ég loksins ekki setið
á mér lengur. Lagði ég nú fast að þeim, að svala forvitni minni eður vísa
mér leið, að ég mætti heim komast í ríki mitt. „Því hér get ég ekki lengur
haldizt við,“ sagði ég, „ef ég hverja einustu nótt á að horfa á svo fábreytilega
sjón og vita ekki, hvernig á slíku stendur.“
Þá svaraði einn af hinum eineygðu: „Undrastu eigi, að vér breytum
þannig við þig, því ekki gengur oss annað til að synja bænar þinnar en
góðvilji einn, að afstýra þeim harmi frá þér, að rata í sama ólánið og vér.
En viljir þú verða fyrir sama slysi og vér, þarft þú ekki annað en að segja
til og skaltu þá fá þá úrlausn, sem þú mælist til.“ Kvaðst ég vera við öllu
búinn, hvað sem væri, en þó töldu þeir um fyrir mér. „Hafðu ráð vort,“
sögðu þeir, „og stilltu forvitnina, því hægra auga þitt er í veði.“ „Það
gerir ekkert til,“ anzaði ég, „ég lofa því, að sakast ekki við ykkur, þó ég
verði fyrir óláni þessu, heldur skal ég sjálfum mér einum um kenna.“
Sögðu þeir mér og, að úr því ég hefði misst augað, mætti ég eigi vonast
þess, að geta verið hjá þeim, ef mér hefði líkt til hugar komið; væri tala
þeirra full og mættu ekki fleiri bætast við. Sagði ég þá, að mér þætti
reyndar vænt um að vera með svo góðum mönnum, en ef ekki væri kostur
á því, mundi ég láta mér það lynda, því mér væri fyrir öllu, að þeir
gerðu bæn mína.
Þegar hinir tíu eineygðu menn sáu að ég var staðráðinn í áformi
mínu, slátruðu þeir sauð og flógu af honum gæruna og réttu mér hnífinn,
sem þeir höfðu skorið með, og mælti einn þeirra: „Taktu við hnífnum,
þar mun koma að þú þarft hans við; skal ég nú segja þér, hvernig
á því stendur. Vér ætlum að sauma þig innan í gæru þessa og skilja þig
einan eftir úti. Mun þá í sama vetfangi sjást á lofti kynjastór fugl, er
Rok heitir; heldur hann að þú sért sauður, hremmir þig og flýgur með
þig hæst upp undir ský. Lát samt ekki hugfallast, því hann mun beina
flug til jarðar aftur og setjast á fjallstind einn. Undir eins og þú finnur að
þú ert kominn á jörð niður, skaltu rista upp gæruna með hnífnum og
fleygja henni af þér. Óðar en fuglinn sér þig, mun hann fljúga burt af
hræðslu. Skalt þú þá án tafar ganga þaðan, þangað til þú kemur að höll
einni mikilli, sem er alþakin gulli, stórum smarögðum og öðrum gimsteinum;
skaltu ganga inn um hliðið, er ávallt stendur opið. Höfum vér
allir verið þar, en viljum ekkert segja þér af því, sem vér höfum séð þar
eða reynt; þú munt reyna það sjálfur. En það eitt skaltu vita, að hver
okkar hefur látið hægra augað fyrir, og erum vér, vegna fjarveru vorrar
þaðan, skyldaðir til að leggja á oss meinlæti þau, er þú sást. Höfum vér
allir ratað í svo fáheyrð ævintýri, að rita mætti um það stóra bók, en vér
megum ekki segja meira af því.“
77. NÓTT. Þegar einn af hinum eineygðu hafði sagt mér allt þetta,
sveipaði ég að mér gærunni og hafði ég nú með mér hnífinn; saumuðu
þeir síðan fast að mér og gengu aftur í eirhöllina. Leið ekki á löngu áður
en ég sá fuglinn Rok, er þeir höfðu talað um; steypti hann sér yfir mig
úr háa lofti og hremmdi mig í klær sínar eins og sauð og flaug svo upp
aftur himinhátt með mig, unz hann renndi sér niður aftur á háan fjallshnúk
og lagði mig þar niður. Undir eins og ég fann, að ég var kominn
á jörð niður, risti ég gæruna af mér með hnífnum, fleygði henni og gerði
fuglinn varan við mig; flaug hann jafnskjótt sem hann sá mig, fyrir
hræðslu sakir. Fuglinn Rok er hvítur að lit, ógurlega mikill og sterkur;
svo er hann rammefldur, að hann flýgur með fíla af jafnsléttu upp á
hæstu fjöll og étur þá þar. Var ég nú bráðlátur að sjá hina fyrirheitnu
höll og stóð alls ekki við, heldur flýtti mér, sem ég gat, svo ég náði þangað
á tæpum hálfum degi. Þótti mér hún enn fallegri en henni hafði verið
lýst fyrir mér, og kom ég gegnum hið opna hlið inn í ferstrendan garð,
svo víðan, að umhverfis hann voru níutíu og níu dyr úr sandels- og olíuviði,
og einar dyr af gulli, auk margra skrautlegra stiga, er lágu upp til
hinna efri herbergja. Urðu fyrir mér opnar dyr og kom ég inn um þær í
stóran sal; sá ég þar sitja fjörutíu meyjar, svo óumræðilega fagrar, að ég
gat eigi hugsað mér fegurri. Voru þær allar skrautbúnar. Undir eins og
þær sáu mig, stóðu þær upp og biðu þess ekki, að ég heilsaði þeim, heldur
heilsuðu þær mér að fyrra bragði með miklum gleðilátum og sögðu:
„Kom heill, kom heill, drottinn vor og herra!“ Því næst tók ein þeirra
til máls! „Lengi höfum vér þráð slíkan riddara, sem þú ert. Má ráða það
af yfirbragði þínu, að þú hefur alla þá kosti til að bera, sem vér óskum
oss, og vonum vér, að þér þyki félagsskapur vor hvorki ógeðfelldur né
þér ósamboðinn.“ Neyddu þær mig til að setjast í sæti, sem var hærra en
þeirra, og var mér það mjög á móti skapi. En er ég lét í ljósi, að mér
líkaði miður, mæltu þær: „Þetta er þitt sæti; upp frá þessu ert þú drottinn
vor, herra og dómari, en vér erum ambáttir þínar, reiðubúnar til að gera
hvað sem þú skipar.“ Fékk mér það nú mikillar undrunar, hvað þessar
ástúðlegu meyjar lögðu sig í líma að gera mér allt að skapi. Ein kom til
mín með heitt vatn og þvoði á mér fæturna, önnur hellti ilmandi vatni
yfir hendur mínar, sumar færðu mér klæðnað og hjálpuðu mér til að
78. NÓTT. Þegar ég hafði sagt hinum fjörutíu meyjum sögu mína
til enda, urðu þær eftir, sem næst mér sátu, til að skemmta mér, en hinar
fóru út að sækja kerti, því dimmt var orðið. Komu þær aftur með fjölda
ljósa, svo ekki þurfti að sakna dagsbirtunnar, og röðuðu þær ljósunum
svo fagurlega niður, sem hugsazt gat. En nokkrar báru inn þurrkaða ávexti,
súrsaðan mat, sætindi og þorstsæla rétti; báru þær og alls konar
vín og aðra drykki á borð, en aðrar komu með hljóðfæri. En þegar öllu
var skipulega fyrir komið, þá buðu þær mér að setjast til borðs. Settust
þá meyjarnar líka og stóð samsæti þetta lengi yfir. Þær, sem kunnu
að syngja og leika á hljóðfæri, skemmtu með fögrum söng, hinar dönsuðu
tvær og tvær með óviðjafnanlegum yndisþokka, og stóð á þessum
leik þangað til komið var miðnætti.
Þá tók ein af hinum fögru húsfreyjum til orða og mælti: „Þú munt
vera þreyttur af göngunni og er nú tími til kominn að þú njótir hvíldar.
Herbergi þitt er til reiðu; en áður en þú fer þangað, skalt þú kjósa af
oss lagskonu til hvíluneytis, þá er þér lízt hvað bezt á.“ Svaraði ég því,
að ég mundi trauður að kjósa, því mér þættu þær allar jafn fríðar, jafn
skýrar og jafn maklegar þjónustu minnar; mundi ég því ekki vera sá
glópur, að taka eina fram yfir aðra. Þá svaraði mér sú, er fyrst talaði:
„Vér kunnum að meta kurteisi þína og vitum, að feimni þín kemur af
ótta fyrir því, að afbrýðisemi muni kvikna með oss. En lát eigi slíkt aftra
þér; vér ábyrgjumst, að hvernig sem þú kýs, þá skulum vér eigi verða
afbrýðifullar, því vér höfum komið oss saman um, að njóta sömu sæmdar
í röð, hver á eftir annarri og skal umferðin byrja á ný, þegar fjörutíu
dagar er liðnir. Kjóstu því hiklaust sem þér líkar, og hafðu ekki af þér
tímann, sem þér er ætlaður til nauðsynlegrar hvíldar og endurnæringar.“
Hlaut ég að láta undan og kaus ég þessa hina yndislegu mey, sem við mig
talaði, því hún töfraði augu mín og heillaði hjarta mitt og var eins og
skáldið lýsir:
/#
Hrafnsvart, hrynjandi
hár um sveipar
heiði hádegis
húmi nætur,
en skær ásján
í skugga fylgsnum,
dimmu dreifandi,
daglengis skín.
Era svo vænn viður,
að vexti megi
gullbjartrar líkja
við limar beinar,
né svo haukfránar
hvarmatinnur
antelópu,
þó atalt horfi;
hún nam af auðspöng
augum renna.
Heiðnar ástir
í hjarta brunnu,
er til hvítarmrar
hug ég felldi;
ástsjúkan hal
enginn firni,
þó táli teygist
og trú gleymi.
#/
Hinn ástúðlegi meyjaskari skildi þar við okkur og gekk til hvílu.
79. NÓTT. Um það leyti, sem ég var klæddur morguninn eftir, komu
hinar þrjátíu og níu meyjar í herbergi mitt. Voru þær allar öðruvísi búnar
en daginn áður; buðu þær mér góðan dag og spurðu, hvernig mér liði.
Því næst fóru þær með mig í bað, þvoðu mér sjálfar og þjónuðu mér á
allar lundir móti vilja mínum. En er ég sté úr lauginni, færðu þær mig í
annan klæðnað miklu skrautlegri en hinn fyrri. Sátum vér því nær allan
daginn yfir borðum og er háttatími var kominn, beiddu þær mig aftur
að kjósa mér lagskonu. Í stuttu máli, lafði mín, því ég vil ekki þreyta
yður með því að stagast á hinu sama aftur og aftur, ég var í heilt ár hjá
hinum fjörutíu meyjum og samrekkti þeim til skiptis. Ekkert bar það
til allan þenna tíma, er á minnsta hátt glepti munaðarsælu vora; en er
þessi tími var á enda, komu hinar fjörutíu meyjar einn morgun til mín,
en þá voru þær ekki með gleðibragði, né spurðu um líðan mína, heldur
flóðu þær í tárum.
Hver þeirra faðmaði mig eftir aðra með blíðlæti og mælti: „Vertu
sæll, elskulegi kóngsson! Við verðum að skilja við þig.“ Komst ég við af
tárum þeirra og grátbændi þær, að segja mér, hvað að þeim gengi og
hvernig á skilnaði þeim stæði, er þær töluðu um. „Fyrir guðs sakir, elskurnar
mínar!“ sagði ég, „látið mig vita, hvort í mínu valdi stendur að
hugga ykkur, eða er aðstoð mín árangurslaus?“ Í stað þess að svara því, er
ég spurði að, önzuðu þær: „Guð gæfi vér hefðum aldrei séð þig né þekkt.
Margir riddarar hafa sýnt oss þá sæmd, að koma á vorn fund, en enginn
þeirra var eins látprúður, mildur og glaðvær og svo að öllum kostum
búinn, sem þú. Við vitum ekki, hvernig við eigum að lifa án þín.“ Að
svo mæltu kom upp fyrir þeim mikill grátur að nýju. Beiddi ég þær enn
að láta mig ekki lengur ærast af óþreyju, heldur segja mér óhikað orsök
harma þeirra, og svöruðu þær þá: „Æ, hvað mundi vera oss meira sorgarefni
en það, að verða að skilja við þig? Má vera, að við sjáumst aldrei
framar. En ef þú vildir og hefðir stillingu til, þá væri þó ekki ómögulegt,
að við mættum finnast aftur.“
„Ég skil ekkert í því, sem þið talið um,“ mælti ég, „og bið ég ykkur
að skýra orð ykkar.“ „Svo skal vera,“ tók ein þeirra til máls, „og skalt þú
vita, að vér allar erum konunga dætur. Við búum hér saman og lifum
sældarlífi, eins og þú veizt, en við hver árslok erum vér skyldar til að fara
héðan og vera fjörutíu daga í burtu; valda þessu óbrigðanleg álög, sem
við megum ekki segja frá. Munum vér seinna koma til hallarinnar aftur.
Í gær var árið á enda og í dag verðum við að skilja við þig; þess vegna
liggur svo illa á okkur. En áður en við leggjum af stað, munum við afhenda
þér alla lykla og einkum þá, er ganga að hinum hundrað dyrum;
hefur þú þar nóg til að svala forvitni þinni, og skalt þú hafa það þér til
afþreyingar meðan við erum burtu. En þess biðjum við þig. — það er
sjálfum þér fyrir beztu og stendur okkur á mestu — ljúktu ekki upp gulldyrunum!
Því ef þú lýkur þeim upp, munum við aldrei framar sjást;
eykur þessi áhyggja mjög á harma vora. Það er vonandi, að þú hlýðir
ráði þessu, þar sem heill þín liggur við. Gættu þín vel, því ef þú lætur
eftir forvitni þinni, þá bakar þú sjálfum þér mikið tjón. Við sárbænum
þig, að varast slíkt glappaskot og veita okkur þá huggun, að fá að finna
þig aftur, þegar hinir fjörutíu dagar eru liðnir. Að vísu væri oss hægt að
hafa með oss lykilinn að gulldyrunum, en það væri ókurteisi, þar sem
kóngsson á í hlut, að tortryggja vizku hans og stillingu....“
80. NÓTT. Ég varð sárhryggur af því, er hinar fögru konungadætur
sögðu mér. Gaf ég þeim í skyn, hvílíks saknaðar og leiða fjarvera þeirra
fengi mér, og þakkaði ég þeim fyrir heilræðið. Ég lofaði að hlýðnast þeim,
sór og sárt við lagði, að ég gæti gert það, sem örðugra væri, til þess að
hljóta slíkt lán, sem það væri, að una aldri sínum hjá slíkum afbragðs
konum. Því næst kvöddumst við með mestu blíðu; faðmaði ég þær allar
hverja eftir aðra, og nú var ég allt í einu aleinn eftir í höllinni.
Á hinu liðna ári hafði ég gleymt mér svo í munaðarlífinu, hinum inndæla
félagsskap, sönglistinni og skemmtununum, að ég hvorki hafði tíma
né löngun til að kynna mér hina merkilegu hluti, sem voru í töfrahöll
þessari. Þó að ég hefði þar ótal fagra hluti fyrir augum á degi hverjum,
varð mér ekki einu sinni litið til þeirra, svo var ég frá mér numinn af
fegurð meyjanna og ánægður af því, hvað þær voru mér ljúfar og ástúðlegar.
Þess vegna fékk burtför þeirra mér ákafrar hryggðar, og þó við værum
ekki skilin að samvistum meira en fjörutíu daga, mátti mér, sem það
væri hundrað ár.
Ég einsetti mér að hafa jafnan í hug hið mikilsvarðandi heilræði, er
þær gáfu mér, og ljúka aldrei upp gulldyrunum. En af því ég, að þessu
einu undanteknu, mátti seðja forvitni mína sem ég vildi, þá tók ég þann
lykilinn, sem fyrstur var í röðinni af þeim, er gengu að hinum öðrum
dyrum. Lauk ég nú upp hinum fyrstu dyrum. Inn um þær dyr kom ég í
aldingarð, og hygg ég að enginn finnist slíkur um víða veröld, og enda,
að sá taki honum ekki fram, sem trúin hefur fyrirheitið oss eftir dauðann.
Varð ég frá mér numinn að horfa á allt það, er garður þessi hafði
til að bera, hið ágæta skipulag, þrifnaðinn, fyrirkomulag plantnanna,
ógrynni, margbreytni og fegurð ávaxtanna. Skal þess og geta, að þessi
dýrðlegi garður var vökvaður fágætum vatnsveitingum. Þar voru haglega
grafnir og beinþræddir skurðir, er leiddu gnóglegt vatn að rótum
trjánna, sem vatnsþurfandi voru til að bera hið fyrsta brum og blóm, en
aðrir færðu minna vatn til þeirra, sem aldinvísir var kominn á, og enn
aðrir miklu minna til þeirra trjáa, sem báru því nær fullvaxin aldin;
voru þau aldin miklu stærri en almennt gerist í öðrum görðum. En í
þeim rennum, sem fluttu vökva til þeirra trjáa, er alþroskaða ávexti báru,
var ekki meira vatn en svo, að þau gátu nærzt og viðhaldizt í sama gróðri.
Ég ætlaði aldrei að geta þreytzt á að skoða þenna inndæla stað og dást
að honum, og mundi ég aldrei hafa þaðan farið, hefði ég ekki eftir þessu
gert mér enn meiri hugmyndir um það, sem ég átti óséð. Fór ég því úr
garði þessum gagntekinn af undrun, lokaði dyrunum og lauk upp þeim,
er næstar voru.
Þar var eigi aldingarður, heldur jurtagarður, og var hann að sínu
leyti eins frábær. Hann var mikill um sig, og minni vatnsveitingar en í
hinum, til þess að engin plantan fengi meira vökva en þurfti. Blómguðust
þar samtímis ýmsar jurtir, sem annars aldrei gróa á sömu árstíð, bæði
rósir, jasmínur, hyasintar, anemónur, túlípanar, sóleyjar, negulblóm, liljur
og fjöldi annarra blóma, og ekkert getur sætara hugsazt en hinn samblandaði
blómilmur, sem ég andaði að mér í garði þessum.
Nú lauk ég einnig upp þriðju dyrunum og kom inn í stórt fuglahús;
var gólfið þar lagt ýmiskonar marmara. Búrið var úr sandels- og olíuviði
og var í því ótölulegur fjöldi næturgala, kanarífugla, lævirkja, og annarra
ennþá sætrómaðri söngfugla, sem ég aldrei fyrr á ævi minni hafði heyrt
né séð. Fæða þeirra og drykkur var í dýrustu jaspis- og agatskálum og
var frá öllu gengið með slíkum þrifnaði, að ég hugsaði með sjálfum mér,
að ekki veitti af hundrað mönnum til að halda þessu stóra fuglahúsi í
slíkum þrifum. En hvorki sá ég hér nokkurn mann né heldur í görðunum,
sást þar þó ekkert illgresi né minnsta vanhirðing.
Sól var runnin til viðar og var ég frá mér numinn af sönglist þessa
fuglagrúa, sem nú tók að leita sér nátthvíldar. Fór ég því til herbergis
míns og sofnaði með þeim ásetningi, að ljúka upp næsta dag öllum hinum
dyrunum nema þeim síðustu, þeim hundruðustu — gulldyrunum.
Daginn eftir lauk ég upp fjórðu dyrunum og svo sem ég hafði furðað
mig á því, er ég sá daginn áður, undraðist ég hálfu meira það, er ég nú
sá. Kom ég inn í víðan garð og var kringum hann undurfögur bygging,
en ég vil eigi lýsa því nákvæmar, svo saga mín lengist ekki um of. Voru
fjörutíu dyr á byggingu þeirri og einn féhirzlusalur innar af hverjum dyrum,
en hver þeirra var meira virði en hið mesta konungsríki. Í hinum
fyrsta lágu perluhrúgur; voru hinar stærstu perlur, þó ótrúlegt þyki,
á stærð við dúfuegg, og var miklu meira af hinum stóru en hinum smáu.
Í næsta sal voru demantar, karbunklar og roðasteinar, í hinum þriðja
smaragðar, í hinum fjórða stangagull, gullpeningar í hinum fimmta,
stangasilfur í tveimur hinum næstu; en í hinum voru ametystar, tópasar,
ópalar, tyrkisar, hyasintur og allir gimsteinar, sem hugsazt geta, að ég ekki
nefni jaspis, agat og karneól. Þar að auki var fullt hús af kóralgreinum
og enda heilum kóraltrjám.
Þegar ég hafði virt fyrir mér öll þessi auðæfi, réði ég mér ekki fyrir
undrun og hrópaði: „Þó að auðlegð allra konunga veraldarinnar væri
komin á einn stað, kæmist hún ekki í hálfkvisti við þetta. Mikill lánsmaður
er ég, að eiga öll þessi auðæfi og þar á ofan fjörutíu hinar fríðustu
konur jarðríkis.
En ég vil ekki tefja mig á því, lafði mín, að lýsa öllum hinum sjaldgæfu
dýrgripum og gersemum, sem ég sá hina næstu daga. Það eitt segi
ég yður, að mér veitti ekki af þrjátíu og níu dögum, til þess að ljúka upp
hinum níutíu og níu dyrum og sjá allt, sem geymt var innar af þeim. Nú
voru einungis eftir hundruðustu dyrnar og þeim var mér bannað að
ljúka upp....
81. NÓTT. Nú kom dagur sá að hendi, sem var hinn fertugasti frá
því ég skildi við hinar fögru konungadætur, og hefði ég á þessum degi
getað stillt mig, eins og skylda mín var, mundi ég hafa orðið hinn mesti
gæfumaður, þar sem ég nú varð hinn mesti ólánsmaður. Daginn eftir átti
ég von á konungadætrunum, og hefði ég átt að hafa taum á forvitni
minni af tilhlökkuninni að sjá þær. En ég var breyskur, sem mig mun
lengi iðra, og bugaðist ég af ginningum djöfulsins, sem lét mig engan
frið hafa, heldur freistaði mín jafnt og stöðugt, þangað til ég ofurseldi
mig hörmungum þeim, er síðan hafa gengið yfir mig.
Ég lauk því upp hinum ískyggilegu dyrum, þvert á móti heiti mínu,
og óðar en ég hafði stigið fæti yfir þröskuldinn, lagði á móti mér sætan
ilm, en þó brá mér svo annarlega við, að ég hné hálft um hálft í ómegin.
Kom ég þó fljótt aftur til sjálfs mín og hefði ég þá átt að láta bendingu
þessa verða mér að varnaði, loka dyrunum og bæla niður forvitnina fyrir
fullt og allt, en í þess stað hélt ég áfram. Því þegar ég hafði farið út og
hresst mig í útiloftinu, gat ég vel þolað ilminn. Ég kom inn í glæsilegt,
fagurhvelft herbergi, og var sóllauki stráð yfir gólfið. Þar brann fjöldi
ljósa á stórum kertistikum úr gulli; loguðu þau af angandi olíu og ilmkvoðu;
logaði þar og á gull- og silfurlömpum af ilmkynjaðri olíu og stóð
af ljómandi birta. Var þar margt nýstárlegt að sjá, en það, sem mér varð
starsýnast á, var svartur hestur, og getur enginn ímyndað sér félegri grip
eða fagurskapaðri. Ég gekk að honum til þess að skoða hann nálægt, og sá
ég að söðull og beizli var af skíru gulli og hvorttveggja völundarsmíði;
jatan var af kristalli og öðrumegin full af höfrum og hirsi en hinumegin
af rósavatni.
Nú vildi ég sjá hestinn við birtuna, teymdi hann út, fór honum á bak
og reyndi að koma honum af stað; en er honum varð ekki komið úr
sporunum, lamdi ég hann með svipu, sem ég hafði fundið inni í húsinu
hjá stalli hans. Í sama vetfangi tók hann viðbragð og hneggjaði ógurlega,
því næst þandi hann út frá sér vængi, er ég alls ekki hafði séð nein
mót til, og flaug hátt í loft upp. Hugsaði ég nú ekki um annað en að
sitja fastur í söðlinum, og tókst mér það, svo mikið ofboð, sem yfir mig
kom. Loksins renndi hann sér niður og staðnæmdist á flatþaki hallar
nokkurrar, og áður en ég gæti stigið af baki, hristi hann sig svo óþyrmilega,
að ég byltist niður af honum, og um leið sveiflaði hann taglinu
svo hart í andlit mér, að ég missti hægra auga mitt og hef síðan verið
eineygður.
Nú mundi ég allt það, sem hinir tíu eineygðu menn höfðu sagt; hesturinn
flaug burt og ég stóð upp harmandi sáran ólán það, er ég sjálfur
hafði bakað mér. Ég gekk ofan af þakinu í innhúsin, með hendina fyrir
auganu, því mér logsveið; kom ég þá í sal einn og stóðu þar tíu legubekkir
settir í hring og í miðjum hringnum ellefti legubekkurinn og
lægri en hinir; sá ég þá að ég mundi aftur vera kominn til hallarinnar,
þaðan er fuglinn Rok hafði flogið með mig. Hinir tíu eineygðu unglingar
voru ekki komnir heim, en ekki leið langt um þangað til þeir komu
og var öldungurinn með þeim. Afturkoma mín og missir auga míns kom
þeim alls ekki óvart, og sögðu þeir: „Við samhryggjumst þér af hjarta,
að þér varð ekki gleðilegri heimkomu auðið, en við erum saklausir af
óláni þínu.“ „Það væri rangt af mér,“ anzaði ég, „að kenna ykkur um
þetta; ég hef steypt mér í óhamingjuna sjálfur; ég á ekki sök nema á
sjálfum mér.“ Þá sögðu þeir: „Ef sætt er sameiginlegt skipbrot, þá getur
okkar dæmi verið þér til huggunar. Fyrir þér fór eins og okkur; við
lifðum heilt ár í sama munaði og áttum kost á sömu sælu, hefðum við
ekki lokið upp gulldyrunum í fjarveru konungadætranna. Þú varst ekki
hyggnari en við, og þú hefur sætt sömu refsingu. Vér skyldum fegnir lofa
þér að vera hjá okkur, og bæta yfir syndir þínar með oss, en þú veizt,
hvers vegna okkur er það fyrirmunað. Haf þig því á burt og far til hirðarinnar
í Bagdad; þar muntu hitta þann sem ráða mun fyrir auðnu þinni.“
Nú sögðu þeir mér hvaða veg ég skyldi fara og skyldi ég við þá. Á
leiðinni lét ég raka skegg mitt og augabrúnir og tók á mig förumunks
gervi. Hef ég lengi flakkað og kom ég til borgar þessarar þegar dagsett
var. Hitti ég við borgarhliðið förumunka þessa, sem eru jafnókunnugir
og ég, og undruðumst við þegar við sáum að okkur vantaði alla sama
augað. Við höfðum ekki tíma til að ræða um þetta sameiginlega líkams
lýti, því myrkrið datt á, og auðnaðist oss að bera hér niður og biðja yður,
lafði mín, um líkn þá, er þér hafið svo drengilega veitt oss.“
Þegar hinn þriðji förumunkur hafði lokið sögu sinni, tók Sobeide til
máls og segir við hann og förunauta hans: „Farið nú hvert á land sem
þið viljið; þið eruð frjálsir allir þrír.“ Einn af þeim varð fyrir svörum og
mælti: „Lafði mín, vér biðjum yður að fyrirgefa forvitni vora, og leyfa
oss að heyra sögu þeirra manna, sem eftir eru.“
Sobeide veik nú máli sínu að kalífanum, vezírnum Gíafar og Mesrúr,
sem hún þekkti ekki, og mælti: „Nú er að ykkur komið, að segja sögu
ykkar.“ Þá mælti stórvezírinn, sem alltaf hafði verið fyrir svörum: „Lafði
mín, til þess að hlýðnast boðum yðar þurfum vér ekki annað en að taka
það upp aftur, sem vér sögðum áður en við oss var tekið í húsi þessu.
Vér erum kaupmenn frá Mússúl og erum komnir til Bagdad til að selja
vörur vorar, sem vér höfum komið til geymslu, þar sem vér erum til
húsa. Í dag hafði einn af kaupmönnum hér boðið oss í veizlu með öðrum
verzlunarmönnum. Veitti hann oss dýrindis rétti og ágætasta vín og
á eftir lét hann koma dansmeyjar og söngmenn. Gerðum við þá svo
mikinn glaum og háreysti, að varðmenn komu og tóku nokkra af gestunum
fasta. Vér vorum svo heppnir að sleppa, en af því langt var áliðið
og dyrnar á húsi voru lokaðar, vissum vér ekki, hvert vér skyldum halda.
Nú vildi svo til að vér gengum fram hjá húsi yðar og þegar vér heyrðum,
hvað hér var glatt á hjalla, réðum vér af, að drepa á dyr. Þetta er allt og
sumt, sem vér höfum að segja samkvæmt skipun yðvarri.“
Þegar Sobeide hafði heyrt þetta, var eins og hún vissi ekki, hverju
svara skyldi. Eftir þessu tóku förumunkarnir og beiddu hana að vera
eins góða við þessa þrjá kaupmenn eins og hún hefði verið við þá, förumunkana.
Þá mælti hún: „Svo skal vera; ég vil að þið séuð mér allir um
jafnt þakklæti skyldugir og skal ég sýna ykkur miskunn, með því skilyrði,
að þið að vörmu spori farið héðan, hvert sem ykkur lystir.“
Það var auðheyrt á máli Sobeide, að hún ætlaðist til, að sér væri
hlýtt; fóru þeir þá allir umtalslaust á burt, kalífinn, Gíafar, Mesrúr,
hinir þrír förumunkar og daglaunamaðurinn. Þeim stóð líka ótti af
hinum vopnuðu svertingjum, sem stóðu þar kringum þá. Þegar þeir voru
komnir út á stræti, mælti kalífinn við förumunkana, en lét ekkert á bera,
hver hann væri: „Hvert ætlið þið nú að fara, ókunnugir menn og nýkomnir
í borgina, og enn er ekki kominn dagur?“ „Herra!“ sögðu
þeir, „við erum raunar í vandræðum út af því.“ „Komið þá með oss,“
segir kalífinn, „vér skulum greiða úr vandræðum ykkar.“ Því næst hvíslaði
hann að stórvezír sínum, að hann skyldi fara með hina þrjá förumunka
heim til sín og leiða þá fyrir sig næsta dag. „Ég ætla að láta uppskrifa
ævisögur þeirra,“ sagði hann, „þær eru þess verðar, að þær séu
geymdar í árbókum stjórnar minnar.“
Nú tók vezírinn Gíafar förumunkana með sér; daglaunamaðurinn
fór heim til sín, en kalífinn fór með Mesrúr til hallar sinnar. Hann lagðist
til svefns, en honum kom ekki dúr á auga, svo miklum heilabrotum
olli það, er hann hafði heyrt og séð. Lék honum næsta mikil forvitni
að heyra, hver þessi Sobeide væri, og hvað henni hefði gengið til að kvelja
svörtu tíkurnar svo miskunnarlaust; eins langaði hann til að vita, hvers
vegna svo mörg ör væru á brjóstum Amíne. Meðan hann var að grufla
út í þetta, ljómaði af degi. Stóð hann þá upp og gekk inn í sal þann, er
hann hélt í ráðstefnur og veitti þegnum sínum áheyrn; settist hann þar í
hásætið. Að stundarkorni liðnu kom stórvezírinn og sýndi honum lotningarmerki
eins og hann var vanur. Tók þá kalífinn óðar til máls:
„Vezír, málefni þau, sem nú eru fyrir hendi, kalla eigi mjög hart að;
öðru máli er að gegna um hinar þrjár konur og hinar tvær svörtu tíkur.
Ég hef engan frið fyrr en ég veit sannleikann um þessa kynlegu hluti.
Komdu því með konurnar og förumunkana til mín á sama tíma. Far
nú og gæt þess, að mér þykir löng biðin.“
Vezírinn þekkti herra sinn, að hann var ákafamaður og hinn bráðlátasti
og flýtti sér því, að hlýðnast boði hans. Fór hann og sagði konunum
með mestu kurteisi, að sér hefði verið skipað að leiða þær fyrir kalífann,
en ekki drap hann neitt á það, sem gerzt hafði um nóttina. Þær systur
huldu sig þegar blæjum sínum og fóru með vezírnum, en förumunkana
tók hann með sér í leiðinni; höfðu þeir á síðan komizt að því, að þeir
höfðu séð kalífann og talað við hann eins og ókunnugan. Leiddi vezírinn
þau öll inn í höllina og varð svo skjótbúinn með erindi sitt, að
kalífinn varð stórglaður. Fyrir kurteisi sakir, þar sem embættismenn voru
við, lét kalífinn vísa hinum þremur konum til sætis bak við fortjaldið
í dyrunum að herbergi hans, en hina þrjá förumunka lét hann vera
næst sér; sýndu þeir með lotningarmerkjum, að þeir vissu vel frammi
fyrir hverjum þeir stóðu.
Þegar systurnar þrjár voru setztar niður, veik kalífinn sér að þeim svo
mælandi: „Yður mun bregða í brún, þegar ég nú segi, að ég í nótt var í
húsum ykkar, dularbúinn eins og kaupmaður. Þið munuð ef til vill vera
hræddar um, að þið hafið móðgað mig, og vera má þér ætlið, að ég hafi
stefnt ykkur hingað til þess að láta ykkur kenna á reiði minni. En verið
ókvíðnar og vitið fyrir víst, að ég hef gleymt því, sem gert er, og að mér
[1227.png: Harún Alrasjid]
fellur háttalag ykkar vel í geð. Mundi ég kjósa, að allar konur í Bagdad
væru svo vel viti bornar sem þið eruð. Skal ég aldrei gleyma stillingu
þeirri er þið sýnduð, þar sem vér vorum ókurteisir. Þá var ég ekki meira
en kaupmaður frá Mússúl, en nú er ég Harún Alrasjid, kominn af
hinni vegsamlegu Abbas-ætt, er gengur í stað vors mikla spámanns. Hingað
kallaði ég ykkur til þess að ég mætti heyra af ykkar eigin sögusögn,
hverjar þið eruð, hvers vegna ein ykkar misþyrmdi svörtu tíkunum og
tárfelldi með þeim á eftir. Eins leikur mér forvitni á að vita, hvers vegna
svo mörg ör eru á brjóstum annarrar.“
Þetta mælti kalífinn skýrt og skilmerkilega og heyrðu hinar þrjár
konur hvert orð, en samt tók vezírinn Gíafar hvert orð upp aftur eftir
honum, því það var hirðsiður.
82. NÓTT. Í það mund, sem nótt var á enda, kallaði Dínarsade:
„Elsku systir! Fyrir alla muni segðu okkur söguna af henni Sobeide, því
ég geng að því vísu, að hún hafi sagt kalífanum hana.“ „Það gerði hún,“
sagði Sjerasade. Soldán uppörvaði drottningu til að segja söguna og gerði
hún það á þessa leið:
Sagan af Sobeide
Sobeide tók þannig til máls: „Drottinn rétttrúaðra manna! Saga sú,
er ég ætla að segja yðar hátign, er einhver sú einstakasta, sem nokkur
maður hefur heyrt. Ég og báðar svörtu tíkurnar erum þrjár systur, sammæðra
og samfeðra, og skal ég segja yður, hversu kynlega það atvikaðist
að þær breyttust í tíkur. Báðar konurnar, sem við eru og hjá mér eru
til húsa, eru líka systur mínar; við erum samfeðra, en sundurmæðra.
Sú heitir Amíne, sem örin hefur á brjóstunum, hin Safie, en ég heiti
Sobeide.
Eftir föður okkar látinn var fjármunum hans skipt jafnt á milli
okkar. Þegar báðar stjúpsystur mínar höfðu fengið sinn part, sögðu þær
skilið við okkur og bjuggu sér með móður sinni. En við systurnar vorum
kyrrar hjá móður okkar, sem þá var enn á lífi, en andaðist síðar og lét
hverri okkar eftir sig þúsund sekkínur.
Þegar við vorum orðnar fjár okkar ráðandi, giftust báðar eldri systur
mínar, fóru burt með mönnum sínum og létu mig sitja eina eftir. Undir
eins eftir brúðkaupið seldi maður annarrar þeirra allar eigur sínar;
fóru þau síðan til Afríku, bæði með fé það, er hann fékk fyrir þær og
fjármuni hennar. Eyddi hann þar öllu fé sínu og konu sinnar og þegar
hann var alls laus, rak hann hana frá sér og hafði ósannindi að yfirvarpi
sér til réttlætingar.
[1229.png: Sobeide sagði kalífanum sögu sína]
Nú kom hún aftur til Bagdad og hafði orðið að þola mestu hörmungar
og volæði á slíkri langferð; hún leitaði skjóls hjá mér og var þá
svo aumkvunarlega til reika, að hvert steinhjarta mátti vikna. Fagnaði
ég henni með ástúð, sem hún ætíð mátti eiga von á af mér. En er ég
spurði hana, hvað hafði steypt henni í þetta ólán, sagði hún mér grátandi
frá hinu illa athæfi manns hennar og hversu ósæmandi meðferð
hún hafði orðið fyrir. Komst ég þá svo við að ég tárfelldi með henni;
fylgdi ég henni því næst til lauga, og gaf henni klæðnað af sjálfri mér.
„Elsku systir!“ sagði ég við hana, „þú ert okkar elzt og ég álít þig sem
móður mína. Meðan þú varst burtu, hefur guð blessað mín litlu efni og
atvinnu þá, sem ég hef varið þeim til; hef ég stundað silkiorma rækt og
heppnazt vel. Treystu því, að allt, sem ég á, er líka þín eign og skal það
vera þér jafn heimilt, sem sjálfri mér.“
Nú lifðum við saman marga mánuði í bezta samlyndi. Oft hugsuðum
við til hinnar þriðju systur og furðuðum okkur á því, að við ekkert
skyldum frétta af henni; en allt í einu kom hún sjálf og var jafn aumlega
stödd sem hin elzta. Hún hafði orðið fyrir sömu meðferð af manni sínum
og fékk hún hjá mér sömu viðtökur og hin.
Nokkru síðar gerðu báðar systur mínar mér uppskátt, að þær ætluðu
að giftast, til þess að vera mér ekki lengur til byrði. Svaraði ég, að ef
þeim gengi ekki annað til, væri þeim þeirra hluta vegna óhætt að vera
hjá mér, því eigur mínar nægðu okkur þremur til sómasamlegs framfæris.
„En ég er hrædd um,“ sagði ég, „að þessi gifting sé girndarráð
ykkar beggja. Sé svo, hlýt ég að játa, að mér kemur það á óvart; getið
þið hugsað til að giftast í annað sinn, sem hafið haft svo lítið lán af
hjúskapnum? Þið vitið, hversu góður maður er sjaldfenginn; hlýðið því
ráðum mínum og látum okkur búa saman, og gera hverri annarri lífið
svo inndælt, sem okkur er unnt.“ Reyndi ég nú að telja þeim hughvarf,
en þær höfðu einsett sér að giftast og gerðu það líka. En nokkrum mánuðum
eftir komu þær til mín og færðu sér allt til afsökunar, sem þær
gátu, að þær hefðu ekki fylgt mínum ráðum. „Þú ert okkar yngst,“ sögðu
þær, „en miklu vitrari en við; viljir þú aftur taka okkur sem ambáttir
þínar, skulum við framvegis varast slík glappaskot.“ „Elsku systur!“
svaraði ég, „hjartaþel mitt ykkur til handa hefur ekki breytzt síðan við
skildum; njótið því með mér alls, sem ég á.“ Ég faðmaði þær að mér og
lifðum við nú saman eins og fyrri. Nú leið svo eitt ár, að okkur skildi
aldrei á, orð né verk, og lét guð efni mín blessast, svo ég ásetti mér að
fara sjóferð í verzlunarerindum og eiga nú meira á hættu en áður. Fór
ég því með báðum systrum mínum til Balsora og keypti þar skip með fullkomnum
útbúnaði og fermdi það varningi frá Bagdad. Sigldum við burt
í hagstæðum vindi og vorum skjótt komnar út í Persalandsflóa. Síðan
stýrðum við til Indíalands og vorum tuttugu daga í hafi unz við sáum
land. Beint fram undan oss var fjall nokkurt afar hátt og tilsýndar eins
og undir því stæði borg ein, mikil og fögur. En blásandi byr bar oss
skjótt til hafnar og köstuðum vér þar akkeri.
Ég hafði ekki eirð á að bíða eftir systrum mínum og lét því róa mig
eina til lands; gekk ég síðan rakleiðis til borgarhliðanna. Þar sá ég fjölda
varðmanna með stafi í höndum, sátu sumir, aðrir stóðu, en allir voru
þeir svo voðalegir, að ég varð dauðhrædd. En er ég sá, að þeir hrærðust
ekki úr stað, og jafnvel augu þeirra bærðust ekki, þá herti ég upp hugann,
kom nær og sá að þetta voru steingjörvingar.
Því næst fór ég inn í borgina og gekk um mörg stræti; sá ég hingað
og þangað menn í ýmsum stellingum, en allir voru þeir grafkyrrir og
að steini orðnir. Í þeim hluta borgarinnar, sem kaupmenn höfðu búið,
voru flestar sölubúðir lokaðar, en í þeim, sem opnar stóðu, sá ég líka
steinmenn. En er ég leit upp til reykháfanna, sá ég engan reyk upp stíga
og réði ég af því, að allt mundi orðið að steini innanhúss og utan.
Í miðri borginni var autt pláss og mikið um sig. Þar rak ég augun í
stórar dyr með vængjahurðum, sem lagðar voru gullplötum og stóðu
báðar opnar. Silkifortjald var dregið fyrir og uppi yfir hékk lampi. Þegar
ég hafði virt fyrir mér stórhýsi það, er dyrnar voru á, þá efaði ég ekki,
að það mundi vera höll konungs þar í landi. Skildi ég ekki í því, að ég
skyldi ekki hafa hitt þar nokkurn lifandi mann, og gekk því inn í höllina
í þeirri von, að ég mundi loksins einhvern finna. Dró ég fortjaldið
frá, en undraðist nú hálfu meira en áður, því ég sá ekki í fordyrinu nema
varðmenn í steins líki; sátu sumir, en sumir stóðu eða lágu. Gekk ég
því næst inn í víðan garð, og voru þar margir menn, sem sýndust fara
eður koma, en hrærðust ekki úr stað, því þeir voru orðnir að steini eins
og hinir. Þaðan kom ég í annan og þriðja garð, en hvarvetna var hin
sama auðn og alstaðar ríkti ógurleg dauðakyrrð.
Þegar ég kom í hinn fjórða garð, sá ég ljómandi fagra byggingu;
voru þar gullgrindur fyrir gluggum og hugði ég því, að þetta mundi vera
aðsetur drottningar. Gekk ég þar inn og kom í sal nokkurn mikinn;
var þar fjöldi svartra geldinga í steins líki; þaðan kom ég í herbergi
harðla ríkulega búið, og var þar kona ein í steins líki. Sá ég, að hún
mundi hafa verið drottning, því hún hafði kórónu á höfði og hálsmen
úr hnöttóttum perlum, sem voru stærri en heslihnetur. Þegar ég skoðaði
perlur þessar nálægt, þótti mér, sem enginn mætti fegra sjá.
Ég var nú nokkra stund að dást að auðæfum og skrautbúnaði herbergis
þessa; mest fannst mér um gólftjaldið, svæflana og legubekkinn,
sem breitt var yfir indverskt klæði; var dúkurinn sjálfur með gulls lit,
en á hann voru glitaðar manna- og dýramyndir með silfurlegum saumi,
svo mesta snilld var á....
83. NÓTT. Ég fór úr herbergi steindrottningarinnar og gekk um
mörg skrautleg herbergi þangað til ég kom í óvenju stóran sal; var þar
hásæti úr gulli og margar tröppur upp að því; það var og skreytt stórum
smarögðum. Yfir hásætinu var hvíla úr dýrindis dúkum, alsett perlum.
En það undraðist ég mest, að skínandi birta stóð af rúminu. Lék mér
forvitni á hvað því mundi valda, og gekk því upp til hásætisins og sá
þar á litlum stóli demant, viðlíka stóran og strútfugls egg, og svo skæran
að ekki var minnsti galli á. En svo var hann óumræðilega bjartur,
að ekki mátti í gegn sjá við dagsbirtuna.
Fyrir ofan rúmið brunnu tvö ljós, sitt hvoru megin, og þóttist ég af
því mega ráða, að einhver lifandi vera væri í þessari dýrðlegu höll, því
ekki gátu ljósin logað af sjálfu sér. Marga aðra merkilega hluti varð
mér starsýnt á í herbergi þessu, mundi það ekki hafa orðið verði virt,
þó ekkert hefði þar verið annað en demantinn.
Því næst gekk ég um enn þá önnur herbergi, því hvarvetna voru dyr
opnar eða hurðir hnignar í gátt; voru þau eins fögur og hin, er ég hafði
séð. Ég skoðaði einnig eldhúsin, vista- og fatabúrin. Var hvarvetna
ógrynni auðæfa saman komið og svo varð ég frá mér numin af því að
sjá þessi undur, að ég gleymdi öllu. Ég hugsaði hvorki um skip mitt né
systur mínar, heldur einungis um að svala forvitni minni. Meðan ég
var þarna, hallaði út degi og tók að dimma; rankaði ég þá við mér og
hugsaði mér, að nú skyldi ég fara. En er ég leitaði burt, villtist ég í herbergjunum
og ásetti mér loksins að láta fyrir berast um nóttina í hinu
stóra herbergi þar sem var hásætið, rúmið, stóri demantinn og hin logandi
ljós, en er morgnaði ætlaði ég að hverfa aftur til skips míns. Ég
fleygði mér niður í rúmið og var ekki trútt um, að hrollur væri í mér,
þar sem ég var alein á svo eyðilegum stað; gat ég því ekki sofnað fyrir
hræðslu. Um miðnætur skeið heyrði ég manns rödd eins og einhver læsi
hátt í ritningu vorri og því líkast, sem siður er í musterum vorum. Þá
varð ég sárfegin og stóð upp, tók ljós og gekk úr einu herbergi í annað
á hljóðið, þangað til ég kom að dyrum stofu einnar; var auðheyrt að
hljóðið kom þaðan. Setti ég þá ljósið niður og gægðist inn um rifu, sem
var í hurðinni. Þar inni var sem í bænhúsi og hvolfstúka í vegginn, sem
í musterum, til bænagjörðar. Þar voru og hengilampar og tvær kertistikur
með stórum og hvítum vaxkertum, sem logaði á; lengra burtu sá ég
litla ábreiðu viðlíka og þær, sem tíðkast meðal vor, þegar vér föllum á
knébeð. Á henni sat ungur maður, fríður sýnum og las með guðrækni í
kóraninum, sem lá fyrir framan hann á litlu borði. Við þessa sjón brá
mér vel og fór ég að hugsa um, hvers vegna þessi mundi vera sá eini
maður, sem á lífi var í borginni, þar sem allt var orðið að steini, og efaði
ég ekki, að eitthvað fáheyrt undur mundi valda þessu.
Af því að hurð var opin í hálfa gátt, lauk ég henni upp, gekk inn og
staðnæmdist frammi fyrir bænastúkunni svo mælandi með skýrri raust:
„Lofaður sértu, guð, sem lézt oss farsællegrar ferðar auðið verða. Haltu
hinni sömu vernd yfir oss af miskunn þinni og lát oss aftur komast til vors
föðurlands. Bænheyr mig, drottinn, og lát ákall mitt koma til þinna
eyrna.“
Hinn ungi maður leit upp til mín og mælti: „Seg mér, góða kona,
hver ert þú og hvað hefur leitt þig til þessarar eyddu borgar? Ég skal
aftur segja þér, hver ég er og hvað mig hefur hent, hvernig íbúarnir
eru komnir í það ástand, sem þú hefur séð, og hvers vegna ég einn komst
hjá þessu skelfilega óláni.“
Ég sagði honum þá í stuttu máli, hvaðan ég kæmi, og hverra erinda
ég færi, og að ég hefði komizt farsællega til hafnar eftir tuttugu daga
útivist. Því næst beiddi ég hann að gera sem hann hefði lofað og sagði
ég honum, hversu forviða ég hefði orðið, þegar ég sá hina voðalegu
auðn, sem alstaðar var.
„Bíddu ofurlítið við,“ anzaði yngismaðurinn, lét aftur kóraninn,
stakk honum í dýrmætt hulstur og lagði inn í stúkuna. En á meðan virti
ég hann vandlega fyrir mér; þótti mér þá yfirbragð hans svo fagurt og
þekkilegt, að hjarta mitt hlýnaði af einhverjum yl, sem ég ekki hafði
orðið vör við fyrri. Hann lét mig setjast hjá sér og gat ég þá ekki á mér
setið, að tala til hans með slíkum svip, að hann vel mátti sjá, hversu mér
varð hann að skapi. „Ástúðlegi yngismaður,“ sagði ég, „enginn getur
verið bráðlátari en ég, þar sem ég bíð útskýringar á svo mörgum kynlegum
hlutum, sem fyrir mig hafa borið síðan ég fyrst sté fæti í borg þessa,
og verður forvitni minni aldrei ofbrátt svalað. Seg mér fyrir alla muni,
fyrir hvert kraftaverk komst þú einn lífs af, þar sem svo margir tortímdust
með svo kynlegum hætti, að slíks eru ekki dæmi?“
84. NÓTT. „Ég hef nógsamlega heyrt það á bæn þinni,“ mælti hinn
ungi maður, „að þú trúir á sannan guð; skaltu nú heyra nýjan vott almættis
hans. Borg þessi var höfuðborg voldugs ríkis, er faðir minn drottnaði
yfir. Hann og öll hirðin, borgarmenn og gjörvallir þegnar hans voru
Magar og tilbáðu eldinn í stað allsvaldanda guðs.
Þó að foreldrar mínir væru heiðingjar, var ég samt svo lánsamur,
að mér í bernsku var fengin góð og rétttrúandi fóstra; hún kunni kóraninn
utanbókar, og gat þýtt hann til hlítar. Oft sagði hún þetta við
mig: „Kóngsson minn, það er ekki nema einn sannur guð; varastu að
trúa á aðra guði eða tilbiðja þá.“ Hún kenndi mér arabiska tungu og
lét hún mig læra að lesa á kóraninum. Þegar skilningsþroski minn leyfði,
útskýrði hún fyrir mér alla torskilda staði í þessari ágætu bók, og blés
í brjóst mér anda hennar, svo að hvorki faðir minn né nokkur annar vissi
af. Þegar hún andaðist, hafði hún frætt mig svo, að ég trúði af hjarta á
sannindi hinnar mahómedönsku trúar. Eftir dauða hennar hélt ég staðfastlega
við sannfæringu þá, er hún hafði innrætt mér, og hafði ég andstyggð
á eldsdýrkun. Leyndi ég föður minn trú minni eftir ráði hennar,
því ella mundi hann hafa ráðið mig af dögum. Fyrir eitthvað þremur
árum og nokkrum mánuðum hljómaði snögglega drynjandi rödd um
alla borgina og mælti svo skilmerkilega, að hver mátti heyra, þessi orð:
„Þér borgarmenn! Leggið niður eldsdýrkun og tilbiðjið hinn eina
almáttuga, miskunnsama guð!“
Þusti þá fólkið dauðhrætt til föður míns, sem var konungur borgarinnar
og beiddi hann að segja sér, hvað hin ógurlega rödd ætti að þýða.
Svaraði hann þá: „Látið ekki hræða ykkur né snúa frá trú ykkar.“
Nú treystu menn orðum hans og héldu áfram eldsdýrkun, en að ári
liðnu heyrðist hin sama rödd og kom fyrir ekki; leið svo ár þangað til
hún heyrðist í þriðja sinn og fór á sömu leið.
En er enginn snerist til réttrar trúar, þá var það á síðasta degi hins
þriðja árs um óttu skeið, að allir borgarmenn í einum svip urðu að
steinum, hver þar sem hann var, eins og hann stóð og var á sig kominn.
Ekki fór betur fyrir föður mínum, konunginum; hann breyttist í svartan
stein eins og hann er hér í höllinni og drottningin, móðir mín, hafði
sömu afdrif.
Ég er sá eini, sem guð hlífði við þessari skelfilegu refsingu. Upp frá
því hef ég þjónað honum enn þá rækilegar en fyrr, og veit ég fyrir víst,
að hann hefur sent þig mér til huggunar. Fyrir það sé honum þökk og
lof, því mér sárleiðist í þessari einveru.“
Öll þessi saga og þó einkum niðurlagið geðjaðist mér svo vel, að ég
varð gagntekin af elsku til hins unga manns. „Kóngsson!“ sagði ég við
hann, „guðleg forsjá hefur vafalaust flutt mig til þinna hafna, svo að
þér gæfist kostur á að skilja við svo ógeðfelldan stað. Skip það, er ég
kom á, getur verið vottur um, að ég er nokkurs metin í Bagdad, og skildi
ég þar eftir ærna fjármuni. Dirfist ég því, að bjóða þér skjól hjá mér,
þangað til drottinn rétttrúaðra manna og jarl spámannsins, sem þú trúir
á, veitir þér tilhlýðilega sæmd. Þessi nafnfrægi konungur situr í Bagdad;
munt þú komast að raun um, jafnskjótt sem hann veit þig kominn
til höfuðborgar sinnar, að enginn leitar hans fulltingis árangurslaust.
Hitt er ógjörningur, að þú dveljir lengur, þar sem allt hlýtur að vera
þér til ama og óyndis. Býð ég þér skip mitt og máttu ráða því, sem þér
líkar.“ Hann þáði boð mitt, og það sem eftir var nætur, vorum við að
tala um ferð þá, er við áttum fyrir hendi.
[1235.png: Þegar dagur var kominn, fórum við úr höllinni]
Þegar dagur var kominn, fórum við úr höllinni og héldum til hafnarinnar;
höfðu systur mínar, skipstjórnarmaður og ambáttir mínar verið
sem á glóðum meðan ég var burtu. Sýndi ég systrum mínum kóngssoninn
og skýrði þeim frá, hvers vegna ég hefði ekki komið fyrr og hvernig
ég hefði hitt hann; sagði ég þeim líka sögu hans og hvers vegna hin
fagra borg hefði lagzt í eyði.
Hásetar vorir voru marga daga að skipa upp vörur þær, er vér höfðum
meðferðis, og að hlaða skipið í þeirra stað gulli, silfri, gimsteinum og
öðru, sem fémætt var í höllinni. Urðum vér þó að skilja eftir öll húsgögn
og ógrynni gullgersema, því vér gátum ekki flutt það. Hefði ekki veitt
af mörgum skipum, til að flytja öll þau auðæfi til Bagdad, sem við sáum.
En er skip vort var hlaðið gripum þeim, er vér höfðum kosið úr, tókum
vér svo miklar vistir og vatn með oss, sem vér hugðumst þurfa til
ferðarinnar. En vér áttum töluvert eftir af matvælum þeim, sem vér höfðum
með oss frá Balsora. Loksins sigldum vér burt í hagstæðasta byr....
85. NÓTT. Við systurnar og hinn ungi kóngsson lifðum nú saman
í mesta dálæti, en því fór verr, að samlyndi þetta stóð ekki lengi. Systur
mínar gerðust afbrýðifullar út af elsku þeirri, er við kóngsson bárum
hvort til annars. Því var það einhvern dag að þær spurðu mig fremur
græskulega, hvað gera skyldi við kóngssoninn, þegar við kæmum til Bagdad.
Skildi ég vel, að þær spurðu ekki að þessu til annars en komast
fyrir, hvað mér væri í hug. Svaraði ég þeim því eins og í gamni, að ég
mundi kjósa mér hann til eiginmanns, en sneri mér um leið að kóngssyni
og mælti: „Kóngsson minn! Ég bið þig að veita mér samþykki þitt;
undir eins og við komum til Bagdad, býðst ég til að verða ambátt þín
og þjóna þér sem einvöldum herra mínum.“
„Ég veit ekki, hvort þú segir þetta í glensi,“ anzaði kóngsson, „en
það er af mér að segja og því játa ég hátíðlega í viðurvist systra þinna, að
upp frá þessari stund þigg ég af heilum huga kost þann, er þú býður, en
ekki þannig, að ég taki þig í ambáttar stað, heldur að þú verðir eiginkona
mín og drottning, og skal ég alls engu ráða um gjörðir þínar.“ Við þessi
orð skiptu systur mínar litum og komst ég að því, að þær upp frá þessu
báru ekki sama hugarþel til mín sem áður.
Nú vorum við komin út í Persalandsflóa í námunda við Balsora, og
hugðum að við mundum ná þangað næsta dag, því við höfðum ljúfasta
leiði. En um nóttina meðan ég svaf, sættu systur mínar lagi og fleygðu
mér í sjóinn. Eins fóru þær með kóngsson, og drukknaði hann. En ég
hélt mér nokkra stund upp úr kafi og var það sannarlegt kraftaverk, að
mig bar á grunn, svo að ég gat fótað mig. Sá ég þá eitthvað dökkt og hugði
land vera, þó ég gæti ekki glöggt séð deili á, því dimmt var yfir. Óð
ég nær og náði landi; ljómaði þá af degi og sá ég, að ég var komin á
litla eyðiey, sem lá eitthvað tuttugu vikur sævar frá Balsora. Þornuðu
klæði mín skjótt í sólskininu, og glæddist hjá mér vonin, að ég mundi
komast lífs af, því þegar ég reikaði um eyna, fann ég margskonar ávexti
og hreint uppsprettuvatn.
Ég hvíldi mig í forsælunni, en ekki vissi ég fyrri til en ég sá digran
og langan flugdreka skreiðast að mér; stritaðist hann við og engdist til
ýmsra hliða; tungan blakti í gini hans af mæði, og réð ég af því, að
eitthvað mundi ofsækja hann. Spratt ég því upp og sá að annar digrari
höggormur hafði glefsað í sporð honum og leitaðist við að gleypa hann.
[1237.png: Ég er flugdrekinn, sem þú frelsaðir áðan frá grimmum óvin]
Ég kenndi í brjósti um hann og flýði hvergi, heldur hafði svo mikinn
hug í brjósti, að ég þreif stein upp af jörð og slengdi honum af alefli á
stærri höggorminn. Kom steinninn í höfuð honum og drapst hann þegar.
Óðar en hinn losnaði, þandi hann út vængina og flaug. Horfði ég lengi
á eftir honum eins og annarri undrasýn, en er ég missti sjónar á honum,
settist ég annarsstaðar í forsælunni og sofnaði.
Þér megið geta nærri, herra, hvað mér varð hverft við, þegar ég vaknaði
og sá hjá mér svarta konu, fjörlega í yfirbragði og svipfríða, sem
teymdi tvær svartar tíkur í bandi. Stóð ég þá upp og spurði, hver hún
væri, og svaraði hún: „Ég er flugdrekinn, sem þú frelsaðir áðan frá
grimmum óvin; hugði ég að ég mundi sýna þér mesta þakklátssemi með
því, er ég nú hef gert. Ég vissi af svikum systra þinna og þegar ég var
sloppin fyrir þína drengilegu hjálp, kallaði ég á vinkonur mínar, sem
eru álfkonur eins og ég, til þess að koma fram hefndum fyrir þig; fluttum
við allan skipsfarm þinn til geymsluhúsa þinna í Bagdad og sökktum
síðan skipinu. Báðar þessar svörtu tíkur eru systur þínar og hef ég brugðið
þeim í þetta líki. En sú refsing er ekki nóg og vil ég að þú farir með
þær eins og ég legg fyrir þig.“
Að svo mæltu tók álfkonan öðrum handleggnum yfrum mig, en með
hinum tók hún báðar tíkurnar og flutti okkur í einum svip til Bagdad;
fann ég þá í forðabúrum mínum öll þau auðæfi, sem á skipinu höfðu
verið. En áður en hún skildi við mig, fékk hún mér báðar tíkurnar og
mælti: „Í nafni hans, sem drottnar yfir hafinu, skipa ég þér að lemja
hvora systur þína um sig hundrað keyrishögg á hverri nóttu, til hegningar
fyrir ódáðaverk það, er þær unnu á þér og hinum unga kóngssyni,
sem þær drekktu; bregðir þú út af þessu skaltu sæta sömu refsingu og
sjálf breytast í tík.“ Var mér nauðugur einn kostur að heita henni hlýðni.
Síðan hef ég þvert á móti skapi mínu farið þannig með systur mínar
á hverri nótt, sem yðar hátign hefur séð. Sjá þær bezt á tárum mínum,
hvað sárnauðugt mér er að hlýðnast svo grimmdarfullri skyldu, og veit
ég þér skiljið, að mér er miklu fremur vorkennandi en ámælandi. Viljið
þér vita frekar mér viðvíkjandi, þá getur Amíne, systir mín, skýrt frá
öllu, sem á vantar.“
Kalífinn hafði hlýtt með undrun á sögu Sobeide og lét nú stórvezír
sinn biðja Amíne að segja sér, hvernig hún hefði fengið örin....
86. NÓTT. „Herra!“ mælti Sjerasade við soldán Indíalands, þegar
Dínarsade, bráðlát og sólgin í framhaldið, hafði vakið hana. „Amíne
sagði kalífanum sögu sína þannig:
Sagan af Amíne
„Drottinn rétttrúaðra manna! Ég ætla ekki að taka það upp aftur, sem
systir mín er búin að segja yður, og get einungis þess, að þegar móðir
mín, sem var ekkja, hafði valið sér hús til íbúðar, gifti hún mig með
öllum þeim erfðahluta, sem ég tók eftir föður minn, einhverjum ríkasta
manni hér í borginni.
Þegar varla var liðið ár frá því við giftumst, varð ég ekkja og erfði
allar eigur manns míns, sem voru eitthvað níutíu þúsund sekkínur.
Nægði mér leigan af þeim til að lifa góðu lífi. En er hinir sex fyrstu
sorgarmánuðir voru á enda, lét ég gera tíu fatnaði handa mér, voru þeir
svo skrautlegir, að hver um sig kostaði þúsund sekkínur; tók ég þenna
klæðnað upp við árslokin.
Það var einhvern dag, þegar ég var ein og sýslaði um hússtörf mín,
að mér var sagt, að kona nokkur vildi tala við mig. Skipaði ég þá, að
hún væri leidd á minn fund. Þetta var öldruð kona; heilsaði hún mér,
kyssti á gólfið og lá kyrr á knjánum, svo mælandi: „Ég bið yður, tigna frú,
umfram allt að fyrirgefa mér dirfsku mína, að ég tef yður; en því að
eins hafði ég þor til þess, að ég treysti hjartagæzku yðar. Svo er mál með
vexti að ég á föðurlausa dóttur, sem giftast á í dag. Við mæðgur erum
ókunnugar og þekkjum engan hér í borginni; fær það oss mikilla vandræða,
því skyldfólk það er frændmargt, sem vér ætlum að tengjast, og
viljum vér sýna það, að vér erum ekki ókunnugar, heldur vel metnar.
Ef þér gerðuð oss þann greiða, að koma í brúðkaupið, mundum vér því
heldur kunna yður þakkir fyrir, sem konur úr vorum átthögum mega af
því ráða, að við erum ekki lítilsvirtar, þegar þær heyra, að slík hefðarkona,
sem þér eruð, hefur gert oss slíkan sóma. En hvílík læging er okkur
það, ef þér synjið mér bænar þessarar; þá vitum við ekkert, hvert við
eigum að leita.“
Þannig mælti konan grátandi og komst ég við. „Huggastu, móðir
góð!“ sagði ég, „ég skal gjarnan verða við ósk þinni; seg þú mér einungis,
hvert ég á að koma; ég þarf að eins dálítinn tíma til að fara í betri föt.“
Gamla konan réði sér ekki fyrir fögnuði og var fljótari til að kyssa fætur
mína en ég til að varna henni þess. „Guð launi yður góðsemi yðar,“
mælti hún, „og gleðji hjarta yðar eins og þér gleðjið mitt. En ekki þurfið
þér að fara með mér fyrr en í kvöld og skal ég þá sækja yður. Lifið heilar
þangað til!“
Þegar hún var farin, valdi ég þann klæðnað, sem mér geðjaðist bezt
að; þar að auki tók ég hálsmen úr stórum perlum, armbauga og eyrnahringa
með skærustu demöntum í. Ég hafði eitthvert hugboð um það,
sem fram átti að koma.
Þegar farið var að rökkva, kom gamla konan aftur. Hún kyssti á
hönd mína með gleðisvip og mælti: „Frændkonur tengdasonar míns,
sem eru hinar tignustu konur í borginni, eru komnar í boðið og getið
þér komið þegar yður lízt; ég er tilbúin að fylgja yður þangað.“ Fórum
við þá af stað og gekk hún á undan, en ég fylgdi henni með fjölda skrautbúinna
ambátta. Við komum í breitt stræti, nýsópað, og hafði verið
stökkt vatni yfir; staðnæmdumst við fyrir utan stórar dyr, fagurlega
prýddar ljósum, og stóð þessi áskrift yfir þeim með gullnu letri: „Hér
er hið eilífa aðsetur unaðar og gleði.“ Drap kerling á dyr og var þeim
óðar upp lokið.
Eftir það var mér fylgt gegnum garðinn inn í stóran sal og tók þar
móti mér ung kona fyrirtaks fríð. Hún gekk á móti mér, faðmaði mig að
sér og lét mig setjast hjá sér í legubekk, en þar upp af var öndvegi úr
dýrmætasta við og prýtt demöntum; því næst tók hún til máls: „Tignaða
kona! Þér voruð sóttar hingað til brúðkaups, en ég vona að brúðkaup
þetta snúist á aðra leið en þér ætlið. Ég á bróður, sem er hinn fríðasti
sýnum og mesti atgjörvismaður; hefur honum fengið svo mikils orðrómur
sá, sem fer af fríðleik yðar, að hann er allur á yðar valdi fyrir ástar
sakir, og mun hann verða mesti ólánsmaður, ef þér eigi miskunnið honum.
Veit hann um virðingu yðra og það get ég ábyrgzt yður, að hann er
svo tiginn, að yður þarf ekki að þykja minnkun í ráðahag þessum. Megni
mínar bænir nokkuð, leggst ég á eitt með honum og særi yður, að hafna
eigi þessu hjúskapar boði.“
Síðan maður minn andaðist, hafði mér aldrei dottið í hug, að giftast
aftur, en mig brast þrek til að veita fríðum manni afsvör. Sá hin
unga kona, að ég mundi þiggja boðið, því ég roðnaði og þagði; klappaði
hún þá saman lófunum og laukst upp lítið herbergi, og kom fram ungur
maður svo prúður og tignarlegur álitum, að ég taldi mig sæla, þar sem
ég hafði hlotið svo fríðan mann. Hann settist hjá mér og heyrði ég á
tali hans, að enn meira var varið í hann en systir hans hafði sagt.
Þegar hún sá að okkur leizt vel hvoru á annað, klappaði hún aftur
saman lófunum og kom inn skjalaritari; hann samdi kaupmála vorn,
skrifaði sjálfur undir hann og lét fjögur vitni skrifa undir, sem hann
hafði með sér. Hinn nýi maður minn krafðist einskis annars en þess, að
ég skyldi engan karlmann láta sjá mig og við engan tala nema sig; lofaði
hann hátíðlega, að héldi ég þenna skilmála, skyldi hann gera mér
allt að skapi. Þannig vorum við gefin saman og varð ég brúðurin í brúðkaupi
þessu, þó ég væri boðin sem gestur.
Mánuði síðar þurfti ég efni í föt og beiddi því mann minn leyfis að
fara út og kaupa. Lofaði hann mér það og lét ég fara með mér kerlinguna,
sem ég nefndi áður, og tvær ambáttir. Þegar við vorum komnar
í stræti það, er kaupmenn bjuggu í, segir kerling við mig: „Frúin góð,
fyrst þér viljið fá silki, skal ég fara með yður til ungs kaupmanns, sem
hefur alls konar silkivefnað; þurfið þér þá ekki að ráfa úr einni búðinni
í aðra, því ég skal ábyrgjast yður, að þér fáið hjá honum það, sem ófáanlegt
er annarsstaðar.“ Lét ég mér þetta vel líka og komum við í sölubúð
ungs kaupmanns, sem var dálaglegur; settist ég þar niður og lét kerlinguna
biðja hann að sýna mér hinn fegursta silkivefnað, sem hann hefði.
Kerling vildi að ég beiddi hann sjálf, en ég sagði henni, að ég hefði
gengizt undir þann skilmála, þegar ég giftist, að tala við engan, nema
manninn minn, og mætti ég ekki bregða út af því.
Kaupmaður tók fram margskonar vefnað og sýndi mér, og sá ég þar
einn, sem mér leizt afbragðs vel á. En þegar ég lét kerlingu spyrja, hvað
hann ætti að kosta, svaraði hann henni: „Ég sel húsmóður yðar hann
hvorki fyrir gull né silfur, en hún skal fá hann að gjöf, ef hún lofar mér
að kyssa sig á kinnina.“ Skipaði ég þá kerlingu að segja honum, að mér
þætti hann furðu djarfur, að fara slíks á leit; en í stað þess að hlýða, leiddi
hún mér fyrir sjónir, að kaupmaður færi ekki fram á neitt stórræði og
þyrfti engum orðum að því að eyða, heldur skyldi ég bjóða kinnina
þegjandi, og þá væri allt búið. Mér líkaði silkivefnaðurinn svo vel, að ég
var sá einfeldningur, að fara eftir ráðum hennar. Kerling og ambáttir
mínar skipuðust fyrir á meðan, svo enginn gat séð mig utan af strætinu;
ég strauk blæjuna svo til hliðar að kaupmaðurinn gat komizt að vanga
mínum, en í stað þess að kyssa mig, beit hann mig svo grimmilega, að
blóðið lagaði úr, og hné ég í óvit af sársauka og hræðslu. Rann ómegin
þetta ekki fyrr af mér, en kaupmaður var hlaupinn burt og hafði lokað
búðinni. Þegar ég raknaði við, fann ég, að ég var alblóðug á kinninni.
Kerling og ambáttir mínar höfðu aftur breitt yfir mig blæjuna svo þeir,
sem framhjá gengu, ekki skyldu sjá sárið, heldur ímynda sér, að mér
hefði orðið óglatt.
87. NÓTT. Kerlingin, fylgdarkona mín, varð ráðalaus út af þessu
óhappi, en leitaðist þó við að hugga mig. „Fyrirgefið mér, móðir góð!“
sagði hún, „mér er um þetta slys að kenna og ég fylgdi yður til þessa
kaupmanns, því hann er sveitungi minn og ég gat ekki ætlað honum
slíka illmennsku. En setjið þetta ekki fyrir yður; við skulum engum tíma
eyða til ónýtis, heldur fara heim; skal ég þá gefa yður græðslumeðal, sem
græðir kinn yðar á þremur dögum svo að alls ekki markar fyrir sárinu.“
Öngvitið hafði dregið svo af mér, að ég gat varla gengið; samt náði ég
heim, en hné aftur í ómegin, þegar ég var komin í herbergi mitt. Lagði þá
kerling meðalið við kinn mína, og raknaði ég undir eins við og gekk
til hvílu.
Um nóttina kom maður minn og sá að bundið var um höfuð mitt;
hann spurði, hverju slíkt gegndi. Svaraði ég honum þá, að mér væri illt
í höfði, og hélt ég hann mundi láta sér lynda þessa úrlausn, en það fór
á aðra leið, því hann tók ljós og sá að ég var særð á vanganum.
„Hvernig stendur á sárinu?“ spurði hann. Þó ég nú væri mér þess
meðvitandi, að ég ekki hefði neitt stórt afbrotið, gat ég samt ekki fengið
af mér að segja honum sannleikann; mér þótti ósæmandi, að gera manni
mínum slíka játningu. Svaraði ég honum því, að þegar ég hefði farið
út með leyfi hans til að kaupa silkivefnað, hefði daglaunamaður einn,
sem hefði borið viðarbyrði, gengið svo nærri mér á strætinu, að einn viðarkvistur
hefði strokizt með vanga mínum og hruflað hann, en það væri
ekkert umtalsefni.
„Það skal ekki verða óhegnt,“ mælti maður minn með reiðisvip, „á
morgun skipa ég lögreglustjóranum að taka alla þessa þorpara fasta og
hengja þá.“ Þá svaraði ég, því ég var hrædd um, að ég yrði orsök í dauða
svo margra saklausra manna: „Herra! Slíkt ranglæti mundi stórum sárna
mér; varastu að hafa það í frammi, því sjálf ætti ég ekki fyrirgefningu
skilið, ef ég léti slíka óhamingju af mér hljótast.“ „Segðu mér þá hreinskilnislega,“
mælti hann, „hverju á ég að trúa um sárið?“
Þá svaraði ég: „Það kom af vangá sópsölumanns nokkurs, er reið asna;
hann kom á eftir mér og horfði til annarrar hliðar; rakst asninn svo fast
á mig, að ég datt niður á jörð og skar mig í kinnina á glerbroti.“ „Ef
svo er,“ mælti maður minn, „skal sól ekki fyrr upp renna en ég hef sagt
stórvezírnum Gíafar frá þessari svívirðingu. Hann skal láta drepa alla
sópsölumenn.“ „Fyrir guðs sakir,“ greip ég fram í, „fyrirgefið þeim mín
vegna, þeir eru ekki hegningar verðir.“ „Hvað er þetta, kona!“ segir
hann, „hverju á ég að trúa? Ég vil fyrir hvern mun, að þú segir sannleikann.“
„Herra!“ svaraði ég, „mig svimaði svo ég datt, það er allt og
sumt.“ Við þetta svar brast mann minn þolinmæðina og kallaði hann
upp: „Nú hef ég hlýtt nógu lengi á lygar þínar.“ Því næst skellti hann
saman lófunum og gengu inn þrír þrælar. „Rífið hana upp úr rúminu,“
sagði hann „og leggið hana á mitt gólfið.“ Gerðu þrælarnir sem hann
skipaði og hélt einn um höfuð mér, og annar um fætur mína, en hinum
þriðja skipaði hann að sækja sverð. Þegar þrællinn kom, mælti hann:
„Höggðu hana í tvennt og fleygðu henni síðan í Tígrisfljótið, svo að hræ
hennar verði fiskum að bráð. Svo refsa ég þeirri, sem ég gaf hjarta mitt, en
launaði mér með ótryggð.“
En er þrællinn hikaði sér, mælti maður minn: „Því höggurðu ekki?
Hvað aftrar þér? Eftir hverju ertu að bíða?“ Þá veik þrællinn sér að mér
með brugðið sverðið og sagði: „Mælið fram trúarjátningu yðar og hugsið
yður um, hvort þér viljið nokkra ráðstöfun gera eftir yður látna, því
dauðastund yðar er komin.“ Ég beiddi leyfis að tala og var mér þess eigi
synjað; stóð ég þá upp hálflotin, horfði ástaraugum til manns míns og
sagði grátandi: „Æ, er þá svona komið? Á ég að deyja í blóma æsku
minnar?“ Meiru kom ég ekki upp fyrir gráti og andköfum. En maður
minn komst eigi við, heldur brigzlaði hann mér í tilbót og hefði fyrir
lítið komið að svara honum; lauk hann máli sínu með vísu þessari:
/#
Menskorð, er örmum ver annan,
orð mín skal fregna,
svikið því hverflynd mig hefur
og háðungar leitað:
„Þér varð ég frábitinn fyrri
en fullsödd þú værir;
nú er það af, sem var áður
í elskunnar gengi.“
#/
Ég grét beisklega og svaraði honum með vísum þessum:
/#
Munar þú sorgum mig særir
og sjálfur ert glaður,
sefur og sárgrátna lætur
svartnætti vaka;
hjartans og hvarmanna milli
hef ég þig fólgið;
aldrei mun tryggðin því tæmast
né társtraumar augum.
Eiða þú vannst mér og várar
og vilmælum ginntir,
en er þér ann ég af hjarta
mér útskúfað lætur.
Viknarðu af ást minni eigi
og andvörpum þungum?
Áttu þá víst, að þú aldrei
andstreymið reynir?
Þig særi eg á legstein minn láta
liðinnar rista:
„Henni hélt ástin í ánauð
til aldurlags stundar.“
Sá ef þar syrgjandi kemur,
er sama hlaut reyna,
leiði hann mun yfir mínu
af meðaumkvun gráta.
#/
En er hann heyrði þetta og sá, hversu ég grét, varð hann enn heiptugri
og svaraði mér með vísu þessari:
/#
Frábitinn eg varð þér eigi,
auðgrund, af leiða.
Sjálfskapa ertu hins illa,
því óverknað framdir;
með öðrum þú ástir mér deildir
og una mig hugðir,
en samneyti sannur guð hafnar[* Þetta lýtur að einu trúaratriði Mahómetsmanna, sem tekur skýrt fram, að guð sé
einn og hafi enga sér jafnhliða, guði eða verur.]
og svo gerir elskan.
#/
Ég grét án afláts og reyndi til að þíða hjarta hans, en hann gaf orðum
mínum engan gaum, heldur kallaði hann til þrælsins og sagði:
„Höggðu hana í sundur, ég virði hana að vettugi.“ Þrællinn myndaði sig
til að hlýða og taldi ég mér dauðann vísan. Þá kom hin gamla kona allt
í einu hlaupandi; hafði hún verið barnfóstra manns míns. Hún féll til
fóta honum, kyssti á tær honum og kallaði upp: „Sonur minn, ég særi þig
fyrir elsku mína, er ég ól þig á brjóstum mínum og uppfæddi, gefðu
henni líf. Minnstu þess, að sá, sem deyðir, skal deyddur verða, og að þú
munt flekka nafn þitt og fyrirgera mannorði þínu, því nærri má geta,
að illa mælist fyrir slíkum hermdarverkum.“ Um leið og hún sagði þetta,
lét hún svo aumkvunarlega og grét svo ákaft, að manni mínum hlaut að
renna til rifja. Mælti hann þá við fóstru sína: „Svo skal vera; sakir elsku
þinnar skal hún hafa líf, en hún skal hafa nokkur merki til minningar
um glæp sinn.“
[1245.png: Sonur minn, gefðu henni líf.]
Því næst skipaði hann einum af þrælunum að misþyrma mér og gerði
hann það óðara; hann reif skikkjuna af mér og lamdi mig svo mörg högg
á brjóst og síður, að hold og hörund marðist og leystist í sundur og féll
ég í óvit. Lét hann síðan þrælinn, er þetta hefndarverk framdi, bera mig
í afhús eitt, og þjónaði kerlingin mér þar vel og rækilega. Ég lá rúmföst
í fjóra mánuði. Loksins batnaði mér, en síðan hef ég borið örin, sem
þér sáuð í gær. Undir eins og ég var farin að geta gengið út, ætlaði ég
að hverfa aftur til húss þess, sem ég hafði átt eftir fyrri mann minn, en
þá var autt svæði þar sem það hafði verið; hafði seinni maður minn í
heiptaræði látið brjóta og gjöreyða, bæði þetta hús og öll önnur, sem
voru í sama stræti. Er slíkt ofríki vafalaust óheyrt, en hvar átti ég að
kæra sakir mínar? Sá, sem olli, hafði búið svo um hnútana, að hann yrði
ekki fundinn og sýndi ekki meðferð hans á mér, að hann átti alls kosti
við mig? Hvernig skyldi ég þá dirfast að ákæra hann?
Nú leitaði ég allslaus og óhuggandi hælis hjá Sobeide, hinni elskulegu
systur minni, og sagði ég henni ófarir mínar. Hún uppörvaði mig til
að bera mótlæti mitt með stöðuglyndi og tók hún við mér með slíkum
góðleik sem von var á af henni. „Svona er veröldin,“ sagði hún, „hún
sviptir okkur oftast nær eigum og ástvinum og oft hvoru tveggja í einu.“
Sagði hún mér, til að færa sönnur á orð sín, hvernig afbrýði beggja systra
sinna hefði orðið hinum unga konungssyni að fjörlesti. Hún sagði mér
og, að þeim hefði verið breytt í tíkur. Því næst sýndi hún mér ótal elsku
merki og kom til mín með yngstu systur mína, sem hafði flutt til hennar
þegar móðir okkar andaðist. Þökkuðum við guði, að við allar þrjár höfðum
aftur fundizt og ásettum okkur, að vera engum háðar framvegis,
heldur halda óslítandi félagsskap. Höfum við lengi lifað þessu kyrrðarlífi.
Ég hef alla hússtjórn á hendi og þykir mér ekki nema gaman að kaupa
nauðsynjar vorar. Í gærdag gekk ég út í þeim erindagjörðum og það, sem
ég keypti, lét ég daglaunamann nokkurn bera heim til okkar; er hann
skýr maður og smáskrítinn og höfðum við hann því hjá okkur til skemmtunar.
Þegar dagsett var, komu þrír förumunkar og beiddust húsaskjóls
til morguns. Veittum við þeim það með vissum skilmála, sem þeir gengu
að, og er við höfðum látið þá setjast til borðs með okkur; skemmtu þeir
okkur með söng, eins og þeim er títt, þangað til barið var að dyrum. Þar
voru þá komnir þrír kaupmenn frá Mússúl, þekkilegir að sjá; höfðu þeir
sömu bænar að biðja sem förumunkarnir og veittum við þeim beiðni
þeirra með sama skilmála og hinum. En hvorki þeir né hinir héldu skilmálann.
Áttum við bæði vald og rétt á að refsa þeim, en létum oss nægja
að heimta af þeim, að þeir segðu ævisögur sínar; varð öll hefndin þessu
næst, að við vísuðum þeim burt og sviptum þá húsnæði því, er þeir höfðu
beðið oss um.“
Kalífinn Harún Alrasjid var nú ánægður, er búið var að seðja forvitni
hans, og lét hann í ljósi undrun sína yfir því, er hann hafði heyrt.
88. NÓTT. Þegar kalífinn hafði fengið hnýsni sinni fullnægt, vildi
hann sýna hinum konungbornu förumunkum vott tignar sinnar og göfuglyndis,
en konunum blíðu og mildi. Mælti hann sjálfur við Sobeide
og lét ekki stórvezírinn ganga á milli: „Fenguð þér ekki að vita, hvar álfkonan
ætti heima, sem þér sáuð fyrst í höggorms líki og sem lagði yður
svo þunga byrði á herðar, eða lofaði hún yður ekki, að birtast yður einhverntíma
og leysa tíkurnar úr álögum?“
„Konungur rétttrúaðra manna!“ anzaði Sobeide, „ég gleymdi að segja
yðar hátign, að álfkonan gaf mér hárlokk og mælti, að ef ég einhverntíma
þyrfti hennar við, þyrfti ég ekki annað en svíða nokkur af hárunum;
mundi hún þá samstundis birtast mér, þó hún væri stödd fyrir handan
Kákasusfjöll.“ „Hvar eru hár þessi?“ spurði kalífinn. En Sobeide kvaðst
ávallt hafa geymt þau eins og sjáaldur augna sinna og jafnan borið þau á
sér. Tók hún upp lítinn böggul, opnaðan til hálfs, og sýndi kalífanum.
„Heilar svo!“ mælti hann, „látið álfkonuna birtast; þér getið aldrei
ákallað hana hæfilegar en þegar það er minn vilji.“
Sobeide féllst á það. Var þá inn borinn eldur og fleygði hún á hann
öllum hárlokknum. Í sama vetfangi hristist höllin og stóð álfkonan
frammi fyrir kalífanum í líki hlaðbúinnar konu. „Drottinn rétttrúaðra
manna!“ tók hún til máls, „ég er boðin og búin að hlýða skipun yðar.
Kona sú, er ákallaði mig eftir yðar boði, hefur gert mér stóran greiða.
Til þess að votta henni þakklátssemi mína hefndi ég hennar á hinum
svikafullu systrum hennar og breytti þeim í tíkur, en ef yðar hátign vill
svo vera láta, skal ég gefa þeim aftur sína náttúrlegu mynd.“
„Fagra álfkona!“ anzaði kalífinn, „svo gleðjið þér mig mest, ef þér
auðsýnið þeim þessa náð. Mun ég á síðan leitast við að hugga þær, er þær
hafa sætt svo þungri refsingu; þessu næst mun ég biðja yður einnar bænar,
og er sú fyrir hönd konu þeirrar, er svo hræðilega hefur verið misþyrmt
af manni hennar, sem hún ekki þekkti. Eruð þér svo margfróðar,
að þér munuð og vita þetta; gerið það fyrir mín orð, að nefna mannfýlu
þá, er lét sér ekki nægja, að vinna fádæmis grimmdarverk á henni sjálfri,
heldur svipti hana þar á ofan öllum eigum sínum með rangsleitni. Furðar
mig, að mér skuli eigi hafa borizt til eyrna svo herfilegar og þrælslegar
aðfarir, sem eru tign minni til spotts og háðungar.“
„Gera skal ég yðar hátign það að skapi,“ anzaði álfkonan, „að gefa
báðum tíkunum aftur sína fyrri mynd; skal ég taka örin af konunni, svo
engin merki sjáist, að hún hefur verið barin, því næst skal ég nefna þann,
sem misþyrmdi henni.“
Kalífinn lét Sobeide sækja báðar tíkurnar og er þær voru komnar,
beiddi álfkonan um fulla skál af vatni og var henni færð skálin. Tautaði
hún yfir henni einhver orð, sem enginn skildi, og stökkti vatninu
síðan á Amíne og báðar tíkurnar. Breyttust þær í tvær forkunnar fagrar
konur, en öll örin hurfu gjörsamlega á líkama Amíne. „Konungur rétttrúaðra
manna!“ mælti álfkonan, „nú skal ég segja yður, hver hinn
ókunni maður er, sem þér viljið vita deili á. Hann er yður nákominn;
það var hann Amín, elzti sonur yðar. Hafði hann heyrt mikið sagt af
konunni og felldi brennandi ástarhug til hennar, þó hann þekkti hana
ekki nema af afspurn. Beitti hann vélræðum til að ginna hana í hús sitt
og gekk að eiga hana. Má að vísu mæla honum nokkra bót, að hann lét
berja hana; hún hafði farið of ógætilega að ráði sínu, og af afsökunum
hennar mátti ráða, að henni hefði meira á orðið en í raun og veru var.
Hef ég nú sagt allt það, er yður fýsir að vita og ég get úr leyst.“ Að svo
mæltu kvaddi hún kalífann og hvarf.
[1248.png: ...kalífinn seldi Sobeide hönd sína og hjarta]
En kalífinn undraðist stórum og var glaður yfir hamskiptun þeim,
er orðið höfðu fyrir hans tilstilli. Eftir það breytti konungur þessi svo,
að lengi mun í minnum haft. Fyrst gerði hann boð eftir Amín, syni
sínum, og sagði honum, að hann vissi allt um hið leynilega kvonfang
hans, og gerði honum í annan stað sanna grein fyrir, hvernig kaupmaðurinn
var valdur að meiðslum Amíne. Þurfti kalífinn ekki að skora á son
sinn, að taka hana í sátt, því hann gerði það samstundis ótilkvaddur.
Því næst lýsti kalífinn því yfir, að hann seldi Sobeide hönd sína og
hjarta, og réði förumunkunum til að eiga hinar þrjár systurnar; tóku þeir
þessum kosti feginshugar. Gaf kalífinn hverjum þeirra skrautlega höll
í Bagdad til íbúðar, veitti þeim æðstu tignarembætti og tók þá í ráðuneyti
sitt. Hinn æðsti skjalaritari í Bagdad skrásetti kaupmálana í viðurvist
tilkvaddra votta, en Harún Alrasjid báðu menn þúsundfaldrar
blessunar fyrir það, að hann hafði orðið lánsgjafi svo margra, sem höfðu
þolað ótrúlega eymd.
Þegar Sjerasade lauk sögu þessari, var ekki kominn dagur. Veik hún
sér því að soldáni og tók að segja nýja sögu.
[1249.png]
[1250.png]
Saga Sindbaðs farmanns
Á ríkisárum kalífans Harún Alrasjids, þess, er ég fyrr nefndi, var örsnauður
daglaunamaður í Bagdad, er Hindbað hét. Það var einhvern
dag, er ákaflega heitt var, að hann átti að bera þunga byrði allt á milli
enda borgarinnar. Var hann dauðuppgefinn og átti þó eftir drjúgan spöl.
Kom hann í stræti eitt og blés þar svalandi kæla, en rósavatni hafði verið
stökkt yfir strætið. Þótti honum sem hvergi mundi vænlegra að hvílast
og varpa mæðinni, lagði hann því bagga sína niður fyrir utan stórhús
nokkurt og settist sjálfur á byrði sína.
Honum þótti vænt um að hann hafði staðnæmzt þarna, því hinn sætasta
ilm af alóeviði og reykelsi lagði fyrir vit honum; rauk ilmurinn út
úr gluggum hússins og blandaðist saman við angan rósavatnsins og fyllti
loftið himneskum sætleik. Auk þess heyrði hann samstilltan slátt margra
hljóðfæra, og kvað undir fagur fuglakliður, bæði næturgala og annarra
fugla, sem eiga heima í héraðinu kringum Bagdad. Þegar hann nú heyrði
hinn ununarfulla hljóm og kenndi sætan ilm margskonar steika, réði
hann af því, að hér mundi haldin veizla og vera glatt á hjalla. Langaði
hann til að vita, hver í húsinu byggi, því leið hans lá sjaldan um þetta
stræti og var hann því með öllu ókunnugur. Hann gekk til nokkurra
prúðbúinna þjóna, er stóðu við dyrnar, og spurði, hver hér ætti húsa ráð.
„Hvernig spyr þú?“ önzuðu þjónarnir, „átt þú heima í Bagdad og veizt
ekki, að hér býr Sindbað farmaður, er siglt hefur um öll höf undir sólinni.“
Hafði daglaunamaðurinn áður heyrt getið um auðæfi Sindbaðs
og gat nú ekki að sér gert, að öfunda þann mann, sem virtist vera eins
farsæll og hann var ófarsæll. Af hugleiðingum þessum varð honum gramt
í geði, hann leit til himins og mælti svo hátt, að vel mátti heyra: „Alvaldi
skapari allra hluta, gæt mismunar þess, sem er á mér og Sindbað; ég þoli
dagsdaglega ótal þrautir og erfiðismuni, og get þó varla satt hungur konu
og barna með vondu byggbrauði, meðan lánsmaðurinn Sindbað eyðir
ógrynni fjár og lifir hinu glæsilegasta og sælasta lífi. Hvað hefur hann
gert, að þú skulir láta hann fagna svo sælu hlutskipti og hvers á ég að
gjalda, að ég sæti svo hörðu?“ Að svo mæltu stappaði hann fætinum á
jörðina, eins og sá, sem sleppir sér í harmi og örvæntingu.
Þarna stóð hann í þungum og raunalegum hugsunum, en í því sá
hann koma þjón nokkurn út úr húsinu; tók þjónninn í hönd honum og
mælti: „Fylgið mér, Sindbað, húsbóndi minn vill tala við yður.“
Af því nú var farið að birta, gat Sjerasade ekki haldið áfram sögu sinni,
en næstu nótt sagði hún framhaldið á þessa leið:
89. NÓTT. „Herra, yðar hátign má geta því nærri, að boð þetta kom
flatt upp á Hindbað. Hann var hræddur um, þar sem hann hafði látið
sér slíkt um munn fara, að Sindbað sendi eftir sér til þess að hefna sín
á einhvern hátt. Hafði hann því þá viðbáru sér til undanfærslu, að hann
mætti ekki hlaupa frá böggum sínum, er lágu á strætinu; en þjónustusveinn
Sindbaðs sagði, að hann mætti treysta því, að þeirra yrði gætt, og
lagði svo fast að daglaunamanninum — því svo hafði honum verið skipað
— að hann þorði ekki annað en að gegna boðinu.
Nú leiddi þjónninn hann inn í stóran sal, og sat þar fjölmennt samkvæmi
kringum borð, sem hlaðið var allskonar dýrindis krásum. En í
öndvegi sat alvörugefinn maður, fríður sýnum, og tignarlegur í yfirbragði;
hafði hann sítt og silfurhvítt skegg; bak við hann stóð fjöldi skutulsveina
og frammistöðumanna og kepptust þeir allir við að gera vilja
hans. Þessi maður var Sindbað. Daglaunamanninum féllust hendur og
kom á hann fát, þegar hann sá svo marga menn í svo dýrðlegri veizlu;
kastaði hann kveðju á samkvæmið, skjálfandi og titrandi. Sindbað bauð
honum að færa sig nær, lét hann setjast til hægri handar sér og setti sjálfur
mat fyrir hann; síðan gaf hann honum afbragðs vín að drekka, því nóg
var fyrir hendi.
Þegar menn höfðu matazt og Sindbað sá að gestir hans voru hættir
að snæða, veik hann sér að Hindbað og gaf sig á tal við hann; hann kallaði
hann „bróður“ eins og tíðkast með Aröbum, þegar þeir tala saman
í trúnaði, og spurði, hvað hann héti og hver atvinnuvegur hans væri.
„Hindbað heiti ég,“ anzaði hinn „og er ég daglaunamaður.“ „Mér þykir
vænt,“ mælti Sindbað, „að við erum orðnir kunningjar, og skal ég ábyrgjast
að samkvæmi þetta lítur þig einnig vinar augum, en mig langar til
að heyra þig sjálfan segja það, sem þú talaðir áðan úti á strætinu.“ Áður
en Sindbað gekk til borðs, hafði hann semsé heyrt allt, því gluggarnir
voru opnir, og hafði hann þess vegna gert boð eftir Hindbað.
Við þessi orð komu vöflur á daglaunamanninn og hengdi hann niður
höfuðið. „Af þreytu minni,“ svaraði hann, „var komin í mig ólund, og
duttu upp úr mér nokkur óvönduð orð, og bið ég yður að fyrirgefa mér
þau.“ „Ekki skaltu ætla það,“ mælti Sindbað, „að ég sé svo óbilgjarn,
að reiðast þér fyrir þá sök; ég fer nærri um lífskjör þín, og svo fer því
fjarri, að ég vilji ámæla þér fyrir möglunaryrði þín, að ég vorkenni þér;
ég vil aðeins leiðrétta misskilning þann á mínum högum, sem villir skoðun
þína. Þú hyggur án alls efa, að ég þrauta- og raunalaust hafi öðlazt
farsæld þá og næði, er þú nú sér mig njóta; slepptu þeirri villu. Ég hlaut
fyrst slík lánskjör eftir að ég í mörg ár hafði þolað allt sálar- og líkamsstrit,
sem hugsazt getur; já vinir góðir,“ mælti hann, um leið og hann
veik sér að samkvæminu, „það sver ég ykkur, að svo voru þrautir þessar
gífurlegar, að hinn ágjarnasti mundi setjast aftur og fara af honum öll
löngun til að sigla um höfin í auðæfaleit. Munuð þér aldrei hafa heyrt
nema ógreinilega sagt af hinum kynlegu ævintýrum mínum og hættum
þeim, er ég rataði í á hinum sjö sjóferðum, er ég för; nú skal ég því segja
yður allt hið sanna um þetta, og hygg ég yður muni ekki leiðast saga mín.“
Af því Sindbað ætlaði að segja sögu sína, mest daglaunamannsins
vegna, lét hann áður en hann tæki til sögunnar, bera byrði daglaunamannsins
þangað sem hann vildi. Því næst hóf hann söguna:
Fyrsta ferð Sindbaðs
„Ég hafði erft töluverðar eignir eftir ættmenni mín, en ég sóaði þeim
mestöllum út í óhófi og munaði, sem ungum mönnum hættir við. Samt
rankaði ég við mér og sneri aftur á vegi glötunarinnar; ég sá að mér og
hugleiddi, að auðurinn er svipull og eyðist skjótt, þegar illa er með farið,
eins og ég gerði. Með hinum óreglusama lifnaði hafði ég líka eytt tímanum,
sem er hið dýrmætasta í heiminum. Nú skildi ég, að það er hið
versta og hræðilegasta ólán, að vera alls laus í ellinni, og minnti þetta
mig á einn orðskvið hins mikla Salómons, er ég hafði heyrt föður minn
fara með: „Betra er að vera dauður en snauður.“
Nú safnaði ég því, sem eftir var af eigum mínum, og seldi ég lausafé
mitt á markaði, þeim, er bezt buðu. Því næst slóst ég í félagsskap með
nokkrum kaupmönnum, er stunduðu sjóverzlun og leitaði hjá þeim góðra
ráða. Ásetti ég mér að ráðstafa þeim fjármunum, sem eftir voru, svo ég
hefði gagn af; lét ég þess eigi lengi bíða, að ég framkvæmdi áform mitt.
Ég fór til Balsora, gekk í félag með nokkrum kaupmönnum og sigldum
við burt á skipi einu, er vér létum búa á sameiginlegan kostnað. Létum
vér í haf og sigldum til Austur-Indíalands út Persalandsflóa og höfðum
oss á hægri hönd strandir Arabíu sælu, en á vinstri hönd Persalands
strönd; er flóinn sjötíu vikur sævar á breidd þar sem breiðast er. En fyrir
utan flóann tekur við hið indverska haf; liggja að því öðrumegin strandir
Abyssiníu, en hinumegin eyjan Wackwack og eru fjögur þúsund og
fimmhundruð vikur sævar þar á milli. Í fyrstunni hafði ég sjósótt, en mér
batnaði bráðlega og hef ég aldrei kennt þeirrar sóttar upp frá því.
Á leiðinni lentum vér víða, seldum vörur vorar eða létum fyrir aðrar
í skiptum. Það var einhvern dag, er skip vort var á siglingu, að allt í einu
sló í blæjalogn, og var þetta nálægt lítilli ey, er bar lágt yfir sjávarmál,
og var hún græn eins og engjateigur. Lét þá skipstjórnarmaður hlaða
seglum og leyfði öllum á land að ganga, þeim, er vildu. Var ég einn í
þeirra tölu, en er vér sátum þar og átum og drukkum oss til hressingar
eftir sjóvolkið, þá kipptist við eyjan allt í einu gríðarhart og hnykkti oss...
90. NÓTT. Þeir, sem á skipinu voru, sáu þegar eyjan hristist; hugðu
þeir jarðskjálfta vera og kölluðu til vor, að vér skyldum á augabragði koma
aftur, mundum vér að öðrum kosti hafa farizt, því það, sem vér hugðum
ey vera, var ekki annað en bak hvalfiskjar nokkurs. Þeir, sem fimastir
voru, stukku út í bátinn, en sumir björguðu sér á sundi. Af mér er það
að segja, að ég var eftir á eynni, eða réttara sagt, hvalnum, í því hann
stakk sér, og gafst mér að eins tími til að ná í viðardrumb einn, er vér
höfðum haft með oss frá skipinu til eldsneytis. Skipstjórnarmaður tók
þá upp í skipið, sem voru á bátnum, og nokkra af þeim, er voru á sundi;
en á meðan hafði runnið á hagstæður byr og vildi hann hafa not af;
lét hann því vinda upp segl, svo ég varð afhuga að ná til skipsins.
Nú var ég ofurseldur öldum hafsins og hröktu þær mig á ýmsa vegu;
velktist ég í hafi það sem eftir var dagsins og næstu nótt. Um morguninn
var dregið af mér allt afl, og var ég úrkula vonar um líf mitt, en þá vildi
svo heppilega til, að bylgja varp mér á land á ey nokkurri. Voru strendur
hennar háar og sæbrattar og mundi mér hafa veitt örðugt að klifrast þar
[1254.png]
upp, ef ekki hefðu verið trjárætur nokkrar, sem ég gat haldið mér í; það
var eins og forlögin hefðu varðveitt þær mér til frelsis. Fleygði ég mér
niður á jörðina hálfdauður og lá svo unz ljómaði af degi og sólin rann
upp. Svo örmagnaður sem ég var af sjóvolkinu, dróst ég þó á fætur til
þess að leita að ætilegum jurtum, því ég hafði ekki bragðað mat síðan
daginn áður. Ég fann nokkrar jurtir og tæra uppsprettulind með ágætu
vatni, sem varð mér til mestu hressingar. Jafnskjótt sem ég kenndi mig
fullstyrkan, gekk ég upp á eyna og leitaði inn á land, þótt ég gengi eigi í
vissa stefnu; kom ég á fagra völlu og sá langt burtu hest á beit. Þangað
gekk ég og var þá hugur minn milli vonar og ótta, því ég vissi ekki,
nema það kynni að verða mér heldur til glötunar en frelsis. En þegar
ég kom nær, sá ég, að þetta var meri, og var tjóðruð við staur; stóð ég þar
og horfði á hana undrandi fyrir sakir fegurðar hennar; en þá heyrði ég
allt í einu mannsrödd niðri í jörðinni. Kom þá óðara sá, er talað hafði,
og spurði, hver ég væri. Ég sagði honum frá ævintýri mínu og tók hann
mig síðan við hönd sér og fór með mig niður í jarðhúsið; sátu þar fleiri
menn og þótti þeim ekki kynlegra að sjá mig en mér að hitta þá.
Nú nærðist ég af ýmsum réttum, er þeir báru á borð fyrir mig og
spurði ég þá, hvað þeir væru að gera á svo eyðilegum stað. Sögðu þeir
mér, að þeir væru hestasveinar Maharadsja (þ. e. hins mikla konungs),
sem réði yfir eynni; færu þeir á ári hverju hingað um sama tíma með
meri herra síns og tjóðruðu hana, sem ég hefði séð, en það gerðu þeir
til þess, að nykur einn, er úr hafi kæmi, skyldi fylja hana. En þegar nykurinn
væri búinn að því, ætlaði hann ætíð að gleypa merina, en þá
þyrptust þeir að og fældu hann út í sjó aftur með ópi og óhljóðum. Því
næst væru þeir vanir að fara heim með hina fylfullu meri og væru folöld
þau, er hún kastaði, alin handa konungi og væru kölluð sjóhestar.
Það sögðu þeir enn fremur, að þeir yrðu að halda burt að komandi
morgni og hefði mér verið dauðinn vís, ef ég hefði komið einum degi
seinna, því svo langt væri þaðan til mannabyggða, að ég mundi aldrei
hafa náð þangað leiðsagnarlaust.
Meðan þeir voru að segja mér þetta, kom nykurinn úr hafi, sem þeir
höfðu gert ráð fyrir, fyljaði merina og ætlaði síðan að gleypa hana. En
af hinum mikla skarkala, sem hestasveinarnir gerðu, lagði hann á flótta
og stakk sér aftur í sjóinn.
Morguninn eftir fóru þeir heim aftur til höfuðborgarinnar á eynni
með merina, og varð ég þeim samferða. Þegar ég var kominn þangað, lét
ég fylgja mér á fund Maharadsja konungs; spurði hann mig, hver ég væri
og hvernig ég hefði hrakizt til landa hans. En er ég hafði leyst úr öllum
spurningum hans, komst hann við af óláni mínu og samhryggðist mér.
Bauð hann jafnskjótt að greiða skyldi fyrir mér og láta allt af hendi við
mig, sem ég þyrfti; var boði þessu fullnægt svo, að ég mátti telja mig
sælan, að hafa hitt svo göfuglyndan konung og svo vandaða embættismenn.
Af því að ég var kaupmaður, kom ég oft á fund verzlunarmanna, en
einkum þeirra, sem útlendir voru, bæði til að heyra fréttir frá Bagdad
og til þess að finna einhvern, er gæti flutt mig heim. Höfuðborg Maharadsja
stendur á sjávarströnd við fagra höfn; lögðust þar á degi hverjum
við akkeri skip úr öllum áttum. Ég dró mig líka eftir indverskum fræðimönnum
og hafði ég gaman af að hlýða á þá; kom ég þó meðfram á
konungsfund og átti þá tal við jarla hans og skattskylda konunga, er
með honum voru. Spurðu þeir mig að mörgu um ættjörð mína, en ég
spurði þá hins vegar að því, sem mér þótti fróðlegt um lög og landsvenju,
þar sem þeir áttu heima.
Undir Maharadsja konung lá lítil ey, er Kasel heitir. Það var mælt,
að þar heyrðist á hverri nóttu bumbnahljómur og ætluðu sjómenn, að
Degíal[* Degíal er sama og „Antichristus“; þegar hann fæðist eru heimslok fyrir hendi. Hann
er eineygður og reynir að leiða menn afvega; brýtur hann undir sig alla veröld nema Mekka,
Medína og Jórsalaborg, en bíður ósigur fyrir Kristi.] hefðist þar við. Varð mér hugur á að grennslast eftir undri þessu;
sá ég á ferð minni þangað fiska, sem voru hundrað og fimmtíu álnir á
lengd; voru þeir ógurlegri ásýndum, en þeir voru skaðvænlegir, því þeir
fældust burt ef barið var á fjöl og þurfti ekki meira. Ég sá þar líka annars
kyns fiska, sem varla voru alin á lengd; voru höfuð þeirra líkt og á náttuglum.
Þegar ég var kominn aftur, stóð ég einn dag niður við sjó og sigldi þá
skip nokkurt inn á höfn. En er það hafði varpað akkeri, var tekið að
skipa upp varninginn og létu kaupmennirnir, sem áttu, bera hann inn
í varningshús. Horfði ég á nokkra stranga og áskriftir þeirra, sem merktu
nöfn eigendanna, og sá ég þá nafn mitt. Þegar ég hafði skoðað þá vandlegar,
gekk ég úr skugga um, að þetta voru sömu strangarnir, sem ég hafði
flutt á skipinu frá Balsora. Ég þekkti jafnvel skipstjórnarmanninn, og þó
ég vissi, að hann ætlaði mig löngu dauðan, talaði ég til hans og spurði,
hver strangana ætti. „Kaupmaður nokkur,“ svaraði hann, „er Sindbað
hét, varð mér samferða frá Bagdad. Það var einn dag er vér lágum nálægt
ey nokkurri, — því svo kom oss fyrir sjónir — að hann fór þangað með
mörgum ferðamönnum. En það, sem vér hugðum vera ey, var geysistór
hvalur, er mókti ofansjávar; gerðu þeir eld á baki honum til matreiðslu,
en er hann varð þess var, tók hann viðbragð og stakk sér. Þeir, sem á
hvalnum voru, drukknuðu flest allir, og í þeirra tölu var Sindbað. Hann
átti þessa stranga; ætla ég að selja þá og jafnskjótt, sem ég hitti einhvern
af ættingjum hans, mun ég greiða honum andvirðið.“ Þá svaraði ég: „Skipstjórnarmaður,
ég er Sindbað, sem þér hyggið vera dauðan; hann er á lífi
og strangar þessir eru mín eign...“
91. NÓTT. Sindbað sagði samkvæminu framhald sögu sinnar á þessa
leið: „Þegar skipstjórnarmaður heyrði þessi orð mín, mælti hann: „Guð
á himnum, hverjum er nú framar trúandi? Tryggð og ráðvendni eru ekki
lengur til meðal manna. Ég sá með mínum eigin augum, þegar Sindbað
drukknaði. Farmenn mínir sáu það, og þó eruð þér svo djarfur, að ljúga
til nafns yðar og látast vera Sindbað. Hvílík ósvífni; eftir útliti yðar hafið
þér góðan mann að geyma, en samt farið þér með herfilega lygi til þess
að svæla undir yður annarlega eign.“ „Bíðið við,“ svaraði ég, „og heyrið
það, sem ég nú segi yður.“ „Og hvað er það?“ anzaði hann, „segið mér,
ég skal taka vandlega eftir.“ Sagði ég honum þá, hvernig ég hefði komizt
af og hitt hestamenn Maharadsja konungs af furðulegri tilviljun og orðið
þeim samferða til konungs.
Efasemdir hans rénuðu nokkuð af sögusögn minni; en nú fékk hann
skjótt fulla vissu um það, að ég ekki væri neinn svikari, því hásetar nokkrir
komu af skipi hans og könnuðust við mig; fögnuðu þeir mér með
mestu vinsemd og var þeim mikil gleði að sjá mig aftur. Loksins kannaðist
hann líka við mig og hljóp um háls mér. „Lofaður sé guð,“ mælti hann,
„að þér sluppuð farsællega úr slíkum háska, og fær það mér meiri gleði
en ég geti frá sagt. Þarna eru eigur yðar, takið við þeim og gerið af,
hvað yður líkar.“ Ég þakkaði honum og lofaði ráðvendni hans; beiddi
ég hann að þiggja nokkuð af varningnum í þakklætisskyni, en hann drap
hendi við.
Nú valdi ég úr það verðmætasta af varningi mínum og gaf Maharadsja
konungi. Vissi hann allt um hrakfarir mínar og spurði því, hvernig ég
hefði komizt yfir þessa sjaldgæfu hluti. Ég sagði honum þá, hvernig tilviljunin
hafði aftur skilað þeim í hendur mér. Varð hann glaður við og
þáði gjöfina af konunglegri náð, en gaf mér miklu stærri gjafir í staðinn.
Því næst kvaddi ég hann og tók mér aftur fari með hinu sama skipi. En
áður ég færi, hafði ég fyrir það, sem eftir var af varningi mínum, fengið
innlendar vörur í skiptum, bæði alóe- og sandelsvið, kamfóru, múskathnetur,
negulnagla, pipar og engifer. Sigldum vér fram hjá mörgum
eyjum og lentum í Balsora; fór ég þaðan og hingað með hundrað þúsund
sekkína virði. Varð fagnafundur á heimili mínu, er ég kom heim,
sem vænta má, þar sem heit og trygg ást er fyrir; keypti ég mér þræla,
ambáttir og góðar jarðir og lét byggja mér stórt hús. Kom ég öllu sem
bezt fyrir og ásetti mér að gleyma öllum þrautum og njóta unaðsemda
lífsins.“
Að svo mæltu þagnaði Sindbað og skipaði sönglistarmönnum að hefja
hljóðfærasláttinn á ný, er þeir höfðu látið niður falla, þegar hann byrjaði
sögu sína. Var nú etið og drukkið til kvölds, og er tími var til kominn,
að hver færi heim til sín, lét Sindbað sækja poka með hundrað gullpeningum
í og gaf daglaunamanninum svo mælandi: „Eigðu þetta,
Hindbað! Farðu nú heim og komdu aftur á morgun, til þess að heyra
framhald ævintýra minna.“ Daglaunamaðurinn gekk burt eins og í
leiðslu, svo mikið fannst honum um virðingu þá og rausn, er honum
hafði verið sýnd. En er hann sagði konu og börnum frá því, réðu þau sér
varla fyrir kæti og lofuðu guð fyrir þá líkn, sem hann hafði látið Sindbað
auðsýna þeim.
Daginn eftir bjó Hindbað sig betur en daginn áður og gekk á fund
hins víðförla rausnarmanns; fagnaði Sindbað honum með gleðisvip og
fór með hann eins og bezta vin sinn. Þegar allir gestirnir voru komnir,
var matur fram borinn og var lengi til borðs setið. En er borð voru upp
tekin, tók Sindbað til máls og veik sér að boðsmönnum: „Vinir góðir, nú
bið ég yður að heyra með athygli og hlýða á ævintýri mín á hinni næstu
ferð; eru þau enn merkilegri en það, sem til bar á fyrri ferðinni.“ Þögðu
allir og tók Sindbað til frásagna:
Önnur ferð Sindbaðs farmanns
„Eftir hina fyrstu ferð mína hafði ég, eins og ég gat um í gær, einsett
mér, að lifa rósömu lífi í Bagdad, það sem eftir var ævinnar. En ég varð
fljótt leiður á aðgerðaleysinu og kom í mig ferðahugur og langaði mig
til að sækja verzlun yfir sjó. Keypti ég því vörur þær, er ég þóttist með
þurfa, og fór nú af stað í annað sinn með öðrum kaupmönnum, er voru
mér kunnir að ráðvendni. Völdum vér oss gott skip, fólum oss guði á
hendur og lögðum af stað. Sigldum vér frá ey til eyjar og varð skiptaverzlunin
oss næsta arðsöm. Einn dag lentum vér við ey nokkra alvaxna
margskonar aldintrjám; var hún svo eyðileg að vér sáum ekkert hús og
engan mann. Gengum vér þar um engin og fram með lækjunum, er
vökvuðu þau. En meðan sumir lásu blóm sér til skemmtunar og sumir
ávexti, tók ég fram nesti mitt og vín og settist niður hjá læk undir hávöxnum
trjám, er breiddu út frá sér unaðslega forsælu. Tók ég mér þar
svo góðan dagverð, sem ég hafði föng til, en er ég hafði matazt sótti á
mig svefn. Ég veit ekki hversu lengi ég svaf, en þegar ég vaknaði, sá ég
ekki skipið, þar sem það hafði legið við akkeri.“
92. NÓTT. „Ég varð forviða,“ mælti Sindbað, „þegar ég sá ekki skipið
liggjandi við akkeri. Reis ég þá upp og litaðist um í allar áttir, en sá
engan af kaupmönnunum, sem höfðu lent með mér á eynni. Ég sá ekki
annað en skipið á útsiglingu og var það komið svo langt burt, að ég óðar
missti sjónar á því.
Þið megið nærri geta, hvað ég hugsaði í þessum hryggilegu vandræðum;
ég hélt ég mundi springa af harmi og hljóðaði hræðilega upp yfir
mig, lamdi höfuð mitt og fleygði mér til jarðar; lá ég svo langa stund í
[1259.png: Sló þá snögglega myrkva á himin eins og svipaði yfir þykku skýi]
ringluðu hugarvíli, og voru hugsanir mínar hver annarri hræðilegri. Ég
margásakaði mig fyrir, að ég ekki hafði látið sitja við hina fyrstu ferð,
og hefði hún þó mátt vera mér svo minnisstæð, að mig fýsti ekki til fleiri.
En harmatölur þessar stoðuðu alls ekki og iðrun mín kom í ótíma. Ég
lagði ráð mitt í guðs hönd og klifraði í ráðaleysi upp í hátt tré og sást
um í allar áttir til þess að vita, hvort ég kæmi ekki auga á neitt, sem hjálpvænlegt
væri. Út af eynni sá ég ekki annað en himin og haf, en á land
upp grillti ég í eitthvað hvítt; sté ég því ofan úr trénu, tók með mér það
sem eftir var af nestinu og stefndi á hinn hvíta blett; var það svo langt
burtu, að ekki sá deili á, hvað það væri.
En er ég kom nær, sá ég að þetta var hvítur hnöttur, geysi hár og
feikna mikill um sig. Þreifaði ég um hann og fannst hann vera mjúkur
viðkomu. Ég gekk allt umhverfis til að vita, hvort hvergi væri gat á, en
það sá ég hvergi; svo var hann ávalur, að engin tiltök voru að klifrast upp
á hann. Fimmtíu fet var hann ummáls.
Í þetta mund var sól nærri undirgöngu. Sló þá snögglega myrkva á
himin eins og svipaði yfir þykku skýi. Svo hverft sem mér varð við dimmu
þessa, brá mér þó enn heldur í brún er ég sá, að hún stóð af kynjastórum
og heljarefldum fugli, er steyptist niður fljúgandi. Mig rankaði þá við,
að ég hafði heyrt sjómenn segja frá fugli nokkrum, er Rok heitir, og
datt mér í hug, að hinn mikli hnöttur, sem fékk mér svo mikillar undrunar,
mundi vera egg fuglsins. Enda settist hann á hann eins og fugl,
sem liggur á eggjum. Þegar ég sá hann koma, hafði ég skriðið þétt upp
að egginu og lá ég nú bak við annan fót hans, sem var viðlíka þykkur
og digur tréstofn. Leysti ég þá sundur höfuðbúnað minn og reyrði mig
með honum fast við klóna; gerði ég það til þess, að fuglinn Rok skyldi
flytja mig af þessari eyðiey, þegar hann flygi burt að komandi morgni.
Svona lá ég um nóttina, en með aftureldingu flaug fuglinn af stað; tók
hann svo hátt flug með mig, að ég missti sjónar á jörðinni, og steyptist
hann því næst skyndilega niður með slíkri fleygiferð, að ég ekkert vissi
af mér. En er gammurinn var setztur og ég hafði fótað mig, leysti ég
hnútinn, er hélt mér við klóna. Rétt í því ég var búinn að því, þreif hann
upp í nef sér gríðarstóran höggorm og flaug samstundis burt með hann.
Sat ég nú eftir og var þetta í djúpum dal; lukti hann allt umhverfis fjöll,
sem tóku við skýin og voru svo þverbrött, að hvergi var vegur til að klifrast
upp. Kom þá yfir mig mikill ótti á ný, og er ég í huganum bar saman
þenna stað við eyðieyna, sem ég hafði yfirgefið, þá þótti mér ekki
breytt til hins betra.
En er ég ráfaði um dalinn, sá ég að hann var alþakinn demöntum og
voru sumir þeirra furðu stórir; en skammt var þess að bíða, að ég sá
álengdar þá sjón, er dró mjög úr fögnuði mínum, því þar var mesti sægur
höggorma; voru þeir fjarska digrir og langir og enginn minni en svo, að
hann gæti gleypt í sig heilan fíl. Á daginn földu þeir sig fyrir óvini sínum,
fuglinum Rok, í holum sínum, en um nætur skriðu þeir út. Var ég
nú allan daginn að reika um dalinn og hvíldi ég mig öðru hverju þar sem
mér leizt tiltækilegast. En er náttaði fór ég inn í helli einn, þar sem ég
hélt mér væri óhætt. Var hellismynnið mjótt og þröngt og hleypti ég
hellu fyrir, sem var fullstór til að varna höggormunum inngöngu, en
fyllti þó ekki alveg opið, svo að nokkur birta stóð inn í hellinn. Neytti
ég þar nokkurs af nesti mínu og heyrði ég á meðan blástur höggormanna,
því nú fóru þeir á kreik. Varð ég næsta angistarfullur af hinum hræðilegu
hvæsingum þeirra, og megið þér nærri geta, að ég átti ekki góða nótt.
En er bjart var orðið, skreiddust höggormarnir í fylgsni sín; fór ég þá
skjálfandi út úr hellinum og gekk lengi vel á demöntum; og kom mér
ekki til hugar, að ágirnast nokkurn þeirra. Loksins settist ég niður, tók
mér árbít af nesti mínu og sofnaði, svo órótt sem mér var, því alla nóttina
hafði mér ekki komið dúr á auga. En óðar en ég var sofnaður, vaknaði
ég við, að eitthvað skall niður á jörðina nálægt mér. Þetta var þá stóreflis
kjötstykki og sá ég samstundis mörg stykki velta niður víðsvegar af
klettabrúnunum.
Allt til þessa hafði ég haldið, að það væri skröksaga upplogin til gamans,
sem bæði sjómenn og aðrir segja um demantadalinn og brellu
sem sumir kaupmenn hafa til að ná þaðan gimsteinunum; nú var sjón
mín sögu ríkari. Kaupmenn þessir sækja þangað um það leyti, sem ernir
eru búnir að unga út, og kasta þeir stórum kjötstykkjum niður í dalinn.
Þegar þau detta niður á hina hvössu demanta, verða þeir fastir í kjötinu.
En ernirnir, sem eru þar sterkari en annarsstaðar, fleygja sér yfir kjötstykkin
og fljúga með þau upp á björgin í hreiður sín, ungum sínum
til viðurværis. Sækja þá kaupmenn að, fæla burt ernina með óhljóðum
og safna saman demöntum þeim, sem fastir hafa orðið í kjötinu. En þessa
bragðs neyta þeir, því annars væru engin ráð til að ná demöntunum upp
úr dal þessum, því hann er slíkt dauðans undirdjúp, að engum manni er
fært að komast þar niður.
Ég hafði haldið ómögulegt að komast upp úr hyldýpi þessu, og hafði
mér þótt sem það væri gröf mín; en nú snerist mér hugur, og það sem
ég hafði séð, varð til þess að mér datt ráð í hug til að bjarga lífi mínu...
93. NÓTT. Ég fór þá að tína saman demanta þá, er ég sá stærsta, og
lét ég þá niður í leðurmalinn, er ég hafði nesti mitt í. Því næst valdi ég
það kjötstykki úr, sem virtist vera lengst, vafði því um mig og batt það
fast með höfuðbúnaði mínum; síðan lagðist ég á grúfu. Leðurmalinn
festi ég við belti mitt, svo ég gat ekki misst hann. Jafnskjótt sem ég var
búinn að þessu, komu ernirnir; tók þar hver sitt kjötstykki og flaug með,
en einhver hinn stærsti hremmdi það stykki, sem ég hafði brugðið um
mig; flaug hann með mig upp á fjallstind í hreiður sitt. Spöruðu þá
kaupmenn ekki að fæla fuglana með ópi og háreysti, og er þeir höfðu
látið lausa bráð sína, kom einn af kaupmönnum þangað sem ég lá; varð
hann smeikur, er hann sá mig. Samt herti hann upp hugann; spurði hann
mig ekki, með hverjum fádæmum ég væri þangað kominn, heldur tók
hann að ámæla mér og spurði, því ég tæki það, sem hann ætti. „Þér munuð
haga orðum yðar öðruvísi,“ mælti ég, „þegar þér kynnist mér betur.
Kvíðið engu, ég hef fleiri demanta handa báðum okkur en allir hinir
kaupmennirnir til samans. Tilviljunin ein hefur ráðið feng þeirra, en
[1262.png: Á hinni sömu ey eru og nashyrningar...]
ég hef sjálfur valið úr demantana, sem ég hef í malnum.“ Sýndi ég honum
malinn og í sama bili þyrptust hinir kaupmennirnir kringum mig,
og urðu þeir forviða, en þegar ég hafði sagt þeim sögu mína, undruðust
þeir hálfu meira. Samt furðuðu þeir sig ekki svo mjög á úrræði því, er
ég hafði haft mér til frelsis, eins og á áræði mínu, að ég skyldi hafa hætt
á það. Tóku þeir mig nú með sér þangað er þeir höfðu byggistöð sína;
leysti ég frá malnum í viðurvist þeirra. Voru demantar mínir svo stórir,
að þá rak í rogastanz, og kváðust þeir engan demant séð hafa við nokkra
konungshirð, sem þeir hefðu til komið, svo stóran, að í nokkurn samjöfnuð
kæmist við mína. Beiddi ég nú kaupmanninn, sem átti hreiður
það, er örninn hafði borið mig í (því hver kaupmaður átti sitt hreiður),
að taka svo mikið af þeim, sem honum líkaði. Lét hann sér nægja einn,
og var sá einn af hinum smærri; lagði ég þá fast að honum, að taka fleiri
og ekki hika sér við, en hann svaraði: „Nei, ég er ánægður með þenna og
er hann svo dýrmætur, að ég mun ekki fara fleiri ferðir framvegis, og
þarf ég nú ekki að bera áhyggju fyrir ókomna tímanum.“
Um nóttina var ég hjá kaupmönnum þessum og sagði sögu mína enn
þá einu sinni, þeim til fróðleiks, sem ekki höfðu heyrt hana í fyrra skipti.
Ég var óumræðilega glaður, að vera sloppinn úr hættum þeim, er ég sagði
yður frá; mér þótti sem allt hefði verið draumur og gat ég varla trúað
að ég væri úr öllum háska. Voru nú nokkrir dagar liðnir síðan kaupmenn
höfðu fleygt kjötstykkjunum niðrí dalinn, og var hver í sínu lagi ánægður
með það, sem honum hafði áskotnazt; tókum vér oss því upp með
næsta morgni. Lá leið vor yfir fjöll og voru þar geysistórir höggormar,
en vér vorum samt svo heppnir að komast klaklaust undan þeim. Jafnskjótt
sem vér komum til hafnar, sigldum vér til eyjarinnar Ríha, þar
sem kamfórutréð vex; er það tré svo stórt og laufmikið, að það veitir
hundrað mönnum næga forsælu. Safi sá, sem er efni kamfórunnar, er látinn
drjúpa niður úr rifu í ofanverðum stofni trésins; rennur hann í ker
eitt, hleypur þar saman og verður að kamfóru. Þegar vökvinn þannig er
runninn úr trénu, hrörnar það og fölnar.
Á hinni sömu ey eru og nashyrningar, sem eru minni en fílar og stærri
en uxar; stendur horn upp af nösum þeirra og er hér um bil alin á lengd;
er það klofið eftir miðju enda á milli og markar fyrir mannsmynd á,
dreginni hvítum strykum. Nashyrningurinn og fíllinn eiga jafnan í stríði
saman, leggur nashyrningurinn horninu í kvið fílsins og vegur hann upp
á höfði sér. En þá vellur blóð og feiti fílsins í augu honum, svo honum
förlast sýn; fellur hann síðan á jörð, og það mun yður þykja undrum
gegna, að þá kemur fuglinn Rok, flýgur burt með báða í klóm sér og
færir ungum sínum til ætis.
Margt er annað fábreytilegt á ey þessari, en það læt ég ósagt svo að
yður eigi leiðist saga mín. Keypti ég þar góðar vörur fyrir demanta mína
og héldum vér þaðan til annarra eyja og verzlunarborga á meginlandinu;
því næst komum vér til Balsora og fórum þaðan til Bagdad. Gaf ég þá
fyrst fátæklingum stórar ölmusur og naut síðan auðæfa þeirra, er ég flutti
þangað og hafði svo mikið fyrir haft.“
Lauk þá Sindbað að segja af annarri ferð sinni. Hann lét telja Hindbað
hundrað gullpeninga enn og bauð honum að koma aftur næsta dag
og heyra sig segja frá þriðju ferð sinni. Fóru gestirnir, hver heim til sín.
og komu aftur næsta dag á samri stund. Svo gerði og daglaunamaðurinn
og hafði hann því nær gleymt sínu fyrra volæði. Var nú gengið til borðs
og að liðinni máltíð beiddi Sindbað sér hljóðs og sagði frá hinni þriðju
ferð sinni.
Þriðja ferð Sindbaðs farmanns
„Nú átti ég góða daga og gleymdi innan skamms hættum þeim, er
ég hafði ratað í á fyrri ferðum mínum. Ég var enn í broddi lífsins og
eirði illa kyrrlætinu; hugði ég hættur þær, sem ég nú ætlaði að leggja út
í, miklu minni en voru. Fór ég því, frá Bagdad með dýran varning og
lét flytja til Balsora. Þar tók ég mér fari með öðrum kaupmönnum. Höfðum
vér langa ferð og komum á margar hafnir og verzluðum að góðum
mun.
Einu sinni er vér vorum í rúmsjó brast á skelfilegt ofviðri og hröktumst
vér afleiðis. Hélzt veðrið í marga daga og rak oss loksins til hafnar
á ey nokkurri; mundi skipstjórnarmaður hafa mikið til gefið, að vér
fengjum umflúið hana, en oss var nauðugur einn kostur að leggjast þar.
En er seglum var hlaðið, mælti skipstjórnarmaður: „Þessa ey og nokkrar
fleiri, sem í nánd liggja, byggja loðnir villimenn, sem munu veita oss
atgöngu. Eru þeir að vísu dvergar, en svo vill hörmulega til, að vér eigum
við slíkt ógrynni, sem engisprettur væru; og drepum vér einn, munu
þeir allir veitast að oss og drepa oss.“
94. NÓTT. Þegar skipstjórnarmaður hafði mælt þetta, sló dauðans
ofboði yfir alla skipverja; urðum vér þess brátt vísari, að hann hafði sagt
helzt til satt. Vér sáum drífa að ótölulegan grúa andstyggilegra villimanna;
var kroppur þeirra alþakinn rauðum hárum og voru þeir ekki
meira en tvö fet á hæð. Fleygðu þeir sér út í sjó, syntu út að skipi voru
og slógu skjótt hring um það. Þeir kölluðu til vor, en vér skildum eigi
mál þeirra; læstu þeir krumlum sínum í borðstokkana og kaðlana og klifruðust
á allar hliðar upp á þilfarið með slíkum fimleik og flýti, að fætur
þeirra sýndust hvergi við koma.
Þið getið því nærri, að vér horfðum dauðhræddir á þessar aðfarir.
Þorðum vér ekki að aftra þeim, hvorki með orðum né vopnum og grunaði
oss þó, að þeim mundi ekki gott í hug. Þeir undu upp segl og hjuggu
sundur akkerisstrenginn, því þeir nenntu ekki að draga upp akkerið; því
næst héldu þeir til lands og létu oss alla af skipi ganga. Síðan fluttu þeir
skipið til eyjar þeirrar, er þeir voru komnir frá. Sneiddu allir ferðamenn
með mestu varkárni hjá ey þessari, er vér nú vorum á, og þótti háski að
dvelja þar; mun það bráðum skýrast af sögunni hvernig á því stóð; en
vér áttum nú ekki annars úrkosti en að una óláni voru.
Nú gengum vér frá sjónum á land upp og fundum nokkra ávexti og
jurtir; neyttum vér þeirra til þess að treina lífið sem lengst, því vér þóttumst
allir eiga dauðann vísan. Sáum vér þá allfjarri stórt hús og stefndum
á það. Var það fögur og há höll og dyr á með vængjahurðum úr
svartviði; voru þær hnignar á gátt. Gengum vér inn og komum í hallargarðinn
og sáum gagnvart oss stórt herbergi, með anddyri fyrir framan;
lágu þar öðrumegin mannabein í hrúgu og hinumegin fjöldi steikarateina.
Varð oss felmt við sjón þessa; vorum vér þreyttir undir, því vér
höfðum gengið langan veg, og urðu því fætur vorir magnþrota og hnigum
vér til jarðar í dauðans angist og lágum þannig lengi hreyfingarlausir.
Sól rann til viðar og meðan vér sátum í hryggilegustu örvílnan, var
dyrum herbergisins hrundið upp með harki miklu og kom út risi svartur
og ógurlegur, og á stærð við hávaxið pálmatré. Var óvættur þessi eineygð
og stóð augað blóðrautt í miðju enninu; sindraði af því sem glóandi
koli; kjafturinn var víður sem á hrossi, og sköguðu út framtennur
geysi langar og hvassar. Neðri vörin lafði niður á bringu, en eyrun
voru eins og á fíl og breiddust út á axlir; neglurnar voru bjúgar og
langar eins og klær á stærstu hræfuglum. Í því vér sáum þenna skelfilega
risa, hnigum vér í óvit og lágum eins og dauðir.
Eftir langan tíma röknuðum vér við og sáum risann sitjandi í anddyrinu
og virti hann oss fyrir sér í krók og kring. En er hann þóttist hafa
horft nógu lengi á oss, kom hann til vor, þreif í hnakkagróf mér og
hringsneri mér fyrir sér eins og þegar slátrari handleikur sauðkind. Þegar
hann hafði skoðað mig vandlega og séð, að ég var skinhoraður og ekki
annað en sinar og bein, lét hann mig lausan og fór að skoða hina, hvern
af öðrum, á sama hátt. Af því nú skipstjórnarmaður var okkar feitastur,
þreif hann um hann með annarri hendinni og tók hann upp, — það var
eins og ef ég tæki upp spörfugl, svo lítið varð honum fyrir því; stakk hann
síðan steikarateini gegnum kvið honum. Því næst kveikti hann mikið bál
og steikti hann; að því búnu fór hann inn í herbergi innar af og át hann
þar með kveldverði sínum. Þegar hann hafði étið, kom hann aftur fram
í anddyrið, lagðist niður og sofnaði; hraut hann þá svo gríðarlega, að oss
þótti sem vér heyrðum reiðarþrumur drynja. Var oss allrar hvíldar varnað
og vöktum vér liðlanga nóttina, yfirkomnir af dauðans angist, sem
nærri má geta. Vaknaði risinn með dögun, stóð upp og lét oss eina eftir
í höllinni.
[1266.png: Því næst kveikti hann mikið bál og steikti hann...]
En er vér hugðum hann kominn svo langt burt, að hann eigi heyrði
til vor, þá kváðum vér upp úr hinni kvalafullu þögn, því vér höfðum
bundizt allra kveinstafa um nóttina; glumdi nú undir í höllinni af kveini
og andvörpum og gerðum vér hver öðrum skapþyngra með harmalátum
vorum. Þó að vér værum allmargir og óvinur vor væri ekki nema einn,
kom oss samt í fyrstunni ekki til hugar að reyna að drepa hann og frelsa
oss þannig, og var það þó hið vænlegasta úr því sem komið var. Ræddum
vér nú um ýmiss úrræði, en réðum ekkert af. Gáfum vér því ráð vort í
guðs hönd, ráfuðum allan daginn um eyna og nærðumst af jurtum og
ávöxtum eins og daginn áður. Um kvöldið leituðum vér skjóls, en fundum
hvergi og hlutum vér því, svo þvernauðugt sem oss var, að hverfa
til hallarinnar aftur.
Risinn sveikst ekki um að koma, og át hann nú aftur einn af félögum
vorum, sofnaði síðan, hraut til morguns og skildi við oss eins og daginn
fyrir. Þótti oss komið í slíkt óefni, að margir vildu heldur steypa sér í
sjó fram en bíða svo ofboðslegs dauðdaga og skoruðu þeir á hina, að
[1267.png: ...og át hann nú aftur einn af félögum vorum]
hlýða ráði þessu. Þá tók einn af oss til orða og mælti: „Oss er bannað, að
ráða sjálfum oss bana, en þó heimilt væri, er samt eigi viturlegra að
hyggja á ráð nokkurt, að vér megum frelsa oss frá þessari óvætt, sem ætlar
oss ógurlegan dauða?“ Hafði mér dottið í hug bragð nokkurt og sagði ég
förunautum mínum, en þeir féllust á ráð mitt. „Þér vitið, bræður góðir,“
mælti ég, „að skógur mikill er fram með sjávarströndinni; nú ef þér viljið
að mínum ráðum fara, þá skulum vér smíða marga fleka svo trausta, að
þeir geti borið oss. Að því búnu berum vér þá ofan að flæðarmáli og
látum þá liggja þar þangað til þörf gerist. Síðan reynum vér til að fyrirkoma
risanum; takist oss það, er oss óhætt að bíða hér þangað til eitthvert
skip siglir fram hjá og flytur oss frá þessari voðalegu ey. En ef ráð vort
fer út um þúfur, hlaupum vér út á flekana og leggjum til hafs. Að vísu
er það lífsháski, að hætta sér út á hinar æðandi öldur hafsins á svo aumlegum
farkosti, en ef dauðinn liggur fyrir oss, er þá ekki sjávardjúpið
betri gröf en vömb þessa ferlíkis, sem hefur étið tvo af förunautum vorum?“
Gerðu menn góðan róm að tillögu minni og smíðuðum vér fleka,
sem borið gátu þrjá menn.
Þegar kvölda tók, gengum vér aftur til hallarinnar og lét risinn ekki
lengi standa á sér. Hlutum vér að þola þá skapraun, að sjá hann steikja
einn af félögum vorum. En takið nú eftir, hvernig vér hefndum okkar
á risanum. Þá er hann hafði lokið hinum hryllilega kvöldverði, lagðist
hann aftur á bak og sofnaði. Jafnskjótt sem vér heyrðum hann hrjóta,
eins og hann átti vanda til, gekk ég til með níu hinum áræðnustu, tókum
vér sinn steikarateininn hver og stungum þeim í eldinn þangað til þeir
voru orðnir hvítglóandi; síðan rákum vér þá í auga dólgsins, allir í einu,
og blinduðum vér hann þannig. Grenjaði hann þá hástöfum af sársauka,
stökk í háa loft og fálmaði í allar áttir til þess að hremma einhvern okkar
og svala á honum heipt sinni; gafst oss tími til að hafa oss undan honum
og kasta oss þar niður, sem honum var ómögulegt að finna oss. En
er hann hafði til einskis leitað, þá skjögraði hann til dyranna og gekk
burt með hræðilegu öskri...
95. NÓTT. Vér gengum út úr höllinni á eftir risanum og héldum
ofan að sjó til flekanna og biðum lýsingar, því vér ætluðum út á þá, ef
svo skyldi fara, að risinn kæmi með nokkrum af sínu liði. Samt glöddum
vér oss við þá von, að ef hann eigi kæmi eftir sólaruppkomu og öskur
hans hætti, er drundi án afláts, þá mundi hann fortakslaust vera dauður;
ætluðum vér, ef svo væri, að halda kyrru fyrir á eynni. En jafnskjótt, sem
birti af degi, sáum vér hinn grimmúðuga dólg og leiddu hann tveir risar,
álíka tröllslegir og sjálfur hann; voru í för með þeim allmargir aðrir risar
og fóru þeir hart á undan hinum. Þustum vér þá að vörmu spori út á
flekana og rerum frá eynni. En er risarnir sáu það, þrifu þeir upp stóreflis
steina, æddu ofan á strönd og óðu út í sjóinn upp í mitti og gerðu
svo vissa hæfing eftir oss, að allir flekarnir nema sá, sem ég var á, brotnuðu
í spón, en mennirnir drukknuðu. En ég reri af alefli með báðum
förunautum mínum og dró því lengst undan, svo að steinkastið náði oss
ekki.
Þegar vér vorum komnir út á rúmsjó, hröktumst vér í stormum og
hafgangi; kvöldumst vér af hræðilegri óvissu þenna dag og næstu nótt,
því vér vissum ekkert, hvað af oss mundi verða. Næsta morgun vildi svo
heppilega til, að oss kastaði upp á ey nokkra og björguðum vér oss á
land fullir fagnaðar. Fundum vér þar beztu ávexti og urðu þeir oss til
mikillar hressingar. Um kvöldið sofnuðum vér á ströndinni, en hrukkum
upp við skruðninga mikla; var þetta höggormur álíka langur og pálmaviður
og skrjáfaði í hreistri hans, er hann skreið á jörðinni. Hann var svo
nærri oss, að hann þreif í kjaft sér annan förunaut minn, skók hann hvað
eftir annað, sló honum niður við og gleypti hann síðan. En ég og hinn
förunautur minn, flýðum sem fætur toguðu og heyrðum við nokkru síðar
skruðninga; réðum við af hljóðinu, að höggormurinn mundi þar æla
upp beinum hins ólánsama manns, er orðið hafði honum að bráð. Morguninn
eftir sá ég hann og sló yfir mig miklum ótta. „Guð minn,“ hrópaði
ég, „hvað er nú fyrir hendi? Vér fögnuðum í gær, sloppnir undan
grimmd risans og ofstopa hafsins, og nú erum við komnir í jafnvoðalegan
háska.“
[1269.png: ...þreif hann í kjapt sér annan förunaut minn]
Þegar við reikuðum um kring, sáum við hávaxið og digurt tré og
ásettum við oss að láta fyrirberast uppi í því næstu nótt. Snæddum við
ávexti eins og daginn áður og klifruðumst upp í tréð um kvöldið. Leið
ekki langt um áður við heyrðum höggorminn koma hvæsandi að trénu
og tók hann að vega sig upp eftir stofninum. Fyrst varð fyrir honum
förunautur minn, því hann sat neðar; gleypti höggormurinn hann óðar
og hafði sig síðan á burt. En ég kúrði uppi í trénu til morguns og var ég
þá nær dauða en lífi, er ég klifraðist ofan. Ég gat heldur enga von haft
um, að ég mundi fara betri för en félagar mínir og hryllti mig við þeirri
tilhugsun. Ég var kominn af stað og ætlaði að steypa mér út í sjó; en af því
að ljúft er að lifa sem lengst, stríddi ég við þetta örvæntingar aðsvif og
gaf mig undir vilja drottins, sem ræður lífi voru.
Allt fyrir það hafði ég svo mikla rænu, að ég bar saman smáviði,
rætur og þyrna og hlóð úr garð, fastan og þéttan, allt umhverfis tréð.
Uppi yfir mér gerði ég eins og þak, til varnar höfði mínu, úr hrísvöndlum.
Þegar náttaði, fór ég upp í vígi þetta með þeirri huggun, ef huggun
skal kalla, að ég hefði gert allt, sem í mínu valdi stóð, til að afstýra hinum
grimmu forlögum, sem yfir mér vofðu. Höggormurinn kom eins og
hann var vanur og skreið kringum tréð, því hann ætlaði að gleypa mig,
en hann komst eigi inn yfir varnargarðinn, og var hann þar á kreiki allt
til morguns, eins og köttur, sem snuðrar kringum músarholu, og varð
honum ekkert ágengt. Þegar eldi aftur, leitaði hann burt, en ég þorði
ekki úr bæli mínu fyrr en sól var á loft komin. Hafði ótti sá, er mér stóð
af hinum eiturfnæsandi höggormi, gengið svo nærri mér, að mér þótti
dauðinn betri en slíkar ógnir. Klifraðist ég þá ofan úr trénu og skundaði
til sjávar til þess að fyrirfara mér...
96. NÓTT. Guð miskunnaði mér í örvæntingu minni, því rétt í því
ég ætlaði að kasta mér út í sjóinn sá ég skip alllangt undan landi. Æpti
ég þá af öllum kröftum svo að til mín mætti heyra, og tók sundur höfuðbúnað
minn og veifaði honum svo, að til mín sæist. Þetta varð eigi heldur
árangurslaust; allir skipverjar sáu mig, og sendi skipstjórnarmaður
bát eftir mér. Þegar ég var kominn út á skip, spurðu mig kaupmenn og
sjómenn, hver í kapp við annan, hvaða ævintýri hefði borið mig að eyðiey
þessari; en er ég hafði sagt þeim allt, sem farið hafði, kváðust þeir sem
elztir voru, oftsinnis hafa heyrt getið um risa, er byggðu ey þessa, og hefði
það verið fullyrt, að þeir væru mannætur og ætu menn bæði hráa og
steikta. Sögðu þeir og, að á ey þeirri, er ég nú seinast slapp frá, væri fjöldi
höggorma samkynja þeim eina, er ég hafði séð, og leyndust þeir um daga,
en kæmu fram um nætur. Þeir samfögnuðu mér, að ég skyldi hafa sloppið
úr svo mörgum hættum; síðan báru þeir á borð fyrir mig, það sem þeir
höfðu bezt fyrir hendi. En er skipstjórnarmaður sá, hversu klæðnaður
minn var rifinn, var hann svo mannlyndur, að hann tók fatnað af sér og
gaf mér.
Nú vorum vér um tíma á sjóferð þessari; komum vér við í mörgum
eyjum og náðum loksins til Selahath. Þaðan kemur sandelsviðurinn, sem
hafður er í mörg læknismeðul. Lögðumst vér þar við akkeri á höfninni
og tóku kaupmenn að skipa upp vörur sínar til þess að selja þær, eða láta
skiptum fyrir aðrar vörur. Kallaði þá skipstjórnarmaður til mín og
mælti: „Bróðir, hjá mér eru vörur, er kaupmaður nokkur átti, sem var
um tíma á skipi mínu og nú er dauður; ég ætla að selja þær fyrir reiðu
peninga og standa erfingjum hans skil á þeim, þegar ég finn þá.“ Varningsstrangar
þeir, er hann átti við, lágu á þilfarinu í framstafni og benti
hann mér á þá svo mælandi: „Þetta eru vörurnar, sem ég átti við; ég vona
að þér takið að yður söluna móti tilhlýðilegri þóknun.“ Líkaði mér vel
og þakkaði ég honum fyrir, að hann hafði útvegað mér nokkuð að starfa.
Skrifari skipstjórnarmanns færði í bók alla varningsstranga með nöfnum
eigendanna og er hann spurði skipstjórnarmann, hvaða nafn skyldi
setja við vörur þær, er mér voru fengnar í hendur, sagði hann: „Skrifaðu
Sindbað farmann.“ Ég gat ekki að því gert, að ég komst við, þegar ég
heyrði nafn mitt, en er ég virti skipstjórnarmann vandlega fyrir mér, sá
ég að hann var hinn sami, sem hafði skilið mig eftir á eynni, þar sem
ég var sofnaður á lækjarbakkanum. Var hann orðinn umbreyttur mjög
frá því, er ég sá hann, og hafði ég því ekki borið kennsl á hann í fyrsta
áliti. En hitt er engin furða, að hann, sem hugði mig dauðan, þekkti mig
ekki. „Skipstjórnarmaður,“ mælti ég, „hét kaupmaðurinn Sindbað, sem
átti þessar vörur?“ „Já,“ anzaði hann, „svo hét hann, hann var frá Bagdad
og hafði tekið fari með mér til Balsora. Þá var það einhvern dag, að
vér lentum við ey nokkra og sóttum þangað vatn og fengum oss hressingu;
atvikaðist það þá einhvernveginn af misskilningi mínum, að ég
sigldi burt svo að ég vissi ekki, að hans var vant. Hvorki ég né kaupmenn
söknuðu hans fyrr en fjórum stundum síðar. Stóð blásandi byrinn
beint á eftir oss, svo að oss var ómögulegt að snúa við og sækja hann.“
„Þér ætlið hann þá dauðan?“ sagði ég. „Að vísu hygg ég svo,“ mælti hann.
Þá sagði ég: „Horfið nú grandgæfilega á mig, skipstjórnarmaður, og
munuð þér kannast við, að ég er sá hinn sami Sindbað, sem þér skilduð
eftir á eyðieynni. Ég lá sofandi á lækjarbakka og sá engan af förunautum
mínum, þegar ég vaknaði.“ Meðan ég mælti þetta, horfði skipstjórnarmaður
á mig rannsakandi augum...
97. NÓTT. Þegar skipstjórnarmaður hafði virt mig fyrir sér vandlega,
kannaðist hann loksins við mig. „Guði sé lof,“ hrópaði hann, „það
fær mér frábærs fagnaðar, að hamingjan hefur bætt úr yfirsjón minni.
Þarna er varningur yðar, sem ég jafnan hef kostgæfilega varðveitt og ætíð
reynt að koma út, hvar sem ég hef á höfn komið; takið við honum aftur
ásamt andvirði þess, sem selt er.“ Tók ég þá aftur við eigum mínum og
vottaði skipstjórnarmanni þakklátssemi mína svo sem hann átti skilið.
Frá eynni Selahath héldum vér til annarrar eyjar og birgði ég mig
þar að negulnöglum, kanel og öðrum kryddvörum. Þegar vér fórum
þaðan, sáum vér skelpöddu, tuttugu álnir á lengd og jafnmargar á breidd;
þar bar og fyrir oss fisk, sem var í sköpulagi eins og kýr, enda mjólkar
hann líka. Roð hans er ákaflega stinnt; er það verkað og eru klæddir með
því skildir; annan fisk sá ég líka og var hann líkur úlfalda að lit og sköpulagi.
Eftir langa ferð lentum vér loks í Balsora og fór ég þaðan og hingað
til Bagdad með slíkt ógrynni auðæfa, að ég ekki vissi sjálfur aura minna
tal. Gaf ég enn sem fyrri fátækum ölmusur og keypti stórjarðir, og átti
ég þó ærið margar undir.“
Lauk þá Sindbað að segja af hinni þriðju ferð sinni. Hann lét aftur
telja Hindbað hundrað gullpeninga og bauð honum til veizlu næsta dag,
og hét honum þá, að segja frá hinni fjórðu ferð sinni. Fór þá Hindbað
og hinir aðrir gestir, og er þeir voru komnir næsta dag, tók Sindbað til
máls, eftir að borð voru upp tekin, og sagði framhald ævintýra sinna.
Fjórða ferð Sindbaðs farmanns
„Unaðsemdir þær og skemmtanir, sem ég naut eftir þriðju ferð mína,
höfðu eigi svo mikil áhrif á mig, að þær öftruðu mér frá nýjum ferðum.
Lét ég því aftur leiðast af hinni áköfu ferðafýsn, sem alltaf stríddi á mig;
ég var líka svo skapi farinn, að ég gat aldrei framkvæmdarlaus verið, og
langaði jafnan til að sjá merkilega hluti. Ráðstafaði ég þá öllum efnum
mínum og lagði af stað jafnskjótt sem ég hafði dregið saman vörur þær,
sem útgengilegastar voru í löndum þeim, er ég ætlaði að ferðast til. Í
þetta sinn fór ég til Persalands og ferðaðist um mörg héruð í því ríki;
kom ég að höfn nokkurri og tók mér fari. Sigldum vér þaðan og fórum
fram hjá mörgum höfnum á meginlandinu og eyjum nokkrum, er til austurs
liggja. Bar þá svo til einn dag, er vér áttum yfir mikið haf að fara,
að allt í einu skall á ofsabylur; hlaut þá skipstjórnarmaður að láta taka
inn segl og skipaði sjómönnum til verka, til að koma í veg fyrir óhamingju
þá, er yfir vofði. En viðleitni vor kom fyrir ekki; seglin rifnuðu
í þúsund parta; við skipið varð engri stjórn komið, og rakst það á grunn
og brotnaði, svo að margir af kaupmönnum og farmönnum drukknuðu,
en allur farmurinn týndist.“
98. NÓTT. „Ég var svo heppinn,“ sagði Sindbað enn fremur, „að ég
náði í skipsflak nokkurt, eins og margir aðrir kaupmenn og sjómenn;
bar straumurinn oss alla að ey nokkurri; fundum vér þar ávexti og uppsprettuvatn
og hresstum oss á því. Um nóttina lágum vér þar sem sjórinn
hafði fyrst kastað oss upp á land; höfðum vér ekki um talað, hvert ráð
vér síðan skyldum upp taka, því vér vorum svo dasaðir og hnuggnir af
óláni voru, að vér höfðum ekki rænu á því. Gengum vér eigi fyrr frá
ströndinni en sól var upp komin, og sáum vér þá hús á landi upp og héldum
þangað. En er vér komum þangað, vissum vér ekki fyrri til en vér
sáum fjölda blökkumanna flykkjast kringum oss; skiptu þeir oss á milli
sín og fóru með oss til húsa sinna.
[1273.png: Við skipið varð engri stjórn komið og rakst það á grunn og brotnaði]
Ég var fluttur á sama stað sem fimm aðrir af förunautum mínum.
Var oss vísað til sætis og jurtir nokkrar á borð bornar; bentu svertingjar
oss, að vér skyldum eta. Voru félagar mínir þá svo athugalausir, að þeir
tóku ekki eftir því, að þeir, sem buðu oss að eta, átu ekki sjálfir; hugsuðu
þeir ekki um annað en að seðja sáran sult sinn, og átu því með
græðgi það, sem fram var reitt. En mér sagði svo hugur um, að svik
mundu undir búa, og bragðaði ég ekki jurtirnar, enda var mér það fyrir
beztu, því ég sá skjótt að förunautar mínir urðu vitskertir og vissu ekki
hvað þeir sögðu. Var nú á borð borinn rísgrjónagrautur með kókos-viðsmjöri,
og átu félagar mínir hann í gríð, því þeir voru vitstola. Ég snæddi
hann líka, en samt með hófsemd. Höfðu svertingjar gefið oss jurtirnar til
þess að firra oss vitinu, svo vér skyldum gleyma voru hryggilega óláni, en
með rísgrjónagrautnum ætluðu þeir að fita oss, því þeir voru mannætur,
og síðan að éta oss, þegar vér værum orðnir feitir; urðu þau afdrif förunauta
minna, því vitfirring þeirra varnaði þeim að sjá hvað fyrir þeim lá.
Mun yður skiljast það, að ég, sem var heilvita, horaðist niður í stað þess
að fitna. Enda kvaldist ég sí og æ af dauðaangistinni, svo mér þótti öll
fæða sem eitur. Kom í mig uppdráttarsýki og varð sú sótt mér til lífs,
því þegar svertingjarnir voru búnir að drepa og éta félaga mína, og þeir
sáu, að ég var grindhoraður, holdlaus og veikur, þá frestuðu þeir dauða
mínum til seinni tíma.
Ég var því látinn hafa mikið frjálsræði, og voru nálega engar gætur
hafðar á, hvað ég tæki mér fyrir hendur. Þannig tókst mér að læðast burt
frá húsum svertingjanna og forða lífi mínu. Sá mig þá gamall karl og
kallaði á eftir mér, svo hátt sem hann gat, að ég skyldi koma aftur; en í
stað þess að snúa aftur, flýði ég hvað af tók og komst skjótt úr augsýn.
Þá stóð svo á, að enginn var heima nema karlinn; hinir svertingjarnir
voru úti, og var þeirra ekki heim von fyrr en um kvöldið, og var þetta
vani þeirra. Þóttist ég fullviss um, að þá mundi þeim þykja ógjörningur
að elta mig, þegar þeir fengju vitneskju um, að ég væri strokinn. Hélt
ég áfram þangað til náttaði; lét ég þá staðar numið til þess að hvíla mig
og neyta nokkurs af vistum þeim, er ég hafði tekið með mér; lagði ég
síðan óðar af stað aftur. Þannig gekk ég í sjö daga samfleytt, og sneiddi
hjá öllum landsvæðum, þar sem ég hélt að mannabyggð væri; nærðist ég
mestmegnis af kókoshnetum og voru þær í einu til saðnings og svölunar.
Á áttunda degi náði ég ofan að sjó og kom allt í einu auga á menn,
sem voru hvítir eins og ég; voru þeir að tína pipar, sem þar vex ógrynni
af. Þótti mér vinna þeirra góðs viti og gekk ég óhræddur til móts við þá.“
99. NÓTT. „Þeir, sem voru að tína piparinn,“ mælti Sindbað, „komu
til mín jafnskjótt sem þeir sáu mig og spurðu mig á arabiska tungu, hver
ég væri, og hvaðan ég kæmi. Varð ég glaður við, er ég heyrði, að þeir
töluðu móðurmál mitt, og leysti fúslega úr spurningum þeirra; sagði ég
þeim, að ég væri skipbrotsmaður, hefði mig rekið að ey þessari og svertingjar
náð mér. „Svertingjar þessir eru mannætur,“ mæltu þeir, „hvernig
gaztu sloppið úr greipum þeirra?“ Sagði ég þeim þá alla söguna, sem
ég hef sagt yður, og fékk hún þeim mikillar undrunar. Var ég nú hjá
þeim, þangað til þeir höfðu aflað svo mikils pipars, sem þeir ætluðu sér.
Síðan tóku þeir mig með sér á skip það, sem þeir voru komnir á, og
sigldu til annarrar eyjar; leiddu þeir mig á fund konungs síns og sögðu
honum nafn mitt. Hlýddi þessi veglyndi konungur með athygli á ævintýri
mín, og þótti honum þau merkileg; lét hann síðan gefa mér kostulegan
klæðnað og skipaði að mér væri fengið allt, sem ég með þurfti.
Ey þessi er næsta fjölbyggð, og er þar nægð af öllu og verzlun mikil
í aðsetursborg konungs. Var mér mikil huggun í raunum mínum, að ég
hafði hitt á svo góðan samastað, og svo margar velgjörðir þáði ég af hinum
göfuglynda konungi, að ég mátti vel una hag mínum. Enda var honum
enginn kærari en ég, og allir hirðmenn hans og borgarmenn kepptust
hver við annan um að vera mér til vilja. Kom þar brátt að þeir álitu
mig eins og sér samlendan, en ekki sem útlending. Það þótti mér furðu
kynlegt, að allir, og jafnvel konungurinn líka, riðu ekki við beizli, söðul
né ístöð. Spurði ég hann því einu sinni, hvers vegna hann synjaði sér svo
nauðsynlegra hluta. Hann svaraði mér þá, að enginn í hans ríki þekkti
þá hluti, er ég talaði um. Lét ég þá hið fljótasta iðnaðarmann nokkurn
smíða virki eftir minni fyrirsögn. Þegar hann var búinn að því, stoppaði
ég söðulinn, fóðraði hann skinni og gullsaumaði hann allan. Að því búnu
fór ég til járnsmiðs og lét hann búa til beizli, eins og ég sagði fyrir. Þegar
nú allt var fullgert, sýndi ég konungi og bar við einn af hestum hans.
Sté hann þá á bak, og þótti svo vænt um nýbreytni þessa, að hann launaði
mér með mestu rausn. Gat ég nú ekki undan færzt, að smíða fleiri söðla
fyrir ráðgjafa hans og helztu embættismenn í hirðinni, og gáfu þeir mér
stórgjafir fyrir, svo að ég varð vellríkur á stuttum tíma. Ég bjó líka til
reiðtygi handa tignustu mönnum í borginni, og hlaut fyrir almennan
lofstír og virðingu. Það var einu sinni þegar ég var hjá konungi, og
sýndi honum lotningu mína með öllum virktum, að hann mælti: „Sindbað,
mér er vel til þín, og veit ég að allir þegnar mínir unna þér að mínu
dæmi. Nú mun ég biðja þig einnar bænar, og mátt þú ekki synja mér
hennar.“ „Herra!“ anzaði ég, „sá er enginn hlutur, að ég mundi eigi
vera fús til að gera, ef ég gæti með því auðsýnt yður hlýðni mína. Þér
hafið ótakmarkað vald yfir mér.“
„Þú átt að kvongast,“ mælti konungur, „svo að þú ílengist í ríki mínu
og verðir afhuga öllum burtferðum.“ Þorði ég eigi að mótmæla konunglegum
vilja hans og gifti hann mér eina af hirðmeyjum sínum, og var hún
ættstór, fögur, hyggin og auðug. Eftir hjónavígsluna bjó ég saman við
konu mína og lifðum við um hríð í bezta samlyndi. Allt fyrir það undi
ég ekki högum mínum, heldur ásetti ég mér að sæta fyrsta tækifæri, sem
byðist, að flytja þaðan til Bagdad, sem ég aldrei varð afhuga, hvað góðum
kjörum, sem ég átti að fagna. Meðan ég bjó yfir þessu áformi, vildi svo
til, að kona nábúa míns, sem var góður vinur minn, tók sótt og andaðist.
Vitjaði ég hans þá og ætlaði að hugga hann, og með því mér virtist hann
vera yfirkominn af harmi, sagði ég við hann: „Guð varðveiti þig og gefi
þér langa lífdaga!“ Varpaði hann þá öndinni mæðilega og mælti: „Hvernig
ætti ósk þín að rætast? Ég á ekki eftir ólifað nema eina stund.“ „Kveldu
þig ekki með svo hryggðarlegum hugsunum,“ sagði ég, „ég vona, að ekki
fari svo, og að við megum lengi saman vera.“ „Þér óska ég langra lífdaga,“
anzaði hann, „en af mér er það að segja, að efnum mínum er ráðstafað
og á að jarðsetja mig í dag með konu minni. Forfeður vorir hafa innleitt
þenna sið, og hafa þeir aldrei út af honum brugðið. Skal grafa manninn
kvikan með líki konunnar og konuna með líki mannsins; ég á ekkert
undanfæri, því allir hljóta að lúta þessum lögum.“
Meðan hann var að segja mér frá þessum hryllilega sið, sem fékk mér
mikillar undrunar, drifu þangað skyldmenni, vinir og nágrannar til þess
að fylgja þeim hjónum til grafar. Var lík konunnar fært í hin kostulegustu
klæði, eins og hún hafði verið búin á brúðkaupsdegi sínum, og
prýtt skartgripum þeim, er hún hafði átt. Því næst var hún lögð á líkfjalir
og fór líkfylgdin af stað. Gekk maðurinn fremstur allra á eftir líkinu,
og stefndi líkfylgdin á fjall nokkurt hátt, og er þangað var komið,
var velt frá stórum steini, er lukti hyldjúpa gjótu; var líkið látið síga
ofan í hana með öllu skartinu og gersemunum. Því næst faðmaði ekkillinn
ættingja sína og vini og lét mótstöðulaust leggja sig á líkbörur með
vatnskrukku og sjö smábrauðum; var honum sökkt ofan í hyldýpið á
eftir konu sinni. Fjall þetta var fjarska langt og gekk allt að sjó fram.
En er þessi hátíðlega greftrun var á enda, var gjótan afturlukt með
steininum.
Þér megið nærri geta, að ég varð sárhryggur við sjón þessa. Öllum
hinum, sem viðstaddir voru, fannst lítið um, því þeim var ekki nýnæmi,
að sjá slíkt. Gat ég ekki á mér setið, að segja konungi, hvað mér bjó í
skapi, og tók ég þannig til máls: „Yðar hátign! Mér fær meiri undrunar
en ég geti frá sagt, að í löndum yðar skuli slíkum sið vera fylgt, er býður
að grafa lifandi menn með dauðum. Hef ég víða farið um heiminn og
kynnzt mörgum þjóðum, en svo grimmdarfullra laga hef ég aldrei heyrt
getið.“ „Hvað þykir þér að, Sindbað?“ anzaði hann, „lögin ná yfir alla,
ég sjálfur er ekki undanþeginn, og á að kviksetja mig með konu minni,
ef hún skyldi deyja fyrr en ég.“ Þá mælti ég: „Dirfist ég að spyrja yðar
hátign, eru útlendingar líka háðir þessum sið?“ „Það máttu reiða þig
á,“ svaraði konungur, og hló við, því hann skildi, hvað mér gekk til að
spyrja, „þegar þeir hafa kvongazt hér með oss, þá eru þeir ekki undanþegnir.“
Með þessa hryggilegu úrlausn gekk ég heim til mín og kveið ég svo
fyrir, að kona mín kynni að deyja á undan mér, og ég verða kviksettur
með henni, að ég fékk eigi á mér tekið fyrir sorg og áhyggjum. En hvernig
átti ég að sleppa hjá þessu óláni? Ég sá ekki annað vænna en að taka
hlutskipti mínu með jafnaðargeði og treysta guðs handleiðslu. Samt varð
ég dauðhræddur, hvað lítið sem konu minni varð illt, en því var verr,
að það bar loksins að hendi, sem verst gat orðið. Hún tók hættulega
sótt og andaðist að fárra daga fresti.“
100. NÓTT. „Nú getið þér gert yður í hugarlund, hvað ég tók út,“
mælti Sindbað, „mér þótti eins hryllilegt, að vera kviksettur, eins og að
verða mannætum að bráð, og var þó ekkert undanfæri. Ráðgerði konungur
að heiðra útför mína með viðurvist sinni, og hinir helztu borgarmenn
ætluðu líka að sýna mér þá virðing, að fylgja mér til grafar. Þegar allt
var tilbúið, var lík konu minnar lagt á líkbörur, skrýtt í hin kostulegustu
klæði, sem hún hafði átt; því næst var líkið hafið út. Fylgdi ég á eftir líkinu
grátandi og harmandi forlög mín.
Áður en vér náðum til fjallsins, ætlaði ég að reyna að hræra þá, sem
viðstaddir voru, til meðaumkvunar; veik ég mér því fyrst að konungi og
síðan að hinum, er kringum mig stóðu. Ég hneigði mig fyrir þeim allt
til jarðar, kyssti klæðafald þeirra, og beiddi þá miskunnar. „Gætið þess,“
mælti ég, „að ég, sem er útlendingur, ætti ekki að vera slíkum grimmdarlögum
undirgefinn; þar við bætist, að ég á konu og börn heima á ættjörðu
minni.“ En það stoðaði ekkert, að ég bar upp kveinstafi mína á
hjartnæmasta hátt, enginn viknaði. Þeir flýttu sér því heldur að sökkva
líkinu niður í gjótuna, og samstundis var ég látinn síga ofan í opinni
líkkistu með vatnskrukku og sjö brauðum. Ópi mínu og veini var enginn
gaumur gefinn, og var steininum velt yfir gjótuna, og lauk með því þessari
hátíðlegu greftrun.
Meðan ég var látinn síga niður, sá ég við birtu þá, er skein ofan í
gjótuna, hvernig þessum híbýlum undir jörðinni var háttað. Gjótan var
allmikil um sig og á að gizka fimmtíu álnir á dýpt. Var þar óþolandi nálykt
af líkunum, er lágu til beggja hliða; þótti mér sem ég heyrði nokkra
[1278.png: ...stóð ég upp úr kistunni og gekk frá líkunum]
af þeim, er síðast höfðu verið greftraðir, gefa upp öndina. Undir eins
og ég var kominn niður, stóð ég upp úr kistunni og gekk frá líkunum
með hendurnar fyrir vitunum. Því næst fleygði ég mér til jarðar og lá
langa stund, grátandi brennheitum tárum. Ég hugleiddi mín hryggilegu
forlög og sagði við sjálfan mig: „Að vísu stjórnar drottinn oss eftir vizku
sinni, en eru það ekki sjálfskaparvíti, veslings Sindbað, að þú hlýtur nú
að deyja svo óheyrilegum dauða? Guð gæfi þú hefðir látið líf þitt í skipreikanum
og ekki komizt af, þá hefði viðskilnaður þinn ekki orðið svo
langvinnur og hryllilegur, en þér er það mátulegt fyrir bölvaða ágirndina.
Ólánsmaður, nær hefði þér verið, að sitja heima, og njóta ávaxtanna
af iðjusemi þinni í kyrrð og ró.“
Þannig þreytti ég mig á þessum fánýtu harmatölum niðri í gjótunni,
og lamdi höfuð mitt og brjóst í æði og örvæntingu. Ekki vildi ég samt
fyrirfara mér sjálfum og frelsast þannig; elskan til lífsins réði meiru, og
var hún rík í hjarta mínu, þrátt fyrir alla eymd; reyndi ég því að teygja
sem lengst úr lífi mínu. Þreifaði ég fyrir mér og gekk aftur til kistunnar
með hendurnar fyrir vitunum; neytti ég þá brauðsins og vatnsins, sem
mér hafði verið fengið meðferðis.
Þannig liðu nokkrir dagar og þótti mér sem gjótan væri miklu víðari
og fleiri lík í henni en mér hafði virzt í fyrstunni. Þegar matbjörgin
var á förum, bjó ég mig undir dauða minn.
101. NÓTT. Meðan ég beið dauða míns, heyrði ég að steininum var
velt frá; var lík með lifandi konu látið ofan síga. Örvæntingin kemur
mönnum til að ráðast í mörg fádæmi. Meðan konan var að síga ofan,
gekk ég þangað, er ég hélt hún mundi niður koma, og laust aumingjann
í höfuðið með stóru mannsbeini, sem ég hafði tekið í hönd mér. Féll
hún í rot eða dó öllu heldur, og gekk mér ekki annað til þessarar óheyrilegu
grimmdar en það, að ég vildi ná brauði því og vatni, er hún hafði
með sér; var ég nú aftur birgur til nokkurra daga. En er þeir voru liðnir,
var lík konu og lifandi maður látið ofan síga. Drap ég hann á sama hátt,
og með því að um þetta leyti dóu margir í borginni, gat ég jafnan aflað
mér viðurværis með þessu móti.
Það var einu sinni, er ég hafði drepið aðra konu til, að ég heyrði
eitthvað ganga nálægt mér og blása við um leið. Gekk ég á hljóðið, og er
ég kom nær, heyrðist mér blásturinn hærri, og þótti mér, sem ég sæi eitthvað
stökkva á undan mér. Veitti ég eftirför skugga þessum, er stóð við
hvað eftir annað á flóttanum, og blés æ því meir er ég kom honum nær.
Ég var þangað til að elta hann, að ég sá loksins ljós langt í burtu, og var
það tilsýndar eins og stjarna; stefndi ég þá stöðugt á ljós þetta og missti
oftsinnis sjónar á því, þegar eitthvað bar fyrir, en kom ætíð auga á það
aftur; loksins varð ég þess vísari, að ljósið kom úr klettarifu einni, sem
var svo víð, að komast mátti út um.
Þegar ég hafði komizt að þessu, hvíldi ég mig um stund, því ég hafði
tekið mjög nærri mér; síðan gekk ég alla leið að klettasmugunni, skreið
út um hana, og stóð allt í einu á sjávarströndinni. Hugsið ykkur nú,
hversu óumræðilegur fögnuður minn hafi verið; ég var svo frá mér numinn,
að ég gat ekki öðru trúað en allt þetta hefði verið draumur. En
þegar ég var kominn til sjálfs mín og genginn úr skugga um, að þetta
væru engir draumórar, skildi ég fljótt, að það, sem ég hafði elt, mundi
vera dýr, sem væri vant að ganga úr sjónum upp í hellinn til þess að
éta líkin. Kannaði ég nú fjallið, sem lá milli borgarinnar og sjávarins,
og var það svo þverbratt, að þaðan lágu engir mannavegir, og voru þar
mestu ógöngur. Ég fleygði mér til jarðar á ströndinni og lofaði drottin
fyrir, að hann hafði miskunnað mér; síðan gekk ég aftur inn í hellinn
og sótti mér brauð; fór ég með það fram í birtuna og snæddi; hafði ég
aldrei haft jafngóða matarlyst á þessum hryllilega stað. Fór ég þangað
einu sinni enn, og rakaði saman í myrkrinu gripum þeim, er í líkkistunum
voru, demöntum, roðasteinum, perlum, armbaugum og alls konar
dýrindis vefnaði, sem ég gat komizt yfir. Allt þetta bar ég ofan á sjávarströnd
og batt í böggla og vafði vandlega um festum þeim, er líkin höfðu
verið látin síga í, og var nóg til af þeim. Lét ég bögglana liggja þar á
ströndinni, þangað til mér byðist færi á, að sleppa þaðan burt; þurfti ég
ekki að kvíða, að þeir skemmdust af rigningum, því þetta var um þurrkatímann.
Tveimur eða þremur dögum síðar sá ég skip, er sigldi út úr höfn
borgarinnar og fór fram hjá ströndinni þar sem ég var. Rakti ég þá höfuðbúnað
minn sundur og veifaði honum eins og blæju, og æpti af öllum
mætti til þess eftir mér yrði tekið. Sást þá til mín af skipinu, og var
bátur sendur eftir mér. Þegar skipverjar spurðu, fyrir hvaða hrakföll ég
væri þangað kominn, skrökvaði ég því að þeim, að ég fyrir tveimur dögum
hefði bjargazt af skipbroti með vörur þær, er ég hafði með mér. Til
allrar hamingju gerðu þeir sig ánægða með þetta svar mitt; tóku þeir mig
með sér ásamt vörunum, en athuguðu ekkert frekar staðinn þar sem ég
hafði verið, né heldur grennsluðust eftir, hvort tilhæfa væri í sögu minni.
Skipstjórnarmaður var önnum kafinn að segja fyrir verkum á skipinu, og
tók hina ósönnu skipbrotssögu gilda. Ætlaði ég að gefa honum nokkra
af gimsteinum mínum í þakklætis skyni, en hann vildi ekki þiggja.
Nú sigldum vér fram hjá mörgum eyjum; ein þeirra var Bjölluey,
og er þaðan í góðu byrleiði tíu daga sigling til eyjarinnar Seylon, en sex
daga sigling til eyjarinnar Kela; þar stigum vér á land. Eru þar blýnámur
nógar, indverskur reyr og afbragðs kamfóra. Er Kelu konungur næsta
ríkur og voldugur, og tekur ríki hans yfir alla Bjölluey, en hún er tvær
þingmannaleiðir á lengd, og eru eyjarskeggjar þar svo siðlausir, að þeir
éta mannakjöt. Þegar vér höfðum verzlað þar á eynni til góðra muna,
fórum vér leiðar vorrar og sigldum inn á margar aðrar hafnir. Loksins
kom ég heilu og höldnu til Bagdad með þvílík ógrynni auðæfa, að ég vissi
enga tölu á þeim. Gaf ég fátæklingum stórgjafir og færði drottni þannig
þakkir fyrir miskunnsemi þá, er hann hafði auðsýnt mér; þar að auki
lét ég reisa mörg musteri. Síðan lifði ég glatt með ættingjum mínum
og vinum og átti hina beztu daga.“
Lauk þá Sindbað að segja af fjórðu ferð sinni og fannst þeim, er
á heyrðu, meira til hennar koma en þriggja hinna fyrri. Hann gaf Hindbað
aftur hundrað gullpeninga og beiddi hann að koma til borðhalds
næsta dag, á sama tíma og að undanförnu; skyldi hann þá segja honum
ævintýri sín á hinni fimmtu ferð. Hindbað og hinir aðrir gestir kvöddu
því næst Sindbað og gengu á burt.
102. NÓTT. Þegar allir voru saman komnir næsta dag, var til borðs
gengið, og að lokinni máltíðinni, sem stóð ekki skemur yfir í þetta sinn
en endranær, hóf Sindbað að segja af fimmtu ferð sinni á þessa leið:
Fimmta ferð Sindbaðs farmanns
„Ég hafði enn þá svo mikið yndi af unaðsemdum lífsins, að ég
gleymdi öllum þrautum og hörmungum, sem ég hafði þolað, en gat samt
ekki orðið afhuga nýjum ferðum. Keypti ég því vörur, lét búa um þær,
hlaða þeim á vagna og flytja til næstu hafnar. Nú vildi ég eigi vera háður
neinum skipráðanda, og lét því gera skip á sjálfs mín kostnað og búa
það. Þegar það var fullgert, voru vörur mínar fluttar út á það, og sté ég
á skipsfjöl. En með því að ég gat ekki sjálfur dregið saman fullkominn
skipsfarm, tók ég með mér marga kaupmenn frá ýmsum þjóðum og vörur
þeirra. Sigldum vér góðan byr frá landi, en höfðum langa útivist og
stigum fyrst á land í eyðiey nokkurri. Þar fundum vér Roks egg, jafnstórt
því, er ég áður hef frá sagt. Í því var lítill ungi, sem því nær var
útklakinn og sá þegar á nefið...
103. NÓTT. Kaupmennirnir, farþegar mínir, sem höfðu farið upp á
land með mér, mölvuðu sundur eggið með öxum sínum, slitu ungann
úr því lið fyrir lið og steiktu hann. Ég hafði lagt ríkt á við þá, að snerta
ekki á egginu, en þeir gáfu orðum mínum engan gaum. Undir eins og
þeir höfðu lokið máltíð sinni, sáum vér langt í burtu eins og tvö ský.
Skipstjórnarmaður sá, er ég hafði fengið til að vera fyrir skipinu, vissi
af eigin reynslu, hvers kyns var. Kallaði hann því til vor og sagði, að þetta
væru foreldrar ungans, og skyldum vér fyrir hvern mun flýja út á skip
að vörmu spori, og forða oss undan voða þeim, er yfir vofði. Vér hlýddum
ráði hans og sigldum af stað.
Nú komu báðir fuglarnir og ráku upp hræðileg óhljóð þegar þeir sáu
að eggið var brotið og unginn horfinn. Flugu þeir aftur í hefndarhug til
þess staðar, sem þeir voru komnir frá, og hurfu um stundar sakir, en
vér undum upp segl til þess að flýja það, sem fyrir oss lá; því nú komu
fuglarnir aftur og hafði hvor um sig heljarstóran klett í klóm sér, og hnitmiðuðu
þeir sig á fluginu yfir skipi mínu. Lét nú annar fuglinn klettinn
detta úr klóm sér. En stýrimaður brá svo fimlega við, að hann gat vikið
skipinu undan í einum svip, og kom kletturinn niður örskammt frá oss,
og klofnaði sjórinn svo voðalega, að vér því nær sáum í botn. Til allrar
óhamingju sleppti nú hinn fuglinn sínum kletti niður úr klóm sér og
ofan á mitt skipið; skelltist það sundur í þúsund parta. Sjómenn og ferðamenn
rotuðust annaðhvort undir bjarginu, eða sukku í kaf; ég sökk líka,
en er mér skaut upp úr kafi, tókst mér að ná í skipsflak eitt. Reri ég mig
áfram með höndunum til skiptis, því meðan ég reri með annarri, hélt
ég mér dauðahaldi með hinni; komst ég með þessu móti loksins til eyjar
nokkurrar, og var hún fjarskalega sæbrött, en samt fékk ég klifrazt upp
á hana og þannig bjargað lífi mínu.
Ég settist niður í grasið, til þess að hvílast eftir hrakning þenna, og
var ég næsta dasaður; síðan gekk ég upp frá sjónum til að kanna uppland
eyjarinnar. Þótti mér þá sem ég væri kominn í fegursta aldingarð;
hvarvetna stóðu trén hlaðin grænum aldinvísum eða alþroskuðum ávöxtum,
en tærustu lækir runnu þar niðandi í fögrum bugðum. Ég snæddi
nokkra ávexti og voru þeir hinir ljúffengustu; síðan svalaðí ég mér á
vatninu, sem var hið lystilegasta til drykkjar. Þegar nótt var komin, lagðist
ég niður á jörðina, þar sem mér leizt hentugast, en ekki varð mér
svefnsamt, því mér þótti voðalegt að vera einn á svo eyðilegum stað. Var
ég mestalla nóttina að álasa sjálfum mér fyrir heimsku mína, að ég skyldi
ekki heldur hafa setið heima, en ráðizt í þessa síðustu ferð. Út af þessum
hugleiðingum kom mér til hugar að fyrirfara sjálfum mér, en er dagur
ljómaði, var sem örvænting mín rénaði. Stóð ég þá upp og gekk inn á
milli trjánna með hálfum huga.
En er ég kom lengra á land upp, sá ég gamlan karl, sem mér virtist
vera næsta ellihrumur, og sat hann á lækjarbakka. Kom mér þá ekki annað
til hugar en hann mundi vera skipbrotsmaður eins og ég; gekk ég
því til hans og heilsaði honum, en hann bandaði að eins höfðinu og svaraði
engu. Spurði ég hvað hann væri að gera þar, en í stað þess að svara
mér, gerði hann mér skiljanlegt með bendingum, að ég skyldi taka hann
á herðar mér og bera hann yfir lækinn, svo hann gæti lesið sér þar aldin.
[1283.png: Tók ég hann upp á bak mér og bar hann yfir lækinn]
Ég trúði því þá, að hann í raun og veru væri kominn upp á hjálp mína,
tók hann upp á bak mér, og bar hann yfir lækinn. „Farðu nú ofan af
mér,“ sagði ég við hann og laut ofan að jörð, svo að honum yrði hægara
fyrir. Á það, sem nú gerðist, get ég aldrei óhlæjandi minnzt. Karlinn, sem
mér hafði sýnzt vera svo örvasa og hrörlegur, krækti báðum fótum um
háls mér með mesta liðugleik, og settist á herðar mér eins og á hest; var
skinnið á fótum hans eins og nautshúð. Kreppti hann svo fast að kverkum
mínum, að ég hélt hann ætlaði að kyrkja mig; fékk ég þá öngvit af
hræðslu og féll til jarðar...
104. NÓTT. Þrátt fyrir öngvitið sat hinn hvimleiði karl grafkyrr á
hálsi mér, en linaði þó takið ofurlítið, til þess ég skyldi rakna við. En er
ég var kominn til sjálfs mín, brá hann öðrum fætinum fyrir kvið mér,
en sparkaði hinum í síðu mér, svo ég varð að standa upp. Síðan lét hann
mig bera sig inn á milli trjánna og neyddi mig öðru hverju til að staldra
við, svo að hann gæti lesið ávexti og étið þá. Hann sleppti mér ekki allan
daginn, en er nótt var komin, og ég ætlaði að hvíla mig, lagðist hann
niður á jörðina með fæturna krækta um háls mér. Á hverjum morgni
sparkaði hann í míg, og vakti mig þannig; því næst kreppti hann fæturna
svo fast að mér, að ég varð að standa upp. Megið þér nærri geta, hvort
ég ekki hef átt bágt, að verða að dragast með þessa byrði, sem mér var
lífsómögulegt að losast við.
Einn dag fann ég á leið minni margar þurrar hnetur, sem fallnar voru
ofan úr tré einu, er bar þann ávöxt. Tók ég eina, sem var furðu stór,
holaði hana innan, og kreisti í hana safa úr mörgum vínberjum, því af
þeim óx ógrynni þar í eynni, hvar sem fæti var stigið. Þegar hnotin
var full, lagði ég hana á vísan stað, og stillti svo til, að karlinn skyldi
fara með mig þangað nokkrum dögum síðar. Tók ég þá hnotina og
drakk hinn ágæta drykk; svæfði hann um stund þá dauðans hryggð, sem
ég kvaldist af. Mér þótti afl færast um limu mína, og varð svo kátur, að
ég hoppaði í loft upp syngjandi. Þegar karlinn sá, að drykkurinn hafði
þessi áhrif og fann að mér varð venju fremur létt fyrir að bera hann
benti hann mér, að ég skyldi lofa honum að súpa á. Rétti ég honum þá
hnotina, og með því honum þótti drykkurinn góður, slokaði hann allt
í sig og kúgaði hnotina til hins síðasta dropa. Þurfti hann ekki meira til
að verða svinkaður og sveif skjótt á hann; tók hann þá að syngja, sem
honum lá rómur til, og reri í ýmsar áttir á herðum mér. En af róli þessu
varð honum svo óglatt, að hann ældi upp því, er hann hafði drukkið;
fann ég þá að fætur hans linuðust og losnuðu smámsaman um háls mér,
og þegar ég fann, að hann hætti að kreppa að mér, fleygði ég honum til
jarðar, og lá hann þar hreyfingarlaus; þreif ég þá upp stóreflis stein og
mölvaði með honum hvert bein í hausi hans.
Ég var nú guðsfeginn að vera orðinn laus við þenna karlskratta og
gekk fagnandi til strandar; hitti ég þar nokkra sjómenn, sem nýlega voru
lentir til að sækja vatn og matföng. Urðu þeir hlessa, þegar þeir sáu mig
og heyrðu sögu mína. „Þú hefur rekizt í greipar sjávar-öldungsins“ sögðu
þeir, „og ert þú sá fyrsti, sem hann hefur ekki kyrkt. Hann sleppti aldrei
þeim, sem hann einu sinni hafði fest hendur á, fyrr en hann hafði kyrkt
þá, og er ey þessi illræmd af mannskaða þeim, er hann hefur gert. Sjómenn
þeir og kaupmenn, er lentu hér við eyna, þorðu aldrei upp á land,
nema þeir væru margir saman.“ Að svo mæltu tóku þeir mig með sér út
á skip og fagnaði skipstjórnarmaður mér vel, er ég hafði sagt honum
sögu mína, Sigldum vér þaðan burt og lögðumst nokkrum dögum síðar
við akkeri á stórri höfn.
Einn af kaupmönnum á skipi þessu varð góður vinur minn, og fékk
mig til að fara með sér; fór hann með mig til húss eins, þar sem margir
útlendir kaupmenn voru á vist saman. Hann fékk mér stóran sekk, fól
mig á hendur nokkrum mönnum í borginni, sem gengu með samkyns
sekki; beiddi hann þá að taka mig með sér, þegar þeir færu að tína kókoshnetur
og sagði hann þá við mig: „Far þú eins að og hinir og skildu ekki
við þá, því ella er þér lífsháski búinn.“ Hann gaf mér og eins dags nesti
og fór ég síðan með hinum öðrum í stóran skóg; voru trén þar geysihá
og beinvaxin. Stofnar þeirra voru svo háir, að ómögulegt var að klifrast
upp í þau til þess að seilast eftir greinunum og ávöxtunum. Öll trén voru
kókospálmar, og áttum vér að fylla sekki vora með hnetum þeim, er á
þeim uxu. Þegar vér komum inn í skóginn, sáum vér fjölda apa, smárra
og stórra; lögðu þeir á flótta undir eins og þeir sáu oss og klifruðust með
frábærum fimleika upp í trjátoppana.
105. NÓTT. Förunautar mínir tóku steina og köstuðu þeim eftir
öpunum, sem uppi í trjánum sátu. Eins gerði ég; en jafnskjótt sem aparnir
urðu þess varir, rifu þeir kókoshneturnar upp í gríð og köstuðu
þeim í oss; skældu þeir og brettu sig í framan, því þeir voru fokreiðir.
Hirtum vér ávextina og ertum apana öðru hverju með steínkasti. Með
þessu bragði fylltum vér sekki vora með kókoshnetum, og mundum vér
ella hafa farið tómhentir.
Þegar vér höfðum aflað svo mikils, sem vér vildum, fórum vér aftur
til borgarinnar og borgaði mér fyrir hneturnar kaupmaður sá, er hafði
sent mig. „Þannig skaltu halda áfram,“ mælti hann, „þangað til þú hefur
grætt svo mikið, að þú getur komizt heim.“ Þakkaði ég honum heilræðið
og aflaði ég smámsaman svo mikils af hnetum, að töluverð eign var í.
Um þessar mundir lagði út skip það, sem hafði flutt mig þangað, hlaðið
kókoshnetum. Beið ég þess að annað skip kæmi, og leið ekki á löngu, að
eitt lagðist þar á höfninni, og átti að hlaða það samkyns farmi. Lét ég
flytja kókoshnetur mínar á þetta skip, og er það var seglbúið, kvaddi ég
kaupmanninn, sem ég átti svo mikið gott að þakka. Gat hann ekki orðið
mér samferða, því hann átti margt ógert. Héldum vér nú af stað og stýrðum
til eyjar einnar, sem gefur af sér ógrynni pipars. Þaðan fórum vér til
Kómari-skaga, þar sem alóe-viður fæst beztur; þar hafa landsbúar gert
að óbrigðanlegum lögum með sér, hvorki að bergja á víni, né njóta nokkurs
munaðar. Lét ég þar kókoshnetur mínar í skiptum fyrir pipar og alóevið,
og réðist þaðan með öðrum kaupmönnum til perlufangs, og tók kafhlaupara
á leigu; söfnuðu þeir handa mér ógrynni af stórum og fögrum
perlum. Sigldi ég þaðan, glaður í huga og komst farsællega til Balsora,
og þaðan til Bagdad; seldi ég þar dýrum dómum pipar og alóe-við. Tíunda
parti gróða míns varði ég til að hjálpa fátæklingum, eins og ég hafði
gert, þegar ég kom heim úr fyrri ferðum mínum, og leitaðist ég því næst
við að bæta mér upp með skemmtunum þær miklu þrautir, sem ég hafði
orðið að þola“...
Þá lét Sindbað aftur telja Hindbað hundrað gullpeninga, og fór hann
burt með hinum öðrum gestum. Næsta dag komu hinir sömu gestir til
borðs hjá hinum auðuga farmanni; veitti hann þeim vel eins og að undanförnu,
og sagði þeim síðan frá hinni sjöttu ferð sinni.
Sjötta ferð Sindbaðs farmanns
„Yður mundi víst hugleikið að vita, hvernig á því stóð, að ég ennþá
einu sinni þorði að hætta á forlögin, þar sem ég hafði brotið skip mitt
fimm sinnum og átt í svo mörgum þrautum. Sjálfur skil ég ekkert í því,
og vafalaust hefur fyrirsett skipun forlaganna valdið því. En hvað sem
um það er, þegar ég hafði setið um kyrrt í eitt ár, bjó ég mig til hinnar
sjöttu ferðar, þrátt fyrir bænir ættingja og vina, sem höfðu sig alla við
að telja mig af fyrirtæki þessu.
Í stað þess að sigla út Persalandsflóa, ferðaðist ég einu sinni enn um
mörg héruð á Persalandi og Indíalandi; loksins lét ég úr höfnum á góðu
skipi; ætlaði skipstjóri að halda því í langferð. Ferðin var bæði löng og ill,
og þar kom loksins, að skipstjóri og stýrimaður vissu ekki, hvert vér hefðum
hrakizt. Þó gátu þeir um síðir áttað sig, en það var lítið gleðiefni,
og varð okkur illt við einn dag, er skipstjórnarmaður hljóp allt í einu
æpandi af varðstað sínum. Hann þeytti af sér vefjarhettinum, sleit skegg
sitt og lamdi sig í höfuðið, eins og maður, sem hamast vitstola af örvæntingu.
Þegar vér spurðum, því hann æðraðist svo ákaflega svaraði hann:
„Það skuluð þér vita, að vér erum komnir á þann stað, sem háskalegastur
er á öllu hafinu; hinn stríði straumur sogar skipið með sér, og munum
vér allir farast að fjórðungi stundar liðnum. Biðjið guð að forða oss úr
þessum háska, því ólánið er óumflýjanlegt, nema hann miskunni oss.“
Að svo mæltu skipaði hann að hlaða seglum, en í þeim umsvifum slitnaði
kaðalreiðinn; varð þá engu tauti við komið, skipið rak forstreymis
upp að þverbröttu og ógengu bjargi, og brotnaði í spón. Allt fyrir það
komumst vér af, og fengum bjargað vistum vorum, og því, sem fémætast
var af varningnum.
Þegar vér vorum búnir að því, mælti skipstjórnarmaður: „Guðs vilja
er framgengt orðið. Nú getum vér grafið oss gröf, hver um sig, og hver
kvatt annan í hinzta sinni, því vér erum komnir á hinn mesta óheilla
stað, og hefur enginn átt afturkvæmt héðan, sem einu sinni hefur hrakizt
hingað.“ Við þessi orð sló yfir oss dauðans ótta og kvíða; vér föðmuðum
hver annan grátandi og hörmuðum vor hryggilegu forlög.
Bjargið, er gnæfði yfir höfði oss, lá strandlengis um stóra ey. Var fjaran
alþakin flökum og viðum skipa þeirra, er þar höfðu brotnað; þar var
og ógrynni mannabeina í þéttskipuðum hrúgum, og skelfdumst vér mjög
við þá sjón, því vér sáum af því, hvílíkur fjöldi manna hafði látið þar
líf sitt. Þá verður heldur eigi nærri getið, hvílíkt ógrynni þar er af vörum
og dýrgripum, hvar sem augað eygir; var okkur það til sorgarauka, en
engrar huggunar. En þar sem öll fljót falla til sjávar hvarvetna annarsstaðar,
þá rennur þar ósalt straumvatn úr hafi upp á land, og hverfur
inn í dimman helli með víðu mynni. Það er og merkilegt, að ekkert grjót
er í bjargi þessu, heldur er það allt saman úr kristalli, roðasteini og öðrum
gimsteinum. Þar rennur og jarðfitustraumur til sjávar. Gleypa fiskar
jarðfituna, og verður hún að gráleitu ambra[* Ambra er vaxkennt ilmefni, sem finnst með sjávarströndum í hitabeltislöndunum; er
efni það dýrkynjað, (úr hvölum).] í saurindum þeirra, og
rekur það á land, svo að ströndin er alþakin af því. Þar fæst og alóe-viður,
sem ekki er lakari en sá, er vex á Kómarí.
Því ber enn að auka við lýsingu staðar þessa, sem með réttu mætti
nefna Feigsbjarg, af því að enginn sleppur þaðan lífs, að þegar skipin
nálgast eyna um visst bil, þá geta þau eigi komizt í burt. Ef veður af
hafi ber þau þangað, þá rekur bæði vindur og straumur þau í glötunina;
en ef þau eru þar stödd, þegar vindur stendur af landi, þá getur hann
eigi orðið þeim til bjargar, því fjallið stendur fyrir og tekur allan vind,
svo að blæjalogn verður í varinu langt út á sjó fram. Nýtur því straumaflið
sín fullkomlega og dregur að skipin, þangað til þau mölbrotna við
ströndina. En það er yfirtak hörmunganna, að hvorki er mögulegt að
klifrast upp á bjargbrúnina, eða að forða sér á annan hátt. Þannig sátum
vér á ströndinni eins og vitskertir, og biðum dauðans dag frá degi. Höfðum
vér í fyrstunni skipt vistum vorum jafnt með oss, og lifðu menn eftir
því lengur eða skemur, sem þeir fóru sparlega eða ósparlega með...
106. NÓTT. Þeir, sem lengur lifðu, greftruðu þá, sem fyrr dóu;
þangað til ég stóð einn uppi og jarðaði líkin. Ekki skuluð þér furða yður
á því, því auk þess að ég hafði haldið sparlegar á vistum mínum en hinir,
hafði ég sjálfur dálítið af mat, og var ég hyggnari en svo, að ég gæfi
félögum mínum nokkuð með mér. Átti ég þó harðla lítið eftir, þegar ég
jarðaði síðasta líkið. Þá var ég svo viss um, að líf mitt mundi bráðum á
enda, að ég gróf gröf handa sjálfum mér og ætlaði að leggjast niður í
hana, því enginn annar var til að jarðsetja mig. Meðan ég var að þessu,
gat ég ekki annað en ásakað sjálfan mig um dauða minn og nagað mig
í handarbökin fyrir þessa seinustu ferð. Lét ég ekki þar við sitja, heldur
kvaldi ég mig sjálfan og beit fingur mína til blóðs, og var að mér komið
að fyrirfara sjálfum mér.
En guð miskunnaði mér aftur og blés mér því ráði í brjóst, að ganga
til fljótsins, sem hvarf inn í hellinn. Virti ég það grandgæfilega fyrir mér
og hugsaði með sjálfum mér: „Straumur þessi, er hverfur niður í jörðina,
hlýtur einhversstaðar að koma upp aftur; ef ég nú geri mér fleka og læt
mig berast með straumnum, mun ég annaðhvort ná til mannabyggða eða
láta líf mitt. Verði hið síðara, þá er ekki öðru breytt en dauðdaganum,
en sleppi ég frá þessum voðalega stað, þá verður mér bæði auðið að umflýja
hin hryggilegu forlög félaga minna, og býðst ef til vill nýtt tækifæri
til að afla mér fjár. Hver veit nema hamingjan bíði mín fyrir handan
þetta undirdjúp, svo að skipskaðinn verði mér ríflega bættur.“ Ég fór
því óðar að timbra saman flekann; var þar gott til traustra viða og sterkra
kaðla, og reyrði ég viðuna fast saman; varð fleki þessi næsta staðgóður.
Því næst bar ég út á hann nokkra böggla, hafði ég bundið í þá roðasteina,
smaragða, grátt ambra og fjallakristall. Þegar ég hafði hlaðið þessu jafnt
á flekann og bundið það fast, sté ég út á hann með tvær árar, sem ég hafði
teglt til sjálfur, fól mig síðan guði á vald og lét strauminn bera mig.
Þegar ég kom lengra inn í hellinn, hvarf dagsbirtan og bar straumurinn
mig áfram, en ekki vissi ég, hvert. Liðu svo nokkrir dagar og varð
klettarjáfrið svo lágt yfir höfði mér, að við sjálft lá, að ég ræki mig upp
undir. Meðan á þessu stóð, neytti ég ekki meira af vistum mínum en
svo, að ég gæti haldið við lífinu. En svo sparlega sem ég fór með þær,
varð ég samt fljótt uppiskroppa. Þá sótti ósjálfrátt að mér værasti svefn,
líkur dauðadái, og veit ég ekki hversu lengi ég svaf. En þegar ég vaknaði,
brá mér í brún, því ég var kominn á víða völlu á fljótsbakka, sem fleki
minn var bundinn við, og stóð í kringum mig fjöldi blökkumanna. Stóð
ég jafnskjótt upp og heilsaði þeim; töluðu þeir þá til mín, en ég skildi
ekki orð. Svo var fögnuður minn óumræðilegur, að ég vissi ekki, hvort
ég vekti eða svæfi, en loksins sannfærðist ég þó um það, að þetta væri
enginn draumur, og hafði ég þá yfir þessa arabisku vísu:
/#
Alvaldan bið þér drottinn duga,
döprum þér hjálpráð sitt hann ljær;
lyk þú augum með hressum huga,
og hvergi þig um annað kær;
meðan á hvörmum blundur býr,
bölinu hann í fögnuð snýr.
#/
Þegar einn af blökkumönnum, er skildi arabiska tungu, heyrði mig
mæla það mál, kom hann til mín og mælti: „Bróðir, lát þér ekki verða
bilt við að sjá oss; vér byggjum land þetta, sem þú sér yfir, og komum
vér hingað í dag, til þess að vökva akra vora. Það gerum vér með skurðum,
sem vér veitum úr fljóti, er rennur úr fjalli nokkru hér nálægt. Sáum
vér þá eitthvað reka með straumnum, og hlupum til að vita, hvað það
væri, og sáum vér þá fleka þenna. Einn af oss synti þá til flekans og dró
hann að bakkanum; bundum vér hann þar og biðum þess, að þú vaknaðir.
Nú biðjum vér þig, að segja oss sögu þína, því hún mun með fádæmum
vera; seg oss nú fyrst, hvaðan þú ert, og hvernig á því stóð, að þú hættir
þér út á flekann?“ Svaraði ég þá, að þeir yrðu fyrst að gefa mér eitthvað
að snæða, og skyldi ég á eftir leysa úr spurningum þeirra. Síðan settu
þeir fyrir mig ýmsa rétti, og er ég hafði satt hungur mitt, skýrði ég ítarlega
frá öllu, sem mér hafði viljað til; fannst þeim mikið um sögu mína.
Hafði túlkur þeirra þýtt þeim hvert orð, og létu þeir hann segja við mig:
„Þetta er einhver hin einstakasta saga; þú verður að segja hana konungi
vorum sjálfur, því ævintýri þín eru undrunarverðari en svo, að annar
megi frá segja en sá, sem þau reyndi.“ Ég kvaðst vera boðinn og búinn
til þess.
Létu nú blökkumenn sækja handa mér hest; reið ég og gengu nokkrir
á undan, til að vísa mér veg, en hinir sterkustu tóku flekann með bögglunum
og öllu saman á herðar sér og gengu á eftir.
107. NÓTT. Þannig héldum vér til höfuðborgarinnar á eynni Seylon,
því þangað var ég kominn. Leiddu blökkumenn mig fyrir konung sinn;
gekk ég þá fram að hásætinu, er hann sat í og heilsaði honum eins og tíðkast
að heilsa indverskum konungum, með því að fleygja mér til fóta honum
og kyssa á gólfið. Hann beiddi mig að standa upp, fagnaði mér vinsamlega
og lét mig setjast til hliðar sér. Því næst spurði hann að nafni
mínu og svaraði ég þá: „Sindbað heiti ég, farmaður kallaður fyrir hinar
mörgu sjóferðir, sem ég hef farið, og á ég heima í Bagdad.“ Þá mælti
hann: „En hvernig stóð á því, að þú komst til minna landa?“
Sagði ég þá konungi allt, sem ég er búinn að segja yður; varð hann
svo hlessa og frá sér numinn, að hann lét uppskrifa ævintýri mín með
gullletri og geyma þau í skjalahirzlu ríkisins. Síðan var flekinn borinn
fram og bögglarnir leystir upp í viðurvist konungs; fannst honum mikið
um alóeviðinn og hið gráa ambra, en þó einkanlega um roðasteinana
og smaragðana, því hann átti enga slíka í gripahirzlu sinni. Þegar ég sá,
hvað honum varð starsýnt á gimsteina mína, einkum þá, er fegurstir voru,
fleygði ég mér niður fyrir fætur honum og mælti: „Herra, bæði sel ég
sjálfan mig í vald yðar, og færi yður til eignar allan farm fleka míns;
gerið það af, sem yður þóknast.“ Brosti hann þá og mælti: „Sindbað!
Fjarri fer, að mér leiki hugur á að eiga þetta og svipta þig því, sem þú
hefur þegið af drottni. Í stað þess að skerða auðæfi þín, mun ég bæta
nokkru við, og skalt þú ekki svo fara úr ríki mínu, að þú ekki sjáir nein
merki rausnar minnar.“ Ég svaraði með óskum einum, að konungi mætti
sem bezt vegna, og lofaði ég gjafmildi hans og göfuglyndi. Skipaði hann
einum af embættismönnum sínum, að sjá mér fyrir öllu, sem ég þyrfti,
og leigði hann þjóna handa mér á sjálfs sín kostnað. Þessi embættismaður
hlýddi rækilega skipun herra síns, fékk mér hús til íbúðar og lét bera
þangað allan farminn af fleka mínum. Gekk ég á hverjum degi á tiltekinni
stund til konungs, til þess að sýna honum auðmýktar- og lotningar
merki, en hinum öðrum tíma dagsins varði ég til að skoða borgina og
það, sem merkilegast var í henni:
Eyjan Seylon liggur undir jafndægursbaug og eru því dagur og nótt
þar ætíð tólf stundir; hún er áttatíu persneskar mílur á lengd og jafnmargar
á breidd. Höfuðborgin stendur í fögrum dal undir fjalli einu
á miðri eynni; það er hæst fjall í heimi og sést til þess af hafi svo langt,
sem sigla má á þremur dögum[* Það sem hér segir um legu og stærð eyjarinnar og hæð fjallsins, er ekki rétt, og kemur
það til af því, að þekking á landafræði mun hafa verið næsta ófullkomin, þegar saga
þessi varð til.]. Finnast þar roðasteinar og ýmsir málmar
og er í klettunum járngrýti, sem haft er til að skera gimsteina. Þar vaxa
og alls konar tré og jurtir, einkum kedros og kókostré. Perlutekja mikil er
fram með ströndum eyjarinnar og við fljótsmynnin, en sumstaðar fram
til dala finnast demantar. Ég fór eins og guðhræddur maður pílagríms
ferð til fjallsins, er ég nefndi fyrr; er það sögusögn manna, að þangað
hafi Adam verið vísað, þegar hann var rekinn úr paradís; gekk ég upp á
tind fjallsins fyrir forvitnis sakir. Þegar ég kom heim aftur til borgarinnar,
beiddi ég konung orlofs, að fara heim til ættjarðar minnar, og veitti
hann mér það með mestu vinsemd og blíðu. Tróð hann upp á mig stórgjöfum
úr féhirzlu sinni, og að skilnaði gaf hann mér enn gjafir og beiddi
mig fyrir bréf til konungs rétttrúaðra manna, vors einvalda herra, svo
mælandi: „Fá þú kalífanum Harún Alrasjid bréf þetta og gjafir þessar
í hendur, og seg honum, að hann megi vera fullviss um vináttu mína.“
Ég tók við bréfinu og gjöfunum með lotningu og lofaði konungi, að hlýða
skipun hans rækilega. Áður en ég sté á skip, gerði hann boð eftir skipstjóra
og stýrimanni, sem ég ætlaði að fara með, og skipaði hann þeim
að sýna mér sem mesta virðingu.
Bréf konungsins á Seylon var skrifað á skinn, sem er ákaflega dýrmætt;
dýrið, sem það er af, er gult að lit og fjarska sjaldgæft. Letrið á skinninu
var heiðblátt og var bréfið samið á indverska tungu og svo látandi:
„Konungur Indíalands, sem lætur þúsund fíla ganga á undan sér, sem
býr í glæsilegri höll með ljómandi þaki, blikandi af hundrað þúsund
roðasteinum, sem á tuttugu þúsund demantskórónur í féhirzlu sinni,
sendir kalífanum Harún Alrasjid kveðju guðs og sína.
Þótt gjafir þær, er vér sendum yður, séu næsta lítilfjörlegar, þá þiggið
þær samt eins og bróðir vor og vinur, sökum kærleika þess, er vér berum
til yðar í hjarta voru; þykir oss sönn gleði, að geta vottað hann í verkinu.
Vér beiðumst vinfengis yðvars af hjarta, og þykjumst þess verðir, því vér
erum yður jafnir að tign og metorðum.“
Gjafirnar voru þessar: fyrst var roðasteinsker, eins og bikar í laginu,
hálft fet á hæð og fingurs þykkt, það var alsett dýrindis perlum og vó
hvert þeirra fjórðung lóðs; annað var ormshamur, og var hver skel á
hreistrinu viðlíka stór og meðal gullpeningur; fylgdi haminum sú
náttúra, að hver, sem svaf á honum, kenndi einskis sjúkleika; þriðja gjöfin
var töluvert af bezta alóeviði og þrjátíu stykki af kamfóru. Öllum
þessum sendingum fylgdi, eins og ofanálag, yndisfögur ambátt og skartbúin;
voru klæði hennar alsett gimsteinum. Lét nú skipið úr höfnum og
lentum vér í Balsora eftir langa, en mjög svo heppilega ferð. Þaðan fór
ég til Bagdad og lét ég sitja fyrir öllu, að koma fram erindi mínu...
108. NÓTT. Ég gekk til hallardyra konungsins, drottins rétttrúaðra
manna, með nokkrum ættingjum mínum, sem báru sendingarnar; gerði
ég boð á undan mér, að ég kæmi með bréf frá konunginum á Seylon,
fríða ambátt og aðrar gjafir frá honum; var ég þá óðara leiddur fram
fyrir hásæti kalífans. Ég fleygði mér fram fyrir fætur honum, ávarpaði
hann fáeinum orðum, og fékk honum bréfið og gjafirnar. Þegar hann
hafði lesið bréfið frá konunginum í Seylon, spurði hann mig, hvort það
væri víst, að konungur þessi væri svo ríkur og voldugur, sem í bréfinu
segði. Ég fleygði mér á ný til jarðar, stóð upp og svaraði: „Drottinn
rétttrúaðra manna! Ég get borið vitni um það, eins og sjónarvottur, að
hann segir ekki ofsögum af veldi sínu og auðlegð. Þegar hann ætlar að
birtast opinberlega, er hásæti hans reist upp á fíls baki, og standa þar
ráðgjafar, dýrðlingar og hirðmenn í tveimur röðum, sinni til hvorrar
handar honum. Fyrir framan hann situr á sama fílnum embættismaður
einn, og heldur á gylltri burtstöng, en bak við hann stendur annar, og
hefur í hendi gullinn sprota með smaragðstein framan á broddinum; er
hann um hálft fet á lengd og þumlungur á þykkt. Á undan honum fara
þúsund riddarar í gullfjölluðum silkiklæðum, sitjandi á skrautlega tygjuðum
fílum; eru það höfuðverðir hans. En á leiðinni kallar embættismaður
sá, er situr á fílnum fyrir framan konung, hárri röddu:
„Þessi er hinn máttugi konungur, hinn voldugi og ægilegi Indíalands
soldán, sem býr í höllu, þakinni hundrað þúsund roðasteinum, og á tuttugu
þúsund demantskórónur. Þessi er hinn krýndi alvaldur, sem er meiri
en hinn mikli Salómon og hinn mikli Maharadsja.“
Því næst kallar embættismaður sá, er stendur bak við hásætið:
„Þessi mikli og voldugi einvaldsdrottinn skal deyja, skal deyja, skal
deyja.“
Þá kallar hinn fremri embættismaður:
„Lofaður sé sá, sem lifir og ekki deyr.“
Það er enn af konunginum á Seylon að segja, að hann er svo réttlátur,
að engir dómarar eru, hvorki í höfuðborginni né annarsstaðar í
ríki hans; þegnar hans þurfa engra dómara. Þeir vita sjálfir, hvað rétt er
og hafa það hugfast, svo að þeir aldrei breyta á móti skyldu sinni, og því
mundi öllum dómurum vera ofaukið.“ Kalífanum geðjaðist vel að því,
sem ég sagði honum. „Viturleikur konungs þessa,“ mælti hann, „er auðráðinn
af bréfi hans, og eftir því, sem þér segist, hlýt ég að játa, að hvað
hæfir öðru, vitur konungur og vitrir þegnar.“ Að svo mæltu lét hann
mig frá sér fara, sæmdan dýrindis gjöfum.“
Þannig lauk Sindbað sögu sinni og fóru áheyrendur hans heim. Hindbað
fékk hundrað gullpeninga eins og fyrri. Daginn eftir komu allir til
Sindbaðs aftur, og sagði hann þeim þá af hinni sjöundu og síðustu ferð
sinni.
Sjöunda og síðasta ferð Sindbaðs farmanns
„Þegar ég var heim kominn úr sjöttu ferðinni, var ég afhuga öllu nýju
ferðalagi. Ég var nú kominn á þann aldur, að ég þurfti hvíldar og hafði
ég staðráðið með sjálfum mér, að leggja ekki framar út í hættur þær, sem
ég svo oft hafði ratað í. Hafði ég því ekki hugann á öðru en að lifa ánægjulegu
lífi, það sem eftir var ævinnar.
Það var einhvern dag, þegar ég hafði vini mína í boði, að einn af
heimilismönnum mínum kallaði á mig, og sagði að einn af þjónum
kalífans vildi finna mig að máli. Stóð ég þá upp frá borðum og gekk á
móti honum. „Kalífinn,“ tók hann til máls, „skipaði mér að skila til yðar,
að hann vildi tala við yður.“ Fylgdi ég honum til hallarinnar og
leiddi hann mig á fund kalífans; fleygði ég mér þá niður fyrir fætur honum.
„Sindbað!“ mælti hann, „nú er ég upp á þig kominn og verður þú
að gera bón mína, en hún er sú, að þú færir konunginum á Seylon bréf
og gjafir frá mér. Það er sanngjarnt, að ég láti kurteisi koma á móti
kurteisi.“
Þegar ég heyrði þessa skipun, datt mér allur ketill í eld. „Konungur
rétttrúaðra manna,“ mælti ég, „ég er reiðubúinn til hvers, sem yðar hátign
vill, en ég bið yður auðmjúklegast, að vorkenna mér sakir ellilasleika.
Ég hef strengt þess heit, að fara aldrei framar úr Bagdad.“ Því
næst sagði ég honum öll ævintýri mín út í hörgul; þóknaðist honum að
hlýða á þau allt til enda, og svaraði hann mér þá: „Þetta eru að vísu fáheyrðir
atburðir, en ekki eiga þeir að aftra þér frá því að fara þessa ferð,
mér til geðþekkni. Þú þarft ekki að fara lengra en til eyjarinnar Seylon,
og heim aftur að afrekuðu erindi þínu. En þangað verður þú að fara,
því það máttu skilja, að ekki tjáir það, né hæfir tign minni, að láta konunginn
þar á eynni eiga nokkuð til skuldar að telja hjá mér.“ Þegar ég
sá, að þetta var einbeittur vilji kalífans, kvaðst ég vera fús að hlýða, og
varð hann þá glaður við, og lét telja mér hundrað sekkínur til ferðakostnaðar.
Að fárra daga fresti varð ég ferðbúinn, og jafnskjótt sem kalífinn
hafði látið afhenda mér bréfið ásamt gjöfunum, fór ég til Balsora og
tók mér fari. Varð ég vel reiðfara og lenti á Seylon, sagði ráðgjöfunum
erindi mitt og beiddi þá að fylgja mér á fund konungs. Var mér ekki
synjað þess, heldur fylgt til hallarinnar; heilsaði ég þá konungi og kastaði
mér til jarðar eins og siður er til.
Konungurinn þekkti mig undir eins og varð stórglaður. „Kom þú
heill, Sindbað!“ mælti hann, „það máttu vita fyrir víst, að síðan við
skildum, hef ég oftsinnis til þín hugsað, og er þetta blessaður dagur, sem
lætur fundum okkar aftur bera saman.“ Þakkaði ég honum góðvilja hans
mér til handa, og afhenti honum bréf og gjafir kalífans, en hann tók við
og lét í ljósi mikla gleði.
Kalífinn sendi honum heilan sængurfatnað úr gullfjölluðu rósasilki,
þúsund sekkína virði, fimmtíu skikkjur úr dýrindis vefnaði og hundrað
aðrar úr smágjörvu hvítu líni frá Kairó, Súez, Alexandríu og Kafa. Þar að
auki voru lifrauð rúmföt og enn hin þriðju; ennfremur ker úr agatsteini,
sem var víðara en það var djúpt til, fingurs þykkt og hálft fet þvermáls,
en á botninum var lágmynd; það var maður, sem lá með annað knéð
á jörðinni og hélt á boga með ör á streng og ætlaði að skjóta á ljón. Að endingu
fylgdi gjöfum þessum dýrmæt tafla, sem sagt var, að hinn mikli Salómon
hefði átt. Bréf kalífans var svolátandi:
„Abdalla Harún Alrasjid, sem guð hefur vísað í tignarsæti eftir forfeður
hans, hásællar minningar, sendir hinum volduga og giftusama soldáni
kveðju sína í nafni hans, sem einn er ljós og leiðtogi á réttum vegi.
Vér höfum meðtekið bréf yðvart og fékk það oss mikillar gleði, og
sendum vér yður aftur bréf þetta úr ríkisráði voru. Vér vonum að það votti
yður vorn góða tilgang og verði yður vel að skapi. Guð veri með yður.“
Konunginum á Seylon var mikil gleði að því, að kalífinn hafði tekið
vináttuboði hans. Skömmu síðar beiddi ég leyfis að kveðja hann og var
það harðla torsótt. Loksins var mér veitt það, og gaf konungur mér fararleyfi
og leysti mig út með ríkulegum gjöfum. Sté ég þá undir eins á skip
og ætlaði heim til Bagdad, en var ekki svo heppinn að komast þangað,
eins og ég vonaði, heldur sneri drottinn þessu á aðra leið. Þegar vér
höfðum verið nokkra daga á leiðinni, réðust á oss víkingar og varð þeim
hægðarleikur að hertaka skip vort, því vér höfðum engan viðbúnað til
varnar oss. Sumir reyndu að verjast, en ég og allir þeir, sem voru svo
hyggnir að varast slíka fásinnu, voru hnepptir í þrældóm.
109. NÓTT. Þegar víkingarnir höfðu rænt oss, og fengið oss léleg
föt í stað þeirra, sem þeir tóku af oss, fluttu þeir oss til stórrar eyjar langt
burtu, og seldu oss mansali. Mig keypti auðugur kaupmaður, og óðar
en hann hafði keypt mig, fór hann með mig inn í hús sitt og gaf mér
góðan mat og þokkalegan þrælaklæðnað. Hafði hann ekki grennslazt
eftir, hver ég væri, og spurði mig því nokkrum dögum síðar, hvort ég
kynni nokkra iðn. Ég kvað nei við, og gerði honum ekki frekara uppskátt,
hver ég væri, en það, að ég sagði honum, að ég væri kaupmaður
og hefði verið rændur öllu af víkingum þeim, er seldu mig. „Kanntu þá
ekki að skjóta af boga?“ spurði hann mig, og svaraði ég, að þá íþrótt
hefði ég tamið mér í æsku, og hefði ekki týnt henni niður síðan. Því næst
fékk hann mér boga og örvar, lét mig setjast upp á fíl bak við sig, og
fór til mikils skógar, sem var margar mílur frá borginni. Riðum við langt
inn í skóginn, þangað til hann staðnæmdist og lét mig fara af baki; sýndi
hann mér tré nokkurt hátt og digurt og mælti: „Klifrastu upp í tréð að
tarna og skjóttu á fílana, sem fram hjá ganga, því hér er mesti fjöldi af
þeim. Drepir þú einhvern þeirra, skaltu láta mig vita.“ Síðan fékk hann
mér nesti og fór aftur til borgarinnar. Ég var á gægjum alla nóttina og
sá engan fíl, en um morguninn sá ég mesta sæg, skömmu eftir sólar uppkomu.
Skaut ég á þá hvað eftir annað, þangað til einn féll; höfðu þá
hinir sig burt, og gerðu mér þannig mögulegt að segja húsbónda mínum
frá veiðihappi þessu. Hann gaf mér góðan málsverð fyrir, hældi mér fyrir
íþrótt mína, og var mér hinn blíðasti. Fórum við nú báðir saman út í
skóg og dysjuðum fílsskrokkinn. Ætlaði húsbóndi minn að koma og taka
tennurnar, þegar dýrið væri rotnað.
Ég hélt veiði þessari áfram í tvo mánuði, og drap einn fíl á dag; fór
ég ekki ætíð upp í sama tréð, heldur sitt í hvert skipti. Það var einn morgun,
er ég beið fílanna, að þeir brugðu út af vana sínum, því þeir röltu
jafnan fram hjá mér gegnum skóginn, en nú drifu þeir að mér með hræðilegu
öskri, og var það slíkur urmull, að hvergi sá í milli, en jörðin skalf
og titraði undir fótum þeirra. Þeir slógu hring um tréð, er ég sat í, með
trjónurnar reistar í loft upp og augun starandi á mig; varð mér svo illt
við þessa kynlegu sjón, að ég varð máttvana af hræðslu, og hrökk boginn
og örvarnar úr höndum mér.
Þetta var og mikið hræðslu efni, því þegar þeir höfðu glápt á mig um
hríð, krækti einhver stærsti fíllinn trjónu sinni um tréð að neðanverðu,
og sleit það upp með rótum, svo að ég steyptist til jarðar. En dýrið þreif
mig upp með trjónunni og hóf mig upp á bak sér, og hélt ég mér þar
fast með örvamælinn á herðum mér, og var nær dauða en lífi. Gekk nú
fíll þessi á undan, en hinir á eftir í hóp; bar hann mig góðan spöl, lagði
mig síðan niður og gekk burt með félögum sínum. Hugsið yður nú,
hvernig á mér muni hafa legið; mér þótti allt líkara draumi en vöku.
Þegar ég hafði legið um stund á jörðinni og sá engan fíl, stóð ég upp og
litaðist um, og var ég staddur á víðri hæð, sem var alþakin fílatönnum.
Þegar ég sá þetta, fór ég að hugsa margt; ég furðaði mig á náttúruviti
dýra þessara, og þóttist viss um, að hér mundi vera dauðareitur þeirra,
og hefðu þeir sýnt mér hann til þess, að ég ekki skyldi leggja þá í einelti
vegna tannanna. Sneri ég nú tafarlaust aftur til borgarinnar og gekk allan
daginn og næstu nótt, þangað til ég kom til húsbónda míns. Á þeirri leið
mætti ég engum fíl, og réði ég af því, að þeir mundu hafa hörfað lengra
inn í skóginn, til þess ég hefði greiða göngu til hólsins. Þegar húsbóndi
minn sá mig, mælti hann: „Veslings Sindbað! Ég hef verið dauðhræddur
um þig. Ég fór til skógarins og kom að tré einu, sem rifið var um koll, og
fann ég þar nálægt boga og örvar; ég leitaði þín alstaðar árangurslaust og
taldi þig af. Segðu mér, hvað hefur þér viljað til, og hvernig varstu svo
bráðheppinn, að komast lífs af?“ Sagði ég honum þá allt, hvernig farið
hafði, og fórum við báðir næsta dag til hólsins. Varð hann frá sér numinn
af gleði, er hann sá, að ég hafði sagt satt. Við klyfjuðum fílinn, sem
við höfðum með okkur, svo mörgum tönnum, sem hann gat borið, og
þegar heim kom, sagði húsbóndi minn við mig: „Bróðir, nú skalt þú
ekki framar vera þræll minn, sakir fundar þessa, sem verða mun auðsuppspretta
mín. Guð veiti þér ríkulega allt, sem gott er og farsællegt,
og tek ég hann til vitnis, að ég gef þér frelsi. Ég hafði dulið þig þess, að
fílarnir í skógunum drepa fjölda þræla, sem vér sendum þangað eftir
fílabeini. Hvað ríkt sem vér leggjum á við þá, að þeir skuli fara gætilega,
ráða þó þessi slægvitru dýr þeim bana, fyrr eða síðar. Guð hefur varðveitt
þig fyrir grimmdaræði þeirra og engan annan; er það ljóst merki
þess, að hann elskar þig og vill láta þig lifa, til þess að gera allt hið góða,
sem þér er ætlað. Mér hefur þú gert ómetanlegt gagn; allt til þessa gátum
vér eigi náð fílabeini, nema vér hefðum þræla vora í lífsháska, en nú
mun öll borgin auðgast af því. En ekki skaltu halda, að mér þyki þér
vera fulllaunað með frelsisgjöfinni, heldur mun ég þar á ofan sæma þig
miklum gjöfum. Gæti ég hæglega komið öllum borgarmönnum til að
efla hamingju þína, en nú ætla ég sjálfum mér einum þessa sæmd.“
Þessum vinmælum svaraði ég þannig: „Guð varðveiti yður; frelsisgjöfin
er svo mikils verð, að ég á ekkert hjá yður, og í stað allra verðlauna
fyrir greiða þann, sem ég hef gert yður og borg yðvarri, bið ég að
eins leyfis að fara heim til fósturjarðar minnar.“ Þá mælti hann: „Nú
munu stöðuvindar[* Á hinu indverska hafi sem liggur undir jafndægursbaug, blása staðvindar (mussons)
á víxl, ýmist austanvindur eða vestanvindur og blæs mánuðum saman af sömu áttinni.] bráðum flytja hingað skip, er sækja fílabein; þá skal
ég verða þér hjálplegur, svo að þú komist heim.“ Þakkaði ég honum enn
á ný frelsi mitt og vinsemd hans mér til handa. En þangað til stöðuvindar
byrjuðu, fórum við svo margar ferðir til hólsins, að öll forðabúr hans
urðu full af fílabeini. Gerðu svo allir kaupmenn í borginni, sem verzluðu
með þá vöru, því þeim gat ekki dulizt það til lengdar.
110. NÓTT. Nú komu loksins skip, og útvegaði húsbóndi minn mér
far með einu þeirra; fermdi hann það fílabeini og átti ég hálfan farm.
Hann gaf mér og ágætt nesti, margar dýrmætar gjafir og fágæta hluti, sem
fengust þar í landi. Þakkaði ég honum nú innilega fyrir allt gott, sem
ég hafði þegið af honum, sté á skip og létum vér síðan úr höfnum. Lentum
vér í mörgum eyjum til að fá oss hressingu, og með því skipið hafði
komið frá meginlandi Indíaveldis, lögðum vér þar að landi. Vildi ég ekki
hætta á sjóferð til Balsora, heldur réði ég af að fara þangað landveg. Lét
ég því skipa upp fílabein mitt og seldi það fyrir ógrynni peninga, keypti
marga fágæta hluti, sem ég ætlaði að gefa, og slóst síðan í lestaferð með
kaupmönnum nokkrum. Vorum vér lengi á ferðinni, og varð ég að þola
marga hrakninga, en bar það með þolinmæði, því nú þurfti ég hvorki
að hræðast storma, víkinga, höggorma, eða aðrar hættur, sem ég áður
hafði ratað í.
Þegar ég kom til Bagdad, voru allar þrautir mínar á enda: fór ég þá
til kalífans, til þess að gera honum grein fyrir sendiferð minni. Sagðist
hann hafa farið að verða hræddur um mig, er burtvera mín dróst svo
lengi, en hafa þó ætíð verið vongóður um, að guð mundi ekki yfirgefa
mig. Þegar ég hafði sagt honum frá viðureign minni við fílana, undraðist
hann mjög, og mundi ekki hafa lagt trúnað á þá sögu, hefði hann ekki
þekkt mig að ráðvendni. En svo þótti honum sagan merkileg, að hann
lét skrifara sinn letra hana gullnum stöfum og leggja til geymslu í féhirzlu
sína. Kvaddi ég hann síðan og gekk burt glaður af gjöfum þeim,
er ég hafði þegið og sæmd þeirri, er mér hafði verið sýnd, og helga ég nú
líf mitt heimili mínu, ættingjum og vinum.“
Þannig lauk Sindbað að segja af hinni sjöundu og síðustu ferð sinni,
og spurði hann nú Hindbað: „Vinur, hefur þú nokkurn tíma heyrt, að
mennskur maður hafi þolað slíkt og átt í slíkum mannraunum? Hef ég
ekki unnið til náðugra og ánægjulegra daga ofan á slíka hrakninga?“
Hindbað kyssti á hönd hans og mælti: „Sannlega, herra, hafið þér átt í
ógurlegum hættum og komast mínar þrautir í engan samjöfnuð við yðar,
því þó mér þyki þær þungbærar meðan á þeim stendur, þá get ég
samt ætíð huggað mig við hinn litla gróða, sem ég hef í aðra hönd. Þér
eigið ekki einungis skilið að lifa náðugu lífi, heldur eruð þér í alla staði
verðugur hinna miklu auðæfa, því þér verjið þeim vel og sýnið af yður
höfðingsskap. Guð gefi yður gleðilega lífdaga allt til æviloka.“
Lét þá Sindbað aftur telja honum hundrað gullpeninga, tók hann í
tölu vina sinna og bauð honum að hætta við atvinnu sína og eta framvegis
við borð sitt, svo að hann alla ævi gæti munað Sindbað farmann.“
Af því Sjerasade sá að dagur var enn þá ekki kominn, byrjaði hún á
nýrri sögu.
[1298.png]
[1299.png]
Hin þrjú epli
„Herra!“ tók hún til máls, „í einni sögu, sem ég hef sagt yður, gat ég
þess, að kalífinn Harún Alrasjid hefði gengið út á náttarþeli; hinu
sama bregður einnig fyrir í þessari frásögu.
Einn dag skipaði kalífinn stórvezírnum Gíafar að koma næstu nótt í
höllina. „Vezír!“ mælti hann, „ég ætla að ganga um borgina og heyra hvað
talað er, en einkum vil ég komast eftir, hvernig menn eru ánægðir með
dómara mína. Ef menn kvarta undan þeim og hafa gildar ástæður til
þess, mun ég setja nýja dómara í staðinn, sem betur gegni skyldu sinni;
en sé þeim hælt, skal ég sjá það við þá.“ Kom nú stórvezírinn í höllina
á tiltekinni stund, og fóru þeir kalífinn, Gíafar og Mesrúr, höfuðsmaður
geldinganna, í dularbúning til að torkenna sig; því næst gengu þeir allir
út saman.
Þeir gengu yfir mörg pláss og torg í borginni; sáu þeir loksins í smástræti
einu, hvar maður gekk og bar fiskinet á höfði sér; var hann hár
vexti og hafði hvítt skegg. Á handleggnum bar hann körf úr pálmablöðum,
en staf í hendi. Þá mælti kalífinn: „Þessi karl lítur ekki út fyrir að
vera fjáður, við skulum yrða á hann og spyrja um efnahag hans.“ „Heyrðu
kunningi,“ mælti vezírinn og veik sér að honum, „hver ert þú?“ „Herra,“
svaraði karlinn, „ég er fiskimaður, og allra fiskimanna aumastur og fátækastur.
Ég fór að heiman um hádegisbil til fiskjar, og hef einskis aflað,
og á ég þó konu og ung börn fyrir að sjá, en enga lífsbjörg handa þeim.“
Kalífinn sá aumur á honum og mælti: „Hefurðu dug í þér til að
kasta neti þínu út einu sinni enn? Við skulum gefa þér hundrað sekkínur
fyrir það, sem þú dregur á land.“ Þegar fiskimaður heyrði þetta, gleymdi
hann því, hvað honum hafði gengið erfitt fyrr um daginn, og þáði undir
eins boð kalífans og fór nú aftur með honum, Gíafar og Mesrúr ofan að
Tígrisfljóti; hugsaði hann með sér: „Þessir menn eru svo fyrirmannlegir
[1300.png: ...kastaði fiskimaður út neti sínu, og er hann dró það upp aftur, var í því kista]
og ráðsettir að sjá, að ég trúi því ekki, að þeir láti fyrirhöfn mína óborgaða,
og þó ég ekki fengi meira en hundraðasta part af því, sem mér var
lofað, þá mætti mig muna um það.“ Þegar þeir voru komnir að fljótinu,
kastaði fiskimaður út neti sínu, og er hann dró það upp aftur, var í því
kista, vandlega læst og næsta þung. Kalífinn lét þá stórvezírinn fá manninum
hinar hundrað sekkínur, og sagði honum, að hann mætti fara. Skipaði
kalífinn Mesrúr að taka kistuna upp á öxl sér og bera hana til hallarinnar,
því honum lék mikil forvitni á að sjá, hvað í henni væri. Þegar
þeir voru komnir þangað með kistuna, luku þeir henni upp og fundu
stóra körf úr pálmablöðum; var lokið saumað yfir með rauðu ullarbandi.
Vegna bráðlætis kalífans var ekki leystur þráðurinn, heldur var hann
skorinn í sundur med hníf; var þá tekinn ströngull upp úr körfinni, sveipaður
í brekáns ræfil og vafinn snærum. En er þau voru rifin utan af og
farið var í ströngulinn, varð þeim felmt við, því innan í honum fundu
þeir lík ungrar konu; var það hvítt sem mjöll, en skorið sundur í stykki.“
111. NÓTT. „Yðar hátign getur betur ímyndað sér en ég útmálað,
hvernig kalífanum brá við þessa hryllilegu sjón. En allt í einu snerist
undrun hans í ofsalega reiði; hann hvessti augun brennandi af heipt á
stórvezírinn og mælti af ákefð: „Ólánsmaður, vakir þú svona yfir þegnum
mínum. Undir þinni stjórn verða manndráp leynilega framin í höfuðborg
minni að ósekju, og íbúum hennar fleygt í Tígrisfljótið, til þess að
þeir biðji mér hefndar á efsta degi. Ef þú ekki bráðlega afplánar dauða
þessarar konu með lífláti morðingjans, þá sver ég við guðs heilaga nafn,
að ég skal láta festa þig á gálga og fjörutíu ættingja þína.“ „Konungur
rétttrúaðra manna,“ anzaði stórvezírinn, „ég bið yðar hátign, að gefa
mér frest til löglegra rannsókna.“ „Þriggja daga frest veiti ég þér,“ svaraði
kalífinn, „að öðru leyti er allt þinn ábyrgðarhluti.“ Fór nú stórvezírinn
Gíafar dauðhræddur heim til sín. „Hvernig á ég,“ hugsaði hann með
sér, „að hafa upp einn morðingja í svo mannmargri borg, sem Bagdad er;
hefur hann vafalaust drýgt ódæði þetta vottalaust, og er ef til vill flúinn
úr borginni. Margur annar mundi í mínum sporum taka einhvern aumingja,
sem er í fangelsi, og lífláta hann, til þess að gera kalífanum fullnustu;
en ég vil ekki ofþyngja samvizku mína með slíku ofbeldisverki, og
kýs ég heldur dauðann en kaupa líf mitt svo dýrt.“ Skipaði hann þá öllum
dómurum og lögreglumönnum, sem hann átti yfir að segja, að leita
ódáðamannsins vandlega. Létu þeir allt lið sitt starfa að eftirgrennslun
þessari, og lögðu þeir sig í líma, því þeim þótti þetta mál varða sig eins
mikið og stórvezírinn. En allar rannsóknir þeirra urðu árangurslausar;
þeir fengu ekki uppgötvað morðingjann, og sá nú vezírinn í hendi sér,
að dauðinn væri sér vís, nema hann frelsaðist fyrir sérlega guðs hjálp.
Á hinum þriðja degi var honum stefnt á fund kalífans, og spurði þá
kalífinn hann, hver valdur væri að morðinu. Þá svaraði Gíafar grátandi:
„Drottinn rétttrúaðra manna! Ég hef engan fundið, sem gæti gert mig
nokkurs vísari um þetta mál.“ Þá veitti kalífinn honum hin beiskustu
ámæli, og skipaði að hengja hann og fjörutíu ættingja hans fyrir framan
hallarhliðið. Meðan verið var að reisa gálgana og sækja hina fjörutíu ættingja
stórvezírsins, lét kalífinn kalla hátt um alla borgina og segja:
„Hver, sem vill sjá stórvezírinn Gíafar og fjörutíu ættingja hans
hengda, hann komi á plássið fyrir framan höllina.“
Þegar nú allt var tilbúið til líflátsins, leiddu dauðadómarinn og margir
dómþjónar Gíafar fram með fjörutíu ættingjum hans; var þá hver
settur undir þann gálga, sem honum var ætlaður. Nú var snörunum
brugðið um háls þeim; harmaði manngrúi sá mjög, er horfði á, og fékk
ekki tára bundizt, því stórvezírinn og ættingjar hans voru vitrir og elskaðir,
bæði í Bagdad og hvarvetna annarsstaðar í ríkinu, vegna réttlætis
síns, örlætis og ósérplægni.
Nú var ekkert til fyrirstöðu, að skipun hins vandlætingasama kalífa
yrði framgengt, og var rétt að því komið, að hinir göfugustu menn í
borginni yrðu líflátnir. Þá ruddist ungur maður, fríður sýnum og vel
búinn, gegnum mannþröngina, fram fyrir stórvezírinn og kyssti á hönd
hans svo mælandi: „Voldugi vezír, yfirmaður emíranna í hirð þessari,
stoð og stytta hinna nauðstöddu! Þér eruð saklaus af glæp þeim, sem
veldur því, að þér eruð hingað dreginn. Farið héðan og látið mig afplána
dauða konu þeirrar, er fleygt var í Tígrisfljótið. Ég er morðinginn
og hef unnið til refsingarinnar.“
Þó að vezírinn yrði glaður við orð þessi, kenndi hann samt í brjósti
um hinn unga mann, því ekkert illt lýsti sér í yfirbragði hans, heldur var
svipurinn miklu fremur sérlega góðlegur og geðslegur. Hann ætlaði að
svara honum einhverju, en í því kom maður, hár vexti og hniginn á efra
aldur. Sagði hann við vezírinn: „Herra, trúið ekki ungmenni þessu, ég
hef drepið konuna og enginn annar, og á ég því einn að sæta hegningu.
Ég særi yður í guðs nafni, refsið eigi hinum saklausa í stað hins seka.“
Ungmennið sór og sárt við lagði, að hann einn væri valdur að morðinu,
og ætti enginn annar hlut í, en gamalmennið greip fram í og sagði: „Sonur,
örvæntingin hefur rekið þig hingað, og þú ætlar að taka fram fyrir
hendur forlaga þinna. Ég hef lifað nógu lengi í heimi þessum, og ber
mér eigi að vera svo fastheldinn við lífið; láttu mig því leggja líf mitt í
sölurnar fyrir þig. Ég ítreka það, að ég er morðinginn; líflátið mig því
undir eins!“
Þessi kappdeila gamalmennisins og ungmennisins kom Gíafar til að
fara með þá báða til kalífans; beiddi hann fyrst yfirvald það samþykkis,
er um aftökuna átti að sjá, og var það auðfengið. Þegar hann gekk fyrir
kalífann, kyssti hann sjö sinnum á jörðina og tók til máls: „Drottinn rétttrúaðra
manna, hér kem ég til yðar með gamalmenni og ungmenni; þykist
hvor um sig hafa drepið konu þá, er fannst í Tígrisfljótinu.“ Kalífinn
spurði þá því næst, hvor þeirra væri hinn rétti morðingi, og er báðir
ítrekuðu það, sem þeir fyrr höfðu sagt, skipaði hann að hengja þá báða.“
Móti því mælti vezírinn og sagði: „Herra, ef nú einungis annar þeirra
er sekur, þá væri óréttvíst að lífláta hinn.“ Þá tók hinn ungi maður aftur
til máls: „Ég sver við allsvaldandi drottinn, sem himnana hefur upp
reist, að ég hef drepið konuna, brytjað hana sundur og fleygt henni í
Tígrisfljótið fyrir fjórum dögum síðan. Væri ég þá rækur úr samneyti
réttlátra á dómsdegi, ef þetta eru ósannindi. Ég einn er refsingarverður.“
Þegar hann hafði unnið eið þenna, trúði kalífinn honum því heldur,
sem gamalmennið svaraði engu. Því næst sagði hann við ungmennið:
„Ólánsmaður, því drýgðir þú svo viðbjóðslegan glæp, og hvað kom þér
til, að ljóstra upp um sjálfan þig?“ Svaraði hinn þá: „Drottinn rétttrúaðra
manna! Væri það uppskrifað, sem mig og konu þessa hefur hent,
mundi heimurinn eignast fróðlega sögu.“ „Þá skipa ég þér að segja oss
hana,“ mælti kalífinn og gerði ungmennið það á þessa leið:
Sagan af hinni drepnu konu og manni hennar
112. NÓTT. „Drottinn rétttrúaðra manna! Hinn drepni kvenmaður
var kona mín og dóttir þessa gamalmennis, sem er föðurbróðir minn.
Hún var ekki eldri en tólf ára, þegar ég gekk að eiga hana, og eru ellefu
ár síðan. Átti ég með henni þrjú börn, og eru þau enn á lífi. Þann vitnisburð
á hún skilið, að hún aldrei í orði né verki gerði neitt það, er mér
líkaði miður. Hún var vel greind, hegðaði sér vel og hafði ekki hugann
á öðru en að gera mér allt að skapi. Ég elskaði hana eins af hjarta, og
reyndi að gera henni allt að óskum.
Fyrir tveimur mánuðum varð hún sjúk, og veitti ég henni alla önn
og aðhjúkrun, og sparði ekkert til að flýta heilsubata hennar. Eftir mánaðar
tíma fór henni að batna, og vildi hún fara til lauga. En áður en
hún fór út, sagði hún við mig: „Elsku bezti frændi minn, — því svo
var hún vön að kalla mig — mig dauðlangar í epli, og þætti mjer vænt,
ef þú útvegaðir mér fáein. Þessi ílöngun hefur sótt á mig lengi, en nú
stríðir hún svo ákaft á mig, að ég er hrædd um, að ég fái eitthvert vont
kast, ef þú lætur ekki eftir mér.“ Svaraði ég henni þá, að ég vildi feginn
verða við ósk hennar, svo framarlega sem ég gæti, og fór ég nú um öll
torg og í allar sölubúðir, til að reyna að fá epli. En þau voru með öllu
ófáanleg, þó ég byði eina sekkínu fyrir eitt; varð mér gramt í geði, að
ég skyldi hafa haft svo mikið fyrir til ónýtis, og kom ég heim við svo búið.
Þegar nú kona mín kom úr baði og fékk engin epli, sótti á hana svo
mikil ógleði, að hún sofnaði ekki nokkurn dúr alla nóttina. Fór ég því
á fætur í býtið og falaði epli í öllum aldingörðum, og varð mér ekki
meira ágengt en daginn áður. Gamall garðyrkjumaður sagðist mega segja
mér fyrir víst, að epli mundu hvergi vera til um þenna tíma, nema í
aldingarði yðar hátignar í Balsora. Ég unni konu minni hugástum, og
vildi ekki þurfa að ásaka sjálfan mig um, að ég hefði látið neins ófreistað,
sem í mínu valdi stóð, til að fullnægja ósk hennar. Bjó ég mig því
til ferðar, og lét hana vita, hvað mér væri í hug; fór ég síðan af stað til
Balsora og flýtti mér svo, að ég kom aftur með þrjú epli innan hálfs
mánaðar, og hafði hvert þeirra kostað eina sekkínu. Fleiri voru ekki til í
garðinum, og vildi garðyrkjumaðurinn ekki láta þau ódýrari.
Þegar ég var kominn heim, fékk ég konu minni eplin, en nú hafði
hún enga lyst á þeim, og þáði hún þau, en lagði þau til hliðar. Veikindi
hennar héldust samt enn þá, og vissi ég ekki, hvernig ég ætti að hjálpa
henni.
Nokkrum dögum seinna sat ég í sölubúð minni á torginu, þar sem
alls konar ódýr varningur er hafður á boðstólum, kom þá svertingi stór
og ófrýnilegur ásýndum og hélt á epli í hendinni. Þekkti ég eplið undir
eins og sá, að það var eitt af þeim, sem ég hafði sótt til Balsora; beiddi
ég þá þrælinn að koma, og mælti: „Segðu mér, þræll! Hvar hefurðu
fengið eplið?“ Hló hann þá við og svaraði: „Vinkona mín gaf mér það.
Ég var hjá henni í dag og var hún ófrísk, vesalingur. Lágu þrjú epli hjá
henni, og spurði ég hana, hvar hún hefði fengið þau, sagði hún mér þá,
að góðmennið og heimóttin, hann maður sinn, hefði farið hálfsmánaðarferð,
bara til að sækja þau. Síðan borðuðum við saman, og tók ég eplið
með mér að skilnaði.“
Þegar ég heyrði þetta, varð ég hamslaus, spratt upp og lokaði sölubúð
minni, og flýtti mér heim til konu minnar. Skyggndist ég fyrst eftir
eplunum, og þegar ég ekki sá nema tvö, spurði ég eftir hinu þriðja. Kona
mín leit um öxl sér eftir eplunum, og er hún sá ekki nema tvö, svaraði
hún mér þannig, að auðheyrt var, að henni þótti þetta á engu standa.
„Elsku bezti frændi! Ég veit ekki, hvað er orðið af því.“ Af svari þessu
réði ég undir eins að þrællinn mundi hafa sagt satt. Kom þá yfir mig slíkt
afbrýðis æði, að ég þreif hníf úr belti mínu, og rak í hjarta hennar.
Síðan skar ég af henni höfuðið, sundraði líkinu í fjóra hluta, og lét allt
ofan í körf eina, og saumaði lokið yfir með rauðu ullarbandi. En körfina
læsti ég niður í kistu og fleygði henni í Tígrisfljótið á náttarþeli.
Bæði yngstu börn mín voru háttuð og sofnuð, en þriðja barnið var
úti. Þegar ég kom heim, stóð það hágrátandi í dyrunum; spurði ég þá,
hvað að að því gengi, en það svaraði mér: „Faðir minn góður, ég tók á laun
við hana móður mína, eitt af þremur eplunum, sem þú komst með í
morgun. Ég hélt á því lengi, en svo fórum við bræðurnir að leika okkur
að því á strætinu; þá kom að okkur svartur þræll, og hrifsaði það af mér
og hljóp í burt. Ég hljóp á eftir honum og beiddi hann að fá mér eplið
aftur, og sagði, að hún móðir mín ætti það, og hún lægi veik, og að þú
hefðir farið að sækja henni þrjú epli og verið hálfan mánuð í burt; en
hann vildi ekki skila mér því aftur. Ég hljóp hljóðandi á eftir honum,
en þá sneri hann sér við og sló mig, og eftir það hljóp hann sem fætur
toguðu inn í hliðarstræti, og sá ég hann ekki úr því. En síðan hef ég
ráfað um alla borgina, til þess að sitja um, þegar þú kæmir heim, og
biðja þig, að segja henni móður minni ekki frá því, svo henni versni
ekki.“ Þetta sagði barnið og grét nú hálfu ákafar en áður.
Þessi saga fékk mér óumræðilegrar hryggðar. Ég sá hversu ódáðaverk
mitt var hryllilegt og iðraðist þess um seinan, að ég hafði trúað rógi ills
þræls, sem hafði spunnið lygi sína upp eftir því, sem sonur minn hafði
sagt honum. Um þenna tíma kom föðurbróðir minn að finna dóttur sína,
og sagði ég honum allt um dauða hennar, og leyndi hann engu né fegraði
söguna, heldur játaði, að ég væri öllum illvirkjum argari. Ekki óð hann
samt upp á mig með brígzlyrðum, eins og hann hafði fullkomna ástæðu
til, heldur tárfelldi hann með mér, og grétum við svo þrjá daga samfleytt
missi ástríkrar dóttur og konu, sem ég drap í grimmdaræði, af því ég
var svo gálaus, að trúa lýgnum þræl. Nú hef ég skýrt yður frá, hvernig á
ódæði mínu stendur, og bið ég yður auðmjúklegast, að mér sé refsað fyrir
það. Hvað harður sem dómurinn verður, þá skal ég samt ekki mögla,
og mun mér, hvernig sem hann verður, þykja hann vægari en ég á skilið.“
113. NÓTT. Kalífinn furðaði sig mjög á sögu hins unga manns, en
með því hann var sanngjarn, þótti honum hann miklu fremur vorkunnar
verður en refsingar, og samhryggðist hann honum af hjarta. Tók hann
því til máls: „Verk manns þessa er fyrirgefanlegt, og verður því afsakanlegt
bæði fyrir guði og mönnum. Hinn svívirðilegi þræll er einn sekur í
glæp þessum, og á honum einum skal refsingin bitna.“ Síðan veik hann
sér að vezírnum og mælti: „Ég gef þér þrjá daga til þess að leita hann
uppi, og getir þú ekki fundið hann innan þess tíma, skaltu deyja í hans
stað.“
Vezírinn, sem ekki vissi annað en að hann væri úr allri hættu, varð
sárhryggur við þessa skipun kalífans. Þekkti hann skaplyndi hans, og
svaraði því engu, heldur gekk hann burt og fór hnugginn heim til sín, og
þóttist fullviss um, að hann ætti ekki nema þrjá daga eftir ólifað. Var
hann svo vonlaus um, að hafa upp þrælinn, að hann lét ekki einu sinni
leita að honum. „Það er ómögulegt,“ sagði hann, „að finna svertingja
þenna í annarri eins borg og Bagdad, þar sem er þvílíkt ógrynni svartra
þræla. Ef guð ekki gefur mér neina vísbending, eins og hann fyrir
skemmstu lét mig finna morðingjann, þá er auðséð hvað verða vill.“
Fyrstu tvo dagana sat hann hryggur hjá konu og börnum, sem kveinuðu
hástöfum út af hörku kalífans. Á þriðja degi bjó hann sig undir
dauða sinn, eins og vammlaus ráðgjafi, sem hefur óflekkaða samvizku.
Var sent eftir skjalaritara og vottum og skrifuðu þeir undir erfðaskrá,
er samin var í viðurvist vezírsins. Því næst faðmaði hann konu og börn
og kvaddi þau í síðasta sinn. Flóðu þau öll í tárum, og sér enginn hörmulegri
sjón. Loksins kom einn af þjónum kalífans með þau skilaboð, að
hann skyldi koma, því kalífanum væri farið að leiðast, að fá engin skeyti
frá honum um svertingjann, sem hann hefði átt að finna. Rétt í því vezírinn
ætlaði af stað, kom ein af þjónustukonunum með dóttur hans, sem
var fimm eða sex vetra, til þess að barnið skyldi nú sjá hann í síðasta
sinn. Á þessu barni hafði hann mikla ást, og tók hann það í faðm sinn
og kyssti það mörgum kossum; þá varð hann var við, að það hafði eitthvað
á brjóstinu, sem sætan ilm lagði af, og spurði hann þá, hvað það
væri. „Það er epli,“ anzaði meybarnið, „og stendur á því nafn kalífans,
herra vors; hann Ríhan, þrællinn okkar, seldi mér það fyrir tvær sekkínur.“
Þegar vezírinn heyrði barnið nefna „epli“ og „þræl,“ brást hann
glaður við. Tók hann eplið undir eins og lét kalla á þrælinn, sem ekki
var langt í burtu. „Mannfýla!“ segir hann við þrælinn, „hvar hefurðu
fengið þetta epli?“ „Herra!“ anzaði þrællinn, „guð veit, að ég hvorki hef
hnuplað því frá yður, eða úr garði kalífans. Fyrir skömmu síðan sá
ég þrjú eða fjögur börn, sem voru að leika sér á strætinu; eitt þeirra hélt
á epli þessu, og hrifsaði ég það af því. Barnið hljóp á eftir mér og sagði
að móðir sín ætti eplið, og væri hún veik; hefði faðir sinn farið langferð,
til að láta eftir löngun hennar í epli, og hefði komið heim aftur
með þrjú. Væri þetta eitt af hinum þremur, og hefði það tekið það, svo
að móðir þess ekki vissi af. En ég fékk því ekki eplið aftur, heldur hafði
ég það sjálfur, og seldi yngstu dóttur yðar það fyrir tvær sekkínur. Svona
stendur á eplinu, og frekara veit ég ekki.“
Gíafar gat ekki nógsamlega furðað sig á því, að glettni þrælsins skyldi
hafa orðið orsök í dauða saklausrar konu, og því nær í lífláti sjálfs hans.
Hann fór með þrælinn til kalífans og sagði honum greinilega allt, sem
þrællinn hafði meðgengið, og hvernig hann fyrst hefði komizt að því af
tilviljun. En aldrei hefur nokkur maður undrazt meir en kalífinn þá,
og gat hann ekki að sér gert að brosa. Samt kom á hann alvörusvipur
undir eins aftur, og sagði hann við vezírinn, að fyrst svo einstök óheill
hefði hlotizt af þrælnum, þá yrði hann að sæta fádæmis refsingu. „Herra!“
svaraði Gíafar, „þessu vil ég ekki í móti mæla, en ekki er glæp hans svo
varið, að ekki megi fyrirgefa hann. Ég kann sögu eina af vezírnum Núreddín
Alí í Kairó og Bedreddín Hassan frá Balsora; hún er enn þá kynjalegri
en þessi. Nú með því yðar hátign hlýðir fúslega á slíka hluti, mun
ég segja yður sögu þessa, með þeim skilmála, að þér fyrirgefið þræl mínum,
ef yður þykir hún merkilegri en þeir atburðir, hverra vegna ég segi
hana.“ „þeim kosti mun ég taka,“ anzaði kalífinn, „en mikið þykir mér
þú í ráðast, og ekki trúi ég því, að þú getir frelsað þrælinn, því eplasagan
er furðu merkileg.“ Því næst sagði Gíafar:
Söguna af Núreddín Alí og Bedreddín Hassan
„Drottinn rétttrúaðra manna! Einu sinni ríkti í Egiptalandi soldán,
sem var réttlátur, hjartagóður og rausnarlyndur. Nágrannaþjóðirnar
höfðu geig af honum fyrir sakir hreysti hans. Hann var vinur hinna
nauðstöddu og verndari fræðimanna, og hóf hann þá til hæstu metorða.
Stórvezír konungs þessa var hygginn og vitur maður, og vel að sér í
fögrum vísindum og alls konar fróðleik. Ráðgjafi þessi átti tvo sonu,
fríða sýnum; fetuðu þeir báðir í fótspor hans. Hinn eldri hét Sjemseddín
Móhammed, en hinn yngri Núreddín Alí, og hafði einkum sá hinn
yngri alla kosti til að bera, sem hugsazt geta. Þegar vezírinn, faðir þeirra,
var dáinn, gerði soldán boð eftir þeim báðum, færði hvorn þeirra um sig
í vezírs skrúða og mælti: „Ykkur tekur ekki sárara tjón það, er þið hafið
beðið, en sjálfan mig. Veit ég að þið lifið í bróðurlegu samlyndi, og
sæmi ég ykkur því báða vezírstigninni. Farið nú vel, og reynið að líkjast
föður ykkar.“
Báðir hinir nýju vezírar þökkuðu soldáni fyrir náð þessa og gengu
heim; eftir það sáu þeir um greftrun föður síns. Þegar mánuður var
liðinn, gengu þeir í fyrsta sinn á ráðstefnu soldáns; áttu þeir þar stöðugt
sæti. Þegar soldán fór á veiðar, fylgdi honum ávallt annar hvor bræðranna,
og nutu þeir þessarar sæmdar til skiptis. Það var einu sinni, er þeir
höfðu snætt kvöldverð, daginn áður en eldri bróðirinn átti að fylgja
soldáni á veiðar, og voru að tala um hitt og þetta, að þá tók hinn eldri til
máls: „Við erum báðir ókvæntir og lifum í bróðurlegri eindrægni, því
kemur mér til hugar, að við ættum á sama degi að eiga tvær systur af
góðum ættum við okkar hæfi. Hvernig lízt þér á það?“ „Þetta ráð,“ anzaði
Núreddín Alí, „er í alla staði samboðið vináttu okkar, og er ég reiðubúinn
til alls, sem þú hyggur oss henta.“ „Ekki skal þar við sitja,“ mælti
Sjemseddín, „hugur minn hvarflar lengra fram í tímann. Gerum nú
ráð fyrir, að konur okkar verði barnshafandi á sama tíma og ali börn sín
á sama degi, þín kona son, og mín kona dóttur, þá skulum við láta börnin
eigast, þegar þau eru upp komin.“ „Þetta er óskaráð,“ segir Núreddín
Alí, „þessi ráðahagur staðfestir bróðurelsku okkar til fulls, og samþykki
ég þetta fúslega. En ef nú yrði úr þessari ráðagerð, mundir þú þá heimta
heimanmund af syni mínum?“ „Það verður varla sundurþykkisefni,“
anzaði hinn, „og geng ég að því vísu, að þú gefir syni þínum í minnsta
lagi þrjú þúsund sekkínur, þrjár góðar jarðir og þrjá þræla.“
„Ekki skaltu treysta því,“ anzaði yngri bróðírinn, „erum við ekki
bræður og höfum báðir jöfn metorð? Þú veizt líka, að karlar eru konum
æðri og meiri. Ætli því ekki það væri réttast, að þú greiddir fram ríkulega
heimanfylgju? Mundi þér ekki verða mikið fyrir því, þó þú yrðir að
lána féð úr annars sjóði.“ Að vísu sagði Núreddín Alí þetta í gamni, en
bróðir hans var skapbráður og þótti honum fyrir. „Bölvaður sé sonur
þinn,“ mælti hann með þykkjusvip, „fyrst þú vogar að taka hann fram
yfir dóttur mína. Þykir mér þú furðu djarfur, að ætla þeim jafnræði.
Þú munt vera brjálaður, fyrst þú segir, að við höfum jöfn metorð. Skaltu
vita það, að fyrir heimsku þína mun ég ekki gefa syni þínum dóttur
mína, þó þú gæfir honum meiri auð en þú átt sjálfur.“ Þessi skringilega
þræta bræðranna út af giftingu óborinna barna þeirra, harðnaði meir og
meir, og jókst orð af orði, þangað til Sjemseddín Móhammed heitaðist
við bróður sinn og mælti: „Ætti ég ekki á morgun að fylgja soldáni,
skyldi ég launa þér, sem þú hefur til unnið. En þegar ég kem heim,
skaltu komast að raun um, að yngra bróður hentar ekki að velja eldra
bróður svo háðuleg orð, sem þú hefur gert.“ Eftir þetta gengu þeir báðir
til svefns.
Morguninn eftir snemma dags fór Sjemseddín Móhammed frá Kairó
með soldáni og föruneyti hans, og var stefnt á leið til pýramíðanna. En
Núreddín var harðla órótt um nóttina, og kom honum ekki svefn á auga.
Eftir langa umhugsun réði hann af, að slíta allri sambúð við bróður sinn,
því honum þótti frágangs sök að þola slíkan ofmetnað. Kvað hann þá
vísur þessar:
/#
Stöðugt logn er vatni verst;
ef vindar það ei hræra,
óhollusta magnast mest,
mornar djúpið væra.
Bráð svo ljónið bezt kann ná,
ef bæli framar stígur;
ein sú hitta örin má,
er af strengnum flýgur.
Firrist halur frama og dáð,
á fletjum kyrr er situr,
far því víða um lög og láð,
lukkan sem þig flytur.
#/
Hann lét söðla trausta múlösnu, tók með sér peninga, dýrgripi og
fararnesti; brá hann því á, að hann ætlaði skammt í burt, og mundi
koma að tveim dögum liðnum. Reið hann nú af stað, og jafnskjótt sem
hann hafði borgina Kairó að baki sér, lagði hann út á eyðimörk þann veg,
sem liggur til Arabíu; leið eigi á löngu að múlasninn sprakk, og varð
hann þá að fara gangandi. Vildi honum til allrar hamingju, að hann
mætti hraðboða nokkrum, sem átti að fara til Balsora, og lofaði hann
honum að setjast upp á úlfaldann bak við sig. Kvaddi hann hraðboðann
er þeir komu til Balsora, og þakkaði honum farargreiðann; því næst
fór hann að útvega sér herbergi til íbúðar. Mætti hann þá á stræti einu
tignum manni, sem allir borgarmenn sýndu djúpa lotningu, því þeir
stóðu jafnan kyrrir, þangað til hann var fram hjá genginn. Núreddín
gerði þetta og að dæmi annarra. Þessi maður var stórvezír soldánsins
Balsora; gekk hann um borgina til að sjá um góða reglu. Varð honum
litið til hins unga manns, og þótti yfirbragð hans bjóða af sér góðan
þokka. Hann horfði vingjarnlega til hans og nam staðar; sá hann að
hann var í ferðafötum og spurði því, hver og hvaðan hann væri. „Herra!“
anzaði Núreddín Alí, „ég er frá Kairó í Egiptalandi, fór ég þaðan af því
ég varð ósáttur við mann, sem er mér náskyldur; féll mér það svo nærri,
að ég vil heldur ráfa um alla veröld og deyja en snúa þangað aftur.“
Stórvezírinn, sem var æruverðugur öldungur, svaraði honum: „Hættu
við það, sonur sæll, því í veröldinni finnur þú ekki annað en eymd og
hörmungar; þú veizt ekki, hvaða þrautir þú hættir þér í. Kom þú heldur
með mér; hver veit nema ég geti bætt þér það, sem þú hefur misst á
fósturjörðu þinni.“
Núreddín Alí fór með stórvezírnum í Balsora. Komst stórvezírinn
fljótt að því, hvílíkur afbragðsmaður hann var, og lagði svo mikla ást á
hann, að hann sagði einu sinni við hann, þegar þeir voru tveir einir:
„Þú veizt, að ég er kominn á þann aldur, að ég get ekki átt langt eftir
ólifað. Guð hefur gefið mér dóttur, sem er eins að fríðleik umfram allar
aðrar konur, sem þú ert umfram aðra karlmenn, og er hún nú gjafvaxta.
Hafa margir hinir tignustu menn í hirðinni beðið hennar fyrir hönd
sona sinna; en ekki hef ég ráðizt í, að fastna hana neinum þeirra. En þig
lízt mér afbragðs vel á, og þykir mér í alla staði jafnræði, er ég því fús á,
að gerast tengdafaðir þinn. Ef þú tekur þessum kosti, mun ég láta soldáninn,
herra minn, vita, að ég jafnframt tengdum þessum, tek þig mér
í sonar stað, og bið hann að gera þig að stórvezír í Balsora, þegar ég fell
frá. Er ég mjög svo hniginn á efra aldur og hvíldar þurfi, vil ég því fela
þér á hendur fjárforráð og stjórnarstörf mín.“
Þegar stórvezírinn hafði lokið ræðu sinni, fleygði Núreddín Alí sér
til fóta honum, og sagði hinum gamla manni, frá sér numinn af fögnuði
og þakklátssemi, að hann vildi að hans vilja gera í öllu sem einu. Kallaði
stórvezírinn nú á hinn helzta þjónustumann sinn, og skipaði honum
að skreyta stærsta salinn í höll sinni og búa til veizlu. Því næst bauð hann
tignustu mönnum í hirðinni og borginni. Sagði Núreddín honum, meðan
á þessu stóð, hverrar stéttar hann væri, og er boðsmenn voru komnir,
hélt stórvezírinn svo látandi ræðu, einkum til þeirra, er hann hafði synjað
ráðahagsins: „Herrar mínir! Mér er gleði að geta gert yður nokkuð uppskátt,
sem ég lengi hef leynt. Ég á bróður, sem er stórvezír Egipta soldáns,
eins og ég er stórvezír hér í landi. Þessi bróðir minn á einn son, og vildi
hann ekki láta hann kvongast í hirð Egiptasoldáns, heldur sendi hann
til mín í því skyni, að ættleggir vorir tengdust. Þessi ungi maður er
bróðursonur minn, og kýs ég mér hann til tengdasonar. Er ég vongóður
um, að þér gerið mér þá sæmd, að sitja í brúðkaupi hans, er ég ætla
að halda í dag.“ Öllum, sem viðstaddir voru, þótti sanngjarnt, að vezírinn
hefði tekið bróðurson sinn fram yfir alla aðra; sögðu því allir í einu
hljóði, að þeim þætti ráðahagurinn góður, kváðust fúsir að sitja brúðkaupið,
og óskuðu honum langra lífdaga, svo að hann mætti sjá ávexti
þessarar gleðilegu giftingar.“
Þá sá Sjerasade að lýsti af degi og felldi því niður söguna, en næsta
morgun sagði hún framhaldið á þessa leið:
114. NÓTT. „Herra! Stórvezírinn Gíafar sagði kalífanum áfram söguna
og mælti: „Þegar boðsmenn stórvezírsins í Balsora höfðu látið í
ljósi, að þeim þætti vænt um, að dóttir hans giftist Núreddín Alí, var
til borðs gengið. Eftir máltíðina, sem ekki stóð æði lengi yfir, voru bornar
fram sætabrauðskökur, og er hver og einn, eins og lög gera ráð fyrir,
hafði troðið svo miklu á sig af þeim, sem hann gat, komu skjalaritarar
með kaupmálann. Skrifuðu undir hann hinir tignustu menn, sem í boðinu
voru, og að því búnu fóru allir heim.
En er allir voru burt gengnir nema þjónustumennirnir, skipaði vezírinn
nokkrum þeirra, sem hann hafði falið á hendur að búa til lauga, að
fylgja Núreddín til baðhúss. Þar fann Núreddín hið hreinasta og fegursta
lín, sem yndi var á að horfa, og allt, sem hann þurfti með. Þegar hann
hafði látið þvo og núa sig, ætlaði hann að fara í sömu fötin og hann hafði
farið úr, en þá voru honum fengin önnur, sem voru miklu skrautlegri.
Gekk hann nú prúðbúinn og ilmandi af kostulegustu smyrslum til tengdaföður
síns; fannst honum mikið um fríðleik hans, og lét hann setjast
hjá sér, svo mælandi: „Þú sagðir mér, sonur, hver þú værir og hver metorð
þú hafðir í hirð Egipta soldáns, og veikst þú á eitthvert sundurþykki
ykkar bræðranna, sem olli burtför þinni úr föðurlandi þínu. Seg mér nú
í einlægni, út af hverju deila þessi reis, því þú mátt trúa mér fyrir öllu,
og átt ekki að leyna mig neinu.“
Núreddín Alí sagði honum þá allt út í æsar frá ósamþykki þeirra
bræðranna, og gat stórvezírinn ekki að sér gert að skellihlæja, meðan
hann var að segja honum sögu þessa. „Getur nokkuð hugsazt hlægilegra?“
mælti hann, „hvernig gátuð þið orðið ósáttir út af þessum ráðahag, sem
var eintómur hugarburður? Það var leitt, að þú skyldir verða óvinur
eldra bróður þíns út af slíku lítilræði, enda var það rangt af honum, að
taka gamanyrði þín fyrir brígzl; samt lofa ég guð fyrir þessa þrætu, því
henni á ég það að þakka, að ég hef fengið slíkan tengdason sem þú ert.
En nú er framorðið og sæmir ekki, að þú látir dóttur mína, konu þína,
bíða lengi eftir þér. Á morgun skal ég fylgja þér á fund soldáns, og vona
ég hann taki svo við þér, að við báðir megum vel við una.“
Nú hittist svo merkilega á, að sama daginn, sem brúðkaup þetta var
haldið í Balsora, kvæntist Sjemseddín Móhammed í Kairó. Þegar Núreddín
hafði farið úr borginni fyrir fullt og allt, og Sjemseddín kom heim
aftur eftir mánaðar burtveru, gekk hann til húsa Núreddíns. Frétti hann
þá, að Núreddín hefði farið sama daginn, sem soldán hóf veiðiför sína,
og hefði látið í veðri vaka, að hann ætlaði ekki að vera burtu meira en
tvo eða þrjá daga, og hefði ekki síðan sézt. Sárnaði honum þetta því heldur,
sem hann sá, að Núreddín hafði ekki gengið annað til burtferðarinnar
en skapraunar orð þau, sem honum höfðu um munn farið. Gerði hann
því út sendimann, er fara skyldi fyrst til Damaskus og þaðan til Haleb,
en Núreddín var þá kominn til Balsora, og varð sendimaður að snúa
heimleiðis, svo að hann fékk engin tíðindi af honum; hugsaði þá Sjemseddín
Móhammed, að hann skyldi láta leita að bróður sínum annars
staðar, en um sama leyti kom honum til hugar að kvongast. Gekk hann
að eiga dóttur einhvers hins tignasta manns í Kairó sama daginn sem
bróðir hans kvæntist dóttur stórvezírsins í Balsora.
En það var ekki þar með búið, því níu mánuðum síðar ól kona Sjemseddíns
Móhammeds í Kairo meybarn, og sama dag fæddi kona Núreddíns
Alís í Balsora sveinbarn; var sveininum nafn gefið og kallaður Bedreddín
Hassan. Lét stórvezírinn gleði sína í ljósi með mesta örlæti og
opinberu hátíðahaldi. Samt lét hann sér mest um hugað, að votta tengdasyni
sínum fögnuð sinn; fór hann því til soldáns og beiddi hann að láta
Núreddín Alí erfa stórvezírs embættið eftir sig látinn, því sér væri hugfró
að vita það í höndum tengdasonar síns.
Soldáni hafði litizt mæta vel á Núreddín, þegar hann kom á fund
hans eftir brúðkaupið, og aldrei heyrt hans nema að góðu getið; veitti
hann því stórvezírnum bæn sína með mestu blíðu, og skipaði að færa
Núreddín Alí í stórvezírs skrúða. En þá komst gleði tengdaföðurins hæst,
er hann sá tengdason sinn á ráðstefnu setjast í forseta sætið í hans stað,
og taka að sér öll stórvezírs störf, og hafði hann ekki verið glaðari, þegar
hann sjálfur tók við embættinu. Sat Núreddín nú jafnan á ráðstefnum,
þegar tengdafaðir hans var forfallaður af ellilasleik. Andaðist þessi göfuglyndi
öldungur fjórum árum eftir giftingu Núreddíns með þeirri gleðiríku
meðvitund, að hann léti eftir sig afsprengi, sem lengi mundi halda
uppi frægð og ágæti ættarinnar.
Núreddín veitti honum nábjargir og annaðist útför hans með öllum
virktum. Undir eins og Bedreddín Hassan sonur hans var sjö ára gamall,
fékk hann honum afbragðs kennara, og fræddi hann sveininn, eins og
ættgöfgi hans sæmdi; varð hann skjótt áskynja, að hann hafði bezta næmi
og skilning, hvað sem hann átti að læra.
115. NÓTT. Þegar Bedreddín Hassan hafði verið tvö ár til kennslu
var hann vel lesandi, og lét þá kennarinn hann læra kóraninn utanbókar.
Voru honum nú fengnir aðrir kennarar, og tók andi hans slíkum
þroska, að hann á tólfta aldurs ári gat kennt sér sjálfur. Var hann þá þegar
orðinn fullorðinslegur í yfirbragði og hinn fríðasti sýnum, svo að allir
dáðust að, sem hann sáu. Hafði Núreddín Alí til þessa einungis látið
hann nema alls konar fróðleik, en ekki látið hann kynnast heiminum.
Fór hann því nú með hann til hallar soldáns, og lét hann sýna honum
lotningu sína, tók soldán við honum með mestu blíðu. Þeir, sem sáu
hann á strætinu, urðu svo frá sér numdir af fegurð hans, að þeir lofuðu
hann hárri röddu og margblessuðu hann. Faðir hans tók nú að búa hann
undir, til að taka við vezírsembættinu eftir sig, og sparði því ekkert til
þess, að hann fengi nákvæma þekkingu á hinum vandasömustu embættisstörfum;
hann gerði í stuttu máli allt, sem í hans valdi stóð, til þess að
mennta son sinn, sem var uppáhald hans. En þegar hann gat farið að
gleðjast af ávöxtum erfiðismuna sinna, tók hann hastarlega þunga sótt;
fann hann fullgjörla að hann mundi eiga skammt eftir ólifað, og var
hann vonlaus um að sér mundi batna; bjó hann sig undir andlátið eins
og rétttrúaður og guðhræddur maður. Á þessari dýrmætu stund gleymdi
hann ekki Bedreddín, hinum ástkæra syni sínum; hann lét kalla á hann
og mælti: „Son minn, þú sér, að heimur þessi er fallvaltur, en hinn, sem
ég nú fer til, varir að eilífu. Skalt þú nú þegar fara að venja þig á, að
hugsa um dauðann, og búa þig undir rósaman viðskilnað, svo að þú
getir ekki ásakað þig um hirðuleysi í neinu, sem er skylda trúaðs og
dyggðugs manns. Trúna þekkir þú til hlítar, en að því, er dyggðinni
[1314.png: ...sá sem vill vera í friði má ekki birta öðrum hugskot sitt]
við kemur, mun ég kenna þér nokkur heilræði, en þú skalt reyna að færa
þér þau í nyt. Af því að nauðsynlegt er að þekkja sjálfan sig, og þú veizt
ekki, hver ég er, þá skal ég skýra þér frá því.
Ég er ættaður frá Egiptalandi, og var faðir minn, en afi þinn, æðsti
ráðgjafi soldáns þar í landi, og vorum við bræður í tölu vezíra hans.
Föðurbróðir þinn er enn á lífi, sem ég ætla, og heitir Sjemseddín Móhammed.
Ég varð að skilja við hann og kom hingað; hlaut ég hér tignarembætti
það, er ég til þessa hef haft á hendi. En allt þetta er greinilegar
sagt í ritkorni, er ég ætla að gefa þér.“ Því næst fékk hann Bedreddín kver,
sem hann hafði skrifað með eigin hendi, og ætíð borið á sér, og mælti
ennfremur: „Lestu þetta í tómstundum þínum; muntu meðal annars
finna þar tilgreindan giftingardag minn og fæðingardag þinn. Mun þar
síðar koma, að þú þarft skilríkja þessara við, og skaltu því geyma kverið
vandlega.“ Viknaði Bedreddín Hassan bæði af ástandi föður síns og orðum hans, og tók við kverinu með tárin í augunum, og lofaði, að láta það
aldrei við sig skilja. Í sama vetfangi versnaði Núreddín svo, að ekki var
annað að sjá en hann mundi gefa upp öndina. Samt hresstist hann við
aftur og tók að nýju til máls: „Sonur, lát það vera hina fyrstu og æðstu
lífsreglu þína, að leggja ekki lag þitt við hvern sem vera skal: sá sem vill
vera í friði, verður að vera einn sér, og má ekki birta öðrum hugskot sitt.
Af öllum þeim, sem þú vilt vingast við, mun enginn reynast þér tryggur
í andstreyminu. Búðu því einn að þínu og trúðu engum.
Í öðru lagi skaltu varast að beita ójöfnuði við nokkurn mann, því þá
mun hver hönd snúast á móti þér, og ber þér að líta á heiminn, eins og
trúaður maður, sem ætlast til hógværðar og nærgætni af öðrum. Minnstu
þess, að engin hönd er svo voldug, að guðs hönd sé ekki máttkari.
Það er hið þriðja: Þú mátt ekki svara, þegar vaðið er upp á þig með
brigzlum. „Fæst orð hafa minnsta ábyrgð,“ segir máltækið og á það hér
heima. Þú veizt, að eitt af skáldum vorum kallar þögnina prýði og hlíf
lífsins, og ræður mönnum til, að láta ekki orð sín hrjóta eins og æðandi
haglskúr. Margur hefur iðrazt eftir orð, sem talað var í ótíma, en enginn
eftir að hafa þagað.
Láttu það vera hina fjórðu reglu þína, að bergja aldrei á víni, því
það er uppspretta allra lasta.
Í fimmta lagi ræð ég þér til sparsemi. Ef þú ekki eyðir fjármunum
þínum, muntu ekki komast í bágindi. Hvorttveggja er illt: að vera of
ríkur og ágjarn. Með litlu, ef þú fer laglega með, getur þú aflað þér
margra vina, en ef þú fer illa með mikinn auð, mun allur heimur verða
þér frásnúinn og móthverfur.“
Þannig kenndi Núreddín Alí syni sínum heilræði, allt fram í andlátið,
en er hann var andaður, var hann greftraður með mestu viðhöfn...
116. NÓTT. Bedreddín Hassan tregaði föður sinn sárar en frá megi
segja; lét hann sér ekki nægja að syrgja einn mánuð, heldur sat hann aleinn
og harmandi í tvo mánuði og gleymdi að koma á fund soldáns
Balsora og sýna honum lotningu. Þótti soldáni sér og hirð sinni mikil
fyrirlitning sýnd með tómlæti þessu, og varð því afarreiður. Bauð hann
í bræði sinni stórvezír þeim, er hann hafði skipað í stað Núreddins Alís,
að fara til húsa hins framliðna vezírs og gera allar eigur hans og allt, sem
hann hafði látið eftir sig, upptækt. Skyldi hann svipta Bedreddín Hassan
öllum arfi og taka hann fastan í tilbót.
Nýi stórvezírinn fór af stað með fjölda dómþjóna og valdsmanna, til
að fullnægja skipun þessari. Vildi þá svo til, að á leiðinni mætti honum
einn af þrælum Bedreddíns Hassans; en undir eins og þrællinn varð þess
áskynja, hvað stórvezírnum var í hug, flýtti hann sér á undan honum, til
þess að gera herra sinn varan við. Kom hann þar að honum, sem hann sat
í forgarði húsa sinna, hnugginn og niðurlútur, eins og faðir hans hefði
gefið upp öndina á þeirri sömu stund. Fleygði þrællinn sér fram fyrir
fætur honum með öndina í hálsinum, kyssti fald klæða hans og mælti:
„Forðið yður, herra, forðið yður sem fljótast.“ „Hvað er um að vera?“
spurði Bedreddín Hassan og leit upp; sagði þrællinn honum þá allt um
reiði soldáns, og það, sem hann hefði skipað. Skaut honum þá skelk í
bringu, og spurði hann hinn trygga þræl, hvort hann mundi hafa tíma
til að stinga á sig nokkrum peningum og dýrgripum, en þrællinn svaraði:
„Stórvezírinn kemur að vörmu spori; eyðið ekki tímanum, en flýið þegar
í stað.“ Spratt þá Bedreddín upp, batt á sig skó sína, brá skikkjulafinu
fyrir andlit sér, til þess hann ekki skyldi þekkjast, og hljóp út úr húsi
sínu, en vissi ekkert hvert flýja skyldi. Hafði hann mestan hug á, að
sleppa burt úr borginni, og hljóp því út úr hliðinu, sem næst var; hljóp
hann síðan viðstöðulaust, þangað til hann kom í hinn opinbera greftrunarstað,
og staðnæmdist þar, því hann ætlaði að vera um nóttina í greftrunarhúsi
föður síns. Var það mikið hús með kúptum stöpli; hafði Núreddín
Alí látið gera það meðan hann var á lífi. Þar mætti Bedreddín
Gyðingi einum, sem var ríkur víxlari og kaupmaður; stóð Gyðingurinn
þá við, og heilsaði honum með mikilli virðingu, því þeir þekktust.“
117. NÓTT. „Gyðingurinn, — hann hét Ísak — kyssti á hönd Bedreddíns
Hassans og mælti: „Herra! má ég spyrja, því eruð þér hér svo einmana,
og eins og utan við yður? Liggur nokkuð illa á yður?“ „Svo er að
vísu,“ mælti Bedreddín Hassan; „ég sofnaði áðan og dreymdi mig föður
minn; var hann þá ógurlegur undir brún að sjá, og horfði til mín, eins
og með reiðisvip. Hrökk ég upp af svefninum, og flýtti mér hingað, til
að biðjast fyrir á gröf hans.“ „Herra!“ sagði Gyðingurinn (því hann gat
ekki grunað, hvers vegna Bedreddín Hassan hafði farið úr borginni), „ég
vissi til, að stórvezírinn sálugi, faðir yðar og herra minn, hásællar minningar,
hafði látið ferma mörg skip með vörum, og eru þau enn ekki komin
að landi; þér eruð nú eigandi þeirra, og því ætla ég að biðja yður að
láta mig ganga fyrir öðrum, þegar þér farið að selja. Ég get borgað alla
skipsfarma yðar út í hönd, og get ég byrjað kaupin á því, að fá yður
þúsund sekkínur, ef þér viljið láta mig fá farm hins fyrsta skips, er með
heilu og höldnu kemur hér á höfn. Ég hef peningana hjá mér, og skal
borga yður þá fyrirfram.“ Að svo mæltu vatt hann fram sjóði miklum
og innsigluðum, sem hann hafði borið undir hendinni innanklæða; sýndi
hann Bedreddín Hassan sjóðinn, og þótti honum þá, sem þetta væri
hjálp af himnum send, og þáði hana feginshendi.
„Herra!“ mælti Gyðingurinn, „þér látið mig þá fá farm hins fyrsta af
skipum yðar, sem kemur hér á höfn, fyrir þúsund sekkínur?“ Því játaði
Bedreddín og mælti: „Þú skalt fá hann fyrir þúsund sekkínur.“ Því næst
fékk Gyðingurinn honum sjóðinn með þúsund sekkínum í, og bauðst til
að telja. En Bedreddín Hassan sagði að hann þyrfti þess ekki, og hefði
hann fullkomið traust á ráðvendni hans. „Ef svo er,“ segir Gyðingurinn,
„gerið þá svo vel, að gefa mér skriflega kvittun fyrir kaupskap okkar.“
Tók hann þá óðara upp blekbyttu, er hann bar í belti sínu, og upp úr
veski sínu penna og pappírsmiða; hélt hann á byttunni, meðan Bedreddín
Hassan skrifaði skírteinið. Því næst fékk Bedreddín Gyðingnum miðann,
en hann lét hann óðara í veski sitt; kvöddust þeir þá, og fór Gyðingurinn
leiðar sinnar heim í borgina. En Bedreddín Hassan gekk til grafar föður
síns, fleygði sér þar niður á grúfu og harmaði forlög sín tárfellandi. „Ó,
mig auman,“ mælti hann, „hvað á að verða af mér? Hvar get ég leitað
hælis fyrir hinum óréttvísa konungi, sem ofsækir mig? Nægði mér ekki
söknuðurinn og harmurinn eftir föður minn? þurfti þetta að bætast við?“
Þannig lá hann lengi, en loksins reis hann upp og hallaði höfðinu upp
við legstein föður síns og mælti: „Síðan þú ert vikinn mér af sjónum, eru
hús þín tóm, en veröldin þykir mér sem eyðimörk; fjær og nær syrtir að
fyrir augum mínum. Betur væri, að fjaðrirnar hefðu verið slitnar úr
vængjum hrafnsins, sem sagði þig feigan, og að ekkert hreiður hefði
vermt hann; en nú mun hin dimma nótt hylja okkur báða, og við munum
báðir hvíla í hinu sama húsi.“ Þannig sat hann harmandi og kveinandi,
þangað til svefninn sótti á hann; hné þá höfuð hans út af, og sofnaði
hann flatur á jörðinni.
Þegar hann nú lá þarna sofandi, fór andi nokkur á kreik, sem vanur
var að hafast við í greftrunarstað þessum um daga; kom hann auga á hinn
unga mann, sem lá hjá gröf Núreddíns Alís. Fór hann þangað inn, og
varð frá sér numinn af hans himnesku fegurð.
118. NÓTT. En er andinn hafði horft vandlega á Bedreddín Hassan,
sagði hann við sjálfan sig: „Ef ráða má af yfirbragði veru þessarar, þá
hlýtur hún að vera engill hinnar jarðnesku paradísar, sem guð hefur sent
til þess að allur heimur skyldi upptendrast af elsku.“ Því næst flaug hann
í loft upp, og vildi þá svo til, að hann mætti álfkonu nokkurri. Þegar þau
höfðu heilsazt, mælti andinn: „Viltu ekki líða með mér niður í grafreitinn,
þar sem ég er vanur að dvelja? Ég skal sýna þér þar undur allrar fegurðar,
og mun þér ekki finnast minna til koma en mér.“ Álfkonan tók
[1318.png: Hefurðu nokkurntíma séð fríðari eða gjörvulegri mann en þenna?]
því feginsamlega, og í sama vetfangi voru þau horfin þangað; sýndi þá
andinn henni Bedreddín, svo mælandi: „Hefurðu nokkurntíma séð fríðari
eða gjörvulegri mann en þenna?“
Álfkonan virti Bedreddín vandlega fyrir sér og svaraði: „Sannlega
er hann fríður, en það sá ég annað í Kairó, sem er jafnmikið furðuverk
fyrir fríðleiks sakir; skal ég skýra þér frá því, ef þú vilt hlýða á.“ Andinn
kvaðst fús til þess. „Þá skaltu vita,“ mælti álfkonan, „svo að ég segi þér
söguna frá upphafi, að vezír Egiptasoldáns, Sjemseddín Móhammed, á
tvítuga dóttur, sem er hin fríðasta mær og bezt að öllum kostum búin;
veit ég enga slíka. Hafði soldán heyrt, hvílíkt orð fór af fegurð hennar,
og gerði hann fyrir skömmu síðan boð eftir föður hennar og sagði við
hann: „Ég hef heyrt, að þú eigir gjafvaxta dóttur; viltu gifta mér hana?“
Þetta hjúskaparboð kom heldur en ekki flatt upp á vezírinn, en allt fyrir
það lét hann sér ekki glepjast sjónir af upphefðinni, tók hann því ekki
þessum kosti, sem flestir mundu hafa gert í hans sporum, heldur svaraði
hann soldáni þannig: „Herra! ég er þeirrar sæmdar ómaklegur, sem þér
ætlið mér, og bið ég yður auðmjúklegast, að taka ekki illa upp, þó ég
standi í gegn vilja yðar. Þér vitið, að ég átti bróður, sem hét Núreddín
Alí, og hlaut hann þá virðingu, að vera vezír yðar, eins og ég. Okkur lenti
saman í deilur, og varð það til þess, að hann hvarf skyndilega, og hef ég
ekki síðan frétt til hans, þangað til ég heyrði fyrir nokkrum dögum, að
hann væri dáinn í Balsora, og hefði hann verið stórvezír soldáns þar.
Hann hefur látið son eftir sig, og með því við höfðum heitið hvor öðrum
að láta börn okkar eigast, ef nokkur yrðu, þá veit ég, að hann hefur
haft ráðahag þenna í huga allt fram í andlátið. Vildi ég fyrir þá sök binda
enda á heit mitt, og bið ég yður að leyfa mér það.“
119. NÓTT. Soldán Egiptalands reiddist hinni skorinorðu undanfærslu
vezírsins, og sagði í ofsalegri bræði, því hann gat ekki stillt skap
sitt: „Launarðu svo góðsemi mína, þar sem ég vil lítillækka mig til tengda
við þig? En þú skalt hitta sjálfan þig fyrir, að þú tekur annan fram yfir
mig, og þess strengi ég heit, að dóttir þín skal eiga hinn argasta og ljótasta
af öllum þrælum mínum, og engan annan.“ Lét hann þá stórvezírinn
óðara frá sér fara, og gekk hann hryggur á burt. Í dag hefur soldán
látið einn af hestamönnum sínum koma; hefur hann kryppu, bæði á
baki og brjósti og er fjarska afskræmislegur; soldán hefur skipað Sjemseddín
Móhammed að gefa til samþykki sitt, að dóttir hans giftist þrælnum,
og hefur hann látið semja kaupmálann í sinni eigin nærveru, og er
nú allt tilbúið til brúðkaups þessa, og á þessari stundu standa allir þrælar
hinna egipzku hirðmanna með brennandi kyndla við dyrnar á baðhúsi
einu, sem krypplingurinn er í; eiga þeir að fylgja honum til brúðurinnar,
sem nú er komin í skartið. Þegar ég fór frá Kairó, ætluðu konurnar
að leiða hana í brúðarbúningnum inn í salinn, þar sem hún á að
taka á móti krypplingnum; þar situr hún nú og bíður hans. Ég hef séð
hana, og skal ég ábyrgjast þér, að enginn getur annað en dáðst að henni.“
„Hvað, sem þú segir,“ anzaði andinn, „get ég ekki ímyndað mér, að
þessi mær sé fríðari en unglingurinn.“ „Ég mótmæli því ekki,“ mælti álfkonan,
„og játa ég, að hann er boðlegur hinni yndislegu brúður krypplingsins.
Það væri því okkur samboðið verk, að koma í veg fyrir óréttvísi
Egiptasoldáns, og lauma þessum unga manni í stað þrælsins.“ „Þú segir
satt,“ anzaði andinn, „og fellur mér ráð þitt prýðilega í geð. Við skulum
ónýta hefnd Egiptasoldáns, hugga hrelldan föður, og gera dóttur hans
eins sæla og hún nú hyggur sig vansæla. Skal ég ekkert til spara, að þessu
áformi megi framgengt verða, og geng ég að því vísu, að þú munir gera
allt, sem í þínu valdi stendur. Ég skal taka að mér að flytja hann til Kairó,
svo að hann ekki vakni; skalt þú þá koma honum þaðan burt, ef fyrirætlun
okkar heppnast.“ Þegar nú andinn og álfkonan höfðu talað sig
nánar saman um þetta, tók hann Bedreddín Hassan mjúklega upp, þaut
með hann, sem kólfi væri skotið, gegnum loftið, og lagði hann niður hjá
dyrum opinberrar byggingar, allskammt frá baðhúsinu, þaðan er krypplingsins
var von á hverri stundinni, ásamt þrælum þeim, er þjónuðu
honum.
Í þessu vetfangi vaknaði Bedreddín Hassan, og varð honum hverft
við, þegar hann sá, að hann var allt í einu kominn mitt í ókunnuga borg.
Var að honum komið að spyrja, hvar hann væri, en andinn klappaði á
öxl honum og réði honum til að þegja. Síðan fékk hann honum kyndil
og mælti: „Farðu inn í hópinn, sem stendur við dyrnar á baðhúsinu
þarna; skaltu fylgjast með honum inn í salinn, þar sem núna á að halda
brúðkaup nokkurt. Brúðguminn er krypplingur, og muntu fljótt þekkja
hann úr, skaltu ganga til hægri hliðar honum og grípa niður í sjóð þinn
og gefa sönglistarmönnum, dansmönnum og dansmeyjum fé. En þegar
þú kemur inn í salinn, skaltu líka sýna ambáttum brúðurinnar örlæti
þitt, og taka handfylli þína af sekkínum í hvert skipti, sem þú grípur
niður í sjóðinn, og gefa óspart. Gerðu nú óhræddur sem ég hef fyrir þig
lagt; hræðstu ekkert, undrastu ekkert og treystu hinum æðra innblæstri.“
Þegar nú Bedreddín Hassan hafði fengið svo skýra vísbendingu, hvernig
hann skyldi að fara, gekk hann til dyra baðhússins, og kveikti á kyndli
sínum hjá einum af þrælunum. Síðan skauzt hann inn í mannþröngina,
eins og hann væri áhangandi einhverjum höfðingja í Kairó, og fór
svo með þrælunum, er fylgdu krypplingnum, sem nú var kominn úr
baðinu og stíginn á bak einum af hestum soldáns...
120. NÓTT. Bedreddín Hassan gekk með sönglistarmönnum og
dansmeyjum, er gengu á undan krypplingnum, og gaf þeim öðru hverju
handfylli sína af sekkínum. En af því að örlætið fór honum svo vel, sakir
látprýði hans og kurteisi, varð öllum, sem nokkuð fengu, starsýnt á hann,
og fannst þeim svo mikið um fegurð hans, að þeir gátu ekki haft augun
af honum. Staðnæmdist nú allur hópurinn fyrir utan hús vezírsins,
Sjemseddíns Móhammeðs, sem sízt kom til hugar, að bróðursonur sinn
væri svo nálægt sér. Nú varð fyrir reglu sakir öllum þrælunum og Bedreddín
Hassan vísað út, og máttu þeir ekki inn ganga; en sönglistarmennirnir,
sem enginn amaðist við, kváðust ekki vilja koma inn, nema Bedreddín
Hassan mætti koma með þeim. „Hann er ekki í þræla tölu,“
sögðu þeir, „og þarf ekki annað en líta á hann, til þess að sjá það. Er
hann að líkindum ungur útlendingur, og mun honum vera forvitni á
að sjá brúðkaupssiðu þá, er hér tíðkast.“ Tóku þeir hann síðan með sér
og fóru inn með hann, þó dyraverðir bönnuðu; tóku þeir af honum
kyndilinn, og fengu einhverjum öðrum, sem fyrst varð fyrir. En er þeir
voru komnir inn í salinn, settu þeir hann til hægri handar krypplingnum,
sem sat hjá dóttur vezírsins í dýrðlega skreyttu öndvegi, með öndvegishimni
yfir. Konur emíra, vezíra og gjaldkera soldáns, hirðmeyjarnar
og hinar tignustu konur í borginni, sátu til beggja hliða í lægri sætum,
eftir virðingu sinni; voru þær allar svo skrautbúnar, að yndi var á að
horfa. Hélt hver þeirra á logandi ljósi, og er Bedreddín kom inn, varð
öllum litið á hann, og dáðust þær að vaxtarlagi hans, limaburði og andlitsfegurð;
gat engri leiðst að horfa á hann. En er hann var setztur niður,
var engin sú, er ekki stæði upp og færði sig nær, til þess að virða hann
betur fyrir sér, og var ekki trútt um að hjartað berðist tíðara, er þær settust
niður. Kom illur kurr í alla, sem viðstaddir voru, af hinum fjarskalega
mismun, sem var á honum og hestaþrælnum, hinum andstyggilega
krypplingi, og kallaði kvenfólkið hátt: „Fallegi maðurinn ungi skal eiga
brúðurina, en ekki krypplingsófétið.“ Og í tilbót beiddi það soldáni
óbæna fyrir það, að hann neytti ofurveldis síns, til þess að tengja saman
fegurð og afskræmisskap. En yfir krypplingnum jusu þær slíkum skömmum,
að hann kiknaði allur við og sneyptist svo, að allir sem við voru höfðu
mestu skemmtun af; tóku skútyrðin hátt yfir sönginn og hljóðfærasláttinn,
sem öðru hverju var byrjað á, en varð að hætta aftur. Loksins gátu
þó sönglistarmenn komizt að, og gengu nú fram konur þær, er búa skyldu
brúðurina; hafði hún þegar verið þvegin í ilmvatni og angaði af smyrslum.
Klæði hennar ilmuðu af dýrasta alóe og ambra, desdufti var stráð
yfir hár hennar, sem meyjar höfðu fléttað; var það prýtt djásni, er sæma
mátti keisaradrottningu. Á klæði hennar voru glituð með gullsaumi allskonar
blóm, fuglar og dýr, voru augu og trjónur dýranna gerð úr gimsteinum,
en á fótunum hafði hún skó, sem sýndust vera úr smaragði og
roðasteinum. Gimsteinamen hennar var svo skært, að augun þoldu varla
að horfa á það, en ásjóna hennar skein skærar en birta vaxljósanna, er
lýstu frammi fyrir henni.
121. NÓTT. En svo skrautbúin, sem brúðurin var, hafði hún samt
sjö sinnum fataskipti meðan á hljóðfæraslættinum stóð, og varð ekki
sagt, að einn klæðnaðurinn væri fegurri en annar. Í hvert skipti sem hún
var komin í nýjan búnað, reis hún upp úr sæti sínu og gekk með fylgikonum
sínum fram hjá krypplingnum, og virti hann ekki viðlits, en
frammi fyrir Bedreddín Hassan nam hún staðar, til þess að sýna sig honum
í hvert skipti er hún breytti búning. Sveikst hann ekki um að hlýða
ráði því, er andinn hafði gefið honum, að grípa niður í sjóðinn og ausa
út sekkínum á meðal fylgikvenna brúðurinnar. Hann snaraði líka nokkrum
í sönglistarmenn og dansmenn, og var gaman að sjá, hversu þeir
hlupu, hver um annan þveran til að taka upp peningana. Tjáðu þeir honum
þakklæti sitt og létu í ljós með bendingum, að þeir vildu heldur að
hann eignaðist brúðurina en krypplingurinn. Eins gerði kvenfólkið og
sagði það upp í opið geðið á krypplingnum; dáraði það hann á allar
lundir með hvers konar ertingum og glettni.
En er brúðurin hafði haft svo oft fataskipti, sem siður var til, hætti
hljóðfæraslátturinn og söngurinn, og gengu söngmenn burt, en gáfu
Bedreddín Hassan í skyn, að hann skyldi vera kyrr. Sama létu konurnar
hann skilja, sem ekki áttu þar heima, og nú gengu burt. Fór nú brúðurin
inn í herbergi eitt, og fylgdu henni þjónustumeyjar hennar, sem áttu
að afklæða hana; var nú enginn eftir í salnum nema krypplingurinn,
Bedreddín Hassan og nokkrir þjónar. Var krypplingurinn sárreiður Bedreddín,
er stóð honum svo mjög í ljósi; gaut hann því hornauga til hans
og mælti: „Eftir hverju ertu að bíða? Því fer þú ekki með hinum?“ Bedreddín
gat ekkert borið fyrir, hvers vegna hann væri þar, og gekk því út
í ráðaleysi, en andinn og álfkonan sneru honum aftur í framhúsinu.
„Hvert ætlarðu?“ mælti andinn, „vertu kyrr; krypplingurinn er farinn út
úr salnum, hann þurfti nauðsynlega að bregða sér út. Snú þú aftur og
far inn í brúðarherbergið. Þegar þið eruð orðin tvö ein, skaltu segja
henni, hvergi feilinn, að þú sért brúðguminn; hafi soldán bara ætlað að
henda gaman að krypplingnum, en þú hafir látið færa þessum hlægilega
brúðguma steikarbita á diski út í hesthús. Skaltu telja og tjá fyrir henni
á allar lundir, og mun slíkum manni sem þér ekki veita það örðugt, en
hún mun verða frá sér numin, þegar hún sér, að hún hefur verið svo
ánægjulega á tálar dregin. En við skulum á meðan búa svo um hnútana,
að krypplingurinn skal ekki komast inn, eða glepja fyrir þér og konu
þinni, því hún er þín kona en ekki hans.“
Meðan andinn stappaði þannig stálinu í Bedreddín Hassan og kenndi
honum ráðin, hafði krypplingurinn gengið út úr salnum. Andinn elti
hann þangað sem hann fór, breytti sér í stóran svartan kött og tók að
mjálma afskaplega. Orgaði þá krypplingurinn framan í köttinn og skellti
[1323.png: Höfðingi uxanna, hvers krefjist þér af mér?]
saman lófunum, til þess að fæla hann burt, en það var öðru nær en
hann léti sér það að kenningu verða, því hann settist á afturfæturna,
gneistaði með augunum, og tútnaði út, þangað til hann varð viðlíka stór
og asnafolald. Þegar krypplingurinn sá það, ætlaði hann að hljóða upp
yfir sig og biðja hjálpar, en varð svo lafhræddur, að hann gat engu hljóði
upp komið, þó hann glennti upp ginið. Til þess hann nú ekki skyldi
koma til sjálfs sín aftur, brást andinn allt í einu í heljarstóran villiuxa,
og öskraði í eyru honum með drynjandi bauli, svo að hinn varð hálfu
skelkaðri en áður: „Óhræsis krypplingur!“ Datt þá hestaþrællinn til
jarðar af hræðslu, vafði flíkum að höfði sér, svo að hið ógurlega dýr
skyldi ekki sjá í andlit honum og svaraði skjálfandi: „Höfðingi uxanna,
hvers krefjist þér af mér?“ Þá mælti andinn: „Bölvaður sértu
fyrir fífldirfskuna, ef þú ætlar þér þá dul, að eiga unnustu mína.“
Hestaþrællinn svaraði: „Æ, herra! fyrirgefið mér, því hafi mér yfirsézt,
þá hefur mér ekki vísvitandi á orðið, því ég vissi ekki að konuefni
mitt ætti villiuxa fyrir unnusta. En skipið mér hvað, sem þér viljið, og
sver ég yður, að ég skal hlýða.“ Þá tók andinn til máls og sagði: „Ef
þú fer héðan, eða þegir ekki eins og steinn til sólaruppkomu, skal ég
drepa þig; ef þú talar eitt orð, skal ég mölva hvert bein í höfði þínu.
Síðan máttu ganga burt úr húsi þessu, en þú skalt fara fljótt, og ekki
líta aftur fyrir þig, en ef þú ert svo djarfur, að koma hingað aftur, þá
verður það þinn bani.“ Síðan brást andinn í mannslíki, þreif um fætur
krypplingsins, keyrði hann upp að veggnum, svo að hausinn vissi
niður, og mælti: „Ef þú bærir á þér fyrir sólaruppkomu, eins og ég
sagði, þá tek ég um fætur þér, og steinrota þig hérna upp við vegginn.“
Meðan á þessu stóð, fór Bedreddín, hughreystur af áeggjan andans
og álfkonunnar, aftur inn í salinn og þaðan í brúðarherbergið og settist
þar niður, og beið nú eftir, hvernig ævintýri sínu mundi ljúka. Eftir
góða stund kom brúðurin, leidd af hefðarkonu einni, sem staðnæmdist
í dyrunum og hélt tilhlýðilega áminningarræðu til brúðgumans; gáði
hún ekki að, hvort krypplingurinn eða annar væri þar fyrir, og gekk
nú burt og lokaði dyrunum. Varð brúðurin hissa, er hún sá Bedreddín
Hassan sitja andspænis sér, í stað krypplingsins; heilsaði hann henni
með mestu kurteisi og sagði henni nafn sitt. Þá tók hún til orða og
mælti: „Vinur, hvernig stendur á því, að þér eruð hér? Þér munuð vera
kunningi mannsins míns?“ „Nei, blessaða brúður,“ anzaði Bedreddín,
„ég er annarrar ættar en ótætis krypplingurinn.“ „Þér gætið ekki að
því, að þér talið illa um manninn minn,“ segir hún. „Manninn yðar!“
svaraði hann, „trúið þér því enn þá? Útrýmið slíkri vitleysu úr huga yðar:
Slíkri gersemi sem þér eruð, verður ekki kastað fyrir hinn svívirðilegasta
þrjót, heldur er mér ætluð þessi himneska sæla. Soldán ætlaði
að henda gaman að þessu, og gerði því vezírnum, föður yðar, þenna
grikk, en mig hefur hann í raun og veru kosið til að vera eiginmaður
yðar. Þér munuð líka hafa tekið eftir, hvað öllu kvenfólkinu, sönglistarmönnum,
dansmönnum og öllum gestunum var skemmt við þenna
kýmileik. Nú er krypplingsskömmin úti í hesthúsinu sínu, og mun
aldrei koma fyrir yðar augu framar.“
Brúðurin, sem hafði verið föl eins og lík, þegar hún kom inn í herbergið,
glaðnaði nú í yfirbragði, og brá hýrasta gleðisvip og meyjarlegum
fegurðarblóma yfir ásjónu hennar, svo að Bedreddín varð alveg
frá sér numinn. „Þessi fögnuður kom mér óvænt,“ tók hún til máls,
„ég var búin að einsetja mér, að una óláni mínu ævilangt, en nú er
gleði mín og sæla því meiri, sem ég hef eignazt mann, sem er maklegur
ástar minnar.“ Að því mæltu fór hún úr hverri spjör og lagðist til
hvíldar. Svo gerði og Bedreddín Hassan, sem nú var orðinn eigandi
svo frábærrar fegurðar og yndis; hann lagði klæði sín á stól ofan á
sjóðinn, sem Gyðingurinn hafði fengið honum fullan af sekkínum;
var hann troðfullur enn, svo mikið, sem hann hafði tekið úr honum;
tók hann af sér vefjarhöttinn og setti upp nátthúfu, sem legið hafði þar
til taks handa krypplingnum; því næst fór hann upp í rúmið, í bláum
silkinærbuxum girtum gullbelti.
122. NÓTT. Þegar brúðhjónin voru sofnuð, sagði andinn, sem hafði
horfið aftur til álfkonunnar, að nú væri tími til kominn að ljúka við
það verk, er þau hefðu svo fagurlega byrjað og allt til þessa heppilega
fram komið. „Við skulum ekki láta okkur daga uppi,“ sagði hann,
„far því og nem unglinginn burt, en varastu að vekja hann.“ Í sama vetfangi
hvarf álfkonan þangað er hjónin lágu sofandi; flaug hún þaðan
með Bedreddín Hassan, eins og hann var á sig kominn, í skyrtu og
nærbuxum. Þusti hún óumræðilega fljótt með hann til hliðanna á
borginni Damaskus í Sýrlandi; hittist svo á, að þau komu þangað
um sólaruppkomu í það mund, sem allur borgurlýður var kallaður til
bænagjörðar í musterunum. Lagði hún Bedreddín mjúkt niður á jörðina,
rétt við hliðið, og skildi svo við hann.
Nú var borgarhliðunum upplokið, og ruddist út úr borginni fjöldi
manna; féllu þeir í stafi, er þeir sáu Bedreddín Hassan liggjandi á
jörðinni í tómri skyrtu og nærbuxum. Þá sagði einn: „Hann hefur
orðið að hlaupa í slíku flaustri frá unnustu sinni, að hann hefur ekki
einu sinni gefið sér tíma til að klæða sig;“ annar sagði: „Ekki er gaman
að; hann mun hafa skálað sig í nótt með vinum sínum, hefur orðið
hreifur og þurft að bregða sér út, en í stað þess að fara inn aftur, hefur
hann reikað hingað og sofnað hér út af.“ Gat þar sinn upp á hverju,
en enginn átti kollgátuna, sem nærri má geta. Í sama bili andaði hæg
vindgola og brá skyrtu Bedreddíns til hliðar; sá þá á brjóst hans, sem
var skínandi bjart eins og snjór, og féllu allir í stafi, er það sáu, og urðu
svo hátalaðir fyrir undrunar sakir, að Bedreddín vaknaði. Brá honum
ekki síður við en hinum, er hann sá, að hann var kominn að hliðum
borgar, sem hann aldrei hafði komið í, og umkringdur af mesta manngrúa,
sem á hann starði. „Góðir menn,“ tók hann til máls, „fyrir alla
muni segið mér, hvar ég er, og hvað þið viljið mér.“ Þá svaraði honum
einn: „Ungi maður, borgarhliðunum var lokið upp í þessu bili, og
er vér gengum út, sáum vér yður liggjandi á jörðinni eins og þér eruð
nú til reika, og staðnæmdumst vér til að horfa á yður. Hafið þér verið
hér í nótt, eða vitið þér, að þér liggið úti fyrir einu af portum Damaskusborgar?“
„Damaskusborgar!“ anzaði Bedreddín, „þið gerið gabb að mér;
þegar ég sofnaði, var ég í Kairó.“
Við þessi orð hrærðust sumir til meðaumkvunar og sögðu hryggilegt
vera, að svo fríður unglingur skyldi vera orðinn brjálaður, og gengu
þeir burt. Gamalmenni nokkurt sagði við hann: „Sonur, þér skjátlast,
úr því þú ert hér árdegis, hvernig gaztu þá verið í Kairó í gærkvöldi?
Það nær engri átt.“ „Og samt er það hverju orði sannara,“ anzaði
Bedreddín, „og sver ég ykkur, að ég var allan daginn í gær í Balsora.“
Óðar en hann hafði sagt þetta, ráku allir upp skellihlátur og hrópuðu:
„Hann er bjáni, hann er bjáni.“ Kenndu fáeinir í brjósti um hann
vegna æsku hans, og sagði einhver: „Þér eruð genginn af vitinu, hugsið
eftir því, sem þér segið. Hvernig getur það átt sér stað, að sami maðurinn
sé um daginn í Balsora, um nóttina í Kairó, og næsta morgun
í Damaskus? Þér eruð víst ekki almennilega vaknaður, núið stýrurnar
úr augum yðar.“ „Það er þó áreiðanlega satt,“ mælti Bedreddín Hassan,
„og í gærkvöldi kvongaðist ég í Kairó.“ Þeir, sem áður höfðu hlegið,
veltust nú um og ætluðu að springa af hlátri, en sá, sem síðast hafði
ávarpað hann, mælti: „Komið til sjálfs yðar, þetta hefur borið fyrir
yður í svefni, og enn þá er yður að dreyma.“ En Bedreddín stóð á sínu
máli fastara en fótunum og sagði: „Ég veit, hvað ég fer með; segið mér,
hvernig er það mögulegt, að ég kæmi til Kairó í draumi, því ég er
fyllilega sannfærður um, að ég var þar í raun og veru; var kona mín
leidd fyrir mig sjö sinnum, í hvert sinn í nýjum búningi, og sá ég
hvimleiðan kryppling, sem átti að eiga hana. Segið mér líka, hvað
orðið er af fötum mínum, og sjóðnum mínum, sem ég átti fullan af
sekkínum í Kairó.“ Svo sem hann sór og sárt við lagði, að hann segði
satt, hlógu allir að honum, sem heyrðu, og varð hann svo ringlaður,
að hann vissi ekki sjálfur, hverju trúa skyldi um það, sem honum hafði
viljað til...
123. NÓTT. Þegar Bedreddín Hassan hafði margsvarið til ónýtis,
að hann hermdi satt og rétt frá öllu, stóð hann upp og fór inn í borgina
raunamæddur, og elti þá mannfjöldinn hann æpandi: „Bjáni, bjáni!“
Litu margir út um glugga, er þeir heyrðu háreystið, en sumir gengu
fram í dyr og slógust með í hópinn og kölluðu: „Bjáni, bjáni!“ eins og
hinir, þá þeir alls ekki vissu, hvað um var að vera. Í vandræðum þessum
vildi svo til, að Bedreddín Hassan gekk fram hjá húsi bakara eins,
sem var að ljúka upp búð sinni; gekk hann þá þar inn, til þess að komast
undan smánaryrðum skrílsins. Bakari þessi hafði áður verið fyrirliði
ræningjaflokks, sem rændi kaupmenn; hafði hann síðan tekið sér
bólfestu í Damaskus og engum mein gert, en samt hræddust hann allir,
sem þekktu hann. Þurfti hann því ekki annað en að hvessa augun á
skríl þann, er elti Bedreddín, til þess að hann tvístraðist. En þegar þeir
voru orðnir tveir einir, spurði bakarinn hann, hver hann væri, og
hvernig stæði á ferð hans til Damaskus. Sagði Bedreddín Hassan honum
frá ætt sinni, dauða vezírsins, föður síns, öllum atvikum og tildrögum,
hvers vegna hann hefði flúið úr Balsora, og frá því, er hann
sofnaði í greftrunarhúsi föður síns og vaknaði í Kairó og kvongaðist
þar. Kvaðst hann undrast mjög, að nú væri hann kominn til Damaskus,
og ekkert skilja í þessum kynjafullu atburðum.
Þá mælti bakarinn: „Saga yðar er einhver hin kynjalegasta, en ef
þér viljið fara að mínum ráðum, skuluð þér engum manni segja frá
því, er þér nú hafið trúað mér fyrir, heldur þreyja með þolinmæði,
þangað til guð lætur andstreymi það enda taka, sem yður hefur borið
að hendi. Yður er velkomið að vera hjá mér, þangað til betra tekur við,
og með því ég er barnlaus, skal ég fúslega taka mér yður í sonar stað,
ef þér viljið. Þegar það er gert, getið þér frjálslega gengið um borgina,
og mun þá skríllinn ekki slást upp á yður.“
Þó að ættleiðing þessi væri engin sérleg virðing fyrir stórvezírs son,
tók þó Bedreddín Hassan þessum kosti, því hann sá ekkert betra ráð
í vandræðum sínum. Gaf bakarinn honum nýjan klæðnað, gerði boð
eftir vitnum og lýsti því yfir í viðurvist skjalaritara, að hann kannaðist
við hinn unga mann eins og son sinn. Eftir þetta var Bedreddín Hassan
hjá honum og var kallaður Hassan; lærði hann brauðgjörð af bakaranum.
Meðan þetta gerðist í Damaskus, vaknaði dóttir Sjemseddíns Móhammeðs
í Kairó, og er hún sá, að Bedreddín Hassan lá ekki við síðu
hennar, hélt hún, að hann hefði farið á fætur, og ekki viljað vekja
sig, og mundi fljótt koma aftur. Meðan hún beið eftir honum, drap
vezírinn, faðir hennar, á dyr brúðarherbergisins; var hann yfirkominn
af harmi út af svívirðingu þeirri, er hann hugði soldán hafa gert sér,
og kom hann því til þess að gráta með dóttur sinni yfir óláni hennar.
Hann kallaði á hana með nafni og þekkti hún málróm hans; hljóp
hún fljótt til dyra og lauk upp, kyssti á hönd hans, og fagnaði honum
með slíkri ánægju og glaðværð, að hann varð öldungis forviða, því
hann hafði búizt við að koma að henni fljótandi í tárum og eins sorgbitinni
og hann var sjálfur. „Veslings barn!“ sagði hann, „kemurðu
með svo glöðu yfirbragði, þú, sem hefur lagt svo mikið í sölurnar?“
124. NÓTT. „Þegar brúðurin heyrði, að faðir hennar ávítaði hana
fyrir gleði þá, er hún lét í ljósi, mælti hún: „Veit mér eigi óréttvísar
átölur; ég er ekki gift krypplingnum, sem mig hryllti meira við en
dauða mínum. Allir lögðust á hann og stríddu honum, svo að hann sá ekki
annað vænna en að hafa sig á burt, og rýma sæti fyrir fríðum unglingi,
sem er hinn rétti brúðgumi.“ „Hvað ertu nú að þvaðra?“ greip Sjemseddín
fram í, „var ekki krypplingurinn hjá þér í nótt?“ „Nei, herra!“
svaraði hún, „hjá mér svaf í nótt unglingurinn með stóru augun og
svörtu augabrúnirnar, og enginn annar en hann.“ Þá gekk fram af
vezírnum, er hann heyrði þetta, og sagði hann við dóttur sína í bræði:
„Andstyggðin þín, ætlarðu að gera mig vitlausan með þvættingi þínum?“
Þá svaraði hún: „Faðir minn, ætlarðu að gera mig vitstola með
tortryggni þinni?“ „Það var þá ósatt að krypplingurinn“ — tók vezírinn
aftur til orða, en dóttir hans greip fram í og mælti: „Hættu þá einhverntíma
að tala um bannsettan krypplinginn. Á ég þá alltaf að
heyra talað um hann? Ég ítreka það ennþá einu sinni, faðir minn!
Hann var ekki hjá mér í nótt, heldur eiginmaður minn, eins og ég
sagði þér, og mun hann ekki vera langt í burtu.“
Sjemseddín Móhammed fór út til að leita að honum, en fann ekki
hann, heldur krypplinginn, sem alltaf stóð á höfði upp við vegginn,
eins og andinn hafði skilið við hann. „Hvað á þetta að þýða?“ spurði
Sjemseddín, „hver hefur farið svona með þig?“ Þegar krypplingurinn
kannaðist við málróm vezírsins, svaraði hann: „Þar eruð þér komnir,
sem ætluðum að gifta mér unnustu villiuxa og svívirðilegs anda? Ég
skal ekki vera ginningarfífl yðar í annað sinn, þér skuluð ekki vera
svo heimskur að ætla yður það.“
125. NÓTT. Þegar Sjemseddín heyrði þetta, hélt hann að krypplingurinn
væri genginn af vitinu og mælti: „Farðu héðan burt og gakktu
á fótunum.“ „Nei,“ sagði krypplingurinn, „ég er hræddur um það
verði ekki af því, fyrr en um sólaruppkomu; þegar ég kom hingað í
gærkvöldi, sá ég allt í einu svartan kött, sem stækkaði smámsaman
þangað til hann varð á stærð við villiuxa; ég er ekki búinn að gleyma
því, sem hann sagði við mig. Lofið mér því að vera hér í friði og farið
til starfa yðar.“ En vezírinn fór ekki að beiðni krypplingsins, heldur
tók hann í fætur honum og neyddi hann til að standa upp; hljóp þá
krypplingurinn burt, og þorði ekki að líta aftur fyrir sig; fór hann til
hallar soldáns og lét leiða sig á hans fund; varð soldáni heldur en ekki
skemmt að heyra hann segja frá ævintýri sínu.
Nú gekk enn meira yfir Sjemseddín Móhammed en fyrr, og skildi
hann ekkert, hvernig á þessu stæði; fór hann til dóttur sinnar og beiddi
hana að gera sér grein fyrir, hvernig þessu væri varið; kvaðst ekki vita
hvað hann ætti að halda. Hún sagðist ekki geta sagt honum annað en
það, sem hún hafði sagt; „samt er þarna lítilræði,“ mælti hún, „sem
maðurinn minn hefur skilið eftir á stólnum; hver veit nema það verði
þér til eftiræsktrar útskýringar.“ Fékk hún honum þá vefjarhött Bedreddíns,
virti vezírinn hann vandlega fyrir sér og tók til máls: „Ég mundi
ætla, að þetta væri höfuðbúnaður vezírs, ef ekki væri svo líkt höttum
þeim, er tíðkast í Mússúl.“ Þá sá hann að eitthvað var saumað undir
fóðrið; spretti hann því frá og fann kver það, er Núreddín Alí hafði gefið
Bedreddín Hassan, syni sínum, á deyjanda degi. Sjemseddín Móhammed
þekkti undir eins hönd Núreddíns Alís, bróður síns, og las hann fyrir
sögn þessa: „Handa syni mínum Bedreddín Hassan.“ Fékk nú dóttir hans
honum líka sjóð þann, er hún hafði fundið undir klæðum Bedreddíns;
var hann enn þá fullur af sekkínum, fyrir tilhlutun andans og álfkonunnar.
Á miða, sem festur var við sjóðinn, sá hann að skrifað var: „Þessar
þúsund sekkínur á Ísak, Gyðingur,“ og hafði hann skrifað neðan undir,
áður en hann seldi féð í hönd Bedreddíns Hassans: „Borgað Bedreddín
Hassan fyrir farm þess skips, sem fyrst kemur hingað á höfn, af skipum
þeim, er faðir hans Núreddín Alí, hásællar minningar, var eigandi að.“
Undir eins og vezírinn hafði lesið þetta, hné hann í ómegin.
126. NÓTT. Þegar vezírinn Sjemseddín Móhammed var raknaður
við fyrir hjálp dóttur sinnar og þjónustukvenna þeirra, er hún hafði kallað
á, þá tók hann þannig til máls: „Dóttir mín, furðaðu þig ekki á því,
sem þér hefur viljað til; tildrög atburða þessara eru svo undarleg, að þú
munt varla trúa þeim. Sá, sem var hjá þér í nótt, er frændi þinn, sonur
Núreddíns Alís, bróður míns. Hinar þúsund sekkínur, sem eru í sjóði
hans, minna mig á þrætu eina, sem ég átti í við þenna ástkæra bróður
minn, og er fé þetta vafalaust morgungjöf þín. Guði sé lof fyrir allt, en
einkum fyrir þetta undursamlega ævintýri, sem vottar svo bersýnilega
almætti hans.“ Því næst horfði hann á skrift bróður síns, kyssti hvað
eftir annað kverið tárfellandi, og mælti: „Því er mér ekki unnt að sjá
Núreddín Alí sjálfan, eins og ég sé stafi þá, er hann hefur skrifað? Því
gefst mér ekki kostur á að sættast við hann?“ Síðan las hann kverið vandlega
og fann í því tilgreindan daginn, er bróðir hans kom til Balsora, enn
fremur giftingardag hans og fæðingardag Bedreddíns Hassans, og furðaði
hann sig á því, að dögum þessum bar saman við giftingardag hans og fæðingardag
dóttur hans í Kairó. Fagnaði hann nú af hjarta, er hann vissi,
að bróðursonur hans var tengdasonur hans. Hann fór til soldáns með
kverið og miðann, sem bundinn hafði verið við sjóðinn og sýndi honum;
tók soldán hann fullkomlega í sátt, og fannst honum svo mikið um sögu
þessa, að hann lét færa hana í letur, komandi öldum til fróðleiks.
Sjemseddín Móhammed gat samt ekki skilið, hvers vegna bróðursonur
sinn hefði horfið, og bjóst hann við, að hann mundi koma á hverri
stundinni. Þreyði hann óðfús að faðma hann að sér, og er sjö dagar voru
liðnir, lét hann leita að honum í Kairó. En það kom fyrir ekki, og fékk
það honum mikillar áhyggju. Með því hann ekki vissi, hvernig fara
mundi, samdi hann sjálfur og ritaði með eigin hendi lýsingu húss síns
og skýrði ítarlega frá öllu, hvernig brúðkaupið hefði farið fram, hvernig
öllu hafði verið háttað í salnum og herbergi dóttur sinnar. Vefjarhöttinn,
sjóðinn og klæði Bedreddíns lét hann í hirzlu og læsti niður.
127. NÓTT. Nokkru eftir þetta kenndi dóttir vezírsins, Sjemseddíns
Móhammeðs, að hún var barnshafandi, og ól hún níu mánuðum síðar
sveinbarn. Var því undir eins fengin barnfóstra, þjónustukonur og þrælar,
og nafn gefið og kallað Agib (undrabarn).
Þegar Agib var sjö ára, sendi vezírinn hann í skóla til nafnfrægs kennara,
í stað þess að láta hann læra í heimahúsum; voru tveir þrælar til að
fylgja honum í skólann og heim úr skólanum á degi hverjum. Af því nú
allir skólabræður Agibs voru af lægri stigum en hann, þá sýndu þeir honum
mikla virðingu, og gerðu það að dæmi kennara síns, sem hylmdi yfir
mörgu með honum, er hann ekki leið öðrum. Þetta blinda eftirlæti varð
ólán Agibs, og gerðist hann hrokafullur og ófyrirleitinn; bauð hann lagsbræðrum
sínum allt, en þoldi þeim ekkert. Hann vildi hvarvetna skipa,
og væri nokkur svo djarfur að standa í gegn boðum hans, þá skapraunaði
hann honum með beiskyrðum, eða misþyrmdi. Fyrir þá sök lögðu
allir skólabræður hans óvild á hann, og kvörtuðu loksins undan athæfi
hans við kennarann. Réði hann þeim í fyrstunni til að bera það með
þolinmæði, en er hann sá, að það var ekki til annars en þess, að ósvífni
Agibs fór því meir í vöxt, svo að hann átti sjálfur fullt í fangi með að
ráða við hann, þá sagði hann einu sinni við lærisveina sína: „Ég sé það,
börnin góð, að Agib er óþolandi, og skal ég kenna ykkur ráð til að styggja
hann svo tilfinnanlega, að hann mun ekki níðast á ykkur framar, og ef til
vill ekki koma oftar í skólann. Þegar hann kemur á morgun, og þið farið
að leika ykkur, skuluð þið allir þyrpast í kringum hann, og skal einn af
ykkur segja: „Leikum okkur, sveinar, en hver, sem í leiknum vill
vera, skal segja nafn sitt, föður síns og móður sinnar. Hver, sem ekki
vill gera það, skal heita pútuson, og fær ekki að leika sér með okkur.“
Kennarinn lét þá skilja, í hvílíkan bobba þeir kæmu Agib með
þessu móti, og fóru þeir allir glaðir heim til sín og hrósuðu þegar
ófengnum sigri. Daginn eftir gerðu þeir allt, sem fyrir þá hafði verið
lagt. Þeir slógu hring utan um Agib, og kallaði einn þeirra hátt og
sagði: „Leikum okkur, sveinar, en hver, sem ekki segir sitt nafn, föður
síns og móður sinnar, fær ekki að vera með í leiknum.“ Féllust
allir á þetta og Agib líka, og spurði nú sá, er upp á leiknum hafði
stungið, hvern af öðrum eftir röð. Leystu allir úr spurningu hans
nema Agib, sem svaraði: „Ég heiti Agib, móðir mín heitir Fríða, og
faðir minn heitir Sjemseddín Móhammed.“ Þá kölluðu allir drengirnir
í einu hljóði og sögðu: „Hann er ekki faðir þinn, heldur afi þinn.“
„Fjandinn hafi ykkur þá!“ svaraði Agib í reiði, dirfizt þið að mótmæla
því, að Sjemseddín Móhammed sé faðir minn?“ Gerðist þá mesti hlátur
og þverneitaði því hver í kapp við annan og sagði: „Þú fær ekki að
leika þér með okkur, við skulum vara okkur á að koma nálægt þér.“
Því næst hörfuðu allir frá honum með fyrirlitningu, stungu saman
nefjum og hlógu, en Agib grét af skapraun. Kennarinn, sem hafði
falið sig og heyrt á allt, kom nú fram, gekk til Agibs og mælti: „Veizt
þú ekki enn, að vezírinn, Sjemseddín Móhammed, er ekki faðir þinn?
Hann er ekki nema afi þinn, faðir hennar Fríðu, móður þinnar. En
nafn föður þíns erum vér eins ófróðir um og þú sjálfur; en svo mikið
er víst, að soldán ætlaði að gifta móður þína hestaþræl einum, sem er
krypplingur, og bar margt skringilegt til í brúðkaupinu. Það er vorkunn
að þér sárni það, og áttu að læra af því, að vera ofstopaminni við lagsbræður
þína en þú hefur verið hingað til.“
128. NÓTT. Agib gramdist ákaflega spott og storkun skólabræðra
hans, fór hann því sem fljótast úr skólanum og kom grátandi heim;
gekk hann þá undir eins til Fríðu móður sinnar. Varð hún hrædd, er
hún sá, hvað illa lá á honum og gekk fast á hann, hvað að honum
gengi, en hann fékk engu svarað fyrir gráti og ekka, svo hafði skapraun
þessi gengið nærri honum; loksins fékk hann samt skýrt frá skapraun
þeirri, er olli harmi hans. En er hann hafði gert það, sagði hann
við móður sína: „Fyrir guðs sakir, móðir mín, segðu mér, hver er faðir
minn?“ „Faðir þinn,“ svaraði hún, „er hann Sjemseddín Móhammed,
sem daglega vefur þig í faðm sér.“ „Þú segir mér ekki sannleikann,“
mælti Agib, „heldur er hann faðir þinn, en hvers son er ég?“ Þegar
hann spurði að þessu, minntist Fríða brúðkaupsnæturinnar, sem hafði
orðið undanfari svo langvinns skilnaðar; hrundu henni tár af augum
af djúpum söknuði eftir svo fríðan og ástúðugan mann, sem Bereddín
var, og mælti hún fram vísur þessar:
/#
Þá mitt hjartað þér var fest,
þig úr faðm ég missti,
horfinn er og hvergi sést
hann, sem brúði kyssti.
Afturkomu æsktri þú
einatt frestað lætur;
harmar drós til dauða trú
daga bæði og nætur.
#/
Meðan þau Fríða og Agib sátu þarna grátandi, kom vezírinn Sjemseddín
Móhammed að, og spurði, hvað að þeim gengi. Sagði hún honum
þá frá háðung þeirri, er Agib hafði orðið fyrir í skólanum. Hryggðist
vezírinn af því og þóttist af þessu skilja, að ósæmilega mundi talað um
Fríðu dóttur sína; var honum mesta raun að því. Fór hann harmþrunginn
á fund soldáns, fleygði sér niður fyrir fætur honum, og beiddist orlofs
til að ferðast um austurlönd og sérstaklega til Balsora, til þess að
leita upp Bedreddín Hassan bróðurson sinn, því sér væri óbærilegur
harmur, að vita til þess, að sagt væri í borginni, að andi hefði samrekkt
Fríðu, dóttur sinni. Soldán samhryggðist vezírnum, féllst á fyrirætlun
hans og veitti honum fararleyfi. Lét hann jafnvel skrifa opið bréf til
allra konunga og höfðingja, þar sem líkur voru til, að Bedreddín mundi
vera, og beiddi þá með hinum vinsamlegustu orðum, að leyfa vezírnum
að hafa hann á burt með sér.
Sjemseddín Móhammed varð svo frá sér numinn af góðsemi soldáns,
að hann kom engu orði upp, til að þakka honum svo sem skylt var; hann
féll því þegjandi fram fyrir fætur hans og vottaði honum þakklátsemi
sína með gleðitárum. En að lokum bað hann soldáni allra heilla og kvaddi
hann þá með sama, og jafnskjótt sem hann var kominn heim til sín, hugsaði
hann ekki um annað en að búast til ferða. Varð hann svo fljótbúinn
að hann lagði af stað fjórum dögum síðar með Fríðu dóttur sinni og Agib
syni hennar.
129. NÓTT. Sjemseddín Móhammed fór þá leið, er til Damaskus
liggur, og ferðaðist svo nítján daga samfleytt, að hann aldrei áði. En á
tuttugasta deginum lét hann staðnæmast á fögru engi, skammt frá hliðum
Damaskusborgar, og setti tjöld sín á bakka fljóts nokkurs, er rennur
gegnum borgina; eykur það fljót mjög á prýði héraðsins kringum hana,
og hafa mörg skáld um það kveðið. Ætlaði vezírinn að standa þar við í
tvo daga og leggja aftur af stað á þriðja degi; leyfði hann því öllu fylgdarliði
sínu að ganga inn í borgina, og notuðu sér allir leyfi þetta. Sumir
fóru fyrir forvitni sakir til að sjá borg þá, er þeir höfðu heyrt svo mikið
af látið, en aðrir fóru til þess að selja egipzkan varning, er þeir höfðu
meðferðis, eða til þess að kaupa þarlendar vörur. Vildi Fríða líka að
Agib sonur sinn hefði skemmtun af að sjást um í borginni, og skipaði
því svörtum geldingi, sem var nokkurskonar siðameistari hans, að fylgja
honum og hafa gætur á, að honum vildi ekkert slys til.
Fór nú Agib skrautbúinn af stað með geldingnum, og sem þeir voru
komnir inn í borgina, varð öllum starsýnt á Agib, sem var eins fagur
og dagurinn er bjartur. Komu menn út úr húsum sínum til þess að sjá
hann nálægt, en sumir gægðust út um glugga; þeir, sem mættu honum
á strætunum, létu sér ekki nægja að standa við og horfa á hann, heldur
veittu þeir honum eftirför, svo þeir hefðu ánægjuna því lengur af að
horfa á hann. En hver maður, sem sá hann, beiddi þúsundfaldrar blessunar
foreldrum þeim, sem ættu svo fagurt barn.
Nú hittist svo á, að geldingurinn gekk með Agib fram hjá sölubúð
bakarans, sem hafði ættleitt Bedreddín; nú var bakarinn dáinn og hafði
Bedreddín erft eftir hann búðina og allt það, er hann átti. Var nú Bedreddín
orðinn húsbóndi, og var svo góður bakari, að hann var orðlagður
um alla borgina. Þegar hann sá svo margt fólk fyrir utan dyr sínar, sem
var að horfa á Agib og svarta geldinginn, þá fór hann líka að virða þá
fyrir sér.“
Þá þagnaði Sjerasade, því morgunbjarminn var á lofti, og stóð Sjarjar
upp, þótt hann langaði mjög til að vita, hvað þá hefði orðið, er þeir
Agib og Bedreddín fundust. Undir lok hinnar næstu nætur sagði Sjerasade
honum framhald sögunnar á þessa leið:
130. NÓTT. „Bedreddín Hassan horfði einkum á Agib, og fékk ekki
að því gert, að hann komst við, þó hann gæti ekki gert sér grein fyrir
því. Hann varð ekki gagntekinn af hinni ljómandi fegurð drengsins, eins
og lýðurinn, heldur var það annað, sem olli geðshræringu hans. Hinum
viðkvæma föður rann blóðið til skyldunnar, hann hætti við vinnu sína,
gekk til Agibs og mælti með vinsemd og blíðu: „Kæri yngispiltur, mér
lízt vel á yður; gerið svo vel að koma inn í búð mína, og neytið nokkurs
af kræsikökum mínum, svo ég hafi þá unun á meðan að horfa á yður, sem
mér leikur lyst til.“ Um leið og hann mælti þetta, vöknaði honum um
augu; viknaði þá sveinninn Agib og sagði við geldinginn: „Mér lízt vel
á þenna mann, hann hefur líka talað svo blíðlega til mín, að ég verð að
láta að beiðni hans. Við skulum fara inn til hans og borða dálítið af
sætabrauðskökum.“ „Það væri þokkalegt,“ svaraði þrællinn, „ef vezírssonur
æti brauð í bakarabúð. Verið ekki svo einfaldir að halda, að ég
lofi yður það.“ Þá mælti Bedreddín Hassan við Agib: „Hörmulegt er
það, að yður skuli vera fenginn slíkur leiðtogi, sem er svo harður við
yður.“ Sneri hann sér síðan að geldingnum og mælti enn fremur: „Kæri,
meinið ekki unglingi þessum að láta að bæn minni; gerið mér ekki þá
skapraun. Sýnið mér heldur þá virðingu, að koma inn með okkur og
sannið með því málsháttinn: „Að oft er dyggð undir dökkum hárum.
Það skuluð þér og vita, að ég veit ráð til að gera yður hvítan, svo svartur
sem þér eruð.“
Geldingurinn gat ekki að sér gert að hlæja að þessu, og spurði Bedreddín,
í hverju leyndardómur þessi væri fólginn. „Ég skal kenna yður
hann seinna,“ anzaði Bedreddín og fór með vísu, sem kveðin var til lofs
hinna svörtu geldinga; var í henni svo til orða tekið, að þeir væru konungum
til sæmdar og öllum höfðingjum og stórmennum til verndar.“
Gekkst geldingurinn fyrir hóli þessu, og lét nú eftir bakaranum; gengu
þeir svo allir inn í búðina. Varð þá Bedreddín sárglaður, að þessari ósk
hans varð framgengt, tók aftur til vinnu sinnar og mælti: „Ég var áðan
að búa til rjómatertur, og vil ég þið borðið þær ef ykkur líkar; veit ég,
að þær eru mesta sælgæti, því móðir mín bakaði þær afbragðs góðar, en
ég hef lært það af henni; enda kaupa því nær allir borgarbúar rjómatertur
hjá mér.“ Að svo mæltu tók hann rjómatertu út úr ofninum, stráði
hana sykri og granatepliskornum, og setti fyrir Agib, og þótti honum
kakan afbragðs ljúffeng; geldingnum gaf hann aðra, og smakkaðist honum
ekki síður. En á meðan horfði Bedreddín Hassan vandlega á gesti
sína og felldi tár af augum, því honum kom til hugar, að nú kynni hann
að eiga eins fríðan son og Agib var, með hinni yndislegu konu, sem hann
var svo snögglega og hörmulega sviptur. Hann spurði Agib, hvernig
stæði á komu hans til Damaskus, en geldingurinn gaf sveininum engan
tíma til að svara því, heldur rak eftir honum, að koma til afa síns, og
fór hann burt með hann þaðan, jafnskjótt sem þeir höfðu snætt terturnar.
Bedreddín Hassan lét sér ekki nægja að horfa á eftir þeim, er þeir
fóru, heldur læsti hann sölubúð sinni í snatri og gekk á eftir þeim.
131. NÓTT. Áður en þeir Agib og geldingurinn voru komnir að borgarhliðinu,
náði Bedreddín þeim; þótti geldingnum þetta kynlegt og
kallaði til hans reiðilega: „Þú ert furðu óskammfeilinn, hvað viltu?“
„Stillið yður, vinur!“ mælti Bedreddín, „ég á erindi út úr borginni og
þarf að annast ýmislegt.“ En geldingurinn lét sér ekki lynda svar þetta
og sagði við Agib: „Þetta á ég upp á yður; mig grunaði allténd, að ég
mundi iðrast góðsemi minnar; það voruð þér, sem vilduð fara inn í
búðina, og var fásinna, að láta það eftir yður.“ Þá svaraði Agib: „Hann
kann að eiga erindi út úr borginni; vegurinn er hverjum manni heimill.“
Gengu þeir síðan leiðar sinnar þangað til þeir komu nálægt tjaldstað
vezírsins; litu þeir þá við til þess að sjá, hvort Bedreddín væri á eftir
þeim. En er Agib sá, að hann var í hælunum á þeim, brá honum svo við,
að hann ýmist roðnaði eða bliknaði, eftir því sem honum deildist hugur.
Óttaðist hann að afi sinn, vezírinn, mundi komast að því, að hann hefði
farið inn í bakarabúð, og etið þar, þreif hann því upp stóran stein og
kastaði honum í Bedreddín; kom steinninn í ennið, svo að blóð stökk
um andlit honum. Því næst hljóp Agib þaðan, sem fætur toguðu, og faldi
sig undir tjaldi einu með geldingnum; sendi geldingurinn Bedreddín
tóninn og sagði, að hann mætti ekki kvarta undan meiðslunum, því þau
væru sjálfskaparvíti.
Á leiðinni heim til borgarinnar leitaðist Bedreddín við að stöðva blóðrásina
með skyrtu sinni; hugsaði hann þá með sér: Það var rangt af mér,
að fara að heiman og hræða svo dreng þenna, og því að eins fór hann
svona með mig, að hann hélt mér væri illt í hug. Síðan lét hann binda
sárið heima, og huggaði sig í óláni sínu með þeirri hugsun, að fjöldi
manna í heiminum væri ólánsamari en hann.
132. NÓTT. Bedreddín Hassan hélt áfram atvinnu sinni og var bakari
í Damaskus eins og fyrri; fór föðurbróðir hans þaðan leiðar sinnar
eftir þriggja daga dvöl og hélt til Emesa, þaðan til Hamasj og til Aleppó;
þar dvaldi hann í tvo daga. Þaðan fór hann yfir Efrat til Mesopotamíu;
kom hann við í borgunum Mardín, Mússúl, Sengíra, Díarbeker og mörgum
öðrum; loksins náði hann til Balsora og beiddi þar leyfis að finna
soldán að máli. Veitti soldán það undir eins og hann vissi um tign Sjemseddíns
Móhammeðs, tók vinsamlega á móti honum og spurði, hverra erinda
hann væri kominn til Balsora. En er hann heyrði, að vezír Egipta
soldáns væri að leita að syni Núreddíns Alís, mælti hann: „Núreddín
Alí er fyrir löngu dáinn, en um son hans veit ég það frekast, að hann
hvarf skyndilega tveimur mánuðum eftir andlát föður síns og hef ég
ekkert frétt af honum síðan, og hef ég þó látið vandlega leita að honum.
En móðir hans, sem er dóttir eins af vezírum mínum, er enn á lífi.“ Beiddi
þá Sjemseddín Móhammed leyfis að sækja hana heim og hafa hana með
sér til Egiptalands; var honum leyft það. Því næst lét hann undir eins
vísa sér á hús hennar, og fór þangað með dóttur sína og dótturson, því
hann langaði svo mjög að kynnast henni, að hann ekki hafði eirð á að
bíða til næsta dags.
Ekkja Núreddíns Alís bjó í sama húsi, sem maður hennar hafði dáið
í. Tafði Sjemseddín Móhammed sig ekki á því að skoða húsið, sem var
mikilfenglega og skrautlega byggt og prýtt fögrum marmarasúlum; hann
kyssti dyrnar og marmaratöflu eina, er nafn bróður hans var skrifað á
með gullnu letri, og sagðist vilja finna mágkonu sína að máli. Vísuðu
þjónarnir honum inn í víðan garð, og stóð í honum miðjum hús með
kúptum stöpli; hafði hin ástríka móðir látið gera það til minningar um
[1337.png: Kom Schemseddin að henni, yfirkominni af harmi]
Bedreddín Hassan, er hún ætlaði dauðan, og sat hún þar því nær ætíð,
dag og nótt. Nú bar einnig svo til, að hún var þar stödd og harmaði
son sinn, kom Sjemseddín að henni, yfirkominni af harmi, í því hún
mælti fram vísu þessa:
/#
Er þá fylkir fegurðar
falinn kumli lágu,
hann, sem augnayndi var
allra þeirra, er sáu?
#/
Heilsaði hann henni þá og beiddi hana að fella niður harmatölur
sínar og kveinstafi um stund; gerði hann uppskátt fyrir henni, að hann
væri mágur hennar og sagði henni, í hverju skyni hann væri kominn
til Balsora.
133. NÓTT. Vezírinn Sjemseddín Móhammed sagði mágkonu sinni
frá öllu því, er gerzt hafði í brúðkaupi Fríðu, dóttur hans, í Kairó, og
að hann hefði fundið kver í höfuðbúnaði Bedreddíns með eiginhandarriti
bróður síns. Því næst sýndi hann henni Agib og móður hans og sagði
henni, hver þau væru. Ekkjan sat grafkyrr, eins og hún sinnti engum
veraldlegum hlutum, en undir eins og hún heyrði af sögusögn mágs
síns, að sonur hennar, er hún syrgði svo sárt, væri enn á lífi, reis hún
á fætur og faðmaði að sér Fríðu og Agib með innilegri blíðu. Sá hún,
að hann hafði svip Bedreddíns og grét nú feginstárum; ætlaði hún aldrei
að þreytast á að kyssa sveininn. En Agib lét blíðlega að ömmu sinni, og
var hinn glaðasti; sagði þá Sjemseddín Móhammed mágkonu sinni, að
nú skyldi hún láta af öllum gráti og harmi. „Þú skalt“, mælti hann, „búast
til að fylgja okkur til Egiptalands; hefur soldán Egiptalands þegar
samþykkt það, og vona ég að þú synjir okkur ekki þíns samþykkis. Munum
við að líkindum finna son þinn, og fari svo, á vel við að færa í letur,
til fróðleiks komandi kynslóðum, sögu hans, sögu þína, dóttur minnar
og mína.“ Ekkja Núreddíns Alís tók þessum kosti feginshugar og lét
samstundis hafa allan viðbúnað til ferðarinnar. Beiddi Sjemseddín Móhammed
aftur leyfis að tala við soldán og kveðja hann; fór hann af hans
fundi, sæmdur hinni mestu virðingu, og voru honum fengnar meðferðis
gjafir til Egiptasoldáns. Lagði hann þessu næst af stað heimleiðis þann
veginn, er liggur um Damaskus.
Þegar hann var kominn nálægt borg þessari, lét hann setja tjöld sín
fyrir utan það hlið, sem hann ætlaði í gegnum inn í borgina; kvaðst
hann mundu standa þar við í þrjá daga, svo að föruneyti sitt gæti hvílt
sig; ætlaði hann að kaupa þar gjafir handa Egiptalands soldáni. Meðan
hann var að kjósa úr hinum fegursta vefnaði, er kaupmenn komu með í
tjald hans, beiddi Agib svarta geldinginn, siðameistara sinn, að fylgja
sér um borgina. Kvaðst hann ætla að skoða það betur, er hann áður að
eins hefði séð í flýti; sagði hann sér og vera hug á að vita, hvernig bakaranum
liði, sem hann hefði kastað til steininum svo að kom í höfuðið.
Geldingurinn lét það fúslega eftir honum, og er Fríða hafði gefið þeim
leyfi til, gengu þeir inn í borgina um Paradísarhliðið, sem næst var tjöldum
vezírsins. Gengu þeir um opinber pláss og torgin, sem full voru af
hinum dýrasta varningi, því næst komu þeir í hið forna Ommíada musteri,
meðan trúaðir menn voru að safnast þangað til bænagjörðar milli
hádegis og sólarlags; eftir það gengu þeir til búðar Bedreddíns Hassans.
Fékkst hann enn við að baka rjómatertur eins og fyrri, og kannaðist hann
við Agib jafnskjótt sem hann heilsaði honum. „Munið þér til að við
höfum sézt fyrr?“ mælti Agib; horfði þá Bedreddín Hassan á hann, en
viknaði ósjálfrátt eins og í fyrra skiptið; rann svo út í fyrir honum, að
hann gat ekki komið upp orði og svarað honum. En er hann hafði jafnað
sig, bauð hann Agib og geldingnum, að koma inn og borða hjá sér rjómatertur.
Beiddi hann Agib að fyrirgefa sér, að hann hefði gert hann hræddan,
[1339.png: Munið þér til að við höfum sézt fyrr?]
þegar hann elti hann út úr borginni. „Ég réði mér ekki,“ sagði hann,
„eitthvert hulið afl dró mig á eftir yður; ég megnaði ekki að standa á
móti því.“
134. NÓTT. Þegar Agib heyrði þetta, undraðist hann og mælti: „Vinsemd
sú, er þér sýnið mér, keyrir fram úr öllu hófi, og ekki fer ég inn
með yður, nema þér sverjið mér, að elta mig ekki, þegar ég fer héðan.
En ef þér gerið það og standið við orð yðar, skal ég koma á morgun
meðan vezírinn, afi minn, er að kaupa gjafir handa Egiptalands soldáni.“
Lofaði Bedreddín að gera honum allt að óskum og fór nú Agib inn í búðina
með geldingnum og gaf bakarinn þeim rjómatertu að eta, sem ekki
var lakari en sú, er hann hafði borið á borð í fyrra skiptið. Settist Bedreddín
hjá Agib og snæddi líka, var hann þá svo afar glaður, að hann
ætlaði að faðma sveininn, en hann hratt honum frá sér og mælti: „Stillið
yður, vinahót yðar eru of áköf. Látið yður nægja að sjá mig og tala við
mig.“ Hlýddi Bedreddín orðum hans og hætti að snæða; kvað hann þá
vísu af munni fram Agib til lofs.
En er gestir Bedreddíns Hassans voru hættir að eta, færði hann þeim
vatn til handaþvottar og hvítt handklæði. Því næst byrlaði hann svaladrykk
og kældi hann með ís og bar Agib svo mælandi: „Drekkið, þetta
er hinn bezti rósadrykkur, sem fæst í allri borginni, og munuð þér aldrei
hafa bragðað slíkan.“ Drakk Agib hann og þótti hann afbragðs ljúffengur;
tók þá Bedreddín við drykkjarkerinu og hellti á handa geldingnum
og renndi hann það út í einum teig. Þeir Agib og siðameistari
hans þökkuðu nú bakaranum fyrir veitingarnar og flýttu sér heim, því
framorðið var. Þegar þeir komu til tjalda vezírsins, gengu þeir fyrst til
kvennatjaldsins; fagnaði amma Agibs afturkomu hans og faðmaði hann
grátandi, því hún hafði ætíð Bedreddín son sinn í huganum. Tók hún
til máls: „Sonur, þá væri fögnuður minn fullkominn, ef ég mætti faðma
hann Bedreddín Hassan, föður þinn, eins og ég faðma þig.“ Bjó hún þá
til kvöldverðar, lét Agib setjast hjá sér, og gat til, að hann mundi koma
svangur heim. Bar hún þá á borð fyrir hann sneið af rjómatertu, er hún
sjálf hafði tilreitt, enda var hún afbragð. Vitum vér nú af sögu Bedreddíns,
að engum bakara var það betur gefið en henni. Gaf hún geldingnum
líka af henni, en bæði hann og Agib höfðu borðað svo mikið
hjá Bedreddín, að þeir vildu ekki einu sinni smakka á henni.
135. NÓTT. Agib snerti varla á þeirri sneið, sem honum var fengin
og lét hann eins og sér smakkaðist ekki, og setti hana frá sér; allt að einu
gerði Sjaban,[* Sjaban er algengt geldings nafn.]
geldingurinn. Þegar ekkja Núreddíns Alís sá það, mælti
hún: „Hvernig stendur á því, sonur, að þú vilt ekki þiggja það, sem ég sjálf
hef tilreitt? Þú skalt vita, að enginn maður getur bakað slíkar rjómatertur,
nema hann Bedreddín Hassan, faðir þinn, og hann hefur lært það
af mér.“ „Amma mín góð,“ anzaði Agib, „ef þú ekki getur búið þær til
betri, þá læt ég þig vita, að hérna í borginni er bakari, sem tekur þér
langt fram í þessari list. Við átum eina hjá honum áðan, og var hún miklu
betri en þessi.“
Þegar amma Agibs heyrði þetta, leit hún með reiðisvip til geldingsins
og mælti: „Hvað er þetta, Sjaban! Þér er skipað að hafa gætur á sonarsyni
mínum, og þú fer með hann til bakara og lætur hann éta þar, eins
og húska?“ Þá svaraði geldingurinn: „Það er aldrei nema satt, að við
töluðum stundarkorn við bakara, en við neyttum einskis hjá honum.“
„Fyrirgefið,“ mælti Agib, „við vorum í búðinni hans og átum þar heila
rjómatertu.“ Reiddist þá hin gamla kona geldingnum enn meir; hún
rauk upp úr sæti sínu og flýtti sér í tjaldið til Sjemseddíns Móhammeds
og kærði svo skörulega fyrir honum athæfi Sjabans, að hann stórreiddist
honum. Var hann í rauninni uppstökkur, og hafði oft fokið í hann af
minna; fór hann að vörmu spori til tjalds mágkonu sinnar og sagði við
geldinginn með miklum þjósti: „Þorparinn þinn, dirfist þú að bregðast
svo svívirðilega því trausti, sem á þér er haft?“
Þó að vitnisburður Agibs hefði nú nógsamlega komið upp um Sjaban,
þrætti hann samt fyrir; en sveinninn stóð annarsvegar fast á því, er hann
einu sinni hafði sagt, og sór afa sínum, að þeir hefðu báðir etið svo
mikið, að þeir þyrftu einskis kvöldverðar. Kvað hann bakarann þar
ofan hafa veitt þeim rósadrykk. „Þú hinn vondi þræll!“ sagði vezírinn
við Sjaban, „ætlarðu alltaf að þræta fyrir?“ Var Sjaban svo ósvífinn, að
hann sór, að hann hefði ekki talað annað en hreinan sannleikann. En
vezírinn skammaði hann og kallaði hann lygara; kvaðst hann betur trúa
dóttursyni sínum en honum; en samt skyldi hann trúa orðum hans, ef
hann æti rjómatertu þá, er á borðinu stóð. Þó nú Sjaban hefði áður étið
yfir sig, ætlaði hann samt að gangast undir skírslu þessa, og tók eina
sneið af tertunni; en undir eins og hann bragðaði á henni, varð honum
óglatt, svo að hann varð að hætta við. Allt fyrir það barði hann lygina
blákalt fram og sagðist hafa étið svo mikið daginn áður, að hann hefði
enga matarlyst. Varð nú vezírinn uppvægur af ósannsögli hans og með
því hann var sannfærður um, að hann mundi vera sekur, lét hann gefa
honum iljastroku; en við þá ráðningu meðgekk þrællinn. Játaði hann
upp á sig veinandi og emjandi, að hann hefði étið rjómatertu með Agib
hjá bakara einum, og hefði hún verið margfalt betri en sú, sem á borðinu
stóð.
Mágkona vezírsins hélt að geldingurinn vildi skaprauna sér með játningu
þessari og sagði því við hann: „Ég trúi því ekki, að rjómatertur
bakarans séu betri en mínar, og vil ég komast fyrir, hvort svo er. Sæktu
því rjómatertu til hans undir eins.“ Lét hún fá geldingnum peninga til
að kaupa fyrir, og fór hann síðan til Bedreddíns. „Bakari góður!“ mælti
hann, „hérna eru peningar, látið þér mig fá rjómatertu fyrir þá; eina af
húsmæðrum mínum langar til að smakka á þeim.“ Þá vildi svo til að Bedreddín
hafði nokkrar glænýjar og glóðvolgar, og valdi hann úr einhverja
hina beztu, og sagði um leið, að enginn af þeim mönnum, sem nú væru
uppi, mundi geta búið til slíka, nema móðir sín, ef hún væri enn á lífi.
Sneri nú geldingurinn aftur til tjaldanna með rjómatertuna og fékk
ekkju Núreddíns Alís, en hún tók fegin við. En jafnskjótt sem hún hafði
látið einn bita af henni upp í sig, rak hún upp hljóð og hné í ómegin.
Sjemseddín Móhammed, sem viðstaddur var, varð forviða og stökkti sjálfur
vatni í andlit mágkonu sinnar og stumraði yfir henni. Þegar hún var
komin til sjálfrar sín, kallaði hún upp: „Guð minn, þessa tertu hefur hann
Bedreddín sonur minn bakað.“
136. NÓTT. Þegar vezírinn Sjemseddín Móhammed heyrði, að móðir
Bedreddíns Hassans fullyrti, að hann hefði bakað rjómatertu þá,
er geldingurinn kom með, varð hann óumræðilega glaður. En er
hann fór að hyggja betur að, þótti honum það harðla ólíklegt, og
spurði hana, af hverjum ástæðum hún héldi það, og hvort enginn
bakari mundi baka eins góðar rjómatertur og Bedreddín Hassan. „Vera
kann það,“ svaraði hún, „að til séu þeir, sem það geta, en með því
ég hef frábrugðna aðferð, og hef engum kennt leyndardóm þenna,
nema honum, hlýtur hann fortakslaust að hafa bakað tertuna. Látum
okkur vera glöð, bróðir minn! Nú höfum við loksins fundið hann,
sem við höfum svo lengi þráð.“ Var hún þá næsta óðlát, en vezírinn
beiddi hana að stilla sig og mælti: „Við skulum ekki vera lengi í vafa
um þetta, og þarf ekki annars en að senda eftir bakaranum, og munt þú
og dóttir mín fljótt kannast við, ef hann er Bedreddín Hassan. En
þið verðið að fela ykkur fyrir honum, og aldrei láta hann sjá ykkur, þó
þið horfið á hann, því mér er ekki um að láta fagnafund hans og
okkar verða hér í Damaskus. Ætla ég að fresta því, þangað til við komum
til Kairó; skal ég þar halda gleðihátíð, sem þú munt hafa mestu
skemmtun af.“
Vezírinn gekk frá konunum og heim í tjald sitt; kallaði hann á fimmtíu
menn af liði sínu og mælti: „Hver yðar taki staf í hönd sér og fylgi
Sjaban til bakara eins í borginni, sem hann þekkir. Undir eins og þér
eruð komnir að búð hans, skuluð þér mölva allt, er þér sjáið, og spyrji
hann yður, því þér gerið slíkt spellvirki, skuluð þér aftur spyrja hann,
hvort hann hafi ekki bakað rjómatertuna, sem sótt var til hans. Ef hann
játar því, skuluð þér taka hann fastan, en varist að berja hann, eða gera
honum nokkurt mein. Farið nú af stað og flýtið ykkur.“ Hlýddu þeir óðara
skipun vezírsins, og er geldingurinn hafði fylgt þeim inn í sölubúð
Bedreddíns Hassans, mölvuðu þeir allt í sundur, diska, skálar, staup,
krukkur, brauðmót, pönnur og öll húsgögn, sem þar voru; synti allt
húsið í sykurlegi, rjóma og víni. Varð Bedreddín Hassan frá sér, er hann
sá þessar aðfarir, og spurði kveinandi, því svo væri farið með sig og hvað
hann hefði misgert. Sögðu þeir þá í einu hljóði: „Hefur þú ekki bakað
rjómatertuna, sem geldingurinn keypti?“ „Það hef ég gert,“ svaraði hann,
„hvað varð að henni fundið? Ég skora á hvern, sem þorir, að fara í kapp
við mig, og gera aðra betri.“ Svöruðu sendimenn vezírsins honum engu,
heldur héldu þeir áfram að brjóta í sundur, hvað sem fyrir varð, og rifu
jafnvel bakstursofninn niður. Meðan á þessum ósköpum gekk, höfðu
nábúarnir flykkzt að, þegar þeir heyrðu skarkalann; urðu þeir forviða,
er þeir sáu fimmtíu vopnaða menn gera slíkan usla og vildu vita, hvað
þeim gengi til svo óheyrilegs athæfis. Tók Bedreddín aftur til máls og
sagði: „Ég bið yður fyrir alla muni að segja mér, hvað ég hef til saka
gert, fyrst þið brjótið allt í sundur fyrir mér?“ „Hefur þú ekki bakað
rjómatertuna, sem geldingurinn keypti?“ spurðu þeir aftur. „Raunar
hef ég gert það,“ svaraði hann, „en það fullyrði ég, að hún var góð í alla
staði, og á ég ekki slíka meðferð skilið.“ Síðan tóku þeir hann fastan,
röktu höfuðbúnað hans í sundur, og bundu með honum hendur hans á
bak aftur; drógu þeir hann með ofbeldi út úr búðinni og fóru burt með
hann. Mannþyrping sú, er saman hafði hlaupið, kenndi í brjósti um
Bedreddín, og ætlaði að verja hann, en í sama bili komu erindrekar
lögreglustjórans í borginni, tvístruðu lýðnum, og leyfðu mönnum vezírsins
að fara með bakarann; hafði Sjemseddín Móhammed látið lögreglustjórann
vita, hvað hann hafði skipað mönnum sínum að gera, og hafði
hann beiðzt hans liðsinnis. En hann var hyggnari en svo, að hann léti
nokkuð á móti vezír Egiptasoldáns, herra síns.
137. NÓTT. Nú var Bedreddín dreginn áfram þrátt fyrir óp hans og
grát; svöruðu ofríkismennirnir honum engu, þó hann hvað eftir annað
spyrði þá, hvað verið hafði að tertunni; en er þeir voru komnir til tjalda
vezírsins, varð hann að bíða þangað til hann kom aftur frá lögreglustjóra
borgarinnar. Þegar vezírinn var kominn, lét hann undir eins leiða bakarann
fyrir sig. Beiddi hann vezírinn með tárin í augunum að segja sér,
með hverju hann hefði reitt hann til reiði. Svaraði þá vezírinn: „Óláns
maður, hefur þú ekki bakað rjómatertuna, sem sótt var handa mér?“
„Það játa ég,“ anzaði Bedreddín, „en hvað hef ég afbrotið með því?“ „Ég
skal hegna þér eins og þú hefur til unnið,“ mælti vezírinn, „og skaltu
láta lífið fyrir, að þú hefur bakað svo ónýta tertu.“ „Guð varðveiti mig!“
æpti Bedreddín, „á ég að trúa því, sem ég heyri? Er það þá dauðasök, að
baka slæma rjómatertu?“ „Svo er í sannleika,“ mælti vezírinn, „og átt
þú ekki annars von af mér.“
Meðan þeir töluðu þetta saman, höfðu báðar konurnar, sem voru í
felum, virt Bedreddín Hassan gaumgæfilega fyrir sér; þekktu þær hann
undir eins, þó langt væri um liðið, síðan þær sáu hann. Urðu þær svo
óumræðilega glaðar, að þær hnigu í ómegin; en er þær voru raknaðar
við, gátu þær varla stillt sig um að hlaupa um háls hins ástkæra manns,
sem nú var aftur fundinn, og aftraði þeim ekki annað en það, að þær
höfðu lofað vezírnum að láta hann ekki sjá sig. Hafði Sjemseddín Móhammed
ákveðið, að þau skyldu fara af stað áður en náttaði; lét hann því
taka upp tjöldin og búa vagnana til burtferðar. Skipaði hann að læsa
Bedreddín Hassan í rammgjörva örk, og láta hana upp á úlfalda. En er
allt var tilbúið, lagði vezírinn af stað með föruneyti sínu, og lét ekki
staðnæmast fyrr en undir næstu nótt. Var þá Bedreddín Hassan tekinn
út úr örkinni, og var honum gefið að eta, en þess var vandlega gætt, að
hann kæmi ekki nærri konu sinni eða móður; var þannig farið með hann
á allri ferðinni, en hún stóð í tuttugu daga.
Þegar vezírinn var kominn til Kairó, lét hann setja tjöldin fyrir utan
borgina; því næst lét hann leiða Bedreddín fram, og skipaði í viðurvist
hans timburmanni einum að sækja við og reisa upp staur í flýti. Þá spurði
Bedreddín: „Herra, til hvers látið þér reisa staurinn?“ og svaraði vezírinn:
„Ég ætla að láta binda þig við hann, og síðan láta bera þig um alla
borgina, til þess menn skuli sjá svívirðilegan bakara, sem engan pipar
lætur í rjómaterturnar.“ Varð þá svo skoplegt að sjá og heyra, hvað aumlega
Bedreddín bar sig, að Sjemseddín Móhammed gat varla stillt sig um
að hlæja. „Guð minn!“ æpti Bedreddín, „á að lífláta mig með slíkri
grimmd og háðung fyrir það, að ég lét engan pipar í rjómatertuna?“
138. NÓTT. Svo alvörugefinn, sem kalífinn Harún Alrasjid var, gat
hann samt ekki annað en hlegið, þegar hann heyrði, að Sjemseddín Móhammed
hefði hótað Bedreddín Hassan lífláti fyrir það, að hann hefði
ekki látið neinn pipar í rjómatertu þá, er hann seldi. Hélt Bedreddín
Hassan áfram að bera upp kveinstafi sína á þessa leið: „Var þá allt mölvað
í húsi mínu, var ég sjálfur hnepptur í örkina og dæmdur til dauða
fyrir það, að ég lét engan pipar í rjómatertuna? Drottinn minn, eru slíks
dæmi? Geta trúaðir breytt þannig? Geta þeir farið þannig að ráði sínu,
[1345.png: Þú manst víst glöggt, hvernig til hagaði í brúðarhúsi þínu.]
sem þjóna réttlætinu og gera alls konar góðverk? Aldrei hefur nokkur
maður orðið fyrir slíku ranglæti og hörku sem ég; getur það átt sér stað,
að nokkur maður ráði annan af dögum fyrir það, að hann hefur ekki
látið pipar í rjómatertu? Bölvaðar séu allar rjómatertur, bölvaður sé
fæðingardagur minn. Guð gæfi ég mætti deyja hér samstundis.“
Þannig kveinaði Bedreddín og barmaði sér grátandi og óhuggandi.
En er staurinn var tilbúinn og borinn fram, rak hann upp hljóð við þá
hina hryllilegu sjón, og mælti: „Guð minn, lætur þú viðgangast, að ég
deyi svívirðilegum og kvalafullum dauða? Hvern glæp hef ég drýgt? Ekki
þjófnað eða manndráp, ekki hef ég heldur afneitað guði mínum; öll yfirsjón
mín er sú, að ég lét engan pipar í rjómatertuna.“ Var nú komið
fram á nótt, og lét því vezírinn aftur læsa Bedreddín dauðhræddan í
örkina, og sagði við hann: „Sittu þar til morguns, og skaltu ekki lifa til
annars kvölds.“ Örkin var aftur látin upp á úlfaldann, og var líka látið
upp á hina úlfaldana; fór vezírinn á bak og lét flytja Bedreddín í örkinni
á undan sér, og reið hann því næst inn í borgina með föruneyti sínu.
Nú sem ferðafólkið með lestinni hafði farið gegnum mörg stræti, kom
það loksins til vezírshallarinnar; var þá örkin ofan tekin, en bannað að
ljúka henni upp, fyrr en skipað væri. Meðan nú verið var að taka ofan
af hinum úlföldunum, tók Sjemseddín Móhammed mágkonu sína og
dóttur afsíðis, og sagði við dóttur sína: „Guði sé lof, að hann hefur látið
oss farsællega aftur finna bróðurson minn og eiginmann þinn. Þú manst
víst glöggt, hvernig til hagaði í brúðarhúsi þinu. Láttu nú búa það að
öllu eins og það var þá, en ef þú manst nokkuð ógjörla, skaltu líta í
lýsingu þá, er ég samdi. Meðan þú gerir þetta, skal ég sjá um allt hið
annað.“
Fríða gerði feginshugar það, sem faðir hennar sagði, en hann lét að
öllu búa salinn og skreyta, eins og hann hafði verið daginn, sem Bedreddín
Hassan hitti krypplinginn, hestaþræl soldáns. Svaraði ljós ljósi,
auk heldur annað, og er allt var tilbúið, gekk vezírinn inn í herbergi
dóttur sinnar, og lagði klæði Bedreddíns, höfuðbúnað hans og sjóðinn á
stólinn. Sagði hann henni þá, að hún skyldi hátta, en þegar Bedreddín
kæmi, skyldi hún kvarta yfir því, að hann hefði ekki hvílt við hlið henni,
þegar hún vaknaði. Skyldi hún neyða hann til að leggjast fyrir aftur.
Lauk vezírinn þannig ræðu sinni: „Á morgun skaltu skemmta mágkonu
minni og mér með því að segja frá, hvernig fer í nótt.“ Að svo mæltu
skildi vezírinn við dóttur sína.
139. NÓTT. Þegar Sjemseddín Móhammed hafði látið alla þjónana
fara burt úr salnum, nema tvo eða þrjá, skipaði hann þeim að taka Bedreddín
úr örkinni og koma með hann inn í salinn í skyrtu og nærbuxum,
láta hann þar einan og loka dyrunum. Svo harmþrunginn sem Bedreddín
var, hafði hann þó sofnað út af, og lá í fastasvefni, og tókst þjónunum
að afklæða hann og færa í skyrtu og nærbuxur, áður en hann vaknaði,
og báru þeir hann svo fljótt inn í salinn, að hann fékk ekki áttað
sig. En er hann var kominn þangað, og leit til allra hliða, varð allt, sem
þar var, til þess að minna hann á brúðkaup hans; hann þekkti aftur salinn,
þar sem hann hafði hitt krypplinginn, og varð nú forviða. Þó brá
honum mest við, er honum varð gengið að herbergisdyrum nokkrum, er
opnar voru, og leit þar inn, því hann sá þar föt sín á sama stað, sem hann
mundi, að hann hafði látið þau á brúðkaupsnóttinni. „Guð minn!“ mælti
hann, „sef ég eða vaki?“ Fór hann að núa stýrurnar úr augum sér, en
Fríða, sem hafði horft á hann, og haft gaman af undrun hans, tók þá
sundur rúmtjöldin og gægðist út með höfuðið, og mælti með blíðlætis
rómi: „Elskan mín, hvað ertu að gera þarna við dyrnar? Komdu og
leggstu fyrir aftur. Þú hefur látið mig bíða svo lengi eftir þér, og mér
varð illt við, þegar ég sá, að þú varst horfinn úr rúminu.“ Kom nú annar
svipur en verið hafði á Bedreddín, er hann þekkti þar hina yndislegu
brúður, sem hann mundi glöggt að hann hafði sofið hjá. Gekk hann því
inn í herbergið, en ekki háttaði hann, því hann var eins og ringlaður af
öllu því, er drifið hafði á daga hans í tíu ár, sem honum var ómögulegt
að skilja, að gerzt hefði á einni nótt; gekk hann þá að stólnum, er klæði
hans og sjóðurinn lágu á. Skoðaði hann hvorttveggja vandlega og mælti:
„Guð minn, þessir hlutir eru mér óskiljanlegir.“
Fríða hafði gaman af fáti því, er var á Bedreddín og mælti: „Komdu
nú og leggstu fyrir; hvað tefur þig?“ Þá gekk Bedreddín til konu sinnar
og mælti: „Seg mér fyrir hvern mun, hef ég verið hjá þér lengi?“ „Mér
þykir þú spyrja skrítilega,“ anzaði hún, „gekkstu ekki frá mér rétt nýlega?
Þú ert einhvernveginn utan við þig.“ „Svo mikið man ég, að ég hef verið
hjá þér,“ mælti Bedreddín, „en ég man líka, að síðan það var, hef ég
verið tíu ár í Damaskus. En hafi ég sofið hér í nótt, er ómögulegt að ég
hafi verið svo lengi í burtu; því verður ekki komið saman. Seg mér nú,
hvað ég á að halda; er gifting mín hugarburður, eða var fjarvera mín
einber draumur?“ „Svo er í sannleika,“ anzaði Fríða, „þig hefur dreymt,
að þú værir í Damaskus.“ „Þá hef ég aldrei heyrt skringilegri sögu en
þessi er,“ mælti Bedreddín og hló hátt, „ég er viss um að þér mun þykja
draumurinn skrítinn. Þú getur því nærri, því svo bar fyrir mig, að ég
var staddur fyrir utan Damaskusborgar-hlið, eins á mig kominn og ég er
nú, og elti mig skrílþyrping inn í borgina og spottaði mig; flýði ég þá
til bakara eins, og tók hann mig í sonar stað og kenndi mér iðn sína; erfði
ég atvinnu hans og sölubúðina eftir hans dag. Auk þess hefur ótal margt
annað viljað mér til, en það væri of langt, að segja frá því öllu, en vel
réðist úr að ég vaknaði, því það átti að negla mig á staur, og var allur
glæpurinn sá, að ég hafði selt rjómatertu, sem enginn pipar var í.“
„Þar voru þér að vísu sýnd óguðleg rangindi,“ svaraði Fríða og skellihló,
en Bedreddín sagði henni enn fremur til sannindamerkis, að allt í
húsi sínu hefði verið mölvað sundur fyrir sér; sagði hann og frá því,
hversu óþyrmilega hefði verið farið með sig. „En guði sé lof,“ mælti hann,
„að allt þetta var ekki annað en draumur.“
140. NÓTT. Fjarri fór því að Bedreddín yrði svefnsamt um nóttina.
Hann vaknaði öðru hverju og spurði sjálfan sig, hvort hann vekti eða
dreymdi. Hann trúði ekki láni sínu, og leitaðist því við að ganga úr
skugga um, hvort hann í rauninni væri svona sæll; brá hann því hvílutjöldunum
í sundur og skimaði allt í kringum sig. „Þetta er enginn hugarburður,“
sagði hann, „það er sama herbergið, sem ég gekk í til brúðurinnar,
sem ætluð var krypplingnum.“ Ljómaði nú af degi og var hann
enn í nokkrum vafa, en þá var barið á dyr, og kom inn Sjemseddín Móhammed,
og bauð honum góðan dag. Brá Bedreddín Hassan í brún, er
hann sá mann, sem hann þekkti svo vel, þó hann væri nú ekki eins ógurlegur,
eins og þegar hann kvað upp dauðadóm hans. „Voruð þér það
ekki,“ sagði hann, „sem fóruð svo svívirðilega með mig, af því ég hafði
ekki piprað rjómatertuna, og dæmduð mig til hryllilegs dauðdaga, svo
að mér enn þá hrís hugur við?“
Þá hló vezírinn, og tók nú af allan efa hans með því að segja honum,
hvernig hann hefði komið í sitt hús fyrir tilstilli anda nokkurs, og átt
dóttur sína — því allt þetta réði vezírinn af sögusögn krypplingsins.
Kvaðst hann hafa séð af eiginhandarriti Núreddíns Alís, því, er hann fann
í höfuðbúnaði hans, að hann væri bróðursonur sinn, og hefði hann því
lagt af stað til Balsora til að leita frétta af honum. „Nú bið ég þig, frændi!“
mælti hann, og faðmaði Bedreddín með mestu ástúð, „að fyrirgefa mér
allar þær hugraunir, sem þú hefur orðið að þola af mínum völdum, síðan
við fundumst. Ég vildi flytja þig hingað áður en þú vissir af láni þínu,
og ætlaðist svo til, að eftir þungar þrautir og hörmungar yrði fögnuður
þinn meiri. Láttu nú huggast af gleðinni, þar sem þú hefur fundið þau,
sem þér hljóta að vera kærust. Nú skaltu fara í önnur föt, en á meðan
skal ég segja móður þinni til, því hún þráir mjög að faðma þig og sýna
þér son þinn; þú sást hann í Damaskus, og hneigðist þá hjarta þitt ósjálfrátt
til hans af elsku, þó þú þekktir hann ekki.“
Því verður ekki með orðum lýst, hversu Bedreddín fagnaði, er hann
sá móður sína og Agib son sinn; föðmuðu þau þrjú hvert annað með
einlægum ástaratlotum og hjartnæmri blíðu. Meðan á því stóð, hafði
Sjemseddín Móhammed farið til soldáns og sagt honum, hversu æskilega
ferðin hafði heppnazt. Varð soldán svo frá sér numinn, er hann
heyrði sagt frá þessum merkilegu atburðum, að hann lét færa sögu þessa
í letur og leggja til geymslu í skjalahirzlu ríkisins. En er vezírinn var
kominn heim, gekk hann með ættfólki sínu til dýrðlegasta borðhalds, er
hann hafði látið búa undir, og ríkti nú hin mesta gleði í húsum hans.“
Þannig lauk stórvezírinn Gíafar við sögu Bedreddíns Hassans, og
sagði við kalífann Harún Alrasjid: „Drottinn rétttrúaðra manna! Þetta
er sagan, sem ég ætlaði að segja yðar hátign.“ Þótti kalífanum sagan svo
frábær, að hann óðara gaf þrælnum Ríhan upp alla hegningu. En til
þess að hugga hinn unga mann, sem sjálfur af hryggilegu óláni hafði
svipt sig heittelskaðri konu, gifti hann honum eina af ambáttum sínum,
veitti honum ótal velgerðir og sýndi honum góðvilja sinn allt til dauða.“
Þegar Sjerasade lauk við sögu þessa, sá til sólar, og með því enginn
tími var til að byrja á nýrri sögu, sagði hún Sjarjar, að hann mætti vera
viss um, að ef hann lofaði sér að lifa, gæti hún sagt honum sögu næstu
nótt, sem væri merkilegri en hinar fyrri. Stóð soldán upp þegjandi, og
var hann á báðum áttum, en loksins réði hann samt af, að láta drottningu
segja sér sögu þessa, því hann vissi ekki, nema hún kynni að vera enn
frábærari en hinar; frestaði hann því lífláti hennar enn til seinni tíma.
[1349.png]
[1350.png]
Sagan af krypplingnum litla
141. NÓTT. „Herra!“ tók Sjerasade til máls, þegar Dínarsade hafði
vakið hana, „einu sinni bjó skraddari í Kasjgar, sem átti afbragðs fríða
konu; höfðu þau hina heitustu ást hvort á öðru. Það var einhvern dag,
er hann sat við vinnu sína, að lítill krypplingur settist fyrir utan sölubúð
hans, og fór að syngja og slá bjöllubumbu. Hafði skraddarinn skemmtun
af þessu, og með því hann vildi, að kona hans líka hefði gaman af
bauð hann krypplingnum heim með sér. Krypplingurinn þáði boðið, og
lokaði skraddarinn búðinni og gekk með honum heim til sín. Þetta var
um kvöldverðar tíma, og hafði skraddarakonan soðið ljúffengan fiskimat;
bar hún hann nú fram og settust þau þrjú saman til borðs. En meðan
þau voru að snæða, hlekktist krypplingnum á, því hann gleypti stórt
fiskbein og dó af því að vörmu spori, og fengu þau hjónin ekki að gert.
Féllst þeim því meira um slys þetta, sem það vildi til á heimili þeirra,
og þau máttu búast við, að þeim yrði refsað eins og morðingjum, þegar
atburður þessi yrði kunnur. En skraddaranum kom úrræði í hug til að
losast við líkið með hægu móti. Þau hjónin tóku það, svo að annað þeirra
hélt undir höfuðið, en hitt undir fæturna, og báru það til húss nokkurs
í nágrenninu, sem læknir einn bjó í; hann var Gyðingur. Þau drápu á
dyr, en þar hagaði svo til, að upp frá þeim gekk brattur stigi til herbergis
læknisins. Ambátt nokkur kom undir eins ofan til dyra og hafði eigi ljós
með sér; lauk hún upp og spurði, hvert erindi þeirra væri. „Segðu húsbónda
þínum,“ önzuðu þau, „að við höfum komið hingað með dauðveikan
mann til þess að hann skyldi ráðleggja honum eitthvert meðal. Fáðu
honum þetta, svo hann ekki skuli halda, að hann muni vinna ókeypis.“
Og laumaði þá skraddarinn silfurpeningi í lófa ambáttarinnar, en á meðan
[1351.png: ...það, sem niður hafði oltið, var dauður maður]
hún fór inn til húsbónda síns, báru þau hjónin líkið í skyndingu upp
stigann, lögðu það niður þar og flýttu sér heim.
Læknirinn brást glaður við boðskap ambáttarinnar og fé það, er honum
galzt fyrir fram; hugsaði hann með sér, að ekki stoðaði, að slá slöku
við sjúklingi, sem svo mikil gróða von var af. „Komdu fljótt með ljósið,“
segir hann við ambáttina og hleypur á undan í myrkrinu að stiganum,
og rak hann þá fótinn svo hart í krypplinginn, að hann valt ofan
stigann og var við sjálft búið, að læknirinn yrði honum samferða. Hann
kallaði eftir ljósi, og þá er ambáttin loksins kom með það, gengu þau
bæði ofan stigann, og sáu þá, að það sem niður hafði oltið, var dauður
maður. Þá varð læknirinn logandi hræddur, ákallaði Móses, Aron, Jósúa
og alla spámenn Gyðinga og mælti: „Ó, mig auman, að ég skyldi æða
að stiganum í myrkrinu. Ég er banamaður sjúklingsins, og mér er glötunin
vís, nema hamingjan hjálpi mér. Bráðum verð ég tekinn fastur eins
og morðingi.“ Svo hræddur sem hann var, hafði hann þó vit til þess, að
láta loka dyrum sínum, svo að enginn af þeim, er fram hjá gengju, kæmist
að óhamingju hans. Loksins bar hann líkið inn í herbergi konu sinnar,
og lá við hún liði í ómegin, er hún sá þessa ólánsbyrði. „Æ,“ kallaði hún
upp, „við erum frá, ef við ekki komum líkinu burt í nótt. Liggi það hér
til morguns, þá verður það okkar bani; æ, hvernig atvikaðist það, að þú
skyldir verða þessum manni að bana?“ „Það skiptir minnstu,“ anzaði
Gyðingurinn, „mestu varðar, að finna gott ráð til að sleppa úr þessum
vandræðum.“
142. NÓTT. Þau hjónin báru nú saman ráð sín og reyndist konan
úrræðabetri, en það var hennar ráð, að bera líkið upp á flatþakið og
fleygja því niður um skorsteininn í húsi nábúa þeirra, sem var mahómedanskrar
trúar, og var soldáni í útvegum fyrir flesk, olíu, smjör og allskonar
feitmeti; geymdi hann vistaforða sinn þar í húsinu, og skemmdist
hann mjög af músum og völskum. Var nú gert að ráði konunnar; krypplingurinn
var borinn upp á þak og látinn með varkárni ofan síga í reipum,
sem smeygt var undir hendur honum, ofan í skorstein nábúans.
Þannig kom hann niður standandi og stóð grafkyrr í sömu stellingu,
þegar reipin voru dregin upp.
Óðar en þau Gyðingahjónin voru komin ofan í hús sitt, kom fleskmangarinn
heim úr brúðkaupsveizlu með skriðljós í hendi, og varð honum
hverft við, er hann sá mann standa á arni sínum. En með því að hann
var engin gunga, og hann hugði, að þetta mundi vera þjófur, greip hann
lurk, óð að krypplingnum og grenjaði hátt: „Bölvaður nokkuð! Ég hélt
að mýsnar og völskurnar ætu frá mér feitmetið, en nú sé ég að þú fer
með það upp um skorsteininn. En ég skal sjá svo um, að þig fýsi ekki
hingað í annað sinn.“ Lamdi hann þá líkið, svo að það datt niður á
grúfu, og varð hann þá því ólmari að lemja, en er hann fann, að maðurinn
hrærði ekki legg né lið, fór hann að skoða skepnu þessa, er hann
misþyrmdi svo mjög, og sá að maðurinn var örendur. Snerist nú reiði
hans upp í hræðslu, og hugsaði hann með sér: „Hvað hef ég gert, ólánssamur
maður? Drepið mann — ég varð of frekur á hefndinni. Drottinn
minn, ef þú ekki hefur miskunn með mér, þá er ég frá og öll von úti.
Bölvuð sé öll olía og feitmeti, því það hefur ginnt mig til þessa óbótaverks.“
Þarna stóð hann náfölur, grafkyrr og ráðalaus, og bjóst við, að
lögregluþjónar mundu þá og þegar koma og draga sig til lífláts.
143. NÓTT. Í fyrstunni hafði fleskmangari soldáns ekki tekið eftir,
að það var krypplingur, sem hann hafði drepið, en er hann sá það, fór
hann að heitast: „Bölvaður krypplingurinn!“ mælti hann, „krypplings
hundur! Guð gæfi, að þú hefðir heldur stolið öllu feitmetinu frá mér,
en að ég skyldi finna þig hérna, þá hefði ég komizt hjá þessum vandræðum,
sem ég hef ratað í vegna þín og kryppunnar á þér. Ó, þér stjörnur
himinsins, látið ljós yðar lýsa mér í þessum voðalega háska.“ Svo mælti
hann, tók krypplinginn upp á herðar sér, bar hann út úr húsinu og allt
til enda strætisins; þar reisti hann líkið keiprétt upp við sölubúð eina,
hljóp síðan heim og þorði ekki að líta aftur fyrir sig.
Skömmu fyrir birtingu vildi svo til, að ríkur kristinn kaupmaður, sem
hafði það umboð, að kaupa flestar nauðsynjavörur til hirðar soldáns,
gekk frá húsi sínu til lauga, því hann hafði alla nóttina verið á svalli.
Svo ölvaður sem hann var, hafði hann þó veður af því, að skammt mundi
eftir nætur, og að bráðum mundi kallað til morgunbæna. Greikkaði hann
því sporið til lauganna, svo að hann næði þangað fyrr en hann gæti orðið
á vegi nokkurra múselmanna, sem til musteris færu, svo að ekki yrði farið
með hann í fangelsi fyrir drykkjuskap. En nú vildi svo til, að hann
nauðsynja vegna þurfti að nema staðar hjá búðinni við strætisendann,
þar sem fleskmangarinn hafði reist upp krypplinginn. Hefur kaupmaður
víst eitthvað komið við hann, því hann féll ofan á bak honum; hélt hann
þá, að þetta væri ræningi, sem réðist á sig, lamdi hann rokna högg í
höfuðið, og kallaði eftir hjálp, um leið og hann lumbraði á líkinu, þar
sem það lá á strætinu. Næturvörður rann á ópið, og er hann sá, að hinn
kristni maður misþyrmdi krypplingnum, sem var Mahómets trúar, spurði
hann hvernig á því stæði. Svaraði þá kaupmaður: „Hann ætlaði að stela
frá mér og reyndi til að grípa fyrir kverkar mér.“ Næturvörðurinn þreif
þá í handlegg honum og mælti: „Þú hefur hefnt þín svo nægir, og farðu
nú burt héðan;“ ætlaði hann þá um leið, að hjálpa krypplingnum á fætur,
en varð þess skjótt áskynja, að hann var örendur, og mælti: „Svona
dirfast kristnir menn að myrða átrúendur Mahómets;“ að svo mæltu tók
hann kaupmann fastan, og fór með hann til lögreglustjóra; var hann þar
hnepptur í varðhald, þangað til dómarinn kæmi á fætur og prófaði hann.
Nú rann af kaupmanninum, og fór hann að hugsa um ævintýri sitt,
og því lengur sem hann hugsaði um það, því óskiljanlegra fannst honum,
að nokkur maður skyldi geta látið líf sitt fyrir svona meðalhnefahöggum.
En allt fyrir það hlaut hann þó að telja sig sekan í glæp þessum, svo sem
öll atvik höfðu verið, og er til prófsins kom, gat hann ekki borið á móti
því. En með því að krypplingurinn hafði verið hirðfífl soldáns, vildi
lögreglustjóri hinna kristnu borgarmanna ekki láta taka hinn kristna
mann af lífi, svo að soldán ekki vissi af.
[1354.png: ...lamdi hann krypplinginn rokna högg]
Fór hann því til hallarinnar og
gerði soldáni grein fyrir málavöxtum; svaraði soldán þá: „Ég get enga
miskunn sýnt kristnum manni, sem drepur Mahómetsmann; farið og
gerið skyldu yðar.“ Lét þá lögreglustjóri reisa gálga og kallara kunngjöra,
að hengja ætti kristinn mann, sem hefði drepið Mahómetsmann.
Á tilteknum tíma var kaupmaður leiddur til gálgans; böðullinn brá snörunni
um háls honum og ætlaði að draga hann upp, en í því ruddist fleskmangarinn
fram í gegnum mannþröngina og kallaði til böðulsins:
„Hættu, hættu! Hann hefur ekki drýgt glæpinn, heldur ég.“ Lögreglustjórinn,
sem var nærstaddur við aftökuna, prófaði hann undir eins, og
sagði fleskmangarinn, hversu hann hefði barið krypplinginn og borið
hann síðan á strætisenda, þar sem kristni maðurinn fann hann. „Mér
nægir,“ sagði hann, „að hafa drepið Mahómetsmann, og vil ég ekki ofþyngja
samvizku mína með dauða saklauss kristins manns.“
144. NÓTT. Þegar nú fleskmangarinn játaði hátt og opinberlega, að
hann hefði myrt krypplinginn, varð lögreglustjórinn að láta kaupmanninn
njóta réttar síns. Hann skipaði því böðlinum að sleppa hinum kristna
manni og hengja í hans stað þann, er sjálfur hafði játað á sig sökina.
Böðullinn hlýddi og ætlaði að smella fleskmangaranum upp í gálgann,
en í því kom læknirinn að, ruddist gegnum mannþröngina að gálganum
og sagði böðlinum að hætta. Og er hann kom á fund lögreglustjóra, sagði
hann, að Mahómetsmaður sá, er hengja átti, væri saklaus; skýrði hann
og frá, hvernig dauði krypplingsins hefði hlotizt af sér óviljandi og
hvernig hann hefði komið líkinu í hús. Kvaðst hann ekki hafa viljað
verða orsök í dauða tveggja Mahómetsmanna, og hefði ráðið af, að afplána
misgjörð sína, vildi hann því ganga í stað fleskmangarans, sem
væri saklaus.
Þegar dómarinn var orðinn sannfærður um, að Gyðingurinn væri
morðinginn, skipaði hann að hengja hann í stað fleskmangarans, sem
hann þá strax lét lausan. Snörunni var brugðið um háls læknisins og
átti hann að deyja í sama vetfangi, en í því lét skraddarinn til sín heyra
og beiddi böðulinn að hinkra við. Ruddist skraddarinn fram fyrir lögreglustjórann
og mælti: „Herra! Nærri lá, að þér hefðuð líflátið þrjá, saklausa
menn, en ef þér viljið veita mér áheyrn, munuð þér komast að
raun um, hver er hinn rétti morðingi krypplingsins.“ Því næst sagði
hann honum, hvernig krypplingurinn hefði komið til búðar sinnar, að
hann hefði farið heim með sér og borðað með sér og hefði hann þá
gleypt fiskbein og dáið af því; síðan kvaðst hann með konu sinni hafa
borið hann til Gyðingsins og lagt hann á efsta þrepið í stiganum. „Þegar
læknirinn gekk út,“ sagði hann, „spyrnti hann við krypplingnum, svo
að hann valt ofan stigann, og hélt hann, að hann á þann hátt hefði orðið
honum að bana. En fyrst málið er nú þannig vaxið, þá sleppið lækninum
og líflátið mig í hans stað.“
Lögreglustjórinn og þeir, sem viðstaddir voru, furðuðu sig stórum á
hinum kynlegu atvikum, sem orðið höfðu samfara dauða krypplingsins;
skipaði lögreglustjóri að sleppa lækninum og hengja skraddarann í hans
stað, úr því hann gengist við glæp sínum. Brá þá böðullinn snörunni um
háls skraddaranum.
145. NÓTT. Meðan böðullinn bjóst til að hengja skraddarann, hafði
soldán spurt eftir fífli sínu, krypplingnum, því honum var ómögulegt
að vera án hans til lengdar. Sagði þá einn af hirðmönnum hans: „Herra!
Krypplingurinn, sem þér viljið finna, hafði drukkið sig kenndan í gærkveldi;
hann læddist út úr höllinni, aldrei þessu vanur, og fór að ráfa um
borgina, en í morgun snemma fannst hann dauður. Nú hefur verið leiddur
fyrir lögreglustjóra sá, sem drap hann, og lætur dómarinn reisa honum
gálga, en í því að á að hengja hann, kemur annar maður og þriðji
og gefa sig hvor um sig fram eins og morðingjar, og segja hvor annan
sýknan; nú er dómarinn að prófa einn, sem þykist vera hinn rétti morðingi.“
Þegar soldáninn í Kasjgar heyrði þetta, sendi hann undir eins mann
til aftökustaðarins með þau boð, að lögreglustjóri skyldi að vörmu spori
koma með hina ákærðu og lík krypplingsins, því soldán langaði til
að sjá hann einu sinni enn þá. Skilaboð þessi komu einmitt þegar böðullinn
var að taka í reipið til að toga skraddarann upp; var hann nú
tekinn úr snörunni og var farið með hann til soldáns með fleskmangaranum,
hinum kristna kaupmanni og krypplingnum, sem lögregluþjónarnir
báru. Lögreglustjóri fleygði sér flötum fyrir fætur soldáns og er
hann var upp staðinn, sagði hann honum allt, er hann vissi sannast af
sögu krypplingsins. Þótti soldáni hún vera svo merkileg, að hann skipaði
hirðsagnaritara sínum að skrifa hana upp nákvæmlega. Því næst mælti
hann til þeirra, sem viðstaddir voru: „Hafið þið nokkurntíma heyrt
nokkuð fáheyrðara en það, sem hefur viljað til krypplingnum, veslings
fíflinu mínu?“
Hinn kristni kaupmaður laut honum svo lágt, að enni hans snerti
jörðina, og sagði: „Voldugi herra! Undarlegri sögu kann ég en þessa, og
skal ég segja hana, ef yðar hátign leyfir. Enginn mun heyra hana, svo
að hann ekki komist við.“ Soldán samþykktist þetta og sagði hinn söguna.
Sagan, er hinn kristni kaupmaður sagði
„Áður en ég byrja sögu þá, er ég hét að segja, dirfist ég með leyfi yðar
hátignar að geta þess, að mér varð ekki þeirrar sæmdar auðið að fæðast
í ríki yðru. Ég er frá Kairó í Egiptalandi, Kopta þjóðar og kristinnar
trúar. Faðir minn var milligöngumaður í kaupskap og lét mér töluverða
fjármuni eftir sig. Ég stundaði sömu iðn og hann, og einn dag bar svo
til, er ég var staddur í hinu opinbera gistihúsi kornverzlunarmanna í
Kairó, að ungur maður vel til fara, ríðandi asna, heilsaði mér; hann
spurði mig hvað stór mælir af sesam (baunategund) kostaði, álíka góðum
og hann hafði í poka einum, er hann sýndi mér.
[1357.png: ... ungur maður vel til fara, ríðandi asna, heilsaði mér]
146. NÓTT. Ég skoðaði baunirnar og svaraði, að eftir kaupverði á
torgum kostaði stór mælir af þeim hundrað silfurdrökmur. „Farið þá til
kaupmanna,“ segir hann, „þeirra, er kaupa vilja fyrir þetta verð, komið
síðan í gestaherbergi eitt hjá Sigurporti, sem stendur þar einstakt og afskekkt
frá öðrum húsum.“ Að svo mæltu fór hann og skildi eftir hjá
mér sýnishornið; sýndi ég það mörgum kaupmönnum; kváðust þeir
mundu kaupa, hvað mikið sem fáanlegt væri, ef þeir fengju mælinn á
hundrað og tíu drökmur, og græddi ég þannig tíu drökmur á mæli. Fór
ég feginn gróða mínum til Sigurports, þar sem hinn ungi kaupmaður
beið mín; tók hann mig með sér í geymslubúr sitt, sem var fullt af sesam;
þar voru í fimmtíu stórmælar; lét ég mæla þá og láta upp á asna, og
seldi ég fyrir fimm þúsund silfurdrökmur. Þá sagði kaupmaðurinn: „Yður
ber tíu drökmur af mælinum, eða fimm hundruð drökmur samtals,
og skal ég láta yður fá þær. Hins, sem eftir er og ég á, þarf ég ekki að sinni;
veitið því móttöku fyrir mína hönd og geymið það þangað til ég kem og
sæki það.“ Sagði ég þá, að ég skyldi hafa peningana á reiðum höndum,
hvenær sem hann kæmi. Ég kyssti á hönd honum að skilnaði og gekk
burt glaður af stórmennsku hans. Eftir mánaðar tíma kom hann til mín
og mælti: „Hvar eru nú hinar fjögur þúsund og fimm hundruð drökmur,
sem ég á?“ „Þær eru til taks,“ anzaði ég, „og skal ég greiða yður þær út í
hönd.“ Nú með því hann sat kyrr á asna sínum, beiddi ég hann að fara
af baki og sýna mér þá virðingu, að þiggja hjá mér einhvern beina, en
hann svaraði: „Nei, nú má ég ekki fara af baki, ég hef ýmislegt að annast
hér nálægt, sem ótt kallar að, en á heimleiðinni skal ég taka við fénu og
bið ég yður að hafa það til taks handa mér.“ Því næst reið hann burt og
kom ekki aftur fyrr en að heilum mánuði liðnum. Hugsaði ég þá með
mér, að kaupmaður hefði mikið traust á mér, þar sem hann skildi svo
mikið fé eftir í vörzlum mínum og tortryggði mig ekki, þótt ég væri honum
lítt kunnur. Þegar þriðji mánuðurinn var liðinn, kom hann aftur og
reið asna sínum eins og áður, en var nú betur búinn en að undanförnu.
Ég gekk á móti honum, sárbeiddi hann að fara af baki og spurði, hvort
ég ætti ekki að greiða honum fé sitt. „Það liggur ekki á,“ sagði hann með
hýru yfirbragði, „ég veit að það er í góðum stað, og mun sækja það þegar
allir aðrir fjármunir mínir eru uppgengnir, og ég á ekkert eftir nema
þetta. Lifið heilir, þér megið vonast eftir mér seint í vikunni.“ Svo mælti
hann, keyrði asnann með svipunni og var óðara horfinn mér úr augsýn.
„Gott og vel,“ hugsaði ég, „hann sagði, að ég mætti vonast eftir sér seint
í vikunni, en eftir því sem honum fórust orð, mun ég ekki sjá hann í langan
tíma. En hvað sem því líður, mun ég koma fé hans á vöxtu og hafa
sjálfur af því drjúgan arð.“
Þetta fór sem ég gat til, því ég sá ekki hinn unga kaupmann fyrr en
árið var umliðið. Eftir árslokin kom hann og var þá skrautbúinn eins og
þegar ég hafði séð hann síðast; en nú þótti mér sem honum væri mikið
niðri fyrir. Beiddi ég hann að gera mér þann sóma, að koma inn í hús
mitt. Svaraði hann þá: „Svo skal vera í þetta sinn, en samt með því skilyrði,
að þér ekki kostið miklu til mín vegna.“ „Það skal vera sem þér
viljið,“ anzaði ég, „en farið fyrir alla muni af baki.“ Hann gerði svo og
fór inn með mér; skipaði ég þá að tilreiða máltíð þá, er ég ætlaði að veita
honum, en meðan á því stóð, vorum við að tala saman. En er maturinn
var tilbúinn, settumst við til borðs. Undir eins og hann lét upp í sig fyrsta
bitann, tök ég eftir því, að hann borðaði með vinstri hendinni, og þótti
mér kynlegt, að hann alls ekki neytti hægri handarinnar. Ég vissi ekki,
hvað ég ætti að halda um þetta, því hinn ungi kaupmaður hafði jafnan
sýnt mér kurteisi frá því ég kynntist honum fyrst. „Getur það verið,“
hugsaði ég með mér, „að hann geri þetta til þess að óvirða mig? Því borðar
hann ekki með hægri hendinni?“
147. NÓTT. Mér lék mesta forvitni á að vita, hvers vegna gestur minn
snæddi með vinstri hendinni. Þegar þjónustufólk mitt hafði tekið upp
borð eftir máltíðina og var farið út, settumst við hvor hjá öðrum í legubekk,
og bauð ég hinum unga kaupmanni ljúffengasta sætabrauð, en
hann tók við því með vinstri hendinni. „Herra!“ tók ég til máls, „misvirðið
ekki, að ég dirfist að spyrja, hvers vegna þér neytið ekki hægri
handarinnar. Yður mun sjálfsagt vera illt í henni.“ Hann stundi þungan
og brá hægri handlegg sínum fram undan skikkjunni, sem allt til þessa
hafði hulið hann, og sá ég nú, að hann hafði misst höndina; þótti mér
það kynlegt. „Yður hefur víst þótt fyrir,“ mælti hann, „að ég skyldi
snæða með vinstri hendinni, en nú sjáið þér, hvort mér var annað hægt.“
Sagði ég þá: „Mætti ég spyrja yður; af hverju slysi hafið þér misst höndina?“
Við spurningu þessa hrundu honum tár af augum, en er hann hafði
þerrað þau af sér, sagði hann mér sögu sína á sömu leið og ég mun segja
yður hana.
„Ég er frá Bagdad,“ tók hann til máls, „og sonur auðugs manns, sem
var afbragð annarra manna þar í borginni, bæði sökum mannkosta og
metorða. Undir eins og ég var kominn út í heiminn, kynntist ég mönnum,
sem víðförlir voru; sögðu þeir mér marga undursamlega hluti frá
Egiptalandi og einkum frá stóru Kairó, svo að ákafur ferðahugur kom í
mig. Faðir minn var þá enn á lífi og mundi ekki hafa leyft mér förina,
en er hann var andaður og ég var orðinn sjálfs mín ráðandi, ásetti ég mér
að ferðast til Kairó. Keypti ég þá fyrir stórmikið fé alls konar dýrindis
vefnað frá Bagdad og Mússúl, og lagði af stað. Þegar ég var kominn til
Kairó, fór ég til gestaherbergis, sem kennt var við borgina Mesrúr. Leigði
ég mér þar íbúð og geymslubúr, og lét bera þangað varningsstranga, er ég
hafði flutt á úlföldum. Þegar ég var búinn að því, gekk ég til herbergis
míns, til þess að hvílast eftir ferðina, en fylgdarmenn mínir keyptu vistir
á meðan og matbjuggu. Þegar ég hafði snætt, gekk ég út til að skoða
kóngshöllina, nokkur musteri, opinber torg og annað það, er vert var að
sjá. Daginn eftir bjó ég mig vel, lét taka nokkuð af hinum fegursta og
dýrasta vefnaði úr ströngum mínum, og þræla mína bera það til hinnar
Sirkassisku sölubúðar til þess að vita, hvað mér byðist fyrir það. Þyrptist
þar í kringum mig fjöldi verzlunarmanna og kallara, er spurt höfðu tilkomu
mína. Ég fékk mörgum köllurum sýnishorn af vefnaðartegundum
mínum, og sýndu þeir þau og höfðu á boðstólum í öllum sölubúðum. En
allir kaupmenn buðu mér miklu minna fyrir vefnaðinn en ég hafði sjálfur
borgað og kostað til flutnings; þótti mér þetta hvimleitt. En ég lét
óánægju mína í ljósi við kallarana, sögðu þeir: „Ef þér viljið hlýða oss,
skulum vér kenna yður gott ráð, svo að þér munuð engan skaða hafa á
vörum yðar.“
148. NÓTT. Ég spurði kallarana, hvaða ráð þetta væri og svöruðu
þeir: „Þér skuluð skipta varningi yðar niður á marga verzlunarmenn og
láta þá selja lítið í senn. Skuluð þér sækja andvirði hins selda tvisvar í
viku, mánudag og föstudag, og munuð þér þá hafa ábata öllu fremur en
skaða, og kaupmennirnir munu einnig græða nokkuð. Meðan á því stendur,
getið þér stytt yður stundir og farið um borgina og Nílfljótið yður til
skemmtunar.“ Ég hlýðnaðist ráði þessu, skipti varningnum niður á verzlunarmenn
þá, sem mér var sagt, að skilríkastir væru; fengu þeir mér
kvittun fyrir varningnum, staðfesta af vitnum, með því skilyrði, að ég
ekki mætti krefja þá gjaldsins hinn fyrsta mánuð. En er ég hafði ráðstafað
efnum mínum þannig, hugsaði ég ekki um annað en skemmtanir og
kynntist við marga menn, sem voru á aldur við mig, og gerðu sitt til að
stytta mér stundir. Þegar hinn fyrsti mánuður var liðinn, fór ég tvisvar
í viku til kaupmanna, og var þá með mér embættismaður, sem skoðaði
bækur þeirra, og víxlari, sem prófaði gjaldið; hafði ég á hverjum gjalddegi
töluvert fé heim með mér. Lét ég þá ekki hjá líða að vitja á fund
kaupmanna á öðrum dögum, og var ég vanur að sitja á tali við þá á morgnana
og horfa á það, sem fram fór í sölubúðunum.
Einhvern morgun, þegar ég sat í búð kaupmanns nokkurs, er Bedreddín
hét, kom inn til hans kona; var það auðséð, að hún mundi vera
göfug, bæði á búningi hennar og framgöngu, og eins því, að henni fylgdi
vel búin ambátt. Hún settist niður nálægt mér og leizt mér vel á hana
sakir fríðleika hennar og hins náttúrlega þokka, sem lýsti sér í öllu látbragði
hennar, svo að mig langaði til að verða nokkurs vísari, hver hún
væri. Mun hún hafa tekið eftir því, að mér var yndi að horfa á hana, en
ekki tók hún því með styggð, heldur lyfti hún skýlu þeirri, er hún bar
utan yfir hinni þunnu nettludúks blæju; sá ég þá hin fögru, svörtu augu
hennar og varð frá mér numinn. En samt varð hugur minn einkum
fanginn af sætleik málróms hennar, og kurteisi þeirri og hæversku, er
hún sýndi, þegar kaupmaður heilsaði henni og spurði, hvernig henni hefði
liðið síðan þau sáust seinast. En er hún hefði talað við hann stundarkorn
um hitt og þetta, kvaðst hún vera að leita að einhverskonar gullstöfuðum
silkivefnaði, og þykjast vera viss um, að hún mundi fá hann hjá honum,
því hann ætti birgasta búð, og væri sér þökk á að skoða vefnað þenna,
ef hann hefði hann til.
Bedreddín sýndi henni margskonar vefnað, og kaus hún einn úr og
spurði um verð hans; hann setti upp ellefu hundruð silfurdrökmur og
lét hún sér það líka; kvaðst hún taka vefnaðinn með sér og ekki borga
hann fyrr en næsta dag, því hún hefði ekki peninga á sér. Þá mælti Bedreddín:
„Ég skyldi gjarnan fá yður vefnaðinn og eiga hjá yður andvirðið,
ef það væri sjálfs mín eign, en þessi ungi maður er eigandinn og á ég þegar
í dag að standa honum skil á fénu.“ „Því farið þér svo með mig?“ segir
konan, „kaupi ég ekki oft hjá yður og hef ég ekki ætíð sent yður borgunina
næsta dag, þegar þér hafið leyft mér að hafa eitthvað burt með mér
óborgað?“ Kaupmaðurinn kvað svo vera, en krafðist borgunar í þetta
skipti. „Eigið þér það sjálfur,“ mælti hún í reiði og fleygði í hann vefnaðinum,
„guð tortími öllum kaupmönnum og öllu, sem þeirra er! Þið
eruð hver öðrum líkir og sýnið aldrei neina nærgætni.“ Að svo mæltu
spratt hún upp og gekk burt með miklum reiðihug til Bedreddíns.
149. NÓTT. Þegar ég sá að konan ætlaði að fara, fann ég að hjarta
mínu var hlýtt til hennar og kallaði ég eftir henni og mælti: „Göfuga
ungfrú: auðsýnið mér þá náð, að koma aftur; hver veit nema að mér
hugsist ráð til að gera svo báðum ykkur líki.“ Hún sneri þá við og kvaðst
gera það mér að skapi, en ég veik mér að kaupmanninum og spurði hann,
hvað dýran hann vildi selja vefnað þenna, er ég átti. „Á ellefu hundruð
drökmur,“ segir hann, „mér er ómögulegt að selja hann ódýrari. „Fáið
konunni hann þá,“ sagði ég, „og lofið henni að hafa hann með sér. Ég skal
ábyrgjast yður hundrað drakma ágóða, og ávísa yður þær í öðrum varningi,
sem ég á í búð yðar.“ Ég gerði svo, fékk síðan konunni vefnaðinn og mælti:
„Þér megið hafa hann með yður og getið sent mér andvirðið á morgun,
eða þegar yður lízt; eða, ef þér leyfið, þá þætti mér vænst, ef þér vilduð
þiggja hann að gjöf.“ Þá mælti hún: „Ekki ætlaðist ég til þess, en svo ferst
yður vel og kurteislega við mig, að ég mætti fyrirverða mig að koma fyrir
nokkurs manns augu, ef ég ekki vottaði yður þakklæti mitt. Guð umbuni
yður með eflingu fjármuna yðar, hann láti yður lifa lengi eftir minn dag,
og uppljúki dyrum himnanna fyrir yður, þegar þér deyið, en örlyndi yðar
verði kunnugt um alla borgina.“ Þegar ég hafði heyrt þessi orð, óx mér
hugur og mælti ég: „Látið mig þá í launa skyni sjá andlit yðar, því þannig
borgið þér greiða minn margfaldlega. Veik hún sér þá að mér, lyfti
nettludúksblæjunni, er hún hafði fyrir andlitinu og sýndi mér frábæra
fegurð sína. En svo varð mér mikið um, að ég kom engu orði upp til að
lýsa því, er mér bjó í brjósti, og gat ég ekki þreytzt á að virða hana fyrir
mér. Hún huldi sig skjótt aftur blæjunni, því hún var hrædd um, að eftir
sér mundi verða tekið; hún lét og hina ytri blæju falla fyrir andlitið, tók
vefnaðinn og gekk út úr búðinni, en ég sat eftir, allt öðruvísi í skapi en
þegar ég kom þangað. Ég var langan tíma kynlega ringlaður og órór. En
áður en ég skildi við kaupmann, innti ég hann eftir, hvort hann þekkti
konuna; kvað hann hana vera dóttur emírs nokkurs, sem hefði látið henni
stórmikil auðæfi eftir sig andaðan.
Þegar ég var kominn heim til gestaherbergisins Mesrúr, hafði ég enga
lyst á kvöldverði þeim, er þjónustufólk mitt bar á borð fyrir mig; alla
nóttina kom mér ekki dúr á auga, og enga nótt þóttist ég muna lengri.
En er dagur var kominn, stóð ég upp í þeirri von, að ég mundi sjá hana,
sem olli órósemi minni; bjó ég mig að öllu sem vandlegast, til þess henni
mætti því betur lítast á mig, og gekk ég því næst til búðar Bedreddíns.
150. NÓTT. Þar hafði ég skamma stund verið, þegar ég sá konuna,
sem ég hafði hitt daginn áður, koma með ambátt sinni. Var hún enn
skrautbúnari en daginn áður; hún leit ekki við kaupmanninum, heldur
veik sér að mér og mælti: „Herra! þér sjáið, hvað rækilega ég efni það, sem
ég lofaði yður í gær. Ég kem hingað gagngert til þess að færa yður fé það,
sem þér með, einstakri ljúfmennsku og stórlyndi trúðuð mér fyrir, þó
þér þekktuð mig ekki.“ Svaraði ég þá: „Ekki lá mikið á. Ég var óhræddur
um það, og þykir mér leitt, að þér skulið hafa gert yður svo mikið ómak.“
„Það hefði verið rangt,“ sagði hún, „að hagnýta sér greiðvikni yðar.“ Fékk
hún mér um leið peningana og settist niður hjá mér. Ég sá mig ekki úr
færi að tala við hana, og lét ég í ljósi, hversu ég elskaði hana, en hún
stóð upp og gekk frá mér, eins og hún hefði styggzt við játningu mína.
Horfði ég eftir henni svo lengi sem ég gat; síðan kvaddi ég kaupmann
og gekk frá búðinni eins og í leiðslu, svo ég vissi ekki, hvert ég fór. Ég
gekk þungt hugsandi um ævintýri mitt, og vissi ekki fyrri til en tekið var
aftan í mig; leit ég þá aftur fyrir mig og var það mér fagnaðarsjón, að
sjá þar komna ambátt konunnar, sem ég elskaði. „Húsmóður mína,“ sagði
hún, „konuna ungu, sem þér töluðuð við í búðinni kaupmannsins, langar
til að tala eitthvað við yður; komið með mér ef yður þóknast.“ Fylgdi
hún mér þá til húsmóður sinnar, þar sem hún sat í búð víxlara nokkurs
og beið mín. Hún lét mig setjast hjá sér og mælti: „Kæri herra, látið yður
ekki þykja fyrir, að ég gekk frá yður heldur snúðugt, en það kom af
því, að ég hugði ekki sæmandi, að svara ástarjátningu yðar með vilyrði í
viðurvist kaupmannsins. En svo var fjarri, að ég styggðist við, að það
stórgladdi mig, og tel ég mig sæla þess, að slíkur afbragðs maður, sem
þér eruð, skuli vera elskhugi minn. Ég veit ekki, hvernig yður hefur
brugðið við að sjá mig, en undir eins og ég sá yður, fann ég að hugur
minn hneigðist til yðar. Síðan í gær hef ég ekki hugsað um annað en það,
sem þér sögðuð; megið þér nærri geta, að ég mundi ekki hafa leitað yður
upp í morgun, ef þér ekki yrðuð mér vel að skapi.“
Ég svaraði henni gagntekinn af elsku og fögnuði, að ég gæti ekkert
inndælla heyrt en það, er hún hafði sagt; „enginn maður getur elskað
ákafar en ég elska yður,“ sagði ég; „allt frá þeirri sælustund, er ég sá
yður fyrst, hafa augu mín verið blinduð af frábærri fegurð yðvarri, og
hjarta mitt gaf sig mótstöðulaust yður á vald.“ Hún greip fram í og mælti:
„Eyðum ekki tímanum til ónýtis; ég efast ekki um hreinskilni yðar, og
einlægni mína munuð þér bráðum komast að raun um. Viljið þér gera
mér þá sæmd, að koma til mín, eða á ég að koma til yðar?“ „Lafði
mín!“ anzaði ég, „ég bý eins og annar útlendingur í gestaherbergi, og er
það ekki samboðið jafn tiginni og ágætri konu sem þér eruð, að ég taki
móti yður á slíkum stað. Ætti betur við, ef þér vilduð svo vel gera, að
segja mér, hvar þér eigið heima, svo að ég mætti hljóta þá virðingu að
koma til yðar.“ Hún tók því vel og mælti: „Komið að einum degi liðnum,
á föstudaginn eftir miðdegisbænir. Ég bý í Guðræknisstræti, og þurfið
þér ekki annað en að spyrja eftir húsi Abú Sjamma, sem kallaður var
Berkúr, og var yfirmaður emíranna. Þar skuluð þér hitta mig.“ Skildum
við að svo búnu, og réði ég mér ekki fyrir óþolinmæði daginn eftir.
Föstudagsmorguninn stóð ég upp í bítið, fór í beztu föt mín, stakk
á mig pyngju með fimmtíu gullpeningum í og fór til Guðræknisstrætis,
ríðandi asna, sem ég hafði leigt handa mér daginn áður, og fylgdi mér
essrekinn. Varð mér lítið fyrir að finna hús það, er mér hafði verið til
vísað; fór ég þar af baki, borgaði essrekanum ríflega og beiddi hann að
skilnaði, að koma morguninn eftir með asna og sækja mig. Nú drap ég
á dyr og komu út tveir litlir þrælar, hvítir sem mjöll og snoturlega búnir
og sögðu: „Gerið svo vel og gangið inn, húsmóðir okkar bíður yðar
næsta óþolinmóð, og hefur ekki um annað talað en yður í tvo daga.“ Þegar
ég kom inn í hallargarðinn, sá ég tjaldhús; lágu upp að því sjö tröppur,
en umhverfis það var grindagarður og skildi það frá undrafögrum trjágarði;
voru í honum auk þeirra trjáa, sem til prýðis voru eða veittu honum
forsælu, mörg önnur, sem báru allskonar fullþroskuð aldin. Þar kvað
við sönglist óteljandi fugla, og þótti mér unun að heyra, hversu kliður
þeirra blandaðist saman við nið hins gjósandi brunns, er var mitt í grasbletti
einum, blikandi af blómum. Á hinum fjórum hornum brunnskálarinnar
voru fjórir gullnir drekar, og spúðu þeir án afláts kristalsskæru
vatni; réði ég af fegurð staðar þessa, hve mikilsháttar unnusta mín mundi
vera. Báðir litlu þrælarnir fylgdu mér inn í skrautlegan sal; fór annar
þeirra inn til húsmóður sinnar til að segja henni komu mína, en hinn
sýndi mér á meðan allt það, er fegurst var í salnum.
151. NÓTT. Ég þurfti ekki að bíða lengi í salnum; unnusta mín kom
þegar, ríkulega skreytt perlum og demöntum, og ljómaði hún þó skærar
af birtu augna sinna en bliki gimsteinanna. Nú var hún ekki í neinum
utanhafnarbúningi, er leyndi vexti hennar, sem mér nú virtist vera hinn
fegursti og ásjálegasti. Ég vil ekki reyna til að lýsa því, hvað við urðum
fegin að finnast, því sú lýsing mundi verða ónóg. Þegar við höfðum heilsazt,
settumst við í legubekk og skemmtum okkur vel. Því næst voru framreiddir
hinir útvöldustu réttir, og er við höfðum matazt, skemmtum við
okkur fram á nótt. Þá var inn borið ágætt vín og þorstsælir ávextir; sátum
við og drukkum, en þrælar sungu á meðan og léku á hljóðfæri. Húsfreyjan
söng líka, og með söngnum tendraði hún ást mína, svo að enginn
elskhugi getur orðið ákafari en ég varð þá. Leið nóttin svo að við nutum
alls konar unaðsemda, en um morguninn laumaði ég pyngju minni með
fimmtíu gullpeningum í undir höfðalag konunnar og kvaddi hana síðan.
Spurði hún mig, nær ég mundi koma aftur, og lofaði ég að koma til hennar
aftur um kvöldið, og sýndist mér hún verða einkar fegin loforði mínu.
Síðan fylgdi hún mér til dyra og særði mig að skilnaði, að efna orð mín.
Essrekinn, sem hafði fylgt mér þangað, beið mín með asnann, og reið
ég aftur til gestaherbergis. En er ég skildi við hann þar, sagði ég honum,
að ég ekki borgaði honum að sinni, því hann ætti að koma til mín eftir
hádegi á tilteknum tíma. Þegar ég nú var kominn heim, lét ég mér fyrst
annt um að kaupa vænt lamb og alls konar kræsikökur, og sendi ég konunni
[1365.png: Ég vil ekki reyna til at lýsa því, hvað við urðum fegin að finnast...]
þetta með daglaunamanni nokkrum. Eftir það annaðist ég alvarleg
störf þangað til essrekinn kom og ég reið aftur til konunnar; fagnaði hún
mér og veitti mér eins vel og í fyrra skiptið. En er ég skildi við hana
morguninn eftir, lét ég aðra pyngju, með fimmtíu gullpeningum í, verða
eftir og fór síðan aftur til gestaherbergis. Þannig kom ég til hennar á degi
hverjum með sama hætti og atvikum, þangað til vörur mínar voru uppseldar
og ég átti ekkert hjá kaupmönnum; var ég þá með öllu félaus
og vissi mér enga fjárvon. Þegar ég var kominn í basl þetta og mér lá
við að örvílnast, gekk ég frá gestaherberginu öldungis ráðalaus. Mér varð
gengið til hallarinnar, og stóð svo á, að þar var mikill mannfjöldi saman
kominn til að horfa á leika, er soldán Egiptalands hélt fyrir lýðinn. Ég
fór inn í mannþyrpinguna og vildi svo til, að ég staðnæmdist hjá manni
nokkrum vel ríðandi og prúðbúnum; hékk við söðul hans taska opin til
hálfs og lafði út úr græn silkisnúra. Þreifaði ég um töskuna og þótti líklegt,
að snúran mundi föst við peningapyngju, sem í töskunni væri. Meðan
ég var að hugsa um þetta, gekk hinumegin við manninn karl einn
með viðarbyrði, og fór svo nærri honum, að hann varð að víkjast undan
á hlið, til þess að viðurinn ekki skyldi rífa klæði hans. Í þessu bili freistaði
djöfullinn mín; ég greip annarri hendi snúruna, en með hinni liðkaði
ég opið á töskunni og togaði svo pyngjuna út svo enginn sá; en hún var
eftir þyngdinni að dæma full af gulli og silfri. Nú var karlinn genginn
fram hjá, og með því að riddaranum mun hafa virzt athæfi mitt ískyggilegt,
þá þreifaði hann í töskuna og saknaði pyngjunnar eins og von var;
sló hann mig þá til jarðar með öxi sinni. Þeir, er sáu ofríkisverk þetta,
gengu í lið með mér, þrifu í tauma riddarans og spurðu, því hann hefði
barið mig og hvort hann dirfðist að leika múselmann svo illa. Svaraði
hann þeim önugt og mælti: „Því slettið þið ykkur fram í þetta? Ég gerði
það ekki að ósekju; hann er þjófur.“
Þegar hann sagði þetta, stóð ég upp, og gengu allir í lið með mér, svo
vel leizt þeim á mig. Hann var kallaður lygari og enginn trúði því, að ég,
svo ungur, gæti drýgt svo andstyggilegan glæp. Allir stóðu fast á því, að
ég væri saklaus, og leituðust við að hjálpa mér til að flýja, með því að
halda í hest riddarans; en til allrar óhamingju kom lögreglustjórinn með
þjónum sínum, og spurði, hvað á gengi; sakfelldu allir riddarann í einu
hljóði og sögðu, að hann hefði ranglega misþyrmt mér undir því yfirvarpi,
að ég hefði stolið frá honum. En lögreglustjóranum þótti það ekki
einhlítt, sem lýðurinn sagði, heldur spurði hann riddarann, hvort hann
hefði nokkurn annan grunaðan en mig; kvað hann nei við, og sagði allt
það, er hann hefði til síns máls. Því næst skipaði lögreglustjóri þjónum
sínum að taka mig fastan og leita á mér; tók einn þeirra pyngjuna af mér
og sýndi hana opinberlega, en ég hné í öngvit af óvirðingu.
152. NÓTT. Nú spurði lögreglustjóri riddarann, hvort hann ætti
pyngjuna, og hversu mikið í henni væri. Hann kvaðst eiga hana og sagði
tuttugu sekkínur vera í henni. Dómarinn opnaði hana og reyndist þá,
að rétt var til sagt; fékk hann riddaranum pyngjuna aftur. Hann skoraði
þá á mig, að segja sannleikann, svo að ekki þyrfti að taka til pyndinga.
Ég horfði til jarðar og hugsaði með mér, að þó ég segði nei, þá sannaði
þó pyngjan, að ég væri lygari. Ég brá því upp augum og játaði á mig sökina.
Kallaði þá lögreglustjóri jafnskjótt á vitni og skipaði að höggva af
mér hægri höndina; var það gert og kenndu allir, sem viðstaddir voru,
í brjósti um mig; sá ég jafnvel að riddaranum sárnaði það, ekki síður en
öðrum. Lögreglustjórinn vildi og láta höggva undan mér annan fótinn,
en þá beiddi ég riddarann að biðja mér miskunnar; gerði hann það og
var honum eigi synjað. En er dómarinn var farinn, kom riddarinn til
mín, rétti mér pyngjuna og kvaðst um leið vera sannfærður um, að ekkert
annað en neyðin hefði getað komið mér til að fremja slíkt óhæfuverk.
„Eigið þessa óheilla pyngju, mælti hann enn fremur, „ég gef yður hana
og harma óhamingju þá, er þér hafið ratað í.“ Að svo mæltu skildi hann
við mig, og af því ég var orðinn næsta máttfarinn af blóðrás, sáu menn
nokkrir aumur á mér, er bjuggu þar nálægt, fluttu mig til húsa sinna og
gáfu mér staup af víni. Þeir bundu um handlegg minn og vöfðu dúk um
stúfinn, festi ég hann við belti mitt og fór síðan burt. Í gestaherberginu
Mesrúr mundi ég ekki hafa notið þeirrar hjúkrunar, sem mér var ómissandi,
svo aumlega stöddum, en mikil vogun þótti mér að fara á fund
hinnar ungu konu. Ég hugsaði með mér, að hún mundi alls ekki vilja
kannast við mig, ef hún kæmist að svívirðingu minni, en þó réði ég það
af að leita til hennar. Hljóp ég í gegnum mörg afvikin stræti, til þess að
komast undan mönnum þeim, er eltu mig, þangað til ég kom til hennar,
svo sjúkur og uppgefinn, að ég jafnharðan varð að fleygja mér niður í
legubekk. Hægri handleggnum hélt ég undir skikkju minni og varaðist
að láta hann sjást.
Þegar konunni var sagt, að ég væri kominn, og að mér væri illt, flýtti
hún sér til mín; sá hún hversu ég var fölur og hnugginn og mælti: „Elskan
mín, hvað gengur að þér?“ Ég brá á yfirdrepskap og svaraði: „Mér er
dauðillt í höfði.“ Varð hún þá sorgbitin og mælti: „Seztu niður,“ — því
ég hafði staðið upp til að heilsa henni — „hvernig stendur á því — þú
varst svo brattur, þegar ég sá þig seinast. — Hér hefur eitthvað gerzt, sem
þú leynir mig; segðu mér hvað það er?“ En er ég þagði og grátur kom
upp fyrir mér, mælti hún enn fremur: „Ég skil ekki, hvað angrar þig,
veld ég því óviljandi, eða kemur þú hingað til þess að láta mig vita, að
þú sért hættur að elska mig?“ Ég svaraði andvarpandi: „Eigi er svo varið,
en heldur þyngir mér, þar sem þú gerir mér getsakir.“ Ég gat samt ekki
fengið af mér að segja henni sannleikann. Þegar dimmt var orðið, var
kvöldverður á borð borinn og beiddi hún mig að neyta nokkurs, en af
því ég hafði ekki nema vinstri höndina til taks, færðist ég undan og sagðist
enga lyst hafa á mat. Þá mælti hún: „Lystin mun koma þegar þú
hefur látið mér uppskátt það, sem þú leynir mig svo þrálátlega. Ólyst
þín á matnum kemur af því, hvað þú átt bágt með að koma þér að því.“
„Ég mun þá verða að ráðast í það,“ anzaði ég, og óðar en ég hafði
sagt þetta, skenkti hún mér vín í skál, rétti mér hana og mælti: „Drekktu
þetta, og mun þér þá vaxa hugur.“
153. NÓTT. Ég tók við skálinni með vinstri hendinni, og kom þá
upp fyrir mér enn meiri grátur og ekki en áður. „Af hverju stynur þú og
grætur svo beisklega?“ spurði konan, „og því tekur þú ekki heldur við
skálinni með hægri hendinni?“ „Taktu það ekki illa upp, ég hef kýli á
henni,“ mælti ég; þá segir hún: „Láttu mig sjá kýlið, ég ætla að stinga á
því.“ Bar ég þá það í vænginn, að það væri of snemmt, það væri ekki fullgrafið
í því enn, og tæmdi ég um leið skálina. Rann þá innan lítils tíma
á mig eins og ómegin af víninu, máttleysinu og hugarvílinu og sofnaði
ég fast, og lá svo allt til morguns. Meðan á því stóð, hafði konan, sem
langaði til að vita, hvað væri að hægri hendi minni, skoðað undir skikkju
mína og séð að hönd mín var afhöggin; megið þið nærri geta, hversu
henni hefur brugðið við. Skildi hún þá, hvers vegna ég hafði þverskallazt
við þrábeiðni hennar, og sat hún alla nóttina harmandi hrakfall mitt,
því henni lék enginn efi á, að ég hefði ratað í ólánið af elsku til hennar.
Þegar ég vaknaði, sá ég að vísu á henni, að hún var yfirkomin af ákafri
hryggð, en ekki mælti hún orð um það, því hún vildi ekki særa mig. Hún
lét færa mér styrkjandi fuglakjötssoð, er hún hafði látið sjóða handa mér;
beiddi hún mig að eta og drekka mér til endurhressingar og styrkingar.
Ég ætlaði þá að ganga burt, en hún hélt í skikkju mína og mælti: „Ég
sleppi þér ekki héðan. Ég er sannfærð um, þó þú hafir ekki sagt mér, að
óhamingja sú, er þig hefur hent, hefur hlotizt af mér. Fellur mér það
svo nær, að skammt mun eftir minnar ævi, en áður en ég dey, verð ég að
koma fram áformi mínu, sem báðum okkur er fyrir beztu.“ Gerði hún
þá boð eftir yfirvaldi einu og vitnum og lét semja skjal þess efnis, að hún
gæfi mér allar eigur sínar; þegar hún hafði borgað yfirvaldinu og vitnunum
ómak sitt, og er þau voru farin, lauk hún upp stórri kistu; voru í henni
gullpyngjur þær, er ég hafði gefið henni frá því við fyrst þekktumst.
„Þú átt þetta allt,“ sagði hún, „ég hef ekki snert á því. Hérna er lykillinn
og ertu réttur eigandi fjárins.“ Ég þakkaði henni gæzku sína og göfuglyndi.
„Það, sem ég hef gert fyrir þig,“ mælti hún, „er einskisvert, og
mun ég ekki fyrr ánægð en ég dey, og get sýnt þér með því, hversu ég
elska þig.“ Ég særði hana við allt það, sem ástinni er helgast, að láta af
svo hræðilegu áformi, en mér tókst ekki að telja hana af því. Hún hryggðist
svo mjög af því, að vita mig einhentan, að hún tók sótt og andaðist úr
henni eftir fimm eða sex vikna legu. Þegar ég hafði harmað dauða hennar
eins og skylt var, kastaði ég eigu minni á alla fjármuni hennar, sem
ég vissi af; þar á meðal voru sesams-baunirnar, sem þér hafið selt fyrir
mig.
154. NÓTT. Hinn ungi maður sagði kristna kaupmanninum áfram
sögu sína þannig: „Nú er ég hef sagt yður þetta, munuð þér vorkenna
mér, að ég hef snætt með vinstri hendinni. Ég þakka yður fyrir ómak
það, er þér hafið haft fyrir mína hönd, en trúmennsku yðar fæ ég ekki
metið til fulls. Nú með því að ég, sem guði sé lof og þökk fyrir, er nógu
ríkur, þó ég hafi sóað miklu út, þá bið ég yður þiggja að gjöf af mér
fé það, er ég á hjá yður. Enn vil ég bjóða yður annan kost. Eftir atburði
þá, er ég hef sagt yður frá, get ég ekki lengur verið hér í Kairó; mun ég
því kveðja borgina fyrir fullt og allt. Ef þér viljið verða mér samferða,
skulum við verzla í félagsskap og skipta gróðanum til jafns.“ Þegar hinn
ungi maður frá Bagdad hafði lokið sögu sinni, þakkaði ég honum sem
bezt ég gat fyrir gjöfina og tók feginshendi kosti þeim, er hann bauð mér.
Við tiltókum daginn, nær við skyldum leggja af stað, og er hann kom
að hendi, hófum við ferð okkar og fórum um Sýrland, Mesópótamíu og
alla Persíu; dvöldum við um stund í nokkrum borgum, en loksins komum
við í höfuðborg yðar hátignar. Lét hinn ungi maður þá í ljósi við mig,
að sér væri hugur á að fara aftur til Persalands og taka sér bólfestu þar;
skildum við þá félagið og skiptum; kvöddumst síðan með vináttu. Ég
varð hér eftir, og varð mér þeirrar sæmdar auðið, að þjóna yðar hátign.
Svona er sagan, sem ég ætlaði að segja. Þykir yður hún ekki miklu
furðulegri, en saga krypplingsins?“
Soldáninn í Kasjgar reiddist kristna kaupmanninum og svaraði: „Þú
ert furðu djarfur, að þora að segja mér svo ómerkilega sögu og jafna henni
saman við sögu krypplingsins. Heldurðu, að þú getir byrlað mér inn með
þvaðri þínu, að hin bragðlausu ævintýri þessa lausláta, unga manns séu
merkilegri en ævintýri krypplingsins? Ég skal láta hengja ykkur alla
fjóra, til þess að hefna dauða fíflsins míns.“ Þegar fleskmangarinn
heyrði þetta, varð hann lafhræddur, fleygði sér fram fyrir fætur soldáns
og mælti: „Herra! Ég bið yður auðmjúklegast að stilla reiði
yðar, þó sakir séu til, en hlýða á sögu mína og sýna okkur fjórum líkn,
ef saga sú, sem ég ætla að segja yðar hátign, er fallegri en saga krypplingsins.“
Soldán veitti honum bæn sína og tók þá fleskmangarinn til
frásagna.
Sagan, er fleskmangari soldánsins í Kasjgar sagði
„Herra! Tiginn maður bauð mér í gær í brúðkaup einnar af dætrum
sínum; fór ég í boðið á tiltekinni stund um kvöldið. Kom ég þar í samkvæmi
lærðra manna, yfirvalda og annarra hinna helztu manna í borginni.
Eftir hjónavígsluna var haldin dýrðleg veizla; voru þar margskonar
réttir, en þó var einn, sem var öðrum fremur ljúffengur, og var hvítlaukur
í; vildu allir eta af honum. Einn af gestunum bragðaði hann
ekki, þó fullur diskur af honum stæði fyrir framan hann, og vér beiddum
hann hvað eftir annað, að eta af honum okkur til samlætis. En hann
beiddi oss um fram allt að láta sig sleppa hjá því, og mælti: „Ég skal vara
mig á því, að eta nokkurn rétt, sem hvítlaukur er í; ég held ég muni,
hvað það kostaði mig einu sinni fyrrum, að borða hann.“ Vér beiddum
hann blessaðan að segja oss, hvað til þess bæri, að hann hefði fengið svo
megna óbeit á hvítlauki, en húsbóndinn gaf honum engan tíma til að
svara oss, heldur veik sér að honum og mælti: ”Sýnið þér veizlu minni
ekki meiri sóma en svo? Þessi matur er ágætur og þér skuluð ekki komast
undan að smakka á honum; þér verðið að láta að mínum orðum og
snæða hann eins og hinir.“
Þá svaraði gesturinn, sem var kaupmaður frá Bagdad: „Herra! Þér
skuluð eigi ætla, að ég geri þetta af tepruskap, og ef þér fyrir hvern mun
viljið, þá skal ég gjarnan hlýðnast yður; en þér verðið að leyfa mér að
þvo hendur mínar á eftir fjörutíu sinnum með kalí, fjörutíu sinnum
með öskusalti og eins mörgum sinnum með sápu. Þér megið ekki taka
þetta illa upp, því ég hef unnið þess dýran eið, að eta aldrei mat, sem
hvítlaukur er í, nema með þessu skilyrði.“
155. NÓTT. Húsbóndinn, sem ekki vildi láta kaupmanninn frá
Bagdad komast hjá að eta hvítlauksréttinn, skipaði þjónum sínum að
koma með fulla skál af vatni, kalí og sápu, til þess að kaupmaður gæti
þvegið sér, þegar honum líkaði. Síðan segir hann við kaupmann: „Gerið
nú eins og vér og snæðið; yður skal hvorki vanta kalí, öskusalt né sápu.“
Kaupmaður varð leiður á nauði þessu, rétti út höndina, tók einn bita, lét
hann skjálfandi upp í sig og tuggði hann með slíkum viðbjóð, að vér urðum
hlessa. Þó undruðumst vér enn meir, er vér sáum, að hann vantaði
þumalfingurinn, og spurði húsbóndinn hann, hvernig hann hefði misst
hann. „Mig vantar hann líka á vinstri hendinni,“ anzaði kaupmaður og
rétti hana fram til sannindamerkis; „eins vantar mig líka stóru tá á báðum
fótum. Ég hef orðið fyrir meiðingum þessum fyrir fáheyrt ævintýri,
sem ég skal segja yður, ef yður leiðist ekki á að heyra. Mun yður ekki
síður virðast það aumkvunarvert en undrunar, en leyfið mér samt fyrst
að þvo hendur mínar.“ Stóð hann þá upp og þvoði þær stórthundrað
sinnum; því næst gekk hann til sætis síns og sagði sögu þessa:
„Ég er frá Bagdad; bjó faðir minn þar á ríkisárum kalífans, Harúns
Alrasjids, og þótti vera einhver hinn auðugasti verzlunarmaður í borginni.
En af því hann var mjög svo hneigður til eyðslusemi og skemmtana,
afrækti hann störf sín, og fór því svo fjarri, að ég erfði nokkra fjármuni
eftir hans dag, að ég varð að hrófla öllu saman, sem ég gat, til að
láta upp í skuldir hans. Tókst mér að borga þær, og fyrir eljusemi mína
snerist hagur minn mjög til batnaðar. Það bar til einhvern morgun, er ég
lauk upp sölubúð minni, að kona ein kom ríðandi múlasna; fylgdu henni
tvær ambáttir og einn geldingur; lét hún þar staðar numið og hjálpaði
hann henni af baki og mælti: „Náðuga ungfrú! Þetta grunaði mig alténd,
að þér munduð koma of snemma; enginn kaupmaður er ennþá kominn
á fætur. Hefðuð þér trúað mér, þá hefðuð þér ekki þurft að bíða.“ Hún
sást um til allra hliða, og með því að engin búð var opin nema mín,
þá kom hún nær, heilsaði mér og beiddi mig að lofa sér að bíða í búðinni,
þangað til hinir aðrir kaupmenn kæmu.
156. NÓTT. Ég tók kveðju hennar kurteislega, og settist hún niður í
búð minni. Af því að enginn var á kauptorgi nema ég, geldingurinn og
ambáttir hennar, tók hún blæjuna frá andliti sínu til þess, að anda að
sér hinu hreina morgunlofti, og hef ég aldrei litið fegri sýn. Mér reyndist
það vera hið sama, að sjá hana og elska, og hafði ég ekki augun af
henni. Það virtist líka svo, sem henni þætti ekkert að eftirtekt minni, því
hún lét ekki blæjuna falla niður fyrr en hún fór að verða hrædd um, að
menn mundu taka eftir sér. Spurði hún mig eftir ýmsum hinum dýrasta
og fegursta vefnaði, og varð ég að svara henni því, að ég, sem væri nýbyrjaður
á verzlun, væri ekki nógu ríkur til þess að selja svo dýra vöru.
„Þykir mér leitt,” mælti ég, „að geta ekkert sýnt yður af því, er yður
leikur hugur á. En til þess að taka af yður ómak, skal ég, ef þér leyfið
mér, ganga búð úr búð og sækja allt það, sem þér viljið, undir eins og
kaupmenn koma. Getið þér sagt mér hæsta verð, sem þér viljið borga,
og keypt hér, en komizt hjá að fara lengra.“ Lét hún sér þetta vel líka;
teygði ég sem lengst úr tali okkar og bar það fyrir, að kaupmenn þeir
væru enn ókomnir, sem hefðu vefnað þann, er hún ætlaði að kaupa. Þó
ég væri nú töfraður jafnt af vitsmunum hennar og fegurð, varð ég samt
að slíta mig frá skemmtun þeirri, er ég hafði af tali okkar. Sótti ég í flýti
vefnaðartegundir þær, er hún vildi, og er hún hafði valið úr þeim, þá
samdist svo um, að hún skyldi borga fimm þúsund drökmur fyrir það,
er hún keypti. Geldingurinn tók vöruna, konan stóð upp, kvaddi mig og
gekk burt. Horfði ég á eftir henni allt að hliðum kauptorgsins, þangað til
hún sté á bak múlösnu sinni; en er hún var úr augsýn, datt mér fyrst í
hug, að ástar víman hafði glapið mig svo, að ekki hafði ég gáð þess, að
konan hafði ekki borgað mér og hafði ég ekki einu sinni spurt hana um
nafn eða heimili. Jafnframt hugsaði ég út í það, að nú var ég kominn í
töluverðar skuldir hjá mörgum kaupmönnum, sem ekki voru líklegir til
umlíðunar; fór ég því á fund þeirra til þess að réttlæta mig í augum
þeirra, og sagði þeim, að ég þekkti konuna. Gekk ég þá aftur til sölubúðar
minnar, eins ástfanginn og ég var áhyggjufullur út af skuldunum.
157. NÓTT. Ég hafði beðið skuldheimtumenn mína um átta daga
frest, og er þeir voru liðnir, kröfðust þeir borgunar. Eftir beiðni minni
veittu þeir mér átta daga frest enn, en daginn eftir kom konan með sama
föruneyti og á sama tíma og áður rakleiðis til búðar minnar. „Ég hef látið
standa nokkuð á mér,“ mælti hún, „en nú kem ég með andvirði vefnaðarins.
Farið með það til víxlara, til þess hann prófi gjaldið og telji.
Geldingurinn, sem bar féð, fór með mér til víxlarans og reyndist allt
með skilum, og þegar ég kom aftur, varð mér á ný þess fagnaðar auðið,
að tala við konuna, þangað til öllum búðum á kauptorginu var lokið
upp. Þó að við nú einungis töluðum um marklausa hluti, hafði hún
samt lag á að víkja samtali okkar á þá leið, að ég hafði skemmtun af því;
sannfærði það mig enn betur um vitsmuni hennar.
Nú sem hinir aðrir kaupmenn höfðu lokið upp búðum sínum, færði
ég þeim fé sitt, er trúað höfðu mér fyrir varningnum; varð mér auðsótt
að fá lán aftur á vefnaði, er konan vildi kaupa. Tók ég vefnað fyrir þúsund
gullpeninga; hafði hún hann á burt með sér, en borgaði ekki né
sagði, hver hún væri. Hugsaði ég þá með mér: „Hún hefur borgað mér
allmikið fé, en nú hef ég þó hleypt mér í enn stærri skuld hennar vegna.
Skyldi hún vera prettvís og hafa ætlað að ginna mig til þess að steypa mér
því dýpra í glötunina? Ekki þekkja kaupmennirnir hana, og munu þeir
veitast að mér einum.“ Gat ást mín, þó mikil væri, ekki niðurþaggað
hinar döpru hugleiðingar mínar út af þessu, og fóru áhyggjur mínar dagvaxandi
í heilan mánuð, því allan þann tíma gerði konan ekkert vart við
sig. Kom þar loksins, að skuldheimtumenn mínir vildu ekki bíða lengur,
og var ég þess albúinn, að selja allt, sem ég átti, til þess, að geta borgað
þeim; þá kom konan allt í einu einn morgun eins og fyrri. „Sækið þér
gullvogina,“ mælti hún, „til þess að vega gullið, sem ég færi yður.“
Við þessi orð hvarf mér allur kvíði, og óx elska mín um helming. En
áður en gullið yrði vegið, spurði hún mig að ýmsu, og að því meðal annars,
hvort ég væri kvongaður. Kvað ég nei við og sagði henni, að ég aldrei
hefði verið kvæntur. Fékk hún þá geldingnum gullið og mælti: „Hjálpa
þú okkur til að afljúka kaupunum.“ Glotti þá geldingurinn, veik mér
afsíðis og lét mig vega gullið. Hvíslaði hann að mér um leið: „Ég sé
glöggt á yður, að þér hafið ástarhug á húsmóður minni, og furðar mig
mest á því, að þér skulið ekki hafa djörfung til að játa það. Hún elskar
yður enn heitar en þér elskið hana. Þér skuluð ekki ætla, að hún þurfi
á vefnaði yðar að halda; hingað dregur hana ekkert annað en ást á yður,
og því vildi hún vita, hvort þér væruð kvæntur. Nú er undir yður komið,
hvort þér viljið ganga að eiga hana.“ Svaraði ég þá, að ég hefði fellt ástarhug
til hennar undir eins og ég sá hana í fyrsta sinni, en hefði aldrei hugsað
svo hátt, að ég mundi verða henni að skapi. „Ég er allur á hennar
valdi,“ mælti ég, „og skal ég ekki láta góðvilja þinn ólaunaðan.“ Nú var
ég loksins búinn að vega gullpeningana, og meðan ég hellti þeim í pokann,
sneri geldingurinn sér að konunni og sagði, að „mér líkaði vel.“
Þau höfðu talað sig saman um, að hafa þetta orðatiltæki; stóð konan upp
og sagði um leið og hún kvaddi mig, að hún skyldi senda geldinginn til
mín, og skyldi ég að eins gera það, sem hann skilaði til mín frá henni.
Ég borgaði kaupmönnum skuldir mínar, og beið nokkra daga óþolinmóður
eftir geldingnum. Loksins kom hann...
158. NÓTT. Ég fagnaði geldingnum með mestu vinsemd og spurði,
hvernig húsmóður hans liði. Þá svaraði hann: „Þér eruð hinn sælasti unnusti
í öllum heimi: hún er sjúk af elsku, og er ómögulegt að nokkur
þreyi yður ákafar en hún. Mætti hún ráða sér sjálf, mundi hún leita yður
upp og lifa með yður allar stundir ævi sinnar.“ Þá sagði ég: „Ég hef ráðið
það af göfugri kurteisi og fagurri háttprýði hennar, að hún muni vera
tigin kona.“ „Þar eigið þér líka kollgátuna,“ mælti geldingurinn, „hún
er vildarmær Sobeide, drottningar kalífans; þykir henni því vænna um
hana, sem hún hefur uppalið hana frá blautu barnsbeini, og lætur hún
hana annast öll kaup fyrir sig. Nú með því að hana langar til að giftast,
hefur hún látið drottningu konungs rétttrúaðra manna uppskátt, að hún
hafi kosið yður; hefur hún beðið drottningu sína jáyrðis. Sobeide hefur
heitið henni því, en vill sjá yður fyrst, til þess að vita, hvort hún hefur
valið vel, og mun hún halda brúðkaup, ef henni lízt svo. Þér hafið nú
að þessu leytinu höndlað hnossið, því úr því þér hafið orðið vildarmey
drottningar að skapi, þá mun drottningu ekki lítast lakar á yður, því
hún reynir á allar lundir að gleðja hana, og mun engin bönd leggja á
vilja hennar. Nú ríður að eins á, að þér komist inn í höllina, og í því
skyni er ég hingað kominn.“ „Ég er alráðinn,“ mælti ég, „og reiðubúinn
til að fylgja yður hvarvetna.“ „Þá er vel,“ anzaði geldingurinn, „en það
munuð þér vita, að karlmenn mega ekki koma í herbergi kvenna í höllinni,
og verður yður því ekki inn komið nema með vélum, og hlýtur
slíkt að fara leynt. Vildarmærin hefur undirbúið allt sem tryggilegast;
gerið nú líka allt að yðar hluta, svo vel megi takast. Verið umfram allt
þagmælskur, því líf yðar liggur við.“
Ég lofaði að gera allt, sem fyrir mig yrði lagt, og sagði hann þá:
„Komið í kvöld, þegar náttar, í musteri það, er Sobeide, drottning kalífans,
hefur látið byggja hjá Tígrisfljótinu; skuluð þér bíða þar þangað
til þér verðið sóttur.“ Þótti mér langt að bíða til dagseturs, en er það var
komið, fór ég af stað. Var ég í musterinu við bænagjörð þá, sem haldin
er hálfri annarri stundu eftir sólarlag; að henni aflokinni varð ég einn
eftir. Leið nú eigi á löngu, að bátur kom; reru honum tómir geldingar
og báru upp úr honum margar stórar kistur inn í musterið; gengu þeir
síðan allir á burt nema einn; sá ég að það var hinn sami, sem vanur var
að fylgja unnustu minni; hún kom einnig inn í musterið, og gekk ég
móti henni og kvaðst boðinn og búinn að hlýða skipununi hennar. „Við
megum engum tíma eyða til ónýtis,“ mælti hún, lauk upp einni kistunni
og beiddi mig að fara niður í hana og hræðast ekki; kvaðst hún
ábyrgjast allt. Ég var nú líka kominn lengra á leið en svo, að ég gæti snúið
aftur. Fór ég því ofan í kistuna, en mærin lét hana aftur og læsti með
lykli. Geldingurinn, trúnaðarmaður hennar, kallaði nú á hina geldingana,
og lét þá bera allar kisturnar út á bátinn aftur; vildarmærin og hann
stigu síðan bæði út í bátinn og létu róa honum til hallarinnar. Meðan á
þessu stóð, var ég næsta hugsjúkur, og er ég hugsaði til hættunnar, sem
yfir mér vofði, lét ég hvorki bresta bænir né áheit. Bátnum var lent við
hallarhlið kalífans; voru þá kisturnar teknar og bornar í herbergi höfuðsmanns
geldinganna. Hann geymir lykilinn að kvennahúsinu, og sleppir
[1375.png: Við megum engum tíma eyða til ónýtis...]
hann engu þangað inn, fyrr en það er rannsakað til hlítar. Var hann þá
sofnaður og varð því að vekja hann.
159. NÓTT. Höfuðsmaður geldinganna lét vildarmey drottningarinnar
kenna á þykkju sinni, út af því að honum var glapinn svefn, og
átaldi hana fyrir það, að hún kæmi svo seint heim. „Það skal ekki verða
yður svo hægt sem þér hugsið,“ mælti hann, „engin af þessum kistum
skal hrærð verða héðan úr stað, fyrr en þær eru vandlega rannsakaðar.“
Skipaði hann geldingunum að taka hverja af annarri og ljúka þeim upp.
Tóku þeir fyrst þá, er ég var í, og kom þá yfir mig svo fjarskaleg angist,
að mér þótti sem væri ég nær dauða en lífi. Vildarmær drottningar færðist
samt undan að skila lyklinum, og vildi fyrir engan mun láta ljúka upp
kistunni. „Þér vitið vel,“ mælti hún, „að ég læt ekkert flytja hingað, sem
ekki er ætlað Sobeide, drottningu yðvarri og minni. Í kistu þessari eru
einkum dýrmætar vörur, sem nýkomnir kaupmenn hafa trúað mér fyrir;
auk þess eru í henni nokkrar vatnsflöskur frá Sesemslindinni í Mekka, og
brotni nokkur þeirra, eða skemmist af því varningurinn, þá er það yðar
ábyrgðarhluti. Mundi drottning konungs rétttrúaðra manna láta yður
ósvífnina í koll koma.“ Er stutt þar af að segja, að henni fórust svo skörulega
orð, að höfuðsmaður geldinganna þorði ekki að gera henni á móti
skapi, og skipaði í vonzku, að bera kisturnar burt, og varð ekki af rannsókn.
Var farið með þær inn í kvennabúrið, en jafnskjótt, sem þær voru
þangað komnar, heyrði ég kallað: „Kalífinn kemur.“ Kom þá yfir mig
slíkt dauðans ofboð, að mér er óskiljanlegt, að ég skyldi ekki deyja þá
samstundis. Enda kom kalífinn sjálfur og spurði vildarmeyna, hvað í
kistunum væri. Svaraði hún þá: „Drottinn rétttrúaðra manna! Það er
nýr vefnaður, sem drottningu yðar hátignar langar til að sjá.“ „Ljúktu
þeim upp,“ segir kalífinn, „ég vil sjá hann líka;“ leitaðist hún þá við að
telja hann af því, og sagði, að allur vefnaðurinn væri einungis hafandi
í kvenfatnað, og að hann svipti konu sína þeirri gleði, að skoða varninginn
fyrst. Kalífinn skipaði henni á ný að ljúka upp kistunum. Þá hafði
hún þá mótbáru, að hann kæmi sér út undan hjá húsmóður sinni, ef hann
neyddi sig til að gera á móti boðum hennar; en hann lofaði henni því,
að hún skyldi engum átölum sæta fyrir þá sök og sagði: „Ljúktu kistunni
upp og láttu mig ekki bíða lengur.“ Hlaut vildarmærin að hlýða, og
kemur hrollur í mig enn, þegar ég hugsa til hræðslu minnar. Kalífinn
settist niður, og var nú ein kistan borin til hans eftir aðra og lokið upp.
Til þess að draga tímann sem lengst, var vildarmærin alltaf að telja honum
upp kosti hverrar vefnaðar tegundar, og leitaðist hún þannig við að
þreyta þolinmæði hans, því henni var ekki síður áríðandi en mér, að þeirri
kistunni yrði ekki upp lokið, sem ég var í; þar kom samt loksins, að hún
var ein eftir, og mælti kalífinn þá: „Nú höfum við geymt það, sem bezt
er, þangað til seinast;“ í þessu vetfangi vissi ég varla hvort ég var lífs
eða liðinn, en ómögulegt hugði ég, að ég gæti sloppið úr slíkum háska.
160. NÓTT. Þegar vildarmær Sobeide sá, að kalífinn vildi einnig láta
ljúka upp þessari kistu, mælti hún: „Hvað þessa kistu snertir, ætla ég að
biðja yðar hátign þeirrar náðar, að lofa mér að ljúka henni upp; það
er sumt í henni, sem ég ekki má sýna yður, nema kona yðar sé við.“ „Ekkert
þykir mér að því,“ anzaði kalífinn, „berið kisturnar burt.“ Sá hún
undir eins um, að það væri gert og lét bera þær inn í herbergi sitt, og
varð mér þá léttara um andardráttinn. Þegar geldingarnir, sem báru kisturnar,
voru farnir, lauk hún upp fangelsi mínu, beiddi mig að koma upp,
og vísaði mér til dyra; var innar af þeim stigi, en upp af honum herbergi
eitt, og sagði hún mér að bíða sín þar. En óðar en hún hafði lokað dyrunum
eftir mér, kom kalífinn og settist á kistuna, sem ég hafði verið í.
Var hann kominn fyrir forvitni sakir, og vildi vita, hvað mærin hefði séð
og heyrt í borginni. En er þau höfðu talast við góða stund, gekk hann
aftur til herbergja sinna, en mærin kom inn í herbergið, sem ég var í.
Beiddi hún mig að fyrirgefa sér alla þá angist, sem hún hefði bakað mér,
og mælti: „Ekki hafið þér samt verið óttaslegnari en ég, því megið þér
trúa; ég var sem sé bæði hrædd um yður af elsku minni og kvíðandi um
sjálfa mig, því ég var í sama háskanum og þér. Mundu margar aðrar konur
ekki hafa komizt jafn vel og ég úr slíkum bobba. Þurfti bæði áræðis
og snarræðis, eða öllu heldur svo heitrar ástar, sem ég hef á yður, til þess
að geta sloppið úr öðrum eins vandræðum. En nú megið þér vera ókvíðinn
og þurfið ekkert að hræðast.“ Þarna vorum við nokkra stund að tala
saman með mestu blíðu, þangað til hún mælti: „Nú er tími til kominn
að þér hvílist; leggist því til hvíldar. Einhvern tíma á morgun skal ég leiða
yður á fund Sobeide, drottningar minnar, og er það hægðarleikur, því
kalífinn kemur aldrei til hennar nema á nóttunni.“ Hughreystist ég við
þessi orð hennar og svaf vel, en yrði mér svefninn stundum órór, þá var
það samt með þægilegu móti, því það kom af tilhlökkun minni, að eignast
svo gáfaða og fríða konu.
Næsta dag sagði hún mér, hvernig ég ætti að hegða mér í viðurvist
drottningar, og hvernig ég ætti að svara ýmsu, er hún mundi spyrja mig
um; því næst fylgdi hún mér inn í stóran sal; var allt í honum aðdáanlega
skrautlegt og ríkmannlegt. Óðar en ég var kominn þangað, komu tuttugu
gamlar ambáttir skrautklæddar, og allar í samkyns búningi, út úr
herbergi Sobeide, og skipuðust með mikilli kurteisi í tvær jafnar raðir
beggja megin hásætisins. Á eftir þeim komu tuttugu ungar ambáttir eins
búnar og hinar fyrri, nema hvað klæði þeirra fóru betur, og gekk Sobeide
fram í miðjum hópnum, tíguleg í framgöngu. Var hún svo hlaðin gimsteinum
og gersemum, að hún gat varla gengið, og settist hún í hásæti.
Vildarmær hennar kom með henni og stóð hjá henni til hægri handar,
en hinar, sem henni fylgdu, skiptu sér í tvo flokka sinn hvoru megin hásætisins.
Þegar drottning kalífans var setzt niður, bentu mér ambáttir
þær, er fyrst voru komnar inn, að ég skyldi færa mig nær, og gekk ég milli
raðanna allt inn að hásætinu, og fleygði mér þar niður, svo að enni mitt
snerti ábreiðuna undir fótum drottningar. Skipaði hún mér að standa
upp, spurði að nafni mínu, ætterni og efnahag; svaraði ég spurningum
þessum svo, að henni líkaði vel, og gat ég bæði ráðið það af svip hennar
og svari. Hún tók þannig til máls: „Það fær mér fagnaðar, að dóttir mín
— því mér þykir eins vænt um hana og hún væri dóttir mín — hefur valið
sér mann eftir geðþekkni minni, og samþykki ég giftingu ykkar. Skal ég
sjálf annast allan viðbúnað til brúðkaupsins, en ég áskil dóttur minni tíu
daga frest, svo að ég á þeim tíma geti öðlazt samþykki kalífans. Meðan á
því stendur, skuluð þér vera hér og skal verða séð fyrir yður.“
161. NÓTT. Nú var ég tíu daga í kvennabúri kalífans og sá ekki unnustu
mína allan þann tíma, en eftir skipun hennar var svo vel með mig
farið, að ég mátti vera ánægður. Kalífinn lét konu sína hafa fullt frelsi
til að ráða giftingu okkar og veitti unnustu minni töluvert fé til heimanfylgju.
Þegar hinir tíu dagar voru liðnir, lét Sobeide semja kaupmála,
og var henni færður hann í fullkomnu laga sniði. Var nú efnað til brúðkaups
og fengnir dansmenn og söngmenn, og var í níu daga mikið um
dýrðir í höllinni. En á tíunda degi skyldi brúðkaupið vera. Var okkur
hjónaefnunum fylgt til lauga, og um kvöldið settist ég til borðs; voru
þar alls konar réttir, meðal annars kjötréttur einn með hvítlauk í, gagnlíkur
þessum mat, sem ég áðan var neyddur til að snæða. Smakkaðist
mér þessi kjötréttur svo vel, að ég bragðaði alls ekki aðra rétti, en er ég
stóð upp, lét ég mér til allrar óhamingju nægja, að þerra hendur mínar, í
stað þess að þvo þær vandlega; hefur mig aldrei hent slíkt gáleysi fyrr né
síðar. Af því að nótt var komin, var kvennabúrið dýrðlega lýst mörgum
ljósum, svo að ekki þurfti að sakna dagsbirtunnar; hljómaði hljóðfærasláttur,
og var sleginn dans og tekið til alls konar skemmtana; glumdi
undir í allri höllinni af gleðilátunum. Okkur brúðhjónunum var fylgt
inn í stóran sal og vorum við látin setjast í tvö öndvegi. Konur þær, er
þjónuðu brúðurinni, létu hana margsinnis hafa fataskipti og löguðu hár
hennar margvíslega, eins og siður er við brúðkaup; var hún leidd fram
fyrir mig í hvert skipti, sem hún var komin í nýjan búning. En er öllum
þessum hátíðlegu skyldusiðum var fullnægt, var okkur fylgt í brúðarhúsið.
Jafnskjótt sem við vorum þar ein inni, færði ég mig nær konu minni og
ætlaði að faðma hana, en í stað þess að taka ástaratlotum mínum, hratt
hún mér hart frá sér og hljóðaði hátt upp yfir sig, svo að allar konur þar
í húsinu flykktust að, til þess að vita, hvernig á því stæði. En ég varð sem
höggdofa af undrun og hafði ekki einu sinni rænu á að spyrja konu mína,
hvernig á þessu stæði. En konurnar sögðu: „Elsku systir! Hvað hefur þér
viljað til, síðan við skildum við þig? Segðu okkur það, svo að við getum
hjálpað þér.“ „Takið vesalmenni þetta burt,“ æpti hún, „svo ég sjái
hann aldrei framar.“ „Elskan mín,“ tók ég til máls, „hvernig hef ég reitt
þig til reiði?“ „Þú ert siðlaus rusti,“ mælti hún með heipt, „þú hefur etið
hvítlauk, og ekki þvegið hendur þínar. Heldur þú, að ég vilji koma nærri
slíkum óþokka og verða veik af ódaun. Varpið honum niður á gólfið,“
sagði hún við konurnar, „og færið mér nautasvipu.- Þær vörpuðu mér
óðara flötum og héldu sumar um handleggi mína, en sumar um fætur,
en kona mín lamdi mig miskunnarlaust, þangað til hún varð máttlaus.
Sagði hún þá við konurnar: „Hafið hann á burt með ykkur og færið hann
lögreglustjóranum, til þess að hann höggvi af honum höndina, sem hann
át með hvítlauksréttinn.“ En er ég heyrði þetta, kallaði ég upp: „Guð
minn góður, ég er lúbarinn og líkt sem hjólbrotinn; á ég þá að missa
höndina, svo að enn bætist við ofurmegn hörmunganna? Og hvað veldur?
Það, að ég át hvítlauk og gleymdi að þvo mér um hendurnar á eftir.
Skárra er það uppistandið út af engu; djöfullinn hafi allan mat, sem hvítlaukur
er í, bölvaður sé sá, sem matreiddi hann, og bölvaður sé sá, sem
bar hann á borð.“
162. NÓTT. Allar konurnar, sem sáu þegar ég var laminn með nautasvipunni,
komust við af meðaumkvun, þegar þær heyrðu, að höggva ætti
af mér höndina. Leiddu þær konu minni fyrir sjónir, að hún væri of heiptrækin,
og beiddu þær hana að gleyma ávirðingu minni og fyrirgefa mér,
þó ég væri ósiðaður maður og hefði misboðið tign hennar með rustahætti
mínum. En hún anzaði: „Ég er ekki ánægð enn, og vil ég að hann læri
góða siði, og beri svo tilfinnanleg merki sóðaskapar síns, að hann aldrei
framar á ævi sinni eti hvítlauksrétt svo, að hann ekki þvoi sér á eftir.“
En konurnar ítrekuðu árnaðarorð sín, fleygðu sér fram fyrir fætur hennar,
og kysstu á hönd henni svo mælandi: „Tignaða frú, fyrir guðs sakir
stillið reiði yðar og veitið oss bæn vora.“ Anzaði hún þeim engu, heldur
stóð hún upp og lét verstu illyrði dynja yfir mig; síðan gekk hún út úr herberginu.
Fóru allar konurnar með henni, en ég sat eftir aleinn og óumræðilega
sorgbitinn. Í tíu daga sá ég engan, nema ambátt nokkra gamla,
er færði mér mat; spurði ég hana, hvernig konu minni liði og svaraði
hún: „Hún er veik af hinum eitraða ódaun, sem þér hafið andað að henni.
Því þvoðuð þér yður líka ekki um hendurnar, þegar þér höfðuð etið bannsettan
laukinn?“ Hugsaði ég þá með mér: „Er þá svo vandgætt til skaps
kvenna þessara, og geta þær verið svo hefnigjarnar út úr jafnlítilli yfirsjón?“
Þó að kona mín væri næsta skaphörð, unni ég henni samt og var
mér mikil raun að veikindum hennar. Loksins sagði ambáttin við mig
einn dag: „Kona yðar er nú búin að ná sér og farin til lauga; kvaðst hún
mundu vitja yðar á morgun. Hafið því þolinmæði enn og leitist við að
laga yður eftir skapferli hennar. Hún er annars skýr kona og vel viti borin,
og unna henni allar konur þær, er þjóna Sobeide, drottningu vorri.“
Kona mín kom daginn eftir og segir þá við mig: „Heldur en ekki fer mér
vel við þig, að ég skuli koma til þín aftur, eftir að þú hefur gert mér slíka
skapraun. En ekki get ég sætzt við þig heilum sáttum fyrr en ég hef refsað
þér til hlítar fyrir það, að þú þvoðir ekki hendur þínar, þegar þú hafðir
etið hvítlaukinn.“ Kallaði hún þá á þjónustukonur sínar, lögðu þær mig
flatan niður á gólf og bundu mig; því næst tók hún skegghníf, og var
grimmd hennar svo afskapleg, að hún skar af mér báða þumalfingur og
báðar stóru tær. Ein af konunum lagði jurtarót nokkra við sárin til að
stilla blóðrásina, en blóðmissir minn varð þó svo mikill, að ég bæði af
honum og sársaukanum féll í óvit. En þegar ég raknaði við, fékk ég vín
mér til styrkingar og sagði ég þá við konu mína: „Ef ég nokkurn tíma
borða hvítlauksrétt framar, þá sver ég, að ég ekki skal þvo mér einu sinni,
heldur stórthundrað sinnum með kalí, öskusalti og sápu.“ „Jæja þá,“ anzaði
hún, „með því skilyrði skal ég gleyma því, sem gert er, og búa saman
við þig eins og eiginmann minn.“ „Þetta,“ mælti kaupmaðurinn og veik
sér að samkvæminu, „er orsökin til þess að ég vildi ekki eta hvítlauksréttinn.
163. NÓTT. Auk rótarinnar lögðu konurnar Mekkasmyrsli við sár
mitt, sem munu hafa verið ósvikin, því þau voru úr lyfjasafni kalífans.
Undrasmyrsli þessi læknuðu mig á fám dögum og voru nú samfarir okkar
hjóna svo góðar, sem ekkert hefði á milli borið. En með því að ég var vanur
frjálsræðinu, leiddist mér að vera lokaður inni í höll kalífans, en ekki þorði
ég að gera konu minni það uppskátt, því ég var hræddur um að henni
mundi þykja fyrir. Allt fyrir það tók hún sjálf eftir því og langaði hana
líka til að sleppa úr kreppunni; hélt henni ekkert hjá Sobeide nema þakklátsemi
ein. En með hyggindum sínum tókst henni svo vel að leiða
drottningu fyrir sjónir, hversu mér mætti vera móti skapi, að geta ekki
haft samblendi við jafningja mína í borginni, eins og ég væri vanur, að
hin góða drottning kaus heldur að svipta sjálfa sig gleði þeirri, er hún
hafði af konu minni en láta á móti sameiginlegri ósk okkar beggja.
Mánuði eftir giftingu okkar sá ég því konu mína koma með fjölda geldinga,
er báru peningapoka, og er þeir voru farnir, mælti hún: „Þú hefur
ekki sagt mér, hvað þér leiðist að dvelja hér við hirðina, en ég hef tekið
eftir því, og til allrar hamingju fundið ráð til þess að gera við því. Sobeide
drottning mín leyfir mér að fara úr höllinni; þarna eru fimmtíu þúsund
sekkínur, sem hún gefur okkur, svo að við getum lifað góðu lífi í borginni;
taktu nú tíu þúsundir sekkína af þeim og kauptu hús handa okkur.“
Ég var ekki lengi að útvega húsið, þegar ég hafði svo mikið milli
handa, og er ég hafði komið öllu fyrir innanhúss með viðhöfn og prýði,
fluttum við í það. Höfðum við fjölda þræla og ambátta og bárumst
mikið á, en sællífi okkar varð ekki langgætt, því kona mín sýktist að einu
ári liðnu og andaðist að fárra daga fresti. Hefði ég þá að vísu getað tekið
annað kvonfang og lifað sæmilega í Bagdad, en með því mig fýsti mjög
að skoða mig um í heiminum, þá brá ég á aðra ætlun. Seldi ég hús mitt,
keypti alls konar varning og slóst í för með kaupmannalest nokkurri til
Persalands; þaðan fór ég til Samarkand og að endingu settist ég um kyrrt
hér í borginni.
Þetta er sagan, herra!“ mælti fleskmangarinn við soldáninn í Kasjgar,
„sem kaupmaðurinn frá Bagdad sagði í gær í veizlunni, sem ég var í.“
Þá mælti soldán: „Að vísu er sumt í henni fáheyrt, en í engan samjöfnuð
kemst hún við sögu krypplingsins.“ Fleygði þá Gyðingurinn sér niður fyrir
fætur soldáns og mælti, er hann var upp staðinn: „Ef yðar hátign vill
auðsýna mér þá náð, að hlýða á mig, þá er ég vongóður um, að saga sú
muni fullnægja yður, sem ég ætla að segja.“ „Segðu hana þá,“ anzaði
soldán, „en ef hún ekki er furðulegri en saga krypplingsins, þá skaltu
ekki lífgjafar vænta.“
164. NÓTT. Þegar Gyðingurinn hafði fengið samþykki soldáns, tók
hann til frásagna og sagði söguna:
Sagan, er Gyðingurinn sagði
„Herra, þegar ég stundaði læknislist í Damaskus, og var orðinn nokkuð
kunnur fyrir lækningar mínar, fékk ég einu sinni boð með þræli nokkrum,
að koma til manns, er lægi veikur hjá borgarstjóranum. Þegar ég kom
þangað, var mér vísað til herbergis eins, og lá þar ungur maður fríður
sýnum og mjög svo máttdreginn af veikindum; heilsaði ég honum og
settist niður hjá honum. Svaraði hann engu, en lét mig skilja á augnaráði
sínu, að hann skildi mig og þakkaði mér. Beiddi ég hann að rétta mér
hönd sína til þess ég gæti þreifað á lífæðinni; rétti hann mér þá vinstri
höndina, og furðaði mig á því. Hugsaði ég þá með mér: það kalla ég fávizku,
að vita ekki, að lækni skal rétta hægri höndina, og ekki hina vinstri.
Ég þreifaði samt á lífæðinni, skrifaði upp eitthvað læknisráð handa honum
og gekk síðan burt.
Ég vitjaði hans í níu daga öðru hverju, og rétti hann mér í hvert skipti
vinstri höndina, þegar ég vildi þreifa á lífæðinni; á hinum tíunda degi
leizt mér hann allhress og sagði ég, að nú þyrfti hann ekki annars en að
taka laugar. Borgarstjórinn í Damaskus, sem var nærstaddur, vottaði mér
gleði sína með því að láta færa mig í skrautlega skikkju; gerði hann mig
og að lækni borgarspítalans og heimilislækni sínum; sagði hann mér, að
ég mætti eta við borð hans, þegar mig lysti. Hinn ungi maður var
líka mjög vingjarnlegur við mig og mæltist til, að ég fylgdi honum
til lauga. Sá ég þar, þegar þjónar hans afklæddu hann, að hann vantaði
hægri höndina og var auðséð, að hún hafði verið afhöggin fyrir
skömmu. Var þetta aðalorsök veikinda hans, og var ég þess dulinn,
en meðan verið var að græða hann með sára meðulum, var ráða
leitað hjá mér, til þess að brunasóttin, er í hann var komin, ekki
skyldi snúast til ills. Þegar ég sá að hinn ungi maður var þannig á
sig kominn, varð ég hissa og kenndi í brjósti um hann; sá hann það á
mér og mælti: „Furðið yður ekki á því að sjá mig með afhöggna hönd; ég
skal einhverntíma segja yður, hvernig á því stendur og mun yður þykja
sú saga undarleg.“ Þegar við vorum komnir frá laugum, gengum við til
borðs, og er við höfðum matazt, fórum við að tala saman; spurði hann
mig þá, hvort það mundi skaðvænt heilsu sinni, ef hann gengi sér til
skemmtunar í garði borgarstjórans fyrir utan borgina. Leyfði ég honum
það og áfýsti hann jafnvel að hreyfa sig úti, því það mundi mjög stuðla
til heilsubata hans. „Ef svo er,“ mælti hann, „og þér viljið ganga með mér,
skal ég á meðan segja yður sögu mína.“ Sagði ég honum, að ég væri fús
til að fylgja honum þann dag; skipaði hann þá þjónum sínum að koma
með léttan málsverð, og gengum við síðan út í garð borgarstjórans. Gengum
við þar nokkra stund fram og aftur og settumst svo á ábreiðu, sem
þjónarnir breiddu undir tré nokkurt; undir því var hin bezta forsæla og
sagði hinn ungi maður mér þar sögu sína.
„Ég er frá Mússúl,“ tók hann til orða, „og er ætt mín einhver hin
tignasta þar í borginni. Faðir minn var elztur tíu bræðra; voru þeir allir
á lífi og kvæntir, þegar afi minn andaðist. En engum þeirra varð barna
auðið, nema föður mínum, og var ég einbirni hans. Vandaði hann uppeldi
mitt af mestu alúð og lét kenna mér allt, sem tiginna manna börn
verða að kunna.
165. NÓTT. Þegar ég var orðinn fulltíða og farinn að kynnast mönnum,
bar svo til, að ég einn föstudag var staddur í hinu stóra musteri í
Mússúl við hádegis bænagjörð með föður mínum og föðurbræðrum. Eftir
bænagjörð fóru allir út úr musterinu nema faðir minn og bræður hans;
þeir settust á gólf-ábreiðuna í musterinu og töluðu saman. Ég settist hjá
þeim og fóru þeir ósjálfrátt að tala um ferðir. Lofuðu þeir það, sem fagurt
og merkilegt er í ýmsum ríkjum og höfuðborgum, en einn af föðurbræðrum
mínum stóð fast á því, að eftir sögusögn margra ferðamanna
væri ekkert land fegra til en Egiptaland, og ekkert fljót fegra en Nílelfin.
Gerði ég mér eftir lýsingu hans svo miklar hugmyndir um það, að ég upp
frá þeirri stund hafði mesta hug á að ferðast þangað. Fannst mér miklu
minna um það, er hinir aðrir föðurbræður mínir sögðu, þó þeir nefndu
Bagdad, er þeir kölluðu klett Islams trúar og höfuðborg allra annarra
borga á jörðu, eða reyndu að halda fram Tígrisfljótinu. Þótti mér vænt
um, að faðir minn lofaði Egiptaland og mælti: „Hver, sem ekki hefur
séð Egiptaland, hann á það eftir óséð, sem merkast er á jörðinni. Þar er
jarðvegurinn skíra gull, það er að skilja, frjósemi hans stórauðgar landsbúa.
Kvenfólkið þar í landi töfrar með fegurð sinni eða yndislegu
bragði, og hvar er dásamlegra vatnsfall til en Nílfljótið? Jafnvel leðjan,
sem það flytur með sér í vatnavöxtum, frjóvgar akrana, svo að þeir þrautalaust
veita þúsundfalt meiri uppskeru en þeir akrar, sem annars staðar
eru ræktaðir með mestu fyrirhöfn. Heyrið það, sem skáld eitt kvað til
Egiptalandsmanna, þegar hann varð að skilja við landið:
/#
Auðsæl Nílelfur
yður veitir
dag hvern dýrar gjafir;
frjóvgandi fljót
úr fjöllum hinnig
yðar vegna veltur.
Hrynja tár mín,
er eg héðan sný,
þung sem elfar unnir,
því ég sorgbitinn
við sveitir fagrar
skil að skapa dómi.
#/
Ef litið er til eyjar þeirrar, er myndast af tveimur hinum stærstu ósum
Nílfljótsins, hversu iðgræn er hún, hversu fjöllit af ótal glitrandi
blómum, hvílíkt ógrynni er þar að sjá, bæði borga, þorpa, vatnsskurða
og ótal annarra farsællegra hluta. En ef litið er á hinn veginn til Eþíópíu,
hversu margt er þar aðdáanlegt! Hinum skrúðgrænu engjateigum, sem
eru umflotnir af svo mörgum vatnsrennum, get ég ekki líkt við annað
betur en skínandi smaragðsteina í silfurumgjörðum. Og er ekki Kairó
hin mesta, fjölmennasta og auðugasta borg í heimi? Hversu skrautleg eru
húsin, bæði þau, sem stjórnin og einstakir menn eiga. En ef þið komið
til pýramíðanna, þá verðið þið gagnteknir af undrun og standið eins og
agndofa, þegar þið sjáið þessi feikna steinbákn, hlaðin upp úr heljarbjörgum,
nema við skýin. Hljótið þið að játa, að Faraóar þeir, er
höfðu svo mikinn mann- og fjárafla til að reisa þau, báru langt af öllum
hinum seinni konungum jarðarinnar, bæði að stórmennsku og hugviti,
þar sem þeir létu eftir sig slíka varða til minningar um sig. Þessi minnismerki,
sem eru svo gömul, að fróðum mönnum ber ekki saman um, nær
þau hafi verið reist, eru enn þá til og munu haldast um eilífð. Að ég ekki
nefni sæborgir Egiptalands, Damiette, Rósette og Alexandríu, því þangað
sækir mesti grúi manna alls konar korntegundir, léreft og aðra hluti,
sem eru til gagns eða skemmtunar. Ég segi þetta af eigin reynslu, því ég
hef dvalið þar mörg ár æsku minnar og mun sá tími sælastur ævi minnar.“
166. NÓTT. Föðurbræður mínir voru því samdóma, er faðir minn
sagði um Nílfljótið, Kairó og Egiptaland, en mér stóð það svo lifandi
fyrir hugskotssjónum, að ég fékk ekki sofið um nóttina. Skömmu síðar
létu föðurbræður mínir í ljósi við föður minn, hve mikið þeim hefði fundizt
til um lýsingu hans á Egiptalandi, og slógu þeir upp á því við hann, að
þeir skyldu allir takast þangað ferð á hendur. Tók hann vel undir það,
og með því að þeir bræður voru auðugir kaupmenn, réðust þeir í að hafa
með sér varning til sölu. Jafnskjótt sem ég varð þess áskynja, að þeir
bjuggust til ferðar, fór ég til föður míns og beiddi hann grátandi, að lofa
mér með sér, og fá mér í hendur nokkurn varning, sem ég mætti sjálfur
selja. Svaraði hann því, að ég væri of ungur til svo erfiðrar ferðar, kvaðst
hann þar að auki vera sannfærður um, að ég mundi illt af hljóta. En
ekki dró það minnstu vitund úr farfýsi minni, og fyrir milligöngu föðurbræðra
minna hafði ég út leyfi til að fara með þeim til Damaskus, og
vera þar meðan þeir færu leiðar sinnar til Egiptalands. Faðir minn kvað
margt fagurt vera að sjá í Damaskus, og skyldi ég láta mér lynda að fara
þangað og lengra ekki. Lét ég hann ráða þessu, svo ákaft sem mig langaði
til Egiptalands. Vér lögðum af stað frá Mússúl, lögðum leið um Mesópótamíu,
fórum yfir Efrat og komum til Aleppó, og vorum þar tvo
daga. Því næst héldum vér til Damaskusborgar og brá mér vel við að
sjá hana; fórum vér þar allir til gestaherbergis nokkurs. Nú var ég kominn
í stóra, fólksmarga og glæsilega borg; vorum vér þar nokkra daga
og skoðuðum hina inndælu aldingarða, er liggja í kringum hana, og bar
oss saman um, að það væri rétthermt, sem sagt er: að Damaskus liggi mitt
í paradís. Loksins fóru föðurbræður mínir að hugsa til ferða, en fyrst
seldu þeir varning þann, er ég átti, mér til svo mikils ábata, að ég græddi
fimm hundruð á einu hundraði, og varð ég stórglaður við svo mikið fé.
Föðurbræður mínir og faðir minn skildu mig því næst eftir í Damaskus
og fóru leiðar sinnar. En er þeir voru farnir, gætti ég þess vandlega, að
eyða fé mínu ekki til óþarfa. Að vísu leigði ég mér skrautlegt hús hjá
gimsteinasala nokkrum; var það allt gert af marmara, og voru á það
dregnar laufmyndir með gullnum og himinbláum lit; fylgdi því og aldingarður
með hinum fegursta gosbrunni. En ekki vandaði ég svo búnað
íbúðarinnar að innan, sem jafn skrautlegu húsi hæfði, en þó svo, að í
minni stöðu mátti fullvel sæma; hafði ég þjóna, ekki allfáa, og hélt mig
virðulega, veitti kunningjum mínum hjá mér eða þeir veittu mér, og
gekk á því meðan ég beið afturkomu föður míns til Damaskus. Engin
ástríða glapti rósemi mína og viðkynning góðra manna var öll mín
skemmtun.
Einn dag sat ég fyrir utan dyrnar á húsi mínu til þess að anda að mér
hreinu, hressandi lofti; þá kom til mín kona vel búin og fagursköpuð,
að því er mér virtist; spurði hún mig, hvort ég hefði ekki vefnað til sölu,
og gekk inn í hús mitt.
167. NÓTT. Þegar ég sá hana fara inn í hús mitt, gekk ég undir eins
á eftir henni, lokaði dyrunum og leiddi hana inn í sal einn og bauð henni
sæti: „Göfuga frú!“ tók ég til máls, „ég átti vefnað, sem vert hefði verið
að sýna yður, en því er verr, að ég hef ekkert af honum, sem stendur.“
Þá tók hún blæjuna frá andliti sínu og var það svo afbragðs frítt, að í
brjósti mínu tóku að hreyfa sér tilfinningar, er ég aldrei fyrr hafði þekkt.
„Ég þarf einskis vefnaðar,“ mælti hún, „ég kom ekki hingað vegna annars
en yðar sjálfs, til þess að vera hjá yður í kvöld, ef þér eruð ekki vant
við látinn, og geri ég mig ánægða með léttan kvöldverð.“ Þetta ævintýri
fekk mér mesta fagnaðar og skipaði ég þjónum mínum að bera vín og
ýmiskonar aldin á borð. Snæddum við og drukkum og gömnuðum okkur
fram á miðnætti, og hef ég enga sælli nótt lifað, það sem af er ævinnar.
Morguninn eftir ætlaði ég að lauma tíu sekkínum í lófa hinnar fögru
konu, en hún hnykkti aftur hendinni og mælti: „Ég kom ekki hingað af
ágirnd, og styggið þér mig með þessu, því svo er mér fjarri skapi að
þiggja fé af yður, að ég vil heldur að þér þiggið af mér, ella mun ég
ekki oftar koma á yðar fund.“ Tróð hún þá upp á mig tólf sekkínum og
kvaddi mig svo mælandi: „Bíðið mín í þrjá daga og mun ég á þriðja degi
koma eftir sólarlag.“ Ég fann vel á mér, að hún hafði hjarta mitt á burt
með sér. Hún kom aftur á tilteknum tíma og fagnaði ég henni svo vel,
sem vænta má af þeim, er þráir af óðfúsri ást. Leið kvöldið og nóttin allt
eins og í fyrra skiptið, og lofaði hún morguninn eftir að koma innan
þriggja daga, en ekki fór hún fyrr en ég hafði þegið af henni tíu sekkínur.
En er hún kom í þriðja sinn og vínið var tekið að svífa á hana, mælti
hún: „Hvernig lízt yður á mig? Er ég ekki falleg og skemmtileg?“ Svaraði
ég þá: „Þetta þykir mér óþarfa spurning, þar sem ég hef sýnt yður
svo margfaldan vott elsku minnar. Ég er frá mér numinn af því að vera
unnusti yðar, þér eruð drottning mín, þér eruð öll sæla lífs míns.“ Þá
mælti hún: „Ég veit fyrir víst, að þér munduð ekki tala slíkt, ef þér hefðuð
séð eina af vinkonum mínum, sem bæði er fríðari og yngri en ég, og
svo glaðlynd, að hún getur komið hinum þunglyndasta manni til að
hlæja. Ég verð að koma með hana; ég hef sagt henni frá yður, og brennur
hún af löngun eftir að sjá yður. Hefur hún beðið mig að gera sér það
til eftirlætis, en ég hef ekki þorað að verða við tilmælum hennar fyrr
en ég talaði við yður.“ „Gerið sem þér viljið,“ anzaði ég, „en hversu
mjög sem þér lofið vinkonu yðar, þá er hjarta mitt yður áhangandi, þrátt
fyrir alla fegurð hennar, og það svo fast, að ómögulegt er að slíta það
frá yður.“ „Varið yður,“ mælti hún, „ég mun leiða elsku yðar í þunga
freistni.“ Þegar við kvöddumst um morguninn, fékk hún mér fimmtíu
sekkínur. „Munið það,“ mælti hún, „að innan tveggja daga kemur til
yðar nýr gestur og búist til að fagna honum vel. Við munum koma um
sama leyti og ég er vön að koma, eftir sólarlag.“ Lét ég svo á hinum
ákveðna degi prýða salinn og efna til góðrar máltíðar.
168. NÓTT. Ég kvaldist af óþolinmæði meðan ég beið eftir konunum,
en um dagsetur komu þær og tóku blæjurnar frá andliti sínu. Svo
sem ég hafði orðið frá mér numinn af fegurð konunnar fyrri, varð ég þó
enn hugfangnari af vinkonu hennar. Andlit hennar var allt við sig og
fullkomið, með fegurstu litaskiptum, og voru augu hennar svo skær, að
ég þoldi varla ljóma þeirra. Ég þakkaði henni sóma þann, er hún sýndi
mér með því að koma á minn fund, og beiddi hana að virða á betra veg,
ef viðtökurnar færu ekki eftir verðleikum hennar. Svaraði hún þá:
„Sleppið allri óþarfa hæversku, og ætti betur við, að ég talaði svo til yðar,
þar sem þér leyfðuð vinkonu minni að taka mig með sér. En fyrst
þér leyfið mér að vera hér, þá skulum við ekki um annað hugsa en að
skemmta okkur.“ Ég hafði áður skipað, að jafnskjótt sem konurnar
kæmu, skyldi reiða fram mat og vín, og settumst við til borðs. Hinn nýi
gestur minn sat andspænis mér, og horfði án afláts á mig síbrosandi. Ég
fékk ekki staðizt þessi sigrandi augu, og tók hún hjarta mitt, svo ég kom
engri vörn fyrir. En jafnframt sem hún innblés mér ástinni, glæddist hún
hjá sjálfri henni, og sagði hún mörg blíðmæli við mig hispurslaust. Konan,
sem ég hafði kynnzt fyrr við, hafði augu með okkur, hló í fyrstunni og
mælti: „Ég sagði yður alténd, að yður mundi lítast vel á vinkonu mína,
og hafið þér nú þegar rofið trúnaðareiðinn, sem þér unnuð mér.“ Ég
svaraði líka hlæjandi: „Elskan góða, þá mættuð þér kvarta undan mér,
ef ég ekki sýndi kurteisi tiginni konu, sem þér hafið komið með í hús
mitt, og mættuð þið þá báðar ámæla mér fyrir, að ég ekki kynni að fagna
gestum mínum.“ Héldum við nú áfram að drekka og jafnframt því sem
vínið sveif á okkur, fórum við, hin nýkomna kona og ég, að gera okkur
svo dælt hvort við annað, að vinkona hennar fylltist brennandi afbrýði.
Hún stóð upp og sagði um leið og hún gekk út, að hún mundi undir eins
koma aftur; en rétt á eftir bliknaði hin fagra kona í framan, sem eftir
var inni hjá mér, og fékk ógurlegt krampakast; kallaði ég á menn til
hjálpar henni, en hún andaðist samstundis í faðmi mínum. Gekk ég
undir eins út og sögðu þjónar mínir, að hin konan væri farin burt. Grunaði
mig því, að hún mundi valda hinum sviplega dauða vinkonu sinnar.
Enda hafði hana ekki skort illsku né lagkænsku til að byrla henni eitur
í síðustu skálinni, sem hún rétti henni. Féllst mér mikið um atburð
þenna, og vissi ég eigi, hvað úr skyldi ráða, eða hvað um mig mundi
[1388.png: ...lét ég taka upp eina af marmarahellum þeim, er lagðar voru yfir húsagarðinn]
verða. Hugsaði ég, að ég mætti engum tíma eyða til ónýtis; lét ég því
við tunglskin sem hljóðlegast taka upp eina af marmarahellum þeim,
er lagðar voru yfir húsagarðinn; lét ég greftra líkið þar, og leggja helluna
í samt lag. Þvínæst klæddist ég ferðafötum, tók alla peninga mína, lokaði
dyrunum, innsiglaði þær og galt gimsteinasalanum fyrirfram eins
árs húsaleigu; beiddi ég hann að geyma lyklana og sagði honum, að ég
yrði í skyndingu að fara til föðurbræðra minna í Kairó. Síðan kvaddi
ég hann og lagði af stað með fylgdarmönnum mínum.
169. NÓTT. Ég náði farsællega til Kairó og bar það fyrir við föðurbræður
mína, sem furðuðu sig á komu minni, að ég hefði ráðizt í ferð þessa
út úr leiðindum og áhyggjum, af því ég ekkert hefði frétt til þeirra.
Fögnuðu þeir mér vel og lofuðu að sjá svo um, að faðir minn fyrirgæfi
mér ferð þessa, er ég hafði farið í óleyfi hans. Ég bjó í sama gestaherbergi
og varð skjótt kunnugur öllu því, sem var að sjá í Kairó. Eftir að
þeir höfðu selt varning sinn, bjuggust þeir til heimferðar, en af því
mig langaði til að sjá meira af Egiptalandi, fór ég á laun til gestaherbergis
nokkurs, sem langt var frá því, er þeir dvöldu í, og varð þeim ekki samferða.
Leituðu þeir mín vandlega og fundu hvergi; héldu þeir því, að
ég mundi hafa iðrazt eftir að hafa farið til Kairó gegn vilja föður míns,
og þess vegna horfið aftur til Damaskus; fóru þeir af stað í þeirri von,
að þeir mundu hitta mig þar. Ég dvaldi nú þrjú ár í Kairó til þess að
seðja forvitni mína á því, að sjá öll furðuverk Egiptalands. Um þenna
tíma sendi ég gimsteinasalanum í Damaskus húsaleigu, og fór þangað
loksins með þeim ásetningi, að dvelja þar nokkur ár. Gimsteinasalinn
tók mér vingjarnlega og fylgdi mér til húss míns og var innsiglið fyrir
því óhaggað. Fór ég inn, og var þar allt eins og ég skildi við það. Þegar
salurinn var sópaður og þveginn, sem ég hafði snætt í með konunum,
fann einn af þjónum mínum hálsmen úr gulli með tíu stórum og fögrum
perlum; fékk hann mér það, og kannaðist ég við, að það var hið sama,
sem hin unga kona hafði borið, er drepin var með eitrinu. Skildi ég, að
það mundi hafa dottið af hálsi hennar, svo að ég tók ekki eftir. Ég gat ekki
horft á það ógrátandi, því ég minntist hinnar elskulegu konu, er ég hafði
séð deyja svo hryggilegum dauða; braut ég menið saman og stakk því í
barm minn. Þegar ég hafði hvílt mig nokkra daga eftir hina erfiðu ferð,
fór ég að leita upp fornvini mína; hugsaði ég ekki um annað en skemmtanir,
og var allt fé mitt upp gengið fyrr en ég vissi af. Í vandræðum þessum
réði ég af að selja heldur menið en nokkuð af húsgögnum mínum;
fór ég því með það til kauptorgs, brá þar kallara nokkrum á einmæli,
sýndi honum dýrgrip minn og beiddi hann að sýna gimsteinakaupmönnum.
Maðurinn varð hlessa á fegurð hálsmensins, virti það lengi fyrir sér
og mælti: „Enn hafa kaupmenn vorir aldrei séð neitt svo dýrmætt. Þeir
munu verða stórglaðir og bjóða hver í kapp við annan.“ Að svo mæltu
fylgdi hann mér til sölubúðar einnar; vildi svo til, að það var búð húsbónda
míns; þar beiddi hann mig að bíða sín. Meðan hann með mestu
íbyggni gekk úr einni búðinni í aðra og bauð hálsmenið til kaups, settist
ég á tal við gimsteinasalann, sem varð feginn að finna mig. Þegar kallarinn
kom aftur, veik hann mér afsíðis, en í stað þess að bjóða í minnsta
lagi tvö þúsund sekkínur fyrir menið, sór hann mér, að enginn vildi
gefa meira en fimmtíu, því perlurnar væru sviknar. Ég hafði ekkert vit
á perlum og trúði því manninum; kvaðst ég treysta honum og öðrum
sem betra skynbragð hefðu á þeim, og skyldi hann færa mér peningana
undir eins. En kallarinn hafði boðið mér fimmtíu sekkínur fyrir hönd
einhvers hins ríkasta gimsteinasala á kauptorginu, til þess að komast eftir,
hvort ég vissi hið sanna verð mensins. Óðar en kallarinn hafði sagt honum,
hverju ég svaraði, fór hann með honum til lögreglustjóra, sýndi honum
menið og mælti: „Herra! Meni þessu hefur verið stolið frá mér, og
þjófurinn, sem hefur tekið á sig kaupmanns gervi, er svo ósvífinn, að
hann býður það hér til kaups og er sjálfur á torginu. Hann lætur sér
nægja fimmtíu sekkínur fyrir þá gersemi, sem er tvö þúsund sekkína
virði; sýnir það augljóslega að hann er þjófur að meninu.“ Lögreglustjórinn
lét jafnskjótt taka mig fastan og leiða mig fyrir sig; spurði hann
mig, hvort ég hefði ætlað að selja menið á kauptorginu; kvað ég já við
og spurði hann þá, hvort ég hefði ætlað að láta það á fimmtíu sekkínur.
En er ég hafði játað því, mælti hann í háði: „Gefið honum iljabarning;
hann mun fljótt játa, að hann er ekki annað en falsari, þó hann sé í
fallegum kaupmanns fötum. Lemjið hann þangað til hann meðgengur.“
Hin hörðu slög knúðu mig loksins til að segja ósannindi, og játaði ég
því, þvert á móti sannleikanum, að ég hefði stolið meninu; lét þá lögreglustjórinn
óðara höggva af mér höndina. Varð mikill þys af þessu á
kauptorginu, og jafnskjótt sem ég var kominn heim, kom húseigandinn
og mælti: „Sonur sæll, þú virðist vera skynsamur og vel uppalinn unglingur,
hvernig gaztu þá fengið af þér að auðvirða þig á öðru eins verki
og þessu, sem mér er sagt að þú hafir framið? Þú hefur sjálfur sagt mér
af efnahag þínum, og efast ég ekki um, að svo muni vera, sem þú sagðir,
en því beiddirðu mig ekki um fé? Ég mundi fúslega hafa lánað þér. En
eins og nú er komið, get ég ekki lengur þolað þig í húsum mínum; vertu
þér því úti um annan bústað.“ Mér var mesta skapraun að orðum hans, og
beiddi ég hann grátandi að lofa mér að vera hjá sér í þrjá daga. „Æ, hvílíkt
ólán, hvílík svívirðing,“ kallaði ég upp, „á ég að voga að koma aftur
til Mússúl? Mundi ég geta sannfært föður minn um sakleysi mitt með
öllu því, er ég færi mér til réttlætingar?“
170. NÓTT. Þremur dögum eftir að þessi óhamingja hafði hent mig,
brá mér illa við, er húseigandinn og flokkur lögregluþjóna komu með
kaupmanni þeim, er ranglega hafði ákært mig fyrir stuld á hálsmeninu.
Ég spurði, hvort erindi þeirra væri, en í stað þess að svara mér, bundu
þeir mig, kefluðu mig og hundskömmuðu mig; sögðu þeir, að borgarstjórinn
í Damaskus ætti menið, hefði hann misst það fyrir þremur árum,
og ein af dætrum hans horfið um sama leyti. Nú megið þið nærri
geta, hvernig mér hafi orðið við þessa sögu. Allt fyrir það einsetti ég mér
að segja borgarstjóranum sannleikann og eiga á hættu, hvort hann fyrirgæfi
mér eða fyrirdæmdi mig. Það þótti mér góðs viti, er ég var leiddur
fram fyrir hann, að hann horfði vorkunnsamlega til mín og lét leysa mig
úr böndum. Þegar hann hafði spurt mig, hvort ég væri sá, sem bauð perlumenið
til kaups, og ég hafði játað því, tók hann þannig til máls: „Ég
er viss um, að hann hefur ekki stolið því, og fær mér undrunar, að honum
hefur verið slíkur óréttur gjör.“ Við þetta óx mér hugur og mælti ég:
„Herra! Ég sver yður, að ég er með öllu saklaus, og það er sannfæring
mín, að hálsmenið hafi aldrei verið eign ákærandans; hef ég aldrei séð
hann fyrr, og er það illmennsku hans að kenna, að ég hef orðið fyrir svo
óviðurkvæmilegri meðferð. Að vísu hef ég játað stuldinum á hendur mér,
en það var fyrir eintómar pyndingar og af ástæðu einni, sem ég skal segja
yður, ef þér viljið hlýða á.“ Þá mælti borgarstjórí: „Nú veit ég svo mikið,
að yður skal ekki verða synjað alls þess réttar, sem þér eigið heimting á.
Dragið hinn lýgna sakarábera burt, og skal hann að vörmu spori þola
hina sömu refsingu, og hann hefur bakað unglingi þessum, sem ég veit
að er saklaus.“ Skipun þessari var undir eins fullnægt. Eftir það lét borgarstjóri
alla, sem viðstaddir voru, ganga út og mælti við mig: „Sonur, seg
mér án ótta og undandráttar, hvernig kom hálsmenið í þínar hendur?“
Sagði ég honum það og gat þess, að ég hefði heldur viljað heita þjófur,
en segja frá hinum hryggilega atburði. Þegar ég var þagnaður, kallaði
borgarstjórinn upp: „Mikli drottinn! Þínar ráðsályktanir eru óskiljanlegar,
og oss ber að taka þeim möglunarlaust; með djúpri auðmýkt tek
ég mótlæti því, sem þér hefur þóknazt að leggja á mig.“ Því næst veik
hann sér að mér og mælti: „Sonur, fyrst þú hefur sagt mér tildrög óhamingju
þinnar, sem fær mér mikillar hryggðar, skal ég segja þér frá mínu
óláni. Vita skaltu að báðar konurnar, sem þú sagðir mér frá, voru dætur
mínar.
171. NÓTT. Sú konan, sem fyrst var svo ósvífin, að leita á fund þinn,
var elzt allra dætra minna. Ég hafði gift hana bróðursyni mínum í Kairó,
en hann andaðist og kom hún aftur til mín, spillt af allskonar ósiðum,
er hún hafði lært á Egiptalandi. Áður en hún kom, hafði yngri systirin,
sem dó svo hörmulega í faðmi þínum, verið skynsöm og hegðað sér svo,
að ég gat ekkert að fundið. En eldri systirin leiddi hana smámsaman afvega,
þangað til þær voru báðar orðnar jafnspilltar. Þegar ég saknaði
hennar daginn eftir, um leið og ég settist til borðs, og spurði eftir henni,
tók hin eldri að gráta beisklega, svo að ég bjóst ekki við góðu. Lagði ég
fast að henni, að hún skyldi segja mér sannleikann, og svaraði hún þá
grátandi: „Faðir minn, ég veit ekki annað en að hún systir mín gekk út
í gær í beztu fötunum sínum með perlumenið og er ekki komin enn.“
Lét ég þá leita að dóttur minni um alla borgina, og kom fyrir ekki, en
hin eldri harmaði og grét óaflátanlega dauða systur sinnar og iðraðist hún
vafalaust eftir hina óstjórnlegu afbrýðisemi; smakkaði hún ekki mat og
leiddi þannig hina hryggilegu ævi sína til lykta. Þetta er hlutskipti manna,
svona er ólánið, sem yfir þeim vofir,“ mælti borgarstjórinn enn fremur,
„en úr því við erum báðir jafn ólánsamir, þá látum okkur bera harma
okkar sameiginlega og aldrei skilja. Ég gef þér til eiginkonu hina þriðju
dóttur mína, sem er yngri og fríðari en systur hennar, og ólík þeim í dagfari
sínu; munuð þið eiga skap saman; upp frá þessu er hús mitt þín eign,
og eftir mig látinn takið þið bæði allan arf.“ „Herra!“ svaraði ég, „ég
er hreint forviða af allri góðsemi yðvarri og ég mun aldrei nógsamlega
fá vottað yður þakklátsemi mína.“ „Sleppum því,“ mælti hann. „við
skulum ekki eyða tímanum með fánýtu hjali.“ Því næst lét hann sækja
vitni og fór giftingin fram viðhafnarlaust. Hann gerði og mér í hag upptækar
eigur gimsteinasalans, er ranglega hafði ákært mig; voru þær töluverðar.
Vitið þér, sem eruð hér eins og heimamaður, hvert álit borgarstjórinn
hefur á mér. Vona ég nú að þér fyrirgefið mér ókurteisi mína,
að ég í sjúkleika mínum rétti yður vinstri höndina í stað hinnar hægri.“
„Svona var sagan sem hinn ungi maður frá. Mússúl sagði mér,“ mælti
Júðalæknirinn við soldáninn í Kasjgar. „Ég var í Damaskus þangað til
borgarstjórinn dó, og með því ég var ungur, er það gerðist, réðist ég í
langferðir, ferðaðist um Persaland og komst alla leid til Indíalands; loksins
tók ég mér bólfestu í höfuðborg ríkis yðvars og leik ég hér læknislist
mína við góðan orðstír.“
Soldáninum í Kasjgar þótti saga þessi að vísu merkileg, en ekki eins
undrunarverð og krypplingsins; gaf hann því ekki heldur Júðalækninum
líf, heldur vildi hann láta hengja þá alla fjóra. Þá féll skraddarinn fram
fyrir hann, beiddi hann um frest og mælti: „Úr því yðar hátign hlýðir
fúslega á skemmtilegar sögur, þá mun yður ekki líka illa sú, er ég nú ætla
að segja.“ „Ég skal að vísu hlýða á hana,“ anzaði soldán, „en vonastu
ekki eftir lífgjöf, nema þú segir sögu, sem er skemmtilegri en krypplingsins.“
Tók þá skraddarinn óhræddur til frásagna:
Sagan er skraddarinn sagði
„Herra! maður nokkur hér í borginni bauð mér fyrir tveimur dögum
í veizlu eina, er hann hélt vinum sínum í gær; fór ég þangað á tilteknum
tíma og var þar nær tuttugu manns fyrir. Vér biðum eftir húsbóndanum,
sem var genginn út erinda sinna, en hann kom skjótt og fylgdi
honum ungur maður útlendur, vel búinn og fríður sýnum, en haltur.
Stóðum vér þá allir upp húsbóndanum til virðingar; buðum vér útlendingnum
að setjast hjá oss í legubekkinn. Þáði hann það, en í því hann
var að setjast niður, varð honum litið til rakara eins, sem var í boðinu;
hrökk hann þá aftur snúðugt og ætlaði að fara út. Húsbóndinn undraðist
þetta, aftraði honum og mælti: „Hvert ætlið þér? Ég kom með yður hingað,
til þess þér skylduð vera í veizlu, sem ég held vinum mínum, en jafnskjótt
sem þér eruð kominn inn, viljið þér fara burt.“ Hinn ungi útlendingur
mælti þá: „Fyrir guðs sakir, haldið mér ekki aftur, lofið mér
að fara. Það fer um mig hryllingur, þegar ég horfi á rakarann þarna, viðurstyggðina
þá. Þó hann sé fæddur í því landi, þar sem allir menn eru
hvítir, er hann samt líkur blökkumanni; en sálin í honum er þó enn
svartari en andlitið.“
172. NÓTT. Þegar vér heyrðum þetta, urðum vér forviða og fengum
illan hug til rakarans, þó vér ekki vissum, hvort hinn ungi útlendingur
hefði rétt að mæla. Kváðum vér upp úr og sögðumst engan mann þola
við borð vort, sem svo viðbjóðslega væri lýst. Húsbóndinn beiddi þá útlendinginn
að segja, hvað honum gengi til að hata rakarann, og svaraði
þá hinn ungi maður: „Herra! Þér skuluð vita, að upp á þenna bölvaða
rakara á ég það, að ég er haltur, og af hans völdum hefur mig hent hið
grimmasta ólán, sem hugsazt getur. Hef ég því svarið, að flýja alla staði,
þar sem hann er, og dvelja í engri borg, sem hann býr í. Þess vegna fór
ég frá Bagdad og skildi hann þar eftir, og fór ég hina löngu leið hingað
til þess að taka mér bólfestu í borg þessari mitt í hinu stóra Tattaralandi,
því ég vonaði, að hér mundi hann aldrei koma fyrir mín augu. Þvert á
móti von minni hitti ég hann hér og verð ég því, þó mér sé nauðugt, að
synja mér þeirrar sæmdar, að njóta með ykkur fagnaðarins. Ég ætla að
fara úr borginni þegar í dag, og reyna að fela mig einhversstaðar, þar
sem hann ekki verður á vegi mínum.“ Að svo mæltu ætlaði hann að fara,
en húsbóndinn og vér gestirnir lögðum fast að honum og beiddum hann
að vera kyrran og segja oss, af hverju andstyggð hans á rakaranum væri
sprottin. Hinn ungi maður lét til leiðast, settist á legubekkinn og sneri
bakinu að rakaranum, til þess að sjá hann ekki; því næst sagði hann sögu
sína á þessa leið:
„Faðir minn var göfugur maður í Bagdad og borinn til æðstu embætta,
en þrátt fyrir það kaus hann heldur að lifa í kyrrð en njóta allra þeirra
virðinga, er hann átti kost á. Ég var einbirni hans, og er hann andaðist,
skorti mig eigi aldur né þroska til að ráða hinum miklu fjármunum, er
hann lét mér eftir sig. Fór ég svo vel með auð minn, að allir menn virtu
mig. Engar ástríður höfðu enn þá hreyft sér hjá mér, og fór því svo
fjarri, að ég væri gjarn til ásta, að ég, þó skömm sé frá að segja, forðaðist
alla viðkynning við konur. Einn dag, er ég var úti á stræti, sá ég
koma á móti mér fjölda kvenna; beygði ég þá út af leið minni inn í annað
stræti, til þess að verða ekki á vegi þeirra; settist ég þar á bekk einn
fyrir utan húsdyr. Andspænis mér var gluggi, og stóð fyrir neðan hann
ker með fegurstu blómum í, og varð mér starsýnt á. Í sama vetfangi var
lokið upp glugganum, og sá ég þá unga mey, sem því nær blindaði augu
mín með ljóma fegurðar sinnar, og um leið og hún döggvaði blómin
með hendi sinni, sem var hvítari en alabastur, horfði hún á mig brosandi,
og leizt mér nú þeim mun betur á hana, sem ég áður hafði haft óbeit á
kvenfólki. En er hún hafði vökvað blómin, renndi hún töfrandi ástaraugum
til mín, svo að hjarta mitt varð gagntekið; síðan lokaði hún glugganum
og skildi við mig í svo ringluðu og órósömu hugarástandi, að því
verður eigi með orðum lýst. Í sama bili heyrði ég háreysti í strætinu, og
kom ég við það til sjálfs mín; stóð ég þá upp og litaðist um. Sá ég æðsta
dómara borgarinnar koma ríðandi múlasna og fylgdu honum fimm eða
sex þjónar; fór hann af baki hjá húsinu, þar sem yngismærin hafði lokið
upp glugganum, og gekk þar inn; réði ég af því að hann mundi vera faðir
hennar. Þegar ég kom heim til mín, voru skapsmunir mínir harðla frábrugðnir
því, sem þeir voru, þegar ég gekk út; ég var nú altekinn af
ástríðu, sem var því ákafari, sem ég aldrei hafði orðið var við hana fyrr.
Ég lagðist til hvíldar og var hitasótt í blóði mínu. Olli það mikilli hryggð
á heimili mínu, og margir ástvinir mínir, sem urðu áhyggjufullir út af
þessum snögglegu veikindum, komu til mín og spurðu mig, hvernig á
þeim stæði, en ég var svo hygginn, að ég þagði yfir því. Urðu þeir því
hræddir um mig og fengu læknarnir alls ekki hughreyst þá, því þeir
þekktu ekki sjúkleika minn, og versnaði mér af meðulum þeirra. Tóku
menn að örvænta mér lífs, en þá vildi svo til að gömul kona, sem vinir
mínir þekktu, heyrði talað um sjúkleika minn og kom hún til mín. Hún
virti mig gaumgæfilega fyrir sér og spurði mig út í æsar; sá hún hvað
sjúkleikanum mundi valda. Eftir tilmælum hennar gengu allir út úr herberginu,
sem viðstaddir voru, og þegar við vorum tvö ein, settist hún við
höfðalagið og mælti: „Þér hafið til þessa þverskallazt við að segja orsakir
sjúkleika yðar; nú þurfið þér ekki að segja mér þær, því ég er svo reynd,
að ég þekki þær, þó þér ekki segið mér, og ekki munuð þér bera á móti
því, að þér eruð sjúkur af ást. Ég skal gera yður alheilan af meini þessu,
ef þér segið mér, hver sú er, sem bar gæfu til að sigra svo harðgert hjarta,
sem yðar er, því þér eruð enginn kvenna vinur kallaður, og hafa fleiri
tekið eftir því en ég. En nú er það fram komið, er ég sá fyrir, og þykir
mér vænt um, að mér gefst tækifæri til að hjálpa yður úr vandræðum
þessum með minni milligöngu.“
173. NÓTT. Þegar gamla konan hafði þannig talið um fyrir mér,
þagnaði hún, en þó mér fyndist mikið um orð hennar, þorði ég ekki að
birta henni hugskot mitt; svaraði ég því engu, en varpaði öndinni mæðilega
og sneri mér að henni. „Komið þér yður ekki að því að tala,“ mælti
hún, „fyrir uppburðarleysi eða tortryggni? Efist þér um, að ég geti staðið
við orð mín? Ég gæti nefnt ótal unga menn af kunningjum yðar, sem
ég hef hjálpað úr samkyns vandræðum.“ Hin góða kona hélt þannig
áfram að tala til mín og kom mér loksins til að ljúka munni sundur, og
sagði ég henni, hvað að mér gengi og hvernig ævintýri mitt hefði atvikazt.
Ég lofaði henni öllu fögru, ef hún gæti komið mér í mjúkinn hjá
hinni fögru mey. Svaraði hún þá: „Sonur sæll, ég þekki hana, sem þér
talið um, og eigið þér kollgátuna, að hún er dóttir æðsta dómarans í
borginni. Mér þykir ekki kyn, þó þér elskið hana, því hún er hin fegursta
og elskulegasta mær í Bagdad, en hitt fær mér áhyggju, að hún er stórlát,
og er örðugt að fá hana í tal. Auk þessa vitið þér, hversu ríkt valdsmenn
vorir ganga eftir, að hinna hörðu laga sé gætt, er halda konum í
þungbæru ófrelsi, og þeim mun strangari eru þeir á sínum eigin heimilum,
en dómari sá, er þér sáuð, tekur þó öllum öðrum fram í þessu. Með
því að þeir ávallt innræta dætrum sínum, að það sé stórglæpur að láta
karlmann sjá sig, þá trúa þær því svo fastlega, að ef þær einhvern tíma
ganga út, þá hafa þær ekki augun af veginum, sem þær ganga á. Að vísu
hygg ég, að dóttir æðsta dómarans sé ef til vill ekki svo skapi farin, en
samt er ég hrædd um, að ekki verði minni örðugleikar af hennar hálfu
en föður hennar. Hefði drottni þóknazt að láta yður elska einhverja
aðra, mundi mér hafa veitt allt hægra. Ég skal samt beita allri kænsku
minni, en engu mun ég koma áleiðis, nema ég hafi tímann fyrir mér;
meðan á því stendur, skuluð þér ekki láta hugfallast, heldur treysta mér.“
Gamla konan skildi þá við mig þungt hugsandi út af örðugleikum þeim,
er hún ræddi um, og vonlausan um, að hún mundi nokkru áorka. Kom
hún daginn eftir og sá ég á henni, að hún kom ekki með góðar fréttir.
„Sonur sæll,“ mælti hún, „ég hef getið rétt til, og á ég við meira að stríða
en aðgætni föður hennar. Þér elskið kaldgeðjaða mey, og hefur hún gaman
af að blása brennandi ást í brjóst hverjum þeim, sem töfrast lætur af
fegurð hennar. Hún hlýddi ljúflega á mig, meðan ég var að segja henni
frá kvölum þeim, er þér þolið hennar vegna, en jafnskjótt sem ég ympraði
á því, að hún skyldi leyfa yður að koma til sín, svo að þér mættuð
tjá henni ást yðar, þá hvessti hún augun á mig hræðilega og mælti: „Þú
ert furðu djörf, að ætla mér slíkt, og banna ég þér að koma nokkurn tíma
fyrir mín augu, ef þú minnist á það framar.“ En þér skuluð ekki verða
hugsjúkur út af því; það er ekki svo hægt að bola mér frá, og ef yður ekki
brestur þolinmæði, þá hygg ég, að ég innan skamms komi öllu mínu
fram.“ Er þar stutt frá að segja, gamla konan fór marga ónýtisferð til
meyjarinnar stórlátu, og fékk það mér mikillar hryggðar, og versnaði mér
svo, að ég varð dauðvona. En þá einmitt, í síðustu forvöð, kom hún og gaf
mér aftur líf mitt. „Hugsið nú til mín með góða gjöf,“ hvíslaði hún að
mér, „því ég færi yður gleðifregn.“ Orð þessi höfðu undrunarverð áhrif.
Ég reis upp í rúminu og svaraði frá mér numinn af fögnuði: „Gjöfina
skuluð þér fá; hvað segið þér mér?“ „Ekki verður þetta dauðamein yðar,
góði herra!“ anzaði hún, „mun sá fögnuður veitast mér bráðum að sjá
yður alheilan og ánægðan. Ég var í gærdag hjá ungfrúnni, sem þér elskið,
og hitti ég hana í góðu skapi. Ég setti á mig hryggðarsvip, grét og stundi
þungan. „Hvað gengur nú að þér, móðir góð?“ spurði hún. „Æ, tignaða,
elskulega ungfrú!“ mælti ég þá, „ég kem núna frá unglingnum, sem ég
sagði yður frá fyrir skemmstu. Honum er ekki lífvænt, og mun hann
vissulega deyja af ást sinni á yður; það er mikill skaði að honum, það
segi ég yður satt, og þér eruð enn svo harðbrjósta.“ Þá svaraði hún: „Ég
veit ekki, hvernig ég ætti að valda dauðameini hans? Hvernig hef ég
stuðlað til þess?“ „Hvernig?“ mælti ég, „sagði ég yður ekki rétt nýlega,
að hann sat andspænis glugga yðar, þegar þér lukuð honum upp til þess
að döggva blómin yðar? Hann sá furðuverk fegurðarinnar, sem spegillinn
yðar sýnir yður á degi hverjum; upp frá þeirri stund hefur hann verið
sjúkur og er nú kominn í þetta aumkvunarverða ástand.
174. NÓTT. Þér munið víst,“ mælti ég enn fremur, „hversu þér átölduð
mig, þegar ég sagði yður frá sjúkleika hans, og ætlaði að færa í tal við
yður meðal nokkurt honum til bjargar. Ég fór frá yður til hans og versnaði
honum um allan helming, er hann sá á mér, að ég ekki mundi færa
góð tíðindi; síðan hefur hann verið að fram kominn og veit ég ekki,
hvort þér gætuð einu sinni bjargað honum, þó þér vilduð miskunna honum.“
Svo mælti ég, og mýktist hjarta hennar af ótta fyrir því, að þér
munduð deyja; hún brá lit og mælti: „Er saga þín sönn? Og er hann svo
veikur af eintómri ást á mér?“ Sagði ég víst svo vera, og mælti hún þá:
„Er það ætlun þín, að vonin um að finna mig og tala við mig, muni frelsa
hann úr háska þeim, sem hann nú er í?“ „Vísast er það,“ svaraði ég, „ég
skal gera tilraun ef yður þóknast.“ „Gott og vel,“ mælti hún og stundi
þungt við, „seg þú honum, að hann skuli fá að sjá mig, en ekki má hann
ætlast til frekara eftirlætis, nema hann vilji ganga að eiga mig og faðir
minn samþykki.“ „Tignaða ungfrú,“ mælti ég, „mikil er hjartagæzka yðar.
Nú mun ég færa unga manninum þau gleðitíðindi, að hann skuli fá
að tala við yður.“ „Ég veit engan hentugri tíma,“ mælti hún, „til þess
að veita honum þetta, en næsta föstudag, meðan á hádegis bænagjörð
stendur. Skal hann hafa gætur á, nær faðir minn gengur frá húsi sínu
til musterisins, og skal hann þá koma til húsdyranna. Ég mun sjá úr
glugga mínum, þegar hann kemur, og undir eins hleypa honum inn, en
þegar faðir minn kemur heim, verður hann að fara.“ Í dag er þriðjudagur
og á föstudaginn munuð þér verða svo heilbrigður, að þér getið
farið á fund hennar.“
Meðan gamla konan talaði þannig, fann ég að mér batnaði með hverju
orði, og var ég alheill er hún þagnaði. „Takið við þessu,“ mælti ég við
hana og rétti henni troðfulla pyngju mína, „ég á yður einni að þakka
heilsubata minn, og er fé þessu betur varið en því, er ég hef goldið læknunum,
sem ekkert hafa gert annað en að kvelja mig í veikindum mínum.“
Þegar kerling var farin út, var ég svo styrkur, að ég gat staðið upp,
og á föstudag kom hún að mér, þar sem ég var að taka til fegursta klæðnað
minn. „Ég þarf ekki,“ tók hún til máls, „að spyrja, hvernig yður líði, ég
sé það; en ætlið þér ekki að taka laugar áður en þér farið til æðsta dómarans
eða réttara sagt, til dóttur hans?“ Svaraði ég því, að það tæki of
langan tíma, og að ég ætlaði einungis að gera boð eftir rakara til að skera
hár mitt og raka af mér skeggið. Sendi ég þá að vörmu spori einn af
þrælum mínum og skipaði honum að sækja rakara, er gerði verk sitt fljótt
og vel. Þrællinn kom aftur með ólukku rakarann þarna; heilsaði hann
mér og mælti: „Þér lítið út fyrir að vera lasinn, herra!“ Svaraði ég þá, að
ég væri nýstaðinn upp úr sótt. Þá segir hann: „Guð varðveiti yður frá
öllu illu og hans miskunn fylgi yður ævinlega.“ Þá svaraði ég: „Ég vona,
að guð bænheyri yður og kann ég yður þökk fyrir óskir yðar mér til
handa.“ „Fyrst yður er batnaður krankleiki yðar,“ mælti hann, „þá bið
ég drottinn að varðveita heilbrigði yðar. En segið mér nú: hvað skal gera?
Ég kom bæði með skegghnífana og bíldana; á ég að raka yður, eða á ég
að taka yður blóð?“ „Ég sagði yður í þessu bili,“ mælti ég, „að ég væri
ný staðinn upp úr sótt, og megið þér því skilja, að ég einungis vil láta
raka mig. Flýtið yður því og höfum ekki tímann af okkur með óþarfa
masi, því það er á mér mesti asi og ég á að vera kominn á einn stað um
hádegið.“
175. NÓTT. Rakarinn var eilífðar tíma að tína tækin upp úr poka
sínum og búa hnífana til raksturs. En í stað þess að hella vatni í skálina,
tók hann upp lítinn og laglegan hæðarmæli og labbaði næsta seinstígur
út í garðinn til að mæla sólarhæðina. Kom hann aftur með hátíðlegri alvörugefni
og mælti: „Herra! Ég get glatt yður með þeirri frétt, að í dag
er föstudagur, hinn átjándi dagur í mánuðinum Safar, á sexhundrað
fimmtugasta og þriðja ári frá því að vor mikli spámaður flýði úr Mekka
til Medína, og á sjöþúsundasta og tuttugasta ári í tímabili hins mikla tvíhyrnda
Ískanders (Alexanders mikla), og að sólstefna Marz og Merkúríusar
táknar það, að þér gátuð ekki valið hentugri tíma en daginn í dag og
stundina, sem yfir stendur, til að láta raka yður. En þessi hin sama staða
stjarnanna er yður líka hins vegar ills viti, því hún boðar, að þér munið í
dag rata í mikinn háska. Að vísu mun yður verða lífs auðið, en yfir yður
vofir ólán, sem ekki mun skilja við yður ævilangt. Yður ber að taka því
þakklátlega, að ég vara yður við óhamingjunni, og mundi mér þykja
illt ef þér yrðuð fyrir henni.“ Nú megið þið nærri geta, hvað mér varð
gramt í geði út af því, að vera kominn í hendur svo þvoglsams og malóðs
rakara, og svaraði ég í reiði: „Ég hirði hvorki um spár yðar né varnaðarorð;
ég hef ekki sent eftir yður, til þess að spyrja yður um stjörnuþýðingar.
Þér eruð hingað kominn til að raka mig; gerið annaðhvort að
[1399.png: ...hvað er það til, sem ég ekki kann?]
raka mig eða snáfa burt, svo ég geti látið sækja annan rakara.“ Svaraði
hann mér þá með mestu stillingu, sem þreytti í mér þolrifin: „Því stökkvið
þér upp á nef yðar? Þér skuluð vita, að enginn rakari jafnast á við mig,
og að þér finnið engan slíkan, hvar sem þér leitið. Þér hafið ekki beðið
nema um einn rakara, og þar sem ég er, hafið þér sannkallaðan þúsund
véla smið, hinn bezta rakara í Bagdad, margreyndan lækni, skarpvitran
efnafræðing, óbrigðulan stjörnuspámann, fullkominn málfræðing, glöggskyggnan
hugsunarfræðing, stærðfræðing, sem er heima í mælingafræði,
talnafræði, bókstafareikningi og stjörnufræði, sagnfræðing, sem kann
sögu allra ríkja í veröldinni upp á sína tíu fingur. Auk þess þekki ég allar
greinir heimspekinnar út í hörgul, kann utanbókar öll landslög og lagavenjur.
Ég er skáld, húsasmiður, hvað er það til, sem ég ekki kann? Í allri
náttúrunni er mér ekkert hulið, og hann faðir yðar sæli, sem ég aldrei
minnist á ógrátandi, hann vissi til hlítar, hvílíkur maður ég er. Hann
elskaði mig, hældi mér og lofaði mig í hvers manns eyru, eins og hinn
mesta mann heimsins. Ég ætla nú að taka ástfóstri við yður af vinsemd
og þakklátsemi við hann; ég ætla að taka yður að mér og vernda yður
fyrir allri óhamingju, sem himintunglin ógna yður með.“ Svo reiður, sem
ég var, gat ég samt ekki annað en hlegið að þvættingi þessum og sagði:
„Hafið þér nú ekki bráðum úttalað, bannsett skrafskjóðan? Ætlið þér
þá ekki að raka mig?“
176. NÓTT. „Þér misbjóðið mér, herra,“ anzaði rakarinn, „með því
að kalla mig skrafskjóðu; allur heimurinn breytir gagnstætt og kallar
mig í heiðurs skyni: „hinn þögla“. Ég átti sex bræður; þá hefðuð þér
með öllum rétti mátt kalla skrafskjóður. Sá elzti hét Bakbúk, annar Bakbarah,
þriðji Bakhak, fjórði Alkus, fimmti Alnasjar, sjötti Skakabak —
það voru ljótu skraffinnarnir. En ég, sem er yngstur okkar bræðra, er
ráðsettur og orðfár.“ Hugsið ykkur nú, að þið hefðuð verið í mínum
sporum; hvað átti ég að taka til bragðs í slíkum vandræðum? Ég kallaði
til bryta míns og sagði: „Gefðu honum þrjá gullpeninga, svo hann fari
og láti mig í friði, ég læt ekki raka mig í dag héðan af.“ „Hvað á þetta
að þýða?“ segir rakarinn, „ég hef ekki leitað yður upp, heldur hafið þér
látið sækja mig, og fyrst svo er, fer ég ekki eitt fet héðan fyrr en ég er búinn
að raka yður, það sver ég, svo sannarlega sem ég er rétttrúaður maður.
Ég get ekki gert að því, þó þér kannist ekki við verðleika mína, og
hvað það snertir, þá lét hann faðir yðar sæli mig njóta meira sannmælis
en þér. Í hvert skipti, sem hann gerði boð eftir mér til að taka sér blóð, lét
hann mig setjast hjá sér, og þá var sannarlegt yndi að heyra alla þá vizku,
sem rann upp úr mér. Hann sat orðlaus af undrun á meðan ég talaði, en
þegar ég þagnaði, kallaði hann upp: „Ó, þú óþrjótandi vizkubrunnur, við
yðar djúpvitru þekkingu fær enginn jafnast.“ Þá svaraði ég: ”Góði herra,
þér heiðrið mig yfir verðleika fram. Ef eitthvað gott dettur upp úr mér,
þá þakka ég það því, að þér eruð svo náðugur að vilja hlýða á mig. Yðar
örlæti blæs mér í brjóst öllum þeim háleitu hugsunum, sem yður til allrar
hamingju geðjast svo vel að.“ Einu sinni varð hann svo frá sér numinn
af einni aðdáanlegri ræðu, sem ég hélt, að hann sagði: „Gefið honum
hundrað gullpeninga og færið hann í eina af hinum dýrustu skikkjum
mínum!“ Fékk ég gjöf þessa samstundis, og stillti ég þá stjörnumátið og
sá, að hann var hinn sælasti maður í heimi. Þar á ofan vottaði ég honum
þakklátsemi mína með því að setja honum blóðhorn.“ Rakarinn lét
ekki sitja við þetta, heldur byrjaði hann nýja þvættings runu, er stóð í
rúma hálfa stund. Var ég þá bæði orðinn þreyttur að hlýða á hann og
örvænti, þegar ég sá, hversu tíminn leið og ég var engu nær; vissi ég ekki
hvað gera skyldi. „Nei!“ hrópaði ég, „það er ómögulegt að nokkursstaðar
í heiminum sé til annar maður slíkur sem þér, sem hafið ánægju af að
gera mann svo óðan og æfan að maður loksins ekki veit sitt rjúkandi ráð.“
177. NÓTT. Nú með því að ég hélt, að mér mundi verða mest ágengt,
ef ég færi með góðu að þessum djöfullega rakara, þá sagði ég: „Hættið nú
[1401.png: Reiðist mér ekki, herra, nú skal ég taka til verka]
fyrir guðs sakir þessari viðhafnarlegu orðamælgi og afgreiðið mig í flýti.
Ég þarf að fara út í áríðandi erindi eins og ég sagði yður fyrr.“ Að þessum
orðum mínum fór hann að hlæja og mælti: „Það væri lofsvert, ef andi
vor væri jafnan eins, ef vér ætíð værum hyggnir og skynsamir; nú ef þér
eruð mér reiður, þá ætla ég að kenna um það veikindum yðar, sem breytt
hafa skaplyndi yðar. Í þessu efni er yður ekki vanþörf á heilræðum, og
mun yður ekki reynast annað betra en að feta í fótspor föður yðar og
afa; þeir kvöddu mig til ráða um allt, og það þori ég að segja, án alls oflofs,
að þeir voru ánægðir með ráðleggingar mínar. Gætið þess, herra, að
sjaldan verður nokkru áformi framgengt, nema vitrir menn séu til ráða
kvaddir. Máltækið segir, að enginn verði dugandis maður, nema hann
leiti ráða hjá dugandis mönnum, og ég er boðinn og búinn til að gera yðar
vilja, bæði í orði og verki; segið þér bara til.“ Þá greip ég fram í og
mælti: „Get ég þá ekki fengið yður til áð hætta þessu óþolandi bulli,
sem gerir mig ringlaðan og tefur mig frá erindagjörðum mínum? Rakið
mig annaðhvort eða farið.“ Stóð ég þá upp í reiði og stappaði fætinum í
gólfið. En er hann sá, að ég var reiður að marki, tók hann þannig til
máls: „Reiðist mér ekki, herra, nú skal ég taka til verka.“ Enda þvoði
hann þá höfuð mitt og fór að raka mig, en er hann hafði tæplega tekið
fjórar sköfur með hnífnum, hætti hann aftur og mælti: „Herra, þér eruð
bráðlyndur og ættuð að varast slík uppþot, því þau koma frá djöflinum.
Auk þess ber yður að sýna mér lotningu sakir aldurs míns, lærdóms míns
og frábærra mannkosta.“ „Haldið áfram að raka mig og þvaðrið ekki,“
sagði ég. „Það er þá svo að skilja,“ mælti hann, „að áríðandi störf kalla
hart að yður; ég þori að veðja, að ég get rétt til.“ „Það sagði ég yður fyrir
tveimur stundum,“ svaraði ég, „og ættuð þér að vera búnir að raka mig.“
„Stillið yður,“ segir hann, „það er vísast, að þér hafið ekki íhugað áform
yðar vandlega; þeir, sem flana að gjörðum sínum, iðrast oft síðar meir.
Ég vildi þér segðuð mér, hvað það er, sem rekur svo hart eftir yður; ég
skyldi þá segja yður minn dóm um það. Annars hafið þér nógan tímann,
fyrst menn búast ekki við yður fyrr en um hádegi, því þangað til eru þrjár
stundir.“ „Það skiptir mig engu,“ anzaði ég, „orðheldnir menn, sem gæta
sóma síns, koma fyrr en ákveðið er. En það er satt, ég gæti þess ekki, að
með þessu verð ég undir sömu syndina seldur og hinir málóðu rakarar;
ljúkið nú við að raka mig.“ Því meira flýtisæði, sem á mér var, því tregari
var hann að hlýða mér. Hann lagði skegghnífinn frá sér og tók hæðarmælinn
í hönd sér; því næst tók hann hnífinn aftur og hæðarmælinn, til
þess að vita hvað framorðið væri.
178. NÓTT. „Herra!“ mælti rakarinn, er hann kom aftur úr garðinum,
„ég vissi það, að ég gat ekki skakkt til. Ennþá eru þrjár stundir til
hádegis, nema allar reglur stjörnufræðinnar ljúgi.“ „Guð á himnum!“
kallaði ég upp, „þolinmæði mín er á förum, ég þoli þetta ekki lengur,
þinn bölvaður rakari, hansvítis rakari, mig vantar ekki hálfa spönn til að
fljúga á þig og kyrkja þig.“ „Látið yður hægt, herra,“ svaraði hann með
mestu hægð, og brá sér alls ekki við reiði mína, „eruð þér ekki hræddur
um að yður slái niður? Hlaupið ekki á yður fyrir alla muni; ég skal undir
eins gera yður skil.“ Því næst lét hann hæðarmælinn niður og tók upp
skegghnífinn, slípaði hann á ól, er hékk við belti hans og fór aftur að raka
mig. En meðan hann var að því, gat hann ekki á sér setið að þvaðra. „Ef
þér nú vilduð trúa mér fyrir því,“ segir hann, „hvaða erindi þér eigið
fyrir höndum um hádegið, þá mundi ég geta gefið yður heilræði þar að
lútandi.“ Til þess að þagga niður forvitni hans, sagði ég honum, að vinir
mínir biðu eftir mér, og að þeir ætluðu að halda mér gleðiveizlu í minningu
þess, að ég væri staðinn upp úr veikindum mínum. Þegar rakarinn
heyrði mig nefna veizlu, kallaði hann upp: „Guð varðveiti yður bæði í
dag og endranær; þér minnið mig á það, að ég í gær bauð fjórum eða
fimm vinum mínum til borðs hjá mér í dag, en ég hef síðan gleymt því,
og hef því alls engan viðbúnað haft.“ „Verið ekki hugsjúkir út af því,“
anzaði ég, „því þó ég ætli að snæða utanhúss, er matarbúrið mitt vel birgt.
Þér megið eiga allt, sem í því er. Ég skal líka gefa yður svo mikið vín,
sem þér viljið, því ég á afbragðs vín í kjallara mínum; en þér verðið að
ljúka við að raka mig í mesta flýti, og skuluð þér gæta þess, að þar sem
faðir minn gaf yður gjafir til að tala, þá gef ég yður gjafir til að þegja.“
En hann lét sér ekki nægja loforð mitt, heldur segir hann: „Guð umbuni
yður gæzku yðar mér til handa, en lofið mér nú þegar í stað að sjá vistir
þessar, svo ég megi ganga úr skugga um, að þær hrökkvi til að veita vinum
mínum, svo vel sé, því ég vil að þeir verði ánægðir með gildið.“ Svaraði
ég þá: „Ég á eitt lamb, sex geldhana, tólf hænur og nóg í fernskonar
spónamat.“ Skipaði ég jafnskjótt einum af þjónum mínum að bera allt
þetta inn ásamt fjórum stórum kerum víns. „Það er gott og blessað,“
mælti rakarinn, „en það þarf líka aldina og krydds til kjötréttanna.“ Ég
lét fá honum það, er hann beiddi um, og hætti hann við raksturinn, til að
skoða hvað um sig, og var nærri hálfa stund að því. Bölvaði ég þá og hamaðist,
en þrællinn flýtti sér ekki að heldur. Loksins tók hann skegghnífinn
aftur í hönd sér, rakaði mig, en hætti allt í einu aftur og mælti: „Ég hefði
aldrei trúað því, herra, að þér væruð slíkur rausnarmaður, nú sé ég, að
hann faðir yðar sæli er endurborinn í yður. Ég er í sannleika ómaklegur
velgjörða þeirra, er þér veitið mér svo ríkulega, og sver ég yður, að ég
skal muna yður það að eilífu, því yður að segja, góði herra, á ég ekkert
til annað en það, sem mér gefst af stórlyndi manna, sem eru eins drenglundaðir
og þér eruð; í þeirri grein er ég líkur honum Santút, sem strýkur
menn og nuddar í baði, og honum Salý, sem selur þurrkaðar fuglaertur
á strætunum og honum Salus, sem selur baunir, og honum Akersja
sem hefur akurmeti á boðstólum, honum Abú Mekares, sem stökkvir
vatni um strætin, til að eyða rykinu, og honum Kassem í lífverði kalífans.
Enginn þessara manna setur neitt ógeð í sig, þeir eru hvorki ásæknir
við fólk né deilugjarnir, heldur eru þeir ánægðir með hlutskipti sitt eins
og kalífinn í hirð sinni, síglaðlyndir og reiðubúnir til söngs og dansleika;
hefur hver þeirra sína uppáhaldsvísu og sinn dans og gleður með því alla
borgina Bagdad. En það virði ég mest við þá, að þeir eru engir málskafsmenn,
heldur eru þeir eins lausir við mælgi og þræll yðar, sem nú veitist
sú sæmd að tala við yður. Svona er nú t.d. kvæðið og dansinn hans Santúts,
sem nuddar fólk í baði; takið nú eftir, hvort ég ekki hermi dável
eftir honum.“
179. NÓTT. Rakarinn söng kvæði Santúts og dansaði eftir því, og
hvað, sem ég sagði til þess að hefta loddaralæti hans, þá hætti hann samt
ekki fyrr en hann hafði hermt eftir öllum þeim, sem hann hafði nefnt.
Eftir það mælti hann: „Herra, ég ætla að bjóða öllum þessum mönnum,
og ef þér viljið gera mér að skapi, þá komið með mér og yfirgefið vini
yðar, sem vísast er að séu mestu skraffinnar; hver veit nema yður verði
illt í höfði af endalausum leiðindavaðli þeirra, og slái síðan niður, svo
sjúkleiki yðar verði hálfu verri en sá var, sem afstaðinn er. En hjá mér
er ekki nema eintóm gleði og ánægja.“ Svo reiður sem ég var, gat ég
samt ekki stillt mig um að hlæja að bulli hans, og mælti: „Ég vildi ég
hefði engar annir, því þá skyldi ég gjarnan þiggja boð yðar, en ég ætla
að biðja yður að afsaka mig í dag, úr því ég hef fastlega lofað mér annarsstaðar.
Í annað skipti, þegar ég hef betra tóm, mun þess verða kostur; en
ljúkið nú við að raka mig og flýtið yður heim, því vinir yðar munu þegar
hafa beðið eftir yður góða stund.“ „Herra!“ anzaði hann, „synjið mér
ekki um bæn mína, komið og skemmtið yður í hinu glaðværa samkvæmi,
sem hjá mér á að verða. Ef þér að eins einu sinni hefðuð verið saman
við menn þessa, þá mundu þeir verða yður svo vel að skapi, að þér skeyttuð
alls ekki framar um vini yðar.“ „Látum það nú liggja milli hluta,“
sagði ég, „mér er ómögulegt að vera í boði yðar;“ en ég vann ekkert á með
hógværð minni. Þá mælti rakarinn: „Ef þér ekki viljið koma til mín, þá
er ekki annars kostur en að ég fari með yður. Ég ætla að láta bera heim
til mín það, sem þér hafið gefið mér, og mega þá vinir mínir eta sem
þeim leikur lyst til; ég kem undir eins aftur; ég ætla ekki að vera sá
durtur, að láta yður fara einsamlan; ekki má minna vera en ég geri yður
þann greiða að fylgja yður.“ „Guð minn góður,“ sagði ég, „á ég þá ekki
að losna við þenna leiðindaþrjót í dag? Í nafni guðs almáttugs, hættið
þessari óþarfa mælgi. Farið til vina yðar, drekkið, etið og skemmtið yður,
en unnið mér þess frelsis, að vera með mínum vinum. Ég vil fara einsamall,
ég þarf ekki fylgdarmanns; þar að auki skuluð þér vita, að yður
er ekki heimilt að koma þangað, sem ég fer. Þar er vonast eftir mér einum.“
[1405.png: Dyrnar á húsi dómarans voru opnar til hálfs]
„Nú gerið þér að gamni yðar, herra,“ svaraði hann, „hafi vinir yðar
boðið yður til veizlu, þá skil ég ekki, hvað yður getur gengið til, að varna
mér samfylgdarinnar. Ég er sannfærður um, að þeim mun vera hin mesta
gleði að því, að þér komið með mann, sem örvar fjör og skemmtun í samkvæminu.
En hvað sem þér segið, þá hef ég nú tekið það í mig, og skal
fylgja yður móti vilja yðar.“ Nú varð ég öldungis ráðalaus og sagði við
sjálfan mig: „Hvernig á ég að losast við bannsettan rakarann? Ef ég held
áfram að þræta við hann, kem ég aldrei ætlun minni fram.“ Nú heyrði
ég og, að kallað var í fyrsta sinn til hádegisbænagjörðar frá turnum musteranna,
og var því tími til kominn, að ég færi. Ég þagnaði því og lét sem
mér líkaði, að hann færi með mér. Því næst lauk hann við að raka mig,
og er hann var búinn að því, mælti ég: „Látið nokkra af þjónum mínum
bera matvæli þessi heim til yðar og komið svo aftur, ég skal bíða eftir
yður.“ Fór hann þá loksins, en ég klæddist í snatri; heyrði ég þá, að kallað
var til bænagjörðar í síðasta sinni og flýtti mér af stað. En bannsettan rakarann
hafði grunað, hvað mér bjó í skapi, og hafði hann því ekki farið
lengra með þjónum mínum en svo, að hann sá hús mitt, og gat um leið
séð sjálfs sín hús, og haft gætur á, að þjónarnir færu þangað inn. Hafði
hann verið á gægjum við strætishornið, til þess að geta veitt mér eftirför.
Þegar ég var kominn að dyrunum á húsi hins æðsta dómara, leit ég við,
og sá ég þá, mér til sárustu hugraunar, að rakarinn var á leiðinni inn
í strætið. Dyrnar á húsi dómarans voru opnar til hálfs, gekk ég þar inn
og hitti kerlinguna, sem beið eftir mér; lokaði hún dyrunum og fylgdi
mér inn í herbergi ljúfu minnar. En rétt þegar við vorum farin að tala
saman, heyrðum við háreysti á strætinu; leit þá mærin út um gluggagrindurnar
og sá föður sinn á heimleið úr musterinu. Leit ég þá líka út,
og sá ég rakarann sitja þar andspænis á sama stað og ég hafði setið fyrrum;
fékk það mér ekki minni kvíða en heimkoma dómarans. En dóttir hans
hughreysti mig með því, að faðir sinn kæmi mjög sjaldan í hennar herbergi,
en skyldi svo fara, þá hefði hún hugsað sér ráð, til að koma mér
óhultum burt úr húsinu. Allt fyrir það var ég mjög hræddur og áhyggjufullur
vegna framhleypni rakarans, enda mun yður nú bráðum skiljast,
að það var ekki um skör fram. Því þegar dómarinn var kominn heim,
refsaði hann sjálfur einum af þrælum sínum, er til þess hafði unnið, með
iljastroku; æpti þrællinn þá svo hátt, að heyra mátti út á stræti. Rakarinn
hélt undir eins, að það mundi vera ég, sem æpti, og væri illa útleikinn;
rekur hann því upp hræðilegt óp, rífur sundur klæði sín, eys moldarryki
yfir höfuð sér og kallar alla þar í nágrenninu til hjálpar. Þustu allir til,
og spurðu, hvar hjálpar væri vant, og svaraði hann þá: „Þeir eru að drepa
herra minn, blessaðan.“ Meira sagði hann ekki, heldur hljóp hann grenjandi
heim til mín, og kom aftur með alla þjóna mína, höfðu þeir stafi í
höndum og lömdu á dyr dómarans með geysilegum ofsa. Lét dómarinn
þræl einn gá að, hvað á gengi; kom hann aftur lafhræddur og segir:
„Herra, hér ryðjast inn í húsið meira en tíu þúsundir manna, og eru
þeir farnir að mölva upp dyrnar. Dómarinn hljóp þá til, lauk dyrunum
upp og spurði, hvað þeir vildu sér. En svo æruverður sem hann var í yfirbragði,
þá fékk það alls ekki á þjóna mína, og æptu þeir að honum með
ósvífni: „Óhræsis dómari, dómaradjöfull, því viltu drepa húsbónda okkar?
Hvað hefur hann gert þér?“ „Góðir menn,“ anzaði dómarinn, „því
skyldi ég drepa herra ykkar? Ég þekki hann ekki, og hann hefur ekki styggt
mig. Hús mitt er opið; komið, sjáizt um og leitið.“ „Þér hafið veitt honum
iljastroku,“ mælti rakarinn, „ég heyrði hann hljóða rétt í þessu.“
Þá tók dómarinn til máls: „Hvað hefði herra yðar þá átt að misgera við
mig, að ég skyldi fara svo með hann? Er hann þá hér í húsum mínum?
Og sé hann hér, hvernig ætti hann að vera kominn hingað, og hver hafði
átt að hleypa honum inn?“ „Ég trúi yður ekki,“ sagði rakarinn, „fjandans
dómari, hvað sítt sem er á yður skeggið. Dóttir yðar hefur ást á herra
vorum, og leyfði hún honum að koma til sín í hús yðar, meðan á hádegisbænagjörðinni
stóð. Þér hafið komið að honum og látið þræla yðar misþyrma
honum með iljastroku, en sá níðingsskapur yðar skal ekki verða
ólaunaður; kalífinn skal verða þessa vís og mun hann dæma bæði fljótt
og vel. Hleypið oss inn og framseljið oss hann að vörmu spori, eða við sækjum
hann sjálfir yður til svívirðingar.“ „Það er óþarfi að hafa svo mörg
orð, og gera slíkan skarkala,“ mælti dómarinn, „ef þér segið satt, þá komið
inn og leitið; ég leyfi ykkur það.“ Óðar en dómarinn hafði úttalað,
ruddist rakarinn inn í húsið með þjónum mínum, létu þeir eins og þeir
væru bandóðir, skyggndust um og leituðu mín alstaðar.
180. NÓTT. Ég hafði heyrt öll orðaskipti þeirra, og leitaði mér því
fylgsnis; fann ég ekki annað en stóra, tóma kistu, stökk niður í hana og
skellti lokinu yfir. Rakarinn, sem leitaði alstaðar, kom líka að kistunni
og lauk henni upp, en er hann sá að ég var í henni, tók hann hana upp á
höfuð sér og gekk ofan háan stiga niður í garðinn, hljóp yfir hann og
svo út um dyrnar. En meðan á því stóð, hrökk kistulokið upp, til allrar
óhamingju, og með því ég gat ekki þolað svívirðingu þá, að skríllinn,
sem hljóp á eftir okkur, skyldi glápa á mig og spotta mig, þá stökk ég
svo gapalega niður á strætið og meiddist svo illa á fætinum, að ég hef verið
haltur síðan. Fann ég í fyrstunni ekki til meiðslanna, og stóð upp til að
flýja sem skjótast undan athlátri skrílsins. Ég fleygði því fullum höndum
gull- og silfurpeningum úr pyngju minni, sem var troðfull, og slapp ég
á burt meðan hinir voru að tína upp féð. En bölvaður rakarinn missti
ekki sjónar á mér, heldur kallaði hann til mín af öllum lífs og sálar kröftum:
„Standið við, herra! Því hlaupið þér svo geyst? Ó, að þér vissuð,
hvað mér sárnaði, að dómarinn skyldi fara svo illa með yður, yður, sem
eruð svo eðallyndur, sem ég og vinir mínir eigum svo stórmikið gott upp
að inna! Sagði ég ekki allténd, að þér munduð rata í lífsháska af því
þér svo þrálátlega höfnuðuð fylgd minni. Sjáið nú, hvað yður hefur hent
fyrir þessa glópsku, og hvar hefðuð þér þá staðið, hefði ég ekki verið svo
einbeittur að fylgja yður engu að síður? En hvert ætlið þér? Bíðið þér
[1408.png: ...hrökk kistulokið upp, til allrar óhamingju]
mín.“ Þannig lét ólukku rakarinn sér ekki nægja, að vekja óspektir í
þeim hluta borgarinnar, sem dómarinn bjó í, heldur vildi hann koma
gjörvallri borginni í uppnám. Ég var svo bálreiður, að það var rétt komið
að mér að bíða eftir honum og drepa hann, en af því mundi hafa orðið
enn meira uppnám. Ég tók annað ráð, sem var betra, og til þess að komast
úr augsýn mannfjölda þess, sem þyrpzt hafði út í glugga og fram í húsdyr,
við óp rakarans, hljóp ég til gistihúss nokkurs, þar sem svo vildi heppilega
til, að umsjónarmaðurinn, sem ég þekkti, stóð við dyrnar. Bað ég
hann í guðs bænum að varna sjónvitlausum manninum að fara inn á eftir
mér; lofaði hann því og enti það, þó örðugt veitti, því rakarinn vildi fyrir
hvern mun ryðjast inn, og fór ekki fyrr en hinn hafði látið voðaskammir
dynja yfir hann. Á heimleiðinni hældi svo rakarinn sér við hvern mann,
sem hann mætti, af hinni miklu hjálp, sem hann hefði veitt mér.
Þannig losaðist ég við þenna hvimleiða mann. Spurði umsjónarmaðurinn
mig, hvað mér hefði viljað til; sagði ég honum það, og beiddi hann
að leigja mér herbergi, þangað til mér væri batnað, því ég var svo hræddur
við rakarann, að ég þorði ekki heim til mín. Hugði ég mér fyrir beztu,
að dvelja ekki lengur í borginni, þar sem mig hafði hent slíkt. Þegar ég
var alheill, tók ég allt það fé, sem ég þóttist þurfa til ferðarinnar, en gaf
frændum mínum hitt, og fór ég síðan frá Bagdad. Þannig stendur á því,
að mig einnig bar hingað, og kom mér sízt til hugar, að ég mundi hitta
rakarann, frumkvöðul ógæfu minnar, á þessum stað, svo fjarri ættjörðu
minni. Allt fyrir það sé ég hann á meðal yðar. Ykkur skal því ekki þykja
kyn, þó ég vilji skilja við ykkur sem fljótast. Megið þér nærri geta, hvílík
hugraun mér er að sjá þann mann, sem veldur helti minni, og hefur
neytt mig til þess hörmulega hlutskiptis, að lifa fjarri ættingjum, vinum
og föðurlandi.“ Að svo mæltu stóð hinn halti útlendingur upp og gekk
burt. Fylgdi húsbóndinn honum til dyra og kvað sér vera raun að því,
að hann í grandleysi hefði gert honum svo mikinn óhugnað. Við hinir
gestirnir sátum eftir og undruðumst sögu hins unga manns. Við litum til
rakarans og sögðum, að hans mál væri illt, ef saga þessi væri sönn. Þá
lyfti rakarinn höfðinu, því allt til þessa hafði hann hengt það niður, og
horft í gaupnir sér; tók hann þannig til máls: „Herrar mínir, að saga
þessi sé sönn, megið þér ráða af því, að ég hef alltaf þagað, meðan hinn
ungi maður sagði hana. En hvað sem hann segir, þá stend ég fast á því,
að ég hafi gert það sem rétt var, og læt ég því skotið til yðar dóms. Steypti
hann sér ekki sjálfur í háskann, og mundi hann hafa sloppið svo vel án
míns fulltingis? Hann má vera feginn, að hann komst undan með meiðsl
á öðrum fæti. Hafði ég mig ekki meiri hættu, þegar ég bjargaði honum
út úr húsinu, þar sem ég hélt, að honum væri misþyrmt? Hvern rétt hefur
hann til að bera sig upp undan mér og brígzla mér smánaryrðum?
Svona er að þjóna þeim, sem vanþakklátir eru. Hann kallaði mig skrafskjóðu,
en það er einbert mannlast. Við vorum sjö bræður og var ég
þeirra fálátastur og hyggnastur. Ég þarf ekki annað en segja sögu mína
og þeirra, til þess að færa yður sönnur á það; veitið mér þá sæmd að
hlýða á hana.
Saga rakarans
Á ríkisárum kalífans Mostanser Billah, sem var frægur af örlæti sínu
við fátæklinga, sátu tíu stigamenn um vegina kringum Bagdad, og þótti
háski að fara um þá, vegna gripdeilda og fáheyrðra grimmdarverka ræningjanna.
Þá skipaði kalífinn, nokkrum dögum á undan Bairamshátíð
lögregludómaranum að taka hina tíu ræningja fasta, ella skyldi hann
sjálfur líflátinn.
[1410.png: ...hvernig ert þú kominn í hóp þessara óaldarseggja]
181. NÓTT. Lögreglustjórinn hafði sig allan við og sendi svo marga
menn, að hinir tíu ræningjar urðu teknir á Bairamshátíðinni. Ég var
að ganga mér til skemmtunar á bökkum Tígrisfljótsins, og sá ég tíu
skrautbúna menn stíga út í bát. Hefði ég tekið eftir varðmönnum þeim,
er fylgdu þeim, mundi ég fljótt hafa séð, að það voru ræningjar, en ég
horfði einungis á hina og hélt þeir ætluðu að skemmta sér og halda
gleðilega hátíð; fór ég þá út í bátinn með þeim, en sagði ekki orð og
vænti ég þess, að þeir mundu líða mig í flokki sínum. Var bátnum róið
ofan eftir Tígrisfljótinu og lentum við fyrir utan höll kalífans; kom þar
nýr flokkur lögregluþjóna og sló hring um oss; eftir það vorum við bundnir
og leiddir fyrir kalífann. Meðan á þessu stóð, hafði ég séð mig um
hönd, og skildi ég nú, hversu mér hafði skjátlazt. Lét ég binda mig með
hinum, því hvað mundi mig hafa stoðað að verjast varðmönnum eða
afsaka mig? Þeir mundu hafa misþyrmt mér, því slíkir menn gangast
ekki fyrir skynsamlegum fortölum. Ég var líka á meðal ræningja, og það
var þeim nóg ástæða