JULES VERNE SENDIBOÐI KEISARANS EÐA SÍBERÍU-FÖRIN BÓKAFORLAG JÓNS HELGASONAR — REYKJAVÍK 1936 FYRRI ÞÁTTUR I. Veizlan í nýju höllinni. »Nýtt skeyti, herra!« »Hvaðan?« »Frá Tomsk.« »Er fréttaþráðurinn höggvinn þar fyrir handan?« »Já, herra. Var höggvinn í gær.« »Svo. En símið þá, hershöfðingi, á hverri klukkustund til Tomsk og lát hraðboða jafnharðan færa mér fréttirnar.« »Það skal gert, herra,« og Kissoff hershöfðingi gekk burt. Það var tveimur stundum eftir miðnætti að þessi orð voru töluð, einmitt þegar sem hæst stóð gleðin og glaumurinn í nýju höllinni, sem vígð var með veizlu þessari. Tveir úrvals hornleikaraflokkar tilheyrandi Próobrajansky og Poulowsky herdeildunum, höfðu spilað uppihaldslaust alt kvöldið og ekkert nema úrvals danslög, öll þau vönduðustu og frægustu. Óteljandi dansarar svifu aftur og fram um hina rúmmiklu, skrautlegu hallarsali, fá skref að eins frá »steinhúsinu gamla«, — sem, á meðan það var og hét, var leiksvið og margra sorgarleikja. En nú var það yfirgefið, þó veggir þess í kvöld bergmáluðu hinn, glymjandi horna-hreim. Stórféhirðir keisarans, sem var umsjónarmaður vígsluhátíðarinnar, hafði í þetta skifti ötula aðstoðarmenn við sitt vandasama starf. Aðstoðarféhirðar, stórhertogar og þeirra aðstoðarmenn, auk fjölda embættismanna við hirðina — allir þessir hjálpuðu honum og önnuðust um að dansinn héldi áfram uppihaldslaust. Stórhertogarnir, glansandi í gull- og demantskarti, þernur þeirra og keisarainnurnar í sínum skrautmesta búningi, gerðust þar fyrirmynd hermannakonanna og heldri mannanna, borgaranna í þessari gömlu »grásteinaborg«. Það var þess vegna undrafögur sjón, er mætti auganu, þegar hljóðfærin kölluðu boðsgestina af stað í hinn rólega, kyrrláta »Polonaise«-dans, sem við slík tækifæri gengur sem næst að gildi sem þjóðdans. Þegar allir voru komnir á hreyfingu, blönduðust litir búninganna aðdáanlega og mynduðu, ósegjanlegan dýrðarljóma, hlaðbúnir, slóðalangir silkikjólar kvenmanna og marglitir einkennisbúningar hermannanna með glitrandi heiðursmerkjum í stað demantsfestanna á kjólum kvennanna. Ljósahjálmar með svo hundruðum ljósa skifti lýstu hinn mikla sal, en skuggsjár, greiptar í veggina hér og þar, tífölduðu ljósfjöldann og ljómann. Dans þessi fór fram í stærsta salnum í þessari miklu byggingu og var hann í sannleika vegleg umgerð fyrir þessa fögru mynd. Loftið var sett logagyltum doppum og rósum er glóðu í ljóshafinu, eins og stjörnur á heiðum himni. Til hliðanna hvarvetna fyrir bogum og hurðum voru allskonar dúkar og rósatau í bugðum og fellingum og mynduðu prýðilegt litasafn. Ljóshafið innan úr höllinni lýsti hið myrka haf umhverfis höllina, gegnum hina mörgu bogmynduðu glugga, betur en nokkur húsbrenna gerði. Þeir af gestunum, sem ekki tóku þátt í dansinum, tóku eftir þessum mikla mun. Sitjandi í bog-gluggunum laust utan við mannhringinn sáu þeir enda langt í burtu móta fyrir hinum mörgu, háu turnum, eins og gráum, en óskýrum rákum á dökkum grunni, og hinum mörgu og mikilfenglegu hvolfturnum, sem hvarvetna skreyta þessa gömlu borg. Fyrir neðan útskornar svalirnar á þeim turnum, sem næst voru ljóshafinu í höllinni, mátti enda greina hina mörgu varðmenn á sífeldri ferð upp og ofan með byssur á öxl, en hjálmtyppin glitruðu í ljósstraumunum eins og slípað silfur eða gull. Og inn um opna gluggana mátti heyra hin jöfnu stig varðmannanna á steinstéttunum niðri umhverfis höllina, stig, sem enda voru jafnari en dansendanna inni. Smámsaman heyrðist líka hvernig varðmennirnir fluttu varðmerkisorð sín frá einum til annars og endur og sinnum blandaðist þytur herlúðranna úti við óm hornanna inni. Enn fjær, undan framhlið hallarinnar mótaði fyrir mörgum dökkum þústum, sem eins og liðu yfir þveran ljósstrauminn og byrgðu útsýnið. Þessar þústur voru bátar, sem svifu með hægð undan strauminum í ánni, er féll um borgina fyrir neðan hjallana fram af nýju höllinni. Aðal-maðurinn, sem nefndur hefir verið, sá er Kissoff ávarpaði eins og konung eða keisara, og gjafari þessarar gleðihátíðar — hann var bara í óbrotnum einkennisbúningi riddaraforingja í varðliðinu. Það var ekki fyrir neina uppgerð af hans hálfu, að hann klæddi sig þannig. Hann sýndi þannig blátt áfram hversdagssnið þess manns, er hugsaði allra manna minnst um glit og skraut. Búningur hans var því æði hversdagslegur í samanburði við stássið á öllum umhverfis hann, en umhverfis hann var alt af hringur af Kósökkum, Circassiu og Georgiu hermönnum í hinum glitmikla, einkennisbúningi Kákasus-herdeildanna. Þessi maður, svo hávaxinn, svo hæglátur, en glaðvær, ef tekinn var tali, var fremur alvarlegur, en sífelt á ferðinni meðal gestanna. Fátalaður var hann samt og virtist gefa hinu almenna samtali lítinn gaum; var sama hvort um var að gera gáska unglinganna, eða alvarlegar samræður hinna eldri og stórmennanna, fulltrúa erlendra þjóða við hirð Rússa, sem auðvitað voru, í veizlunni með föruneyti sínu. Tveir eða þrír af þessum erlendu, skarpskygnu, stjórnfræðingum þóttust greinilega merkja ókyrleik á svip hans, en hvað olli því, var nokkuð, sem þeir ekki gátu gruflað upp og enginn leyfði sér að spyrja hann hvað áhyggjuefnið væri. Það var greinilega ætlun hans, að áhyggjur hans á engan hátt köstuðu skugga á gleðina. Og þar sem hann var einn af heim fáu mönnum, sem margmenni, nærri nóg til að byggja heilan heim út af fyrir sig, var vant við að hlýða, var gleðin ekki takmörkuð hið allra minnsta. Kissoff hershöfðingi hafði komið með annað skeyti frá Tomsk, hafði fengið það öðrum hershöfðingja og beið svo eftir vísbendingu frá honum, að hann mætti fara. Þessi þegjandalegi stóri maður tók við skeytinu án þess að mæla orð, braut það upp og las. Ósjálfrátt greip hægri hönd hans um sverðshjöltun, en svo lyfti hann henni upp og strauk henni um ennið, og að lyktum, eitt einasta augnablik, brá hann henni eins og skygni fyrir augun, eins og vildi hann útilykja glóandi ljósstraumana, svo að hann þeim mun betur sæi inní sitt eigið hugskot. »Svo það hafa engar fregnir komið frá stórhertoganum síðan í gær,« sagði hann spyrjandi, eftir að hafa gengið til Kissoffs og farið með hann út að einum glugganum. »Nei, herra,« svaraði Kissoff, »og það er hætta á að innan skamms verði fréttaþráðurinn högginn alt að Vesturtakmörkum Síberíu.« »Hafa ekki herflokkarnir í héruðum Amoor og Irkutsk og einnig þeir í Trans-Balkan-héruðunum fengið skipun um að fara tafarlaust til Irkutsk?« »Jú, herra, sú skipun var hin síðasta, er send varð með fréttaþræði austur yfir Baikail-vatn.« »Höfum vér enn fréttasamband við stjórnirnar í Yeneseisk, Omsk, Semipolatinsk og Tobolsk?« »Já, herra. Skeyti vor hafa enn komist til skila og erum vér fullvissir um, að enn þá hafi Tartararnir ekki náð sér niðri fyrir handan árnar Irtish eða Obi.« »En hvað um svikarann Ivan Ogareff, eru engar fréttir af honum?« »Engar. Lögreglustjóranum er ómögulegt að segja hvort hann er kominn yfir landamærin eða ekki.« »Sjáðu til að tafarlaust sé send lýsing af honum til Nijni-Novgorod, Perm, Ekaterenborg, Kasimov, Toumen, Ishim, Omsk, Elamsk, Kalyvan, Tomsk, og til allra hraðfréttastöðva, sem enn næst til.« »Boðum þínum, herra, skal hlýtt,« svaraði Kissoff hershöfðingi. »Og, þú sérð um að ekkert af þessu berist út.« Kissoff gaf vísbendingu, um að svo skyldi vera, hneigði sig svo og fjarlægðist svo hinn háa mann, en staldraði lítið eitt við sem áhorfandi, til þess að komast út án þess því væri veitt sérstök eftirtekt. Hinn hái maður stóð einn sér og hugsandi um stund, en rankaði svo við sér og gekk á tal við einn flokk gestanna eftir annan og gerði sitt ýtrasta til þess að áhyggjusvipurinn hyrfi af andliti hans. Eftir alt saman var þó ofangreint samtal ekki eins mikið launungamál, eins og mennirnir, sem um það töluðu, héldu. Auðvitað var ekki rætt um það sem opinbert mál, en einstöku háttstandandi mönnum hafði í trúnaði verið sagt nokkurnveginn rétt frá því, er gerðist fyrir handan Evrópulandamærin. Víst var það, að í höllinni voru tveir menn að tala um þetta mál og tala meira um það, en nokkrir aðrir embættismenn og stjórnfræðingar gerðu. Þessir tveir menn voru ekki í einkennisbúningi og báru engin heiðursmerki, og voru ekki þegnar Rússlands, en voru þó í þessu mikla gildi. En hvernig í ósköpunum fóru þessir tveir menn að fá svo greinilegar fregnir af því, sem svo mörgum hæststandandi embættismönnum var óljóst? Það er ómögulegt að segja. Voru þeir máske skygnir, eða höfðu þeir spádómsgáfu? Sáu þeir gegnum holt og hæðir og sáu þeir hvað gerast mundi á ókominni tíð? Höfðu þeir máske eitthvert hulins afl til að komast að öllum leyndarmálum? Var það máske að þakka vananum, sem nú var orðinn að öðru eðli þeirra, vananum að lifa og þrífast á fréttum, að þeirra, sálarsjón og skilningur var þannig umskapaður orðinn? Það var óþægilegt að komast að annari niðurstöðu. Annar þessara manna var Englendingur. Hinn var franskur. Báðir voru háir vexti, en holdskarpir. Frakkinn var fölur, eins og Suður-Frakkar venjulega eru, en Englendingurinn var rjóður í kinnum eins og Lancashire gentle-maður. Englendingurinn var sérvitur, alvarlegur og þurr og sparneytinn á orð og hreyfingar; mátti virðast að gormar og fjaðrir, eins og í sigulverki, réðu orðum hans og hreyfingum, að hann gæti hvorki talað eða hreyft sig nema á ákveðnum reglubundnum augnablikum. Frakkinn var þvert á móti — allur á hjólum og talaði hann jafnt með vörunum, augunum og höndunum og með öllum þessum færum í senn, Hann gat skýrt orð sín og meiningu að minsta kosti á tuttugu ólíka vegu, en það gat Englendingurinn ekki. Hann gat það ekki nema með einu einasta móti, samkvæmt þeirri reglu er greipt hafði verið í huga hans í upphafi. Þeir voru svo ólíkir, að jafnvel ógætnustu áhorfendur mundu hafa greint muninn. En andlitsfræðingar mundu hafa komist að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa athugað þá, að ef Frakkinn var »allur augu«, þá var Englendingurinn »allur eyru«. Það var satt, að með æfingunni hafði sjón Frakkans náð undraverðri fullkomnun. Augnahimna hans hefir hlotið að vera eins viðkvæm eins og töframanna þeirra, er þekkja spilin á fluginu þegar verið er að stokka þau, eða á svo hárfínum merkjum, að þau eru öllum öðrum ósýnileg. Frakkinn hafði á fullkomnasta stigi það, sem mætti kalla: augnaminni. Englendingurinn aftur á móti virtist hafa verið gerður til þess sérstaklega að hlusta og heyra. Gæfist heyrnarfærum hans einu sinni tækifæri til að greina rödd einhvers manns var ómögulegt að hann gleymdi henni, og eftir 10 eða jafnvel 20 ár mundi hann hafa þekt hana úr þúsund radda klið. Auðvitað höfðu ekki eyru hans þann eiginleika, sem stóreyrð og slapeyrð dýr hafa, að geta hreyft sig að vild, en þar sem vísindamenn halda því fram, að eyru mannsins geti hreyft sig, þó ekki nema lítið, þá er óvíst að vér höfum mjög rangt, þegar vér segjum, að eyru hans hafi virkilega spert sig upp og snúið sér í allar áttir, til þess betur að geta gripið hljóð allt og hljóm, sem eyra fær gripið, þó sú hreyfing hafi ekki verið sýnileg nema náttúrufræðingum. Það er auðskilið að þessi fullkomnun sjónar og heyrnarfæranna var þessum mönnum undra gagnleg í stöðu þeirra. Því Englendingurinn var fregnriti blaðsins Daily Telegraph, og Frakkinn var fregnriti hvaða blaðs, eða blaða, það sagði hann ekki. Væri hann spurður að því, kvaðst hann skrifast á við »Madeleine frænku sína«. Undir galgopalegu yfirborði var samt þessi Frakki skarpskygn vel og séður. Hann gleymdi sér aldrei, þó hann væri að tala út í hött, ef til vill stundum í þeim tilgangi að hylja sem bezt löngun sína að fá fréttir. Mærð hans var jafnvel ákjósanlegasta felhella fyrir hugsanir hans og engu síður var hann varasamur, en félagsbróðir hans frá "Daily Telegraph". Báðir voru í þessari veizlu, sem haldin var 15. júlí í nýju höllinni, sem fregnritar blaðanna, og til þess að lesendur þeirra, fengju meira en fáorða lýsingu af því mikla gildi. Þess er óþarft að geta, að báðir unnu verk sín með alúð — helguðu sig stöðunni með lífi og sál, að báðum var öllu kærara að ná í sem óvæntastar nýjungar, að ekkert deyfði kjark þeirra eða hræddi, svo þeir gæfust upp, og að báðir höfðu ærinn skerf af rósemi og stillingu og dirfsku, sem nauðsynleg er í þeirri stöðu. Þeir voru örgeðja veðreiðarmenn í þessu efni, á fréttaveiðum, og hleyptu umhugsunarlaust á gerði og garða, gil og fljót, með það eina fyrir augum, eins og stríðalinn veðhlaupahestur: að verða á undan, eða láta lífið. Blöð þeirra skömtuðu þeim heldur ekki peningana úr hnefa og peningarnir eru vissasta og fljótvirkasta frumefnið við fréttasöfnun, sem heimurinn hefir þekkt fram á þennan dag. Þeim til heiðurs er líka sjálfsagt að geta þess, að þeir voru ekki menn sem gægjast um gættir og yfir girðingar, eða leggja hlustir að húsveggjum til að fregna hvað gerist í prívat-lífinu. Þeir fregnuðu að eins um það stóra og almenna, sem á einhvern hátt snerti þjóðlífið. Í einu orði: Þeir rituðu um stórpólitík og hernaðarmál. Fylgi maður þeim eftir, kemur það fram, að þeir höfðu sjálfstæðar skoðanir á því, er fyrir þá bar, en sérstaklega þó á afleiðingun þessa og hins og að þeir hvor um sig mátu þetta og hitt eftir sínu höfði. Þeir voru ekki nízkir, en mátu hvað sem fréttnæmt var ákveðins gjalds virði og borguðu samkvæmt því. Frakkinn hét Alcide Jolivet, Englendingurinn hét Harry Blount. Þeir höfðu aldrei sézt fyrr en í þessari veizlu í nýju höllinni og þeir voru þar að boði blaða sinna, til að senda nákvæma lýsingu af gildinu. Það hefði ekki verið ótrúlegt, þó lítið hefði verið um vináttu þeirra, því fyrst og fremst vekur slík samkeppni nokkurskonar öfund og svo voru þeir að auki svo ólíkir að eðlisfari. Þó sneiddi hvorugur sig hjá öðrum, en reyndu þvert á móti að segja hvor öðrum nýjungar. Þeir voru, þegar allt kemur til alls, veiðimenn á sömu veiðistöðvum, og báðir vildu veiða hið sama. Það sem annar kynni að missa sjónar á gat hann máske fengið bætt með viðræðum við hinn, og var þess vegna beggja hagur að ræða saman. Þeir voru báðir sérlega vel vakandi þetta kvöld; þeir fundu það á sér, að eitthvað stóð til. "Þó það sé máske ekki annað en villigæsa leit," hugsaði Jolivet, "má þó vera að tilvinnandi sé að eyða á gripinn nokkrum höglum." Stuttu eftir að Kissoff gekk burtu, settust þeir saman í afkima við einn gluggann og tóku að kanna hvor annan. »Þetta er yndislegt samsæti, herra minn,« sagði Jolivet í byrjun samræðunnar. »Ég hefi þegar símað, að hún sé dýrðleg,« svaraði Harry Blount ofboð rólegur og lagði áherzlu á orðið, sem við slík tækifæri er svo almennt viðhaft á Bretlandi. »Þrátt fyrir það,« tók Jolivet fram í, »fann ég mér skylt að geta þess við frænku mína.« »Frænku!« tók Blount fram í, öldungis hissa. »Já, Madeleine frænku mína — ég skrifast á við hana, og hún gengur ríkt eftir að fá nýjungar fljótt og vel útilátnar, má ég segja þér .... þrátt fyrir allt fann ég mér skylt að segja henni, að mér virtist ský yfirskyggja svip keisarans, meðan á veizlunni stóð.« »En mér virðist allt vera glóandi dýrð,« svaraði Blount, sem ef til vill vildi hylja skoðun sína fyrir Frakkanum. »Og auðvitað gerðir þú þá svipinn allan dýralegan á dálkunum í »Daily Telegraph«. »Vitaskuld.« »Manstu, Mr. Blount, hvað gerðist að Zakret árið 1812?« »Já, eins og ef ég hefði verið þar sjálfur,« svaraði Blount. »Ja, þá veiztu líka,« sagði Jolivet, »að mitt í veizlunni, sem honum var haldin í heiðursskyni, var Alexander keisara kunngert, að Napoleon væri kominn yfir Niemen með brjóstfylking franska hersins. Samt yfirgaf keisarinn ekki samsætið þrátt fyrir þá voðafregn, vitandi þó, að herferð sú gæti máske svift hann veldinu. Undir kringumstæðunum lét hann þó ekki meira á sér sjá — —.« »En gjafari þessarar veizlu gerði,« tók Blount fram í, »þegar Kissoff hershöfðingi kunngerði honum að búið væri að höggva fréttaþráðinn milli Evrópu-landamæranna og Irkutsk.« »Svo þú veizt þá um það?« »Já.« »Hvað mig snertir,« sagði Jolivet, »gat ég naumast komist hjá að vita um það, af því símskeytið sem ég sendi síðast, náði aðeins til Udinsk.« Tilburðir hans og rödd sýndi, að hann þóttist hafa gert vel. »Og mitt seinasta skeyti náði bara til Krasnoiarsk,« sagði Blount, ekki síður ánægður með sjálfan sig. »Svo þú veizt þá einnig um skipunina, sem send var hermönnunum í Nikalaevsk?« »Já, kunnugt er mér það, og hitt líka, að samtímis var sent skeyti til Kósakkanna í Tobolsk-hérarðinu um að draga saman liðið.« »Öldungis rétt, Mr. Blount. Ég vissi líka um þessa ráðagerð og máttu vera viss um, að Madeleine frænka fréttir eitthvað um það á morgun.« »Sama loforð gaf ég lesendum »Daily Telegraphs«, Mr. Jolivet.« »Já, þegar maður sér allt, sem gerist ...« »Og heyrir allt, sem sagt er ...« »Þá er ánægjulegt að rekja förin, Mr. Blount.« »Og ég mun líka rekja þau, Mr. Jolivet.« »Þá er hugsanlegt, að við verðum ekki æfinlega á jafn-óhultum grundvelli, eins og þetta hallargólf er.« »Sjálfsagt ekki eins óhultum, en ....« »Ekki eins hálum máske,« bætti Jolivet við um leið og hann forðaði Blount frá falli á hinu glerhála gólfi. Svo skildu þeir keppinautarnir, hvor um sig hróðugur yfir því, að enn hefði hinn ekki komizt lengra en hann sjálfur. Í þessari svipan var slegið opnum mörgum breiðum dyrum til hliðar við danssalinn og kom þá í ljós borðsalur mikill alsettur skrautbúnum borðum, hlöðnum gull og silfur borðbúnaði. Á borðinu, sem stóð í miðju, og sem ætlað var prinsum og prinssessum og ráðherrum erlendra þjóða, glóði borðkranz (Epargne) mikill og lítt nefnandi til verðs, keyptur í Lundúnum. Umhverfis þetta glóandi gulldjásn glitraði í þúsundatali borðáhöld, hin vönduðustu og fáguðustu, er nokkru sinni höfðu verið unnin í hinum víðfrægu Sévres-verksmiðjum. Boðsgestirnir tóku nú að streyma inn í borðsalinn til að fá sér hressingu, og í því kom Kissoff inn aftur og nálgaðist riddaraforingjann. »Hvað er nú að frétta?« spurði foringinn blátt áfram, eins og áður. »Skeytin komast nú orðið ekki lengra en til Tomsk, herra.« »Kallaðu sendiboða tafarlaust!« Og um leið gekk riddaraforinginn úr salnum og inn í annan áfastan. Það var herbergi ekki all-lítið í krika nokkrum í nýju höllinni og var í því óbrotinn og stásslaus húsbúnaður úr eik. Þar héngu margar myndir á veggjunum og meðal þeirra nokkrar eftir Horace Vernet. Riddaraforinginn gekk að glugga og opnaði hann í skyndi, eins og fyndist honum loftlaust inni í húsinu og gekk svo út á pall fyrir utan gluggann til að anda að sér hinu ferska miðsumarslofti. Umhverfis hann og fyrir neðan hann lá víggirt svæði í ljómandi tunglsskinsbaði, en innan girðingarinnar var að sjá þrjár hallir, hergagnabúr og tvær miklar dómkirkjur, sem hreyktu háum turnum upp í hið bláa hvolf. Umhverfis girðinguna mátti glöggt sjá þrjá óskilda bæi, sem allir mynduðu borgarheildina: Kitai-Gorod, Beloi-Gorod, Zemlianai-Gorod, þ. e. evrópiska bæinn, Tartara-bæinn og Kínverja-bæinn. Upp yfir allan þennan ógnaklasa sáust rísa turnar miklir með öllu upphugsanlegu lagi frá mikilfenglegum hvolfturni með silfurkrossi upp af til grönnustu turnspíru, en þessir turnar voru reistir á 300 kirkjum. Hér og þar milli húsanna sást glitta í mjóa á, ýmist að heita mátti við grunnmúr nýju hallarinnar eða langt í burtu. Allt þetta myndaði einkennilega fagra og marglita mynd og umgerð hennar var um 30 mílur enskar á lengd. Áin hét Moskva; bærinn hét Moskva; svæðið innan víggirðingarinnar hét Kremlin, og riddaraforinginn, sem stóð á pallinum með víslagðar hendur og með hnikla í brúnum og sem gerði þrennt í senn: hugsa um óþægilegt málefni, horfa á hina fögru útsýnismynd og hlusta á óm hornanna innan úr höllinni, var — keisarinn sjálfur. II. Rússar og Tartarar. Það var auðvitað ekki að ástæðulausu, að keisarinn yfirgaf gestaskara sinn og veizlugleðina svona sviplega, einmitt þegar gleðin stóð sem hæst. Fregnirnar, sem honum höfðu borizt, voru þess efnis, að ástandið fyrir handan Uralfjöll væri í hæsta máta alvarlegt. Það var augljóst orðið, að stórvægileg uppreist var í bruggi, í því skyni að svipta Síberíuhéruðunum undan hinni rússnesku krúnu. Rússaveldi í Asíu, öðru nafni Síbería, er að flatarmáli 1,790,208 ferhyrningsmílur og eru íbúar þessa landflæmis alls um 2 milljónir að tölu. Takmörk Síberíu eru að vestan Uralfjallaklasinn, að norðan íshafið frá Karahafi til Beringssunds, að austan Kyrrahafið og að sunnan Kína og Turkestan. Svæði þessi eru skift í mörg héruð, hvert undir sérstakri stjórn. Héruðin eru: Tobolsk, Yeniseisk, Irkutsk, Omsk og Yakutsk; innibindur að auki tvö stór héruð undir rússneskri stjórn: Okhotsk og Kamtschatka, og tvö héruð enn, sem lúta Rússum: Kirghiz og Tshouktshes. Á þetta ógna hásléttu-flæmi, sem nær yfir meir en hundrað mælistig frá austri til vesturs, eru fluttir sakamenn Rússa og þangað eru líka sendir sem útlagar allir pólitískir afbrotamenn. Tveir jarlar eru fulltrúar Rússakeisara í þessum landgeimi öllum, annar ræður yfir vestur-Síberíu, en hinn yfir austur-Síberíu, en áin Tchouna, er fellur í Yenisei, aðskilur jarldæmin. Höfuðstaður vestur-Síberíu heitir Irkutsk og situr þar jarl yfir þeim hluta veldisins. Engin járnbraut liggur enn þá um þessar grasgefnu sléttur, sem víða eru mjög frjósamar, og engin járnbraut liggur enn að eða frá hinum miklu Síberíunámum, sem til þessa gefa af sér svo miklu meiri auð en jarðvegurinn sjálfur. Á sumrum verður ferðamaðurinn að ferðast í Kibika eða Telga,[* Kibika er nokkurskonar vagn, sem tjaldað er yfir með mottum úr hálmi, og Telga er samkynja, en tjaldlaus. 3 hestar ganga fyrir hvorum vagni sem er, einn á undan, en tveir á eftir samhliða.] en á vetrum í sleða. Einn einasti símþráður er strengdur austur í Síberíu frá Moskva, og er lengd hans yfir 8000 verst[Verst er rétt rúmur kílómetri (athugasemd 2014). [Upprunleg ath. þýð. Verst er 1165 yards, eða 5821 faðmar, en ensk míla 1760 yards, eða 880 faðmar.]] og sameinar þannig Rússland og útskaga þennan. Fyrir austan Uralfjöll eru helztu, símastöðvarnar þessar: Ekaterenborg, Kasimov, Tiomen, Ishim, Omsk, Elamsk, Kalyvan, Tomsk, Krasnoiarsk, Nijni-Udinsk, Irkutsk, Verkne-Nertschink, Strelink, Albazine, Blagowstonks, Radde, Orlomskaya, Alexandrowskoe, Nikolaevsk. Gjaldið fyrir hvert eitt orð, sem sent er frá enda til enda á þessari leið er 6 rúblur og 19 kópekar[gjaldið fyrir hvert orð þannig $4.60]. Frá Irkutsk liggur aukaþráður til þorpsins Kiatka á landamærum Kína og frá þeirri stöð flytja hraðboðar skeytin til Peking á hálfsmánaðartíma, fyrir 30 kópeka hvert orð. Það var þessi aðalþráður, sem högginn hafði verið, fyrst fyrir austan Tomsk og síðar vestar, milli Tomsk og Kalyvan. Og þessi fregn var ástæðan til þess, að keisarinn svaraði henni ekki öðru en því að heimta sendiboða á augnablikinu. Eftir að hafa um stund staðið hreyfingarlaus við gluggann, opnuðust dyrnar og lögreglustjóri borgarinnar staðnæmdist á þrepskildinum. »Komdu inn, hershöfðingi,« sagði þá keisarinn, »og seg mér alt, sem þér er kunnugt um Ivan Ogareff.« »Hann er skaðræðismaður, herra,« svaraði lögreglustjórinn. »Hann, var óbersti, er ekki svo?« »Jú, herra!« »Var hann skörulegur stjórnari?« »Já, sérlega, en stórlyndari en svo, að hann yrði beygður. Og svo metorðagjarn var hann, að hann sveifst einskis, og varð því innan skamms viðriðinn ýms samsæri. Það var þess vegna að stórhertoginn svifti hann stöðunni og gerði hann að útlaga í Síberíu.« »Hvað er langt síðan?« »Tvö ár. Eftir 6 mánaða útlegð gafst þú, herra, honum upp sakir og kom hann þá aftur til Rússlands.« »Og hefir hann ekki farið til Síberíu síðan?« »Jú, herra, en það gerði hann ótilkvaddur,« svaraði lögreglustjórinn og bætti svo við í nokkuð lægri róm: »Það var einu sinni, herra, að enginn kom aftur úr Síberíu!« »Já, en á meðan ég lifi, skal öllum mönnum mögulegt að koma aftur frá Síberíu.« Á þessi orð lagði keisarinn nokkra áherzlu, enda hafði hann ástæðu til þess, því með góðmennsku sinni hafði hann svo oft sýnt, að réttlætið í Rússlandi má tempra með miskunnsemi. Lögreglustjórinn svaraði þessu ekki, en það leyndi sér ekki, að honum þótti ekkert varið í slíka hálfvelgju. Það var hans skoðun, að enginn maður ætti afturkvæmt, sem einu sinni hafði fylgt lögregluþjóni austur yfir Uralfjöll. En því var ekki þannig varið undir hinni nýju stjórn og það sveið lögreglustjóranum. Honum leizt ekki á að sjá pólitíska útlaga koma frjálsa menn aftur austan frá Tobolsk, Yakutsk eða Irkutsk. Í einu orði: lögreglustjórinn, svo vanur sem hann var orðinn fyrri ára harðstjórn og þrælsböndum, gat ekki skilið í þessari nýtízku ráðsmennsku. En samt sagði hann ekkert, en beið þess, að keisarinn legði fram fleiri spurningar, og hann þurfti ekki lengi að bíða. »Kom ekki Ivan Ogareff til Rússlands í annað skifti eftir þessa ferð um Síberíu, sem enginn veit í hvaða tilgangi var gerð?« »Jú, herra.« »Og hefir lögreglan týnt förum hans síðan?« »Nei, herra. Því sakamaðurinn verður fyrst alvarlega skaðlegur eftir að hann hefir verið náðaður!« Keisarinn hleypti brúnum. Hafði lögreglustjórinn máske farið heldur langt? En hann taldi það næga afsökun, að ást sín á keisaranum væri að minnsta kosti eins mikil og þrályndi hans í þessu efni. Keisarinn lét þessa ákæru eins og vind um eyrun þjóta, en hélt áfram að spyrja: »Hvar var Ogareff, er þið vissuð síðast?« »Í héraðinu Perm.« »Í hvaða þorpi?« »Í Perm.« »Hvað var hann þá, að gera?« »Hann var, að því er séð varð, aðgerðalaus og framkoma hans að engu leyti grunsamleg.« »Svo leynilögreglan hafði ekki gætur á honum?« »Nei, herra.« »Hvenær fór hann úr Perm?« »Um marzmánaðar-leytið.« »Og hvert?« »Það vita menn ekki.« »Og síðan veit lögreglan ekkert um hann?« »Nei, herra, ekkert.« »Ég veit þá um hann síðan,« svaraði keisarinn. »Ég hefi fengið nafnlaus bréf, sem ekki gerðu vart við sig á lögreglustöðvunum. Og þegar ég athuga, hvað er í bruggi fyrir austan landamærin, þá hefi ég fullkomna ástæðu til að ætla innihald bréfanna rétt.« »Er ætlun þín, herra,« spurði þá lögreglustjórinn, »að Ivan Ogareff sé að taka þátt í þessari Tatara-uppreisn?« »Efalaust. Og svo skal ég segja þér nokkuð, sem þér er ókunnugt. Ivan Ogareff fór austur yfir Uralfjöll frá Perm og suðaustur um Síberíu, allt upp á Kirghiz-hásléttuna. Á þessari ferð gerði hann tilraunir og ekki árangurslausar, að æsa hirðingjaflokkana til uppreistar. Ferðinni hélt hann áfram allt suður í Turkestan og þar í héruðunum, Khokhand og Koondooz, hitti hann flokkshöfðingja, sem fúsir voru að senda flóð af Törturum norður um Síberíu í þeim tilgangi, að hleypa öllu í bál og brand. Óveðursskýin hafa verið að dragast saman með hægð, en nú eru þau dunin á með þrumum og eldingum, og allar samgöngur milli Vestur-Síberíu og Rússlands eru bannaðar. Auk þessa situr Ivan Ogareff um líf bróður hins, í hefndarskyni.« Á meðan hann talaði þannig, smá-æstist hann og stikaði stórum aftur og fram um herbergið. Lögreglustjórinn sagði ekkert, en hugsaði sem svo, að fyrrum, meðan engir Síberíu-útlagar voru náðaðir, hefði verið ómögulegt að ráða og framkvæma það, sem Ogareff framkvæmdi nú. Þannig liðu nokkur augnablik að ekkert var sagt, og á meðan hafði keisarinn kastað sér í hægindastól. Gekk þá lögreglustjórinn til hans og sagði spyrjandi, að hans hátign hefði auðvitað lagt drög fyrir að uppreist þessi yrði tafarlaust kæfð. »Já,« svaraði keisarinn, »seinasta skeytið sem vér gátum sent til Nijni-Udinsk, hefir sett í hreyfing alla herflokkana í umdæmunum Yanesse, Irkutsk og Yarutsk, sömuleiðis þá Amoor og Lake Baikal. Jafnframt eru herdeildir frá Perm og Nijni-Novgorod og Kósakkar á landmærunum á hraðri ferð áleiðis til Uralfjalla. En því miður hljóta nokkrar vikur að líða áður en þeir komast í Tartara-héruðin.« »Svo bróðir þinn, herra, hinn tignaði stórhertogi, er þá í hættu í héraðinu Irkutsk og getur ekki einu sinni komið fregnum til Moskva?« »Einmitt það.« »En seinustu skeytin hafa þó efalaust skýrt fyrir honum, hvað verið er að gera og á hvaða hjálp hann megi eiga von hjá héraðsstjórnunum næstu við Irkutsk.« »Hann veit það allt saman, en hann veit ekki, að auk þess að vera uppreistarmaður, er Ivan Ogareff bæði svikari og heiftrækinn, persónulegur fjandmaður hans. Stórhertoginn er valdur að niðurlæging Ogareffs og það hörmulegasta er, að þó hann sjái þennan fjandmann sinn, þekkir hann hann ekki. Fyrirætlun Ogareffs er þess vegna sú, að halda til Irkutsk undir fölsuðu nafni og bjóða stórhertoganum þjónustu sína. Eftir að hafa þannig náð hylli hans, svíkur hann bæinn í hendur Tartara, þegar þeir koma og með honum bróðir minn, sem þannig er í sífeldum lífsháska. Þetta hefi ég allt frétt í prívat-bréfum og skeytum. Þetta hefir stórhertoginn ekki hugmynd um, en þetta má hann til með að fregna.« »Já, herra, greindur og hugdjarfur sendiboði ...« »Ég á von á honum á hverri stundu.« »Það er vonandi að hann hraði ferðum,« sagði þá lögreglustjórinn, »því — ég vona þú leyfir mér að segja það, herra, að Síbería er frjósemisland, hvað uppreisn snertir.« »Er það trú þín hershöfðingi, að útlagarnir snúist í lið með uppreistarmönnum?« spurði keisarinn og leyndi það sér ekki, að honum féllu orð lögreglustjórans illa. »Ég bið afsökunar, herra!« sagði lögreglustjórinn stamandi, því keisarinn hafði getið rétt upp á meiningunni í orðum hans. »Ég treysti föðurlandsást þeirra,« sagði þá keisarinn blátt áfram. »En það eru aðrir afbrotamenn í Síberíu en pólitískir útlagar,« sagði lögreglustjórinn. »Hvað, glæpamennirnir? Jú, en ég eftirlæt þér þá, hershöfðingi! Þeir eru úrhrak mannfélagsins, það gef ég eftir, og þeir eiga ekkert föðurland. En þessi uppreist er ekki gerð gegn keisaranum; hún er hafin gegn Rússaveldi, veldinu sem hinir pólitísku útlagar vona að sjá aftur og sem þeir skulu fá að sjá aftur. Nei, nei. Rússneskur maður gengur aldrei í bandalag með Törturum í því skyni að veikja, þó ekki væri nema eina klukkustund, afl stjórnarinnar í Moskva!« Keisarinn gerði rétt þar sem hann treysti ættjarðarást þeirra, sem um stund voru útlagar af föðurlandinu. Vægðin, sem hann hafði sýnt þegar hann gat því við komið og sem sýndi réttlætistilfinning hans, og tilslökunin í stjórnarskipununum, sem fyrrum voru svo hræðilegar — hvorttveggja þetta réttlætti þessa trú hans. En uppreistin var hræðileg, án þess fram kæmi spá lögreglustjórans, því ástæða var til að óttast, að Kirghizar slægist í lið með Törturunum. Kirghiza-þjóðflokknum er skift í 3 aðal-flokka, hinn stóra, litla og miðlungs flokkinn, en alls telst þjóðflokkur þessi fjögur hundruð þúsund »tjöld«, eða 2 millj. manna. Sumir eru flokkar þessir mjög óháðir en aðrir telja sig skjólstæðinga Rússa eða Khananna í Kína, Khokhand og Bokhara, — en höfðingjar þeirra héraða eru hinir harðsnúnustu í Turkistan. Miðlungsflokkurinn er mannflestur og ríkastur og bústaðir hans, eða »tjöld«, grípa yfir allt svæðið á milli ánna Sara Sou, Irtish og Efri-Ishim og á milli vatnanna Saisang og Aksakal. »Stóri«-flokkurinn byggir svæðið fyrir austan Miðlungs-flokkinn og nær allt að takmörkum héraðanna Omsk og Tobolsk. Ef þess vegna Kirghizar snérust í lið með Törturum þýddi það almenna uppreist í Síberíu og aðskilnað hennar frá Rússlandi, vestur að Yeneseifljóti að minnsta kosti. Satt er það að vísu, að Kirghizar eru fákunnandi í hernaðiíþrótt og eru fremur þjófar og ræningjar á vegum lestamanna, en hermenn. Það er því satt sem Levchine segir, að ein fylking af öruggu fótgönguliði gæti yfirbugað tífalt fleiri Kirghiza og ein einasta fallbyssa gæti lagt þá að velli hrönnum saman. Þetta getur verið satt, en þá útheimtist samt að þessi fylking af fótgönguliði nái að komast í nágrennið og fallbyssur að komast út af skotveggjum Evrópukastalanna, 2000-3000 versts burtu frá orustusviðinu. En nú er vegurinn, nema um Ekaterenborg og Irkutsk, mýrkendur og blautur suður slétturnar, og þess vegna oft illfær. Þar af leiðir, að nokkrar vikur hlutu að líða áður en hermenn Rússa kæmust í skotfæri við Tartara-sæginn. Omsk er aðalherstöðin í Vestur-Síberíu, og á hermanna-aflinn í þeirri grend að ógna Kirghizum. Þar eru takmörkin, sem hálf-unnir hirðingjaflokkar höfðu nokkrum sinnum yfirstigið, og nú var hætta á að Omsk væri í hættu. Herstöðvarnar, það er kósakkaröstin, sem strengd var eins og festi á milli Omsk og Semipolatinsk, hefir nú þegar hlotið að vera orðin slitin í mörgum stöðum. Nú var og að óttast, að »stór-soldánarnir«, sem ríkja í héruðum Kirghiza, mundu annað tveggja lúta sjálfviljugir lúta valdi Tartara, er voru Múhameðstrúar eins og þeir sjálfir, eða óafvitandi dragast inn í leikinn. Það mátti og óttast, að saman við hatrið, sem þrælahaldið var orsök í, mundi blandast hatrið, sem sprottið var af trúarþrætum Múhameðsmanna og þeirra Grísk-kaþólsku. Það var enda einu sinni, að Tartarar í Turkestan, sérstaklega þeir í Khana-umdæmunum Bokhara, Khiva, Khokhand og Koondooz, gerðu örugga tilraun, bæði með blíðu og stríðu, til að vinna alla Kirghiza undan hinni rússnesku krúnu. Þá er að segja örfá orð um Tartarana. Þeir tilheyra tveimur auðkennilegum þjóðflokkum: Mongólum og Kákasus-mönnum. Kákasus-kynhvíslin, sem, eins og Abel de Rémusat segir, »er í Evrópu álitin fyrirmynd fegurðarinnar meðal mannkynsins, af því allar þjóðir í þessum hluta heimsins eru af þeim ættstofni«, — þessi kynkvísl Tartaranna gengur undir sama aðal-nafni eins og Tyrkir og Persar. Mongólakynkvíslin skiftist í 3 flokka: Mongóla, Manchous og Thíbeta. Tartararnir, sem nú voru að ógna Rússum, voru af Kákasus-flokki og bygðu Turkestan-héruð, en höfðingi sá ræður yfir hverju, sem nefndur er Khan og héruðin því Khana-dæmi. Hin stærstu þeirra eru Bokhara o. fl., sem áður hafa verið nefnd. Hið merkasta og undir eins ægilegasta af þessum Khana-dæmum var Bokhara, þegar sagan gerðist. Rússar höfðu átt í sífelldum orustum við höfðingja þess, sem sjálfs sín vegna höfðu kostað kapps um að Kirghizar ekki gengju Rússum á hönd. Höfðingi héraðsins nú var nefndur Feofor Khan og fylgdi hann í þessu efni rækilega í fótspor fyrirrennara sinna. Khana-dæmið Bokhara liggur á milli 37. og 41. norðurbreiddar gráðu og milli 61. og 66. vesturlengdar gráðu. Með öðrum orðum, flatarmál þess er sem næst 30,000 ferhyrningsmílur. Íbúatala þess um 2½ millj., og á friðartíma eru hermenn þess um 60,000, en á ófriðartíma um 180,000 og að auki um 30,000 riddarar. Náttúruauðlegð mikil er í héraðinu, málmar í jörðu, jarðvegurinn frjósamur; jókst auðlegð þess mjög, er það náði undir sig smáhéruðunum Balk, Ankoi, og Meimaneh. Í héraðinu eru 19 bæir all-stórir, — Bokhara stærstur, umgirtur með 8 mílna löngum grjótbálki og mörgum skotturnum. Það er yndislegur bær og merkur, frægur í sögunni, síðan Avicenna og aðrir lærðir menn bjuggu þar á 10 öld. Er bær þessi álitin vagga og skóli allra múhameðískra vísinda og talinn ein merkasta borg í Mið-Asíu. Samarcand er annar merkur bær í Bokhara og þar er gröf Tamerlanes og þar er höllin mikla, sem hefir að geyma bláa steininn, er allir Khanar verða að setjast á þegar þeir eru vígðir; er sá bær einnig víggirtur. Karschi er hinn þriðji merkisbærinn í Bokhara, umkringdur með þrefaldri víggirðing og þar fyrir utan umkringdur af flóum og fenum, fullum af skjaldbökum og skriðdýrum; er því helzt óvinnandi staður. Aðrir bæir í héraðinu, sem eru allt að því óvinnandi, eru: Ischardjourð Katta-Kourgan, Nourata, Djizah, Paikande, Karakoul, Khonzar o.fl. Óbyggðar hásléttur á aðra hlið og ókleif fjöll á hina eru örugg vígi, og þess vegna er Bokhara Rússum örðug viðureignar; það þyrfti mikið lið til að vinna það hérað. Höfðingi þessa hluta Tartara-landanna, Feofar, var bæði grimmur og metorðagjarn og taldi hann sér víst fylgi höfðingjanna í Khokhand og Koondooz, ef ekki fleiri, en þeir voru blóðþyrstir og grimmir og voru til í allt, og stóðu tilbúnir í herferðir eins og þá sem Ivan Ogareff hafði hugsað sér og sem hann tók aðal-stjórn á. Skálkur sá var knúður út í þetta af stjórnlausri metnaðargirnd ekki síður en af hefnigirni og hatri, og hafði hann ráðið því, að leiðum öllum var lokað austur um Síberíu; vitleysa var það auðvitað að ætla sér að ráðast á vígi Rússa. Að boði hans hafði emírinn (Khaninn í Bokhara tekur sér það nafn) sent mesta sæg af skríl sínum inn yfir landamæri Rússa í héraðinu Semipolatinsk og kósakkavörðurinn, sem var fyrir, var of mannfár til að standast áhlaupið; lagði því á flótta. Hafði hann þannig haldið áfram norðvestur fyrir Balkash-vatn og aukið lið sitt á þeirri ferð með fjölda af Kirghizum. Stelandi, rænandi og myrðandi, hélt hann áfram þorp úr þorpi, tók þá fanga, sem ekki vildu ganga honum á hönd, en gerði þá að hermönnum, er lofuðu fylgi. Með honum fylgdi allt hús hans, eins og Austurlandahöfðingja sæmir, þ. e. konur hans allar og frillur, þrælar og þjónar og skorti þar hvorki hroka eða harðstjórn. Hvar þessi óaldarflokkur var nú, var ómögulegt að vita, hvað langt hann var kominn inn í Síberíu þegar fregnin fyrst kom til Moskva, og ekki heldur til hvaða staða Kósakka-varðmennirnir urðu að flýja. Frétta-samband allt var slitið. Höfðu útverðir Tartara höggið símþráðinn milli Kalyvan og Tomsk, eða var emírinn sjálfur kominn inn í Yeneseisk-héruðin? Var öll Síbería komin í uppnám? Hafði uppreistin máske náð að festa rætur í Eystri-Síberíu líka? Þessum spurningum kunni enginn að svara. Hinn eini sendiboði, sem óttaðist hvorki hita né kulda, sem enginn veðrabreyting hefir áhrif á, og sem fer um landið með ljóshraða — rafmagnsstraumurinn — var nú stöðvaður austur á Síberíu-flesjum, og þess vegna ómögulegt að ná til stórhertogans, sem inniluktur var í Irkutsk, og vara hann við landráðamanninum Ivan Ogareff. Sendimaður hlaut hér að koma í stað rafmagnsins. En það var löng leið og seinfarin, sem sá sendiboði átti fyrir hendi, um fimm þúsund og tvö hundruð verstir frá Moskva. Á þeirri leið þurfti hann að ryðja sér braut gegnum fylkingar fjandmannaskríls, og til þess þurfti bæði hugrekki og slægð, enda meiri en vonast mátti eftir hjá mennskum manni. »Get ég, þegar í stað, fengið slíkan afreks- og afbragðsmann?« hugsaði keisarinn. III. Mikael Strogoff fyrir keisaranum. Herbergisdyrnar opnuðust og Kissoff hershöfðingi kom inn. »Sendiboðinn?« spurði keisarinn óþreyjufullur. »Hann er hér, herra,« svaraði Kissoff. »Og þú trúir, að hann sé góður maður?« »Ég skal ábyrgjast það, herra.« »Hefir hann verið í þjónustu við hallar-liðið?« »Já, herra.« »Og þú ert honum kunnugur?« »Já, nákunnugur honum; hann hefir oftar en einu sinni, leyst vandasöm störf af hendi og farist vel.« »Utan Rússlands?« »Í sjálfri Síberíu.« »Hvaðan er hann ættaður?« »Frá Tomsk. Hann er fæddur í Síberíu.« »Og hann hefir greind, áræði og hug.« »Já, herra, hann hefir alla þessa eiginleika og er manna vísastur til að vinna sigur, þar sem aðrir gefast upp.« »Hvað er hann gamall?« »Hann er þrítugur.« »Og hann er framgjarn og hraustur?« »Hann þolir kulda, hungur, þorsta og þreytu, betur en nokkur annar sem ég þekki.« »Hann hlýtur að hafa eflda byggingu?« »Það er rétt, herra.« »Og hjartalag hans er?« »Hið ákjósanlegasta.« »Hvað er nafnið?« »Mikael Strogoff.« »Er hann ferðbúinn?« »Hann býður boða keisarans í varðmanna-salnum.« »Láttu hann koma inn.« Kissoff gekk út og kom innan stundar með Mikael. Mikael Strogoff var mikill maður vexti, hár og herðabreiður með mikið bunguvaxið brjóst, og skarplegur, þó ekki væri hann fasmikill. Höfuðið var stórt og andlitið laglegt. Líkamsbyggingin öll bar þess vott, að maðurinn mundi geta unnið þrekvirki. Það var ekki smámenna meðfæri að hreyfa hann til eða hrekja af fótunum, svo fastur og þungur virtist hann fyrir. Þegar hann tók ofan Moskóvíta-húfuna sína, liðuðust ljósir, þykkir og hrokknir hárlokkar niður um ennið. Að jafnaði var hann fölur, en bæri það við að roði kæmi í kinnar hans, var það eingöngu sprottið af örari hjartslætti og harðari blóðrás. Augun voru blá og kyrlát, en þó hvöss og djarfleg, augabrýrnar bogmyndaðar, sem samkvæmt útskýring eðlisfræðinganna, er vottur um göfuga hetjusál. Nefið var beint og nasirnar nokkuð víðar, munnurinn lítill og varirnar blóðmiklar, og mátti af því ráða, að maðurinn var góðlyndur. Framkoma hans var á engan hátt lík framkomu þeirra, sem ýmist klóra sér í höfðinu eða naga neglurnar í vandræðunum að afráða nokkuð. Frammi fyrir yfirboðara sínum bar hann sig að eins og hermanni sæmir, stóð teinréttur, hreyfingarlaus og talaði fátt, en þegar hann hreyfði sig, voru allir tilburðir hans liðugir og snarlegir. Hann var í fallegum einkennisbúningi, líkum búningi riddaraliðsins á vígvelli, í sporuðum stígvélum, nærskornum buxum, móleitri hempu með grávöru-kögri í hálsmáli, og í buxum með gulum borðum yfir öllum saumum. Á brjósti hans glóði krossmerki úr gulli og margir minnispeningar. Mikael Strogoff var yfirmaður í þeim flokki hermanna, sem helgaðir eru keisaranum sem hraðboðar, en í þeim flokki eru ekki nema úrvalsmenn. Aðaleinkenni hans sást greinilega, hvar sem á hann var litið, kom fram jafnt í tilburðum öllum og á svip hans, og eftir því tók keisarinn undireins, það var, að hann hugsaði öllu fremur um að fullnægja skipun yfirboðarans. Þessi eiginleiki, svo ómissandi á Rússlandi, leiðir með tíð og tíma, eins og hinn nafnfrægi rithöfundur Tourgueneff segir, »til æðstu valda í veldi Moskóvíta«. — Í stuttu máli, ef nokkrum manni var ætlandi að ryðja sér veg austur til Irkutsk gegnum fjandmanna hersveitir og um héruð full af uppreistarmönnum allskonar, þá var þessum manni það ætlandi. Það var meðfæri Mikaels Strogoffs, eða einskis manns. Það var líka ómetanlegur hagur fyrir hann, hve gagnkunnugur hann var héruðunum, sem hann þurfti að fara um og skildi og gat talað allar málýzkurnar, — því hann var fæddur og uppalinn í Síberíu, eins og áður er sagt. Faðir hans, hann gamli Pétur Strogoff, nú látinn fyrir 10 árum, bjó í þorpinu Omsk í samnefndu héraði og móðir hans, Marfa Strogoff, bjó þar eystra enn. Pétur gamli hafði verið harðger veiðimaður og æfði Mikael við að þola blítt og strítt á veiðiferðum strax á unga aldri um merkurnar og flesjurnar í Omsk og Tobolsk-héruðunum. Sumar og vetur, í brunahita og heljarkulda, þegar frostmælirinn vísaði 50 stig fyrir neðan zero, voru þeir á veiðum um sléttur og skóga með boga og byssur, lensur og hníf-sveðjur. Stærstu dýrin, sem þeir reyndu við, var Síberíu-björn, skrokkmikill og grimmlyndur og í engu eftirbátur hvítbjarna. Pétur gamli hafði yfirunnið meir en 39 þessa birni, — hann hafði yfirunnið þann fertugasta. En gamlar rússneskar þjóðsögur segja, að fáir beri gæfu til að vinna fertugasta björninn. Meðal þessara fáu var Pétur Strogoff, skeindist ekki einu sinni á litla fingri, er hann vó hinn fertugasta. Þá var Mikael 11 ára, og frá þeim tíma fylgdi hann ætíð föður sínum á bjarnarveiðar, bar ragatina eða lenzu karls og var tilbúinn að rétta honum hjálparhönd, en þá bar karl ekki annað en hnífsveðjuna miklu. Þegar Mikael var 14 ára, hafði hann vegið sinn fyrsta björn — alveg hjálparlaust, en það var nú ekkert til að státa af, en svo hafði hann dregið skrokkinn, eftir að hafa hleypt innan úr honum, margar verstir heim að húsi foreldranna, og það var aflraun fyrir svo ungan pilt. Þessi iðn færði honum þol og kjark, og þegar hann var fullvaxinn þoldi hann manna bezt hungur og þorsta, þreytu, kulda og vosbúð. Eins og Yakutar norðurhéraðanna var hann, að ætla mátti, gerður úr stáli. Hann gat verið á ferðinni sólarhringinn út, án þess að nærast, og hann gat verið uppi 10 nætur samfleytt án svefns. Kuldann þoldi hann svo, að hann gat lagt sig til svefns á bersvæði og notið hvíldar að þörfum, þar sem annar maður hefði aldrei vaknað aftur. Vegviss var hann svo, að Delaware-Indíánar í Ameríku hefðu ekki rakið slóðir betur. Þó framundan væri opin slétta, hulin snjóbreiðu og þó íshafsþokan grúfði sig niður að landinu og þó margra mánaða norðurskautsnótt bannaði alla birtu, þá samt fór hann ekki fet út af réttri leið, nokkuð sem fáir hefðu leikið. Veiðimannafræði föður síns hafði hann numið öll, og þekti öll hin óskýru merki, sem viðvaningar bókstaflega geta ekki greint. Ísingin á trjánum, greinar trjánna, þokubelti þar eða á hinum staðnum, óskýr ómur í lofti, flug fuglanna í þokuloftinu, — allt þetta o. fl. o. fl., voru vegvitar hans, merki, sem hann skildi, eins og letur á bók. Auk þessa hafði Síberíu-snjórinn og kuldinn svo temprað líkamsbygging hans, eins og Syriu-vatnið temprar hin frægu Damaskus-sverð, að heita mátti að hann væri gerður af stáli, og það var ekki síður satt, sem Kissoff sagði, að hjarta hans væri sem gull í samanburði við annan málm. Kvennaást þekkti hann ekki, nema hvað hann unni móður sinni, henni Mörfu gömlu, sem ófáanleg var til að yfirgefa sína frumbýlingslegu feðraeign á Irtish árbakkanum í Omsk, þar sem hún og Pétur hennar sálugi höfðu svo lengi búið. Þegar Mikael yfirgaf hana, gerði hann það hryggur í huga, en hann lofaði að koma og finna hana við öll tækifæri, og það hafði hann líka efnt. Hann var tvítugur, þegar ákveðið var að hann gengi í þjónustu keisarans, sem hraðboði. Hafði hann þá brátt unnið sér frægð mikla fyrir ferð austur til Kákasus-fjalla, um héruð þakin byltingamönnum og óeirðarseggjum. Síðar vann hann sér enn meiri frægð fyrir ferð austur að Petropolovski, austast í Síberíu, og norður á Kamtschatka. Í þessum ferðum sýndi hann svo mikla kænsku, hugrekki og þrek, að yfirmenn hans þokuðu honum óðum upp á við í stöðunni. Á eftir þessum ferðum átti hann sjálfsagt frí, og þó þúsundir mílna væru milli hans og móðurinnar og þó hávetur væri og gaddur yfir allt, lét hann aldrei hjá líða að verja frítímanum til að heimsækja hana. Síðastliðin 3 ár hafði hann allt af verið í þjónustu í suðurhluta Rússlands og hafði því öll þessi ár ekki getað heimsótt móður sína — ekki séð hana í þrjú ár — þrjár aldir! Aldrei fyrri hafði orðið svo langt milli funda þeirra. Nú átti hann að réttu lagi von á fráveruleyfi innan fárra daga og hann hafði líka búið svo um, að hann strax gæti farið af stað austur til fundar við móður sína. En þá kom þetta fyrir, og hann var leiddur fyrir keisarann, án þess að hafa hugmynd um, hvert erindið var. Keisarinn horfði á hann fast og lengi, en Mikael stóð hreyfingarlaus. Keisaranum leizt auðsjáanlega vel á manninn, því innan stundar gekk hann að skrifborði sínu, benti Kissoff að koma og lét hann skrifa fáort bréf. Að því búnu las keisarinn það, skrifaði svo undir það, braut það og skrifaði svo utan á það orðin: »Byt po sémou«, sem þýða: »Svo sé það«, en það eru ákvæðisorð keisara Rússlands. Svo var umslagið innsiglað með hinu keisaralega skjaldarmerki. Keisarinn stóð á fætur og bað Mikael að nálgast. Gerði hann það og stóð svo hreyfingarlaus aftur. Aftur leit keisarinn á hann og mættust þá augu þeirra. Spurði þá keisarinn heldur þurrlega: »Hvað heitir þú?« »Mikael Strogoff.« »Hver er staða þín?« »Kapteinn í hraðboðaliði keisarans.« »Þú ert kunnugur í Síberíu?« »Ég er Síberíu-maður.« »Hvar fæddur?« »Í Omsk, herra.« »Áttu skyldmenni þar?« »Já, herra.« »Hvaða fólk er það?« »Aldurhnigin móðir.« Keisarinn hætti um stund að spyrja, en benti svo á bréfið, sem hann hélt á, og sagði: »Ég fel þér á hendur, Mikael Strogoff, að skila þessu bréfi til stórhertogans í Irkutsk og fá það engum manni öðrum.« »Ég skal skila því, herra.« »En stórhertoginn er í Irkutsk.« »Ég fer til Irkutsk.« »Þú verður að fara um héruð, sem eru undir vopnum og sem Tartarar hafa skipað liði í og sem munu gera sitt til að bréfið komist ekki til skila.« »Ég skal fara þvert yfir þau héruð.« »Um fram allt verður þú að varast svikarann Ivan Ogareff, sem ef til vill verður á vegi þínum.« »Ég skal varast hann.« »Ferðu um Omsk?« »Sá bær er á leið minni, herra.« »Sjáir þú móður þína, er hætta á, að upp komist hver þú ert. Þú mátt ekki finna móður þína.« Mikael hugsaði sig augnablik um og svaraði síðan: »Ég skal ekki finna hana.« »Vinn þú eið að því, að þú skulir ekki viðurkenna, hver þú ert, né hvert erindi þitt er.« »Ég sver það.« »Hér er þá bréfið, Mikael Strogoff. Tilvera veldisins og ef til vill líf bróður míns er undir því komið, að það komist til skila.« »Ég skal afhenda stórhertogamun það.« »Svo þú heldur áfram, hvað sem fyrir kann að koma.« »Ég fer ferða minna, eða þeir drepa mig.« »Ég vil þú lifir.« »Ég skal lifa og ég skal fara alla leið.« Keisarinn virtist hæst ánægður með þessi einföldu, stuttu svör. »Farðu þá Mikael Strogoff, farðu þá fyrir Guð, föðurlandið, bróðir minn og og sjálfan, mig!« Strogoff hneigði sig, en svaraði engu, gekk svo út, og innan stundar var hann burtu úr nýju höllinni. »Þú hefir valið vel, hershöfðingi,« sagði þá keisarinn. »Það held ég, herra. Og víst er það, að Mikael Strogoff gerir allt, sem maður getur gert.« »Já, hann er maður í fyllsta skilningi,« svaraði keisarinn. IV. Frá Moskva til Nijni-Novgorod. Vegalengdin sem lá framundan Mikael, þegar hann svona skyndilega yfirgaf Moskva í ferð til Irkutsk, var yfir fimm þúsund og tvö hundruð verstir (um 3,500 mílur enskar). Fyrrum, áður en símþráður var strengdur yfir þessa leið, fluttu sendimenn ætíð fregnir á milli og voru þeir sem harðast riðu átján sólarhringa á leiðinni frá Moskva til Irkutsk. Þó var svo fljót ferð mjög sjaldgæf, en stóð venjulega yfir 4-5 vikur, og voru þó engar hindranir lagðar á veg sendiboða keisarans, heldur þvert á móti. Mikael Strogoff óttaðist ekki vetrarkuldann og nú hefði hann miklu fremur kosið miðjan vetur, en mitt sumar, því þá hefði hann getað farið í sleða alla leiðina. Harð-fannirnar, oft flughálar eftir þoku og ísing, mynda sérlega gott færi fyrir sleða, þó öll önnur umferð sé bönnuð á þessum víðlendu sléttum. Það sem á vetrum er sérstaklega að óttast á þeirri ferð eru hin náttúrlegu einkenni landsins: þoka, brunakuldi og stórhríðar, sem ekki ósjaldan verða stórum ferðamannalestum að bana. Svo eru og úlfarnir, sem þúsundum saman æða aftur og fram um fannirnar á vetrum. En þó hefði Mikael heldur kosið að mæta öllum þessum óvinum, því á vetrum mundu Tartararnir halda sig sem mest við herbúðir í bæjunum, en dreifa sér ekki eins og að sumrinu, út um allar sveitir lands til að ræna og stela. Vetrarkuldinn hefði bannað þeim að halda uppi hernaði og þeim mun hægra var þá fyrir Mikael að halda áfram ferð sinni. En þessu gat hann ekki ráðið. Hann varð að sætta sig við kringumstæðurnar, eins og þær voru. Um allt þetta hugsaði Mikael og hann bjó sig til að mæta hættunni og yfirbuga allar þrautir. Fyrst var að breyta búningi, því ekki mátti hann koma fram sem sendiboði keisarans, það mátti engan gruna, þar sem hann þurfti að fara um uppreistarhéruð. Grunaði einhvern, hver hann var, þá var allt í veði. Þess vegna, þegar Kissoff hershöfðingi fékk honum næga peninga til fararinnar, fekk hann honum ekki neitt skírteini þess efnis, að handhafinn væri sendiboði keisarans, skírteini, sem venjulega er einhlítt til að opna allar dyr. Hann fékk bara "podorojna", eða leyfi til að taka pósthesta sér til notkunar. Var skjal það búið út handa Nikulás Korpanoff, kaupmanni í Irkutsk. Var honum þar leyft að ferðast með einum fylgdarmanni eða fleirum, og hafði það framyfir samskonar skjöl, að færi svo að keisarinn fyrirbyði þegnum sínum að fara austur yfir landamærin, næði það bann ekki til kaupmannsins og föruneytis hans. Hann var undir öllum kringumstæðum frjáls til að ferðast. En á meðan Mikael var í Evrópu mátti hann ekki hagnýta þetta skjal, nema hann væri viss um, að það vekti engan grun. Afleiðingin af þessu var sú, að á ferðinni um uppreistarhéruðin og meðal fjandmannanna mátti hann ekki og gat ekki haft neitt vald til að velja úr hestum, eða heimta greiðari né meiri fylgd, en almennt var veitt. Svo mátti nú Mikael ekki gleyma því, að nú hét hann ekki lengur Strogoff, og var ekki sendiboði keisarans. Hann hét nú Nikulás Korpanoff og var blátt áfram kaupmaður frá Irkutsk, á ferð heim til sín frá Moskva. Í því gerfi var hann undirorpinn öllum þeim töfum, sem réttur og sléttur ferðamaður mátti búast við. Boðskapur hans hljóðaði þannig: að fara huldu höfði og svo fljótt sem kostur væri, en komast alla leið einhvernveginn. Til þess að ferðast um Síberíu, þrjátíu árum áður, þurfti heldri maður að hafa föruneyti, sem hér segir: 200 ríðandi Kósakka, 200 hermenn fótgangandi, 25 Baskir-riddara, 300 úlfalda, 400 hesta, 26 vagna, 2 báta, 2 fallbyssur. — Ekkert af þessu hafði Mikael Strogoff með sér. Hann átti að sitja í vagni þegar hann gat, á hestbaki, ef vagn fékkst ekki, og á fæti ef hnakkhestur var ekki til. Á fyrstu 900 mílunum var vandræðalaust að ferðast, austur að landamærum Evrópu. Járnbrautir, gufubátar, póstvagnar og hestar til reiðar voru þar hvarvetna og fyrir hvern, er vildi, og þess vegna öldungis eins fyrir sendiboða keisarans. Morguninn eftir, 16. júlí, fór Mikael ekki í einkennisbúning sinn, heldur í einfaldan alþýðubúning Rússa, þrönga peysu með belti um mittið, víðar buxur, hnýttar með dreglum um hnéð og há og mikil stígvél. Þannig útbúinn hélt Mikael Strogoff á vagnstöðina og náði í fyrstu lestina austur í land. Vopnaður var hann ekki að því er séð varð, en undir beltinu bar hann marghleypu góða og í vasa sínum hafði hann einn þennan stóra hníf, sem líktist daggarði, þ.e., hann er boginn og eggin á ytri rönd bogans. Þennan hníf bera veiðimenn allir í Síberíu og hleypa með honum á augnabliki innan úr dýrinu, án þess að skemma feldinn með ójöfnum skurði. Margmennt var á vagnstöðinni, enda vagnstöðvar í Rússlandi almennt hagnýttar sem fundarstaður, ekki þeirra, einungis, sem eru að fara burt, heldur einnig þeirra, sem koma til að kveðja, auk annara. Vagnstöðvarnar eru þar nokkurskonar fréttastöð. Lestin, sem Mikael ætlaði með, endaði ferð sína í Nijni-Novgorod, lengra var járnbrautin ekki komin í þá átt, þó síðar kæmist hún austur að Uralfjöllum. Vegalengdin var um 250 mílur og fór lestin þann veg á 10 klukkustundum. Í Novgorod ætlaði Mikael að hagnýta, hvort heldur sem fyrr varð fyrir: gufubát upp eftir Volga, eða póstvagn austur; var um að gera að ná til Úral-fjalla sem fyrst. Mikael settist í eitt hornið á vagninum, alveg eins og réttur og sléttur borgari, sem hefir náðugt og má »drífa tíðina« með því að móka. En af því hann var ekki einn í vagninum svaf hann ekki nema með öðru auganu og bæði eyrun hafði hann glaðvakandi og opin. Það hafði kvisast einhvernveginn að Kirghizar væru að gera uppreist og að Tartarar streymdu inn í Síberíu, og um það voru mennirnir að tala, sem voru í sama vagninum og Strogoff, en með þeirri varúð og gætni, sem mönnum verður svo töm á Rússlandi, af því alstaðar er að búast við njósnarmönnum til að henda á lofti hvert eitt tvírætt orð, sem kann að hrjóta í hugsunarleysi. Allur fjöldi þessara manna, og yfir höfuð í öllum vögnum lestarinnar, voru kaupmenn á leið til Nijni-Novgorod í þeim tilgangi að vera þar á hinni víðfrægu sýningu og söluþingi, sem þar fer fram á hverju sumri. Ættbálkarnir voru því margir á lestinni: Gyðingar, Tyrkir, Kósakkar, Georgiu-menn, Kalmuckar og — Rússar, auk fleiri, en flestir töluðu samt þjóðmálið rússneska. Sem sagt, voru þeir að tala um ástandið fyrir austan Úralfjöll og kom fram hjá þeim ótti fyrir að stjórnin mundi taka til einhverra þeirra ráða, er hindra mundi verzlun á einhvern hátt, sérstaklega í austurhéruðum Rússlands. Því menn verða að viðurkenna, að þessir menn ræddu um stríðið eða herferðina til að kæfa uppreistina, aðeins frá því augnamiði, sem áhrifin á verzlun snertir. Hefði einn einasti hermaður í einkennisbúningi — því sá búningur hefir ósegjanlega mikil áhrif á Rússlandi — verið á lestinni, þá hefðu nú allir þessir kaupmenn þagað. En það var enginn hermaður sýnilegur í vagninum, sem Strogoff var í, og hann var manna ólíklegastur til að opinbera sig. Hann hreyfði sig ekki, en hlustaði. »Þeir eru að segja, að te, sem flutt er með úlfaldalestum, sé stigið upp,« sagði persneskur maður, auðþektur á astrakan-kúfu og víðri, mórauðri úlpu. »Já, það er ekki hætt við að te falli í verði,« sagði gamall Gyðingur, súr á svipinn. »Vesturhéruðin taka opnum örmum, á móti öllu tei, sem til er í Nijni-Novgorod. En því miður verður ekki það sama sagt um gólfklæðin frá Bokhara.« »Hvað! Áttu von á vörum frá Bokhara?« spurði Persinn. »Nei, en frá Samarkand, og sú leið er enda í meiri hættu, Þvílík hugmynd þó, að ætla að ná vörum úr héruðum Khananna, þegar þeir allir eru óðir og undir vopnum, alt frá Khiva til landamæra Kína.« »Ja, komi gólfklæðin ekki,« sagði þá Persinn, »koma að líkum ekki heldur reikningarnir.« »En hvað um allan ágóðann, faðir Abraham! Gerir þú hann máske einskis virði.« »Rétt segir þú,« sagði þá annar kaupmaður, »að það er stór hætta á að allar vörur að austan falli í verði; það er auðvitað öldungis eins með gólfklæðin frá Samarkand, eins og sjölin, ull og tólg að austan.« »Vertu nú varkár, litli faðir!« gall einn spjátrungurinn við; »þú óhreinkar sjölin þín hraparlega, ef þú hefir þau saman við tólg!« »Og þú hefir ánægju af því,« svaraði hinn í úfnu skapi, því tilhugsun hans var ekkert hlátursefni. »Ja, breytir það rás viðburðanna,« svaraði spjátrungurinn, »þótt þú rífir hár þitt og ausir þig ösku? Nei, langt frá, ekki fremur en það hefir áhrif á kaupmanna-samkunduna.« »Það er auðsætt, að þú ert ekki verzlunarmaður, svaraði litli Gyðingurinn. »Nei, langt frá, minn heiðursverði Abrahamssonur, ég sel hvorki æðardún eða vax, ull, borða, hör, lín, mára-leður, grávöru ...« »En þú kaupir máske þessar vörur,« greip Persinn fram í. »Þegar óhjákvæmilegt er og þá lítið og eingöngu fyrir sjálfan mig,« svaraði galgopinn. »Hann er aumi spjátrungurinn,« sagði einn. »Eða njósnari,« gat annar til í lágum hljóðum. »Það er betra fyrir okkur að vera gætnir og segja ekki meira en þarf. Lögreglan er ekki sérlega hlífðarsöm, þegar svo stendur á, og maður veit aldrei, hver samferðamaður manns er.« Í öðrum hluta vagnsins töluðu menn minna um verzlun, en meira um Tartara-áhlaupið og afleiðingar þess. »Uppreistarmennirnir setja auðvitað fasta alla hesta í Síberíu,« sagði einn, »og verður því ferðalag austur í miðbik landsins mjög óþægilegt.« »Skyldi það vera satt,« sagði annar, »að miðlungsflokkur Kirghiza sé kominn í bandalag við Tartara?« »Svo er nú sagt,« sagði enn annar og bætti svo við í lágum róm: »en hver getur annars stært sig af þekkingu, á nokkru því, er gerist í þessu landi?« »Það er sagt, að verið sé að draga saman herlið á landamærunum,« sagði einn. »Dunár-Kósakkarnir eru nú þegar að raða sér á bökkum Volgu, og eiga að stríða gegn Kirghizum.« »Ef Kirghizar fara niður með Irtish, verður illfært að ferðast til Irkutsk,« sagði þá einn annar. »Í gær ætlaði ég að senda símskeyti til Krasnoiarsk, en það var ekki hægt að senda það. Ég er því hræddur um, að Tartararnir séu búnir að hefta samgöngur allar til Austur-Síberíu.« »Í stuttu máli, litli faðir,« sagði sá sem fyrst hóf samræðuna. »Verzlunarmennirnir hafa góða ástæðu til að óttast um verzlun og viðskifti. Eftir að hestarnir eru fastsettir verða gufubátarnir teknir næst, svo vagnarnir og öll akfæri og sá tími kemur líklega, að allar samgöngur verða bannaðar um þvert og endilangt Rússaveldi.« »Ég er dauðhræddur um,« svaraði Gyðingurinn, og hristi höfuðið, »að Novgorod-sýningin endi alls ekki eins viðhafnarlega og hún byrjar, en um vernd veldisins verður að hugsa fyrst af öllu. Verzlun er aldrei annað en verzlun.« Þessu líkt var umtalið í þessum vagni öllum og hið sama er að segja um hina vagnana, að umtalið hvarvetna var eitt og hið sama, og sérstök varúð var almennt viðhöfð, að segja ekki of mikið. Ef svo bar við að einhver sagði meira en það, sem víst var að væri satt, fór hann aldrei svo langt, að geta á fyrirætlanir stjórnarinnar, og því síður að finna að gerðum hennar. Eftir þessari varúð tók einn maður framarlega á lestinni sérstaklega. Þessi maður — auðsjáanlega ókunnugur — hagnýtti augun rækilega og spurði endalausra spurninga, en gekk þó illa að fá nokkurt afgerandi svar. Öllum í vagninum til ama hafði hann glugga sinn sí-opinn og var með höfuðið út um hann til að sjá byggðina og landslagið, og svo dundi spurningahríðin: »Hvaða bær var þetta, hvað var sérstakt við hann, hvað var hann mannmargur, hver var aðal-verzlunarvara hans og iðnstofnanir, var hann heilnæmur o. s. frv. Svörin, ill og góð, reit hann í minnisbók, sem þá þegar virtist troðfull orðin af upplýsingum. Þessi maður var Frakkinn Alcide Jolivet, fregnritinn hennar »frænku«. Og ástæðan til þess, að hann spurði svona margra spurninga var vonin, að hann fengi eitthvert svar, sem »frænkan« hefði ánægju af að lesa. En vegna spurninganna var hann grunaður um að vera njósnarmaður og þar af leiðandi fékk hann ekki að heyra eitt orð um það, sem hann helzt vildi heyra. Þegar honum var það ljóst, að hann frétti ekki ögn um Tartara-áhlaupið, var afsakandi, þó hann hripaði þetta í minnisbók sína: »Ferðamennirnir mjög varkárir. Ófáanlegir til að tala um pólitísk mál.« Á meðan Frakkinn þannig ritaði í sína bók var samvinnubróðir hans í öðrum hluta lestarinnar, einnig þar kominn í sama tilgangi — að frétta eitthvað. Hvorugur hafði séð hinn á vagnstöðinni í Moskva og vissi því hvorugur, að hinn var á ferðinni austur á vígvöllinn. Harry Blount sagði lítið, en hlustaði þeim mun betur og vakti því ekki minnstu grunsemi. Sambekkingum hans leizt ekki svo á, að hann væri njósnari og töluðu því óhræddir um styrjöldina og gengu eins langt og þeir þorðu. Honum gafzt þess vegna tækifæri til að heyra, hvað það var, sem kaupmennirnir mest hugsuðu um og að hve miklu leyti þeir hugðu viðskiftin mundu bíða tjón af uppreistinni. Hann sá sér fært að rita þetta niður í sína minnisbók: »Samferðamenn mínir allir kvíðandi; tala ekki um neitt annað en styrjöldina og eru yfirgengilega opinskáir í tali sínu, rétt eins og orustusvæðið væri milli ánna Volga og Vistula.« Af þessu má ráða að lesendur »Daily Telegraph« mundu fregna um það, sem gerðist, ekki síður en »frænka« Jolivets. Frakkinn sat hægra meginn í sínum vagni og sá landið að eins þeim megin — mestmegnis flatt og slétt. Englendingurinn aftur á móti var vinstra megin og sá þeim megin öldumyndað land og hæðótt. Þess vegna hikaði hann ekki við að rita í sína minnisbók, án þess að grennslast um landslagið til hægri handar. »Landið hæðótt milli Moskva og Wladimir.« Það var auðsætt að stjórnin hafði ákveðið að varna óróa öllum að brjótast út og viðhafði strangar reglur, jafnvel svo nærri keisarasetrinu. Uppreistin var ekki komin vestur yfir Evrópu-landamærin, en áhrif hennar mátti óttast í Volga-héraðinu, sem liggur svo tiltölulega nærri Kirghizalöndum. Lögreglan hafði ekki enn handsamað svikarann Ivan Ogareff, og það var engum ljóst, hvort hann var kominn austur til Feofars Khan, útlenda þursans, er hann spanaði upp til að hefna fyrir sig, eða hvort hann enn var í Nijni-Novgorod-umdæminu, að leitast við að kveikja uppreistareld, þar sem svo margir þjóðflokkar voru samankomnir. Það var að minnsta kosti ekki ólíklegt að hann hefði umboðsmann á þeim stöðvum meðal Persa, Armeníumanna og Kalmucka, er þangað fjölmenntu fyrir sýninguna og söluþingið. Allt slíkt er mögulegt í veldi, sem er að flatarmáli yfir 4,700,000 ferhyrningsmílur og þjóðflokkarnir þar af leiðandi ekki eins samrýmdir eins og í Vestur-Evrópu-ríkjunum. Meðal þjóðanna, er þetta flæmi byggja, er auðgert að merkja margskonar lit, siðferðilegan ekki síður en líkamlegan. Veldi Rússa í Evrópu og Asíu, nær yfir hátt á annað hundrað mælistig frá austri til vesturs og frá 38.-81. stigs norðurbreiddar, og á því sviði búa um 70 milljónir manna, er tala yfir 30 ólík tungumál. Slavarnir eru fjölmennastir, en svo er að auki fjöldi af Rússum, Pólverjum, Lithauiu-mönnum, Kúrlendingum, Finnum, Löppum, Esthoniu-mönnum og fleiri norðurlanda-flokkum með óviðráðanlegum nöfnum. Þá eru Permiakar, Þjóðverjar, Grikkir, Tartarar, Kákasus-flokkarnir, Mongólar, Kalmuckar, Samoidar, Kamtschatkamenn og hinir ýmsu flokkar á Aleutian-eyjunum. Þetta mannflokka samsafn sýnir, hve óþægilegt muni vera að halda friði og einingu meðal þeirra í svo miklum geim; enda auðsætt, að eining gat ekki komist á nema með löngum tíma og viturlegri stjórn ár eftir ár. En hvað sem nú því líður, þá var Ogareff ófundinn enn, og var vel líklegt að hann væri kominn austur til Tartara. Á hverri vagnstöð, þar sem lestin staðnæmdist, komu lögregluþjónar og skoðuðu hvern einasta farþega með nákvæmni, samkvæmt skipun lögregluritarans. Þeir voru að leita að Ivan Ogareff, því stjórnin hugði, til þessa hefði honum verið ómögulegt að komast austur yfir landamæri Evrópu. Þætti einhver farþeginn hafa grunsamlegt útlit, var hann umvifalaust hnepptur í fangelsi, en lestin hélt áfram og enginn talaði um vesalinginn, sem hrifinn var burt og dreginn, fyrir dóm. Það er tilgangslaust að þrátta við lögregluþjónana í Rússlandi. Þeir hafa hermanna nafnbætur og vald og beita því líka óspart. Titlar Rússakeisara eru og svo ægilegir, að það er ekki árennilegt að þráast við að hlýða boði hans. Sem formála fyrir öllum sínum lagaákvörðunum hefir sá hái herra leyfi til að setja þá titla-trossu, sem fylgir, og eru þó ekki allir taldir: »Vér fyrir Guðs náð, keisari og einvaldur yfir öllu Rússlandi, yfir Moskva, Kiev, Wladimir og Novgorod, Zar yfir Kasan og Astrakhan, Zar yfir Póllandi, Zar yfir Síberíu, Zar yfir Taurie Chersonese, lénsherra yfir Pskov, prinz af Smolensk, Lithauia, Volkynia, Podolia og Finnlandi, prinz af Esthonia, Litvonia, Kúrlandi og Semi-Gallia, Bialystok, Karelia, Sougria, Perm, Viatka, Bulgariu, og fleiri héruðum, lávarður og ríkjandi konungur yfir Nijni-Novgorod, Tchemigoff, Riazan, Polotsk, Rostov, Jaroslavl, Bielozersk, Oudcria, Obdoria, Kondinia, Vitepsk og Mstislaf, governor yfir íshafs-héruðunum, lávarður yfir Iveria, Kastalinia, Grouzinia, Kabardinia og Armenia, erfðalávarður og yfirboðari yfir Scherkess-prinzunum, þeim í fjallendunum og öðrum, erfingi Noregs, hertogi af Schlesvig-Holstein, Stormaran, Ditmarsken og Oldenborg«. Sá, sem á alla þessi titla og fleiri og sem hefir fyrir skjaldarmerki tvíhöfðaðan ara með veldissprota og hnött í klónum umkringdan af skjaldarmerkum héraðanna Novgorod, Wladimir, Kiev, Kasan, Astrakhan og Síberíu, þau aftur umkringd af kraga St. Andrésarreglunnar og — uppi yfir öllu þessu, keisaraleg kóróna; sá sem á alla þessa titla og þetta veglega skjaldarmerki, hann hlýtur að vera voldugri herra en svo, að vænlegt sé að stríða móti honum. Hvað Mikael Strogoff snerti, þá voru vegabréf hans óaðfinnanleg, og var hann því undanþegin allri lögreglurannsókn. Í Wladimir beið lestin all-langa stund og hagnýtti »Daily Telegraph«-fregnritinn þá stund til að koma út úr vagninum, líta í kringum sig og gera áætlun um þennan forna höfuðstað Rússaveldis. Þar komu margir ferðamenn á lestina og meðal annara ung stúlka, sem kom að dyrunum í klefa þeim er Mikael var í. Með sér hafði hún ekki all-stóra ferðatösku úr rauðu leðri, og leit svo út að þar væri allur hennar farangur. Hún settist svo niður, án þess að hafa litið á nokkurn mann í klefanum, og sem þó áttu eftir að verða samferðamenn hennar margar klukkustundir. Hún sat andspænis Strogoff og gat hann því ekki annað en virt hana fyrir sér, og af því hún sat þannig, að hún sneri baki að gufuvagninum á undan lestinni, og sem mörgum fellur illa, bauð hann henni sætaskifti, en hún þakkaði boðið með því að hneigja sig, en sat kyrr. Eftir útliti að dæma, var stúlkan 16-17 ára gömul, fríð mjög og gerðarleg og auðsjáanlega af ætt Slava. Drættirnir í andlitinu voru nokkuð stórgerðir, en með fullorðinsárunum mundi mærin verða forkunnar fögur kona. Um höfuðið hafði hún nokkurskonar klút í skýlu og liðuðust glóbjartir lokkar niður undan honum. Ennið var hátt, augun dökkmórauð, þýðleg og lýstu sérlegu góðlyndi og blíðu. Nefið var beint og fallegt og kinnarnar fölar og þunnar, varirnar blóðríkar, en settar í skorður, eins og væru þær fyrir löngu búnar að gleyma öllu brosi. Hún var í víðri kápu, en að því er séð varð, var hún há og grönn. Þó hún enn væri kornung, lýsti hennar háa enni og allir drættir í andlitinu því, að hún hugsaði mikið og hafði andlegt þrek — nokkuð, sem Strogoff lét ekki hjá líða, að veita eftirtekt. Það var auðsætt að æfiferill hennar hafði til þessa ekki verið stráður rósum og ekki síður það, að framtíðin lofaði engu slíku heldur. En svo var það ekki síður auðsætt, að hún var maður til að mæta raununum. Strogoff leizt svo á, að hún væri bæði fljót til ráða og þrautseig og stilt, enda í raunum, þar sem karlmaður annað tveggja gugnaði eða missti stjórn á skapi sínu. Þannig leizt Strogoff á hana og þar sem hann sjálfur var örlyndur og fjörugur, veitti hann þessum einkennum hennar þeim mun meiri eftirtekt, Hann varaðist að gera henni ónæði með því að stara á hana, en samt lét hann augun hvíla á henni sem oftast, Hún var einfaldlega búin, en búningurinn fór þó mæta vel. Það var auðséð að hún var ekki rík, en hvergi sást vottur um smekkleysi eða sóðaskap. Aleiga hennar, hvað klæðnað snerti, var í töskunni rauðu, sem var harðlæst og sem hún vegna rúmleysis varð að sitja með í kjöltunni. Hún var í síðri og víðri kápu svartri, nærskorinni um hálsinn og bundin með bláum borða. Undir kápunni var hún yzt fata í stuttu svörtu pilsi, en niðurundan sást kjólfaldur með hekluðum borðum og nam hann á ökla niður. Fæturnir voru smáir, en huldir í hálf-stígvélum með þykkum sólum, eins og væru þeir gerðir fyrir langa og örðuga ferð. Á búningi þessum þóttist Strogoff sjá einkenni, er gæfu til kynna, að mærin væri frá Livonia, eða einhverju Eystrasalts-fylkinu. En hvert var svo þessi stúlka að fara, alein og á þeim aldri, þegar föðurleg vernd eða bróðurleg umsjón er álitin nauðsynleg á ferðalagi? Hafði hún komið þaðan að vestan einsömul? Ætlaði hún máske að eins til Nijni-Novgorod, eða var ferðinni máske heitið austur yfir Úralfjöll? Beið einhver ættingi eða vinur hennar máske á vagnstöðinni? Eða var það ekki eins líklegt að í margmenni bæjarins yrði hún eins ókunn og utan við heiminn, eins og þarna í vagninum, þar sem enginn, að henni hlaut að virðast, hugsaði um hana. — Það var allt eins líklegt. Sannleikurinn var, að afleiðingin af einsetu-vana var auðséð í tilburðum stúlkunnar, auðséð þegar hún gekk inn og bjó um sig í sætinu fyrir ferðina, og hve vandlega hún gætti þess troða ekki um tær annara, eða gera þeim nokkurt ónæði. Allt þetta sýndi, að hún var einverunni von og vön að bjargast án annara hjálpar. Öllu þessu og fleiru veitti Mikael Strogoff nákvæma eftirtekt, en af því að hann var fremur óframfærinn, gerði hann enga tilraun til að ávarpa hana, þó margar klukkustundir liðu áður en þau komu til Nijni-Novgorod. Einu sinni kom hann henni þó til hjálpar. Sambekkingur hennar var kaupmaðurinn, sem áður hafði sjöl og tólg í sama númeri, og hafði hann sofnað. Höfuð hans riðaði til og var hætta á það rækist á stúlkuna, sem henni auðsjáanlega gazt ekki að. Vakti Mikael hann þá nokkuð hranalega og bað hann að gæta að, hvar hann væri og halda réttu höfði. Kaupmanninum féll þetta illa — var dóni að náttúrufari — og nöldraði eitthvað um fólk, sem sletti sér fram í það, sem því kæmi ekki við. En Mikael skotraði til hans svo óþýðu auga, að hann hætti, hallaði sér upp að sætinu til annarar handar og leysti meyna úr allri hættu. Hún leit til Mikaels blíðum, þakklátum augum og leyndist honum þá ekki augnamálið. En svo kom nokkuð fyrir, sem sýndi Mikael enn betur, hvaða dugur var í þessari ungu stúlku. Eitthvað 12 verstir frá Nijni-Novgorod, í kröppum sveig á sporinu, kom hnykkur mikill á vagninn og nokkur augnablik á eftir dróst hann áfram með hnykkjum, en grunnurinn á því sviði hár og horfurnar því ægilegar. Ferðamennirnir urðu felmstfullir, hljóðuðu upp yfir sig og æddu fram og aftur. Þeir óttuðust að stórkostleg slys hefði komið fyrir og voru menn því búnir að opna dyrnar og farnir að ryðjast út, áður en lestin varð stöðvuð. Mikael Strogoff hugsaði fyrst af öllu um stúlkuna einmanalegu. Sá hann þá, að hún sat róleg, þó allir aðrir í vagninum væru æpandi af ótta og æddu um sem vitstola. Hún beið og — og Mikael Strogoff beið líka. Hún hafði ekki hreyft sig í sætinu. — Mikael ekki heldur. Bæði sátu kyrr. »Þetta er hugrökk stúlka,« hugsaði Mikael. Eftir litla stund var öll hætta úti. Einn ásinn, sem samtengir vagnana, hafði slitnað og þess vegna staðnæmdist lestin, en hristingurinn varð af því, að ásinn brotnaði. Til allrar hamingju varð hún stöðvuð strax og þannig sneitt hjá hrapalegu líftjóni. Eftir klukkustundar töf gat lestin haldið áfram, og klukkan hálf níu um kvöldið náði hún til Nijni-Novgorod. Áður en nokkur komst út úr vögnunum, komu 3 lögregluþjónar og yfirheyrðu farþegana. Mikael Strogoff sýndi sína »podorojna« og gaf nafnið Nikulás Korpanoff. Svo var hann frjáls að fara. Allir karlmenn aðrir í vagninum ætluðu til Nijni-Novgorod einungis, og svipur þeirra allra var svo myndarlegur, að þeir fengu lausn umsvifalaust. Stúlkan var eftir. Hún tók upp vegabréf eða leyfisbréf — því vegabréf eru ekki lengur nauðsynleg innan Rússlands — innsiglað með eigin innsigli. Lögregluþjónninn las það með athygli, skoðaði svo handhafann með augunum, því lýsing hennar var í vegabréfinu, og spurði svo: »Þú ert frá Riga?« »Já,» svaraði hún. »Og ætlar til Irkutsk?« »Já.« »Hvaða leið?« »Um Perm.« »Rétt!« sagði lögregluþjónninn og bætti svo við: »Gleymdu ekki að fá vegabréfið áritað að nýju hjá lögreglustjóranum í Nijni-Novgorod.« Mærin hneigði sig, en svaraði engu. Mikael Strogoff varð hissa og kenndi undir eins í brjósti um stúlkuna, er hann heyrði þessar spurningar og svör. Að hugsa til einmana stúlku að fara austur um Síberíu nú, þegar landið var þakið uppreistarmönnum; það var fullhættulegt á friðartíma. Var mögulegt að hún næði takmarkinu, og hvernig? Skoðunin var á enda. Dyrunum var slegið opnum og allir ruddust út. Áður en Mikael vissi af, var Livoniu-mærin öll á burt og — töpuð í fjöldanum á vagnstöðinni. V. Skipanirnar tvær. Nijni-Novgorod, Neðri-Novgorod, við mót ánna Volgu og Oka, er aðal-bærinn í samnefndu héraði. Hér var Mikael knúður til að yfirgefa járnbrautina, sem ekki náði lengra þá. Framvegis gekk því ferðin seinna og varð undir eins hættulegri. Þegar ekkert var um að vera, var íbúatala bæjarins Nijni-Novgorod 30-35,000, en núna, meðan markaðurinn og sýningin stóð yfir, voru íbúarnir um 300,000, eða tífalt fleiri en venjulega. Þessi markaður, sem fyrrum — til þess árið 1817 — var haldinn í Makariev, stóð yfir þriggja vikna tíma á hverju sumri. Bærinn var í hátíðabúningi og fjör mikið hvarvetna, meðan sýningin stóð yfir, en þess utan var hann þegjandalegur venjulega. Nú voru þar saman komnir 6 kynþættir af kaupmönnum úr Evrópu og Asíu. Þó seint væri orðið, þegar Mikael Strogoff gekk burt af vagnstöðinni, var fólksþröng mikil í báðum bæjunum, sem áin Volga skiftir í efri og neðri bæinn. Efri bærinn er byggður á háum klettaskaga og er þar virki eitt honum til varnar, sú tegund virkja, er Rússar kalla »Kreml«. Það hefði orðið óþægilegt fyrir Strogoff að fá sér sæmilegt gistihús, hefði hann ætlað sér að dvelja í bænum og þar sem hann nú ætlaði að taka far með gufubát, sem ekki var ferðbúinn undir eins, þurfti hann að leita sér að matarbúð og náttstað. En fyrst vildi hann frétta, á hvaða klukkustund gufubáturinn legði af stað, og gekk því rakleiðis á skrifstofu gufubátafélagsins, er heldur uppi flutningum milli Nijni- Novgorod og Perm. Þar frétti hann, og þótti vond frétt, að gufubáturinn »Kákasus« ætlaði ekki af stað fyrr en daginn eftir, kl. 12 á hádegi. Þarna varð hann því að bíða 16 klukkustundir — löng bið fyrir mann, sem þarf að flýta sér. En það var þýðingarlaust að mögla, enda ekki siður hans. Svo var og þess að gæta, að engin vagn-mynd var til, er gæti komið honum fyrr til Perm eða Kasan. Það var því heppilegast að bíða, því á bátnum gat hann búist við að vinna upp tímatapið, í samanburði við landferðina. Strogoff fór því að ganga um göturnar, að horfa á búðirnar og jafnframt líta eftir næturstað. Þó hugsaði hann ekki svo mjög um það og hefði eins víst gengið aftur og fram alla nóttina, ef hungur hefði ekki þrýst honum til að leita sér að máltíð og að máltíð leitaði hann fremur en rúmi, en svo fann hann hvorttveggja í búð einni, er nefndist: »Borgin Konstantinopel«. Eigandinn bauð honum laglegt herbergi og rúm, fátæklega búið að vísu, en hafði þó til prýðis nokkrar myndir af dýrðlingum og Maríu mey í slæðu-umgerð. Gæsar-skrokkur, fylltur súrum jafningi og fljótandi í þykkjum rjóma, byggkökur, skyr og út á því steyttur sykur og kanel og kanna af »kwass« — hið almenna öl á Rússlandi —; þetta allt var á borð borið sem kvöldverður og nægði það til að seðja hungur langferðamannsins, enda neytti hann fæðunnar með góðri lyst. Það var þó nokkuð sem sambekkingur hans gerði ekki, en það var því að kenna, að hann tilheyrði þeim trúarbragðaflokki, er »Raskalniks« heitir og sem vinna eið að því, að bragða aldrei öl né vín, borða ekki kartöflur, eða nota sykur í te. Að kvöldverði loknum fór Strogoff út aftur í stað þess að ganga til hvílu, og fór að reika um göturnar. Þótt framorðið væri, var hálfbjart af degi enn, en samt var umferð óðum að minnka og innan stundar var naumast maður eftir á strætum úti. Strogoff hélt áfram göngunni, þó eðlilegra sýndist, að hann gengi til hvílu eftir langa járnbrautarferð. Var hann máske að hugsa um Livoniu-stúlkuna, sem svo lengi varð honum samferða? Jú, hann var að hugsa um hana, því á augnablikinu hafði hann ekkert sérstakt umhugsunarefni. Var hann hræddur um, að hún, ókunnug og í þessu margmenni, væri í hættu? Víst var hann hræddur um það og ekki að ástæðulausu. Vonaði hann að finna hana og ef til vill gerast varðmaður hennar? Nei. Það mundi erfitt að finna eina manneskju hér, og hvað snerti, hvaða rétt hafði hann — —. »Einsömul, mitt í þessum farandmanna og hirðingjasæg,« hugsaði hann með sjálfum sér. »Og þó er þessi hætta sem reykur í samanburði við þær sem bíða hennar. Síbería! Irkutsk! Ég er í þann veginn að leggja allt í sölurnar fyrir Rússland, fyrir keisarann, og hún er um það bil að leggja allt í sölurnar, en — fyrir hvern og í hvaða tilgangi? Hún hefir heimild til að fara austur yfir landamæri Evrópu, þó allt sé þar í uppnámi og héruð öll þokin Tartaraflokkum. Og er hann hugsaði um þetta nam hann ósjálfrátt staðar. »Auðvitað hefir hún,« hugsaði hann ennfremur, »ákveðið þessa ferð áður en uppreistin hófst, er máske ókunnugt um það enn, hvernig ástæðurnar eru — þó getur það ekki verið, því kaupmennirnir sögðu svo margt í áheyrn hennar og það var ekki að sjá, að hún yrði hissa á því tali, spurði jafnvel einskis til frekari upplýsingar. Hún hefir því hlotið að vita um ástæðurnar og — samt gugnar hún ekki. Veslings stúlkan! Það hlýtur að vera áríðandi erindi sem knýr hana áfram. En hugrökk eins og hún er — hlýtur að vera, hlýtur þróttur hennar að bila. Að undanskilinni allri hættunni, sem ferðin hefir í för með sér, er ómögulegt að hún haldi þetta út. Hún kemst ekki til Irkutsk!« Þannig hugsandi gekk Strogoff áfram án þess að athuga hvert hann fór, en af því hann var gagnkunnugur í bænum var ekki hætt við að hann viltist. Eftir að hafa gengið þannig um stund, settist hann á bekk framan við timburhús all-stórt, sem ásamt fleirum stóð á víðum velli. Hann hafði ekki setið þar 5 mínútur, þegar þung hönd var lögð á öxl hans og hann spurður í þyrkingslegum rómi, hvað hann væri að gera. Strogoff leit upp og sá stórvaxinn mann og sterklegan, og svaraði svo því, að hann væri að hvíla sig. »Ætlarðu að sitja hér í alla nótt?« spurði þá komumaður. »Ef mér sýnist!« svaraði Strogoff með meiri þjósti, en sæmdi auðmjúkum kaupmanni, enda birsti hinn sig þá og bað hann að koma fram í birtuna og sýna sig. Strogoff mundi þá eftir, að fram yfir allt mátti hann ekki opinbera sig og svaraði því í mýkri róm, að það væri ónauðsynlegt. Aðkomumaður var nokkuð slarkaralegur, eins og viss flokkur manna, sem sífelt fylgja eftir sýningum og mannfjölda og sem vandræði er að lenda í tuski við. Þegar svo Strogoff athugaði nágrennið betur, sá hann þó skuggsýnt væri, að hjá húsinu var hrúga mikil af akfærum þeim, sem Zingaris, eða Giftar, hafa til ferða og sem elta allar sýningar og samkomur í Rússlandi, þar sem væntanlegt er að krækja megi í nokkra kópeka. Í því er aðkomumaðurinn, þessi stóri gifti, færði sig nær Strogoff, til að sjá hann betur, en Strogoff hopaði undan, opnuðust húsdyrnar, og sá Strogoff, að kona kom út, sem nálgaðist giftan og sagði við hann á málblendingi Mongóla og Síberíumanna, en sem hann skildi ekki síður en þau: »Hann er einn njósnarinn! Láttu hann vera, en komdu til kvöldverðar. Paplukan[* Payiluka er nokkurskonar smábrauð.] bíður eftir þér.« Strogoff brosti, er hann heyrði þennan titil sinn, því hann hafði öllum mönnum meiri óbeit á njósnurum. Á sömu málýzku, en ekki nærri eins hreinni, svaraði giftinn: »Það er satt, Sangarre, og svo förum við líka af stað á morgun.« »Á morgun?« tók konan upp, spyrjandi. »Já, Sangarre, á morgun, og faðirinn sjálfur sendir okkur þangað, sem við ætlum.« Svo hurfu þau bæði inn um dyrnar og læstu hurðinni. »Ágætt!« hugsaði Strogoff. »En vilji giftar þessir ekki, að ég skilji þá, verða þeir að tala eitthvert annað mál.« — Eins og áður hefir verið skýrt frá, skildi Strogoff nefnilega flestar málýzkur í Síberíu, frá Tartaralöndum allt til íshafsins. En um hina sérstöku þýðing orðanna, sem hann hafði heyrt, hugsaði hann minna, virtist þau ekki koma sér við. Það var orðið framorðið og hugði hann til heimferðar í svefnherbergi sitt. Þræddi hann þá eftir bökkum Volgu, er nú sást ekki, nema hér og þar, fyrir báta-skaranum. sem hvíldi á yfirborði hennar. Á vellinum umhverfis hann var garður fyrir utan garð af lestamannavögnum og hestum, er söfnuðust þar saman á hverju sumri, á meðan sýningin stóð yfir. Þar var því aðalból fjárglæframanna úr öllum áttum á þessum tíma ársins. Einni klukkustund síðar var Strogoff í værum svefni í einu þessu rússneska rúmfleti, sem erlendum mönnum þykja svo óvenju hörð. Daginn eftir, 17. júní, vaknaði hann í dagrenning. Margar klukkustundir mátti hann bíða enn og hann kveið fyrir þeirri kyrrsetu. Eina ráðið var að stytta stundirnar með gangi um göturnar eins og kvöldið áður. Að morgunverði loknum, tæki hann ferðatösku sína, gengi svo á lögregluskrifstofuna og léti yfirmanninn skoða vegabréf sitt; þar með var starfi hans lokið og um ekkert annað að gera en bíða. Um þetta hugsaði hann, þegar hann vaknaði, en hann var ekki gefinn fyrir að liggja í rúminu eftir að sól var runnin úr ægi, og klæddi sig því í flýti. Bréfið mikla með keisarainnsiglinu tók hann upp, athugaði það og lét það síðan í kápuvasa sinn innan undir fóðrinu, þar sem beltið síðan féll utan yfir það. Svo bjó hann tösku, sína og gekk út, og langaði ekki til að koma til Konstantinopel aftur. Morgunverð ásetti hann sér að kaupa síðar einhversstaðar í grend við bryggjuna. Fyrst af öllu gekk hann niður á skrifstofu gufuskipafélagsins til þess að fregna, hvort víst væri, að »Kákasus« færi af stað kl. 12 á hádegi. Á þeirri leið datt honum Livonia-stúlkan í hug aftur og þótti þá rétt líklegt, að hún mundi fara með bátnum úr því hún ætlaði um Perm. Það var því ekki ólíklegt, að þau hittust aftur. Efri-bærinn, með litlu Kremlinni, réttri eftirlíking þeirrar í Moskva, en ekki nema 2 verstir að ummáli, var nú þögull eins dáinna gröf, governorinn hélzt þar ekki við, meðan þessi mikla gleði stóð. En lífið og fjörið var aftur þeim mun meira í neðri-bænum, þeim er Strogoff var að færa sig í. Hann fór yfir ána á brú, sem gerð var þannig, að ferjur og bátar voru tengdir saman borð við borð yfir hana þvera og varði hana vopnaður Kósakka-flokkur. Þessi brú var á þeim stöðvum, er Strogoff kvöldinu áður hitti giftana, en það var laust fyrir utan aðal-bæinn. Á sléttum velli skammt frá ánni stóð höll governorsins, sem hann samkvæmt skipun keisarans bjó í aðeins á meðan sýningin stóð yfir. Hann þurfti sem sé að vera nálægur á þeim tíma ársins, því að komumanna-skarinn útheimtir nákvæmt eftirlit. Þessi völlur í grennd við Volgu, var alsettur allskonar búðum í beinum röðum, með breiðum strætum á milli, fyrir fjöldann að komast um. Búðunum sjálfum var skipað í flokka, þannig: að í þessari hvirfingunni voru ekki aðrar verzlanir en þeirra, sem seldu járn o. þ. h., í annari grávöruverzlanir, í þriðju ull o. s. frv. Sumar þessar búðir voru gerðar mestmegnis, framstafn að minnsta kosti, úr þeirri vörutegund, sem þar var framboðin. Aðferðin að láta húsið sjálft þannig gilda sem auglýsingu, var einkennilega amerísk. Sólin, kom upp kl. 4 um morguninn, og var ekki langt á morguninn liðið, þegar Strogoff var kominn yfir ána, en þá voru allar götur fullar orðnar af umfarendum — frábærri samblöndun þjóðanna. Voru þar í einni bendu að jagast um vöruna og verð hennar: Rússar, Síberíumenn, Þjóðverjar, Hindúar, Kínverjar, Tyrkir, Persar, Grikkjir, Kósakkar, Georgíumenn o. fl. o. fl. Hestar, úlfaldar og asnar voru þar og í flokkum, með allskonar upphugsanlega vagna og flutningsfæri til að flytja burt vörurnar af markaðinum. Vörutegundirnar voru óteljandi og úr öllum áttum, frá Indlandi, Kína, Persalöndum, frá ströndum Kaspiska hafsins, Svartahafs, frá öllum Evrópulöndum og Ameríku. All-flestar upphugsanlegar vörutegundir heimsins voru samankomnar á þessum afskekkta stað til sýnis og sölu. Að lýsa fólkinu, er tróðst þar aftur og fram, hvar sem smuga var, er helzt ógerningur. Íbúar bæjarins, sérstaklega hinn óæðri hluti þeirra, voru sæmilega háværir, en komust þó ekki í hálfkvisti við aðkomumanna-sæginn. Þeir létu almenninga vita af sér, verzlunarmennirnir, lengst austan úr Asíu, sem voru árlangt að koma vörum sínum á þetta söluþing og sem áttu fyrir hendi árslanga ferð heim aftur. Sem vott þess hve mikið gengur á í Nijni-Novgorod á sýningartíma þessum, má geta þess, að þar eru seldar ár hvert vörur upp á 100 millj. rúbla að minnsta kosti. Á sérstökum hluta vallarins voru tjaldbúðir ótal trúðara af öllum mögulegum tegundum. Íþróttamenn og línuleikarar, tveir flokkar gifta — þeir úr fjalllendunum, sem segja heimskingjunum forlög sín fyrir peninga, og þeir, sem Rússar kalla Zingaris eða Tsignanes, en það eru afkomendur Kofta, en þeir syngja og dansa fáránlega. Þar voru og ófullkomnir leikarar frá erlendum leikhúsum, er léku »stykki« úr ritum Shakespeares, sniðin eftir þörfum áhorfendendanna. Þar voru og hópar af mönnum með tamda birni, er þeir létu dansa og leika ýmsar íþróttir, svo og villidýra-söfn mörg, og orguðu dýr þau mjög undan svipuhöggum eigendanna, eða eldheitum járnum þeirra, ef þau unnu til svo stórrar hegningar. Í grennd við þetta trúðara-bæli var flokkur af sjóher Rússa, þeim sem fer upp og ofan Volgu. Voru þeir í öllum stellingum, eins og á skipunum væru og léku að öllum störfum, sem þeir unnu undir stjórn yfirmanna sinna, og allt eftir hljóðfalli hornblásendanna. Einkennilegur siður, en ekki óviðkunnanlegur. Á hverri þessari hátíð og að öllum óviðbúnum flaug smáfuglaskari mikill með miklum gleðilátum yfir höfðum manngarðsins. Fyrir nokkra kópeka frá nokkrum góðsömum mönnum slepptu, fuglaveiðimenn föngum sínum úr búrunum og öllum í senn, til þess að það yrði sem tilkomumest sjón. Í þetta skifti áttu, bæði Englendingar og Frakkar kjörgripi mikla á sýningu þessari, hvort sem það var í fyrsta eða síðasta sinn eða ekki; það voru þeir Harry Blount og Alcide Jolivet. Frakkinn var »optimisti« að náttúrufari og sá því betur björtu hliðina en hina, enda var hann svo heppinn að rekast á allra bezta gististað og fékk þar mat, sem honum geðjaðist sérlega vel. Hann hafði því ekkert, nema gott að segja um Nijni-Novgorod í minnisbók sinni. Englendingurinn aftur á móti gekk svo hörmulega, að hann fékk aldrei kvöldverð og mátti að lyktum hafast við um nóttina undir beru lofti. Hann sá því allt aðra hlið á bænum en Frakkinn og var að útbúa orðhvassa ritgerð um greiðasölumennina, sem neita umfarendum um mat og rúm, umfarendum, sem þó fara ekki fram á annað en að þeir séu flegnir! Mikael Strogoff, með aðra hendina í vasanum, en hina um reykjarpípuna, virtist allra manna rólegastur. Þó hefði aðgætinn maður með köflum getað greint ókyrrleik á svip hans og á því, hvernig hann hnyklaði brýrnar. En þau voru einu merki þess, að honum leiddist biðin. Um tvær klukkustundir hafði hann gengið fram og aftur um strætin, en allt af endaði hann hringferðina þar sem hann hóf hana — mitt í ösinni á markaðsvellinum sjálfum. Því oftar, sem hann gekk þar um, þess ljósara varð það fyrir honum, að hræddir og kvíðandi voru allir Asíumenn og þeir, sem bjuggu í grennd við landamærin eystra. Það var auðsætt að verzlun þeirra var í hættu. Annað var það, sem hann tók eftir og þótti grunsamlegt, það, að hvorki hermenn, Kósakkar eða lögregluþjónar voru innan um mannþröngina. En við öll slík tækifæri eru þeir menn hvarvetna með barefli og nakin sverð í höndum til að ógna skrílnum og aftra upphlaupi. Það mátti því ætla að til þessara manna allra ætti að grípa, til herferðar án langs undirbúningstíma, og því væri þeim nú haldið kyrrum í herbúðunum. En þó nú hermenn væru ekki sýnilegir, þá var allt öðru máli að gegna með herforingjana og þeirra aðstoðarmenn. Frá því kvöldinu áður voru þeir í hópum á hraðri ferð til governorshallarinnar og frá henni. Einhver stórvægileg hreyfing var í undirbúningi og ástæðurnar eystra hlutu að vera eina ástæðan. Hraðboðar voru á ferðinni fram og aftur á öllum brautum vestur til Wladimir og austur til Uralfjalla. Og hraðfréttaskeyti fóru milli Moskva og Nijni-Novgorod í uppihaldslausri hríð. Strogoff var staddur á miðbiki markaðarins þegar sú fregn gaus upp, að lögreglustjórinn hefði skyndilega verið kallaður til governorsins. Áríðandi skeyti frá Moskva var sögð ástæðan, »Það á hætta við sýninguna,« sagði einn, en annar: að Níjni-Novgorodherdeildin hefði fengið framgönguboð. »Þeir segja, að Tartararnir umkringi Tomsk!« enn annar, og í því bili hrópuðu margir í senn: »Lögreglustjórinn kemur!« Laust þá upp lófaklappi miklu, er smá dó út og um síðir varð dauðaþögn. Lögreglustjórinn hrauð sér veg inn á mitt torgið, og gátu þá allir séð, að hann hafði hraðskeyti í hendinni. Las hann þá upp með hárri rödd þessi tvö boðorð: »Eftir skipun landsstjórans í Nijni-Novgorod: 1. öllum þegnum Rússlands er bannað, að fara út úr héraðinu, í hvaða erindum sem er. 2. öllum aðkomumönnum af Asíuþjóða-ættum er boðið, að yfirgefa héraðið innan tuttugu og fjögra klukkustunda.« VI. Bróðir og systir. Skaðleg, eins og þessi ákvörðun gat verið einstaklingnum, var hún þó réttlát undir kringumstæðunum. »Öllum rússneskum þegnum bannað að fara burtu úr héraðinu.« Ef Ivan Ogareff var þar enn, var honum nú allt að því ómögulegt, að komast burtu og austur til Feofars Khan, til að gerast hægri hönd hans í stjórn Tartara-hermannanna. »Allir Asíumenn verða að hafa sig burt úr héraðinu, innan 24 klukkustunda«. Svo sagði skipunin og þýddi það, að allir Austurlanda-kaupmennirnir, giftarnir og trúðarnir urðu að forða sér. Þessi lýður allur hneigðist meira og minna að skoðunum Tartara og það var stjórninni kunnugt. Það mátti því álíta nauðsynlegt, að víkja þeim yfir landamærin, þar sem annar hvor maður ef til vill var spæjari. Það er auðvitað, að það voru mikilfengleg áhrif, sem þessi boðskapur hafði í Nijni-Novgorod í augnablikinu svo mannmargur og þar sem samtímis var rekin margfalt meiri verzlun, en í nokkurri annari borg í Rússlandi. Þegnarnir máttu ekki fara út yfir takmörk héraðsins, hvað brýnt erindi sem þeir áttu, svo ótvíleg og skorinorð var skipunin. Allur hagur einstaklingsins varð að þoka fyrir velferð ríkisheildarinnar. Engu síður skorinorð varð skipunin að því er austurlandamenn snerti. Það var þýðingarlaust að tala um tjónið, ekkert um að gera nema binda bagga sína og halda burtu umsvifalaust. Trúðarnir og giftarnir voru einna verst staddir. Þeir höfðu komið að 1000 verstir eða meir og voru ekki enn búnir að innvinna sér peninga sem nokkru næmi. Þessi skipun var því svo gott sem dauðadómur fyrir þá vesalinga alla. Um stund mátti heyra almennar kvartanir og kurr meðal fólksins, en það leið ekki langt til þess, að Kósakkar og lögregluþjónar sáust hvarvetna á varðbergi og tók þá fyrir allar kvartanir. Innan klukkustundar var allt á tjá og tundri og útstraumur stórkostlegur hafinn. Skygnin fram af búðunum voru tekin niður, þá búðirnar sjálfar, leikhúsin og danshúsin voru rifin, söngur og hljóðfærasláttur heyrðist ekki meir, og engir kölluðu lengur með nafn og verð vöru sinnar á torginu; eldar voru slökktir og strengir og línur trúðara og línuleikara voru teknar niður. Ekkert var að heyra nema axa og hamarshljóð, er menn bjástruðu við að búa bagga sína fyrir langferðina. Hestar og úlfaldar, ekki hálfhvíldir enn, voru leiddir fram og vagnar þeirra hlaðnir á ný. Lögregluþjónar og hermenn voru hvarvetna og ráku óspart á eftir þeim, sem ekki þóttu nógu hraðhentir. Þeir kinokuðu sér enda ekki við að fella tjöldin ofan yfir fjölskyldur trúðanna, sem enn voru ekki komnir á flakk. Það var auðsætt að með þessu áframhaldi mundi markaðsflötur þessi hinn mikli alauður orðinn fyrir sólsetur, og grafarþögn ríkja, þar sem áður allt var líf og fjör og glymjandi söngur. Hér verður að taka það fram, að þessu stranga boði fylgdi einnig það, að þessum farandmönnum, sem nú var bolað út úr Nijni-Novgorod-héraðinu, var einnig bannað að fara um Síberíu-slétturnar. Þeir urðu þess vegna að fara suð-austur um landið til Kaspiska hafsins og þaðan annað tveggja til tyrknesku Asíu, Persíu, eða inn í Turkestan-héruðin. Þeir fengu ekki að fara um Uralfjalla-skörðin, eða nokkurn þjóðveg austur yfir landamæri Evrópu innan Rússlands, heldur urðu þeir að fara yfir 1000 verstir áður en þeir máttu hvíla sig eða á hestum sínum, sem frjálsir menn. Rétt í því að lögreglustjórinn enti við lestur skipananna kom Mikael Strogoff í hug það, sem stóri giftinn hafði sagt við konuna kvöldinu áður. Það var nokkuð einkennilegt. Það var rétt eins og honum hefði verið kunn þessi fyrirætlun. »Faðirinn sjálfur sendir okkur þangað, sem við viljum fara«, hafði hann sagt. En »faðirinn« er enginn annar en keisarinn, er aldrei er annað nefndur meðal alþýðu. Hvernig gátu giftarnir vitað um þessa fyrirætlun áður en hún varð almenningi kunn, og hvert vildu þeir þá fara? »Það er grunsamlegt fólk þetta,« hugsaði Strogoff, »og mér sýnist ekki betur, en þessi skipun sé sumu af því meira til þægðar en óþægðar og skaða.« En svo hugsaði hann nú ekki lengur um þetta, þó tilgáta hans væri alveg rétt. Honum datt nú annað í hug í þessu sambandi og sú hugsun rýmdi öllum öðrum hugsunum úr huga hans. Hann gleymdi giftunum og þeirra grunsamlegu samræðu, en fór að huga um Livoniu-stúlkuna ungu, sem hann kynntist í gær. »Vesalingurinn!« hugsaði hann. »Það er búið með það, hún fær ekki að fara yfir landamærin fyrst um sinn.« Hann hafði getið rétt til um ætt hennar; hún var frá Riga í Livoniu, og var þar af leiðandi rússnesk og mátti því ekki samkvæmt þessu boði fara úr héraðinu, sem hún var í. Leyfið, sem hún hafði var auðsjáanlega ónýtt nú eftir að þetta bann kom út. Öll hlið á Síberíu voru nú miskunnarlaust lokuð fyrir henni og hvað brýnt, sem erindi hennar var til Irkutsk, þá fékk hún nú ekki að fara þangað. Það var ekki frítt við, að þessi hugsun ónáðaði Strogoff. Honum datt í hug, að skeð gæti, að hann gæti komið henni til hjálpar án þess hann í nokkru tefði sína eigin för, og honum gazt vel að hugmyndinni, en hugsaði þó jafnframt um hætturnar, er gætu komið sér, þó hraustur væri, á kné, og þá ekki síður vanburða unglings stúlku. Hún hlaut að fara sömu leið og hann ætlaði að fara og smjúga um sömu fjandmanna-fylkingarnar og hann ætlaði að reyna að smjúga um. Það var líklegt — enda alveg víst, að hún hafði ekki aðra hlíf né útbúnað til varnar, en þær sem nægja á friðartímum. Hvernig gat hún þá búizt við að komast austur eins og nú stóð? »Jæja,« hugsaði hann, »hún ætlar að fara um Perm og þá er lítt hugsandi, að ég hitti hana ekki. Skal ég þá líta eftir henni, án þess að hana gruni það og þar sem henni virðist engu síður annt um það en mér, að ná til Irkutsk á sem styztum tíma, þá er ekki víst, að ég hafi nokkra töf af henni.« Ein hugsun fæðir af sér aðra. Til þessa hafði hann hugsað um það eitt að koma henni til hjálpar, að gera henni þægð, án þess að hugsa um sjálfan sig, en nú datt honum annað í hug, og því lengur, sem hann hugsaði um það, þess ljósari varð hugmyndin. Honum datt í hug, að hann ætti að hafa stóran hag af samfylgd hennar og þá fór honum að lítast svo á, að hann hefði enda meira gagn af henni, en hún af honum. »Nærvera hennar mundi draga grunsemi frá mér. Því æfinlega er hætta á, að einn maður á ferð um Síberíu, verði grunaður um vinnu í þarfir keisarans. Ef hún verður mér samferða, verð ég í augum fjöldans sannur Nikulás Korpanoff. Já, hún má til að vera í för með mér. Ég má til að leita hana uppi. Að líkindum er hún hér enn, því ólíklegt er að hún hafi fengið hesta og vagn síðan í gærkvöldi. Hamingjan gefi, að ég finni hana!« Klukkan var orðin níu um morguninn, þegar hér kom og Strogoff yfirgaf markaðs-flötinn, þar sem allt var í uppnámi, og allir kepptust við, knúðir til þess af Kósökkum og lögregluþjónum, að hlýða boði keisarans. »Kákasus« fór ekki af stað fyrr en klukkan 12 á hádegi, svo enn hafði Strogoff 3 klukkustundir til að leita stúlkunnar og það var ekki til neins að leita hennar á stöðvunum í grennd við markaðinn. Hann fór því yfir ána aftur og leitaði hvarvetna, þar sem líkur voru til að gestir væru. Þar leitaði hann á öllum alfaravegum og fór inn í hverja kirkju, sem þar eru allsherjar hæli þeirra sem þjáðir eru, sem gráta í einrúmi. En hvergi fann hann Livoniu-meyna. Samt trúði hann ekki, að hún væri burtu úr bænum og hélt hann þannig áfram leitinni í 2 klukkustundir. Honum kom í hug, en þótti þó undir eins ólíklegt, að hún hefði ekki heyrt um þessa skipun. Henni var svo annt um að komast leiðar sinnar, að hún mundi ekki setja sig úr færi að athuga það, sem gerðist og skipun þessi, sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, varð öllum mönnum í bænum kunn innan fárra mínútna. En væri nú svo, að hún vissi ekkert um skipunina, hlaut hún, innan einnar klukkustundar, að koma ofan á bryggju og þá að líkum fá þvert nei, er hún beiddi um fararleyfi. Hann ásetti sér að koma í veg fyrir það, ef nokkur kostur væri, en allar tilraunir hans voru árangurslausar og hann gafst upp að síðustu og hélt það væri úti um alla von. Klukkan var nú orðin 11 og þó það í rauninni væri þarflaust, datt honum í hug, að fara með vegabréf sitt á lögregluskrifstofuna. Vitaskuld vissi hann, að í því var gert ráð fyrir öllum mögulegum skipunum, er ónýtt gætu venjuleg vegabréf, en svo vildi hann vera alveg viss í sinni sök, og það gat líka hent sig, að Livoniu-stúlkan væri þar eða í þeirri grennd. Hann fór yfir ána aftur og í áttina til lögregluskrifstofunnar, en þar umhverfis var illt að komast áfram, svo mikil var mannþröngin. Asíu-mennirnir, sem gerðir voru burtrækir þurftu sem sé að fá fararleyfi hjá lögreglustjóranum áður en þeir héldu af stað. Og þetta var óumflýjanlegt, því án þeirrar skoðunar hefði rússneskur maður, sem hlyntur var uppreistarmönnum, getað komizt burt með kaupmönnum eða farandmönnum í dularbúningi. Án þessa nákvæma eftirlits hefðu því skálkar þeir, sem skipunin átti að fastsetja, komist burtu eftir sem áður og skipunin því um leið orðið einskis virði. Inni og úti fyrir lögreglustöðinni var því meir en lítil ös af Asíumönnum, sem allir tróðust áfram — allir vildu verða fyrstir til að komast af stað, enda var það lífsspursmál margra þeirra, sem voru upp á aðra komnir með flutning á farangri sínum og sjálfum sér. Hefðu þeir ekki allt tilbúið á ákveðnum tíma, var hætt við að þeir kæmust ekki af stað á tilsettum tíma og það hafði í för með sér óbærilega meðferð af hálfu umboðsmanna governorsins. Af því að Strogoff var sterkur í öxlum og olnbogum gekk honum vel að komast upp að dyrum stofunnar, en svo var nú þyngri þrautin að komast þaðan um þveran salinn upp að litla glugganum, sem skrifarinn var við. En svo hvíslaði hann einhverju að dyraverðinum og útbýtti nokkrum rúblum þar, sem þær komu sér vel og hafði hvorttveggja í sameiningu þau áhrif, að vegur opnaðist inn um salinn. Fylgdarmaður hans nam staðar í biðsalnum almenna, sem var fullur af fólki, og fór svo að kalla á skrifara. Á meðan hann beið þarna leit hann í kringum sig og sá þá stúlkuna, sem hann svo lengi hafði leitað að. Livoniu-stúlkan hans var þar hnigin niður á bekk í mannþyrpingunni, uppgefin og örvæntingarfull; það þóttist hann sjá á svip hennar og tilburðum, þó hún sneri sér upp að veggnum. Hún hafði ekki heyrt um þessa skipun, hafði komið á skrifstofuna full af von og tilhlökkun, en þá neitaði lögreglustjórinn að skrifa upp á bréf hennar. Þeir viðurkenndu að leyfi hennar væri gott og gilt, það sem það næði, en þessi skipun gerði það ónýtt í bráð, lokaði öllum þjóðbrautum til Síberíu fyrir henni eins og öðrum. Strogoff fagnaði yfir þessum fundi og nálgaðist hana. Hún kom auga á hann jafn-snemma og var sem birti yfir henni er hann gekk til hennar. Hún stóð á fætur og ætlaði, eins og maður, sem er að drukkna og grípur um stráið, að biðja hann um liðveizlu. En í því var tekið í handlegg Strogoffs og honum tilkynnt, að lögreglustjórinn biði hans. »Það er ágætt,« svaraði Strogoff, sneri sér við og gekk burt án þess að mæla orð við meyna, án þess að gefa henni minnstu bendingu — því allt var að varast á þessum og þvílíkum stað. Vonarljós hennar slokknaði nú alveg. Eini maðurinn í þessari þröng, sem henni leizt tiltækilegt, að biðja um lið, hvarf aftur án þess að segja eitt orð. Innan þriggja mínútna var Strogoff kominn aftur og var fylgdarmaður hans með honum. Í hendinni hélt hann á vegabréfi sínu, sinni Podorojna, sem sló opnum fyrir honum öllum hliðum á þjóðvegum til Síberíu. Aftur nálgaðist hann Livoniu-meyna, rétti út hendina og sagði: »Systir.« Hún skildi. Hún stóð snögglega á fætur, tilbúin að fylgja honum hvert á land sem var. »Systir,« sagði hann aftur: »Við höfum hér leyfi til að ferðast til Irkutsk. Viltu koma?« »Já, bróðir, ég vil fylgja þér,« sagði hún, og lagði litlu hendina sína í hans stóru og sterku hönd. Og innan stundar voru þau burtu úr lögreglustofunni. VII. Ferðin niður eftir Volga. Laust fyrir hádegið drógu köll gufubátsins óvanalega mikinn fjölda fólks ofan á bryggjuna. Ekki einungis voru þeir þar komnir, sem vildu fara austur og suður, heldur einnig fjöldi þeirra, sem ekki vildu en sem voru neyddir til að fara burt. »Kákasus« var ferðbúinn, og hvít-gráir gufustólpar stóðu út úr hverri pípu upp af vélum hans. Þess er óþarft að geta, að lögregluþjónarnir voru þar viðstaddir, til að athuga þá sem fóru fram og sýndu þeim litla vægð, sem ekki svöruðu spurningum þeirra fljótt og greinilega. Kósakkaflokkar voru þar á ferðinni, en til þeirra þurfti ekki að taka. Lögregluþjónunum var engin mótspyrna sýnd. Á mínútunni klukkan 12 blés Kákasus í seinasta sinn og jafnframt voru landfestar leystar, hjólin fóru að snúast hægt og seint fyrst, en smámsaman með meiri hraða, og innan fárra mínútna var skipið á fullri ferð niður fljótið milli bæjanna. Þau höfðu tekið sér far með skipinu, Mikael Strogoff og Livonia-mærin, og gekk þeim vandræðalaust að komast um borð, því eins og lesarinn man, var svo ákveðið í vegabréfi Strogoffs, að Nikulás Korpanoff væri frjáls að ferðast með föruneyti sínu. Í augum lögreglustjórnarinnar í Nisni-Novgorod voru þau þá systkini á ferðinni til Irkutsk með sérstöku leyfi frá lögreglustjórn keisarans. Þau tóku sér sæti uppi á þilfari aftur í stafni og horfðu til bæjarins, sem þau komu frá og sem nú var óðum að fjarlægjast og hverfa sjónum þeirra. Til þessa hafði Strogoff ekki talað neitt við stúlkuna, ekki spurt hana neins, en beið eftir að hún ávarpaði sig þegar henni sýndist. Hún var áfram um það að losast úr Nisni-Novgorod, en þar hefði hún nú mátt sitja í fangelsi, ef hann hefði ekki hjálpað henni svo drengilega. Samt sagði hún ekkert við hann enn, en svipur hennar og augnatillit lýstu því hve þakklát hún var. Fljótið Volga, sem fornmenn nefndu Rha, er talin stærsta áin í allri Evrópu; lengd hennar er um eða yfir 4000 verstir (um 2,700 enskar mílur). Í efri hluta hennar er vatnið talið óheilnæmt mjög, en tekur miklum bótum þegar kemur niður fyrir Nijni-Novgorod, því þar fellur í hana áin Oka vestan úr miðhluta Rússlands, straumhörð á með hreinu og góðu vatni. Ám og skipaskurðum í Rússlandi hefir verið líkt við tré mikið með löngum og breiðum greinum, sem ná út yfir meginhluta, veldisins. Áin Volga er í þeim skilningi tréð og hin önnur vatnsföll greinarnar, því hún er skipgeng nærri upp að upptökum sínum — til þorpsins Rjef í héraðinu Tver. Ferðin frá Nijni-Novgorod til Kasan, 350 versts (235 mílur) gekk fljótt og vel, því þar bætir straumþunginn fullum 2 mílum enskum á klukkustund við ferð skipanna sjálfra. En skamt fyrir neðan Kasan verða skipin, sem ætla til Perm, að yfirgefa Volga og beygja austur og upp eftir ánni Karna. Vélarnar í Kákasus voru hinar beztu, en þó þær gerðu sitt ýtrasta gátu bær ekki gert ferðina meiri á móti straumnum en sem svaraði 10 mílum á klukkustund. Að meðtalinni klukkustundarbið í Kasan mundi því Kákasus verða 60 til 62 klukkustundir á ferðinni frá Nijni Novgorod til Perm. Kákasus var haglega búinn fyrir farþegaflutning, var skift í 3 ólíkar deildir handa farþegum, svo allir gætu sniðið sér stakk eftir vexti, ef svo má að orði kveða. Strogoff tók sér far á 1. káetu og gat því mærin gengið til herbergis síns og verið þar, þegar henni svo sýndist. Á skipinu var allt farþegarúm upptekið, því allir Asíu-kaupmennirnir, sem mögulega gátu, yfirgáfu Nijni-Novgorod strax og tóku sér far með skipinu til Perm. Á 1. káetu skipsins mátti sjá margvíslegan búning manna, Armeníumenn í síðum skikkjum með nokkurskonar byskupa-húfur á höfði, Gyðinga, sem auðkennilegastir vora fyrir uppmjóu húfurnar, ríka Kínverja í sínum sérlega silkiskrúða, bláum, fjólubláum eða dökkum, víðum kyrtli, opnum að aftan og framan, og utan yfir honum aftur í öðrum styttri með feykilega víðar ermar; Tyrkja með sitt einkennilega höfuðfat; Hindúa með ferhyrndar húfur og einfalda spotta um mitti í stað beltis, og sumir hverjir, sérstaklega þeir, sem kallaðir voru Shikarporis, halda í hendi sinni allri verzlun í Mið-Asíu, og að síðustu Tartarar, í stígvélum með marglita borða á brjósti og útflúr margskonar heklað og ofið í borða og bryddingar. Allir þessir kaupmenn fluttu með sér það af vörum sínum, sem einhvernveginn varð haugað einhversstaðar í skipið, og varð því fargjald þeirra að öllu samanlögðu ærið hátt, því frí-flutning fékk enginn farþegi á meir en 20 punda böggli. Það voru lög félagsins. Í framhluta skipsins var þjóðflokka safn engu óblandaðra, en á 1. káetu. Þar voru og margir rússneskir þegnar á heimleið til staða innan héraðsins, því innan takmarka þess voru þeir frjálsir, þrátt fyrir boðskapinn. Þar voru þjónar og lausamenn með húfur á höfði, í rúðóttum skyrtum undir síðri kápu; bændur úr Volgár-héruðunum, í bláum buxum, og tróðu skálmunum ofan í stígvelin, í rósrauðum bómullarskyrtum, bundnum með dregli um mittið og með flókahatt á höfði. Konur voru þar og nokkrar í rósóttum léreftskjólum, með skrautlitar svuntur, og með fjöllitan klút í skýlu um höfuðið. Þetta fólk var flest á 3. farrými og átti fæst af því langa leið fyrir höndum. En margt var það, svo að stöðu-rúm var trauðlega fáanlegt á þeim hluta skipsins, fyrir framan hjólhvelfinguna og aftur fyrir hjólin mátti þetta fólk ekki koma, og fram fyrir hvelfinguna, leizt 1. káetu mönnum ekki árennilegt að ganga í þetta sinn vegna þrengslanna. Sem sagt gekk ferðin greitt niður ána, enda gengu vélarnar undir fyllsta gufuþrýstingi. Fram hjá fór lítil lest af allskonar bátum og »prömmum«, sem gufubátar drógu á móti straumnum til Nijni-Novgorod og annara staða enn lengra upp í landi. Annan sprettinn fór Kákasus fram hjá endalausum röstum af eldiviðar-flekum, Allar þessar vörur voru á leið til markaðsins mikla í Nijni-Novgorod, sem fyrir óhagkvæma skipun keisarans var nú ekki lengur til í ár. Með köflum voru árbakkarnir lágir og sef og stör gekk langt út í fljótið, flugu þaðan í loft upp, með ys og þys og gargi, heilir herskarar af öndum, þegar öldurnar, er skipið myndaði á hinu slétta yfirborði, veltust inn í sefið og ókyrrðu vatnið. Þess á milli voru bakkarnir háir og þaktir beltum af grönnum trjám, elri-trjám, bogvið og öspum, og fyrir handan runnana hjarðir af rauðum og svörtum nautgripum, snöggkliptu, blökku sauðfé og mislitum svínum. Enn fjær sáust akrar með gisnu bókhveiti og þar fyrir handan ræktarlitlar og hrjóstugar hæðir. Útsýni þetta var óumbreytanlegt og þess vegna lítið verkefni fyrir útsýnis-málara, ef einhver slíkur hefði verið á Kákasus í leit eftir efni í nýja mynd. Kákasus hafði farið fulla ferð nær tveimur klukkustundum, þegar Livoniu-stúlkan sneri sér að Strogoff og ávarpaði hann þannig: »Ætlar þú til Irkutsk, bróðir?« »Já, systir«, svaraði hann. »Við förum bæði til sama staðar. Þess vegna fer þú líka hvert sem ég fer«. »Á morgun skaltu, bróðir, frétta, hvers vegna ég yfirgaf strendur Eystrasalts til þess að ferðast austur yfir Uralfjöll«. »Ég krefst engra upplýsinga, systir«. »En þú skalt fá að heyra sögu mína alla«, svaraði hún með veiklulegu brosi. »Systirin hefir ekki rétt til að dylja bróður sinn neins. En ég treysti mér ekki til þess í dag. — Sorg og þreyta hafa bugað mig svo«. »Viltu þá ekki fara inn í herbergi þitt og hvíla þig?« spurði Strogoff. »Jú, jú, en á morgun ...« »Komdu þá —«. Hann hikaði við og lauk ekki setningunni, eins og vildi hann enda hana með nafni meyjarinnar, en sem hann ekki vissi hvað var. »Nadía«, sagði hún og rétti honum hendina. »Komdu þá, Nadía«, svaraði Strogoff, »og hagnýttu bróður þinn, Nikulás Korpanoff, á hvern veg sem þú getur«. Og hann leiddi hana inn í herbergi út frá setustofunni. Svo hraðaði hann sér út á þilfar aftur, því hann fýsti að heyra fréttir, ef nokkrar fengjust frá þeim stöðvum, er hann átti að leggja leiðir um. Hann fór aftur og fram meðal farþeganna, en gaf sig sem minnst á tal við þá. Væri hann spurður einhvers um sig og ferð sína, gaf hann nafnið og stöðuna, sem ákveðin var í vegabréfinu, og kvaðst vera á leið austur að landamærum. En frá því þótti honum ekki ráðlegt að segja, að hann hefði sérstakt leyfi til að halda áfram ferðinni austur. Útlendingarnir allir gátu ekki um annað talað en skipunina og afleiðingar hennar, og var það von. Þessir vesalingar voru tæpast búnir að hvíla sig eftir þreytandi ferð austan úr Mið-Asíu, þegar þetta háska-boð kom út, að þeir mættu til að hverfa heim aftur. Að þeir klöguðu ekki yfir þessu upphátt, var því einu að þakka, að þeir þorðu ekki að kvarta. Óttinn og lotningin hélt þeim í skefjum. Það var allt eins líklegt að lögregluþjónar í dularbúningi væru á skipinu og því var heppilegast að segja sem allra minnst um hörku stjórnarinnar, því burtreksturinn og allt tjónið var eftir allt saman sætleikur í samanburði við varðhald og fangelsi. Af þessu leiddi, að annað tveggja sátu menn þegjandi eða töluðu svo á víð og dreif og svo óákveðið um atburð þennan, að ekkert var að græða á samtalinu. Strogoff frétti því lítið úr þessari átt. Menn vissu ekki, hver hann var, og ef hann nálgaðist hóp af útlendingum, datt samtal þeirra niður. Innan skamms heyrði hann samt á tal eins manns, sem virtist standa á sama, þó allur heimurinn heyrði ræðu hans. Hann talaði rússnesku, en með áherzlu, sem auðkenndi hann sem útlending, og hann var að tala við annan mann, sem einnig mátti heyra að ekki átti rússneskuna fyrir móðurmál og var sá hinn sami fremur stuttur í svörum og fáorður. »Hvað sagði hinn málhvati«. »Ert þú hér líka, minn góði vinur! sem ég hitti í keisara-veizlunni í Moskva, og sá bregða fyrir í Nijni-Novgorod?« »Já, það er ég!« svaraði hinn fáorði. »Ja, ég er orðlaus! Mér datt sízt í hug að þú myndir fylgja mér svona fast eftir«. »Einmitt! En ég er nú ekki að elta þig. Ég er á undan þér!« »Á undan, undan! Látum okkur ganga samhliða og stíga spor fyrir spor eins og hermenn á skrúðgöngu og fyrst um sinn að minnsta kosti skulum við koma okkur saman um að hvorugur skuli fara fram fyrir hinn«. »Þvert á móti skal ég fara fram fyrir!« »Við skulum nú sjá til, þegar á leikvöll byltingamanna kemur, en þangað til skulum við vera samferðamenn. Eftir það er nægur tími til að gerast keppinautar«. »Óvinir!« »Óvinir; jæja, ef þú svo vilt. Mér falla orð þín vel, vinur góður, þau eru svo reglubundin. Maður veit æfinlega á hverju, maður á von hjá þér«. »Hvað gerir það?« »Gerir ekki nokkurn skapaðan hlut. Og svo ætla ég að biðja þig um leyfi til að skýra afstöðu okkar frá mínu sjónarmiði«. »Seg sem þér sýnist«. »Þú ætlar til Perm — eins og ég«. »Eins og þú«. »Það er líkast að þú farir frá Perm til Ekaterenborgar, af því það er hættuminnsta leiðin yfir Úralfjöll?« »Ekki ólíklegt«. »Þegar við komumst yfir fjöllin erum við í Síberíu, — meðal byltingamanna«. »Við verðum það«. »Jæja, þá, en fyrri ekki, er tími til kominn að segja: Sjái hver um sig, og guð ... « »Hjálpi mér!« »Þér einum — eingöngu —, nú, jæja! En fyrst við nú höfum vikutíma, eg ekkert sérlegt að gera, því litlum fregnum rignir víst yfir okkur á leiðinni, þá verða keppinautar«. »Óvinir!« »Ja, það er rétt, óvinir«. En þangað til skulum við vera samhentir og ekki gera tilraunir til að eyðileggja hvor annan. Samt sem áður lofa ég því að halda leyndu öllu, sem ég kann að sjá — — —«. »Og ég öllu, sem ég kann að heyra«. »Ertu ásáttur með þetta?« »Ég er ásáttur«. »Gefðu mér hendina«. »Hér er hún«. Málhvati maðurinn rétti fram hönd sína alla, þ.e., fimm fingra breiða, en hinn orðfái rétti að eins fram tvo fingur er hinn tók í hönd sína, og hristi með ánægju. »Eftir á að hyggja«, bætti sá málhvati við, »ég gat í morgun sent orðrétta skipunina til frænku, klukkan 17 mínútur eftir 10«. »Og ég sendi hana orðrétta til »Daily Telegraph« klukkan 13 mínútur eftir 10«. »Bravo, vinur Blount!« »Ágætt, vinur Jolivet!« »Ég skal reyna að vinna það upp!« »Það verður erfitt!« »Samt skal ég reyna það«. Og um leið hneigði Frakkinn sig með virktum fyrir Englendingnum sem beygði svírann lítið eitt og þyrkingslega. Skipunin gerði þessum mönnum ekkert til. Þeir voru ekki þegnar Rússa og ekki af Asíu-þjóðum. Þeir voru blátt áfram frétta-veiðimenn og gátu farið ferða sinna þrátt fyrir skipunina. Báðir lögðu út í ferð þessa í sama tilgangi og ekki nema eðlilegt að þeir tækju sömu ferðafærin austur að Síberíu-sléttunum. Þeir voru því samferðamenn og ekkert annað þangað til í veiðistöðina kæmi, hvort sem þeir voru vinir eða óvinir. Þegar í veiðistöðina kom, byrjaði leikurinn, og þá hlaut sá að sigra, sem betur mátti. Frakkinn varð fyrri til að bjóða bræðralag, og þó Englendingurinn gengi að því, var það með kulda og þyrkingi. Þó lagaðist samlyndið nokkuð við miðdagsverðarborðið, þó Frakkinn væri þar sem annarsstaðar helzt um of orðmargur, og Englendingurinn aftur á móti of orðfár. En að máltíðinni lokinni sátu þeir saman að drykkju við borðið og tæmdu eina Cliquot-flöskuna, sem þar kostaði 4½ dollar, á eftir annari. En það var nýtt vín og ferskt, búið til úr birkivökva fengnum í grendinni. Þá stundina voru þeir beztu vinir. Þegar Strogoff hafði heyrt á tal þessara náunga, leizt honum svo á, að þeir væru opinskáir og óvarkárir, og þess vegna heppilegast að kynnast þeim sem minnst. Livoniu-stúlkan — Nadi — kom ekki til miðdegisverðar, hún svaf inni í herbergi sínu og Strogoff vildi ekki vekja hana. Það var því komið kvöld þegar hún kom upp á þilfar aftur. Ljósaskiftin á þessu hnattmælistigi eru löng, og er þá loftið hreint og svalt, enda kom fæstum farþegunum í hug að fara inn í herbergin, en sátu á bekkjunum og stólunum og önduðu að sér hinu svala kvöldlofti, sem var svo hressandi eftir hitann um daginn. Milli sólseturs og sólarupppkomu varð á þessum tíma aldrei myrkara en svo, að stýrimaðurinn sá til að þræða fram milli skipanna af allri stærð, sem, eins og Kákasus, voru á ferð eftir ánni. Af því nýtt tungl var, var samt nærri aldimmt í þetta skifti frá kl. 11 til 2 um nóttina. Farþegar flestir voru þá sofandi á bekkjunum og hvar annarsstaðar, sem sæti var að fá, og var ekkert að heyra, nema þyt vélanna og gauragang hjólanna, er þau skelltu vatnið. Strogoff var vakandi og gekk um gólf aftur í stafni. Einu sinni fór hann svo langt áfram, að hann var þá um leið kominn yfir takmörk farþeganna á fyrsta farrými. Þar virtust allir í svefni, ekki síður en aftur á skipinu. Lágu menn þar á bekkjunum, á vöruböggum og enda á nöktu þilfarinu og sváfu. Varðmennina bar við loftið, þar sem þeir stóðu á háþiljunni og horfðu til beggja handa og framundan sér. Tvær luktir, önnur rauð, en hin græn, héngu að venju í reiðanum, sín yfir hvorri hlið skipsins, og köstuðu daufri skímu niður á borðstokkana og með fram þeim. Maður mátti vera varkár til þess að stíga ekki ofan á eða snerta neinn af sofendunum á þilfarinu. Þeir voru flestir þjónar og lausamenn, vanir illu og þótti því þilfarið sæmilegt rúm, en samt mátti búast við illyrðum, ef maður í ógáti ræki fót í einhvern þeirra og vekti hann. Strogoff var því sérlega varkár, því hann hélt áfram göngunni fram eftir skipinu, í þeim tilgangi, að halda sér vakandi. Hann komst slysalaust fram að stiganum, sem lá upp á háþiljuna, og var í þann veginn að ganga þar upp, þegar hann heyrði hljóðskraf manna í grenndinni. Hann nam staðar; orðasveimurinn barzt að eyrum hans frá vissum hóp farþega, er allir voru vafðir í kápum og ábreiðum, svo ómögulegt var að greina, hvaða menn það voru. En með köflum, þegar duglega var látið í eldinn svo að óslitinn eldstraumur gaus upp úr reykháfnum meðal neistanna og varpaði í svipinn eldlegri blæju yfir allt á þilfarinu, virtist Strogoff sem geislabrot þessi lýstu upp þúsund spengur skildi á búningi trúðanna og giftanna, og það einmitt í þeim flokki á þilfarinu, þar sem samtalið var í næturkyrrðinni. Eftir litla viðstöðu var Strogoff í þann veginn að ganga upp stigann, þegar hann heyrði skýrt og skilmerkilegt samtal á sömu málýzkunni, sem hann hafði heyrt kvöldinu áður í Nijni-Novgorod. Þá fór hann að hlusta fyrir alvöru. Hann stóð upp við vegginn á stýrimannshúsinu í skugga, og var þess vegna ómögulegt að sjá hann. Hann gat heldur ekki séð þá, sem töluðu, en varð að láta sér nægja að heyra orðin, sem töluð voru. Fyrst um sinn höfðu þau enga þýðingu aðra en þá, að hann þóttist þekkja málróm stóra giftans og konunnar, er hann rakst á kvöldið áður, og varð það til þess, að hann lagði sig betur eftir að heyra, hvað þau sögðu. Honum þótti það ekki neitt undarlegt, þó þau og margir aðrir giftar og trúðar, sem bönnuð var vist í Nijni-Novgorod, væru á Kákasus, það var ekkert eðlilegra, en að þeir af þeim, sem ráð höfðu á, tækju sér far með skipinu, svo langt sem efnin hrykkju. Það var heppilegt, að hann hlustaði, því á meðal þess er hann heyrði var þetta: »Það er sagt, að hraðboði sé kominn á ferðina frá Moskva til Irkutsk.« »Svo er nú sagt, Sangarre, en annað tveggja kemst hann alls ekki austur, eða þá að hann verður of seinn.« Þessi orð snertu Strogoff svo mikið, að það var ekki ónáttúrlegt, þó honum yrði hverft við þetta svar mannsins. Hann reyndi til að sjá, hvort þetta væru hjónin, sem hann hann átti við kvöldið áður, en svo var skuggsýnt, að honum tókst það ekki. Hann hætti við uppgönguna á háþiljurnar, en sneri aftur í stafn og lét höfuð í hendur hníga. Til að sjá mátti álíta hann sofandi, en hann var þó glaðvakandi og í óðaönn að velta þessari spurningu fyrir sér: »Hver getur vitað um för mína og hverjum getur verið hér áríðandi að vita um hana?« VIII. Ferðin upp eftir Kama. Morguninn eftir, 18 júlí, klukkan 40 mínútur gengin sjö, var Kákasus bundinn við bryggjuna fram undan Kasan, er var 7 verstir frá sjálfum bænum. Bær þessi er við mót ánna Volga og Kasanka. Er það aðal-bærinn í héraðinu; sitja þar umboðsmenn stjórnarinnar, þar er og háskóli og grísk-kaþólskt biskupssetur, er færir með sér virðingu og stórbæjabrag. Mannflokkar margir byggja bæinn og meðal þeirra margir Tartarar, er sérstakt kapp lögðu á að vernda austræna siðu og viðhalda þeim. Þó aðal-bærinn væri svona langt upp frá bryggjunni, var fjöldi fólks á bryggjunni, hafði safnast þangað til að fá fréttir. Landsstjórinn í því héraði hafði gefið út sömu skipunina og sá í Nijni-Novgorod, og því var fólkið þyrst í nýjungar. Þar voru Tartarar í ermastuttum kápum, með uppmjóar, barðabreiðar húfur. Þar voru aðrir í skósíðum, grófgerðum yfirhöfnum, með litlar húfur á höfði, og litu svo út til að sjá eins og pólskir Gyðingar. Þar var kvenfólk í marglitum útsaumuðum bolum, með nokkurskonar kórónur á höfði í líkingu við hálf-mána. Lögregluþjónar og Kósakkar með nakin vopn í höndum voru hvarvetna, til að halda reglu og aðgæta nákvæmlega alla sem fóru af skipinu, og sem fóru út á það. Þeir, sem fóru af skipinu voru Asíumenn, en þeir sem bættust á það, voru borgarar, sem dvalið höfðu í Kasan. Strogoff athugaði allt þetta stímabrak, sem æfinlega er svo mikið á bryggjum niðri, þegar gufuskip eru á ferðinni, en ekki fór hann í land, þó Kákasus ætti að dvelja klukkustund. Það sem aftraði honum frá landgöngu, var Nadia »systir« hans. Hann vildi ekki skilja hana eina eftir frammi, og hún var ekki komin á fætur enn. Fregnritararnir báðir höfðu risið úr rekkju með sól, eins og góðum veiðimönnum sæmdi. Þeir fóru í land og blönduðu sér inn í fólksfjöldann, sinn í hvoru lagi og fór hvor eftir sínu höfði, að því er fréttaleit snerti. Englendingurinn reit niður allt, sem hann heyrði og dró myndir af öllu, sem honum þótti eitthvað sérlegt við. Frakkinn aftur á móti lét munninn ganga reit minna í bók sína, en lagði svörin á minnið, sem hann líka mátti, því það brást honum aldrei. Það var almennt talað hér eystra, að uppreistin væri orðin æði umfangsmikil, og víst var það, að flutningur og ferðalag austur og að austan gekk mjög seint og stirðlega. Allt þetta frétti Strogoff án þess að fara í land. Nýir farþegar sögðu svo mikið. Þessar fréttir fengu, honum mikillar áhyggju, og óskaði hann innilega að hann væri kominn austur yfir Uralfjöll, svo að hann sjálfur gæti dæmt um sannindi fregnanna og um leið búið sig betur undir ferðina. Hann var að hugsa um að ná í greinilegri fréttir hjá borgara einum í Kasan, sem kominn var fram á skipið, þegar hugur hans allt í einu var hrifinn í aðra átt. Meðal farþeganna, sem voru að fara af Kákasus, þekkti Strogoff nokkra af trúðunum, er hann hafði séð að leik í Nijni-Novgorod. Og þar á meðal þeirra var stóri giftinn og konan, er hann átti við um kvöldið á bekknum fram undan húsinu. Með þeim, og eflaust undir þeirra stjórn, voru nú um 20 dansarar og söngmenn, konur og karlar á tvítugsaldri og þar fyrir innan, að fara í land með kápur miklar vafðar um sig, svo að ekki sást í glitbúninginn, sem nauðsynlegur er á leiksviðinu. Þó náði sólin í stöku stað, að skína á látúns- og blikkspengurnar og skildina, og flaug þá Strogoff í hug, að þetta hefði það verið, sem glóði í náttmyrkrinu, þegar eldstraumur upp úr reykháfnum lýsti upp þilfarið augnablik í senn. »Það er auðsætt.« hugsaði Strogoff, »að giftar þessir, eftir að hafa verið undir þiljum niðri allan daginn, hafa í gærkveldi farið upp á þilfarið og búið um sig fyrir nóttina með fram stýrimannshúsinu. Voru þeir virkilega að forðast eftirtekt? Víst er það ekki siður þess þjóðflokks.« Hann efaði nú ekki lengur að orðin, sem hann heyrði um nóttina, og sem svo greinilega snertu sjálfan hann, höfðu farið á milli hjúanna, er hann hafði kynnzt, stóra giftans og konunnar með Mongólanafninu: Sangarre. Ósjálfrátt færði hann sig nær landgöngupallinum, þegar þessi flokkur var að tínast í land alfarinn af skipinu. Þar var stóri giftinn og var auðmýktin og undirgefnin sjálf, af ytra áliti að dæma, en sem illa varð samrýmt við siði þess flokks. Það mundi hver maður hafa álitið, að hann vildi helzt að enginn tæki eftir sér. Gamla hattræfilinn sinn, beglaðan og götóttan, togaði hann niður á andlitið, svo langt sem hann gat komið honum. Hann gekk kengboginn og hafði sig í víðri og þungri kápu, þrátt fyrir hitann sem kominn var, þó skammt væri liðið á daginn. Í þessum ræflum var óþægilegt að gera áætlun um stærð mannsins eða útlit. Nálægt honum gekk kona hans, Sangarre, á þrítugsaldri að sjá, há og vel vaxin, dökk að yfirlitum, með ljómandi falleg augu, glóbjart hár, og bar sig vel eins og drottning væri. Margar dansmeyjarnar voru sérlega fríðar sýnum og ekki leyndu andlit þeirra hverrar ættar þær voru. Yfirleitt eru gifta-stúlkurnar laglegar, enda er það ekki ósjaldan að rússneskir aðalsmenn, sem ekki vilja vera langt að baki Englendinga hvað sérlyndi snertir, leita sér kvonfangs í flokki giftanna. Ein dansstúlkan var að raula vers fyrir munni sér hálf-hlæjandi, er hún hoppaði af bátnum upp á bryggjuna og hvarf í mannþrönginni. Bæði rím og bragarháttur á vísunni var sérlegur mjög, og er fylgjandi erindi sem næst réttri þýðingu: /# »Glóir gullið bjart í gljásvörtu lokkunum mínum; blórauðir kórallar kring um kverkar og háls á mér líðast. Eins og léttfleygur fugl fer ég um jarðarlönd öll«. #/ Stúlkan hélt áfram að syngja, en Strogoff hætti að hlusta, enda sýndist honum ekki betur en Sangarre vera að virða sig fyrir sér, rétt eins og vildi hún festa svip hans í minni sér. Innan stundar sneri hún samt burt og fylgdi karli, manni sínum, í land. »Hún er djörf, þessi kona,« hugsaði Strogoff með sér. »Ætli það sé mögulegt, að hún hafi þekkt mig aftur frá því í fyrrakvöld? Það er sízt fyrir að synja. Þessir grýtis giftar hafa kattaraugu! Það er vel líklegt, að hún þekki ...« — hér datt honum í hug, að stökkva í land á eftir þeim og sjá hvað af þeim yrði, en, »nei,« hugsaði hann svo samstundis. »Ekki tjáir það. Ekkert fljótræði má eiga sér stað. Færi ég að elta þau, gæti komist upp hver ég er. Svo er og hitt. Úr því að þau fara á land hér, verð ég á undan þeim yfir landamærin, verð kominn austur yfir Úralfjöll, áður en þau ná landamærunum. Vitaskuld ætla þau sér að fara beint austur um Ishim frá Kasan, en duglegir Síberíu-hestar með léttum vagni fara líka harðara, en tvíhjóluðu gifta-kerrurnar. Vertu óhræddur, vinur Korpanoff!« Þegar hér var komið, var Sangarre og flokkur hennar horfin sjón Strogoffs í mannfjöldanum á árbakkanum. Kasan er réttnefnt »Asíu-hliðið«, og þungamiðjan, sem að sér dregur meginhluta allrar Asíu- og Síberíuverzlunar. Þar koma saman, tveir aðal-vegirnir austur yfir Úralfjöll, en þó leiðin um Perm sé lengri, þá var hún heppilegar kjörin fyrir Strogoff, því það er aðalþjóðvegurinn. Og frá Perm til Ekaterenborgar og Tiomen er póstvagn allt af á ferðinni og vandræðalaust að fá óþreytta hesta á hverri póststöð, sem þar eru aldir á kostnað Rússlandsstjórnar. Sú braut og sá ferðbúnaður helzt óslitinn austur um Síberíu frá Ishim allt til Irkutsk. Sem sagt, er hin brautin frá Kasan beinni austur til Ishim, því þar koma aftur saman þjóðvegirnir, en þó hún sé styttri, þá er hún seinfærari, af því þar er enga póstvagna að fá. Vegurinn er líka verri og þorpin, sem hann liggur um fátækari, og þess vegna illt að fá hesta eða nokkur reiðfæri. Tilgáta Strogoffs, að hann yrði á undan giftunum austur yfir fjöllin, þrátt fyrir sveiginn suður til Perm, var því í alla staði hin líklegasta. Klukkustund síðar blés Kákasus til brottfarar og varð þá troðingur mikill meðal gamalla og nýrra farþega að komast fyrstir manna fram á skipið. Eldiviður viður allur hafði verið borin fram, og nötraði nú í vitum skipsins undan gufu þrýstingunni, sem ekki fékk greiðan útgang, fyrr en landfestar voru leystar. Í þessu, mitt í ærslunum að komast um borð, tók Strogoff eftir því, að annan fréttaritarann vantaði. Englendingurinn var kominn, en Frakkinn sást hvergi og leit út fyrir, að hann mundi verða eftir. En rétt þegar verið var að leysa skipið sást Frakkinn koma hlaupandi sem óður væri. Þegar hann komst á bryggjubrúnina, var Kákasus laus orðinn frá landi og var óðum að breikka vökin milli borðstokks og bryggju. Frakkinn óttaðist ekki vökina og hugsaði sig ekki tvisvar um hvað gera skyldi. Hann hóf sig á loft á hlaupinu, hentist sem ör af boga yfir vökina og kom niður í mannþröngina á þilfarinu og lenti um það í fanginu á Englendingnum, sem varð fyrst fyrir að segja: »Ég hélt að Kákasus ætlaði að skilja þig eftir«. »Það hefði þá ekki gert mikið«, svaraði Frakkinn. »Ég hefði ekki verið lengi að ná ykkur. Ég hefði keypt bát fyrir peningana hennar frænku, eða pósthesta, og goldið 30 kopeka fyrir hverja verst, — eða farið á hestbaki. En það var ekki á góðu von, það er skolli langt frá bryggjunni uppá símastöðina!« »Fórstu þangað?« spurði Englendingurinn og beit stint á vörina. »Já, það var einmitt það, sem tafði mig«, svaraði Frakkinn brosleitur. »Kemst skeyti til Kalyvan enn?« »Ja, það veit ég nú ekki, en ég þori að fullyrða, að skeytin ganga hiklaust frá Kasan til Parísar!« »Svo þú sendir frænku skeyti?« »Með mestu gleði!« »Svo þú hefir frétt — — —«. »Hálft orð, »litli faðir«, eins og Rússar segja«, tók Frakkinn fram í. »Ég er drengur góður og vil ekki dylja þig neins! Tartarar með Feofar Khan í broddi fylkingar, eru komnir norður fyrir Semipdlatinsk og eru á ferðinni niður með ánni Irtish. Gerðu þér mat úr þessu!« Hvað er þetta! Svona mikilvægar fréttir fáanlegar og Englendingurinn að vita ekkert um þær? Frakkinn hafði augsýnilega fregnað þetta hjá einhverjum borgaranum í Kasan, og samstundis sent fréttina til Parísar-blaðanna. Lundúna-blöðin voru langt á eftir! Englendingurinn sagði ekkert meira, en lagði hendur á bak sér og gekk aftur í stafn og settist niður þögull og hugsandi. Klukkan 10 um morguninn kom Nadia út á þilfar og gekk Strogoff þegar til hennar og heilsaði henni vingjarnlega. »Líttu á útsýnið, systir!« sagði hann og leiddi hana svo framá skipið. Og útsýnið var þess vert að athuga það. Kákasus var þá rétt komin að ármótunum, og í þann veginn að yfirgefa Volga og byrja, bardagann við strauminn í Kama. Hann hafði nú gengið 400 verstir undan straum og átti nú eftir 460 á móti strauminum. Í grend við ármótin voru háir bakkar að Kama og hún breið og lygn. Á hinu slétta yfirborði hennar var bátamergð mikil og blakti þar víða á lítil og drifhvít segl. Til beggja handa út frá bökkunum, risu skógivaxnar hæðir, mest elritré og ösp, en með köflum þétt belti af gildum eikarskógi. Útsýnið og náttúrufegurðin gat samt ekki hrifið huga Nadíu frá verkefni hennar. Hún lét hönd sína hvíla í hendi Strogoffs, horfði eitt augnablik á útsýnið og spurði svo: »Hvað erum við nú langt frá Moskva?« »Níu hundruð verstir«, svaraði Strogoff. »Níu hundruð einungis, frá sjö þúsund verstum«, sagði hún mæðilega. Í þessu hringdi bjallan í borðsalnum, og var það bending til þeirra á fyrsta farrými, að koma til morgunverðar. Gengu þau þá inn, Strogoff og Nadía, en lítið borðaði hún og keypti aðeins ódýrustu fæðistegundir, því efni hennar voru naum. Strogoff lét sér þá lynda að sitja við sama borð og kaupa, sama fæði og hún gerði. Svo stutta stund voru þau inni, að innan 20 mínútna voru þau komin út á þilfar aftur. Þau gengu aftur í stafn og tóku sér þar sæti. Og formálalaust byrjaði hún þá strax að segja honum sögu sína í sem fæstum orðum, en talaði svo lágt, að engir heyrðu, nema hann. »Ég er dóttir eins útlagans, »bróðir«, sagði hún, og heiti Nadía Feodór. Móðir mín dó í Riga fyrir tæpum mánuði síðan. Og nú ætla ég til Irkutsk, föður mínum í útlegðinni til raunaléttis«. »Og ég ætla til Irkutsk«, svaraði Strogoff, »og skal ég forsjóninni þakklátur, ef mér auðnast að skila Nadíu Feodór óskemmdri í hendur föður hennar«. Hún þakkaði honum innilega, og svo fór hann að segja henni frá vegabréfi sínu, svo vel útbúnu, að stjórnin gæti ekki tafið för hans, þótt hún vildi. Nadía hlýddi á orð hans, en spurði einskis. Hún var sæl í þeirri hugsun, að þar sem Strogoff var, Korpanoff, sem hún hélt vera, hafði hún fundið örugga hlíf og ótrúlegt meðal til að komast leiðar sinnar með hraða. Sú hugsun var henni nóg. »Ég einnig hafði leyfi«, sagði hún, »til að ferðast til Irkutsk, en svo gerði skipun landsstjórans í Nijni-Novgorod það ónýtt, og ef ég hefði ekki fundið þig, bróðir, þá hefði ég mátt sitja kyrr í bænum og hefði líklega farist úr harðrétti?« »Og þú vogaðir, að leggja á Síberíu-slétturnar einsömul, eða gera tilraun til þess?« sagði Strogoff. »Já, það hafði nú ekkert heyrst um Tartara-upphlaupið, þegar ég fór frá Riga. Það var í Moskva að ég heyrði það fyrst«. »Og samt hélstu áfram ferðinni«. »Það var skylda mín«. Þessi orð lýstu lyndiseinkunn meyjarinnar. Svo fór hún að tala um föður sinn, Wassili Feodór. Hann hafði verið mikilsvirtur læknir í Riga. En svo hafði því verið haldið fram, að hann væri meðlimur í einhverju leynifélagi. Lauk því svo, að hann fékk skipun um, að flytja til Irkutsk, og jafnsnemma skipuninni komu lögregluþjónar, sem höfðu hann burt með sér umsvifalaust. Engri vörn varð við komið, enginn frestur fáanlegur. Með tárin í augunum varð hann að kveðja dóttur sína og konu, sem þá var sjúk í rúminu, og sem hann þá fékk að kveðja í síðasta sinn. Svo varð hann að fara af stað, umkringdur varðliði, eins og glæpamaður. Þremur misserum síðar gaf húsfrú Feodór upp andann í örmum dóttur sinnar, sem þá stóð einmana eftir, harmþrungin og að heita mátti allslaus. Reit hún þá stjórn Rússlands og bað um leyfi til, að flytja til Síberíu og eyða æfinni hjá föður sínum í Irkutsk. Leyfið fékkst strax og hún ritaði þá föður sínum og sagðist ferðbúin. Peningarnir, sem fengust fyrir reitur hennar, voru tæplega nógir handa hófsamasta manni til jafnlangrar ferðar, en samt lagði hún af stað. Hún ætlaði að gera allt, sem í hennar valdi stóð. Guði treysti hún að ljá sér lið, þegar hennar eigin orka eða útsjón þryti. Þannig var saga meyjarinnar, og meðan hún var sögð, brunaði »Kákasus« upp Kamafljótið án minnstu tafar. IX. Sólarhrings kreppa í vagni. Daginn eftir, 19. júlí, náði Kákasus heilu og höldnu á endastöðina — til Perm. Perm er höfuðstaður í víðáttumesta héraðinu í Rússlandi, héraði, sem nær austur fyrir Úralfjöll. Í héraðinu er mikið af námum: marmara, gulli, platínu kolum og salti. Þó Perm sé all-mikill staður og merkur, sem afstöðunni er að þakka, þá er hann langt frá því að vera álitlegur, eða þrifalegur. Þægindi eru þar fá, en það gerir ferðamönnum til Síberíu lítið til. Þeir koma vestan úr siðfágaðri stöðum og hafa með sér allt, sem til langferða þarf. En mikið hagræði væri það fyrir ferðamenn austan úr Asíu, ef fleiri og betri búðir væru í Perm og ýms þau þægindi, er ferðamaður þarfnast. Myndarlegra væri það og fyrir stjórnina þar sem hér er að ræða um fyrsta Evrópu-bæinn í veldinu, sem nokkuð kveður að. Í Perm selja ferðamenn að austan vagna sína meira og minna skemmda eftir Síberíuferðina. Þeir aftur, sem austan ætla, kaupa hér vagna á sumrum og sleða á vetrum. Þegar hér kom, var Strogoffs fyrsta verk að kaupa vagn, því póstvagninn, sem annars gengur austur yfir fjöllin, var nú auðvitað hættur að ganga, síðan uppreistin bannaði samgöngur. En þó nú póstvagninn hefði verið á ferðinni, hefði Strogoff samt ekki tekið sér far með honum, Hann vildi komast áfram sem hraðast og vera engum háður. Hann hafi því afráðið að kaupa vagn, leigja síðan hesta og ökumann frá einum áfangastað til annars, og hvetja þá til ferðhraða með aukagjaldi, brennivínsskattinum — »na vodkou«. Nú vildi svo illa til, að fyrir skipunina, sem allsstaðar kom út jafnsnemma, voru flestir vagnar seldir og því vandræðaverk að fá einn einasta, sem öflugur var. Strogoff varð því að sætta sig við þá vagna, sem aðrir nú á austurleið höfðu ekki viljað nýta. En hvað hesta snerti og ökumann, þá voru þar engin vandræði á meðan hann var í Evrópu. Vegabréf hans var óhætt að sýna póstafgreiðslumönnum og þá mundu þeir tafarlaust láta hann sitja fyrir öllum öðrum. En eftir að í Síberíu kom, var háski að sýna vegabréfið, svo að þar varð hann eingöngu að treysta á áhrif rúblanna. En hvaða vagn átti hann þá að kaupa »telga« eða »tarantass?« Telga er bara opinn vagn með fjórum hjólum, gerður eingöngu úr tré. Hjólin, hjólásar, naglar allir, - allt úr tré, hvergi járnnagli eða spöng. Og sterkur kaðall er eina afltaugin sem tengir saman fram- og afturhluta þessa virkis — fram- og afturhjólin. Það er ekki unt að hugsa sér frumbýlingslegri vagn og ekki heldur annan óþægilegri til ísetu. Ef vagninn brotnaði, var auðvitað auðgert að gera við hann, því frumskógar miklir voru víða fram með veginum, og hjólásar mátulegir í hundraðatali hvarvetna í skógunum. Þegar mikið liggur á og þar sem vegir eru vondir, er »telga« samt handhæg reið, því engin braut er svo þrælsleg, að ekki þyki hún henni sæmandi. Fyrir kemur það samt að reipið slitnar, afturhlutinn situr fastur í forinni, en hestarnir komast á póststöðina með framhjólin ein, og það sem við þau vill lafa. Um slíkar smáskrópur talar enginn. Við eina þessa reið hefði Strogoff mátt sætta sig, hefði hann sér að óvæntu ekki dottið ofan á einn þann vagn, sem nefndur er »tarantass«. Sá vagn er betri miklu en Telga, en vonandi er að rússneskir uppfinnendur spreiti sig, þangað til þeir finna upp dálítið viðfeldari vagn. Fjaðrir og gormar eru ekki í Tarantass fremur en Telga og járn er þar heldur ekki til. En fram- og afturhjólin eru tengd með tré og því síður hætta á að afturhlutinn verði eftir á miðri leið. Vagn þessi er líka langur — átta til níu feta haf milli fram- og afturhjóla, og heldur því betur jafnvæginu og þolir betur hristinginn. Framan á honum er borð all-mikið, sem tekur á móti leir- og vatnsslettum, svo ferðamaðurinn óhreinkist ekki. Yfir vagninum er byrgi úr leðri, sem þenja má út, svo það hylji þá sem inni eru, eða fella það niður, eftir vild. Sem sagt var það fyrir hendingu að Strogoff fann þennan vagn — líklega hinn eina af þessari tegund í allri borginni. Hann fagnaði yfir því, en samt eyddi hann nokkrum tíma í að »raga« verðið, eins og Korpanoff kaupmanni í Irkutsk sæmdi. Nadía hafði fylgt Strogoff í vagnleitinni. Þó erindi þeirra austur væri ólíkt, voru bæði jafn áfram um að fá vagninn keyptan og komast á stað. Þau höfðu bæði eina og sömu löngun. »Þín vegna, systir, vildi ég gjarnan að þýðari vagn væri fáanlegur«, sagði Strogoff, að vagnakaupunum loknum. »Segir þú það við mig, bróðir«, svaraði hún, »þar sem ég þá hefði farið fótgangandi alla leið, heldur en ná ekki til, föður míns«. »Hugrekki þitt efa ég ekki, Nadía, en það er til meiri þreyta en svo, að kvenmaður fái afborið hana«. »Ég skal afbera hvaða þrautir, sem fyrir framan mig liggja. Ef þú heyrir möglunaryrði frá mér, þá máttu skilja mig eftir og fara áfram einsamall«. Hálfri klukkustundu síðar, eftir að hafa sýnt vegabréfið, voru þrír hestar komnir fyrir vagninn. Þeir voru loðnir mjög og stríhærðir, líkastir því að þar væru þrír leggjalangir skógarbirnir, smávaxnir voru þeir en eldfjörugir — af Síberíukyni. Fyrir vagninn voru þeir settir þannig: stærsti hesturinn var settur inn á milli tveggja langra kjálka fram úr vagninum, er fyrir framan bringu hestsins voru tengdir með nokkurskonar boga, sem margar bjöllur voru festar á. Hinir hestarnir, þeir minni, voru festir með reipum við framhornin á vagninum sjálfum. Aktýgin voru ekki önnur, og ómerkilegir snærisspottar voru hafðir að beizlistaumum. Farangur hafði hvorki Strogoff né Nadía, nema litlar töskur. Hann var að flýta sér og vildi ekkert hafa með sér, en hún átti ekkert til. Það var líka gott að farangur var ekki til, því það hefði verið lítið pláss í vagninum fyrir böggla auk farþeganna tveggja. Vagninn var ekki gerður fyrir meira en tvo farþega, að frádregnu, háa sætinu mjóa yfir framhjólunum, sem ökumaðurinn skipaði á ferðinni og sem sat þar með dásamlegri snilld, hvernig sem vagninn hrökklaðist á klungrinu. Um ökumann er skift á hverri póststöð, jafnframt hestunum. Sá sem hóf ferðina í Perm, var eins og hestarnir af Síberíukyni og loðlubbalegur var hann ekki síður en þeir. Hann hafði langt og mikið hár þverskorið um ennið, eins og toppur á hesti. Hann var með hatt mikinn og börðin vafin upp að kollinum, í kápu allvíðri með krosssauma á brjósti, og voru festir á hnappar með leynimerki keisarans gröfnu á; rautt belti hafði hann um mittið. Þegar hann kom til að taka við stjórninni, leit hann forvitnislega inn í vagninn og sá engan farangur! Það leizt honum ekki ríkmannlegt, þó ekki væri auðsætt, hvar hann hefði holað farangri niður. Óþrifa og lubbalegur eins og hann var, setti hann upp ólundar- og fyrirlitningarsvip. »Krummar!« sagði hann við sjálfan sig, en upphátt, og var auðsælega sama, þó farþegarnir heyrðu til hans, »krummar og sex kópekar á verst!« »Nei, nei, — Arar!« gall Strogoff við, sem skyldi mállýzkuna. »Heyrir þú það? Arar sem gjalda níu kópeka á verst og sæmilega aukagetu líka!« Ökumaðurinn svaraði engu, en lét gleði sína birtast með háum smelli í pískólinni. Á tungu rússneskra ökumanna þýðir »krummi«, fátækan mann eða nízkan, sem ekki borgar meir en tvo eða þrjá kópeka fyrir hverja verst fyrir hestana. En »ari« er ríkismaðurinn, sem ekki horfir í ærlegt gjald og geldur ríflegan »na vodkou«, eða brennivínsskatt. Hrafn flýgur ekki eins hart og ari, ekki heldur ferðamaður, sem illa borgar hestlánið. Strogoff lét flytja talsvert af matvælum í vagninn, ef ske kynni að slysaðist á ferðinni, svo ekki næðist til póststöðva í tæka tíð. En á póststöðvunum öllum voru ágæt greiðasöluhús á kostnað hins opinbera. Það var bruna-hiti, og þandi því Strogoff leðurhvelfinguna yfir vagninn þeim til skýlis. Og klukkan 12 á hádegi rauk vagninn af stað, hulinn í moldryki á þurri sléttunni. Allir aðrir en Rússar og Síberíu-menn hefðu undrast hina miklu og látlausu ferð á hestunum. Forustuhesturinn, sá á milli vagnkjálkanna, hélt uppi látlausu brokki og var langstígur vel, en hinir hestarnir, sem einnig sýndust vita til hvers var ætlast, fóru alt af á harða stökki en ekki var gangurinn þýðlegur eða strikið beint, sem þeir fóru eftir. Aldrei snerti ökumaðurinn þá með pískólinni, en veifaði henni í sífellu og lét smella í henni ægilega. Og allt af talaði hann við hestana, og þvílíkt tal! Í því orðasafni mátti meðal annars greina nafn hvers einasta dýrðlings, sem til er í kirkjusögu Rússa. Þau orð viðhafði hann, þegar þeir voru þægir, en svo hafði hann líka allt önnur orð á reiðum höndum, ef þeir voru óþægir. Til taumanna tók hann lítið, enda hefðu þeir lítið megnað til að ráða við jafn eldfjöruga gæðinga. Orðin ein: »na pravo«, þegar þeir áttu að beygja til hægri, og »na levo«, þegar þeir áttu að fara til vinstri handar, og fram borin með dimmri og draugalegri rödd, höfðu meiri áhrif en nokkrir taumar. Þeir hlýddu þeim orðum tafarlaust. »Áfram dúfurnar mínar! svölurnar mínar fallegu!« voru orðtökin og önnur slík, þegar þeir voru þægir. »Haltu við, frændi, til vinstri!«, og »hægri ofurlítið meira litli faðir til hægri!« Þetta og þvílíkt. En svo kom annað hljóð í strokkinn, ef þeir hlýddu ekki undir eins: »Áfram vesali snigill!« var það þá, og »bölvað sem ég skal steikja þig lifandi skjaldbakan þín!« Hvort sem það var þessari keyrsluaðferð, sem krefst þess fremur að ökumaðurinn hafi góða rödd, en hraustar hendur, að þakka eða ekki, þá var það víst að vagninn flaug áfram tólf til fimtán verstir á klukkustundinni. Mikael Strogoff var hvorttveggju vanur — vagninum og ferðinni, hrökklið og hristingurinn gerði honum ekkert til. Honum var það fyrir löngu kunnugt orðið, að rússneskur ökumaður gerir enda enga tilraun til að forðast steina, rætur, fallin tré, gjótur eða keldur, sem við má búast á veginum. Ökumaðurinn fer fulla ferð á hvað sem fyrir er, og Strogoff var því vanur. En Nadía, aftur á móti var óvön slíkum hrikaferðum, var allt af í hættu, vegna hlykkjanna; samt kvartaði hún aldrei. Um stund sátu bæði þögul, en eftir nokkra hríð braut hún upp á samtali, er sýndi enn, að hún hugsaði ekki um neitt annað en komast áfram. »Ég hefi verið að gizka á vegalengdina«, sagði hún, »Milli Perm og Ekaterenborgar, og mér telst svo til að hún sé um 300 verstir. Er það nærri lagi, bróðir?« »Öldungis rétt, Nadia«, svaraði hann. »Og þegar við náum til Ekaterenborgar, þá erum við komin austur yfir Úralfjöll, því sú borg stendur við fjallræturnar að austan«. »Og hvað lengi verðum við á leiðinni?« »Tvo sólarhringa, því við höldum áfram nótt og dag. Ég segi dag og nótt, Nadía, því ég má ekki tefja drykklanga stund, ef unnt er hjá töf að komast, og fæ engrar hvíldar að njóta, fyrr en kemur til Irkutsk«. »Ekki skal ég tefja þig, bróðir, ekki eina klukkustund. Svo við höldum þá áfram dag og nótt«. »Jæja, Nadía. Ef Tartarar þá ekki hefta förina, náum við til Irktusk eftir 20 sólarhringa«. »Svo þú hefir farið hér um fyrr?« »Já, oftar en einu sinni«. Á vetrardag hefðum við farið meiri ferð en þetta og haft greiðari gang, er ekki svo?« spurði hún. »Já, við hefðum getað farið meiri ferð sjálfsagt. En frostið og snjórinn hefði sorfið hart að þér Nadía«. »Það hefði nú ekkert gert. Veturinn er vinur Rússlands«. »Það er satt, Nadía, en hvílíka þó líkamshreysti þarf maður ekki til að þola þá vináttu! Ég hefi æði oft verið úti í miklu meira en 40 stiga frosti á Síberíu-sléttunum. Þrátt fyrir »dakha«[* Kápa úr hreindýrafeldum, lauflétt, en helzt enginn kuldi gengur gegnum hana.] minn hefi ég fundið frostkuldann leggja gegnum hold og bein og fæturnir ætluðu að frjósa í þrennum ullarsokkum. Ég hefi vitað hestana mína alklædda þéttu íslagi, sem úrgufnin gerir æ þykkri og ég hefi séð anda þeirra umhverfast í ísströngla fast við nasaholurnar. Ég hefi jafnvel séð brennivín í flöskunni minni botnfrjósa, — en þrátt fyrir allt þetta þaut sleðinn minn áfram eins og fellibylur, því hvergi er þá þúfa, en eggslétt, drifhvítt hjarn, eins langt og augað eygir. Engar ár, sem leita þarf eftir vaði á, er að óttast, og engin stöðuvötn, sem ferja þarf yfir, allt, allt er ís og snjór, akbraut hvarvetna og hin ákjósanlegasta að því er færi snertir. En hvílíkar þrautir og þjáningar, Nadía! Um þær getur enginn gert sér hugmynd, nema þeir, sem lagt hafa á Síberíu-slétturnar á vetri og aldrei komið aftur, heldur gengu til hinstu hvílu í einhverjum snjóskaflinum«. »Samt komst þú klaklaust af bróðir«. »Já, en ég er Síberíu-maður og vandist á barnsaldri á að fylgja föður mínum á veiðar og þola vosbúð og kulda. En þegar þú, Nadía, sagðist hafa lagt á Síberíu-gaddinn einsömul, heldur en hætta við ferðina, fannst mér ég í anda sjá þig hníga aflvana í fönnina, til þess aldrei framar að rísa á fætur«. »Hvað hefir þú oft farið yfir Síberíu-slétturnar á vetri?« spurði Nadía. »Þrisvar, þegar ég var að fara til Omsk«. »Og hvað ætlarðu að gera til Omsk«. »Heimsækja móður mína, sem væntir eftir mér«. »Og ég ætla til Irkutsk til föður míns, sem væntir eftir mér. Ég á að flytja honum síðustu kveðju, frá móður minni. Af því getur þú ráðið að undir þeim kringumstæðum mundi enginn hlutur aftra mér frá að hefja ferðina«. »Þú ert einbeitt stúlka, Nadía. Guð hefði haldið verndarhendi sinni yfir þér«. Allan, daginn þeyttist vagninn áfram, en nýir ökumenn og hestar tóku við á hverri póststöð. Arar fjallanna þurftu ekkert að skammast sín fyrir þessa »ara« á þjóðveginum niðri á sléttunni. Hið háa verð, sem Strogoff galt fyrir hestlánið og ríflegir drykkjupeningar, sem stungið var í vasa ökumanna, voru ákjósanlegustu meðmæli, sem allt af voru samferða vagninum. Það mátti ætla, að póstafgreiðslumönnum þætti undarlegt að sjá tvo rússneska vagna fara þannig með fljúgandi ferð áleiðis til Síberíu, og ætla austur um hana eftir hið ný-auglýsta bann, en vegabréfið var óaðfinnanlegt og um ekkert að gera nema hleypa þeim fram hjá. Þau Strogoff og Nadía voru ekki einu ferðamennirnir á þessari braut. Að því komst Strogoff snemma um daginn, er hann frétti að vagn væri skammt undan honum. En svo hugsaði hann ekkert um það í bráðina, af því engin þröng var á góðum hestum. Viðstöðu höfðu þau hvergi um daginn, nema til að fá sér máltíð á póststöðvunum, þar sem matur var ætíð til handa vegfarendum og svefnherbergi. En þó svo hefði nú ekki verið, þá var greiði æfinlega vís í húsum Rússa. Í öllum smáþorpum eru hús borgaranna öll byggð í sama stíl og á sömu stærð — og allsstaðar var að sjá samskonar kirkjur, með hvítum veggjum og grænu þaki. Og það var sama á hvers dyr ferðamaður barði, hann var ætíð allstaðar velkominn. Húsráðandi sjálfur lauk upp dyrunum, brosandi, rétti hinum ókunna gesti hönd sína vingjarnlega, bað honum brauð sitt og salt; viðarkol voru látin í ofninn og gesturinn beðinn að gera sig heimakominn. Svo mikið er um gestrisnina, að heimafólkið gengur úr rúmi, heldur en gesturinn fái ekki rúm. Hvarvetna meðal bændalýðsins er ókunni maðurinn álitinn ættbróðir allra; hann er »af guði sendur«. Á einni póststöðinni spurði Strogoff um kvöldið, hvað langt væri síðan vagninn á undan hefði farið fram hjá. »Fyrir tveimur klukkustundum, »litli faðir«, svaraði póstafgreiðslumaðurinn. »Er það berlin-vagn?« »Nei. Það er telga«. »Ferðamennirnir margir?« »Tveir«. »Fara þeir geist?« »Arar«. »Láttu setja hestana fyrir svo fljótt sem verður«, sagði Strogoff, og féll talið niður. Svo hélt Strogoff áfram og nam aldrei staðar alla nóttina. Veðrið var hið indælasta enn, en rafmagnssamdráttur mikill var í lofti og það óðum að þyngjast. Það var ekki ský á lofti, en gufumökkur steig upp úr jörðinni. Strogoff, sem vanur var að athuga veður og loftbreytingar, þóttist sjá, að óveður var í nánd, en vonaði, að það kæmi ekki, á meðan hann væri á ferðinni um fjöllin, því þar voru þrumuveður hræðileg. Nóttin leið svo, að ekkert bar til tíðinda, og þrátt fyrir hristinginn og skrykkina, gat Nadía sofið svo klukkustundum nam, enda lyfti Strogoff leðurhvelfingunni sem mest mátti, til þess að hleypa sem mestu af fersku og svölu næturlofti inn í vagninn, svo hressandi eftir sólarhitann. Sjálfur sofnaði Strogoff aldrei. Hann trúði ekki ökumanninum nógu vel, vissi að þeir höfðu til að hægja ferðina og móka svo í sætinu. Árvekni hans var það að þakka, að ferðin aldrei linaði alla nóttina og hvergi tafið nema á meðan skift var um hesta á póststöðvunum. Daginn eftir, 20 júlí, sáust hæstu, hnjúkar Uralfjallanna klukkan 8 um morguninn. En langt, fjarska langt, var enn austur að þessari stór-hreinlegu landamerkjalínu Evrópu, og Asíu, og ekki gátu þau Strogoff og Nadía vonað að ná til þeirra fyrr en um kvöldið. Þau urðu því að ferðast yfir fjöllin í náttmyrkri. Loft var nú orðið skýjað og sást lítt til sólar um daginn. Hitinn var því þolandi en útlitið var ískyggilegt. Þegar á alt var litið hefði því máske verið heppilegra að leggja ekki í fjallskörðin um nóttina, og ef Strogoff hefði mátt fara hægt hefði hann sjálfsagt ekki gert það. Svo var og allt af ókunnur vagn á undan og að því geðjaðist Strogoff ekki. Á póststöðinni næst fjöllunum um kvöldið, dró ökumaðurinn athygli Strogoffs að þrumuskellum, er hæstu klettabeltin í brúnunum bergmáluðu og juku. Strogoff svaraði því ekki með öðru en að spyrja: »Er þessi »telga« á undan enn?« »Já«. »Hvað langt?« »Nærri klukkustundarferð«. »Áfram þá, og skal ég gjalda þreföld aukalaun, ef ég kemst til Ekaterenborgar snemma í fyrramálið«. X. Þrumuveður í Úral-fjöllum. Úralfjöllin aðskilja Evrópu og Asíu á svæði fullar 3000 verstir á lengd. Orðið »úral« er Tartara-mál og þýðir belti og svo þýðir einnig hið rússneska nafn þeirra: »Poyas«. Beltisfjöll er og réttnefni, þegar lengd þeirra óslitin er athuguð; allt frá íshafi að norðan til Kaspíahaf að sunnan. Að þessu mikla belti var nú Strogoff kominn, en eftir var að komast yfir það. En eins og áður hefir verið sagt, valdi hann viturlega, er hann kaus sér þessa leið frá Perm, því einmitt hér er greiðastur vegur yfir fjöllin, enda aðal-þjóðvegur allra Asíu-kaupmanna. Hér voru þau ekki breiðari en svo, að yfir þau mátti komast á einu dægri, ef ekkert slys kom fyrir. En útlitið núna var »slysalegt« — fjarlægar þrumur voru órækur vottur um nálæga skúr. Í loftinu var líka svo mikið af rafmagni, að ómögulegt var, að það eyddist nema með stórfeldum þrumum og stórviðri. Áður en lagt væri af stað, bjó Strogoff svo um, að stormurinn, ef til kæmi, næddi sem minnst á Livoniu-mærinni. Í stórviðri gat leðurhvelfingin fokið burt, en til þess að varna því batt Strogoff hana niður með sterkum köðlum. Tvennar dragólar setti hann í vagninn og kassana, sem hjólásarnir léku í, lét hann troða fulla af heyi, til að draga sem mest úr hristingnum á hinum grýtta og óslétta vegi fram undan. Traustan auka-ás festi hann og milli fram- og afturhluta vagnsins, svo að hann gæti ekki slitnað sundur, eins og telga stundum gerir. Það var því lítil hætta á að vagninn bilaði, hverju sem rigndi. Að þessu öllu búnu settust þau Strogoff og Nadía í vagninn aftur, og festi hann þá blæjur úr leðri fyrir framan sætið, svo að vindur og regn næði sem minnst til meyjarinnar. Tvær stórar luktir voru, festar framan á vagninn, svo hátt uppi, að þær köstuðu daufri birtu fram á brautina. Þó voru þær ekki festar þar upp í þeim tilgangi, heldur til þess að varna þeim frá, er á vesturleið væru, að reka sig á hestana og vagninn. Það var vel að öll þessi varkárni var viðhöfð. »Jæja, þá erum við ferðbúin, Nadía«, sagði Strogoff, og stóð ekki á svarinu hjá henni. »Þá skulum við halda af stað«, sagði hún. Strogoff kallaði til ökumannsins, sem þegar smellti svipunni, og hestarnir þutu af stað á harða brokki upp fyrstu brekkuna vestan í Úralfjöllum. Klukkan var átta og var nærri myrkt orðið, þrátt fyrir langan sólargang á þessu mælistigi. Regnskýjabólstrar kafþykkir huldu dagsljósið og héngu hreyfingarlausir í loftinu, því hvarvetna var blæjalogn. Þó þau hreyfðust hvergi var auðsætt, að þau voru óðum að nálgast jörðina. Fet fyrir fet færðu þau sig niður yfir og út yfir fjallatindana, eins og þau vildu leita sér hælis niðri í dölunum á flótta undan hamfara veðri á bak við þau langt úti í geiminum. Smámsaman, þó engar þrumur heyrðust, var sem sumir bólstrarnir rofnuðu og gaus þá upp snöggvast glóbjartur, bleikgulur logi, en dó óðara út aftur. Hærra og hærra reis þjóðbrautin í fjallahlíðunum, nær og nær þessum hnígandi skýjaklasa. Ef þau rofnuðu ekki því fyrr og umhverfðust í regn, var hætta á, að þokan yrði of þykk til þess, að óhætt væri að halda áfram, því víða var hengiflug niður frá sléttri brautinni. Þó Úralfjöllin séu mikilfenglegt fjallabelti og víða ill yfirferðar, eru þau hvergi ýkja-há og víða gerlegt að búa til vegi meðal þeirra. Þau eru óvíða hærri en fimm þúsund fet yfir sjávarmál, og tré og hrís vex hátt upp eftir hlíðum þeirra. »Eilífur snjór«, eða jökull, er þar ekki til. Fannirnar, er hinn grimmi Síberíuvetur hefir í för með sér, hjaðna fljótt og hverfa með öllu á vorin. Mannfjöldi mikill sækir til fjallanna á sumrum, til að leita sér atvinnu við hinar ýmsu mikilsverðu málmnámur, og eru því víða þau þorp í fjöllunum, er Rússar í heild sinni nefna »gavody«. Eru þau flest í grennd við þjóðveginn og hann víðast hvar greiðfær orðinn. En þó greiðfært sé og auðvelt að rata í góðu, veðri og um bjartan dag, þá er samt leiðin full af hættum og torfærum, þegar náttmyrkur er, þegar höfuðskepnurnar eiga í orustum, og veikburða maður er þar berskjaldaður. Strogoff var það kunnugt frá fyrri tíð, að þrumuveður í fjöllunum er hræðilegt, og það sem nú vofði yfir, gat orðið í þeirra tölu, í tölu þeirra, sem ferðamaðurinn óttast engu síður en vetrarhríðarnar mannskæðu í Úralfjöllum. En það var ekki enn farið að rigna. Strogoff opnaði því leðurblæjuna framundan og horfði út um stund. Nadía horfði líka út, á kynjamyndirnar, er ljósglampinn framleiddi með fram brautinni. En hún sat hreyfingarlaus í sætinu, þar sem Strogoff hallaði sér út úr vagninum og athugaði loft og ský. Loftið var hreyfingarlaust, ekki minnsti vindblær enn. Það var rétt eins og náttúran sjálf væri að kafna — gæti ekki dregið andann fyrir loftþyngslunum. Þögnin var al-fullkomin, hvað náttúruna snerti, en skröltið í hjólunum á brautinni, frýsið í hestunum og hófaskellir þeirra mynduðu uppihaldslausann klið. Það var ekki sýnilegt að nokkur lifandi skepna væri á ferð í þessum þröngu fjallaskörðum. Enginn maður akandi, ríðandi, eða gangandi, hafði mætt þeim Strogoff. Það sást hvergi grilla í viðarkolabrennu í skóginum og ekki ljóstýru í glugga nokkurs námumannskofans. Allt var myrkt og hljótt. Þegar þannig var ástatt hefði verið afsakandi þó Strogoff hefði leitað sér skýlis og sezt um kyrrt til þess dagur rann, en hann var ekki á því, hafði enda ekki leyfi til þess, og svo — þá vaknaði aftur sú hugsun — hvað í veröldinni knúði ferðamennina tvo á undan honum áfram, þegar útlitið var þannig? Strogoff hélt áfram og sat lengi þannig, að hann hékk hálfur út úr vagninum. Þegar klukkan var ellefu um kvöldið fóru eldingar að fljúga um loftið í sífellu. Með köflum voru þær svo bjartar, að hávaxin furutré sáust langt í burtu. Annan sprettinn sást gínandi gjá og hamraflug rétt við hliðina á vagninum. Smám saman hrökklaðist vagninn til eins og allt ætlaði um koll að keyra, og var þá að heyra, sem þrumur væru niður undan vagninum. Þegar þessar hviður komu, vissi Strogoff, að þau voru að hrökklast yfir óslétta bjálkabrú, sem kastað er yfir hinar ægilegu gjár og gil í fjallshlíðinni. Þau voru að nálgast hæsta fjallshrygginn á brautinni. Það var logn enn, en hvinur mikill var nú í lofti og varð hærri og hærri eftir því sem vagninn nálgaðist fjallsröndina. Var þessi hvinur og mikill, að ökumaðurinn mátti hefja rödd sína í hæstu nótur til þess, að hestarnir heyrðu til hans. Þeir voru latir, eins og yfirbugaðir og gengust jafnt fyrir hrakyrðum og kjassi ökumannsins. Sem máttþrota væru, hnutu þeir í hverju spori. »Hvað verður framorðið, þegar við komumst upp á hrygginn?« kallaði Strogoff til ökumannsins. »Klukkan eitt, ef við komumst þangað nokkurn tíma«, svaraði ökumaðurinn. »Þetta er að líkum ekki fyrsta þrumuveðrið þitt í fjöllunum, vinur?« »Nei, og Guð gefi, að það verði ekki það seinasta!« »Ertu hræddur?« »Ekki er ég það, en ég er á því enn, að þú hafir gert rangt, að leggja á fjöllin í nótt«. »Þó hefði ég gert enn meira rangt, ef ég hefði setst um kyrrt«. »Herðið ykkur, dúfurnar mínar«, sagði þá ökumaður. Það var hans að hlýða, en ekki að þrátta. Í þessu heyrðist brestur mikill í lofti, fjarlægur í fyrstu, en ferðist nær með ljóshraða. Björtu ljósi brá fyrir og sá þá Strogoff hvar hávaxnar furur hringbognuðu fyrir æðandi stormi. Um leið og ljósið dó út kom þrumubrestur. Vindurinn var laus orðinn, en allur var hann enn hið efra, meðal regnskýjanna. En hann var að nálgast og innan augnabliks kom brestur eftir brest, er sýndi að stórvaxin skógartré voru að bresta og brotna í ofveðrinu. Á næsta augnabliki hljóp skriða af risa-trjám með braki og brestum fram yfir brautina tvö hundruð fet fyrir framan hestana og byltist þar fram af flugabjörgum. Hestarnir stóðu agndofa. »Áfram, fallegu dúfurnar«, hrópaði ökumaðurinn og smellti svipunni. »Sefur þú, systir?« spurði Strogoff og leitaði að hönd hennar í myrkrinu. »Nei, bróðir«. »Vertu þá við öllu búin; bylurinn er að skella á«. »Ég er viðbúin«. Strogoff var að enda við að festa leðurblæjuna þegar ósköpin dundu á. Ökumaðurinn hljóp úr sætinu og hljóp fram fyrir hestana, því nú var hann, þeir og farþegarnir í lífshættu. Vagninn sat fastur í sveig á brautinni, sem bylurinn féll eftir eins og stríður vatnsstraumur niður af fjallsbrúninni. Svo var vindurinn mikill, að ökumaðurinn varð að halda hestunum, svo að þeir ekki litu til hliðar undan veðrinu. Ef vindurinn hefði náð á bóginn og hliðina á vagninum, hlaut hann að hvolfast og byltast fram af björgunum. Hestarnir voru að ærast af ótta. Þeir prjónuðu upp fótunum og hvað sem ökumaðurinn sagði, voru þau að þokast undan veðrinu niður hlíðina aftur. Hann kjassaði þá og kallaði þá allra dýrðlinga nöfnum, og þeir gáfu sig ekkert að því. Svo skifti hann þá um og jós þá smánar-nöfnum og samt hlýddu þeir ekki. Hann hafði ekkert vald yfir þeim lengur. Þeir hræddust þrumurnar og þoldu ekki veðrið, hopuðu því stöðugt undan og nær og nær gjárbarminum, jafnframt því er þeir reyndu alvarlega að slíta sig lausa. Strogoff sá hvað um var að vera og henti sér út úr vagninum og fram fyrir hestana. Var honum þá gagn að kröftunum, enda beitti ann þeim, og að lyktum tókzt honum líka að stöðva þá og vagninn. Bylurinn var kominn á hæsta stig. Í brekkunni fyrir ofan þá heyrðist skriðugangur ægilegur, er tré og grjót byltist fram. »Hér getum við ekki verið«, sagði Strogoff. »Við getum hvergi verið«, sagði ökumaðurinn, augsýnilega yfirbugaður af hræðslu. »Bylurinn fær okkur bráðlega griðastað fyrir neðan hamrana, Það verður endirinn«. »Hugsa þú um þennan hest, bleyða«, svaraði Strogoff hastur. »Ég skal hugsa um hinn«. Í þessu skall á annar ógna-bylur svo snarpur, að Strogoff, eins og ökumaðurinn máttu kasta sér á kné og hendur til þess að fjúka ekki. Í þessum stellingum héldu þeir af alefli í hestana, en þrátt fyrir öll átökin hopuðu þeir þumlung eftir þumlung ofan hallann. Vildi það til, að stórtré hafði fallið yfir þvera brautina og yfir það komst vagninn ekki; annars hefði hann farið fram af hamrinum og niður í gjána. »Vertu óhrædd, Nadía«, hrópaði Strogoff. »Ég er ekki ögn hrædd«, svaraði hún, og var heldur ekki greint á rödd hennar að hún væri óttaslegin. Nú varð augnabliks-hlé. Bylurinn var kominn framhjá, kominn ofan í gjána og yfir í hina hlíðina. »Ætlarðu að halda til baka?« spurði ökumaðurinn hræddur. »Nei! Við höldum áfram! Ef við komumst fyrir þennan sveig, fáum við skýli undir berginu fyrir ofan«. »En hestarnir hreyfa sig ekki«. »Þá er að draga þá! Dragðu þinn!« »En bylurinn kemur aftur!« »Ætlarðu að hlýða, eða ekki?« »Skipar þú mér að hlýða?« »Faðirinn skipar þér!« Það var í fyrsta skifti á ferðinni, að Strogoff þannig nefndi hið alvolduga alþýðu-nafn keisarans. Það hreif líka. Ökumaðurinn svaraði með því að tala til »dúfnanna« sinna og biðja þær að halda áfram. Um leið tók hann í annan aftar hestinn og Strogoff í hinn. Þannig til knúðir fóru hestarnir að brjótast áfram upp brekkuna. Forustuhesturinn stóri brauzt nú einnig áfram ótilknúður, þegar hinir héldu honum ekki lengur aftur. Svo var veðrið mikið, þó milli bylja væri, að fyrir hver þrjú skref áfram færðust þeir eitt eða jafnvel tvö skref aftur á bak. Þeir voru alltaf að hrasa eða detta og — standa upp aftur. Það lá við borð að vagninn færi í mola á hverju augnabliki og hefði ekki leðurhvelfingin verið reyrð eins vel og hún var, hefði hún fyrir löngu verið slitin burt. Þrátt fyrr kappsamlegt áframhald voru þeir Strogoff og ökumaðurinn fullar tvær klukkustundir að tosa hestunum og vagninum upp brekkuna upp undir klettahyrnuna í króknum, og var þó vegalengdin ekki nema hálf verst (290 faðmar); svona beint lá brautin á þessum kafla við hamremmis átökum vindarins. Og háskinn á þessari leið var ekki ofsinn sjálfur, heldur, og miklu fremur var háskinn falinn í grjótinu og trjánum, sem í sífellu byltust niður brekkuna og flugu enda laus í loftinu umhverfis höfuð þeirra. Einu sinni við ljósið af ógurlegum þrumublossa, sá þeir hvar tré mikið með jörð og grjót fast í rótum sínum losnaði upp og kom á fleygiferð og stefndi aftarlega á vagninn. Ökumaðurinn rak upp hljóð af hræðslu, og Strogoff pískaði hestana sem hann mest mátti, en til einskis; þeir fengust ekki til að hreyfa sig. Hvað var nú til ráða? Vagninn var sloppinn, ef unt var að þoka honum örfá fet, en það þurfti að gerast skjótt, því skriðan nálgaðist. Strogoff sá í anda hvar vagninn fór í molum niður af hengi-fluginu með Nadíu meidda til dauða, því ekki var ráðrúm til að opna tjöldin og draga hana út úr prísundinni. Eina einustu tilraun gat hann gert og hann hugsaði sig ekki tvisvar um. Hann var ramur að afli, en nú þurfti hann á meira en mensks manns afli að halda. Hann hljóp aftur fyrir vagninn, setti herðarnar undir vagnröðina, sparn fótum við klapparhyrnum í brautinni og rétti svo úr sér, og átakið var svo mikið að vagninn og hestarnir færðust áfram sem þurfti. Hann hafði aðeins rétt sig upp þegar skriðan hljóp fram hjá og steyptist í gjána; var hún svo nærgöngul að ytri brún hennar nerist um bringu hans, þar sem hann stóð við endann á vagninum. »Bróðir!« hrópaði Nadía í vagninum, sem við þrumuljósið sá alt er gerðist út um glugga á leðurskýlinu. »Vertu, óhrædd, Nadía!« svaraði Strogoff. »Sjálfrar mín vegna óttast ég ekkert, bróðir«, svaraði hún. »Guð er með okkur, systir!« »Með mér sannarlega«, svaraði hún, »þar sem hann hefir sent mér þvílíkan bróður«. Þetta átak Strogoffs varð ekki til ónýtis. Hinir þreyttu, og slæptu hestar héldu áfram örugglega um stund eftir að ferðin komst á vagninn. Þó var það sannast að þeir Strogoff og ökumaðurinn máttu sem næst draga hestana tvo til hliðanna til þess vagninn væri á hreyfingu. Þannig smánálguðust þeir krókinn og klettaskoruna á fjallshryggnum, sem vegurinn lá um og sem þar lá norður og suður um stund svo klöppin stóð sem veggur fyrir austanveðrinu. Þar var að heita mátti logn á litlum bletti, nema ef kastvindi kynni að slá þar niður og gera mönnum og skepnum ómögulegt að standa á fótunum. Af þessum bletti vissi Strogoff og þangað vildi hann ná, hvað sem tautaði. Hávaxin furutré stóðu uppi á klöppinni, sem átti að skýla þeim Strogoff, og í einum bylnum, á meðan þeir voru að tosast upp seinasta áfangann slitnuðu þau í sundur um þvert — fellibylurinn þverskar þau, eins og sláttumaðurinn sker puntgresi með beittum ljá. Þrumuveðrið og ofsinn var nú á sínu hæsta stigi Þrumuljósin dóu helzt aldrei út, en lýstu að heita mátti stöðugt hvern kyma í skógunum, hverja dalskoru, klöpp og gjá. Og þrumusmellirnir voru orðnir óslitnir — ekkert hlé á milli þessara ægilegu stórskota náttúrunnar, sem hristu, hin miklu Úralfjöll til grunna. Svo vel vildi til, að vagninn mátti snúa svo, að veðrið kæmi á hann á snið, en ekki á hann þveran. Var það nokkur hlífð. En svo var ill-mögulegt að verjast fyrir kastvind-rokunum og andstraumunum, sem mynduðust í hlíðum og dældum. Og þessir ýmislegu hringstraumar voru með köflum svo skæðir, að hætta var á að vagninn kastaðist upp að klettunum og færi í mola. Svo var hættan mikil, að Nadía var látin fara út úr vagninum, eftir að komið var upp í klettaskoruna á háhryggnum. Tók Strogoff þá luktirnar af vagninum og leitaði að skúta fyrir hana framan í klöppinni og fann holu, sem hann áleit að námamenn hefðu grafið. Var hún svo stór að Nadía komst þar fyrir og þar átti hún að bíða til þess veðrinu slotaði og halda yrði áfram ferðinni. »Klukkan var orðin eitt; svarta myrkur var og nú fór regnið að falla í stór-straumum. Var þá óálitlegt að vera á bersvæði, því enn hélzt ofsaveðrið og eldingarnar rýrnuðu ekki ögn, þó rigndi. Eins og var datt því Strogoff ekki í hug að halda áfram ferðinni fyrr en með afturbirtu, enda ófært að leggja á austurhalla fjallanna í myrkri, sumstaðar svo brattan og alsstaðar sundurgrafinn eftir vatnsflóðið, en við bæði grjóti og trjábunkum mátti búazt á brautinni hér og þar. »Ég má ekki tefja«, sagði Strogoff við systur sína, »en hlýt þó að gera það, til þess að komast hjá enn meiri farartálma. Ég vona líka, af því ofsinn er svo hræðilegur, að þetta veður endist ekki mjög lengi. Það fer að birta af degi kl. 3 í nótt, og eftir það getum við komizt slysalaust, þó ekki máske sem þægilegast niður austurhlíðar fjallanna«. »Þá skulum við bíða, »bróðir«, svaraði hún, »en ekki skaltu samt bíða mín vegna, eða til að létta þrautir mínar og þreytu«. »Ég veita það, Nadía, að það stendur ekki á þér, en með því að leggja okkur í hættu, legg ég meira í hættu en mig eða þig, því á ég á hættu að geta ekki unnið hlutverk mitt, hlutverk og skyldu, sem ég má til að láta sitja fyrir öllu«. »Skyldu?« tók Nadía upp spyrjandi. Í þessu gaus upp ægilegur þrumulogi, er lýsti upp allt innan sjóndeildarhringsins. Ljósinu fylgdi ógurlegur þrumubrestur, er ekki varð betur séð en yfirbugaði regn og storm. Loftið fyltist af kæfandi svækju, eldingunni miklu sló niður í stórt furutré, tæp tuttugu fet frá vagninum og stóð það innan skamms í björtu báli, eins og ógurlegt trölla-blys Loftþrýstingurinn var svo mikill, að ökumanninum sló flötum, en hann meiddist þó ekki og stóð alheill á fætur aftur. Rétt í því að þessi ógna-þruma var að deyja út í fjallskörðunum, fann Strogoff að Nadía tók þétt um hönd hans. »Ég heyri hróp og köll, »bróðir«, hlustaðu«. XI. Ferðamenn í nauðum. Á eftir þessari miklu hrotu varð ofurlítið hlé á byljunum og heyrðust þá glöggt köll manna á veginum framundan og örskammt burtu. Það var alvarleg bæn um hjálp og var auðsætt að þar voru nauðstaddir ferðamenn. Strogoff hlustaði með athygli og það gerði ökumaðurinn líka en hristi höfuðið, sem vott þess að öll líkn væri ómöguleg. »Það eru ferðamenn að biðja um hjálp«, sagði Nadía. »Þeir þurfa ekki að vonast eftir henni af okkar hálfu«, svaraði ökumaðurinn. »Því ekki?« spurði Strogoff. »Eigum við ekki að gera fyrir þá, það sem við vildum að þeir gerðu fyrir okkur í sömu kringumstæðum?« »Sannarlega ferðu þó ekki að leggja hestana í hættu?« sagði ökumaður. »Ég fer fótgangandi«, tók Strogoff fram í. »Ég vil fara með þér, bróðir, sagdi Nadía. »Nei, vertu eftir, Nadía. Ég vil ekki skilja ökumanninn einn eftir«. »Þá skal ég vera eftir«. »Hvað sem upp kemur, þá bíð þú kyr«. »Þú skalt finna mig aftur hérna í skútanum«. Strogoff tók í hönd hennar og þrýsti að fast, hljóp svo út í myrkrið og hvarf á augnabliki fyrir klapparhornið. »Bróðir þinn breytir ekki rétt«, sagði þá ökumaðurinn. »Jú, hann breytir einmitt rétt«, svaraði Nadía, og féll svo talið niður. Strogoff hraðaði sér sem mest hann mátti. Var það hvorttveggja að hann vildi gjarnan koma mönnunum til hjálpar og hitt, að hann vildi gjarnan vita hverjir það voru, sem þannig lögðu á fjöllin undir nóttina og í útlitinu sem var um kvöldið. Hann þóttist strax vita að það voru mennirnir í telga-vagninum sem hann allt af vildi ná og komast fram fyrir. Hverjir voru það? Það var hætt að rigna, en sami var ofsinn enn, Strogoff heyrði að hann var óðum að nálgast mennina, því köllin urðu æ greinilegri. Hann gat nú ekki lengur séð upp í skarðið þar sem Nadía var, því brautin var í sífeldum sveigum framan í brekkunni og sást ekkert út úr augunum, nema augnablikin sem þrumuljósin köstuðu leiftrandi birtu á hlíðina fyrir ofan. Svo var ofsinn mikill, að þar sem knappur krókur var á brautinni mátti Strogoff neyta allrar orku til þess að fara ekki af fótunum. Eftir fárra mínútna gang, heyrði Strogoff, að hann var rétt kominn til ferðamannanna, þó ekki gæti hann séð þá. Allt í einu heyrði hann orðaskil og var það sem hann heyrði á þessa leið: »Ætlarðu að koma aftur nautshaus!« »Þú skalt svei mér fá að bragða á »knut«[* Knut er barefli Rússa, sem óbótamenn eru barðir með — hræðilegt morðvopn, ef böðullinn vill leggja sig fram til að kvelja bandingjann.] á næstu stöð«. »Heyrir þú, þú armi póstþjónn! Halló! Þú þarna niðri!« »Þannig fara fínu vagnarnir með mann í þessu landi!« »Já, þetta, er það sem menn kalla telga!« »Og þessi bölvaði ökumaður! Hann heldur áfram eins og ef hann vissi ekki að við urðum hér eftir!« »Að svíkja mig þannig líka, mig, æruverðan Englending! Svei mér ef ég klaga ekki þetta fyrir utanríkisstjórninni og læt hengja fantinn fyrir!« Þetta heyrði Strogoff, að var sagt í bræði, en svo heyrði hann að annar maður rak upp skelli-hlátur. »Þetta er þó svei mér myndarlegur hrekkur!« »Og þú getur hlegið að þessu«. sagði Englendingurinn. »Auðvitað, kæri ferða-bróðir, og það mjög svo hjartanlega. Þetta er það afbragð í sinni röð, að ég þekki ekkert sem geti jafnast á við það«. Hér varð ræðumaðurinn að hætta um stund, því margfaldur þrumuskellur gerði samtal ómögulegt. Beið hann því til þess er seinasti ómurinn var að deyja út meðal anna, en þá hélt hann áfram með sömu glaðværðinni: »Já, það er svei mér góður hrekkur! En víst kom þessi maskína ekki frá Frakklandi!« »Ekki kom hún frá Englandi!« svaraði hinn. Við þrumuljósin sá nú Strogoff hvar tveir menn sátu í tíu faðma fjarlægð og rétt hjá þeim var vagn með hjólin til hálfs sokkin í leðju niðri í grafningi. Hann nálgaðist þá og þekkti þegar að það voru fregnritararnir, sem hann hafði kynnzt áður. — Það voru þeir, sem þannig spertu sig á undan honum frá Perm. Annar var brosandi, en hinn þvert á móti sýrður á svip. »Góðan morgun, herra minn!« hrópaði Frakkinn. »Sannarlega gleðiefni að finna þig. Láttu mig gera þig kunnugan handgengnum óvin mínum, Mr. Blount!« Englendingurinn hneigði sig og var í þann veginn að kynna aðkomumanninn Jolivet, þegar Strogoff tók fram í fyrir honum. Sagði þetta óþarfa; þeir væru allir kunnugir áður fyrir löngu síðan; hefðu verið samferða niður Volgu og upp Kama. »Einmitt! Það er öldungis rétt, Mr ...« »Nikulás Korpanoff, kaupmaður frá Irkutsk«, svaraði Strogoff, og hélt svo áfram: »En má ég spyrja hvað það er, sem kætir þig svo mjög, þó að það sé stór óhagur fyrir félaga þinn?« »Auðvitað, Mr. Korpanoff«, svaraði Frakkinn. »Hugsaðu þér bara, að ökumaðurinn okkar hefði látið sér lynda að halda áfram leiðar sinnar með framhlutann einungis af þessari horngrýtis »maskínu«, en við sitjum eftir með afturpartinn. Við höfum þannig verri hlutann af telga-vagni, höfum enga hesta og engann ökumann. Eru þetta ekki glettur?« »Ég get enga glettni séð í því«, sagði Englendingurinn. »En þó er það svo, góðurinn minn; þú ert bara ónýtur til að sjá björtu hliðina«. »Og hvernig eigum við að halda, áfram ferðinni?« spurði Englendingurinn. »Enginn hlutur auðveldari«, svaraði Frakkinn. Þú bara tengslar þig við hjólin, ég sezt upp í, tek taumana og kalla þig »dúfuna mína« með meiru, eins og sannur ökumaður og svo brokkar þú brautina eins og pósthestur!« »Þetta spaug allt saman er nú farið að ganga heldur langt, Mr. Jolivet ...«. »Hægt, hægt, minn góði! Þegar þú ert uppgefinn orðinn, tek ég til að draga, en þú hefir taumhaldið, og máttu þá kalla mig útpískaðan snígil og þreklausa skelpöddu, ef ég fer ekki nógu hart«. Allt þetta sagði Frakkinn í svo græzkulausu gamni, að Strogoff gat ekki annað en brosað, en svo sagði hann: »Til eru betri ráð. Við erum nú á hæsta hrygg fjallanna og eigum því héðan undan fæti. Minn vagn er svo sem 50 faðma héðan og vil ég ljá ykkur einn af mínum hestum. Gangi allt slysalsaust, komum við þá jafnsnemma til Ekaterenborgar á morgun«. »Þetta er drengilega mælt«, sagði Frakkinn. »Ég hefði boðið ykkur sæti í vagni mínum, en þar er ekki rúm fyrir fleiri en tvo, og systir mín er með mér«. »Hreinn óþarfi líka«, sagði Frakkinn aftur. »Með hest þinn fyrir telga-helmingi getum við farið heiminn á enda«. »Við tökum þínu göfuga boði með þökkum, herra minn! sagði þá Englendingurinn. »En hvað þennan ökumann snertir ...«. »Ég get fullvissað þig um að þið eruð ekki þeir fyrstu ferðamenn, sem verða fyrir öðru eins«, svaraði Strogoff. »En því í ósköpunum snýr ökumaðurinn ekki aftur. Sá skálkur hlýtur þó að vera þess vís, að við sitjum hér eftir?« »Nei, langt frá því. Hann hefir ekki hugmynd um það«. »Hvað! eins og ökumaðurinn viti ekki, ef hann skilur eftir meirihluta vagnsins!« »Alls ekki! Hann hamast áfram með framhlutann til Ekaterenborgar og veit ekki annað en þið séuð með!« »Sagði ég þér ekki, félagi, að þetta væri allra bezta glettni«, sagði þá Frakkinn. »Jæja, herrar mínir, ef þið viljið koma, skulum við halda til vagns míns«, sagði Strogoff. »En hvað um þessa telga?« spurði Englendingurinn. »Engin hætta á að hún fljúgi burtu«, sagði Frakkinn. »Hún hefir tekið sér svo djúpar rætur, að ef við skildum hana eftir til næsta vors, færu nýir kvistir að vaxa út úr henni«. »Komið þá, herrar mínir«, sagði Strogoff, »og skulum við færa minn vagn hingað«. Fregnritararnir stigu nú fyrst niður úr sæti sínu, sem nú var ekki baksæti lengur, síðan ökumaðurinn fór með það fremra, og gengu af stað með Strogoff. »Þú hefir sannarlega leyst okkur úr vanda, Mr. Korpanoff«, sagði Frakkinn. »Ég hefi gert það eitt, sem hver maður myndi hafa gert í mínum sporum. Ef ferðamenn ekki rétta hver öðrum hjálparhönd, væri þýðingarlaust að hafa nokkurn ákveðinn þjóðveg«. »Ja, þú hefir nú gert vel samt, og ef þú ætlar austur eftir sléttunum, er hugsanlegt að við hittumst síðar og — — —«. »Ég ætla til Omsk, herrar mínir!« »Og ég og Mr. Blount ætlum þangað, sem hættan er mest, og þá að vændum fréttir mestar líka«. »Austur í uppreistar-héruðin?« »Einmitt það, Mr. Korpanoff. Ef til vill hittumst við þar«. »Satt sagt, herrar mínir, hefi ég litla löngun til að vera þar sem byssukúlur og lensubroddar eru á ferðinni. Ég er að náttúrufari of friðelskur maður til þess að hætta mér í grennd við orustustaði«. »Það þykir mér ljótt að heyra og leiðinlegt, því með því er úti um samfylgd okkar nærri undir eins. En þó má vera að við verðum samferða um tíma austur frá Eketerenborg«. »Farið þið um Omsk?« spurði Strogoff eftir litla þögn. »Það er allt óráðið enn«, svaraði Frakkinn. »Það eitt er víst, að við förum til Ishim, hvað sem við gerum, er þar kemur«. »Jæja, herrar mínir, við verðum þá samferða til Ishim fyrst og fremst«. Strogoff hefði miklu fremur kosið að ferðast einsamall, en það hefði litið einkennilega út, hefði hann neitað samfylgd fregnritaranna, úr því þeir fóru alveg sömu leið og hann. Því síður hafði hann ástæðu til að vera þyrkingslegur, þegar ráðgert var að þeir tefðu eitthvað í Ishim. Það gat enda verið skemmtun í samferð þeirra þangað. »Vitið þið með nokkurri vissu hvar Tartara-liðið er niðurkomið nú?« spurði Strogoff einfeldnislega og blátt áfram. »Ekki nema það, sem við fréttum í Perm, að Feófar Khan með sitt lið færi sem logi yfir akur um allt héraðið Semipolatinsk, og að herinn sé fyrir nokkrum dögum kominn á hraða ferð niður með Irtych-ánni. Þú mátt hraða þér, ef þú vilt verða á undan uppreistarmönnunum til Omsk«. »Ja, ég skyldi nú halda það«, svaraði Strogoff. »Það er enn fremur sagt, að Ogareff óberst hafi tekist að smjúga um vörðinn á landamærunum og sé kominn austur og verði áður en langt líður tekinn við stjórn tartara-hersins«. »En hvernig vita menn þetta?« spurði Strogoff alvarlega, því þetta snerti hann að meira en litlu leyti. »Ja, það veit nú eiginlega enginn, en allt þesskonar fréttist æfinlega; það liggur í loftinu«. »Svo þið hugsið þá að Ogareff sé kominn austur yfir fjöll?« »Ég hefi heyrt, að hann hafi farið austur um land frá Kasan«. »Svo þú hefir þá heyrt þetta líka«, tók Englendingurinn fram í, sem til þessa hafði gengið þegjandi. »Ég vissi það, já«, svaraði Frakkinn. »Vissirðu þá líka, að hann var í giftabúningi og slapp þannig? spurði Englendingurinn. »Í gifta-búningi! hrópaði Strogoff upp yfir sig, fyrr en hann athugaði við hverja hann talaði. Og undir eins minntist hann stóra giftans, sem hann átti við í Nisni Novgorod og sem fór með Kákasus suður til Kasan. »Ég vissi svo mikið um það, að ég gat minnst á það í bréfi til »frænku«, svaraði Frakkinn. »Já, þú eyddir ekki tímanum til ónýtis í Kasan«, sagði Englendingurinn þurrlega. »Nei, góðurinn minn! Á meðan Kákasus var að afla sér eldsneytis, aflaði ég mér frétta!« Strogoff hlustaði ekki lengur á þessa þrætu fréttaritaranna. Hann var að hugsa um gifta-flokkinn, sem yfirgaf Kákasus í Kasan, um konuna hávöxnu, sem horfði á hann svo einkennilega, þegar hann heyrði skammbyssuskot fá skref frá sér. »Áfram, herrar mínir!« »Hvað er nú!« hugsaði Frakkinn. »Þessi kaupmaður hræðist vopnaglamur og kúlnahríð, og þó flýtir hann sér þangað, sem þær eru, á ferðinni!« En hann sagði ekkert, heldur tók á rás á eftir Strogoff og svo gerði Englendingurinn, sem ekki vildi láta standa á sér, ef á liði þyrfti að halda. Innan fárra augnablika voru þeir allir komnir að klapparhorninu þar sem vagninn var. Furutrjáklasinn, sem eldingin hafði kveikt í, var enn í björtu báli, en enginn maður var sýnilegur. Strogoff staðnæmdist og leit í kringum sig, og í því heyrði hann urg nokkuð og fylgdi því annað skammbyssuskot; kom hvellurinn eins og fram úr klöppinni. »Bjarndýr!« hrópaði Strogoff, sem þekkti röddina. »Nadía, Nadía!« Um leið og hann kallaði, dró hann bjarnarsveðjuna úr belti sínu, og fór á harða hlaupi í áttina til skútans, þar sem Nadía hafði lofað að bíða. Furutrjá-loginn lýsti upp klettaþröngina alla, þó birtan væri ekki skýr. Þegar Strogoff kom að vagninum, hoppaði stórvaxinn Síberíu-björn út frá klöppinni og stefndi á hann. Óveðrið hafði hrakið hann úr skóginum og hefir hann sjálfsagt átt heimi1i í skútanum, sem Nadía var í. Þegar hestarnir sáu bjarndýrið, ærðust þeir algerlega og slitu sig lausa. Tveir þeirra voru tíndir og hafði ökumaðurinn farið að elta þá, en lét Nadíu eina eftir til að verjast birninum. Í stað þess að æðrast, enda hafði björninn ekki séð hana strax, en hafði ráðist á þann hestinn, sem eftir stóð, stökk hún út úr skútanum og sótti aðra pístólu Strogoffs í vagninn, gekk svo með hana fast upp að dýrinu og hleypti af. Kúlan kom í bóg bjarnarins, sem þegar reiddist og sneri sér að vegandanum, en slepti hestinum. Nadía ætlaði að flýja aftur fyrir vagninn, en í því ætlaði eini hesturinn, sem eftir var, að slíta sig lausan, svo hún sneri við aftur og á móti birninum, sem þá var að lyfta öðrum hramminum til að lemja hana, og hleypti á hann seinna skotinu. Þetta var skotið, sem leiðbeindi Strogoff, og var hann nú á næsta augnabliki kominn á milli meyjarinnar og dýrsins. Dýrið stóð á afturfótunum, tryllt af sársaukanum, en ekki lengi eftir að Strogoff kom. Hann gerði snögga sveiflu á hægri handlegginn upp á við og á næsta augnabliki lá bjarndýrið dautt, rist á kviðinn að endilöngu. Hann sýndi að hann kunni hina makalausu sveiflu Síberíu-veiðimanna, sem ekki vilja skemma feldinn með skotum eða skurða-krassi. »Ertu nokkuð særð, systir?« spurði hann svo og hljóp til meyjarinnar, og sagði hún það væri ekki. Í þessu komu fregnritararnir að og höfðu á augnabliki stöðvað hestinn og séð sveiflu Strogoffs og hvernig hann lagði dýrið. »Bravó!« hrópaði Frakkinn. »Þó þú sért blátt áfram kaupmaður, kantu að halda á veiðimanna-hnífnum!« »Já, með frábærri snilld«, bætti Englendingurinn við. »Ójá, í Síberíu neyðast menn til að leggja alla hluti á gerva hönd!« svaraði Strogoff. Frakkinn athugaði hann hátt og lágt með nákvæmni, og hann var þess virði, og engan veginn Síberíu-kaupmannlegur, þar sem hann stóð með annan fótinn á dýrsskrokknum og með hnífsveðjuna í hendinni, dreyrrauða af blóðinu. »Hann er ekki árennilegur andvígismaður«, hugsaði Frakkinn um leið og hann nálgaðist Nadíu, þreif af sér hattinn og hneigði sig fyrir henni. Nadía hneigði sig, en ekki nema lítið. »Systirin verðskuldar annan eins bróður!« sagði Frakkinn við félaga sinn og hélt svo áfram: »Væri ég bjarndýr, mundi ég ekki ráðast á önnur eins systkini, sem eru undir eins svo aðlaðandi og svo djörf«. Englendingurinn gerði ekki tilraun til að hneigja sig, en stóð álengdar, berhöfðaður að vísu, en staurbeinn. Hann gat ekki að því gert, að þess heimakomnari sem Frakkinn gerði sig, þess ósveigjanlegri og þyrkingslegri varð hann sjálfur. Í þessu kom ökumaðurinn með báða hestana, er fælst höfðu. Hann leit á bjarnarskrokkinn og leyndi sér ekki, að honum þótti fyrir, að jafn góður biti skyldi verða eftir uppi á öræfum og verða þar hrafnabráð. En ekki talaði hann neitt um það, en fór umsvifalaust að setja hestana fyrir vagninn. Strogoff sagði honum ástæður fregnritanna og fyrirætlun sína að ljá þeim einn hestinn. »Sem þér sýnist«, sagði ökumaðurinn, »en þá verða vagnarnir líka tveir«. »Gott og vel, vinur!« greip Frakkinn fram í, »við skulum borga tvöfalda upphæð!« »Áfram þá aftur, litlu dúfurnar mínar!« sagði ökumaðurinn. Nadía hafði tekið sæti sitt í vagninum, en Strogoff og fréttaritararnir fóru fótgangandi. Klukkan var nú orðin þrjú og stormurinn var óðum að réna. Ferðin uppá hæsta hrygg öldunnar gekk því vel, enda ekki nema örfáir faðmar. Meðan þeir félagar voru að losa telgu-partinn upp úr gryfjunni og tengja hestinn við hann, rann upp dagur á austurlofti. Fregnritararnir settust upp í vagnbrot sitt og héldu báðir vagnarnir á stað jafnsnemma. Ferðin gekk vel, brautin torfærulaus og hestarnir höfðu undan brekku að halda, og nú birti líka óðum af degi. Að sex klukkustundum liðnum, klukkan 9 f. h. 21. júlí, komu ferðamennirnir til Ekaterenborgar. Fyrsti maðurinn, sem fregnritararnir sáu, á póststöðinni, var ökumaðurinn þeirra. Hann stóð í dyrunum og var sem hann biði eftir þeim. Það var myndarlegur maður, og gekk hann nú brosandi á móti þeim, rétti fram hægri hendina og bað um sín venjulegu aukalaun, eins og ekkert hefði í skorist. Þessi ósvífni gekk svo fram af Englendingnum, að hefði ökumaðurinn ekki hopað, mundi hann hafa farið flatur undan vel rösklegu hnefahöggi. Í þeirri mynd ætlaði Englendingurinn að borga honum allt, sem hann gæti krafizt sem aukalauna. Að þessu hló Frakkinn hátt og lengi og sagði svo að mannskepnan hefði rétt fyrir sér, það væri ekki hans skuld, ef þeir hefðu ekki vitað hvernig þeir áttu að hanga í hestum hans. Svo dró hann fjölda marga kópeka, upp úr vasa sínum og fékk ökumanninum. »Hérna vinur«, sagði hann, »taktu þetta. Hafirðu ekki beinlínis unnið fyrir þeim, þá tel ég það ekki þína skuld«. Af þessu reiddist Englendingurinn enn meir og fór jafnvel að tala um lögsókn á hendur eiganda vagnsins. »Lögsókn í Rússlandi, góðurinn minn!« sagði Frakkinn. »Þá er víst stór breyting á komin, ef það mál yrði nokkurntíma útkljáð! Hefirðu aldrei heyrt söguna um barnfóstruna, sem heimtaði laun sín fyrir að hafa tekið við hvítvoðungi og fóstrað hann árlangt?« »Nei, ég hefi aldrei heyrt hana«. »Svo þú veizt þá ekki heldur, hvað orðið var úr hvítvoðungnum, þegar dómstóllinn úrskurðaði, að konan ætti að fá launin?« »Nei. Hvað var hann þá?« »Óbersti í lífverði keisarans!« Að þessu hlógu allir viðstaddir, en Frakkinn tók upp minnisbók sína og reit í hana þetta, sem síðar mætti nota við útgáfu, rússnesk-franskrar orðbókar: »Telga, rússneskur vagn með fjórum hjólum, það er að segja, þegar ferðin er hafin, en með tveimur þegar hann kemur á endastöðina. XII. Fyrsta þrautin. Ef eðlileg landamerki réðu, Væri Ekaterenborg Asíubær, af því að hann er fyrir austan Uralfjöll — austast á hjöllunum, sem mynda fjallaræturnar. Þó er nú svo, að bærinn er í Perm umdæminu og tilheyrir þannig einu hinna miklu héraða Rússlands. Það er eins og hinn rússneski björn héldi þar litlum bita af Síberíu á milli tannanna. Strogoff og þeir félagar voru hressir í huga, því ekki var að búast við eklu á hestum né ökumönnum í Ekaterenborg, sem er allstór bær. Hann var fyrst grundvallaður 1723 og hefir síðan tekið miklum þroska og er nú þar aðalból peningasláttuhúsa veldisins. Þar er og aðalból allra forstöðumanna námanna og er það þýðingarmikið fyrir bæinn, enda verksmiðjur þar all-margar og verzlun mikil. Núna var fólksfjöldi bæjarins miklu meiri en vanalega. Þangað hafði flúið fjöldi af Rússum og Síberíumönnum, sem voru í hættu fyrir áhlaupi Tartara. Voru þeir flestir suð-austan að, úr héruðum, sem Tartarar og Kirghizar höfðu síðan lagt í eyði. Þannig var því þá varið, að þó vandræði væru að fá hesta og vagna til Ekaterenborgar, þá var enginn hlutur hægari en að fá hesta burt þaðan, því að þeir voru svo fáir, sem voguðu sér að leggja á slétturnar austur, eins og fréttir þaðan voru. Fregnriturunum gekk því vandalaust að fá vagn keyptan, að fá nýja og sterka tarantass fyrir sitt tvískifta verkfæri. Strogoff hafði engin skifti, því eftir allan hrakninginn í fjöllunum var hans vagn óskemmdur. Hann hafði því sem fyrri, ekki annað að gera en fá þrjá hesta góða og ökumann, til að þeyta sér áfram slétturnar til Irkutsk. Austur til Tiomen og helzt allt austur til Novo-Ziamskoe hallar brautinni undan fæti, því öldumyndaðar hæðir á sléttunni eru fyrstu vottarnir um nálægð Úralfjalla. En eftir að til Novo-Ziamskoe kemur tekur við marflatur sléttugeimur, allt til Krasnoiarsk, yfir sautján hundruð verstir, eða um 1120 enskar mílur. Sem sagt ætluðu fréttaritararnir að staðnæmast eitthvað í Ishim, en sá staður er 630 verstir frá Ekaterenborg. Þar ætluðu þeir að líta í kringum sig og halda þaðan austur, þar sem mest var fréttavonin, annaðhvort báðir saman, eða sinn í hvoru lagi, allt eftir því, sem verkast vildi. Þessi braut — um Ishim — var eina leiðin til Irkutsk, sem gerlegt var fyrir Strogoff að taka, en af því hann var ekki að leita eftir fréttum og þurfti að sneiða hjá biltingamannaflokkum, ráðgerði hann að nema hvergi staðar. »Mér þykir sannarleg ánægja, að geta orðið ykkur samferða spölkorn«, sagði hann við þá blaðamennina, »en ég hlýt að láta ykkur vita, að ég legg alla stund á að komast til Omsk svo fljótt sem verður. Við systkinin eigum þar von á að hitta móður okkar. Og hver getur sagt, að við náum þangað á undan Törturunum. Þess vegna stanza ég hvergi, nema til að hafa hestaskifti, en ég held áfram dag og nótt samfleytt«. »Það er nú einmitt okkar fyrirætlun líka«, svaraði Englendingurinn. »Ágætt«, svaraði Strogoff. »En látið þá tímann ekki líða. Kaupið eða leigið vagn undir eins — —«. »Sem ábyrgst er að komi með afturhjólin jafnframt hinum á endastöðina«, tók Frakkinn fram í. Og hálfum tíma síðar var hann kominn með vagn, sem var nær því öldungis eins og vagn þeirra »systkinanna«. Tóku þau nú öll sæti í vögnunum samtímis, og klukkan 12 á hádegi lögðu báðir vagnarnir út á Síberíu-slétturnar austur frá Ekaterenborg. Um síðir var þá Nadía komin til Síberíu, út á hina löngu braut til Irkutsk. Hverjar voru hugrenningar hennar við upphaf ferðarinnar? Þrír efldir hestar þeyttu henni áfram austur um útlaga-landið, sem faðir hennar bjó í um óvissan árafjölda, svo langt í burtu frá föðurlandi og æskustöðvum. Hún sá ekki einu sinni hina öldumynduðu sléttu, er vagninn hennar var að veltast eftir, því að augu hennar störðu austur á takmörk sjóndeildarhringsins, þar sem faðir hennar var einhversstaðar langt, langt fyrir austan. Hún þokaðist nær takmarkinu sem styttist um 15 verstir á hverri klukkustund, og um annað hugsaði hún ekki, en að ná því, og sá þess vegna ekkert af Vestur-Síberíu-sléttunni, sem er svo ólík Austur-Síberíu. Hér voru ræktaðir blettir fáir og smáir, því jarðvegurinn er lélegur, þó innviðir jarðarinnar hafi auðæfi mikil að geyma: járn og kopar, platínu og gull. Hér var líka fjöldi af verksmiðjum, þó búgarðar væru fáir sýnilegir, enda ekki við þeim að búast. Hver mundi vilja plægja, sá og uppskera, þegar margfaldur gróði er í að grafa niður í jörðina eftir dýrum málmi? Pæll sést þar því hvarvetna, en plógur hvergi. Ekki hugsaði Nadía þó allt af um Baikail-vatnshéraðið, sem hún vildi ná til. Hugur hennar hvarflaði stöku sinnum til hennar sjálfrar og kringumstæðna hennar. Mynd föður hennar hvarf með köflum úr huga hennar, en þar kom þá fram mynd af hinum góðgjarna félagsbróður hennar, og þá ætíð eins og hann kom henni fyrir sjónir á Wladimir-brautinni. Hugsaði hún um hugulsemi hans á lestinni; komu hans á lögregluskrifstofuna; um það, hve blátt áfram hann var, þegar hann kallaði hana »systir« í fyrsta skifti; hve góður hann var á leiðinni niður eftir Volgu, og að síðustu hugsaði hún um allt, sem hann gerði fyrir hana í voða-veðrinu og hennar hræðilegu raunum uppi á fjöllunum, þegar hann forðaði lífi hennar með því, að leggja sitt í sölurnar. Þannig hugsaði Nadía um Strogoff og hún þakkaði Guði fyrir að hafa sent sér svo öruggan verndara, svo gáfaðan, svo góðan vin. Hún var óhrædd undir hans verndarhendi. Enginn bróðir gat verið systur sinni betri, eða gert meira fyrir hana. Allar torfærur virtust yfirstignar og því ekki nema tímaspursmál að ná takmarkinu. Strogoff sat lengi hugsandi og þögull. Hann var að hugsa um Nadíu og þakka Guði fyrir að fundum þeirra bar saman, svo að hann, um leið og hann vann góðverk, gæti betur hulið sjálfan sig og erindi sitt. Hann hugsaði og með ánægju og gleði um dugnað meyjarinnar og þor. Var hún ekki í anda og sannleika systir hans? Enn fremur var það virðing en ást, sem hreyfði sér hjá honum, þegar hann hugsaði um hana. Hann viðurkenndi, að hún var ein af þeim hreinu og góðu sálum, er öllum þykir vænt um. Jafnframt hugsaði hann um það, að nú voru hættur hans eiginlega að byrja, því nú var hann í Síberíu. Ef fregnritararnir sögðu satt og ef Ivan Ogareff var virkilega kominn austuryfir landamærin, þá reið nú á að vera varkár. Allt var öfugt við venjuna, og Tartara-njósnarar voru í hópum hvarvetna, í héruðunum. Rofnaði dularbúningur hans og kæmist það upp, að hann væri sendiboði keisarans, var búið með ferð hans og líf hans eins víst á enda. Af þessu leiddi að Strogoff fann meir til þunga ábyrgðar sinnar nú en áður. En hvað gerðist svo í hinum vagninum á meðan á þessu stóð? Ekkert sérstakt. Frakkinn talaði í löngum setningum, og Englendingurinn svaraði með einsatkvæðisorðum. Hvor um sig leit á hlutina með sínum sérstöku augum, og hvor um sig reit í bók sína samkvæmt því, um allt, sem bar fyrir augun, og sem var fátt sérlegt á þessari ferð um Vestur-Síberíuslétturnar. Á hverri póststöð stigu þeir fregnritarnir og Strogoff úr vögnunum, en Nadía ekki, nema þegar hún mátti til með að taka sér máltíð. Hún sat þá við borðið með þeim, en vildi aldrei gefa, sig á tal við þá. Án þess nokkurntíma að stíga yfir takmörk tilhlýðilegrar kurteisi, gat Frakkinn ekki dulið að honum leizt vel á Nadíu. Hann dáðist að þoli hennar og kjarki, að bera þreytu ferðarinnar með þessari yfirgengilegu þögn og þolinmæði. Töfin á hverri póststöð féll Strogoff meira en illa og sparaði hann ekki að flýta fyrir hestaskiftunum og hvetja ökumanninn til framsóknar. Þegar máltíð þurfti að kaupa gleypti hann matinn svo fljótt, sem kostur var á, Englendingnum til hins mesta ama, sem vildi fara að öllu samkvæmt föstum reglum. Og svo af stað aftur, og áfram þeyttust þeir svo eins og »arar«, enda borguðu þeir fyrir eins og furstar, og eins og Frakkinn sagði: »í glóandi rússneskum örum«. Til þessa hafði Strogoff gengið vel ferðin; ekki minnsti farartálmi hafði mætt honum. Gæti hann náð til Krasnoiarsk með sama ferðahraða, var hann viss um að komast til Irkutsk á undan Törturunum, því enn voru þeir ekki komnir lengra austur en til Krasnoiarsk. Klukkan 7 um morguninn eftir að ferðamennirnir fóru frá Ekaterenborg, náðu þeir til þorpsins Toulougisk; höfðu þannig á 19 klukkustundum farið 270 verstir, án nokkurra örðugleika. Þar höfðu þeir hálfrar stundar viðdvöl til að fá sér að borða, en svo var haldið af stað aftur, og var þá ferðin meiri en svo, að hún yrði útskýrð, nema með loforði um venju fremur ríflega auka-borgun. Seint um daginn voru þeir komnir til Tiomen, 60 verstir nær Irkutsk. Þegar allt gengur friðsamlega, eru íbúar þess bæjar 10,000, en nú voru þeir helmingi fleiri, og var því venju fremur líflegur og álitlegur staður. Þar hafði stjórn Rússa fyrst stofnað verkstæði í Síberíu og eru þar málmbræðsluhús og verkstæði, þar sem kirkjuklukkur eru gerðar o. m. fl. Fregnritararnir þutu óðara af stað eftir fréttum og fengu hvergi nærri glæsilegar fréttir hjá nýkomnum flóttamönnum. Meðal annars, sögðu þeir, að her Feofars Khan væri nú óðum að nálgast og að sá höfðingi ætti á hverjum degi von á Ivan Ogareff; mætti enda vera, að hann væri kominn austur nú. Af þessu réðu ferðamennirnir eðlilega að haldið yrði til orustu í Austur-Síberíu, við fyrstu hentugleika. Hermenn Rússa voru á ferðinni vestan úr Evrópu, en þeir voru langt á eftir enn og því óvíst, að þeir næðu austur í tíma til að hjálpa Síberíu-herdeildunum. Þrátt fyrir þetta var nokkur von, að Tobolsk-Kósakkarnir, sem nú voru á hraðri ferð til Omsk, næðu þangað í tíma og gætu sveigt her Tartara út af aðalveginum. Klukkan 8 um kvöldið voru þeir komnir 75 verstir austur fyrir Tiomen til þorpsins Yaloutorowsk. Þeir létu skifta um hesta í flýti, og innan lítillar stundar voru þeir komnir yfir ána Tabol á dragferju. Það er lygn á og vandræðalaust að komast yfir hana, en margar aðrar og miður þægar viðfangs voru nú framundan. Á miðnætti voru þeir komnir 55 verstir lengra austur, til Novo-Saimsk, og þar kvöddu ferðamennirnir hinar síðustu af hæðunum og hólunum skóg-typtu. Fótstallur Úralfjallanna náði ekki lengra austur. Að heita mátti marflöt slétta tók nú við og lá óslitin austur til Krasnoiarsk. Þar er hvergi mishæð eða tré til að hvíla augað, ekkert nema nakin slétta, þangað til loft og jörð ber saman yzt á rönd sjóndeildarhringsins. Einu mishæðirnar á þessu flæmi öllu eru símastaurarnir með fram veginum, með vírnum strengdum á milli, er gefur frá sér titrandi óm í vindblænum. Þjóðvegurinn var jafnhár grassverðinum og því ósýnilegur í fárra faðma fjarlægð, nema hvað jóreykjarmökkur undan hjólum vagnanna hvíldi yfir honum aftur undan eins og mógrá skýslæða. Það voru 200 verstir frá Novo-Saimsk til Ishim og þangað vonaði Strogoff að ná kl. 8 kvöldið eftir, ef ekkert hindrar ferðina, og enn var engin hindrun sýnileg, en hestarnir þutu sem vindur austur græna sléttuna. Ökumennirnir knúðu þá líka óspart til áframhalds og álitu, að ferðamennirnir ættu margfaldlega skilið að vera lávarðar eða einhverjir stórherrar, ef þeir væru það ekki — þeir borguðu brennivínsskattinn svo reiðilega. Í Ishim ætluðu fregnritararnir að staðnæmast um stund, ef ekkert nýtt bæri til að breyta skoðun þeirra. Seinni hluta næsta dags, 23. júlí, þegar ekki voru eftir nema 30 verstir til Ishim, sá Strogoff jóreyk mikinn framundan og mitt í honum vagn á ferð. Sá ferðamaður hafði augsýnilega ekki farið um Novo-Saimsk, en komið einhverja fáfarna braut að vestan. Hestar þeirra Strogoffs voru ólúnir í samanburði við hesta þess, er á undan var, sem allt af þurfti að berja, til að halda þeim á brokkinu. Það var berlin-vagn þetta, en ekki óbrotin tarantass eða telga, allur mógrár af ryki, eins og hann hefði farið langa leið. Strogoff kom undir eins í hug að herða á hestum sínum og komast fram fyrir ókunna vagninn. Það var þýðingarmikið, því við hestaskorti mátti búast hvað af hverju. Hann gat um þetta við ökumanninn, er þegar herti ferðina og innan stundar voru báðir vagnarnir samhliða þeim ókunna. Strogoffs vagn var á undan, og er hann fór fram hjá, sá hann mannshöfuð gægjast út úr berlin-vagninum. Hann gat ekki séð, hver maðurinn var, en heyrði, að hann kallaði til hans að nema staðar, með valdalegri rödd. En Strogoff var nú ekki á því; vagn hans og fréttaritaranna héldu áfram og varð nú grimmasta kappreið um stund, því hinir þreyttu berlin-hestar lifnuðu við og tóku skarpan sprett nokkrar mínútur. Jóreykurinn var nú svo mikill, að enginn sá annan, en svipusmellir, köll og hróp gáfu til kynna, að menn voru á ferð. Ekki var það samt lengi, að hestarnir yrðu samferða. Hestar þeirra Strogoffs drógu smámsaman fram úr, og að hálfri stunduliðinni var berlin-vagninn svo langt á eftir, að hann sýndist eins og lítil varða á sléttunni. Ef póstafgreiðslumaðurinn í Ishim hafði fáa hesta var það mikilsvirði að hafa skotið hinum ókunna manni aftur fyrir sig. Klukkan 8 um kvöldið nam Strogoff staðar á póststöðinni í Ishim, og fékk nú að heyra enn óálitlegri fréttir að austan. Þorpið Ishim sjálft var enda í voða sjálft fyrir útvarða-flokkum meginhers Tartaranna. Og tveimur dögum áður neyddust umboðsmenn stjórnarinnar og valdsmenn allir til að taka sig upp og flýja til Tobolsk, í þeirri von, að þar væri öruggara vígi. Eftir var því í Ishim ekki eitt einasta yfirvald og ekki einn einasti hermaður. Eins og endranær lét Strogoff sitt fyrsta verk vera að biðja um hesta og kom þá fram, hve heppinn hann var, að hafa komist fram fyrir berlinvagninn, því einungis 3 hestar voru til, sem voru í standi til að fara af stað um kvöldið. Hinir allir voru nýkomnir heim úr langri ferð. Póstmeistarinn lét hestana þegar fala, og skipaði að setja þá þegar fyrir vagninn. Fregnritararnir ráðgerðu, að staðnæmast í þorpinu og kærðu sig því ekki um hesta í bráð. Innan tíu mínútna var Strogoff tilkynnt, að vagninn væri tilbúinn. Þótti honum vænt um það og gekk til fregnritanna til að kveðja þá, því samferðinni var nú lokið. »Er það virkilega, herra Korpanoff, að þú standir ekki við svo mikið, sem eina klukkustund í Ishim?« spurði Frakkinn. »Já, herrar mínir, svo er víst«, svaraði Strogoff, »og meira að segja langar mig til að komast af stað áður en berlin-vagninn nær póststöðinni«. »Ertu hræddur um, að ferðamaður sá fari í illt út af hestunum?« »Ég vil ekki eiga neitt á hættu«. »Jæja, herra Korpanoff, þá er ekki annað fyrir, en að þakka þér á ný fyrir drengilega liðveizlu í fjöllunum og fyrir góða samfylgd síðan«. »Það er ekki óhugsandi, að við hittumst aftur, — í Omsk«, sagði Englendingurinn. »Já, farðu vel, herra Korpanoff«, sagði Frakkinn, »og ég bið skaparann að forða þér frá öllum telgu-vögnum«. Fréttaritararnir réttu fram hendurnar til að kveðja Strogoff, og í því heyrðist vagnskrölt úti fyrir. Á næsta augnabliki var dyrunum hrundið upp og maður gekk inn. Það var eigandi berlin-vagnsins, sem þar var kominn, hermannlegur maður, á fertugsaldri á að geta, hár og þrekinn með breiðar herðar, svíramikill, dökkur á hár með jarpt efrivararskegg og rauðleitt vangaskegg. Hann var í óbreyttum hermannabúningi með sverð á beltinu, og með skaptstutta svipu í hendi. »Hesta!« sagði hann í valdalegum róm, rétt eins og allir væru skyldugir að hlýða honum. »Ég hefi ekki fleiri hesta ferðbúna í kvöld«, sagði póstmeistarinn og hneigði sig. »Ég verð að fá hestana undir eins«. »Það er ómögulegt!« »Hvaða hestar eru það, sem núna var verið að setja fyrir tarantass-vagn hérna fyrir utan dyrnar?« »Þeir eru leigðir þessum manni«, sagði póstmaðurinn og benti á Strogoff. »Takið þá frá honum!« sagði komumaður byrstur, og stóð póstmeistarin þá ráðþrota. Strogoff gekk þá fram og sagði að hestarnir væru sínir hestar nú. »Það er mér sama! Ég vil fá þá. Fljótt nú, ég má ekki tefja!« »Ég má heldur ekki tefja«, sagði Strogoff svo stillilega sem hann gat, en bágt átti hann með sig. Nadía stóð hjá honum stillt líka, en hrædd og kvíðandi. »Ekki meira af svo góðu!« sagði komumaðurinn, gekk svo til póstmeistarans og sagði honum með skipandi rödd að setja hestana fyrir sinn vagn tafaraust. Póstmeistarinn var á nálum. Hann vissi ekki hvorum hann átti að hlýða og leit til Strogoffs vandræðalega í von um, að hann skakkaði leikinn og bindi enda á þessa ranglátu kröfu. En Strogoff var ráðþrota líka. Hann vildi ekki taka upp vegabréf sitt vegna grunseminnar, sem það gat kveikt. Hann var jafn óviljugur að lenda í deilum, sem óséð var hvern enda hefðu, þó vildi hann ekki sleppa hestunum og þurfa svo að bíða næturlangt. Fregnritarnir stóðu agndofa, en horfðu á Strogoff og voru tilbúnir, að veita honum drengilegt lið, ef á þyrfti að halda. »Mínir hestar verða kyrrir fyrir mínum vagni«, sagði hann, en þó ekki svo djarfmannlega, að ósamboðið væri undirgefnum kaupmanni í Irkutsk. Aðkomumaðurinn gekk til Strogoffs, studdi hendi sinni þétt á öxl honum og sagði spyrjandi: »Það er svo! Þú vilt ekki eftirláta mér hestana?« »Nei«, svaraði Strogoff. »Gott og vel! Sá, sem ber sigur úr býtum skal halda hestunum. Verðu sjálfan þig, því ekki skal ég sýna vægð«. Um leið og aðkomumaðurinn sagði þetta, dró hann sverðið úr slíðrum, en Nadía hljóp fram á milli þeirra. Fregnritarnir nálguðust nú líka. »Ég ætla mér ekki að berjast!« sagði Strogoff og kroslagði hendurnar á brjósti sér. »Þú vilt ekki berjast?« »Nei«. »Ekki jafnvel eftir þetta?« hélt ókunni maðurinn áfram, og áður en nokkur gat að gert, rak hann svipuhögg yfir þverar herðarnar á Strogoff, sem fölnaði upp af bræði, en ekki tilfinningu. Hendur hans titruðu og fingurnir ýmist réttust eða krepptust, eins og vildu þær bera hinn innri mann fyrir borð og kyrkja þenna ósvífna þræl. Með herkjum náði Strogoff stjórn á höndum sínum og gerði ekkert. Einvígi! Það þýddi miklu meira en töf, það þýddi, ef til vill uppljóstran leyndarmálsins og þá var úti um þá í Irkutsk. Það var betra að bíða nokkrar klukkustundir. En að líða, þola þessa smán — það var hart. »Viltu, nú berjast, bleyða?« sagði aðkomumaðurinn aftur og jók nú dónaskap við fólskuna. »Nei!« sagði Strogoff og hreyfði sig ekki, en horfði feimnislaust í augu fjandmanns síns, sem þegar sneri burt og skipaði póstmeistaranum enn einu sinni að setja hestana fyrir sinn vagn. Póstmeistarinn fylgdi honum út og sneri upp á sig um leið og hann skotraði allt annað en hlýlegum augum til Strogoffs. Hann varð lítill í augum hans og hann rýrnaði mikið í augum þeirra fregnritanna og þeir gátu ekki dregið dul á þá tilfinning; þeim var óskiljanlegt hvernig ungur og vasklegur maður gat staðist slíka smán. Þeir hættu við að kveðja hann með handabandi, létu nægja að hneigja sig lítið eitt fyrir honum, og sagði Frakkinn við Englendinginn um leið og þeir gengu út: »Þessu hefði ég ekki trúað um mann, sem jafn fimlega sundrar Úralfjalla-bjarndýrum. Er það mögulegt, að maður geti verið hugrakkur í dag, en huglaus skræfa á morgun? Það er óskiljandi«. Í sömu andránni heyrðust svipusmellir og vagnskrölt. Hinn ókunni maður var farinn. Þau stóðu nú tvö ein inni, Strogoff og Nadía, hún stillt og róleg að sýndist, en hann titrandi eins og hrísla í vindi. Þarna stóð sendiboði keisarans hreyfingarlaus eins og myndastytta væri, með krosslagðar hendur á brjósti. En fölur var hann ekki lengur, heldur dreyrrauður í andlitinu, þó ekki væri roðinn af því að hann skammaðist sín eða þyrfti þess. Nadía efaði ekki, að einhverjar alvarlegar ástæður væru orsökin til þess, að »bróðir« hennar leið þessa smán með þolinmæði. Gekk hún þá upp að honum, eins og hann forðum gekk til hennar í Nijni-Novgorod, og sagði: »Gef þú mér hönd þína, bróðir«, og með móðurlegri nærgætni brá hún um leið höndum sínum upp að augum hans og strauk burtu tár, sem brutust út, þrátt fyrir orku hans og harðfengi. Svo þungt var honum innanbrjósts. XIII. Sviplegur skilnaður. Eins og skörpum og skýrum konum er lagið, gizkaði Nadía undir eins á, að það væri einhver leynileg ástæða, sem aftraði Strogoff frá að verja sig; að hann í einhverjum skilningi væri ekki sjálfs síns herra, að hann hefði ekki vald til, að framfylgja vilja sínum, og að hann í þetta sinn hafði fórnað öllum sínum tilfinningum á altari helgrar skyldu. Þó óreynd kona væri, sá hún lengra en hinir skarpskygnu fregnritarar. Hún krafðist því engra útskýringa af bróður sínum, en bjó sig til nætursetu í húsinu, því hestar fengust ekki fyrr en næsta morgun og hugsaði hún sér að hagnýta þá bið með því að sofa nú vel og lengi. Henni var vísað til svefnherbergis, og þó hana langaði til að sitja hjá Strogoff um stund, bjóst hún við að hann vildi heldur vera einn. En áður en hún gengi burt, gekk hún til hans, rétti honum hendina og sagði blíðlega: »bróðir!« Hann svaraði henni engu, en benti henni til burtgöngu. Hún stundi við, en gekk út án þess að segja meira. Strogoff lagði sig ekki fyrir — hafði ekki getað sofnað eina mínútu í þessu húsi, sem brann undir fótum hans eftir svipuhöggið. »Fyrir föðurlandið og — fyrir föðurinn«, sagði hann við sjálfan sig, er hann endaði kvöldbæn sína. Jafnframt því að hugsa um smánina og um töfina, hugsaði hann um þennan ókunna ofstopamann. Hann sárlangaði til að vita hver hann var, hvaðan hann kom og hvert hann ætlaði. Ásýnd hans var of vel grafin í minni hans til þess hann nokkurntíma gleymdi henni. En hver var maðurinn? Eftir nokkra stund gerði hann boð eftir póstmeistaranum sem var Síberíumaður gamaldagslegur og sem leit fyrirlitlega til hins unga manns og ætlaði sér ekki að eyða fleiri orðum en nauðsynlegt væri við þetta vesalmenni. »Þú ert Síberíumaður?« spurði Strogoff. »Já«. »Þekkir þú manninn, sem tók hestana mína?« »Nei«. »Hefir þú aldrei séð hann áður?« »Aldrei«. »Hver heldur þú það hafi verið?« »Maður, sem kann lag á að láta menn hlýða sér!« Strogoff hvessti augun á póstmeistarann, en honum brá ekki. »Leyfir þú þér að dæma mig?« »Já«, svaraði póstmeistarinn, »því það eru ekki til hlutir, sem fáráður kaupmaður jafnvel ekki þiggur, nema til að endurgjalda þá! »Og meðal þeirra eru svipuhögg?« »Svipuhögg, já, ungi maður. Ég er svo gamall og svo sterkur, að ég þori að segja það!« Strogoff gekk upp að póstmeistaranum og tók þéttingsfast í axlir hans, og sagi með undarlega köldum, en stilltum, róm: »Burt með þig, burt með þig, vinur! Annars get ég kannske stytt þér aldur!« Það opnuðust augun á póstmeistaranum og hann hafði sig á burt í snatri, en sagði við sjálfan sig á leiðinni, að sér geðjaðist betur að Strogoff eftir en áður. Klukkan átta morguninn eftir, 24. Júlí, voru 3 öflugir hesta komnir fyrir vagninn og þau Strogoff og Nadía komin af stað frá Ishim, með sínum ógeðfelldu endurminningum. Á hverjum áfangastað frétti Strogoff um daginn, að berlinvagninn hélt áfram eftir Irkutsk-brautinni og að eigandinn var ófáanlegur til að dvelja nokkursstaðar, en hélt áfram með sömu rokferðinni og þau Strogoff. Klukkan fjögur um daginn voru þau komin til þorps eins á bökkum árinnar Ichim, 75 verstir frá Ishim, og þar þurftu þau að fá sér ferju. Áin er straumhörð og gekk því ver að komast yfir hana en Tobolsk daginn áður. Á vetrardegi hefði þetta ekki tafið förina, því þá er margra feta þykkt íslag ofan á straumnum og ofan á því aftur þykkur snjór, svo slétt má heita af bökkunum og ill-mögulegt að greina ána frá sléttunni umhverfis. En nú gengu tvær klukkustundir til að komast austur yfir ána, og leiddist Strogoff sá tími, sérstaklega af því að ferjumennirnir færða honum ljótar fregnir af uppreistinni. Njósnarmenn Feófars Kan höfðu þegar sést á bökkum Ichim-árinnar í suðurhluta héraðsins Tobolsk. Borgin Omsk var í veði. Þeir sögðu einnig frá orustu, sem hefði átt sér stað nálægt suðurlandamærunum milli Síberíumanna og Kirghisa — orustu, sem ekki varð Rússum til frægðar, enda höfðu þeir ekki verið liðsterkir í þeim héruðum. Hermenn Rússa máttu leggja á flótta og af því leiddi, að búendur allir tóku að flýja líka. Ferjumennirnir sögðu einnig frá grófum spellvirkjum Tartaranna, ránum, þjófnaði, brennum og morði. Slíkt fylgir Törturum ætíð. Þegar Strogoff frétti þannig um allsherjar flótta íbúanna óttaðist hann að eyðileggingin kynni að verða svo alger, að engin matvæli eða greiði yrði fáanlegur. Umfram allt reið honum því á að komast sem fyrst til Omsk, því hugsanlegt var að hann kæmist þaðan á undan njósnurum Tartara, sem auðvitað voru á ferðinni niður með Irtych-fljótinu og sem ekki þurftu að óttast mótstöðu á Irkutsk-brautinni. Á ferjustaðnum yfir Ichim-ána endaði það, sem á tungu hermannanna var nefnt: »Ichim-keðjan«, þ. e. röst af hermannaskálum, eða litlum köstulum, gerðum úr trjávið, er þaðan liggur 400 verstir suður á landamæri. Fyrrum voru skálar þessir allir fullir af Kósökkum, er vörðu búendur fyrir áhlaupum Kirghisa og Tartara. En nú fyrir nokkru var stjórnin í Moskva komin á þá skoðun, að þessir flokkar væru brotnir á bak aftur og þýðingarlaust að óttast þá. Vörður þessi var því upphafinn og virki þessi gagnslaus, þegar mest þurfti á þeim að halda. Mörg þeirra voru enda brunnin til rústa, og ferjumennirnir bentu Strogoff á reykjarmökk í suðurátt, þar sem eitt þeirra var í báli fyrir aðgerðir Tartaranna. Þegar loksins Strogoff komst austur yfir ána beið hann ekki boðanna, en lét ökumanninn hvetja hestana til harðastökks austur sléttuna. Klukkan var orðin sjö um kvöldið. Loftið var kafið skýjum og regndropar féllu af og til, ekki svo margir né stórir að færðin versnaði, en þó svo margir, að rykið minnkaði að mun. Frá því hann fékk höggið, sem hann endurgalt ekki, hafði hann lengst af verið hljóður, en sömu nákvæmni sýndi hann Nadíu eftir sem áður og gerði þessa þreytandi, fljúgandi ferð, henni svo þægilega sem kostur var á. Það var líka það vissa, að ekki kvartaði hún; þvert á móti langaði hana til að gefa hestunum vængi, svo þeir þyrftu aldrei að lina ferðina. Hún fann það á sér, að þó hún vildi og þyrfti að komast áfram fljótt, þá riði Strogoff þó enn meir á að hraða sér til Irkutsk. En hvílík leið var ekki eftir enn! Svo datt henni í hug að væri Omsk í háska, þá væri gamla konan, móðir hans, það ekki síður. Það var því meira en eðlilegt þó hann langaði til að berast á vængjum vindanna og koma henni til hjálpar. Upp frá þessum hugleiðingum minntist hún á gömlu konuna og það, hve hlífarlaus hún væri mitt í þessum æðisgangi. »Hefirðu frétt nokkuð af henni, síðan uppreistin hófst?« spurði hún. »Nei, Nadía, ekkert. Síðan bréf hennar til mín færði mér góðar fréttir. Marfa er hugdjörf og þrekmikil Síberíukona. Þrátt fyrir ellina hefir hún enn óskerta líkams- og sálarkrafta. Hún veit, hvað það er, að þola raunirnar«. »Ég vil kynnast henni. Af því að þú kallar mig systir, þá er ég líka dóttir Mörfu«. Og af því Strogoff svaraði ekki, hélt hún áfram: »Máske hún hafi komizt burt úr Omsk?« »Hugsanlegt er það, og ég vil vona að hún hafi komizt þaðan til Toblsk. Henni er illa við Tartarana og hún er kunnug sléttunni og mundi óhrædd að taka staf sinn og fara af stað gangandi niður með Irtych. Það er ekki gómstór blettur í öllu héraðinu, sem hún ekki þekkir, hefir farið of margar ferðir fram og aftur til þess. Ég fór enda sjálfur á barnsaldri margar ferðir með foreldrum mínum um þvera og endilanga Síberíu eyðimörkina. Já, Nadía, ég vona að móðir mín sé burt úr Omsk«. »Og hvenær býstu þá við að finna hana aftur?« »O, ég finn hana á vesturleiðinni aftur«. »En ef hún er enn í Omsk, þá heimsækir þú hana þó og tefur hjá henni svo sem klukkustund?« »Nei, ég heimsæki hana ekki nú!« »Ekki núna?« »Nei, Nadía«, svaraði Strogoff og var þungt fyrir brjósti. Hann átti bágt með að svara þannig. »Þú, segir nei, bróðir! En hvernig stendur á því, að þú breytir þannig, ef hún er í borginni enn?« »Hvernig stendur á því, spyr þú, Nadía! Það er af sömu ástæðum sprottið og það, að ég kom fram sem bleyða, þegar fanturinn — —«. Meira gat hann ekki sagt, og hann talaði öll þessi orð í svo undarlega breyttum róm, að Nadíu varð hverft við. »Sleppum þessu, þá, bróðir«, sagði Nadía blíðlega. »Ég veit það eitt, og það nægir mér, að framkoma þín er byggð á skyldu — skyldu, sem er jafnvel helgari, ef að er unnt, en skylduböndin, sem tengja saman móður og son«. Svo féll talið niður, en upp frá því forðaðist Nadía að hefja máls á nokkru, er snert gæti kringumstæður ferðabróður hennar. Hverjar sem ástæður hans voru, var henni skylt að bera virðingu fyrir þeim og það gerði hún líka. Klukkan 3 morguninn eftir, 25. júlí náðu þau, til póststöðva 120 verstum fyrir austan Ishim-fljótið. Strogoff lét hafa hestaskifti í flýti, en hér í fyrsta skifti var ökumaður ragur að fara af stað. Sagði Tartara-flokka hvarvetna á sléttunni og að duglegir hestar, vagn og ferðamenn væru eftirsóknarvert herfang. Það var með ríflegri fyrirframborgun einungis, að Strogoff gat unnið svig á ökumanninum, því enn vildi hann ekki sýna vegabréfið. Ferðabannið frá Moskva var öllum kunnugt, hafði verið símað, og þessvegna mundi sá maður hafa valdið almennu umtali, er sýnt gat sérstaka löglega undanþágu frá áhrifum ferðabannsins. Og umfram allt þurfti sendiboði keisarans að forðast eftirtekt. Hvað ökumanninn snerti, þá var ekki nema tvennt til um tregðu hans. Annaðhvort hafði hann gilda ástæðu til að óttast áhlaup, eða hann hagnýtti sér löngun Strogoffs til að komast áfram, sem féþúfu. Þó komst Strogoff af stað um síðir og gekk þá svo greitt ferðin, að kl. 3 um daginn var hann búinn að fara 80 verstir lengra austur, til þorpsins Koulatsinskoé, og einni klukkustund síðar nam vagninn staðar á vesturbakka Irtich-elfunnar. Er það allmikið fljót, eitt hið merkasta, er fellur þar norður um Síberíu. Upptök þess eru í Altai-fjöllunum og fellur það þaðan norðvestur til þess það eftir 7000 versta ferð sameinast stórfljótinu Obi. Um þetta leyti árs er ætíð vöxtur í straumvötnum Síberíu og er Irtych engin undantekning í því. Þar sem venjulega var hægur og þungur straumur, var nú freyðandi röst og þess vegna óálitlegt mjög að leggja út á ferjuna, því það var auðséð hættuspil og einskis manns færi var að leggja út í fljótið í þeim tilgangi að synda yfir það. Það hefði enginn maður dregið yfirá austurbakkann. En það var hvorttveggja, að nú var ekki eftir nema 20 verstir til Omsk, og hitt, að hversu mikil sem hættan var, aftraði hún hvorki Strogoff eða Nadíu að leita til áframhalds. Þeim kom því ekki í hug að hræðast vatnsmagnið í Irtych. Þó leizt Strogoff flóðið svo ískyggilegt, að hann stakk upp á, að fara einsamall með hestana og vagninn, því hann óttaðist þyngslin á "prammanum". Eftir að hafa komið flutningnum yfir skyldi hann svo koma aftur og vitja meyjarinnar. En Nadía þverneitaði því, það tæki frá þeim klukkustundarferð eða meir og sér dytti ekki í hug að tefja ferð hans þannig. Það varð því úr, að bæði ætluðu í senn, og var nú farið að skipa fram hestunum og vagninum, en gekk seint, því ferjan komst ekki upp að þurru landi, svo hátt upp eftir bökkunum steig flóðið. Eftir hálfrar stundar þjark var því verki þó lokið og Nadía, Strogoff og ökumaðurinn komin út á ferjuna, er þegar lagði út í strauminn og gekk allt vel um stund, því tangi mikill skarst fram í fljótið nokkru ofar og fyrir neðan hann var straumlítill hylur, er ferjan fór fljótt og beint yfir. Ferjan var »prammi« all-mikill, er ferjumennirnir (tveir) knúðu áfram með löngum spírum, er þeir stungu niður í árbotninn. Handléku þeir þessar árar sérlega fimlega, en svo var vatnsmagnið mikið nú, að þegar þeir nálguðust miðbik árinnar veitti lítið af, að stungurnar næðri niðri. Það stóð stóð ekki meira en fet upp úr, og var þá vandræðaverk að stjaka prammanum áfram, hversu vel sem haldið var á þeim. Strogoff og Nadía sátu aftur á og tóku ekki augun af ferjumönnunum og leizt svo á, að seint gengi að komast yfir um. »Varaðu þig!« hrópaði annar ferjumaðurinn til hins, er þá bar út þyngstu straumröstina, og var ástæða til þess, því straumkastið beindi nú ferjunni fremur beint undan straumnum, en yfir hann. Þó gátu ferjumennirnir haldið henni nokkurnveginn í horfinu, með því að hleypa stjökunum inn í gróp mörg á útrönd borðstokksins, er héldu þeim nokkurnveginn í skorðum. En svo hrakti þá mikið, þrátt fyrir alla viðleitnina, að þeir gerðu ekki ráð fyrir, að ná landi hinum megin, fyrr en 6 verstir fyrir neðan þjóðveginn, en það gerði nú ekkert til. Allsstaðar mátti lenda, og þar sem ferjumennirnir áttu von á tvöföldum ferjulaunum, kærðu þeir sig ekki. Það var um að gera, að ná eystri bakkanum einhversstaðar, og það voru þeir vongóðir með að gera, en þeir tóku ekki alla hugsanlega farartálma með í reikninginn, enda naumast við því að búast. Þeirra afsökun var fullgild, sú, að þeir gerðu allt, sem tveir menn gátu gert. Ferjan var nú rétt á miðju fljótinu og hrakti niður eftir því svo nam 2 verstum á klukkustund. Allt í einu spratt Strogoff á fætur og starði uppeftir fljótinu, á fjölda af bátum, er fjölda margar árar hjálpuðu straumunum til að hrinda áfram með fleygiferð. Strogoff hleypti brúnum og hrutu honum orð af vörum, svo að Nadía, sem ekki hafði litið af ferjumönnunum, spurði hvað að gengi. Áður en hann gæti svarað henni höfðu ferjumennirnir einnig komið auga á bátaflotann og æptu nú óttaslegnir: »Tartararnir, Tartararnir!« Þeir sögðu satt. Bátarnir voru fullir af Tartara-hermönnum og bar þá svo hart að, að engin von var til að ferjan, svo þunghlaðin, kæmist undan. Ferjumennirnir urðu svo hræddir, að þeir fleygðu stjökunum á þilfarið og létu reka. »Verið hugrakkir, vinir«, sagði Strogoff. »Fimmtíu rúblur skuluð þið fá, ef þið náið bakkanum áður en Tartararnir fara fram hjá!« Svo höfðinglegt boð kveikti nýjan kjark hjá ferjumönnunum og brutust þeir nú hart um, en það varð fljótt augsýnilegt, að einskis manns orka gæti dregið undan barbörunum. Jafn ástæðulítið var að vona, að fjandasægur þessi færi framhjá án þess, að herja á ferjuna. Aðrir eins ræningjar mundu ekki sleppa slíku tækifæri. »Vertu hughraust, Nadía«, sagði Strogoff, »en vertu við öllu búin!« »Ég er óhrædd og tilbúin!« »Ertu jafnvel tilbúin að fleygja þér í fljótið?« »Hvenær sem þú gefur mér bendingu«. »Reiddu þig á mig, Nadía!« »Ég geri það afdráttarlaust«. Tartara-bátarnir áttu, nú ekki eftir meir en 20 faðma að ferjunni og sást nú að þeir fluttu Bokhara-hermenn, sem sendir voru til njósna í grennd við Omsk. Nú voru heldur ekki eftir nema tvær ferjulengdir upp að bakkanum og gerðu ferjumennirnir því harðari hviðu og Strogoff sjálfur var nú að hjálpa þeim, hafði þrifið stjaka, mikinn og dró ekki af sér, er hann stakk honum í botninn. Ef hann að eins gæti komist á land með hestana og vagninn, var hann að líkum sloppinn, því Tartararnir höfðu enga hesta meðferðis. Allar þessar tilraunir voru árangurslausar. »Saryna kitchou!« glumdi nú við frá öllum bátunum og kannaðist Strogoff þar við heróp Tartaranna, sem venjulega er svarað með því, að kasta sér flötum. En nú hlýddi hvorki hann eða ferjumennirnir, enda laust þá á skothríð mikilli á augnabliki. Féllu þá báðir hestar Strogoffs dauðir. Í sömu andránni hrikti í viðum ferjunnar. Bátarnir fremstu höfðu rekist á hana. »Komdu Nadía!« sagði Strogoff tilbúinn að kasta sér í fljótið. Hún var í þann veginn að fleygja sér útbyrðis með honum, þegar högg mikið kom á höfuð honum og feykti honum út í strauminn, sem þegar bar hann burt. Eitt augnablik rétti hann aðra hendina upp yfir röstina, en svo hvarf hún og hann allur í djúpið. Nadía rak upp hljóð, en áður en hún hefði ráðrúm til að fleygja sér út á eftir honum, var hún gripin og dregin niður í einn Tartarabátinn. Innan fárra mínútna höfðu ferjumennirnir verið drepnir, en ferjan látin fljóta mannlaus undan straumnum. Svo héldu Tartararnir áfram niður eftir fljótinu. XIV. Móðir og sonur. Omsk er stjórnarsetrið í Vestur-Síberíu, en er þó ekki merkasti bærinn í því umdæmi. Tomsk er stærri bær og fólksfleiri, en Omsk hefir það fram yfir, að þar býr landsstjórinn yfir öllum vesturhelmingi Síberíu. Eiginlega er Omsk tvö aðskilin þorp. Í öðru býr landsstjórinn og embættismenn allir, en í hinu verzlunar- og iðnaðarmenn, þó ekki geti bærinn heitið neinn verulegur verzlunarstaður. Íbúar bæjarins eru 12-13000 og umhverfis hann eru víggirðingar með mörgum skotturnum á. En víggirðingar allar eru úr torfi og leir einungis, og það vissu Tartarar, sem hugsuðu sér að taka bæinn með meginafli og tókst það líka, eftir nokkurra daga umsát. Stöðuherinn í bænum varðist vel og drengilega, en smám saman, fet fyrir fet, varð hann að hopa undan og að lyktum hlaut hann að flýja upp í efri bæinn, þar sem landsstjórinn og embættismenn allir, höfðu búið um sig sem bezt mátti verða. Eftir að hafa búið alla húsa- og kirkjuveggi svo að ókleifir voru, voru þeir þar innan veggja þessarar litlu »kreml«, eins og nokkurskonar kastala. Og um tíma stóðzt »kastali« þeirra áhlaupin, en daufleg varð framtíðarvonin um sigur, enda fengu Tartararnir nýjan herstyrk með hverjum degi, því áfram hélt bátastraumurinn niður eftir Irtich. En þó tók það út yfir, að foringi Tartaranna var Norðurálfumaður, föðurlandssvikari, en mikill maður, slægur og framgjarn vel. Þessi maður var óbersti Ivan Ogareff. Ogareff var menntaður og herlærður vel, en að öðru leyti jafningi Tartaranna, hvað grimmd og hörku snerti. Móðir hans var af Mongóla kyni og fekk hann því ýmsa Asíu-þjóða-eiginleika í arf frá henni, þar á meðal slægvizku og löngun til að búa út fyrirsát og áhlaup úr óvæntum áttum; sveifst hann einskis, ef hann þurfti að búa til gildru eða komast að einhverju leyndarmáli. Undirförull og hrekkjóttur að náttúrufari beitti hann öllum brögðum, þegar á þurfti að halda, laug og sveik eftir því sem þörfin krafði og tók á sig allskonar gerfi og birtist í öllum myndum. Sem sagt var hann einnig grimmlundaður mjög og hafði enda gegnt böðulsstörfum. Feófar Kan átti því öflugan og ósvífinn lautenant þar sem Ogareff var, er ekki hikaði við að fullnægja öllum boðum barbarans í þessari blóðugu barbara styrjöld. Þegar Strogoff kom á vesturbakka Irtich-fljótsins var Ogareff búinn að taka Omsk. Sat hann þá um efri bæinn og vildi gjarnan vinna hann á sem styztri stund, því honum lá á að komast til Tomsk, en þar var meginher Tartara samankominn, og þar var Feófar Kan sjálfur. Satt að segja var Tomsk þá komin í hendur Tartaranna, og þaðan átti svo allur herinn að hefja göngu sína austur um Síberíu, til Irkutsk. Vestur-Síbería var þannig í höndum barbaranna nú, og kæmust þeir fyrirhafnarlaust austur og næðu Irkutsk, var Síbería öll í höndum þeirra. Og hvað sem Törturunum leið, þá var Irkutsk aðaltakmark Ogareffs, ætlun hans var að koma sér í mjúkinn hjá stórhertoganum undir fölsku nafni, veiða upp úr honum öll hans leyndarmál áhrærandi vörn bæjarins og svíkja svo bæinn í hendur Tartara, og — stórhertogann með. Tækist honum þetta, gat hann leikið lausum hala í Síberíu. Eins og kunnugt er, var Rússakeisara kunn þessi fyrirætlun, og í því skyni að koma í veg fyrir framkvæmdir hennar, sendi hann Strogoff í þessa svaðilför, til að færa stórhertoganum þessa þýðingarmiklu fregn. Þess vegna var sendiboðanum lagt svo ríkt á hjarta að fara í dularbúningi og undir fölsuðu nafni. Til þessa hafði sú tilraun tekist vel, en mundi Strogoff eins og nú var komið fyrir honum, nokkurntíma geta lokið erindinu? Höfuðhögg Strogoffs var ekki banvænt. Með því að synda í kafi, svo ekkert bærði á honum, náði hann bakkanum, skreiddist upp í runna, en féll þar svo niður máttþrota og meðvitundarlaus. Þegar hann raknaði úr rotinu var hann í bóndakofa. Hafði bóndinn fundið hann og hjúkrað honum. Honum átti Strogoff líf sitt að launa. Hvað lengi hafði hann verið gestur þessa góða, lítilmótlega bónda? Hann gat ekki getið neins til um það. Þegar hann fyrst opnaði augun, laut blíðlegt, viðkvæmt alskeggjað andlit ofan að honum. Hann var í þann veginn að spyrja, hvar hann væri, en bóndinn varð fyrri til að segja: »Ekki eitt orð, litli faðir! Þú mátt ekki tala. Þú ert of veikur til þess ennþá. En ég skal segja þér, hvar þú ert og allt, sem gerst hefir, síðan ég flutti þig í kofa minn«. Og svo sagði karlinn honum frá öllu, er hann hafði verið sjónarvottur að: áhlaupinu á ferjubátinn, ráninu úr vagninum og morði ferjumannanna. Strogoff hlustaði ekki lengur á söguna, en stakk hendi í barm sér og þreifaði eftir bréfi keisarans; hægðist honum er hann fann það þar, en svo datt honum fleira í hug. »Það var ung stúlka með mér«, sagði hann þrátt fyrir boð og bann. »Þeir drápu hana ekki«, flýtti karl sér að segja, til þess að afstýra allri hugraun sjúklingsins. »Þeir fóru með hana á bátum sínum, og þeir héldu áfram niður fljótið. Það er þá aðeins einum fanga, fleira í hópnum, sem þeir eru með á leiðinni til Tomsk. Strogoff gat ekki svarað, en studdi hendinni á hjartað, eins og vildi hann stilla slög þess, sem voru hörð og tíð. Þrátt fyrir kringumstæðurnar allar mátti samt skylduræknin meira en hugraunin, og eftir nokkra stund stundi hann upp: »Hvar er ég?« »Á austurbakka Irtychfljótsins, fimm verstir frá Omsk«, svaraði bóndinn. »Hvaða sár gat ég hafa fengið, er lagði mig þannig, — ekki var það byssuskot?« »Nei, það var lenzulag í höfuðið, sem nú er óðum að gróa. Eftir fárra daga hvíld verður þú ferðafær, litli faðir. Þú féllst í fljótið, en Tartararnir snertu þig ekki, og peningabuddan þín er ósnert í vösum þínum«. Strogoff svaraði engu, en tók vingjarnlega um hönd karls og spurði svo eftir litla þögn: »Hvað lengi hefi ég verið í húsum þínum, vinur?« »Þrjá daga!« »Þrír dagar farnir til einskis!« »Þrjá sólarhringa, hefir þú legið meðvitundarlaus!« »Hefir þú hest til, að selja mér?« »Svo þú vilt fara burtu?« »Já, undireins!« »Ég hefi hvorki hest eða vagn, litli faðir. Tartararnir skilja ekkert eftir«. »Ja, þá fer ég gangandi til Omsk og leita mér þar að hesti«. »Eftir nokkra stunda ferð verður þú færari til að halda áfram ferðinni«. »Ég bíð ekki eina klukkustund lengur!« »Nú, jæja«, sagði þá karlinn, er sá, að þýðingarlaust var, að stríða við svona stíflyndan gest, »ég skal þá vísa þér veg. Rússar eru líka margir í Omsk, og þess vegna hugsanlegt, að þér takist að smjúga um fylkingar Tartara«. »Guð launi þér, vinur minn, allt, sem þú hefir gert fyrir mig«, sagði Strogoff. »Laun! Heimskingjar einir vonast eftir endurgjaldi í þessu lífi!« svaraði karl. Strogoff reis nú á fætur og gekk út, en svo var hann máttþrota, að hann hefði fallið, ef karlinn hefði ekki stutt hann. Þá bráði von bráðar af honum í ferska loftinu og hlýindunum. Þreifaði hann nú eftir höfuðsárinu, er var vonum fremur lítið, af því húfa hans hafði hlíft. Þó var sárið æði stórt, eða hafði verið það, en Strogoff lét ekki annað eins smáræði buga sig. Það var að eins eitt takmark, sem hann hafði fyrir augum — hinn fjarlægi staður Irkutsk. Þangað mátti hann til að komast, og ekki var tilhugsandi, að nema staðar í Omsk, ef hjá því varð komist, en um þann bæ mátti hann þó til með að fara. »Guð varðveiti móður mína og Nadíu!« hugsaði hann. »Ég hefi ekki lengur rétt til að hugsa um þær, hvað þá meira!« Þeir Strogoff og einbúinn komu innan stundar til Omsk, og þó hergarður væri um neðri bæinn komust þeir vandræðalaust inná á meðal verzlunarhúsanna. Moldarveggir virkisins voru hér og þar rofnir af grunni og út og inn um skörðin streymdu þjófar og bófar, er ætíð fylgja leiðangri Tartara. Á strætunum öllum úði og grúði af Törturum, en auðsætt var á öllu að einhver járnhönd hélt þeim í skefjum og knúði þá til að framfylgja reglum, sem þeir þó voru óvanir. Þeir fóru hvergi einir, en voru í hópum og ætíð tilbúnir, að verjast áhlaupi Rússa úr hvaða átt sem vera vildi. Á aðaltorginu höfðu 2000 Tartara hermenn tekið sér bústað og viðhöfðu allar herbúðareglur, þó herbúðirnar sjálfar vantaði. En umhverfis torgið reikuðu margir hermenn á verði nótt og dag. Hestarnir voru þar tjóðraðir, en ekki voru af þeim teknir hnakkar eða beizli. Voru þeir því ferðbúnir á hverri stundu dags eða nætur. Það var, sem sagt, ekki fyrirætlunin að sitja lengi í Omsk, þó ekki væri annað, þótti Törturum yfir höfuð dauflegt og fátæklegt þar og langaði því austur á hinar grösugu sléttur í Eystri-Síberíu, þar sem jarðvegurinn er fremur frjósamur og bæirnir stærri og ríkari og þar af leiðandi von um miklu meira herfang. Þrátt fyrir allar tilraunir hafði Ogareff ekki enn unnið svig á efri bænum, enda blakti fáni Rússa enn á stöng upp á virkisveggnum. Fagnaði Strogoff þeirri sjón, og er afsakandi þó hann með sjálfum sér stærði sig af merkinu, sem hann ásamt karli heilsaði með innilegri lotningu. Af því Strogoff var gagnkunnugur í bænum varaðist hann við að fara um fjölförnustu strætin, þó ekki óttaðist hann að margir þekktu sig. Gamla Marfa, móðir hans, var eina manneskjan í Omsk, sem hefði getað nefnt hann með nafni, en nú hafði hann unnið þess eið, að sjá hana ekki, og — hann efndi heitið. En svo óskaði hann af alhug að hún væri burtu úr bænum, að hún hefði flúið í tæka tíð eitthvað út á sléttuna, þar sem umferð var lítil. Fylgdarmaður Strogoffs þekkti gestgjafa einn, sem láta mundi hest og vagn falan, ef rífleg laun væru framboðin, og þangað vildi hann ná, og þeir stefndu þangað í þeim tilgangi að kaupa hest, þó ekki væri auðsætt hvernig Strogoff kæmist burt úr bænum út fyrir varðmannahringinn. Þeir voru á ferð eftir þröngum stíg, þegar Strogoff allt í einu tók kipp og snaraðist til hliðar inn í dimman gang. Karlinn fór á eftir honum, en var þó hissa, og fór að spyrja hvað þetta fát hefði að þýða. Strogoff bað hann að hafa ekki hátt og lagði fingur á varir sínar sem þagnarmerki. Í þessu þeysti riddaraflokkur af aðaltorginu inn á þetta þrönga stræti, er Strogoff hafði komið eftir. Voru þar um 20 Tartarariddarar og í broddi fylkingarinnar reið yfirmaður í óbrotnum herbúningi Rússa. Hafði hann augun allstaðar, en sá þó ekki skotið, sem Strogoff og karlinn smugu inn í. Riðu þeir geyst eftir strætinu og hirtu ekki um þó gangandi menn og konur træðust undir hestahófunum. Og það voru nokkrir of seinir til að bjarga sér undan þursunum, urðu því undir hófum hestanna og ráku upp hljóð, er þeir lemstruðust. Var því neyðarópi ávalt svarað með lensulagi, svo kveinið hætti bráðlega. Þannig ruddu þessir sigurvegarar sér braut. »Hver er þessi yfirmaður?« spurði Strogoff karlinn, undir eins og fylkingin var farin fram hjá, og þeir héldu aftur áfram ferð sinni. Og aðgætinn maður hefði getað séð að Strogaff var venju fremur fölur, er hann framsetti spurninguna. »Það er Ivan Ogareff!« svaraði karlinn í lágum róm, en svo var sem hann nísti nafnið milli tannanna. Hann bar auðsjáanlega heiftarhug til föðurlandssvikarans. »Einmitt!« varð Strogoff að orði og í þeim róm, er ekki gat leynt geðshræring og henni meir en lítilli. Þó riddararnir færu geyst þekkti hann fyrirliða þeirra. Það var sami maðurinn, sem hafði greitt honum svipuhöggið og meðfylgjandi smán í Ishim. Og þá hann í hvorugt skiftið veitti honum nána eftirtekt, þá datt honum nú allt í einu í hug, að þetta væri virkilega sami maðurinn, sem hann átti orðastað við um kvöldið í Nijni-Novgorod og sem hann svo heyrði tala við konuna Sangarre. Strogoff gat rétt til um manninn. Allt var sami pilturinn. Það var í gifta-gervi og í flokki kvennvargsins Sangarre, sem skálknum Ogareff tókzt, að komast burt frá sýningarstaðnum. En þangað hafði hann brugðið sér, í þeim tilgangi, að tala við samsærismenn sína ýmsa úr Asíu, og sem hann þóttist vita að kæmu á sýninguna eins og líka varð. Sangarre hafði ást á honum og hefði farið út í eld og vatn hans vegna, og hún og gifta-flokkur hennar var í rauninni launaðir njósnarar hans og yfir höfuð voru þessir starfsmenn hans hlýðnir honum, eins og rakkar. Það var þess vegna Ogareff sjálfur, sem vildi fara í illt við Strogoff á bekknum, og sem litlu síðar sagði Sangarre að »faðirinn« skipaði þeim, að fara burt, orð, sem Strogoff þóttu svo einkennileg, en sem hann þá ekki skildi, hvað þýddu. Það var Ogareff sem Strogoff um nóttina á þilfarinu á Kákasus heyrði tala við konuna og segja henni, að sendiboði keisarans væri austurleið. Og það var Ogareff, sem í gervi gamla og hruma giftans fór af bátnum í Kasan og þaðan austur um land beina leið til Ishim. Nú var hann kominn til Omsk á undan sendiboða keisarans og orðinn hæstur í völdum innan herbúða Tartaranna. Þangað var Ogareff kominn fyrir að eins þremur dögum. Hefði það ekki verið fyrir hinn banvæna fund í Ishim og slysið við Irtich er tafði ferð Strogoffs svo nam þremur dögum, hefði hann óefað komist á undan föðurlandsfjanda þessum og að líkindum orðið á undan honum til Irkutsk. Og hvað mörg framtíðar óhöpp hefðu einnig orðið fyrirbyggð, ef sneitt hefði orðið hjá þessum fyrstu, slysum! Nú höfðu þeir sézt og var því enn brýnni nauðsyn fyrir Strogoff að fara varlega og um fram allt að verða ekki í annað sinn á vegi Ogareffs. Jafnframt hafði Strogoff þó hugsað sér hvernig hann skyldi heilsa honum, ef fundur þeirra yrði óumflýjanlegur, og það þótt Ogareff væri þá einvaldsherra í allri Síberíu. Karlinn og Strogoff komust slysalaust á gestgjafahúsið og var Strogoff þá kominn að þeirri niðurstöðu, að vandræðalaust yrði að komast burt úr bænum í myrkrinu um kvöldið. Hesta gat hann fengið, en engin tiltök voru að fá vagn leigðan eða keyptan, þeir voru ekki til, eins og bærinn þá var kominn. Hvað hafði Strogoff líka að gera við vagn? Var það ekki sorglegur sannleiki, að hann var orðinn einsamall? Duglegur hnakkhestur nægði honum héðan af, og það vildi svo vel til, að ákjósanlegur reiðhestur fékkst. Það var léttleika hestur, alinn vel, þrekmikill og þolinn. Hestamaður, eins og Strogoff var, kunni líka að fara með svo góðan reiðskjóta. Hesturinn var hóflauslega dýr, en innan fárra mínútna var hann orðinn eign Strogoffs og hann þá um leið ferðbúinn. Klukkan var þá fjögur síðdegis, en Strogoff var neyddur til að bíða eftir náttmyrkrinu. En af því að hann vildi ekki sýna sig mörgum, hélt hann kyrru fyrir í húsinu keypti sér að borða og hvíldi sig. Í ferðamannasalnum var mannmargt. Bæjarmenn streymdu þangað úr öllum áttum til þess að fá fregnir af styrjöldinni og til þess að tala um komu hermanna, sem væntanlegir voru vestan yfir Úralfjöll. Sá flokkur var samt ekki væntanlegur til Omsk, heldur átti hann að fara beinustu leið til Tomsk og reyna að hrífa þann bæ úr höndum Tartaranna. Strogoff hlustaði með athygli á samtalið, en tók engan þátt í því. Allt í einu, heyrði hann hljóð, sem hleypti hrolli um hann allan og titringi í hverja taug. Tvö orð heyrði hann töluð, að eins tvö orð, en þau nístu sál hans eins og hárbeitt sverð. Þessi orð voru: »Sonur minn!« Móðir hans, hún Marfa gamla, svo kunnug öllum í Omsk stóð frammi fyrir honum, titrandi af geðshræringu, og brosti til hans. Strogoff stóð á fætur og var í þann veginn að taka hana í faðm sinn. En þá kom skyldan, þörfin á dularbúningi og hættan, sem beið beggja, ef hann opinberaði sig, til sögunnar og aftraði honum. Þó hann þannig stæði á fætur og brynni af löngun til að heilsa móður sinni, þá hafði hann svo mikið vald yfir sjálfum sér, að hann hreyfði ekki legg eða lið, né hefði nokkur getað greint titringinn, sem hann þó fann svo vel sjálfur. Það voru um tuttugu manns í salnum þegar þetta óhappa-atvik kom fyrir. Á meðal þeirra voru auðvitað fleiri eða færri njósnarmenn Ogareffs, og öllum í Omsk var kunnugt að Mikael sonur Mörfu gömlu var einn af sendiboðum keisarans. Strogoff, sem sagt, hreyfði sig ekki. »Mikael!« kallaði móðir hans í angist. »Hver ert þú, kona góð?« spurði þá Strogoff, en ekki var laust við að rödd hans titraði, svo mikil raun var þetta. »Hver er ég, spyr þú? þekkirðu þá ekki móður þína lengur?« »Þú fer villt«, svaraði Strogoff, í þetta sinn kuldalega. »Þú villist á því, að þú fyrir tilviljun sér mann líkan syni þínum!« »Þú ert ekki sonur Péturs og Mörfu Strogoffs!« Sjálfs sín vegna hefði Strogoff glaður látið lífið til þess að mega fagna móður sinni eins og hann langaði til. En ef hann sýndi minnsta svig á sér var úti, ekki einungis um hann, heldur einnig um hana, um ferðina til Irkutsk, og ofan á allt hitt, var þá eiður hans rofinn! Hann treysti sér ekki til að horfa á angist móðurinnar og lagði því aftur augun. Hendur sínar dró hann hægt aftur með hliðunum til þess þær snertu ekki hinar viðkvæmu móðurhendur, sem eins og í óráði fálmuðu eftir hans stóru og sterku höndum. »Það er satt, kona góð«, sagði hann og hopaði um leið lítið eitt á hæl. »Ég skil ekki orð þín!« »Mikael!« veinaði gamla konan aftur. »Ég heiti ekki Mikael, og hefi aldrei verið sonur þinn! Ég heiti Nikulás Korpanoff og er kaupmaður í Irkutsk!« Og eins og ekkert væri um að vera hneigði hann sig fyrir henni og gekk burtu úr salnum, en í eyrum hans hljómaði aftur: »Sonur minn, sonur minn!« Með herkjubrögðum tókst Strogoff að slíta sig burtu, en um leið og hann hvarf sjónum móður sinnar hneig hún aflvana og nærri meðvitundarlaus ofan á einn bekkinn. Það bráði samt von bráðar af henni og hjálp vildi hún enga þiggja, en reis á fætur sjálf, þegar gestgjafinn ætlaði að fara, að stumra yfir henni. Var það mögulegt að henni gæti missýnst, að hún hefði ávarpað ókunnugan mann? Hvorttveggja var jafn ómögulegt. Það var sannarlega sonur hennar, sem hér var um að ræða, og enginn annar. Í því datt henni nokkuð nýtt í hug. Það, að hann hefði ekki mátt viðurkenna móður sína, að ástæður hans væru góðar og gildar, og í sömu andránni vaknaði hjá henni sú móðurlega tilfinning og jafnframt sá kvíði, að með fljótfærni sinni hefði hún eyðilagt vonir hans og stýrt honum í voða. »Ég er heimsk!« sagði hún þá, sem svar upp á spurningarnar allar, er á henni dundu. »Augu mín sviku mig! Þessi maður er ekki sonur minn, hefir ekki málróm líkan hans. Við skulum ekki hugsa um það framar. Haldi ég áfram að hugsa um það verður endirinn sá, að ég þykist sjá son minn allsstaðar!« Það liðu tíu mínútur þangað til Tartaraforingi gekk inn í salinn og spurði, hvort Marfa Strogoff væri þar. »Ég er hún!« svaraði gamla konan svo stillilega, og án þess henni brygði hið minnsta, að allir sem viðstaddir voru undruðust. Þeir gátu varla trúað, að þetta væri sama konan, sem rétt áður var að hrópa á son sinn. »Fylg þú mér!« sagði Tartarinn. Marfa gamla hlýddi möglunarlaust og gekk óhikað út úr salnum. Fáum augnablikum síðar nam hún staðar á miðju aðaltorginu og var þá frammi fyrir Ivan Oggreff, er undir eins hafði fengið fregnir af því, er gerðist í gestgjafahúsinu. Kom honum þegar í hug hvað var á seiði og sendi þegar eftir gömlu konunni til að spyrja hana. »Nafn þitt?« spurði hann hranalega. »Marfa Strogoff«. »Þú átt son?« »Já«. »Hvar er hann?« »Í Moskva«. »Hefir þú engar fregnir af honum?« »Engar«. »Hvað er langt síðan þú fréttir af honum?« »Tveir mánuðir«. »Hver var þá þessi ungi maður, sem þú kallaðir son þinn áðan á póststöðinni?« »Einhver Síberíu-maður, sem mér sýndist svo líkur syni mínum. Það var í tíunda skiftið, sem ég hefi þannig villst á mönnum, síðan þessi mannfjöldi kom í bæinn. Mér finnst ég sjá hann allsstaðar!« »Svo þessi ungi maður var ekki Mikael Strogoff«. »Það var ekki Mikael Strogoff«. »Veiztu, gamla kona, að ég get pínt þig þangað til þú segir mér allan sannleikann?« »Ég hefi þegar sagt þér satt. Pyntingar megna ekki að breyta orðum mínum hið allra minnsta«. »Þessi Síberíumaður var þá ekki Mikael Strogoff?« spurði Ogareff aftur. »Nei, það var ekki«, svaraði Marfa gamla einnig í annað sinn og bætti svo við: »Getur þú ímyndað þér, að ég fyrir nokkur heimsins gæði myndi neita að viðurkenna soninn, sem Guð hefir gefið mér?« Ogareff svaraði spurningu hennar ekki, en illu auga leit hann á gömlu konuna. Hann dró ekki minnsta efa á að kerling hefði séð rétt, að hún hefði þekkt son sinn. Væri nú þessu þannig varið, hefði sonurinn fyrst afneitað móðurinni og hún síðan honum, þá hlutu að vera til þess einhverjar meir en smávegis ástæður. Ogareff var þess fullviss að Nikulás Korpanoff, sem átti að vera, var í rauninni enginn annar en Mikael Strogoff, sendiboði keisarans, sem nú var að flytja einhver áríðandi boð, sem honum var nauðsynlegt að ná í ef nokkur ráð væru til. Í þvílíkri ferð var auðvitað, að sendiboðinn mundi ganga undir fölsku nafni og fara í dularbúningi. Þessum manni þurfti að veita eftirför, og samstundis skipaði hann flokk manna til þess. »Sjáið um að kona þessi verði flutt til Tomsk«, sagði hann að því búnu og sneri til Mörfu. Hermennirnir gripu hana eins og sakadólg og drógu hana burt, en Ogareff horfði á eftir henni og bætti við: »Þegar tíminn kemur, veit ég ráð til að losa um tungu hennar nornarinnar þeirrar arna!« XIV. Baraba-mýrarnar. Það var heppni að Strogoff fór burt frá póststöðinni á þessu augnabliki. Skipun Ogareffs var innan stundar komin til allra varðmannanna við borgarhliðin og fylgdi nákvæm lýsing af honum, er einnig var send öllum liðsforingjum í grenndinni. Með þessu átti að fyrirbyggja að þessi viðsjárverði maður kæmist burt úr Omsk. En skipunin kom um seinan. Í stað þess að bíða eftir náttmyrkrinu eins og hann í fyrstu ráðgerði, lagði hann á tvær hættur af stað. Og nú var hann kominn út fyrir alla varðmanna-hvirfinguna og hestur hans á harða stökki austur sléttuna. Af því honum var ekki gerð eftirför undireins, var vísara en ekki, að hann bæri undan. Klukkan var orðin átta um kvöldið, 29. dag júlí, þegar Strogoff hleypti á sprett austur frá Omsk. Þessi bær er sem næst mitt á milli Moskva og Irkutsk, og ef Strogoff vildi verða á undan Törturunum til Irkutsk varð hann að ná þangað innan tíu daga. Óheppni var það stórkostleg, að fundum hans og móðurinnar bar saman, því nú mátti ganga að því vísu, að dulargerfi hans var rofið. Ivan Ogareff var nú kunnugt orðið að sendiboði keisarans var á ferðinni austur til Omsk, ef ekki lengra. Boðskapurinn, sem hann var með, hafði stórvægilega þýðingu. Strogoff vissi því og viðurkenndi að allt kapp yrði lagt á að hefta för sína og að höndla sig. En það vissi hann ekki, gat auðvitað ekki grunað það, að María Strogoff var í haldi hjá Törturum að fyrirskipun Ogareffs, að sá tími var að nálgast að hún skyldi bæta, ef til vill með lífi sínu, fyrir þá eðlilegu ást á syni sínum, sem hún sýndi, er hún vildi falla í faðm hans og heilsa honum með fögnuði. Það var vel að Strogoff vissi ekki þetta. Mundi hann hafa staðist þá miklu raun? Strogoff hvatti hest sinn til framsóknar og af tilþrifum hans mátti ætla að hann hefði sömu löngunina, sama kappið að komast áfram, eins og sá, er í hnakknum sat. Tilgangur Strogoffs var að komast til næstu póststöðvar á sem styttstri stund og útvega sér þar nýja hesta og betri reiðfæri. Á miðnætti var hann kominn 70 verstir austur fyrir Omsk, til þorpsins Koulikovo. Þar var póststöð, en eins og honum hafði komið í hug, var þar hvorki hesta eða vagn að fá. Tartara-njósnarar höfðu látið greipar sópa um sléttuna og þjóðveginn og stolið öllu steini léttara, eða fastsett sínu liði til notkunar. Það var með nauðung að Strogoff gat fengið sér hressingu keypta handa sér og hestinum. Úr því svona var var í hæsta máta áríðandi að fara vel með hestinn og ofbjóða honum ekki, því það var óvíst hvar hann gæti fengið nýjan hest. Jafnframt var engu síður áríðandi að komast sem lengst á undan væntanlegum leitarmönnum. Afréð hann því skjótt að dvelja stutta stund í þorpinu, og að klukkustundu liðinni var hann kominn á ferðina aftur. Til þessa hafði Strogoff fengið ákjósanlegasta ferðaveður. Hiti var að vísu allmikill, en ekki þvingandi. Nóttin var ekki enn orðin löng, og þar sem tunglið skein út á milli skýjanna öðruhvoru og lýsti alla sléttuna, var ratfært vel að næturlagi. Svo var Strogoff líka svo kunnugur á brautinni allri, að hann efaði ekki eða hikaði við að ferðast á nóttunni. Og þó hugsanir hans væru eðlilega þreytandi, lét hann þær aldrei buga skarpskyggni sína, en stýrði hestinum í áttina til Irkutsk, svo óhikað og krókalaust, eins og sæi hann borgina fram undan sér á vellinum. Þegar hann stundum nam staðar við brautamót, var það ekki til þess að líta eftir vegi, heldur til þess að lofa reiðskjótanum að blása nös. Með köflum fór hann af baki og lét hestinn hlaupa lausan, og smámsaman lagðist hann flatur, lagði eyrað niður að harðri grundinni og hlustaði eftir jódunum og hófaskellum, en er ekkert var að heyra, er vakið gæti grunsemi hans, hélt hann ferðinni áfram. Ef þetta hefði allt getað gerzt að vorlagi, á meðan dagsljósið varir sólarhringinn út, þá hefði verið hægara og vandaminna að leggja í þessa ægilegu langferð. Morguninn eftir, 30. júlí, um klukkan 9, fór Strogoff austur um þorpið Touroumoff, og tók þá við mýra og flóahérað, sem nefnt er Baraba. Á þessu svæði öllu, um 300 verstir, eru ótal torfærur á veginum, gerðar af náttúrunnar hendi. En Strogoff var því ekki óviðbúinn, og var þess líka fullkomlega viss, að hann mundi yfirstíga þær torfærur allar. Þessir víðáttumiklu Baraba-flóar, er liggja milli 52. og 60. norðurbr. stigs, taka á móti regnvatni á sléttlendinu, er ekki hefir framrás vestur í Irtich, eða austur í Obi-fljótið. Jarðvegurinn á þessu svæði öllu er límkenndur leir, sem ekkert vatn gengur gegn um; vatnið staðnæmist í þessari miklu hvylft og gerir hana illfæra yfirferðar í hitatíðinni. En um hana þvera liggur vegurinn til Irkutsk milli fenja, tjarna og grafninga, er í sólarhitanum og fyrir áhrif hans anda frá sér banvænni eiturgufu, sem ferðamanninum er eins hættuleg eins og vegurinn um þetta forað út af fyrir sig er þreytandi fyrir menn og skepnur. — Ferðamaður, sem fer þessa leið á vetrardegi, hefir ekkert af þessum óhollu, illfæru forum að segja. Ísinn og snjórinn hafa þá heflað yfir allar mishæðirnar, og sleðinn þýtur yfir það sem þá sýnist vera eggslétt grund. Þá flykkjast veiðimenn að þessari ógna hvylft til að skjóta merði, safala og þá tegund af tófum, sem eru í hæstu verði fyrir belginn. Þetta dýrasafn er hvergi meira í Síberíu en í þessari dæld og þangað stefna líka veiðimenn úr öllum áttum strax þegar frystir á haustin. Á sumrum er engin slík veiði möguleg, þó þurrkatíð sé; sé votviðrasamt, verður enda þjóðvegurinn algerlega ófær. Strogoff knúði hestinn sporum út í þetta einkennilega grashaf fram undan, svo ólíkt sléttunni umhverfis sem orðið gat: Svörðurinn var ekki lengur þurr og harður og grasið lágt og þétt, er reynist svo kjarngott fóður fyrir Síberíuhjarðirnar allar. Hann var ekki lengur á útsýnisvíðum velli, heldur í óþrotlegum runnum af hrískenndu stórgresi. Þetta gras var fimm til sex feta hátt, en umhverfis rætur þess mosabingir og annar þvílíkur gróður, er rakinn að neðan, en hitinn að ofan framleiddi í risalega stórum stíl. Sumt af grasinu var tröllslega stór stör, en sumt var trjákennt og stíft og seigt eins og tágar, er fléttaðist saman og myndaði þvælu mikla, sem illmögulegt var að slíta sig fram úr. Á toppi stanganna, hverju nafni sem nefndust, blöktu marglitir ljómandi blómsturknappar, er stráðu út frá sér angandi ilm og blönduðu honum saman við hina eitraðu gufu upp úr forinni undir fæti. Um þetta háa gras smaug nú Strogoff og lét hestinn brokka þegar kostur var. En svo voru stengurnar háar, að þær huldu hann gersamlega og var hvorttveggja jafn ómögulegt nú, að hann sæi aðra og að aðrir sæju hann. Þó gátu leitarmenn, ef nokkrir hefðu verið rétt á eftir, allt af greint þjóðveginn og jafnframt því það, að einhver eða einhverjir voru á ferð um hann. Það gátu þeir ráðið af sundfuglaröstinni, sem stöðugt streymdi í loft upp með vængjaþyt og kvaki á örmjórri spildu í flóanum. Þeir flúðu allt af er Strogoff nálgaðist og gáfu þannig til kynna, að maður var þar á ferðinni. Þegar út á stargresis-haf þetta var komið, var vandræðalítið að rata brautina. Hún sást allt af fleiri og færri faðma fram undan, stundum þráðbein á milli tveggja tága-buska og stundum í sveig með fram tjörn eða dýi. Sumar þessar tjarnir voru margar verstir á lengd og breidd og mundu sumir því fremur nefna þær stöðuvötn en tjarnir. Sumstaðar hafði hrísdyngjum verið fleygt yfir foröð og keldur og þær síðan þaktar með hinum límkennda leir umhverfis, og lék þá allt á reiðiskjálfi, er um þessar brýr var farið. Sumstaðar voru hrísrastir þessar óslitnar á 200-300 feta svæði, og svo er hristingurinn mikill, þegar um er farið, að kvenfólk í vagni hefir fengið ógleði, eins og væri það á skipi í sjóróti. Strogoff reið geist, fór ýmist á brokki eða stökki og lét hestinn stökkva yfir keldu, skoru eftir skoru. En hversu hart sem hann fór, gat hann þó ekki flúið hin vænjuðu meinvætti, er ásækja með stakri grimmd allt, sem lífsanda dregur meðal stargresisins. Forsjálir ferðamenn, sem á sumrum þurfa að fara yfir Barabaflóana, búa sig undir þá svaðilför. Þeir kaupa sér grímur gerðar af hrosshári, með brynju í fínni vírnets-mynd henni tilheyrandi. Gríman fellur utan um höfuðið og hálsinn og niður á herðar, en þó er hún ekki einhlít vörn gegn áhlaupum fjandasægsins. Það komast fáir yfir flóann án þess að bera á sér menjar orustunnar, rauða bletti og bólgu-þrimla á hörundinu, á andliti hálsi og höndum. Það er því líkast að loftið sjálft á þessu svæði, sé ekkert annað en hvassir náloddar, og mætti ætla að formannabrynjur auk heldur reyndust ónóg hlíf fyrir örvadrífu hinna vængjuðu varga, sem búa í Baraba-kvosinni. Hún er sannnefnt hörmungaland, því allt af er óséð hverir betur mega, maðurinn og hesturinn eða fjandasægurinn af broddflugum, mýflugum, hesta- og bolaflugum, og milljónum annara flugna, of smárra til að sjást með berum augun, en svo harðsóttum og banvænum, að jafnvel Síberíuveiðimenn venjast aldrei við þær. Strogoff þurfti ekki að knýja hestinn sporum eftir að í þetta flugnahreiður kom. Flugnavargurinn stakk hann allsstaðar og ærði hann gersamlega. Óður og óviðráðanlegur hentist hann áfram á hvað sem fyrir var og barði sjálfan sig með taglinu, þar sem hann náði til, í því skyni að fá augnabliksró frá þessum flugnavargi. En friður var ekki fáanlegur. Stundum stökk hann í loft upp, stundum þvert út á hlið og stundum reis hann uppá afturfótunum og staðnæmdist augnablik, til þess að gera því harðari roku. Það kom sér vel að Strogoff var góður reiðmaður og kunni taumhaldið, annars hefði hann fljótlega orðið viðskila við reiðskjóta sinn. En ekkert þetta ofbauð honum. Hann fann ekki til flugnanna, fann ekki til neins nema brennandi löngunar að komast leiðar sinnar, að afljúka sínu skyldustarfi áður en það yrði of seint. Hann gerði því enga tilraun að stöðva hinn ærða reiðhest sinn, heldur lét hann sjálfráðann og hugsaði um það eitt sem honum var sannarlegt gleðiefni, að á ótrúlega stuttri stund skaut hann nú einni mílunni eftir aðra, aftur fyrir sig. Hver mundi trúa því, að mennskir menn ættu aðsetur í þessu hörmunga-díki, heimkynni flugnanna og banvæns eiturlofts? Þó var það nú svo, að þar var mannabygð. Hér og þar risu upp húsaþorp nokkur úr mýrinni, umkringd þessum stararskógi. Karlar, konur og börn, ungt fólk og gamalmenni, voru þar í hópum, íklædd skinnum af dýrum merkurinnar og með andlit þakin brimlum og sólbruna-skellum. Hér höfðu þeir hjarðir af búpeningi, er þeir á beitinni vörðu fyrir flugunum með því, að kynda eld dag og nótt, og bera á hann byng eftir byng af grænni störinni. Gripunum héldu þeir svo í hnapp í reyknum, er var svo megn og þykkur að flugurnar fóru ekki inn í hann. Um síðir kom þar að, að hestur Strogoffs hægði ferðina. Hann var orðinn máttvana af þreytu og titraði af óstyrk. Strogoff tók ekki fyrr eftir þessu, en hann sneri heim að einu hreysi flóabúanna og tók sér þar hvíld. Áður en hann útvegaði sér nokkra hressingu hugsaði hann um hestinn, fékk hann sér feiti, sem hann hitaði yfir eldi og baðaði svo hestinn allan úr henni á meðan hún var heit. Að því búnu bjó hann svo um að flugurnar ónáðuðu hann ekki, og bar honum svo vatn og fóður. Þá fór hann fyrst að hugsa um sjálfan sig, gekk þá inn í húshrófið og fékk sér að borða brauð og kjöt og rússneska bænda-ölið »kvass«. Þarna hvíldi hann hestinn, eina, eða mesta lagi tvær klukkustundir, en svo hélt hann af stað aftur út á hina, óendanlegu Irkutsk-braut. Sama daginn, klukkan fjögur síðdegis, kom Strogoff til þorpsins Elamsk; voru þá farnar 30 verstir af flóanum, en eftir voru 270, og hesturinn var nú svo uppgefinn orðinn að ekki var til hugsandi að halda lengra um daginn. Það var hér sem annarsstaðar fyrir austan Omsk, að hestur eða vagn var ófáanlegur, fyrir þá góðu og gildu ástæðu, að hvorugt var til. Tartararnir höfðu enn ekki gert vart við sig í Elamsk, en þó var þetta litla þorp nærri mannlaust orðið. Það var sem sé berskjaldað fyrir áhlaupi úr suðurátt og þess vegna vildu þorpsbúar ekkert eiga á hættu, einkum af því nærri ómögulegt má heita fyrir hjálparlið að nálgast þorpið að noraðn, tóku sig því upp og flúðu með allt, sem hreyfanlegt var. Póstmeistarinn með hús sitt, reiðfæri sín öll og hesta, var flúinn, svo var og lögregluliðið og svo héraðshöfðinginn með sínu föruneyti, er nú hafði tekið sér bústað í þorpinu Kamsk mitt í Baraba-flóanum. Þangað voru þorpsbúar flestir frá Elamsk komnir. Af því, sem sagt, að hestur Strogoffs var uppgefinn, bjóst hann nú til nætursetu í Elamsk, til að hvíla hestinn, sem svaraði tólf klukkustundum. Hann var með þeirri dvöl að hlýða því er fyrir hann var lagt í Moskva: að fara austur um Síberíu, í dularbúningi, að nema ekki staðar fyrr en til Irkutsk kæmi, en fara heldur hægt og með hvíldum, en eiga nokkuð á hættu. Eins og nú stóð reið honum þess vegna öllu fremur á að fara hægt og gætilega, en ofreyna ekki þrótt hestsins, sem hann nú átti, og eina hestinn sýnilega á allri þessari leið. Morguninn eftir hélt hann af stað rétt í því er njósnarar bæjarmanna komu með þá fregn, að flokkur Tartara væri sýnilegur tíu verstir fyrir vestan flóann, og væri á hraðri ferð eftir þjóðveginum að honum og austur um hann. Fenin tóku við strax fyrir austan þorpið, en þó var brautin tiltölulega betri og greiðfærari um stund, en óheyrilega krókótt. Strogoff þokaðist því tiltölulega lítið áfram, þó leiðin sem hann fór á hverri klukkustund væri löng. Hann vildi gjarnan geta beygt út af henni og haldið við strikið, en til þess var ekki að hugsa; tjarnirnar og fenin, stargresið, sefið og tágaviðurinn, var hvarvetna ókleifur garður utan brautarinnar. Nei, krókana mátti hann til með að þræða. Daginn næsta á eftir, 1. ágúst, rétt um hádegisbilið kom Strogoff til þorpsins Spaskoé, um 130 verstir frá Elamsk, og var þá kominn fullar 160 verstir austur í dæld þessa hina miklu. Hestur hans var sem næst örmagna á ný, en þó hélt hann áfram fáum verstum lengra, til klukkan 2 síðdegis. Þá var hann staddur í þorpinu Pokowskoé og hesturinn þá svo máttfarinn, að ekki var til hugsandi að fara fótmáli lengra. Það var snemmt að setjast að klukkan 2, en um annað var ekki gera. Hestinn mátti hann til með að hvíla og honum veitti ekkert af seinni hluta dagsins og nóttunni. Morguninn eftir hélt hann af stað snemma, og enn var brautin þolanlega greiðfær, en svo var hún blaut, að heita mátti vatni flotin. Nú var 2. ágúst og klukkan 4 síðdegis var hann búinn að fara 75 verstir frá því um morguninn. Var hann þá kominn til þorpsins Kamsk, þar sem Elamsk-búar voru flestir saman komnir. Umhverfis þetta þorp var landslagið all-ólíkt því bæði austar og vestar. Þorpið stóð á hárri, byggilegri eyju, mitt í þessu ógna hafi af fenjum og forum og var loftslag þar tiltölulega heilsusamlegt. Þorp þetta er sem næst miðjunni á Baraba-flóa frá austri til vesturs, og þar hugðu menn hættulítið að dvelja og voru því fáir enn lagðir á flótta þaðan. Þeir vissu, að stórum flokki Tartara var örðugt að sækja að þeim þar, og að nógur tími var að halda af stað þegar til þeirra fréttist í grenndinni. Ófærurnar allstaðar umhverfis var þeirra öruggasta hlíf. Strogoff langaði eftir fréttum af uppreistinni, en græddi lítið þó hann spyrði um þetta og hitt. Þó þorpið væri á miðbiki uppreistarstöðvanna var það vegna flóans svo gott sem utan við heiminn. Þorpsbúar vissu því harla lítið um þá hluti, er gerðust um hverfis — um uppreistarherinn, sem var óðum að lama alla Vestur-Síberíu. Strogoff vissi miklu meir en þeir um ferðir Tartara, og mundi héraðsstjórinn umhugsunarlaust hafa spurt hann frétta og enda rétt honum hjálparhönd, ef hann hefði grunað hver maðurinn var. En Strogoff var ekki á því, að fræða bæjarmenn um sig eða Tartara. Hann fór ekki á mannamót nema sem allra minnst. Reynslan hafði sýnt honum, að árvekni og varúð var lífsspursmál. Héðan af var aldrei hægt að segja hver það var, sem hann sá eða talaði við. Honum þótti nú ekki lengur nóg, þó hann yrði að gera sér það að góðu, að geta sneitt hjá athygli og eftirtekt, hann langaði til að vera ósýnilegur, en hann átti engan hulinshjálm. Það eina, sem hann gat, var að draga sig í hlé, halda kyrru fyrir á gestgjafahúsinu, en ganga ekkert út í bæinn og það ráð tók hann líka. Hér hefði verið hægðarleikur fyrir Strogoff að skifta um hest, að fá sér jafnvel tvo eða þrjá hesta og sterkan vagn, en skilja eftir hestinn, sem svo dyggilega hafði borið hann yfir allar torfærur vestan frá Omsk. Um þetta hugsaði hann líka, en komst svo að þeirri niðurstöðu, að það gæti máske vakið grunsemi bæjarmanna og ollað umtali, en þó ekki væri ólíklegt, að sér tækist að smjúga gegnum Tartara-vörðinn, sem nú var búinn að skifta Síberíu í tvo helminga, þá vildi hann ekki fyrir nokkurn mun leiða sérstaka athygli eins eða annars að sér með hesta og vagna kaupum. Það mátti líka búast við því, að þar sem nærri var ófær vegur fyrir hnakkhest í flóanum, gæti hann orðið alveg ófær fyrir þrjá hesta samsíða fyrir vagni. Auk þess gat líka sú hættustund komið fyrir mitt í flóanum, að nauðsynlegt væri að beygja út af brautinni fyrir fjandmannaher og fara einhvernveginn gegn um sef og tágaflækjuna. Ef til þess kæmi var heldur von til, að komast áfram með hnakkhest, en vagn þá ekki til neins. Síðar meir, fyrir austan Tomsk, eða Krasnoiarsk, eða í einhverjum hinum stærri þorpum í Mið-Síberíu, var heldur að reyna að hafa hestaskifti. Hvað þennan hest snerti, þá var það sannast, að Strogoff vildi ekki skifta honum fyrir annan hest — til reiðar. Þeir voru orðnir samvanir, skildu hvor annan, og Strogoff hafði miklar mætur á honum, svo ötull og ólatur var hesturinn; hann vissi uppá sínar tíu fingur hvað hann mátti ætla honum. Hann hafði verið heppinn í valinu í Omsk, og það, að hann fekk svona góðan hest, var karlinum, lífgjafa hans, að þakka, því það var hann, sem vísaði honum á eigandann. Auk þess, sem Strogoff þannig þótti svo vænt um hestinn, sýndi hesturinn sjálfur, að hann var allt af að venjast ófærðinni og þreytunni, svo að hver dagleið tók ekki eins mikið á hann eins og fyrstu dagana. Fengi hann sæmilega hvíld á hverjum sólarhring hafði Strogoff von með að hann gæti borið sig slysalaust austur fyrir allan hergarð Tartara. Strogoff afréði því, að vera ekkert á ferli, og af því gestgjafahúsið, sem hann var í, var í útjaðri þorpsins og fáferðugt um þær slóðir, sá hann fáa og fáir sáu hann. Hann var þreyttur sjálfur ekki síður en reiðhesturinn, svo hann gekk snemma til rekkju í því skyni að sofa vel og lengi, eftir að hafa litið eftir því, að hesturinn fengi allt það fóður, sem hann þurfti fyrir nóttina. En honum gekk ekki vel að sofna vært. Allt, sem hann hafði séð og allt, sem hann hafði frétt, síðan hann fór frá Moskva, rann nú upp fyrir hugskotssjónum hans og út frá því leiddist hann ósjálfrátt til að hugsa um hve áríðandi var, að ferð hans gengi fljótt og slysalaust. Byltingin var miklu meiri en stjórnin í Moskva hafði gert sér hugmynd um og Ogareff, svikarinn, var skaðræðismaður, sem ekki var auðgert að yfirbuga. Og þegar svo hann í anda leit keisara-bréfið, sem enn var óhult á brjósti hans og sem óefað hafði að innihaldi þau ráð, er mundu hrífa, þá fylltist hann brennandi þrá til að stökkva af stað og taka enga hvíld fyrr en í Irkutsk. Hann vildi þá gjarnan vera orðinn ari, svo hann gæti svifið hátt í lofti fyrir ofan allar torfærur á veginum og haldið beinu striki alla leið; — vildi gjarnan vera orðinn fellibylur, svo hann gæti ætt um geiminn með 100 versta hraða á hverri klukkustund og án þess að staðnæmast fyrr en hann stæði frammi fyrir stórhertoganum og gæti ávarpað hann þannig: »Hér, háæruverði herra, er bréf frá hans hátign keisaranum!« Klukkan 6 morguninn eftir, hélt Strogoff af stað aftur, með þeim ásetningi að komast um daginn 80 verstir áleiðis, til þorpsins Oubinsk. Eftir 10 versta ferð á þurrlendi — á Kamsk-eynni — kom hann aftur í flóann mikla, og var hann þar svo blautur að ekki sást jarðvegurinn — ekkert nema vatnsagi, sumstaðar um fet á dýpt. Þar varð hann að fara hægt og athuga hvert fótmál með gaumgæfni, enda vandi að þekkja sumstaðar brautina sjálfa frá keldunum, er lágu í allar áttir. Þó fór hann aldrei út af veginum og varð ekki fyrir nokkru slysi eða töf, en náði takmarkinu og tók sér þar næturgistingu, þó enn væri tími til að halda lengra. En það var hvorttveggja að hesturinn þurfti hvíld og það, að daginn eftir ætlaði Strogoff sér að komast 100 verstir áleiðis, til þorpsins Ikoulskoé, og á þeirri leið allri vildi hann hvergi nema staðar. Hann lagði af stað í dagrenning morguninn eftir, enda veitti ekki af, því hvergi er Baraba-flóinn rótverri en á þeim kafla, sem nú var framundan. Á þessum 100 versum lá brautin um enn dýpri slakka, þar sem regnvatnið var saman safnað eins og í undirskál og fékk hvergi framrás. Það var á löngum kafla, að virtist óslitin tjörn, í hvaða átt sem litið var, og í einum stað er tjörn svo stór, að hún hefir verið skírð stöðuvatn — Tehang-vatnið — og er hún vel að því kínverska nafni komin. Var brautin lögð eftir bökkum þess, umhverfis víkur og vogi, á 20 versta vegalengd, og hér var færðin svo ill, að ferðin tafðist að mun, þrátt fyrir alla viðleitni Strogoffs að komast áfram. Hann var heppinn, er hann hætti við vagnakaupin í Kamsk, því hér hefði hann strandað, þó hesturinn hans stiklaði yfir ófærurnar. Þrátt fyrir allar tafirnar og ófærðina náði þó Strogoff til Ikoulskoé um kvöldið klukkan 9, og var þannig takmarkinu náð, en þá var líka hestinum þörf á hressingu og hvíld. Í þessu fjarlæga, útúrskorna flóaþorpi var lítið um fréttir af styrjöldinni. Þær voru helzt engar fáanlegar, því flóabyggðin öll var enn undanþegin árásum Tartaranna, er til þessa héldu sig á harðvellinu bæði vestra — um Omsk, og eystra — um Tomsk. Torfærurnar, sem náttúran lagði á veg Strogoffs, voru nú bráðum á enda. Ef vel gengi vonaði hann að komast austur úr flóanum skömmu eftir hádegi næsta dag. Frá þessum gististað hans voru 125 verstir til Kolyvan, og kæmist hann þangað slysalaust, þá átti hann von á góðum vegi þaðan. Þegar til Kolyvan kæmi voru eftir aðrar 125 verstir, eða um það bil til Tomsk, sem nú var að sögn í höndum sjálfs Tartara-höfðingjans — Feofars Khan. Í Kolyvan átti hann líka von á að fá áreiðanlegar fregnir um uppreistina, svo áreiðanlegar, að vandræðalaust yrði að ákveða hvort ferðinni skyldi heitið um Tomsk, eða langt frá þeim bæ. Flóinn var hættulegur, en var ekki nokkurnveginn víst, að hættan ykist um helming og meir þegar austur kæmi á harðvellið og austur fyrir Obi-fljótið, þar sem Tartaranna var von hópum saman á hverri verst. Það var enginn efi á því, að hættan í flóanum var sem ekkert í samanburði við hættuna, sem honum var búin af mannavöldum. Strogoff reyndi ekki að dylja sig þess sannleika, en svo óttaðist hann ekki þær hættur, en bjóst við, ef á þyrfti að halda, að yfirgefa alla mannavegu, en gera sér sjálfur veg allt austur til Irkutsk. Gerði hann það, var hættan helzta sú, að fóður fyrir menn og skepnur yrði ófáanlegt, því leið hans þá mundi liggja um óbyggðir að mestu leyti. Hvert sem hann sneri, sá hann einhverja hættu, en samt var ekki að hika, ekki eitt augnablik. Klukkan rúmlega 3 síðdegis, daginn eftir, var Strogoff um síðir kominn yfir um þennan ægilega Baraba-flóa og var honum fagnaðarefni að heyra hófadunur á harðvellisgrundum Síberíu, eftir jafnharða orustu við fen og flóa. Hann hafði farið frá Moskva 15. júlí, en nú var 5. ágúst. Það voru því liðnir 20 dagar síðan hann fór að heiman, og þrátt fyrir 3 daga töf við Irtich og 12 klukkustunda töf í Ishim, var hann þó kominn fimm þúsund og fimm hundruð verstir áleiðis frá Moskva. En eftir voru fimtán hundruð verstir til Irkutsk. XVI. Hurð nærri hælum. Strogoff varð þess skjótt var eftir að á harðvellið kom, að það var ekki ástæðulaust að óttast Tartara í grennd við Obi. Sléttan öll var troðin og sporuð eftir hesta-fjölda barbaranna, og var þegjandi vottur þess, að þar hafði herfylking mikil farið um. Það má segja með sanni um Tartara ekki síður en um Tyrki, að það grói ekkert gras á slóðum Tyrkja. Það leyndi sér ekki fyrir Strogoff, að hér þurfti maður að vera vakandi og hafa gát á sér. Í fjarlægðinni og enda í grenndinni, hvarvetna umhverfis, mátti sjá stærri og smærri reykjarstrokur þyrlast í loft upp, er var vottur þess að hús og húsaþorp voru að brenna. Höfðu fyrirrennarar meginhersins kveikt í húsunum, eða var meginherinn kominn fram hjá og hafði skilið eftir þessa brunaröst til endurminningar? Var Feofar Khan máske kominn austur yfir landamæri héraðsins, kominn austur í Yeneseisk-umdæmið? Fyrr en hann fengi afgerandi svar upp á þessar spurningar gat Strogoff ekki afráðið neitt um stefnu sína. Var byggðin virkilega svo gersamlega rúin, að ekki fyndist einn einasti Síberíumaður til að segja fréttirnar? Strogoff leit nákvæmlega eftir mannabýlum til beggja handa, en tvær verstir hafði hann farið, án þess að verða var við nokkra lifandi veru. Þá sá hann kofa einn, sem óðum var að brenna í skógarbelti nokkru framundan. Þegar hann nálgaðist, sá hann mann fáa faðma frá kofanum og utan um hann voru nokkur börn í hvirfingu og öll að gráta. Skammt frá þeim kraup kona, ungleg að sjá, móðir barnanna, og horfði með tárþrungnum augum á aleigu sína leggjast í rúst. Í fanginu bar hún fárra mánaða gamalt barn, er hugsýkislaust var að sjúga næringarlítil brjóst móðurinnar. Innan skamms átti það nú ekki kost á fæðu þaðan nema því fyrr kæmi einhver óvænt hjálp. Eyðilegging og dauði var hvarvetna umhverfis. Strogoff beygði út af brautinni til að tala við gamla manninn. »Viltu svara mér nokkrum spurningum?« sagði hann. »Spurðu hvers þú vilt«, svaraði karl. »Hafa Tartarar farið hér um?« »Já. Þess vegna er hús mitt að brenna«. »Var það herdeild, eða lítill flokkur?« »Herdeild, því eins langt og augað eygir, eru akrar allir eyðilagðir«. »Var emírinn foringinn?« »Já, víst og satt, því fljótið Obi er enda blóði roðið!« »Er Feofar Khan kominn til Tomsk?« »Það hygg ég víst!« »Veiztu, hvort Tartararnir hafa hertekið Kolyvan?« »Það hafa þeir ekki gert, því Kolyvan brennur ekki enn!« »Þakka þér fyrir, vinur! Get ég nokkuð gert fyrir þig og þína?« »Ekkert!« »Vertu sæll!« »Farðu vel!« Strogoff rétti konunni 25 rúblur í gulli, en svo var hún yfirkomin af sorg, að hún gat ekki þakkað honum, enda beið hann ekki. Hann keyrði hestinn sporum og hleypti á sprett austur sléttuna. Svo mikið var víst orðið, að ekki var tilhugsandi fyrir hann að fara um Tomsk. En tiltækilegt virtist, að koma við í Kolyvan, þar sem Tartararnir höfðu enn ekki komið, að því er séð varð. Já, það var sjálfsagt að reyna það; þar varð hann að reyna að birgja sig fyrir annan langan áfanga. Eftir að yfir um Obi var komið, var þess vegna ekki um annað að gera, en leggja út af aðalveginum og sneiða alveg hjá Tomsk. Þegar þannig var ástatt var ekki um viðstöðu að hugsa, enda hikaði Strogoff ekki, eftir að hann hafði ásett sér, hvaða stefnu skyldi taka. Hann lét hest sinn brokka og stökkva í sífellu, því hann langaði til að komast yfir Obi sem fyrst, en þangað voru enn um 40 verstir. En hvernig gat hann búizt við að komast yfir fljótið? Var ferjan enn við líði, eða höfðu Tartarar eyðilagt hana? Væri svo, var gerlegt að hleypa til sunds yfir svo mikið vatnsfall? Reiðhesturinn var nú orðinn meir en slæptur, hann var orðin uppgefinn, sem von var til. Strogoff ætlaði heldur ekki að þreyta hann mikið lengur. Hann ætlaði, sér að fá ólúinn hest í Kolyvan. Það hlaut nú að verða aðal-áfangastöð, nokkurskonar upphafsstöð nýrrar ferðar, því þar fyrir handan var nú öll ferðaáætlun hans breytt orðin. Hingað til hafði hann barizt áfram um héruð í eyði, rænd og rupluð, og þar vitanlega var við allskonar vandræðum að búast. En kæmist hann slysalaust austur fyrir Tomsk, var von til að þjóðvegurinn til Irkutsk yrði opinn fyrir honum á ný. Reyndist það svo, var ferðin auðveld austur um Yeneseisk-héraðið og eftir tiltölulega fáa daga yrði hann þá kominn að takmarkinu — Irkutsk. Náttmyrkrið breiddi sig nú óðum yfir himinhvolfið og fylgdi því inndæll svali eftir hita dagsins. Á miðnætti var öll hin mikla slétta gersamlega hulin i biksvörtum voðum næturinnar. Vindblærinn, sem lék um vanga hans um daginn hvarf algerlega um sólsetrið, svo nú var dúna-logn. Það var allsherjar þögn — ekkert að heyra nema dimman þyt undan hófum hestsins á harðri grundinni og einstöku orð, er Strogoff endur og sinnum ávarpaði gæðing sinn með. Í þessu niðamyrkri þurfti hann á allri varkárni að halda. Það var auðgert að fara út af brautinni, en það hefði verið skaðræði, því hér og þar fram með henni voru nú grafningar, tjarnir og lækir, er grófu sig um sléttuna fram í Obi. Strogoff var þess vegna neyddur til þess að lina ferðina töluvert, en athuga hvert fótmál með nákvæmni, Hann treysti að vísu hesti sínum til að sjá brautina, var búinn að reyna, að það var hættulaust að treysta honum. En hann treysti sínum eigin augum ekki síður. Einu sinni fór hann af baki til þess að fá vissu fyrir stefnu brautarinnar. Á meðan hann var að litast um, virtist honum hann heyra svellandi suðu, en óskýra, í vesturátt. Hann hlustaði nú lengur og virtist honum þá suðan væri lík hófadunum margra hesta á hörðum velli. Lagðist hann þá niður og lagði eyrað ofan að brautinni og hlustaði. »Það er riddaraflokkur á leiðinni frá Omsk,« sagði hann við sjálfan sig, »þeir fara geyst, því dunurnar verða æ greinilegri og skýrari. Eru nú þetta Rússar, eða eru það Tartarar?« Strogoff lagðist niður og hlustaði enn. Já, þeir fóru á harða brokki, hverjir sem það voru. Innan tíu mínútna myndu þeir verða komnir þangað, sem Strogoff var. Hestur hans var uppgefinn og mundi ekki hafa undan. Ef þetta voru Rússar, var þakkarvert að fylla flokk þeirra, en væru það Tartarar, var allt undir því komið að geta komist undan, svo þeir vissu ekki af. En hvernig? Hvar var fylgsni á þessari nöktu sléttu? Hann leit nú alt í kringum sig og til allrar hamingju gat hann greint þústu nokkra í á að giska hundrað skrefa fjarlægð fram undan og til vinstri handan við brautina. Þústan hlaut að vera hrísrunni á sléttunni og þar var helzt að leita eftir fylgsni, þó ekki væri það vænlegt, ef þessir menn væru leitarmenn. Þeir mundu þá að líkum sjá runnann og leita þar. En um annað hæli var nú ekki að gera. Hélt hann því af stað þangað og innan fárra mínútna var hann mitt í runnanum, er var all hávaxinn og enda nokkur smátré í grendinni. Sá hann þá, að þjóðvegurinn lá um þetta hrísbelti og því hlutu leitarmennirnir að fara þar um. Til beggja handa við runnan var sléttan mýrkend og tjörn við tjörn, svo ófært var að fara annarsstaðar en á brautinni. Þar sem runninn var þéttastur fór hann út af brautinni, en er hann var kominn sem svaraði 40 fetum frá henni, kom hann að læk allmiklum. Lengra komst hann því ekki, en hér var hann líka óhultur, nema ef leitað var. Hrísið var hátt, en niðamyrkur og þess vegna engin hætta að hann sæist, jafnvel úr fárra feta fjarlægð. Hann teymdi hest sinn fram á lækjarbakkann og batt hann við hrísið. Sjálfur sneri hann svo við, Læddist upp að brautinni og lá þar í jaðri runnans, til þess að komast eftir hverskyns menn það væru, er kæmu vestan brautina. Hann hafði naumast komið sér fyrir eins og hann vildi, þegar dauflegur ljósglampi gaus upp í flokki riddaranna og rétt á eftir komu upp mörg og glóbjört ljós í flokki þeirra. Þorpararnir höfðu kveikt á blysum og beið þá Strogoff ekki boðanna í runnajaðrinum, en skreið með hægð lengra inn í hann og fjær brautinni. Honum þótti líkast að þeir væru að lýsa eftir honum, einkum þar sem bugar voru á brautinni. Það var því afsakandi, þó hann ímyndaði sér, að þeir kynnu að leita hans með logandi ljósi í runnanum öllum, enda dró hann sig fram að læknum og bjó sig til að kasta sér í hann hvenær sem þörf þætti. Þegar leitarmennirnir komu að runnanum, námu þeir staðar og stigu af baki. Þeir voru þar um 50 talsins, Tíu eða tólf þeirra voru með blys, er lýstu upp sléttuna umhverfis þá á allmiklu svæði. Strogoff athugaði hverja þeirra hreyfingu og komst, von bráðar að því, sér til ósegjanlegrar gleði, að þeir ætluðu ekki að leita í runnanum, heldur ætluðu þeir að á þarna. Þeir ætluðu að hvíla hestana og höfðu innan stundar tekið af þeim reiðfærin og slepptu þeim lausum á sléttuna. Sjálfir settust leitarmennirnir niður hjá brautinni, tóku upp malpoka sína og fengu sér að borða. Strogoff hafði vitið hjá sér ekki síður en hugrekkið, hvernig sem á stóð. Hann fýsti nú að sjá komumenn greinilega, og ef unnt væri að heyra á tal þeirra. Í því skyni skreið hann nú með hægð fet fyrir fet gegnum grasið í áttina til þeirra. Þegar hann hafði nálgast þá, eins og hann framast þorði, sá hann, að þeir tilheyrðu liði Tartaranna er sátu í Omsk. Þeir voru tilheyrandi þeim mannflokki af Mongola-kyni, sem nefndur er Usbeck-flokkar, og sem er mannmargur í Tartara-héruðunum. Þessir menn voru vel vaxnir, heldur meira en meðalmenn á hæð, og ásýndin grófgerð og soraleg. Á höfðinu báru þeir svartar sauðskinnshúfur, sem þeir nefna »talpak«, og á fótunum höfðu þeir hælahá stígvél úr ólituðu eða gulu leðri, með heljarlegri totu fram af tánum, og beygð var upp aftur eins og skíðatá, nema hvað beygingín var meiri. Líktust því stígvél þeirra mjög miðalda stígvélunum almennu. Í peysum voru þeir nærskornum, en stoppuðum með bómull, og með belti um mittið, lituðu svörtu, en með rauðum bryddingum. Á herðunum báru þeir kápur skrautlitar, og á beltinu bogmyndað sverð og langa sveðju. Um öxl sér höfðu þeir pönnubyssu og við aðra hliðina skjöld. Hestar þeirra, sem voru dreifðir um sléttuna á beit, voru eins og eigendurnir, af Usbeck-kyni. Ljósið frá kyndlunum lýsti svo upp balann, sem hestarnir voru á, að þeir sáust glöggt. Það eru heldur litlir hestar, þessir Usbeck-hestar, en eru yfirgengilega kraftmiklir og þolnir. Þeir kunna helzt ekki annan gang en brokk. Riddararnir voru undir stjórn tveggja flokksforingja, yfirforingja, sem nefndust »pendja-baschi« og sem þýðir fimtugs-höfðingi, og undirforingja, sem nefndist »deh-baschi« og þýðir tíu manna foringi. Yfirmenn þessir höfðu hjálma á höfði og voru í nokkurskonar hálf-brynjur, og við hnakkboga sinn höfðu þeir bundinn ofurlítinn lúður. Þetta voru þeirra foringja einkenni. Yfirforinginn var knúður til að láta menn sína hvílast, úttaugaða eftir langan og illan áfanga. Sjálfur gekk hann, ásamt undirforingja sínum, aftur og fram um sléttuna meðan menn hans lágu og hvíldu sig. Reyktu þeir þá »beng« eða lauf af hamp-plöntu, sem er aðal-efnið í »haschish«-tóbakinu, er Asíumenn nota svo mjög. Gengu þeir þá svo nærri leyni Strogoffs, að hann heyrði samtal þeirra, er fór fram á máli Tartaranna. En þó þeir færu aðeins fá fótmál frá honum urðu þeir hans ekki varir. Það var fróðlegt fyrir hann að heyra samtal þeirra, enda vöktu allra fyrstu orðin, sem hann heyrði þá tala athygli hans. Þeir voru að tala um hann og engan annan. »Það er ómögulegt, að hann sé langt á undan okkur,« sagði fimtugshöfðinginn. »Og jafn ómögulegt, að hann hafi farið nokkra aðra leið, en þessa, um Baraba-flóann«. »En hver veit hvort hann hefir yfirgefið Omsk?« sagði hinn, spyrjandi. »Hann er máske í felum í einhverju húsinu í borginni enn«. »Ja, þess væri sannarlega óskandi. Ogareff óbersti þyrfti þá ekki að hræðast að boðskapurinn, sem sendiboðinn er auðvitað með, nokkurn tíma nái til Irkutsk«. »Þeir segja að hann sé Síberíumaður, að hann sé fæddur hér eystra«, sagði tíu manna, foringinn eftir litla þögn. »Sé svo, þá hlýtur hann að vera landslaginu öllu gagnkunnugur og þá ekki ómögulegt, að hann hafi yfirgefið Irkutsk-brautina og ætli sér svo að koma á hana einhversstaðar eystra«. »En þá ættum við líka að vera komnir fram fyrir hann«, svaraði fimtugshöfðinginn. »Við fórum af stað frá Omsk innan klukkustundar á eftir honum og við höfum farið beinustu leið og eins hart og hestar okkar hafa komist. Það er því ekki nema um tvennt að tefla: annað hvort hefir hann falið sig í Omsk, eða við verðum fyrri en hann til Tomsk og getum þá stemt stigu hans. Það er útséð um það að minnsta kosti, að hann kemst ekki til Irkutsk«. »Hún er sleip þessi gamla Síberíu-kona, sem augsýnilega er móðir hans«, sagði tíu manna foringinn eftir litla þögn. Strogoff fékk hjartslátt, þegar hann heyrði þau orð, og lagði sig til að heyra meira. »Já«, sagði fimtugshöfðinginn, »hún þrætti rækilega fyrir að þessi kaupmaður, sem lézt vera, væri sonur sinn, en það var nú um seinan. Ogareff óbersti lætur ekki veiða sig þannig, og eins og hann sagði, veit hann vel, þegar þar að kemur, hvernig losa má um tungu kerlingar.« Hvert þetta orð fyrir sig var sem sverðstingur í hjarta Strogoffs. Nú voru féndurnir ekki lengur í efa um hver hann var. Þeir vissu að hann var sendiboði keisarans! Riddaraflokkur á hælum honum hlaut að mega honum meira, hlaut að gera honum alla vegi ófæra. En það sem hræðilegast var, var það, að móðir hans var nú fangi hjá hinum miskunnarlausa Ogareff, sem þegar hafði lofað að pína hana til sagna. Strogoff vissi hvað það þýddi — líflát hennar. Hann þekti hana svo, að hún mundi fyr láta lífið, en uppljúka sínum munni. Strogoff hafði til þessa fundizt að hann gæti ekki hatað Ogareff meira en hann þegar gerði, en þó brá nú svo við, að þegar hann heyrði þetta, reis upp ný og stór hatursalda í brjósti hans. Níðingurinn, sem hafði svikið föðurlandið, ásetti sér nú ekki einungis að elta hann sjálfan uppi og handsama, heldur einnig að pína lífið úr móður hans. Það var þyngsta bölið. Tatara-foringjarnir héldu áfram tali sínu og frétti Strogoff þannig meðal annars, að orusta var nálæg í Kolyvan eða grendinni, milli Tartara og rússneskra hermanna, sem komu norðan úr héruðunum. Var búist við, að þeir væru komnir að Obi-fljótinu, og að þeir héldu áfram hvíldarlítið í áttina til Tomsk. Þessir hermenn voru ekki nema um tvö þúsund talsins, og því auðséð hrakför þeirra í höndum meginhers Tartara. Þeir gátu ekki staðizt gegn því ofurefli og afleiðingin af falli þeirra mundi verða sú, að bönnuð yrði brautin til Irkutsk. Hvað sjálfan hann snerti, komst Strogoff að því, að fé var lagt til höfuðs honum og að almenn skipun hafði út gengið frá Ogareff um að taka hann dauðan eða lifandi. Af þessu öllu varð auðsætt, hve áríðandi var fyrir Strogoff að komast af stað fyr en riddararnir. Það var lífsspursmál að komast austur yfir Obi á undan þeim. En til þess að geta það, varð hann að fara af stað áður en þeir færu að leggja á hesta sína. Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun, bjóst Strogoff þegar til að framfylgja henni. Það var heldur ekki til setu boðið. Það var auðvitað, að yfirforinginn mundi ekki lofa mönnum sínum að hvílast nema sem styzta stund, klukkustund í mesta lagi, enda þótt hestar þeirra væru uppgefnir ekki síður en hestur Strogoffs. Svo var líka um að gera að hagnýta myrkrið til að komast burt úr runnanum og austur á sléttuna. Það var fullmikil vonleysa, eins og dimt var, að leggja af stað frá fylgsni fá skref aðeins frá fjandmannaliðinu. Sem sagt, lá Strogoff á, því nú var ekki nema klukkustund til aftureldingar og þá einu klukkustund var um að gera að nota sem bezt. En samt fór hann sér hægt að öllum hreyfingum. »Flas er ekki til fagnaðar«. Það var hyggilegra að hugsa vel málið og meta öll tækifæri vandlega áður en lagt var út í hættuna. Afstaðan var sú, að ekki var tilhugsandi að læðast burt um þann hluta runnans, er fjarstur var brautinni. Lækurinn, breiður, djúpur og með leðjubotni, bannaði það gersamlega. Hrísbrúskarnir voru líka svo háir og þéttir, að þeir voru ókleifir fyrir mann og hest. Eftir læknum varð ekki farið vegna leðjunnar í botninum, þó dýpið hefði annars gert það mögulegt. Hann sjálfur og hesturinn því fremur, hefði sokkið að hnjám í aurinn í hverju spori. Fyrir handan lækinn voru sömu ókleifu hrísbrúskarnir. Um runnann, nær eða fjær, var því ekki að gera, sem farveg fyrir flóttamann. Það mundi heyrast til hans, hann mundi svo að vörmu spori umkringdur og — handtekinn. Eini gerlegi vegurinn, ógurlegur eins og hann þó var undir kringumstæðunum, var þjóðvegurinn. Var helzta vonin sú, að halda nú eftir runnanum og austur fyrir hann og með fram þeim jaðri hans að komast á brautina. Þessi leið var á að geta 150 faðmar og þá leið þurfti Strogoff að komast, svo að enginn yrði var við. Þegar svo á brautina var komið, var ekki um annað að gera, en stíga á bak og hleypa svo harðan sprett og langan, sem framast mátti búast við að hinn góði, en uppgefni gæðingur þyldi. Hann hafði farið margan ærlegan sprett á langri leið og vondri, en nú lá fyrir honum að gera sitt mesta og bezta skeiðhlaup. Og eins vel og ekki mátti búast við að sá sprettur yrði hans síðasti, að hann félli dauður á fljótsbakkanum, ef hann næði svo langt. Ef svo færi og ef engin ferja væri fáanleg, lá ekki annað fyrir Strogoff en þreyta við strauminn á sundi. Allt þetta hafði sendiboðinn hugfast og við öllu þessu bjóst hann. En vaxandi hætta hafði þau ein áhrif að hugrekki hans óx að sama skapi. Líf hans, erindið til Irkutsk, heiður og ef til vill lausn föðurlandsins og — líf aldurhniginnar móður hans, allt þetta var í veði og knúði hann til framsóknar, hverju sem rigndi. Svo var þá að leggja af stað. Það mátti ekki dragast lengur, því það mátti nú þegar sjá hreyfingar meðal hermannanna, er lágu í grasinu við brautina. Þeir voru farnir að hugsa um að taka sig til. Nokkrir þeirra voru komnir á kreik, farnir að ganga aftur og fram um brautina, til að rétta ögn úr sér áður en þeir legðu af stað. Hestar þeirra voru nú eins og ósjálfrátt farnir að hnappa sig saman og nálgast herra sína, og sumir þeirra enda komnir inn í runnann með fram brautinni. Strogoff hafði komið til hugar að grípa einn þeirra hest, en kom jafnframt í hug, að þeir væru engu síður þreyttir en hans. Það var líka heppilegast að treysta enn á hestinn, sem að undanförnu hafði þjónað honum svo vel. Til allrar hamingju höfðu Usbeck-hestarnir ekki orðið hans varir. Þeir höfðu ekki komist nógu langt inn í runnann enn, og svo hafði hans góði hestur lítið sem ekkert hreyft sig þaðan, sem hann var látinn bak við buskana á lækjarbakkanum. Strogoff læddist nú um hrísið í áttina til hests síns, og þegar hann kom þangað sá Strogoff að hann hafði lagst. Hann hvíslaði að honum og klappaði honum og strauk, og eins og hesturinn skildi hvert orð, reis hann þegar á fætur og svo laglega, að ekkert heyrðist til hans. Kyndlarnir voru nú til allrar hamingju útbrunnir, svo nú féll á niðamyrkur, og virtist nú enn svartara en áður, eins og æfinlega, þegar ljós er nýslokkið. Án þess að nokkuð heyrðist beizlaði hann nú hestinn, athugaði gjarðir og ístöð með nákvæmni og svo lagði hann af stað og teymdi hestinn. Og rétt eins og hesturinn vissi að nú reið á að gætilega væri farið, fylgdi hann í fótspor húsbóndans án þess að láta nokkuð til sín heyra. En Usbeck-hestarnir heyrðu vel. Nokkrir þeirra litu upp, spertu eyrun og fóru svo af stað í áttina á eftir Strogoff. Strogoff hélt á pístólu í hægri hendinni, tilbúinn að skjóta fyrsta Tartarann, er veitti sér eftirför. En það kom ekki til þess. Hann náði brautinni fyrir handan runnann slysalaust. Svo mikið var þá unnið. Það var fyrirætlun hans að stíga ekki á bak fyrr en í síðustu lög, til þess því síður sæist þústa á brautinni. Hann mundi eftir sveig á brautinni í 30-40 faðma fjarlægð og þangað vildi hann ná, áður en hann stigi á bak og byrjaði lífreiðina. En svo illa vildi til, að um leið og hann kom að brautinni, fann sá Usbeck-hesturinn, sem næstur honum var, lykt af hesti lengra burt, hneggjaði þá og fór að brokka í áttina til hans. Eigandi hans hljóp þegar á eftir honum, og hefir þá komið auga á þústu nokkra á hreyfingu fram undan, því hann kallaði til félaga sinna og bað þá gæta sín. Við ópið hlupu Usbeckingar allir á fætur, þutu til hesta sinna og lögðu við þá beizlin. Þegar svona var komið var ekki um annað að gera fyrir Strogoff en hlaupa á bak og hleypa á sprett. Hann heyrði foringjann hvetja menn sína til framsóknar. Hann var kominn á ferðina, en þeir voru enn ekki búnir að söðla hesta sína. Það var vinningur þó lítill væri. Í þessum svifum heyrði hann skothvell, og á næsta augnabliki smaug kúla gegnum úlpu hans. Hann gaf sig ekkert að því, leit ekki einu sinni um öxi, en herti á hestinum þeim mun meira, er nú fór á harða stökki austur sléttuna. Usbeckingar voru harðhentir, því ekki liðu tvær mínútur, til þess, er hann heyrði hófadyn margra hesta á harða stökki á eftir sér. Dagsbrúnin blikaði nú niður við sjóndeildarhringinn í austri og skifti þá þegar svo um á nakinni sléttunni, að sjá mátti marga faðma frá sér. Eftir litla stund leit Strogoff um öxl sér og sá hvar einn maður var langt á undan hópnum. Hann hafði betri hest en hinir og reið sem mest hann mátti. Þó dimmt væri, sá Strogoff, að það var tíu manna höfðinginn, er svo hart sótti að og hann sá einnig, að saman dró með þeim. Án þess að hægja ferðina eina ögn, sneri Strogoff sér til hálfs við í hnakknum, rétti út hendina og miðaði eitt augnablik. Svo lét hann skotið ríða af pístólunni, en kúlan kom í brjóst Tartaranum og byltist hann af baki. Nú var augnabliks hlé. En meginflokkurinn nálgaðist skjótt og hvatti hver annan til framsóknar með orgi og óhljóðum, en enginn skifti sér um hinn særða. eða dauða undirforingja. Þeir létu hann eiga sig. Þannig leið hálf klukkustund, svo að hvorki dró sundur eða saman, og svo langt á milli, að skotfæri voru til einskis. En Strogoff fann, að smá dró af hesti sínum og bjóst eins vel við, að hann þá og þegar dytti og stæði ekki á fætur framar. Nú var all-ljóst orðið, þó ekki væri sólin komin upp. Fram undan, á að gizka í tveggja versta fjarlægð, var að sjá óskýra gulleita rönd og þar sáust einnig nokkur tré á stangli. Þetta var Obi-fljótið, sem hér blankaði fyrir og sem fellur hér frá suðvestri til norðausturs. Fellur það eftir dæld í sléttunni og eru sem engir bakkar að því. Nú var dregið svo saman, að tiltækilegt var að skjóta. Dundi þá sífeld skothríð á Strogoff, en skaðaði hann samt ekki. Hann skaut sjaldnar en hinir, en þó oft, æfinlega þegar einhver einn riddaranna komst fram fyrir aðalhópinn. Og hann var þeim mun hæfnari en þeir, að hann skaut aldrei til ónýtis. Fyrir hverju skoti hans hneig einn Usbeck-riddari til jarðar, og í hvert skifti, sem einn féll, ráku hinir upp grimmilegt hefndar-org. Lífreið þessi hlaut samt að hafa óþægilegan enda fyrir Strogoff. Hestur hans riðaði af þreytu, en þó bilaði hann ekki. Hann flutti eiganda sinn heilu og höldnu fram á fljótsbakkann. En þá var svo saman dregið, að Usbeckingar voru ekki meira en 30 faðma á eftir. Allt var í eyði við fljótið. Engin ferja, enginn bátur sýnilegur. »Vertu nú hugrakkur, hesturinn minn góði!« sagði Strogoff við gæðing sinn, eins og maður væri. »Eina tilraun enn, og þá seinustu!« Og umsvifalaust hleypti hann út í fljótið, sem hér var nálægt 300 faðmar á breidd. Straumkastið var svo mikið, að helzt enginn óþreyttur hestur hefði orkað að vaða, þó niðri hefði náð. Hestur Strogoffs var allt of þreyttur til þess að stríða við strauminn og standa á fótunum. Hann reyndi heldur ekki til þess, en kastaði sér því nær á hliðina og tók sundtökin. »Það er óvandari eftirleikurinn«, en þó leizt Usbeckingum ekki þannig á í þetta skifti. Þeir staðnæmdust á bakkanum, orguðu af heift, en þorðu ekki að leggja út á djúpið. Það sannar bezt hvað óbilandi var hugrekki sendiboðans. Foringi riddaranna þreif þá í bræði sinni byssuna, miðaði á Strogoff og hleypti af. Skotið sakaði Strogoff ekki, en það kom í síðu reiðskjótans góða, og blessuð skepnan, sem með frægð og sigri hafði svo lengi borið Strogoff, sökk nú dauður og laus við alla þreytu niður í freyðandi straumröstina. Fari hann vel. Hann vann sitt köllunarverk með trú og dyggð og dugnaði. Strogoff losaði sig við ístöðin og steypti sér í strauminn í skæðustu kúlna-drífu. Eftir litla stund náði hann austurbakkanun, stökk á fætur og hvarf inn í sefið, sem þar var hátt og þétt. XVII. Fréttaritararnir stríða. Strogoff var nú í bráðina tiltölulega óhultur, en óálitlegar voru kringumstæður hans. Hesturinn hans hinn góði, var nú ekki lengur til, var hniginn í valinn og horfinn í fljótinu Obi. Ekki gat hann lengur borið hann. Hvað var nú til ráða, hvaða líkur á að hann nokkurn tíma næði takmarki sínu? Nú var hann fótgangandi, vistalaus, mitt í héraði sem eytt var að allri bygð og björg og umkringdur af njósnurum og herflokkum Tartaranna. Og enn var langt til endastöðvanna — til Irkutsk. »Samt skal ég komast þangað!« sagði hann við sjálfan sig, sem svar upp á allar efasemdirnar, sem risu upp í brjósti hans. »Guð heldur verndarhendi sinni yfir föðurlandi mínu.« Hann var nú ekki í hættu fyrir Usbeck-riddurunum. Þeir höfðu ekki lagt út í fljótið, og hafa þeir enda máske hugsað sér Strogoff druknaðan. Því eftir að hann sökti sér í strauminn, sáu þeir hann ekki. Strogoff dró sig upp gegnum sefið og upp á há bakkann. Var hann þar brattur og sleipur mjög, því vatnið var óðum að þverra og hafði skilið eftir leirleðju mikla framan í bakkanum. Af þessu leiddi að gangurinn upp á bakkann var erfiður mjög. Þegar þar kom, nam Strogoff staðar og hugsaði um hvað gera skyldi. Til Tomsk vildi hann ekki koma, því þar sat Feofar Khan og meginherinn. En í eitthvert þorp mátti hann þó til með að koma, að minsta kosti á einhverja póststöð. Hest mátti hann til með að kaupa, og að honum fengnum var vandinn á enda í bráð. Hann gat þá farið og ásetti sér að fara út fyrir alla mannavegi og ekki koma á Irkutsk-brautina aftur fyr en suðaustur nálægt, Krasnoiarsk. Þaðan, ef vel gengi, vonaði hann að vegurinn yrði fær ennþá og að hann kæmist þaðan vandræðalaust suðaustur um Baikalvatns-héraðið. Strogoff endaði röksemdaleiðslu sína með því að ganga af stað í suðaustur. Tvær verstir fram undan honum, upp með Obi-fljótinu og skamt frá því, lá laglegur lítill bær á lágum hæðum eða öldum. Í fjarlægðinni sáust nokkrir kirkjuturnar, gyltir og grænir, hreykja sér móti hvítgráu morgunloftinu. Þessi bær var Kolyvan, sumarheimkynni allra, sem geta flúið frá Kamsk og öðrum stöðum í Baraba-mýrunum með sínu banvæna lofti og flugnaeldi. Eftir síðustu fregnum er Strogoff hafði, var þessi bær ekki enn í höndum Tartaranna. Meginherflokkar Feofars Khan höfðu skift sér og hafði vinstri armurinn haldið beint norður til Omsk, en hægri fylkingararmurinn austur til Tomsk. Héraðið allt á milli hafði því að miklu leyti sloppið til þessa. Fyrirætlun Strogoffs var nú, að komast til Kolyvan áður en Usbeckingarnir, sem á eftir honum voru, kæmust yfir fljótið og þangað heim, en sem nú voru á ferðinni upp fljótsbakkann að norðvestan. Þar vonaði hann að geta keypt sér reiðhest og ætlaði ekki að hika við að gjalda fyrir hann tífalt gangverð, ef á þyrfti að halda. Og svo ætlaði hann viðstöðulaust að halda af stað, en beygja út af alfaraveginum og far beint suðaustur um sléttuna. Klukkan var nú orðin 3 um morguninn og albjart orðið. En ekkert lífsmark var sýnilegt á bændabýlunum í grennd við Kolyvan. Íbúarnir höfðu augsýnilega óttast komu barbaranna, tekið sig svo upp og flutt búferlum með allt sitt eitthvað langt norður í Yenesisk-héraðið. Strogoff var á harðri göngu í áttina til Kolyvan, þegar hann allt í einu heyrði skotdynki í fjarlægðinni. Hann nam þá staðar og hlustaði. Gekk hann strax úr skugga um, hvað um var að vera. Hinar jöfnu, stóru og þungu drunur voru auðþekktar, og svo voru smáhvellirnir, svo skarpir og skerandi, er gnæfðu yfir hinar dimmu drunur. »Bæði fallbyssur og haglabyssur«, hugsaði Strogoff. »Smáflokkar Rússa eru farnir að kljást við hergarð Tartara. Guð gefi að ég komist til Kolyvan á undan þeim«. Ályktun Strogoffs var rétt. Skothríðin nálgaðist óðum og hvellirnir og drunurnar urðu æ skýrari og skýrari. Til vinstri handar við þorpið (fyrir austan það) drógst nú innan stundar saman reykjar- og gufumökkur, sem hvíldi yfir grundinni eins og móða — ekki dökkur reykur, heldur gráhvítir skýjaflókar, eins og stórskotahríð æfinlega framleiðir. Usbeck-riddararnir fyrir vestan fljótið höfðu numið staðar og biðu eftir endalokum orustunnar. Strogoff hafði þá ekkert að óttast af þeirra hálfu og hélt því hiklaust áfram til þorpsins. Skothríðin fór vaxandi — varð æ tíðari og ákafari og nálgaðist óðfluga. Drunurnar voru nú ekki lengur óskýr ómur, heldur greinileg hrota af hvelli eftir hvell. Reykjarmóðan smályftist nú upp frá jörðinni og sýndi þá greinilega, að fylkingarnar færðust suð-vestur-eftir — nær og nær Kolyvan. Af því mátti ætla að ráðist yrði á þorpið að norðanverðu. Var nokkur von til að hermenn Rússa væru svo mannmargir, að þeir gætu staðist áhlaup Tartaranna, eða væri þorpið í höndum Feofars Khan, var þá nokkur von að Rússar gætu hrifið það úr höndum þeirra? Úr þessari spurningu gat Strogoff ekki leyst, því hann vissi ekkert um ástæðurnar. Hann var því hálfgert ráðþrota, vissi ekki hvað heppilegast var að taka fyrir. Hann átti eftir til þorpsins, svo sem hálfa verst, þegar hann fyrst sá eldstólpa standa upp úr húsum í bænum. Augnabliki síðar byltist einn kirkjuturninn, brunninn eins og kveikur. Var því hrikaleikurinn þegar hafinn í þorpinu? Strogoff neyddist til að álíta að svo væri. Eldstraumarnir upp frá húsunum voru vottur þess, að Tartarar og Rússar voru að bítast og berjast á götum bæjarins. Var þá viturlegt að leita þar hælis? Var ekki hætta á, að hann þá yrði fangaður, og að úti væri um bréfið til stórhertogans? Var von til að hann slyppi úr Kolyvan, eins og hann slapp úr Omsk? Allar þessar spurningar og fleiri risu nú upp í huga sendiboðans og nam hann staðar óviss í hvaða stefnu hann skyldi taka. Var heppilegt að reyna að smjúga fótgangandi um sléttuna fyrir utan bæinn og halda áfram gangandi, þó seinlegt væri, lengra austur, til þorpsins Diachinks til dæmis og kaupa þar hest, hvað sem hann kostaði? Þó óaðgengilegt væri, virtist þetta heppilegasta ráðið. Samstundis sneri hann frá fljótinu og stefndi austur á sléttuna fyrir utan Kolyvan. Skothríðin í þorpinu var nú orðin ægilega mikil og húsabrennan svo stórkostleg, að ætla mátti fullan fjórðung bæjarins í báli. Strogoff var á harðahlaupi austur sléttuna í þeim tilgangi að ná til lítils skógarbeltis, og athafna sig þar, þegar hópur af Tartara riddurum kom þeysandi, eftir sléttunni fram undan. Búið var með það! Það var ekki viðlit að halda lengra í þessa áttina. Riddararnir fóru geyst og stefndu til Kolyvan. Strogoff, fótgangandi, hafði enga von um að komast undan þeim. En skógarbeltið utanvert við bæinn var nú rétt við hendina, og hittist svo á, að Strogoff kom auga á húskofa mitt á meðal trjánna. Þangað var þá að stefna, fela sig þar og kaupa eða taka sér einhverja lífsnæringu, því hann var máttvana vegna hungurs, ekki síður en þreytu. Það var æði kippur til hússins og hljóp nú Strogoff þangað, og er hann nálgaðist það, sá hann að það var símstöð. Tveir þræðir lágu frá því bæði austur og vestur, og einn þráður lá heim í bæinn — Kolyvan. Undir kringumstæðunum mátti ætla að það væri í eyði, en þó svo væri, þá gat Strogoff að vændum falið sig þar og beðið til kvölds, ef nauðsyn krefði, áður en hann legði út á sléttuna aftur, sem nú var þakin Tartaraspæjurum og varðmönnum. Hann hélt sprettinum heim að dyrum og hratt hurðinni upp. Sá hann þá, að húsið var ekki autt. Það var einn maður fyrir innan borðið, tilbúinn að senda símskeyti svo langt sem vírinn náði. Símþjónninn var ungur maður, kyrlátur mjög og rólegur, eins og ekkert af því, sem úti fyrir gerðist, kæmi honum eina ögn við. En trúverðugur þjónn var hann og beið búinn að senda fregnir austur og vestur meðan tiltök voru. Strogoff gekk viðstöðulaust upp að borðinu og spurði þreytulega hvað hann gæti sagt sér í fréttum. »Ekkert«, svaraði símþjónninn brosandi. »Eru Rússar og Tartarar að eigast við?« »Svo eru þeir að segja«. »En hvorum gengur betur?« »Ég veit það ekki«. Þvílíkt kæruleysi og þvílík rósemi, mitt í hinum tryllta æðisgangi í grendinni, var nærri ótrúleg. »Hefir vírinn ekki verið högginn enn?« »Jú, milli Kolyvan og Krasnoiarsk, en hann er óhögginn enn vestur á landamæri Evrópu. Það má enn senda skeyti vestur«. »Stjórnarskeyti, þegar á þarf að halda, en þess utan fyrir hvern, sem frambýður borgun. Það kostar 10 kópeka fyrir hvert orð, og ég er tilbúinn þegar þér þóknast, herra minn«. Strogoff var í þann veginn að segja þessum flegmatiska símþjóni, að hann hefði ekkert skeyti til að senda, en að hann æskti eftir litlum bita af brauði til að svala hungrinu, þegar dyrnar opnuðust á ný. Strogoff hélt að þar væru Tartarar á ferðinni og bjóst til að kasta sér út um gluggann. En það voru aðeins tveir menn sem komu og voru í engu áþekkir Törturunum. Annar þeirra hélt á blýantsrituðu blaði og snaraði hann sér fram fyrir hinn við dyrnar, og komst á undan honum upp að borðinu. Þarna voru komnir tveir menn, sem Strogoff varð steinhissa að sjá, og sem ekki var neitt undarlegt. Hann var síst að hugsa um þá, og hafði ekki komið í hug, að sjá þá nokkurn tíma aftur. Þessir menn voru fregnritararnir tveir: Harry Blount og Alice Jolivet. Þeir voru nú ekki lengur ferðabræður, heldur keppinautar, óvinir helzt, sem ekki hugsuðu um annað en yfirbuga hver annan í fréttasending af vígvellinum. Þeir höfðu farið frá Ishim fáum stundum síðar en Strogoff og þeir höfðu náð til Kolyvan á undan honum. Það stafaði af þriggja daga legu hans í kofanum á bökkum Irtich-fljótsins. Þeir höfðu báðir verið áhorfendur að orustunni fyrir utan bæinn, en hlupu jafn snemma af stað til símstöðvanna, þegar leikurinn barst inn á göturnar í bænum. Hvor um sig vildi vera á undan hinum með fregn vestur til Norðurálfu, af því sem nú var að gerast, og jafn snemma komu báðir að húsdyrunum. Strogoff gekk út að veggnum þar sem skuggsýnt var, því hann vildi ekki verða á vegi fyrverandi samferðamanna sinna. Þeir sáu hann heldur ekki, þótt hann sæi og heyrði það sem fram fór. Hann átti því von á að frétta eitthvað um það, sem gerðist í bænum, og fá vitneskju um hvort tiltækilegt væri fyrir sig að fara inn í bæinn og dyljast þar um stund. Englendingurinn komst fram hjá félaga sínum í dyrunum og náði því fyr að borðinu, en Fransmaðurinn varð að bíða, og var óþolinmæði hans augsýnileg. Það var ekki siður hans að sýna óþolinmæði, en nú gat hann ekki að sér gert. Hann stappaði fótunum í gólfið í bræði sinni. »Tíu kópeka«, sagði símamaðurinn um leið og hann tók við blaðinu. Og Englendingurinn tók hrúgu af rúblum upp úr vasa sínum og lagði þær á borðið, en Fransmanninum varð svo við þá sjón, að hann var sem steini lostinn. »Ágætt!« sagði símamaðurinn og fór svo með allra mestu hægð og rósemi að lesa skeytið, sem hann hafði tekið við. Hann las það upphátt, skýrt og greinilega, þannig: »Daily Telegraph, London. Frá Kolyvan í héraðinu Omsk í Síberíu. 6. ágúst. Orusta milli Rússa og Tartara (lesturinn var svo skýr, að Strogoff heyrði hvert orð út í hornið, þar sem hann stóð). Herflokkur Rússa orðinn undir og mannfall mikið. Tartarar eru að taka Kolyvan í dag.« Þannig endaði þetta skeyti. »Nú er minn tími kominn!« sagði Fransmaðurinn, sem hélt á skeyti til »frænku« sinnar í París. En það var nú ekki tilgangur Englendingsins að sleppa haldinu svona undir eins. Hann ætlaði sér að halda símaþjóninum við vinnuna og senda nýjar fregnir undir eins og hann næði í þær. Hann vék þess vegna ekki hársbreidd. »En þú ert búinn!« sagði Fransmaðurinn. »Nei, ég er ekki búinn!« svaraði Englendingurinn með hægð, og skrifaði um leið með hraðri hendi nýtt skeyti, sem hann svo fekk símþjóninum, sem svo las þessa nýju fregn eins hátt og áður, en það var gömul vísa eftir skáldið Cowper. Englendingurinn var sem sé farinn að síma blaði sínu vísnarugl, sem hann hafði lært í ungdæmi sínu. Þetta gerði hann til þess að skeytavélin hefði eitthvað að starfa og að hann þyrfti ekki að sleppa Fransmanninum að. Það gat máske komið til að kosta blaðið hans nokkrar þúsundir rúbla, en svo fékk það þá líka fyrstu fréttirnar og það var aðal-atriðið. Blöðin á Frakklandi gátu beðið! Það er hægra að hugsa sér en lýsa því, hvernig Fransmanninum var innanbrjósts, þegar hann heyrði þessa stöku lesna, þó hann undir öðrum kringumstæðum hefði álitið það heiðarlegt stríð. Hann gerði tilraun til að þvinga símþjóninn til að taka sína frétta-grein áður en hann sendi stökuna. En það hreif ekki. »Þessi herramaður hefir rétt til að senda, hvað sem honum sýnist«, sagði símþjóninn brosandi og benti Englendingnum. Svo sagði hann ekki meira, en hélt áfram að senda vísur eftir Cowper, sem nýjungar til »Daily Telegraph«! En meðan gekk Englendingurinn út að glugganum, horfði með kíkir heim til bæjarins og athugaði alt sem gerðist. Innan stundar kom hann aftur að borðinu og þá bætti hann við fréttina: »Tvær kirkjur eru í báli. Eldurinn virðist vera að aukast til hægri handar.« Og svo lét hann þá aðra bögu eftir Cowper fjúka. Fransmaðurinn fór nú að finna hjá sér löngun til að taka fyrir kverkarnar á hinum æruverða fregnritara blaðsins »Daily Telegraph«. Hann reyndi á ný að fá fregnir sendar á undan eldgömlum, marklausum kveðlingum, en til einskis. Símþjónninn brosti aðeins og svaraði með hægð: »Það er hans! Hann hefir leyfi til að senda hvað sem honum sýnist — fyrir tíu kópeka orðið!« Næst sendi hann þessa viðbót við fréttirnar: »Rússneskir flóttamenn eru að streyma burtu úr bænum«. Og þeirri fregn fylgdi einnig vísa eftir Cowper. Englendingurinn leit til Frakkans gletnislega og spyrjandi, en Frakkinn iðaði og spriklaði af óþolinmæði. Svo gekk Englendingurinn aftur að glugganum og horfði út. Í þetta skifti gleymdi hann sjálfum sér, er hann horfði á það, sem gerðist úti, og sneri ekki frá glugganum fyrr en of seint. Þegar símþjónninn hafði sent vísuna síðustu, var Englendingurinn enn við gluggann. Þá var fengið tækifæri fyrir Frakkann og hann lét það ekki ónotað. Hann læddist að borðinu í snatri og fékk símþjóninum skeyti og jafnframt lagði hann hrúgu af rúblum á borðið. Eins og áður las símþjónninn skeytið upphátt: »Madeleine Jolivet, 10 Faubog Montmartre, París. Frá Kolyvan í héraðinu Omsk í Síberíu, 6. ágúst. Rússneskir flóttamenn streyma út úr bænum, Rússar yfirbugaðir. Tartara-riddarar reka flóttann með grimmdaræði«. Í þessu sneri Englendingurinn frá glugganum og heyrði þá símþjóninn vera að lesa og senda part af skopvísu eftir Beranger. Frakkinn lærði þann grikk af Englendingnum, að senda kveðlinga, þegar annað var ekki til. »Halló!« varð Englendingnum að orði. »Einmitt það!« svaraði Frakkinn. Í millitíðinni gerðust kringumstæðurnar í Kolyvan æ ískyggilegri. Hergnýrinn óx og skotdynkirnir nálguðust meir og meir. Skothvellirnir voru nú uppihaldslausir alveg. Allt í einu, þegar Frakkinn var að skrifa vísubrot til að senda, kom ægilegur dynkur, húsið hristist og nötraði eins og í skæðum jarðhristingi, annar hliðveggurinn rofnaði, húsið fylltist af púðurreyk og sprengikúla nam staðar í gólfinu. Eldurinn hafði ekki enn brent kveikinn af kúlunni, en við því mátti búast á hverju augnabliki að hún springi. Frakkinn var fyrstur til. Hann fleygði ritblýinu, og áður en kúlan fengi að stanza á gólfinu hreif hann hana og kastaði henni svo langt sem hann gat út um rifuna á veggnum. Og um leið og hún kom við jörðina úti, sprakk hún með ógurlegum hvelli. Frakkinn hélt áfram að skrifa eins og ekkert hefði í skorist, en ritaði nú fréttir, en ekki gamla stöku. Fréttin var þessi: »Sex þumlunga þykk sprengikúla hefir sprengt annan hliðvegg símstöðvarhússins. Býst við fleiri slíkum«. Strogoff þótti nú fullsannað, að Rússar væru ýmist fangaðir eða flúnir úr bænum. Í Kolyvan var því úti um alla hjálp og um ekkert að gera, nema halda áfram gangandi, brautarlaust fyrst um sinn, suð-austur um landið. Rétt í þessu hófst grimmileg skothríð rétt fyrir utan símstöðina. Högl og kúlur dundu á húsinu og sprengdu í einni svipan allar gluggarúðurnar. Mitt í þessari rimmu féll Harry Blount til jarðar með kúlu í annari öxlinni. Frakkinn gaf sig ekki að því í bráð, en var að bæta þessu við fregnbréf sitt til »frænku«: »Harry Blount, fregnriti Daily Telegraph, rétt núna fallinn við hlið mína fyrir skothríð frá flokk ...«, þegar símþjónninn með sömu hægðinni sagði: »Vírinn er högginn, herra minn!« Og með sömu róseminni sneri símþjónninn sér frá vélinni, tók hatt sinn af nagla á veggnum, þurkaði af honum rykið með annari hendinni, setti hann upp, leit brosandi til Frakkans og hvarf svo út um leynidyr, sem Strogoff hafði ekki séð fyrri. Tartararnir umkringdu húsið og var enginn sýnileg von til þess að Strogoff og fregnritararnir slyppu. Frakkinn, með fregnbréf sitt í hendinni, hafði hlaupið til Englendingsins, sem lá meðvitundarlaus, og lyft honum upp á herðar sínar í þeim tilgangi að flýja með hann, en hann varð of seinn. Þeir voru báðir fangaðir í þessari andránni; og í því Mikael Strogoff, var að hlaupa út um glugga, var hann einnig tekinn höndum. Sendiboði keisarans var nú fangi í höndum Tartaranna! ENDIR FYRRI ÞÁTTAR. SÍÐARI ÞÁTTUR I. Í herbúðum tartara. Væna dagleið fyrir austan Kolyvan og margar verstir fyrir handan þorpið Diachinks hefst sléttufláki allmikill með skógarbeltum, hávöxnum furu- og sedrus-trjám. Í þennan skóg og í grenndina við hann flytja hjarðmenn í Síberíu í hitatíðinni á sumrum með hjarðir sínar allar. En nú var skógurinn að þessu leytinu í eyði, enginn hjarðmaður sýnilegur nokkursstaðar, eða fénaður þeirra á beit. Þó var skógurinn ekki mannlaus auðn. Fjárhirðar voru þar engir, en menn á hverju strái fyrir því. Þar stóðu nú herbúðir Tartara. Þar var Feofar Khan, hinn hræðilegi Bokhara höfðingi með meginher sinn umhverfis sig. Og til þessarar tjaldborgar voru fangarnir frá Kolyvan fluttir daginn eftir orustuna, sem frá var sagt í seinasta kapítula. Þangað voru þeir færðir 7. ágúst. Kolyvan var fallinn, eins og svo margir fleiri bæir, og íbúarnir allir flúnir, fallnir eða herteknir. Í bænum höfðu verið tvær þúsundir vopnfærra manna og lögðu þeir til orustu við fjandmannaherinn, þó að óálitlegt væri, svo ósegjanlega mannmargur, sem hann var. Þeir börðust og vörðust með frægð, en »enginn má við margnum«. Þeir fellu fyrr en þeir flýðu, svo nú voru eftir af þeim aðeins 200-300 á lífi. Horfurnar allar voru ekki álitlegar og útlit fyrir að stjórn Rússlands væri búin að missa hald á öllu landinu fyrir austan Úralfjöll, í bráðina að minnsta kosti. En ekki var hætta á því, að Rússar næðu sér ekki aftur með tíð og tíma — annar endir var ómögulegur. Í millitíðinni hafði uppreistin grafið um sig og formenn hennar náð yfirhöndinni alt austur undir miðbik Síberíu. Tartaraherinn útbreiddist meir og meir og kvíslaðist austur og vestur um landið. Ef herflokkarnir rússnesku úr Amur og Yakutsk-héruðunum ekki næðu til í tíma, áður en Tartararnir næðu þangað, þá var aðal-stjórnarsetur Síberíu — Irkutsk — komið í hendur Tartara eins og svo margir aðrir bæir. Þá var líka út um stórhertogann, bróður keisarans, sem Ivan Ogareff svo mjög langaði að hefna sín á. En hvað er nú orðið um Mikael Strogoff? Hafði hann um síðir gugnað og gefist upp undir allri raunabyrðinni? Áleit hann, að hrakföllin öll, sem hann hafði við að stríða frá því í Ishim og sem alt af fóru vaxandi, áleit hann að þau væru búin að ná algerlega yfirhöndinni? Áleit hann úti um lúkningu erindisins? Að alt væri úti? Að boðum sínum yrði ekki framar gefinn gaumur? Nei, og langt frá. Strogoff var einn af þeim mönnum, sem aldrei gefast upp, meðan lífið treinist. Hann var lifandi enn og keisara-bréfið hafði hann enn þá óskaddað í barmi sinum. Þeir sem héldu honum föngnum höfðu ekki hugmynd um hver hann var. Dulargervi hans hlífði enn. Hann var bara einn af hópnum, sem tekinn var í Kolyvan og sem Tartararnir ráku með sér eins og gripahjörð. Hann þumlungaðist í áttina til Tomsk og þá um leið í áttina, sem hann sjálfur vildi og þurfti að fara. Og hann var enn á undan Ivan Ogareff, og það var mikils virði. »Ég skal komast þangað!« marg-endurtók hann í huga sínum, þegar honum datt Irkutsk og stórhertoginn í hug. Síðan hann var handtekinn beitti hann hugsunarafli sínu öllu í eina einustu átt. Hann hugsaði um ekkert annað en það, hvernig hann gæti sloppið — fengið frelsið aftur. Hvernig gat hann hugsað sér að sleppa út fyrir varðhring Tartara hermannanna? Þessari spurningu var ill-mögulegt að svara. Hann gat ekki annað en beðið átekta, beðið þess að tíminn kæmi að reyna. Herbúða hvirfing Feofars Khan var tilkomumikil sjón. Í sólskininu gljáðu óteljandi tjöld úr dýrafeldum, úr flóka, úr silki. Öll voru, þau strýtumynduð og upp af þeim léku í vindblænum skrautlitir skúfar og veifur og fánar með öllum litum regnbogans. Skrautlegustu tjöldin tilheyrðu auðvitað aðlinum og höfðingjunum í Khana-dæminu, Saidunum og Khoitjas-unum, og voru þau auðþekkt í hópnum, Áfastir þeim voru tjaldskálar, skreyttir með skúfum úr taglhári af hestum, en skúfar þeir komu upp um haglega gerð bönd og fléttur úr rauðum og hvítum tágum og tré. Sýndi skrúð þetta stöðu Tartarahöfðingjanna. Lengra burt reis upp á vellinum hvirfing af mörgum þúsundum tyrkneskra tjalda, er Tartarar nefna »karayb«, en þau tjöld voru bundin í bagga og flutt á klyfsöðlum á baki úlfaldanna á ferðalagi. Í herbúðum þessum voru nú samankomnir að minnsta kosti hundrað og fimmtíu þúsundir Tartara hermanna, er var næst því sinn helmingur af hvoru: fótgönguliði og riddaraliði, Meðal þeirra mundu Tadjikarnir — sem aðalsýnishornið af íbúum Turkestan-héraðanna — hafa vakið mesta eftirtekt. Þeir menn allir voru háir vexti, fríðir sýnum, hvítir á hörund með hrafnsvört augu og hár. Þessum mannflokki tilheyrði meirihluti Tartara hermanna, og höfðu Khana-dæmin Khokhand og Koundouga sent nærri eins marga þeirra og sjálft Bokhara Kahns-dæmið. Innan um þessa föngulegu flokka blönduðust svo ótal aðrir þjóðflokkar, sem búa í Turkestan, eða þar í nágrannahéruðunum. Meðal þeirra voru Usbeckingarnir, rauðskeggjaðir og litlir vexti, líkir þeim, er elt höfðu Strogoff austur að Abi. Þar voru Kirghizar, flatnefjaðir og líkir Kalmukum, í brynjum, sumir með lensur og boga og örvar með Asíu-lagi; sumir bakkaþykk sverð og bogin fyrir odd, pönnubyssur og »tschakane«, eða litla exi skaftstutta, en sem nærri æfinlega særir til ólífis. Þar voru og margir Mongólar, meðalmenn að vexti, með svart hár í löngum fléttum, er héngu niður á bakið, með gulmórauðan hörundslit, kvikleg augu djúpt inn í höfðinu, skegglitlir og kringluleitir, í mussum úr bláu nankeen-taui, bryddum með dökku flosi, með leðurbelti silfurbúnu um mittið, með skraut-brydda skó á fótum og með silkihúfur á höfði, bryddum með grávöru, og með þremur silkiborðum aftur af, sem blöktu fyrir vindinum. Skolbrúnir Afgahanar voru þar einnig; Arabar, sem enn sýndu að þeir voru af ætt hinna fögru afkomenda Sems Nóasonar; Tyrkir með augu, sem í fljótu bragði virtust augnasteinslaus. Allir þessir flokkar voru samankomnir undir verndarvæng Bokhara-fánans, fána spellvirkja og eyðileggingar. Á meðal hermannanna voru nokkrir þrælar í hermannastöðu, aðallega Persar. Voru þeir undir stjórn persneskra yfirmanna, og þóttu meðal hinna mikilhæfustu í meginher Feofars Khan. Ef við þessa upptalningu er svo bætt öllum Gyðingunum, í kápum bundnum að þeim með dreglum og með litlar dökkar klæðishúfur á höfði í stað tyrknesku húfunnar, sem þeim var bannað að brúka, sem notaðir voru sem vinnumenn við tjöldin; ef bætt er enn við hópinn »Kalender«-unum, nokkurskonar kirkjulegum betlurum, í aumustu ræflum frá hvirfli til ilja, lepardskinn-ræflum og öllu möglegu: ef menn hugsa sér alt þetta, þá fá menn nokkra hugmynd um hvernig þessi þjóðflokka samsteypa leit út, sem saman var söfnuð í herbúðum Tartaranna. Fullar fimtíu þúsundir hermanna höfðu hesta til reiðar og hestarnir voru ekki síður kyn-margir en mennirnir. Þar voru tyrkneskir hestar, skrokklangir með lipra og granna fætur og langt gljáandi hár — einstaklega geðþekknislegar skepnur; Usbeck-hestarnir, tápmiklar skepnur og viðkunnanlegar; Khok-hestarnir, sem auk riddarans bera tvö tjöld og matbúningsáhöld, dag eftir dag; Kirghiz-hestarnir með silkigljáan skrokk, frá bökkum Embu fljótsins, þar sem þeir ganga viltir og eru snaraðir, auk fjölda annara hestategunda af lélegu og ljótu kyni. Allir þessir riddarahestar voru þannig varðveittir við herbúðirnar, að tíu voru saman í hóp í nokkurskonar rétt eða kví úr reipum og síðan tjaldað yfir með svörtu silki neti. Áburðardýrin mátti telja þúsundum saman, úlfaldar og asnar. Úlfaldarnir voru smávaxnir, en þreklegir, langhærðir, með mikið fax, góðlyndir og meinlausir, svo ánægja var að meðhöndla þá í samanburði við kroppinbökuðu úlfaldana rauðhærðu og stríhærðu. Asnarnir voru miklu duglegri en vænta mátti af stærðinni. Auk þessa þótti Törturunum kjöt þeirra lostætt og höfðu þá þessvegna í afhaldi, enda voru þeir við herbúðirnar svo mörgum þúsundum skifti. Hátt yfir alt þetta safn af mönnum og skepnum og tjöldum gnæfðu hávaxin furu og sedrustré og köstuðu svalandi skugga á alla hjörðina. Aðeins grannir sólgeislastafir náðu til að skína á þessa þröng hér og hvar á milli trjánna. Ekkert gat verið rómantískara en að horfa á þessa mikilfenglegu mynd. Málarinn, sem reynt hefði að flytja hann á dúk sinn og festa þar með réttum litum, hefði átt fult í fangi og allir litir hans hefðu þorrið áður en búið var. Þegar fangarnir frá Kolyvan voru látnir nema staðar í þyrpingu úti fyrir tjöldum þeirra Feofars Khan og höfðingjanna stærstu úr Khanadæminu, voru lúðrar þeyttir og bumbur barðar. Og saman við þann óm blönduðust dynkir af skotum — fagnaðarskotum úr bæði haglabyssum og fallbyssum. Feofar átti bara 6 fallbyssur og voru fjórar af þeim við herbúðir hans og voru líka hagnýttar til að kunngera öllum lýð, að nýr fangaflokkur væri kominn. Í herbúðunum var ekkert nema hermenn og vopn. Heimilisfólk Feofars og höfðingjanna, kvennabúr hans og þeirra var í Tomsk, umkringt verði Tartara, því þar átti stjórnarsetrið að verða frá því herbúðunum í skóginum var lyft og þangað til tækifæri gæfist að flytja til stjórnarseturs Rússa í Síberíu — Irkutsk. Tjald Feofars gnæfði yfir alla tjaldahvirfinguna. Var það sveipað dýrindis silkislæðum og fléttum af gullnum böndum og skúfum, en upp á toppi þess lék í golunni skúfur mikill, er til að sjá var eins og blævængur. Tjald hans var mitt í rjóðri einu sem umkringt var hávöxnum furu og birkitrjám. Fram undan tjaldinu stóð borð gljákvoðudregið og glóði eins og gler og alsett dýrindis steinum. Á því lá hin helga bók: kóraninn, og voru blöð hennar gerð úr örþunnum gullskífum og á þær grafið letrið. En yfir öllu blakti Tartara fáninn á hárri stöng með skjaldarmerki Feofars. Í hálfhring yzt á vellinum stóðu tjöld æðstu valdsmannanna í Bokhara. Þar var bústaður hestavarðarins, sem hvarvetna má fylgja Emirnum á hestbaki; hefir jafnvel rétt til að fara ríðandi inn í hallargarðinn. Þar bjó og stólfálkavörðurinn: »housch bégui«, eða innsiglisvörðurinn; »toptschibascbi«, eða yfirforingi stórskotaliðsins: »khodja«, eða formaður ráðsins, sem meðtekur koss prinsins, og sem má koma fram fyrir Emirinn án þess að hann sé girður beltinu; »scheikh-oulislam«, eða fulltrúi prestanna; »Cazi-askev«, eða friðardómarinn, sem í fráveru emírsins dæmir í öllum þrætumálum hermannanna. Og að lyktum ber að telja þann manninn, sem ekki ríður minnst á, og sem bjó í þessari hvirfingu næst emírnum. Það var foringi stjörnufræðinganna, sem skyldur var að athuga stjörnurnar nákvæmlega í hvert skifti sem hinn voldugi herra vildi hreyfa herbúðir sínar. Þegar flokkur hinna herteknu manna og kvenna staðnæmdist frammi fyrir tjaldinu var Feofar inni. En hann sýndi sig ekki, og var það eins víst stök heppni. Eitt orð, ein bending frá honum, hefði orsakað hræðilegt blóðbað. En hann framfylgdi konungasið Austurlanda, og sem tign þeirra er svo nauðsynlegur, þeim, að vera inniluktur. Sá, sem ekki sýnir sig ávinnur sér ást og virðingu og um fram allt ótta lýðsins. Hertekna fólkið var kreppt inni í einhverri kví og beið þar eftir tilkomu emírsins. Það var hrakið og hrjáð, fekk illa og ónóga fæðu og var undir beru lofti, hverju sem rigndi. Þolinmóðastur allra fanganna var Mikael Strogoff óneitanlega. Hann var fús til að láta teyma sig, því þeir voru að teyma hann í þá átt, sem hann vildi fara, og hann var þar að auki óhultari þannig, heldur en hann gat framast búist við á brautinni milli Kolyvan og Tomsk. Að gera tilraun til að strjúka áður en til Tomsk var komið þýddi ekki annað en að lenda strax í snöru einhverra njósnarmanna, sem voru á sléttunni umhverfis. Tartar höfðu njósnarmannavörð allt austur á 85. stig austurlengdar, og sem liggur um Tomsk, en lengra ekki enn. Það var því fyrst að hugsa um strok þegar að þessum takmörkum var komið, en fyrr ekki. Þá var hann að líkum kominn út yfir yztu takmörk fjandmanna-rastarinnar og von til, að hann næði til Krasnoiarsk áður en fjandmannasægurinn næði nokkrum tökum á því héraði. En seint þótti honum ganga ferðin og undir niðri réði hann sér illa. Hann hugsaði því í sífellu á þessa leið: »Komist ég til Tomsk, skal ég innan fárra mínútna kominn út fyrir allar útvarðaraðir. Komist ég af stað tólf stundum fyrr en Feofar Khan, tólf stundum fyrr en Ivan Ogareff, ætti ég að láta mér skila svo austur, að saman gæti ekki dregið, allt til Irkutsk«. Það sem Strogoff óttaðist öllu öðru fremur var koma Ogareffs, sem væntanlegur var til herbúðanna þá og þegar. Auk þess sem hann óttaðist, að hann þekkti sig, var Ogareff maðurinn, sem Strogoff sérstaklega þurfti að yfirbuga á kapphlaupinu til Irkutsk. Honum var það kunnugt orðið, að undireins og Ogareff kæmi með sinn flokk var meginher Tartara allur sameinaður orðinn, og þá átti að hefja hergönguna austur til stjórnarsetursins. Allt þetta óttaðist Strogoff og kveið því á hverri stundu, að heyra herlúðra þeytta, til að kunngera komu herforingjans með annan arm hersins. Annan sprettinn gat hann ekki varist umhugsun um móður sína og Nadíu. Önnur var fangi í Omsk, en hin á fleytum Tartaranna á Irtich-fljóti og hrakin og hrjáð ekki síður en móðir hans. Hann var ómegnugur að hjálpa þeim. Mundi hann nokkurn tíma sjá þær aftur? Þessari spurningu þorði hann ekki, gat ekki svarað, en hjarta hans barðist hart og títt, er hann hugsaði um þetta. Jafnframt Strogoff höfðu þeir fregnritararnir Harry Blount og Alcide Jolivet verið teknir fastir og voru nú eins og aðrir fangar frá Kolyvan komnir til herbúðanna. Strogoff vissi, að þeir voru í sömu krónni, í sömu þyrpingunni og hann, en hann kærði sig ekki um að leita þá uppi og heilsa þeim. Hann vissi ekki, og honum var líka sama, hvaða álit þeir höfðu á honum síðan í Ishim. Hann vildi líka helzt vera einn, svo hann gæti tekið ráð sín saman í næði og freistað að strjúka einsamall, þegar tíminn væri kominn. Þess vegna forðaðist hann að verða á vegi þessara fornu samferðamanna sinna. Frakkinn hafði hjúkrað Englendingnum með nærgætni allt af síðan hann fékk sárið í Kolyvan. Á göngunni þaðan austur að herbúðunum — margra klukkustunda ferð — dró Englendingurinn sig áfram með hertekna fólkinu, með því að láta sem mestan þunga sinn hvíla á Frakkanum. Hann gerði ítrekaðar tilraunir til að koma varðmönnunum í skilning um, að hann væri brezkur þegn, en barbararnir skildu ekki orð og svöruðu honum með að reka á eftir honum með lensum og sverðsoddum. Þess vegna varð fregnriti »Daily Telegraph« að gera sér að góðu að drekka af sama bikar og aðrir fangar barbaranna. Ferðin þreytti hann því meir en lítið, auk þess sem sárið á öxlinni var viðkvæmt og pínandi. Án öruggrar aðstoðar Frakkans hefði hann eins víst aldrei náð til herbúðanna. Alcide var það sem kalla mætti »praktiskur« heimspekingur og notaði þá gáfu nú. Hann var öllum stundum að hughreysta og gleðja Englendinginn, eftir að hafa rannsakað sárið og séð, að það var ekki hættulegt. Með lipurð hafði honum tekist að ná honum úr frakkanum og spretti svo í skyrtuna og sá, að kúlan hafði aðeins rispan holdið. »Þetta er ekkert. Bara ofurlítil rispa« hafði hann sagt. »Þú verður alheill eftir nokkrar atrennur að hreinsa sárið og búa um það«. »Já, en hver gerir það?« spurði Englendingurinn. »Það geri ég sjálfur!« svaraði hinn. »Svo þú ert þá nokkurskonar doktor?« »Allir Frakkar eru nokkurskonar læknar«. Og samstundis tók Alcide vasaklút sinn og reif hann sundur, gerði bönd úr sumu, en línskaf úr sumu, fékk sér vatn úr brunni, sem grafinn hafði verið í miðri krónni, þvoði sárið, bjó svo um það og batt laglega um öxlina. »Ég lækna þig með vatni«, sagði hann. »Það er viðurkennt bezta svalandi meðal við sár og er almennt hagnýtt þannig nú. Þann vísdóm voru læknarnir sex þúsund ár að uppgötva, já, sex þúsund ár, eða um það bil!« »Kærar þakkir, herra Jolivet«, sagði Englendingurinn og lagðist svo niður á dyngju úr þurrum laufblöðum og limi, sem Frakkinn bjó út handa honum við ræturnar á skuggasælu birkitré. »Ekkert að þakka! Þú hefðir gert það sama fyrir mig«. »Það er ég nú ekki alveg viss um«, svaraði Harry í mestu einlægni. »Hvaða, hvaða! Allir Englendingar eru göfuglyndir!« »Eflaust, — en Frakkar?« »Frakkar? Ja, þeir eru skálkar, ef þér svo sýnist! Þeirra eina vörn er, að þeir eru franskir. En segðu mér nú ekkert meira um það, eða öllu heldur, ef þú vilt fylgja ráðum mínum, þá skaltu nú ekkert meira segja. Þú þarft hvíldar fremur öllu öðru«. En Harry var nú ekki alveg á því, að þagna undir eins. Það var máske þarflegt vegna sársins, að hann tæki á sig náðir, en fregnritara blaðsins »Daily Telegraph« sæmdi ekki að láta eftir sér. »Heldurðu, herra Jolivet«, spurði hann, »að skeytin sem við sendum seinast hafi komist vestur yfir landamærin?« »Því ekki? Jú, þú mátt vera viss um, að frænka mín veit, hvernig ástæðurnar eru nú í Kolyvan«. »Hvað margar afskriftir af skeytum sínum tekur frænka þín til að selja?« spurði Harry. Var það í fyrsta skifti, að hann framsetti svo ákveðna spurningu. »Ja, frænka mín er sérlega, orðvör og varkár og vill heldur ekki að um sig eða sín störf sé talað«, svaraði Frakkinn hlæjandi. »Ég veit að henni félli enginn hlutur ver, en ef umtal um hana gæti rænt þig svefninum, sem þú þarfnast fram yfir allt«. »En ég ætla ekki að fara að sofa«, svaraði Englendingurinn og hélt áfram: »Hvað heldurðu að frænka þín hugsi nú um ástand Rússa?« »Að það sé illt sem stendur. En það er ekkert að óttast. Moskovítastjórnin hefir allt of mikið bolmagn til að þurfa að óttast. Áhlaup nokkurra Tartara sviftir Rússland aldrei Síberíu landeigninni«. En of mikil ágirnd hefir stundum orðið fall voldugra ríkja«, sagði Englendingurinn, sem ekki var laus við þykkjuna, sem með köflum gægist fram á Englandi út af drembilæti Rússa og umbrotum í Mið-Asíu. »Ekki að tala um pólitísk mál-« gall Frakkinn við. »Læknanefndin fyrirbýður það! Það er enginn hlutur óhollari fyrir axlarsár — nema það gæti komið þér til að sofa«. »Jæja, þá skulum við tala um hvað við eigum að gjöra«, sagði Harry. »Hvað mig snertir, herra Jolivet, þá dettur mér ekki í hug að sitja fanginn hjá Törturum þessum til lengdar!« »Það ætla ég heldur ekki að gera. Það veit hamingjan!« »Við skulum þá strjúka við fyrsta tækifæri!« »Já, ef enginn annar vegur býðst til að losna«. »Veistu um nokkurn annan veg?« spurði þá Harry og leit til félaga síns. »Auðvitað! Við erum ekki hermenn eða féndur Tartara. Við erum afskiftalausir og eigum heimtingu á lausn«. »Mun skálkurinn Feofar vita það?« »Nei, hann skilur ekki í slíku, en lautenantinn hans, hann Ivan Ogareff, skilur í því«. »En hann er fantur!« »Enginn efi, En fanturinn er rússneskur og veit þessvegna hve dýrt spaug getur orðið að svifta erlenda ferðamenn öllum mannréttindum. Svo er honum ekkert gagn í að halda okkur, heldur þvert á móti. En svo er það sannast að ég hefi litla löngun til að biðja þann herra um lausn«. »Sá herra er heldur ekki í herbúaunum, að minnsta kosti hefi ég ekki séð hann«, sagði Englendingurinn. »En hann kemur. Það er engin hætta á að hann láti sig vanta lengi. Síbería er nú í tvennu lagi og her Emírsins auðvitað bíður nú aðeins eftir honum, áður en hafin verður hergangan austur. Ogareff hlýtur að koma«. »Og þegar við losnum. Hvað þá?« »Þá höldum við áfram okkar sókn og fylgjum Tartarahernum eftir, þangað til við náum í herbúðir Rússa. Ekki megum við gefast upp, það er svo langt frá! Við sem erum rétt að byrja. Þú, vinur, hefir þegar hlotið þann heiður að fá sár í þjónustu »Daily Telegraph«, en ég hefi ekkert liðið, ekkert minnismerki fengið um ferð þessa í þarfir frænku minnar. Jæja, gott er að tarna!« sagði svo Frakkinn ofur lágt við sjálfan sig. »Hann er þá loksins sofnaður. Geti hann sofið í nokkrar klukkustundir og fái sár hans nokkur böð í köldu vatni, þá er hann sloppinn. Englendingar hafa skrokk úr stáli og þurfa ekki önnur meðöl en kaldabað og hvíld«! Á meðan Harry svaf sat Jolivet hjá honum og reit mikið og margt í minnisbók sína, bæði sér og félaga sínum til notkunar síðar meir, — lesendum »Daily Telegraphs« til ánægju ekki síður en viðskiftablöðum Madelaine »frænku«. Kringumstæðurnar hafa bundið þessa menn bróðurböndum. Þeir voru hættir að öfunda hvor annan og brjótast um sinn í hvoru lagi eftir fréttum. Þannig var því varið, að það sem Strogoff óttaðist mest var einmitt það sem fregnritararnir þráðu — komu Ogareffs. Það voru allar líkur til að fregnritarar blaða á Englandi og Frakklandi fengju undireins lausn og erkisvikarinn kæmi. Ogareff kunni lag á að láta Feofar hlýða skynsamlegum fortölum, þó hann annars hefði helzt kosið að fara með fregnritarana eins og almenna njósnarmenn. Hagur þeirra í þessu efni hlaut því að vera gersamlega gagnstæður hag og löngun sendiboðans. Strogoff duldist ekki hvernig ástæðurnar voru og var það ein ástæðan meðal margra, sem knúðu hann til að draga sig í hlé. Hann varaðist þess vegna að láta sína fornu samferðamenn sjá sig. Þannig liðu fjórir dagar, að engin breyting átti sér stað. Fangarnir heyrðu ekki eitt orð í þá átt að til stæði að taka upp herbúðirnar. Vörðurinn um þá var strangur og það hefði verið ógerningur að ætla sér að smjúga úr þeim hring, sem umkringdi þá dag og nótt. En daufleg var æfi þeirra. Fæðan, sem þeim var veitt nægði að eins laklega til að halda saman sál og líkama. Tvisvar á sólarhring var kastað til þeirra stykkjum af innýflum úr geitum, er steikt höfðu verið á járngrind yfir kolaeldi, og dálitlu af osti úr súrri sauðamjólk og seyddum í kaplamjólk! Þennan rétt kalla Kirghizar »Koumyss«. Þetta var öll fæða fanganna. Ofan á þessar raunir bættist það, að veðrið var orðið sérlega leiðinlegt — ýmist ofsaveður eða kuldaregn. Veslings fangarnir höfðu ekkert skýli yfir höfði sér, en stóðu berskjaldaðir fyrir öllum veðrum. Það var ekki um nokkra líkn að gera. Margir þeirra, karlar og konur, sérstaklega þeir sem báru sár eftir viðureignina, dóu í þessari opnu kró og sjálfir máttu svo fangarnir verkfæralausir basla við að koma þeim í gröfina, því ekki datt barbörunum í hug að jarða nokkurn rússneskan mann eða konu. Sinn í hvoru horni krórinnar og sinn í hvoru lagi unnu þeir með ötulleik miklum, Strogoff í einu horninu og Harry og Alcide í hinu. Þeir voru hraustir og fjörugir og hin illa æfi gat ekki bugað þá eða þjakað þeim eins og slitnum Síberíumönnum. Þeir voru því allt af á ferðinni að hjálpa og ráðleggja sessunautum sínum í þessu illa fangelsi. Kom hjálp þeirra og ráð mörgum að gagni og óvíst hve mikið hið hertekna fólk átti þeim að þakka. Hvað lengi gat alt staðið fast eins og nú? Var það máske tilgangur Emírsins að gera sig ánægðan með fenginn sigur í bráð og fresta um langan tíma herferðinni austur? Það leit svo út, en það var þó ekki svo. Það sem Harry og Alcide vonuðu og óskuðu og það, sem Strogoff óttaðist öllu fremur, kom á daginn að morgni hins 12. ágúst. Snemma um daginn fór allt af stað í senn: lúðrar og trumbur og fallbyssur. Stórt moldviðrisský sást sveima yfir veginum frá Kolyvan. Glaumurinn jókst og ský þetta færðist nær og nær. Innan stundar gerði Ivan Ogareff innreið sína í Tartara-herbúðirnar og með honum margar þúsundir hermanna. II. Fregnritararnir í vanda. Ivan Ogareff var kominn með annan arm meginhersins, þann arminn, sem sendur hafði verið til að taka Omsk og eyða bygðunum í grendinni. Eins og frá hefir verið skýrt áður, hafði governorinn og setuliðið í Omsk búið um sig í efri bænum, Sá hluti bæjarins var óunninn enn. Ogareff hafði ekki tekist að vinna hann og hætti svo umsátinni í bráðina. Hann þorði ekki að draga herferðina, austur og áhlaupið á Irkutsk. Hann skildi því eftir í Omsk það sem hann áleit nægilega mannmargt setulið, en hélt af stað með meginherinn og sameinaði hann nú þeim arminum, sem Feofar sjálfur stýrði. Herdeild Ogareffs nam staðar utan við herbúðirnar, en slógu ekki tjöldum né bjuggust til setu. Þeir höfðu ekki fengið skipun þess efnis. Af því mátti ráða, að fyrirætlun Ogareffs væri að nema þar ekki staðar, heldur halda áfram ferðinni með svo miklum hraða sem kostur var á. Tomsk og nágrannabygðin var fyrirheitna landið. Sá bær var alltilkomu mikill og var því eðlilegt að hann yrði framvegis aðalból foringjanna, þangað til Irkutsk var unnin. Hermenn Ogareffs ráku líka með sér fjölda af herteknu fólki frá Omsk, Kolyvan og öðrum stöðum. Það var ekki borið við að reka það í sömu kvíarnar, sem fangarnir, er fyrir voru, skipuðu, enda of þröngt þar inni. Þetta aðkomna, vesala fólk var því látið híma á bersvæði, örmagna af þreytu og nærri hungurmorða. Hvað ætlaði emírinn að gera við alla þessa aumingja? Ætlaði hann að hneppa fólkið í fangelsi í Tomsk, eða ætlaði hann máske að slátra því í hrönnum eins og sauðfé, og eins og er siður Tartara undir eins þegar óþægilegt þætti að hafa það lengur með í rekstri? Þessu gat enginn svarað nema hinn mislyndi emír einn. Eins og venjulegt var, fylgdi herdeildinni frá Omsk meir en lítill sægur af betlurum, ræningjum, pröngurum, giftum og allskonar loddurum, er ætíð elta uppreistarmannaher. Allur þessi flökkulýður, ekki síður en Tartararnir, saug blóð og merg úr héruðunum, sem um var farið. Greipar voru látnar sópa um hvern kyma og var fátt fémætt eftir skilið. Af því leiddi aftur að kyrseta var ómöguleg til lengdar í nokkrum einum stað, því vistaforðinn í hverri sveit fyrir sig entist öllum þessum óaldarflokk skamma stund. Hermannanna vegna var því óumflýjanlegt að halda áfram tafarlaust. Héruðin öll frá Ishim austur að og austur fyrir Obi voru nú hroðin, gjöreydd öllum vistum og efni í fæðu. Eyðimörk ein var eftir, þar sem áður var blómleg bygð, og hlaut það að hindra, og það að meir en litlu leyti herdeildir Rússa, sem væntanlegar voru að vestan. Á meðal giftanna var sá flokkur, er Strogoff hafði kynst fyrrum á gufubátnum »Kákasus«. Og þar var einnig Sangarre, hinn grimmlyndi kven-njósnari Ivan Ogareffs. Það var engin hætta á að hún brygðist herra sínum. Lesarinn minnist þess, að þau voru saman og sátu á svikráðum í Nijni Novgorod. Þau urðu samferða austur yfir Uralfjöll, en þá skildu þau, þó ekki nema um fáa daga. Ogareff fór með flugferð einsamall austur sléttur, um Ishim, en Sangarre hélt áfram syðri veginn með flokk sinn allan til Omsk. Það er auðskilið, að þessi kona var Ogareff meir en lítið gagnleg. Með giftaflokk sinn gat hún hvarvetna farið, heyrt alt og séð og sagt honum frá öllu. Á þennan hátt fékk Ogareff fregnir af öllu sem við bar, jafnvel innst innan vébanda rússneskra bygða. Hundrað augu og hundrað eyru voru þar altaf opin til að sjá og heyra og flytja svo söguna til herrans, sem, eins og verðugt var, borgaði rausnarlega fyrir þessar áríðandi fregnir. Þau kyntust þannig í fyrstu, að Sangarre hafði einu sinni komist í illar klípur, en Ogareff, sem þá var foringi í liði Rússa, kom henni þá til hjálpar og bjargaði henni. Þessu gleymdi hún ekki, en helgaði honum sjálfa sig með sál og lífi frá þeirri stundu. Þegar hann lagði út á þessa slóð hefnda, föðurlands- og drottinssvika, sá hann gjörla hvernig hann gæti mest og bezt gagn haft af konu þessari. Hann vissi líka að ekki þurfti annað en að hann skipaði; Sangarre var viss með að hlýða. Óskiljandi náttúruhvöt; ekki síður en þakklætistilfinning, hafði knúð hana til að gerast þræll þessa föðurlandssvikara, er hún hafði unnað hugástum frá því fyrst hann var gerður útlagi í Síberíu. Hún átti hvorki heimili né fjölskyldu til að annast um og var ljúft mjög að ljá fylgi sitt og flökkulíf svikaranum, er hann sigaði barbörunum á Síberíu. Og hún var ötull liðsmaður, slægvitur, eins og ættfólk hennar almennt er, stórráð og full ákafa og kunni hvorki að yfirgefa eða aumkast yfir þá, sem bágt áttu. Hún var verðug eiginkona jafnvel grimmasta Apache-Indíána. Síðan hún náði Ogareff aftur í Omsk hafði hún ekki skilið við hann. Henni var kunnugt um það, að þau Strogoff og Marfa gamla móðir hans höfðu sézt. Henni var einnig kunnugt að Ogareff óttaðist Strogoff, og hún óttaðist hann þá líka. Hún vissi að Marfa gamla var í haldi, og hefði staðið til að pína úr henni lífið með fíngerðum píslarfærum, þá hefði engin fengist til að leysa það lipurlegar af hendi en Sangarre. En það var ekki komið að þeirri stundu, að Ogareff æskti eftir að leysa málbein kerlingar. Sangarre þess vegna varð að bíða, og hún beið, en ekki einu sinni missti hún sjónar á gömlu konunni, en athugaði hverja hennar hreyfingu, hvert hennar orð — vonaði þá og þegar að heyra orðið »sonur« hrjóta af vörum hennar, en til einskis; Marfa gamla var varkárari en svo. Að afstöðnum fyrsta lúðraþytnum, er kunngerði komu Ogareffs, þeysti flokkur af Tartaraforingjum af stað til að mæta honum, er höfðu sér til fylgdar úrvalslið af flokki Usbeck-riddara. Þeir fögnuðu honum hlýlega og heilsuðu með mestu lotningu. Báðu þeir hann svo að fylgja sér til búðar Feofars Khan. Eins og endranær var Ogareff fálátur og tók kveðju sendiherranna og fagnaðarlátum þeirra kuldalega. Búningur hans var blátt áfram, en af nokkurskonar gikkshætti og hroka bar hann enn einkenni rússneskra fyrirliða. Hann var um það bil að ríða af stað með fylgdarliði sínu inn fyrir útjaðar tjaldþyrpingarinnar þegar Sangarre ruddi sér braut inn á milli hestanna og staðnæmdist frammi fyrir Ogareff. »Ekkert?«, spurði hann. »Ekkert«, svaraði hún. »Vertu þolinmóð«. »Er farið að líða að þeim tíma, að þú látir kerlinguna segja eitthvað?« »Já, Sangarre, sá tími nálgast«. »Hvenær læturðu hana opna munninn?« »Þegar við komum til Tomsk«. »Og hvenær verður það?« »Að þremur dögum liðnum«. Það var sem flugljósi brygði fyrir í tinnusvörtu, stóru augunum hennar, og hún gekk með hægð í burt. Ogareff keyrði hest sinn sporum og þeysti af stað í áttina til búðar emírsins og umhverfis hann fylgdarmennirnir. Feofar beið eftir lautenant sínum. Ráðgjafar hans nokkrir voru þegar komnir til fundar við hann og þar á meðal innsiglisvörðurinn, formaður ráðsins o. fl. Ivan Ogareff steig af baki úti fyrir tjaldinu, gekk inn hiklaust og staðnæmdist frammi fyrir emírnum. Feofar Khan var á fertugsaldri, hár maður vexti, fölur í andliti, harðneskjulegur á svip og augnaráðið ekki sem góðmannlegast. Skegg hafði hann mikið, hrafnsvart og hrokkið, er féll niður um bringuna. Búningur hans var einkennilegur fremur en tígulegur, eða það sem kallast mátti samsvarandi svo háum herra, einvalds drottni yfir lífi og eignum þegna sinna, sem hefir ótakmarkað vald og sem veittur var hinn tilkomumikli titill Emír, eða drottnari. Hann var nú í herklæðum sínum og mátti virðast að aðal-kostur þeirra væri hóflaust glys og skraut. Brynjan var gljáandi í gulli og silfri, og belti hans um mittið og úr því annað yfir öxlina glóði í demöntum: sporarnir á stígvélum hans voru úr gulli og hjálmur hans var skreyttur með víravirki úr skínandi gimsteinum. Þegar Ogareff gekk í tjaldið sátu ráðgjafarnir sem fastast á flossessum sínum, gullsaumuðum, en Feofar stóð á fætur úr hásæti sínu silkiofnu innst í tjaldinu og gekk til móts við komumann, en fótfall heyrðist ekki á hinum þykku gólfklæðum. Hann gekk til Ogareffs og heilsaði honum með kossi, en það var athöfn, sem ekki var misskilningi undirorpin. Kossinn þýddi það, að í þetta skiftið var Ogareff ráðherraforseti, æðri enda en formaður ráðsins sjálfur. »Ég sé enga ástæðu til eða þörf að spyrja þig« sagði Feofar og snéri máli til Ogareffs. »Tala þú, Ivan. Hér eru eyru tilbúin að hlusta á orð þín«. »Takshir«[* »Takshír« er ígildi orðanna: »Yðar hátign«, og eru soldánarnir í Bakhara þannig ávarpaðir.], svaraði Ogareff. »Þetta hefi ég að kunngera: Ivan Ogareff talaði á tungumáli Tartara og viðhafði hina sérstöku áherzlu, sem austurlandamönnum er töm og auðkennir mál þeirra. »Takshir, hér er ekki tími né tækifæri til að masa. Það sem ég hefi gert sem foringi liðs yðar er yður kunnugt. Vegir allir frá Ishim og Irtych eru nú á voru valdi, og tyrknesku riddararnir geta nú laugað hesta sína í fljótunum, sem nú eru Tartaraelfur orðnar. Kirghiza-múgurinn hleypti til víga, er hann heyrði raust Feofars Khan, og aðal-brautir allar í Síberíu frá Ishim til Tomsk eru nú yðar eign. Þér getið því engu síður hroðið veg fyrir lið yðar til austurs, þar sem sólin kemur upp, en til vesturs, þar sem hún gengur undir«. »Og ef ég nú fylgi sól?« spurði Feofar, sem hlustað hafði með athygli, en ekki sýnt minnstu merki þess, sem í huga hans bjó. »Að fylgja sól, svaraði Ogareff, »er að stefna til Evrópu og það þýðir að vinna undir sig Tobaltk héraðið og önnur fleiri héruð allt til Úralfjalla«. »En ef ég stefni í átt, er dagsljós þetta hið mikla rennur upp?« »Það þýðir að vinna Irkutsk og beygja undir veldi Tartaranna öll hin auðugu héruð í Mið-Asíu«. »En hvað um her soldánsins í Pétursborg?« spurði Feofar, er þannig titlaði Rússa keisara. »Her hans þarf ekki að óttast, hvorki að austan né vestan. Áhlaupið hefir verið gert svo snögglega, að Irkutsk og Tobolsk verða fallnar í yðar hendur, áður en her Rússa hefir ráðrúm til að taka sig upp og koma Síberíumönnum til hjálpar. Herflokkar keisarans hafa til þessa verið yfirbugaðir í Kolyvan og hið sama verður hvarvetna annarsstaðar, þar sem yðar hermenn ná til. »Og hvað eru yðar vinsamlegustu ráð til bandamanna yðar, Tartaranna?« spurði Feofar eftir litla þögn. »Mitt ráð«, svaraði Ogareff umhugsunarlaust, »er, að hefja hergönguna á móti sól, að gefa Turkoman-hestum vorum til fóðurs grasið mikla og kjarngóða á Mið-Síberíu-sléttunum, að hertaka Irkutsk, höfuðstað allrar Austur-Síberíu, og fá auk annars herfangs þann mann, sem oss er verðmeiri en heilt lands-hérað. Í stað keisarans hlýtur sem sé stórhertoginn, bróðir keisarans, að falla í hendur yðar um leið og Irkutsk er unnin«. Þetta var hið mikla takmark, sem Ivan Ogareff allt af stefndi að, — að fanga stórhertogann. Að hlýða á orð hans hefði maður mátt ætla, að þar væri endurlifnaður ræninginn nafnkunni, Stephan Razine, sem á 18. öldinni vann flest hryðjuverkin í Suður-Rússlandi. Að fanga stórhertogann og kvelja úr honum lífið var innilegasta ósk föðurlandssvikarans. Ekkert annað gat fullnægt hefnigirni hans. Það var að auki skoðun hans, að með Irkutsk félli öll Austur-Síbería, sem herfang í hendur Tartaranna, sem þeir þá gætu gert við hvað helzt þeir vildu. »Það skal gert eins og Ivan segir«, sagði Emírinn. »Hver er þá skipun yðar, takshir?« »Í dag skulu herbúðir vorar hreyfðar og fluttar til Tomsk«. Ogareff hneigði sig, svaraði engu, en gekk þegar út ásamt innsiglisverðinum, til að fullnægja hinni nýútgengnu skipun herrans. Rétt í því hann var að stíga á bak hesti sínum, í þeim tilgangi að ríða til útjaðra búðanna, gaus upp háreysti mikil og ryskingar í þeim hluta búðaþyrpinganna, er hafði að geyma fangana. Köll og hróp heyrðust og tvö eða þrjú skot riðu af. Það var máske tilraun til upphlaups, eða strokutilraun einhverra fanganna. Hvað sem það svo var, þurfti að kæfa þennan glamranda tafarlaust. Gengu þeir þá nokkur fótmál í áttina, Ivan Ogareff og innsiglisvörðurinn, en höfðu skammt farið þegar tveir menn, sem múgurinn þó reyndi að aftra, hlupu til móts við þá. Án þess að leita eftir nokkurum upplýsingum gaf innsiglisvörðurinn bendingu, sem þýddi það, að þessir tveir menn hefði verið hálshöggnir á augnablikinu, ef Ogareff hefði ekki tekið í taumana, með því að segja nokkur orð, er fassettu sverðin, sem þá í augnablikinu höfðu verið reidd til höggs. Ogareff hafði séð að mennirnir voru honum ókunnir og að sjá útlendingar, og skipaði hann þá að leiða þá fyrir sig. Þessir menn voru þeir félagar, fregnritarnir Harry Blount og Alcide Jolivet. Undir eins og þeir fréttu um komu Ogareffs, höfðu þeir krafizt að vera leiddir fram fyrir hann, en hermennirnir sem á verði voru neituðu. Af því leiddi umbrot og ryskingar og að lyktum tilraun til að strjúka. Skotin, sem heyrðust, voru ætluð þeim, en hittu ekki. Þó hefðu þeir ekki orðið langlífir, ef Ogareff, þótt illur væri, hefði ekki komið að á þeirri stundu sem hann gerði. Ogareff virti þá fyrir sér um stund, því hann hafði ekki hugmynd um hvað menn þetta gátu verið. Þeir höfðu að vísu sézt áður á póststöðinni í Ishim, þegar Ogareff svifti Strogoff hestunum. En hann var þá allt annað að hugsa, en líta eftir þeim, sem viðstaddir voru og því kannaðist hann nú ekki við að hafa séð þessa menn áður. Þeir könnuðust samt við að hafa séð hann, og hvíslaði Alcide þegar að Harry: »Halló! Það lítur svo út, að Ogareff óberst og dóninn í Ishim sé eitt og sama tóbakið«, og svo bætti hann við: »Þú skalt skýra okkar mál fyrir honum, Blount. Þú gerir mér mikla þægð með því. Ég hefi andstyggð á þessum manni í rússneskum foringjabúningi mitt í herbúðum Tartaranna og þó ég eigi honum að þakka að höfuðið situr enn á hálsi mínum, þá hlyti ég að opinbera álit mitt á honum með augunum, ef ég bæri við að líta á hann«. Að svo mæltu, rétti Alcide úr sér og tók á sig kulda og kæruleysissvip. Ef Ogareff tók ekki eftir því að tilburðir og tillit mannsins var honum til niðrunar, þá lét hann það á engan hátt sjást. »Hverjir eruð þér, herrar mínir?« spurði hann rússneskri tungu, heldur kuldalega, en ekki ruddalega, sem hann þó tamdi sér. »Tveir fregnritar, enskra og franskra blaða«, svaraði Harry stuttlega. »Þér hafið skírteini eflaust, sem sýna hverjir þér eruð?« »Hér eru vegabréf, sem gilda í Rússlandi, frá könslurum Englands og Frakklands«. Ogareff tók bréfin; sem Harry rétti honum, las þau með athygli, fékk honum þau aftur og sagði svo: »Þér æskið eftir leyfi til að fylgja hernum á ferðinni um Síberíu?« »Vér æskjum að vera sjálfráðir. Það er allt og sumt!« svaraði Harry þurrlega. »Og þér eruð það, herrar mínir!« svaraði Ogareff og bætti svo við: »Mér er forvitni á að lesa greinir yðar í »Daily Telraph!« »Blaðið, herra minn, kostar sex penninga eintakið, að póstgjaldi meðtöldu!« svaraði Harry með fyritaks rósemi. Að svo búnu gekk Harry til félaga síns, er lét í ljósi ánægju sína yfir svörum hans. Ogareff sneri sér einnig við, án þess svo mikið sem láta brýrnar síga framan í Harry, steig á bak og reið hvatlega burt með föruneyti sínu. »Jæja, monsjer Jolivet, hvað sýnist þér svo um óberst Ogareff, yfirforingja Tartarahersins?« spurði Harry. »Mér sýndist vinur góður«, sagði Alcide brosandi »að innsiglisvörðurinn gera ljómandi liðlega bendingu áðan, þegar hann með einni sveiflu handar sinnar ákvað að taka skyldi af okkur höfuðin!« Hvað helzt það var, sem hvatti Ogareff til að sýna fregnritunum þessa rausn, þá var það víst, að þeir voru nú frjálsir og gátu farið óhindraðir hvar sem þeir vildu, um orustustaðina. Og þeir ætluðu sér líka að dvelja þar, en ekki yfirgefa þá svona í miðju kafi. Öfundsýkin, sem áður sótti á þá í sambandi við söfnun frétta, var nú horfin. Þeim datt ekki framar í hug að slíta það tryggðaband. Harry Blount gat aldrei gleymt hve mikið hann átti félaga sínum að launa, félagsbróður, sem aldrei minnti hann á þau atriði ferðasögunnar. Þessi vinátta, þegar allt kom til alls, var líka beggja hagur og beinn gróði fyrir lesendur blaðanna, sem þeir rituðu í. »Og hvað eigum við nú að gera við frelsið?« spurði Harry aftur. »Hagnýta það sjálfsagt!« svaraði Alcide. »Við höldum til Tomsk og sjáum hvað gerist«. »Þangað til okkur gefst tækifæri til að fylla flokk rússneskra herdeilda, og ég vona að sá tími sé að nálgast«, sagði Harry. »Einmitt það, vinur! Við megum ekki tartarisera okkur um of!« sagði Alcide. »Það er æfinlega betra að vera þeim megin, sem meiri sigfágun hefir að geyma, og hvað það snertir, þá er auðsætt að Síberíu-menn hafa öllu að tapa, fremur en græða á þessu frumhlaupi tartaranna. En Rússar brjóta þá bráðum á bak aftur. Það er aðeins um tímaspursmál að ræða«. Koma Ogareffs var Strogoff eins mikið skaðræði, eins og hún var fregnritunum góð og gagnleg. Hann var nú í miklu meiri hættu en áður. Ef fundum hans og Ogareffs bæri saman af tilviljun, gat naumast hjá því farið að Ogareff þekkti þar manninn, er hann hafði hitt og farið svo illa með í Ishim. Þó Strogoff þá stillti sig mundi það samt vekja eftirtekt svikarans, að þessi maður var nú kominn svo langt austur. Þó svo ólíklega kynni til að bera, að hann, eins og fregnritarnir fengi frelsi, þá mundi ferðalag hans fremur verða athugað, bara af því að Ogareff hafði séð hann. Þessi óhöpp fylgdu komu hans, en svo fylgdu henni þau höpp, að út gekk skipun um að halda af stað og flytja herbúðirnar allar austur til Tomsk. Það var að fullnægja innilegustu löngun Strogoffs, að halda lengra austur og nálgast þeim mun meir takmarkið. Hann hafði frá því fyrst hann var fangaður haft í huga að leita ekki til stroku fyrr en til Tomsk væri komið, því hann óttaðist njósnarmannaflokkana í grennd við Tomsk ekki síður en þá umhverfis herbúðirnar. En nú síðan Ogareff kom varð hann reikulli í ráðinu. Hann spurði sjálfan sig oft, hvort ekki mundi ráðlegra að reyna að strjúka einhverntíma áður en til Tomsk væri komið. Það hefði hann sjálfsagt afráðið og gert tilraun samkvæmt því, ef hann stuttu síðar hefði ekki frétt, að þeir Feofar og Ogareff væru komnir af stað til Tomsk með nokkur þúsund riddara á völdum hestum. Þar með var Strogoff úr allri hættu í bráð og óþarfi að yfirgefa meginherinn fyrst um sinn. »Þá skal ég bíða við«, hugsaði hann, »þangað til, að minnsta kosti, að gott tækiæri gefst til að strjúka. Andstreymis-kyljurnar eru óteljandi hérna megin við Tomsk, en færri miklu fyrir handan bæinn, þar sem njósnarmanna-garðurinn nær að vændum ekki nema skamt austur fyrir hann. Þriggja daga þolinmæði enn, og gefi það guð, að þá sé unnin þyngsta þrautin«. Og það var sannarlega ósvikin þriggja daga ferð, sem veslings fangarnir áttu fyrir hendi. Það voru 150 verstir til Tomsk, — ekki örðug ganga fyrir hermennina, sem engan skort, engar þrenginar höfðu liðið, en þreytandi í mesta máta fyrir hálfhungraða fanga, sem reknir voru áfram með svipum í þéttum hnapp, eins og sauðahópur. Það stóð til að meira en eitt eða tvö lík þeirra yrðu skilin eftir á þessu 150 versta svæði. Það var klukkan 2 síðdegis, 12. ágúst í brennandi sólarhita, að allt var ferðbúið, og út gekk boð foringja stórskotaliðsins að hefja gönguna. Fregnritarnir Aloide og Harry voru komnir af stað áleiðis til Tomsk. Höfðu keypt sér hesta og tafarlaust haldið af stað til bæjarins, þar sem óvæntum fundum ýmsra aðalpersóna sögunnar bar saman. Á meðal fanganna, sem Ogareff kom með frá Omsk, var gömul kona, sem var svo kaldlynd og styrfin, að hún hafði ekkert samneyti við aðra. Að sjá hana var eins og að sjá sorgina sjálfa í mannlegu gervi. En ekki eitt einasta æðruorð, ekki einn kveinstafur, hraut af vörum hennar. Um þessa konu var þéttari vörður, en nokkra aðra fanga. Og auk hinna almennu varðmanna var alltaf spæjari á hælum hennar. Sangarre slepti ekki augunum af henni fremur en köttur af mús, sem hann hugsar sér að hremma, en ekki varð séð að gamla konan hefði svo mikið sem grun á að hennar væri gætt þannig. Þó hún væri aldurhnigin og þó af umsátinu mætti ráða, að hún væri dýrmætur fangi, var henni samt ekki líknað, fremur en þeim, sem yngri voru. Hún var pískuð áfram fótgangandi eins og hinir. Hinn ógnar langi gangur frá Omsk þreytti hana og þjáði meir en með orðum verði lýst, en henni vildi það til, að nálægt henni á ferðinni var ung stúlka, hugrökk og góðlynd, sem á allar lundir leitaðist við að hjálpa henni. Það var einkar fríð stúlka þetta, en þögul og þurlynd, að virtist, engu síður en gamla konan. En ótilkvödd gerði hún sér að skyldu að létta raunabyrði og þjáningar hinnar gömlu konu, en án þess þó að tala við hana. Þær höfðu enn ekki skift orðum, er komið var til herbúða Feofars, en ætíð þegar gömlu konunni lá á hjálp var unga stúlkan við hendina til að hjálpa henni. Í fyrstunni var gamla konan rög að þiggja hjálp hennar og aðstoð, en smámsaman varð hún hugrakkari. Svipur meyjarinnar, augnatillit og látbragð hennar fullvissaði hana. Þetta þagnarmál, sem oft bindur sorgmæddar sálir bróður- og systur-böndum, þíddi um síðir kulda gömlu konunnar — gömlu Mörfu Strogoff. Nadía — því það var hún — gat þannig, þó óafvitandi, endurgoldið móðurinni sumt af aðhlynningunum, sem sonur hennar hafi fyrrum sýnt henni, Hið meðfædda góðlyndi hennar, sem þannig kom í ljós, kom henni sjálfri að haldi jafnframt. Með hjálpsemi sinni og umhugsun um Mörfu gömlu veitti hún þeim mun betur fríðleik sínum og æsku þá vörn, sem ellin veitti gömlu konunni. Þessar tvær þögulu konur, amma og dóttur-dóttir, að hinir fangarnir ætluðu, svo samtaka, svo hugrakkar, svo sorgbitnar, höfðu þau áhrif á hina fangana, að þeir ósjálfrátt sýndu þeim virðingu í hvívetna. Nadía hafði verið flutt til Omsk stuttu eftir að hún var handtekin á Irtich-fljótinu. Í bænum var hún í ströngu varðhaldi, eins og allir aðrir fangar, og sætti þar sömu kjörum og þeir, og Marfa gamla, eftir að hún var tekin, lenti í sama flokknum. Hefði Nadía verin veikbyggið og duglaus, þá hefði þetta tvöfalda, rothögg lagt hana í gröfina: hindrun ferðarinnar og dauði Nikulásar Korpanoffs, Hvorttveggja þetta reyndi hana, hálfærði hana um tíma. Eftir svo margar öflugar og ánægjuríkar tilraunir að ná til föður síns, var nú eins víst öll von úti um samfundi þeirra í þessu lífi. Og ofan á þá hörmung bættist svo hennar mesta, sárasta sorg, sú, að sjá fullhugann góðgjarna, sem Guð hafði sent henni til varnar og aðstoðar á hinni löngu og erfiðu ferð, hverfa frá hlið sinni og sjást ekki framar. Þegar hann hvarf sjónum hennar, virtist henni virkilega allt vera tapað. Frá þeirri stundu, að Mikael Strogoff fékk lensulagið og sökk í æðandi öldur Irtichfljótsins, var hann nótt og dag afmálaður fyrir hugskotssjónum hennar. Gat það skeð, að þessi maður hefði dáið þannig? Til hvers geymdi Guð kraftaverkin, ef þessum góða manni, sem göfug skyldurækni knúði til framgöngu, var leyft að láta lífið svona hraparlega? Þessar og þvílíkar voru spurningar hennar, en svo mitt í þeim hugsunum mátti gremja og bræði betur en sorgin. Hún gat ekki annað en reiðst, þegar hún hugsaði til smánarinnar í Ishim og til þess, hve undarlega stiltur hann var í þeim kringumstæðum. »Hver hefnir hans, sem ekki getur lengur borgið sjálfum sér?« Þannig spurði hún sjálfa sig og í hjarta sínu heyrði hún svarið: »Ó, að það yrði hlutskifti mitt!« Hefði Korpanoff fyrir andlát sitt bara trúað henni, konu, — ungri stúlku, eins og hún var, fyrir leyndarmáli sínu og erindi, var ekki ómögulegt, að hún hefði getað lokið hans ákvarðaða starfi, starfi, sem nú var úti um, þar sem Guð hafði svo skyndilega slitið hann burt frá henni. Um þetta hugsaði Nadía eingöngu, og af því hún var svo niðursokkin í þær hugsanir, vissi hún ekkert um þrautirnar og þjáningarnar, sem fylgdu ferðalaginu og fangelsinu. Það var fyrir tilviljun, að hún rakst á Mörfu gömlu Strogoff. Því hvernig gat henni komið til hugar, að þessi gamla kona væri móðir fyrrverandi fylgdarmanns hennar, Nikulásar Korpanoffs? Það var ómögulegt, að hana gæti grunað slíkt. Jafn ómögulegt var, að Mörfu gömlu gæti grunað, að þakklætið og góðgerðaband tengdi son hennar og þessa ungu ókunnu stúlku. Það leið ekki langt þangað til Nadía gat ekki annað en tekið eftir, hve líkt var á komið fyrir þessari gömlu konu og Mikael Strogoff, að því leyti hve vel þau þoldu þrautirnar og mögluðu aldrei. Hún kvartaði aldrei um þreytu eða þjáningar, né hörkuna, sem henni eins og öðrum var sýnd á hverjum degi. Hlaut það að koma til af því, að hún hafði svo mikla hjartasorg að bera, að líkamsþjáninganna gætti ekki fyrir henni Þannig hugsaði Nadía og hún gat rétt til. Og það var tilfinningin fyrir og meðaumkunin yfir þessari duldu sorg, sem fyrst dró Nadíu að gömlu konunni. Hún bauð ekki þjónustu sína, en gerði allt, sem hún gat, þegjandi. Marfa fékk ekki tækifæri til að velja eða hafna. Hvenær sem henni lá á liði var Nadía til að veita það án þess að bjóða það, eða biðja um leyfi. Þegar matarbitanum var útbýtt meðal fanganna, hefði gamla konan sjaldan haft þrek til að bera sig eftir sínum skerf. Þess þurfti hún heldur ekki. Nadía var ætíð við hendina til þess. Þannig leið dagur eftir dag. Marfa átti Nadíu að þakka, að hún gat haldið út gönguna og sloppið hjá þeim nauðum sumra fanganna, að vera fest við söðulboga og dregin áfram með sama hraða og hinir. En þessar þjáningar á aðrar ofan máttu fjölda margir hinna vesölu fanga líða á þessari sorgargöngu. »Guð launi þér, dóttir góð, fyrir allt gott sem þú hefir gert fyrir mín gráu hár«, sagði Marfa gamla einu sinni, og um langan tíma voru, það einu orðin, sem á milli þeirra höfðu farið. Á göngunni frá Omsk, sem föngunum fannst svo löng, að tíminn hlyti að skifta árum, en sem í rauninni voru ekki nema fáir dagar, mátti ætla, að þær Marfa og Nadía hefðu sagt hvor annari raunasögu sína. En Marfa gamla var varkár eins og líka var ástæða til, og talaði aldrei um sjálfa sig, nema í sem fæstum orðum. Hún minntist aldrei með einu orði á son sinn, eða hinn happalausa fund þeirra í Omsk. Nadía var nærri eins orðvör, þó máske ekki eins og gamla konan. Því þar kom að, að hún, opnaði hjarta sitt fyrir gömlu konunni og sagði henni frá öllu er gerst hafði, frá því hún steig á vagnlestina í Wladimir og þangað til samferðamaður hennar, Nikulás Korpanoff, lét lífið, að hún hélt, í Irtich-fljótinu. Gamla konan hlustaði með athygli á hvert orð og sagði svo: »Nikulás Korpanoff! Viltu segja mér meira af þessum Nikulási? Ég þekki einn mann, og einn einungis, meðal allra ungra samtíðamanna, sem þannig gæti komið fram. Ef einhver annar kæmi fram yrði ég meira en hissa. Nikulás Korpanoff! Ertu viss um að það sé rétt nafn hans? Ertu sannfærð um það, dóttir góð?« »Hví skyldi hann hafa dulið mig hins sanna?« svaraði Nadía spyrjandi. »Hann, sem aldrei sagði mér ósatt um annað?« En gamla konan var samt ekki ánægð með þetta. Hún fann á sér, að hér mundi um uppgerðarnafn að ræða. Hún spurði því Nadíu spurningu eftir spurningu um þennan mann. »Þú hefir sagt mér, að hann væri fullhugi«, sagði hún, »og þú hefir sannað, að hann hafi verið það«. »Já, hann var sannur fullhugi«, svaraði Nadía. »Svo hefði sonur minn reynst«, sagði Marfa með sjálfri sér, en upphátt: »Þú segir, að ekkert hafi stöðvað ferð hans, ekkert gert hann ráðþrota; að hann hafi verið svo viðkvæmur mitt í aflraunum sínum, að í honum hafir þú átt systur ekki síður en bróður, og að hann hafi annast um þig eins og móðir?« »Já, já«, svaraði Nadía. »Hann var mér allt í senn: bróðir, systir og móðir!« »Og var tý-hraustur verndari þinn?« »Sannarlega var hann það«. »Sonur minn, sonur minn!« hugsaði gamla Síberíu-konan, en upphátt sagði hún: »Og þó bar hann, segir þú, hræðilega smán í Ishim, með stökustu þolinmæði?« »Svo var það víst«, sagði Nadía, og leit niður fyrir sig. »Hann umbar þá smán!« tók Marfa upp. »En, móðir góð!« sagði Nadía með ákafa. »Þú mátt ekki áfella hann fyrir það! Hann hafði leyndardóm að verja, sem Guð einn getur um dæmt«. »Og«, sagði Marfa og rétti úr sér og leit framan í Nadíu, eins og vildi hún lesa hennar innstu hugrenningar, »og fannst þér ekki á þeirri niðurlægingarstundu, að þú skammast þín fyrir þennan Nikulás Korpanoff?« »Ég dáðist að honum án þess að skilja ástæðurnar«, svaraði Nadía. »Mér fannst hann aldrei verðskulda virðingu og heiður fremur en einmitt á þeirri stundu«. Gamla konan þagði um hríð, en spurði svo: »Var hann hár vexti?« »Já, hann var hár maður«. »Og fríður sýnum, er ekki svo?« spurði Marfa. »Jú, hann var einkar fríður maður«, svaraði Nadía og roðnaði. »Það var sonur minn! Heyrirðu, það? Hann sonur minn?« hrópaði Marfa upp yfir sig og faðmaði Nadíu. »Sonur þinn!« sagði Nadía steinhissa. »Já, en heyrðu nú, Við skulum reyna að komast að einhverri niðurstöðu í þessu. Samferðamaður þinn, vinur þinn og verndari, átti sannarlega móður! Minntist hann nokkurntíma á hana, dóttir góð?« »Minntist hann á hana! Jú, víst gerði hann það. Hann talaði um hana, eins og ég um, föður minn, við öll tækifæri — æfinlega. Hann unni henni hugástum«. »Ó, þetta er sonur minn, Nadía, sem þú ert að segja mér frá, sonur minn elskulegur!« Svo spurði hún: »Ásetti hann sér ekki að hitta móður sína, sem hann unni svo mikið, á ferð sinni um Omsk?« »Nei« svaraði Nadía. »Það ætlaði hann ekki að gera«. »Hvað! Þorir þú að segj mér þetta?« sagði gamla konan æðislega. »Já, ég þori það og segi það, en svo á ég eftir að geta þess, að vegna einhverra orsaka, sem ég skildi ekki og skil ekki enn, orsaka, sem voru þyngri á metaskálunum, en allt annað, réði ég það, að hann mætti til með að ferðast í dularbúningi um landið og fara huldu höfði hvarvetna. Það var lífsspursmál fyrir hann að komast þannig áfram. Það var skylda og drenglyndi, sem knúði hann áfram, fremur öllu öðru«. »Skylda, já, valdboðin skylda«, sagði Marfa gamla, »skyldan, sem knýr suma til að kasta öllu frá sér, en þiggja ekkert, njóta einskis, neita sér jafnvel um að gefa gamalli móður sinni einn einasta koss, máske hinn síðasta í þessu lífi! Öll þessi sjálfsafneitun, til þess að geta fullnægt einhverju skylduboði, náð einhverju fyrirsettu takmarki. Þú veizt ekki, Nadía, alt sem hér býr undir, ég vissi það ekki sjálf, fyrri en rétt núna, en nú skil ég það alltsaman. En ég get ekki endurgoldið þér sannleiksljósstrauminn, sem þú leiddir inn í hugskot mitt. Úr því sonur minn sagði þér ekki leyndarmál sín, má ég ekki gera það, en hlýt að varðveita þau, eins og þau væru mín. Fyrirgef þú mér þetta, Nadía. Ég fæ aldrei endurgoldið þér það, sem þú hefir gert fyrir mig«. »Ég æski ekki eftir launum, móðir góð«, svaraði Nadía, og féll svo tal þeirra niður í bráð. Þannig var nú allt opið fyrir gömlu konunni. Hún þóttist nú skilja hvernig stóð á hinni undraverðu breytni Mikael Strogoffs í Omsk. Hún dró ekki minnsta efa á, að samferðamaður Nadíu var sonur hennar: að hann var með einhvern áríðandi boðskap; að hann þess vegna var neyddur til að fara huldu höfði, þekkja engan og láta engan þekkja sig fyrir sendiboða keisarans, og að hann þessvegna mátti ekki heldur kannast við móður sína frammi fyrir fjölda manns í Omsk. »Nei, minn hugmikli sonur«, hugsaði hún, »ég skal ekki svíkja þig. Engar pyntingar skulu toga svo mikið sem eitt einasta orð út af vörum mínum, í þá átt, að það hafir verið þú, sem ég sá í Omsk«. Gamla konan hefði með einu orði getað endurgoldið Nadíu margfaldlega allt, sem hún hafði gert fyrir hana. Hún hefði getað svalað hjarta meyjarinnar með því, að sá sem hún syrgði sem dauðann, Nikulás Korpanoff, eða öllu heldur Mikael Strogoff, væri enn í landi hinna lifendu, að hún hefði séð hann nokkurum dögum eftir að hann sökk í straumröst Irtychfljótsins, og hefði þá talað við hann. Og hana langaði til að gleðja meyna með þeirri fregn, en hún stilti sig. Hún lét sér í það skiftið nægja að segja: »Vertu vongóð, barnið mitt! Sorgin og mæðan yfirskyggja þig ekki algerlega. Þú hittir föður þinn, og hver veit nema sá, sem gaf þér nafnið »systir« sé lifandi enn: Guð hefir ekki leyft svo góðum samferðamanni að farast. !Vonaðu, dóttir mín, vonaðu! Sorgarbúningurinn, sem ég ber, er ekki enn fyrir son minn! Láttu ekki hugfallast fremur en ég«. III. Högg fyrir högg. Þannig var þá komið ástæðunum hjá þeim Mörfu Strogoff og Nadíu. Gamla konan skildi ganginn í öllu, en Nadía ekki fremur en áður. Hún var sannfærð að eins um það, að gamla konan, sem hún hafði aðstoðað, var móðir samferðamanns hennar. Og hún þakkaði guði fyrir tækifærið, sem hann hafði gefið henni að ganga gömlu konunni, sem hún nú kallaði móður sína, í sonarstað, í stað sonarins, sem hún áleit dáinn. En það gat hvorug þeirra vitað, ómögulega grunað, að Mikael Strogoff hefði verið fangaður í Kolyvan, og að hann nú væri í sömu aðal-fangaþvögunni og þær sjálfar, á leiðinni til Tomsk. Því föngunum, sem Ogareff kom með, hafði verið slengt saman við fangaflokkinn, sem fyrir var hjá Feofar. Þessi lest fanganna náði á göngunni yfir margar verstir af brautinni, enda voru þar saman komnir menn og konur svo þúsundum skifti, Rússar og Síberíumenn, hermenn og borgarar. Meðal þessara vesalinga voru nokkrir álitnir svo hættulegir, að þeir voru fjötraðir með járnhlekkjum og hendur þeirra tengdar með járnum. Fjöldi mesti var af konum og börnum í göngunni og voru börnin mörg bundin við söðulboga og enda konurnar — og svo dregnar, ef þær gátu ekki gengið jafn hart hinum. Þeir, sem betur gengu voru reknir í þéttri hjörð eins og sauðir eða búpeningur. Riddaraflokkur var í þéttri röð fram með rekstrinum til beggja handa og á eftir voru riddararnir, harðfengnir nóg og knúðu þessa aumingja til að fylgja föstum reglum og halda vissri ferð. Það var engum leyft að dragast aftur úr, nema þeim, sem féllu til að rísa aldrei upp aftur. Þessi vissa regla gerði það að verkum, að Strogoff, sem tilheyrði Kolyvan-fylkingunni, gekk í fremstu röð fanganna. Þess vegna var honum ekki unt að blanda sér í flokk fanganna frá Omsk. Hann hafði því ekki fremur hugmynd um að móðir sín og Nadía væru í öftustu fylkingunni, en þær höfðu hugmynd um, að hann væri í þeirri fremstu. Hún reyndist grafarganga margra þessi ferð frá herbúðunum í skóginum austur til Tomsk. Og hún var sorgarganga fyrir alla, hræðileg sorgar og hörmungarganga undir svipuhöggum og lensulögum barbaranna, er ráku lestina, og í sífelldu moldryki undan hófum hestanna allra, er Feofar hafði með sér og sínu föruneyti á undan. Skipunin var, að fara hart og hvíla sem sjaldnast. Það var steikjandi sólarhiti alltaf meðan á göngunni stóð og þessar 150 verstir, sem aðskildu herbúðirnar og Tomsk, virtust aldrei ætla að enda, þrátt fyrir hraða ferð og viðstöðulausa. Allt þetta svæði, suðaustur að Sayanok-fjöllunum, er gróðurlítil háslétta. Dvergvaxin tré á stangli og skrælnaðir hrísrunnar er eini gróðurvotturinn á stórum flákum á þessari sandauðgu sléttu, Byggð var þar engin og þá engin akur eða jarðyrkja og olli því vatnsleysið. Og það var vatnsleysið á þessari hörmungargöngu, sem fremur öllu öðru þjáði fangana. En vatn var ekki til og ekki nær en svaraði 50 verstum austur, meðfram hæða-röstinni, er skiftir vötnum milli fljótanna, Obi að vestan og Yenesei að austan. Þar er áin Tom, sem kemur sunnan úr fjöllum; fellur hún skammt frá Tomsk og liðar sig um sléttuna þangað til hún hverfur í hið mikla Yenesei-fljót. Ef eystri leiðin hefði verið farin og svo upp með Tom, hefði verið gnægð af vatni, sléttan um leið grösugri og hitinn ekki eins tilfinnanlegur. En emírinn gaf stranga skipun um, að fara styztu leiðina eftir striki suðaustur, og sem sagt, fara svo hratt sem kostur væri á. Hann óttaðist áhlaup af hálfu Rússa norðan úr héruðum og vildi síður fá þá á fylkingar sínar á göngunni. Aðalþjóðvegurinn lá heldur ekki í grennd við og fram með Tom, fyrr en kom til, þorpsins Zapediero, sem er 30 verstum fyrir norð-vestan Tomsk, heldur lá hún beint suðaustur. Eftir henni var farið, þótt ófært mætti teljast, vatnsleysisins vegna, í hitanum. Það væri bæði óskemmtilegt og þarflaust að lýsa hörmungum fanganna, þreytu og kvölum á þessari vatnslausu eyðimörk. Þeir, sem féllu og aldrei risu á fætur aftur, skiftu hundruðum. Þar láu lík þeirra, til þess úlfahjarðirnar um haustið og veturinn sundruðu leifunum og sleiktu hold af beinum. Eins og Nadía hjálpaði Mörfu, eins hjálpaði Strogoff öllum vesalingunum í sínum flokki, sem hann náði til og sem kostur var á að hjálpa. Hann var alltaf á ferðinni frá einum til annars, hughreysti þennan og studdi hinn, þangað til lensu var potað í hann og hann áminntur um að hverfa aftur á þann stað, er honum var skipaður. En því reyndi hann ekki að strjúka? Ástæðan var sú, að hann hafði nú fastákveðið að gera enga slíka tilraun fyrr en til Tomsk væri komið og brautin fram undan. Hann áleit ekki nema réttlátt, að hann ferðaðist til Tomsk á »kostnað emírsins«. Það var heldur ekki árennilegt að leita burt á ferðinni. Hvort sem hann leit til norðurs eða suðurs sá hann riddaraflokka á sléttunni. Þeir gusu upp í stórhópum hvarvetna, rétt eins og þeir spryttu upp úr jörðunni, eins og pöddur og flugur eftir þrumuskúr. Þessir spæjarar hlutu að sjá hann og fanga áður en hann kæmist svo mikið sem 2 verstir burtu frá fylkingunni. Flótti var þá allt að því, ef ekki alveg, ómögulegur undir kringumstæðunum. Það var heldur ekki nema eðlilegt, að Tartara-varðmennirnir væru aðgætnir. Hvað lítið, sem hefði bjátað á fyrir einhverjum þeirra, hefði sá hinn sami týnt höfðinu fyrir. Stuttu fyrir sólarlag hinn 15. ágúst náði fylkingin til Zab diero á bökkum Tom-árinnar. Héðan voru 30 verstir til Tomsk. Hefðu fangarnir mátt ráða hefðu þeir allir hlaupið til árinnar í einni þvögu, en þeim var ekki leyft að rjúfa fylkinguna, nema eftir röð og reglu og ekki fyr en allir voru stanzaðir. Flóð mikið var í ánni og bakka á milli var hún eins og hvítfyssandi ölduröst. Þrátt fyrir það, var ekki óhugsandi, að einhver ofurhugi meðal fanganna kynni að leggja til sunds og sleppa þannig. Til að fyrirbyggja það, voru bátar margir teknir úr þorpinu og fluttir til tjaldstaðarins og þeim raðað á ána þannig, að þeir mynduðu illkleifan vegg. Auk þess var óslitinn hringur af hermönnum umhverfis tjaldstaðinn allan. Mikael Strogoff fór nú að hugsa á flótta og leit nú með gaumgæfni allt í kringum sig. Eftir að hafa gert það, leizt honum algerlega óhugsandi að nokkur, maður gæti sloppið. Hann var því til neyddur að bíða lengur. Skipunin var að hafa náttstað þarna á árbakkanum, því emírinn hafði ákveðið að færa herinn inn í borgina Tomsk daginn eftir. Það hafði sem sé verið ákveðið að efna til hátíðar mikillar í minningu þess, að Tartarar voru nú einráðir í þessari mikilsverðu borg. Sjálfur hafði emírinn tekið sér bústað í kastalanum, en hermennirnir, sem hann hafði tekið með sér, héldu til undir beru lofti úti fyrir borgarveggjunum. Þeir biðu eftir meginhernum, og því, að hinn hái herra, emírinn, héldi innreið sína í borgina með allt sitt mikla lið. Ivan Ogareff skildi við emírinn í kastalanum og sneri aftur til Zabediero, til þess, daginn eftir, að stýra ferð meginhersins og fanganna til borgarinnar. Í þorpinu hafði hann fengið sér hús til að hvílast í, en hermennirnir og fangarnir máttu liggja undir beru lofti, utanvert við þorpið, á árbakkanum. Um sólarupprás morguninn eftir skyldi gangan hafin til Tomsk, þar sem emírinn beið liðsins, og þar sem átti að fagna honum og her hans öllum með makalausri austrænni dýrð, eins og venja er, þegar austurlanda konungar eru hylltir. Þegar allt var komið í kyrrð, hver ein deild fylkingarinnar komin á sinn stað, sem hún átti að skipa til morguns, fengu hinir úttauguðu fangar loksins bæði að hvíla sig og svala hinum brennandi þorsta — í fyrsta skifti eftir þriggja daga ferð. Sólin var um það horfin út yfir sjóndeildarhringinn, þegar Nadía studdi Mörfu gömlu gegnum mannþröngina fram að ánni. Þær höfðu mátt bíða æðitíma, áður en garðurinn rofnaði, svo að þær gætu komist fram á bakkann. En nú einnig gafst þeim tækifæri til að svala þorsta sínum. Gamla konan laut þegar niður að vatninu og Nadía var ekki sein að bera vatn að vörum hennar í höndum sínum og vökva, áður en hún tæki að drekka. Svo fór hún þá að hugsa um sjálfa sig. Eftir að hafa teygað lyst sína af þessu blessaða vatni, svo tæru og köldu, var sem nýr lífsstraumur laugaði hverja þeirra taug. Allt í einu kipptist Nadía við og rak upp hljóð fyrr en hana varði. Mikael Strogoff stóð þar fá skref frá þeim! Geislastafir deyjandi kvöldsólarinnar lýstu upp hið svipmikla andlit hans, Það var hann; þar var ekki um að villast. Strogoff kipptist við líka, þegar hann heyri hljóð Nadíu og sá hana svo. En hann hafði þeim mun meira vald yfir sér, að hann sagði ekkert, hreyfði sig ekki. Og þó sá hann einnig móður sína um leið og hann kom auga á Nadíu. Hann treysti sér ekki að standa þarna á þessum óvænta fundi, en brá hendinni fyrir augun, svo að hann sæi þær ekki, sem hann ekki mátti sjá, og gekk hvatlega burt frá ánni. Nadía var í þann veginn að hlaupa af stað á eftir honum, þegar Marfa gamla greip í hana og hvíslaði í eyra hennar: »Vertu kyr, dóttir góð!« »En það er hann!« svaraði Nadía, og kom varla upp orði fyrir ákafa, »Hann er lifandi, móðir mín! Það er hann!« »Já, það er hann sonur minn!« svaraði gamla konan. »Það er Mikael Strogoff, og þó sérðu að ég hreyfi mig ekki einu sinni til þess að veita honum eftirför! Ger sem ég, dóttir góð!« Strogoff hafði á þessari stundu þær sárustu tilfinningar, sem maður getur haft, að vita móður sína og Nadíu þarna í hópnum, þessar tvær konur, sem alltaf voru í huga hans. Guð hafði óneitanlega ráðið því, að þær skyldu þannig hittast og vingast, mitt í þessum ógnum. Vissi Nadía þá hver hann í raun og veru var? Óefað, því hann hafði séð að gamla konan aftraði Nadíu, þegar hún ætlaði að hlaupa á eftir honum. Móðir hans augsæilega skildi allar aðstæðurnar, stæðurnar, og það var jafn greinilegt að hún hafði einnig varðveitt leyndarmál hans. Um nóttina var hann að minnsta kosti 20 sinnum á flugstigi með að fara og leita þær uppi. En hann afneitaði sjálfum sér. Hann vissi að undir kringumstæðunum var ekkert vit í því, að taka móður sína í faðm sinn, eða taka í hönd samferðavinu sinnar. Það gat verið banvænt að hreyfa sig hið minnsta. Auk þess minntist hann og boðsins — að sjá ekki móður sína. Hann hugsaði sér að gera það ekki, ef óumflýjanlegt væri. Án þess að heilsa henni eða tala við hana eitt einasta orð, ásetti hann sér að hefja gönguna austur, eða gera tilraun til þess, undir eins og til Tomsk var komið, úr því ekki voru tiltök að leggja á flótta þá um nóttina. Það var harðleikið að hafna þannig tækifærinu, að minnast við þær tvær konur, sem honum voru kærari en allt annað í heiminum, en það varð svo að vera. Hann hlaut að skilja þær eftir mitt í hættunum, sem ekki var unt að vita, hvað margar voru og stórar. Hann vonaði og óskaði að ekkert óhapp hlytist af þessum óvænta fundi, hvorki fyrir sig eða móður sína. Hann vissi ekki að augu voru til, sem athugað höfðu hverja hreyfingu þeirra Mörfu og Nadíu og séð það sem gerðist á árbakkanum. Kvenspæjari Ogareffs — Sangarre — var í fárra skrefa fjarlægð, eftir vanda, að athuga gömlu konuna, sem ekki vissi um eftirför þá fremur en endranær. Viðbrigðin voru svo fljót, að hún hafði ekki ráðrúm til þess að sjá Strogoff — svo fljótt gekk hann af stað. En hún sá að Marfa hélt í Nadíu og augnatillit gömlu konunnar sagði henni alla söguna. Hún var sannfærð nú um að sonur Mörfu, sendiboði keisarans, var í hópnum og meðal fanga Ogareffs. Hún þekkti hann ekki, að sjá hann, en hún vissi að hann hlaut að vera þar. Hún gerði heldur enga tilraun til að finna hann, enda þýðingarlaust, þó hún hefði þekt hann, í myrkrinu og mannfjöldanum. Það var líka þýðingarlaust að standa á verði um nóttina yfir þeim Mörfu og Nadíu. Þær mundu auðvitað vera varar og ekki láta hrjóta eitt orð, er gæti komið sendiboðanum illa. Í stað þess datt henni í hug að fara á fund Ogareffs og segja honum frá uppgötvun sinni. Og innan fárra mínútna var hún komin út fyrir varðmanna-hringinn. Fjórðugi stundar síðar var hún komin til Zabediero og henni tafarlaust beindur vegur inn í húsið þar sem lautenant emírsins var. Hann veitti henni viðtal undireins og spurði þegar: »Hvaða fréttir hefir þú að færa mér, Sangarre?« »Sonur Mörfu Strogoff er í fylkingunni«. »Hvað, fangi?« »Fangi!« »Oh! Ég skal vita —«. »Þú veizt ekkert, Ivan! Þú þekkir hann einusinni ekki, þótt þú sjáir hann«. »En þú þekkir hann«, svaraði Ogareff. »Þú hefir séð hann, Sangarre«. »Ég hefi ekki séð hann. En móðir hans kom öllu upp með bendingum, sem mér duldust ekki«. »Er þetta ekki hugarburður þinn?« »Það er ekki hugarburður«. »Þú veizt, hve áríðandi mér er að fanga þennan mann«, sagði Ogareff. »Komist bréfið, sem hann flytur frá Moskva, til Irkutsk, og komist það í hendur stórhertogans, verður hann var um sig og næ ég þá ekki til hans. Þetta bréf þarf ég því að fá, hvað sem það kostar, ef nokkrir möguleikar eru til þess. Og nú segir þú Sangarre, að einmitt þessi sendiboði sé meðal fanganna. Ég endurtek þess vegna spurningu mína: Er þetta ekki hugarburður?« Það leyndi sér ekki á málfæri Ogareffs eða tilburðum hans, hve áríðandi honum þótti að ná í bréfið og hve mikið honum þótti í fregn þessa varið, ef óhætt væri að treysta henni. Sangarre lét enga þykkju á sér sjá, þó hann endurtæki spurninguna þannig. Hún svaraði blátt áfram: »Það er ekki hugarburður, Ivan«. »En Sangarre, fangarnir skifta þúsundum að tölunni, og þú þekkir ekki Mikael Strogoff«. »Nei«, svaraði hún með vargslegum fögnuði, »ég þekki hann ekki, en móðir hans þekkir hann! Þú verður að koma henni til að tala, Ivan!« »Hún skal opna munninn á morgun!« svaraði Ogareff. Svo rétti hann gifta-konunni hönd sína, en hún tók hana og kyssti. Sá siður er almennur meðal norðurlandaþjóða og var því athöfn þessi enginn sérstakur vottur um undirgefni. Sangarre sneri svo til náttstaðar hersins, leitaði þegar uppi þær Mörfu og Nadíu og bjóst til að gæta þeirra um nóttina. Þó báðar væru yfirkomnar af þreytu, sérstaklega gamla konan, kom þeim ekki dúr á auga um nóttina. Umhugsun og kvíði bannaði allan svefn, af því Strogoff, eins og þær, var fangi Tartaranna. Vissi Ogareff af honum, eða, ef hann vissi ekki af honum, mundi hann komast að því að hann var í hópnum? Þessu líkar voru hugsanir gömlu konunnar, en hugsanir Nadíu hneigðust allar að þakklæti og fögnuði, af því að hann, sem hún hélt framliðinn, var enn í landi lifenda. Marfa gamla hugsaði um fleira, horfði fram á veginn. Hún var kvíðandi og óttaslegin vegna sonar síns, en um sjálfa sig og hvað sín biði var henni sama. Í náttmyrkrinu læddist Sangarre fast að legurúmi þeirra Mörfu og Nadíu og hlustaði, en græddi ekki neitt. Hún heyrði ekki eitt einasta orð talað. Það var enginn skortur á varkárni hjá gömlu konunni, og Nadía var enginn eftirbátur í því. Þær skiftust ekki á einu orði alla nóttina. Morguninn eftir var 16. ágúst. Þó ákveðið hefði verið að halda af stað um sólarupprás, þá varð nú ekkert úr því, og klukkan 10 voru lúðrar þeyttir. Innan fárra mínútna stóðu allir ferðbúnir. Ivan Ogareff var kominn heiman úr þorpinu með herforingjaflokk með sér. Hann var ýrðari á svipinn en venja var til og hnyklarnir í brúnum hans gáfu til kynna, að inni fyrir brynni reiðieldur, sem þá og þegar mundi brjótast út. Strogoff sá föðurlandssvikarann fara hjá, en huldi sig í stórri fangaþyrpingu. Án þess hann gæti gert sér ljóst, hvernig á því stóð, fann hann, að einhver stór slys voru fyrir höndum. Ogareff reið inn í miðja fylkinguna og steig af baki. Þar var undir eins sleginn hringur og allir reknir út fyrir það svið. Gekk þá Sangarre fyrir hann og sagðist engar fréttir hafa að segja. Hann svaraði því engu, en talaði við einn foringja sinn. Á næsta augnabliki voru hermennirnir hvarvetna að píska fangana á fætur og skipa þeim í raðir. Voru þeir þá ýmist lamdir með svipum eða þeim var hrundið með lensum og sverðum, en handfangið, en ekki oddurinn, brúkað fyrir barefli. Samtímis raðaði þéttur hermannavörður sér umhverfis fangaröðina, svo ekki var viðlit fyrir nokkurn mann að smjúga eða læðast burt. Nú varð þögn. Ogareff gaf Sangarre þegjandi bendingu og gekk hún þá skyndilega til þess flokks fanganna, er hafði að geyma þær Mörfu og Nadíu. Marfa gamla sá kvenfjandann koma og hún þóttist vita hvað til stóð. Hún brosti fyrirlitlega, og laut að eyra Nadíu og sagði við hana: »Þú mátt ekki undir neinum kringumstæðum kannast við mig, dóttir góð. Hvað hörð sem raunin kann að verða, og hvað sem fyrir kann að koma, máttu ekki segja eitt orð, ekki gera minnstu hreyfingu. Það er ekki mín, heldur hans vegna«. Svo leit hún upp og í því var Sangarre komin að fangaþyrpingunni, sem var umhverfis gömlu konuna, Sangarre leit eftir henni, sá hana og horfði á hana um stund, gekk svo til hennar og drap fingri á öxl hennar. »Hvað viltu mér?« spurði Marfa. »Komdu!« svaraði Sangarre, og svo hratt hún gömlu konunni af stað og rak hana á undan sér þangað til komið var fram fyrir Ogareff. Strogoff sá þetta allt saman, en leit til jarðar, svo bræðin, sem leiftraði í augum hans, sæist ekki. Þegar fram fyrir Ogareff var komið, rétti Marfa úr sér, víxlaði handleggina á brjósti sér og beið. »Þú ert Marfa Strogoff?« spurði Ogareff. »Já«, svaraði konan stillilega. »Viltu afturkalla það sem þú sagðir, þegar ég spurði þig fyrir fáum dögum síðan í Omsk?« »Nei«. »Svo þú veizt þá ekki að sonur þinn, sendiboði keisarans, hefir farið austur um Omsk?« »Ég veit það ekki«. »Og maðurinn, sem þú hélzt þú þekktir var ekki hann — var ekki sonur þinn!« »Hann var ekki sonur minn!« »Og þú hefir ekki séð hann síðan meðal fanganna?« »Nei«. »Ef þér væri bent á hann, mundir þú þá þekkja hann?« »Nei!« Þetta svar, svona einbeitt og afgerandi sýndi, að hún ætlaði ekki að viðurkennast, vakti aðdáun og undrun áheyrendanna. Ogareff gat ekki stillt sig um að ygla sig og gera bendingar, sem ekki boðuðu neitt gott. »Ég veit!« sagði hann »að sonur þinn er hér í hópnum, og þú skalt tafarlaust sýna mér hann«. »Það geri ég aldrei!« »Allir mennirnir, sem fangaðir voru í Omsk og Kolyvan skulu ganga fram hjá þér. Og ef þú ekki sýnir mér Mikael Strogoff skaltu fá eins mörg »knut« högg eins og mennirnir eru margir, sem fram hjá þér hafa farið!« Marfa svaraði engu. Ivan Ogareff þóttist nú sjá, að hverju sem hann hótaði, hvernig sem hann píndi gömlu konuna, mundi ekki þessi Síberíu-kvenhetja opna munninn. Til þess því að finna sendiboða keisarans treysti hann á hann sjálfan fremur en móðurina. Hann trúði sem sé ekki öðru en að Mikael sýndi sig sjálfan á einhvern hátt með tilliti eða tilburðum þegar hann gengi fram hjá móður sinni, og hún í þessum kringumstæðum. Ef ekki hefði verið um annað gera, en ná bréfinu, var þetta umstang auðvitað þarflaust. Til þess að ná því þurfti hann ekki annað en láta foringja sína leita á öllum föngunum. En honum þótti eins víst, að Strogoff væri búinn að eyðileggja bréfið og læra innihald þess. Kæmist sendiboðinn til Irkutsk, þó bréflaus væri, var úti um allar ákvarðanir Ogareffs og allt í veði. Það var ekki bréfið fyrst og fremst, sem svikarinn þurfti að ná, heldur og miklu fremur sendiboðinn sjálfur. Þess vegna var nauðsynlegt að þekkja hann úr hóp. Nadía hafði heyrt allt þetta viðtal við Mörfu. Nú vissi hún þess vegna að Mikael Strogoff og Nikulás Korpanoff var einn og sami maður. Nú vissi hún þá líka hvernig stóð á ferðhraðanum og því, að samferðamanni hennar var svo áríðandi að fara huldu höfði. Fangarnir voru nú leiddir fram. Hægt og seint var einn og einn látinn ganga eftir öðrum fram hjá Mörfu gömlu, en hún stóð hreyfingarlaus eins og marmarastytta, og ekkert annað en algert kæruleysi var að sjá á svip hennar. Sonur hennar var meðal hinna seinustu er fram hjá gengu. Nadía sá hann, en lét aftur augun, svo hún ekki sæi hvað gerðist. Að ytra áliti var hann tilfinningarlaus, þegar hann fór fram hjá móður sinni, en lófar hans blæddu undan nöglunum, svo fast krepti hann hnefana. Gangan var úti. Ogareff var ráðalaus. Sangarre stóð nærri honum og sagði hún þá eitt einasta orð: »Knut«-inn!« »Já«, öskraði Ogareff, sem ekki réði sér lengur. »Berjið kerlingarvarginn með »knut« — til dauða!« Tartarahermaður gekk þegar fram með þessa hræðilegu, morðvargasvipu og pintingaverkfæri. »Knut«-urinn samanstendur af mörgum leðurólum, bundnum í písk, og er grannur tvinnaður járnvír festur á endann, sem barið er með. Að vera dæmdur til hundrað og tuttugu »knut«-högga er metið sama og dauðadómur. Það vissi Marfa gamla líka, en henni brá ekki. Hún hafði afráðið að uppljúka ekki sínum munni, en láta lífið með glöðu geði fyrir son sinn. Tveir hermenn gripu hana, þvinguðu hana til að krjúpa á kné á grundinni, rifu klæðnað hennar svo bakið var bert, og héldu henni svo undir höggin. Grönnu litlu sverði var haldið þannig framan við hana, að bognaði hún undan höggum svipunnar nísti sverðsoddurinn brjóst hennar. Böðullinn rétti nú úr sér og beið tilbúinn. Svipan smó loftið og hvein við. En áður en hún snerti bak Mörfu, hafði aflmikill armleggur verið réttur fram, sem greip um handlegg Tartarans og hélt honum eins og í járnviðjum. Mikael Strogoff var kominn í ljós. Hann stóðst ekki þessa raun, en hljóp fram og batt enda á leikinn. Í Ishim gat hann ráðið sér, því þar var hann sjálfur sleginn, en að horfa á móður sína barða fyrir sig með þessu hræðilegsta af öllum hræðilegum bareflum, það var meira en hann þoldi. Föðurlandssvikarinn Ivan Ogareff hafði unnið sigur. »Mikael Strogoff!« hrópaði Ogareff fagnandi og gekk nær. »Nú, það er maðurinn frá Ishim!« bætti hann svo við. »Hann og enginn annar!« svaraði Strogoff. Og á augnablikinu hreif hann »knut«-inn af Tartaranum, brá honum á loft og lét hann ríða yfir þvert andlit Ogareffs. »Högg fyrir högg!« sagði hann um leið. »Drengilegt endurgjald!« heyrðist sagt í mannþrönginni, en það var gagn þeim sem mælti þau orð, að fjöldi var umhverfis hann, svo hann sást ekki. Tuttugu hermenn ruddust nú að Strogoff með vopnum á lofti, og innan einnar mínútu hefði hann verið dauður. En Ogareff, sem rak upp org af sársauka, aftraði þeim í tæka tíð. »Það er emírsins að dæma þennan mann!« hrópaði hann, »en leitið á honum«. Keisarabréfið fannst í brjóstvasa hans. Hann hafði ekki haft ráðrúm til að eyðileggja það, eftir að hann sá hvað verða vildi. Það var afhent Ogareff. Maðurinn sem kallað hafði upp: »Drengilegt endurgjald«, var Alcide Jolivet. Hann og Harry Blount voru í hópnum og sáu því allt sem gerðist. »Þeir eru grófgerðir þessir Norðurlandamenn, það veit hamingjan«, sagði Jolivet við félaga sinn. »En það megum við viðurkenna, að fyrrverandi samferðamaður okkar á gott af okkur skilið, hvort heldur hann heitir Korpanoff eða Strogoff. Þetta var sannarlega vænlegt endurgjald fyrir óskundann í Ishim«. Já, réttlát hefnd er það sannarlega«, svaraði Harry, »en Strogoff er svo gott sem dauður maður! Það er ætlan mín, sjálfs sín og erindisins vegna að minnsta kosti, að honum hefði verið betra, að muna ekki svona vel eftir viðureigninni í Ishim«. »Og láta móður sína deyja undir »knut«-höggunum?« spurði Alcide. »Heldurðu máske að hún eða systir hans séu í nokkuð álitlegri kringumstæðum fyrir þetta uppþot hans?« »Ég veit ekki og hugsa ekki um neitt annan en það, að í hans kringumstæðum hefði ég gert alveg eins og hann«, svaraði Frakkinn, »Hvílíkt þó ör, sem óberstinn fær á kinnina! Ah! Það má til að sjóða út úr hjá manni einstöku sinnum! Það væri vatn en ekki blóð í æðum okkar, ef við ekki endur og sinnum sleptum haldi á tilfinningunum!« »Það er efni í ekki svo afleitan pistil í blöðin okkar, þetta!« sagði Harry, og bætti svo við: »Ef Ogareff nú bara vildi lofa okkur að heyra innihald bréfsins þess arna!« Undir eins og Ogareff hafði stanzað blóðstrauminn, sem rann úr sárinu niður um vanga hans, braut hann upp bréfið, las það og marglas það, eins og væri hann að leita eftir öllum þýðingum orðanna, sem það hafði að geyma. Svo skipaði hann að fjötra Strogoff og hafa sterkan vörð um hann á leiðinni til Tomsk. Að svo mæltu fór hann fram fyrir fylkinguna, horn voru þeytt og bumbur barðar og fylkingin öll seig af stað í áttina til bæjarins þar sem emírinn beið. IV. Innreiðin í Tomsk. Borgin Tomsk var grundvölluð árið 1604, liggur sem næst miðbiki Síberíu, og er einn merkasti bærinn í Asíulöndum Rússa. Höfuðstaðirnir tveir, Tobolsk, norður undir 60. norðurbreiddar stigi, og Irkutsk fyrir austan 100. stig austurlengdar, hafa séð Tomsk aukast og margfaldast á sinn kostnað, en ekki getað aftrað því. Þó er Tomsk, sem sagt, ekki stjórnarsetur hins mikla samnefnda héraðs. Landsstjórinn býr í Omsk og ráðgjafar hans allir og hirð. Samt er Tomsk lang-stærsti og merkasti bærinn í öllu héraðinu, sem að sunnan hefir Altaifjöllin fyrir varnargarð gegn áhlaupi Kínverja. Í fjallshlíðum þessum, allt niður í dalinn, sem áin Tom rennur eftir, er ógrynni málma í jörðu, platína, gull, silfur, kopar og blý. Af því að suðurhluti héraðsins hefir að geyma mikla auðlegð í skauti sínu, flýtur það af sjálfsögðu, að bærinn Tomsk einnig er auðsældar bær. Að því er snertir húsaskipun, húsbúnað allan, akfæri og hesta, er Tomsk jafningi stórborganna í Evrópu. Svo auðsætt er ríkidæmi hvarvetna. Tomsk er heimkynni miljónaeigenda, sem auð sinn allan eiga að þakka rekunni og jarðexinni. Þó þar sé engin búsettur fulltrúi Rússastjórnar, geta bæjarmenn samt stært sig af stórhöfðingjum mörgum í heimi viðskifta og verzlunar, og í fremstu röð eru þeir óneitanlega auðmennirnir, sem leyfi hafa til að hagnýta hinar miklu námur. Fyrrum virtist mönnum almennt að Tomsk væri staður á yztu endimörkum heimsins. Það var líka löng leið og erfið þá, að komast þangað. Í samanburði við það er það bara skemtiganga að bregða sér þangað nú, þegar óvígur her uppreisnarmanna byrgir ekki hverja braut. Og nú er enda von á járnbraut þangað vestan yfir Úralfjöll frá Perm. Er Tomsk fallegur bær? Það er nokkuð sem ferðamönnum kemur ekki saman um. Frönsk kona, Madame de Bourboulon, sem stóð þar við nokkra daga á ferð frá Shanghai til Moskva, kallar bæinn snauðan af öllu sem gleðji augað. Bærinn er að hennar dómi tilkomulítið þorp, samsafn af húsum úr steini og múr, með mjóum strætum — ólík strætunum, sem almenn eru í hinum stærri bæjum í Síberíu — með óþriflegum húsaþyrpingum hér og þar, er fleytifull séu af Tartara-skríl. Þar segir hún, í þessum óþrifa þyrpingum, er allt fullt af þessum kyrrlátu, fylliboltum, sem í drykkjuæði sínu eru enda þunglamalegir og tilfinningasljóir, eins og títt er meðal norðurlanda þjóða. Enskur ferðamaður, Henry Russell-Killough, er að sama skapi ákveðinn í hrósi sínu um bæinn. Er það máske af því að hann sá Tomsk um hávetur, hulinn í ís og snjó-möttli sínum, en Madame de Bourboulon um miðsumarsleyti? Það er mögulegt og staðfestast menn þá betur í trúnni á þá skoðun, að köld lönd verði ekki metin eins og má, nema í kulda og snjó, eins og sum hitalöndin verða ekki metin, nema í hitatíðinni. En hvað sem nú því líður, þá er hitt víst, að Mr. Russell-Killough segir afdráttarlaust, að Tomsk sé ekki einungis fallegasti bærinn í Síberíu, heldur einnig, að hann sé meðal fallegustu bæja í Síberíu, heldur einnig að hann sé meðal fallegustu, bæja í heimi. Húsin prýdd með súlum og súlnaröðum umhverfis þau; að strætin séu breið og bein og gangstéttir úr trjávið með fram húsunum og að fimtán ljómandi fallegar kirkjur spegli sig í straumi árinnar Tom, sem sé stærri en nokkur á á Frakklandi. Rétta lýsingu er líklega helzt að finna sem næst mitt á milli þessara tveggja lýsinga. Íbúar bæjarins eru um tuttugu og fimm þúsund talsins, Útsýnið er fallegt, því bærinn er byggður á langri hæð og er brekkan all-brött niður að ánni. En jafnvel fallegasti bær í heimi verður fljótt ljótur ef öll stræti hans úa og grúa af Törturum og öðrum slíkum óþjóðalýð undir vopnum. Hver mundi geta dáðst að fegurðinni í Tomsk undir þeim kringumstæðum. Bærinn var auðtekinn. Þar voru til varnar að eins fáar smádeildir af Kósökkum, allt fótgöngulið og þeir máttu lítið móti aðsækjandi Tartara-drífu emírsins. Ekki all-lítill hluti íbúanna voru Tartarar, og tóku þeir gestum þessum tveim höndum — sem voru Tartarar eins og þeir sjálfir — og fylltu þeirra flokk. Var Tomsk nú um tíma ekki líkari Síberíu-bæ en bæir mitt í Kahna-dæminu Khokhand eða Bokhara. Hér ætlaði nú emírinn að veita sameinuðum herafla sínum móttöku. Og hermönnunum til heiðurs átti svo að efna til stórmikillar veizlu, hávaðamikillar drykkjuveizlu, dansa og söngva. Hátíðahald þetta skyldi fara fram á stórum, sléttum fleti uppi á hæðinni fyrir utan bæinn. Útsýni þaðan var tilkomumikið og í valinu lýsti sér hinn austræni smekkur. Niðri í dalnum, eða dældinni, blasti áin Tom við auganu á löngu sviði, en til hliðar og í nokkurri fjarlægð ríkismannahúsin í Tomsk og hvolfturnar og turnspírur upp af kirkjunum. Bláleit hitamóða sveipaði allt innan sjóndeildarhringsins, húsin í Tomsk, dalinn og ána, sem bugaði sig eftir honum. Það var fögur mynd þetta, rétt eins og málverk væri, í umgerð úr furu og sedrustrjám. Til vinstri handar við veizluflötinn, hafði verið reist skrautmikil og útflúruð stórbygging á hæð með breiðum hjöllum umhverfis. Var það eflaust eftirlíking einhverrar hallarinnar, eða minnismarksins í Bokhara. Uppi yfir höll þessari og turnspírunum óteljandi, sem á henni voru meðal trjágreinanna, sem skýldu höllinni og leikvellinum, flugu tamdir storkar í þúsundatali fram og aftur. Þann fuglaskara fluttu þjónar emírsins með sér sunnan úr Bokhara. Hjallarnir allir umhverfis höllina voru uppteknir fyrir emírinn og hirðfólk hans, höfðingjana alla úr Khanadæmunum öllum og kvennabúr allra þessara höfðingja. Konurnar voru flestar aðeins þrælar, keyptar á markaði í Persaríki og ýmsum héruðum fyrir sunnan og austan Kákasusfjöll. Margar þeirra báru blæjur, er huldu andlitin, en aðrar gengur með andlitin ber. Allar voru þær í dýrum og glitmiklum búningi, í skrautofnum skikkjum svo ermastuttum, að handleggirnir voru naktir upp undir axlarliði. En hlaðnir voru þeir dýrmætum armböndum, er tengd voru saman með gullkeðjum settum demöntum. Hendur þeirra voru smáar, fingurnir grannir og neglurnar litaðar úr henna-seyði. Skikkjur þeirra voru ýmist úr silki eða smáröndóttu, fínu baðmullarlérefti. Hvað lítið, sem þær hreyfðu sig, skrjáfaði í skikkjunum, en það skrjáfur er himnesk unun fyrir eyru Asíumanna. Innanundir skikkjunum voru þær í pilsum úr rósasilki, er að mestu leyti huldu silkinærbuxurnar, útsaumaðar með perlum og dregnar að fótleggjunum með tígulbandi svo neðarlega, að ekki var nema lítið bil milli stígvélanna og skálmanna. Sumar af konunum, sem gengu með nakin andlitin, mundu hafa þótt aðdáanlega fallegar, og var það einkum að þakka, hrafnsvörtum hárfléttum, sem gægðust niður undan hinum margvíslegu höfuðfötum þeirra; tindrandi augum, skjallhvítum tönnum, og ljómandi hörundslit, er enn betur sýndi sig af því augabrýrnar voru svo dökkar og samtengdar með örmjóu, dökku striki og augnahárin máluð með dökku blýi. Fánar og marglitar veifur blöktu á stöngum hvar sem til var litið á hjöllum þessum umhverfis höllina. En niðri fyrir hjöllunum voru varðmenn emírsins sjálfs. Til vopna höfðu þeir bogin sverð, hníf mikinn í belti og sex feta langar lensur báru þeir í höndunum. Nokkrir þeirra báru og hvítmálaðar kylfur, en aðrir halberði eða axir miklar, sem bæði má höggva og leggja með, með gull og silfur smelltum handföngum. Umhverfis varðhringinn og leikvöllinn allan, allt niður undir aðal-árbakkann, var fylking mikil af Asíumönnum af öllum ættkvíslum. Þar voru Usbeckingar með gráu mollu-augun og rauða skeggið, með háu stromphúfurnar úr svörtu lambskinni og í peysunum sínum með Tartara-sniði, er þeir kalla »arkalouk«. Þar voru Tyrkir margir úr Asíu í þjóðbúningum sínum: pilsvíðum með flassalegum lit, í vesti og kápu úr úlfaldahári, með rauðar húfur, ýmist jafnvíðar eða uppmjóar, í háum stígvélum úr rússnesku leðri og með hnífsveðju mikla á belti úr óverkuðu leðri og líkara ól en belti. Í flokki þeirra, út af fyrir sig, en þó nálægt herrum sínum, voru tyrknesku konurnar, er lengdu sínar eigin hárfléttur með fléttum úr geitarhári. Innan undir kápunni voru þær í nokkurskonar opnum serk með bláum fjólurauðum og grænum röndum. Fótleggir þeirra voru vafðir í marglitum borðum þannig, að hver þverskar annan, allt niður að leðurskóvörpunum. Þar einnig — rétt eins og öll norður-héruð Kínalands hefðu sent emírnum liðsmenn — mátti sjá fjölda af Manchuriumönnum, með fléttað hár, snoðrakað andlit, í löngum kyrtlum með svörtum borða og rauðu kögri. Með þeim voru myndarlegar konur úr Manchuria-héraðinu, með álitlegan höfuðbúning, gerðan úr ýmsu efni, í líkingu við blómakranza og sem festur var við hárflétturnar svörtu með gullprjónum og nælum allskonar í fiðrildalíki. Þar voru og að sjálfsögðu hrannir af Mongólum, Persum, Bokhara-mönnum og Kínverja-blendingum úr Turkestan-héruðunum. En Síberíumenn eða Rússar voru engir í þessum mannsöfnuði. Því allir, sem ekki höfðu getað flúið héldu til í heimahúsum, hræddir og kvíðandi. Þeir óttuðust rán og gripdeildir, er emírinn mundi fyrirskipa, til að klykkja út veisluna með. Klukkan fjögur um daginn hóf emírinn innreið sína. Var þá rofinn manngarðurinn umhverfis leikvöllinn og höfðinginn sjálfur reið inn í broddi fylkingar. Samtímis hófst glaumur mikill, er allt blandaðist saman í senn: ómur hornanna, trumbanna og dynkir af fallbyssu- og haglabyssu-skotum. Feofar var enn í sínum gulllita einkennisbúningi og reið uppáhaldshesti sínum, og á höfðinu bar nú auk heldur reiðskjóti hans nokkurskonar kórónu úr gimsteinum. Úrvalslið mikið var umhverfis hann og á hlið við hann voru Khanarnir úr Khokhand og Khandouz fótgangandi, auk höfðingjanna úr öllum Khana-dæmunum. Jafnsnemma gekk kvennahöfðingi, eða drottning, ef þann titil má gefa æðstu soldáns-frúnni í Bokhara, fram á einn hjallann, úr búð sinni. En hvort heldur þessi kona var drottning eða þræll, þá var hún forkunnar fögur kona. Þvert á móti venju og reglum og eflaust til að þægjast hinum dutlungasama emír, var hún, með andlitið nakið. Hár hennar, hrafnsvart og gljáandi, féll í fjórum fléttum niður um mjólkurhvítar axlirnar og hálsinn. Yfir öxlum hennar og brjósti hvíldi að vísu gullsaumuð silkislæða en svo þunn, að hún huldi ekki hörundið nema laklega. Á höfðinu bar hún ofurlitla húfu, er öll var sett gimsteinum og áföst við hana var blæjan, sem féll í bylgjum niður um herðar hennar og brjóst. Niður undan bláu silkipilsi með dökklituðum bekkjum gægðist faldurinn á serk hennar, er gerður var úr hárfínum silkislæðum. Um mittið bar hún breiðan borða, er hélt að henni upphlutnum úr silki, er náði upp undir hálsinn að aftan og upp á brjóstin að framan. Frá hvirfli til ilja — hinir smáu fætur hennar voru huldir í persneskum morgunskóm — var búningur hennar svo hlaðinn demöntum og dýrindis steinum allskonar og gulli og silfurrósum, að til að sjá mátti ætla búning þennan gerðan mestmegnis af gulli og gimsteinum. Demantar allir með öllum hugsanlegum litum, sem héngu á búningi hennar, á beltinu um mittið, sem glóðu á hálsmeni hennar, á armböndunum og á fingurhringunum skiftu sjálfsagt þúsundum að tölu og verð þeirra hefir eflaust skift milljónum rúblna. Fyrir neðan neðsta hjallann steig emírinn af hesti sínum og slíkt hið sama gerðu förunautar hans, sem ríðandi voru. Gekk þá emírinn, Khanarnir og höfðingjarnir, sem honum fylgdu inn í tjaldbúð mikla á neðsta hjallanum. Samtímis var Kóraninn tekinn og lagður á »borðið helga« framundan tjalddyrunum. Hægrihandarmaður emírsins lét ekki herra sína bíða eftir sér. Áður en klukkan var fimm höfðu lúðrar og trumbur tilkynnt komu hans. Ivan Ogareff, sem nú þegar hafði verið uppnefndur Ivan »högginkinni«, var nú kominn í búning Tartaraforingja. Hann reið upp að fremsta hjallanum og steig af baki fram undan tjaldbúð emírsins. Með sér hafði hann hermanna-flokk stóran og röðuðu þeir sér í fylkingu utanvert við mitt leiksviðið; miðjuna þurfti að verja fyrir átroðningi, því þar skyldu leikir allir fram fara. Það leyndi sér ekki á andliti svikarans, að hann hafði fengið ónota högg. Yfir það á skakk var kolblá rönd, þar sem ólin hafði marið holdið og á kinninni var djúpur skurður. Undirforingja sína alla leiddi Ogareff fram fyrir emírinn og gerði honum þá kunnuga að nafni. Að venju var sá hái herra kaldur og þur, en tók þessum undirtyllum sínum þó þannig, að þeir sáu, að hann var ánægður með framkomu þeirra. Þannig leizt þeim félögum Harry Blount og Jolivet að minnsta kosti á tillit emírsins og ávarp hans. Þeir félagar skildu nú aldrei, en þreyttu frétta-skeiðhlaupið í bróðerni. Eftir að hafa séð það sem gerðist í útjöðrum þorpsins Zabediero um morguninn, höfðu þeir riðið í sprettinum til Tomsk. Tilgangur þeirra var að njósna um herflokka Rússa, yfirgefa svo tartarana, en leita Rússa uppi og fylgja þeim svo eftir, ef unt væri, allt austur til Irkutsk. Þeir höfðu séð svo mikið af hryðjuverkum Tartaranna, rán, brennur og morð, að þeim bauð við að fylgja þeim eftir lengur, en langaði þeim mun meira til að fylla flokk Rússa eða Síberíumanna. En Jolivet hafði samt sagt við félaga sinn, að sér væri ómögulegt að yfirgefa Tomsk fyrri en hann hefði dregið mynd af aðal-athöfnunum þegar emírinn héldi innreið sína í borgina. Hann mætti ekki fara fyrr — »frænka« sín væri svo óvenju forvitin. Harry vildi gjarnan halda burtu og áfram ferðinni, en afréð þó að bíða og sjá leikinn. En það afréðu þeir fastlega að halda áfram ferðinni undireins um kvöldið og vonuðu þá, af því þeir voru vel ríðandi, að hafa alltaf á undan útvörðum barbaranna. Þeir blönduðu sér því saman við þjóðflokka-safnið á hæðinni og ætluðu sér ekki að láta nokkurt atriði í leiknum fara fram svo, að þeir sæu það ekki. Hátíðahald þetta átti, ef þeir gátu nokkru um ráðið, að verða efni í góða dálkslengd af lesmáli í blöðum þeirra. Þeir dáðust að ríkidæmi og mikilleik emírsins og alls útbúningsins, að kvennahjörð hans, að herforingjasafninu og að varðliðinu. Í stuttu máli dáðust þeir að öllu sem fyrir augun bar, þangað til föðurlandssvikarinn Ivan Ogareff gekk fram fyrir emírinn. Þá kom í þá hryllingur yfir öllu saman og biðu þeir svo með óþreyju eftir að leikurinn yrði hafinn. »Ég sé það nú vinur minn!« sagði Jolivet, »að eins og ráðvandir borgarar, sem vilja fá fullt andvirði peninga sinna, höfum við komið of snemma. Það þarf svo margt að gera áður en tjaldið er undið upp, en við hefðum ekki átt að koma fyrr en »ballið byrjar«. »Hvaða ball?« spurði Harry. »Þvingunar-ballið auðvitað,« svaraði Jolivet. »En sjáum nú til. Þeir ætla að fara að draga upp tjaldið!« — Fransmaðurinn talaði eins og væru þeir félagar í leikhúsi, og hann breytti þannig líka. Hann fór að taka upp leikhús-kíkirinn og var nú tilbúinn að athuga með gaumgæfni fyrsta þáttinn, sem flokkur Feofars átti að leika á þessu sviði. Það var sorgleg athöfn, sem átti að fara fram áður en skemtanirnar byrjuðu. Fögnuður sigurvegaranna þótti ófullkominn, ef ekki var byrjað með því að lítillækka þá yfirunnu opinberlega. Í þeim tilgangi pískuðu hermennirnir nokkur hundruð fanga inn á leiksviðið. Þeir áttu að ganga fram hjá Feofar Khan og höfðingjum hans áður en þeir væru hnepptir í fangelsi í borginni, eins og meginhluti hertekna fólksins. Í fyrstu röð fangaflokksins, sem fram var knúinn, var Mikael Strogoff, umkringdur harðsnúnum hermönnum, að boði Ogareffs. Í þeim flokki voru þær einnig, Marfa móðir hans og Nadía. Gamla Síberíu-konan, þó óskelfd og hughraust þegar hún ein var í hættu, var nú föl eins og nár. Hún bjóst við einhverju, við öllu, sem hræðilegt er. Hún vissi það var ekki þýðingarlaust að sonur hennar var geymdur emírnum til að dæma. Hjarta hennar var þessvegna fullt af angist og líkami hennar titraði af ótta. Ivan Ogareff var manna ólíklegastur til að fyrirgefa »knut«-höggið, sem honum var greitt frammi fyrir þúsundum manna. Það var lítill efi á að Strogoffs beið einhver hræðileg hegning, sem Mið-Asíumenn svo vel kunna að mæla óvinum sínum. Í þeim tilgangi einum hafði Ogareff forðað lífi sendiboðans um morguninn og geymt hann emírnum. Ekki höfðu þau mæðgin, Strogoff og móðir hans fengið tækifæri til að tala saman eitt orð um daginn. Miskunnarlaust voru þau pískuð áfram sitt í hvoru lagi, en það var stór ábætir á aðrar hörmungar þeirra. Því það hefði verið eigi alllítill raunaléttir, ef þau hefðu mátt ganga saman, þó ekki væri nema þessar þrjátíu verstir. Móðirina sárlangaði til að tala fáein orð við son sinn, þó ekki væri annað en biðja hann fyrirgefningar. Henni fannst sér skyldugt að gera það, af því hún í Omsk ekki gat varist að sýna honum móðurlegar tilfinningar, Ef hún þá hefði getað stillt sig, þegar hún stóð frammi fyrir honum í gestasalnum, þá hefði aldrei komizt upp, hver hann var, og öll þessi ógæfa þeirra ekki átt sér stað. Sonurinn aftur á móti hugsaði á þá leið, að ef Ogareff hefði móður sína með sér og ef hún væri í þessum flokki, er rekinn var inná leikvöllinn, væri það gert í þeim tilgangi að kvelja hana með því að horfa á pyntingarnar, sem fyrir sér lægju, Ef til vill ætti líka að kvelja úr henni lífið eins og sér. Hvað Nadíu snerti, þá hugsaði hún um ekkert annað en það, hvernig hún gæti forðað þeim báðum, — náð burtu bæði móður og syni. Hún undraðist allt, er hún sá, en hugsaði ekki um það, en hún hugsaði um það, að fram yfir allt yrði hún forðast það, sem leitt gæti athygli að sér, en dyljast eins vel og kostur var á og láta ekkert á sér bera. Máske henni tækist þá að naga sundur fjötrana, er héldu ljóninu. Undir öllum kringumstæðum skyldi hún reyna það, ef tækifæri byðist, og ekki horfa í að láta lífið, ef svo vildi verkast ef hún með því gæti leyst son Mörfu, Strogoff. Á meðan á þessu stóð hafði meginhluti fanganna gengið fram hjá emírnum. Frammi fyrir honum var hver einstakur skyldur til að kasta sér flötum og snerta jörðina með beru enninu, sem vott um algerða undirgefni. Þrældómur byrjar ætíð með undirgefni og lítillækkun. Ef einhver hinna vesölu fanga þótti of seinn að fleygja sér flötum, var varðmaðurinn við hendina til að kasta þeim hinum sama óþyrmilega til jarðar. Þetta ofbauð þeim félögunum — fregnriturunum. Þá hryllti við grimmdinni. »Þetta er níðingslegt — við skulum fara!« sagði Alcide. »Nei! Við verðum að sjá það allt til enda!« svaraði þá Harry. »Sjá allt! Hvað« sagði Alcide og greip þéttingsfast í handlegg félaga síns. »Hvað gengur að þér?« spurði Harry. »Líttu á, Harry, — það er hún!« »Hvaða hún?« spurði Harry. »Systir samferðamannsins okkar, sem var. Hún er einsömul og fangi! Við megum til að bjarga henni!« »Stiltu þig, vinur«, svaraði Harry. »Allar tilraunir til að hjálpa henni yrðu verri en árangurslausar«. Alcide var í þann veginn að hlaupa fram, en fór að ráðum félaga síns og stóð kyrr, Nadía hafði ekki séð þá félaga, því hún lét hár sitt falla niður um andlitið sem mest mátti verða, svo það var nærri hulið. Á sínum tíma fór hún fram hjá emírnum, sem ekki veitti henni eftirtekt fremur en öðrum. Stuttu á eftir henni gekk Marfa Strogoff. Þegar hún kom fram fyrir emírinn var hún sein til að fleygja sér niður, svo hermaður gekk fram og slengdi henni óvægilega ofan á harða grundina. Mikael Strogoff var fá skref á eftir, og er hann sá hvernig farið var með móður sína brauzt hann svo fast um, að varðmennirnir höfðu fullt í fangi með að halda honum. En svo komst gamla konan, á fætur. Varðmennirnir voru í þann veginn að draga hana burt, þegar Ogareff kallaði upp og sagði þeim að láta hana verða eftir. Nadía, sem sagt, komst undan og í flokk fanganna aftur. Hvorki Ogareff eða emírinn höfðu veitt henni eftirtekt. Svo kom Mikael Strogoff fram fyrir barbara-höfðingjann. Hann var ekki á því að fleygja sér flötum í duptið — hann leit ekki einu sinni til jarðar. »Með ennið niður í moldina!« hrópaði þá Ivan Ogareff. »Nei!« svaraði Strogoff blátt áfram. Tveir varðmenn hlupu til og ætluðu að beygja hann, en fyrr en þeir vissu hvað til stóð, hafði hann rétt þeim kinnhesta og fylgt svo á eftir að báðir lágu flatir! Sjálfur stóð hann teinréttur. Ogareff nálgaðist Strogoff og sagði grimdarlega: »Þú skalt deyja!« »Ég get dáið«, svaraði Strogoff með þjósti, »en dauði minn afmáir samt ekki brennimark svívirðingarinnar — örið eftir »knut«-inn, af föðurlandssvikara-enninu þínu, Ivan!« Ogareff ærðist algerlega, er hann heyrði þetta svar. »Hver er þessi fangi?« spurði þá emírinn í heiftþrungnum róm og sérstaklega hræðilegum, af því hann stillti sig svo vel. »Rússneskur njósnari!« svaraði Ogareff. Ogareff gekk ekki að því gruflandi, að þessi ummæli hans, að Strogoff væri njósnari, höfðu hræðilegan dóm í eftirdragi. Á meðan þetta, gerðist hafði Strogoff gengið til Ogareffs. En svo komu varðmenn hans og færðu hann fjær. Í þessu gerði emírinn bendingu, sem hafði þau áhrif, að allir viðstaddir hneigðu sig djúpt. Svo benti hann á kóraninn, sem þjónar hans færðu honum. Hann opnaði bókina og studdi svo fingri á aðra blaðsíðuna. Það var tilviljun, eða öllu heldur skoðun þessara Mið-Asíumanna, guð sjálfur, sem nú ætlaði að ákveða hegningu Mikaels Strogoffs. Þennan dóm og athöfn nefna Mið-Asíumenn »fal«. Eftir að hafa útskýrt þýðingu þeirrar setningar, sem dómarinn fyrir tilviljun hefir stutt fingri sínum á, er dómurinn uppkveðinn samkvæmt þeirri þýðingu, hver helzt sem hún er. Emírinn lét fingurinn hvíla á blaðsíðunni. Prestahöfðinginn var svo kallaður til að lesa orðin, sem fingurinn hvíldi á, og hann las upphátt þessi orð: »Og hann skal ekki framar sjá það sem er á þessari jörð«. »Rússneski njósnari!« sagði þá emírinn, og rödd hans titraði af bræði: »Þú hefir komið til að sjá hvað gerist í herbúðum Tartaranna. Horfðu þá, á meðan þú mátt!« V. »Horfðu á meðan þú mátt«. Mikael Strogoff var haldið niðri fyrir hjallanum og framundan hásæti emírsins, með hendur bundnar á bak aftur. Allt þetta var meira en gamla konan, móðir hans þoldi, þó hörð væri. Hún hneig aflvana til jarðar og treysti sér hvorki til að hlusta eða horfa. »Horfðu, á meðan þú mátt!« endurtók emírinn aftur og benti um leið á bandingjann. Ivan Ogareff hefir eflaust skilið, hvað þessi orð þýddu, enda kunnur öllum siðum Tartara. Hann sneri upp á sig, lét kuldalegt háðbros flögra um varirnar og gekk svo til emírsins og settist við hlið hans. Samtímis hvein í trumbum mörgum, en það var bending um að skemtanirnar skyldu byrja. »Hér kemur þá ballið«, sagði Alcide við Harry. »En allólíkir eru siðir barbaranna vorum siðum, því »ballið« á nú að ganga á undan sorgarleiknum«. Strogoff hafði verið skipað að horfa á allt sem fram færi. Hann hlýddi því boði. Dansenda-flokkur streymdi nú inn á flötinn fram undan hásæti emírsins. Voru þeir með ýmiskonar Tartara-hljóðfæri, meðal þeirra »doutare«, — einskonar gítar með löngu handfangi, gerður úr móberjatrjávið, með tveimur strengjum úr tvinnuðu silki, »stemdum« með kvarts-bili; »kobize« — nokkurskonar violincello, opið á bakinu, með strengjum úr taglhári, og var spilað á það hljóðfæri með boga; »tschibyzga« — löng flauta; belg-hljóðfæri mörg, trumbur á allri stærð. Öll þessi hljóðfæri blönduðu nú sínum margvíslega ómi saman við söng dimmraddaðra söngmanna og myndaði allt til samans einkennilegan hljóm. Auk þess sveimaði flugdrekafjöldi yfir höfði dansendanna, sem haldið var í skefjum með hárfínum snúrum. Á þann hátt framleiddi kvöldgolan einkennilegan hvin í loftinu. Flugdrekarnir voru eins og svo margar Eols-hörpur til að auka dýrðina. Dansinn var hafinn. Dansendurnir voru allir persneskir að uppruna. Nú voru þeir samt ekki þrælar, en voru frjálsir að sýna íþrótt sína hvar sem var. Fyrrum voru þeir uppáhaldsgoð við hirðina í Teheran, höfuðborg Persa, en eftir að ríkjandi ættbálkurinn náði völdum voru þeir ýmist fyrirlitnir eða reknir úr landi og neyddust því til að leita sér framfærslu í öðrum héruðum. Þeir báru þjóðbúning Persa og hlóðu á sig gullstéssi og gimsteinum. Í eyrum þeirra glóði ofurlítill þrístrendur gullskjöldur alsettur dýrum steinum. Hringir eða kragar úr skíru silfri, með hrafnsvörtum röndum og tíglum, voru spenntir um háls þeirra og fótleggi. Við hárfléttur þeirra voru fest gull og silfurdjásn, alsett perlum og allskonar dýrindis steinum. Um mittið höfðu þeir belti, er fest var með stórri og gljáandi hringju. Dansinn var hinn liðlegasti og voru dansendurnir ýmist í þvögu eða einn og einn sér. Andlit sín höfðu meyjarnar nakin, en við og við sveifluðu þær þunnri blæju yfir þau, sem þá um stund huldi þau og augun þeirra skíru og skörpu til hálfs, eins og reykjarmóða hylur heiðskíran, alstirndan himinn. Sumar dansmeyjarnar báru perlusett leðurbelti um mittið og hékk á því lítill þríhyrndur poki, þannig, að ein hyrnan vissi niður. Með köflum opnuðu þær þennan poka, glóandi af gullsaum og skrauti, og tóku úr honum mjóa silkiborða hárauða á lit, en á þá voru hekluð vers úr kóraninum. Þessum borðum héldu svo tveir dansendanna milli sín, en hinir allir urðu að ganga undir þennan streng. Þegar þeir komu að honum gerðu þeir ýmist að fleygja sér flötum í duftið eða hoppa í loft upp, eins og þær þá ætluðu undir eins að fylla gyðjuflokkinn í Paradís Múhameðsmanna. Tilburðir þeirra áður en þeir gengu undir strenginn voru komnir undir því hvaða vers úr kóraninum á borðanum mætti augum þeirra, er þá bar að honum. Það vakti eftirtekt og undrun Alcides, að dansendurnir voru langt frá því að vera fjörugir, miklu fremur voru þeir þunglamalegir og letilegir. Eldfjörið, sem á að einkenna þá, var allt horfið, og hreyfingar þeirra allar og dansar minntu menn fremur á hægan og kyrrlátan indverskan dans, en hina fjörmiklu egypsku dansa. Að dansinum loknum heyrðist hrópað með alvarlegri, tilfinningarlausri rödd: »Horfðu á meðan þú mátt!« Sá, sem þannig endurtók orð emírsins, hár og grannur Tartari, var böðull Feofars. Verk hans var að sjá um, að öllum dómum emírsins væri fullnægt, þar sem sakamenn áttu hlut að máli. Hann staðnæmdist að baki Strogoffs. Í hendinni bar hann bogamyndað blaðbreitt sverð, eitt af þessum makalausu Damaskus-sverðum, sem smíðuð eru í borgunum Karchi og Hissar. Á eftir honum komu tveir varðmenn með þrífót úr járni og ofan á honum sat panna með koleldi í. Engan reyk lagði upp af kolunum, en hvítleit gufa umkringdi eldinn. Kom það til af efnablöndun nokkurri, sem stráð hafði verið yfir glæðurnar. Í millitíðinni höfðu persnesku dansendurnir gengið burtu, en í þeirra stað kom annar dansflokkur, sem Strogoff á augnablikinu kannaðist við. Fregnritararnir virtust kannast við þennan flokk líka. Harry sneri sér að félaga sínum og sagði honum, að þarna væru komnir giftarnir frá Nijni-Novgorod. »Enginn efi á því«, svaraði Alcide, »en það ætla ég að þessir spæjarar innvinni meiri peninga með augunum, en nokkurntíma fótunum«. Að því er sagan hefir þegar sýnt, var Alcide ekki fjarri réttu, er hann taldi gifta þessa þjóna emírsins. Í fremstu röð þessa flokks gekk Sangarre, dásamlega falleg í sínum undarlega, glitmikla búningi, sem þannig var gerður, að hann jók hina undraverðu andlitsfegurð hennar, en dró ekki úr henni. Sangarre dansaði ekki sjálf. Hún stóð kyrr og hreyfingarlaus eins og myndastytta mitt í hópnum, sem dansaði umhverfis hana. Dans þessi var sambland af öllum helztu dönsunum úr öllum þeim ríkjum, er giftarnir höfðu farið um: Tyrkland, Egyptaland, Bæheim, Ítalíu, Spán. Hljóðfæri þeirra hin helztu voru Simbals (tveir litlir skildir úr málmi sem slegið er saman) og hálf-trumba lítil með áföstum bjöllum, er Tartarar nefna »daires«. Á eina þessa »daires« spilaði Sangarre og hvatti flokk sinn til framsóknar við dansinn. Allt í einu gekk fram úr flokknum unglingspiltur, á að geta 15 ára gamall. Hann hélt á gítar og spilaði á strengi hans með lipurð, sem hann snerti með nöglunum einungis. Hann söng jafnframt og hann spilaði. Bragarhátturinn var einkennilegur mjög, og á meðan hann söng hvert einstakt erindi gekk ein dansmeyjan til hans og stóð agndofa við hlið hans. En undir eins og hann lauk við erindið tók hún til að dansa aftur og ætlaði að æra hann með simbals-skellum og hálf-trumbu-barsmíð rétt við eyru hans. Að söngnum loknum tóku dansendurnir allir á ný að stíga sinn léttfætta dans umhverfis flokkstjóra sinn, Sangarre. Þetta var seinasta dans-hviðan, og hófst nú gullregn úr öllum áttum. Fyrsta gullpeninga-élið kom frá emírnum og vildarmönnum hans umhverfis hásætið og síðan frá öllum yfirboðurum Tartaranna umhverfis dansflötinn. Blandaðist þá hljómur gullsins, er það dundi á simblum og trumbum saman við hverfandi, deyjandi óm þessara hljóðfæra sjálfra. »Óhófssamir eins og ræningjar!« sagði þá Alcide í eyra félaga síns. Vel mátti hann líka líkja þeim við ræningja. Það var rænt og stolið gull úr heimulunum í Síberíu, sem þannig var ausið í gifta-flokkinn. Að vísu var það nokkuð af þeirra eigin peningum, bæði »tomans« og »sequins«, en meira þó af dúkötum og rúblum Rússa. Það var þögn um stund. Böðullinn nálgaðist Strogoff, lagði hönd á öxl hans og endurtók svo orð emírsins, sem marg-endurtekningin gerði enn hræðilegri: »Horfðu, á meðan þú mátt!« Alcide tók eftir því, að böðullinn hélt nú ekki lengur á nöktu sverðinu. Sólin var horfin út yfir sjóndeildarhringinn. Fyrirrennari næturinnar — húmið, vafði alla hluti í skuggablæju sinni. Furu og sedrustrjá-raðirnar umhverfis urðu æ dekkri og dekkri, og áin Tom niðri í dalnum sást ekki lengur. Hún var horfin í haf dimmunnar. Í þessum svifum gengu mörg hundruð þrælar inn á leiksviðið og báru allir blys. Á eftir þeim kom Sangarre aftur með allan flokk sinn og að auki persnesku dansendurnir. Tók nú allur þessi skari til að dansa á ný á fletinum fram undan hásæti emírsins. Tartara-orkestur það, er áður hefir verið lýst, vakti nú enn hærri og barbariskri klið en áður og enn draugalegri var nú söngur söngmannanna. Flugdrekarnir tóku aftur til að berast á bárum kvöldgolunnar, sem nú var að aukast, og vöktu nú enn meiri hvin í loftinu en áður. Örsmáir lampar með marglitum ljósum voru nú festir á flugdrekana og var nú loftið uppljómað ekki síður en flöturinn niðri. Tartara-hermenn í glitmiklum einkennisbúningi gengu nú einnig fram, blönduðu sér saman við dansenda-flokkinn og dönsuðu. Jókst nú hávaðinn meir og meir og líktist aðferðin öll æði brjálaðra manna. Fleiri og fleiri hermenn tóku þátt í þessum tryllta, kynjalega dans. Voru sumir þeirra með nakin sverð og pístólur í höndum. Á ákveðnum tíma í dansinum létu þeir svo skotin ríða af pístólunum og í sömu andránni voru trumburnar barðar enn heljarlegar og enn heiftarlegar klipið í gítarstrengina. Handleggi sína höfðu hermennirnir smurða í einhverju málmblönduðu efni, að sið Kínverja, er gaf af sér bláar, rauðar og grænar ljósrákir. Til að sjá voru því dansendurnir í marglitu eldhafi. Að sumu leyti líktist þessi undarlegi dans vopnadansi fornmanna, er fór fram mitt á meðal nakinna sverða og stinghnífa. Má og vera að munnmælasögur í Mið-Asíu hafi haldið þeim dönsum í fersku minni, og að þetta hafi átt að heita eftirlíking fornmanna-dansanna. En fáránlegri sjón var þó að horfa á þennan Tartaradans vegna hins marglita eldslitar, sem eins og höggormur vatt sig um dansendurna í ótal hlykkjum hátt og lágt, hvarf hér og kom í ljós þar, eða myndaði, að sýndist, eldlegan fald á búningi þeirra. Það var eins og straumur af neistaflugi, sem skifti um lit og mynd við hverja hreyfingu dansendanna. Það mætti ætla að fregnriti blaða í Parísarborg og vanur breytilegum myndum á leiksviði heima, að hann undraðist ekki yfir eða dáðist að þessum útbúnaði Tartara, en hann gat ekki annað en dáðzt að þessari mynd allri. Hann velti vöngum og bar sig þannig til, að hefði hann verið staddur heima í París á listigöngu um Boulevard Montmatre og La Madeleine, þá hefðu tilburðir hans verið þýddir þannig, að honum þætti myndin dýrðlega fögur. Allt í einu að gefinni bendingu, voru öll ljósin slökt. Hljóðfærin þögnuðu og dansinn hætti. Dans-hátíðin var um garð gengin og allt var nú þögult. Blysin ein voru eftir af allri ljósadýrðinni á fletinum og köstuðu þau daufri birtu á mannþröngina. Emírinn gaf bendingu, og Mikael Strogoff var leiddur fram á leiksviðið. »Ætlar þú, Harry, að horfa á þetta til enda?« spurði Alcide félaga sinn. »Nei, það ætla ég ekki að gera«, svaraði Harry. »Nei«, sagði þá Alcide, »lesendur »Daily Telegraph« eru, að vændum ekkert sólgnir í, að lesa um aftöku eftir Tartara-tízku«. »Ekki fremur en »frænka« þín«, svaraði Harry. »Aumingja maðurinn!« hélt Alcide áfram, er hann horfði á Strogoff. »Jafn þrekmikill og hugrakkur hermaður hefði átt að fá að falla í orustu!« »Er okkur ómögulegt að bjarga honum?« spurði Harry. Og Alcide neyddist til að svara: »Ómögulegt!« Greiðvikni hans við þá á ferðinni vaknaði nú í brjósti fregnritanna. Þeir minntust allra atvika nú og sáu gjörla og skildu hvað hann umbar og þoldi vegna skyldurækninnar. En hér var hann nú fjötraður mitt í ókleifum hring af Törturum, sem ekki vita hvað meðaumkun og miskunn er. Þeir voru ekki megnugir að hjálpa honum. Þeir höfðu ekki mikla löngun til að horfa á pyntingarnar, sem þeir vissu að biðu hans, og héldu þess vegna tafarlaust burtu, — heim í bæinn Tomsk. Innan klukkustundar voru þeir komnir burt þaðan aftur, áleiðis til Irkutsk. Þá langaði nú meir en áður til að ná til Rússa og fylla flokk þeirra í »leiðangri hefndarinnar«, eins og Alcide komst að orði. Í millitíðinni stóð Strogoff hreyfingarlaus á vellinum frammi fyrir hásæti emírsins og horfði djarfmannlega á þann háa herra barbaranna. Og fyrirlitningin leyndi sér ekki á svip hans, þegar hann leit til Ivan Ogareffs. Hann beið búinn hvers sem fyrir hendi var og enginn kvíði, enginn bugur sást á honum. Emírinn gaf aðra bendingu og var þá Strogoff dreginn alveg upp að bríkinni, sem hásætið stóð á. Ávarpaði þá emírinn hann á tungu Tartara, þannig: »Þú komst til að sjá útgang vorn og inngang, rússneski spæjari! Þú hefir séð það, sem gerist í síðasta skiftið. Innan stundar verða augu þín lokuð fyrir dagsljósinu alla þína æfi!« Þannig voru örlög Strogoffs ákveðin. Þau voru ekki þau, að láta lífið, heldur þau, að verða blindaður. Undir vissum kringumstæðum var það enda hræðilegri dómur en dauðadómur hreinn og beinn. Dómurinn var að svifta sendiboðann sjóninni. Þessi dómur hrelldi Strogoff samt ekki, og hafði engin áhrif á hann, að því er séð varð. Hann stóð jafn hreyfingarlaus eins og áður og starði á dómendur sína, rétt eins og hann vildi sameina alla æfi sína í einu og sínu seinasta augnatilliti. Það var hvorttveggja að það var þýðingarlaust, að biðja þessa barbara um vægð, enda ósamboðið sendiboða keisarans. Honum kom það heldur ekki í hug. Hann hugsaði um erindi sitt austur, sem nú virtist svo vonlaust, að hann gæti lokið, um móður sína og um Nadíu, sem hann aldrei framar hafði von um að sjá! Þann sársauka, sem þessar tilfinningar ollu, lét hann samt ekki sjást. Og í stað þess að gugna, vaknaði nú þegar löngun í brjósti hans til að hefna sín. »Ivan!« sagði hann með bræði-þrunginni rödd, »Ivan föðurlandssvikari! Hið síðasta hefndar-tillit augna minna skal hvíla á þér!« Ogareff svaraði engu, en yppti öxlum. Það varð samt ekkert af þessari fyrirætlun Strogoffs, Hann horfði ekki á Ogareff, þegar hann var blindaður. Móðir hans, Marfa Strogoff, staðnæmdist frammi fyrir honum. »Móðir mín!« hrópaði hann þá upp. »Já, sannarlega skal mitt síðasta augnatillit hvíla á þér! Stattu þarna frammi fyrir mér! Svona, nú sé ég einu sinni enn blessað ástríka andlitið þitt. Og meðan ég horfi á það skulu augu mín lykjast!« Gamla konan sagði ekki eitt orð, en hún færði sig nær syni sínum. Það sá Ogareff og skipaði varðmönnunum þegar að taka hana burtu. Tveir hermenn gengu fram til þess, en hún hopaði þá nokkur skref aftur á bak og létu þeir hana þá vera. Hún stóð þar svo kyrr. Böðullinn gekk nú fram. Í þetta skifti hélt hann á nöktu sverðinu, sem hitað hafði verið í eldinum til þess það var hvítglóandi. Það átti að blinda Strogoff eftir sið Tartaranna — með því að bregða hvítglóandi sverði fyrir augu hans. Strogoff gerði ekki minnstu tilraun til að losa sig. Hann stóð hreyfingarlaus og sá ekkert, vissi ekki um neitt nema móður sína á þessu augnabliki. Mannsins viðkvæmasta, blíðasta tilfinning var innibundin í þessu, hans síðasta augnatilliti. Móðir hans einnig stóð hreyfingarlaus, stirð og köld, eins og myndastytta, ósjálfrátt teygði hún báða handleggina á móti syni sínum og horfði á hann með svíðandi augum, sem jafnvel tárin neituðu að lauga. Stundin var komin. Hvítglóandi stálinu var brugðið að augum Strogoffs og dregið yfir þvert ennið. Mikael Strogoff var blindur. Nístandi, angistaróp heyrðist, og gamla Marfa féll meðvitundarlaus til jarðar. Dóminum hafði verið fullnægt, og tafarlaust reis emírinn á fætur og hélt burt með föruneyti sínu. Samtímis tók og mannþyrpingin að dreifa sér, svo að á leikvellinum voru nú ekki nema blysberarnir og — Ivan Ogareff. Ætlaði fantur sá máske að kvelja Strogoff enn meira, að kveðja hann með svipuhöggi í annað skifti. Hann gekk til Strogoffs, sem enn stóð hreyfingarlaus, en sem nú rétti úr sér, er hann heyrði fótatakið. Ogareff gekk upp að honum, staðnæmdist, tók keisara-bréfið upp úr vasa sínum, opnaði það og hélt því svo fyrir hinum sjónlausu augum, að sjáandi maður hefði getað lesið það og lært. »Lestu nú, Mikael Strogoff, lestu nú!« sagði hann háðslega. »Og farðu svo til Irkutsk og segðu stórhertoganum innihaldið! En frá þessari stundu er Ivan Ogareff hinn sanni sendiboði keisarans!« Svo stakk fanturinn bréfinu í vasa sinn aftur, og án þess að líta til Strogoffs gekk hann burt og á eftir honum fóru allir blysberarnir. Strogoff var einn eftir á vellinum, fá skref þaðan sem móðir hans lá meðvitundarlaus — máske dauð. Í fjarlægðinni heyrði hann óhemju glaum, söng og þyt af dansi. Ölæðisofsinn, með öllu sem honum fylgir, var farinn að gera vart við sig. Í fjarlægðinni glóði Tomsk eins og ljóshaf, svo uppljómuð var borgin hátt og lágt, eins og væri borgarmenn að fagna sigurvegurunum. »Það dansar margur nauðugur«. Strogoff hlustaði. Ekkert var að heyra. Leikflöturinn var auður og tómur. Svo gekk hann af stað — þreifaði fyrir hverju spori með fótunum í áttina þangað, sem von var að móðir hans lægi. Hann fann hana um síðir, kraup niður hjá henni, lagði andlit sitt niður að andliti hennar og hlustaði eftir hjartslætti hennar. Svo hvíslaði hann nokkrum orðum í eyru hennar. Var Marfa gamla lifandi og heyrði hún hvað hann sagði? Ef hún heyrði orð hans, þá gaf hún þess engin merki. Hún lá hreyfingarlaus. Strogoff kyssti á enni hennar og hárlokkana hæruskotnu. Svo stóð hann á fætur og gekk út í myrkrið. Hann þreifaði sig áfram með fótunum og rétti út báða handleggina til að verjast árekstri, ef eitthvað kynni að vera á leið hans. Eftir litla stund var hann kominn út á jaðar leikflötsins. Þar kom Nadía allt í einu fram úr hinu myrka hafi. Hún gekk hiklaust til síns forna samferðamanns og verndara. Hún hafði hníf í hendinni, og án þess að mæla eitt orð risti hún böndin, sem fjötruðu saman hendur hans. Hinn blindi gat ekki vitað hver þessi vinur var, því hún hafði farið hljóðlega og ekkert sagt. En undir eins og hendur hans voru lausar sagði hún eitt orð. »Bróðir!« sagði hún. Og hann svaraði með því að tvítaka nafn hennar. »Nadía! Nadía!« var allt, sem hann gat sagt. »Komdu, bróðir minn!« sagði hún. »Hagnýttu nú mín augu á meðan þín augu sofa! Ég skal leiða þig til Irkutsk!« VI. Vinsamlegur samferðamaður. Innan hálfrar stundar voru þau Strogoff og Nadía komin burtu úr Tomsk. Nadía var langt frá eini fanginn, sem flúið gat um kveldið og nóttina. Þeir voru margir sem það gerðu. Hermennirnir meira og minna ölvaðir, gleymdu að viðhafa eins sterkan vörð, eins og um undanfarnar nætur. Eftir að hafa borizt burt með straumnum, hafði henni tekist, þegar dimmdi, að læðast úr hópnum og hverfa aftur þangað sem dansleikurinn stóð sem hæst. Hún hafði séð allt sem gerðist, séð þegar glóandi stálið var dregið yfir augu vinar hennar, en svo mikið vald hafði hún á sjálfri sér, að enginn hafði séð henni bregða, því síður að hún léti nokkuð til sín heyra. Í stað þess að gugna og gefast upp, var hugsun hennar sú, að ef hún væri hörð og huguð gæti hún máske leitt sinn blinda félagsbróður að fyrirsettu takmarki. Það kom hik á hana og hjarta hennar stóð kyrt eitt augnablik er Marfa gamla rak upp hljóðið og féll meðvitundarlaus á völlinn. En hún hikaði ekki lengi. Hún herti upp hugann og hugsaði sem svo: »Ég skal gerast hundur blinda mannsins!« Þegar emírinn og föruneyti hans hélt áfram faldi hún sig og lá svo í leyni þangað til allir voru burtu af leikvellinum. Mikael Strogoff einn var eftir, blindaður aumingi, sem enginn maður óttaðist lengur. Úr fylgsni sínu sá hún hann leita að móður sinni og finna hana, sá hann beygja sig niður að henni og kyssa hana, rísa svo á fætur og leggja á flótta, fjötraður og sjónlaus eins og hann þó var. Fáum mínútum síðar voru þau »systkinin« komin niður af bröttustu brekkunni og ofan undir árbakkann, þar sem þau æði langt fyrir ofan leikvöllinn, loksins gátu fundið hlið, sem þau gátu smogið um fram hjá varðmönnunum. Um brautina eftir það var ekki að villast. Irkutsk-brautin var eina brautin, sem stefndi í austurátt. Það var mögulegt, enda líklegast, að strax næsta morgun, að drykkjuveizlunni endaðri, færu útverðir og njósnarmenn emírsins af stað og bönnuðu umfarendum veginn. Það var þess vegna áríðandi að komast sem lengst áleiðis um nóttna og ekki um nóttina einungis, heldur einnig næsta dag og alla eftirfarandi daga. Ef unt var þurftu þau að ná til Krasnoiarsk áður en njósnarmenn emírsins neyddu þau til að yfirgefa þjóðveginn. En frá Tomsk til Krasnoiarsk voru yfir fimmhundruð verstir. En hvernig gat Nadía búizt við að þola þreytuna á göngunni um nóttina? Var líklegt að hún entist til að ganga, þar sem fætur hennar voru blóðugir, bláir og marðir eftir gönguna frá Omsk? Nei, líklegt var það ekki, heldur þvert á móti. Samt sem áður er það sannleikurinn, að morguninn eftir, 17. ágúst, eftir tólf klukkustunda göngu, voru þau komin 50 verstir austur fyrir Tomsk, til þorpsins Semilowskoe. Allan þennan tíma hafði Strogoff ekki talað eitt einasta orð. Nadía studdi sig nú ekki lengur við hans stóru og sterku arma, en það var hann, sem nú studdi sig við hennar smáu hönd. Og þessari smáu, titrandi hönd hennar átti hann að þakka, að hann, þó blindur væri, gat gengið fullan gang. Semilowskoe, var að heita mátti mannlaus. Íbúarnir óttuðust áhlaup Tartaranna og flúðu, flestir austur í Yeneseisk-hérað. Það var fólk eftir í að eins 2 eða þrem húsum. Allir hreyfanlegir hlutir, sem til einhvers mátti hagnýta, höfðu íbúarnir haft á burt með sér. Bærinn var í sannleika auður og tómur. En hér mátti nú Nadía samt til með að staðnæmast nokkrar klukkustundir. Þau voru bæði þreytt og svöng. Nadía leiddi félaga sinn gegnum bæinn og út í yztu útjaðra hans. Þau fóru inn í hús, sem stóð í eyði með allar dyr opnar. Á miðju gólfi stóð ræfilslegur bekkur hjá einni þessari háu hitunarstó, sem er að finna í öllum húsum í Síberíu. Þar settust þau niður án þess að mæla orð. Varð meyjunni það fyrst fyrir að stara í augu Strogoffs, eins og hún aldrei fyrri hefði dirfst að stara í þau og andlit hans. Í því tilliti hennar var eitthvað meira en þakklæti, meira en meðaumkun. Hefði Strogoff séð það tillit hennar, hefði hann hlotið að sjá hve mikið hún átti til af ást og blíðu. Augnalok hins blinda manns, sem eldheitt sverðið hafði gert rauð og þrútin, féllu til hálfs yfir augun. Augasteinarnir virtust vera stærri en eðlilegt var og augnahimnan virtist henni dökkblárri en áður. Hárið á augnabrúnunum og augnahárin voru meira og minna sviðin, en að öðru leyti virtust augun algerlega óbreytt og óskemmd og tillit þeirra sýndist jafn hvasst og áður. Ef hann sá ekki lengur, ef sjónleysið var alfullkomið, þá var það af því, að glóandi stálið hafði eyðilagt tilfinningu og líf sjóntauganna allra. »Ertu þar Nadía?« spurði Strogoff og létti fram hendurnar. »Já«, svaraði hún, »ég er rétt hjá þér og skal ekkert fara frá þér, Mikael«. Þetta var í fyrsta skiftið að Nadía nefndi hans rétta nafn, skírnarnafnið, og það fór um hann titringur, sem hann gat ekki ráðið við. Hann vissi af því, að hún vissi allt um kringumstæður hans, hver hann var og hvað skyldur hann var Mörfu gömlu. »Nadía!« sagði hann þá, »við hljótum að skilja!« »Við að skilja! því þá, Mikael«. »Ég má ekki, vil ekki vera þér til farartálma. Faðir þinn bíður eftir þér í Irkutsk, og þú þarft að flýta þér á fund hans!« »Faðir minn mundi gera mig ræka og ekki viðurkenna mig, ef ég yfirgæfi þig nú, eftir allt, sem þú hefir gert fyrir mig«. »Nadía, Nadía!« hélt Strogoff áfram. »Þú átt ekki að hugsa um neitt nema föður þinn!« »Þú hefir miklu meiri þörf á liði mínu, Mikael, en hann faðir minn. Eða ertu máske hættur við ferðina til Irkutsk?« »Nei, langt frá því!« sagði Strogoff, og í þeim rómi, er hlaut að sannfæra hvern, sem heyrði orð hans, að kjarkur hans og þor hafði ekki dofnað hið minsta. »En bréfið er farið!« »Bréfið, sem Ogareff rændi mig! Að vísu, en ég reyni að komast af án þess, Nadía! Þeir hafa farið með mig eins og njósnara! Ég skal þess vegna leika njósnarmann. »Það er illt að heita strákur og vinna ekki til«. Ég fer til Irkutsk og segi þar frá öllu, sem ég hefi séð og heyrt. Ég sver það frammi fyrir þeim, sem allt sér, að svikarinn skal standa einhverntíma frammi fyrir mér, augliti til auglitis! En ég þarf að komast til Irkutsk á undan honum«. »Og þó talarðu um að við skiljum, Mikael!« »Já, Nadía! Fantarnir rúðu mig gersamlega!« »En ég hefi nokkrar rúblur og — augun!« svaraði Nadía! »Ég get þó æfinlega gengið þér í augnastað. Og ég skalt líka leiða þig þangað, sem þú vilt fara. En þangað kæmist þú aldrei einsamall«. »Og hvernig eigum við að ferðast?« spurði Strogoff. »Við förum fótgangandi!« »Og á hverju eigum við að lifa?« »Ég bið okkur beina!« »Þá skulum við halda af stað, Nadía!« »Já, Mikael, komdu!« Þau voru hætt að kalla hvort annað »bróðir og systir«. Hinar sameiginlegu raunir þeirra tengdu þau ósjálfrátt, og þeim eins og óafvitandi, enn nánari skyldleikaböndum. Eftir klukkustundarhvíld á bekkræflinum héldu þau af stað aftur, en fyrst útvegaði Nadía þeim ofurlítið af byggbrauði, sem kallað er »tchornekhleb«, og ögn af þeim drykk, sem Rússar nefna »meod« — mjöð. Svalaði hvorttveggja að nokkru leyti hungri og þorsta Strogoffs, enda gaf Nadía honum ljóns-skerfinn. Hann borðaði með góðri lyst brauðbitann, sem hún rétti honum, og drakk úr könnunni, sem hún hélt að vörum hans. »Ert þú að borða, Nadía?« spurði hann hvað eftir annað og svaraði hún því játandi í hvert skifti sem hann spurði, en svo var sannleikurinn sá, að hún lét sér nægja það, sem hann leifði. Enn einu sinni lögðu þau út á hina óendanlega lúalegu Irkutsk-braut. Það var yfirgengilegt hve Nadía þoldi þreytuna. Ef Strogoff hefði séð hana er samt óvíst að hann hefði vogað sér að leggja svo fljótt af stað aftur: En hún kvartaði ekki, og lét ekki til sín heyra andvarp eða stunu, en fylgdi Strogoff eftir, sem ekki gat við sig ráðið, en gekk svo hart sem hann gat. En til hvers var hann að flýta sér? Hafði hann enn von um að verða á undan Törturunum? Hann var gangandi, hann var peningalaus og hann var blindur. Yrði Nadía, eini og öruggi leiðarsteinninn hans, viðskila við hann hlaut hann að villast og setjast að þar sem hann var kominn og bíða dauðans — harmkvæla-dauða. Það er von til, ef hann og Nadía héldi út á kappgöngu til Krasnoiarsk, að þá batnaði hagur þeirra. Því governorinn, sem þar bjó, og til hans ætlaði Strogoff að leita og kunngera hver hann var, mundi að sjálfsögðu hjálpa sendiboðanum, svo að hann næði til Irkutsk svo þrengingalítið sem kostur væri á. Strogoff þrammaði áfram veginn og talaði fátt, en var niðursokkinn í hugsanir sínar. Hann hélt í hönd Nadíu, og var samband þeirra þess vegna svo náið, að óþarfi sýndist að eyða orðum til að skiftast á skoðunum. Þó var það allt af annan sprettinn, að Strogoff ávarpaði hana og æskti eftir að hún talaði við sig. »Því skyldi ég gera það, Mikael? Við sem hugsum allt af sameiningu«. Þetta og þvílíkt var ávalt svar meyjarinnar og hún hagaði rómnum þannig, að hann sviki hana ekki og gæfi Strogoff ekki til kynna hve sárþreytt hún var. Sannleikurinn var, að hún treysti sér ekki til að tala vegna þreytunnar. Stundum fannst henni hjartað hætta að slá og hún ætla að kafna. Hún titraði eins og hrísla í vindi, handleggir hennar féllu aflvana niður með síðunum, hún megnaði ekki að halda í við félaga sinn, en drógst á eftir. Undireins og Strogoff varð var við það staðnæmdist hann og starði á hana, eins og vildi hann sjá gegnum hulduna sem hann var í. Hann stundi þungan, greip handlegg hennar og hélt henni þannig að þungi hennar hvíldi sem mestur á sér, og svo hélt hann áfram á ný. Mitt í þessum hörmungum vildi það til að hjá þeim kviknaði vonarljós — von um að byrði þeirra léttist. Eftir 2 klukkustunda gang frá Semilowskoe nam Strogoff alt í einu staðar á brautinni. »Er enginn á brautinni?« spurði hann. »Engin lifandi vera!« svaraði hún. En heyrirðu þá ekki skrölt nokkurt á eftir! Ef þar eru tartarar á ferð, þurfum við að fela okkur og það fljótt. Líttu vandlega eftir mannaferðum, Nadía«. »Bíddu svolítið!« svaraði Nadía og hljóp til baka lítinn spöl, þangað sem krókur var á brautinni. Strogoff stóð í sömu sporum og hlustaði. Innan stundar kom Nadía aftur og færði þær fréttir, að á eftir kæmi ungur maður og teymdi hest með þvíhjóluðum vagni. »Er hann einsamall?« spuri Strogoff og sagði Nadía að svo væri. Strogoff stóð í sömu sporum og efaði sig um stund. Átti hann að fela sig, eða átti hann þvert á móti að hitta þennan mann og reyna að útvega sér sæti í kerrunni, ef ekki fyrir bæði sig og Nadíu, þá fyrir hana eina? Hvað hann sjálfan snerti, þá var hann hæst ánægður fengi hann að eins að leggja hönd á kerruna og styðja sig við hana. Ef á þyrfti að halda skyldi hann auk heldur fús til að ýta henni áfram og þannig létta undir með hestinum. Því hann kveið ekkert fyrir því, að sínir fætur biluðu. En hann gat getið því nærri, að Nadía var um það örmagna, eftir 8 daga göngu, allt frá Omsk eða fljótinu Obi. Hann afréð að bíða. Eftir litla stund kom maðurinn með kerruhestinn í sveiginn á brautinni. Kerran var ræfilsleg og ekki stærri en svo, að þrír gátu setið í henni. Á Síberíumáli hét þessi tegund vagna »Kibitka«. Venjulega ganga þrír hestar fyrir kibitka, en fyrir þessari kerru, gekk aðeins einn hestur, loðlubbalegur mjög með löngu tagli. Hesturinn var af Mongóla-hesta-kyni, er nafnfrægt var fyrir þol og krafta. Ungur maður teymdi hestinn og fylgdi honum rakki. Nadía sá strax að maðurinn var rússneskur. Hann var þunglamalegur, en þó svipurinn væri ekki skerpulegur, var hann hreinn og andlitið allt viðkunnanlegt. Það var enginn asi á honum. Hann gekk hægt svo hestur hans mætti hvílast, og engum, sem hefði séð hann, hefði komið til hugar að hann vissi hve varasöm brautin var, sem hann fór eftir. Hann sýndi í þessu að hann óttaðist ekki áhlaup Tartaranna. Nadía, sem hélt um hönd Strogoffs, vék sér til hliðar svo að kerran kæmist fram hjá. Hann nam staðar og leit brosandi til meyjarinnar. »Ætlarðu langt að fara svona fótgangandi?« spurði hann og opnaði meinleysislegu, góðmannlegu augun sín sem mest hann mátti. Þegar Strogoff heyrði málróm hans, fanst honum undireins að hann hafa heyrt þennan mann tala en hvar? Hann hugsaði sig um stund og glöggvaði sig svo augsæilega á því hver ökumaðurinn var, því það hýrnaði yfir honum. »Já, hvert ætlið þið?« spurði komumaður aftur og sneri máli sínu fremur að Strogoff. »Við ætlum til Irkutsk«, svaraði Strogoff. »Til Irkutsk, litli faðir!« »Veiztu ekki að þangað er langur vegur, verst á verst ofan?« »Ég veit það!« »Og þú ætlar fótgangandi?« »Fótgangandi!« »Já, látum vera um þig, en hvað um stúlkuna?« »Hún er systir mín«, svaraði Strogoff, sem áleit vænlegast að gefa henni systurnafnið á ný. »Jæja, hún systir þín, litli faðir! Trúðu mér, henni er ofvaxið að ganga alla leið til Irkutsk«. »Vinur!« sagði Strogoff og nálgaðist komumann. »Tartararnir hafa rænt okkur öllu, sem við áttum og ég hefi ekki einn kópek að bjóða þér. En ef þú vilt hjálpa upp á systur mína og lofa henni að sitja í kerrunni, skal ég ganga á eftir og hlaupa þegar þarf. Ég skal ekki tefja þig drykklanga stund«. »Bróðir!« sagði Nadía stamandi: »Ég vil ekki... vil ekki... Herra minn! Hann bróðir minn er blindur!« »Blindur!« tók komumaður upp og aumkaðist þegar yfir Strogoff. »Já«, svaraði Nadía. »Tartararnir brendu úr honum augun«, og hún rétti fram hendurnar sem þegjandi bón um aðstoð. »Brenndu úr honum augun! Ó, vesalings litli faðir!« sagði komumaður hrærður. »Ég ætla til Krasnoarsk. Mér sýnist því ekkert á móti, að þú og systir þín setjist í kerruna. Ef við þrengjum okkur dálítið saman komumst við öll fyrir. Svo skirrist þá seppi minn ekki við að víkja úr kerrunni! En ég fer ekki hart, því ég verð að fara vel með hestinn«. »Hvert er nafn þitt, vinur?« spurði Strogoff. »Ég heiti Nikulás Pigassoff«. »Því nafni skal ég ekki gleyma«, sagði Strogoff. »Jæja, stökktu upp í, litli, blindi faðir! Systir þín verður hjá þér og þið verðið að vera saman niðri á kerrubotninum. Það er þar talsvert af næfrum og bygghálmi, — það er reglulegt hreiður. Sjálfur sit ég fremst í kerrunni og hefi taumhaldið. Burt með þig, Serkó!« Seppi vissi hvað til stóð og stökk möglunarlaust ofan. Það var Síberíu-hundur á meðal stærð, grár að lit, með stórt meinleysis höfuð. Honum þótti augsýnilega vænt um herra sinn og var meir en lítið gefinn fyrir kjass. Innan stundar voru þau Strogoff og Nadía búin að hagræða sér í kerrunni. Rétti Strogoff þá fram hendurnar og leitaði að höndum Pigasofs. »Þú ert að leita að hendinni á mér, til að taka í hana«, sagði Pigassoff. »Hérna er hún og þú mátt hrista hana eins lengi og þú vilt«. Kerran seig af stað, en ekki fór hún hart. Ökumaðurinn snerti hest sinn aldrei með svipunni, en lét hann sjálfan ráða ferðinni. Hvað ferðhraða snerti var gróðinn enginn fyrir Strogoff, en Nadía hvíldist og það var mikill ávinningur. Svo þreytt var hún, að innan lítillar stundar var hún sofnuð. Rúmið var allt annað en mjúkt og þægilegt, en hið jafna rugg á kerrunni svæfði hana fyrr en hana varði, og það var órækur vottur um þreytu að hún svaf svo vært. Þeir Strogoff og Pigassof aumkuðust yfir hana, tóku hana og lögðu hana á kerrubotninn og létu fara svo vel um hana sem rúmið leyfði. Pigassof var mjög hrærður yfir þessu, og Strogoff ekki síður. Hafi tár ekki hrotið af augum hans, þá var það af því að glóandi stálið hafði þurrkað uppsprettuna. »Ógn er hún falleg!« sagði Pigassof og Strogoff samþykkti það með einu jái. »Þær reyna að vera sterkar, litli faðir, og þær eru furðu hugrakkar, en hafa ekki kraftana þegar til alls kemur, elskurnar litlu! Ertu langt að kominn?« »Já, mjög langt að kominn?« »Aumingja unglingarnir! Ósköp hefir það víst meitt þig, þegar þeir brenndu úr þér augun!« »Já, það var nokkuð sárt!« svaraði Strogoff, og svo sneri hann sér að ökumanninum eins og hann væri að horfa á hann. »Táraðistu ekki?« »Jú«. »Það hefði ég líka gert. Að hugsa sér það, að geta aldrei framar séð þá, sem maður elskar! Það er bótin að þeir geta þó æfinlega séð þig. Það er máske dálítil raunabót«. »Jú, það getur verið það. En segðu mér, vinur, hefirðu aldrei séð mig áður?« »Þig, litli faðir! Nei, aldrei«. »En mér finnst ég kannist við málróm þinn«. »Einmitt það!« sagði Pigassof brosandi. Þykist kannast við málróminn! Máske þú segir það í þeim tilgangi að komast fyrir hvaðan, ég kem? Ég skal segja þér það. Ég kem frá Kolyvan«. »Frá Kolyvan?« tók Strogoff upp. »Þá höfum við líka hitzt þar — á símstöðinni?« »Getur vel verið. Þar var verksvið mitt. Ég tók á móti símskeytum og sendi þau«. »Og, þú varst þar til seinasta augnabliksins?« »Það eru nú einmitt augnablikin, sem áríðandi er að vinna skylduverkin!« »Það var sama daginn og tveir menn, annar enskur en hinn franskur, voru að jagast þar með rúblur í höndum um það, hvor þeirra ætti forgangsrétt að símanum. Þú manst að Englendingurinn símaði nokkuð af kveðlingum?« »Getur vel verið, litli faðir! En ég man ekki eftir því!« »Virkilega! Manstu ekki eftir neinu þessu?« »Ég festi engin skeyti í minni mér, sem ég sendi. Það er skylda mín að gleyma þeim og greiðasti vegurinn til þess er sá, að kynna sér skeytin alls ekkert«. Þetta svar sýndi ljóslega hverskonar maður Pigassof var. Í millitíðinni hélt hesturinn áfram, en lötraði svo hægt að Strogoff réði sér varla fyrir löngun að fara ögn hraðara. En þeir Nikulás og hesturinn voru samvanir og kom hvorugum í hug að breyta venjunni í því efni. Ferðinni var hagað þannig, að hesturinn hélt áfram seinagangsspretti sínum í tvær klukkustundir samfleytt, en þá hvíldi hann sig rétta klukkustund! Á meðan áð var úðaði klárinn í sig grasið, en ferðafólkið og Serkó sátu á grænni grundinni og fengu sér ofurlítinn bita. Í kerrunni var nægilegt fæði handa 20 manns, og eigandinn veitti gestum sínum rausnarlega, gestunum, sem hann ekki efaði að væru systkini. Eftir að hafa hvílst allan daginn fór Nadía ögn að ná sér aftur, enda sannast að Pigassoff lét sér engu síður ant um að vel færi um hana, en Strogoff sjálfur. Ferðin gekk líka heldur vel, óvenju seint auðvitað, en slysalaust og óþægindalítið. Það kom stundum fyrir á nóttunni, að Pigassof sofnaði þó hann héldi á taumunum og hraut þá hátt og lengi, sem var ugglaus vottur þess að samviska hans var hrein og óflekkuð. Ef vel hefði verið athugað, hefði maður þá getað séð hendur Strogoffs læðast fram fyrir hendur ökumannsins, handfanga taumana og jafnskjótt knýja hestinn til að víkja út frá reglunni og ganga dálítið greitt. Serko var steinhissa á þeim kippum, og starði á klárinn, en fjasaði svo ekkert um það, en greikkaði sporið líka. Undir eins og Pigassof fór að rumskast sletti klárinn sér niðurá sinn venjulega seinagang. Allt var jafngott, en nokkru færri verstir ófarnar fyrir bragðið. Þannig leið tíminn, þau komust slysalaust yfir ána Ichirnsk, og fóru fram hjá einu smáþorpinu eftir annað. Að síðustu fóru þau yfir ána Iuhoula, sem er lítið vatnsfall, en skiftir landinu í austur og vestur Síberíu. Þegar yfir þessa landamerkja-elfu var komið tók við fláki mikill af hríslandi, er ekki sást út fyrir. Svo kom og von bráðar feikna mikið furuskóga-belti, er aldrei virtist ætla að taka enda. Hvarvetna mátti heita auðn. Þorpin flest voru mannlaus, eða því sem næst rúin öllum nýtilegum munum. Íbúarnir höfðu allir lagt á flótta austur yfir Jenisei, í von um að það mikla fljót reyndist ókleifur bálkur á vegi Tartaranna. Það var 22. ágúst þegar klárinn með kerruna aftan í sér lötraði inn fyrir takmörk þorpsins Atchinsk, 380 verstum fyrir utan Tomsk. Enn voru eftir 120 verstir til Krasnoiarsk. Það hafði ekkert borið til tíðinda á þessari sex daga ferð í kerrunni. Nikulás var allt af hinn sami, allt af jafn rólegur, og Strogoff og Nadía voru allt af jafn kvíðandi fyrir skilnaðarstundinni á Krasnoiarsk, en þó óþreyjufull yfir því hve seint gekk ferðin. Strogoff sá héruðin, sem þau fóru um — með augum þeirra Nadíu og Nikulásar. Þau skiftust á að lýsa fyrir honum útsýninu og öllu sem fyrir augun bar. Hann vissi þess vegna allt af hvort hann var í skógi eða á skóglausri sléttu. Hann vissi líka allt af hvort kofar nokkrir eða hús voru í grendinni og hvort nokkrir Síberíumenn voru sýnilegir eða ekki, Nikulás var skrafhreifinn maður. Hann gat helzt aldrei þagað, og af því að hann hafði einkennilega skoðun á hlutunum, skemmti hann farþegum sínum vel. Einu sinni spurði Strogoff hann hvernig veðrið liti út. — »O, það er gott veður«, svaraði Nikulás, »en sumarið er á enda og haustið er stutt í Síberíu. Fyrr en nokkurn varir er vetrarfrostið komið. Ef til vill setjast Tartararnir þá um kyrrt og sitja í herbúðunum vetrarlangt«. Strogoff hristi höfuðið, en svaraði ekki. »Svo þú heldur ekki, litli faðir!« hélt Nikulás áfram. »Heldurðu þeir haldi áfram göngunni til Irkutsk?« »Ég er hræddur um það!« svaraði Strogoff. »Já — þú getur líklega rétt til. Þeir hafa vondan mann í flokki sínum og hann leyfir þeim ekki að slæpast! Þú hefir líklega heyrt getið um Ivan Ogareff?« »Já«. »Þú viðurkennir að rangt sé að svíkja föðurlandið?« »Já, það er langt frá því að vera rétt að gera það«, svaraði Strogoff stillilega. Hann var ófús til að opinbera tilfinningar sínar. »Mér sýnist, litli faðir!« sagði þá Nikulás, »að þú finnir ekki nærri nóg til réttlátrar reiði þegar minnst er á Ivan Ogareff. Þitt rússneska hjarta ætti að kippast við þegar nafn hans er nefnt!« »Trúðu mér, vinur«, sagði Strogoff, »að ég hata þann mann meira en þú nokkurntíma getur hatað hann!« »Það er ómögulegt! Alveg ómögulegt!« svaraði Nikulás. »Í hvert skifti sem ég hugsa um Ivan Ogareff og allt það tjón, sem hann vinnur voru elskaða Rússlandi, þá reiðist ég svo gassalega, að ef ég næði taki á honum ...«. »Ef þú þá næðir taki á honum, — þá hvað?« spurði Strogoff. »Ja, ég held helzt ég dræpi hann!« »Já, og ég — ég efast ekkert um hvað ég gerði undir þeim kringumstæðum!« svaraði Strogoff með sömu stillingunni. VII. Ferjan á Jenesei-fljótinu. Það var að kvöldi dags 25. ágúst að kerran nálgaðist Krasnoiarsk svo að sást til þorpsins. Átta dagar voru gengnir í ferðina frá Tomsk — fimm hundruð verstir. Að ferðin gekk ekki greiðara en þetta var óefað því að kenna, að nokkru leyti, að Nikulás Pigassof hafði sofið svo lítið. Það var þess vegna ómögulegt að auka ferðina og af því leiddi, að hann var átta sólarhringa að fara þá leið, sem aðrir hefðu farið á hálfum þriðja sólarhring. Svo vel vildi til að engin hætta virtist á áhlaupi Tartaranna. Ekki svo mikið sem einn njósnari Tartara hafði sést á ferðinni frá Tomsk. Það var undarlegt og auðsætt að eitthvert alvarlegt tilvik hafði hindrað emírinn frá að senda hermenn sína tafarlaust af stað, áleiðis til Irkutsk. Tilgátan var rétt. Rússar höfðu dregið saman flokk allmikinn á stuttum tíma austur í Jeneseisk-héraði og sent hann til Tomsk í þeim tilgangi að hrífa bæinn aftur úr höndum Tartaranna. En þessi herflokkur Rússa átti gegn ofurefli að etja og mátti hann að lyktum leggja á flótta. Meginher emírsins var þá allur saman safnaður í Tomsk og voru þar undir stjórn hans og Ogareffs um tvö hundruð og fimmtíu þúsund vopnaðra hermanna. Og Rússar höfðu ekki enn getað fengið saman svo mikinn her, að þessi grúi yrði bugaður. Það var enn engin tilsjón til að kæfa uppreisnina, svo að enn var torfærulaus vegur fyrir emírnum á leiðinni austur um landið. Þessi árangurslausa orusta í Tomsk átti sér stað 22. ágúst. Það hafði Strogoff vitanlega enga hugmynd um, en þessi skýring sýnir ástæðurnar til þess, að njósnarar emírsins voru engir komnir til Krasnoiarsk hinn 25. ágúst. En þó Strogoff væri ókunnugt um það, sem gerzt hafði síðan hann fór frá Tomsk, þá var honum samt fullljóst, að enn þá var hann talsvert langt á undan fyrirrennurum Tartaranna. Það var því fremur von til að hann enn þá yrði fyrri en þeir til Irkutsk. Þangað voru nú 850 verstir. Því fremur bjóst hann við að ná takmarkinu í tæka tíð, að hann þóttist eiga vísa hesta og fylgdarmann í Krasnoiarsk — þorpi, sem telur tólf þúsund íbúa. Hann mátti líka til með að fá þar fylgdarmann og hesta, því Pigassof ætlaði ekki lengra, en ásetti sér að setjast þar að. Eftir að hafa gert sig kunnan governurnum og sannað að hann væri sendiboði keisarans, sem hann vonaði að gengi tregðulaust, bjóst hann við að ekki myndi standa á góðum hestum og fylgdarmanni. Hann vonaði því fastlega að ná til Irkutsk á stuttri stundu. Innan skamms bjóst hann því við að geta þakkað sínum góða Nikulási fyrir góðan greiða, sezt upp í nýjan vagn með Nadíu við hlið sér og lina svo ekki ferðina, fyrr en til Irkutsk væri komið, og hann gæti skilað henni föður hennar sjálfum. Nikulás Pigassof, sem sagt, hafði gert ráð fyrir að setjast að í Krasnoiarsk, þó því að eins, að hann þar ætti kost á atvinnu. Því þessi fyrirmyndarþjónn stjórnarinnar, sem ótrauður vann skylduverk sín í Kolyvan allt til síðasta augnabliksins, hafði þegar ásett sér að bjóða stjórninni lið sitt og líf á ný og leita að tækifæri til þess, svo að hann ekki tæki laun frá henni fyrir iðjuleysi. »Því skyldi ég taka við peningum, sem ég hefi ekki unnið fyrir?« sagði hann, ef tilrætt var um það atriði. Hann bjóst við að enn væri óslitið síma-samband milli Krasnoiarsk og Irkutsk, en mögulegt var að þar væri engin þörf á þjónustu hans. Ef sú yrði raunin ætlaði hann að halda áfram austur til Oudinsk, og ef á þyrfti að halda enda til höfuðborgarinnar sjálfrar í Austur-Síberíu — Irkutsk. Ef hann þyrfti að fara alla leið, gerði hann ráð fyrir að flytja þau systkinin í kerru sinni, og annan dyggari ökumann, eða innilegri vin, gátu þau ekki fengið. Þannig voru hinar all-ólíkar hugrenningar þeirra Strogoffs og Nikulásar. Klukkan var orðin 7 um kvöldið og nú var ekki eftir nema hálf verst til yztu húsanna í bænum. Krossmörkin úr tré, sem blasa við auganu hvarvetna í útjöðrum bæjarins, sáust nú til beggja handa. Kirkjurnar og húsin á hinum háa og bratta bakka fljótsins sáust nú glöggt, eins og skuggamyndir á kvöldloftinu, og álengdar framleiddi fljótið mynd af þeim í djúpi sínu, eins og skuggsjá væri. Hér staðnæmdi Nikulás hest sinn. »Hvar erum við systir?« spurði Strogoff. »Hálfa verst frá yzta húsinu, í Krasnoiarsk«. »Er mögulegt að allir í bænum séu gengnir til hvílu? Ég heyri ekki minnsta skrölt«, sagði Strogoff. »Og ég sé hvergi ljósglætu — ekki einu sinni reyk upp úr strompi!« sagði Nadía. »Þeir hafa ekki hátt um sig í þessari borg og eru ekki seint á ferli! Það er skrítið þorp að tarna!« sagði Nikulás. Það fór ónota hrollur um Strogoff, eins og fyrirboði einhverra nýrra óhappa. Hann hafði ekki sagt Nadíu, að öll sín von væri í Krasnoiarsk, að hann þar vænti svo fastlega eftir ferðmiklum gæðingum og góðri fylgd. Það var þó heppilegt, því nú fór hann að óttast að von sín ætlaði að bregðast einu sinni enn. En þó hann hefði ekki talað um þessa von sína við Nadíu, hafði hún samt getið á hvað í hug hans bjó. Hún vissi sem sé að áfram keppti hann til Irkutsk engu síður þó keisarabréfið væri týnt. Hvernig á því kappi stóð, það vissi hún ekki og græddi lítið þó hún einu sinni spyrði hann, því hann kepptist svona við að komast til Irkutsk. »Ég hefi unnið þess eið, að fara til Irkutsk!« var hans eina svar. Nadía sá ekki síður en hann, að til þess að ná þangað með þeim hraða sem hann vildi, hlaut hann að fá fylgd og hesta í Krasnoiarsk. Hún hafði þess vegna góða hugmynd um hverjar vonir hans voru. »Jæja, vinur!« sagði Strogoff. »Því höldum við ekki áfram?« »Af því að ég er hræddur um að ég veki einhverja af íbúum bæjarins með skröltinu í kerrunni!« En svo kom hann við hest sinn með svipunni, sem þegar lötraði af stað aftur. Serko gat ekki stillt sig um að gelta nokkrum sinnum og svo seig fylkingin af stað inn í þorpið Krasnoiarsk. Að tíu mínútum liðnum var kerran komin í miðbik bæjarins — á Hástræti. Krasnoiarsk var í eyði og tóm! Það var nú enginn Aþenu-maður eftir í þessari »norðlægu Aþenu«, eins og Madam de Bourboulon hafði nefnt þetta þorp. Ekki einn einasti af þeirra hnarreistu gæðingum fór nú á spretti um hin fögru stræti bæjarins með skrautmikinn vagn á eftir sér. Ekki einn einasti fótgangandi maður reikaði nú um hinar upphleyptu gangstéttir fram með hinum mörgu skrautlegu og tilkomumiklu timburhúsum. Ekki ein einasta af hinum stássbúnu Síberíu-meyjum sást reika í skugga birkitrjánna um lystigarð bæjarins, er liggur fram á bakka Jeneseifljótsins. Klukkan mikla í dómkirkjuturninum var þögul og svo voru allar samhringinga-klukkurnar í öðrum kirkjum. Það var þó sannarlega nýstárlegt í rússneskum bæ, sem ár og síð bergmála kirkjuklukkuhljóm. Það var ekki lengur lifandi vera í þessum bæ, sem til skamms hafði iðað af lífi og fjöri. Hinsta símskeytið, er keisari Rússlands hafði ráð á að senda austur eftir óslitnum vír, hafði verið boðskapur þess efnis, að allir búendur í Krasnoiarsk, governorinn, setuliðið og allir borgararnir skyldu tafarlaust taka sig upp og flytja allt fémætt með sér. Skyldu þeir leita sér hælis í Irkutsk. Sama skipun hafði verið send til allra bæjarmanna í öllu héraðinu. Tilgangur stjórnarinnar í Moskva var sá, að gjöreyða landið á undan Törturunum, svo að þeim veitti örðugt að halda ferðinni áfram. Ekki einum manni kom til hugar að þræta um réttlæti þessa boðskapar. Honum var umsvifalaust hlýtt og þess vegna var það, að engin lifandi sál var eftir í Krasnoiarsk. Mikael Strogoff, Nadía og Nikulás þræddu veginn um bæinn án þess að mæla orð. Þau voru of yfirkomin til þess að segja nokkuð. Kerran þeirra og hófar hestsins voru allsendis það eina, sem skarkala vakti í þessari dauðu borg. Brjóst Strogoffs svall af gremju yfir ógæfunni, sem elti hann svona hvar sem hann fór, en eins mikið og hann fann til vonbrigðanna, lét hann engan geta greint það á andliti sínu og svip. »Hvílík þó ógæfa!« hrópaði Nikulás. »Ég fæ aldrei neitt að gera í þessum eyðilagða bæ!«. »Þú mátt, vinur halda áfram til Irkutsk með okkur«, sagði Nadía. »Já, það er nú eflaust orðið«, sagði Nikulás. »Vírinn er sjálfsagt óhögginn enn og í standi milli Oudinsk og Irkutsk, þar — —. Eigum við að halda áfram, litli faðir?« »Við skulum bíða til morguns«, svaraði Strogoff upp á spurninguna. »Það er rétt«, sagði Nikulás. »Við eigum eftir að komast yfir Jenesei-fljótið og við þurfum að sjá til við það«. »Að sjá til«, sagði Nadía við sjálfa sig, en svo hátt, að Nikulás heyrði. Hún var að hugsa um sinn blinda »bróður«. »Ásakaðu þig ekkert, vinur!« sagði Strogoff og dró hendina yfir augun. »Með þig fyrir leiðsögumann get ég enn athafnað mig. En fáðu þér nokkurra stunda hvíld. Nadía þarfnast einnig hvíldar. Á morgun höldum við áfram ferðinni«. Ekki voru vandræði að finna náttstað, til að hvílast á. Fyrsta húsið, er ferðafólkið bar að var autt og tómt eins og öll önnur. Inni í því var ekkert að hafa nema litla hrúgu af laufi. Og þar sem ekkert betra fóður var á boðstólum varð hesturinn að gera sér þessi visnu lauf að góðu. Enn var eftir nokkuð af matvælum í kerrunni og fengu þau Strogoff og Nadía sinn skerf af þeim. Að lokinni máltíðinni og eftir að hafa kropið á kné fyrir Panaghia-mynd, sem hékk á veggnum og sem lítil ljóstýra brann hjá enn, lögðust þau til svefns Nadía og Nikulás, en Strogoff, sem svefnmissir hafði engin áhrif á, sat uppi og hélt vörð yfir sofendunum. Morguninn eftir, 26. ágúst, áður en dagur rann, var kerran komin á ferðina fram um lystigarðinn, milli hinna mikilfenglegu birkitrjáa, og stefndi að fljótsbakkanum. Strogoff hafði alvarlegar hugsanir. Hvernig átti hann að komast yfir fljótið, ef, eins og líklegt var, að ferjubátar allir væru eyðilagðir til að stemma ferð Tartaranna? Hann vissi hvernig Jenesei var viðureignar, því hann hafði oft farið yfir fljótið. Hann vissi að breidd þess var mikil, og straumurinn var stríður í álunum, sem það hafði grafið sér milli hólmanna, sem í því voru. Þegar allt var í reglu, þegar til eru ferjubátar, sem í senn flytja fólk, hesta og vagna, er þriggja stunda verk að komast yfir það, og þá, á þessum sérstaklega völdu bátum, er það oft ill-mögulegt að ná lendingu fyrir handan fljótið. Hvernig var þá hugsanlegt að komast af einum bakka fljótsins á annan með kerruna nú, ef ferjubátar voru engir til? Það ljómaði af degi á austurlofti þegar kerran var komin fram á aðalbakka fljótsins við enda einnar brautarinnar um lystigarðinn. Þar var bakkinn hafinn um hundrað fet yfir yfirborð fljótsins og mátti því þaðan sjá yfir allt fljótið og upp og niður með því. »Sést nokkur bátur?« spurði Strogoff, og af vananum auðvitað renndi hann augunum yfir farveg fljótsins og bakka þess, rétt eins og hann virkilega væri sjáandi. »Það er tæpast orðið ljóst ennþá, bróðir«, svaraði Nadía. »Þokan er líka svo þykk enn, að við getum ekki séð vatnið«. »En ég heyri niðinn«, sagði Strogoff, enda enginn efi að hann sagði það satt. Því úr þokunni barst að eyrum ferðamannanna þungur, svelgjandi straumniður. Vöxtur mikill var í fljótinu og ruddist það nú fram með dunum og dynkjum. Það var ekki um annað að gera en staðnæmast og bíða eftir að þokunni og móðunni létti af fljótinu. Sólin var komin upp yfir sjóndeildarhringinn og reis óðum hærra og hærra og innan skamms mundi hún dreifa móðunni og eyða henni. »Jæja?« sagði Strogoff spyrjandi. »Þokan er farin að lyftast »bróðir« minn!« svaraði Nadía. »Hún hverfur alveg innan stundar«. »En þið sjáið ekki til fljótsins enn, systir?« spurði Strogoff«. »Nei, ekki enn«, svaraði hún. »Vertu þolinmóður, litli faðir!« sagði Nikulás. »Þokan og móðan eru óðum að hverfa. Sjáum til! Hérna kemur andvarinn, sem feykir henni burt. Ég er þegar farinn að sjá móta fyrir trjánum á austurbakkanum. Sólargeislarnir svo hlýir og svo bjartir hafa þegar umhverft móðunni í vatnsagnir. Ó, hve fagurt er ekki að horfa á þessa sjón, og hve sorglegt að þú, vinur, skulir ekki sjá þessa dýrð!« »Sérðu nokkurn bát?« spurði Strogoff. »Nei, ekkert svipað því!« »Vertu aðgætinn vinur«, sagði Strogoff aftur. »Leitaðu nákvæmlega meðfram bökkum fljótsins beggja megin, eins langt og augað eygir, eftir bát, fleka eða jafnvel birkifleytu«. Nadía og Nikulás gengu fram á hábakkann, héldu um hríslur og teygðu sig svo fram yfir og horfðu. Með þessu móti sáu þau yfir víðlent svæði, og á þessu svæði var fljótið ekki minna en ein ensk míla á breidd, í tveimur mismunandi breiðum kvíslum og var fossandi straumkast í báðum. Hólmar margir, þaktir elristrjám, bogvið og poplum, liggja í röst eftir fljótinu upp og ofan og skifta því þannig í tvær aðalkvíslar. Til að sjá eru þessir hólmar líkastir grænmáluðum skipaflota, er liggi við stjóra í miðju fljótinu. Fyrir handan fljótið risu háar hæðir upp frá vatninu, vaxnar háum og þéttum skógi, sem á þessum tíma dags, undir nýupprunna sól að sjá, var sveipaður dýrðlegum geislakransi. Til suðurs og norðurs bugðaði þetta mikla fljót sig, svo langt sem augað eygði og frá þessu stöðusviði blasti þessi ljómandi mynd við auganu á fullu 50 versta svæði. En enginn bátur var sýnilegur, hvorki að austan eða vestan, eða í nokkrum hólmanum. Þeir höfðu allir verið fluttir burt eða eyðilagðir, samkvæmt boði keisarans. Ef Tartararnir ekki höfðu flutt með sér sunnan úr Khana-dæmunum efni og áhöld til að smíða báta og fleka, hlaut þeim að verða tafsamt að komast með allt lið sitt austur yfir þennan mikilfenglega þrepskjöld á vegi þeirra: fljótið Jenesei. »Ég minnist þess«, sagði Strogoff, »að lengra upp með fljótinu, yzt í suðurjaðri bæjarins, er dálítil bryggja og lenda þar ferjubátarnir. Við skulum halda þangað, vinur, og vita hvort einhverju bátflaki hefir ekki verið gleymt einhversstaðar í grennd við bryggjuna«. Nadía tók um hönd Strogoffs og gekk svo af stað með eins miklum hraða og varð upp fljótsbakkann. Strogoff vílaði ekki fyrir sér að leggja út á þetta æðandi ölduhaf, ef að eins fyndist flekaskrifli, sem borið gæti kerruna, eða þó ekki væri nema ferðafólkið sjálft. Eftir tuttugu mínútna gang staðnæmdust þau þrjú á hinni litlu bryggju, með húsum á báðum endum alveg niður að vatnsborði. Húsaþyrping þessi var eins og sérstakt þorp fyrir ofan aðal-bæinn — Krasnoiarsk. En þar var enginn bátur, engin byrðingsmynd við hina litlu bryggju. Þar var einu sinni ekkert sem nota mætti til að gera sér fleka úr til að bera, þó ekki væri nema þrjár manneskjur. Strogoff spurði Nikulás um tiltækilegast ráð til að komast yfir fljótið, og var svarið enganveginn upplífgandi. Hann kvaðst álíta það alveg ómögulegt að komast yfir. »Jú, yfir um skulum við nú komast!« svaraði Strogoff með hægð. Leitinni eftir bát eða fleka var haldið áfram. Það var leitað með gaumgæfni í öllum húsum í grenndinni eftir efni í fleka. En þar var ekkert að hafa. Húskofarnir, sem ýmist stóðu opnir eða með hurð fallna að stöfum, voru augsýnilega heimkynni fátæklinga og voru nú gersamlega rúin öllu sem hreyfanlegt var. Nikulás leitaði í einu, Nadía í öðru og jafnvel Strogoff fór inn í húsin og þreifaði fyrir sér í þeirri von, að eitthvað yrði fyrir höndum hans, sem hagnýta mætti. Þau Nadía og Nikulás voru um það bil búin að skoða öll húsin og til einskis, þegar þau heyrðu Strogoff hrópa. Þau brugðu við fljótt og komu hlaupandi sitt úr hvorri áttinni. »Komið þið!« kallaði Strogoff. Þau fóru svo með honum inn í húsið, sem hann stóð úti fyrir. Þegar inn kom spurði hann hvað þetta væri og benti á hlaða nokkurn í einu horninu. »Það eru mjólkurílát úr leðri — nokkurskonar leðurflöskur«, svaraði Nikulás, »og eru að minnsta kosti sex saman«. »Eru þær fullar?« spurði Strogoff. »Já, alveg fullar af »koumyss««, svaraði Nikulás. »Það var sannalega gagnlegur fundur, til að auka matarbirgðir okkar!« »Koumyss« er drykkur gerður úr kapla- eða úlfaldamjólk; er hann mjög nærandi, enda áfengur. Þau Strogoff höfðu þess vegna ástæðu til að fagna yfir fundinum. »Leggjum eina flöskuna til hliðar, en tæmum allar hinar!« sagði Strogoff. »Undir eins, litli faðir!« svaraði Nikulás. »Þessar hjálpa okkur til að komast yfir fljótið«. sagði Strogoff. »Hvar er flekinn?« spurði Nikulás. »Kerran verður flekinn okkar. Hún er svo létt, að hún flýtur«, svaraði Strogoff. »Að auki erum við nú líka tilbúin að halda henni uppi ekki síður en hestinum sjálfum með þessum loftheldu, leðurhylkjum!« »Ágætlega hugsað, litli faðir!« sagði Nikulás. »Með Guðs hjálp komumst við nú yfir vatnsfallið, þó líklega förum við aldrei þvert yfir það, vegna straumkastsins. »Ja, hvað gerir það?« sagði Strogoff spyrjandi. »Bara að okkar takist að ná austurbakkanum. Ekki er hætta á, að við finnum ekki Irkutsk-brautina«. »Já, þá er nú að taka til starfa!« sagði Nikulás, og jafnframt byrjaði hann að hella úr leðurhylkjunum og bera þau svo tóm út að kerrunni. Eins og Strogoff sagði fyrir, var eitt leðurhylkið skilið eftir ósnert og flatt í kerruna með drykknum í. Tvö hinna tómu hylkja voru, þanin út með lofti og síðan fest við síðurnar á hestinum, til þess að hann yrði sem léttastur í vatninu. Hin voru, eftir að hafa verið þanin með lofti, fest við kerruna þannig, að hún sykki ekki í vatnið nema upp að botninum. Á svipstundu var kerrunni þannig umhverft í fleka. »Þú ert ekki hrædd, Nadía, eða hvað?« spurði Strogoff. »Nei, »bróðir« minn!« svaraði hún. »En þú, vinur?« »Ég? Ekki ákaflega!« svaraði Nikulás. »Það er einmitt nú að koma fram einn af mínum mörgu draumum, sá, að sigla á kerru!« Þar sem þau voru stödd, var bakkinn hallandi og því þægilegur til að leggja út í og koma kerrunni á flot. Hesturinn lagði óragur út í strauminn og innan stundar var hann, farinn að synda, en kerran að sigla. Hvað Serko snerti, þá svam hann með fram kerrunni og var hinn lukkulegasti. Farþegarnir sátu þar sem haganlegast var í kerrunni, en til vonar og vara höfðu þeir tekið af sér skó og sokka. En loftbelgirnir, eða leðurhylkin, gerðu það að verkum, að kerran sökk ekki dýpra en svo, að vatnið tók farþegunum aðeins í ökla á kerrubotninum. Þó Strogoff væri blindur hafði hann taumhaldið, og eftir tilsögn Nikulásar stýrði hann hestinum á snið undan straumnum, svo að hann ekki þreyttist á sundinu. Kerran var létt í drætti á meðan hún mátti berast með straumnum og gekk ferðin svo vel, að innan stundar var þessi einkennilega ferja komin ofan fyrir allar bryggjurnar í Krasnoiarsk. En svo var straumurinn mikill, að auðsætt var að ekki næðist austurbakkinn fyrr en langt fyrir norðan bæinn. Það gerði nú heldur ekkert. Ef straumurinn hefði aðeins verið jafn, þá hefði verið vandræðalítið að komast yfir fljótið, fátæklegur og fáránlegur eins og þessi útbúningur var. En það var ekki því að heilsa. Stærri og smærri hringiður voru hér og þar, og þrátt fyrir öflugustu tilraunir Strogoffs að þræða á milli þeirra, var kerran fyrr en varði farin að sogast inn í eina þessa ægilegu hringmynduðu röst. Hér var hætta á ferðum. Kerruna rak ekki lengur niður eftir fljótinu, heldur hringsnerist hún eins og spunakona og hallaðist að hvylftinni á miðju hringstraumsins. Svo var undirstraumurinn þungur, að þrátt fyrir loftbelgina átti hesturinn örðugt með að halda höfðinu upp úr vatninu. Og Serkó var hættur að synda; hafði flúið upp í kerruna. Strogoff vissi hvað á ferðum var. Hann fann gjörla að kerran fór í hring og að hringbraut hennar þrengdist meir og meir. Aumt var að hann var nú ekki sjáandi, ef unnt væri að hrífa hest og kerr úr iðunni. En það var ekki til neins að tala um það. Nadía sat þögul, en hélt fast um kerruhliðarnar, enda ekki að óþörfu, því á þessum sífelda snúningi hnykktist kerran hastarlega til, jafnfram því, sem hún hallaðist meir og meir, eftir því sem nær dró iðuhvylftinni. En Nikulás? Skyldi hann máske ekki í hvað miklum háska hann var staddur? Hafði hann engan ótta, eða hafði flegmatismi hans alger yfirráð? Var hann fífldjarfur, eða var hann kærulaus? Var lífið í hans augum einskisvirði, og samkvæmt austræna máltækinu »gestgjafahús um fimm daga«, en sem sjálfsagt var að yfirgefa á sjötta deginum? Hvað helzt, sem hann hugsaði, þá var það eitt víst, að brosið á hans rjóða andliti dvínaði ekki einu sinni. Þannig snerist þá kerran í iðustrauminum, hestinum lá við köfnun og engin von til að hann hefði sig sjálfur út úr röstinn. Allt í einu tók Strogoff sig til og snaraði af sér yfirhöfninni, stóð svo upp og steypti sér í strauminn! Á næsta augnabliki hafði hann gripið heljartökum á beizlinu og með því fært hestinum þann kjark, að hann innan fárra augnablika var búinn að rífa sig út yfir iðuna og fór þá bæði hann og kerran á flugferð niður fljótið. »Húrra!« hrópaði Nikulás upp yfir sig, og svo var það ekki meira. Eftir tveggja klukkustunda ferð frá bryggjunni hafði hesturinn og kerran lokið sundinu yfir hina breiðari kvísl fljótsins og tóku nú land á einum hólmanum, rúmlega sex verstir fyrir neðan bryggjuna, sem þau fóru frá. Hesturinn dró kerruna upp í hólmann og þar var hann hvíldur í klukkustund. Að þeim tíma liðnum var ferðin hafin á ný á þurru landi yfir þveran hólmann, milli hávaxinna birki- og poplar-trjáa. Innan stundar var siglingin hafin yfir eystri og mjórri arm fljótsins og gekk ferðin þar betur. Í þessari kvísl var engin hringiða til að óttast, en þar var straumkastið svo mikið, að austurlandinu varð ekki náð fyrri en fimm verstir fyrir neðan hólmann, sem áð var á. Sigurinn var unninn. Þau voru komin yfir hið mikla Jenesei-fljót. En hrakið hafði þau nærri 8 mílur enskar. Þessar miklu Síberíu-ár eru meir en smáræðis hindranir á vegum viðskiftanna, því engar brýr eru komnar á þær enn. Allar þessar ár höfðu reynzt Strogoff óþægar og illar viðfangs í þessari ferð. Á Irtich réðust Tartararnir á ferju hans og Nadíu. Á Obi var reiðskjótinn hans góði skotinn til dauða og það var sannarlegt kraftaverk, að hann sjálfur komst af í það skiftið ekki síður en fyrrum á Irtich. Að öllu samtöldu var þessi ferð hans yfir Jenesei, stærsta og versta fljótið, háð minstri hættu og raunum. »Ef þessi ferð hefði ekki verið svo erfið, þá hefði hún heldur ekki verið svona skemtileg!« sagði Nikulás og neri saman höndunum, er hann stóð á þurru landi á austurbakkanum. »Já, vinur«, svaraði Strogoff. »Það sem fyrir okkur hefir verið aðeins erfitt, það verður Törturunum ef til vill alveg ófært«. VIII. Héri á veginum. Mikael Strogoff hafði nú nokkra ástæðu til að vona, að lokið væri torfærunum á veginum til Irkutsk. Hann var kominn langt fram fyrir Tartarana, sem tafið höfðu ferðina í Tomsk, og þegar þeir kæmu til Krasnoiarsk, fyndu þeir eins og hann allslausan bæ og enga ferju að hafa. Af því leiddi, að þar hlytu þeir að tefjast svo dögum skifti á meðan þeir væru að smíða fleka eða einhverja fleytu til að komast á með allan sinn farangur austur yfir Jenesei. Nú í fyrsta skifti síðan fundi hans og Ogareffs fyrst bar saman var Strogoff óhræddur og vongóður um, að engar nýjar torfærur mættu sér á ófarinni leið, til að hindra ferð sína. Eftir að hafa farið fimtán versta ferð á snið suð-austur komust þeir Strogoff og Nikulás aftur á hina löngu slóð á sléttunni — troðninginn, sem nefndur er Irkutsk-braut. Vegurinn var góður, enda almæli, að á allri leiðinni sé hann hvergi jafn góður eins og á milli Krasnoiarsk og Irkutsk. Brautin er sléttari og þar af leiðandi þægilegri fyrir ferðamanninn. Trjáraðir víða til að skýla fyrir sólarhitanum og sumstaðar stór og þétt furu- og sedrusskógabelti, er óslitin tóku yfir hundrað versta svið. Hin nakta, kuldalega slétta var horfin auganu í bráð, en þótt umhverfis sendiboðann og föruneyti hans væri frjótt og fagurt land, þá var það fátæktin sjálf núna — allt í eyði. Hvarvetna var að sjá auð og tóm þorp, því allir, háir og lágir, voru flúnir. Þetta frjósama land var eintóm eyðimörk — eyðimörk að boði keisarans. Veðrið var gott, en loftið orðið svalt að næturlagi, og tók æði tíma til að hlýna aftur á daginn. Septembermánuður var líka innan stundar byrjaður, enda dagurinn sýnilega farin að styttast á þessu hnattmælisstigi. Haustið á þessu sviði, sem þó er sunnan við fimmtugasta og fimmta norðurbreiddarstig — álíka sunnar og Edinborg eða Kaupmannahöfn, — á þessu sviði er haustið örstutt. Veturinn fylgir fast á eftir sumrinu, og þar er líka vetur meir en að nafninu. Frostið er svo mikið, að kvikasilfrið í frostmælunum frýs, og það þykir ekki tilfinnanlegur kuldi, þó frostmælirinn vísi 20 stiga frost fyrir neðan zero. Sem sagt var veðrið gott — hentugasta fyrir ferðamennina, hvorki rigningar eða stormar. Hitinn á daginn var heldur ekki tilfinnanlegur og næturnar kaldar. Þau voru hin heilsubeztu Nadía og Strogoff og á ferðinni frá Tomsk — í kerru Nikulásar — höfðu þau smámsaman safnað nýjum kröftum og voru nú um það afþreytt orðin eftir undangengna ferð. Hvað Nikulás Pigasoff snerti, þá hafði hann aldrei verið við betri heilsu en einmitt nú. Þetta ferðalag var fyrir hann ánægjulegasta skemmtiferð — sumarfrí, sem kom honum að óvæntu. »Þetta er þó sannarlega skemmtilegra«, sagði hann, heldur en að sitja á stól tólf stundir á dag og fitla við símann!« Strogoff hafði nú talað Nikulás upp í það, að fara greiðara. Til þess að fá því framgengt hafði hann í trúnaði sagt Nikulási, að hann og systir sín væru á ferðinni til Irkutsk, í því skyni að hitta föður sinn og dvelja hjá honum í útlegðinni; þess vegna sárlangaði þau til að hraða ferðinni sem mest mætti. Vitaskuld var ekkert vit í að leggja mikið á hestinn, því líklega væri ekki um að gera að fá hestaskifti á leiðinni, en ef hann væri hvíldur eftir fimtán versta sprett til dæmis, væri auðvelt að komast sextíu verstir áleiðis á sólarhringnum. Auk þess væri hesturinn af þolnu og hraustu kyni og þyldi þess vegna talsverða áreynslu. Og að lyktum væri engin þurð á ágætis högum. Grasið væri bæði mikið og kjarngott og þyrfti hann því engan fóðurskort að líða. Þegar á þetta allt væri litið, væri ekki ósanngjarnt þó ögn væri hert að honum betur en að undanförnu. Nikulás viðurkenndi þessa röksemdaleiðslu rétta og hann kenndi í brjósti um þessi ungu, systkini, er voru á ferðinni til að dvelja í útlegðinni með föður sínum. Ekkert, sem hann hafði áður heyrt, hafði hrifið hann eins. Og hvílíkt þó blíðubros var ekki á andlitinu hans góðmannlega þegar hann sneri sér til Nadíu og sagði: »Himneska gæzkan! Mikill verður fögnuður Korpanoffs, þegar augu hans líta ykkur og þegar hann breiðir út faðminn til að fagna ykkur! Ef ég fer til Irkutsk, og til þess eru allar líkur nú, þætti mér vænt um ef þið vilduð lofa mér að vera viðstöddum þegar þið fyrst heilsið honum. Þið lofið mér það, eða hvað haldið þið?« En í þessu datt honum annað í hug, barði á enni sér og hélt svo áfram: »En ég gleymi því, og sorg hans verður mikil, er hann sér veslings son sinn sjónlausan! Þannig er heimurinn — þar er öllu blandað saman!« Afleiðingin af öllu þessu varð, að kerru-hesturinn greikkaði sporið, náði enda tíu til tólf versta ferð á klukkustund, eftir áætlun Strogoffs. Hinn 28. ágúst var Strogoff þannig kominn til þorpsins Balaisk — 80 verstir austur fyrir Krasnoiarsk, og daginn eftir, 29. ágúst, fór hann fram hjá þorpinu Ribinsk, sem er 40 verstum fyrir austan Balaisk. 30. ágúst komu ferðamenn þessir til Kamsk, sem er allstór bær á bakka samnefndrar ár, og 155 verstum fyrir austan Krasnoiarsk, áin Kamsk hefir upptök sín í Sayansk-fjöllunum og fellur í Jenesei. Þó þorpið Kamsk sé allstórt, hefir það ekkert sérlegt sér til ágætis. Húsin flest voru úr timbri og var þeim öllum sem varð raðað niður umhverfis torg eitt mikið, og yfir þau mændi dómkirkjan með háum turni, og efst á honum glóði í sólskininu gullroðinn kross. Húsin voru í eyði og kirkjan yfirgefin. Ekkert gestgjafahús var byggt og enginn hestur fáanlegur. Skipun Moskva-stjórnarinnar hafði svikalaust verið framfylgt. Enda allir lausir aurar, er ekki voru tök til að hafa á burt með sér voru eyðilagðir. Þegar farið var af stað frá Kamsk sagði Strogoff Nikulási, að nú væri ekki eftir nema eitt þorp, sem að kvæði, þangað til að til Irkutsk væri komið. Þetta eina þorp væri Nijni-Oudinsk. Nikulás kvaðst vita að svo væri, og að væri Oudinsk í sama ásigkomulagi og hin önnur þorpin, þá hlyti hann líka að halda áfram til Irkutsk, í þeirri von að fá eitthvað að gera í höfuðborg austur-Síberíu. Árnar, sem féllu um landið fyrir austan Kamsk voru allar svo litlar, að kerrunni var óhætt í þeim, allt til þess komið var að stórfljótinu Angara, er, eins og smá-árnar hverfur á sínum tíma í hið mikla Jeneseifljót. Á þessu sviði öllu austur að Angara, var ekki að óttast töf af völdum straumvatna nema ef vera kynni að áin Dinka yrði óþæg viðfangs, en ekki svo að nokkur stór töf hlytist af. Frá Kamsk til næsta kauptúns var löng leið — um 130 verstir. Það er óþarft að geta þess, að á þessari leið var áð mikið reglulega, ekki síður en annarsstaðar á leiðinni. »Án þeirrar reglulegu hvíldar«, sagði Nikulás, »gætum við dregið yfir okkur réttláta kvörtun hestsins!« Svo hafði sem sé verið um samið, að hinn þrautsegi kerruhestur fengi hvíld einu sinni á hverjum fimtán verstum, og þegar samningur er gerður, enda þótt skepna sé annar málsaðili, þá er sjálfsagt réttlætisins vegna að halda fast við þann samning. Þegar komið var upp á austurbakka árinnar Biriousa nam kerran staðar um stund í þorpinu Biriousensk. Það var að morgni hins 4. sept. Vistaforðinn í kerrunni var að ganga til þurðar, en þá var Nikulás svo heppinn að finna í þessum auða bæ inni í einum ofninum töluvert af »pogatchas«, nokkurskonar kökum, gerðum úr hrísgrjónum og feitu sauðakjöti. Þetta var heppilegur fundur, því innan skamms hefðu góð ráð verið dýr, er komið hefði til að fá eitthvað í stað »koumyss«unnar, er Strogoff fann í Krasnoiarsk. Það var komið yfir hádegi þegar ferðin var hafin á ný. Nú voru ekki eftir nema um 500 verstir til Irkutsk, og enn var ekki minnsti vottur um útverði og njósnara Tartara. Það var þess vegna ekki að ástæðulausu að Strogoff vonaði að úti væri um allar tafir og að hann að átta eða mest tíu dögum liðnum yrði kominn til Irkutsk og fram fyrir stórhertogann. Þegar farið var frá Biriousensk hljóp héri yfir þvera brautina um fimtán faðma fyrir framan hestinn. Varð Nikulási þá hverft við og æjaði, án þess þó að hafa hátt. »Hvað gengur að, vinur?« spurði Strogoff, sem eins og blindum mönnum er tamt, heyra fljótt og vel. »Sástu ekki neitt?« sagði Nikulás, sem hafði gleymt sér um stundi en náði sér strax aftur og bætti við. »Því læt ég svona! Þú sér ekki og þú varzt heppinn í þetta skifti!« »En ég sá ekkert!« sagði Nadía. »Það var gott! Það þykir mér vænt um! En ég sá samt... «. »Hvað var það sem þú sást?« spurði Strogoff. »Héra, sem hljóp yfir brautina!« svaraði Nikulás. En þannig stóð á ógleði Nikulásar, að á Rússlandi er það almenn þjóðtrú, að hlaupi héri þannig yfir veginn, sé einhver ógæfa á næstu nesjum. Og Nikulás, hjátrúarfullur eins og flestir Rússar eru, stöðvaði hest sinn og kerru. Strogoff skildi vel í þessu, þó að langt væri frá að hann hefði sömu hjátrú. Gerði hann því sitt ýtrasta að hughreysta ökumanninn og telja honum trú um að ekkert væri að óttast. »Ekkert, sem þú, litli faðir, eða hún systir þín þarf að óttast, það veit ég vel«, svaraði Nikulás, »en það er öðru máli að gegna með mig! En það eru forlög mín!« Svo talaði hann til hestsins og kerran seig af stað aftur. Svo leið dagurinn til kvölds, að ekkert slys kom fyrir, þrátt fyrir þennan fyrirburð, sem Nikulás óttaðist. Á hádegi daginn eftir, 6. september, staðnæmdist kerran í þorpinu Alsalevok, sem var í eyði eins og öll önnur mannabýli. Á dyraþrepi einu í þorpinu fann Nadía tvo þessa sterku og breiðu hnífa, sem veiðimenn allir í Síberíu bera. Annan þeirra gaf hún Strogoff, sem þegar huldi hann í fötum sínum, en hinn geymdi hún sjálf. Nú áttu þau ekki eftir nema sem svaraði 57 verstum til Nijni-Oudinsk. Nikulás var enn ekki búinn að ná sér. Tákn það sem hjátrúin hafði kent honum að óttast, hafði meiri áhrif á hann, en trúlegt mundi þykja. Hann, sem áður var svo spilandi og gat enda ekki þagað hálfa stund í senn, sat nú hljóður tímunum saman, og það var með naumindum að Nadía gæti vakið hann af þeim dvala. En menn geta gert sér grein fyrir þessu þunglyndi hans, ef menn athuga að hann var afkomandi þeirra norrænu þjóða, sem á sínum tíma framleiddu, hina norrænu goðatrú. Frá Ekaterenborg liggur þjóðvegurinn til Irkutsk að heita má samhliða 55. norðurbreiddarlínu allt til Birounensk, en beygir þar til suðausturs og skásker þannig hundruðustu hádegislínuna. Brautin er lögð svo bein sem auðið er í áttina til Irkutsk og þvert yfir Sayansk-fjallabálkinn. En þessi fjöll eru í sjálfu sér ekki annað en útskagi af hinum hrikalegu Altaifjöllum, er sjást úr tvöhundruð versta fjarlægð. Kerran fór hart eftir veginum, því Nikulás var nú alveg hættur að hugsa um að hlífa hesti sínum. Honum var þvert á móti engu síður ant um en Strogoff, að komast á enda leiðarinnar sem fyrst. Þrátt fyrir forlagatrúna, og þó hann væri við öllu búinn, þótti honum hugsanlegt að hann væri hólpinn, ef hann næði heilu og höldnu inn fyrir borgarveggi Irkutsk, en fyr ekki. Margir samþegnar hans hefðu hugsað öldungis eins, og margir aftur hefðu snúið við þegar hérinn hljóp yfir brautina, og haldið heim aftur. Um þetta leyti fór hann að taka eftir því, sem vakti grun hans og undir eins virtist vottur þess, að ótti hans væri ekki ástæðulaus. Hann sagði Nadíu frá athugunum sínum og hún aftur Strogoff, og kom þeim öllum saman um, að þau væru máske ekki úr allri hættunni, eins og þau þó höfðu gert sér hugmynd um. Þó landið og jarðargróði umhverfis og austur frá Krasnoiarsk væri allt með náttúrlegum ummerkjum, þá var nú farið að bóla á öðru. Skógurinn bar vott um að eldur hefði farið um hann og akrarnir meðfram veginum voru eyðilagðir og troðnir. Allt bar vott um að stór flokkur manna hefði farið þar um með ófriði. Þegar ekki voru eftir nema 30 verstir til Nijni-Oudinsk, voru einkenni þessi orðin svo glögg, að ekki var um að villast. Það var hvarvetna auðsætt að allt hafði verið brennt og brælt og brotið og troðið rétt nýlega, og það sýndu allir hlutir ekki síður, að það voru Tartarar og ekki aðrir, sem hér höfðu gengið um garð. Það var ekki skógurinn einn, ekki akrarnir einir, sem báru vott um hönd eyðileggjandans. Húskofarnir, sem hér og þar voru meðfram veginum, voru nú ekki einungis auðir og tómir, heldur voru þeir einnig ýmist brotnir eða brunnir. Og á veggjum þeirra mátti gjörla sjá förin eftir byssukúlurnar. Strogoff fór ekki að lítast á. Hann efaði nú ekki lengur að Tartarar voru í nánd og höfðu farið hér um fyrir skömmu. En hvaða flokkur gat það verið? Það var ómögulegt að það væru liðsmenn emírsins, aðkomnir frá Tomsk. Þeir gátu ekki hafa farið framhjá svo að þeir Strogoff hefðu ekki orðið þess varir. En hverjir voru þeir þá, þessir féndur og hvaða leið gátu þeir hafa komið? Hverskonar féndur voru það, sem nú voru á vegi sendiboðans?« Strogoff talaði ekki um áhyggjur sínar við Nadíu og ekki heldur við Nikulás. Vildi ekki koma inn hjá þeim kvíða og ótta, því áfram ætlaði hann að halda á meðan nokkur kostur var, á meðan brautin var ekki gersamlega bönnuð. Síðar meir ætlaði hann að athuga hvað heppilegast væri. Daginn næsta á eftir varð það æ greinilegra, að stór flokkur manna og hesta hafði rétt nýlega farið um landið. Hér og þar í fjarlægðinni sáust og reykjarstólpar standa í loft upp, og fóru nú þau Strogoff að fara gætilega. Í hinum auðu kauptúnum, sem fram hjá var farið lifði eldur enn í rústum húsanna. Sýndi það að ekki gat hafa liðið meir en sólarhringur frá því í þeim hafði verið kveikt. Um síðir kom þar, um miðdegisleytið 8. september, að hesturinn stanzaði allt í einu og neitaði að ganga spori lengra. Og samstundis tók Serkó að gelta eins og hann væri ærður. »Hvað gengur nú á?« spurði Strogoff. »Það liggur lík á brautinni!« svaraði Nikulás, sem hafði stokkið út úr vagninum. Það var rússneskur bændaþjónn, sem þarna hafði verið drepinn og var líkaminn herfilega högginn og ristur. Nikulás signdi sig svo og með hjálp Strogoffs bar hann líkið út fyrir brautina. Ef nokkurt tækifæri hefði verið, hefði hann gjarnan viljað jarða líkamann, svo að dýr merkurinnar ekki legðust á náinn og slitu hold frá beinum. En Strogoff sýndi honum fram á, að undir þessum kringumstæðum mættu þeir ekki sleppa einu einasta augnabliki. Afleiðingin varð að kerran hélt áfram. Ef Nikulás hefði tekið sér fyrir hendur að jarða öll þau lík sómasamlega, sem búazt mátti við á veginum, það sem eftir var, þá hefði ferðin gengið nokkuð seint. Eftir því sem þeir nálguðust Nijni-Oudinsk, eftir því fjölgaði líkunum — voru sumstaðar tugum saman í hrúgu. Þó óálitlegt væri að halda áfram eftir þessari braut, þá var nú ekki um annað að gera, en að fara hana á meðan Tartararnir bönnuðu ekki ferðina. Eyðilegging og dauði óx nú óðfluga á hverri klukkustund. Nöfn kauptúnanna, sem fram hjá var farið sýndu að þau höfðu verið byggð af pólskum útlögum. En nú voru öll þessi litlu þorp í eyði, húsin í ösku og blóð íbúanna trauðlega storknað orðið á harðri grundinni. Ekki ein einasta lifandi vera var eftir og því ómögulegt að fá fregnir um þetta glæpalið, sem fram undan var. Þennan sama dag, kringum klukkan 4, kom Nikulás auga á einn kirkjuturninn í Nijni-Oudinsk. En yfir honum og umhverfis hann sveif mökkur mikill líkur skýjum en gat þó ekki verið ský. Þau horfðu nú á þetta sem mest þau máttu Nikulás og Nadía og sögðu Strogoff hvað fyrir þau bar og hvað þau álitu heppilegast að gera. Það var óumflýjanlegt að afráða eitthvað nú þegar. Ef þorpið var í eyði þá var hættulaust að halda áfram og fara um það, en ef hinsvegar Tartararnir voru nú í felum í þorpinu þá var líka lífsspursmál að komast hjá fundi þeirra og koma ekki nálægt þorpinu. »Áfram skulum við halda!« sagði Strogoff. »En varkár þurfum við að vera«. Svo var farin ein verst enn. »Þetta eru ekki skýjaflókar«, sagði Nadía. »Það er reykur þetta! Þeir eru að brenna bæinn, bróðir minn!« Það var deginum ljósara, að þetta var satt. Mitt í hinni dökku, þykku móðu sáust ljósrastir hverfa og líða, undir lok jafnharðan. Og eftir því sem nær dró þorpinu varð æ greinilegra hve þykk var svælan og mikil, er hún reis í loft upp. Flóttamenn sáust engir. Ef til vill höfðu brennumennirnir fundið þorpið í eyði og sér til dægrastyttingar slegið eldi í húsin. En þá var spurningin: Voru hermennirnir Tartarar? Það var hugsanlegt, að þeir væru Rússar og væru að brenna þorpið samkvæmt boði stórhertogans. Hafði stjórn Rússa kannske ákveðið að eyða til grunna hverju einasta þorpi frá Krasnoiarsk til Irkutsk, í því skyni að Tartararnir yrðu þá algerlega skýlislausir? Hvað átti nú Strogoff að gera, nema staðar, eða halda áfram ferðinni? Hann var óviss hvað gera skyldi. Eftir að hafa hugsað málið og nákvæmlega yfirvegað allar ástæður með og mót, þótti honum ráðlegast, þó óárennilegt væri, að leggja út á slóðarlausa mörkina og fara langt frá öllum mannavegum. Hann vildi ekki lenda í höndum Tartara í annað sinn og þorði svo ekki að eiga neitt á hættu. Hann var rétt byrjaður að stinga upp á því við Nikulás, að þeir skyldu yfirgefa þjóðveginn, og ekki fara um Nijni Oudinsk, ef það yrði umflúið, þegar skot reið af til hægri handar. Hvinurinn af kúlunni, er hún smaug loftið, heyrðist glöggt og samstundis féll kerruhesturinn dauður til jarðar, skotinn í höfuðið! Í sömu svipan ruddust 12 menn ríðandi fram á veginn og umkringdu kerruna! Áður en þau gætu áttað sig, voru þau Strogoff, Nadía og Nikulás fangin og hrakin með þjósti eftir brautinni áleiðis til Nijni-Oudinsk. Strogoff var fangi í annað sinn! Þó þetta bæri snöggt að hafði Strogoff ekki misst tök á hugsanafærum sínum eitt einasta augnablik. Af því hann sá ekki, hafði hann enga tilraun gert til þess að verja sig, og þó hann nú hefði haft full not augna sinna mundi honum ekki hafa komið til hugar að verjast. Afleiðingin af því hefði orðið bani hans og þeirra, sem með honum voru. En ef hann ekki hafði tök á að sjá, þá hafði hann samt tök á að heyra og skilja það, sem fangaverðir hans sögðu. Tungumál þeirra sýndi honum að þeir voru Tartarar og orðin sem þeir töluðu tilkyntu honum að þeir voru ekki undanreiðarmenn megin hersins, en tilheyrðu þó emírnum. Það sem Strogoff frétti af samtali þessara manna, bæði þá í augnablikinu og síðar, var það, að þeir voru ekki beinlínis háðir skipunum emírsins, sem enn var fyrir handan Jenesei. Þeir tilheyrðu þriðju herdeildinni, en sú herdeild samanstóð aðallega af Törturum úr Khokhand og Koondooz khanadæmunum, og sem ætlast var til að sameinuðust meginher emírsins einhversstaðar í grennd við Irkutsk. Samkvæmt skipun Ogareffs og í því skyni að tryggja honum áhlaupið á austur-Síberíu, hafði þessi þriðja herdeild skilið við meginherinn undireins og komið var inn yfir takmörk héraðsins Semipolatinsk. Hafði hún þá beygt austur áfram fram með rótum Alteifjallanna. Undir forustu Khansins í Koondooz höfðu hermenn þessir brennt og brælt, rænt og ruplað og drepið allt, sem varð á vegi þeirra. Þeir komu að Jenesei nálægt fjöllunum, og af því þeim þá datt í hug að Krasnoiarsk væri í eyði að boði Moskvastjórnar, höfðu þeir tekið sig til og smíðað heilan flota af bátum og byrðingum. Og til að flýta fyrir ferð emírsins, hafði allur skarinn stigið á flekana og flutzt með straumnum ofan til Alsalevsk. Þaðan voru bátarnir sendir áfram, til að ferja emírinn og lið hans yfir fljótið, en hermenn þessir hófu ferðina á ný austur eftir veginum og byrjuðu þá jafnframt brennur og allskonar hryðjuverk, sem ætíð eru aðaleinkenni Tartara herferða. Nijni-Oudínsk fór sömu förina og öll önnur þorp á vegi þessara spellvirkja og voru nú Tartarar þessir, um fimmtíu þúsundir manna, komnir á burt þaðan og áleiðis til Irkutsk. Þar í nágrenni við borgina ætluðu þeir að slá niður herbúðum sínum og bíða eftir meginher emírsins. Þannig voru ástæðurnar nú í þessum útúrskorna hluta Síberíu, og þær voru sannarlega alvarlegar, þar sem heita mátti, að höfuðstaðurinn væri varnarlaus. Allt þetta frétti Strogoff: um komu þessarar þriðju herdeildar til Irkutsk og væntanlega sameiningu alls Tartara-hersins úti fyrir borgarveggjunum. Þá var nú ekki lengur efi á því að emírinn og Ogareff voru einhversstaðar ekki langt á eftir. Eins víst var þá að Irkutsk átti von á skæðasta áhlaupi, öll von til að borgin mætti gefast upp, ef ekki strax, þá samt innan skamms. Af þessu er auðvelt að geta á hugsanir Strogoffs um þessar mundir. Hver mundi undrast þó sagt væri, að undir þessum kringumstæðum hefði hann að lyktum glatað von og öllum kjarki? En það var langt frá að hann gerði það. Varir hans bærðust í sífellu, og einu orðin, sem á þeim léku, þó enginn heyrði þau, voru þessi: »Ég skal komast þangað!« Hálfum tíma eftir áhlaup Tartaranna voru þau Strogoff, Nadía og Nikulás komin til Nijni-Oudinsk. Hinn tryggi rakki Nikulásar fylgdist með, en var allt af góðan spöl á eftir. Í bænum var enginn griðastaður, því hann var mestallur í báli og hinir seinustu af brennumönnunum voru í þann veginn að halda af stað. Fangarnir voru þessvegna settir á hestbak og þeir svo tafarlaust reknir af stað. Nikulás var rólegur, eins og að undanförnu. Nadía hafði sitt gamla óbilandi traust á Strogoff, og Strogoff sjálfur virtist rólegur og kærulaus, en vakandi yfir tækifæri til að sleppa. Tartararnir voru ekki lengi að veita því eftirtekt, að einn af föngunum var blindur. Og samstundis knúði þeirra náttúrugrimmd þá til að gera sér leikfang að honum. Þeir fóru geyst, og af því enginn var til að stjórna hesti Strogoffs, fór hann mörg gönuskeið þvert og endilangt út úr leið. Með því ruglaðist niðurröðun fylkingarinnar meira og minna. Hefndin fyrir þessi gönuskeið komu öll niður á Strogoff og það svo hræðilega, að Nadía varð veik af tilfinningu og Nikulási ofbauð og fylltist hann réttlátri reiði. En hvað gátu þau að gert? Þau kunnu ekki tungumál Tartaranna og byðu þau að stýra hesti Strogoffs var þeim miskunnarlaust bannað það. Innan skamms kom Törturunum í hug að hafa í frammi listfengari grimd en þetta! Þeir höfðu í förinni blindan hest og tóku það ráð að láta Strogoff hafa hestaskifti — láta hann ríða blinda hestinum! Strogoff heyrði, að þessi tilbreyting var ekki ástæðulaus. »Hver veit, nema að Rússinn sé sjáandi að öllu loknu!« sögðu þeir. Þannig voru farnar sextíu verstir suðaustur fyrir Nijni-Oudinsk og var nú fylkingin komin austur fyrir þorpin Tatan og Chibarlinskoe. Strogoff hafði verið settur á blinda hestinn og svo voru honum í háði fengnir taumarnir. Svo var þessi blindi reiðskjóti knúður til að brokka og stökkva, með köllum og hrópum, höggum og slögum og enda grjótkasti! Afleiðingin varð sú, að hesturinn, bæði blindur og stjórnlaus, fór eilíf gönuskeið út fyrir alla brautina. Rak hann sig þar stundum á tré, stundum hnaut hann og datt og var Strogoff þar af leiðandi í sífeldri lífshættu. Strogoff kvartaði ekki að heldur. Ekki eitt einasta æðruorð féll af vörum hans. Þegar reiðskjóti hans datt, beið hann rólegur þangað til hann komst á fætur aftur. Það var heldur ekki lengi að bíða. Tartararnir sáu til þess að ekki tefðist ferðin, eða uppihald yrði á þessari grimmdarfullu skemtun. Nikulás þoldi ekki að horfa á þessi níðingsverk til lengdar, en reið fram vini sínum til aðstoðar. En hann fékk ekki annað en þrælslega meðferð í launaskyni. Þessi leikur hefði haldið áfram í það óendanlega, ef ekki hefði hræðilegt slys bundið enda á hann þegar minnst varði. Það var 10. september að hinn blindi hestur ærðist algerlega. Tók hann þá allt í einu sprett mikinn og voðalegan þvert út af brautinni og stefndi á gryfju eina mikla, þrjátíu til fjörutíu feta djúpa! Nikulás keyrði hest sinn sporum og ætlaði að ná í hinn ærða hest, en honum var haldið kyrrum. Hinn blindi hélt strykið af og hentist fram af brúninni og ofan í botn í gryfjunni. Samstundis ráku þau Nikulás og Nadía upp skerandi, nístandi hljóð. Þau hugðu félagsbróður sinn dauðan, og ekki að ástæðulausu. En þegar komið var til hans niðri í gryfjunni var hann, þó yfirgengilegt væri, lítið eða ekkert meiddur. Honum hafði sem sé tekist að henda sér úr hnakknum er hesturinn tók kastið fram af brúninni. En veslings hesturinn hafði tvo fætur brotna og var því bæði gagnslaus og ósjálfbjarga. Samt var hann skilinn eftir, til að kveljast og deyja þegar hans tími væri kominn. Barbararnir kærðu sig ekki um að stytta eymdarstundir hans. Strogoff bundu þeir við söðulboga og var hann nú neyddur til að fylgja fylkingunni á fæti. Og enn kvartaði hann ekki. Ekki eitt æðruorð, ekki eitt möglunaryrði heyrðist af vörum hans. Hann gekk svo hratt, að naumast kom fyrir að hann teygði á bandinu, sem hélt honum að hnakknum. Hann var enn hinn sami »maður af stáli« gerður, sem Kissoff hershöfðingi sagði keisaranum frá í gildinu mikla í nýju höllinni. Daginn eftir, 11. september, fór fylkingin um þorpið Chibarlinskoe og þar kom það fyrir, sem hafði illar afleiðingar. Það var komið kvöld og hermenn Tartara flestir voru meira og minna ölvaðir. Þeir voru nú búnir að hvíla hesta sína og hressa sjálfa sig og voru nú að búa sig til ferðar á ný. Þó yfirgengilegt væri, hafði Nadía enn þá sloppið svo, að enginn hafði reynt að sýna henni smán, en nú einmitt gerði einn drukkinn dóni tilraun til þess. Strogoff vitanlega sá það ekki, en Nikulás sá það og án þess máske að hugsa sig um hvað hann var að gera, gekk hann þegar, en með hægð, upp að Tartaranum, þreif marghleypu er hékk við beizli hestsins og hleypti af henni á bringu Tartarans. Þegar skotið reið af kom hreyfing á alla fylkinguna og foringinn kom þegar ríðandi til að sjá hvað um væri að vera. Nikulás, vesalingurinn, hefði samstundis verið brytjaður í stykki, ef foringinn hefði ekki þegar gefið bendingu um að fjötra hann og binda hann ofan á einn hnakkinn. Í flaustrinu var nú hleypt á sprett út í myrkrið, en ekki hugsað um þau Strogoff og Nadíu. Þau voru gleymd í bráð. En á meðan áð var hafði Strogoff nagað bandið, sem hélt honum við söðulinn, svo að það datt sundur þegar hesturinn hljóp af stað. Og reiðmaðurinn var ölvaður og tók ekkert eftir því. Í myrkrinu stóðu þau nú tvö ein eftir á brautinni Strogoff og Nadía. IX. Gröfin við ána. Þau Strogoff og Nadía voru nú enn einu sinni eins frjáls og þau voru forðum, er þau fyrst lögðu á Síberíu-sléttuna austur frá Ekaterenborg. En hvílíkur þó munur á kringumstæðunum! Þá höfðu þau þægilegan vagn og fjörugir gæðingar, ásamt ötulum ökumanni, fáanlegir á hverri póststöð. Þar af leiðandi fóru þau um landið með undra hraða og þreytulítið. Nú voru þau fótgangandi, og þeim allsendis ómögulegt að fá hest eða nokkur ferðafæri. Þau voru vita félaus og hefðu engin ráð haft til að kaupa allra nauðsynlegustu og óbrotnustu lífsnauðsynjar, þó þær hefðu verið fáanlegar, en nú var ekki því að heilsa. Þau höfðu ekki minnstu hugmynd um, hvernig þau gætu dregið fram lífið. Ofan á þetta bættist að Strogoff hafði nú ekki önnur augu til að sjá með, en augu Nadíu. Þannig voru ástæðurnar nú, og enn voru eftir yfir fjögur hundruð verstir til Irkutsk. Vinurinn, sem tilviljuninn hafði sent þeim, þegar þeim lá mikið á, var nú einnig glataður, og afdrif hans mátti vænta að yrðu hræðileg. Strogoff hafði lagst niður á bak við hrísbuska við veginn, og Nadía stóð yfir honum og beið eftir boði um að hefja gönguna. Klukkan var tíu um kvöldið. Sólin var runnin til viðar fyrir meir en þremur klukkustundum síðan. Ekki eitt einasta hús var sýnilegt, ekki einn einasti kofi. Tartararnir, er aftastir riðu, voru komnir í hvarf. Þau voru einsömul á eyðimörkinni, Strogoff og Nadía. »Hvað ætli þeir geri við vin okkar?« sagði Nadía spyrjandi. »Veslings Nikulás!« hélt hún áfram, »Það var banvæni fyrir hann að hafa fundið okkur!« Strogoff svaraði engu. »Veiztu ekki, Mikael«, hélt mærin áfram, »að hann reyndi að verja þig, þegar Tartararnir höfðu þig að leikfangi og að hann hætti lífi sínu fyrir mig!« Strogoff svaraði engu enn. Hann sat hljóður og hreyfingarlaus og huldi andlitið í höndum sínum. Máske að hann hafi ekki heyrt neitt af því sem Nadía sagði? »Jú, hann heyrði það, því þegar hún rétt á eftir setti fram spurninguna: »Hvert á ég að leiða þig, Mikael?« Þá svaraði hann tafarlaust: »Til Irkutsk!« »Eftir þjóðveginum?« spurði hún. »Já, Nadía!« Svo sagði hann ekki meira, í það skiftið. Strogoff var enn sami maðurinn, sem í Moskva hafði unnið eið að því, að fara til Irkutsk, á hverju sem gengi. Að fara þjóðveginn var að fara styztu leiðina. Ef undanreiðarmenn emírsins, undir forustu Ogareffs, gerðu vart við sig, þá, en ekki fyrr, skyldi hann yfirgefa brautina. Nadía tók um hönd Strogoffs og þau gengu af stað. Morguninn eftir, 12. september, höfðu þau gengið tuttugu verstir og hvíldu sig þá í einu eydda og brenda þorpinu. Um nóttina hafði Nadía athugað hvert fótmál á brautinni og með fram henni, í þeirri von að sjá máske brytjaðan líkama Nikulásar, og nú leitaði hún í rústum og haugum líkanna í þorpinu, en til einskis. En var ekki hætt við að þeir geymdu hann í þeim tilgangi einum að kvelja úr honum lífið þegar slegið hefði verið herbúðum úti fyrir Irkutsk? Nadía, ekki síður en Strogoff, var nú örmagna af hungri, engu síður en þreytu. Hún var líka svo heppin að finna í einu húsinu, sem sloppið hafði hjá brunanum, talsvert af þurrkuðu kjöti og hörðu brauði, þannig gerðu, að það má geyma óskemmt óendanlega lengi, Það brauð kalla Rússar »soukharis«. Af þessum matvælum bundu þau Strogoff og Nadía sér eins miklar byrðar og þau treystu sér til að bera. Höfðu þau nú óvæntan vistaforða til margra daga og ekki þurftu þau að kvíða þorstanum. Smá ár og lækir, sem féllu í Angarafljótið, voru hvarvetna meðfram veginum. Að þessu leytinu voru þau nú vel stödd í bráð. Eftir nokkra hvíld, héldu þau áfram göngunni. Strogoff gekk hratt, en hægði á sér annan sprettinn eingöngu vegna Nadíu. Og hún streittist við að ganga harðara en hún mátti, því hún vildi allt annað en tefja för hans. Það vildi til að Strogoff sá ekki hvernig þreytan var búin að fara með hana. En hann gizkaði þá á það, ef hann sá það ekki. »Þú ert alveg uppgefin, vesalings barnið!« sagði hann, en hún herti sig upp og neitaði því. »Þegar þú getur ekki lengur gengið, Nadía, þá skal ég bera þig«. Og hún samsinnti að svo skyldi vera. Um daginn bar þau að ánni Oka, en hún var ekki dýpri en svo, að þau komust vandræðalítið yfir hana. Loftið var skýjað og veður hvorki heitt né kalt. Það var útlit fyrir regn og var það fyrirkvíðanlegt, því það mundi stórum auka neyð þeirra, sem ekki var á bætandi. Nokkrar smáskúrir féllu um daginn, en ekki að mun. Áfram héldu þau með hönd læsta í hendi og töluðu fátt. Nadía hafði augun allsstaðar seint og snemma dagsins. Það var regla þeirra, að hvíla sig tvisvar á dag, og á hverri nóttu sváfu þau, eða öllu heldur, svaf Nadía sex klukkustundir. Í fleirum en einum húskofa fram með veginum, fann Nadía dálítið af sauðakjöti, sem á þessum stöðvum er venjulega í svo ríkum mæli að það er selt fyrir 2½ kopeka pundið. En þrátt fyrir vonir Strogoffs var ekki eitt einasta áburðardýr sýnilegt í héraðinu. Hestar, múlasnar — alt var farið. Annaðhvort höfðu gripirnir verið drepnir eða fluttir í burtu. Það var um ekkert annað að gera en að ganga eftir þessum þreytandi hásléttum. Það var vandræðalaust að rekja feril Tartaranna. Á þessum blettinum var hestskrokkur, á hinum brotinn vagn og líkum Síberíumanna var stráð um veginn eins og hráviði. Þrátt fyrir viðbjóðinn og óttann, sem í brjósti Nadíu bjó, leit hún eftir hverju einasta líki. Hún bjóst við á hverri stundu að sjá lík Nikulásar. Sannleikurinn var sá, að hættunnar var að vænta af þeim, sem á eftir voru, en ekki af þeim, sem á undan voru. Ogareffs með undanreiðarmenn megin hersins var eins víst von á hverri mínútu. Mennirnir, sem sendir voru með bátaflotann niður Jenesei til Krasnoiarsk, hlutu að vera komnir þangað nú og eitthvað af meginhernum þess vegna eins víst þá komið austur yfir fljótið. Og ekki var fyrirstaðan á brautinni eftir að komið var yfir Jenesei. Það var gersamlega ómögulegt að safna liði og senda til móts við Tartara á leiðinni frá Krasnoiarsk austur að Baikalvatni. Strogoff átti þess vegna von á Ogareff og undanreiðarmönnum emírsins á hverju augnabliki. Hvar sem þau áðu gekk Nadía, þó þreytt væri, upp á hæstu þústuna, sem til var í nágrenninu, og horfði til norðvesturs yfir farna braut. En til þessa hafði hún ekki getað greint jóreyk eða nokkuð það, sem bæri vott um nálægð njósnarmanna. Þannig héldu þau áfram. Þegar Strogoff varð þess var að hann gekk of hart, linaði hann á ferðinni og studdi Nadíu eins mikið eins og hún studdi hann. Þau töluðu sjaldan og þegar þau töluðu eitthvað, var það áhrærandi Nikulás. Nadía gat ekki annað en hugsað um hvað þessi samferðamaður þeirra hefði gert mikið fyrir þau. Þegar Strogoff svaraði henni, reyndi hann að hughreysta hana og kveikja þá von í brjósti hennar, sem hann þó sjálfur hafði ekki neista af. Hann vissi ofboð vel að ómögulegt var að Tartararnir þyrmdu lífi Nikulásar. »Þú minnist aldrei á móður mína, Nadía«, sagði hann við hana einu sinni. Það var af ásettu ráði, að hún talaði aldrei um hana. Hvers vegna skyldi hún setja sig út til að rifja upp sorgir hans? Eða var gamla Síberíu-kvenhetjan virkilega ekki komin undir græna torfu? Hafði ekki sjálfur sonur hennar kyst lík hennar stirt kalt á vellinum hjá Tomsk? »Talaðu um hana við mig, Nadía«, bað Strogoff. Mér er ánægja að því«. Og þá gerði Nadía það, sem hún hafði ekki áður gert, Hún sagði Strogoff frá öllu, sem hún og Marfa gamla töluðu um á leiðinni frá Omsk, þar sem þær höfðu sézt í fyrsta skifti. Hún sagði honum hvernig það, sem henni virtist óskiljandi eðlishvöt, hefði dregið sig til gömlu konunnar án þess hún hefði hugmynd um, hver hún var; hvernig hún hefði reynt að hlúa að henni og hvernig svo gamla konan hefði endurgoldið sér það með hughreystandi orðum. Allt til þess tíma kvaðst hún ekki hafa vitað að Strogoff héti annað en Nikulás Korpanoff. »Og annað hefðir þú aldrei átt að frétta«, sagði Strogoff og færðust hnyklar í brýr hans. Svo hélt hann áfram eftir litla þögn: »Ég er eiðrofi, Nadía! Ég hafði svarið að sjá ekki móður mína!« »En þú gerðir enga tilraun til að finna hana eða sjá, Mikael«, svaraði Nadía. »Það var tilviljun ein, sem leiddi ykkur saman«. »En ég vann þess eið, að opinbera mig aldrei, hvað sem fyrir kæmi!« »Að heyra þetta, Mikael! Hver mundi hafa staðist, þegar »knut«-urinn var reiddur að baki gamallar móður? Það hefði enginn gert. Það getur enginn eiður aftrað syni frá að bjarga móður sinni«. »Samt er það eiðrof«, svaraði Strogoff. »Guð og keisarinn fyrirgefi mér!« »Ég er að hugsa um að spyrja þig einnar spurningar Mikael«, sagði Nadía. »Ef þér þykir ekki rétt að svara henni, þá gerðu það ekki. Ekkert frá þinni hendi eykur mér þykkju«. »Spurðu þá, Nadía!« »Hvernig stendur á löngun þinni að komast til Irkutsk nú, eftir að búið er að svifta þig keisara-bréfinu?« Strogoff þrýsti fast að hinni litlu hönd meyjarinnar, en — svaraði engu. »Vissirðu innihald þess áður en þú fórst af stað frá Moskva?« spurði hún þá. »Nei, það vissi ég ekki«, svaraði hann. »Á ég þá að hugsa mér allt þetta kapp þitt, Mikael, með að komast til Irkutsk, sé sprottið af löngun þinni til að skila mér í óhulta verndun föður míns? »Nei, Nadía!« svaraði Strogoff, og í þetta skifti var rödd hans þunglyndisleg. »Það væri sviksamlegt að lofa þér að hafa þesskonar hugmyndir. Ég fer þangað af því að skyldan kallar mig þangað. Og hvað það snertir að ég sé að hjálpa þér áleiðis til Irkutsk, þá virðist mér það nú öllu heldur að það sért þú, sem ert að hjálpa mér til að ná takmarkinu, eða er ekki svo? Eru það ekki þín augu, sem vísa mér veginn, þín höndin, sem stjórnar ferð minni? Hefur þú ekki nú þegar endurborgað mér hundraðfalt þá hjálp, sem ég í upphafi ferðarinnar hafði tækifæri til að veita þér? Ég veit ekki hvenær ógæfa og þrautir hætta að elta okkur, en það veit ég, að samtímis og þú þakkar mér fyrir að skila þér í föðurhendur, þakka ég þér fyrir að hafa vísað mér veginn til Irkutsk«. »Talaðu ekki svona, vesalings blindi bróðir!« svaraði Nadía með tilfinningu. »Það er heldur ekki að svara spurningu minni. Máttu máske ekki segja mér það Mikael, hvað það er sem þannig knýr þig áfram?« »Af því ég má til með að verða á undan Ivan Ogareff!« »Jafnvel eins og nú er komið?« spurði Nadía. »Jafnvel eins og nú er komið, já! Og ég skal líka hafa það af!« Það var ekki eingöngu vegna haturs til föðurlandssvikarans, að Strogoff talaði þannig, og Nadía skildi það ekki heldur þannig, heldur á þann veginn, að hann annað tveggja vildi ekki eða mætti ekki segja henni allt, sem honum bjó í brjósti. Þremur dögum síðar, hinn 15. september, náðu þau Strogoff og Nadía til þorpsins Kouitounskoe. Vóru þau þá búin að ganga níutíu verstir síðan þau urðu eftir af Törturunum. Nadía þjáðist óbærilega. Fæturnir blóðugir og bólgnir, gátu naumast haldið henni uppi. En hún streittist og barðist gegn þreytunni með einbeittum vilja. Hennar eina hugsun var þetta: »Úr því hann sér mig ekki, skal ég halda áfram þangað til ég hníg niður alveg ósjálfbjarga. Á þessum kafla öllum hafði ekkert komið fyrir til að hindra ferð þeirra og engin hætta vofði yfir þeim, að því er séð varð. Þreytan var þeirra eina stríð. Þannig voru þá liðnir þrír sólarhringar og auðsætt orðið að þriðja herdeildin var komin langt austur. Það sýndu brunarústir hvarvetna; voru kaldar. Ok lík hinna föllnu með fram veginum sýndu það líka. Voru þau nú farin að rotna. Í vestur og norðvestur sást hvergi bóla á undanreiðarflokki emírsins, og var nú Strogoff farinn að gera sér ýmislegar sennilegar ástæður, sem orsökuðu þennan drátt. Máske Rússar hafi haft svo mikinn liðssafnað í grend við annaðtveggja Tomsk eða Krasnoiarsk, að Tartararnir hefðu sig ekki áfram. Ef svo var, var þá ekki þriðja herdeildin í hættu? Væru þessar tilgátur réttar, þá var auðgert fyrir stórhertogann að verjast, og tækist honum að verja Irkutsk um lengri eða skemri tíma, þá var það fyrsta sporið til að yfirbuga Tartarana algerlega. Um þetta og þvílíkt hugsaði Strogoff með köflum, en sá fljótt hve valt var að vona nokkuð því líkt. Líf stórhertogans var undir því komið, að hann, Mikael Strogoff, kæmist til Irkutsk. Um 60 verstir suðaustur þaðan, sem þau voru nú, var kauptúnið Kimilteiskoe, ofurlítið þorp örskamt frá ánni Dinka, og Strogoff kveið fyrir að komast yfir það vatnsfall. Hann þekti það frá fornu fari, að hún gat verið ill viðureignar, og nú var engin von um bát, eða nokkurt flak, sem nota mætti til að hvílast á á sundinu. Jafnframt fagnaði hann yfir því, að þegar yfir um þessa á væri komið, væri yfir enga á að fara fyrr en Angara-fljótið, er fellur vestanmegin borgarmúranna í Irkutsk. Eftir þriggja daga ferð mundu þau komin á bakka Dinka-árinnar. Nadía herti upp hugann og dró sig svo einhvernveginn áfram. En hughreysti hennar var ekki einhlít. Strogoff vissi og viðurkenndi, að líkamskraftar hennar voru óðum að þverra. Hefði hann ekki verið blindur, þá hefði líka Nadía sagt eitthvað á þessa leið við hann: »Far þú, Strogoff! Skildu mig eftir í einhverjum kofa! Ná þú til Irkutsk og ljúk erindi þínu! Leitaðu svo föður minn uppi og segðu honum hvar ég er! Seg honum að ég bíði eftir honum og þér, og þú veizt hvar á að finna mig. Á stað með þig undir eins! Ég er alveg óhrædd! Ég skal fela mig vandlega fyrir Törturunum! Ég skal verja mig með dugnaði, hans vegna og þín vegna! Far þú nú, Mikael! Ég kemst ekki feti lengra!« — En Strogoff var sjónlaus og hún mátti ekki tala þannig. Svo þreytt var Nadía orðin að hún neyddist oft til að nema staðar. Í hvert skifti, sem það kom fyrir tók Strogoff hana í fang sér og bar hana um stund. Og þá stundina gekk hann miklu harðara en endranær, því þá þurfti hann ekki að hugsa um hennar þreyttu fætur, en hans fætur þoldu hvað sem hann bauð þeim. Klukkan 10 að kvöldi hins 18. september höfðu þau farið sextíu verstir og voru nú komin til Kimilteiskoe. Eftir þjóðveginum voru nú 260 verstir til Irkutsk. Frá hæðinni hjá bænum sá Nadía framundan sér eins og dimmbláa, langa línu. Það var áin Dinka. Í fjarska sáust einstöku leifturflug á lofti, er spegluðu sig í vatni árinnar. Þessu leiftri fylgdu engar þrumur, var bara góðviðrisleiftur á sumarkvöldi. Meginhluti þorpsins var í ösku, sem nú var orðin köld. Um þetta eyðilega býli leiddi Nadía félagsbróður sinn. Það var auðsætt að liðnir voru fimm eða sex dagar síðan, Tartararnir fóru þar um. Þegar þau komu í útjaðar þorpsins hneig Nadía niður á steinþrep eitt. »Eigum við að stanza?« spurði Strogoff. »Það er komin nótt, Mikael«, svaraði Nadía. »Viltu ekki hvíla þig nokkrar klukkustundir?« »Fyrst hefði mig langað til að komast yfir ána«, svaraði Strogoff. »Ég hefði gjarnan viljað gera úr henni stundarvörð á milli mín og Tartaranna, sem þá og þegar eru væntanlegir frá Tomsk. En þú getur varla dregið þig áfram, veslings Nadía!« »Komdu Mikael!« var hið eina svar hennar og hún tók um hönd hans og hélt af stað. Það var tveggja eða þriggja versta leið niður að ánni og þó hún helzt ekki gæti hreyft sig, vildi hún gjarnan gera sitt ítrasta á þessari litlu skorpu, til þess að þóknast vini sínum — Strogoff. Leifturglamparnir á ánni lýstu veginn, eða réttara sagt sýndu Nadíu styztu leið að ánni. Því nú voru þau á ný stödd á nakinni hásléttu, þar sem ekkert afdrep var, ekkert vegamerki svo langt sem augað eygði. Það var blæja-logn, ekki allra minsti vindblær, svo að hvað lítið þrusk sem var, hve lágt sem var talað, heyrðist það undra langa leið á þessari marflötu sléttu. Allt í einu námu þau staðar, bæði jafnsnemma, rétt eins og fætur þeirra hefðu samtímis orðið fastir í gildru eða dýraboga. Þau höfðu bæði heyrt hund gelta. »Heyrðir þú nokkuð?« spurði Nadía. Áður en hún hafði lokið orðinu barst grátlegt neyðaróp á bárum kvöldloftsins að eyrum þeirra, — stingandi, skerandi óp, eins og væri það síðasta áskorun um hjálp frá deyjandi manni. »Þetta er hann Nikulás!« sagði Nadía og komst við og fór ósjálfrátt um hana kvíðahrollur. Strogoff, sem einnig var að hlusta, hristi höfuðið. »Við skulum flýta okkur, Mikael«, sagði Nadía, og hún sem til þessa var svo máttfarin, að hún gat tæplega dregið sig áfram, gekk nú fullkominn gang. Þessu getur áköf og óvænt blóðshreyfing komið til leiðar. »Við erum komin út af brautinni!« sagði Strogoff, sem nú fann, að hann gekk á sléttu grasi, en ekki harðri og sléttri mold. »Já... Við megum til... Það var úr þessari átt frá hægri hönd, sem hljóðið kom«, sagði Nadía. Innan fárra mínútna voru þau komin ofan undir ána, svo að ekki var meira en hálf verst eftir. Þau heyrðu geltið í annað sinn, ekki eins hátt, en aftur auðheyrt, að það var miklu nær. Nadía nam staðar augnablik. »Já!« sagði Strogoff. »Það er Serkó að gelta. Hann hefir fylgt eftir herra sínum!« »Nikulás!« hrópaði Nadía, en hún fékk ekkert svar. Í þessu sá Nadía hræfugla hóp sveima í loftinu — fljúga í hring og ýmist fara niður að jörð eða rísa hátt í loft upp. Strogoff hlustaði og Nadía notaði ekki síður augun en eyrun. En þó leiftrið lýsti stundum upp völlinn sá hún ekkert. Í þessu heyrðu þau samt kallað í veiklegri, sorgþrunginni rödd: »Mikael!« Og rétt á eftir stökk alblóðugur rakki upp að Nadíu með fagnaðarlátum. Það var Serkó. Nikulás gat ekki verið langt burtu. Hann hlaut það að hafa verið, sem nefndi nafn Strogoffs, og enginn annar. En hvar var hann? Nadía hafði ekki þrek til að kalla aftur. Strogoff fór nú hnén og þreifaði kringum sig með höndunum. Allt í einu fór Serkó að gelta aftur og hljóp að stórum hræfugli, sem rendi sér til jarðar. Þegar Serkó kom geltandi lyfti fuglinn sér hærra, en kom óðara aftur og réðist á rakkann. Serkó tók á móti, en í því kom hræfuglinn höggi miklu í höfuð hundinum, og reið það honum að fullu. Vesalings Serkó féll dauður á grundina! Í sömu andránni rak Nadía upp neyðaróp, sem lýsti því, að hana hryllti við einhverju. »Þarna! — — þarna!« var allt, sem hún gat sagt. Mannshöfuð gægðist upp úr balanum og hafði hún rekið sig á það! Hún kastaði sér þegar þegjandi hjá höfðinu. Það er ein aftöku aðferð Tartaranna þetta, að grafa menn lifandi, en láta höfuðið eitt vera ofanjarðar! Þannig fóru þeir með Nikulás vesalinginn. Þarna átti hann annað-tveggja að deyja úr hungri og þorsta eða verða hræfuglum eða vörgum að bráð! Hvílíkur þó hörmunga dauðdagi! Að standa þarna eins og bundinn við vegg og geta ekki hrært legg eða lið hið allra minnsta, en þungi jarðarinnar þrýsti jafnt að á alla vegu. Það voru óumræðilegar kvalir! Dauðinn kom seint, óbærilega seint fyrir þann, sem þannig var grafinn, er enga björg, gat veitt sjálfum sér, og langaði ekki eftir öðru meira en dauðanum, til að binda enda á þjáningarnar. Þarna hafði Nikulás verið grafinn fyrir þremur sólarhringum síðan! Í þrjá sólarhringa hafði hann beðið eftir hjálpinni, sem nú var komin en sem kom of seint! Fyrir mörgum klukkustundum síðan höfðu hræfuglarnir komið auga á höfuðið á vellinum og sóttu, þar að með sívaxandi frekju. En hundurinn Serkó, hafði varið herra sinn dásamlega fyrir grimmdarvörgum þessum, til þess hann sjálfur hneig, en þá var hjálpin líka við hendina. Strogoff beið ekki boðanna, en tók veiðimannahnífinn, sem Nadía hafði fundið, og risti með honum jörðina og reif burt frá vini sínum. Þegar hann var nýbyrjaður opnuðust augu Nikulásar, sem til þessa höfðu verið lukt. Hann þekkti þau Strogoff og Nadíu, og sagði ofurlágt, en svo að skildist: »Far vel, vinir mínir! Það var gleðilegt að sjá ykkur einu sinni til. Biðjið fyrir mér!« Þetta voru hans síðustu orð. Strogoff hélt áfram að grafa, en það var seinlegt, því moldin hafði verið troðin og var glerhörð. Þó náði hann líkamanum upp um síðir. Hann laut ofan að vini sínum og hlustaði eftir hjartaslögum, en ekkert var að heyra. Hjartað var hætt að slá. Þó tíminn væri naumur, vildi hann ekki skilja lík Nikulásar eftir ofanjarðar, til þess það yrði hrædýrum að bráð. Hann vildi jarða það, og það gerði hann með því að stækka gröfina, sem Tartararnir tóku og lögðu Nikulás í með fullu fjöri. Nú var hann lagður í hana — dauður. Og hinn tryggi hundur hans, Serkó, var lagður í sömu gröfina. Í þessari andránni heyrðist skark nokkurt á þjóðveginum í á að geta hálfrar verstar fjarlægð. Strogoff hlustaði. Það voru óneitanlega ríðandi menn á ferð eftir veginum og það var engu síður víst, að þeir stefndu til árinnar Dinka. »Nadía! Nadía!« sagði hann í hálfum hljóðum. Nadía, sem legið hafði á bæn hjá gröfinni, stóð nú á fætur. »Líttu eftir umfarendunum«! sagði hann. Hún leit í áttina til þjóðvegarins og sagði svo ofurlágt, að þar færu Tartarar. Það voru undanreiðarmenn emírsins, sem þar voru komnir og fóru nú geyst áleiðis til Irkutsk. »Þeir skulu samt ekki hindra mig frá að grafa vin minn!« sagði Strogoff og hélt svo áfram verki sínu. Og innan stundar var Nikulás lagður í gröfina með hendur krosslagðar á brjóstinu. Svo krupu þau á kné bæði, Strogoff og Nadía beiddu fyrir sínum saklausa, góðlynda félagsbróður, sem látið hafði lífið fyrir að hjálpa þeim. »Nú ná úlfarnir ekki til hans!« sagði Strogoff, er hann lauk við að moka moldinni ofan í gröfina. Svo lyfti hann upp hendinni og hristi hnefann í áttina til Tartaranna, sem voru að fara fram hjá. »Áfram nú, Nadía!« sagði hann svo og sneri sér til meyjarinnar. En Nadía gat ekki orðið við tilmælum hans. Hún gat ekki hreyft sig, eftir svona langa hvíld. En hún hafði augu og gat séð fyrir hann. Hann tók hana í faðm sinn og gekk af stað og stefndi til suðvesturs. Nú var honum ekki lengur unt að halda við veginn. Tartara-straumurinn eftir honum var hafinn. Hann hlaut að fara vegleysur yfir slétturnar og fjöllin, sem framundan voru. En með þessum krók fylgdi það, að hann þurfti ekki að vandræðast yfir Dinka. Hann þurfti ekki að fara yfir hana nú. Það voru enn eftir meira en 200 verstir til Irkutsk. Hvernig gat Strogoff gengið þá leið alla? Mundi ekki bæði hann og Nadía gefast alveg upp og hníga í valinn á þeirri göngu? Á hverju áttu þau að lifa, einsömul í óbygðunum? Hvernig í ósköpunum gátu þau búist við að yfirstíga Sayanskfjöllin, sem framundan voru? Engum þessum spurningum gátu þau Strogoff og Nadía svarað. Þó var það tólf dögum síðar, klukkan sex að kvöldi hins 2. október, að stórt og spegilgljátt stöðuvatn lá við fætur Strogoffs. Það var Baikail-vatnið. X. Óvæntur vinafundur. Baikal-vatnið liggur um 1500 fetum hærra en yfirborð sjávar. Lengd þess er um 500 enskar mílur, en ekki er það nema um 60 mílur á breidd. Dýpi þess veit enginn. Madame de Bourboulon hefir það eftir bátsmönnum á vatninu, að í daglegu tali sé það ætíð kvennkent, kallað »frúarsjór«. Það hefir hún eftir þeim ennfremur, að sé vatnið nefnt »herravatn«, verði það á augnablikinu fokvont. Þó er það sögð almenn trú Síberíumanna, að í því drukni aldrei rússneskur maður. Í þetta mikla vatn falla meir en hundrað ár og umhverfis það á allar síður rísa há og fögur eldfjalla-belti. Úr vatninu rennur ekki nema ein einasta á, stórfljótið Angara, er fellur fram hjá borgarveggjunum á Irkutsk og sameinast síðar Jenesei-fljótinu, skamt fyrir ofan þorpið Jeneseisk. Þessi fjöll umhverfis Baikal tilheyra Toungouzes-fjallgarðinum, en eru í rauninni útskagar hins mikilfenglega Altei-fjallabálks. Jafnvel í októberbyrjun var kuldinn farinn að gera vart við sig. Loftslagið í þessum hluta heimsins er einkennilegt þannig, að haustið eins og hverfur í hinn aðdáanlega efnilega vetur. Sólin gekk undir kl. 5 síðdegis, og á hinni löngu nótt kólnaði loftið svo, að frostið náði zeromarki að morgni. Fyrsti snjórinn, sem ekki þiðnaði fyrr en sumarið eftir, var þegar búinn að krýna nærliggjandi fjallatoppa. Á vetrum verður ísinn margra feta þykkur á þessu stóra vatni og er það þá þjóðvegur fyrir sendimenn og ferðafólk. Annað hvort af því, að fólkið er ófyrirleitið að kalla Baikal »herravatn«, eða af því einhverjar veðurfræðislegar ástæður eru til þess, er storma- og byljasamt á vatninu. Í ofveðri eru öldur þess, eins og á öllum stöðuvötnum, hræðilegar í augum allra skipstjóra og ferjumanna, sem um það fara á sumrum. Það var suðvesturbotn vatnsins, sem Strogoff kom að með Nadíu í fanginu, sem nú var svo aðfram komin, að það lítið sem hún átti eftir af lífsafli virtist samandregið í augum hennar. Og við hverju gátu þessir tveir vesalingar búist í þessum öræfabálki, ef ekki því að deyja úr hungri og þreytu? En hvað var þá mikið eftir ófarið af sex þúsund verstunum, sem sendiboði keisarans tókzt í fang að fara? Það voru einar sextíu verstir eftir vatninu að upptökum Angara-fljótsins og eftir því undan straumi 80 verstir til Irkutsk! Þetta var allt sem eftir var, einar 140 verstir alls, eða þriggja daga gangur fyrir heilan og hraustan mann. Hafði Mikael Strogoff svo mikið þrek enn, að hann gæti náð takmarkinu. Forsjónin augsýnilega ætlaði ekki að reyna hann með því, ætlaði að losa hann við þá, máske sárustu þraut. Ógæfan, sem til þessa virtist hafa elt hann í hverju fótmáli var nú í svipinn búin að gefa honum lausn. Strendur vatnsins á þessu sviði voru vanalega í eyði og þannig bjóst Strogoff við þeim nú, en — þar voru þá menn fyrir! Þar voru um 50 manns í hóp í fjörunni við víkurbotninn, sem lengst skerst í suðvestur. Nadía kom auga á fólkið undir eins og Strogoff kom með hana á örmum sínum fram úr fjallaskarðinu, er þau komu eftir. Um stund óttaðist hún, að þetta væru Tartarar, sem sendir hefðu verið til að leita að manna hýbílum fram með vatninu. Hefði svo verið, var flótti ómögulegur fyrir sendiboðann. En það leið ekki langt til þess, að hún sá að þetta voru rússneskir menn og konur. »Það eru Rússar!« sagði hún og fögnuður hennar var meiri en kraftar hennar þoldu. Hún hneig í ómegin og höfuð hennar féll máttvana upp að brjósti sendiboðans. En fólkið hafði þegar komið auga á þau. Og sumir karlmennirnir hlupu þegar til og leiddu hinn blinda mann með byrði sína fram í fjöruna, þar sem fleki all-mikill lá bundinn við fjörugrjótið. Fólk þetta var í þann veginn að leggja af stað á þessum fleka. Þessir Rússar voru flóttamenn og voru af öllum stéttum og hafði sama löngunin fyrir tilviljun sameinað þá við vatnsbotninn. Þeir voru á flótta undan njósnarmönnum Tartara og vonuðu að fá vörn og hlíf í Irkutsk. Þeim var ómögulegt að komast landveg til bæjarins, þar eð Tartaraliðið hafði slegið herbúðum beggja megin árinnar. Fyrirætlun þeirra var þessvegna að reyna að ná Irkutsk með því að fara á fleka niður fljótið, sem fellur um bæinn. Þetta var sönn fagnaðarfrétt fyrir Strogoff. Um síðir var honum gefið tækifæri til að ná lengi þráðu takmarki. En úttaugaður eins og hann var, hafði hann enn svo mikið vald yfir sjálfum sér, að enginn sá að honum þætti betur. Hann vildi fyrir hvern mun halda nafni sínu leyndu. Ferðaáætlun ferðamannanna var einföld. Meðfram landi liggur straumur í vatninu, er helzt óslitinn til árinnar, sem úr því fellur. Þennan straum hugðu þeir geta hagnýtt til að bera flekann út á Angara-fljótið. En þegar á það kom voru öll vandkvæði úti. Straumurinn í því er svo mikill, að hann mundi fleygja flekanum áfram með tíu til tólf versta hraða á hverri klukkustund. Eftir hálfs annars sólarhrings útivist á flekanum væntu ferðamennirnir að komast til Irkutsk. Bátstmynd engin var fáanleg og í þeim vandræðum höfðu flóttamennirnir tekið til þeirra ráða, að reka saman fleka, samskonar fleka og þeir eru, sem á hverju vori sjást fljóta niður eftir straumvötnum í Síberíu. Á þessum stað var heldur enginn hörgull á efni í fleka. Furutrén voru há og þétt rétt á vatnsbakkanum og voru felld og aflimuð og bolirnir síðan bundnir saman með seigum tágum. Á þennan hátt var gerður svo seigur og traustur fleki, að hann hefði borið hundrað manns. Út á þennan fleka voru þau studd, Strogoff og Nadía. Hún hafði í millitíðinni raknað við og var nú búin að fá sér ofurlitla næringu. Á flekanum var búin til dyngja úr laufblöðum handa henni. Þar lagðist hún þegar niður og svaf sætt og vært. Strogoff var spurður frétta, en hann varðist að segja frá því sem gerst hafði í Tomsk. Hann kvaðst hafa átt heima í Krasnoiarsk, en hefði orðið of seinn fyrir með að taka sig upp. Hann hefði þessvegna ekki verið kominn til Irkutsk, þegar herflokkar emírsins voru komnir á vesturbakka Dinka-árinnar. Hann gat þess til að meginher Tartara væri nú líklega byrjaður á umsátinni um Irkutsk. Af þessu réðu allir, að engum tíma mætti sleppa. Þar að auki var líka kuldinn óðum að vaxa. Um nóttina komst frostið niður fyrir zero á mælinum og ís var þegar farinn að myndast á yfirborði Baikal-vatnsins. Þó flokkurin kæmist slysalaust áfram eftir vatninu, þá var ekki sagt að ferðin gengi vel niður eftir fljótinu, ef mikill jakaburður væri í því, ef til vill svo mikill að hann bannaði ferðina. Alls þessa vegna var nauðsynlegt að flóttamennirnir héldu tafarlaust af stað. Klukkan 8 um kvöldið voru landfestar leystar og fór flekinn þegar af stað í strauminum fram með ströndinni. Stýrimenn voru margir handsterkir bændaþjónar, er stýrðu með löngum spírum. Roskinn og ráðinn ferjumaður á vatninu var kvaddur til stjórnar. Hann var hálfsjötugur að aldri og veðurtekinn mjög eftir sífellda útivist og hrakninga í öllu veðri. Hann var hvítur fyrir hærum og þykkt skegg og mikið féll niður um bringu hans. Á höfðinu bar hann loðhúfu mikla. Svipurinn allur var alvarlegur og ásýndin kuldaleg. Hann var í yfirkápu mikilli, er hann batt að sér um mittið. Þegar hann kom fram á flekann, tók þessi þyrkingslegi gamli maður sér sæti aftast á flekanum og sendi þaðan skipanir sínar til stýrimannanna — allt með bendingum. Á hverjum tíu klukkustundum talaði hann sjálfsagt ekki eitt einasta orð. Aðalverk stýrimannanna var það, að halda flekanum í straumröstinni nærri landi, en láta ekki fletja út á dýpið. Sem sagt voru allra stéttamenn Rússa saman komnir á þessum fleka. Auk vesælla bændaþjóna, kvenmannanna ungra og gamalla og barnanna á ýmsum aldri, voru enda þrír pílagrímar, nokkrir munkar og einn »papa«, eða sveitaprestur. Pílagrímarnir báru staf mikinn og drykkjarhorn hékk við belti þeirra, og söngluðu þeir sálmavers óaflátanlega. Einn þeirra var kominn austan frá Gulahafi, annar af suðursléttum Rússlands og hinn þriðji utan af Finnlandi. Finski pílagrímurinn, sem var gamall maður, bar á belti sínu eins og við kirkjudyr væri, samskotahirzlu, sem læst var með lás. Ekkert af peningunum, sem hann á göngu sinni safnaði í hirzluna var fyrir hann sjálfan, ekki einn eyri fékk hann fyrir sína löngu og þreytandi göngu. Hann hafði ekki einu sinni lykilinn, sem lásinn var opnaður með og sem ekki átti að opna fyrr enn hann kæmi heim aftur. Munkarnir voru úr norðurhéruðum keisaradæmisins. Þeir höfðu hafið ferðina frá Archangel, er sumir ferðamenn segja líkasta austurlandaborgum, fyrir þremur mánuðum síðan. Höfðu þeir heimsótt hinar helgu eyjar í grennd við Carilíu-ströndina, klaustrin Solovetsk, Troitsa og St. Anthony, ennfremur St. Theodosiusar klaustrið í Kiev, sem í fornöld var í svo miklu afhaldi hjá Jagellan-konungsættinni. Þeir visiteruðu og að sjálfsögðu Simenoff-klaustrið í Moskva og klaustrið í Kasan, ekki síður en gömlu trúmanna-kyrkjuna. Nú voru þeir á ferðinni til Irkutsk í öllum sínum einkennisbúningi, með kápuna og hettuna yzta klæða. Þessi eini »papi« í förinni var réttur og sléttur sveitaprestur, einn af sexhundruð þúsundum alþýðlegra presta í keisaradæminu rússneska. Hann var engu betur búinn en hinir vesölu sveitabændur og bændaþjónar, enda þeim ekkert æðri talinn að mannvirðingum. Hann varð að vinna með höndum sínum eins og þeir á sínum lítilfjörlega jarðarskika, en hafði sem aukastörf að skíra, gifta og jarðsyngja. Konu sinni og börnum kom hann undan grimmdaræði Tartaranna með því að senda þau norður í norðurhéruð Síberíu. Sjálfur var hann eftir meðal sóknarbarna sinna þangað til á seinasta augnablikinu. Og þegar að því kom að hann mætti flýja, varð hann, eins og Strogoff og allir sem hér voru saman komnir að fara vegleysur að Baikalvatni. Þessi prestalýður var út af fyrir sig á framhluta flekans. Heyrðust þaðan bænir og ákallanir með reglubundnu millibili í næturkyrðinni og endaði hver einasta bæn með þessum orðum: »Slava Bogu« — dýrð sé guði! Það gerðist ekkert sögulegt um nóttina. Nadía lá hreyfingarlaus og hálfrænulaus og vakti Strogoff yfir henni. Hann svaf ekki nema sjaldan í seinni tíð og þá aldrei svo vært að endurnærandi svefn gæti heitið. Í dögun um morguninn voru enn eftir um 40 verstir að upptökum Angara-fljótsins. Um nóttina hafði hvest þvert á móti svo að tók af allan gang. Það voru nú allar líkur til, að ferðinni eftir vatninu yrði ekki lokið fyrr en klukkan 3 til 4 um kvöldið. Þessi seina ferð var auðvitað leiðinleg, en þó hrelldi þetta þá ekki hið minnsta. Þvert á móti þótti þeim vænt um það, því þá gafst þeim tækifæri til að fljóta niður eftir Angara í náttmyrkrinu, og í náttmyrkrinu var líka auðveldara að komast inn fyrir borgarhliðin, en að deginum til. Það eina, sem hreldi hinn aldurhnigna formann, var hinn vaxandi jakafjöldi á vatninu, Það hafði verið heljarkuldi um nóttina og stórir jakar sáust nú á ferðinni vestar um vatnið. Þá jaka þurfti ekki að óttast. Þeir voru fyrir vestan Angara-upptökin. En margir af jökunum á austurvatninu voru líklegir til að dragast í strauminn, sem lá með fram landinu og féll í Angara. Það var hætta á að þeir mundu flækjast fram í fljótið og fylla það bakka á milli. Af því gátu leitt vandræði, tafir og enda mögulegt, að farvegurinn yrði alveg stemdur og fljótið ófært. Það var þess vegna með meir en litlum áhuga, að Strogoff spurði eftir öllu mögulegu áhrærandi ferðalagið og hvort mikið af jökunum væri sýnilegt. Nadía var nú vöknuð af dvala sínum og var búinn að ná sér svo, að hún gat svarað öllum spurningum hans. Á meðan jakarnir þannig voru á reki, var það einkennileg sjón, sem mætti auganu hér og þar á yfirborði vatnsins. Það var til að sjá líkast því, að gosbrunnar væru um þvert og endilangt vatnið, því vatnsbunur yndislega fagrar risu hátt í loft og dreifðust svo út, er þær umhverfðust í gufu smátt og smátt. Og þetta voru virkilegir gosbrunnar — brunnar, sem náttúran sjálf hafði borað í vatnsbotninn. Þessar bunur voru aðdáanlega fagrar, þegar nýrunnin sólin lýsti þær upp og gufumekkina. Þessi undarlega sjón hefði eflaust verið fádæma furðuverk í augum allra ferðamanna, ef nokkrir hefðu verið á ferðinni til að skemta sér á þessu Síberíu-vatni. Klukkan 4 um kvöldið sá formaðurinn gamli upptök fljótsins Angara, þar sem það fellur út úr vatninu milli þverhnýptra granit-kletta. Til hægri handar við það sást nú einnig litla þorpið Livenitchnara, er saman stendur af fáeinum húsum á vatnsbakkanum og einni kirkju. Það sem nú var óálitlegast, var jakaburðurinn austan af vatninu niður eftir fljótinu. Þó jakaröst þessi væri all-stór, var hún samt enn ekki svo ægileg, að hún gæti hindrað ferð fólksins á flekanum. Kuldinn var heldur ekki svo mikill enn, að mjög gæti aukist fjöldi jakanna. Eftir litla stund var flekinn landfastur orðinn í fyrnefndu þorpi. Formaðurinn vildi, sem sé, nema staðar svo sem klukkustund og gera að flekanum. Hann óttaðist, að tágarnar, sem tengdu saman trjábolina, kynnu að bila þegar í straumhart vatnsfall væri komið og vildi þess vegna láta styrkja böndin sem mest mætti. Þetta litla þorp er á sumrum aðal-lendingarstaður allra báta, er flytja farþega um Bakail-vatn, hvort sem þeir fara áleiðis til Kína eða koma þaðan. Þó þorpið sé lítið er það samt venjulega líflegur staður fyrir gufubátafjölda og ferðamannastraum fram og aftur. En nú var Liventchnara yfirgefin staður og eyðilagður. Íbúarnir óttuðust æðisgang og gripdeildir Tartaranna, sem nú skipuðu báða bakka fljótsins, og flúðu svo með alt, sem fémætt var. Bátaflotann allan, sem venjulega liggur uppi í þorpinu á vetrum, sendu þeir til Irkutsk og bjuggu þar um sig áður en fyrsta fylking Tartaranna var sýnileg. Hinn kaldlyndi gamli formaður bjóst þess vegna ekki við nýjum flóttamönnum í hóp sinn í þorpinu. En þó varð sú raunin á, að flekinn var ekki fyr lagstur við bakkann, en tveir menn komu hlaupandi ofan í fjöruna frá einu húsinu á bakkanum. Nadía sat hjá Strogoff á flekanum og horfði til lands. Allt í einu kipptist hún við, en í stað að reka upp hljóð, þreif hún fast í hönd Strogoffs, sem í þessu hafði rétt úr sér og sneri sér að henni. »Hvað gengur að, Nadía?« spurði hann. »Ég sé okkar gömlu samferðamenn, Mikael, tvo saman!« svaraði hún. »Hvað, Frakkann og Englendinginn, sem við fundum í Úral-fjallaskörðunum?« »Já, það eru þeir!« Strogoff lét nú meyna sjá, að honum einnig varð hverft við. Dularbúningur hans var í hættu nú, en um fram allt var áríðandi, að ekki kæmist upp hver hann var. Þeir Jolivet og Blount sem sé þektu Strogoff nú. Þeir vissu, að hann var sendiboði keisarans, að hann hét Mikael Strogoff, en ekki Nikulás Korpanoff. Þeir höfðu séð hann tvisvar síðan þeir skildu í Ishim forðum, fyrst við ána hjá Zebediero, þegar hann greiddi Ivan Ogareff kinnhestinn með »knút«inum, og þeir sáu hann aftur á leiksviðinu í Tomsk, þar sem dómurinn var kveðinn upp yfir honum. Þeir vissu þess vegna ofboð vel, hver hann var og hvað á því reið, að hann kæmist ferða sinna. Strogoff var fljótur að hugsa. »Þegar þeir Frakkinn og Englendingurinn koma fram á flekann, þá farðu til þeirra, Nadía, og bið þá að koma til mín«. Það var tilviljun og ósveigjanleg rás viðburðanna, sem hafði knúð þá fregnritana til að leita sér hælis í þessu auða þorpi. Eins og lesarann rekur minni til, voru þeir viðstaddir, er emírinn hélt innreið sína í Tomsk, en héldu burt þaðan áður en hinum grimma dómi emírsins var fullnægt. Þeir höfðu ekki skilið hvað dómurinn þýddi og datt því sízt í hug, að sendiboðinn væri á lífi enn. Þeir bjuggust við harmkvælafullum dauða hans, en ekki því, að hann yrði látinn laus blindur. Þeir höfðu, riðið af stað frá Tomsk um kvöldið og höfðu ásett sér, að dagsetja öll sín bréf framvegis í herbúðum Rússa í Austur-Síberíu. Þeir héldu áfram svo hart sem þeir framast máttu og ætluðu sér að komast langt á undan Feofar Khan og liði hans og það hefði þeim líka eflaust tekist, ef hin óvænta þriðja herdeild hefði ekki allt í einu komið til sögunnar sunnan frá fjöllum niður Jenesei-dalinn. Eins og Strogoff síðar, var þeim bönnuð brautin og það áður en þeir næðu til árinnar Dinka. Þeir voru því neyddir til að beygja við af leið og stefna til Bakail-vatns, eins og Strogoff síðar gerði. Þegar þeir komu til Liventchnara, var þorpið í eyði og þá orðið ómögulegt þeim megin fljótsins að ná til Irkutsk. Tartararnir höfðu of sterkan vörð til þess. Í þessu eyðiþorpi höfðu þeir setið þrjá sólarhringa, þegar flekamennirnir komu þeim til hjálpar. Þeir fréttu um fyrirætlanir þeirra á flekanum og virtist þeim ráðið ekki óálitlegt. Það var enganveginn ólíklegt, að þeim tækist að smjúga niður eftir fljótinu í náttmyrkrinu og þeir voru hæst-ánægðir með að gera tilraun til þess. Alcide Jolivet fór þegar á fund formannsins og bað hann um farþegarúm fyrir sig og annan mann. Kvaðst vera fús til að borga hvað helzt, sem upp yrði sett, sem fargjald. »Það borgar hér enginn«, sagði formaðurinn alvörugefinn. »Það setur hver einn líf sitt í veð á flekanum. Það er allt og sumt!« Fregnritarnir biðu ekki boðanna, en fóru fram á flekann þegar og tóku sér sæti á honum framanverðum. Nadía tók eftir þeim og þóttist sjá, að Englendingurinn var óbreyttur alveg, að hann var sami orðfái maðurinn, sem sjaldan eða aldrei talaði til hennar á meðan þau voru samferða. Frakkinn aftur virtist henni öllu alvarlegri en fyrrum, enda afsakanlegt, því ástæðurnar voru alvarlegri nú en þá. Þeir höfðu rétt tekið sér sæti á flekanum, þegar Jolivet fann, að hönd var lögð á öxl hans. Leit hann þegar upp og þekkti strax Nadíu, systur Nikulásar Korpanoffs, sem þeir héldu vera, en sem þeir nú vissu, að var Mikael Strogoff, sendiboði keisarans. Hann var rétt í því að reka upp óp af undrun og fögnuði, þegar Nadía lagði fingur á munn sér, sem þagnarmerki. »Komdu«, sagði hún í lágum róm og gekk af stað. Eins og ekkert sérlegt væri á ferðum stóð hann þegar upp, benti Blount að koma með sér og fór svo á eftir Nadíu. Hissa eins og þeir urðu, fregnritarnir, þegar Nadía kom til þeirra, urðu þeir enn meira hissa, er þeir sáu Strogoff, sem þeir að sjálfsögðu töldu dauðan. Þeir voru sem þrumu lostnir af undrun. Strogoff hreyfði sig ekki og gaf ekkert lífsmerki af sér, er fréttaritararnir nálguðust. Þetta undraðist Jolivet og sneri sér til Nadíu, sem svaraði honum áður en hann hafði rúm til að spyrja: »Hann sér ykkur ekki, herrar mínir! Hann er blindur!« sagði hún. »Tartararnir brendu augu hans!« Fregnritarnir leyndu því ekki, að þeir aumkuðust yfir sendiboðann. Þeir settust umsvifalaust hjá Strogoff, heilsuðu honum vingjarnlega með handabandi, en sögðu ekki orð. Þeir biðu eftir, að hann ávarpaði þá. »Þið ættuð ekki, herrar mínir, að vita hver ég er sagði Strogoff lágt, »eða í hvaða erindum ég er kominn til Síberíu. Ég bið ykkur þess vegna að vernda þetta leyndarmál mitt vel. Viljið þið lofa mér því?« »Ég legg drengskap minn við, já«, svaraði Jolivet. »Ég legg við drengskaparorð mitt«, svaraði Blount. »Vel sagt, herrar mínir«. »Getum við á nokkurn hátt hjálpað þér?« spurði Blount. »Getum við ekki einhvernveginn greitt feril þinn að takmarkinu?« »Ég kann betur við, að vera einn minn liðs«, svaraði Strogoff. »En níðingarnir hafa svift þig sjóninni«, sagði Jolivet. »En ég held Nadíu, og hennar augu eru mín augu«. Að hálfum tíma liðnum var flekinn kominn burt frá bryggjunni og út á fljótið. Klukkan var fimm og orðið all-skuggsýnt. Það var allt útlit fyrir, að dimt yrði ekki síður en kalt um nóttina. Nú þegar var frostið komið niður fyrir zero-mark á frostmælinum. Fregnritarnir sátu kyrrir hjá Strogoff og töluðu við hann í lágum hljóðum. Af því, sem þeir sögðu honum, í viðbót við það, sem hann sjálfur vissi, gat Strogoff séð nokkurnveginn greinilega hvernig allar sakir stóðu. Hann þóttist nú sannfærður um, að umsátin um Irkutsk var þegar hafin og að herdeildirnar þrjár voru nú allar sameinaðar orðnar. Það var og engu síður víst, að bæði emírinn og Ivan Ogareff voru úti fyrir borgarmúrunum. En hvernig stóð á þessari löngun Strogoffs að komast til Irkutsk nú, þegar keisarabréfið var burtu, og þar sem hann ekki vissi hvert innihald þess var? Fregnritarnir báðir þreyttu við þessar og þvílíkar spurningar, eins og Nadía hafði áður gert og þeir gátu ekki getið á hið rétta svar fremur en hún. En enginn þeirra minntist á liðna tímann, þangað til Jolivet datt í hug, að segja við Strogoff, að það væri skylda þeirra fregnritanna, að biðja hann afsökunar á því, að hafa ekki kvatt hann með handabandi í Ishim. »Nei«, svaraði Strogoff, »því þið höfðuð ástæðu til að álíta mig bleyðu!« »En hvað sem því líður«, sagði Frakkinn, »þá er það víst, að þú lagðir »knút«-inn laglega á kjammann á fantinum. Hann ber þess merki lengi!« »Nei«, svaraði Strogoff með hægð, »Hann ber auðkennið ekki lengi!« Að hálfum tíma liðnum frá því farið var af stað eftir fljótinu höfðu fregnritarnir heyrt alla raunasögu þeirra Strogoffs og Nadíu, bæði á meðan þau voru sitt í hvoru lagi og síðan þau fundust í Tomsk. Og það er ekki of sagt, að þeir dáðust að hugrekki og þráa Strogoffs og þreki og umhyggju Nadíu. Þeir höfðu sama álit á Strogoff nú og keisari Rússa lét í ljósi, eftir að hafa séð hann og talað við hann: »Hér sannarlega er maðurinn!« Flekinn flaug áfram undan hröðum straumi í fljótinu, umkringdur á alla vegu af ísflekum stórum og smáum, og eins og vant er þegar þannig er farið, virtist flekamönnunum að flekinn stæði kyrr, en landið til beggja handa fara fleygiferð aftur með þeim og aftur fyrir þá. Útsýnið var margbreytt og stórskorið. Sumstaðar háir granit-hamrar, sumstaðar gil og gljúfur, er fossandi lækir féllu niður um, sumstaðar stór skógur og sumstaðar rjóður, þar sem ýmist einstök hús eða heil þorp voru að brenna og enda skógurinn umhverfis þau. En þó för Tartaranna væri þannig auðséð allstaðar, voru þeir sjálfir hvergi sýnilegir. Það var auðsætt, að þeir voru allir saman safnaðir umhverfis borgina Irkutsk. Allt af þuldu pílagrímarnir bænir sínar upphátt og allt af þagði gamli fleka-formaðurinn. Þegar jakar gerðust of nærgöngulir ýtti hann þeim fjær, en stýrði flekanum allt af eftir miðri og þyngstu straumröstinni í Angara-fljótinu. XI. Á fljótinu miðju. Eins og loftið alskýjað hafði gefið hugmynd um, var koldimmt orðið klukkan átta um kveldið, því tunglið var enn ekki komið upp. Það var svo dimmt að bakkarnir sáust ekki af miðju fljótinu. Þar sem klappirnar voru hæstar urðu þær ekki aðgreindar frá skýjaklasanum uppi yfir. Endrum og eins komu lítil kyljuköst af austri, en dofnuðu strax og urðu að engu í hinni þröngu dalskoru, er Angarafljótið fellur eftir. Að svona var dimmt hlaut að verða þeim á flekanum til stórra hagsmuna. Þess vegna var meiri von til að þeir gætu framfylgt ferðaáætlun sinni. Eins og nú var dimmt hefðu Tartararnir naumast séð flekann á miðju fljótinu, þó þeir hefðu staðið í röðum á báðum bökkum og horft út á það. Það var heldur ekki líklegt að hermenn emírsins mundu skipa vörð um fljótið þeim megin fyrir ofan borgina, því engin hætta var á herdeild Rússa úr suðurátt. Að auki var náttúran sjálf á góðum vegi með að girða fljótið og gera ófært hermannaflokki á bátum, ef nokkrir væru. Jakahrannirnar voru óðum að þéttast og myndu bráðum banna alla umferð eftir fljótinu. Af þessum ástæðum öllum réðu flekamennirnir að ekkert væri að óttast nema máske ísinn sjálfan. Enginn á flekanum mælti orð frá vörum. Þar var alger þögn. Enda höfðu pílagrímarnir dregið niður í sér; voru hættir að syngja og þylja. Þeir að vísu héldu áfram bænalestrunum, en höfðu ekki svo hátt að til þeirra heyrðist úr landi. Flekamennirnir allir lágu flatir á trjábolunum og bar þess vegna mjög lítið hærra á flekanum en straum-bárunum umhverfis. Formaðurinn þöguli var því næst flatur framarlega á flekanum meðal stýrimanna sinna, og gaf sig eingöngu við að verja flekann fyrir jökunum og sú vinna gerðist án allra minnsta skarkala. Jakafjöldinn allstaðar umhverfis var að vissu leyti blessun. Hefðu þeir engir verið, var ekki óhugsandi að flekinn hefði sést þó dimt væri, en svona umkringdur af jökum, var það ómögulegt. Þó einhver hávaði hefði átt sér stað á flekanum, þá var og sama um það, að hann gat ekki heyrst eða orðið aðgreindur frá sífeldum skruðningi af því er jakarnir sífelt rákust saman. Frostið var mikið — um 10 stig fyrir neðan zero, og þjáðust flóttamennirnir ósegjanlega af kulda, því þeirra eina skýli voru laufblaða hrúgur og lítið af trjálimi. Þeir hnipruðu sig saman og reyndu á þann hátt að njóta ofurlítils yls hver af öðrum. Það sem sagt var að heita mátti logn, en þegar vindkylja kom, var golan sem stóð af snjótyptum fjöllunum svo köld, að hún gekk í gegnum hold og bein. Þau Strogoff og Nadía voru aftast á flekanum og báru sig vel þó kalt væri. Þau að minnsta kosti kvörtuðu ekki. Rétt hjá þeim voru fregnritarnir og báru þeir sig sem bezt þeir máttu í þessu fyrsta áhlaupi Síberíu-vetrarins. Enginn talaði orð, ekki einu sinni í hálfum hljóðum, en allir voru niðursokknir í eina sameiginlega hugsun — kringumstæðurnar og hvern endir þetta hefði. Það var augsýnilegt að á hverju einasta augnabliki mátti búast við slysi, eða háska svo miklum, að augsýnilegt væri um útkomuna. Mikael Strogoff var yfirgengilega rólegur, þegar athugað var, að hann innan fárra klukkust. bjóst við að ná sínu fyrirsetta takmarki og afljúka erindi sínu. Það var ekki af því að hann sæi ekki, hugsaði ekki fram í veginn, því aldrei voru ástæður hans svo alvarlegar, að ekki væri eldfjör hans sívakandi og hann sívakandi og við öllu búinn. Þögull og rólegur eins og hann var nú, var hann ekki hættur að hugsa. Hann sá sig í anda afljúka erindinu og verða frjálsan til að hugsa um móður sína, um sig og Nadíu! Hann óttaðist aðeins að eitthvert slys væri í vændum til að tefja sig, óttaðist að jakarnir mynduðu óslitna röst landa á milli einhversstaðar sín megin við Irkutsk og bönnuðu veginn. Ef sú yrði raunin hafði hann hugsað sér einhver djarfleg tilþrif. Það stóð ekki á honum. Eftir svona tiltölulega langa hvíld var Nadía búin að ná aftur miklu af sínu venjulega líkamsþreki, en sem ofþreyta og allskonar hörmungar höfðu áður yfirbugað hana stund og stund í senn, þó aldrei gætu nokkrar hörmungar unnið minnsta svig á hennar andlega þreki og þori. Hún hugsaði einnig um ástæðurnar og um það, að ef Strogoff enn þyrfti að grípa til tvísýnna úrræða, þyrfti hún að sjálfsögðu að vera viðbúin að fylgja honum og vísa honum veg með augum sínum. Þó dvaldi hugur hennar ekki alltaf við þetta. Eftir því sem hún meir og meir nálgaðist Irkutsk, eftir því skýrðist mynd föður hennar æ meir og meir fyrir hugskotssjónum hennar. Hún sá hann í anda í hinni umsetnu borg, langt frá öllum sínum, öllum sem hann unni, en með lífi og sál að berjast fyrir föðurlandið með brennandi áhuga. Ef hamingjan yrði með yrði hún innan fárra klukkustunda í faðmi föður síns og flytti honum þar hinar hinnstu kveðjur móðurinnar, og hún ásetti sér þá að ekkert skyldi framar slíta sig frá síðu föðurins. Ef útlegðartími Wassili Feodórs tæki aldrei enda, skyldi sjálfboðinn útlegðartími hennar aldrei taka enda á meðan hann lifði. Og svo, mitt í þessum hugsunum, hvarflaði hugur hennar allt í einu og eðlilega til hans, sem hafði gert henni mögulegt að ná til föður síns, til samferðamannsins góða, »bróðurins«, sem að Törturunum yfirbuguðum mundi yfirgefa hana og halda vestur til Moskva aftur. Hún sæi hann þá máske aldrei aftur! Fregnritarnir eyddu ekki tíðinni í hugsunarleysi, en þeirra hugsanir voru allt öðruvísi en þeirra »systkinanna«. Sinn í hvoru lagi hugsuðu báðir á sömu leið: að þetta væru dramatiskar ástæður og að ef vel væri haldið á efninu, yrðu þeir dálkar blaðanna, er flyttu þessa frásögn, meir en læsilegir. Englendingurinn vitanlega hugsaði ekki um aðra en lesendur »Daily Telegraph« og Fransmaðurinn hugsaði ekki um aðra en Madeleine »frænku«. Innst í hjarta sínu voru þeir báðir hrifnir af ástæðunum öllum. »Þeim mun betra«, hugsaði Jolivet. »Til þess að geta hrifið aðra verður maður að vera hrifinn sjálfur. Mig minnir að til sé eitthvert nafnfrægt vísuerindi því til sönnunar, en fari grenjandi ef ég man hvernig það er«. Og með sínum æfðu, hvössu augum gerði hann ítrekaðar tilraunir að sjá gegnum dimmuna, er huldi láð og lög. Annan sprettinn rofnaði þetta myrkraveldi um stund og sáust þá bakkar báðumegin, en að því er virtist í allskonar töframyndum. Það voru skógareldar, eða þorp að brenna, sem þannig stund og stund rufu náttmyrkrið til hálfs og það voru ljósbrotin á titrandi straumbárunni og á jakasafninu í sínum ótal myndum, sem framleiddu töframyndirnar til beggja handa. Jakarnir á sinni brunaferð niður fljótið voru eins og svo margir speglar, sem drógu til sín birtuna af bálinu og köstuðu henni svo frá sér aftur í gagnstæða átt. Mitt í þessu marglita, flögrandi geislabroti sást ekki flekinn fremur en í myrkrinu. Þeim á flekanum stóð enginn ótti af þessu. En það var öðruvísi hætta, sem nú vofði yfir flóttamönnunum. Það var hætta, sem þeir gátu ekki séð fyrir og sem þeir fram yfir allt gátu ekki varast. Það var fyrir tilviljun að Jolivet varð þessarar hættu var. Hann lá út á annari flekabrúninni og lét aðra hendina um stund liggja niðri í vatninu. Allt í einu tók hann eftir því, að það var undarlegt áþreifingar og varð hann hissa af. Það var engu líkara, en hann hefði hendina niðri í límkenndri leðju eða steinolíublendingi. Hann brá hendinni upp að nefinu og sannaði þá þefurinn ekki síður en áþreifingin, að flekinn flaut í lagi af steinolíu, steinolíulaginu, sem flaut ofan á vatninu í fljótinu. Gat það virkilega verið, að flekinn væri fljótandi á steinolíuhafi, sem á augnabliki mætti umhverfa í hræðilegt eldhaf? Hvaðan kom öll þessi steinolía? Var þetta bara náttúruviðburður á yfirborði fljótsins, eða var það ein eyðileggingar-vélin, sem Tartararnir höfðu útbúið og sett í hreyfingu. Var hugmynd þeirra máske að sækja borgina með svona hræðilegu eldbaði — hernaðaraðferð, sem ekki yrði réttlætt meðal siðaðra þjóða. Þessar og þvílíkar spurningar lagði Jolivet fyrir sjálfan sig, en það þótti honum ráðlegast að segja ekki öðrum en Blount frá uppgötvun sinni. Þeir töluðu um þetta í hálfum hljóðum og kom þeim saman um, að best væri að hræða ekki flekamennina með því að segja þeim frá þessari nýfundnu hættu. Það er kunnugt að jarðvegurinn víða í Mið-Asíu er líkastur svampi gegnvættum í steinolíu. Í grennd við Baku á landamærum Persa, á Albeheron-skaganum við Kaspíahaf, í Kína meðfram Yuen-Kiang-fljótinu, og í Burmah, á Austur-Indlandi; á öllum þessum stöðum eru steinolíulindir í þúsundatali á yfirborði jarðar. Það er í sannleika »olíuland« ólíkt þeim héruðum, sem það nafn bera í Norður-Ameríku. Þegar ákveðnar guðsdýrkunar-hátíðir standa yfir, sérstaklega í Baku eða grenndinni hafa frumbyggjarnir, sem eru eldsdýrkendur, þann sið, að bera steinolíu á vatnið, sem heldur henni á yfirborðinu, þar sem hún er efnisléttari en vatn. Þegar svo dimmir af nóttu slá þessir menn eldi í hið olíudregna yfirborð Kaspíahafsins og sýna þannig þá óviðjafnanlega dýrðlegu sjón. Virkilegt eldhaf með hægfara, svellandi öldum, eða háum holskeflum, sem vindur og vatnsafl hrekja um sæinn og brjóta á ströndinni. En það sem útifyrir Baku er hátíðleg sjón áhorfendunum til ánægju, það gæti orðið hræðileg sjón og ósegjanlegur voði á yfirborði Angarafljótsins. Hvort sem eldi væri slegið viljandi eða óviljandi á fljótið, yrðu afleiðingarnar þær sömu. Eldhafið yrði á svipstundu óslitið langt ofan fyrir Irkutsk. Það var ekki að óttast neina slíka ógætni af hálfu þeirra, sem voru á flekanum. En við öllu var að búast af hálfu þeirra sem skipuðu báða bakka fljótsins. Neistaflug, eitt einasta brennandi hálmstrá af landi, gat á hverri stundu borist fyrir vindinum á fljótið og á næsta augnabliki var það allt í óviðráðanlegu báli. Það er auðvelt að gera sér grein fyrir hugsunum þeirra fregnritanna, auðveldara miklu en að lýsa þeim. Var ekki forsjálegt, þegar svona var ástatt, að hafa sig til lands án nokkurs undandráttar og bíða svo þar? Þeirri spurningu, veltu þeir fyrir sér. »Hvernig sem fer«, sagði Jolivet, »er þó ævinlega einn maður á flekanum, sem ekki flýr til lands, hver og hvernig sem hættan er«. Hann átti við sendiboða keisarans. Meðan á þessu stóð brunaði flekinn niður eftir fljótinu á milli jakanna, sem nú voru alltaf að verða þéttari og þéttari. Enn þá hafði enginn heyrt eða séð til Tartaranna. Það var sönnun fyrir því, að enn var flekinn ekki kominn á móts við herbúðir útvarðanna. En um kl. 10 um kvöldið kom Blount auga á fjölda af svörtum kvikindum, er voru á hreyfingu á jökunum. Hlupu þau af einum jakanum á annan og nálgaðist óðum. »Tartarar!« hugsaði hann með sjálfum sér. Svo fór hann til og skreið eftir flekanum til gamla mannsins, sem hafði á hendi stjórnina, og benti honum á þetta. Karl horfði um, stund og sagði svo, að þetta væru úlfar, »Ég vil þá heldur en Tartarana«, sagði hann, »en við verðum að búast til varnar og verja okkur án þess að gera nokkurn hávaða«. Það var enginn efi á því, að það lá fyrir flekamönnum að verja sig fyrir þessum blóðþyrstu vörgum, sem kuldinn og hungrið hafði knúð til að leita sér að æti. Þeir höfðu fundið þefinn af flekanum og voru á hraðri ferð þangað. Skotvopn máttu flekamennirnir ekki brúka, en einhvernveginn máttu þeir þó til með að verja sig. Útverðir Tartara hlutu að vera nálægir og þar af leiðandi reið öllu fremur á þögn. Kvenfólkið og börnin voru færð inn á miðbik flekans, en karlmennirnir röðuðu sér umhverfis, sumir með veiðihnífa og sumir með kylfur eða klumbur til að berja með. Þeir létu ekkert til sín heyra, en það gerðu þá úlfarnir. Þeir ýlfruðu svo að heyrðist langar leiðir. Strogoff vildi ekki vera aðgerðarlaus. Hann dró sig þess vegna út á þá flekabrúnina, er flestir úlfarnir sóttu að. Hann tók upp veiðihnífinn, og ætíð þegar úlfur kom upp að flekanum hitti hann rækilega á hálsinn og í sömu svipan var sá vargurinn hniginn í fljótið. Sama gerðu þeir fregnritarnir. Þeir börðust eins og hetjur við þessa voða-varga. Svo gerðu allir, sem á flekanum voru. Og þó margur maður fengi skeinu af tönnum úlfanna heyrðist ekki eitt einasta orð. Það var þegjandaleg orusta þetta. En margir eins og úlfarnir voru drepnir, var ekki vænlegt útlit um vopnahlé. Úlfafjöldinn virtist vaxa þeim mun meira, sem meira var drepið. Það virtist vera uppspretta af úlfum austanmegin fljótsins. »Þetta tekur aldrei enda!« sagði Jolivet, er hann sveiflaði alblóðugum veiðimannahnífnum sínum. Sannleikurinn var líka, að eftir að þessi orusta hafði staðið yfir hálfa stund, komu úlfarnir enn í hundraða tali austan yfir fljótið. Það var að draga úr vörninni. Þeir voru orðnir uppgefnir flekamennirnir og allt útlit fyrir, að þeir ætluðu að mega minna en úlfarnir. Í þessum svifum hófu tíu stórir úlfar sig á loft og stukku af jaka yfir á flekann. Þeir voru ærðir af hungri og í myrkrinu glóðu augu þeirra eins og kolaeldur í hellismunna. Þeir komu niður á miðbik flekans og réðust þegar á kvenfólkið og börnin sem þar voru. Sneru nú mennirnir allir baki við aðsækjandi vargafans, en sóttu að þeim, sem komnir voru á flekann, En þá allt í einu urðu þau undarlegu viðbrigði, að úlfarnir ótilkvaddir lögðu á flótta, þeir á flekanum og þeir á jökunum. Innan fárra mínútna voru þeir allir horfnir úr nágrenninu — komnir til lands. Eins og öll önnur rándýr sækja úlfar ekki þannig á, nema myrkur sé. En á þessu augnabliki gaus upp svo bjartur logi á landi, að fljótið allt var upplýst. Þorpið Poshkaosk stóð í björtu báli og það varð lausn þeirra á flekanum í bráð. Þannig voru þá flekamennirnir komnir til móts við útverði Tartaranna. Það voru 30 verstir til Irkutsk og á þeirri leið allri mátti búast við óslitinni röð Tartaranna á báðum bökkum. Klukkan var nú orðin hálf tólf. Flekinn hélt áfram á fullri ferð enn, en algerlega umkringdur af jökum og íshroða, sem huldi hann sjón þeirra á bakkanum, og það þó birta mikil væri stundum á flekanum. Flekamennirnir lágu nú líka flatir og forðuðust að gera nokkrar óþarfa hreyfingar. Það gekk fljótt og vel, að brenna þorpið, því húsin voru öll gerð af timbri — furuvið, og brunnu því eins og lýsi. Þau stóðu þar um hundrað og fimtíu í björtu báli í senn. Tartararnir dönsuðu organdi af gleði umhverfis bálið og blandaðist óp þeirra saman við hið ógurlega snark í eldinum. Formaðurinn á flekanum náði haldi á jökunum umhverfis og hagnýtti þá til að smeigja flekanum fjær vesturlandinu, þangað til hafið milli hans og bakkans var ein þrjú til fjögur hundruð fet á breidd. Þrátt fyrir þessa fjarlægð, var birtan af eldinum með köflum samt svo mikil, að Tartararnir hefðu eflaust séð flekann, ef þeir hefðu gefið öðru en eldinum nokkurn minsta gaum. Það er hægra að hugsa sér en lýsa hugsunum þeirra fregnritanna nú. Þeir einir á flekanum vissu, að þeir flutu á flóði af steinolíu og þeir bjuggust við eldibrandi úr þorpinu á hverju augnabliki til að kveikja hið óslökkvandi bál. Til að sjá var þorpið allt eitt glóandi eldhaf og neistahríð látlaus flaug í loft upp, með reykjarstrokunni, sem steig allt að sex hundruð fet yfir grundina. Svo var glóðin mikil og ljósbrautin af ísnum á ánni, að klettarnir og skógurinn á austurbakka fljótsins virtist baðaður í sama eldhafinu. Ef einn einasti neisti kæmi niður í fljótið var það auðvitað samstundirs í báli bakkanna á milli og þá var auðsætt, hvað fyrir flekanum lá og því fólki, sem á honum var — harmkvæladauði. En það vildi svo vel til, að þegar gola var, stóð hún úr gagnstæðri átt, austan yfir fljótið og bar svo reykinn og neistana burt frá fljótinu. Það var þessvegna ekki óhugsandi að flekamennirnir slyppu skaðlausir úr þessum háska. Um síðir þokaðist flekinn fram hjá brennunni og fjarlægðist hana. Glampinn af eldinum smá-dofnaði og snarkið í eldinum heyrðist ekki nema ógreinilega. Um síðir hvarf eldurinn sjón þeirra á flekanum algerlega; háan klettaskaga bar á milli. Það var nú komið fast að miðnætti. Hið koldimma náttmyrkur hafði nú á ný kastað verndarblæju sinni yfir fljótið og allt sem á því hrærðist. En nú varð líka vart við Tartara á báðum bökkum. Þeir sáust ekki en þeir létu heyra til sín. Hér og þar sást líka glóra í eldsglæður meðal búða þeirra. En nú var farvegurinn óðum að þrengjast, jakarnir að fjölga og vandræðaverk orðið að stjórna flekanum milli þeirra. Formaðurinn og stýrimennirnir, með stjakana, máttu nú til með að standa á fætur, þó hættulegt væri vegna Tartaranna á bökkunum. En það var ekki um annað að gera. Ísburðurinn var svo grófur. Mikael Strogoff hafði fært sig fram eftir flekanum. Það gerði einnig Alcide Jolivet. Þeir vildu heyra hvað formaðurinn segði við meðhjálpara sína og það sem þeir heyrðu var á þessa leið: »Líttu til hægri! Jakar til vinstri ætla að umkringja okkur! Verjið flekann, verjið hann fljótt með stjökunum! Innan klukkustundar verðum við orðnir fastir. »Ef guð svo vill!« sagði formaðurinn. »Það þýðir ekkert að ætla sér að stríða á móti vilja hans!« »Heyrirðu þetta?« spurði Jolivet Strogoff. »Já, ég heyri. En guð er með okkur!« svaraði Strogoff rólega. Ástæðurnar urðu nú alvarlegri og alvarlegri. Ef flekinn settist alveg fastur, var það ekki einungis fyrirbyggt að fólkið á flekanum kæmist til Irkutsk, heldur var þá einnig fyrirbyggt að það gæti verið á flekanum. Ef hann festist í ísnum mundu jakarnir eftir litla stund slíta allar tágarnar og trjábolirnir fljóta burt hver í sínu lagi. Það lá þess vegna fyrir þeim, ef til vildi, að flýja af flekanum, taka sér bústað á nöktum ísnum og sitja þar til dags, þegar Tartararnir mundu sjá þá og drepa og myrða miskunnarlaust. Strogoff gekk aftur eftir flekanum þangað sem Nadía sat, tók hönd hennar og spurði hana eins og áður: Hvort hún væri tilbúin. Og eins og áður svaraði hún, að það stæði ekki á sér. Hún væri til í allt. Flekinn hélt áfram enn, en ofur hægt, og ef farvegur árinnar mjókkaði að mun var ekki um neitt áframhald að ræða. Stíflan yrði þá alger á fljótinu. Eins og stóð fór flekinn mjög svo hægt og rakst öðru hvoru þéttingsfast á jakana. Af því leiddi að formaðurinn fór marga króka aftur og fram til að leita eftir ál milli íshrannanna. Þannig var haldið áfram um hríð, en tafirnar urðu æ fleiri og fleiri og ferðin minni. Nú var það, að ekki voru eftir nema fáar klukkustundir til dags. Kæmust þeir flekamennirnir ekki til Irkutsk í síðasta lagi klukkan fimm um morguninn var öll von úti að þeir næðu þangað. Þegar klukkan var nærri hálf tvö stóð flekinn fastur, þrátt fyrir allar tilraunir. Jakarnir þrýstust saman til beggja handa og á eftir og héldu flekanum algerlega inniluktum og hreyfingarlausum. Að ísinn myndaði stífluna kom til af því, að á þessu sviði var fljótið mjórra en efra og neðra. Ísrekið var meira en svo, að jakarnir hefðu greiðan gang um mjóddina, og af því að kuldinn var heljarlegur, frusu þeir saman undireins og þeir rákust hver á annan og mynduðu þannig óslitna brú yfir fljótið bakkanna á milli. Fimm hundrum fetum neðar breikkaði fljótið aftur að mun. Þar mátti því búast við greiðum gangi. Það var að eins eftir að komast þessi fimm hundruð fet áfram. Ef fljótið hefði alstaðar haft sömu breidd, hefði líklega engin stífla átt sér stað. En það var ekki til neins að hugsa eða tala um það. Flekinn var fastur og mundi innan skamms liðast sundur. Jafnframt var úti vonin um að ná takmarkinu eins og ætlað var. Hefðu þeir haft eitthvað með sér af þeim verkfærum, sem hvalveiðamenn hafa til að höggva sér vakir gegnum lagís, þá hefðu þeir getað hroðið sér og flekanum veg gegn um þetta mjóa haft og þá hefðu þeir líklega haft af að komast til Irkutsk. En þeir höfðu ekkert, enga sög, enga exi, — ekkert, sem gæti unnið svig á hörðum og glærum lagísnum, sem frostið hafði gert harðan eins og granit. — Hvað var þá til ráða. Í þessu byrjaði skot hríð frá austurbakkanum og rigndi nú byssukúlum niður á bæði flekann og jakana umhverfis. Tartararnir höfðu augsæilega komið auga á flekamennina, af því fljótið hér var svo mjótt. Augnabliki síðar hófst þá einnig skothríð á vesturbakkanum. Flekamennirnir voru nú virkilega milli tveggja elda — voru verjulausir og skotmerki Tartaranna á báðar hliðar. Af því myrkrið var, var það rétt tilviljun, að skotin hittu nokkurn mann eða konu, en þó særðust nokkrir þegar í fyrstu hríðinni. Mikael Strogoff beið ekki boðanna, en hvíslaði að Nadíu að hún skyldi koma. Og án þess að mæla eitt einasta orð, tilbúin til hvers er vera skyldi, eins og hún var, tók hún í hönd hans, ferðbúin. »Við megum til með að komast yfir haftið«, hvíslaði Strogoff að meyjunni. »Vísa þú mér veginn, en láttu engan sjá okkur yfirgefa flekann«. Nadía hlýddi þessu þegjandi: Þau komust án þess eftir þeim væri tekið upp á ísinn og gekk ferðin furðu greitt. Kúlunum rigndi niður umhverfis þau og hendur þeirra urðu innan stundar alblóðugar, því þau urðu að skríða, en jakarendurnar margar hárbeittar. Eftir 10 mínútna ferð voru þau komin yfir haftið og þar fram undan þeim flóði Angara hindrunarlaust. Jaki eftir jaka slitnaði frá aðal-ísnum og flaut niður eftir fljótinu með hraðri ferð. Nadía þóttist vita, hver var fyrirætlun Strogoffs, og svo vel vildi til, að rétt hjá þeim var stór jaki, sem örmjó spöng aðeins hélt við aðal-ísinn. »Komdu!« sagði hún, og jafnsnemma skriðu bæði fram á jakann, sem þegar slitnaði frá stíflunni, er þessi aukaþungi lagðist á hann. Hann seig af stað. Állinn var opinn og innan stundar voru þau Strogoff og Nadía á flugferð áleiðis til Irkutsk. Þau heyrðu skotdynkina til beggja handa, sáu eldstraumana úr byssuopunum og heyrðu vein vesalinganna á flekanum og óp og org Tartaranna. Smámsaman urðu þó ópin daufari og óskýrari, ekki af því að þau færu minnkandi, heldur af því að fjarlægðin og straumniðurinn eyddi óhljóðunum. Strogoff talaði ekki orð, en endrum og eins lét Nadía í ljósi sorg sína yfir afdrifum vesalinganna á flekanum. Þannig leið nærri hálfur klukkutími. Jakinn, sem þau Strogoff og Nadía húktu á, feygðist áfram fyrir straumþunga fljótsins. Á hverri stundu bjuggust þau við að hann mundi bresta í tvo eða fleiri parta undan þunga þeirra, en gátu samt ekkert að gert. Í miðju fljótinu var straumröst mikil, og í henni hélzt jakinn, rétt eins og mannleg hönd stýrði honum. Á stýri þurfti þess vegna ekki að halda fyrri en komið væri á móts við bryggjurnar í Irkutsk, en þá þurfti að sveigja hann við og út úr röstinni. Strogoff sat hreyfingarlaus, beit á jaxlinn og hlustaði eins og hann hafði aldrei hlustað áður. Svona nærri takmarkinu var hann þá kominn og nú mátti ekki til sleppa. Og honum fannst, að ekkert mundi ná hindra sig, en taldi takmarkinu náð um síðir. Þegar klukkan var nærri tvö um nóttina, sást tvöföld ljósaröð gægjast allt í einu upp úr hinu myrka hafi, er huldi fljótið og bakka þess innan hins takmarkaða sjóndeildarhrings. Til hægri voru ljósin í Irkutsk, en til vinstri eldarnir í herbúðum Tartaranna á vesturbakka fljótsins. Strogoff átti nú ekki eftir meira en sem svaraði tvöhundruð og fimmtíu föðmum að bryggjunum í Irkutsk. »Um síðir!« sagði þá Strogoff við sjálfan sig. Lítilli stundu síðar rak Nadía upp hljóð. Strogoff varð svo hverft við, að hann reis á fætur á jakanum, sem riðaði til í straumröstinni eins og bátskel í brimgarði. Hann rétti fram hægri hendina upp eftir fljótinu og skein þá bláleitt ljós á andlit hans, sem þá var rétt hræðilegt að horfa á. Og þá, rétt eins og augu hans allt í einu hefðu opnast og að hann á ný hefði fulla sjón, hrópaði hann upp: »Ja, þá eru himnavöldin einnig á móti okkur!« XII. Svikarinn í Irkutsk. Irkutsk er all-mannmargur bær, telur 30.000 íbúa þegar allt gengur sinn vanagang. Mikill hluti bæjarins, einkum heldri manna hús og kirkjur, standa á hárri hæð á austurbakka fljótsins. Til að sjá frá fjallstoppi í 20 versta fjarlægð, er Síberíubrautin liggur eftir, lítur bærinn út eins og austurlandabær, með hvolfturnunum öllum og hnattmynduðum turnum upp af húsunum. En þegar til bæjarins kemur eyðist sú ímyndun, þó bærinn annars sé Kínverjabær að hálfu leyti. Steinlögð stræti, breiðar gangstéttir, ræktaður birkiskógur, skipaskurðir, fjöldi hesta og vagna á fljúgandi ferð, stórbyggingafjöldinn, úr múr og grjóti og timbri, sum margar hæðir og að síðustu, íbúarnir sjálfir vel á veg komnir í öllu, sem að menningu lýtur og sem fylgja tízkunni frá París eins vel eins og nágranna-borgarbúar; — allt þetta var sönnun fyrir því, að hér var enginn austurlanda bær. Núna var Irkutsk óvanalega mannnmargur bær. Þar voru sem sé samansafnaðir flóttamenn úr öllum landshornum. Bærinn er aðal-markaður fyrir meginhluta allra verzlunarmanna, er reka verzlun við Kínverja. Allt slíkt vörusafn frá Kína á vesturleið og frá Síberíu á suðausturleið, var nú einnig saman safnað í Irkutsk. Þar var þessvegna engin þurrð á vistum og allskonar nauðsynjavörum. Yfirvöldin voru því allskostar óhrædd að veita móttöku öllum sveitalýðnum úr Angaradalnum og nærliggjandi héruðum. Fæði var nóg fyrir alla, og með því að veita öllum móttöku var það unnið eins og áður hefir verið sýnt, að landinu öllu á leið Tartaranna var umhverft í eyðimörk. Stjórn bæjarins og héraðsins alls er þannig: Æðstur er landstjóri allrar Austur-Síberíu, þá landsstjóri héraðsins og bæjarins, sem hefir á hendi allar framkvæmdir í stjórnmálum. Næstur honum gengur lögreglustjórinn, sem hefir meir en lítið vald, þar sem bærinn er ætíð þéttsetinn útlægum mönnum af Rússlandi. Næstur lögreglustjóranum gengur borgarstjórinn, stórríkur maður æfinlega og formaður kaupmannafélagsins. Er hann tiltölulega atkvæðamesti maðurinn í stjórninni vegna auðæfa sinna og stöðu, sem kaupmaður. Enginn hinna hefir önnur eins áhrif á fólkið eins og hann. Setulið bæjarins saman stóð í þetta skifti af tvö þúsund fótgönguliðsmönnum úr flokki Kósakka, og lögreglumannaflokki í bláum einkennisbúningi með silfurborðum og með hjálm á höfði. Auk þeirra höfðingja, sem upp hafa verið taldir, var stórhertoginn, bróðir keisarans, einnig teptur í Irkutsk frá því uppreistin hófst. Hann hafði hafið þessa löngu ferð austur um land í áríðandi stjórnmálaerindum. Á þessari ferð kom hann fram sem herstjóri að eins, en ekki sem prinz, og hafði með sér herdeild af Kósökkum, auk sinna venjulegu fylgdarmanna. Þannig hélt hann áfram ferð sinni austur um alla Síberíu allt til Nikolaievsk á Kyrrahafsströndinni, við Okhotsk-flóann mikla, er skerst inn í meginlandið norður af Japan-eyjum. Eftir að hafa heiðrað stað þann með stundardvöl, sneri hann heimleiðis aftur; ætlaði hann þá að dvelja lítið eitt í Irkutsk til að hvíla sig áður en hann legði á hina óendanlegu braut vestur um land til Moskva. En á þeirri leið kom uppreistarfregnin eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hann hraðaði þá ferðinni sem mest hann mátti til Irkutsk og náði þangað rétt áður en slitið var fréttasambandinu við keisarasetrið í Rússaveldi. Honum tókst með naumindum að ná í nokkur skeyti frá Moskva og Pétursborg og að svara þeim áður en vírinn var högginn og Irkutsk eftirskilin eins og eyðisker úti í hafi. Það var þá ekki um annað að gera, en að búast til varnar eftir föngum. Það gerði hann og með venjulegri rósemi og von um sigur að lyktum. En fréttirnar, sem honum bárust voru ljótar, fyrst um fall Ishim, þá Omsk og að síðustu um leikinn í Tomsk. Það sem umfram allt reið á var, að verja höfuðstað Austur-Síberíu — Irkutsk og í því efni urðu bæjarmenn einkum að treysta á eigin krafta því ekki var að búast við aðkomandi liði fyrst um sinn. Þeir fáu og smáu herflokkar, sem dreifðir voru um héruðin Amur og Yakutsk, gátu ekki fengið fregnir né brugðið við svo fljótt, að þeir gætu að nokkru gagni andæft fylkingum Tartaranna. Eins og stóð var ómögulegt, að hindra umsát og þess vegna var fyrsta og aðalverkið að búa bæinn svo, að hann þyldi umsát og það um langan tíma. Sá umbúnaður var hafinn sama daginn og Tomsk var unnin. Samtímis og þessi fregn barst stórhertoganum frétti hann einnig að emírinn sjálfur stýrði herferðinni í félagi með Khönunum úr Khana-dæmunum öllum í nágrenninu. En það vissi hann ekki, að liðsforingi þessara barbarahöfðingja var Ivan Ogareff, rússneskur liðsforingi, er hann sjálfur hafði svift völdum, en sem hann hafði aldrei heyrt eða séð. Eins og kunnugt er höfðu íbúar allir í Irkutsk-héraðinu verið neyddir til að yfirgefa heimili sín og flýja til bæjarins, eða suður og austur fyrir Bakail-vatn, í bygðarlag, er líkur voru á, að Tartararnir mundu ekki leggja í eyði. Uppskera öll af kornmat og heyi var flutt til Irkutsk og sett í forðabúr. Hvað fóður fyrir fénað og vistaforða fyrir menn snerti, var nú Irkutsk útbúin til að þola langa umsát, enda var það áríðandi fyrir alla Austur-Síberíu. Irkutsk, er stofnsett var árið 1611, stendur austanmegin Angarafljótsins og í sporðinum þar sem áin Irkut fellur í Angara. Undirborg nokkur liggur vestanmegin Angarafljótsins og er hún tengd aðalbænum með tveimur trébrúm, sem undnar eru af þegar skip fara upp eða ofan fljótið. Þeim megin fljótsins var vörnin auðgerð. Ekki þurfti annað en flytja fólkið yfir í aðal-bæinn og eyðileggja svo báðar brýrnar. Þetta var líka gert. Fljótið var breitt undan Irkutsk og ómögulegt fyrir Tartaranna að komast yfir það á því sviði. Fallbyssurnar á virkisveggnum í Irkutsk gerðu það ómögulegt. En svo var vandalaust að komast yfir fljótið bæði ofan bæinn og neðan og mátti þá sækja hann að austan, þar sem ekki var nokkur mynd af víggirðingum. Allir, sem vetlingi gátu valdið voru nú settir til vinnu við að hlaða víggirðingar. Var þá unnið nótt sem dag af svo miklu kappi, að stórhertoginn alveg undraðist. Það var honum sannarlegt fagnaðarefni, að sjá hve allir voru eindregnir og samhuga og réði af því, að sama eindregna fylgið væri víst, þegar til sjálfra stórræðanna kæmi, þegar á vígvöllinn kæmi. Hermenn, verzlunarmenn, bændalýður, útlagar — allir voru samhentir og allir kepptust hver við annan, að koma sem mestu í verk. Viku áður en Tartararnir fyrstu náðu að fljótinu voru virkisveggir allir hlaðnir, úr jörð og grjóti. Síki allmikið hafði verið grafið fram með virkisveggnum og í það veitt vatni úr fljótinu. Nú var ekki að óttast, að bærinn yrði tekinn í snöggu áhlaupi. Eini vegurinn var umsát og það treystu bæjarmenn sér til að þola æðilangan tíma. Eins og auðsætt er, varð þriðja herdeild Tartaranna, sú er 8. sept. hafði lagt af stað frá Jenesei-fljótinu, á undan emírnum til Irkutsk. Settist hún að í hinni gereyddu undirborg á vesturbakka fljótsins. Slógu Tartarar þar herbúðum sínum, því stórhertoginn hafði látið rífa hvert einasta hús til grunna, svo að þau gætu ekki skýlt fjandmönnunum fyrir fallbyssukúlunum austan yfir ána. Óhamingjan var, að fallbyssurnar voru bæði fáar og lélegar. Í millitiðinni gerðu Tartararnir, sem komnir voru ekki neitt. Þeir biðu eftir emírnum og meginhernum. Það var 25. sept., að meginherinn með emírinn í broddi fylkingar kom á bakka fljótsins gegnt Irkutsk og sameinaðist þar þriðju herdeildinni. Að undanteknu litlu setuliði, sem eftir var skilið í hinum ýmsu bæjum, var nú allur her Tartaranna samansafnaður úti fyrir borgarveggjunum í Irkutsk og var nú allur herinn undir aðal-umsjón Teofars Khan sjálfs. Ivan Ogareff vitanlega var með, og af því hann áleit ófært alveg að leita yfir fljótið framundan bænum, var flokkur mikill sendur upp með fljótinu og ferjaður yfir það á brú, er gerð var með því að tengja saman, báta og byrðinga. Stórhertoganum kom ekki í hug að hindra þá ferð, eða gera tilraun til þess. Hann vissi, að það var þýðingarlaust, að hann bara gæti tafið ferðina, en ekki bannað hana. Hann sat því kyr og lét þá afskiftalausa. Þannig tókst þá Törturunum að festa sér báða bakka fljótsins. Flokkurinn, sem austur yfir fór, hóf þegar hergönguna niður með fljótinu í áttina til Irkutsk, og á þeirri leið voru öll mannaverk gerð að engu — öll þorp, öll bændabýli lögð í rústir. Meðal annara húsa, er þeir brenndu til rústa, var sumarheimili landsstjórans. Að lyktum höfðu þeir brennt hvert hreysi allt að virkisveggjunum. Slógu þeir þá tjöldum og hófu umsátur. Ivan Ogareff var vígkænn maður og fyllilega vaxinn því að ráða allri meðferð, að því er umsátina snerti. En menn hans og búningur var ekki þannig, að hann gæti farið fljótt, eða gert snögg áhlaup. Samt var hann ekki ánægður nú. Hann vildi eins og kunnugt er umfram allt ná til Irkutsk og hann hafði vonað að geta komið bæjarmönnum á óvart og óviðbúnum. En þegar til kom varð allt annað ofan á. Fyrst og fremst tafðist hergangan stórum fyrir orustuna í Tomsk. Í öðru lagi höfðu Irkutsk-búar búið miklu betur um sig, en hann hafði gert sér hugmynd um, að yrði mögulegt á svo stuttum tíma. Þetta tvent varð til að eyðileggja fyrirætlun hans. Eins og nú var komið neyddist hann til að hefja reglulega umsát. Að Ogareffs ráði gerði þó emírinn tvær tilraunir til að taka borgina með áhlaupi, en ekki varð annar árangur af því, en sá, að Tartarar féllu í hrönnum. Hann raðaði Törturum á virkisveggina, þar sem þeir voru lægstir og veikastir, en þeir máttu hverfa frá eftir að hafa misst fjölda af mönnum sínum. Stórhertoginn og liðsforingjar hans tóku drengilega á móti. Keisarabróðirinn var sjálfur fremstur í flokki og allir borgarbúar fylgdu fast á eftir, tilbúnir að falla með sæmd, ef ekki væri um sigur að gera. Í seinna áhlaupinu tókst Törturunum að brjóta eitt hliðið. Færðist þá leikurinn inn fyrir borgarveggina og var all-snörp orusta háð við efri endann á Bolchaiastræti, sem liggur frá fljótinu upp um bæinn og er tvær verstir á lengd. En orustan stóð ekki lengi. Kósakkarnir, lögregluliðið og borgarbúar allir gengu svo hart fram, að Tartararnir neyddust til að flýja. Þegar Ogareff sá hve illa gekk að vinna borgina með áhlaupi hætti hann við allar slíkar tilraunir, en fór að hugsa um ráð til að hafa sitt mál fram með undirferli. Þess hefir áður verið getið, að Ogareff ætlaði sér að komast inn í borgina, að koma sér í mjúkinn hjá stórhertoganum, verða trúnaðarmaður hans og að því búnu að svíkja borgina í hendur emírsins og samtímis að hefna sín á keisarabróðurnum. Giftakonan, Sangarre, hvatti hann óspart til að taka þetta ráðið og taka til starfa tafarlaust. Það var líka sannast, að tíminn mátti ekki líða þannig í aðgerðaleysi. Herflokkar Rússa voru vitanlega á leiðinni til Irkutsk úr Yakutsk-héraðinu. Þeir höfðu safnast saman meðfram Lena-fljótinu og voru nú á göngunni upp eftir Lena-dalnum. Að sex dögum liðnum mátti búast við þeim til borgarinnar. Ef að Irkutsk átti að vera svikin í hendur Tartaranna, hlaut það að gerast á næstu sex sólarhringum. Ivan Ogareff hikaði ekki lengi. Eitt kvöld, 2. október, var hermálafundur hafður í höll Austur-Síberíu-governörsins. Þar var heimili stórhertogans á meðan hann tafði í Irkutsk, og var hann á þessum fundi, sem haldinn var í hinum skrautlega stóra gestasal. Þessi höll stóð næst á fljótsbakkanum við Bolchaiastrætið, og sást þaðan langt upp og ofan eftir fljótinu. Út um hallargluggann sáust herbúðir Tartaranna fyrir handan fljótið, og hefðu Tartararnir haft með sér stærri og betri fallbyssum en þeir höfðu, hefðu þeir getað gert höllina ómögulega til íbúðar. Stórhertoginn, Voranzoff herforingi, governor yfir Austur-Síberíu, governor héraðsins og bæjarins og kaupmannahöfðinginn, eða borgarstjórinn, voru nú allir samankomnir á fundi, ásamt mörgum undirforingjum, til að ráða fram úr og heyra nýjar tillögur. »Herrar mínir«, sagði stórhertoginn, »þér vitið ástæður vorar allar. Það er mín staðföst von, að oss endist þróttur til að halda borginni þangað til liðsafli kemur norðan úr Yakoutsk, og þegar sá liðsafli kemur verður oss innan handar að reka þessa barbara af höndum vorum. Það verður ekki mín skuld ef barbararnir fá þá ekki að borga ærnu verði þennan ófrið innan landamæra Rússa!« »Þér vitið það, tignaði herra, að yður er óhætt að treysta á eindregið fylgi allra manna í Irkutsk«, sagði Voroanzoff hershöfðingi. »Já, herra hershöfðingi, það veit ég vel«, svaraði stórhertoginn, »og ég met að verðugu ættjarðarástina, er þannig kemur fram. Guði sé lof að þeir hafa enn ekki þurft að reyna hörmungarnar, sem fylgja hungursneyð eða drepandi landfarsótt, og það er von mín, að þeir sleppi við þær hræðilegu hörmungar. En hugrekki þeirra og hetjuskap í áhlaupum get ég ekki hrósað eins og verðugt er. Þér heyrið orð mín, herra kaupmaður. Flytjið þau til þeirra fyrir mig«. »Ég þakka yður, tignaði herra, í nafni bæjarmanna«, svaraði kaupmannahöfðinginn. »En má ég spyrja, hvenær í síðasta lagi þér eigið von á hjálparliðinu að norðan?« »Ekki seinna en að sex dögum liðnum«, svaraði stórhertoginn, »Hugrakkur og kænn sendiboði hrauð sér veg gegn um óvina-garðinn í morgun og komst inn í borgina með þær gleðifréttir, að fimmtíu þúsundir rússneskra hermanna undir stjórn Kisselefs hershöfðingja séu á hraðri ferð að norðan. Fyrir tveimur dögum voru þeir á bökkum Lena-fljótsins nálægt þorpinu Kirensk, og héðan af getur hvorki frost né snjór hindrað för þeirra. Við verðum brátt lausir þegar fimmtíu þúsundir vaskra hermanna koma Törturunum í opna skjöldu«. »Ég vil bæta því við», sagði þá kaupmannahöfðinginn, »að hvenær sem vorum tigna herra þóknast, skulum við tilbúnir að senda út flokk og gera Törturunum árás«. »Þakka yður fyrir herra minn«, svaraði stórhertoginn. »En það verður vænst að bíða með það þangað til bólar á framröð fylkinganna hérna á hæðunum. Þá skal ekki lengi standa á áhlaupi og sigurvinningi«. Sneri hann sér þá að Voranzoff hershöfðingja og hélt áfram: »Á morgun skulum við fara og skoða víggarðana til hægri handar. Það er æði-mikið ísrek í Angara og þess verður ekki langt að bíða, að ís leggi á fljótið. Ef svo fer, er ekki óhugsandi að Tartararnir komi yfir fljótið á ísnum«. »Viljið þér, tignaði herra, lofa mér að gera athugasemd?« spurði kaupmannahöfðinginn. »Já, gerið þér svo, herra minn«. »Ég hefi oftar en einusinni séð 30 til 40 stiga frost og framhaldandi ísrek í fljótinu, en engan heillegan ís í því. Þetta er óefað því að þakka, að áin er svo straumhörð. Ef þess vegna Tartararnir hafa engin önnur ráð til að komast yfir um fljótið, er ég sannfærður um að þeir vaða aldrei inn í Irkutsk með því móti«. Austur-Síberíu-governörinn samsinnti þetta, sagði rétt það er borgarstjórinn sagði. »Það er sérlega heppilegt að svo er«, sagði stórhertoginn. »Eigi að síður verðum vér að vera viðbúnir áhlaupi úr öllum áttum«. Að svo mæltu sneri stórhertoginn sér til lögreglustjórans og spurði hvort hann hefði nokkuð nýtt að segja. »Ég hefi, tigni herra, fram að bera bænarskrá til yðar, er mér var falin til meðferðar«, svaraði lögreglustjórinn. »Og höfundar hennar eru —?« »Útlagarnir í Síberíu, sem eins og þér, tignaði herra, eru um fimm hundruð alls í Irkurtsk«. Pólitísku sakamennirnir allir í héraðinu höfðu verið færðir til Irkutsk undireins og uppreistin var hafin. Þeir höfðu hlýtt boðinu, yfirgefið hin ýmsu þorp þar sem þeim hafði verið skipað að starfa, og héldu tafarlaust til höfuðborgarinnar. Sumir þeirra voru læknar, en sumir kennarar ýmist á leikfimisskólum, á japönsku skólunum, eða á siglingafræðisstofunni. Eins og keisarinn hafði áður gert, treysti stórhertoginn óragur á ættjarðarást þeirra. Hann hafði þess vegna búið þá alla sem bezt mátti að vopnum, og þeir höfðu síðan sannað, að þeir voru ótrauðir liðsmenn hans. »Um hvað biðja útlagarnir?« spurði stórhertoginn. »Þeir biðja um samþykki yðar, tignaði herra, til að stofna sérstaka herdeild og um leyfi til að vera í broddi fylkingar, þegar út verður dregið móti Törturunum«. »Já, svaraði stórhertoginn með viðkvæmni, sem hann reyndi ekki til að dylja »Þessir útlagar eru sannir Rússar, og þeir hafa fullan rétt til að berjast fyrir föðurland sitt«. »Ég held ég megi fullvissa yður um það, tignaði herra«, sagði Austur-Síberíu-governörinn, »að betri hermenn en þeir verða ekki í liði yðar«. »En foringja hljóta þeir að hafa, og hver verður það?« spurði stórhertoginn. »Þeir leyfa sér að mæla með einum úr sínum flokki til þess, tignaði herra«, sagði lögreglustjórinn. »Sá hinn sami maður hefir oftar en einu sinni gert sig frægan«. »Er hann rússneskur?« »Já, hann er rússneskur, úr héruðunum við Eystra-salt«. »Nafn hans er?« »Vassili Feodor«. Þetta var faðir Nadíu, sem hér var talað um. Hann hafði, eins og áður hefir verið getið um, stundað lækningar í Irkutsk. Hann var góður læknir og hjálpsamur. Var að auki hugdjarfur maður og sannur ættjarðarvinur. Ætíð og æfinlega, þegar hann var ekki bundinn við rúmstokk sjúklinga sinna var hann að efna upp á flokk til varnar og hvetja menn til að búa sig og bæinn sem bezt. Að útlagarnir allir voru á einu bandi með lifandi áhuga fyrir velferð föðurlandsins, var honum einum að þakka. Allt til þess hann myndaði þennan sérstaka flokk höfðu útlagarnir unnið sinn í hvoru lagi með bæjarbúum, en gengið svo vel fram í áhlaupunum, að stórhertoginn gat ekki annað en tekið eftir því. Þeir höfðu þannig sinn í hvoru lagi goldið með blóði sínu skuldina, sem þeim bar að greiða hinu »heilaga« Rússaveldi — það er heilagt veldi í þeirra augum og þannig elskað og dýrkað af börnum þess. Vassili Feodor hafði reynst sönn hetja. Nafn hans hafði oft verið nefnt í því sambandi, en sjálfur bað hann hvorki um þakkæti né hlunnindi. Og þegar útlagarnir sendu stórhertoganum bænarskrána hafði Feodor ekki minnstu hugmynd um að hann ætti að velja sem formann. Þegar þess vegna lögreglustjórinn nefndi nafn hans sagði stórhertoginn að sér væri nafnið ekki ókunnugt. »Það er áreiðanlegt«, sagði Voranzoff hershöfðingi, Vassili Feodor er hugrakkur maður og trúverðugur, Og áhrif hans á útlagana hafa æfinlega verið mikil«. »Hvað lengi hefir hann verið í Irkutsk?, spurði stórhertoginn. »Tvö ár«. »Og framkoma hans?« »Framkoma hans«, svaraði lögreglustjórinn, »hefir verið sæmandi hlýðnum manni, hlýðnum þeim sérstöku lögum, er stjórna honum. »Herra hershöfðingi!« sagði stórhertoginn. »Viljið þér gera svo vel að sjá um að þessi maður komi fram fyrir mig undir eins«. Þessari skipun stórhertogans var tafarlaust hlýtt. Innan einnar klukkustundar stóð Vassili Feodor frammi fyrir honum. Vassili var maður á fertugsaldri, hár vexti, alvarlegur og sorglegur á svip. Sá, sem leit hann gat ekki annað en viðurkennt, að eitt einasta orð: Stríð, lýsti allri lífsreynslu hans. Svipur hans allur sýndi svo greinilega að hann hafði strítt við mikið og liðið. Að öðru leyti gat engum blandast hugur um, að andlitslögun hans og Nadíu var einkar lík. Þessi Tartara herferð hafði sært hann þar sem hann sízt þoldi sár, útlagi eins og hann var, átta þúsund verstir frá öllum sínum með útkulnaðar, dauðar vonir í brjósti. Honum hafði borizt bréf, þar sem honum var gefið til kynna, að kona hans væri látin og samtímis það, að dóttir hans, Nadía, væri lögð af stað austur til hans, að fengnu leyfi yfirvaldanna, til að ferðast þangað og dvelja hjá honum í útlegðinni. Af bréfinu að ráða hafði Nadía farið frá Riga 10. júlí, eða fimm dögum áður en Tartara uppreisnin varð heyrum kunn. Ef hún hafði verið komin austur yfir Uralfjöll, þegar uppreisnin varð kunn, hvað varð þá um hana, mitt í þvögu barbaranna? Síðan hafði þessi óhamingjusami faðir aldrei heyrt neitt frá einkabarni sínu, og má af því ráða hvernig honum leið. Feodor gekk inn í salinn, þar sem stórhertoginn og höfðingjarnir sátu allir. Hann staðnæmdist á miðju gólfi og beið þess að hann væri ávarpaður. »Vassili Feódór!« sagði stórhertoginn. »Félagar yðar í útlegðinni hafa beðið um leyfi til að mynda sérstaka herdeild. Þeir vita og viðurkenna að í þeirri stöðu mega þeir búast við, ef til vill, að stráfalla, svo að enginn þeirra standi eftir«. »Þeir skilja það vel«, svaraði Feodór. »Þeir æskja eftir yður sem liðsforingja sínum«. »Æskja eftir mér, tigni herra?« »Viljið þér takast það á hendur?« spurði stórhertoginn. »Já, ef það er Rússlandi gagnlegt«. »Kapteinn Feodór!« sagði stórhertoginn. »Þér eruð ekki útlagi lengur!« »Ég þakka yður, tignaði herra, en ég ræð samt yfir mönnum, sem eru útlagar«. »Það er enginn þeirra útlagi framar!« Á einu augnabliki hafði bróðir keisarans svift ánauðarhlekkjunum af öllum útlögunum í Irkutsk. Þeir voru nú allir orðnir stríðsbræður hans. Hann rétti Feódór hönd sína og Feodór þrýsti að henni þétt og vingjarnlega, er hann gekk burtu klökkur og fagnandi. »Keisarinn neitar ekki, að staðfesta þessa uppgjöf«, sagði stórhertoginn, er Feodór var kominn út. »Vér þurfum á hetjum að halda til að verja höfuðborg Síberíu og ég hefi nú myndað nýjan hetjuflokk«. Þessi uppgjöf sekta, sem stórhertoginn svo drengilega hafði veitt, var í sannleika bæði réttlát og stjórnkænskubragð. Það var komin nótt. Út um hallargluggana sáust varðeldar Tartaranna hvarvetna fyrir handan fljótið. Niður eftir Angara flutu hrannir af ís, sem stundum strönduðu á stólpunum, sem brýrnar höfðu hvílt á. En flestir fóru jakarnir með flugferð niður eftir fljótinu. Það var auðsætt, eins og kaupmannahöfðinginn hafði sagt, að Angara var ekki nærri því að frjósa landanna á milli. Borgarbúar þurftu ekki að óttast áhlaup Tartaranna úr þeirri átt. Klukkan hafði rétt nýlega slegið tíu. Stórhertoginn var rétt í þann veginn að kveðja undirforingja sína og ganga til hvílu, þegar hávaði mikill heyrðist úti fyrir höllinni. Innan fárra augnablika var hurðinni slegið upp og einn aðstoðarmaður stórhertogans kom inn, gekk fram fyrir herra sinn og sagði: »Hér, tignaði herra, er kominn sendiboði frá keisaranum!« XIII. Hinn falski sendiboði. Stórhertoginn og allir viðstaddir stukku á fætur jafnsnemma, svo hissa urðu þeir. Sendiboði frá keisaranum, í Irkutsk! Ef þessir háu herrar hefðu hugsað um málið eitt augnablik, hefðu þeir séð hve ólíklegt var, að þetta gæti átt sér stað, og þar af leiðandi neitað að trúa eyrum sínum. Stórhertoginn gekk upp að aðstoðarmanni sínum og spurði hvatlega hvar sendimaðurinn væri. Samtímis gekk ókunnugur maður í salinn, sem virtist úrvinda alveg af þreytu. Hann var í búningi Síberíu-bændaþjóna, öllum götóttum og útslitnum og voru á klæðunum mörg göt eftir byssukúlur. Á höfðinu hafði hann sár mikið ný gróið. Hvar sem á hann var litið sást vottur um langa og þreytandi ferð, og skórnir sem hann hafði á fótunum báru vott um langan veg farinn gangandi. »Hinn tignaði herra, stórhertoginn!« sagði þessi maður, þegar hann var kominn inn. »Eruð þér sendiboði keisarans?« spurði stórhertoginn, sem tafarlaust hafði gengið til móts við komumann. »Já, tigni herra!« »Þér komið — —?« »Frá Moskva«. »Þér fóruð frá Moskva — —?« »15. júlí!« »Nafn yðar er?« »Mikael Strogoff!« Það var Ivan Ogareff, sem hér réði svörum. Hann hafði tekið sér nafn þess manns, sem hann treysti, að gerður hefði verið algerlega ófær til ferða. Hann vissi, að enginn maður í Irkutsk þekkti sig og treysti því, að eins væri með Mikael Strogoff. Þess vegna gerði hann jafnvel ekki tilraun til að breyta útliti sínu. Hann var brynjaður með öll gögn er þurfti til að sanna, að hann væri sendiboðinn. Það var þýðingarlaust fyrir nokkurn að efa framburð hans. Hann var því óragur, enda hugrakkur maður, að ganga fram fyrir bróður keisarans og á þann veg hraða aðgerðum í landráða- og drottinssvikamálnu, sem hann barðist fyrir. Eftir að Ogareff hafði þannig svarað, benti stórhertoginn meðráðamönnum sínum að ganga burtu. Innan stundar var hann einsamall eftir hjá erkisvikaranum, hinum falska sendiboða. Stórhertoginn starði um stund á Ogareff og athugaði hann allan nákvæmlega, án þess að mæla orð af vörum. Svo spurði hann: »Svo þér voruð í Moskva hinn 15. júlí?« »Já, tignaði herra! Og að kvöldi hins 14. talaði ég við hans hátign keisarann í nýju höllinni!« »Hafið þér bréf frá keisaranum?« »Það er hér!« Og Ogareff fékk hertoganum keisarabréfið samanhnoðað í örsmáa hnetu. »Var yður fengið bréfið í þessu ásigkomulagi?« spurði stórhertoginn. »Nei, tignaði herra! En ég var neyddur til að rífa af því umslagið til að gera það sem fyrirferðarminnst. Ég þurfti að fela það fyrir hermönnum emírsins!« »Tóku Tartararnir yður til fanga?« »Já, tignaði herra! Ég sat í varðhaldi hjá þeim marga daga«, svaraði Ogareff. »Því varðhaldi er það að kenna, að ég sem fór frá Moskva 15. júlí náði ekki til Irkutsk fyrr en 2. Október, — eftir 79 daga ferð«. Stórhertoginn tók við bréfinu, greiddi úr því og þekkti þegar rithönd bróður síns, keisarans, og einkunnarorðin, sem fylgdu undirskriftinni. Það var engin, ekki minnsta ástæða til, að efa bréfið og þá ekki heldur þann, sem flutti það. Þó svipur Ogareffs hefði í fyrstu vakið grunsemi hjá stórhertoganum, gaf hann þess vel gætur að svipur sinn eða viðmót lýsti í engu þeirri grunsemi. Hann las bréfið upp aftur og aftur og ofur seint, í því skyni að misskilja ekki eitt einasta orð af innihaldi þess. Eftir nokkurrar stundar þögn spurði hann bréfberann: »Vitið þér, Mikael Strogoff, innihald þessa bréfs?« »Já, tignaði herra! Það gat komið fyrir að ég yrði neyddur til að eyðileggja það, svo að það ekki kæmist í hendur Tartaranna. — Í því tilfelli vildi ég vita innihald þess, svo að ég samt gæti komið hinum tignaða herra að liði!« »Þér vitið þá að oss er boðið að láta fyrr lífið, mann fyrir mann, en gefa upp borgina?« »Ég veit það!« svaraði Ogareff. »Þér vitið einnig, að í bréfinu er sagt frá hermanna ferðum, sem eiga að eyða uppreisninni?« »Já, tignaði herra! En þær ferðir hafa ekki tekizt!« »Hvað meinið þér?« »Ég meina það, að Ishim, Omsk og Tomsk, svo nefndin séu að eins hinir stærri bæir í Síberíu, eru fallnir í hendur emírsins og að Feófar Khan nú hefir setulið sitt í þessum bæjum«. »En orustur hafa átt sér stað? Hafa ekki Kósakkar vorir barizt við Tartarana?« »Oft, tignaði herra!« »Og voru þeir yfirbugaðir?« »Þeir voru ekki nógu margir saman til að standa fyrir óvinahernum«. »Hvar áttu orusturnar sér stað, sem þér talið um?« »Að Kolyvan og Tomsk — —«. Til þessa hafði Ogareff ekki sagt annað en það sem satt var, en í því skyni að kveikja ótta hjá Irkutsk-búum, með því að ýkja sigurvinninga emírsins, bætti hann þessu við: »Og í þriðja skiftið við Krasnoiarsk!« Og hvað um þessa seinustu viðureign?« spurði stórhertoginn, sem kreisti svo saman varirnar, að hann kom orðunum með naumindum út úr sér. »Það var meira en lítilfjörleg viðureign, tignaði herra svaraði Ogareff. »Það var skæð orusta!« »Skæð orusta?« »Já, tignaði herra! Þar réðust tuttugu þúsundir rússneskra hermanna úr landamærasveitunum og úr Tobolsk-héraði á hundrað og fimmtíu þúsundir Tartara, og þrátt fyrir hrausta framgöngu voru þeir ofurliði bornir!« »Þér ljúgið!« hrópaði stórhertoginn, sem ekki réði sér lengur, þó hann reyndi af fremsta megni að stilla sig. »Ég segi satt, tignaði herra!« svaraði Ogareff kuldalega. »Ég var sjálfur viðstaddur og það var í Krasnoiarsk, að ég var handtekinn!« Stórhertoginn stillti sig og lét Ogareff skilja það með bendingum fremur en orðum, að hann tryði honum. »Hvaða mánaðardag átti þessi orusta að Krasnoiarsk sér stað?« spurði stórhertoginn. »Hinn 2. september!« »Og nú er allur Tartara-herinn samansafnaður umhverfis Irkutsk?« »Já, tignaði herra!« »Hvað er áætlun yðar um fjölda Tartaranna?« »Um fjögur hundruð þúsund hermanna!« Þetta var ósatt líka, en framsett í sama augnamiði og ýkjurnar um orusturnar, — því, að skjóta stórhertoganum skelk í bringu. »Og ég á þá ekki von á nokkrum liðsafla úr vestur-héruðunum?« »Nei, tignaði herra, að minnsta kosti ekki fyrr en í lok vetrarins!« »Jæja! En heyrið orð mín, Mikael Strogoff! Þó ég eigi ekki von á liðsafla að austan eða vestan og það jafnvel þó barbarar þessir væru sex hundruð þúsundir saman, skal ég aldrei að heldur gefa Irkutsk upp!« Ogareff lukti sínum illu augum til hálfs. Hann hugsaði sem svo, að hinn hái herra hefði litla hugmynd um svikaráðin öll, sem í bruggi voru. Stórhertoginn var örlyndur maður og geðstór og átti þess vegna örðugt með að halda sér í skefjum á meðan hann hlýddi á allar þessar hrakfarasögur. Hann gekk aftur og fram um gólfið og gætti þess ekki, að Ogareff leit til hans einsog barbörunum sýndist. Hann stanzaði endur og sinnum við gluggana og horfði á varðelda Tartaranna og hlustaði eftir skarkalanum, sem orsakaðist einkum af sífelldum árekstri jakanna í fljótinu. Þannig leið fjórðungur stundar, að hann talaði ekki orð. Að þeim tíma liðnum tók hann bréfið, las kafla úr því og sagði síðan: »Þér vitið þá, Mikael Strogoff, að ég er varaður við svikara einum, sem mér sé hættulegur?« »Já, tignaði herra, ég veit það«. »Hann á að gera tilraun til að smjúga um vörðinn inn í borgina í dularklæðum, ná hylli minni og þegar hans tími kemur, að svíkja mig og borgina í hendur Tartaranna«. »Þetta allt veit ég tignaði herra. Ég veit það líka, að Ivan Ogareff hefir svarið að hefna sín persónulega á bróður keisarans!« »Hvers vegna?« spurði stórhertoginn. »Það er sagt að þessi liðsforingi, þessi Ogareff, hafi verið sviftur stöðu sinni og stórlega lítillækkaður, og að þér, tignaði herra, hafið kveðið upp þann dóm«. »Já, — ég minnist þess. En það, að fantur þessi skuli síðan æsa barbaraþjóðir gegn föðurlandi sínu, er sönnun fyrir því, að niðurlæging hans var verðskulduð«. »Hans hátign, keisarinn«, sagði Ogareff, »lét sér umfram allt annt um að þér, tignaði herra, fengjuð vitneskju um fyrirætlanir Ivan Ogareffs að hefna sín á yður sjálfum«. »Já, svo segir bréfið líka«. »Og hans hátign talaði um það atriði við mig sjálfan og bað mig umfram allt á ferð minni austur um Síberíu, að vara mig á svikaranum«. »Hittuð þér hann á þeirri ferð?« »Já, tignaði herra, eftir orustuna við Krasnoiarsk. Hefði hann þá haft grun á hver ég var, að ég hefði í vörslum mínum bréf til yðar, tignaði herra, þar sem fyrirætlanir hans væru opinberaðar, þá hefði ég ekki losnað eins létt og ég gerði«. »Nei, þér hefðuð þá verið glataður«, svaraði stórhertoginn. »En á hvern hátt tókzt yður að sleppa?« »Með því að fleygja mér í fljótið Jenesei!« »En hvernig komust þér inn í Irkutsk?« »Með herflokk litlum, sem í kvöld var sendur út til að reka Tartarana lengra burtu frá borgarveggjunum. Ég gekk í lið þeirra, gerði þeim kunnugt hver ég var og var þá undireins vísuð leið til yðar, tignaði herra!« »Vel að verið, Mikael Strogoff«, sagði stórhertoginn. »Þér hafið í þessari örðugu ferð sýnt bæði þor og dugnað. Ég skal ekki gleyma yður. Hafið þér einskis að biðja, sem ég get veitt yður?« »Nei, ekki nema ef vera skyldi leyfi til að berjast við hlið yðar, tignaði herra!« svaraði Ogareff. »Sú bæn er þegar veitt, Strogoff. Frá þessari stundu eruð þér einn af mínum sérstöku fylgismönnum og skuluð þér hafa heimili hér í höllinni!« »Og Ivan Ogareff skyldi gera tilraun til, eins og fyrirætlun hans er, að nálgast yður, tignaði herra, undir fölsku nafni — —«? »Þá flettum við grímunni af þorparanum, með yðar hjálp, þar sem svo vel vill til að þér þekkið hann«, svaraði stórhertoginn áður en Ogareff gæti ent við spurninguna, og hélt svo áfram: »Og deyja skal hann undir knuts-höggunum. Þér megið fara!« Ivan Ogareff kvaddi stórhertogann samkvæmt hermannasið. Hann gleymdi því ekki að hann var hér að leika kaptein í sendiboðaliði keisarans. Til þessa hafði Ogareff haldið vel á sínum óverðugu spilum. Hann hafði þegar náð ótvíræðri hylli stórhertogans. Það traust var honum nú innanhandar að hagnýta sér hvenær sem honum sýndist, með því að svíkja hertogann og borgina í hendur Tartaranna. Hann átti jafnvel að hafa bústað í sjálfri höllinni. Með því móti gafst honum færi á að kynnast öllum fyrirmælum áhrærandi vörn borgarinnar. Þannig hafði hann alla borgina og allt sem í henni var í hendi sinni. Í borginni var ekki einn einasti maður, sem þekkti hann og þess vegna engin hætta á að gríman yrði rifin af honum. Hann ásetti sér nú að taka til starfa tafarlaust. Það var líka áríðandi, því innan fárra daga var von á liðsstyrknum að norðan og austan. Næðu Tartararnir Irkutsk áður en liðsafli kæmi, var ekki auðgert að hrífa borgina úr höndum þeirra aftur. Undir öllum kringumstæðum gátu þeir þó haldið borginni fyrir Rússum þangað til hún væri öll lögð í rústir og þangað til höfuð stórhertogans hefði verið losað við bolinn og því velt að fótum emírsins. Ivan Ogareff hafði alla hentugleika á að sjá, heyra og skoða, enda lagði hann af stað morguninn eftir til að skoða virkisveggina, og var að því allan daginn. Honum var hvarvetna heilsað með fögnuði og þakklátssemi, hvort heldur hann hitti herforingja, hermenn eða borgara. Í augum allra stétta manna var þessi sendiboði keisarans sá þáttur bróðurbandsins, sem enn tengdi þá meðborgurunum í aðal-veldi Rússa. Ogareff hafði nógar sögur að segja, sögur, sem hann bjó til eftir þörfum úr ferð sinni austur. Og úr þeim sögulestri færði hann sig með aðdáanlegri slægð að aðalmálefninu — ástandinu í Irkutsk. Án þess að taka djúpt í árinni fyrst framan af, talaði hann þannig, að þeir sem til heyrðu skyldu gugna, ofbjóða hve illa þeir voru settir, og fjöldi Tartaranna, sem umkringdi þá, því um þetta ýkti hann, eins og hann framast þorði. Eftir því sem hann sagði var liðstyrkurinn væntanlegi algerlega ónógur til að brjóta Tartarana á bak aftur, og svo þótti honum að auki efasamt að sá liðsafli nokkurntíma kæmi. Hann lét menn greinilega skilja það að kæmi liðsaflinn, myndi orusta háð undir borgarveggjunum í Irkutsk, fara alveg eins og þær í Kolyvan, Tomsk og Krasnoiarsk. En ekkert slíkt sagi hann þó með berum orðum, en talaði þannig í kringum málefnið, að áætlun hans varð ekki skilin nema á einn veg, án þess þó hægt væri að herma nokkuð þvílíkt eftir honum. Þess meir sem hann var spurður um þetta og þegar hann einusinni hafði komið inn grunsemi, var ekki skortur á forvitni og spurningum, þess meir, sem hann var spurður, þess tregari lézt hann vera að svara. Og æfinlega endaði hann ræðu sína með því, að þeir yrðu að berjast meðan nokkur stæði og sprengja upp borgina að síðustu, heldur en gefa hana í hendur Tartaranna. En þó menn nú væru forvitnir og fúsir að hlýða á þessar sögur Ogareffs, höfðu þær furðu lítil áhrif, miklu minni en sögumaðurinn vonaði. Borgarmenn voru of miklir föðurlandsvinir og of einbeittir til þess að láta bugazt af ágiskunum. Þeim til heiðurs má segja það, að ekki einum einasta manni af öllum þeim, sem þarna voru inniluktir út úr heiminum, lengst austur í Asíu, kom ekki einum einasta til hugar að gefast upp eða semja við Tartarana. Þeir, eins og Rússar alment, fyrirlitu barbarana of mikið til þess. En engum manni kom til hugar að gruna Ogareff, engum gat dottið í hug að þessi sendiboði keisarans, sem lézt vera, væri í raun og veru ærulaus föðurlandssvikari. Það átti sér vitanlega oft stað að fundum þeirra Ogareffs og Vassili Feodórs, hugrakkasta liðsforingjans í borginni, bar saman. Lesaranum er þegar kunnugt hvað Feodór leið. Ef dóttir hans, Nadía Feodór, hefði farið út yfir takmörk Rússlands á tilætluðum tíma samkvæmt bréfi hennar frá Riga, hvað var þá orðið af henni? Var hún enn að brjótast áleiðis austur um hin herteknu héruð, eða hafði hún, verið tekin til fanga fyrir löngu, síðan? Eina svölunin, sem Feodór fékk, var þegar hann mátti ganga út og berjast við Tartarana, en þær svölunarstundir, voru allt of fáar enn. Þegar Feódór þess vegna frétti um óvænta komu sendiboða keisarans, kviknaði hjá honum ofurlítill vonarneisti. Honum þótti ekki óhugsandi að þessi maður gæti sagt sér eitthvað um dóttur sína. Það var ef til vill ástæðulítið að vona slíkt, en samt var þessi óljósa hugmynd hans ofurlítil hugfróun, og ástæðulaust var það alveg, að vona þannig. Hafði ekki sendiboðinn sjálfur verið handtekinn? Feódór leitaði þess vegna tækifæris til að finna sendiboðann að máli og hagnýtti Ogareff sér svo til þess að koma sér í mjúkinn hjá honum. Ef til vill hugsaði svikarinn sér að hafa gagn af þeirri væntanlega nánu viðkynningu. Honum kom máske í hug að Feodór yrði tilbúinn að ganga í lið föðurlandssvikarans, af því hann var útlagi, eða hafði verið það. Hverjar helzt sem hugmyndirnar voru í því efni, svaraði Ogareff spurningum hins harmþrungna föður með sérlega velþóknanlegri uppgerðar blíðu og viðkvæmni. Feodór hafði ekki látið dragast að fara á fund Ogarefs. Hann gerði það sama kvöldið og svikarinn kom inn í borgina, og Ogareff sem sagt tók honum svo hlýlega, að Feodór sagði honum nákvæmlega frá öllum atvikum áhrærandi för dóttur sinnar frá Riga. Ogareff þekkti Nadíu ekki, þó hann hefði séð hana í Ishim, þegar hann fyrst hitti Mikael Strogoff. En í það skiftið tók hann ekki eftir henni fremur en fregnritunum tveimur, sem þá voru viðstaddir. Hann gat þess vegna engar upplýsingar gefið Feodór, en svo spurði hann: »Um hvaða leyti hefir dóttir þín farið yfir landamærin?« »Um sama leyti og þú«, svaraði Feodór. »Ég fór frá Moskva 15. júlí«. »Og Nadía hefir hlotið að fara þaðan helzt sama daginn. Bréf hennar sagði svo afdráttarlaust«. »Var hún í Moskva 15. júlí?« spurði Ogareff. »Það held ég sjálfsagt«. »Ja!...« svaraði Ogareff, hugsaði sig svo ögn um og hélt svo áfram, »en nei, það er ekki. Ég ruglast í dögunum! Því miður eru allar líkur til að dóttir þín hafi komizt austur yfir Uralfjöll, áður en ástæðurnar urðu kunnar. Það eina, sem þú getur huggað þig við er þess vegna sú von, að hún hafi sest um kyrt undir eins þegar víst var hvað Tartararnir voru að gera«. Vonarljós föðursins slokknaði á ný. Hann þekkti Nadíu og vissi þess vegna að engar torfærur mundu aftra henni að halda áfram. Ogareff hafði þannig að orsakalausu sært hjarta Feodórs. Honum var allt eins létt um að hughreysta hann og það hefði hann getað með einu orði. Hann gat sýnt honum fram á það með því að telja tímann og gera ráð fyrir, að hún hefði farið frá Moskva samdægurs og hann, að skipun keisarans, sem birt var í Nijni-Novgorod, og sem bannaði rússneskum þegnum að fara burt úr héraðinu, án nokkurs tillits til þess hvaða áríðandi erindi þeir höfðu. Ef hann hefði sagt Feodór frá þessu, var auðsætt hve líklegt var, að þar, í Nijni-Novgorod, sæti hún enn síðan ferðin var bönnuð. Góðgjarn maður, sem hugsað hefði um tilfinningar annara og komist við af þeim, hefði skýrt frá þessu og þannig hughreyst föðurinn. En það gerði Ogareff ekki. Hann fann ekki til meðaumkunar né hluttöku í kjörum annara. Vassili Feodór gekk heim frá þessum fyrsta fundi við svikarann, hryggur og niðurdreginn. Hans einasta vonarljós var slokknað. Á tveimur næstu dögunum, 3. og 4. Október, talaði stórhertoginn oft við hinn ímyndaða Mikael Strogoff og lét hann hvað eftir annað segja sér öll þau orð, sem hann kynni að hafa heyrt ráðgjafa keisarans tala í nýju höllinni í Moskva. Ogareff var við öllu slíku búinn og stóð aldrei á svörum hjá honum. Það var ekki óviljandi að hann sagði hvað þessi herferð Tartaranna kom stjórninni á óvart, að allur tilbúningur Tartaranna hefði verið svo leynilega gerður, að enginn hefði haft minnsta grun fyrr en allt var komið á ferð og flug, að Tartararnir hefðu þegar verið búnir að hertaka þjóðvegi alla umhverfis Obi og banna samgöngur, þegar fréttin komst til Moskva, og að síðustu, að Rússastjórn á engan hátt verið við búin, né haft herflokka tilbúna til Síberíu-farar, sem þurfti til að yfirbuga uppreisnarmennina. Ogareff, sem sagt, lagði sig fram til að rannsaka víggirðingarnar allar og sjá hvar þær væru veikastar fyrir. Hann þurfti að vera þeim nákunnugur, ef svo skyldi fara, fyrir eitthvert óhappa tilfelli, að honum yrði ómögulegt að framkvæma svikaráð sín. Sérstaklega lagði hann sig fram til að athuga Bolchaia-hliðið og garðinn í grennd, því þar leizt honum ráðlegast að hleypa meginher Tartaranna inn. Að kvöldi hins 4. október gerði Ogareff sér tvær ferðir upp að Bolchaia-hliðinu og gekk óhræddur upp á veggina og út að skotgarðinum á útröndinni. Hann var óhræddur af því herbúðir Tartaranna voru í mílu fjarlægð, og mundu þeir þess vegna ekki sjá þó einn maður væri á gangi eftir virkisveggjunum. Þetta var álit borgarmanna. Sjálfur var hann þar í sínum sérstöku erindagerðum. Þó skuggsýnt væri þegar hann var á þessari ferð, þóttist hann kannast við svipinn á skugga nokkrum skamt frá hliðinu að utan, og sem smámsaman færðist nær og nær hliðinu. Sangarre var þar á ferðinni. Hún hafði hætt lífi sínu í því skyni, að ná boðskap frá Ogareff. Törturunum var farið að leiðast aðgerðaleysið. Frá því herferðin var hafin, höfðu þeir aldrei haft eins kyrrt um sig eins og báða þessa daga — 3.— 4. okt. Þetta var samkvæmt boði Ogareffs. Hann sagði svo fyrir, að hætt skyldi öllum tilraunum til að taka borgina með áhlaupi. Þess vegna hafði ekkert verið gert í tvo síðastliðna daga. Með því vonaði hann líka, að draga úr árvekni borgarbúa og í því skyni eflaust, höfðu formenn Tartaranna svo þúsundum hermanna skifti tilbúna að gera áhlaup á hverri stundu, ef fregn kæmi frá Ogareff um, að fækkað væri varðmönnum við eitthvert hliðið og því gerlegt að gera tilraun. Þetta hafði ekki tekist, en stundin var eigi að síður komin. Hann mátti ekki lengur draga sitt fyrirsetta verk. Borgin hlaut að vera í höndum Tartaranna áður en bólaði á undanreiðarmönnum Rússa að norðan. Hann var líka tilbúinn nú, og í rökkrinu lét hann bréfmiða detta út yfir skotgarðinn. Sangarre var nærstödd og greip hann tveim höndum. Kvöldið næsta á eftir, eða aðfaranótt hins 6. okt., skyldi verkið framkvæmt. Þá klukkan 2 um nóttina ætlaði Ivan Ogareff að selja borgina með öllu, sem í henni var, í hendur Tartaranna. XIV. Aðfaranótt hins 6. október. Ráð Ogareffs var vel hugsað og ef óvænt slys ekki kæmi fyrir gat naumast annað verið, en að hann yrði sigursæll. Það, sem fyrst fremst var áríðandi, var það, að Bolchaia-hliðið yrði mannlaust, eða því sem næst. Hann átti því eftir að fá borgarmenn til að taka liðið burt þaðan og til þess átti emírinn að hjálpa honum. Um það var bréfið, sem Sangarre tók við. Aðal-áhlaupið átti að gera frá tveimur hliðum í senn, upp og ofan með ánni. Þar átti að vera alvara í áhlaupinu, en jafnframt átti að láta sem aðal-áhlaupið kæmi handan yfir fljótið. Þeim megin sem Bolchaia-hliðið var, áttu Tartararnir að rjúfa herbúðir sínar og halda burt þaðan. Væri þá Törturunum auðgert, að brjóta það upp og koma að borgarmönnum óviðbúnum þeim megin. Fimti dagur október-mánaðar var runninn upp. Innan sólarhrings áttu nú Tartarar að hafa lyklavöld borgarinnar og stórhertoginn átti að vera á valdi Ogareffs. Allan daginn var mikið um að vera í herbúðum Tartaranna fyrir handan fljótið. Þeir, sem í höllinni voru sáu út um gluggana, að þar var allt á ferð og flugi. Herflokkar Tartara komu úr öllum áttum og settust að í þyrpingunni milli búðanna. Það voru augsýnilega engar tilraunir gerðar til að dylja fyrirætlanir emírsins, fyrirætlanir, sem áttu að villa borgarmönnum sjónir. Ogareff duldi stórhertogann þess ekki heldur, að megináhlaupsins væri nú von handan yfir fljótið. Samtímis yrði og gert áhlaup all-mikið með fram ánni, bæði að ofan og neðan við borgina. Það væri um að gera að draga sem mest lið á þessar stöðvar allar. Það var og gert að ráði Ogareffs, sem ekki þreyttist á, að sýna þörfina á öruggum útbúnaði fram með ánni og í grennd við hana. Herstjórnarfundur var kallaður saman í höllinni og á honum afráðið, að fylkja sem þéttast á fyrr-greindum stöðum. Enn þá gekk Ogareff allt að óskum. Hann bjóst ekki við, að Bolchaia-hliðið yrði skilið eftir varnarlaust, en svo varnarlítið, að þar yrði engin fyrirstaða. En hugmynd hans var, að hafa aðsóknina með fram ánni svo mikla, að stórhertoginn væri neyddur til að hafa þar mest allt lið sitt. Þessi falsbúningur var svo vel gerður, að þó hvergi hefði verið gert verulegt áhlaup nema á Bolchaia-hliðið, var öll von til að afleiðingarnar yrðu hræðilegar. Borgarmenn mundu ærast af ótta og allt fara í ráðleysi, er margar þúsundir Tartara kæmu að baki þeirra, og það voru margar þúsundir Tartara, sem biðu eftir framgönguleyfi, huldir í skóginum fyrir austan borgina. Og eins og nú stóð, voru öll líkindi til, að þeir fengju það framgönguleyfi á tilteknum tíma. Það var unnið af kappi í Irkutsk allan daginn. Það stóð nú til að mæta áhlaupi úr þeirri átt, sem enga hafði grunað til þessa. Þeir stórhertoginn og Vorenzoff hershöfðingi voru allt af á ferðinni og að þeirra boði var enn tekið til að styrkja virkisveggina hér og þar. Fylking sú, er Vassili Feodór stýrði, útlagafylkingin, var skipað svæði í norðurhluta borgarinnar, með því skilyrði, að Feodór væri leyfilegt að halda þaðan í hverja átt er honum sýndist hættan mest. Á virkisvegginn fram með ánni hafði nú verið raðað öllum fallbyssunum, er borgarmenn höfðu ráð á. Að þessu öllu loknu virtist öll von til, að hið væntanlega áhlaup yrði þýðingarlaust, og Ivan Ogareff auðvitað var þakkað, að þessi ráð til varnar voru tekin í tíma. Færi svo, sem borgarmenn vonuðu, að þeir yrðu yfirsterkari enn, var öll von til, að Tartararnir mistu móðinn og gerðu ekki tilraun aftur fyrr en eftir fleiri daga, og þá var sannarlega von til að her Rússa að norðan yrði kominn. Það mátti vonast eftir þeim liðsafla nú á hverri stundu. Eins og stóð héngu örlög borgarinnar á ærið grönnum þræði. Þennan dag ársins var sól á lofti rétt 11 klukkustundir, kom upp að morgni klukkan 6,40 og gekk undir klukkan 5,40 að kvöldi. Þegar bjart var loft varð ekki dimmt að kvöldi, fyrr en 2 stundum eftir sólarlag. En nú var loft þakið skýjum og von á niðamyrkri eftir dagsetur. Það út af fyrir sig var stór vinningur fyrir Ogareff og Tartaranna. Frostið hafði verið grimmt um nokkra undanfarna daga og þennan daginn var það venju fremur heljarlegt. Það bentu allir hlutir á, að Síberíu-veturinn langi væri á mestu nesjum. Hermennirnir, sem huldu sig á bak við skotgarðana, máttu ekki kveikja elda, né víkja af stöðusviði sínu, og tóku þeir meira en lítið út af kulda. Fá fet fyrir neðan ruddist jakaröst niður eftir fljótinu, sem farið hafði vaxandi um daginn og þakti nú fljótið bakkanna á milli. Um þennan jakaburð þótti stórhertoganum og herforingjum hans öllum vænt. Héldi ís-rekið þannig áfram yrði illmögulegt, ef ekki gersamlega ómögulegt, að komast yfir fljótið. Eins og stóð gátu Tartararnir hvorki notað báta eða fleka. Þá var ekki tilhugsandi, að þeir kæmu á ísnum. Þó jakarnir væru máske svo þéttir, voru þeir ekki nógu sterkir til að þola óslitna hermannaröð. Fljótið virtist banna allt áhlaup úr þeirri átt. Það mátti virðast, að Ogareff litist illa á þetta, þar sem það lofaði svo góðu fyrir borgarmenn. Honum fannst samt ekkert til um það. Föðurlandssvikaranum var það vel kunnugt, að enga tilraun átti að gera til að komast yfir fljótið, að allur viðbúnaður Tartara fyrir handan það var gerður í þeim tilgangi einum, að villa borgarmönnum sjónir. En um klukkan 10 um kvöldið brá svo undarlega við, að áin, sem til þessa hafði verið bráðófær, var nú slarkfær vel. Þetta undruðust borgarmenn og leizt ekki á. Fljótið var allt í einu orðið hreint, og jakalaust. Þar sem bakkanna á milli var óslitin hrönn af ís fyrir fáum stundum, þar voru nú ekki nema örfáir jakar sýnilegir í senn. Og þessir fáu sem nú voru á ferðinni, voru alveg ólíkir þeim, sem fram hjá fóru undanfarna daga. Þessir voru sléttir og flatir, eins og væru þeir brot af lag-ísfláka, þar sem hinir höfðu verið í háum, ósléttum hrönnum og í öllum myndum. Þessar einkennilegu fréttir færðu liðsforingjar stórhertoganum. Var þá getið til, að stífla hefði myndast einhversstaðar í mjódd í fljótinu, að lagís hefði þá myndast neðan við hana og þaðan væru þessir jakar, sem nú væru á ferðinni. Lesendunum er kunnugt, að þetta var rétt til getið. Allt í einu, á svona óvæntan hátt, var Törturunum þannig gefið tækifæri til að fara yfir fljótið. Af því var auðsæ þörfin á þeim mun öflugri verði fram með fljótinu. Svo leið til miðnættis, að ekkert sögulegt gerðist. Austur frá borginni fyrir handan Bolchaia-hliðið heyrðist ekkert né sást. Ekki allra minnstu ljósglætu lagði út úr myrkviðnum austurundan, sem nú var óaðgreinanlegur frá biksvörtu skýjahafinu yfir höfði manna. Aftur á móti blikuðu ljós hér og þar fyrir handan fljótið, hurfu ýmist eða komu í ljós og voru á sífelldu flökti fram og aftur. Það var öll ástæða til að ætla, að þar stæði eitthvað mikið til. Irkutsk-megin við fljótið, bæði upp og niður með því, heyrðist dimmur skarkali og þytur. Var það sönnun fyrir því, að Tartararnir voru á ferli og biðu eftir bendingu úr einhverri átt. Svo leið annar klukkutími, að ekkert gerðist. Klukkan stóra á dómkirkju-turninum var í aðsigi með að slá 2 um nóttina. Og enn sást enginn vottur þess né heyrðist, að áhlaup á borgina væri fyrir hendi. Stórhertoginn og herforingjar hans voru farnir að hugsa, að allt þetta væri misskilningur. Hafði það virkilega verið ásetningur Tartaranna að gera áhlaup í náttmyrkrinu? Næstu nætur á undan hafði verið miklu meiri ókyrrð í búðum Tartaranna. Byssuskot höfðu þá riðið af öðru hvoru, en núna var allt hljótt eins og gröfin. Samt kom þeim ekki í hug að ganga til svefns. Þeir biðu allir, stórhertoginn, Voranzoff hershöfðingi og aðstoðarmenn þeirra, tilbúnir að skipa fyrir sem þyrfti. Þess hefir verið getið, að Ogareff hafði bústað í höllinni. Herbergi hans, stórt og mikið, var á fyrsta sal, og úti fyrir glugganum, sem var á hjörum, var stór pallur. Ef gengið var útá hann og eftir honum örfá fótmál, blasti við fljótið rétt fram undan. Það var koldimmt í herbergi Ogareffs, en samt var hann þar inni. Hann stóð hreyfingarlaus við gluggann og beið stundarinnar, því hann einn og enginn annar átti að gefa merkið, er hleypti Törturunum af stað. Eftir að hafa gert það, og þegar meginhluti borgarmanna tæki til að verja borgina, var fyrirætlun hans að laumast burt, komast til sinna manna og reka smiðshöggið á. Nú grúfði hann sig í skugganum, eins og villidýr, sem er í þann veginn að hremma herfangið. Fáum mínútum fyrir klukkan 2 gerði stórhertoginn boð eftir Mikael Strogoff — það var auðvitað eina nafnið, sem svikarinn gekk undir, — og æskti eftir að hafa tal af honum. Einn þjónninn gekk að herbergisdyrum hans, en þær voru læstar. Hann kallaði, en fékk ekkert svar. Ogareff gætti þess vel að láta ekkert heyrast til sín. Stórhertoginn þess vegna fékk þá fregn, að sendiboðinn væri ekki í höllinni þá í svip. Svo sló dómkirkjuklukkan 2. Nú var hin ákveðna stund komin, þegar Tartararnir skyldu hefja falsáhlaupið, sem fyrirhugað var. Ivan Ogareff opnaði gluggann, gekk út á pallinn og þangað sem áin blasti við augum hans. Það var þungur straumur í Angara og var að heyra sem fossnið þaðan, sem brúarstólparnir gömlu stóðu og heftu framrás straumsins. Ogareff tók eldspítu upp úr vasa sínum, kveikti á henni og svo á hönk af togi, sem fínu púðri hafði verið dreift um. Svo kastaði hann hönkinni í fljótið. Það var að ráði Ogareffs, að steinolíunni allri hafði verið helt í fljótið. Og það var engin þurð á steinolíu í þessari grennd. Steinolíulindir voru margar á litlu sviði upp með fljótinu að austan. Þetta vissi Ogareff, og þessum ógurlegu vopnum vildi hann beita, til að slá eldi í borgina. Upp með ánni voru mörg keröld full af olíu og þau tóku Tartarar að boði Ogareffs. Keröldin, eða byrgin, sem olían var geymd í, voru þannig sett, að ekki þurfti annað en brjóta gat á einn vegg, til þess að olían öll rynni út í fljótið. Þetta hafði verið gert fáum klukkustundum síðar, og þetta var ástæðan til þess, að flekinn, sem bar þau Strogoff og Nadíu og fregnritana, flaut ekki á vatni, heldur á olíu. Olían flóði í stórstraumum úr keröldunum út í fljótið og dreifði sér um það í þykku lagi bakkanna á milli. Þetta er sýnishorn af hernaðaraðferð Ivan Ogareffs! Í flokki Tartaranna var hann sannur Tartari sjálfur, og það í sókn gegn landsmönnum sínum. Toghönkinni hafði sem sagt verið kastað út á Angara-fljótið. Og á næsta augnabliki, eins og rafmagnsflug hefði farið um loftið, var allt fljótið í einu báli bakkanna á milli og upp og niður eftir því, svo langt sem sást. Bláir eldstólpar stigu upp af ánni bakkanna á milli og kafþykkur reykjar- og gufumökkur steig hátt í loft upp. Þeir fáu jakar, sem eftir voru, á ferðinni niður fljótið, lentu auðvitað í þessu ógna olíuflóði og báli og bráðnuðu eins og vax á eldheitum ofni. Heyrðist suðan langar leiðir er þeir voru að uppleysast. Samtímis og þessi ógna-eldur kom upp, hófst skothríð bæði fyrir sunnan og norðan bæinn. Margar þúsundir Tartara réðu nú á virkisveggina og að baki þeirra voru fallbyssurnar, sem létu sprengikúlur dynja á húsunum í nágrenninu. Það voru flest timbur hús og kviknaði í þeim á augnabliki. Náttmyrkrið var rofið. Bálið á ánni og húsin í loga lýstu upp meginhluta bæjarins og nágrennið allt. »Um síðir!« varð Ogareff að orði. Hann hafði góðar ástæður til að fagna. Ráð hans höfðu tekist að óskum, hræðileg eins og þau voru. Íbúar bæjarins voru nú virkilega milli tveggja elda, — þurftu í senn að verjast eldinum á fljótinu og skothríð og áhlaupi Tartaranna úr tveimur áttum. Eldklukkurnar gullu við hátt í öllum áttum og kölluðu menn út til að verjast eldsvoðanum. Það stóð heldur ekki á, að menn hlýddu. Allir, sem vetlingi gátu valdið hlupu fram, sumir móti Törturunum, en aðrir niður að fljótinu til að berjast við eldinn, sem ástæða var til að óttast að innan skamms bærist um allan bæinn. Bolchaia-hliðið var sem næst verjulaust. Þar voru eftirlátnir að eins örfáir menn. Og að ráði svikarans voru þessir fáu menn teknir úr flokki útlaganna, í því skyni auðvitað, að síðar meir mætti hlaða sektinni á herðar þeirra, kenna þeim um, að borgin var unnin. Ogareff fór inn í herbergi sitt sömu leið og hann fór út úr því, um gluggann. Nú var það allt upplýst hornanna á milli af bálinu frá ánni. Hann hafði þar lítið viðnám, en bjóst til burtferðar. Hann var rétt kominn inn í það, þegar kvenmaður kom hlaupandi inn í það, rennandi vot frá hvirfli til ilja og með slegið hár og allt í óreglu. »Sangarre!« hrópaði Ogareff upp yfir sig öldungis hissa. Að það væri um aðra konu að ræða, var nokkuð, sem honum kom ekki í hug. En það var ekki Sangarre. Það var Nadía! Á augnablikinu þegar hún rak upp hljóðið á jakanum, af því hún sá eldinn hlaupa eftir ánni, hafði Strogoff þrifið hana í faðm sinn, steypt sér í kaf í strauminn og synt í kafi upp að bryggjunni. Það var eina lífsvonin og tókst tilraunin vel, enda voru ekki nema sem svaraði 30 föðmum til efstu bryggjunnar í bænum. Innan stundar stóðu þau bæði á bryggjunni. Að lyktum hafði Mikael Strogoff náð takmarkinu. Hann var í Irkutsk. »Nú skulum við hraða ferðum til landsstjóra-hallarinnar«, sagði hann tafarlaust við Nadíu. Og innan 10 mínútna höfðu þau hroðið sér veg um mannþröngina allt að hallardyrunum. Ægilega langar eldtungur sleiktu utan hallarveggina, en unnu ekkert á. Veggirnir voru úr steini. En niður undan höllinni á fljótsbakkanum var heil húsaröð í báli. Höllin stóð opin og því vandræðalaust fyrir þau Strogoff og Nadíu, að komast þar inn. Og af því að fát var á öllum og allt í uppnámi, tók enginn eftir þeim, eða því, að vatn draup af hverjum þræði á fötum þeirra. Í gestasalnum stóra var allt á ferð og flugi. Undirforingjar ruddust um fast, til að komast inn og fá skipanir um hvað næst ætti að gera, og hermenn ruddust um eins fast, til að komast út og sjá um að skipununum væri fram fylgt. Í þessum æðandi straum manna aftur og fram urðu þau Mikael og Nadía viðskila og héldu sitt í hvora áttina. Nadía hljóp eins og hálf-sturluð aftur og fram og leitaði að félaga sínum, jafnframt því sem hún bað einhvern viðstaddan að vísa sér á fund stórhertogans. Í ósköpunum, sem á henni voru, hratt hún opinni hurð og hljóp inn í herbergið, sem allt var uppljómað af eldinum í ánni. Vissi hún þá ekki fyrri til, en að hún stóð frammi fyrir manninum, sem hún fyrst hafði mætt í Ishim, og sem hún síðast hafði séð í Tomsk. Hún stóð þar frammi fyrir erki-svikaranum, sem innan fárra mínútna ætlaði að leiða óvígan her Tartara inn um verjulítið borgarhlið og þannig svíkja borgina á sitt vald og emírsins. »Ivan Ogareff!« hrópaði hún. Svikarinn hrökk við, er hann heyrði sitt rétta nafn nefnt. Kæmist það nú upp hver hann var, yrðu öll hans ráð til einskis. Það var ekki nema um eitt að gera nú, — að drepa stúlkuna, sem hafði nefnt hann. Ogareff tók stökk í áttina til Nadíu. En hún, með veiðimannahnífinn í hendinni, hopaði undan og ásetti sér að verjast meðan kostur væri. »Ivan Ogareff!« hrópaði hún aftur og það svo hátt sem hún gat. Hún var þess fullviss, að heyrðu menn úti fyrir þetta andstyggilega nafn, stæði ekki á hjálpinni. »Haltu, þér saman!« sagði Ogareff heiftarlega, en í lægri róm, og nísti tönnum. »Ivan Ogareff!« hrópaði hún enn og mikla hærra en áður. Hatrið og fyrirlitningin hafði veitt rödd hennar tífalt afl í augnablikinu. Ogareff ærðist af bræði og gerði annað áhlaupið með daggarð í hendinni, og hopaði Nadía þá undan út í eitt hornið. Þar var hún í kreppu og sýndist öll von úti, þegar Ogareff allt í einu var hafinn hátt á loft og kom niður aftur flatur á gólfið. »Mikael!« hrópaði Nadía með fögnuði. Það var Strogoff, sem valdur var að falli svikarans. Hann einn hafði heyrt hróp hennar og lét ekki bíða að ganga á hljóðið. Hann mátti heldur ekki seinna koma. »Vertu óhrædd, Nadía«, sagði hann og tók sér stöðu frammi fyrir henni. »En bróðir, vertu varkár«, sagði hún. »Svikarinn er vopnaður! Og hann hefir sjónina!« Ogareff spratt fljótt á fætur og taldi sér sigurinn vísan í viðureign við blindan mann. Hann réðst á hann undireins og hann komst á fætur. Strogoff rétti fram annan handlegginn einungis, þreif hnífinn úr höndum Ogareffs og fleygði honum flötum á ný. Ogareff ærðist af reiði jafnframt og hann skammaðist sín, er hann alsjáandi stóðst ekki átök annarar handar blinda mannsins. Hann minntist þess þá, að hann hafði sverð í belti sér og hugði að hagnýta það. Hann kippti því snögglega úr slíðrum og réðist á Strogoff í annað sinn. Strogoff vissi á hverju hann átti von. En hann var blindur! Það var bara sjónlaus maður, sem Ogareff átti við og hafði ekki svo mikið sem sverð. Það var ójafn leikur, og enginn efi á að Ogareff mundi bera sigur úr býtum. Það gat ekki öðruvísi verið. Svo hugsaði Ogareff sjálfur. Nadíu leizt ekki á þennan leik. Hún hljóp af stað fram að dyrunum og hrópaði um hjálp. »Láttu aftur dyrnar, Nadía, og láttu mig einan um hituna! Kallaðu á engan mann! Sendiboði keisarans hefir ekkert að óttast í þetta skifti af hálfu erkisvikarans! Látum hann koma, ef hann þorir! Ég er tilbúinn!« Þannig talaði Strogoff, og lét þá Nadía af að kalla. Í millitíðinni bjó Ogareff sig undir áhlaupið. Hann heykti sig saman eins og tígrisdýr, sem er að búa sig til að stökkva, en ekki sagði hann eitt einasta orð. Hann varaðist að stíga svo þétt niður, að skóhljóð heyrðist og hann auk heldur hélt niðri í sér andanum. Hann vissi að hann átti við blindan mann og vildi gjarnan fara svo laglega að, að hann heyrði ekki heldur. Það var um að gera að geta komið lagi á Strogoff áður en hann væri við því búinn og það eina lag átti að hrífa. Honum kom ekki í hug að berjast, að gefa sínum blinda andvígismanni drengilegt tækifæri til að verja sig. Hann ætlaði sér að myrða hann hreint og beint, myrða manninn, sem hann stal nafninu frá. Nadía horfði með ósvikinni aðdáun á Strogoff, en bæði var hún hrædd og þó vongóð. Hún styrktist í voninni af því að Strogoff var svo rólegur og hægur, rétt eins og ekkert væri um að gera. Það eina vopn, sem hann hafði var Síberíu-hnífurinn stóri á móti hinu langa riddara-sverði svikarans. Vitaskuld var Strogoff blindur og sá ekki sverðið, en Nadíu fannst einhvernveginn eins og almættishöndin og allt sjáandi augað stýrði Strogoff. Eða ef ekki, hvernig var því varið, að hvernig sem Ogareff læddist í kringum hann, sneri Strogoff sér þannig, að hin sjónlausu augu hans horfðu allt af í sverðseggjarnar? Ogareff horfði einnig á andstæðing sinn og honum var ekki rótt í skapi. Þessi makalausa rósemi blinda mannsins hafði ónotaleg áhrif á hann. Hann reyndi allt af að telja sér trú um, að hann gæti ekkert haft að óttast í svona ójafnri viðureign, en samt var hann ekki hughraustur. Rósemi Strogoffs, sem sagt, fraus blóðið í æðum hans. Hann hafði hugsað sér staðinn, sem hann skyldi leggja sverðinu á, — hafði fastákveðið hann með sjálfum sér. Hvað var það þá, sem hindraði hann frá að binda enda á æfi síns blinda andstæðings? Um síðir herti hann upp hugann, óð að Strogoff og miðaði sverðinu í hjartastað. Strogoff hreyfi sig ekki, en einhvernveginn, án þess hreyfingin sæist, brá hann hnífnum þannig, að blað hans tók á móti laginu og hratt sverðsoddinum í aðra átt. Sverðið snerti Strogoff ekki. Hann stóð jafnrólegur og áður og beið eftir annari atlögu. Það stóð kaldur sviti í dropum á enni Ogareffs. Hann gekk nokkur skref aftur á bak og hljóp svo fram einu sinni enn. En svo fór um þessa atlögu eins og hinar fyrri, að hnífurinn beindi sverðinu í aðra átt, en ætlað var. Sverð svikarans var ónýtt í höndum hans. Hræddur og fjúkandi reiður stóð Ogareff nú kyr frammi fyrir þessari lifandi myndastyttu og horfði í hin opnu, starandi augu Strogoffs. Þessi augu, er sýndust sjá í gegn um alla hluti, er þau horfðu á, en sem þó sáu ekkert, gátu ekkert séð, þessi augu héldu föðurlandssvikaranum í fjötrum undrunar og hræðslu. Allt í einu var sem björtu ljósi brygði fyrir í hugskoti Ogareffs, og hann hrópaði: »Hann sér! Hann er sjáandi!« Og samstundis byrjaði hann að hopa á hæl, eins og villidýr smáþokar sér aftur á bak inn í gryfju sína. Hann hélt áfram þessum flótta þangað til hann komst ekki lengra fyrir húsveggnum. Hann staðnæmdist í húshorninu, sem lengst var frá Strogoff. Þá allt í einu lifnaði myndastyttan — Mikael Strogoff. Blindi maðurinn gekk til Ogareffs og staðnæmdist frammi fyrir honum. »Já, ég er sjáandi!« sagði hann. »Ég sé farið eftir knúthöggið, sem ég greiddi þér, föðurlandssvikarinn og raggeitin! Og ég sé líka, hvar ég innan fárra augnablika legg þig með hnífnum þeim arna! Verndaðu líf þitt! Ég lítillækka þig með því að bjóða þér einvígi með hníf móti sverði þínu!« »Hann er sjáandi! hrópaði Nadía. »Guð minn góður, er það mögulegt!« Ogareff viðurkenndi að hann var farinn. En hann herti samt upp hugann og hljóp fram gegn hinum kyrláta andvígismanni sínum. Það glumdi í blöðum hnífsins og sverðsins, er þau mættust, og fyr en sjón yrði á fest var sverðið komið í mola undan höggi veiðimannahnífsins, sem Strogoff kunni að beita svo vel. Og í sömu sveiflunni, að því er virtist, féll Ivan Ogareff á gólfið, stunginn í hjartastað. Í þessum svifum var hurðinni hrundið upp og stórhertoginn með mörgum undirforingjum gekk inn í herbergið. Hann þekkti þegar hinn deyjandi mann á gólfinu, þekkti að það var sendiboði keisarans, sem hann hélt vera, og spurði í allt annað en þýðum róm: »Hver hefir vegið þennan mann?« »Ég«, svaraði Strogoff rólegur. Samtímis lyfti undirforingi skammbyssu upp að gagnauga Strogoffs og hélt henni þar, tilbúinn að hleypa af. »Nafn yðar?« spurði stórhertoginn, áður en hann gæfi skipun til að skjóta hann. »Tignaði herra!« svaraði Strogoff. »Spyrjið mig heldur um nafn mannsins, er nú liggur dauður fyrir fótum yðar!« »Nafn hans? Ég veit hvaða maður þar er«, svaraði stórhertoginn. »Hann var þjónn bróður míns, — var sendiboði keisarans!« »Þessi maður, tignaði herra, var ekki sendiboði keisarans. Nafn hans var Ivan Ogareff!« »Ivan Ogareff!« tók stórhertoginn upp. »Já, Ivan föðurlands og drottins svikari!« »En hver eruð þér þá?« »MIKAEL STROGOFF!« Niðurlag Strogoff var ekki, hafði aldrei verið blindur. Það var náttúrlega mannlegt atvik, sem eyddi áhrifum þess, er böðull Feófars Khan brá glóandi stálinu fyrir augu hans. Lesarinn minnist þess, að rétt í því er böðullinn kom með stálið, gekk Marfa gamla móðir hans fram fyrir son sinn og í dauðans angistinni teygði hún ósjálfrátt fram hendurnar á móti honum. Og Mikael horfði á hana með sömu tilfinningum og sonur mundi horfa á móður sína í seinasta sinn. Tárin, sem hann af stærilæti reyndi að innibyrgja, en sem brutust upp frá hjarta hans, fylltu augu hans, og þegar glóandi stálið var borið að augunum, umhverfðust hin söltu tár í gufu, sem varð á milli sjáaldursins og sverðsins og verndaði þannig sjón hans, af því stálið var tekið svo fljótt í burtu. Samskonar áhrif sér maður hvarvetna í málmbræðsluhúsum, þar sem vinnumennirnir óhræddir halda höndunum rétt yfir bráðnu járninu, eftir að hafa dýft höndunum í þétta gufu. Hann hafði þegar á augnablikinu séð í hvaða hættu hann var staddur, ef hann léti nokkurn lifandi mann vita hið sanna um þetta leyndarmál sitt. Samtímis sá hann aftur á móti, að með því að látast vera sjónlaus, gæti hann flýtt ferð sinni óbeinlínis, ef ekki beinlínis. Af því hann var blindur mundi honum sleppt lausum. Hann hlaut því að vera blindur maður að allra áliti. Jafnvel Nadía mátti ekki komast að öðru. Til þess að framkvæma þetta, að leika blindan mann, hvernig sem á stæði, hvar sem hann væri staddur, og láta aldrei í ljósi með orðum eða hreyfingum, að hann hefði nokkra sjón, þurfti hann að hafa gát á sér. Innan fárra augnablika hafði hann ásett sér að framkvæma þetta, enda þótt þessi blindingaleikur gæti haft í för með sér, að hann, sjónleysinu til sönnunar, mætti til með að leggja líf sitt í hættu. Og lesaranum um er það kunnugt, hve vel hann lék blindan mann á allri leiðinni frá Tomsk. Móðir hans ein fékk að vita sannleikann. Hann gat ekki dulið hana þess, þar sem hún lá hálf rænulaus af harmi á vellinum. Hann hvíslaði því þessum hátíðlega fagnaðarboðskap í eyru hennar, þegar hann laut niður að henni til að kyssa hana. Þegar Ogareff í barbarisku háði hélt keisarabréfinu opnu fyrir augum hans, augum, sem hann vonaði að væru sjónlaus orðin, las Strogoff það frá upphafi til enda, las þar og lærði bréfið, sem sýndi stórhertoganum hvaða brögðum hann yrði beittur. Þannig stóð á hans innilegu löngun til að komast áfram, að komast til Irkutsk, en sem samferðamenn hans aldrei skildu í, þar sem þeir álitu hann blindan. Hann vissi að til stóð að svíkja borgina í hendur Tartaranna og hann vissi að líf stórhertogans var í veði. Hann vissi allt innihald bréfsins og þess vegna var lífsvon stórhertogans og vörn bæjarins undir því komin enn, að hann næði takmarkinu í tæka tíð. Þessa sögu alla sagði hann stórhertoganum í fáum orðum. Hann sagði einnig og með meira en lítilli nákvæmni og tilfinningu frá því, hvaða þátt Nadía átti í því, að hann var kominn alla leið. »Hver er þessi stúlka?« spurði stórhertoginn. »Hún er dóttir útlaga eins, Vassili Feodórs«, svaraði Strogoff. »Dóttir kapteins Feodórs«, svaraði stórhertoginn, »er ekki dóttir útlægs manns lengur! Það er enginn útlagi til í Irkutsk!« Nadía þoldi ekki meðlætið eins vel og mótlætið í þetta skifti. Hún hneig aflvana niður fyrir fótum stórhertogans, en hann rétti henni hendina og reisti hana á fætur, um leið og hann rétti Strogoff hina. Einni klukkustund síðar var Nadía vafin örmum föður síns. Mikael Strogoff, Nadía og Vassili Feodór voru öll sameinuð. Og ekkert þeirra gat óskað eftir né gert sér grein fyrir æðri ánægju. Tartararnir höfðu verið yfirbugaðir í sínu tvöfalda áhlaupi á borgina. Vassili Feodór, með sínum fáu mönnum, hafði rekið þá á flótta, er fyrstir nálguðust Bolchaia-hliðið í þeirri von að þar væri óhindruð braut. Hugur Feodórs hafði sagt honum svo fyrir, að þar mundi þurfa á vörn að halda, og þessvegna hafði hann ekki yfirgefið það nágrenni. Um sama leyti og borgarmenn hvarvetna voru að reka Tartarana á flótta, höfðu þeir, sem við eldana börðust einnig fengið yfirhöndina þar. Olíubálið á fljótinu, þó hræðilegt væri, meðan það varaði, entist ekki lengi, en dó út eins fljótt og það hafði kviknað. Það brunnu aðeins þau húsin, eða sumt af þeim, sem næst voru fljótsbakkanum, en lengra náði eldurinn ekki, vegna drengilegrar varnar bæjarmanna. Áður en dagur rann voru allir Tartararnir flúnir til herbúða sinna. Höfðu þeir látið eftir fjölda margra fallinna og sárra á vígvellinum úti fyrir virkisveggjunum. Á meðal hinna föllnu var hin fagra, en fláráða gifta-kona, Sangarre. Hún gekk of nærri borgarveggjunum í leit sinni eftir félaga sínum Ogareff. Svo liðu tveir dagar að Tartararnir gerðu borgarmönnum enga árás. Þeir höfðu frétt um dauða Ogareffs og það dró úr þeim kjarkinn. Hann var lífið og sálin í herferð þessari allri. Það var hann einn, sem með ráðum sínum og uppástungum, hélt öllum þessum khana-hóp saman og knúði þá út í þessa ferð, í þeirri von að taka alla Síberí herskildi. Borgarmenn rýrðu vörðinn ekki hið allra minnsta, þó Tartararnir væru kyrlátir, enda fjarlægðust þeir ekki, né slitu herbúðum sínum. Í dagrenningu að morgni hins 7. október vöknuðu menn í Irkutsk við fallbyssudrunur í öllum áttum frá hæðunum umhverfis borgina, Þessar drunur voru sannur gleðiboðskapur. Þar var kominn herinn að norðan og austan undir stjórn Kisselefs hershöfðingja, sem á þennan hátt tilkynnti borgarmönnum komu sína. Törturunum leizt nú ekki árennilegt að leggja til orustu undir borgarveggjunum. Þeir biðu því ekki boðanna, en tóku upp herbúðir sínar undir eins og þeir heyrðu fallbyssudrunurnar og héldu af stað frá Angara fljóti. Irkutsk var hólpin um síðir. Í flokki Rússa, er fyrstir komu inn um borgarhliðið voru tveir af vinum Mikaels Strogoffs. Það voru mennirnir, sem aldrei skildu í seinni tíð, Alcide Jolivet og Harry Blount. Þeir, eins og mennirnir flestir á flekanum höfðu komist á ísspönginni upp á austurlandið landið áður en eldi var slegið í olíuna á fljótinu. Um það atriði hafði Jolivet þannig ritað í minnisbók sinni: »Lá nærri að við yrðum étnir upp eins og sítróna í púnskollu!« Þeir fögnuðu einlæglega, er þeir fréttu þau Nadía og Strogoff voru heil á húfi, sérstaklega þegar þeir fréttu, að hinn ötuli sendiboði var eftir allt saman með óskerta sjón. Um það reit Harry Blount í minnisbók sína þessa athugasemd: »Eldheitt járn er undir vissum kringumstæðum ónóg til að eyðileggja sjóntaugarnar«. Fregnritarnir settust nú að um stund í Irkutsk og settust við að færa saman í sögulega heild ferðasöguna, uppreisnarsöguna alla og allt markvert, sem fyrir þá hafði borið. Á sínum tíma fóru svo þaðan til Lundúna og Parísar tvær læsilegar ritgerðir um þetta efni, ritgerðir, sem algerlega bar saman, jafnvel í smáatriðum öllum, og er þó slíkt sjaldgæft mjög. Endalok uppreisnarinnar voru skaðleg fyrir emírinn og samvinnu-höfðingja hans. Þessi uppreist, eins og allrar slíkar gegn jötninum í Rússlandi, var banvæn fyrir þá. Fyrr en Tartarana varði voru hermenn Rússa hvarvetna á vegi þeirra, sem nú tóku af emírnum jafnharðan allar borgirnar, er hann og Ogareff höfðu áður unnið. Ofan á þessar ófarir bættist vetrargrimmdin, sem drap Tartarana tugum saman. Það var ekki nema lítill hluti af hinum upprunalega her, sem komst heim aftur lifandi á hjallana í Tartaralöndunum. Irkutsk-brautin, sú, er Strogoff kom eftir, var nú óhult öllum ferðamönnum á ný. Stórhertoginn var áfram um að hefja ferðina til Moskva, en beið samt viljugur nokkra daga, til að taka þátt í hjartnæmri athöfn, er gerðist fáum dögum eftir að liðsaflinn kom. Mikael Strogoff fór á fund Nadíu, og í viðurvist föður hennar talaði hann við hana á þessa leið: »Þegar þú, Nadía, systir mín enn, fórst af stað áleiðis til Irkutsk frá Riga, saknaðir þú nokkurs annars en móður þinnar?« »Nei«, svaraði mærin. »Ég hafði ekkert annað að syrgja«. »Svo það er þá ekkert brot af hjarta þínu eftir þar vestra?« spurði Strogoff. »Nei, bróðir, ekki ein ögn«. »Þá held ég Nadía«, hélt Strogoff áfram, »að guð, þar sem hann lét okkur hittast þannig og gegnum ganga svo margar og miklar þrautir sameiginlega, hafi með því hlotið að ætlast til, að við byggjum saman alla okkar æfi«. »Ó«, var eina orðið, sem Nadía kom upp í bráð, en fleygði sér í útbreiddan faðm ástvinarins. Svo sneri hún sér til föður síns og ætlaði að segja eitthvað, en kafroðnaði og kom ekki upp nema: »Faðir minn!« »Það er mér innileg gleði, Nadía«, tók þá Vassili Feódór fram í, »að kalla ykkur bæði börnin mín«. Hjónavígslan fór fram í dómkirkjunni í Irkutsk. Þó viðhöfnin í sjálfu sér væri lítil, var hún samt tilkomumikil í því tilliti, að þar voru viðstaddir allir höfðingjar borgarinnar og þeir sem þar voru staddir. Ferð brúðhjónanna austur um landið var þegar farin að umhverfast í nokkurskonar Odysseifs-sögu og fór frá munni til munns, og allir í borginni æðri og lægri vildu við þetta tækifæri sýna, hve þakklátir þeir voru bæði brúðguma og brúði. Fregnritarnir voru auðvitað viðstaddir. Þeir þurftu að segja frá þeirri athöfn í blöðum sínum. »Hefirðu nú ekki löngun til að fara og gera hið sama?« spurði Jolivet vin sinn. »Heimska!« svaraði Blount, »En ef ég ætti frænku, eins og þú — — —«! »Frænka mín ætlar ekki að giftast!« svaraði Jolivet hlæjandi. »Það þykir mér vænt að heyra«. svaraði Blount, »því nú er talað um, að ófriðlega horfi með Bretum og Kínverjum. Hefirðu ekki löngun til að fara til Peking og sjá hvað þar er aðhafst?« »Einmitt, minn góði vinur«, svaraði Jolivet. »Ég var rétt í þann veginn að stinga upp á þessu við þig!« Skömmu síðar lögðu þessir vinir, sem ekki máttu skilja, af stað til Kína. Fáum dögum eftir vígsluna lögðu hin ungu brúðhjón af stað til Evrópu, og var Vassili Feodór í för með þeim. Þjóðvegurinn, sem á austurleið var stráður hörmungum og þrautum, var nú hvarvetna stráður blómknöppum ánægjunnar og gleðinnar. Þau fóru hart yfir landið í einum þessa nafnfræga sleða, sem flýgur með járnbrautarlestarhraða yfir hinar svelluðu Síberíu-sléttur. Þau gáfu sér þó tíma til að stanza um stund á vesturbakka árinnar Dinka. Þar var hið lága leiði Nikulásar og þar lét nú Strogoff reisa kross úr tré. Og þar, í seinasta sinni flutti Nadía þögula bæn yfir beinum vinar síns og Strogoffs, sem undireins var svo lítillátur, en hugrakkur og ötull, og sem hvorugt þeirra nokkru sinni gleymdi. Í Omsk beið Marfa gamla þeirra í heimkynni sínu, óðali föður og feðga Strogoffs. Þar heilsaði hún með fögnuði ungu stúlkunni, sem hún svo oft nú þegar hafði kallað »dóttur«. Í þetta skifti hafði þessi gamla hetja óskertan rétt til að viðurkenna son sinn. Hún gerði það líka ærlega og var, sem mátti, stolt af því. Eftir nokkurra daga dvöl í Omsk héldu þau hjónin og Feodór áfram ferðinni. Dr. Feódór settist að í Pétursborg og hvorki dóttir hans né tengdasonur höfðu upp frá því ástæðu til að skilja við hann, nema þegar þau stöku sinnum brugðu sér austur til Omsk til að heimsækja móður sína og tengdamóður. Keisarinn sjálfur fagnaði sendiboða sínum, gerði hann að sínum sérstaka aðstoðarmanni og sæmdi hann heiðurseinkunninni »St. Georgs krossinum«. Með tíð og tíma náði Strogoff háum og ábyrgðarfullum völdum í Rússlandi. En það er ekki meðlætissaga hans, heldur sú, sem höndlar um hættur og þrautir, sem verðskuldar að hún sé skráð. Lýkur svo sögunni af Síberíuför Mikaels Strogoffs.