ALEXANDRE DUMAS

SKYTTURNAR

(LES TROIS MOUSQUETAIRES)

(DE TRE MUSKETERER)

SAGA Í FJÓRUM HEFTUM

BJÖRN G. BLÖNDAL

ÞÝDDI

SIGLUFIRÐI

BÓKAÚTGÁFAN HEIMDALLUR

1924

II. ENGLANDSFÖRIN.

PRENTSMIÐJA SIGLUFJARÐAR

I. Bonacieux-hjónin.

Frú Bonacieux var enga stund að komast heim til sín. Hún hafði ekki séð mann sinn síðan hann slapp úr varðhaldinu og vissi því ekkert um þessa breytingu, sem orðin var á honum gagnvart kardínálanum, enda styrkti það hann í trúnni, að Rochefort hafði komið nokkrum sinnum til hans og látið mjög alúðlega að honum. Greifinn taldi honum trú um að brottnám konu hans væri als engum ástamálum viðkomandi, heldur hefði það verið gert eingöngu af pólitískum ástæðum.

Bonacieux var einn heima þegar hún kom og var að reyna að koma einhverju í lag í herbergjunum, því að þar var heldur hröslulegt eftir alt, sem á hafði gengið — alt á tjá og tundri, brotnir stólar, umvelt borð og skúffur og skápar tæmt og fleygt hingað og þangað — regluleg »svívirðing foreyðslunnar,« eins og þar stendur. Vinnukonan stökk burt af heimilinu þegar húsbóndinn var hneptur í varðhald, dauðhrædd eins og eðlilegt var og fór fótgangandi alla leið frá París til Bourgogne (Búrgonj), þar sem átthagar hennar voru.

Klæðasalinn gerði konu sinni vitanlega orð undir eins og hann slapp úr varðhaldinu, en hún svaraði því einu, að hún samgleddist honum og mundi koma til hans svo fljótt sem skyldustörf hennar leyfðu.

En það liðu samt fimm dagar þangað til að hún gat komið þessu við og mundi Bonacieux hafa þótt þetta æði langur tími ef öðru vísi hefði staðið á, en nú hafði hann sjálfur átt tal við kardínálann og Rochefort verið heima hjá honum og þetta hafði verið Bonacieux ærið umhugsunarefni. En tíminn líður fljótast þegar um eitthvað er að hugsa — eins og menn vita.

Og það því fljótar, sem hugsanir Bonacieux voru í rauninni mjög svo ánægjulegar, — Rochefort kallaði hann vin sinn — sinn »kæra Bonacieux« — og var altaf að útmála fyrir honum, hvað kardínálanum þætti vænt um hann. Bonacieux fanst hann vera að komast upp á hátind hamingjunnar.

Frú Bonacieux hafði líka um nóg að hugsa, en hugsanir hennar áttu ekkert skylt við upphefð og höfðingjahylli — þær snerust mest um hinn unga og laglega mann, sem henni hafði reynst svo hugrakkur — og ástfanginn. Hún giftist Bonacieux þegar hún var átján ára og hafði síðan umgengist fáa aðra en kunningja hans, en þeir voru nú raunar ekki sérlega líklegir til þess að ná hylli kvenna, að minsta kosti ekki slíkra kvenna, sem hún var. Í þá daga voru aðalsmenn glæsimenn mestir í augum borgaranna, og d'Artagnan var aðalsmaður og í tilbót bar hann einkennisbúning lífvarðarliða, sem þá þótti áferðarfallegastur næst á eftir búningi skyttuliðanna, eða svo fanst kvenfólkinu að minsta kosti. Hann talaði margt og mikið um ástir og ástarlöngun sína og var annars líklegur til þess að geta hæglega komið sér í mjúkinn hjá tuttugu og þriggja ára gamalli konu, en frú Bonacieux var nú einmitt á þeim aldri.

Enda þótt hjónin hefðu ekki sést í átta daga, höfðu þau samt haft nóg um að hugsa, hvort í sínu lagi, enda margt borið við á þeim tíma. Bonacieux varð þó endurfundunum sýnilega feginn og tók á móti konu sinni með útbreiddan faðminn.

Frú Bonacieux leyfði honum að kyssa sig á ennið.

»Við skulum tala saman,« sagði hún.

»Við hvað áttu?«

»Ég þarf að segja þér nokkuð merkilegt og mjög mikils varðandi.«

»Það þarf ég líka að segja þér — og það alvörumálefni sumt af því. En láttu mig nú fyrst fá að heyra eitthvað um brottnám þitt.«

»Við þurfum nú ekkert að tala um það mál eins og stendur,« sagði frú Bonacieux.

»Heldur um hvað! Kann ske við eigum að tala eitthvað um þetta varðhald mitt?«

»Nei. Ég frétti það sama daginn, sem þú varst handtekinn, en satt að segja gerði ég nú ekki mikið úr því, þar sem ég bæði vissi, að þú varst saklaus og bjóst þar að auki ekki yfir neinum þeim leyndarmálum, sem ekki máttu allir vita.«

»Nei — þú gerir sannarlega ekki mikið úr því,« sagði Bonacieux og hálfstygðist við konu sína vegna þess, að honum fanst hún skeyta svo lítið um sig og sín málefni. »En kann ske þú vitir ekki, að ég varð að hýrast heilan sólarhring í dimmasta klefanum í svartholinu.«

»Einn sólarhringur er ekki lengi að líða. Við skulum nú ekki eyða fleiri orðum um þetta, heldur snúa okkur að því, sem ég þarf að tala um.«

»Hvað ertu að segja? Snúa okkur að því, sem þú þarft að tala um ? — Komstu þá ekki heim eingöngu til þess að finna manninn þinn, sem þú hefur ekki séð í rúma viku?«

»Jú — auðvitað gerði ég það — en það er líka fleira — —«

»Hvað þá?«

»Það er afar áríðandi mál og getur farið svo, að öll okkar velferð sé undir því komin.«

»Það hefur nú orðið stórkostleg breyting á högum okkar síðan við sáumst seinast,« sagði klæðasalinn, »og það er ekki óhugsandi, að eftir nokkra mánuði verði allmargir til þess að öfunda okkur.«

»Já, einkum ef þú gerir það, sem ég ætla að biðja þig um.«

»Ég?«

»Já, þú. Bæði er það góðverk og verður þar að auki ríkmannlega borgað.«

Frú Bonacieux vissi vel hvar maður sinn var veikastur fyrir og að peningar voru honum fyrir öllu — en það munar líka talsvert um það, að hafa talað við Richelieu kardínála í tíu mínútur og klæðasalinn var nú ekki sami maður og áður.

»Kardínálinn!« hrópaði frú Bonacieux. »Hefur þú talað við kardínálann?«

»Ójá — hann gerði boð eftir mér,« svaraði klæðasalinn, heldur en ekki rogginn.

»Og þú gegndir því. Það var býsna óvarlegt!«

»Jú — en annars var mér nauðugur einn kostur, því að ég hafði tvo hermenn til fylgdar, sinn til hvorrar hliðar. Þá þekti ég ekki Hans hágöfgi og langaði raunar lítið til að kynnast honum.«

»Hann hefur líklega ekki verið sérlega mjúkur á manninn við þig og haft í hótunum við þig?«

»Neinei! Hann rétti mér höndina og kallaði mig vin sinn — sinn kæra vin, hvað heldurðu! — Vinur þess mikla kardínála!«

»Þess mikla kardínála?«

»Já, er hann kann ske ekki mikilmenni?«

»Það veit ég ekkert um. Höfðingjahyllin er völt og varlega treystandi. En samt sem áður eru nú aðrir til, sem eru meiri og voldugri en kardínálinn og betra að trúa þeim og treysta.«

»Það er nú svo — en ég veit engan, sem er voldugri en sá mikli maður og ég er líka í hans þjónustu.«

»Ert þú í þjónustu kardínálans?«

»Já, ég er í hans þjónustu. Og ég leyfi það ekki, að þú sért að taka þátt í samsærum gegn heill ríkisins eða gefa þig við einhverjum leynimálum og launráðum, sem brugguð eru af þeirri konu, sem ekkert kemur Frakklandi við af því að hún er spönsk í

»Kardínálinn!« hrópaði frú Bonacieux. »Hefur þú talað við kardínálann?«

»Ójá — hann gerði boð eftir mér,« svaraði klæðasalinn, heldur en ekki rogginn.

»Og þú gegndir því. Það var býsna óvarlegt!«

»Jú — en annars var mér nauðugur einn kostur, því að ég hafði tvo hermenn til fylgdar, sinn til hvorrar hliðar. Þá þekti ég ekki Hans hágöfgi og langaði raunar lítið til að kynnast honum.«

»Hann hefur líklega ekki verið sérlega mjúkur á manninn við þig og haft í hótunum við þig?«

»Neinei! Hann rétti mér höndina og kallaði mig vin sinn — sinn kæra vin, hvað heldurðu! — Vinur þess mikla kardínála!«

»Þess mikla kardínála?«

»Já, er hann kann ske ekki mikilmenni?«

»Það veit ég ekkert um. Höfðingjahyllin er völt og varlega treystandi. En samt sem áður eru nú aðrir til, sem eru meiri og voldugri en kardínálinn og betra að trúa þeim og treysta.«

»Það er nú svo — en ég veit engan, sem er voldugri en sá mikli maður og ég er líka í hans þjónustu.«

»Ert þú í þjónustu kardínálans?«

»Já, ég er í hans þjónustu. Og ég leyfi það ekki, að þú sért að taka þátt í samsærum gegn heill ríkisins eða gefa þig við einhverjum leynimálum og launráðum, sem brugguð eru af þeirri konu, sem ekkert kemur Frakklandi við af því að hún er spönsk í huga og sál. En svo er fyrir að þakka að við höfum kardínálann, sem um alt sér og yfir öllu vakir.«

Bonacieux hafði alla þessa romsu orðrétta eftir Rochefort. Veslings kona hans hafði treyst á mann sinn og sagt drotningu, að hún skyldi ábyrgjast hann. Henni hraus nú hugur við þeirri hættu, sem yfir henni vofði og við einstæðingsskap sínum, en samt slepti hún ekki allri von, því að hún vissi vel eins og áður er sagt hvar maður hennar var veikastur fyrir.

»Jæja — þú fyllir þá flokk kardínálans, eftir þessu að dæma,« sagði hún. »Þú ert í þjónustu þeirra, sem misþyrma konunni þinni og velja drotningunni smánarbyrði.«

»Allar eigin hvatir verða að víkja þegar um alþjóðar heill er að ræða,« sagði Bonacieux með ógnarlegri mærð. »Ég fylli þann flokkinn, sem ber hag ríkisins fyrir brjósti.«

Þetta hafði hann líka eftir Rochefort.

»Hvað heldurðu nú eiginlega að ríkið sé?« spurði frú Bonacieux og ypti öxlum. »Þú ættir heldur að láta þér nægja að vera réttur og sléttur borgari og heiðarlegur maður en að vera að þessum heilaköstum og standa þeim megin, sem þér er meiri hagsmunavon að vera.«

»Jú, einmitt það — en hvernig líst þér þá á þennan, kona góð?« sagði Bonacieux og sló á úttroðinn peningapoka, svo að hringlaði í.

»Hvaðan hefurðu þessa peninga?«

»Gettu!«

»Eru þeir frá kardínálanum?«

»Já, þeir eru frá honum og mínum kæra vini, Rochefort greifa.«

»Rochefort greifa! En það var einmitt hann sem rændi mér burt.«

»Getur vel verið.«

»Og þú getur verið að þiggja peninga af þeim manni?«

»Hefurðu ekki verið að segja mér, að þetta brottnám stafaði af pólitískum ástæðum?«

»Jú — víst hef ég sagt þér það. En tilgangurinn var sá að fá mig til að svíkja drotninguna í trygðum. Með hótunum og pyntingum átti að neyða mig til þess að svívirða mannorð hennar og eyðileggja líf hennar.«

»Þessi kona, sem þú ert að tala um, er ekkert annað en grálynd og meinbægin Spánarnorn og kardínálinn fer rétt og viturlega að ráði sínu.«

»Það vissi ég vel, að þú ert huglaus, ágjarn og heimskur,« sagði frú Bonacieux, »en hitt vissi ég ekki og hélt ekki, að þú værir varmenni í þokkabót.«

»Hvað áttu við?« spurði Bonacieux. Hann hafði aldrei séð konu sína skifta skapi fyr og vildi ógjarnan verða fyrir reiði hennar.

»Ég á við það, að þú sért óþokki,« hélt frú Bonacieux áfram. »Þú ert að sletta þér fram í stjórnarmálefni og þú gengur í flokk með kardínálanum. Þú ofurselur þig fjandanum og öllum hans árum með holdi og hamsi fyrir sauruga peninga.«

»Nei, það er ekki satt. Ég geng á vald kardínálanum, en ekki fjandanum.«

»Það kemur í sama stað niður.«

»Þei-þei! Það kann einhver að heyra til þín!«

»Alveg rétt! Og þá mundi ég skammast mín þín vegna.«

»En hvað ertu þá eiginlega að heimta af mér?«

»Ég er búin að segja þér það. Ég heimta, að þú leggir af stað undir eins og gerir það sem ég segi þér að gera. Og ef þú hlýðir því, þá skal ég öllu gleyma og alt fyrirgefa þér. — Við getum þá verið jafngóðir vinir eftir sem áður.«

Hún rétti honum höndina.

Bonacieux var huglaus og hann var ágjarn. En hann unni konu sinni, og hann klöknaði, enda getur fimtugur maður ekki þverskallast til lengdar við rúmt tvítuga konu. Frú Bonacieux sá, að hann var nú á báðum áttum.

»Jæja — ertu þá búinn að ráða þetta við þig?« spurði hún.

»Gættu að, góða mín, hvað þú ert að heimta af mér. Það er óravegur héðan til London og hver kann að vita nema margar og miklar hættur séu á þeirri leið.«

»Gerir ekkert til, ef þú getur umflúið þær.«

»Nei,« sagði klæðasalinn. »Nei — ég geri það ekki og ég vil ekki vera bendlaður við öll þessi landráð ykkar. Ég er búinn að vera í svartholinu, skal ég segja þér, og það er ekkert skemtileg tilhugsun. Þeir hótuðu að pína mig til sagna og veistu, hvernig farið er að því? Þeir reka tréfleyga utan um fæturna á manni og það eru voðalegar kvalir — verri en dauðinn sjálfur. Nei, ég geri það ekki og vil það ekki. En svo er annað — hvers vegna ferðu ekki sjálf? Ég fer að halda, að ég hafi vilst á þér og að þú sért blátt áfram karlmaður — dularklæddur og ófyrirleitinn karlmaður!«

»En þú?« sagði frú Bonacieux. »Þú ert bara kerlingarskræfa, heimsk og vesöl kerlingarhrota. Þú ert náttúrlega lafhræddur, en nú skal ég segja þér eitt: Ef þú smánast ekki af stað undireins, þá skal ég sjá svo um, að þú verðir tekinn fastur og þér fleygt í svartholið eftir skipun drotningar.«

Bonacieux varð hvimsa við þessa roku og fór að velta því fyrir sér, hvort af tvennu illu mundi verða sér hættulegra — að verða fyrir reiði kardínálans eða drotningarinnar. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að sér mundi verða öllu óhættara að standa við hlið kardínálans.

»Jæja — láttu taka mig fastan, ef þér svo sýnist,« sagði hann loksins. »En þá kæri ég mál mitt fyrir kardínálanum.«

Frú Bonacieux skildi nú, að hún hafði hlaupið á sig. Hún horfði óttasleginn framan í mann sinn og sá á svip hans, þótt kauðalegur væri, að honum var alvara.

»Nújæja, gerðu sem þér gott þykir!« sagði hún. »Þú hefur kannske rétt fyrir þér, þegar öllu er á botninn hvolft. Karlmenn bera betra skyn á pólitík en konur og þú hefur líka talað við kardínálann sjálfan. En samt sem áður er það nú sorglegt að eiginmaður minn, sem ég hélt að ynni mér hugástum, skuli bregðast mér svona hraparlega og virða óskir mínar og bænir að vettugi.«

»Ég neita bón þinni af því að hún getur haft hættulegar afleiðingar,« sagði Bonacieux.

»Jæja, ég verð þá að hætta við alt saman,« stundi frúin. »Við skulum ekki fást meira um það.«

»Þú gætir þó altént sagt mér, hvað stendur í þessu bréfi, sem ég átti að bera til London,« sagði Bonacieux. Honum datt nú í hug — þó það væri heldur seint — að Rochefort hafði beðið hann að reyna að komast eftir leyndarmálum konu sinnar.

»Þess gerist engin þörf,« svaraði frúin og var nú farinn að gæta sín betur. »Það eru ekki annað en smámunir, sem konum dettur oft í hug. Það er viðvíkjandi kaupum, sem gætu verið allarðvænleg.«

En þess meira, sem hún nú dróg sig í hlé, þess sannfærðari varð Bonacieux um það, að hér byggi eitthvað undir. Hann afréð því að finna Rochefort þegar í stað og segja honum, að drotningin væri að reyna að útvega sér sendiboða til London.

»Ég verð nú að skreppa burt frá þér,« sagði hann. »Ég vissi ekki, hvenær þú mundir koma og var búinn að mæla mér mót með kunningja mínum, en ég kem aftur innan lítillar stundar og get þá fylgt þér til Louvre, ef þú vilt bíða hérna meðan ég er burtu. Það er líka farið að verða framorðið.«

»Þakka þér fyrir,« svaraði kona hans, »en ég held nú raunar, að það yrði ekki mikið úr þér, ef ég þyrfti einhverrar varnar við, svo að ég ætla heldur að fara ein.«

»Jæja, sem þér þóknast,« sagði klæðasalinn. »Fæ ég bráðum að sjá þig aftur?«

»Það tel ég víst. Ég vonast eftir að fá nokkra frídaga í næstu viku og þá kem ég hingað til þess að taka eitthvað til hérna. Mér sýnist ekki veita af því.«

»Það er ágætt. Ég vonast þá eftir þér. Ertu nokkuð reið við mig?«

»Ég! Nei, ekki minstu vitund!«

»Vertu þá sæl!«

»Vertu sæll!«

Bonacieux kysti á hönd konu sinnar og fór sína leið.

»Jájá,« sagði frúin við sjálfa sig, þegar hann var kominn út úr dyrunum. »Það vantaði ekki nema það, að þessi bjálfi gengi líka í þjónustu kardínálans. Og ég, sem sagðist skyldi ábyrgjast hann, og lofaði drotningunni — hamingjan góða! Hún fær það álit á mér, að ég sé eins lúaleg eins og hitt illþýðið, sem er í kringum hana! — Núnú, Bonacieux góður! Aldrei hef ég raunar elskað þig til muna, en nú hata ég þig — og þú skalt líka fá að kenna á því.«

Í sama bili heyrði hún að barið var í loftið uppi yfir sér. Hún leit ósjálfrátt upp og heyrði, að kallað var til sín:

»Kæra frú Bonacieux! Ljúkið þér upp litlu gangdyrunum, svo að ég komist ofan til yðar.«

II. Elskhugi og eiginmaður.

»Leyfið mér að segja yður, kæra frú,« sagði d'Artagnan um leið og hann skrapp inn úr dyrunum, sem frú Bonacieux opnaði fyrir honum, að þessi maður yðar er herfilegur í mesta máta.«

»Þér hafið þá heyrt alt, sem við töluðumst við?« spurði hún og horfði á hann talsvert óróleg.

»Já, hvert eitt og einasta orð!«

»En hvernig getur það verið?«

»Ja, það er nú mitt leyndarmál. Á sama hátt heyrði ég alt, sem yður og lögregluþjónum kardínálans fór á milli.«

»Og hvað ályktið þér svo af því, sem við vorum að tala um?«

»Það er nú æði margt. Fyrst og fremst, að maðurinn yðar sé glópur, til allrar blessunar; þar næst, að þér séuð í vanda stödd og gleður það mig mjög, því að þá fæ ég tækifæri til að gera yður greiða, en ekkert er mér kærara, eins og þér vitið; að endingu hefur mér skilist, að drotninguna vanti trúan, hugrakkan og hygginn mann, sem vilji fara til London í hennar erindum. Ég hef nú að minsta kosti tvo þessa kosti til að bera — og hér er ég!«

Frú Bonacieux svaraði þessu engu, en það gladdi hana ósegjanlega og gaf henni nýja von.

»Hverja tryggingu hafið þér fram að bjóða, ef ég trúi yður fyrir þessu?« spurði hún.

»Ást mína á yður, kæra frú! Segið þér bara til — hvað á ég að gera?«

»Æ, hamingjan hjálpi mér!« sagði hin unga kona, »Hvernig get ég trúað yður fyrir slíku leyndarmáli — þér eruð svo ungur.«

»Mér skilst, að þér óskið einhverrar frekari tryggingar fyrir áreiðanleik mínum.«

»Ég skal játa, að það kæmi mér betur.«

»Þekkið þér Athos?«

»Nei.«

»En Porthos?«

»Nei.«

»En Aramis?«

»Nei, heldur ekki. Hvaða menn eru þetta?«

»Skyttuliðar konungs. Þekkið þér herra de Tréville, höfuðsmann þeirra?«

»Jú, hann kannast ég við. Það er að segja — ég þekki hann ekki af eigin reynd, en hans hefur oft verðið getið við drotninguna sem frækins og trúverðugs aðalsmanns.«

»Þér óttist þá ekki, að hann svíki yður í hendur kardínálanum?«

»Nei, als ekki.«

»Nújæja. Segið honum leyndarmál yðar og spyrjið hann, hvort yður sé óhætt að trúa mér fyrir því, enda þótt það kunni að vera voðalega mikilsvarðandi.«

»En það er ekki mitt leyndarmál og ég má ekki segja frá því svona alveg athugalaust.«

»Þér ætluðuð þó að trúa herra Bonacieux fyrir því,« sagði d'Artagnan.

»Jú, eins og maður festir bréf við hálsbandið á hundi eða vænginn á dúfu.«

»En mér þá? þér vitið að ég elska yður.«

»Jú — svo segið þér.«

»Ég er heiðarlegur maður.«

»Já, því trúi ég vel.«

»Og ég er vaskleika maður.«

»Það er ég viss um.«

»Nújæja — þá er ekki annað en reyna mig.«

»Frú Bonacieux var enn í nokkrum efa og horfði á unga manninn. En það ljómaði slíkur guðmóður úr augum hans og rödd hans var svo sannfærandi að hún fann, að honum mátti hún trúa og treysta. Hún var þannig stödd, að hún varð að áræða alt. Það var áræðanlegt, að hún gat gert drotningunni óleik með því að vera nú of hikandi, en hún gat það líka með of mildu trúnaðartrausti. En sannast að segja hneigðist hugur hennar ósjálfrátt að hinum unga manni — og það reið baggamuninn.

»Heyrið þér nú,« sagði hún. »Ég trúi því, sem þér segið — en það sver ég við alt sem heilagt er, að ef þér svikið mig í trygðum, þá ræð ég mér bana og þá skal blóð mitt koma yfir yðar höfuð.«

»Og ég sver þess dýran eið,« sagði d'Artagnan, »að verði ég handtekinn meðan ég geng yðar erinda, þá skal ég fyr láta lífið en að ég segi nokkurt orð, sem nokkrum geti orðið til meins.«

Hin unga kona sagði honum nú þetta mikla leyndarmál, sem hann af tilviljun þekti að sumu leyti — og þetta var eiginlega sama sem ástarjátning þeirra. D'Artagnan var frá sér numinn af gleði og yfirlæti. Þetta leyndarmál, sem honum var trúað fyrir, þessi kona, sem hann elskaði, ást og trúnaðartraust — þetta hvortveggja jók honum margfaldlega þor og þrek.

»Ég fer,« sagði hann. »Ég fer tafarlaust.«

»Farið þér?,« spurði frú Bonacieux. »En herfylkið yðar — og hvað ætli að höfuðsmaðurinn yðar segi?«

»Æ, því var ég alveg búinn að gleyma, kæra Constance! Það er alveg satt ég verð að biðja um fararleyfi.«

»Ein fyrirstaðan enn!« sagði frú Bonacieux dapurlega.

»Þeirri fyrirstöðu skal ég ryðja úr vegi — verið óhrædd um það,« sagði d'Artagnan eftir nokkra umhugsun.

»Og hvernig þá?«

»Ég fer samstundis til herra de Tréville og bið hann að útvega mér fararleyfi hjá mági sínum, herra des Essarts.«

»Það er nú gott og blessað, en þá er annað.«

»Og hvað er það nú?« spurði d'Artagnan. Hann sá, að frú Bonacieux hikaði.

»Þér hafið kannske enga ferðapeninga?«

»Það er óþarfi að segja »kannske,« sagði d'Artagnan brosandi.

»Takið þér þá þessa peninga,« sagði frú Bonacieux og tók út úr skápnum peningapokann, sem maður hennar var að sýna henni fyrir skemstu.

»Peninga kardínálans!« hrópaði d'Artagnan skellihlæjandi. — Eins og við vitum, hafði hann heyrt alt, sem hjónunum fór á milli.

»Já, það er einmitt peningapoki kardínálans,« sagði frúin. Þér sjáið, að hann er sæmilega troðinn.«

»Þetta verður mér tvöföld ánægja,« sagði d'Artagnan, »þar sem ég veit að bjargráð drotingar fæst fyrir fé kardínálans!«

»Þér eruð indæll og elskulegur maður,« sagði frú Bonacieux, »og þér megið trúa mér til þess, að drotningin mun launa yður vel og ríkmannlega.«

»Ég hef þegar fengið ríkuleg laun,« svaraði d'Artagnan. »Ég elska yður og þér leyfið mér að játa yður ást mína — það er sannarlega meira, en ég þorði að gera mér vonir um.«

»Þei, þei!« hvíslaði frú Bonacieux og fór að titra.

»Hvað er nú?«

»Mannamál úti á götunni.«

»Hverjir — —?«

»Það er málrómur mannsins míns. Ég held að ég kannist við hann.«

D'Artagnan skaut loku fyrir dyrnar.

»Hann má ekki koma hingað inn fyr en ég er farinn, sagði hann.

»En ég verð líka að fara,« sagði hún. »Hvað ætti ég að segja um peningahvarfið, ef hann hitti mig hér?«

»Það er alveg satt. Við verðum að flýta okkur burt.«

»Já, en hvernig þá? Hann sér okkur ef við förum út á götuna.«

»Við skulum koma upp til mín.«

»Þér segið það þannig, að þér gerið mig hálfhrædda,« sagði frú Bonacieux og vöknaði um augu. D'Artagnan sá það og beygði kné fyrir henni.

»Þér megið vera eins óhult hjá mér eins og þér væruð í kirkju — þar legg ég við mitt drengskaparorð,« sagði hann.

»Jæja — ég reiði mig á það. Við skulum flýta okkur,« hvíslaði hún.

D'Artagnan þokaði lokunni úr með hægð. Þau læddust svo út í ganginn og upp stigann og fóru inn í herbergi d'Artagnans.

Hann skaut slagbrandi fyrir dyrnar til frekari fullvissu. Þau gægðust út um gluggann og sáu, að Bonacieux var að tala við mann í stórum kufli. Þegar d'Artagnan kom auga á þennan mann, tók hann viðbragð og hljóp fram að dyrunum með brugðið sverð. Þetta var maðurinn frá Meung.

»Hvað ætlið þér?«, spurði frú Bonacieux. »Þér steypið okkur í glötun.«

»Ég hefi svarið að vega þennan mann,« svaraði d'Artagnan.

»Líf yðar er nú helgað öðru en því og er yður ekki lengur í sjálfsvald sett. Ég harðbanna yður í nafni drotningar að stofna yður í nokkra þá hættu, sem ekki stendur í beinu sambandi við ferð yðar.«

»Og hvað skipið þér mér í yðar eigin nafni?«

»Í mínu eigin nafni bið ég yður að hætta við þetta,« svaraði frú Bonacieux og viknaði. »En nú skulum við hlusta. Mér heyrist þeir vera að tala eitthvað um mig.«

D'Artagnan gekk út að glugganum aftur og lagði við hlustirnar.

Klæðasalinn hafði gengið inn, en þegar hann sá, að enginn var í stofunni, fór hann út aftur til mannsins í kuflinum, sem beið fyrir utan.

»Hún er farin sína leið,« sagði Bonacieux. »Líkast til komin aftur til Louvre.«

»Eruð þér viss um að hana hafi ekki grunað, hvers vegna þér fóruð burt?« spurði ókunni maðurinn.

»Já, það er ég viss um,« svaraði Bonacieux. Hún er nú eitthvað grunnhygnari en svo.« »Er lífvarðarliðinn heima?«

»Ekki held ég það. Eins og þér sjáið, eru hlerar fyrir glugganum og ekkert ljós skín út um hlerarimlana.«

»Ja, það er nú sama — við skulum gæta að því.«

»Hvernig þá?«

»Við skulum berja á dyrnar hjá honum.«

»Ég skal spyrja þjóninn hans.«

»Jæja, það er gott.«

Bonacieux gekk upp stigann og barði á dyr hjá d'Artagnan. Þar var steinhljóð. Porthos hafði boð inni þetta kvöld og hafði fengið Planchet að láni, en d'Artagnan lét ekki á sér kræla.

»Það er enginn heima,« sagði Bonacieux við kuflmanninn, þegar hann kom út til hans aftur.

»Við skulum koma inn í stofuna yðar. Þar er okkur óhættara en hér úti.«

»Æ, þá getum við ekki heyrt til þeirra lengur,« hvíslaði frú Bonacieux.

»Seiseijú — við heyrum þá enn betur til þeirra,« svaraði d'Artagnan. Hann tók nokkrar flísar upp úr gólfinu, breiddi klút yfir og benti frú Bonacieux, að þau skyldu bæði leggjast niður og hlera.

»Eruð þér nú viss um, að enginn sé þarna uppi?« spurði ókunni maðurinn.

»Já — ég skal ábyrgjast það.«

»Og haldið þér að konan yðar — —«

»Hún er farin aftur til Louvre.«

»Án þess að hafa hitt nokkurn að máli?«

»Já, það er ég alveg viss um.«

»Þér skiljið vonandi, að á því ríður mjög mikið.«

»Það er þá mjög mikilsvarðandi, þetta sem ég var að segja yður?«

»Það er afar mikilsvarðandi, Bonacieux minn góður — ég skal ekki dylja yður þess.«

»Haldið þér, að kardínálanum þyki vænt um skýrslu mína?«

»Það efast ég ekki um. En eruð þér nú viss um, að konan yðar hafi ekki nefnt neinn með nafni, þegar hún var að tala við yður?«

»Ekki held ég það.«

»Nefndi hún ekki frú de Chevreuse, eða herra Buckingham eða frú de Vernet?«

»Nei, hún bað mig bara að fara til London í erindum einhverrar hátt settrar persónu.«

»Óhræsis svikarinn!« hvíslaði frú Bonacieux.

»Þei-þei!« sagði d'Artagnan, tók um hönd hennar og fékk að halda henni.

»Það var ljóta glappaskotið, að þér skylduð ekki látast vilja fara þessa ferð,« sagði kuflmaðurinn ennfremur. Þá væri bréfið nú í yðar höndum, ríkinu bjargað og yður — —«

»Og mig?«

»Yður hefði kardínálinn gert að aðalsmanni.«

»Hefur hann sagt það?«

»Ég veit, að hann hefur það í hyggju, en ætlar að láta það koma flatt upp á yður.«

»Verið þér ókvíðinn,« sagði Bonacieux. »Konan mín elskar mig og það er ekki öll nótt úti enn.«

»En sá asni!« hvíslaði frú Bonacieux.

»Þei-þei!« sagði d'Artagnan og þrýsti hönd hennar.

»Ekki öll nótt úti enn?« sagði kuflmaðurinn.

»Nei — nú fer ég til Louvre, bið leyfis að fá að tala við konu mína, segi henni að ég hafi hugsað mig betur um, fæ bréfið hjá henni og flýti mér til kardínálans.«

»Þetta er ágæt uppástunga, en þér verðið að hafa hraðan á. Ég kem svo hingað aftur eftir stundarkorn til þess að fá að vita, hvernig yður hafi gengið.«

»Ólukku óþokkinn.« hvíslaði frú Bonacieux.

»Þei-þei!« sagði d'Artagnan og þrýsti hönd hennar fast.

En nú heyrðist voðalegt öskur. Klæðasalinn hafði orðið þess var, að peningapokinn var horfinn og grenjaði hann nú og óskapaðist út af stuldinum.

»Herra trúr! Nú verður götu-uppþot út úr öllu saman!« sagði frú Bonacieux lágt.

Bonacieux æpti og hljóðaði í sífellu. En menn voru vanir hávaða og gauragangi í Fossoyeurs-götunni og kiptu sér ekki upp við það, enda var hús klæðasalans búið að fá hálfgert óorð á sig í seinni tíð. Litlu síðar gekk Bonacieux út og dróg þá úr hljóðunum í honum eftir því sem hann fjarlægðist.

»Nú verðið þér að fara,« sagði frú Bonacieux. »Verið öruggur, en beitið gætni og hyggindum og hafið það hugfast, að þér verðið að vera drotningunni alt í öllu.«

»Henni og yður,« sagði d'Artagnan. »En verið ókvíðin, fagra Constance! Ég kem ugglaust aftur og vona þá að hafa unnið til þakklátsemi drotningar, en þá vil ég líka vera maklegur ástar yðar.«

Hin unga kona svaraði þessu engu, en stokkroðnaði. Skömmu síðar gekk d'Artagnan út úr húsinu, sveipaður síðum kufli og með sverð við hlið. Frú Bonacieux horfði á eftir honum með því augnaráði, sem konur horfa á eftir elskhugum sínum. Þegar hann var kominn úr augsýn, féll hún á kné og fórnaði höndum.

»Ó, guð minn góður!« stundi hún. »Vernda þú drotninguna og vernda þú mig!«

III. Ferða-áætlun.

D'Artagnan fór rakleiðis til herra de Tréville. Hann var sannfærður um, að kardínálinn mundi innan skams fá fulla vitneskju um þetta frá þessum árans ókunna manni, sem var í þjónustu hans, og hann vissi, að hann mátti ekki láta nokkurt augnablik ónotað.

Hinn ungi maður réði sér varla fyrir kæti. Loksins hafði hann fengið færi á að afla sér bæði fjár og frama og jafnframt ná samfundum konu þeirrar, sem hann hefði felt ást til. Tilviljunin hafði fært honum meira upp í hendurnar, en hann nokkru sinni hafði gert sér vonir um.

»Herra de Tréville var í samkvæmissalnum og hjá honum hinn vanalegi hópur aðalsmanna. D'Artagnan var þar heimagangur og gekk rakleitt inn í einkaherbergi hans. Gerði hann de Tréville boð að sig langaði til að fá að tala við hann um afaráríðandi mál.

Innan lítillar stundar kom de Tréville inn til hans og sá höfuðsmaðurinn þegar á gleðisvipnum á d'Artagnan, að eitthvað óvenjulegt mundi vera á seiði.

Á leiðinni þangað var hinn ungi maður í vafa um, hvort hann ætti að trúa de Tréville fyrir leyndarmáli sínu, eða aðeins biðja hann fararleyfis í leynilegum erindagjörðum. En bæði hafði de Tréville ávalt verið einstaklega alúðlegur við hann og auk þess framúrskarandi trúr og hollur konungi og drotningu, en hins vegar megnasti hatursmaður kardínálans, svo að d'Artagnan afréð að segja honum upp alla sögu.

»Þér óskið að hafa tal af mér, ungi vinur?« sagði de Tréville.

»Já,« svaraði d'Artagnan — »og ég er viss um, að þér fyrirgefið mér ónæðið, þegar þér heyrið, hvað um er að vera.«

»Segið þér bara frá — ég skal taka eftir.«

»Hér er hvorki um meira né minna að ræða en sóma drotningar og ef til vill líf hennar,« sagði d'Artagnan í hálfum hljóðum.

»Hvað eruð þér að segja?« spurði de Tréville og leit fyrst í kringum sig til að sjá, hvort þeir væru tveir einir, en horfði síðan á hinn unga mann.

»Ég er að segja, að ég hafi af tilviljun komist að leyndarmáli — —« »— — sem þér segið auðvitað engum.«

»— — en sem ég verð þó að trúa yður fyrir, þar sem þér einn getið hjálpað mér að koma því í framkvæmd, sem Hennar Hátign hefur falið mér að gera.«

»Er þetta leyndarmál aðeins á yðar vitund?«

»Nei, það er leyndarmál drotningar.«

»Hefur Hennar Hátign leyft yður að trúa mér fyrir því?«

»Nei — það hefur þvert á móti verið brýnt fyrir mér að halda því vandlega leyndu.«

»Hvers vegna viljið þér þá fara að segja mér frá því?«

»Af því að ég, eins og áður er sagt, get ekkert gert án yðar aðstoðar og af því að ég er hræddur um, að þér munuð ekki veita mér þá bón, sem ég ætla að biðja yður um, nema með svo feldu móti, að ég segi yður alla málavöxtu.«

»Geymið þér leyndarmal yðar, ungi maður, en segið mér hvers þér óskið.«

»Ég ætla að biðja yður að útvega mér fjórtán daga fararleyfi hjá herra des Essarts.«

»Hve nær?«

»Strax í kvöld.«

»Ætlið þér burt úr París?«

»Já, ég hef erindi að reka.«

»Hvert ætlið þér að fara?«

»Til London.«

»Er það nokkrum í hag, að þér komist ekki alla leið?«

»Kardínalinn mundi víst vilja alt til vinna að hefta för mína.«

»Verðið þér einu á ferðinni?«

»Já, ég verð einn.«

»Þá komist þér ekki einu sinni til Bondy (Bongdí, þorp skamt frá París). Það er nú mín skoðun.«

»Vegna hvers?«

»Þér verðið myrtur áður.«

»Þá læt ég lífið meðan ég er að gegna skyldu minni.«

»En þá getið þér ekki rekið erindi yðar,«

»Satt er það.«

»Trú mér til,« sagði de Tréville — »í þessháttar erindum veitir ekki af fjórum mönnum til þess að vera viss um, að einn þeirra komist leiðar sinnar.«

»Þér hafið rétt að mæla,« svaraði d'Artagnan. »Þér þekkið Athos, Porthos og Aramis og þér getið ráðið því, hvort ég get fengið þá til fylgdar.«

»Án þess að segja þeim þetta leyndarmál sem ég vildi ekki hnýsast í?«

»Við höfum svarist í fóstbræðralag í eitt skifti fyrir öll, hvað svo sem fyrir kann að koma og auk þess getið þér sagt þeim, að þér berið fult traust til mín – þeir tortryggja mig þá ekki.«

»Ég skal gefa hverjum þeirra fjórtán daga fararleyfi — Athos er ekki enn gróinn sára sinna — honum get ég leyft að fara til baðvistarinnar í Forges (Forsj), Porthos og Aramis geta svo fylgt vini sínum — þeir vilja víst, hvort sem er, ekki yfirgefa hann meðan hann er ekki orðinn heill heilsu.«

»Þakka yður innilega fyrir. Það er sannarlega fallega gert af yður, herra höfuðsmaður.«

»Farið þér nú til þeirra og komið öllu þessu fyrir í nótt, en skrifið fyrst umsókn yðar til des Essarts. Hver veit nema einhver njósnarinn sé á hælunum á yður og þá veit kardínálinn þegar, að þér hafið komið hingað.«

D'Artagnan skrifaði umsóknina og fékk de Tréville hana, en hann fullyrti, að fararleyfið handa þeim fjórum skyldi verða komið heim til þeirra, hvers um sig, fyrir klukkan tvö um nóttina.

»Gerið svo vel að senda mitt fararleyfi heim til Athos,« sagði d'Artagnan. »Ég er ekki meira en svo óhultur heima hjá mér.«

»Jú, það skal gert — og verið þér nú sælir og góða ferð! — En það er satt. Heyrið þér!« — kallaði de Tréville á eftir honum.

D'Artagnan sneri sér við.

»Hafið þér nokkra ferðapeninga?«

D'Artagnan sýndi honum peningapokann, sem hann hafði í vasanum.

»Ætli það sé nóg?«

»Það eru 300 gullpeningar.«

»Seisei! Þér getið komist á heimsenda fyrir þá summu. Verið þér nú sælir.«

D'Artagnan hneigði sig og herra de Tréville rétti honum höndina að skilnaði. Alt frá fyrstu stundu, að d'Artagnan kom til Parísar, hafði hann ekki haft annað en gott til de Tréville að segja og hann reynst d'Artagnan eins og sannur vinur og eðallyndur höfðingi.

Hann gekk fyrst til Aramis og hafði hann ekki komið þangað síðan kvöldið góða, að hann elti frú Bonacieux. Höfðu þeir því sjaldan hist, Aramis og hann, en þá sjaldan það var, sýndist d'Artagnan hann vera mjög svo dapurlegur á svip.

Í þetta skifti var Aramis líka daufur og hnugginn að sjá. D'Artagnan spurði hann, hverju dapurleiki hans sætti og bar Aramis það fyrir, að hann hafði tekist á hendur að semja á Latínu athugasemdir við átjánda kapítulann hjá hinum heilaga Ágústínusi, en það væri vandaverk og heilaraun mikil.

Þegar þeir höfðu talað saman um stund, kom einn af þjónum de Tréville með lokað bréf.

»Hvað ætli það sé nú?« spurði Aramis.

»Það er fararleyfið, sem þér hafið sótt um,« svaraði þjónninn.

»Ég her ekki um neitt fararleyfi sótt,«

»Taktu við því ummælalaust,« sagði d'Artagnan — »og hérna eru fimm frankar fyrir ómakið,« sagði hann við þjóninn. »Berið þér herra de Tréville kæra kveðju okkar og verið þér nú sælir.«

Þjónninn hneigði sig djúpt og fór sína leið.

»Hvað á þetta að þýða?« spurði Aramis.

»Búðu þig út í hálfs mánaðar ferð og komdu svo með mér,« svaraði d'Artagnan.

»En ég get ekki farið burt úr París án þess að vita —« sagði Aramis og hikaði.

»Án þess að vita, hvar hún er niður komin,« bætti d'Artagnan við.

»Hverja áttu við?«

»Ég á við konuna, sem kom hingað — konuna með útsaumsklútinn.«

»Hver hefur sagt þér, að hingað hafi nokkur kona komið?« spurði Aramis og brá litum.

»Ég sá hana sjálfur.«

»Veistu þá, hver hún er?«

»Ég held að ég renni einhvern grun í það.«

»Heyrðu nú,« sagði Aramis. »Fyrst þú veist svona mikið, þá veistu kannske líka, hvað orðið er af henni?«

»Ég held, að hún hafi snúið aftur til Tours.«

»Til Tours! Nú, ég sé að þú þekkir hana. En hvers vegna skyldi hún hafa farið án þess að láta mig vita um það einu orði?«

»Af því að hún var hrædd um að verða hnept í varðhald.«

»En hvers vegna hefur hún þá ekki skrifað mér?«

»Hún var hrædd um, að þér gæti komið það ver.«

»Kæri d'Artagnan, þú gerir mig aftur glaðan og öruggan,« sagði Aramis. »Ég hélt, að ég væri útskúfaður og svikinn í trygðum. Ég hlakkaði svo mikið til að sjá hana og ætlaði varla að trúa því, að hún hefði lagt frelsi og fjör í hættu bara til þess að finna mig — en hvaða erindi annað gat hún þá átt til Parísar?«

»Hún kom hingað af sömu ástæðu, sem nú neyðir okkur til að fara til Englands.«

»Og hvaða ástæða er það?«

»Það skal ég segja þér seinna, Aramis. En fyrst um sinn verð ég eins fámáll um það eins og um doktorsfrænkuna.«

Aramis brosti og datt í hug sagan, sem hann hafði sagt vinum sínum eitt kvöldið.

»Jæja, hún er þá farin úr París, segir þú d'Artagnan, og ég efast ekki um, að þú segir það satt. Fyrst svo er, þá er ég reiðubúinn að fara með þér, hvert sem vera skal.«

»Nú förum við fyrst til Athos, en þú verður að flýta þér — við megum ekki eyða tímanum svona. En það er satt — segðu Basin til.«

»Á Basin að fara líka?«

»Það getur vel verið. Að minsta kosti vil ég að hann komi með okkur til Athos.«

Aramis kallaði á Basin og skipaði honum að koma til Athos á eftir þeim.

»Svo skulum við koma,« sagði hann, girti sig sverðinu og fór í yfirhöfn sína, stakk á sig skammbyssum og leitaði í skúffunum, ef einhverstaðar skyldi hafa gleymst einhver skildingur, en það var náttúrlega ekki. Hann fór svo út með d'Artagnan og var að hugsa um, hvernig á því gæti staðið, að hann þekti konuna svona vel og vissi alt um hennar hagi. Hann tók í öxlina á d'Artagnan, horfði í augu honum og sagði:

»Hefurðu nefnt þessa konu við nokkurn?«

»Nei — ekki við nokkurn mann.«

»Ekki einu sinni við Athos eða Porthos?«

»Ekki við þá heldur.«

»Það er ágætt.«

Héldu þeir svo áfram heim til Athos og hittu svo á, að hann hélt á fararleyfi sínu í annari hendinni og bréfi frá de Tréville í hinni.

»Getið þið sagt mér, hvað þetta á að þýða?« spurði hann og rétti fram skjölin bæði. Bréfið var svohljóðandi:

»Kæri Athos! Mér skyldi vænt um þykja, ef þér vilduð taka yður hálfs mánaðar hvíld yður til heilsubótar. Þér ættuð að fara til baðstaðar í Forges eða þá eitthvað annað, ef yður sýndist svo, en heilsunnar verðið þér fyrst og fremst að gæta, — Yðar einlægur de Tréville.«

»Fararleyfið og bréfið þýðir það, að þú eigir að fylgja mér eftir, Athos,« sagði d'Artagnan.

»Til baðanna í Forges?«

»Eða þá eitthvað annað!«

»Í þjónustu konungs?«

»Konungs eða drotningar. Við eigum að þjóna þeim báðum.«

Í þessum svifum kom Porthos líka.

»Þetta er í meira lagi undarlegt!« sagði hann. »Nú dembist á mann fararleyfi, án þess beðið hafi verið um það!«

»Kannske þú eigir einhvern vin, sem hefur útvegað þér það,« sagði d'Artagnan.

»Nújájá!« sagði Porthos. »Hér er víst eitthvað á seiði.«

»Já — við eigum að fara í ferð,« svaraði Aramis.

»Og hvert?« spurði Porthos.

»Ekki veit ég það,« sagði Athos. »Það er best að þú spyrjir d'Artagnan að því.«

»Við eigum að fara til London, góðir hálsar!« sagði d'Artagnan.

»Til London!« sagði Porthos. »Og hvað eigum við að gera þar?«

»Það má ég ekki segja ykkur, kæru vinir! Þið verðið að treysta mér í blindni.«

»En það þarf peninga til að fara til London,« sagði Porthos — »og ekki á ég grænan eyri.«

»Og þá ekki ég,« sagði Aramis.

»Og ekki ég heldur,« sagði Athos.

»En ég hef nóga peninga,« sagði d'Artagnan og slengdi peningapokanum á borðið. »Hérna eru 300 gullpeningar, sem við getum skift á milli okkar, svo að hver fái 75 í sinn hlut. Það er meira en nóg handa okkur, einkum þegar þess er gætt, að við komumst líklega ekki allir leiðar okkar.«

»Hvers vegna?«

»Vegna þess, að einhver eða einhverjir okkar sleppa tæpast lifandi alla leið.«

»Er þetta þá einhverskonar herferð?«

»Já — og hún afar hættuleg. Það segi ég ykkur fyrirfram.«

»En ef við leggjum lífið í sölurnar,« sagði Porthos, þá finst mér ekki nema sanngjarnt að við fáum að vita, hvers vegna við gerum það.«

»Það fáum við að vita seinna,« sagði Athos.

»Mér finst Porthos hafa rétt fyrir sér,« sagði Aramis.

»Er konungurinn vanur að gera almenningi grein fyrir því, hvað hann gerir og hvað hann ekki gerir,« sagði d'Artagnan. »Hann segir bara: Nú eigið þið að berjast í Gaskogne eða Flandern eða einhverstaðar, sem hann til tekur — og svo farið þið þangað og vitið ekkert hvers vegna.«

»D'Artagnan hefur rétt að mæla,« sagði Athos. »Hér eru fararleyfin frá herra de Tréville og hér eru 300 gullpeningar, hvaðan sem þeir koma. Við skulum berjast þar sem okkur er skipað og ekkert skifta okkur af öðru. Ég fer með þér, d'Artagnan.«

»Ég líka,« sagði Porthos.

»Og ég líka,« sagði Aramis. »Mér þykir annars vænt um að komast burt úr París um tíma — ég þarf að létta mér dálítið upp.«

»Hvenær leggjum við af stað?« spurði Athos.

»Undireins,« svaraði d'Artagnan. »Við megum engan tíma missa.«

»Heyrið þið þarna Grimand, Plenchet, Mousqueton, Basin!« kölluðu hinir ungu menn einum rómi til þjóna sinna. »Berið á stígvélin okkar og sækið hestana!« — Þeir voru geymdir hjá de Tréville og þjónarnir flýttu sér burt.

»Það er nú best að búa sér til ferða-áætlun,« sagði Porthos. »Hvert höldum við þá fyrst?«

»Til Calais (Kale),« svaraði d'Artagnan. »Það er stysta leiðin til London.«

»Ég skal segja ykkur mína skoðun,« sagði Porthos. »Fjórir menn, sem allir eru samferða, vekja brátt eftirtekt á sér. Ég ríð á undan til Boulogne til þess að kanna leiðina. Athos leggur af stað til Amiens tveimur tímum seinna. Aramis fer um Noyon og d'Artagnan er sjálráður um, hvaða leið hann fer, en hann verður að fara í föt þjóns síns og Planchet kemur svo seinastur í búningi húsbónda síns.«

»Mér finst nú,« sagði Athos, »að við ættum ekki að bendla þjóna okkar við þetta fyrirtæki. Sú tilviljun getur komið fyrir, að aðalsmaður láti múta sér til að segja frá leyndarmáli, en það má heita nærri víst, ef það kemst í hendur þjónanna.«

»Og mér virðist tillaga Porthos vera næstum ógerandi í framkvæmdinni,« sagði d'Artagnan. »Ég veit ekki sjálfur, hvaða skipanir ég ætti að gefa ykkur ef til kæmi. Ég er sendur til að skila bréfi — það er hlutverk mitt. Ég hef ekki og get ekki útvegað þrjú afrit af því, þar sem það er innsiglað og því er það mín tillaga, að við verðum allir samferða. Bréfið er hér í vasa mínum og láti ég lífið, þá tekur einhver ykkar það og þið haldið svo áfram ferðinni. Falli hann líka, þá tekur annar það og svo koll af kolli. Aðalatriðið er að einhver okkar komist leiðar sinnar.«

»Þetta er ágætt, d'Artagnan — ég er alveg á sama máli og þú,« sagði Athos. »En fyrst og fremst verðum við allir að vera á eitt sáttir. Ég fer til baðstaðar og þið fylgið mér, en í staðinn fyrir böðin í Forges, ætla ég að taka sjóböð, því það er ég sjálfráður um. Ef við verðum handteknir, þá sýni ég bréfið frá de Tréville og þið fararleyfi ykkar og verði á okkur ráðist, þá verjum við okkur. Ef við verðum dregnir fyrir lög og dóm þá fullyrðum við, að tilgangur okkar með þessari ferð sé sá einn að busla í sjónum þennan hálfsmánaðartíma. Ef við förum tvístraðir, þá verður það heldur hægt verk að koma okkur fyrir kattarnef, en það getur orðið full torsótt, ef við erum allir saman. Við fáum þjónum okkar byssur og pístólur að vopnum. Við gefumst ekki upp, þótt við ofurefli sé að eiga og sá, sem undan kemst, skal koma bréfinu til skila, eins og d'Artagnan tók fram.«

»Þetta er vel mælt,« sagði Aramis. »Þú ert fremur fámáll, Athos, en það lítið sem þú segir er gullvægt. Ég felst á tillögu þína, en hvað segir þú Porthos?«

»Ég felst á tillögu hans ef d'Artagnan er á sama máli. Hann er fyrirliði okkar í þetta sinn og við verðum að hlíta hans útskurði.«

»Það er gott,« sagði d'Artagnan. »Ég er samþykkur tillögu Athos og við ættum að leggja af stað eftir hálfa klukkustund.«

»Samþykt í einu hljóði,« sögðu skyttuliðarnir.

Svo tók hver þeirra 75 gullpeninga og bjóst til farar í skyndi.

IV. Ferðin.

Klukkan tvö um nóttina riðu fjórmenningarnir út úr París gegnum St. Denis (Dení)-hliðið. Fóru þeir hljótt í fyrstu og töluðu ekkert saman, því að svo var sem þeir byggust við fyrirsát á hverju götuhorni í næturmyrkrinu.

En jafnskjótt sem lýsa tók af degi, fór að hýrna yfir þeim og þegar sól var komin á loft, urðu þeir kátir og fjörugir líkt og menn gerast kvöldið fyrir orustur. Eru hugirnir þá æstir og augun tindra og menn hafa þá næma tilfinningu fyrir því, hve lífið er dýrmætt og unaðslegt, þegar viðbúið er, að menn týni því næsta dag.

Þeir voru næsta hermannlegir á að líta, sitjandi keikir á kolbrúnum stríðsfákum og »fóru mikinn.« Á eftir þeim riðu þjónar þeirra, vopnaðir eins og áður er sagt.

Alt gekk nú að óskum og komu þeir til Chautilly (Sjangtíjí) klukkan átta og ætluðu að snæða þar dagverð. Þeir stigu af hestum sínum við veitingahús eitt. Yfir dyrum þess hékk skilti og átti að tákna Martein hinn helga, þar er hann sníður sundur kyrtil sinn og gefur beiningamanni helming hans. Þjónunum var sagt að spretta af hestunum og vera tilbúnir að halda áfram ferðinni eftir stutta viðdvöl.

Fjórmenningarnir gengu inn og settust að matborðinu. Þar sat fyrir aðalsmaður einn, nýkominn, og var að matast. Tók hann þá tali og spurði almennra frétta, en þeir leystu úr. Drakk hann þeim svo til og gerðu þeir honum sömu skil.

Mousqueton kom nú inn og sagði að hestarnir væru tilbúnir. Var þá risið undan borðum en ókunni maðurinn sagði við Porthos, að þeir skyldu tæma einn bikar til heilla kardínálanum. Porthos kvaðst vera fús til þess ef hinn vildi þá tæma annan bikar konungi til heilla. Ókunni maðurinn kvaðst ekki annan konung þekkja en kardínálann. Sagði Porthos þá, að hann væri fullur og vitlaus og brá hinn þegar sverði.

»Þetta var axarskaft,« sagði Athos – »en við því verður nú ekki gert. Vegðu manninn og kondu svo á eftir okkur, svo fljótt sem þú getur.«

Stigu hinir svo á hestbak og riðu af stað, en Porthos bjóst til að reka andstæðing sinn í gegn eftir öllum reglum skylmingalistarinnar.

»Þetta var nú fyrsti farartálminn,« sagði Athos, þegar þeir höfðu riðið um stund.

«En hvers vegna réðist maðurinn á Porthos, en ekki á einhvern okkar hinna?« spurði Aramis.

«Af því að Porthos var háværari en við og hefur maðurinn því haldið, að hann væri foringi okkar,« svaraði d'Artagnan.

«Ég hef altaf sagt, að þessi Gaskognari væri spekingur að viti,« sagði Athos.

Þeir héldu svo áfram og stóðu tvo tíma við í Beauvais (Bóve), sumpart til að taka sér hvíld og sumpart til að bíða eftir Porthos. En þegar hvorki bólaði á honum sjálfum, né heldur komu nein boð frá honum, héldu þeir áfram ferðinni.

Mílu vegar frá Beauvais lá leið þeirra um skarð nokkurt. Þar hittu þeir fyrir sér átta eða tíu menn, sem voru að róta upp veginum með skóflum og jarðhöggum og þeyttu mold og auri alt í kring; kváðust þeir vera að gera við skemdir á veginum.

Aramis vildi ógjarnan óhreinka stígvél sín og hreytti ónotum í verkamennina. Reyndi Athos að þagga niður í honum, en það var um seinan. Svöruðu verkamennirnir ónotum Aramis fullum hálsi og hæddu og spottuðu ferðalangana á allar lundir, svo að jafnvel Athos, þótt rólyndur væri, sárnaði svo mjög, að hann keyrði hest sinn sporum og hugðist að ríða einn þeirra niður.

Í sömu andránni stukku mennirnir ofan í vegarskurðinn og tóku byssur, er þeir höfðu falið þar og létu nú skothríðina dynja á ferðamönnunum. Særðist Aramis á öxl og kúla lenti í þjóin á Mousqueton. Féll hann af hestinum, ekki vegna þess að þetta væri neitt svöðusár, heldur ímyndaði hann sér að svo væri.

»Þetta er fyrirsát,« sagði d'Artagnan, »og skulum við ekki skjóta á móti, heldur halda áfram ferðinni.

Aramis sat kyr á hesti sínum, þótt særður væri, og hélt sér í faxið. Hestur Mousquetons hélt líka áfram og hljóp við hlið hinum hestunum.

»Þarna höfum við fengið aukahest,« sagði Athos.

»Ég vildi heldur hafa fengið hatt,« sagði d'Artagnan — »það kom kúluskömm og reif af mér höfuðfatið, en vissulega var það heppilegt, að ég geymdi bréfið ekki í því.«

»Bara að þeir skjóti nú ekki Porthos þegar hann kemur,« sagði Aramis.

»Porthos væri nú búinn að ná okkur ef ekki væri eitthvað, sem hindraði hann,« svaraði Athos. »Kannske það hafi runnið af þessum náunga, þegar til alvörunnar kom.«

Héldu þeir svo áfram þó að hestar þeirra væru farnir að þreytast og viðbúið, að þeir mundu fara að hægja á sér eða jafnvel gefast upp.

Ferðmennirnir fóru nú skemstu leið eftir þvergötu einni og vonuðu þá að sleppa heldur við fyrirsát, en þegar þeir komu til Crévecveur (Krevkör) kvaðst Aramis ekki geta fylgt þeim lengra, enda hafði hann orðið að leggja hart á sig til þess að komast þetta. Hann fölnaði upp og varð að styðja hann á hestinum. Lyftu þeir honum af baki fyrir utan veitingahús eitt og skildu Basin eftir hjá honum. Var svo ferðinni heitið til Amiens (Amieng), en þar ætluðu þeir að taka sér næturgistingu.

»Já, skárra er það nú,« sagði Athos, þegar þeir voru komnir af stað aftur. »Nú erum við ekki orðnir nema fjórir, d'Artagnan og ég, Grimaud og Planchet. Héðan af skal enginn snúa á mig og ég skal hvorki opna minn munn né draga sverð mitt úr slíðrum fyr en ég er kominn til Calais. Það sver ég við hár mitt og skegg.«

»Þér er best að vera ekki að sverja neitt,« sagði d'Artagnan. »Við skulum bara halda áfram, meðan klárarnir geta borið okkur.«

Svo keyrðu þeir hestana sporum og klárarnir gerðu það sem þeir gátu. Þeir komu til Amiens um miðnæturskeið og stigu af hestum sínum við gistihús, sem kallað var »Gylta liljan.«

Gestgjafi var mjúkur á manninn og allur á hjólum. Hélt hann á kertastjaka í annari hendi og nátthúfu sinni í hinni og kvaðst hafa herbergi handa þeim félögum, Athos og d'Artagnan, sitt í hvorum enda hússins. En að þessu vildu þeir félagar ekki ganga. Gestgjafi sagðist því miður ekki hafa önnur herbergi, sem væru boðleg jafn tignum gestum, en þeir Athos og d'Artagnan sögðu, að eitt herbergi nægði þeim báðum. Gestgjafi virtist ekki vera ánægður með þetta og maldaði eitthvað í móinn, en varð þó að láta undan.

Þeim var svo vísað til herbergis og fóru þeir að hreiðra um sig og ganga frá dyrunum. Meðan þeir voru að því, var drepið á gluggahlerann, sem sneri að garðinum. Þeir gengu að glugganum, spurðu hver þar væri og þektu málróm þjóna sinna. Opnuðu þeir þá strax gluggann.

Það voru þeir Planchet og Grimaud.

»Grimaud ætlar að gæta hestanna,« sagði Planchet, »en ef ykkur svo sýnist, þá fleygi ég mér fyrir framan dyrnar hjá ykkur, svo að þið megið vera vissir um, að enginn komist hingað inn ykkur að óvörum.«

»En á hvað ætlarðu að leggja þig?« spurði d'Artagnan.

»Á rúmið mitt,« svaraði Planchet og benti á hálmdyngju, sem hann var með.

»Jæja, legðu þig bara,« sagði d'Artagnan. »En þú hefur alveg rétt fyrir þér. Mér geðjast ekki að smettinu á þessum gestgjafa — hann er altof fleðulegur.«

»Og mér ekki heldur,« sagði Athos.

Planchet skreið inn um gluggann og lagði sig þvers fyrir framan dyrnar, en Grimaud lagði sig í hesthúsinu. Klukkan fimm átti hann að vera tilbúinn með hestana.

Ekkert bar til tíðinda um nóttina. Klukkan eitthvað tvö reyndi raunar einhver að laumast inn til þeirra, en Planchet vaknaði strax og spurði, hver þar væri. Snautaði þessi náungi burt og tautaði eitthvað um að hann hefði verið að villast.

Klukkan fjögur heyrðist hark og hávaði úr hesthúsinu. Stóð svo á því, að Grimaud fór að vekja hesthúsverðina, en þeir brugðust illa við og börðu Grimaud til óbóta. D'Artagnan og Athos opnuðu gluggann og sáu að hann lá meðvitundarlaus fyrir utan hesthúsið með flakandi sár á höfðinu, líklega eftir heynál.

Planchet gekk ofan í garðinn og ætlaði að söðla hestana, en þeir gátu sig þá ekki hreyft fyrir harðsperrum. Hestur Mousquetons var sá eini, sem hefði getað haldið áfram, en einhvern veginn vildi svo til, að dýralæknir hafði alt í einu verið sóttur til að taka hesti gestgjafans blóð, en hafði í misgripum opnað hesti Mousquetons æð.

Þetta fór að verða hálfískyggilegt. Það gátu raunar verir tómar tilviljanir en það gátu líka verið samtök. Athos og d'Artagnan gengu nú út, en Planchet fór að spyrjast fyrir um, hvort ekki væri hægt að fá þrjá hesta keypta einhverstaðar. Við gistihúsdyrnar stóðu tveir hestar söðlaðir, frískir og frálegir og hefðu þeir komið þeim félögum í góðar þarfir, eins og á stóð. Planchet spurði, hver ætti þá og var honum svarað, að eigendur þeirra hefðu gist þar um nóttina og væru nú að borga gestgjafanum næturgreiðann.

Athos gekk inn til að spyrja um, hvað gistingin kostaði, en d'Artagnan og Planchet stóðu í forstofudyrunum. Gestgjafinn var í afviknu herbergi litlu og þangað fór Athos. Hann gekk inn án þess að gruna nokkurn hlut og tók upp tvo gullpeninga til að borga með. Gestgjafinn sat við púlt sitt, tók við peningunum, handlék þá lengi, en sagði svo alt í einu, að þeir væru falskir. Var hann nú hávær mjög og hótaði að láta taka Athos og félaga hans fasta sem peningafalsara.

»Ég skal skella af þér bæði eyrun, þorparinn þinn!« sagði Athos.

Í sömu andránni ruddust fjórir vopnaðir menn inn um hliðardyr og réðust á hann.

»Ég er fangaður,« hrópaði Athos eins hátt og hann gat. »Flýttu þér af stað d'Artagnan!« Um leið hleypti hann af tveimur skammbyssum.

D'Artagnan og Planchet biðu nú ekki boðanna. Þeir fleygðu sér á hestana, sem hjá þeim stóðu, keyrðu þá sporum og riðu burt á harða spretti.

»Hamingjan má vita, hvað orðið hefur um Athos,« sagði d'Artagnan eftir nokkra stund.

»Ég sá gegnum glerhurðina, að tveir menn féllu fyrir skammbyssum hans og líka sýndist mér hann vera að sviftast við aðra tvo eða þrjá,« sagði Planchet.

»Mikill hreystimaður er Athos,« sagði d'Artagnan. »Það er leitt til þess að vita, að við skulum þurfa að yfirgefa hann, en annars getum við nú líka átt von á að verða fyrir nógum árásum á okkar leið. Jæja! Áfram, áfram, Planchet góður! Þú ert líka hraustmenni.«

Riðu þeir svo báðir það sem af tók til Sanit-Viner, hvíldu hestana stundarkorn og héldu í taumana á þeim meðan þeir fengu sér matarbita, því ekki þorðu þeir að sleppa þeim. Að því loknu héldu þeir áfram.

Þeir áttu eftir fjórtán eða fimtán faðma að borgarhliðinu í Calais þegar hestur d'Artagnans féll niður af mæði og var ekkert viðlit að koma honum á fætur aftur, því að blóðið fossaði úr nösum hans. Nú var aðeins eftir hesturinn, sem Planchet sat á, en hann var líka orðin kúguppgefinn og ómögulegt að koma honum lengra.

Þeim vildi það til, að þeir áttu skamt eftir til bæjarins. Skildu þeir nú hestana eftir á þjóðveginum og hlupu ofan að höfninni. Planchet benti húsbónda sínum á aðalsmann einn og þjón hans, sem voru rétt á undan þeim.

Þeir nálguðust mann þennan og virtist hann vera að flýta sér, eins og honum lægi mikið á. Hann var allur rykugur og fór að spyrjast fyrir um, hvort hann gæti fengið far til Englands þegar í stað.

»Það er ekkert því til fyrirstöðu,« sagði skipstjóri einn, sem þar var. En í morgun kom fyrirskipun um að flytja engan mann yfir sundið nema því aðeins, að hann hefði vegabréf frá kardínálanum.«

»Ég hef nú einmitt slíkt vegabréf,« sagði maðurinn og tók skjal upp úr vasa sínum. »Gerið þér svo vel — hér er það.«

»Hafnarvörðurinn verður að skrifa á það,« svaraði skipstjórinn — »og að því loknu skal ég flytja yður yfir sundið.«

»Hvar er hægt að finna hafnarvörðinn?«

»Á búgarði sínum.«

»Og hvar er sá búgarður?«

»Hann er spölkorn fyrir utan bæinn, Þér getið séð hann héðan, neðan undir hæðinni þarna — þar sést á helluþak og þar er hann.«

»Það er gott,« sagði aðalsmaðurinn og fór þegar með þjóni sínum áleiðis til búgarðsins, en d'Artagnan og Planchet héldu í humótt á eftir þeim.

Jafnskjótt sem þeir voru komnir út fyrir borgarveggina, fór d'Artagnan að greikka sporið og náði aðalsmanninum þar sem vegurinn beygði inn á skógarholt nokkuð.

»Yður virðist liggja talsvert á,« sagði d'Artagnan við hann.

»Já — ég hef eiginlega ekki mikinn tíma aflögum.«

»Það var leiðinlegt,« sagði d'Artagnan. »Mér bráðliggur á líka og ætlaði að biðja yður að gera mér greiða.«

»Og hver er hann?«

»Að lofa mér að verða á undan til Englands.«

»Það get ég ekki,« svaraði hinn. »Ég hef farið sextíu mílur á fjörutíu og fjórum tímum, því ég verð að vera kominn til London fyrir miðjan dag á morgun.«

»Ég hef farið jafnlangt á fjörutíu tímum,« sagði d'Artagnan, — »og ég verð að komast til London fyrir klukkan tíu í fyrra málið«

»Það kemur mér ekki við. Ég kom hingað fyrst og ætla ekki að verða annar í röðinni.«

»Það er mjög svo leiðinlegt. En ég kom annar í röðinni og ætla að verða sá fyrsti.«

»Ég fer erinda konungs.«

»Og ég fer minna eigin erinda,« sagði d'Artagnan.

»Ég sé ekki betur en að þér ætlið að slást upp á mig að raunarlausu.«

»Já — hvað annað skyldi ég ætla?«

»Hvað viljið þér mér?«

»Langar yður til að fá að vita það?«

»jú, sannarlega langar mig til þess.«

»Nújæja!« Ég ætla mér að ná í vegabréfið, sem þér hafið. Ég hef sem sé ekkert vegabréf sjálfur, en þarf nauðsynlega á vegabréfi að halda.«

»Ég býst við, að þér séuð að gera að gamni yðar.«

»Ég geri aldrei að gamni mínu.«

»Svona — látið mig nú komast fram hjá yður.«

»Nei, það geri ég ekki.«

»Þá mola ég hausinn á yður, ungi angurgapi! Lubin (Lujbeng!) Réttu mér pistólurnar.«

»Planchet!« sagði d'Artagnan. »Þú tekur þjóninn að þér — ég skal annast um húsbónda hans.«

Planchet réðist óðar á Lubin og með því að hann var rammur að afli, varpaði hann honum þegar til jarðar og lét kné fylgja kviði.

»Gerið nú það sem yður ber,« sagði Planchet við d'Artagnan. »Nú er ég búinn.«

Þegar hinn ókunni aðalsmaður sá þetta, brá hann þegar sverði og sótti að d'Artagnan, en komst brátt að raun um, að þar átti hann við ofjarl sinn. Eftir fáein augnablik var d'Artagnan búinn að særa hann þremur sárum og sagði í hvert skifti: Þetta er fyrir Athos — þetta er fyrir Porthos — og þetta er fyrir Aramis.«

Aðalsmaðurinn ókunni féll óvígur við þriðja sárið.

D'Artagnan hélt að hann væri dauður eða meðvitundarlaus að minsta kosti og laut ofan að honum til að ná í vegabréf kardínálans, en um leið og d'Artagnan seildist til með hendinni til að leita á honum, stakk hann sverði sínu, sem hann ekki hafði slept tökum á, í brjóst d'Artagnan og sagði:

»Og þetta er handa yður!«

»En þetta er frá mér!« svaraði d'Artagnan og rak hann í gegn af bræði mikilli, en ókunni maðurinn lokaði þá augunum og leið í ómegin.

D'Artagnan tók nú vegabréfið úr vasa hans og hljóðaði það á nafn Wardes (Vard)greifa.

Hann rendi augunum á hinn unga mann, liðugt tvítugan á að giska, sem lá þarna meðvitundarlaus eða kannske steindauður og honum flaug ósjálfrátt í hug kaldhæðni forlaganna, sem oft og einatt lætur einn vinna öðrum tjón í þágu hins þriðja og það stundum án þess að vita, hver sá þriðji maður er.

Hann hrökk upp af þessum hugleiðingum við það, að Lubin rak upp voðalegt öskur, því að Planchet hafði tekið fyrir kverkar honum og herti að.

»Hann þegir meðan ég held svona,« sagði Planchet, »en undireins og ég lina á takinu, þá fer hann að hljóða og óskapast. Ég sé að hann er frá Normandie og þar eru þrályndir karlar.«

»Bíddu við,« sagði d'Artagnan og stakk vasaklút sínum upp í Lubin.

»Við skulum binda hann við eitthvert tréð,« sagði Planchet.

Og það gerðu þeir vendilega, tóku síðan Wardes greifa og lögðu hann hjá sama trénu. Var næsta ólíklegt að Lubin kæmist þaðan fyr en þá daginn eftir, hvað þá heldur Wardes greifi.

»Og svo förum við til hafnarvarðarins,« sagði d'Artagnan.

»En mér sýnist þér vera særður,« sagði Planchet.

»Það er ekki neitt. Við skulum halda okkur við það, sem meira ríður á og hugsa svo um sárið.«

Þeir komu nú að búgarðinum. D'Artagnan nefndist Wardes greifi og bað að skila til hafnarvarðarins, að hann langaði til að hafa tal af honum. Var honum svo vísað inn.

»Hafið þér vegabréf frá kardínálanum?« spurði hafnarvörðurinn.

»Já, hér er það,« svaraði d'Artagnan. Gerið þér svo vel.«

»Jú, það held ég nú,« sagði hafnarvörðurinn. »Það er alt í reglu og ágæt meðmæli þar að auki.«

»Það lítur út fyrir, að kardínálinn vilji varna einhverjum að komast til Englands.«

»Já, ég hef heyrt að það væri einhver d'Artagnan, aðalsmaður frá Béarn. Hann hafði farið frá París með þremur vinum sínum og ætlað sér til London.«

»Þekkið þér hann persónulega?« spurði hafnarvörðurinn.

»Við hvern eigið þér?«

»Ég á við þennan d'Artagnan.«

»Jú — ég er honum nákunnugur.«

Svo lýsti d'Artagnan því nákvæmlega, hvernig Wardes greifi væri í hátt.

»Er nokkur með honum?«

»Já, þjónn hans, Lubin að nafni.«

»Við skulum hafa gát á þessum mönnum, og ef við náum í þá, þá má hans hágöfgi vera viss um, að þeir verða hafðir í strangri gæslu og sendir til Parísar aftur.«

»Þér gerið kardínálanum stórgreiða með því, herra hafnarvörður.«

»Ætli þér hittið kardínálann þegar þér komið aftur, herra greifi?«

»Það geri ég eflaust.«

»Viljið þér þá gera svo vel að segja honum, að ég sé hans dyggur þjónn.«

»Það er velkomið.«

Hafnarvörðurinn var mjög hrifinn af slíkri góðvild. Skrifaði hann á vegabréfið í skyndi og fékk d'Artagnan það, en hann fór svo leiðar sinnar.

Þeir d'Artagnan og Planchet gátu stytt sér leið til baka, svo að þeir þurftu þá ekki að fara gegnum skóginn og komu í borgina inn um annað hlið. Skipið var ferðbúið og skipstjóri beið þeirra. Hann spurði þá, hvernig erindið hefði gengið.

»Það er nú búið að skrifa á vegabréfið,« svaraði d'Artagnan.

»En hinn maðurinn — hvar er hann?«

»Hann fer ekki yfir sundið í þetta sinn, en þér þurfið einskis í að missa. Ég skal borga tvöfalt fargjald.«

»Þá er best að við förum undir eins.«

»Já, það skulum við gera,« sagði d'Artagnan. Stigu þeir svo í litinn bát og voru fluttir út á skipið.

Það mátti heldur ekki seinna vera. Þegar þeir voru komnir hálfa mílu frá landi, heyrðu þeir fallbyssuskot. Það var merki þess, að nú væri höfninni lokað.

Nú var tími til að gæta að sárinu og var það lítilfjörlegt, eins og d'Artagnan hafði giskað á. Sverðsoddurinn hafði numið við rifi og runnið út af, en skyrtan toldi niðri í, svo blæðing var engin.

D'Artagnan var orðinn úrvinda af þreytu og svefni, sem vonlegt var. Fleygði hann sér á hálmdýnu á þilfarinu og sofnaði þegar.

Þeir áttu enn eftir þrjátíu mílur að strönd Englands þegar birti um morguninn. Vindurinn var altaf lognhægur og sóttist ferðin seint, en samt vörpuðu þeir akkerum á Dovers höfn klukkan tíu og klukkan hálf ellefu sté d'Artagnan fæti sínum á enska grund.

»Þá er nú loksins hingað komið,« sagði hann.

En nú var eftir að komast til London. Þeir fengu ágæta hesta og meðreiðasvein og voru komnir að hliðum höfuðstaðarins eftir fjóra tíma.

D'Artagnan hafði aldrei komið til London áður og kunni ekki eitt orð í Ensku. En hann skrifaði bara nafn Buckinghams á miða og var honum þá vísað til hallar hertogans.

Hertoginn var ekki heima, hann var að veiðum í Windsor með konungi.

D'Artagnan bað þá um að fá að tala við einkaþjón hertogans, er fylgt hafði hertoganum á öllum hans ferðalögum og talaði Frönsku ágætlega. D'Artagnan sagði honum að hann kæmi frá París í erindagjörðum, sem vörðuðu líf og dauða og að hann þyrfti nauðsynlega að fá að tala við hertogann sem allra fyrst.

D'Artagnan talaði af þeim sannfæringakrafti að þjónninn, sem hét Patrice, trúði honum undir eins og lét söðla tvo hesta, annan handa hinum unga manni og annan handa sjálfum sér. Planchet gat sig ekki hreyft fyrir harðsperrum og þreytu, en ekkert virtist vinna d'Artagnan.

Þegar þeir komu til Windsor var þeim sagt, að Buckingham væri á fálkaveiðum með konungi á mýrum nokkrum all-langt þaðan.

Þeir skunduðu þangað og brátt heyrði Patrice málróm húsbónda síns, er hann var að kalla til veiðifálkans.

»Hvern á ég að nefna?« spurði Patrice.

»Þér skuluð segja að það sé ungi maðurinn, sem ætlaði að slást upp á hertogann kvöld eitt á Pont-Neuf.«

»Það eru undarleg meðmæli.«

»Ójá, en þau geta kannske verið eins góð og hvað annað.«

Patrice hélt áfram þangað til hann hitti húsbónda sinn og sagði frá komu hins unga manns með hann eigin orðum.

Buckingham skildist undir eins að þetta mundi vera d'Artagnan og vissi, að hér væri um eitthvert áríðandi mál að ræða. Hann flýtti sér því til d'Artagnans og þekti hann strax á einkennisbúningnum.

»Ég vona, að ekkert hafi komið fyrir drotninguna,« sagði hann.

»Ekki held ég það,«, svaraði d'Artagnan, en hins vegar held ég, að yfir henni vofi hætta, sem þér einn getið afstýrt.«

»Ég?« sagði Buckingham. »Ég vildi óska að ég gæti orðið henni að einhverju liði. Blessaður, segið þér mér, hvað um er að vera.«

»Ég er hérna með bréf.« sagði d'Artagnan.

»Með bréf — frá hverjum?«

»Ég held það sé frá Hennar Hátign.«

»Frá Hennar Hátign?« sagði Buckingham og fölnaði svo, að d'Artagnan hélt að honum væri að verða ilt. Hann tók svo við bréfinu.

»Hvernig stendur á þessu?« spurði hann og benti á rifu í bréfið.

»Ja, ég hef nú ekkert tekið eftir því,« svaraði d'Artagnan — »en það er eftir sverðsoddinn hans Wardes greifa.«

»Særði hann yður?«

»Það er ósköp lítilfjörlegt — ekki annað en skeinuskömm,« sagði d'Artagnan.

Hamingjan góða — hvað er að tarna!« sagði Buckingham, þegar hann hafði lesið bréfið. »Patrice, bíddu hérna, eða farðu heldur til konungsins, hvar sem hann er að finna, og segðu Hans Hátign, að ég biðji hann að hafa mig allranáðugast afsakaðan, en ég verði að fara til London tafarlaust í afar áríðandi erindum, Komið þér svo herra d'Artagnan! Við skulum fara strax!«

Og svo þeystu þeir báðir á harða spretti til höfuðstaðarins.

V. Greifafrú Winter.

Á leiðinni lét hertoginn d'Artagnan segja sér alt, sem við hafði borið og með því að bera saman frásögn d'Artagnans við það, sem hann vissi sjálfur, þótti honum auðsætt, að drotningin hlyti að vera í mjög miklum vanda stödd, enda mátti sjá það greinilega á bréfi hennar, þótt stutt væri. En merkilegast þótti honum, að kardínálinn skyldi ekki hafa getað hindrað för hins unga manns til Englands, jafnmikið áhugamál og honum hlaut það þó að vera. D'Artagnan sagði honum alla ferðasöguna, alt frá undirbúningi þeirra félaga fjögra og til viðureignar þeirra d'Artagnans og Wardes greifa. Meðan á frásögunni stóð, virti hertoginn hinn unga mann fyrir sér og undraðist að slíkt hugrekki, hyggindi og trúmenska skyldi finnast hjá manni, sem leit út fyrir að vera tæplega tvítugur.

Hestarnir þutu áfram eins og fugl flygi og eftir skamma stund komu þeir að borgarhliðunum. D'Artagnan hélt að hertoginn mundi hægja ferðinni þegar inn í borgina kæmi, en hann fór jafngeyst og áður og kærði sig kollóttan, þó að fólk væri fyrir á götunum. Það urðu líka nokkrir undir hesti hans, en Buckingham leit ekki einu sinni við, til að sjá eða spyrja um, hvað þeim liði. D'Artagnan fylgdi honum eftir og heyrði hróp og formælingar lýðsins.

Buckingham stökk af hesti sínum í garði hallarinnar, fleygði taumunum á makkann á honum og hljóp upp tröppurnar án þess að skifta sér meira af honum. D'Artagnan gerði slíkt hið sama, en var þó hálf órólegur út af hestunum, því honum þótti mikið til þeirra koma eftir þetta ferðalag, en hann var ánægðari þegar hann sá, að þrír eða fjórir þjónar komu hlaupandi og tóku hestana til hirðingar.

Hertoginn gekk svo hratt, að d'Artagnan ætlaði varla að geta fylgt honum eftir. Þeir gengu gegnum marga sali svo skrautlega, að slíkir gefast ekki hjá hinum tignustu aðalsmönnum á Frakklandi og komu loks inn í mjög ríkmannlegt og prýðilegt svefnherbergi. Þar var lokrekkja ein og í henni leynidyr. Lauk hertoginn þeim upp með gullnum lykli, er hann bar í gullfesti um háls sér.

D'Artagnan stóð álengdar fyrir hæversku sakir, en áður en Buckingham fór inn um leynidyrnar, sneri hann sér víð á þröskuldinum og sagði:

»Komið þér með mér, ungi maður. Ef þér berið einhvern tíma gæfu til að standa frammi fyrir Hennar Hátign, þá segið henni, hvað hér hafi borið fyrir yður.«

D'Artagnan hlýddi því og fylgdi hertoganum eftir.

Þegar þeir voru komnir inn úr dyrunum, voru þeir staddir í lítilli kapellu, klæddri persnesku silki og guðvefjartjöldum og brann þar fjöldi ljósa. Yfir eins konar altari með bláu yfirtjaldi úr silkiflosi hékk mynd í fullri líkamsstærð af Önnu drotningu frá Austurríki. Myndin var svo vel gerð og lík, að d'Artagnan hrópaði ósjálfrátt upp yfir sig af undrun — það virtist eins og drotningin ætlaði að fara að opna varirnar og segja eitthvað.

Uppi á altarinu og neðan undir mynd drotningar stóð skrínið, sem demantshnapparnir voru geymdir í. Hertoginn gekk þangað og féll á kné eins og prestur fyrir krossmarki. Svo opnaði hann skrínið.

»Lítið á,« sagði hann og tók upp blátt silkihnýti allstórt, er ljómaði alt af demöntum. »Þetta er hinn dýrmæti skrautgripur, er ég hef svarið, að leggjast skuli í gröf með mér. Drotningin gaf mér hann og hún tekur við honum aftur — verði hennar vilji!«

Hann kysti hvern einstakan demant að skilnaði, en alt í einu hljóðaði hann upp yfir sig.

»Hvað er að?« spurði d'Artagnan. »Hvað hefur komið fyrir?«

»Nú er úti um alt!« hrópaði Buckingham og varð náfölur. »Það vantar tvo demantana — hér eru að eins tíu.«

»Hafið þér týnt þeim, herra lávarður, eða haldið þér, að þeim hafi verið stolið?«

»Þeim hefur áreiðanlega verið stolið,« svaraði hertoginn »og það er kardínálinn, sem þar er á bak við. Lítið á! Silkibandið, sem demantarnir eru festir á, hefur verið klipt sundur með skærum.«

»Ef þér hafið einhvern grun um, hver þjófurinn er, þá gæti hugsast, að hann geymdi enn hjá sér þessa tvo demanta.«

»Heyrið nú!« sagði hertoginn. »Ég minnist þess nú, að eina skiftið, sem ég hef borið þessa demanta, var á dansleik, sem konungur hélt í Windsor fyrir átta dögum. Greifafrú Winter, sem ég var ósáttur við, kom þá til mín, og vildi sættast við mig, en nú sé ég að þetta hefur verið hefnd afbrýðissamrar konu. Ég hef ekki séð hana síðan og hún er eflaust eitt af þýjum kardínálans.«

»Hefur sá maður þá njósnara út um allan heim?« sagði d'Artagnan.

»Já, það hefur hann,« svaraði Buckingham og beit á jaxlinn í bræði sinni. »Hann er sá voðalegasti mótstöðumaður, sem hægt er að hugsa sér. En segið mér, hve nær þessi dansleikur á að verða.«

»Næsta mánudag.«

»Á mánudaginn, jæja, það eru fimm dagar þangað til og það er nægur tími. Patrice!« kallaði hann út um kapelludyrnar. »Patrice, heyrðu!«

Þjónninn kom þegar í stað.

»Sæktu gullsmiðinn minn og skrifarann minn!«

Þjónninn hvarf eins og skuggi. Það var auðséð, að hann var vanur að hlýða möglunarlaust.

Skrifarinn kom á undan gullsmiðnum, eins og eðlilegt var, þar sem hann bjó í höllinni sjálfri. Þegar hann kom, sat Buckingham við borð í svefnherbergi sínu og var að skrifa.

»Herra Jackson!« sagði hann. »Finnið kanslarann undir eins og biðjið hann að sjá um, að þessar fyrirskipanir verði framkvæmdar. Sömuleiðis óska ég, að þær verði auglýstar sem allra fyrst.«

»En hverju á ég að svara ef kanslarinn spyr mig hvers vegna Yðar hágöfgi taki til svo óvenjulegra ráða?«

»Ekki öðru en því, að það sé vilji minn og að ég þurfi ekki að standa neinum reikningsskap á gjörðum mínum.«

»Á ég líka að svara Hans Hátign þessu sama?« spurði skrifarinn brosandi. »Setjum svo, að konungur óski að vita ástæðuna til þess, að ekkert skip má nú leggja úr breskri höfn.«

»Jú, rétt er það,« sagði Buckingham. »Kanslarinn getur þá sagt konungi, ef svo ber til, að ég hafi afráðið að segja Frökkum stríð á hendur og að þetta sé fyrsta hernaðarráðstöfunin gegn þeim.«

Skrifarinn hneigði sig og fór.

»Nú er ekkert að óttast, hvað það snertir,« sagði Buckingham og vék sér að d'Artagnan. »Ef demantarnir eru ekki þegar á leiðinni til Frakklands, þá ná þeir ekki þangað fyr en eftir komu yðar.«

»Hvernig stendur á því?«

»Ég var einmitt að gefa út alment burtfararbann úr öllum höfnum á Englandi, svo að ekkert skip má leysa úr höfn án sérstaks leyfis.«

D'Artagnan horfði undrandi á þennan mann, sem brúkaði umsvifalaust alt það feikna vald, sem konungur hafði gefið honum, til þess að ráða fram úr ástaræfintýri. Buckingham grunaði, hvað hinum unga manni bjó í brjósti og sagði brosandi:

»Ef þér þektuð mig vel, þá vissuð þér líka, að Anna frá Austurríki er mín eina verulega drotning. Fyrir hennar bænastað gæti ég svikið land mitt og konung minn. Hún bað mig nýlega að senda ekki mótmælendum í La Rochelle liðsauka, sem eg hafði lofað þeim, og ég gerði það heldur ekki. Ég sveik loforð mitt, en varð við ósk hennar. Hún hefur líka launað mér hlýðni mína ríkulega, því að fyrir þetta fékk ég mynd hennar.«

D'Artagnan flaug í hug, hversu lítil atvik geta oft ráðið öllu um hag einstaklinganna og örlög heilla þjóða.

En honum hurfu þessar hugleiðingar við það, að gullsmiðurinn kom nú inn. Það var Írlendingur, fyrirtaks góður gullsmiður og innvann sér hundrað þúsund franka á ári, að hans eigin sögn, með smíðum sínum í þarfir hertogans.

»Herra Ó'Reilly,« sagði Buckingham og leiddi hann inn í kapelluna. »Lítið á þessa demanta og segið mér, hvers virði þeir eru.«

Gullsmiðurinn athugaði þá lengi og vandlega. Að lokum sagði hann:

»Þeir eru fimtán hundruð gullpeninga virði, hver einstakur.«

»Hvað marga daga þurfið þér til að útbúa tvo slíka demanta? Það vantar tvo.«

»Átta daga, herra lávarður.«

»Ég skal borga yður þrjú þúsund gullpeninga fyrir hvorn, en ég verð að fá þá eftir tvo daga.«

»Það skal gert, herra lávarður.«

»Þér eruð tilvalinn maður, Ó'Reilly, en ég skal taka eitt fram. Þessi dýrgripur má ekki komast í neins annars hendur en yðar og þér verðið að útbúa demantana hér í höllinni.«

»Það er ómögulegt, herra lávarður. Það getur enginn útbúið slíka demanta, sem þessa, annar en ég, svo að enginn munur sjáist.«

»Þá verðið þér fangi minn á meðan, kæri vin. Ef þér ætlið nú burt úr þessu húsi, þá munuð þér koma að öllum dyrum harðlokuðum. Þetta verðið þér að sætta yður við. Segið mér, hverja gullsmiðasveina þér þurfið yður til aðstoðar og hvaða verkfæri þeir eiga að hafa með sér.«

Gullsmiðurinn þekti hertogann og vissi, að hér dugðu engin andmæli. Hér var ekki um annað að velja en að láta undan.

»Ég vona að mér leyfist að gera konu minni aðvart,« sagði hann.

»Þér skuluð meira að segja fá leyfi til að tala við hana, kæri vin og þér megið eiga víst, að fangavist yðar skal ekki verða ýkja hörð. En til þess að bæta yður upp það ómak sem ég geri yður, þá borga eg yður hér með þúsund gullpeninga aukreitis.«

D'Artagnan var steinhissa á þessum manni, sem lék sér að stórauðæfum jafnkæruleysislega og hann drotnaði yfir örlögum annara.

Gullsmiðurinn skrifaði konu sinni þegar í stað, sendi henni þessa þúsund gullpeninga og bað hana að senda sér verklagnasta sveininn. Sömuleiðis bað hann hana að senda sér nokkra demanta, sem hann lýsti nánar og sendi henni lista yfir þau verkfæri, sem hann þyrfti að fá.

Buckingham vísaði gullsmiðnum til herbergis þess, er hann ætlaði honum og var því breytt í vinnustofu á svipstundu. Hann setti vörð við dyrnar og harðbannaði að hleypa nokkrum inn nema Patrice. Þess þarf ekki að geta, að hvorki Ó'Reilly né aðstoðarmaður hans fengu að ganga út úr herberginu, hvað sem við lægi og hvað sem þeir kynnu að bera fyrir.

Þegar þetta var komið í lag, gekk hertoginn til d'Artagnans.

»Jæja, ungi vinur,« sagði hann. »Þér getið verið hér eins og heima hjá yður. Vanhagar yður ekki um neitt?«

»Eins og stendur þarfnast ég mest að komast í rúmið,« svaraði d'Artagnan.

Buckingham vísaði honum til herbergis næst sínu eigin herbergi. Hann vildi að hinn ungi maður væri sem næst sér — als ekki fyrir þá sök, að hann tortrygði hann að neinu leyti, heldur aðeins til þess að hafa einhvern, sem hann gæti spjallað við um drotninguna.

Einum klukkutíma síðar var fyrirskipun Buckinghams auglýst í London: »Ekkert skip mátti leggja af stað áleiðis til Frakklands — ekki einu sinni póstskipið. Allir skildu þetta sem herboð eða friðslit við Frakkland.

Demantarnir voru tilbúnir á ákveðnum tíma og voru svo líkir hinum demöntunum, að ekki mátti á milli sjá og mundi hinn æfðasti demantaþekkjari ekki hafa getað greint þá frá hinum.

Buckingham lét sækja d'Artagnan.

»Lítið á — hér eru nú demantarnir,« sagði hann. »Þér skuluð nú bera mér vitni um, að alt hefir verið gert, sem í mannlegu valdi stóð.«

»Þér megið reiða yður á það, herra lávarður. En þér fáið mér aðeins demantana, en ekki skrínið.«

»Skrínið væri yður aðeins til óþæginda. Auk þess er mér það nú enn dýrmætara en áður, því að nú hef ég ekki annað en það. Segið, að ég hafi haldið því eftir.«

»Ég skal flytja svar yðar orði til orðs, herra lávarður.«

»Og að síðustu,« sagði Buckingham, »bið ég yður nú að segja mér, hvernig ég get vottað yður þakklátsemi mína.«

D'Artagnan blóðroðnaði upp í hársrætur. Hann þóttist vita, að hertoginn ætlaði að gefa sér peningagjöf nokkra, en honum hraus hugur við að selja blóð sitt og vina sinna fyrir enskt gull.

»Við skulum reyna að forðast allan misskilning, herra lávarður,« sagði hann, »og líta á hlutina eins og þeir liggja fyrir. Ég er í þjónustu Frakkakonungs og drotningar og heyri til herfylki des Essarts, en bæði hann og herra de Tréville mágur hans eru konungshjónunum hollir og trúir. Auk þess skal ég bæta því við, að ekki er víst, að ég hefði tekist þessa ferð á hendur nema fyrir bænastað konu nokkurrar, sem mér er álíka ant um og yður er um drotninguna.«

»Ég held,« sagði hertoginn brosandi, »að ég þekki þá konu ef til vill. Það er — —«

»Ég hef ekki nefnt hana á nafn« greip d'Artagnan fram í.

»Satt er það,« svaraði hertoginn. »En ég á þá henni að þakka þann mikla greiða, sem þér hafið gert mér.«

»Já, sannarlega eigið þér það, herra lávarður, því fyrst að nú er svo komið, að ófriður er fyrir höndum, þá skoða ég yður fyrst og fremst sem Englending — fjandmann með öðrum orðum, sem ég heldur kysi að hitta á vígvellinum en í lystigarðinum í Windsor eða hallargöngunum í Louvres. En það aftrar mér ekki frá því að reka erindi mitt samviskusamlega og ég er fús til að láta lífið fyrir þær sakir, ef til þess kemur. Yðar hágöfgi þarf því ekki að votta mér neina þakklátsemi.«

»Við höfum það orðtak hér á Englandi, að einhver sé mikillátur eins og Skotlendingur,« sagði Buckingham.

»Og við Frakkar segjum, að einhver sé mikilátur eins og Gaskognari,« svaraði d'Artagnan.

Hann hneigði sig og bjóst til að fara.

»Jæja — þér ætlið að rjúka burt,« sagði Buckingham. »En hvert ætlið þér og hvernig hafið þér hugsað yður að komast af stað?«

»Já — ég verð nú að fara frá yður.«

»Þessir Frakkar eru sannarlega ekki að setja smámuni fyrir sig!«

»Æ — ég gleymdi því nú alveg, að England er eyja og þér konungur hennar,« svaraði d'Artagnan.

»Gangið ofan að höfninni og spyrjið eftir briggskipinu »Sund« og fáið skipstjóranum þetta bréf. Hann flytur yður svo til úthafnar einnar á Frakklandi, þar sem enginn mun búast við að þér lendið, enda koma þangað vanalega fiskiskip eingöngu.«

»Hvað heitir sú höfn?«

»Hún heitir Saint-Valéry. En heyrið nú enn fremur. Þegar þangað kemur, gangið þér inn i veitingahús eitt hrörlegt mjög og skildislaust og nafnlaust. Það er ekki annað en sjómannaknæpa. Þér getið ómögulega vilst á því, því að það er ekki um annað veitingahús að ræða.«

»Og hvað næst?«

»Svo gerið þér boð fyrir gestgjafann og segið að eins þetta eina orð: »Forward« (Forvörd) við hann«

»Og hvað þýðir það?«

»Það þýðir »áfram« og er kenni-orð. Hann fær yður svo söðlaðan hest og segir yður til vegar. Þér farið um fjóra áningarstaði eða gistihús, sömu tegundar og í Saint-Valéry og fáið nýjan hest á hverjum stað og ef þér segið til heimilis yðar í París, þá verða þessir fjórir hestar sendir yður þangað með öllum reiðtýgjum og öðrum útbúnaði, sem stríðshestum fylgir. Þér þekkið þegar tvo þeirra og hinir verða engu lakari, og endaþótt þér séuð mikillátur, þá munuð þér varla neita að þiggja einn þeirra að gjöf, en vinir yðar þrír sinn hvern þeirra. Þið getið svo haft þá í stríðið við okkur Englendinga. »Tilgangurinn helgar meðalið« segið þið, sem katólskir eruð, eða er ekki svo?«

»Ég tek boði yðar með þökkum, herra lávarður og við félagar munum vissulega nota okkur gjafir yðar þegar þar að kemur.«

»Og verið þér nú sælir, ungi maður. Við kannske hittumst á vígvellinum óðar en varir, en fyrst um sinn vona ég, að við skiljum sem góðkunningjar.«

»Og ég vona, að ekki líði langt um þangað til við hittumst sem mótherjar, herra lávarður.«

»Þess verður skamt að bíða — því lofa ég yður.«

»Ég reiði mig á loforð yðar,« sagði d'Artagnan, hneigði sig og gekk ofan að höfninni.

Hann fann skipið, sem honum var vísað á, gagnvart Tower (Táör) og fékk skipstjóranum bréfið, en hann lét hafnarvörðinn skrifa á það og dróg þegar upp akkeri að því búnu.

Þar lágu fimtán skip seglbúin og biðu fararleyfis.

Um leið og skipið skreið fram hjá einu þeirra, hélt d'Artagnan sig hafa þekt konuna frá Meung, sem ókunni aðalsmaðurinn kallaði »Mylady.« En vindur og straumur báru hann óðfluga burt, svo að hann misti strax sjónar á henni.

Þeir lögðust í lægi í Saint-Valery um klukkan níu morguninn eftir.

D'Artagnan leitaði þegar gistihússins, sem honum hafði verið bent á, og þekti það á hljóðunum, sem heyrðust út um dyrnar. Það voru sjómenn, sem sátu þar að drykkju og voru að tala um stríðið milli Frakklands og Englands, eins og það væri þegar afráðið.

D'Artagnan ruddist inn á milli gestanna, náði í húsbóndann og hvíslaði í eyra honum: »Forward!« Gestgjafinn benti honum þegar að fylgja sér eftir. Þeir fóru út um dyr, sem vissu út að garðinum, og út í hesthús, en þar stóð söðlaður hestur.

»Þóknast yður nokkuð meira?« spurði gestgjafinn.

»Þér verðið að segja mér, hverja leið ég á að fara,« svaraði d'Artagnan.

»Fyrst farið þér til Blangy (Blangsji) og þaðan til Neufchátel (Nösjatel.) Þar stansið þér í gistihúsinu »Gullherfið« og segið gestgjafanum kenni-orðið og mun hann þá fá yður nýjan hest.«

»Hvað á ég að borga?« spurði d'Artagnan.

»Ekki neitt. Það er búið að borga og það ríflega. Verið þér nú sælir og guð fylgi yður.«

»Amen!« sagði ungi maðurinn og keyrði hestinn sporum.

Hann var kominn til Naufchátel eftir fjóra tíma og fór nákvæmlega eftir því, sem honum hafði verið sagt fyrir. Í Naufchátel beið hans söðlaður hestur eins og í Saint-Valery og þegar hann ætlaði að færa pistólur sínar úr hnakktöskunni við hnakkinn, sem hann hafði setið á, yfir í töskuna við nýja hnakkinn, þá sá hann, að þess þurfti ekki við — þar var nóg fyrir af pistólum og skotfærum.

»Og hvert er heimili yðar í París?« spurði gestgjafinn.

»Lífvarðarskálinn við herfylki des Essarts. En nú verðið þér að vísa mér leið.«

»Þér farið eftir þjóðveginum til Rouen, en stefnið þannig, að þér hafið bæinn til hægri handar. Svo nemið þér staðar í bænum Ecouis (Ekúí) Þar er aðeins eitt gistihús, er nefnist »Skjöldur Frakklands,« en ekki skuluð þér fælast útlit þess. Í hesthúsinu þar bíður yðar söðlaður hestur, jafngóður hinum fyrri.«

»En er kenni-orðið sama?«

»Já — alveg það sama.«

»Verið þér sælir, maður góður!«

»Góða ferð, herra minn! Þóknast yður nokkuð fleira?«

D'Artagnan hristi höfuðið og hleypti burt. Hann fékk sömu viðtökur í Ecouis — hitti þar alúðlegan gestgjafa og fékk nýjan reiðskjóta. Hann sagði til heimilis síns í París og hélt svo áfram til Pontoise (Pongtoas.) Þar fékk hann einn færleikinn enn og klukkan níu þeysti hann inn í hallargarðinn hjá herra de Tréville.

Hann hafði farið heimleiðina — alt að sextíu mílum — á tólf tímum.

Herra de Tréville tók við honum eins og hann hefði verið burtu bara fáeina tíma. Hann heilsaði honum með handabandi og sagði honum að herfylki des Essarts væri á verði í Louvre. Skyldi hann því fara þangað og taka upp störf sín.

VI. Merlaison-dansinn.

Daginn eftir var aðalumtalsefnið í París dansleikur sá, sem bæjarstjórnin ætlaði að halda til heiðurs konungi og drotningu og þar sem konungshjónin áttu að stíga hinn víðfræga Merlaison (Merlesong)-dans, er var uppáhaldsdans konungs.

Rúm vika gekk til undirbúnings þessarar veislu í ráðhúsinu. Bæjarsmiðurinn lét reisa sérstaka palla handa kvenfólkinu. Danssalurinn var lýstur með 200 hvítum vaxkertum, er í þá daga þótti frámunaleg viðhöfn. Tuttugu hljóðfæraleikarar voru ráðnir fyrir tvöfalda borgun með því skilyrði, að þeir héldu áfram alla nóttina.

Klukkan tíu um morgunin kom La Coste, merkisberi í lífverði konungs, til Clément (Klemang,) dómsmálaritara bæjarins og voru í för með honum tveir löggæsluriddarar og nokkrar bogskyttur. Óskuðu þeir að fá sér afhenta lykla að öllum dyrum ráðhússins. Var svo gert og hékk miði við hvern lykil, er sýndi, að hvaða dyrum hann gengi. Frá þeirri stundu tókst La Coste á hendur að gæta allra dyra ráðhússins.

Klukkan ellefu kom höfuðsmaður lífvarðarins, Duhallier (Dujallie,) með fimtíu bogskyttur. Var þeim dreift um alt ráðhúsið og skipað við hinar ýmsu dyr þess.

Klukkan þrjú komu tvö herfylki úr lífverðinum — annað franskt en hitt svissneskt. Í franska herfylkinu var annar helmingurinn undir forustu Duhalliers og hinn helmingurinn undir forustu des Essarts.

Klukkan sex um kvöldið fóru gestirnir að þyrpast að og fyltu pallana í danssalnum.

Klukkan níu kom frú yfirborgarstjórans. Var hún tignust kona í þessari veislu og gekk næst drotningu. Tóku því allir bæjarfulltrúarnir við henni og leiddu hana til sætis á palli andspænis palli drotningar.

Klukkan tíu fengu menn sér hressingu.

Klukkan tólf heyrðust óp og köll. Þar fór konungur frá Louvre til ráðhússins og voru göturnar á leið hans lýstar marglitum ljóskerum.

Allir bæjarfulltrúarnir gengu þegar á móti honum, skrýddir fullum embættisskrúða. Á undan þeim fóru sex ráðhúsþjónar með blys í höndum. Þeir tóku við konungi á tröppunum og bauð borgarstjóri hann velkominn, en konungur afsakaði, hve síðla hann kæmi og bar það fyrir, að kardínálinn hefði haldið sér til klukkan ellefu með umræðum um ríkismálefni.

Hans Hátign var búinn hirðveislubúningi og voru í fylgd með honum Hans konunglega tign erfðaprinsinn, enn fremur Soissons (Sossong) greifi, Longueville (Longvil) hertogi og stórpríór, Elbeuf (Elböf) hertogi, Harcourt (Arkúr) greifi, greifinn af La Roche-Guyon (La Rosj-Gíong,) herra de Liancourt, herra de Baradas (Barada,) greifinn af Cramail (Kramaj) og riddarinn af Souveray (Súvre.)

Menn tóku eftir því, að konungur var óglaður og áhyggjufullur að sjá.

Tvö herbergi voru ætluð þeim konungi og erfðaprinsinum og voru þar grímubúningar þeirra. Sömuleiðis voru sérstök herbergi ætluð þeim drotningu og frú yfirborgarstjórans, en annað fylgdarlið konungs skyldi búast, tvent og tvent saman, í þar til ætluðum herbergjum.

Áður en konungur gekk til herbergis síns, mælti hann svo fyrir, að sér yrði gert aðvart undireins og kardínálinn kæmi.

Hálfri klukkustund eftir komu konungs, heyrðust hróp og köll á ný. Var það drotning, sem nú var á leiðinni. Var henni fagnað á sama hátt og konungi og menn urðu þess líka varir, að hún var dapurleg og hnuggin að sjá.

Í sama bili sem drotning gekk inn í salinn, var tjaldi slegið til hliðar á litlum palli, sem alt að þessu hafði verið tjaldað fyrir og sást þar á fölt andlit kardínálans, er var klæddur spönskum riddarabúningi. Hann leit til drotningar og lék illúðlegt bros um varir hans er hann sá, að hún bar ekki demantana.

Drotning dvaldi nokkra stund í salnum til þess að taka kveðju bæjarfulltrúanna og kvenna þeirra, er þar voru staddar.

Alt í einu sást konungurinn með kardínálann við hlið sér í dyrum einum. Kardínálinn talaði í hálfum hljóðum og konungur var litverpur mjög.

Nú tróð Hans Hátign sér fram á milli gestana, grímulaus og hafði naumast gefið sér tíma til að hneppa að sér kufli sinum. Hann gekk rakleitt til drotningar og mælti af móði:

»Hví berið þér ekki demanta yðar, frú, vitandi vel, að mér væri það mjög kærkomið.«

Drotningin leit í kringum sig og sá hið illgirnislega bros kardínálans.

»Herra,« svaraði hún. »Ég þorði ekki að eiga undir því, að bera svo kostulegan dýrgrip meðal svo margra manna.«

»Það var ekki rétt gert af yður frú! Þegar ég gaf yður þessa gjöf, gerði ég það í þeim tilgangi, að þér skreyttuð yður með henni. Ég segi það enn og aftur, að það var órétt af yður.«

Konungur nötraði af bræði. Þeir sem næstir stóðu, hlustuðu agndofa á þetta samtal, en vissu ekki hvernig á því stóð.

»Herra!« sagði drotningin. »Ég get sent eftir demöntunum. Þeir eru í Louvre. Þá fær Yðar Hátign ósk yðar uppfylta«

»Gerið það frú og það sem fljótast. Dansinn byrjar eftir klukkutíma.«

Drotningin hneigði sig og gekk til herbergis síns með hirðkonum sínum og sömuleiðis gekk konungur til síns herbergis.

Það var öllum brugðið í salnum, því menn vissu, að eitthvað bar þeim konungi og drotningu á milli, en meira vissu menn heldur ekki, enda glumdu hljóðfærin svo hátt, að ógjörla heyrðist það sem talað var.

Konungur kom fyrst út úr sínu herbergi og var klæddur veiðibúningi eins og erfðaprinsinn og hinir aðrir stórhöfðingjar. Fór konungi þessi búningur svo vel, að telja mátti hiklaust, að hann bæri af öllum aðalsmönnum ríkisins.

Kardínálinn gekk til hans og fékk honum litla öskju. Konungur opnaði hana og sá, að í henni voru tveir demantar.

»Hvað á þetta að þýða?« spurði hann.

»Ekki neitt, Yðar Hátign. En ef drotningin lætur á sig demantana sem ég raunar efast um — þá gerið svo vel að telja þá og séu þeir ekki fleiri en tíu, þá spyrjið Hennar Hátign, hver hafi tekið þessa tvo frá henni.«

Konungur horfði á kardínálann, eins og hann langaði til að spyrja eitthvað frekar um þetta, en til þess kom ekki, því nú varð ys allmikill í salnum er menn létu í ljósi aðdáun sína, því að nú kom drotning fram úr herbergi sínu og þar sem konungur var öllum aðalsmönnum tígulegri, þá mátti með sanni segja, að engin kona landsins jafnaðist við drotningu að kvenlegri fegurð og yndisþokka í allri framgöngu.

Veiðibúningur hennar fór henni prýðilega. Á höfðinu hafði hún flókahatt með blárri fjöður, og var í mötli úr perlugráu flaueli, styttum upp með demantsnælum, en innan undir bar hún silfurseymdan silkikjól, bláan að lit. Á vinstri öxl hennar ljómuðu demantarnir tólf, festir á silkiband með sama lit og hattfjöðrin og kjóllinn.

Konungur gladdist sýnilega við sjón þessa, en kardínálinn varð eldrauður í framan af gremju. Drotning stóð svo fjarri þeim, að þeir gátu ekki kastað tölu á demantana, en á því var engin efi, að þarna voru þeir komnir, hvort sem þeir voru nú tíu eða tólf.

Nú var gefið merki, að dansleikurinn skyldi hefjast. Konungur gekk til frúar yfirborgarstjórans og leiddi hana í dansinn, en erfðaprinsinn hneigði sig fyrir drotningu. Röðuðu menn sér svo eftir því sem við átti og síðan hófst dansinn. Hvert skifti, sem konung bar í nánd við drotningu, varð honum litið á demantana, en ekki gat hann talið þá enn. — Það sló köldum svita út um kardínálann.

Dansinn stóð yfir heilan klukkutíma — hann var sex umferðir.

Þegar hann var úti, leiddu karlmenn konur til sætis, en áhorfendur klöppuðu lof í lófa. Konungur greip nú tækifærið, hneigði sig fyrir borgarstjórafrúnni og gekk til drotningar.

»Ég kann Yðar Hátign bestu þakkir fyrir, að þér hafið orðið við ósk minni,« sagði hann. »En vantar ekki tvo demantana? — þeir eru hérna.«

Að svo mæltu rétti hann henni öskjuna, sem kardínálinn fékk honum.

»Ætlið þér að gefa mér tvo demanta í viðbót, herra?« sagði drotning og lét sem þetta kæmi sér á óvart. »Þeir verða þá fjórtán talsins.«

Konungur gat nú talið demantana og sá, að þeir glitruðu allir tólf á öxl Hennar Hátignar. Hann gerði boð eftir kardínálanum.

»Hvað á þetta að þýða, herra kardínáli?« spurði hann allhöstulega.

»Ekki annað en það, Yðar Hátign, að mig langaði til að drotningin vildi þiggja þessa tvo demanta. Sjálfur dirfðist ég ekki að bjóða henni þá og tók því þetta ráð.«

»Ég er Yðar hágöfgi mjög þakklát og það því fremur sem mig grunar, að þessir tveir demantar hafi orðið yður dýrkeyptari en konunginum hinir tólf,« sagði drotning brosandi. Hún vildi láta kardínálann skilja að hún vissi vel, hvernig á þessari kurteisi hans stæði. Hneigði hún sig síðan fyrir konungi og kardínála, kvaddi þá virðulega og gekk til herbergis síns.

— Oss hefur nú um stund orðið svo tíðrætt um ýmsa heldri menn og konur, að maður sá, sem Anna drotning átti sigur sinn í viðureigninni við kardínálann mest og best að þakka, hefur orðið útundan. Stóð hann frammi við dyr meðal annara áhorfenda og lét lítið á sér bera, en sá þó vel, hvað fram fór og vissi engin nema konungur og drotning, kardínálinn og hann sjálfur, hvað hér var að gerast í raun og veru.

Drotningin var gengin til herbergis síns og d'Artagnan var í þann veginn að fara af dansleiknum, en fann þá, að klappað var á öxl sér. Hann sneri sér við og sá unga konu, sem benti honum að fylgja sér eftir. Hún bar svarta flauelsgrímu fyrir andlitinu, en þrátt fyrir það vissi d'Artagnan strax, að þetta var hin káta og fjöruga frú Bonacieux.

Kvöldið áður höfðu þau aðeins sést í svip hjá Germain dyraverði, en ekki talast við nema fáein orð vegna þess að hin unga kona vildi láta drotninguna vita sem allra fyrst, að sendimaður hennar væri kominn aftur heill á hófi. D'Artagnan fylgdi henni nú eftir af tveimur ástæðum — bæði af forvitni og svo af því, að hann elskaði hana. Á leiðinni ætlaði hann hvað eftir annað að fá hana til að staldra við þar sem fátt var um manninn, því að hann þráði svo mjög að tala við hana og horfa í augu henni, en hún skaust altaf undan, lagði fingurinn á varirnar og gaf honum í skyn, að hann yrði að fylgja sér og hlýða sér möglunarlaust. Þegar þau höfðu farið alskonar krókaleiðir nokkra stund, opnaði frú Bonacieux dyr og fylgdi honum inn í koldimt herbergi. Benti hún honum á ný, að hann mætti ekkert segja, opnaði leynidyr nokkrar í veggnum og hvarf út um þær.

D'Artagnan stóð þarna hreyfingarlaus nokkur augnabiik og undraðist hvar hann væri staddur. Það lagði ofurlitla ljósrák úr næsta herbergi og heyrði hann þaðan mannamál, nokkrar kvenmannaraddir, sem töluðu hægt og hæversklega og nefndu oft »Yðar Hátign.« Réð hann af þessu, að hann væri rétt hjá herbergi drotningar og beið nú átekta.

Honum heyrðist drotning vera glöð og í góðu skapi og virtist hinum koma það á óvart, því að venjulega var hún döpur og hnuggin. Kvað drotning dansinn hafa fjörgað sig mjög og þorðu hirðkonur ekki að mótmæla því, enda þykir ekki hlýða að mótmæla drotningum. Hrósuðu þær því bæjarfulltrúunum á hvert reipi fyrir dansleikinn og hugulsemina.

D'Artagnan var drotningu gjörókunnugur, en samt þóttist hann þekkja malróm hennar úr. Var dálítill útlenskukeimur að framburðinum og röddin fremur myndugleg. Ekki var annað en tjald fyrir dyrunum og heyrði d'Artagnan, að drotning ýmist nálgaðist það eða fjarlægðist og alt í einu var yndisfagurri og fannhvítri hendi stungið innfyrir dyratjaldið. Þóttist d'Artagnan vita að þar með fylgdu laun sín. Hann beigði kné, greip höndina og kysti á hana. Svo var hendinni kipt aftur, en milli handa hans lá hlutur, sem hann fann, að mundi vera fingurgull. Dyratjaldið var dregið fyrir og hann stóð þar eftir í myrkrinu eins og áður.

D'Artagnan lét hringinn á fingur sér og beið kyr, því að það var auðvitað, að ekki væri alt búið enn. Hann hafði að vísu fengið laun fyrir þegnskap sinn, en átti nú eftir að fá umbun ástar sinnar. Það fór nú að líða að þeim tíma, að veislugestirnir skyldu matast og litlu síðar heyrði hann, að kvenfólkið í næsta herbergi gekk burt. Þá var dyratjaldinu slegið til hliðar og kom frú Bonacieux hlaupandi inn.

»Loksins fæ ég þá að finna yður,« sagði d'Artagnan.

»Þei-þei!« hvíslaði unga konan og lagði hönd sína á varir hans. »Þér verðið að fara burt sömu leið og þér komuð.«

»En hvar og hvenær fæ ég þá að sjá yður aftur?« spurði hann.

»Heima hjá yður munuð þér finna miða, sem segir yður til. Flýtið yður nú!«

Hún opnaði dyrnar og ýtti d'Artagnan út, en hann hlýddi henni eins og barn, möglunarlaust. Var það skýlaus vottur þess, að hann væri alvarlega ástfanginn.

VII. Stefnumót.

D'Artagnan flýtti sér heim og komst klaklaust alla leið, enda þótt klukkan væri orðinn þrjú um nóttina og leið hans lægi um einhver hin skuggalegustu hverfi Parísar, en eins og menn vita »hlífir hulinn verndarkraftur« elskendum og ölvuðum mönnum á þeirra næturferðum.

Hann kom að götudyrunum ólæstum, hljóp upp stigann og barði á sínar eigin dyr, eins og hann hafði ráð fyrir gert við þjón sinn. Planchet opnaði fyrir honum, en hann var kominn heim tveim tímum áður og hafði d'Artagnan sagt honum að bíða sín heima.

»Hefur nokkur komið hingað með bréf til mín?« spurði d'Artagnan.

»Nei,« svaraði Planchet. »En samt liggur hér bréf og hefur víst komið hingað sjálfkrafa.«

»Hvaða bull er þetta?«

»Ég hafði lykilinn sjálfur, en samt sem áður lá bréf hér á borðinu í svefnherbergi yðar þegar ég kom heim.«

»Og hvar er það bréf?«

»Það liggur kyrt þar sem ég fann það. En bréf eru ekki vön að koma svona af sjálfu sér. Ég hefði getað látið mér skiljast það, ef glugginn hefði staðið opinn, en hann var harðlokaður. Gætið yðar, herra — hér er einhver skrattinn á seiði.«

D'Artagnan gekk inn í svefnherbergið meðan Planchet var að rausa þetta og las þennan miða frá frú Bonacieux:

»Ég á að færa yður innilegar þakkir frá sjálfri mér og annari persónu. Komið í kvöld klukkan tíu til Saint-Cloud (Sengklú) — þorp rétt hjá París — beint á móti sumarskálanum, sem stendur við hornið á húsi d'Estrée. C. B.«

D'Artagnan fékk ákafan hjartslátt meðan hann var að lesa þennan miða. Það var fyrsta ástarbréfið, sem hann fékk á æfinni og fyrsta stefnumótið, og honum fanst hjarta sitt ætla að springa við innganginn að þessari jarðnesku Paradís, sem kölluð er ást.

»Jájá, herra,« sagði Planchet, er sá, að d'Artagnan varð ýmist rauður sem blóð eða bleikur sem nár. »Átti ég ekki kollgátuna? Var það ekki eitthvert leiðindabréf?«

»Nei, það er nú eitthvað annað, Planchet,« svaraði d'Artagnan — »og til merkis um það gef ég þér hér með einn dal til að drekka mína skál fyrir.«

»Ástar þakkir — það skal gert svikalaust, herra! En það er nú samt sem áður svo, að bréf sem koma svona inn um harðlokaðar dyr — —«

»Þau detta ofan úr himninum kæri vin!«

»Þér eruð þá í góðu skapi núna?« spurði Planchet.

»Ég er sælasti maðurinn á jarðríki«

»Ég get þá kannske notað mér tækifærið til að leggja mig útaf?«

»Já — legðu þig bara.«

»Guð blessi yður, herra! En það er nú samt undarlegt, að bréf skuli — —«

Og Planchet hristi höfuðið og fór að leggja sig — hann var ekki sannfærður enn.

Þegar d'Artagnan var orðinn einn, las hann miðann hvað eftir annað og kysti línurnar, sem ástkona hans hafði hripað á blaðið. Loksins fór hann að hátta, sofnaði strax og dreymdi gull og græna skóga.

Morguninn eftir fór hann á fætur klukkan sjö og vakti Planchet. Gekk það ekki hljóðalaust og var hann hálf úrillur.

»Planchet,« sagði D'Artagnan. »Ég verð ekki heima í allan dag ef til vill og þú mátt eiga frí þangað til klukkan sjö í kvöld, en þá verðurðu að vera ferðbúinn með tvo hesta.«

»Það lítur út fyrir, að við eigum þá að fara að ferðast aftur og berjast,« sagði Planchet.

»Hafðu með þér byssuna þína og pistólurnar.«

»Já, átti ég ekki á von,« sagði Planchet. »Það er auðvitað þetta skrattans bréf — —«

»Vertu rólegur, kæri vin. Í þetta skifti er það bara skemtiferð.«

»Líklega álíka skemtiferð og á dögunum, þegar kúlurnar hvinu alt í kringum okkur.«

»Ef þú ert hræddur, Planchet, þá fer ég án þín. Ég vil heldur vera einn míns liðs en í för með öðrum sem nötrar af hræðslu í hnakknum.«

»Þér gerið mér rangt til, herra,« sagði Planchet. Ég hélt að þér hefðuð þó séð, hvernig ég reynist, þegar til alvörunnar kemur.«

»Jú, ég hef séð það, en mér datt í hug, að þú hefðir kannske eytt öllu þínu hugrekki í einu.«

»Þér munuð fá að sjá það við eitthvert tækifæri, að ég á talsvert hugrekki eftir enn, en hins vegar vildi ég biðja yður, að fara ekki svo ósparlega með það, að það gangi altof fljótt upp.«

»Jæja — má ég þá reiða mig á, að þú gerir þetta?« spurði d'Artagnan.

»Ég skal vera albúinn á tilsettum tíma, en ég hélt, að þér hefðuð ekki nema einn hest í hesthúsinu.«

»Það er vel líklegt að svo sé núna, en í kvöld verða þeir fjórir þar.«

»Fórum við þá hina ferðina bara til að kaupa hesta?«

»Já, við gerðum það víst,« svaraði d'Artagnan, gaf þjóni sínum nokkrar skipanir enn og fór svo.

Herra Bonacieux stóð í forstofudyrunum og ætlaði d'Artagnan að snarast fram hjá honum án þess að yrða á hann, en klæðasalinn heilsaði honum svo alúðlega, að honum fanst hann verða að segja eitthvað við hann. Það er líka sjálfsagt að taka eitthvert tillit til manns þeirrar konu, sem mælt hefur sér mót með manni sjálfum.

Samtalið hné auðvitað mest að varðhaldi þessa aumingja manns. Bonacieux grunaði ekki, að d'Artagnan hefði hlerað viðtal þeirra Rochefort greifa, og sagði því leigjanda sínum ítarlega frá öllum þeim ofsóknum, sem hann hefði orðið fyrir og lýsti greinilega fyrir honum Bastillunni með öllum þeim skotum og skotvopnum, grindagluggum og píslarfærum, sem þar væri að finna.

D'Artagnan hlustaði á hann með athygli og sagði svo, þegar hinn hafði lokið máli sínu:

»Eruð þér nú búinn að komast fyrir, hver það var, sem rændi konunni yðar? Ég mun jafnan minnast þess, að það var þessi hörmulegi atburður, sem varð þess valdandi, að ég fékk þá ánægju að komast í kynni við yður.«

»Janeinei,« svaraði Bonaciaux. »Þeir hafa víst ekki verið að segja mér það og konan mín sver og sárt við leggur, að hún viti það heldur ekki. En meðal annara orða,« bætti hann við meinleysislega. »Hvar hafið þér alið manninn nú upp á síðkastið? Ég hef hvorki séð yður né vini yðar og varla hafið þér fengið allan þann aur á götunum hérna í París, sem Planchet var að verka af stígvélunum yðar í gær.«

»Nei, satt er það,« svaraði d'Artagnan. »Ég og kunningjar mínir vorum á ferðalagi.«

»Fóruð þið langt?«

»Ónei — bara fjörutíu mílur. Við fylgdum herra Athos til baðanna í Forges og þar urðu félagar mínir eftir.«

»En þér urðuð að flýta yður hingað aftur?« spurði Bonaciaux íbygginn. »Jafn laglegur maður og þér fær náttúrlega ekki að vera mjög lengi burtu frá vinu sinni — er ekki svo? Það hefur sjálfsagt einhver verið, sem þráði aftur komu yðar — eða hvað?« kumraði klæðasalinn.

»Nú-já! Ég þarf auðvitað ekki að leyna yður neinu,« svaraði d'Artagnan hlægjandi. »Jú, það var beðið eftir mér — með mikilli eftirþrá!«

Það var sem brygði fyrir skugga á andliti Bonacieux, en svo fljótt, að d'Artagnan tók ekki eftir því.

»Nú koma launin fyrir trú og trygð?« sagði klæðasalinn. Það var einhver óviðkunnanlegur hreimur í röddinni, sem d'Artagnan tók heldur ekki eftir.

»Blessaður, látið þér nú ekki eins og þér væruð alsaklaus engill!« sagði d'Artagnan hlægjandi.

»Nei, ég spyr bara af því að mig langar til að vita, hvort þér komið mjög seint heim í kvöld eða nótt.«

»Og hversvegna spyrjið þér um það? Ætlið þér kannske að vaka eftir mér?«

»Ónei, en ég spyr vegna þess, að ég er orðinn eitthvað svo svektur og hvektur eftir varðhaldsveruna og þjófnaðinn, sem framinn var hjá mér. Ég hrekk allur í kuðung ef gengið er um dyr — sérstaklega á nóttunni. Það er svei mér ekkert undarlegt — ekki er ég nein stríðshetja.«

»Jæja — þér skuluð ekki óttast neitt, þó að ég komi ekki heim fyr en klukkan tvö eða þrjú í nótt — og allrasíst, ef ég kem als ekki í nótt.«

Bonacieux varð nú svo litverpur, að d'Artagnan hlaut að taka eftir því. Hann spurði klæðasalann, hvað gengi að honum.

»Ekkert,« svaraði Bonacieux — »ekki neitt. Ég er orðinn eitthvað svo viðkvæmur eftir allar þær raunir, sem ég hef ratað í, að það fer stundum um mig kuldahrollur, án þess nokkur ástæða sé til. En þér skuluð ekki kæra yður um það. Þér hafið, hvort sem er, ekki um annað að hugsa en yðar eigin sælu.«

»Jú, satt er það. Annað er ég ekki viðbundinn sem stendur.«

»Jæja — bíðið þér nú rólegur kvöldsins.«

»Nújá — kvöldið lætur ekki á sér standa, hamingjunni sé lof! En kannske þér bíðið kvöldsins líka með jafnmikilli óþreyju og ég? Kannske að frú Bonacieux heimsæki yður?«

»Hún getur ekki komið því við í kvöld,« sagði Bonacieux. »Hún þarf að gegna skyldum sínum í Louvre.«

»Það var leiðinlegt. Þegar sjálfum manni gengur alt að óskum, þá vill maður gjarnast öðrum slík hið sama — en það virðist nú koma fyrir lítið.«

Að svo mæltu fór hinn ungi maður leiðar sinnar og hló dátt að þessari fyndni sinni, sem hann hélt að enginn skyldi nema hann sjálfur.

»Góða skemtun!« sagði — Bonacieux dimt og draugalega.

En d'Artagnan var nú kominn svo langt burt, að hann heyrði ekki þá hjartnæmu kveðju. — Hann gekk beint heim til de Tréville, enda hafði hann staðið þar mjög stutt við daginn áður, eins og við vitum.

Hann hitti svo á, að höfuðsmaðurinn var í óvenju góðu skapi og lék við hvern sinn fingur. Konungur og drotning höfðu bæði verið sérlega alúðleg við hann á dansleiknum — en kardínálinn framúrskarandi óþýður.

Klukkan eitt um nóttina hafði hann farið af dansleiknum og borið það fyrir að hann væri hálf lasinn. Aftur á móti höfðu konungshjónin ekki komið heim til Louvre fyr en klukkan sex um morguninn.

»Og þessu næst,« sagði herra de Tréville, lækkaði róminn og leit í kringum sig til að fullvissa sig um, að þeir væru tveir einir — »þessu næst langar mig nú til að heyra eitthvað af því, sem fyrir yður hefur komið, því það er auðsætt, að heimkoma yðar og góð erindislok eiga sinn þátt í gleði konungs, sigurhrósi drotningar og gremju kardínálans. En nú verðið þér að fara gætilega og gæta vel að yður.«

»Hvað skyldi ég hafa að óttast,« sagði d'Artagnan, »meðan ég er svo heppinn að njóta hylli konungs og drotningar?«

»Þér megið trúa mér til þess, að þér hafið alt að óttast. Kardínálinn er ekki sá maður, að hann gleymi því að hann hefur verið gintur eins og þurs og hann eirir ekki fyr en hann hefur launað réttum hlutaðeiganda lambið gráa. Og ef mér ekki skjátlast því meir, þá er sá rétti hlutaðeigandi Gaskognari nokkur, sem ég þekki ofurlítið.«

»Haldið þér, að kardínálinn viti það sem þér virðist vita — sem sé það, að ég hafi farið til London?«

»Hvað er að tarna! Fóruð þér til London? Og fenguð þér þar þennan prýðisfagra steinhring, sem ljómar á fingrinum á yður? Gætið yðar kæri d'Artagnan! Gjöf óvinar er hættulegur hlutur. Það er eins og segir í latínsku vísunni — ja, bíðum nú við — —!«

»Já, það er víst,« sagði d'Artagnan, sem aldrei hafði getað troðið latínskri klausu inn í sinn haus og þess vegna verið kennara sínum sífeldur ásteytingarsteinn.

»Já, víst er svo,« sagði de Tréville. Hann hafði lært einhvern graut í Latínu á yngri árum. »Ég heyrði einhvern fara með vísuna hérna um daginn. Bíðum nú við — — jú, svona er hún:

— — Timeo Danaos et dona ferentes, hvað eð útlegst: Gruna skal óvin þótt gjafir færi.«

»Það hefur enginn óvinur gefið mér þennan steinhring — hann er frá drotningunni,« svaraði d'Artagnan.

»Frá drotningunni!« sagði herra de Tréville. »Nú það er sannarlega konunglegur kjörgripur — sjálfsagt þúsund gullpeninga virði. Hver færði yður hann að gjöf?«

»Það gerði hún sjálf.«

»Og hvar þá?«

»Í herberginu, sem var næst hennar herbergi á dansleiknum.«

»Hvernig bar það til?«

»Hún rétti mér hönd sína til að kyssa á hana.«

»Þér hafið kyst á hönd drotningar!« sagði herra de Tréville.

»Já, Hennar Hátign sýndi mér þann heiður að veita mér þá náð.«

»Og það í nærveru annara? Það var óvarlegt!«

»Nei, það var engin viðstaddur,« svaraði d'Artagnan. Síðan sagði hann frá, hversu alt hefði farið fram.

»Ja, þessar konur — þessar konur!« sagði hinn gamli hermaður. »Alt heillar þær, sem er nógu leyndardómsfult og rómantískt. Þær eru hver annari lík. Þér hafið þá aðeins séð höndina á henni — það er alt og sumt. Og ef þér mættuð nú drotningunni, þá hefði hún enga hugmynd um hver þér væruð.«

»Nei, það hefði hún ekki. Þó gæti það hugsast, ef hún sæi þennan steinhring.«

»Heyrið nú!« sagði de Tréville. »Viljið þér þiggja gott ráð — vinarráð?«

»Það er mér heiður og sómi, herra höfuðsmaður,« svaraði d'Artagnan.

»Jæjanú! Farið þá til einhvers gullsmiðs og seljið honum steinhringinn — þér fáið að minsta kosti 800 gullpeninga fyrir hann. Peningana þekkir enginn, en steinhringinn kannast margir við og hann getur orðið yður hættugripur.«

»Selja hringinn — sem ég hef fengið af Hennar Hátign! Nei, það skal aldrei verða,« svaraði d'Artagnan.

»Snúið þér þá að minsta kosti steininum inn í lófann, herra fáráðlingur! Því að það vita allir, að ungur Gaskognari hefur ekki fundið slíkan dýrgrip í fórum mömmu sinnar.«

»Það er þá sannfæring yðar, að ég hafi eitthvað að óttast?« spurði d'Artagnan.

»Ég er sannfærður um, að sá sem legst til svefns á púðurdyngju með logandi kveykjuþræði, má vera óhræddari um líf sitt en þér nú sem stendur.«

»Ja, hvaða skolli!« sagði d'Artagnan og fór honum að verða órótt við þessi orð herra de Tréville. »En hvað er þá til ráða?«

»Þér skuluð fyrst og fremst og ætíð og æfinlega vera var um yður! Kardínálinn er maður ógleyminn og hefur ráð undir rifi hverju. Þér megið eiga víst, að einhvern daginn ber eitthvað nýrra við!«

»Og hvað helst?«

»Það veit ég ekki. Hann hefur um svo margt að velja. Það lítilvægasta, sem fyrir getur komið, er það að þér verðið hneptur í varðhald.«

»Hvað eruð þér að segja? Skyldi nokkur dirfast að setja í varðhald mann, sem er í þjónustu Hans Hátignar?«

»Fanst yður þess nokkurs gæta gagnvart Athos? Og hvað sem öðru líður, þá ættuð þér að trúa manni, sem hefur verið við hirðina í þrjátíu ár. Þér megið ekki slá slöku við, því að þá er úti um yður. Þvert á móti — og það eru mín eigin orð — skuluð þér gruna hvern mann um græsku. Ef einhver ætlar að slást upp á yður — jafnvel þó það sé tíu ára drengur — þá skuluð þér forðast illdeilur. Ef einhver ræðst á yður, hvort sem er á nóttu eða degi, þá skuluð þér hopa undan og láta yður enga lægingu þykja. Ef þér gangið yfir brú, þá skuluð þér aðgæta brúarfjalirnar, hvort enginn þeirra sé laus. Ef þér gangið fram hjá húsi, sem verið er að reisa, þá skuluð þér líta upp, svo ekki falli steinn í höfuð yðar. Látið þjón yðar fylgja yður þegar þér gangið heim og sjáið um, að hann sé vopnaður, auðvitað með svo feldu móti, að þér treystið honum. Grunið alla undantekningarlaust, vin yðar, bróður yðar, ástkonu yðar — já, einkum og sér í lagi ástkonu yðar.«

D'Artagnan roðnaði.

»Hvers vegna ástkonu mína fremur öðrum spurði hann.«

»Af því að kardínálinn gengur gjarna þá leiðina. Kvenmaður fæst til að svíkja yður fyrir tíu gullpeninga — munið þér eftir Dalílu. Þér kunnið líklega svo mikið í Ritningunni?«

D'Artagnan datt í hug mótið, sem frú Bonacieux hafði mælt sér með honum sama kvöldið, en það verður sagt honum til hróss, að ekki kom honum til hugar að tortryggja frú Bonacieux, þó að de Tréville bæri kvennfólkinu söguna svona.

»Hvað er annars orðið af þessum þremur félögum yðar?« spurði de Tréville.

»Ég ætlaði einmitt að fara að spyrja yður, herra höfuðsmaður, hvort að þér hefðuð ekkert frétt til þeirra.«

»Nei, ég hef ekkert frétt.«

»Þeir urðu allir eftir á leiðinni: Porthos í Chantilly vegna einvígis, Aramis í Crévecoeur með kúlu í öxlinni og Athos í Amiens, ákærður fyrir peningafölsun.«

»Nújájá!« sagði de Tréville. »En hvernig komust þér óskemdur undan?«

»Það var nú næstum kraftaverk — raunar fékk ég sverðstungu í brjóstið, en um leið rak ég Wardes greifa í gegn, svo að sverðið nam við jörðu.«

»Einmitt það! Wardes greifi var annars trúnaðarmaður kardínálans og náskyldur Rochefort. En heyrið þér nú, kæri vin — mér dettur eitt í hug!«

»Og hvað er það?«

»Ég skyldi gera nokkuð í yðar sporum.«

»Hvað þá?«

»Meðan kardínálinn væri að leita að mér hér í París, skyldi ég fara til Picardie, svo lítið bæri á, og reyna að komast eftir, hvað félögum mínum liði. Þeir hafa þó unnið til þess, að þér gerðuð þeim þann greiða.«

»Þetta er heillaráð — ég legg af stað á morgun.«

»Á morgun! Því þá ekki í kvöld?«

»Í kvöld er ég forfallaður.«

»Eitthvert ástaræfintýrið vitanlega! En gætið yðar, ungi maður! Ég segi það enn og aftur: Konan hefur ávalt verið karlmanninum til ils og bölvunar og það verður hún framvegis — þér megið reiða yður á það. Farið þér strax í kvöld.«

»Það get ég ómögulega.«

»Þér eruð þá bundinn við drengskaparloforð?«

»Já.«

»Það er annað mál. En lofið mér því þá, að þér farið á morgun, ef þér verðið þá lifandi.«

»Því lofa ég.«

»Vantar yður peninga?«

»Ég hef enn þá fimtíu gullpeninga og meira þarf ég varla.«

»En félagar yðar?«

»Ég hugsa, að þeir eigi eitthvað eftir af peningunum. Við höfðum 75 gullpeninga hver um sig, þegar við lögðum upp héðan úr París.«

»Fæ ég að sjá yður áður en þér farið?«

»Líklegast ekki — nema því aðeins, að eitthvað óvænt komi fyrir.«

»Ég óska yður þá góðrar ferðar!«

»D'Artagnan þakkaði óskina og kvaddi herra de Tréville. — Fanst honum mikið um alla þá umhyggju, sem höfuðsmaðurinn bar fyrir skyttuliðum sínum.

»Hann gekk svo heim til Athos, Porthos og Aramis, en enginn þeirra var kominn aftur og heldur ekki þjónar þeirra og ekki hafði neitt til þeirra spurst.

»Um leið og hann gekk fram hjá lífvarðarskálanum, leit hann inn í hesthúsið. Þrír hestarnir voru komnir þangað af fjórum og var Planchet búinn að kemba tveimur þeirra.

»Það var gott, að þér komuð, herra,« sagði Planchet þegar hann sá húsbónda sinn.

»Vegna hvers?« spurði hann.

»Berið þér nokkurt traust til herra Bonacieux?«

»Nei, öldungis ekki. Hvers vegna ertu að spyrja um það?«

»Af því að ég tók eftir honum þegar þið voruð að tala saman. Hann brá lit hvað eftir annað.«

»Jasvei! Hvað gerir það til?«

»Þér tókuð ekkert eftir því — þér voruð með allan hugann við bréfskömmina, sem þér fenguð. En ég aðgætti hann vel, því að mér leist ekki á þetta alt saman.«

»Og hvernig var hann á svipinn?«

»Meinfalskur! Og þegar þér fóruð frá honum, þá beið hann þangað til þér voruð kominn fyrir götuhornið. Þá tók hann hatt sinn, lokaði dyrunum og flýtti sér í gagnstæða átt.«

»Já, þetta er hálfískyggilegt, Planchet, og þú mátt reiða þig á, að hann skal ekki fá húsaleiguna borgaða fyr en hann segir okkur, hvað þetta á að þýða.«

»Jæja, þér gerið nú ekki annað en gaman úr þessu, en eruð þér fastráðinn í því að fara þetta í kvöld?«

»Já, það er ég reyndar, Planchet góður. Og því meira sem mér gremst við Bonacieux, þess ákveðnari er ég að fara til stefnumótsins.«

»Það er þá óbifanlegur ásetningur yðar?«

»Já, það er óhagganlegur ásetningur minn. Þú verður altilbúinn klukkan níu og þá kem ég hingað og sæki þig.«

Planchet vissi, að það mundi ekki vera til neins að reyna að telja d'Artagnan hughvarf. Lét hann því hér við sitja og fór að kemba þriðja klárnum. En d'Artagnan gekk ekki heim til sín, því að hann var aðgætinn í raun og veru. Hann afréð að fá sér miðdagsverð hjá Gaskognaraprestinum, sem haldið hafði honum og félögum hans súkkulaðiveisluna forðum daga.

VIII. Sumarskálinn.

Klukkan níu kom d'Artagnan aftur að hesthúsinu við lífvarðarskálann og var Planchet því albúinn til ferðar og fjórði hesturinn kominn.

Planchet hafði byssu og pístólu að vopnum en d'Artagnan sverð sitt og tvær pístólur. Þeir tóku sinn hestinn hvor, stigu á bak og fóru mjög hljóðlega enda þótt nú væri aldimt orðið og því síður hætt við, að tekið yrði eftir þeim. Þeir riðu með fram skipagörðunum, út um Conférence (Kongferangs)-hliðið og komu svo á veginn til Saint-Cloud.

Innan borgarinnar var Planchet spölkorn á eftir húsbónda sínum, eins og þjóni sómdi, en þegar út á veginn kom, fór hann að nálgast d'Artagnan og var kominn fast að hlið hans þegar þeir riðu inn í Boulogne-skóginn. Það var hálfskuggalegt í skóginum, er tunglið óð í skýjum og glotti niður á milli trjánna og var Planchet ekki vel rótt. D'Artagnan tók eftir þessu og sagði:

»Jæja — hvernig gengur það?«

»Finst yður ekki að það sé líkt að fara inn í skóg eins og að koma inn í kirkju?«

»Hvernig áttu við?«

»Maður þorir ekki að tala hátt.«

»Af hverju þorirðu ekki að tala hátt? Við hvað ertu hræddur?«

»Ég er hræddur um, að einhver kunni að heyra til okkar.«

»Að heyra til okkar! Við erum ekki að tala um neitt ósiðlegt, Planchet góður, svo að það getur enginn sett út á það.«

Planchet vildi nú leiða talið aftur að Bonacieux og sagði:

»Já, hann er í meira lagi lymskulegur, sá náungi — til dæmis kringum munninn — —«

»Því í fjáranum dettur þér nú Bonacieux í hug aftur?«

»Ójá — það er nú svona, að manni dettur það í hug, sem maður neyðist til að hugsa um, og ekki það, sem maður helst vill — — «

»Það er nú bara af því, að þú ert raggeit?«

»Þér gerið hausavíxl á aðgætni og ragmensku. Aðgætni er dygð.«

»Og þykist þú vera eitthvert dygðaljós, Planchet?«

»Gætið að, herra. Er það ekki byssuhlaup, sem skín þarna? Eigum við ekki að beygja okkur dálítið?«

»Hann verður þangað til að, þessi asni, að hann gerir mig dauðhræddan líka,« tautaði d'Artagnan. Honum flaug alt í einu í hug aðvörun de Trévilles og keyrði hest sinn sporum. Sama gerði Planchet og vék nú ekki frá hlið herra síns.

»Eigum við að ríða svona alla nóttina?« spurði Planchet.

»Nei — þú ert nú kominn nógu langt.«

»Ég nógu langt — en þér?«

»Ég þarf að halda dálítið lengra.«

»Á ég þá að verða hér einn eftir?«

»Ertu nú hræddur, Planchet?«

»Nei, en ég vil aðeins geta þess, að mér er hundkalt og að sá kuldi getur orsakað gigt og að gigtveikur þjónn er ekki til stórræðanna, síst fyrir jafn bráðröskan mann og yður.«

»Jæja, fyrst að þér er svona kalt, þá getirðu farið inn í eitthvert veitingahúsið, sem við sjáum þarna álengdar og beðið þar þangað til ég kem aftur klukkan sex í fyrramálið.«

»Jú, en ég hlýddi nú skipun yðar og át og drakk upp þennan gullpening, sem þér gáfuð mér, svo að nú á ég, ekki eyris virði, hvað kalt sem mér verður.«

»Hérna eru fimm fránkar handa þér og vertu nú sæll!«

D'Artagnan fór af baki, fékk Planchet hestinn, gekk burt og sveipaði kápunni að sér.

»Já, sannarlega er mér kalt,« sagði Planchet þegar d'Artagnan var kominn úr augsýn og flýtti sér svo að einu veitingahúsinu.

D'Artagnan stytti sér leið og kom nú brátt til Saint-Cloud þorpsins. Hann fór þó ekki eftir aðalgötunni, heldur gekk hægra megin við Saint-Cloud höllina, gekk þar inn í litla hliðargötu og stóð nú beint á móti hinum umgetna sumarskála. Ekki var þar neinn mann að sjá. Öðru megin götunnar var hár múrveggur og hinu megin girðing kringum lítinn garð og í garðinum hrörlegur kofi.

Hann var nú kominn á stefnustaðinn og afréð að bíða þar fyrst um sinn, með því ekki var þess getið í bréfinu, að hann ætti að gera vart við sig á nokkurn hátt.

Alt var steinhljótt, rétt eins og komið væri óraveg frá höfuðstaðnum. D'Artagnan leit inn í garðinn og hallaði sér upp að girðingunni. Bak við garðinn og kofann í honum grilti í gráa og kalda þokuna, sem grúfði yfir hinni voldugu Parísarborg; var þangað ekkert að sjá nema fáein ljós, sem glórðu eins og daufar stjörnur, en í huga d'Artagnans var bjart, því að nú nálgaðist stefnumótsstundin.

Litlu síðar sló hallarklukkan tíu með hægum og þungum slögum, sem hljómuðu hálfömurlega í myrkrinu og kyrðinni, en þau létu engu að síður vel í eyrum hins unga manns. Hann virti fyrir sér sumarskálann við hornið á múrveggnum. Þar voru hlerar fyrir öllum gluggum, nema einum á fyrstu hæð. Brann þar ljós inni og lagði skímuna út á fáein píltré, sem stóðu ein sér við garðinn. Honum þótti líklegt að frú Bonacieux biði sín einmitt þarna inni.

Svona beið d'Artagnan góða stund með mestu þolinmæði. Hann reyndi að gægjast inn í herbergið, sem ljósið var í og hélt sig geta grilt í gullskreytt loftið. Þóttist hann því vita, að skálinn væri skrautlegur mjög, bæði að innan og utan.

Hallarklukkan sló nú hálf ellefu.

Í sama bili fór kuldahrollur um d'Artagnan, án þess að hann vissi hvað til kæmi. Ef til vill var það kvöldsvalinn, sem því olli, eða kannske einhverskonar fyrirboði.

Honum datt í hug, hvort hann hafði lesið skakt og að stefnumótið hefði átt að vera klukkan hálf ellefu. Gekk hann því að ljósskímunni úr glugganum, tók upp bréfið og las það aftur. Nei nei! Þar stóð klukkan tíu, eins og hann minti. Hann fór aftur á sinn fyrri stað, en var nú öllu órórra í kyrðinni og einverunni.

Nú sló klukkan ellefu.

D'Artagnan fór nú að verða alvarlega hræddur um, að eitthvað kynni að hafa komið fyrir frú Bonacieux. Hann klappaði þrisvar saman lófunum og er það algengt merki elskenda, en ekki kom neitt svar — alt var hljótt eins og áður.

Svo datt honum í hug, að henni hefði kannske leiðst biðin — og sofnað.

Hann reyndi að klifrast upp á múrinn, en hann var svo hrjúfur, að hann reif sig bara til blóðs á fingrunum og svo hætti hann við það. Þá varð honum litið á píltrén. Greinarnar á einu þeirra slúttu fram yfir götuna og klifraði hann upp í það og settist á eina greinina til þess að geta séð betur inn í sumarskálann.

Honum varð hverft við þegar hann sá, hvernig umhorfs var í herberginu. Ein gluggarúðan var brotin, hurðin mölvuð og hékk á annari hjörunni. Þar hafði staðið borð, alþakið dýrustu réttum, en nú var það oltið um koll og flöskur og annar borðbúnaður alt eyðilagt og tvístrað út um alt gólf, svo að auðéð var, að hér hafði gengið mikið á og ryskingar miklar. D'Artagnan þóttist jafnvel sjá einhver fataslitur og blóðbletti á borðdúknum og gluggatjöldunum.

Hann flýtti sér ofan úr trénu og fór að gæta að, hvort hann sæi ekki fleiri merki um þessa viðureign. Við skímuna úr glugganum sá hann nú, að jarðvegurinn var allur troðinn og tættur og spor eftir manna og hestafætur; einnig sá hann þar för eftir vagnhjól. Þau náðu ekki lengra en að skálanum. Það virtist sem vagninum hefði verið snúið við og honum stefnt í átt til höfuðstaðarins.

Í þessari leit fann d'Artagnan sundurrifinn kvenhanska. Hann var alveg nýr og mjög vandaður, en auðvitað allur blautur og forugur. Það var einn af þessum ilmandi hönskum, sem ungum mönnum þykir svo gaman að draga af hendi ástmeyjar sinnar.

D'Artagnan var harla órótt meðan hann var að athuga þetta alt saman. Það sló út um hann köldum svita og hann fékk sting fyrir hjartað. Samt reyndi hann að hugga sig við það, að frú Bonacieux hefði kannske hreint ekki komið í sumarskálann. Hún hafði beðið hann að finna sig fyrir utan skálann, en ekki inn í honum. Líka gat hugsast, að hún hefði ekki getað sloppið frá skylduverkum sínum í Louvre og eins gat verið, að maður hennar hefði hindrað för hennar af afbrýðissemi.

En hugboð hans um, að hér hefði einhverjar ófarir borið að höndum, yfirgnæfði þó allar þessar hugleiðingar hans. Honum lá við að sturlast af þessu öllu saman. Hann hljóp út á þjóðveginn, flýtti sér aftur sömu leið sem hann hafði komið, skundaði ofan að Signufljótinu og fór að spyrja ferjumanninn spjörunum úr.

Hann kvaðst hafa ferjað konu í dökkri yfirhöfn klukkan sjö sama kvöldið og hefði hún auðsjáanlega ekki viljað láta þekkja sig. En einmitt af þeirri ástæðu tók ferjumaður betur eftir henni og sá, að hún var bæði ung og fríð.

Það var algengt í þá daga, eins og nú, að margar ungar og fríðar konur fóru til Saint-Cloud og vildu fæstar þeirra láta þekkja sig, en þrátt fyrir það þóttist d'Artagnan vera viss um, að kona sú, sem ferjuð hafði verið í þetta sinn, hefði engin önnur verið en frú Bonacieux.

Inni í stofu ferjumanns var kveikt ljós og las d'Artagnan bréfið þar einu sinni enn til að ganga úr skugga um, að hún hefði mælt honum mót í Saint-Cloud og ekki annarstaðar, og að stefnustaðurinn hefði verið tilnefndur fyrir framan sumarskála d'Estrée, en ekki í annari götu. Fanst d'Artagnan því alt benda til þess, að grunur sinn væri réttur og að hér hefði eitthvert óhapp komið fyrir.

Hann hljóp í sprettinum til hallarinnar aftur og hélt, að eitthvað kynni að hafa gerst meðan hann var burtu, sem ráðið gæti allar þessar gátur og leyndardóma. Hliðargatan litla var auð og tóm eins og áður og ljósskímuna lagði út um gluggann.

Þá datt d'Artagnan í hug, að úr kofanum í garðinum hlyti að hafa sést, hvað gerst hefði, og að þar gæti hann kannske fengið einhverja vitneskju um það.

Garðhliðið var lokað, en hann henti sér yfir girðinguna og gekk að kofanum enda þótt varðhundur, sem þar var, léti allófriðlega.

Hann barði á dyr, en enginn gengdi. Þar ríkti sama dauðaþögnin eins og í sumarskálanum, en d'Artagnan lét sig ekki. Hann barði og barði og loksins heyrðist lágt þrusk fyrir innan eins og þar væri einhver, sem ekki væri óhræddur um líf sitt og limi.

D'Artagnan hætti þá að berja, en spurði ógnar blíðlega, hvort þar væri nokkur. Var þá gamall og grautfúinn gluggahleri opnaður til hálfs, en óðar skelt aftur, en samt lagði daufa ljósskímu á axlarfetil, sverðshjöltu og pistólur d'Artagnans. Hann sá rétt í svip höfuð á gömlum manni og sagði nú:

»Heyrið mig í öllum guðanna bænum! Hér hef ég staðið og verið að bíða eftir manneskju, sem ekki kemur og ég er orðinn dauðhræddur um. Hefur nokkuð komið fyrir hérna í nándinni? Blessaður, segið mér það!«

Glugginn var nú opnaður aftur og sást sama öldungshöfuðið, náfölt og afmyndað í framan af ótta.

D'Artagnan sagði nú sem gjörst hafði, hvað fyrir sig hafði borið, en nefndi engin nöfn. Hann kvaðst hafa ætlað að hitta unga konu fyrir framan sumarskálann, en svo hefði hún ekki komið og hefði hann þá klifrast upp í tré og séð þaðan inn í herbergi í skálanum.

Öldungurinn hlustaði með eftirtekt á sögu d'Artagnans og kinkaði kolli af og til, en þegar d'Artagnan hafði lokið sögu sinni, varð hann æði þungbrýnn.

»Í öllum bænum, segið þér eitthvað!« sagði d'Artagnan, »Hvað var það, sem gerðist?«

»Spyrjið mig ekki!« svaraði gamli maðurinn. Ef ég segði frá því, sem borið hefir fyrir mig, þá væri úti um mig!«

»Þér hafið þá séð eitthvað!« sagði d'Artagnan — »en fyrst svo er, þá særi ég yður við alt, sem heilagt er, að segja mér hvað það var. Ég legg þar við drengskap minn sem aðalsmaður, að ég skal engum lifandi manni segja frá því.«

Svipur d'Artagnans var svo einlæglegur og angurmæddur, að öldungurinn gaf honum í skyn, að hann skyldi segja honum, hvers hann hefði orðið var og mælti síðan í hálfum hljóðum:

»Kringum klukkan níu í gærkvöld heyrði ég einhvern hávaða úti á götunni og þegar ég ætlaði að skygnast eftir, hvað það væri, sá ég nokkra menn standa hér við dyrnar, en ég er maður fátækur og óttast því ekki, að neinn ætli að stela frá mér. Þetta voru þrír menn, klæddir riddarabúningi. Lengra burtu var vagn með hestum fyrir og þar hjá nokkrir mannlausir hestar.«

»Hvað þóknast ykkur, herrar góðir?« spurði ég.

»Geturðu lánað okkur stiga?« spurði einn og var það víst foringi þeirra.

»Já, það get ég. Þarna er stiginn, sem ég nota til þess að ná í ávexti.«

»Jæja — lánaðu okkur hann og farðu svo inn. Hérna er borgun fyrir hjálpina, en mundu það vel að segja ekki nokkrum lifandi manni frá því, sem þú kant að sjá eða heyra. Ef þú svíkur það, þá er úti um þig.«

Að svo mæltu fékk hann mér borgunina og tók stigann.

Ég lokaði garðhliðinu á eftir þeim og lét sem ég færi inn til mín aftur og gerði það líka, en fór strax út um bakdyrnar og komst að yllirunnanum þarna. Þaðan gat ég heyrt alt og séð án þess að aðrir sæju mig.

Þessir þrír menn létu vagninn þokast nær mjög hljóðlega. Svo drógu þeir út úr honum lítinn mann og gráhærðan í dökkum fötum. Hann gekk varlega upp stigann, gægðist snöggvast inn í herbergið og hvíslaði:

»Það er hún!«

Sami maðurinn, sem við mig hafði talað fór nú og opnaði dyrnar að sumarskálanum með lykli, sem hann hafði á sér. Lokaði hann hurðinni á eftir sér og hvarf inn, en jafnframt gengu hinir tveir upp stigann. Karlfauskurinn litli stóð við vagndyrnar, ekillinn gætti vagnhestanna og einhver þjónn hinna hestanna.

Alt í einu heyrðist hljóð úr sumarskálanum og hljóp kona út að glugganum, eins og hún ætlaði að fleygja sér út um hann. Hún hörfaði aftur þegar hún sá mennina tvo í stiganum, en þeir stukku nú inn um gluggann.

Nú sá ég ekki meira, en heyrði bara skarkalann þegar öllu var rutt um koll inni í herberginu. Konan æpti og hljóðaði á hjálp, en þau hljóð voru brátt þögguð niður. Mennirnir þrír komu nú út að glugganum og báru hana á milli sín. Tveir þeirra stigu út um gluggann, tóku þar við henni og báru hana inn í vagninn og karlskepnan sté inn í vagninn á eftir henni. Sá sem eftir var í skálanum lokaði nú glugganum, kom svo út úr dyrunum eftir litla stund og leit eftir því, að konan væri trúlega geymd í vagninum. Svo stigu þrímenningarnir á bak hestum sínum, þjónninn settist við hliðina á vagnstjóranum, vagninn hélt af stað og riddararnir þrír riðu með fram honum. Þetta var alt og sumt og síðan hef ég hvorki heyrt né séð neitt.

D'Artagnan stóð sem steini lostinn þegar gamli maðurinn lauk sögu sinni, en reiðin og afbrýðissemin ýskraði og sauð í honum.

»Verið þér ókvíðinn, kæri herra!« sagði öldungurinn og komst við af sorg og örvæntingu d'Artagnans. »Þeir hafa ekki ráðið henni bana og það er aðalatriðið.«

»Vitið þér, hver var foringi þessara mannhunda?« spurði d'Artagnan.

»Nei, ég þekki hann ekki.«

»En hann talaði samt við yður og þér sáuð hann glögt.«

»Nú — eigið þér við útlit hans?«

»Já.«

»Hann leit út eins og aðalsmaður. Hann var hár vexti, grannur og dimmleitur með svart skegg og dökk augu.«

»Þarna kemur hann enn!« sagði d'Artagnan. »Hann er minn illi andi, sem alstaðar gerir vart við sig. — Nú, en hinn?«

»Við hvern eigið þér?«

»Litla karlfauskinn.«

»Já hann! Það var nú enginn heldri maður. Hann bar ekki sverð við hlið og hinir ávörpuðu hann eins hann væri einhver undirtylla.«

»Það hefur þá verið einhverskonar þjónn,« sagði d'Artagnan. »Veslings konan! Hvað skyldu þeir hafa gert við hana?«

»Þér hafið lofað mér því að segja engum frá þessu!« sagði öldungurinn.

»Þér megið vera öldungis óhræddur um það. Ég hef lofað yður því, að viðlögðum drengskap mínum sem aðalsmaður — og þar við situr.«

D'Artagnan gekk burtu og var gramur í huga. Stundum fanst honum hann ekki geta trúað því, að þetta hefði verið frú Bonacieux og vonaði þá að hitta hana í Louvre daginn eftir og annað veifið grunaði hann, að hún kynni að hafa verið þarna með einhverjum öðrum og að svo hefði komið þriðji maður og haft hana burt með sér. Hann vissi ekkert, hvað til ráðs skyldi taka og var yfirkominn af sorg og örvilnun.

»Bara að vinir mínir væru nú staddir hér,« sagði hann. »þá hefði ég þó einhverja von um að finna hana aftur, en nú veit ég heldur ekki, hvað orðið er um þá.«

Það var nú komið fram um miðnætti og nú var eftir að finna Planchet. D'Artagnan barði á dyr í öllum þeim veitingahúsum, þar sem enn var ljós að sjá, en hvergi fann hann Planchet.

Þegar hann barði í sjötta sinn, datt honum í hug, að það væri annars tilgangslítið að leita svona upp á von og óvon. Hann hafði sagt þjóni sínum að vera tilbúinn klukkan sex um morguninn og til þess tíma mátti hann vera, hvar sem honum sýndist.

Auk þess fór hann að hugsa út í það, að ef hann dveldi í nánd við þann stað, þar sem þessir viðburðir höfðu gerst, þá kynni hann heldur að fá einhverja skýringu á þeim. Hann settist því að í sjötta veitingahúsinu, bað um flösku af góðu víni og settist út í dimmasta hornið á stofunni til að bíða þar dögunar. En hann varð einskis vísari. Hann hlustaði eftir öllu, sem fyrir eyrun bar, en heyrði ekki annað en blót og formælingar, hróp og háðsyrði til gestanna, er voru mestmegnis iðnaðarsveinar, þjónar og ökumenn. Ekki barst neitt á góma, sem bent gæti honum á slóð frú Bonacieux, sem nú var brottnumin í annað sinn. Hann tæmdi flöskuna, hagræddi sér sem best í horninu og sofnaði brátt.

Undir klukkan sex um morguninn vaknaði hann með dynjandi höfuðverk, eins og eðlilegt var eftir slíka nótt. Hann reis þegar á fætur og gætti að, hvort nokkur hefði notað tækifærið til að hnupla frá sér á meðan hann svaf, en þegar hann fann að steinhringurinn, peningarnir og pístólurnar var alt á sínum stað, borgaði hann vínið og gekk út til að leita betur að þjóni sínum, enda var Planchet fyrsti maðurinn sem hann sá í morgungrárri úðaþokunni. Stóð hann þar fyrir utan lítið og óásjálegt veitingahús, sem d'Artagnan hafði sést yfir, og beið með hestana.

IX. Porthos.

Ekki reið d'Artagnan beint heim til sín, heldur sté hann af baki hesti sínum fyrir utan hallarhlið herra de Tréville og flýtti sér upp tröppurnar. Var hann nú fastráðinn í að segja alt eins og gerst hafði, De Tréville hafði næstum daglega tal af drotningu og gat því eflaust fengið einhverjar fregnir af þessari vesalings konu, sem varð að gjalda svo grimmilega hollustu sinnar.

Herra de Tréville hlustaði á sögu hins unga manns með athygli og alvöru, er sýndi ljóslega að hann áleit, að hér væri um annað og meira en ástaræfintýri að ræða.

»Það er nú rétt!« sagði hann og hummaði. »Alt bendir þetta í sömu áttina, nefnilega til Hans hágöfgi, kardínálans.«

»Jú — en hvað á ég nú að gera,« spurði d'Artagnan.

»Ekki neitt — ekki nokkurn skapaðan hlut sem stendur annað en að komast burt frá París svo fljótt sem auðið er, eins og ég þegar hef bent yður á einu sinni áður. Ég skal fara á fund drotningar og segja henni nánari atvik að þessu brottnámi frú Bonacieux. Þessi nánari atvik geta svo ef til vill orðið henni til leiðbeiningar og ekki er óhugsanlegt, að ég geti fært yður góð tíðindi, þegar þér komið aftur. Þér megið reiða yður á mig.«

D'Artagnan vissi, þótt Tréville væri Gaskognari, þá lofaði hann sjaldan neinu, en þá sjaldan að hann lofaði einhverju, þá voru efndirnar gjarnast fremri loforðinu. Hann kvaddi því höfuðsmanninn með þakklæti fyrir það, sem hann hefði þegar gert og mundi framvegis gera fyrir sig. Og að hinu leytinu lét de Tréville sér einkar ant um þennan hugrakka og einbeitta ungling, tók fast og vingjarnlega í hönd honum og óskaði honum góðrar ferðar.

D'Artagnan ásetti sér að fara að ráðum herra de Tréville þegar í stað og skundaði heim í Fossoyeurs-götuna til þess að troða í mal sinn og búast til ferðar. Þegar hann nálgaðist húsið, sá hann hvar herra Bonacieux stóð í hliðinu í morgunfötunum. D'Artagnan mintist þess nú, hvað hinn greindi og athuguli þjónn hans hafði sagt honum um lubbaskap húsbóndans og gaf honum því betri gætur, en hann var vanur. Hann skeytti því ekki þó að maðurinn væri gulur og grár á hörund, því að slíkt sýnir ekki annað en að gallið sé gengið út í skrokkinn, sem menn segja, en hann varð að viðurkenna, að það bjó einhver lymska og undirferli í andlitssvipnum. Þorparinn hlær ekki á sama hátt og ráðvandur maður og hræsnarinn grætur ekki eins og ærleg manneskja. Alt fals og fláræði er gríma og gervi og þó gríman falli vel að, þá má þó jafnan greina sjálft andlitið undir henni, sé vel að gætt.

D'Artagnan fanst Bonacieux bera einhverja grímu og sú gríma vera andstyggileg. Hann ætlaði að snarast fram hjá honum, en Bonacieux ávarpaði hann eins og daginn áður. »Jájá, ungi maður,« sagði hann. »Það lítur út fyrir að sumir séu úti allar nætur að skemta sér. Ekki nema það þó! Klukkan er nú orðinn sjö að morgunlagi! Ég held að þér ætlið að umturna öllum borgarlegum siðvenjum og komið þá fyrst heim, þegar aðrir menn eru að rísa úr rekkju!«

»Ójá — ekki er hægt að saka yður um slíkt, herra Bonacieux,« svaraði d'Artagnan. »Þér eruð hreinasta fyrirmynd siðláts borgara. En þér eigið líka unga konu og fríða og þurfið ekki að leita lukkunnar úti um hvippinn og hvappinn — það er öllu fremur lukkan, sem leitar yðar. Er það ekki svo, herra Bonacieux?«

Bonacieux varð náfölur og reyndi að brosa.

»Þér eruð mikill æringi,« sagði hann. »En hvar í skrattanum hafið þér verið í nótt? Það sýnist svo, sem þér hafið verið í einhverjum svaðilförum.«

D'Artagnan var litið á stígvélin sín og sá að þau voru öll útötuð, en um leið gaf hann gætur að skóm og sokkum klæðasalans og virtist munurinn ekki ýkja mikill.

En nú hugkvæmdist honum nokkuð. Þessi litli, gráhærði karlfauskur, sem hafði komið fram eins og eins konar þjónn í svörtum fötum og sem riddararnir höfðu ávarpað eins og einhverja undirtyllu — það var enginn annar en Bonacieux sjálfur í eigin háu persónu! Hann hafði sjálfur hjálpað til að nema burt konu sína!

Það greip hann áköf löngun til að taka fyrir kverkar klæðasalanum og kyrkja hann en hann var bæði glöggur og gætinn og stilti sig. Samt sem áður sá Bonacieux á svip d'Artagnans, hvað honum bjó í brjósti, varð logandi hræddur og ætlaði að hopa á hæl, en þar sem hurðarvængurinn fyrir aftan hann var harðlokaður, gat hann það ekki og varð að standa kyr í sömu sporum.

»Þér eruð miklu fremur æringi, góði maður,« sagði d'Artagnan. »Ef stígvélin mín þarfnast hreinsunar, þá sýnist mér sannarlega að skóm yðar og sokkum veiti ekki af einhverju þess háttar. Jæja — þér hafið þá líka verið á æfintýri, meistari Bonacieux! Ja, hver skrambinn! Það er tæplega afsakanlegt af jafn gömlum manni og yður, sem þar að auki eigið unga og fallega konu!«

»Ja, tarna, tarna — hvað hugsið þér!« sagði Bonacieux. »Seisei — nei! Ég fór út í Saint-Mandé í gær til að spyrjast fyrir um vinnukonu, sem ég þarf nauðsynlega að fá, en vegurinn var blautur og svo varð ég svona forugur, en hef ekki komist til að láta hreinsa forina, eins og þér sjáið.«

Þessi staður, sem Bonacieux sagðist hafa farið til, styrkti enn betur grun d'Artagnans. Klæðasalinn nefndi Saint-Mandé einmitt af því að sá staður var í gagnstæðri átt til Saint-Cloud.

Og þetta þótti d'Artagnan vænt um. Ef Bonacieux vissi í raun og veru, hvar kona hans var niðurkomin, þá var altént innan handar að neyða hann til sagna með einhverjum þvingunarmeðulum og fá þessa leyndardóma dregna fram í dagsbirtuna. Það sem hér reið á, var að gera líkindi að fullri vissu.

»Fyrirgefið ófeilnina, kæri Bonacieux,« sagði d'Artagnan, »en ekkert fer eins illa með mann og svefnlausar nætur. Ég er gapandi þyrstur og vildi mega að fá mér eitt glas af vatni inni hjá yður. Góðir sambýlingar neita aldrei hvor öðrum um smágreiða, eins og þér vitið.«

D'Artagnan beið ekki svars, en vatt sér inn í húsið og leit á rúmið í skyndi; það var óhreyft. Bonacieux hafði als ekki háttað og hlaut því að vera nýkominn heim. Hann hafði því, eftir þessu að dæma, fylgt konu sinni til þess staðar, sem hún var flutt á, eða að minsta kosti á fyrsta áfangastaðinn.

»Kæra þökk, herra Bonacieux,« sagði d'Artagnan þegar hann var búinn úr glasinu. »Annað vildi ég ekki. Nú geng ég upp til mín og læt Planchet verka stígvélin mín og þegar hann er búinn að því, skal ég senda hann ofan til yðar til að gera skóm yðar og sokkum sömu skil.«

Að svo mæltu gekk hann frá klæðasalanum, er var steinhissa á þessari kveðju og spurði sjálfan sig, hvort hann hefði nú ekki gengið í einhverja gildruna.

D'Artagnan hitti Planchet í stiganum og var hann mjög órólegur að sjá.

»Æ, húsbóndi góður,« sagði hann þegar hann kom auga á d'Artagnan. »Það var sannarlega gott að þér komuð. Ég hef beðið heimkomu yðar með óþolinmæði.«

»Hvað gengur nú á?« spurði d'Artagnan.

»Ég skal gjarna gefa yður hundrað dali, herra, já heila miljón, ef þér getið giskað á, hver hingað kom til að spyrja eftir yður, meðan þér voruð burtu.« »Hvenær þá?«

»Fyrir réttum hálftíma — meðan þér voruð hjá herra de Tréville.«

»Hvaða maður var það? Segðu mér það undireins!«

»Það var herra de Cavois (Kavoa)!«

»Herra de Cavois?«

»Já, hann sjálfur í eigin persónu.«

»Lífvarðarforingi kardínálans?«

»Já, ég held það nú.«

»Ætlaði hann að taka mig fastan?«

»Og það datt mér nú í hug, þó ekki vantaði fleðuskapinn.«

»Fanst þér hann fleðulegur?«

»Hann var sætur sem hunang.«

»Einmitt það!«

»Hann kom frá kardínálanum og átti að biðja yður að fylgjast með sér til Palais-Royal.«

»Hverju svaraðirðu honum?«

»Að það væri alsendis ómögulegt fyrst að þér væruð ekki heima, eins og hann sæi sjálfur.«

»Hvað sagði hann við því?«

»Hann sagði að þér þyrftuð ekki endilega að koma í dag. Síðan bætti hann við ofurlágt: »Segðu herra þínum, að kardínálinn sé honum mjög velviljaður og að gæfa hans sé ef til vill kominn undir þessum samfundum þeirra.«

»Það var ekki sérlega hyggileg gildra hjá kardínálanum.« sagði hinn ungi maður brosandi.

»Ég vissi vel, að það átti að vera gildra og þess vegna svaraði ég, að yður mundi leiðast þetta mjög þegar þér kæmuð heim aftur. — En hvar er hann þá? spurði Cavois — Í Troyes (Troa) svaraði ég. — Og hvenær fór hann þangað? — Í gærkvöldi.«

»Planchet, kæri vin,« sagði d'Artagnan — »Þú ert í sannleika dáðadrengur.«

»Jú, herra góður — ég hugsaði sem svo: Ef þér viljið finna herra Cavois, þá getið þér bara sagt, að ég hafi logið þessu upp. Ég er enginn aðalsmaður, svo að það gerir ekkert til þó að ég ljúgi ofurlítið.«

»Vertu alveg rólegur, Planchet. Ég skal víst ekki bera þér neina lygi á brýn eða gera lítið úr þinni alþektu sannleiksást — en eftir stundarfjórðung leggjum við af stað.«

»Það var einmitt það, sem ég ætlaði að ráða yður — en hvert skal halda með leyfi að spyrja?«

»Í gagnstæða átt þeirri, sem þú sagðir að ég hefði farið í. Langar þig ekki eins mikið til að frétta eitthvað af Grimand, Mousqueton og Basin eins og mig til að vita eitthvað um Athos, Porthos og Aramis?«

»Jú áreiðanlega,« svaraði Planchet, »og ég get verið ferðbúinn, hve nær sem yður þóknast. Ég held líka að sveitaloftið sé okkur hollara einmitt nú, en loftið hérna í París. Jæja — —«

»Jæja — farðu þá að tína saman pjönkur okkar og sjá um, að við getum komist af stað. Ég ætla að ganga á undan með hendur í vösum, svo engann gruni neitt og svo geturðu hitt mig í lífvarðarskálanum. En vel á minst, Planchet. Það var alveg rétt, sem þú sagðir um húsbóndann hérna. Það er áreiðanlega andstygðar þrjótur og þorpari.«

»Já, þér megið trúa því sem ég segi. Ég get verið gróflega naskur að sjá menn út — en nú skulum við komast af stað.«

D'Artagnan fór á undan og til frekari fullvissu kom hann snöggvast við á heimilum félaga sinna, en enginn vissi neitt um þá. Eina nýungin, sem hann heyrði, var sú, að heim til Aramis hefði komið sætilmandi bréf, með mjög fallegri utanáskrift. D'Artagnan stakk á sig bréfinu og litlu síðar kom Planchet í lífvarðarskálann. Var d'Artagnan þá búinn að söðla hest sinn sjálfur til þess að flýta fyrir.

»Það er ágætt Planchet,« sagði hann um leið og þjónninn lét töskuna við hnakkinn. »Legðu nú á hina hestana þrjá og svo skulum við komast af stað.«

»Haldið þér að við verðum fljótari ef við höfum sína tvo hestanna hvor?« spurði Planchet og brosti kankvíslega.

»Hvað sem því líður, skelmirinn þinn,« svaraði d'Artagnan, »þá getum við með því móti látið hesta undir þessa þrjá félaga okkar, ef við annas hittum þá lifandi.«

»Já, þá gætum við sannarlega hrósað happi,« svaraði Planchet, »en vissulega megum við ekki efast um miskunn og mildi forsjónarinnar.«

»Amen,« sagði d'Artagnan og stökk á bak hesti sínum.

Þeir riðu frá lífvarðarskálanum og skildust á fyrsta götuhorni. Fóru þeir út úr borginni sinn um hvort borgarhlið og ætluðu svo að hittast aftur hinumegin við Saint-Denis. Þessari ætlun sinni framfylgdu þeir nákvæmlega og gekk það alt að óskum. Komu þeir svo báðir jafnsnemma til Pierrefitte.

Planchet var óneitanlega hugdjarfari á daginn en að næturlagi, en samt slepti hann aldrei tökum á meðfæddri varúð sinni. Hann var ekki búinn að gleyma því, sem fyrir þá hafði komið í fyrri ferðinni og skoðaði alla sem óvini, sem hann mætti á leiðinni og reið því altaf með hattinn í hendinni. D'Artagnan fann að þessu við hann og hélt, að þessi hóflausa kurteisi þjónsins mundi ef til vildi kasta rýrð á sjálfan sig.

Hvort sem nú heldur var, að vegfarendur gengust fyrir þessari hæversku Planchet, eða þá hitt, að enn var enginn farinn að elta þá og sitja fyrir þeim, þá er það víst, að þeir komust báðir að heilu og höldnu til Chantilly og tóku sér hvíld í sama gistihúsinu þar í þorpinu, sem þeir höfðu áð í á fyrri ferð sinni.

Þegar gestgjafinn sá ungan mann koma blaðskellandi með þjón á eftir sér og tvo lausa hesta, gekk hann á móti honum mjög svo auðmýktarfullur. Þeir höfðu þegar farið ellefu mílur og fanst d'Artagnan þá réttast, að þeir hvíldu þar um stund, hvort sem Porthos væri þar enn eða ekki. Líka hélt hann, að það væri kannske ekki sem hyggilegast að fara undireins að spyrja eftir skyttuliðanum. Hann sté því af hesti sínum án frekari formála, fékk þjóninum hann til umönnunar og gekk inn í lítið herbergi, sem ætlað var gestum þeim, er helst vildu vera út af fyrir sig. Bað hann svo gestgjafann að láta færa sér vínflösku bestu tegundar og morgunverð svo góðan, sem unt væri að fá. Þessi beiðni styrkti gestgjafann enn betur í þeirri trú, að hér væri við einhvern stórhöfðingja að eiga og var d'Artagnan veittur allur beini bæði fljótt og vel.

Í lífvarðarfylkið voru aðeins teknir göfugustu aðalsmenn ríkisins og gat ekki hjá því farið, að d'Artagnan vekti allmikla eftirtekt á sér, þótt ekki væri einkennisbúningur hans skrautlegur, einkum þar sem hann ferðaðist með þjón og fjóra úrvals hesta. Gestgjafinn gekk sjálfur um beina fyrir hann og þegar d'Artagnan sá það, bað hann gestgjafann að sækja tvö glös og hóf svolátandi samræðu við hann:

»Ég hef beðið um besta vínið yðar, kæri gestgjafi, og ef þér hafið prettað mig, þá kemur það sjálfum yður í koll, svo framarlega sem þér viljið drekka með mér, því að ég hef andstygð á því að drekka aleinn. Gerið þér svo vel! Takið glasið yðar og svo skulum við drekka saman. En upp á hvað eigum við að drekka, svo að enginn firtist? Við skulum drekka upp á velgengni heimilis yðar.«

»Það er mér heiður og sómi og ég þakka yður hjartanlega fyrir ósk yðar.«

»Þetta er ekki als kostar rétt,« sagði d'Artagnan, »því að vera kann, að meiri eigingirni felist á bak við þetta, en þér haldið. Maður getur ekki búist við góðum beina í öðrum gistihúsum en þeim, sem margir leita til. Í gistihúsum þeim, sem litlar tekjur hafa, gengur alt á tréfótum og bágindi gestgjafans koma niður á gestunum. Ég þarf oft og tíðum að fara þessa leið og vil því gjarna að gistihúsunum vegni vel.«

»Mér finst líka, að þetta sé ekki í fyrsta sinn, sem mér veitist sá heiður að sjá yður.«

»Ég hef oft farið um Chantilly og hvílt hérna hjá yður sjálfsagt þrem eða fjórum sinnum. Það eru ekki nema tíu eða tólf dagar síðan að ég fór hér um seinast. Ég var þá í för með nokkrum vinum mínum úr skyttuliði konungs og einn þeirra komst í orðakast við ókunnugan mann, sem slóst upp á hann.«

»Jú, þetta man ég vel,« sagði gestgjafinn. »Er það ekki Porthos, sem þér eigið við?«

»Jú, það er nafn félaga míns. En í hamingjunnar bænum! Ég vona að það sé ekkert að honum!«

»Yður er það víst kunnugt, velborni herra, að hann gat ekki haldið áfram ferð sinni?«

»Hann lofaði að hitta okkur seinna, en við sáum hann ekki upp frá því.«

»Hann hefur sýnt okkur þann sóma að verða hér eftir.«

»Hvað eruð þér að segja? Sýnt ykkur þann sóma að verða hér eftir?«

»Já, velborni herra. Hann dvelur hér og við erum talsvert áhyggjufull út af því.«

»Vegna hvers?«

»Vegna ýmsra útgjalda, sem standa í sambandi við hann.«

»Jú, en þau útgjöld mun hann ríkulega endurgjalda yður.«

»Æ, kæri herra! Svo sannarlega leggið þér lífsins balsam við mínar blæðandi undir! Við höfum þegar orðið fyrir ærnum kostnaði og í morgun sagði læknirinn, að ef herra Porthos ekki borgaði sér, þá mundi hann krefjast borgunar af mér, þar sem ég hefði sent eftir sér í hans þarfir.«

»Er Porthos þá særður?«

»Ja, ég veit ekki, hvað segja skal um það.«

»Hvað er þetta! Vitið þér ekki hvað segja skal? Þér hljótið þó að vita það betur en aðrir.«

»Jú, rétt er nú það. En menn í minni stöðu þora ekki altaf að segja það, sem þeir vita, því komið getur það fyrir að eyrun verði að svíða fyrir það sem tungan talar.«

»Einmitt það! Nú skil ég. Get ég fengið að tala við Porthos?«

»Það getið þér auðvitað velborni herra. Það er ekki annað en að ganga upp næsta stiga og berja á dyrnar að Nr. 1, en fyrst verðið þér að segja til, hver þér eruð.«

»Fyrst að segja til hver ég er?«

»Já, annars gætuð þér orðið fyrir áverkum.«

»Hvaða áverkum?«

»Porthos kynni að halda, að þér væruð einn af heimilismönnunum og reka yður í gegn í bræði sinni eða senda kúlu í gegnum höfuðið á yður.«

»Hvað hafið þið þá gert á hluta hans?«

»Við höfum fengið honum reikning.«

»Ja, hvert í logandi! Nú veit ég, hvað að honum amar. Reikningar eru eitur í hans beinum, þegar hann er peningalaus — en núna hlýtur hann að hafa peninga.«

»Það héldum við líka, velborni herra. Hér í húsinu gengur alt eftir föstum reglum og við gerum upp reikningana á vikufresti. Þegar Porthos hafði dvalið hér eina viku, leyfðum við okkur að minna hann á skuld sína, en höfum víst gert það á óheppilegum tíma, því við vorum ekki fyr búin að stynja erindinu upp en hann sagði okkur öllum að fara fjandans til en hann hafði víst setið við spilaborðið daginn áður.«

»Einmitt það — og við hvern var hann að spila?«

»Ja, hver kann að vita það! Það var einhver maður, sem fór hér um og Porthos fékk hann til að spila við sig Gosa.«

»Rétt er nú það — og svo tapaði hann auðvitað öllum sínum peningum?«

»Já — og hestinum líka, því að við tókum eftir því, að ókunnugi maðurinn lét þjón sinn leggja hnakkinn á hest Porthos, þegar hann fór burt. Við bentum honum raunar á þetta, en hann svaraði ekki öðru en því, að við skyldum ekki vera að sletta okkur fram í það, sem okkur kæmi ekkert við og að hann ætti hestinn. Þrátt fyrir það létum við herra Porthos vita, hvað gerst hafði, en hann gerði okkur þau boð aftur, að við værum ekki annað en þussar og þrælmennni fyrst að við værum að efa aðalsmanns orð: Úr því að ókunugi maðurinn hefði sagt, að hann ætti hestinn, þá væri það auðvitað satt og rétt.«

»Já — þetta er honum líkt,« sagði d'Artagnan.

»Svo lét ég skila til hans,« sagði gestgjafinn, »að fyrst að við gætum ekki komið okkur saman um reikninginn, þá vonaðist ég til, að hann vildi unna starfsbróður mínum, gestgjafanum í »Gullerninum,« viðskifta sinna, en herra Porthos svaraði því svo, að gistihús mitt væri miklu betra og þess vegna ætlaði hann að vera hér kyr. Þetta var nú svo lofsamlegt svar, að ég þorði ekki að leggja fastar að honum að fara. Ég fór þá ekki fram á annað við hann en að láta mér eftir herbergið, sem hann er í — besta og prýðilegasta herbergið í húsinu — og láta sér nægja lítið og þokkalegt herbergi á þriðja lofti, en þar til svaraði herra Porthos, að hann ætti á hverri stundu von á heimsókn ástkonu sinnar, er væri ein tignasta hirðkonan, og ætti ég því að láta mér skiljast, að þetta herbergi, sem hann sýndi mér þann heiður að vera í, væri næsta óboðlegt jafntiginni konu.«

»Enda þótt ég yrði nú að viðurkenna, að eitthvað kynni að vera til í þessu, fanst mér ég þó verða að halda þessari kröfu minni fram, en Porthos vildi ekki einu sinni minnast frekar á hana eða eiga tal um hana við mig. Hann þreif skammbyssu, sem lá á borðinu hjá honum og kvaðst mundi mola hausinn á hverjum þeim, sem nefndi nokkurn flutning við sig framar. Hefur enginn síðan dirfst að stíga fæti inn fyrir dyr hjá honum, annar en þjónn hans.«

»Er Mousqueton hérna?«

»Já. Fimm dögum eftir að hann fór héðan, kom hann aftur og var í illu skapi. Virtist hann sömuleiðis hafa orðið fyrir einhverjum hrakförum. Til allrar ógæfu er hann heilfættari en húsbóndi hans og fáum við ótæpt að kenna á því, því að hann lætur greipar sópa um alt, sem hann og húsbóndi hans hafa þörf fyrir.«

»Jú — ég hef alt af álitið að Mousqueton væri húsbóndahollur og hygginn þar að auki.«

»Það má vel vera, kæri herra, en ég yrði ekki lengi að fara á höfuðið ef ég ætti að verða fyrir slíkum hyggindum og húsbóndahollustu, þó ekki væri nema fjórum sinnum á ári.«

»Seisei-nei! Þér megið vera viss um að Porthos borgar.«

Gestgjafinn hummaði og virtist efast um það.

»Jú — ég skal segja yður nokkuð. Hann er í þingum við mjög tigna konu og hún lætur hann ekki verða í neinum vandræðum út af þessu lítilræði, sem hann skuldar yður.«

»Ef ég þyrði að segja mína meiningu — —«

»Hvað eigið þér við?«

»Ég gæti vel sagt, það sem ég veit.«

»Nú — en hvað vitið þér þá?«

»Já — sem ég er alveg hárviss um.«

»Um hvað eruð þér hárviss? Segið þér það, maður!«

»Þá vildi ég sagt hafa, að ég þekki þessa tignu konu.«

»Þér?«

»Já, ég.«

»Og hvernig hafið þér komist í kunningsskap við hana?«

»Æ, kæri herra! Ef ég mætti treysta þagmælsku yðar — —«

»Haldið þér bara áfram. Ég lofa yður því hátíðlega að yður skal ekki yðra þess að hafa tekið mig að trúnaðarmanni.«

»Yður skilst það víst, að það er ýmislegt, sem getur valdið manni áhyggjum.«

»Hvað hafið þér þá gert?«

»Ekki annað en það, sem hverjum skuldheimtumanni er leyfilegt.«

»Nú-nú!«

»Herra Porthos fékk okkur bréf til þessarar tignu konu eða hertogafrúr eða hvað hún er og skipaði okkur að koma því á póstinn. Þetta var áður en þjónn hans kom aftur og þar sem hann gat ekki sjálfur staulast út úr herbergi sínu, þá var hann til neyddur að láta okkur ganga erinda sinna.«

»Jæja — og hvað meira?«

»Maður má nú aldrei reiða sig á póstinn, eins og þér vitið, og í stað þess að koma bréfinu á hann, þá fékk ég það einum þjóni mínum, sem átti einmitt þá að skreppa til Parísar, og sagði honum að fá hertogafrúnni sjálfri það. Betur var ekki hægt að reka erindi Porthos — eða hvað?«

»Nei — satt er það.«

»En vitið þér nú, hvaða manneskja þessi tigna kona er?«

»Nei — ég hef aðeins heyrt Porthos minnast á hana.«

»Þér vitið þá ekki, hver þessi svo nefnda hertogafrú var?«

»Ég er að segja, að ég þekki hana als ekki.«

»Nú-jæja! Það var gömul málfærslumanns kerling! Hún heitir frú Coquenard (Kokknar,) er fimtug að minsta kosti og þykist enn þá vera afbrýðissöm. Mér þótti það líka undarlegt, að einhver hertogafrú eða prinsessa ætti heima í Rue aux Ours (Rujósúrs), Bjarnargata.«

»Hvaðan hafið þér alt þetta?«

»Seisei-jú! Hún varð nefnilega bálöskuvond þegar hún var búin að lesa bréfið, sagði að herra Porthos væri ekki við eina fjölina feldur og að hann lægi nú sjálfsagt í sárum vegna einhverrar kvensunnar.«

»Er hann þá særður?«

»Æ, herra trúr! Sagði ég það?«

»Þér sögðuð, að Porthos lægi í sárum.«

»Já, en hann hefur stranglega bannað mér að segja frá því.«

»Hvers vegna?«

»Jú — ég skal segja yður eitt. Hann var að gorta af því, að hann skyldi reka í gegn ókunnuga manninn, sem hann lenti í illdeilum við, en svo varð hann sjálfur að lúta í lægra haldi. Herra Porthos er annars talsvert hrokafullur yfirleitt, nema gangvart hertogafrúnni, því að hann hélt víst, að hún mundi aumkvast yfir sig þegar hún frétti, hvernig á stæði fyrir sér — og þess vegna vill hann ekki kannast við, að hann hafi verið lagður sverði.«

»Porthos liggur þá rúmfastur vegna þess?«

»Já, kæri herra! Það var snildarstunga, sem ókunnugi maðurinn rétti að honum. Sálin í þessum vini yðar hlýtur nú að vera rígnegld við líkamann.«

»Voruð þér þar nærri?«

»Ég gekk á eftir þeim af forvitni og sá alla viðureignina án þess að þeir sæju mig.«

»Og hvernig var sú viðureign?«

»Hún var nú ekki löng. Þeir brugðu sverðunum, ókunnugi maðurinn gerði atlögu og áður en Porthos gat varist henni, hafði hann fengið djúpa sverðsstungu í brjóstið. Hann féll aftur á bak. Andstæðingur hans studdi þegar sverðsoddinum á háls honum og þegar Porthos sá, að hann var algerlega á hans valdi, þá játaði hann sig yfirunninn. Ókunnugi maðurinn spurði hann þá að heiti og þegar hann heyrði að hann héti Porthos, en ekki d'Artagnan, þá reisti hann Porthos upp og leiddi hann inn í gistihúsið. Að því búnu sté hann á hest sinn og hélt leiðar sinnar.«

»Það hefur þá verið d'Artagnan, sem ókunnugi maðurinn ætlaði sér að eigast við!«

»Svo var að heyra.«

»Vitið þér, hvað varð af honum?«

»Nei, ég hef ekki séð hann síðan.«

»Gott og vel! Ég veit nú það sem mig langaði til að vita. Það þarf þá ekki annað en að ganga upp næsta stiga til að finna Porthos. Er ekki svo?«

»Jú, kæri herra! Það er fallegasta herbergið öllu húsinu og ég hefði getað leigt það tíu sinnum eða oftar.«

»Verið þér nú ekki að því arna,« sagði d'Artagnan brosandi. Porthos borgar yður áreiðaniega með peningum Coquenard hertogafrúar.«

»Æ, herra góður! Mér stendur alveg á sama, hvort hún er hertogafrú eða málfærslumannskona, bara að hún opni pyngjuna. En hún sagði hreint og beint, að hún væri orðin leið á heimtufrekju og ótrygð Porthos og að hún léti hann ekki fá einn eyri framar.«

»Hafið þér sagt gesti yðar frá þessu svari hennar?«

»Nei, mikil ósköp! Það höfum við forðast, því að þá kæmist hann að því, hvernig við höfum rekið erindi hans.«

»Hann vonast þá altaf eftir peningunum?«

»Ja-jæja! Hann skrifaði aftur bréf í gær, en þá kom þjónn hans því á póstinn.«

»Þér segið, að málfærslumannskonan sé bæði gömul og grettin?«

»Hún er fimtug að minsta kosti og síður en lagleg, eftir því sem þjónninn minn sagði.«

»Fyrst að svo er, þá megið þér eiga víst, að þetta jafnar sig á endanum. Annars eru það líklega engin ósköp, sem Porthos skuldar yður?«

»Hann skuldar mér sannarlega nógu mikið. Það eru sjálfsagt orðnir tuttugu gulldalir og er þó ekki læknishjálpin meðtalin. Hann neitar sér ekki um neitt, svo að það er auðséð á öllu, að maðurinn er vanur sællífi.«

»Jæja — þó að ástkona hans kunni að bregðast honum, þá get ég fullvissað yður um, að hann á vini, sem munu fúslega rétta honum hjálparhönd. Verið því als ókvíðinn, herra gestgjafi og látið hann framvegis fá alla þá aðhlynningu, sem honum er nauðsynleg eins og hér á stendur.«

»Þér hafið þá lofað mér að nefna ekki málfærslumannskonuna á nafn og ekki sárið?«

»Já, víst hef ég lofað yður því og legg þar við drengskap minn.«

»Jú — því ef hann vissi, hvað ég er búinn að segja, þá steindræpi hann mig undireins.«

»Verið þér als óhræddur. Hann er ekki eins hættulegur og hann sýnist vera.«

Að svo mæltu gekk d'Artagnan upp stigann og hafði nú gert gestgjafann öllu rólegri viðvíkjandi því tvennu, sem hann mat mest í þessari veröld.

Á hurðinni, sem mest bar á á fyrstu hæð, var talan 1 máluð úr svörtu bleki með gríðarstóru letri. D'Artagnan drap þar á dyr og var svarað að koma inn. Opnaði hann þá dyrnar og gekk inn.

Porthos lá í rúminu og var að spila »Gosa« við Mousqueton. Í herberginu var stór, opin eldstó. Þar brann eldur á skíðum og yfir honum var akurhæna á steikarateini. Í hornum eldstóarinnar voru glóðarker og á þeim skaftpottar. Lagði þaðan sætan ilm af fiski og kanínumauki með sterkri ídýfu. Á skrifborði og kommóðu var fult af tómum flöskum.

Porthos rak upp fagnaðaróp þegar hann sá vin sinn í dyrunum. Mousqueton reis kurteislega úr sæti sínu, bauð d'Artagnan það og fór að líta eftir skaftpottunum og akurhænunni.

»Ja, hvað er að tarna — ert það þú sjálfur?« sagði Porthos. »Vertu velkominn, kæri vinur, og fyrirgefðu að ég rís ekki á fætur. En þú veist líklega, hvað drifið hefur á dagana fyrir mér?« bætti hann við og horfði hálfórólega á d'Artagnan.

»Nei — ekki veit ég það.«

»Hefur gestgjafinn ekki sagt þér neitt um það?«

»Ég spurði hann bara eftir þér og gekk svo rakleiðis hingað upp.«

Það virtist létta yfir Porthos.

»En hvað hefur annars komið fyrir þig, kæri Porthos?« spurði d'Artagnan.

»Ekkert annað en það, að ég gerði snarpa atlögu, en rak fótinn í stein, hrasaði og meiddi mig á hnénu. Ég var þá þrisvar búinn að leggja til mótstöðumanns míns og ætlaði að leggja til hans í fjórða og síðasta skiftið.«

»Ja, nú er ég hissa — ertu að segja satt?«

»Já, sem ég er lifandi maður! En það var heppilegt fyrir þennan kumpán, því að hann hefði aldrei sloppið lifandi frá mér að öðrum kosti.«

»Hvað varð af honum?«

»Það veit ég ekki. Hann var víst búinn að fá nægju sína og stökk í burtu án þess að biðja um meira af svo góðu. En hvernig hefur þér gengið, kæri d'Artagnan?«

»Það er þá bara hnéð, sem neyðir þig til að liggja í rúminu?« hélt d'Artagnan áfram og svaraði ekki spurningunni.

»Já, seisei já! Annars fer ég nú á fætur eftir nokkra daga.«

»Því léstu ekki flytja þig til Parísar? Þér hlýtur að leiðast hér afskaplega.«

»Ég ætlaði mér að komast til Parísar — en ég verð að segja þér nokkuð, kæri vinur.«

»Hvað er það?«

»Já, mér leiddist afskaplega, eins og hú sagðir. Ég hafði enn þessa sjötíu og fimm gulldali, sem þú fékst mér. Svo fór maður hér um og ég gerði honum boð að koma upp til mín mér til skemtunar og stakk upp á því við hann að koma í einn »Gosa.« Hann var til í það og svo fóru þessir sjötíu og fimm gulldalir úr mínum vasa í hans, að ég ekki nefni hestinn minn, sem fór sömu leiðina. En hvað er nú um þig, kæri d'Artagnan?«

»Kæri Porthos,« sagði d'Artagnan og svaraði ekki spurningunni fremur en áður. »Það má ekki ætlast til þess, að lukkan brosi altaf við manni. Þú þekkir víst gamla máltækið: Ástarsæla — spilafæla. Þú ert svo bráðheppinn með þín ástamál, að það er ekki nema eðlilegt að örlagadísin hefnist á þér, þegar til spilanna kemur, en hvað ætli að þér geri það til, þó að hamingjan snúi við þér bakinu, hvað þetta snertir? Þú hefur þína hertogafrú eftir sem áður, skelmirinn þinn, og hún hjálpar þér auðvitað úr þessum kröggum með glöðu geði.«

»Já, kæri d'Artagnan,« sagði Porthos einkar glaðlega. »Þegar þetta fór nú svona með spilin, skrifaði ég henni og bað hana að senda mér fimtíu gulldali, sem ég nauðsynlega þyrfti á að halda, eins og hag mínum væri nú komið — —«

»Jæja — hvað sagði hún?«

»Hún er sjálfsagt farin að líta eftir landeignum sínum, því að hún hefur ekki svarað mér neinu.«

»Er það satt?«

»Já, það er alveg satt, en nú hef ég skrifað henni annað bréf, enn þá rækilegra en hitt. En nú skulum við tala eitthvað um þig, kæri vinur. Sannast að segja, var ég farinn að verða hálfhræddur um þig.«

»Það sýnist þó svo, sem gestgjafinn láti sér ant um þig,« hélt d'Artagnan áfram eins og áður og benti á skaftpottana og tómu flöskurnar.

»Seisei-já!« svaraði Porthos. »Fyrir þremur eða fjórum dögum var hann svo ósvífinn að koma með reikning til mín, en ég rak hann á dyr ásamt öllum hans reikningum, og að því leyti er ég hreinn og beinn sigurvegari, þó að ég komist ekki úr bælinu. En ég er líka alvopnaður, eins og þú sérð, með því að ég má altaf eiga von á nýjum árásum.«

»Samt sem áður gerir þú smávegis útrásir til að afla þér vista?« sagði d'Artagnan brosandi og leit nú aftur á skaftpottana og tómu flöskurnar.

»Ja-neinei því miður get ég það nú ekki sjálfur. Þetta fjárans hnémeiðsli heldur mér kyrrum í rúminu, en Mousqueton annast útrásirnar og sér um vistarföngin. Mousqueton! Þú sérð, að okkur hefur fjölgað og þurfum því meiri mat.«

»Mousqueton,« sagði d'Artagnan. »Þú verður að gera mér greiða.«

»Velkomið! Hvað er það, herra góður?«

»Þú verður að kenna Planchet aðferðina og leggja honum lífsreglurnar. Hver veit nema að ég verði líka einhvern tíma innikreptur og þá þætti mér vænt um að geta notið sömu gæðanna, sem þú útvegar húsbónda þínum nú.«

»Mikil ósköp, kæri herra!« sagði Mousqueton ógnar hæverskur. »Það er nú lítill vandi. Ekki þarf annað en dálitla lægni. Ég er fæddur og uppalinn í sveit og faðir míns hafði gaman af að vera launskytta í tómstundum sínum.«

»En hvaða iðju stundaði hann að öðru leyti?«

»Þá iðju, sem mér hefur ávalt reynst mjög nytsamleg.«

»Og hver var hún?«

»Þetta var á þeim dögum, þegar katólskir menn og Húgenottar bárust á banaspjótum og þegar faðir minn sá að katólskir sálguðu Húgenottum og Húgenottar sálguðu katólskum — alt saman í nafni heilagrar trúar, þá bjó hann sér til einskonar sambreyskings-átrúnað, svo að hann gat verið katólskur aðra stundina og Húgenotti hina. Hann var vanur að reika með byssu um öxl bakvið hrísgirðingar meðfram þjóðveginum og ef hann kom auga á katólskan mann, sem var einn á ferð, þá varð hann undireins Húgenotti. Hann miðaði byssunni á katólska manninn og þegar hann átti eftir svo sem tíu skref að honum, fór hann að tala við hann, en það samtal endaði oftast nær þannig, að vegfarandinn fékk honum pyngju sína til þess að bjarga lífinu. Það er óþarft að taka það fram, að ef hann svo rakst á Húgenotta, þá varð hann samstundis svo ramm katólskur, að hann skildi ekkert í því, hvers vegna hann hefði rétt áður verið að efast um yfirburði hinnar einu sáluhjálplegu katólsku trúar. Því að sjálfur er ég katólskur, en faðir minn vék ekki frá grundvallarreglu sinni og lét ala bróður minn upp í trú Húgenotta.«

»En hver urðu þá afdrif þessa ágætismanns?« spurði d'Artagnan.

»Æ, þau urðu nú afarsorgleg, kæri herra. Einu sinni lá leið hans um þröngt gil og varð hann þá á milli katólsks manns og Húgenotta, sem voru þar líka á ferð. Hann hafði áður átt lítilsháttar viðskifti við þá báða og þeir þektu hann aftur. Tóku þeir saman ráð sín og hengdu hann í næsta tré — héldu svo áfram leiðar sinnar og fóru að gorta af þessu þrekvirki sínu í veitingahúsi þar nálægt, en svo vildi til, að við bræður vorum einmitt staddir þar.« »Og hvernig varð ykkur við?« spurði d'Artagnan.

»Við létum þá rausa,« svaraði Mousqueton.

»Loksins lögðu þeir af stað og fór sína leiðina hvor. Bróðir minn læddist á eftir katólska manninum og ég á eftir Húgenottanum. Eftir tvo tíma var alt búið og við dáðumst að framsýni föður okkar, er hafði alið okkur upp sinn í hyorri trúnni.«

— — »Jæja legðu nú á borð, Mousquelon,« sagði Porthos, og meðan við snæðum morgunmatinn þá segir d'Artagnan okkur, hvað á dagana hefur drifið fyrir honum þennan óratíma síðan við skildum.«

»Það skal ég gera með ánægju,« sagði d'Artagnan. Porthos og Mousqueton höfðu ágæta matarlyst, eins og menn, sem eru í afturbata eru vanir að hafa og meðan að þeir voru að raða í sig matnum sagði d'Artagnan þeim frá, hvernig því vék við, að Aramis særðist, svo að hann varð að vera eftir í Crévecoeur, hversu hann varð að yfirgefa Athos í Amiens, þar sem hann barðist einn við fjóra menn, sem sökuðu hann um peningafölsun og hversu hann sjálfur varð að reka Wardes greifa í gegn til þess að geta komist yfir til Englands.

En þar lét d'Artagnan staðar numið og sagði fátt og lítið fleira. Hann gat þess aðeins, að þegar hann kom heim aftur frá Englandi, hefði hann haft með sér fjóra ágætis hesta, einn handa sjálfum sér og einn handa hverjum hinna þriggja félaganna og að hestur sá, sem Porthos var ætlaður, væri þegar kominn í hesthús gestgjafans.

Í þessum svifunum kom Planchet inn til þeirra. Sagði hann húsbónda sínum, að hestarnir væru nú búnir að hvíla sig nægilega og að hægt mundi vera að ná til Clermont fyrir kvöldið.

D'Artagnan var nú orðinn nokkurn veginn rólegur, hvað Porthos snerti, en hann langaði til að reyna að fá einhverjar fregnir af hinum félögunum tveimur. Kvaddi hann þá sjúklinginn og sagði honum, að hann ætlaði að halda áfram leitinni. Annars kvaðst hann ætla sér að fara sömu leið til baka eftir svo sem vikutíma og taka þá Porthos með sér, ef hann yrði þá kyr á sama stað.

Porthos sagðist ekki búast við að verða ferðafær fyrir þann tíma vegna meiðslisins á hnénu, enda væri hann tilneyddur að halda kyrru fyrir í Chantilly þangað til hann fengi svar frá hertogafrúnni.

D'Artagnan kvaðst vona að hann fengi viðunandi svar áður en langt um liði og bað Mousqueton enn á ný að sjá vel fyrir Porthos. Borgaði hann svo reikning sinn og hélt af stað með Planchet, sem nú hafði einn hestinn færra að annast.

X. Ritgerð Aramis.

D'Artagnan mintist hvorki á sárið né málafærslumannskomuna við Porthos. Hann var sem sé bráðhygginn maður, þó ungur væri og lét sem hann tryði öllu, sem þessi raupsami félagi hans sagði honum, enda gekk að því vísu, að kunningjar væru ekki að flíka leyndarmálum, sem þeir kæmust fyrir af hendingu, einkum ef þau leyndarmál væru fremur niðrandi fyrir þann, sem í hlut átti. Hann hafði ásett sér að neyta aðstoðar þessara þriggja félaga sinna í sinni eigin lífsbaráttu og honum kom það vel, að geta fyrirfram náð í sínar hendur þeim ósýnilegu þráðum, sem hann gæti svo notað síðar meir til að hafa taumhald á þeim.

En samt var hann dapur og raunamæddur alla leiðina. Hann var altaf að hugsa um frú Bonacieux, sem ekki var enn farin að launa honum neinu trú hans og trygð, en það skal strax tekið fram, að þessi dapurleiki hans stafaði ekki eingöngu af því, að hann hafði farið á mis við það hnoss, sem hann taldi sér víst, heldur miklu fremur af því, að hann óttaðist, að eitthvert ólán hefði hent hina ungu konu. Hann var semsé ekki í neinum efa um það, að hún hefði orðið fyrir hefnd kardínálans og allir vissu það, að Hans hágöfgi var vanur að hefna sín grimmilega.

Aldrei líður tíminn eins fljótt, eins og þegar menn hafa hugann bundinn við eitthvað ákveðið. Rúm og tími verða þá sem að engu. Menn fara úr einum staðnum og koma í hinn — það er alt og sumt. Menn muna ekki eftir leiðinni, sem þeir hafa farið, öðruvísi en í einhverri þoku, sem hylur fjöll og dali og alt útsýni. Svona var ástatt fyrir d'Artagnan á leiðinn frá Chantilly til Crévecoeur. Hann lét hestinn alveg sjálfráðan og þegar hann kom til Crévecoeur, mundi hann ekkert af því, sem fyrir hann hafði borið á leiðinni.

Hann rankaði þá fyrst við sér, þegar hann var þangað kominn, og hristi höfuðið þegar hann sá gistihúsið, þar sem hann hafði skilið Aramis eftir. Hann kvatti hestinn og bar brátt að gistihúshliðinu.

Í þetta skifti kom gestgjafinn ekki á móti honum, heldur kona hans. D'Artagnan var glöggur á svip manna. Hann vissi strax, að hér þyrfti hann ekki að hafa nein látalæti og hefði ekkert að óttast af þessari búlduleitu, sílspikuðu og ánægjulegu konu.

»Getið þér sagt mér, kona góð hvað orðið hefur af einum félaga mínum, sem ég neyddist til að skilja hér eftir fyrir eitthvað 12 dögum?« spurði hann.

»Ungum manni eitthvað tuttugu og þriggja eða fjögra ára á að giska, fríðum, alúðlegum og gjörvilegum?«

»Og særðum á öxlinni?«

»Já, seisei já, Hann er hérna enn, herra minn!«

»Það var ljómandi, kona góð!« sagði d'Artagnan, stökk af baki og fékk Planchet hestinn. »Þér léttið sannarlega af mér þungu fargi, en hvar er Aramis? Mig langar til að heilsa honum.«

»Fyrirgefið þér, kæri herra — en ég efast um, að hann taki á móti yður eins og stendur.«

»Hvers vegna ekki? Er nokkur stúlka hjá honum?«

»Hamingjan góða! Hvað eruð þér að segja? Stúlka hjá þessum vesalings unga manni? Nei! Ég held nú ekki!«

»Hver er þá hjá honum?«

»Það er sóknarpresturinn í Montdidier og Ésúítapríórinn frá Amiens.«

»Nei, blessaðar verið þér!, sagði d'Artagnan. Er hann svona langt leiddur?«

»Ja-neinei, kæri herra! Þvert á móti. En hann »fékk uppvakningu« þegar honum var batnað og nú er hann fastráðinn í að ganga kennimannaveginn.«

»Alveg rétt!« sagði d'Artagnan. »Ég var búinn að gleyma því, að það var ekki nema um tíma, sem hann ætlaði sér að vera í skyttuliði konungs.«

»Langar yður þá enn til að tala við hann?«

»Meira en nokkru sinni áður.«

»Jæja þá! Þér þurfið ekki annað en að ganga upp stigann, sem er hægra meginn í garðinum. Hann á heima í nr. 5 á öðru lofti.«

D'Artagnan fór eftir því, sem honum var sagt og fann fyrir sér einn af þessum utanhússstigum, sem enn má sjá af og til í gömlum gistihúsum. En það var ekki hlaupið að því, að komast inn til hins tilvonandi ábóta, því að inngangurinn að herbergi hans var eins vel varinn og hlið Hadesar. Þar stóð Basin á verði mjög hátíðlegur og bannaði honum aðgöngu. Ettir margra ára reynslustundir, hélt hann sig nú vera að nálgast takmark það, sem hann kepti að.

Basin vesalingur hafði semsé þráð það alla sína daga að komast í þjónustu einhvers kennimanns og beið þess með óþreyju, að Aramis færi úr skyttuliðabúningnum og skrýddist hempunni. Aramis hafði marglofað honum, að þetta skyldi ekki dragast lengi, enda hefði Basin að öðrum kosti fyrir löngu verið stokkinn úr vistinni, því eftir hans skoðun var það sama sem að vinna tjón sálu sinni að vera þjónn skyttuliða.

En nú var Basin verulega ánægður með tilveruna. Það var ekki annað fyrirsjánlegt, en að húsbóndi hans mundi nú efna loforð sitt. Líkamlegar þjáningar samfara langvinnum sálarkvölum höfðu gert þetta að verkum og Aramis var nú farinn að snúa sér að guðfræðinni af kappi. Hann skoðaði þetta tvöfalda ólán, sem fyrir hann hafði komið — hvarf ástkonu sinnar og sárið á öxlinni — sem bendingu frá hæðum.

Eins og Basin var nú skapi farið, var það sjálfsagður hlutur, að ekki gat honum verra viljað til en koma d'Artagnans. Þessi óguðlegi skyttuliði var vís til að teyma húsbónda hans aftur út í veraldarskarkalann, sem hafði tælt hann og vélað svo langalengi og Basin hugðist því að verja dyrnar af öllum lífs og sálarkröftum. Gestgjafakonan hafði brugðist honum hervilega, svo að nú gat hann ekki neitað því, að Aramis væri heima, en hann reyndi að leiða d'Artagnan það fyrir sjónir, að það væri hin mesta óhæfa, að trufla húsbónda sinn í þeirri iðkun guðrækninnar, sem staðið hafði yfir frá því snemma um morguninn og mundi ekki lokið fyr en komið væri langt fram á kvöld, eftir því sem Basin sagðist frá.

En d'Artagnan kærði sig kollóttan um alt þetta raus úr Basin. Hann vildi ekki fara að karpa við þjón vinar síns, en ýtti honum bara til hliðar með annari hendinni og opnaði dyrnar að nr. 5 með hinni og gekk svo inn.

Aramis var dökk-klæddur með kringlótta, flata húfu á höfðinu. Hann sat við endann á stóru aflöngu borði, alþöktu pappírsströnglum og þykkum »doðröntum« og til hægri handar honum sat Ésúítapríórinn en sóknarpresturinn í Montdidier til vinstri. Gluggatjöldin voru dregin fyrir og hálfdimt í herberginu, og virtist það einkar vel fallið til guðræknisiðkana. Alt veraldarlegt skran, sem vanalega fyllir herbergi ungra manna, og þá einkum skyttuliða, var gersamlega horfið, svo enginn örmull sást eftir. Basin hafði flutt alt slíkt á burt vegna þess, að hann óttaðist, að sverð, pístólur, fjaðrahattur, axlarfetill og knipplingar kynnu að vekja veraldlegar hugsanir hjá húsbónda sínum.

En hins vegar sýndist d'Artagnan húðstrokukeyri hanga á nagla úti í einu horninu.

Um leið og d'Artagnan lét aftur hurðina á eftir sér, leit Aramis upp og kannaðist við vin sinn, en d'Artagnan til mikillar undrunar, virtist honum koma sín ekki hafa nein sérleg áhrif á Aramis — svo var hann orðinn afhuga öllu veraldrarvastri.

»Sæll vertu, kæri d'Artagnan,« sagði Aramis. »Mér þykir sannarlega vænt um að sjá þig.«

»Sömuleiðis,« sagði d'Artagnan, »þó að ég sé nú ekki alveg viss um, að það sé Aramis, sem ég er að tala við.«

»Jú, víst er það ég, kæri vinur. Hvernig geturðu efast um það?«

»Ég var farinn að verða hræddur um, að ég hefði farið herbergja vilt. Fyrst hélt ég, að ég væri kominn inn til einhvers kennimans, en þegar ég sá þig sitja mitt á milli þessara lærifeðra, datt mér í hug, að þú kynnir að vera alvarlega veikur.«

Báðir hinir dökk-klæddu klerkar skildu vel, hvert d'Artagnan stefndi og gáfu honum ilt auga, en hann skeytti því als ekki.

»Ég geri kannske ónæði, kæri Aramis,« hélt d'Artagnan áfram, »því mér er næst að halda, að þú sért að skrifta syndir þínar fyrir þessum prelátum.«

Aramis roðnaði lítið eitt.

»Gerir ónæði,« sagði hann. »Nei, ég fullvissa þig um, vinur minn, að það er þvert á móti og til þess að færa þér heim sanninn um það, vil ég taka það fram í áheyrn þessara æruverðu herra, sem hér eru staddir, að ég gleðst af því að sjá þig aftur hraustan og heilbrigðan.«

»Ja, hver skrambinn!« hugsaði d'Artagnan, »Þarna tókst honum upp!«

»Þessi herra er vinur minn og er nýsloppinn úr stórri hættu,« sagði Aramis ógn mærðarlega og bandaði hendinni eins og til þess að gera þessum kirkjunnar þjónum grein fyrir, hvaða maður d'Artagnan væri.

»Þakkið þér guði fyrir það, herra minn,« sögðu þeir báðir einum rómi og hneigðu sig.

»Það hef ég líka gert,« svaraði d'Artagnan og hneigði sig sömuleiðis.

»Þú hittir einmitt vel á, kæri d'Artagnan,« sagði Aramis, »og getur eflaust lagt góðan skerf til málanna þegar þú heyrir, hvert umræðu-efni okkar er. Príórinn frá Amiens, presturinn frá Montdidier og ég höfum verið að ræða sérstakt vandamál guðfræðilegs efnis, sem lengi hefur verið okkur hugleikið og ég hlakka til að fá að heyra þína skoðun.«

»Það skiftir nú litlu, hverja skoðun óbreyttur hermaður hefur á slíkum hlutum,« sagði d'Artagnan og fór ekki að lítast á blikuna. »Þú getur eflaust reitt þig á lærdóm þessara herra.«

Klerkarnir meðtóku þessi lofsyrði með djúpri hneigingu.

»Nei, sagði Aramis. Mér þykir mikils umvert að heyra þitt álit. Hér er um að ræða ritgerð, sem ég hef í smíðum, Príórinn álítur, að hún eigi einkum að fjalla um trúfræði og fræðslumál.«

»Ritgerð! Ert þú að semja ritgerð?«

»Það þarf að semja ritgerð til þess að geta staðist próf það, sem fer á undan vígslunni,« svaraði Ésúítinn.

»Vígslunni!« sagði d'Artagnan og gat ekki trúað því, sem honum hafði verið sagt bæði af gestgjafakonunni og Basin. Hann horfði efandi á þessa þrjá menn á víxl, sem þarna voru inni.

»Eins og þú hefir heyrt, d'Artagnan,« sagði Aramis, »þá álítur herra príórinn, að ritgerð mín eigi að vera trúfræðileg, en ég held því aftur fram, að hún eigi að vera öldungis óhlutkend. Herra príórinn hefir stungið upp á ritgerðarefni, sem aldrei hefir verið skrifað um og skal ég viðurkenna, að það má skýra á margan hátt, en verkefnið er þetta: Uhraque manus in benedicendo elericis inferioribus necessaria est.

Það hefur áður verið minst á Latínukunnáttu d'Artagnans, en hann brá sér hvergi við þessa latínsku klausu — ekki fremur en þegar herra de Tréville hafði upp latínsku vísuna um gjöfina, sem hann hélt að Buckingham hefði gefið d'Artagnan.

»Það er með öðrum orðum,« sagði Aramis, »að óæðri klerkar verða að blessa yfir söfnuðinn með báðum höndum.«

»Það er tilvalið verkefni,« sagði Ésúítapríórinn.

»Tilvalið og trúfræðilegt,« sagði presturinn, sem ekki var öllu sterkari í Latínunni en d'Artagnan og gætti þess vel, að tyggja upp alt, sem Ésúítinn sagði.

D'Artagnan gat ómögulega samglaðst þessum tveimur drottins þjónum.

»Já, víst er það tilvalið! Prorsus admirabile!« sagði Aramis. »En til þess að skrifa um það, þarf víðtæka þekkingu á kirkjufeðrunum og ritningunni. Og ég hef auðmjúklega játað það fyrir þessum lærðu herrum, að undanfarin staða mín í skyttuliði konungs hefur valdið því, að ég hef orðið að slá slöku við stúderingunum. Ég mundi því ráða betur við, vera facilius natans gagnvart verkefni, sem ég veldi sjálfur og hefði sömu afstöðu við þessi einskorðuðu guðfræðismálefni eins og siðafræðin við frumeðlisspekina.

D'Artagnan sárleiddist — og sóknarprestinum líka.

»Þetta voru ágæt inngangsorð!« sagði Ésúítinn.

»Exordium!« sagði sóknarpresturinn — til þess að tala Latínu líka.

»Quemadmodum inter caelorum immensitatem.«

Aramis leit hornauga til d'Artagnans og sá, að hann var að verjast geispum.

»Við skulum heldur tala móðurmál okkar, æruverði faðir,« sagði hann við Ésúítann. »Herra d'Artagnan fylgist þá betur með.«

»Ójá, ég er hálfþreyttur eftir ferðina,« sagði d'Artagnan, »og er líka farinn að ryðga í Latínunni.«

»Það get ég gjarnan gert,« sagði Ésúítinn og var ekki laust við, að honum þætti fyrir, en sóknarpresturinn leit þakklátlega til d'Artagnans, »Við skulum prófa, hvernig skilja beri þessa ritningarstaði:

Móses, drottins þjónn — takið vel eftir því, að hann er aðeins þjónn — Móses blessaði með báðum höndum og lét styðja armleggi sína og halda þeim uppi, meðan Hebrear sigruðust á fjandmönnum sínum, Annars stendur í textanum: Imponite manus, en ekki manum — leggið hendur yfir, en ekki hönd.«

»Leggið hendur yfir,« hafði sóknarpresturinn eftir og hreyfði ósjálfrátt handleggina.

»Aftur á móti er Sánkti-Pétri boðið: Porrige digitos, réttu fram fingurna,« hélt Ésúítinn áfram. »En páfarnir eru eftirmenn hans — skiljið þið nú?«

»Já, vissulega,« svaraði Aramis og þótti ánægjulegt að hlusta á þessa lærðu útskýringu, »en raunar finst mér þetta vera mestmegnis hártogun og orðaleikur.«

»Réttu fram fingurna!« hélt Ésúítinn áfram. »Sánkti-Pétur blessaði með fingrunum og páfinn blessar líka með fingrunum. Og með hve mörgum fingrum blessar hann? Aðeins þremur — einum í nafni föðursins, öðrum í sonarsins og þeim þriðja í nafni heilags anda.«

Allir krossuðu sig og d'Artagnan líka. Hann þóttist verða fara að dæmi hinna.

»Páfinn er eftirmaður Sánkti-Péturs og einskonar fulltrúi þrenningarinnar. Aðrar ordines inferiores innan kirkjunnar blessa í nafni erki-englanna og englanna, en þeir sem lægst eru settir af kirkjunnar þjónum, svo sem djáknar og meðhjálparar, blessa þannig að skvetta vígðu vatni á fólk, og tákna þá hárin í skúfnum ótölulegan fjölda blessandi fingra. Sjá, svona er þessu varið þegar grant er skoðað — argumentum omni denudatum ornamento Ég treysti mér vel til að skrifa tvö bindi um þetta efni, eins þykk og þetta,« sagði Ésúítinn ennfremur og sló á gríðar þykkan Sánkti-Krysostómus, sem lá á borðinu fyrir framan hann.

Það fór hrollur um d'Artagnan.

»Að vísu verð ég að játa,« sagði Aramis »að þetta er háleitt viðfangsefni, en jafnframt verð ég að viðurkenna, að það er ekki mitt meðfæri. Ég hef valið mér annað verkefni og segðu mér nú, kæri d'Artagnan, hvort þér líkar það ekki vel. Það er þetta: Non inutile est desiderium in oblatione og þýðir: það er ekki gagnslaust að sakna þeirrar fórnar, sem færð er Herranum.«

»Nei, hættið nú!« sagði Ésúítinn. »Þetta er villutrúarkenning. Það er svipuð hugsun eins og erki-trúvillingurinn Jansen setur fram í bókinni »Ágústínus«, en þeirri bók verður fyr eða síðar kastað á eld af böðlinum. Gætið yðar, ungi maður. Þér látið leiðast af falskenningum, og þá er yður glötunin vís.«

»Þá er yður glötunin vís,« sagði sóknarpresturinn og hristi höfuðið,

»Þér komist þarna að hinni afar vandasömu spurningu um frjálsan vilja og það er hættulegur ásteytingarsteinn og þér eruð ekki langt frá fullyrðingum Pelagíanista og Semipelagíanista.«

»Jú, en æruverði faðir — —« sagði Aramis, hálfhissa á öllum þessum röksemdum, sem dundu yfir hann.

»Hvernig getið þér sannað,« hélt Ésúítinn áfram og lofaði Aramis ekki að komast að. »Hvernig getið þér sannað, að maðurinn hljóti að sakna heimsins þegar hann gefur sig guði á vald? Hlustið þér nú á þessa röksemd: Guð er guð og heimurinn er djöfullinn. Að afneita heiminum er því sama sem að afneita djöflinum — það leiðir af sjálfu sér og það er mín skoðun.«

»Mín líka,« sagði sóknarpresturinn.

»Afsakið, æruverði faðir — —!« sagði Aramis.

»Desideras diabolum« ólánsmaður!« sagði Ésúítinn.

»Hann saknar djöfulsins! Æ, ungi maður,« sagði presturinn og stundi. »Gefið ekki slíkum hugsunum rúm — þess bið ég yður innilega.«

D'Artagnan vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Honum fanst hann vera kominn í vitfirringahæli og vera sjálfur að ganga af göflunum, en ekki gat hann lagt orð í belg, því að hann skildi ekkert af því, sem þessir menn voru að tala um.

»En heyrið nú,« sagði Aramis. »Ég segi ekki að ég sakni — — það var ekki meining mín og það kæmi líka í bága við strangtrúaðar kenningar.«

Ésúítinn fórnaði höndum og sama gerði presturinn.

»Ja-neinei. En þið verðið þó að kannast við, að sá verðskuldar ekki miklar þakkir, sem fórnar Herranum því, sem hann sjálfur hefur andstygð og viðbjóð á. Er það ekki rétt d'Artagnan?«

»Jú, það veit hamingjan, að það er rétt,« svaraði d'Artagnan.

Sóknarpresturinn og Ésúítinn tóku að ókyrrast í sætum sínum.

»Heyrið nú þá ályktun, sem ég byggi röksemdir mínar á. Heimurinn laðar mig að sér að ýmsu leyti, en nú afneita ég heiminum — ég færi fórn með öðrum orðum, enda segir ritningin skýrt og skilmerkilega: »Færðu Herranum fórn.«

»Satt er það,« sögðu báðir klerkarnir.

»Og auk þess,« sagði Aramis, »hef ég ort kvæði um þetta efni. Ég lét herra Voiture (Voatujr, franskur rithöfundur á 17. öld) heyra það í fyrra og sá mikli maður hrósaði því mjög.«

»Kvæði!« sagði Ésúítinn með stakri fyrirlitningu.

»Kvæði!« át presturinn eftir.

»Hafðu það yfir,« sagði d'Artagnan. »Það er þó altént tilbreyting.«

»Það er andlegt kvæði,« sagði Aramis — »guðfræði í hendingum.«

»Ja, hver skollinn,« sagði d'Artagnan steinhissa.

»Það er svona,« sagði Aramis ógnar yfirlætislaus og þó ekki hræsnislaust:

Þér sem grátið gegna unaðstíð gleðiríka — nú af sorgum hrjáða — gætið þess, að alt er úti stríð ef til Herrans sjálfs þér leitið ráða.

D'Artagnan og sóknarpresturinn voru mjög hrifnir af þessu erindi, en Ésúítinn hélt fast við sína skoðun.

»Varist alla vanhelgun, þegar þér skrifið um guðfræðileg efni,« sagði hann. »Eða hvað segir sá heilagi Ágústínus? Hann segir: Severus sit clericorum sermo (Ræða prestsins á að vera mjög alvarleg.)

»Já, predikunin á að vera skýr,» sagði sóknarpresturinn.«

»Nú-jæja,« flýtti Ésúítinn sér að segja þegar hann varð þess var, að embættisbróður sínum fataðist Latínan. »Ritgerð yðar nær sjálfsagt hylli kvenfólksins — annan árangur sjáið þér ekki af henni. Hún verður álíka vinsæl og varnarræða eftir meistara Patru (Patruj?)«

»Já, það vildi ég að hamingjan gæfi,« sagði Aramis himinlifandi.

»Þarna getið þið heyrt, hvernig heimurinn ennþá talar fyrir hans munn hárri röddu, altissura voce. Þér festið hugann um of við heiminn, ungi vinur, og ég er hræddur um, að náðin sé ekki svo verkandi í yður enn, sem óskandi væri,« sagði Ésúítinn.

»Verið þér alveg ókvíðinn, hvað það snertir, æruverði faðir. Ég skal ábyrgjast það.«

»Það er nú ekki annað en veraldlegur hroki!«

»Ég þekki sjálfan mig, æruverði faðir, og ákvörðun mín stendum föst.«

»Þér haldið þá fast við þessa ætlun yðar, að skrifa um þetta efni?«

»Ég finn köllun hjá mér til að fást við það og ekki annað. Ég held þá áfram að skrifa um það og vona, að þér verðið ánægðari á morgun þegar ég verð búinn að leiðrétta það á þann hátt, sem þér hafið bent á.«

»Farið yður hægt,« sagði sóknarpresturinn. »Við höfum nú gefið yður svo góðar bendingar um áframhaldið, sem kostur er á.«

»Já, jarðvegurinn er að vísu vel undirbúinn,« sagði Ésúítinn, »en við óttumst aðeins, að eitthvað af sæðinu kunni að hafa fallið í grýtta jörð, eitthvað við veginn og að fuglar himins hafi sólgið hitt — aves coeli comederunt illam.«

Það vildi ég, að skrattinn sækti þig og alla þína Latínu,« tautaði d'Artagnan dauðþreyttur á þessu.

»Lifðu sæll, sonur! Við sjáumst aftur á morgun,« sagði sóknarpresturinn.

»Já, við sjáumst aftur á morgun, ungi og léttúðugi maður,« sagði ésúítinn. »Þér lofið að verða að leiðarljósi innan kirkjunnar vébanda. Hamingjan gefi, að það ljós verði ekki að brennandi eldi.«

D'Artagnan hafði nagað neglur seinasta klukkutímann og fór nú að tanna fingurgómana.

Báðir hinir dökk-klæddu herrar risu á fætur, hneigðu sig fyrir Aramis og d'Artagnan og gengu fram að dyrunum. Basin hafði staðið fyrir utan þær og hlustað eftir umræðunum. Kom hann nú þjótandi, tók við bænabók prestsins og tíðabók Ésúítans og gekk mjög hátíðlegur á undan þeim til að vísa þeim leið.

Aramis fylgdi þeim ofan stigann og kom svo aftur upp til d'Artagnans, sem enn þá var eins og í einhverri leiðslu.

Þegar þeir félagar voru orðnir tveir einir, var fyrst þögn lengi vel. Annaðhvor þeirra varð þó að rjúfa hana og með því að d'Artagnan virtist fastráðinn í að láta Aramis ríða á vaðið, sagði hann loksins:

»Jæja þá! Eins og þér mun hafa skilist, þá er ég nú aftur horfinn að því, sem í raun og veru hefur altaf verið mér hugleiknast.«

»Já, náðin er verkandi í þér, eins og annar þessara dökkálfa sagði.«

»Og hvaða-hvaða! Það er langt síðan ég ásetti mér að draga mig út úr heiminum og þú hefur heyrt mig hafa orð á því fyr en í dag — er það ekki satt, kæri vin?«

»Jú, en ég skal játa, að ég hef haldið að þú værir bara að gera að gamni þínu.«

»Gera að gamni mínu með svo háleitt málefni! Sveisvei, d'Artagnan!«

»Hvað er að tarna! Menn geta gert gaman að sjálfum dauðanum.«

»En það er ekki rétt, samt sem áður. Dauðinn er sá leiðarvísir, sem leiðir annaðhvort til frelsis eða glötunar.«

»Það má vel vera, en gerðu það nú fyrir mig að leggja guðfræðina á hilluna. Þú ert búinn að fá nóg af henni þennan daginn og ég, fyrir mitt leyti, er næstum búinn að gleyma þeim Latínugraut, sem ég kunni einu sinni. Þar að auki verð ég að geta þess, að ég hef ekki smakkað matarbita síðan klukkan tíu í morgun, svo að ég er orðinn glorhungraður.«

»Við fáum miðdagsverðinn rétt undir eins, kæri vin, en þú manst líklega eftir því, að það er föstudagur í dag, svo að ég má hvorki sjá né bragða kjöt. Þú verður að gera þér mitt mataræði að góðu, en réttirnir eru soðið spínat og ávextir.«

»Ekkert annað?« spurði d'Artagnan áhyggjufullur.

»Nei, en þú getur líka fengið fáein egg, þó að það sé þvert ofan í reglurnar, því að egg eru sama sem kjöt, fyrst að úr þeim koma ungar.«

»Það verður enginn ofsaddur af þeim miðdagsverði,« sagði d'Artagnan, »en látum svo vera. Ég skal gera mér þetta að góðu til þess að fá að vera hjá þér og spjalla við þig.«

»Þakka þér fyrir það,« sagði Aramis. »Annars geturðu huggað þig við það, að þó að líkami þinn kveinki sér við þessu, þá er það þess hollara fyrir sálina.«

»Þér er þá bláköld alvara, Aramis, að gerast andlegrar stéttar maður? Hvað heldurðu að félagar okkar segi um það, eða herra de Tréville? Þeir fara með þig eins og argasta liðhlaupara — það máttu reiða þig á.«

»Það er ekki fyrst nú, að ég geng á hönd andlegu stéttinni: ég hef altaf heyrt henni til og hverf nú til hennar aftur. Ég fór úr skauti kirkjunnar af veraldlegum ástæðum og þú veist eflaust, hvernig því vék við, að ég fór í einkennisbúning skyttuliðanna?«

»Nei, ekki veit ég það.«

»Þá skaltu fá að heyra það nú. Skrifað stendur: Skriftið hver öðrum og nú ætla ég að skrifta fyrir þér, d'Artagnan.«

»Og ég gef þér syndakvittun fyrirfram. Þú getur séð, að ég er liðlegur maður!«

»Gerðu ekki gys að helgisiðum manna, kæri vin.«

»Jæja segðu þá frá — ég skal taka eftir.«

»Ég var í prestaskólanum frá því ég var níu vetra og vantaði nú þrjá daga í tvítugt og átti að verða ábóti, eins og fyrir löngu var afráðið. Eitt kvöld var ég eins og oftar staddur í húsi einu, sem ég var vanur að koma í, og var þar þá fyrir liðsforingi nokkur, sem sá ofsjónum yfir því, að ég las oft helgra manna sögur fyrir húsfreyjuna. Þetta kvöld hafði ég snúið nokkru af sögu Júdítar í ljóð og las það nú upp fyrir húsfreyju, er hrósaði mér mjög fyrir ljóðin og hallaði sér upp að öxl minni og leit yfir handritið með mér. Það má vel vera, að þetta hafi verið nokkur ófeilni af okkur, enda hneykslaði það liðsforingjann. Hann talaði að vísu ekkert um það, en þegar ég var að fara, stóð hann líka upp og varð mér samferða.«

»Herra ábóti,« sagði hann. »Langar yður til að verða barinn?«

»Því get ég ekki svarað,« sagði ég. »Það hefur enginn dirfst að gera það enn.«

»Jæja, þá skal ég segja yður nokkuð: Ef þér komið oftar á þetta heimili, sem þér voruð á í kvöld, þá ætla ég að lúberja yður.«

Ég held að ég hafi orðið hræddur — að minsta kosti brá ég litum og kiknaði í knjám. Ég ætlaði að svara einhverju en varð orðfall.

Liðsforinginn stóð kyr um stund og beið svars, en þegar hann sá að það dróst, rak hann upp skellihlátur, sneri við mér baki og gekk inn í húsið aftur, en ég fór heim í skólann.

Ég er aðalsmaður og talsvert geðríkur, eins og þú munt hafa tekið eftir kæri d'Artagnan. Þetta var greypileg móðgun og fanst mér hún vera mér til óþolandi minkunar, þó að enginn heyrði til. Ég sagði þá yfirboðurum mínum, að ég væri ekki nægilega undir það búinn, að gerast kirkjunnar þjónn eða taka vígslu og gerðu þeir það eftir beiðni minni að fresta því um eitt ár.

Svo fór ég til besta skylmingakennarans í París og æfði skylmingar einn klukkutíma á hverjum einasta degi í heilt ár. Réttu ári eftir að liðsforinginn hafði móðgað mig, lagði ég niður prestlingabúning minn, klæddist aðalsmannsbúningi og fór á dansleik, sem ein kunningjakona mín hélt og vissi ég fyrir víst, að ég mundi hitta þar þann, sem ég leitaði að.

Það reyndist líka rétt til getið, að liðsforinginn var þar staddur. Ég gekk til hans þar sem hann sat og var að syngja einhver ástarljóð fyrir unga konu, sem hann leit hýru auga. Ég tók fram í fyrir honum í miðri annari vísu.

»Herra minn« sagði ég. »Ætli þér þykkist við það framvegis, ef ég kem í húsið í Payenne-götunni, sem þér munuð víst eftir, og ætlið þér þá líka að berja mig nú, ef ég skyldi gerast svo djarfur að óhlýðnast yður?«

Liðsforinginn leit undrandi á mig.

»Hvað eruð þér að segja, herra góður? Ég þekki yður ekki,« sagði hann.

»Ég er ungi ábótinn, sem var að lesa helgramannasögurnar fyrir frúna og sneri sögu Júdítar í ljóð,« sagði ég.

»Já — nú man ég eftir yður,« sagði liðsforinginn háðslega. »Hvað viljið þér mér?«

»Ég ætlaði að spyrja yður, hvort yður væri það nokkuð á móti skapi að ganga spölkorn með mér?«

»Ég skal með ánægju ganga spottakorn með yður snemma í fyrramálið.«

»Nei, ekki í fyrramálið, heldur núna samstundis.«

»Jæja — fyrst að þér viljið það endilega.«

»Já, það vil ég.«

»Við skulum þá koma. Þið skuluð ekkert bregða ykkur við það, konur góðar — ég ætla bara að stúta þessum náunga. Ég kem svo rétt strax aftur og held áfram með kvæðið, sem ég var að syngja.«

Svo fórum við, — Ég gekk beint til Payenne-götunnar, þangað sem hann hafði móðgað mig árið áður. Það var glaða tunglsljós. Við brugðum sverðum og vó ég hann í fyrstu atlögu.

»Ja, hver skollinn!« sagði d'Artagnan.

»Núnú! Þegar kvenfólkið sá, að söngvarinn kom ekki aftur og þegar hann fanst í Payenne-götunni, særður banasári, þá bárust böndin undireins að mér og komst alt í uppnám, en ég neyddist þá til að fara úr prestshempunni um stundar sakir. Einmitt um það leyti kyntist ég Athos og Porthos og kendu þeir mér ýmislegt í skylminga-íþróttinni, sem ég ekki kunni áður og kvöttu mig til að leita upptöku í skyttulið konungs. Konungur var góðkunningi föður míns, er féll í umsátrinu um Arras (Arra) og tók hann umsókn mína til greina. Og nú geturðu skilið, að það er kominn tími til, að hverfa aftur í skaut kirkjunnar.«

»Nei. Ég skil ekki, hvers vegna þér hefur dottið sú fjarstæða í hug einmitt núna.«

»Sárið, sem ég fékk, var bending frá hæðum, kæri d'Artagnan.«

»Sárið! Það grær nú áður en þú giftist og ég er líka viss um, að það er ekki það sár, sem veldur þér mestum þrautum.«

»Hvað ætti það þá að vera?« spurði Aramis og roðnaði.

»Það er hjartasárið þitt, Aramis. Það svíður og blæðir mun meira en hitt.«

Það leiftraði úr augum Aramis, án þess að hann ætlaðist til þess.

»Vertu ekki að minnast á slíkt,« sagði hann og reyndi að láta ekki bera á tilfinningum sínum. »Heldurðu að ég sé að hugsa um þess háttar hluti eða beri nokkurn ástarharm í hjarta! Vanitas vanitatum! Þú ímyndar þér að einhver kona hafi gert mig hálfvitlausan, en hver ætti hún að vera? Einhver saumakonan eða herbergisþernan, sem ég hafi verið að daðra við einhverstaðar? Ja, svei!«

»Fyrirgefðu, kæri Aramis! En ég hélt, að þú hefðir stefnt hærra.«

»Stefnt hærra? Því ætti ég að vera svo metnaðargjarn? Vesall skyttuliði, fátækur og öllum ókunnugur, sem hatar starf sitt og veit, að hann hefur hlotið rangan sess í heiminum.«

»Hvað ertu að segja Aramis!« sagði d'Artagnan og horfði á hann.

»Ég er ekki annað en mold og aska og hverf til jarðarinnar aftur. Lífið er ekki annað en »angur sorg og þrá,« sagði Aramis. »Öll þau bönd, sem tengja lífið við lukkuna, bresta fyr eða síðar í höndum mannanna, og fyrst þau, sem glæsilegust eru. Menn verða að hylja sár sín, kæri d'Artagnan, og þögnin er seinasta athvarf ólánsmannsins. Varastu að trúa nokkrum manni fyrir sorgum þínum og áhyggjum. Forvitni annara svalar sér á tárum vorum eins og mývargurinn sýgur blóð hins deyjandi dáhjartar.«

»Æ, góði Aramis,« sagði d'Artagnan og stundi þungt. »Sama má ég segja.«

»Við hvað áttu?«

»Ég unni konu hugástum og nú hefur henni verið rænt frá mér og hún tekin burt með ofbeldi. Ég veit ekkert, hvar hún er niður komin, eða hvert hún hefur verið flutt — ef til vill hefur henni verið varpað í fangelsi eða tekin af lífi.«

»En þú getur þó huggað þig við það, að hún yfirgaf þig ekki sjálfviljuglega. Og þar sem þú veist ekkert um hana, þá stafar það líklega af því, að henni hefur verið harðbannað að hafa nokkur afskifti af þér, þar sem — —«

»Þar sem — —?«

»Ja-neinei! Það skiftir engu.«

»Ætlarðu þá að afneita heiminum fyrir fult og alt? Er það fastur ásetningur þinn?«

»Já, það er ásetningur minn. Þú ert vinur minn og kunningi í dag, en á morgun ekkert annað en hjóm og skuggi, eða þá ertu mér dauður og horfinn, réttara sagt. Heimurinn er ein heljar gröf - ekkert annað en gröf.«

»Ja, hver rækallinn! Þetta eru fremur dapurlegar hugleiðingar!«

»Nú — hvað skal segja? Köllun mín kemur mér til að hugsa og álykta þannig.«

D'Artagnan brosti, en svaraði engu. Aramis hélt áfram.

»En meðan ég enn þá hef hugann við þessa veröld,« sagði hann, »þá langar mig til að fara nokkrum orðum um þig sjálfan og sameiginlega vini okkar.«

»Og ég vildi gjarna segja svolítið við þig« sagði d'Artagnan — »en nú segist þú vera búinn að snúa bakinu við öllum og öllu. Þú ferð hæðilegum orðum um ástina, vinir þínir eru þér ekki annað en skuggar og veröldin ein heljarstór gröf.«

»Ójá, þetta munt þú sjálfur komast að raun um þegar fram í sækir,« sagði Aramis.

»Við skulum ekki tala meira um það,« sagði d'Artagnan, »og þar næst er best að ég brenni bréfið. Það er sjálfsagt ekkert í því, hvort sem er, nema tóm svik og lygi úr saumakonunni þinni eða herbergisþernunni.«

»Hvaða bréf?« spurði Aramis og lifnaði allur við.

»Bréf sem kom heim til þín, þegar þú varst farinn, og ég tók með mér.«

»Frá hverjum er það?«

»Uss — það er eflaust frá einhverri grátbólginni saumakonu eða herbergisþernu frú Chevreuse, sem hefur neyðst til að snúa aftur til Tours með húsmóður sinni. Og sú þerna hefur skvett ilmvatni á bréfið að gamni sínu og lokað því með signeti, sem hertogakróna er grafin á.«

»Hvað ertu að segja, maður?«

»En bíðum við! Ég trúi að ég sé búinn að týna því,« sagði d'Artagnan og leitaði í vösum sínum. »En veröldin er ekki annað en gröf og mennirnir skuggar — þar á meðal kvenfólkið — og ástin sú tilfinning, sem ekki ekki er til annars en að hæða og fyrirlíta.«

»D'Artagnan, d'Artagnan!« kallaði Aramis. »Ætlarðu að gera útaf við mig?«

»Nei — hérna kemur bréfskömmin,« sagði d'Artagnan og dróg bréfið upp úr vasa sínum.

Aramis stökk upp, þreif bréfið og las það eða gleypti það í sig, réttara sagt. Hann ljómaði nú allur í framan af ánægju.

»Það lítur út fyrir, að herbergisþernan sé allvel pennafær,« sagði d'Artagnan.

»Þakka þér fyrir, d'Artagnan,« sagði Aramis, frá sér numinn af feginleik. »Hún neyddist til að snúa aftur til Tours, en hún hefur ekki brugðist mér — hún elskar mig eins og áður. Lof mér að faðma þig, vinur minn. Ég held að ég sálist af gleði.«

Og svo fóru vinirnir báðir að dansa kringum Krysostómus gamla, en ritgerð Aramis datt ofan á gólfið og spörkuðu þeir í hana af öllum mætti.

Í sama bili kom Basin inn með kálmauk og eggjaköku.

»Snáfaðu burt, úrþvættið þitt!« kallaði Aramis og fleygði húfu sinni beint framan í Basin. »Farðu burt með þetta kálrusl og eggjaklessu og láttu okkur fá mörvaðan héra, feitan hana, kindasteik með lauksós og fjórar flöskur af gömlu Bourgogne (Búrgonj)-víni.«

Basin stóð forviða og glápti á húsbónda sinn og skildi ekkert í þessari breytingu, sem á honum var orðin. Hann lét eggjakökuna ofan í kálmaukið og fleygði öllu saman á gólfið.

»Jæja — nú er þá tími tilkominn að helga himnaföðurnum alt sitt líf, sagði d'Artagnan, »ef þú ætlar þér á annað borð að færa honum einhverja fórn. Non imutile desiderium in oblatione.«

»Farðu til skrattans með alt þitt Latínuskvaldur!« sagði Aramis. »Nú skulum við drekka, kæri d'Artagnan — drekka okkur ærlega fulla og segðu mér svo eitthvað um, hvað gerist í París!«

XI. Kona Athos.

»Þá er nú aðeins eftir að vita, hvað orðið hefur um Athos,« sagði d'Artagnan, er hann hafði sagt Aramis allar seinustu nýjungar úr París. Líka höfðu þeir nú fengið sér ágætan miðdagsverð, sem gerði það að verkum, að Aramis var búinn að steingleyma ritgerð sinni og öll þreyta farin úr d'Artagnan.

»Heldurðu að hann hafi orðið fyrir nokkru áfalli?« spurði Aramis. »Athos er svo hraustur og stiltur og allra manna vígfimastur.«

»Já, víst er svo og hreysti hans og harðfengi þekkir enginn betur en ég, en ég fyrir mitt leyti kýs heldur að verjast spjótalögum en bareflum og ég er ekki óhræddur um, að þjónarnir hafi barið Athos til óbóta. Þess háttar náungar hafa krafta í köglum og eru seinir til að hætta þegar þeir eru komnir af stað á annað borð. Ég vildi því helst halda leiðinni áfram sem fyrst.«

»Ég ætla að reyna að fylgjast með þér,« sagði Aramis, »þó að ég sé hálf máttfarinn enn. Í gær reyndi ég að nota húðstrokukeyrið, sem hangir þarna í horninu, en það olli mér svo óumræðilegum kvölum, að ég varð að hætta þeirri helgu iðrunaræfingu.«

»Og ég held naumast að nokkrum manni hafi dottið í hug að lækna skotsár með húðstroku.« sagði d'Artagnan. »En þú hefur verið veikur og líkamsþjáningar skerða skynemina — það getur verið til afsökunar.«

»Hvenær ætlarðu að leggja af stað?«

»Snemma í fyrra málið. Reyndu nú að sofa vel og rólega í nótt og svo verðum við samferða á morgun, ef þú treystir þér til þess.«

»Jæja, við sjáumst þá aftur á morgun,« sagði Aramis. »Þér veitir víst heldur ekki af að hvíla þig, hvað þolinn og úthaldsgóður sem þú ert.«

Morguninn eftir kom d'Artagnan inn til Aramis. Stóð hann þá við gluggann og horfði út.

»Á hvað ertu að horfa?« spurði d'Artagnan.

»Ég er að horfa á þessa þrjá gulhallegu hesta, sem hestasveinninn er að söðla þarna í garðinum. Það hlýtur að vera himnesk ánægja að ferðast á slíkum hestum.«

»Sú ánægja skal líka sannarlega veitast þér, kæri Aramis, því að þú átt einn hestinn.«

»Hvað ertu að segja? Á ég einn af þessum hestum?«

»Já, hvern þeirra, sem þú vilt.«

»Og þessi kostulegu reiðtygi — á ég þau líka?

»Já — þú átt þau líka.«

»Nú ertu að gera gys að mér, d'Artagnan góður.«

»Nei, ég er nú hættur því, fyrst að þú fórst að tala þitt eigið móðurmál aftur.«

»Er það satt, að ég eigi þetta alt saman — þessi gullseymdu pistóluhylki, flauelsáklæðið og þennan silfurslegna hnakk?«

»Já, það er alveg satt. Þetta er minn hestur, sem stappar niður fótunum og þetta er hestur Athos, sem hoppar og hringsnýst af fjöri.«

»Ja, ég er nú alveg hissa! Þetta eru framúrskarandi skepnur.«

»Mér er það sönn ánægja, að þér skuli lítast svona vel á hestana.«

»Hefur konungurinn gefið þér þá?«

»Ekki hefur kardínálinn gert það að minsta kosti, en annars skaltu ekki vera að setja það fyrir hvaðan þeir er komnir. Láttu þér nægja, að við eigum þá með öllum rétti.«

»Jæja — ég kýs mér þá þennan, sem rauðhærði hestasveinninn heldur í tauminn á.«

»Velkomið!«

»Hananú!« sagði Aramis. »Nú eru öll mín veikindi úti! Ég skyldi glaður sitja á svona hesti með þrjátíu kúlur í skrokknum á mér. En hvað ístöðin eru falleg! Heyrðu Basin! Komdu hingað strax.«

Basin kom í dyrnar, stúrinn og stygglyndur.

»Fægðu sverðið mitt, brjóttu upp hattinn, burstaðu kápuna mína og hladdu pístólurnar.« sagði Aramis.

Þessi seinasta skipun er óþörf,« sagði d'Artagnan. »Það eru hlaðnar pístólur í hylkjunum.«

Basin stundi þungt.

»Jæja, Basin!« sagði d'Artagnan. »Vertu nú ekki svona volæðislegur. Það liggja margvíslegar leiðir til himnaríkis og hægt að komast þangað á ýmsan hátt.«

»Húsbóndinn var kominn svo vel á veg með guðfræðina,« sagði Basin með grátstaf í hálsinum. »Hann hefði sjálfsagt orðið biskup, eða kannske kardínáli!«

»Hugsaðu þig nú dálítið um, Basin minn góður! Hvað stoðar það að vera kirkjunnar þjónn? Menn komast samt ekki hjá því, að eiga í ófriði. Þú veist það líklega, að nú ætlar kardínalinn sjálfur í leiðangur með stálhúfu á höfðinu og kesju í hendi. Eða hvað segirðu um herra Nogaret de la Valette? Hann er líka kardínáli, en spyrðu þjóna hans, hversu oft þeir hafa orðið að tæja línskaf handa honum.«

»Jú, þetta veit ég vel, herra,« svaraði Basin. »Það er alt orðið öfugt í þessari veröld.«

Að svo mæltu gengu þeir Aramis og d'Artagnan ásamt Basin ofaní garðinn.

»Haltu í ístaðið, Basin!« sagði Aramis.

Aramis stökk í söðulinn, létt og liðugt eins og hans var vani, en hesturinn var bráðfjörugur og ókyrr mjög, svo að Aramis átti erfitt með að halda við hann og eftir litla stund kendi hann óþolandi sársauka, fölnaði upp og var næstum dottinn af baki. D'Artagnan hafði grunað þetta og gætti vel að honum. Flýtti hann sér til hans, tók hann af baki og leiddi hann til herbergis síns.

»Svonanú, kæri Aramis,« sagði hann. »Reyndu nú að hressast betur, en svo held ég áfram ferðinni til þess að leita að Athos.«

»Þú ert alveg ódrepandi,« sagði Aramis.

»Ónei — ekki er ég það, en ég er bráðheppinn og það er allur munurinn. En hvað ætlarðu nú að hafa þér til afþreyingar, meðan að þú biður eftir mér? Ætlarðu að skrifa meira um fingurna og hinar ýmsu aðferðir til að blessa yfir söfnuðinn?«

»Nei, ég ætla að yrkja kvæði,« sagði Aramis brosandi.

»Já, kvæði jafn sætilmandi og bréfið frá herbergisþernunni hennar frú Chevreuse? Þú ættir annars að kenna Basin vesaling að hnoða saman vísu — það gæti orðið honum til hugarléttis og líka ættirðu að skreppa snöggvast á hestbak á hverjum degi til þess að venja þig við.«

»Vertu alveg ókvíðinn,« sagði Aramis. Ég skal verða reiðubúinn að fylgjast með þér, þegar þú kemur aftur.«

Að svo mæltu kvöddust þeir og bað d'Artagnan þau Basin og gestgjafakonuna að annast vin sinn og gæta hans vel. Litlu síðar hélt hann svo áleiðis til Amiens.

En hvernig skyldi svo standa á fyrir Athos, ef hann annars fyndi hann?

Þegar d'Artagnan skildi við Athos, átti hann í vök að verjast og var ekki óhugsandi, að hann hefði verið borinn ofurliði. Við þá tilhugsun varð hann þungur á svipinn, stundi við og hugði á hefndir. Athos var elstur þessara félaga hans og þeir því ólíkastir að lundarfari.

Samt sem áður þótti honum einna vænst um Athos, allra þessara félaga sinna. Athos var svo göfuglegur og höfðinglegur í allri framkomu. Hann var að vísu oftast fálátur og fáskiftinn, en þrátt fyrir það leyndi tign hans og göfgi sér ekki, þegar því var að skifta. Hann var gæddur frábæru jafnaðargeði og þess vegna manna viðfeldnastur. Hann var meinfyndinn, ef svo bar við og hugrekki hans hefði mátt kalla óforsjálni hefðu menn ekki vitað, að það var samfara geðró hans og stillingu. Allir þessir mannkostir, sem Athos hafði til að bera, ollu því, að d'Artagnan bar enn meiri virðingu en vináttu fyrir honum og dáðist verulega að honum.

Þegar Athos var í essinu sínu, þá þoldi hann jafnvel mannjöfnuð á við herra de Tréville, sem annars þótti, og líka var, prúðmenni og hirðmaður með afbrigðum. Athos var meðalmaður að hæð, en prýðilega vaxinn og svaraði sér vel að öllu leyti og svo var hann styrkur, að hann hafði oftsinnis borið hærra hlut í lausatökum við Porthos, sem var heljarmenni að afli. Hann var snareygður, réttnefjaður og hakan kjarkleg og einbeittleg og allur andlitssvipurinn bar greinlegan vott um göfgi og mikilmensku. Hann var handfríður mjög og var þó ekki að nostra við hendur sínar öllum stundum. Öfundaði Aramis hann af þessu, því að Aramis var sífelt að maka hendur sínar með möndlusmyrslum og allskonar ilmandi olíum. Rödd hans var bæði hvell og hljómþýð og svo var eitt, sem enginn skildi, hvernig á stóð. Hann var fálátur og yfirlætislaus, eins og áður er sagt, en samt vissi hann manna best deili á því, hvernig hegða bæri sér með stórhöfðingjum og þessi kurteisi hans og göfugleg framgengni lýsti sér ósjálfrátt í allri framkomu hans, hvað sem hann tók sér fyrir hendur.

Þegar Athos hélt mönnum veislu, þá jafnaðist enginn við hann að smekkvísi og kurteisi. Hann skipaði gestum sínum til sætis eftir því, sem hverjum bar að mannvirðingum, ættgöfgi eða eigin verðleikum. Hann var manna glöggastur á skjaldmerkjafræði og kannaðist við allar aðalsættir ríkisins, þekkti kyn þeirra og sifjalið, skjaldarmerki þeirra og hvernig þau voru til komin. Kurteisisvenjur smáar og stórar þekti hann út í hörgul, vissi um eftirgjald og landsskuldir jarðeigna þeirra, er mestar voru og bar afbragðs skyn á allan veiðiskap. Einhverju sinni þegar sú íþrótt barst í tal, rak hann Lúðvík konung þrettánda á stampinn og þótti konungur þó fyrirtaks veiðimaður.

Athos var framúrskarandi reiðmaður eins og allir tignir menn á þeim tímum og vopnfimur vel. Uppeldi hafði hann fengið svo gott, að hann var allvel skólalærður, sem annars var fágætt um aðalsmenn þeirra tíma, og varð honum stundum að brosa að latínskum málvillum, sem Aramis var mjög hætt við og Porthos tók fyrir góða vöru og gilda. Heiðarleikur hans og ráðvendni var óyggjandi og það á þeirri öld, er hver óbreyttur dáti gerði sér enga rellu út af trúarbrögðum eða samviskusemi, þegar elskendur ekkert þektu til þess næmlyndis, sem nú má alment heita og þegar fátæklingar brutu sjöunda boðorðið hispurslaust. — Athos var í raun og sannleika fágætur maður.

Og samt sem áður var því svo varið með þennan ágætismann, þetta góða og göfuga glæsimenni, að hann hneigðist smám saman að munaði og ofnautn, eins og stundum vill verða gömlum mönnum, sem orðnir eru líkamlega og andlega sljóir. Hann fékk stundum þunglyndisköst og þau voru alt af að ágerast og þá var líkast því, sem sálarljós hans sloknaði.

En þegar hálfguðinn leyndist, þá var varla manneskja eftir. Athos sat þá tímum saman og drap höfði. Augun voru þá dauf og döpur — það drafaði í honum og hann starði bara á glös og flöskur eða þá á Grimaud, sem vanur var að hlýða hverri bendingu hans og ráða hverja ósk af svip hans, þótt þungur og myrkur væri.

Væru vinir hans hjá honum, þegar svo stóð á, þá lagði hann ekkert til mála nema orð og orð á stangli og virtist þá taka sér það nærri. Hins vegar drakk hann þá á við fjóra, en vínið hafði þau ein áhrif á hann, að hrukkurnar á enni hans dýpkuðu og þunglyndið óx.

D'Artagnan var bæði skarpskygn og hygginn, eins og tekið hefir verið fram, en hvernig sem hann gruflaði út í þetta og hefði allar klær úti, þá hafði hann ekki getað komist fyrir, hvernig á þessum geðbreytingum Athos stæði. Athos fékk aldrei nein bréf og aðhafðist ekkert, sem vinum hans var ekki fullkunnugt um.

Ekki var heldur hægt að segja, að vínið gerði hann hryggan og angurværan. Þvert á móti drakk hann til að sefa sorg sína, þó að útkoman yrði önnur. Ekki var ástæðan heldur sú, að hann tæki sér nærri að tapa í spilum og var það alveg gagnstætt Porthos, sem ýmist söng eða bölvaði, eftir því sem lukkuhjólið veltist. Athos var jafnrólegur, hvort sem hann vann eða tapaði. Það kom fyrir að hann vann í kunningjahóp þúsund gulldali á einu kvöldi, tapaði þeim aftur og auk þess öllu verðmætu, sem hann hafði á sér og vann svo alt aftur og meira til, en ekki hleypti hann einu sinni brúnum þó að svona veltist og var jafn skemtilegur í viðræðum við félega sína, eins og ekkert hefði í skorist.

Ekki var því heldur til að dreifa, að veðrið gerði hann þunglyndan, eins og á sér stað um Englendinga. Athos var langdaprastur um hásumarið — í Júní og Júlí.

Alt var þetta svo leyndardómsfult, að það var kunningjum hans ærið umhugsunarefni. En aldrei varð neitt ráðið af orðum hans eða svip, hversu kænlegar spurningar sem lagðar voru fyrir hann og það þótt hann væri dauðadrukkinn. —

»Nú-jæja!« sagði d'Artagnan. »Kannske að vesalings Athos sé nú dauður og þá er það mér að kenna, ef svo skyldi vera, því að það var ég, sem bendlaði hann við þetta enda þótt hann vissi ekkert um upptök þess og fái aldrei að vita neitt um afdrif þess — og geti þess vegna ekki notið neins góðs af því.«

»Að því ógleymdu,« sagði Planchet, »að við eigum honum líf okkar að launa að öllum líkindum. Munið þér ekki, hvernig hann hrópaði: Flýttu þér burt, d'Artagnan — ég er orðinn fangi! og hvernig hann beitti sverðinu, þegar hann var búinn að hleypa af pístólunum! Það var líkast því að heyra sem þar væru tuttugu djöflar að óskapast inni, en ekki fáeinir menn.«

D'Artagnan svall hugur við þessi orð. Hann keyrði hest sinn sporum og hleypti á sprett.

Eitthvað klukkan ellefu um kvöldið voru þeir komnir í námunda við Amiens og klukkan hálftólf komu þeir að hinu illræmda gistihúsi.

D'Artagnan hafði oft verið að hugsa um, að hann skyldi hefna sín greypilega á þessum níðinglega gestgjafa. Hann gekk inn í veitingastofuna með hattinn slapandi niður á augu, vinstri höndina á sverðshjaltinu og reidda svipuna í hægri hendi.

»Kannist þér ekki við mig?« spurði hann gestgjafann, er gekk til móts við hann.

»Ónei — ekki geri ég það nú, herra minn,« svaraði gestgjafinn og fanst mikið til um, hve d'Artagnan var prúðbúinn og eins um annan útbúnað hans.

»Það er svo. Þekkið þér mig ekki aftur?« »Ja-neinei, velborni herra!«

»Ég skal þá fljótlega koma yður á rekspölinn. Hvað hafið þér gert af aðalsmanninum, sem þér voruð að ásaka um peningafölsun fyrir eitthvað hálfum mánuði?«

Gestgjafinn brá litum, því að d'Artagnan var næsta óárennilegur og Planchet sömuleiðis.

»Æ, minnist þér ekki á það, velborni herra!« sagði hann með grátstaf í hálsinum. Þér megið trúa því, að ég hef orðið grimmilega að gjalda þeirrar glópsku minnar og á ekki sjö dagana sæla.«

»Hvað er orðið af þessum manni, segi ég?«

»Virðist að hlusta á mig herra, og dæmið mig vægilega! Viljið þér ekki fá yður sæti?«

D'Artagnan tók sér sæti og var ófrýnn undir brún. Planchet stóð fyrir aftan stól hans.

»Nú skal ég segja yður upp alla sögu, velborni herra,« sagði gestgjafinn nötrandi, »því að nú kannast ég við yður. Það voruð þér, sem hélduð áfram ferðinni, þegar mér lenti saman við þennan mann, sem þér eigið við.«

»Já — og nú skilst yður líklega, að þér þurfið engrar náðar að vænta nema því aðeins, að þér segið satt og rétt frá.«

»Ég skal segja söguna, eins og hún gekk.«

»Jæja — látum oss þá heyra.«

»Yfirvöldin gerðu mér orð þess efnis, að hingað mundi koma alræmdur peningafalsari ásamt fleiri félögum sínum og væru þeir dulbúnir sem lífvarðarliðar og skyttuliðar. Þessari orðsendingu fylgdi nákvæm lýsing af hestum ykkar og þjónum og sömuleiðis af búningi ykkar.«

»Áfram!« sagði d'Artagnan og skildi undireins, hvaðan sú nákvæma lýsing stafaði.

»Yfirvöldin sendu mér enn fremur sex menn til liðveislu og samkvæmt skipun þeirra gerði ég þær ráðstafanir, sem ég áleit nauðsynlegar til þess að geta handsamað jafn hættulegan mann eins og þennan svonefnda peningafalsara.«

»Áfram!« sagði d'Artagnan og fór að þykja nóg um alla þessa fölsunarromsu.

»Fyrirgefið herra, að ég viðhef þetta orð, en þar í felst einmitt afsökun mín. Yfirvöldin voru búin að skjóta mér skelk í bringu, en eins og þér vitið, verða gestgjafarnir um fram alla muni að koma sér í mjúkinn hjá yfirvöldunum.«

»En hvar er maðurinn — hvað er orðið af honum? Er hann dauður eða lifandi?«

»Hafið þolinmæði, herra ég skal segja yður alt eins og er. Þér vitið sjálfur, hvernig á því stóð, að þér þutuð héðan eins og byssubrendur, en félagi yðar varðist eins og ljón. Þjónn hans komst í áflog við lögregluþjónana, en þeir voru dulklæddir sem hestasveinar — —«

»Og þrælbeinið!« hrópaði d'Artagnan. »Þið hafið auðvitað gert samtök allir saman og ég veit sveimér ekki, hvers vegna ég ætti ekki að ganga af ykkur öllum dauðum.«

»Ónei, velborni herra! það voru engin samtök — eins og þér skuluð nú brátt fá vissu fyrir. Þessi vinur yðar — ég veit ekki, hvað hann heitir og get því ekki nefnt hann með nafni — gerði tvo menn óvíga með skammbyssuskotum og hopaði svo á hæl með sverðið á lofti. Hann særði einn af þjónum mínum til ólífis og lamdi mig það dómadagshögg á höfuðið með flötu sverðinu, að ég misti bæði ráð og rænu.«

»Ætlarðu aldrei að hætta þessu?« sagði d'Artagnan. »Hvað er orðið af Athos, segi ég enn?«

»Hann hopaði á hæl með sverðið á lofti, eins og ég var að segja og þegar hann komst að kjallarastiganum og sá, að kjallarinn stóð opinn, þá tók hann lykilinn, læsti kjallaranum og hlóð sér þar einskonar víggirðingu. Þegar við þóttumst vissir um, að hann ætlaði að búast þar fyrir, létum við hann óáreittan.«

»Einmitt það!« sagði d'Artagnan. »Þegar þið gátuð ekki unnið á honum, þá ætluðuð þið að reyna að handtaka hann!«

»Mikil ósköp! Handtaka hann, velborni herra! Ég segi yður satt, að það er hans eigið verk. Hann er sannarlega búinn nóg að gera: steindrepa einn mann og særa tvo aðra svöðusárum og voru þeir bornir burt af félögum sínum, en um þá veit ég ekki frekar. Þegar ég raknaði úr rotinu, fór ég strax til fylkisstjórans, sagði honum alt, sem gerst hafði og spurði, hvað gera ætti við fangann. En fylkisstjórinn lét sem sér kæmi þetta ekkert við. Fyrirskipanir þær, sem ég hafði fengið, væru ekki frá sér komnar og yrði mér á að segja nokkrum manni, að hann væri á nokkurn hátt við þetta mál riðinn, þá léti hann hengja mig. Það var svo að heyra sem ég hefði gert eitthvert glappaskot: handtekið mann í misgripum og látið viðkomandi sleppa.«

»Já — en Arhos!« sagði d'Artagnan og varð enn gramari, þegar hann heyrði, að fylkisstjórinn hefði ekkert viljað skifta sér af þessu. »Hvað er orðið af Athos?«

»Ég ætlaði auðvitað að bæta sem fyrst úr því, sem hafði gert fanganum rangt til, flýtti mér að kjallaradyrunum og ætlaði að hleypa honum út. En kæri herra! Hann lét nú ekki lengur eins og maður, heldur eins og fjandinn sjálfur. Þegar ég sagðist ætla að sleppa honum lausum, sagði hann, að það væri ekkert annað en gildra, sam ætti að ginna sig í og að hann færi ekki úr kjallaranum nema með vissum skilyrðum. Ég sá vel að ég, var kominn hér í bannsetta klípu, þar sem ég hafði handtekið mann úr skyttuliði konungs og svaraði ég því, að ég gengi að öllum hans skilyrðum.«

»Fyrst og fremst vil ég fá þjóninn minn hingað til mín — alvopnaðan, sagði hann.

»Við flýttum okkur að hlýða þessari skipun hans, því að við vildum alt fyrir þennan vin yðar gera, eins og þér getið skilið. Herra Grimaud — svo kvaðst hann heita, þó að hann sé annars ekki margmáll — fór þá ofan í kjallarann til hans, þótt særður væri og þegar hann var þangað kominn, hlóðu þeir aftur fyrir dyrnar og vinur yðar sagði, að nú gætum við átt okkur sjálfir.«

»En hvar er hann þá?, sagði d'Artagnan. Hvar er Athos?«

»Hann er í kjallaranum, velborni herra!«

»Hvað er þetta! Hafið þér haldið honum í kjallaranum allan þennan tíma, þrjóturinn yðar?«

»Ég — nei, það veit hamingjan! Það hef ég ekki gert! Ég, að halda honum í kjallaranum! Þér vitið víst ekki, hvað hann aðhefst þar. Ja, herra trúr! Ég skildi vera yður þakklátur alla mína æfi ef þér gætuð komið honum úr kjallaranum aftur — ég skyldi lofa yður og vegsama eins og verndarengil minn og átrúnaðargoð!«

»Jæja — hann er þá þarna niðri?«

»Já, og hann hefur víst einsett sér að vera þar framvegis. Honum er rétt eitt brauð á hverjum degi gegnum vindaugað og kjöt eins oft og hann krefst þess, en það er nú næsta lítilsvirði, sem hann eyðir af því. Einu sinni reyndi ég að fara þar inn með tvo pilta mína, en þá varð hann, alveg bandóður. Ég heyrði að hann hlóð pístólurnar og þjónninn byssuna. Við spurðum, hvers vegna þeir væru að því og hann svaraði, að þeir hefðu fjörutíu skot og þau skyldu öll í skrokkana á okkar ef við dirfðumst að stíga fæti inn fyrir kjallaradyrnar. Þá fór ég aftur til fylkisstjórans og kvartaði undan þessu við hann, en hann svaraði, að betra ætti ég ekki skilið, fyrst að ég móðgaði ærlegt fólk, sem leitaði gistingar hjá mér.«

»Og síðan — —?« sagði d'Artagnan og gat ekki að sér gert að hlæja að því, hve gestgjafinn bar sig aumlega.

»Síðan,« svaraði gestgjafinn, »höfum við lifað því aumasta lífi, sem hægt er að hugsa sér, því að við eigum allar vistir okkar geymdar í kjallaranum. Þar er allur vínforði okkar bæði í flöskum og ámum, þar eru kryddvörur og olía, reykt flesk og bjúgu - með öðrum orðum alt, sem við eigum til heimilisþarfa. Við getum ekki veitt gestum okkar mat eða drykk, fyrst að við fáum ekki að komast í kjallarann og gistihúsið legst í eyði. Ef þessi vinur yðar verður eina viku enn í kjallaranum, þá kemst ég á vonarvöl.« »Og til þess hafið þér líka unnið, óþokkinn yðar! Gátuð þér ekki séð það á okkur, að við vorum aðalsmenn, en engir þjófar eða peningafalsarar?«

»Jú, kæri herra, þetta er alveg rétt,« svaraði gestgjafinn, »en þei þei! Nú er hann að tryllast aftur!«

»Þið hafið þá enn gert eitthvað á hluta hans!« sagði d'Artagnan, »eða raskað ró hans.«

»Jú, en við vorum til neydd,« sagði gestgjafinn. »Það eru nýkomnir hingað tveir tignir Englendingar.«

»Nú-jæja! Og hvað um það?«

»Jú, Englendingar eru gefnir fyrir gott vín, eins og þér vitið og báðu um bestu tegund. Konan mín hefur víst beðið herra Athos leyfis að komast í kjallarann til þess að ná þessu handa gestunum og hann hefur auðvitað neitað henni um það, eins og hann er vanur. Ja, hamingjan góða! Nú byrjar gauragangurinn aftur!«

D'Artagnan heyrði nú líka hark og hávaða neðan úr kjallaranum. Hann stóð upp og gekk á hljóðið, gestgjafinn fórnaði höndum, en Planchet kom á eftir með hlaðna byssu.

Gestirnir voru bálreiðir. Þeir voru langt að komnir og hálfdauðir úr hungri og þorsta.

»Þetta er engu lagi líkt,« hrópuðu þeir, »Hvers vegna fær heimilisfólkið ekki að ná í sitt eigið vín fyrir þessum æðisgengna manni? Við skulum sprengja hurðina og stúta þessum kumpán, ef hann verður alveg óviðráðanlegur.«

»Hægan, hægan, herrar góðir,« sagði d'Artagnan og tók skammbyssur sínar af belti sér. »Þið stútið engum hérna.«

»Ja-jújú!« heyrðist Athos nú segja fyrir innan dyrnar, jafnrólegur og hann var vanur. »Látið þá bara koma — það skal verða saga til næsta bæjar!«

Englendingarnir voru hreystimenn, en þegar þeir heyrðu þessa rödd, varð þeim hálfhverft við. — Gat hugsast, að eitthvert ferlíki, eins og æfintýrin segja frá, væri falið í þessum kjallara og kæmist enginn óskemdur út aftur, sem þar færi inn.

Það varð stundarþögn, en svo fanst Englendingunum það lítilmannlegt að hörfa undan og sá þeirra, sem hugaðri var, gekk niður kjallarastigann og sparkaði svo myndarlega í hurðina, að alt lék á reiðiskjálfi.

»Heyrðu Planchet,« sagði d'Artagnan og dró upp bóginn á skammbyssunum. »Ég skal sjá fyrir þessum, sem er hérna uppi, en þú tekur hinn að þér, sem er niðri. Þið viljið þá fara í ilt, herrar góðir! Jæja — komið þá!«

»Hamingjan góða hvað er að tarna?« heyrðist nú Athos segja fyrir innan dyrnar. »Mér fanst ég kannast við málróm d'Artagnans.«

»Já, það er ég,« sagði d'Artagnan. »Það er ég, vinur minn.«

»Nú-jæja!« sagði Athos. »Við skulum láta þá fá að kenna á því — þessa piltunga, sem ætla sér að brjótast inn til manna.«

Englendingarnir brugðu sverðum, en hikuðu við þegar þeir sáu, að þeir voru staddir milli tveggja elda. Samt mátti hugrekki þeirra sér meira eins og áður og sparkaði annar þeirra í hurðina, svo að brakaði og brast í hverju tré.

»Gættu þín, d'Artagnan!« kallaði Athos. »Nú læt ég skotið ríða af.«

»Herrar mínir!« sagði d'Artagnan og brá sér hvergi. »Hugsið ykkur vel um! — Vertu stiltur, Athos! — Þetta er vond klípa, sem þið eruð komnir í, herrar góðir og þið eigið á hættu að verða skotnir í sundur ögn fyrir ögn. Við höfum þrjú skot, þjónninn minn og ég og jafnmörg megið þið búast við að fá úr kjallaranum. – Auk þess höfum við sverðin okkar og ég get fullvissað ykkur um, að bæði vinur minn og ég kunnum vel að beita þeim. Látið mig greiða fram úr þessu og svo skal ég von bráðar útvega ykkur einhver drykkjarföng — það megið þið reiða ykkur á.«

»Ef nokkuð er þá eftir!« sagði Athos ertnislega.

»Nokkuð eftir!« sagði gestgjafinn og sló út um hann köldum svita.

»Seisei-jú! Það er sjálfsagt eitthvað eftir,« sagði d'Artagnan. Þeir hafa fráleitt drukkið upp alt, sem var í kjallaranum, tveir einir. Slíðrið sverðin, herrar mínir!«

»Já, ef þér stingið pístólunum í beltið.«

»Með ánægju!« sagði d'Artagnan og gerði svo samstundis, vék sér að Planchet og benti honum að fella niður bóginn á byssunni, en Englendingarnir slíðruðu sverð sín, þegar þeir sáu, að hinum var alvara. D'Artagnan sagði þeim nú frá öllum atvikum að fangavist Athos og könnuðust þeir við, sem drenglyndir menn, að gestgjafinn hefði á röngu að standa. — Kvöddu þeir svo d'Artagnan og gengu burt.

»Nú er ég einn eftir, kæri Athos. Opnaðu nú dyrnar,« sagði d'Artagnan.

»Það skal gert,« svaraði Athos.

Því næst heyrðist hark og hávaði, brak og brestir í bjálkum og hrísköstum, sem þeytt var hingað og þangað og var það Athos að rífa niður víggirðingu sína. Litlu síðar var kjallarahurðinni lokið upp og sást í fölt andlitið á Athos. Hann skimaði flóttalega í kringum sig.

D'Artagnan féll um háls honum og myntist við hann og ætlaði að draga hann út úr hálfblautum kjallaranum, en tók þá eftir því, að hann var næsta valtur á fótunum.

»Ertu særður?« spurði hann í angist sinni.

»Ég, nei-ónei! Ég er bara dauðadrukkinn, kæri vin,« svaraði Athos. »Og það er nú raunar ekki svo undarlegt, því að ég hef gert alt mitt til að verða það. Biðjið þér fyrir yður, herra gestgjafi! Ég er sjálfsagt búinn að tæma á annað hundrað flöskur aleinn!«

»Hamingjan góða!« hrópaði gestgjafinn. »Ég er gereyðilagður maður, þó að þjónninn hefði ekki drukkið nema helming á móts við það.«

»Grimaud er prýðilega siðaður þjónn, skal ég segja yður og kæmi aldrei til hugar að herma eftir mér. Hann hefur víst haldið sér að ámunum. En þei-þei! Svei mér sem ég held ekki að hann hafi gleymt að snúa fyrir kranann! Það rennur úr ámunni!«

D'Artagnan rak upp skellihlátur, en gestgjafinn varð ýmist fölur sem nár eða rauður sem blóð.

Grimaud stóð að baki húsbónda sínum, en gekk nú fram. Hann hafði byssu um öxl og höfuðið dinglaði á báðar hliðar. Hann var fremur sóðalegur til fara og sá gestgjafinn strax, að hann hafði velt sér um hrygg í bestu matarolíunni.

Þeir lögðu nú leið sína um veitingastofuna allir fjórir og settust að í besta herberginu, sem Athos tók til sinna umráða án þess að spyrja um leyfi.

Gestgafinn og kona hans fengu sér luktir og skunduðu ofan í kjallarann, er þau höfðu ekki fengið að koma í til langs tíma, en þar var ófagurt umhorfs.

Athos hafði rofið skarð í víggirðingu sína til þess að komast út, en þeirri víggirðingu eða hleðslu hafði hann hrófað upp úr þurru kurli, bjálkabútum og tómum vínámum, alt eftir föstum reglum víggirðingalistarinnnr. Fyrir innan þetta alt saman sáust hingað og þangað hálfnagaðar hnútur innan um vín- og olíupolla, en úti í einu horninu var hrúga af brotnum flöskum og vínáma, sem var að leka úr sér seinustu dreggjunum. Hvert sem litið var, var ekki annað að sjá en »svívirðing foreyðslunnar.« Uppi í rjáfrinu höfðu hangið fimtíu bjúgu, en nú voru aðeins tíu eftir.

Gestgjafinn og kona hans hrinu hástöfum, svo að undir tók í öllu húsinu og tók d'Artagnan það allnærri sér, en Athos varð ekki einu sinni litið við.

En svo snerist saknaðar- og sorgarkvein þeirra hjóna í ofsa bræði. Gestgjafinn þreif steikaratein og æddi inn í stofuna til þeirra félaga.

»Vín!« sagði Athos, þegar hann sá gestgjafann.

»Vín!« hrópaði gestgjafinn forviða, »Vín segið þér! Þér eruð búinn að drekka fyrir hundrað gulldali og meira til og ég er gjöreyðilagður!«

»Hvaða bull!« sagði Athos. »Við höfum aldrei getað svalað þorstanum verulega.«

»Það hefði nú verið sök sér, ef þið hefðuð látið ykkur nægja að þamba þetta alt saman, en þar á ofan hafið þið mölvað allar flöskurnar!«

»Þér hrintuð mér á flöskuhlaða í einu horninu og þær hrundu allar niður, svo að það er sjálfum yður að kenna.«

»Þið hafið ónýtt alla olíuna!«

»Olían er eitthvert besta græðslumeðal við sárum. Grimaud var særður af yðar völdum og það var ekki nema sjálfsagt, að hann fengi eitthvað til að leggja við sár sín.«

»En bjúgun!«

»Þér vitið víst, að það úir og grúir af rottum í kjallaranum.«

»Þið skuluð fá að borga mér það altsaman!« grenjaði gestgjafinn, hamslaus af reiði.

»Þorparinn þinn!« sagði Athos og stóð upp - en datt strax ofan á stólinn aftur, því að hann gat ekki á fótunum staðið. D'Artagnan kom honum til liðveislu með reidda svipuna.

Gestgjafinn hörfaði aftur á bak og fór að skæla.

»Látið yður þetta að kenningu verða,« sagði d'Artagnan, »og veitið betri viðtökur öðrum gestum, sem bera kann að garði yðar, eða forsjónin sendir yður.«

»Forsjónin! Segið heldur fjandinn sjálfur.«

»Heyrið þér nú, gestgjafi góður,« sagði d'Artagnan. »Ef þér haldið áfram þessu bannsettu nöldri og nauði, þá lokum við okkur inni í kjallaranum, fjórir saman, og þá getum við séð, hvort hann er eins tómur og rúinn eins og þér látið.«

»Nú-já, herrar góðir! Ég skal játa, að ég hef rangt fyrir mér,« sagði gestgjafinn, »en allir eiga leiðrétting orða sinna. Ég er félaus og fátækur og bið ykkur meðaumkvunar.«

»Annað mál er það!, sagði Athos. »Hjarta mitt hrærist til meðaumkvunar þegar þú talar í þeim tón og tár mín flæða eins og vínið úr ámunni. Það eru ekki allir eins bölvaðir og þeir sýnast. Komdu hingað og talaðu við okkur.«

Gestgjafinn færði sig nær með mestu varasemi.

»Komdu hingað, segi ég, og vertu ekki svona heimóttarlegur,« sagði Athos. »Ég lagði pyngjuna mína á borðið, þegar ég ætlaði að borga þér forðum daga, eins og þú kannast víst við.«

»Já, herra!«

»Það voru sextíu gulldalir í henni. Hvar eru þeir?«

»Hjá yfirvöldunum, herra! Það var sagt, að peningarnir væru falsaðir.«

»Nú-jæja! Sæktu pyngjuna og hafðu þessa sextíu gulldali.«

»Jú, en þér vitið það víst, velborni herra, að yfirvöldin sleppa aldrei því, sem þau hafa fest hönd á. Það væri ekki vonlaust, ef peningarnir hefðu verið falsaðir, en nú er ekki því að heilsa.«

»Þú verður að reyna að ná samkomulagi við yfirvöldin, góðurinn minn — meira get ég ekki gert fyrir þig. Sjálfur hef ég ekki grænan eyri á mér.«

»Hvar er hestur Athos?« spurði d'Artagnan.

»Úti í hesthúsi.«

»Hvers virði ætli að hann sé?«

»Fimtíu gulldala í mesta lagi.«

»Hann er áttatíu gulldala virði. Taktu hann og látum svo úttalað um þetta.«

»Ætlarðu að selja hestinn minn?, sagði Athos. — »Selja klárinn minn undan mér? Á hverju á ég þá að ríða, Grimaud, þegar ég fer í næsta leiðangur?«

»Ég hef annan hest handa þér,« sagði d'Artagnan.

»Annan hest?«

»Já, og það er fyrirtaks gæðingur,« sagði gestgjafinn.

»Nú-jæja! Ef ég fæ annan hest, bæði betri og yngri, þá taktu gamla klárinn og færðu okkur eitthvað að drekka.«

»Hvað þóknast herranum?, spurði gestgjafinn og var nú öllu mýkri á manninn.

»Ég vil fá vínið, sem er inst við langböndin. Það eru eitthvað fimtíu flöskur eftir af því enn — hinar mölbrotnuðu þegar ég datt á þær. Færðu mér sex flöskur.«

»Þetta er skárri hítin,« tautaði gestgjafinn við sjálfan sig. »Ef hann yrði hér hálfan mánuð enn og borgaði alt, sem hann helti í sig, þá yrði ég ekki lengi að ná mér aftur.«

»Og gleymdu ekki,« sagði d'Artagnan, »að senda ensku gestunum fjórar flöskur.«

»Nú verðurðu að segja mér, hvað orðið er um hina félagana, meðan við bíðum eftir víninu,« sagði Athos.

D'Artagnan sagði honum frá, hversu hann hefði hitt Porthos rúmfastan og Aramis sitjandi við borð milli tveggja guðfræðinga. Þegar hann hafði lokið sögu sinni, kom gestgjafinn inn með vínið og reykt svínslæri, sem ekki hafði verið geymt í kjallaranum til allrar hamingju.

»Það er ágætt,« sagði Athos og helti á glösin fyrir sig og d'Artagnan. »Þetta var nú viðvíkjandi Porthos og Aramis, en hvað gengur að þér, vinur kær? Hvað hefur komið fyrir þig? Mér sýnist þú vera svo þungbúinn.«

»Ojæja!« sagði d'Artagnan. »Ég er víst verst farinn ykkar allra.«

»Þú verst farinn, d'Artagnan!« sagði Athos. »Látum okkur heyra, hvernig því víkur við. Segðu mér það vinur minn.«

»Já — seinna,« svaraði d'Artagnan.

»Seinna? Hvers vegna? Er það vegna þess, að ég er drukkinn? Kærðu þig ekkert um það — ég er aldrei jafn skarpur eins og við vín. Segðu bara frá — ég hlusta á.

D'Artagnan sagði honum þá, hvernig farið hefði fyrir sér og frú Bonacieux.

Athos hlustaði á hann steinþegjandi og bærði ekki á sér. Að sögunni lokinni sagði hann:

»Eymd og ólán alt saman — ólán og ekkert annað.«

Þetta voru hans vana-orð.

»Þú ert að tala um eymd og ólán,« sagði d'Artagnan, »en þér ferst nú varla að tala um slíkt — aldrei hefur þú elskað.«

Augun í Athos, dauf og dapurleg, leiftruðu alt í einu, en það var ekki nema örlitla stund. Svo döpruðust þau aftur og leiftrið hvarf.

»Já, það er alveg satt,« sagði hann stillilega. »Ég hef aldrei elskað neina manneskju.«

»Þér skilst þá víst,« sagði d'Artagnan, »að sá sem hefur annað eins stálhjarta, má ekki kasta þungum steini á okkur hina, sem erum viðkvæmari.«

»Viðkvæm hjörtu særast hæglega,« svaraði Athos.

»Hvað áttu við?«

»Ég á við það, að ástin sé einskonar hlutavelta, þar sem ekki er annan vinning að fá en dauðann. Trú mér til þess, kæri d'Artagnan, að þú ert sæll að hafa tapað og ætti ég að leggja þér ráð, þá yrði það þetta: Reyndu altaf að tapa.«

»Það var svo að sjá, sem hún elskaði mig innilega.«

»Já — það hefur auðvitað litið svo út — —«

»Ég er viss um að hún elskaði mig.«

»Dæmalaust barn ertu! Það er ekki til sá maður í víðri veröld, sem ekki hefur haldið, að ástkona hans elskaði hann og sá er heldur enginn, sem ekki hefur verið dreginn á tálar af ástkonu sinni.«

»Nema þú, Athos því að þú hefur aldrei átt hana neina.«

»Satt er það,« sagði Athos eftir stundarþögn. Ég hef aldrei átt neina. Við skulum drekka!«

»Já, — en heyrðu nú!« sagði d'Artagnan. »Fyrst að þú ert þessi spekingur, þá ber þér að fræða mig og hjálpa mér. Ég þarfnast bæði fræðslu og huggunar.«

»Huggunar í hverju?«

»Í óláni mínu.«

»Þetta svokallaða ólán þitt er bara til aðhláturs,« sagði Athos og ypti öxlum. »Það væri gaman að vita, hvað þú segðir, ef ég segði þér eina ástarsögu, sem ég þekki.«

»Var hún þér viðkomandi?«

»Mér eða einum kunningja mínum — það er alveg sama.«

»Segðu mér hana, kæri Athos — góði, segðu mér hana.«

»Nei. Við skulum drekka — það er mildu skynsamlegra.«

»Þú getur bæði drukkið og sagt frá.«

»Nú-jæja, það er eitthvað til í því,« sagði Athos, tæmdi glasið og helti á það aftur. »Það tvent getur átt samleið.«

»Ég heyri og hlýði,« sagði d'Artagnan.

Athos fór að reyna að jafna sig, en d'Artagnan sá, að því meira sem hann reyndi til þess, því fölari varð hann. Hann var kominn á það stig ölvímunnar, er alvanir drykkjumenn velta út af steinsofandi, en hann dreymdi án þess að hann sofnaði. Þessi dáleiðsla ofdrykkjunnar var hræðileg á að líta.

»Þú vilt fá að heyra þessa sögu, hvað sem tautar?« spurði hann.

»Já, þess bið ég þig umfram alt,« svaraði d'Artagnan.

»Jæja, það er þá best, fyrst að þig langar svona mikið til þess. Einn kunnungi minn — ekki ég sjálfur, heyrirðu það — var greifi úr sama landsfjórðungi og ég, nefnilega Berry og kominn af hinum tignustu ættum. Þegar hann var 25 ára, feldi hann ást til sextán ára gamallar stúlku, er var fögur sem ástargyðjan sjálf. Samfara þeirri einfeldni og einlægni, sem eðlilegt var á hennar aldri, hlaut maður líka að taka eftir eldfjörugri sál og djúphygni, sem ekki er konum eiginleg, heldur skáldum einum — menn hlutu að verða algerlega heillaðir af henni.

Hún átti heima í litlu þorpi og bjó þar hjá bróður sínum, er var prestur. Bæði voru þau aðkomandi í þorpinu, en enginn vissi, hvaðan þau komu, og enginn var heldur að grenslast eftir því, þar sem allir voru heillaðir af fegurð hennar og hann virtist vera góður og guðhræddur maður. Annars var sagt, að þau væru af góðu fólki kominn. Kunningi minn var einhver voldugasti stóreignamaðurinn þar um slóðir og hefði getað gert við hana, hvað sem honum sýndist — tælt hana eða smánað hana alveg eftir eigin geðþótta, því að hann réði þar öllu og enginn hefði farið að bera hönd fyrir höfuð þessara aðskotadýra, sem enginn þekti. En til allrar ógæfu var hann heiðarlegur maður og svo giftist hann henni – asninn sá arna!«

»Já — af því að hann elskaði hana,« sagði d'Artagnan.

»Bíddu nú við,« sagði Athos. Hann tók hana í höll sína og gerði hana að tignustu konunni þar nærlendis, enda mátti hún eiga það, að hún sómdi sér prýðilega í stöðu sinni.«

»Og hvernig fór svo?« spurði d'Artagnan.

»Einhverju sinni reið hún út á veiðar með manni sínum,« hélt Athos áfram, lækkaði röddina og bar ótt á. »Þá vildi svo til, að hún datt af hestbaki og féll í öngvit. Greifinn flýtti sér til hennar og fór að stumra yfir henni, risti föt hennar upp með veiðihníf sínum og reif þá óvart nærskyrtuna, svo að önnur öxlin var ber fyrir — og hvað heldurðu nú, d'Artagnan, að hann hafi séð á öxlinni,« sagði Athos og hló hrottalega.

»Það er mér ómögulegt að giska á,« sagði d'Artagnan.

»Hún var brennimerkt á öxlinni,« sagði Athos og rendi út úr glasinu, sem hann hélt á.

»Það var hræðilegt!« sagði d'Artagnan.

»En engu að síður satt! Þessi engill var ekkert annað en flagð og forað og stórþjófur í tilbót.«

»En hvað gerði greifinn?«

»Greifinn var voldugur maður og mikils megnandi og hafði vald á lífi og limum manna á jarðeignum sínum. Hann tætti fötin utan af greifafrúnni, batt hendur hennar á bak aftur og hengdi hana í næsta tré.«

»Hamingjan góða! Það var hreinasta morð!«

»Já — víst var það morð, en hvað um það?.« sagði Athos og var nú orðinn náfölur, »En við erum nú víst að ljúka við vínið.«

Að svo mæltu tók Athos seinustu flöskuna af borðinu, setti hana á munn sér og tæmdi hana í einum teig, rétt eins og það hefði verið einn munnsopi. Að því búnu huldi hann andlit sitt höndum, en d'Artagnan starði á hann agndofa og óttasleginn.

»Þetta varð til þess, að ég feldi ekki oftar hug til fagurra, skáldlegra og ástleitinna kvenna,« sagði Athos og stóð upp. »Það væri betur, að svo færi fyrir þér líka. Við skulum drekka!«

»Hún er þá dauð, eftir þessu?« sagði d'Artagnan.

»Já — auðvitað er hún það!« sagði Athos.

»En bróðir hennar?« spurði d'Artagnan.

»Bróðir hennar?« tók Athos upp aftur.

»Já — presturinn?«

»Ég leitaði hans lengi til þess að láta hengja hann líka, en hann var þá strokinn frá kirkju og kalli og öllu saman.«

»Og veit þá enginn, hvað orðið hefur um hann?«

»Hann var auðsjáanlega fyrsti elskhuginn hennar og eflaust altaf í vitorði með henni. Hann lést vera prestur til þess að geta gift öðrum þessa lagskonu sína og ég vona, að hann hafi einhverstaðar verið settur á hjól og steglur.«

D'Artagnan var alveg gagntekinn af ótta og skelfingu yfir þessari hræðilegu sögu.

»Fáðu þér bita af svínslærinu þarna, d'Artagnan — það er ágætis matur,« sagði Athos. »Það var leitt, að það skyldu engin svínslæri vera í kjallaranum! Ég hefði þá drukkið fimtíu flöskur í viðbót.«

D'Artagnan gat ekki hlustað á þetta tal lengur. Hann hallaði höfðinu fram á borðið og lést sofna.

»Þessir ungu nútímamenn þola ekki að fá sér í staupinu,« sagði Athos og leit á félaga sinn meðaumkvunaraugum. »Og þó er sagt, að þessi sé einna skástur.«

XII. Heimferðin.

D'Artagnan ógnaði þessi saga, sem Athos hafði sagt honum. Samt voru sum atriði í henni, sem honum þóttu óljós. Að vísu var það dauðadrukkinn maður, sem sagt hafði söguna hálfdrukknum manni, en þrátt fyrir það mundi d'Artagnan, þegar hann vaknaði morguninn eftir, greinilega hvert einasta orð. Hann langaði því mjög til að fá fyllri vitneskju um þetta efni og gekk til félaga síns í þeim tilgangi að fá hann til að taka upp söguþráðinn aftur. Þegar hann hitti Athos, var hann orðinn stiltur og rólegur, en jafnvel enn dulari og fálátari, en hann átti vanda til.

Skyttuliðinn varð fyrri til að minnast á þetta og sagði:

»Ég var víst nokkuð kendur í gær, kæri d'Artagnan. Ég fann það í morgun á óbragðinu í munninum og svo slær æðin fremur óreglulega. Það var víst auma ruglið, sem ég var að segja.«

»Nei — ég man ekki eftir, að það væri neitt sérstaklegt rugl.«

»Jæja — það furðar mig! Ég hélt að ég hefði sagt þér afarsorglega sögu,« sagði Athos og hvesti á hann augun.

»Ég hef víst verið enn kendari en þú, því að ég man ekkert eftir þessu,« svaraði d'Artagnan.

En Athos lét sér ekki þetta svar nægja.

»Þú hefur líklega tekið eftir því, kæri vin,« sagði hann, »að vín hefur mjög misjöfn áhrif menn. Sumir verða daprir og aðrir kátir. Ég er nú einn af þeim, sem verð dapur við vín og er vanur, þegar ég drekk mig drukkinn, að segja ýmsar sorgarsögur, sem amma mín var að troða í mig þegar ég var lítill. Þetta er auðvitað leiðinlegur og hlægilegur kækur, en annars get ég drukkið á við hvern annan.«

Athos sagði þetta svo blátt áfram og einlæglega, að það fóru að renna tvær grímur á d'Artagnan.

»Jú, eitthvað er nú til í þessu,« sagði hann. »Þetta er alt eins og í þoku fyrir mér, en ætli að þú hafir ekki verið að segja frá einhverjum, sem var hengdur?«

»Já, þarna kemur það,« sagði Athos. Hann brá litum og reyndi að brosa. »Ég mátti næstum ganga að því vísu, því að þetta er næstum orðin einhver rótgróin vitleysukredda hjá mér á vissu stigi ölvímunnar.«

»Einmitt það!« sagði d'Artagnan. »Nú fer ég að ranka við mér. Sagan var um — ja, bíddu nú við — hún var um einhverja konu.«

»Það er svo sem auðvitað,« sagði Athos og var nú orðinn gulgrár í framan. »Það hefur verið reyfarasagan um ljóshærðu konuna. Þegar ég fer að segja hana, þá er ég orðinn dauðadrukkinn.«

»Já, eitthvað var það þess háttar,« sagði d'Artagnan. »Sagan var um forkunnarfríða konu, ljóshærða og bláeygða.«

»Já — og sem var hengd á endanum.«

»Og það var maðurinn hennar, sem hengdi hana. Hann var maktar maður og kunningi þinn,« sagði d'Artagnan og hvesti augun á Athos.

»Já þarna getirðu séð, hvað maður getur gert öðrum manni rangt til, þegar maður veit ekki sitt rjúkandi ráð,« sagði Athos og ypti öxlum. »Ég skal aldrei drekka mig fullan oftar d'Artagnan — það er ósæmilegt.«

D'Artagnan svaraði engu og vék Athos talinu þá að öðru.

»Vel á minst,« sagði hann. »Ég þakka þér kærlega fyrir hestinn, sem þú færðir mér.«

»Líst þér vel á hann?« spurði d'Artagnan.

»Já, en ég held að hann þoli varla slarkferðir.«

»Það er misskilningur. Ég hef riðið honum fjórar mílur á tæpum hálfum öðrum tíma og það bar ekki meira á honum heldur en ef ég hefði skroppið bæjarleið.«

»Það er svo. Mér þykir það leiðinlegt.«

»Þykir þér það leiðinlegt?«

»Já — því að ég á hann ekki lengur.«

»Við hvað áttu?«

»Ja, taktu nú eftir. Ég vaknaði klukkan sex í morgun. Þá svafst þú eins og selur og ég vissi ekki, hvað ég átti af mér að gera, enda var ég hálringlaður eftir alt svallið í gær. Gekk ég þá ofan í veitingastofuna og hitti þar annan Englendinginn, er var að semja við hestaprangara. Ég gekk til þeirra og þegar ég varð þess áskynja, að hann bauð hundrað gulldali fyrir úttaugaðan húðarjálk, þá sagði ég við hann, að ég gæti líka selt honum hest,«

»Já — og það verulega fallegann hest,« sagði hann. »Ég sá hann í gær þegar þjónninn yðar tók við honum.«

»Haldið þér, að hann sé hundrað gulldala virði?«

»Já, viljið þér selja mér hann fyrir það verð?«

»Nei, en ég vil spila um hann við yður.«

»Viljið þér spila um hann?«

»Já.«

»Hvað eigum við að spila?«

»Við skulum varpa teningum.«

»Það gerðum við líka og ég tapaði hestinum, en reiðtygin vann ég aftur.«

D'Artagnan varð fremur ygldur á brúnina.

»Ertu óánægður við mig?« spurði Athos svona hinseginn.

»Já, ekki get ég neitað því,« svaraði d'Artagnan. »Ég ætlaðist til, að við værum auðþektir á hestunum þegar við færum í herferð næst. Þeir voru gjöf til endurminningar og þetta var ekki fallega gert af þér, Athos.«

»Já, en settu þig í mín spor, kæri vin,« svaraði Athos. »Ég ætlaði að drepast úr leiðindum og auk þess er mér ekkert um enska hesta. Ef um það er að gera, að við séum auðþektir á einhverju, þá held ég að reiðtygin nægi til þess — þau eru ekki svo óféleg, en hvað hestana snertir, þá er víst hægt að kenna einhverju um, að við höfum þá ekki lengur. Hestar geta þó líklega drepist, til dæmis úr hrossasótt eða ormaveiki.«

D'Artagnan var alt af þungbrýnn mjög.

»Mér þykir það afar leiðinlegt,« hélt Athos áfram, »að þig skuli taka svona sárt til þessara hesta, því að ekki er alt búið enn.«

»Hefurðu þá gert fleiri glappaskotin?«

»Þegar ég var búinn að tapa mínum hesti níu á móti tíu, sögðu teningarnir — þá datt mér í hug að setja þinn hest undir.«

»Ég vona, að þú hafir þó hætt við það aftur.«

»Ja-neinei. Ég gerði það undir eins.«

»Nú er mér sannarlega nóg boðið,« sagði d'Artagnan.

»Við vörpuðum teningunum og ég tapaði.«

»Hestinum mínum!«

»Já, þínum hesti. Sjö á móti átta — einu teningsauga of fátt!«

»Þú hefur ekki verið með öllum mjalla, maður!«

»Það hefðirðu mátt halda í gær, þegar ég var að segja þér þessar kynjasögur, en í dag er ég fullkomlega með sjálfum mér. Ég tapaði hestinum þínum með reiðtýgjum og öllu saman!«

»Það er voðalegt!«

»Bíddu nú við — sagan er ekki öll úti enn. Ég væri ágætur spilamaður, ef ég kæmist ekki í æsing, en það kemst ég stundum, alveg eins og þegar ég drekk mig fullan. Ég varð líka óður og uppvægur í þetta skifti — —«

»En hvað gastu spilað um, þegar þú varst búinn að tapa mínum hesti? Þú áttir þá ekkert eftir.«

»Seisei-jú! Enn var eftir steinhringurinn, sem þú berð á hendinni. Ég tók eftir honum í gær.«

»Steinhringurinn!« hrópaði d'Artagnan og þreif ósjálfrátt til hringsins.

»Ég hef gott vit á þeim hlutum og átti sjálfur forðum daga ýmislegt þess konar dót. Ég áleit að hann væri þúsund gulldala virði.«

»Ég vona, að þú hafir ekki nefnt hann við nokkurn mann,« sagði d'Artagnan með öndina í hálsinum.

»Þvert á móti, kæri vin. Hringurinn var okkar einasta hjálparhella, eins og þú getur skilið. Með hans hjálp gat farið svo, að ég inni aftur reiðtýgin okkar, hestana okkar og kannske ferðapeninga þar á ofan.«

»Þú gerir mig verulega skelkaðan,« sagði d'Artagnan.

»Ég mintist á hringinn við Englendinginn og hafði hann sjálfur veitt honum eftirtekt. Satt að segja, kæri vin, gengur þú með eina af stjörnum himins á hendi þér og ætlast til, að engum verði starsýnt á hana — en slíkt nær engri átt.«

»Blessaður, haltu áfram,« sagði d'Artagnan. »Þú ætlar hreint að gera út af við mig með öllum þessum málalengingum.«

»Við skiftum hringum í tíu deildir — hundrað gullpeninga í hverri.«

»Þú ert víst að gera að gamni þínu,« sagði d'Artagnan og fór nú að þykna í honum.

»Nei, ég er ekki að gera að gamni mínu, það veit hamingjan. Það væri fróðlegt að vita, hvað þú hefðir gert í mínum sporum. Ég hafði ekki séð ærlega manneskju í hálfan mánuð og var að verða að hreinasta fábjána innan um allar flöskurnar.«

»En þrátt fyrir það áttirðu ekkert með að spila um hringinn minn,« sagði d'Artagnan og krepti hnefann ósjálfrátt.

»Nú skaltu heyra hvernig fór. Þetta voru tíu teningsköst — hundrað gulldali hvert — og þar af skyldi ekki eitt einasta vinnast! Ég tapaði aleigu minni og öllu saman í þrettán köstum. Talan 13 hefur annars alt af verið mér óheillatala. Það var 13. júlí sem —« ­ »Nei, hættu nú í öllum guðanna bænum!« sagði d'Artagnan og stóð upp frá borðinu. Hann gleymdi alveg kynjasögunni daginn áður yfir öllu því, sem hann fékk að heyra í dag.

»Vertu nú rólegur!« sagði Athos. »Þá datt mér alt í einu nokkuð í hug. Þessi Englendingur er dæmalaus sérvitringur. Ég hafði séð hann vera að skrafa eitthvað við Grimaud og Grimaud sagði mér, að hann hefði viljað ráða sig í vist til sín. Þá setti ég Grimaud undir — Grimaud hinn þögla — og skifti honum í tíu deildir.«

»Nei, þetta keyrir fram úr öllu hófi!« sagði d'Artagnan og gat ekki varist hlátri.

»Grimaud í eigin háu persónu — skilurðu það! Og með þessum tíu deildum í Grimaud, sem ekki er eins gulldals virði allar saman, vann ég steinhringinn aftur. Neitaðu nú ef þú getur, að þolinmæðin vinni allar þrautir.«

»Þetta er sannarlega skringilegt!« sagði d'Artagnan og veltist um af hlátri.

»Þú getur nærri, að ég hélt áfram að spila þegar ég sá, að hamingjan brosti við mér og setti nú hringinn undir aftur.«

»Nei, hættu nú!« sagði d'Artagnan og varð alvarlegur aftur.

»Ég vann aftur reiðtýgin þín og hestinn þinn, þar næst mín reiðtýgi og minn hest — og tapaði svo öllu aftur, en á endanum fóru leikar svo, að ég gat bjargað reiðtýgjunum okkar beggja. Það var reglulega gott kast og þar við lét ég sitja.«

D'Artagnan hægðist svo við þetta, að honum fanst, sem létt væri af sér þungu fargi.

»Ég held þá steinhringnum?« spurði hann angistarfullur.

»Já, auðvitað — og reiðtýgjunum líka, eins og ég sagði.«

»En hvað eigum við að gera við reiðtýgi þegar við höfum enga hestana?«

»Mér dettur eitt í hug.«

»Nú gerirðu mig hræddan aftur, Athos.«

»Heyrðu nú — er ekki langt síðan að þú hefir varpað teningum, d'Artagnan?«

»Ég hef enga löngun til þess.«

»Ekki skaltu nú bölva þér upp á það. Þú hefir ekki kastað teningum langa-lengi og þá er áreiðanlegt, að hamingjan er þér hliðholl.«

»Og hvað þá?«

»Englendingurinn er hérna enn og félagi hans líka. Ég sá að honum gramdist að ná ekki í reiðtýgin. Þú virðist taka þér það nærri að hafa mist hestinn. Í þinum sporum skyldi ég nú halda reiðtýgjunum á móti hestinum.«

»Hann kærir sig líklega ekki um ein reiðtýgi.«

»Settu þau þá hvortveggju undir. Ég er ekki eins sínkur og þú!«

»Finst þér það?« spurði d'Artagnan. Það voru farnar að renna á hann tvær grímur.

»Eitt kast um bæði!«

»En okkur er áríðandi að halda reiðtýgjunum fyrst að við erum búnir að missa hestana.«

»Settu þá hringinn undir!«

»Nei, ég held nú ekki — það geri ég aldrei!«

»Hvaða vitleysa,« sagði Athos. »Ég væri til með að spila um Planchet, en ég er ekki viss um að Englendingurinn kæri sig um meira af svo góðu.«

»Ég vildi helst ekki þurfa að hætta neinu, Athos minn,« sagði d'Artagnan.

»Það er leiðinlegt,« sagði Athos, »því að Englendingurinn hefur sand af peningum. Reyndu eitt kast að minsta kosti — það er fljótgert.«

»En ef ég skyldi nú tapa?«

»Þú vinnur.«

»En segjum nú samt, að ég tapi.«

»Nú-jæja! — Þá læturðu hann fá reiðtýgin.«

»Jæja þá — eitt kast!« sagði d'Artagnan.

Athos fór að leita að Englendingnum og fann hann úti í hesthúsi — var hann þar að skoða reiðtýgin. Athos bar fram uppástungu sína: hvortveggju reiðtýgin móti öðrum hestinum eða hundrað gulldölum eftir samkomulagi. Englendingurinn hugsaði sig um. Hann giskaði á, að reiðtýgin væru þrjú hundruð dala virði hvor um sig og gekk hann svo að þessu.

D'Artagnan varpaði teningunum með skjálfandi hendi og upp komu þrjú »augu«: ás og daus. Athos hnykti við að sjá, hve fölur hann varð.

»Þetta var auma kastið, kunningi,« sagði Athos. »Þér fáið eflaust reiðtýgin, herra góður.«

Englendingurinn tók teningana, hristi þá lítillega og varpaði þeim á borðið án þess að líta á þá, en d'Artagnan snéri sér undan til þess að leyna geðshræringu sinni.

»Nei — lítið á!« sagði Athos jafnrólegur og hann var vanur. »Þetta var merkilegt kast! Ég hef að eins séð það fjórum sinnum á æfinni — tvö augu!«

Englendingurinn leit á teningana steinhissa og d'Artagnan líka mjög ánægjulega.

»Já,« sagði Athos, »Ég hef séð svona kast fjórum sinnum: í fyrsta sinni hjá herra de Créguy; annað sinn heima í höllinni minni — — þá átti ég nefnilega heila höll; í þriðja sinn heima hjá herra de Tréville og urðu allir viðstaddir hissa á því og í fjórða sinn í veitingahúsi nokkru. Þar gerði ég þetta kast sjálfur og tapaði hundrað gulldölum og miðdagsverði.«

»Þér viljið þá fá hestinn aftur?« spurði Englendingurinn og vék sér að d'Artagnan.

»Já,« svaraði hann.

»Og ekki viðlit að fá að kasta aftur?«

»Nei — þér munið víst, að svo var um samið.«

»Já, það er alveg satt. Þjónninn yðar getur tekið hestinn.«

»Bíðið ögn við!« sagði Athos. »Mig langar til að segja ofurlítið við vin minn.«

»Velkomið!«

Athos vék d'Artagnan til hliðar.

»Nú ætlarðu að freista mín og fá mig til að halda áfram,« sagði d'Artagnan.

»Nei — en ég vil að þú hugsir þig betur um þetta.«

»Og til hvers þá?«

»Ég á við, hvort þú ætlar að taka hestinn aftur?«

»Já, það ætla ég.«

»Það er fásinna — taktu heldur peningana. Þú manst, að þú getur fengið þessa hundrað dali, ef þú vilt.«

»Já, ég man það.«

»Ég tæki peningana heldur.«

»Má vera, en ég tek nú hestinn.«

»Það er tóm vitleysa, segi ég enn og aftur. Hvað eigum við tveir að gera við einn hest? Ekki get ég riðið fyrir aftan þig — það væri heldur sjón að sjá! Og ekki ferðu að gera mér það til minkunar að láta mig ganga en sitja sjálfur á afbragðs gæðingi. Ég mundi ekki skoða huga minn um þetta, heldur taka þessa hundrað gulldali, því að við þörfnumst þeirra til þess að geta komist til Parísar aftur.«

»Já, en ég tek nú hestinn samt sem áður.«

»Það ættirðu ekki að gera, vinur minn. Hesturinn getur fótbrotnað eða helmeiðst eða smittast af hrossakvefi og hvað þá? Það þarf peninga til að ala hestinn, en peningarnir ala mann sjálfan.«

»En hvernig eigum við þá að komast til Parísar?«

»Á hestum þjónanna okkar. Sjálfir berum við það með okkur, að við erum aðalsmenn.«

»Ójá — það verður heldur laglegt að sjá okkur á tveimur húðarbikkjum í för með þeim Porthos og Aramis á ljónfjörugum gæðingum!«

»Porthos og Aramis!« hrópaði Athos og fór að skellihlæja.

»Nú-jájá!« sagði d'Artagnan og skildi ekkert í þessari skyndilegu kæti.

»Gott og vel. Við skulum tala betur um þetta,« sagði Athos.

»Þú heldur þá — —«

»Að þú ættir að taka peningana. Já, það held ég sannarlega. Fyrir þessa peninga getum við lifað kóngalífi það sem eftir er af mánuðinum. Við höfum haft nóg af striti og stímabraki nú undanfarið og væri gott að geta hvílt sig dálítið.«

»Hvíla sig! Nei, Athos! Undir eins og ég kem til Parísar, fer ég að leita að frú Bonacieux!«

»Einmitt það! En heldurðu þá, að þú hafir sama gagn af hestinum og hundrað gulldölum? Nei, ég segi þér satt — taktu peningana vinur!«

Þetta fanst d'Artagnan nægileg ástæða til þess að láta undan og auk þess óttaðist hann, að Athos færi að álíta sig lakan félaga, ef hann þybbaðist fyrir lengur. Kaus hann þá peningana og taldi Englendingur þá fram þegar í stað.

Nú var þá ekki annað eftir en að komast af stað og urðu friðarkostirnir við gestgjafann þeir, að hann fengi sex gulldali í ofanálag með gamla hestinum, sem Athos átti. D'Artagnan og Athos stigu á bak hestum þjóna sinna, en Planchet og Grimaud fóru gangandi og báru hnakka sína á bakinu.

Þó að þeir hefðu þannig fremur lélega reiðskjóta, urðu þeir samt brátt á undan, þjónum sínum og komust til Crévecoeur.

Þeir sáu Aramis álengdar. Stóð hann við gluggann og starði út í bláinn.

»Hvað er nú, Aramis? Hvern skrattann ertu að spegúlera? kölluðu þeir félagar.

»Nei — eruð þið komnir!« sagði Aramis. »Ég var að hugsa um, hvað alt er fallvalt í þessari veröld, Enski hesturinn minn, sem var rétt núna að rjúka af stað á hvínandi spretti, var mér sönn ímynd hverfulleiks allra jarðneskra hluta. Það má tákna alla lífsins leið með þessum þremur orðum: Erat, est, fuit.«

»Hvað er nú á seiði?« spurði d'Artagnan og fór að gruna margt.

»Ekki annað en það að ég gerði hrakleg kaup: sextíu gulldali fyrir hest, sem eflaust getur hlaupið þrjár mílur á klukkutímanum.«

D'Artagnan og Athos ráku upp skellihlátur.

»Þú mátt ekki reiðast mér, kæri d'Artagnan,« sagði Aramis, »en nauðsyn brýtur lög segja menn. Annars bitnar þetta mest á mér, því að sá árans hestaprangari hefur haft af mér fimtíu dali að minsta kosti. En þið eruð karlar, sem kunnið að spara hlutina — komið ríðandi á hestum þjóna ykkar og látið þá teyma gæðingana lausa í hægum áföngum.«

Í þessum svifunum bar þar að kerru, sem hafði verið að skrönglast þangað frá Amiens, en út úr kerrunni stigu þeir Planchet og Grimaud með hnakka sína á bakinu. Kerran var á leið til Parísar og lofuðu þeir að halda ökumanninum óþyrstum á leiðinni gegn því að fá að sitja í kerrunni.

»Hvað er nú þetta?« spurði Aramis. »Hafa þeir ekki annað en hnakkana meðferðis?«

»Skilurðu nú, að hverju við vorum að hlæja?« spurði Athos.

»Við höfum þá farið eins að ráði okkar, allir þrír, en ég hélt þó hnakknum eftir,« sagði Aramis. »Heyrðu Basin! Sæktu nýja hnakkinn minn og láttu hann hjá hinum.«

»Hvernig líður prestunum þínum?« spurði d'Artagnan.

»Ég bauð þeim til miðdagsverðar daginn eftir að þú fórst,« svaraði Aramis. »Vínið hérna er afbragðs gott og ég helti þá svo fulla, að meira komst ekki í þá. Sóknarpresturinn harðbannaði mér að fara nokkurn tíma úr hermannabúningnum og Ésúítinn bað mig að hjálpa sér til þess, að fá upptöku í skyttulið konungs! Síðan hef ég lifað góðu lífi í ró og makindum. Ég hef verið að yrkja kvæði með einsatkvæðis-hendingum. Það er fremur erfitt viðfangs, en listin er að yfirstíga erfiðleikana. Það er ástakvæði og ég skal lesa fyrsta kaflann af því fyrir ykkur. Hann er fjögur hundruð hendingar og það er enga stund verið að lesa hann.«

»Kæri Aramis!« sagði d'Artagnan, sem hafði jafn mikla óbeit á kvæðum og Latínulestri. »Ef kvæðið er bæði stutt og dýrt kveðið, þá eru það tveir meginkostir að segja má.«

»Í því kennir líka hinna göfugustu tilfinninga,« hélt Aramis áfram. »Jæja nú! Eigum við þá að halda til Parísar aftur? Ég er albúinn til ferðar fyrir mitt leyti og hlakka til að fá að sjá Porthos aftur. Viljið þið trúa því, að ég er farinn að sakna hans barnslegu sálar? Ekki hefur hann farið að farga hestinum sínum, jafnvel þótt honum hefði boðist heilt kóngsríki fyrir hann og það verður gaman að sjá hann á hestbaki aftur. Þá held ég að verði nú völlur á honum!«

Þeir áðu þarna í sex tíma til að hvíla hestana. Aramis borgaði reikning sinn og útvegaði Basin sæti á kerrunni með félögum sínum. Héldu þeir svo áleiðis til að hitta Porthos.

Hann var nú á fótum og ekki út af eins lotlegur og þegar d'Artagnan kom til hann í fyrra skiftið. Sat hann aleinn við borð, sem þó var breitt á fyrir fjóra, en vistirnar, sem á því stóðu, voru fyrirtaks kjötréttir, ágæt vín og gómsætir ávextir.

»Ja, hvað er að tarna!« sagði hann og reis úr sæti sínu, »Þið komið alveg mátulega, herrar góðir. Ég er að byrja á súpunni og nú getið þið sest að snæðingi líka.«

»Hó-hæ!« sagði d'Artagnan. »Mousqueton hefur víst farið á fjörurnar eftir pytlunum og skárri er það nú nautakjötssteikin!«

»Ég er að reyna að ná mér aftur,« sagði Porthos. »Það fer ekkert eins illa með mann og hnémeiðsli. Hefurðu nokkurn tíma meitt þig, Athos?«

»Nei, það hef ég ekki, en ég man, að sverðshöggið, sem ég fékk í bardaganum í Ferou-götunni, hafði nákvæmlega sömu áhrif á mig.«

»Þessi miðdagsverður var víst ekki ætlaður þér einum, kæri Porthos?« spurði Aramis.

»Nei,« svaraði Porthos. »Ég átti von á nokkrum nágrönnum mínum, en þeir hafa sent afboð. Nú getið þið komið í þeirra stað og skaðast ég þá vissulega ekki á skiftunum. Heyrðu Mousqueton! Komdu hingað með stóla og nógar flöskur í viðbót!«

»Vitið þið, hvað við erum að borða?« spurði Athos litlu síðar.

»Já, ég er að borða kálfaketssteik með kálmauki,« sagði d'Artagnan.

»Og ég er með dilkakjöt,« sagði Porthos.

»Og ég með hænsnakjötsstöppu,« sagði Aramis.

»Ykkur skjátlast öllum,« sagði Athos alvarlega. »Við erum að éta hrossakjöt.«

»Hvaða vitleysa!« sagði d'Artagnan.

»Hrossakjöt!« sagði Aramis með viðbjóði, en Porthos þagði.

»Já, víst er það hrossakjöt. Er það ekki satt, Porthos? Kannske að reiðtýgin hafi verið matreidd líka?«

»Nei, herra góðir! Reiðtýgjunum hélt ég eftir!« sagði Porthos.

»Við erum svei mér góðir þessir fjórmenningar!« sagði Aramis. »Það er engu líkara, en að við skyldum hafa talað okkur saman áður.«

»Ja, hvað átti ég að gera?« sagði Porthos. »Allir gestir mínir sáröfunduðu mig af hestinum og ég vildi ógjarna vera að skaprauna þeim.«

»Er hertogafrúin þín altaf á baðstaðnum?« spurði d'Artagnan.

»Já,« svaraði Porthos. »Fylkisstjórinn hérna var einn af þessum nágrönnum, sem ég átti von á til miðdagsverðarins. Hann var svo hrifinn af hestinum, að ég gaf honum hann.«

»Gafstu honum hestinn?« spurði d'Artagnan.

Já, það er mér óhætt að segja, því að hesturinn var sjálfsagt hundrað og fimtíu gulldala virði, en þessi fjárans svíðungur fékkst ekki til að borga meira en áttatíu fyrir hann.«

»Hnakklausan?« spurði Aramis.

»Já, hnakklausan.«

»Þarna sjáið þið nú,« sagði Athos, »að Porthos hefur gert langbest kaupin.«

»Þeir hlógu dátt að þessu og Porthos líka, þegar þeir sögðu honum hvernig á stóð.

»Við erum þá að ýmsu leyti allvel fjáðir,« sagði d'Artagnan.

»Ekki ég,« svaraði Athos. »Mér féll svo vel spánska vínið hjá honum Aramis, að ég lét flytja sextíu flöskur út í kerruna til þjónanna og það kostaði mig talsvert.«

»Ég gaf mína seinustu peninga kirkjunni í Montdidier og Ésúítunum í Amiens,« sagði Aramis. »Auk þess hef ég pantað sálumessur handa okkur öllum, en ég verð að álíta, að þeim peningum sé vel varið.«

»Og hnémeiðslið hefur orðið mér æði útdragssamt,« sagði Porthos, »að ég ekki nefni sárið á Mousqueton, sem læknirinn varð að verka tvisvar á dag. Sá þrjótur tók líka tvöfalda borgun og sagði, að Mousqueton hefði verið sá klaufi, að láta kúluna lenda á þann stað, sem annars er ekki vant að sýna öðrum en skottulæknum. En nú hef ég líka skipað Mousqueton að gæta þess framvegis, að særast ekki á þeim stað.«

»Nú-jæja!« sagði Athos og brosti framan í þá Aramis og d'Artagnan. »Það má segja, að þér hefur farist vel með þjón þinn, eins og góðum húsbónda sæmir.«

»Það er skemst af að segja,« sagði Porthos, »að þegar ég er búinn að borga, það sem mér ber, þá hef ég líklega þrjátíu dali afgangs.«

»Og ég tíu eða tólf,« sagði Aramis.

»Þá erum það við tveir, sem erum loðnastir um lófana,« sagði Athos. »En hvað áttu annars eftir af þínum hundrað gulldölum d'Artagnan?«

»Af mínum hundrað gulldölum? Ja — fyrst fékst þú nú fimtíu.«

»Hvað ertu að segja?«

»Ég sagði, að fyrst hefðir þú fengið fimtíu gulldali.«

»Já, það er alveg satt — nú man ég það.«

»Þar næst borgaði ég gestgjafanum sex.«

»Gestgjafa-úrþvættinu! Hvers vegna varstu að fá honum sex gulldali?«

»Af því að þú sagðir mér að gera það.«

»Satt er það — ég er líka altof örlátur. En hvað áttu mikið eftir, í alvöru að tala?«

»Tuttugu og fimm gulldali?« svaraði d'Artagnan.

»En ég,« sagði Athos og tók nokkra smápeninga upp úr vasanum. »Ég — —«

»Þú átt líklega ekki grænan eyri.«

»Ja-neinei! Eða svo lítið að minsta kosti, að það tekur því ekki að telja það.«

»Jæja — við skulum þá gæta að, hvað við höfum mikið, allir saman. — Þú, Porthos?«

»Þrjátíu dali.«

»Aramis?«

»Tíu dali.«

»Og þú, d'Artagnan?«

»Tuttugu og fimm dali.«

»Hvað verður það alls?«

»Fjögur hundruð, sjötíu og fimm fránkar,« svaraði d'Artagnan, sem var langfimastur að reikna.

»Við ættum þá að eiga fjögur hundrað fránka eftir, þegar við komum til Parísar, að ótöldum reiðtygjunum,« sagði Porthos.

»Og þar við bætast hestar þjónanna,« sagði Aramis.

»Nú-jæja! Fyrir þá hesta getum við líklega fengið nóg til þess að geta keypt tvo hesta handa okkur sjálfum og um þá vörpum við hlutkesti. Fyrir helminginn af þessum 400 frönkum kaupum við einn hest í viðbót, og afganginn fáum við d'Artagnan. Hann getur svo freistað hamingjunnar í fyrsta veitingahúsinu, sem við komum í.«

»En nú skulum við halda áfram að borða,« sagði Porthos. »Það hressir okkur.«

Tóku þeir félagar nú ósleitulega til matar síns og voru nú öllu bjartsýnni en áður, en Mousqueton og Basin, Planchet og Grimaud fengu leifarnar.

Þegar d'Artagnan kom til Parísar, lá fyrir honum bréf frá herra de Tréville. Var það tilkynning um, að konungur hefði fyrir hans milligöngu veitt d'Artagnan þá náð, að taka hann í tölu skyttuliða sinna.

Eins og áður er sagt, var það innilegasta ósk d'Artagnans að fá upptöku í skyttulið konungs, auðvitað næst á eftir þeirri, sem honum var hjartfólgnust: að finna frú Bonacieux aftur. Hann hljóp því himinglaður á fund félaga sinna, er hann hafði skilið við fyrir hálfri klukkustundu. Voru þeir næsta daufir í dálkinn, er hann kom til þeirra og sátu á ráðstefnu heima hjá Athos, en það var jafnan vís vottur þess, að einhver alvara væri á ferðum.

Í þetta skiftið var tilefnið það, að herra de Tréville hafði tilkynt þeim, að Hans Hátign hefði ákveðið að hefja leiðangurinn til La Rochelle fyrsta dag maímánaðar og yrðu þeir því tafarlaust að sjá sér fyrir útbúnaði til herferðarinnar.

Þessir fjórir spekingar horfðu nú hver á annan og voru algerlega ráðþrota. Það var ekki við lambið að leika sér að fást við herra de Tréville, þegar um heragann var að ræða.

»Hvað skyldi sá útbúnaður kosta?« spurði d'Artagnan.

»Það er ekki svo gott að segja,« svaraði Aramis. »Við höfum verið að reikna það út og með því að fara að öllu sem varlegast og halda spart á, hefur okkur talist til, að við þurfum að minsta kosti fimtán hundruð fránka hver.«

»Fjórum sinnum fimtán eru sextíu — eða sex þúsund fránkar alls,« sagði Athos.

»Mér fyrir mitt leyti finst,« sagði d'Artagnan, »að okkur geti nægt eitt þúsund fránkar hverjum. Og ef við fengjum einhvern lögmann til að leiðbeina okkur.«

Porthos hrökk við þegar »lögmaður« var nefndur.

»Bíðum við! Mér dettur nokkuð í hug!« sagði hann.

»Jæja — það er þá skárra, en ekki neitt og það er svo langt frá því, að mér detti nokkur skapaður hlutur í hug,« sagði Athos. »Hvað d'Artagnan snertir þá held ég, að hann sé orðinn ringlaður af gleði yfir því, að vera tekinn í skyttuliðið. Þúsund fránkar! — Ég fyrir mitt leyti kemst ekki af með minna en tvö þúsund.«

»Tvisvar fjórir eru átta,« sagði Aramis. »Eftir því að dæma þyrftum við átta þúsund fránka til þess að búa okkur út — en reiðtýgin höfum við þó, satt er það!«

»Já,« sagði Athos jafnskjótt sem d'Artagnan skrapp út úr dyrunum til þess að þakka herra de Tréville fyrir sig — »og við höfum líka þennan frábæra steinhring, sem d'Artagnan ber á fingrinum. Mikil ósköp! D'Artagnan er betri félagi en svo, að hann synji vinum sínum hjálpar, þar sem hann ber slíkan fjársjóð á sér, að það væri nóg lausnargjald handa hverjum sem væri — jafnvel þótt konungur væri!«

XIII. Vantar útbúnað.

Það var enginn efi á því, að d'Artagnan hafði lang þyngstar áhyggjur að bera allra þessara fjögra félaga, hvað útbúnaðinn snerti. Hann var að vísu sæmilega féglöggur og næstum nískur, ef því var að skifta, en jafnframt svo drambsamur, að hann gaf Porthos ekkert eftir að því leyti. En við þær áhyggjur, sem útbúnaður hans og hégómadýrð ollu honum, bættust aðrar, sem ekki voru jafn síngirnislegar. Hann hafði lagt alt kapp á að reyna að komast fyrir, hvar frú Bonacieux væri niður komin, en var engu nær. Herra de Tréville hafði reynt að spyrjast fyrir um þetta hjá drotningu, en drotning vissi ekki, hvar hin unga kona hefðist við. Hafði hún að vísu lofað að grenslast eftir því, en það loforð var svo óákveðið, að d'Artagnan fanst hann ekkert geta bygt á því.

Athos kom ekki út fyrir húsdyr. Hann var fastráðinn í því að hreyfa hvorki hönd né fót til neinna útvega.

»Það eru fjórtán dagar til stefnu enn,« sagði hann við vini sína. »Og hafi mér fyrir þann tíma ekki hugkvæmst neitt, eða öllu heldur, hafi á þeim tíma ekkert borist sjálfkrafa upp í hendurnar á mér, þá ætla ég mér, þar sem ég sjálfur vil ekki senda kúlu gegnum hausinn á mér, að lenda í illindum við fjóra lífvarðarliða kardínálans eða átta Englendinga og berjast við þá þangað til að einhver þeirra vinnur á mér, eins og hlýtur að verða, þegar við slíkt ofurefli er að etja. Þá verður sagt, að ég hafi látið lífið fyrir konung minn og þá hef ég gert skyldu mína án þess að þurfa að hugsa fyrir útbúnaði.«

Porthos var á sífeldu rjátli, kinkaði kolli og tautaði:

»Ég held mér enn við það, sem mér datt í hug.«

Aramis var hnugginn á svipinn, gekk hálfilla til fara, en sagði annars ekkert.

Þjónarnir fóru ekki varhluta af áhyggjum og andstreymi húsbænda sinna. Mousqueton lifði á þurrum brauðskorpum. Basin var alla jafna fremur trúhneigður og vék nú varla úr kirkjunni. Planchet athugaði himintunglanna gang og Grimaud var þögull að vanda, en stundi svo þungt, að vel hefðu steinar mátt vikna.

Eins og getið var um, hafði Athos einsett sér að hreyfa sig hvergi til herbúnaðar, en hinir félagarnir þrír fóru á kreik snemma á morgnana og komu ekki heim fyr en seint á kvöldin. Þeir ráfuðu um göturnar og skimuðu í krók og kring, hvort ekki hefði neinn vegfarandi mist pyngju sína úr vasanum, og var því líkast, sem þeir væru allir að leita að einhverju, er þeir byggjust við að finna. Þeir horfðu hver á annan þegar þeir mættust, eins og þeir vildu sagt hafa: hefur þú fundið nokkuð.

Porthos hafði orðið fyrstur til að láta sér detta eitthvað í hug og hann varð líka fyrstur til framkvæmda, enda var hann framtakssamur að eðlisfari. Einu sinni þegar d'Artagnan kom auga á hann, var hann á leið til Saint-Len-kirkjunnar og afréð d'Artagnan strax, að fylgja honum eftir.

Áður en Porthos gekk inn í kirkjuna, sneri hann yfirskeggið og strauk hökutoppinn, en það var jafnan óbrigðult merki þess, að hann vildi láta taka eftir sér.

D'Artagnan fór inn í kirkjuna á eftir Porthos svo að lítið bar á. Porthos gekk þar að súlu einni og studdist upp við hana, en d'Artagnan leyndist hinum megin súlunnar.

Messunni var nýlokið og var margt fólk í kirkjunni og notaði Porthos sér það til að athuga kvenfólkið rækilega. Mousqueton hafði séð svo um, að Porthos var ekki sem óálitlegastur að ytra útliti, þó að innri maðurinn væri lítt glæsilegur. Hatturinn var að vísu hálfslitinn og fjöðrin í honum upplituð, útsaumurinn á einkennisbúningi hans ekki tandurhreinn og knipplingarnir kvolaðir, en með því að skuggsýnt var í kirkjunni, bar ekki mjög mikið á þessu og Porthos var þó ætíð laglegur maður.

Á bekknum, sem næstur var súlunni, er Porthos stóð við, sat roskin fríðleikskona. Raunar var hún ekki sem björtust á hörund og fremur feitlagin, en hreykti sér allmjög í sæti sínu og bar svartan hatt á höfði. Porthos gaf henni hornauga, en fór svo að skima um kirkjuna.

Konan roðnaði við og leit snögglega á Porthos, en hann lét sem hann sæi það ekki.

Það var auðséð, að konunni gramdist þetta. Hún beit á vörina, nuggaði nefið og ókyrðist mjög í sæti sínu.

Þegar Porthos tók eftir því, fór hann aftur að snúa yfirskeggið og strjúka hökutoppinn og skotraði nú augunum til konu, sem sat inn í kórnum. Kona sú var forkunnarfríð og auk þess tigin og auðug að sjá, því að baki hennar stóð ungur svertingi og hélt á knébeð, sem hún hafði kropið á, og herbergisþerna, er hélt á glitsaumuðu hylki, sem bænakverið var geymt í.

Konan með svarta hattinn fór nú að gæta að, á hvað Porthos væri að horfa og sá, að honum var starsýnt á konuna með knébeðinn, svertingjann og herbergisþernuna.

Porthos fór mjög kænlega að. Hann deplaði augunum lagði fingurinn á varirnar og brosti framan í konuna í kórnum og jók þetta mjög á gremju konunnar með svarta hattinn.

Þegar að því kom, að hún átti að fara að þylja bænir sínar, hummaði hún svo hátt, að öllum varð litið við og eins hefðarkonunni í kórnum. En Porthos lét það ekki á sig fá og var sem hann hvorki sæi né heyrði hvað fram fór.

Konan á knébeðnum var forkunnarfríð, eins og áður er sagt og komst konan með svarta hattinn að þeirri niðurstöðu, að þar ætti hún hættulegan keppinaut. Fegurð hennar fékk mjög á Porthos og sömuleiðis d'Artagnan, er kannaðist við að það var sama konan, sem hann hafði áður séð í Meung, Calais og Dover og kölluð var Mylady.

D'Artagnan gaf nánar gætur að öllum tilburðum Porthos og hafði gaman af þeim, en misti þó ekki sjónar á hinni fögru konu. Hann giskaði á, að konan með svarta hattinn væri málfærslumannskonan úr Bjarnargötu, einkum þar sem gata sú var allskamt frá Saint-Len-kirkjunni. Hann komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að Porthos ætlaði nú að hefna sín fyrir ófarirnar í Chantilly, þegar málfærslumannskonan svaraði ekki bréfum hans.

Málfærslumannskonan gekk að kerinu, sem vígða vatnið var í, þegar messan var úti. Porthos var samt kominn þangað á undan henni og rak allan hnefann ofan í skálina í stað þess að láta sér nægja einn fingur. Málfærslumannskonan brosti og hélt, að hann gerði það sín vegna, en þar skjátlaðist henni hraparlega. Þegar hún var kominn fast að honum, leit hann um öxl og mændi á konuna fögru, sem nú var að nálgast þau ásamt svertingjanum og herbergisþernunni.

Og þegar hún kom þangað sem Porthos stóð, rétti hann að henni höndina, rennvota af vígða vatninu. Hún snart hönd hans með einum fingri, signdi sig brosandi og gekk út úr kirkjunni.

Nú var málfærslumannskonunni nóg boðið og efaðist hún nú ekki lengur um, að Porthos væri í kærleikum við hina konuna. Hún hefði sjálfsagt fallið í öngvit, hefði hún verið af háum stigum, en með því að hún var ekki annað en óbrotin málfærslumanns kona, lét hún sér nægja að byrsta sig framaní hinn kviklynda elskhuga sinn og sagði:

»Núnú herra Porthos! Ætlið þér ekki að rétta mér vígt vatn?«

Porthos hrökk við, rétt eins og hann væri vakinn hastarlega af værum svefni.

»Hvað er að tarna — eruð þér hérna?« sagði hann. »Hvernig líður manninum yðar, honum herra Coquenard? Er hann altaf jafn ágjarn og nískur? En hvernig stendur annars á því, að ég skuli ekki hafa komið auga á yður alla messuna út í gegn?«

»Ég sat rétt hjá yður,« sagði málfærslumannskonan, »en þér voruð nú víst ekki að taka eftir mér, heldur einblínduð á fallegu konuna, sem þér voruð að rétta vígða vatnið áðan.«

Porthos lét sem hann vissi ekki, hvaðan á sig stæði veðrið.

»Það hefði verið blindur maður, sem ekki hefði tekið eftir því.«

»Já,« sagði Porthos og brá sér hvergi. »Það er hertogafrú og vinkona mín, en ég á ilt með að ná fundi hennar af því að maðurinn hennar er svo afbrýðissamur. Hún gerði mér boð í dag, að hún ætlaði að koma hingað í þennan kirkjuhjall, aðeins til að hitta mig.«

»Herra Porthos,« sagði málfærslumannskonan. »Viljið þér ekki gera svo vel að ganga spölkorn með mér — ég þarf nauðsynlega að tala svolítið við yður.«

»Til hvers ætli það sé, frúin góð!« sagði Porthos og deplaði augunum eins og þaulvanur spilamaður sem hæðist að einfeldningnum, sem hann veit, hann á allskostar við.

Í sömu andránni skaust d'Artagnan fram hjá þeim og var að veita Mylady eftirför. Hann gaut hornauga til Porthos og sá, hvað honum var dillað.

D'Artagnan fór að hlægja og sagði við sjálfan sig:

»Þessi verður ekki í vandræðum með útbúnaðinn, ef hann gerir sér far um það.«

— »Æ, herra Porthos!« sagði málfærslumannskonan, þegar þau voru orðinn tvö ein. »Þér eruð víst einstakur kvennaljómi, að því er virðist.«

»Ég!« sagði Porthos íbygginn. »Hvers vegna haldið þér það?«

»Það var nú svo sem auðséð þegar þér voruð með vígða vatnið. Það er líklega einhver prinsessa þessi kona með svertingjann og herbergisþernuna.«

»Ja-neinei — það er langt frá því,« svaraði Porthos. »Hún er bara hertogafrú.«

»En hlauparinn, sem beið fyrir utan kirkjudyrnar, vagninn og prúðbúni ökumaðurinn?«

Porthos hafði ekkert af þessu séð, en málfærslumannskonan tók vel eftir því. Hann sá nú mest eftir því, að hann hafði neitað, að hin konan væri prinsessa.«

»Já, það má segja, að þér eruð innundir hjá ungu konunum, herra Porthos,« sagði málfærslumannskonan og stundi við.

»Ojæja!« svaraði Porthos. »Það er nú ekki svo undarlegt, þó að ekki óásjálegri maður, en ég er, gangi í augun á kvenfólkinu.«

»Herra trúr — hvað karlmennirnir eru gleymnir!« sagði málfærslumannskonan og leit augum til himins.

»Mér virðist konurnar enn breyskari hvað það snertir,« sagði Athos. »Að minsta kosti þori ég að fullyrða, að þér hafið verið búin að gleyma mér, þegar ég lá í sárum og aðframkominn og læknarnir yfirgáfu mig. Ég, sem er kominn af tigninn ættum - ég, sem treysti vinsemd yðar - ég var að dauða kominn af sárum og sulti í herbergiskitru í Chantilly og þér virtuð mig ekki einu sinni þess, að svara þeim hjartnæmu bréfum, sem ég skrifaði yður þaðan.«

»Já, en herra Porthos — —« sagði málfærslumannskonan og fanst sökin hvíla á sér, að minsta kosti eftir því sem hinar tignustu konur litu á þesskonar málefni.

»Ég, sem yðar vegna sneri baki við barónsfrú — —«

»Já, ég veit það.«

»Við greifafrú — —«

»Þér megið ekki kvelja mig svona, herra Porthos.«

»Við hertogafrú — —«

»Verið þér nú góður, herra Porthos.«

»Þér hafið rétt að mæla, frúin góð! Það er best að telja ekki fleiri.«

»Það var maðurinn minn, sem þvertók fyrir að lána yður peninga.«

»Frú Coquenard,« sagði Porthos. »Munið þér nokkuð eftir fyrsta bréfinu, sem þér skrifuðuð mér? Það verður mér alla daga ógleymanlegt.«

»Þetta var svo gríðarstór upphæð, sem þér báðuð um,« sagði málfærslumannskonan og stundi.

»Ég sneri mér fyrst til yðar, frú Coquenard. Ég hefði alt eins getað skrifað hertogafrúnni af — — en ég skal ekki nefna nein nöfn, til þess engan að hneyksla. En svo mikið veit ég, að hefði ég skrifað henni, þá hefði hún ekki látið standa á þessum fimtíu hundruðum.

»Herra Porthos,« sagði málafærslumannskonan og brá klút fyrir augu sér. »Ég segi yður það satt, að þér hafið hefnt yðar grimmilega og ef þér komist aftur í svipaðar kröggur, þá þurfið þér ekki annað en senda mér línu.«

»Svei attan, frúin góð!« sagði Porthos önuglega. »Verið þér ekki að minnast á peninga — það er svo særandi og móðgandi.«

»Þér elskið mig þá ekki framar,« sagði hún hægt og dauflega.

Porthos þagði við og var mjög hátíðlegur á svipinn.

»Ætlið þér ekki að svara mér neinu? Ja, þá skil ég!«

»Gætið að því, frúin góð, hversu þér hafið misboðið mér og sú móðgun geymist hér æ og æfinlega,« sagði Porthos og lagði höndina á hjartastað.

»Ég skal gera gott úr því öllu saman. Verið að eins þolinmóður, kæri Porthos.«

»Það var þá líka stórkostlegt, sem ég bað yður um, eða hitt heldur,« sagði Porthos og ypti öxlum.

»Ég bað yður eingöngu um lán — ekkert annað en lán. Ég veit vel, að þér eruð ekki auðug, frú Coquenard og að maðurinn yðar verður að pína og pressa skjólstæðinga sína til þess að kreista út úr þeim fáeina dali. Það væri öðru máli að gegna, ef þér væruð greifafrú eða hertogafrú! Ég hefði þá ekki hegðað mér svona.«

Málafærslumannskonan stygðist við þetta.

»Ég vil biðja yður að minnast þess, herra Porthos,« sagði hún, »að ég á kannske fult eins mikið í kistuhandraðanum eins og þessar gjörsnauðu og gikkslegu tildurrófur, þó að ég sé nú ekki annað en óbreytt málfærslumannskona.«

»Þá hafið þér líka sýnt mér tvöfalda móðgun,« sagði Porthos. »Synjun yðar er óafsakanleg ef þér hafið gnægð fjár.«

Konan sá nú, að hún hafði verið heldur fljót á sér og sagði: »Þó að ég segðist eiga dálítið til, þá má það ekki misskiljast. Ég get ekki auðug kallast, en ég er allvel stæð.«

»Gott og vel, frúin góð,« sagði Porthos. »Þér hafið tortrygt mig og gert mér rangt til og nú er best, að öllum okkar kunningsskap sé slitið.«

»Þér eruð vanþakklátur!«

»Já — barmið þér yður, fyrir alla muni,« sagði Porthos.

»Blessaður, farið þér til hertogafrúarinnar! Ekki skal ég halda í yður.«

»Hún er ekki eins kaldlynd og þér.«

»Ég spyr yður einu sinni enn, herra Porthos: »Elskið þér mig?«

»Æ, kæra frú, sagði Porthos í svo eymdarlegum róm, sem hann framast gat. »Hugsið þér yður: að þurfa að fara í stríð og finna það á sér, að maður eigi ekki afturkvæmt!«

»Ó, talið þér ekki svona,« sagði málfærslumannskonan og tárfeldi.

»Jú — mig órar einhvern veginn fyrir því,« sagði Porthos enn hnuggnari.

»Segið heldur, að þér hafið tekið yður nýja lagskonu.«

»Nei ónei! Ég er ekki ástfanginn í neinni eins og stendur. Og inst í hjarta mér er ýmislegt, sem mælir fram með yður. En þessi óheilla-leiðangur hefst eftir hálfan mánuð og ég fæ nóg að hugsa, að sjá mér fyrir útbúnaði. Líka þarf ég að finna ættfólk mitt í Bretagne (Bretanj) til þess að reyna að útvega mér farareyri.«

Porthos þóttist skilja, að ástin og forsjálnin væru nú að heyja stríð um yfirráðin í sál málfærslumannskonunnar.

»Og þar sem landeignir hertogafrúarinnar, sem þér sáuð í kirkjunni,« bætti hann við, »liggja fast að jarðeignum mínum, þá getum við orðið samferða þangað. Það styttir leiðina, eins og þér vitið, að fleiri séu samferða.«

»Eigið þér þá enga vini í París, herra Porthos?«

»Ég hélt, að ég ætti þar vinkonu,« svaraði hann dapurlega mjög, en nú sé ég, að það hefur verið tómur misskilningur.«

»Víst eigið þér vini hér, herra Porthos,« sagði málfærslumannskonan svo innilega, að hana furðaði það sjálfa. »Komið heim til mín á morgun. Þér getið látist vera sonur frænku minnar og því skyldur mér og komið frá Noyon í Picardie. Þér þurfið að eiga í málavastri í París, en vantar málfærslumann til að flytja þau. Haldið þér, að þér munið nú þetta?«

»Já, það get ég munað.«

»Þér skuluð koma um miðdagsverðarleytið.«

»Það skal ég gera.«

»Og yður er best að vera ekki of margorður í nærveru mannsins míns. Hann er slunginn þó að hann sé orðinn hálf áttræður.«

»Hálf áttræður — hvað er að tarna! Það er annars haganlegur aldur,« sagði Porthos.

»Hár aldur, ætluðuð þér víst að segja, herra Porthos. Hann getur gert mig að ekkju, blessunin sú arna, þegar minst varir,« sagði málfærslumannskonan og leit innilega á Porthos, »en hjúskaparskilmáli okkar er þannig úr garði gerður, að það okkar, sem lengur lifir, erfir hitt.«

»Allar eignir, fastar og lausar — stórar og smáar?«

»Já, alt saman!«

»Ég sé, að þér eruð skynsöm kona,« sagði Porthos og tók um hönd hennar.

»Við erum þá vonandi sátt og sammála, kæri Porthos,« sagði hún.

»Já, allar æfinnar stundir,« svaraði Porthos.

»Vertu þá sæll, hrappurinn þinn!«

»Vertu sæl, þú gleymskunnar gyðja!«

»Og hittumst aftur á morgun, elsku engillinn minn!«

»Já, við hittumst aftur á morgun, hjartans ljósið mitt!«

XIV. Mylady.

D'Artagnan fylgdi Mylady eftir, án þess að hún yrði vör við það. Hann sá að hún sté inn í vagn sinn og heyrði að hún skipaði ökumanninum að halda til Saint-Germain.

Hann sá, að það var ekkert viðlit að fylgja eftir vagni með tveimur stórum og stríðöldum hestum fyrir. Sneri hann því aftur og gekk til Ferou-götunnar.

Hann hitti Planchet í Seine-götunni. Stóð hann þar fyrir utan brauðsölubúð og glápti á stærðar kryddbrauð, mjög girnilegt á að líta.

D'Artagnan skipaði honum að fara í hesthúsið hjá de Tréville, taka þar tvo hesta, sinn handa hvorum þeirra, söðla þá og fara með þá heim til Athos og hitta sig þar. Þess skal getið um leið, að herra de Tréville hafði leyft d'Artagnan að grípa til hesta sinna, hvenær sem honum sýndist.

Planchet fór þá til Colombier-götunnar og d'Artagnan til Ferou-götunnar. Athos sat heima og var að gæða sér á spánska víninu, sem hann flutti með sér frá Picardie. Hann benti Grimaud að færa d'Artagnan glas og hlýddi hann því þegjandi.

D'Artagnan sagði Athos nú frá, hvað gerst hefði í kirkjunni með þeim Porthos og málfærslumannskonunni og að félagi þeirra væri nú að líkindum viss um útbúnað sinn.

»Já, en það veit ég með vissu,« sagði Athos, »að það verður enginn kvenmaður til þess sjá mér fyrir útbúnaði.«

»Jafn gervilegur, kurteis og tiginn riddari sem þú, kæri Athos, mundi næsta hæglega geta náð hylli hverrar prinsessu og drotningar, sem vera skyldi.«

»Skelfing ertu einfaldur, góði d'Artagnan,« svaraði Athos og ypti öxlum. Hann benti Grimaud að sækja nýja flösku.

Í þessum svifunum stakk Planchet höfðinu inn um dyrnar og sagði að hestarnir væru komnir.

»Hvaða hestar?« spurði Athos.

»Það eru hestar, sem herra de Tréville hefur lánað mér,« svaraði d'Artagnan, »og við Planchet ætlum að ríða á þeim til Saint-Germain.«

»Hvaða erindi áttu til Saint-Germain?« spurði Athos.

D'Artagnan sagði honum frá æfintýrinu í kirkjunni og að hann hefði rekist þar á konu þá, sem ásamt manninum frá Meung væri sér sífelt skapraunar- og áhyggjuefni.

Þú ert auðvitað ástfanginn í henni eins og í frú Bonacieux,« sagði Athos og hristi höfuðið yfir breyskleika mannanna.

»Nei, fjarri fer því,« sagði d'Artagnan — »Mér leikur aðeins forvitni á að lyfta þeirri hulu, sem yfir henni hvílir. Hún þekkir mig víst jafn lítið og ég hana, en samt hef ég eitthvert hugboð um, að okkur muni lenda saman einhvern tíma á lífsleiðinni.«

»Má vera, að það rætist,« sagði Athos. »Raunar þekki ég enga þá konu, sem er þess verð að verið sé að leita eftir henni þegar hún er horfin á annað borð. Frú Bonacieux er horfin og það verður henni sjálfri verst ef hún skyldi koma í leitirnar aftur.«

»Nei — þarna skjátlast þér, Athos góður,« sagði d'Artagnan. »Ég ann Constance hugástum og ef ég vissi, hvar hún er niður komin, þá skyldi ég fara þangað og bjarga henni úr óvina höndum, jafnvel þó leiðin lægi alt á heimsenda. En nú veit ég það ekki og allar mínar eftirgrenslanir hafa orðið árangurslausar. Þess vegna verð ég eitthvað að taka til bragðs.«

»Jæja — blessaður skemtu þér við að elta Mylady og ég óska þér góðs gengis af öllu hjarta, ef þú kærir þig nokkuð um það.«

»Heyrðu nú Athos,« sagði d'Artagnan. »Þú ættir annars að taka annan hestinn og koma með mér til Saint-Germain í staðinn fyrir að sitja hér inniluktur eins og einhver kararkerling.«

»Kæri vin,« svaraði Athos. »Ég ríð þeim hestum einum, sem ég á sjálfur — annars geng ég.«

»Gott og vel!« sagði d'Artagnan brosandi. »Ég er ekki eins dramblátur og þú og ríð þeim hesti, sem mér stendur til boða. Vertu nú sæll, kæri Athos.«

»Vertu sæll!« sagði Athos og benti Grimaud að opna nýju flöskuna.

D'Artagnan og Planchet stigu á bak hestum sínum og héldu til Saint-Germain.

Alla leiðina var d'Artagnan að hugsa um það, sem Athos hafði sagt um frú Bonacieux. Þó að hann væri ekki sérlega tilfinninganæmur, þótti honum innilega vænt um hina ungu konu og hann sagði það satt, að hann væri fús til að fara allan heiminn á enda til þess að leita hennar. En jörðin er hnöttótt og endarnir margir, svo að hann vissi ekki, hvert hann ætti að snúa sér.

»Herra góður!« sagði Planchet alt í einu. »Kannist þér ekki við mannræfilinn, sem stendur þarna og er að einblína á krákurnar?«

»Nei,« sagði d'Artagnan, »en ég er viss um, að ég hef séð hann einhverntíma áður.«

»Já, ég hefði nú haldið það!« svaraði Planchet. »Það er nefnilega enginn annar en hann Lubin, þjónninn hans Wardes greifa, sem þér söxuðuð allan í sundur í Calais á leiðinni til hafnarfógetans.«

»Já, nú kannast ég við hann,« sagði d'Artagnan. »Heldurðu að hann þekki þig?«

»Nei, kæri herra! Hann var orðinn svo ringlaður í höfðinu, að hann man sjálfsagt ekkert eftir mér.«

»Farðu og gefðu þig á tal við hann,« sagði d'Artagnan, »og reyndu að komast fyrir, hvort húsbóndi hans er enn á lífi.«

Planchet fór af baki og gekk beint til Lubin, sem þekti hann ekki aftur. Tóku þeir nú tal saman og féll hið besta á með þeim, en d'Artagnan fór með hestana á hliðargötu, gekk svo til baka og leyndist bak við hesliviðarrunna til að hlusta á tal þeirra.

Þegar hann hafði staðið þar litla stund, heyrði hann vagnskrölt og sá að vagninn, sem Mylady hafði stigið inn í, staðnæmdist skamt þaðan. Mylady sat enn í vagninum, Stakk hún nú sínu yndisfagra höfði út á milli gluggatjaldanna og gaf herbergisþernu sinni einhverja skipun, en ekki heyrði d'Artagnan hvað það var.

Herbergisþernan var fríðleiksstúlka á tvítugsaldri, kát og kvikleg, eins og herbergisþernum ber að vera. Hún stökk niður af vagntröppunni og gekk að grashjallanum, þar sem d'Artagnan hafði komið auga á Lubin.

D'Artagnan horfði á eftir þernunni og sá að hún gekk upp á grashjallann. Nú vildi svo til, að einhver hafði kallað á Lubin á meðan og stóð Planchet því, einn á hjallanum og var að svipast eftir d'Artagnan. Þernan gekk þá til Planchet, sem hún hélt að væri Lubin og rétti honum samanbrotinn bréfmiða.

»Það er til húsbónda þíns,« sagði hún.

»Til húsbónda míns?« tók Planchet upp aftur steinhissa.

»Já, og því liggur á. Flýttu þér nú!«

Að svo mæltu gekk hún til vagnsins aftur, stökk upp á tröppuna og óku þær svo sömu leið til baka.

Planchet skoðaði bréfið í krók og kring, en hann var vanur að hlýða skilyrðislaust. Gekk hann því ofan af hjallanum og mætti d'Artagnan von bráðar.

»Þetta er til yðar, herra,« sagði hann og rétti húsbónda sínum bréfið.

»Til mín?« spurði d'Artagnan. »Ertu nú viss um það?«

»Já, svei mér þá — það er ég alveg viss um. Til húsbónda þíns, sagði þernan, og fyrst að ég á nú ekki annan húsbónda en yður, þá — — þetta var allra laglegasta stúlka!«

D'Artagnan opnaði bréfið og var það svohljóðandi:

»Manneskja, sem er annara um yður, en hún vill láta uppskátt, vill gjarna fá að vita, hvaða dag þér getið gengið út í skóg. Þjónn í svörtum og rauðum búningi mun vitja svars yðar á morgun í gistihúsið Champ-du-Drap-d'Or.«

»Hæ-hæ!« sagði d'Artagnan við sjálfan sig. »Þetta er hálf skringilegt! Það virðist sem Mylady og ég séum bæði að hugsa um sömu persónuna. Jæja-þá, Planchet! Hvernig líður herra Wardes — er hann dauður?«

»Nei-ónei! Honum líður eins og má búast við af manni, sem hefur fengið fjórar sverðstungur í skrokkinn — hann er altaf mjög máttfarinn, enda hefur honum blætt ósköpin öll. Lubin þekti mig ekki, eins og ég bjóst altaf við og sagði mér okkar eigin sögu frá upphafi til enda.«

»Það er ágætt, Planchet — þú ert sannarlega fyrirmynd allra þjóna, en farðu nú á bak aftur og svo skulum við ná vagninum.«

Það var ekki langrar stundar verk. Þeir sáu vagninn eftir örlitla stund og hafði hann staðnæmst við bugðu á veginum, en skrautbúinn riddari sat á hesti við vagndyrnar.

Hann var að tala við Mylady og töluðu þau af svo miklum ákafa, að d'Artagnan nam staðar hinum megin við vagninn og tók enginn eftir honum nema herbergisþernan.

Þau töluðu saman á Ensku, en hana skildi d'Artagnan ekki. Réði hann samt af málrómnum, að Mylady væri bálreið, enda lauk hún samtalinu á þá leið, að ekki var um neitt að villast. Hún sló til riddarans með blævæng sínum af svo miklu afli, að blævængurinn fór í þúsund mola.

Riddarinn rak upp skellihlátur og virtist Mylady espast enn meira við það.

D'Artagnan leist nú vænlegast að koma fram á sjónarsviðið. Hann reið að hinum vagndyrunum, tók ofan hatt sinn og hneygði sig djúpt.

»Leyfist mér að bjóða yður hjálp mína, frú mín góð,« sagði hann. »Mér virðist þessi herra hafa reitt yður til reiði og ef yður sýnist svo, frú, þá skal ég samstundis refsa honum eftirminnilega fyrir ókurteisina.«

Mylady sneri sér við og horfði undrandi á d'Artagnan. Þegar hann hafði lokið máli sínu, sagði hún á góðri Frönsku:

»Ég skyldi þiggja hjálp yðar þakklátlega, kæri herra, ef þessi maður, sem ég var að pexa við, væri ekki bróðir minn.«

»Þá bið ég yður margfaldlega fyrirgefningar,« sagði d'Artagnan. »Ég hafði enga hugmynd um það, eins og þér getið skilið.«

»Hvers vegna er þessi gleiðgosi af skifta sér af því, sem okkur við kemur?« sagði maðurinn, sem Mylady hafði kallað bróður sinn. »Og hvers vegna fer hann ekki sína leið?«

»Þér getið sjálfur verið gleiðgosi,« sagði d'Artagnan. »Ég fer ekki fyr en mér sýnist og nú hef ég mesta löngun til að vera hér.«

Riddarinn sagði nokkur orð á ensku við systur sína.

»Ég ávarpaði yður á móðurmáli mínu,« sagði d'Artagnan, »og vil mælast til, að þér svarið mér á sama máli. Þér eruð að vísu bróðir frúarinnar, en ekki minn sem betur fer.«

Menn skyldu nú ætla að Mylady, að kvenna sið, reynt að miðla málum, en hún hallaði sér í vagnsætið ofur rólega og sagði við vagnstjórann:

»Akið þér heim!«

Þernan fagra skotraði augunum til d'Artagnans og fanst auðsjáanlega mikið til um hann. Vagninn hélt af stað og nú voru þeir tveir eftir.

Riddarinn gerði sig líklegan til að fylgja vagninum eftir. Það var farið að síga í d'Artagnan og bætti það ekki um, að hann sá nú, að þetta var sami Englendingurinn, sem unnið hafði hest hans og varpað teningum um steinhringinn góða. Hann tók um taumana á hesti hans.

»Þér virðist vera talsvert meiri flysjungur en ég,« sagði hann, »og munið víst ekki eftir því, sem okkur hefur farið á milli.«

»Nú-jæja! Eruð það þér!« svaraði Englendingurinn. »Það lítur út fyrir, að þér séuð vanur að tefla djarft, hvernig sem á stendur.«

»Já, og nú skulum við reyna, herra góður, hvort þér eruð jafn fimur með sverðið og teningana.«

»Þér sjáið víst, að ég er óvopnaður,« sagði Englendingurinn. Ætlið þér kannske að sýna hreysti yðar á verjulausum manni?«

»Ég vona, að þér eigið einhverja sverðmynd heima hjá yður,« sagði d'Artagnan. »Að minsta kosti á ég þau tvö, og við getum sem best varpað teningum um annað þeirra, ef yður svo sýnist.«

»Þess þarf ekki,« svaraði Englendingurinn. »Ég á sjálfur meira en nóg af þess háttar.«

»Gott og vel!« sagði d'Artagnan. »Takið þá lengsta sverðið og verið til taks með það í kvöld.«

»Hvar þá?«

»Bak við Luxembourg-höllina. Það er tilvalinn staður til þeirra hluta.«

»Það er ágætt. Ég skal koma.«

»Hvenær?«

»Klukkan sex.«

»Þér komið víst með einn eða tvo kunningja?«

»Ég get komið með þrjá, sem allir eru fúsir til að aðstoða mig.«

»Þrjá? það stendur heima,« sagði d'Artagnan. »Ég get líka komið með þrjá vini mína.«

»Hvað heitið þér?«

»Ég heiti d'Artagnan, aðalsmaður frá Gaskogne, hef verið í lífvarðarliði des Essarts og er nú nýkominn í skyttulið konungs.«

»Og ég heiti Winter lávarður, barón af Sheffield.«

»Einmitt það, herra barón! Ætíð og æfinlega yðar reiðubúinn þjónn, en það er verst, að það er svo erfitt að muna nafnið yðar.«

Að svo mæltu keyrði d'Artagnan hest sinn sporum og reið í sprettinum til Parísar aftur.

Hann fór beint til Athos eins og oftar og kom að honum liggjandi á legubekknum. Kvaðst hann vera að bíða þess, að einhver rækist inn til sín með peninga fyrir útbúnaði handa sér.

D'Artagnan sagði Athos, hvað fyrir sig hefði komið, en feldi þó undan bréfið til Wardes greifa.

Athos komst allur á loft þegar hann heyrði, að hann ætti að berjast við Englending. Það var einmitt ósk hans, eins og áður er sagt.

Þeir gerðu strax boð eftir Porthos og Aramis og sögðu þeim, hvað til stæði.

Porthos dró sverðið úr slíðrum og veifaði því í kringum sig, en Aramis læsti sig inni í svefnherbergi Athos og bað að ónáða sig ekki fyr en tími væri kominn að fara til mótsins. Hann var enn að fást við kvæðið sitt.

Athos benti Grimaud að sækja vínflösku.

En d'Artagnan fór að hugsa út ráðagerð, sem hann framkvæmdi síðar, eins og við munum sjá og brosið, sem lék um varir hans, benti til þess, að hann byggist við góðum árangri af henni.