SVIPURINN HENNAR 2. FLOKKUR SÍGILDAR SKEMMTISÖGUR SÖGUSAFNS HEIMILANNA 1. Börn óveðursins eftir Sylvanus Cobb 2. Ævintýrið í Þanghafinu eftir C. Marriot 3. Kynlegur þjófur eftir George E. Walsh 4. Seld á uppboði eftir Charles Carvice 5. Bróðurdóttir amtmannsins eftir E. Marlitt 6. Dóttir óbyggðanna eftir James Oliver Curwood 7. Tengdadóttirin eftir E. Juncker 8. Svipurinn hennar eftir Harriet Lewis HARRIET LEWIS SVIPURINN HENNAR SÖGUSAFN HEIMILANNA REYKJAVÍK Prentsmiðja Árna Valdemarssonar hf. Bókband: Bókbandsstofan Örkin 1980 1 Sankti Kilda er nyrst af Mið-Hebrides-eyjunum, hér um bil 150 mílur vestur frá Skotlandi og verður naumast talin annað en sker upp úr hafinu. Hún er á að giska 3 enskar mílur á lengd og tveggja mílna breið. Þegar seinast var tekið manntal þar. voru eyjarskeggjar 58 talsins. Við litla vík á eyjunni vestanverðri, er eina þorpið sem þar er til. Tvö hús eru þar. sem ögn bera af hinum að hæð og stærð. annað er kirkjan og hitt er prestssetrið. Seint um kvöld í október árið 18.. stóð ung stúlka efst á kletti einum til annarrar hliðar við víkina. og var þaðan hið besta útsýni. Hún var tæplega 17 ára gömul, ekki beinlínis fríð sýnum. en augun voru gáfuleg og andlitið bar það með sér að hún myndi verða falleg. Stúlka þessi var Verenika Gwellan, kjördóttir séra Davíðs Gwellan, prestsins í St. Kilda. Nær því alla ævi sína hafði hún dvalið á eyjunni, enda mundi hún ekki eftir, að hún hefði verið annars staðar. og þekkti engar aðrar manneskjur en þessa veðurbitnu eyjaskeggja. Presturinn var fæddur í Wales. en kona hans í Skotlandi. Þau voru bæði af góðum ættum og kunnu vel að umgangast eldra fólk. enda þótt þau hefðu komið sér saman um, að velja þennan einmanalega stað. Prestshjónin höfðu veitt kjördóttur sinni gott uppeldi, kennt henni hljóðfæraslátt, ýmis tungumál og annað, sem æðri menntun tilheyrði, enda var hún námfús, iðin og gáfuð. En hvað átti hún að gera af sér í framtíðinni? Að hún giftist nokkrum af ungmennum eyjarinnar. var óhugsandi og jafn óhugsandi að hún visnaði þar sem hver önnur rós. Eina úrlausnin var því sú, að hún flyttist til fjölbyggðari héraða. Þessi stund var nálægari, en prestshjónin áttu von á. Örnin var farin að reyna afl vængja sinna og fann sér óhætt að fljúga upp í loftið. Meðan Verenika stóð þarna á þessum hættulega kletti og horfði út yfir hafið, námu augu hennar staðar við fagurt enskt lystiskip, sem tók saman segl sín og varpaði akkerum í víkurmynninu. Slík sjón var mjög sjaldgæf um þessar slóðir. Fáeinir sjómenn í bláum stutttreyjum stóðu á þilfarinu, en fjórir voru komnir ofan í lítinn bát, ýttu frá skipinu og réru til lands. Aftur í skutnum stóð eigandi lystisnekkjunnar, markgreifinn á Clynord. Um leið og hann leit upp varð honum litið á ungu stúlkuna, þar sem hún stóð á klettsbrúninni. Honum varð sjáanlega bilt við og hann veifaði vasaklútnum aðvarandi til hennar. Gleðibros lék á vörum meyjarinnar, þegar hún sá þessa bendingu og viðkvæmnisgeisli glampaði í augum hennar, sem hvort tveggja hjálpaðist til að gera hana undurfagra ásýndum. Léttfætt og liðug eins og gemsa, hoppaði hún stall af stalli ofan klettinn. Um leið og báturinn kenndi grunns, var Verenika komin ofan í rúmgóða steinhvelfingu, skammt fyrir ofan flæðarmálið. Hvelfing þessi leit út fyrir að vera vildaraðsetur hennar; steingólfið var þakið þurru þangi og inni í holum sem voru í berginu lágu nokkur bindi af ljóðabókum og skáldsögum, og auk þess vandaður gítar. Þarna fann markgreifinn hana. Þegar hann sté á land, kallaði hann á hana, en í staðinn fyrir svar, barst að eyrum hans undur fagur hljóðfærasláttur. Með útbreiddan faðminn gekk hann inni hvelfinguna, en hún hopaði á hæl með dálítilli tilgerð, hljóp svo fram hjá honum út úr hvelfingunni. „Verenika,“ sagði lávarðurinn ásakandi róm, „er þetta fagnaðarkveðjan sem ég fæ? Þú ert eins hrædd við mig og æðarfuglarnir, sem synda hér meðfram eyjunni. Aldrei hafa varir þínar nálgast mínar og þó hefur þú viðurkennt að þú elskir mig.“ „Þú mátt ekki ávallt taka orð ungrar stúlku eins og þau eru töluð,“ sagði Verenika og reigði sig. „Ég veit ekki hvað hefur komið þér til að koma hingað í dag, lávarður Clynord, en fyrst þú ert kominn þá skulum við ljúka við að lesa Margarét. Viltu sækja bókina, eða á ég að gera það?“ Lávarðurinn varð alvarlegur á svip. Hann var fríður maður, með ljóst hár, ljós augu, laglegt yfirskegg og yfir höfuð að öllu útliti sannur Englendingur. Hann var tígulegur á velli, hár og grannur og þó stálmagn í mjóu fingrunum hans; stundum kom það fyrir að augun leiftruðu. Hann var hugaður sem ljón og að öllu leyti ágætur maður, með hreint hugarfar, gott lunderni og aldrei hafði ósatt orð farið yfir varir hans. Í augum Vereniku var hann sem næst hálfguð. „Þið stúlkurnar eruð hver annarri líkar,“ sagði lávarðurinn ergilegur. „Þó einhver ykkar væri alin upp á eyðimörkinni Sahara, myndi hún samt verða tilgerðarleg. Dvöl mín hér er á enda, Verenika. Veturinn nálgast með snjó sinn og storma, svo ég er neyddur til að fara. Á morgun snýr „Sylvía“ stefninu í áttina til heimilis míns.“ Verenika fölnaði og leit kvíðafullum augum á þann sem talaði. „Á morgun.“ endurtók hún. „Svo fljótt, Roy. Roy ég get ekki áttað mig á þeirri hugsun, að þú yfirgefir St. Kilda nokkurn tíma. Á morgun. Nei, nei, þú ert að gera að gamni þínu. Segðu að það sé ekki alvara þín, Roy.“ „Það hryggir þig þá að ég fer?“ sagði lávarðurinn með ákefð. „Jú, ég verð að fara, Verenika. Ég verð að rækja skyldur mínar gagnvart stöðu minni, vinum og ættingjum, sem ekki vita hvar ég hef verið síðastliðna fjóra mánuði. Jú, ég er neyddur til að fara, en ég vil ekki fara einn. Ég er kominn hingað í dag til að spyrja þig hvort þú viljir fylgja mér — fylgja mér sem kona mín? Þú ert mér kærari en allt annað í heiminum, Verenika, ég vil ekki fara án þín.“ Hann gekk til hennar, en nú flúði hún ekki, eins og hann var hræddur um að hún myndi gera. Nei, hún kom á móti honum og féll í faðm hans, og hann þrýsti fyrsta kossinum á varir hennar. „Ég get ekki misst þig, Roy,“ hvíslaði hún, „án þin væri lífið mér einskis virði. Eftir þetta yndislega sumar, get ég ekki lifað af veturinn hér. En — þú átt auð og tign, en ég er fátæk — heldurðu að þú verðir ekki leiður á mér, heldurðu að þú fyrirverðir þig ekki mín vegna, yfir minni látlausu framkomu, minni ótignu ætt? Heldurðu að þú iðrist aldrei þeirrar stundar að taka mig fyrir konu?“ „Ástin gerir alla jafna, Verenika. Ég vil heldur eiga þig en öll auðæfi heimsins.“ „En, Roy, hvað munu ættingjar þínir segja?“ „Ég á hvorki föður né móður,“ svaraði lávarðurinn, „og þar eð aðrir ættingjar mínir spyrja mig ekki um, hvað þeir eigi að gera, vil ég ekki heldur leita ráða þeirra um mína hegðun. Það er stjúpbróðir minn og stjúpsystir, sem mér er annt um.“ „Þú hefur ekki minnst á þau fyrr, Roy.“ „Hef ég ekki? Það er þá af því, að þegar ég er hjá þér, þá hugsa ég aðeins um þig. Ég verð því að biðja þig að fyrirgefa mér þessa þögn og ég skal nú bæta úr henni eftir bestu getu. Faðir minn dó meðan ég var unglingur. Áður en ég fór í háskólann var ég orðinn lávarður Clynord. Móðir mín, tíguleg og góð kona, sem þú án efa hefðir lært að elska, ef hún væri lifandi nú, var ekkja í nokkur ár, en gifti sig aftur meðan ég var í háskólanum. Seinni maðurinn hennar var ofursti Gilbert Monk, yngri sonur aðalsmanns og fyrrverandi herforingi í Austur-Indía hernum, maður, sem hafði einkennilegt vald yfir mörgum öðrum og sem með þessu viljaafli sínu þvingaði móður mína til að giftast sér, án þess að nokkur ást ætti sér stað á milli þeirra. Það var einkennileg gifting, sem mér líkaði aldrei vel. Ofurstinn hafði verið kvæntur áður — í Austur-Indíum — og átti tvö börn, son og dóttur, sem hann kom með til Clynord. Rúmu ári eftir að hann kvæntist móður minni, dó hann. Þar eð hann átti engar eignir aðrar en eftirlaun sín, gat hann engan arf gefið börnum sínum og þess vegna tók hann það loforð af móður minni, að hún skyldi annast þau. Að tæpu ári liðnu dó móðir mín líka. Áður en hún dó fól hún mér á hendur að annast stjúpbörn sín og lofaði ég henni því. áð Sylvía skyldi ávallt eiga heimili í Clynord-höllinni. Ég skoða þau sem bróður og systur og þau umgangast heimili mitt og eignir, eins og þau væru jafnrétthá og ég.“ „Hve gömul eru stjúpsystkini þín. Roy?“ „Gilbert er tveim árum eldri en ég, 25 ára, og Sylvía, það er hennar nafn sem skipið mitt ber, er 22 ára. Gilbert hefur enga lífsstöðu valið sér enn og þarf því minnar hjálpar við. Hann mun vera að hugsa um að ná í ríkt kvonfang. Sylvía getur eflaust valið sér ríkan mann og er því framtíð þeirra borgið. Eg held þú munir kunna vel við stjúpsystkini mín, einkum Sylvíu. Þau munu verða hissa, þegar ég kem með unga konu. Á morgun verðum við að fara — viltu koma með mér, Verenika?“ „Ef foreldrar mínir leyfa það.“ svaraði hún. „Við skulum þá strax fara heim,“ sagði Roy. „Ég er hræddur um að föður þínum þyki þú vera of ung til að giftast.“ Clynord langaði mjög til að vita vissu sína í þessu efni og fóru þau því strax af stað. Sólin var gengin til viðar og myrkrið læddist í hægðum sínum upp eftir klettinum. Ljóskastari kastaði geislum sínum á sjóinn, frá toppi siglutrésins á skipinu. Á leiðinni til prestssetursins mættu þau mörgum eyjabúum, og töluðu sumir þeirra nokkur spaugsyrði um fylgdarmann Vereniku, en hún gekk þögul, áhyggjufull og blóðrjóð í kinnum við hlið hans. Hún gekk um steinriðið, opnaði útidyrnar og fór svo inn í dagstofuna. Húsmunirnir þar inni voru sjáanlega gamlir, en vel hirtir. Séra Gwellan sat við skrifborðið sitt og var að semja bænarskrá til velmegandi safnaða á Skotlandi, um að styrkja kirkju eyjabúa. Kona hans sat í hægindastól skammt frá og var að lagfæra sunnudagakjólinn sinn. Presturinn var meðalmaður að vexti, á sextugsaldri, gráhærður og góðmannlegur. Kona hans var og gráhærð, en nokkuð yngri; svipur hennar var mildur og rólegur og öll framkoma hennar bar vott um gott uppeldi. Þegar lávarður Clynord og Verenika komu inn, stóðu hjónin upp og buðu lávarðinn mjög alúðlega velkominn. — Roy hafði dvalið tvo mánuði á St. Kilda þetta sumar, verið daglegur gestur á prestsheimilinu og unnið virðingu þeirra og ást. „Þetta verður að líkindum í seinasta sinn, sem ég kem hér, að minnsta kosti þetta ár,” sagði lávarðurinn. — „Verði leiði á morgun, þá siglum við heim.“ „Við söknum yðar, lávarður,“ sagði presturinn hreinskilnislega. „En þér segið satt, veturinn og stormarnir, sem í nánd eru, gera yður nauðsynlegt að fara. Okkur hefur verið mikil ánægja að dvöl yðar hér; við munum ávallt minnast yðar með velvild, og okkar bestu heillaóskir fylgja yður.“ „Ég krefst meira en þess, séra Gwellan,“ sagði Roy og roðnaði. „Ég er kominn til að segja yður, að ég elska dóttur yðar, og til að biðja yður að gefa mér hana fyrir konu.“ Hjónin litu undrandi á hann. „Ég var ekki við þessu búinn,“ sagði presturinn. „Við höfum verið blind, konan mín og ég. — Við höfum til þessa álitið Vereniku vera barn, enda er hún aðeins rúmra 16 ára. — Hvernig stendur á því, að þér, jafn ættstór, auðugur og líklegur til góðrar framtíðar, skulið vilja kvænast svo langt niður fyrir yður? Nei, góði ungi vinur minn, þér gleymið bráðlega þessari æskuást til barnsins okkar, og það er líka best að svo verði.“ „Mismunurinn á lífsstöðu er of mikill, til að geta myndað varanlega gæfu,“ sagði frú Gwellan. „Þessi mismunur er aðeins uppgerð,“ sagði lávarðurinn. — „Að því er fegurð og framkomu snertir, stendur Verenika ekki að baki neinum enskum aðalskonum. Hún er tignarmey. Þess utan eru Gwellarnir af góðum og gömlum ættum.“ „Að sönnu, lávarður minn,“ sagði presturinn, „og Verenika okkar er okkur eins kær og hún væri okkar eigið barn, en hún er engin Gwellan. Hefur hún ekki sagt yður það? — Hún vill máske ekki trúa því sjálf. Að því er snertir hennar ytri og innri hæfileika, þá er hún fullboðleg hverjum prinsi. En enda þótt að þér sökum ástar yðar takið ekki tillit til skuggans, sem hvílir yfir fæðingu hennar og ætt, þá munu ættingjar hennar verða á annarri skoðun, og sá tími mun koma, að þér iðrist þessa fljótræðis, þegar fyrsti ástarblossinn fer ögn að réna.“ „Þér þekkið mig ekki, herra prestur,“ sagði lávarðurinn ákafur. „Ást mín er ekki augnablikstilfinning. Ég elska Vereniku af öllu hjarta, og hver sem staða hennar er, þá er hún sérhverri stöðu samboðin. Tenging hennar við mig lyftir henni ekki feti hærra í mannvirðingarstiganum heldur en hún er nú, og þess vegna endurnýja ég beiðni mína um hönd hennar.“ Presturinn hikaði við að svara og leit spyrjandi til konu sinnar. Af hinum innilega ákafa sem lýsti sér í orðum lávarðarins, föla litnum og tárvotu augunum, sem hann sá í andliti Vereniku, var hann í efa hverju svara skyldi. „Lávarður minn,“ sagði hann alvarlegur. „Þetta er meiri freisting en ég fæ staðist. Stundaglas mitt er þegar útrunnið. Þegar kona mín hefur lokað augum mínum, gæti hún auðvitað farið til ættingja okkar á Skotlandi, en þeir eru allir fátækir og gætu naumast alið önn fyrir Vereniku litlu. Hún þekkir heiminn lítið, blessað barnið — og hvað ætti svo að verða af henni? Hér á eyjunni getur hún ekki verið. Mér væri því satt að segja ánægja í því, að vita hana gifta góðum manni, sjá hana sem ánægða húsmóður. Hvað segir þú um þetta, Karólína? Eigum við að voga að segja já?“ Bæði ungmennin litu bænaraugum til gömlu konunnar. Hún gat ekki neitað þessari þegjandi bón og hneigði sig samþykkjandi. „Eitt orð ennþá, lávarður Clynord,“ sagði séra Gwellan, sem lá við að kafna af hinum æstu faðmlögum aðalsmannsins. — „Áður en við bindum enda á þennan samning, verð ég að segja yður allt sem ég veit um þetta barn. Hún er ekki af ætt okkar hjónanna, og við vitum ekkert um ætt hennar, né hvaðan hún kom. Við höldum að hún sé ensk að uppruna. — Í dag eru rétt tuttugu ár síðan við komum til þessarar eyjar. Fyrir 14 árum kom hingað lystisnekkja í októbermánuði og varpaði akkerum í víkinni. Frá skipinu kom bátur til lands, og á honum heldri maður, sem bar sofandi barn í fangi sér. Hann gekk beina leið heim til mín og gerði boð fyrir mig. Hann sagði mér að barnið væri foreldralaust, og bað okkur hjónin að annast það. Að fimm árum liðnum kvaðst hann koma aftur og sækja það. Kona mín, sem forsjónin hefur neitað um sælu móðurgleðinnar, fékk strax ást á barninu, svo að við veittum því móttöku. — Maður þessi fékk okkur mikla upphæð af peningum, kvaddi og fór, og áður en dagur rann upp, sigldi skipið burtu. — Árin fimm liðu, án þess að maðurinn kæmi aftur, og nú eru liðin fjórtán ár siðan, og þó höfum við hvorki séð hann né frétt af honum.“ „Undarlegt,“ sagði lávarðurinn. „Hvað hét þessi maður?“ „Hann nefndi sig Sales, en við höldum að það hafi ekki verið hans rétta nafn.“ „Haldið þér að hann hafi verið faðir barnsins?“ „Bæði já og nei. Áður en hann skildi við það, kyssti hann það innilega og þrýsti því að hjarta sér með áfergi og örvílnan. Hann var sjáanlega heldri maður, sem sorgarþungi hvíldi yfir.“ „Hvers vegna hefur hann ekki komið aftur að sækja barnið sitt?“ „Við ímyndum okkur, að hann hafi dáið á þessu tímabili,“ svaraði presturinn. „En hvers vegna hefur þessi herra Sales flutt barnið hingað?“ spurði lávarðurinn. „Hann hefur eflaust ætlað að fela það hér fyrir einhverjum. Hét stúlkan Verenika, eða gáfuð þér henni það nafn?“ „Hann kallaði hana Vereniku Sales, en bað okkur þá að gefa henni mitt ættarnafn. Hún er okkur mjög kær, og við munum sakna hennar sárt. Eruð þér nú jafn ákveðinn að kvænast henni, eftir að þér hafið heyrt þessi æviatriði hennar?“ „Ég get skilið, að þetta er skylda yðar að segja mér allt þetta, en mig vantar stillingu til að vega það á metaskálum samkvæmislífsins. Ég leita aðeins ráða hjá tilfinningum mínum og skynsemi. Ég elska hana og bið yður enn einu sinni að gefa mér hana fyrir konu.“ Mótbárur prestsins komu að engu gagni. Lávarðurinn var geðríkur og sjálfstæður maður, sem ekki kom til hugar annað en að fá þessari innilegustu ósk sinni framgengt. „Bíðið þér að minnsta kosti eitt ár ennþá,“ sagði prestur. „Verenika er enn svo ung.“ „Slíkt ár yrði mér sem heil öld. Heimili mitt vantar húsmóður, og ég bið yður að gefa mér Vereniku.“ „Ég skal þá í guðs nafni láta undan,“ sagði presturinn. „Það er ef til vill best. Ég vil vona að hvorugt ykkar þurfi að iðra þessa bráðræðis. Komið þér í kirkju mína kl. 11 í fyrramálið, og ég skal þá vera þar til staðar og gefa ykkur saman í hjónaband.“ Lávarður Clynord þakkaði prestinum innilega, kvaddi og fór skömmu síðar. „Ég vona, að ég hafi breytt rétt, Karólína,“ sagði gamli maðurinn. „Lávarður Clynord elskar barnið okkar og hún hann. Þrátt fyrir það að ætt hennar er ókunn, er hún honum samboðin. Við höfum ástæðu til að ætla að framtíð Vereniku sé borgið, en þó liggur það í hug mínum, að þessi gifting sé byrjun mótlætis og sorga fyrir blessað barnið okkar.“ „Verði guðs vilji,“ sagði frú Gwellan. 2 Morguninn eftir var úðaþoka og dimmviðri, svo skipið sást óglöggt frá landi. Brimið dunaði við klettana og svo fór að rigna ofurlítið þegar á morguninn leið. Gömlu konurnar kváðu þetta ills viti fyrir brúðurina. Klukkan 9 var kirkjan opnuð og áður en hún var 10, vissu allir eyjabúar hvað til stóð. Því næst komu allir til kirkjunnar í því skyni, að vera við hjónavígsluna og höfðu sumir þeirra með sér lauf og blóm, sem þeir stráðu fyrir utan kirkjudyrnar. Þegar klukkan var rúmlega hálfellefu, gekk brúðguminn inn í kirkjuna. Með honum kom stýrimaðurinn á skipinu og fjórir hásetar, allir skrautbúnir. Presturinn, kona hans og hin unga brúður komu þegar klukkan var ellefu. Presturinn var í hátíðaklæðnaði sínum, kona hans sömuleiðis, en Verenika, sem gekk við vinstri hlið prestsins, var klædd hvítum netludúkskjól, með blóm í hárinu og á brjóstinu. Hjónavígslan var brátt afstaðin og nú var hin fyrrverandi Verenika Gwellan orðin markgreifainna Clynord. Fátæk og nafnlaus, en rík að gáfum og góðvild, hafði hún unnið það hjarta, sem margar auðugar aðalsstúlkur höfðu reynt að eignast og auk þess heimili, nafnbót og auð, sem hún hafði enga hugmynd um hve mikill var. Presturinn og kona hans óskuðu þeim nú til hamingju og blessunar um ókomna ævi; þar næst stýrimaðurinn, síðan hásetarnir og svo eyjabúarnir, hver eftir annan. Að líðandi hádegi gengu brúðhjónin, ásamt prestinum, konu hans og nokkrum nágrönnum, inn í hús prestsins. Þar borðaði það óbreyttan mat og að því búnu fóru grannarnir heim til sín. „Yður sárnar að missa Vereniku,“ sagði lávarðurinn í hluttekningarróm. „En það er ekki áform mitt, að lofa yður ekki að sjá hana oftar. Ef þið verðið hér, þá heimsækjum við ykkur næsta sumar. En því ættuð þér að vera hér lengur, þér eruð orðinn roskinn maður og ættuð að hætta þessum prestsstörfum.“ „Nei, ég stunda embætti mitt meðan ég get og lifi,“ svaraði presturinn. „Nú, þér gætuð þó að minnsta kosti skipt um sókn.“ sagði Roy. „Ég ræð yfir fjórum prestaköllum og eitt þeirra, það sem er næst Clynord, losnar í vetur, sökum veikinda prestsins. Ef þér viljið þiggja það embætti, þá væri mér og Vereniku sönn ánægja að heyra yður flytja guðsorð í okkar eigin heimiliskirkju.“ Presturinn horfði í gaupnir sér og brosti mæðulega. „Ég þori ekki að bregðast því starfi, sem ég hef tekið að mér. Ég vil vera hér þangað til ég dey. En okkur væri kærkomið, ef þér vilduð heimsækja okkur næsta sumar, svo máske getur það komið fyrir að við heimsækjum ykkur á Clynord síðar.“ Síðari hluti þessa dags hvarf ótrúlega fljótt. Gömlu hjónin þurftu mörg góð ráð að gefa Vereniku og hún þurfti að heimsækja og kveðja margar æskuleikstöðvar sínar. Farangur Vereniku var sendur út á skipið og þegar dimma tók, fóru bæði ungu og gömlu hjónin þangað líka. Þegar þau komu ofan í káetuna, var þar þægilegur hiti. Káetan var svo smekklega og ríkmannlega búin, sem best mátti vera. Á gólfinu voru þykkkir dúkar. meðfram veggjum dúnmjúkir legubekkir og veggirnir sjálfir tjaldaðir flosdúkum, herbergismunirnir voru úr póleruðu valhnotutré, olíumálaðar myndir prýddu veggina, úrval af ritum merkustu höfunda voru innan við glerdyr bókaskápsins og allt annað eftir þessu. Við hliðina á káetunni voru tvö herbergi jafn skrautlega búin og hún. Þótt frú Gwellan hefði áður komið út í skipið og séð þetta skraut, gat hún ekki látið vera að dást að því. enda hafði það nú aðra þýðingu fyrir hana en áður. því nú átti það fyrst um sinn að vera heimili Vereniku og var þó aðeins lítið sýnishorn af því. sem í vændum var heima í Clynordhöllinni. „Ég fyrir mitt leyti sakna ekki slíkra muna sem þessara, en þar sem Verenika virðist vera fædd til að njóta fegurðar og skrauts, er það naumast synd fyrir mig að gleðjast hennar vegna,“ sagði prestskonan. Nú var ágætur matur borinn á borð í káetunni og síðan tekið til snæðings. Meðan tíminn leyfði, dvöldu gömlu hjónin um borð í skipinu. en með því að myrkrið óx og regnið varð stórfelldara, álitu þau hyggilegast að kveðja og fara heim. Skilnaðurinn var sár og erfiður. Verenika fleygði sér grátandi á einn legubekkinn í káetunni, en Roy fylgdi gömlu hjónunum upp á þilfar. ofan í bátinn og til lands. „Verið þér góður við barnið okkar.“ sagði presturinn skjálfraddaður og greip hendi lávarðarins. „Guð launi yður allt sem þér gerið fyrir hana. lávarður.“ „Og vaki yfir ykkur báðum og veiti ykkur sína blessum.“ sagði frú Gwellan kjökrandi. Lávarðurinn þrýsti hendur gömlu hjónanna innilega, flýtti sér svo í bátinn og um borð til að finna konu sína. Gamli presturinn og kona hans stóðu kyrr á ströndinni og horfðu tárvotum augum á skipið sem fjarlægðist. Nú var ljósker dregið upp topp á stærra siglutrénu. Svo heyrðu þau hinar háværu fyrirskipanir skipstjórans, urgið í akkeriskeðjum og skipið hvarf úr víkinni út í myrkrið. „Þetta er hart fyrir okkur, Davíð — of hart,“ sagði frú Gwellan. — „En það er líklega best þannig. Henni er nú borgið.“ „Ef það væri nú áreiðanlegt.“ sagði presturinn. „Ég get ekki losnað við þennan illa grun, en við getum ekki hjálpað henni héðan af og verðum að fela hana varðveislu guðs.“ Allt í einu sáu þau flugeld þjóta upp í loftið frá skipinu og svo hvern af öðrum. Birti af þessu ögn í kringum skipið, svo þau grilltu það nú í síðasta sinn í gegnum myrkrið. Á þilfari skipsins stóðu ungu hjónin og mændi Verenika í áttina til eyjarinnar. Síðasti flugeldurinn hvarf og gömlu hjónin gengu nú heim. „Hver veit hvort við sjáumst aftur,“ sagði presturinn. 3 Ferðin frá St. Kilda til Skotlands virtist ungu hjónunum eins og draumur, enda var gott veður. Skömmu eftir sólaruppkomu daginn eftir, komu Roy og Verenika upp á þilfar. Ekkert land sást og ekkert skip heldur. En von og ást fyllti hugi hinna ungu elskenda. Að loknum morgunverði lét Roy bera tvo stóla upp á þilfarið og þar sátu hjónin og töluðu saman um hitt og þetta. Meðal annars lýsti Roy heimili sínu, sagði henni frá barnæsku sinni og unglingsárum sínum, og hlustaði Verenika á hann með mestu athygli. Þannig leið dagurinn. Þegar kvöldið kom, gengu þau fram og aftur um þilfarið, æskuglöð og ástþrungin. Þegar til Skotlands var komið, fóru þau á land í Invernes. Lávarðurinn sendi skipið til Portsmouth, en ætlaði sjálfur með konu sinni í járnbrautarvagni heimleiðis. Morguninn eftir fóru þau með fyrstu lest til Edinborgar. Þar hafði lávarðurinn beðið um sérstök herbergi með símskeyti, svo allt var búið undir komu þeirra. Þegar húseigandinn hafði vísað þeim til herbergja sinna og var farinn aftur, tók Verenika stráhattinn af sér, gekk að einum glugganum og horfði ofan á götuna. „En hvað húsin eru há og undarleg, allt öðruvísi en á eyjunni minni og þó finnst mér að ég gæti unað mér hér. Ég hef lesið mikið um Skota og Englendinga og kannast við margt í lífsháttum þeirra, en þó eru þeir allt öðru vísi klæddir en ég bjóst við. Kæri Roy minn, ég get ekki látið sjá mig á götu í þessum búningi mínum.“ Verenika roðnaði um leið og hún leit í spegilinn. „Mig undrar að þú skyldir fá ást á mér, Roy — munurinn á mér og skrautklæddu stúlkunum á götunum er þó mikill.“ Lávarðurinn brosti, tók hana í faðm sér og sagði: „Ég hef eignast sérlega verðmikinn gimstein, Verenika, og skal ekki dragast lengi, að útvega viðeigandi umgjörð um hann. Mér líst nú best á þig í gamaldagsfötunum þínum, en þar eð fyrir þér liggur að umgangast fólk af eldra tagi, verður þú að haga þér eftir þess venju, enda er það viðkunnanlegra og frjálsara fyrir þig. Við dveljum vikutíma hér í Edinborg, skoðun allar nýtísku fataverslanir, og að því búnu förum við til heimilis okkar í Sussex. Í kvöld skrifa ég stjúpsystkinum mínum, segi þeim frá giftingu minni og bið þau að annast sæmilega móttöku okkar. Markgreifafrú Clynord má ekki koma á heimili manns síns sem venjulegur gestur.“ Eftir að kvöldverði var lokið, settist Roy við að skrifa langt bréf til Gilberts og Sylvíu. „Þau verða víst hissa að heyra að ég sé kvæntur,“ sagði Roy um leið og hann hvíldi sig við að skrifa. — Mér geðjast raunar ekki vel að Gilbert, en Sylvíu skoða ég sem systur.“ „Er hún falleg?“ spurði Verenika. „Hún er álitin vera það, en þó er hún ekki eftir mínum smekk. Ég vona að þið fellið ykkur hvor við aðra.“ „Ég vona það líka. Ég hef aldrei átt systur né vinustúlku, og þó hefur mig langað til þess. Mig furðar, að þú skulir ekki hafa elskað hana á sama hátt og mig,“ sagði Verenika brosandi. Lávarðurinn roðnaði lítið eitt og sagði svo: „Ég elska Sylvíu sem systur mína. — Síðan móðir mín dó hef ég sjaldan verið heima og þar afleiðandi lítið umgengist hana, enda svarar hún ekki til þeirrar hugmyndar, sem ég gerði mér um konur, kæra Verenika.“ Loksins var bréfið búið, og sendi Roy einn af hótelþjónunum með það á pósthúsið. Daginn eftir fóru þau í margar kvenfataverslanir og um kvöldið var Verenika klædd eins og hefðarfrú, eftir nýjustu tísku. Roy var framúrskarandi glaður yfir þessari breytingu, enda þótt hún gerði Veroniku ekki fegurri, þá var hún samt tígulegri. Annan daginn fór allt á sömu leið. Þau fóru víða, og Roy keypti alls konar skart handa henni. Ættargimsteinarnir voru geymdir í banka í Lundúnum; þá átti Verenika að eignast síðar, og því keypti Roy lítið af gimsteinum handa henni. Þriðja og fjórða deginum var varið til að skoða kjörgripi borgarinnar. Þegar þau voru komin heim að kvöldi hins fjórða dags, sagði lávarðurinn: „Á morgun höldum við áfram til Lundúna, en í kvöld verð ég að biðja þig að klæða þig fallega, því ég býst við að Gilbert Monk komi svo snemma, að hann borði með okkur kvöldverð. Óþolinmæðin eftir að sjá þig leyfir honum ekki að bíða eftir komu okkar til Clynord — til þess þekki ég bróðir minn nógu vel. Það var barið að dyrum. Þjónn kom inn með bréf á silfurbakka og rétti lávarðinum. Hann opnaði þegar umslagið, sem hafði að geyma skeyti. „Sagði ég ekki satt?“ sagði lávarðurinn glaður. Gilbert er kominn af stað og verður hér að stundu liðinni.“ 4 Clynord Park var stærsta höfðingjasetrið í greifadæminu Sussex, að stærð nálægt tvö þúsund ekrur af frjósamri jörð, að sumu leyti laglega skipað niður í bújarðir, og svo í eikar- og beykiskóga, ásamt hinum stóra skemmtigarði, sem eignin dró nafn sitt af. Liðug ensk míla af landareign þessari lá meðfram skurðinum La Mance, lukti um dálitla vík, þar sem nokkur baðhús voru og bátanaust, og svo tók við jafnt hallandi spilda af sjávarströndinni. Höllin, sem öldum saman hefur verið aðsetur Clynordanna, er vegleg mjög, óreglulega niðurskipuð bygging af mikilfenglegri stærð. Hún er byggð eftir mismunandi listaverkasniði; aldirnar hafa bætt við turni eftir turn, álmu eftir álmu og gert hana að einu mikilfenglegasta höfðingjasetri Englands. Einn dag í októbermánuði gekk ung stúlka úr höllinni út á marmaraflötina og fór að ganga þar fram og aftur. — Marmaraflötin var löng og gott útsýni þaðan yfir skurðinn. Hún var klædd fagurrauðum silkikjól, með lítinn hatt á höfðinu skrýddan strútsfjöðrum. Allar hreyfingar hennar voru yndislega fagrar, ekki ólíkar hinum einkennilegu hreyfingum höggorma, þótt samlíkingin sé undarleg. Þessi stúlka var Sylvía Monk, stjúpsystir markgreifans á Clynord. Móðir hennar dó í Austur-Indlandi. Sylvía var framúrskarandi fríð, hörundsliturinn dökkur, hárið svart og hrokkið, varirnar rauðar, augun stór, en að hálfu leyti hulin undir löngum augnalokum. Þegar þau voru opin, var sem eldur brynni úr þeim. Hún var mjög ástúðleg, vel menntuð og vön að umgangast tigið fólk. Eðlisfarið að töfra og kveikja ást hjá öðrum hafði hún tekið að erfðum eftir föður sinn, sem hún líktist í einu og öðru, sagði náunginn. Hún gekk að handriðinu á marmaraflötinni og horfði hálflokuðum, löngunarríkum augum eftir skurðinum, rétt eins og hún ætti von á skipi utan af hafinu. Enga eftirtekt veitti hún því, að maður kom til hennar og staðnæmdist við hliðina á henni. Maður þessi var Gilbert Monk, bróðir hennar. Hann var lítill vexti, en þrekinn, með sólbrennt andlit og svart skegg, ennið lágt, eins og á systur hans, augun lymskuleg og á sífelldu iði. Almennt var hann álitinn léttúðarfullur, en meinlaus. „Þú ert líklega að gá að „Sylvíu“?“ sagði hann og lagði höndina á öxl systur sinnar. „En það er gagnslaus fyrirhöfn. Roy sendir skipið til Portsmouth og kemur svo sjálfur með járnbrautarlestinni, ef hann á annað borð kemur nokkurn tíma. — Hann hefur ekki sent okkur línu í fjóra mánuði, svo það getur eins vel skeð, að hann sé dauður. Væri ég erfingi hans, þá myndi ég ekki kvíða ókomna tímanum, kæra Sylvía.“ Sylvía hristi hendi bróður síns af öxl sinni. — Hugsun sú, að lávarður Clynord væri dáinn, átti sjáanlega ekki við hana. „Hann er ekki dáinn,“ sagði hún lágt. „Ég veit að hann lifir.“ „Hvernig geturðu vitað það? — Hefur nornin gamla, indverska fóstran þín, sem þú tókst með þér til Englands, þrátt fyrir allar aðvaranir, gefið þér upplýsingar um það?“ sagði Gilbert hlæjandi. „Ég veit, að Roggy gamla fremur alls konar fjölkynngi, en að hún geti notað djöflaathæfi sitt til að vita um líðan Roys, hefur mér aldrei til hugar komið.“ „Rugl, Gilbert,“ sagði Sylvía blíðlega. „Roggy gamla er engin spákona, hún er aðeins gömul indversk kona, fljót að hata og fljót að elska, hefnigjörn og ofsaleg, en mig elskar hún sem sitt eigið barn. Mínar eigin tilfinningar segja mér, að Roy sé ekki dáinn. Þegar sól lífs míns hverfur, þarf enginn annar að segja mér frá því.“ „Ertu alveg búin að missa vitið, að segja annað eins og þetta?“ sagði Gilbert. — „Mér geðjast ekki að því, að þú skulir gera þér svona sterkar vonir um að verða markgreifafrú af Clynord.“ „Og því ætti ég ekki að gera það?“ sagði Sylvía áköf. „Höfum við ekki trúlofast við banabeð móður hans?“ „Að sönnu, en það gildir nú ekki lengur, og þú ættir sjálf að geta skilið það,“ sagði Gilbert háðslega. „Manstu ekki eftir því, að þú fyrir hálfu ári síðan fórst að finna að ástarskorti hans, og þá varð ykkur sundurorða, svo að þú sagðir honum upp. Nei, Sylvía, hann er frjáls. Svo kom þessi Noregsferð, og það er mjög líklegt, að hann sé nú trúlofaður eða jafnvel kvæntur.“ „Ég álít ekki, að ég sé búin að missa Roy,“ sagði Sylvía róleg. „Þegar ég sagði honum upp, tók hann því raunar betur en ég bjóst við. En ég er sannfærð um, að hann iðrast breytni sinnar, og að við heitbindumst aftur.“ „Getur verið,“ sagði Gilbert og yppti öxlum. „En ef hann hefur nú heitbundið sig norskri eða sænskri stúlku? Hvar hefur hann annars verið allan þennan tíma?“ „Þú hefur gaman af að stríða mér, Gilbert,“ sagði Sylvía ergileg. „Roy fer ekki að elska stúlku af lágum stigum og öðrum mætir hann ekki á þessari ferð.“ „Ég held þú þekkir ekki Roy, Sylvía. Ómenntaða stúlku gengur hann ekki að eiga, en stöðumismun tekur hann ekkert tillit til.“ „En hann hlýtur þó að álíta sig vera bundinn mér, samkvæmt loforði því, er hann gaf móður sinni, enda þótt ég segði honum upp. Hann þorir ekki að kvænast annarri; ef hann gerir það ... þá skal ég...“ Heiftin, sem brann í augum hennar, fullkomnaði setninguna. Gilbert hló háðslega. „Undir eins og Roy er kominn,“ sagði Sylvía eftir litla þögn, „læt ég hann skilja, að ég álíti trúlofun okkar gilda og góða og bið hann að hraða brúðkaupinu.“ „Með því gerðir þú mér mikinn greiða,“ sagði Gilbert alvarlega. „Skuldheimtumenn mínir eru orðnir nærgöngulir og ég kom til þín í því skyni að biðja þig um lán.“ „Ég hef heldur ekki mikið af peningum, en undir eins og ég er orðin lafði Clynord, skal ég sjá um að þú fáir sæmilegan styrk, Gilbert. Eins og ástæðurnar eru nú duga ekki tekjur mínar fyrir okkur bæði. Þú hefur nú annars hundrað pund um árið, alveg eins og ég hafði, áður en Roy bætti við mig tveim hundruðum úr sínum eigin vasa og þau ættu að duga þér fyrir fötum, þegar þú hefur allt annað án endurgjalds.“ „Nú, þú heldur það. Útgjöld við smáferðir, gjafir, vikaborgun og því um líkt, metur þú einskis. Ég skal segja þér Sylvía, mér finnst ég vera betlari, og ég er það líka.“ „Því tekurðu þá ekki að þér herþjónustu, lærir lög eða eitthvað annað? Roy hefur lofað að styrkja þig til þess.“ „Bull, þvættingur ... herinn, lögin og allt þetta leiða lífsbasl ... burt með það. Að ná í ríkt kvonfang, það er það sem ég vil. Hjálpaðu mér og ég skal með ánægju hjálpa þér aftur, þegar ég fæ áformi mínu framgengt, ef Roy vill ekki kvænast þér.“ „Þú skalt fá það sem ég hef, tuttugu pund, eða þar í kring,“ svaraði Sylvía. „Fyrsta dag næsta mánaðar fæ ég aftur peninga og þegar Roy kemur, fæ ég ofurlítið lán hjá honum. Ég ætla að taka á móti honum, eins og okkur hafi aldrei borið neitt á milli, já, og meira til, ég ætla að biðja hann að elska mig. Gilbert, þú þekkir mig ekki, þú veist ekki hve heitt ég elska Roy. Ef nokkur kona kemst upp á milli mín og hans, þá drep ég hana. Hann tilheyrir mér ... mér einni.“ Hún hallaði sér upp við marmarabrjóstriðið og horfði út á hafið, eins og hún ætlaði að draga ástvin sinn til sín með augunum. Nú gall við jódynur í forsælugöngunum, svo Gilbert sneri sér við. „Þarna kemur brytinn með pósttöskuna,” sagði hann. „Sko, hann veifar hattinum. Nú kemur líklega hið langþráða bréf, Sylvía. Ég skal fara og sækja töskuna.“ Gilbert þaut ofan í garðinn, tók á móti töskunni og hljóp með hana til systur sinnar, sem hafði fengið sér sæti á bekk. „Hérna er taskan,“ sagði Gilbert, „nú skulum við vita hvað í henni er. Með skjálfandi hendi opnaði Sylvía töskuna. Ýmisleg fréttablöð, um tvær tylftir af skuldheimtubréfum til Gilberts voru ofan á, og loksins neðst á botninum fann hún bréfið, sem Roy hafði skrifað þeim frá Edinborg, og sem tilkynnti giftingu hans. Sylvía greip bréfið í ofboði, þekkti skriftina, og bar það upp að vörum sér. „Áritunin er til mín,“ hvíslaði hún ... „frá Edinborg ... sjáðu póstdagsetninguna hér! Ó, Roy, elskan mín, elskan mín!“ „Geymdu fögnuðinn þangað til við höfum lesið bréfið,“ sagði Gilbert háðslega. „Við skulum fyrst vita hvað hann skrifar. Auðvitað tómt ástarkvak, en mig langar til að heyra lagið, og hvort ég á von á að verða mágur markgreifans.“ Sylvía opnaði bréfið. „Kæri bróðir og systir,“ las hún ... „bróðir og systir, hvað á það að þýða?“ „Við fáum skýringu á því, ef þú lest meira.“ „Kæri bróðir og systir ... nei, það er bágborið. Mig, tilvonandi konu sína, kallar hann systur.“ „Fáðu mér bréfið, Sylvía, við komumst aldrei að efninu með þessu lagi.“ Gilbert tók bréfið og las hátt og skýrt: „Ykkur furðar líklega á þessari löngu fjarveru minni og þá ekki síður þögninni, en hún kemur af því að ég hef ekki náð í neitt póstsamband. Ég skrifaði ykkur síðast frá Noregi. Þaðan fór ég til Shetlandseyjanna, kynntist þar skoskum presti, sem ráðlagði mér að fara til St. Kilda. Þessi sami prestur hafði þekkt föður minn á æskuárum þeirra. Hann gaf mér meðmælabréf til systur sinnar og manns hennar, séra Gwellans, prests á St. Kilda. Þangað kom ég snemma í ágúst og þar hef ég verið þangað til fyrir fáum dögum. Þar eð íbúar þessarar eyjar standa á lágu menntastigi, munuð þið eflaust spyrja hvað hafi haldið mér þar svona lengi. En hvernig á ég að skýra það fyrir ykkur, án þess að sýnast hvarflandi og staðfestulaus? Og þó, þar eð Sylvía var svo eðallynd, að gefa mér eftir heitorð mitt með þeirri yfirlýsingu, að við ættum ekki saman, þori ég tafarlaust og opinberlega að segja sannleikann. Séra Davíð Gwellan á kjördóttur.“ „Nú, svo,” hvæsti Sylvía. „Dóttur! Og hann er ástfanginn í henni! Fari hann bölvaður. En hann kvænist henni ekki — það sver ég!“ Gilbert leit rannsakandi augum á hatursþrungið andlit systur sinnar og hélt svo áfram: „Kjördóttur, tæpra 17 ára, engilhreina, fríða og ástarverða stúlku, vel upp alda, hámenntaða — í fáum orðum: fullkomna hefðarmey. Sylvía sagði satt. Trúlofun okkar við banasæng móður minnar var okkur byrði. Sylvía og ég elskum hvort annað eins og systkini, og meðan ég lifi skal hún halda systurréttindum sínum, bæði á heimili og í hjarta mínu ... Ég notaði mér því frelsi mitt og bað þessarar ungu stúlku, og á þriðjudaginn var vorum við gefin saman í hjónaband. Hún er nú með mér hér í Edinborg, mín elskulega kona, og í þessari svipan, þegar ég lít upp úr bréfinu, lítur hún niður að mér til að ...“ „Kvæntur!“ kallaði Sylvía æðisgengin. „Kvæntur!“ „Kvæntur!“ endurtók Gilbert, og horfði hissa á bréfið í höndum sér. „Ég get naumast trúað því.“ „Kvæntur 17 ára gömlu barni. Hann er að draga dár að okkur.“ Sylvía stóð upp og reikaði að brjóstriðinu. Hún átti erfitt með að draga andann. Dimmleita andlitið var orðið öskugrátt, og á svip hennar mátti sjá takmarkalausan sársauka og angist. Hún elskaði Roy af öllu hjarta ... metnaður hennar og ást átti þá ekkert takmark lengur ... hann var þá orðinn eign annarrar konu. „Og ... ég hélt áreiðanlega að ég myndi eignast hann,“ sagði hún grátandi. „Ég hélt að hann áliti sig ekki lausan við heitorð sitt. Skrifaði hann ekki meira, Gilbert? Lestu áfram.“ „Það er lítið meira,“ svaraði Gilbert. „Hann verður nokkra daga í Edinborg, að sýna henni það markverðasta í borginni. Hann kemur innan viku ... lætur vita með símskeyti nær hann kemur ... vill að ég komi til Edinborgar að finna sig. Hér eru fáein orð til þin sérstaklega. Hann skrifar, að þú munir hafa brennt bréfin sín, og biður þig að gleyma því umliðna og hinni þvinguðu trúlofun. Þín vegna kveðst hann ekki hafa sagt konu sinni neitt um þetta, og segir að hún ... Verenika heitir hún ... sé albúin að veita þér ást sína, og biður þig að taka vel á móti henni og reynast henni vel sem eldri systir. Að endingu biður hann um hátíðlega móttöku, þegar þau komi ... láta hringja klukkunum, láta leiguliðana hópa sig saman o.s.frv. Og ... já, því má ég ekki gleyma ... Verenika biður að heilsa. Þetta er allt.“ Gilbert kreisti bréfið saman í hendi sinni, gnísti tönnum og sagði: „Bölvað sé þetta. Þannig enda mínar vonir, og þínar líka. Lafði Clynord setur stólinn fyrir dyr mínar bráðlega, að líkindum. Þú færð máske að vera kyrr, sem kennslukona hinna ungu lávarða og lafða. Kjördóttir prests ... fröken ekkert ... barn fátæks fiskimanns eða fuglaveiðimanns á St. Kilda, meira er hún naumast, fyrst hann minnist ekkert á ætt hennar. Að hugsa sér, seytján ára gamla brúði, sem húsmóður á Clynord, og þú 22 ára ... Eitt orð frá henni verður nægilegt til að gera hann reiðan við þig. Tífalda bölvun yfir henni.“ Sylvía sat með lokuð augu, sem við og við skutu gneistum. Fölt andlitið sýndist eldra, og dimmur skuggi hvíldi yfir svip hennar. „Hann segist ekki hafa sagt Vereniku neitt um trúlofun okkar, mín vegna,“ sagði Sylvía hásum róm. Hann vill ekki að kona sín viti, að hann gat sett mig í hennar sæti, hefði hann viljað ... að ég er sú forsmáða ... það er laglega gert af honum. Mér þætti gaman að vita, hvað lafði Clynord segði, ef hún læsi bréfin hans til mín? Ef það væri nokkur neisti af kvenlegu eðli í barnshjarta hennar, þá myndu þau gera hana vitstola af afbrýði. Á ég að líða einsömul? Ég skal eitra sambúð þeirra, og hann skal aldrei fá að vita, að það er mér að kenna ... ég skal.“ Sylvía þagnaði skyndilega, eins og hún væri hrædd við að opinbera hugsanir sínar. „Þú talar eins og skólastelpa, sem hefur verið móðguð, en ekki eins og kona, sem hefur orðið fyrir miklu ranglæti. Þú ert fátæk stjúpsystir, sem færð að vera á heimilinu af einskærri náð lávarðar Clynords, en getur þó búist við því á hverjum degi að frúin reki þig í burtu. Og þú talar um að eitra líf hennar. Væri ég kona, sem hefði verið forsmáð, kastað burt eins og verðlausum hlut, skyldi ég reyna á allan hátt að hefna mín.“ „Þú álítur mig tilfinningalausa, Gilbert,“ sagði Sylvía. „En ég skal segja þér: Í huga mínum er vaknaður illur andi, sem orgar á hefnd — á hefnd!“ „Hefnd! Svei! Þú ættir heldur að tala um að ganga í klaustur. — Við skulum yfirgefa Clynord, eins og vistlaus vinnuhjú, áður en hjónin koma.“ „Þú mátt fara, ég fer ekki! Ég verð hér á Clynord þangað til ég er orðin húsmóðir. Heldurðu að ég láti nokkra konu komast upp á milli mín og Roys?“ „Hvað ætlarðu þá að gera?“ „Hvað ég ætla að gera færðu síðar að vita. Ég trúi þér ekki fyrir leyndarmálum mínum, Gilbert. Roggy er sú eina, sem ég þigg hjálp af. En því skal ég lofa þér, að áður en 15 mánuðir eru liðnir, skal ég vera orðin lafði Clynord.“ „En hvernig? — Ég skil þig ekki.“ „Spyrðu mig ekki, en hlýddu mér hiklaust, þá skalt þú verða gæfusamur ásamt mér. Við verðum að búa allt sem best undir heimkomu þessara gæfusömu hjóna, og þú verður að fara og hitta þau í Edinborg. Þú verður að ná vináttu lafðinnar,“ sagði hún háðslega. „Farðu bara, ég skal sjá um allan undirbúninginn.“ Svo gekk hún burtu. „Mig langar ekki til að eiga Sylvíu Monk fyrir mótstöðumann,“ sagði Gilbert með hryllingi. „Hún virðir einskis manns líf, aðeins sitt eigið. Hvað ætli hún hugsi nú? Skyldi það vera mögulegt? Nú, það kemur mér ekki við, en eitt er víst: Væri ég lífsábyrgðarsölumaður, vildi ég ekki taka líf lafði Clynord í ábyrgð.“ Hann sléttaði bréfið frá Roy með hendinni, fór svo inn í aðalbygginguna, kallaði saman þjónustufólkið og kunngerði því þetta. Fólkið varð hissa yfir fregn þessari. Það vissi um trúlofun Roys og Sylvíu, en ekki um það að henni væri lokið. Daginn eftir fór Gilbert til London, sendi þaðan símskeytið sem áður er getið, og fór svo með fyrstu hraðlest til Skotlands. „Það gerir engan skaða,“ sagði hann við sjálfan sig, þegar hann átti skammt eftir til Edinborgar, „þó ég óski þeim alúðlega til hamingju. Það er hyggilegast að fela tilfinningar sínar, þegar þær eru af sama tagi og mínar. — Ég geri réttast í að láta Sylvíu eina um hefndina, hvernig sem hún verður. Líklega verður Verenika ekki öfundsverð af hjónabandinu.“ 5 Stundu síðar, en lávarður Clynord fékk símskeytið um komu Gilberts, kom hann sjálfur akandi í vagni að hótelinu og var strax fylgt til herbergis þess, er beðið hafði verið um handa honum. Þegar hann var búinn að þvo af sér ferðarykið og skipta um föt, lét hann þjón fylgja sér til herbergja lávarðarins. Þar barði hann að dyrum og lauk Roy sjálfur upp. „Velkominn Gilbert,“ sagði hann. „Það var vel gert af þér að koma. Gerðu svo vel að setjast við ofninn, mér sýnist þér vera kalt.“ „Fregnin sem þú sendir okkur vakti mikla undrun,“ sagði Gilbert, „en fyrst af öllu verð ég að óska þér til hamingju og ég óska ykkur hjónunum, að þessi gæfa megi verða varanleg. Sylvía beiddi mig að færa ykkur sínar innilegustu hamingjuóskir líka. Hún er mjög óþolinmóð eftir að sjá þessa nýju systur sína og hún gerir allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að geta tekið eins vel á móti ykkur og unnt er.“ Lávarðurinn varð sérlega ánægður. „Ég vona að Verenika og Sylvía muni unnast eins og systur,“ sagði hann. „Verenika hefur aldrei átt systur né vinstúlkur og hún hugsar með ánægju til þeirrar stundar, að fá að kynnast Sylvíu.“ „Hverjum skyldi hafa komið til hugar fyrir sex mánuðum síðan að þú yrðir kvæntur í dag,“ sagði Gilbert. „Þú minnir mig á lávarð Dingsda, sem kvæntist fallegri bóndadóttur, en þegar hann kom með hana heim í höllina sína, missti hún vitið af undrun og ánægju.“ „Samlíkingin er ekki rétt, Gilbert,“ sagði Roy þungbrýnn í meira lagi. „Lafði Clynord er engin falleg bóndastúlka; hún er sannarlega hefðarmær, svo tíguleg, sem nokkur aðalborin mær.“ „Auðvitað, það leiðir af sjálfu sér,“ svaraði Gilbert strax. „Þannig tala allir ungir, nýkvæntir menn og í þínum augum, að minnsta kosti, er lafði Clynord svo fullkomin, sem mest má verða og þannig á það að verða, góði kunningi,“ og um leið klappaði hann á öxl lávarðarins. Lávarðurinn vék sér undan. „Heyrðu, Roy, þú mátt ekki láta þér þykja þetta. Þú segir sjálfur í bréfinu, að hún sé kjörbarn prestsins á St. Kilda og hvað er þá líklegra en að hún sé dóttir einhvers fiskimanns þar.“ Lávarðurinn lét brúnir síga og fór að ganga um gólf, svo sneri hann sér að Gilbert og sagði: „Þú hefur misskilið bréfið mitt, Gilbert, en ég skal leiðrétta það áður en ég fer með þig til konu minnar. Hún er ekki eyjabarn; hún er af góðri ætt, en hún þekkir ekki föður sinn; fæðing hennar, nafn hennar...“ „Hún veit ekki hver hún er, það er ótrúlegt, það er eins og í leikriti. Það eina góða við það er að engir ættingjar hennar geta valdið þér óþægindum eða kostnaði.“ „Ef ég vissi ekki að þú særir aldrei nokkurn mann af ásettu ráði, þá gæti ég tekið þetta fyrir móðgun. Lafði Clynord var sem barn flutt til St. Kilda af hennar eigin föður, á hans eigin lystiskipi. Faðir hennar var tiginn maður, sem nefndi sig Sales. Hann kom barninu fyrir hjá prestinum og ætlaði að sækja það aftur að 5 árum liðnum, en hann kom aldrei og hefur líklega dáið innan þess tíma.“ „Ég er á gagnstæðri skoðun, Clynord. Það er eitthvað bogið við þessa sögu, en ég skal meta traust þitt á mér og geyma leyndarmál þetta, því ég vil heldur ekki að neinn blettur falli á nafn þitt.“ Hvert eitt af þessum orðum særði lávarðinn tilfinnanlega, eins og Gilbert ætlaðist til. Um leið og hann fór að ganga hröðum skrefum um gólfið, stokkroðnaði hann. „Þetta efni tölum við ekki oftar um, Gilbert,“ sagði hann. „Markgreifainnan á Clynord fær þá stöðu í mannfélaginu, sem henni ber og þú munt komast að raun um, að enginn leyfir sér að kasta skugga á mitt nafn. Þeim, sem forvitnast um ætt hennar, segi ég, að hún sé af Gwellanættinni á St. Kilda.“ „Auðvitað, auðvitað,“ samsinnti Gilbert. „Verenika Gwellan frá St. Kilda. Fallegt nafn í raun réttri.“ Lávarðurinn leit á háðfuglinn, sem grunaði undir eins, að réttara myndi að tala ekki fleira í þessa átt. „Þú segir satt, Roy,“ sagði hann mjúkmáll. „Það hlýtur að gera menn ánægða. En nú er ég orðinn óþolinmóður eftir að sjá lafði Clynord, sem hafði svo mikil áhrif á þig, að þú lagðir strax nafn og stöðu fyrir fætur hennar.“ Lávarðurinn gekk að glugganum og sneri bakinu að stjúpbróður sínum. Eftir stutta þögn sagði hann kuldalega: „Það er matmálstími nú; lafði Clynord er líklega búin að klæða sig fyrir borðhaldið. Afsakaðu mig litla stund, ég ætla að vita hvað henni líður.“ Hann hneigði sig kuldalega og fór. Gilbert horfði á eftir honum með ógeðslegu brosi. „Nú hef ég gróðursett fyrsta þyrninn innan um rósirnar hans. Ég hélt hann væri búinn að gleyma öllu ættardrambi, en það er þó ekki.“ Lávarðurinn kom nú aftur og leiddi konu sína. Gilbert bjóst við að sjá fyrirmyndar-fagra konu, en það varð nú ekki. Hann sá granna konu með útitekið andlit, hreina andlitsdrætti, breitt enni og mikið, svart hár. En þegar hún leit á hann og hann sá í augu hennar, sem blikuðu eins og stjörnur, þá skildi hann hvert töframagn kona þessi átti og hverja sál líkami hennar geymdi. Markgreifainnan var í skrautlegum samkvæmisbúningi og bar framkoma hennar vott um góða menntun og ættartign. „Verenika,“ sagði lávarðurinn, „leyfðu mér að kynna þig stjúpbróður mínum. Gilbert, þetta er konan mín, lafði Clynord.“ Frúin rétti honum hendi sína vingjarnlega, sem Gilbert greip og þrýsti innilega, um leið og hann óskaði henni til hamingju. Gilbert Monk reyndi að koma sér í mjúkinn hjá Vereniku, enda tókst honum það fyllilega. Hann var kátínan sjálf allt kvöldið og spjallaði fram og aftur um hitt og þetta. Þegar klukkan sló tíu, fór hann til herbergja sinna. „Byrjunin var góð,“ sagði hann við sjálfan sig. „Ef að gæfu okkar Sylvíu væri engin hætta búin, þá gæti ég borið heiðarlega vináttu til lafði Clynord, en eins og sakir standa verð ég vinur hennar að svo miklu leyti, sem mínir eigin hagsmunir krefjast. Það sem Sylvía gerir í okkar þágu, skal ég ekki hindra. Fyrst erum við, svo koma aðrir.“ Meðan Gilbert var að tauta við sjálfan sig, sat Verenika við hlið manns síns og var að tala um hve skemmtilegur Gilbert væri. „Ef Sylvía er eins skemmtileg og hann, þá ætti sambúð okkar allra að verða ánægjuleg,” sagði hún. „Ég vildi helst að við tvö gætum lifað út af fyrir okkur,“ sagði lávarðurinn hreinskilnislega. „En ég má ekki vera eigingjarn, góða mín. Þú hefur alltaf verið svo einmana, svo það er eðlilegt að hugur þinn hneigist að skemmtunum og samkvæmislífi. Á morgun förum við af stað heim, svo þú færð bráðum að sjá Sylvíu.“ Morguninn eftir fóru þau af stað með lest til Lundúna og komu þangað árla daginn eftir. Þar eð Clynords-höllin var ekki albúin til að taka á móti gestunum, settust þau fyrst um sinn að á hóteli. Þar dvöldu þau eina viku, sem var varið til þess að skoða borgina, kaupa ýmislegt, taka á móti gestum og fara í heimboð. Meðan þau dvöldu í Lundúnum, skrifaði Gilbert tvö bréf til Sylvíu, en hún skrifaði honum eitt bréf, snilldarlega skrifað og fullt af lofsyrðum um Vereniku. Þetta bréf sýndi Gilbert Vereniku, eins og Sylvía hafði ætlast til. Loksins kom sú stund, að þau yfirgáfu heimsborgina og héldu áleiðis til Clynord. „Nú erum við bráðum komin heim,“ sagði lávarðurinn, þegar hann sá konu sína horfa með vaxandi forvitni út um vagngluggana. „Heim,“ sagði Verenika skjálfandi röddu, en með gleðigeislum í augunum. „Roy, Roy, nú liggur allt mitt nýja líf fram undan mér — hvernig skyldi það verða?“ 6 Meðan Gilbert var á ferðalaginu að heimsækja ungu hjónin, lét Sylvía ekki tímann líða ónotaðan. Hún gat hagað orðum sínum og framkomu þannig, að allt þjónustufólkið var mótfallið hinni væntanlegu lafði Clynord. Öllum var kunnugt um að lávarðurinn hafði verið trúlofaður Sylvíu, en enginn vissi, að hún hafði sjálf hafið þessa trúlofun í bráðræði sínu. Þegar Sylvía sagði frú Sewer, sem verið hafði ráðskona á Clynord yfir 20 ár, frá giftingu lávarðarins, og las nokkra kafla úr bréfinu fyrir hana, varð gömlu konunni að orði: Nei, þetta er ómögulegt. Þetta getur ekki verið satt. Lávarðurinn er að gera að gamni sínu, þó það sé ólíkt honum og auk þess gerir hann sig ekki sekan í neinni óheiðarlegri breytni, né bakar konu opinbera smán, allra síst þeirri konu, sem hann er trúlofaður. Nei, þetta getur ekki verið rétt.“ „Þér hafið nú heyrt hvað hann segir í bréfinu, en mér dettur ekki í hug að sakfella hann, ég er viss um, að þessi kona hans hefur tælt hann til að lofa sér eiginorði og svo hefur sómatilfinning hans bannað honum að hætta við svo búið. Að því er mig snertir, þá er ég neydd til að vera hér, svo almenningi gefist ekki færi á að álíta, að ég sé forsmáð og það sem meira er, ég ætla að undirbúa hátíðahaldið við komu þeirra hjónanna. Þegar ráðskonan var farin, gekk Sylvía til sinna eigin herbergja til þess að tala við Roggy, gömlu indversku þernuna sína. Markgreifinn hafði í bréfum sínum beðið um að herbergi þau, sem móðir hans eitt sinn notaði, væru færð í lag og prýdd, til þess að þau gætu orðið aðsetur konu hans og útvegaði Sylvía því menn frá Lundúnum til að laga þau og skreyta. Loks kom símskeyti til ungfrú Monk, sem tilkynnti henni hvaða dag og stund hjónin væru væntanleg til Clynord. Herra Sanders ráðsmaður fékk um leið samhljóða skeyti. Hann sendi skrautvagninn til Osborne, sem var næsta járnbrautarstöð, aðeins í fjögurra mílna fjarlægð, og annan lítinn vagn handa herbergisþernu frúarinnar og farangrinum. Allt vinnufólkið var skrautbúið. Þegar Sylvía sá skrautvagninn aka burt, varð hún svo yfirbuguð af sorg og gremju yfir því, að það var ekki hún sjálf sem vagninn átti að sækja, að hún flúði til herbergja sinna í eins konar æði. Þar brann eldur á arni. Hún hélt höndunum yfir logunum, enda þótt kuldinn, sem henni amaði, kæmi að innan, en ekki að utan. Hún leit í kringum sig í herberginu, hvort hún væri ein, og í því kom Roggy inn. „Ert það þú, Roggy?” spurði hún ofur lágt. „Það er líklega kominn tími til að ég skreyti mig. En hvernig á ég að geta tekið á móti henni?“ sagði hún kjökrandi. „Þey, þey,“ sagði Roggy hughreystandi. „Nú byrjar eitt óróakastið í þér enn. Það veikir taugarnar og drepur þig á endanum, ef þú ekki gætir þín, eða vilt þú ekki heldur ráða örlögum þinum og þessarar lafði Clynord? Milli þin og lávarðar Clynords stendur engin hindrun, sem annarri hvorri okkar er um megn að ryðja úr vegi.“ Sylvía rétti úr sér. Það var sem eldur brynni í augum hennar og roði kom í kinnarnar. „Þú segir satt, Roggy!“ sagði hún. „Það er barnalegt af mér að vera svona veik fyrir, að rýma sæti án þarfa. Klæddu mig nú og gerðu mig eins fagra og ég get orðið.“ Roggy brosti og kinkaði kolli samþykkjandi. — Hún var orðin gömul og mögur, hörundið dökkmórautt og allt hrukkótt, augun smá, en undarlega hvöss. Hárið var hulið undir rauðum höfuðdúk. Hún var klædd fellingaríkum silkimöttul, með ilskó á fótunum. Með æfðum höndum byrjaði Roggy strax að klæða Sylvíu, og þegar því var lokið, sagði hún: „Ég skal ekki trúa því að óreyndu, að Roy komi með fallegri konu til Clynord en þú ert. Þú lítur út eins og drottning.“ Samlíkingin átti vel við. Sylvía var klædd purpurarauðu flaueli, sem var í góðu samræmi við dökka hörundslitinn hennar. Kjóllinn hafði langan slóða, og var bryddur með hreysikattarskinni að neðan, um hálsinn var og brydding úr sama skinni og utan yfir henni ljómandi fallegur knipplingakragi. Um mittið bar hún gyllt spangabelti, og um hálsinn gljáði gimsteinamen. „Þey,“ sagði hún allt í einu. „Það er farið að hringja klukkunum í þorpinu. Heyrirðu, þær eru að blessa komu hennar. Við þessa hugsun var nær því liðið yfir hana, en Roggy hljóp út í eitt hornið á herberginu, opnaði þar veggskáp, tók út úr honum flösku með styrkjandi lyfi í, og bað Sylvíu að drekka. Hún svalg góðan teig úr flöskunni, hvíslaði svo fáeinum orðum að þernu sinni á indversku máli, fór síðan út í forsalinn og þaðan inn í herbergi lafði Clynords. Í þessum óviðjafnanlega skrautlegu herbergjum var alls staðar nægur hiti, en þar gat hún ekki unað sökum kvala þeirra er öfundin olli. Þaðan gekk hún niður í móttökusalinn og heyrði þangað óminn frá þorpsklukkunum. Þorp þetta átti Roy, og voru allir íbúar þess glaðir yfir heimkomu lávarðarins. Allir leiguliðarnir, húsmennirnir og heimilisfólk þeirra var samankomið og neytti góðra veitinga í einni álmu hallarinnar. Fyrir utan aðaldyrnar stóð frú Sewer ásamt öllu vinnufólkinu. Háraddað samtal og hlátur gall við hvaðanæva, en þagnaði þegar Sylvía kom út úr aðaldyrunum og gekk þaðan og inn um dyrnar sem voru á viðhafnarsalnum. Þegar hún var komin þangað, settist hún við einn gluggann til að bíða þar komu hjónanna, en hún þurfti ekki að bíða lengi, því í sömu svipan ók skrautvagninn inn í hallargarðinn og jafn snemma kváðu við húrrahrópin í mannfjöldanum. Þegar vagninn nam staðar við tröppurnar, ætlaði hún að standa upp og bjóða hjónin velkomin, en henni var það ómögulegt, hún var máttlaus og hana svimaði. Hún heyrði þau ganga inn í anddyrið, heyrði lávarðinn bjóða konu sína velkomna á þetta nýja heimili hennar, og kynna hana því helsta af vinnufólkinu. Þau komu upp tröppurnar. Með yfirnáttúrulegu afli stóð hún upp með bros á vörum. Dyrnar voru opnaðar, og inn kom lávarðurinn og leiddi hina ungu konu sína. Sylvía þaut í fangið á lávarðinum og sagði: „Velkominn, Roy, velkominn bróðir minn.“ „Sylvía,“ sagði lávarðurinn, „ég kem hér með systur handa þér. Mér þætti vænt um að þið gætuð elskað hvor aðra sem systur. — Verenika, þetta er mín góða systir, Sylvía.“ Sylvía leit til hennar rannsakandi augum, og hugsaði: Er þetta barn tekið fram yfir mig? Verenika undraðist þessa skartbúnu konu, leit til hennar biðjandi augum og sagði: „Getur þér þótt vænt um mig, Sylvía? Mig hefur lengi langað til að eignast systur — viltu vera sem systir mín? Í stað þess að svara tók Sylvía ungu konuna í faðm sér og kyssti hana. Lávarðurinn brosti ánægjulega. Hann áleit vináttuna fast bundna. „Ég skal fylgja þér til herbergja þinna,“ sagði Sylvía. „Þú ert þreytuleg og þarft að hvíla þig áður en við förum að borða. Hún tók í hendi hennar og leiddi hana upp stigann. „Á ég að vera hér?“ spurði markgreifainnan með barnslegri einlægni. „Hér er allt svo fallegt, Sylvía, eða má ég ekki kalla þig Sylvíu? Mig áttu að kalla Vereniku.“ „Verenika, gamalt enskt nafn, eða þá mjög sjaldgæft,“ sagði Sylvía. „Það er máske velskt? Mig minnir, að ég hafi heyrt að faðir þinn væri þaðan.“ „Ég held það sé enskt, þó ég viti það ekki fyrir víst,“ sagði Verenika. „Herra Gwellan hefur ekki gefið mér þetta nafn, heldur faðir minn.“ „Það er þá líklega algengt í ætt þinni. Lifir faðir þinn enn?“ „Ég veit það ekki, en ég skal við tækifæri segja þér ævisögu mína. „Gott. En nú þarftu að fara að skipta um föt, áður en farið er að borða. Ég skal senda herbergisþernuna þína upp til þín, því ég verð að fara.“ Þegar Sylvía var farin, skoðaði Verenika herbergin nákvæmlega, og sjálfa sig í speglinum. „Ó, þetta er draumur,“ sagði hún við sjálfa sig. Allt í einu heyrir hún fótatak frammi á ganginum. Það er herbergisþernan, hugsaði hún. — Herbergisþernan var frönsk, Fifina að nafni, málgefin, ógrunduð í hugsun, en sérlega dugleg. „Ó, maddama,“ sagði hún. „Þessi Clynord-höll er sannarleg Paradís. Þessi fjöldi af herbergjum, þessi sægur af vinnufólki og alls staðar skraut. Viljið þér búa yður strax?“ Verenika hneigði sig samþykkjandi. „Hvaða kjól viljið þér?“ spurði Fifina. „Ég mætti Sylvíu í salnum og hún sendi mig upp. — Ó, hún lítur út eins og drottning í flauelinu og hreysikattarskinnunum. Hún er aðeins stjúpsystir lávarðarins og vinnufólkið segir að hún hafi verið heitbundin lávarðinum, þegar hún fór, en svo hafi trúlofun sú verið rofin og stúlkurnar segja að hann elski hana enn. Þér auðvitað segið þessu fólki upp vistinni — er það ekki, lafði mín?“ Verenika var orðin náföl. Í fyrsta sinni fann hún til afbrýði í huga sínum, samt harkaði hún af sér og sagði: „Mig langar ekki til að vita hvað vinnufólkið talar um. Í návist minni rækir þú bara skyldur þínar, og sem stendur eru þær að hjálpa mér í fötin.“ „En, frú ...“ „Ekkert en, Fifina, ég þoli ekki mótsögn.“ Fifina þagnaði strax og fór að klæða Vereniku. Þegar hún var alklædd, sagði hún: „Nú máttu fara, Fifina, en sendu lávarðinum boð um leið, að ég vilji finna hann.“ Þernan fór. „Það er auðvitað ekki satt, að Roy hafi verið trúlofaður Sylvíu, en ég vil þó spyrja hann um það,“ sagði hún við sjálfa sig. Hnuggin í huga beið_hún komu manns síns. 7 Tíminn leið og ekki kom lávarðurinn. Nokkrir vinir hans voru nýkomnir, svo ráðsmaðurinn, sem Fifina hafði beðið fyrir skilaboðin, vogaði ekki að trufla hann. Verenika gekk fram og aftur í herberginu, mjög óróleg á skapsmununum. — Hann hefur elskað hana á undan mér og elskar hana kannske enn. Hún er svo falleg. Hvað á ég að gera, þegar hann hættir að elska mig? Deyja, hugsaði hún og hryllti við. Mínúta leið eftir mínútu án þess að lávarðurinn kæmi og nú fór hún líka að verða rólegri í skapinu. — Ég hef eignast manninn minn og ég skal eiga hann. Ást hans bregst mér ekki, það er ég viss um, sagði hún við sjálfa sig. Þessi hugsun gerði hana ánægða og þegar lávarðurinn loks kom, þaut hún brosandi í fangið á honum. „Elsku góða konan mín,“ sagði Roy, „mér þótti slæmt að geta ekki komið fyrr, en vinir mínir töfðu mig. Sylvía hefur undirbúið veislu þér til heiðurs. Gestirnir eru að koma, svo ég verð að flýta mér að búa mig. - Hvernig líst þér á Sylvíu?“ „Hún er ljómandi falleg, lík indverskri furstainnu. Mig furðar, Roy, að þú skyldir ekki kvænast henni.“ Lávarðurinn yppti öxlum og brosti. Hann áleit þessi orð Vereniku enga djúpa þýðingu hafa. „Roy,“ sagði Verenika, „þú elskar mig — elskar mig mest af öllu í heiminum?“ „Já, umfram allt annað,“ sagði hann og faðmaði hana að sér. „Ertu nú ekki ánægð? Ég get ekki ímyndað mér annað. En nú verð ég að fara að búa mig. Svo skulum við verða samferða ofan.“ Fagurrjóð af ánægju losaði Verenika sig úr faðmi hans, en hann gekk til herbergja sinna. Nú var hún fyllilega róleg aftur, settist við einn gluggann til að horfa á vagnana sem voru að koma. Tignarsvipurinn, sem blandaðist saman við hina mildu andlitsdrætti hennar, jók fegurðina og þannig fann lávarðurinn hana, þegar hann kom aftur. „Ég er hálf hræddur um, að húsmóðurskyldur þínar verði þér of erfiðar, Verenika,“ sagði Roy, „meðan þú ert óvön enskum siðum.“ „Það sem í mér er af viðmótslægni og fegurðarskyni, hefur hin kæra móðir mín, frú Gwellan, mótað, og ég vona að geta lært meira í þá átt án erfiðismuna. Þess utan hugsa ég aldrei um sjálfa mig, en aðeins um að þóknast öðrum. En nú held ég að gestir okkar séu flestir komnir.“ Roy hneigði sig og rétti henni hendina, svo gengu þau saman ofan í viðhafnarsalinn; þar voru Gilbert og Sylvía að taka á móti gestunum. Þau voru bæði sannfærð um, að Verenika myndi gera sig seka í mörgum yfirsjónum, en þar skjátlaðist þeim. Fegurðarskyn hennar bætti úr því sem hana skorti í þekkingu. Hún hafði skarpan skilning, glögga eftirtekt, var hreinskilnislega ástúðleg, og óeigingjörn og þessir kostir eru miklu meira virði en utanaðlærðir samkvæmissiðir. Í fáum orðum, fyrsta þátttaka hennar í samkvæmislífinu var reglulegur sigur, svo lávarðurinn var mjög ánægður með hana. Þeir af gestunum, sem fegurðardómgreind höfðu, sáu glöggt, að Verenika myndi verða mjög fögur kona og voru því í engum vafa um, hvers vegna lávarðurinn hefði valið sér hana, en orðrómurinn um trúlofun hans og Sylvíu, sem enginn vissi um, að hafinn var á formlegan hátt, olli því, að viðmót þeirra var kaldara en við mátti búast. Þegar búið var að borða, fór kvenfólkið aftur inn í samkvæmisherbergin, en karlmennirnir sátu um stund við víndrykkju. Verenika skemmti konunum með því að segja þeim frá eyjunni þar sem hún átti heima. Sylvía stóð ein í gluggaskoti og átti bágt með að dylja reiði sína. Samt réði hún svo mikið við sig, að hún gat svarað greifainnu Welby, sem kom til hennar, í þægilegum róm. „Af hverju eruð þér svona einmana, ungfrú Monk?“ spurði greifainnan. „Ég er dálítið þreytt. Undirbúningurinn undir móttöku hinna ungu hjóna, okkar kæru gesta ...“ „Auðvitað, auðvitað. Okkar á milli sagt, þá er lafði Clynord ekki eins falleg og ég hjóst við. Fyrirmannleg er hún, og líklega af höfðingjaættum, en ég er mjög forvitin eftir að kynnast ætt hennar.“ „Framkoma hennar er afleiðing af sérlyndi hennar, en af góðum ættum er hún ekki. Ég veit ekki betur en hún sé fiskimannsdóttir — frá St. Kilda.“ „Þetta er bæði merkilegt og skáldlegt. Maður verður þó að viðurkenna, að hún kann sig vel, en jafn mikill stöðumismunur hjóna er ekki æskilegur.“ Sylvía yppti öxlum þegjandi. „Þetta verður okkar á milli, kæra ungfrú,“ bætti greifainnan við. „Eðlilega,“ svaraði Sylvía. Greifainnan fór nú aftur inn í kvennahópinn og áður en karlmennirnir komu til þeirra, vissu þær allar, að lafði Clynord var af lágum ættum. Þrátt fyrir öfugstreymi þetta, skemmti Verenika sér ágætlega. Nú voru karlmennirnir komnir í hópinn og samræðurnar urðu fjörugri. Á meðan þessu fór fram, var farið að dimma og flugeldarnir áttu að fara að hefjast, svo allur hópurinn gekk út á marmaraflötina. Verenika varð ánægðari, en orð megi lýsa. — „Mér virðist þetta vera draumur,“ sagði hún, „og er næstum hrædd við að ég vakni til þess að skynja það, að þetta séu aðeins sjónhverfingar.“ Kvöldið leið — gæfuríkustu stundirnar okkar eiga líka endi. Gestirnir voru farnir, ljósin slokknuð og dansinn hættur, og þar með var fagnaðarhátíðinni lokið. Lafði Clynord, systkinin og herra Sanders, voru ein eftir í salnum. Herra Sanders var af góðum ættum og vel menntaður, og nokkuð farinn að eldast. en óvanalega sterkbyggður, áreiðanlegur og glöggsýnn. Hann bjó í litlu húsi skammt frá höllinni og naut alls staðar góðs álits. Öllum tíma sínum og orku eyddi hann í þarfir ættar þeirrar, er hann hafði svo lengi unnið fyrir. Lávarðurinn bar fullt traust til hans og af því leiddi að þeir voru góðir vinir, enda voru þeir nú sokknir ofan í djúpar umræður um áríðandi efni. Sylvía gekk til lávarðarins og bauð honum góða nótt og skömmu síðar fylgdi Gilbert dæmi hennar. Vereniku langaði til að tala við mann sinn og segja honum frá afbrýði þeirri, sem hefði hrifið sig, en þar eð stundin sem yfir stóð, virtist ekki hentug til þess, gekk hún til herbergja sinna. Lávarðurinn talaði enn hálfa klukkustund við herra Sanders og eftir að hann fór, sat lávarðurinn fáeinar mínútur hugsandi. Svo stóð hann upp og ætlaði til konu sinnar, en í sömu svifum opnuðust dyrnar nær því hávaðalaust og Sylvía kom inn. „Eitt augnablik aðeins,“ sagði hún í blíðum og aðlaðandi róm, — áður en þú ferð — ferð til hennar. Ég ætla aðeins að óska þér til hamingju og segja þér hve kær Verenika er orðin mér. Hún er svo aðlaðandi, að maður verður að elska hana.“ „Ég vissi að þér myndi þykja vænt um hana, góða Sylvía.“ sagði Roy hlýlega, „og ég óska og vona, að þú verðir henni eins góð systir og þú ert mér. Ég var alveg hissa, hve vel henni fórst í dag að taka á móti gestum, jafn óvön og hún er því, þar sem þetta var í fyrsta skipti, sem hún er í samkvæmi.“ „Ég var líka hissa,“ sagði Sylvía. „En hvað þú elskar konu þína heitt, Roy. Heldurðu að hún kunni fyllilega að meta ást þína? Og — góði Roy — er það ekki satt, berð þú ekki áhyggjur fyrir ókomna tímanum?“ Lávarðurinn horfði spyrjandi augum á hana. „Já, ég get hugsana þinna, Roy,“ hélt hún áfram. „Ég þekki þig betur en allir aðrir.“ Sylvía lagði báðar hendurnar á annað hnéð á lávarðinum og horfði framan í hann með angurværu augnaráði, birtuna af lampaljósinu lagði beint framan á fallega andlitið hennar. „Ég þekki kvíða þinn og ótta,“ bætti hún við. „Kvíða minn og ótta? — Ég skil þig ekki, Sylvía.“ „Ég meina þann ótta, sem þú hlýtur að bera fyrir því, að Verenika einhverntíma kunni að hitta þann mann, sem hún elskar meira en þig. Þú ert fyrsti menntaði maðurinn sem hún hefur séð, smekklega klæddur, fríður og tígulegur, ríkur og hátt settur í mannfélaginu, hún átti ekki kost á að bera þig saman við aðra menn og því hafa þessir kostir þínir blindað augu hennar í bráðina, en þar með er ekki sagt að þau kunni ekki að opnast síðar meir og að hún finni ekki annan mann, sem hún geti elskað heitar.“ Roy hafði aldrei dottið þetta í hug, en samt sem áður gróðursettu orð hennar þyrna í huga hans, og hann var alvarlegur þegar hann svaraði: „Það er ef til vill sannleiki fólginn í því, sem þú segir, en Verenika er heiðarleg og samviskusöm kona, sem aldrei mun bregðast mér. Ég er viss um að hún elskar mig.“ „En hvernig elskar hún þig? Með ást 17 ára gamallar stúlku — með þeirri ást, sem börn elska brúður sínar. Hvað veit hún um ástríður kvenna, ástina, sem á sama tíma er vitfirring, unaðsleiðsla, kvíði og örvílnan.“ „En góða systir mín, hvað þekkir þú sjálf til slíkrar ástar?“ „Þetta spyrð þú mig um — þú Roy!” sagði Sylvía tryllingslega. „Þú sem hefur verið heitbundinn mér — þú sem áttir hendi þá, er hin deyjandi móðir þín lagði mína hendi í, og bað forsjónina að blessa sameiningu okkar — þú getur spurt, hvort ég viti hvað ást sé, þú, sem átt þá rödd, er hljómar fyrir eyrum mér sem fegursti hljóðfæraómur, sem átt það bros er vekur unaðsleiðslu í huga mínum — og ást þinni, ó, guð minn góður — kastaði ég burt eins og ónýtu leikfangi í bræði minni! Þú elskaðir mig, Roy — er það ekki satt? Þú kallaðir mig þá hinum ástúðlegustu nöfnum; ég á ennþá bréf frá þér, þar sem þú segir að hjarta þitt hafi valið mig. — Ég hafði heimild til að elska þig, þar sem þú varst mér heitbundinn. Nú er ég ekkert nema fátæk stjúpsystir, sem á lífsviðurværi mitt undir þinni náð, hrakin burt frá hjarta þínu, og allt mitt líf eyðilagt! Ég vildi ég væri dauð — steindauð!“ — og svo fór hún að gráta. Lávarðurinn var blóðrjóður í andliti, og horfði meðaumkunaraugum á Sylvíu og sagði svo: „Góða Sylvía mín, ég vissi ekkert um allt þetta. Reyndu að stjórna geði þínu, svo þú þurfir ekki að iðrast fleiri orða á morgun, en þegar eru töluð.“ Sylvía herti upp hugann, reis á fætur og fjarlægði sig, um leið og hún þóttist heyra fótatak á ganginum, en sneri svo aftur í hægðum sínum. greip hendi Roys og sagði: „Fyrirgefðu mér, ég skal aldrei oftar missa vald yfir sjálfri mér. Sem sönnun fyrir því, að þú ekki fyrirlítir mig, bið ég þig að gefa mér koss — bróðurkoss.“ Sylvía heyrði skrjáfa í kjól fyrir utan dyrnar, og grunaði að það væri Verenika, sem kæmi til að finna mann sinn. Þess vegna lét hún höfuð sitt hníga niður á öxl lávarðarins, og af meðaumkun með henni gaf hann henni hinn umbeðna bróðurkoss. Í þessu bili voru dyrnar opnaðar með hægð, og Verenika leit inn og sá þau í faðmlögum, en hvarf jafnskjótt aftur og hljóp sem æðisgengin til herbergja sinna. Sylvía, sem vissi vel, hvað hún hafði gert, losaði sig úr faðmi lávarðarins og fór. Hann settist aftur, vorkenndi Sylvíu í huga sínum og hét því að reynast henni góður bróðir. Skömmu síðar fór hann til herbergja konu sinnar, og var hún þá háttuð. Hann kallaði til hennar með hægð, en hún svaraði ekki. Háttaði hann þá líka og sofnaði von bráðar. Þá fyrst sneri hún sér að honum. Augu hennar og svipur lýstu ákafri hryggð. — „Það er þá satt.“ sagði hún ofur lágt. „Mér hefur hann kvænst, en hana elskar hann. Ég skal ekki segja honum, að ég viti það, hann skal ekki fá að vita, að hann hefur marið í sundur hjarta mitt. Lengi get ég naumast lifað þannig. Þegar ég er horfin, getur hann kvænst Sylvíu.“ 8 Dagar og vikur liðu. Á Clynord var aldrei gestalaust, og sumir þeirra dvöldu þar vikum saman. Seint í nóvember hafði lávarðurinn fylgt gestum sínum til Osborne, en Sylvía gekk til sjávar til að horfa á lítinn bát, sem hoppaði á ölduhryggjunum. Í bátnum var Verenika, og óskaði Sylvía með sjálfri sér, að bátnum hvolfdi, svo Verenika fengi að deyja. — Þá heyrir hún fótatak að baki sér og snýr sér við. Það var lávarður Clynord sem kominn var, og heilsar hún honum brosandi. „Við bjuggumst ekki svona fljótt við þér, Roy. Sérðu konuna þína á litla bátnum þarna? Ég er dauðhrædd um hana í þessum stormi.“ „Þú þarft ekki að vera hrædd um Vereniku,“ sagði Roy brosandi. „Ég er hrædd um að hún eigi ekki langt líf fyrir höndum; það er ýmislegt sem bendir til þess. Hefurðu ekki tekið eftir, hve sérlynduð og duttlungafull hún er orðin, hve hvíldarlaus og viðkvæm, hve föl hún verður ef einhver ávarpar hana óvænt?“ „Nei, ég hef ekki tekið eftir þessu, en ég er þér þakklátur fyrir, að þú bendir mér á þetta.“ Svo tók hann upp vasaklút og veifaði honum. Verenika sá það og réri til lands. „Ég vildi að Gilbert væri hér,“ sagði Sylvía. Lávarðurinn ansaði engu, en hljóp ofan einstigi, sem var höggvið í klettana. Hugur hans var allur hjá Vereniku. Sylvía horfði á eftir honum rjóð í kinnum, svo hljóp hún líka ofan einstigið og stóð við hlið hans, þegar Verenika lenti bátnum. Verenika hafði séð mann sinn og Sylvíu standa uppi á klettinum og vera að tala saman. Afbrýði og beiskja kviknaði í huga hennar, en þegar hún lenti var hún föl og þreytuleg. Lávarðurinn varð sorgbitinn, þegar hann laut niður að henni og tók hana úr bátnum. „En hvað þú ert orðin létt, Verenika,“ sagði hann. „Ég er hræddur um að þokuloftið okkar hafi ekki góð áhrif á þig. Þú skelfur af kulda. Komdu, við skulum ganga heim.“ Hann tók um mitti hennar til að styðja hana upp einstigið, en hún vatt sér frá honum og hljóp á undan. „Verenika!“ kallaði hann. „Komdu á eftir.“ sagði hún og hló óviðkunnanlega. Lávarðurinn horfði angurvær á eftir Vereniku og leit spyrjandi augum á Sylvíu. Hún huggaði hann á þann hátt, að auka kvíða hans meira. „Ég ætla að leita ráða hjá lækni.“ sagði Roy. Þegar þau komu inn í höllina, voru nýir gestir komnir. Lávarðurinn og kona hans fóru að taka á móti þeim, en Sylvía fór til herbergja sinna. Herbergi hennar voru beint á móti herbergjum lafði Clynords hins vegar við ganginn. Þegar hún kom inn varð henni bilt við, því þar var Gilbert bróðir hennar fyrir. „Þú hér, Gilbert? Ég hélt þú værir í Lundúnum að læra lög. Nær komstu?“ „Meðan þú varst niður við sjóinn. En hvað lafði Clynord er breytt orðin. Er það þér að kenna?“ „Ég hef ekkert gert henni. Hún er kvalin af afbrýði, það er allt. Hún hefur frétt að við Roy höfum verið trúlofuð og það sárnar henni.“ „Og þú hefur hreint ekki ...“ „Hvað þá?“ „Hjálpað dálítið til, meina ég.“ „Þvaður! Og hvað hefur þú gert í Lundúnum?“ „Mjög markverð störf. — Ég hef komist að leyndarmáli. Ef ég get framkvæmt áform mín, verður það mér auðug gullnáma.“ „Snertir uppgötvun þín Vereniku? Hefur þú ef til vill komist eftir ætterni hennar?“ Gilbert roðnaði og svaraði óvanalega fljótt: „Hvernig ætti það að geta skeð? Heldurðu að ég sé galdramaður? Nei, það er ekki í þá átt. — En eftir á að hyggja, mér líst heldur ekki á útlit þitt. Hvenær ætlarðu að binda endi á þessa órósemi þína?“ „Í kvöld,“ svaraði hún. „Takmarkalaus ást Roys á þessu barni gerir mig tryllta. Ég ætla að byrja á því í kvöld, að ryðja þessari hindrun úr vegi. Það verður að gerast smátt og smátt, til þess að vekja engan grun.“ Gilbert brá alls ekki við þessa fregn. „Ég giska á að þú viljir ráðfæra þig við fóstru þína. Þá ætla ég á meðan að finna lafðina.“ Hann stóð upp og gekk út. En áður en hann var búinn að læsa hurðinni, heyrði hann systur sína kalla á Roggy. Hann brosti háðslega og gekk til svefnherbergis Sylvíu, en það var læst. Þá tók hann stálvír upp úr vasa sínum og gat snúið lyklinum með honum og lokið upp. Líklega hefur þetta ekki verið í fyrsta sinni sem hann reyndi þessa list. Eins og hann bjóst við, var Roggy hjá Sylvíu inni á skrifstofunni. Hann læsti dyrunum strax og læddist inn í búningsklefann. Þar faldi hann sig á bak við dyratjöldin, og var að enda við það þegar hann heyrði málróm þeirra. „Á, á,“ sagði hann við sjálfan sig. „Allt er rétt út reiknað. Nú fæ ég að vita hvað þær hafa fyrir stafni. Þessi tveggja mánaða dvöl mín í Lundúnum var ekki gagnslaus. Ég hef komist eftir leyndarmáli, sem lávarðurinn, kona hans og Sylvía vildu kaupa dýru verði. Það er regluleg auðsuppspretta fyrir mig, enda ætti ég að vera maður til að geta notað hana. En klókur verð ég að vera, klókur eins og sá vondi, þögull eins og dauðinn, og lævís eins og hann í goðafræðinni — hvað hann hét nú? Jæja, það er nú sama. Þey, hvað eru þær að segja? Þær eru að koma hingað?“ Sylvía og Roggy komu inn nú í herbergið fyrir framan. 9 Sylvía og Roggy höfðu engan grun um, að Gilbert væri þar inni. Roggy renndi augunum um herbergið, fremur af vana en því, að hún héldi nokkurn vera þar. Svo flutti hún mjúkan stól að ofninum og þar settist Sylvía, öskugrá í andliti með lokuð augun. „Sestu hérna við hliðina á mér,“ sagði Sylvía. „Ertu viss um að við séum einar, að enginn standi á hleri við dyrnar.“ „Alveg viss svaraði Roggy, „við erum einar, þú getur sagt það sem þér býr í huga.“ Sylvía þagði enn nokkra stund. Loksins byrjaði hún þó að tala á indversku, en það mál skildi Gilbert vel. „Roggy,“ sagði hún, „ég er ekki lengur fær um að sjá, hve heitt Roy elskar Vereniku, það drepur mig.“ „Þú þarft heldur ekki að gera það lengur,“ svaraði Roggy gamla. „Hann var heitbundinn mér, en ég sagði honum upp í bræði minni og fyrir það líð ég nú óþolandi kvalir. Það rennur meira af indversku blóði en ensku í æðum mínum. Með brjóstamjólk þinni hef ég drukkið í mig hjátrú þína, lífsskoðun þína og það, hve lítils þú metur mannslífið.“ „Alveg rétt, barnið mitt,“ sagði Roggy. „Og nú,“ sagði Sylvía, „verður þú að hjálpa mér.“ „Já,ég skal hjálpa þér. — Hvað á ég að gera?“ „Ryðja mér braut, svo ég geti orðið lafði Clynord. Ég elska Roy og hann skal verða maðurinn minn. Þessi eyjastúlka er einskis virði, hún verður að hverfa af braut minni.“ Gamla konan brosti viðbjóðslega. „Við skulum sjá hvað Roggy getur.“ tautaði hún. Gilbert veitti öllu nána eftirtekt úr fylgsni sínu. Roggy stóð upp, gekk að veggnum, studdi þar á fjöður og laukst þá upp dálítill skápur. Hún tók út úr honum litla öskju, sem gljáði eins og gimsteinn við birtuna frá ofninum, svo settist hún aftur framan við ofninn, leit hýrlega á öskjuna, tók því næst lykil úr vasa sínum og opnaði hana. Meðan þær lutu hvor að annarri og hvísluðust á, fékk Gilbert tækifæri til að líta ofan í öskjuna. Í henni voru þrjár ilmflöskur með vatnstærum vökva í, þrír smápakkar innan í olíubornu silki — líklega duft — og aðrar þrjár ilmflöskur með lyfjaberjum í. Roggy tók þrjár síðarnefndu flöskurnar og skoðaði þær lengi og nákvæmlega. Ofan yfir glertappana í þeim var bundið bókfell. „Hvert eitt af þessum lyfjaberjum,“ sagði hún, „rennur sundur og sameinast hvaða legi sem er. Þau eru litarlaus og svo lítil, að enginn veitir þeim eftirtekt. Þau hafa fljótt áhrif og skilja engin merki eftir. Á flöskunni stendur hjartveiki. Hver sem gleypir eitt slíkt ber, deyr strax — af hjartveiki, mætti segja.“ „Ekki þessa flösku,“ sagði Sylvía. „Verenika er ung og hraust, enginn myndi ætla að hjartveiki hefði orðið henni að bana.“ Roggy setti flöskuna frá sér og tók aðra. „Á þessari flösku stendur kalda. Hver sem neytir eins af þessum lyfjaberjum, fær kölduflog og þar á eftir hitasótt, sem varir í 6 til 8 daga, áður en dauðann ber að höndum. Veikin er svo eðlileg, að engum dettur eitur í hug. Þau hafa enga lykt, ekkert bragð og skilja ekkert merki eftir. Lafðin hefur undanfarinn tíma verið föl og veikluleg, svo það er ekki óeðlilegt þó hún veikist.“ „Ég held við getum notað þau,“ sagði Sylvía, „en hvað er í þriðju flöskunni?“ „Það sama og í númer 2, með þeim mismun aðeins, að manneskjan deyr ekki heldur fellur í dá, sem varir í þrjá daga, svo raknar hún við aftur. Vilji maður að dauðadáið standi lengur yfir, tekur maður annað lyfjaber, leysir það sundur í vatni og hellir því í munn þess sem í dáinu er að kvöldi hins þriðja dags. En þetta lyf muntu naumast vilja nota, taktu heldur ber úr númer 2.“ „En hvernig á ég að koma berinu ofan í hana?“ spurði Sylvía. „Þig brestur naumast tækifæri til þess. Þú getur látið berið í kaffið hennar. Haltu á öskjunni augnablik, góða barn. Ég ætla að bregða mér inn og sækja silkipjötlu til að vefja utan um númer 3 og dálítið glas til að geyma lyfjaberið í.“ Hún lagði eituröskjuna í kjöltu Sylvíu og gekk úr svefnherbergi hennar inn í sitt. „En það vald, sem þessi litla kúla geymir.“ tautaði Sylvía. — „En hvað er þetta?“ Hún leit upp og lét flöskuna ofan í öskjuna. Það hafði verið barið að dyrum í stofunni. Hún hinkraði við og leit á eftir Roggy, sem var að hverfa inn í sitt herbergi. Nú var barið aftur og nú þekkti Sylvía, að það var Verenika sem barði. „Ég verð að hleypa henni inn.“ sagði hún í hálfum hljóðum. — „Ó, hún er líklega að vitja um sönglagið, sem ég lofaði henni, og tefur mig ekki lengi.“ Hún stóð upp, setti öskjuna á borðið og breiddi dagblað ofan yfir hana, fór svo inn í stofuna og læsti vandlega á eftir sér. Hún var varla horfin, þegar Gilhert kom út úr fylgsni sínu, læddist á tánum að borðinu og tautaði við sjálfan sig: „Nú veit ég hvað ég á að gera, þær hafa bent mér á aðferðina.“ Hann lyfti blaðinu upp með varkárni, tók tvö lyfjaber úr flösku númer 3 og lét hana svo aftur á sama stað. Síðan tók hann berið úr flösku númer 2, sem Sylvía hafði lagt til hliðar, og lét í staðinn annað berið úr númer 3 og flýtti sér svo aftur í fylgsni sitt, enda var tími til kominn fyrir hann að fela sig, því í sama bili komu þær Sylvía og Roggy inn. Þetta stóð heima, hugsaði Gilbert. Nú geta þær gert hvað þær vilja, ég veit hvað ég á að gera. Roggy settist aftur, tók við öskjunni af Sylvíu og raðaði því sem í henni var, lét hana síðan inn í skápinn og læsti honum vandlega. Svo tók hún lyfjaberið, sem Gilbert var búinn að skipta á, lét það í ofurlítið glas, fékk Sylvíu og sagði: „Þú getur haft það í vasanum, barnið mitt, tækifæri til að nota það, bregst þér varla.“ „Nei, ég gef henni það í dag. Að hálfum mánuði liðnum verður lafði Clynord komin í Clynords-ættargrafreitinn, eða máske fyrr. En nú er ég svo þreytt, að ég verð að leggja mig stundarkorn, áður en ég klæði mig til kvöldverðar. Roggy sittu hérna hjá mér meðan ég sef, ég er svo hrædd við að vera ein.“ Sylvía gat aldrei verið ein. Roggy svaf ávallt i sama herbergi og hún á nóttunni, án þess að aðrir vissu og á daginn, þegar Sylvía var í sínum herbergjum, var hún jafnan hjá henni. Gilbert dvaldi enn um stund í fylgsni sínu, svo þegar hann áleit sér óhætt, læddist hann út og til herbergis síns, settist þar á legubekk og sagði við sjálfan sig: „Þegar sá vondi vill, þá hjálpar hann svo að dugir, en mér þykir nú vænt um, að þurfa ekki hans hjálpar, að minnsta kosti fyrst um sinn. Þessi tvö ber skal ég geyma, þau geta orðið mér mikils virði. Sylvía ætlar að nota berið í dag, en Verenika deyr ekki þó allir ímyndi sér það, ég einn veit, að það er aðeins dauðadá. Sú uppgötvun, sem ég hef gert, verður mér auðsuppspretta. Eftir kvöldverð verð ég að narra nokkra seðla út úr Clynord, og fara svo til Lundúna í kvöld.“ 10 Sylvía kom ofan í borðsalinn jafn róleg eins og henni hefði aldrei nein hefnd eða neitt illt til hugar komið. Hún var svo skrautklædd sem mest mátti verða. Þegar hún kom inn, virtist henni salurinn vera mannlaus. Leit hún því í kringum sig og sér þá að Verenika situr í einu gluggaskotinu, föl í andliti og studdi hönd undir kinn. Gengur hún þá til hennar léttum fetum. „Hvað vilt þú, Sylvía?“ sagði Verenika lágt. „Hugga þig, Verenika. Þú ert svo þungbúin á svip að undrum gegnir. Er það heimþrá sem þjáir þig?“ „Ég hefði aldrei átt að yfirgefa eyjuna. Þar átti ég heimili — hér álít ég að mér sé ofaukið. Ég segi þér þetta, Sylvía, af því að ég verð að segja einhverjum það; Roy hefur líka svo mikið að hugsa um, og auk þess gesti sína, að hann sér ekki hvað mér líður, og svo er hann mér svo góður, að ég get ekki fengið mig til að hryggja hann með því að segja honum það.“ „Þú vekur hjá mér undrun, Verenika. Ég hélt að þú værir hamingjusöm.“ „Þú heldur að ég verði einskis vör, taki ekki eftir hverjum augum fólk lítur á mig. Það hrósar mér og hneigir sig fyrir mér, af því að ég er markgreifainna af Clynord, en talar illa um mig á bak. Ég heyrði frænku hans segja um daginn, að hann væri sá fyrsti Clynord, sem hefði kvænst konu er ekki væri af aðli. Hann svaraði henni stillt og djarflega, en honum hefur sviðið það samt, af því honum þykir mikið til hennar koma. Einn af frændum hans spurði líka, hverra manna ég væri, og hann gat engu svarað. Þetta og því um líkt hlýtur honum að sárna, Sylvía. Hefði hann ekki beitt jafnmikilli ákefð og hann gerði við bónorðið, og hefði ég og foreldrar mínir haft meiri lífsreynslu, þá væri hann laus við allar mínar kröfur til hans.“ „Talaðu ekki þannig, Verenika. Roy elskar þig, og við fylgjum hans dæmi með ánægju. Þú þarft ekki að kæra þig um hinn falska, öfundsjúka heim. Roy tekur ekkert tillit til stöðumismunar ykkar.“ „En ég vil ekki, að hann sé atyrtur mín vegna. Það er ekki skemmtilegt fyrir mig að vera í þeim félagsskap, þar sem ég er aðeins liðin mannsins míns vegna.“ „Þetta á rót sína að rekja til heimþrárinnar. En því segir þú Roy ekki frá þessu og lætur hann hugga þig?“ „Ég get ekki sagt honum frá öllu sem að mér amar. Væru sorgir mínar slíkar, að ég gæti sagt honum þær allar, þá væru þær léttari að bera, en — kæra Sylvía, ég er hrædd um, að hjónaband okkar sé mjög slæmur misskilningur. Reyndu ekki að hugga mig, ég get ekki þegið huggun af þér.“ „Verenika,“ sagði Sylvía lágt. „Þú heldur að þú sért sú eina, sem þjáist af kvölum sorgarinnar, en ég get fullvissað þig um það, að undir þessu þaki eru fleiri hjörtu þjáð en þitt. Roy sjálfur líður svo miklar kvalir, að í samanburði við þær eru þínar aðeins barnagaman. — já, já, — og ég líka, Verenika, ef þú vissir, hve sorgmarið og auðnulaust mitt líf er. — Fyrir ári síðan var ég gæfusömust allra kvenna; ég var trúlofuð manni, sem ég elskaði og sem elskaði mig aftur með hinni fyrstu ást sinni, sem aldrei deyr. En ég var duttlungafull og drambsöm, svo urðum við einu sinni ósátt. Í þessu lífi verður hann aldrei maðurinn minn.“ „Heldurðu að hann elski þig enn?“ spurði Verenika í hásum róm. „Já, mér er óhætt að segja þér það, því þú þekkir hann ekki og munt aldrei kynnast honum — já, hann elskar mig, elskar mig meira en nokkru sinni áður. Það hefur hann oft sagt mér, og seinast í dag.“ Verenika studdi hendinni á hjartað, svo mjög sárnaði henni að heyra orð Sylvíu. Jafn saklaus og Verenika var í hugsun sinni, kom henni ekki til hugar að Sylvía gæti talað ósatt orð, eða aðhafst neitt rangt, enda var Verenika alin upp innan um heiðarlegt fólk og sannleikselskandi, þó að það skorti hina svokölluðu siðfágun. „Ég er ekki það barn, sem þú álítur mig vera,“ sagði Verenika. „Ó, mér sárnar það þín vegna, vegna Roys og okkar allra, en nú er það of seint, of seint.“ „Vertu hugrökk, Verenika, eins og ég. Þey, þar kemur einhver — láttu ekki Roy sjá þig þannig.“ Inn kom lávarður Clynord ásamt ungum herforingja úr lífverði drottningar. Föl en brosandi gekk Verenika á móti manni sínum, án þess að nokkur merki geðshræringar þeirrar sæjust, sem hún nýlega var í. Skömmu síðar komu hinir gestirnir, og með þeim Gilbert Monk. Svo var gengið að borðinu og tekið til snæðings. En að lokinni máltíðinni fór kvenfólkið inn í annað herbergi, eins og vant var, meðan karlmenn sátu kyrrir við víndrykkju um stund. Verenika hefði helst viljað setjast í gluggaskotið, eins og áður, en Sylvía fékk hana til að setjast hjá sér við ofninn. Eftir litla þögn sagði Silvía: „Nú hefurðu ennþá naumast smakkað mat, Verenika, það eyðileggur heilsu þína. Þú mátt til að drekka einn bolla af kaffi áður en karlmennirnir koma,“ og án þess að vænta svars, hringdi hún og bað þjóninn, sem inn kom, að færa sér kaffi. „Má ég hella í bollann fyrir þig?“ spurði Sylvía. „Þakka þér fyrir, ef þú vilt gera svo vel. Ég hef enga lyst á því,“ sagði Verenika. „Jú, jú, drekktu úr einum bolla, það hressir þig,“ sagði Sylvía, gekk að litla borðinu þar sem kaffið stóð, hellti í bolla fyrir Vereniku og lét lyfjaberið umrædda í hann. Verenika horfði í eldinn og sá ekkert hvað Sylvía aðhafðist. Þegar hún var búin að láta rjóma og sykur saman við kaffið, brosti hún ánægjulega og rétti svo bollann að Vereniku. „Kaffið er gott, góða,“ sagði hún. „Drekktu það á meðan það er heitt, það styrkir taugarnar.“ „Ekki núna, Sylvía — seinna.“ „Jú, Verenika, þú verður að drekka það meðan það er heitt og ilmur er af því. Ef Roy kæmi og sæi þig eins og þú ert núna — drekktu það hans vegna.“ „Hans vegna,“ endurtók Verenika. „Hans vegna vil ég gera hvað sem er — réttu mér bollann, svo drekk ég úr honum — þakka þér fyrir nærgætnina.“ Verenika bar bollann að munni sér og drakk úr honum hvern dropa. Sylvía horfði þegjandi á Vereniku meðan hún tæmdi bollann, tók svo við honum tómum, gekk að borðinu og hellti í annan bolla handa sér og drakk. Að því búnu gekk hún út í gluggaskotið. Það er allt búið, hugsaði hún og brosti. Nú er hún herfang dauðans. Innan stundar verður hún veik, og innan viku verður hún þögnuð fyrir fullt og allt. 11 Meðan Sylvía framkvæmdi áform sitt gagnvart Vereniku, sat Roy hjá gestum sínum við skemmtilegar samræður. En mitt í gleðinni greip hann einhver óskiljanlegur kvíði og löngun eftir að sjá konu sína, og stóð því snögglega upp frá borðinu. Gestirnir gerðu hið sama og gengu inn í salinn. Þetta tækifæri notaði Gilbert og sagði lágt: „Viltu veita mér augnabliks áheyrn, Roy?“ Lávarðurinn stóð kyrr. „Síðasta mánuðinn, sem ég hef dvalið í Lundúnum, hef ég komist að samningum við lögfræðingafélagið Scott & Reman, að læra hjá þeim lög, og taka svo þátt í félagsskap þeirra að því búnu. — Hvað segir þú um þetta áform?“ „Á morgun skulum við tala um þetta, Gilbert.“ „Fyrirgefðu,“ sagði Gilbert. „Ég verð að fara til Lundúna í kvöld, því í fyrramálið á ég að byrja námið, og erindi mitt hingað var að biðja þig að lána mér 200 pund. Annað hundraðið á ég að borga fyrirfram fyrir kennsluna.“ „Þú skalt fá peningana, en notaðu þá vel. — Ég skal gefa þér ávísun á Drummond.“ Hann tók ávísanabók upp úr vasa sínum, skrifaði fáein orð á hana í flýti, reif svo blaðið úr og fékk Gilbert það. Hann þakkaði með mörgum fögrum orðum og sagði að síðustu: „Ég hef nauman tíma, ef ég ætla að ná í lestina frá Osborne, og því bið ég þig að flytja konu þinni og gestunum kveðju mína. Að viku liðinni kem ég aftur, segi þér frá hvernig sakir standa, og fæ þá að heyra álit þitt. Góða nótt.“ Lávarður Clynord fór inn í salinn, en Gilbert hljóp upp í herbergi sitt, þreif hattinn, yfirfrakkann og handtöskuna, þaut síðan út og upp í vagninn sem beið hans. Hann hallaði sér aftur á bak í vagninum og sagði við sjálfan sig: „Ég er eini maðurinn í heiminum, sem veit hver lafði Clynord er, og sú þekking er upphaf auðsældar minnar. — Sylvía gengur sínar þröngu og dimmu götur án þess að ráðgast um við mig, og lávarður Clynord hugsar um ekkert nema konu sína, þar sem ég, eins og maðurinn í brúðuleikúsinu, hef alla strengina í hendi minni og get látið brúðurnar dansa að minni vild.“ Þegar lávarður Clynord kom inn í salinn, sá hann Sylvíu standa á miðju gólfi innan um hóp af karlmönnum, sem hún var að tala við. Hún var rjóð í andliti, með undarlegan glampa í augunum. Lávarðurinn renndi augunum um salinn. Hann var sýnilega að gá að konu sinni. Verenika stóð í því horninu sem fjærst var, og var að tala við ungan aðalsmann. Hún var undarlega ókyrr, andlitið fölt, varirnar litlausar, en augun glóðu eins og stjörnur, og sýndust enda stærri en vant var. Með undarlegum, þvinguðum hlátri svaraði hún spaugsyrðum aðalsmannsins, svo lávarðinum varð illt við og flýtti sér til þeirra. „Líður þér illa?“ spurði hann, eftir að ungi maðurinn hafði hneigt sig og farið. „Ó, það er ekki að marka, það er svo heitt hér inni,“ svaraði hún, og strauk hendinni um ennið. Næsta hálftímann horfði Clynord stöðugt á hana. Af þessu vissi hún og var kætin sjálf. Áður hafði hún verið óframgjörn og faslaus, en nú var hún ofsakát og síspaugandi. — Eitrið sem Sylvía gaf henni, var farið að hafa áhrif. Þessi breyting á framkomu Vereniku vakti angist í huga lávarðarins, og hann ætlaði að fara að yrða á hana, þegar hún allt í einu þaut frá þeim; sem hún var að tala við, og að ofninum, settist þar í hægindastól og sagði: „En hvað hér er kalt. Bitur kuldi leikur um mig, eins og væri ég stödd við heimsskautið.“ „Verenika,“ sagði lávarðurinn skelkaður. „Ertu veik? Þú ert svo veikindaleg.“ Verenika leit upp og átti þó erfitt með það. Hún horfði kvíðandi og biðjandi augum á mann sinn, og var náföl í andliti. „Roy,“ sagði hún lágt, „mér er svo kalt. Það er eins og dauðans hrollur fari um líkama minn. Roy, Roy, hjálpaðu mér!“ Það var reynt að styðja hana á fætur, en hún hneig aftur niður máttvana. Lávarðurinn tók hana þá í fang sér og bar hana til svefnherbergis hennar, kallaði síðan á Fifinu og skipaði henni að afklæða konu sína. Síðan sendi hann þjón sinn til Osborne að sækja heimilislækni sinn, og jafnframt annan þjón eftir héraðslækninum. Gestirnir kvöddu nú hver eftir annan og fylgdi Sylvía þeim til dyra. Þegar þeir voru farnir, fór hún upp og inn í herbergi Vereniku. Hún lá í rúmi sínu undir hlýjum ábreiðum, en föl í andliti. Lávarðurinn hélt í hendurnar á Vereniku til þess að verma þær, frú Sewer var að búa til heita drykki og Fifina að láta gimsteinaskraut hennar og fatnað á sinn stað. Sylvía gekk að rúminu og leit hluttekningarlaust á sjúklinginn. Bennet, héraðslæknirinn í þorpinu, kom nú. Hann laut ofan að Vereniku, þreifaði á lífæð hennar og horfði alvarlegur og hugsandi niður fyrir sig. Ráðskonan sagði honum, að hún hefði viðhaft hin vanalegu heimilislyf. „Það er gott, mjög gott, kæra frú Sewer,“ sagði hann. „Þó,“ hélt hann áfram og sneri sér að lávarðinum. „væri mér mjög kært, að þér létuð senda eftir Hart lækni í Osborne. Hitaveiki hefur gengið hér í þorpinu um tíma og í gær mætti ég konu yðar, þegar hún kom út úr húsi Marteins skósmiðs, hún hafði verið að vitja um konu hans, sem lengi hefur verið veik. Ég benti henni á hve hættulegar slíkar heimsóknir væru, en hún sagðist vera hraust og heilsugóð og alls ekki hrædd, auk þess væri það skylda sín að vitja sjúkra í þorpinu. Þetta er eðallynd breytni, en ekki hyggileg, og nú sést afleiðingin. „Ég hef sent eftir honum. Konan mín var í dag að skemmta sér á bát úti á víkinni og hefur ef til vill orðið innkulsa,“ svaraði lávarðurinn. „Gerið það sem yður finnst nauðsynlegt og svo skulum við bíða eftir Hart lækni.“ Bennet notaði lyf þau, sem gagnlegust þóttu í slíkum tilfellum, enda minnkaði kuldahrollurinn, en áður en Hart kom, var hún búin að missa rænu. Loks kom Hart læknir, skoðaði hana og sagði: „Það er megn hitasótt, sem að henni gengur, en það er aðeins byrjunin að öðru meira. Hvað það verður, get ég ekki að svo komnu vitað.“ Hart læknir var hár og herðabreiður maður, mjög viðfelldinn í umgengni, reyndur og duglegur læknir og siðferðisprúður í allri framkomu sinni. Lávarðurinn leit bænaraugum á hann. „Þér skuluð ekki búast við því versta, lávarður minn,“ sagði Hart, þegar þeir voru komnir frá sóttarsænginni. „Lafði Clynord er ung og líkamsbygging hennar á mikinn viðnámsþrótt. Ég vona að við sjáum hana á ferli innan skamms.“ Þrátt fyrir þessa umsögn læknisins og alla aðhlynningu, sem Vereniku var látin í té, versnaði þó ásigkomulag hennar jafnt og þétt. Veikin virtist vera ákaflega slæm. Sylvía, lávarður Clynord og frú Sewer vöktu við sóttarsængina um nóttina. Um morguninn þekkti hún ekki mann sinn lengur og þegar Sylvía nálgaðist hana, baðaði hún höndunum á móti henni. Um miðjan dag sendi Clynord þjón sinn til Osborne, í því skyni að senda skeyti til eins af bestu læknum Lundúna, að koma til Clynord hið allra bráðasta. Hann kom um kvöldið, talaði lengi við Hart lækni og lét svo breyta dálítið til um meðferð sjúklingsins, fór svo aftur um morguninn, án þess nokkur bati væri sjáanlegur. Af því að hitaveiki átti sér stað í þorpinu, álitu læknarnir veiki lafðinnar eðlilega. Verenika Clynord lá í rúmi sínu með sama óráðinu dag eftir dag. Lávarðurinn vakti yfir henni dag og nótt og gaf henni inn hin fyrirskipuðu lyf. Sylvía hjálpaði líka við að stunda hana og spáði alltaf bata. Vika var liðin — vikan, sem eitrinu var ætlað að deyða — og Sylvía vissi að endirinn var nálægur. Dagurinn var dimmur og loftið þrungið, eldur brann í ofninum, gluggatjöldin voru dregin til hliðar og efri gluggarnir opnir. Verenika svaf fast. Sylvía sat við fótagaflinn á rúminu. Hún þurfti á allri sjálfsstjórn sinni að halda, til þess að geta dvalið kyrr í herberginu, þangað til afleiðingum af hennar djöfullega starfi væri lokið. Lávarður Clynord stóð fyrir framan rúmið. Hann var orðinn fölur og magur, en hafði enn ekki misst alla von. Hann sneri sér til hliðar og leit spyrjandi til læknanna, sem stóðu þar hjá honum. Lundúna-læknirinn hélt um úlnliðinn á sjúklingnum og taldi æðaslögin. „En hvað hún sefur rólega,“ hvíslaði Roy og leit á konu sína. Sneri sér svo að lækninum og sagði: „Þessi fasti svefn eykur afl hennar aftur. Er ekki hitasóttin að réna, læknir?“ „Jú,“ sagði Lundúna-læknirinn, „hitasóttin er að minnka.“ Vonargeisla brá fyrir á andliti Roys. „Verður hún með ráði þegar hún vaknar?“ spurði hann. Læknirinn kinkaði kolli í stað þess að játa og studdi enn fingrum sínum á slagæðina. „Guði sé lof,“ sagði lávarðurinn glaður. „Ástin mín er þá frelsuð.“ Án þess að líta upp, svaraði Lundúna-læknirinn með innilegri meðaumkun: „Það hef ég ekki sagt, lávarður minn. Það er ekki ég, sem ræð yfir lífi og dauða, það er á valdi annars, mér voldugri.“ „En þér sögðuð þó, að hún ...“ „Ég játaði spurningu yðar, ekkert annað. Líf þetta liggur í guðs hendi, mannleg þekking megnar hér ekki meira. Hún vaknar bráðum, þekkir yður og talar ef til vill við yður, en það verður — ef ekkert óskiljanlegt undur vill til — síðasti geisli hins deyjandi blossa. Lávarður Clynord, takið þér sannleikanum eins og manni sæmir — lafði Clynord lifir ekki þessa klukkustund til enda.“ Lávarður Clynord æpti af sársauka sorgarinnar. Sylvía hrökk við og stundi hátt. Hin deyjandi kona hreyfði sig, augun opnuðust. Óp lávarðarins hafði vakið hana — hún leit til hans.“ „Roy,“ sagði hún ofur lágt — „Roy.“ Lávarður Clynord laut niður að henni. „Verenika,“ sagði hann með grátþrunginni röddu. „Verenika, góða, elskulega konan mín. Guð minn góður, hvernig á ég að þola þetta.“ Hún leit á hann, eins og til þess að átta sig á því, sem fram för í kringum hana. Svo leit hún á læknana og af þeim á frú Sewer og Fifinu, sem stóðu grátandi við rúm hennar. „Ég — ég hef — líklega — verið — veik,“ sagði hún svo lágt að varla heyrðist. — „Ég fékk köldu, nú man ég það. En hvað ég er máttlaus og þó finn ég engan sársauka. Roy, af hverju grætur þú? Mér er nú að batna — mér finnst ég vera óhult.“ Lundúna-læknirinn lagði hendi sína á enni hennar, sem nokkrir svitadropar sáust á. „Já, kæra lafði Clynord,“ sagði hann með hátíðlegri röddu. — „Þér eruð óhultar.“ Það var eitthvað í hreimnum í rödd hans, sem hræddi hana. Hún leit óttaslegin í augu honum og hljóðaði lágt. „Þér talið eins og hver andardráttur minn sé sá síðasti.“ sagði hún undur lágt. „Nei, ég vil ekki deyja, læknir, læknir, ég er enn svo ung og elska Roy svo heitt og hann elskar mig líka, ég veit það. Ég get ekki dáið. Þetta hefur ekki verið meining yðar — segið að þér hafið ekki meint það. Nei, nei, ekki deyja, ekki deyja.“ Hún leit bænaraugum á lækninn. Læknirinn tautaði eitthvað, stundi þungan og horfði niður fyrir sig. Skylda hans var hörð og sár, en undanfæri var ekkert. „Kæra barnið mitt,“ sagði hann með mildri alvöru, „guð kallar yður til sín. Það væri synd af mér að dylja þetta fyrir yður. Ef þér þurfið einhverjar ráðstafanir að gera, þá gerið þær strax.“ Grafarþögn varð í herberginu. Verenika dró rekkjuvoðina yfir andlit sér og lá þegjandi og kyrr. Hvað fram fór í huga hennar þessi augnablik veit enginn. Allt í einu lyfti hún rekkjuvoðinni frá andliti sínu, sem nú var rólegt og líkast því, sem einhver yfirnáttúrlegur friður hvíldi yfir svip hennar. „Það er gott,“ sagði hún. „Ég er ekki hrædd við dauðann — ég hef oft verið minnt á hann — ég er undirbúin. Roy, gráttu ekki. Það er betra þannig. Ég verð að fara — en hvers vegna, hvers vegna? Fyrir stuttum tíma — það getur ekki verið langt síðan — var ég heilbrigð og hraust — í gær eða fyrradag, var það ekki? Ó, læknir, er það í raun og veru satt?“ Læknirinn hneigði sig þegjandi. „Hvar er Sylvía?“ spurði Verenika. Nötrandi af hræðslu, með andlitið hulið í vasaklútnum, kom Sylvía til hennar. „Ég vil tala við hana og Roy,“ sagði Verenika. „Þess vegna bið ég ykkur öll að ganga út á meðan.“ Læknarnir, frú Sewer og Fifina, gerðu eins og hún bað um og nú var Verenika einsömul með þeim manni, sem hún elskaði af öllu hjarta og þeirri samviskulausu stúlku, sem var orsök að veiki hennar og væntanlegum dauða. 12 Nokkrar mínútur var alger þögn í herberginu. Verenika lyfti hendi sinni og lagði hana á höfuð hins kæra manns síns, eins og hún væri að blessa hann. Svo leit hún til Sylvíu, sem sat á stól við hliðina á rúminu og huldi andlit sitt í höndum sér. Loksins töluðu hinar deyjandi varir: „Roy, ég kvíði ekki fyrir að deyja,“ sagði hún og leit á hann með innilegri ást, sem kuldi dauðans megnaði ekki að hrekja á burt. „Það er betra þannig. Þú verður að bera missi þinn með hugrekki — mín vegna. Líttu á mig, lofaðu mér að horfa í ástríku augun þín, svo ég geti tekið minninguna um augnatillit þitt með mér inn í eilífðina.“ Lávarðurinn lá á hnjánum við rúmið hennar, hann stillti sig eins og hann gat og gerði það sem hún bað um. „Roy,“ sagði Verenika, „ég finn að kraftar mínir þverra, því verð ég að flýta mér að segja það sem ég ætla. Ég var mjög lánsöm og ég elskaði þig, og þú varst mér allt. Þú kallaðir mig einu sinni verndarengilinn þinn, og það ætla ég nú að vera. Ég var ekki vel hæf til að vera markgreifainna, ég var ekki nógu tíguleg, ekki nógu falleg. Vinir þínir gátu ekki liðið hjónaband okkar, þú stóðst miklu ofar í mannfélagsstiganum en ég, eyjabarnið; kona þin á að vera aðalborin, en dauðinn jafnar allt. „Verenika, Verenika.“ „Vesalings Roy. Þér mun finnast einmanalegt þegar ég er farin, þú munt sakna mín, ég veit það. En þú ert ennþá ungur, aðeins 23 ára, síðar meir mun samband mitt við þig verða þér kær endurminning og annað ekki. Þú munt hugsa um mig í rökkrinu, þegar þú ert úti á sjónum, þegar þú heyrir hljóðfæraslátt, en þá veistu, að ég er hjá þeim sáluhólpnu og þú gleymir mér með tímanum.“ Hún þagnaði og dró andann með erfiðismunum. “Roy,“ sagði hún aftur, — „á himnum þekkist engin afbrýði og þess vegna, skildu mig nú rétt Roy, — ég veit þér sárnar það sem ég ætla að segja — en seinna skoðar þú það sem blessum — þess vegna, þegar ég er aðeins orðin þér kær endurminning, þá verðurðu að gefa annarri konu mitt sæti.“ „Aldrei, aldrei,“ sagði Roy með ákefð. „Þú hugsar þannig núna, kæri vinur, en þú ert sá síðasti af gamalli ætt og átt engan erfingja. Þú ert ungur og munt þrá einhverja manneskju, sem elskar þig. Hvers vegna ættir þú að vera einmana öll þín ólifuðu ár? Og þess vegna ættir þú að kvænast aftur. — Ég veit um trúlofun ykkar Sylvíu, og ég veit að hún elskar þig. Þegar ár er liðið frá dauða mínum, áttu að kvænast henni. — Viltu lofa mér þessu, Roy?“ „Það get ég ekki.“ Verenika greip annarri hendi sinni um hans, og hinni um hönd Sylvíu. Hin sakborna kona ætlaði að draga að sér hendina, en hinir köldu, grönnu fingur héldu fast um hana og drógu hana að hendi Clynords, og sameinaði þannig hendur þeirra beggja. „Blessun mín hvíli yfir ykkur báðum,“ stamaði hún með deyjandi röddu. „Sylvía, vertu honum góð kona. — Roy, minn elskulegi maður, — og fluttu föður og móður kveðju á St. Kilda.“ Hvíslandi röddin þagnaði alveg. Höndin, sem hélt utan um hendur Roys og Sylvíu, varð allt í einu köld og stirð. Lávarðurinn leit upp dauðhræddur. Andlit Vereniku var breytt orðið. Augun kyrr og glampalaus, munnurinn opinn og líkast því, sem bros væri stirðnað á vörunum. Clynord hljóðaði af ótta og hljóp til dyranna að kalla á læknana, sem komu strax. Lundúna-læknirinn þreifaði á lífæð hinnar framliðnu, og lokaði svo augum hennar. „Hún er dáin,“ sagði hann með blíðri alvöru. Sylvía rak upp angistaróp og datt á gólfið. Frú Sewer og Fifina báru hana til herbergja hennar, og þar tók Roggy við henni. Lávarðurinn læsti sig inni og leyfði engum inn til sín að koma. Sanders tók að sér heimilisstjórnina, og sá um nauðsynlegan undirbúning útfararinnar. Daginn eftir kom Gilbert, sem Sylvía hafði símað um dauða lafðinnar. Sorgarþögn ríkti í húsinu. Vinnufólkið læddist til og frá, opnaði og læsti hurðum hávaðalaust, hvíslaðist á, en talaði ekki. Gilbert spurði eftir lávarðinum, en fékk það svar að enginn fengi að hitta hann. Þá gekk hann upp og barði að dyrum hjá systur sinni. Roggy lauk upp, og ruddist hann þá inn. Sylvía var að skrifa bréf og virtist ekki taka eftir komu hans. „Góðan daginn, systir,“ sagði hann hátt. Hún leit upp og lagði frá sér pennann. „Ert það þú, Gilbert?“ svaraði Sylvía. „Ég bjóst við þér fyrr en þetta. Verenika dó skyndilega. Þig furðar það að líkindum?“ „Ekki get ég sagt það,“ sagði Gilbert kuldalega, tók stól og settist við hlið systur sinnar. „Ég bjóst við því hálft í hvoru.“ „Hvernig gastu búist við því?“ sagði hún skjálfrödduð. „Hún var heilbrigð þegar þú fórst.“ „Það var hún, en þú veist að ég þekki tilfinningar þínar, og að hún var hindrun áforma þinna, svo það var ekki erfitt fyrir mig að giska á hvað verða mundi.“ Sylvía stóð upp af stólnum og sagði: „Ég banna þér í eitt skipti fyrir öll að koma með slíkar ágiskanir. — Verenika dó af hitasótt. Læknarnir geta sannað þér ...“ „Hún — indverskri hitasótt?“ greip Gilbert fram í. „Ennþá einu sinni banna ég þér að minnast á slíkan grun við nokkurn mann! — Eftir á að hyggja, hefurðu beðið um sorgarbúning í Lundúnum? Ég er að skrifa klæðskera mínum einmitt núna um það efni. Það er skrælingjasiður að klæðast svörtu, þó einhver ættingja manns deyi. Svartur klæðnaður á illa við mig.“ Monk yppti öxlum háðslega. „Hvenær á að jarða lafði Clynord?“ spurði hann. „Líkið á að standa upp vikutíma. Clynord hefur skipað svo fyrir.“ Gilbert hafði strax í byrjun búist við því, að líkið yrði látið standa uppi. Að liðnum þrem dögum vissi hann að Verenika mundi vakna, nema henni væri gefin ný inntaka. Til þess að hugsa nákvæmar um þetta, kvaddi hann systur sína og fór ofan og út í skemmtigarðinn. Þannig leið fyrsti dagurinn, annar og hinn þriðji. Þann síðasta dag hlaut Verenika að vakna, ef ekki væri mögulegt að gefa henni nýja inntöku. Hann gekk upp að salardyrunum, þar sem líkið lá og barði með hægð á hurðina. Frú Sewer lauk upp. „Það er aðeins ég,“ sagði Gilbert. „Ég hef ekki séð lafði Clynord síðan hún dó. Má ég koma inn?“ „Já, velkomið,“ sagði frúin, og gekk Gilbert þá inn. Þykk tjöld voru fyrir gluggunum og veggtjöldin svört. Kyrrð og kuldi var í herberginu, svo Gilbert þótti nóg um. Það var ekki búið að láta Vereniku í kistu, og lá hún því á líkpalli, klædd hvítum silkikjól, þeim sama og hún var í fyrsta kvöldið, sem hún var á Clynord. Hvítur blómvöndur lá á brjósti hennar, og á höfðinu lá krans af sama lit. „Lítur hún ekki út eins og brúður?” sagði frú Sewer. „Þannig lét lávarðurinn klæða móður sína, og við breyttum eftir því.“ Gilbert gekk að líkpallinum, og frú Sewer dró blæjuna, sem huldi andlit hinnar framliðnu, í burtu. Gilbert hopaði á hæl með hryllingi. Jú, hún hlýtur að vera dáin, hugsaði hann. Frú Sewer skoðaði blómin, sem huldu líkpallinn og sagði: „Þessi blóm visna svo fljótt, hvernig sem við förum að. Ég ætla að bregða mér ofan í vermihúsið og sækja önnur ný. Þér gerið máske svo vel, að vera hér á meðan?“ Gilbert kinkaði kolli. „Þetta er dauðinn,“ tautaði hann, „og þó þori ég ekki annað en haga mér eins og það væri dá.“ Hann lét nú vatn í teskeið og lyfjaberið, sem hann geymdi, ofan í vatnið. Leystist það þegar upp og sameinaðist vatninu, hellti hann síðan úr teskeiðinni í munn Vereniku og rann það þegar ofan í hana. Nú kom frú Sewer, gekk þá Gilbert til dyranna, kvaddi og fór. Vikan leið. Sjötti dagurinn frá dánardeginum, sem ákveðinn var til útfararinnar, var runninn upp. Allir ættingjar Clynords voru komnir og höllin full af gestum. Lávarðurinn lét nú sjá sig í fyrsta skipti eftir dauða konu sinnar. Hann var fölur og magur. Augun báru vott um sorg og svipurinn um óbifandi alvöru. Verenika lá í líkkistu sinni og um hana hópuðust þeir, sem vildu sjá hið milda andlit hennar í síðasta sinn. — Svo ung, sögðu sumir. — Að vera kölluð burt frá gæfu sinni jafn óvænt, sögðu aðrir. Svo var lokið skrúfað fast á kistuna og hún borin út á líkvagninn. Í litlu kirkjunni í þorpinu var útförin hátíðleg haldin. Gamli presturinn talaði með innilegri hluttekningu um dauða hinnar ungu lafði Clynord, um fegurð hennar og ástríki, um góðsemi hennar við hina fátæku og veiku, sem hefði valdið dauða hennar. Hann minntist á foreldra hennar á St. Kilda, sem ekki gætu fengið að vita um missi sinn, fyrr en eftir að nokkrir mánuðir væru liðnir. Hann talaði huggunarorð til lávarðarins, sem sat þögull og kyrr eins og myndastytta í ættarstólnum. Enginn dráttur í andliti hans hreyfðist, ekkert tár sást í augum hans, en hendur hans héldu fast um hinar flauelsklæddu stólbríkur. „En þú mikli, eilífi, óútgrundanlegi guð, veittu henni móttöku í þínu himneska ríki og gefðu oss styrk til að ganga þínar brautir eins saklausir og hún gerði. Amen.“ Þannig endaði presturinn, með grátkvalinni raust, ræðu sína. Að ræðunni lokinni var kistan flutt ofan í grafhvelfingu Clynordsættarinnar, sem var rúmgott jarðhús undir kirkjunni. Þar var kistan látin við hliðina á kistu móður Clynords. Meðan þessu fór fram var klukkunum hringt. Smátt og smátt tíndist fólkið í burtu, aðeins lávarðurinn gat ekki fengið sig til að fara og yfirgefa þessi þögulu heimkynni dauðans, uns prestinum heppnaðist að telja svo um fyrir honum, að hann varð honum samferða í burtu. Gæslumaður kirkjunnar lokaði nú stóru járnhurðinni, sem var fyrir hvelfingunni og fór svo einnig á brott. Nú lá Verenika Clynord, lifandi eða dauð, mitt á milli forfeðra Clynords-ættarinnar, í myrkrinu, sem ávallt var í hvelfingunni. Aðeins einn maður í öllum heiminum hafði óljósan grun um, að enn fælist lífsneisti í hinum hreyfingarlausa líkama. — Og ef hún lægi nú aðeins í dái, og Gilbert gæti ekki komist inn í hvelfinguna, eins og hann ætlaði sér — hver yrðu þá forlög hennar? 13 Kirkjan í Clynord-þorpinu var gömul, gotnesk bygging með háum turni, einhver af Clynordunum hafði látið byggja hana og í grafhvelfingu ættarinnar höfðu hinar jarðnesku leifar sumra þeirra legið öldum saman. Að grafhvelfingunni voru tveir lyklar. Annar þeirra var geymdur í skríni í skrúðhúsinu, ásamt kirkjubókunum og kaleikunum; lykilinn að skríni þessu geymdi presturinn. Hinn lykillinn var geymdur í járnskáp, sem stóð í bókhlöðu ættarinnar, þar voru og geymd gömul og ný ættarskjöl, gimsteinar og silfurmunir. Til þess að koma áformi sínu í framkvæmd varð Gilbert að ná í annan hvorn lykilinn, og einnig að komast inn í kirkjuna. Gilbert kom heim frá jarðarförinni á undan lávarðinum. Hann fór strax til herbergis síns, lét fatnað og annað ofan í ferðatösku sína, lagði svo fyrir, að hafa tilbúna hesta og vagn handa sér á ákveðnum tíma til að flytja sig til Osborne. Að því búnu gekk hann til herbergja systur sinnar. Sylvía sat þar inni sorgarklædd, hélt á spegli og var að athuga, hver áhrif eyrnahringirnir hefðu á útlit sitt. „Lík sjálfri þér ennþá,“ sagði Gilbert, leit í kringum sig og athugaði hvort Roggy væri inni og þegar hann sá hana ekki, bætti hann við: „Ég ætla nú til Lundúna aftur. Ef þú vilt skrifa mér, þá er áritun mín Scott & Reman. En hvað ætlar þú þér fyrir?“ „Það sem ég hafði ætlað að gera er framkvæmt og meira er ekki nauðsynlegt.“ „Jæja, þú ætlar þér að vera hér á Clynord?“ „Auðvitað.“ sagði Sylvía. „Keppinautur minn er nú dáinn og jarðsettur og ég er líkleg til að verða drottnari hér á Clynord yfir öllum auðnum og skrautinu. Í morgun leitaði frú Sewer samþykkis lávarðarins til ýmissa framkvæmda og hann vísaði til mín. Það nægir mér í bráð, og þess vegna verð ég auðvitað hér.“ „Þú hefur lánið með þér, kæra systir og ég álít einnig sennilegt, að þú verðir lafði Clynord önnur.“ „Um það er enginn efi,“ svaraði Sylvía. „Roy var heitbundinn mér, samkvæmt loforði hans til móður sinnar og nú krafðist Verenika í andarslitrunum, að hann uppfyllti þetta loforð sitt að ári liðnu.“ „Þetta er harla ólíklegt.“ „Ég hefði líka álitið það, ef þú hefðir sagt mér frá þessu, en Verenika var í flestum tilfellum ólík öðrum manneskjum,“ svaraði Sylvía. „Hún var barn að aldri, en hún leit út fyrir að verða fögur og tignarleg kona.“ sagði Gilbert. „En nú er hún dáin og mun aldrei koma aftur til að verða þér þröskuldur á þinni leið, Sylvía. Þú getur reynt að vinna ást markgreifans og komast í sæti hennar, hún verður ekki lengur nein óþægileg hindrun.“ Sylvía hrökk við og fölnaði. „Auðvitað getur hún ekki komið aftur, né hindrað mig, hvers vegna ætti hún líka að vilja það? Hún veit ekki ... En, af hverju kemur þér til hugar að minnast á þetta?“ „Ég óska þér allrar mögulegrar hamingju, en nú er kominn tími til fyrir mig að fara. Flyttu lávarðinum kveðju mína og þar með, að ég samhryggist honum. Hann var líkari dauðum manni en lifandi við jarðarförina. Gættu þess að hin framliðna Verenika verði honum ekki kærari en hin lifandi Sylvía Monk. Mér mun verða ánægja að því, að sjá þig sem lafði Clynord, enda ætti það að vera hagur fyrir mig í peningalegu tilliti. Þú mátt reiða þig á að ég skal ekkert gera, sem hindrað getur framkvæmd áforma þinna.“ Sylvía hrökk við og leit upp. „Framkvæmd áforma minna?“ spurði hún, og hvernig ættir þú að geta það, þó þú vildir? Þú talar óskiljanlega, Gilbert.“ „Geri ég það?“ svaraði Gilbert, laut að systur sinni og sagði ofur lágt: „Ég veit hvernig lafði Clynord dó.“ Sylvía fölnaði, reyndi að tala, en gat ekki. Varirnar skulfu og angistin í svip hennar var svo auðsjáanleg, að hún ein var næg sönnun sektar. Gilbert þótti gaman að sjá systur sína þannig á sig komna og brosti háðslega. Spegillinn datt á gólfið úr kjöltu Sylvíu, — sjálf hallaði hún höfðinu aftur og átti erfitt með andardrátt. „Sko, sko, svona óhulta hefurðu álitið þig. Þú þarf samt ekki að láta orð mín hræða þig þannig. Ég veit að þú hefur drepið Vereniku — þessi hræðsla þín er næg sönnun — en þar með er ekki sagt að aðrir viti það. Mér kemur ekki til hugar að segja neinum frá grun mínum. „Grun?“ „Já, síðan Verenika dó, hef ég haft ykkur Roggy grunaðar.“ „Það er þá aðeins grunur — og ég — ég hélt ... Réttu mér vatnsglasið þarna, Gilbert. En hvað þú gerðir mig hrædda. Ágiskun, grunur. Nei, ég er alveg saklaus. Hún sýktist af því að heimsækja konu Marteins gamla, eins og læknarnir sögðu.“ Sannfærð um að þetta væri aðeins ágiskun hjá Gilbert, jafnaði hún sig strax og áleit sig færa um að fara í orðaeinvígi við bróður sinn. Gilbert brosti sjálfbirgingslega. „Eins og ég sagði þér,“ sagði Sylvía, „á ég engan þátt í dauða Vereniku, ég get svarið það. Ef þú trúir mér ekki, þá máttu ákæra mig. Láttu læknana skera hana upp; ef þeir finna eitur, þá er ég sek.“ „Eitur finna þeir ekki, það er ég sannfærður um. Þessi indversku lyf láta engin merki eftir sig, — ég þekki þau. Mér kemur ekki til hugar að kæra þig. Ef mig skortir peninga vona ég að þú minnist mín. Það er aðaltilgangur orða minna. Ég hef nú öðlast einskonar vald yfir þér — þú veist að það er satt, hvort sem þú viðurkennir það eða ekki — og þú verður að birgja mig upp með peningum, þangað til fyrirtæki það, sem ég nú hef með höndum og sem gerir mig vellauðugan, er komið í framkvæmd. Taktu eftir því sem ég segi, þú verður. Ef ég sendi þér bréf og bið um ákveðna upphæð, verðurðu tafarlaust að senda mér hana. Svo nú held ég, að það sem mest á ríður, sé um samið. Vertu sæl, systir.“ „Farðu vel, Gilbert.“ Sylvía horfði hnuggin á eftir honum. Hve mikið ætli hann viti? hugsaði hún. Það er líklega eintóm ágiskun, vissu getur hann ekki haft. En ég má ekki neita honum um peninga, því ég er á hans valdi. Það var einmitt þessi hugsun sem Gilbert hafði ætlað sér að vekja hjá henni og honum lánaðist það prýðilega. Þegar Gilbert gekk ofan mætti hann Fifinu grátandi. „Nú, hvað er að. Af hverju grátið þér?“ spurði hann. „Það er ekkert að, herra Monk,“ svaraði hún. „En herra Sanders hefur sagt mér, að lávarðurinn treysti sér ekki til að sjá mig, af því að ég minni hann á konuna hans sálugu. Hún var engill, sannur engill. — Sanders bauðst til að borga mér hálfs árs kaup, en þá verð ég líka að fara á morgun.“ “Svo fljótt. Hvert farið þér þá? Til Parísar?“ „Nei, ég fer til Lundúna. Faðir minn er bakari í Soho-borgarhverfinu og hefur mikla umsetningu; þar verð ég fyrst um sinn.“ Anddyrið var mannlaust, svo Gilbert komst að bókhlöðudyrunum, án þess nokkur yrði var við hann. Hann lauk þeim upp, gekk inn og læsti þeim svo vandlega aftur. Hann leit í kringum sig til þess að vera viss um að hann væri þar einn. Síðan gekk hann að glugganum og dró tjöldin til hliðar, læddist svo að járnskápnum, sem var fastur inni í veggnum. og hulinn tveim tréhurðum. Áður en hann fór til Lundúna hafði hann tekið vaxmót af lyklum þeim, er hurðum þessum heyrðu til og lét svo smíða aðra lykla eftir þeim, sem hann notaði nú til að opna lásana með. Lykilinn að járnskápnum sjálfum hafði hann og látið smíða, svo að honum lánaðist að opna hann fyrirhafnarlítið og fór svo að skoða það sem þar var geymt. Flestar af skúffunum voru læstar og hann hafði engan lykil að þeim. Þá fór hann að leita á hillunum og í hinum opnu hólfum. Í einu þeirra fann hann nokkrar lyklakippur, og meðal þeirra stóran, einkennilega lagaðan lykil, sem hann lét undir eins í vasa sinn, lokaði svo skápnum aftur og læddist til dyranna. Þar stóð hann kyrr og hlustaði, en ekkert heyrðist. Hann opnaði dyrnar hávaðalaust og gekk fram í anddyrið, tók hatt sinn og frakka, sem héngu þar á snaga, og sá um leið að dyravörðurinn svaf ofur rólega í hægindastól, sem hann hafði inní í klefa sínum. Þaðan fór Gilbert út á hlaðið. Á hlaðinu hitti hann herra Sanders, sem beið þar komu lávarðarins. — Vagninn, sem flytja átti Gilbert til Osborne, stóð þar albúinn, og ökumaðurinn mókti í sæti sínu. Gilbert talaði fáein orð við ráðsmanninn, kvaddi hann svo og steig upp í vagninn, sem ók þegar af stað áleiðis til Osborne. Hugsun Gilberts var dimm og ógeðsleg eins og náttúran. Hann gat ekki annað en hugsað um Vereniku Clynord, sem nú lá í kistu sinni, annað hvort dáin eða í dauðadái. Ef hún lægi í dauðadái, hlaut hún að vakna innan skamms, og sú hugsun gerði hann órólegan í meira lagi. Þegar Gilbert ók í gegnum þorpið, mætti hann vagni Clynords á leið til hallarinnar. Lávarðurinn sat álútur og horfði í gaupnir sér, en gegnt honum sat gamli presturinn. Frá þessari hlið er ekkert að óttast, hugsaði Gilbert og þreifaði á lyklinum í vasa sínum. Nú er kirkjan lokuð, svo að þótt hún vakni og æpi, þá getur enginn heyrt til hennar. Það sem eftir var leiðarinnar til Osborne, var Gilbert sífellt að hampa stóra lyklinum í vasa sínum, sem hann hélt að mundi opna sér dyr að ómetanlegum auðæfum. Þegar til Osborne kom, var eimlestin við það að fara af stað. Samt náði hann í fyrsta farrýmis vagnklefa, og þegar hann var að setjast, rann lestin af stað. Hann opnaði gluggann og sá marga kunnuga menn standa á stöðvarpallinum er einnig sáu hann fara. Nú var orðið fulldimmt og búið að kveikja í öllum húsum sem þeir fóru framhjá. Eimlest þessi var varningslest, sem víða þurfti að koma við. Þegar eimlestin nam staðar við fyrsta áfangastaðinn, lauk Gilbert upp vagndyrunum á þeirri hliðinni, sem vissi frá stöðvarskálanum, greip ferðatösku sína, þaut út og hljóp sem mest hann mátti. Þegar hann kom að vegamótunum, var þar fyrir vagn með tveim hestum fyrir, og sat ökumaður í sæti sínu. „Ert það þú, Flack?“ spurði Gilbert. Ökumaðurinn játaði, stökk ofan úr sætinu, lauk upp vagndyrunum, tók við ferðatöskunni og hjálpaði svo Gilbert sjálfum upp í vagninn. Flack tók skriðbyttu undan öðru sætinu, lauk henni upp og sló þá björtum ljósgeisla á gráar vagndýnurnar. Jafnframt mátti sjá ábreiður, sjöl og fleira á aftara sætinu, ásamt körfu með flöskum og brauði í. „Það er gott.“ sagði Gilbert. „Ég held að hér sé allt sem á þarf að halda.“ Svo lét hann ljósglampann falla á ökumanninn. Það var reglulegur skálkasvipur, sem þar kom í ljós, samskonar og maður sér á sakamannabekkjum við réttarhöld; lágt uppstrokið enni, snöggklippt hár, stór og opin eyru, uppbrettan munn og síkvikandi augu. Lögreglumenn Lundúnaborgar þekktu Flack vel. Hann hafði tvisvar verið í fangelsi, og nú í þriðja sinni var hann ásakaður um innbrot, en lögreglan áleit hann ekki sannan að sök. Gilbert gat þó komist að því að hann var sekur, og lét Flack skilja það á sér. En til þess að sleppa við fangelsi, þá gerðist Flack þjónn Gilberts, sem að hinu leytinu gekk í ábyrgð fyrir Flack gagnvart dómstólunum, svo að hann mætti ganga laus sem frjáls maður. Flack byrgði fyrir skriðljósið og lét það svo aftur undir vagnsætið. „Farðu nú af stað,“ sagði Gilbert, „um miðnætti verðum við að vera í Clynord-þorpinu.“ Rétt fyrir miðnætti staðnæmdist vagninn, og mátti þaðan sjá yfir bæinn, þegar bjart var. Gilbert steig ofan úr vagninum og sá aðeins tvö ljós. „Þetta er rétti tíminn fyrir okkur. Þú verður hér við vagninn, en ég ætla að fara og sækja ungu stúlkuna. Þær láta sjaldan standa á sér þegar um brottnám er að ræða. Þú bíður hér þangað til ég kem, þótt það verði kominn morgunn.“ „Þér skuluð finna mig hér, þó þér komið ekki fyrr en á dómsdegi.“ svaraði Flack. „Ljáðu mér skriðljósið, ég þarf ef til vill á því að halda, sömuleiðis svörtu kápuna með hettunni og körfuna með koníakinu og áhöldunum. Vera kann að faðir hennar hafi lokað hana inni, svo ég verð að beita valdi til að ná henni. Sko, — þarna eru líka kvenskór í körfunni — það er gott. Nú hef ég allt sem ég þarf.“ Gilbert tók kápuna, körfuna og annað, sem hann áleit nauðsynlegt til fararinnar, og þaut svo af stað á leið til kirkjunnar. „Það er þá ekki annað en burtnám,“ tautaði Flack, „því er ég alvanur.“ Svo kveikti hann í pípunni sinni og studdist upp við annan hestinn. Gilbert var kominn að kirkjugarðshliðinu, þegar hann heyrði stóru turnklukkuna á Clynord-höllinni slá tólf högg. Mið nótt. Hliðið var ólæst eins og vant var. Hann lauk því upp og læddist að kirkjudyrunum, tók upp lykil, sem hann hafði látið smíða eftir vaxmóti fyrir viku síðan, lauk upp dyrunum og gekk inn. Kuldinn og myrkrið í kirkjunni gerði hann hræddan, svo hann hélt niðri í sér andanum og hlustaði. En skriðljósið þorði hann ekki að nota. Samt yfirvann hann ótta sinn og læddist að dyrum, sem voru undir altarinu, og opnuðu aðgang a8 steinriðinu, sem lá ofan í grafhvelfinguna. Hann hafði einnig látið smíða lykil að þessari hurð og opnaði hana. Ískaldan gust lagði á móti honum, þegar hann opnaði þessar dyr, og hann hélt sig heyra andvörp og stunur. Hann þreifaði fyrir sér og hélt áfram að steinriðinu samt sem áður, þó hann hræddur væri. Þar opnaði hann skriðbyttuna og gekk nú hiklaust ofan riðið og að aðaldyrum hvelfingarinnar. Með skjálfandi hendi tók hann stóra lykilinn, sem hann stal úr járnskápnum í Clynord-höllinni, og lauk upp dyrum þessum með honum. Nú var hann staddur í grafhvelfingunni. Hann hélt áfram að kistu þeirri, er Verenika hvíldi í. Til þess að vera viss um, að hann væri hjá þeirri réttu kistu, hélt hann skriðljósinu hátt á lofti og las á silfurskildinum á kistunni: „Verenika, gift Roy XI., markgreifa á Clynord, 17 ára gömul.“ Gilbert lagði eyrað við kistulokið. Ekkert heyrðist. „Hamingjan góða.“ tautaði hann, „ef hún hefur nú vaknað, hrópað á hjálp og ...“ Meira gat hann ekki sagt. Kaldan súg lagði um hvelfinguna, svo Gilbert varð skelkaður. „Dautt er dautt,“ sagði hann, setti skriðljósið á kistuna og fór að losa skrúfurnar, sem héldu kistulokinu. Þegar lokið var laust, ýtti hann því til hliðar. En svo var hræðslan mikil í honum að hann sá ekki andlit Vereniku. „En sá heigull,“ tautaði hann. „Hendur mínar skjálfa. Það má ekki eiga sér stað.“ Til þess að hressa sig saup hann á koníaki, lyfti svo upp glerlokinu, sem lá ofan yfir andliti lafði Clynords. Það var óbreytt frá því að hann sá það síðast, kinnarnar gulgráar, augun lokuð og munnurinn hálfopinn. Allur líkaminn bar vitni um dauðann, svo hann þóttist fullviss um, að þarna lægi lík fyrir framan hann. „Gamla Roggy er orðin elliær, ellegar hún þekkir ekki eiturlyfin sín lengur,“ tautaði hann, „eða þá að mér hafa orðið á mistök. Hún er dauð, það er enginn efi á því. Það sem ég verð nú að gera, er að hræða svo mikið af peningum út úr Sylvíu sem unnt er. Hann gnísti tönnum og bölvaði. 14 Eftir stutta umhugsun tók Gilbert vasaspegilinn og hélt honum að opnum munninum á Vereniku. Þegar hann tók hann aftur burtu, sá hann ofurlitla móðu á glerinu. Nú fór að lifna yfir Gilbert. Hann tók lokið af kistunni, breiddi kápuna, sem hann kom með, á gólfið, lyfti Vereniku upp úr kistunni, og lagði hana á kápuna. Sneri sér svo að kistunni og sagði: „Seinna verð ég að láta vaxmynd hér, en til bráðabirgða er nóg að kistan fái nokkurn þunga.“ Hann leit fljótlega í kringum sig. Í einu horninu sá hann nokkra steina, þaut til, tók þá og lét í kistuna. Byrgði svo kistuna aftur og gekk frá öllu eins og það var áður. Gilbert var orðinn móður og sveittur, tók því vasaklút sinn og þurrkaði svitann af enni sér og andliti. Svo gerði hann aðra tilraun með spegilinn, og aftur kom dögg á glerið. „Hún lifir,“ sagði hann. „En lífsneistinn er svo veikur að það verður að styrkja hann.“ Hann hellti nú ögn af koníaki inn á milli varanna á Vereniku og fór að nudda köldu hendurnar hennar. „Vaknaðu,“ hvíslaði hann í eyru hennar. „Vaknaðu!“ Með hægð kom nú breyting á Vereniku. Limirnir urðu liðugri, hendurnar nálguðust hvor aðra, og yfir andlitið færðist ofurlítill lífsneisti. Það var víst, að hún var að lifna við. Blóðið fór aftur að renna um æðarnar, þó hægt færi. Gilbert hellti meiru af koníaki í munn hennar. Blóðið fór að renna hraðar. Hann trúði naumast sínum eigin augum, svo undarleg virtist honum breytingin. Hann lagði hönd á hjarta hennar, og fann það slá veikt. Nú var ekki lengur neinn efi á því, að hún hafði legið í dái og var að lifna við. Augnalokin titruðu, lukust svo upp, og að sumu leyti ráðaleysislegt, en að sumu leyti dreymandi augnatillit, starði upp í hvelfinguna. Gilbert hopaði á hæl og studdi sig við eina stoðina undir hvelfingunni. Hún lifði, en allir aðrir héldu hana dauða. — Hann einn vissi um þetta leyndarmál — hann hélt gæfunni í hendi sinni. Verenika horfði upp í hvelfinguna. Með titrandi röddu, sem varla heyrðist, sagði hún: „Roy, Roy!“ Gilbert gat engu svarað. Þessi óvænta gleði svipti hann máli. „Roy,“ endurtók hún titrandi rödd, „mig hefur dreymt svo illa, og ég er svo þreytt, svo mikið þreytt. Taktu mig í faðm þinn, Roy, mér er svo kalt.“ Gilbert herti upp hugann, tók koníaksflösku, sem í var blandað svefnlyfi, úr tösku, hélt henni að vörum Vereniku, sem drakk úr henni viljalaus eins og barn. „Þú hérna, Gilbert,“ sagði hún lágt. „Er ég ekki í svefnherbergi mínu? Nei. — En hvar er ég þá? Og hvar er Roy?“ „Roy er í Clynordhöllinni,“ svaraði Gilbert, „háttaður og líklega sofnaður — en þú ert hér.“ „Hér!“ Með erfiðismunum settist Verenika upp, leit í kringum sig og sá hvar hún var. Með dálitlum hryllingi leit hún á Gilbert og síðan á klæðnað sinn. „En hvar er ég?“ spurði hún. „Ég fékk hitasótt, ég man það. — Já — já, svo varð ég veik og þeir sögðu að ég væri að deyja. Roy og Sylvía voru hjá mér, ég talaði við þau og svo — en hvar er ég þá?“ kallaði hún og hljóðaði hátt. „Þetta gerðist fyrir viku síðan.“ svaraði Gilbert. Menn álitu þig dána og útför þin var gerð í gær og nú ertu í grafhvelfingu Clynord-ættarinnar. Roy ók heim í gærkvöldi og gamli presturinn og Sylvía eru hjá honum. Ég hafði grun um að þú lægir í dauðadái og kom hingað til að vita vissu mína í því efni. Maður þinn áleit þig dána og dauða þíns er getið í öllum blöðum og dáið hefðir þú í kistu þinni, ef ég hefði ekki tekið þig úr henni.“ Verenika fölnaði og stóð upp í einhverju ofboði. Hún reyndi að tala, en gat það ekki og hljóðaði þá hátt, — um leið og hún hné niður aftur í ómegin. „Ég er asni,“ sagði Gilbert. „Ég hef drepið hana.“ Hann stóð náfölur og ráðalaus innan um hvílurúm hinna framliðnu. Svo leit hann í kringum sig vonskulega, eins og hann þyrfti að verjast einhverjum ósýnilegum óvin, og svo á Vereniku, sem lá sem liðið lík við fætur hans. Kaldan súg lagði um hvelfinguna, sem hreyfði kjól Vereniku ofurlítið. Gilbert sýndist hún ætla að standa upp. Á sama augnabliki áttaði hann sig, laut niður, tók Vereniku upp og lagði hana á kápuna og fór að nudda hendur hennar. „Það er yfirlið og ekkert annað,“ sagði hann. „Ég vona að enginn hafi heyrt ópin í henni.“ Til þess að fullvissa sig um það, læddist hann upp steinriðið og hlustaði, en heyrði ekkert, alls staðar var kyrrð. Rólegri en áður fór hann aftur ofan í hvelfinguna, og þegar hann opnaði dyrnar var nærri því liðið yfir hann, svo bilt varð honum við. Verenika sat á einni kistunni. Hann jafnaði sig þó strax og spurði í hluttekningarróm: „Er þér að skána, Verenika?“ „Skána,“ sagði hún og leit til hans flóttalega. „Ég veit ekki, Gilbert — en — en er þetta grafhvelfing Clynordanna? Er það satt sem þú sagðir mér áðan? Eru þetta líkklæðin mín? Hef ég verið lokuð niðri í kistunni í þessu myrkri og þessari einveru?“ „Já, það er satt, Verenika.“ „Hamingjan góða. Þeir hafa þá jarðsett mig lifandi og hefðir þú ekki komið og hjálpað mér, Gilbert, þá hefði ég vaknað í kistunni, kallað á hjálp og beðið — til einskis. Hvernig get ég þakkað þér eins og vera ber? En hvað kom þér til að fara hingað?“ „Það var sérkennilegur grunur — handleiðsla forsjónarinnar, ef þú vilt heldur kalla það svo, Verenika. Ég hef einu sinni áður séð mann í dauðadái, sem lifnaði við, þegar verið var að jarðsetja hann. Útlit þitt í kistunni var alveg eins og hans — ég veit ekki hvers vega — en ég gat ekki losnað við þessa hugsun og ég gat ekki sofnað vegna hennar, fór því á fætur og gekk hingað; um það sem svo skeði, veistu. Forsjónin hefur kjörið mig til þess að bjarga lífi þínu. „Guð blessi þig fyrir það um tíma og eilífð, Gilbert Monk. Ég skal vera þér þakklát alla ævi mína og aldrei gleyma því að þú frelsaðir mig frá þessum hræðilega dauða.“ „Já, slíkur dauðdagi er óttalegur.“ Verenika renndi augunum yfir kisturnar. „Í hvaða kistu lá ég?“ spurði hún. „Í þeirri sem skriðljósið stendur á. Máske þú viljir skoða hana.“ Verenika hugsaði sig um og hneigði sig svo til samþykkis. Monk gekk til hennar og leiddi hana að kistunni. Verenika las áletrunina á silfurskildi kistunnar. „Í þessari þröngu kistu hef ég legið lifandi og Roy situr heima og grætur yfir mér. Roy, Roy. Fluttu mig til hans, Gilbert, fluttu mig til vesalings sorgbitna mannsins míns.“ „Það skal ég gera, góða Verenika.“ sagði Gilbert. „Heldurðu að þú getir gengið?“ Verenika gekk fáein spor áfram, en riðaði á fótunum og hefði dottið, ef Gilbert hefði ekki tekið hana í fang sitt. „Þú ert enn of máttvana, Verenika.“ sagði Gilbert. „Drekktu dálítið af þessu koníaki; það hressir þig svo, að þú getur gengið út, svo skal ég sjá um að þér verði ekið heim.“ Verenika drakk strax tvo munnsopa úr flöskunni, sem Gilbert rétti henni. „Nú skulum við fara,“ sagði hún. „nú er ég hressari. Hvað skyldi Roy segja, þegar ég kem aftur til hans úr gröfinni? Þú verður fyrst að fara ég bíð úti á meðan. Mér er sem ég sjái undrun hans og ánægju. Komdu, komdu, ég þrái að sjá manninn minn.“ Reikandi gekk hún til dyra. Monk lyfti upp ljósinu og leit eftir, hvort engin sæjust merki þess að hann hefði verið þar. Svo tók hann kápuna og körfuna og gekk á eftir Vereniku. Þegar hún var komin upp fyrir steinriðið, stóð hún kyrr, stundi þungan og sagði: „Ég er svo þreytt, Gilbert, og ég er jafnframt svo syfjuð. Við skulum flýta okkur. Hér er svo kalt og þungt loft. Ég þrái sjóloftið, hreina og holla sjóloftið. Fluttu mig heim, Gilbert — til Roy.“ Gilbert stóð kyrr og lokaði skriðbyttunni, tók svo um mittið á Vereniku og dró hana með sér inn í kirkjuna. „Af hverju hefurðu slökkt ljósið?“ spurði hún. „Það er ekki vert að neinn sjái okkur, því hann gæti flutt fregnina á undan okkur heim í höllina, en það verður að færa Roy hana með mestu varkárni,“ svaraði Gilbert. „Já, þú segir satt. En hvað allt er undarlegt hér. Mér finnst eins og ég sé enn í gröfinni og svo eru limir mínir blýþungir og ég er svo þreytt.“ Meir og meir reikandi og máttlausari gekk Verenika við hlið hans að kirkjudyrunum, sem Gilbert opnaði snöggvast, leit út og sagði svo: „Allt gengur vel, Verenika. Enginn maður á götunni. Komdu, færðu þig í þessa kápu, svona, nú fer hún vel.“ Hann hneppti kápunni að framan, dró hettuna ofan undir augu, opnaði svo hurðina og fór út ásamt Vereniku. Meðan Verenika hvíldi sig á efstu steintröppunni læsti Gilbert kirkjudyrunum. Honum hafði heppnast að skilja svo við allt, að ómögulegt var að sjá, að þar hefði nokkur maður komið. „Komdu, Verenika,“ sagði hann vingjarnlega, „við verðum að flýta okkur.“ Verenika svaraði engu. Svefnlyfið hafði unnið sitt ákveðna verk. „Ágætt,“ sagði Gilbert, „þegar hún vaknar aftur, verðum við komnir góðan spotta burt.“ Hann laut niður að henni, tók hana upp og bar hana út úr kirkjugarðinum. Þegar hann var að ganga í gegnum hliðið, sló klukkan tvö. Með körfuna á handleggnum og Vereniku í fanginu, hélt hann áleiðis til vagnsins, sem var kippkorn í burtu. Vegurinn var brattur, svo Gilbert varð að hvíla sig við. “Hún er ekki þyngri en barn, og þó finnst mér að ég ætli að hníga niður af þreytu. Ég gæti ekki borið hana langa leið.“ Loksins komst hann upp á brekkubrúnina og heyrði hneggið í hestunum. „Flack,“ kallaði hann nokkuð hátt. „Hérna herra,“ var svarað, „hingað yfir um.“ Gilbert var nú kominn að vagninum. Flack kom og opnaði vagndyrnar. Gilbert setti körfuna á jörðina, opnaði skriðbyttuna og lét ljósglampann falla inn í vagninn. Lagði svo byrði sína með varúð í annað vagnsætið. „Sefur hún?“ spurði Flack undrandi, „eða er hún í yfirliði?“ „Í yfirliði,“ svaraði Gilbert rólegur. „Geðshræringin og þessi langi vegur.“ Flack lokaði hægra auganu. „Hum,“ sagði hann, „þetta er í sannleika sagt það undarlegasta brottnám, sem ég hef tekið þátt í. Þér hafið verið burtu meira en tvær stundir og svo komið þér með stúlkuna í þessu ásigkomulagi. Það er eitthvað grunsamlegt við þetta. Því viljið þér ekki segja mér sannleikann? Ég er auðvitað á valdi yðar og ætti líklega ekki að tala svona djarft við yður. Það sem ég hef brotið af mér er langtum verra en nokkurt brottnám. En mér líka sams konar menn og þér — duglegir, djarfir og hræðast hvorki dauðann né djöfulinn. Því viljið þér ekki treysta mér, herra. Þér megið reiða yður á mig, ég þjóna yður af trú og dygð.“ Gilbert lyfti skriðljósinu upp og lét bjarmann falla á andlit mannsins. Hann sá, að honum var alvara og að óhætt væri að trúa honum. „Nú, jæja, ég skal treysta þér, Flack.“ sagði Gilbert. „Þessi stúlka hefur ekki strokið með mér, ég hef numið hana á brott með valdi.“ „Mig grunaði þetta.“ „Hún er fátæk stúlka,“ sagði Gilbert, „það er að segja, hún á engar eignir sjálf, þó faðir hennar sé ríkur stórbóndi hér í nágrenninu. Ég elskaði hana en hún neitaði mér og því ætla ég að þvinga hana til að giftast mér. Þetta er öll sagan, eða það af henni sem þú þarft að vita. Farðu nú í sæti þitt, það fer að líða undir morgun; þú hefur sem undanfarna daga verið hér á sveimi og ættir því að rata þó dimmt sé, ef ekki, þá rata ég.“ Gilbert bjó vel um Vereniku og stökk svo upp í ekilssætið; í sama bili var Flack sestur við hlið hans, tók taumana og ók af stað. „Hefurðu séð nokkurn á ferðinni hérna, meðan þú beiðst eftir mér?“ spurði Monk. „Ekki nokkra sál, herra. Um þennan tíma sofa allir.“ „Snúðu til hægri.“ sagði Gilbert allt í einu. „Þessi leið er fáfarin og láttu hestana ganga liðugt.“ Flack hlýddi og herti á hestunum. Vagninn var sterkur, svo í því tilliti var ekkert að óttast. Þeir óku nú mílu eftir mílu og létu hestana kasta mæðinni, þar sem vegurinn var slæmur. Hvorugur þeirra talaði orð. Smátt og smátt fór að votta fyrir degi, enda voru hestarnir farnir að þreytast og fara hægar. „Við erum líklega búnir að aka 5 mílur,“ sagði Monk, „og þá förum við að nálgast áfangastaðinn.“ „Það væri heppilegt,“ svaraði Flack, „hestarnir eru farnir að þreytast. Unga stúlkan er ekki vöknuð til meðvitundar ennþá.“ „Hún sefur lengur en þetta. Nú, þarna er girðingin og skógurinn, þennan stað þekki ég. Við erum rétt komnir.“ Að tíu mínútum liðnum voru þeir komnir að bóndabýli og var veggjalaus hlaða áföst við íveruhúsið. Samkvæmt skipun Monks, ók Flack inn undir hlöðuþakið, stökk ofan úr sæti sínu og fór að leysa hestana frá vagninum. Monk steig nú niður úr ekilssætinu og opnaði vagndyrnar. Verenika svaf fast. Hann tók hana upp, gaf Flack nokkrar fyrirskipanir, og gekk svo að dyrum hússins með hana, og barði þrisvar. Fótatak heyrðist fyrir innan dyrnar, sem voru opnaðar lítið eitt, og kvenmannshöfuð gægðist út. „Það er ég.“ sagði Gilbert. „Hleypið mér inn.“ Dyrunum var lokið upp til fulls, og gekk Gilbert þá inn með byrði sína. Svo var dyrunum lokað og slagbrandi skotið fyrir. 15 Húsbúnaður í húsi þessu var lítill og fornfálegur sem eðlilegt var, þar eð húsið var aðeins ætlað fjárgeymslumönnum fyrir sumaraðsetur. Líflegur eldur brann á arni og hékk teketill yfir honum, og í einu horninu var afskekkt rúm með heyi í. Yfir það var breitt mjúkt flosteppi. Monk lagði Vereniku í bæli þetta þannig, að andlitið sneri að veggnum, svo erfiðara var að sjá það. Svo gekk hann að eldinum, vermdi sig og sagði: „Þetta er kaldur morgunn, frú Kraul. Mér þykir vænt um að sjá, að þér hafið hugsað um hlýjan morgundrykk handa okkur. Hvenær komuð þér hingað — í gærkveldi?“ „Já, herra.“ svaraði frúin í karlmannlegum róm. „Síðustu fimm mílufjórðungana varð ég að ganga, það er vegalengdin frá Dalney og hingað. Ég sé að unga stúlkan sefur. Var erfitt að koma henni hingað?“ „Nei, alls ekki. Ég gaf henni svefnlyf. Þegar hún vaknar, þá þarf hún að fá að borða, og svo verðum við að neyða hana til að drekka af koníakinu með svefnlyfinu í, svo hún sé undir áhrifum svefnsins alla leiðina. — Hún er jafn veik fyrir og barn, og verður sjálfsagt vesæl mánuðum saman, máske allt árið, og allan þennan tíma þarf hún góðrar hjúkrunar.“ Hann dró einn stólinn að eldinum og settist á hann, en frú Kraul tók eina hillu ofan af vegg og lagði hana á tvo stóla, til þess að nota fyrir borð, lét svo dálítið af köldum mat á það, sem hún tók upp úr körfu. Frú Kraul var einkennileg kona. Hún var eins og Flack, skjólstæðingur félagsins Scott & Reman, sem einu sinni hafði verið verjandi hennar fyrir rétti, og hin liðna ævi hennar hafði verið þannig að Gilbert bar traust til hennar. — Hann kynntist henni af tilviljun, og sá þegar, að aðaltilhneigingar hennar voru auðhyggja og ágirnd. Hann sagði henni frá sumum áformum sínum, og bauð henni það kaup, sem hún áleit stórfé, og fékk hana í þjónustu sína á þann hátt. Hún átti rót sína að rekja, eins og Flack, til hins lægri stiga mannfélagsins. En hún hafði notið góðs uppeldis. og varðveitt dálítinn snefil af metnaði og menntun. Hún var þokkalega klædd. stór og sterkleg, og alls ekki ófríð. Faðir hennar var heiðarlegur og duglegur verslunarmaður. Þegar hún var 16 ára, strauk hún með einum verslunarþjóni hans, Kraul að nafni, og giftist honum án samþykkis foreldra sinna. — Að fáum árum liðnum dó faðir hennar, en arfleiddi góðgerðarstofnun áður að öllum eigum sínum. Eftir þetta sýndi Kraul henni algert afskiptaleysi, og einu sinni þegar hún var veik, yfirgaf hann hana algerlega. Þá hjúkruðu nágrannarnir henni, uns hún varð aftur heilbrigð. Svo vann hún fyrir sér sem saumakona, barnfóstra, kennslukona og herbergisþerna, og þá var hún tekin föst fyrir þjófnað, en Scott & Reman gátu frelsað hana frá hegningu. Frú Kraul tók nú kaffikönnuna og fór að búa til kaffi. Um leið var barið þrisvar á dyrnar. Var það Flack sem vildi komast inn, og var með tösku í hendi. Töskuna fékk hann frú Kraul, samkvæmt bendingu frá Gilbert. Í henni voru ýmis matvæli. Þetta var allt látið á borðið, og svo tóku þau til snæðings með góðri lyst. Að lokinni máltíð gekk Flack út að gá að hestunum. Þegar hann kom inn aftur, var Monk sofnaður við eldinn, en frú Kraul stóð við gluggann og horfði út. Flack leit til hennar, fór svo út í eitt hornið og lagðist á gólfið til að sofa. Dagurinn leit út fyrir að verða kaldur, og kynti því frú Kraul eldinn. Um hádegið vaknaði Gilbert, og þá rumskaði Verenika líka. Hann gekk til hennar og laut niður að henni. Hún lauk þá upp augunum og þekkti hann. „Gilbert,“ sagði hún og leit í kringum sig. „Mig dreymdi svo illa! Það var draumur, var það ekki? Grafhvelfingin — líkkistan?“ „Hafðu ekki hátt, Verenika, það var enginn draumur, það átti sér allt stað. En nú ertu frelsuð, og þetta kemur ekki fyrir aftur.“ „En þetta er ekki grafhvelfingin og heldur ekki kirkjan. Ég settist fyrir utan kirkjudyrnar og sofnaði. Erum við á leiðinni til Clynords?“ „Já, ég fór með þig hingað inn, þegar ég var orðinn þreyttur að bera þig, fólkið hérna léði okkur hús og hita.“ „Þér lítið út fyrir að vera þreyttar ennþá,“ sagði frú Kraul, um leið og hún kom til þeirra. „Þegar þessi maður kom með yður sváfuð þér fast. Viljið þér ekki einhverja hressingu, áður en þér haldið áfram?“ „Hvað er klukkan?“ spurði Verenika. Frú Kraul leit fyrst til gluggans, sem hún hafði byrgt svo vel, að dagsljósið komst ekki inn. „Það er liðlega mið nótt,“ svaraði hún. „Maðurinn minn liggur þarna í horninu og sefur. Viljið þér ekki drekka einn bolla af kaffi?“ „Ég er einhvern veginn svo undarleg.“ sagði hún. — Ég er ekki máttmeiri en barn, góða kona. Ég skal vera yður þakklát, ef þér gefið mér einn bolla af kaffi.“ Frú Kraul hellti í bolla handa henni og lét í hann ögn af svefnlyfi, sem Monk rétti henni, svo bar hún til hennar dálítið af fuglasteik og brauði. Verenika reyndi að borða, en gat ekki, aftur á móti drakk hún allt kaffið. „Nú hressist þér vonandi.“ sagði frú Kraul og tók bollann burt. „Kaffið er sterkt og ætti að styrkja yðar veiku taugar.“ „Já,mér finnst ég hressast,“ sagði Verenika og leit til Monks. „Ert þú búinn að hvíla þig, Gilbert. Ég þrái svo mikið að komast heim, ég held ég geti gengið. Komdu, við skulum ganga.“ „Ég er mjög þreyttur ennþá, Verenika.“ svaraði Gilbert, „ég bar þig í fanginu, eins og þú veist og ég er rétt nýkominn, svo ég þarf að hvíla mig lengur.“ Verenika leit til kaffikönnunnar og sagði: „Já, nú sé ég, þú ert ekki búinn að drekka kaffi. Ó, góða kona, gerið svo vel að gefa mér í annan bolla.“ Frú Kraul hellti í annan bolla og rétti Vereniku hann. Þegar hún hafði tæmt hann líka, sagði hún: „Svo, nú er ég orðin fjörug, sjáðu Gilbert.“ Hún stóð upp, ætlaði að ganga, en reikaði, svo hún varð að styðja sig við reykháfinn. „Nei, ég get það ekki, ég hef gert of mikið úr kröftum mínum; ég er svo máttlaus, svo máttlaus. Veikin hefur eyðilagt afl mitt. Góði Gilbert, ertu ekki búinn að hvíla þig, þú getur hvílt þig til fullnustu, þegar þú ert kominn heim í höllina. Mig langar svo til að komast heim — heim til Roy — í mitt eigið herbergi — mitt eigið rúm. Ég skal gera mig svo létta, sem ég get — fluttu mig aðeins heim.“ Grátandi gekk hún til hans og tók í hönd hans með grönnu, hvítu fingrunum sínum. „Bráðum, bráðum, Verenika.“ sagði Monk og tæmdi kaffibolla, sem hann var að drekka úr. „Ég skal strax vera tilbúinn.“ „Já, þú verður að fyrirgefa mér þetta nöldur, þú veist hve mjög mig langar til að sjá Roy. Mér finnst hvert augnablik sem ár. Góða kona, eigið þér ekki vagn, sem ég yrði flutt í heim?“ „Því miður, nei; við erum fátæk.“ svaraði frú Kraul. „Máske maðurinn yðar gæti hjálpað til að bera mig?“ spurði Verenika. „Viljið þér ekki spyrja manninn yðar um það, kona góð?“ „Ég þori ekki að vekja hann,“ svaraði frúin. „Hann verður alltaf reiður þegar hann er vakinn. Herramaðurinn sem kom með yður, hefur nú bráðum hvílt sig nóg og heldur svo áfram með yður sjálfur.“ Verenika stundi þungan og leit bænaraugum á Gilbert. Þetta augnatillit þoldi Gilbert ekki, greip kaffibollann og bar hann ósjálfrátt upp að vörunum, meðan hann var að hugsa um hvaða viðbáru hann ætti að koma með, til að gera lengri dvöl nauðsynlega. En þegar hann ætlaði að ávarpa Vereniku, sá hann að hún var sofnuð. „Nú, hún er þá sofnuð,“ sagði hann, „og þessi svefn varir, uns ferðinni er lokið — eða þangað til á morgun snemma.“ Hann stóð upp og bar Vereniku yfir í rúmið. Fór siðan út að gá að hestunum. Nokkru síðar kom hann aftur inn og var þá snjór í skeggi hans og á frakka. Hann hélt á ferðatösku í hendinni. Flack svaf rólegur ennþá. Monk opnaði töskuna og tók upp úr henni lítið skríni, fullt af ýmis konar litum, sem hann valdi sér nokkra af, tók siðan pensil og fór að mála dökka hringi um augun, fellingar um nefið og hökuna og djúpar hrukkur á enninu. Þegar hann var búinn kallaði hann á frú Kraul. Hún varð hissa að sjá breytinguna og hrósaði listfengi hans. „Já, ég kann margar listir, frú Kraul,“ sagði Gilbert brosandi. „Þér hafið ekki séð þær allar enn. Ég hætti aldrei við hálfgert starf.“ Nú vaknaði Flack og skipaði þá Monk honum að spenna hestana fyrir. Flack hlýddi strax, lét hestana fyrir vagninn og ók að dyrunum. Monk bar Vereniku út, lagði hana í aftara sætið. Svo lokaði hann vagndyrunum, settist upp í ekilssætið og var svo ekið af stað. Þrátt fyrir kuldann hélt vagninn áfram alla nóttina og var nú kominn langt frá kofanum, sem þau dvöldu í daginn áður. Monk tók nú upp vegakort og fór að skoða það nákvæmlega. „Við hljótum að vera í nánd við Pollock,“ sagði hann. „Það er gott gistihús og hjónin þar eru gömul og skikkanleg. Þar verðum við í dag. Ég hef gefið yður glöggar fyrirskipanir, sem ég vona að þér fylgið. Flack, ég held þú ættir að setja á þig rauða skeggið svo þú þekkist ekki.“ Flack seildist inn undir sætið, tók þaðan ferðatösku, opnaði hana, náði skegginu og lét það á sig. „Svona, nú þekkir mig enginn,“ sagði hann. Seint á tíunda tímanum um morguninn, ók vagninn að dyrunum á gistihúsinu, sem á var minnst. Heimilisfólkið kom út og leit undrandi á gestina. Gilbert Monk — á að sjá sem roskinn maður — stökk ofan úr ökumannssætinu, hneigði sig kurteislega fyrir gestgjafakonunni og sagði: „Þér eruð sjálfsagt húsmóðirin hér. Nafn mitt er Brown — Brown frá Diwan Hall. Eldri konan í vagninum er frú Brown, mágkona mín, ekkja. Yngri konan er dóttir mín; hún er mjög veik og talar óráð, þegar hún er vakandi. Ég er á heimleið með hana. Viljið þér lána mér bestu herbergin sem þér hafið?“ Konan kvað það velkomið. Monk tók Vereniku ofan úr vagninum, en áður hafði frú Kraul lagt slæðu yfir andliti hennar. Svo bar hann hana til herbergja þeirra er honum var vísað á. Gilbert og frú Kraul sátu að morgunverði, þegar húsmóðirin kom inn og spurði, hvort hún gæti ekkert gert fyrir sjúklinginn. „Máske hún vilji borða fuglasteik,“ svaraði frú Kraul. „Hún borðar annars mjög lítið.“ Húsmóðirin ætlaði að segja eitthvað meira, þegar hurðinni var lokið upp — og Verenika kom inn. Gilbert og frú Kraul urðu hrædd, þegar þau sáu hana, en húsmóðirin varð sjáanleg forvitin. Allir þögðu. 16 Síðasti skammturinn hafði ekki verið rétt blandaður, það var auðséð, því Verenika vaknaði of snemma. En Gilbert skorti ekki snarræði, hann benti frú Kraul, sem fór undir eins til hennar. Lafði Clynord hallaði sér að dyrastafnum og leit um herbergið. „Hvar er Roy?“ spurði hún. „Ég vil komast heim til Roys — flytjið mig heim — strax.“ „Já, já, barnið mitt gott,“ svaraði Gilbert, „við erum á leiðinni heim.“ Verenika starði undrandi á hann. „Þetta er málrómur Gilberts, en ekki andlit hans,“ tautaði hún. „Vesalings barnið, hún talar óráð, hún heldur að ég sé bróðir hennar,“ sagði Monk lágt. Frú Kraul studdi hendinni á handlegg Vereniku, sem hopaði á hæl undan henni inn í herbergið aftur, og gekk þá frúin inn til hennar og lokaði dyrunum á eftir sér. „Það er sorglegt, mjög sorglegt að sjá æskuna standa við dyr dauðans,“ sagði húsmóðirin, „en ég ætla strax ofan og sjóða handa henni egg og kjötseyði.“ Hún þurrkaði tárin af augunum og fór. Í sama bili kom frú Kraul inn aftur. „Hún er sofnuð aftur, herra,“ sagði hún. „En annað eins og þetta þyrfti að fyrirbyggja eftirleiðis, líklega helst með svefnlyfi.“ „Síður vil ég það, að minnsta kosti ekki núna.“ svaraði Monk hugsandi. „Við skulum heldur láta hana vakna alveg og sjá um að hún nærist ögn. Þegar hún er búin að því, kallið þá á mig.“ Stundu síðar sendi húsmóðirin dálítinn morgunverð til sjúklingsins. Frú Kraul læddist á tánum inn í innra herbergið til að vita hvernig Vereniku liði. Vesalings unga konan velti sér sitt á hvað, en þegar hún heyrði fótatakið, sneri hún sér í áttina til þess er inn kom. „Hvar er ég?“ spurði Verenika og horfði undrandi í kringum sig. „Ég er ekki á bændabýlinu og ekki í Clynord-höllinni.“ „Nei, það er sveitagistihús, sem við erum nú í. Morgunverðurinn bíður yðar og herra Monk er í næsta herbergi. Hann segir yður þetta allt, þegar þér eruð búnar að borða.“ „En ég vil komast heim og ég gæti fyrir löngu verið komin heim,“ sagði hún kjökrandi. „Því er ég ekki flutt heim? Hvar er Roy? Hvers vegna er ég í gistihúsi? Ég verð strax að tala við Gilbert.“ „Ósk yðar verður uppfyllt, þegar þér eruð búnar að borða,“ sagði frú Kraul, „og svo ættuð þér að klæða yður. Það á ekki vel við að þér talið við herra Monk á náttklæðum.“ Verenika leit niður á sig og hristi höfuðið. Hana grunaði að hér væru brögð í tafli, en var of veik til að geta hugsað greinilega. Frú Kraul færði henni morgunverðinn. Verenika borðaði þegjandi, og þegar hún hafði drukkið einn bolla af kjötseyði sofnaði hún. Síðari hluta dagsins vaknaði hún aftur, borðaði þá með betri lyst og mæltist svo til, að frú Kraul hjálpaði sér í fötin. Þegjandi lét Verenika hjálpa sér í föt þau, er frú Kraul hafði látið sauma handa henni í Lundúnum samkvæmt skipun Gilberts. „Nú, kæra lafði mín,“ sagði frú Kraul, „lítið þér aftur út einsog lifandi manneskja. Leyfið mér nú að fylgja yður til herra Monks; hann er í næsta herbergi.“ Hún studdi hana inn í framherbergið og bjó um hana á legubekk, sem stóð við ofninn. Að því húna gekk hún burt, en Monk, sem staðið hafði við gluggann, sneri sér við og gekk til hennar. „Kæra Verenika,“ sagði hann og tók í hendi hennar, „þú hefur valdið mér kvíða, mikils kvíða. Það sem fyrir þig hefur komið, var svo hræðilegt, að ég taldi nærri víst, að þú yrðir alvarlega veik.“ „Mér finnst eins og mig hafi dreymt voðalegan draum, alla tíð síðan þú bjargaðir mér úr grafhvelfingunni. Ég man að þú sagðist ætla að flytja mig heim frá kirkjunni, og svo sofnaði ég á kirkjutröppunum, en vaknaði aftur í einhverju bændabýli. Þar sofnaði ég enn að nýju og vakna nú aftur í gisthúsi. Ég get ekki áttað mig á þessu. Nú er liðið á daginn, og við hefðum getað verið heima áður en birta tók. Hvers vegna ferðu ekki með mig til Roy? Eða viltu þá ekki gera honum boð að sækja mig? Hvað á þessi endalausi dráttur að þýða?“ Geðshræringin skaut ofurlitlum roða í kinnar hennar, og svo reyndi hún að setjast upp. „Þú mátt ekki vera óróleg, kæra Verenika, eða berðu þá ekkert traust til mín, sem bjargaði þér úr myrkri grafarinnar? Geturðu ekki af því séð að ég er vinur þinn og bróðir? Þú mátt ekki vera tilfinninganæm, ef ég á að segja þér hvers vegna ég hef ekki flutt þig heim.“ „Guð minn góður, hvers vegna? Er Roy dáinn?“ „Nei, ekki líkt því. Nú skal ég segja þér, hvernig sakir standa. Að afstaðinni jarðarför þinni fór hann undir eins til Lundúna. Hann var á leiðinni þangað sömu nótt og ég bjargaði þér. Ég þorði ekki að segja þér þetta, svo að vonbrigðin og drátturinn á endurfundum ykkar skyldu ekki hafa slæm áhrif á heilsu þína.“ „Hann er farinn burtu — farinn til Lundúna?“ „Já, hann var mjög sorgbitinn, og hélt sér hentugt að skipta um verustað. Hann ætlaði til ættingja sinna. Sylvía var með honum. Hún ætlaði að heimsækja föðursystur hans í Lundúnum. — Á Clynord er ekki annað heima en vinnufólkið. Ef ég hefði flutt þig þangað, þá hefði fregnin um endurlífgun þína borist honum til eyrna. án þess að við hefðum getað útlistað kringumstæðurnar fyrir honum með nauðsynlegri varkárni.“ „Þú segir satt,“ sagði Verenika og stundi. „Ég hef ekki enn sagt þér allar ástæðurnar fyrir breytni minni. Þú ert ennþá veik og magnþrota, svo ég þorði ekki að segja þér allt eins og var, af ótta við það, að geta valdið dauða þínum. Ég veit ekki hvar lávarður Clynord dvelur í Lundúnum, svo ég verð að fara þangað sjálfur, til að finna hann og tilkynna honum þessa óvæntu fregn með varúð, því annars getur vel verið að það ylli honum veikinda, eða jafnvel dauða.“ „Já, það er sjálfsagt satt, sem þú segir, þegar kringumstæðurnar eru þannig. En vonbrigðin eru svo mikil fyrir mig,“ sagði hún kjökrandi. „Mig langar svo innilega til að sjá Roy! Þetta er raunaleg afturkoma til lífsins.“ „Ég skil svo vel þrá þína og óþolinmæði, og þú skalt líka bráðum fá að finna Roy.“ „Það er svo margt, sem mér finnst óskiljanlegt. Þú ert svo einkennilega breyttur, og ég er sjálf svo þreytt, nærri sturluð, svo ég get naumast hugsað. — Hver var konan, sem klæddi mig?“ „Það er konan af bændabýlinu, þar sem við komum fyrst. Ég réði hana sem herbergissþernu, þangað til þú nærð í Fifinu aftur.“ „Á ég að vera hér meðan þú ferð til Lundúna að leita að Roy?“ „Nei, ég þori ekki að yfirgefa þig á meðan þú ert svona veik, og ég þori heldur ekki að láta þig vera hér. Roy myndi ekki álíta þetta vera viðeigandi heimili fyrir markgreifainnuna frá Clynord. Ég verð að útvega þér hentugan stað, á meðan ég er að leita að Roy, sem ef til vill er farinn frá Lundúnum til ættingja sinna úti á landinu.“ Verenika treysti Gilbert fyllilega, þrátt fyrir vonbrigðin sem hún hafði orðið fyrir. „Hvar heldurðu að þú getir útvegað mér verustað núna fyrst um sinn?“ „Ég hef dálítið höfðingjasetur niður við sjóinn í Wales,“ sagði Gilbert hugsi. „Þangað gæti ég flutt þig til bráðabirgða, og þar gætir þú og frú Kraul átt rólega ævi, á meðan ég sveima um og leita Roys. Héraðið er fallegt og tilbreytingaríkt og gætuð þið Roy dvalið hér ykkar sæludaga, þangað til þú ert orðin algerlega frísk aftur, og almenningsþvaðrið um endurlífgun þína er farið að réna, því þess konar málæði og forvitni eftir að sjá þig, getur naumast verið þér þægilegt.“ Verenika kipptist við og hallaði sér aftur á bak. „Nei, slíkt væri mér óþolandi,“ sagði hún. „En hvernig stendur á því, að ég heyrði Roy aldrei minnast á landareign þína?“ „Satt að segja er það heldur ekki mín eign,“ sagði Gilbert. „Ég bjóst við að hin nýja frú á Clynord mundi skipa mér burtu, og því leigði ég þetta óðal um tíma, sem mér bauðst fyrir lágt verð, á meðan ég væri að velja mér lífsstöðu.“ „Gott, fluttu mig þangað, góði Gilbert, en sé það mjög langt, getum við þá ekki farið með eimlestinni? Ég held ég þoli það betur en í vagni.“ „Jú við getum hæglega farið með eimlestinni,“ svaraði Monk, „og ég get símað gömlu ráðskonunni minni, að hafa allt undirbúið til að taka á móti okkur. Þegar ég afréð að flytja þangað, sendi ég ýmiskonar húsmuni á undan mér, svo að Elísabet gamla ætti að geta gert heimilið notalegt fyrir okkur. Ef þú vilt, þá förum við með eimlestinni snemma á morgun.“ Verenika kinkaði kolli til samþykkis. Þau töluðu saman góða stund ennþá, svo hallaði hún sér út af, en svaf þó ekki. Hún var mjög þjáð, en þó meira á sál en líkama. Monk gekk frá ofninum og að glugganum, þar stóð hann góða stund hugsandi. Þegar kvöld var komið og Verenika var háttuð og sofnuð, kallaði Gilbert á Flack og sagði honum frá breytingunni, sem orðin var á ferðaáætluninni. „Nú erum við í Pollok,“ sagði Monk og lagði landabréf á borðið, „til Petersfield er tveggja tíma ferð í vagni. Þú verður að flytja okkur þangað í dögun í fyrramálið. Þar eru brautarstöðvar og þaðan förum við með eimlestinni, en þú kemur á eftir með vagninn. Seinna þurfum við á honum að halda. Þú ratar líklega, Flack?“ „Ekki vel, en ég held ég muni átta mig.“ „Þú getur fengið landabréfið, ég þarf þess ekki lengur. Þú ekur jafnt og þétt, en aldrei hratt og að þrem dögum liðnum vonast ég til að sjá þig“ „Það skal vera, herra.“ Monk fékk honum peninga til ferðakostnaðar og lét hann svo fara. Morguninn eftir, í dögun, var vagninn ferðbúinn við gistihússdyrnar. Frú Kraul vakti lafði Clynord og klæddi hana nógu snemma, svo bar Gilbert hana út í vagninn og hlúði að henni sem best mátti verða, og svo var ekið af stað. Áður en klukkan var átta, kom vagninn á brautarstöðina í Petersfield, alveg mátulega til að ná í hraðlestina. Monk fékk sér fyrsta farrýmis vagn, hjálpaði Vereniku inn í hann, og lét frú Kraul búa um hana í einu horninu. Á leiðinni var nokkrum sinnum skipt um lest, en alltaf gat Monk fengið sérstakan vagn fyrir þau. Það var komið kvöld, þegar þau komu á brautarstöðina í Carnaroon í Norður-Wales, og þó framorðið væri, vildi Monk komast áleíðis. Hann var orðinn leiður á að vera torkenndur, og var líka hræddur við spurningar Vereniku því viðvíkjandi. „Verenika,“ sagði hann, þar sem hann sat við hliðina á henni í biðsalnum, „treystirðu þér til að ferðast lengra í kvöld? Við eigum aðeins eftir hálfa aðra mílu, en vegurinn er slæmur.“ „Hvað sagðirðu að við ættum langt eftir?“ „Aðeins hálfa aðra mílu, kæra Verenika?“ „Ég er svo þreytt.“ „Ég veit það, en ef við næðum heim í kvöld, þá gæti ég farið til Lundúna á morgun.“ „Þá skulum við halda áfram,“ sagði hún. Monk yfirgaf þær í biðsalnum, en eftir hálfa stund kom hann aftur með póstvagn og leiddi Vereniku út og upp í hann. „Síðasti áfangi ferðarinnar,“ sagði hann. Tvö ljósker voru utan á póstvagninum, svo bjart var á götunni og þar eð ekillinn var leiðinni kunnugur, gerði Monk sér góðar vonir um farsællegan enda ferðarinnar. Þegar þeir höfðu búið um sig í vagninum, sté Gilbert upp í ekilssætið og svo var ekið af stað. Kvöldið var fagurt og stjörnubjart. Við og við óku þau fram hjá einmanalegum húsum og fátæklegum þorpum. Loks var ekið eftir mjög grýttum vegi, sem lá utan í halla ofan að sjónum. „Þetta pláss minnir mig á St. Kilda,“ sagði Verenika fremur við sjálfa sig, en samferðakonu sína. „En hvað ströndin er stórkostleg og þó falleg. Hér gæti ég unað með Roy — í tvo eða þrjá mánuði.“ Vegurinn varð æ brattari og ójafnari og vagninn hristist voðalega, svo að stundum kastaðist hún úr sæti sínu og í fangið á frú Kraul; hún hélt jafnan að vagninn myndi brotna. En þrátt fyrir hristinginn sofnaði hún samt. Hana var að dreyma leiðinlega, þegar vagninn allt í einu nam staðar. Ljósbirtu lagði inn í vagninn og háreisti mikil barst henni til eyrna. Hún þaut á fætur óttaslegin. „Þá erum við komin alla leið, Verenika,“ sagði Monk um leið og hann opnaði vagndyrnar og augu hans glömpuðu ógeðslega af gleði. „Þetta er litla óðalið mitt, St. Maur.“ 17 Sama kvöldið og Verenika kom til St. Maur, sat Clynord lávarður í viðhafnarklefa hennar í Clynord-höllinni. Hann var einsamall. Gasljósin loguðu fremur dauft, en eldur brann í ofninum. Píanóið var opið og opið sönghefti lá á nótnagrindinni, alveg eins og Verenika hafði skilið við það. Í einu gluggaskotinu stóð saumaborðið hennar og var hægindastólnum ýtt frá því til hálfs, rétt eins og hún væri nýlega staðin upp af honum. Til hliðar við ofninn stóð skrifborðið hennar, og þar var einnig allt í sömu skorðum. Lávarður Clynord gekk að skrifborðinu og opnaði lokið á því. Þessa þrjá eða fjóra daga, sem liðnir voru frá því Verenika var jarðsett, hafði hann breyst stórkostlega. Tígulegi svipurinn á andliti hans bar merki þungrar sorgar, augun, sem áður gljáðu svo skært og fjörlega, voru döpur og tárvot og limaburður hans var orðinn þreytulegur. Það sem geymt var í skrifborðinu, lá nú allt saman fyrir augunum á honum. Ýmisleg skrifuð smáblöð, en engin bréf — hafði hún aldrei fengið bréf? Þar lá og dagbókin hennar, með lokuðum spennum og dálitlum lás, rétt eins og það væri einhver dýrmætur fjársjóður. Lykillinn að lás þessum var fastur við úrkeðjuna hennar. Hann tók hann, lauk upp lásnum og opnaði bókina. Hún hafði að geyma frásagnir um ævi hennar, frá því að hún yfirgaf St. Kilda, frásagnir, sem hún hafði skrásett aðeins fyrir sjálfa sig og lýstu hreinu, innilega elskandi hugarfari, með andríkum athugunum hér og hvar. Þessi fögru orð voru lávarðinum einskonar fregn frá gröfinni. Hann lét bókina liggja á hné sínu og las blaðsíðu eftir blaðsíðu með tárvotum augum. „Hreinskilna barnið mitt. Ágæta, trygga konan mín,“ sagði hann og stundi. „Svo ung, svo eðallynd, svo skynsöm og sjaldgæfum gáfum gædd. — Dáin — fallin til jarðar eins og brotið blóm af hauststormi. — Ó, Verenika, Verenika.“ Hann grét, — grét lengi eins og maður, sem grætur konu, sem var honum allt — sem var honum meira virði en hans eigið líf. Svo hélt hann áfram að lesa og þegar hann hafði lesið bókina til enda, læsti hann henni og stakk lyklinum í vasa sinn. „Ég ætla að geyma þessa bók í járnskápnum í bókhlöðunni,“ sagði hann við sjálfan sig. „Hún er mér of dýrmæt til þess að hún liggi hér fyrir allra augum. Hér finnst líklega ekki fleira. Meðal ýmsra blýantsuppdrátta fann hann þar lokk af sínu eigin hári; utan um hann var vafinn pappírsstrimill með áritaninni: Hárið af mínum hjartkæra ástmög. Lávarðurinn, sem ekki hafði komið inn í þetta herbergi síðan konan hans dó, sat góða stund kyrr við skrifborðið og taldi það víst með sjálfum sér, að andi hennar dveldi enn í þessu herbergi. Rólegri af hugboði þessu, var hann að standa upp, þegar Sylvía Monk kom inn. Nærri óviljandi lét lávarðurinn brýr síga og sagði: „Hvert er erindi þitt?“ „Kæri Roy,“ svaraði Sylvía. „Þetta er í fyrsta skipti sem þú ert hér — síðan — síðan — og ég var svo hrædd um að þú myndir deyða þig. Lávarður Clynord horfði undrandi á Sylvíu. „Ég er ekkert ragmenni,“ svaraði hann, „eða þreklaus maður, sem ekki get borið þann kross, er forsjónin leggur mér á herðar, en hjarta mitt er sært holundarsári og ég á bágt með að segja: Herra, verði þinn vilji. Hún var mér allt, hún var minn verndarengill.“ Þessi falska kona, sem hafði sært hana þessu sári, fölnaði_dálítið, en gekk svo nær honum og sagði: „Roy, þú ert ekki einn um sorgina. Ég elskaði Vereniku líka. Hún var engill, of góð fyrir þennan heim. Góði Roy, sorg þin hryggir mig. Lofaðu mér að hugga þig.“ „Mér finnst eins og hún sé hér hjá okkur. Á banastundinni lofaði hún að vera ávallt hjá mér, ef hún mætti það og vera verndarengill minn. Hún er hér eflaust.“ Sylvía fölnaði af ótta og leit í kringum sig. „Ég get ekki ímyndað mér að andi hennar sé hér,“ sagði hún hásum rómi. „En ég vona það, og bið forsjónina um að leyfa henni það. Ég vona að hún geti lesið allar hugsanir hjarta míns. Ef forsjónin leyfir henni á annað borð að vera hér, þá máttu vera viss um það, að hún sér og þekkir allar hugsanir vorar. Sylvía skalf af hræðslu og leit aftur í kringum sig. — Ó, ef Verenika þekkti nú glæp minn og elti mig ávallt sem hefndarengill, hugsaði hún. En upphátt sagði hún: „Það er undarleg hugsun þetta hjá þér, Roy. Þú ættir að fá sefandi lyf hjá lækninum. Taugar þínar eru of spenntar, þú þykist sjá vofur.“ „Vofur,“ endurtók lávarðurinn eins og í draumi. „Nei, en ég sé minn góða engil.“ „Hvar?“ æpti Sylvía og greip í stólbak til að styðjast við. „Ekki með líkamlegum augum, ekki hérna. En með sálaraugum sé ég hana alls staðar þar sem ég er,“ sagði lávarðurinn brosandi. „Með sálaraugum þínum,“ sagði Sylvía ofurlítið hressari. „Góði Roy, þegar mesti sársaukinn líður hjá, venst þú þeirri hugsun, að hún sé á himnum. — Hefurðu grátið? Já, ég sé það á augum þinum. Heldurðu að það auki gleði hennar, að sjá þig sorgmæddan, ef hún er í kringum þig sem verndarengill, eins og þú heldur?“ Lávarðurinn laut höfði, en svaraði engu. „Þú ert ekki sá eini, góði Roy, sem orðið hefur fyrir ástvinamissi,“ sagði Sylvía lágt. „Ýmsir aðrir hafa orðið fyrir jafnþungum sorgum og þú, og hafa borið þær sem hetjur. — Lífið er samhangandi keðja af sorg og mótlæti, og við verðum að bera það með þolinmæði, annað getum við ekki gert. Kæri Roy, láttu mig vera sem systur þína, og láttu mig breyta sem systur við þig.“ „Þú ert góð og ástrík, Sylvía,“ sagði lávarðurinn eftir nokkra þögn. — Ég vissi, að þér þótti vænt um Vereniku, og ég gleymi því aldrei, hve systurleg þú varst við hana. Hún hafði aldrei áður átt vinstúlku. — Ég vil að herbergi þessi séu í sama ásigkomulagi og þau eru nú, að þau séu aflæst og þú geymir lykilinn. Við og við ferðu svo hingað og þurrkar rykinu af því sem hér er. Inni í fataklefanum hennar liggur einn af litlu skónum hennar á gólfdúknum; hún missti hann af sér, þegar hitasóttin byrjaði í henni. Brjóstnálin hennar er í prjónakoddanum; láttu hana vera þar, en þurrkaðu rykið af henni með köflum. — Allt, allt á að vera eins og það er!“ „Þetta skal ég gera, Roy. — Ætlarðu að nota önnur herbergi?“ „Ég ætla að fara burt, Sylvía. Ég get ekki verið hér, þar sem allt minnir mig á hana. Allan daginn finnst mér ég heyra rödd hennar eða fótatak, alveg eins og hún sagði mér fyrir, Sylvía. — Hér get ég ekki náð stillingu minni aftur, þar sem allt minnir mig á missi minn. Ég hef beðið herra Sanders að taka að sér stjórnina á öllu utanhúss, en þig vil ég biðja að hafa aðalumsjónina innanhúss.“ „Ætlarðu að fara burt á skipinu þínu?“ „Nei — ég fer til meginlandsins, en hvert, hef ég ekki fastákveðið. Getur verið að ég fari til Egyptalands eða Sýrlands, að minnsta kosti fer ég eitthvað suður á bóginn. Þegar ég finn mig færan um að bera sorg mína — líklega þó áður — kem ég aftur hingað. Ég verð að láta minn reikula huga ráða því.“ „Farðu ekki Roy — ég get ekki misst þig héðan.“ „Ég verð að fara. Reyndu ekki að raska áformum mínum. Það er gagnslaust. Mundu það, að ég fer burt til að leita friðar, hjarta mitt er við það að bresta. Öðru hverju skal ég láta þig vita um mig, en ekki get ég nákvæmar ákveðið um það. Ég hef beðið Sanders að borga þér árslaun þín eins og vanalega. Ef þú þarft meira, þá færðu það. Ennfremur hef ég beðið hann að borga Gilbert þúsund pund, til þess að hann geti haldið áfram laganámi sínu, eða hvað annað, sem hann vill taka fyrir. Verði það ekki nóg, sér Sanders um það sem á vantar.“ Sylvía sá strax, að fjarvera lávarðarins leysti hana frá því að látast vera sorgbitin, og vonaði að hann mundi fljótlega gleyma Vereniku innan um ókunna menn og á ókunnum stöðum. Þetta myndi því vera í sjálfu sér heppilegt. Þegar hann kæmi aftur, gerði hún sér vonir um, að hann myndi minnast síðustu orða Vereniku, svo hún fengi ósk sína og von uppfyllta. „Jæja — farðu þá, Roy — ég bið guð að varðveita þig, láta þig finna frið og flytja þig heilbrigðan til baka, til þeirra, sem ávallt dvelja hjá þér með ást og árnan alls góðs.“ „Ég þakka þér fyrir þessi orð, kæra systir,“ sagði lávarðurinn og stóð upp. „Ég býst við að fara snemma í fyrramálið, svo ég fæ varla tækifæri til að tala við þig, og þess vegna vil ég kveðja þig núna. — Vertu sæl, og guð veri hjá þér alla tíma.“ „Og með þér vinur minn.“ Sylvíu sárlangaði til að faðma stjúpbróðir sinn, en gat þó stillt sig og gekk út, eftir að hún hafði þrýst hendi hans. Þessa nótt dvaldi lávarðurinn í herbergjum framliðnu konunnar hans, en gat þó ekki sofnað. Þjónn hans hafði tekið til öll fargögn, sem hann þurfti að hafa með sér, og kom svo til hans áður en dagur rann. Lávarðurinn fór þá til fataklefa síns og klæddi sig í ferðafötin, og að því búnu fór hann ofan til morgunverðar. Eldur var á arni og matur á borð borinn, en það var ekki frú Sewer, sem stóð við borðið og hellti teinu í bollann, heldur Sylvía Monk, í skrautlegum morgunklæðnaði, en döpur á svip. Lávarðurinn leit undrandi á hana, en heilsaði henni þó vingjarnlega og settist svo. Hann borðaði og drakk teið þegjandi. Svo stóð hann skyndilega á fætur, kvaddi í klökkum róm og rétti Sylvíu hendina. „Ég fylgi þér ofan, Roy,“ sagði Sylvía. Svo fóru þau. Niðri í forsalnum kvaddi lávarðurinn herra Sanders og frú Sewer, og gekk svo þegjandi ofan og að vagninum. Sylvía Monk fylgdi honum alla leið út að garðshliðinu. Trúnaðarþjónn lávarðarins settist upp í ekilssætið og ökumaðurinn hjá honum. Herra Sanders lauk upp vagndyrunum og sté svo lávarðurinn inn í vagninn. Í síðasta sinni rétti hann Sylvíu hendina í kveðjuskyni. „Ég fer burt,“ sagði hann með klökkri röddu, „þangað til ég finn frið í huga mínum, yfirgef ég heimili feðra minna. Guð varðveiti ykkur.“ Ennþá einu sinni þrýsti hann hendi hennar, án þess þó að kyssa hana. „Farðu vel, Roy! Ég óska, að ferðin færi þér þann frið, sem þú þráir — og það gerir hún áreiðanlega. Engin sorg er ævarandi. Að ári liðnu býst ég við þér — en hvort sem þú kemur eftir eitt ár eða tíu ár, þá finnurðu mig — bíðandi eftir þér.“ Með óminn af þessum orðum í eyrum sínum yfirgaf lávarðurinn heimili sitt og eignir, og lagði af stað til framandi, fjarlægra landa. 18 Herragarðurinn St. Maur, þar sem Verenika nú var komin, var gömul og traust bygging frá lénsmannatímabilinu. Hann stóð á háum kletti og blasti þar við augum hið endalausa haf. Einu sinni hafði hann verið rammlega víggirtur, en nú var vígi það aðeins rústir. Nokkuð af byggingunni var nú einnig í rústum, en sá hluti hennar, sem sneri að hafinu, var stæðilegastur. Hann hékk eins og arnarhreiður á brúninni á hinum bratta kletti, og voru þar höggin spor í klettinn alla leið ofan að sjónum, en afar bratt var einstigi þetta. Í þessum hluta byggingarinnar voru fáein íbúðarhæf herbergi. Þetta gamla klettahreiður hafði öldum saman verið eign welskrar aðalsættar, en af ætt þeirri var nú eftir aðeins einn fátækur maður lifandi, sem var ofursti í indverska hernum, og um langan tíma hafði aðeins ein gömul kona átt þar heimili. Gilbert hafði einu sinni áður komið í hreiður þetta, og áleit það þann afskekktasta og hrikalegasta stað, sem hann hafði augum litið. Gamall þjónn ættarinnar, sem heima átti í litlu húsi niður við sjóinn, hafði umsjón eignar þessarar, og hafði Monk fengið eignina leigða til tveggja ára hjá honum, gegn lágu afgjaldi, sem faðir veikrar dóttur, sem þarfnaðist sjávarloftsins. Vagninn nam staðar fyrir utan bygginguna, eins og áður er sagt, og Gilbert tók Vereniku út úr vagninum. Hann bar hana eftir mjóum gangstíg á milli rústanna, þó dimmt væri. Frú Kraul gekk þegjandi á eftir. Gilbert hélt áfram með byrði sína, og stefndi beint á ljósbirtu, sem lagði út um opnar dyr. Hann kallaði nú hástöfum og kom þá gömul kona út í dyrnar. Hún hélt á ljósi og veifaði því yfir höfði sér. „Það er máske Englendingurinn?“ sagði gamla konan. „Já, nú sé ég það. Velkominn, herra! Það er vondur vegur innan um rústirnar þá bjart er, hvað þá heldur í þessu myrkri.“ Hún gekk svo á undan þeim inn í gamalt eldhús með steingólfi. Á arninum logaði eldurinn fjörlega, og við hliðina á honum stóð bekkur. Þar setti Gilbert Vereniku. — Gamla konan bætti nokkrum sprekum í eldinn. „Unga stúlkan er þreytt,“ sagði Gilbert. „Við höfum verið á ferðinni síðan í dögun, og svo er hún líka veik. Eru herbergin nothæf?“ „Já, herra,“ sagði Elísabet. „Húsmununum, sem þér senduð hingað, hefur verið komið fyrir samkvæmt skipun yðar, og hjálpaði Flack mér til þess. Í þrjátíu ár hefur enginn sofið uppi á loftinu, en ég hef kynnt duglega á hverjum degi til að eyða rakanum.“ „Gott,“ sagði Gilbert. „Við förum þá þangað strax. Gerðu svo vel að vísa okkur leiðina. Ég verð að bera ungu stúlkuna, hún er of veik til að geta gengið. Ökumaðurinn kemur bráðlega inn í eldhúsið. Ég vona að þú sjáir um að hann geti fengið að borða. Við erum annars öll svöng og þreytt.“ Gamla konan tók ljós og fylgdi þeim upp í herbergin, sem Gilbert hafði leigt. — Það voru bestu herbergin. Þau sem voru þar fyrir ofan, voru rök og óholl. Dagstofan — fyrrum viðhafnarsalur — var nú skrautlaus. Þeir fáu húsmunir sem nýtandi voru, höfðu verið fluttir yfir í svalaherbergið. Slitinn dúkur huldi gólfið og veggirnir voru þaktir litlausum myndum. Eldurinn, sem logaði glatt í ofninum, var það eina, sem gerði herbergið þægilegt. Við hliðina á svalaherberginu voru sérherbergi Vereniku, öll notalega hituð. Í búningsherberginu og svefnklefanum voru nýir húsmunir. Við hliðina í svefnherbergi Vereniku var svefnherbergi frú Kraul og dyr á milli. Herbergi Monks var afskekkt, rétt við ganginn. Gilbert lagði Vereniku á gamlan legubekk í dagstofunni. Hún leit í kringum sig og sagði: „Ég er ekki svöng, Gilbert, aðeins þreytt, og vil hátta strax. „Búningsklefann yðar er hérna til hliðar, og svefnherbergið innar af honum. Ég skal fylgja yður þangað,“ sagði frú Kraul. Hún studdi Vereniku þangað inn, afklæddi hana og hagræddi í rúminu. Fáum sekúndum síðar var hún sofnuð. Frú Kraul tók nú ljósið og fór að skoða herbergin. Þau voru að öllu leyti vel útbúin, og í búningsklefa Vereniku voru tvö stór koffort, troðfull af kvenfatnaði og tröfum, svo auðséð var, að Gilbert hafði þurft nokkurn tíma til alls þessa undirbúnings. Þegar frú Kraul hafði svalað forvitni sinni, fór hún aftur inn í dagstofuna. Þar var búið að bera nægan mat á borðið, og Gilbert farinn að gera sér gott af honum — en Elísabet gamla hafði farið ofan í eldhúsið aftur til að taka á móti ökumanni. Frú Kraul settist þegar við borðið og tók til matar síns. „Herbergin eru ekki sem verst,“ sagði hún um leið og hún dreypti á kaffinu, „þau eru hlý og viðkunnanleg, og það er aðalatriðið.“ „Á morgun, ef til vill fyrri partinn, fer ég til baka með vagninum, sem flutti okkur hingað,“ sagði Gilbert. „Að viku liðinni kem ég aftur, og þá kem ég með skemmtibækur, söngbækur o.s.frv. Næsta mánudagskvöld ætti Flack að vera til staðar með vagninn minn í Carnaroon. Það er farið að fjara í buddunni minni, svo ég verð að sækja mér nýjar birgðir.“ Þegar þau voru búin að borða, fóru þau til herbergja sinna. Daginn eftir var morgunverður á borð borinn í svalaherberginu. Gilbert kom þangað fyrstur, og fór að ganga fram og aftur um gólfið allóþolinmóður. Hann staðnæmdist við gluggann og horfði á fáeina fiskibáta, sem voru að fara út á sjó. Í sama bili komu frú Kraul og Verenika. Gilbert, sem hafði þvegið málninguna af andliti sínu, gekk strax á móti þeim. Verenika sá þegar breytinguna og þótti sjáanlega vænt um hana. Hún tók í hendina á Gilbert, sem hann rétti henni. „En hvað það gleður mig, Verenika, að þú ert ögn að líkjast sjálfri þér,“ sagði Gilbert. „Ég er nú óhræddari að fara til Lundúna til að leita að Roy. Ef ég finn hann, þá kem ég með hann. En þú verður að vera eins róleg og þú mögulega getur, svo að nálitur andlits þíns verði horfinn þegar Roy kemur, ef mér heppnast að finna hann.“ „Ég skal gera það sem í mínu valdi stendur,“ sagði Verenika. „Frú Kraul verður hjá mér og ég skal óaflátanlega biðja þess, að ferð þín beri góðan árangur.“ „Ég kem aftur undireins og ég get. Hingað munu engir gestir koma; nágrannarnir eru engir nema fiskimennirnir í litla þorpinu niður við sjóinn. Ég vona að þú verðir ánægð á þessum rólega stað.“ Meðan borðað var ræddu þau um eitt og annað viðvíkjandi fyrirkomulaginu í húsinu. „Nú verð ég að kveðja,“ sagði Gilbert um leið og hann stóð upp. Hann kyssti á enni hennar, eins og bróðir myndi hafa gert undir líkum kringumstæðum og hún endurgalt vinahót hans, sem þess eina vinar er hún átti. Svo gekk hún að glugganum með tárin í augunum og leit út á hafið. „Vertu sæl, Verenika,“ sagði Gilbert í dyrunum. „Farðu vel, Gilbert og komdu sem fyrst aftur með manninn minn,“ sagði hún kjökrandi. Svo lokuðust dyrnar. Frú Kraul fylgdi Gilbert ofan að vagninum. 19 Gilbert hafði tvennan tilgang með ferð sinni til Lundúna. Í fyrsta lagi til að koma Vereniku til að trúa því, að hann færi til að leita að lávarðinum. Hann vissi að hún var svo hrein og saklaus að hún gat ekki ætlað neinum manni það, að hann talaði ósatt eða gerði rangt. Í öðru lagi þurfti hann að fá sér peninga. Hann hafði borgað leiguna fyrir St. Maur fyrirfram og það, með öðrum útgjöldum, hafði næstum því tæmt peningaforða hans. Af þessum ástæðum fór hann ekki beint til Lundúna, en gerði lykkju á leið sína til Clynord um leið. Lesandinn getur hugsað sér undrun hans, þegar hann frétti það hjá systur sinni, að lávarðurinn væri farinn af landi burt og hefði skilið eftir þúsund pund handa honum. Þegar hann var búinn að spjalla við Sylvíu góða stund, fór hann að finna ráðsmanninn. Hann var heima í húsi sínu og tók vel á móti Gilbert, sem sagði strax frá erindi sínu. „Ég skal gefa yður ávísun fyrir allri upphæðinni,“ sagði Sanders. „Auk hennar, sagði lávarðurinn mér, að ég mætti ávísa yður tvö hundruð pundum, ef með þyrfti.“ „Stjúpbróðir minn hefur verið mjög örlátur,“ sagði Monk, „en ég vona, að þúsundið nægi. — Í sannleika sagt, góði Sanders, að enda þótt ég sé nú að nema lög, vona ég innan skamms að eiga yfir talsverðum fjármunum að ráða.“ „Er það svo?“ sagði Sanders. „Um það vissi ég ekkert. Ég leyfi mér að óska yður til hamingju svona fyrirfram.“ „Já, það er tilfellið. Að fimm ársfjórðungum liðnum munuð þér sjá mig sem ríkan mann, ef við lifum þá báðir.“ „Ríkt kvonfang, herra?“ „Rétt tilgáta,“ sagði Gilbert og lét ávísunina í vasabók sína. „En eftir á að hyggja, hvernig berst lávarðurinn af?“ „Hann virðist vera alveg sinnulaus, herra. Ég hef aldrei þekkt neinn mann, sem hefur tekið sér jafn nærri dauða konu sinnar. Hann fór burt sem örvinglaður maður, hugsunarlaus um það hvort hann kæmi nokkurn tíma aftur eða ekki.“ „Ó, hann kemur að ári liðnu, eða svo,“ sagði Gilbert. „Hann hefur ávallt elskað heimilið og hugsað um það. Menn hlaupa ekki staðaldri frá heimili og eignum með brostið hjarta, þó menn hafi misst konu sína. Menn gráta missirinn og kvænast aftur að tveimur árum liðnum, eða þar um, og lávarður Clynord er engin undantekning frá þessari reglu.“ Sanders hristi höfuðið. „Clynordarnir eru ekki eins og fólk er flest,“ svaraði hann. „Lávarðurinn elskaði konu sína af öllu hjarta, og heldur áfram að gera það fram í andlátið.“ „Þetta getur nú allt saman verið gott. En þér munið sjálfsagt, að hann trúlofaðist Sylvíu systur minni við banabeð móður sinnar.“ „Já, það man ég vel.“ „En lávarðurinn stóð ekki við það loforð, og kvæntist Vereniku.“ „Það er líklegast að fröken Sylvía hafi sjálf leyst hann frá því loforði.“ „Alveg ómögulegt. Systir mín elskaði hann innilega. Auk þess hefur Clynord hlotið að segja konu sinni frá þessu, því í andarslitrunum sameinaði hún hendur þeirra og krafðist þess, að hann kvæntist Sylvíu að ári liðnu. Móðir hans og kona hafa báðar skuldbundið hann til að kvænast Sylvíu og ég veit að hann gerir það.“ „Ef það er þannig, eins og þér segið, þá er lítill vafi á því, að hann kvænist Sylvíu.“ svaraði Sanders. Gilbert stóð upp, ánægður yfir þeirri skoðun, sem hann hafði vakið hjá ráðsmanninum, kvaddi og fór. Svo fór hann til systur sinnar aftur og borðaði miðdegisverð með henni. Að því búnu ók hann til Osborne og fékk sér farmiða með Lundúnalestinni. Við brautarstöðina Carnaroon beið Flack hans, tók þegar á móti farangrinum og kom honum fyrir í vagninum. Þegar því var lokið, spurði Monk: „Ég vona, að gestum mínum á St. Maur líði vel. Hvernig líður ungu stúlkunni?“ „Ágætlega,“ svarði Flack. „Hún gengur daglega innan um rústirnar sér til skemmtunar, og spyr oft, um nær þér séuð væntanlegur. Hún vissi ekkert af því, að ég fór hingað að sækja yður. Fyrirgefið herra, en ég get ekki látið vera að segja yður það, að þetta hvorttveggja hefur ekki verið með valdi gert, því þá væri hún fegin hverri stundinni, sem þér eruð fjarverandi, en nú þráir hún heimkomu yðar með mikilli löngun.“ Monk brosti. Hann hafði ekki sagt Flack neitt nákvæmlega um hagi Vereniku, og var heldur ekki mótfallinn því, að vera skoðaður sem unnusti hennar. Af því að vagninn var fullur af farangri, sté Gilbert upp í ekilssætið og settist hjá Flack, sem ók þegar af stað. Vegurinn var erfiður, svo það var komið undir miðnætti, þegar þeir loksins komu til St. Maur, og hestarnir uppgefnir. Lafði Clynord var fyrir löngu háttuð. Frú Kraul var samt vakandi og hafði borið mat á borð í svalaherberginu. Þegar Gilbert var búinn að heilsa, settist hann undir eins við borðið. „Nú, hvernig líður ungu stúlkunni?“ spurði hann um leið og hann tæmdi vínglas. „Eftir kringumstæðum mjög vel, en hún er eins óþolinmóð og örn í búri,“ svaraði frú Kraul „Hún er enn mjög máttfarin, en gengur þó daglega út, horfir á hafið, á bátana og bylgjurnar, og spyr mig daglega nær þú komir aftur. Lesið getur hún ekki sökum hugaróróans. Hún þráir sífellt Roy sinn. Í dag kallaði ég hana ungfrú, eins og ég er vön. En þá sagði hún mér, með talsverðum þótta, að hún væri markgreifainna Clynord. Ég ráðlagði henni, að láta hvorki Flack né Elísabet vita neitt um þetta, þar sem þau væru málgefin og óáreiðanleg.“ „Það var ágætt. Á morgun getið þér sagt henni að ég sé kominn. — Við sjáumst svo við morgunverðinn.“ Þegar Gilbert var búinn að borða, fór hann strax að hátta. Um dagmál daginn eftir kom hann aftur inn í svalaherbergið. Eldur brann þar í ofni og matur á borð borinn, en enginn var þar inni. Hann gekk að ofninum til að verma sig, en heyrir þá allt í einu hátt hljóð. Dyrnar voru opnaðar í hendingskasti og Verenika kom þjótandi inn með útbreiddan faðminn og blóðrauðar kinnar. Hún leit fyrst á Gilbert og svo um herbergið. Roðinn hvarf og andlitið varð öskugrátt. „Hvar — hvar er Roy? Komstu ekki með hann, Gilbert?“ spurði hún. Hann gekk til hennar, tók í hendi hennar og leiddi hana að legubekknum, lappalausa. „Ég kem einsamall, Verenika,“ sagði hann. „Einsamall! Hvar er Roy? Hann er þó ekki dáinn, Gilbert?“ „Nei, hann er ekki dáinn, Verenika, en hann er farinn af landi burt og enginn veit hvert.“ „Guð minn góður! Farinn burt — eitthvað út í heiminn! Og ég lifi — ég bíð hans.“ „Þú mátt ekki verða svona tryllt, ekki örvinlast. Líkami þinn er ennþá veikur, þó sálin sé hraust. Þetta er þó betra en dauðinn. — Ég kom með eitt blað af Hirðfréttunum, þar er getið um brottför hans. Sko — lestu sjálf.“ Greinin sagði frá brúðkaupi hans og því, að þessi unga kona hans væri dáin, og að lávarðurinn væri farinn af landi burt um óákveðinn tíma, til þess að leita sér huggunar í framandi löndum. „Ætli hann komi nokkurn tíma aftur?“ sagði Verenika kjökrandi. „Hann máske deyr þar, án þess að vita að ég er á lífi. Gilbert, hvað eigum við að gera?“ „Hann kemur aftur að ári liðnu, Verenika. Vertu hughraust. Það er ekki um annað að gera en að bíða.“ „Og það er sárast af öllu.“ „Fyrir ári síðan vissir þú ekki, að Clynord var til, og nú geturðu ekki lifað án hans. En hvað lífið er undarlegt. Við verðum að taka þessu eins og það er, hugsa um okkur sjálf og það, hvernig við eigum að koma okkur fyrir, þangað til maðurinn þinn kemur heim.“ „Hvað á ég að gera, Gilbert? Til Clynord get ég ekki farið, það er ómögulegt. Þar myndi allt minna mig á hann. Og Sylvía er heldur ekki heima. Hvar er hún, Gilbert?“ „Einhvers staðar á Norður-Englandi — ég veit ekki hvar. Clynordhöllin er lokuð og allt vinnufólkið farið, nema frú Sewer og nokkrar þernur.“ „Ég get ekki farið til prestsins á Clynord, af því hann er ekkjumaður, heldur ekki til Sanders. Ef ekki væri vetur, þá færi ég beina leið til St. Kilda, en það er nú því miður ekki mögulegt. — Gilbert, ég á ekkert heimili, ekkert hæli.“ „Þú hefur þennan gamla kastala,“ svaraði Monk. „Ég hef leigt St. Maur til tveggja ára. Þetta er afskekktur staður, þar sem enginn kemur, og þú segir að það líkist St. Kilda. Þú hefur hesta og vagn, þegar þú vilt nota þá. Enginn þarf að vita, að þú sért lafði Clynord, sem ekki er heldur ráðlegt, þar sem allir álíta hana dána og jarðsetta. Því ef fólk vissi að þú værir hér, mundi það auka forvitni. Þú getur nefnt þig ungfrú Gwellan og dvalið hér í ró og næði þangað til Roy kemur aftur. Ég aftur á móti verð að vera í Lundúnum alloftast, en get komið hingað við og við, að minnsta kosti á hálfs mánaðar fresti. Farðu að ráðum mínum og vertu hér.“ „Þú ert besti vinurinn minn, Gilbert. Þú hefur frelsað mig frá voðalegum dauða. Mér þykir eins vænt um þig og þú værir bróðir minn. Ég ætla að vera hér.“ Gilbert flutti hendina, sem hún rétti honum, að vörum sér. „Ég þekki heiminn betur en þú Verenika, og veit, að undir núverandi kringumstæðum er þetta hinn hentugasti staður fyrir þig. En ég hef nú bónar að biðja þig, sem ég vona að þú veitir mér, og sem er þér til góðs og Roy myndi fúslega samþykkja. Hér á Englandi eru menn hræddir við þær manneskjur, sem eru jarðaðar lifandi, forðast þær og vilja ekki eiga neitt saman við þær að sælda. Til þess að þú verðir ekki fyrir neinu slíku, verðurðu að lofa mér því, að láta engan vita, um þitt rétta nafn, án míns leyfis. Vereniku hryllti við þeirri hugsun, að verða álitin lifandi vofa, og þar sem hún treysti Gilbert takmarkalaust, hikaði hún ekki við að lofa honum þessu. „Ég ætla að lofa þessu,“ sagði hún. „Þó verður Roy auðvitað að vera undantekning.“ „Já, en hann er líka eina undantekningin,“ sagði Gilbert. „Ég þekki bráðlyndi Roys; ef hann fengi fregn um endurlífgun þína, án þess að vera undirbúinn, gæti það drepið hann. Þegar stundin er komin, skal ég búa hann undir endurfundi ykkar. Er ég ekki besti vinurinn þinn, Veronika? Hef ég ekki frelsað þig frá dauða? Hugsa ég ekki um velferð þína? Hef ég ekki nýlega verið í Lundúnum til að leita að Roy? Treystu mér óhikað. Lofaðu mér því, að opinbera ekki þetta leyndarmál fyrir Roy fyrr en ég segi: „Nú er stundin komin.“ — Gefðu mér þetta loforð sem sönnun fyrir þakklæti þínu og trausti.“ „En góði Gilbert.“ „Þú berð ekki traust til mín — til mín, sem hef frelsað líf þitt.“ „Jú, það geri ég. Ég lofa þér þessu.“ „En þetta er ekki allt, sem þú verður að lofa mér, Verenika. Ég skal segja þér, að ég linni ekki fyrr eftirgrennslunum mínum um mann þinn, en mér gefst færi á að sameina ykkur. Fyrir alla mína fyrirhöfn mælist ég til þess, að þú leyfir mér að fara með þig til Roys og leyfir mér að afhenda þig honum, þegar hann kemur heim, og þess vegna verður þú að lofa mér að þó að þú mætir honum, og þó hann tali til þín, þá máttu samt ekki segja hver þú ert. Viltu lofa mér því?“ Verenika lofaði þessu í einhvers konar leiðslu. „Þú verður að sverja það, að gefa Roy ekki til kynna hver þú ert, fyrr en ég leyfi.“ „Ég sver það Gilbert. Það er aðeins lítilfjörlegt endurgjald fyrir alla þá velvild, sem þú hefur sýnt mér. Brjóti ég þennan eið, þá verðskulda ég að verðleikum þá hegningu — er guð leggur á mig.“ „Það segir sig sjálft,“ sagði Monk glaðlega, „að þessi eiður gildir aðeins meðan ég er lifandi og dvel á Englandi. En nú skulum við snúa okkur að öðru. Ég kom með bækur, söngbækur og fjölda af ýmsum smámunum handa þér. Skoðaðu nú allt saman og segðu mér svo hvort ég get gert meira fyrir þig.“ „Þú heldur að Roy verði í burtu í heilt ár?“ „Ef til vill lengur, ég býst við að hann verði burtu í fimmtán mánuði.“ „Ég er ófullkomin í þeirri list að leika á hljóðfæri,“ sagði Verenika hugsandi og í samanburði við Roy er ég ónýt í frönsku. Heldurðu ekki Gilbert, að ég gæti notað þetta ár til að fullkomna mig í þessu, svo ég væri síðar hæf til að gegna stöðu minni — sem lafði Clynord.“ „Ágæt hugmynd. Ef þú vilt, skal ég útvega þér franska kennslukonu, sem getur kennt þér tungumál, hljóðfæraslátt, dans og margt fleira, enda þó ég álíti það ekki nauðsyn, þar sem Roy álítur þig fullkomna eins og þú ert. „Já, ég er þér þakklát, ef þú vilt gera svo vel og útvega mér kennslukonu, svo ég verði fullkomnari en Roy býst við, þegar hann kemur. Hann ætlaði að láta kenna mér hljóðfæraslátt og pentlist. Góði Gilbert, hvernig á ég að þakka þér alla þína umhyggjusemi.“ „Ef þú vilt fá þér franska kennslukonu hingað, væri best að þú skiptir um nafn og kallaðir þig Gwyn, ungfrú Verenika Gwyn. — Hvernig líkar þér það?“ „Ég hef ekkert á móti því.“ „Gott. Ég vona að þú verðir ánægð og að þér leiðist ekki mjög mikið. Eitt ár er fljótt að líða, þegar það er notað til nytsamra starfa.“ Allt var framkvæmt eins og ráð var fyrir gert. Gilbert útvegaði franska kennslukonu — ekkju eftir fátækan aðalsmann — til að kenna ungfrú Vereniku Gwyn á St. Maur. Verenika stundaði nám sitt af miklu kappi, enda náði hún góðum framförum í frönsku og þýsku, jafnframt því sem hún æfði sig í hljóðfæraslætti og ýmsum öðrum fögrum listum. Gilbert Monk dvaldi í Lundúnum og lifði og lét eins og hann lysti. Vikur og mánuðir liðu og nú var fimmtándi mánuðurinn liðinn síðan lávarður Clynord fór að heiman. Gilbert var farinn að verða órólegur og Sylvía kvaldist af angist yfir því að lávarðurinn ætlaði aldrei að koma heim. Roy fór að heiman í desember og nú var 2. mars kominn, án þess hann hefði nokkurt skeyti sent heim. Þá var það dag einn, er Monk sat á innri skrifstofunni hjá Schott & Reman, að skrifstofuþjónninn kom með símskeyti til hans. Monk opnaði það strax og sá að það var frá Sylvíu systur hans og hljóðaði þannig: „Loksins hefur Sanders fengið bréf frá Roy, það kom í dag og er skrifað í Genúa. Hann er á heimleið.“ 20 Í öndverðum mars lá lítill, laglegur gufubátur á höfninni í Genúa, sem ætlaði til Marseille. Farþegarnir, sem flestir voru ítalskir, tveir franskir og einn enskur, stóðu í smáhópum á þilfarinu. Englendingur þessi var hinn ungi markgreifi frá Clynord. Hann stóð einn sér og horfði á náttúrufegurðina umhverfis. Allt í einu varð þögn á þilfarinu, sem vakti undrun hans. Farþegafarangurinn hafði verið fluttur út á skipið, akkerin innbyrt og allt tilbúið og þó var ennþá hinkrað við. Skipstjórinn stóð í nánd við markgreifann og horfði óþolinmóðlega til lands. „Er ekki allt tilbúið, skipstjóri?“ spurði lávarðurinn á ítölsku. „Eða vonist þér eftir farþegum ennþá.“ „Já, landa yðar, lávarður. Ég bíð hans fimm mínútur, en ekki lengur. Nú, þar kemur hann, ég sé hann.“ Lávarður Clynoord leit við í sömu átt. Í skugganum af hinum löngu, svalandi bogagöngum, sem aðskilja háu byggingarnar í Via Carlo Alberto og Piassa di Sacramento frá höfninní, kom hár og þrekinn maður gangandi hröðum skrefum ofan að höfninni. Hann stökk mjög liðlega upp í skipið, fleygði fáeinum silfurpeningum í ferjumanninn og afsakaði sig kurteislega við skipstjórann. „Já það mátti ekki seinna vera,“ svaraði hann. Svo sigldi gufubáturinn með hægð út fjörðinn. Lávarður Clynord horfði á landa sinn með talsverðum áhuga. Honum fannst hann geta séð glögg spor djúprar sorgar í sólbrenndu andliti hans, sem hafði áhrif á hann. Þeir stóðu báðir góða stund og horfðu á hina hverfandi strönd. Loks gekk lávarður Clynord til hans og minntist á hina skáldlegu fegurð strandarinnar. „Þér eruð Englendingur,“ sagði ókunni maðurinn. „Ljósleita hárið og skeggið vakti grun minn um þjóðerni yðar, þó ég satt að segja héldi fyrst að þér væruð Þjóðverji. En til afsökunar skal ég geta þess, að síðustu fimmtán árin hef ég séð fáa Englendinga, og ég valdi einmitt þessa leið í því skyni, að mæta sem fæstum þeirra. Ég mun líka hafa reiknað rétt, því við erum einu Englendingarnir hér, að ég held.“ Lávarður Clynord svaraði því játandi. Hann varð æ hrifnari og hrifnari af þessum félaga sínum, þó hann léti það ekki í ljós. „Það lítur ekki út fyrir að þér séuð af þeim flokki landa minna, sem ferðast til þess að sjá Ítalíu og meginlandið sem allra fljótast, sagði ókunni maðurinn. „Máske það sé nýlundan við að finna landa minn, eða þá að ég, þrátt fyrir allt, sé ekki ákveðinn mannhatari — nú, orsökin má vera sem vera vill, mér geðjast vel að yður. Fyrst tilviljunin hefur gert okkur að ferðafélögum, ættum við að skiptast á nafnspjöldum, eruð þér samþykkur?“ „Sannarlega. Hér er mitt nafnspjald — markgreifi á Clynord.“ „Og hér er mitt — Basil Tempest. Ég er nú á heimleið eftir margra ára dvöl í Kína og Tartaralöndunum.“ Roy horfði undrandi á hann. Það er svo, þér eruð Tempest, hinn nafnkunni landkönnuður. Nafn yðar hef ég þekkt í mörg ár. Ég hef lesið bækur yðar og hef með áhuga fylgt ferðum yðar um landsvæði, þar sem enginn Englendingur hefur áður stigið fæti sinum. Það gleður mig innilega að kynnast yður. Clynord talaði með svo hreinskilinni einlægni, að hinn mikilsvirti landkönnuður komst við af sannri ánægju. Þegar því Clynord rétti honum hendi sína, þrýsti hann hana innilega. Svo fór Tempest ofan í skipið til að líta eftir hvort farangur sinn væri þar allur. Nokkrum stundum síðar fundust þeir aftur. Seint um kvöldið kom Clynord upp á þilfar, til að horfa á úfið hafið. Skipið ruggaði og skalf og virtist lítið miða áfram í storminum. „Það er stórviðri núna,“ sagði Tempest allt í einu við hliðina á Clynord. Mig furðar hve rólegir þeir geta verið í þungu loftinu í káetunni. Mér er ánægja að því að horfa á bardaga höfuðskepnanna. Þar sem afl mætir afli — kann ég vel við mig.“ „Ég hef orðið fyrir svo margri baráttu á ævi minni, að ég kann best við kyrrð og frið,“ sagði lávarðurinn og stundi við. „Þér vitið þá hvað sorg er?“ „Já, hver er sá sem ekki veit það,“ svaraði lávarðurinn hnugginn. „Það eru ekki meira en 15 mánuðir síðan ég missti ungu konuna mína.“ „Dó konan yðar?“ spurði Tempest og lýsti rómurinn samhryggð. „Já, hún dó. Ég sagði yður að ég missti hana.“ „Já, það gerðuð þér, en maður getur misst konu án þess að hún deyi.“ sagði Tempest hryggum róm. _Þér ættuð að þekkja friðinn fyrst hún er dáin, dáin með þau síðustu ástarorð á vörum sér til yðar. Guð minn góður, því eruð þér ekki ánægður? Hún er nú laus við allan ófullkomleika heimsins og þér getið hugsað um hana með hreinni og tryggri ást. Ég átti líka konu einu sinni, en það var ekki dauðinn sem tók hana frá mér. Það er missir hennar, sem hefur gert mig að því sem ég er, heimsflakkara. Hefði ég ekki misst hana, gæti ég nú verið einn gæfusamasti maður á Englandi. En — ég missti hana.“ Seinustu orðin voru fremur hvísluð en töluð. „Þér megið ekki misskilja mig,“ sagði Tempest. „Hún fór ekki frá mér. Ég elskaði hana heitt. Hún var af góðri en fátækri ætt. Þegar ég sá hana fyrst, var hún ung og fríð, svo ég varð ástfanginn af henni. Faðir hennar vildi að hún tæki mér. Þar var annar ungur maður, sem elskaði hana heitt eins og ég, en hún tók ást hans með kulda. Svo kvæntist ég henni. En þrátt fyrir alla ástúð mína, var hún köld í viðmóti við mig og hélt ég að það væri lundarlag hennar. En svo var það eitt kvöld — við höfðum þá verið gift í þrjú ár — að ég kom óvænt heim; ég heyrði talað í dagstofunni og fór þangað. Ég hef hlotið að ljúka upp dyrunum með hægð, því ekki varð vart við komu mína. Ég stóð á þrepskildinum og sá konu mína sitja í hægindastól við gluggann. Fyrir framan hana lá maður á hnjánum; það var meðbiðill minn, nýkominn heim úr ferðalagi og var hann að segja henni hve heitt hann elskaði hana og gæti ekki gleymt henni.“ Tempest þagnaði augnablik. „En þetta er engin sönnun gegn konu yðar,“ sagði Clynord, „hún hefur getað elskað yður og ...“ Basil Tempest hló biturlega. „Þér hafið enn ekki heyrt allt,“ sagði hann. „Ég beið eftir að heyra svar hennar. Og hvernig var það? Hún fór að hágráta og bannaði honum að tala þannig, en til að mýkja þetta bann, lagði hún höfuð sitt á öxl honum, og kvaðst líka elska hann, sagðist alltaf hafa elskað hann, en að hún hefði verið fátæk og átti bágt með að bera fátæktina, svo hefði líka faðir sinn neytt sig til taka mér, sem hún fyrirliti. Hún sagði honum miklu meira: að hún hataði að sjá mig, að ástaratlot mín væru henni kvöl, að hún vildi heldur vera dáin til að vera laus við mig. — Svo stóð hún upp, losaði sig úr faðmi hans og skipaði honum að fara. Ég heyrði hvert orð, og var jafn grimmur og tígrisdýr á þessu augnabliki. Ég hefði getað rifið hana í sundur í smáagnir, þessa fölsku konu, sem ég hafði elskað svo heitt. — En ég stillti mig, lokaði dyrunum með hægð og fór til herbergis míns. Um stund vissi ég ekki af mér. Ég fann að ég var svikinn, svívirtur og eyðilagður. Allt varð að vera búið á milli okkar. Ég settist niður, skrifaði henni bréf og sagðist hafa heyrt allt. Ég held ég hafi skrifað að ég ætlaði að fyrirfara mér — að minnsta kosti sagði ég henni, að ég gerði enga kröfu til hennar framar, hún gæti gifst þeim sem hún elskaði. Ég var farinn út úr húsinu á undan honum. Síðan hef ég ekki séð konu mína; að líkindum álítur hún mig dauðan og hefur gifst honum. „Máske hún sé dáin.“ „Það getur verið — ég kem til Englands aftur til að sjá gröf hennar, ef hún er dáin, og til að líta einu sinni andlit hennar, ef hún er lifandi. Ég vil sjá hvernig hún fer að draga fram lífið með þessari synd á samvisku sinni, og hvort forsjónin hefur ekki hefnt fyrir mig. Lífið særir svo mörgum sárum sem gróa aftur en þetta sár grær aldrei.“ Hann greip báðum höndum í borðstokkinn og tár rann niður sólbrenndar kinnar hans. „Ég kem ekki heim til að kynna mig henni, heldur til að rækja heilaga skyldu, sem ég hef of lengi látið ógert. Það er þessi skylda, sem dregur mig heim með ómótstæðilegu afli.“ „Elskið þér ennþá konu yðar, herra Tempest? Ég bið yður að fyrirgefa, ef þessi spurning er of nærgöngul.“ „Nei, nei! Um leið og virðing mín fyrir henni dó, dó ástin líka. Hvernig ætti ég að geta elskað hana enn? Sjáið þér nú, lávarður, maður getur misst konu sína, án þess að hún deyi? Ég veit ekki hvað hefur komið mér til að segja yður ævisögu mína. Á morgun mun ég eflaust iðrast þess. Gleymið þá, að ég hef sagt yður hana, og ímyndið yður þetta draum.“ Lávarðurinn greip hendi Tempests og þrýsti hana hlýlega. „Sorgir yðar eru meiri en mínar,“ sagði hann. „Við skulum vera vinir. Viljið þér það?“ Þeir voru uppi alla nóttina, en undir dögun fór Tempest ofan. Við morgunverðinn var hann aftur þögull og kaldur, en við lávarðinn var hann vingjarnlegur. Áður en dagurinn var liðinn batnaði veðrið, og skipið kom til Marseille á réttum tíma. Lávarður Clynord og Basil Tempest urðu samferða í land, og gistu báðir á sama hótelinu. Þaðan urðu þeir samferða alla leið til Lundúna, og gistu einnig þar á sama hóteli. Morguninn eftir, áður en Tempest var kominn á fætur, komu Gilbert Monk og Sanders á hótelið. Þeim var vísað upp til Clynords. Lávarðurinn tók vel á móti þeim. „Ég fékk símskeytið yðar í gær frá París, lávarður, og flýtti mér hingað. Hr. Monk var einmitt staddur á Clynord og varð mér samferða. Fregnin um komu yðar hefur glatt alla.“ „Já, þín hefur verið saknað, Clynord,“ bætti Monk við. „Líður öllu vel heima?“ spurði Roy. „Öllu,“ svaraði Monk. „Allir eru heilbrigðir og hraustir og Sylvía er fallegri en nokkru sinni áður.“ „Á morgun verðum við samferða heim,“ sagði lávarðurinn. „Mig langar til að fá vin minn með mér heim, sem var ferðafélagi minn frá Genúa og hingað. Klukkan er tíu núna; ég ætla að vita hvort hann er vaknaður.“ Hann fór þegar yfir í herbergi Tempests. Basil Tempest var að drekka morgunkaffið í litlu herbergi við hliðina á herbergi hans. Borðið var þakið af blöðum. Þegar lávarðurinn kom inn, stóð hann upp, en settist strax aftur. „Stjúpbróðir minn og ráðsmaður eru komnir að sækja mig,“ sagði lávarðurinn, „og erindi mitt hingað er að mælast til, að þér verðið okkur samferða heim. Hús mitt verður ávallt opið fyrir yður, og mér væri sönn ánægja í, að mega hafa yður sem gest minn um langan tíma.“ „Ég vil það gjarnan, en get það því miður ekki,“ svaraði hann. „Þér hafið líklega einhverjum skyldum að gegna, gagnvart konunglega landfræðifélaginu til dæmis.“ „Nei, gagnvart því félagi hef ég engar skyldur. Ég hef ávallt ferðast fyrir mína eigin peninga. En ég hef samt helga skyldu af hendi að leysa, sem ég ekki má fresta, og ég yfirgef Lundúnaborg í dag. Fyrr eða seinna kem ég máske að heimsækja yður, en nú skilja leiðir okkar. Verið þér sælir á meðan.“ Hann stóð upp og rétti lávarðinum hendina, sem að því búnu fór aftur til Monks og Sanders. Hálfri stundu síðar yfirgáfu þeir hótelið og sneru heimleiðis. Tempest sat enn og las blöð sín. Allt í einu rak hann upp óp mikið og missti blaðið á gólfið. „Dáin,“ hvíslaði hann. — „Dáin! drottinn minn góður!“ Hann tók blaðið upp aftur og las: „Fiskiskonnortan Ellen fórst með öllum, sem á henni voru í hvirfilvindi 9. f.m. Meðal farþeganna voru séra Davíð Gwellan frá St. Kilda og kona hans. Að því, er vér best vitum, voru þau barnlaus. Kjördóttir þeirra, fröken Verenika Gwellan, kvað vera látin fyrir rúmu ári.“ Tempest horfði hugsandi á blaðið. „Dáin!“ sagði hann. „Verenika dáin, og gömlu hjónin dáin líka. Ég hef of lengi frestað að sinna skyldu minni. Aldrei fæ ég að sjá barnið mitt, aldrei heyri ég hana kalla mig pabba. Guð minn, ég á þá ekkert barn lengur, ég er einn — aleinn. Nú þarf ég ekki að fara til St. Kilda — Aðeins að sjá falska andlitið á svikakvendinu, og svo til Tartaranna aftur.“ Hann laut höfði og grét. 21 Allt var kyrrt og þögult þegar markgreifinn af Clynord kom heim aftur. Þeir óku í opnum vagni frá Osborne til Clynord. Lávarðurinn gat ekki komist hjá því, að hugsa um þá stund, er hann ók með konu sinni þennan sama veg. Þegar hann sá kirkjuna sagði hann: „Er búið að láta minningarspjaldið á sinn stað?“ „Já, herra,“ svaraði Sanders. „Nákvæmlega eftir fyrirskipun yðar.“ Lávarðurinn stundi við. Þegar þeir óku fram hjá húsunum í þorpinu, komu íbúarnir út og heilsuðu. Lávarðurinn hneigði sig þegjandi, en vingjarnlega. Undir eins og þeir voru komnir að höllinni, sté lávarðurinn af vagninum og gekk inn. Í anddyrinu beið frú Sever og brytinn eftir honum, og buðu hann velkominn. Hann heilsaði þeim þægilega. Hann tók af sér hanskana og hattinn, lagði á eitt spegilborðið og gekk svo inn í móttökusalinn. Þar brann eldur í þremur marmaraofnum. Ljósin loguðu skært og tjöldin voru dregin fyrir gluggana. Hjá hverjum ofni voru legubekkir og blómavasar á marmarahillum, sem lagði frá þægilegan ilm um salinn. Meðal myndanna, sem prýddu herbergið, var mynd af konunni hans sálugu, og var hún umkringd blómum. Neðan undir henni lá hvítur blómvöndur á dökkri marmarahillu, og voru blómleggirnir vafðir grænu bandi. Clynord vöknaði um augu, þegar hann sá þessa hugulsemi og vissi hvaðan hún kom. Hann leit í kringum sig, og varð ósjálfrátt á að segja „Sylvía.“ Í hliðarherberginu heyrðist skrjáfa í silkikjól — dyratjöldunum var vikið til hliðar, og inn kom Sylvía Monk skartklædd. Augu hennar gljáðu sem gimsteinar, er hún gekk á móti lávarðinum. Hann rétti hendina að henni. En Sylvía teygði upp höfuðið í því skyni að vera kysst. „Roy, kæri Roy,“ hvíslaði hún og lagði höfuðið á öxl honum. „Velkominn heim — þúsund sinnum velkominn.“ Strax dró hún sig í hlé og roðnaði. Hann sá ástina blossa í augum hennar, og fór þá um hann kulda- og viðbjóðshrollur, og gekk að einum legubekknum og settist. Sylvía sá strax að hún hafði gengið of langt, gekk því til hans, lagði hendina á handlegg hans og sagði: „Kæri Roy, ef þú vissir, hve mjög ég hef þráð þessa stund. Dag og nótt hefur hugur minn verið hjá þér, og nú, þegar þú ert kominn, ertu svo kaldur í viðmóti.“ Hún laut höfði og grét. „Ég er hinn sami óbreytti bróðir þinn, eins og ég var, kæra Sylvía.“ Hann kyssti hana, en í því komu þeir inn, Gilbert og Sanders. Sylvía vatt sér úr faðmi lávarðarins, ánægð og rjóð, en þeir litu hvor til annars sem inn komu. Sanders borðaði kvöldverð með lávarðinum, og bað hann að því búnu að tala við sig í einrúmi í bókaherberginu. „Í dag skulum við fara fljótt yfir efnið, Sanders minn, en á morgun skulum við nákvæmlega athuga reikninga og annað.“ „Það var ekki um eignina sem ég ætlaði að tala, lávarður — allt henni viðkomandi er í bestu reglu. Ég vona að þér takið ekki djörfung mína illa upp. — Það var um Sylvíu.“ „Talið óhikað, kæri Sanders.“ „Síðan þér fóruð, hefur Sylvía lifað hér á Clynord eins og nunna, engum boðið til sín og aldrei farið neitt. Það er í almæli, að þér ætlið að kvænast henni. En þér gætuð fengið betri konu en hana. Og sé það ekki áform yðar að kvænast henni, þá ættuð þér að láta hana fara burt. Ég vona að þér misskiljið ekki tillögu mína.“ „Hvert ætti hún að fara?“ „Ég hélt hún ætti ættingja. Máske þetta sé aðalheimili hennar?“ „Já, og hún hefur heimild til að vera hér, og verður að vera hér, þrátt fyrir allt rugl og málæði. Að kvænast aftur hefur mér ekki komið til hugar.“ „En kæri lávarður, þér verðið að athuga hve ungur þér eruð — það er blátt áfram skylda yðar að kvænast aftur. Hver ætti annars að vera húsbóndi á Clynord að yður liðnum? Og ef þér kvænist aftur, hver stendur þá nær að verða konan yðar en Sylvía, sem almannarómur segir, að þér hafið svikið?“ „Ég viðurkenni hinn góða tilgang yðar, Sanders, og það getur skeð, að Sylvía verðskuldi að ég kvænist henni. En um það skulum við tala síðar.“ „Þér eruð líklega ekki reiður mér, lávarður?“ „Nei, síður en svo. Nú ætlið þér að fara strax? — Jæja góða nótt.“ Sanders var ekki búinn að segja helminginn af því, sem hann ætlaði að segja þegar hann fór. Clynord gekk aftur inn í salinn. Þar var Gilbert að ganga um gólf, en Sylvía sat við skrautsaum. Hún leit ástföngnum augum á Roy. þegar hann kom inn. Roy tók hægindastól, dró hann að legubekknum og settist. Hann fór að hugsa um það, að fyrst Sylvía elskaði sig, og almannarómur orðaði þau saman, þá ætti hún fulla heimtingu á vernd sinni. Að sönnu væri það aðeins bróðurleg ást, sem hann bæri til hennar, en þó væri það máske réttast, að hann kvæntist henni, þar eð allir byggjust við því. Sylvía horfði á hann með unaðsríku brosi. Hún sá mjög vel, hvað hann var að hugsa um, og ásetti sér að ná takmarki sínu þetta kvöld. „Áður en ég hátta,“ sagði hún við sjálfa sig, „skal hann í annað sinn vera orðinn unnusti minn.“ Gilbert hélt áfram að ganga um gólf. Hann beið líka eftir þessari trúlofun. Meðan hún var ekki fullkomnuð, varð áform hans með Vereniku að bíða. Hann var einmitt að hugsa um þetta, þegar dyravörðurinn kom inn og sagði honum, að maður að nafni Flack vildi finna hann. Monk varð bilt við, en flýtti sér ofan. Flack stóð á öndinni og hélt á hattinum í hendinni. „Hvað er að? Því kemurðu hingað? „Komið þér út með mér, herra, ég þarf að tala við yður,“ sagði Flack. Þegar þeir voru komnir út, sagði Monk: „Hér heyrir enginn til okkar, segðu mér nú erindi þitt.“ „Frú Kraul sendi mig,“ svaraði Flack. „að segja yður frá því, að ungfrú Gwyn sé farin frá St. Maur og við vitum ekki hvert.“ „Farin — burt — frá St. Maur?“ „Já, herra, hún er farin og bar litla tösku í hendinni. Hún var klædd í bláan kjól með blæju fyrir andliti. Frú Kraul heldur að hún hafi farið hingað og að hún hafi lesið það í blaði, sem vafið var utan um bandhnoða er hún fékk í Carnaroon, að lávarður Clynord væri á heimleið. Hafið þér ekki séð hana — eða hefur hún ekki sést hér?“ „Nei, ég hef ekki séð hana, en hún getur verið hér í nágrenninu. Reyndu að njósna hér í kring, á gistihúsinu og annars staðar. En þegar búið er að slökkva ljósin í höllinni, geturðu fundið mig aftur við hornið á garðinum, austanvert við höllina og sagt mér hvernig málin standa.“ Gilbert gekk aftur inn í salinn og þaðan inn í lítið hliðarherbergi og settist þar — órólegur í meira lagi. „Verenika komin hingað,“ tautaði hann. „En hún stendur við loforð sitt, hún lætur mann sinn hvorki sjá sig né þekkja.“ 22 Stóri, skrautlegi salurinn, með öllum þægindum sínum, vakti aftur hjá lávarðinum ánægju. Tvöfaldar glerhurðir, sem aðskildu salinn og hljóðfæraherbergið, voru opnar, og mátti sjá blómin og finna ilm þeirra gegnum dyrnar. Í hljóðfæraherberginu hafði ekki verið kveikt á gaslömpunum, en lítil vaxljós loguðu hér og hvar á milli blómanna, svo það var líkast hálfbirtu þar inni. Gilbert Monk var kominn þangað inn og sat bak við nokkur hávaxin gulleplatré, hann var að hugsa um flótta Vereniku og hvað hyggilegast væri að gera. Þaðan sem hann sat, gat hann séð inn í salinn og heyrt hvað talað var. Ef Clynord vildi trúlofast Sylvíu, hugsaði hann, þá verður mér auðveldara að fá Vereniku til að samþykkja áform mín. Það var eins og forlögin ætluðu að verða strax við ósk hans þetta kvöld. Sylvía sat í lágum hægindastól fyrir framan ofninn með skrautsauminn á hnjánum og hallaði sér aftur á bak, þannig að birtuna af ljósinu lagði framan í hana. Við hlið hennar sat lávarðurinn. „Ég er feginn að vera kominn heim aftur,“ sagði lávarðurinn. „Þegar ég var í Abyssiníu, þráði ég ósegjanlega mikið að vera kominn heim og nú þegar ég er kominn heim, slær sama órólega hjartað í brjósti mér. Síðan ég missti Vereniku, hef ég aldrei haft jafn sterka vissu um nálægð hennar og nú.“ „Það er mjög eðlilegt,“ sagði Sylvía, „allt sem hér er, minnir þig á hana og þú hefur enn ekki vanist því að hugsa þér heimilið án hennar.“ „Hvernig ætti ég nokkru sinni að geta það?“ sagði lávarðurinn og stundi við. „Einhvern tíma víkur sorg þin fyrir blíðari tilfinningum og missir sinn sárasta brodd. Það er þó lán, að tíminn skuli eiga læknandi afl, annars væri tilveran tóm sorg og myrkur og störfin látin ógerð.“ „Já, það er rétt,“ sagði lávarðurinn. „Vinnuskyldan er nauðsynleg og ófrávíkjanleg. Með því að vinna fyrir aðra, get ég máske gleymt sjálfum mér og sorgum nínum. Ég læt rífa niður lélegustu kofana í þorpinu og byggja aðra upp betri og svo læt ég stofnsetja skóla fyrir börn fátæklinganna, þar sem þeim gefst færi á að menntast til munns og handa, og geri þeim mögulegt að ná í betri lífsstöðu, heldur en þá sem þetta fólk hefur. — Skóla þessum gef ég nafn konu minnar, af því að stofnun hans er í hennar anda, og svo jafnframt til minningar um hana.“ Áhugi lávarðarins fyrir áformi þessu, sem var fyrir löngu fyrirhugað, virtist nú vakna á ný með fullu fjöri. „Ég skyldi með ánægju taka þátt í stórvirki þessu,“ sagði Sylvía. „Það hefði glatt Vereniku mikið, að hafa umsjón með slíkum skóla. Ég vildi að mér yrði auðið að feta í fótspor hennar.“ „Við skulum vinna að því í félagi,“ svaraði Roy glaðlega. „Mér væri það mjög kært,“ sagði Sylvía og lést vera angurvær, „en ég get það því miður ekki. Ég elska Clynord og allar manneskjunar, sem lifa á því landssvæði. Það er það eina heimili sem ég á í heiminum og þó verð ég að yfirgefa það. Ég verð farin héðan alfarin — ef til vill í næstu viku.“ „En, hvers vegna, Sylvía? Hvers vegna ætlarðu að yfirgefa heimili þitt?“ „Það er nú ógæfa mín, að það er ekki mitt heimili, að ég hef enga heimild til að vera hér. Meðan þú varst fjarverandi, var ég hér, þér og heimilinu til gagns, en nú er vera mín óþörf lengur og því verð ég að fara, Roy, og fá mér stöðu sem kennslukona.“ „Ómögulegt, alveg ómögulegt. — Þú kennslukona, Sylvía.“ „Já, hvers vegna ekki? Þegar ég fer héðan og afsala mér styrkveitingu þinni, þá verð ég að vinna fyrir mér, fyrir fæði og klæðum.“ „En af hverju viltu yfirgefa Clynord? Er ekki staða þín regluleg húsmóðursstaða. Og hví skyldi Clynord nú vera óviðeigandi heimili fyrir þig fremur en áður?“ „Af því að þú ert hér.“ „Ég, en fyrir tveim árum var ég hér líka.“ „Þá voru kringumstæðurnar allt aðrar, þá var ég heitmey þín. Mannorð mitt er mér fyrir öllu, Roy. Af því að ég er hér, er fólk farið að tala um mig, og spá ýmsu um tilgang minn með veru minni hér.“ „Nú, og hvað segja menn um dvöl stjúpsystur minnar á heimili mínu?“ „Þeir segja, að ég hafi einu sinni verið heitbundin þér og að þú hafir brugðist því heiti. Þeir segja að ég elski þig enn, og sé hér í þeirri von að ná þér aftur og þess vegna verð ég að fara, Roy. Ég get ekki verið hér, ég verð að yfirgefa þetta kæra heimili.“ Hún fól andlitið í höndum sér og lést gráta af sannri tilfinningu. „Og slíkir rógberar og kjaftaskjóður eiga að reka þig í burtu frá þínu lögmæta heimili. Ég vildi að ég hefði ekki komið aftur.“ „Það getur aldrei orðið skylda eiganda Clynords, að yfirgefa heimili sitt; en sá sem hefur troðið sér þar inn, verður að gera sig ánægðan með að víkja. Ef þú ferð burtu, Roy, þá fer ég líka.“ Lávarður Clynord, sem staðinn var upp og gekk hröðum skrefum fram og aftur um gólfið, stansaði þegar hann heyrði síðustu orðin. „Það er aðeins ein leið til þess að þú getir verið hér, og viljir vera hér vona ég og það er — sem kona mín.“ „Roy,“ sagði Sylvía blóðrauð í kinnum með blikandi augu. Dálitla stund stóð lávarðurinn kyrr skelkaður við sín eigin orð. Hann sá að Sylvía tók þau sem giftingartilboð. Svo sagði hann í mjög alvarlegum róm: „Sylvía, ég hef aðeins elskað einu sinni á ævi minni; með konu minni voru jarðaðar allar mínar vonir um ástargæfu og þó hún sé nú í öðrum heimi, þá heldur hún áfram að vera konan mín. Það væri því rangt af mér að hnýta þína tilveru við mitt sorgblandna líf. Ég hef elskað þig og elska þig enn, en aðeins sem bróðir elskar systur.“ Sylvía varð náföl af hræðslu yfir því, að missa nú af sigrinum sem hún taldi sér vísan. Lávarðurinn sá geðshræringu hennar, en misskildi orsökina. „Sylvía,“ tók hann aftur til máls, „við vorum einu sinni heitbundin, en þegar þú varðst þess vör að þú elskaðir mig ekki, raufst þú það heit. Móðir mín og Verenika líka, vildu að við giftumst. Vilt þú eiga mig þó ég elski þig ekki, vilt þú verða konan mín með þessum skilyrðum?“ Aftur varð Sylvía blóðrauð í framan. „Roy,“ sagði hún og stundi þungan, „ég elska þig. Að vera kona þín, er meira en ég þorði að vona, en til endurgjalds færðu allt mitt líf.“ Lávarðurinn brosti angurvær. „Ég hef svo lítið að endurgjalda með ást þína, en ég get varðveitt þig fyrir baráttu lífsins, og skal reyna að gera þig lánsama.“ Sylvía stóð upp, baðaði út höndunum og fleygði sér í faðm hans. Óviljandi hrökk Roy undan, en áttaði þig þó strax og lagði handlegginn um mitti hennar. „Roy,“ hvíslaði Sylvía, „þessi stund bætir mér allt, sem ég hef liðið þín vegna. Líf mitt án þín hefur verið langdregin hnignum, sem ekki gat endað með öðru en dauða. — Þrýstu mér fastar að hjarta þínu, Roy, og gefðu mér trúlofunarkossinn. Loksins — loksins er ég þín.“ Lávarðurinn tók hana í faðm sinn og sagði: „Guð blessi þig, kærasta mín, mín góða Sylvía. Ég vildi að ókomni tíminn gæti bætt þér sorg þá er þú hefur borið.“ Hann laut niður og kyssti hana. Stuna, andvarp, skrjáf í kvenkjól barst inn til þeirra. Roy, sem hélt Sylvíu í faðmi sínum enn, leit ósjálfrátt upp. Hann varð sem steini lostinn af því sem hann sá. Hann sá konu sína standa í hljóðfærasalsdyrunum, fegurri en nokkru sinni áður, og klædda sama hvíta kjólnum og hún var jörðuð í. — Roy þekkti hvort tveggja vel. Það leit svo út sem veran vildi tala, en væri varnað þess af einhverju. Sylvíu undraði þögn lávarðarins, leit upp og sá sömu sýnina. Hún varð sem mállaus og skalf og nötraði af hræðslu. Veran breiddi út faðminn, eins og hún vildi draga Roy til sín — svipur hennar varð sorgþrunginn, og svo gekk hún í burtu og hvarf. 23 Þegar veran var horfin, var sem Roy vaknaði af svefni. Hann hrinti Sylvíu frá sér og þaut inn í hljóðfærasalinn. Eins og brjálaður maður þaut Roy í gegnum salinn og að glerhurðinni í hinum enda hans, sem var opin. Þaðan var gengið út í skemmtigarðinn, og nú stóð Roy þar og skimaði út í myrkrið. Gilbert stóð í nánd við dyrnar og hafði séð, þegar Verenika kom og fór, ætlaði svo að elta hana, en varð að hætta við það þegar Roy kom. „Góði Roy, hvað er að?“ spurði Gilbert, „því hleypurðu svona?“ „Sástu hana?“ spurði Roy. „Hefur nokkur farið út hérna?“ „Hérna! Ekki nokkur maður. — Að hverjum leitarðu — Sylvíu?“ „Það var Verenika! Ég sá hana eins glöggt og þig. Komdu og hjálpaðu mér að leita í skemmtigarðinum.“ „Góði Clynord! Hefurðu gleymt því að Verenika er dáin? Hvernig getur þér dottið í hug að þú sjáir hana hér?“ Lávarðurinn þaut frá Gilbert og fór að leita milli blómanna í salnum og síðan í garðinum, en sá þar heldur ekkert. Þegar hann kom aftur inn, var hann fölur og hugsandi. „Það er ómögulegt að þú hafir séð konu þína, Clynord, eða heldurðu að það hafi verið andi hennar? — Því lifandi hefur hún ekki stigið upp úr gröfinni. Þetta hafa hlotið að hafa verið sjónhverfingar, sem orsakast af ofreyndum taugum.“ „Það voru engar sjónhverfingar, Gilbert, og Sylvía sá hana líka. Við skulum vita hvað hún segir.“ Þeir gengu aftur inn í salinn. Sylvía sat við ofninn, og mátti enn sjá óttann í andliti hennar. Hún ímyndaði sér, að Verenika væri risin upp til að hefna sín á sér. — Í fyrsta hræðslubrjálinu, sem yfir hana kom, þaut hún til herbergja sinna, en þar gaf Roggy henni sefandi lyf og hughreysti hana. Enda þótt Sylvía væri hjátrúarfull, var hún jafnframt viljasterk, og ásetti sér nú að láta enga veru, lifandi eða dauða, svipta sig manni þeim, er hún áleit sína eign. Að þessu áformi staðráðnu fór hún aftur inn í salinn, rétt áður en þeir gengu inn. Hún leit á Clynord með ásakandi svip, en sneri sér svo að honum og sagði blíðlega: „Roy, af hverju hrintirðu mér frá þér? Hvers vegna þaustu svona skyndilega burt? Þú gerðir mig hrædda.“ Clynord horfði á hana alveg hissa. „Sástu ekki Vereniku? Horfðir þú ekki á opnu dyrnar?“ „Jú, ég horfði þangað, en ég sá engan þar. En hvað meinarðu með að nefna Vereniku? Ímyndarðu þér, að þú hafir séð hana?“ „Já, í sannleika sagt, Sylvía. Ég er viss um að ég sá hana. Sástu hana ekki? Getur það hafa verið ímyndun? Gilbert stóð við útidyrnar, og segist engan hafa séð heldur.“ Sylvía leit hvössum augum á bróður sinn, en honum brá hvergi. Hún ásetti sér að tala við hann um þetta seinna. „Þetta hefur áreiðanlega verið sjónhverfing,“ sagði Sylvía, „sem orsakast af æsingi huga þíns.“ „Er það mögulegt, að það hafi verið sjónhverfing, sem orsakast hefur af taugáreynslu og hugaræsingi. Það er hægara að trúa því, heldur en að þeir dauðu rísi upp úr gröfunum. — En hvað hún var framúrskarandi fögur og yndisleg.“ Hann hallaði sér upp að aringrindinni og var í efa um hverju hann ætti að trúa. Sylvía studdi sig blíðlega við hann. „Gilbert,“ sagði hún hreykin, „frá þessari stundu er verustaður minn við hliðina á Roy. Á ég að segja honum það, Roy? — Þú segir já. — Heyrðu þá, Gilbert. Roy og ég erum heitbundin í annað sinn, og ætlum bráðum að gifta okkur.“ „Má ég óska þér hamingju, Clynord?“ sagði Gilbert og rétti báðar hendur að lávarðinum. „Ég er ekki eins og ég hef áður verið,“ sagði Roy og brosti raunalega. „Ég er allt í einu orðinn þess var að ég hef taugar. Ég bið þig að afsaka mig, kæra Sylvía, mér finnst ég vera þreyttur, og ég ætla því að fara að hvíla mig.“ „Ég hef látið búa út nokkur turnherbergi handa þér,“ sagði Sylvía, „ef þú vilt þau heldur en gömlu herbergin þín, sem líka eru íbúðarfær.“ „Ég kýs heldur gömlu herbergin mín. Góða nótt, Sylvía. Góða nótt, Gilbert.“ Sylvía rétti fram kinnina og bjóst við kossi, en Roy virtist ekki sjá það. Hann rétti henni hendina og fór. Gilbert sneri sér við og ætlaði inn í hljóðfærasalinn, en Sylvía kallaði á hann. „Hvað viltu mér?“ spurði hann. „Ég vil fá að vita hvort þú varst búinn að vera lengi í hljóðfærasalnum, þegar Roy sá svipinn.“ Gilbert kinkaði kolli. „Og þú sást engan ganga inn eða út.“ „Nei.“ „Þú lýgur, ég þekki þig. Ég sá svipinn — ef það var svipur — og þú hefur séð hann líka. Hvaða ástæðu hefur þú til að neita því?“ „Enga, ég hef engan svip eða vofu séð.“ „Þvaður. Ef þessi vera hefur ekki verið svipur, hvað er hún þá? Er þetta eitt af heimskupörum þínum, eða er einhver stelpa að leika vofu lafði Clynords?“ „Ég endurtek það, að ég hef enga vofu séð.“ „Og ég endurtek að þú hefur séð hana,“ sagði Sylvía og stappaði í gólfið af vonsku. „Ég sá hana, og þú hlýtur að hafa séð hana. Ef þú heldur áfram að neita því, þá hefurðu einhverja ástæðu til þess. Er ekki betra fyrir okkur að vera samráða í fyrirtektum okkar? Með því móti vinnum við margfalt á móts við það, að ganga sína götuna hvort.“ „Ef ég hefði eitthvað fyrir stafni, getur þú reitt þig á, að ég skyldi fara svo dult með það, að ekkert mannlegt auga skyldi sjá það — ekki einu sinni þitt. — Þú breyttir hyggilegar í því, að reyna að nota þennan nýja sigur þinn og hraða brúðkaupinu sem mest. Það er farið að ganga á þessi þúsund pund mín, svo ég þarf bráðum peninga. En eins og þú manst, hefur þú lofað mér ríflegum árslaunum, þegar þú værir orðin lafði Clynord.“ Gilbert hneigði sig háðslega, gekk inn í hljóðfærasalinn og þaðan út í garðinn. Sylvía horfði vandræðalega á eftir honum. „Ég er viss um að Gilbert veit eitthvað um þessa veru,“ sagði hún við sjálfa sig. Með þessa fullvissu í huga gekk hún til herbergja sinna. Í búningsklefanum fann hún Roggy, sem var að ljúka upp lyfjaskápnum sínum, og tók út úr honum gyllta skrínið með eiturglösunum. „Hvað ætlarðu að gera með þetta?“ spurði Sylvía um leið og hún settist. „Ég ætla að athuga, hvort engir prettir hafi átt sér stað með lyfjaberin mín,“ svaraði Roggy. „Þú hefur gert mig órólega með vofunni. — Það er naumast mögulegt, að ég hafi tekið ber úr rangri flösku, og þó svo hefði verið, þá hefði hún átt að deyja eftir þrjá daga í kistunni.“ Sylvía aðgætti starf hennar með áhuga. „Það voru hundrað lyfjaber í hvorri flösku,“ sagði Roggy um leið og hún fór að telja. „Í flösku nr. 2 eru 99 — það stendur alveg heima,“ sagði Roggy. „Teldu berin úr nr. 3. Ef þar vantar ekkert, þá er allt rétt.“ sagði Sylvía. „en það er ég viss um Roggy, að Gilbert veit hvernig á þessari veru stendur, þó hann neiti því. Mér þætti gaman að vita, hvað hann ætlar sér.“ Roggy tók flöskuna nr. 3 og taldi í henni fjórum sinnum og tautaði eitthvað ljótt. „Er talan ekki rétt?“ spurði Sylvía. „Þar eru aðeins 99 ber,“ svaraði Roggy. „Og þau voru 100?“ „Áreiðanlega hundrað í hvorri flösku.“ „Máske eitt hafi dottið á gólfið,“ sagði Sylvía. „Hættu þessu,“ sagði Roggy, „segðu mér heldur hvort Gilbert hafi verið hér þegar lafðin veiktist.“ „Já, manstu ekki að hann var inni í stofunni minni fyrir kvöldverðartímann, og fór svo til Lundúna um kvöldið án þess að koma inn í salinn? Hann kom til að fá lánaða peninga, ég man það glöggt.“ „Var hann inni í stofunni þinni áður en við opnuðum skápinn og töluðum um lafðina.“ „Já, þegar hann fór kallaði ég á þig, og við vorum svo hérna.“ „Sjáðu nú — eftir 3 daga kom hann aftur — var það ekki?“ „Jú, ég sendi honum skeyti um að lafðin lægi fyrir dauðanum.“ „Já, barnið mitt gott. Bróðir þinn er slunginn eins og tígrisdýr. Hann hefur grunað okkur, komist aftur inn hingað, þó dyrnar væru læstar, falið sig hér og staðið á hleri. Ég man, að ég fór inn í herbergi mitt til að sækja glas, og hafir þú gengið út úr þessu herbergi á meðan, þá var honum þetta mögulegt, annars ekki.“ Sylvía æpti af heift. „Já, ég gerði það einmitt. Verenika kom til að fá lánað sönghefti og ég fór inn í stofuna til að fá henni það.“ „Þá er allt auðskilið. Gilbert hefur skipt um lyfjaberin og tekið annað úr nr. 3, svo kom hann aftur eftir þrjá daga, og þá hefur hann gefið lafðinni nýja inntöku. Síðan var hún jarðsett, og svo hefur Gilbert bjargað henni og geymt hana einhvers staðar. Lafði Clynord er lifandi! Þú hefur séð hana sjálfa, en ekki svipinn hennar. 24 Roggy sagði þetta með svo mikilli sannfæringu, að Sylvía festi trúnað á orð hennar. „Verenika ennþá á lífi!“ sagði hún. „Og þó — nei, það er ómögulegt.“ „Það er ekki ómögulegt, barn, hafi Gilbert heyrt samtal okkar og skipt um berin. Hann geymir enn berið sem þú ætlaðir Vereniku.“ „Ég get ekki trúað því, ég vil heldur ímynda mér að ég hafi séð. — Ef hún er lifandi, hvar hefur hún þá verið síðustu 15 mánuðina?“ „Gilbert hefur falið hana einhvers staðar, eigin áforma vegna.“ Hafi það verið lafði Clynord, því talaði hún þá ekki, því kom hún ekki inn í salinn og fleygði sér í faðm manns síns?“ Þessu gat Roggy ekki svarað. „Sjáðu, þú getur ekki svarað þessu. Hefði þetta verið Verenika sjálf og hefði strokið úr felum Gilberts, þá hefði hann hlotið að vera órólegur og hræddur, en hann var það ekki, síður en svo. Nei, ég er viss um að þetta var vofa og að Gilbert hefur ekki séð hana.“ Roggy sýndist efablandin. Þegar Sylvía sá það, varð hún enn sannfærðari um réttmæti sinnar skoðunar. „Já, ég hef enn eina ástæðu, Roggy. Veran var yfirnáttúrlega fögur, eins og aðeins englar geta verið og það sannar mér, að þetta gat ekki verið lifandi Verenika, heldur engill.“ „Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ tautaði Roggy. „Hefði þetta verið Verenika sjálf, þá hefði hún líklega komið inn til manns síns, en að hún gerði það ekki, sannar þína skoðun. Þetta er allt saman gáta, hvernig sem maður lítur á það, en eitt er víst, að við verðum að athuga nákvæmlega framferði Gilberts. Það er hugsanlegt að hann hafi leigt einhverja stelpu — til að leika vofu lafði Clynord.“ „Þú hefur talið rangt, eða lyfjaberin hafa ekki verið hundrað upphaflega. Við gerum okkur hræddar að óþörfu. — Ég er nú heitbundin lávarði Clynord, og hraða giftingunni eins og ég get. Roggy, ég gæti lifað eins og drottning.“ Svo hallaði hún sér aftur á bak í hægindastólnum og fór að draga upp myndir af hinni ókomnu ævi sinni í huganum. Roggy lét glösin aftur ofan í skrínið, setti það inn í skápinn og læsti honum svo. „Þegar barnið er ánægt, þá ætti ég ekki að trufla gleði hennar,“ sagði Roggy við sjálfa sig. „En ég fyrir mitt leyti er ekki ánægð með þessa skýringu. Ég ætla að líta eftir Gilbert og gá í hirslum hans hvort ég finn ekki berið, og skal ég komast eftir því, hvort þetta er vofa Vereniku eða hún sjálf, og sé það hún sjálf, þá skal ég ryðja þeirri hættu úr vegi.“ „Um hvað ertu að tala?“ spurði Sylvía, sem heyrði ávæning af síðustu orðunum. — „Hvað ertu að segja, Roggy?“ „Ekkert, ekkert, góða barn, sofðu, ég vaki.“ Og Sylvíu hélt áfram að dreyma framtíðardraum sinn. Meðan Sylvía lúrði á þessari fölsku fullvissu var Clynord uppi í herbergjum Vereniku, þungt hugsandi og angurvær. Hann bjóst við að sjá Vereniku koma inn um einhverjar dyrnar þá og þegar. „Hvorki Gilbert eða Sylvía hafa séð hana,“ sagði hann við sjálfan sig, þegar hann var að ganga um gólf. „Þetta hlýtur að hafa verið sjónhverfing eða ímyndun. Ég get líka vel skilið það, af því ég hef alltaf hugsað um hana síðan ég kom. Mér fannst ávallt að hún væri í nánd við mig. Og þegar ég bauð Sylvíu það eina endurgjald, sem ég gat veitt henni, fyrir sorgir hennar og þjáningar, þá hugsaði ég einnig um Vereniku. Og þegar hún hallaði höfðinu að brjósti mér og ég kyssti hana, þá fannst mér ég gera mig sekan í ranglæti gegn Vereniku. Það er því ekkert undur, þó ég teldi mig sjá hana.“ Stundum saman gekk hann fram og aftur um gólfið, þangað til kulnað var í ofninum, þá fór hann loksins inn í svefnherbergi sitt. Hann féll á kné fyrir framan rúm Vereniku og grét. Hann lá þar lengi, uns kyrrlátur angurblíður friður sveif sefandi yfir huga hans. Síðan stóð hann upp, dró niður í lampanum og lagðist á legubekk við ofninn í öllum fötunum með ábreiðu ofan á sér. Af því hann var þreyttur, lokaði hann augunum aftur og mókti, en svaf ekki. Allt í einu hrökk hann við. Honum fannst sem andað væri á enni sér. Hann lauk ekki upp augunum. Svo fann hann andardrátt á vörum sér eins og dúnléttan koss. Þá lauk hann upp augunum og sá hina sömu sýn og áður niðri í salnum. Hann sá Vereniku, ljómandi fallega, með saklausu barnsaugun, sem hann elskaði svo innilega, laglega munninn, sem hann hafði kysst svo oft, í hvíta, fellingaríka silkikjólnum, sem hún var klædd í þegar hún var kistulögð. Hann þorði naumast að anda. Hún hafði fjarlægst hann nokkur fet, og leit á hann með sorgblandinni ást í augum og svip. Hún opnaði munninn, eins og hún vildi tala, en ekkert heyrðist. Hún rétti út handleggina, eins og hún vildi taka hann í faðm sinn. „Verenika,“ kallaði hann hátt. „Verenika, talaðu við mig.“ En veran hristi höfuðið neitandi með sorgbúnum svip, og gekk með hægð inní búningsherbergið. Æpandi stökk lávarðurinn á fætur og þaut á eftir henni. Ástríkt augnatillit náði honum, og svo lokuðust dyrnar. Clynord opnaði dyrnar, en veran var horfin. Hann leitaði í búningsherberginu og næstu herbergjum, en fann ekkert. Sylvía hafði vaknað við hávaðann og kom þjótandi til að vita hvað á gengi, og á eftir henni kom Roggy gamla. Clynord baðst afsökunar á ónæðinu, sem hann hafði valdið og hélt svo áfram að leita. Hann barði að dyrum hjá Gilbert, en fékk ekkert svar. Af því ólæst var, gekk hann inn. Á borðinu logaði ljós, og eldur var í ofninum, en Gilbert var hvergi. Undrandi yfir því að Gilbert skyldi ekki vera inni á þessum tíma nætur, gekk hann aftur út á ganginn. Þar stóð Sylvía enn. „Hefur einhver brotist inn til þín, Roy?“ spurði Sylvía. „Er Gilbert ekki í herbergi sínu?“ „Nei, hann er þar ekki. Ég hélt ég hefði séð eitthvað og var að gá að því. Góða nótt.“ „Var það veran aftur, Roy?“ „Já, góða nótt.“ Roy fór til herbergja sinna, beið þar og hlustaði. En veran kom ekki aftur. Sylvía fór inn í svefnherbergi sitt, og átti þar lengi samræður við Roggy. 25 Þegar Gilbert yfirgaf systur sína, þaut hann út í garðinn og leitaði og leitaði, en fann ekkert. „Hún hlýtur að vera einhvers staðar í höllinni,“ hugsaði hann. „Máske hún hafi hlaupið til herbergis míns til að biðja mig að leysa sig frá eiðnum. Mér hefur aldrei til hugar komið að svona góðar manneskjur eins og hún væru til. Gilbert gekk nú aftur inn í höllina og til herbergis síns. Ljósið logaði enn, og í ofninum brann eldurinn fjörugt. „Aha,“ sagði hann. „Verenika hefur verið hér, og hún hefur skarað að eldinum til að geta vermt sig. Hún kemur eflaust aftur. Síðan hún sá Roy, er hún eins og ljónynja í búri sem vill losna, en ég skal finna einhver ráð til að halda henni kyrri.“ Hann lét dyrnar vera ólæstar, svo að hún kæmist inn, settist svo á stól úti í horni og beið þar. Tíminn leið og klukkan sló tólf, en ekki kom Verenika. Honum kom nú til hugar, að hún kynni að hafa farið til herbergja sinna þar sem Roy var. Og ef svo væri, þá væri úti um sig. Hann tók nú af sér stígvélin og fór í flókaskó, fór svo út í ganginn og læddist að dyrunum á herbergi lávarðarins, lagði eyrun við skráargatið og heyrði reglubundinn andardrátt þar inni. Roy hlaut því að vera þar. — En hvar var Verenika? Hann stóð lengi og hlustaði. Loks hélt hann sig heyra létt spor á gólfinu inni í herberginu og skrjáf í kvenkjól. Hjarta hans sló ótt og títt. Hann hafði nú eyrað fast að skráargatinu. Já, nú heyrði hann ópið í Roy — og nafn Vereniku. Hún var þá þar inni. Monk skalf. Hann var sannfærður um, að sín eina björgunarvon væri flótti. Allt í einu opnuðust dyrnar á baðklefanum, og hvítklædd stúlka kom út þaðan og hljóp eftir ganginum, ofan stigann og inn í hliðargang. Það var Verenika. Hún var naumast komin í hvarf, þegar lávarðurinn kom þjótandi á eftir henni. Eftir dimmum ganginum hljóp hún og Monk á eftir henni yfir í auða álmu á höllinni. Þar varð fyrir henni stigi, og hljóp hún þegar upp. Hún hlaut að vita að hún var elt, en leit þó aldrei við. Áfram hélt hún upp á við, upp á aðra hæð og áfram upp á þriðju. Þar stóð hún við másandi fáeinar sekúndur, svo hélt hún áfram þar til hún að síðustu kom inn í tómt herbergi, með aðeins einum dyrum. Tunglskin var í herberginu, svo hún leit í kringum sig. Hljóp hún þá hljóðandi út í dimmasta hornið og byrgði andlitið með höndunum. Monk kom inn á eftir henni og læsti dyrunum, gekk svo til hennar og sagði blíðlega: „Verenika.“ „Gilbert,“ sagði hún, „ert það þú? Ég hélt það væri Roy.“ „Nei, það er ég. Frú Kraul gerði mér boð að þú værir farin og vissi ég þá að þú mundir fara hingað. — Sjálfur kom ég hingað í gærkvöldi.“ „Með Roy? En hvað hann hefur breyst, hann er orðinn svo alvarlegur og þungbúinn — hann þráir mig af öllu hjarta. Nú er hann sjálfsagt a8 leita mín. — Þey, hann kemur eflaust hingað.“ „Nei, Verenika, þessi herbergi hafa ekki verið notuð í mörg ár. Hann finnur þig ekki.“ „Ég verð að fara ofan til hans undir eins. Ég vissi að þú værir hér, og kom snöggvast inn í herbergið þitt, en þú varst þar ekki. Leystu mig frá eiðnum, Gilbert ég verð að fara ofan til mannsins míns.“ „Verenika,“ sagði Monk, „þú veist að Clynord álítur þig vera anda, hann leitar þín því ekki lengi, svo þú hefur nægan tíma til að hlusta á það sem ég ætla að segja þér.“ „Talaðu þá strax, ég má engan tíma missa; hann þráir mig.“ „Hvernig veistu að hann þráir þig?“ „Af því að ég þrái hann sjálf. Ég elska hann svo ósegjanlega mikið, að ég verð að fara ofan. Gefðu mér eftir eiðinn, Gilbert.“ „Þú verður fyrst að hlusta á mig. — Verenika ég álít þig vera hina bestu og eðallyndustu allra kvenna, en þó ert þú, þegar á allt er litið, jafn eigingjörn og allar aðrar. Þér er ofvaxið að offra sjálfri þér.“ „Offra sjálfri mér? Hvað áttu við?“ „Geturðu sýnt sjálfsafneitun? Geturðu offrað sjálfri þér manns þíns vegna? Ó, þú ert ekki betri en konur gerast almennt, þú lifir aðeins fyrir þína eigin ást og þó hafa verið til konur sem hafa fórnað ást sinni og hamingju fyrir mann sinn.“ „Við hvað áttu, Gilbert?“ spurði Verenika og hljóðaði hátt. „Hvað var síðasta verkið þitt, áður en þú féllst í dauðadáið?“ Verenika þagði og varð náföl. „Manstu það ekki? Síðasta verk þitt var að sameina hendur Clynords og Sylvíu. Og hver voru hin síðustu orð þín?“ Verenika svaraði engu. — Hún skildi nú hvað Gilbert átti við. „Síðustu orð þin voru bón til Clynords um, að kvænast Sylvíu að ári liðnu.“ Verenika leit á hann stórum, harmþrungnum augum. „Þú berð ekki á móti þessu. Það er eins og þó hafir vitað, að sameining lávarðarins við þig hafi verið augnabliks ásetningur ...“ „Nei, nei!“ hrópaði Verenika, „hann elskaði mig innilega, Gilbert — það veit guð, að hann elskaði mig.“ „Heldurðu það, jæja, hlustaðu þá á mig. Clynord og Sylvía voru sameinuð við banabeð móður minnar. Þau elskuðu hvort annað óstjórnlega heitt, en þau voru bæði drambsöm og geðrík. Hver varð afleiðingin? Rifrildi, auðvitað. Clynord fór og sigldi skipi sínu til Noregs og þaðan til St. Kilda. Það sem þar skeði, veist þú. Til þess að hegna Sylvíu kvæntist hann þér.“ „Nei, nei, þetta er ekki þannig, hann elskaði mig.“ „Þú ímyndar þér þetta ennþá? Þú heldur að lávarður Clynord, sem vanur var að umgangast siðfágaðasta kvenfólk Englands, hafi orðið ástfanginn í eyjarstúlku, sem uppalin var við fátækt og menntunarskort. Þú álítur mig kannski harðan og ósanngjarnan, Verenika, en þetta er rétt. Þegar Clynord kom hingað ásamt þér, sá hann fyrst hvað hann hafði gert. Sylvíu elskaði hann, en þér hafði hann kvænst. — Hann er heiðarlegur maður og hefur aldrei sagt þér sannleikann og hefði aldrei gert það. — Aðeins eitt kvöld sagði hann Sylvíu — að hann elskaði hana meira en nokkru sinni áður og að hann vildi helst vera dauður.“ Verenika átti bágt með að draga andann. Henni datt í hug kvöldið, sem hún sá Sylvíu í faðmi Roys í blómaklefanum og þrátt fyrir allan efann, fór hún að hugsa að Gilbert segði satt. Gilbert sá áhrif orða sinna og bætti við: „Með fáum orðum sagt: Þau elskuðu hvort annað og þú gafst þeim aftur gæfu þeirra. Þegar Roy var búinn að fylgja þér til grafar, talaði hann við Sylvíu í einrúmi og þá komust þau að réttri niðurstöðu. Samt áleit hann réttast að dveljast erlendis allt sorgarárið. Í dag kom hann heim og í kvöld endurnýjuðu þau trúlofun sína, og ákváðu að hraða giftingunni eftir mætti. Hann virtist eins glaður og ánægður og nokkur elskhugi getur verið. Ef þú gæfir þig nú í ljós, drottinn minn. Ég held að hann yrði brjálaður.“ Verenika var þögul sem gröfin. Hún mundi nú, að hún heyrði Roy kalla Sylvíu heitmey sína fyrir fáum stundum síðan og að hún sá hana í faðmi hans, þekjandi andlit hans með kossum. Monk leit sem snöggvast á hana og hélt svo áfram: „Já, Verenika, það er í óefni komið. Hvað eigum við helst að gera? Það hlýtur að vera hræðilegt að vakna aftur til lífsins og verða þess þá var, að manni er ofaukið.“ Verenika fékk krampakenndan ekka, en ekkert tárið kom. „Já, það voru einu sinni konur sem eftir álíka uppákomu og þetta mundu hafa falið sig einhvers staðar, án þess að láta uppiskátt hverjar þær væru. Skyldu slíkar konur vera til í dag?“ „Já, en ég er konan hans. Presturinn sagði við okkur: Þið eruð sameinuð þangað til dauðinn aðskilur ykkur, og ég er ekki dáin, Gilbert. Síðara hjónaband hans yrði ólöglegt.“ „Alls ekki. Dauðinn leysir öll bönd. Menn álitu þig dána og jarðsettu þig. Í laganna augum ertu dáin. Ef gifting þín ætti að vera gild, þyrfti hún að fara fram aftur. Og þess vegna yrði gifting hans með annarri konu í alla staði gild.“ Verenika, sem ekki þekkti lögin fremur en skólastelpa, trúði þessum manni, sem hafði bjargað henni frá dauða. „Hvað á ég að gera?“ spurði hún harmþrungin. „Þú getur sagt til þín, og með því eyðilagt gæfu þess manns sem þú elskar, eða farið aftur til St. Maur með Flack sem er hér líka, og beðið þar þangað til ég kem. Hvort vildir þú heldur?“ Verenika leit upp sorgþjáðum augunum sínum; svipurinn tjáði svar hennar. „Þú ætlar þá til St. Maur?“ Hún hneigði sig þegjandi. „Það var rétt, Verenika. — Ég hef þá ekki misskilið þig; þú ætlar að bera þína píslarvættiskórónu þegjandi. Bíddu þá hérna á meðan ég finn Flack og bý allt undir burtförina. Ég kem strax aftur.“ Verenika hneigði sig þegjandi. Gilbert læddist ofan og út til að finna stallbróðir sinn. Þegar hann fann hann, skipaði hann honum að fara til gistihússins og útvega vagn og hesta. Svo læddist hann aftur inn í höllina, upp á loft og inn í herbergið, sem hann skildi Vereniku eftir í. Herbergið var tómt. 26 Undrun Gilberts var takmarkalaus af því að finna ekki Vereniku. Var hún flúin eða hafði hún fundist? Svo sá hann pappírsblað á gólfinu, tók það upp og las: „Gilbert! Ég afsala mér réttindum mínum gagnvart Roy og eið minn að láta ekki vita hver ég er, skal ég halda, en ég get ekki yfirgefið hann. Ég verð að sjá hann einu sinni enn, heyra rödd hans og sjá hann sofandi. Mér er þetta óhætt, án þess að gera hinni órétt. Leitaðu mín ekki. Ég fer máske til St. Maur, en ekki í nótt. Ég get ekki um annað hugsað, en að hann er hér og að ég vil vera hjá honum óséð.“ Þannig hljóðaði bréfið. „Ástfangnar konur eru óútreiknanlegar,“ tautaði Gilbert. „En kannske finn ég hana.“ En hann fann hana ekki þó hann leitaði um allt, en að lokum hætti hann leitinni, fór inn í herbergi sitt og gekk til hvíldar. Morguninn eftir fundust þau Roy, Sylvía og Gilbert við morgunverðinn og báru andlit þeirra með sér, að þau höfðu átt andvökunótt. Eins og herramanni hæfði, gekk lávarðurinn móti Sylvíu og leiddi hana að borðinu, hafði auðsjáanlega gleymt því, að hann var henni heitbundinn. Þegar morgunverði var lokið, tók Sylvía í hendi lávarðarins og leiddi hann inn í blómaklefann og að glugganum sem sneri út að garðinum. „Roy,“ sagði hún smjaðurslega, „en hvað ég er farsæl. Ég á að verða konan þín, frú í Clynordhöllinni — fyrir mér liggur blessunarríkt og ánægjulegt líf.“ Clynord reyndi að losna við ástaratlot hennar. „Ég vildi að ég gæti endurgoldið ást þína,“ sagði hann, „en ég elska þig aðeins sem systur. Konan sem ég missti á alla ást mína. Þessi játning særir þig máske, en hún er sönn. Milli manns og konu verður hreinn sannleiki að vera í fyrirrúmi.“ Sylvía fölnaði og neri saman höndunum. „Ég veit það,“ svaraði hún, „og ég er ekki reið við þig af því; ég vil heldur vera þerna þín en drottning annars manns. Við ættum að opinbera trúlofun okkar á morgun, svo almenningi verði ljóst í hvaða sambandi ég stend við þig.“ Lávarðurinn hnyklaði brýnnar. Honum var ekki um það, að trúlofun sín skyldi opinberast strax eftir heimkomu hans en lét þó tilleiðast. „Ég vissi að þú myndir samþykkja þetta,“ sagði Sylvía, „og þess vegna sagði ég frú Sewer og Roggy gömlu frá trúlofun okkar — en nær á giftingin að fara fram? Ef einhver spyr um það, kann ég betur við að geta svarað.“ Roy leit flóttalega á hana. „Ég hef ekkert um það hugsað. Þú ræður því.“ „Við skulum segja að tveim mánuðum liðnum frá þessum degi; þá verður kominn maí-mánuður, fegursti mánuður vorsins. Við skulum halda framúrskarandi góða veislu og dansa á eftir, svo förum við til meginlandsins og verðum þar í sumar að skemmta okkur.“ Sylvía vafði höndum sínum um háls lávarðarins og kyssti hann. Svo fór hún að tala um ferðalagið, hvert þau skyldu fara og hvað hann ætti að sýna henni og hýrnaði svipur lávarðarins loksins ofurlítið við það. Þegar svo Sanders kom inn í salinn, kvaddi hún með kossi og fór. „Allt gengur vel, Roggy,“ sagði hún, þegar hún kom upp. „Clynord samþykkti að trúlofun okkar skyldi strax opinberuð og leyfði mér að ákveða nær giftingin færi fram, svo ég ákvað að hún skyldi framkvæmd að tveim mánuðum liðnum. Nú getur hann ekki dregið sig í hlé, og ég verð lafði Clynord. Hugsaðu nú ekki meira um svipinn hennar, hjálpaðu mér heldur með undirbúninginn undir brúðkaupið.“ Þegar Sylvía var búin að skrifa bréf til lafði Welby og tilkynna henni trúlofun sína og áformaðan giftingardag, skrifaði hún nokkrar pantanir til kvenklæðskera sinna í Lundúnum. Að því búnu fór hún ofan til miðdegisverðar og voru þeir Gilbert og Sanders þar auk lávarðarins. Hún sá strax, að ráðsmaðurinn vissi ekkert um trúlofun þeirra og beið því eftir tækifæri til að geta sagt honum það, en þeir voru að tala um skólann, svo það dróst lengur en hún vildi. Gilbert sat þögull og óánægður. Sylvía sá það þegar og grunaði hann um hrekki. Loks lagði Sanders fram spurningu, sem lávarðurinn svaraði þannig: „Að því er svefnherbergin fyrir kvennadeild skólans snertir, þá mun ungfrú Monk rétta mér hjálpandi hönd.“ „Bæði í því og öðru,“ svaraði Sylvía. „Mér er ánægjan að því, jafnframt og það eru réttindi mín.“ Lávarðurinn roðnaði. „Sanders,“ sagði hann dræmt, „ég hef gleymt að segja yður frá því, að Sylvía hefur lofað að verða konan mín. Eftir tvo mánuði fer brúðkaupið fram. Ráðsmaðurinn óskaði þeim til hamingju. „Jæja, eftir átta vikur,“ hugsaði Gilbert. „Þegar þau eru gift, þá get ég fyrst framkvæmt áform mín með Vereniku. Ef mér heppnaðist aðeins að finna hana og koma henni til St. Maur, þá væri allt gott.“ Að lokinni máltíð fór Gilbert út úr salnum og leitaði í hverjum krók og kima í höllinni, en árangurslaust. Þegar borðað var um kvöldið, var hann hinn kátasti, en dvaldi þó ekki lengi hjá Roy, heldur læddist inn í hljóðfærasalinn og faldi sig þar, í þeirri von að Verenika myndi koma eins og kvöldið áður. En sú von brást, hún kom ekki. Roy horfði jafnaðarlega á opnu dyrnar; einnig hann bjóst við Vereniku. Með einskonar vonbrigði í huga gekk lávarðurinn til herbergja sinna þetta kvöld. Af því að hann hafði vakað nóttina á undan, sofnaði hann strax, og var búinn að sofa fulla stund, þegar dyrnar að búningsklefanum voru opnaðar með hægð og hvít vera, „svipurinn hennar“, læddist inn svefnherbergið. „Elskulegi vesalings Roy,“ tautaði Verenika. „Þessi nýja ást þín verður ekki eins affarasæl og sú sem var. Sylvía skilur þig aldrei eins vel og ég. En hvað það er sárt, að vera álitin dauð og vera þó lifandi, að vita að enginn grætur mann, enginn saknar manns; að horfa á aðra konu klæða þá stöðu, sem maður skipaði áður, að vita ástaratlot annarrar konu vera þráð. Hefði ég bara dáið. Ó, guð minn. Því tókstu mig ekki til þin?“ Hún laut höfði; heit og þung tár féllu ofan á hár lávarðarins og hann, sem elskaði hana meir en sitt eigið lif, svaf rólegur án þess að vita um nálægð hennar. Verenika stóð enn góða stund við rúmið hans og horfði á fallega, eðallynda andlitið og kyssti hendur hans. Á litlu borði stóð hálfflaska af víni og nokkuð af sætu brauði. Verenika, sem allan daginn hafði verið í fylgsni sínu uppi á lofti, var bæði köld og svöng. Hún saup góðan sopa úr flöskunni og borðaði nokkuð af brauðinu; við það hresstist hún og fór svo að hafa sig á brott. Á leiðinni frá St. Maur hafði hún verið klædd í siða, dökka regnkápu, sem hún hafði falið uppi á lofti, af því að hún áleit betur viðeigandi að vera hvítklædd, en þar eð kápa þessi var ekki nógu góð verja gegn kuldanum, hafði hún tekið eitt af sjölum sínum úr búningsherberginu og sveipað því um sig. Verenika gekk nú að dyrunum og hlustaði, en alls staðar var kyrrð. Hún áleit Gilbert Monk þann besta vin, er hún átti í heiminum. Nú vildi hún samt ekki mæta honum, af því að hún vissi að hann vildi flytja hana til St. Maur, en þangað vildi hún ekki fara að svo komnu. Hún læddist út úr búningsherberginu, gekk fram hjá svefnherbergisdyrum Sylvíu og svo fram hjá dyrum baðherbergisins, en þá var þeim lokið upp og Roggy kom út. Verenika sá glitra í tvö blóðrauð augu, sá tvo handleggi rétta eftir sér svo hún hljóp þá áfram án þess að hljóða. Gamla nornin hljóp á eftir henni og náði í sjalið, sem Verenika óðar losaði og hljóp svo áfram. Enginn hafði séð til þeirra. Roggy flýtti sér inn til Sylvíu. Sylvía sat upprétt í rúminu — og beið komu fóstru sinnar óþolinmóð. „Nú,“ sagði hún, „þú hefur rænt mig miklu af nætursvefni mínum með þessari löngu burtveru þinni, með hverju greiðirðu það?“ „Með þessu,” svaraði Roggy og kastaði sjalinu á rúmið hjá henni. „Þekkirðu þetta sjal? Ég mætti svipnum. Hann kom út úr herbergjum lafði Clynords, með þetta sjal á herðunum og ég náði því af honum. Þessi svipur er lafði Clynord sjálf, bráðlifandi, fallegri en nokkru sinni áður. Gilbert hefur komist að leyndarmáli okkar, það eitt er víst hvað sem hann ætlar sér. Framtíðarstaða þín, auður þinn, nafn þitt og jafnvel lífið er í hættu. Hún verður að deyja. Við verðum í sameiningu að hugsa um það, hvernig hún á að deyja. 27 Nú skal með fám orðum getið um æviferil hr. Tempest, þess sem var ferðafélagi lávarðar Clynords fyrir skemmstu. Skýrslurnar og fregnirnar, sem hann sendi Landfræðifélaginu frá Kína og Tartaríinu, vöktu mikla eftirtekt hjá hinum lærðu mönnum, svo að hann, sem hafði yfirgefið England í kyrrð og þögn, kom þangað aftur sem nafnkunnur maður og var alls staðar velkominn. Honum var sýnd svo mikil alúð og vinátta, að hann ásetti sér að dvelja svo sem mánaðartíma í Lundúnum, og þannig atvikaðist það, daginn eftir að Clynord fór til Sussex, að Sir Fortescue, einn af helstu mönnum Landfræðifélagsins, bauð honum til miðdegisverðar hjá sér. „Þér eruð þreytulegur, hr. Tempest,“ sagði Sir Harry Fortescue, þegar þeir yfirgáfu gildaskála barónsins. „Þér eruð líklega ekki hneigður fyrir samkvæmislífið — hafið líklega ekki um langan tíma þurft að gegna þeirri þreytandi skyldu, að viðhalda samræðum tímunum saman?“ „Nei, guði sé lof,“ svaraði Tempest. „Ég er enginn aðdáandi þessa svonefnda samkvæmislífs, Sir Harry, og þessi 15 ár sem ég hef dvalið í Kína og Tartaríinu, hafa gert mig óhæfari þátttakanda í því en ég áður var. Ég ætla aðeins að líta á samkvæmislífið snöggvast, og svo fer ég til Tartaranna aftur.“ „Það verður meira en snöggvast, það er ég viss um kæri Tempest. Menn vilja ekki sleppa yður strax. Ég fyrir mitt leyti þekki hálfa tylft af konum að minnsta kosti, sem eru að biðja bændur sína að fá yður til að taka þátt í kvöldsamsæti, og hver veit hve margar fríðleiksmeyjar standa bak við. Máske einhverri þeirra heppnist að tæla hinn nafnkunna landkönnuð inn í hjúskaparlandið, sem er honum ókunnugt. Því — ég hef líklega fengið sannar fregnir — þér eruð ókvæntur, er það ekki?“ „Þér eruð rétt fræddur,“ svaraði Tempest. „Ég er að vissu leyti kvenhatari og er alls ekki hrifinn af hinu fagra kyni. — En að nokkur maður, karl eða kona, fái mig til að vera lengur en mánuð í Lundúnum, efast ég um.“ Sir Harry brosti og spurði svo alvarlega: „Eigið þér enga ættingja á Englandi? Er ekkert band til af neinni tegund, sem getur haldið yður við landið?“ „Ég á fáa og fjarskylda ættingja og einnig fáa vini. En, getið þér sagt mér nokkuð um frú Walton, hina nafnkunnu „fegurð“, sem svo var nefnd fyrir hér um bil tólf árum?“ Tempest sagði þetta rólega, en leit þó undan um leið og beið svarsins með æsingi. „Frú Walton — já, nú man ég eftir henni, hún var viðurkennd fyrir fegurð, og ef ég man rétt, þá kom snurða á hjónabandið; nokkuð er það, maðurinn yfirgaf hana, en um það veit ég ekki nánar.“ „Alveg rétt,“ sagði Tempest. „Hvar er hún núna?“ „Hún fór að þýskri baðstöð og var nokkur ár í burtu. Hún var tilfinningarík kona og gat ekki gleymt því að maðurinn yfirgaf hana. Hún var aðeins orðinn skuggi þess, sem hún hafði áður verið og fór eitthvað út á land. Einkabarn hennar kvað hafa dáið ungt. Ef ég man rétt, þá er hún dáin fyrir sjö árum síðan.“ „Dáin?“ „Já, úr tæringu held ég. Blöðin tilkynntu lát hennar. — Þekktuð þér hana?“ „Ég kynntist henni í samkvæmislífinu,“ sagði Tempest eftir óviðkunnanlega langa þögn. „Afsakið mig, Sir Harry, ég hélt ég hefði séð kunningja minn hins vegar við götuna, en nú sé ég að það er ekki.“ „Slíkt skeður oft á mannmörgum götunum okkar. — En hér er þá gistihúsið yðar. Svo ég segi, hittumst heilir aftur hjá mér í kvöld.“ „Hittumst heilir aftur.“ Tempest gekk til herbergis síns og sat þar hugsandi fram undir kvöld. Þegar dimma tók klæddi hann sig í sparifötin og fór að því búnu til heimilis Sir Fortescue í Westend. Honum til heiðurs voru margir boðnir og þar rigndi yfir hann alls konar aðdáun og hrós. Eftir kvöldverðinn fylgdi lafði Fortescue honum í gegnum röð af samkvæmissölum. „Ég ætla að leyfa mér að segja yður, hr. Tempest, að hið bersýnilega kvenhatur yðar hvetur mig til að leiða hinn mikla Tartara undir ok einnar eða annarrar enskrar konu. Nú hef ég aðvarað yður. Lítið þér nú í kringum yður. Sjáið þér stúlkuna við píanóið? Það er ungfrú Meynall. Á ég að kynna yður henni?“ Tempest yppti öxlum. „Andlit hennar kemur mér ekki til að knéfalla,“ svaraði hann. „Ekki það. Jæja, lítið þér þá á stúlkuna í bláa kjólnum; það er ungfrú Grayson — ríkur erfingi.“ „Gimsteinarnir hennar eru fallegir,“ svaraði Tempest. „Er nokkuð annað markvert við hana?“ „Ó, þér eruð kynlegur,“ sagði lafðin. „Hvað segið þér þá um hópinn af ungu stúlkunum þarna til hægri handar?“ „Tilraunir yðar, lafði mín, jafn góðan tilgang og þær hafa, eru árangurslausar; ég er þrjóskur syndari. Þér megið hætta við að reyna að betra mig.“ „Það dettur mér ekki í hug, ég ætla þvert á móti að kynna yður fyrir einu af tilgerðarmesta daðurkvendi Lundúna, ríkri ekkju, umkringdri af aðdáendum, og að því sagt er, trúlofuð herramanni nokkrum, sem hefur verið að biðla hennar í mörg ár. Innan viku verður hún búin að breyta skoðun yðar og temja yður. Ég hef enn engan mann vitað, sem ekki hefur orðið meira eða minna hrifinn af henni.“ „Sei, sei. Hvað heitir þessi ástargyðja?“ „Lafði Diana Northwick, af kunnugum kölluð lafði Di. Sjáið þér, þarna er hún með hirð sína yfir við gluggann; það eru aðdáendur hennar. Hún er að öðru leyti ísfjall í mannsmynd. En í alvöru að tala, sýnist yður hún ekki falleg? Við vinstri hlið hennar stendur lávarður Tentemoor, sem hún er trúlofuð. En hvað segið þér um hana?“ Tempest leit þangað, sem lafðin benti og sá í einu gluggaskotinu bjarthærða konu, sérlega fríða. „Hún er sannarlega mjög fríð,“ sagði Tempest, „og mig undrar ekki, þó menn verði ástfangnir af henni. En þér segið að hún sé daðurgjörn. Í drambsömum augunum, sem hún litur með yfir hópinn, er meira af kæruleysi og fyrirlitningu. Er það uppgerð, eða er það svo í raun og veru?“ „Spurning yðar sýnir, að þér eruð hrifinn af henni,“ sagði lafðin spaugandi. „Skyldi það vera hugsanlegt, að hún ætti eftir að verða frú Tempest.“ „Nei, það naumast hugsandi. Ég er ekki af þeim flokki flugna, sem fljúga kringum ljósið þangað til þær brenna vængina. Falleg er konan, en það er eitthvað kalt við þá fegurð. En er hún ekki eins harðúðug og hún er fríð?“ „Jú, karlmennirnir bera henni það, en samt sem áður hópast þeir utan um hana.“ „Hvaðan er lafði Diana Northwick upprunnin?“ spurði Tempest. „Hún er ekkja eftir Sir Rupert Northwick, ríkan barón, sem kvað vera dauður fyrir mörgum árum, og hafði skilið henni eftir allan auð sinn. Hún er liðlega þrítug og er greifadóttir. Nú erum við búin að tala mikið um hana; á ég að kynna ykkur?“ „Já, ef þér viljið gera svo vel.“ Þau gengu svo til lafði Díönu, sem heilsaði Tempest með unaðsríku brosi, eftir að lafði Fortescue hafði kynnt þau og farið síðan. Skammt frá stóð lafði Fortescue kyrr og leit til Tempests, sem var byrjaður á samræðum við lafði Díönu. „Einn enn á langa listann.“ tautaði lafði Fortescue. „Hann sér ekki við daðri hennar, en það á við hana að töfra hann.“ 28 Lafði Díana, sem fyrir fegurð sína og gáfur hlaut svo mikið lof, var í alla staði prúð kona, en köld í viðmóti og þó eltu karlmenn hana tugum saman. „Sú eina sanna tilfinning sem Díana á er þrá eftir að öðlast hrós,“ hugsaði lafði Fortescue. „Hún hættir vafalaust ekki fyrr en hún hefur lagt hann fyrir fætur sér og kastar honum svo burt eins og ónýtri flík; en hann, sem ekki þekkir daður, álítur ástaratlot hennar vera sönn og verður svo ógæfumaður alla ævi. Ég hefði líklega ekki átt að kynna þau hvort öðru.“ Við nánari athugun var þó ekki líklegt að þessi óhappaspá húsmóðurinnar rættist. Tempest var ekki þesslegur að vilja beygja kné fyrir fegurð lafði Díönu eins og hlekkjaður fangi. Viðmót hans við hana var kurteis harðneskja, sem henni var stríðni í. Hún bar hann saman við lávarð Tentemoor í huga sínum og sá hve ólíkir þeir voru. Tempest var engin samkvæmishetja, en hann hafði lent í mannraunum í framandi löndum og borið sigur úr býtum. Hann hafði kynnt sér siði Tartaranna og Kínverja, oft lent í lífshættu, og sýnt hugrekki og djörfung. Hafði skrifað margar og merkar bækur, sem nú hlutu lof af hvers manns vörum, og nafn hans var hvarvetna kunnugt og mikils metið. Fálæti hans gerði hann enn skemmtilegri, og þess utan var hann fríður maður, hár og þrekinn, með alvarlegt andlit, köld og gagnrýnandi augu og andríkan svip — maður, sem menn hlutu bæði að virða og óttast. Hann hafði mikil áhrif á lafði Díönu. „Ég vildi að ég gæti kúgað þótta þessa manns, heyrt ástarjátningu af þessum köldu vörum, séð hann fyrir fótum mínum,“ hugsaði lafði Díana, jafnframt og hún spaugaði meiningarlaust við Tempest. Hún lagði gullskreytta hönd sína á handlegg Tempests, og byrjaði ásamt honum hæga göngu í gegnum hina ljósríku sali. „Ég hef lesið allar bækurnar yðar, hr. Tempest,“ sagði hún. „Ég hef með áhuga fylgt yður á ferðum yðar, hef skolfið yðar vegna, þegar þér voruð í hættu staddur, og glaðst við uppgötvanir yðar. Ferðir yðar frá einum stað til annars hafa sýnt mér eins konar eirðarleysi, sem ég varð hissa á, og dirfskan í breytni yðar hefur vakið hjá mér þann grun, að yður væri ekki lífið kært.“ „Lífið er mér ekki mikils virði,“ svaraði hann, „ég hef eftir bestu getu varið því til gagns fyrir menningu mannkynsins og bræðraþels þess.“ „Hvað gátu ferðir yðar um Kína og Tartaríið stuðlað að því?“ „Mjög mikið. Mér var með þeim gert mögulegt að kynnast háttum og menntun þessara þjóða, og að vekja athygli annarra þjóða á þeim. Og svo er annað: Sérhver maður, sem ferðast um þessi fjarlægu héruð, færir íbúum þeirra meira eða minna af vestrænni menningu. Það er skoðun mín, að sá tími muni einhverju sinni koma, að allar þjóðir skoði sig sem hluta af einni heild, að ein og sama menning ríki alls staðar, og allir stefni að sama markmiði sem bræður.“ „Kenning yðar er mjög fögur, og ég hef sömu von og þér, að einhvern tíma komi sú stund, að ljón og lamb gangi samsíða í friði, en það skeður ekki meðan vér lifum. Heimurinn er ekki fullkominn, hr. Tempest, en að hinu leytinu heldur ekki mjög vondur. Að því er mig snertir, þá er tæplega það efni í mér, sem myndar kvenhetju. En ég gæti ekki eins og þér yfirgefið föðurland mitt fyrir hugsjónina eina, og hafnað öllum skemmtunum lífsins og þægindum. — Ég held að það sé gott, að allar þjóðir eru ekki eins. — Þér hafið í vísindalegu skyni eytt bestu árum ævi yðar í framandi löndum, og fórnað öllum vináttu- og heimilistengslum, öllu sem er uppáhald kvenfólksins. — Þér takið það ekki illa upp þó ég spyrji hvort þér álitið yður vera hag í þessu.“ „Ég verð að játa því. Maður hefur ánægju af slíku ferðalagi. En í Englandi get ég ekki unað mér.“ „Afsakið, hr. Tempest, eigið þér fjölskyldu?“ „Nei, lafði Díana.“ Hún leit upp undrandi, en þó var svarið að skapi hennar. „Nafnkunnir menn eru sameign,“ sagði hún. „Menn brenna af löngun eftir að þekkja ævisögu yðar, og svo er því varið með mig. Ég er forvitin eftir að vita hvort nokkur frú Tempest sé til.“ „Nei, ég á enga konu, lafði Díana, ég missti hana fyrir nokkrum árum. Ég stend einn í heiminum eins og visnað tré. Enginn gleðst við komu mína, né hryggist við burtför mína.“ Hann talaði í hörðum og köldum róm, sem útilokaði alla hluttekningu. Hann vildi bera sínar sorgir einn og kunni líka að geyma þær. „Þér eruð öðruvísi en aðrir menn, herra Tempest. Fyrirgefið mér, að ég ýfi sár yðar. Ég verð að segja yður hreinskilnislega, að þér hafið óvanaleg áhrif á mig. Hver var orsökin til þess að þér yfirgáfuð konu yðar og fjölskyldu? Og hvernig víkur því við, að þér vissuð ekki um dauða yðar nánustu fyrr en nú? Þeir eru máske nýdánir?“ Hún flutti þessar spurningar í þeim hluttekningarróm, að hann var tilneyddur að svara. „Ferðalöngunin, eirðarleysið, og þráin eftir breytingu, hefur líklega verið sterkari en skyldutilfinning mín. Ég hafði ekki bréfasamband við mína nánustu. Ég hef því aðeins nýlega frétt um dauða þeirra. Annar þeirra dó fyrir nokkrum árum, hinn fyrir ári síðan. Það eru aðeins fáar stundir síðan ég frétti þetta, og þó stend ég hér jafn brosandi og þeir, sem í kringum okkur eru, og ef til vill með — jafn sorglausum huga. Við berum öll grímur, lafði Díana. Jafnvel þér, svo ung, svo fögur, svo auðug og andrík, umkringd af aðdáendum, berið grímu eins og allir aðrir — fyrir yður koma augnablik, sem sorgin, iðranin og kvíðinn gera vart við sig, og þér viljið lifa upp aftur sum atvik úr lífi yðar. Segi ég ekki satt?“ „Nei, herra Tempest, yður skjátlast í síðasta grun yðar. Ég er máske sú eina af öllum þeim sem hér eru, sem ekki ber grímu. Þér horfið spyrjandi á mig. Þér eruð hissa! Verið þér óhræddur, herra Tempest, ég er ekki eins og fólk er flest og má óhrædd halda því fram, að ég er frumleg, ísfjall eins og mönnum þóknast að kalla mig. — Þér álítið mig líklega tilfinningalausa eins og aðrir — nú, jæja, ég er það í rauninni, eins og allir kunningjar mínir geta staðfest. En nú hafa samræður okkar tekið einkennilega stefnu, jafn ókunnug og við erum. — Höfum við máske lagt niður grímurnar? — En það er satt, ég gleymdi því, að ég hef enga.“ „Lávarður Tentemoor virðist líka hafa tekið af sér grímuna. Hann horfir á okkur með logandi afbrýði í svip sínum. Honum þykir líklega að þér sinnið Tartaranum of mikið.“ Lafði Díana roðnaði. Hún leit ástaraugum til lávarðar Tentemoor, og leiddi Tempest um leið, rétt eins og af tilviljun, inn í lítinn skrautklefa. Þau fengu sér sæti á trébekk í einu horninu, bak við hávaxinn burkna. „Er þetta ekki ágætur hvíldarstaður, þar sem maður getur gleymt heiminum og gleymst af honum, rétt eins og maður sé staddur í frumskógi, þar sem burknarnir vaxa? — Hér eru aðeins engir höggormar, krókódílar, ljón eða þess konar dýr.“ „Og þó höfum við máske þessi dýr í kringum okkur í annarri mynd,“ svaraði Tempest þurrlega. — „Ef við gætum rifið grímurnar at fólkinu þarna inni, myndum við sjá marga höggorma og krókódíla á meðal þess. Fyrrum voru það dýrin, sem flóu hvort annað — nú eru það mennirnir sem gera það.“ Lafði Díana svaraði litlu þessari mannhaturslegu skoðun, en álit hennar á honum óx. Hún var að hugsa um, hvernig hún ætti að þvinga þennan mann til ásta og hver sigur það væri fyrir sig ef hún gæti það, hvernig hann færi að tala um ást, ef hann á annað borð ætti þá tilfinningu — hvernig hann myndi taka neitun hennar. Tempest las hugsanir hennar, og brosti háðslega að því, hve gagnslaust daður hennar væri gagnvart sér. Lafði Díana var að sönnu daðurkvendi, en hún var ólík öðrum konum af því tagi. Hún hafði aldrei truflað neins manns sálarfrið, hún áleit sér það ósamboðið, og nú ætlaði hún að hætta því algerlega. Tempest átti að verða hinn síðasti sem hún daðraði við. Þau áttu fjörugar samræður í skrautklefanum, en svo urðu þau þess vör að þangað voru fleiri komnir, og þá fóru þau aftur inn í salinn. Lord Tentemoor fór að tala við lafði Díönu, en kunningjar Tempests tóku hann með sér. — Þau sáust ekki aftur fyrr en seint um kvöldið. Þegar sest var að borðum, leiddi Tentemoore kærustu sína, en Tempest húsfrúna til sætis. Að afstaðinni máltíðinni voru þau umkringd af kunningjum sínum hvort um sig, en gafst ekkert tækifæri til að tala saman. Þegar lafði Díana kom út úr búningsklefanum í ferðafötunum, var það Tempest sem leiddi hana út að vagninum og hjálpaði henni upp í hann. Hún brosti þýðlega og bauð honum að heimsækja sig í Park Lane, þar sem hún átti heima. „Ég er ávallt heima fyrir yður,“ sagði hún. Tempest þakkaði boðið og vék sér til hliðar fyrir lávarði Tentemoor, sem sté inn í vagninn mjög leiður á svip og skipaði ökumanninum að halda af stað. Þegar vagninn var farinn, fór Tempest inn aftur og brosti háðslega. Hún heldur, að hún geti þvingað mig til að beygja kné fyrir sér, en hún kemst að raun um að sú von rætist ekki, hugsaði hann. Að mánuði liðnum fer ég aftur til Tartaranna, og þá getur hún gifst lávarði Tentemoor. 29 Í Clynord-höllinni var annríki og fjör. Trúlofun lávarðarins og Sylvíu hafði verið opinberuð, og blöðin létu ekki standa á sér að geta um hana. Giftingin átti að fara fram í þriðju viku júnímánaðar, en nú var apríl. Heldra fólkið þyrptist þangað til að óska þeim til hamingju. Lafði Welby bauð Sylvíu að vera hjá sér, þangað til giftingin færi fram, en hún afþakkaði það. „Ég sé ekkert á móti minni veru hér,“ svaraði hún lafðinni og var kyrr. Þrátt fyrir allt annríkið með undirbúninginn undir giftingarathöfnina, sem á Sylvíu hvíldi, var hún þó aldrei róleg. Hún vissi að Verenika var lifandi, og óttaðist að hún gerði vart við sig þegar minnst varði. Aldrei yfirgaf hræðslan hana, hvorki dag né nótt; hún átti erfitt með svefn, aldrei slíku vön. Fengi lávarðurinn bréf, var eins og hún stæði á nálum, þangað til hann hafði lesið það til enda. Spryngi kolamoli í ofninum að nóttunni, þaut hún upp. Hún hafði aldrei frið. Gilbert var kyrr á Clynord að svipast að Vereniku. Honum var kunnugt um, að Sylvía vissi að hún var á lífi. Hann vakti um nætur og leitaði og leitaði. En ekki fann hann Vereniku samt, og af þessu varð hann jafn órólegur og Sylvía. Clynord sá ekki oftar hvíta mynd framliðnu konunnar sinnar og styrkti það þá skoðun hans að hann hefði séð ofsjónir, séð svip hennar, en ekki hana sjálfa, eins og hann hélt í fyrstu. Hann var ekki síður önnum kafinn en þau systkinin, en starfsemi hans var aðallega viðvíkjandi skólanum. Skólinn, sem átti að vera til minningar um Vereniku, átti að standa á hæð skammt frá Clynord-þorpinu. Lávarðurinn hafði fengið húsameistara frá Lundúnum og vann daglega fleiri stundir ásamt honum. Síðan hann missti konu sína hafði hann aldrei getað fest hugann við neitt, fyrr en þetta. Sylvíu skeytti hann lítið; það var búið að ákveða brúðkaupsdaginn og hana lét hann eiga sig, og hann var að sínu leyti ánægður með að vera einn þegar þess var kostur. Á daginn sáust þau sjaldan, en á kvöldin var hann oftast hjá Sylvíu í dagstofunni, hljóðfærasalnum eða blómaskálanum — og þá fannst Sylvíu hann miklu fúsari að tala um skólann en um ástir, og fremur um framliðnu konuna sína, en um giftinguna fyrirhuguðu. Kvöld nokkurt eftir máltíð — það var nú liðið á apríl og loftið orðið hlýtt — gekk lávarðurinn yfir að snotra húsinu hans Sanders, í því skyni að bera undir hann nýja hugmynd um fyrirkomulag skólans. Sylvía var að tala við lafði Welby, sem var komin til að líta á undirbúninginn. Gilbert var enn einu sinni að rannsaka loftherbergin, án þess að vera séður af öðrum en Roggy gömlu, sem alltaf var að njósna um allar hans athafnir. Eins og vant var, lét engin Verenika sjá sig. Lávarðurinn var allt kvöldið hjá Sanders, að tala um ýmis áríðandi efni. Klukkan rúmlega tíu kvaddi hann og gekk heim á leið eftir þröngri götu, sem lá þvert yfir skemmtigarðinn. En hvað var þetta? Í tunglskininu, aðeins fá fet frá honum, þar sem breiður skemmtigarðurinn sleit í sundur mjóa stíginn, sem lávarðurinn gekk eftir, sá hann granna, hvítklædda veru, sem rétti handleggina í áttina til hans. Hann stóð kyrr eins og steinn. Þetta er Verenika. Það voru fremur tilfinningar hans en augun, sem sögðu þetta. Hún var í sama hvíta kjólnum og hún var kistulögð í, kjóldragið lá á jörðinni. Hálsinn var ber, en langa, svarta hárið hennar hvíldi á herðunum. Lávarður Clynord sá nú hvern drátt í andlitinu við tunglsljósið; yfir því hvíldi þungur sorgarsvipur, sem gerði hann harmþrunginn. Jafnvel hins vegar grafarinnar er hún ófarsæl án mín, hugsaði hann. Ég sakna hennar, eins og hún mín. Himininn er henni enginn himinn án mín. Hann þorði ekki að hreyfa sig, af því hann hélt að hún mundi þá hverfa eins og þoka. Það var ekki af ásetningi að Verenika mætti lávarðinum þarna, hún var jafn óviðbúin því og hann. Alla síðastliðna langa og leiðinlega daga, hafði hún dvalið í dálitlum þakklefa, sem var lengst í burtu frá íbúðarherbergjunum, enda hafði Gilbert ekki komið til hugar að svipast eftir henni þar. Hún hafði borið fáein ullarteppi þangað upp, ásamt handtöskunni, sem hún hafði með sér frá St. Maur. Þar klæddist hún gráa kjólnum sínum og regnkápu, til þess að varðveita hvíta kjólinn frá óhreinindum. Einnig hafði hún borið þangað upp nokkuð af matvælum og fáeinar vínflöskur, sem hún hafði fundið niðri. Hafi það verið dáleiðsla, sem fjötraði fætur lávarðarins, þá var það hræðsla, sem dró máttinn úr Vereniku. Hún bjóst við að hann næði sér. Þau horfðu hvort á annað á að giska eina mínútu, en þá þaut lávarðurinn af stað í áttina til hennar. Verenika hljóp burt án þess að vita af sér og lávarðurinn á eftir. Hún gat næstum heyrt andardrátt hans. Hún hljóp eftir breiða stígnum. Hún vildi ekki láta hann ná sér, vildi heldur deyja, en láta flytja sig heim aftur, þar sem einhver hulin ógæfa beið hennar, heldur deyja, en að standa í vegi fyrir gæfu hans. Hann elskaði Sylvíu og furðaði sig nú á því að hann gat orðið ástfanginn í þessari Vereniku. Nei, nei, hún mátti ekki láta hann ná sér. Hún flúði allt í einu inn í dimman hliðarstíg og faldi sig bak við stórt valhnetutré, dró að sér kjóldragið og varp yfir sig regnkápunni. Lávarðurinn hljóp fram hjá án þess að taka eftir því hvert hún fór. Verenika var kyrr í fylgsni sínu, þangað til hún heyrði ekki fótatak lávarðarins, þá gekk hún aftur út á stíginn og eftir honum, án þess að líta við. Á dimmum og skuggalegum stað, þýtur Roggy gamla allt í einu út úr runna, stekkur á Vereniku og skellir henni flatri á veginn. „Loksins gat ég náð þér,“ sagði nornin og greip um handleggi Vereniku. „Nú skulum við jafna sakir okkar.“ 30 Sökum þess að árásin kom svo skyndilega, var Verenika ekki viðbúin að veita neina vörn, en bráðlega áttaði hún sig, braust um og reyndi að losa sig, en gat ekki, svo hún varð að gefast upp og starði hissa og hrædd á Roggy. „Já, horfðu bara á mig,“ sagði hún. „Hvers vegna ræðst þú á mig eins og rándýr?“ „Þú heldur máske að ég þekki þig ekki,“ sagði kerlingin í háði. „Jú, ég þekki þig mjög vel, ég veit hver þú ert, hvíta stúlka. Menn álitu þig dauða, þú lást sex daga á líkpallinum og svo varstu flutt í grafhvelfingu Clynordanna. En því ert þú á kreiki meðal okkar, sem ættir að vera dauð?“ Verenika svaraði engu. „Talaðu,“ sagði kerlingin. „Ætlarðu máske að neita því, að þú sért markgreifainna Clynord?“ Eiðurinn, sem Verenika sór, olli því að hún þorði ekki að segja Roggy hver hún var. Roggy grunaði að hún hefði einhverja ástæðu til að dyljast. „Talaðu,“ endurtók hún, „eða ég dreg þig inn í höllina og spyr þig í áheyrn Sylvíu.“ „Nei, nei, ég fer ekki þangað,“ sagði Verenika. „Hvað viltu mér?“ „Þú viðurkennir þá, að þú sért markgreifainna Clynord?“ „Nei, það get ég ekki.“ „Þess þarf heldur ekki, ég þekki þig. — Hver bjargaði þér úr grafhvelfingunni?“ Ekkert svar. „Gerði Gilbert það?“ Verenika þagði. „Ég veit að hann gerði það. Hvernig stóð á veiki þinni og hvers vegna hjargaði hann þér?“ „Hvers vegna spyrðu mig að þessu? Ég get ekki svarað. Lofaðu mér að fara — slepptu mér.“ „Nei, ekki strax, við verðum fyrst að gera upp reikningana,“ svaraði Roggy, sem vildi fá að vita, hvort Verenika vissi nokkuð um samsæri þeirra gegn henni. „Hvernig stóð á veiki þinni?“ Verenika þagði. Nú kvakaði fugl, svo þeim varð bilt við. Þær héldu að það væri lávarðurinn. „Við getum ekki verið hér,“ sagði Roggy. „Komdu með mér, ég ætla ekkert illt að gera þér.“ Hún tók í handlegg Vereniku og leiddi hana að dálítilli tjörn í garðinum, sem á vetrum var notuð fyrir skautasvell. Tjörnin var djúp með bröttum bökkum og á ofurlitlum höfða við hana stóð lítið tvílyft hús, með veggsvölum á þeim hliðum sem að tjörninni vissu, svo þaðan mætti sjá yfir tjörnina. Roggy leiddi Vereniku upp á svalirnar, eftir stiga við vegginn utanverðan, bauð henni að setjast á bekk sem var þar, og settist svo sjálf við hliðina á henni. „Hér erum við einsamlar, hér truflar okkur enginn,“ sagði Roggy. „Veistu hvað það þýðir?“ „Já,“ svaraði Verenika. „Ertu hrædd?“ „Nei, því ætti ég að vera hrædd. Lofaðu mér að fara, Roggy, ég vil komast burt.“ „Athugum okkar gang. Nú hefurðu viðurkennt, að þú ert markgreifainna, annars gæturðu ekki vitað hvað ég heiti. Hvernig stóð á veiki þinni? Segðu mér það.“ „Þó þú spyrjir þessa í alla nótt, þá get ég ekki svarað því.“ Roggy fór nú að gruna, að Verenika hefði lofað Gilbert því að dylja tilveru sína, og að Gilbert hefði bjargað henni í von um hagnað. Ó, já, þannig er það, hugsaði nornin, en við erum ekki af baki dottnar, Gilbert, við eigum lyfjaber ennþá. Dálitla stund var alger þögn. „Ég get ímyndað mér að þú sért eiðbundin,“ sagði Roggy, „en til hvers ertu að leika vofu hér. Mann þinn færð bú aldrei aftur. Honum eru þessar ímynduðu vitranir viðurstyggilegar og álítur sig ekki verðskulda ásókn þína, því hann hafi verið þér góður, enda þótt hann iðraðist þess að hafa kvænst þér.“ „Sagði hann þér þetta?“ spurði Verenika. „Nei, en hann sagði Sylvíu það — sem hann hefur ávallt elskað, sem hann var trúlofaður og er nú trúlofaður aftur.“ Verenika stóð upp af bekknum, gekk fram og aftur um svalirnar og lagði að síðustu hendur sínar á brjóstriðið, hallaði sér ofan yfir það og horfi niður í vatnið. Nornin horfði um stund á hana með hatursfullu augnaráði, stóð svo upp, læddist aftan að Vereniku, greip utan um hana, lyfti henni upp og fleygði henni yfir handriðið í vatnið. Nú heyrðist hátt hljóð og þungt fall í vatnið, sem skvettist hátt upp. Roggy beygði sig ofan yfir handriðið og horfði á vatnið, sem hún vissi að var nógu djúpt til þess, að Verenika gæti drukknað. Verenika kom upp aftur með höfuðið og synti á áttina þvert yfir tjörnina, en hægt fór hún. Kerlingin bölvaði á indversku. „Hún getur synt eins og selur,“ tautaði hún. „Aha, nú er hún orðin þreytt — hún notar aðeins annan handlegginn — hinn hefur ef til vill brotnað. Hún er að missa máttinn — eða — hún hefur fengið krampa.“ Roggy hafði rétt fyrir sér. Verenika komst ekki áfram; hún lyfti upp hendinni, rak upp hátt hljóð og sökk. „Hún er drukknuð!“ sagði kerlingin ofsaglöð. „Já, herra Gilbert minn, ég hef dregið strik í reikning þinn. Clynord-vofan er nú kveðin niður. Komdu aftur, þarna niðri í tjörninni; ég efast um að gröfin skili þér í annað sinn,“ og svo hló hún. Með ógeðslegt bros á vörunum þaut Roggy ofan stigann og hvarf inn í skugga trjánna. Vatnið yfir við bakkann hinum megin myndaði ávallt stærri og stærri hringi. 31 Daginn eftir samkvæmið hjá Sir Fortescue, eða hálfum mánuði fyrir síðastnefndan atburð, stóð lafði Díana við einn gluggann í dagstofunni sinni. Fyrir framan marmaraofninn stóð lávarður Tentemoor. „Mér liggur við að trúa því sem sagt er að þér séuð tilfinningalaus, Díana,“ sagði lávarðurinn. „Nú hafið þér árum saman breytt við mig sem gamlan kunningja, fremur en sem unnusta yðar. Ég er orðinn þreyttur á því.“ „Og viljið losna við þessa ónota hlekki,“ sagði Díana kuldalega. „Ég hef unnið fyrir yður eins og Jakob fyrir Rakel,“ sagði hann, „ár eftir ár virt yður og tilbeðið, eins og Persar sólina, sem er of björt augum þeirra og þetta eru launin. Þér hrindið mér burt, án nokkurrar vorkunnsemi. Máske þér hafið kynnst einhverjum, sem þér takið fram yfir mig?“ „Hlífið mér við lýsingunni á þýstarfi yðar, þér hafið svo oft aukið mér leiðindi með henni. Séuð þér ekki ánægður með mig og mína hegðun gagnvart yður, þá eruð þér laus allra mála við mig; það mun líka best.“ „Ég bið ekki um frelsi mitt,“ sagði Tentemoor. „Hve lengi hef ég ekki verið trúlofaður yður og hvernig farið þér með mig? Ég vil og heimta að þessi langa trúlofun endi með hjónabandi og að giftingin fari fram innan mánaðar.“ Lafði Díana roðnaði lítið eitt. „Lávarður Tentemoor, þér gleymið við hvern þér talið. Þér haldið að þér séuð í Tyrklandi. Í öllum öðrum löndum hefur kvenfólk fulla heimild til að taka þátt í hvenær ákveða skal giftingardag. Ég fyrir mitt leyti ætla ekki að gifta mig innan mánaðar; ef þér viljið það endilega, þá verðið þér að finna yður konuefni annars staðar.“ „Þér elskið frelsið,“ sagði lávarðurinn háðslega. „Þér eruð daðurskvendi, sem hafið þá einu lífsstefnu, að hæna að yður karlmenn.“ „Hvern hef ég hænt að mér og gert ófarsælan? Ég hef fengið giftingartilboð í tugatali — við það gat ég ekki ráðið. En allir menn sem ég hef neitað, hafa til þessa verið vinir mínir. Ég hef verið köld gagnvart yður, en ég hef líka verið köld gagnvart öllum öðrum.“ „Þér segist ekki vera daðurskvendi. Getið þér sannleikanum samkvæmt staðhæft, að þér hafið ekki í gærkvöldi daðrað við þetta nýja samkvæmisljón, þennan ferðalang frá Tartaríinu, Basel Tempest?“ Lafði Díana stokkroðnaði. „Ég hef ekki kjörið yður fyrir skriftaföður, lávarður Tentemoor. Ég var kurteis við þennan mann, meira ekki.“ „Kallið þér það eingöngu kurteisi, að eyða heilli stundu til að tala við hann? Nei, af því hann er frægur maður, langar yður að láta hann beygja kné fyrir yður. Og hver er hann svo? Hvað vita menn annað um hann en að hann er þekktur ferðamaður? Af hvaða ætt er hann? Máske hann sé iðnaðarmannssonur, og hann hafi tekið sér þetta nafn — í fám orðum ...“ „Í fám orðum,“ greip Díana fram í, „að hann sé fjárglæframaður, frígefinn hegningarhússlimur eða flakkari. Ég dáist að mannþekkingu yður, lávarður, en þó held ég að mín sé eins góð. Ég sá strax að hann er mikilmenni, heiðarlegur maður, sem ekki talar illa um aðra, og ég er viss um að hann gengur ekki undir dulnafni. Það gerir engan mismun hvar vagga hans hefur staðið.“ „Þér eruð reglulega ákafar hans vegna. Máske daður yður hafi aðra og dýpri rót en vant er í þetta sinn,“ sagði lávarðurinn með afbrýðivonsku. „Ég sé að þér leggið mikinn og ódulinn þokka á hann, og því krefst ég þess beinlínis, að þér hættið við allt daður, og að giftingu okkar sé hraðað eins og hægt er. Ég vil ekki bíða lengur, hún verður að framkvæmast, og þér verðið og eigið að ákveða giftingardaginn.“ Afbrýðin kom lávarðinum til að segja þetta í skipandi tón, en lafði Díana var ekki viðbúin að hlýða. Hún stóð upp af stólnum við gluggann og gekk til hans, dró demantsskreytta hringinn af fingri sér og lét hann detta í lófa lávarðarins, án þess að segja eitt orð. „Hvað á þetta að þýða, Díana?“ „Frelsi yðar, lávarður, og mitt líka. Það þýðir að þér hafið enga heimild til að kvelja mig lengur með afbrýði yðar. Giftingunni hef ég frestað af ástæðum, sem yður eru jafn kunnar og mér. Frá þessari stundu er trúlofun okkar rofin.“ „Og á allt að vera búið á milli okkar?“ „Allt, lávarður. Við erum ekki lengur trúlofuð, en við getum verið vinir, ef þér viljið.“ Lávarður Tentemoor hló háðslega, og ætlaði að fara að atyrða lafði Díönu þegar dyrabjöllunni var hringt. Litlu síðar fylgdi þjónninn Basil Tempest inn í salinn. Lávarður Tentemoor lét hringinn í vasa sinn, og ásetti sér að sleppa Díönu ekki í hendurnar á þessum nýkomna manni. Tempest var alvarlegur og kurteis eins og vant var. Hann sá þegar hvernig sakir stóðu, en lét ekki á því bera. Lafði Díana heilsaði Tempest brosandi, en það sárnaði Tentemoor. „Það gleður mig að sjá yður hjá mér, herra Tempest,“ sagði lafðin. „Það var vel gert af yður að gleyma mér ekki.“ Tempest svaraði þægilega, og svo heilsuðust þeir, keppinautarnir. Lafði Díana leiddi samtalið strax að ferðum Tempests og bað hann að segja sér eitthvað um þær. Hann gerði það og fórst vel. Tentemoor hlýddi á með háðsglotti. „Herra Tempest,“ sagði Díana, „ég dáist að þessu feikndjarfa hugrekki, sjálfsafneituninni, óttaleysinu og umhyggjunni fyrir vísindunum. En, þó að ég elski ekki landa mína sérlega mikið, þá hefði mig í yðar sporum langað til að hitta þá við og við.“ „Mig langaði aldrei til að hitta landa mína,“ sagði Tempest, „enda voru lítil líkindi til þess. Landar okkar, sem ferðast, velja allt aðra vegi. Þessi árin, sem ég hef verið burtu, hef ég fáa landa séð, og á leiðinni hingað heim gerði ég mér ekkert far um að umgangast þá. Aðeins einn landi minn, sem varð mér samferða frá Genúa til Marseille, féll mér vel í geð — lávarður Clynord hét hann. Þér þekkið hann máske?“ „Ég þekkti móður hans,“ svaraði Díana. „Hún gifti sig í seinna sinni ofursta Monk. — Lávarður Clynord kvæntist, en missti konuna því nær strax.“ „Hann sagði mér að hann hefði misst konu sína, og eftir háttsemi hans að dæma, hélt ég að hann tregaði hana sárt,“ sagði Tempest. „Já, hann tregaði hana. Hann var áður trúlofaður fröken Monk, stjúpsystur sinni, en þeim bar eitthvað á milli, svo ekkert varð úr giftingu þeirra. Hann fór síðan til Noregs, og þaðan til Hebrideseyja, og varð þar ástfanginn í stúlku, sem hann tók með sér heim og kvæntist. Hún var kjörbarn prestsins þar og alin upp sem hefðarmey.“ „Sorgleg saga,“ sagði Tempest. „Það er ekki skynsamlegt, að taka klettablóm og gróðursetja það í vermireit.“ „Lafði Welby hefur sagt mér,“ sagði Díana, „að framkoma hennar hafi verið góð, betri en búast mátti við af prestsdóttur frá St. Kilda.“ Tempest fölnaði allt í einu. „Frá hvaða eyju sögðuð þér hún hefði komið?“ spurði Tempest. „Frá St. Kilda.“ „Af því lávarður Clynord er vinur minn, þykir mér vænt um að kynnast þessu atviki,“ svaraði Tempest. „Kringumstæðurnar voru þannig, að stúlkan renndi önglinum sínum einu sinni og veiddi lávarð Clynord,“ sagði Tentemoor háðslega. „Hún var ekki veiðimaður, né dóttir fiskimanns,“ sagði Díana þóttalega við Tentemoor. „Hún var kjörbarn prestsins, bar nafn hans og var afbragðs vel gefin.“ „Hvað hét hún?“ spurði Tempest. „Verenika Gwellan. — Sjaldgæft nafn, er það ekki?“ svaraði Díana. Tempest svaraði engu, en sneri sér undan. — Uppgötvun þessi svipti hann málinu. Tentemoor sagði nú eitthvað um lávarð Clynord, svo hvorki hann eða Díana urðu vör við vandræði Tempests. Tempest neytti alls síns viljakraftar til að láta ekki bera á geðshræringu sinni, og svo sagði hann allrólegur: „Þessi giftingarsaga er nokkuð óvanaleg.“ „Og nú er lávarður Clynord trúlofaður Sylvíu aftur, og þau ætla að giftast innan skamms,“ sagði lafði Díana. „Það er sjálfsagt best þannig. Hann er ungur og var fyrst ástbundinn henni. Ég held ég verði bráðum að fara til Clynord og heimsækja þennan ferðafélaga minn.“ „Og svo að mánuði liðnum eða þar um bil ætlið þér til Tartaranna aftur, herra Tempest?“ spurði Díana. „Ef þér framkvæmið þessa hótun, verð ég að álíta, að Lundúnaborg hafi ekkert aðdráttarafl fyrir yður.“ „Það er ekki ómögulegt, að ég verði lengur í Englandi en ég ætlaði fyrst,“ svaraði Tempest. „Áform mín viðvíkjandi ókomna tímanum eru enn ekki ákveðin og“ — nú leit hann aðdáunaraugum á lafði Díönu — „það er heldur ekki ómögulegt, að Lundúnir eða Park Lane eigi aðdráttarafl, sem með eða móti vilja mínum heldur mér kyrrum.“ Tentemoor leit illskulega til hans. „Við vorum að tala um yður rétt áður en þér komuð,“ sagði lávarðurinn. „Eruð þér í ætt við Edinborgar-Tempestana?“ „Já, en fjarskyldur,“ svaraði Tempest kalt. Lávarðurinn þagnaði — hann hafði búist við neitun. Tempest dvaldi eins lengi og kurteisin leyfði, og sá um leið og hann fór, að demantsskreytti trúlofunarhringurinn var horfinn af fallegu hendinni, sem honum var rétt við brottförina. Báðir keppinautarnir urðu samferða út. Þegar þeir voru komnir út á götuna, lyfti Tempest hattinum og ætlaði að fara, en Tentemoor stöðvaði hann. „Hve lengi ætlið þér að vera í Englandi ennþá?“ spurði hann. „Ég get ekki sagt það með vissu. Ég ætlaði aðeins að vera mánuð, en ég hef misst löngunina til að fara aftur.“ „Voru það samræðurnar við lafði Díönu, sem breyttu þessari ákvörðun?“ „Glöggskyggni yðar er virðingarverð. — Þér eigið kollgátuna.“ Lávarður Tentemoor roðnaði af heift. „Ég skil. — Ný fórn fyrir lafði Díönu,“ sagði hann háðslega. „Ætlið þér að láta bæta nafni yðar á langa biðlistann þessarar ungu ekkju?“ „Nú jæja, listinn er öllum opinn,“ svaraði Tempest rólegur. „Þar eð ég sé engan trúlofunarhring á hendi lafðinnar, verð ég að álíta, að ekkert band tengi ykkur saman — og sé það svo, ætla ég að reyna að eignast hana. Þér sjáið að ég tala hreinskilnislega við yður. Ég dáist að henni, og geti ég unnið hylli hennar, kvænist ég henni umsvifalaust áður en sumarið er á enda. Látum hana velja hvorn okkar sem hún vill.“ „Þér eruð aðdáanlega hreinskilinn,“ sagði lávarður Tentemoor — „lafðin er heitbundin mér og því verð ég að biðja yður að láta hana afskiptalausa.“ „Enginn annar en lafði Díana getur bannað mér að sækjast eftir hylli hennar. Ef hún segir mér, að hún vilji yður fremur en mig fyrir mann, þá skal ég undir eins draga mig í hlé, en þangað til verðum við keppinautar. Ég ætla að kvænast henni ef ég get.“ 32 Þegar Verenika var flúin inn í skugga hliðarstígsins, þaut lávarðurinn fram hjá, án þess að hann yrði þess var, að hún beygði til hliðar. Þegar hann loksins stóð kyrr, var hann kominn yst í skemmtigarðinn, þar sem engið byrjaði. Meðan hann stóð þar, kom Gilbert þangað hlaupandi. Lávarður Clynord dró sig í hlé inn í skuggann, hann vildi ekki mæta Gilbert, en hann hafði séð, að það var einhver maður þarna er kallaði lágt. „Ert það þú, Flack. Ég hef komist á sporið, við verðum að fylgja því strax. — En — hvað er að tarna — ert það þú, Roy?“ „Hefurðu séð nokkurn koma þessa leið?“ spurði lávarðurinn. „Nei, ertu að leita að einhverjum?“ „Já, ég sá hana fyrir augnabliki síðan hérna í garðinum. Ég get svarið að það var hún.“ „Hver?“ „Hún.“ „Hún — Verenika — svipurinn?“ „Já, sem þið kallið svo.“ „Það er ómögulegt, Roy, þú hefur séð einhverja vinnukonuna, sem hefur komið neðan úr þorpinu. Hvar sástu svipinn?“ „Í stóra skemmtigarðinum.“ „Ég skal ganga um garðinn til að vita hvort ég sé nokkurn.“ Án þess að bíða eftir svari þaut Gilbert af stað, en lávarðurinn gekk heim í hægðum sínum. Gilbert flýtti sér eftir stóra skemmtiganginum og sneri svo af honum inn á hliðarganginn. Þar kveikti hann á vaxkerti, sem hann hafði í vasanum og varð var við sporin eftir Roggy og Vereniku, þegar þær voru að fljúgast á. Án þess að dvelja nokkuð, hljóp hann í áttina til skautahússins og þegar hann átti fáa faðma að því, heyrði hann hljóðið í Vereniku, sem hún rak upp þegar Roggy kastaði henni í tjörnina. Hann flýtti sér til tjarnarinnar, en rakst allt í einu á manneskju í myrkrinu. Það var gamla Roggy. Áreksturinn var svo harður, að hún féll hálf meðvitundarlaus til jarðar, og Gilbert sárkenndi til fyrir brjóstinu, því þar rakst höfuðið á Roggy í hann. Hann hélt að þetta væri Verenika, laut því niður og sagði: „Verenika, hefurðu meitt þig?“ Roggy var að standa upp, en átti bágt með það, en þegar Gilbert þekkti hana, varð hann sem steini lostinn. „Hvað ert þú að gera hér á þessum tíma?“ spurði Gilbert. Kerling opnaði varirnar til svars, en ekkert orð kom yfir þær, því í sama augnabliki heyrðist angistarvein. Gilbert vissi að Verenika var í hættu, hrinti kerlingunni úr veginum og hljóp ofan að tjörninni. Hann leit fyrst á húsið og svo á tjörnina og sá þá dökkt höfuð, sem var að sökkva. Hann tók af sér skóna, fór úr frakkanum, fleygði sér í vatnið og synti þangað sem hann sá höfuðið. Þá vildi svo vel til, að Vereniku skaut upp í þriðja sinn. Annarri hendinni tók hann utan um hana og synti svo með hana að húsinu. Þegar þangað kom tók hann hana í fang sitt — og bar hana inn í húsið. Hann þreifaði fyrir sér í myrkrinu, fann legubekk og lagði Vereniku þar. Að því búnu lokaði hann dyrunum, fann eldspýtur og kveikti á gildu vaxkerti sem þar var. Þegar hann var búinn að kveikja, bar hann ljósið að andliti Vereniku og tautaði við sjálfan sig: „Hún lítur út fyrir að vera dáin, sé það, þá er framtíðarvon mín á enda.“ Hann þreifaði á slagæðinni og lagði eyrað við brjóst hennar. Hjartað sló ofur hægt. Í einum af hornskápunum voru geymd ýmis heimilislyf. Hann leitaði þar og fann brennivín, hellti af því í staup og lét það renna inn á milli vara Vereniku. Hún fór að hreyfa sig, hóstaði og stundi. „Verenika, talaðu við mig — Verenika,“ sagði hann. Hún leit á hann og nefndi nafn hans með veikri röddu. „Já, það er ég. Vertu óhrædd, hér gerir þér enginn mein. — Ég hef nú í annað sinn bjargað lífi þínu; þú varst nærri drukknuð.“ Gilbert þaut upp á loft, sótti þangað eldivið og kveikti upp eld í ofninum. Svo reisti hann Vereniku á fætur og leiddi hana nokkrum sinnum fram og aftur um gólfið. Hún var mjög máttvana og settist aftur í legubekkinn eftir litla stund. „Mér er mjög illt í vinstri handleggnum,“ sagði hún, „hann er máske brotinn.“ Gilbert athugaði hann nákvæmlega og fann, að hann var úr liði, en ekki brotinn. „Ég get ekkert hjálpað þér núna, en hreyfðu handlegginn sem allra minnst, hann er úr liði,“ sagði Gilbert. „Veistu hvar þú ert?“ „Já, í skautahúsinu.“ „Ég hélt, að ég myndi drukkna, Gilbert; því lofaðir þú mér það ekki. Þú hefur í annað sinn bjargað lífi mínu — en, til hvaða gagns?“ „Þú færð að vita það á sínum tíma. Þú getur naumast ímyndað þér hvað mér þótti vænt um, að það var ég, sem forsjónin sendi í annað sinn að bjarga lífi þínu. — Ég fer að halda að forlög okkar séu á einhvern hátt samantvinnuð. — En segðu mér, hvers vegna þú ert svo leið á lífinu, að þú ákvaðst að fyrirfara þér?“ „Hvernig dettur þér í hug, að ímynda þér slíkt um mig. Þó ég vildi deyja, þá svipti ég mig ekki lífinu sjálf; það má engin kristin manneskja gera.“ „Hvernig atvikaðist það þá, að þú varst í tjörninni?“ Verenika roðnaði um leið og hún sagði: „Hún reyndi að myrða mig — það var hún, sem kastaði mér í vatnið. Hún náði mér í garðinum, dró mig hingað upp á svalirnar, og fleygði mér yfir handriðið. Hún ætlaði að drepa mig, þó ég hafi aldrei gert henni neitt illt.“ „Hún. — Hver?“ „Roggy.“ Gilbert var búinn að gleyma því, að hann hitti Roggy, og fölnaði við að heyra þetta. „Hún hefur þekkt þig og ætlað að myrða þig?“ „Já.“ „Hún álítur þig þá ekki vera anda?“ „Nei, hana hefur lengi grunað hver ég var. Eina nóttina læddist ég inn til Roy til að sjá hann sofandi og fór svo inn í mín fyrri herbergi og tók þar sjal mér til skjóls. Þegar ég svo gekk fyrir dyrnar á baðherbergi Sylvíu, stökk hún á mig eins og köttur og náði sjalinu.“ „Ég hef alltaf álitið hana vera djöful, og hún er sú eina manneskja, sem ég hef nokkurn beig af. En hvernig fann hún þig í kvöld?“ „Mér var orðið óþolandi þetta raka loft uppi í þakherberginu, svo ég fór ofan og út að fá mér ferskt loft. Þá mætti ég Roy, en heppnaðist að flýja frá honum. En þegar Roy var horfinn, stekkur hún á mig eins og tígrisdýr, dró mig hingað og fleygði mér svo yfir riðið.“ „Já, nú skil ég.“ „Ég kann vel að synda, en um leið og ég datt, rak ég handlegginn í stein, svo hann varð máttlaus. Ég synti þá með annarri hendinni, en þá fékk ég krampa, rak upp hljóð og missti meðvitundina.“ Gilbert gekk um gólf hugsandi, sneri sér svo að Vereniku og sagði: „Ef þú álítur mig vin þinn — viltu þá koma með mér til St. Maur aftur?“ „Já, ég skal fara aftur til Wales, yfirgefa Roy og mitt elskaða heimili og — allt — allt.“ „Og Roggy gömlu — ef þú verður hér, hættir hún ekki fyrr en hún hefur myrt þig.“ „Fluttu mig þá aftur til Wales.“ „Þú ætlar að fórna sjálfri þér til þess að Roy og Sylvía geti gifst?“ Verenika hneigði sig samþykkjandi. „Frú Kraul er í Osborne og Flack er einhvers staðar í nánd. Ég sendi hann eftir vagni, svo hann geti flutt þig til Osborne. Þar verður þú svo að vera þangað til annað kvöld, þá ferð þú dulbúin með hraðlestinni til Lundúnaborgar í samfylgd með frú Kraul og Flack.“ „Fötin mín eru vot,“ sagði Verenika. „Ég get ekki farið í þeim, en ég á ferðatösku með fötum í og hattinn minn, uppi í þakklefanum yfir turnloftinu. — Máske þú getir sótt þetta fyrir mig?“ „Ég skal gera það. Verðurðu hér á meðan?“ „Já, en heldurðu að Roggy komi ekki aftur að vitja um mig?“ „Jú, það er satt. Láttu dyrnar vera lokaðar, legðu vel í ofninn og hérna er skammbyssan mín. Ég kem aftur að hálftíma liðnum.“ Þau töluðu enn saman nokkur orð, svo fór Monk og sótti frakkann sinn og stígvélin, síðan flytti hann sér til hallarinnar. 33 Verenika var ekki búin að vera margar mínútur einsömul, þegar hún heyrði þrusk við dyrnar, sem Gilbert fór út um. Hún var viss um að það væri Roggy, sem úti var. Komi hún, hugsaði Verenika, hef ég skammbyssuna og ætti að halda út umsátrið þangað til Gilbert kemur. Í sama bili var tekið í skráarhúninn og þá mundi Verenika að Roggy hafði lykil. Hún stendur því upp, gengur að dyrunum og tvílæsir, tekur síðan lurk frá ofninum og smokrar öðrum enda hans í lykilhölduna, en hinn endinn nam við gólfið, svo að Roggy gat ekki ýtt lyklinum úr skránni. Verenika heyrði bölvað á indversku úti fyrir dyrunum. Svo var þögn litla stund. Þar næst heyrði Verenika þrusk við gluggahlerann, en honum var læst að innan, svo þaðan var engrar hættu von. Aftur var þögn stundarkorn. Svo heyrir Verenika að gengið er upp á veggsvalirnar og inn í húsið uppi og þaðan ofan stigann að horndyrunum. Þær voru læstar — en enginn lykill í skránni að innanverðu. Vereniku grunaði að Roggy hefði lykil að dyrum þessum, dró því legubekkinn, stólana og það annað, sem hún réði við fyrir hurðina. Einn af hægindastólunum var of þungur fyrir hana — og sömuleiðis borðið, því hún gat ekki notað vinstri hendina. Hún settist því í þennan þunga stól og bjóst til varnar. Roggy hefur eflaust heyrt hávaðann inni, en sjálf læddist hún eins og köttur. Hún tók í hurðarhúninn, en dyrnar voru læstar. Verenika heyrði að lykli var stungið í skrána og hún opnuð. Ógeðslegur gleðiskrækur gall við um leið. Eftir fáar sekúndur var hurðin opnuð um tvo þumlunga og þrýst að víggirðingunni og sá Verenika þegar, að Roggy myndi komast inn, þrátt fyrir húsmunagirðinguna. „Vertu kyrr segi ég — vertu kyrr, hver sem þú ert!“ kallaði hún og hélt skammbyssunni á lofti. „Nú, það ert þú, Roggy,“ bætti hún við, þegar hún sá gömlu kerlinguna í gegnum gættina. „Mig grunaði það. Ekki fet lengra, segi ég, ekki einn þumlung áfram. Þú sérð að ég hef vopn og ég kann líka að beita því. Vertu kyrr þar sem þú ert. Ég hef aldrei gert neinum óskunda og ég vil einskis blóði úthella og því síður mannlegrar veru, en nú hef ég ætlað mér að verja mig hvað sem það kostar. Ef þú kemur hingað inn, kostar það líf þitt.“ Nú varð augnabliks þögn, hvorug þeirra sagði neitt. Það var eins og Roggy yrði hrædd eitt augnablik, en lengur ekki. Hún ýtti nú á hurðina af öllum mætti, svo hún þokaðist enn inn um þumlung. „Ekki fet lengra,“ kallaði Verenika, „ég aðvara þig.“ Roggy urraði eins og grimmur hundur og ýtti enn á hurðina, svo einn stóllinn datt. Verenika beit saman tönnunum og skaut. Kúlan lenti á þilinu, þrjá þumlunga fyrir ofan höfuðið á Roggy, sem orgaði af heift og veifaði krepptum hnefanum. „Þú sérð að það er alvara,“ sagði Verenika. „Ef þú ert kyrr, þar sem þú ert, þá skal ég ekki gera þér neitt illt, en ef þú brýst hingað inn, þá skýt ég þig án vægðar.“ „Ég hef alls ekkert illt í huga, lafði mín,“ sagði nú Roggy í grátróm. „Ég kom bara til að fullvissa yður um, að það var tilviljun og ekkert annað, að þér duttuð ofan af svölunum. Ég ætlaði ekki að fleygja yður í vatnið — það datt mér ekki í hug, og ég er komin til að biðja um fyrirgefningu, ef ég hef gert mig seka í nokkrum klaufaskap.“ „Hættu þessu rugli og farðu burt,“ skipaði Verenika. „Fyrst verðið þér að fyrirgefa mér,“ sagði Roggy kjökrandi. „Leyfið mér að komast inn, svo ég geti kastað mér fyrir fætur yðar og beðið um fyrirgefningu, ástkæra lafðin mín.“ „Enn einu sinni segi ég: farðu!“ sagði Verenika með hárri röddu. Kerlingin hélt áfram að biðja. Í þriðja sinn skipaði Verenika henni að fara. „Nei, ég vil ekki fara!“ grenjaði Roggy, sem skipti nú um róm. „Ég held að þú sért ekki lafði Clynord. Þú ert svikari, sem ætlar að nota þér það, að þú ert lík henni.“ Hún ýtti enn einu sinni á hurðina, og gat nú komið höfðinu inn, froðufellandi af heift. Þá kom önnur kúla í vegginn, og í þetta sinn nær en áður. Organdi af vonsku dró hún höfuðið út aftur. „Ertu nú viss um, að mér sé alvara?“ sagði Verenika. „Ég á enn fjögur skot, mundu það.“ Roggy fór nú að skilja, að hún átti ekki við barn eða hræðslugjarna konu. Þessi uppgötvun var henni jafn óþægileg sem óvænt. Skjálfandi af vonsku settist Roggy í stigann, án þess að vita, hvað hún átti til bragðs að taka. Nú var nærri liðin hálf stund siðan Gilbert fór, og við hann vildi hún ekki eiga, og vildi heldur ekki yfirgefa Vereniku lifandi. Hvað átti hún að gera?“ Loksins ásetti hún sér að ryðjast inn í herbergið með valdi og eiga á hættu að verða særð, og það gerði hún. Þegar hún var kominn inn, skreið hún bak við legubekkinn og stólana, en ekkert skot kom. Svo leit hún upp, ímyndaði sér að Verenika hefði fallið í yfirlið, en sá hana ekki. Aha, hún er hrædd við mig, hugsaði Roggy, sem hélt sig hafa unnið sigur, og stökk æpandi inn á mitt gólf, til að finna fylgsni Vereniku. Sér til ósegjanlegrar undrunar sá hún, að Verenika var farin úr herberginu. Dyrnar voru opnar, og rétt fyrir utan þær stóð Verenika í tunglsljósinu, og við hlið hennar Gilbert, með skammbyssuna í hendinni. 34 Roggy starði á Vereniku og Gilbert með hatursfullu augnaráði. „Að þessu sinni hef ég tapað leiknum,“ tautaði hún á indversku. „En ég skal bíða eftir tækifæri, og þegar það kemur, þá skal ég nota það.“ Svo læddist hún upp á loft, og þar út, og beið þar tækifæris að komast burt, sem bauðst undir eins og þau voru komin aftur inn niðri. Gilbert leitaði um allt húsið, uppi og niðri, en fann ekkert. Roggy var farin. „Nú er þér óhætt, Verenika,“ sagði Monk. „Skiptu nú um föt, eins fljótt og þú getur. Ég geng út á meðan.“ Verenika hlóð að nýju fyrir dyrnar, og hafði svo fataskipti eins fljótt og hún gat. Hvíti silkikjóllinn var orðinn þurr, og hún ætlaði að fara að láta hann niður, þegar barið var á dyrnar. Kjólinn lagði hún á stól og hljóp til dyra. „Ertu búin, Verenika?“ spurði Gilbert. „Að augnabliki liðnu.“ „Má ég koma inn?“ „Já.“ Monk lauk upp dyrunum og gekk inn. „Ég á aðeins eftir að koma hvíta kjólnum fyrir, eins og þú sérð.“ „Þú þarft hans ekki framar, Verenika,“ sagði Monk. „Má ég ekki fá hann?“ „Ertu að hugsa um að fyrirbyggja að ég leiki ekki oftar vofu? Ég get ekki lofað þér því, og þess vegna held ég kjólnum.“ Hún braut hann saman og lét hann í handtöskuna. Meðan Verenika var að koma fötunum sínum fyrir, slökkti Gilbert eldinn í ofninum, og kom húsmununum fyrir eins og þeir áttu að vera. Þegar það var búið, slökkti hann ljósið og leiddi Vereniku út. Síðan læsti hann dyrunum, rétti Vereniku hendina og leiddi hana um dimmustu stígana að litlu hliði við aðalveginn. „Ég hef lykil að þessu hliði,“ sagði Monk. „Ég fer oftast þessa leið, þegar ég þarf að fara ofan í þorpið. — Nú, þarna er vagninn kominn.“ Fáum fetum frá hliðinu var vagninn, sem Flack hafði sótt ofan í þorpið. Hann sat uppi í ökumannssætinu með svipu í hendi, og lyfti hattinum lítið eitt, þegar hann sá Gilbert og Vereniku koma. Monk hjálpaði Vereniku inn í vagninn. Fyrst var hann í nokkrum vafa um það, hvort hann ætti að fylgja Vereniku til Osborne. En svo afréð hann þó að fara með henni. „Til heimilis frú Kraul,“ sagði hann við Flack, og leit um leið flóttalega í kringum sig. „Og farðu eins hratt og mögulegt er, við eigum langa leið fyrir höndum, og ég þarf auk þess fleira að gera þessa nótt.“ Svo sté hann inn í vagninn og lokaði dyrunum, en Flack ók af stað. Vagninn var naumast horfinn, — þegar Roggy gamla gekk að hliðinu og tautaði: „Til frú Kraul — löng leið — það er sjálfsagt til Osborne. — Ég fer þangað á morgun.“ Hún hló og var í þann veginn að fara heim í höllina, þegar henni duttu í hug síðustu orð Monks. „Hann þurfti fleira að gera þessa nótt, sagði hann,“ tautaði hún við sjálfa sig. „Hvað getur það verið? Hann er lymskari en ég hélt, en ég skal aðgæta gerðir hans. Sylvía veit, að ég vinn í hennar þágu, og verður því vonandi ekki óróleg. Klukkan tvö getur hann verið hér og kemur eflaust inn um sama hliðið — og þá skal ég vera til staðar. Ha, ha, ha, gamla Roggy er lymskari en þú, herra Gilbert Monk.“ Hún valdi sér skuggaríkasta blettinn á milli runnanna, og lagðist þar í grasið, alveg eins og rándýr, sem bíður bráðar sinnar. Vagninn hélt áfram til Clynord-þorpsins. Þegar hann fór fram hjá kirkjunni, leit Monk út um vagngluggann. Hitt starfið hans átti að fara fram þar, og hann vildi flýta sér til að fá því lokið. Verenika leit líka á kirkjuna og fór þá um hana hrollur, um leið og hún sagði: „Gilbert, mikið á ég þér að þakka. Þú hefur tvisvar bjargað lífi mín. Ég verð aldrei megnug að endurgjalda þér sem vert væri.“ „Ég heimta ekkert gjald af þér, annað en að þú treystir mér sem þínum besta vini.“ „Ég hef óbifanlegt traust á þér — enginn bróðir gæti gert það fyrir systur sína, sem þú hefur gert fyrir mig.“ Monk þrýsti hendi hennar. Á þessu augnabliki kastaði tunglið geislum sínum á andlit Vereniku inn um gluggann, svo Monk varð hrifinn af fegurð hennar, og sagði við sjálfan sig: Hún er eins falleg og hún er eðallynd og hjartagóð! Það undrar mig. Monk, sem aldrei hafði vitað hvað ást var, fékk nú í fyrsta sinni snert af henni. Þegar komið var til Osborne, ók Flack að litlu og ósjálegu, tvílyftu húsi. „Bíddu í vagninum, Verenika, meðan ég vek frú Kraul,“ sagði Monk. Svo gekk hann að dyrum hússins og barði að dyrum. „Hver er þar?“ var sagt fyrir innan. „St. Maur,“ svaraði Monk. „Ungfrú Gwyn er komin,“ sagði Monk. Frú Kraul hneigði sig, og gekk svo á undan Monk og Vereniku inn í stofu, þar sem eldur brann á arni, og var hægindastóll til hliðar við eldinn. Þar settist Verenika. „Ungfrú Gwyn hefur snúið handlegginn að nokkru leyti úr liði,“ sagði Monk. „Ég held að þér getið lagað það, frú Kraul, án þess að kalla þurfi á lækni. Annað kvöld getið þið farið til Lundúnaborgar, og daginn eftir til St. Maur. Þá verð ég líka kominn og verð samferða. — Og svo — góða nótt.“ Hann laut ofan að Vereniku og kyssti hana. Svo tók hann hattinn sinn, þaut út og ók af stað til Clynord-þorpsins aftur. „Ég verð að búa út kistuna í grafhvelfingunni, svo að Clynord geti skoðað í hana, ef honum svo þóknast,“ hugsaði Monk, „og það verð ég að gera í nótt.“ 35 Þegar Monk var kominn á hæðina fyrir ofan Clynord-þorpið, lét hann stöðva vagninn og steig út úr honum. „Flack,“ sagði hann. „Skilaðu nú vagninum aftur á gistihúsið. Ég geng það sem eftir er. Á morgun ferðu svo til Osborne, og bíður mín þar á brautarstöðinni annað kvöld, ásamt frú Kraul og ungfrú Gwyn.“ Þegar Flack var farinn hraðaði Gilbert sér til kirkjunnar, og lauk við það starf, sem hann átti þar, og var þá klukkan fjögur. Svo gekk hann í gegnum þorpið, og um litla hliðið inn í garðinn, og beina leið til hallarinnar. Þegar Monk var kominn framhjá Roggy, reis hún upp úr fylgsni sínu þar sem hún hafði beðið alla nóttina og læddist á eftir honum til hallarinnar. „Næturvinnu hans er lokið,“ tautaði Roggy. „Það hefur eflaust verið viðvíkjandi Vereniku. Öll hans áform og störf snúast um hana. Hann vill að hún lifi, en ég vil að hún deyi. Hvort okkar sigrar? Við skulum nú sjá til.“ Roggy læddist upp til herbergis síns, afklæddi sig og lagðist svo til svefns. Klukkan átta um morguninn hringdi Sylvía, og vaknaði Roggy við það og fór inn til hennar. „Af hverju hefurðu ekki sofið inni hjá mér, eins og þú ert vön?“ spurði Sylvía ergileg. „Ég var úti í alla nótt,“ svaraði Roggy, og sagði henni svo allt, sem fyrir hafði komið um nóttina. Sylvía varð náföl við þessar fréttir. „Gilbert er þá riðinn við allar þessar vofusýnir,“ sagði Sylvía loksins. „En hvaða áform hefur hann? Líklega vill hann ekki eyðileggja mig? Ástfanginn í henni var hann ekki.“ „Ég held bara ég sjái í gegnum hann,“ sagði gamla Roggy. „Hann hefur komist að hverrar ættar hún er. Hann lofar þér að giftast lávarðinum, og að því búnu fer hann með gullfuglinn til ættingja sinna, og síðan flytur hann hana líklega í sitt eigið hreiður.“ „En hvað verður þá af mér? Gifting mín verður talin ógild.“ „Alveg rétt. En máske hann leyfi ekki að þið Clynord séuð gefin saman. Gilbert er eigingjarn maður, sem ekki hugsar neitt um þig. Hann ætlar sér máske að heimta ærna peninga af lávarðinum og ættingjum hennar, fyrir að hafa bjargað henni.“ „Hvað eigum við að gera, Roggy?“ spurði Sylvía óttaslegin. „hvað eigum við að gera?“ „Láttu mig um að, ég skal sjá fyrir svipnum. En ekki megum við láta Gilbert vita, að við höfum komist að áformum hans.“ Sylvía lét nú Roggy klæða sig, og kom ofan til morgunverðar um níuleytið. Lávarðurinn var þar fyrir, og litlu síðar kom Gilbert, fremur þreytulegur. Sylvía spjallaði mikið og var hin kátasta. Lávarðurinn var aftur á móti fátalaður og hugsandi. „Get ég gert nokkuð fyrir þig í Lundúnum, Sylvía?“ spurði Monk glaðlega. „Ég fer þangað í kvöld.“ „Já, komstu eftir hvort armbandið mitt er ekki búið,“ sagði Sylvía. „Hve lengi verður þú í burtu?“ „Það get ég ekki sagt. Máske tvo daga, máske heila viku. Scott & Reman vænta mín.“ Lávarður Clynord minntist ekkert á svipinn, er hann sá kvöldið áður, og svaraði fám orðum öllu skrafinu í Sylvíu. Þungbúið andlit hans var ekki árennilegt fyrir Gilbert. En samt sem áður elti hann lávarðinn inn í bókaherbergið og bað hann um tvö hundruð punda lán. Hann fékk það undir eins, þakkaði með mörgum fögrum orðum og lét ávísunina í vasabók sína. „Mér sýnist þú svo daufur Roy, alveg eins og þú hefðir átt orðakast við Sylvíu.“ „Nei, alls ekki, ég er aðeins ekki vel frískur, það er allt. Eftir á að hyggja, þú komst ekki heim í nótt á meðan ég var á ferli. Sástu nokkuð til — svipsins?“ „Ekki minnstu vitund. Ég var í garðinum og leitaði og leitaði til miðnættis, en sá ekkert. Ég er hræddur um að taugar þínar séu orsök í þessum ofsjónum.“ Clynord hristi höfuðið. „Ég ætla að ráðfæra mig við Hart lækni í dag, ég er sannfærður um að þessi svipur, sem ég hef séð hvað eftir annað, er engin ofsjón. — Ef ég hefði ekki dag eftir dag séð hana liggja í kistunni og væri sannfærður um, að hún er dáin, þá héldi ég að einhver glæpur stæði í sambandi við þetta og að konan mín væri lifandi.“ „Svipurinn er þá líkur lafði Clynord?“ „Það er hann ekki beinlínis, kæri Gilbert minn, fegurðin er meiri og æðri, en í augunum geislar hreina barnssálin hennar Vereniku.“ „Máske þeim framliðnu sé leyft að sýna sig eftirlifandi vinum. Talaðu um það við prestinn einhverntíma.“ „Ég ætla að gera það við tækifæri.“ Skömmu siðar kvaddi Monk og fór. Þegar hann var farinn, gekk lávarðurinn niðurlútur fram og aftur um gólfið, og talaði við sjálfan sig um sína framliðnu elskuðu konu, og um væntanlegt brúðkaup, sem honum var mjög á móti skapi. Þennan sama dag ók lávarðurinn niður til Osborne og heimsótti Hart lækni. Hann sagði honum frá sýninni. Læknirinn var rólegur maður, vel skynsamur, sem ekki trúði neinu yfirnáttúrulegu, en hlustaði þó með athygli á frásögn lávarðarins. Hann lét að síðustu þá skoðun sína í ljós, að þetta hlytu að vera skynvillur, og bað lávarðinn að vera varkáran, og hugsa sem minnst um hina framliðnu konu sína. Hann ráðlagði lávarðinum nokkur sefandi lyf, sem sneri aftur til heimilis síns jafn huggunarlaus og hann fór. Stuttu fyrir kvöldverð, sem að enskum hætti er borðaður klukkan 6, ók Gilbert inn á brautarstöðina í Osborne. Hann kom á síðustu stundu og var vísað inn í fyrsta farrýmis vagn, þar sem tveir kvenmenn voru með þykkar blæjur fyrir andlitunum. Það voru þær frú Kraul og Verenika. Lestin var farin að hreyfast, þegar umsjónarmaður hennar lauk upp dyrum á annars farrýmis vagni fyrir gamalli konu. — Það var Roggy gamla. Þannig ferðaðist Verenika mitt á meðal óvina sinna til Lundúna aftur. 36 Þegar lestin kom til Lundúna, sté Monk út úr vagninum, gekk yfir stéttina og kallaði á ökumann, sem hann bað að flytja sig til Gaskelleshótelsins. Rétt á eftir fylgdi Flack þeim frú Kraul og Vereniku að öðrum vagni — er fóru sömuleiðis til Gaskelles-hótels. Í þriðja vagninum fór Roggy til sama hótels. Það var orðið framorðið, svo Gilbert gekk til hvílu, án þess að hitta frúna eða Vereniku. Roggy skrifaði falskt nafn í gestabókina og sá um leið, að Verenika var nefnd ungfrú Gwyn frá Carnaroon. Um þetta hugsaði hún lengi. Morguninn eftir þegar Gilbert var búinn að borða bað hann um vagn — og gekk svo rakleiðis til herbergja frú Kraul og Vereniku. Þegar hann kom inn, sá hann að Verenika lá á legubekk, náföl og veikindaleg. „Hvað er nú að?“ spurði hann. „Ungfrú Gwyn hefði átt að vera degi lengur í Osborne. Hún er verulega veik,“ sagði frú Kraul. Monk gekk til Vereniku, og sagði: „Ertu veik, Verenika?“ „Ég er máttlaus og þreytt. — Vikum saman hef ég orðið að þola geðshræringar, leiðindi og sult, og nú kemur afleiðingin.“ „Hvað á ég nú að gera, Verenika? Á ég að útvega lækni?“ Hún hristi höfuðið neitandi. „Það sem hún þarfnast, er eins dags hvíld, hlýindi, góður matur og kraftmikill,“ sagði frú Kraul. „Eftir tvo daga verður hún ferðafær.“ Það var ekki um annað að gera fyrir Monk, en að samþykkja þetta. Hann fór ofan, kvaðst ekki þurfa vagninn, og sagðist ætla að vera hér einn eða tvo daga. Þegar hann kom upp aftur, hafði hann með sér mörg morgunblöð, settist í stól við ofninn í herbergi Vereniku og fór að lesa. Frú Kraul var að búa til te og verma bakstur handa Vereniku. Hún drakk teið og sofnaði svo strax. „Mikil fegurð er á þessu andliti,“ hvíslaði frú Kraul að Monk. „Mig furðar, að þér skulið ekki vera orðinn ástfanginn í henni.“ Monk roðnaði og lagði blaðið frá sér. „Ó,“ sagði hún, „mig hefur lengi grunað, að þér væruð ástfanginn í ungfrú Gwyn, en það gleður mig, því ég veit að ég fæ að vera vinnukona ykkar ef þessi ráð takast.“ „Ég veit ekki hvernig ungfrú Gwyn lítur á þetta málefni; þér gerðuð vel í að mæla með mér við tækifæri, og verði nokkuð af sambandi þessu, þá skuluð þér verða ráðskona á heimili okkar.“ „Það sem ég get gert, skal verða gert.“ Monk svaraði engu, stóð upp, gekk ofan og út og var lengi í burtu. Í hótelganginum mætti hann tvisvar gamalli konu, með rautt sjal og svarta blæju. Ekki kom honum til hugar, að þetta gæti verið Roggy. Herbergið sem Roggy var í var beint á móti herbergi Vereniku. Dyrnar voru ofurlítið opnar, og við þær stóð Roggy nær allan daginn og hafði gát á dyrunum á herbergi Vereniku. Tvisvar sinnum fór hún ofan og í bæði skiptin mætti hún Monk. Þegar Monk var búinn að borða um kvöldið fór hann til herbergis Vereniku. Þar var búið að kveikja og eldurinn í ofninum logaði vel. Verenika sat við ofninn, föl og þreytuleg, en þó frískari en um morguninn. Hún heilsaði Monk glaðlega. „Ég hélt að þú værir gengin til hvílu, kæra Verenika, en nú sé ég að þú ert hressari.“ Rétt í þessu kom frú Kraul, klædd í kápu og með hatt á höfði. „Ég vona að við getum haldið ferðinni áfram á morgun, herra Monk,“ sagði hún, „en ég þarf að bregða mér út og kaupa ýmislegt til ferðarinnar. Ég kem aftur innan stundar.“ Þegar frú Kraul var farin, áleit Monk hentugan tíma til að flytja bónorðið. En hvernig átti hann að byrja? Meðan hann var að hugsa um þetta rauf Verenika þögnina: „Gilbert,“ sagði hún hikandi. „Ég hef í dag verið að hugsa um ásigkomulag mitt. Þú sagðir mér einu sinni að ég væri ekki lengur kona lávarðar Clynords samkvæmt lögum. Þú hefur verið mér eins og bróðir, en þar eð ég veit, að eigur þínar eru fremur litlar, má ég ekki og þori ekki að vera þér lengur til byrði.“ „Hvað ætlarðu að gera?“ „Ég vil fara aftur til fósturforeldra minna á St. Kilda.“ „Hvað ætlarðu að gera þangað?“ „Setjast að hjá þeim, kenna á skólanum þar — og stunda sjúklinga eyjarinnar.“ „Þú átt ekkert heimili á St. Kilda lengur. Ég veit ekki hvort ég á að segja þér það, þó held ég að það sé best. — Presturinn og kona hans drukknuðu á leiðinni til Glasgow — fyrir fáum vikum síðan.“ „Dáin!“ hrópaði Verenika. „Drukknuð!“ „Já, skipið fórst með öllu sem á því var.“ „Dáin. Drukknuð. Guð minn, guð minn.“ Verenika byrgði andlitið í höndum sér og sat um stund þegjandi og hreyfingarlaus. Monk þorði ekki að rjúfa þögnina. Loks leit Verenika upp. Hin þurra, þögla, takmarkalausa sorg á andliti hennar gerði Monk hræddan. „Það eru þá allir horfnir mér, allir,“ sagði hún raunalega. „Vesalings faðir minn og móðir. Þau eru samt farsæl nú; þau eru á himnum.“ „Það er kominn nýr prestur á St. Kilda og þess vegna getur þú ekki fundið þar heimili.“ „Get ég nokkursstaðar fundið heimili? Ég hef ekki heimild til að kalla mig mínu nafni — ég á enga kröfu til neins heimilis. Ég er ekki lengur kona Roys, og er því ekki lengur systir þin og ég ætla að hætta að vera þér til byrði.“ „Vesalings Verenika, þú verður mér engin byrði, það sem ég hef er þér velkomið. Frá því að ég sá þig fyrst, elskaði ég þig sem systur, en nú í dag, Verenika, elska ég þig af öllu hjarta; komdu í faðm minn, vertu konan mín, og leyfðu mér að helga þér alla tilveru mína.“ Hann opnaði faðm sinn á móti henni. Verenika hörfaði undan, skjálfandi eins og strá í vindi. „Þú líka,“ sagði hún lágt. „Nú hef ég misst síðasta vininn; nú er ég ein, alein.“ „Ég skil þig ekki, Verenika.“ „Vinurinn er orðinn að elskhuga, og því hef ég misst vininn.“ „Máske, en þú hefur unnið meira en þú hefur misst, Verenika.“ „Gilbert, talaðu ekki um ástir við mig, það gerir mig veika og hrygga. Elskaði ekki Roy mig, og þó gleymdi hann mér undir eins og ég hvarf sjónum hans.“ „Ég heimta ekki neina systurást af þér, ef þú aðeins vilt vera konan mín, og skal ég gera það sem í mínu valdi stendur, til þess að þér geti liðið vel.“ „Ó, Gilbert, minnstu ekki á giftingu við mig, því þó ég sé ekki lengur kona Roys, eins og þú segir, þá ætla ég samt að vera honum trú meðan líf mitt varir. Þín kona get ég aldrei orðið.“ „Ég ætla að vera þolinmóður, Verenika. Þú hefur væntanlega ekki reiðst beiðni minni.“ „Nei, en eins og ég sagði þér áðan, ætla ég ekki að vera þér til byrði lengur. Ég er aðeins átján ára og ætti að geta unnið fyrir mér.“ „Þú þekkir ekki hinar bitrustu hliðar lífsins.“ „Þá ætla ég að fara að kynna mér þær. Ég hef ásett mér að verða kennslukona.“ Gilbert mótmælti þessu áformi hennar, en til þess að ergja hana ekki meira að þessu sinni, þá kvaddi hann hana og fór. 37 Þegar Verenika var orðin einsömul, fór hún að hugsa um fósturforeldra sína, og tárin runnu nú viðstöðulaust niður fölar kinnar hennar. „Faðir og móðir,“ bað hún með upplyftum höndum. „Lítið frá ykkar himni á vesalings barnið ykkar, leiðið það og verið með því. Leiðið mig áfram í gegnum þetta myrkur og sýnið mér veginn sem ég á að ganga, af því ég er svo einmana og án allrar verndar.“ Tilfinningarnar yfirbuguðu hana. Með náfölt andlit og ekkablandin andardrátt, hné hún máttvana afturá bak í stólinn og lá þannig með hálflokuð augu, þegar dyrnar voru opnaðar með hægð og inn kom gömul kona með dökka blæju fyrir andliti og lét aftur á eftir sér. Það var ómögulegt að þekkja Roggy, svo vel var hún dulbúin, og því hefur það verið eins konar tilviljun, sem kom Vereniku til að standa skjótlega upp og nálgast dyrnar á herberginu. „Þetta er sérherbergi, frú,“ sagði Verenika og benti henni á dyrnar, en gamla konan nálgaðist samt. Hreyfingar hennar voru svo rándýrslegar, að þær minntu Vereniku ósjálfrátt á Roggy. Hún hopaði nú nokkur fet. „Ef þér farið ekki undir eins, hringi ég á hótelþjóninn,“ sagði Verenika. Roggy leitaði í vasa sínum og tók upp úr honum samanbrotið bréf, sem á voru skrifaðar fáeinar línur. Bréfið var sjáanlega búið út sem bónarbréf. Hún bjóst við að verða álitin sníkjukerling, sem eru algengar á hótelum í stærri borgum. Þegar hún rétti fram hendina sem hélt á bréfinu, sást í mósvartan úlnliðinn milli gráa glófans og treyjunnar. Undir eins og Verenika sá þetta, vissi hún við hverja hún átti. „Hvað viljið þér?“ spurði hún. „Ég vil ekki lesa þetta bréf, segið mér erindið.“ Kerlingin lét til sín heyra nokkra óskiljanlega skræki, til að sýna að hún væri mállaus, gekk svo fast að Vereniku og rétti henni bréfið, sem sá að hún hélt á litlu glasi undir bréfinu. Undir eins og Veranika kom auga á glasið, flúði hún inn í svefnherbergi sitt og læsti. Flótti Vereniku sýndi Roggy að hún hefði þekkt sig. Hún bölvaði á indversku yfir þessu óhappi sínu og gekk svo til herbergis síns aftur. Þegar hún var að hverfa inn úr dyrunum, heyrði hún frú Kraul koma. „Ég komst mátulega í burtu,“ tautaði Roggy. „En hvernig fór hún að þekkja mig? Ef ég hefði komist svo nálægt henni, að ég hefði getað skvett úr glasinu framan í hana, þá væri hún dauð núna.“ Eftir stundarkorn kom frú Kraul fram í ganginn og leit í kringum sig, en gekk svo inn aftur og tvílæsti. „Verenika vill ekki láta lögregluna vita hver hún er, og því heldur hún komu minni leyndri. Það er gott fyrir mig, því það sem ekki heppnast í dag, getur heppnast á morgun,“ tautaði Roggy við sjálfa sig. Þegar frú Kraul kom heim, sagði Verenika henni hvað fyrir hefði komið, en þær héldu báðar að hún hefði farið úr hótelinu og álitu því enga þörf á að gera hótelfólkinu aðvart. Verenika var orðin þreytt af öllu því, sem fyrir hana hafði komið um daginn, og fór því snemma í rúmið, en frú Kraul beið Gilberts. Þegar Gilbert kom, þekkti frú Kraui fótatak hans í ganginum og kallaði á hann, sagði honum síðan frá heimsókn Roggy og áformum. „Þetta er allóþægileg uppgötvun, sem eykur mér kvíða,“ sagði Monk. „Mér líka,“ sagði frú Kraul. „Hún getur orðið okkur viðsjárverð mótstaða.“ „Meira en það hún er verri en fjandinn.“ Gilbert gekk til herbergis síns í slæmu skapi. Verenika lá vakandi í svefnherbergi sínu; hún dró upp fyrir hugskotssjónum sínum allar þær tilviljanir, sem komið höfðu fyrir hana síðari hluta ævinnar, og reyndi að gera sér ljóst hvað ókunni tíminn myndi flytja henni. Eitt var áreiðanlegt, hjá Gilbert Monk gat hún ekki lengur verið. Hún elskaði Roy umfram allt annað og gat því ekki gifst Gilbert. Þegar dagur rann var Verenika komin í ferðafötin, lét á sig hattinn og gekk að glugganum til að sjá hve mikið hún ætti í peningapyngju sinni. Að undanförnu hafði Gilbert fengið henni næga peninga fyrir fötum og öðru sem hún þurfti, og það sem afgangs var dró hún saman og geymdi. Það voru þessir afgangar, sem nú reyndust vera 15 pund. Henni virtist þetta stór upphæð, stakk pyngjunni í vasa sinn, hneppti að sér treyjunni og kápunni, tók tösku sína og læddist út í ganginn. Frú Kraul, Gilbert og Roggy sváfu enn rólega og urðu einskis vör. Götudyrnar voru opnar, svo Verenika komst óhindruð út. Það var áform hennar að fá sér vist og vinna fyrir daglegum þörfum. Án þess að hafa tekið nokkra ákveðna stefnu, yfirgaf Verenika nú hótelið. Hún þekkti engan í Lundúnum, og vissi ekki hve mikið af illsku og tilfinningaleysi ríkti í hverjum krók og kima þessarar borgar. Án ákveðins ásetnings, fylgdi hún straumnum af ungum búðarstúlkum til hins fjölfarna Regent-strætis. Hún var búin að ganga um strætin á að giska klukkustund og var orðin þreytt á að bera töskuna þegar almenningsvagn nokkur ók framhjá. Ökumaður sá hana og stöðvaði vagninn. „Hvert, ungfrú?“ spurði vagnstjórinn. „Eins langt og þér ætlið,“ svaraði hún. Nokkrir farþegar bættust við og svo ók vagninn áfram, uns hann var kominn í eitt af úthverfum borgarinnar. Ásamt farþegum þeim sem eftir voru, sté Verenika líka út úr vagninum. Þegar hún hélt áfram eftir götunni, sá hún skilti utan á einu húsinu er á stóð: „Kaffi og te og nýbakaðar kökur oft á dag.“ Hún gekk inn og bað um te og nokkrar kökur. Þegar hún var búin að drekka og borga, spurði hún, hvort ekki fengist herbergi leigt þar í nánd. „Ég er ókunnug í Lundúnum,“ sagði hún. „Það er nóg af herbergjum,“ svaraði sölukonan þægilega. „Þér hafið líklega hin lögboðnu skírteini — þó má fá herbergi án þeirra, en þá verður leigan að borgast fyrirfram. Eigið þér enga ættingja, sem geta annast þetta fyrir yður, það á betur við.“ „Allir nánustu ættingjar mínir eru dánir,“ sagði Verenika kjökrandi. „Faðir minn var prestur. Ég er komin hingað til að vinna fyrir mér. Mig vantar aðeins húsnæði þangað til ég get fengið stöðu sem kennslukona.“ „Já, góða stúlka, ég trúi yður og skal því benda yður á hús, þar sem þér getið fengið herbergi. Gangið þér yfir á næsta horn — til hægri handar, Viktoríaveg 42. Húseigandinn heitir frú Sharp, en ég heiti Gibbons. Ef þér segið henni, að ég hafi vísað yður á hana, fáið þér eflaust herbergi leigt hjá henni.“ Verenika þakkaði frú Gibbons fyrir bendinguna, skrifaði hjá sér nafnið og númerið og fór svo. Hún fann undir eins húsið, sem var stærra og reisulegra en húsin í kring. Verenika barði að dyrum þrisvar sinnum áður en upp var lokið. Til dyranna kom ung stúlka. „Get ég fengið að finna frú Sharp?“ spurði Verenika. „Já, gerið svo vel að ganga inn, ungfrú.“ Stúlkan fylgdi nú Vereniku inn í gestastofuna, fór svo og kallaði á frúna. Nú var gengið þungum fetum um ganginn, dyrunum lokið upp og inn kom frú Sharp. Verenika stóð upp og sagði frúnni erindið. „Jæja, frú Gibbons sendir yður til mín,“ sagði hún, „og þér hafið engin meðmælabréf, en hún ætti að vita, að ég tek enga kostgangara nema þeir hafi meðmæli.“ „Ég er alveg ókunnug í Lundúnum,“ svaraði Verenika. „Ég er svo þreytt og þrái að finna stað, þar sem ég get hvílt mig. Ég ætla að fá mér stöðu sem kennslukona, og í því efni ætti mér að vera stuðningur að því, að áritun mín væri í velmetnu húsi. Ég skal borga fyrirfram.“ „Ég vil helst hafa karlmenn fyrir leigjendur, þeir borða aðeins morgunverð hjá mér.“ „Ég get sjálf séð um mat minn, frú.“ „Jæja, ef þér viljið sjálfar matreiða fyrir yður — auðvitað ekki í eldhúsinu mínu — ef þér viljið borga fyrirfram, takið ekki á móti mörgum gestum, eruð kyrrlátar og gangið ekki út á kvöldin, þá skal ég ljá yður húsaskjól. Hvað segið þér um þessa kosti?“ „Ég geng að þeim umyrðalaust.“ „Gott, þá getið þér flutt hingað í kvöld. Það er matreiðsluofn í herbergi yðar. Viljið þér sjá herbergið?“ „Sé það ekki of mikið ómak fyrir yður, þá vil ég það, og vil helst setjast hér að strax.“ „Einmitt það. Hvar er farangur yðar?“ „Allar eigur mínar eru í þessari tösku.“ „Mér finnst þetta undarlegt. Hvar voruð þér í nótt? Og hvar eigið þér heima?“ „Ég kem frá Hebrideseyjum og var í nótt á hóteli. Ég hef aðeins verið tvo daga í Lundúnum.“ „Jæja, viljið þér sjá herbergið?“ Verenika játaði og svo gengu þær upp á þriðju hæð. Herbergið var stórt og hreinlegt, með þrem stórum gluggum til götunnar. „Ég er ánægð með herbergið,“ sagði Verenika. „Hér er borgun fyrir fyrstu vikuna. Viljið þér leyfa vinnukonu yðar að kaupa ýmislegt fyrir mig og gera ýmsa aðra snúninga?“ „Já, en það kostar tveim shillingum meira um vikuna.“ Verenika borgaði þegar þessa upphæð, en frúin fór og kvaðst senda vinnukonuna upp. Vinnukonan var hreinskilinsleg á svipinn — og Verenika festi strax traust á henni. Þær ráðguðust um hvað kaupa þyrfti, og svo fór þernan og keypti það umtalaða. Verenika borgaði henni rífleg ómakslaun. Þegar vinnukonan var búin að kveikja eld í ofninum, settist Verenika í nánd við hann og fór að lesa í dagblaði, en hún fann ekkert tilboð um stöðu, sem henni geðjaðist að. — Ég verð sjálf að auglýsa, hugsaði hún. Þegar Verenika hafði drukkið teið, sem þernan bjó til, skrifaði hún auglýsingu og sendi þernuna með hana til eins blaðsins, sem álitið var áreiðanlegt. 38 Verenika, sem sagði frú Sharp að hún héti ungfrú Gwyn, þorði ekki út fyrstu þrjá dagana. Daginn eftir að hún sendi auglýsinguna, var hana að sjá í blaðinu. Þriðja daginn fékk hún tuttugu og átta bréf. „Eru þau öll til mín?“ spurði hún glöð, þegar stúlkan lagði þau á borðið. Hún var í þann veginn að opna fyrsta bréfið, þegar barið var að dyrum. „Kom inn,“ sagði hún og leit upp undrandi. Það var frú Sharp, sem kom inn. „Súsanna sagði mér, að þér hefðuð fengið mikið af bréfum, ungfrú Gwyn, og ég áleit því réttast, að koma og leiðbeina yður. Þér eruð enn svo ung, að þér þekkið heiminn og illskuna, sem hann hefur að geyma, engu betur en kettlingurinn minn niðri. — Það eru margar tegundir manna í Lundúnum, og þar á meðal nokkrir sem eru umboðsmenn fjandans. Ég er hörð í lund, og veit bæði hvað ég hef verið og hvernig ég er orðin það sem ég er. En enginn skal með sönnu geta sagt, að ég hafi látið unga, saklausa stúlku ganga í gildru, án þess að aðvara hana.“ Verenika bauð frú Sharp sæti, og þakkaði tilboð hennar einlæglega. Svo opnaði hún bréfin, eitt eftir annað og las þau. Í þrem þeirra voru svívirðilegustu móðganir, og í öðrum þrem voru einnig móðganir, sem Verenika ekki skildi fyrr en frú Sharp benti henni á höggormseitrið, sem lá hulið undir tvíræðum orðum. Öll hin bréfin heimtuðu meðmæli og vitnisburði. „Engar af þessum stöðum eru fyrir mig,“ sagði Verenika. „Satt að segja hélt ég ekki, að þér fengjuð neitt svar,“ sagði frú Sharp. „Hjá mér hafa margar stúlkur búið, sem hafa auglýst eftir stöðum, og aldrei fengið neitt svar, nema frá ráðningastofu.“ „Ég verð líklega tilneydd að snúa mér að einhverri þeirra.“ „Það gagnar yður ekkert. — En ég vil ráðleggja yður að eyða ekki peningum í auglýsingar.“ „Get ég ekkert fengið að gera þar sem engin meðmæli þarf?“ „Kunnið þér skrautsaum, kvenfatasaum eða aðrar hannyrðir? — Nei? — Þá eru litlar líkur til að þér getið unnið fyrir yður. Að ég hafi yður lengur í mínu húsi, heldur en peningar yðar endast til að borga, getið þér ekki ætlast til.“ „Auðvitað ekki.“ „Ég verð að vinna hart fyrir mínum peningum, og ég borga ekki húsaleigu til að skjóta skjólshúsi yfir þá, sem eru of fínir eða of latir til að vinna.“ „Ég vil vinna, frú, og í þeim tilgangi gera allt sem í mínu valdi stendur.“ „Það lítur helst út fyrir, að þér verðið að taka yður vinnukonustöðu,“ sagði frú Sharp. „Umfram allt er mér áríðandi, að hafa þak yfir höfuðið, og því skal ég með ánægju borga yður mánaðarleigu fyrirfram,“ sagði Verenika og rétti frúnni peningana. Frúin skrifaði viðurkenningu fyrir peningunum, fékk Vereniku hana og fór svo. Fyrir Vereniku byrjaði vonlítil og örvæntingarfull lífsbarátta. Daginn eftir að hún fékk bréfin, fór hún til einnar ráðningarskrifstofunnar og lét skrásetja nafn sitt þar gegn hárri borgun. Hún treysti ekki skrifstofunni eingöngu, en svaraði öllum stöðutilboðum, sem hún sá í blaðinu Times, ýmist bréflega eða þá að hún kom þangað sjálf, en árgangurslaust; enginn vildi ráða meðmælalausa stúlku í vist til sín, og síst stúlku með öllum einkennum heldri kvenna. Skorturinn leitaði æ fastar og fastar á Vereniku. Skórnir hennar voru orðnir gatslitnir, svo hún varð að kaupa sér aðra nýja, enda þótt peningarnir væru á förum. Kjöt hafði hún ekki bragðað síðan fyrsta kvöldið, en lifði nú aðeins á brauði og tei, og hitaði sjaldan herbergið. Þannig leið dagur eftir dag, vika eftir viku. Maí var byrjaður, en það var lítið um sólskin í herbergjum hennar. Engum kynntist hún í húsinu nema frú Sharp, sem alltaf varð kaldari og kaldari í viðmóti, eftir því sem hún vissi að minnkaði í pyngju Vereniku. Engan sá Verenika, sem hún þekkti. Gilbert leitaði hennar í fyrstu, en svo fór hann til Clynord í þeirri von, að hún mundi koma þangað. Það voru aðeins tveir dagar eftir af leigutíma Vereniku, og hún átti nú aðeins fáa shillinga í pyngjunni. Eins og Gilbert hafði grunað, vaknaði hjá henni sterk löngun til að sjá Roy. „Það líður nú að enda ævi minnar,“ hugsaði hún, „ég verð að sjá hann enn einu sinni. Hann þarf ekki að verða var við mig. Ég hef líkkjólinn ennþá, og get leikið svipinn, ef þess þarf með. Gilbert er sjálfsagt löngu hættur að leita mín. Ég verð að sjá Roy, áður en hann kvænist annarri konu. Ég dey — ég dey af löngun eftir Roy.“ Kvöldið áður en leigutíminn var liðinn, lét hún eigur sínar í töskuna, læddist út úr húsinu, fékk sér vagn og ók á brautarstöðina, fór svo með eimlestinni til Osborne, fékk sér svo annan vagn til Clynord-þorpsins. Þaðan gekk hún til hallarinnar, en bað ökumanninn að bíða sín til morguns, þá ætlaði hún til Lundúna aftur. 39 Á sama tíma og veslings Verenika læddist inn í höllina og upp í þakherbergið, til þess að hafa þar fataskipti og fara í hvíta kjólinn, voru Clynord og Sylvía í hljóðfæraherberginu. Eldur logaði í ofninum, því veður var kalt og hráslagalegt. Lávarðurinn gekk aftur og fram um gólfið í þungum þönkum, og varð af tilviljun litið á Sylvíu, sem var náföl og óróleg á svip. „Ertu veik, Sylvía?“ spurði hann. „Ég þjáist ekki meira í dag en undanfarna daga,“ svaraði hún, „en þú hefur verið svo niðursokkinn í skólabygginguna, að þú hefur ekki séð það.“ „Þér finnst ég vera vanrækslumaður gagnvart þér, en ég verð að biðja þig að umbera hugsunarleysi mitt. Seinna get ég, ef til vill, elskað þig eins og þú verðskuldar.“ „Ég er þolinmóð, og mér finnst ég hafa sýnt þér það. Siðan við trúlofuðumst aftur, er þetta fyrsta kvöldið sem við höfum verið saman. Það er eins og þú forðist mig af ásettu ráði.“ „Það er ekki tilfellið. Ég hef haft mikið að hugsa um, eins og þú veist, og auk þess vissi ég, að þú hefur verið að undirbúa brúðarskraut þitt, og hélt að það skemmti þér.“ „Að sönnu, en það er nú þegar búið. Að giftingunni afstaðinni verðurðu að fara með mig til meginlandsins, Roy.“ „Við skulum fara hvert sem þú vilt. Þú ræður því.“ „Þá vil ég að við séum um sumartímann í Þýskalandi og Frakklandi, en næsta sumar í Rómaborg.“ „Ef við verðum heilt ár í burtu, þá verð ég að fela Sanders og húsameistaranum umsjón skólans. En þú skalt ráða.“ „Breyting á verustað ætti að hafa góð áhrif á þig líka, Roy. Eftir á að hyggja — hefur þú séð svipinn nýlega?“ „Ekki síðan um kvöldið niðri í garðinum. Það er meira en mánuður síðan.“ „Við skulum vona að hann hafi fengið hvíld í gröfinni. Ég skoða þetta sem ímyndun, sem orsakast af of mikilli taugaáreynslu, eins og Hart læknir sagði, og hann sagði líka, að ég skyldi hraða giftingunni — og fá þig burt með mér sem allra fyrst.“ „Frá hans sjónarmiði er þetta máske rétt. En hvernig stendur þá á þessari sýn? Ímyndun er það ekki. Nei, Sylvía, giftingin fer ekki fram fyrr en í þriðju viku júní. Nú er maí byrjaður, svo það er ekki langt þangað til. Vera kann, að leyst verði úr þessum leyndardómi innan þess tíma.“ „Ætlarðu alltaf að hugsa um þá framliðnu? Þú breytir við mig sem systur þína, en ekki sem heitmey. — Þú hefur ekki kysst mig síðan kvöldið sem þú komst heim. Ég elska þig af öllu hjarta, ég gef þér allt, en þú gefur mér ekkert — alls ekkert. Er það rétt breytt?“ Hún sneri sér að honum með ástarblossa í augum og blóðrjóð í framan. Lávarðurinn horfði á hana stundarkorn, hrifinn af meðaumkun. „Nei, nei, það er ekki rétt breytt — og þó — fyrirgefðu mér.“ „Á ég að syngja fyrir þig, Roy?“ „Já, ef þú vilt gera svo vel.“ „Hvað á ég að syngja?“ „Það sem þér sýnist.“ Sylvía fletti nótnaheftinu, uns hún fann ástarsöng. Hún lék á hljóðfærið og söng með. Þegar söngnum var lokið sneri hún sér að Roy, sem af meðaumkun og augnablikstilfinningu tók hana í faðm sinn og þrýsti henni að hjarta sínu. Á sama augnabliki heyrðist hljóðlítið skrjáf bak við blómagrindurnar. Það var Verenika í hvíta kjólnum, sem nálgaðist píanóið án þess að Roy yrði hennar var. „Vesalings Sylvía,“ sagði lávarðurinn í hluttekningarróm, „ég kenni í brjóst um þig. Ég skal verða þér góður maður — komdu og kysstu mig.“ Hann laut niður og kyssti Sylvíu, sem endurgalt kossinn með taumlausum ástaratlotum. Verenika gat ekki hreyft sig af undrun. — Ég er gleymd ... gleymd, hljómaði í huga hennar. „Eftirlætisgoðið mitt,“ sagði Roy. Eftirlætisgoðið. Það var gælunafnið, sem hann gaf henni. Það var hennar eign, og nú gaf hann annarri konu það. — Ósjálfrátt rak hún upp lágt hljóð. Roy heyrði hljóðið, leit upp og sá Vereniku. Hann hratt Sylvíu frá sér og þaut af stað á eftir Vereniku, sem flúði eins hratt og hún gat. Tvisvar hrasaði hún og í seinna skiptið náði Roy í ermina á kjólnum hennar, en samt slapp hún og hann missti sjónar á henni. Sylvía hafði líka séð Vereniku og kom út í dyrnar — um leið og Verenika slapp inn undir stigann í skjól. „Dyrnar eru opnar,“ tautaði Sylvía, „hún hefur hlaupið uppá loft til að fela sig þar. Fyrst hún vill ekki láta þekkja sig, hef ég ekkert að óttast úr þeirri átt.“ Svo lokaði hún dyrunum og þaut upp til að láta Roggy vita um komu Vereniku. „Láttu mig um hana,“ sagði Roggy. „Þetta skal verða í síðasta sinni, sem hún kemur hér.“ Roggy fór inn í búningsklefann, lauk upp skápnum, tók út úr honum ýmsa muni, sem hún fól í barmi sínum með djöfullegu brosi, og læddist svo upp í þakherbergin. Þegar Sylvía var á leiðinni ofan aftur, kom Gilbert út úr herbergi sínu og spurði hvað gengi á. „Það gengur ekkert á. Ég hljóp upp til að sækja nótnahefti, en nú verð ég að flýta mér ofan. Roy bíður mín.“ Svo þaut hún ofan. „Jæja, hún var að sækja nótnahefti, og hefur ekkert í höndunum.“ hugsaði Gilbert. Rétt á eftir fór Gilbert ofan og fann Sylvíu einsamla, sem lét brúnir síga og sagði: „Farðu aftur upp, Gilbert. Við Roy þurfum að tala saman vitnalaust. Farðu, eða þú iðrast þess að vera kyrr.“ „Ég mundi iðrast þess, ef ég færi. — Það er eitthvað á seiði.“ Fáum augnablikum síðar kom Roy þjótandi inn í salinn, náfölur og tryllingslegur. „Kom hún aftur?“ spurði Roy. „Hver?“ sögðu Gilbert og Sylvía undir eins. „Verenika — konan mín.“ „Nú, þú hefur þá séð svipinn aftur?“ „Já, Verenika kom og horfði á okkur Sylvíu, þar sem við sátum saman hérna. Hún stundi og andvarpaði, föl og sorgbitin. — Sylvía sá hana líka.“ „Ég? — Ég hef engan svip séð.“ „En þú gast ekki annað en séð hana. Þú snerir andlitinu að henni.“ „Ég get svarið það, að ég sá ekkert.“ „Þú horfðir þangað sem hún stóð, og sást hana þó ekki. Þú heldur máske að þetta sé andi, og neitar að hafa séð nokkuð, til þess að æsa ekki taugar mínar. En þetta var enginn andi, heldur lifandi vera.“ „Ómögulegt,“ sagði Monk. „Hann veit ekki hvað hann segir — hann er orðinn brjálaður,“ sagði Sylvía. „Hættu, Sylvía! Talaðu ekki þannig. Brjálaður? Já, það er furða, að ég skuli ekki vera orðinn það. Monk, komdu og hjálpaðu mér að leita, hún getur ekki verið langt í burtu. Ég verð að finna hana.“ „Roy,“ sagði Monk, „þetta getur ekki verið, þetta er endurtekning á sjónhverfingum þínum.“ „Ég vil ekki heyra eitt orð um sjónhverfingar,“ sagði lávarðurinn byrstur. „Sko, þessu náði ég af kjólermi hennar, um leið og hún hrasaði um blómakrukku, sem hún velti um koll,“ og hélt á lofti knipplingaræmu. „Gátan verður æ óviðráðanlegri. En hver sem hún er, þá þekki ég þessa ræmu.“ „Roy,“ sagði Monk, „þetta hlýtur að vera einhver stúlka, sem er lík Vereniku og er að leika vofu.“ „En andlit hennar var svo hreinskilið ...“ „Hún getur hafa borið grímu. Rannsaka þú skemmtigarðinn, en ég skal svipast í kringum tjörnina og inni í höllinni.“ Lávarðurinn kinkaði kolli, lét ræmuna í vasabókina sína og þaut svo út í garðinn. Gilbert þaut upp á loft að rannsaka þakherbergin. „Ég finn hana eflaust uppi. Hún hefur farið þangað til að skipta um föt.“ sagði hann við sjálfan sig. 40 Gilbert gekk upp hvern stigann á fætur öðrum og snuðraði og leitaði alls staðar. Allt í einu virtist honum hann heyra andardrátt. — Nú næ ég henni, hugsaði hann. Hann tók af sér skóna með hægð og læddist þangað, sem hann þóttist heyra andardráttinn. Í sama bili réðist eitthvað á hann. Langar, hnýttar hendur gripu um hálsinn á honum og reyndu að kæfa hann. „Á, nú hef ég náð þér,“ hvæsti rödd nokkur, sem hann þekkti að var Roggy. „Nú skaltu deyja, hvíta stúlka.“ Allt í einu losnaði takið um hálsinn. Roggy varð vör við skeggið, og um leið missti hún allt afl, en Gilbert hratt henni burt. „Lævísa kerling,“ sagði Monk, „ert það þú?“ „Voruð það þér, herra Gilbert?“ svaraði Roggy. „Já, það er ég, bölvuð nornin þín. Ég ætti að rota þig eins og hund, morðvélin þín.“ Kerling leit á hann með augum, sem glóðu í myrkrinu eins og tígrisaugu. „Varst þú að leita að lafði Clynord — var það ekki?“ Kerling tautaði eitthvað á indversku. „Hættu við allt slíkt. Ef þú reynir enn einu sinni að ráðast á lafðina, skaltu verða rekin héðan. Þú ætlaðir að drekkja henni í tjörninni, ég veit það. Farðu nú ofan, eiturnaðran þín. Farðu.“ „En, herra Gilbert ...“ „Farðu undir eins. Þó þú getir táldregið allan heiminn, þá táldregurðu mig ekki.“ „Ég fer ekkert. Þér hafið yðar áform, og ég má hafa mín.“ „Enn einu sinni skipa ég þér að fara. Ég veit um áform þín viðvíkjandi lafðinni. Ég heyrði til ykkar Sylvíu fyrir sextán mánuðum síðan. Ég bjargaði lafðinni úr grafhvelfingunni. Ég geri þetta í hagnaðarskyni fyrir mig. Sylvía skal verða lafði Clynord — ég skal ekki hindra það minnstu ögn. Ertu nú ánægð?“ „Nei, meðan lafðin lifir, er Sylvía í hættu. Lafðin verður að deyja.“ „Hún skal ekki deyja. Ég elska hana og hún skal lifa fyrir mig.“ „Þér, að elska lafðina. Þér vitið ekki hvað ást er, peningarnir eru yðar guð. Þér ætlið að koma með lafðina fram á sjónarsviðið þegar Sylvía er gift, í því skyni að græða á því.“ „En sú heimska. Mér yrði kastað út, fyrir að hafa falið lafðina svo lengi. Farðu nú og láttu Vereniku í friði.“ „Ef kringumstæðurnar eru eins og þér segið, þá þarf ég ekkert að óttast, og get farið.“ Með það hljóp hún ofan stigann og hvarf í dimman ganginn á þakloftinu. „Hún heldur áfram að leita,“ tautaði Gilbert, „ég skal elta hana.“ En hann fann hvorki Roggy né Vereniku, og sneri svo aftur til herbergis síns. Hann var naumast sestur, þegar barið var að dyrum og lávarðurinn kom inn. „Þú ert nýkominn,“ sagði Roy. „Já, ég er nýkominn og fann ekkert.“ „Það er eitthvað við þetta leyndarmál, sem ég skil ekki. En það eina er víst, að það er ekkert yfirnáttúrlegt við þennan svip. Hvað kemur til að þið Sylvía hafið ekki getað séð hann í hvorugt skiptið?“ Roy horfði á Gilbert, eins og hann vildi lesa hugsanir hans. „Sylvía sá hann í bæði skiptin, en vildi ekki segja frá því vegna þín. En ég hef ekki séð hann, það get ég svarið.“ „Þessi gáta skal bráðum verða leyst, en til þess þarf ég þína hjálp. Ég ætla að biðja þig að bregða þér til Osborne á morgun, og síma til aðallögreglustöðvanna í Lundúnum, að senda hingað duglegan leynilögreglumann. En það má enginn vita að svo komnu, að það sé leynilögreglumaður sem kemur.“ „Mér er ánægja í því að hjálpa þér, og til þess að enginn verði var við burtför mína, skal ég ganga ofan í þorpið og leigja vagn í gistihúsinu.“ „Þetta mun duga,“ sagði Roy, og rétti Gilbert skeytið, bað hann að hringja sem fyrst og fór svo. Þegar dagur var nýrunninn, gekk Gilbert inn í garðinn á gistihúsinu, fann einn vinnumanninn og bað um vagn til Osborne. „Hér er vagn frá Osborne, sem alveg er að fara af stað,“ svaraði maðurinn. „Hann kom í gærkvöldi með blæjuklæddan kvenmann og hefur beðið hennar til þessa.“ Gilbert fór og fann ökumanninn og bað um flutning til Osborne, sem strax var veitt með ánægju. Hann fékk ökumanninn til að lýsa kvenmanninum blæjuklædda, og átti sú lýsing við Vereniku. Þegar Monk kom til Osborne, sendi hann símskeytið, sneri svo strax um hæl aftur til Clynord og kom þangað klukkan níu. Þegar hann var búinn að borða morgunverð, talaði hann við lávarðinn stundarkorn, og fór svo upp til Sylvíu. Gamla Roggy hafði bundið um höfuðið. Plástur hafði hún á kinninni og var hölt. Það var líkast því að hún hefði lent í áflogum, og gaf það Monk ástæðu til að halda, að hún hefði fundið Vereniku og drepið hana. Þegar hann fór aftur frá Sylvíu, læddist hann upp á loft til að leita, en það varð eins og fyrr, árangurslaust. 41 Eins og áður er getið, var lávarður Clynord fastráðinn í að komast að leyndarmálinu um vofuna. Svar lögregluforingjans hljóðaði þannig, að hann skyldi með ánægju senda honum leynilögreglumann daginn eftir. Lávarðurinn áleit hyggilegast, að láta engan vita um stöðu gestsins, sem hann átti von á, nema Gilbert og Sylvíu. Hann lét undirbúa eitt af gestaherbergjunum, og ók svo morguninn eftir til Osborne til að sækja lögreglumanninn, og ætlaði sér á heimleiðinni að segja honum allt um svipinn. Þegar hann ók inn á brautarstöðina, brunaði eimlestin þangað. Hann steig út úr vagninum og gekk yfir á stöðvarpallinn, til að hitta farþegann. Út úr fyrsta farrýmis vagni steig hár og þrekinn maður með hæruskotið hár og skegg. Hann leit yfir mannþyrpinguna á pallinum og varð glaður við er hann sá lávarð Clynord. Lávarðurinn sá líka þennan ókunna mann, og þekkti strax að það var Tempest. „Velkominn, kæri vinur,“ sagði hann. „Þér hafið þá ekki gleymt mér — þér ætlið til Clynord, er það ekki?“ „Já, ég kem til að heimsækja yður. Ég hef ekki gleymt heimboði yðar, en gat ekki komið fyrr.“ „Þér hafið vakið hjá mér óvænta ánægju. — Ég vissi að þér voruð kyrr á Englandi, því blöðin hafa öðru hvoru minnst á yður.“ „Ég tel yður meðal þeirra fáu sem ég kalla vini mína og vinum mínum gleymi ég aldrei.“ Lítill maður, sem kom út úr vagni annars farýmis kom til þeirra og heilsaði kurteislega. „Er ég svo lánsamur, að tala við lávarð Clynord?“ spurði hann. Lávarðurinn hneigði sig. Gesturinn rétti honum nafnspjald, með áletruninni: Tom Bisset, Scotland Yard. Þessi litli maður var meðal hinna duglegustu leynilögreglumanna í Lundúnum. Lávarðurinn bauð hann velkominn, enda þótt hann héldi, að það mundi ekki verða á hans valdi að leysa úr leyndarmálinu. Svo kynnti hann Tempest þennan nýja gest, og síðan gengu þeir að vagninum. Fáum sekúndum síðar voru þeir á leiðinni til Clynord. „Þér lítið ekki eins frísklega út nú, og þegar við kvöddumst, lávarður. Þér eruð eins og dagarnir hafi flutt yður sorg, og næturnar verið svefnlausar,“ sagði Tempest. „Þér eigið kollgátuna, það er þannig ástatt fyrir mér,“ svaraði lávarðurinn. Tempest leit hluttekningaraugum á þennan unga vin sinn. „Ég skal segja yður sannleikann strax. Máske glöggskyggni yðar, í sameiningu við eftirtekt og dómgreind Bisset, geti orðið mér að gagni. Ökumaðurinn er nærri heyrnarlaus, svo við megum óhultir tala hans vegna. Traustið, sem þér báruð til mín í fyrsta skipti sem við sáumst, hefur tengt okkur saman.“ „Sterkara bandi en þér haldið, lávarður,“ sagði Tempest. „Ég ók hingað til að sækja herra Bisset, sem er einn af njósnurum lögreglunnar í Lundúnum,“ sagði lávarðurinn. „Hefur verið stolið frá yður, lávarður?“ spurði Tempest alveg hissa. „Nei, það er ekki af því tagi,“ svaraði Roy. „Í hvaða skyni þurfið þér þá minnar aðstoðar?“ spurði Bisset. Lávarðurinn sagði þeim nú ítarlega frá öllu sem fyrir hafði komið, frá því hann sá Vereniku fyrst og til þessarar stundar. „Hvernig leit hún út?“ spurði Tempest, sem leið sálarkvalir við að heyra ævisögu einkabarns síns af annarra vörum. Hann hafði í örvilnan og reiði flutt barnið til St. Kilda, þegar hann yfirgaf konu sína og ætlaði að 5 árum liðnum að vitja þess aftur, en nú voru liðin 16 ár, þegar hann loksins vitjaði Englands aftur. „Hún var ekki beinlínis fríð, en sú áhrifamesta og yndislegasta kona, sem ég hef nokkru sinni séð. Tveim mánuðum eftir að hún kom til Clynord, dó hún,“ sagði Roy. „Dó hún?“ spurði Bisset. „Hafið þér leitað læknisráða? — Ég held þér þurfið fremur lækni en njósnara.“ „Þér eigið enn eftir að heyra nokkuð,“ svaraði lávarðurinn. Í fyrrakvöld, þegar ég sá konu mína síðast, elti ég hana í gegnum hljóðfærasalinn og náði í aðra kjólermina ...“ „Aha,“ tautaði Bisset. „Og reif knipplingaræmu af erminni, sem sýnir að kjóllinn er þó áþreifanlegur. — Sko, þetta er hún.“ Bisset og Tempest skoðuðu knipplinginn. „Þetta breytir kringumstæðunum lávarður,“ sagði Bisset. „Svo svipurinn er lifandi vera.“ „Já, það er enginn efi.“ „Hvernig var hún klædd?“ „Hún var í kjólnum, sem hún var klædd í í kistunni, hvítum silkikjól með skreyttum hálsbúnaði og stuttum knipplingaskreyttum ermum.“ „Og var það andlitsfall hinnar dánu?“ „Augun voru eins dökk, stór og skær — en andlitið var fallegra, hörundsliturinn bjartari og frumdrættirnir gleggri. Hún var svo fögur að ég hélt að hún væri engill.“ „Hafa fleiri séð hana en þér?“ „Ungfrú Monk sá hana og hélt það vera vofu, en ég er viss um að það er lifandi vera. Það er þessi gáta, sem ég ætla að biðja yður að ráða.“ „Maður verður að ætla að þetta sé einhver stúlka sem leikur vofu. Það er líklega enginn efi á að lafði Clynord er dáin?“ „Hún dó í faðmi mínum, lá sex daga á líkpalli og var jarðsett — eða flutt í grafhvelfingu Clynordanna. Og þó þori ég að eiðfesta, að þessi knipplingur er af líkklæðnaði konu minnar.“ „Það er ekki ómögulegt, að sams konar knipplingar séu víða til. Átti lafðin fleiri slíka kjóla?“ „Nei, kjóllinn var fenginn frá einum besta kvenfataklæðskera Lundúnaborgar.“ „Þessi kvenmaður, sem leikur vofu lafði Clynord, hlýtur að hafa einhverja ástæðu. Getið þér hugsað yður nokkurn, sem er á móti giftingu yðar og ungfrú Monk?“ „Nei, engan.“ „Þér megið ekki álíta mig forvitinn, lávarður, en þar eð þér hafið leitað minnar aðstoðar, verð ég að biðja yður að treysta mér, og svara spurningum, sem þér máske álítið ekki koma málinu við. Hvaða manneskja er þessi ungfrú Monk?“ Lávarðinum fannst spurningin nokkuð nærgöngul og svaraði því þurrlega: „Ungfrú Monk er stjúpsystir mín og heitbundin mér, dóttir seinni manns móður minnar, ofursta Monk.“ „Fædd á Austur-Indlandi?“ Lávarðurinn hneigði sig. „Og bróðir hennnar er líka á heimili yðar?“ „Núna, já. Hann er annars ritari hjá lögmönnunum Scott & Reman í Lundúnum.“ „Ójá. Ég þekki Scott & Reman,“ sagði Bisset kuldalega. „Myndarlegt félag. Svo herra Gilbert er ritari þar? Ég þakka fyrir upplýsingarnar. Og herra Monk er líklega fæddur á Indlandi líka? Ég er að vissu leyti hrifinn af Indlandi og Indverjum, því þar er ég fæddur. Faðir minn hafði ábyrgðarmikla stöðu hjá indversku verslunarfélagi. Ég var þar fyrstu níu ár ævi minnar og svo var ég þar seinna. Ég þekki það land og fólk, betur en flestir aðrir. — Fallegt land hérna,“ sagði Bisset og skipti um umræðuefni. „Það er hluti af eignum mínum,“ svaraði lávarðurinn. „Þarna stendur kirkjan þar sem kista konu minnar er niðri í grafhvelfingunni.“ Bisset og Tempest litu báðir til kirkjunnar og tár komu í augu Tempests. Þarna voru þá hinar jarðnesku leifar barnsins hans. „Hver býr þarna lávarður?“ spurði Bisset. „Ráðsmaður minn, herra Sanders, í alla staði hinn áreiðanlegasti maður,“ svaraði Roy. Bisset þagði um stund, laut svo að lávarðinum og sagði: „Lávarður, ég legg við drengskap minn, að ég skal komast eftir þessu leyndarmáli og leiða Clynord-svipinn í ljós!“ 42 Hvar var Verenika allan þennan tíma? Þess var getið að hún flúði inn í höllina og þar hélt hún áfram upp á þakloftið — og inn í lítinn klefa á skammbitaloftinu, en laus stigi lá þangað upp. Hún gekk upp stigann, dró hann svo upp á eftir sér, lét hlerann yfir stigagatið, tók svo ljósker, sem hún hafði geymt þar, og kveikti á því. Enginn gluggi var á klefanum, en gegnum þakið var súgur allmikill. Þetta var felustaður Vereniku og hafði hún borið ögn af matvælum þangað upp. Hún fór nú úr hvíta kjólnum og klæddi sig í gráu ferðafötin, setti hattinn á sig og batt þykka blæju fyrir andlitið. Að þessu búnu lauk hún upp hleranum og hlustaði, en var áður búin að vefja saman hvíta kjólnum og leggja hann á þverbita þar uppi. Fyrst heyrði hún Gilbert læðast ofan og skömmu síðar Roggy, sem bæði höfðu álitið að Verenika væri þar ekki. Verenika beið enn góða stund, svo fór hún ofan en faldi nú ekki stigann, eins og hún var vön, — heldur hélt áfram niður á aðra hæð. Hún þorði naumast lengra ofan, og þorði heldur ekki að vera lengur í höllinni. Hljóðlaust eins og skuggi sveif hún yfir ganginn, og rétt í því heyrði hún að dyr voru opnaðar og fól sig þá í einu gluggaskotinu. Hún var naumast komin í felur, þegar lávarður Clynord kom út frá Gilbert og gekk yfir ganginn til herbergja sinna. Hann var niðurlútur og göngulagið þreytulegt. Hana sárlangaði til að kasta sér í faðm hans og biðja hann að taka sig í sátt sem konu sína. Hann myndi ekki reka mig í burtu, eins einmana og ógæfusöm og ég er, hugsaði hún. Hann er svo eðallyndur og góður. Þegar lávarðurinn var horfinn inn í herbergi sín, stóð hún upp og hraðaði sér ofan hliðarstigann, sem lá ofan í garðinn. Verenika hafði oft gengið um þennan stiga, þegar hún var húsmóðir á Clynord. Vinnufólkið hafði annan stiga til afnota, svo hún þurfti ekki að óttast að hún mætti því. Hún stóð í efstu tröppunni og hlustaði en allt var kyrrt. Hún vissi að Roy var í herbergi sínu og bjóst við að Gilbert og Roggy væru líka háttuð. Hægt og varlega gekk hún af stað ofan stigann. Þetta var svonefndur snúningsstigi og veggir á báðar hendur. Hún var komin hálfa leið, þegar lokið var upp dyrum við neðri enda stigans, og Roggy kom upp stigann með ljós í hendi. Verenika hallaðist upp að veggnum, án þess að geta hreyft sig, svo illt varð henni við. Kerlingin gekk í hægðum sínum upp stigann, og þegar hún er komin hálfa leið, sér hún fótinn á Vereniku, lítur upp og þekkir hana. Það varð þögn nokkur augnablik. Augu kerlingarinnar glóðu, þegar hún þekkti lafðina. Hendin sem á ljósinu hélt skalf, en hina hendina rétti hún í áttina til Vereniku, í því skyni að ná í hana. Þær störðu hvor á aðra. Allt í einu orgaði kerlingin eins og óargadýr, en Verenika beið ekki eftir meiru. Hún þaut ofan stigann og hrinti kerlingunni, sem skoppaði eins og leiksoppur þrep af þrepi, uns hún stöðvaðist fyrir neðan stigann stynjandi af meiðslum. Skjálfandi eins og strá í vindi læddist Verenika út í garðinn. Þar settist hún í skjóli trjánna og grét örvæntandi. Þannig liðu nokkrar stundir. Það var gott að ég borgaði ökumanninum flutninginn frá Osborne og hingað, hugsaði hún þegar hún var orðin ögn rólegri. Ég get ekki farið með honum aftur. Gilbert verður sjálfsagt til staðar á brautarstöðvunum á morgun snemma. Þó ég sé lasin, verð ég að halda af stað gangandi. Klukkan var orðin tvö um nóttina, þegar Verenika fór út úr garðinum yfir á aðalveginn. En ekki var hún örugg um sig fyrr en hún var komin mílu vegar frá höllinni. Hún gekk í hægðum sínum, uns hún undir morgun kom til Newgate. Hún fór undir eins á brautarstöðvarnar, og var svo heppin, að búið var að opna biðsalinn. Staðuppgefin settist hún strax út í horn og beið þess að lestin kæmi. Loksins kom lestin másandi og stynjandi. Umsjónarmaður lestarinnar hjálpaði Vereniku inn í kvennaklefa, og svo rann lestin af stað. Nú var hún óhult og laus við allar hættur. En hve einmana og óhamingjusöm var hún þó. Aldrei á ævi sinni hafði hún fundið eins sárt til ógæfu sinnar og einmitt nú. Það var eins og einhver ný, mikil ógæfa væri í vændum, að henni fannst. 43 Verenika kom til Lundúna um miðjan dag. Hún sá engan á stöðvarpallinum sem hún þekkti, og gekk því róleg yfir á götuna, benti ökumanni að koma með vagn sinn og sagði: „Victoríuveg, þökk fyrir.“ Síðan lagðist hún fyrir á vagnsætið, þreytt og úrvinda. Skömmu síðar var vagninn kominn að húsi frú Sharps, og þegar hún barði að dyrum lauk vinnukonan upp. „Viljið þér ekki gera svo vel að ganga inn til frú Sharp,“ sagði vinnukonan. „Hún óskar eftir að tala við yður og bíður yðar í litla salnum.“ Verenika gekk inn í litla salinn, fann frú Sharp þar og heilsaði henni. „Jæja,“ sagði hún, „svo þér eruð komnar aftur, ungfrú Gwyn. Ég bjóst ekki við því.“ „Þér verðið að afsaka, að ég skil yður ekki til hlítar,“ sagði Verenika. „Þér talið til mín eins og ég væri glæpakvendi.“ „Mér skjátlast ef til vill, en illa lítur það út að læðast burt á kvöldin og koma svo aftur á morgnana eins og þér hafið gert. Ég hélt að þér hefðuð farið til að útvega yður annan ódýrari verustað, fyrst þér tókuð töskuna með. Hafið þér fengið hann?“ „Nei, frú, ég hef ekkert annað húsaskjól en þetta.“ „Getið þér skýrt frá hvar þér hafið verið í nótt — eða kannski þér viljið það ekki?“ „Ég ferðaðist í burtu — og var að koma heim núna.“ „Heimsóttuð þér ættingja yðar?“ „Nei, ég á enga ættingja.“ „Þér hafið máske verið að leita að vist?“ „Nei.“ „Hvaða viðskipti getið þér átt úti á landinu?“ „Ég get ekki sagt yður það frú. Þér hafið enga heimild til að spyrja um mínar ástæður. Þér hafið ekki sagt mér kringumstæður yðar, og því ætti ég þá að segja yður mínar.“ „Ég er heldur ekki ung stúlka meðmælalaus. Ég er virðingarverð kona, og get sannað — get sannað að ég er það. — Komuð þér til að vera hér áfram?“ „Já, frú — ég —“ „Svarið þér þá spurningum mínum fyrst. Hvert fóruð þér í gærkveldi?“ „Til Sussex.“ „Og í hvaða hluta greifadæmisins?“ „Það get ég ekki sagt yður, frú Sharp,“ sagði Verenika alvörugefin. „Ég hef ekkert rangt gert. Ég hef verið þar áður og er kunnug þar. Ég veit ekki hvers vegna þér ætlið mér — ranga breytni, en þér gerið það.“ „Þér hafið máske lesið í einhverju blaðinu um ríkan mann í Sussex, og hafið farið að biðja hann um styrk.“ Verenika roðnaði. „Nei, ég hef ekki betlað ennþá.“ „Þér viljið ekki segja mér orsökina fyrir burtveru yðar í nótt, ungfrú.“ „Nei.“ „Það er auðvitað leyndarmál, sem þér dirfist ekki að afhjúpa — sem stendur í sambandi við fyrra líf yðar?“ spurði frú Sharp. Verenika hneigði sig sem táknaði játningu. Þessi viðurkenning virtist vekja hið illa eðli frúarinnar. „Þér hafið auðvitað heimild til að geyma leyndarmál yðar, en ég vil ekki hafa yður lengur í mínu húsi,“ sagði frú Sharp og benti með hendinni til dyranna, en Verenika fór ekki. „Ég get ekki farið, kæra frú, lofið mér að vera í nótt, ég á enga peninga, enga vini, sem ég get flúið til, lofið mér að vera þangað til ég fæ vinnu.“ „Ég held þér fáið enga vinnu. Hver skyldi vilja kennslukonu, sem hefur leyndarmál að geyma og er úti á nóttunni. Ég vil ekki hafa yður eina stund auk heldur eina nótt.“ „Ég veit ekki hvert ég á að fara.“ „Farið þangað, sem þér voruð í nótt.“ „Það get ég ekki, ég hef enga peninga.“ „Peninga. Þér hafið bæði úr, keðju og men til að selja.“ Vereniku hafði ekki dottið í hug, að unnt væri að fá peninga fyrir þessa muni, sem Gilbert hafði gefið henni. „Máske þér viljið taka þessa muni — sem borgun?“ „Nei, ég læt kalla á lögregluna, ef þér farið ekki starx.“ Þessi móðgun, töluð með hárri og hótandi röddu, hafði tilætluð áhrif. Rjóð í kinnum af reiði fór Verenika án þess að segja eitt orð. Vonlaus og einmana kom hún út á götuna, en reyndi þó af fremsta megni að vera hughraust. — Alls staðar þar sem hún sá herbergi til leigu, spurðist hún fyrir, en árangurslaust. Þannig leið dagurinn. Hún gekk fram og aftur um göturnar eins og í draumi, og vaknaði loks við það að einhver kirkjuklukka sló tíu. „Svona framorðið,“ muldraði hún, „og ég hef verið á gangi síðan í morgun. Hvar ætli ég fái húsaskjól í nótt?“ Hún var svo þreytt, svöng og þyrst, að hún gat naumast hreyft fæturna. „Ég er magnþrota,“ sagði hún við sjálfa sig. „Ég verð að hvíla mig á einhverri tröppunni.“ Hún settist niður á næstu tröppu og lagði blæjuna á bak aftur. Mörgum varð var litið á fagra eðallynda andlitið hennar — en enginn talaði til hennar. Loks kom rauðskeggjaður maður fram hjá, leit á Vereniku og brosti ánægjulega. „Nei, hvað er þetta, eruð það þér,“ sagði hann og tók í handlegg hennar. „Gott kvöld ungfrú.“ Verenika rak upp hljóð. Hún sá að þetta var Flack og sagði: „Leyfirðu þér að leggja hendur á mig?“ „Ég bið fyrirgefningar,“ svaraði hann auðmjúkur. „Mér kom þetta svo á óvart. Hvar hafið þér verið allan þennan tíma? Leyfið mér að fylgja yður til frú Kraul, við eigum heima hér í nágrenninu.“ „Nei, ég vil ekki fara til hennar.“ „En hvert ætlið þér þá?“ „Það veit ég ekki, en ekki til Monks eða ykkar.“ „Herra Monk er í Sussex. Viljið þér ekki vera hjá okkur aðeins í nótt?“ „Jæja, aðeins í nótt vil ég þiggja það.“ 44 Þegar Clynord lávarður kom heim til sín, fór hann með gesti sína, Tempest og Bisset, inní bókhlöðuna. Eftir beiðni Bissets, endurtók lávarðurinn alla söguna um vofuna — og hlustaði leynilögreglumaðurinn með gaumgæfni á hana. Athuganir og spurningar, sem hann kom með öðru hvoru, báru vott um skarpan skilning, svo lávarðurinn fékk annað álit á honum en í fyrstu. „Ég verð að álítast sem gestur yðar, lávarður minn, alveg eins og herra Tempest,“ sagði Bisset. „Hve margir af heimilisfólki yðar vita um stöðu mína?“ „Sylvía Monk, Gilbert Monk, herra Tempest og ég,“ var svarið. — „Ég kvaðst eiga von á gesti, án þess að tilgreina nafn hans.“ „Mér hefði verið kærast, að systkinin hefðu ekki vitað um stöðu mína,“ sagði leynilögreglumaðurinn. „Flestar hefðarmeyjar hafa einhverjar þernur, sem vita allmikið um leyndarmál þeirra, en slíkar þernur eru sjaldnast áreiðanlegar. — Ef Sylvía Monk hefur þernu og segir henni hver ég er, má búast við að hún segi vini sínum eða vinkonu frá því, og seinast vita allir í höllinni hver ég er.“ „Ekki þurfið þér að óttast það. Þerna Sylvíu Monk er mjög illa liðin.“ „Hver er ástæða til þess? ef ég má spyrja.“ „Þernan hennar er gömul indversk kerling, sem var fóstra hennar og hefur fylgt henni síðan hún var barn. Það er engin hætta á því, að hún ljósti upp leyndarmálum Sylvíu; hún umgengst aldrei aðra en hana.“ „Ég hefði gaman af að sjá kerlinguna, svona af tilviljun, mæta henni í ganginum eða þessháttar. Eins og ég sagði, hef ég verið fyrstu tíu ár ævi minnar á Indlandi, og síðan fimm ár — sem fullorðinn maður. Ég þekki Indverja og hef kynnt mér séreinkenni þeirra. — En — svo ég komi aftur að efninu — þér gerið máske svo vel að sýna mér þá staði, þar sem svipurinn hefur sést, svona við tækifæri.“ Lávarðurinn játaði því og spurði Tempest hvort hann vildi líka vera með. „Ef þér leyfið það,“ svaraði hann. „Ég er hrifinn af þessu leyndarmáli, og þá ekki síður lausn þess. Þér hafið nú kynnt mér það og því vil ég taka þátt í ráðningu þess. Það hefur meiri áhrif á mig en þér haldið.“ Bisset leit snöggvast á herra Tempest, og þóttist sjá á svip hans meira en venjulegan áhuga fyrir hinni ókunnu, framliðnu lafði Clynord, og þar sem það heyrði undir stöðu hans, að grennslast eftir leyndarmálum, áleit hann þetta atvik eftirtektarvert. „Já, komið þér með okkur, herra Tempest,“ sagði lávarðurinn og greip hendi vinar síns. „Ég er yður mjög þakklátur fyrir hluttekningu yðar í þessu máli. — Hérna hef ég séð hana.“ Hann hafði fylgt gestum sínum yfir í salinn og hljóðfæraherbergið, og sýndi þeim nú hvar hann hafði séð Vereniku tvisvar sinnum — sömuleiðis dyrnar, sem hún hafði flúið út um. Bisset skoðaði allt nákvæmlega og sagði svo: „Lávarður — ég skal taka að mér að ráða þessa gátu, en þá verð ég að fá að vera sjálfráður, fá að að koma og fara þegar ég vil og fá lykil að einu hliðinu, á fám orðum: mega haga mér sem heimilismaður yðar.“ „Ég gef yður frjálsar hendur í öllu tilliti.“ Lávarðurinn sýndi þeim nú herbergi þeirra og að því búnu gengu þeir að matborðinu. Lávarðurinn kynnti gestum sínum stjúpbróðurinn, sem heilsaði þeim hæversklega. Herra Bisset lést vera spjátrungur — og hafði sjóngler fyrir öðru auganu. Monk áleit hann því vera oflátung, en ekki gagnlegan leynilögreglumann. Þennan mann þarf ég ekki að hræðast, hugsaði hann. Ef ég vissi hvar Verenika væri, gæti ég hlegið að honum. Þjónninn tók af borðinu og fór. „Þér eruð, get ég ímyndað mér,“ sagði Gilbert við Bisset, „orðinn kunnugur allri vofusögunni. Clynord, sem er meðal hinna stærstu óðala á Englandi, hefur hingað til skort aðdráttarafl hinna gömlu óðalshalla: svipi eða hvítar vofur, hefur nú, til allrar lukku, öðlast eina slíka.“ Lávarðurinn, sem ekki líkaði þessi gáski Gilberts, leit til hans allþungbrýndur. „Kannske getið þér sagt mér eitthvað meira,“ svaraði Bisset. Ósjálfrátt hrökk Gilbert við. Honum fannst orðum þessum fylgja sérstök áhersla, en svaraði samt brosandi: „Ég, nei, alls ekkert. Hvort það er heppni eða óheppni, þá hefur mér ekki auðnast að sjá svipinn.“ „Ungfrú Monk hefur þó séð hann,“ segir lávarðurinn. „Ja-á, systir mín hefur séð hann; eða það held ég. Knipplingsræman, sem lávarðurinn náði af kjólermi svipsins, sýnir, að hér er um lifandi veru að ræða, en ekki anda, og ég held, herra Bisset, að þér finnið þá seku meðal vinnufólksins.“ „Ég þakka fyrir ábendinguna og skal ekki gleyma henni. En eftir á að hyggja, lávarðurinn sagði mér, að þér hefðuð staðið við garðsdyrnar á hljóðfæraherberginu, þegar svipurinn, eða hvað menn vilja kalla það, sýndi sig í fyrsta sinni, og þér sáuð ekkert, alls ekkert?“ „Ekki minnstu vitund.“ „Lávarðurinn segir, að þetta kvöld hafið þér verið svo lengi í hljóðfæraherberginu, að enginn hafi getað komið þar inn, án þess þér sæjuð hann. Hafi þessi kvenmaður verið kominn þangað einn á undan yður og falið sig á bak við blómin, — þá hefðuð þér átt að sjá hana, þegar hún kom út úr fylgsni sínu. Og setjum nú svo, að hún hefði getað það, án þess að vera séð eða til hennar hefði heyrst, þá er samt óskiljanlegt, að þér hefðuð ekki séð hana, þegar hún flúði undan lávarði Clynord út um dyrnar, sem þér stóðuð við. — Mjög óskiljanlegt,“ bætti Bisset við. „Ó, það er ekki svo undarlegt,“ sagði Monk, sem fékk meiri og meiri óbeit á sessunaut sínum. „Hún hefur líklega séð mig og ekki farið út fyrr en herbergið var mannlaust. Af því ég sá hana ekki, hlaut ég að álíta þetta missýningar.“ „Þér hlutuð þá líka að álíta, að systur yðar hefði einnig missýnst.“ „Já, henni líka,“ sagði Monk. — Ég má ekki gleyma að segja Sylvíu frá því að ég hafi viðurkennt að hún hafi séð svipinn, en þagað yfir því til að ónáða ekki lávarðinn. Það væri slæmt, ef ég gleymdi því, þó ég haldi að þessi kauði þori ekki að spyrja hana því viðvíkjandi, hugsaði hann. Þessum ásetningi gleymdi hann þó um leið, því í sama bili kom þjónn inn og rétti honum bréf. „Símskeyti,“ sagði hann, reif upp umslagið og opnaði skeytið, sem var sent frá Lundúnum um morguninn. „Strokni skjólstæðingurinn er fundinn. Allt er í reglu. Honum verður haldið þar til þér komið, sem ekki er þörf á strax, þar eð hann er veikur og mun ekki hressast fyrr en að viku liðinni. Scott & Reman.“ Þannig hljóðaði símskeytið, sem var frá Flack. — Monk las það tvisvar, og átti bágt með að dylja gleði sína. Nú gat hann boðið þeim byrginn, bæði Roggy og Bisset. Svo sagði hann við þjóninn: „Það þarf ekkert svar. Hérna er umbun handa sendimanninum, láttu hann fara til gestgjafahússins og fóðra hestinn, ég borga.“ Þjónninn tók við skildingnum og fór. Í þriðja sinn las Monk skeytið. Þegar hann leit upp, sá hann að Bisset horfði á sig. „Hefurðu fengið góðar fréttir, Gilbert?“ spurði lávarðurinn. „Ágætar. Það er símskeyti frá Scott og Reman, sem segir mér, að dálítið gróðafyrirtæki, sem ég réðist í, hafi heppnast og mér er að því mikil ánægja. Hver sá, sem ekki er auðugri en ég er, hlýtur að gleðjast, þó gróðinn sé smár.“ Monk braut símskeytið saman og stakk því í brjóstvasann, en rétt eins og hann væri hræddur um að hann týndi því, tók hann það upp aftur án þess að á því bæri, reif það í smátætlur og stakk þeim í buxnavasann, hallaði sér svo hugsandi aftur á bak í stólnum. Hann áleit hyggilegast að fara ekki strax til Lundúna, þar eð hann gæti með því að vera kyrr, haft augastað á lögreglumanninum, og ef til vill glapið honum sýn. Auk þess var hann hræddur um, að það kynni að vekja grun hjá Bisset, ef hann færi strax. Og þar eð Verenika var nú veik og í vörslu félaga hans, áleit hann sér óhætt að dvelja lengur. Þó áleit hann sér nauðsynlegt að skrifa frú Kraul og Flack. Að lokinni máltíð fór Monk strax til herbergis síns til að skrifa aðstoðarhjúum sínum. Bisset fór strax eftir að Monk var farinn. Lávarðurinn lét söðla tvo hesta, til þess að ríða um skemmtigarðinn og grenndina, ásamt herra Tempest. Skammt á undan þeim gekk maður reykjandi, með göngustaf í glófaklæddri hendi. „Þetta er Bisset,“ sagði Tempest. „Hann hefur líklega verið niðri í þorpinu.“ „Hvað ætli hann hafi fundið þar?“ sagði lávarðurinn. „Ég er viss um að hann veit hvað hann gerir. Bak við þennan látalætis spjátrungshátt dylst hinn glöggskyggni njósnari.“ Á sömu stundu stóð Bisset fyrir utan garðshliðið og gægðist inn. Hins vegar við hliðið stóð Monk og var að opna það. Hann hélt á bréfi í hendinni, sem hann ætlaði með ofan í þorpið, í stað þess að láta það í sameiginlegan póstkassa í höllinni eins og venja var til. Bisset vék til hliðar og tók ofan hattinn fyrir Monk, sem stakk bréfinu í vasa sinn í snatri og skellti hliðinu aftur. Lávarðurinn og Tempest komu til þeirra í þessum svifum. „Ég sé að þér hafið verið niðri í þorpinu, herra Bisset,“ sagði lávarðurinn. „Ég hef gleymt að segja yður, að auk okkar sem í höllinni erum, eru það aðeins dr. Hart, presturinn og ráðsmaðurinn minn, sem vita um þennan svip, svo að í þorpinu hafið þér engar upplýsingar getað fengið.“ „Ég er á annarri skoðun í því efni,“ svaraði Bisset. „Niðri í þorpinu hef ég fengið gagnlegar upplýsingar.“ Hinir ráku upp undrunaróp. „Ég er hræddur um að yður skjátlist,“ sagði Monk. „Þér gerið eflaust réttast í að halda yður að vinnukonunum í höllinni.“ „Á þriðjudagskvöldið sást svipurinn seinast í höllinni,“ sagði Bisset, og gaf engan gaum að orðum Monks. „Sama kvöldið kom ung stúlka frá Osborne, fór úr vagninum í nánd við ysta húsið í þorpinu, og bað ökumanninn að bíða sín. En það grunsamlega við þetta er, að hún kom ekki aftur.“ „Þetta er allundarlegt,“ sagði lávarðurinn. „Haldið þér að þessi stúlka hafi verið leynilegi gesturinn minn?“ „Það er mögulegt,“ svaraði Bisset. „En herra Monk getur máske gefið okkur betri upplýsingar. Hestagæslumaðurinn sagði mér, að hann hefði leigt vagninn í gærmorgun og ekið í honum til Osborne.“ „Það er alveg rétt,“ sagði Monk. „Ég gekk ofan að gestgjafahúsinu til þess að fá vagn að flytja mig til Osborne. Ég átti að senda símskeytið til Scotland-Yard. Ég sá þennan umtalaða vagn vera ferðbúinn og notaði hann auðvitað. Upplýsingarnar sem þér hafið fengið í gestgjafahúsinu, hygg ég lítils virði. Stúlkan hefur líklega verið dóttir einhvers leiguliðans í nágrenninu, sem hefur komið í kynnisför, og álitið að hún fengi ódýrari flutning, ef hún segði ökumanni, að hún yrði með til baka. Menn þekkja nú áreiðanleika þessa fólks.“ Þessi skýring var svo sennileg, að þeir hófu engin mótmæli gegn henni. „Þér hljótið að hafa góða eftirtekt, herra Monk,“ sagði Bisset, „og það lítur svo út, sem þér hafið að minnsta kosti hugsað um þessa ókunnu veru og framkomu hennar. Mitt hlutverk er að finna einn þráðinn hérna og annan þarna og flétta þá saman, svo að þeir geti myndað góðan vef. — Það er því eðlilegt, að inn í þráðinn flækist ónýtir spottar, sem ég verð að kasta burt. Sé ég nú að rekja röng spor, þá þarf ég því heldur að flýta mér til að finna þau réttu.“ Hann tók ofan hattinn og hélt svo áfram. Monk gekk ofan í þorpið, en lávarðurinn og Tempest riðu að stóra garðshliðinu. Einkennilegt bros lék um varir lögreglumannsins, sem gekk í hægðum sínum á eftir ríðandi mönnunum. Sylvía Monk gekk aftur og fram um marmaraflöt hallarinnar, eins og hún var vön. Bisset sá strax hver þetta mundi vera og laumaðist bak við trjárunna til þess að geta horft á þessa indversku fegurð í næði. 45 Sylvía Monk gekk hugsandi aftur og fram um marmaraflötinn án þess að gruna að lögregluþjónninn horfði á hana. Hún vissi að Verenika var lifandi, en gat ekki gert sér grein fyrir hvers vegna hún lét ekki mann sinn vita um það. Hún hélt að Verenika ætlaði að bíða vígslunnar og gera þá opinbert hneyksli, til þess að hefna fyrir glæpinn er framinn var gagnvart henni, sem Sylvía taldi víst að hún vissi um. „Ég bæði get og get ekki skilið þetta,“ muldraði Sylvía. „Það er gáta, sem ég hef engan lykil að. Er það Gilbert sem stjórnar Vereniku og vinnur á móti mér í leyni? En hvaða hag hefur hann af því?“ Hún hugsaði um þetta frá ýmsum hliðum, án þess að finna nokkra lausn. „Um tíma hefur hann sneitt hjá mér,“ hugsaði hún. „Einu sinni áttum við sameiginlega hagsmuni, en nú fer hann sína leið án þess að skeyta um mig. Ég verð að fá að vita í dag, hvers vegna hann bjargaði Vereniku úr grafhvelfingunni og leyfir henni að sveima hér í kring.“ Þegar hún var búin að ráða þetta með sér, fór hún að hugsa um gestina, einkum leynilögreglumanninn. „Ef Verenika væri ekki hér í höllinni — því hvar getur hún annars staðar verið — þá þyrfti ég ekki áð gefa henni neinn gaum,“ tautaði hún við sjálfa sig. „Ég vildi raunar helst geta talað við þennan Bisset, áður en ég finn hann við kvöldverðinn, því þá verð ég að veita herra Tempest fyllstu athygli.“ Tilviljunin var hlynnt Sylvíu að þessu sinni. Þegar Bisset þóttist hafa athugað Sylvíu nógu lengi, yfirgaf hann fylgsni sitt og gekk í áttina til marmaraflatarinnar og veifaði um leið gullbúna sjónglerinu sínu. „Nú, svo þetta er leynilögreglumaðurinn,“ sagði Sylvía rólega. „Hann er sjálfselskur Lundúnaspjátrungur, sem hvert barn getur narrað.“ Með fyrirlitningarbros á vörum hélt hún áfram göngu sinni um flötina. Á meðan gekk Bisset upp tröppurnar, stóð frammi fyrir Sylvíu og hneigði sig. „Að líkindum veitist mér sá heiður og ánægja að hitta ungfrú Monk,“ sagði Bisset. Sylvía leit drembilega á hann. „Já, ég er Sylvía Monk,“ svaraði hún kuldalega, „en ég er ekki svo lánsöm að vita hver þér eruð.“ „Ég heiti Bisset, ungfrú. Sem stendur er ég gestur hér á Clynord.“ „Ó, lögregluþjónninn,“ sagði Sylvía. „Afsakið, ég hefði líklega átt að segja — leynilögregluþjónn. Þeir eru líklega æðstir meðal lögreglunnar þessir leynilögreglumenn. Þér lítið annars út fyrir að vera snyrtilegur maður fremur en leynilögreglumaður.“ „Ég er það líka að ætt og uppeldi.“ svaraði Bisset. „En því miður fylgir auðurinn ekki ávallt góðum ættum. Ég varð að vinna fyrir mér sjálfur og valdi þessa stöðu, meðfram af neyð, en þó aðallega að upplagi mínu. Mér er eiginlegt að rannsaka lundarfar og breytni manna, áform og orsakir þeirra. Ég held að ég sé blátt áfram skapaður til þessara starfa.“ „Og þó standið þér núna gagnvart gátu, sem þér getið ekki leyst,“ sagði Sylvía þægilega. „Annað eins og þetta hefur líklega aldrei komið fyrir yður. Þangað til í gærkvöldi höfum við álitið þetta missýningu lávarðarins, en nú vitum við að það hlýtur að vera kvenmaður. Það sannar knipplingsræman, sem hann náði af kjólermi hennar í gærkvöldi.“ „Alveg rétt,“ sagði Bisset. „En samt sem áður er þetta leyndarmál, og núna, á nítjándu öldinni, að lifa innan um slíkar gátur, það er hræðilegt. Hver er svo tilgangur þessarar stúlku? Er hún aðeins að hræða okkur, eða er orsökin önnur og alvarlegri? Leysið þessa gátu, herra Bisset, og ég skal tvöfalda upphæðina sem lávarðurinn hefur lofað yður.“ Bisset hneigði sig og þakkaði. „Ég er heitbundin lávarðinum,“ sagði Sylvía ennfremur, og 23. næsta mánaðar á vígslan að fara fram. Sem tilvonandi lafði Clynord er mér vofa þessi, sem tekið hefur á sig gervi hinnar framliðnu lafði Clynord, hræðileg.“ „Það skil ég mjög vel,“ sagði Bisset. „Slík eftirlíking getur orðið arðberandi. Hafið þér nokkurn grun um hver þessi kvenmaður muni vera?“ „Það liggur næst að ímynda sér að það sé einhver vinnukonan hérna. En svo getur það líka verið einhver stúlka frá Lundúnum, sem ætlar sér að græða á því hve lík hún er hinni framliðnu. Því Clynord-óðalið er þess virði að gera sér ómak til að eignast það,“ og hún leit um leið yfir það sem sást af Clynord-eigninni. „Já, það er sannarlega eftirsóknarverð eign,“ sagði Bisset og horfði fast framan í Sylvíu. Sylvía Monk sneri sér að Bisset og sá strax aðdáun í augum hans, en Bisset gaf henni ekki tíma til að tala, heldur sagði: „Þar eð yður er áhugamál, að leyst verði úr þessu leyndarmáli, ungfrú Monk, veit ég að þér styrkið mig í því á allan hátt. — Getið þér lýst kvenmanni þessum og klæðnaði hennar fyrir mér?“ „Af því ég hef ekki sjálf séð vofuna, verð ég að vísa yður til lávarðar Clynords í því efni,“ svaraði Sylvía, sem vissi ekki að bróðir hennar hafði sagt það gagnstæða. Bisset horfði fast á hana og sagði: „Hafið þér í hvorugt sinnið séð hana?“ „Nei, í hvorugt sinnið.“ „Jæja, lávarður Clynord sagði mér, að þér hefðuð horft í áttina til hennar, og hvernig getur það skeð, að þér hefðuð ekki séð hana og þó horft á dyrnar?“ „Herra Bisset, mér finnst þér leggja fyrir mig flækjuspurningar,“ svaraði Sylvía, hálf háðuglega, en þó hálf smeyk. „En þar eð ég stend ekki við nein dómaravébönd, verð ég að endurtaka, að ég hef ekki séð svipinn.“ „En bróðir yðar hefur þó sagt, að þér hafið séð hann.“ Sylvía varð svipþung og augu hennar leiftruðu. „Hefur hann sagt það?“ hvæsti hún út úr sér. „Já, hann sagði lávarði Clynord, að þér hefðuð séð hann í bæði skiptin.“ Sylvía varð enn svipþyngri, augun tryllingslegri og brjóstið bifaðist ákaft. Nú var fengin sönnun fyrir því, að bróðir hennar vann á móti henni og hugur hennar fylltist af brennandi hatri til hans. „Orð yðar eru mér næg sönnun, ungfrú Monk,“ sagði Bisset. „Hér á sér einhver misskilningur stað, aðeins fæ ég ekki skilið, að þér sáuð ekki þennan einkennilega gest, fyrst þér horfðuð í áttina til hans.“ „Ég verð að biðja yður — að leggja ekki of mikla áherslu á það, sem aðrir segja að ég hafi séð eða hugsað.“ Hún var að verða rólegri. „Ég horfði alls ekki til dyranna og gat þar af leiðandi ekki séð svipinn.“ Dálítill hrollur fór um hana, svo hún sveipaði kápunni þéttar að sér og fór að ganga fram og aftur um flötina. Bisset gekk við hlið hennar. Þau voru búin að ganga einu sinni fram og aftur, þegar Roggy kom út með indverskt sjal á handleggnum, og gekk í áttina til Sylvíu. Hún var klædd í indverskan og svo einkennilegan búning, að hún vakti athygli Bissets. „Sjaldgæf mynd í okkar hversdagslega Englandi, ungfrú Monk,“ sagði hann. „Hún lítur út eins og fyrirbrigði úr „Þúsund og einni nótt“.“ „Þetta er hún gamla fóstra mín,“ svaraði Sylvía. „Hún er mér trygg og ástrík. Að öðru leyti er það altítt, að aðalsfólk taki með sér indverskar þernur heim til Englands, herra Bisset.“ Roggy kom til þeirra í þessu bili og bað Sylvíu að láta á sig sjalið, hér væri kalt og hún gæti auðveldlega orðið innkulsa. Sylvía gerði eins og hún bað um. Gamla konan leit tortryggnisaugum á lögreglumanninn og sagði síðan lágt, en á indversku: „Gættu þín, augasteinninn minn. Brytinn er nýbúinn að segja mér, að þessi maður sé leynilögreglumaður. Ég gerði mér upp erindi til að aðvara þig. Hann mun reyna að spyrja þig og flækja. Mér geðjast ekki að honum.“ „Ó.“ svaraði Sylvía á sama máli. „Vertu óhrædd, þessi maður er Lundúna-heimskingi, þú þarft ekki að óttast hann, auk þess er ég ávallt á varðbergi.“ „Það er nú gott, barnið mitt,“ svaraði Roggy. „en mér geðjast ekki að honum. Hann lítur að sönnu kjánalega úr, en hann er enginn kjáni, ég sé í gegnum grímuna hans og ég hræðist hann.“ Sylvía brosti. Kerlingin gekk burt í hægðum sínum tautandi: „Það er eitthvað illt á seyði. Maðurinn er refur.“ „Ayah mín er gömul og góð manneskja,“ sagði Sylvía. „sem vakir yfir velferð minni með sömu umhyggjusemi í dag og hún gerði þegar ég var barn. Enda þótt hún geti talað ensku, er henni þó eiginlegast að tala móðurmál sitt — indverskuna. Þér mynduð hafa gaman af að læra hana herra Bisset.“ „Ég er fæddur á Indlandi og fyrsta málið sem ég talaði var indverska.“ Sylvía varð náföl. „Þér skiljið þá indversku?“ stamaði hún. „Já, ég var á Indlandi þangað til ég var tíu ára, og eftir að faðir minn dó, fór ég þangað aftur til að rannsaka málið og þjóðina.“ Sylvía vissi nú að Bisset myndi hafa heyrt og skilið aðvaranir gömlu Roggy. „Ég verð að láta vanþóknun mína í ljósi,“ sagði hún eftir nokkra þögn. „Ég álít það ekki viðeigandi að hlusta á launsamtal annarra.“ „Ég verð að svara yður því, heiðraða ungfrú, að ég álít heldur ekki viðeigandi að nota útlent mál, þegar menn eru til staðar, sem ætlað er að þeir ekki skilji. Að öðru leyti get ég fullvissað yður um það, að ég ætla ekki að nota mér þessa aðvörun fóstru yðar. Áður en ég sá hana var ég kominn að vissri ályktun í vofugátunni.“ „Má ég spyrja — í hvaða átt sú ályktun gengur.“ „Mér þykir slæmt að geta ekki sagt yður það; í þeim efnum segi ég engum neitt. En það megið þér vera vissar um, að fyrst ég tók að mér þessa rannsókn leyndarmálsins ætla ég ekki að hætta, fyrr en ég get leyst úr því.“ Hann talaði nú ekki lengur spjátrungsmállýsku, en var alvarlegur og virtist hugsa um hvert orð áður en hann sagði það. Sylvíu fannst eins og hótun lægi bak við orð hans, enda sá hún nú, að svipur hans var alvarlegur og ígrundandi. „Þér munið sjálfsagt, að ég lofaði yður stórkostlegri borgun ef fyrirtæki yðar heppnast, herra Bisset. Mér er áríðandi að þessi lævísa kona náist og fái sína hegningu, og ég skal ráða yður til að hafa gætur á vinnukonunum.“ „Ég þakka yður fyrir ábendinguna, en ég er búinn að ákveða aðferð mína í þessu efni og ég fylgi henni fyrst um sinn. Ég bið yður að afsaka, að ég hef tafið fyrir yður, og þakka innilega fyrir hina mikilsverðu aðstoð, sem þér hafið veitt mér.“ Hann lyfti hattinum, hneigði sig og gekk burt í hægðum sínum. Sylvía horfði á eftir honum í þungu skapi. „Við hvað á hann með „aðstoðinni“ sem ég hef veitt honum? Hver gat ímyndað sér að hann kynni indversku? Og hvernig endar þetta?“ Hugsandi og kvíðin fór hún aftur að ganga um flötina. 46 Bisset gekk inn í höllina og beina leið til bókhlöðunnar. Þar sátu þeir lávarður Clynord og Tempest og voru að spjalla um eitt og annað. Tempest hafði enn ekki sagt lávarðinum — að Verenika hefði verið einkabarn sitt og þar eð hún var nú dáin, áleit hann réttast að sleppa því. Þeir urðu báðir hissa þegar Bisset kom. „Komið þér óhikað til okkar,“ sagði lávarðurinn með innilegri kurteisi. „Hafið þér fundið nokkra slóð? Nei, það hafið þér auðvitað ekki — Þér eruð ekki búinn að vera hér nema nokkrar stundir.“ „Lávarður,“ sagði Bisset alvarlegur, „ég þori að ábyrgjast yður að ég er á réttri leið, en þó er ég ekki enn búinn að átta mig á öllu, og vil því biðja yður að ljá mér hest með reiðtygjum; ég verð að fara burt um stund og kem máske ekki aftur fyrr en í fyrramálið.“ „Þér eruð algerlega sjálfráður, herra Bisset, farið og komið eftir eigin vild. Hér er lykillinn, sem þér báðuð mig um.“ Lávarðurinn hringdi og þegar þjónninn kom, sagði hann honum að leggja á hest handa Bisset. Bisset beið þangað til þjónninn kom aftur, þá kvaddi hann og fór. „Ég geri eins rétt í að byrja strax,“ tautaði hann við sjálfan sig um leið og hann sté á bak, og svo reið hann með hægð ofan trjágöngin, þar mætti hann Sylvíu og heilsaði henni kurteislega, og hélt svo áfram ofan í þorpið og mætti Gilbert þar. Hvert skyldi hann ætla núna? hugsaði Monk. Hann er sjálfsagt að leita að svipnum, og það má hann mín vegna; Verenika er vel geymd. Bisset dvaldi ekki lengi í þorpinu, fann hestageymslumanninn í gestgjafahúsinu snöggvast að máli og hélt svo áfram til Osborne. Hann var búinn að útvega sér nafnið á ökumanni þeim, sem flutti Vereniku síðast til Clynord-þorpinu. Þegar hann kom til Osborne, fór hann strax til heimilis hans, en þá var hann staddur á brautarstöðvunum. Bisset fór þangað og fann loks manninn. Hann fór að tala við manninn, og þegar Bisset var búinn að gefa honum drykkjuskilding, þá sagði hann honum allt um stúlkuna, sem hann flutti til Clynord. Hún hafði verið grannvaxin, fyrirmannleg í framkomu, röddin ungleg og þægileg. „Að það var stúlka úr flokki heldri manna, það þori ég að eiðfesta,“ sagði ökumaður. Hún hafði beðið hann að flytja sig til Clynord-þorpsins, bíða þar eftir sér svo sem tvær stundir og flytja sig svo aftur sömu leið. Af því þetta var næturferð, kvaðst hann hafa krafist tvöfaldar borgunar, sem hún greiddi umyrðalaust. Þegar þau komu að ystu húsunum, sté hún út úr vagninum, sagði honum að halda áfram að gesthafahúsinu og bíða sín þar. Þetta gerði hann, en hún kom ekki aftur. „Með öðrum orðum, hún narraði yður,“ sagði Bisset. „Hún hefur líklega verið dóttir einhvers leiguliðans eða húsmannsins þar í grenndinni.“ „Nei, leiguliðadóttir var hún ekki. Þegar hún fór var göngulag hennar og limaburður líkt og prinsessu. Ég tók strax eftir því að hún var vön að segja fyrir, og ég er viss um að hún ætlaði með mér aftur. Hún var heldri kvenmaður, á því er enginn vafi — ég þekki fólkið.“ „En því kom hún þá ekki aftur?“ „Það veit ég ekki. Henni hefur máske orðið illt; hún var nokkuð veikluleg.“ Bisset spurði hann enn ýmissa spurninga, en sá brátt að hann vissi ekki meira. Hann var og ánægður með þetta, rétti manninum skilding og sagði: „Hvað heitir næsta brautarstöð þar sem hraðlestin stansar?“ Ökumaður nefndi nafn hennar og svo hélt Bisset áfram. „Hafi þessi óþekkta stúlka orðið hrædd við það að lávarðurinn náði í knipplingsræmu af ermi hennar, og vilji hún ekki láta þekkja sig, þá hefur hún ekki farið til Osborne, því hún gat búist við að lávarðurinn sendi þangað að njósna um sig og hefur því farið til næstu brautarstöðvar hins vegar við Osborne, til Newgate og þangað fer ég því,“ tautaði Bisset við sjálfan sig. Svo herti hann á hestinum og reið áfram sem leið liggur til Newgate. Enda þótt hann á leiðinni tæki sér nægan tíma til að horfa yfir landið, þar sem vorvinna var byrjuð, þá var hann þó ekki fulla klukkustund á leiðinni til járnbrautarstöðvarinnar. Eimlest var komin að því að fara. Járnbrautarþjónninn sat geispandi innan við opinn gluggann á farmiðasölunni og beið þess að einhver farþegi kæmi. Bisset fór af baki, beiddi mann sem þar var að halda í hestinn, en gekk sjálfur að farmiðasölunni. „Vantar yður farmiða? Hvert?“ spurði járnbrautarþjónninn. „Gerið yður ekkert ómak,“ sagði Bisset brosandi. „Ég vil helst vera hér. Má ég bjóða yður vindil? Ég kem til að biðja yður um fáeinar upplýsingar, sem ég veit þér getið veitt mér. — Ung stúlka fór með lestinni héðan í gærmorgun til Lundúna, og af því að ég hef ekkert frétt af henni, er mér farið að leiðast. Satt að segja þá fór hún án vilja og vitundar ættmenna sinna. Hún var í gráum ferðafötum, með blæju fyrir andliti.“ Járnbrautarþjónninn lyktaði af vindlinum og stakk honum svo í vasa sinn. „Humm,“ svaraði hann, sem merki þess að honum líkaði vindlillinn. „Ung stúlka, eins klædd og þér segið, kom hér í gærmorgun og fór með lestinni til Lundúna. Hún var dauðþreytt, eins og hún hefði gengið langa leið. Ég sá ekki andlit hennar fyrir blæjunni, og get því ekki gefið fleiri upplýsingar.“ „Það er þá áreiðanlegt að hún hefur farið til Lundúna?“ „Á því er enginn efi.“ Bisset kvaddi og gekk til hests síns. Svo reið hann í þungum þönkum heim á leið til Clynord aftur. Mér hefur gengið betur en ég bjóst við, hugsaði hann. Svo vofan er farin til Lundúna. — Hún hefur þar aðalaðsetur sitt. — En eitt er víst, hvíta stúlkan er kunnug í Clynord-höllinni, fyrst hún getur látið sjá sig hingað og þangað, og svo horfið aftur. Mér finnst ég skilja þetta betur og betur. En það er ekki búið enn. Bisset herti nú á hestinum og reið harðara, enda kom hann svo snemma til Clynord, að hann hafði tíma til að skipta um fatnað, áður en hann settist að miðdegisverði. Þegar hann kom inn í borðsalinn, kom lávarðurinn á móti honum og heilsaði honum innilega, án þess að minnast á ferðalag hans. Skömmu síðar komu Tempest og Gilbert, og síðast kom Sylvía Monk. Lávarðurinn gekk á móti henni og leiddi hana að borðinu. Að lokinni máltíð fóru þau öll inn í salinn og neyttu þar kaffis. Sylvía lék á hljóðfæri og söng, og svo sagði herra Tempest sögur frá ferðalagi sínu. Þannig leið kvöldið. Klukkan ellefu fóru Sylvía og Gilbert, sem þráði að tala við systur sína, ekki síður en hún við hann. Nokkrum mínútum síðar ætlaði Tempest líka að fara. „Má ég biðja yður að dvelja augnablik, herra Tempest.“ sagði Bisset. „Ég hef dálítið að segja lávarðinum, og ég býst við að hann vilji að þér heyrið það líka.“ „Já, það vil ég,“ sagði lávarðurinn. Bisset gekk að dyrunum, lauk þeim upp og gægðist út til að sjá hvort nokkur væri í ganginum, læsti þeim svo og gekk til sætis síns. „Ég hef fengið vissu fyrir því, að Clynord-svipurinn kom hingað á þriðjudagskvöldið með eimlestinni frá Lundúnum. Hún ók í vagni frá Osborne til þorpsins hérna og bað ökumanninn að bíða sín í 2 til 3 klukkustundir til þess að flytja sig til baka. Af því hún mætti yður og nærri því náðist, varð hún hrædd og gekk svo alla leið aftur til Newgate og fór þaðan með eimlestinni til Lundúna. Hún er ung og eftir framkomunni að dæma heldri kvenmaður. Hún er í gráum ferðafötum með gráa blæju.“ Lávarðurinn og Tempest litu undrandi á lögreglumanninn. „Ég hef ástæðu til að ætla,“ bætti Bisset við, „að stúlkan hafi eitthvert áreiðanlegt fylgsni hér í höllinni, þar sem hún geymir hvíta kjólinn sinn og hefur fataskipti og því langar mig til að rannsaka öll loftin í návist yðar og Tempests. Haldið þér að við getum það í kvöld, án þess að vekja eftirtekt?“ „Það getum við. Ég ætla að kalla á stjúpbróður minn, svo hann geti verið með.“ „Mér þætti vænna um, að þér gerðuð það ekki, lávarður. Er ekki mögulegt að við þrír getum farið upp?“ „Jú, jú,“ svaraði Clynord. „Bíðið þér litla stund.“ Hann hringdi á þjón og bað hann að koma með 3 ljósastjaka. Þjónninn kom strax með þá. „Nú getum við hafið rannsóknarferð okkar þegar þér viljið, herra Bisset,“ sagði lávarðurinn. „Mér er forvitni á að sjá hvíta kjólinn, ef hann finnst hér í höllinni.“ Hann gekk á undan upp stigana upp í þakherbergin. Lávarðurinn og Tempest voru áhyggjufyllir yfir árangrinum af þessari leit, en Bisset var rólegur, eins og sá sem á vísan sigurinn. 47 Meðan Clynord lávarður, Tempest og Bisset voru að skoða þakherbergin, voru Sylvía og Roggy að spjalla saman. Sylvía var að hafa fataskipti, þegar barið var með hægð á herbergisdyr hennar. „Það er Gilbert,“ sagði hún, „ljúktu upp fyrir honum, Roggy.“ Roggy hleypti Gilbert inn og læsti svo dyrunum þegjandi. „Þú ert óvæntur gestur,“ sagði Sylvía. „Mér hefur fundist þú flýja mig í seinni tíð. Viltu ekki fá þér sæti.“ „Jú, ég þakka,“ sagði Gilbert og settist í hægindastól. „Ég þóttist sjá það á þér, að þú vildir tala við mig. En hvar er gamla nornin — hún Roggy?“ Roggy var sest á hækjur sínar út í horn, til þess að heyra hvað Gilbert segði. Eitthvað tautaði hún sem svar við orðinu „norn“ og var ekki svipblíð. „Það sem ég ætla að segja þér, Sylvía, vil ég ekki að fleiri heyri en þú. Sendu kerlinguna í burtu.“ „Þú getur ekkert sagt mér, sem ég vil ekki að Roggy heyri. Ég ber fullt traust til hennar og hún verður hér.“ „Gott. Ég þykist vita, að þú trúir henni fyrir flestu eða öllu, einkum síðan visst atvik átti sér stað. Nú, þú um það, en ég þarf samt ekki að eiga hana fyrir trúnaðarvin fyrir því. Það sem ég hef að segja er, að hallarvofan er lifandi manneskja, en enginn svipur frá öðrum heimi. Þú hefur hlotið að sjá hana tvisvar. Ég hef af þessari ástæðu orðið að segja lávarði Clynord, að þú hafir séð svipinn, en neitað því af umhyggju fyrir honum. Ég ætlaði að segja þér þetta fyrr í dag, en ég gat það ekki vegna anna — og þar sem hvorki Bisset né lávarðurinn hafa fengið tækifæri til að tala við þig undir fjögur augu, þá er engrar hættu að vænta úr þeirri átt. Þetta er það, sem ég ætlaði að segja þér. Gættu þín nú.“ Sylvía stóð fyrir framan hann og starði á hann. „Bíddu dálítið,“ skipaði hún. „Hvers vegna sagðirðu Roy að ég hefði séð svipinn?“ „Af því hann spurði mig að því. Hann vissi að þú horfðir í þá átt og fyrst það er nú sannað, að þetta er lifandi vera, þá hlaustu að sjá hana. Með því að segja að þú hafir þagað yfir þessu hans vegna, er þér innan handar að bjarga þínum málstað. Eins og ég sagði, þá var þetta mitt erindi hingað og ég sé því enga þörf á að lengja samtalið.“ Hann stóð upp. „Þú verður að gera þér að góðu, að dvelja enn dálitla stund,“ sagði Sylvía. „Ég þarf að tala meira við þig. Fáðu þér sæti.“ Monk lét sem ekkert væri og settist. „Nú, jæja, hvað hefurðu að tala um?“ „Í fyrsta lagi, að tilkynningin sem þú gafst mér, kom of seint.“ „Of seint?“ „Já, of seint. Ég er búin að tala við Bisset. Hann spurði mig um þessa leynilegu veru, sem við köllum svip. Ég neitaði að hafa séð svipinn, eins og ég gerði gagnvart Roy, og þá lét hann mig vita, að þú hefðir sagt það gagnstæða. En hvernig dettur þér í hug, að sletta þér inn í mín mál og segja, að ég hafi séð svipinn?“ „Ég gat ekki annað. Eins og á stóð, þá var ég kominn í bobba, en ég ætlaði að láta þig vita þetta nógu snemma. Lögreglumaðurinn er meðalgreindur maður, Lundúna-spjátrungur, sem skiptir hárinu yfir miðju enni og notar ilmvatn, maður, sem á stöðu sína að þakka verndarskjóli göfugra ætta.“ Reiðibros lék um varir Sylvíu. „Ertu svona glámskyggn?“ sagði hún, „svona blindur og heimskur. Bisset er einn af slægustu lögreglumönnum Lundúnaborgar. Undir spjátrungsgervi sínu hylur hann hið sanna eðli sitt. Hann er blóðhundur í mannsgervi. Meðalgreindur maður! Þú hefur aldrei skoðað nokkurn mann frá jafn röngu sjónarmiði. Hann er djarfur, hættulegur — óttalega hættulegur.“ „Þú tileinkar honum alla eiginleika skáldsagnanjósnara,“ sagði Monk háðslega. „Ég hef heldur sagt of lítið, en of mikið um hann. Í dag var ég að ganga um marmaraflötina ásamt honum, þá kemur Roggy út og segir mér á indversku að vara mig á þessum manni. Þegar hún var farin aftur, segir hann mér, að hann sé fæddur á Indlandi og skilji indversku til hlítar.“ „Bölvaður.“ „Já, er það ekki? Hve mikið hann veit eða grunar, hef ég enga hugmynd um, en ráðist maður í eitthvað mikið, er maður aldrei of varkár.“ „Ég get ekki ætlað að hann gruni neitt — Hann er þó ekki nema maður og getur aðeins séð það sem fyrir augun ber.“ „Þú heldur það, en ég endurtek að hann er blóðhundur í mannsgervi og gæddur sömu rannsóknar eðlisgáfu og þeir. Þú hefur síðastliðið ár unnið á móti mér, Gilbert, en ég hygg þú gerðir betur í því að vera með mér en móti.“ „Að hvaða leyti hef ég unnið á móti þér?“ Sylvía laut að honum og hvíslaði: „Hvar er Verenika Clynord?“ Monk hrökk við og roðnaði. „Er hún ekki í kistunni sinni?“ svaraði hann og reyndi að jafna sig. „Heldurðu að þú getir narrað mig, Gilbert? Ég veit að Verenika er lifandi. Hvar er hún?“ Gilbert áttaði sig fljótlega, því hann fann að Sylvía var á sínu valdi og svaraði glaðlega: „Lafði Clynord er í Lundúnum.“ „Ég hélt að hún væri hérna í höllinni,“ sagði Sylvía, sjáanlega hughraustari. „Hvar í Lundúnum er hún?“ Roggy hlustaði með athygli. „Ég sé enga nauðsyn á að segja þér það,“ svaraði Gilbert. „Hún er í öruggri geymslu.“ „Þangað til ég finn hana,“ tautaði Roggy. „Ég giska á, að það hafi verið þú, Gilbert, sem bjargaðir henni úr grafhvelfingunni fyrir 16 mánuðum síðan,“ sagði Sylvía. „Já,“ svaraði Gilbert og sagði henni hvernig hann fór að því. „Og síðan hefur hún verið undir þinni vernd?“ „Já.“ „Hvert fórstu þá með hana?“ „Það er mitt leyndarmál.“ „Af hvaða ástæðu bjargaðir þú henni?“ „Það er einnig mitt leyndarmál.“ „Það skal einnig verða mitt, þó ég þurfi að slíta það úr hjarta þínu til að ná því. Þú hefur ætlað að geyma Vereniku þangað til á giftingardegi mínum. Þá ætlaðir þú að segja Clynord að hún væri lifandi og krefjast greiðslu í staðinn.“ „Þér skjátlast. Verði mér mögulegt að leyna Clynord því, að Verenika sé lifandi, þá geri ég það.“ „Þú ætlar þá að geyma hana sem endalaust keyri á mig, til þess að neyða mig til að borga þér peninga, þegar þér hentar.“ „Ekki beinlínis, þó býst ég við að þú, sem lafði Clynord, látir mig fá myndarleg árslaun.“ „Ég skal borga þér þrefalt ef hún deyr.“ „Ekki líkar mér það. Hún verður að lifa. Ef ég á að segja eins og er, Sylvía,“ sagði Gilbert og roðnaði, „þá elska ég Vereniku. Þú hefur sjálf séð hve, fögur hún er orðin þetta árið, hve mjög hún hefur þroskast. Ég fékk franska kennslukonu handa henni og hún hefur tekið svo miklum framförum, að hún getur jafnast á við hvaða heldri konu í hverju sem er. Hún er eins eftirsóknarverð kona — og nokkur kvenmaður getur orðið.“ „Fyrr hefði ég haldið að himnarnir dyttu niður, en að þú yrðir ástfanginn í Vereniku. Hún er miklu þroskaðri en hún var, það er satt, en ást þín til hennar geymir í sér hættu fyrir mig.“ „Á hvern hátt? Þú giftist lávarði Clynord og ferð með honum til meginlandsins, en ég kvænist Vereniku og læt hana vinna eið að því, að hún segi aldrei hver hún sé. Þegar við erum gift, fer ég til framandi landa og dvel þar það sem eftir er ævinnar; mér er sama hvar er.“ Sylvía horfði fast á hann og fann að hann talaði af sannfæringu. „Fyrir 16 mánuðum elskaðir þú ekki Vereniku. Þú hefur haft annan tilgang með að bjarga henni úr grafhvelfingunni — segðu mér hver hann var.“ „Nú, jæja, ég get sagt þér sannleikann. Sem félagi Scotts & Reman komst ég að því hverrar ættar hún var, og ásetti mér þá strax að ná í hin miklu verðlaun, sem boðin voru fyrir upplýsingar um hana.“ „Þú veist þá hver Verenika er, og hefur ávallt vitað það; slíkt hefur mér ekki dottið í hug að ætla þér. Hver er hún?“ „Það get ég ekki sagt þér, systir mín. Sumt af leyndarmálum mínum verð ég að geyma hjá sjálfum mér.“ „Er hún aðalborin? Er hún erfingi að miklum auði?“ „Mjög sennilegt. Ég hélt að þú þekktir mig svo vel, að þú gætir rennt grun í, að ég réðist ekki í slíkan tilkostnað og ég hef gert fyrir Vereniku, vegna óbreyttrar borgaradóttur.“ „Hvers vegna skildi faðir hennar hana eftir á St. Kilda?“ „Ég held það sé best fyrir þig, systir, að þú þekkir sem minnst til Vereniku. Hún er af góðum, gömlum og auðugum ættum, það er víst. Hún á ættingja, sem myndu gefa mér auð fjár, ef ég færi með hana til þeirra, en það geri ég ekki fyrr en við erum gift og hún hefur lofað að þegja um sína liðnu ævi. Þú mátt treysta mér, Sylvía, Clynord skal aldrei fá að vita um endurlífgun Vereniku.“ „Gilbert,“ sagði Sylvía í dimmum róm, „er ekki betra að Verenika deyi? Ég skal greiða þér meira en ættingjar hennar, ef hún deyr.“ „Ég efast ekkert um að þú myndir borga mér rausnarlega, ef þú værir sjálfráð. En heldurðu að Clynord myndi samþykkja það? Þú mátt ekki gleyma því, að þú leggur ekkert í búið. — En eftir á að hyggja, hafið þið komið ykkur saman um giftingarsamningana?“ „Já, og hann ætlar mér rífleg árslaun.“ „Það er gott,“ sagði Gilbert og stóð upp. „Þú ert að upplagi eyðslusöm og þér mun varla veita af þeim. En ég þrái líka auð, og hann fæ ég með Vereniku. Nú þekkir þú mín leyndarmál og ég þín, svo nú getum við unnið saman.“ Reiði og hatur ólgaði í huga Sylvíu, en hún áleit réttast að láta ekki á því bera. „Þú segir satt,“ sagði hún, „mér þykir vænt um að þú vinnur ekki á móti mér; ég skal launa tryggð þína ríkulega.“ Gilbert varð hissa að heyra systur sína tala þannig; hann horfði fast á hana og rétti henni svo hendina. „Þú getur óhult reitt þig á mig,“ sagði hann. „En nú verð ég að fara. Mér heyrist gengið um stigann, og ef það er þessi ræfils njósnari, sem er á ferð, þá er réttara að ég sé í mínu herbergi, og svo vil ég einnig líta eftir gerðum hans.“ Hann gekk til dyranna. Roggy leit spyrjandi á Sylvíu. Hún kinkaði kolli. Þá stóð Roggy upp og opnaði dyrnar. Án þess að líta við henni fór Gilbert út. Roggy lokaði á eftir honum og hlustaði eftir hvort hann færi, leit svo á Sylvíu og sagði: „Hvað eigum við nú að gera? — Ætlarðu að ganga í lið með honum?“ „Nei, þvert á móti, nú skal heyja stríð,“ sagði Sylvía. „Ég verð aldrei óhult meðan Verenika lifir. Hún samþykkir aldrei að giftast Gilbert. Hún elskar Roy of heitt til þess að geta það. Hún mun hefna sín á mér og gefur sig í ljós, þegar henni þykir tími til. Ég stend á eldgíg, Roggy. Hún verður að deyja.“ „Jæja, þá skal hún líka deyja.“ „Þegar lögregluþjónninn er farinn, fer Gilbert til Lundúnaborgar til að gæta Vereniku. Þú verður að elta hann, komast að hvar Verenika á heima og kveðja hana í síðasta sinn. Þú skilur mig. — Vertu þögul eins og gröfin, miskunnarlaus eins og dauðinn. Öll mín ókomna ævi er í veði.“ Roggy brosti illilega og hneigði sig. Gilbert læddist til herbergis síns. Hann stóð kyrr litla stund, og þegar hann þóttist viss um að Bisset væri að rannsaka loftherbergin, læddist hann upp stigana, hvern á fætur öðrum. Þegar hann var kominn að efsta stiganum, mætir hann allt í einu Clynord, Tempest og Bisset. Um leið og hann leit á þá, og dálítinn böggul, sem Bisset hélt á, vissi hann strax að þeir höfðu fundið markverðan hlut. Frú Kraul og Flack áttu heima í tveim kvistherbergjum, dimmum og lélegum. Eigandi hússins var frændkona frú Kraul og þegar Verenika strauk úr hótelinu, flutti frúin þangað til að bíða eftir því sem tíminn leiddi í ljós. Flack svaf í þakherbergi í nágrenninu. Inn í þetta hús og upp á loft fylgdi Flack Vereniku og barði að dyrum. „Kom inn.“ Flack lauk upp og gekk inn og fylgdi Verenika honum hikandi. Herbergið var hlýtt, ljós stóð á borðinu, ásamt maskínu, kjöti, smjöri og brauði. Frú Kraul ætlaði að fara að borða. „Ert það þú, Falck?“ sagði hún. „Ég hélt að þú værir ekki kominn.“ „Ég hefði heldur ekki komið fyrr en í fyrramálið, ef ég hefði ekki fundið sameiginlegan kunningja okkar. Gettu hver það er.“ „Líklega ekki ungfrú Gwyn?“ „Jú, einmitt hún,“ sagði Flack og gekk til hliðar. Með gleðiópi stóð frú Kraul upp, þaut til Vereniku og faðmaði hana að sér. Verenika losaði sig úr faðmi hennar og þvingaði sig til þess að brosa um leið. „Setjist þér niður, ungfrú Gwyn, þér eruð svo þreytulegar,“ sagði frúin. „Það væri heppilegra að hjálpa henni úr yfirhöfninni fyrst og gefa henni svo te. Hún er svöng og þyrst; sérðu það ekki?“ sagði Flack. Frú Kraul setti strax tebolla fyrir Vereniku, sem hún tæmdi viðstöðulaust. Flack skar fáeinar sneiðar af brauðinu, smurði þær og ýtti svo diskinum til Vereniku. Ekkert var talað meðan hún borðaði. Maturinn og teið færði dálítinn roða í kinnar hennar. „Guði sé lof, nú lítið þér betur út,“ sagði frúin. „Viljið þér ekki bragða á kjötinu?“ „Nei, ég þakka, nú er ég mett,“ sagði Verenika gekk að ofninum og hélt höndunum yfir honum. Frú Kraul settist að borðinu og benti Flack að gera það sama. „Hvar fannstu hana?“ spurði frúin. „Á götunni. Hún sat á húströppu skammt héðan. Hún lítur illa út. Ég er viss um, að hún hefur ekki fengið góðan mat síðustu vikurnar. Ég er ekki viðkvæmur, segir fólkið, en ég kenni í brjósti um hana. Ég veit ekki af hverju, en mig grunar ávallt að herra Monk ...“ „Þey,“ sagði frúin og leit aðvarandi augum til hans. „Nú, jæja, ég skal þegja,“ tautaði hann. „Ég ætlaði bara að segja, að það séu ekki ætíð stærstu þrælmennin, sem lenda í betrunarhúsinu.“ Frúin leit á hann hörkulega, svo hann þagnaði. „Það var undarlegt að þú skyldir finna ungfrúna í svona stórri borg. En hvað herra Monk verður hissa og ánægður. Þú verður að síma honum á morgun.“ Þegar þau voru búin að borða, fór Flack til herbergis síns, en frú Kraul bar matinn burt og bjó síðan um sig á legubekknum. Sitt eigið herbergi léði hún Vereniku. „Hérna er ljós,“ sagði hún, „og hvílið yður nú vel, góða barn.“ Verenika var fegin því, að frúin spurði hana einskis, þakkaði henni því vingjarnlega og sofnaði von bráðar. Frú Kraul læddist inn, þegar Verenika var sofnuð, og skoðaði í peningapyngju hennar, en fann þar aðeins fáa skildinga. „Til að flýja burtu skortir hana efni,“ tautaði frúin. Svo tók hún ljósið og gekk til hvíldar. Morguninn eftir var hún snemma á fótum. Verenika ætlaði líka að fara á fætur, en var of máttfarin til að geta það. Frúin færði henni góðan morgunverð, og þegar kominn var miður dagur, gat hún klætt sig og farið fram í fremra herbergið. Flack hafði farið að hringja í Monk og var ekki kominn aftur. Þótti Vereniku vænt um það, því henni stóð ávallt stuggur af honum. Frú Kraul bjó til ágætan miðdegisverð og borðaði Verenika vel. Að því búnu sagði hún: „Ég er yður innilega þakklát fyrir alla þá góðvild, sem þér hafið sýnt mér, og vona, að sá dagur komi, að ég gæti endurgoldið hana. Ég vil ekki vera yður til byrði lengur, þó ég búist ekki við að geta útvegað mér kennslukonustöðu í dag.“ „Nei, þér eruð hreint ekki færar um það,“ sagði frúin. „Yður dettur þó ekki í hug að yfirgefa mig strax? Hvernig ætlið þér, jafn ung, að komast af hér í Lundúnum?“ „Vinna fyrir mér.“ „Það eru draumórar. Já, misvirðið ekki þetta orðatiltæki, ungfrú Gwyn. Hvers vegna stríðið þér á móti gæfu yðar? Þér eruð of fallegar til að vinna fyrir yður. Og svo er til maður, sem vill strá rósum á lífsbraut yðar — hann herra Monk. Hann hefur frelsað líf yðar. Er ekki mögulegt að þér viljið verða konan hans?“ „Frú Kraul,“ sagði Verenika. „Ég veit, að yður gengur gott til að tala þannig, en samt vil ég ekki hlusta á orð yðar. Ég ætla aldrei að giftast. Herra Monk verðskuldar að eignast konu sem elskar hann, en það get ég ekki. Ég fór frá honum af þeim ástæðum, að ég vil ekki þiggja velgjörðir hans, þar sem mér er ómögulegt að veita honum það sem hann girnist. Ég ætla sjálf að vinna fyrir mér og borga honum það sem hann á hjá mér. Ég er enn ung og frísk og ætti að geta það.“ „Máske herra Monk lánist betur en mér að vekja aðrar skoðanir hjá yður?“ „Herra Monk, kemur hann hingað?“ „Já, að tveimur dögum liðnum, býst ég við.“ „Hann má ekki finna mig hér. Frú Kraul, þér eruð kona og ættuð því að skilja tilfinningar kvenna. Ég er bundin manni, sem þó ekki er bundinn mér og þeirri ást ætla ég að vera trygg á meðan ég lifi, enda þótt hann ætli nú að kvænast annarri stúlku. Hver andardráttur minn og hvert æðarslag, já, sál mín og hugsun, er hans. Ég hvorki vil né get átt herra Monk.“ „Þannig hugsið þér núna, ungfrú, en það breytist. Ef ekkert annað getur komið yður að giftast herra Monk, þá gerir fátækt yðar það og vandræði.“ „Aldrei, aldrei.“ „Tíminn leiðir það í ljós. Kennslukonustöðu fáið þér aldrei. Herra Monk elskar yður og mun láta yður líða vel. Hann hefur gert svo margt og mikið fyrir yður. Úrið, festin og fötin sem þér eruð í, hvaðan er það?“ „Frá honum — hann hefur gert mér mikið gott.“ „Menn eyða ekki peningum sínum tilgangslaust á þennan hátt. Monk elskar yður heitar en sitt eigið líf. Þér eigið að launa honum lífgjöfina, og því viljið þér þá ekki jafna reikninginn?“ „Ég vil ekki heyra meira af þessu, frú Kraul, ást mína á annar maður, nú og ávallt. Ég má ekki vera hér þegar Monk kemur. Snemma á morgun verð ég að fara. Þér hafið verið mér mjög góð og ég skal aldrei gleyma því.“ „Það er á yðar valdi að breyta eins og yður þóknast. Ég vil aðeins mælast til þess að þér bíðið komu herra Monks.“ Frú Kraul var vingjarnleg og stimamjúk við Vereniku það sem eftir var dagsins. Morguninn eftir var Verenika vel hress og klæddi sig snemma, gekk svo inn til frú Kraul og borðaði morgunverð með henni. Að því búnu fór hún aftur inn í svefnherbergið, klæddist ferðafötum sínum og kom svo með töskuna í hendinni inn til frú Kraul. „Þér hafið verið mér góðar, frú Kraul,“ sagði hún og rétti henni hendina. „Ég er nú orðin nógu hress til að leita mér að atvinnu og vona að sá dagur komi yfir okkur, að ég geti endurgoldið góðsemi yðar.“ Frú Kraul tók innilega í hendi hennar. Verenika gekk til dyranna sem voru læstar. „Hvað á þetta að þýða?“ spurði hún. „Að þér eruð í varðhaldi,“ svaraði hún. „Ljúkið þér upp dyrunum undir eins, eða ég kem öllu í uppnám í húsinu.“ „Þér megið orga eins og þér getið. Það er enginn í húsinu, nema frænka mín.“ 49 Meðan Monk-systkinin voru að skrafa saman, voru þeir Clynord, Tempest og Bisset að rannsaka loftherbergin. Þeir höfðu gengið frá herbergi til herbergis og ekkert fundið. Allt í einu stóð Bisset kyrr og lýsti eftir einhverju á gólfinu. „Bíðið þér dálítið,“ sagði hann, „hér er eitthvað.“ „Hvað hafið þér fundið?“ spurði Clynord. „Spor í rykinu.“ „Spor,“ endurtók Clynord. „Það er naumast að undra, því líklegt er að vinnufólkið hafi komið hingað upp. Mannsspor líklega?“ „Alveg rétt,“ svaraði Bisset, sem kraup niður, mældi sporið og skrifaði svo stærð þess í vasabók sína. „Staða mín hefur kennt mér að athuga alla smámuni, sem oft eru mikils virði. Gerið svo vel að lofa mér að vera á undan, svo okkar spor trufli ekki þau sem eru fyrir.“ Lávarðurinn og Tempest stóðu kyrrir, en Bisset hélt áfram að mæla sporin. Fyrsta sporið var eftir Monk, það næsta eftir Roggy, sem hann þekkti strax. Og loks fann hann það þriðja. Það var eftir lítinn kvenfót. „Við skulum ekki eyða tímanum hér,“ sagði lávarðurinn. „Ef stúlkan hefur verið hér, þá ættu að sjást fleiri merki þess en sporin, sem ég álít lítils verð.“ „Við skulum athuga þetta,“ sagði Bisset rólegur. „En nú er ég líka búinn, við skulum halda áfram.“ Þeir héldu áfram að rannsaka loftin og komu loks að lausa stiganum, sem Verenika hafði gleymt að fela. Undir eins og Bisset sá stigann, hljóp hann upp eftir honum, léttfættur sem köttur, og hinir flýttu sér á eftir. Þeir sáu strax að klefi þessi hafði verið notaður, því í einu horninu fundu þeir hálmdýnu, kodda og ullarteppi. Við gluggakarminn var reist upp spegilbrot og þar var einnig vatnskanna og vatnsskál. „Það er litlum efa undirorpið, að hér hefur verið kvenmaður,“ sagði Tempest. „Já, og hún hefur verið hér lengi,“ sagði Bisset. „Sjáið hérna,“ bætti hann við og benti á brauðkassa og nokkrar flöskur í einu horninu. „Og þér haldið að það sé sama stúlkan og leikið hefur anda lafðinnar?“ spurði Tempest. Bisset hneigði sig. „Hún hlýtur að vera brjáluð, sem hér er um að ræða,“ sagði lávarðurinn. „Það er ólíklegt að kona, sem lítur út eins og Verenika, skuli hafa getað dvalið hér án þess að hennar yrði vart. Ég hef svo mikla mannþekkingu, að ég þori óhikað að halda því fram, að jafn saklaus augu og Vereniku, eiga sér aðeins stað í sambandi við flekklaust hugarfar.“ Bisset svaraði engu, en hélt áfram að lýsa og leita í hverjum krók og kima. Undir sperrum sá hann eitthvað hvítt, greip það og rakti í sundur. Það var hvítur silkikjóll, líkkjóll lafði Clynord. Nú varð stundar þögn. „Þetta er kjóllinn, sem konan mín var grafin í,“ sagði lávarðurinn skjálfraddaður, „á því er enginn efi, og það er sami kjóllinn, sem svipurinn hefur klæðst — sko ermina.“ Bisset hélt erminni að ljósinu og sást þá greinilega, að knipplingsræmu vantaði. Hann tók knipplingsræmuna úr vasa sínum, sem lávarðurinn hafði fengið honum, og sást þegar að hún átti heima á kjólerminni. Fyrst horfðu þeir þegjandi hver á annan og svo á kjólinn. Loks sagði Tempest: „Við höfum nú óræka sönnun fyrir því að svipurinn er lifandi vera, sömuleiðis fyrir því að hún hefur dvalið hér lengi. Einhver af heimilisfólkinu hefur óefað staðið í sambandi við hana og útvegað henni viðurværi. Svo er og líklegt, að þessi manneskja hafi eitthvert ákveðið takmark, en hvaða takmark getur það verið?“ „Því er ekki hægt að svara nú,“ sagði Bisset. „En hvernig vitið þér, lávarður, að þetta er sami kjóllinn og kona yðar var jörðuð í“ „Hann líkist honum í einu og öllu. Ég þekki hann svo vel, en þó getur það naumast verið sami kjóllinn.“ „Kjóllinn er saumaður af franskri stúlku.“ „Já, ég get fullyrt að hann er alveg eins, og það er naumast tilviljun.“ „Þér eruð þó ekki alveg viss um að það sé líkkjóllinn?“ „Það getur naumast verið hann og þó er hann alveg eins.“ „Hafið þér nokkra sönnun fyrir því, að það sé ekki hann?“ „Var ekkert annað auðkenni en knipplingsræman, sem gæti verið sönnun eða gagnsönnun?“ „Nei, ég held ekki — og þó. Kvöld nokkurt eftir miðdagsverð, þegar lafði Clynord og ég stóðum inni í búningsklefa hennar, festist myndarnisti á úrfestinni minni í fóðrinu á kjólermi hennar, og þegar við vorum að losa það, rifnaði fóðrið dálítið, sem Fifina saumaði saman daginn eftir. Ég var nærri búinn að gleyma þessu, en spurning yðar vakti minni mitt.“ „Það er gott, þá getum við strax fengið vissu fyrir því, hvort það er líkkjóllinn eða ekki,“ sagði Bisset. „Við skulum skoða ermina.“ Hann sneri ermunum við. Lávarðurinn laut niður að kjólnum, en hrökk aftur frá honum og hljóðaði um leið — á annarri erminni var samansaumuð rifa. Bisset og Tempest litu einnig á ermina. „En það er mjög ólíklegt, að þetta sé líkkjóll lafði Clynord,“ sagði Tempest. „Það er aðeins sannað, að þetta sé kjóllinn, sem lafði Clynord var í fyrsta kvöldið sem hún var hér,“ sagði Bisset. „Að það sé líkkjóllinn er enn ósannað.“ „Jú, það er hann, áreiðanlega hann,“ sagði lávarðurinn. „Hún var jarðsett í þessum kjól, það get ég svarið. Hún átti ekki nema þennan eina af þessu tagi. Þér getið spurt ungfrú Monk, hún veit það.“ „Ég vil ekki að ungfrú Monk viti nokkuð um okkar athafnir,“ sagði Bisset. „Er enginn annar sem þekkir kjólinn?“ „Jú, Fifina, sem var þerna lafði Clynord. Hún á heima í Lundúnum. Ég hef áritan hennar einhvers staðar.“ „Gott, við skulum finna Fifinu. En nú ætla ég að segja yður áform mitt. Ég vil í viðurvist yðar og herra Tempests — opna kistu lafði Clynords.“ Lávarðurinn hrökk við. Hann áleit þetta einskonar glæp. Tempest varð líka bilt við þetta áform. „Þetta er mjög einkennilegt áform, herra Bisset,“ sagði hann. „Hvers vegna viljið þér trufla frið hinnar framliðnu? Mig skyldi ekki undra þótt lávarðurinn bannaði það.“ „Einkennilegar ástæður krefjast einkennilegra athugana,“ sagði Bisset. „Lávarður Clynord segir að þetta sé líkkjóllinn og þá verður maður að komast eftir í hvaða skyni honum er rænt úr kistunni. Og á hvern hátt.“ „Nei, nei,“ sagði lávarðurinn, „mér hlýtur að hafa skjátlast. Það segir sig sjálft, að það getur ekki verið líkkjóll konu minnar.“ „Hvernig segir það sig sjálft, lávarður?“ sagði Bisset. „Ég má segja fyrir víst, að við stöndum fast við leyndarmálið, sem getur verið svo margbrotið, að ég þori ekki um það að tala. Hvernig á ég nú að komast að orði, án þess að segja of mikið? Þér hafið sjálfsagt heyrt getið um menn, sem hafa fallið í dauðadá og verið jarðsettir þannig. Nú, jæja, getur það ekki hafa átt sé stað með lafði Clynord. Við skulum nú láta hana vera jarðsetta í þessu ásigkomulagi — látum svo ennfremur einhvern mann brjóta upp kistuna, í því skyni að ná í gull og gersemar og að síðustu látum við hana vakna af dauðadáinu og snúa aftur til lífsins.“ „Guð minn góður, hvaða gagn er í,“ sagði lávarðurinn, „að kvelja mig þannig með draumórum yðar. Konan mín dó í faðmi mínum.“ „En hafi það nú ekki verið,“ sagði Bisset. „Það hefur fyrr heyrst, að menn féllu í dauðadá.“ „Vitaskuld, en konan mín var dáin, hún lá 6 daga á líkpalli; læknarnir vottuðu líka að hún væri dáin. En hvers vegna eruð þér að opna þessi hálfgrónu sár? Heilagi faðir, að hugsa sér að hún hafi legið lifandi í kistunni meðan ég sat hér heima og syrgði hana. Þessi mynd fylgir mér til leiðarloka — hvernig hún hefur kallað. Himneski faðir. — Bisset, þetta get ég aldrei fyrirgefið yður.“ „Ég bið yður afsökunar, lávarður, en málefnið liggur nú þannig fyrir okkur. Það er alls ekki ómögulegt, a8 lafðin hafi verið í dauðadái þegar hún var jarðsett.“ „Jú, það er ómögulegt,“ sagði Tempest. „Hún „stóð uppi“ í 6 daga.“ „Það hefur komið fyrir, að menn hafa legið í dauðadái í 10 daga,“ sagði Bisset. „En hún var dáin,“ sagði lávarðurinn. „Andlitið bar merki dauðans, einkennilegur hrímfölvi lagðist yfir andlitsdrættina ...“ „Hrímfölvi, lávarður? Bar mest á honum undir augunum og um munninn?“ sagði Bisset. „Já, það held ég. Hann breytti útliti hennar gersamlega.“ „Þessi orð styrkja það áform mitt að vilja skoða í kistuna. Það er til eins konar dauðadá, sem þessi hrímfölvi fylgir, og ég er sannfærður um að lafði Clynord hefur verið jarðsett lifandi,“ sagði Bisset. „Hvað segið þér,“ sagði lávaðurinn. „Þér haldið að hún — konan mín — vesalings litla Verenika mín — hafi dáið í kistunni sinni.“ „Nei, þér skiljið mig ekki rétt. Hún varð jarðsett lifandi, og ...“ „Jarðsett lifandi,“ sagði Tempest og stundi sárt. „Ég endurtek það,“ sagði Bisset, „að eftir minni sannfæringu hefur lafði Clynord verið jarðsett lifandi og að henni, af fégirnd eða öðrum huldum ástæðum, hefur verið bjargað úr kistunni.“ „Bjargað,“ sagði Clynord og dró andann hratt. „Hvort hún hefur yfirgefið kistu sína með heilbrigðri skynsemi, eða sem sinnisveik manneskja, get ég ekki með vissu vitað,“ sagði Bisset, „en að hún er risin upp úr gröf sinni, er ég fyllilega sannfærður um, og auk þess er ég líka sannfærður um, að ...“ Clynord greip um dyrakarminn; það ætlaði að líða yfir hann. „Á ég að segja meira?“ spurði Bisset og horfði hræddur á lávarðinn. Hann svaraði með því að hneigja sig. „Gott, ég segi þá að ég er sannfærður um að lafði Clynord er lifandi. Það er kona yðar, sem þér hafið séð, lávarður. Svipurinn, sem þér hafið séð, er lafði Clynord sjálf.“ 50 Þessi sannfæringarríku orð Bissets höfðu sömu áhrif á lávarðinn og Tempest og rýtingsstunga; hvorugur gat hreyft sig eða talað. Lávarðurinn var náfölur og virtist ætla að hníga niður. Tempest fékk fyrst svo mikið vald yfir tilfinningum sínum, að hann sá hvernig Clynord leið, tók alúðlega utan um hann og sagði: „Talið við mig, lávarður, eitt orð, aðeins eitt orð. Guð minn góður, hann hefur misst vitið.“ Lávarðurinn jafnaði sig smátt og smátt, roði færðist í kinnarnar, suðan fyrir eyrunum hvarf, þokan fyrir augunum þynntist og hann dró andann þungt og hratt. Svo losaði hann sig úr faðmi Tempests. „Eigum við ekki að fara ofan, lávarður?“ spurði Tempest. „Þessi geðshræring var of mikil fyrir yður, þér eruð svo veiklulegur.“ „Mér er að skána,“ sagði lávarðurinn. „Ég varð utan við mig stundarkorn. Hvað sögðuð þér Bisset? Já, nú man ég það; þér sögðuð, að það væri sannfæring yðar, að þessi dularfulli gestur væri — Verenika sjálf.“ „Já, ég stend við það.“ „Það er brjálæði,“ sagði Tempest. „Lávarður,“ sagði Bisset, „ég hef í kvöld talað þau orð, sem þér aldrei gleymið. Þangað til þér opnið kistuna, mun efinn og kvíðinn enga ró gefa yður. Ávallt mun sú spurning vaka fyrir yður, hvort eg hafi talað satt eða ekki, og ...“ „Hera Bisset,“ sagði Tempest, „ég get ekki leyft að þér kveljið lávarðinn þannig. Hvorugur okkar þolir það.“ „Og ennþá eitt, lávarður,“ sagði Bisset, án þess að gefa orðum Tempests gaum. „Þér munuð ekki voga að kvænast á meðan þér eruð í nokkrum vafa um, hvort konan yðar sé dáin.“ „Herra Bisset,“ sagði Tempest í hótunarróm, „ég mótmæli því fastlega ...“ „Rólegur, vinur minn,“ sagði nú lávarðurinn. „Bisset hefur á réttu að standa. Frá því augnabliki að hann talaði þessi orð — hve ótrúleg sem þau eru — get ég engan frið fundið, fyrr en ég fæ vissu um, að hinar jarðnesku leyfar konu minnar eru í kistunni í grafhvelfingunni. Ég ætla því strax í nótt að fá vissu um þetta efni og bið ég yður, herra Tempest, ásamt Bisset, að koma með mér.“ Tempest hneigði sig þegjandi. Efinn var líka vaknaður í huga hans. „Þá skulum við fara strax, — sagði Bisset. „Rannsóknum okkar er lokið hér.“ Svo braut hann saman silkikjólinn, stakk honum undir hönd sér og gekk á undan ofan stigann. Þegar hann var kominn niður á þriðja loft, stóð hann kyrr. „Við megum gæta okkar,“ sagði hann, „ég vil ekki að systkinin viti neitt um tiltektir okkar.“ Þeir gengu hægt og hávaðalaust að stiganum. Á efstu stigariminni stóðu þeir kyrrir og hlustuðu. Þá sáu þeir allt í einu höfuðið á Gilbert, sem gekk upp stigann. Þess er áður getið, að þegar Gilbert mætti þessum þremur mönnum, sá hann böggulinn undir handlegg Bissets, og vissi þegar að það var kjóll Vereniku. Fyrst varð honum mjög bilt við, en áttaði sig fljótt og lét ekki á neinu bera. „Hvað er það sem þér hafið fundið?“ spurði hann. „Kjóll vofunnar? Máske þið hafið líka fundið sjálfa vofuna?“ „Nei, Gilbert,“ sagði Clynord, „en við höfum fengið vissu fyrir því, að hún hefur dvalið hér uppi dögum saman, máske vikum.“ „Er það mögulegt?“ sagði Monk. „Hefði ég vitað það, þá hefði mér ekki liðið vel, því ég er hræddur um að stúlkan sé brjáluð.“ „Við höfum fundið fleira,“ sagði Bisset, og horfði í augu Gilberts. „Við fundum spor í rykinu á gólfinu, og komumst að mjög einkennilegri niðurstöðu af þeim ástæðum.“ „Jæja, hver er sú niðurstaða?“ „Ég geymi að geta þess þangað til seinna. En nú megum við ekki dvelja lengur. Viljið þér leyfa okkur að halda áfram, herra Monk?“ Hann hneigði sig kurteislega og gekk til hliðar meðan þeir gengu fram hjá. Svo fór hann ofan á eftir þeim. Þegar þeir voru komnir niður á fyrstu hæð, tók Clynord við kjólnum af Bisset, og fór með hann inn í búningsklefa þann, sem Verenika hafði notað, kom svo aftur fram í ganginn, þar sem Tempest og Bisset biðu hans. Þá var og Gilbert þangað kominn. Lávarðurinn leit á Bisset og svo á Monk. Monk sá strax að eitthvað átti að gera og langaði til að vera með. „Ég lít svo á, sem rannsóknir ykkar séu ekki búnar,“ sagði hann. „Fæ ég reyfi til að vera einn í hópnum?“ „Þú getur rétt til,“ sagði Clynord, „rannsóknir okkar eru ekki búnar. Herra Bisset álítur, að við eigum að skoða í líkkistu vesalings Vereniku minnar, svo nú ætlum við til grafhvelfingarinnar. Monk brá ekki hið minnsta við þetta. „Hann er blygðunarlaus,“ hugsaði Bisset, „en ég hef beygt svo marga óskammfeilna þræla, að mér mun takast að beygja hann líka.“ „Lofið mér að koma líka,“ sagði Gilbert. „Ég skoðaði Vereniku sem systur mína, og sé eitthvað rangt í þessu efni, er mér ánægja að því að hjálpa til að finna það rétta.“ „Nú, jæja, komdu þá með,“ sagði Clynord. „En fyrst verðum við að sækja lyklana í bókhlöðuna.“ „Við erum allir í sparifötunum,“ sagði Monk. „Áður en við förum, ættum við að klæðast hlýrri fötum. Það er kalt úti.“ Þetta samþykktu þeir allir, fóru til herbergja sinna og voru tíu mínútum síðar komnir í bókhlöðuna. Lávarðurinn lauk upp járnskápnum og tók úr honum lykilinn að grafhvelfingunni. „Lykilinn að kirkjunni getum við fengið hjá prestinum,“ sagði hann. „Skriðbyttuna og áhöldin höfum við hér. Eruð þið tilbúnir?“ Þeir játuðu allir, gengu svo út og læstu á eftir sér. „Við skulum fara stystu leið ofan í þorpið,“ sagði lávarðurinn. „Einu sinni mætti ég svipnum hérna í garðinum. Við göngum þar framhjá.“ „Eftir því að álykta, sem ég hef heyrt, þá hefur þessi umtalaða stúlka þekkt höllina og nágrennið mjög vel,“ sagði Bisset. „Nóttin er dimm og látið þið mig bera skriðbyttuna.“ Þeir hröðuðu ferð sinni, og var lávarðurinn jafnan á undan. Klukkan var orðin eitt, þegar þeir komu að kirkjugarðshliðinu, sem var opið, og gekk Monk fyrstur inn. „Bíðið þið eftir mér við kirkjudyrnar,“ sagði lávarðurinn, „ég ætla að fara að vekja prestinn sem er í næsta húsi og fá hjá honum lykilinn.“ Þegar lávarðurinn kom að húsi prestsins, varð hann að berja oft á dyrnar, áður en gamli presturinn vaknaði. Loksins var lokið upp glugga og presturinn leit út og spurði hver úti væri. „Það er ég, Clynord,“ svaraði lávarðurinn. „Gerið þér mér þann greiða, herra Locke, að koma snöggvast ofan. Ég á brýnt erindi.“ Presturinn lokaði glugganum, kom skömmu síðar ofan, lauk upp dyrunum og sagði: „Komið þér inn, lávarður. Hefur nokkuð komið fyrir? Er nokkur veikur í höllinni? Eða máske það sé svipurinn, sem er orsök að komu yðar á þessum tíma?“ „Nei, ég ætla aðeins að biðja yður um lykilinn að kirkjunni, þar eð ég hef ásett mér að opna líkkistu konunnar minnar sáluðu.“ Presturinn hljóðaði af undrun. Hann hélt að lávarðurinn væri búinn að missa vitið. „Ég hef af vel íhuguðum orsökum, ásamt nokkrum vinum mínum, hafið þessa næturgöngu. Þér þekkið ekki efa þann, sem lifnað hefur í huga mínum viðvíkjandi dauða Vereniku. Ef til vill er svipurinn, sem ég hef séð, Verenika sjálf, með fullu fjöri og lifandi. Hvers vegna horfið þér þannig á mig? Ljáið mér lykilinn.“ Presturinn starði með vaxandi undrun á lávarðinn. „Vesaling maðurinn er brjálaður,“ hugsaði hann. „Vesalings Clynord — vesalings Sylvía.“ Clynord giskaði á hugsanir hans. „Ég er alls ekki brjálaður,“ sagði hann, „þó mig undri að ég skuli ekki vera orðinn það. — Ljáið mér lykilinn.“ Nú heyrðust raddir frá kirkjudyrunum. „Já, lávarður, ég skal sækja hann strax, og ef þér viljið þá skal ég koma með yður; ég er viljugur að veita yður þá aðstoð sem ég megna.“ Hann flýtti sér nú upp, og kom von bráðar ofan aftur ferðbúinn með lykilinn í hendinni. Kirkjudyrnar voru opnaðar og þessir fimm menn gengu ofan í grafhvelfinguna. Skriðbyttuna hengdu þeir á nagla á einni stoðinni. Bisset athugaði kistuna á alla kanta, en sá ekki neitt grunsamlegt við hana. Svo tók hann við áhöldunum af lávarðinum og fór að losa skrúfurnar, sem héldu lokinu, og hjálpaði Tempest honum til þess. Lávarðurinn stóð þegjandi og niðurlútur með krosslagðar hendur, en Monk og presturinn töluðu saman hvíslandi. Þegar lokið var laust, var það lagt til hliðar, og gengu nú allir að kistunni nema lávarðurinn og litu ofan í hana. Bisset rak upp lágt undrunaróp, þegar hann leit ofan í kistuna, sem aðeins Monk skildi og brosti við sigri hrósandi. Kistan var ekki tóm. Í henni var kvenmannslík, hulið hvítum knipplingaskreyttum silkikjól, sem hingað og þangað sáust rotblettir á. Monk hafði verið svo hygginn að útvega sér silkikjól, líkan þeim sem Verenika var í, klætt vaxlíkneskið í hann og málað rotbletti í kjólinn, enda var hann nú með sjálfum sér meira en lítið hreykinn yfir hyggindum sínum. Lávarðurinn gekk að kistunni og horfði ofan í hana, en hinir viku til hliðar með lotningu. Hann stóð lengi við kistuna fölur sem nár, án þess að fella tár. — Loks sagði hann: „Líkami konu minnar hvílir hér. — Það er kjóllinn hennar — okkur hefur skjátlast.“ Dauðaþögn hvíldi yfir öllu og lokið var skrúfað á aftur, án þess að eitt orð væri talað. Presturinn gekk til Clynords, en gat ekkert sagt sem honum þótti eiga við í þessum kringumstæðum. Þögulir gengu þeir upp úr grafhvelfingunni og út úr kirkjunni, svo læsti presturinn og kvaddi. „Ennþá hefur Monk yfirtökin,“ sagði Bisset um leið og hann gekk til herbergis síns. „Hann er eins slægur og sá vondi, en það er ekki séð fyrir endann enn. Eins víst og himinninn er yfir okkur — eins viss er ég um sigurinn — og endalokin eru í nánd.“ Bisset hafði búist við að finna kistuna tóma, en brugðist það. Hvað átti nú að gera? Hann var sannfærður um að hann var á réttri slóð og efaðist ekki eitt augnablik um, að líkið sem í kistunni væri, hefði verið flutt þangað af Gilbert, og að kjóllinn væri aðeins stæling — en hvernig átti hann að sanna það? Um þetta var hann að hugsa þangað til dagur rann, þá fór hann á fætur og út í hesthús, þar voru hestagæslumennirnir fyrir að gefa hestunum og fægja aktygin. Bisset lét leggja á hest fyrir sig og reið svo á spretti til Newgate. „Mér var aðeins hrint aftur á bak, en ekki fleygt til jarðar,“ tautaði hann. „Mér mun þó heppnast að sigra þennan Monk. Ég sá háðsbros á vörum hans, þegar við skildum seinast. Hann álítur sig lausan við mig, en þar skjátlast honum. Það eru fleiri stígar en einn gegnum skóginn.“ Þegar hann var kominn á járnbrautarstöðina í Newgate, fór hann af baki, bað einn af dyravörðunum að gæta hestsins og gekk svo inn á símstöðina. Símritarinn var nýlega kominn. Bisset barði á rúðuna. „Ég ætla að senda símskeyti til „The Scott & Reman, Chancery Lane“. Hafið þér skrifað það? Gott. Svo kemur innihaldið: „Senduð þér nokkuð símskeyti í gær til Gilbert Monk?“ — Þetta er allt. Nei, svarsins vegna þarf hann að vita áritun mína: „Bisset, Clynord-Park, Sussex“. Hvað kostar þetta?“ Hann borgaði, fór út og á bak hesti sínum og reið aftur til Clynord og kom þangað svo snemma að hann gat haft fataskipti fyrir morgunverð. Lávarðurinn, Tempest, Gilbert Monk og Sylvía voru öll til staðar. Allir voru fámæltir og syfjaðir, nema Gilbert, hann var hinn kátasti og sömuleiðis Sylvía, sem hafði frétt um næturstarfið hjá bróður sínum. Að lokinni máltíð fór Sylvía til herbergja sinna, en karlmennirnir fóru inn í bókhlöðuna. Tempest fór að fletta blöðum, sem á borðinu lágu annars hugar, án þess að líta á þau. Lávarðurinn gekk fram og aftur um gólfið, en Monk settist í legubekk. Eftir skamma stund sagði Monk, með illa duldri meinfýsni, við Bisset: „Nú, nú, herra njósnari, hvað er næst á dagskrá? Við höfum rannsakað allt húsið, raskað ró hinna dauðu — hvað er þá eftir? Máske að röðin komi nú að vinnufólkinu? „Nei, vinnufólkið, að minnsta kosti lávarðarins, veit ekkert um þennan leynilega gest, herra minn,“ sagði Bisset rólegur. „Og þó hafið þér ekki enn spurt það úr spjörunum. Það er máske innri hugkvæmni, sem leiðir yður í þessu efni? Já, þið lögreglumenn eruð voðamenn. Væri ég ekki eins hreinskilinn og trúgjarn og ég er, þá væri ég hræddur við þá.“ „Herra Bisset,“ sagði lávarðurinn, við vorum á rangri slóð. Hvernig gátuð þér eitt augnablik efast um dauða konu minnar? Bendingar yðar og það sem við unnum í nótt, hefur vakið hjá mér geðshræringar svo miklar, að ég fer til útlanda undir eins — undir eins ...“ Hann ætlaði að segja „undir eins og ég hef kvænst Sylvíu Monk“, en gat ekki komið þeirri setningu yfir varir sér. „Ég vil ekki vera ókurteis við yður,“ bætti hann við, „en ég vildi að næturvinnan síðasta væri óunnin.“ Bisset tók sér ekki nærri þessar hæglátu ásakanir. Hann áleit sig á réttri leið. „Afsakið, lávarður,“ sagði hann. „Þér sögðuð í nótt, að knipplingarnir á kjólnum í kistunni væru ekki eins og á kjólnum, sem við fundum á loftinu. Hver er þá hinn rétti kjóll?“ „Auðvitað sá sem við fundum í kistunni.“ „Já, en þér sögðuð, að lafðin hefði aðeins átt einn slíkan kjól, og kjóllinn, sem við fundum á loftinu, álituð þér strax vera þennan eina. Hvernig getur þá skeð að annar slíkur sé í kistunni?“ „Það veit ég ekki. Máske ungfrú Monk eða Fifina gæti upplýst okkur í því efni.“ „Ég hef talað við Sylvíu um þetta,“ sagði Monk, „því mér datt það sama í hug og herra Bisset, en hún veit aðeins að Fifina tók kjólinn úr fataklefa lafðinnar, og meira um það veit enginn.“ „Nema ef til vill Fifina,“ sagði Bisset. „Það er líklega heppilegt að kynnast heimili hennar; um það hugsa ég seinna. Að kjólarnir eru svo líkir, er áríðandi að komast eftir hvernig orsakast hefur. Skoðun minni um þetta efni held ég leyndri fyrst um sinn, en að ég skuli ráða þessa gátu svo að yður líki, megið þér fyllilega reiða yður á.“ „Það sem nauðsynlegt er að fá upplýsingar um er það, hvernig á því stendur að svipurinn er svo líkur minni framliðnu konu. Ég vil fá að vita hver þessi kvenmaður er, hvers vegna hann eltir mig — yfir höfuð allt sem snertir hana.“ „Það skuluð þér líka fá að vita. Treystið mér ennþá nokkra daga. Ég lít svo á, að þessi kvenmaður komi ekki hingað í bráðina, og því álít ég þarflaust fyrir mig að bíða hér. Ég ætla í dag til Lundúna-borgar, en bið yður að senda mér skeyti strax, ef hún skyldi koma hingað. Eins og stendur verðum við að bíða rólegir.“ Monk leit snöggvast á Bisset; hann sá það og brosti lítið eitt. Lávarðurinn samþykkti þetta áform. Skömmu síðar fór Monk upp til systur sinnar. Þegar hann var farinn, sagði Bisset: „Lávarður, ég hef uppgötvað miklu meira, en þér hafið hugmynd um, og ég hef ástæðu til að ætla að grunur minn rætist. Ég vil biðja yður að lofa Monk að hafa þá skoðun, að ég sé hættur við rannsóknir mínar. Áður en langt um líður vonast ég til að geta breytt sorg yðar í gleði.“ Hann hneigði sig og fór út í garðinn. Stundu síðar kom hann inn aftur og gekk í hægðum sínum upp stigann til herbergis síns. Þegar hann var kominn upp á efri ganginn, mætti hann Roggy, sem hélt á skál í hendinni. Hann gekk í veg fyrir hana, og um leið horfði hann brosandi á mórauða, hrukkótta andlitið og vefjarhöttinn á höfði hennar. „Nú, svo það ert þú,“ sagði hann á indversku. „Þú kemur mátulega. Ég þarf ekki annað en óska mér einhvers og það verður þegar uppfyllt. — Þú tilbiður gyðjuna Kali, konu hins mikla Siva — er það ekki?“ Og jafnframt gerði hann einkennilegar bendingar með hendinni. Kerlinginn skalf og hopaði á hæl. „Þú sérð að ég þekki þig,“ bætti hann við. „Þú tilheyrir óaldarflokki Thugganna, mannslíf er í þínum augum ekki meira virði en fluga.“ Roggy hopaði ósjálfrátt á hæl og lagði frá sér skálina. „Þú heldur að þú sért kæn og vís,“ sagði Bisset og horfði svo fast á hana, eins og hann sæi í gegnum hana, en ég er ennþá kænni og vísari. Ég get lesið hugsanir þínar og allt þitt liðna líf liggur opið fyrir mér. Ég veit að þú hefur verið fóstra Sylvíu Monk og að þú metur velferð hennar og gæfu meira en allt annað í heiminum. Hún er fátæk og umkomulaus, en hún elskar Clynord lávarð og að giftast honum gerir hana ríka, sjálfstæða og tyllir henni upp í flokk helstu kvenna. Mér er vel kunnugt um hvað þið hafið gert. Þið reynduð að gefa lafði Clynord inn eitur, en af tilviljum hafið þið annaðhvort gefið henni rangt eitur eða rangan skammt. Ef við höldum okkur að fyrra tilfellinu, þá hefur eitrið verið úr jurtinni Lama og dauði hennar hefur þá verið dauðadá.“ Kerlingin orgaði af undrun, hræðslu og vonskuöfgatrú hennar ætlaði Bisset yfirnáttúrlega þekkingu. „Já, þú hefur ástæðu til að skjálfa,“ sagði Bisset í hásum róm. „Þú hefur ástæðu til að óttast mig meira en alla aðra, kerling. Morðingi. Hver bjargaði lafði Clynord úr kistunni?“ Varir hennar bærðust, en talað gat hún ekki. Hún var sem stirðnuð af hræðslu, mórauði andlitsliturinn hennar varð grár og augun störðu hreyfingarlaus á þann sem talaði. „Talaðu,“ skipaði Bisset. „Var það Gilbert Monk sem bjargaði lafði Clynord úr gröfinni?“ Kerlingin svaraði engu, en á andlitsdráttum hennar sást glöggt svar. Sigurbros lék á vörum Bisset. „Vissuð þið Sylvía strax um frelsun hennar?“ Kerlingin engdist saman fyrir tilliti hans. „Svo. — Vissuð þið að lafðin var á lífi, áður en lávarðurinn kom heim?“ Ekkert svar heyrðist, en glöggt mátti sjá á andliti hennar: Nei. „Hvar er lafði Clynord núna?“ Bisset sá í augum kerlingarinnar að hún vissi það ekki. „Veit Gilbert Monk það?“ Í augum Roggy brá fyrir glampa, en ekkert sagði hún. „Gott, nú hef ég fengið að vita allt sem ég vil,“ sagði Bisset, „nú máttu fara.“ Hann gekk fáein fet frá henni. Þegar hann leit af henni, stundi hún þungan og andlitið varð aftur mórautt. Hún rétti úr sér og tautaði á indversku: „Þér eruð galdramaður — seiðmaður — Satan. Þér ljúgið því, að ég hafi sagt yður nokkuð. Ég hef ekki talað eitt orð. Þér ásakið mig fyrir morð. Ég hef aldrei framið morð, engum gefið eitur. Lafðin dó og var jarðsett, meira veit ég ekki. Ég er eins saklaus og nýfætt barn. Heimskingi ertu — lygari — þú ert fjandi.“ Hún hrækti í áttina til hans, greip svo skálina og fór. Bisset horfði brosandi á eftir henni og fór svo til herbergis síns. Hann lét ekki sjá sig fyrr en við morgunverðinn, og var þá svo rólegur og ánægjulegur, eins og hann væri algengur gestur. Samt var hann fremur þögull, því Tempest hélt við samræðunum til að skemmta lávarðinum. Þeir voru nærri búnir að borða, þegar þjónninn kom inn með símskeyti eins og daginn aður, en gekk nú fram hjá Monk og til Bissets. „Símskeyti, herra Bisset,“ sagði hann. „Sendimaðurinn bíður.“ Bisset tók við símskeytinu, opnaði umslagið og las þetta: „Í gær var ekkert símskeyti sent til herra Monks. — Scott & Reman.“ Bisset brosti ánægjulega, lagði saman bréfið og sagði síðan: „Það þarf ekkert svar. Hér er hálfur shillingur handa sendimanninum. Segið honum, að hann geti gefið hestinum í gestgjafahúsinu í þorpinu.“ Þjónninn tók skildinginn og fór. Monk mundi eftir því, sem fram fór daginn áður á sama hátt og nú, og sömuleiðis því, sem talað var þá, og spurði því í háðslegum róm: „Hafið þér fengið góðar fregnir, herra Bisset?“ „Já, ágætar,“ svaraði hann. „Það var aðeins viðskiptafregn frá Scott & Reman.“ Monk skipti litum og leit hikandi í kringum sig. Lávarðurinn og Tempest voru að tala saman, svo það var aðeins Sylvía, sem heyrði og skildi svar Bissets. „Ef þér viljið fá símskeytið, þá er það velkomið,“ sagði Bisset og rétti Monk það. Hann tók við því, las það og rétti Bisset það svo aftur með skjálfandi hendi, án þess að segja eitt orð. Bisset tók við því, stakk því í vasann og tæmdi svo staupið sitt, en leit um leið forvitnislega til Monks, sem svaraði því með hatursfullu augnaráði, er Bisset brosti að. Að lokinni máltíð bað Bisset um áritun Fifinu, og fór svo glaður og ánægður til Lundúna. Þeir, sem eftir voru í Clynord, voru síður en svo ánægðir. Roggy fór strax til Sylvíu og sagði henni bölvandi frá því að hún hefði hitt Bisset. „Bisset finnur Vereniku,“ sagði Sylvía. „Þú verður að finna hana á undan honum, og sjá um að hún geti engan baga gert okkur. Ég trúi því ekki að hún sé í geymslu Gilberts, en ímynda mér heldur, að hún sé hjá Fifinu. Þú verður að fara til Lundúna á morgun, og vita hvort hún er hjá Fifinu, og sé hún ekki þar, verðurðu að leita þangað til þú finnur hana, og svo ...“ „Þú skalt verða ánægð með mig, vel ánægð,“ sagði gamla nornin. 52 Daginn eftir að Bisset fór til Lundúnaborgar fór Roggy þangað líka. Hún var daginn og nóttina í burtu, og kom svo aftur með brostnar vonir, en ekki alveg uppgefin. Tempest dvaldi enn nokkra daga í Clynord, og fór svo aftur til Lundúna, án þess að hafa sagt lávarðinum skyldleika sinn og hinnar framliðnu konu hans. Lávarðurinn fór aftur að gefa sig að skólafyrirkomulaginu, til þess að gleyma sorgum sínum. En honum gekk það illa. Þær voru rótgrónari en svo, að þær hyrfu strax. Hér um bil sex dögum eftir að Bisset fór fékk Monk bréf frá Flack, sem sagði honum, að Verenika væri fangi hjá frú Kraul, og heimtaði óaflátanlega frelsi sitt. Gilbert tafði nú ekki lengur. Hann var hræddur um, að Bisset finndi hana á undan sér. Hann fór því tafarlaust til Lundúna og fékk sér náttstað á gistihúsi, þar sem enginn þekkti hann. Hann skrifaði falskt nafn í gestaskrána, og lét raka af sér allt skeggið, nema á efri vörinni. Þegar hann leit í spegilinn stundi hann. Hann var að sönnu torkennilegur, en andlitsdrættirnir báru vott um hið sanna eðli hans, sem skeggið hafði áður hulið. Hræsnin og síngirnin blöstu við sjónum annarra á andliti hans. Hann háttaði strax, en hugsunin um ókomna tímann og hvað hann myndi geyma í skauti sínu, tafði fyrir honum að geta sofnað fyrr en langt var liðið af nóttu. Morguninn eftir lét hann færa sér morgundrykkinn og morgunverðinn upp í herbergi sitt og um það leyti sem klukkan var 9, fékk hann sér vagn og ók til heimilis frú Kraul. Niðri í anddyrinu hitti hann þernu, sem vísaði honum til herbergja frúarinnar — og þegar hann barði að dyrum, opnaði Flack, en hvorki hann eða frú Kraul þekktu hann. Bros lék um stóra munninn á Gilbert um leið og hann sagði: „Þið þekkið mig ekki.“ Röddina þekktu þau strax og störðu nú með meiri undrun á hann. Loks sagði Flack: „Er nokkuð að, herra. Er lögreglan að elta yður?“ „Nei,“ sagði Gilbert, „mér hugsaðist aðeins að láta raka af mér skeggið, en að lögreglan elti mig kemur ekki til nokkurra mála.“ „Nei, auðvitað ekki,” sagði Flack, „en breytingin á útliti yðar er svo mikil, að mér var ómögulegt að þekkja yður nema á röddinni. Það lítur eins út og þér séuð dulklæddur.“ „Alveg rétt,“ sagði frú Kraul og gægðist út til að vita hvort hún sæi lögregluþjón. „Það er skaði að missa fallegt skegg,“ — þegar það þekur jafn ógeðslega andlitsdrætti, hugsaði hún með sér. „Hvað segir ungfrú Gwyn?“ spurði Gilbert. „Hún er reið af því að farið er með hana sem fanga,“ sagði frú Kraul. „Hún hefur oft kallað á hjálp, en enginn hefur heyrt það, því húsið er mannlaust allan daginn og á kvöldin gef ég henni svefnlyf, svo við getum sofið. Húsmóðirin er vinkona mín og ættingi — og ég hef lofað henni 5 pundum, þegar húsbóndi minn — þannig kalla ég yður — kemur til að sækja þessa óþægu systur sína. — Frænka mín heldur að ungfrú Gwyn hafi strokið að heiman til að verða leikkona, og álítur rétt að geyma hana sem fanga þangað til hún er flutt heim.“ „Hvernig fórst þú að finna hana, Flack?“ spurði Gilbert. Flack sagði nú greinilega frá öllum atvikum. „Ég verð að tala við hana undireins,“ sagði Gilbert þegar Flack þagnaði. „Frú Kraul, þér verðið í kvöld að fara með hana til St. Maur. Sjálfur get ég ekki farið þangað fyrr en eftir nokkra daga. Þér verðið að gæta hennar eins vel og hún væri mikilvægur ríkisfangi.“ Frú Kraul hneigði sig. „Lofið mér nú að komast inn til hennar, eða látið hana koma hingað, og farið þið inn á meðan. Ég vil tala við hana vitnalaust.“ Frú Kraul gekk nú inn til Vereniku og Flack með henni, en Verenika fór út í framherbergið. Frú Kraul lokaði hurðinni á eftir henni, svo Verenika var nú einsömul hjá Gilbert. Þau stóðu stundarkorn þegjandi hvort gegnt öðru. Verenika var föl og mögur, en hún var róleg og með ákveðnum svip. Hún var ekki feimin eða hrædd stúlka, heldur djörf og eðallynd kona. Fyrst þekkti hún ekki Gilbert, en þegar hún leit á þessa ljótu andlitsdrætti með grimmdarlegu hrukkurnar um munninn, fölnaði hún enn meir og eðlisávísan hennar varaði hana við þessum manni, sem náttúran hafði svo greinilega sýnt innra eðlið á andlitinu. En þegar hún aðgætti hann betur, sá mórauða hörundslitinn, litlu, dökku augun og hrokkna hárið, þá hopaði hún undan af undrun og ótta. „Þekkir þú mig ekki lengur, Verenika?“ spurði Gilbert, gekk til hennar og rétti fram hendina. „Ert það þú — þú Gilbert?“ „Víst er það ég — en hvers vegna hoparðu undan? — Hvaða ógurlegur viðbjóður er í augum þínum? Hamingjan góða, hefði ég vitað að ást þín var bundin við skeggið; þá væri það kyrrt enn.“ „Hugsaðu ekki illt um mig,“ sagði Verenika. „Þú ert svo breyttur, að ég gat ekki þekkt þig. Fyrirgefðu, ef ég hef sært þig, ég get ekki lýst því, hve glöð ég er að sjá þig.“ „Þrátt fyrir það, að þú hefur strokið frá mér,“ sagði Gilbert. „Ég yfirgaf þig leynilega, af því að ég óttaðist að þú myndir ekki af frjálsum vilja sleppa mér,“ svaraði Verenika. „Ég var þér einlæglega vinveitt, góði Gilbert, en ég vildi ekki vera háð þér. Það er ekki rétt, að þú, sem ert fátækur maður, skulir eyða efnum þinum fyrir mig, þegar ég get unnið fyrir mér sjálf.“ „En ég er viljugur til að aðstoða þig, Verenika. Þú ert mér ekki til byrði, heldur til ánægju.“ „En það er byrði fyrir mig, að vita mig vera komna upp á þína náð. Ég get ekki alla ævi verið þér til byrði og vil því vinna fyrir mér. Ég vildi þú gætir séð þetta — frá sömu hlið og ég.“ „Það get ég aldrei, Verenika, áform þitt er óframkvæmanlegt. Ég elska þig og vil kvænast þér — strax í dag — og fara svo eitthvað til útlanda, til Austurríkis til dæmis og ...“ „Nei, Gilbert. Geturðu ekki skilið mig? Ég get ekki gifst þér, minnstu ekki oftar á það.“ Gilbert sá að nú var engin von fyrir sig — en bjóst við betri byr, þegar Clynord væri kvæntur og ákvað að bíða þess tíma. „Fyrirgefðu mér, Verenika, hafi ég verið of ákafur, fyrirgefðu mér vegna ástarinnar, sem ég ber í brjósti til þín. Ég er einmana í heiminum eins og þú og þrái manneskju, sem ég má reiða mig á og sem ég má strita og starfa fyrir. Ég skal ekki oftar auka þér leiðindi. Ég bið þig að búa þig undir að fara til St. Maur með frú Kraul og Flack í kvöld.“ „Ómögulegt. Til St. Maur fer ég aldrei og síst með frú Kraul og Flack. Hún hefur haldið mér í fangelsi í heila viku, svo ég hata hana, og Flack er aðeins níðingslegt þrælmenni. Fyrst þú ert kominn Gilbert, bið ég þig að fylgja mér út og finna hæfilega stöðu handa mér.“ „Ég get ekki gert annað en fyrir þig en útvega þér heimili á St. Maur.“ „Þá verð ég að hjálpa mér sjálf. Viltu ekki segja frú Kraul að afhenda mér hattinn minn og ferðatöskuna.“ Monk bað og bað árangurslaust. Verenika var ósveigjanleg. Nú hræddist hún þau öll. „Verenika,“ sagði Monk, „ef þú ert mér að nokkru leyti þakklát fyrir það, sem ég hef gert fyrir þig, þá farðu til St. Maur.“ „Nei, ég geri það ekki.“ „Þú verður að gera það, hvort sem þú vilt eða ekki,” sagði Gilbert og kallaði á frú Kraul og Flack. „Farðu með ungfrú Gwyn til herbergis hennar, frú Kraul. Hún ætlar með þér til St. Maur í kvöld.“ Verenika hopaði á hæl, en frúin greip hana og bar hana inn í herbergið. „Rækið þér nú skyldu yðar vel í kvöld, frú Kraul,“ sagði Gilbert, „gefið henni svefnlyf, svo þér getið farið með hana hindrunarlaust. Hér eru peningar til húsmóðurinnar og hér er fyrir ferðakostnaði. Þér vitið áritun mína, ef þér skrifið mér.“ Frú Kraul fór oft inn til Vereniku þennan dag til þess að fá hana með góðu að verða samferða til St. Maur, en Verenika var ósveigjanleg. Um fimmleytið færði frú Kraul Vereniku kvöldmatinn og te með svefnlyfi í. Verenika neytti matarins en hellti teinu, lagðist svo fyrir á rúminu og lést sofa. Nokkru seinna kom frú Kraul til hennar, leit fyrst á Vereniku og svo á tóman bollann, benti síðan húsmóðurinni, sem stóð fyrir utan, að koma inn til sín. „Þú þarft ekki að renna slagbrandinum fyrir, unga stúlkan sefur fast og vaknar ekki fyrr en á morgun. Ég gaf henni svo stóran skammt, að hann endist alla leiðina. Flack er að sækja vagn til að flytja hana í. Hérna eru peningarnir þínir.“ „Það er dimmt hérna,“ sagði húsfreyja. „Komdu með mér í dagstofuna — svo ég geti talið peningana. — Það var gott að ég taldi þá, það vantar tíu shillinga.“ Frú Kraul sem þóttist viss um að Verenika svæfi, fór fram í dagstofuna. Verenika þaut á fætur, greip ferðafötin sín, sem lágu á stól við rúmið, hljóp út í ganginn, þaðan ofan stigann og út. Frænkurnar heyrðu fótatakið og hlupu á eftir henni, en urðu of seinar — Verenika var komin út. Um leið og hún kom út, ók vagn að dyrunum, Flack stökk ofan úr sætinu og hljóp í veg fyrir hana. 53 Verenika hafði ekki séð Flack áður en hann sá hana, sneri því við og hljóp í gagnstæða átt. Hún var naumast komin fram hjá húsinu, þegar frænkurnar komu út og ráku sig á Flack, en ökumaður, sem var hræddur um borgun sína, tafði hann. Þau eltu hana nú öll þrjú, en Verenika var góðan spöl á undan og sveigði fyrir hvert hornið á fætur öðru. Loks áræddi hún að líta við og sá þá engan af þeim sem eltu hana. Hún hélt nú áfram uns hún kom í Oxford-götuna, sem var vel lýst. Hún stansaði fyrir utan stóra bókasölubúð. Þar var margt manna samankomið, sem stóðu og horfðu á skrautbundnar bækur og myndir í gluggunum. Vagn hélt kyrru fyrir á götunni. Verenika hallaði sér upp að gluggakarminum, við hliðina á sveitamanni nokkrum. Voru það forlögin, sem fluttu Vereniku þangað á þessari stundu? Hún var að horfa á myndirnar, þegar búðardyrunum var lokið upp — og út komu karlmaður og kvenmaður, ásamt búðarþjóni, sem hélt á stórri regnhlíf yfir þeim. Þetta voru lávarður Clynord og Sylvía. Þau höfðu komið til Lundúna þá um morguninn, því Sylvía þurfti eitthvað að kaupa og hafði beðið lávarðinn að fylgja sér, sem hann gerði fúslega af því hann var feginn að yfirgefa höll sína, með hennar óþægilegu endurminningum — nokkra daga. Sylvía hafði farið á milli verslunarbúðanna allan síðari hluta dagsins og komið við í þessari búð til að kaupa boðsmiða til brúðkaupsins. Verenika hljóðaði lágt og hörfaði undan, þegar hún sá mann sinn með Sylvíu. „Þeir eru fallegir þessir nýju boðsmiðar,“ sagði Sylvía svo hátt að Verenika heyrði það. „Ég er fegin að það er búið. En hvers vegna kemur þú ekki inn í vagninn, Roy? Það rignir, svo þú getur orðið innkulsa.“ Lávarðurinn, sem var að tala við ökumanninn, gaf orðum Sylvíu engan gaum, en Vereniku sárnaði að heyra þau. Lávarðurinn sté svo inn í vagninn og lokaði þjónninn dyrunum og sté síðan upp hjá ökumanninum. En í því bili, sem vagninn var að renna af stað, kom bóksalinn hlaupandi að spyrja um eitthvað viðvíkjandi boðsmiðunum og sneri sér að Sylvíu. Lávarðurinn leit yfir gangstéttina, rak upp hljóð og þaut út úr vagninum. Við birtuna úr glugganum hafði hann séð Vereniku. Andlitið var magurt og fölt, en jafnframt fagurt og góðlegt. Þrátt fyrir það að hann áleit hana dána, að hann hafði fylgt henni til grafarinnar og séð lík hennar í kistunni, þóttist hann nú sjá hana lifandi. Hann hljóp til hennar, en Verenika hvarf í þokuna, regnið og mannfjöldann. Hann elti hana hálfa götuna og kallaði á hana með nafni, en það var til einskis. Verenika var horfin. Svo sneri hann aftur þangað sem vagninn beið. Sylvía, sem horfði á þennan atburð hrædd og skjálfandi, var í slæmu skapi. Án þess að segja eitt orð, settist hann á móti henni og kallaði til þjónsins þetta stutta orð: „Heim.“ „Ég held þú sért búinn að missa vitið, Roy,“ sagði Sylvía. „Hvaða afsökun hefur þú fyrir breytni þinni?“ „Sylvía,“ sagði hann. „Ég sá Vereniku.“ „Einu sinni enn. Ætlarðu aldrei að losna við hana? Er hún alltaf á hælunum á þér? Þú segist hafa séð hana — svipinn meinarðu?“ „Nei, engan svip, heldur konu með holdi og blóði. Ég verð að finna Bisset og segja honum, að hér í Lundúnum hafi ég séð konu sem er í einu og öllu eins og Verenika.“ Sylvía svaraði engu, en hrökk við af hræðslu. „Ég verð að skrifa Gilbert í kvöld og biðja hann að finna mig,“ hugsaði hún. „Hvernig má það vera að hann lætur hana flakka einsamla um borgina, eða er hún strokin frá honum? Það verð ég að vita.“ Það sem eftir var af heimleiðinni, þögðu þau bæði. Verenika hélt áfram að ganga um göturnar — hvíldarlaust, og án ákveðins takmarks. Hún sá lávarðinn stökkva út úr vagninum og elta sig. Þá smokraði hún sér undir regnhlíf þess manns, er gekk við hlið hennar, og svo sveigði hún rösklega fyrir næsta götuhorn. Það var mannfærri gata, sem hún var nú stödd í. Gegndrepa af rigningunni og þreytt af hinni löngu göngu, settist hún á tröppur húss, sem stóð í skugga. Klukkan á kirkju nokkurri þar í nánd sló átta — kvöldmatartími fyrirfólksins. „Hann er sjálfsagt hjá ættingjum sínum,“ hugsaði Vernenika. Nú sló klukkan átta, og hann situr líklega við matarborðið. En hvað veðrið er kalt — það er líkara nóvemberveðri en maí. Kuldahrollur fór um hana og hún stundi þungan. Margir gengu framhjá, en enginn virtist sjá hana og enginn yrti á hana. Mínúturnar liðu hver af annarri — klukkan sló níu. Verenika stóð upp og hélt áfram, uns hún kom að litlu torgi þar sem fáein gasljós loguðu. Hún gekk þvert yfir torgið og kom inn í litla götu, þar sem flestallar búðir voru lokaðar. Samt sá hún ljós í einni búðinni og stefndi þangað. Hún sá, að þetta var kryddsölubúð, og var merking yfir dyrunum með þessari áletrun: „Pierre Bongateau, franskar kökur og brauðkollur, kaffi, te og súkkulaði“. Verenika stóð kyrr og leit inn í búðina, sem var mjög aðlaðandi. Kaffi væri hressandi fyrir mig, hugsaði Verenika. Kryddsalinn er franskur maður; heitir Fifina ekki Bongateau? Ég held það. Faðir hennar var kryddsali í Soho-Square. Máske það hafi verið Soho-Square, sem ég gekk yfir áðan? Ætli þetta sé heimili Fifinu? Kona með körfu á handleggnum gekk nú framhjá henni og inn í búðina. — Dyrabjallan hringdi hátt. Út úr herbergi inn af búðinni kom ung stúlka til að afgreiða konuna. Það var Fifina. Verenika þekkti hana strax. Konan var nú búin að kaupa það sem hún ætlaði og fór út, en Fifina fór að breiða þunna dúka yfir kökurnar. „Hún ætlar að fara að loka,“ tautaði Verenika. „Skyldi hún vilja hýsa mig eina nótt, án þess að segja frá hver ég er? Hún var mér ávallt velviljuð.“ Verenika var annað augnablikið ákveðin í að fara inn, en hitt augnablikið brast hana þor til þess. Í sömu svífum bar þar að flokk ungra manna, sem voru drukknir. Þegar þeir komu að búðinni sáu þeir Vereniku, og einn þeirra sagði: „Lofaðu mér að sjá framan í þig,“ unga fegurð, ég ætla að kyssa þig. Hvað þá, ertu hrædd?“ Hann reyndi að grípa yfir um hana, en Verenika rak upp hljóð og vatt sér inn í búðina. Dyrabjallan hringdi hátt, og Fifina sneri sér við — hún sá þegar hvað um var að vera. „Setjist þér niður, ungfrú. Þeir halda strax áfram. Hér eruð þér óhultar.“ Verenika hafði blæju fyrir andlitinu, sem hún lagði aftur á bakið, og sagði í blíðum róm: „Fifina, þú álítur mig látna. Ég hef að sönnu breyst nokkuð, en þó — þekkirðu mig ekki?“ Fifina þekkti andlitið um leið og málróminn. — Hún hélt að þetta væri vofa, hljóðaði hátt og datt um koll meðvitundarlaus. 55 Þegar drykkjurútarnir sáu að Verenika hvarf inní kryddbúðina, héldu þeir áfram. Enginn heyrði hljóðið í Fifinu, því þær voru einsamlar í búðinni. Verenika dró gluggatjöldin niður, tók svo vatnsflösku og dreypti á Fifinu. Hún raknaði við, lauk upp augunum og hljóðaði á ný. „Hafðu ekki hátt Fifina og reyndu að átta þig. Geturðu ekki trúað því, að ég sé lafði Clynord?“ Fifina reis upp á hnén og sagði: „Guð minn, guð minn! Þetta er vofa. Það er aðvörun um að ég eigi að deyja. Guð minn góður. Ég sá með eigin augum, að þér voruð jarðsettar og að þér voruð dánar og nú eruð þér andi, sem er kominn til að segja mér að ég eigi að deyja.“ Verenika hló hægan, aðlaðandi hlátur. — Það var langt síðan hún hafði hlegið. En stóru augun hennar Fifinu og svipur hennar var ómótstæðilegt hlátursefni. Það hafði aldrei heyrst að vofur höfðu hlegið og í öllum þeim skáldsögum sem Fifina hafði gleypt, var þess ekki getið. Þess vegna fór hún nú að efast um, að þessi gestur sinn væri vofa. „Nú ertu farin að efast um að ég sé vofa,“ sagði lafðin, sem sá að Fifina var að átta sig. „Áttu ekki eitt vingjarnlegt orð handa mér, Fifina? Ég hef stóra þörf fyrir einlæga vináttu.“ „Já, en þér voruð þó jarðsettar, lafði mín.“ „Já, en ég lá í dauðadái — þegar þeir lögðu mig í kistuna og fluttu mig í henni ofan í grafhvelfinguna. Eins og þú manst, var ég ekki lögð í kistuna fyrr en jarðarförin fór fram og lokið var ekki skrúfað á hana fyrr en niðri í grafhvelfingunni. Það er víst, að kistan var ekki loftheld, því ég gat andað í henni, og um nóttina kom maður og bjargaði mér. Af þessu sérðu, Fifina, að ég er lifandi vera, en ekki andi.“ „Já, það hlýtur að vera eins og þér segið, heldri kona getur ekki skrökvað. En ég hef aldrei orðið fyrir öðru eins. Mér kom þetta svo á óvart. Guði sé lof. Og þér eruð lifandi manneskja, sem getur borðað og drukkið eins og við? Það er undarlegt, mjög undarlegt. En ef þér eruð lafði Clynord,“ hún hopaði undan og krossaði sig, „hvernig stendur þá á því, að þér eruð hér einar á ferð svona seint. Hvar er lávarðurinn?“ „Fifina, ég sagði þér, að ég þyrfti vinstúlku. Ég á ekkert heimili, ekkert skýli um nætur. Ég ætlaði ekki að heimsækja þig, en tilviljunin dró mig hingað. Enginn, ekki einu sinni lávarður Clynord, má fá að vita, að ég er lifandi.“ „Hvað þá, veit lávarðurinn ekki, að þér eruð lifandi?“ „Nei, lofaðu því, sverðu mér það, að þú segir engum frá þessu, Fifina.“ „Ég lofa því og sver það. En samt get ég ekki skilið að þér séuð lifandi, án þess að lávarðurinn viti um það.“ „Það skal ég segja þér, en gleymdu ekki eiðnum. Erum við einsamlar? — Heyrir enginn til okkar?“ „Verið þér óhræddar, við erum aleinar. Pabbi og mamma fóru í franska leikhúsið og ég er hér til að afgreiða á meðan. Ég er herbergisþerna eins og ég var áður, en húsmóðir mín fór á söngskemmtun, svo ég hef frí til klukkan 11. — Þér getið óhikað talað, það heyrir enginn.“ Ennþá sá þó Verenika hræðsluna í augum Fifinu og sagði: „Ég sé, að þú ert enn í óvissu um það hvort ég er lifandi vera eða andi. Það hefur fyrr skeð að menn hafa verið jarðsettir lifandi og hvað mig snertir, þá var það Gilbert Monk, sem var hræddur um að ég lægi í dauðadái, og kom til mín um nóttina eftir að ég var jarðsett og bjargaði mér.“ „Hvað segið þér? Var það Gilbert sem bjargaði yður?“ „Já, Fifina. Fyrstu dagana eftir endurlífgun mína, var ég ekki með fullu ráði, en Gilbert útvegaði konu til að stunda mig, og var mér eins góður og bróðir. Að afstaðinni jarðarför minni fór Clynord til útlanda — án þess að láta vita hvert hann fór og var burtu fimmtán mánuði. — Þennan tíma allan annaðist Gilbert mig. Þegar lávarðurinn kom aftur, fór ég leynilega til Clynord-hallarinnar, klæddi mig líkklæðum mínum og gekk fram og aftur um höllina, sem svipur sjálfrar mín. Ég gerði þetta af því ég hafði lofað herra Monk, að láta lávarðinn ekki vita hver ég væri, fyrr en hann leyfði það. Já, Fifina — ég þori að segja þér það — ég kom aftur sem vofa, til að sjá hann — manninn minn — Clynord lávarð. Það var fyrsta kvöldið eftir heimkomu hans, og — Fifina hann sat við hliðina á Sylvíu Monk — sem unnusti hennar.“ „Sá óþakkláti,“ tautaði Fifina. „Og þér voruð gleymdar.“ „Já, það er orðið, sem við á — gleymd. Ég þekki ekkert hryggilegra orð í málinu en það. — Hann hélt ég væri dáin og hafði því heimild til að kvænast aftur. En getur þú ímyndað þér, hve mjög mér sárnaði — hann kyssti hana, tók hana í faðm sinn og nefndi hana öllum þeim gælunöfnum sem hann hafði gefið mér. Ég var gleymd.“ „Allir karlmenn, æðri sem lægri, eru eins. Þér munið víst, lafði mín, að fyrsta daginn, sem þér voruð á Clynord, sagði ég yður frá því, að Sylvía hefði verið trúlofuð lávarðinum, og — fyrsta ástin deyr aldrei.“ „Þau ætla bráðum að gifta sig, Fifina, og eru núna í Lundúnum. Í dag voru þau að útvega sér boðsmiða til veislunnar.“ „Það myndi ég aldrei leyfa,“ sagði Fifina. „Ég léti ekki fleygja mér allslausri út í heiminn og láta aðra taka minn sess. Væri ég í yðar sporum, myndi ég krefjast réttar míns, hvað sem aðrir segðu. Ég myndi fara beina leið til hallarinnar og segja: „Hér er ég og hér verð ég.“ Þegar ég hugsa um alla fallegu munina, kjólana og skrautið sem þér áttuð. Allt þetta vildi ég fá, svo mætti hver sem vildi biðja um ást lávarðarins. Auður og lífsþægindi — er það eftirsóknarverðasta í heiminum.“ „Ég vildi ekki eignast þessa hluti aftur á þennan hátt,“ sagði Verenika með hryllingi. „Honum mun naumast vera ánægja að því að ég er á lífi, hann er hættur að elska mig. Hann elskar hina af öllu hjarta. Það er búið að biðja um boðsmiðana fyrir veisluna og búið að ákveða giftingardaginn og auglýsa hann í blöðunum. Öll töf myndi koma honum illa og gera hann reiðan. Nei, Fifina, ég ætla ekki að trufla ástir þeirra. Ég ber ekki nafn hans lengur, ég kalla mig ungfrú Gwyn. — Sömuleiðis afþakka ég vernd herra Monks. Hann er eignalaus og því er réttara að ég vinni fyrir mér sjálf. Ég hef leitað að atvinnu sem kennslukona, en ekki fengið hana enn. — Sem stendur á ég hvorki peninga né heimili.“ „Heimili eigið þér ávallt meðan ég er lifandi og leyndarmál yðar skal ég geyma. Þér voruð mér alltaf góðar og því hef ég ekki gleymt. Þér getið verið hér þangað til þér fáið stöðu. Mitt herbergi er tómt og þér getið notað það. — Foreldrar mínir þurfa ekki að vita, hver þér eruð í raun og veru. Við skulum láta þau halda, að þér séuð ungfrú Gwyn, sem ég hef kynnst að öllu góðu áður fyrr.“ „Sé það mögulegt, að þetta geti orðið á þennan veg, Fifina, þá veitir þú mér með því bæði huggun og hvíld.“ „Og þér þurfið hvorttveggja með, þykist ég sjá. Hér skal maðurinn yðar ekki finna yður og það er ekki ómögulegt, að ég geti útvegað yður stöðu sem lagsmær og þá get ég að nokkru leyti orðið þerna yðar aftur. Húsmóðir mín hefur verið að leita fyrir sér eftir lagsmær — núna í heilan mánuð, sem getur sungið, leikið á hljóðfæri og lesið frönsku, menntaðri stúlku, sem hún getur skoðað sem hefðarmær, því þrátt fyrir hennar ytra dramb, er hún raungóð. Hún treystir mér svo vel, að ég er viss um að hún tekur yður. Ég hef verið hjá henni síðan ég fór frá Clynord.“ „Ég vildi að þér heppnaðist þetta, Fifina. Ég er svo einmana, svo yfirgefin í heiminum. — Hver er húsmóðir þín?“ „Lafði Díana Northwick, fögur kona, en köld eins og marmari. Ég býst við að hún gifti sig bráðum, þegar hún hefur afráðið, hvorn þeirra tveggja sem eru að draga sig eftir henni, hún kýs heldur, annar þeirra er lávarður Tentamoor, afbrýðisamur maður, sem hún hefur verið trúlofuð í mörg ár: hinn er lærður maður, Tempest að nafni, sem mér líst miklu betur á. En fyrirgefið mér, kæra lafði mín, ég stend hér og masa, og þér eruð svo þreyttar. Í kvöld ætla ég að tala við lafði Díönu, og á morgun — treystið þér því — skuluð þér hafa öðlast nýtt heimili.“ „Ég skal aldrei gleyma velvild þinni við mig Fifina, og ég er viss um að þú geymir leyndarmál mitt.“ „Þér megið reiða yður á það. En nú skulum við fara inn í borðstofuna. Ég ætla að búa til kaffi handa yður.“ Verenika settist í mjúkan hægindastól í stofunni og strax á eftir kom Fifina með kaffi og kökur, sem Verenika neytti með góðri lyst. „Mig undrar það,“ sagði Fifina hugsandi, „að lávarðurinn skuli engan grun hafa um að þér séuð lifandi.“ „Vera kann að hann hafi grun, en enga vissu. Mér er sagt að ég sé ekki lengur kona hans — eftir að ég er álitin dáin og jarðsett eftir enskum lögum.“ „Það eru ósanngjörn lög og ótrúleg. Mér dettur nokkuð í hug. — Í fyrradag kom hingað maður, sagði mamma mér og spurði eftir mér, og svo kom hann seinna þangað sem ég vinn — erindi hans var að vita í hvaða kjól þér voruð jarðsettar, og hvort önnur ermin hefði verið saumuð saman. Eins og þér munið, saumaði ég saman rifu á annarri erminni. Svo sýndi hann mér kjólinn, sem ég þekkti undir eins. Hver tilgangur hans var með þessu. Og hvernig náði hann í kjólinn? Ég skil hvorugt.“ „Ég skildi kjólinn eftir í höllinni, þegar ég var þar síðast og faldi hann svo vel, að ég hélt að enginn fyndi hann, en samt hefur hann þó fundist. Það er eflaust Roggy sem hefur fundið hann og svo hefur hún sent þennan mann til að leita að mér, Fifina,“ sagði Verenika föl af ótta, „Roggy hefur tvisvar sinnum reynt að myrða mig. — Hún hefur fundið kjólinn.“ „Já, lafði mín, ég býst við að þér getið rétt til. Mamma hefur sagt mér, að gömul, undarleg kona hafi komið tvisvar sinnum og beðið að lofa sér að vera. Hún kom með óteljandi spurningar um unga stúlku, sat lengi í búðinni og athugaði dyrnar. Mamma hélt að hún væri ekki með fullu ráði. Mér datt þá ekki í hug hver það myndi vera, en nú veit ég að það hefur verið Roggy.“ „Hún kemur eflaust aftur. Hún er grimm eins og tígrisdýr og þyrst í mitt blóð.“ Nú heyrðu þær að gluggahlerarnir voru látnir fyrir. „Það er pabbi,“ sagði Fifina. „Foreldrar mínir eru komnir og ég verð bráðum að fara heim til húsmóður minnar. Áður en ég fer skal ég kynna ykkur og sjá um, að þér getið verið hér.“ Búðardyrunum var nú lokið upp og inn komu foreldrar Fifinu. Verenika stóð upp, lét litla hattinn á höfuð sitt og beið þeirra þannig. Fifina hraðaði sér út í búðina. „Loksins komið þið, kæru foreldrar. Komið strax inn í stofuna. Ung hefðarstúlka er komin að heimsækja mig, sem ég vil kynna ykkur áður en ég fer.“ 55 Verenika skalf af hræðslu þegar hjónin komu inn í stofuna. Hún vissi, að húsaskjólið þessa nótt, og líkurnar til þess að hún fengi stöðuna hjá lafði Northwick, var undir því komið, hvernig þau tækju á móti henni. Föl, djarfleg, með ofurlítið bros á fagra andlitinu, stóð hún þarna og vakti það virðingu og ást hjá Fifinu. „Komdu inn mon peré, komdu inn ma mere,“ sagði Fifina áköf. „Ég hef fengið nokkuð óvænt handa ykkur. Ég hef fengið heimsókn af ungfrú Gwyn, sem ætlar að vera í nótt. Ég vann eitt sinn hjá henni. Ungfrú Gwyn — herra og frú Bongateau — góðu foreldrar mínir.“ Herra Bongateau leit upp undrandi, en hneigði sig þó kurteislega fyrir ungfrú Gwyn. Frú Bongateau hneigði sig djúpt, eins og hún vildi með því sýna, að hún bæri mikla virðingu fyrir ungu stúlkunni. „Ég man að sönnu ekki eftir að hafa heyrt nafn yðar fyrr, ungfrú Gwyn,“ sagði herra Bongateau vingjarnlega. „En samt sem áður eruð þér velkomnar undir mitt þak. Gjörið svo vel að setjast.“ Verenika settist niður við borðið, en Fifina hjálpaði móður sinni úr yfirhöfninni á meðan. Við fyrsta tillit hafði Verenika unnið sér hylli gömlu hjónanna. „Hvenær varstu hjá ungfrú Gwyn?“ spurði gamla konan. „Ég man ekki eftir því.“ „Ungfrú Gwyn átti heima í húsinu þar sem ég var, og ég átti einkum að þjóna henni. Hún var mjög góð við mig, og mér þótti vænt um hana, mamma. Forlögin hafa verið henni hörð. Hún hefur misst alla vini sína og ættingja, og er nú neydd til að vinna fyrir sér. Ég ætla að tala við lafði Díönu í kvöld, og biðja hana að taka ungfrúna fyrir lagsmær. Ykkur, kæru foreldrar, bið ég að lána ungfrúnni herbergið mitt, og vera henni eins góð og mér.“ „Það er velkomið, barnið mitt,“ sagði frú Bongateau. „Þér getið verið hér ef þér viljið, ungfrú.“ „Það var rétt, mamma,“ sagði kryddbakarinn. „Ungfrú Gwyn, þér eruð velkomnar að vera hér.“ Hann rétti henni feitu hendina sína, og Verenika tók í hana með ánægjubrosi. „Þökk pabbi, þökk mamma,“ sagði Fifina. „Þó er þess að gæta, að ungfrú Gwyn á óvini, sem sækjast eftir að deyða hana. Það er líklegt að þeir komi hingað. Það verður því að vera leyndarmál að hún er hjá okkur, og enginn má fá að sjá hana. Ef einhver spyr eftir henni, þá neitið að hún sé hér — gerið það mín vegna.“ Frú Bongateau leit fast á Vereniku, en hið sviphreina, alvarlega og eðallynda andlit eyddi strax öllum grun, svo hún lofaði að verða við beiðni Fifinu, og sömuleiðis faðir hennar. „Þér eruð nú hjá okkur, ungfrú,“ sagði hann hátíðlega, „og það er sama og að segja að þér séuð óhult. Gestarétturinn er okkur jafn heilagur og Arabanum í eyðimörkinni.“ Verenika vissi að hún mátti treysta þessum góðu manneskjum og gladdist innilega. Fifina bjó til te handa foreldrum sínum, og innan skamms var sest að góðum kvöldverði. Þegar búið var að borða, fylgdi Fifina Vereniku upp á loft og inn í laglegt herbergi með gluggum að götunni. „Lafði mín,“ sagði hún vingjarnlega. „Ég álít það heiður fyrir mig, ef þér viljið skoða fatnað þann, sem er í skápnum hérna sem yðar eign — að minnsta kosti þangað til við getum fullkomnað klæðnað yðar, sem ég vona að okkur lánist á morgun. Hér eruð þér óhultar. Ég skal segja foreldrum mínum allt, sem er nauðsynlegt. — Og nú, góða nótt.“ Hún greip hendi Vereniku og bar hana að vörum sér. Verenika kom í veg fyrir það, með því að faðma Fifinu að sér, sem kom út á henni tárunum. Rétt á eftir fór Fifina og Verenika háttaði, til þess að gleyma mótlæti dagsins í faðmi svefnsins. Það var orðið áliðið þegar Verenika vaknaði morguninn eftir. Hún fór þá strax fram úr rúminu og klæddi sig í föt sem Fifina átti, og var naumast búin, þegar frú Bongateau barði að dyrum. — Hún heilsaði gesti sínum vingjarnlega, spurði svo hvernig hún hefði sofið, og hvernig henni liði nú. Verenika kvaðst hafa sofið vel og nú liði sér ágætlega. „En svo verðið þér að koma ofan, ungfrú góð,“ sagði frú Bongateau. „Það er skemmtilegra niðri. Þegar þér eruð búnar að borða morgunverðinn hérna, verðið þér að koma ofan í stofuna og lesa morgunblöðin. Það er kalt og þoka úti, svo ég kveikti upp í ofninum og það er hlýtt niðri.“ Verenika kvaðst skyldi koma ofan, og svo fór frú Bongateau. Hún borðaði morgunverðinn og fór svo ofan í stofuna, sem var mjög viðfelldin. Þar dró hún stól að ofninum, settist og fór að lesa morgunblöðin. Frú Bongateau varð oft að fara út í búðina, svo Verenika var nærri alltaf einsömul. Um miðjan daginn var ágætis matur á borð borinn, sem hún neytti með bestu lyst. Hún var nýlega hætt að borða og hélt á blaði í hendinni, þegar dyrabjallan hringdi og karlmaður kom inn. Hjónin voru alein í búðinni. Verenika heyrði, að sá sem inn kom bar fram spurningu, og varð dauðhrædd — hún heyrði á röddinni, að það var Gilbert Monk. „Góðan morgun, góðu hjón,“ sagði hann. „Má ég spyrja, hvort þér eigið dóttur, sem Fifina heitir, og einu sinni var herbergisþerna lafði Clynord?“ Frú Bongateau játaði því. „Er dóttir yðar heima?“ spurði hann. „Nei, herra,“ svaraði frúin. „Við erum fremur fátæk, og hún verður að vinna eins og við. Hún er herbergisþerna hjá aðalsfrú nokkurri.“ „Hvað heitir sú aðalsfrú?“ spurði Monk. „Fyrirgefið herra, má ég fyrst spyrja, hvað þér viljið dóttur okkar?“ spurði herra Bongateau. „Ég er stjúpbróðir lávarðar Clynords,“ sagði Monk, „og ég þarf strax að fá að tala við hana.“ „Þar sem dóttir mín vinnur nú, er henni ekki leyft að taka á móti gestum. Hún kemur heim á sunnudaginn og þá getið þér máske fundið hana.“ Nú varð dálítil þögn, á meðan Monk var að ná valdi yfir gremju sinni, svo sagði hann í lægri róm en áður: „Ég get sagt yður erindi mitt, herra. Ég er að leita að ungri stúlku, sem hefur hlaupið burt frá ættingjum sínum. — Mér datt í hug að hún hefði máske leitað skjóls hjá dóttur yðar, sem einu sinni var þerna hennar. — Er hún hér?“ „Hvaða stúlku leitið þér að?“ spurði Bongateau. Verenika hélt niðri í sér andanum og hlustaði. Monk þagði stundarkorn og sagði svo: „Hún heitir ungfrú Gwyn. Það er hugsanlegt, að hún nefni sig öðru nafni, já, ef til vill álítur sig háttstandandi konu. Hún hefur verið veik og er naumast batnað enn og því verð ég að finna hana og fara heim með hana. Er hún hér hjá ykkur?“ „Við leigjum engin herbergi, herra,“ svaraði frúin, „þér verðið að leita að henni annars staðar.“ „Hún er þá ekki í þessu húsi — og þið hafið ekki falið hana annars staðar?“ spurði Monk í valdalegum rómi. „Nú er nóg komið, herra, — í þessum róm talar maður ekki við frú Bongateau,“ sagði bakarinn, og gekk framan að Monk. „Ímyndið þér yður, að þér hafið heimild til að yfirheyra okkur? Þér eruð enginn dómari — og við erum ekki ákærð. Ég verð að biðja yður þess vegna að fara. — Skiljið þér mig?“ Og benti Monk um leið á dyrnar. „Sem ég lifi,“ sagði Monk, „þá er unga stúlkan hérna í húsinu. Verið nú sanngjarn, herra, og lofið mér að tala við hana. Ég skal undir eins útvega lokaðan vagn og flytja hana burt hávaðalaust. Ég er frændi hennar og sem slíkur krefst ég þess að þér afhendið mér hana. Ef þér gerið það með góðu, skuluð þér fá fimm eða tíu pund fyrir ómakið.“ „Herra!“ kallaði bakarinn, „leyfið þér yður að bjóða mér mútur — mér.“ „Jæja, segjum þá 30, 40, 50. Hvað viljið þér fá fyrir að afhenda mér systur mína?“ „Herra minn!“ þrumaði bakarinn. „Ég ákveð ekkert verð, ég er heiðarlegur maður — og kæri mig ekki um peninga yðar. Þó ég vissi hvar ungfrú Gwyn er, skyldi ég ekki segja yður það. Þér hafið móðgað mig, — móðgað konu mína — verið þér sælir.“ „Ég er viss um að hún er hér,“ tautaði Monk. „Þér álítið yður mjög vitran, en þér vitið þó ekki við hvern þér eigið núna.“ „Það veit ég ekki, en brennisteinslyktin segir mér það að vissu leyti.“ Monk leit afar reiður á bakarann, sem horfði á hann með háðsku brosi. Svo þaut hann út og skellti hurðinni svo fast, að rúðurnar skulfu. Þegar hann kom út á götuna, ók vagn framhjá. Sá sem í vagninum sat, kallaði á Monk, sem strax þekkti róminn. Það var Sylvía, systir hans, sem var í vagninum og varð Monk ekki lítið hissa. „Ég ók hingað til að finna Fifinu, en ég held ég hætti við það. Hefurðu ekki fengið bréf, sem ég sendi þér í dag?“ „Nei, ég hef ekkert bréf fengið í dag. Svo þú ert komin til Lundúna — hvert er erindið?“ „Ég kom hingað með Roy, við höfum haft ýmislegt að undirbúa, þar á meðal að fá okkur boðsmiða til veislunnar. Núna er Roy hjá Tempest og ég var að kaupa ýmislegt í Regent-stræti. — Hvernig gengur þér núna. Er allt í góðu lagi?“. „Nei, hún er strokin frá mér.“ „Strokin, guð minn góður.“ „Já, þú þarft ekkert að óttast, það eru mín áform, sem hafa misheppnast.“ „Og hefur hún flúið til Fifinu?“ „Það þykist ég viss um. — Bölvaður franski karlinn vildi ekki þiggja mútur, en ég skal ná henni samt.“ „Komdu og finndu mig í Park Lane, hjá markgreifafrú Marchmont, og segðu mér, hvar ég get fundið þig ef á liggur.“ Monk sagði henni nafnið á hótelinu og kvaddi svo. Sylvía sagði ökumanni að halda áfram til Oxford-strætis, þar sem Roggy beið hennar. Monk var naumast farinn, þegar frú Bongateau fór inn í stofuna til að hugga gest sinn. „Þér hafið eflaust heyrt allt, ungfrú?“ spurði hún. „Breytti ég rétt, eða var maður þessi bróðir yðar?“ „Þér breyttuð alveg rétt og ég er yður innilega þakklát fyrir það. Maðurinn sem var hér er ekki bróðir minn. Ég er einmana í heiminum og ég á hvorki bróður eða systur. — Ég þekkti róm hans, það er maðurinn, sem ég flúði frá, hann vill að ég giftist sér, en ég get það ekki — ég — ég elska annan mann.“ „Jæja, nú skil ég. Verið þér alveg óhræddar, hjá okkur er yður óhætt.“ „Ég á annan óvin, sem er verri en hann,“ sagði Verenika. „Það er indversk kona, við hana er ég hræddari. Hún er lævís eins og refur og hikar ekki við að deyða mann. Fifina hefur sagt mér að hún hafi komið hingað einu sinni, en hún kemur eflaust aftur. Kæra frú Bongateau, látið engan vita um veru mína hér.“ „Verið alveg óhræddar. Ef kerlingin kemur, þá skal ég mæta henni, og ætti að vera fær um það. Treystið mér.“ Nú hringdi dyrabjallan í búðinni. Herra Bongateau hafði nóg að gera við að afgreiða 10 eða 12 viðskiptamenn, svo frúin fór út í búðina að hjálpa honum. Seinasti gesturinn var gömul, dökkklædd kona, með þykka blæju fyrir andliti, líkust því að hún væri sveitakona. Hún gekk beint til frú Bongateau, þegar hún kom út úr stofunni, eins og hún ætlaði sér þangað inn, en frúin fór í veginn fyrir hana og spurði: „Hvað viljið þér?“ „Þér þekkið mig eflaust,“ svaraði konan með annarlegri röddu, sem strax vakti athygli Vereniku. Ég hef einu sinni áður komið hér, og mig langar til að tala við yður.“ Nú vissi Verenika að þetta var Roggy. Gamla indverska konan dró græna silkipyngju upp úr vasa sínum — hélt henni á lofti svo sjá mátti í gljáandi gullpeninga gegnum möskvana og sagði: „Hérna, takið þér við þessu.“ „Pyngjunni? Hvers vegna?“ „Fyrir dálítinn greiða, sem þér eigið að gera mér. Ég er send hingað af háttstandandi konu, til að fá upplýsingar um unga stúlku, sem hefur leitað hælis hjá Fifinu dóttur yðar. Ég veit með vissu að hún er hér, og óska eftir að tala við hana nokkur augnablik.“ Augnabliks hik kom á frú Bongateau. „Þér hafið fengið ranga tilsögn,“ sagði hún. „Ég vil ekki peningana yðar, nema ef þér viljið kaupa brauðkollur eða möndlukökur.“ Kerlingin kreppti hnefana og bölvaði. „Ég kem ekki til að kaupa kökur,“ sagði hún, „ég ætla að fá að tala við ungu stúlkuna.“ „Þér tefjið mig við að afgreiða,“ sagði frúin. „Farið þér.“ „Ég er svo þreytt,“ sagði Roggy, „lofið mér að hvíla mig ögn inni í stofunni,“ og reyndi um leið að smeygja sér bak við frúna inn í stofuna — en frúin greip um axlir kerlingar og hratt henni frá. Bongateau sá hvað fram fór og kom til þess að hjálpa konu sinni. „Farðu út, eða ég læt kalla á lögregluna,“ sagði hann við Roggy, en hún stóð kyrr og var að hugsa um, hvernig hún ætti að fara að því að komast inn í stofuna. „Lögregla,“ kallaði Bongateau. „Lögregla,“ endurtóku gestirnir. 56 Viðskiptamenn Bongateaus hörfuðu til dyranna til að sjá hvað fram færi. Engum datt í hug að sækja lögregluna, því allir sáu að hjónin voru fær um að binda enda á þennan leik. „Lofið mér að komast inn,“ sagði Roggy og gnísti tönnum. „Lofið mér að komast inn.“ Jafnframt þreifaði hún undir svuntu sinni eftir glasi, sem hún hafði falið þar, glasi, sem geymdi ólyfjan er binda skyldi enda á líf Vereniku. — Aftur ruddist hún áfram. „Lögregla, lögregla!“ hrópaði frúin. Búðardyrabjallan hringdi og inn kom maður einkennisklæddur. Það var herra Bisset. „Má ég biðja um einn bolla af kaffi,“ sagði hann. — „Hvað er að?“ „Vitlaus betlikerling, herra,“ sagði einn af gestunum. Bisset horfði fast á kerlinguna, gekk svo brosandi milli hennar og stofudyranna. Gestirnir slógu hring um hópinn. „Þér kallið á lögreglu,“ sagði hann. „Jæja, ég er lögreglumaður. Hvað gengur á?“ „Þér eruð lögreglumaður,“ sagði Bongateau. “Jæja, losið mig við þessa kerlingu sem fyrst.“ Bisset greip um handlegg hennar. Roggy losaði sig argandi, en um leið féll blæjan frá dökkmórauðu andlitinu. „Ó, ert það þú,“ sagði Bisset. „Hvað ertu að gera hér?“ Kerling svaraði engu, en horfði hatursfullum augum á Bisset. „Lét hún í ljósi, að hún vildi tala við unga stúlku?“ spurði Bisset frúna. „Já, herra.“ „Hvað nefndi hún hana?“ „Ungfrú Gwellan, held ég.“ Bisset varð glaður í bragði. „Alveg rétt,“ sagði hann. „Fékk hún að tala við þessa stúlku?“ „Nei, herra. Það er engin stúlka með þessu nafni í húsi okkar.“ „Nú, nú, þú heyrir, að hér er engin stúlka með þessu nafni,“ sagði hann við Roggy. „Snautaðu nú af stað — eða ...“ Roggy sá hentugast að hlýða. Í dyrunum sneri hún sér við og sagði: „Djöfull! Bölvaður!“ „Talaðu hiklaust,“ sagði Bisset glaðlega. Bjallan hringdi og Roggy fór út. Gestirnir fóru á eftir skellihlæjandi. Að fáum mínútum liðnum kom Roggy aftur, og staðnæmdist hins vegar við götuna. „Hún er þarna inni,“ tautaði hún. „Gæti ég fundið hana eitt augnablik, þá skyldi vera úti um hana, og ég skal bíða og sigra. Á meðan fór Bisset að tala við hjónin. „Þetta er hættuleg kerling,“ sagði Bisset, „þér megið gæta ungfrú Gwellan vel fyrir henni.“ „Þessi svarti heiðingi kemur naumast hingað aftur,“ sagði bakarinn. „Það er alls ekki ómögulegt — hún er eins lævís og hinn vondi, og vill umfram allt komast inn til ungfrú Gwellan.“ „Það er engin ungfrú Gwellan hér,“ sagði frúin. „Á, nefnduð þér ekki stúlkuna þannig?“ „Nei, það var gamla kerlingin, sem kallaði hana þessu nafni.“ „Hvað heitir hún þá?“ spurði Bisset. Frúin varð vandræðaleg. Bakarinn yppti öxlum og fór að afgreiða nýja gesti. „Þetta er nú í þriðja sinn í dag, sem ég er spurð um unga stúlku, er á að vera hér,“ sagði frúin. „Fyrst kom unglegur maður, skeggjaður, með dökkan hörundalit.“ „Monk,“ tautaði Bisset. „Svo kom indverska kerlingin, og núna þér,“ sagði frúin. „Hver er þessi stúlka, sem þér leitið að? Hvað hefur hún misgert? Ef þér getið, þá komið með upplýsingar um það.“ „Ég skal vera hreinskilinn,“ svaraði Bisset. „Ég er að leita að ungri stúlku. En hvað hún kallar sig, veit ég ekki. Samt þykist ég viss um, að hún sé hér. Leyfið mér að tala við hana, og þér munuð sannfærast um, að ég er vinur hennar.“ Frúin hleypti brúnum og svaraði: „Þér eruð eins og hinir, ég held þér séuð ekki lögreglumaður. Af hvaða ástæðum eigum við, skikkanlegar manneskjur, að mæta heimsóknum af — ég veit ekki hverjum — og þess vegna bið ég yður að fara. Verið þér sælir.“ Bisset var svo vanur að umgangast kvenfólk, að hann vissi, að orðalengingar voru gagnslausar. Fyrir því bað hann afsökunar á töf þeirri, er hann væri orsök að, og fór. Þegar hann gekk í hægðum sínum ofan Oxford-stræti, sagði hann við sjálfan sig: „Hún er hjá Bongateau, það er áreiðanlegt, og hún er í góðri geymslu þar, því hjónin eru trú. — Svo hún kallar sig Gwellan. Áður en ég ráðfæri mig við lávarð Clynord, verð ég að sjá mína götu greiða. Lafðin dvelur hjá Bongateau, en hún grunar alla um illt. Hvernig á ég að ná tali af henni?“ Sama spurningin vakti fyrir Monk og Roggy. — Hvert þeirra átti að sigra? Þennan dag gerði ekkert þeirra tilraun til að ná fundi Vereniku aftur. Hún dvaldi því í kyrrð í litlu stofunni hjá bakarahjónunum. Skömmu eftir að dimmt var orðið, kom Fifina akandi í vagni og hraðaði sér inn til Vereniku. „Góðar fregnir, laf- ungfrú Gwyn,“ sagði hún, þegar hún var búin að loka dyrunum. „Ég hef talað við lafði Díönu. Hún vill fá að sjá yður og tala við yður strax í kvöld. Henni líður ekki vel, og hún leyfir engum gesti inngöngu. Viljið þér verða mér samferða?“ „Já, Fifina, við skulum fara strax,“ sagði Verenika. „Ég hef valdið foreldrum þínum miklum óróa, enda þótt þau vilji ekki kannast við það af góðsemi sinni. Monk hefur verið hér, sömuleiðis Roggy, og ennþá einn, sem ég þekkti ekki. Þau virtust öll viss um, að ég væri hér.“ „Og þau standa ennþá úti fyrir að gæta að, hverjir koma og fara,“ sagði frúin. „En hvernig eigum við Fifina þá að komast óhindraðar burtu?“ „Það veit ég sannarlega ekki, ungfrú Gwyn,“ sagði Fifina. „Hvað leggur þú til, mamma?“ Frú Bongateau hugsaði sig um. „Ungfrú Gwyn hefur eitthvað að dylja,“ sagði hún, „Það er auðséð. Og sömuleiðis, að hún er ekki sú sem hún læst vera, en það er hennar leyndarmál. — Hún hefur beðið um vernd okkar, og henni skal hún veitast. Hvert sem þetta leyndarmál er, og hve marga óvini sem hún á, þá erum við viss um, að hún er í alla staði virðingarverð stúlka, og því skulum við annast um, að hún geti óséð og óhindruð komist í burt í kvöld.“ „Kæra mamma!“ „Já, Fifina. Færðu mér gráa kjólinn, sem ungfrú Gwyn var í í gær, og hattinn hennar og gráu blæjuna. Ég fer í þessi föt og ek svo burt í vagninum sem þú komst í. Njósnararnir munu þá elta mig, og þegar þeir eru horfnir, læðist þið út og gangið til Oxford-strætis og fáið ykkur vagn þar. Skiljið þið mig?“ „Já, fyllilega. Þetta áform er óviðjafnanlegt,“ sagði Fifina. Verenika fór nú í svartan silkikjól, sem Fifina átti, og önnur fleiri föt af henni, og kvaðst svo vera ferðbúin. „Ég skal líka vera ferðbúin að augnabliki liðnu,“ sagði frúin, þaut upp og fór í föt Vereniku. „Hvað sagðirðu lafði Díönu?“ spurði Verenika, þegar þær voru orðnar einsamlar. — „Var ekki erfitt fyrir þig að svara spurningum hennar um minn liðna æviferil?“ „Nei, alls ekki. Eins ísköld og lafði Díana er gagnvart aðdáendum sínum, eins alúðleg og góð er hún við mig. Ég sagði henni að þér hefðuð þekkt betri daga, en væruð nú einmana í heiminum, og þyrftuð að ávaxta þekkingu yðar og hæfileika. — Það liggur illa á henni í kvöld, og vill hún því heyra yður leika á hljóðfæri og syngja. Hún hefur sínar sorgir að bera, en hver er laus við þær?“ Nú kom frúin ofan, klædd í föt Vereniku. Eftir nokkrar ráðagerðir með manni sínum fór hún út, hvíslaði nokkrum orðum að ökumanni og steig upp í vagninn. Gilbert Monk og Roggy fóru strax að elta vagninn. En Bisset, sem stóð í dimmum dyrum hins vegar við götuna, brosti og tautaði: „Mig furðar, að Gilbert lætur narra sig. Aðalpersónan kemur á eftir.“ Og þannig var það líka. Litlu síðar var búðardyrunum lokið upp með hægð og út komu Fifina og Verenika, sem gengu í áttina til Oxford-strætis. Bisset fór á eftir þeim. Þegar þær komu á fyrstu ökumannsstöðvarnar fengu þær sér vagn og óku til West End. Bisset heyrði Fifinu nefna nafn götunnar og húsnúmerið. Hann fleygði vindilsstúfnum og sagði: „Fundin. Afgerandi spor í áttina. Grosvenor Square nr. 53. Þar býr lafði Díana Northwick. — Hamingjan má vita, hve mikið hún veit af þessu leyndarmáli. — Herra Monk, það er að lagast. Ég skal búa út viðbrigði fyrir þau. Það verður gaman. Dagurinn á morgun verður merkisdagur í lífi sumra manna — ha, ha, ha. Annað kvöld, fyrr get ég það ekki — ha, ha, ha!“ 57 Eins og Fifina sagði Vereniku, var þunglyndiskast í lafði Díönu. Hún hafði læst sig inni í skrautstofu sinni og gegndi engum gestum. Maíkvöldið var kalt, svo kveikt hafði verið upp í ofninum. Í lágum hægindastól, sem stóð við ofninn, sat hin fagra lafði Díana. Í kjöltu hennar lá minjagripur, sem henni þótti vænna um en alla dýrgripi sína — það var lítill, gatslitinn barnsskór. „Vesalings framliðna barnið mitt,“ sagði Díana. „Hefði ég fengið að hafa þig hjá mér, þá væri ég betri kona en ég nú er.“ Tárin runnu niður kinnar hennar ofan á litla skóinn. „Blessað litla barnið mitt,“ sagði hún. „Þú getur ekki komið til mín, en máske mér verði leyft að koma til þín.“ Fótatak heyrðist í ganginum, og svo var barið ofur hægt á hurðina. Díana stóð upp og fól skóinn, fór svo og lauk upp. Úti fyrir stóð Fifina, og bak við hana Verenika. Fyrst tók Díana ekki eftir Vereniku, sem gekk inn á eftir Fifinu. „Ert það þú, Fifina,“ sagði hún þreytulega. „Hvað vilt þú?“ „Ég er komin með ungfrú Gwyn, sem ég talaði um við yður,“ sagði Fifina. „Hér er hún.“ Fifina gekk til hliðar, svo birtan féll á Vereniku. Svo fór Fifina inn í fataklefann og skildi fyrri húsmóður sína eftir hjá hinni síðari. Díana varð undir eins hrifin af Vereniku, og lagði aðeins fáeinar spurningar fyrir hana um hina liðnu ævi hennar. Verenika svaraði, að hún væri foreldralaus, kjör sín væru erfið, og að hún yrði að vinna fyrir sér. „Meðmæli hef ég engin,“ bætti hún við, „að svo miklu leyti sem vitnisburður Fifinu dugar ekki.“ „Þér viljið að líkindum ekki að kunningjar yðar viti, að þér hafið ráðið yður í vist,“ sagði Díana vingjarnlega. „Slíkt gerir ekkert, ég á ekki falskt dramb. Að vinna er engin minnkun, og ég fyrirverð mig ekki fyrir að gera það, sem forlögin hafa lagt mér á herðar. En það er enginn til, sem ég get vísað á að bera mér vitni um mitt liðna líf og eiginleika. Síðast liðnir tímar hafa gjörsamlega breytt lífsleið minni. Ég hef aldrei gjört neitt, sem ég þarf að fyrirverða mig fyrir. En þegar ég yfirgaf fyrri lífskjör mín, yfirgaf ég um leið vini, auð og allt. Fifina getur staðhæft, að ég er ekki óhæf til að umgangast yður.“ Það var engin skríðandi auðmýkt í framferði Vereniku. Hún talaði við lafði Díönu sem jafningja sinn. En viðmótsþel hennar var aðlaðandi. „Máske þér viljið leika ögn á hljóðfæri fyrir mig,“ sagði lafði Díana. Verenika settist við hljóðfærið og lék undur fagurt tónverk. Svo lét hún fingurnar leika fagurlega eftir nótunum og byrjaði á skosku þjóðlagi, sem hún söng með snjallri og yndislegri röddu. Næst söng hún ítalskt kvæði. Díana hlustaði hugfangin á þennan unaðsríka söng. „Þér eruð regluleg söngmær,“ sagði hún. Verenika brosti raunalega og sagði: „Á opinberum stöðum syng ég aldrei. Það er hvorki gull né vegsemd sem ég þrái. Ég óska aðeins eftir heimili, þar sem ég get lifað í friði og út af fyrir mig. Ó, lafði Díana, ég hef í fyllsta mæli fengið að reyna hvað það er að vera fátæk og heimilislaus, og einnig að vera svöng. Ég þrái nú mest þak yfir höfuðið.“ Lafði Díana varð hrifin af þessari dapurlegu viðurkenningu, og hafði þegar afráðið að ráða Vereniku til sín sem lagsmey sína. „Lesið þér frönsku?“ spurði hún. Verenika tók franska skáldsögu af borðinu og las nokkrar setningar með skýrri og hreimfagurri röddu. „Þér lesið ágætlega, ungfrú Gwyn,“ sagði hún. „Framburðurinn og áherslan er meistaraleg. — Þér skuluð fá stöðuna. Starf yðar er falið í að leika á hljóðfæri, syngja og lesa fyrir mig, með fám orðum, vera mér til skemmtunar þegar ég óska þess. Ég bý alein í húsinu með þjónum mínum og einum ættingja, roskinni, aðalborinni konu, sem ég virði mikils. Laun yðar verða hundrað pund sterling um árið og auk þess skal ég láta Fifinu hjálpa yður með fatnaðinn. — Eruð þér ánægðar með þetta?“ „Já, lafði Díana,“ sagði Verenika glöð og undrandi. „Þér ætlið þá að taka mig á heimili yðar — máske strax í kvöld?“ Það var svo innileg bón í stóru, brúnu augunum, sem horfðu á lafði Díönu. Það var í þessu tilliti eða sjálfum augunum, eitthvað, sem snertu innstu hjartastrengi hennar. Hrifin af skyndilegri og óvanalegri tilfinningu, tók hún Vereniku í faðm sinn og kyssti hana. „Kæra barnið mitt,“ sagði hún, „frá þessari stundu skuluð þér hafa heimili hjá mér. — Treystið því, að nú séu sorgir yðar og vandræði á enda. Augu yðar minna mig á önnur dýrmæt augu, sem dauðinn hefur lokað fyrir nokkrum árum og mér skal alltaf þykja vænt um yður, þó ekki sé annars vegna en augnanna.“ Verenika varð bæði glöð og angurvær — þetta augnablik. „Þetta eru undarlegir samfundir,“ sagði Díana og reyndi að brosa. „Ég er allt öðruvísi í dag en ég er vön að vera. Það er eitthvað við yður, ungfrú Gwyn, sem hreyfir tilfinningar mínar og ég sé að þér eruð einnig viðkvæmar. Fifina hefur sagt mér að þér hafið verið veikar og ég er hrædd um að of mikil geðshræring skaði yður. Nú skal ég kalla á Fifinu til þess að fylgja yður til herbergis yðar.“ Hún gekk að borðinu og sló í silfurbjöllu, sem þar var. Fifina kom strax. „Fifina,“ sagði lafði Díana. „Ungfrú Gwyn ætlar að verða lagsmær mín eftirleiðis. Fylgdu henni til herbergis hennar, þess, sem er beint á móti búningsklefa mínum.“ Verenika bauð Díönu góða nótt, — og fór með Fifinu. Daginn eftir hafði Díana Vereniku hjá sér allan daginn og var mjög ánægð með samvistir við hana. Klukkan 8 um kvöldið, að lokinni máltíð, kom Tempest. Díana fagnaði honum innilega. Tempest var alvarlegur og hugsandi. „Ætlið þér á danssamkomuna hjá lafði Graham í kvöld, lafði Díana?“ spurði hann. Díana yppti öxlum. „Lafði Graham hefur þann sið,“ svaraði Díana, „að borga alla og allra ljúfmennsku í einu, en það er ekki að mínu geði. Í kvöld verð ég heima. — Ætlið þér þangað?“ „Nei, ég ætla ekki þangað, ég ætla ekki á fleiri samkomur — ég fer brátt aftur til Tartaranna.“ Hann horfði spyrjandi á andlit hennar, sem fölnaði allt í einu. „Er sú ákvörðun ekki of fljótráðin, herra Tempest?“ sagði hún og forðaðist að líta á hann. „Nei, frú. Ég ætlaði upphaflega ekki að vera eins lengi á Englandi og ég hef verið. Ekkert tengir mig við England, svo ég fer líklega í þessari viku.“ „Og þér voruð að finna ánægjuna í því landi?” sagði Díana í beiskum róm. „Nei, frú, ekki ánægjuna, en takmark lífsins. Þessi heimsókn mín til yðar, er að öllum líkindum sú síðasta. Ég mun ávallt minnast vináttu yðar með þakklæti, og vona að samband yðar við Tentemoor lávarð verði farsælt.“ Glóandi roði færðist um kinnar Díönu. „Yður skjátlast óheppilega, herra Tempest,“ sagði hún, „mér dettur ekki í hug að giftast Tentemoor lávarði.“ „Er það. — Menn hafa sagt mér — að þér væruð heithundnar Tentemoor lávarði — lafði Díana.“ „Að þér hafið lifað í Tartaríinu svo mörg ár, er afsökun fyrir trúgirni yðar á almenningsþvaðrið, herra Tempest. Við vorum heitbundin, en ég hef fundið að við eigum ekki saman, og því hef ég gefið honum lausan tauminn.“ „Eftir að þér hafið haldið von hans við líði bestu æviár hans,“ sagði Tempest alvarlegur. „Hefur Tentamoor sent yður sem málflytjanda sinn?“ sagði Díana gröm í geði. „Ég trúlofaðist honum án þess að elska hann, af því ég var svo einmana og hafði engan að flýja til. Ég þekkti hann þegar ég var barn í skóla og hélt þá að ég elskaði hann. Eftir skipun móður minnar giftist ég Sir Rupert Northwick og reyndi að gleyma Tentamoor. Ég elskaði ekki manninn minn, en ég var honum góð kona og hef aldrei óvirt heiður hans, hamingjunni sé lof. Sir Rupert hafði enga hugmynd um, að móðir mín var stórskuldug og að ég var þvinguð til að eiga hann — og þó...“ „Og þó, lafði Díana ...“ „Hlustið þér á játningu mína. Ég var búin að vera gift í nokkur ár, þegar Tentamoor heimsótti mig og ég sá hann í fyrsta sinn eftir giftingu mína. Við það að sjá hann lifnaði barnsástin aftur. Hann fann að því að ég hefði brugðist sér og gifst Sir Rupert, af því hann væri ríkari — ég hefði selt mig. Í einhverju tilfinningaæði, játaði ég að elska hann enn, en hefði gifst peningum Sir Ruperts af því ég þyldi ekki fátækt. Ég veit ekki hvað hann sagði og heldur ekki hvað ég sagði í örvæntingu minni — en loks vaknaði skyldutilfinning mín og ég bað hann að fara og koma aldrei aftur, kvaðst vilja vera þeim manni trú, sem ég hefði selt mig. Hann grátbændi mig að flýja með sér, en ég aftók það með öllu. Svo fór hann og ég fór til herbergis míns — þá komst ég að því að maðurinn minn hafði verið heima, og heyrt allt — og að hann hafði tekið einkabarnið okkar og farið með það. Þetta var hegningin og hún var óttaleg. Blessað barnið mitt, sem ég hef syrgt til þessa dags, og enga huggun þegið.“ „Og manninn yðar hafði þér líka syrgt?“ „Nei, ég elskaði hann ekki, en ég kenndi í brjósti um hann. Hann dó líka skömmu síðar, að því er frú Walton, systir hans, sagði mér og nú er hún líka dáin. Vesalings barnið mitt er líka dáið, og ég veit ekki einu sinni hvar það er jarðsett. Mig vantaði viljaþrek í þá daga, því það er ranglátt að giftast heiðarlegum manni vegna peninga hans. Eina afsökunin mín er, að ég hlýddi vilja móður minnar í blindni. Tentamoor sá ég ári síðar og svo fór hann að heimsækja mig við og við, en ekki trúlofaðist ég honum fyrr en ég frétti um dauða Sir Ruperts. Tentamoor var afbrýðisamur, svo ég varð köld og bitur, en nú er ég orðin sannfærð um að ég hef aldrei elskað hann, og þar eð ég ekki elska hann, vil ég engin vonbrigði gera honum. Auk þess er ást hans ekki laus við sérdrægni, því væri ég fátæk myndi hann ekki skeyta um mig.“ „Ég held þér álítið rétt, lafði Díana. Það er í öllu falli betra að auka honum sorg nú, en giftast honum án ástar. — Þér eruð nú ekki lengur bundnar og getið gifst þeim sem þér viljið. Það sem ég ætla að segja yður, hefur máske verið sagt við yður hundrað sinnum áður. — Ég er einmana og sorgbitur maður, en ég elska yður af öllu hjarta. — Viljið þér verða konan mín?“ Lafði Díana leit upp undrandi, henni kom þetta svo óvænt. Fyrst roðnaði hún, svo fölnaði hún og leit feimnislega undan um leið og hún sagði: „Já, Basel.“ Það var eins og sólargeisla brygði fyrir á andliti Tempests. Hann dró hana að brjósti sér og spurði: „Díana, elskar þú mig?“ „Já,“ svaraði Díana, „ég elska þig meira en mitt eigið líf.“ „Elskar þú mig meira, en þú elskaðir Tentemoor.“ „Já, það var aðeins barnsást. Þig, Basil, elska ég meir, en ég get með orðum lýst. — Og þú, Basil?“ „Þú ert mín, mitt líf, allt ert þú mér,“ svaraði hann og þrýsti henni að sér. En ertu nú viss um að þú elskir mig mín vegna? Ég er ...“ „Basil, orð þín hryggja mig. — Álíturðu mig ágjarna af því ég giftist Sir Rupert vegna peninga. Ég hef nóg fyrir okkur — og mér þykir enda vænt um, að þú ert ekki ríkur.“ „Segðu mér aftur að þú elskir mig.“ „Ég elska þig, Basil, umfram allt.“ „Þú hefur sagt mér hina fyrri ævi þína, nú skal ég segja þér frá minni. Forlög okkar eru lík. Ég hef líka verið giftur.“ „Þú, Basil, já, það er satt, ég hef heyrt að þú værir ekkjumaður.“ „Konan mín tók mér líka vegna peninganna. Ég heyrði samtal hennar og elskhuga hennar, alveg eins og samtal þitt og Tentemoors. Ég heyrði konuna mína segja að hún hataði mig og að hún hefði gifst mér vegna peninga minna, ég heyrði elskhuga hennar biðja hana að flýja með sér. — Ég held, að á því augnabliki hafi ég verið nær því vitstola. Ég þaut til herbergis míns, skrifaði henni bréf og kvaðst hafa heyrt allt. — Svo hljóp ég inn í barnaherbergið, tók barnið okkar, dálitla stúlku, og flúði burt með hana.“ „Guð minn góður.“ „Ég flutti barnið burtu úr landinu og fékk því verustað hjá ókunnugu fólki — að ég breytti þannig, er sönnun þess að ég vissi naumast hvað ég gerði — svo fór ég til Tartaranna — og hef verið þar síðan. Fyrir fáum mánuðum síðan sneri ég aftur heim til að sjá dóttur mína — en hún var dáin. Ég sá þig, varð ástfangin í þér og eignaðist ást þína. Díana, ég heiti ekki Tempest — nafn mitt er Sir Rupert Northwick.“ Nú varð dauðaþögn. Díana féll á kné — og byrgði andlit sitt í höndum sínum. Nú þekkti hún hann aftur og hélt að hann hefði náð ást sinni til þess að hæðast að sér og hefna sín, með því að hrekja sig í burtu, eins og hún í blindni sinni hafði gert við hann. — Hún laut enn meira niður og náttmyrkur var í huga hennar. Loksins leit hún upp, en augun sem horfðu á hana voru alvarleg og ströng — eins og dómarans. Með örvæntingarópi fól Díana höfuð sitt aftur í höndum sér. „Díana,“ sagði hann blíðum rómi. Hún leit upp. Alvaran var horfin sem ís fyrir sólu. Með brosi sem fól í sér ósegjanlega ást og blíðu, leit hann til hennar. „Komdu til mín, Díana,“ sagði hann með innilegri blíðu. „Komdu, elskulega konan mín, sem mér nú loksins hefur auðnast að sigra.“ Hann breiddi út faðminn. Með háu gleðiópi stökk Díana á fætur og fleygði sér í faðm hans. Maður og kona voru loks sameinuð. 58 Hálfri stundu síðar — Sir Rupert Northwick og lafði Díana sátu hlið við hlið og spjölluðu um liðna ævi og ráðgerðu ýmislegt fyrir ókomna tímann — var þeim sögð gestskoma: lávarður Tentemoor. Lávarðurinn gekk eins óhikað inn og hann ætti þar heima. Hann var kominn í þeirri von, að finna Díönu einsamla, en lét brúnir síga, er hann sá Tempest, og glaðnaði lítið við það, að hann sá hann halda um mitti Díönu. Með ergilegu og ásakandi augnaráði leit hann til Díönu. Hún reyndi að losa sig, en Rupert hélt henni kyrri. „Gerðu svo vel að kynna mig lávarðinum, kæra Díana,“ sagði hann rólegur. Tentemoor stóð sem þrumu lostinn. „Lávarður Tentemoor.“ sagði Díana glaðlega, „leyfið mér að kynna yður þennan heimsflakkara, Basil Tempest, sem fyrrverandi mann minn — Sir Rupert Northwick.“ Tentemoor gleymdi sér alveg. „Hvað segið þér,“ stamaði hann. „Það er ómögulegt?“ „Það er meira en mögulegt,“ svaraði Sir Rupert, „það er satt. Við höfum öll þjáðst, held ég, en ég fyrirgef yður alla þá sorg, sem þér hafið valdið mér, og útlegðina, sem þér eruð valdur að. Ég kom hingað fullur af beiskju og hatri, en sem Basil Tempest hef ég öðlast aftur ást konu minnar og ætla mér nú að taka upp nafn mitt að nýju og stöðu í mannfélaginu. Við skulum vera vinir.“ Hann rétti honum hendina. Tentemoor áleit réttast að láta sem ekkert væri, tók í hendi hans og þrýsti hana innilega. Lengi gat hann samt ekki dvalið og kvaddi því bráðlega og fór. Fám mínútum síðar kom Clynord lávarður og Bisset. „Nei, þetta var óvænt ánægja,“ sagði baróninn himinglaður og gekk á móti lávarðinum, hvaða tilviljun flytur yður hingað á þessari happastundu? En leyfið mér fyrst að kynna yður fyrrverandi konu minni, lafði Díönu Northwick.“ Lávarðurinn og Bisset urðu hissa, en lávarðurinn áttaði sig strax og hneigði sig fyrir konunni. „Ég hef borið dulnefni,“ sagði baróninn. „Ég heiti ekki Tempest, lávarður. Af ástæðum, sem ég hef áður sagt yður, yfirgaf ég föðurland mitt og tók mér annað nafn. Nú hefur konan mín yfirunnið mig aftur, svo héðan af ber ég mitt rétta nafn, sem er Sir Rupert Northwick.“ „Þetta líkist skáldsögu,“ sagði lávarðurinn, „en ég óska ykkur til hamingju af heilum hug.“ „Lafði Díana Northwick — herra Bisset,“ sagði baróninn, um leið og hann kynnti konu sína fyrir leynilögreglumanninum. Díana heilsaði Bisset alúðlega. „Við komum á óhentugum tíma,“ sagði Roy. „Bisset bað mig að koma hingað í því skyni, að fá upplýsingar um leyndarmál Clynord-hallarinnar. — En nú skulum við fara og koma heldur aftur á hentugri tíma.“ „Nei,” sagði baróninn. „Mér þykir vænt um að þér skuluð vera hér — þó ég skilji ekki hvaða upplýsingar um leyndarmálið Bisset getur fundið hér. En ég hef játningu að segja yður, sem mig gildir einu, þó Bisset heyri. — Sökum misskilnings milli mín og konu minnar, fór ég að heiman fyrir fimmtán árum og tók einkabarnið okkar með mér. Ég flutti það á skemmtiskipi mínu til Hebrideseyjarinnar St. Kilda, og kom því fyrir hjá prestinum og konu hans. — Þá var það áform mitt að koma aftur eftir fimm ár og sækja það.“ Lávarðurinn hljóðaði af undrun. „Ég kom aldrei aftur til St. Kilda og get ég á engan hátt afsakað þessa vanrækslu skyldu minnar. — Barnið óx og varð að ungri stúlku. — Þér sáuð hana, lávarður, fenguð ást á henni og kvæntust henni. Hún var nefnd Verenika Gwellan, en hennar rétta nafn var Díana Northwick.“ Díana og Roy voru mállaus af undrun. „Heittelskaða barnið mitt dó. Hún hefur aldrei kynnst föður- eða móðurást, en maður hennar elskaði hana innilega og gerði henni síðustu ævistundirnar farsælar.“ Grátandi rétti Díana hendina að Roy, sem hann greip hálfkjökrandi. „Þetta er allt mjög merkilegt,“ sagði Bisset, „en það merkilegasta er að enginn vina yðar né kunningja skyldi þekkja yður, Sir Rupert, þegar þér komuð aftur.“ „Það er ekki svo merkilegt,“ svaraði baróninn, „ég var ungur og grannvaxinn þegar ég fór, og svo kem ég aftur eftir 16 ár, gráskeggjaður, sólbrenndur og gildur á velli.“ Nú var hringt tvisvar. „Það er gestkvæmt hjá okkur þetta kvöld, kæra Díana,“ sagði baróninn. „Hver ætli sé að koma nú?“ „Gestir, sem ég hef leyft mér að boða hingað,“ sagði Bisset. „Nú eru þeir allir komnir.“ Dyrnar opnuðust og þjónninn sagði: „Ungfrú Monk og herra Monk.“ Gilbert leiddi Sylvíu inn í salinn. Þau komu beint frá söngleikahúsinu og ætluðu aðeins að standa stutt við. „Ég fékk bréfið yðar,“ sagði Sylvía, gekk til Díönu og rétti henni hendina. „Þér hafið þó líklega ekki samkvæmi eða ...“ Hún leit nú í kringum sig til að sjá hvort fleiri gestir væru til staðar, og kom auga á Tempest, Roy og Bisset. Hún hneigði sig fyrir Tempest og þaut svo að hlið lávarðarins. Díana neitaði ekki að hafa skrifað bréfið. Henni datt strax í hug, að Bisset hefði gert það, þó hún ekki skildi ástæðurnar. „Nei, ég hef ekki samkvæmi í kvöld, ungfrú Monk,” sagði hún, „en nokkrir vinir mínir eru hér. Leyfið mér að kynna yður mann minn, Sir Rupert Northwick, sem áður nefndi sig Tempest. Ég hef árum saman álitið hann látinn.“ Systkinin flýttu sér að óska hjónunum til hamingju. Þau álitu að heimboðið stafaði af þessu. „Við höfum gert markverða uppgötvun, Sylvía,“ sagði Roy. „Verenika var dóttir þessara hjóna.“ Gilbert bölvaði í hljóði og gekk inn í gluggaskotið. „Nú, þetta hafa þau uppgötvað,“ hugsaði hann, „en hvað gagnar það. Ég finn Vereniku og kvænist henni.“ „Vesalings Verenika,“ sagði Sylvía. „hefði hún vitað þetta, þá hefði hún verið ánægðari. Munaðarleysið var skuggi á lífsleið hennar.“ „Mér finnast samræðurnar ætla að verða sorgblandnar,“ sagði Bisset. „Í kvöld ætti gleðin að eiga hér heima og þó ég sé óboðinn gestur, sting ég upp á því, að við örvum ánægjuna með hljóðfæraslætti áður en við skiljum. Lafði Díana, viljið þér ekki láta lagsmær yðar — því ég tel víst, að þér hafið einhverja slíka — leika á hljóðfæri, eitthvað viðeigandi.“ Díana hneigði sig og bað Bisset að hringja. Hann gerði það og þjónninn kom strax. Bisset hvíslaði að honum fáeinum orðum og beið svo við dyrnar þangað til hann heyrði skrjáfa í kvenkjól úti fyrir, þá lauk hann upp. Í ganginum stóð hin unga lafði Clynord. Bisset sté yfir þröskuldinn og rétti henni hendina. Hann kvaðst eiga að kynna hana gestunum, samkvæmt ósk lafði Díönu. Verenika tók hendi hans og Bisset leiddi hana inn undir ljósahjálminn, þar stöðvaðist hann, gekk til hliðar og sagði: „Herrar mínir og hefðarkonur, leyfið mér að kynna yður Clynordhallar-svipinn.“ Eitt augnablik var dauðakyrrð í salnum. Verenika varð afar hrædd, hún hélt að nú væri hún svikin og einhver voðaleg hegning biði sín. Hún leit af einum á annan, uns hún sá Roy, þá rétti hún út hendurnar og sagði: „Roy, Roy, frelsaðu mig!“ Roy stóð sem steingervingur. Hann þekkti hana sem hallarsvipinn og þrátt fyrir það að hann hafði álitið hana dána og fylgt henni til grafarinnar — vaknaði þó smátt og smátt vissan fyrir því, að þetta var Verenika hans — lifandi og við fulla rænu. „Lávarður,“ sagði Bisset, „ég hef framkvæmt það, sem þér ætluðuð mér — viðvíkjandi hallarsvipnum. Monk-systkinin og indverski kvenfjandinn hafa bruggað samsæri gegn yður. Lafði Clynord dó ekki, hún lá aðeins í dauðadái, sem orsakaðist af eiturdrykk, sem Sylvía og kerlingaróræstið höfðu gefið henni. Gilbert bjargaði henni upp úr grafhvelfingunni, í því skyni að kvænast henni. Hún slapp þó úr allri hættu; hún lifir og stendur hér frammi fyrir yður — sú kona, sem þér elskuðuð svo innilega — sú kona, sem þér hafið syrgt og hverrar dauði olli yður óslökkvandi hryggðar.“ Aftur leit Verenika bænaraugum á Roy. Nú var sem lávarður Clynord vaknaði. — Hann þaut til Vereniku, tók hana í faðm sinn og þrýsti henni að hjarta sínu. Hún kom til hans frá gröfinni. Á jörðunni voru þau aftur sameinuð og þessi jörð var þeim sama sem himnaríki. Eigum við nú að lýsa því, sem á eftir fór? Nei, það er öllum mönnum um megn. Gilbert og Sylvía læddust þegjandi burt. Bisset fór svo fljótlega á eftir þeim. Það sem síðar skeði er skjótt sagt. Lafði Clynord sneri sigri hrósandi heim til hallar sinnar og Fifina með henni. Viðskiptin hjá Bongateau og konu hans jukust svo, að þau urðu að leigja sér stærra og skrautlegra hús, sem betur átti við handa hinum nýju viðskiptavinum. Gilbert, Sylvía og Roggy fóru til meginlandsins og þar dó Sylvía þremur mánuðum síðar. — Hún ætlaði að taka inn taugastyrkjandi lyf, en tók í ógáti inn eitur úr einu af glösum Roggy gömlu. — Sá dauði sem hún ætlaði Vereniku, hitti hana sjálfa. Með þeim mæli, sem þú mælir öðrum, skal þér aftur mælt verða. Roggy fór til Indlands. Sorg hennar yfir fráfalli Sylvíu var óviðjafnanleg. Gilbert lifir enn. Hann flakkar um heim allan, og vinnur fyrir sér með spilasvikum og þess konar listum. Bisset fékk konunglega borgun fyrir starf sitt og minnist alloft á þetta hetjustarf við vini sína. Hann er ávallt velkominn gestur í Clynordhöllinni og hjá Northwick-hjónunum, en farsælli heimili en þessi tvö — er ekki hægt að hugsa sér hér á jörðu. Eftir skúrina kom skinið — sem varir til enda lífsins.