KVIÐUR HÓMERS SVEINBJÖRN EGILSSON ÞÝDDI I. BINDI ILÍONSKVIÐA BÓKAÚTGÁFA MENNINGARSJÓÐS REYKJAVÍK ILÍONSKVIÐA KRISTINN ÁRMANNSSON OG JÓN GÍSLASON BJUGGU TIL PRENTUNAR BÓKAÚTGÁFA MENNINGARSJÓÐS REYKJAVÍK ALÞÝÐUPRENTSMIÐJAN H.F. 1949 [Mynd: Hómer] [Mynd: Sveinbjörn Egilsson] Frummyndin er í eigu Landsbókasafnsins, að sögn Guðbrandar prófessors Jónssonar komin úr dánarbúi frú Þuríðar Kúld, dóttur Sveinbjarnar. Sbr. ennfremur ritið „Landsbókasafn Íslands 1818—1918. Minningarrit“, bls. 29 og neðanmálsgr. þar. [Mynd af grískum texta] [Umritaður grískur texti] Efri myndin er ljósmynd af sefpappírshandriti frá 1. eða 2. öld e. Kr. b. („Bankes Papyrus“ í Brit. Mus.). Kaflinn, sem á myndinni er sýndur, er úr Il. XXIV 525—42. Fyrir neðan er sami kafli með venjulegu grísku prentletri. [Mynd af rithönd Sveinbjarnar Egilssonar] Hér að ofan er loks sami kafli í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar, tekinn úr handriti hans af Ilíonskviðu. FORMÁLI. Fyrir nálega fimm árum fór stjórn Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins fram á það við okkur undirritaða, að frumkvæði Jónasar skólastjóra Jónssonar frá Hriflu, sem þá var í stjórn Menningarsjóðs, að við önnuðumst nýja útgáfu af þýðingum Sveinbjarnar Egilssonar rektors á Ilíonskviðu og Odysseifskviðu Hómers í óbundnu máli. Þýðingarnar höfðu áður komið út á prenti eins og hér segir: Ilíonskviða aðeins einu sinni, í Reykjavík 1855, en Odysseifskviða tvisvar sinnum, í fyrra skiptið í Viðey á árunum 1829—1840, í boðsritum frá Bessastaðaskóla, en í síðara skiptið í Reykjavík árið 1912, og annaðist Sigfús Blöndal þá útgáfu með mikilli vandvirkni. Síðastnefnd útgáfa var að vísu uppseld, en þó nýlega og er í margra manna höndum. Aftur á móti er Ilíonskviða Sveinbjarnar nú mjög fágæt bók. Bæði af þeirri ástæðu og af því, að Ilíonskviða er eldri og því einatt prentuð á undan hinni, virtist liggja næst að gefa Ilíonskviðu út á undan. En fulltrúar Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins töldu Odysseifskviðu hafa meiri sölumöguleika og óskuðu eftir því, að hún væri gefin út á undan hinni. Við féllumst á þetta, að því tilskildu, að Odysseifskviða væri merkt II, en Ilíonskviða I. Þá varð og að samkomulagi, að megininngangur við báðar kviður skyldi vera framan við Odysseifskviðu, til þess að gera bækurnar sem jafnastar að þykkt, en texti Ilíonskviðu er mun lengri en hinn (15.000 ljóðlínur á móti 12.000). Útgáfunni skyldi hagað nokkuð svipað og útgáfu íslenzkra fornrita, þ.e. fyrst skyldi vera formáli eða inngangur, síðan textinn og loks skýringar. Inngangurinn að Odysseifskviðu skiptist í tvo meginkafla; fjallar sá fyrri um kvæði Hómers og menningu þá, er þau lýsa, hinn er um áhrif Hómers á vestræna menningu og um þýðingu Sveinbjarnar. Mestallan fyrri kaflann hefur ritað Kristinn Ármannsson, sem samið hefur skýringar við 12 fyrstu þætti í báðum kviðum, hinn kaflann hefur ritað Jón Gíslason, sem samið hefur skýringar við síðari þættina 12 í báðum kviðum. Með því að verkið er unnið af tveimur, verður varla hjá því komizt, að einhverra endurtekninga og ósamræmis gæti. Eru e. t. v. sum atriði skýrð af okkur báðum á mismunandi hátt. Eins gætir e. t. v. nokkurs skoðunarmunar á kviðunum í heild og samsetningu þeirra, en eftir því, sem kostur var á, hafa þó sjónarmiðin verið samræmd í öllum aðalatriðum. Um sjálfan textann af þýðingunum skal þetta tekið fram: 1) Af Odysseifskviðu lögðum við útgáfu Sigfúsar Blöndals frá 1912 til grundvallar, en af Ilíonskviðu útgáfuna frá 1855, en bárum textann vandlega saman við handrit Sveinbjarnar í Landsbókasafninu. Á þeim örfáu stöðum, þar sem smáskekkjur höfðu slæðzt inn í útgáfurnar, löguðum við þær. Við athugun á handritasafni Sveinbjarnar, í blöðum frá Jóni Árnasyni, fundum við upplýsingar, sem gáfu til kynna, að e. t. v. mundi vera til eintak af fyrri útgáfu Odysseifskviðu, sem Sveinbjörn hafði notað til þess að færa inn í síðustu leiðréttingar sínar og fágun á máli og stíl. En handrit hans sýna frábæra vandvirkni við þýðingarstarfið. Þetta eintak hafði ekki verið notað við útgáfuna frá 1912, enda eðlilegt, þar eð það hafði orðið viðskila við handrit Odysseifskviðu (Lbs. 429, 4to; sjá nánar um þetta: inng. að Od. bls. LXXIV), og lék okkur því mikill hugur á því að finna það. Tókst okkur með góðfúsri aðstoð landsbókavarðar að finna það loks í Landsbókasafninu. Höfum við fært inn í útgáfuna frá 1912 þær breytingar, sem við fundum í þessu eintaki. 2) Fyrirhafnarmesta starfið var að bera þýðinguna saman við frumtextann gríska, sem við gerðum eftir ósk útgefendanna. Höfum við borið allar þýðingarnar línu fyrir línu saman við gríska textann. Þó að nútíma gagnrýnendur hafi á stöku stað viljað þýða öðruvísi og þó að stundum kunni að orka tvímælis um þýðingu eða stundum sé einni eða tveimur línum sleppt í þýðingunni, þá er þýðingin í heild sinni með ágætum. Við nákvæman samanburð hefur aðdáun okkar á frábærum þýðandahæfileikum Sveinbjarnar, málsnilld hans og orðkynngi stórum styrkzt. Annars skal um þetta efni vísað til sérstakrar ritgerðar í innganginum framan við Odysseifskviðu, svo og til skýringanna aftan við, þar sem getið er þeirra staða í þýðingunni, sem orkað geta tvímælis, eða sleppt er úr línu eða línum. 3) Loks er stafsetning og greinarmerki. Auðveldast hefði verið fyrir okkur að gera eitt af tvennu: annaðhvort að stíga skrefið til fulls og fara í öllu eftir núgildandi stafsetningarreglum eða gefa textann út óbreyttan með öllu. Um þetta ráðguðumst við bæði við Vilhjálm Þ. Gíslason fyrir hönd útgáfustjórnar og þá Sigurð Nordal, prófessor, og Jakob J. Smára, skáld. Notum við hér tækifærið til þess að þakka þeim öllum fyrir góðar leiðbeiningar. Í samráði við þá var horfið að því að hafa nútíma skólastafsetningu á ritunum, m.a. vegna þess, að gert var ráð fyrir, að ritin mundu e.t.v. eitthvað verða notuð í skólum. Hins vegar var ákveðið að hrófla hvorki við orðmyndum Sveinbjarnar né greinarmerkjum, en með þeim síðarnefndu hefur hann augsýnilega viljað ná sem mestu samræmi við gríska textann. Sveinbjörn er að vísu ekki alltaf sjálfum sér samkvæmur í meðferð orðmynda og einkum nafna. Þróun hefur átt sér stað í meðferð þeirra; sjá nánar um þetta: ath. neðanmáls á bls. LXII í inng. að Odysseifskviðu. Orðmyndum höfum við ekki breytt, nema um auðsæ pennaglöp væri að ræða. Tölurnar framan við greinaskil í þýðingunni tákna ljóðlínur gríska textans. Skýringarnar eru fyrst og fremst til þess að útskýra torvelda staði, gera efnið auðskildara og gefa lesandanum gleggri hugmynd um menningu þá, sem kvæðin lýsa. Þá er, eins og áður er sagt, getið þeirra staða, þar sem þýðingin getur orkað tvímælis, og þeirra lína, sem sleppt er í þýðingunni, og eru þær þá þýddar. Víða eru gerðar þýðingar á einstökum stöðum til að leiða í ljós sem orðréttasta merkingu gríska textans, og sýna á þann hátt við samanburð aðferð Sveinbjarnar. En ekki eru slíkar þýðingar gerðar til að betrumbæta þýðingu hans. Til hægðarauka og skilnings höfum við framan við hvern þátt í skýringunum sett stutt yfirlit um efni og ýmis önnur atriði. Þegar við hófum verkið, að vinna að útgáfunni, stóð heimsstyrjöldin síðari enn yfir. Var því örðugt eða nærfellt alveg ómögulegt að afla sér nýrra bóka um þessi efni. En einmitt á síðari árum hafa orðið allmikil straumhvörf í rannsóknum á kvæðum Hómers og menningu þeirra tíma. Var það okkur til allmikilla óþæginda. En jafnskjótt og stríðinu lyktaði og þess var kostur, viðuðum við að okkur ýmsum nýjustu bókunum og höfðum þær að nokkru til hliðsjónar í inngangi og skýringum. Verður þeirra getið nánar aftast í þessu bindi (bls. 717). Ýmis atriði varðandi skýringar á kvæðum Hómers eru enn deiluefni meðal fræðimanna. Höfum við í aðalinngangi og skýringum getið ýmissa mismunandi skoðana, en þar sem vafi lék á um skýringu, höfum við fylgt því, sem okkur þótti sennilegast. Við höfðum heyrt, að hinn mikli enski fræðaþulur, prófessor Sir William Craigie, sem er jafnvígur á íslenzku og forntungurnar, hefði nokkuð fengizt við rannsóknir á þýðingum Sveinbjarnar á kvæðum Hómers. Við skrifuðum honum því og fórum þess á leit við hann, að hann léti okkur í té eitthvað af niðurstöðum sínum og gæfi okkur góðar bendingar. Eins og hans var von og vísa, tók hann þessu mjög vel og sendi okkur ýmsar ágætar upplýsingar og bendingar, bæði viðvíkjandi þýðingum Sveinbjarnar yfirleitt og svo einstökum atriðum. Höfum við getið þessa nánar í ritgerðinni um Sveinbjörn (Il. bd. bls. LVIII ath.) og tekið tillit til þess í skýringunum. Erum við Sir William mjög þakklátir fyrir alúð hans og aðstoð. Þess skal og getið með þökkum, að Einar Ól. Sveinsson prófessor las góðfúslega yfir ritgerðina um þýðingar Sveinbjarnar og veitti okkar góðar bendingar. Í samráði við útgáfustjórn eru ritin skreytt mörgum myndum, aðallega frumlegum grískum listaverkum, myndum á leirkerum og bikurum, líkneskjum og málverkum, en einnig ljósmyndum og teikningum. Að vísu var ekki kostur á eins miklu og góðu myndaefni og æskilegt hefði verið. Þó er það von okkar, að hér sé svo margt ágætra mynda, að veruleg bókarprýði sé að. Bókarskraut við upphaf og endi hvers þáttar teiknaði Halldór Pétursson listmálari smekklega eftir grískum fyrirmyndum. Kort og skýringarmyndir nokkrar gerði Ágúst Böðvarsson mælingarmaður af alkunnri vandvirkni. Þeim Jóni Emil Guðjónssyni, framkvæmdarstjóra Menningarsjóðs, og Pétri Lárussyni fulltrúa, sem lesið hefur eina próförk af ritunum og tvær af nokkrum köflum, þökkum við kærlega ánægjulegt samstarf. Prentsmiðjustjóra og starfsmönnum Alþýðuprentsmiðjunnar kunnum við einnig þakkir fyrir notalega samvinnu. Útgáfa ritanna hefur verið ígripaverk og því sótzt nokkuð hægar en skyldi. Reyndar var Odysseifskviða að mestu búin til prentunar fyrir tveim árum, en þá stóð á prentun. Kom jafnvel til tals að fá hana prentaða erlendis. Úr því varð þó ekki, og er hún prentuð hér. Í skýringunum þarf oft að geta grískra orða. Væri þá ákjósanlegra og skemmtilegra að þau væru prentuð með grísku letri. En þá hefði reynzt nálega ómögulegt að fá ritin prentuð hér á landi, og var því horfið frá því. Þar sem grísk orð koma fyrir, eru þau prentað með latínuletri, þó að það sé mörgum vandkvæðum bundið. Að lokum viljum við láta þá innilegu ósk í ljós, að rit þessi megi í senn vekja og glæða skilning og ást á fornmenningu hinnar gáfuðu grísku þjóðar og jafnframt vekja tíst og aðdáun á Sveinbirni Egilssyni og málsnilld hans, sem hefur haft ómetanlegt gildi fyrir þróun íslenzkrar tungu eftir hans dag. En í þessum þýðingum kemur einmitt ljóslega fram næmur skilningur og djúp ást á tungu og menningu þessara tveggja þjóða, Íslendinga og Grikkja. Reykjavík, í marzmánuði 1949. Kristinn Ármannsson. Jón Gíslason. YFIRLIT EFNISINS[*] Í ILÍONSKVIÐU. FYRSTI ÞÁTTUR. DREPSÓTTIN. REIÐIN. Bls. 1—24 Skáldið heitir á sönggyðjuna, að hún kveði um mannfallið við Ilíonsborg og um reiði Akkils (1—7). Krýses, hofgoði Appollons, kemur til þings Akkea, og vill heimta aftur dóttur sína, þá er þeir höfðu tekið hernámi og gefið Agamemnoni (8—21). En er Agamemnon lætur hann fara við svo búið, heitir Krýses á Febus Appollon, og kemur þá sótt mikil í lið Akkea (22—52). Stefnir Akkilles á þing, og vill blíðka guðinn; á því þingi kveður Kalkas spámaður Akkea munu komast úr nauðunum, ef dóttur Krýsess sé skilað aftur (53—129). Þá reiðist Agamemnon ákaflega, og yrðast þeir Akkilles; vill Nestor miðla málum; en þó skilar Agamemnon konunni aftur, en tekur Brísesdóttur frá Akkilles (130—347). Gengur Akkilles nú úr bardaga og er hinn reiðasti; hann hittir Þetis, móður sína, og heitir hún honum hefnd og raunabót (348—427). Er nú herinn hreinsaður og blótað Appolloni á meðan (312—317); en Krýsesdóttir er látin fara heim með sónarblóti, og er þá bætt fyrir glæpinn (428—487). Þetis fer til Ólymps, og heitir Seifur henni því, að Tróverjum skuli ganga betur orusturnar, þangað til Akkilles sé fullu bætt (488—533). Hera yrðist við Seif fyrir þessa sök (534—567), en Hefestus gerir gaman úr öllu saman (568—611). ANNAR ÞÁTTUR. DRAUMURINN. BEÓTABÁLKUR, EÐA SKIPATALIÐ. Bls. 25—52 Seifur ætlar að taka hefndir fyrir Akkilles, og sendir Agamemnoni draumguðinn, til þess að tæla hann til bardaga (1—40). Segir Agamemnon foringjum Akkea drauminn, og stefnir allsherjarþing (41—100). Vantreystir hann samt liðsmönnum, og vill freista þeirra; lætur því sem þeir muni halda heim, er Trójuborg ekki náist; ryðjast þá allir niður til skipanna og hyggja á braut (101-154). Odysseifur stöðvar þá eftir áminningu Aþenu, suma með góðu, en suma með harðyrðum (155-210), og setur ofan í við Þersítes, illan mann og ósvífinn (211-277). Tala þeir Odysseifur og Nestor þá á þá leið, að ekki sé vert að snúa heim við svo búið, og leiða rök að því; en Agamemnon lýsir yfir, að berjast skuli, og eggjar til framgöngu (278-393). Taka menn nú vopn sín, og er veizla að Agamemnons; þá er fylkt liðinu (394-484). Þá hefur upp skipatal og höfðingjatal Akkea, og hverjar þjóðir hafi gengið með þeim í Trójustríð (485-785); þá eru taldir Trójumenn, og ganga þeir fram til bardaga (786-877). [* Efnisyfirlit þetta, sem prentað er framan við útg. Ilíonskviðu 1855, er eftir Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal.] ÞRIÐJI ÞÁTTUR. EIÐAR. HELENA Á BORGARVEGGI. EINVÍG ALEXANDERS OG MENELÁSS. Bls. 53-67 Alexander (Paris) gengur fram fyrir liðið og skorar á einhvern hinn hraustasta af Akkeum til að berjast við sig; sér hann þá, að Menelás vill ganga fram; verður hann þa hræddur og rennur (1-37). Ávítar Hektor þá bróður sinn, en þá býðst Alexander til að þreyta einvíg við Menelás, og skuli það skera úr ófriðinum; er boði því tekið, en Menelás heimtar, að blótað sé, og Príamus sjálfur sé við, því sonum hans sé ekki trúandi (38-110). Leggja menn niður vopnin og búast til blóta, Akkear og Trójumenn; stendur Helena á borgarveggi, og sýnir Príamusi konungi og Trójustjórum höfðingja Akkea, þar sem þeir eru vígvellinum með fylkingunum (111-244). Þá er gert boð eftir Príamusi, og fer hann, og Antenor með honum; er það þá eiðum og blótum bundið, að sá skuli hafa Helenu og aura alla, er sigur hljóti; og að Trójumenn skuli gjalda sekt, ef Akkear hafi betur (245-301). Fer Príamus nú á brott; en Menelás og Alexander taka vopn sín og berjast; þar verður Alexander að lúta, og flytur Afrodíta hann heilan úr einvíginu inn í svefnsal hans (302-382); síðan leiðir hún Helenu þangað, og ávítar hún fyrst Alexander, en þó sættast þau (383-448). Menelás leitar að Alexander um vígvöllinn, og finnur ekki; kallar Agamemnon nú, að Akkear hafi haft betur, og heimtar féð og konuna. (449-461). FJÓRÐI ÞÁTTUR. SÁTTAROF. LIÐSKÖNNUN AGAMEMNONS. Bls. 69-85 Guðaveizla. Er Hera reið af því, að Trójumönnum eigi verður gjörsamlegt tjón búið, og yrðast þau Seifur af því (1-49). Fer Aþena nú til Trójumanna eftir boði Heru, og lætur Pandarus skjóta ör til Meneláss, og æsa þannig ófriðinn að nýju (50-104). Ekki særir hann samt Menelás til ólífis, og læknar Makáon hann (105-219). Búast Trójumenn nú til bardaga, en Agamemnon gengur um og eggjar liðið; talar hann við höfðingjana, og hrósar sumum, en ámælir sumum (220-421). Verður nú orusta, og eggjar Ares og Appollon Trójumenn, en Aþena og aðrir guðir Akkea; er þá mannfall með hvorumtveggju (422-544). FIMMTI ÞÁTTUR. AFREKSVERK DÍÓMEDESS. Bls. 87-113 Eykur Aþena nú Díómedesi þrótt og þrek um fram alla menn aðra, og lætur Ares ganga úr bardaganum (1-94). Særir Pandarus Díómedes með ör, og æsist hann því meir af því (95-166); vegur hann þá Pandarus (167-296) og særir Eneas með vopnsteini; vildi Eneas hlífa Pandarusi (297-310); fer Afrodíta með Eneas úr orustunni, og særir Díómedes hana á hendi (311-351). Kemur Íris henni þá á brott úr orustunni, og fer Afrodíta til Ólymps á vagni Aresar; tekur Díóna, móðir hennar, þar á móti henni, og hæðast guðirnir að hervastri ástargyðjunnar (352-431). Bjargar Appollon nú Eneasi undan Díómedesi, og kallar Ares aftur til bardagans (432-460). Eggjar Ares nú Trójumenn til framgöngu, og kemur Eneas þá aftur til orustunnar (461-518). Verður nú hörð hríð og mannfall mikið; þar vegur Sarpedon Tlepólemus; en þó hopa Akkear um síðir (519-710). Koma þær Hera og Aþena frá Ólympi til liðs við Akkea (711-777), og æsir Hera þá bardagann; þá særir Díómedes Ares sjálfan, enda er Aþena í ráðum með honum (778-863). Fer Ares til Ólymps, og er í þungu skapi út af óförum sínum; Hera og Aþena fara einnig úr bardaganum og upp til Ólymps (864-909). SJÖTTI ÞÁTTUR. SAMTAL HEKTORS OG ANDRÓMÖKKU. Bls. 115-130 Snúast Trójumenn nú á flótta; en Helenus spámaður hvetur Hektor til þess, að láta heita á Aþenu (1-101). Fer Hektor þá til borgarinnar, og réttir bardagann áður; mætast þeir í orustunni, Glákus og Díómedes, og talast við; minnast á forna vináttu feðra sinna; skipta þeir þá vopnum og takast í hendur (102-236). Færir Hekaba og fleiri göfgar konur Aþenu möttul og heita á hana til heilla Trójumönnum (237-311); en Hektor rekur Alexander til þess að ganga í bardaga (312-368); leitar Andrómakka að Hektori, og talar hann við hana og við Astýanax son sinn; þá tárast Andrómakka, er Hektor vill fara í orustu (369-502). Fer Alexander eftir, og gengur í bardaga (503-529). SJÖUNDI ÞÁTTUR. EINVÍGI HEKTORS OG AJANTS. VALGRÖFTUR. Bls. 131—145 Kreppa þeir Hektor og Alexander nú að Akkeum (1—16), og skorar Hektor á einhvern hinn hraustasta til þess að berjast við sig (17—91); vill Menelás ganga fram, en Agamemnon aftrar honum (92—122). Rísa þá upp níu hetjur; var það af Nestors völdum; er þá varpað hlutkesti, og kemur upp hlutur Ajants Telamonssonar, að hann skuli berjast við Hektor (123—205). Ganga þeir á hólm, Hektor og Ajant, og berjast snarplega, unz nótt skilur; hefir hvorugur öðrum á kné komið, og skilja þeir með gjöfum (206—312). Þá er veizla með liði Akkea, og býður Nestor, að grafa skuli fallna menn og girða herbúðir; þing er með Trójumönnum, og kveðst Alexander þar eigi munu skila konunni aftur, en fé hennar kveðst hann skyldu skila, og bæta við þar á ofan (313—364). Lætur Príamus skila orðum þessum til Akkea daginn eftir, og biður, að gert sé vopnahlé, svo brenndir verði þeir, er fallnir voru af Trójumönnum (365—420). Eru líkin nú jörðuð með hvorumtveggju, og girða Akkear herbúðirnar með múrum og díki; er Posídon hissa yfir stórvirki þessu, og ekki laust við, að hann renni til þess öfundaraugum (421—464). Síðan dimmir af nótt, og eru þrumur og eldingar (465—482). ÁTTUNDI ÞÁTTUR. HINN ENDASLEPPI BARDAGI. Bls. 147—163 Guðastefna. Bannar Seifur guðunum að veita Akkeum og Trójumönnum lið; fer síðan til Ídafjalls (1—52). Horfir hann þaðan á bardagann og vegur örlög manna; verða Akkear þá undir (53—77). Eru Akkear nú hraktir að víggirðingunum, og skorar Hera á Posídon, að hann veiti þeim lið, en hann færist undan; en Agamemnon eggjar liðið og heitir á Seif, að hann hjálpi þeim (78—250). Gera Akkear nú hríð, harða og snarpa, og hrekja Trójumenn; banar Tevkrus mörgum þeirra með bogaskotum, en Hektor særir hann (251—334). Snúa Akkear nú aftur á flótta; ætla þær Hera og Aþena þá að fara og halda uppi bardaganum; en Seifur sér þær og bannar það (335—437). Fer hann síðan til Ólymps og ávítar gyðjurnar harðlega; hótar hann Akkeum feigð og fjörtjóni að degi komanda (438—484). Skilur nótt nú með vegendum, og halda Trójumenn þing; er þá ráðið að gera launsátur og kynda bál um nóttina (485—565). NÍUNDI ÞÁTTUR. SENDIFÖR TIL AKKILS. BÆNIR. Bls. 165—186 Agamemnon á ráðagjörðir við höfðingja í her Akkea; kveður hann þá upp, að menn skuli halda burt um nóttina, því ekki nái þeir Ilíonsborg (1—28). En Díómedes og Nestor ráða honum frá því (29—78). Eru verðir settir fyrir framan víggirðinguna, og höfðingjunum búin veizla hjá Agamemnoni; er þá talað um að sefa skap Akkils og blíðka hann, og fá hann til þess að koma til liðsins (79—113). Heitir Agamemnon honum Brísesdóttur óspjallaðri og góðum gjöfum, ef hann lægi reiðina til heilla fyrir liðið (114—161). Gera þeir nú út sendimenn til Akkils; kýs Nestor til þess Fenix, Ajant Telamonsson og Odysseif (162—184). Tekur Akkilles þeim vel, en kveðst eigi hirða um loforð Agamemnons; ekki fá á hann ræður sendimanna; heldur hann og Fenix eftir og hótar að fara heim með hann (185—668). Reiðast þeir Odysseifur og Ajant, og fara aftur; ræður Díómedes þá til, að halda áfram bardaganum, og kveður Akkilles ganga munu í orustu, þegar honum sýnist (669—713). TÍUNDI ÞÁTTUR. DÓLONS ÞÁTTUR. Bls. 187—204 Agamemnon fær ekki sofið um nóttina; kalla þeir Menelás á Nestor og aðra höfðingja í her Akkea; fara þeir til díkisvarðanna (1—193). Þar halda þeir samkomu, og senda Díómedes og Odysseif á njósn til Trójumanna (194—271); fá þeir heillamerki (272—298). Um sama leyti fer Dólon einnig á njósn; hann var maður tróverskur, og lét ginnast af loforðum Hektors til að fara þessa för; taka þeir Díómedes og Odysseifur hann á leiðinni (299—381). Beiðist Dólon griða, og segir þeim frá allri afstöðu herbúðanna, og hvar Resus sé hinn þrakneski. Þá vegur Díómedes Dólon fyrir svikin og fréttaburðinn (382—464). Skunda þeir nú þangað, sem Resus var, og vegur Díómedes hann þar og tólf félaga hans; en Odysseifur heldur á brott með hesta Resusar (465—503). Þá minnir Aþena kappana á, að þeir hafi eigi lengri dvöl þar; og komast þeir aftur heilir til liðsins; en hins vegar eggjar Appollon Þraka og Trójumenn (504—579). ELLEFTI ÞÁTTUR. AFREKSVERK AGAMEMNONS. Bls. 205—229 Nú hervæðist Agamemnon og fylkir liði snemma um morguninn; hið sama gerir og Hektor og höfðingjar Trójumanna (1—66.) Fá Trójumenn þar tjón mikið og mannskaða, og undrast hreysti Agamemnons (67—162). Hopar Hektor þá upp undir Trójumúra; en Seifur gerir honum boð, að hann skuli firrast orustu, þar til er Agamemnon sé sár orðinn (163-283). Eftir það ryðst Hektor áfram og geysar um vígvöllinn; eykur hann svo sínum mönnum þrek og vígmóð (284—309). Þá riðlast fylkingar Akkea, en Díómedes, Odysseifur og Ajant rétta þær við; verður Díómedes þá sár af völdum Alexanders og heldur til skipa (310—100); Sókus særir Odysseif; en Odysseifur vegur Sókus; verður hann þá umkringdur af fjandmönnum, en Menelás og Ajant bjarga honum (401—488); þá særir Alexander Makáon og Evrýpýlus með bogaskotum (489—596). Getur Akkilles nú að líta Makáon, er hann ók fram hjá á vagni Nestors, og sendir Patróklus, til þess að komast eftir, hver særður sé (597—617). Segir Nestor þá Patróklusi, í hvert óefni komið sé, og biður hann að leggja að Akkillesi, að hann komi til liðs við þá, eða komi sjálfur í vopnum Akkils og hræði óvinina (618—803). Á heimleiðinni mætir Patróklus Evrýpýlusi; fer hann með hann í tjald sitt og bindur um sár hans (804—848). TÓLFTI ÞÁTTUR. SKIPAGARÐSORUSTA. Bls. 231—244 Nú verða Akkear að hopa inn fyrir víggarðinn; sjá þeir nú Trójumenn viðbúna að ráðast á skipin og fara yfir díkið (1—59). Eru Trójumenn þá í vanda miklum út af stórvirkjum þessum, og skipta sér í fimm flokka; eru það ráð Polýdamants (60—107). Ræðst Asíus þá á eitt garðshliðið, en er hrakinn aftur með tjóni miklu af Lapítum tveimur, sem þar eru fyrir (108—194). Þá sýnist Trójumönnum spáfugl; ræður Polýdamant illa þann fyrirburð, en ekki gefur Hektor því gaum (195—250). Verja Akkear víggarðinn vel og hraustlega; ganga Ajantar bezt fram (251—289). Þá ráðast þeir Glákus og Sarpedon á virki Menesteifs; en Ajant og Tevkrus Telamonssynir veita honum lið (290—377). Þar særir Ajant Epíkles, félaga Sarpedons; en Tevkrus særir Glákus; brýtur Sarpedon þá vígið (378—399). Vilja Lýkíumenn brjóta múrinn; en Akkear gera harða vörn; þá varpar Hektor steini á eitt garðshliðið, og brýtur upp (400—471). ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR. BARDAGI VIÐ SKIPIN. Bls. 245-270 Þá komast Trójumenn sumstaðar yfir múrinn, og verður nú mannfall mikið í liði Akkea; kennir Posídon þá í brjósti um þá, og fer til liðs við þá á laun við Seif (1-42). Eggjar hann nú Ajanta báða og höfðingja í liði Akkea, og er í mannslíki (43-124). Þeir Ajantar bægja Hektori frá skipunum (125-205); berjast þeir Idomeneifur og Meríónes hraustlega vinstra megin (206-329). Er nú atganga hin harðasta af hvorumtveggju; veitir Seifur Trójumönnum, en Posídon Akkeum (330-362). Vegur Idomeneifur margan mann; og enn gangast fleiri kappar að og berjast (363-672). Loksins hopa Trójumenn, og mest fyrir Ajöntum; fer Hektor þá með safnað lið og veitir atgöngu (673-808). Atganga Ajants Telamonssonar (809-837). FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR. LEIKINN SEIFUR. Bls. 271-288 Nestor er í tjaldi sínu og hjúkrar Makáoni; furðar hann nú á vopnabrakinu og orustugnýnum, og gengur út, til að hyggja að, hverju gegni (1-26). Mætir hann Agamemnoni, Odysseifi og Díómedesi, öllum sárum; eru þeir í sömu erindum; vill Agamemnon þá enn hætta og fara á brott (27-81), en Odysseifur mælir á móti því; ræður Díómedes þeim þá til að fara og eggja liðið; Posídon huggar Agamemnon (82-152). Þá tekur Hera linda Afrodítu og fer í gælingarham og til Ídafjalls, þar sem Seifur var, og lætur hann sofna (153-351). Þá veitir Posídon Akkeum enn öflugri liðveizlu, því þrumuguðinn sefur (352-401). Særir Ajant þá Hektor með vopnsteini, svo hann fellur í óvit og er borinn úr orustu (402-439). Þá flýja Trójumenn, og er framganga Ajants Öyleifssonar mest lofuð (440-522). FIMMTÁNDI ÞÁTTUR. ORUSTA VIÐ SKIPIN. Bls. 289-310 Nú vaknar Seifur, og getur að líta Trójumenn á flótta, og Posídon, er hann veitir Akkeum (1-11). Ávítar hann þá Heru, og býður henni að kalla á Íris og Appollon, því með þeirra aðstoð vilji hann hjálpa Trójumönnum; kveður hann nú upp öll örlög þessara hluta, og segir fyrir Trójuhrun (12–77). Fer Hera nú til Ólymps, og spyr Ares þá fall sonar síns Askaláfs; verður hann við það óður og uppvægur, en Aþena sefar ofsa hans (78-142). Koma þau síðan til Seifs, Íris og Appollon; verður Posídon þá að hætta liðveizlunni (143-219). Appollon fer með Hektor til bardagans og réttir hlut Trójumanna (220-280). Gengur Hektor nú fram, og guðinn undan honum; hefur Appollon ægiskjöldinn, og hræðast Akkear og flýja, en Hektor vegur marga menn (281-389). Þá fer Patróklus til Akkils, og biður hann liðveizlu, því í óefni sé komið fyrir Akkeum (390-404). Er nú atganga sem hörðust hjá skipunum og mannfall (405-590); hopa Akkear síðan nokkuð; þá veifar Ajant Telamonsson vígási og ver Hektori að kveikja í skipunum (591-746). SEXTÁNDI ÞÁTTUR. PATRÓKLUSÞÁTTUR. Bls. 311-337 Akkilles leyfir Patróklusi að taka vopn sín og veita Akkeum lið, en ekki fremur, en skipunum verði borgið (1-100). Verður Ajant þá ofurliði borinn, og má eigi aftra eldinum (101-123). Þá rann Akkillesi í skap. Eggjar hann nú Patróklus sjálfur, og fórnar (124-256). Fer Patróklus síðan á stað í vopnum Akkils, og hyggja Trójumenn þetta vera Ajaksnið sjálfan; skýtur þeim nú skelk í bringu og flýja þeir; er svo skipunum borgið (257-305). Heldur Patróklus nú áfram bardaganum (306-418), og vegur Sarpedon (419-507). Ná þeir Glákus og Hektor líki Sarpedons, og gætir Appollon þess að boði Seifs (508-683). Eltir Patróklus nú Trójumenn og kemst upp á múrinn; þá aftrar Appollon honum (684-711); síðan gangast þeir að, Hektor og Patróklus (712-782); vegur Patróklus nú marga menn, og fellur þó sjálfur að lyktum fyrir Evforbusi og Hektori; síðan eltir Hektor Átómedon (783-867). SEYTJÁNDI ÞÁTTUR. AFREKSVERK MENELÁSS. Bls. 339-361 Nú vegur Menelás Evforbus (1-60), en Hektor fer á brott með vopn Patrókluss (Akkils); kallar Menelás þá Ajant Telamonsson, að hann verji lík Patrókluss (61-139). Hopar Hektor nú fyrir Ajanti, en gengur síðan fram í vopnum Akkils, og er hróðugur; verður nú hörð og löng orusta um Patróklus fallinn (140-425). Hestar Akkils glúpna yfir falli Patrókluss, og eykur Seifur þeim fjör, en Átómedon heldur með þá í bardagann (426-483); ráðast þar á hann Hektor, Eneas og fleiri, og vilja ná hestunum; og enn er hríð; þá styrkir Aþena Menelás, en Appollon eggjar Hektor (484-596). Hallast loksins bardaginn á Akkea, og gera þeir nú Akkillesi boð um, að Patróklus sé fallinn og um ófarir þeirra (597-701); síðan fer Menelás og Meríónes með líkið til skipanna, og hefta Ajantar Trójumenn (702-761). ÁTJÁNDI ÞÁTTUR. VOPNSMÍÐARÞÁTTUR. Bls. 363-383 Akkilles fær nú fregn um lát Patrókluss, og harmar hann mjög (1-34). Heyrir Þetis móðir hans kveinstafi þessa, og stígur upp úr sævardjúpi; eru í för með henni sævardísir, og fer hún að hugga Akkilles; er honum þá ákaflega niðri fyrir að hefna Patrókluss, þótt hann viti sér dauðann vísan; þá heitir Þetis honum vopnum (35-137). Skundar hún síðan til Ólymps; en fundir verða að nýju að líki Patrókluss; mundi Hektor þá hafa náð líkinu, en þá gengur Akkilles fram og Aþena með honum; öskrar Akkilles þá svo hræðilega, að mannfall verður með Trójumönnum, og flýja þeir, en gyðjan glymur að baki honum (138-231). Ná Akkear nú líkinu, og fara með það í tjald Akkils (232-242). Er þá þing með Trójumönnum; þar ræður Polýdamant, að ekki skuli menn hætta sér á móti Akkilli, því þá sé dauðinn vís; skuli þeir heldur vera innan múra; líkar Hektori og lýðnum eigi þetta ráð (243-314). Eru Trójumenn nú undir vopnum um nóttina; en Akkear harma Patróklus ásamt með Akkilli, og veita líkinu umbúnað (315-355). Fer Þetis til Ólymps, og smíðar Hefestus vopnin fyrir hana, fögur og guðleg (356-617). NÍTJÁNDI ÞÁTTUR. AKKILLES OG AGAMEMNON SÆTTAST. Bls. 385-397 Nú kemur Þetis til Akkils með vopnin um morguninn, og eggjar hann til bardaga; bregður hún síðan ódáinsangan um líkama Patrókluss, svo hann ekki rotni (1-39). Stefnir Akkilles síðan Akkeum á þing, og lætur reiðina; heimtar hann, að þegar sé gengið í orustu (40-73). Kannast Agamemnon nú við yfirsjón sína, og býður Akkilli, að láta af hendi gjafirnar, sem hann hafði heitið honum; það skeytir Akkilles eigi um, en vill þegar berjast, og koma fram hefndum (74-153). Taka Akkear nú samt morgunverð áður, og eru það ráð Odysseifs; þá tekur og Akkilles við gjöfunum og Brísesdóttur; vinnur Agamemnon þess eið, að hún sé óspjölluð af hans völdum (154-275). Eru þá gjafirnar fluttar í tjald Akkils; grætur hann nú vinarmissinn enn að nýju, og neytir hvorki matar né drykkjar (276-339). Aþena stígur af himni og eykur honum þrek; hervæðist hann nú vopnunum dýru og stígur á kerru sína, og Átómedon með honum; þá boðar annar hestanna honum sigur og bana síðan (340—424). TUTTUGASTI ÞÁTTUR. GOÐAVÍGSÞÁTTUR. Bls. 399—414 Hvorirtveggju fylkja nú liði; stefnir Seifur þá guðunum á þing, og leyfir þeim að veita lið í orustunni, hvorum sem þeir vilji (1-30). Ganga þá í lið með Akkeum: Hera, Aþena, Posídon, Hermes og Hefestus; en með Trójumönnum eru: Ares, Febus, Artemis, Letó, Ksantus og Afrodíta; þessir guðir ganga að vígum; þá skelfur jörð og dunar himin (31-74). Eggjar Appollon Eneas fram á móti Akkilli; en hinir aðrir guðirnir sitja hjá orustu (75-155). Nú verður fundur með þeim Akkilli og Eneasi, og bjargar Posídon Eneasi, því honum var lengri aldur ætlaður (156-352). Vill Hektor þá ráðast að Akkilli, en Appollon hamlar honum frá því; vegur Akkilles nú marga menn, og Polýdórus Príamsson (353-418). Hektor vill hefna bróður síns, og ræðst á móti Akkilli; en Appollon hylur Hektor í skýi (419-454). Veitir Akkilles Trójumönnum þá atgöngu, og vegur á báðar hendur (455-503). TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR. BARDAGI VIÐ FLJÓTIÐ. Bls. 415–433 Við þetta hopa Trójumenn, og fara sumir til borgarinnar, en sumir út í Ksantus (Skamander); drepur Akkilles marga í fljótinu, og geymir tólf menn í fjötrum; það á að vera hefndarfórn fyrir víg Patrókluss (1-33). Þar vegur hann Lýkáon Príamsson (34-135), og enn fleiri að auki; gerir hann gys að máttleysi fljótsguðsins (136–210); þá býður Ksantus (fljótsguðinn) honum að ganga úr ánni. Akkilles gerir svo, en stökkur aftur út í fljótið; veitir fljótsguðinn honum þá atgöngu með öldugangi og vatnavexti (211- 271). Brýzt Akkilles nú um í fljótinu, og stoða þau hann, Posídon og Aþena; þá reiðist Ksantus, og fær Símóis til liðs við sig; en Hera lætur Hefestus eyða árvextinum með eldi og eimyrju; má Ksantus eigi standast slíkt forað sem eldurinn er, og hættir Hefestus þá brunanum að boði Heru (272-384). Þá vegast að guðirnir: er Aþena á móti Afrodítu og Aresi, og hefur betur; Appollon berst við Posídon og hefur miður; Hera sigrar Artemis, en Letó Hermes (385–513). Fara guðirnir síðan til Ólymps, nema Appollon, hann heldur til Trójuborgar; æðir Akkilles nú um vígvöllinn og neytir vopnanna; þá býður Príamus, að loka skuli Trójuhliðum (514—543). Gerir Appollon þá Akkilli sjónhverfingar, og tefur fyrir honum, svo borgið verði Trójumönnum (544—611). TUTTUGASTI OG ANNAR ÞÁTTUR. FALL HEKTORS. Bls. 435—452 Hektor bíður Akkils, og vill berjast; en foreldrar hans grátbæna hann frá múrnum að stofna sér eigi í vanda (1—89). Gefur Hektor því eigi gaum; en er hann getur að líta Akkilles, þá æðrast hann og flýr; eltir Akkilles hann þrívegis í kring um Trójumúra (90—166). Heldur Seifur þá uppi skapavog og vegur Hektori örlög; kemur upp feigðarhlutur hans. Þá fer Appollon frá honum; hann hafði stoðað Hektor flóttanum; en Aþena eggjar Hektor til bardaga við Akkilles, og er þá í líki Deífobuss, bróður Hektors (167—247). Berjast þeir nú af mikilli ákefð, Hektor og Akkilles, og veitir Aþena Akkilli (248—305). Fellur Hektor um síðir, en Akkilles tekur vopn hans, bindur hann við kerruna og dregur niður að skipum (306—404). Þá verður harmakvein um gjörvalla Trójuborg, og Príamus konungur og drottning hans grætur; þá harmar Andrómakka, því nú er fallinn Víga-Hektor hinn mikli (405-515). TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI ÞÁTTUR. LEIKIR EFTIR PATRÓKLUS. Bls. 453—481 Akkilles fer með Þetis og Myrmídónum í kring um lík Patrókluss, og boðar gröft hans að degi komanda (1—58). Um nóttina dreymir Akkilles Patróklus, og biður hann um útför sína (59—107). Lætur Agamemnon nú bera saman við um morguninn, og hlaða köst; er líkið borið þangað, og fylgir Akkilles og Myrmídónar; er þar blótað mörgum dýrum og tólf mönnum tróverskum; síðan er líkið brennt; en Appollon og Afrodíta annast lík Hektors (108—225). Daginn eftir eru tekin bein og aska Patrókluss, og látin í gullskál; eiga þau seinna að blandast beinum Akkils; haugur er orpinn eftir Patróklus (226—256). Þá lætur Akkilles halda leiki, til heiðurs við Patróklus; er þar ekið kerrum (257—650); framinn hnefaleikur (651—699); glímt (700—739); hlaupið (740—797); þreytt vopnfimi (798—825); varpað steinkringlum (826—849); skotið af boga (850—883), og send kastspjót (884—897). TUTTUGASTI OG FJÓRÐI ÞÁTTUR. ÚTLAUSN HEKTORS. Bls. 483—507 Ganga Akkear nú að sofa eftir leikina; en Akkilles má eigi sofa; dregur hann lík Hektors snemma um morguninn í kring um haug Patrókluss (1—18). Fer hann svo þessu fram um hríð; og þykir sumum guðunum fyrir, en sumum vænt um; samt er Appolloni þyngst í skapi (19—54). Lætur Seifur Þetisi þá bjóða Akkilli, að hætta grimmd þessari, og selja líkið af hendi; býður Íris og Príamusi, að boði Seifs, að hann skuli fá líkið hjá Akkilli (55—186). Tekur Príamus nú fram margar gjafir og góðar, og lætur búa för sína til Akkils (187—282); síðan fórnar hann og heldur á stað (283-330). Hermes mætir honum, og beinir leið hans á milli varðmanna Akkea (331—467). Verður Akkilles nú við bón Príamuss og þiggur gjafirnar, selur honum líkið og veitir ellefu daga grið; síðan lætur hann konunginn fara með sæmd (468—676). Fer Príamus þá aftur til borgarinnar; er Hektor harmaður mjög (677—776). Þá er gerð útför og orpinn haugur eftir Víga-Hektor (777—804). ILÍONSKVIÐA FYRSTI ÞÁTTUR DREPSÓTTIN. REIÐIN. KVEÐ Þú, gyðja, um hina fársfullu heiftarreiði Akkils Peleifssonar, þá er olli Akkeum ótölulegra mannrauna, og sendi til Hadesarheims margar hraustar kappasálir, en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi, eftir það að þeir höfðu eitt sinn deilt og skilið ósáttir, herkonungurinn Atreifsson og hinn ágæti Akkilles. Svo varð fyrirætlan Seifs framgeng. 8 Hverr guðanna var það þá, er hleypti þeim saman, til að eigast við orðadeilu? Það var sonur Letóar og Seifs. Hann var reiður konunginum, og lét koma skæða sótt í herbúðirnar, svo fólkið dó; var það fyrir þá sök, að Atreifsson hafði svívirt hofgoðann Krýses: því Krýses hafði komið til hinna fljótu skipa Akkea, og ætlaði að leysa út dóttur [*] sína; hafði hann með sér ógrynni fjár til útlausnar, og hélt upp kórónu hins langskeyta Appollons á gullnum sprota, og bað alla Akkea, en einkum báða Atreifssonu, er réðu fyrir hernum: [* Hún hét Astynoma.] 17 „Þið Atreifssynir, og þér aðrir fagurbrynhosaðir Akkear, veiti það guðirnir, er búa í Ólymps sölum, að yður auðnist að leggja í eyði Príamsborg og komast heilum heim. En látið mér lausa dóttur mína, og þiggið lausnargjald þetta, af lotningu fyrir syni Seifs, hinum langskeyta Appollon!“. [Mynd: Hómer ákallar Sönggyðjuna.] 22 Nú rómuðu allir Akkear það vel, að gera skyldi virðulega til hofgoðans, og þiggja hið fríða lausnargjald: nema Agamemnon Atreifsson, hann lét sér það eigi líka, heldur vísaði honum burt með smán, og lagði heitingar á ofan: 26 „Láttu mig ekki, gamli maður, hitta þig svo hjá hinum holu skipum, að þú annaðhvort dveljir hér lengur nú, eða komir hingað aftur síðar; ella mun sproti og kóróna guðsins ekki stoða þig. En dóttur þína mun eg ekki láta lausa; fyrr skal elli yfir hana stíga í húsi voru í Argverjalandi, langt frá föðurlandi hennar; skal hún þar ganga fyrir vef og búa um rekkju mína. En far þú nú, og ert mig ekki, ef þú vilt komast heill heim“. 33 Svo mælti hann, en hinn gamli maður varð hræddur og gerði sem hann bauð. Hann gekk eftir strönd hins stórbrimótta [Mynd: Prestur með lárviðarsveig og sprota.] hafs, og mælti ekki orð; en er hann var kominn úr herbúðunum, bað hann ákaflega til hins volduga Appollons, er hin hárfagra Letó hafði alið: 37 „Heyr bæn mína, Silfrinbogi, þú sem ert á gangi í kring um Krýsiborg og hina sannhelgu Killiborg, og ræður volduglega yfir Tenedusey, bú Smintugoð! Hafi eg nokkuru sinni reist þér fagurlegt hof, eða hafi eg nokkuru sinni brennt feita lærbita til fórnar þér, þá veit mér þá ósk mína, að Danáar gjaldi tára minna fyrir skeytum þínum“. 43 Þannig baðst hann fyrir, en Febus Appollon heyrði bæn hans, og sté niður af Ólymps tindum, reiður í hug; hann hafði boga á baki alhjúpaðan; af því hann var reiður, þá glömruðu örvarnar á baki hans, þegar hann hreyfðist, en hann var líkur nóttu, þar er hann fór. Síðan settist hann álengdar frá skipunum, og hleypti ör af streng, en hinn silfurlegi bogi gall við ógurlega. Fyrst réðst hann að múlum og fráum hundum, en síðan skaut hann hinu bitra skeyti á sjálfa mennina og felldi þá, og gekk þá sem tíðast á líkabrennum. [Mynd: Apollon.] 53 Í 9 daga flugu örvar guðsins um herbúðirnar, en á 10. degi stefndi Akkilles hernum til þings; hafði hin hvítarmaða gyðja Hera skotið honum því í brjóst, því hún aumkvaðist yfir Danáa, er hún sá þá falla. En er menn höfðu safnazt saman, og voru komnir allir á einn stað, þá stóð upp hinn fóthvati Akkilles, og mælti: 59 „Með því bæði styrjöld og drepsótt verða nú samfara til að vinna á Akkeum, þá hygg eg, Atreifsson, að vér munum nú verða að hverfa heim aftur við nýja hrakninga, ef vér aðeins mættum umflýja dauðann. Heyr nú, látum oss leita frétta hjá einhverjum spámanni, eða blótgoða, eða draumspekingi (því einnig draumar koma frá Seifi); sá mun geta sagt oss, hvað til þess komi, að Febus Appollon er svo stórreiður orðinn, hvort hann muni gramur vera af heitrofi nokkuru eða hundraðsfórn; má vera, að hann afstýri frá oss fári þessu á einhvern hátt, ef hann vildi þiggja fórnarilm gallalausra ásauðarlamba eða kiðlinga“. 68 Nú sem hann hafði þetta mælt, settist hann niður, stóð þá Kalkas upp á þinginu Testorsson, einhverr hinn ágætasti fuglaspámaður: hann vissi bæði það sem var, og það sem verða mundi, og það sem áður hafði verið; hann hafði sagt leið fyrir skipum Akkea til Ilíonsborgar, sökum spádómsgáfu þeirrar, er Febus Appollon hafði veitt honum. Hann var þeim vel viljaður í huga, tók til orða á samkomunni og mælti: 74 „Þú býður mér, Akkilles, ástvinur Seifs, að segja, hversu afstandist um heiftarreiði Appollons, hins langskeyta konungs. Eg skal þá segja það. En þú hygg að, og vinn mér þess eið, að þú viljir af alhuga vera mér liðsinnandi í orði og verki. Því það hygg eg víst, að eg muni egna til reiði þann mann, sem ræður með miklu valdi yfir öllum Argverjum, og sem Akkear hlýða. Því þegar einhverr höfðingi reiðist sér minna manni, þá kennir þar ríkismunar; því þó hann sekki reiðina samdægris, þá geymir hann samt heiftina í brjósti sér álengdar, unz hann kemur henni fram. En hugsa þú nú eftir, hvort þú viljir vera hjálparmaður minn“. 84 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum og sagði: „Vertú með öllu óhræddur, og seg þá goðaspá, er þú veizt. Því það sver eg við Appollon, ástvin Seifs, er þú heitir á, Kalkas, þá er þú birtir Danáum goðaspár, að meðan eg lifi og heil eru augu í höfði mér, þá skal engi af öllum Danáum leggja þungar hendur á þig hjá hinum holu skipum, og ekki Agamemnon, þó þú viljir hann til taka, og er hann þó nú miklu voldugastur af Akkeum“. 92 Þá varð hinn ágæti spámaður óhræddur, og mælti: „Hvorki er Appallon reiður af heitrofi nokkuru, né hundraðsblóti, heldur vegna hins, að Agamemnon svívirti hofgoða hans, og vildi ekki lausa láta dóttur hans, og enga útlausn þiggja. Fyrir þá sök þá hefir hinn langskeyti guð látið þessi mein að hendi bera, og mun því enn fram fara, og ekki af létta hinu þunga áfelli drepsóttarinnar, fyrr en Agamemnon hefir aftur skilað hinni kvikeygu mey heim til föður hennar ókeypis og án útlausnar, og fært helga hundraðsfórn til Krýsiborgar; því ef vér á þenna hátt blíðkum Appollon, munum vér fá snúið skapi hans“. Nú sem hann hafði þetta mælt, settist hann niður. 101 Þá stóð upp á samkomunni kappinn Atreifsson, hinn víðlendi konungur Agamemnon; honum var þungt í skapi; hans koldimma hjartafylgsni fylltist miklum móði, og augu hans voru lík eldi blossanda. Hann talaði fyrst til Kalkasar, og var þá augnaráð hans illvænlegt: 106 „Þú óheillaspámaður, kvað hann, ekki hefir þú enn nokkuru sinni mælt það, er mér væri gagn í; er þér jafnan hugljúft, að fara með hrakspár; hefir þú enn ekki nokkuð gott orð mælt eða nokkuru góðu til leiðar komið. Og nú ber þú upp þá goðaspá á samkomu Danáa, að hinn langskeyti guð láti þeim þessar raunir að hendi bera einmitt fyrir þá skuld, að eg vildi ekki þiggja hið fríða lausnargjald fyrir meyna, Krýsesdóttur; því eg vil miklu heldur hafa hana heima, og tek hana jafnvel fram yfir Klýtemnestru, eiginkonu mína, því hún er henni ekki síður að vænleik eða atgjörvi, hvorki að hugviti né hannyrðum. En allt að einu vil eg þó skila henni aftur, ef þá mætti um batna; vil eg heldur, að hernum sé borgið, en hann drepist niður. En hafið þá nú þegar til reiðu handa mér aðra heiðursgjöf í staðinn, að eg verði ekki einn sæmdarlaus af Argverjum; er það ekki viðurkvæmilegt; því það sjáið þér allir, að hún fer annað, sú heiðursgjöf, sem eg á“. 121 Hinn fóthvati, ágæti Akkilles svaraði honum: „Frægasti Atreifsson, þú fégjarnasti allra manna! Hversu mega enir hugstóru Akkear veita þér heiðursgjöf? Vér vitum alls ekki til, að nokkurs staðar sé talsvert af almannafé fyrirliggjanda; því það sem vér höfum rænt úr borgunum, það er til skipta komið; er það eigi tilhlýðilegt, að liðsmenn safni því saman á einn stað aftur. Ger þú guðnum það til sæmdar, að þú lát lausa meyna, en vér Akkear munum bæta þér aftur þrennum og fernum gjöldum, ef Seifur lætur oss þess einhvern tíma auðið verða, að leggja í eyði hina veggsterku Trójuborg“. 130 Agamemnon konungur svaraði honum: „Goðumlíki Akkilles, sem ert svo vel að þér gjör, vert eigi svo undirförull, því ekki muntu hlaupa um horn mér eða fá blekkt mig. Eða ætlastu til, að þú haldir sjálfur heiðursgjöf þinni, en eg skuli sitja við svo búið og ekkert hafa, er þú ræður til, að eg skuli skila meyjunni aftur? Þó mun eg gera það, ef hinir hugstóru Akkear gefa mér aðra heiðursgjöf, og velja hana að mínu skapi, svo jafnkosta sé. En geri þeir það ekki, þá mun eg fara til sjálfur og velja mér hana, og taka annaðhvort heiðursgjöf þína, eða Ajants, eða Odysseifs, og hafa á burt með mér; hygg eg, að þeim manni muni í skap renna, er eg sæki heim. En um þetta skal eg hugsa síðar meir. En nú skulum vér setja fram svart skip á djúpan sæ, og ráða menn til, svo fullskipað sé; síðan skulum vér láta hundraðsfórnina upp í, og leiða svo á skip út hina kinnfögru Krýsesdóttur; en einhverr einn af höfðingjunum skal vera formaður, annaðhvort Ajant eða Idomeneifur eða hinn ágæti Odysseifur, eða þá þú, Peleifsson, ógnarbíldur allra manna, svo þú færir hinum fjærvirka guði fórnir og þiggir hann í frið við oss“. 148 Hinn fóthvati Akkilles leit til hans með reiðisvip og mælti: „Heyr á endemi, þú hinn ósvífni og fláráði maður! Hversu fær nokkurr af Akkeum gegnt þér með góðu geði, annaðhvort til þess að fara för nokkura, eða til þess að berjast af orku í fólkorustu? Ekki var það vegna hinna spjótfimu Trójumanna, að eg fór hingað til að berjast; eg átti ekkert varhent við þá; þeir höfðu aldrei rekið á burtu uxa mína eða hesta, og aldrei rænt ávöxtum í hinu jarðfrjóva, fjölbyggða Fiðjulandi, því milli mín og þeirra eru mjög mörg dimm fjöll og gnýjanda haf. Nei, vér gerðum það þér til geðs, svo ósvífinn sem þú ert, að fylgjast með þér, til þess að heimta bætur af Trójumönnum, Menelási til handa, og þér, hundinum þínum. En þú metur þetta að engu, og lætur sem þú sjáir ekki; og nú hótar þú að taka frá mér sjálfur þá heiðursgjöf, er eg hefi mikið erfiði fyrir haft, og synir Akkea hafa gefið mér. Aldrei er eg vanur að fá heiðursgjöf til jafns við þig, þegar Akkear leggja í eyði einhverja fjölbyggða borg fyrir Trójumönnum. Nei, mínar hendur vinna mest að hinni róstusömu styrjöld, en þó fær þú miklu stærri heiðursgjöf, þegar loksins kemur til skipta; en sú gjöf, sem eg hefi með mér til skipa, þegar eg em þreyttur orðinn í orustunni, þá er hvortveggja, að hún er lítil, enda verð eg litlu feginn. Nú ætla eg að fara til Fiðjuborgar, því miklu betra er að halda heim á hinum stafnbjúgu skipum; því ekki dettur mér það í hug, að draga hér saman auð fjár handa þér, þar sem eg verð fyrir slíkum vansa“. 172 Herkonungurinn Agamemnon svaraði honum: „Flý þú gjarna, ef þér er það meir í mun. Ekki bið eg þig að vera hér eftir mín vegna; hefi eg hér aðra hjá mér, sem munu virða mig, og einkum hinn ráðvísi Seifur, en þú ert mér leiðastur allra konunga, fóstursona Seifs, því þér eru jafnan kærar deilur, orustur og bardagar. Þó þú sért hraustur, þá muntu eiga það guði að þakka. Far þú heim með skip þín og félaga þína, og ráð þú yfir Myrmídónum! Eg skipti mér ekkert af þér, og hirði ekki um, þó þú heiftist; en því mun eg hóta þér, að með því Febus Appollon tekur Krýsesdóttur frá mér, þá mun eg láta hana af hendi og flytja hana á mínu skipi og með mínum félögum; en svo skal eg sjálfur ganga til búðar þinnar, og taka þaðan heiðursgjöf þína, hina kinnfögru Brísesdóttur,[*] svo þú komist að raun um, hve miklu eg em þér voldugri, skal eg svo leiða öðrum, að teljast jafnsnjalla mér og fara við mig í mannjöfnuð“. [* Hún hét Hippodamía.] 188 Þannig mælti hann, en Peleifssyni varð skapfátt, og hjartað í hinu loðna brjósti hans lék á tveim áttum um það, hvort hann skyldi draga hið bitra sverð frá hlið sér, reisa upp þingheiminn móti honum, og drepa Atreifsson, eða skyldi hann leggja niður bræðina og hefta skap sitt. Meðan hann hreyfði þessu í huga sér og hjarta, og meðan hann dró hið mikla sverð úr slíðrum, kom Aþena af himni; sendi hana hin hvítarmaða Hera, er elskaði þá báða jafnt, og var jafnannt um hvorn tveggja. Hún nam staðar að baki Peleifssonar, og tók í hið bleika hár hans; sá hana engi, nema hann einn. Akkilles varð forviða, snerist við, og kenndi þegar Pallas Aþenu; sýndust augu hennar óttaleg; hann talaði til hennar skjótum orðum og mælti: 202 „Hví ertu enn hingað komin, dóttir Seifs ægisskjalda? Ertu komin til að horfa á ofstopa Agamemnons Atreifssonar? Eg segi þér fyrir satt, og það mun eftir ganga, að ekki mun á löngu líða, áður hann lætur lífið fyrir ofstopa sinn“. 206 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Eg kem af himni til að lægja hugmóð þinn, ef þú vilt láta að orðum mínum; sendi mig hin hvítarmaða Hera, er elskar ykkur jafnt báða, og er jafnannt um hvorn tveggja. Heyr nú, lát af kappi þessu, og bregð eigi sverðinu, en smána máttu hann í orðum, svo sem verða vill; því það skal eg segja þér fyrir satt, og það mun eftir ganga, að fyrir þessa svívirðingu muntu einhvern tíma fá jafnvel þrennar bætur slíkar í fögrum gjöfum. En þú heft þig og lát að orðum mínum“. 215 Hinn fóthvati Akkilles svaraði henni og sagði: „Að vísu byrjar hverjum manni, hversu reiður sem hann er í hug, að geyma, gyðja, orð ykkar hvorrar tveggju; því slíkt er heilladrjúgara. Guðirnir bænheyra fúslega sérhvern þann, er hlýðir þeim“. 219 Svo mælti hann, og stöðvaði hina þungu hönd sína á enum silfurbúna meðalkafla. Hann gerði sem Aþena bauð honum, og rak hið stóra sverð aftur í slíðrirnar; en Aþena fór til Ólymps í hallir Seifs ægisskjalda, þar sem hinir aðrir guðir voru. 223 Peleifssonur talaði því næst heiftarfullum orðum til Atreifssonar, og var enn ekki af látinn reiðinni: 225 „Þú vínsvelgur, með hundsaugun og hindarhjartað![*] Aldrei hefir þú borið áræði til að herklæðast með öðrum mönnum til bardaga, eða til að fara í launsátur með enum hraustustu köppum Akkea, því það þykir þér jafnt sem hel. Hitt er þér miklu makara, að taka gjafir í hinum víðu herbúðum Akkea frá hverjum þeim, er mótmælir þér. Þú svelgir í þig eigur þjóðarinnar, af því undirmenn þínir eru dáðlausir; því væri það ekki, mundi það nú verða í síðasta sinni, Atreifsson, að þú legðir öðrum svívirðingar til. Nú skal eg segja þér fyrir satt, og þar dýran eið við leggja: eg sver við þenna sprota, er aldrei mun skjóta blöðum né kvistum, né blómgast af nýju, úr því hann eitt sinn er viðskila orðinn við stofn sinn á fjöllum uppi, því eirvopnið hefir flett hann blöðum og berki; en nú bera hann synir Akkea í höndum sér, dómendur þeir, er lögum eiga vörð að veita í umboði Seifs: skal þetta vera þér dýr eiður, að svo víst munu allir synir Akkea einhvern tíma sakna Akkils; muntu þá í engu geta dugað þeim, þó þig taki það sárt, þegar þeir falla hrönnum dauðir fyrir Víga-Hektor; þá muntu særa hjartað í brjósti þér og verða gramur sjálfum þér, að þú hefir einskis virt, þann er hraustastur er af Akkeum“. [* Hérahjarta, Á. bps., bls. 118⁹.] 245 Þannig mælti Peleifsson, og varpaði sprotanum til jarðar; hann var negldur gullnöglum; settist niður síðan, en annars vegar var Agamemnon og var hinn reiðasti. Þá spratt upp hinn sætmáli Nestor, hinn snjallrómaði málsnillingur Pýlusmanna; flaut mál af tungu hans, hunangi sætara; höfðu yfir hann liðið tveir mannsaldrar mæltra manna, þeirra er fyrr meir höfðu fæðzt og upp alizt ásamt honum í hinni sannhelgu Pýlusborg, en þá var hann konungur yfir þriðja mannsaldri. Hann var þeim vel viljaður, tók til orða á þinginu og mælti: 254 „Skelfing er slíkt! Mikill harmur sækir Akkealand! Víst mundi Príamus gleðjast, og synir Príamuss og aðrir Trójumenn verða stórum fegnir, ef þeir fréttu alla þessa rimmu, er þið eigið ykkar í milli, þið sem eruð öðrum Danáum framar á ráðstefnu og í bardögum. Farið nú að mínum ráðum, því þið eruð báðir mér yngri. Hefi eg áður fyrr meir verið með hraustari mönnum, en þið eruð, og fyrirlitu þeir mig þó aldrei. Því ekki hefi eg enn séð, og mun ekki heldur sjá, aðra eins menn og þeir voru, Píríþóus, þjóðhöfðinginn Drýant, Keneifur, Exadíus og hinn goðumlíki Pólýfemus; þeir hafa verið sterkastir jarðneskra manna, þeirra er uppfæðzt hafa: voru bæði sjálfir enir sterkustu, og börðust við hina sterkustu menn, við bergrisana, og eyddu þeim ógurlega. Eg var þar þá með þeim; var eg kominn langt að úr fjarlægu landi, frá Pýlusborg, því þeir höfðu gert mér boð. Barðist eg þar einn mér; því engum þeirra manna, sem nú eru uppi á jörðu, mundi duga við þá menn að keppa, og þó hlýddu þeir á tillögur mínar og gegndu orðum mínum. Gerið þið eins, og hlýðið mér, því það er hollara að fara að mínum ráðum. Ekki skaltú, með því þú ert slíkur ágætismaður, taka af honum meyna; lát hann heldur halda henni, fyrst synir Akkea hafa eitt sinn gefið honum hana að heiðursgjöf. Ekki skalt þú heldur, Peleifsson, etja kappi í þrá við konunginn; því aldrei hefir nokkurr konungur, er með veldissprota fer, sá er Seifur hefir metorð veitt, öðlazt jafna tign honum. Og þó þú sért hraustur, þó gyðja sé móðir þín, sú er þig hefir alið, þá er hann þó meiri en þú, því hann ræður yfir fleirum. En þú, Atreifsson, still hugarákafa þinn; ger fyrir mín orð, og gef upp Akkilli reiðina, því hann er mikill varnargarður öllum Akkeum í hinni grimmu styrjöld“. [Mynd: Kantárar og menn berjast.] 285 Agamemnon konungur svaraði honum og sagði: „Víst hefir þú, gamli maður, talað allt þetta með sanngirni. En þessi maður, hann vill vera fyrir öllum, hann vill ráða öllum, ríkja yfir öllum, bjóða yfir öllum; ætla eg, að fáir muni þola honum það. Því þó hinir eilífu guðir hafi gjört hann góðan bardagamann, hvort leyfa þeir honum fyrir það, að tala smánarorðum?“ 292 Hinn ágæti Akkilles tók þá fram í, og svaraði: „Eg skal þá heita hvers manns níðingur, ef eg skal láta undan þér í hverju því, sem þú segir. Bjóð þú öðrum, en yfir mér skaltu ekki bjóða, því eg hygg, að eg muni ekki hlýða þér framar. En eitt ætla eg að segja þér, taktu eftir því: ekki mun eg berjast með vopnum um meyna, hvorki við þig, né við nokk urn annan, úr því, þér takið frá mér, það sem þér hafið gefið. En af öðrum fjárhlutum, sem eg á hjá enu fljóta, svarta skipi, skaltu ekkert taka á burt með þér að óvilja mínum; því, ef þú gerir það (komdu til, reyndu, svo þessir, sem hér eru, horfi á!), þá skal þitt svarta blóð laga á spjóti mínu“. 304 Þá þeir höfðu þannig deilt hvorr við annan, stóðu þeir upp, og brugðu þinginu hjá skipum Akkea; gekk Peleifsson til búða sinna og hinna jafnbyrðu skipa með Menoitssyni og félögum sínum, en Atreifsson lét fram setja gangfljótt skip til sjóar, valdi þar til 20 ræðara, lét svo upp í skipið hundraðsfórn þá, er guðnum var ætluð, leiddi síðan hina kinnfögru Krýsesdóttur á skip og fékk henni þar sæti, þá gekk hinn ráðagóði Odysseifur út á skipið; hann var formaðurinn. 312 En er þeir voru á skip komnir, sigldu þeir yfir vota vega. Þá bauð Atreifsson hernum að hreinsast; þá hreinsuðu menn sig, og köstuðu hinu óhreina laugarvatni í sjóinn, færðu síðan Appollon gallalausar hundraðsfórnir í griðungum og geitfé á strönd hins ófrjóva hafs, og lagði fórnarilminn í reyknum til himins. 318 Þetta sýsluðu menn í herbúðunum. Þó lét Agamemnon ekki fyrir farast að koma því fram, sem hann eitt sinn hafði hótað Akkilli. Hann mælti til Taltybíuss og Erýbatess, þeir voru kallarar hans og ötulir þjónustumenn: 322 „Gangið til búðar Akkils Peleifssonar, takið í hönd hinnar kinnfögru Brísesdóttur, og leiðið hana til mín. En vilji hann ekki láta hana, þá mun eg fara til með fleiri menn og taka hana sjálfur, og mun honum falla það sárara“. 326 Þá hann hafði sagt þetta, og bætt á ofan þessum hótunarorðum, þá lét hann þá fara; gengu þeir ófúsir eftir strönd hins ófrjóva hafs, og komu til búða og skipa Myrmídóna. Þeir fundu Akkilles, þar sem hann sat hjá búð sinni og hinu svarta skipi; varð hann lítt feginn, er hann sá þá. Kallararnir numu staðar af ótta og lotningu fyrir konunginum, urpu ekki orði á hann og spurðu einskis. Hann vissi, hvert erindi þeirra mundi vera, og mælti: 334 „Komið heilir, kallarar, þér sendiboðar Seifs og manna! Gangið nær! Eg á enga sök á ykkur, heldur á Agamemnoni, sem sendi ykkur til að sækja meyna Brísesdóttur. Heyr þú, seifborni Patróklus, leiddu meyna út, og fá þeim í hendur. Því, fari svo, sem eg ætla, að eitt sinn verði þörf á mér síðar, til að verja aðra fyrir illum óförum, þá skulu þeir báðir vera sjálfir vitni fyrir hinum sælu guðum og fyrir dauðlegum mönnum og fyrir þessum hinum harðráða konungi; því sannlega æðir hann nú með fársfullum huga, og hefir hvorki þá fyrirhyggju né framsýni, sem þyrfti til þess, að Akkear, er hann á yfir að ráða, mættu verja skip sín án manntjóns“. 345 Svo mælti hann, en Patróklus gerði, sem vinur hans bauð, leiddi hina kinnfögru Brísesdóttur út úr búðinni, og fékk þeim í hendur. Fóru þeir nú aftur til skipa Akkea, og gekk konan með þeim, þó henni væri það nauðugt. Þá grét Akkilles. Hann skildist þegar við félaga sína, og settist á strönd hins gráa sævar og horfði út á hið dimmbláa haf. Hann rétti út hendur sínar, og bað ákaflega til móður sinnar: 352 „Móðir mín, fyrst þú ólst mig skammlífara en aðra menn, þá átti þó Ólympsguð, hinn háþrumandi Seifur, að veita mér sæmd að minnsta kosti. En nú hefir hann ekki veitt mér hinn minnsta sóma, þar sem hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson hefir svívirt mig, er hann hefir nú komið höndum á heiðursgjöf mína, er hann hefir af einræði sínu látið taka frá mér“. 357 Þannig mælti hann, og felldi tár. En hans tignarlega móðir heyrði til hans, þar sem hún sat í sjávardjúpinu hjá sínum aldraða föður. Hún skauzt skyndilega upp af enum gráa sæ, sem þoka, og settist frammi fyrir honum, þar sem hann jós út tárum; hún klappaði honum með hendi sinni, tók til orða og mælti: [Mynd: Akkilles selur fram Brísesdóttur.] 362 „Hví grætur þú, barn? Hví sækir harmur heim hjarta þitt? Seg mér allt af létta, og leyn engu af, svo við vitum bæði“. 364 Hinn fóthvati Akkilles andvarpaði þungan og sagði til hennar: „Þú veizt það. Hví skal eg segja þetta, þar sem þú veizt allt? Vér fórum til Þebu, ennar helgu Etjónsborgar, rændum hana, og tókum þaðan alla fjárhluti; skiptu synir Akkea þeim að jafnaði milli sín, en völdu Atreifssyni af óskiptu hina kinnfögru Krýsesdóttur. Krýses var hofgoði hins langskeyta Appollons, hann kom til enna gangfljótu skipa hinna eirbrynjuðu Akkea, vildi hann leysa út dóttur sína, og hafði með sér ógrynni lausnarfjár; hann hélt upp kórónu hins langskeyta Appollons á gullnum sprota, og bað alla Akkea, en einkum báða Atreifssonu, er réðu fyrir hernum. Gerðu þá allir Akkear góðan róm að máli hans, og kváðu, að gera skyldi virðulega til hofgoðans, og þiggja hið fríða lausnargjald. En Agamemnon Atreifsson lét sér það ekki líka, heldur vísaði hann goðanum burt með smán, og lagði ógnarorð á ofan. Fór hinn aldraði maður svo burtu, að hann var reiður, og hét á Appollon. Appollon heyrði bæn hans, því hann var honum mjög kær. Hann skaut hættulegu skeyti á Argverja, og féllu menn þá hverr á fætur öðrum; flugu örvar guðsins alla vega um hinar víðu herbúðir Akkea. En spámaður nokkurr, sem vel var að sér, sagði oss spádóma hins langskeyta guðs; varð eg þegar fyrstur til, og lagði það til, að mýkja skyldi reiði guðsins. En þá brást Atreifsson reiður við, stóð upp þegar, og hótaði því, sem nú er fram komið; því enir snareygu Akkear flytja nú meyna á örskreiðu skipi til Krýsiborgar, og færa hinum volduga guði fórnir; en kallarar gengu nýlega frá búð minni, og höfðu burt með sér Brísesdóttur, er synir Akkea höfðu gefið mér. Hjálpa þú nú þínum hrausta syni, því þess ertu megnug. Far til Ólymps, og bið Seif, svo framarlega sem þú hefir nokkuru sinni glatt hjarta hans í orði eða verki; því oft heyrði eg þig hrósa því í húsum föður míns, að þú kvaðst alein hafa komið Kronussyni, svartskýjaguði, úr óhaglegu vandræði meðal hinna ódauðlegu guða, þegar hin önnur Ólympsgoð vildu leggja fjötur á hann, bæði Hera og Posídon og Pallas Aþena. Gekkstu þá til, gyðja, og frelsaðir hann frá fjötrunum, því þú hafðir kallað upp á hinn háva Ólymp þann hundraðhenda risa, er guðirnir nefna Bríarós, en allir menn kalla Egeon; sá var og að kröftum enn meiri, en faðir hans. Hann settist hjá Kronussyni, dáðum-hróðugur, urðu hinir sælu guðir smeykir við hann, og lögðu ekki fjöturinn á Seif. Minn hann nú á þetta, sezt hjá honum og umfaðma kné hans; má vera, að hann vilji þá á einhvern hátt hjálpa Trójumönnum, en reka Akkea að skutstöfnum skipanna og að sjó fram, og láta þá drepast þar niður, svo þeir allir njóti konungs síns, og svo hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson kannist við glæpsku sína, er hann virti einskis, þann er hraustastur var af Akkeum“. 413 Þetis svaraði honum grátandi: „Æ, hví fæddi eg þig upp, barn mitt, er eg ól þig svo illu heilli? Eg vildi óska, að þú sætir ógrátinn og vansalaus hjá skipum þínum, úr því þér átti skammra, og ekki langra lífdaga auðið að verða. En nú ertu orðinn ekki að eins skammlífur, heldur og ógæfusamastur allra manna; hefi eg því illu heilli alið þig í húsum mínum. Nú skal eg fara sjálf til hins snjóvga Ólymps, og nefna þetta fyrir þig við hinn þrumuglaða Seif, ef hann vill verða við bón minni. En þú skalt nú sitja hjá hinum örskreiðu skipum, og alltaf vera reiður Akkeum, og halda þér með öllu frá styrjöldinni. Því Seifur fór í gær út að Jarðarstraumi til enna ágætu Eþíópa, og situr þar að veizlu, og allir guðirnir með honum. Mun hann koma aftur til Ólymps á 12. degi; þá skal eg fara fyrir þig til ennar eirföstu hallar Seifs og knéfalla honum, og vona eg, að hann verði við bón minni“. Þá hún hafði sagt þetta, gekk hún burt, og skildi hann þar eftir reiðan í huga sökum hinnar fagurbeltuðu konu, er frá honum hafði tekin verið með valdi nauðugum. 430 Nú kom Odysseifur til Krýsiborgar með hina helgu hundraðsfórn. En er þeir voru komnir inn á hinn djúpa vog, tóku þeir saman seglin, og lögðu þau niður í hið svarta skip, létu síðan siglutréð síga niður á framstögunum og hleyptu því skjótlega í siglustokkinn; þá reru þeir skipinu upp að lendingunni, köstuðu út stjóra og bundu skutfestar, fóru svo sjálfir út í sjávarlána, og tóku upp úr skipinu hundraðsfórn þá, er ætluð var enum langskeyta Appollon. Þá steig og Krýsesdóttir á land af hinu haffæra skipi, og leiddi hinn ráðagóði Odysseifur hana að blótstallanum, fékk hana í hendur föður hennar, og mælti til hans: 442 „Krýses! Herkonungurinn Agamemnon sendi mig til að færa þér dóttur þína, og til að fórna Febusi helgu hundraðsblóti fyrir hönd Danáa, að vér mýkjum reiði hins volduga guðs, sem nú hefir látið Argverjum sára harma, að hendi bera“. 446 Að því mæltu fékk hann hana í hendur honum, en hann tók fagnandi við dóttur sinni. Síðan skipuðu þeir hinni frægu hundraðsfórn umhverfis í kring um hinn velhlaðna blótstalla, og létu hvert blótdýr standa við hlið annars; því næst þógu þeir hendur sínar og tóku upp blótbyggið; þá fórnaði Krýses upp höndum og bað rækilega fyrir þeim: 451 „Heyr bæn mína, Silfrinbogi, þú sem ert á gangi kring um Krýsiborg og hina sannhelgu Killiborg, og ræður volduglega yfir Tenedusey! Fyrr meir, þá eg hét á þig, heyrðir þú bæn mína, veittir mér sóma, og gerðir Akkeum mikið manntjón. Veit mér og enn að þessu sinni þessa ósk mína: afstýr nú loks hinu illa fári frá Danáum“. 457 Þessum orðum baðst hann fyrir, og heyrði Febus Appollon bæn hans. En er þeir höfðu beðizt fyrir og dreift blótbygginu, þá hnakkakertu þeir fyrst blótdýrin, skáru þau svo á háls og flógu, þá skáru þeir úr lærbitana, huldu þá í mör og létu tvö vera mörlögin, lögðu svo hráa bita þar ofan á. Þetta brenndi hinn aldraði maður yfir skíðum, og dreypti þar yfir skæru víni, en sveinar stóðu hjá honum og héldu á fimmyddum eldskörum. En er lærbitarnir voru brunnir, og menn höfðu etið iðrarnar, þá brytjuðu þeir hitt kjötið, stungu því upp á teina og steiktu gætilega, og tóku svo allt af teinunum. En er þeir höfðu lokið því starfi, matreiddu þeir og settust að veizlu, og skorti ekkert, það er ákjósa mátti að skammtveizlu. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, fylltu sveinarnir skaftkerin á barma með drykk, skenktu á drykkjarkerin til dreypifórnar handa hverjum og skömmtuðu öllum. Sveinar Akkea blíðkuðu guðinn með söng allan daginn, kváðu fagurt þakkarkvæði og sungu enum fjærvirka guði lof, en hann hafði gaman af að hlýða þar á. En er sól var runnin og rökkur á komið, lögðu þeir sig til svefns hjá skutfestum skipsins. 477 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós, fóru þeir aftur til hinna víðu herbúða Akkea; sendi hinn fjærvitki Appollon þeim hagstæðan byr. Þeir reistu siglutréð, og breiddu út hin hvítu segl; þandi vindurinn seglin milli jaðra, en mórauð bylgjan glumdi hátt í kring um stefnið, þá skipið gekk, en það hljóp eftir öldunni og fór leiðar sinnar. En er þeir komu til hinna víðu herbúða Akkea, settu þeir hið svarta skip á land, hátt upp á sandana, og reistu undir það langar skorður; en sjálfir fóru þeir, síns vegar hverr, til búða sinna og skipa. 488 En hinn fóthvati Akkilles, Peleifs seifborni sonur, sat hjá hinum örskreiðu skipum, og var alltaf reiður. Hvorki gekk hann nokkuru sinni á mannamót, né í orustu; hann, mæddi hjarta sitt á því að vera kyrr á sama stað, en ávallt langaði hann eftir hergný og styrjöld. 493 En er kominn var hinn 12. dagur þaðan frá, fóru hinir eilífu guðir allir saman upp til Ólymps, og gekk Seifur á undan þeim. Þetis gleymdi ekki erindum sonar síns; hún kom upp úr bylgju sjávarins, og gekk árla morguns upp á hinn háva himin og til Ólymps. Hún fann hinn víðskyggna Kronusson, þar sem hann sat einn sér á efsta hnúki hins tindótta Ólymps. Hún settist frammi fyrir honum, ok tók vinstri hendi um kné hans, en hægri hendi tók hún undir höku hans; hún bað hinn volduga Seif Kronusson, og mælti: 503 „Faðir Seifur, hafi eg nokkuru sinni veitt þér fulltingi í orði eða verki meðal hinna ódauðlegu guða, þá veit mér þessa bæn mína: veit syni mínum, sem allra manna er bráðfeigastur; hefir nú herkonungurinn Agamemnon gert honum þá vansemd, að hann heldur hjá sér og vill ei aftur skila þeirri heiðursgjöf, er hann hefir af einræði sínu tekið frá honum. Veit þú honum þó sóma, Ólympsguð, ráðvísi Seifur: lát Trójumönnum veita betur, unz Akkear virða son minn, og sýna honum meiri sóma, en áður“. 511 Þannig mælti hún, en Seifur skýbólstraguð anzaði henni engu, heldur sat lengi og mælti ekki; en Þetis hélt fast sömu tökum og hún hafði tekið um kné hans, og tók aftur til orða: 514 „Lofa þú mér þessu með vissu og hneig höfði til, eða neita því með öllu, því nú þarftu engan að óttast; má eg þá gjörst vita, hversu eg hefi minnsta virðingu allra guða“. 517 Seifi skýbólstraguði var mjög þungt í skapi, og mælti til hennar: „Illt mun af því hljótast, ef þú kemur mér til að fjandskapast við Heru, því hún mun erta mig með brigzlyrðum. Hún átelur mig jafnan, hvort sem heldur er, meðal hinna ódauðlegu guða, og kveður mig veita Trójumönnum lið í orustunni. En far þú nú burt aftur, að Hera verði þín ekki vör, en eg mun láta mér um hugað, að koma þessu til leiðar. Heyrðu! ef þú vilt, þá skal eg hneigja niður að þér höfði mínu, svo þú trúir; því það er sú skírasta jarteikn, er eg má veita með hinum ódauðlegu guðum, því hverju sem eg heit með hneigðu höfði, það má eigi aftur takast, og eigi verða að hégómamáli eða lokleysu“. 528 Að því mæltu hneigði Kronusson hinum dökkvu brúnum sínum; hreyfðust þá enir himnesku lokkar á hinu ódauðlega höfði ens volduga guðs; og þá skelfdi hann hinn háva Ólympus. 531 Nú sem þau höfðu ráðið þetta með sér, skildu þau: stökk Þetis ofan af hinum skínanda Ólympi niður í hinn djúpa sæ, en Seifur gekk til hallar sinnar; risu þá upp allir guðir í einu úr sætum sínum, til að ganga móti föður sínum, og þorði engi að vera kyrr í sæti sínu, þá hann kom, heldur gengu allir til móts við hann. Settist hann svo þar í hásæti sitt. Jafnskjótt og Hera sá hann, vissi hún, að hin silfurfætta Þetis, dóttir hins aldraða sjávarguðs, hafði verið á tali við hann um einhverjar ráðagjörðir. Talaði hún þegar til Seifs Kronussonar þessum móðgunarorðum: 540 „Hverr guðanna hefir enn verið í ráðagjörðum með þér, vélráður? Jafnan er þér kært, að ráða launráðum á bak við mig, og enn hefir þú ekki fengið af þér, að segja mér af alhug, hvað þú hafir í hyggju“. 544 Faðir manna og guða svaraði henni: „Ekki skaltu ætlast til þess, Hera, að þú fáir að vita allar ráðagjörðir mínar; það mun ekki vera svo hollt fyrir þig, þó þú sért húsfreyja mín. Sérhverja þá ráðstöfun, sem heyra má, hana skal engi fyrr fá að vita en þú, hvorki guðir né menn; en ekki skaltu spyrja eða forvitnast um þær ráðstafanir mínar, sem eg vil gera á laun við guðina“. 551 Hin mikileyga drottning Hera svaraði honum því næst: „Þú harðráðasti Kronusson, en að þú skulir mæla slíkum orðum! Fjærri fer það, að eg sé með jafnaði vön að spyrja þig eða forvitnast um nokkuð; mátt þú gjarna ráða í náðum fyrir mér, hverju sem þú vilt. En nú em eg mjög hrædd um, að hin silfurfætta Þetis, dóttir hins aldraða sjávarguðs, hafi blekkt þig með vélum; því hún sat hjá þér í morgun og hélt um kné þín; grunar mig, að þú hafir heitið henni fastlega með hneigðu höfði, að þú viljir rétta hlut Akkils, en týna mörgum Akkea við skipin“. [Mynd: Samkoma guðanna á Ólympi.] 560 Seifur skýbólstraguð svaraði henni og sagði: „Undarlega kona, ávallt grunar þig eitthvað, og ekki fæ eg dulizt fyrir þér. Þó muntu engu fá áleiðis komið fyrir það, nema þú munt verða mér enn fjær skapi, en áður, og muntu þar hafa verr af; því auðvitað er, að sé þetta, sem þú segir, þá hlýtur það að vera vilji minn. En ger nú, sem eg segi þér: sezt niður, og mæl ekki orð; því ella er hætt við, að þér verði það ekki að liði, þó allir þeir guðir, sem á Ólympi eru, komi til, efi, eg fer að leggja á þig hinar óárennilegu hendur mínar“. 568 Þannig mælti hann, en hin mikileyga drottning Hera varð hrædd; hún beygði lund sína, settist niður og mælti ekki orð, en guðirnir, himinsbúar, voru með þungu skapi í höll Seifs. Þá tók fyrstur til máls Hefestus, hinn frægi hagleiksguð, því hann var meðmæltur móður sinni, hinni hvítörmuðu Heru: 573 „Illt mun af því hljótast, og óbærilegt mun það verða, ef þið tvö deilið svo um dauðlega menn og vekið hávaða meðal guðanna, og verður þá engi skemmtun að góðri veizlu, þegar það ræður meira, er verr gegnir. Nú vil eg ráða móður minni, þó hún hafi sjálf vit á því, að hún láti til við Seif, föður minn, svo faðir minn fari ekki aftur að deila og spilli svo veizlunni fyrir oss; því hægt veitir hinum ólympska eldingaguði, að hrinda oss úr sætum, ef hann vill, því hann er vor miklu máttugastur. Far þú heldur að honum með mjúkum orðum; mun þá hinn ólympski guð brátt verða oss miskunnsamur“. 584 Þá hann hafði þetta mælt, spratt hann upp, og rétti tvíker að móður sinni, og sagði til hennar: [Mynd: Grísk hvíla.] 586 „Vertu þolinmóð og hughraust, móðir mín, þó þú eigir bágt, svo eg ekki horfi á það með augum mínum, að þú, sem ert mér svo kær, verðir slegin: mun eg þá alls ekki lið mega veita þér, hversu sárt sem mig tekur til þín; því torvelt er að setja sig á móti hinum ólympska guði. Því það var einu sinni forðum, þegar eg vildi hjálpa þér, að hann tók í fót minn, og kastaði mér út af hinum himneska þröskuldi; var eg allan daginn á fluginu, og lenti um sólarlag niður í Lemney; var þá lítið líf í mér. Sintíar, sem þar bjuggu, tóku mig upp, þar sem eg lá fallinn, og hjúkruðu mér“. 595 Þannig mælti hann, en hin hvítarmaða gyðja, Hera, brosti, og tók brosandi við kerinu af syni sínum. En hann jós hið sæta ódáinsvín af skaftkerinu, og skenkti öllum hinum öðrum guðum til hægri handar. Kom þá upp óstöðvandi hlátur með hinum sælu guðum, er þeir sáu Hefestus þjóna sem frammistöðumann í höllinni. 601 Þannig sátu þeir þá að veizlu allan daginn til sólseturs, og var einskis vant að skammtveizlu þeirri: þar var hljómfögur harpa, hélt Appollon á henni, og þar voru sönggyðjurnar; þær sungu með fagri rödd, og svöruðu hvor annarri á víxl. En er hið skæra sólarljós var gengið undir, gengu þeir til hvílu, og fór hverr heim til sín, þar sem hinn víðfrægi fótlamur, Hefestus, hafði smíðað hverjum herbergi af hugvitsömum hagleik sínum. En Seifur, hinn ólympski eldingaguð, gekk til rekkju sinnar, þar sem hann jafnan var vanur að hvíla, þegar sætur svefn rann á hann; sté hann upp í rekkjuna og ætlaði að sofna, og Hera gullinstóla hjá honum. ANNAR ÞÁTTUR DRAUMURINN. BEÓTABÁLKUR, EÐA SKIPATALIÐ. ALLIR guðir og hermenn sváfu af um nóttina, nema Seifur; hann gat engan blund fest, því hann var að velta því í huga sér, hversu hann mætti rétta hlut Akkils og láta marga af Akkeum falla hjá skipunum. Leizt honum þá ráðlegast, að senda Agamemnon Atreifssyni hinn meinsama Draum; talaði hann þá til Draums skjótum orðum og mælti: 8 „Heyr þú, meinsami Draumur, far þú til enna fljótu skipa Akkea, gakk til búðar Agamemnons Atreifssonar, og seg honum greinilega allt, það er eg legg fyrir þig. Seg honum að herbúa hina hárprúðu Akkea sem ákaflegast; mun hann nú fá tekið hina strætabreiðu borg Trójumanna, því hinir ódauðlegu guðir, er búa í Ólymps höllum, eru nú ekki lengur sundurþykkir; hefir Hera snúið hugum þeirra allra með bænum sínum; eru nú Trójumönnum búnar miklar mannraunir“. 16 Þannig mælti hann, en Draumur fór af stað, þá hann hafði heyrt þessi boð. Hann kom skjótt til enna fljótu skipa Akkea; hann gekk til Agamemnons Atreifssonar, og fann hann sofandi í búð sinni; hafði himneskur svefn breitt sig yfir hann allan. Hann nam staðar uppi yfir höfði hans, og var þá í líki Nestors Neleifssonar, er Agamemnon virti mest af höfðingjunum; í hans líki talaði hinn guðlegi Draumur til hans: 23 „Sefur þú, sonur hins herkæna riddara Atreifs? Ekki má sá höfðingi sofa alla nóttina gegnum, sem hefir á hendi mannaforráð og á um svo margt að annast. Tak nú skjótt eftir því, sem eg segi, því eg em sendur til þín frá Seifi; er honum mjög annt um þig og kennir í brjósti um þig, þó hann sé þér fjærverandi. Hann segir þér að herbúa hina hárprúðu Akkea sem ákaflegast; muntu nú fá tekið hina strætabreiðu borg Trójumanna, því hinir ódauðlegu guðir, er búa í Ólymps höllum, eru nú ekki lengur sundurþykkir; hefir Hera snúið hugum þeirra allra með bænum sínum; eru Trójumönnum nú miklar raunir búnar að ráðstöfun Seifs. Geym þetta í hjarta þínu, og gleym því ekki, þegar hinn sæti svefn rennur af þér“. 35 Að því mæltu gekk hann burt, og skildi þar við hann; var Agamemnon þá að hugsa um það í huga sér, er ekki átti fram að koma: ætlaði hann, fávís maður, að hann mundi tekið fá Príamsborg þann dag, en vissi ekki þá fyrirætlun, er Seifur hafði í hyggju, því hann ætlaði að láta mannraunir og hörmungar enn koma yfir Trójumenn og Danáa í hörðum orustum. Agamemnon vaknaði af svefninum, og hljómaði þá hin guðlega rödd enn í eyrum hans. Síðan settist hann upp, fór í mjúkan kyrtil, fagran og nýgjörvan; hann kastaði yfir sig stórri yfirhöfn, batt fagra sóla undir sína hraustlegu fætur, og varp um herðar sér silfurnegldu sverði; hann tók í hönd sér veldissprota þann, er langfeðgar hans höfðu átt og aldrei fyrntist; við þann sprota gekk hann til skipa hinna eirbrynjuðu Akkea. 48 Morgungyðjan sté nú upp á hinn háva Ólymp, til að boða Seifi og öðrum ódauðlegum guðum dagsbirtuna. Agamemnon bað hina snjallrómuðu kallara að kveðja hina hárprúðu Akkea til þings, en þeir kvöddu þings, og söfnuðust menn brátt. 53 En fyrst settust enir stórhuguðu höfðingjar á ráðstefnu hjá skipi Nestors konungs, er ættaður var frá Pýlusborg; og sem Agamemnon hafði kallað þá saman, bar hann upp eitt viturlegt ráð: 56 „Heyrið vinir (kvað hann), hinn guðlegi Draumur kom til mín í svefni á hinni himnesku nótt; var hann einna líkastur enum ágæta Nestori að yfirlitum, vexti og skapnaði. Hann nam staðar uppi yfir höfði mér og talaði til mín þessum orðum: „„Sefur þú, sonur ens herkæna riddara Atreifs? Ekki má sá höfðingi sofa alla nóttina í gegnum, sem hefir á hendi mannaforráð og á um svo margt að annast. Tak nú skjótt eftir því, sem eg segi þér: því eg em sendur til þín frá Seifi; er honum mjög annt um þig og kennir í brjósti um þig, þó hann sé þér fjærverandi; muntu nú fá tekið hina strætabreiðu borg Trójumanna, því hinir ódauðlegu guðir, er búa í Ólymps höllum, eru nú ekki lengur sundurþykkir sín í milli; hefir Hera snúið hugum þeirra allra með bænum sínum; eru Trójumönnum nú miklar raunir búnar að ráðstöfun Seifs. Geym þú þetta í hjarta þínu!““ Þá hann hafði sagt þetta, flaug hann burt, en hinn sæti svefn rann af mér. Heyrið nú, látum oss reyna til að herbúa sonu Akkea. En fyrst vil eg þó freista þeirra með orðum, eins og vera ber, og ráða þeim til að flýja á hinum margþóftuðu skipum, en þá skuluð þér aftra þeim með orðum, hverr í sínum flokki“. 76 Nú sem hann hafði þetta mælt, settist hann niður; stóð þá Nestor upp, er konungur var í hinni sendnu Pýlusborg. Hann var þeim vel viljaður, tók til orða og mælti: 79 „Góðir vinir, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja, ef einhverr annar maður af Akkeum hefði sagt þenna draum, þá mundum vér kalla þann draum hégómadraum, og síður marka þann mann eftir, en áður; en nú hefir þann mann dreymt drauminn, sem miklu er ágætastur af Akkeum. Látum oss því reyna til að hervæða sonu Akkea“. 84 Að því mæltu gekk hann fyrstur af ráðstefnunni, en hinir veldissprota-berandi konungar stóðu upp í móti þjóðhöfðingjanum, og hlýddu honum. 87 Nú þusti fólkið að. Svo sem flokkar þéttra býflugna þjóta fram úr bergholu, og koma æ fram nýjar og nýjar, fljúga í riðlum uppi yfir vorblómunum, sem vínber á kló, og flögra hnapparnir ýmist hér, ýmist þar: svo gengu margar sveitir hermanna frá skipunum og búðunum flokkum saman á þingið eftir endilangri sjávarströndinni. Flugufregnin, sendimær Seifs, fór á meðal þeirra, sem logi í sinu, og rak eftir þeim að fara, en þeir söfnuðust saman; var þingheimurinn mjög ókyrr, en jörðin stundi undir, er fólkið var að setjast niður; gerðist þá málkliður mikill; fóru þá til 9 kallarar og æptu, til að stöðva og þagga niður í þeim óhljóðin, svo þeir mættu heyra mál konunganna, fóstursona Seifs. Um síðir settust menn niður, hættu glaumnum og sátu kyrrir í sætum sínum. Þá stóð upp Agamemnon konungur; hann hélt á sprota; þann sprota hafði Hefestus smíðað af miklum hagleik; gaf Hefestus hann hinum volduga Seifi Kronussyni, en Seifur gaf hann hinum hvatfæra Argusbana; hinn voldugi Hermes gaf hann hinum reiðkæna Pelópi; Pelóps gaf hann aftur þjóðhöfðingjanum Atreifi; á deyjanda degi lét Atreifur hann eftir sig hinum fjárauðga Þýesti, en Þýestes eftirlét sprotann Agamemnoni, að hann bæri hann og réði yfir mörgum eyjum og yfir öllu Argverjalandi. Hann studdist nú við þenna sprota, og mælti þeim orðum til Argverja: 110 „Kærir vinir, þér öðlingar Danáa, þjónar Aresar! Seifur Kronusson hefir fastlega fjötrað mig með þungu meini, sá hinn grimmi guð, er lofaði mér í fyrstu, og hét með hneigðu höfði, að eg skyldi leggja í eyði hina ramveggjuðu Ilíonsborg, áður eg færi heim; en nú hefir hann gabbað mig illa, er hann býður mér að fara heim í Argverjaland frægðarlausum, eftir að eg hefi látið marga menn. Mun þetta vera vilji hins afar sterka Seifs, er rofið hefir höfuðvirki margra borga, og mun enn rjúfa, því hans er mátturinn mestur. Nú er það að vísu svívirðilegt til afspurnar hjá eftirkomandi mönnum, að svo frítt og mikið lið, sem Akkear hafa, skuli eiga hér í ófriði til ónýtis, og berjast við sér færri menn, svo að ekki sér enn, hverr endir á verður. Og er þó svo mikill liðsmunur, að ef vér, Akkear og Trójumenn, vildum, að gjörvum tryggum sættum, telja hvortveggja liðið, og tækjum fyrst alla Trójumenn, þá er heimili hafa í borginni, skiptum oss síðan, Akkeum, í tugasveitir, og veldum einn Trójumann til að byrla vín fyrir hverja sveit, þá mundi þó margar tugasveitir skorta byrlara. Svo miklu fleiri ætla eg Akkea vera, en Trójumenn, þá er í borginni búa. En þeir hafa liðsmenn frá mörgum borgum, spjótfima menn, er mjög tálma fyrir mér, og meina mér að leggja í eyði hina fjölbyggðu Ilíonsborg, þó mér leiki hugur á því. Nú eru þegar liðin níu ár hins mikla Seifs, og viðurinn í skipunum orðinn fúinn, og reiðinn ónýtur. Konur vorar og ungbörn sitja heima, og bíða vor, en erindi það, sem vér áttum hingað, er engu nær en áður. Heyrið nú, gerum allir, svo sem eg segi fyrir: flýjum burt á skipum vorum heim til vors kæra föðurlands, því ekki munum vér framar fá tekið hina strætabreiðu Trójuborg“. 142 Þannig mælti hann, ok hrærði hjörtu í brjóstum allra manna á samkomunni, þeirra er ekki vissu af ráðagerðinni. Ókyrrðist nú þingheimurinn, svo sem enar stóru haföldur á Íkarsflóa, þegar þeir Austri og Suðri stökkva á þær ofan úr skýjum föður Seifs, og æsa þær upp. Svo sem þá vestanstormur kemur, og steypist óður ofan á hávaxinn akur, og skekur hann svo, að akurinn með öxunum leggst út af: svo ókyrrðist gjörvallur þingheimurinn. Þeir þustu með fagnaðarópi til skipanna, en moldarstrokan stóð í loft upp undan fótum þeirra; eggjaði þá hverr annan, að taka skipin og draga þau fram á enn djúpa sæ; tóku þeir nú til að grafa fram bakkaskurðina; var þá svo mikill áhugi þeirra að komast heim, að óhljóðin tóku til himins; fóru þeir nú og tóku skorðurnar undan skipunum. 155 Nú hefði heimför Argverja orðið fyrir forlög fram, ef Hera hefði ekki mælt við Aþenu: „Atrýtóna, dóttir Seifs ægisskjalda! 157 Mikil firn eru slíkt! Skulu þá Argverjar flýja við svo búið heim í sitt kæra föðurland yfir sjávarins breiðu hryggi? Skulu þeir eftir skilja Príami og Trójumönnum óskina sína, hina argversku Helenu, er fyrir hennar skuld margir Akkear hafa látizt í Trójulandi fjærri föðurjörðu sinni? Nei, far þú til herliðs hinna eirbrynjuðu Akkea, aftra hverjum manni með blíðum orðum, og banna þeim að draga hin borðrónu skip til sjávar“. 166 Þannig mælti hún, en hin glóeyga gyðja Aþena gerði, sem hún bauð; hún fór brunandi ofan af Ólymps tindum, og kom skjótt til hinna fljótu skipa Akkea, síðan fann hún Odysseif; hann var jafnráðsnjall Seifi; hann stóð, og snart ekki hendi hið þóftusterka, svarta skip, því harmur var kominn í hjarta hans og huga. Hin glóeyga Aþena gekk til hans og mælti: 173 „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! ætlið þér við svo búið að stökkva á hin margþóftuðu skip og flýja til yðar kæra föðurlands? ætlið þér þá að eftir skilja Príami og Trójumönnum óskina sína, hina argversku Helenu, er fyrir hennar sakir margir Akkear hafa látizt í Trójulandi, fjærri föðurjörðu sinni? Nei, far til herliðs Akkea, og dvel ekki lengur; aftra hverjum manni með blíðum orðum, og banna þeim að draga hin borðrónu skip til sjávar“. 182 Þannig mælti hún, en hann kannaðist við gyðjuna, þegar hún lét heyra rödd sína. Hann kastaði yfirhöfninni og hljóp af stað, en kallarinn Evrýbates hinn íþakski, sem fylgdi honum, tók upp skikkjuna og bar hana. Odysseifur gekk til fundar við Agamemnon Atreifsson, og fékk hjá honum veldissprota þann, er langfeðgar Agamemnons höfðu átt og aldrei fyrntist. Við þann sprota gekk Odysseifur til skipa hinna eirbrynjuðu Akkea. 188 Þegar hann hitti einhvern af höfðingjunum og yfirmönnunum, þá gekk hann til hans og aftraði honum með blíðum orðum: 190 „Ekki sæmir þér, vinur (kvað hann), að æðrast, svo sem værir þú huglaus; sezt heldur niður, og bið aðra að setjast líka; því þú veizt enn ekki með vissu, hver að sé ætlan Atreifssonar; hann gerir þetta til raunar, en bráðum mun hann láta sonu Akkea kenna á hörðu. Vér heyrðum ekki allir, hvað hann sagði á ráðstefnunni. Hræddur er eg um, að hann reiðist sonum Akkea og misbjóði þeim eitthvað; því í konunginum, fóstursyni Seifs, er mikið skap, og tign sína hefir hann af Seifi, og hinn ráðvísi Seifur hefir hann í miklum kærleikum“. 198 En sæi Odysseifur einhvern alþýðumann, og kæmi að honum, þar sem hann var að kalla, þá barði hann með sprotanum og ávítaði hann harðlega: 200 „Sittu grafkyrr, heillakarl (mælti hann), og hlýð orðum annarra, sem þér eru meiri menn; því þú ert ragmenni og þreklaus, og að engu nýtur, hvorki til orustu, né til ráðagerðar. Vér Akkear eigum ekki allir að vera hér konungar: ekki er gott að margir ráði; einn á að ráða; sá einn á að vera konungur, sem sonur hins bragðvísa Kronusar vill svo vera láta“. 207 Þannig kom hann góðri skipun á herinn með hervaldi sínu. Menn þustu nú aftur á þingið frá skipunum og búðunum með miklum gný, sem þá alda hins brimótta hafs gnýr við bratta sjávarströnd, svo að undir drynur í hafinu. 211 Nú settust allir, og sátu kyrrir, hver í sínu sæti, nema Þersítes; hann einn gerði enn mikinn hávaða og kunni ekki hóf orðum sínum. Mörg ósæmileg orð átti hann í vitum sínum innan brjósts; hann jafnkítti höfðingjunum, talaði heimskulega og án allrar siðsemi, og helzt það, sem hann hélt að Akkeum mundi þykja hlægilegt. Hann kom maður ljótastur til Ilíonsborgar: hann var kiðfættur og haltur á öðrum fæti; herðarnar hoknar, og beygðust saman á bringunni; höfuðið uppmjótt, og gisið strý á. Akkilles og Odysseifur höfðu á honum hið mesta hatur, því það var vandi hans að munnhöggvast við þá. Hann valdi nú enum ágæta Agamemnon smánaryrði, og æpti upp ámátlega; voru Akkear honum ákaflega reiðir, og þókti stórlega fyrir; en hann kallaði hástöfum, og smánaði Agamemnon í orðum: 225 „Hvað þykir þér nú að, Atreifsson, eða hvers er þér enn vant? Þú átt fullar búðir af eiri, og í búðum þínum eru margar konur, er vér Akkear gefum þér fyrstum að afnámi, þegar vér náum einhverri borginni. Eða langar þig til, að einhverr enna reiðkænu Trójumanna komi frá Ilíonsborg, og færi þér gull til útlausnar syni sínum, þann er annaðhvort eg, eða einhverr annar af Akkeum, kann að hafa flutt hingað fjötraðan? Eða leikur þér hugur á einhverri ungri konu, til að hafa eftirlæti af henni og halda henni handa þér einum? Nei, að steypa Akkeum í ógæfu, það sæmir þeim illa, sem er yfirmaður þeirra. Miklar bleyður eruð þér, Akkear, minnkun er að dáðleysi yðar, konur eruð þér, en karlmenn ekki framar! Hana þá, förum nú heim aftur á skipum vorum, en látum hann liggja á meltunni yfir heiðursgjöfum sínum hér í Trójulandi, svo hann sjái, hvort það er nokkuð lið, eða ekki neitt, sem vér veitum honum hér. Hann hefir nú og svívirt Akkilles, sem þó er miklu meiri maður en hann, er hann hefir af sjálfræði sínu tekið frá honum heiðursgjöf hans, heldur henni hjá sér, og vill ei aftur skila. En það er bótin, að lítið kveður að reiði Akkils, og að hann lætur ekki til sín taka, því ella mundi þetta verða í síðasta sinni, að þú, Atreifsson, gerðir mönnum svívirðingar“. 243 Slíkum smánarorðum talaði Þersítes til þjóðhöfðingjans Agamemnons. Hinn ágæti Odysseifur snaraðist þá að honum, leit til hans með reiðisvip, og átaldi hann harðlega: 246 „Óorðvandur maður ertu, Þersítes, þó þú sért nógu snjallmæltur. Stilltu þig, vertu ekki einn að deila á konungmenn; því ekki ætla eg nokkurn verri mann til vera, en þig, af öllum þeim, er farið hafa með Atreifssonum til Ilíonsborgar. Það er því ekki vert fyrir þig, að hafa konunga á gómi í ræðum þínum, hreyta smánaryrðum að þeim, og hafa ávallt augun á heimförinni. Vér vitum alls ekki með vissu, hversu því muni af reiða, ef vér, synir Akkea, höldum heim aftur, hvort það verður oss til gæfu eða ógæfu. En það skal eg segja þér fyrir víst, og það skal framgengt verða, að ef eg hitti þig aftur fara með slíka vitleysu og þú fer með nú, þá skal ekki framar höfuð sitja á herðum Odysseifs, og eg skal ekki framar heita faðir hans Telemakkuss, ef eg skal ekki taka þig og færa þig af klæðum þínum, yfirhöfninni, kyrtlinum og nærbeltinu, berja þig óþyrmilega, og reka þig svo skælandi af þinginu til skipanna“. 265 Að því mæltu lamdi hann sprotanum um bak og herðar á Þersítes, en hann engdi sig saman, og tárin flóðu af augum hans; en blóðug kúla hljóp upp á hryggnum undan hinum gullna sprota; settist Þersítes þá niður og var felmstfullur; hann kenndi til og þurrkaði af sér tárin; var þá á honum ógerðarsvipur. Hinir, þó þeim þækti súrt í brotið, hlógu dátt að honum, og þá tók einhverr þeirra til orða, og leit til þess, er næstur honum var: 272 „Mikil undur! Sannlega hefir Odysseifur unnið ótalmörg ágætisverk, komið fyrstur upp með góð ráð og eggjað fram liðið til orustu; en þó er það miklu ágætast, er hann nú gerði með Argverjum, er hann vandi þenna lastsama orðhák af málsemdinni; mun hann víst ekki hér eftir láta ofdirfskuna eggja sig aftur til að smána konunga með lastmælum“. 278 Þannig mælti lýðurinn, en Odysseifur borgabrjótur stóð upp, og hélt á sprota. Hin glóeyga Aþena stóð hjá honum, hún var í kallaralíki, og þaggaði lýðinn, svo bæði hinir fremstu og öftustu af sonum Akkea gætu heyrt, hvað talað væri, og skilið það, sem til ráðs væri tekið. Hann var þeim vel viljaður, talaði á þinginu og mælti: 284 „Atreifsson! víst ætla Akkear sér nú að fá þér, konungur, hinnar mestu smánar meðal allra mæltra manna, er þeir efna eigi við þig það loforð, er þeir gerðu, þá er þeir voru á leið hingað frá enu hestauðga Argverjalandi, að þú skyldir ekki fyrr frá hverfa, en þú hefðir í eyði lagt hina veggsterku Ilíonsborg; því nú óska þeir sér hverr með öðrum grátandi, að komast heim, svo sem ungbörn, eða konur, sem misst hafa menn sína. Að vísu er það þungt, að fara með sárt ennið heim aftur. Því óþolinmóður verður hverr sá maður, sem hrekst á margþóftuðu skipi í stormum og æstum sjó á vetrardegi, þó hann hafi ekki verið lengur en einn mánuð í burtu frá konu sinni. En nú er þegar liðið hið níunda ár, og vér dveljumst hér enn. Lái eg því ekki Akkeum, þó þeir eiri ekki hjá hinum stafnbognu skipum; og er þó hvortveggja óvirðing fyrir þig, bæði að dveljast hér lengi og fara tómhendur heim. Verið þolinmóðir, vinir, og bíðið enn nokkura stund, svo vér vitum, hvort Kalkas spáir rétt, eða ekki. Vér vitum allir, hvað það var. Allir þér, sem valkyrjur dauðans ekki hafa á burt hrifið, eruð vottar þess, að forðum, þegar skip Akkea söfnuðust saman í Álishöfn, Príami og Trójumönnum til tjóns, þá stofnuðum vér hinum ódauðlegu guðum gallalaus hundraðsblót undir fögrum hlyn við lind nokkura, hvaðan tært vatn rann. Hér birtist mikil jarteikn: ógurlegur dreki, blóðrauður á baki, er sjálfur Ólympsguð hafði látið í ljós koma, skauzt undan blótstallanum og stökk upp í hlyninn. Þar, á efsta kvistinum, voru tittlingsungar, nýkomnir úr eggi, og grúfðu sig af hræðslu niður undir laufblöðin; þeir voru átta, en móðirin, sem ungana átti, var hin níunda. Drekinn át nú ungana, og tístu þeir aumkvunarlega á meðan. Móðirin flaug kveinandi kring um börn sín, en meðan hún var að söngla í kring um ungana, hleypti drekinn sér í bugður, tók í væng hennar og greip hana. En er hann hafði etið tittlingsungana og móðurina með, þá lét guð, sem hafði leitt hann í ljós, hann verða auðkennilegan; því sonur hins brögðótta Kronusar gerði hann að steini, en vér stóðum fullir undrunar yfir þessum atburði. Þegar nú þessa óttalegu undursjón bar fyrir mitt í blóti goðanna, þá kvað Kalkas þegar upp svo fellda goðaspá: „ „Þér hárprúðu Akkear, hví eruð þér svo hljóðir? Hinn ráðvísi Seifur hefir birt oss þetta hið mikla teikn, sem á sér langan aldur og síðar mun rætast, þó seint verði, og minning þess aldrei undir lok líða. Eins og dreki þessi át tittlingsungana og móður þeirra (þeir voru átta, en móðirin, sem ungana átti, hin níunda): svo munum vér eiga þar eins mörg ár í ófriði, og taka hina strætabreiðu borg á tíunda árinu““. Svo mælti Kalkas, og mun nú allt þetta að vísu fram koma. Heyrið nú, þér fagurbrynhosuðu Akkear, verið hér allir kyrrir, unz vér fáum tekið hina miklu Príamsborg“. 333 Þannig mælti hann, en Akkear æptu hástöfum, og rómuðu vel mál hins ágæta Odysseifs, en ógurlega tók undir í skipunum, er Akkear æptu. Þá talaði hinn gerenski riddari Nestor til þeirra: 337 „Mikið er til þess að vita, að þér skuluð tala sem ungbörn, er ekki kunna til hernaðar! Hvað verður þá úr samtökum vorum og eiðum? Allar ráðagerðir og fyrirætlanir manna, hinar óblönduðu dreypifórnir, og handsöl þau, er vér treystum, eiga þá að verða sem á bál borin! Því vér þráttum með orðum til einskis og getum engan útveg fundið, svo langan tíma sem vér höfum verið hér. Atreifsson, vertú fyrirliði Argverja í hinum hörðu orustum, og halt enn stöðugu því ráðlagi, sem þú hefir fyrr haft. Tröll hafi þá einn eða tvo, er ekki vilja verða öðrum Akkeum samráða, en hafa það ráð með höndum, að fara heim til Argverjalands, áður en þeir hafa komizt að raun um, hvort loforð Seifs ægisskjalda verður að hégómamáli, eða það rætist; munu þeir engu fá til leiðar komið. Því það hygg eg, að hinn afarvoldugi Kronusson hafi staðfest heit sitt, þann dag er Argverjar stigu á hin örskreiðu skip, til að færa Trójumönnum dauða og feigð, með því hann lét þá leiftur koma hægra megin, og birti þar með fyrirboðandi jarteiknir. Flýti sér því engi heim, fyrr en hann hefir gengið í rekkju hjá einhverri af konum Trójumanna, og hefnt harma og andvarpana Helenu. En vilji nokkurr ákaft fara heim, þá taki hann sitt þóftusterka, svarta skip, svo hann bíði bana og hitti skapadægur sitt, fyrr en aðrir menn. En þú, konungur, vert nú bæði sjálfur ráðagóður, og ráðþæginn við aðra. Ekki mun það með öllu ónýtt, er eg mun til leggja. Skipt liðinu, Agamemnon, í ættkvíslir og frændbálka, svo hverr frændbálkur hjálpi öðrum, og hver ættkvísl annarri. Ef þú gerir svo, og ef Akkear hlýða þér, þá muntu komast að raun um, hverr fyrirliðanna, og svo hverr liðsmanna, sé huglaus, og hverr hugdjarfur, því þá berjast hvorir sér; þá muntu og fá séð, hvort það er að guðlegri ráðstöfun, að þú fær ei unnið borgina, eða það er að kenna ódugnaði manna og óherkænsku“. 369 Agamemnon konungur svaraði honum og sagði: „Enn sér það á, sem fyrr, gamli maður, að þú ert allra Akkea ráðsnjallastur. Faðir Seifur, Aþena og Appollon, eg vildi óska, að eg hefði tíu slíka ráðsnillinga meðal Akkea! þá mundi borg Príamuss konungs skjótt hníga, tekin og lögð í eyði af oss. En Seifur ægisskjaldi Kronusson hefir skapað mér miklar raunir, þar sem hann kastar mér inn í ónýtar þrætur og deilur; því við Akkilles áttum orðadeilu hvorr við annan út af meynni, og hafði eg þó upptökin til þeirrar rimmu. En ef við einhvern tíma leggjumst á eitt báðir, frá mun Trójumönnum ekki frestur á illu verða. Gangið nú til dagverðar, áður en vér hefjum orustuna: hvetji hverr vel spjót sitt og hafi til taks skjöld sinn, gefi og hinum fótfráu hestum vel að eta, gái vel að kerru sinni hvervetna og leggi allan hug á bardagann, svo vér getum þreytt hina óttalegu styrjöld allan daginn; því ekki mun hin minnsta hvíld á verða, fyrr en nótt kemur og slítur áhlaup manna. Hlífskjaldarfetillinn mun löðra í svita á bringu hvers manns, höndin lýjast á spjótinu, og hesturinn svitna af því að draga hina velsköfnu kerru. En verði eg þess var, að nokkurr vilji dveljast eftir niðri við hin stafnbjúgu skip og ekki vera í orustu, þá skal honum ekki verða það til lífs, að hann kemst undan hundum og hræfuglum“. [mynd: Fórnfæring.] 394 Þannig mælti hann, en Argverjar æptu hástöfum, svo sem alda æpir við klettsnös á brattri sjávarströnd, þegar sunnanvindur kemur og rekur hana af stað; ganga aldrei af klettinum öldur ýmissra vinda, er koma héðan og hvaðan. Þeir stóðu upp og hlupu af stað, hverr til síns skips, kveiktu upp eld í búðum sínum og tóku dagverð. Þeir færðu fórnir hinum ódauðlegu guðum, sínum guði hverr, og báðu, að þeir mættu lífs af komast úr orustunni. 402 Herkonungurinn Agamemnon slátraði feitum uxa fimm vetra gömlum til fórnar hinum alvolduga Kronussyni. Hann bauð til hinum ágætustu höfðingjum af alþjóð Akkea, fyrst Nestori og Idomeneifi konungi, því næst hvorum tveggja Ajanti og Týdeifssyni; Odysseifur var hinn sjötti; hann var jafnráðsnjallur Seifi. Hinn rómsterki Menelás kom óboðinn, því hann vissi, hve bróðir sinn átti annt. Þeir stóðu í hring um uxann og tóku upp blótbyggið. Þá tók Agamemnon konungur til orða: 412 „Seifur, þú hinn vegsamlegasti og mesti, þú svartskýjaguð, sem býr í uppheimsloftinu! Lát ekki sólu fyrr í ægi renna og rökkur ekki fyrr á koma, en eg hefi hrundið ofan hinu sótuga þaki Príamuss og brennt dyr hans í loganda eldi, en rist í sundur brynstakkinn á brjósti Hektors, og margir félagar hans liggja á grúfu í kring um hann í moldinni og þrífa í jörðina með tönnunum“. 419 Svo mælti hann, en Kronusson veitti honum ekki bæn sína; hann þág að sönnu blótið, en jók honum stórmikla þraut. En er þeir höfðu beðizt fyrir og dreift blótbygginu, þá kerrtu þeir fyrst uxann á bak aftur, skáru hann svo á háls og flógu, þá skáru þeir blótbitana úr lærunum, huldu þá í mör og létu tvö vera mörlögin, lögðu svo hráa bita þar ofan á. Þetta brenndu þeir við þurr skíði, en iðrunum stungu þeir á teina og héldu uppi yfir eldinum. En er lærbitarnir voru brunnir, og þeir höfðu etið iðrarnar, þá brytjuðu þeir hitt kjötið og stungu því á teina, steiktu það gætilega, og tóku svo öll stykkin fram af teinunum. En er þeir höfðu lokið því starfi, matreiddu þeir og settust svo að veizlu, og skorti ekkert, það er ákjósa mátti í skammtveizlu. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, tók hinn gerenski riddari Nestor fyrstur til máls: 434 „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herkonungur! vér skulum nú ekki hafa hér mikla málalenging úr þessu, og ekki fresta lengi þeim starfa, sem guð felur oss nú á hendur. Heyr nú, kallarar hinna eirbrynjuðu Akkea skulu stefna saman lýðnum við skipin, en vér skulum ganga allir saman svo búnir til enna víðu herbúða Akkea, að vér getum sem fyrst vakið snarpa orustu“. 441 Þannig mælti hann, en herkonungurinn Agamemnon hlýddi honum. Hann bauð þegar hinum snjallrómuðu köllurum að kalla hina hárprúðu Akkea til orustu. Þeir kölluðu en Akkear söfnuðust að bragði. Atreifssonur og aðrir höfðingjar, fóstursynir Seifs, óðu um herinn og fylktu liðinu. Þar var með þeim hin glóeyga Aþena, hún hafði ægisskjöldinn þann hinn dýra, hinn eilífa og ódauðlega; þar héngu á hundrað skúfar úr algulli, allir vel fléttaðir, og var hverr skúfurinn 100 uxalög. Með voðalegu augnaráði rann hún um her Akkea með þenna skjöld, og eggjaði liðið af stað, hún vakti styrk í brjósti hvers manns til að stríða og berjast án afláts; gerðist þeim nú skjótt kærari styrjöldin, en að hverfa aftur til ættjarða sinna á enum holu skipum. 455 Svo sem bjarminn sést langar leiðir af voveiflegum eldi, er brennir upp ógnastóran skóg uppi á fjallstindi: svo lagði skínandi ljóma af enum dýrlegu eirvopnum, gegnum uppheimsloftið til himins, þar er þeir gengu. 459 En svo sem stórflokkar af fljúgandi fuglum, gæsum eða krákum eða hálslöngum svönum, fljúga hér og hvar á hinni asnesku veitu við Kaýstersstrauma, baða vængjunum hróðugir, og setjast hvorr fram fyrir annan glammandi, svo undir tekur í veitunni: svo streymdu stórflokkar Akkea frá skipunum og búðunum fram á Skamandersvöll, en jörðin dunaði ógurlega undir af fótatökum mannanna og hestanna. Þeir numu staðar á enu blómlega engi Skamanders, ótölulegir, sem laufblöðin og blómin, er þjóta upp á vorin. 469 Svo sem stórflokkar áfjáðra mýflugna sveima í kring á kvíabóli um vortíma, þegar mjólkin fyllir skjólurnar: svo stóðu margir hárprúðir Akkear á vellinum til móts við Trójumenn, og langaði ákaft til að eyða þeim gjörsamlega. 474 Svo sem geitahirðum verður lítið fyrir að skilja sundur stórar geithjarðir, þegar svo ber við, að þeim lendir saman í haganum: svo skipuðu fyrirliðar hernum til bardaga, hverr á sínum stað. Meðal þeirra var hinn voldugi Agamemnon, hann var líkur hinum þrumuglaða Seifi til höfuðsins og augnanna, Aresi um mjaðmirnar, en Posídoni um bringuna. 480 Svo sem griðungur í nautahjörð er langtígulegastur allra nautanna, og ber af þeim, þegar þau koma saman: svo gerði Seifur Atreifsson á þeim degi frábæran og framúrskarandi meðal margra kappa. 484 Segið mér nú, þér sönggyðjur, er búið í Ólymps höllum, því þér eruð gyðjur, eruð hvervetna viðstaddar og vitið allt, en vér höfum sögusögn eina til og vitum ekkert: hverjir voru fyrirliðar og yfirmenn Danáa. Eg mundi ekki geta sagt eða tilgreint allan þann fjölda, og það jafnvel ekki þó ég hefði tíu tungur og tíu munna, óslítandi rödd og eirhjarta innan brjósts, nema þér, ólympsku sönggyðjur, dætur Seifs ægisskjalda, minntuð mig á, hversu margir þeir voru, sem komu til Ilíonsborgar. Nú mun eg telja upp formenn skipanna og öll skipin. 494 Þeir Penelás, Leitus, Arkesílás, Proþonór og Kloníus voru fyrir Böyótum, bæði þeim er bjuggu í Hyrju, hinni klettóttu Álisborg, í Skön, Skóla og hinni skógóttu Eteonsborg, Þespíu, Graju, og hinni rúmlendu Mýkalessu, og fyrir þeim, er bjuggu í Harmi, Eilesíu og Erýþru, og þeim sem byggðu Eleonshorg, Hýlu og Peteonsborg, Ókalíu og hina velsettu Medeonsborg, í Kópu, Evtresis og hinni dúfauðgu Þispu; fyrir þeim er byggðu Koróneu, hina grösugu Halíartusborg og Plateu og Glísantsborg, og þeim er bjuggu í hinni velsettu borg Undirþebu, í hinni helgu Onkestusborg, enum fagra Posídonslundi, og þeim er byggðu hina vínberjóttu Örnu, Mídeu, hina sannhelgu Nísu og Anþedonsborg, er lá á landamæri. Frá þeim borgum komu 50 skip, og voru 120 sveinar Böyóta á hverju. 511 Þeir sem bjuggu í Aspledon og Oxkomenus Minýaborg, fyrir þeim réðu þeir Askaláfur og Jalmenus, synir Aresar. Hin heiðvirða mær Astýoka hafði gengið upp í loftsal sinn í höll Aktors Azeifssonar; þar hvíldi hinn sterki Ares hjá henni á laun, og átti hún þá bræður við honum. Með þeim komu 30 skip. 517 Þeir Skedíus og Epístrofus, synir hins hugstóra Ifítuss Nábolssonar, réðu fyrir Fókverjum, er áttu heima í Kýparissu, í hinni klettóttu Pýþó, í hinni sannhelgu Krísu, Dális og Panopsborg, og fyrir þeim, er bjuggu í kring um Anemóríu og Hýampólis, og þeim, sem bjuggu við hið helga Kefísusfljót, og þeim er áttu heima í Líleu, við uppsprettur Kefísuss. Þeim fylgdu 40 dökk skip. Þeir bræður voru í óðaönn að skipa niður fylkingum Fókverja, og stóðu herbúnir næst Böyótum til vinstri handar. 527 Hinn skjóti Ajant Öyleifsson réð fyrir Lokrum; hann var hvergi nærri eins stór og Ajant Telamonsson, heldur miklu minni; hann var lítill maður vexti og hafði línbrynju, en hann bar af alþjóð Hellena og öllum Akkeum að spjótfimi. Lokrar bjuggu í Kýnus, Ópunti og Kallíarus, í Besu, Skarfsborg og hinni fögru Ágíu, í Torfu og Þrónsborg hjá Boagríusstraumum. Honum fylgdu 40 svört skip, er Lokrar áttu, þeir er búa gagnvart Evböyu. 536 Hinir móðrökku Abantar, þeir er bjuggu á Evböyu, í Kalkis, Eretríu og hinni vínberjóttu Histíeu, í sæborginni Kerintuborg og hinni hálendu Díusborg, og þeir er heima áttu í Karystus og bjuggu í Styrsborg: fyrir þeim réð Elefenor Kalkódontsson, afspringur Aresar, fyrirliði hinna hugstóru Abanta; honum fylgdu hinir vösku Abantar; þeir létu vaxa hár í hnakka sér, voru bardagamenn miklir og hlupu með framréttum spjótum til að rjúfa brynjur af brjóstum óvina sinna. Honum fylgdu 40 svört skip. 546 Þeir sem áttu heima í hinni velbyggðu Aþenuborg, og bjuggu í landi hins hugstóra Erekteifs; móðir hans var hin kornfrjóva Sáðjörð, en Aþena, dóttir Seifs, hafði forðum fóstrað hann, og sett hann í sitt auðuga hof í Aþenuborg; þar hylla sveinar Aþenumanna hann að sér á ári hverju með griðungablótum og sauðablótum: fyrir þeim réð Menesteifur Peteósson; hefir enn engi jarðneskur maður orðið hans jafningi í því að fylkja kerruliði og skjaldmannaliði; Nestor einn jafnaðist við hann í því, því hann var eldri. Honum fylgdu 50 svört skip. 557 Ajant hafði 12 skip frá Salamsey, [og þegar hann kom með þau, skipaði hann þeim, þar er flokkar Aþenumanna stóðu]. [Mynd: Salamsey] [Mynd: Landslag við Argosflóa.] 559 Þeir sem bjuggu í Argverjaborg, og í hinni vegggirtu Tíryntsborg, Hermíónu og Asínu, er liggja við hinn djúpa fjörð, í Tröyzenuborg, Eionsborg og hinni vínviðóttu Epídársborg, og þeir sveinar Akkea, er bjuggu í Egínu og Masetsborg: fyrir þeim réð hinn rómsterki Díómedes, og Stenelus, sonur hins fræga Kapaneifs; með þeim fór hinn þriðji maður, Evrýalus, ágætur maður; hann var sonur Mekisteifs konungs Talajonssonar; en hinn rómsterki Díómedes var fyrir þeim öllum saman. Þeim fylgdu 80 dökk skip. 569 Þeir sem bjuggu í hinni velbyggðu borg Mýkenu, hinni auðugu Korintuborg og hinni fjölbyggðu Kleónsborg, þeir sem bjuggu í Orneu, hinni fögru Areþýreu, og í Sikýon, þar er Adrestus var fyrst konungur, þeir sem bjuggu í Hýperesíu, hinni hálendu Gonóessu, í Pellenu, og í kring um Egíonsborg, og með allri Strönd, og umhverfis ena víðlendu Helíku: þeir höfðu 100 skip, og var fyrir þeim hinn voldugi Agamemnon Atreifsson; honum fylgdu langflestir menn og hraustastir; sjálfur var hann búinn skínanda eirbúnaði og var hinn tígulegasti; hann bar af öllum köppunum, því hann var hinn ágætasti maður, og hafði með sér langflesta menn. 581 Þeir sem bjuggu í hinu hola og gjáótta Lakverjalandi, í Faris og Spörtu, og hinni dúfauðgu Messu, í Brýseu og hinni fögru Ágeu, í Amyklu og sjávarborginni Helos, í Las og Öytýlus: þeir höfðu 60 skip; fyrir þeim réð bróðir Agamemnons, hinn rómsterki Menelás. Þeir bjuggust til orustu fjarri öðrum mönnum; en Menelás var í liðinu, treysti áhuga sínum, og eggjaði liðið til bardaga; var honum helzt í mun að hefna harma og andvarpana Helenu. 591 Þeir sem bjuggu í Pýlusborg og hinni fögru Arenu, og í Þrýonsborg, þar sem vaðið er á Alfeus, í hinni velbyggðu Epý, í Kyparisses (Sýpresb.) og Amfigeníu og Pteleu og Helos og Dóríonsborg; þar hittu sönggyðjurnar Þamýris hinn þrakneska, er hann kom frá Öykaliu, frá Evrýtus hinum öykalska, og tóku þar frá honum sönglistargáfuna; því hann hafði hrósað því, að hann skyldi hafa betur í söng, enn þótt sjálfar sönggyðjurnar syngi, dætur Seifs ægisskjalda; en þær reiddust og; gerðu hann sjónlausan, tóku frá honum hina frábæru sönglistargáfu, og létu hann gleyma hörpuslættinum: hinn gerenski riddari Nestor var fyrir þeim; honum fylgdu 90 skip. 603 Þeir sem bjuggu í Arkadalandi undir enu háva Kyllenufjalli hjá Epýtshaugi, þar voru miklir höggorustumenn; þeir er bjuggu í Feneonsborg og í hinni eplauðgu Orkomenusborg, og í Rípu, og Stragu og enni Veðurnæmu Enispu, og í Tegeu og hinni fögru Mantíneu, og í Stymfalus og í Parrasíu: þeir höfðu 60 skip, og réð fyrir þeim hinn voldugi Agapenor Ankeusson; voru margir herkænir Arkadar á hverju skipi, en herkonungurinn Agamemnon Atreifsson hafði léð þeim hin þóftusterku skip til að sigla á yfir hið dimmbláa haf, því þeir lögðu eigi hug á sjóferðir. 615 Þeir sem bjuggu í Búprasíu og hinu ágæta Elealandi, svo vítt sem Hyrmína ræður og Myrsínus, sem liggur á landamæri, og Ólenshamar og Aleisíon: fyrirliðar þeirra voru fjórir, og fylgdu hverjum þeirra tíu fljót skip; voru þar á margir Epear. Fyrir þeim voru þeir Arnfímakkus og Þalpíus; var hinn sonur Kteatuss, en þessi son Evrytuss, Aktorssona; fyrir þriðju sveit réð hinn sterki Díóres Amarynkesson, en fyrir hinni fjórðu hinn goðumlíki Polyxenus, sonur Agasteness konungs Ágeassonar. 625 Þeir sem voru frá Dúliksey og enum helgu Ekinaeyjum, er liggja fyrir handan haf, gagnvart Elealandi: fyrir þeim réð Meges Fýleifsson, jafnmaki Aresar. Faðir hans var riddarinn Fýleifur, ástvinur Seifs: hann flutti sig forðum til Dúlikseyjar, þegar hann varð ósáttur við föður sinn. Honum fylgdu 40 svört skip. 631 Odysseifur réð fyrir enum hugstóru Kefallenum: þeir bjuggu á Íþöku og hinu laufkvika Nerítonsfjalli, í Krókylju og hinni ósléttu Egilípu, og þeir er bjuggu í Sakyntsey og á Sámsey, svo og þeir er bjuggu á meginlandinu og á handari ströndinni: fyrir þeim réð Odysseifur; hann var jafnmaki Seifs að ráðsnilld. Honum fylgdu 12 hlýrroðin skip. 638 Þóant Andremonsson var fyrir Etólum, er bjuggu í Plevron, Ólenus og Pýlenu, á Kalkisströnd og í hinni klettóttu Kalýdonsborg; því þá voru þeir ekki lengur á lífi synir hins hugstóra Öynefs, og ekki heldur sjálfur hann; þá var og dáinn hinn bleikhári Meleager. Voru Þóanti falin á hendur öll yfirráð yfir Etólum. Honum fylgdu 40 svört skip. 645 Hinn spjótfimi Idomeneifur réð fyrir Kríteyingum; þeir er bjuggu í Knósus, í hinni vegggirtu Gortúnsborg, í Lyktus, Míletus og hinni hvítu Lýkastus, í Festus og Rytion, sem voru fjölbyggðar borgir, og aðrir, er bjuggu á Krítarey, þar sem eru 100 borgir: fyrir þeim réð hinn spjótfimi Idomeneifur og Meríónes, sem var jafnmaki (Enýaliuss) hins mannskæða vígaguðs. Þeim fylgdu 80 svört skip. 653 Hinn hrausti og miklli Tlepólemus Heraklesson kom frá Roðey með 9 skip, er áttu hinir framgjörnu Roðeyingar; þeir áttu byggð á Roðey, og var þeim þar skipt í þrjár borgir, í Lindus, Jalýsus og hina hvítu Kamíru. Fyrir þeim réð hinn spjótfimi Tlepólemus, er Astýokea hafði getið við enum sterka Heraklesi. Hana hafði Herakles numið frá Effýru, við fljótið Selleis, eftir það hann hafði lagt í eyði margar herkonunga borgir, fóstursona Seifs. En er Tlepólemus vóx upp í hinni traustsmíðuðu höll, drap hann skyndilega Likymníus, móðurbróður föður síns, afspring Aresar, er þá var farinn að eldast. Hann smíðaði þegar skip og réð til marga menn, og flýði á haf út, því hinir aðrir synir og sonasynir hins sterka Herakless ógnuðu honum. Hann hraktist til Roðeyjar og varð miklar raunir að þola. Þeir bjuggu þar í þrennu lagi eftir ættkvíslum, og urðu kærir Seifi, er ræður yfir guðum og mönnum, og lét Kronusson afar mikinn auð renna til þeirra. 671 Níreifur hafði þrjú jafnbyrð skip frá Sýmey. Níreifur var sonur Aglaju og Karóps konungs. Níreifur var fríðastur af öllum Danáum, þeim er til Ilíonsborgar komu, næst hinum ágæta Peleifssyni; engi var hann hermaður, og fylgdu honum fáir menn. 676 Þeir sem bjuggu í Nisýru, Karpatus og Kasus, í Kóey, ríki Evrýpýluss, og í Kalydnaseyjum: fyrir þeim réðu þeir Fidippus og Antífus; þeir voru báðir synir Þessaluss Heraklessonar. Með þeim komu 30 skip. 681 Nú mun eg telja þá, er bjuggu í Argverjalandi Pelasga; þeir bjuggu í Alos og Alópu og í Trakis, í Fiðju, og í hinni kvenfögru Helluborg; þeir kölluðust Myrrmídónar, Hellumenn og Akkear: þeir höfðu 50 skip; fyrir þeim réð Akkilles. Þeir áttu nú engan hlut að hinni róstusömu styrjöld, því engi var til að gangast fyrir að skipa þeim í fylkingar; því hinn fóthvati, ágæti Akkilles lá niðri við skip sín; var hann reiður sökum hinnar hárfögru meyjar, Brísesdóttur, er hann hafði tekið að herfangi í Lýrnesborg, og miklar þrautir fyrir haft, lagt í eyði Lýrnesborg og brotið veggi Þebuborgar, og að velli lagt Mýnes og Epistrofus, sonu Evenus konungs Selepíassonar. Sorgbitinn hennar vegna lá hann þar, en bráðum átti hann að rísa á fætur aftur. 695 Þeir sem bjuggu í Fýlaksborg og hinni blómlegu Pýrasborg, hofteigi Demetru, og í Ítonsborg, móður sauðanna, í strandborginni Antron og enni grasgefnu Pteleosborg: fyrir þeim réð hinn herskái Prótesílás, meðan hann var lífs, en þá huldi hann jörðin rauð; kona hans hafði eftir orðið í Fýlaksborg með sárar kinnar, og hús hans var hálfgert; en einhverr dardanskur maður drap hann, í því hann hljóp fyrstur allra Akkea á land af skipi sínu. Ekki urðu þeir samt forustulausir fyrir það, þó þeir söknuðu foringja síns, því Podarkes skipaði þeim í fylkingar, afspringur Aresar, sonur hins sauðauðuga Ifíkluss Fýlakssonar, albróðir ens hugstóra Prótesíláss; var hann yngri að aldri, en hinn hergjarni öðlingur, Prótesílás, eldri og hraustari; vantaði liðsmenn ekki fyrirliðann, en söknuðu þó hins, því hann hafði verið hraustur maður. Honum fylgdu 40 svört skip. 711 Þeir sem bjuggu í Feruborg við Böybuvatn, í Böybu og Glafýru og hinni fjölbyggðu Jólkusborg: þeir höfðu 11 skip; fyrir þeim réð Evmelus Aðmetusson; hafði hin ágæta kona Alkestis, hin fríðasta af dætrum Pelíasar, átt hann við Aðmetusi. 716 Þeir sem bjuggu í Meþónu og Þámakíu, í Melíböyu og hinni ósléttu Olizonsborg: fyrir þeim réð Fíloktetes; hann kunni vel við boga; þeir höfðu sjö skip, voru 50 ræðarar á hverju, og kunnu þeir vel með boga að fara og börðust snarplega. En hann lá þá á einni ey, og þoldi harðar raunir, hann lá í hinni sannhelgu Lemney; höfðu synir Akkea skilið hann þar eftir sóttveikan af illu sári eftir banvænan eiturorm; lá hann þar þungt haldinn, en Argverjar, þeir er við skipin voru, áttu bráðum að muna til Fíloktetes konungs. Ekki voru þeir forustulausir, þó þeir söknuðu foringja síns, því Medon skipaði þeim í fylkingar, launsonur Öyleifs, er Rena átti við Öyleifi borgabrjót. 729 Þeir sem bjuggu í Trikku og hinni grýttu Íþómu, og í Öykalíu, borg Evrýtusar hins öykalska: fyrir þeim réðu tveir synir Asklepíusar, báðir góðir læknar, Podaliríus og Makáon; þeim fylgdu 30 skip. 734 Þeir sem bjuggu í Ormeníu og við Hýperíulind, og í Asteríu og á hinum hvítu Títanustindum: fyrir þeim réð Evrýpýlus, Evemons frægi son; honum fylgdu 40 skip. 738 Þeir sem bjuggu í Argissu og Gyrtónu, Orþu, Elónu og hinni hvítu Olossonsborg: fyrir þeim réð hinn hergjarni Polýpöytes, sonur Píríþóuss, er hinn ódauðlegi Seifur hafði átt; en hin ágæta Hippódamía átti Polýpöytes við Píríþóusi, þann dag er hann hefndi sín á hinum loðnu Ferum (bergrisum), rak þá burt af Pelíonsfjalli, og hrakti þá til Eþíkulands. Ekki var Polýpöytes einn fyrir þeim; með honum var Leonteifur, afspringur Aresar, sonur hins ofurhugaða Korónuss Keneifssonar. Þeim fylgdu 40 skip. 748 Gúnefur kom með 22 skip frá Kýfsborg; honum fylgdu Eníanar og hinir hergjörnu Perebar, er sett höfðu byggð sína í kring um hina vetrarríku Dódónu, og áttu land í kring um hið fagra Títaresusfljót; það fljót rennir sínu straumfagra vatni í Peneusfljót, en blandast þó ekki saman við hinn silfrinsveipótta Peneus, heldur flýtur ofan á honum, eins og viðsmjör; því Títaresus er kvísl af Stýgarfljóti, hinu óttalega eiðsvatni. 756 Proþóus Tenþredonsson var fyrir Magnesíumönnum; þeir bjuggu í kring um Peneus og hið laufkvika Pelíonsfjall; fyrir þeim var hinn skjóti Proþóus; honum fylgdu 40 skip. 760 Þessir voru fyrirliðar og yfirmenn Danáa. En seg mér nú, sönggyðja, hverjir voru ágætastir kappanna, og hverjir voru beztir hestar í liði Atreifssona? Af hestunum voru beztir hryssur þær, er Evmelus ók með: þær voru fótfráar, sem fuglar væru, samlitar á hár (eins í háralagi), jafngamlar, þráðjafnar á herðakamb; hafði Appollon silfrinbogi alið upp báðar þessar hryssur í Períu, og stóð af þeim Aresarótti. En af hermönnum var Ajant Telamonsson miklu ágætastur, þann tíma er Akkilles var reiður, því Akkilles var langframast allra, og svo hestar þeir, er drógu hinn ágæta Peleifsson. En hann lá nú niðri við hin stafnbjúgu, haffæru skip, afar reiður þjóðhöfðingjanum Agamemnon Atreifssyni; menn hans skemmtu sér á sjávarströndinni með töfluleik, spjótkasti og bogaskoti; hestarnir stóðu hverjir við sínar kerrur, og átu smára og mýrvaxna steinselju, og kerrur þeirra, er þeir áttu, lágu í búðunum, og breitt vandlega yfir, en liðsmenn söknuðu fyrirliðans, ástvinar Aresar, og reikuðu hingað og þangað um herbúðirnar og börðust ekki. 780 En Akkear gengu áfram, og var sem öll jörðin væri að brenna af eldi: jörðin stundi undir þeim, eins og hún stynur fyrir enum þrumuglaða Seifi, þegar hann í reiði sinni lýstur jörðina allt í kring um Týfon á Arímafjöllum, þar er mælt er að sé bæli Týfons: í þá líking stundi jörðin þungan undir fótum þeirra, þá er þeir gengu, og bar þá mjög skjótt yfir völlinn. 786 Sendigyðjan, hin vindfætta Íris, kom frá Seifi ægisskjalda með ófagnaðartíðindi til Trójumanna. Þeir voru þá að mæla málum sínum við hallardyr Príamuss; voru þangað allir samankomnir, bæði ungir og gamlir. Hin fóthvata Íris gekk til þeirra, og gerði sig líka í máli Pólítesi Príamssyni; hann var sjónvörður Trójumanna, og sat efst uppi á haugi Esýets hins gamla, því hann treysti á fráleik sinn; þaðan gætti hann að, hve nær Akkear mundu dynja frá skipunum. Í hans líki mælti hin fóthvata Íris: 796 „Gamli maður, ávallt hefir þú gaman af endalausum ræðum, jafnt nú sem fyrr, meðan friður var. En nú er upp risinn óvægur ófríður. Margsinnis hefi eg bar komið, er menn hafa barizt, en aldrei hefi eg enn séð svo frítt og svo mikið lið. Þeir koma neðan völlinn til að herja á borgina, næsta jafnmargir laufblöðum eða sandi. En þér ræð eg einkum, Hektor, að fara svo að: Með því hér eru margir liðsmenn saman komnir í hinni miklu Príamsborg, og tala ýmsir ýmsum tungum, er mannmergðin er mikil, skal sérhverr fyrirliði fylkja landsmönnum sínum, þeim er hann ræður yfir, skipa fyrir þeim, og fara með þá út af borginni“. 807 Þannig mælti hún, en Hektor tók vel eftir því, er gyðjan sagði, og brá þegar þinginu, en menn þustu til vopna; öllum hliðum var slegið opnum, og fólkið ruddist út, fótgöngumenn og riddarar; reis þá upp mikill gnýr. 811 Fyrir framan borgina er hár hóll, langt úti á vellinum; má hlaupa umhverfis í kring um hann; þenna hól kalla menn Batíu, en hinir ódauðlegu guðir kalla hann haug hinnar stórhlaupasömu Myrínu. Þar var Trójumönnum fylkt í það sinni, og liðsmönnum þeirra. 816 Fyrir Trójumönnum var hinn mikli, hjálmkviki Hektor Príamsson; með honum brynjuðust langflestir menn og hraustastir, þeir voru spjótmenn góðir. 819 Fyrir Dardansmönnum var hinn vaski Eneas Ankísesson; hin ágæta Afrodíta hafði átt hann við Ankíses á hálsum Ídafjalls; þar hvíldi gyðjan hjá dauðlegum manni. Eigi var hann einn fyrir liðinu; með honum voru tveir synir Antenors, Arkelokkus og Akamant; þeir kunnu vel til alls hernaðar. 824 Þeir auðugu Tróar, er bjuggu í Selju undir neðstu rót Ídafjalls, og drukku hið bláa vatn úr Esepus: fyrir þeim var Pandarus, Lýkáons frægi son; honum hafði sjálfur Appollon gefið boga. 828 Þeir sem bjuggu í Adrestíu og í Apesusfylki, í Pitýju, og á hinu háva Teríufjalli: fyrir þeim var Adrestus og hinn línbrynjaði Amfíus; þeir voru synir Meróps Perkósussonar, er allra manna var spávitrastur; hann bannaði sonum sínum að fara í hinn mannskæða ófrið, en þeir gegndu honum ekki, því valkyrjur hins dimma dauða ráku eftir þeim. 835 Þeir sem bjuggu í kring um Perkótu og Praktíus, og áttu heima í Sestus og Abýdus og hinni ágætu Arisbu: fyrir þeim var Asíus Hyrtaksson, og var í öndverðu brjósti manna sinna; þann Asíus Hyrtaksson báru rauðir hestar, miklir vexti, frá Arisbu við Sellesfljót. 840 Hippoþóus var með sveitir hinna spjótfimu Pelasga, þeirra er bjuggu í hinni landfrjóvu Larissu: fyrir þeim voru þeir Hippoþóus og Pýleus, afspringur Aresar; þeir voru báðir synir Leþuss Pelasga Tevtamssonar. 844 Akamant og kappinn Píróus komu með alla þá Þraka, er búa fyrir innan hið fagurrennanda Hellusund. 846 Evfemus var fyrirliði hinna hervönu Kíkóna; hann var sonur Tröyzeníuss Keassonar, fóstra Seifs. 848 Pyrekmes kom með hina bogsterku Peóna; þeir komu langt að, frá Amýdonsborg við hið straumvíða Axíusfljót, er rennir hinu fegursta vatni yfir jörðina. Hinn loðhjartaði Pýlemon var fyrir Paflagónum; hann var frá Enetalandi; þaðan er komið kyn enna villtu hálfasna. 851 Paflagónar bjuggu umhverfis Kýtórus og Sesamus; þeir áttu nafnkunna bústaði við Porþeníusfljót í Krómnu, á Strönd og á hinum hávu Rauðhólum. 856 Ódíus og Epístrofus voru fyrir Halizónum; þeir komu langt að, frá Alýbu; þar hefir silfur upptök sín. 858 Krómíus og fuglaspámaðurinn Ennómus voru fyrir Mýsum; þó gat Ennómus ekki með fuglaspá sinni forðazt hina svörtu Valkyrju, því hinn fóthvati Eaksniðji drap hann í fljótinu, þar sem hann banaði öðrum fleirum Trójumönnum. 862 Forkunnur og Askaníus voru fyrir Frýgum; þeir voru langt að, frá Askaníu, og ólmir bardagamenn. 864 Þeir réðu fyrir Meónum, Mestles og Antífus Talemonssynir; þeir voru fæddir af Gýgjarvatni; þeir komu með þá Meóna, er fæðzt höfðu undir Tmólusfjalli. 867 Nastes var fyrir Kárverjum; þeir töluðu útlenzka tungu; þeir bjuggu í Míletus, á hinu laufþétta Furufjalli, við Meandersstrauma, og á hinum hávu Mýkaletindum: fyrir þeim voru þeir Amfímakkus og Nastes. Nastes og Amfímakkus voru synir Nomíons; hann fór og í herför þessa, og bar gull á sér, eins og ung mær, og frelsaði það hann ekki, fávísan mann, frá döprum dauða, því hann féll fyrir hinum fóthvata Eaksniðja í fljótinu, en hinn herkæni Akkilles náði gullinu. 876 Sarpedon og hinn ágæti Glákus voru fyrir Lykíumönnum; þeir voru komnir langt að, frá Lykíu, frá hinu sveipótta Ksantusfljóti. ÞRIÐJI ÞÁTTUR EIÐAR. HELENA Á BORGARVEGGI. EINVÍG ALEXANDERS OG MENELÁSS. En er þeir höfðu skipað sér í fylkingar, hverjir með sínum fyrirliðum, þá gengu Trójumenn með glaum og háreysti, sem fuglar, í þá líking sem glaumur mikill verður undir himinhvolfinu af trönum, þeim er flúið hafa undan vetrarnauð og stórhríðum, fljúga þær þá með glaumi miklum út að Ókeansstraumum, færa á hendur Pygmeum bana og feigð, og hefja að morgni dags skæða rimmu. En Akkear gengu þegjandi, en blésu af hugmóði, höfðu þeir á því allmikinn hug að duga hverr öðrum. 10 Svo sem sunnanvindur sveipar fja1lshnúka þoku svo þykkri, að ekki má frá sér sjá lengra en steinsnar; er sú þoka smalamönnum allmeinleg, en haglegri þjófnum, enn þó nótt væri: í þá líking reis upp rykmökkur mikill undan fótum þeirra, þá er þeir gengu, og bar þá mjög skjótt yfir völlinn. 15 En er þeir áttu skammt hvorir til annarra, þá var hinn goðumlíki Alexander fremstur í flokki Trójumanna; hann hafði á herðum sér pardusfeld, sveigðan boga og sverð, en í hendi sér veifaði hann tveimur spjótum eirslegnum; hann skoraði á hvern af Argverjum, þann er hraustastur væri, að berjast við sig til þrautar í einvígi. En er Menelás, ástvinur Aresar, gat að líta, hvar Alexander gekk fremstur í flokki, og heldur stórstígur, þá varð hann glaður við, svo sem ljón verður fegið, þegar það hittir fyrir sér mikla bráð, og finnur annaðhvort hyrndan hjört eða villigeit, þá hvomar það í sig gríðarlega, enn þótt fljótir hundar og hraustir sveinar vilji reka það í burtu: svo varð Menelás glaður, er hann kom auga á hinn goðumlíka Alexander, hugsaði nú með sér, að hann skyldi hefna sín á svikaranum, og stökk þegar af kerrunni til jarðar í herklæðunum. 30 En er hinn goðumlíki Alexander sá, að Menelás var frammi í brjósti fylkingar, þá skelfdist hjarta hans, hörfaði hann þá aftur í flokk félaga sinna og forðaði lífi sínu. Eins og maður, sem sér dreka í fjallakvos nokkurri, hrökkur frá þaðan, skjálfandi á fótum, og hörfar á bak aftur, með fölar kinnar: svo gekk hinn goðumlíki Alexander aftur inn í flokk hinna framgjörnu Trójumanna af ótta fyrir Atreifssyni. En er Hektor sá hann, átaldi hann Alexander með smánarorðum: 39 „Ólánsmaður ertu, París, manna fríðastur sýnum, en hleypur sem galinn eftir hverri konu og ginnir þær. Eg vildi óska, að þú hefðir aldrei verið kvennýtur, og hefðir dáið ókvæntur. Þess vildi eg óska, og það hefði verið þér miklu betra, en að hafa á þér spott og fyrirlitning annarra manna. Hinir hárprúðu Akkear, sem gera sér í hug, að þú munir vera hraustasti maður til forgöngu, er þú ert svo fríður yfirlits, munu víst hlæja dátt, þegar engi reynist kjarkur í þér, og ekkert þrek. Eða varst þú það, ragmenni þitt, sem réðst til þín örugga fylgdarmenn, sigldir um haf á haffærum skipum, fórst á fund útlendra manna, og namst í burtu fríða konu, venzlaða hraustum hermönnum, til að verða föður þínum og borginni og allri þjóðinni til tjóns, óvinum til fagnaðar, en sjálfum þér til niðurlægingar og svívirðu? Viltu ekki bíða eftir Menelási, ástvini Aresar? Þá muntu komast að raun um, hvað manni það er, sem átti þá ungu konu, er þú hefir nú tekið. Það hygg eg, að þá muni ekki hörpuslátturinn stoða þig, og ekki ástgjafir Afrodítu, hárið og fríðleikurinn, þegar þú værir að veltast í moldinni. Væru Trójumenn ekki svo huglausir, sem þeir eru, mundir þú fyrir löngu kominn í grjótstakk fyrir slysin, sem af þér hafa hlotizt“. 58 Hinn goðumlíki Alexander svaraði honum: Öll von er, þó þú ávítir mig, og er það ekki um skör fram. Ávallt er hjarta þitt sem ósljóv öxi, sú er smýgur í gegnum tréð, í höndum þess manns, er laglega kann að höggva skipatimbur, og ríður hún því betur að, sem maðurinn beitir sér betur: svo er hugurinn í brjósti þér öruggur og óskelfur. Bregð mér ekki um ástgjafir hinnar gullfögru Afrodítu. Engi skyldi drepa hendi við þeim veglegu gjöfum, er guðirnir veita manni, því þær tekur engi af sjálfum sér. Nú ef þú vilt, að eg gangi aftur í orustu og berjist, þá lát aðra Trójumenn og alla Akkea setjast, en látið okkur Menelás, ástvin Aresar, ganga fram og skiptast vopnum við, og berjast um Helenu og allt féð: hvorr okkar sem sigrar og ber hærra hlut, sá skal taka allt féð og fá konuna, og hafa heim með sér; en hinir geri vináttu milli sín og tryggar sættir; skuluð þér búa í hinni landfrjóvu Trójuborg, en hinir skulu fara aftur til hins hestauðga Argverjalands og hins kvenprúða Akkealands“. 76 Þannig mælti hann, varð Hektor mjög glaður, er hann heyrði orð hans, gekk fram milli herfylkinganna, hélt um mitt spjótskaftið og þokaði aftur á bak flokkum Trójumanna, settust þeir þá allir niður; en hinir hárprúðu Akkear skutu á hann á meðan, sumir af bogum með örvum, sumir köstuðu steinum. Þá kallaði Agamemnon herkonungur hátt: 82 „Hættið, Argverjar, skjótið ekki, sveinar Akkea! hinn hjálmkviki Hektor vill mæla nokkuð“. 84 Svo mælti hann, en þeir léttu atsókninni, og höfðu þegar hljótt um sig. Þá mælti Hektor, svo hvorirtveggju heyrðu: 86 „Heyrið, Trójumenn og þér vel brynhosuðu Akkear, eg vil segja yður orð Alexanders, er þessi rimma hefir af risið. Hann biður aðra Trójumenn og alla Akkea að leggja af sér hin fögru vopn niður á hina margfrjóvu jörð, en hann skuli sjálfur og Menelás, ástvinur Aresar, ganga fram og berjast tveir einir um Helenu og allt féð: hvorr þeirra, sem sigri og beri hærra hlut, skuli taka allt féð og fá konuna og hafa heim með sér, en hinir gera frið milli sín og veita hvorir öðrum eiðfestar tryggðir“. 95 Þannig mælti hann, en þeir höfðu allir hljótt um sig og þögðu. Þá mælti hinn rómsterki Menelás: 97 „Heyrið nú einnig mál mitt, því næst gengur harmurinn mér til hjarta. Vona eg, að nú skilji með ykkur, Argverjum og Trójumönnum; hafið þér margt illt þolað sökum rimmu þeirrar, er eg hefi vakið, en Alexander haft upptökin til. Deyi sá okkar, er dauði og skapadægur er ætlað, en þér hinir skiljizt að sem bráðast. Komið nú með lömb tvö, hvítt hrútlamb og svarta gimbur, til fórnar Jörð og Sól, en vér skulum koma með annað hrútlamb Seifi í fórn. Sækið svo hinn sterka Príamus, að hann geri sættina sjálfur, því synir hans eru yfirgangsmenn miklir og ótrúir; engi skal ónýta sáttmál Seifs með offrekju. Hjörtu ungra manna eru jafnan óstöðug; en sé hinn gamli maður sjálfur við staddur, þá hefir hann forsjá og framsýni til þess, að hvorumtveggjum gegni sem allra bezt“. 111 Þannig mælti hann, en Akkear og Trójumenn urðu glaðir, væntu nú, að enda mundi taka hinn hörmulegi ófriður: þokuðu nú kerrunum aftur, hverri í sína röð, og stigu sjálfir af, fóru úr vopnum sínum, og lögðu þau niður á jörðina, hver skammt frá öðrum, og var skammt bil milli hvorratveggju. Hektor sendi svo kallara til borgarinnar, að sækja lömbin í flýti og kalla á Príamus. En Agamemnon konungur sendi Taltybíus til enna hveldu skipa og bað hann sækja lambið, en hann gerði, sem hinn ágæti Agamemnon bauð. 121 Á meðan kom sendigyðjan Íris til ennar hvítörmuðu Helenu í líki mágkonu hennar Laódíku; sú var fríðust af dætrum Príamuss; hana átti hinn voldugi Helíkáon Antenorsson. Hún fann hana í stofu; var hún þar að vefa mikinn vef, tvískikkju af purpura; óf hún þar á marga bardaga enna reiðkænu Trójumanna og hinna eirbrynjuðu Akkea, er þeir höfðu átt í hennar vegna af völdum Aresar. Hin fóthvata Íris gekk til hennar og mælti: 131 „Kom, kæra frú, að sjá hin frábæru afreksverk enna reiðkænu Trójumanna og hinna eirbrynjuðu Akkea. Fyrir stundu voru þeir fúsir á mannskæðan ófrið, og gerðu hvorir öðrum grátlega styrjöld á vellinum, en nú sitja þeir þegjandi, því ófriðnum er lokið; þeir styðjast fram á skjöldu sína, en hin löngu spjót standa hjá þeim í vellinum. En þeir Alexander og Menelás, ástvinur Aresar, ætla að berjast um þig með löngum spjótum, og áttú að verða kona þess, er sigurinn hlýtur“. 139 Með þessum orðum kom gyðjan í brjóst henni sætri löngun eftir hennar fyrra manni, eftir borginni og foreldrum hennar. Hún lagði þegar yfir sig hvíta línskikkju, gekk út úr herberginu og felldi mjúkt tár af augum. Eigi var hún ein, henni fylgdu tvær þjónustumeyjar, Eþra Pitteifsdóttir og hin mikileyga Klýmena; þær komu brátt þangað, þar sem Skehlið voru. 146 Þeir höfðingjarnir, Príamus, Panþóus, Þýmeytes, Lampas, Klytíus, og Híketáon, afspringur Aresar, svo og þeir Úkalegon og Antenor, er báðir voru vitrir menn, sátu uppi yfir Skehliðum; þeir höfðu þá lagt af hernað fyrir elli sakir, en voru ágætir málsnillingar, líkir eikifroskum, þeim er sitja í skógarviði og láta til sín heyra unaðsfulla rödd. Slíkir voru höfðingjar Trójumanna, þeir er uppi sátu í turninum. En er þeir sáu Helenu ganga upp í turninn, töluðu þeir hljótt sín í milli, og sögðu: 156 „Eigi er það láandi, þó Trójumenn og hinir fagurbrynhosuðu Akkear hafi langan tíma raunir þolað fyrir sakir slíkrar konu, þar sem hún er mjög lík í sjón hinum ódauðlegu gyðjum. En ei að síður, þó hún sé svo fríð, þá fari hún heim aftur á skipunum, og verði hér ekki eftir, oss til óheilla og börnum vorum eftir oss“. 161 Svo mæltu þeir. Þá kallaði Príamus á Helenu: „Kom hingað, dóttir góð, og sezt frammi fyrir mér, svo þú sjáir þinn fyrra mann, og mága þína og vini. Ekki ásaka eg þig, guðina ásaka eg, þá er sent hafa á hendur mér hinn grátlega ófrið við Akkea. Seg mér, hvað þessi hinn furðulega stóri maður heitir, sem hér er, hverr hann er, sá hinn akkneski maður, hinn ágæti og mikli. Að vísu eru aðrir menn meiri vexti en hann, en aldrei hefi eg augum litið jafnfríðan mann eða jafnöldurmannlegan; því hann er líkur konungmanni“. 171 Hin ágæta kona Helena svaraði honum: „Kæri tengdafaðir, bæði áttu að mér virðingu skilið og lotningu. Eg vildi óska, að eg hefði heldur dapran dauða kosið, heldur en að fylgjast hingað með syni þínum, og skilja við brúðarsal minn og frændur mína, mína ástkæru dóttur, og jafnöldrur mínar; er mjög voru elskuverðar. En ekki varð af því samt, og því er eg aldrei ógrátandi. Nú mun eg segja þér, það er þú spyr og þig forvitnar að vita: þessi maður er hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson; hann er hvortveggja, góður konungur og hraustur hermaður. Hann var mágur minn, ósvífinnar konu; en nú er það af, sem áður var“. 181 Þannig mælti hún, en hinn gamli maður undraðist hann og tók til orða: „Sæll ertu, Atreifsson, og góðu heilli borinn og hamingjumaður mikill, er svo margir sveinar Akkea gáfu sig undir vald þitt. Eg kom og forðum til hins vínviðótta Frýgalands; þar sá eg flesta Frýga saman komna; það var hervagnalið, menn Otreifs og hins ágæta Mygdons; þeir höfðu þá herbúðir sínar á Sangarsbökkum; var eg þá í her þeirra sem einn af liðsmönnum; það var í þann tíð, er hinar manngildu Skjaldmeyjar komu. Þó voru Frýgar þá ekki eins margir og hinir snareygu Akkear eru“. [Mynd: Afrodíta telur Helenu á að fylgja Paris.] 191 Því næst sá hinn gamli maður Odysseif; þá spurði hann: „Seg mér og, dóttir kær, um þenna mann, hver sá er; hann er að vísu minni vexti en Agamemnon Atreifsson, en hann er að sjá herðabreiðari og bringubreiðari; vopn hans liggja á hinni margfrjóvu jörð, en sjálfur gengur hann um fylkingar kappanna, sem hrútur: virðist mér hann líkur þéttfíldum forustusauð, sem gengur í gegnum stóra hjörð hvítra ásauða“. 199 Helena, dóttir Seifs, svaraði honum: „Þessi maður er hinn ráðagóði Odysseifur Laertesson; hann er uppfæddur í hinu mjög grýtta Íþökulandi, og kann alls konar vélar og viturleg ráð“. 203 Hinn vitri Antenor anzaði henni: „Satt er það, er þú sagðir þar, kona. Því eitt sinn kom hinn ágæti Odysseifur hingað ásamt með Menelási, ástvini Aresar, í erindagjörðum þinna vegna. Þá gisti eg þá báða og veitti þeim góðar viðtökur í húsi mínu; lærði eg þá að bekkja vaxtarlag og ráðkænsku beggja þeirra. En þegar þeir komu þar, er Trójumenn voru saman komnir, og er þeir stóðu báðir, þá var Menelás hærri á herðarnar, en er þeir sátu báðir, þá var Odysseifur öldurmannlegri. En er þeir báru upp erindi sín og viturlegar tillögur í fjölmenninu, þá var Menelás gagnorður í ræðu sinni, var hann fátalaður, en mjög sléttmáll; því þó hann væri yngri, þá var hann ekki margorður og ekki óorðhittinn. En í hvert sinn er hinn margráðugi Odysseifur spratt upp, þá stóð hann fyrst, horfði niður fyrir sig og blíndi á jörðina, bærði sprotann hvorki fram né aftur, heldur hélt honum fast, svo hann bifaðist ekki; var hann þá líkur manni þeim, er ekki kann sig, og mundir þú ætla, að þar stæði eitthvert fól eða eintómt fífl. En er hann skaut upp frá brjósti sér röddinni miklu, þá drifu orðin sem snæfok á vetrardegi, og þurfti þá engi maður við Odysseif að keppa úr því; hættum vér þá að furða oss á útliti Odysseifs, eins og vér áður gerðum, þá vér litum hann“. 225 Í þriðja lagi, þá hinn gamli maður sá Ajant, þá spurði hann: „Hverr er nú hinn akkneski maður, sá hinn ágæti og mikli, er enn er hér, hærri vexti og herðabreiðari, en aðrir Argverjar?“ 228 Hin síðmöttlaða Helena, sú hin ágæta kona, svaraði honum: „Þessi maður er hinn afar stóri Ajant, víggarður Akkea; en hins vegar í flokki Krítarmanna stendur Idomeneifur, svo sem væri hann einhverr af goðunum, og safnast í kring um hann fyrirliðar Kríteyinga. Menelás, ástvinur Aresar, veitti honum oft gisting í höll vorri, þá hann kom frá Krít. Nú sé eg alla aðra snareyga Akkea, er eg gæti gert deili á og nafngreint, nema tvo herforingja get eg ekki komið auga á, hinn reiðtama Kastor og hinn ágæta hnefleikara Polýdevkes, albræður mína, sammæðra mér. Hvort fylgdust þeir ekki með öðrum frá hinni fögru Lakverjaborg? Eða fylgdust þeir með hingað á enum haffæru skipum, en vilja nú ekki ganga í orustu með öðrum köppum, af því þeim rís hugur við þeirri svívirðingu og smán, er á mér liggur?“ Þannig mælti hún, en þeir hvíldu þá í skauti hinnar lífgandi jarðar heima í Lakverjaborg á föðurjörðu sinni. 245 Kallararnir fóru nú um borgina með hina helgu dóma, tvö lömb og hressandi vín, ávöxt jarðarinnar, í geitbelg; en kallarinn Ídeus bar skínanda skaftker og drykkjarker af gulli; hann gekk til hins aldraða konungs, og bað hann koma með þessum orðum: 250 Upp, Laómedonsson! Höfðingjar hinna reiðkænu Trójumanna og eirbrynjuðu Akkea biðja þig að ganga ofan á völlinn, svo að þér gerið þar eiðfest sáttmál yðar í milli. En Alexander og Menelás, ástvinur Aresar, ætla að berjast um konuna með löngum spjótum; skal konan fylgja þeim, er sigur hefir, en hinir skulu gera vináttu sín í milli og binda tryggar sættir hvorir við aðra; munum vér þá búa í hinni landfrjóvu Trójuborg, en Akkear fara heim aftur í hið hestauðga Argverjaland, og til hins kvenprúða Akkealands“. 259 Þannig mælti hann, en hinn gamli maður varð óttafullur. Hann bað sveina sína beita hestum fyrir kerru sína, og gerðu þeir skjótlega, það er hann bauð. Príamus steig upp í kerruna og hélt stríðum taumunum; sté þá Antenor upp í hinn fagra kerrustól hjá honum. Þeir fóru út um Skehlið og stýrðu hinum fráu hestum fram á völlinn. En er þeir komu til Trójumanna og Akkea, stigu þeir ofan af kerrunni niður á hina margfrjóvu jörð, gengu síðan í kvína milli Trójumanna og Akkea. Þá reis upp herkonungurinn Agamemnon, þá reis og upp hinn fjölráði Odysseifur, en hinir ágætu kallarar færðu þangað hina helgu dóma, helltu saman víninu í skaftkerið, jusu sæuðan vatni á hendur konungunum. Þá brá Atreifsson saxi, er jafnan hékk við hinar stóru sverðslíðrir hans, og sneið hárlokka af höfðum lambanna, síðan skiptu kallararnir þeim meðal höfðingja Trójumanna og Akkea. Þá fórnaði Atreifsson höndum upp, og bað hástöfum: 276 „Faðir Seifur, þú sem ríkir á Ídafjalli, þú hinn vegsamlegasti og mesti! Þú Helíus, sem allt sér og allt heyrir! Þér Fljót, og þú Jörð, og þið tvö, sem hegnið mönnum þeim, er máttlausir hvíla í undirheimi, ef nokkurr þeirra hefir svarið meinsæri, verið hér vottar að, og verndið hið eiðfesta sáttmál: Ef Alexander drepur Menelás, þá skal hann eignast Helenu og allt féð, en vér skulum fara heim aftur á hinum haffæru skipum. En ef hinn bleikhári Menelás drepur Alexander, þá skulu Trójumenn skila Helenu aftur og öllum fjárhlutunum, og gjalda Argverjum bætur, svo þeir séu vel sæmdir af; skulu þær bætur vera til minnis eftirkomandi mönnum. En ef Príamus og Príamssynir vilja ekki gjalda mér bæturnar, ef Alexander fellur, þá mun eg vera hér kyrr eftir og berjast til bótanna, unz eg fæ ófriðnum af lokið“. 292 Að því mæltu skar hann lömbin á háls með hinu harða eirvopni, og lagði þau á jörðina; þau sprikluðu, en voru þó örend, því eirvopnið hafði tekið frá þeim allt fjör. Síðan jusu þeir vín úr skaftkerinu á drykkjarkerin, og dreyptu, og hétu á hina eilífu guði, og tók hverr af Akkeum og Trójumönnum svo til orða: 298 „Seifur, þú hinn vegsamlegasti og mesti, og þér aðrir ódauðlegir guðir! Hvorir okkar sem brjóta á móti þessu eiðfesta sáttmáli, fljóti heili þeirra til jarðar, eins og vín þetta, heili þeirra sjálfra og barna þeirra, en konur þeirra verði öðrum mönnum háðar“. 302 Svo mæltu þeir, en Kronusson lét ekki ósk þeirra verða framgenga. Þá tók Príamus Dardansniðji til orða: 304 „Heyrið mér, þér Trójumenn og vel brynhosuðu Akkear, nú fer eg aftur til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar, því eg get ei af mér fengið að horfa á með eigin augum son minn berjast við Menelás, ástvin Aresar. Það veit Seifur og aðrir ódauðlegir guðir, hvorum þeirra á feigðar auðið að verða“. 310 Að því mæltu lét hinn guðumjafni kappi lömbin upp á kerruna, sté svo sjálfur upp í, og hélt hestunum aftur með taumunum; steig þá Antenor upp í hinn fagra kerrustól til hans; fóru þeir svo báðir aftur til Ilíonsborgar. 314 Hektor Príamsson og hinn ágæti Odysseifur mældu fyrst út orustustaðinn, tóku síðan hluti, létu í eirhjálm og hristu, til að vita, hvorr þeirra fyrri skyldi skjóta enu eirslegna spjóti. Þá fórnuðu menn höndum til guðanna og báðust fyrir, og tók sérhverr af Akkeum og Trójumönnum svo til orða: 320 „Faðir Seifur, þú sem ríkir á Ídafjalli, þú hinn vegsamlegasti og mesti! Hvorr þeirra sem valdið hefir þessum hernaði meðal hvorra tveggju, lát þann örendan fara niður í Hadesar híbýli, en veit, að vinátta og tryggar sættir komist á með oss“. 324 Þannig mæltu þeir, en hinn mikli, hjálmkviki Hektor hristi hjálminn, og horfði aftur fyrir sig á meðan; stökk þá út hlutur Parisar. Síðan settust menn niður, hverr í sínum flokki, þar sem hinir léttfættu hestar og hin fjölskreyttu vopn þeirra voru. En hinn ágæti Alexander, eiginmaður hinnar hárprúðu Helenu, fór í hinn fagra herbúnað: fyrst lagði hann fagrar brynhosur um fótleggi sér, kræktar silfurlegum öklapörum; því næst færði hann sig í brynju Lýkáons, bróður síns, og var hún honum mátuleg; hann varpaði um herðar sér silfurnegldu eirsverði, og því næst stórum og þykkum skildi; á hið tígulega höfuð sitt lét hann velgerðan hjálm fextan, og slútti faxburstin fram óttalega; þá tók hann í hönd sér sterkt spjót, sem honum var greiphæft. Hinn vígkæni Menelás herklæddi sig á sama hátt. 340 En er þeir höfðu herklæðzt sinn hvoru megin í liðinu, þá gengu þeir fram í kvína milli Trójumanna og Akkea; var augnaráð þeirra ógurlegt; urðu hinir reiðkænu Trójumenn og hinir fagurbrynhosuðu Akkear forviða, er þeir sáu þá. Nú stóðu þeir báðir á hólmgöngustaðnum, skóku spjótin, og höfðu heiftarhug hvorr til annars. Alexander skaut fyrst langskeftu spjóti, og kom í hinn kringlótta skjöld Atreifssonar, og gekk ekki í gegnum eirið, því spjótsoddurinn bognaði í enum sterka skildi. Menelás Atreifsson reiddi því næst upp eirvopnið, og hét á föður Seif: 351 „Voldugi Seifur, veit, að eg hefni mín á hinum ágæta Alexander, er að fyrra bragði gerði á hlut minn, og lát hann falla fyrir mér, svo einnig hverr eftirkomandi manna fælist frá því að misbjóða gestvini sínum, þeim er veitir honum góðar viðtökur“. 355 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót, og skaut; kom spjótið í hinn kringlótta skjöld Príamssonar, og flaug hið sterka spjót í gegnum hinn fagra skjöld, og gekk inn úr hinni gersemlegu brynju, og skar spjótið sundur kyrtilinn þar fyrir innan við huppinn; en Paris lét hallast undan laginu og forðaði sér svo dimmum dauða. Þá brá Atreifsson hinu silfurneglda sverði, reiddi sig til höggs, og hjó í hjálmbóluna, brotnaði sverðið á henni í þrjá og fjóra hluti og féll úr hendi hans. Þá leit Atreifsson uppí hinn víða himin, og kveinaði: 365 „Faðir Seifur, engi goðanna er skaðvænlegri, en þú! Eg þóktist nú viss um, að eg mundi hefna mín á Alexander fyrir illvirki hans; en nú brotnaði sverðið í höndum mér, og spjótið flaug til ónýtis úr hendi mér, svo eg særði hann ekki“. 369 Að því mæltu stökk hann að honum, og greip um hinn þéttfexta hjálm hans, sneri sér við, og ætlaði að draga hann til hinna fagurbrynhosuðu Akkea; hertist þá að hans mjúka hálsi hið fjölsaumaða ólarband, er lá úr hjálminum undir kverkina, og lá við sjálft, að bandið mundi kyrkja hann; og þar hefði Menelás náð honum til sín og fengið hinn frægasta sigur, hefði ekki Afrodíta, dóttir Seifs, vitað glöggt, hvað leið, og slitið hina sterku nautsleðursól, svo hann varð laus; fylgdi þá hjálmurinn tómur hinni þykku hönd Menelásar; veifði kappinn þá hjálminum í kring og þeytti honum til hinna fagurbrynhosuðu Akkea, en hinir trúu félagar hans tóku upp hjálminn. Stökk þá Menelás enn aftur fram, og vildi drepa Paris með hinu eirslegna spjóti. 380 Afrodíta rykkti Parisi burt; veitti henni það mjög hægt, er hún var gyðja; hún brá yfir hann miklum myrkva og kom honum inn í herbergi sitt; þar var sætur ilmur og góð angan. Síðan fór hún að kalla á Helenu, og fann hana uppi í hinum háva turni; voru þar margar tróverskar konur hjá henni. Hún tók með hendi sinni í hina ilmandi skikkju hennar og hristi, og mælti til hennar; var hún fá lík aldraðri konu nokkurri, er kunni ullarvinnu; sú hafði verið vön að vinna fallega ullarvinnu hjá henni, meðan Helena bjó í Lakverjaborg, og hafði Helena hana í mestu kærleikum. Í hennar líki talaði Afrodíta til Helenu, og mælti: 390 „Kom þú með mér! Alexander biður þig að koma heim; hann er nú í herbergi sínu á hinum fagurrennda legubekk, allur ljómandi af fegurð og klæðum; ekki mundi þér í hug detta, að hann væri kominn úr einvígi, heldur að hann ætlaði í dansleik, eða sæti þar nýkominn úr dansi“. 395 Þannig mælti hún, og hrærði hjartað í brjósti hennar. En er Helena sá hinn fagra háls gyðjunnar, hin lystilegu brjóst hennar og hin ljómandi augu, þá varð hún forviða, tók til orða, og mælti: 399 „Þú óheillagyðja, hví viltu gabba mig svo? Eða ætlarðu að flytja mig enn lengra í burtu, til einhverra fjölbyggðra borga, annaðhvort í Frýgalandi eða hinu fagra Meónalandi, ef þú átt þar einhvern kæran þér mæltra manna, sem annarstaðar? Ertu nú komin hingað til mín, vélafull í huga, einmitt sökum þess að Menelás hefir sigrað hinri ágæta Alexander, og vill flytja mig öllum leiða heim til sín? Far þú til hans og sit hjá honum, vík burt af vegi guðanna, og stíg aldrei fótum framar á Ólymp; stumra heldur allt af yfir honum, þar til er hann gerir þig að konu sinni, eða hann lætur þig vera ambátt sína. En eg mun ekki fara þangað til að búa um rekkju hans; það væri von, þó mér yrði láð það; allar tróverskar konur munu álasa mér fyrir það á eftir, og þar að auk liggja óbættir harmar á hjarta mér“. 413 Hin ágæta Afrodíta reiddist, og mælti til hennar: „Ert mig ekki, ófyrirlátsama kona, að eg ekki fyrirláti þig í reiði minni, og leggi hér eftir eins mikið hatur á þig, og eg hefi unnt þér ákaflega hér til, og veki sárbeittan fjandskap milli hvorra tveggju, Trójumanna og Danáa, og deyir þú svo illum dauðdaga“. 418 Þannig mælti hún, en Helena, dóttir Seifs, varð hrædd; hún gekk af stað þegjandi, og hafði fyrir andliti sér hvíta blæju, skínandi; varð engin af hinum tróversku konum hennar vör, en gyðjan gekk á undan henni. 421 En er þær komu til ennar fögru hallar Alexanders, þá fóru þjónustumeyjarnar þegar til verka, en hin ágæta kona gekk til hins háþakta svefnherbergis. Hin brosmilda Afrodíta tók stól handa henni; bar gyðjan stólinn og setti hann gagnvart Alexander. Á þann stól settist Helena, dóttir Seifs ægisskjalda; hún sneri augum sínum undan og átaldi mann sinn: 428 „Þú ert kominn frá einvíginu! Það væri betur þú hefðir látizt fyrir þeim hinum hrausta kappa, er var frumver minn. Þú hrósaðir því þó áður, að þú værir fremri Menelási, ástvini Aresar, að styrkleik, handafli og spjótfimi. Far nú, og skora aftur á Menelás, ástvin Aresar, að berjast við þig! Nei, eg vil heldur ráða þér að láta vera kyrrt, og gera ekki þá heimsku að ganga í orustu móti hinum bleikhára Menelási; væri betur, að þú fallir ekki svo skjótt fyrir spjóti hans“. 437 Paris svaraði henni aftur, og mælti: „Sær eigi hjarta mitt, kona, með þungum brígzlum! Menelás hafði nú að vísu sigur yfir mér með tilbeina Aþenu, en eg mun annað sinn yfir honum, því guðirnir eru og með mér. En heyr nú, göngum til hvílu og njótum yndis saman; því aldrei hefir elskan nokkuru sinni breitt sig svo yfir allt hjarta mitt, jafnvel ekki eftir það eg var nýbúinn að ræna þér, og eg sigldi burt úr hinni fögru Lakverjaborg, á hinum haffæru skipum, og hafði við þið samlag og yndi á eynni Kranáu: eins og eg elska þig nú, sigraður af sætri eftirlöngun“. Svo mælti hann og gekk til hvílu; fór hann á undan, en kona hans fylgdist með honum á eftir; lögðu þau sig þar bæði til svefns á útskornum legubekkjum. 449 Atreifsson gekk hingað og þangað um herinn, eins og óargadýr, ef hann gæti nokkurstaðar komið auga á hinn goðumlíka Alexander. En engi Tróverja eða hinna frægu liðsmanna gat þá vísað Menelási, ástvini Aresar, á Alexander; var það ekki af vinskap, að þeir leyndu honum; sagt mundu þeir hafa til hans, ef einhverr hefði séð hann, því allir hötuðu hann jafnt sem hina svörtu Valkyrju. Þá tók Agamemnon herkonungur til orða: „Heyrið mál mitt, þér Tróverjar og Dardanar og þér liðsmenn! Það er ljóst, að Menelás, ástvinur Aresar, hefir haft sigurinn. Skilið nú aftur Helenu hinni argversku og fjárhlutum hennar með henni, og gjaldið bætur, svo vér séum sæmdir af; skulu þær bætur til minnis vera eftirkomandi mönnum“. Svo mælti Atreifsson, og rómuðu hinir aðrir Akkear mál hans. FJÓRÐI ÞÁTTUR SÁTTAROF. LIÐSKÖNNUN AGAMEMNONS. Guðirnir söfnuðust hjá Seifi, og sátu í hinni gulllegu höll. Hin tignarlega Heba skenkti ódáinsvín fyrir þá, en þeir drukku hverir öðrum til af gullnum drykkjarkerum, og horfðu á borg Tróverja. Leitaðist Kronusson þá þegar við að egna skap Heru með móðgunarorðum, og skaut þessu eitt sinn fram á goðafundinum: „Tvær eru þær af gyðjunum, er veita lið Menelási, Hera, Argverjagoð, og Aþena, Alalkómenugoð, sitja þó og þykir gaman að horfa á, en koma hvergi nærri. Ólík er hin brosmilda Afrodíta þeim; hún hefir ávallt komið Parisi til hjálpar, og ver hann fyrir Valkyrjunum, og nú forðaði hún honum, þegar hann sá ekki annað sýnna, en hann mundi deyja; en Menelás, ástvinur Aresar, hafði þó sigurinn. Nú skulum vér ráðgast um, hversu þessi mál skulu fara, hvort vér eigum að vekja aftur illan ófrið og ógurlegan hergný, eða skulum vér koma á vináttu milli hvorra tveggju. Sé nú svo, að þetta sé öllum yður kært og ljúft, þá haldist enn mannbyggðin í borg Príamuss konungs, en Menelás fari aftur heim með Helenu hina argversku“. 20 Þannig mælti hann, en þær ískruðu við, Aþena og Hera; þær sátu hvor hjá annarri og höfðu illan hug til Trójumanna. Aþena þagði og mælti ekki orð; var hún reið Seifi, föður sínum, og grimm heift bjó í brjósti henni. En Hera hafði ekki rúm fyrir reiðina í brjósti sér, og því mælti hún til Seifs: „Harðráðasti Kronusson, en að þú skulir mæla slíkum orðum! Hví viltu gera ónýta og endasleppa fyrirhöfn mína, og sveita þann, er eg hefi sveitzt með miklu erfiði? Hestar mínir urðu þreyttir, þá eg var að safna liðinu móti Príami og sonum hans. Ger, sem þér lízt; en ekki munum vér, hinir guðirnir, verða allir á þínu máli“. 30 Seifi skýbólstraguði varð mjög þungt í skapi, og mælti til hennar: „Undarleg ertu! Hvað hefir þá Príamus og Príamssynir gert þér illt þess, að þú skulir svo ákaft vilja leggja í eyði hina rambyggðu Ilíonsborg? Ef þú mættir ganga inn um borgarhliðin og inn fyrir hina löngu veggi borgarinnar, og rífa í þig Príamus kvikan og Príamssyni og aðra Trójumenn, þá mundir þú svalað geta heift þinni! Ger þú, sem þér lízt; þessi keppni skal ekki verða að stóru deiluefni síðar meir milli okkar beggja, þín og mín. En eitt vil eg segja þér; legg það á hjarta þér. Hve nær sem eg vil í bræði minni leggja í eyði einhverja þá borg, þar sem ástvinir þínir búa, þá máttu í engu tálma heift minni, heldur láta mig sjálfráðan, fyrst eg veiti þér þetta fús, enn þótt það sé móti skapi mínu. Því af öllum þeim borgum jarðneskra manna, er byggðar eru undir sólunni og undir enum stirnda himni, virti eg mest af alhuga ena helgu Ilíonsborg og Príamus og menn hins spjótfima Príamuss, því aldrei brast þar á stalla mínum jafndeildan blótskammt, dreypifórn eða mörfórn, sem er sú heiðursgjöf, er oss guðunum ber“. [Mynd: Hera.] 50 Hin mikileyga, tignarlega Hera svaraði honum því næst: „Þrjár eru borgir þær, er mér eru kærstar allra, Argverjaborg, Sparta og hin strætabreiða Mýkena; þær borgir máttu í eyði leggja, hve nær sem þér rennur mjög í skap við bær; skal eg þá ekki fyrir þeim standa eða meina þér; því þó eg fyrirmuni þér og vilji ekki lofa að leggja þær í eyði, þá kem eg engu til leiðar að heldur, þar sem þú ert mér miklu máttkari. En þú átt heldur ekki að gera starfa minn árangurslausan, því eg em guð, eins og þú, og sömu ættar, sem þú: eg em dóttir hins brögðótta Kronusar, og hin veglegasta, hvortveggja af ætt minni, og sökum þess að eg em kona þín, sem ert yfirkonungur hinna ódauðlegu guða. En við skulum láta til hvort við annað í þessu, eg við þig, og þú við mig; munu þá hinir aðrir ódauðlegir guðir verða á okkar máli. Bjóð þú nú skjótt Aþenu að fara til hinna óttalegu hersveita Tróverja og Akkea, og freista, að Trójumenn geri að fyrra bragði á hluta hinna frægðarfullu Akkea gegn hinu eiðfesta sáttmáli“. 68 Svo mælti hún, en faðir manna og guða hlýddi henni, og mælti þegar skjótum orðum til Aþenu: „Far þú skjótt til herliðs Trójumanna og Akkea, og freista, að Trójumenn geri að fyrra bragði á hluta hinna frægðarfullu Akkea gegn hinu eiðfesta sáttmáli“. 73 Með þessum orðum eggjaði hann Aþenu, og var hún þó áður allfús að fara. Hún fór brunandi ofan af Ólympstindum, eins og stjarna sú, er sonur hins brögðótta Kronusar sendir til jarteiknar sjófarendum eða stórum herflokkum, skín hún skært, og skjótast út frá henni margir gneistar. Lík slíkri stjörnu brunaði Pallas Aþena til jarðar, og stökk niður í miðjan herinn; en hinir reiðkænu Trójumenn og hinir fagurbrynhosuðu Akkear urðu forviða, er þeir sáu hana. 85 Mælti þá margur, í því hann leit til þess, er hjá honum stóð: „Annaðhvort er, að aftur mun rísa illur ófriður og ógurlegur hergnýr, eða Seifur, sem stjórnar ófriði manna, gerir vináttu meðal hvorra tveggju“. Svo mæltu margir af Akkeum og Trójumönnum, en hún gekk í flokk Trójumanna í líki hins hrausta bardagamanns Ládoks Antenorssonar, og leitaði að hinum goðumlíka Pandarus, ef hún gæti fundið hann nokkurstaðar. Hún fann hinn ágæta og hrausta Lýkáonsson, þar sem hann stóð, en í kring um hann voru harðsnúnir flokkar skjaldmanna þeirra, er fylgzt höfðu með honum frá Esepsstraumum. Hún gekk að honum og mælti til hans skjótum orðum: „Gerðu nú nokkuð fyrir mig, herkæni Lýkáonsson. Hug muntu hafa til að hleypa skjótri ör að Menelási. Muntu þá fá þökk og sæmd af öllum Trójumönnum, og allra helzt af Alexander konungi; muntu fyrst fá hjá honum fagrar gjafir, ef hann sér hinn hergjarna Menelás Atreifsson verða á bál borinn, fallinn fyrir skeyti þínu. Heyr nú, skjót öru að hinum fræga Menelási. En heit á hinn fræga bogaguð Appollon, er fæddur er í Lýkíu, að fórna honum veglegri hundraðsfórn frumborinna ásauðarlamba, þegar þú kemur heim aftur til hinnar helgu Zelíuborgar“. 104 Þannig mælti Aþena, og fékk talið hann á þetta óráð. Pandarus tók fram boga sinn; hann var gerður af sléttfáguðu horni ólmrar villigeitar, er hann hafði sjálfur fellt; hafði hann sætt henni á einni snös, í því hún gekk ofan hamar nokkurn, gerði hæfing að henni undir bringuna, og kom skotið framan í brjóstið, og féll geitin upp í loft á hamarinn. Horn þau, er stóðu úr höfði geitarinnar, voru 16 þverhandir á lengd. Þessi horn tegldi hornsmiðurinn og skeytti þau saman, lét allt vera fágað og slétt, og gerði á gullbúinn álmbaug. Pandarus tók bogann og benti, lagði hann svo gætilega niður á jörð skáhallan. Hinir vösku félagar hans héldu skjöldum fyrir honum á meðan, svo hinir vigamannlegu synir Akkea skyldu ekki bregða við, fyrr en hinn víglegi Menelás Atreifsson væri skotinn. Pandarus tók nú lokið af örvamælinum, og tók þaðan fjaðraða ör, er aldrei hafði verið skotið með, undirstöðu banvænna sárinda. Hann bar nú skjótt hina bitru ör við bogastrenginn, og hét á hinn fræga bogaguð, hinn lýkborna Appollon, að fórna honum veglegri hundraðsfórn frumborinna ásauðarlamba, þá hann kæmi heim aftur til ennar helgu Zelíuborgar. Hann tók jafnframt um örvarskorurnar og sintaugarnar og togaði, dró þá bogastrenginn upp að brjósti sér, en örvarfleininn að bogarifinu. En er hann hafði bent hinn mikla boga, svo að hann var hringbeygður, þá gall boginn og þaut hátt við í bogastrengnum, en hin flugbeitta ör hrökk af strengnum, og langaði ólmt til að fljúga fram í flokkinn. 127 En hinir sælu, ódauðlegu guðir gleymdu þér ekki heldur, Menelás, og sízt hin hlutsæla dóttir Seifs, er stóð fyrir framan þig, og bægði frá þér hinu bitra skeyti: hún hélt því lítið eitt frá hörundinu, eins og þegar móðir bandar flugu frá barni sinu, þá það liggur og sefur vært; en sjálf stýrði hún skeytinu, þangað sem hinar gullnu brynbeltisspengur tóku saman og báðir brynjuboðangarnir mættust; kom hin bitra ör í hið nærskorna brynbelti, flaug í gegnum hið gersemlega brynbelti og í gegnum hina hagsmíðuðu brynju og í gegnum bryndregilinn, er hann bar til hlífðar sér til að verja sig spjótalögum; hlífði dregillinn honum oftast, en þó gekk örin þá einnig í gegnum hann, og risti skinnsprett á hörundi kappans, og lagaði þegar dökkt blóð úr undinni. 141 Svo sem þegar meónsk eða kárversk kona litar fílabein í purpuralit, til að hafa í kinnbjargir á hestabeizlum; er það fílsbein geymt í gripahirzlu, og vilja margir reiðmenn eignast það, en það er geymt þar sem kostgripur handa einhverjum konungi, því það er jafnt hestinum til búningsbótar, og til ágætis þeim, er keyrir (ekur): í þá líking lituðust í blóði bæði hin velvöxnu lær þín, Menelás, og fótleggirnir þar fyrir neðan, og svo öklarnir. 148 Þá varð herkonungurinn Agamemnon skelkaður, er hann sá hið dökkva blóð renna úr undinni; og þá skelfdist einnig sjálfur Menelás, ástvinur Aresar; en er hann sá, að girnið og krókarnir stóðu út úr, þá safnaðist aftur hugur í brjósti hans. En Agamemnon herkonungur stundi þungan og mælti þessum orðum, og hélt um hönd Menelásar, en félagar hans andvörpuðu við: „Þar gerði eg það sáttmál, kæri bróðir, er þér verður að bana, er eg lét þig einan ganga fram til að berjast við Trójumenn fyrir Akkea, því Trójumenn skutu þig og rufu hið eiðfesta sáttmál. Víst verður ekki til ónýtis sáttmálið og blóð lambanna og hinar óblönduðu dreypifórnir og handsöl þau, er vér treystum á. Því jafnvel þó hinn ólympski guð hafi ekki fullkomnað sáttmálið nú þegar, þá mun hann þó fullkomna það síðar, og þá hafa þeir þungu fyrir goldið, látið höfuð sín og konur sínar og börn sín. Því það veit eg með vissu í hug mér og hjarta, að sá dagur mun einhvern tíma koma, að hin helga Ilíonsborg og Príamus og menn hins spjótfima Príamuss munu að velli hníga; mun þá öndvegisguðinn Seifur Kronusson, er býr í uppheimsloftinu, skaka sjálfur að þeim öllum hinn ógurlega ægisskjöld, reiður af svikum þessum. Þetta mun ekki bregðast. En stór sorg verður það fyrir mig, Menelás, ef þú deyr og bíður nú skapadægur þitt. Þá mætti svo fara, að eg yrði með mestu óvirðingu að hverfa aftur til hinnar vatnslausu Argverjaborgar: því Akkear munu þegar verða heimfúsir til föðurjarðar sinnar; mætti þá svo fara, að vér létum Príami og Trójumönnum eftir óskina sína, Helenu hina argversku, en jörðin mun feyja bein þín hér í Trójulandi, þar er þú liggur fallinn, án þess þú hafir getað fram komið fyrirætlan þinni. Þá mun margur maður af hinum dramblátu Tróverjum segja, í því hann stökkur upp á haug hins fræga Meneláss: „ „Það væri betur, að Agamemnon kæmi svo fram heift sinni í öllu, sem hann fór nú hingað ónýtisför með her Akkea og hélt heim aftur tómum skipum til föðurjarðar sinnar, en skildi hér eftir hinn hrausta Menelás“ “. Þannig munu menn einhvern tíma að orði kveða, og heldur en það yrði, vildi eg að hin víða jörð brysti undir mér og sylgi mig“. 183 Hinn bleikhári Menelás hughreysti hann og mælti: „Vert ókvíðinn, og ger ekki her Akkea enn hræddan. Hin bitra ör kom ekki á mig banvænu sári, því hið liðuga brynbelti hlífði mér að framan, og þar undir brynskyrtan og bryndregillinn, er eirsmiðirnir gerðu“. 188 Agamemnon konungur svaraði honum og sagði: „Eg vildi óska, að svo væri, kæri Menelás. En læknirinn skal kanna sárið og leggja við lyf, er taki úr hina sáru verki“. 192 Að því mæltu sagði hann við Taltybíus, hinn ágæta kallara: „Taltybíus, kalla hingað sem skjótast á kappann Makáon, son Asklepíuss, hins ágæta læknis, til að skoða Menelás, hinn hergjarna foringja Akkea, því einhverr vel bogfær maður af Tróverjum eða Lýkverjum hefir sært hann með ör, sér til ágætis, en oss til angurs“. 198 Svo mælti hann, en kallarinn gerði, sem hann bauð, gekk þangað er fyrir var safnaður enna eirbrynjuðu Akkea, og skyggndist um eftir öðlingnum Makáon. Hann sá, hvar hann stóð, og í kring um hann hraustar sveitir skjaldaðra manna, er fylgdu honum frá hinni hestauðgu Trikkaborg. Hann gekk til hans, og mælti til hans skjótum orðum: „Kom, Asklepíusson; Agamemnon konungur kallar á þig til að skoða Menelás, hinn hergjarna fyrirliða Akkea, því einhverr Tróverja eða Lýkíumanna, sem vel er bogfær, hefir sært hann með öru, sér til ágætis, en oss til angurs“. 208 Þannig mælti hann, og hrærði hugann í brjósti hans. Þeir fóru þegar til enna víðu hersveita Akkea, og gengu inn um mannfjöldann, og komu þar, er hinn bleikhári Menelás var, er særður hafði verið; voru þar saman komnir í hring utan um hann allir hinir hraustustu ágætismenn, en hinn goðumlíki kappi stóð mitt á milli þeirra. Makáon dró þegar örina út úr hinu nærskorna brynbelti, en er örinni var kippt út aftur, brotnuðu af hinir hvössu krókar; þá spretti hann hinu liðuga brynbelti, og brynskyrtunni þar undir og bryndreglinum, er eirsmiðirnir höfðu búið til. En er hann hafði skoðað sárið, þar sem hin bitra ör hafði á komið, saug hann út blóðið, og bar á mýkjandi lyf, er hann þekkti, og sem Kíron hafði forðum gefið föður hans í velvildarskyni. 220 Meðan þeir stumruðu yfir hinum rómsterka Menelási, gengu að hersveitir enna tróversku skjaldmanna; fóru Akkear þá aftur í vopn sín og hugðu á bardaga. 223 Þá skyldi engi maður sjá, að hinn ágæti Agamemnon væri sofandi eða hugdeigur eða tregur að berjast; á hinu bar heldur, að hann flýtti sér út í hinn mannsæma bardaga. Hann lét eftir hesta sína og hina eirbúnu kerru sína; hélt sveinn hans Evrýmedon, sonur Tólemeuss Píreussonar, hestunum sér; voru þeir frýsandi af fjörinu; lagði Agamemnon ríkt á við hann að halda kerrunni í nánd við sig, ef hann yrði þreyttur af að ganga með hervaldi meðal svo margra manna. En hann fór á fæti og leit yfir hersveitir kappanna, um leið og hann gekk um herinn. Og sæi hann nokkura af riddurum Danáa flýta sér til bardagans, þá nam hann staðar hjá þeim, og upphvatti þá með þessum orðum: „Argverjar, látið ekki dvína yðar hamslausa þrek, því ekki mun faðir Seifur verða liðsinnandi griðníðingunum. Nei, gammar munu slíta hræ þeirra, er að fyrra bragði rufu sáttmálið, en vér munum flytja heim með oss á skipunum konur þeirra og ungbörn, þá er vér höfum náð borginni“. En ef hann sá nokkura slá slöku við hina óttalegu styrjöld, þá átaldi hann þá mjög, og var reiður í orðum: „Argverjar, þér örvaþrjótar, engin dáð er í yður, og ekki skammizt þér yðar! Hví standið þér svo agndofa, eins og hindarkálfar, sem hafa hlaupið sig þreytta út um víðan völl, og standa síðan með öllu þróttlausir. Svo standið þér agndofa, og berjizt ekki. Eða bíðið þér þess, að Trójumenn komi nær, þangað sem hin skutfögru skip eru sett upp á strönd hins gráa hafs, svo þér vitið, hvort Kronusson vilji halda hendi yfir yður?“ Þannig gekk hann um herinn með hervaldi, og kannaði hersveitir kappanna. 250 En er hann fór um herskarann, kom hann þar, er Kríteyingar voru; voru þeir að herklæðast í kring um hinn herkæna Idomeneif; Idomeneifur bjó sig meðal frumherjanna; hann hafði galtar afl, en Meríones rak á eftir enum öftustu flokkum í liði hans. Herkonungurinn Agamemnon varð glaður, er hann sá þá, og talaði þegar blíðum orðum til Idomeneifs: „Idomeneifur, eg virði þig um fram aðra reiðfima Danáa, bæði í hernaði og annars konar starfi, og svo í veizlum, þar sem ágætismenn Argverja blanda í skaftkerum hið skæra höfðingjavín; því þó aðrir hárprúðir Akkear drekki mælt, þá stendur þó ker þitt jafnan fullt, sem mitt, svo þú megir drekka, þegar þig lystir til. Fram nú, í orustuna, og vert slíkur sem þú segist hafa verið fyrrum“. 265 Idomeneifur, foringi Krítarmanna, svaraði honum: „Víst skal eg veita þér eins örugga fylgd, og eg lofaði þér í fyrstu. En eggja þú fram aðra hárprúða Akkea, svo vér megum sem fyrst byrja bardagann; því Trójumenn hafa rofið sáttmálið; munu þeir bíða bana og hörmungar, er þeir hafa brotið móti sáttmálinu að fyrra bragði“. 272 Þannig mælti hann, en Atreifsson gekk fram hjá, glaður í hjarta. Hann fór um mannfjöldann, og kom þangað sem Ajantar voru; þeir bjuggust til orustu, og fylgdi þeim urmull fótgöngumanna. Eins og þá geitahirðir sér ofan af einhverju leiti ský reka yfir haf fyrir vestanvindi; af því hann er sjálfur langt í burtu, sýnist honum það svartara, en það á að sér, eins og bik, þar sem það gengur yfir hafið, og færir með sér mikið óveður; en er hann sér skýið, verður hann hræddur og rekur fé sitt inn í einhvern helli: í þá líking fluttust hinar þéttu, blásvörtu fylkingar enna seifbornu kappa fram í hinn mannskæða bardaga kringum þá Ajanta, reistar með skjöldum og spjótum. Varð Agamemnon herkonungur glaður, er hann sá þá, tók til orða og mælti til þeirra skjótum orðum: „Þér Ajantar, foringjar enna eirbrynjuðu Argverja, yður býð eg ekkert, því óþarfi er að eggja yður, þar þér af sjálfum yður eggið liðið til að berjast af afli. Faðir Seifur og Aþena og Appollon, eg vildi óska, að allir ættu slíkan hug í brjósti sér, þá mundi borg Príamuss konungs bráðum að velli hníga, tekin verða og lögð í eyði af oss“. 292 Að því mæltu gekk hann frá þeim, og fór til annarra. Þá fann hann Nestor, hinn snjallmælta snilling Pýlverja; var hann að fylkja félögum sínum, og eggja til framgöngu þá Pelagon, Alastor og Kromíus, Hemon konung og þjóðhöfðingjann Bías. Hann skipaði fyrstum riddurunum með hestum og kerrum, en aftast setti hann marga hrausta fótgöngumenn, svo sem vörzlugarð í orustunni, en ragmennin rak hann í miðja fylkingu, svo hverr yrði neyddur til að berjast, þó hann vildi ekki. Hann áminnti fyrst riddarana, og bað þá halda aftur hestum sínum, og riðlast ekki í mannfjöldanum: „Engi treysti svo reiðkænsku sinni og karlmennsku, að hann hleypi einn saman fram fyrir aðra til að berjast við Trójumenn; engi hörfi heldur á hæl aftur, því við það verðið þér aflaminni. En hverr maður, sem nær öðrum vagni, sæti spjótalögum af sínum vagni sjálfs, og er þetta miklu betra, og með því móti lögðu fyrri menn í eyði borgir og múrveggi, að þeir geymdu það ráðlag og þá ætlun í brjósti sér“. 310 Hinn gamli maður, er vanur var bardögum frá fyrri tíð, eggjaði þannig liðið; en herkonungurinn Agamemnon gladdist, er hann sá hann, og talaði til hans skjótum orðum: „Eg vildi óska, gamli maður, að styrkurinn í knjám þínum væri að því skapi, sem hugur er í hjarta þér, og að kraftar þínir væru óskertir. En nú beygir ellin þig, sem aðra þína líka; væri betur, að einhverr annar manna minna væri á þínu reki, en þú á yngra skeiði!“ 317 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Þess mundi eg og sjálfur óska, Atreifsson, að eg væri nú líkur því, er eg var, þá er eg vó hinn ágæta Erevþalíon. En guðirnir veita mönnunum ekki allt ávallt. Þó eg væri ungur þá, hefir þó ellin yfirstigið mig nú. En allt fyrir það mun eg fylgja riddaraliðinu, og segja fyrir með ráðum og orðum, því það er ellinnar sómi; en spjótunum skulu skjóta hinir yngri menn, sem mér eru vopnfærari og treysta á krafta sína“. 326 Þannig mælti hann, en Agamemnon gekk þaðan, glaður í hjarta. Hann fann riddarann Menesteif Petásson; hann stóð, og í kring um hann hinir herkænu Aþenumenn. Skammt þaðan stóð hinn ráðagóði Odysseifur, og umhverfis um hann stóðu flokkar Kefallena ekki allárennilegir. Höfðu menn þeirra enn ekki spurt um ófriðinn, því þá var nýkomin hreyfing á herflokka hvorratveggju, hinna reiðkænu Tróverja og Akkea, er þeir tóku til að þokast fram til orustu; þeir Menesteifur stóðu því, og biðu þess, að einhver önnur sveit Akkea réðist á Trójumenn og vekti bardagann. En er herkonungurinn Agamemnon sá þá, átaldi hann þá, og talaði til þeirra skjótum orðum: „Þú sonur Petáss konungs, fóstursonar Seifs, og þú Lævís, frábærlegur í meinlegum slægðum! Hví standið þið álengdar óttafullir, og bíðið annarra? Sæmra er ykkur að standa fremstir í flokki og ganga út í hinn brennheita bardaga. Því ávallt þegar vér Akkear efnum til veizlu handa höfðingjum, þá eruð þið báðir jafnan í boði mínu. Þá þykir ykkur gaman að eta steikt kjöt og drekka sætt vín af borðkerum, svo lengi sem ykkur lystir; en nú sæjuð þið gjarna, þó tíu sveitir Akkea berðust fyrir framan ykkur með hörðum eirvopnum“. 349 Hinn ráðagóði Odysseifur leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Hvaða orð kom þér af vörum, Atreifsson? Hversu getur þú sagt, að við séum afskiptalausir af orustunni? Þegar vér Akkear vekjum snarpan bardaga við hina reiðkænu Trójumenn, þá muntu sjá, ef þú vilt, og sé þér nokkuð um það hugað, að faðir Telemakkuss á vopnaskipti við frumherja hinna reiðkænu Trójumanna. En þetta, er þú talar nú, er hégómamál“. 356 Agamemnon herkonungur brosti, þá hann varð þess var, að hann reiddist; vék hann þá á aðra leið orðum sínum og mælti til hans: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Hvorki þarf eg að átelja þig svo mjög, eða eggja þig fram; því eg veit, að hjartað í brjósti þínu er mér vel viljað, og hugarfar þitt hið sama sem mitt. En heyr þú, hafi nú eitthvert meinsyrði verið mælt, þá munum við jafna það með okkur síðar; en láti guðirnir það allt að engu verða“. 364 Að því mæltu skildist hann við þá, og gekk til annarra. Hann fann Týdeifsson, hinn ofurhugaða Díómedes, þar sem hann stóð uppi á hinni málmbúnu kerru sinni, og hjá honum Stenelus Kapaneifsson. Og er Agamemnon herkonungur sá hann, þá ávítti hann hann, talaði til hans skjótum orðum og mælti: „Sonur hins herkæna riddara Týdeifs, hví æðrast þú? hví gónir þú á herkvíarnar? Ekki var það vandi Týdeifs, að æðrast svo, heldur að berjast við óvinina fremstur í flokki félaga sinna. Svo sögðu þeir, er sáu atfarir hans; því okkar fundum bar aldrei saman, svo að eg sæi hann; en það segja menn, að hann væri afbragð annarra manna. Hann fór eitt sinn frá hernum og kom til Mýkenu sem gestfélagi, ásamt hinum goðumlíka Polýníkes; var hann þá í liðsbón, því þeir höfðu þá herbúðir sínar hjá hinum helgu veggjum Þebuborgar; skoruðu þeir Polýníkes á Mýkenumenn að fá þeim góða liðveizlumenn; voru Mýkenumenn fúsir á það, og hétu þeim liði, svo sem þeir mæltust til; en Seifur aftraði þeim frá því, með því hann lét þeim birtast óheillavænlega fyrirburði. Eftir það héldu þeir þaðan og fóru leiðar sinnar, en er þeir komu á hina sefgrónu og grasvöxnu Asópsbakka, þá sendu Akkear Týdeif aftur á njósn; fór hann og hitti fjölda af Kadmeum, þar er þeir sátu að veizlu í höll hins volduga Eteókless. Ekki lét riddarinn Týdeifur sér bilt við verða, þó hann, útlendur maður, væri einn sér meðal margra Kadmeumanna, heldur skoraði hann á þá til kappleiks; vann hann sigur og tók upp öll verðlaunin; veitti honum það hægt, því Aþena var bjargvættur hans. Þá reiddust hinir reiðkænu Kadmear, fóru til fjölmennir og gerðu honum fyrirsátur á heimleiðinni; það voru fimm tugir manna; voru tveir fyrirliðar fyrir þeim, Meon Hemonsson, er líkur var hinum ódauðlegu guðum, og hinn vígrakki Polýfontes Átofonsson. En Týdeifur lét þá fara sneypuför, og drap þá alla, nema einn, sem hann sendi heim; það var Meon; gerði hann það af hlýðni við fyrirburði þá, er guðirnir sendu. Slíkur maður var Týdeifur hinn etólski. En þessi sonur hans, sem hann átti, er minni bardagamaður en hann, þó hann sé mælskari“. 401 Þannig mælti hann, en hinn sterki Díómedes anzaði engu; svo mikils virti hann átölur hins virðulega konungs. Þá svaraði sonur hins fræga Kapaneifs: „Far þú ekki með ósannindi, Atreifsson, þar er þú veizt sannara að segja. Svo þykir okkur, sem við séum stórum ágætari, en feður okkar. Við tókum hina sjöhliðuðu Þebuborg, og gengum fámennir upp undir Aresarvegg, því við treystum jarteiknum guðanna og fulltingi Seifs; en feður okkar týndust fyrir sakir offrekju sinnar. Eg bið þig því, að taka aldrei feður okkar að virðingu til jafns við okkur“. 411 Hinn sterki Díómedes leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Hlýddu orðum mínum, gamli maður, þegi þú og sezt niður. Eg lái ekki þjóðhöfðingjanum Agamemnon, þó hann eggi fram hina fagurbrynhosuðu Akkea til að berjast; því hann mun hljóta frægð af því, ef Akkear sigra Trójumenn og ná hinni helgu Ilíonsborg; en aftur verður honum það mikil raun, ef Akkear verða sigraðir. Heyr þú, látum okkur einnig sýna af okkur hamslausa hreysti!“ 419 Í því er hann sagði þetta, hljóp hann ofan af kerrunni í herbúnaðinum; glamraði þá ógurlega í eirbrynjunni á brjósti konungsins, þá hann stökk ofan, svo jafnvel hugdjarfasta manni hefði mátt blöskra við. 422 Eins og hafalda, sem æsist upp hvað eftir annað við brimótta strönd af vestanstormi, er rekur hana af stað; fyrst tekur hún sig upp úti á rúmsjó, brotnar síðan við landið og drynur hátt, en við útskagana þeytist upp holgeifla, og spýr úr sér sjóarfroðunni: í þá líking sóktu herflokkar Danáa án afláts hvorr eftir annan fram á vígvöllinn; skipaði hverr sveitarhöfðingi fyrir sinni sveit, en hermennirnir gengu þegjandi og óttuðust yfirboðara sína í hljóði, og ekki mundir þú geta leitt þér í hug, að svo mikill mannfjöldi, sem þá fylgdi þeim, hefði nokkurt hljóð í brjósti sér. En alla vega lit vopnin glóuðu á öllum, þar er þeir gengu í herskrúðinu. Aftur voru Trójumenn líkir ótallegum fjölda af ám, er standa í kvíum auðugs fjárbónda, og eru síjarmandi, meðan verið er að mjólka úr þeim hina hvítu mjólk, af því þær heyra til lambanna: eins reis upp herglaumur mikill um hinar stóru hersveitir Trójumanna. Þó var ekki glaumurinn í öllum hinn sami eða raustin söm, því tungumál þeirra var blandað, er þeir voru víða að komnir. Akkea eggjaði fram hin glóeyga Aþena, en Tróverja Ares og Óttinn og Flóttinn og Þrætan; hún geisaði án afláts, og var systir og lagskona hins mannskæða Aresar; hún er í fyrstu lítil, en magnast svo, að höfuð hennar nemur um síðir við himni, en hún gengur á jörðunni; hún fór þá um mannfjöldann, skaut jöfnu kífi inn milli hvorratveggju, og jók á andvörpun mannanna. 446 En er þeir voru komnir saman á einn stað, þá laust saman skjöldum og spjótum og afli hinna eirbrynjuðu kappa, hinir bunguðu skildir skullust á, og mikill hergnýr hófst. Gerðist þar þá bæði vein og fagnaðaróp af mönnum þeim, er drápu og drepnir voru, en jörðin flaut í blóði. Eins og tvö fljót, sem vöxtur kemur í á vetri, falla fram úr stórum vatnsstæðum, og renna ofan eftir fjöllunum í gljúfrum, og steypa saman stríðu vatnsmegni niður í fjallhvilft, svo smalamaður heyrir niðinn í fjöllunum langt burtu: líkur því var sá gnýr og sú ógn, er af þeim stóð, þá þeim lenti saman. 457 Fyrstur drap Antílokkus einn mann tróverskan, hertýgjaðan, hraustan frumherja, Ekeþólus Þalysíusson: hitti hann fyrstur í bóluna á hinum fexta hjálmi hans, og festi eiroddinn í enninu og gekk inn í bein; sé þá sorti fyrir augu hans, og féll hann í hinum harða bardaga, svo sem þá turn hrapar. Elfenor konungur Kalkódontsson, foringi hinna hugstóru Abanta, tók í fætur hans, er hann féll, og tók til í ákafa að draga hann úr skotfæri, svo hann gæti flett hann vopnum sem fyrst. En sá ákafi hans varði skamma stund, því þá er hinn hugstóri Agenor sá, að hann dró hinn dauða, og að skjöldinn bar frá síðunni, er hann laut, þá lagði hann eirslegnu spjóti í síðu hans og gerði limu hans lémagna; lét hann svo líf sitt, en ofan á líki hans áttu Trójumenn og Akkear erfiðlegt starf; stukku hvorir á aðra, sem úlfar, og felldi þar maður mann. 473 Ajant Telamonsson skaut þar Símóisíus Anþemíonsson, ungan kappa; móðir hans ól hann á Símóisbökkum, þá hún eitt sinn gekk ofan frá Ídafjalli; hafði hún fylgzt með foreldrum sínum til að skoða sauðféð; og því kölluðu þau hann Símóisíus. En ekki galt hann foreldrum sínum fósturlaunin, því hann varð skammlífur og féll fyrir spjóti hins hugstóra Ajants: skaut Ajant í brjóst honum, þar er hann gekk fremstur, við hægri geirvörtuna, og kom eirspjótið út um öxlina hins vegar; en hann féll niður í moldina, eins og ösp sú, er vaxin er upp í stórri mýrarveitu; er bolur hennar greinalaus, en efst á henni vaxa kvistir; þessa ösp höggur kerrusmiðurinn upp með fagri járnöxi, til að gera af hjólbaug undir fagra kerru, liggur svo öspin þar uppþornuð á árbakkanum: í þá líking felldi hinn seifborni Ajant Símóisíus Anþemíonsson. Þá skaut hinn brynkviki Antífus Príamsson bitru spjóti til hans í flokkinn, og missti hans, en spjótið kom í nárann á Levkusi, hinum hrausta félaga Odysseifs; hann var þá að draga dauðan mann sín megin; valt hann þá um náinn og missti hann úr hendi sér. Odysseifur varð reiður í skapi, er félagi hans var drepinn; hann gekk í gegnum frumherjana, búinn skínanda eirskrúði; hann gekk mjög að fram, litaðist um, og skaut fögru spjóti, en Trójumenn hrukku undan, er kappinn skaut. Ekki missti Odysseifur, þar er hann skaut til; kom skotið í Demókóon, launson Príamuss; hann hafði komið til hans, frá Abýdus, frá hinum fljótu hryssum. Odysseifur skaut til hans spjótinu, reiður af falli félaga síns; kom spjótið í gagnaugað, og gekk eiroddurinn út um hitt gagnaugað; sé þá sorti fyrir augu hans; varð dynkur mikill, er hann féll, og glömruðu vopnin ofan á honum. Þá hörfuðu þeir undan, forvígsmennirnir og hinn frægi Hektor, en Argverjar æptu hátt og drógu til sín þá, er fallið höfðu, og sóktu fram miklu lengra. Þá reiddist Appollon, er hann leit niður af Pergamus, og kallaði hátt til Trójumanna: „Upp, upp, þér hestfimu Trójumenn, og víkið ekki úr orustu fyrir Argverjum; því ekki er líkami þeirra steinn eða járn, að þeir fái staðizt bitvænlegt eirvopn, ef á þá kemur. Akkilles, sonur hinnar hárfögru Þetisar, er nú heldur ekki í orustunni, heldur meltir hann með sáran hug bræði sína niðri hjá skipunum“. 514 Þannig mælti hinn óttalegi guð frá borginni, en Trítógenía, hin veglega dóttir Seifs, eggjaði fram Akkea, gekk um mannfjöldann, og hvatti liðið, þar sem hún sá einhverr lá á liði sínu. 517 Þá fjötraði skapanornin Díóres Amarynkeifsson; hann fékk steinshögg í hægra fótlegginn við öklann af hrufóttum vopnsteini; þeim steini kastaði foringi þrakneskra manna, Píróus Imbrasusson, er komið hafði frá Enusborg; marði hinn ofsalegi steinn í sundur báðar aflsinarnar og beinin; féll maðurinn þá upp í loft til jarðar, og fórnaði báðum höndum til vina sinna í andarslitunum; en Píróus, sem kastað hafði, hljóp til og hjó með spjóti á naflann; ultu þá út öll iðrin, en sorti sé fyrir augu mannsins. En meðan Píróus ruddist áfram, skaut Þóant hinn etólski hann með spjóti í brjóstið fyrir, ofan geirvörtuna, og gekk eirvopnið á kaf inn í lungun; gekk Þóant þá nær honum, og kippti hinu sterka spjóti út úr brjóstinu, en brá svo hinu bitra sverði, og hjó með því um þveran kviðinn, og varð það hans bani. Ekki fletti Þóant hann vopnum, því félagar Píróuss, hinir kollhærðu Þrakverjar, stóðu í kring um hann með löng spjót í höndum; hrundu þeir Þóanti frá sér, þó hann væri mjög stór og hraustur og vaskur, og fór hann þá undan þeim í flæmingi. Þannig lágu þeir báðir að velli lagðir hvorr hjá öðrum, fyrirliði Þrakverja (Píróus) og foringi hinna eirbrynjuðu Epea (Díóres), og kringum þá féllu og margir menn aðrir. 539 Þar hefði engi maður getað álasað neinum fyrir framgöngu, þó hann hefði mátt ganga þvert um herinn fram og aftur, óskotinn og ósærður af bitru eirvopni, og leiddi Pallas Aþena hann við hönd sér og verði hann fyrir skotum; því þann dag lágu margir Trójumenn og Akkear flatir á grúfu hvorr hjá öðrum á vígvellinum. FIMMTI ÞÁTTUR AFREKSVERK DÍÓMEDESS. NÚ veitti Pallas Aþena Díómedes Týdeifssyni styrk og áræði, svo hann yrði auðkenndur um fram alla Argverja og öðlaðist góðan orðstír. Hún lét óaflátlegan eld brenna af hjálmi hans og skildi, líkan frumhaustsstjörnunni, er skín skærast, þá hún hefir laugað sig í útsænum. Slíkan eld lét hún brenna af höfði hans og herðum, og hleypti honum fram á vígvöllinn, þar sem ösin var mest. 9 Með Trójumönnum var maður nokkurr, að nafni Dares; hann var auðugur maður og göfugur, hofgoði Hefestuss. Hann átti tvo sonu, Fegeif og Ídeus; þeir kunnu báðir vel alls konar herskap. Þeir skildu sig frá sínum mönnum og sóktu báðir móti honum; óku þeir á kerru, en hann var á velli fótgangandi, og reiddi hátt vopnin. Og er þeir áttu skammt hvorir til annarra, þá skaut Fegeifur fyrst löngu spjóti, og kom spjótsoddurinn fyrir ofan vinstri öxl Týdeifssonar, og varð hann ekki sár. Því næst reiddi Týdeifsson eirvopnið, og missti hann ekki, þar er hann skaut til; kom spjótið í brjóstið milli geirvartnanna, og hratt honum ofan af kerrunni. Þá hljóp Ídeus af kerrunni og stökk á burt, og þorði ekki að verja lík bróður síns, og jafnvel hefði hann ekki undan stýrt hinni svörtu Valkyrju, nema Hefestus hefði komið honum undan og frelsað hann, með því að bregða yfir hann myrkva, svo hinn aldraði maður, hofgoði hans, yrði eigi um of harmþrunginn. Sonur hins hugstóra Týdeifs rak nú burt hestana, og fékk þá félögum sínum, til að flytja þá til enna holu skipa. En er hinir hugstóru Trójumenn sáu, að annar Daressona flýði, en hinn lá dauður hjá kerrunni, þá féllst þeim öllum hugur; en hin glóeyga Aþena tók í hönd hins ólma Aresar og mælti til hans: „Ares, Ares, mannskæði guð, blóðflekkaði guð, veggjabrjótur! Mundi ekki bezt, að við létum Trójumenn og Akkea berjast eina sér, svo við sjáum, hvorum þeirra faðir Seifur veitir sigur, en að við bæði víkjum burt og forðumst reiði Seifs?“ 35 Að því mæltu leiddi hún hinn ólma Ares úr orustunni, og lét hann setjast niður á Skamandersbökkum. En Danáar sneru Trójumönnum á flótta, og sérhverr af fyrirliðum þeirra felldi þá einn mann. Fyrst steypti Agamemnon herkonungur hinum mikla Ódíus, höfuðsmanni Alizóna, ofan úr kerrustólnum; því Ódíus snerist fyrstur á flótta; lagði Agamemnon þá spjóti á honum; kom lagið í bakið milli herðanna og gekk út um brjóstið; féll hann þá, og varð dynkur mikill, en vopnin glömruðu ofan á honum. 43 Idomeneifur drap Festus Bórusson hins meónska; hann hafði komið frá hinni frjólendu Törnuborg. 48 Hinn spjótfimi Idomeneifur lagði hann með löngu spjóti í hægri öxlina, í því hann vildi stíga á kerru sína; hraut hann þá ofan af kerrunni, og sveif yfir hann hræðilegt myrkur, en sveinar Idomeneifs flettu hann vopnum. Menelás Atreifsson vó hinn veiðikæna Skamandríus Strófíusson með beittu spjóti; hann var ágætur veiðimaður, því Artemis hafði kennt honum sjálf að skjóta alls konar villidýr, er skógar ala á fjöllum uppi. En hin örvumglaða Artemis varð honum þá ekki að liði, og ekki langskeyti hans, er hann hafði fyrrum um fram alla menn aðra; því hinn spjótfrægi Menelás Atreifsson lagði spjóti í bak hans meðal herðanna, þá hann flýði á undan honum; gekk lagið út um brjóstið, en hann féll á grúfu, og glömruðu vopnin ofan á honum. 59 Meríónes drap Fereklus Harmonsson smiðs, hann var hagur á alls konar völundarsmíði, því Pallas Aþena unni honum meir en öðrum mönnum; hann hafði smíðað fyrir Alexander hin jafnbyrðu skip, þau er upphaf voru til ógæfunnar og urðu Trójumönnum, svo og sjálfum honum, til óhamingju, því hann vissi ekki goðaspárnar. Meríónes elti hann og náði honum, og lagði í hægra þjóhnapp honum, og gekk oddurinn þvers í gegnum blöðruna fyrir neðan beinið, en hann féll á kné hljóðandi, og sveif dauðinn yfir hann. 69 Meges drap Pedeus Antenorsson; hann var laungetinn, en hin ágæta Þeanó ól hann upp með allri virkt jafnt börnum sjálfrar hennar; gerði hún það manni sínum til geðs. Hinn spjótfimi Fýleifsson gekk að honum, og lagði beittu spjóti í höfuð hans í hnakkabeinið; gekk eirvopnið í gegnum tennurnar og skar úr tunguna, en hann féll til jarðar og beit tönnum kaldan málminn. 76 Evrýpýlus Evemonsson drap hinn ágæta Hypsenor, son hins ofurhugaða Dolópíons, sem var hofgoði Skamanders og virtur af landslýðnum sem einhverr goðanna. Hinn frægi Evrýpýlus Evemonsson hljóp eftir honum, þar sem hann flýði á undan honum, óð að honum með sverðið og hjó á öxlina, og sneið af honum hina sterku hönd; féll höndin blóðug til jarðar, en dökkrauður dauðinn og hin sterka skapanorn gagntók augu hans. 84 Þannig börðust þeir í hinni römmu orustu. En ekki mátti sjá, með hvorum Týdeifsson var, hvort hann var í flokki Trójumanna eða Akkea; því hann æddi um völlinn, líkur bakkafullu vatnsfalli, sem rennur hart og ryður burt flóðgörðunum; því hvorki hamla því hlaðnar stíflur, né girðingar í kring um hina blómlegu aldingarða, þegar það kemur allt í einu, og þungarigning Seifs steypist ofan á það; falla þá um koll mörg fögur andvirki manna fyrir vatnsflóðinu. Þannig riðluðust hinar þéttu fylkingar Trójumanna fyrir Týdeifssyni, og biðu þeir hans ekki, þó þeir væru mannmargir. 95 En er Lýkáons frægi son varð þess var, að hann hamaðist um völlinn og hrakti á undan sér flokkana, þá brá hann við og benti hinn bjúga boga móti Týdeifssyni, skaut til hans, í því hann óð fram, og hitti í hægri öxl hans, í brynjuboðanginn; flaug hin bitra ör í gegn og kom út hins vegar, en brynjan litaðist blóði. Þá kallaði Lýkáons frægi son hátt upp: „Upp, þér hugstóru Trójumenn, hestakeyrendur! því nú er skotinn hinn hraustasti maður Akkea; hygg eg hann ekki muni af bera lengi hið sterka skeyti, svo framarlega sem hinn voldugi guð, sonur Seifs, sendi mig af stað, þá eg fór frá Lýkíu“. 106 Þannig mælti hann og hældist um; en hið fljóta skeyti vann ekki á Díómedes að fullu, heldur hörfaði hann aftur og nam staðar fyrir framan kerru sína og hesta, og mælti til Stenelus Kapaneifssonar: „Upp, kæri Kapaneifsson, stíg niður af kerrunni og drag hina bitru ör úr öxl minni“. 111 Svo mælti hann, en Stenelus stökk ofan af kerrunni til jarðar, gekk til hans og kippti hinu fljóta skeyti út úr öxlinni, stóð þá blóðboginn út um þá hringofnu brynjustúku. Þá bað hinn rómsterki Díómedes: „Heyr bæn mína, Atrýtóna, dóttir Seifs ægisskjalda! Hafir þú nokkurn tíma hugaðlátlega verið hjástoð föður míns í ófriði við óvini hans, þá vert mér nú einnig unnandi, Aþena; gef, að eg vinni á þeim manni, og að sá maður komi í skotfæri mitt, er fyrri varð til að særa mig, og hælist nú um, og segir, að eg muni ekki lengi hér eftir líta hið skæra ljós sólarinnar“. 121 Svo mælti hann biðjandi, en Pallas Aþena heyrði bæn hans, og gerði liðuga limu hans, hendur og fætur; hún gekk að honum og mælti til hans skjótum orðum: „Berst nú öruggur, Díómedes, móti Trójumönnum, því nú hefi eg komið í brjóst þér óskelfdum hugmóð föður þíns, slíkum er hafði hinn skjaldfimi riddari Týdeifur. Eg hefi og numið burt frá augum þér hulu þá, er áður var yfir þeim, svo þú getir gert deili á guði og manni. Þú skalt því nú ekki ganga í berhögg við ódauðlega guði, þó svo verði, að einhverr guð komi hér og leiti á þig, nema ef Afrodíta, dóttir Seifs, kemur í orustu, þá skaltu særa hana með hvössu eirvopni“. 132 Að því mæltu gekk hin glóeyga Aþena burt, en Týdeifsson fór aftur þangað, sem frumherjarnir voru, og svo ákafur sem hann hafði áður verið að berjast við Trójumenn, þá kom nú í hann þrefalt meiri hugmóður, eins og í ljón, er stokkið hefir inn yfir sauðhússgarð, þegar smalamaður, er gætir hinna ullarmiklu sauða á landsbyggðinni, veitir því skeinu, en drepur það ei til fulls; hann æsir upp í því ofsann, gefur síðan upp alla vörn og skríður inn í smalahúsin; flýja þá sauðirnir, þegar engi er hjá þeim, og liggja dauðir hverr hjá öðrum, en ljónið stökkur geyst út yfir hinn háva sauðhússgarð. Slíkur móður var í hinum sterka Díómedes, þá hann réðst á Trójumenn. 144 Þar drap hann Astýnóus og þjóðhöfðingjann Hýpíron; annan þeirra skaut hann með eirslegnu spjóti fyrir ofan geirvörtuna, en hjó með stóru sverði á viðbein hinum við öxlina, og sneið öxlina frá hálsinum og hryggnum. Síðan lét hann þá liggja þar, en sókti að þeim Abanti og Polýídus, sonum Evrýdamants, hins aldraða draumaspámanns; hafði hinn aldraði maður ekki útþýtt fyrir þeim drauma sína, áður þeir fóru heiman, og því drap hinn sterki Díómedes þá. Síðan fór hann eftir þeim Ksantus og Þóni Fenópssonum; þeir voru báðir elligetnir; var faðir þeirra þá hrumur af elli, og átti engan son, fyrir utan þá, til að láta erfingja eftir sig að eigum sínum. Díómedes drap þá og tók hvorn tveggja af lífi, en eftirlét föður þeirra harm og sárar sorgir, því hann heimti þá ekki lífs aftur úr orustunni, en útarfar skiptu með sér eigunum. 159 Þá náði hann tveimur sonum Príamuss Dardansniðja, þeim Ekemon og Kromíus; þeir voru báðir á einni kerru. Svo sem ljón stökkur í nautaflokk, og hálsbrýtur þar kvígu eða kálf, sem eru á beit í einhverjum skógarrunni: svo steypti Týdeifsson þeim báðum ofan af kerrunni nauðugum, og fóru þeir illa för; síðan fletti hann þá vopnum, en fékk sveinum sínum hestana, að reka þá til skipanna. 166 En er Eneas sá, að Díómedes eyddi herflokkana, þá gekk hann fram í bardagann og spjótadrífuna, og leitaði, ef hann fyndi einhverstaðar hinn goðumlíka Pandarus. En er hann fann hinn ágæta og hrausta Lýkáonsson, gekk hann fyrir hann og mælti: „Hvað er nú orðið, Pandarus, af boga þínum og hinum fjöðruðu örvum, og af atgjörvi þinni? Engi maður, sem hér er, jafnast við þig í þeirri íþrótt, og jafnvel þykist engi í Lýkíu vera þér fremri. Heyr nú, fórna upp höndum til Seifs, og skjót ör að manni þeim, sem þar er, hverr sem hann er, sem veður hér yfir og hefir þegar gert Trójumönnum margt illt, því hann hefir mörgum hraustum manni á kné komið; nema þessi maður sé einhverr guð, sem sé reiður Trójumönnum og hafi á þeim heiftarhug sökum einhverra blóta: því reiði guðs leggst þungt á“. 179 Lýkáons frægi son svaraði honum: „Eneas, höfðingi hinna eirbrynjuðu Trójumanna! Mér sýnist hann vera að öllu líkur hinum herkæna Týdeifssyni; þekki eg hann af skildinum og pípuhjálminum og af hestunum; þó er eg ekki viss um, nema vera kunni einhverr af guðunum. En sé þessi maður hinn herkæni Týdeifsson, sem eg hygg vera, þá kæmi ekki á hann þessi berserksgangur, nema einhverr goðanna væri með honum; mun víst einhverr hinna ódauðlegu guða standa hjá honum, sveipaður skýi um herðar; hefir hann stýrt hinu fljóta, hæfna skeyti frá þessum manni og stefnt því eitthvað annað. Því nýlega sendi eg honum skeyti, og kom skotið í hægri öxl hans og gekk í gegnum brynjuboðanginn; hugði eg, að eg mundi senda hann til Hadesar, en eg vann þó ekki á honum að fullu, og mun víst einhverr guð vera mér reiður. Hér er nú engin kerra með hestum, þó eg vildi aka; en í höll Lýkáons eiga að vera ellefu fagrar kerrur, sterkar, nýsmíðaðar, og er tjaldað dúkum umhverfis þær; hjá hverri kerru standa tveir samokshestar, og eta þeir hvítabygg og einkorn. Hinn aldraði maður, hinn spjótfimi Lýkáon lagði að vísu ríkt á við mig, áður eg fór heiman, að eg skyldi stýra liði Trójumanna á kerru; en eg gegndi honum ekki, því var verr, þar eg var hræddur um, að hestana mundi skorta fóður, er borgin var umsetin, en þeir vanir að hafa nóg að eta. Varð þá svo, að eg skildi þá eftir, en fór fótgangandi til Ilíonsborgar, og reiddi eg mig á boga minn; en hann átti ekki að verða mér að liði, því nú hefi eg skotið að tveimur hinum hraustustu mönnum, Týdeifssyni og Atreifssyni, og særði eg hvorn tveggja svo, að víst var, að þeim blæddi báðum, en eg æsti þá upp enn meir við það. Tók eg því illu heilli hinn bjúga boga ofan af naglanum, þann dag er eg gerði það hinum ágæta Hektor til vilja, að fara fyrir Tróverjum til hinnar fögru Ilíonsborgar. En fari svo, að eg komist heim aftur og líti augum föðurland mitt og konu mína og mitt mikla, háreista hús, þá skal útlendur maður höggva höfuð af mér, ef eg ekki skal brjóta sundur þenna fagra boga handa milli og kasta honum á eld; því það er til einskis, að hann fylgi mér“. 217 Eneas, foringi Trójumanna, svaraði honum: „Mæl ekki svo, en ekki mun hér fyrr önnur skipan á verða, en við förum báðir vopnaðir á kerru móti þessum manni og reynum okkur við hann eftir megni. Heyr nú, stíg á kerru mína, svo þú sjáir, hve góðir Tróshestar eru, og hve fimir þeir eru bæði í skjótum eltingum víðs vegar á vígvelli, og svo til að hörfa aftur og flýja; munu þeir geta komið okkur heilum aftur til borgarinnar, ef svo fer, að Seifur veitir Díómedes Týdeifssyni sigur aftur. Tak nú við svipu minni og hinum glæsilegu taumum, en eg skal stíga á kerruna og berjast; eða taktú móti þessum manni, en eg skal annast hestana“. 229 Lýkáons frægi son svaraði honum: „Eneas, haltú sjálfur taumunum og stýr hestum þínum; þeir munu betur draga hina bjúgu kerru, ef sá hefir taumhaldið, sem vanur er hestunum, ef svo fer, að við þurfum að flýja fyrir Týdeifssyni. Eg er hræddur um, ef hestarnir sakna málróms þíns, að þeir verði ragir og staðir, og vilji ekki hlaupa með okkur úr orustunni, en sonur hins hugstóra Týdeifs ráðist svo á okkur og drepi okkur báða, en taki hina einhæfðu hesta. Þú skalt því heldur aka kerru þinni og keyra hesta þína sjálfur, en eg mun taka móti honum með hvössu spjóti, þegar hann kemur að okkur“. 239 Þá þeir höfðu þetta mælt, stigu þeir upp á hina margbrotnu kerru og stýrðu hinum fljótu hestum móti Týdeifssyni með miklum vígahug. Hinn frægi Stenelus Kapaneifsson gat að líta þá, og mælti þegar skjótum orðum við Týdeífsson: „Hjartkæri Díómedes Týdeifsson, eg sé tvo hrausta menn afar sterka, er ákaft vilja berjast við þig; annar þeirra er Pandarus Lýkáonsson, hann kann vel við boga; hinn er Eneas; hann er sonur hins ágæta Ankísess, en Afrodíta er móðir hans. Látum okkur nú hörfa aftur; ger það fyrir mig, æddu ekki svona meðal frumherjanna, að þú ekki týnir lífi þínu!“. 251 Hinn sterki Díómedes leit til hans með reiðisvip og mælti: „Ráddu mér ekki til að flýja, því eg hygg, að jafnvel þú munir ei fá talið mig á það. Mér er það ekki ættgengt, að ganga í bardaga, og flýja svo eða æðrast. Eg hefi enn óbilaðan kraft. Ekki nenni eg að stíga á kerru, heldur mun eg ganga móti þeim, eins og eg stend; Pallas Aþena bannar mér að skelfast. Þó nú svo fari, að annar þeirra flýi, þá skulu þó hinir fráu hestar ekki hlaupa með þá báða aftur til baka frá okkur. En eitt vil eg segja þér, sem þú skalt hugfesta. Fari svo, að hin fjölvitra Aþena veiti mér þá frægð, að eg drepi hvorn tveggja þeirra, þá skaltu binda taumana um kerrubogann og halda aftur þessum hestum hérna, að þeir séu kyrrir, þar sem þeir eru, en mun mig svo um, að stökkva á hesta Eneasar og reka þá frá Trójumönnum og til hinna fagurbrynhosuðu Akkea; þeir eru kynjaðir frá þeim hestum, er hinn víðskyggni Seifur gaf Trós í bætur fyrir Ganýmedes, son hans; þeir eru hesta beztir, þeirra er til eru í dagsheimi og sólheimi. Herkonungurinn Ankíses fékk sér á laun hesta af þessu kyni, með því að hann hleypti merum til hestanna, svo Lámedon vissi ekki af; fékk hann undan merunum sex fola í höll sinni, hélt þar af sjálfur eftir fjórum og ól þá á stalli, en tvo gaf hann Eneasi; voru það hinir flóttfimustu hestar. Ef við náum hestum þessum, munum við öðlast ágætan orðstír“. 274 Þannig töluðust þeir við um þetta. Nú bar þá Eneas skjótt að, er þeir keyrðu hina fráu hesta. Þá tók Lýkáons frægi son fyrri til máls og mælti við Díómedes: „Hugsterki, herkæni son hins ágæta Týdeifs! Hið fljóta skeyti mitt, örin hvassa, vann ekki á þér til fulls. Nú skal eg freista, hvort eg hitti þig með spjóti“. 280 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót og skaut, og kom í skjöld Týdeifssonar; flaug eiroddurinn í gegnum skjöldinn og nam brynjuna. Þá kallaði hinn frægi Lýkáonsson hátt upp: „Þar fékkstu skot í gegnum nárann, og hygg eg, að þú munir ekki lengi uppi standa; hefir þú nú veitt mér það, sem eg hefi mjög óskað eftir“. 286 Hinn sterki Díómedes svaraði honum óskelfdur: „Þú misstir mín og hittir ekki; en það hygg eg, að þið munuð ekki fyrr af láta, en annar hvorr ykkar fellur og seður Ares, hinn þrásama bardagaguð, með blóði sínu“. 290 Að því mæltu skaut hann, en Aþena stýrði skotvopninu á nefið við augað, og gekk hið ósljóva eirvopn í gegnum hinar hvítu tennur, og skar úr tunguna í tungurótunum, en oddurinn hljóp út hjá kverkinni. Pandarus féll þá ofan af kerrunni, og glömruðu hin kviku, skínandi vopn ofan á honum; hrukku þá hinir fótfráu hestar út á hlið, en líf hans og fjör leið í burtu. 297 Þá stökk Eneas ofan; hann hafði skjöld og langt spjót; var hann hræddur um, að Akkear mundu draga til sín líkið. Hann gekk í kring um líkið, sem ljón það, er treystir á afl sitt; rétti hann fram spjótið og hélt fyrir sér hinum kringlótta skildi, og hugði að drepa hvern þann, er að líkinu kæmi; hann æpti ógurlega. Týdeifsson tók vopnstein í hönd sér; það var svo stórt bjarg, að ekki mundu tveir menn valda, slíkir sem nú gerast, en hann þeytti honum einn, og varð ekki mikið fyrir. Hann kastaði steininum á mjöðm Eneasi, þar sem lærið leikur í mjöðminni; það er kallað augnakarl; braut hinn hrufótti steinn augnakarlinn, og enn sleit hann báðar sinarnar og hruflaði af skinnið. Þá féll kappinn á kné, en stóð þó, og studdi sinni þreknu hönd við jörðina, en svört nótt seig fyrir augu hans. Þar mundi nú þjóðhöfðinginn Eneas hafa látizt, ef móðir hans hefði ekki orðið þessa skjótt vör, Afrodíta, dóttir Seifs, er átt hafði Eneas við Ankísesi, þá hann sat að nautum. Hún lagði báða hina hvítu arma sína utan um sinn kæra son, og breiddi fyrir hann skaut hinnar skínandi blæju til að verja hann við skotum, að engi hinna reiðfimu Danáa næði að reka eirvopn í brjóst honum, og taka hann svo af lífi. Fór hún svo af stað með sinn kæra son, til að koma honum burt úr orustunni. 319 Sonur Kapaneifs gleymdi ekki því erindi, er hinn rómsterki Díómedes hafði falið honum á hendi: hann hélt hinum einhæfðu hestum sínum álengdar frá orustugnýnum, og batt taumana við kerrubogann, hljóp síðan að hinum faxprúðu hestum Eneasar, rak þá frá Trójumönnum til hinna fagurbrynhosuðu Akkea, og fékk þá félaga sínum Deípýlusi, er hann virti um fram alla jafnaldra sína, sökum þess að hann var honum skaplíkur, og bað hann reka hestana til hinna rúmgóðu skipa. Síðan hljóp öðlingurinn upp í kerru sína, tók hina glæsilegu tauma og hélt hinum hófasterku hestum eftir Týdeifssyni; var á honum mikill ákafi. Díómedes var þá að elta Kýprisi með óvægnu eirvopni, því hann þekkti hana, að hún var kjarklaus gyðja, og ekki ein af þeim gyðjum, sem ráða fyrir í orustum manna, hvorki Aþena, né Enýó borgrofa. Sonur hins hugstóra Týdeifs elti hana nú innan um mannþröngina, og er hann fann hana, lagði hann fram hinu hvassa spjóti, stökk á eftir henni og hjó framanvert á hennar veiku hönd; gekk spjótið þegar í gegnum hina himnesku blæju, er sjálfar Fegurðargyðjurnar höfðu búið til handa henni, og í gegnum hörundið ofan til við lófann; rann þá hið ódauðlega blóð gyðjunnar, ef blóð skal kalla glætu þá, er rennur af hinum sælu guðum; því þeir eta eigi brauð og drekka eigi hið skæra vín, og eru því blóðlausir, og kallast ódauðlegir. Hún hljóðaði hátt, og fleygði frá sér syni sínum, tók Febus Appollon hann upp og barg honum í dimmu skýi, svo engi hinna reiðfimu Danáa næði að reka eirvopn í brjóst honum og taka hann af lífi. Þá kallaði hinn rómsterki Díómedes hátt: „Vík burt, dóttir Seifs, úr bardaganum og orustunni! Nægir þér ekki að ginna kjarklausar konur? Ef þú gengur oftar út í orustu, þá hygg eg, að þig ói við ófriðnum, enda þó þú eigir langt til að spyrja“. 352 Þannig mælti hann, en hún fór í burt, og var ekki með sjálfri sér, því hún kenndi mikils sársauka. Hin vindfráa Íris tók hana og leiddi út úr þrönginni; var hún þungt haldin af verkjum, og hennar fríða hörund sortnaði. Því næst fór hún á fund hins óðláta Aresar; hann sat vinstra megin vígvallarins, og var spjót hans myrkva hulið, og svo hinir fráu hestar. Hún kastaði sér á kné, og bað innilega um hina gullbeizluðu hesta bróður síns: „Kæri bróðir (kvað hún), bjarga þú mér, og ljá mér hesta þína, svo eg komist til Ólymps, þar sem er aðsetur hinna ódauðlegu guða. Eg er mjög þungt haldin af sári því, er einn dauðlegur maður særði mig; það var Týdeifsson, sem eg held að nú þyrði að berjast jafnvel við föður Seif“. 363 Svo mælti hún, en Ares léði henni hina gullbeizluðu hesta; sté hún nú upp í kerrustólinn, sorgbitin í huga. Íris sté upp í kerruna hjá henni, tók taumana í hönd sér og keyrði hestana af stað, en þeir tóku viljugir á rás; komu þeir skjótt til hins háva Ólymps, aðseturs guðanna. Þar stöðvaði hin vindfætta, skjóta Íris hestana, leysti þá frá kerrunni og kastaði fyrir þá ódáinsfóðri. En hin ágæta Afrodíta hneig í kjöltu Díónu, móður sinnar; hún tók dóttur sína í fang sér, klappaði henni með hendinni, tók til orða og mælti: „Hverr himinbúanna hefir farið svo ósæmilega með þig, dóttir kær, svo sem hefðir þú gert eitthvað illt af þér opinberlega?“ 375 Hin brosmilda Afrodíta svaraði henni: „Sonur Týdeifs, hinn ofurhugaði Díómedes, særði mig, af því eg bar Eneas, son minn, sem er mér langkærstur allra, burt úr orustunni; því hinn ógurlegi hergnýr er nú ekki milli Tróverja einna og Akkea, heldur berjast nú Danáar einnig við hina ódauðlegu guði“. 381 Hin ágæta gyðja Díóna svaraði henni: „Vertu þolinmóð, dóttir, og ber þig vel, þó þú sért sárt leikin. Margir af oss, sem búum í Ólymps höllum, hafa orðið margt illt að þola af mönnunum, þegar vér höfum viljað skapa hverir öðrum harðar raunir. Þetta varð Ares að þola, þegar synir Alóeifs, hinn sterki Ótus og Efíaltes, bundu hann sterkum fjötri; lá hann fjötraður í eirdýflissu 13 mánuði, og þar mundi hinn vígólmi Ares látizt hafa, ef stjúpmóðir þeirra, hin afbragðs fríða Eriböya, hefði ekki sagt Hermesi til hans; kom Hermes honum þá leynilega úr dýflissunni; var Ares þá orðinn þrekaður, því hinn harði fjötur hafði dregið úr honum kjarkinn. Þetta varð Hera að þola, þegar hinn sterki Amfítrýonsson skaut hana í hægra brjóstið með þríeggri ör; fékk hún þá þann sársauka, að hún beið hans seint bætur. Í sama sinn varð hinn afar stóri Hades að kenna á hinni skjótu ör, þegar hinn sami maður, sonur Seifs ægisskjalda, skaut hann í valnum hjá Pýlusborg, og gerði honum þann sársauka, að hann gekk til hallar Seifs og hins háva Ólymps, harmþrunginn í hjarta og gagntekinn af verkjum, en örin hafði flogið í hans þreknu öxl, og kvaldi sálu hans; en Peon reið verkeyðandi smyrslum á hann og læknaði hann, því Hades var ekki dauðlegur. Ofdirfskufullur og stórvirkjasamur var sá maður, sem ekki sveifst að fremja þá óhæfu, að særa með bogaskoti þá guði, er á Ólympi búa. En þenna mann hefir hin glóeyga gyðja Aþena eggjað fram móti þér. Fávís er Týdeifssonur, er hann veit ekki, að sá maður verður ekki langgæður, sem berst við ódauðlega guði, og að börn þess manns kalla ekki pápa við kné honum, heimkomnum úr orustu og grimmum bardaga. Þess vegna skyldi Týdeifsson, þó hann sé mjög hraustur, vara sig, því vera kann, að einhverr berjist við hann, sem er meiri fyrir sér, en þú ert. Vera kann, að ekki líði á löngu, að hin vitra Egíalía Adrastusdóttir, sú skörulega kona hins reiðfima Díómedess, hrökkvi upp af svefni og veki heimilisfólk sitt, kveinandi af söknuði eftir eiginmann sinn, er hraustastur var af öllum Akkeum“. 416 Svo mælti hún, og þerraði báðum höndum blóðglætuna af hendi hennar; varð höndin þá heil, og hinir sáru verkir sefuðust. En er þær sáu það, þær Aþena og Hera, ertu þær Seif Kronusson með móðgunarorðum, og tók hin glóeyga gyðja Aþena svo fyrri til: „Faðir Seifur, muntu nokkuð reiðast því, er eg segi? Nú hefir víst Kýpris verið að ginna einhverja akkneska konu til fylgilags við Trójumenn, er hún elskar nú svo ákaft; hefir hún nú verið að klappa einhverri af hinum siðmöttluðu konum Akkea, og rispað um leið sína mjúku hönd á gyltu krókapari“. 426 Þannig mælti hún, en faðir manna og guða brosti, kallaði til ennar gullfögru Afrodítu, og mælti: „Þér er ekki gefið, barn mitt, að stunda það, sem til hernaðar heyrir; fást heldur við þau störf, er viðkoma unaðsfullum giftumálum, en hinn óðláti Ares og Aþena skulu stunda hitt“. Þannig töluðust þau við um þetta. 432 Hinn rómsterki Diómedes sókti nú eftir Eneasi, enn þótt hann vissi, að sjálfur Appollon hélt hendi yfir honum. En nú skeytti hann jafnvel ekki hinum mikla guði, heldur sóktist jafnt eftir að drepa Eneas og fletta hann hinum ágætu vopnum hans. Hann réðst þrisvar að honum og vildi drepa hann, en Appollon stakk þrisvar við hinum fagra skildi hans. En er hann stökk fram fjórða sinn, líkur einhverjum guði, þá hastaði hinn fjarvirki Appollon á hann, og mælti: „Vara þig, Týdeifsson, hörfa þú aftur; dirf þig ei að vera jafnstórhuga, sem guðirnir; því aldrei jafnast kyn mannanna, þeirra er á jörðu ganga, við kyn guðanna, sem eru ódauðlegir“. 443 Svo mælti hann, en Týdeifssonur hopaði á hæl lítt það, því hann vildi forðast heiftarreiði hins langskeyta Appollons En Appollon kom Eneasi úr mannþrönginni, og upp á hið helga Pergamsvígi; þar átti Appollon hof eitt. Letó og Artemis örvum glöð græddi hann í hinum mikla helgidómi, og veittu honum aftur veglega fegurð. En Appollon silfrinbogi bjó til mannssvip, líkan sjálfum Eneasi og eins vopnum búinn, og í kring um þenna svip ónýttu Trójumenn og hinir ágætu Akkear kringlótta nautsleðursskildi og léttar hráskinnstjörgur hvorir á brjóstum annarra. Þá mælti Febus Appollon við hinn óðláta Ares: „Ares, Ares, þú mannskæði, blóðflekkaði guð, þú veggjabrjótur! Viltú ekki fara til og koma manni þessum, Týdeifssyni, burt úr orustunni, því nú er svo komið, að hann mundi jafnvel berjast við föður Seif. Fyrst særði hann Kýprisi með höggvopni á hendinni í úlnliðnum, og þar eftir óð hann að mér sjálfum, líkur einhverjum guði“. 460 Að því mæltu settist hann hæst upp á Pergamsvígi. En hinn skaðvæni Ares gekk um hersveitir Trójumanna og eggjaði liðið; var hann þá í líki hins skjóta Akamants, Þraka foringja. Hann kallaði til Príamssona, fóstursona Seifs: „Þér synir Príamuss konungs Seifsfóstra, hve lengi ætlið þér að láta fólkið drepast niður fyrir Akkeum? eða á þessu að ganga, unz þeir berjast fyrir hinum ramgjörvu borgarhliðum? Nú er fallinn sá maður, er vér virtum jafnt hinum ágæta Hektori, Eneas, sonur hins hugstóra Ankísess. Komið til, látum oss frelsa þenna hrausta liðsmann úr orustugnýnum!“ 470 Með þessum orðum vakti hann hug og dug hvers manns. Þá veitti Sarpedon stórar átölur hinum ágæta Hektori: „Hektor (kvað hann), hvað er nú orðið af hugmóð þeim, er þú hafðir fyrr meir? Þú hyggst einn munu varið fá borgina með mágum þínum og bræðrum, án styrks borgarmanna og liðsmanna; en nú get eg engan þeirra séð eða orðið var við. Þeir hlaupa í felur, eins og hundar í kring um ljón. En vér, sem erum liðsmenn, höldum uppi bardaga. Eg, sem er einn af liðsmönnum, er kominn mjög langt að, því Lýkía er langt héðan, við hið sveipharða Ksantusfljót; lét eg þar eftir konu mína og barnungan son, og miklar eigur, sem betra er að eiga en án vera. Ei að síður eggja eg þó Lýkíumenn til orustu, og vil sjálfur gjarna eiga manni að mæta, og á eg þó ekkert hér, það er Danáar gæti tekið eða haft burt með sér. En þú stendur, og gerir ekki svo mikið sem að segja mönnum að veita viðnám og verja konur sínar. Er hætt við, að þér verðið óvinum yðar að bráð og herfangi, eins og þér væruð veiddir í fengsælu neti; munu óvinir yðar brátt leggja í eyði yðar fjölbyggðu borg. Um allt þetta verður þú að hugsa nætur og daga, og biðja fyrirliða hinna langt aðkomnu liðsmanna, að standa stöðuga, og liggur þér nú á að leggja niður stóryrðin“. 493 Þannig mælti Sarpedon, og sveið Hektori ræða hans. Hann stökk þegar í öllum herbúnaði ofan af kerrunni til jarðar, hafði hvöss spjót í hendi sér, og gekk alla vega um herinn og eggjaði liðið til bardaga, og vakti hann ógurlegan manngný; snérust Trójumenn skjótt við og stóðu öndverðir við Akkeum, en Argverjar biðu við í samfelldum flokkum og æðruðust ekki. Svo sem vindur feykir sáðum um hina helgu láfa, þá er menn þreskja, og hin bleikhára Demetra skilur korn og sáðir í hvössum vindi, og hvítna þá sáðhrúgurnar: svo urðu Akkear þá hvítir upp yfir höfuð af moldrokunni, sem hestafæturnir þeyttu upp á hið eirfasta himinhvolf á meðal þeirra, þegar flokkarnir sigu saman aftur; sneru kerrusveinarnir þá við, en hermennirnir tóku þá til að neyta vopna sinna. Hinn óðláti Ares breiddi náttmyrkur yfir orustustaðinn; gekk hann alla vega um kring og liðsinnti Trójumönnum; rak hann svo erindi hins gullsvarðaða Febusar Appollons, því Appollon hafði boðið honum að vekja hugmóð Trójumanna, þegar hann sá, að Pallas Aþena var farin burt, því hún var bjargvættur Danáa. En Appollon fór sjálfur til og lét Eneas út úr hinum auðsæla helgidómi, og kom hugrekki miklu í brjóst þjóðhöfðingjanum; gekk Eneas þá í flokk félaga sinna, og urðu þeir glaðir, er þeir sáu hann koma lífs og heilan og hugfullan; engra tíðinda spurðu þeir hann, því það máttu þeir ekki, sökum þess að Silfrinbogi og hinn mannskæði Ares og hin hamslausa Eris hafði þá fengið þeim annað að starfa. 519 Báðir Ajantar og Odysseifur og Díómedes eggjuðu Danáa til orustu; voru þó Danáar sjálfir hvorki hræddir við áhlaup né hergný Trójumanna, heldur biðu kyrrir, eins og fastur skýmokkur, er Kronusson lætur staðnæmast á háfjöllum í logni, þegar hinn sterki norðanvindur sefur og aðrir hvassir vindar, þeir eð vanir eru að feykja hinum dimmu skýjum burtu með hvínanda blæstri: svo biðu Danáar Trójumanna stöðugt og óttuðust ekki. Atreifsson gekk þá um herinn og eggjaði liðið ákaft. „Verið karlmenn, góðir hálsar (kvað hann), og takið til yðar móð og manndóm. Blygðizt hvor fyrir öðrum í hinum hörðu orustum, því af blygðunarsömum mönnum verða þeir fleiri, er heilir af komast, en hinir, er falla; en eftir flýjandi menn liggur hvorki nokkur orðstír, né heldur stendur af þeim nokkur vörn“. 533 Að því mæltu skaut hann spjóti snarlega; kom það í einn mann af frumherjum, félaga hins hugstóra Eneasar, Deíkóon Pergasson, er Trójumenn virtu jafnt Príamssonum, því hann var fimur að berjast í broddi fylkingar. Agamemnon konungur skaut spjótinu í skjöld hans; stóðst skjöldurinn ekki spjótið, og gekk eirvopnið í gegnum; keyrði hann spjótið í gegnum brynbeltið og í kviðinn neðanverðan. Varð dynkur mikill, er hann féll, og glömruðu vopnin ofan á honum. 541 Þar drap Eneas tvo hina hraustustu menn af Danáum, Kreþon og Orsílokkus, Díóklessonu; bjó faðir þeirra í hinni velbyggðu Feruborg; hann var auðugur af fé, og kynjaður frá fljótinu Alfeus, er rennur með breiðum straumi um Pýlverjaland. Sonur Alfeusar var Orsílokkus; hann var konungur yfir mörgum mönnum. Orsílokkus átti hinn hugstóra Díókles. Díókles átti tvo sonu, tvíbura, Kreþon og Orsílokkus; þeir kunnu báðir vel alls konar herskap. Þegar þeir voru orðnir frumvaxta, fóru þeir með Argverjum til hinnar hestauðgu Ilíonsborgar, til að beiðast bóta til handa þeim Atreifssonum, Agamemnon og Menelási; höfðu þeir þar bana, báðir þeir bræður. Eins og tveir ljónshvolpar, sem alizt hafa upp undir ljónsmæðru í þéttum skógarrunni á fjallstindi, ræna fjárhús manna, og grípa þaðan naut og feita sauði, þar til er þeir verða sjálfir drepnir af mannavöldum með hvössu eirvopni: eins urðu báðir þeir bræður sigraðir af Eneasi, og féllu til jarðar, sem hávaxin furutré. 561 Menelás, ástvinur Aresar, kunni illa falli þeirra bræðra; hann gekk fram fyrir frumherjana, búinn skínanda eirmálmi, og skók spjótið. Ares æsti upp ákafa hans, því hann ætlaði svo til, að Menelás skyldi falla fyrir Eneasi. En er Antílokkus, sonur hins hugstóra Nestors, sá Menelás, gekk hann fram í gegnum frumherjana, því hann var mjög hræddur um, að þjóðhöfðinginn, ef honum yrði nokkuð, mundi gera endasleppt allt starf þeirra. Þeir Menelás munduðu nú hin hvössu spjót hvorr að öðrum, og voru báðir í vígahug. Þá gekk Antílokkus til þjóðhöfðingjans og stóð hjá honum. En er Eneas sá tvo menn móti sér, hvorn hjá öðrum, þá beið hann ekki úr stað, þó hann væri vaskur hermaður. Drógu þeir Menelás þá lík bræðranna inn í flokk Akkea, og fengu þau félögum sínum, sneru síðan aftur og börðust í broddi fylkingar. 576 Þar vógu þeir Pýlemenes, jafnmaka Aresar, foringja hinna stórhuguðu, skjaldfimu Paflagóna. Hinn spjótfrægi Menelás Atreifsson lagði hann spjóti, þar sem hann stóð, og kom lagið í viðbeinið; en Antílokkus hæfði með vopnsteini kerrusvein hans, hinn hrausta Mýdon Atymníusson, í því hann snéri við hinum einhæfðu hestum; kom steinninn á miðjan olnbogann, féllu þá taumarnir, er lagðir voru hvítu fílsbeini, úr höndum honum til jarðar niður í moldina. Antílokkus hljóp þá að honum og hjó með sverði á gagnaugað, en hann steyptist á höfuðið með andköfum ofan af hinni vel smíðuðu kerru niður til jarðar; hann kom niður á skallann og axlirnar, og stóð svo mjög lengi, því hann hitti þar á, sem var djúpur sandur undir, þar til er hestarnir komu við hann og felldu hann ofan í dustið; en Antílokkus keyrði á hestana, og rak þá inn í flokk Akkea. 590 En er Hektor sá þá Menelás meðal flokkanna, fór hann móti þeim grenjandi, og fylgdu honum hinir hraustu flokkar Tróverja; á undan þeim gekk Ares og hin máttuga Enýó; hún hafði í för með sér hinn óvægna Hergný; en Ares hreyfði í hendi sér ógurlega stóru spjóti, og gekk ýmist á undan Hektori, ýmist á eftir. 596 Þá er hinn rómsterki Díómedes sá Hektor, varð hann skelkaður, eins og maður sá, er gengur yfir stórt sléttlendi, verður úrræðalaus, þegar hann kemur að straumhörðu vatnsfalli, er rennur fram til sjóar, og hrökkur á bak aftur, þá hann sér ána belja fram með froðukasti: eins hörfaði Týdeifssonur þá aftur, og mælti við menn sína: „Hví furðar oss, vinir, þó Hektor sé spjótfimur maður og öruggur hermaður, þar sem einn af guðunum er ávallt hjá honum og ver hann fyrir lífsháska? Og nú er Ares þar hjá honum, líkur dauðlegum manni. Heyrið nú, víkið nú alljafnt á bak aftur fyrir Trójumönnum, og snúið þó öndverðir við þeim, en verið ei svo ofurhugaðir, að berjast af kappi við guðina“. 606 Þannig mælti hann, en Trójumenn voru þá komnir mjög nærri þeim. Þá drap Hektor tvo vígkæna hermenn, Menestes og Ankíalus; þeir óku báðir á einni kerru. Hinn mikli Ajant Telamonsson kunni illa falli þeirra; gekk hann þá nær og skaut fögru spjóti, og kom á Amfíus Selagusson; hann átti heima í Pesusborg; hann var vellauðugur og átti mörg sáðlönd, en skapanornin leiddi hann með sér til liðs við Príamus og sonu hans. Ajant Telamonsson skaut til hans, og kom í brynbeltið, og gekk hið langskefta spjót inn í kviðinn neðanverðan, og varð dynkur mikill, er hann féll. Þá hljóp til hinn frægi Ajant, og ætlaði að fletta hann vopnum, en Trójumenn létu hvöss, blikandi spjót drífa á honum, og lentu mörg þeirra í skildi hans. Hann sté þá fæti sínum á náinn, og kippti út eirspjótinu, en eigi mátti hann þá ná hinum fögru vopnum af herðum hans, því skotvopnin stóðu á honum; óttaðist hann og hrausta návörn af hinum framgjörnu Trójumönnum, er fyrir stóðu margir og hraustir menn, með spjót í höndum, og hrundu þeir honum frá sér, þó hann væri mjög stór og sterkur og frægur, en hann fór undan þeim í flæmingi. 627 Þannig börðust þeir í hinum harða bardaga. En hin máttuga skapanorn sendi þá hinn hrausta og mikla Tlepólemus Heraklesson móti hinum goðumlíka Sarpedoni. Þeir gengust í mót, og er þeir áttu skammt hvorr til annars, sonur og sonarsonur Seifs skýsafnara, þá tók Tlepólemus svo fyrri til máls: „Sarpedon, höfðingi Lýkíumanna, hver nauður rekur þig til, óherkænan mann, að vera hér og æðrast? Logið er það um þig, að þú sért sonur Seifs ægisskjalda, skortir þig mikið á við þá menn, er í forneskju voru af Seifi komnir. Öðruvísi segja menn að verið hafi faðir minn, hinn sterki, djarfhugaði, ljónhjartaði Herakles. Hann kom eitt sinn hingað á sex skipum og við fáa menn, til að heimta hesta Laomedons, og þá braut hann borgina og eyddi strætin. En þú ert ragmenni, og menn þínir drepast hrönnum, og lítil vörn hygg eg Trójumönnum verði að því, þó þú kæmir frá Lýkíu, hvað sterkur sem þú ert. Muntu hníga verða fyrir mér, og ganga inn um Hadesar hlið“. 647 Sarpedon, foringi Lýkíumanna, svaraði honum aftur: „Satt var það, Tlepólemus, að hann lagði í eyði hina helgu Ilíonsborg; var það að kenna óviturleik hins ágæta kappa Laomedons, er hann gaf Herakles ill orð og greiddi honum ekki hestana, er hann hafði gert sér ferð eftir langt utan úr löndum; hafði Heraklesi þó farizt vel við Laomedon áður. En það hygg eg, að þér muni hér af mér bani búinn og dapur dauði; muntu falla fyrir spjóti mínu og veita mér ósk mína, en gefa líf þitt hinum hestfræga Hadesi“. 655 Svo mælti Sarpedon, en Tlepólemus reiddi á loft eskiviðarspjótið, og flugu hin löngu spjót jafnsnemma úr höndum beggja þeirra; kom spjót Sarpedons í miðjan hálsinn, og gekk hinn sárbeitti oddur þvers í gegn; sé þá dimm nótt fyrir augu Tlepólems. Spjót Tlepólems kom í vinstra lær Sarpedons; flaug oddurinn óðlátur í gegn og inn í beinið, en faðir Sarpedons afstýrði því, að meira mein varð að. 663 Hinir ágætu félagar báru hinn goðumlíka Sarpedon burt úr orustunni, en hið langa spjót, er hann dró með sér, gerði honum sársauka; hafði engum þeirra komið í hug né hjarta fyrir flýtinum, að kippa eskispjótinu út úr lærinu, að hann gæti stigið á kerru sína; svo voru þeir vant við komnir í bardaganum. Hins vegar báru hinir fagurbrynhosuðu Akkear Tlepólemus af vígvellinum. En er hinn ágæti, hugdjarfi Odysseifur varð þess var, þá varð óðlátt hjarta hans: kom honum þá tvennt til hugar, hvort hann ætti heldur að elta son hins háþrumanda Seifs lengra áfram, eða skyldi hann taka meiri hluta Lýkíumanna af lífi. En hinum hjartaprúða Odysseifi átti það ekki auðið að verða, að drepa hinn hrausta son Seifs með hvössu eirvopni. Sneri Aþena þá hug hans að flokki Lýkíumanna, og þar vo hann þá Köyranus, Alastor, Kromíus, Alkander, Halíus, Nóemon og Prýtanis, og nú hefði hinn ágæti Odysseifur drepið þar enn fleiri af Lýkíumönnum, ef hinn mikli, hjálmkviki Hektor hefði ekki orðið hans snögglega var. Hann gekk gegnum frumherjana, búinn skínanda eirmálmi, og skaut með því Danáum skelk í bringu. Sarpedon, sonur Seifs, varð glaður við, er Hektor kom þar, og bar upp við hann kveinstafi sína: „Príamsson, lát mig ekki liggja hér til að verða Danáum að herfangi. Veittu mér nábjörg! þá mun mig einu gilda, þó eg láti líf mitt í yðvarri borg, með því mér átti þó ekki auðið að verða, að komast heim aftur til míns kæra föðurlands, til að gleðja konu mína og minn barnunga son“. 689 Þannig mælti hann, en hinn hjálmkviki Hektor anzaði honum engu, heldur steðjaði fram hjá honum ákafur, svo hann gæti sem fyrst rekið af sér Argverja og tekið marga menn af lífi. Hinir ágætu félagar lögðu nú hinn goðumlíka Sarpedon undir hina forkunnarfögru ætibjörk Seifs ægisskjalda. Þá kippti hinn hrausti Pelagon, félagi hans, er hann unni mjög, eskispjótinu úr læri hans; leið hann þá í ómegin, og sé sorti fyrir augu hans. En hann raknaði við aftur, og andi norðanvindsins, er lék um hann, glæddi aftur hið örmagnaða lífsfjör. [Mynd: Aþena hervædd] 699 Argverjar hörfuðu aldrei á leið til hinna svörtu skipa undan þeim Aresi og hinum eirbrynjaða Hektori; aldrei hrukku þeir heldur við til mótvarnar í orustu, heldur hopuðu þeir ávallt á hæl, þá er þeir urðu áskynja, að Ares var með Trójumönnum. Hvern drap Hektor Príamsson og hinn eirvopnaði Ares þar fyrst, og hvern síðast? Þeir drápu hinn goðumlíka Tevþrant, og enn riddarann Órestes og hinn spjótfima Trekkus frá Etólíu, og Öynómás og Helenus Öynópsson og hinn gyrðilkvika Óresbíus; hann bjó í Hýlu; hann var fjárgæzlumaður mikill og bjó við Kefísavatn; þar voru fleiri Böyótar í grennd við hann og bjuggu í mjög frjóvsömu héraði. 711 En er hin hvítarmaða Hera varð þess vör, að Argverjar féllu í hinum harða bardaga, þá talaði hún þegar til Aþenu skjótum orðum: „Atrýtóna, dóttir Seifs ægisskjalda! Mikil skelfing; sannarlega höfum við til einskis veitt Menelási það heit, að hann skuli leggja í eyði hina ramveggjuðu Ilíonsborg og komast svo heim, ef við látum hinn skaðvæna Ares hamast, eins og hann gerir. Komum, látum okkur einnig leggja fram ofurafl okkar!“ 719 Þannig mælti hún, en hin glóeyga gyðja Aþena hlýddi orðum hennar. Hera, hin tignarlega gyðja, dóttir hins mikla Kronusar, fór til og bjó ena gullóluðu hesta, en Heba hleypti bjúgum eirhjólum áttspeluðum beggja vegna upp á hjólása kerrunnar; þeir voru af járni; umgjörð hjólanna var af gulli, og óslítandi, en þar á ofan voru felldar eirrendur, svo furða var á að líta; hjólnafirnar beggja vegna voru úr silfri, og kringlóttar; kerrustóllinn var reyrður gullböndum og silfurböndum; kerrubogarnir voru tveir og lágu í hring um kerrustólinn; út frá kerrustólnum gekk kerrustöng af silfri, og fremst á stönginni batt hún fallegt ok úr gulli, og smeygði þar í fögrum gulllegum okreimum. Hera leiddi hina fótfráu hesta undir okið, og langaði hana ákaft í kíf og háreysti. En Aþena, dóttir Seifs ægisskjalda, steypti af sér á gólfi Seifs hinum voðfellda, marglita möttli, er hún hafði sjálf búið til handa sér og vandað sig á; þá fór hún í kyrtil skýsafnarans Seifs, og herklæddi sig út í hinn hörmulega ófrið; hún varpaði á herðar sér hinum skúfaða, ógurlega ægisskildi; hann var alsettur ógn allt um kring: þar var á Deilan og Vörnin, og hin ískalda Ofsókn, þar var á hinn ógurlegi og ófrýnilegi haus Gorgóar, hins hræðilega óvættar, ógnarmerki Seifs ægisskjalda; hún setti á höfuð sér bóluhjálm fjórbólaðan, gulllegan, nógu stóran fyrir skjaldaða fótgöngumenn úr 100 borgum. Hún steig fótum sínum upp í hina logandi kerru, og tók í hönd sér þungt, stórt og sterkt spjót, er dóttir hins máttuga föður sigrar með herflokka kappanna, ef hún reiðist þeim. Þá snart Hera hestana snöggt með svipunni, en himinhliðin hrukku upp sjálfkrafa; þeirra hliða gættu Misserisgyðjurnar, þeim er hinn hávi himinn og Ólympus er til gæzlu fenginn, bæði til að láta upp hið þétta ský, og til að láta það aftur. Þar í gegnum þau hlið héldu þær hinum sporum-keyrðu hestum. Þær fundu Kronusson, þar er hann sat langt frá öðrum guðum á efsta hnúki hins margtindótta Ólymps. Hin hvítarmaða gyðja Hera stöðvaði þar hestana; hún mælti við hinn æðsta Seif Kronusson, og spurði: „Faðir Seifur, mislíkar þér ekki við Ares fyrir þessi hroðaverk, að hann skuli svo mjög og á slíkan hátt hafa eytt liði Akkea, gífurlega og gegndarlaust? Mér fellur það sárt; en þau hafa þar gaman af í hljóði, þau Kýpris og Appollon silfrinbogi, er sigað hafa af stað fífli þessu, er engan rétt kennir. Faðir Seifur, muntu nokkuð reiðast mér, þó eg reki Ares með hörðum höggum burt úr orustunni?“ 764 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni og sagði: „Hana þá! Sendu hina rángjörnu Aþenu móti honum; hún er helzt vön að leika sárt við hann“. 767 Svo mælti hann, en hin hvítarmaða gyðja Hera gerði, sem hann bauð; hún keyrði á hestana, en þeir flugu viljugir áfram milli jarðarinnar og hins stirnda himins. Svo langt sem maður eygir út í bláinn, þegar hann situr á leiti og horfir út til hins dimmbláa hafs, svo langt leggja þeir undir sig á stökkinu, guðanna hádunandi hestar. En er þær komu til Trójuborgar og hinna rennandi vatnsfalla, þar sem Símóis og Skamander steypa straumum saman, þá stöðvaði hin hvítarmaða gyðja Hera þar hestana; hún leysti þá frá kerrunni og brá yfir þá miklum myrkva, en Símóis lét ódáinsgras upp spretta handa þeim að bíta. En þær fóru af stað, líkar í göngu styggum villidúfum, og höfðu ákafan hug á að hjálpa argverskum mönnum. Þær komu þangað, er hinir flestu og hraustustu af Argverjum stóðu í einni þyrpingu í kring um hinn sterka riddara Díómedes, líkir hráætum ljónum eða villigöltum, er aldrei verður aflfátt. Þá nam hin hvítarmaða gyðja Hera þar staðar, og kallaði; var hún þá í líki hins hugstóra, eirrómaða Stentors, er kallaði svo hátt, sem 50 menn aðrir: „Minnkun er þetta, Argverjar. Mikil skömm er að yður, svo fríðir menn sem þér eruð ásýndum! Meðan hinn ágæti Akkilles gekk í orustu, stigu Trójumenn aldrei út fyrir Dardanshlið, því þeir óttuðust hans sterka spjót, en nú berjast þeir langt frá borginni niðri við hin holu skip“. 792 Með þessum orðum hvatti hún hug og dug hvers manns. Hin glóeyga gyðja Aþena hljóp til Týdeifssonar; hún hitti konunginn hjá kerru sinni og hestum; var hann að kæla sár sitt, það er Pandarus hafði skotið hann með örinni, því svitinn undir enum breiða fetli hins kringlótta skjaldar angraði hann; varð hann af því mæddur og þreyttur í hendinni, er hann hélt upp fetlinum og þerraði af hið svarta blóð. Gyðjan tók um ok hestanna og mælti: „Víst hefir Týdeifur átt sér lítt líkan son. Týdeifur var maður lítill vexti, en góður bardagamaður. Og jafnvel þá, þegar eg bannaði honum að berjast og gera mikið um sig, þá hann fór sendiför frá Akkeum til Þebu, þar sem margir Kadmeumenn voru saman komnir, og eg réð honum að sitja að veizlu í höllinni með spekt og kyrrð, þá hélt hann þó fram hinu sama kapplyndi, sem fyrr, og skoraði á sveina Kadmeumanna til leiks, og vann öll verðlaunin. Að vísu stend eg við hlið þér og gæti þín, og eggja þig einlæglega að berjast við Trójumenn, en þó er annaðhvort, að þú ert þreyttur orðinn af miklu erfiði, eða kjarklaus ótti hefir gagntekið þig, og ertu þá ekki sonur hins herkæna Týdeifs Öynefssonar“. 814 Hinn sterki Díómedes svaraði henni og sagði: „Eg þekki þig, gyðja, dóttir Seifs ægisskjalda; eg skal því segja þér í einlægni og engu leyna: hvorki hefir kjarklaus ótti gagntekið mig, né nokkur lúi. En eg man enn eftir þeirri áminningu, sem þú gerðir mér: Þú bannaðir mér að berjast í móti hinum sælu guðum, nema ef Afrodíta, dóttir Seifs, kæmi í bardagann, þá sagðir þú, að eg skyldi særa hana með hvössu eirvopni. Þess vegna hopa eg nú sjálfur á hæl, og hefi sagt öllum öðrum Argverjum að þyrpast hingað, því eg sé, að Ares hefir nú öll yfirráð í bardaganum“. 825 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum og sagði: „Minn hjartkæri Díómedes Týdeifsson! Ekki skaltu fyrir þá skuld óttast Ares eða nokkurn annan af hinum ódauðlegu guðum; slíkur bjargvættur er eg þér. Heyr nú, halt fyrst hinum einhæfðu hestum þínum móti Aresi, högg þú til hans, og hræðst ekki hinn óðláta Ares, þenna vitfirring, þetta sjálfskapaða böl, þenna ýmisgjarna guð. Hann lofaði okkur Heru nýlega, þá hann talaði við okkur, að hann skyldi berjast í móti Trójumönnum, en hjálpa Argverjum; en nú er hann í flokki Trójumanna, en hefir gleymt hinum“. 835 Að því mæltu kippti hún Stenelus á bak aftur, og hratt honum til jarðar ofan af kerrunni, og stökk hann þegar á burt. En gyðjan sté í miklum vígahug upp í kerrustólinn hjá hinum ágæta Díómedes, og brakaði mjög í ætibjarkarásnum af þunganum, því hann bar óttalega gyðju og hinn hraustasta mann. Pallas Aþena tók svipuna og taumana, og stýrði þegar hinum einhæfðu hestum fyrst móti Aresi; hann var þá að fletta vopnum hinn afar stóra Perífant, hinn fræga Okesíusson; hann var langhraustastur af Etólum. Þenna mann fletti hinn blóðflekkaði Ares. Þá lét Aþena á sig Hadesarhjálm (hulinshjálm), svo hinn sterki Ares sæi hana ekki. En er hinn mannskæði Ares sá hinn ágæta Díómedes, þá lét hann hinn afar stóra Perífant liggja, þar sem hann hafði fyrst drepið hann og tekið af lífi, en gekk móti hinum reiðkæna Díómedes. En er þeim lenti saman, þá seildist Ares fram, og lagði eirspjóti fyrir ofan okið og taumana, og vildi drepa Díómedes, en hin glóeyga gyðja Aþena tók spjótið með hendi sinni og skaut því út frá kerrustólnum, svo það flaug út í bláinn. Því næst lagði hinn rómsterki Díómedes fram eirspjóti sínu, en Pallas Aþena stefndi spjótinu neðanvert í nárann, þar sem bryngyrðillinn lá yfir um hann; þar kom hann lagi á Ares, og særði hann, og skar í sundur hið fríða hörund. Hann kippti spjótinu út aftur, en hinn eirvopnaði Ares grenjaði svo hátt, sem 9 þúsund eða 10 þúsund menn æpa í bardaga, þegar þeir hefja kappleik Aresar; urðu þá Akkear og Trójumenn hræddir og skulfu af ótta: svo hátt öskraði Ares, er aldrei verður saddur á bardögum. 864 Eins og svört dimma sést á skýjunum, þegar stórviðri brestur á eftir hita: eins var hinn eirvopnaði Ares tilsýndar fyrir Díómedes Týdeifssyni, þá hann fór upp í skýjum á hinn víða himin. Hann kom skjótt til hins háva Ólymps, aðseturs guðanna; hann settist hjá Seifi Kronussyni, hryggur í huga, sýndi honum hið ódauðlega blóð, er lagaði úr undinni, og talaði kveinandi til hans skjótum orðum: „Faðir Seifur, mislíkar þér ekki, er þú sér þessi hroðaverk? Ávallt fáum vér guðirnir verstu útreið hvorr af völdum annars, þá vér viljum vera mönnunum til þægðar. Vér brjótumst allir móti þér, af því hin óvitra, skaðvæna dóttir, sem þú átt, hyggur jafnan á óhæfuverk. Því allir aðrir guðir, þeir er á Ólympi eru, hlýða boði þínu, og sérhverr af oss er þér undirgefinn. En hana ávítar þú aldrei, hvorki í orði né verki, heldur æsir hana upp, því þú hefir sjálfur alið hina skaðvænu mey. Hún æsti nú ofurhugann Díómedes Týdeifsson til að æða á móti hinum ódauðlegu guðum. Fyrst særði hann Kýprisi með höggvopni á höndina í úlnliðnum, og síðan óð hann að mér, líkur einhverjum guði; og ef eg hefði ekki með hvatleik hlaupið undan honum, þá hefði eg annaðhvort orðið að þola þar langar kvalir meðal hinna ógurlegu valkasta, eða eg hefði orðið máttlaus lifandi fyrir höggum eirvopnsins“. 888 Skýsafnarinn Seifur leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Sit ekki hjá mér volandi, þú hverflyndi guð! Þú ert mér leiðastur allra guða, þeirra er á Ólympi búa; því þér eru jafnan kærar deilur, orustur og bardagar; hefir þú hið óhemjulega og óvægna skap Heru, móður þinnar, er eg varla fæ haldið í taumi með orðum einum, og hygg eg því, að þig hafi hent þetta fyrir hennar tilstilli. Þó má eg ekki þola, að þú kveljist svo lengur, því þú ert þó af mínu bergi brotinn, og við mér átti móðir þín þig. En ef þú, slík vobeyða, værir sonur einhvers annars af guðunum, þá mundir þú fyrir löngu vera kominn niður fyrir Úranssonu“. 899 Þá hann hafði þetta sagt, bað hann Peon að lækna hann. Peon bar þá á hann verkeyðandi smyrsl, og græddi hann, því Ares var ekki dauðlegur. Eins skjótlega og fíkjulyf hleypa saman hvítri mjólk, sem er þunn og snýst mjög ótt í hring, þá hrært er í henni: eins fljótt læknaði Peon hinn óðláta Ares. Heba gerði honum laug og færði hann í fögur klæði. Síðan settist hann dáðum hróðugur hjá Seifi Kronussyni. 907 Þær Hera Argverjagoð og Aþena hin alalkómenska komu nú aftur til hallar hins mikla Seifs, eftir það að þær höfðu komið hinum mannskæða Aresi til að láta af manndrápunum. SJÖTTI ÞÁTTUR SAMTAL HEKTORS OG ANDRÓMÖKKU. TRÓJUMENN og Akkear voru nú orðnir einir sér í hinum ógurlega hergný; geisaði orustan ákaft hér og þar um völlinn milli vatnsfallanna Símóis og Ksantus, og skutu menn eirslegnum spjótum hvorir á aðra. 5 Ajant Telamonsson, skjólgarður Akkea, rauf fyrstur fylkingu Trójumanna og lét birta fyrir augum sveitunga sinna. Hann kom fyrstur lagi á mann þann, er hraustastur var af Þrakverjum, hinn vaska og mikla Akamant Evsórusson; hann lagði í bólu hins þéttfexta hjálms, og rak spjótið inn í ennið; gekk eiroddurinn inn í bein; sé þá sorti fyrir augu hans. 12 Hinn rómsterki Díómedes drap Axýlus Tevþrantsson, hann átti heima í hinni velbyggðu Arisbu; hann var auðugur af fé og hafði mikla mannheill, því hann bjó í þjóðbraut og veitti öllum góðan beina. En þá gekk engi þeirra fram til varnar honum, að firra hann döprum dauða. Tók Díómedes þá báða af lífi, hann sjálfan og svein hans, Kalesíus, er þá var kerrusveinn hans, og fóru þeir báðir niður í jörðina. 20 Evrýalus drap þá Dresus og Ofeltíus, elti síðan þá Esepus og Pedasus; þá hafði vatnadísin Abarbára átt forðum við hinum fræga Búkolíon; Búkolíon var elzti sonur hins ágæta Laomedons, og ól móðir hans hann á laun. Eitt sinn er Búkolíon sat að sauðum, gerði hann sér dátt við vatnadísina og samrekkti henni; varð hún barnshafandi og ól tvo sveina, tvíbura; þá sveina tók Mekisteifsson af lífi, og fletti þá vopnum. Hinn hugdjarfi Polýpöytes drap Astýalus; Odysseifur drap Pidýtes hinn perkóska með eirspjóti; Tevkrus hinn ágæta Aretáon; Antílokkus Nestorsson vó Ablerus með fagri lenzu; herkonungurinn Agamemnon vó Elatus; hann bjó í hinni hávu Pedasusborg á bökkum hins straumfagra Satníóis; kappinn Leítus drap Fýlakus á flótta, en Evrypýlus drap Melantíus. 37 Þessu næst handtók hinn rómsterki Menelás Adrestus, því hestar hans fældust á vellinum; höfðu þeir flækzt í porskvisti; brutu þeir þá sundur fremra hluta kerrustangarinnar, og fóru til borgarinnar, þangað sem aðrir hestar flýðu, þeir er fælzt höfðu. En Adrestus valt úr kerrustólnum niður með hjólinu, og féll á grúfu niður í moldina; gekk þá Menelás Atreifsson að honum með langskeft spjót í hendi. Þá tók Adrestus um kné hans, og bað: „Gef mér líf, Atreifsson, og þigg af mér fullt lausnargjald. Faðir minn er auðmaður mikill, og eru margir menjagripir geymdir í húsi hans, bæði eir og gull og seigunnið járn; mun faðir minn greiða þér þar af ógrynni fjár til útlausnar mér, ef hann spyr, að eg er lífs niðri við skip Akkea“. 50 Þannig mælti hann, og hrærði með þessum orðum huga í brjósti hans, og var nú við sjálft, að Menelás fengi hann í hendur sveini sínum, til að fara með hann ofan til skipa. En þá kom Agamemnon hlaupandi móti honum, kallaði til hans og mælti: „Heyr, kæri Menelás, hví tekur þig svo sárt til þessara manna? Ágæt munu víst þau verk hafa verið, er Trójumenn höfðust að á heimili þínu! Nei, engi þeirra skal undan komast bráðum bana eða sleppa úr vorum höndum. Ekki einu sinni ungbarnið í móðurkviði skal undan komast, heldur skulu allir jafnt drepnir verða, þeir er í Ilíonsborg eru, liggja ógrafnir, og engi vita, hvað af þeim er orðið“. 61 Með þessum orðum sneri kappinn huga bróður síns, því þetta var heilræði. Stakk Menelás þá hendi sinni við Adrestus og hratt honum frá sér, en Agamemnon konungur lagði hann spjóti í nárann; féll Adrestus þá á bak aftur, en Atreifsson sté fæti sínum á brjóst honum og kippti út eskiviðarspjótinu. 66 Þá kallaði Nestor hátt, og mælti til Argverja: „Kærir vinir, þér öðlingar Danáa, þjónar Aresar! Engi má nú dveljast eftir og leggjast að valrofi, til þess að komast með sem mest herfang til skipa, heldur skulum vér drepa mennina, en síðan munu þér í tómi ræna hinn fellda val, er liggur um vígvöllinn“. 72 Með þessum orðum hvatti hann hug og dug hvers manns. Mundu Trójumenn nú hafa hrokkið undan Akkeum, ástvinum Aresar, og farið inn í Ilíonsborg, og enga vörn sýnt af sér, ef Helenus Príamsson, sem var einhverr hinn ágætasti fuglaspámaður, hefði ekki gengið til Eneass og Hektors, og mælt til þeirra: „Eneas og Hektor, herstarfið liggur mest á ykkur af Trójumönnum og Lýkíumönnum, sökum þess að þið eruð hraustastir til allrar framkvæmdar, bæði til framgöngu og fyrirhyggju. Látið hér nú staðar numið, og farið um kring hvervetna, og haldið hermönnunum hér kyrrum fyrir framan borghliðin, áður en þeir gera þann óvinafagnað, að stökkva flýjandi í fang konum sínum. En er þið hafið eggjað fram alla herflokkana, þá munum vér vera hér eftir og halda uppi bardaga við Danáa, þó mjög sé nærri oss gengið; því nú býður nauðsyn til. En þú, Hektor, skalt fara til borgarinnar, og koma á tal við móður okkar; hún skal stefna saman höfðingjakonunum til hofs hinnar glóeygu Aþenu í háborginni, og ljúka upp með lykli dyrum goðahússins; hún skal taka þann möttul, er hún þykist eiga mestan og fegurstan í höll sinni og henni þykir sjálfri vænst um, og leggja á kné hinnar hárfögru Aþenu; hún skal heita á hana, að fórnfæra henni 12 ársgamlar kvígur ótamdar, og vita, hvort hún vill aumkva sig yfir borgina og yfir konur og ungbörn Trójumanna, ef svo má verða, að hún bægi Týdeifssyni frá hinni helgu Ilíonsborg, þeim hinum tryllta bardagamanni, hinum sterka flóttafrömuði; ætla eg hann nú vera hraustastan af Akkeum, og aldrei óttuðumst vér svo þjóðhöfðingjann Akkilles, er menn þó kveða vera gyðju son; því þessi maður gengur mjög fram, sem óður væri, og má engi við hann jafnast að hugmóð“. 102 Þannig mælti hann, en Hektor gerði, sem bróðir hans réð til. Hann varp sér þegar í öllum herbúnaði ofan til jarðar, gekk með hvöss spjót í hendi hvervetna um herinn og eggjaði liðið til orustu, og vakti ógurlegan hergný. Snerust menn skjótt við, og stóðu öndverðir við Akkeum; hörfuðu Argverjar þá undan og léttu manndrápunum; hugðu þeir einhvern hinna ódauðlegu guða kominn vera ofan af hinum stirnda himni til liðs við Trójumenn, er þeir hefðu svo skjótt við snúizt. Þá kallaði Hektor hátt, og mælti til Trójumanna: „Þér ofurhuguðu Trójumenn og langt aðkomnu liðsmenn! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og leggið fram ofurefli yðvart, meðan eg fer til Ilíonsborgar, og segi ráðsöldungunum og konum vorum að heita á guðina og lofa þeim hundraðsfórnum“. 116 Að því mæltu gekk hinn hjálmkviki Hektor burt, en hin svarta leðurrönd, er lá utan um hinn bungaða skjöld, skall á hælum hans og hnakka. 119 Glákus Hippolokkusson og sonur Týdeifs gengu báðir fram milli herfylkinganna hvorratveggju, og voru í miklum vígahug. En er þeir áttu skammt hvorr til annars, tók hinn rómsterki Díómedes svo fyrri til máls: „Hvað manna ertú, góður maður? Aldrei hefi eg þig fyrr augum litið í hinum mannsæma bardaga; en þó hefir þú nú sökum ofurhuga þíns gengið helzt til langt fram fyrir aðra, er þú bíður eftir hinu langskefta spjóti mínu; því ógæfumanna synir eru það, er verða á götu minni, þegar á mér er móðurinn. En ef þú ert einhverr af hinum ódauðlegu guðum, og kominn af himni ofan, þá mun eg ekki berjast við himneska guði. Því ekki varð hinn sterki Lýkúrgus Drýantsson langlífur, þegar hann fór að keppa við hina himnesku guði. Það var einu sinni, að hann hrakti á burt fóstrur hins óðláta Díónýsuss á enu sannhelga Nysíonsfjalli; köstuðu þær allar undir eins blótstöfum sínum til jarðar, þegar manndráparinn Lýkúrgus lamdi þær með nautastafnum, en Díónýsus varð forflótta og stakk sér niður í sjávarbylgjuna; tók Þetis móti honum í kjöltu sér; var þá í honum skelkur og megn skjálfti af ógnarlátum þessa manns. Hinir hóglífu guðir reiddust honum eftir það, og Kronusson gerði hann sjónlausan, og varð hann ekki langgæður úr því, eftir það hann var orðinn óvinsæll hjá hinum ódauðlegu guðum. Við hina sælu guði vil eg ekki berjast; en sértu einn af dauðlegum mönnum, þeim er eta ávöxt jarðar, þá gakk nær, svo þú megir skjótt hreppa fullkominn bana“. 144 Hinn frægi Hippolokkusson svaraði honum: „Þú stórhugaði Týdeifsson, hví spyr þú að ætt minni? Ætt manna er sem ætt laufblaðanna: sumum laufblöðum feykir vindur til jarðar, en önnur spretta í blómlegum skógi, þegar vortíminn kemur. Eins eru ættir manna: sumar vaxa upp, aðrar líða undir lok. En ef þú vilt fræðast um þetta, þá skal eg segja þér ætt mína, svo þú vitir hana glöggt, og þekkja hana þó margir menn. Effýra heitir borg; hún liggur við vog einn í enu hestauðga Argverjalandi. Þar var Sisýfus; hann var allra manna slægvitrastur; Sisýfus var Eólusson. Sonur hans var Glákus, en Glákus átti hinn ágæta Bellerófontes (Bellerus-bana); honum höfðu goðin veitt fríðleik og elskuverða karlmennsku, en Pröytus ætlaði honum illt í huga sér, og rak hann úr landi, því Pröytus var einvaldur yfir Argverjum, og hafði Seifur lagt þá undir ríkisvönd hans. Nú varð hin ágæta Antea, kona Pröytusar, svo óðfús eftir Bellerófontes, að hún vildi eiga við hann samlag leynilega, en til þess gat hún með engu móti fengið hinn göfuglynda, hergjarna Bellerófontes. Hún mælti þá til Pröytusar konungs, og fór með ósannindi: „Betur þú værir dauður, Pröytus, ella drep að öðrum kosti Bellerófontes, því hann vildi eiga samlag við mig nauðuga“. Svo mælti hún, en konungur varð stórreiður, er hann heyrði slíkt; þókti Pröytusi þó mikið fyrir að drepa hann sjálfur, og sendi hann því til Lýkíu, og fékk honum skaðvænlegar jarteiknir; hafði hann rist mörg lífspell á samanlagt spjald, til að fyrirkoma honum, og bað hann sýna það tengdaföður sínum. Bellerófontes fór til Lýkíu með góðri leiðsögn goðanna. En er hann kom til Lýkíu og til hins rennanda Ksantusfljóts, veitti konungur hinnar víðlendu Lýkíu honum góðar viðtökur, hélt honum veizlu í 9 daga og slátraði 9 uxum. En er hin rósfingraða Morgungyðja kom í ljós tíunda daginn, þá spurði hann um erindi hans, og mæltist til að sjá jarteikn þá, er hann hefði með að fara til sín frá Pröytusi, dótturmanni sínum. En er hann hafði tekið við hinni illu jarteikn dótturmanns síns, þá lagði hann fyrst fyrir Bellerófontes að drepa hina ógnastóru Kímeru; hún var af goðaætt, en ekki manna, ljón að ofanverðu, dreki að neðanverðu, en hauðna í miðju, og blés ógurlega eldsmagni brennanda. Bellerófontes drap Kímeru, af því hann treysti fyrirburðum goðanna. Þar næst barðist hann við hina frægu Sólýma, og kvað það verið hafa hinn harðasta bardaga, er hann hefði í komið við mennska menn. Í þriðja sinni drap hann hinar karlgildu Skjaldmeyjar. En þá hann var á leið þaðan aftur, gerði konungur honum annað vélafullt bragð: hann valdi til þá menn, er hraustastir voru í hinni víðlendu Lýkíu, og setti fyrir hann launsátur; en öngvir af þeim komu heim aftur; drap hinn ágæti Bellerófontes þá alla. En er konungur komst að raun um, að hann væri goðkynjuð hetja, hélt hann honum þar hjá sér, og gifti honum dóttur sína; hann gaf honum helming alls ríkisins, og skiptu Lýkíumenn honum landi til eignar; það var fagurt land, og betra en önnur lönd, gott tréland og plógland. Konungsdóttir átti þrjú börn við enum herkæna Bellerófontes, þau Ísander, Hippolokkus og Laódamíu. Hinn ráðvísi Seifur lagðist með Laódamíu, og ól hún hinn goðumlíka, eirvopnaða Sarpedon. En er Bellerófontes varð fyrir reiði allra goðanna, þá ráfaði hann einmana um Alejonsvöll, örmæddi hjarta sitt og firrðist alla mannavega; því hinn vígsólgni Ares hafði drepið Ísander, son hans, í bardaga við hina frægu Sólýma, en Artemis gullintauma hafði reiðzt Laódamíu og vegið hana. En Hippolokkus átti mig, og hans son em eg sagður. Hann sendi mig til Trójuborgar, og lagði ríkt á við mig, að eg væri jafnan afburðamaður og skörungur annarra manna, og ekki ættleri forfeðra minna, er voru langhraustastir menn í Effýru og hinni víðlendu Lýkíu. Þessi er ætt mín, og af þessu em eg bergi brotinn“. [Mynd: Bellerófontes drepur Kímeru.] 212 Þannig mælti hann, en hinn rómsterki Díómedes varð glaður; hann stakk spjótinu niður í hina margfrjóvu jörð, og talaði blíðlega til þjóðhöfðingjans: „Þú munt þá vera forn langfeðgagestfélagi minn. Því hinn ágæti Öynefur gisti eitt sinn hinn fræga Bellerófontes í höll sinni, og hélt honum hjá sér 20 daga, og gáfu þeir hvorr öðrum fagrar gestgjafir: Öynefur gaf honum brynbelti, litað í fögrum purpura, en Bellerófontes gaf honum tvíker af gulli, og lét eg það eftir í húsi mínu, þá eg fór heiman; en til Týdeifs man eg ekki, því eg var þá ungur, er hann skildi við mig, þá er her Akkea lézt hjá Þebu. Nú em eg því kær gestvinur þinn hvervetna í Argverjalandi, en þú minn í Lýkíu, þegar eg kem í það land. Látum oss nú varast, að skjóta skafti hvorr að öðrum, og þó í mannþröng sé; því nóg er handa mér til að drepa af Trójumönnum og hinum frægu liðsmönnum þeirra, ef guð gefur mér færi á og eg næ einhverjum þeirra á fæti; nóg er og til handa þér af Akkeum til atvígis, ef þú kemur í færi um. En nú skulum við skiptast vopnum við, svo þeir sjái, sem hér eru, að við erum langfeðgagestfélagar“. 232 Þá þeir höfðu sagt þetta, stukku þeir ofan af kerrunum, tókust höndum saman og seldust tryggðir. En þá glapti Kronusson Glákusi vitsmuni, er hann skipti vopnum við Díómedes Týdeifsson, og lét gullvopn fyrir eirvopn, hundrað uxalög fyrir níu uxalög. 237 Þegar Hektor kom til Skehliða og ætibjarkarinnar, komu konur og dætur Trójumanna hlaupandi og þyrptust kring um hann, og spurði að sonum sínum, bræðrum, vinum og eiginmönnum. Hann bað þær allar, hverja af annarri, að heita á guðina, því margar þeirra áttu harma fyrir höndum. 242 Þá kom Hektor til hinnar fögru hallar Príamuss; hún var gerð með höggnum svölum; í höllinni voru 50 herbergi af höggnum steini, byggð hvert nálægt öðru; þar hvíldu synir Príamuss hjá eiginkonum sínum. En þar gagnvart hins vegar innan hallar voru 12 herbergi af höggnum steini handa dætrum Príamuss, þau voru innan húss og byggð hvert hjá öðru; þar hvíldu dótturmenn Príamuss hjá hinum heiðvirðu konum sínum. Og er Hektor kom þangað, mætti honum hin gjafmilda móðir hans; hún leiddi inn með sér Laódíku; sú var fríðust dætra hennar. Hekaba tók í hönd Hektors, tók til orða og mælti: „Hví ertu kominn, sonur? hví hefir þú yfirgefið hina óvægnu orustu? Mjög þrengja þeir þó að oss, synir Akkea, er eg ekki má nefna, þeir er berjast í kring um borg vora, að hugur þinn skuli hafa hvatt þig að fara hingað, til að fórna höndum upp til Seifs frá háborginni. En bíð þú, meðan eg sæki þér ljúffengt vín, að þú dreypir fyrst dreypifórn föður Seifi og öðrum ódauðlegum goðum, og fáir síðan að hressa þig sjálfur, ef þú getur drukkið nokkuð; því mjög styrkir vín þann mann, sem þreyttur er, eins og þú ert nú þreyttur orðinn af því að verja vini þína og vandamenn“. 263 Hinn mikli, hjálmkviki Hektor svaraði henni: „Færðu mér ekki hið ljúffenga vín, heiðvirða móðir, svo þú ekki vanmegnir mig, og eg missi hug og þrek. Með óþvegnum höndum þori eg ekki að dreypa Seifi hið skæra vín. Á Seif svartskýjaguð má engi heita, sá er ataður er í blóði og dreyrstokknum aur. Heyr þú, kalla saman höfðingjakonurnar, og gakk til hofs hinnar fengsælu Aþenu með fórnir; tak möttul þann, er þú átt fegurstan og mestan í herbergi þínu, og þér þykir langvænst um sjálfri, legg hann í kné hinni hárfögru Aþenu, og heit á hana, að fórnfæra henni í hofinu 12 ársgamlar kvígur ótamdar, og vit, hvort hún vill þá aumkvast yfir borgina og yfir konur og ungbörn Trójumanna, ef svo má verða, að hún bægi Týdeifssyni frá hinni helgu Ilíonsborg, þeim hinum tryllta bardagamanni og sterka flóttafrömuði. Far þú, segi eg, til hofs hinnar fengsælu Aþenu, en eg mun fara á fund Parisar og kalla á hann, ef hann vil hlýða orðum mínum. Þess mundi eg óska, að jörðin sylgi hann þegar í stað; því hinn ólympski guð ól hann upp til mikils tjóns fyrir Trójumenn og fyrir hinn hugstóra Príamus og börn hans. Ef eg sæi hann kominn niður í Hadesarheim, mundi mér finnast sem slokknaður væri hinn sárasti harmur hjarta míns“. 286 Þannig mælti hann, en hún gekk til herbergja sinna og kallaði á þjónustumeyjarnar, og fóru þær um borgina og stefndu saman höfðingjafrúnum. En Hekaba gekk ofan í hinn ilmanda geymslusal; þar átti hún fjölglitaða möttla, er unnið höfðu sættverskar konur, þær er hinn goðumlíki Alexander hafði flutt með sér frá Sídonsborg (Sætt), þá er hann sigldi yfir hið breiða haf, í þeirri ferð er hann flutti hina kyngöfgu Helenu heim til sín. Hekaba tók upp einn möttulinn til að færa Aþenu að gjöf, þann er glitprúðastur var og mestur; lýsti af honum, sem af stjörnu, og lá neðstur af möttlunum. Fór hún nú af stað, og margar höfðingjafrúr með henni. 297 En er þær komu til Aþenuhofs í háborginni, þá lauk hin kinnfagra Þeanó upp dyrum fyrir þeim; hún var dóttir Kisseifs og konu hins reiðkæna Antenors; hana höfðu Tróverjar gert að hofgyðju Aþenu. Þær fórnuðu allar höndum til Aþenu og æptu hástöfum, en hin kinnfagra Þeanó tók möttulinn og lagði í kné hinni hárprúðu Aþenu, gerði bæn sína og hét á dóttur ens mikla Seifs: „Máttuga Aþena, borgarvörður, ágæta gyðja! Brjót í sundur spjót Díómedesar, og lát hann sjálfan falla á grúfu fyrir framan Skehlið; skulum vér þá þegar fórnfæra þér 12 ársgamlar kvígur ótamdar, ef þú vilt þá aumkvast yfir borgina og yfir konur Trójumanna og ungbörn þeirra“. Svo mælti hún biðjandi, en Pallas Aþena varð ekki við bæn hennar. 312 Þannig hétu þær á dóttur ens mikla Seifs; en Hektor gekk til ennar fögru hallar Alexanders, er hann hafði sjálfur smíðað, og menn þeir, er beztir smiðir voru í hinu jarðfrjóva Trójulandi; höfðu þeir gert honum svefnskála og stofu og forgarð í háborginni, nálægt Príamus og Hektori. Hektor, ástvinur Seifs, gekk inn í höllina; hann hafði í hendi sér spjót ellefu álna langt, falurinn fram úr skaftinu var af eiri og lýsti af, og gullhólkur um utan. Hektor hitti Alexander í skála; hann var að fara með hin fögru vopn sín, og handlék skjöld sinn og brynju og hinn bjúga boga; en Helena hin argverska sat hjá ambáttum sínum, og sagði þjónustumeyjum sínum fyrir hannyrðir. En er Hektor leit Alexander, veitti hann honum þungar átölur: „Þú undarlegi maður, ekki sæmir þér að setja þetta ógeð í hug þér. Hermennirnir falla í orustunni kringum borgina og hinn háva borgarvegg; en sökum þín hefir heróp og styrjöld leikið sem logi umhverfis um þessa borg, og mundir þú þó álasa öðrum, ef þú sæir hann liggja svo á liði sínu í hinum geigvænlega ófriði. Heyr nú, rís upp, svo borgin verði ekki brennd í óvina eldi!“ 332 Hinn goðumlíki Alexander svaraði honum: „Með því þú átelur mig, Hektor, með sanngirni og ekki um skör fram, þá skal eg segja þér nokkuð, en þú tak eftir, og heyr, hvað eg segi: ekki er það svo af ógeði eða óvilja til Trójumanna, að eg sit inni í skála, sem af hinu, að eg vil gefa rúm harmi mínum. En nú hefir kona mín farið að mér með mjúkum orðum og eggjað mig til orustu; sýnist mér það og sjálfum sæmra, því sigursældin fer frá manni til manns. Heyr nú, bíð nú eftir mér, meðan eg fer í hervopnin; eða far þú, en eg mun koma á eftir; vonar mig, að eg nái þér“. 342 Svo mælti hann, en hinn hjálmkviki Hektor anzaði honum engu. Þá talaði Helena til hans blíðum orðum: „Mágur minn, ósvífinnar og andstyggilegrar konu, sem völd er orðin mikillar ógæfu. Eg vildi óska, að þann dag, er móðir mín ól mig fyrst, hefði voðalegur vindbylur feykt mér upp á eitthvert fjall, eða ofan í bylgju hins brimótta hafs, og bylgjan svo skolað mér burt, heldur en að þessir atburðir hefðu orðið. En með því guðirnir hafa látið þessi mein að hendi bera, þá vildi eg, að eg hefði verið gefin einhverjum betra manni, sem fyndi til þess álass og þeirra svívirðinga, er hann yrði fyrir af öðrum mönnum; því hyggja þessa manns er ekki staðföst nú, og mun ekki verða á síðan, og er spá mín, að hann muni þar illt af hljóta. Heyr nú, gakk inn, mágur, og sezt á stól þenna, því erfiðið leggst þyngst á þig sökum mín, ósvífinnar konu, og sökum glæps Alexanders; hefir Seifur lagt á okkur þau illu álög, að jafnvel eftirkomandi menn munu orð á gera“. 359 Hinn mikli, hjálmkviki Hektor svaraði henni: „Vel fer þér, Helena, en bjóð mér ekki að sitja, mun eg ekki þiggja það, því nú leikur mér meir í mun að hjálpa Trójumönnum; sakna þeir mín mjög, meðan eg em burtu. En rektú heldur eftir Alexander, og flýti hann sér sjálfur, svo hann nái mér, áður eg fer úr borginni; því eg ætla heim í hús mitt, til að sjá heimafólk mitt, konu mína og minn unga son, því óvíst er, hvort eg kem aftur til þeirra framar, eða guðirnir láta mig falla fyrir Akkeum“. 369 Að því mæltu gekk hinn hjálmkviki Hektor burt, og kom skjótt til hinna fagursettu húsa. Hann fann ekki hina hvítörmuðu Andrómökku í herbergjunum, því hún stóð þá harmandi og grátandi uppi í turninum ásamt með syni sínum og einni fagurmöttlaðri þjónustumey. En er Hektor fann ekki sína ágætu konu heima, gekk hann upp á þröskuldinn, stóð þar og sagði til ambáttanna: „Heyrið, ambáttir, segið mér satt frá! Hvert gekk hin hvítarmaða Andrómakka úr herbergi sínu? Gekk hún til mágkvenna sinna, eða til hinna fagurmöttluðu svilkvenna sinna, eða til Aþenuhofs, þar sem aðrar fagurlokkaðar Trójukonur blíðka hina óttalegu, hárfögru gyðju?“ 381 Hin röskva ráðskona svaraði honum: „Hektor, með því þú biður mig að segja þér satt, þá skal eg gera það: Hvorki gekk hún til mágkvenna sinna, né til hinna fagurmöttluðu svilkvenna sinna, né heldur til Aþenuhofs, þar sem aðrar fagurlokkaðar Tróverjakonur blíðka hina óttalegu, hárfögru gyðju; heldur gekk hún upp í hinn mikla turn Ilíonsborgar, því hún frétti, að Trójumönnum veitti þyngra, en Akkear bæru miklu hærra hlut; gekk hún nýlega upp að borgarvegg, og flýtti sér, svo sem væri hún óð; en barnfóstran er með henni, og ber sveininn“. 390 Svo mælti ráðakonan, en Hektor skundaði út úr húsinu, og fór sama veg aftur um hin vel lögðu stræti gegnum borgina. En er hann kom til Skehliða, þar sem leið hans lá út á völlinn, þá kom þar hlaupandi móti honum hans gjafsæla kona Andrómakka, dóttir hins hugstóra Eetíons. Eetíon bjó undir enu skógótta Plaksfjalli í Undirplaks-Þebu, og var konungur yfir Kilikamönnum; dóttir hans var gift hinum eirvopnaða Hektori. Hún mætti þar manni sínum; var ein þjónustumær með henni, og hélt í fangi sér á hinum bernskulega, kornunga, ástkæra Hektorssyni; hann var líkur fagri stjörnu. Hektor kallaði hann Skamandríus, en aðrir út í frá kölluðu hann Astýanax (Borgarvörð), því Hektor einn varði Ilíonsborg. Þegar Hektor leit á sveininn, brosti hann og þagði, en Andrómakka gekk til hans grátandi, greip um hönd hans, tók til orða og mælti: „Góði Hektor! Áhugi þinn mun verða þér að fjörlesti; þú kennir jafnvel ekki í brjósti um þinn unga son, og ekki um mig, vesæla konu, er bráðum mun verða ekkja eftir þig; því bráðlega munu allir Akkear veitast að þér og drepa þig; væri mér þá betra, þegar þín missir við, að vera komin niður í jörðina, því þá hefi eg ekkert yndi framar, þegar þú hefir bana beðið, heldur harma eina. Engan föður á eg heldur á lífi og enga heiðvirða móður; því hinn ágæti Akkilles drap föður minn og lagði í eyði ena háhliðuðu Þebu, hina fjölbyggðu borg Kilika. Hann vó Eetíon, en fletti hann þó ekki vopnum, svo ósvífinn var hann ekki, heldur brenndi hann með hinum gersemlegu vopnum hans, og varp haug eftir hann, en fjalladísirnir, dætur Seifs ægisskjalda, gróðursettu álmvið í kring um hauginn. Eg átti sjö bræður heima; þeir fóru allir á einum degi inn í Hadesar heim; drap hinn fóthvati, ágæti Akkilles þá alla, þar sem þeir sátu yfir drattandi nautum og hvítum sauðum. Móðir mín var drottning undir enu skógótta Plaksfelli. Akkilles flutti hana hingað með öðrum fjárhlutum, en lét hana lausa aftur, og tók fyrir ógrynni lausnarfjár; þá skaut Artemis örumglöð hana í húsi föður hennar. En þú, Hektor, ert mér faðir og heiðvirð móðir og bróðir, og þú ert eiginmaður minn í blóma aldurs þíns. Heyr nú, kenn í brjósti um mig, og vert hér kyrr í turninum, svo þú eigi gerir son þinn munaðarlausan og konu þína að einstæðingi; skipa heldur hernum í stöðu hjá fíkjuhólnum, þar sem helzt verður upp komizt í borgina og hlaupa má á borgvegginn; því hinir hraustustu kappar, báðir Ajantar, hinn frægi Idomeneifur, þeir Atreifssynir og hinn sterki Týdeifsson, freistuðu þrisvar að ráðast hér á; mun annaðhvort einhverr spáfróður maður hafa sagt þeim það, eða hugur sjálfra þeirra hefir hvatt þá og ráðið til þess“. 440 Hinn mikli, hjálmkviki Hektor svaraði henni: „Eg hefi athuga á öllu þessu, kona; en eg fyrirverð mig stórlega fyrir Trójumönnum og hinum síðmöttluðu konum Tróverja, ef eg flý úr orustu, sem huglaus maður; er það og móti skapi mínu, því em eg jafnan vanur að vera hraustur og berjast meðal hinna fremstu Trójumanna, til að halda uppi hinni miklu frægð föður míns, og svo sjálfs míns orðstír; því eg veit það með vissu í huga mér og hjarta, að sá dagur mun eitt sinn koma, að hin helga Ilíonsborg mun undir lok líða, og svo Príamus og landslýður hins spjótfima Príamuss. En ekki tekur mig eins sárt til Trójumanna, hvorki til sjálfrar Heköbu, né hins volduga Príamuss, né til bræðra minna, sem bæði eru margir og hraustir, þó þeir kynnu að falla til jarðar fyrir óvinunum, eins og mig tekur sárt til þín, ef einhverr hinna eirbrynjuðu Akkea firrir þig frelsisdegi þínum og leiðir þig burt með sér; muntu þá vefa vef undir hendi útlendrar konu í Argverjaborg, og sækja vatn í Messulind eða Hyperíulind; mun þá hart rekið á eftir þér og ströng ánauð á þér liggja. Þá mun einhverr segja, er hann sér þig tárfella: „Þetta er kona Hektors, þess er var hraustastur bardagamaður af hinum reiðkænu Trójumönnum, þá er þeir börðust í kring um Ilíonsborg“; svo mun einhverr segja á síðan, mun þá af nýju vekjast upp hjá þér sár harmur, þegar þú hefðir engan þann mann, er bægt gæti frá þér ánauðardeginum. En fyrr vildi eg að orpinn haugur hyldi mig dauðan, en eg heyrði óp þitt og sæi þig dregna í þrældóm“. [Mynd: Skilnaður Hektors og Andrómökku.] 466 Þá hinn frægi Hektor hafði sagt þetta, rétti hann hendur sínar eftir sveininum, en sveinninn hljóðaði og hallaði sér upp að brjósti hinnar fagurbeltuðu fóstru sinnar; varð hann skelkaður, er hann leit föður sinn, og hræddist, er hann sá eirvopnin og hrosshársskúfinn, er grúfði geigvænlega ofan af hjálminum. Þá hló faðir hans dátt og hans heiðvirða móðir; tók hinn frægi Hektor þá þegar hjálminn af höfði sér og lagði hann niður á jörðina; hann var allur ljómandi; en er hann hafði kysst sinn kæra son og hampað honum á höndum sér, þá hét hann á Seif og aðra guði, og mælti: „Seifur og þér aðrir guðir! Gefið það, að þessi son minn verði eins frábær meðal Trójumanna, og eg er, eins ágætur að afli, og ráði eins volduglega yfir Ilíonsborg, svo menn segi, þá hann kemur heim úr hernaði: „ „Sá er miklu meiri, en faðir hans var“ “; og hafi hann þá með að fara blóðug hervopn, tekin af einhverjum óvini, er hann hefir drepið, en móður hans verði glatt um hjarta“. 482 Að því mæltu lét hann son sinn í fang sinnar kæru konu, en hún tók hann í sinn ilmandi faðm, og hló með tárin í augum. En er maður hennar tók eftir því, viknaði hann, klappaði henni með hendinni, tók til orða og mælti: „Góða kona, gerðu það fyrir mig, vertu ekki of hrygg í huga, því engi mun mig til Hadesar senda fyrir forlög fram; en það hygg eg, að engi maður, þegar hann eitt sinn er fæddur, megi forðast skapadægur sitt, hvort sem hann er huglaus eða hraustmenni. En far þú nú til herbergis þíns, og annast hannyrðir þínar, vefinn og snælduna, og seg þjónustumeyjum þínum að fara til verka; en allir karlmenn, þeir er í Ilíonsborg eru, og einkum eg, eiga að skipta sér af ófriðnum“. 494 Að því mæltu tók hinn frægi Hektor upp hinn taglskúfaða hjálm, en hans kæra kona gekk heim, leit oft aftur og felldi margt þrungið tár. Hún kom skjótt til hinna vel settu húsa Víga-Hektors, og fann þar inni margar þjónustumeyjar, og vakti hún hjá þeim öllum mikla kveinstafi; hörmuðu þær Hektor í húsi sjálfs hans, þó hann enn væri lífs, því þær hugðu, að hann mundi ekki framar aftur heim koma úr styrjöldinni, sloppinn úr hinum sterku greipum Akkea. 503 Paris stóð ekki heldur lengi við í hinum háreistu herbergjum. Þá hann hafði farið í hin ágætu hervopn, er alla vega voru eiri búin, tók hann á rás mikilli og hljóp gegnum borgina. Líkt og gjafarhestur, er alinn er á stalli, slítur festina og hleypur yfir völlinn og lætur hófana ganga, því hann er vanur að baða sig í hinu straumfagra fljóti; er hann þá hróðugur, reisir hátt höfuðið, en faxið flaksast um herðakambinn; hann drambar af fegurð sinni, en fæturnir bera hann skjótt í átthaga og haglendi hestanna: svo gekk Paris Príamsson til Pergamsborgar, ljómandi af hervopnum, sem sól, og fagnaðarfullur, en hinir fráu fætur báru hann áleiðis. Hann hitti brátt hinn ágæta Hektor, bróður sinn, rétt í því hann veik á burt þaðan, er hann átti tal við konu sína. Hinn goðumlíki Alexander talaði þá til hans að fyrra bragði: „Víst tef eg fyrir þér, kæri, er þú hraðar svo mjög ferð þinni; hefir mér dvalizt, og kem eg eigi í tækan tíma, sem þú bauðst“. 520 Hinn hjálmkviki Hektor svaraði honum: „Góði bróðir! Engi sannsýnn maður getur frýjað þér framgöngu í bardögum, því þú ert hraustur maður; en þú ert tómlátur og viljalítill, og fellur mér sárt að heyra þér ámælt af Trójumönnum, er mikla þraut þola fyrir þína skuld. Förum nú af stað, en hitt skulum vér til leiðar færa síðar, ef Seifur lætur oss þess einhvern tíma auðið verða, að setja fram frelsisskaftker í höllinni, til þakklætis við hina eilífu, himnesku guði, fyrir það að vér höfum rekið hina fagurbrynhosuðu Akkea burt úr Trójulandi. SJÖUNDI ÞÁTTUR EINVÍG HEKTORS OG AJANTS. VALGRÖFTUR. Að því mæltu hljóp hinn frægi Hektor út um borgarhliðið, og Alexander, bróðir hans, með honum; var í þeim báðum áhugi mikill að ganga í orustu og berjast. En svo sem skipverjar verða fegnir, ef guð gefur þeim byr, þá þeir eru orðnir þreyttir að lemja sjóinn með hinum sléttsköfnu árum, og limir þeirra eru lémagna orðnir af erfiði: svo urðu Trójumenn fegnir, þegar þeir komu, bræður. 8 Þeir bræður tóku þegar til víga, drap Alexander Menesþíus, hann bjó í Örnu, son Areþóus konungs, sonar Areþóus kylfings og hinnar mikileygu Fýlómedúsu. Hektor skaut Ejóneif með hvössu spjóti; kom skotið í hálsinn undir hina eirsterku hjálmrönd, og var það hans bani. En Glákus Hippolokkusson, foringi Lýkíumanna skaut spjóti í hinum harða bardaga; það kom í öxl á Ifínóus Dexíussyni, því er hann stökk upp á kerru sína; féll hann ofan af kerrunni til jarðar, og var þegar dauður. 17 Þá er hin glóeyga Aþena varð þess vör, að Argverjar féllu í hinum harða bardaga, þá fór hún brunandi ofan af Ólympstindum, og til hinnar helgu Ilíonsborgar. Appollon sá til ferða hennar frá Pergamsvígi; hann fór til móts við hana, því hann unni Trójumönnum sigurs. Þau hittust hjá ætibjörkinni. Hinn voldugi Appollon, sonur Seifs, talaði til hennar að fyrra bragði: „Hví kemur þú svona óð ofan af Ólympi, dóttir hins mikla Seifs? Hví er þér slíkur ákafi í hug? Hvort ætlar þú nú að veita Danáum þann sigur í orustunni, að úr slíti með þeim? Svo mun vera, þar er þú aumkvast yfir Trójumenn alls ekki, þó þeir falli. Nú ef þú vilt í nokkuru fara að ráðum mínum, og mun þá betur fara, þá skulum við nú láta staðar nema bardagann og styrjöldina í dag; geta þeir svo barizt síðar, þar til er þeir sjá fyrir enda á Ilíonsborg, með því það er vilji ykkar gyðjanna að leggja borg þessa í eyði“. 33 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Svo skal vera, Fjarvirkur! Þetta var og erindi mitt, er eg kom nú frá Ólympi til Trójumanna og Akkea. En heyr nú, hversu viltú stöðva ófrið hermannanna?“ 37 Hinn voldugi Appollon, sonur Seifs, svaraði henni: „Við skulum æsa upp ofurhug hins reiðkæna Hektors; má vera, að hann skori á Danáa, að einhverr þeirra berjist aleinn við sig í grimmum bardaga; má þá svo fara, að hinum eirbrynhosuðu Akkeum þyki nóg um, og sendi einhvern einn til að berjast við hinn ágæta Hektor“. 43 Svo mælti hann, en hin glóeyga gyðja Aþena féllst á tillögur hans. Helenus, Príamuss kæri son, varð áskynja ráðagerðar þeirrar, er goðin höfðu ráðið og fest með sér; hann gekk þá til Hektors og mælti til hans: „Hektor Príamsson, jafnráðsnjallur Seifi! Far nú að mínum ráðum, því eg er bróðir þinn. Seg öðrum Trójumönnum og öllum Akkeum að setjast niður, en þú sjálfur skora á þann af Akkeum, sem hraustastur er, að berjast við þig í grimmum bardaga. Því þess hefi eg áheyrsla orðið af tali hinna eilífu guða, að ekki liggur enn fyrir þér að deyja og bíða bana“. 54 Svo mælti hann, en Hektor varð stórlega feginn, er hann heyrði þetta; hann gekk fram milli fylkinganna, hélt um mitt spjótskaftið og þokaði aftur flokkum Trójumanna; settust þeir þá allir niður, og Agamemnon lét þá og hina fagurbrynjuðu Akkea setjast. Þá settust þau Aþena og Appollon silfrinbogi, eins og skegggammar, á hina hávu ætibjörk Seifs ægisskjalda, og höfðu gaman af hermönnunum; sátu flokkar þeirra þétt saman með reistum skjöldum, hjálmum og spjótum. Eins og hafið dökknar af vindgráði, er leggst á sjóinn fyrir nýrisnum vestanvindi, eins voru flokkar Akkea og Trójumanna, þar þeir sátu á vellinum. Hektor talaði þá til hvorratveggju: „Hlýðið á, Trójumenn og þér fagurbrynhosuðu Akkear, meðan eg mæli, það er mér býr í brjósti. Kronusson hásætisguð hefir ekki látið sættir vorar verða framgengar, heldur hefir hann illt í hyggju, og ætlar hvorumtveggjum óhamingju, þar til er annaðhvort verður, að þér takið hina turnsterku Trójuborg, eða verðið sjálfir sigraðir hjá enum haffæru skipum. Nú hafið þér með yður þá, er hraustastir eru af alþjóð Akkea. Komi hér nú einhverr af yður öllum, sá er hug hefir til að berjast við mig, og veri forvígismaður móti hinum ágæta Hektori. En svo mæli eg um, og þar veri Seifur oss vottur að: ef svo fer, að hann drepur mig með hinu langeggjaða eirvopni, þá skal hann fletta mig vopnum, og hafa þau með sér til enna holu skipa, en skila aftur heim líki mínu, svo Trójumenn og konur Tróverja nái að gera mér þann sóma, að brenna mig dauðan. En fari svo, að eg drepi hann, og Appollon veiti mér ósk mína, þá skal eg fletta hann vopnum, og hafa þau með mér til ennar helgu Ilíonsborgar, og festa þau upp í hofi ens langskeyta Appollons, en líki hans skal eg skila aftur til hinna þóftusterku skipa, svo enir hárprúðu Akkear megi jarða það og verpa haug eftir hann við hið breiða Hellusund. Og þá mun einhverr eftirkomandi manna segja á síðan, þá er hann siglir á margþóftuðu skipi yfir hið dimmbláa sund: „ „Þar er haugur þess manns, er fyrir löngu er dáinn, hreystimanns þess, er hinn frægi Hektor drap forðum“ “. Þannig munu menn að orði kveða, og mun svo minn orðstír aldrei undir lok líða“. 92 Þannig mælti hann, en þeir þögðu allir og voru hljóðir; þókti þeim mikið fyrir að skorast undan, en þorðu ekki undir að gangast. Loksins stóð Menelás upp og tók til orða, veitti þeim harðar átölur, og var honum mjög þungt niðri fyrir: „Vei veri skrumurum yðrum! Konur eruð þér, en karlmenn ekki! Mun það verða hin mesta svívirðing, ef engi Danáa fer nú móti Hektor. Verði þér allir að vatni og moldu, þar sem þér sitjið hér, hverr sem einn, svo hjartalausir og sæmdarlausir sem þér eruð. Eg skal sjálfur herklæðast móti honum, en afburður sigursins er í höndum hinna ódauðlegu goða á upphæðum“. 103 Að því mæltu fór hann í hin fögru vopn. Þar hefðir þú nú, Menelás, bana beðið fyrir hendi Hektors, því hann var þér miklu meiri maður, ef höfðingjar Akkea hefðu ekki sprottið upp og aftrað þér. Sjálfur Atreifsson, hinn víðlendi konungur Agamemnon, greip um hönd Menelási, tók til orða, og mælti: „Þú fer óviturlega, Menelás, fósturson Seifs; slíkt óvit sæmir þér ekki. Halt þér í stilli, þó þú eigir bágt með, og hirð ekki að deila kappi við þér meira mann, þar sem Hektor er Príamsson, er allir aðrir eru hræddir við, og jafnvel Akkilles, sem er miklu meiri fyrir sér en þú, kveinkar sér við að mæta honum í mannsæmum bardaga. Heyr nú, gakk í flokk sveitunga þinna, og sit þar, en Akkear munu fá til annan forvígismann að ganga til móts við Hektor; og þó til verði sá maður, sem er óttalaus og óleiður á bardögum, er gáta mín, að hann muni þó feginn, verða hvíldinni, ef hann að eins kemst lífs úr hinni skæðu styrjöld og grimmu baráttu“. 120 Með þessum orðum taldi kappinn bróður sínum hughvarf, því þetta voru heilræði, enda hlýddi Menelás ráðum hans; urðu sveinar hans fegnir því, og tóku vopnin af herðum hans. Þá stóð Nestor upp meðal Argverja, og mælti: „Skelfing er slíkt! Mikill harmur sækir heim Akkealand! Sannlega mundi hinn aldraði maður, riddarinn Peleifur, sárlega kveina, sá hinn ágæti ráðanautur og orðsnillingur Myrmídóna, er eitt sinn hafði mikið gaman af því í húsi sínu, að spyrja mig tíðinda, og frétti þá eftir ætt og uppruna allra Argverja. Ef hann spyrði nú, að þeir æðruðust allir fyrir Hektori, mundi hann af alvöru hefja upp hendur sínar til hinna ódauðlegu guða, að öndin mætti líða úr líkam sínum og fara niður í Hadesar heim. Faðir Seifur og Aþena og Appollon! Eg vildi óska, að eg hefði nú hið sama æskufjör, og eg hafði, þegar Pýlverjar og Arkadar fundust á fljótsbökkum hins straumharða Keladons, og börðust hjá Féborgar veggjum, nálægt Jardansstraumum. Þá gekk Erevþalíon fram; hann var forvígismaður Arkada; hann var goðunum jafn að fræknleik; hann bar á herðum sér hervopn Areþóuss konungs, hins ágæta Areþóuss, er bæði karlar og fagurbeltaðar konur kölluðu að viðurnefni kylfing, því hann hafði ekki boga eða langspjót í bardögum, heldur gekk hann gegnum fylkingar með járnkylfu. Lýkúrgus drap Areþóus ekki með vaskleik, heldur með vélum, á einum þröngum stig; gat Areþóus þar ekki komið vörn fyrir sig með járnkylfunni, því Lýkúrgus varð skjótari að bragði, og lagði spjótinu á honum miðjum og í gegn, en Areþóus féll til jarðar upp í loft; tók Lýkúrgus þá af honum hervopn það, er hinn eirvopnaði Ares hafði gefið honum; bar hann það vopn síðan sjálfur í hernaði. En er Lýkúrgus tók að eldast í húsi sínu, gaf hann kylfuna Erevþalíoni, sveini sínum, að vopni. Erevþalíon hafði nú kylfuna Lýkúrgusnaut, og skoraði á hvern mann, er hraustastur var, en allir skulfu og voru hræddir, og þorði engi að gefa sig fram. Þá hvatti mig hinn djarfi hugur til vígs með áræði sínu, og var eg þó yngstur allra að aldri. Barðist eg þá við Erevþalíon, og veitti Aþena mér ósk mína. Þann drap eg stærstan mann og sterkastan; var hann æðimikill um sig á hvorn veg, þar sem hann lá fallinn endilangur. Nú vildi eg óska, að eg væri orðinn eins ungur og þá, og hefði óskert afl mitt; þá skyldi hinn hjálmkviki Hektor bráðlega fá að berjast. En þó er engi af yður, sem eruð hraustastir af alþjóð Akkea, svo öruggur, að hann treysti sér til að fara móti Hektori“. 161 Þannig átaldi hinn gamli maður þá. Þá stóðu upp alls níu menn: fyrstur allra reis upp herkonungurinn Agamemnon; næstur honum reis upp hinn sterki Díómedes Týdeifsson; þá þeir Ajantar, þeir voru berserkir að afli; þá Idomeneifur, og Meríónes, fylgdarmaður hans, líkur hinum mannskæða Vígaguði; þá Evrýpýlus, Evemons frægi son; þá Þóant Andremonsson og hinn ágæti Odysseifur. Þessir vildu allir berjast við hinn ágæta Hektor. Hinn gerenski riddari Nestor mælti þá aftur til þeirra: „Varpið nú hlutkesti allir saman, og vitið, hverr hlutskarpastur verður; því sá hinn sami mun stórum gleðja hina fagurbrynhosuðu Akkea, enda mun hann og stórum fagna í hjarta sínu, ef hann að eins kemst lífs af úr hinni skæðu styrjöld og grimmu baráttu“. 175 Svo mælti hann, en þeir mörkuðu hverr sinn hlut, og köstuðu í hjálm Agamemnons Atreifssonar. Hermennirnir báðust þá fyrir, og hófu hendur sínar upp til guðanna; tók þá hverr svo til orða, og leit um leið upp í hinn víða himin: „Faðir Seifur, hljóti annaðhvort Ajant eða Týdeifsson, eða þá sjálfur konungur hinnar gullauðgu Mýkenu“. 181 Þannig tóku menn til orða. Hinn gerenski riddari Nestor hristi hjálminn, og stökk út úr hjálminum sá hluturinn, sem þeir óskuðu; það var hlutur Ajants. Kallarinn bar hlutinn réttsælis um allan flokkinn, og sýndi öllum höfðingjum Akkea, en þeir könnuðust ekki við, og kvaðst engi eiga. Gekk kallarinn nú allt um kring, og kom loks til hins fræga Ajants, þess er hlutinn hafði markað og kastað í hjálminn. Ajant hélt hendi sinni undir, en kallarinn gekk til hans og kastaði hlutnum í lófa hans. Ajant kannaðist við hlutinn, þegar hann sá markið; varð hann glaður í huga, varpaði hlutnum fyrir fót sér til jarðar, og mælti: „Þetta er minn hlutur, vinir; verð eg því og feginn, því eg vona, að eg muni sigrað fá hinn ágæta Hektor. Heyrið nú, meðan eg fer í hervopnin, þá biðji hverr yðar til hins volduga Seifs Kronussonar í hljóði, svo Trójumenn ekki heyri, eða þá í heyranda hljóði, því vér hræðumst alls engan. Engi skal, þó hann vilji, hrekja mig nauðugan, hvorki með kröftum eða með fimleik; því mig vonar, að eg hafi ekki fæðzt og upp alizt í Salamsey svo óvanur öllum íþróttum“. [Mynd: Hermaður með alvæpni.] 200 Þannig mælti hann, en menn hétu á hinn volduga Seif Kronusson; tók þá hverr svo til orða, í því hann leit upp í hinn víða himin: „Faðir Seifur, þú sem ríkir á Ídafjalli, þú vegsamlegasti og mesti guð! Veit Ajanti að öðlast sigur og veglega frægð. En hafir þú einnig Hektor kæran og elskir hann, þá veit þeim báðum jafnan styrk og sóma!“ 206 Þannig tóku menn til orða, en Ajant bjó sig blikanda eiri; en er hann var kominn í allan herbúnaðinn, þá óð hann af stað, og var í göngu sem hinn afar stóri Ares, þegar hann fer í orustu til þeirra manna, er Kronusson hefir saman att til að berjast með sárbeittu kappi. Þvílíkur var hinn afar stóri Ajant, varnargarður Akkea, á velli að sjá: hann glotti með óalegum andlitssvip, skálmaði stórum, þá hann gekk, og veifaði langskeftu spjóti; urðu Argverjar mjög glaðir, er þeir litu hann, en megn skjálfti kom í kné sérhverjum Trójumanni, og þá barðist hjartað í brjósti sjálfs Hektors, en nú mátti hann ekki undan hvika eða hörfa aftur í flokk manna sinna, er hann hafði öðrum til einvígis boðið. Nú kom Ajant nær; hann hafði skjöld, sem turn, eirlagðan leðurskjöld, sjöbyrðing; þann skjöld hafði Tykkíus smíðað með miklum hagleik; hann var allra skinnara hagastur og átti heima í Hýlu; hafði hann gert honum þenna handbæra skjöld af sjö eldisnauta húðum, en áttunda lagið hafði hann smíðað af eiri. Þenna skjöld hafði Ajant Telamonsson fyrir sér, þá hann gekk fram að Hektori, og talaði til hans stóryrðum þessum: „Nú muntu, Hektor, er þú ert aleinn, ljóslega komast að raun um, hvílíkir hreystimenn enn eru meðal Danáa, þó Akkilles sé frá, hinn ljónhugaði fylkingabrjótur, er nú liggur niðri við hin stafnbognu, haffæru skip, og er síreiður þjóðhöfðingjanum Agamemnon. Því vér erum svo fræknir, að vér munum geta mætt þér, og það margir af oss. En byrja þú fyrri bardagann og orustuna!“ 233 Hinn mikli, hjálmkviki Hektor svaraði honum: „Seifborni Ajant Telamonsson, þjóðhöfðingi! Freista þú mín ekki, sem orkulauss sveins, eða sem konu, er ekki kann hernaðaríþróttir. Því eg em vanur bardögum og manndrápum: kann eg að stýra þurrum hráskinnsskildi á báða bóga, jafnt til hægri sem vinstri handar, og em eg því þrautgóður í orustu; kann eg að veita áhlaup í kerrubardögum; kann eg að stíga dans hins skæða Aresar í fastabardaga. En eg vil ekki svíkjast að þér, slíkum manni: eg vil ekki skjóta á þig á laun, heldur með vitund þinni, og vita, hvort eg fæ hitt þig“. 244 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót, og skaut; kom skotið í hinn ógurlega, sjöbyrða skjöld Ajants, yzta eirlagið, sem var hið áttunda á skildinum; gekk hið ósljóva eirvopn í gegnum sex lögin, en nam staðar í sjöunda leðrinu. Því næst skaut hinn seifborni Ajant sínu langskefta spjóti; kom skotið í hinn kringlótta skjöld Príamssonar, og gekk hið sterka spjót í gegnum hinn fagra skjöld, og inn úr hinni gersemlegu brynju, og skar spjótið kyrtilinn gegnt náranum; en Hektor vék sér undan, og forðaði sér við hinni svörtu Valkyrju. Síðan kipptu þeir báðir í senn hinum löngu spjótum út úr skjöldunum, og hlupust á, líkir hráætum ljónum eða villigöltum, er aldrei verður aflfátt; lagði Príamsson spjóti sínu í miðjan skjöldinn, og beit ekki á, bognaði spjótsoddurinn í eirlaginu. Ajant lagði í skjöld Hektors, og stökk á lagið; gekk spjótið í gegn, og hratt Hektori á bak aftur, í því er hann óð að fram; spjótið nam hálsinn og skar skinnsprett, og vall út svart blóð. En hinn hjálmkviki Hektor gaf ekki upp bardagann að heldur, heldur vék hann aftur, og tók með sinni þreknu hendi stein einn, er lá á vellinum; hann var svartur, hrufóttur og stór. Þeim steini kastaði hann á hinn ógurlega, sjöbyrða skjöld Ajants, og kom steinninn á miðja skjaldarnöfina, og söng við í eirinu. Því næst tók Ajant upp miklu stærri stein, sveiflaði í hring og henti, og tók á ofurafli sínu. Steinninn var sem kvernsteinn, og kom á skjöldinn, og brast inn skjöldurinn; kiknaði Hektor þá í knjáliðum, er skjöldinn bar að honum, og féll hann flatur upp í loft, en Appollon reisti hann skjótt á fætur aftur, og nú hefðu þeir gengizt að í höggorustu og barizt með sverðum, ef kallararnir, erindsrekar Seifs og manna, hefðu ekki til komið, þeir Taltybíus og Ídeus; var annar þeirra kallari Trójumanna, en hinn enna eirbrynjuðu Akkea; voru þeir báðir vitrir menn. Þeir héldu sprotum sínum mitt á meðal þeirra beggja. Kallarinn Ídeus, sem vissi mörg viturleg ráð, tók þá til máls: „Berjizt eigi lengur, kæru synir! Skýsafnarinn Seifur elskar hvorn tveggja ykkar, og báðir eruð þér spjótfærir menn, það vitum vér allir. En nú er nótt komin, og er bezt, að láta nótt ráða“. 283 Ajant Telamonsson svaraði honum: „Ídeus, látið Hektor segja þetta, því hann skoraði fyrst á alla hina hraustustu til eínvigis. Gegni hann fyrst, og þá skal eg gjarna gegna, þegar hann gegnir“. [Mynd: Ajant og Hektor skiptast á gjöfum.] 287 Hinn mikli, hjálmkviki Hektor svaraði honum: „Ajant, með því guð hefir veitt þér vöxt og afl og viturleik, og þú ert maður spjótfimastur af Akkeum, þá skulum við nú hætta bardaganum í dag; getum vér svo barizt aftur síðar meir, þar til er guð lætur úr slíta með okkur og veitir öðrum hvorum sigur. En nú er nótt komin, og er þá bezt, að láta nótt ráða, svo þú megir gleðja alla Akkea við skipin, og einkum félaga þína og sveitunga, en eg megi gleðja Trójumenn í hinni miklu borg Príamuss konungs, og hinar síðmöttluðu Trójukonur, er ganga munu inn í heilög goðahús og vinna heit fyrir heimkomu mína. En heyr nú, látum okkur gefa hvorr öðrum sæmilegar gjafir, svo Akkear og Trójumenn taki svo til orða: „ „Þeir gerðu báðir hvortveggja, að þeir börðust af sárbeittri kappgirni, enda sættust þeir aftur og skildust vinir“.“ 303 Þá hann hafði þetta mælt, bar hann fram silfurneglt sverð með umgjörð og vel sniðnum fetli, og gaf honum; en Ajant gaf Hektori brynbelti, litað í ljómandi purpura. Síðan skildu þeir, fór Ajant í her Akkea, en Hektor gekk í flokk Trójumanna; urðu þeir fegnir, er þeir sáu hann ganga til sín lífs og heilan, og að hann var sloppinn undan afli Ajants og úr hinum óárennilegu höndum hans; leiddu þeir hann til borgarinnar, höfðu þeir ekki búizt við að heimta hann heilan aftur. En hins vegar leiddu enir fagurbrynhosuðu Akkear Ajant til hins ágæta Agamemnons, glaðan af sigri sínum. 313 En er þeir komu í búð Atreifssonar, lét þjóðhöfðinginn Agamemnon slátra fimm vetra gömlum uxa til fórnar hinum afar volduga Kronussyni; flógu þeir uxann og gerðu til, limuðu allan í sundur, brytjuðu svo limina kunnáttulega, og stungu stykkjunum upp á teina, og steiktu þau gætilega, og tóku þau svo öll af teinunum. En er þeir höfðu lokið því starfi og matreitt, settust þeir að mat, og var einskis vant að skammtveizlu þeirri. En öðlingurinn, hinn víðlendi konungur Agamemnon Atreifsson, veitti Ajanti þá virðingu, að hann lagði fyrir hann heilan uxahrygginn, eins og hann var sig til. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, þá tók hinn aldraði Nestor til máls, og bar upp fyrir þeim ráðagjörð nokkura; þóttu og hans tillögur jafnan hinar beztu; hann var þeim vel viljaður, tók til orða og mælti: „Þú Atreifsson, og þér aðrir höfðingjar af alþjóð Akkea! Nú með því að margir eru fallnir af hinum hárprúðu Akkeum, er hinn skapbráði Ares hefir stökkt dauðablóði þeirra víðs vegar um bakka hins straumfagra Skamanders, en sálir þeirra gengnar niður í Hadesar heim, þá skaltu ekki láta Akkea berjast á morgun; skulum vér þá safnast saman og aka líkunum hingað með nautum og múlum, og brenna þau skammt upp frá skipunum, svo hverr megi færa sonunum heim bein feðra sinna, þegar vér förum heim aftur til föðurjarðar vorrar; skulum vér svo út fara og verpa öllum einn sameiginlegan haug á vellinum í kring um bálið; þá skulum vér skjótlega byggja háva turna hjá haugnum, skipunum og hernum til varnar; skulum vér gera þar á vel felld hlið, svo þar í gegn megi vera akbrautarvegur; en við hliðin að utanverðu skulum vér grafa djúpa gröf; skal hún ganga allt með turnunum og vera til varnar kerrum og hermönnum, svo aðsókn hinna framgjörnu Trójumanna leggist aldrei þungt á“. Svo mælti hann, en allir höfðingjarnir rómuðu vel mál hans. 345 Trójumenn áttu og samkomu í Ilíonsborg, í háborginni, hjá hallardyrum Príamuss; var sú samkoma full ótta og óróa. Hinn vitri Antenor tók þannig fyrstur til máls: „Hlýðið til, þér Tróverjar, Dardanar og liðsmenn, meðan eg tala, það er mér býður hugur um. Komið til, látum oss skila Atreifssonum aftur Helenu hinni argversku og fjárhlutum hennar með henni; því nú vegum vér á gjörvar sættir, og mun vor hlutur ekki batna við það“. 354 Að því mæltu settist hann niður. Þá stóð upp hinn ágæti Alexander, maður hinnar hárfögru Helenu; hann talaði til hans skjótum orðum og mælti: „Ekki líkar mér þetta, sem þú leggur nú til, Antenor, og muntu geta hugsað upp eitthvert annað betra ráð, en þetta. En ef þú leggur þetta til af fullri alvöru, þá hafa víst sjálfir guðirnir tekið frá þér vitsmuni þína. Nú mun eg bera upp atkvæði mitt fyrir hinum reiðkænu Trójumönnum, og kveða skýrt á: ekki mun eg skila aftur konunni, en öllum þeim fjárhlutum, sem eg flutti frá Argverjalandi í hús mitt, vil eg aftur skila, og enn bæta þar við öðru meiru frá sjálfum mér“. 365 Að því mæltu settist hann niður. Þá stóð upp Príamus, Dardanungur, jafnoki goðanna að ráðsnilli; hann var þeim vel viljaður, tók til orða og mælti: „Hlýðið á, þér Tróverjar, Dardanar og liðsmenn, meðan eg tala, það sem mér býður hugur um! Þér skuluð nú taka kvöldverð í borginni, sem þér hafið fyrr verið vanir, haldi síðan hverr yðar vörð, og vaki. En á morgun skal Ídeus fara til enna holu skipa, og segja þeim Atreifssonum, Agamemnon og Menelási, orð Alexanders, er rimma þessi hefir af risið; þá skal hann og bera upp þau kostaboð, hvort þeir vilji af láta hinum róstusama ófriði, meðan vér brennum líkin; getum vér svo barizt síðar, þar til er guð lætur úr slíta með oss og veitir öðrum hvorum sigur“. 379 Þannig mælti hann, en þeir hlýddu honum, og gerðu, sem hann bauð. Morguninn eftir fór Ídeus til enna holu skipa; fann hann Danáa, þjónustumenn Aresar, á samkomu hjá skutstafni skips Agamemnons; gekk hinn snjallrómaði kallari á fund þeirra, og tók svo til máls: „Þið Atreifssynir, og þér aðrir höfðingjar af alþjóð Akkea! Príamus og aðrir göfugir Trójumenn báðu mig, ef yður væri það ljúft og kært, að bera yður orð Alexanders, er rimma þessi hefir af risið: Alexander vill skila aftur öllum þeim fjárhlutum, er hann flutti til Trójuborgar á hinum holu skipum (betur hann hefði farizt áður!), og bæta þar við enn öðru frá sjálfum sér, en ekki kveðst hann muni skila aftur eiginkonu hins fræga Meneláss, og eru þó Trójumenn þess mjög fýsandi; þá bað hann mig skila til yðar, hvort þér viljið láta af hinum róstusama ófriði, meðan vér brennum líkin; getum vér svo barizt síðar meir, unz guð lætur úr slíta með oss, og veitir öðrum hvorum sigur“. 398 Svo mælti hann, en þeir þögðu allir og voru hljóðir; loksins tók hinn rómsterki Díómedes til orða: „Hvorki skal nú þiggja fjárhluti Alexanders, né heldur sjálfa Helenu; því það sér hvert barnið, að fullkomið tjón vofir nú yfir Trójumönnum“. 403 Svo mælti hann, en allir synir Akkea gerðu góðan róm að máli hans, og þókti þeim hinn reiðfimi Díómedes talað hafa ágætlega. Þá mælti Agamemnon konungur til Ídeuss: „Þú heyrir sjálfur, Ídeus, atkvæði Akkea, hversu þeir svara þér, og mér líkar svo að hafa. En það er til líkanna kemur, þá meina eg ekki, að brenna þau; því ekki má láta hjá líða, að friða andvana menn með bálför, jafnskjótt og þeir eru dánir. En Seifur háþrumugoð, verr Heru, sé vottur þessarar sáttargjörðar“. 412 Að því mæltu hóf hann veldissprotann upp til allra guðanna, en Ídeus fór aftur til ennar helgu Ilíonsborgar. Allir Trójumenn og Dardanar sátu á samkomu á torginu, og biðu þess, að Ídeus kæmi. Hann kom og gekk á samkomuna, og sagði fram erindi sitt; bjuggust menn þá skjótt, sumir að sækja líkin, en aðrir í skóg eftir viði. Hins vegar sendu Argverjar frá hinum þóftusterku skipum, suma til að sækja líkin, en suma í skóg eftir viði. 421 Helíus var nýkominn upp á himinhvolfið frá enum straumlygna, djúpa Jarðarstraumi, og var nýfarinn að skjóta geislum sínum á sáðlöndin, þegar þeir mættu hvorir öðrum, Trójumenn og Akkear. Þar var torvelt að þekkja hvern dauðan mann frá öðrum, en þeir þógu í vatni hið storkna blóðhlaup af líkunum, hófu þau upp á kerrur, og út helltu heitum tárum. Hinn mikli Príamus bannaði Trójumönnum að kveina, lögðu þeir því líkin þegjandi á bálið, harmþrungnir í hjarta, brenndu svo líkin í eldi, og fóru svo heim til ennar helgu Ilíonsborgar. Hins vegar lögðu hinir fagurbrynhosuðu Akkear líkin á sama hátt á bálið, harmþrungnir í hjarta, brenndu þau svo í eldi, og fóru að því búnu ofan til enna holu skipa. 433 Áður en dagaði, og meðan enn var hálfljós nótt, vöknuðu þeir menn af Akkeum, er þar til voru kjörnir, hjá bálinu, fóru síðan út og gerðu einn sameiginlegan haug á vellinum umhverfis um bálið, en hjá haugnum hlóðu þeir garð og háva turna, skipunum og sjálfum þeim til varnar; hjá turnunum gerðu þeir vel felld hlið, svo þar mætti vera akbrautarvegur um, en hjá garðinum að utanverðu grófu þeir djúpt díki, breitt og langt, og ráku þar niður staura. 442 Þetta störfuðu hinir hárprúðu Akkear. Guðirnir, er sátu á samkomu hjá Seifi eldingaguði, horfðu á með undrun á stórvirki hinna eirbrynjuðu Akkea. Posídon landaskelfir tók þá svo fyrstur til máls: „Faðir Seifur, mun nokkurr sá dauðlegur maður til vera í víðri veröldu, er hér eftir muni láta hina ódauðlegu guði vita af ætlun og ráðagerð sinni? Sér þú ekki, að hinir hárprúðu Akkear hafa hlaðið nýjan garð fyrir ofan skipin, og grafið díki langs með honum, án þess þeir hafi fært guðunum sæmilegar hundraðsfórnir? Af þeim garði mun orðstírinn ganga, eins langt og dagsbirtan dreifist; en hinum, sem við Febus Appollon hlóðum með miklum erfiðismunum fyrir öðlinginn Laomedon, honum munu menn gleyma“. 454 Seifi skýsafnara varð þungt í skapi, og mælti til hans: „Mikil undur! Enn að þú, afar sterki Landaskelfir, skulir mæla slíkt! Einhverr annar af guðunum, sem þér væri miklu kraftaminni og hugminni, mætti vel hræðast þetta fyrirtæki, en þinn orðstír skal fara, svo langt sem dagsbirtan dreifist. Kom þú til, þegar hinir hárprúðu Akkear eru aftur farnir á skipum sínum heim í sitt kæra föðurland, þá brjót þú niður garðinn, og velt honum öllum út í sjó, og þek aftur hina víðu strönd með sandi; muntu með því móti eytt fá hinum mikla garði Akkea“. 464 Þannig töluðust þeir við um þetta; var nú komið að sólsetri, og höfðu Akkear af lokið starfi sínu. Slátruðu þeir nú uxum, hverr í sinni búð, og tóku náttverð. Þar voru komin við land mörg skip frá Lemney með vínfarm; þau skip hafði sent Evneus Jasonsson, er Hypsípýla hafði átt við þjóðhöfðingjanum Jasoni. Auk þess hafði Jasonsson sent þeim Atreifssonum, Agamemnon og Menelási, þúsund mæla víns. Af þessu skipi keyptu hinir hárprúðu Akkear sér vín, sumir fyrir eir, aðrir fyrir fagurt járn, aðrir fyrir húðir, aðrir fyrir nautin sjálf, og enn aðrir fyrir þræla. Efndu þeir nú til dýrrar veizlu. Sátu hinir hárprúðu Akkear að veizlu alla nóttina, en Trójumenn og liðsmenn þeirra í borginni. En hinn ráðvísi Seifur var illum hug til þeirra alla nóttina, og lét koma ógurlegar þrumur; greip þá bleikur ótti Akkea, og helltu til jarðar víni af drykkjarkerunum, og þorði engi að drekka, fyrr en hann hafði dreypt hinum afar sterka Kronussyni. Eftir það gengu þeir til svefns og tóku á sig náðir. ÁTTUNDI ÞÁTTUR HINN ENDASLEPPI BARDAGI. MORGUNGYÐJAN, íklædd sóllauksmöttli, dreifði sér nú yfir alla jörðina. Þá átti hinn þrumuglaði Seifur goðaþing á efsta hnúki hins fjöltindótta Ólymps; hann hélt sjálfur ræðu fyrir þeim, en allir guðirnir hlýddu á: „Hlustið á, allir guðir og allar gyðjur, meðan eg mæli, það er mér býður hugur um! Engi yðar, hvorki guð né gyðja, skal leita við að ónýta, það sem eg nú segi, heldur skuluð þér allir saman verða því samþykkir, svo eg fái sem bráðast framkvæmt þessa fyrirætlun mína. En verði eg þess var, að nokkurr yðar fari burt héðan af goðafjallinu, og vilji veita lið annaðhvort Trójumönnum eða Danáum, þá skal sá verða óvægilega þrumusleginn og fara við svo búið til Ólymps aftur; eða eg skal taka hann og fleygja honum ofan í hinn myrkva Ógnarheim, mjög langt héðan, þar sem geimurinn er dýpstur undir jörðinni; þar eru fyrir járngrindur og eirþröskuldur; það er svo langt fyrir neðan Myrkheim, sem himinhvolfið er langt upp frá jörðunni. Þá skal hann fá að finna, hve miklu eg em máttugastur allra goðanna. Komið, guðir, ef þér viljið, og reynið yður við mig, svo þér gangið allir úr skugga um. Hengið gullfesti ofan frá himinhvolfinu, og hangið allir í henni, guðir og gyðjur allar; þér munuð þó ekki fá dregið Seif, hinn æðsta ráðgjafa, ofan af himni niður til jarðar, hvað fast sem þér takið í. En ef eg vildi taka á fyrir alvöru, þá gæti eg dregið yður upp með allri jörðinni og sjónum, brugðið svo festinni um hnúkinn á Ólympi, og héngi svo allt, hvað til er, í loftinu. Svo miklu em eg meiri guðunum, svo miklu meiri mönnunum“. 28 Svo mælti hann, en þeir voru allir hljóðir og þögðu; urðu þeir forviða við þessa ræðu, þvi hann hafði talað skorinort. Loksins tók hin glóeyga gyðja Aþena til máls: „Þú vor faðir, Kronusson, æðstur konunga! Víst vitum vér fullvel, að afl þitt er ósigrandi; en ei að síður fellur oss sárt, að Danáar skuli drepast niður svo hraparlega. Nú viljum vér að vísu engan hlut eiga að styrjöldinni, með því þú býður svo; en ráð munum vér leggja Argverjum, það er þeim megi að gagni verða, svo þeir tortýnist ekki allir fyrir reiði þinni“. 38 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni brosandi: „Vertu óhrædd, kæra dóttir, Trítogenía! Eg tala þetta ekki í alvöru; eg skal vera þér eftirlátur“. 41 Að því mæltu beitti hann tveimur hestum fyrir kerru sína; þeir hestar voru eirfættir, flugfráir og gullfextir. Sjálfur klæddi hann sig í gull, tók í hönd sér vel tilbúna gullsvipu, og steig upp í kerru sína. Síðan keyrði hann hestana af stað, en þeir flugu viljugir milli jarðarinnar og hins stirnda himinhvolfs. Seifur kom til hins uppspretturíka Ídafjalls, móðurfjalls skógdýranna, á Gargarstind, þar sem hann átti blótlund og ilmandi blótstalla; þar lét faðir manna og guða hestana nema staðar, beitti þeim frá kerrunni og brá yfir þá miklum myrkva; en sjálfur settist hann dáðum-hróðugur upp á tindinn, og horfði niður á borg Tróverja og skip Akkea. 53 Hinir hárprúðu Akkear tóku nú í skyndi dagverð í búðum sínum, og að loknum dagverði herklæddust þeir. Slíkt hið sama vopnuðust Trójumenn hins vegar í borginni; voru þeir mannfærri, en vildu ei að síður láta til skarar skríða, er brýn nauðsyn bar til að verja börn og konur. Nú var borghliðinu slegið upp og herinn þusti út, fótgöngumenn og riddarar, og varð þar af gnýr mikill. 60 En er þeir voru komnir saman á einn stað, þá laust saman skjöldum og spjótum og afli hinna eirbrynjuðu hermanna, hinir baugnöfuðu skildir skullust á, og mikill hergnýr hófst. Gerðist þar þá bæði vein og fagnaðaróp af mönnum þeim, er drápu og drepnir voru, en jörðin flaut í blóði. 66 Meðan morgun var og hinn signaði dagur fór vaxandi, leituðu spjótin sér staðar í beggja liði, og gerðist mannfall mikið. En er Helíus ók yfir mitt himinhvolfið, þá vatt faðir Seifur upp gullskálum tveimur, og lagði þar í tvær Banavalkyrjur; áttu hinir reiðkænu Trójumenn aðra, en hinir eirbrynjuðu Akkear hina. Þá tók hann um vogarmundanginn, og hóf upp, og seig þá niður skapadagur Akkea. Síðan lét hann koma miklar þrumur ofan af Ídafjalli, og sendi brennanda leiftur í lið Akkea; en er þeir sáu það, urðu þeir felmtsfullir, og bleikur ótti greip þá alla. 78 Þá þorði hvorki Idomeneifur né Agamemnon að bíða; þá biðu heldur ekki þeir tveir Ajantar, þjónustumenn Aresar. Sá, eini, sem þá beið, var hinn gerenski Nestor, vörður Akkea; var það þó ekki af því, að hann vildi það, heldur af því, að annar hestur hans varð sár; hafði hinn ágæti Alexander, eiginmaður hinnar hárfögru Helenu, skotið ör efst í hvirfil hestsins, þar sem fyrstu topphárin spretta upp á hauskúpunni, og banvænlegasti höggstaður er. Hesturinn stökk upp við sársaukann, en skeytið hljóp inn í heilann; veltist þá hesturinn um koll með eirskeytið í sér, og fældi hina hestana. Hinn gamli maður brá við skjótt, og ætlaði að höggva með sverði á síðutaum lausahestsins, en í því bili komu hinir fráu hestar Hektors inn í meginflóttann með hinn hugdjarfa kerrustýri, Hektor; og þar hefði nú hinn aldraði maður látið líf sitt, ef hinn rómsterki Díómedes hefði ekki orðið hans skjótt var og kallað ógurlega til Odysseifs: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Hvert flýr þú, er þú snýr baki við, sem blauður maður í mannös? Vara þig, að engi leggi spjóti í bak þér, er þú flýr! Bíð heldur við, látum oss reka þenna berserk af hinum aldraða manni!“ 97 Þannig mælti hann, en hinn þrautgóði, ágæti Odysseifur heyrði ekki, hvað hann sagði, heldur hleypti hann fram hjá honum til skipa Akkea. En þó Týdeifsson væri aleinn, fór hann samt fram til forvígismannanna, og nam staðar fyrir framan kerru hins aldraða Neleifssonar, og talaði til hans skjótum orðum: „Heldur kreppa þeir nú að þér, gamli maður, hinir ungu hermennirnir! Er kraftur þinn horfinn, en erfið elli sækir á hönd þér, kerrusveinn þinn kjarklítill og hestarnir seinfærir. Kom nú, stíg á kerru mína, svo þú sjáir, hve góðir hinir flóttfimu Tróshestar eru, þeir er eg tók áðan af Eneasi, og hve fimir þeir eru, bæði í skjótum eltingum víðs vegar á vígvelli, og svo til að hörfa aftur og flýja. Kerrusveinarnir okkar skulu annast hestana þarna, en við skulum halda þeim hérna móti hinum reiðkænu Trójumönnum; mun þá Hektor komast að raun um, hvort spjót mitt ólmast nokkuð í greipum mér“. 112 Þannig mælti hann, en hinn gerenski riddari Nestor fylgdi ráðum hans. Hinir hraustu kerrusveinar, Stenelus og hinn vaski Evrýmedon, önnuðust um hesta Nestors, en þeir Nestor stigu báðir á kerru Díómedesar; tók Nestor í hönd sér hina glæsilegu tauma, og keyrði hestana, og bar þá brátt að Hektori, og í því er Hektor sókti fram, skaut Týdeifssonur spjót til hans, og missti hans; kom skotið í brjóstið hjá geirvörtunni á kerrusveini hans, Eníópeifi, syni hins ofurhugaða Þebeuss, þeim er taumhaldið hafði; féll hann ofan af kerrunni, en hinir fótfráu hestar hrukku á bak aftur, en hann lá þar örendur og máttvana. Ógnarharmur lagðist um hjarta Hektors af falli kerrusveinsins, en jafnvel þó hann tæki sárt til félaga síns, lét hann hann þó þar eftir liggja, og fór að leita sér að öðrum huguðum kerrusveini, og leið ekki á löngu þaðan í frá, áður hestarnir fengu stjórnarann, því Hektor fann brátt hinn hugdjarfa Arketólemus Iffítusson; lét Hektor hann þá stíga í kerru sína, og fékk honum taumhaldið. 130 Þar hefði nú orðið mikið mannfall, og gerzt þeir atburðir, er seint hefði orðið bót á ráðin, og nú hefðu Trójumenn verið hnepptir inni í Ilíonsborg, eins og sauðir í kví, ef faðir manna og guða hefði ekki orðið þessa skjótlega var; hann þrumaði ógurlega, sendi frá sér glóandi reiðarslag, og skaut því niður fyrir framan kerru Díómedess, og gaus þar upp mikill logi af hinum loganda brennusteini; hestarnir fyrir kerrunni hræddust og hrukku undan, hinir glæsilegu taumar skruppu úr höndum Nestors; varð hann skelkaður og mælti til Díómedess: „Snú þú aftur, Týdeifsson, og halt hinum einhæfðu hestum á flótta! Hvort skilur þú ekki, að Seifur ann þér ekki sigurs, því Seifur Kronusson veitir Hektori þarna frægð nú í dag, en síðar meir mun hann og gera sóma vorn, ef hann vill svo. Engi maður, hvað sterkur sem er, fær hamlað ráðstöfun Seifs, því hann er hverjum manni máttkari“. 145 Hinn rómsterki Díómedes svaraði honum aftur: „Allt er þetta satt, er þú segir, gamli maður! En eitt leggst þyngst á hug minn og hjarta: það er það, að Hektor mun á síðan segja, þá hann heldur ræðu fyrir Trójumönnum: „ „Týdeifsson flýði undan mér til skipanna“ “. Þannig mun hann stæra sig á síðan, og væri þá betur, að jörðin við brysti undir mér og sylgi mig!“ 151 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „En að þú, sonur hins herkæna Týdeifs, skulir mæla slíkt! Þó Hektor kalli þig huglausan og kjarklausan, þá munu þó ekki Trójumenn trúa því, og ekki Dardansmenn, og ekki konur hinna hugstóru tróversku skjaldmanna, er þú hefir að velli lagt unga og blómlega eiginmenn þeirra“. 157 Að því mæltu snéri hann hinum einhæfðu hestum til undanhalds og aftur á flóttastiginn, en Trójumenn og Hektor létu stynjandi skeyti drífa á þá með afskaplegum óhljóðum. Hinn mikli, hjálmkviki Hektor æpti þá hátt að honum: „Týdeifsson, fyrr meir virtu hinir hestfimu Danáar þig öðrum mönnum fremur; hafðir þú sæti fyrir öðrum, fékkst stærri kjötskammt og ávallt full drykkjarker. En nú munu þeir leggja á þig óvirðing; og er það að vonum, er þú ert sem kona. Snáfaðu burt, huglausa feiman! Aldrei skal það verða, að eg hopi á hæl fyrir þér, og þú komist við það upp á turna vora eða siglir burt með konur vorar; fyrr en það verði, skal eg senda þér óheillasendingu“. 167 Þannig mælti hann, en Týdeifssonur var á tveim áttum, hvort hann skyldi snúa við hestunum og leggja til orustu við Hektor, eða ekki. Þrisvar volkaði hann þetta í hug sér og hjarta, og þrisvar dunaði hinn ráðvísi Seifur ofan af Ídafjöllum til teikns fyrir Trójumenn, að hann ætlaði þeim eindreginn sigur í bardaganum. Þá eggjaði Hektor Trójumenn, og kallaði hátt: „Þér Tróverjar, þér Lýkíumenn, og þér hinir návígu Dardanar! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og leggið fram ofurefli yðvart! Því nú sé eg, að Kronusson hefir af einlægum hug heitið mér sigri og mikilli frægð, en Danáum tjóni. Heimskir voru Danáar, er þeir fóru að hlaða þenna garð, sem er svo veikur og að engu nýtur; ekki skal hann aftra áhuga mínum, en hestar mínir stökkva hæglega yfir díki það, er þeir hafa grafið. En komist eg að hinum holu skipum, þá muni menn eftir því, að hafa til eldkveikju, svo eg megi brenna skip þeirra í eldi, en drepa þá sjálfa“. 184 Að því mæltu kallaði hann til hesta sinna og mælti: „Bleikur, og þú Sokki, og Rauður, og Lýsingur hinn góði! Launið mér nú fóðrið og hina góðu aðhjúkrun, er Andrómakka, dóttir hins hugstóra Etjons, hefir veitt ykkur: hefir hún látið fyrir ykkur ljúffengt hveiti, áður en hún hefir fært mér mat, og er eg þó eiginmaður hennar, í blóma aldurs míns. Verið nú samtaka og herðið ykkur, svo við getum náð skildi Nestors, er nú fer orðstírinn af allt til himins, að hann sé allur úr gulli, bæði skjaldrimarnar og sjálfur skjöldurinn, og svo brynjunni af herðum hins reiðkæna Díómedess; hún er mikið völundarsmíði, og hefir Hefestus gert hana með miklum hagleik. Ef við náum þessu tvennu, þá vonar mig, að eg geti hrakið Akkea til hinna fljótu skipa nú þegar í nótt“. 198 Þannig mælti hann hróðugur. En hin tignarlega Hera reiddist; hún hreyfðist við á hástóli sínum og skelfdi hinn háva Ólymp; þá mælti hún til Posídons, hins mikla guðs: „Ó þú voldugi Landaskelfir! Rennur þér þá ekki heldur til rifja, að Danáar skuli drepast niður? þeir færa þér þó margar fríðar fórnir, bæði í Helíku og í Ægisborg. Lát þá nú verða sigri fegna! Því ef allir vér guðirnir, sem erum Danáum liðsinnandi, vildum hrekja Trójumenn aftur á hæl og aftra hinum víðskyggna Seifi, þá mundi hann sitja með sáran hug einn saman uppi á Ídafjalli“. 208 Hinum volduga Jarðarskelfi varð þungt í skapi, og mælti til hennar: „Þú djarfmælta Hera! En að þú skulir mæla slíkt! Ekki vil eg ráða til þess, að vér hinir guðirnir deilum kappi við Seif Kronusson, því hann er öllum oss máttkari“. Þannig töluðust þau við um þetta. 213 Allt það svæði upp frá skipunum, er milli var garðsins og díkisins, varð nú fullt af kerrum Akkea og skjölduðum hermönnum þeirra, er þar þrengdust saman. Hektor Príamsson, jafnoki hins snara Aresar, hneppti þá þangað, því þá veitti Seifur honum sóma, og nú hefði hann kveikt í hinum jafnbyrðu skipum með loganda eldi, ef hin máttuga Hera hefði ekki skotið því í brjóst Agamemnoni, að eggja Akkea skjótlega fram, og var hann þó sjálfur í óðaönn að því. Hann fór af stað til búða og skipa Akkea, og hélt í sinni þreknu hendi á hinni stóru purpuraskikkju sinni. Hann gekk að hinu stórhúfaða, svarta skipi Odysseifs, er lá í miðjum flotanum, svo heyra mátti þaðan beggja vegna; þar nam hann staðar, og kallaði hárri röddu, svo Danáar heyrðu: „Minnkun er þetta, Argverjar! Mikil skömm er að yður, svo fríðir menn sem þér eruð ásýndum! Hvað er nú orðið úr raupsyrðum þeim, er vér þóktumst vera allra manna vaskastir ? Hvað er orðið úr þeim hégómlegu stóryrðum, er þér höfðuð, þegar þér sátuð í Lemney, átuð gnógt kjöt beinhyrndra uxa, og drukkuð upp skaftker, barmafull af víni? Þóktist þá hverr yðar vera jafnmaki hundraði og jafnvel tveim hundruðum Trójumanna í orustu; en nú erum vér ekki svo mikið sem jafnsnjallir Hektori einum, er bráðum mun kveikja í skipum vorum með brennanda eldi. Faðir Seifur, hefir þú nokkuru sinni steypti nokkurum voldugum konungi í aðra eins ógæfu, eða svipt hann jafnmiklum sóma? Má eg þó segja, að eg hefi aldrei gengið fram hjá þínum fagra blótstalla á nokkuru margþóftuðu skipi, síðan eg mér til ógæfu kom hingað. Nei, á öllum blótstöllum þínum hefi eg brennt uxamör og blótbita, óskandi, að eg fengi í eyði lagt hina rammveggjuðu Trójuborg. En veit mér þó, Seifur, þessa ósk mína: lát þó sjálfa oss af komast og undan sleppa, og lát ekki Akkea þannig drepast niður fyrir Trójumönnum“. 245 Þannig mælti hann, en faðir Seifur sá aumur á honum, er hann jós út tárum, og hét honum því, að herinn skyldi heill af komast og ekki týnast. Hann sendi þegar að bragði örn einn, sem er hinn áreiðanlegasti spáfugl; örninn hélt á hindarkálfi í klónum, og fleygði honum niður hjá hinum fagra blótstalla Seifs, þar sem Akkear voru vanir að færa fórnir Seifi alspáargoði. En er Akkear sáu, að fuglinn kom frá Seifi, þá stukku þeir enn ákafar á Trójumenn, og héldu upp bardaga. 253 Af öllum Danáum, þó margir væru, átti engi því að hrósa, að hann héldi kerru sinni betur fram en Týdeifsson, hleypti á undan honum út frá gröfinni og héldi upp bardaga. Því fyrstur allra drap hann hlífaðan mann tróverskan, Agelás Fradmonsson; hann sneri kerru sinni til undanhalds, en er hann hafði snúizt við, lagði Díómedes spjóti í bak honum meðal herðanna, svo út gekk um brjóstið, féll hann ofan af kerrunni, og glömruðu vopnin ofan á honum. Næstir Díómedes gengu fram þeir Atreifssynir, Agamemnon og Menelás, þá þeir Ajantar, þeir voru berserkir að afli, þá Idomeneifur og kerrusveinn hans, Meríónes, jafnmaki hins mannskæða Vígaguðs, þá Evrýpýlus, Evemons frægi son; Tevkrus var hinn níundi; hann benti staðharðan boga, og stóð undir skildi Ajants Telamonssonar; vék Ajant skildi sínum til hliðar, en Tevkrus litaðist þá um, skaut ör að einhverjum í flokkinum, og féll sá dauður niður, er fyrir varð, en kappinn hörfaði þá aftur og kraup að Ajanti, eins og barn krýpur upp að móður sinni, en Ajant brá yfir hann sínum blikanda skildi. 273 Hvern drap hinn ágæti Tevkrus þar fyrstan af Trójumönnum? Hann drap fyrst þá Orsílokkus, Ormenus og Ofelestus, Detor og Kromíus og hinn goðumlíka Lýkófontes, Amópáon Polýemensson og Melanippus; felldi hann alla þessa til hinnar margfrjóvu jarðar, hvern á fætur öðrum. En er herkonungurinn Agamemnon sá, að hann eyddi flokkum Trójumanna með hinum sterka boga, þá varð hann glaður, gekk til hans og mælti: „Kæri vin, Tevkrus Telamonsson, þjóðhöfðingi! Hæf þú svona, að þú megir verða Danáum til sóma, og svo Telamoni, föður þinum, er ól þig upp, meðan þú varst lítill, og annaðist um þig í húsi sínu, þó þú værir óskilgetinn; er skylt, að þú hefjir hann svo til frægðar, þó hann sé þér nú fjarlægur. En eitt vil eg segja þér fyrir víst, og það skal framgengt verða, að ef Seifur ægisskjaldi og Aþena veita mér það, að eg leggi í eyði hina ramgjörvu Ilíonsborg, þá skal eg gefa þér fyrstum heiðursgjöf næst sjálfum mér, annaðhvort þrífót, eða tvo hesta og kerru með, eða konu, er stíga megi á sama beð og þú“. 292 Hinn ágæti Tevkrus svaraði honum og sagði: „Frægasti Atreifsson, hví eggjar þú mig fram, er eg berst af kappi sjálfkrafa? Eg læt aldrei af, meðan mér vinnst megn til. Og upp frá því að vér rákum Trójumenn af oss á leið til Ilíonsborgar, þá hefi eg síðan sætt lagi, að drepa menn með boga mínum; hefi eg nú skotið átta oddlöngum örum, og hafa allar komið á einhvern hinna vígfimu hermanna, en þenna ólma hund get eg ekki hæft“. 300 Þá hann hafði sagt þetta, sendi hann aðra ör af streng beint á Hektor, og var meir í mun, að á hann kæmi; en hann missti hans þó; kom örin í brjóst hinum ágæta Gorgyþíon, hinum hrausta syni Príamuss; hin fagra Kastíaníra var móðir hans, hún var lík gyðjum að vexti; hún hafði gifzt frá Esýmu. Svo sem valmeyjargras, það er vex í aldingarði, leggur út af höfuð sitt, niðurþyngt af ávexti og vorskúrum: svo hneig höfuð hans út af til annarrar hliðar, og gat ekki valdið hjálminum. 309 Enn sendi Tevkrus aðra ör af streng beint á Hektor, og var meir í mun, að á hann kæmi; en hann missti hans enn þá, því Appollon sveifði örinni til hliðar; kom örin í brjóstið hjá geirvörtunni á Arketólemus, hinum hugdjarfa kerrusveini Hektors, í því hann hleypti fram í bardagann; féll hann ofan af kerrunni, en hinir fótfráu hestar hrukku á bak aftur, en hann lá þar örendur og aflvana. Ógnarharmur lagðist um hjarta Hektors af missi kerrusveins síns; en jafnvel þó hann tæki sárt til félaga síns, lét hann hann þar eftir, en bað Kebríones bróður sinn, sem þar var nær staddur, að taka við taumhaldinu, og það gerði hann. En sjálfur stökk Hektor ofan úr hinum ljómanda kerrustól til jarðar; hann grenjaði ógurlega, tók vopnstein í hönd sér, gekk móti Tevkrus og ætlaði að kasta í hann steininum. Þá hafði Tevkrus tekið hvassa ör úr örvamæli sínum og lagt á streng; en í því hann dró upp bogastrenginn og ætlaði að skjóta, kastaði hinn hjálmkviki Hektor hinum hrufótta steini, og kom á öxlina, þar sem viðbeinið skilur hálsinn og brjóstið, og hættulegasti höggstaður er; steinninn sleit í sundur bogastrenginn, en hönd Tevkrusar dofnaði upp í úlnliðnum; féll hann þá á kné, en stóð þó, en boginn datt úr hendi honum. Ajant yfirgaf ekki sinn fallna bróður, heldur hljóp í kring um hann honum til varnar og hlífði honum með skildi sínum; en tveir trúir félagar hans, Menisteifur Ekkíusson og hinn ágæti Alastor hófu Tevkrus upp á axlir sér og báru hann til hinna holu skipa, og stundi hann þá þungan. 335 Hinn ólympski guð vakti nú af nýju hugmóð Trójumanna, og hröktu þeir Akkea beint að hinu djúpa díki; var Hektor fremstur í flokki, hróðugur af styrkleik sínum. Eins og þegar fótfrár hundur nær á hlaupi aftan í lærin eða þjóhnappana á villigelti eða ljóni, og hefir gát á, þegar það snýr sér við: eins elti Hektor hina hárprúðu Akkea, og drap ávallt þann, er aftastur varð, en hinir flýðu. En er þeir höfðu flúið yfir stauragerðið og díkið, og margir voru fallnir fyrir Trójumönnum, þá stöðvuðu þeir sig hjá skipunum og héldu þar kyrru fyrir, eggjaði þá hverr annan, fórnuðu höndum upp og báðu ákaflega til allra guðanna, hverr um sig. En Hektor snéri hinum faxprúðu hestum í kring á allar hliðar, og voru þá augu hans, sem augun í Gorgóarhausi eða í hinum mannskæða Aresi. 350 En er hin hvítarmaða gyðja Hera sá Akkea, kenndi hún í brjósti um þá, og mælti þegar skjótum orðum til Aþenu: „Mikil skelfing! Dóttir Seifs ægisskjalda, eigum við enn ekki að láta okkur til rifja renna manntjón Danáa, þar sem nú mjög sígur að seinni hluta fyrir þeim? Er nú ei annað sýnna, en að þeir drepist niður hraparlega fyrir eins manns áhlaupi; því nú ofsast Hektor Príamsson svo, að ekki er lengur þolanda, og margt illt hefir hann nú þegar gert“. 357 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði henni: „Víst mundi nú ofsinn og fjörið vera farið úr þessum manni, og hann vera af lífi tekinn af Argverjum á föðurjörðu sinni, ef faðir minn ekki ylmdist í ógóðum hug; er hann óvæginn, jafnan rangsleitinn og mótstæður mínum fyrirætlunum. Man hann nú alls ekki, að eg hjálpaði margsinnis syni hans úr þrautum þeim, er Evrýsteifur lagði á hann. Í þeim raunum sínum grátmændi hann til himins; sendi Seifur mig þá af himni ofan til að hjálpa honum. Hefði eg séð þetta fyrir af hyggjuviti mínu, þegar Evrýsteifur sendi hann til hinnar harðlæstu hallar Hadesar, til að sækja hund hins hræðilega Hadesar frá Myrkheimi, þá skyldi hann ei hafa klaklaust komizt yfir hina djúpu strauma Stýgarvatns. Nú þar á móti leggur Seifur fæð á mig, en framkvæmir ráðagerðir Þetisar, af því hún kyssti kné hans, tók hendi sinni um höku hans, og bað hann að rétta hlut Akkillesar borgabrjóts. Sú mun þó koma tíðin, að hann mun kalla mig aftur kæru Glóeyg sína! En heyr nú, bú þú hina einhæfðu hesta handa okkur, meðan eg geng ofan í vopnasal Seifs ægisskjalda og bý mig herklæðum til orustu, svo eg sjái, hvort hinn hjálmkviki Hektor, sonur Príamuss, verður feginn, þegar sést til okkar beggja í herkvíunum. Víst skulu þó nokkrir af Trójumönnum falla í valinn hjá skipum Akkea, og seðja hunda og hræfugla á ístru sinni og holdi“. 381 Þannig mælti hún, en hin hvítarmaða Hera hlýddi orðum hennar. Og Hera, hin tignarlega gyðja, dóttir hins mikla Kronusar, fór til og bjó hina gullóluðu hesta. En Aþena, dóttir Seifs ægisskjalda steypti af sér á gólfi Seifs hinum voðfellda, marglita möttli, er hún hafði sjálf búið til handa sér og vandað sig á. Þá fór hún í kyrtil skýsafnarans Seifs, og herklæddi sig út í hinn hörmulega ófrið. Síðan steig hún fótum sínum upp í hina logandi kerru, og tók í hönd sér þungt, stórt og sterkt spjót, er dóttir hins máttuga föður sigrar með herflokka kappanna, ef hún reiðist þeim. Þá snart Hera hestana snöggt með svipunni, en himinhliðin hrukku upp sjálfkrafa; þeirra hliða gættu Misserisgyðjurnar, þær er hinn hávi himinn og Ólympus er til gæzlu fenginn, bæði til að láta upp hið þétta ský, og til að láta það aftur. Þar í gegnum þau hlið héldu þær hinum sporumkeyrðu hestum. 397 En er faðir Seifur gat að líta þetta ofan af Ídafjalli, varð hann stórreiður, og sendi hina gullvængjuðu Íris af stað til að flytja erindi sitt: „Heyr þú, fljóta Íris (kvað hann), far þú, og snú þeim aftur, og lát þær ekki komast áfram, því ósætur mun sá fundur verða, ef okkur lendir saman í orustu. Því það segi eg þér, og það skal eg enda: eg skal helta hina fráu hesta fyrir kerru þeirra, fleygja þeim sjálfum ofan úr kerrustólnum og mölva í sundur kerruna. Ekki munu þær á tíu árshringum alheilar verða sára þeirra, er þær munu fá, ef reiðarslagið kemur á þær. Skal Glóeyg fá að finna, hvernig þá fer, ef hún berst við föður sinn. En eg lái síður Heru, og reiðist henni ekki eins; því það er jafnan vandi hennar, að raska ráðagerðum mínum“. 409 Þannig mælti hann, en hin stormfráa Íris fór af stað með þessa orðsendingu. Hún fór ofan af Ídafjöllum og upp til hins háva Ólymps; hún mætti gyðjunum fremst í hliði hins margbugótta Ólymps, aftraði þar för þeirra, og sagði þeim orðsendingu Seifs: „Hvert farið þið svo geyst? Hví er hjartað svo ákaft í brjósti ykkar? Kronusson bannar ykkur að veita Argverjum lið. Sonur Kronusar hótar ykkur, ef hann annars endir það, að hann skuli helta hina fráu hesta fyrir kerru ykkar, fleygja ykkur sjálfum ofan úr kerrustólnum og mölva í sundur kerruna; munu þið ekki á tíu árshringum alheilar verða sára þeirra, er þið munuð fá, ef reiðarslagið kemur á ykkur. Skaltú þá fá að finna, Glóeyg, hvernig þá fer, ef þú berst við föður þinn. En Heru láir hann síður, og reiðist henni ekki eins, af því það er jafnan hennar vandi, að raska ráðagerðum hans. En þú hin ofstopafyllsta, ósvífna og blygðunarlausa gyðja, þér mun hann reiðast, ef þú verður svo djörf, að lyfta hinu ógnarstóra spjóti þínu móti Seifi“. 425 Að því mæltu fór hin fóthvata Íris burt, en Hera mælti við Aþenu: „Mikil skelfing! Dóttir Seifs ægisskjalda, ekki vil eg ráða til þess, að við berjumst lengur fyrir dauðlega menn, í þrá við Seif. Drepist þeir, sem drepast eiga, og lifi þeir, sem þess verður auðið! Fari hann sínum ráðum fram, og skeri úr málum milli Trójumanna og Danáa, sem honum líkar!“ 432 Að því mæltu snéri hún við hinum einhæfðu hestum, en Misserisgyðjurnar beittu hinum faxprúðu hestum frá kerrunni, og bundu þá við himneskar jötur, en hölluðu kerrunni upp við hina skínandi forsalsveggi. En gyðjurnar settust á gulllega legubekki meðal hinna annarra guða, og voru sorgbitnar í huga. 438 Faðir Seifur ók hinni hjólsterku kerru sinni og hestum frá Ídafjalli upp til Ólymps, og kom á samkundu goðanna. Hinn frægi Landaskelfir beitti frá hestum hans, en lagði kerruna upp á pall og tjaldaði líni um hana. Sjálfur settist hinn víðskyggni Seifur í gulllegt hásæti, og bifaðist hinn hávi Ólympus undir fótum hans. Þær Aþena og Hera sátu einar sér, langt frá Seifi, ortu ekki orði á hann og spurðu einskis; en Seifur varð þess var af hugspeki sinni, og mælti: „Hví eruð þið svo sorgbitnar, Aþena og Hera? Ykkur hefir þó víst ekki orðið mikið fyrir að drepa niður Trójumenn, er þið hafið svo ákafa heift á, í enum mannsæma bardaga! Sannarlega skulu allir þeir guðir, sem á Ólympi eru, ekki fá mér á flótta snúið, slíkan mátt og slíkt ósigrandi afl hefi eg. En ykkar fögru limir skulfu nú fyrr af ótta, en þið sáuð styrjöldina og hin hroðalegu verk styrjaldarinnar. En það segi eg ykkur fyrir satt, og það mundi eftir hafa gengið, að ef þið hefðuð slegnar verið af reiðarslagi mínu, munduð þið ekki á ykkar kerrum komizt hafa til Ólymps, þar er guðanna aðsetur er“. 457 Þannig mælti hann, en þær ýskruðu við, Aþena og Hera; þær sátu hvor hjá annarri og höfðu illan hug til Trójumanna. Aþena þagði og mælti ekki orð; var hún reið Seifi föður sínum, og grimm heift bjó í brjósti henni. En Hera mátti eigi innibyrgja bræðina í brjósti sér, og því mælti hún til Seifs: „Harðráðasti Kronusson, en að þú skulir mæla slíkum orðum! Víst vitum við fullvel, að afl þitt er ósigrandi; en ei að síður fellur okkur sárt, að Danáar skuli drepast niður svo hraparlega“. 469 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni aftur: „Þú mikileyga, tignarlega Hera, á morgun muntu enn betur fá að sjá, ef þú vilt, að hinn afarsterki Kronusson mun drepa niður mikinn flokk af argneskum hermönnum. Því ekki mun hinn sterki Hektor létta orustunni, fyrr en hinn fóthvati Peleifsson rís upp hjá skipunum; því svo er ákveðið af forlögunum. En um þig hirði eg ekkert, þó þú reiðist. Þó þú farir til yztu takmarka jarðar og sjávar, þar sem þeir sitja Japetus og Kronus, og njóta hvorki skins Helíuss Hýperíonssonar, né nokkurs vindblæs, því hinn djúpi Ógnarheimur er allt í kring um þá: þó þú hvarflir þangað, þá hirði eg ekkert um reiði þína, því engi hlutur er ósvífnari en þú“. [Mynd: Ólympsfjall.] 484 Þannig mælti hann, en hin hvítarmaða Hera anzaði honum engu. Nú steyptist hið skæra sólarljós niður í Jarðarstrauminn, og dró svarta nótt yfir hina kornfrjóvu jörð. Trójumönnum kom það illa, að ljósið gekk undir, en Akkear urðu fegnir, er hin margþreyða dimma nótt kom yfir. 489 Hinn frægi Hektor stefndi nú Trójumönnum til þings, og fór með þá burt frá skipunum þar hjá hinu sveipharða fljóti, er autt var og sást í beran völlinn fyrir valköstum. Stigu menn til jarðar af kerrum sínum, og hlýddu ræðu þeirri, er Hektor hélt, ástvinur Seifs. Hann hélt á ellefu álna löngu spjóti í hendi sér; oddur var framan á spjótinu af eiri, og lýsti af, og gullhólkur um utan. Við þetta spjót studdist hann, og mælti til Trójumanna: „Heyrið mál mitt, þér Tróverjar, Dardanar og liðsmenn! Eg hugsaði, að eg mundi nú fá eytt skipunum og drepið alla Akkea, og komast við það aftur til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar. En rökkrið datt fyrr á, og það hefir nú mest frelsað Argverja og skip þeirra á hinni brimbitnu strönd. Nú skulum vér láta hina svörtu nótt ráða, og efna til náttverðar; skuluð þér leysa hina faxprúðu hesta frá kerrunum og kasta fyrir þá fóðri, sækið svo í skyndi til borgarinnar uxa og feita sauði, og fáið yður ljúffengt vín og brauð að heiman, og viðið að nóg eldsneyti, svo vér megum kynda mörg bál náttlangt allt til morguns, og bjarmann leggi allt til himins; má vera, að hinir hárprúðu Akkear reyni til í náttmyrkrinu að flýja yfir sjávarins breiðu hryggi, og væri þá betur, að þeir kæmust ekki fyrirhafnarlaust og í náðum út á skip sín. Nei, margur þeirra skal skotinn verða annaðhvort með ör eða hvössu spjóti, í því hann stökkur út á skip sitt, og eiga um sárt að binda heima hjá sér; skal svo leiða öðrum, að fara með her á hendur hinum reiðkænu Trójumönnum. Nú skulu kallararnir, ástvinir Seifs, fara með þau boð um borgina, að frumvaxta sveinar og gráhærðir höfðingjar safnist saman uppi á hinum goðreistu veggjum umhverfis um borgina, en hinar þýðu konur skulu brenna bál mikið, hver í sínu húsi; skal stöðugt hafa gát á, að engi hleypiflokkur leynist inn í borgina, meðan hermennirnir eru ekki við. Skal þetta svo vera, þér hugstóru Trójumenn, sem nú segi eg fyrir; hefi eg nú kveðið upp, það sem nú er tiltækilegast, en annað ráð mun eg upp bera á morgun fyrir enum reiðkænu Trójumönnum. Þess bið eg Seif og aðra guði, og það vona eg, að eg muni fá héðan burt rekið hunda þá, er Valkyrjurnar hafa hingað flutt. Nú skulum vér gæta sjálfra vor í nótt, en á morgun með birtingu skulum vér herklæðast og vekja snarpan bardaga hjá hinum holu skipum; skal eg þá vita, hvort hinn sterki Díómedes Týdeifsson muni fá hrakið mig frá skipunum upp að borgarveggi, eða hvort eg mun geta banað honum með eirvopni mínu og náð af honum vopnum hans blóðugum. Á morgun getur hann látið sjá karlmennsku sína, hvort hann þorir að bíða eftir spjóti mínu, þegar það stefnir að honum. Nei, meðal hinna fremstu, þegar sól rennur upp á morgun, mun hann liggja, vonar mig, vopnum veginn, og í kring um hann margir félagar hans. Eg vildi óska, að eg væri eins viss um að vera ódauðlegur og ellivana alla daga, og vera eins virtur og Aþena og Appollon eru virt, eins og eg er viss um það nú, að þessi dagur verður Argverjum óhamingjudagur“. 542 Slíka ræðu hélt Hektor, en Trójumenn gerðu góðan róm að máli hans, leystu þeir hina sveittu hesta undan okinu og bundu þá við kerrurnar með böndum, hverr hjá sinni kerru, sóktu í skyndi uxa og feita sauði til borgarinnar, fengu sér ljúffengt vín og brauð heiman frá sér, og söfnuðu að sér miklum viði. Sátu þeir svo alla nóttina á vígvellinum, og voru hinir hugrökkustu; brunnu þar margir eldar hjá þeim. Eins og þegar stjörnur sjást á himni í kring um hið bjarta tungl, ber mikið á þeim, þegar uppheimsloftið er vindlaust, og sjást þá allar stjörnurnar, og verður hjarðmaðurinn glaður af því í huga sínum: eins margir voru eldar þeir, er Trójumenn kyntu, og sáust brenna fyrir framan Ilíonsborg milli skipanna og Ksanþusstrauma; voru þúsund eldar kyntir á vellinum, en hjá hverju báli sátu 50 menn við loga hins brennanda elds; en hestarnir stóðu við kerrurnar, og átu hvítt bygg og einkorn, og biðu hinnar stólprúðu Morgungyðju. NÍUNDI ÞÁTTUR SENDIFÖR TIL AKKILLESS. BÆNIR. ÞANNIG héldu þeir vörð, Trójumenn; en afskaplegur flótti, lagsbróðir hins ískalda ótta, hefti Akkea, og allir enir hraustustu voru slegnir óbærilegri sorg. Eins og þegar tveir vindar, norðanvindur og vestanvindur, sem blása frá Þraklandi, koma á snögglega og æsa upp hið fiskisæla haf; þeytist þá jafnskjótt upp dimm alda, en vindarnir þyrla miklum þara upp úr sjónum: eins var hugurinn á tveim áttum í brjóstum Akkea. 9 En Atreifsson, særður í hjarta af megnum harmi, gekk um kring og bauð hinum hvellrómuðu köllurum að kveðja hvern mann til málstefnu með nafni, en kalla ekki; en sjálfur átti hann ráðagjörðir við höfðingjana. Þeir settust á málstefnuna harmsfullir. Þá stóð Agamemnon upp og jós út tárum, sem kolblá vatnslind, sú er spýtir dökkvu vatni fram af bröttum hamri; eins andvarpaði hann þungan og mælti til Argverja: „Kærir vinir, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja! Seifur Kronusson hefir fastlega fjötrað mig með þungu meini, sá hinn harðráði guð, er lofaði mér í fyrstu og hét með hneigðu höfði, að eg skyldi leggja í eyði hina ramveggjuðu Ilíonsborg og komast svo heim, en nú hefir hann prettað mig illa, er hann býður mér að fara heim í Argverjaland við enga frægð, en mikinn mannskaða; mun þetta víst vera vilji hins afarsterka Seifs, er rofið hefir höfuðvirki margra borga, og mun enn rjúfa, því hans er mátturinn mestur. Heyrið nú, gerum allir, svo sem eg segi fyrir: flýjum burt á skipum vorum heim í vort kæra föðurland, því ekki munum vér framar fá tekið hina strætabreiðu Trójuborg“. 29 Svo mælti hann, en þeir voru allir hljóðir og þögðu, og hinir sorgbitnu synir Akkea voru lengi orðlausir. Loksins tók hinn rómsterki Díómedes til máls: „Með því þú, Atreifsson, ber upp svo óviturlegt ráð, þá mun eg nú í fyrsta sinni mæla á móti þér, og hæfir svo að gera á málstefnu, konungur; og máttú ekki reiðast mér fyrir það. Það var eitt sinn, að þú frýjaðir mér karlmennsku í viðurvist Danáa, kvaðst mig vera óherskáan og þreklausan; allt þetta vita Argverjar, ungir sem gamlir. En sonur hins brögðótta Kronusar hefir misskipt gjöfum sínum við þig; gaf hann þér með veldissprotanum mannvirðingu um fram alla menn aðra, en synjaði þér þess, er mest kveður að, en það er vaskleikurinn. Hugsar þú, vinur, að synir Akkea séu svo óherskáir og þreklausir, sem þú segir þá? Leiki þér sjálfum hugur á að fara heim aftur, þá far þú; þér er innan handar að fara, því skip þín, þau er fylgdu þér mjög mörg frá Mýkenu, standa skammt frá sjó; en aðrir hárprúðir Akkear munu verða hér kyrrir eftir, þar til er vér höfum lagt Trójuborg í eyði. En vilji þeir einnig burt, þá flýi þeir á skipum sínum heim til föðurlands síns; við Stenelus skulum samt berjast, þar til er við sjáum fyrir endann á Ilíonsborg, því guð vísaði okkur leið hingað“. 50 Þannig mælti hann, en allir synir Akkea rómuðu mál hans; fannst þeim mikið koma til þess, er hinn reiðkæni Díómedes hafði sagt. Þá stóð upp riddarinn Nestor og mælti til þeirra: „Að vísu ertú öðrum mönnum hraustari, Týdeifsson, í bardaga, og fremstur allra jafnaldra hinna á ráðstefnu, og engi Akkea mun lasta það, sem þú hefir sagt, eða mæla móti því; en þó hefir þú ekki rætt þetta mál til lykta; er það von, þar sem þú ert ungur, og mættir vel vera yngsti sonur minn að aldrinum til; en skynsamlega talar þú til höfðingja Akkea, og hefir þú mælt, svo sem vera byrjaði. En heyr nú; með því eg þykist vera þér eldri, þá mun eg ræða þetta mál út, og fara orðum um það allt, og mun engi virða mál mitt einskis, og ekki sjálfur Agamemnon konungur. Sá maður er frændlaus, lagalaus og heimilislaus, sem elskar innanlandsófriðinn þann hinn hryllilega. En látum nú hina dimmu nótt ráða, og efnum til náttverða. Vökumenn úr hverjum flokki skulu hafa náttból hjá gröfinni utangarðs; þetta mæli eg til hinna yngri. En úr því skaltú, Atreifsson, gerast forgangsmaður, því þú ert höfðingi mestur. Þú skalt gera höfðingjunum veizlu; sómir það þér, og er vel til fallið: eru búðir þínar fullar af víni, er skip Akkea flytja hingað daglega frá Þraklandi; hefir þú og alls konar veizluföng, og átt yfir mörgum mönnum að ráða. En á mannamótinu skaltú hlýða þeim, sem bezt leggur til; hafa allir Akkear þörf á góðum tillögum og viturlegum, þar er óvinir vorir kynda marga elda skammt frá skipunum; og hverr mun geta verið glaður að svo búnu? Því þessi nótt mun annaðhvort glata hernum eða frelsa hann“. 79 Þannig mælti hann, en þeir hlýddu honum, og gerðu, sem hann bauð. Varðmennirnir hlupu vopnaðir út úr herbúðunum, þjóðhöfðinginn Þrasýmedes Nestorsson og hans menn, þeir Askaláfur og Jalmenus, synir Aresar, þeir Meríónes, Afareifur og Deipýrus, svo og hinn ágæti Lýkómedes Kreonsson og hans sveit. Fyrirliðar vökumanna voru sjö, og fylgdu hundrað sveinar hverjum, og höfðu þeir löng spjót í höndum sér; fóru þeir og settust milli díkisins og garðsins, kveiktu þar upp eld, og bjó hverr til náttverðar sér. 89 Atreifsson fór með alla höfðingja Akkea til búðar sinnar, og hélt þeim þar dýrlega veizlu, og réttu þeir hendur sínar til hins tilreidda matar, er á borð var borinn. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, varð hinn aldraði höfðingi Nestor fyrstur til að bera upp ráðagjörð sína, þóktu og hans tillögur fyrrum jafnan hinar beztu. Hann var þeim vel viljaður, tók til orða og mælti: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herkonungur! Þú skalt vera endir og upphaf orða minna, sökum þess að þú ert konungur margra manna, og að Seifur hefir þér í hendur fengið veldissprotann og lögin, til þess að þú ráðir þeim heilt. Þess vegna áttú fremur öðrum að leggja orð til, og hlýða á tillögur manna, svo og framkvæma tillögur annarra, ef einhverjum kann að koma eitthvert gott ráð til hugar, og undir þér mun komið verða, hvert atkvæði ræður málslokum. Nú vil eg bera upp, það sem mér þykir ráðlegast; því engum manni mun hugsast betra ráð, en það ráð, sem eg hefi í huga, bæði áður fyrr meir, og eins enn nú, allt í frá þeim tíma, seifborni konungur, að Akkilles reiddist þér, er þú lézt fara til búðar hans og taka þaðan Brísesdóttur; var það ekki eftir voru skapi, því eg afréð þér það mjög einlæglega, en þú fórst fram stórhuga þínum, og svívirtir hinn mesta mann, er guðirnir sjálfir höfðu miklar mætur á, þar sem þú tókst heiðursgjöf hans og heldur henni. En látum oss nú enn finna ráð til, hversu vér fáum snúið skapi hans og þegið hann í sátt við oss með þægilegum gjöfum og blíðum orðum“. 114 Herkonungurinn Agamemnon svaraði honum: „Gamli maður, ekki hefir þú ósennilega vikið á ávirðingar mínar. Mér varð á; eg ber ekki móti því. Víst er sá maður ígildi margra manna, er Seifur ann hugástum, eins og hann hefir haldið uppi virðingu þessa manns, en látið þungan verða hlut Akkea. En með því að mér hefir orðið á, fyrir þá skuld að eg lét vondslegt skap við mig ráða, þá vil eg bæta það aftur, og gefa í bætur geysimikið fé; skal eg nú nafngreina þær dýrlegu gjafir, er eg vil gefa, í viðurvist yðar allra: sjö nýir þrífætur, er aldrei hafa á eld komið, tíu vættir gulls, tuttugu fagrir katlar, tólf aldir hestar, sigursælir í veðhlaupi, er borið hafa verðlaun úr býtum fyrir fráleik sinn. Væri sá maður ekki félaus eða snauður af dýru gulli, sem fengi eins mikið fé, og þessir hinir einhæfðu hestar hafa aflað mér í sigurlaun. Eg skal gefa honum 7 konur lesbeyskar, hagar á fagrar hannyrðir; þær konur tók eg að afnámsfé, þá er hann sjálfur tók hina fjölbyggðu Lesbey; voru þær konur allra kvenna fríðastar. Þessar konur vil ég gefa honum, og þeim skal fylgja dóttir Brísess, er eg tók frá honum um daginn; skal eg vinna þar að dýran eið, að eg hefi aldrei stigið á beð hennar eða átt samlag við hana, sem manna er siður til, karla og kvenna. Allar þessar gjafir skulu vera til reiðu þegar í stað, en ef guðirnir láta oss auðnast síðar meir að leggja í eyði hina miklu Príamsborg, þá skal hann sjálfur ganga út á skip sitt og alferma það af gulli og eiri, þá vér Akkear skiptum meðal vor herfanginu. Hann skal sjálfur velja sér tuttugu tróverskar konur, sem fríðastar eru næst hinni argversku Helenu. En er vér komum til hins akkneska Argverjalands, þess hins frjóvsama sáðlandsins, þá skal hann verða dótturmaður minn; hann skal hafa jafnt yfirlát af mér, sem Órestes, hinn ástkærasti son minn, sem nú vex upp í fullsælu. Eg á þrjár dætur í hinni fagursmíðuðu höll minni, Krýsóþemisi, Laódíku og Iffíanössu. Af þeim má hann velja, hverja sem hann vill, og hafa þá, sem hann kýs sér, heim í hús Peleifs ókeypis, án þess að færa henni brúðgjafir, en eg skal láta fylgja henni heimanfylgju svo mikla, að engi skal hafa gefið jafnmikla með dóttur sinni: eg skal gefa honum sjö fjölbyggðar borgir, Kardamýlu, Enópu, og hina grösugu Íru, hina sannhelgu Feruborg og hina engjamiklu Anþíu, hina fögru Epíu og hina vínviðóttu Pedasusborg. Allar þessar borgir liggja nálægt sjó, og eru yzt í landi hinnar sendnu Pýlusborgar; menn þeir, er þar búa, eru auðugir af sauðfé og uxum; munu þeir sæma hann með gjöfum, svo sem væri hann einhverr goðanna, og greiða honum ríflegar skyldir, meðan þeir eru undir veldissprota hans. Þetta skal eg gjalda honum, ef hann lætur af reiði sinni. Láti hann nú til! Hades einn er ómýkjandi og ótillátssamur, og fyrir því er hann dauðlegum mönnum leiðastur allra goða. Hann verður að vægja til við mig, að svo miklu leyti sem eg hefi æðra vald og er eldri en hann“. 162 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herkonungur! Víst eru ekki fyrirlitlegar gjafir þær, er þú býður Akkillesi konungi. Heyrið þá, látum oss senda tilkjörna menn, er fari þegar í stað til búðar Akkils Peleifssonar. Eða ef þér viljið heldur, skal eg taka þá til, og skulu þeir þá hlýða mér. Tek eg fyrst til Fenix, ástvin Seifs; hann skal vera forkólfur fyrir förinni; þar næst tek eg til hinn mikla Ajant og hinn ágæta Odysseif; þeim skulu fylgja kallararnir Ódíus og Evrýbates. Takið nú handlaugar, og segið öllum að hafa hljótt um sig, meðan vér gerum bæn vora til Seifs Kronussonar, að hann sé oss miskunnsamur“. 173 Þannig mælti hann, en öllum líkaði vel, það er hann hafði mælt. Helltu kallararnir þegar vatni á hendur þeim, en sveinarnir fylltu skaftkerin á barma af drykk, skenktu á drykkjarkerin til dreypifórnar handa hverjum, og skömmtuðu öllum. En er þeir höfðu dreypt, og drukkið, sem þá lysti, fóru þeir af stað frá búð Agamemnons Atreifssonar; horfði hinn gerenski riddari Nestor framan í sérhvern þeirra, en einkum framan í Odysseif, og lagði ríkt á við þá að freista, ef þeir fengi talið hinum ágæta Peleifssyni hughvarf. 182 Þeir Odysseifur gengu með strönd hins brimótta hafs, og báðu mjög innilega til hins jarðkringjanda Landaskelfis, að sér mætti takast að vinna hinn stórlynda hug Eaksniðja. Þeir komu til búða og skipa Myrmídóna, og fundu Akkilles; var hann að leika á hvella hörpu sér til gamans; var harpan fögur og haglega tilbúin, og á henni lyklarim af silfri; þá hörpu hafði hann tekið af herfanginu, þá hann lagði í eyði Etjonsborg. Á þessa hörpu lék hann sér til skemmtunar, og söng um afreksverk kappanna. Engi var hjá honum, nema Patróklus; hann sat gagnvart honum og þagði, beið þess, að Eaksniðji hætti söngnum. Þá gengu þeir Ajant þangað, og fór Odysseifur fyrir; þeir numu staðar frammi fyrir Akkilli; varð Akkilles forviða, og spratt upp með hörpuna upp af sæti því, er hann sat í; svo stóð og Patróklus upp, er hann sá mennina. Hinn fóthvati Akkilles kvaddi þá og mælti: „Verið velkomnir! Það er mér kært, að þér vinir mínir komið til mín, er mér eruð kærastir Akkea; víst ber yður mikla nauðsyn að hendi, er þér komið, er eg er reiður!“ [Mynd: Sendiför til Akkilless.] 199 Þá er hinn ágæti Akkilles hafði þetta mælt, leiddi hann þá innar, og lét þá setjast á legubekki; voru þar breiddar yfir purpuraábreiður. Hann mælti þegar til Patrókluss, er þar var hjá honum: „Set hið stærra skaftkerið á borð, Menöytsson, og byrla vín í áfengara lagi, og haf til reiðu borðker handa hverjum þeirra; því beztu vinir mínir hafa nú sókt mig heim“. 205 Þannig mælti hann, en Patróklus gerði, sem vinur hans bauð; en Akkilles setti fram stórt kjötborð nálægt eldsbirtunni, og lagði þar á krof af sauð og feitri geit, og hrygg af alisvíni; var hann allfeitur og stirndi á hann af spiki; hélt Átómedon í hrygginn, en hinn ágæti Akkilles skar hann í stykki, brytjaði síðan vandlega og stakk á teina. Hinn goðumlíki kappi, Menöytsson, kveikti upp eld mikinn; en er eldurinn var útbrunninn og loginn slokknaður, skaraði hann sundur glóðinni og hélt teinunum þar uppi yfir; hann dreifði helgu salti á stykkin, og lét teinana liggja á undirlagssteinunum. En er hann hafði steikt, lét hann kjötið hvað ofan á annað á fjöl. Patróklus tók brauð, sem var í fallegum körfum, og skammtaði það á borðinu, en Akkilles skammtaði kjötið. Akkilles settist sjálfur gagnvart hinum ágæta Odysseifi, við hinn búðarvegginn. Hann bað Patróklus vin sinn að fórna goðunum, og kastaði hann frumfórnum á eldinn. Tóku þeir nú til hins tilreidda matar, er á borð var borinn. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, þá gerði Ajant Fenixi höfuðbendingu; en er hinn ágæti Odysseifur varð þess varr, skenkti hann fullt drykkjarker af víni, og drakk Akkillesi til: „Heill sértú, Akkilles! Hvorki förum vér á mis við jafndeildan verð í búð Agamemnons Atreifssonar, né heldur hér nú; er hér á borð borinn nógur ljúffengur matur. En nú stendur ekki hugur vor til þess, að sitja að skemmtilegri veizlu, því nú erum vér óttafullir, seifborni konungur, er vér sjáum oss búið mikið tjón; er nú tvísýna á, hvort vér munum heilum haldið fá hinum þóftusterku skipum, eða muni þau týnast, nema þú íklæðist nú styrk þínum. Því hinir ofurhuguðu Trójumenn og hinir langt að komnu liðsmenn þeirra hafa nú náttból sitt nálægt skipunum og garðinum, og kynda marga elda í herbúðum sínum, og segja, að Akkear muni nú ekki fá staðizt, heldur muni þeir nú falla hjá hinum svörtu skipum. Seifur Kronusson birtir þeim heillavænlegar jarteiknir, og sendir eldingar; en Hektor er nú mjög hróðugur af afli sínu, og æðir ógurlega; treystir hann Seifi, en skeytir ekki mönnum, og ekki goðum; er nú kominn á hann mikill æðisgangur; óskar hann, að sem fyrst lýsi af degi; kveðst hann þá muni af höggva skuttrjónurnar af skipum vorum, en brenna skipin sjálf að björtu báli, en drepa Akkea hjá skipunum reykmóða. Er eg mjög hræddur um, að guðirnir láti þessi stóryrði hans framgeng verða, og muni oss eiga auðið að verða, að deyja í Trójulandi, langt frá hinu hestauðga Argverjalandi. Rís nú upp, ef þú vilt, þó seint sé, frelsa sonu Akkea, sem nú eru mjög aðþreyttir af hergný Trójumanna. Síðar meir mun þér sjálfum sárna ófarir þeirra, og þá mun engi kostur verða til að ráða bót á, þegar bölið er unnið; er því betur fyrr, að þú ráðir með sjálfum þér, hversu þú megir afstýra þeim hinum illa degi frá Danáum. Þau áminningarorð gaf faðir þinn Peleifur þér, vinur, þann dag er hann sendi þig til Agamemnons frá Fiðju: sigur munu þær veita þér, kvað hann, þær Aþena og Hera, ef þær vilja; en þú halt í taumi hinu stórgjörva skapi, er býr í brjósti þínu, því betri er blíðskapar hugur; lát af allri kappdeilu, er illt eitt af hlýzt, muntu þá enn meiri virðingu fá af Argverjum, ungum sem gömlum. Þessi áminningarorð gerði þér hinn aldraði maður, en þú hefir nú gleymt þeim. Lát nú þá enn af, og slepp bræði þeirri, er særir huga þinn. Agamemnon býður þér sæmilegar gjafir, ef þú lætur af reiðinni. Heyr nú á mál mitt! Ef þú vilt, skal eg telja upp fyrir þér, hve miklar þær gjafir eru, er Agamemnon hét þér í búð sinni: sjö nýir þrífætur, er aldrei hafa á eld komið, tíu vættir gulls, tuttugu fagrir katlar, tólf aldir hestar, sigursælir í veðhlaupi, er borið hafa verðlaun úr býtum fyrir fráleik sinn; væri sá maður ekki félaus eða snauður af dýru gulli, er ætti eins mikið fé, og hestar Agamemnons hafa aflað í sigurlaun með fráleik sínum. Hann vill gefa þér sjö konur lesbeyskar, hagar á fagrar hannyrðir; þær konur fékk hann að afnámsfé, þá er þú sjálfur tókst hina fjölbyggðu Lesbey; voru þær konur allra kvenna fríðastar í það mund. Þessar konur vill hann gefa þér, og þeim skal fylgja dóttir Brísess, er hann tók frá þér á dögunum; vill hann vinna þar að dýran eið, að hann hafi aldrei stigið á beð hennar eða átt við hana samlag, svo sem mönnum er títt, körlum og konum. Allar þessar gjafir skulu vera til reiðu þegar í stað; en láti guðirnir oss auðnast síðar meir að leggja í eyði hina miklu Príamsborg, þá skaltú sjálfur ganga út á skip þitt og alferma það af gulli og eiri, þá vér Akkear skiptum meðal vor herfanginu. Þú skalt sjálfur velja þér tuttugu tróverskar konur, sem fríðastar eru, næst hinni argversku Helenu. En er vér komum til hins akkneska Argverjalands, þess hins frjóvsama sáðlandsins, þá skaltú verða dótturmaður hans; skaltú hafa jafnt yfirlát af honum, sem Órestes, hinn ástkærasti son hans, er nú vex upp í fullsælu. Agamemnon á þrjár dætur í hinni fagursmíðuðu höll sinni, Krýsóþemisi, Laódíku og Iffíanössu. Af þeim máttu velja þér, hverja sem þú vilt, og hafa þá, sem þú kýs þér, heim í hús Peleifs ókeypis, án þess að færa henni brúðgjafir, en Agamemnon vill láta fylgja henni heimanfylgju svo mikla, að engi skal hafa gefið jafnmikla með dóttur sinni. Hann vill gefa þér sjö fjölbyggðar borgir, Kardamýlu, Enópu, og hina grösugu Íru, hina sannhelgu Feruborg, og hina engjavíðu Anþíu, hina fögru Epíu og hina vínviðóttu Pedasusborg; liggja allar þessar borgir nálægt sjó, og eru yzt í landi hinnar sendnu Pýlusborgar; menn þeir, er þar búa, eru auðugir af sauðfé og uxum; munu þeir sæma þig gjöfum, sem værir þú einhverr goðanna, og greiða þér ríflegar skyldir, meðan þeir þjóna undir veldissprota þinn. Þetta mun hann gjalda þér, ef þú lætur af reiðinni. Nú þó þú hatir Atreifsson um fram aðra í hjarta þér, bæði sjálfan hann og gjafir hans, þá sjá þó aumur á hinum öðrum af alþjóð Akkea, þeim er nú eru nauðulega staddir í herbúðunum; munu þeir þá virða þig, sem værir þú einn af goðunum; muntu nú öðlast mega mjög mikla frægð hjá þeim, því nú muntu drepið fá Hektor; mun hann nú ganga í berhögg við þig, er svo fársfullt óðafar er á honum, því nú þykir honum, sem engi muni vera sinn jafningi af Danáum, þeim er hingað fluttust á skipunum“. 307 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum og sagði: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Eg verð að segja ætlan mína fortakslaust, eins og mér býr í hug, og eins og fram mun koma, svo þér komið ekki sinn úr hverri áttinni, og séuð að vola framan í mig, því þann mann hata eg jafnt Hadesar grindum, sem felur eitt í brjósti sér, en talar annað. En eg skal segja, eins og eg vil vera láta. Hvorki hygg eg að Agamemnon Atreifsson, né aðrir Danáar, muni telja mér hughvarf; því manni er litlu launað, þó hann berjist sí og æ við óvinina; jafnt ber sá úr býtum, sem heima situr í herbúðunum, og hinn, sem berst, sem hann má; jafnan heiður fær sá, sem er huglaus, og hinn, sem hraustur er; jafnt fellur sá maður, er í engu er nýtur, og hinn, er afrekar mikið. Mig stoðar það ekki í þeim hugraunum, sem eg verð að þola, að hætta lífi mínu í bardögum. En eins og fuglinn færir ófleygum ungum sínum fæðslu, þá hann getur náð henni, en situr fyrir skort sjálfur: þannig hefi eg legið marga svefnlausa nótt og barizt margan blóðugan dag, meðan eg hefi haldið uppi orustu við óvinina sökum eiginkvenna Akkea. Á skipum hefi eg lagt í eyði tólf byggðar borgir, og í landorustum ellefu borgir í hinu landfrjóva Trójulandi. Í þessum borgum tók eg margar ágætar gersemar, og fékk Agamemnon Atreifssyni allt herfangið, en hann sat kyrr eftir niðri við skipin, tók við fénu og skipti öðrum fáu af því, en hélt miklu sjálfur. Þó gaf hann hraustustu mönnum og höfðingjum heiðursgjafir, og halda þeir þeim enn óskertum, en eg var sá eini af Akkeum, sem hann tók frá heiðursgjöf sína, er hann heldur hjá sér konu þeirri, er mér var ástkær. Skemmti hann sér að henni, og sofi hann hjá henni! Hver þörf er Argverjum á, að eiga í ófriði við Tróverja? Hví safnaði Atreifsson her og fór með hann upp hingað? Var það ekki vegna hinnar hárfögru Helenu? Hvort eru það Atreifssynir einir meðal mæltra manna, sem elska konur sínar? Nei, sérhverr góður og skynsamur meður elskar konu sína og ann henni, eins og eg elskaði þessa konu af alhuga, þó hún væri hertekin. En með því hann hefir nú tekið heiðursgjöf þessa úr höndum mér og svikið mig, þá þarf hann ekki að reyna til að telja mér hughvarf; eg þekki hann of vel til þess. Það er bezt, að hann ráðgist um við þig, Odysseifur, og við aðra höfðingja, að hann fái afstýrt hinum háskalega eldi frá skipunum. Hann hefir nú, hvort heldur er, starfað mjög margt, án þess eg hafi til komið; hefir hann nú hlaðið garð, og grafið með honum breiða gröf mikla, og rekið niður staura við gröfina. Og allt fyrir það getur hann ekki hamlað afli Víga-Hektors. En meðan eg hélt upp orustu með Akkeum, fýsti Hektor ei að vekja bardaga langt frá borgarveggnum; þá komst hann ekki lengra en að Skehliðum og ætibjörkinni. Þar beið hann mín eitt sinn, og var eg þá einn saman, og komst hann naumast undan á flótta undan áhlaupi mínu. En nú, með því eg hefi enga lyst að berjast við hinn ágæta Hektor, þá muntu sjá, ef þú vilt og ef þér er um það gefið, á morgun árla, þegar eg hefi fært Seifi fórnir og öllum goðunum, sett skip mín á sjó fram og alfermt þau, þá skaltu sjá, hvar skip mín sigla yfir hinn fiskisæla Hellumar, og þar á menn róandi af kappi; og ef hinn frægi Landaskelfir gefur gott leiði, verð eg á þriðja degi kominn til hinnar landfrjóvu Fiðjuborgar; á eg þar mjög miklar eigur, er eg skildi við, þá eg til allrar ógæfu fór hingað; mun eg hafa héðan heim með mér annað fé, er eg hefi fengið að hlutskipti, gull, rautt eir, fagurbeltaðar konur og grátt járn; en Agamemnon konungur Atreifsson gerði mér þá svívirðingu, að hann tók frá mér aftur þá heiðursgjöf, er hann hafði gefið mér. Flytjið honum nú í heyranda hljóði allt, eins og eg legg fyrir yður, svo einnig aðrir Akkear reiðist honum, ef honum kemur enn í hug að svíkja einhvern af Danáum, sem vel má verða, þar sem hann er jafnan útbúinn með ósvífni. Dirfist hann ekki, hundurinn, að koma fyrir augu mér! Eg vil engi mök við hann hafa, hvorki í ráðagjörðum eða í framkvæmdum; því hann hefir svikið mig og gert á hluta minn; hann skal ekki gabba mig aftur með orðum sínum hér eftir; hann hefir gert það nóg! Ani hann út í ógæfuna í náðum fyrir mér, því hinn ráðvísi Seifur hefir gjörsamlega blindað hugskot hans. Tröll hafi gjafir hans; eg met hann ekki meir en hundshár. Þó hann bjóði mér tífalt og tvítugfalt við það, sem hann á nú og kynni að eignast síðar, þó hann bjóði mér eins mikil auðæfi, og flytjast til Orkómensborgar, eða til hinnar egypzku Þebu, þar sem mestu auðæfi liggja geymd, þar sem hundrað borgarhlið eru, og tvö hundruð menn með hestum og kerrum fara út um hvert borgarhlið, þó hann bjóði mér fé, eins og sand og mold, þá skal Agamemnon aldrei að heldur telja mér hughvarf, fyrr en hann hefir tekið gjöld fyrir þá sáru svívirðingu, sem hann gerði mér. En ekki vil eg eiga dóttur Agamemnons Atreifssonar; þó hún jafnaðist að fríðleika við hina gullfögru Afrodítu, og í hannyrðum við hina glóeygu Aþenu, vil eg þó ekki eiga hana. Kjósi hann einhvern annan af Akkeum, þann er honum líkar og meiri höfðingi er, en eg em. Því ef guðirnir láta mig heilan heim komast, þá vonar mig, að Peleifur muni sjálfur biðja konu mér til handa. Margar eru akkneskar konur bæði á Hellu, og í Fiðju, dætur höfðingja þeirra, er fyrir borgum eiga að ráða; get eg fengið hverja af þeim mér til konu, sem eg vil. Mér hefir stórum leikið hugur á að kvongast þar og fá einhverrar konu, sem mér væri að skapi, og njóta svo eigna þeirra, er Peleifur gamli hefir aflað. Lífið er meira vert, en öll sú auðlegð, sem sagt er að átt hafi hin fjölbyggða Ilíonsborg áður fyrr, meðan friður var, áður en synir Akkea komu þangað; það er meira vert, en allir þeir fjársjóðir, er geymdir eru í steinhúsi skotguðsins Febusar Appollons í hinni klettóttu Pýþó. Uxum og feitum sauðum má ræna, þrífótum og jörpum hestum má ná, en önd mannsins næst ekki aftur, né fæst, þegar hún eitt sinn er liðin fram af vörunum. Gyðjan, hin silfurfætta Þetis, móðir mín, segir, að tvennar Valkyrjur leiði mig til dauðans; ef eg verð hér kyrr eftir og berst hjá borg Trójumanna, þá á eg aldrei heimvon aftur, en þá mun eg öðlast ævarandi orðstír; en ef eg fer heim til minnar kæru föðurjarðar, missi eg hinn fræga orðstír, en ævi mín mun þá verða löng, og algjörlegur dauði ekki ná mér svo fljótt. Nú vil eg ráða hinum öðrum til að sigla heim aftur, með því yður mun ekki hér eftir auðið verða að vinna hina hávu Ilíonsborg, því hinn víðskyggni Seifur heldur hendi sinni yfir henni, og borgarlýðurinn er hughraustur. Farið nú og segið þjóðhöfðingjum Akkea þessi boð, að þeir hugsi upp annað betra ráð, er frelsað geti skipin og her Akkea hjá hinum holu skipum; það er skylda höfðingjanna; því þetta ráð, sem þeir hafa nú upp hugsað, dugir þeim ekki, þar sem eg held áfram heiftinni. En Fenix skal vera hér eftir, og sofa hér í nótt, og sigla heim með mér á morgun til síns kæra föðurlands, ef hann vill, en ekki mun eg fara með hann nauðugan“. 430 Þannig mælti hann, en þeir urðu allir hljóðir og þögðu; fannst þeim mikið til koma þess, er hann mælti, því hann hafði talað mjög skorinort. Loksins tók hinn aldraði riddari Fenix til máls; hrundu honum tár af augum, því hann bar mikinn kvíðboga fyrir skipum Akkea: „Ef þú, frægi Akkilles, hefir einsett það í huga þér, að fara heim aftur, og vilt fyrir engan mun bægja hinum voveiflega eldi frá skipunum, sökum reiði þeirrar, er þú býr yfir, hversu má eg þá skiljast við þig, sonur sæll, og vera hér eftir einmana? Hinn aldraði riddari Peleifur lét mig fara með þér, þann dag er hann sendi þig frá Fiðju til Agamemnons; varstu þá ungur, og enn óvanur hernaði og mannfundum, þar er menn verða frábærir um fram aðra. Því var það, að hann lét mig fara með þér, til að kenna þér allt þetta, svo þú yrðir snillingur í orðum og framkvæmdarmaður í verkum. Þess vegna vildi eg ekki við þig skiljast, elskusonur, þó sjálfur guð héti mér því, að hann skyldi láta mig kasta ellibelgnum og gera mig að ungum manni á bezta aldri, eins og eg var, þá eg flýði fyrrum úr hinu kvenfagra Hellulandi fyrir fáryrðum föður míns, Amyntors Ormenussonar. Hann varð reiður mér sökum hinnar hárprúðu frillu sinnar; hafði hann hana kæra, en svívirti eiginkonu sína, móður mína. Móðir mín sárbændi mig þá að leggjast áður með frillunni, svo hún fengi óbeit á hinum gamla manni. Eg hlýddi móður minni og gerði þetta; en jafnskjótt sem faðir minn varð þess vís, hét hann á hinar óttalegu refsinornir, og bað mér mikilla óbæna, kvaðst aldrei mundi setja á kné sér þann svein, er af mér fæddist; létu guðirnir þessar óbænir rætast, þau Undirheima-Seifur og hin ógurlega Persefóna. Þá ásetti eg mér að drepa föður minn með hvössu eirvopni; en einhverr hinna ódauðlegu guða hefti reiði mína, og til þess eg yrði ekki nefndur föðurbani af Akkeum, lét hann mér í hug koma umtal alþýðu og hið mikla álas, er eg mundi fá af mönnum. Nú gat eg með engu móti unað mér að vera lengur í húsi föður míns, er hann var mér reiður. En frændur mínir og kunnmenn, þeir er hjá mér voru, báðu mig innilega að vera kyrran, og héldu mér heima; slátruðu þeir mörgum feitum sauðum og drattandi, bjúghyrndum nautum; mörgum bráðfeitum svínum var haldið yfir loganda sviðueldi, og mikið vín drukkið af leirkerum hins aldraða manns. Þeir vöktu yfir mér í níu nætur, og héldu vörð til skiptis; slokknaði eldurinn aldrei; var einn eldurinn í svölugangi hins ramgirta forgarðs, en annar í framhúsinu fyrir framan herbergisdyrnar. En er hin tíunda dimma nótt kom yfir mig, þá braut eg upp hinar vel felldu herbergisdyr, og komst út, stökk síðan með hægu móti upp yfir forgarðsvegginn, svo varðmennirnir og ambáttirnar urðu ekki varar við. Síðan flýði eg burt þaðan yfir hið víðlenda Helluland, og komst til hinnar landfrjóvu Fiðju, móður sauðanna, til Peleifs konungs; hann tók mér góðfúslega, og elskaði mig, svo sem faðir elskar einkason sinn, þann er hann hefir átt í elli sinni, og stendur til alls arfs eftir hann: hann gerði mig auðugan af fé, og fékk mér stórt mannaforráð; bjó eg yzt í Fiðjulandi og réð yfir Dolópum. Eg kom þér til manns, goðumlíki Akkilles, því eg elskaði þig af hjarta. Þú vildir ekki fara til veizlu með neinum öðrum, en mér; þú vildir heldur ekki matast heima, nema eg setti þig á kné mér og mataði þig, bitaði fyrir þig og rétti þér vín. Þú vættir oft kyrtil minn að framan í víni, þegar þú varst að blása bólur að gamni þínu, og er bágt að fást við börnin. Þannig þoldi eg margt og lagði á mig marga þraut þín vegna, því mér kom það til hugar, að guðirnir höfðu ekki látið mér verða barna auðið, og því tók eg þig í sonar stað, goðumlíki Akkilles, að þú eitt sinn mættir veita mér raunalétti. Tem nú, Akkilles, hið mikla hjarta þitt! Ekki sæmir þér að bera grimmt hjarta í brjósti. Jafnvel sjálfir guðirnir eru auðbeðnir, og er þó atgjörvi þeirra og tign og kraftur meiri, en þinn; og þó snúa mennirnir huga þeirra með bænum sínum, brennifórnum, blíðum áheitum, dreypifórn og blótum, þá þeir hafa brotið móti guðunum og syndgazt. Því Bænirnar eru dætur ens mikla Seifs, haltar, hrukkóttar og hjáleitar, og bera sig að feta á eftir Glæpskunni; en Glæpskan er hraust og fótfim, stökkur þess vegna langt á undan þeim öllum, hleypur undan þeim á hvert land og glepur menn, en þær bæta úr á eftir. Sá sem tekur með lotningu móti dætrum Seifs, þá þær koma til hans, þeim manni hjálpa þær og heyra bæn hans. En synji nokkurr þeim viðtöku og neiti þeim þverlega, þá fara þær til Seifs Kronussonar, og biðja, að Glæpskan fylgi þeim manni, svo honum förlist vit og hann taki gjöld fyrir glæpsku sína. En þú, Akkilles, láttú einnig heiðurinn falla Seifs dætrum í skaut, því heiðurinn hrærir hjörtu allra göfuglyndra manna. Því ef Atreifsson hefði ekki boðið þér neinar gjafir, heldur lofað þeim síðar meir, en verið þér allt af ákaflega reiður, þá skyldi eg ekki ráða þér til að kasta heiftinni og hjálpa Argverjum, þó þeim liggi mjög á; en nú er hvortveggja, að hann gefur þér miklar gjafir nú þegar, og lofar sumum síðar, enda valið hina beztu menn í hinum akkneska her, þá er þér eru kærastir af Argverjum, og sent þá til að leita sætta. Þú mátt ekki gera hæðilegt erindi eða sendiför þessara manna; en áður var þér ekki láandi, þó þú reiddist. 524 Það höfum vér heyrt sagt frá ágætismönnum í fornöld, að þegar ákafleg reiði kom að einhverjum þeirra, þá mátti koma gjöfum við þá og telja þeim hughvarf með orðum. Eg man eina sögu; er sá atburður gamall, en ekki nýorðinn, og vil eg segja yður öllum frá, vinum mínum. Kúretar og hinir vígdjörfu Etólar börðust hjá Kalýdonsborg, og drápu hvorir aðra; vörðu Etólar hina fögru Kalýdonsborg, en Kúretar vildu eyða borginni með herskildi. Því Artemis gullinstóla hafði sent Etólum einn meinvætt; var hún þeim reið, fyrir þá sök að Öynefur hafði ekki fært henni frumgróðafórn á hinu frjóvsama sáðlandi, þar sem hinir aðrir guðir sátu þá að hundraðsblótum; en dóttir hins mikla Seifs var sú eina, er hann hafði sett hjá, annaðhvort af gleymsku eða hugsunarleysi, og var það mikið glappaverk. En hin goðkynjaða Örumglöð sendi honum vobeyðu, villigölt einn, hvíttenntan, sem lagðist á akurland Öynefs og vann því mikinn skaða; kastaði hann mörgum stórtrjám til jarðar frá grunni, ásamt með rótunum sjálfum og hinum blómfögru eplum. Meleager, sonur Öynefs, stefndi að sér veiðimönnum og dýrhundum úr mörgum borgum, og drap göltinn; því ekki varð hann unninn af fám mönnum, svo var hann mikill, og kom hann þó mörgum manni á banabál, áður hann yrði unninn. En þá kom gyðjan til leiðar miklum ys og hergný út af geltinum milli Kúreta og hinna stórhuguðu Etóla; reis sú deila af hausi galtarins og hinni loðnu galtarhúð. Meðan Meleager, ástvinur Aresar, var í orustunni, gekk Kúretum miður, gátu þeir ekki haldizt við utan borgar, þó þeir væru mjög margir. En er reiðin var komin í Meleager, sú er oft lætur hjartað þrútna í brjóstum manna, jafnvel þeirra, sem mjög eru vitrir, þá hélt hann kyrru fyrir heima hjá eiginkonu sinni, hinni fríðu Kleópötru, af því hann var reiður Alþeu, móður sinni. Kleópatra var dóttir hinnar öklafríðu Marpessu Evenusdóttur, og Ídasar. Ídas var manna hraustastur, þeirra er þá voru uppi: hann greip boga sinn og barðist við Febus Appollon um þá öklafríðu mey. Þá var Kleópatra kölluð að viðurnefni Alkýóna af föður sínum og sinni heiðvirðu móður í höllinni, sökum þess að móðir hennar kveinaði, eins og hinn harmsfulli ísfugl, þegar hinn fjarvirki Febus Appollon rænti henni. Meleager hvíldi nú hjá konu sinni, og sekkti hina sáru reiði sína; var hann reiður sökum óbæna móður sinnar; en henni hafði sárnað dráp bróður hennar, og bað ákaflega til goðanna: hún kraup á kné, og skaut hennar vöknaði af tárum; hún barði ákaft hina margfæðandi jörð með höndum sínum, og hét á Hades og hina ógurlegu Persefónu að veita fjörlöst syni hennar; en hin myrkförula refsinorn, sem hefir ómjúklátt hjarta, heyrði bæn hennar frá Myrkheimi. Nú varð bráðum ys mikill og skarkali af Kúretum í kring um borgina, er skotið var á turnana; sendu þá höfðingjar Etóla hina göfugustu hofgoða guðanna til Meleagers, og báðu hann ganga út og reka burt Kúreta; hétu þeir honum stórri gjöf, báðu hann velja sér fallegan akurteig, fimmtíu plóglönd að vídd, þar sem feitastur var jarðvegur í hinni fögru Kalýdonsborg; var annar helmingur þess vínland, en hinn helmingurinn var kvistlaus, svo plægja mátti í akurland. Hinn aldraði riddari Öynefur bað og son sinn innilega, steig upp á þröskuld hins háræfraða sals, knúði hinar vel felldu hurðir, og féll á kné fyrir honum. Systur hans og hin heiðvirða móðir báðu hann og mjög, en hann synjaði þverlega. Svo gengu og félagar hans mjög eftir honum, þeir er hann unni mest og honum voru kærstir allra, og varð honum þó ekki að heldur talið hughvarf, fyrr en Kúretar tóku til að skjóta óðum að loftsalnum; voru þeir þá teknir til að stíga upp á turnana og brenna hina hávu borg. Þá bað hin fagurbeltaða kona Meleagers hann grátandi, og tjáði fyrir honum alla þá harma, er mönnum mæta, þegar borg þeirra verður hertekin, hversu karlmenn verða drepnir, borgin brennd upp til kaldra kola, börn og síðgyrðar konur leiddar í burt. En er Meleager heyrði sagt frá þeim níðingsverkum, þá gekkst honum hugur við, færði hann sig þá í hinn ljómanda herbúnað, og gekk af stað. Þannig afstýrði hann ógæfudeginum frá Etólum af sjálfræði sínu; þurftu þeir nú ekki að gefa honum þær hinar mörgu og fögru gjafir, og afstýrði hann þó ógæfunni allt að einu. En þú, kæri, lát þér ekki annað eins í hug koma! Eg vildi, að guð snéri ekki hug þínum á þá leið! Því verra mun þá verða að afstýra hættunni, þegar skipin eru tekin til að loga. Far heldur nú, meðan gjafir standa til boða, því þá munu Akkear virða þig jafnt einhverjum guðanna; en ef þú gengur út í hinn mannskæða bardaga, þegar engar gjafir eru í boði, þá muntu ekki fá jafnmikla virðingu, enda þó þú fáir afstýrt styrjöldinni“. 606 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum: „Gamli faðir, Fenix, fóstursonur Seifs! Eg þarf ekki þessarar virðingar við; því eg hygg, að eg hafi notið virðingar að ráðstöfun Seifs, og sú virðing mun fylgja mér hér niðri við hin stafnbognu skip, meðan önd er í brjósti, og meðan kné mín hreyfast. En eitt vil eg segja þér, sem þú skalt leggja á hjarta þitt: angraðu ekki hjarta mitt með kveinstöfum þínum og harmatölum, um leið og þú heldur með öðlingnum Atreifssyni. Ekki skaltu vera vinur hans, svo þú verðir ekki óvinur minn, vinar þíns. Þú átt að angra þann, sem eg angra og mig angrar. Haf þú jafnan hlut ríkis við mig, og njóttu hálfrar virðingar móti mér. Skili þessir menn erindum sínum, en þú vert hér eftir og legg þig í mjúka rekkju; en þegar er birtir á morgun, munum vér ráðgast um, hvort vér skulum fara heim aftur, eða vera hér eftir“. 620 Þegar hann hafði mælt þetta, benti hann Patróklus þegjandi með augnabrúnunum, að búa Fenix góða rekkju, til þess hinir byggist sem fyrst til burtfarar úr búðinni. Þá tók til orða hinn goðumlíki Ajant Telamonsson: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Förum nú, því svo virðist mér, sem sendiför þessi verði að erindisleysu. Verðum vér sem fyrst að segja Danáum, sem sitja nú og bíða vor, frá svörum þessum, þó ekki séu góð. En Akkilles hefir gert sína hina stórúðugu sál tryllta í brjósti sér. Hinn harðbrjóstaði, er metur einskis jafnvel vináttu vora, félaga sinna, er virtum hann um fram aðra menn, þá er í herbúðunum eru. Sá hinn miskunnarlausi! Og þó tekur margur maður við bótum af bróðurbana sínum eða sonarbana, og fær vegandi þá landsvist, er hann hefir bætt fullu fyrir sig; en sá, sem við bótunum tekur, stillir hjarta sitt og hið framgjarna skap. En í þitt brjóst hafa guðirnir lagt illt skap og óhemjandi sökum einnar konu, og nú bjóðum vér þér þó sjö afbragðsvænar meyjar, og margt annað auk þeirra. Kom nú mjúkum huga í brjóst þér, og virð hús þetta; erum vér nú undir búðarþaki þínu, komnir úr liði Danáa, og viljum gjarna vera þínir virktamenn og ástvinir um fram alla aðra Akkea“. 643 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum og sagði: „Seifborni Ajant Telamonsson, þjóðhöfðingi! Nálega virðist mér allt af einlægni talað, það er þú hefir sagt. En hjarta mitt þrútnar af reiði, þegar eg minnist, hversu Atreifsson hefir svívirt mig í augum Argverja, svo sem væri eg einhverr sæmdarlaus reikunarmaður. Farið nú og skilið erindunum, því ekki mun eg fyrr taka þátt í enni blóðugu styrjöld, en hinn ágæti Hektor, sonur hins herkæna Príamuss, hefir drepið Argverja, svælt skip þeirra í eldi, og er kominn að búðum og skipum Myrmídóna; hugsa eg, að Hektor muni, þó hann sé ákafur, láta af orustunni, þá hann er kominn að búð minni og hinu svarta skipi“. 656 Þá hann hafði sagt þetta, tók hverr sitt tvíker og dreypti, fóru síðan aftur til skipa sinna, og gekk Odysseifur á undan. En Patróklus bað félaga sína og þernurnar að búa Fenix góða rekkju sem bráðast; gerðu þær, sem hann bauð, og breiddu yfir legubekkinn gærur, ábreiður og smágjörvar línblæjur. Þar lagði hinn aldraði maður sig til svefns, og beið hinnar helgu Morgungyðju; en Akkilles svaf innst inni í hinni vel smíðuðu búð; hvíldi þar hjá honum kona hans, hin kinnfagra Díomeda Forbantsdóttir, er hann hafði numið frá Lesbey. Patróklus lá hinu megin í búðinni, og hjá honum hin fagurbeltaða Ífis, er hinn ágæti Akkilles hafði gefið honum, þá hann tók hina hávu Skyrey, borg Enýeifs. 669 En er sendimenn komu til búðar Atreifssonar, þá stóðu synir Akkea upp, hverr úr sínu rúmi, og drukku þeim til af gullnum skálum, og spurðu tíðinda. Hershöfðinginn Agamemnon spurði fyrstur: „Seg mér, marglofaði Odysseifur, þú mikli sómi Akkea! Vill hann afstýra eldi óvinanna frá skipunum? eða neitar hann því með öllu, og ríkir reiðin enn í hinu stórúðuga skapi hans?“ 676 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon hershöfðingi! Ekki vill hann stilla reiðina, heldur fyllist hann enn meir af heift: hann fyrirlítur þig og gjafir þínar; hann biður þig sjálfan að ráðslaga með Argverjum, hversu þú megir bjarga skipunum og her Akkea; hann hótaði, að undir eins og birti af degi, skyldi hann setja hin þóftusterku, borðrónu skip sín til sjóar, kvaðst og mundi ráðleggja hinum öðrum að sigla heim líka: „ „Því yður mun ekki framar auðið verða að vinna hina hávu Ilíonsborg, því hinn víðskyggni Seifur heldur mjög hendi sinni yfir henni, og borgarlýðurinn er hughraustur“ “. Þetta voru orð hans; Ajant og báðir kallararnir, er fylgdu mér, hvorirtveggju vitrir menn, eru hér til vitnis, að hann mælti þetta. En gamli Fenix gekk til hvílu sinnar, því svo sagði Akkilles fyrir; ætlar hann að láta hann fylgjast með sér á skipunum á morgun heim til síns kæra föðurlands, ef hann vill verða samferða, en ekki vill hann taka hann með sér nauðugan“. 693 Þá hann hafði þetta mælt, urðu allir hljóðir og þögðu. Synir Akkea voru lengi orðlausir; svo féll þeim þetta sárt. Loksins mælti hinn rómsterki Díómedes: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herforingi! Þú hefðir aldrei átt að fara bónarveg til hins ágæta Peleifssonar, og ekki bjóða honum slíkar stórgjafir; hann er nógu dramblátur, hvort sem er, en nú hefir þú æst enn meir upp í honum stórmennskuna. Vér skulum láta hann sjálfráðan, hvort heldur hann er eða fer. Hann mun ganga í bardagann, þegar honum býður svo hugur um og guð eggjar hann. Vér skulum nú allir gera, eins og eg segi fyrir. Gangið til hvílu, þegar þér hafið endurnært hjarta yðar á mat og víni, því hvíldin eykur þrek og kraft. En þegar er hin fagra, rósfingraða Morgungyðja kemur í ljós, skaltu skipa herliðinu og hestaliðinu fyrir framan skipin, og eggja til bardaga, og berjast sjálfur í brjósti fylkingar“. Þannig mælti hann, og gerðu allir höfðingjarnir góðan róm að máli hins hestfima Díómedess, og þótti hann hafa talað ágætlega. Og er þeir höfðu dreypt, gekk hverr til búðar sinnar, lögðu sig þar til svefns og tóku á sig náðir. TÍUNDI ÞÁTTUR DÓLONSÞÁTTUR ALLIR höfðingjar af alþjóð Akkea sváfu niðri við skipin alla nóttina, sigraðir mjúkum svefni, nema þjóðhöfðinginn Agamemnon Atreifsson; honum kom ekki sætur svefn á augu, af því hann var að velta mörgu í huga sér. Eins og þegar frumver hinnar hárfögru Heru lætur eldingar koma, þá hann er að búa til æsilegt steypiregn, eða haglél, eða kafaldsbyl, þegar snjórinn hylur sáðlöndin, eða þá hann lætur hina bitru styrjöld sperra sundur ginið: eins ótt stundi Agamemnon, og tóku andvörpin sig upp neðan frá hjarta í brjósti hans, en hugrenningarnar pipruðu þar inni fyrir. Í hvert sinn, er hann horfði út á hinn tróverska völl, undraðist hann hina mörgu elda, er brunnu fyrir framan Ilíonsborg, hljóm pípnanna og munnharpnanna, og glaum mannanna. En er hann leit á skip og her Akkea, kippti hann mörgum hárum úr höfði sér frá rótum, frammi fyrir Seifi, sem býr í upphæðinni, og hið frægðarfulla hjarta hans stundi þá stórum. Þá leizt honum í huganum það vera bezta ráðið, að fara á fund Nestors Neleifssonar, og hitta hann fyrstan manna, og vita, ef hann gæti lagt honum eitthvert gott ráð, er verða mætti meinabót öllum Danáum. Hann reis á fætur, og lagði kyrtilinn um brjóst sér, batt fagra sóla undir hina hraustlegu fætur sína, lagði síðan yfir sig dumbrauða húð fótsíða af stóru ljóni mórauðu, og tók spjót í hönd sér. 25 Á sama hátt var Menelás óttafullur, og kom ekki heldur svefn á brár hans; var hann hræddur um, að Argverjum yrði eitthvað að meini; en þeir höfðu fyrir hans sakir farið til Trójulands yfir mikið haf, og hugðu þar á vægðarlausan ófrið. Fyrst huldi hann hið breiða bak sitt með flekkóttum pardusfeldi, tók eirhjálm og setti á höfuð sér, og greip spjót með sinni þreknu hendi. Hann gekk af stað til að vekja bróður sinn, er þá var voldugur konungur yfir öllum Argverjum, og var virtur af lýðnum, sem væri hann einhverr goðanna. Hann hitti hann við skutstafn skips síns, þar sem hann var að leggja um herðar sér hin fögru herklæði; og varð Agamemnon feginn komu hans. Þá tók hinn rómsterki Menelás fyrri til orða, og mælti til hans: „Hví herklæðist þú svo, kæri? Ætlar þú að senda einhvern félaga þinn á njósn til Trójumanna? Mjög em eg hræddur um, að engi bjóði sig til þess starfs, að fara einn á njósn til óvina á næturþeli; skal þar mjög hugdjarfan mann til“. 42 Hinn voldugi Agamemnon svaraði honum og sagði: „Menelás, fóstursonur Seifs, báðir þurfum við nú viturlegra ráða, er frelsað gæti Argverja og bjargað skipunum; því nú hefir Seifi snúizt hugur; er það sýnilegt, að hann hneigir nú hug sinn meir að blótum Hektors. Því eg hefi enn ekki séð, og ekki heldur heyrt sögur af, að nokkurr einn maður hafi framið svo mörg stórvirki, sem Hektor, ástvinur Seifs, hefir unnið á sonum Akkea af sjálfs síns eðli, þar sem hann er hvorki af gyðjum né guðum borinn; og þó hefir hann unnið þau verk, að eg hygg Argverja muni lengi minni til reka; svo margt illt hefir hann gert Akkeum. En far þú nú og hlaup fljótt til skipanna, og kalla á Ajant og Idomeneif; en eg mun fara til hins ágæta Nestors, og biðja hann að rísa upp, og vita, ef hann vill fara til hins helga flokks varðmannanna, og segja þeim fyrir; munu þeir helzt láta að orðum hans, því sonur hans og Meríónes, sveinn Idomeneifs, ráða fyrir varðmönnunum, og höfum vér falið þá helzt á hendur þeim“. [Mynd: Grísk skip í fjörunni.] 60 Hinn rómsterki Menelás svaraði honum: „Hver er þá ætlan þín með þessu boði, er þú leggur fyrir mig? Á eg að vera þar kyrr hjá þeim, og bíða, þar til þú kemur? eða skal eg hlaupa til þín aftur, þá er eg hefi skilað til þeirra erindinu?“ 64 Hinn voldugi Agamemnon svaraði honum: „Þú skalt bíða þar, svo við ekki förumst á mis á leiðinni, því víða liggja vegamót um herbúðirnar. Kalla þú, þar sem þú kemur, og bið þá vaka, kenn hvern mann við föðurætt sína, og tala lofsorðum til allra, og vert ekki mikillátur í viðmóti. Því við verðum að starfa, eins og aðrir; þá þungu þraut lagði Seifur á okkur, þá við fæddumst“. 72 Að því mæltu sendi hann bróður sinn frá sér í þessum erindum. En Agamemnon fór til þjóðhöfðingjans Nestors, og fann hann í mjúkri rekkju hjá búð sinni og hinu svarta skipi; lá þar hjá honum alvepni hans, skjöldur, tvö spjót og skínandi hjálmur; þar lá og hjá honum hið liðuga brynbelti, er hinn gamli maður ávallt hafði um sig, þá hann bjóst út í mannskæðan bardaga og hafði lið með sér, því hann lét ekki bugast af hinni aumlegu elli. Hann reis upp á olboga, hóf upp höfuð sitt, spurði Atreifsson, og mælti til hans: „Hverr ert þú, sem gengur einmana á dimmri nóttu um skipin í herbúðunum, þegar aðrir menn sofa? Gerðu vart við þig, og gakktu ekki að mér þegjandi! Hvert er erindi þitt?“ 86 Agamemnon herkonungur svaraði honum: „Nestor Neleifsson, þú mikli sómi Akkea! Hér máttu þekkja Agamemnon Atreifsson, þann er Seifur hefir steypt í þá harma, er æ munu vara, meðan önd er í brjósti mér, og hné mín hreyfast. Mér verður svo reikult, af því að vær svefn sezt ekki á augu mér, en hefi stórar áhyggjur fyrir ófriðinum og raunum Akkea. Því eg ber stóran kvíðboga fyrir Danáum; hugur minn er á flökti, og eg hvarfla angistarfullur um kring; hjarta mitt ætlar að stökkva út úr brjósti mér, og fótlimirnir skjálfa undir mér. Nú með því þér verður ekki svefnsamt heldur, og viljir þú að hafast eitthvað, þá látum oss ganga ofan til varðmannanna, svo vér sjáum, hvort þeir eru ekki sofnaðir, yfirkomnir af þreytu og vökum, og hafi gleymt með öllu að halda vörðinn. Því óvinir vorir sitja í nánd, og er ekki að vita, nema þeir hafi í hyggju að berjast, þó nótt sé“. 102 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon hershöfðingi! Hinn ráðvísi Seifur mun víst ekki veita Hektori allar óskir sínar, þær er honum kunna nú til hugar að koma; hitt er heldur ætlan mín, að Hektor muni meiri raunum sæta, ef svo verður, að Akkilles snúi huga sínum frá hinni sáru reiði. En gjarna vil eg fara með þér, og skulum vér enn vekja aðra, bæði hinn spjótfima Týdeifsson og Odysseif, hinn skjóta Ajant og hinn hrausta Fýleifsson. Væri gott, ef einhverr vildi fara og kalla á þessa, og svo á hinn goðumlíka Ajant og Idomeneif konung; því þeirra skip eru lengst burt héðan, og ekki allnærri. En Menelás mun eg átelja, þó hann sé vinur minn og heiðvirður maður; og þó þér svo kunni að líka illa við mig, mun eg ekki draga dulur á, hversu hann sefur, en lætur þig einan hafa alla fyrirhöfnina. Hann ætti nú að ómaka sig og fara bónarveg til allra höfðingjanna, því nú ber brýn nauðsyn til“. 119 Agamemnon herkonungur svaraði honum: „Það ræð eg þér, gamli maður, að þú áteljir hann í annað sinn; því oft er hann tómlátur og tregur til starfa, og kemur það þó hvorki af viljaleysi eða vankunnáttu, heldur af því að hann hefir augastað á mér, og bíður þess, að eg verði fyrri að bragði. En í þetta sinn vaknaði hann enda fyrr en eg, og kom til mín; sendi eg hann þá að kalla á þá, er þú komst orði á. Förum nú af stað, munum við hitta þá fyrir framan hliðin meðal varðmannanna; því þar bað eg þá að koma saman“. 128 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Sé svo, mun engi af Argverjum reiðast honum eða verða ófús að gegna boðum hans og áminningum“. 131 Að því mæltu lagði hann kyrtilinn um brjóst sér, batt fagra sóla undir sínar hraustlegu fætur, þá spennti hann á sig skikkju; hún var purpurarauð, tvíbrotin og víð, og á þétt ló; hann tók og í hönd sér sterkt spjót með hvössum eiroddi, og gekk til skipa hinna eirbrynjuðu Akkea. Hinn gerenski riddari Nestor vakti fyrst Odysseif, jafningja Seifs að ráðkænsku; hann kallaði til hans, en jafnskjótt og hljóðið barst til eyrna Odysseifs, gekk hann út úr búðinni og mælti til þeirra: „Hví reikið þið svo einir um skipin í herbúðunum á næturþeli? Hvað liggur ykkur svo á?“ 143 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Seifborni Laertesson, ráðagóði Odysseifur! Reiðist ekki, því mikil sorg þrengir að Akkeum; kom með okkur, að vér og vekjum aðra til að ráðgast um, hvort flýja skal eða halda bardaga“. 148 Þannig mælti hann, en hinn ráðagóði Odysseifur gekk inn í búðina, lagði alla vega litan skjöld á herðar sér, og gekk með þeim. Þá gengu þeir til Díómedess Týdeifssonar; fundu þeir hann fyrir utan búðina herklæddan. Kringum hann sváfu sveitungar hans; höfðu þeir skjölduna undir höfðum sér, en spjót þeirra stóðu í jörðunni á aurfalnum; blikaði eirfjöðrin álengdar, eins og elding föður Seifs. Þar svaf kappinn, og var breidd undir hann húð af villiuxa, en skínandi dúkur undir höfuð hans. Hinn gerenski riddari Nestor gekk að honum, snart hann með fæti sínum framanverðum, eggjaði hann, og veitti honum átölur berlega: „Vakna þú, Týdeifsson! Hví sefur þú alla nóttina? Veiztu ekki, að Trójumenn hafa setu á einni hæð á vellinum nálægt skipum vorum, og eru allskammt frá oss?“ 162 Þannig mælti hann, en Díómedes vaknaði og spratt þegar upp mjög skjótt. Hann talaði til hans skjótum orðum og mælti: „Seinþreyttur ertu, gamli maður; aldrei hættir þú að starfa. Eru þá ekki til aðrir yngri menn af sonum Akkea, til að fara hvervetna um kring og vekja sérhvern af höfðingjunum? Á þig vinnur ekkert, gamli maður“. 168 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Allt segir þú þetta satt, vinur. Bæði á eg svo hrausta sonu, og hefi svo marga menn, að einhverr þeirra gæti farið og kallað á þá. En stór vandræði sækja nú að Akkeum: er nú svo komið, að leikur á hnífsegg fyrir öllum Akkeum annaðhvort líf eða dapur dauði. Far nú, fyrst þú ert yngri en eg, ef þú vorkennir mér, og vek hinn skjóta Ajant og Fýleifsson“. 177 Svo mælti hann, en Díómedes lagði yfir herðar sér fótsíðan feld af stóru ljóni mórauðu, og tók spjót í hönd sér. Síðan gekk kappinn af stað, og vakti þá Ajant, og kom með þá með sér. 180 En er þeir komu þangað sem varðmennirnir voru, þá hittu þeir ekki varðmannaforingjana sofandi, heldur sátu þeir allir með vopnum sínum vakandi. Eins og hundar eiga órólega nótt, þar sem þeir vaka yfir sauðum í fjárborg, þegar þeir heyra til hins óarga dýrs, er kemur eftir skóginum ofan af fjöllunum; verður við það glaumur mikill í mönnunum og hundunum, og flýr allur svefn frá þeim: eins hvarf hinn væri svefn af brám varðmannanna, þar sem þeir vöktu þessa voðalegu nótt; því þeir snéru sér ávallt fram að vellinum, ef þeir kynni að verða varir við Trójumenn koma. Hinn gamli maður varð glaður við, er hann sá þá, og hughreysti þá með þessum orðum: „Svona skuluð þér vörð halda, eins og þér nú gerið, börnin góð. Láti engi yðar svefn sigra sig, svo vér verðum ekki óvinum vorum að augnagamni“. 194 Þá hann hafði þetta sagt, snaraðist hann yfir díkið, en allir höfðingjar Argverja fylgdu honum, þeim er stefnt hafði verið til ráðstefnu. Meríónes og hinn frægi Nestorsson gengu með þeim, því þeir höfðu kvatt þá til ráðaneytis með sér. En er þeir voru komnir yfir hið grafna díki, þá settust þeir niður, þar sem autt var og sást í beran völlinn fyrir hinum fallna val; þar hafði hinn sterki Hektor snúið aftur, þá hann drap niður Argverja og náttmyrkrið kom á. Hér settust þeir niður og töluðust við, og tók hinn gerenski riddari Nestor fyrstur til máls: „Kæru vinir, mundi engi maður treysta svo áræði sínu, að hann þyrði að fara til hinna hugstóru Tróverja, ef svo mætti verða, að hann gæti handsamað einhvern, þann er yztur væri í herbúðum óvinanna, eða heyrt á tal Trójumanna, hvað þeir ætlast fyrir, hvort þeir ætli að vera hér kyrrir hjá skipunum fjarri borginni, eða vilji þeir hverfa aftur til borgarinnar, þar sem þeir hafa unnið sigur á Akkeum? Ef hann yrði alls þessa vísari og kæmist heill aftur til vor, þá mundi frægð hans fara meðal allra manna undir himninum, og hann öðlast góðar gjafir. Því allir höfðingjar, þeir er fyrir skipum eiga að ráða, skulu gefa honum eina svarta á með lambi hverr, og jafnast engin eign við lambána; þá skal hann og jafnan sitja að veizlum vorum og mannboðum“. 218 Þannig mælti hann, en þeir urðu allir hljóðir og þögðu. Þá tók hinn rómsterki Díómedes til máls: „Hjarta mitt og hinn framgjarni hugur hvetur mig, Nestor, til að fara inn í herbúðir óvina vorra, Trójumanna, sem hér eru í nánd. En miklu væri hughægra og raunbetra, ef einhverr annar maður fylgdi mér til; því þegar tveir verða samferða, sér einn öðrum betur, hvað hagar; en þó einn maður sjái það, þá verður þó hugur hans seinni til, og úrræðið sljóvt“. 227 Þannig mælti hann, en margir vildu þá fara með Díómedes; það vildu báðir Ajantar, sveinar Aresar; það vildi Meríónes, og það vildi og Nestorsson gjarna, og það vildi Atreifsson, hinn spjótfimi Menelás. Hinn þrautgóði Odysseifur vildi og hætta sér inn í flokk Trójumanna, því hann hafði áræðinn hug í brjósti. Þá mælti herkonungurinn Agamemnon til þeirra: „Hjartkæri Díómedes Týdeifsson, kjóstu til fylgdar við þig, hvern sem þú vilt, og þann er hraustastur er, af þeim er bjóða sig fram; því margir vilja fara. En nú skaltú ekki fara að mannvirðingum; þú skalt ekki ganga fram hjá þeim, sem hraustari er, og ekki líta á ættgöfgina, né fyrir vegsmuna sakir taka til fylgdar þér þann, sem síður er að hreysti búinn, enn þótt hann sé konungbornari“. 240 Svo mælti hann, því hann var hræddur um hinn bleikhára Menelás. Þá mælti hinn rómsterki Diómedes til þeirra: „Með því þér bjóðið mér að kjósa sjálfur mann til fylgdar við mig, hví skyldi eg þá gleyma hinum ágæta Odysseifi, sem hefir ótrautt hjarta og framgjarnan hug í öllum þrautum, og Pallas Aþena elskar hann? Ef hann fylgdist með mér, mundum við báðir komast heim aftur, þó úr loganda eldi væri, því hann er öðrum mönnum framar að hugviti“. 248 Hinn þolgóði, ágæti Odysseifur svaraði honum: „Týdeifsson, hvorki skaltu hrósa mér mjög, né heldur átelja mig, því Argverjar vita þetta, sem þú ert nú að tala um. En förum nú af stað, því mjög er liðið á nótt, og komið undir birtingu; stjörnurnar eru komnar langt á leið, og liðinn meiri hluti nætur, tveir þriðjungarnir, en einn þriðjungur lifir“. 254 Að því mæltu fóru þeir báðir í hinn óttalega herbúnað. Hinn herdjarfi Þrasýmedes fékk Týdeifssyni tvíeggjað sverð og skjöld, því Díómedes hafði skilið eftir sverð sitt niðri við skipið; hann lét á höfuð hans hjálm af nautsleðri, bólulausan og skúflausan; kallast þess konar hjálmur brynhúfa, og hlífði hún höfði ungra kappa. Meríónes fékk Odysseifi boga og örvamæli og sverð, og setti hjálm á höfuð hans; hann var af leðri, og brugðinn sterklega mörgum ólum að innanverðu, en að utanverðu stóðu út beggja vegna þéttar raðir af hvítum galtartönnum; var þeim vel fyrir komið og kunnáttulega, en í milli var fyllt upp með flóka. Þann hjálm hafði Átolýkus forðum tekið af Amyntor Ormenussyni í Eleonsborg, þegar hann braut upp hina ramgjörvu höll hans; Átolýkus sendi hjálminn til Skandíu, og gaf hann Amfídamanti á Kýþeru, en Amfídamant gaf hann Mólusi, gestavin sínum, en Mólus gaf hann Meríónesi, syni sínum, en nú var hann látinn á höfuð Odysseifs, til að hlífa því. 272 En er þeir höfðu farið í hinn óttalega herbúnað, fóru þeir af stað, og skildust þar við alla höfðingjana. Pallas Aþena sendi þeim hegra nálægt veginum hægra megin. Þeir gátu ekki eygt fuglinn vegna náttmyrkurs, en heyrðu hann gjalla. Odysseifur varð glaður við þessa jarteikn, og bað til Aþenu: „Heyr bæn mína, dóttir Seifs ægisskjalda, þú sem ávallt stendur hjá mér í öllum þrautum og gætir að hverju fótmáli mínu. En unn mér einkum nú, Aþena! Gef, að við vinnum það stórvirki, er Trójumenn megi minni til reka, og lát okkur svo ná að komast aftur til skipanna með frægð og sóma“. 283 Hinn rómsterki Díómedes baðst því næst fyrir: „Heyr og bæn mína, Atrýtóna, dóttir Seifs! Veit mér fylgd þína, slíka sem þú veittir föður mínum, hinum ágæta Týdeifi, þá hann fór sendiför fyrir Akkea til Þebu. Hann skildist við hina eirbrynjuðu Akkea hjá Asópsá, og fór svo þangað með sáttaboðum til Kadmunga. En á leiðinni þaðan vann hann mikil stórvirki með aðstoð þinni, ágæta gyðja, af því þú stóðst honum miskunnsöm til annarrar handar. Statt mér nú eins vel viljuð til annarrar handar, og gæt mín, en eg skal í staðinn fórnfæra þér ársgamla kvígu, ennisbreiða og óþjáða, er engi maður hefir enn undir ok leitt; skal eg gullbúa horn hennar, áður eg fórnfæri þér hana“. 295 Þannig báðust þeir fyrir, en Pallas Aþena heyrði bæn þeirra. En er þeir höfðu gert bæn sína til dóttur ens mikla Seifs, gengu þeir af stað, eins og tvö ljón, í hinu svarta náttmyrkri, og óðu yfir dauðablóð og nái, vopn og dökkvan dreyra. 299 En Hektor lofaði heldur ekki hinum framgjörnu Trójumönnum að sofa, heldur stefndi hann saman öllum höfðingjum, þeim er fyrirliðar voru og foringjar Trójumanna. Og er hann hafði kallað þá saman, bar hann upp fyrir þá eitt viturlegt ráð: „Hverr vill undirgangast fyrir stóra gjöf að vinna það verk, er eg mun ákveða? Hann skal fá nægileg laun; því eg skal gefa kerru og tvo hnarreista hesta, þá er beztir eru hjá enum fljótu skipum Akkea, hverjum þeim, er áræði hefir til og það vill vinna til frægðar sér, að fara til hinna örskreiðu skipa og njósna, hvort enn sé vörður haldinn yfir enum fljótu skipum, svo sem áður hefir verið, eða hafi þeir í ráði með sér að flýja, er þeir hafa nýlega orðið undir í viðskiptum vorum, og treysti sér ekki til að vaka á nóttum sökum ofurþreytu“. 313 Þannig mælti hann, en þeir urðu allir hljóðir og þögðu. Sá maður var með Trójumönnum, er Dólon hét, auðugur af gulli og eiri; hann var sonur Evmedess, ágæts kallara; hann var maður ljótur ásýndum, en fljótur á fæti; hann var einkason og átti fimm systur; hann mælti þá til Trójumanna og Hektors: „Hjarta mitt og minn framgjarni hugur hvetur mig, Hektor, til að fara á njósn til hinna örskreiðu skipa. En þú lyft upp sprota þínum, og vinn mér þess eið, að þú viljir gefa mér hesta þá og hina eirbúnu kerru, er hinn ágæti Peleifsson ekur í; mun eg ekki verða þér ónýtur í njósninni, og ekki frá því, er þú ætlast til af mér; því svo langt skal eg fara fram inn í herinn, þar til er eg kem að skipi Agamemnons, þar sem höfðingjarnir munu ráða ráðum sínum, hvort þeir skuli flýja eða berjast“. 328 Þannig mælti hann, en Hektor tók sprotann í hönd sér og vann honum eið: „Viti það sjálfur Seifur, hinn þrumandi frumver Heru, að engi af Trójumönnum skal aka með þessum hestum, nema þú; lofa eg því, að þú skalt hafa þá ævinlega til ágætis þér“. 332 Þannig mælti hann, og sór þar ósæran eið, og hvatti fram Dólon; en hann varpaði þegar bjúgum boga um bak sér, fór utan yfir í gráan úlfhéðin, lét marðarskinnshjálm á höfuð sér, og tók í hönd sér hvassa lensu. Hann fór af stað frá herbúðunum á leið til skipanna, en þess átti honum ekki auðið að verða, að koma frá skipunum aftur til Hektors með tíðindasögu. En er hann var kominn frá hestaþvögunni og mannfjöldanum, fór hann fram veginn og flýtti sér. Hinn seifborni Odysseifur varð hans var, þá hann kom nær, og mælti til Díómedess: „Þar kemur maður frá herbúðunum, Díómedes, og veit eg ekki, hvort hann kemur til að njósna um skip vor, eða hann ætlar að ræna einhvern í valnum. Látum hann fara fyrst fram hjá okkur spölkorn út á völlinn, hlaupum síðan skyndilega að honum, og tökum hann. En verði hann fljótari á fæti, en við, þá skaltú elta hann með spjótið í hendinni, og bægja honum ávallt frá herbúðunum til skipanna, svo hann nái ekki að flýja undan til borgarinnar“. 349 Að því mæltu lögðust þeir niður í valinn fyrir utan veginn, en Dólon gáði einskis og hljóp fram hjá í skyndi. En er hann var kominn svo langt frá þeim, sem múlar komast í einni lotu, því þeir eru uxum fljótari að draga samskeyttan plóg yfir djúpa ekru, þá hlupu þeir báðir eftir honum. En er hann heyrði dyninn, stóð hann við, því hann gerði sér í hug, að einhverjir félagar sínir mundu þar koma frá Trójumönnum til að snúa sér aftur, og mundi Hektor hafa boðað sig aftur heim. En er hann var frá þeim eitt spjótvarp, eða skemur, þá þekkti hann, að þetta voru fjandmenn hans; tók hann þá til fótanna og flýði, en þeir tóku þegar á rás eftir honum. Svo sem þegar tveir tannhvassir hundar, er vel kunna til veiði, elta í sífellu hindarkálf eða héra um skógi vaxið land, en hann hleypur undan þeim ýlandi: svo eltu þeir Dólon í sífellu, þeir Týdeifssonur og Odysseifur borgabrjótur, og afkvíuðu hann frá hernum. Flýði hann nú á leið til skipanna; en er hann var nálega kominn til varðmannanna, þá lét Aþena hugmóð koma í brjóst Týdeifssyni, svo engi hinna eirbrynjuðu Akkea gæti hrósað því, að hann hefði komið fyrr sári á Dólon, en Díómedes hefði orðið seinni að bragði. Hinn sterki Díómedes óð þá að honum með spjótið, og mælti til hans: „Stattu kyrr, eða eg skýt þig með spjóti mínu, og vonar mig, að þú forðir þér ekki lengi bráðum bana frá minni hendi“. 372 Svo mælti hann, og skaut spjótinu, og missti hans með vilja, og flaug oddur hins fágaða spjóts fyrir ofan hægri öxl hans, og í jörðina; nam Dólon þá staðar bleikur af ótta; hann felmtraði og stamaði, og nötruðu tennurnar í munni hans. Þeir Odysseifur náðu honum hlaupmóðir og höfðu hendur á honum; þá grét Dólon og mælti: „Gefið mér líf, en eg skal leysa mig út; því til er heima fyrir bæði eir og gull og seigunnið járn; mun faðir minn greiða ykkur þar af ógrynni fjár í útlausn, ef hann spyr mig á lífi hjá skipum Akkea“. 382 Hinn ráðugi Odysseifur svaraði honum og sagði: „Vert óhræddur, og lát ekki dauðann þér í hug koma. Seg mér heldur nokkuð, og inn með sannindum: hví fer þú svo einn frá herbúðunum til skipanna á náttarþeli, þegar aðrir menn sofa? Ætlar þú að ræna nokkurn í valnum? eða hefir Hektor sent þig til enna holu skipa á njósn? eða hefir hugur sjálfs þín eggjað þig ?“ 390 Dólon svaraði, og skalf á beinunum: „Hektor hefir leitt afleiðis hyggju mína með margs konar blekkingum; hét hann að gefa mér hina einhæfðu hesta og hina eirbúnu kerru ens ágæta Peleifssonar, en sagði mér að vera á ferð um svipula, dimma nótt, koma nærri herbúðum óvinanna, og njósna, hvort enn sé vörður haldinn yfir enum fljótu skipum, svo sem áður hefir verið, eða hafið þér í ráði með yður að flýja, þar er þér hafið nýlega orðið undir í viðskiptum vorum, og treystizt ekki til að vaka á nóttum sakir ofurþreytu“. 400 Hinn ráðvísi Odysseifur glotti við, og mælti til hans: „Þó stendur hugur þinn til stórra gjafa, þar sem þú girnist hesta hins herkæna Eaksniðja; er það torvelt fyrir dauðlega menn að ráða við þá hesta og stýra þeim, nema fyrir Akkilles, er alinn er af ódauðlegri móður. En seg mér nokkuð, og inn með sannindum: „Hvar skildir þú við þjóðhöfðingjann Hektor, þá þú fórst hingað? Hvar eru hervopn hans og hestar? Hversu hagar til um varðhöld annarra Trójumanna, og um náttból þeirra?“ 412 Dólon Evmedesson svaraði honum: „Þar skal eg segja þér allt satt frá. Hektor heldur ráðstefnu við þá, sem höfðingjar eru liðsins, hjá haugi Ílusar, langt frá skarkalanum. En um varðhöld þau, er þú spyr að, öðlingur, þá er engi einkavörður kosinn herbúðunum til varnar eða gæzlu. Eldstæðin heyra Trójumönnum til, þeim er þau verða að hafa, og vaka þeir, og eggjar hvorr annan að halda vörð; en hinir langt að komnu liðsmenn sofa, og fela Trójumönnum á hendur að halda vörðinn, því liðsmennirnir eiga þar engin börn eða konur í nánd“. 423 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum og mælti: „Hversu er nú? Sofa þeir innan um hina hestfimu Trójumenn, eða einir sér? Seg mér það, svo eg verði vísari!“ 426 Dólon Evmedesson svaraði honum: „Þar skal eg segja þér allt satt frá. Sjóar megin eru Kárar, hinir bogfimu Peónar, Lelegar, Kákónar og hinir ágætu Pelasgar; en þeim megin, er veit til Timburvallar, þar var náttból hlutað Lýkíumönnum, hinum framgjörnu Mýsum, hinum reiðkænu Frýgum og hinum hestfimu Meónum. En hví spyrjið þið mig svo grannt um hvað eina af þessu? Því ef ykkur leikur hugur á að fara inn í safnað Trójumanna, þá eru Þrakar þarna einir sér, yztir allra; þeir eru nýkomnir. Með þeim er konungur þeirra, Resus Ejoneifsson; hann á þá fríðustu og stærstu hesta, sem eg hefi séð: þeir eru hvítari, en snjór, og fráir á hlaupi, sem vindar; hann á kerru, fagurbúna gulli og silfri; vopn þau, er hann kom með hingað, eru af gulli, afar stór og hinar mestu gersemar; hæfir ekki dauðlegum mönnum, heldur ódauðlegum guðum einum að bera þau vopn. En gerið nú annað hvort, að flytja mig til enna örskreiðu skipa, eða bindið mig hörðum fjötri, og skiljið mig hér eftir, þar til er þér komið aftur og reynið, hvort eg hefi sagt ykkur satt, eða ekki“. 446 Hinn sterki Díómedes leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Ekki skaltu gera þér það í hugarlund, Dólon, þó þú hefir sagt okkur góðar fréttir, að þú munir undan sleppa, þar sem þú ert kominn í greipar okkar. Því ef við látum þig nú lausan eða sleppum þér, þá muntú víst síðar meir koma til enna fljótu skipa Akkea, annaðhvort til að njósna, eða til að berjast við þá, en ef þú lætur hér líf þitt fyrir mér, muntu aldrei framar verða Argverjum til meins“. 454 Þannig mælti Díómedes; þá ætlaði Dólon að taka sinni þreknu hendi um höku hans og biðja sér svo lífs, en Díómedes reiddi sverðið, hjó á þveran hálsinn og sneið í sundur báðar hálssinarnar; féll höfuðið til moldar, í því hann tók að mæla. Þeir tóku þar af höfði hans marðarskinnshjálminn, vargstakkinn, bogann og spjótið. Hinn ágæti Odysseifur hóf vopnin hátt upp með hendi sinni, hinni fengsælu Aþenu til dýrðar, baðst fyrir og mælti: „Þigg þetta, gyðja, því við munum ákalla þig fyrsta af öllum ódauðlegum guðum á Ólympi. En leiðbein okkur nú einnig að hestum og náttbóli hinna þraknesku manna!“ 465 Að því mæltu hóf hann vopnin hátt upp yfir sig, og lagði þau á eina porsbjörk; hann lagði á tréð til augsýnilegs merkis eitt fang af reyrleggjum og blómlegum porskvistum, svo þeir rötuðu á vopnin í hinu svipula náttmyrkri, þá þeir kæmu aftur. Síðan gengu þeir áfram yfir vopn og dökkvan dreyra, og komu skjótt til herflokks hinna þraknesku manna; sváfu þeir örþreyttir, og lágu hin fögru vopn þeirra hjá þeim á jörðinni; var þeim vel fyrir komið, í þrjár raðir; hjá hverjum þeirra stóðu tveir samokshestar. Resus svaf í miðjum flokknum; voru þar hjá honum hinir fráu hestar hans, og bundnir með ólum við yzta hlýrann á kerrustólsþreminum. Odysseifur kom fyrst auga á Resus, og benti Díómedes á hann, og mælti: „Þar sér þú, Díómedes, þann mann, og þá hesta, er Dólon sagði okkur frá, sem við drápum. Kom nú til, og legg fram hið sterka afl þitt; nú hæfir þér ekki að standa með vopnin og hafast ekki að. Leys þú hestana, eða dreptu mennina, en eg skal annast hestana“. Þannig mælti hann, en hin glóeyga Aþena blés hugmóð í brjóst honum; hann drap á báða bóga, en hræðileg hljóð komu upp hjá mönnunum, er þeir voru slegnir með sverðinu, og jörðin roðnaði af blóðinu. Svo sem ljón stökkur í illum hug á fénað, geitur eða sauði, sem það kemur að hirðislausum: svo réðst Týdeifsson á hina þraknesku menn, þar til er hann hafði drepið tólf af þeim; en jafnótt og Týdeifsson hjó hvern með sverðinu, jafnótt tók hinn ráðugi Odysseifur í fót hvers eins, og dró hann út öfugan; gerði hann það í þeirri veru, að hinir faxprúðu hestar ættu hægra með að komast þar um, og fældust ekki, þá þeir stigi á líkin, því þeir voru enn óvanir valfalli. En er Týdeifsson kom að konunginum, tók hann hann af lífi; hann var hinn þrettándi, var honum mótt í svefninum, því illur draumur stóð yfir höfði hans. Á meðan leysti hinn áræðni Odysseifur hina einhæfðu hesta, batt þá saman með ólunum og rak þá út úr flokknum; hann sló á þá með boga sínum, því hann hafði ekki gáð að taka hina fögru svipu úr hinum fjölskreytta kerrustól; síðan blístraði hann, ok gaf hinum ágæta Díómedes vísbendingu, en Díómedes var kyrr, og var hann að velkja fyrir sér, hvað hann skyldi til taka, það er mest væri áræði í, hvort hann skyldi taka kerru þá, er í lágu hin fagurbúnu vopn, og draga hana út á kerrustönginni, eða lyfta kerrunni á bak sér og bera hana út; eða skyldi hann taka meiri hluta Þrakverja af lífi. En er hann velkti þetta í huga sér, kom Aþena þangað að, og mælti til hins ágæta Díómedess: „Sonur hins hugstóra Týdeifs, hugsa nú til heimfarar aftur til enna holu skipa, svo þú ekki komist þangað á flóttaferli; em eg hrædd um, að einhverr hinna guðanna veki Trójumenn“. 512 Þannig mælti hún, en hann varð þess áskynja, að það var gyðja, sem við hann talaði. Steig hann þá skyndilega á hestbak, en Odysseifur keyrði upp á með boga sínum; flugu þeir þá á leið til hinna fljótu skipa Akkea. 515 Appollon silfrinbogi hélt engan blindingsvörð, þegar hann sá, að Aþena fylgdist með Týdeifssyni; hafði hann illan grun á henni, og fór því inn í hinn mikla mannsöfnuð Trójumanna. Hann vakti Hippókóon, sem var einn höfðingi Þrakverja, frændi Resusar og hraustur maður. En er hann spratt upp af svefninum, og sá, að rúm það var autt, er hinir fráu hestar voru vanir að standa, en mennina spriklandi í banasárum sínum, þá hljóðaði hann upp og kallaði á sinn kæra vin með nafni; en mikið óp og ósegjanlegt hark varð af Trójumönnum, þá þeir þustu að allt í einu, og undruðust stórlega þessi hin hryggilegu verk, og að vegendurnir skyldu komizt hafa til enna holu skipa eftir slík stórvirki. 526 En er þeir Díómedes komu þar, er þeir höfðu drepið njósnarmann Hektors, þá stöðvaði Odysseifur, ástvinur Seifs, hina fráu hesta, en Týdeifsson stökk til jarðar, og fékk Odysseifi hin blóðugu vopn, fór svo á bak og keyrði hestana, en þeir flugu viljugir af stað. Nestor heyrði fyrstur dyninn, og mælti: „Góðir vinir, þér foringjar og fyrirliðar Argverja, mun eg fara með hégóma, eða mun eg segja satt? Mig langar þó til að segja það. Mér ber fyrir eyru hófasláttur fótfrárra hesta. Eg vildi óska, að þeir Odysseifur og hinn sterki Díómedes riði hingað skyndilega frá Trójumönnum á einhverjum einhæfðum hestum! En eg er mjög hræddur um, að þessir hinir hraustustu menn af Argverjum hafi orðið fyrir einhverjum óskunda af skarkala Trójumanna“. 540 Hann hafði enn ekki lokið að mæla til fulls, þegar þeir komu sjálfir og stigu af baki til jarðar. Hinir urðu glaðir, og fögnuðu þeim með handabandi og blíðum orðum, en hinn gerenski riddari Nestor spurði þá fyrstur: „Lofsæli Odysseifur, þú mikli sómi Akkea, seg mér, hvernig þið náðuð þessum hestum. Fóruð þið eftir þeim inn í herbúðir Trójumanna? eða mætti ykkur einhverr af guðunum og gaf ykkur þá? Þeir líkjast mjög geislum sólarinnar. Ávallt hefi eg átt eitthvert vopnaskipti við Trójumenn, og þó eg sé gamall hermaður, vonar mig, að eg haldi ekki mjög kyrru fyrir niðri við skipin, og þó hefi eg enn ekki séð eða var orðið við slíka hesta. Held eg því, að einhverr guð hafi mætt ykkur og gefið ykkur þá; því skýsafnarinn Seifur og hin glóeyga Aþena, dóttir Seifs ægisskjalda, unna ykkur báðum“. 554 Hinn ráðvísi Odysseifur svaraði honum: „Nestor Neleifsson, þú mikli sómi Akkea! Hægt á guð með, ef hann vill, að gefa manni hesta, og þó betri séu, en þessir eru; því guðirnir eru hverjum manni máttugari. En hestar þessir, er þú spyr um, gamli maður, það eru þraknesku hestarnir, hinir nýkomnu. Hinn hrausti Díómedes drap eiganda þeirra, og með honum alls tólf hraustustu félaga hans; en hinn þrettándi, sem við drápum nálægt skipunum, var njósnarmaður nokkur, er Hektor og aðrir ágætir Trójumenn höfðu sent til að njósna um herbúðir vorar“. 564 Að því mæltu rak hann hina einhæfðu hesta yfir gröfina, kímilega hlæjandi, og með honum gengu hinir aðrir Akkear fagnandi. En er þeir komu til hinnar vel smíðuðu búðar Týdeifssonar, bundu þeir hestana með vel sniðnum ólum við hestastall þann, er hinir fótfráu hestar Díómedess voru vanir að standa og eta ljúffengt hveitikorn. En Odysseifur lagði hin blóðugu vopn Dólons upp á skutstafn skipsins; ætluðust þeir til, að þau skyldu vera helgigjöf, Aþenu til dýrðar. Síðan gengu þeir sjálfir út í sjóinn, og þvoðu þar af sér hinn mikla svita, bæði af fótleggjum sér og hálsi og lærum. En er sjávarbylgjan hafið afskolað hinn mikla svita af hörundi þeirra, og þeir höfðu svalað hjarta sínu, þá stigu þeir niður í vel skafin laugarker og lauguðu sig. En er þeir höfðu laugað sig og smurt með viðsmjörsviðarfeiti, þá settust þeir að náttverði, jusu ljúffengt vín af hinu fulla skaftkeri, og dreyptu Aþenu til dýrðar. ELLEFTI ÞÁTTUR AFREKSVERK AGAMEMNONS. MORGUNGYÐJAN reis úr rekkju frá hinum ágæta Tíþóni, til að bera birtu ódauðlegum guðum og dauðlegum mönnum. Þá sendi Seifur hina meingjörnu Þrætugyðju til hinna fljótu skipa Akkea; hún hélt á ófriðarteikni í höndum sér. Hún nam staðar hjá hinu stórhúfaða, svarta skipi Odysseifs, er lá í miðjum flotanum, svo heyra mátti þaðan á tvær hendur, bæði til búðar Ajants Telamonssonar og til búðar Akkilless; þeir höfðu sett upp hin jafnbyrðu skip sín yzt allra, því þeir treystu karlmennsku sinni og styrkleik handa sinna. Þar stóð gyðjan upprétt, ok kallaði bæði hátt og ógurlega; kom hún miklum þrótt í hjarta sérhvers af Akkeum, til að vera án afláts í ófriði og bardögum. 15 Þá kallaði Atreifsson og bað Argverja herklæðast. Hann fór sjálfur í hin ljómandi eirvopn sín. Fyrst lagði hann fagrar brynhosur um fótleggi sér, kræktar silfurlegum öklapörum; því næst færði hann sig í brynju þá, er Kinýras hafði forðum gefið honum að gestgjöf; því Kinýras hafði frétt til Kípur þann mikla frama, að Akkear ætluðu að sigla á skipum til Trójuborgar, og gaf því konunginum brynjuna í vináttuskyni. Á brynjunni voru tíu ræmur af svörtu blástáli, tólf af gulli og tuttugu af tini. Þrír drekar af blástáli lágu upp að hálsinum hvoru megin, líkir regnbogum þeim, er Kronusson skorðar í skýinu, til teikns fyrir mælta menn. Hann varpaði sverði um herðar sér; á því blikuðu naglar af gulli, en um utan var silfurbúin umgjörð, fest með gullbúnum annfetlum. Hann tók upp hinn fagra hlífskjöld; hann var gerður með miklum hagleik og áriðamikill; um kring á honum voru tíu baugrendur af eiri, og tuttugu hvítar bólur af tini, og í miðjunni nöf af svörtu blástáli; á skildinum allt í kring var Gorgó með hin voðalegu augu; var útlit hennar ógurlegt, og í kring um Óttinn og Flóttinn; skjaldarfetillinn var silfurbúinn, og þar á hringaði sig dreki af blástáli; á honum voru þrír kringsnúnir hausar, vaxnir út úr einum svíra. Hann setti á höfuð sér bóluhjálm, fjórbólaðan, fextan, og slútti faxburstin fram geigvænlega. Hann tók í hönd sér tvö sterk spjót, eirbúin, hvöss, og lýsti eirið á þeim langt til himins. Þá létu þær Aþena og Hera koma þrumur til virðingar við konung hinnar gullauðugu Mýkenu. 47 Því næst bauð hverr sínum kerrusveini að halda hestunum í röð þar við díkið. En fótgöngumennirnir þustu af stað herklæddir, og reis þá upp óstöðvandi kall í dagsljósinu, því fótgönguliðið varð miklu fyrri til að fylkja sér hjá díkinu, en kerruliðið, og komu því riddararnir skammt á eftir. Vakti Kronusson þá upp illan gný, og sendi ofan úr uppheimsloftinu blóðlitaða daggardropa, því hann ætlaði að senda mörg hraust höfuð til Hadesarheims. 56 Svo bjuggust og Trójumenn hins vegar á vallarhólnum. Fyrir þeim var hinn mikli Hektor, hinn ágæti Polýdamant, og Eneas, sem virtur var af alþýðu Trójumanna, sem væri hann einhverr guðanna, og þrír Antenorssynir, Polýbus, hinn ágæti Agenor og hinn ungi Akamant, er líkur var hinum ódauðlegu guðum. Hektor var í broddi fylkingar, og bar kringlóttan skjöld. Svo sem hin meinsamlega stjarna sést ýmist skína frá skýjunum, ýmist gengur aftur inn undir hin dimmu ský: svo sást og Hektor, þegar hann eggjaði liðið, ýmist meðal hinna fremstu, en annan tíma meðal hinna öftustu; ljómaði hann allur af eirvopnunum, eins og elding föður Seifs ægisskjalda. 67 Svo sem kornskerumenn slá hveiti eða bygg í múga, hvorir gegnt öðrum, á akri auðugs manns, svo hver málhöndin fellur við aðra: svo æddu Trójumenn og Akkear hvorir gegn öðrum og hjuggust á; hugðu hvorugir á hinn skaðvæna flótta, heldur héldu nokkurir þeirra fylkingum sínum jafnt í bardaganum, en aðrir ólmuðust sem úlfar. Hin hörmulega Þrætugyðja hafði gaman af að horfa á þá, því hún ein af guðunum var viðstödd bardaga þeirra. Öngvir aðrir guðir voru þar viðstaddir, heldur sátu þeir kyrrir í höllum sínum, þar er hverr átti sér fögur herbergi á Ólymps hálsum; átöldu þeir allir skýsafnarann Kronusson fyrir það, að hann vildi veita Trójumönnum sigur; en faðir Seifur skeytti ekki átölum þeirra, heldur skildist frá þeim, og settist einn sér langt frá öðrum, hróðugur af vegsemd sinni, og horfði á borg Trójumanna og skip Akkea, á leiftur vopnanna og á menn þá, er drápu og drepnir voru. 84 Meðan morgun var og hinn signaði dagur fór vaxandi, leituðu spjótin sér staðar í beggja liði, og gerðist mikið mannfall. En í það mund er skógarhöggsmaður uppi í fjalldölum býr til miðdagsverðar sér, þá hann er lúinn orðinn í handleggjum af því að fella stórtrén, og leiður á erfiðinu, og hann tekur til að verða matlystugur: í það mund þá eggjuðu Danáar félaga sína, hverr í sínum flokki, og sýndu þann drengskap, að þeir brutust í gegnum fylkingar óvinanna. Agamemnon ruddist fyrstur fram meðal þeirra, og drap þjóðhöfðingjann Bíenor, og því næst félaga hans, riddarann Öyleif. Öyleifur hafði stokkið ofan af kerrunni og að honum, og snúizt öndverður við honum; en í því hann ruddist áfram, lagði Agamemnon hinu hvassa spjóti í enni hans, en hin eirsterka hjálmrönd stóðst ekki spjótið, því það gekk í gegnum hjálmröndina og í gegnum beinið, og varð heilinn allur inni fyrir blóði blandinn; vann hann svo á honum á framhlaupinu. Herkonungurinn Agamemnon lagði hina skínandi brynstakka þeirra um brjóst sér og lét líkin liggja þar eftir, en fór til að vega að tveimur sonum Príamuss, Ísus og Antífus; þeir voru báðir á sömu kerru; var annar þeirra laungetinn, en annar skilgetinn; sá laungetni var kerrusveinn, en hinn frægi Antífus var hjástöðumaður. Akkilles hafði eitt sinn handtekið þá bræður báða, þar sem þeir sátu að sauðum á hálsum Ídafjalls, og bundið þá með víðitágum, og látið þá lausa aftur fyrir fé. En hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson skaut þá annan þeirra með spjóti í bringuna fyrir ofan geirvörtuna, en hjó Antífus með sverði hjá eyranu, og felldi hann út af kerrunni, hljóp svo til og fletti þá báða hinum fögru vopnum; þekkti hann þá bræður, því hann hafði séð þá fyrrum hjá hinum fljótu skipum, þegar hinn fóthvati Akkilles flutti þá frá Ídafjalli. Þeim fórst, sem ungum hindarkálfum, er ljónið hittir í bæli sínu; það grípur þá með hinum sterku tönnum sínum, bítur þá í sundur hæglega og tekur af þeim hið veika líf þeirra; en þó hindin sé þar mjög nálægt, getur hún ekki hjálpað þeim, því skelfilegur ótti kemur að henni, svo hún hleypur í ofboði, kófsveitt, gegnum hina þéttu skógarrunna, undan áhlaupi hins sterka dýrs. Svo gat engi af Trójumönnum forðað þeim við bana, heldur flýðu sjálfir fyrir Argverjum. 122 Nú náði Agamemnon þeim Písander og hinum vígglaða Hippolokkus; þeir voru synir hins herkæna Antímakks, hann hafði tekið við fögrum gjöfum í gulli af Alexander, og stóð mest móti því, að Helena væri fengin aftur hinum bleikhára Menelási. Hinn voldugi Agamemnon náði báðum sonum hans; þeir voru á sömu kerru, og stýrðu báðir jafnt hinum fljótu hestum. Hinir glæsilegu taumar sluppu úr höndum þeim, en þeir urðu báðir óttaskelfdir; reis Atreifsson þá upp í móti þeim, eins og ljón, en þeir krupu á kné í kerrunni og báðu hann: „Gef okkur líf, Atreifsson, og þigg fullt lausnargjald fyrir. Í húsum Antímakks eru geymdir margir menjagripir, bæði eir og gull og seigunnið járn; mun faðir okkar greiða þér þar af ógrynni fjár til útlausnar okkur, ef hann spyr, að við erum á lífi niðri við skip Akkea“. 136 Þannig báðu þeir konunginn báðir grátandi með blíðum orðum, en heyrðu aftur það ómilda orð: „Fyrst þið eruð synir hins herkæna Antímakks, þess er ráðlagði einu sinni á samkomu Trójumanna, að drepa Menelás, er kominn var í erindagjörðum ásamt með hinum goðumlíka Odysseifi, og lofa honum ekki aftur til Akkea: þá skuluð þið nú taka gjöld fyrir hina svívirðilegu rangsleitni föður ykkar“. 143 Þannig mælti hann, og lagði spjóti fyrir brjóst Písander, og hratt honum ofan af kerrunni, en hann slengdist upp í loft á jörðina. Hippolokkus stökk ofan, og drap Agamemnon hann niðri, hjó af honum hendur með sverðinu og sneið í sundur hálsinn, skopraði svo búknum, sem sleggjusteini, gegnum mannþröngina. Lét hann þá svo liggja þar, en hljóp, og með honum aðrir fagurbrynhosaðir Akkear, þangað sem flestir þyrptust saman flokkarnir. Þar voru fótgöngumenn að drepa fótgöngumenn þá, er flýðu ofurliði bornir; riddarar hjuggu niður riddara með eirvopnum, og moldarstrokan stóð upp af vellinum undan dunandi fótum hestanna. En hinn voldugi Agamemnon sókti eftir þeim, eggjaði Argverja, og vó drjúgum menn. Svo sem þegar upp kemur voveiflegur eldur í óhöggnum skógi, og hvirfilvindur feykir eldinum um allt, og runnarnir falla frá rótum fyrir eldsganginum: svo féllu Trójumenn á flóttanum fyrir Agamemnon Atreifssyni, og margir hnarreistir hestar, er söknuðu hinna ágætu vagnstjóra, skröltu tómum kerrunum um herkvíarnar, því kerrusveinarnir lágu á jörðunni, miklu velkomnari gömmunum, en konunum. 163 En Seifur kom Hektori undan skotunum og moldrykinu, úr manndrápunum, blóðinu og skarkalanum. Atreifsson sókti á eftir honum, og eggjaði Danáa ákaft; en Tróverjar þustu yfir þveran völlinn fram hjá haugi Ílusar gamla Dardanungs og til fíkjuhólsins, og vildu til borgarinnar, en Atreifsson sókti á eftir ávallt kallandi; voru hinir óárennilegu armleggir hans blóði drifnir. En er þeir komu til Skehliða og ætibjarkarinnar, numu þeir staðar, og beið hverr eftir öðrum, en sumir voru enn á flótta á miðjum vellinum, eins og naut, er öll verða óttaslegin, þegar ljónið kemur um lágnættið, því þá er einhverju þeirra vís bani búinn; þrífur ljónið eitt nautið með sínum sterku tönnum, hálsbrýtur það fyrst, og hvomar svo í sig blóðið og öll innýflin. Svo sókti Agamemnon konungur Atreifsson eftir Trójumönnum, og drap ávallt þann, er aftastur varð, en hinir flýðu; féllu þá margir flatir og á grúfu ofan af kerrunum fyrir atlögu Atreifssonar, því hann lét spjótið ganga í kring um sig og fram fyrir sig, sem hann væri óður. En er hann átti skammt ófarið til hinnar hávu borgar og borgarveggsins, þá sté faðir manna og guða af himni ofan, og settist á tinda hins vatnsríka Ídafjalls; hann hélt á eldingu í hendi sér; hann sendi hina gullvængjuðu Íris í erindagjörðir: „Far þú, skjóta Íris, og flyt Hektori þau boð, að meðan hann sér Agamemnon herkonung æða meðal forvígismanna og drepa niður fylkingar kappanna, þá skal hann hörfa undan, en segja hinu liðinu að halda uppi snarpri orustu við óvinina. En þegar Agamemnon verður lagður spjóti eða skotinn öru, og stökkur upp á kerru sína, þá skal eg veita Hektori styrk til að vega menn, þar til hann kemst til hinna þóftusterku skipa og sól er runnin og signað rökkur á komið“. 195 Þannig mælti hann, en hin vindfráa Íris gegndi boði hans, og fór ofan af Ídafjöllum til hinnar helgu Ilíonsborgar. Hún fann hinn ágæta Hektor, son ens herkæna Príamuss, þar sem hann stóð uppi á kerru sinni. Hin fóthvata Íris gekk til hans og mælti: „Hektor Príamsson, jafnmaki Seifs í ráðsnilld! Faðir Seifur sendi mig til þín með þessi boð: Meðan þú sér herkonunginn Agamemnon æða meðal forvígismannanna, og drepa niður fylkingar kappanna, þá skaltú víkja undan í orustunni, en bjóða hinu liðinu að halda uppi snörpum bardaga við óvinina. En þegar hann verður lagður spjóti eða skotinn öru, og stökkur upp á kerru sína, þá mun Seifur veita þér styrk til að vega menn, þar til þú kemst til hinna þóftusterku skipa og sól er runnin og signað rökkur á komið“. 210 Að því mæltu gekk hin fóthvata Íris á burt, en Hektor stökk alvopnaður ofan af kerrunni til jarðar. Hann sveiflaði hvössum spjótum og gekk um allan herinn, og bað menn berjast, og vakti ógurlegan vopnagný; snérust menn skjótt við og horfðu öndverðir við Akkeum. En hins vegar styrktu Argverjar fylkingar sínar; festist þá orustan, og horfðu menn við öndverðir, en Agamemnon ruddist fyrstur áfram, því hann vildi vera langfremstur allra forvígismannanna. 218 Segið mér nú, Sönggyðjur, þér sem búið í Ólymps sölum, hverr fyrstur gekk fram móti Agamemnon af Trójumönnum eða hinum frægu liðsmönnum. Það var hinn hrausti og mikli Ifídamant Antenorsson; hann var uppfæddur í hinu jarðfrjóva Þraklandi, móðurlandi sauðanna; Kissses móðurfaðir hans, faðir hinnar kinnfögru Þeanóar, ól hann upp í barnæsku í höll sinni. En er hann var kominn á hinn dýrlega frumvaxtaaldur, hélt hann honum þar hjá sér, og gaf honum dóttur sína; og er hann var kvongaður, barst honum fregn um herför Akkea; fór hann þá út úr brúðarhúsinu og í hernaðinn með tólf stafnbognum skipum, er honum fylgdu; lét hann eftir hin jafnbyrðu skip í Perkótu, en fór á fæti til Ilíonsborgar. Það var hann, sem þá gekk á móti Agamemnon Atreifssyni. En er þeir gengust í mót og áttu skammt hvorr til annars, missti Atreifsson lagsins, og gekk spjótið fyrir utan, en Ifídamant lagði í bryngyrðilinn fyrir neðan brynjuna; hann fylgdi á eftir laginu með hinni sterku hendi sinni, og gekk þó ekki í gegnum hið glæsilega brynbelti, því oddurinn bognaði, sem blý, þegar hann mætti silfrinu. Hinn víðlendi Agamemnon greip spjótið með hendi sinni og dró til sín, ákafur sem ljón, og kippti því úr hendi hans, hjó síðan sverði á háls honum, svo af tók höfuðið. Þannig féll hann þar og svæfðist eirsvefni, vesall maður, þá hann hjálpaði borgarmönnunum, fjarri eiginkonu sinni, án þess hann hefði haft nokkurt yndi af henni; hafði hann þó gefið henni margar gjafir; fyrst gaf hann henni hundrað nauta, og síðar meir lofaði hann henni þúsund geitum og ám, því hann hélt ógrynni fjár á beit. Agamemnon Atreifsson fletti hann þá herklæðum, og gekk með hin fögru vopn inn í flokk Akkea. 248 En er Kóon varð hans varr, eldri sonur Antenors, sem var afbragð annarra manna, þá sveif harður harmur yfir augu hans við fall bróður hans. Hann stóð með spjót í hendi á hlið við hinn ágæta Agamemnon, svo hann vissi ekki, og lagði hann í miðjan handlegginn fyrir neðan olnboga, og gekk oddur hins fagra spjóts út hins vegar. Þá varð herkonungurinn Agamemnon skelfdur, en allt fyrir það lét hann ekki af orustunni og bardaganum, heldur óð hann að Kóon, og hafði í hendi sér vindstælt spjót. Kóon var þá að í ákafa að draga Ifídamant, bróður sinn samfeðra; hélt hann í fót hans, og hét á hina hraustustu sér til liðs. En meðan hann var að draga hann í þrönginni undir hinum baugnafaða skildi, hjó Agamemnon hann með hinu eirslegna spjóti, og felldi hann, gekk þá að og hjó af honum höfuð ofan á Ifídamanti. Biðu Antenorssynir þar bana sinn fyrir konunginum Atreifssyni, og fóru ofan í Hadesarheim. 264 Agamemnon óð nú í gegnum flokka hinna annarra kappa með spjóti og sverði og stórum vopnsteinum, meðan heitt blóðið vall enn þá úr undinni; en er sárið þornaði og blóðrásin stöðvaðist, tók hinn sterki Atreifsson að kenna sárra verkja. Svo sem jóðsjúk kona finnur til þess hvassa, bitra skeytis, er senda dætur Heru, Lausnargyðjurnar, er gera fæðingarhríðirnar og hafa með sér sára verki: svo kenndi hinn sterki Atreifsson sárra verkja; hann stökk upp á kerru sína og bauð kerrusveininum að hleypa til enna holu skipa, því honum varð mjög þungt fyrir hjarta. Hann kallaði þá hátt, svo Danáar heyrðu: „Kæru vinir, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja! Verjið nú hin haffæru skip fyrir hinum hættulega orustugný, því hinn ráðvísi Seifur lofar mér ekki að berjast allan dag út við Trójumenn“. 280 Þannig mælti hann, en kerrusveinninn keyrði hina faxprúðu hesta til hinna holu skipa; runnu þeir viljugir af stað; þeir voru froðugir um brjóstin og ryki drifnir að neðanverðu, þar sem þeir drógu hinn þjáða konung burt úr bardaganum. 284 En er Hektor varð þess varr, að Agamemnon var farinn burtu, kallaði hann hátt til Tróverja og Lýkíumanna: „Þér Tróverjar, þér Lýkíumenn, og þér hinir nágönglu Dardanar! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og leggið fram ofurefli yðart! Nú er hinn hraustasti kappi farinn burtu, og hefir nú Seifur Kronusson veitt mér mikið vegsefni. Hleypið nú hinum einhæfðu hestum fram móti hinum hraustu Danáum, svo þér öðlizt enn meiri frægð“. 291 Með þessum orðum hvatti hann hug og dug hvers manns. Svo sem veiðimaður etur hvíttenntum hundum á ólman villigölt eða ljón: svo atti Hektor Príamsson hinum hugstóru Trójumönnum á Akkea, líkur hinum mannskæða Aresi; en sjálfur gekk hann meðal hinna fremstu í stórum hug, og geystist út í bardagann, líkur afar hvössum vindbyl, er stökkur ofan á hið dimmbláa haf og æsir það. 299 Hvern drap Hektor Príamsson þar fyrstan, og hvern síðastan, þegar Seifur veitti honum sæmdarefni? Hann drap fyrst Aseus, Átónóus og Opítes, Dólops Klytíusson, Ofeltíus og Agelás, Esymnus, Órus og hinn vígglaða Hipponóus. Þessa felldi hann af höfðingjum Danáa, en síðan drap hann niður múginn. Svo sem vestanstormur feykir burtu skýjum hins hvíta sunnanvinds, og lemur þau með sterku hreggviðri; veltist þá mörg digur alda, en froðan fýkur í háva loft undan hinum svipótta vindbyl: svo hrundu höfuð kappanna hrönnum fyrir Hektori. 310 Þar hefði nú orðið mikið manntjón, og þeir atburðir gerzt, er seint hefði orðið bót á ráðin, og nú hefðu Akkear flúið og stokkið til skipanna, ef Odysseifur hefði ekki kallað til Díómedess Týdeifssonar: „Hvað gengur að okkur, Týdeifsson, að við skulum ekki neytt hafa ofurefliskrafta okkarra? Kom nú hingað, kæri, og statt hjá mér; því það verður sannlega okkur að ámæli gert, ef hinn hjálmkviki Hektor nær skipunum“. 316 Hinn sterki Díómedes svaraði honum og mælti: „Eg vil gjarna bíða hér og þreyja. En þetta mun verða stundargaman fyrir okkur, þar sem skýsafnarinn Seifur vill nú heldur fulltingja Trójumönnum, en oss“. 320 Að því mæltu lagði hann spjóti sínu á Þymbreus í vinstri geirvörtuna, og steypti honum ofan af kerrunni til jarðar; en Odysseifur vann á Molíon, hinum ágæta kerrusveini konungsins. En er þeir höfðu gert þá óvíga, létu þeir þá vera, en gengu út í mannþröngina, og ólmuðust, sem tveir stórhuga geltir, er ráðast á veiðihunda. Svo hrukku þeir við og drápu niður Trójumenn; en Akkear, sem flýðu fyrir hinum ágæta Hektor, urðu fegnir að kasta mæðinni. 328 Þar náðu þeir Díómedes kerru einni með tveimur mönnum á; það voru einhverjir hinir hraustustu menn í landinu, tveir synir Meróps Perkósussonar, er allra manna var spávitrastur; hann bannaði sonum sínum að fara í hinn mannskæða ófrið, en þeir gegndu honum ekki, því valkyrjur hins dimma dauða teygðu þá með sér. Hinn spjótfimi Díómedes Týdeifsson skildi þá við fjör og líf, og tók af þeim hin ágætu vopn þeirra; en Odysseifur drap Hippódamus og Hýperokkus. 336 Nú leit Kronusson ofan af Ídafjalli, og jafnaði bardagann með þeim; drápu þá hvorir aðra. Týdeifsson lagði kappann Agastrófus Peonsson með spjóti í mjöðmina, en hann hafði ekki hjá sér kerru sína til að forða sér á, og hafði honum mjög yfirsézt í því; var sveinn hans með kerruna langt burtu þaðan; en hann ólmaðist sjálfur fótgangandi meðal frumherjanna, þar til hann lét líf sitt. Hektor varð skjótt varr við þá í fylkingunum; kallaði hann þá upp og sókti móti þeim, en sveitir Trójumanna fylgdu honum. En er hinn rómsterki Díómedes leit hann, varð hann skelkaður, og mælti þegar til Odysseifs, er hjá honum stóð: „Þar steðjar að okkur mikill vogestur, þar sem er hinn sterki Hektor. Látum okkur nú standa við og verjast héðan!“ 349 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót, og skaut; ekki missti hann, þar er hann skaut til, kom skotið í höfuðið, ofan til í hjálminn, en eirspjótið hrökk af eirinu og gekk ekki inn í hið fríða hörund; því honum hlífði hinn þrefaldi pípuhjálmur, er Febus Appollon hafði gefið honum. Hektor hljóp þegar aftur afar langt inn í flokkinn, féll hann þá á kné, og studdi hinni þreknu hendi sinni við jörðina, en svart myrkur seig fyrir augu hans. En meðan Díómedes fór eftir spjóti sínu langt fram meðal frumherjanna, þangað sem hann hafði kastað spjótinu, og það hafði hlaupið í jörðina, á meðan þá raknaði Hektor við aftur, stökk aftur upp á kerru sína, hleypti á burt út í flokkinn og forðaðist hina svörtu Valkyrju. Hinn sterki Díómedes óð fram með spjótið, og mælti til hans: „Þar slappstu aftur undan bananum, hundurinn, og var þó ógæfan ekki langt frá þér; en í þetta skipti hefir Febus Appollon frelsað þig, er þú munt vanur vera að heita á hann, áður þú gengur út í spjótadyninn. Eg skal þó sjá fyrir þér, þó síðar verði, ef við hittumst; því vísast er, að einhverr guðanna veiti mér einnig fulltingi. En nú mun eg fara móti öðrum, hverr sem fyrir mér verður“. 368 Að því mæltu tók hann til að fletta hinn spjótfima Peonsson. En Alexander, eiginmaður hinnar hárfögru Helenu, stóð upp við súlu eina á haugi þeim, er af mönnum var hlaðinn yfir hinn gamla þjóðhöfðingja Ílus Dardanung. Hann benti boga móti þjóðhöfðingjanum Týdeifssyni. Þá var Díómedes að taka hina glæsilegu brynju af brjósti hins hrausta Agastrófs, en skjöldinn af herðum hans, og hinn sterka hjálm. Alexander dró nú bogarifið, og skaut í hægra fótar rist hans, því hann var ekki missifengur, þar er hann skaut til; gekk örin í gegnum ristina, og stóð í jörðinni. Hann hló þá dátt, stökk fram úr sátrinu og mælti hróðugur: „Þar fékkstu skot, og flaug ekki skeyti mitt til ónýtis. Væri betur, að eg hefði hitt í smáþarmana og tekið þig af lífi; mundi það orðið hafa raunaléttir fyrir Trójumenn, er óttast þig, sem kumrandi geitur hræðast ljón“. 384 Hinn sterki Díómedes svaraði honum óskelfdur: „Þú bogsveigir, orðhákur, horngassi, konuglanni! Ef þú reyndir þig við mig í vopnaviðskipti, hygg eg, að ekki mundi þig stoða bogi né tíðar örvar; en nú hrósar þú því hégómlega, að þú skeindir mig á ristinni. Eg hirði ekki um það, heldur en þó kona eða óviti hefði sært mig, því sljóvt er skeyti auðvirðilegrar bleyðu. Öðruvísi fer mitt hvassa skeyti; þó ekki komi nema lítið eitt við, þá veitir það manni fjörlöst; kona þess manns gengur með sundurrifnar kinnar, börn hans verða munaðarlaus, en sjálfur rýður hann jörðina blóði og fúnar þar, og fleiri eru hræfuglar kringum hann, en konur“. 396 Þannig mælti hann, en hinn spjótfimi Odysseifur gekk til hans og nam staðar fyrir framan hann, en Díómedes settist að baki hans, og dró hið fljóta skeyti út úr fætinum; kenndi hann þá mikils sársauka; stökk hann þá upp á kerru sína, og bað kerrusveininn hleypa til enna holu skipa, því honum var þungt fyrir brjósti. 401 Hinn spjótfimi Odysseifur var þá orðinn einn eftir, og engi Argverja hjá honum, því óttinn hafði gripið alla. Hann mælti þá í þungu skapi við sína hugstóru sál: „Eg vesall maður! Hvað mun um mig verða? Stór minnkun er það, ef eg flý af hræðslu fyrir mannfjöldanum; þó er hitt enn verra, ef eg verð handtekinn hér aleinn, því Kronusson hefir stökkt öðrum Danáum á flótta. En hví velki eg þetta í huga mér? Eg veit þó, að það eru hinir huglausu, sem firrast bardagann; en sá sem vill vera öðrum mönnum ágætari í orustu, hann hlýtur að standa fast, hvort sem hann verður sár, eða hann særir annan“. 411 Meðan hann velkti þessu í huga sér og hjarta, komu þangað flokkar tróverskra skjaldmanna. Þeir slógu hring um hann, og létu meinvættinn vera milli sín. Svo sem þegar hundar og ungir veiðimenn hlaupa í kring um villigölt, en hann gengur út úr þykkum skógarrunni, og brýnir hvítu tönnina í hinum beygða skolti sínum; þeir ólmast í kring um hann; heyrast þá af og til tannaskellirnir, er þeir þroka einlægt við, enn þótt hann sé næsta ógurlegur: svo geystust Trójumenn þá í kring um Odysseif, ástvin Seifs; en hann hljóp til og lagði fyrst hvössu spjóti ofan í öxl hins ágæta Deíópítess; því næst drap hann þá Þóon og Ennómus; þá lagði hann spjótinu undir hinn baugnafaða skjöld Kersídamants, í því hann stökk ofan af kerru sinni, og kom lagið í kviðinn; féll hann þá ofan í moldina og greip í jörðina með lófanum. Odysseifur lét þá liggja þar, en lagði spjóti á Karópi Hippasussyni, albróður hins ættgöfga Sókusar. Þá kom að Sókus, hinn goðumjafni kappi, og vildi hjálpa bróður sínum; hann gekk til Odysseifs og mælti til hans: „Lofsæli Odysseifur, sem aldrei verður ráðþrota eða eljulaus! Það skal verða annaðhvort í dag, að þú skalt eiga því að hrósa, að þú hafir drepið tvo slíka menn, sem Hippasussynir eru, og tekið af þeim vopn þeirra, eða þú skalt láta lífið fyrir spjóti mínu“. 434 Þá hann hafði þetta sagt, lagði hann spjóti í hinn kringlótta skjöld; gekk hið sterka spjót í gegnum hinn fagra skjöld og inn úr hinni gersemlegu brynju, og fletti öllu holdinu af síðunni, en Pallas Aþena varnaði spjótinu að ganga á hol. Odysseifur fann, að lagið var ekki banvænt, hopaði hann þá á bak aftur og mælti til Sókusar: „Bráður bani bíður þín, vesall maður. Að sönnu gerðir þú mig óvígan til orustu móti Trójumönnum; en eg hygg, að þú hreppir hér bana í dag og svarta Valkyrju; muntu falla fyrir spjóti mínu og veita mér ósk mína, en gefa líf þitt hinum hestfræga Hadesi“. 446 Þannig mælti hann, en Sókus snérist þá undan og ætlaði að leggja á flótta; en í því hann snérist við, lagði Odysseifur spjótinu í bak hans milli herðanna, og rak það í gegnum brjóstið; féll hann þá niður mikið fall, en hinn ágæti Odysseifur hrósaði sigri og mælti: „Þú Sókus, sonur hins herkæna riddara Hippasuss! Algjörr dauði varð fyrri til að ná þér, en þú að komast undan. Þú vesall maður, ekki mun faðir þinn og hin heiðvirða móðir þín afturlykja augum þínum á þér deyjanda, heldur munu hræfuglar draga þig og slá um þig hinum þéttfiðruðu vængjum sínum. En þegar eg dey, munu hinir ágætu Akkear gera sæmilega útför eftir mig“. 456 Að því mæltu dró hann hið sterka spjót hins herkæna Sókusar út úr holdinu og hinum baugnafaða skildi. En er spjótið var út dregið, gaus út blóðið, og angraði það hjarta hans. En er hinir hugstóru Trójumenn sáu, að Odysseifi blæddi, þá fóru þeir móti honum allir, og eggjaði hverr annan. Þá hörfaði Odysseifur á bak aftur, og kallaði á félaga sína. Hann kallaði þrenn köll, svo mikil sem einn mannshaus orkar mest. Menelás, ástvinur Aresar, heyrði öll köllin, og mælti þegar til Ajants, er hjá honum stóð: „Þú seifborni herforingi, Ajant Telamonsson! Mér bar til eyrna raust hins þolgóða Odysseifs, og var því líkast, sem Trójumenn hefðu króað hann einan sér í hinum harða bardaga og veitt honum aðsókn. Látum okkur fara í mannþröngina, og er gott góðum dreng að duga; er eg hræddur um, að honum verði nokkuð, þar sem hann er einn síns liðs innan um Trójumenn, og að Danáum verði stór söknuður að honum“. 472 Að því mæltu gekk hann á undan, en hinn goðumjafni kappi fylgdi honum. Síðan fundu þeir Odysseif, ástvin Seifs, voru Trójumenn þar utan um hann og sóktu að honum, svo sem mórauðir gullúlfar ásækja særðan hyrndan hjört á fjöllum uppi, er maður hefir skotið með ör af bogastreng; meðan blóðið í hirtinum er volgt og hann getur hreyft fæturna, kemst hann undan á flótta sökum fráleiks síns; en er hin skjóta ör hefir unnið á honum, rífa gullúlfarnir, hráæturnar, hann í sundur í dimmum skógarrunni á fjöllunum. Þá stefnir einhverr guð þangað morðgjörnu ljóni; þjóta þá gullúlfarnir víðs vegar lafhræddir, en ljónið fer og rífur í sig. Svo sóktu margir og hraustir Trójumenn alla vega að hinum herkæna, margbrögðótta Odysseifi, en kappinn ruddist um með spjót í hendi, og varði líf sitt. Þá kom Ajant þar að; hann hafði skjöld, sterkan sem turn; hann nam staðar út frá honum til hliðar; þutu þá Trójumenn lafhræddir í sína átt hverr; en hinn herskái Menelás leiddi Odysseif út úr þrönginni, og hélt um hönd hans, þar til sveinninn ók þangað kerrunni. 489 Ajant stökk þá á Trójumenn, og vó Dorýklus, launson Príamuss; því næst hjó hann Pandokus, þá hjó hann Lýsander, Pýrasus og Pýlartes. Svo sem bakkafullt vatnsfall, uppbelgt af regni Seifs, hleypur í vatnavöxtum ofan af fjöllum niður á undirlendið, tekur með sér mörg þurr eikitré og mörg tyrvitré, og ryður mikilli leirbleytu út í sjóinn: svo tvístraði þá hinn frægi Ajant Trójumönnum um allan völlinn, og hjó í sundur bæði hesta og menn. Hektor vissi enn þá ekki af þessu; því hann barðist þá í vinstra fylkingararminum á bökkum Skamanderfljóts; var þar mannfallið og herópið mest, þar sem þeir voru, hinn mikli Nestor og hinn herskái Idomeneifur. Við þá átti Hektor vopnaskipti, og gerði hann þar mikið hervirki með spjótfimi sinni og riddaraíþrótt, og eyddi mjög fylkingar hermannanna. Þó hefðu hinir hárprúðu Akkear ekki brugðið stöðu sinni, ef Alexander, maður hinnar hárfögru Helenu, hefði ekki skotið þríeggri ör í hægri öxl á þjóðhöfðingjanum Makáon, og gert hann óvígan, þegar hann gekk sem hraustast fram. Urðu hinir hugfullu Akkear þá mjög hræddir um Makáon, að Trójumenn mundu drepa hann, ef bardaginn hallaðist á þá. Þá mælti Idomeneifur þegar við hinn ágæta Nestor: „Nestor Neleifsson, þú mikli sómi Akkea! Kom og stíg á kerru þína, lát Makáon fara upp í hjá þér, og halt hinum einhæfðu hestum sem skjótast til skipanna, því einn læknir er jafngildi margra manna“. 516 Þannig mælti hann, en hinn gerenski riddari Nestor gerði, sem hann bauð, sté þegar upp á kerru sína, og Makáon hjá honum, sonur hins ágæta læknis Asklepíuss. Nestor keyrði á hestana, en þeir runnu viljugir, sem fugl flygi, til hinna holu skipa, því þangað vildu þeir komast. 521 Kebríones, hjástöðumaður Hektors, sá, að felmt var komið yfir Trójumenn, og mælti til Hektors: „Hektor, við eigum hér viðskipti við Danáa yzt í hinni róstusömu orustu, en aðrir Trójumenn riðlast hvorr innan um annan, jafnt hestar, sem menn. Ajant Telamonsson eltir þá; eg þekki hann gjörla; hefir hann víðan skjöld á hlið sér. Við skulum stýra hestunum og kerrunni, þangað sem kerruliðið og fótgöngumennirnir hafa vakið skæða rimmu og drepa hvorir aðra, og þangað sem háreystin er áköfust“. 531 Að því mæltu keyrði hann á hina faxprúðu hesta með snjallri svipu; en er þeir heyrðu svipuhvininn, drógu þeir skyndilega hina skjótu kerru til Trójumanna og Akkea, og stikluðu yfir mannabúkana og skjölduna; allur hjólásinn undir kerrunni varð blóði drifinn, og blóðsletturnar af hestahófunum og hjólröndunum gengu yfir kerrustólsbogana. En Hektor langaði ákaft til að komast inn í mannþröngina og rjúfa hana með áhlaupi sínu; hleypti hann nú enum háskalega hergný inn á meðal Danáa, og gaf spjótinu ekki stundarfrið. Þó varaðist hann að leggja til atlögu við Ajant Telamonsson, en óð í gegnum herfylkingar hinna annarra kappa með spjóti og sverði og stórum vopnsteinum. 544 Faðir Seifur, öndvegisguð, kom nú Ajanti á flótta; hann varpaði á bak sér hinum sjöbyrða skildi og stóð agndofa; þá gaut hann augum yfir mannþröngina og hörfaði til baka, líkur dýri, leit oft aftur fyrir sig og bar seint fæturna. Hann var líkur mórauðu ljóni, er bændur reka með hundum frá fjárhúsi sínu; bændurnir vaka alla nóttina, því þeir vilja ekki lofa ljóninu að taka feitasta uxann þeirra; en ljónið langar í kjötið, leitar ákaft á, en verður ekkert ágengt, því spjót og brennandi logbrandar fljúga óðum á móti því úr hinum óvægnu höndum bændanna, en hvað ólmt sem ljónið er, fælist það þó brandana, og lötrar burt með morgunsárinu í angráðum hug. Svo gekk Ajant þá frá Trójumönnum mjög nauðugur, og angráður í hjarta, því hann var mjög hræddur um skip Akkea. Hann var sem asni sá, er svo er latur, að margir lurkar hafa verið brotnir á honum; hann gengur utan með akurlendinu og treður sér inn, þó smásveinar vilji verja honum; en þegar hann er kominn inn, þá bítur hann akurinn, þar sem hann er loðnastur; sveinarnir lemja hann með lurkum, og verða heldur smá unglingahöggin, og varla geta þeir rekið hann út, þegar hann hefir étið sig fullan af grasinu: svo fórst hinum ofurhuguðu Trójumönnum og hinum langt að komnu liðsmönnum þeirra við hinn mikla Ajant Telamonsson; þeir sóktu ávallt að honum og lögðu spjótum í skjöld hans, en Ajant gerði ýmist, að hann snérist við móti þeim og tók á heljarafli sínu, og tafði fyrir fylkingum hinna hestfimu Trójumanna, eða hann snérist undan á flótta; en öllum varði hann að komast til hinna fljótu skipa, því hann stóð mitt á milli Trójumanna og Akkea, og hamaðist þar; en af spjótum þeim, er flugu fram úr hinum óvægnu höndum óvinanna, stóðu sum föst í hinum mikla skildi Ajants, en mörg þeirra, þó þau langaði til að seðja sig á holdi hans, hlupu í jörðina og stóðu þar, áður en þau næði að snerta hans fríða hörund. 575 En er Evrýpýlus, Evemons frægi son, sá, að sókt var að Ajanti með tíðum skotum, þá gekk hann til og nam staðar hjá honum, og skaut hinu fagra spjóti sínu, og kom á þjóðhöfðingjann Apísáon Fásíasson, í lifrina undir þindinni, og var hann þegar dauður; hljóp Evrýpýlus þá til og fór að fletta hann vopnum. En er hinn goðumlíki Alexander sá, að hann fletti Apísáon vopnum, dró hann boga sinn og skaut til Evrýpýluss; kom örin í hægra lærið; brotnaði þá örvarleggurinn og jók það sársauka í lærinu; hörfaði Evrýpýlus þá aftur í flokk félaga sinna og forðaði sér. Hann kallaði þá hátt, svo Danáar heyrðu: „Kærir vinir, fyrirliðar og yfirmenn Argverja, snúizt við til móts, og forðið Ajanti við bana, því mikill vopnagangur stendur á honum, og hygg eg, að hann muni ekki undan stýra hinum róstusama bardaga. Standið nú öndverðir í kring um hinn mikla Ajant Telamonsson“. 592 Svo mælti hinn sári Evrýpýlus, en þeir gengu til og stóðu hjá honum, höfðu skjölduna á hlið sér og spjótin á lofti. Þá kom Ajant á móti þeim, og er hann kom í flokk sinna manna, snérist hann við og stóð svo. Þannig börðust þeir, sem eldur brynni. 597 Neleifs hryssur hlupu sveittar með Nestor úr orustunni, og drógu þjóðhöfðingjann Makáon. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles gat að líta hann, því hann stóð þá uppi á skutstafni hins stórhúfaða skips, og horfði á hið þunga erfiði og hina grátlegu sókn. Hann kallaði af skipinu til Patróklus, vinar síns; en hann heyrði úr búðinni og gekk út, líkur Aresi; var þetta hið fyrsta upphaf ógæfu hans. Hinn hrausti Menöytsson mælti til Akkils að fyrra bragði: „Hví kallar þú á mig, Akkilles? Hvað viltu mér?“ Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum og mælti: „Ágæti Menöytsson, ástkæri vin, nú hygg eg, að Akkear muni koma að knjám mínum, og biðja liðveizlu, því nú ber brýn nauðsyn til. Far nú, Patróklus, ástvinur Seifs, og spyr Nestor, hverr sá sé, er hann flytur þar sáran úr orustunni. Á bak að sjá er hann öllu deili, sem Makáon Asklepíusson, en eg sá ekki framan í hann, því hestarnir flugu áfram og þutu fram hjá mér“. 616 Svo mælti hann, en Patróklus gerði, sem vinur hans bauð. Hann hljóp af stað til búða og skipa Akkea. 618 En er þeir Makáon komu til búðar Neleifssonar, stigu þeir Nestor af kerrunni niður á hina margfrjóvu jörð, en Evrýmedon, sveinn hins aldraða höfðingja, leysti hestana frá kerrunni; en þeir Nestor stóðu á sjávarströndinni móti vindgolunni, og viðruðu svitann af kyrtlum sínum, gengu síðan inn í búðina og settust á legubekkina. Hin hárprúða Hekameda bjó þeim milskudrykk; hún var dóttir hins hugstóra Arsínóuss; hafði Nestor fengið hana frá Tenedusey, þegar Akkilles herjaði þar, og höfðu Akkear valið Nestori hana að afnámsfé, sökum þess að hann var öllum mönnum framar að ráðsnilli. Hún setti fyrst fram fyrir þá fagurt borð, slétt skafið, með svartbláum fótum, setti þar á körfu af eiri, lét þar í hnapplauk til viðbits með drykknum, og bleikt hunang, og þar með heilög byggkorn möluð. Þar hjá setti hún mjög fagurt drykkjarker, er hinn gamli maður hafði heiman frá sér; það var neglt gylltum nöglum; þar voru á fjögur eyru, og á hverju eyra beggja vegna tvær gylltar dúfur, sem voru að tína; undir því voru tveir fætur. Þegar það var fullt, gat óvalinn maður varla lyft því af borðinu, en gamli Nestor tók það upp þrautarlaust. Í þessu drykkjarkeri bjó hún til hræring, hin gyðjumlíka kona, af pramnisku víni, skóf þar út í geitarost með eirsköfu og sáði þar yfir hvítu byggmjöli; og er hún hafði búið til hræringinn, bað hún þá drekka. En er þeir höfðu slökkt sinn brennandi þorsta með drykknum, töluðust þeir við og skemmtu sér með samræðum. Patróklus, hinn goðumjafni kappi, stóð nú við búðardyrnar; en er hinn gamli maður sá hann, spratt hann upp af hinum fagra hástól, tók í hönd hans, leiddi hann inn og bað hann setjast. Patróklus neitaði því síns vegar og mælti: „Eg má ekki sitja, gamli maður, fóstri Seifs, bjóð mér það ekki. Ægilegur er sá maður og ávítull, er sendi mig hingað til að spyrja eftir, hverr hinn sári maður sé, er þú fer með. Og þekki eg hann nú sjálfur; sé eg, að það er þjóðhöfðinginn Makáon. Nú mun eg fara aftur til Akkils og segja honum tíðindin; því þú veizt, gamli maður, fóstri Seifs, hversu þessi hinn óttalegi maður er skapi farinn; hefir hann það til, að gefa þeim sök, er saklaus er“. 655 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Hví tekur Akkilles svo sárt til sona Akkea, þeirra er nú eru sárir af skotum? Hann veit ekki, hversu mikill harmur er upp risinn í herbúðunum: hinir hraustustu kappar liggja niðri við skipin, skotnir og höggnir: Týdeifsson, hinn sterki Díómedes, er skotinn, hinn spjótfimi Odysseifur er höggvinn, og svo Agamemnon, og þar að auki flutti eg nýlega þenna mann, sem hér er, úr orustunni; er hann skotinn með ör af bogastreng. En Akkilles, þó hann sé hraustur maður, skeytir ekki Danáum, og kennir eigi í brjósti um þá. Hvort ætlar hann að bíða þess, að hin fljótu skip verði brennd við sjóinn af óvinaeldi að óvilja Argverja, en vér sjálfir drepnir, hverr á fætur öðrum? Því nú hefi eg ekki þá krafta í kögglum, sem eg hafði fyrr meir. 670 Eg vildi eg væri nú í þeim blóma aldurs, og afl mitt væri svo óbilugt, sem það var, þá er deilan varð milli Elea og vor út af uxaráninu, þegar eg drap hinn hrausta Itýmoneif Hýperokkusson, er þá bjó í Eleaborg; fór eg þá ránsför til að fá skaðabætur; en hann varði naut sín; skaut eg þá spjóti á hann úr hendi mér, þar sem hann stóð fremstur í flokki, og féll hann til jarðar; flýðu bændur þá, í sína átt hverr. Tókum vér þar mjög mikið herfang í héraðinu, fimmtygi hjarðir nauta, og jafnmargar hjarðir sauða, og enn jafnmargar af svínum og jafnmargar af geitum, hundrað og fimmtygi bleik hross; voru það allt merhryssur, og gengu folöld undir mörgum þeirra. Rákum vér fé þetta til Pýlus, borgar Neleifs, og komum til borgarinnar um nóttina; varð Neleifur stórfeginn, er mér hafði fénazt svo vel í herförinni, ungum manni. Þá fóru kallarar, þegar er birti af degi, og kölluðu upp hátt, að allir skyldu koma, er skaðabætur áttu að heimta í hinni ágætu Eleaborg. Söfnuðust þá saman höfðingjar Pýlusmanna, og skiptu fénu; áttu Epear mörgum manni skaðabætur að gjalda, því vér vorum fáliða í Pýlusborg, og höfðum orðið fyrir mannskaða miklum; því á fyrirfarandi árum hafði Herakles hinn sterki komið og gert oss mannskaða mikinn; höfðu þá látizt allir hinir beztu menn. Hinn ágæti Neleifur átti tólf sonu; af þeim varð eg einn eftir lífs, en allir hinir voru drepnir. Af þessu urðu hinir eirbrynjuðu Epear ofdrambsfullir, smánuðu oss og frömdu illvirki. Því tók gamli Neleifur eina hjörð nauta og aðra af sauðum, að tölu þrjú hundruð, og hjarðmennina með; átti hann eftir miklum skaðabótum að sjá í hinni ágætu Eleaborg; það voru fjórir hestar, er sigur höfðu unnið í kappleikum, og kerrurnar með; höfðu þeir verið sendir þangað til kappleiks, og áttu að hlaupa um þrífót; en herkonungurinn Ágeas hélt hestunum þar hjá sér, en sleppti kerrusveininum, og þótti honum sár hestamissirinn. Varð gamli Neleifur reiður, bæði sökum orða þeirra, er Ágeas hafði haft, og verka þeirra, er hann framdi, og tók því afar miklar skaðabætur af fénu, en lét lýðnum eftir hitt. Lukum vér svo öllu þessu starfi, og stofnuðum guðunum blót í borginni. En á þriðja degi komu allir Epear með öllum styrk sínum; voru þeir mannmargir og höfðu marga einhæfða hesta. Með þeim voru þeir Molíónusynir; voru þeir þá enn ungir, og vissu enn ekki gjörla, hvað þeir máttu sér. Langt frá hinni sendnu Pýlusborg, yzt í landinu við Alfeus, liggur borg nokkur á hávum hól, og heitir Þrýoessa; á þessa borg herjuðu þeir og vildu brjóta hana. En er þeir breiddust yfir allt láglendið, kom Aþena til vor hlaupandi frá Ólympi með þau boð, að vér skyldum herklæðast; það var um nóttina; safnaði hún saman lýðnum í Pýlusborg; voru menn þess allfúsir og vildu ákaft berjast. En Neleifur faldi hestana fyrir mér, og vildi ekki, að eg færi í bardagann, kvað mig enn vera óvanan hernaði. En ei að síður, þó eg væri fótgangandi, þá hagaði Aþena svo orustunni, að það bar á framgöngu minni meir en riddara vorra. Þar fellur fljót nokkurt til sjávar að nafni Minýeus, nálægt Arenuborg. Þar biðum vér, til þess er morgnaði, riddarar Pýlusmanna, en flokkar fótgöngumannanna streymdu þá að. Þaðan lögðum vér með allan herinn alvopnaðir, og komum að miðjum degi til hins helga Alfeusstraums. Þar færðum vér fríð blót hinum afar sterka Seifi, griðung Alfeusi, griðung Posídoni, en hjarðarkvígu hinni glóeygu Aþenu. Síðan tókum vér kvöldverð í herbúðunum, hverr í sínum flokki, lögðumst svo til svefns á fljótsbökkunum, og lá hverr maður með vopn sín. Hinir hugstóru Epear lágu um borgina, og vildu leggja hana í eyði, en þeim gafst áður efni til mikillar orrahríðar; því þegar er hin lýsandi sól sté upp yfir jörðina, hétum vér á Seif og Aþenu, og lögðum til orustu. En er rimman hófst milli Pýlverja og Epea, vó eg fyrstur mann, og náði hinum einhæfðu hestum hans; sá hét Múlíus; hann var spjótfimur maður; hann var dótturmaður Ágeass, og átti elztu dóttur hans, hina bleikháru Agamedu; hún þekkti öll þau lyfjagrös, er vaxa á víðri jörðu. Þenna mann skaut eg með, eirslegnu spjóti, í því er hann fór að mér; slengdist hann ofan í moldina, en eg stökk upp á kerru hans, og stóð nú meðal forvígismannanna. En er hinir hugstóru Epear sáu, að fallinn var einn riddari þeirra, er verið hafði einhverr mesti framgöngumaður í orustunni, þá flýðu þeir lafhræddir í sína átt hverr. En eg geystist þá fram í óvinaherinn, líkur dimmum vindbyl; náði eg þá fimm tugum kerrna, en í kring um hverja kerru þrifu tveir kappar tönnum í jörðina, sæfðir á spjóti mínu; og nú hefði eg tekið af lífi þá Aktors sonu og Molíónu, ef faðir þeirra, hinn víðlendi Jarðarskelfir, hefði ekki brugðið yfir þá miklum myrkva og bjargað þeim með því úr orustunni. Þar veitti Seifur Pýlverjum mikinn sigur; því vér eltum Epea um víðan völlinn, drápum mennina, en tíndum upp hin fögru vopn þeirra, allt þar til er vér höfðum hrakið kerruliðið til Búprasíons og til Ólenshamars, og þar er kallast Alisíonshóll. Þar sneri Aþena liðinu aftur, og þar skildi eg við hinn síðasta mann, er eg vó; héldu Akkear þá hinum fljótu hestum aftur frá Búprasíon til Pýlusborgar, og þökkuðu allir sigurinn Seifi af guðum til, en Nestori af mönnum. 762 Svona var eg, ef eg nokkurn tíma var með öðrum mönnum. En Akkilles vill einn hafa gott af hreysti sinni, og hygg eg, að hann muni þess mjög iðrast síðar, þegar svo fer, að herinn verður drepinn niður. Þau heilræði lagði Menöytíus þér, kæri vin, þá hann sendi þig frá Fiðju til Agamemnons. Við vorum þá báðir þar inni í höllinni, eg og hinn ágæti Odysseifur, og heyrðum gjörla öll þau heilræði, er hann gaf þér; höfðum við komið til hinna vel settu herbergja Peleifs, þá við vorum í liðsafnaði um hið margfrjóva Akkealand. Þá hittum við þar heima kappann Menöytíus og þig; þar var og Akkilles við; en hinn aldraði riddari Peleifur var þá í hallarforgarðinum og brenndi feita blótbita af uxalæri til fórnar hinum þrumuglaða Seifi; hélt hann á gullskál, og dreypti skæru víni yfir blótbitana, sem voru á eldinum, en þið voruð báðir að starfa að uxaslátrinu. Þá komum við Odysseifur í fordyrnar; brá Akkilli þá við, spratt upp, tók í hendur okkur og leiddi okkur inn, og bað okkur setjast; veitti hann okkur vel, eins og siður er til að veita gestum. En er vér vorum saddir af mat og drykk, þá bar eg upp erindi mitt, og bað ykkur ráðast með í förina, og tókuð þið báðir vel undir það. En þeir Peleifur báðir lögðu ykkur mörg heilræði: Gamli Peleifur bað þess Akkilles, son sinn, að hann væri jafnan afburðarmaður og skörungur annarra manna. En Menöytíus Aktorsson gaf þér þessi heilræði: „ „Sonur minn, að sönnu er Akkilles ættgöfgari, en þú; en þú ert aftur eldri. Miklu er hann meiri kraftamaður, en þú; legg þú honum þá viturleg ráð, áminn hann og seg honum til; mun hann hlýða öllum góðum tillögum þínum“ “. Þessi heilræði gaf hinn aldraði maður þér, og hefir þú nú gleymt þeim. En minntú Akkilles á þetta nú, þó síðar sé, því vera má, að hann láti að orðum þínum. Hverr veit, nema þú með guðs hjálp kunnir að hræra hug hans með fortölum þínum, en gott er vin að vara. En ef hann setur fyrir sig einhverja goðaspá, og hafi hans heiðvirða móðir sagt honum spá nokkura frá Seifi, þá láti hann þig að minnsta kosti fara og nokkura menn með þér af Myrmídónum, ef verða mætti, að þú yrðir Danáum að einhverju liði. Fái hann þér hin fögru vopn sín, að þú berir þau í orustunni; því vera kann, að Trójumenn haldi þá, að þú sért Akkilles, láti svo af bardaganum, en hinir herkænu synir Akkea fái þá hvíld, því þeir eru nauðuglega staddir, en nú er lítið hlé á orustunni; mun yður og hægt veita, er þér eruð óþreyttir, að hrekja vígmóða menn frá skipunum og búðunum til borgarinnar“. 804 Þannig mælti Nestor, og hrærði hugann í brjósti hans. Fór Patróklus nú af stað, og hljóp til skipanna til Akkils Ajaksniðja. En er hann kom hlaupandi til skipa hins ágæta Odysseifs, þar sem var dómstaður þeirra, og þeir höfðu gert blótstalla handa goðunum, þá mætti honum hinn seifborni Evrýpýlus Evemonsson; hann kom úr bardaganum og var haltur; hafði hann verið skotinn með ör í lærið; svitinn draup af herðum hans og höfði, svart blóðið rann af hinu sviðafulla sári, en þó hafði hann óskerta rænu. Og er hinn hrausti Menöytíusson leit hann, aumkvaðist hann yfir hann, og talaði harmsfullur til hans skjótum orðum: „Vesalir eruð þér, fyrirliðar og höfðingjar Danáa. Átti það þá fyrir yður að liggja, að verða þannig fljótum hundum að bráð í Trójulandi, fjarri vinum og föðurlandi yðar? En seg mér það, Evrýpýlus kappi, fósturson Seifs, hvort munu Akkear fá af sér hrundið hinum afar stóra Hektori, eða munu þeir bráðum hníga, ofurliða bornir af spjóti hans?“ 822 Evrýpýlus, hinn sári maður, svaraði honum: „Seifborni Patróklus, ekki mun héðan af verða úr vörn Akkea, heldur munu þeir falla hjá hinum svörtu skipum. Því allir þeir, sem áður gengu bezt fram, liggja nú við skipin skotnir og höggnir í viðureign þeirra við Trójumenn; vex nú styrkur Trójumanna óðum. En ger nú svo vel og bjarga mér, og leið mig til míns svarta skips, drag örina úr lærinu, og þvo af því hið svarta blóð í volgu vatni, rýð svo þar á heilnæmum, verkeiðandi smyrslum, er menn segja þú hafir lært að þekkja hjá Akkilli, en hann lærði hjá Kíron, sem var réttlátastur af Kentárum. Því nú er ekki kostur á þeim læknunum, Podalíríus og Makáon; ætla eg annan þeirra liggja sáran í búð sinni og þurfa sjálfan góðs læknis við, en hinn er á vígvellinum í snörpum bardaga við Trójumenn“. 837 Hinn sterki Menöytíusson mælti til hans: „Hvernig fer þetta? Hvað skulum við gera, Evrýpýlus kappi! Eg vil fara og flytja hinum herkæna Akkilli erindi það, er hinn gerenski Nestor, vörður Akkea, bað mig segja honum. Þó mun eg ekki skiljast hér við þig svo nauðulega staddan“. 842 Að því mæltu tók Patróklus höndum undir brjóst hans, og kom þjóðhöfðingjanum inn í búðina. Sveinn nokkurr, sem sá það, breiddi uxahúð á gólfið; þar lagði Patróklus hann flatan, og skar hið hvassa, sárbeitta skeyti með kníf úr lærinu, þvoði af því hið svarta blóð í volgu vatni, tók beiska, verkeyðandi rót, muldi milli handa sér, og lagði yfir sárið; tók sú rót úr alla verki; þornaði þá sárið og blóðrásin stöðvaðist. TÓLFTI ÞÁTTUR SKIPAGARÐSORUSTA. ÞANNIG læknaði hinn hrausti Menöytíusson Evrýpýlus hinn sára í búðinni, en Argverjar og Trójumenn börðust flokkum saman. En nú átti ekki díki Danáa og hinn breiði garður þar fyrir ofan að standast lengur ásókn óvinanna; höfðu Danáar hlaðið þann garð skipunum til varnar, og grafið díki með garðinum, án þess að færa goðunum vegleg hundraðsblót; ætluðust þeir til, að garðurinn skyldi verja hin fljótu skip og hið mikla herfang, er fyrir innan garðinn var. En garður þessi hafði gerður verið móti vilja goðanna, og því stóð hann heldur ekki lengi. Meðan Hektor var á lífi og enn hélzt heift Akkils, og meðan borg Príamuss konungs var óbrotin, þá stóð hinn mikli garður Akkea óhaggaður. En þegar látnir voru hinir hraustustu af Trójumönnum, og margir Akkea, sumir fallnir, en sumir enn uppi standandi, og þegar Príamsborg var í eyði lögð á tíunda árinu, en Argverjar heim sigldir í föðurland sitt: þá réðu þeir það með sér, þeir Posídon og Appollon, að eyða garðinn með því að veita á hann vatnsmegni allra þeirra fljóta, er renna til sjávar af Ídafjöllum, en það er Resus og Heptaporus, Karesus og Ródíus, Graníkus og Esepus, hið ágæta Skamandersfljót og Símóis, þar sem fallið höfðu til moldar margir uxaleðursskildir og þríbóluhjálmar og kyn hálfgoðkunnugra kappa. Febus Appollon veitti saman ósum allra þessara fljóta, og hleypti straumnum á garðinn í níu daga; en Seifur lét rigna í sífellu, svo garðarnir sykki því fyrr í sjó. En sjálfur Landaskelfir gekk á undan og tvíhenti þríforkinn; velti hann þá út í sjóinn öllum þeim grundvelli, er Akkear höfðu lagt með stórri fyrirhöfn af eikabolum og steinum, og gerði hann að jafnsléttu fram með hinu straummikla Hellusundi; hann lagði garðinn í eyði, en þakti aftur hina miklu strönd með sandi; síðan hleypti hann fljótunum aftur í farveg sinn, þar sem hið straumfagra vatn hafði áður runnið. 34 Þessu áttu þeir síðar meir að koma til leiðar, þeir Posídon og Appollon. En þá var sem óðust orustan og hergnýrinn í kring um hinn sterka garð, og buldi í timburstokkum turnanna, þegar skotin dundu á þeim; en Argverjar, yfirkomnir af refsingu Seifs, urðu hraktir til hinna holu skipa og létu þar fyrir berast, af ótta fyrir Hektor, hinum sterka flóttafrömuði; en hann barðist, svo sem áður gerði hann, líkur stormbyl. Svo sem þá er villigöltur eða ljón, er drambar af afli sínu, snýr sér ótt innan um hunda og veiðimenn, en þeir skipa sér þétt saman í flokkum og standa öndverðir og láta spjótin drífa óðum úr höndum sér; hið hugfulla hjarta galtarins verður aldrei felmtrað, né hrætt; ofurhugi hans verður honum að bana; hann snýr sér við ótt og títt, og leitar á manngarðinn, en þar sem hann sækir fram, þar láta flokkarnir undan síga. Svo ótt snérist Hektor við, þá er hann fór um herinn og eggjaði menn sína að fara yfir díkið. En hinir fótfráu hestar hans áræddu ekki yfir um; þeir stóðu fremst á díkisbarminum, og settu upp hnegg mikið; reis þeim hugur við breidd díkisins; var þar hvorki skammt yfir að hlaupa, né auðvelt yfirferðar, því framslútandi hengjur gnæfðu með öllu díkinu beggja vegna, en að ofanverðu var díkið alsett oddmjóum staurum, þéttum og stórum, er synir Akkea höfðu reist þar upp til varnar fyrir óvinum sínum; var þar ekki auðvelt ofan í að fara fyrir hest, er dró hjólkerru, því jafnvel fótgangandi mönnum þótti áhorfsmál, hvort þeir mundi komast þar yfir. Þá gekk Polýdamant til hins hugdjarfa Hektors, og mælti: „Hektor, og þér aðrir fyrirliðar Tróverja og liðsmanna! Óráð er það, að hleypa hinum fráu hestum yfir díkið. Díkið er mjög ógreitt yfirferðar; eru þar reistir upp á díkisbakkanum oddmjóir staurar, og hjá staurunum er garður Akkea; er þar ófært fyrir riddara ofan að fara og berjast, því þar er órými, og mun mörgum verða þar skeinusamt. Því hafi hinn háþrumandi Seifur illt í hyggju, og vilji hann með öllu eyða Akkeum, en hjálpa Trójumönnum, þá mundi eg óska, að það yrði nú þegar, að Akkear félli hér við engan orðstír langt í burt frá Argverjalandi; en ef þeir hrökkva við og veita aðsókn frá skipunum, þegar vér erum komnir ofan í hið grafna díki, þá hygg eg, að engi muni aftur komast til borgarinnar undan aðsókn Akkea, ef þeir hrökkva við, og jafnvel mun engi kunna frá tíðindum að segja. Heyrið nú, gerum allir, svo sem eg mæli fyrir: sveinarnir skulu halda kyrrum hestunum við díkið, en vér fótgöngumennirnir skulum allir fylgja Hektori alvopnaðir í einum hnapp, en Akkear munu ekki bíða úr stað, þar sem fullkomið fjörtjón vofir nú yfir þeim“. 80 Þannig mælti Polýdamant, og líkaði Hektori vel þetta heillaráð; stökk hann þegar í herbúnaði sínum til jarðar ofan af kerrunni. Og er aðrir Trójumenn sáu hinn ágæta Hektor, héldu þeir ekki til á kerrunum, heldur stukku allir ofan; síðan bað sérhverr sinn kerrusvein að halda hestunum í góðri skipan þar við díkið; en hinir skiptu sér í fimm sveitir, skipuðu sveitunum í þéttar fylkingar, og fylgdu yfirmönnum sínum. Þeir, sem fóru með Hektori og hinum ágæta Polýdamanti, voru hinir flestu og hraustustu, og fúsastir til þess að brjóta garðinn og berjast við hin holu skip. Kebríones fylgdi þeim hinn þriðji maður, því Hektor lét eftir hjá kerrunni annan mann, sem var minna hraustmenni en Kebríones. Fyrir annarri sveit var Paris og Alkaþóus og Agenor. Fyrir þriðju sveit var Helenus og hinn goðumlíki Deífobus; þeir voru báðir synir Príamuss; hinn þriðji maður var kappinn Asíus; sá Asíus var Hyrtaksson; hann ók með rauðum hestum stórum frá Arisbu við Sellesfljót. Fyrir fjórðu sveit var Eneas, hinn hrausti son Ankísess; með honum voru tveir synir Antenors, Arkelokkus og Akamant; þeir kunnu báðir vel til orustu. Sarpedon réð fyrir hinum frægu liðsmönnum; tók hann með sér þá Glákus og hinn hergjarna Asteropeus; þótti honum þeir ganga sér sjálfum næst að hreysti og vera um fram aðra menn, en sjálfur bar hann af þeim öllum. En er þeir höfðu skipazt svo þétt, að hverr skjöldur nam annan, þá gengu þeir móti Danáum í áhuga miklum, og hugðu, að þeir mundu eigi fá staðizt, heldur mundu þeir falla hjá hinum svörtu skipum. 108 Nú hlýddu allir Tróverjar og hinir langt að komnu liðsmenn ráði hins ágæta Polýdamants, nema herforinginn Asíus Hyrtaksson; hann vildi ekki láta þar eftir hesta sína og kerrusvein, heldur sókti hann á kerrunni til hinna fljótu skipa, fávís maður; en þó hann stærði sig af kerru sinni og hestum, átti honum ekki auðið verða að komast undan hinum illu Valkyrjum heim aftur til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar, því hin hryllilega Skapanorn sveif yfir hann áður með spjóti hins ágæta Idomeneifs, Devkalionsniðja. Asíus fór vinstra megin skipanna, þar sem Akkear voru vanir að fara ofan aftur af vellinum með hesta sína og kerru; þar hleypti hann yfir hestunum og kerrunni; hitti hann þá svo á, að hurðirnar höfðu ekki verið látnar fyrir hliðin og hinn mikli slagbrandur, heldur héldu menn hliðunum á gátt, svo menn gætu bjargað til skipanna lagsmönnum sínum, þeim er flýja kynnu úr orustunni. Beint þangað hélt hann hestum sínum; gerði hann það með ásettu ráði; menn hans fylgdust með honum; þeir æptu hátt, því þeir hugðu, að Akkear mundu ekki fá staðizt framar, heldur mundu þeir falla hjá hinum svörtu skipum; svo voru þeir grunnhyggnir. En þeir hittu fyrir tvo menn við hliðin, mestu hraustmenni, þá ofurhuguðu sonu hinna spjótfimu Lapíta; var annar hinn sterki Polýpöytes Píríþóusson, en hinn var Leonteifur, jafningi hins mannskæða Aresar. Þeir stóðu báðir fyrir framan hin hávu hlið, sem hávaxin eikitré á fjöllum, er standa föst á miklum rótum og löngum, og bíða hregg og hret alla daga. Svo treystu þeir báðir handaafli sínu og kröftum, og biðu hins mikla Asíusar, er hann fór að þeim, og hörfuðu ekki undan. Þeir Asíus konungur, Jamenus, Órestes, Adamant Asíusson, Þóon og Öynómás og menn þeirra gengu með miklu ópi beint að hinum ramgjörva garði, og héldu hátt upp þurrum uxaleðursskjöldum. Á meðan þeir Lapítarnir voru inni í hliðinu, eggjuðu þeir hina fagurbrynhosuðu Akkea að verja skipin. En er þeir urðu varir við, að Trójumenn sóktu að garðinum, og óp og felmtur Danáa kom upp, þá stukku þeir út, og börðust fyrir framan hliðin, líkir villigöltum á fjöllum uppi, þeim er bíða eftir þeim manngný og hundaglammi, er að þeim fer; þeir skjótast út á hlið og brjóta viðinn í kring um sig; þeir sníða viðinn af við rótina, og heyrast þá af og til tannaskellirnir, og þetta láta þeir ganga, þar til einhverr skýtur þá til dauðs. Svo small í hinum fögru eirhlífum á brjóstum þeirra, þegar skotin dundu á þeim; því þeir börðust mjög hraustlega; treystu þeir afli sínu og svo mönnum þeim, er uppi voru á garðinum, en þeir köstuðu vopnsteinum ofan af hinum ramgjörvu turnum til að verja sjálfa sig og búðirnar og hin örskreiðu skip. Svo sem fjúk fellur til jarðar, þegar hvass vindur, er feykir hinum dimmu skýjum, eys því óðum niður á hina margfrjóvu jörð: svo drifu skotvopnin úr höndum bæði Akkea og Trójumanna; buldi dimmt í hjálmunum og hinum baugnöfuðu skjöldum, þegar hnullungarnir skullu á þeim. Þá sló Asíus Hyrtaksson á bæði lær sér, hljóðaði upp og mælti angistarfullur: „Faðir Seifur, mjög gerist þú nú ósannsögull; því eg hélt, að hinir akknesku kappar mundu ekki standast áhuga vorn og ofurefli. En þeir eru nú sem liðamjúkir geitungar eða býflugur, sem hafa gert sér hús á grýttum alfaravegi; þær yfirgefa ekki holur sínar, heldur bíða við og verja unga sína fyrir mönnum þeim, er vilja veiða þær. Svo eru og þessir menn, að þó þeir séu ekki nema tveir, þá vilja þeir þó ekki hörfa frá hliðunum, fyrr en þeir hafa sigrazt, eða þeir verða drepnir“. 173 Þannig mælti hann, en hann hrærði ekki huga Seifs, þó hann mælti þessum orðum, því hugur Seifs var á það snúinn að veita Hektori sóma. Hinn sterki Polýpöytes Píríþóusson skaut þá spjóti til Damasus í hjálminn; hann var með kinnbjörgum af eiri; stóðst eirhjálmurinn ekki skotið; gekk eiroddurinn í gegn og rauf beinið; varð þá allur heilinn í höfðinu blóði blandinn; vann hann þar á honum, þá hann sókti sem ákafast áfram. Því næst vó hann Pýlon og Ormenus. Leonteifur, afspringur Aresar, skaut spjóti til Hippomakkuss Antímakkssonar, og kom í brynbeltið, dró síðan hið hvassa sverð úr slíðrum, hljóp fram í þröngina, og hjó fyrst með sverðinu til Antifatess, svo hann slengdist flatur til jarðar; síðan felldi hann Menon, Jamenus og Órestes, hvern á fætur öðrum, og hnigu þeir niður á hina margfrjóvu jörð. 195 Meðan þeir flettu þessa hinum skínandi vopnum, gengu hinir hermennirnir með þeim Polýdamanti og Hektori; var það mikill fjöldi manns og hinir hraustustu menn; var í þeim mesti áhugi að brjóta garðinn og brenna skipin í eldi. Þeir stóðu nú við díkið, og hugsuðu sig um; því þegar þeir ætluðu yfir díkið, kom spáfugl til þeirra vinstra megin hersins; það var háfleyg örn, og bar í klónum blóðrauðan dreka, geysistóran; hann var lifandi, og var enn að sprikla; þó var enn ekki úr honum víghugurinn, því hann beygði sig á bak aftur og hjó örnina, sem hélt honum, í bringuna við hálsinn; en er örnin kenndi sársaukans, sleppti hún lausum drekanum niður og fleygði honum ofan í miðja mannþyrpinguna, en hún flaug sjálf burt gjallandi, og lét vindgoluna bera sig. Trójumenn urðu skelkaðir, þegar þeir sáu jarteikn Seifs ægisskjalda, orminn kvikandi liggja mitt á meðal sín. Þá gekk Polýdamant til hins hugdjarfa Hektors og mælti: „Ávallt finnur þú eitthvað að við mig, þegar eg legg til nokkur heilræði; því engan veginn sæmir þeim, sem undirgefinn er, að mæla hégóma, hvorki á ráðstefnu, né í her, heldur að tala það jafnan, er þér sé vegsauki í. En nú mun eg enn upp kveða, hvað mér þyki ráðlegast. Förum ekki til móts við Danáa til að berjast við þá hjá skipunum. Því svo hygg eg fara muni, að svo sannarlega sem spáfugl kom til Trójumanna, þá er þeir ætluðu yfir um díkið, vinstra megin hersins, hin háfleyga örn, er bar í klóm sér blóðrauðan dreka lifandi, geysistóran, en sleppti honum svo, áður en hún kæmist í hreiður sitt og næði að færa hann ungum sínum: svo mun og fyrir oss fara, að þó vér brjótum hlið og garð Akkea með miklu ofurefli, og Akkear víki undan, þá munum vér ekki komast með góðri skipan sama veg frá skipunum aftur; því vér munum láta eftir marga af Trójumönnum, er Akkear munu vega með eirvopnum, þá þeir verja skip sín. Svo mundi þessa jarteikn þýða sá spámaður er glöggt skynbragð hefði á fyrirburðum, og mundu allir menn leggja trúnað á sögu hans“. 230 Hinn hjálmkviki Hektor leit til hans með reiðisvip og mælti: „Ekki líkar mér enn þetta, sem nú segir þú, Polýdamant; muntu kunna betra ráð upp að hugsa, en þetta er. En ef þú talar þetta í alvöru, þá hafa goðin sjálf brjálað viti þínu, er þú ræður mér að gleyma ráðstöfunum hins háþrumanda Seifs, þeim er hann birti mér og staðfesti með jarteiknum; en þú segir mér að trúa vængjalöngum spáfuglum. Eg skeyti því ekki, og hirði alls ekki um, hvort heldur þeir fljúga hægra megin gegn dagsheimi og sólarheimi, eða vinstra megin gegn enum dimma næturheimi. En vér gegnum ráðstöfun hins mikla Seifs, þess er ræður yfir öllum dauðlegum mönnum og ódauðlegum guðum. Ein er forspáin öllum betri, og það er sú, að verja ættjörð sína. Hví óttast þú ófrið og orustu? Þó vér verðum allir drepnir niður við skip Argverja, þá þarft þú þó ekki að óttast bana þinn; því þú átt ekki það hjarta, er staðizt fái óvini eða orustu. En ef þú skýzt undan ófriðnum, eða teygir aðra menn frá orustu með ginningum, þá skaltu þegar lífið láta fyrir mínu spjóti“. 251 Að því mæltu fór Hektor fyrir; en þeir fylgdu honum með geysimiklum gný. Þá sendi hinn þrumuglaði Seifur vindbyl ofan af Ídafjöllum, er bar moldrykið beint á skipin; sljóvgaði hann með því hug Akkea, en veitti uppgang mikinn Hektori og Trójumönnum; treystu þeir nú jarteiknum Seifs og afli sínu, og freistuðu að rjúfa hinn mikla garð Akkea. Þeir rifu af tinda turnanna, felldu vígin, losuðu með vindásum stólpa þá, er fremstir stóðu og sem Akkear höfðu rekið þar niður fyrir framan til stuðnings við turnana; þá stólpa undu þeir á bak aftur, og gerðu sér í hug, að þeir mundu fá brotið garð Akkea. En Danáar létu enn ekki undan akast, heldur vörðu þeir vígskörðin með skjaldborg, og skutu úr vígskörðunum á óvini þá, er sóktu upp undir garðinn. 265 Báðir Ajantar gengu allt um kring uppi á garðinum og hvöttu liðið ákaft, og eggjuðu mjög hug Akkea; átöldu þeir suma með blíðum orðum, aðra ávíttu þeir með hörðum orðum, þegar þeir sáu, að einhverr lá með öllu á liði sínu í bardaganum: „Góðir menn (kváðu þeir), bæði þeir Argverja, sem eru afburðamenn, og svo þeir, sem meðalmenn eru, og enn þeir, er síður eru að hreysti búnir; því ekki eru allir menn jafnir í orustu. Eg vona, að þér sjáið sjálfir, að nú verða allir eitthvað að gera. Hverfi því engi aftur til skipanna, þó hann heyri einhvern eggja þess. Sækið heldur fram, og eggi hverr annan, ef svo mætti verða, að Seifur, hinn ólympski eldingaguð, léti oss auðnast að afstýra rimmu þessari og reka óvinina til borgarinnar“. 277 Þannig eggjuðu þeir Akkea til orustunnar, og heyrðist kall þeirra upp yfir alla. En grjótflaugin var þá, sem þá er snjóar falla á vetrardegi, þegar hinn ráðvísi Seifur rís upp til að snjóa, og sýnir mönnunum skeyti sín; svæfir hann þá vindana, en eys niður snjónum jafnt og þétt; þar til hann hylur gnípur hárra fjalla og yztu útskaga, smáravaxin valllendi og feit akurlönd manna; þá drífur og snjórinn niður á voga og strendur hins gráa hafs, en báran, sem gengur upp að landinu, ver fjörumálið, en allt þar fyrir ofan verður snjóþakið, þegar úrkoma Seifs leggst á með þunga sínum. Svo þétt var grjótflaugin beggja vegna, frá Akkeum til Trójumanna, og aftur frá Trójumönnum til Akkea, en dynkirnir heyrðust yfir allan garðinn. 290 Trójumenn og hinn frægi Hektor mundu ekki í það sinn hafa upp brotið hlið garðsins og hinn langa slagbrand, ef hinn ráðvísi Seifur hefði ekki sent Sarpedon son sinn móti Argverjum, sem ljón meðal bjúghyrndra nauta. Sarpedon skaut þegar fyrir sig kringlóttum skildi fögrum, af hömruðu eiri; hafði eirsmiðurinn flatt út skjaldarmánann, og fest innanvert á mánann mörg lög af uxaleðri með einlægum gullröndum allt í kring. Þenna skjöld hafði hann fyrir sér, veifaði í hendi sér tveimur spjótum, og gekk af stað, sem fjallaljón, er lengi hefir á engu kjöti bergt, en hinn framgjarni hugur þrýstir því til að fara til og ráðast jafnvel á ramgjört sauðahús; og þó það hitti þar fyrir fjármenn vopnaða með spjótum, er vaka yfir sauðunum og hafa hunda með sér, þá vill það þó ekki hörfa ófreistað frá fjárhúsunum, heldur verður annaðhvort, að það stökkur til og grípur einhvern sauðinn, eða einhverr af þeim, sem fremstir standa, verður svo bragðfljótur að skjóta það til dauðs með spjóti. Þannig hvatti hugurinn hinn goðumlíka Sarpedon til að ráðast á garðinn og brjóta vígin. Hann mælti þá þegar til Glákuss Hippolokkussonar: „Hví erum við, Glákus, virtir öðrum mönnum framar í Lýkíu, bæði með sessakostum og kjötskammti og fullum drykkjarkerum? Hví horfa allir á okkur, sem værum við einhverjir guðir? Hví höfum við hlotið til eignar mikið land á Ksantusbökkum, gott tréland og hveitiland? Þess vegna eigum við að standa fremstir meðal Lýkíumanna og ganga út í hinn brennheita bardaga, svo einhverr hinna barðbrynjuðu Lýkíumanna taki svo til orða: engin vansemd er konungum vorum í, þeim er vald hafa yfir Lýkíu, að neyta feitra sauða og drekka útvalið ljúffengt vín; því hugrekki þeirra er ágæt, með því þeir berjast fremstir í flokki Lýkíumanna. Kæri vin, ef við, með því að hliðra okkur hjá þessum ófriði, hefðum átt von á að verða ellivana og ódauðlegir, þá mundi eg hvorki hafa barizt sjálfur fremstur í flokki, né heldur sent þig út í hinn mannfræga bardaga. En nú standa yfir okkur ótölulegar valkyrjur dauðans, er engum dauðlegum manni er unnt að umflýja eða hjákomast. Förum því af stað; annaðhvort skal einhverr vinna sér til ágætis á okkur, eða við á einhverjum“. 329 Þannig mælti hann, en Glákus gegndi honum mótmælalaust; gengu svo báðir fram með mikinn flokk af Lýkíumönnum, og stefndu á turn þann, er Menesteifur Peteósson varði, í vígahug; varð hann skelkaður, er hann sá þá. Hann litaðist um garð Akkea, hvort hann sæi nokkurn þann af fyrirliðunum, er bægt gæti háska þessum frá mönnum sínum. Sá hann þá, hvar þeir stóðu skammt þaðan, báðir Ajantar, berserkirnir, og Tevkrus; hann var þá nýkominn frá búð sinni. En svo var mikið vopnaglarnið, að ekki varð kallað, svo mál manns heyrðist; lagði óminn til himins af skjöldunum og hinum fextu hjálmum, er skotin dundu á, og af hliðunum, sem voru allæst; stóðu þeir Sarpedon gegnt þeim, og ætluðu að reyna til að brjótast inn um þau. Þá sendi Menesteifur kallarann Þóotes til Ajants: „Far þú, ágæti Þóotes (kvað hann), hlaup og kalla á Ajant, eða þó heldur á þá báða, sem allra bezt væri, þar sem hér bráðum mun yfir dynja mikið tjón; því fyrirliðar Lýkíumanna veita hér þunga aðsókn; eru þeir endrarnær vanir að vera mjög harðskeyttir í hinum snörpu orustum. En ef þeir eiga þar og baráttu og rimmu nokkura, þá komi þó hinn hrausti Ajant Telamonsson einn saman, og með honum hinn bogfimi Tevkrus“. 351 Svo mælti hann. Kallarinn gerði, sem hann bauð, hljóp af stað til garðs hinna eirbrynjuðu Akkea, gekk til þeirra Ajanta, og mælti til þeirra: „Þið Ajantar, fyrirliðar enna eirbrynjuðu Akkea, sonur Peteóss, Seifsfóstra, biður ykkur að koma til sín, til þess að taka þar þátt í orustunni um hríð; þykir honum allra bezt, að þið komið heldur báðir, en annar hvorr, því þar mun bráðum á dynja mikið tjón, með því fyrirliðar Lýkíumanna veita þar þunga aðsókn, en eru jafnan vanir að vera mjög harðskeyttir í snörpum orustum. En ef þið eigið hér í baráttu og rimmu nokkurri, þá komi þó að minnsta kosti hinn hrausti Ajant Telamonsson einn saman, og með honum hinn bogfimi Tevkrus“. 364 Þannig mælti hann, en hinn mikli Ajant Telamonsson gerði sem hann mæltist til, og talaði þegar skjótum orðum til Öyleifssonar: „Þið báðir, þú Ajant og hinn sterki Lýkómedes, skuluð standa hér og eggja Danáa að berjast af kappi; en eg ætla að fara þangað og eiga þar nokkurn hlut að orustunni; mun eg brátt koma aftur, þegar eg hefi veitt þeim vígsgengi“. 370 Að því mæltu gekk Ajant Telamonsson burt, og með honum Tevkrus bróðir hans samfeðra. Pandíon fór með þeim; hann bar boga Tevkrusar. Þegar þeir komu til turns hins hugstóra Menesteifs, gengu þeir inn á garðinn; var þá mjög ekið að þeim Menesteifi, er þeir komu þar, því hinir hraustu fyrirliðar og höfðingjar Lýkíumanna voru þá að ganga upp á vígin, líkir dimmu éli; laust þá saman bardaga milli þeirra, og hergnýrinn hófst. 378 Ajant Telamonsson vó þar fyrstur víg; hann drap hinn hugstóra Epíkles, félaga Sarpedons, og kastaði til hans hrufóttum harðsteini, er þar lá innan garðs efst uppi hjá víginu; var sá steinn svo stór, að ekki mundi maður á bezta skeiði lyfta honum með báðum höndum, þeirra manna, er nú gerast; en Ajant hóf hann hátt á loft, og kastaði honum; mölvaði steinninn fjórbóluhjálminn og sprengdi í einu öll beinin í höfðinu, en hann datt, líkur kafhlaupara, ofan af turninum, og var þegar dauður. Þá sókti Glákus að, hinn sterki Hippolokkusson, en Tevkrus skaut til hans ör ofan af hinum háva garði, þar sem hann sá, að skjöldinn bar frá handleggnum; varð Glákus þá óvígur, stökk aftur ofan af garðinum í kyrrþey, svo engi Akkea skyldi sjá, að hann var sár orðinn, og stæra sig af því. Sarpedoni sárnaði mjög, þegar er hann varð þess varr, að Glákus var burt farinn. Þó gaf hann ekki upp bardagann, heldur lagði spjóti til Alkmans Þestorssonar og kom lagi á hann, kippti svo út spjótinu, en Alkman loddi á spjótinu og féll á grúfu, en hin eirbúnu vopn glömruðu utan á honum. Þá greip Sarpedon með sínum sterku höndum um vígið, og togaði að sér, féll þá fram allt vígið gjörsamlega; varð garðurinn þá auður að ofan, og gerðist þar þá uppganga fyrir marga menn. 400 Nú veittust þeir Ajant og Tevkrus báðir samt að Sarpedoni; skaut Tevkrus ör í hina fögru hlífskjaldarreim, er lá um brjóst Sarpedons, en Seifur varði son sinn fyrir Valkyrjunum, að hann yrði ekki sigraður hjá skutstöfnum skipanna. Ajant hljóp til og lagði í skjöldinn, og gekk spjótið ekki í gegn, en hratt honum, í því hann sókti fram. Veik Sarpedon þá lítið eitt frá víginu, en hörfaði ekki á hæl, því hann hugsaði sér að öðlast þar frægð; snérist hann þá við, og kallaði til hinna goðumlíku Lýkíumanna: „Þér Lýkíumenn, hví liggið þér svo á ofurafli yðar? Erfitt veitir mér, þó eg sé mjög svo hraustur, að brjótast einn í gegn og greiða mér veg til skipanna. Leggist á eitt með mér; margar hendur vinna létt verk“. Þannig mælti hann, en þeir urðu smeykir við átölur konungsins, og lögðu sig nú betur fram beggja vegna við höfðingja sinn. Hins vegar styrktu Argverjar fylkingar sínar innan garðs; áttu þeir nú mikið starf fyrir höndum; því hvorki gátu hinir hraustu Lýkíumenn brotizt yfir garð Danáa, og greitt sér veg til skipanna, né enn heldur hinir spjótfimu Danáar hrakið Lýkíumenn aftur frá garðinum, þegar þeir eitt sinn höfðu á hann ráðizt. Svo sem tveir menn, er deila um landamerki á sameignarlandi, halda á mælistöngum í höndum sér, og þrátta um jafnaðarskipti á litlum bletti: svo skildu vígin í milli Akkea og Trójumanna, en þeir börðust um vígin, og ónýttu kringlótta nautsleðursskildi og léttar hráskinnstjörgur hvorir fyrir brjóstum annarra. Margir fengu sár af hinum hörðu eirvopnum, bæði þeir er snéru bökum við í bardaganum og gáfu svo höggstaði á sér, og svo margir í gegnum heila skildina. [Mynd: Bardagi.] 430 Turnarnir og vígin voru hvervetna drifin mannablóði, hvorratveggju, Trójumanna og Akkea, þó gátu Trójumenn ekki snúið Akkeum á flótta. Þeir voru hvorirtveggju, sem ráðvönd spunakona, er heldur á metinu og ullinni, og jafnar svo niður, að jafnþungt verður á hvorri skálinni, svo hún fái lítilfjörleg vinnulaun handa börnum sínum: svo hélzt bardaginn og orustan jöfn milli þeirra, áður en Seifur veitti Hektori Príamssyni vegsmuninn, þá hann hljóp fyrstur upp á garð Akkea. Hann kallaði hátt til Trójumanna, svo þeir heyrðu allir: „Rísið upp, þér hestfimu Trójumenn, brjótið garð Argverja, og skjótið loganda eldi í skip þeirra!“ 442 Með þessum orðum eggjaði hann þá fram, en þeir heyrðu allir orð hans, og réðust upp á garðinn allir í einu, gengu því næst upp á vígin með oddhvöss spjót í höndum. Hektor greip upp stein, er lá fyrir framan hliðin; hann var þykkur að neðanverðu, en uppmjór ofan til; þeim steini mundu ekki tveir röskvustu almúgamenn auðveldlega lyft hafa af jafnsléttu upp á kerru, slíkir menn sem nú gerast; en hann veifaði honum einn, og veitti ekki um megn. Svo sem smalamaður tekur upp sauðarreyfi, og ber það hæglega í annarri hendi, svo það verður honum lítill byrðarauki: svo tók Hektor upp steininn, og bar hann móts við hinar tvílokuðu, hávu hurðir, er voru fyrir hinum mjög þéttfelldu hliðum; á þeim hurðum innanvert gengu tveir slagbrandar á mis, en einn lykill gekk að þeim. Hektor gekk að dyrunum, stóð gleitt, svo ekki yrði alllítið úr kastinu, spyrndi í og kastaði steininum á miðja hurðina, og braut af báðar nafirnar; féll steinninn þá inn af þyngslunum, hrikti þá mjög í öllum hliðunum; stóðust þá ekki slagbrandarnir, en hurðirnar sprengdust í sundur hvor frá annarri af steinkastinu. Hinn frægi Hektor stökk þá inn í hliðið, líkur undir brún að sjá sviplegri nótt; hann glóaði allur af óttalegum eirmálmi, er hann var búinn með, og hélt á tveimur spjótum, sínu í hvorri hendi. Engi, sem orðið hefði á vegi hans, mundi hafa aftrað för hans, nema guðirnir einir, þegar hann stökk inn í hliðið. Augu hans brunnu af eldi. Hann snérist við í þrönginni og kallaði til Trójumanna, og bað þá ganga upp á garðinn. Þeir gerðu, sem hann bauð; gengu sumir þegar upp á garðinn, en aðrir streymdu inn um hin ramgjörvu hlið. Danáar flýðu til hinna holu skipa, og gerðist nú hinn mesti hávaði. ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR BARDAGI VIÐ SKIPIN. ÞÁ er Seifur hafði greitt Trójumönnum og Hektori veg til skipanna, þá lét hann þá eiga þar í sífelldri þraut og baráttu. En sjálfur snéri hann burt frá þeim hinum björtu augum sínum, og horfði nú á land hinna hestfimu Þrakverja og hinna nærvígu Mýsa, hinna ágætu Hippemolga, er lifa á kaplamjólk, og á land Abía, sem eru allra manna réttlátastir. Hann snéri nú ekki lengur hinum björtu augum sínum til Trójulands, því hann gerði sér ekki í hugarlund, að nokkurr hinna ódauðlegu guða mundi fara til liðveizlu við Trójumenn eða Danáa. 10 En hinn voldugi Landaskelfir hélt engan blindingsvörð, því hann sat uppi á efsta fjallstindinum á hinni skógi vöxnu þraknesku Sámsey, og undraðist ófriðinn og orustuna; þaðan sást allt Ídafjall, þaðan sást Príamsborg og skip Akkea. Hann gekk upp af hafinu og sat nú þar, kenndi nú í brjósti um Akkea, að þeir skyldu sigrast fyrir Trójumönnum, en var ákaflega reiður Seifi. 17 Hann gekk nú þegar ofan af hinu klettótta fjalli, og steig fram fótunum skyndilega; skulfu hin hávu fjöll, og svo skógurinn, undir hinum ódauðlegu fótum Posídons, þá er hann gekk. Hann tók þrjú skref á göngunni, og í fjórða fótmáli komst hann til Ægisborgar, þangað sem hann ætlaði sér. Þar átti hann ágætar hallir í sjávardjúpinu; þær voru af gulli, allar ljómandi, og fyrntust aldrei. Þegar hann kom þangað, beitti hann tveimur hestum fyrir kerru sína; þeir hestar voru einfættir, flugfráir og gullfextir. Sjálfur klæddi hann sig í gull, tók svipu í hönd sér, hún var af gulli og vel tilbúin, steig svo upp í kerru sína, og fór af stað yfir bylgjurnar. Hvalfiskarnir þutu upp úr öllum fylgsnum og léku sér fyrir honum, því þeir þekktu lávarð sinn; sjórinn vék til hliðar af fögnuði, en hestarnir flugu áfram mjög skyndilega, og hjólásinn undir kerrunni, hann var af eiri, gerði ekki svo mikið sem vöknaði. Svo fluttu hinir vökru reiðskjótar Posídon til skipa Akkea. 32 Í milli Teneduseyjar og hinnar klettóttu Imbreyjar er einn víður hellir í undirdjúpi sjávarins; þar lét Posídon landaskelfir hestana nema staðar, beitti þeim frá kerrunni, og kastaði fyrir þá ódáinsfóðri að eta; hann lét hnappeldur um fætur þeim; þær voru af gulli, óslítandi og órjúfandi; gerði hann það, svo þeir væru þar einlægt kyrrir, þar til lávarður þeirra kæmi aftur, en sjálfur fór hann til herbúða Akkea. 39 Trójumenn fylgdu Hektori Príamssyni í einum hnapp, líkir eldsloga eða vindbyl; þeir voru hinir áköfustu, höfðu glaum mikinn og kölluðu hátt; gerðu þeir sér í hug, að þeir mundu tekið fá skip Akkea, og drepið marga menn þeirra við skipin. En er hinn jarðkringjandi Posídon landaskelfir var kominn upp af enum djúpa sæ, fór hann og eggjaði fram Argverja; var hann þá í líki Kalkasar, jafnvöxtulegur og jafnraddsterkur. Hann mælti fyrst til beggja þeirra Ajanta, enn þótt í þeim væri nógur áhugi af sjálfu sér: „Þið Ajantar munuð að vísu frelsað geta her Akkea, ef þið neytið karlmennsku ykkar og látið ekki hugfallast. Hvergi óttast eg aðsókn Trójumanna, þó þeir hafi nú komizt upp á hinn mikla garð með sveit nokkura, því hinir fagurbrynhosuðu Akkear munu varið fá garðinn fyrir þeim öllum; nema á einum stað er eg hræddastur um að oss veiti erfitt, þeim megin sem hann er fyrir, sá hinn hamrami, líkur eldsloga, hann Hektor, er sagður er sonur hins þróttöfluga Seifs. Ef einhverr guðanna vildi blása ykkur því í brjóst, að standa sjálfir hraustlega fyrir, og svo eggja aðra, þá munduð þið fá rekið hann frá hinum örskreiðu skipum, þó hann sé nú ákafur mjög, og þó jafnvel sjálfur Ólympsguð eggi hann fram“. 59 Að því mæltu laust hinn jarðkringjandi Landaskelfir þá báða með sprota sínum, og fyllti þá með megnum hugmóð. Hann gerði fima limu þeirra, bæði fætur og hendur, en sjálfur hvarf Posídon landaskelfir burt frá þeim, sem skjótfleygur haukur, er hefur sig til flugs upp af ógnahávum, ógengum hamri, og þýtur yfir undirlendið til að elta aðra fugla. Hinn skjóti Ajant Öyleifsson varð fyrri til að þekkja hann, og mælti þegar til Ajants Telamonssonar: „Fyrst einhverr guða þeirra, er á Ólympi búa, hvetur okkur, Ajant, í spámanns líki, að halda uppi orustu hjá skipunum, þá látum okkur fara; því ekki er þetta hinn forspái fuglaspámaður Kalkas; það gat eg hæglega séð af fótaburði hans, þá hann gekk burt, en guðir eru jafnan auðkennilegir; svo vaknar og hjá sjálfum mér í brjósti mínu enn meiri áhugi, en áður, til orustu og bardaga, og fætur mínir og hendur iða af ákafanum“. 76 Ajant Telamonsson svaraði honum: „Svo er og með mig, að hinar afar sterku hendur mínar eru óþolinmóðar utan um spjótskaftið, hugmóður tekur til að hreyfa sér í mér, og fætur mínir vilja ólmt áfram; mig langar til, þó eg væri einn, að ganga til bardaga við Hektor Príamsson, sem aldrei lætur af berserksganginum“. 81 Slíkum orðum töluðust þeir við, glaðir af þeim vígahug, er guðinn hafði skotið í brjóst þeim. Á meðan hvatti hinn jarðkringjandi guð þá af Akkeum, er voru bak við garðinn og svöluðu brjósti sínu hjá hinum fljótu skipum; limir þeirra voru orðnir lémagna af sárum lúa, og þeim sárnaði í hjarta að líta Trójumenn, er komnir voru í þyrpingu upp á hinn mikla garð. Þegar þeir horfðu á þá, hrundu þeim tár af hvörmum, því þeim þókti örvænt, að þeir mundu fá undan stýrt ógæfunni. En Landaskelfir gekk inn um flokkinn, og hughreysti skjótt hinar sterku fylkingar. Hann fór fyrst og eggjaði þá Tevkrus og Leitus, þá kappann Penelás, Þóant og Deípýrus, þá herforingjana Meriónes og Antílokkus. Þessa eggjaði hann, og mælti til þeirra skjótum orðum: „Minnkun er þetta, Argverjar, ungir sveinar! Eg bar það traust til yðar, að þér munduð halda uppi bardaga og frelsa skip vor. En ef þér viljið hlífast við, og ætlið ekki að ganga út í hinn hættulega ófrið, þá er nú sá dagur kominn, að vér munum sigraðir verða af Trójumönnum. Mikil skelfing! Stór furða ber fyrir augu mér, sú ógn, er eg ætlaði að aldrei mundi fram koma, að Trójumenn skyldu ráðast á skip vor, þeir sem áður hafa líkir verið flóttgjörnum hindum, sem reika ráðlauslega, þreklausar og ónýtar til mótstöðu, og verða gullrefum, pardusdýrum og úlfum að bráð í skóginum. Svo hafa Trójumenn ekki þorað að undanförnu að gera hina minnstu mótstöðu gegn áhuga og áhlaupi Akkea; en nú berjast þeir fjarri borginni hjá hinum holu skipum fyrir sakir ofstopa hershöfðingjans og nenningarleysis hermannanna, því þeim semur ekki við hann, og vilja ekki verja hin örskreiðu skip, en láta heldur drepa sig niður hjá skipunum. En látum nú vera, að öðlingurinn, hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson, sé raunar skuld í því, sökum þess hann svívirti hinn fóthvata Peleifsson; en oss ber þó engan veginn að liggja á liði voru í orustunni, heldur eigum vér sem fyrst að ráða hér bætur á, og er jafnan auðbætt skaplyndi göfugra manna. Það tjáir ekki framar, að allir þér, sem eruð hraustastir menn í hernum, skuluð ekki fram leggja það ofurafl, sem þér hafið. Ekki mundi eg fá mér til orða, þó einhverr vesalingurinn nennti ekki að ganga í bardaga; en yður lái eg það stórlega. Bráðum munuð þér, góðir hálsar, koma til leiðar með nenningarleysi þessu einhverri enn meiri ógæfu. Látið yður heldur hugfast vera, hverjum fyrir sig, hvað yður sómir, og hvað yður er láandi; því nú er mikil rimma upp risin; berst hinn hrausti, rómsterki Hektor nú hjá skipunum, og hefir brotið hliðið og hinn langa slagbrand“. 125 Þannig eggjaði Láðvaldur Akkea með sífelldum áeggjunum. Herfylkingarnar stóðu í kring um þá báða Ajanta; þær sveitir voru svo styrkar, að þó Ares og hin hersvæsna Aþena hefðu gengið um þann her, mundi hvorugu hafa þókt neins ábótavant; því þangað höfðu valizt hinir hraustustu menn; biðu þeir Trójumanna og hins ágæta Hektors, og hlífðust svo, að þeir héldu spjóti við spjót, og tjörgu þétt við tjörgu; þar studdi skjöldur skjöld, hjálmur hjálm og maður mann; hinir fextu hjálmar komu við hinar fögru hjálmbólur, þegar menn lutu áfram: svo þétt stóðu þeir hverir hjá öðrum; spjótin svignuðu, þá þau voru reidd af hinum hraustu höndum, en hermennirnir vildu áfram, og voru ákaflega fúsir að berjast. 136 Trójumenn geystust fram í þyrpingu; fór Hektor fyrir þeim; hann sókti ákaft fram, svo sem hnullungur hrýtur fram af bergi, þegar fjallstraumur hefir í æsihríðum rifið burtu það, sem hélt steininum föstum við hið feiknarlega bjarg, og hrundið honum fram af brúninni; stökkur hann þá og flýgur í loftinu, svo skógurinn dunar undir, en hann hleypur einlægt viðstöðulaust, þar til hann kemur ofan á jafnsléttu; þá veltist hann ekkert, þó áður hafi verið hart á honum kastið: svo hafði Hektor stór orð um hríð, að sér mundi hægt veita að komast gegnum búðir og skip Akkea með manndrápum allt að sjó fram. En er fyrir honum urðu þéttskipaðar fylkingar, nam hann staðar, þá hann var kominn rétt að þeim; en synir Akkea snérust við honum, lögðu sverðum og tvíyddum spjótum, og ráku hann af sér, en hann fór undan þeim í flæmingi. Kallaði hann þá hátt upp, svo Trójumenn máttu heyra mál hans: „Bíðið kyrrir, þér Tróverjar og Lýkíumenn, og þér nærgönglu Dardanar. Ekki munu Akkear fá staðizt mig til lengdar, hversu sem þeir skipa sér saman í þétta flokka; heldur munu þeir, vonar mig, hörfa undan spjóti mínu, svo framarlega sem hinn æðsti guð, hinn hádunandi frumver Heru, hefir eggjað mig fram“. 155 Með þeim orðum hvatti hann hug og hjarta hvers manns. Þá gekk fram í hernum hinn stórhugaði Deífobus Príamsson; hann hafði fyrir sér kringlóttan skjöld; steig hann fótum létt til jarðar og gekk fram með skjöldinn fyrir sér. Þá skaut Meríónes til hans björtu spjóti, og missti hans ekki; kom hið langa spjót í hinn kringlótta uxaleðursskjöld, en brotnaði í falnum, áður en það komst í gegnum skjöldinn. Deífobus hélt frá sér leðurskildinum, því hann var hræddur við spjót hins herkæna Meríóness; en kappinn Meríónes hopaði á hæl aftur í flokk félaga sinna, og þókti stórum fyrir hvorutveggja, að hann missti sigursins og hafði brotið spjót sitt. Fór hann þá af stað til búða og skipa Akkea, að sækja sér eitt langt spjót, er hann hafði skilið eftir í búð sinni. 169 Á meðan börðust hinir, og risu upp óstöðvandi óhljóð. Tevkrus Telamonsson vó þá fyrstur mann, hinn spjótfima Imbríus, son hins hestauðga Mentors. Hann bjó í Pedeonsborg, áður en synir Akkea komu, og átti Medesíköstu, laundóttur Príamuss. En er hin borðrónu skip Danáa voru komin þar við land, fór hann aftur til Ilíonsborgar og hafði meiri metorð, en aðrir Trójumenn, bjó hann hjá Príamus, og virði Príamus hann jafnt sonum sínum. Telamonsson lagði hann löngu spjóti fyrir neðan eyrað, og kippti út spjótinu; féll Imbríus þá, sem askur sá, er höggvinn er með eiröxi á tindi fjalls nokkurs, er blasir við alla vega langar leiðir í burt, og hneigir þá askurinn til jarðar þau hin mjúku laufblöð sín. Svo féll Imbríus, og glömruðu hin eirbúnu vopn utan á honum. Tevkrus brá þá við, og vildi fletta hann vopnum, en er hann sókti fram, skaut Hektor til hans björtu spjóti. Tevkrus sá beint á Hektor, og vék sér undan eirspjótinu lítt það; kom spjót Hektors þá í brjóst á Amfímakkus, syni Kteatuss Aktorssonar, í því hann gekk fram í bardagann; féll hann þegar, og varð dynkur mikill, en vopnin glömruðu ofan á honum. Þá hljóp Hektor til og vildi svipta af höfði hins stórhugaða Amfímakkuss hjálmi þeim, er féll að gagnaugum hans. En er Hektor réðst fram, lagði Ajant til hans fögru spjóti, en kom hvergi sári á hann, því hann var allur hlífaður ógurlegum eirmálmi. Þá lagði Ajant í skjaldarnöfina, og hratt Hektori með miklu afli, hopaði Hektor þá aftur fyrir bæði líkin, og tóku þá Akkear líkin og komu þeim undan. Stikkíus og hinn ágæti Menesteifur, höfðingjar Aþenumanna, tóku Amfímakkus og báru hann í flokk Akkea; en báðir þeir Ajantar, berserkirnir, tóku Imbríus, svo sem tvö ljón hrifsa geit af tannhvössum hundum, halda henni hátt upp frá jörðu í skoltunum og bera hana í gegnum hina þéttu hrísrunna: svo héldu báðir hinir hervopnuðu Ajantar Imbríus á lofti, meðan þeir flettu hann herklæðum, en Öyleifsson hjó höfuðið frá hinum mjúka hálsi, því hann var reiður af falli Amfímakkuss; síðan slengdi hann höfðinu sem knetti, og fleygði því gegnum mannþröngina, og féll það í moldina fyrir fætur Hektori. 206 Þá var Posídon afar reiður, er sonarsonur hans var fallinn í hinum grimma bardaga; gekk hann þá af stað til búða og skipa Akkea til að eggja Danáa, því hann bjó Trójumönnum harma. Þá mætti honum hinn spjótfimi Idomeneifur; hann kom frá einum félaga sinna; er nýkominn var úr orustunni og hafði verið særður í knésbótina með hvössu eirvopni; báru sveinar hans manninn, en Idomeneifur hafði falið hann læknunum, og gekk þá til búðar sinnar, því hann langaði enn út í bardagann. Hinn voldugi Landaskelfir mælti þá til hans; var hann þá líkur í málrómi Þóanti Andremonssyni, sem var konungur yfir Etólum í öllu Plevronslandi og í hinni hálendu Kalýdonsborg; var hann virtur af landslýðnum, sem væri hann einhverr goðanna: „Idomeneifur (kvað hann), höfðingi Krítarmanna, hvað er nú orðið af hótunum þeim, er synir Akkea höfðu við Trójumenn?“ 221 Idomeneifur, foringi Krítarmanna, svaraði honum: „Engum manni er þar um að kenna, Þóant, að því, er eg veit til; því vér kunnum allir vel til hernaðar; engi lætur sigrast af kjarklausum ótta, og engi skorast undan hinum hættulega ófriði sökum viljaleysis; hitt mun heldur vera, að það mun vera vilji hins afar sterka Kronussonar, að Akkear verði drepnir hér frægðarlausir, langt í burt frá Argverjalandi. En, þú Þóant, með því þú að undanförnu hefir verið ófælinn í orustu, og eggjar jafnan hvern þann, er þú sér liggja á liði sínu, þá lát nú ekki af að upphvetja sérhvern mann“. 231 Posídon landaskelfir svaraði honum: „Idomeneifur, komist sá maður aldrei heim aftur frá Trójulandi, heldur verði hér að leikfangi hunda, sem á þessum degi liggur á liði sínu viljandi í orustunni. En þú lát nú sjá, tak vopn þín og kom hingað! Við verðum báðir að leggja léttann á, og vita, ef vér megum verða að nokkuru liði, þó við séum eigi nema tveir, því að liði verður, þó lítt sé undir einum, orka manna, ef á eitt leggjast; munum við kunna að beita vopnunum, og jafnvel þó við eigum við hrausta menn að skipta“. 239 Að því mæltu gekk Posídon aftur út í bardagann, en Idomeneifur fór til hinnar ramgjörvu búðar sinnar; og er hann kom þar, fór hann í fögur herklæði og tók í hönd sér tvö spjót. Síðan fór hann af stað, líkur eldingu, þeirri er Kronusson tekur með hendi sinni og slengir ofan af hinum ljómanda Ólympi, þá hann birtir dauðlegum mönnum einhvern fyrirburð, því geislarnir af þeirri eldingu eru mjög auðkennilegir: svo lýsti af eirmálminum á brjósti Idomeneifs, þá hann hljóp. Þegar hann var skammt kominn frá búðinni, mætti honum Meríónes, hinn vaski sveinn hans; hann fór til að sækja sér eirspjót. Hinn sterki Idomeneifur mælti til hans: „Þú fóthvati Meríónes Mólusson, minn kærasti félagi, hví kemur þú úr orustunni og ófriðnum? Kemur þú til mín þess erindis, að færa mér einhver tíðindi? Fyrir mitt leyti vil eg heldur vera í orustu, en sitja heima að búð minni“. 254 Hinn vitri Meríónes svaraði honum: „Eg kem til að sækja mér spjót, ef eitthvert kann eftir að vera í búð þinni; því eg braut það spjót, er eg hafði áður, þá eg skaut því í skjöld hins ofurhugaða Deífobuss“. 259 Idomeneifur, foringi Krítarmanna, svaraði honum: „Í búð minni muntu finna tróversk spjót, þó þú viljir tuttugu fyrir eitt; eru þau reist upp við hina skínandi forsalsveggi; þau spjót hefi eg tekið af vegnum mönnum, því eg ætla, að eg standi ekki langt frá óvinunum, þá eg er í bardaga; fyrir þá sök á eg bæði spjót og baugnafaða skjöldu, hjálma og glóbjartar brynjur“. 266 Hinn vitri Meríónes svaraði honum: „Eg á og mörg vopn veginna Trójumanna í búð minni og hjá hinu svarta skipi mínu, en það er langt að sækja þau þangað. Eg má og segja það um mig, að eg er ekki vanur að liggja á liði mínu, heldur stend eg fremstur í flokki í hinum mannfræga bardaga, ef einhver ófriðarrimma rís upp. Ætla eg, að þér muni kunnugt vera, hversu eg geng fram í bardögum, þó vera megi, að aðrir eirbrynjaðir Akkear taki ei eftir því“. 274 Idomeneifur, foringi Krítarmanna, mælti til hans: „Veit eg, hversu þú ert til framgöngu. Hvað þarftú á slíkt að minnast? Því þó allir þeir, sem hraustastir eru af oss hér við skipin, væru valdir til að setjast í launsátur, þar sem helzt ber á hreysti manna, með því þar sést bezt, hverr huglaus er, og hverr hraustur er: því hinn huglausi skiptir litum ýmsa vega; hann hefir ekki stöðugleik í sér til að sitja kyrr, heldur kiknar hann í knjám og húkir báðum fótum á víxl; hjartað berst mjög í brjósti hans, af því hann óttast bana sinn, og tennurnar nötra í honum; en sá sem hugaður er, hann bregður aldrei lit, og hann æðrast aldrei, þegar hann eitt sinn er setztur í launsátur; hann óskar heldur að eiga sem fyrst vopnaskipti í skæðri orustu. Þó þú nú værir í slíku launsátri, mundi engi maður geta fundið að áhuga þínum eða áræði; því þó þú fengir skot eða lag í bardaga, mundi skotvopnið ekki lenda aftan í hnakka þér eða baki, heldur mundi það koma að framan, annaðhvort í brjóstið eða í kviðinn, í því þú værir að sækja fram í flokki forvígismannanna. En tölum ekki lengur um þetta, stöndum hér ekki lengur, svo sem óvitar, svo engi geti veitt oss stórkostlegar ávítur. Gakk þú nú til búðarinnar, og tak þér eitthvert sterkt spjót“. 295 Þannig mælti hann, en Meríónes brá skjótt við, líkur hinum sviplega Aresi, og sókti sér eirspjót inn í búðina, kom svo til Idomeneifs, og var honum nú mjög annt um að komast til orustu. Svo sem hinn mannskæði Ares gengur til orustu, og fylgir honum Flótti, sonur hans; hann er jafnsterkur, sem hann er æðrulaus, og hefir hann skotið mörgum hermanni skelk í bringu, þó hugaður hafi verið; fara þeir feðgar herbúnir frá Þrakalandi til Effýra eða til hinna hugstóru Flegýa, verða þó ekki við bæn þeirra beggja, heldur veita sigurinn öðrum hvorum. Í þá líking gengu þeir hermannaforingjarnir, Meríónes og Idomeneifur til orustunnar, búnir glóanda eirmálmi. Þá tók Meríónes fyrri til orðs, og mælti til Idomeneifs: „Devkalíonsson! Hvar hyggur þú að ganga inn í herinn? hægra megin alls hersins, eða í herinn miðjan, eða vinstra megin? Því ekki hygg eg, að hina hárprúðu Akkea skorti svo aðsókn, að þeir þurfi hvergi liðs við“. Idomeneifur, foringi Krítarmanna, svaraði honum: 311 „Fyrir miðjum skipunum eru nógir menn til varnar, þar sem eru báðir þeir Ajantar og svo Tevkrus, sem er einhverr ágætasti bogmaður af Akkeum og hraustur til framgöngu í fastabardaga; munu þessir þrengja svo að Hektori Príamssyni, þó hann sæki mjög fast bardagann og sé allsterkur, að honum mun nóg þykja; mun honum erfitt veita, þó hann sé allákafur að berjast, að sigra áhuga og berserksgang þeirra og kveikja í skipunum, nema sjálfur Kronusson skjóti loganda eldibrandi í hin fljótu skip; því ekki mun hinn mikli Ajant Telamonsson undan vægja fyrir nokkurum manni, þeim er dauðlegur er og etur Demetru korn, og bíti á hann eirvopn og stórir vopnsteinar; í höggorustu mundi hann jafnvel ekki víkja fyrir Akkilles fylkingabrjót, þó hann engan veginn megi við hann keppa í fráleik. Halt þú svo fram vinstra megin hersins, svo við getum sem fyrst séð, hvort við vinnum okkur til ágætis á nokkurum, eða nokkurr á okkur“. [Mynd: Bardagi hjá skipunum.] 328 Þannig mælti hann, en Meríónes gekk á undan, líkur hinum skjótlega Aresi, þar til er þeir komu þar til hersins, sem Idomeneifur hafði boðið honum. 330 En er Trójumenn litu Idomeneif, líkan að afli eldsloga, bæði sjálfan hann og svein hans, búna glæsilegum hervopnum, þá æptu þeir um allan herinn og gengu allir móti honum. Hófst nú orusta milli Tróverja og Akkea hjá skutstöfnum skipanna. Svo sem byljir æða undan hvínandi vindum, þann dag er mest er moldrykið á götunum, og þeyta upp allt í einu stórum rykmokk: svo laust þeim saman í bardaganum, og vildu hvorirtveggju ákaft drepa hvorir aðra í ösinni með beittu eirvopni. Hin mannskæða orustu varð úfin af hinum bitvænlegu langspjótum, er þeir héldu á. Eirbjarminn, er lagði af hinum skínandi hjálmum, nýfægðu brynjum, og björtu skjöldum, glapti sjón manna, þá þeim lenti saman. Sá maður hefði orðið að vera mjög djarfhugaður, sem þá hefði haft gaman og ekki angur af að horfa á þær aðfarir. 345 Báðir hinir voldugu synir Kronusar skópu hinum fræknu köppum sárar raunir. Þeir héldu sinn með hvorum bræður; Seifur ætlaði Trójumönnum og Hektori sigurinn, því hann vildi gera hinn fóthvata Akkilles vegsamlegan; ekki vildi hann, að hinn akkneski her eyddist með öllu fyrir framan Ilíonsborg, heldur vildi hann vegsama Þetisi og hinn hugstóra son hennar. En Posídon, er leynilega hafði skotizt upp af enum gráa sæ, gekk meðal Argverja og eggjaði þá fram; féll honum þungt, að þeir fóru halloka fyrir Trójumönnum, og var ákaflega reiður Seifi. Að vísu var söm ætt þeirra beggja, og föðurland hið sama, en Seifur var þeirra eldri og margfróðari. Þess vegna varaðist Posídon að liðsinna Akkeum opinberlega, en fór heldur á laun um herinn í mannslíki, og eggjaði þá. En báðir fléttuðu þeir hinn óslítanda og órjúfanda streng ennar sterku deilu og hins sameiginlega ófriðar, og brugðu honum um hvoratveggju, og fékk sá strengur mörgum manni á kné komið.[*] [* Þ.e. Seifur og Posídon létu herfjötur koma bæði í Akkea og Trójumenn, svo margir menn féllu af hvorumtveggjum.] 361 Idomeneifur, þó hann væri hálfgrár fyrir hærum, eggjaði nú Danáa, stökk fram meðal Trójumanna og skaut þeim skelk í bringu. Hann vó Oþrýoneif; hann var frá Kabesus, og hafði komið til borgarinnar, skömmu eftir að fregnin barst um ófriðinn; hann bað Kassöndru, sem var einhver hin fríðasta af dætrum Príamuss, og að hann fengi hennar mundlaust, en hét í móti að vinna það þrekvirki, að reka sonu Akkea nauðuga burt úr Trójulandi; hét Príamus þessu, og lofaði að gefa honum dóttur sína; gekkst Oþrýoneifur fyrir þessu loforði, og barðist með Príamusi. En Idomeneifur skaut til hans fögru spjóti, þar sem hann gekk heldur hástígur; kom skotið í hann, því eirbrynja sú, er hann var í, stóðst ekki skotið, og gekk spjótið á hol inn í kviðinn, féll hann þá, og varð við dynkur mikill. Idomeneifur hældist þá um, og mælti: „Oþrýoneifur, eg skal þá hrósa þér um alla menn fram, ef þú efnir allt það, er þú lofaðir Príamusi Dardansniðja, þá er hann hét þér dóttur sinni. Vér skulum nú lofa þér því, og svo efna það, að vér skulum sækja til Argverjalands fríðustu dóttur Atreifssonar og gifta þér hana, ef þú leggur í eyði með oss hina fjölbyggðu Ilíonsborg. Kom nú með mér til hinna haffæru skipa, þar munum við semja með okkur um giftinguna, því við erum öngvir harðir giftingarmenn“. 383 Að því mæltu tók kappinn Idomeneifur í fót hans, og dró hann í þeim harða bardaga. Þá kom Asíus til varnar líki Oþrýoneifs; hann var á fæti, og stóð fyrir framan kerru sína; en kerrusveinn hans hélt hestunum ávallt svo nærri, að nasablástur þeirra lenti á baki hans. Asíus vildi skjóta Idomeneif, en Idomeneifur varð fyrri til, og skaut spjóti undir höku honum í barkann; gekk eirvopnið í gegn og út hinu megin; féll hann þá, sem eik fellur, eða ösp, eða hávaxin fura, er smiðir höggva til skipatimburs á fjöllum uppi með nýhvöttum öxum. Þannig lá Asíus endilangur fyrir framan hestana og kerruna; hann rumdi og gruflaði með höndunum í blóðugri moldinni. En kerrusveini hans féllst hugur, og þorði hann ekki að snúa hestunum við, til að komast undan höndum óvina sinna; skaut þá hinn vígglaði Antílokkus spjóti til hans, kom á hann miðjan og í gegnum hann; hlífði honum ekki eirbrynja sú, er hann hafði á sér; gekk spjótið á hol inn í kviðinn; féll hann þá með andköfum ofan af hinni ramgjörvu kerru, en Antílokkus, sonur ens hugstóra Nestors, rak hestana úr flokki Trójumanna til hinna fagurbrynhosuðu Akkea. 402 Deífobusi sárnaði fall Asíusar; hann gekk mjög fram að Idomeneifi, og skaut björtu spjóti. Idomeneifur horfði beint á hann, og forðaði sér fyrir eirvopninu, og fól sig undir hinum kringlótta skildi sínum; hann hafði skjöld af uxahúðum; hann var bjúgrendur, lagður skínanda eirmálmi, og á honum tvær skjaldrimar. Hann hnipraði sig allan inn undir skjöldinn, en eirvopnið flaug fyrir ofan skjöldinn, og gnurraði í skildinum, þegar spjótið þaut yfir hann. Þó skaut Deífobus ekki spjótinu til ónýtis úr hinni þungu hendi sinni, því það kom á herforingjann Hypsenor Hippasusson í lifrina niður við þindina, og féll hann þegar til jarðar. Deífobus hældist þá um ákaflega, og kallaði upp hátt: „Víst liggur Asíus ekki óhefndur; það hygg eg, að hann fari með glöðu geði til hinnar harðlæstu hallar Hadesar, því nú fékk eg honum samferðamanninn“. 417 Þannig mælti hann, en Argverjum sárnaði, er hann hældist svo um; en mest sveið það hinum herkæna Antílokkus, og þó yfirgaf hann ekki félaga sinn, þó hann tæki sárt til hans, heldur hljóp hann í kring um hann honum til varnar, og hlífði honum með skildi sínum; en tveir trúir félagar hans, Mekisteifur Ekkíusson og hinn ágæti Alastor, hófu Hypsenor upp á axlir sér, og báru hann til hinna holu skipa, og stundi hann þá þungan. 424 Idomeneifur lét ekki dvína hinn mikla hugmóð sinn, heldur vildi ávallt annaðhvort sveipa einhvern Trójumanna í svartri nótt, eða falla sjálfur til að afstýra hættunni frá Akkeum. Hann vó nú kappann Alkaþóus, son Esýetess, fóstursonar Seifs. Alkaþóus var dótturmaður Ankísess, og átti Hippodamíu, elztu dóttur hans. Faðir hennar og hin heiðvirða móðir höfðu mikla ást á henni, meðan hún var heima, því hún var öllum konum framar, þeim er henni voru jafnaldra, að fríðleik, hannyrðum og vitsmunum, og fyrir þá sök fékk hennar og einhverr hinn hraustasti maður í öllu Trójulandi. Þann mann lét Posídon þá falla fyrir Idomeneifi; hann töfraði hin björtu augu hans, og fjötraði hans fögru fætur; því hann gat hvorki hörfað aftur, né forðað sér, heldur stóð grafkyrr, sem einhver stólpi eða hálaufgað tré; og í því lagði kappinn Idomeneifur spjóti í brjóst honum, og rauf eirbrynjuna, er hann var í; sú brynja var áður vön að hlífa honum við voða, en þá brast hún við dimmt, er hún rifnaði fyrir spjótinu; fell hann þá, og varð dynkur mikill, en spjótið stóð fast í hjartanu, og kipptist þá hjartað svo við, að aurfalurinn á spjótinu hristist, og þar missti loks hinn sterki málmur magnið sitt. Idomeneifur hældist þá um ákaflega, og kallaði hátt: „Mjög hælist þú um af munni fram, Deífobus! Hvort skulum vér nokkuð telja það samskulda, að þrír menn eru vegnir fyrir einn? þú hinn armi, kom nú og gakk sjálfur móti mér, svo þú reynir, hvílíkur eg em, sem hingað er kominn, afspringur Seifs, þess er fyrst gat Mínos, lávarð Kríteyjar, en Mínos átti fyrir son hinn ágæta Devkalíon, en Devkalíon átti mig, yfirkonung margra manna á hinni víðlendu Krítarey; en nú fluttu mig skip mín hingað, þér til ógæfu og föður þínum, og öðrum Trójumönnum“. 455 Þannig mælti hann, en Deífobus var á tveim áttum, hvort hann skyldi heldur snúa aftur og fá sér einhvern liðsmann af hinum hugstóru Trójumönnum, eða hann skyldi freista, hvað hann mætti orka einn. En er hann hugsaði um þetta, þókti honum ráðlegra að fara og hitta Eneas; fann hann hann, þar sem hann stóð aftastur í flokknum, því Eneas var jafnan reiður hinum ágæta Príamus, fyrir þá sök að þó Eneas væri hraustasti maður, þá hafði hann þó enga virðingu hjá Príamus: Deífobus gekk til hans og mælti skjótum orðum: „Eneas, höfðingi Trójumanna, nú er öll þörf á, að þú verjir systurmann þinn, ef þig tekur nokkuð sárt til hans. Kom nú með mér, við skulum verja Alkaþóus, sem var systurmaður þinn, og fóstraði þig fyrrum í höllinni, meðan þú varst dálítill. Hinn spjótfimi Idomeneifur hefir nú drepið hann fyrir þér“. 468 Þannig mælti hann, og hrærði hugann í brjósti hans; gekk Eneas móti Idomeneifi, og var á honum mikill víghugur. Idomeneifur lagði ekki á flótta, svo sem ómagi, heldur beið hann úr stað, svo sem villigöltur bíður í eyðistað á fjöllum uppi eftir mikilli mannös, sem að honum fer; augu hans brenna af eldi, hann þeytir upp burstina á baki sér og brýnir tennurnar, og er í honum ákafahugur að verja sig fyrir hundum og mönnum: svo beið hinn spjótfimi Idomeneifur án þess að víkja úr stað, þó Eneas kæmi hlaupandi að honum til bardaga; en hann kallaði til félaga sinna, og leit til hermannanna, Askaláfs, Afareifs, Deípýruss, Meríóness og Antílokkuss; til þessara kallaði hann, og mælti skjótum orðum: „Komið hingað, vinir, og hjálpið mér; eg em einn, og óttast mjög hinn fóthvata Eneas, sem hingað sækir að mér; hann er mesti vígamaður í bardaga, hann er í blóma æsku, og veitir það honum mestan styrk. Eg vildi óska, að eg væri jafnungur og hann, og með þeim hug, sem eg nú hefi; þá mundi annar hvorr okkar skjótt vinna sigurinn“. 487 Þannig mælti hann, en þeir gengu allir til í einum hug, og staðnæmdust hjá honum, og höfðu skjölduna á hlið sér. Hins vegar kallaði Eneas til félaga sinna, og leit til Deífobuss, Parisar og hins ágæta Agenors, sem ásamt honum voru fyrirliðar Trójumanna; en hermennirnir fylgdu á eftir honum, sem sauðir fylgja hrút úr haga til að drekka, og verður smalamaður af því alls hugar feginn. Svo gladdist hjarta Eneasar innan brjósts, þá er hann sá hermannaflokkinn fylgja eftir sér. 496 Nú sóktust þeir að í höggorustu með löngum spjótum í kring um Alkaþóus; glumdu eirvopnin ógurlega á brjóstum þeirra, er þeir skutust á í ösinni. En tveir frábærir kappar, Eneas og Idomeneifur, er líkir voru Aresi, vildu ákaft koma sárum hvorr á annan með hörðum eirvopnum; skaut Eneas fyrst spjóti til Idomeneifs; en Idomeneifur horfði beint fram og forðaði sér við eirspjótinu; flaug bitvopn það, er Eneas hafði skotið, til ónýtis úr hans sterku hendi, og hljóp í jörð niður. Idomeneifur skaut til Öynómáss, og kom í kviðinn; rauf eirvopnið brynjuboðanginn og hljóp á kaf inn í iðrin, en hann féll í moldina og greip í jörðina með lúku sinni. Idomeneifur kippti hinu langskefta spjóti út úr hinum dauða, en hin en fögru vopn gat hann ekki tekið af honum, því skotvopnin stóðu á honum; voru nú fótlimir hans ekki lengur styrkvir til hreyfingar, hvorki til að hlaupa fram eftir skotvopni sínu, eða til að forða sér undan. Þess vegna varði hann líf sitt í fastabardaga, þar eð fæturnir báru hann ekki nógu skjótt til þess, að hann gæti flúið úr orustunni. Meðan hann nú gekk aftur fót fyrir fót, skaut Deífobus til hans björtu spjóti, því hann hafði ávallt illan hug til hans; en einnig í það skipti missti Deífobus hans; kom skotið á Askaláf Enýalíusson, og gekk hið sterka spjót í gegnum öxl hans; féll hann þá í moldina og greip í jörðina með lúku sinni. Hinn sterkrómaði, kraftamikli Ares hafði enn ekki frétt, að sonur hans var fallinn í hinni hörðu orustu; því eftir ráðstöfun Seifs sat hann þá efst á Ólympi, hnepptur undir gullský; þar voru og hinir aðrir ódauðlegu guðir, frábægðir ófriðnum. 526 Nú sóktust Tróverjar og Akkear í höggorustu kring um Askaláf. Deífobus greip hinn fagra hjálm af Askaláfi, en Meríónes hljóp til, líkur enum sviplega Aresi, og rak spjót í handlegg hans; hraut þá kambpípuhjálmurinn úr hendi hans til jarðar og söng við. Meríónes hljóp þá aftur til, sem gammur, og kippti hinu sterka spjóti úr upphandleggnum, hörfaði síðan aftur í flokk félaga sinna. En Polítes, skilgetinn bróðir Deífobuss, tók höndum um miðjan bróður sinn, og leiddi hann út úr hinni róstusömu orustu, þar til er hann kom til hinna fráu hesta sinna, er stóðu hjá kerrusveini hans og hinum skrautlega vagni á orustubaki; drógu þeir hann til borgarinnar, en hann stundi þungan, og þjáðist mjög, en blóðið rann niður af hendinni þeirri hinni nýsærðu. 540 Hinir héldu nú áfram að berjast, og reis þar upp óaflátlegt heróp. Þá stökk Eneas fram, og lagði hvössu spjóti í barka Afareifi Kaletorssyni, því hann snérist við honum; hallaðist þá höfuð hans út á aðra hliðina, fylgdi þar með skjöldurinn og hjálmurinn, en banvænn dauðinn sveif yfir hann. Antílokkus sætti lagi, þá Þóon snéri sér við, stökk að honum og hjó til hans, og þverhjó í sundur holæðina, sem liggur upp eftir endilöngu bakinu og gengur upp í háls; hana hjó hann þvert í sundur; féll Þóon þá flatur í moldina, og breiddi báðar hendur móti vinum sínum. Antílokkus skyggndist um, stökk fram og tók vopnin af herðum hans, en Trójumenn stóðu umhverfis um hann alla vega, og lögðu í hinn víða, blikanda skjöld hans, gátu þó ekki lagt inn úr skildinum, svo þeir kæmi sári á hið fríða hörund Antílokkuss með hinum hörðu eirvopnum, því Posídon landaskelfir varði Nestorsson á alla vega, enn þótt mörg skotvopn stæði á honum; því aldrei var Antílokkus langt frá óvinum sínum, heldur hafðist hann við mitt inn í flokki þeirra; ekki var heldur spjót hans kyrrt, heldur blikaði það ávallt á lofti, er því var brugðið mjög snarlega; því hann hafði þar á allan huginn, að skjóta til einhvers, eða að öðrum kosti að vaða fram í höggorustu. 560 Adamant Asíusson varð þess varr, að Antílokkus mundaði spjót sitt í flokknum; hann hljóp fram að honum og lagði beittu eirvopni í miðjan skjöld hans; en hinn bláhærði Posídon deyfði spjótið fyrir honum og bægði því frá lífi Antílokkuss; sat annarr hluti spjótsins kyrr, sem eldsviðinn staur, þar sem hann var kominn í skildi Antílokkuss, en hinn endinn lá á jörðunni. En í því Adamant gekk burt aftur, hljóp Meríónes eftir honum og lagði spjóti á honum milli hræranna og naflans, þar sem sárastur höggstaður er á vesölum mönnum; þar rak hann spjótið í hann, en Adamant féll við skotið og spriklaði á spjótinu, svo sem uxi sá, er nautamenn hefta með valdi nauðugan á fjöllum uppi og leiða með sér; svo spriklaði hann, þá hann fékk lagið; var það skömm stund og ekki alllöng, því kappinn Meríónes, er þar var nærri, kom og kippti burt spjótinu, og sé þá sorti fyrir augu Adamants. 576 Helenus laust á þunnvanga Deípýruss með stóru sverði þraknesku, og sló af hjálminn; hraut hann burt og féll á jörð, og veltist fyrir fótum manna, er þeir börðust; tók einhver Akkea upp hjálminn, en dimm nótt sé fyrir augu Deípýruss. 581 Þetta sárnaði Atreifssyni, hinum rómsterka Menelási. Hann hafði heitingar miklar við hinn volduga kappa Helenus, gekk fram og hafði hvasst spjót á lofti. Þá var Helenus að draga upp bogarifið; þeir skutust á báðir senn; annar skaut hvössu spjóti, en hinn ör af streng. Príamsson skaut ör framan í brynjuboðanginn í brjóstið, og hrökk hin bitra ör af brynjunni. Svo sem svartar hrossabaunir eða fuglabaunir hrjóta af hinni breiðu varpskóflu í hvössum blæstri á stóru þreskisviði, þegar rösklega er kastað: svo hrökk hin bitra ör af brynju hins fræga Meneláss, og flaug langt í burtu. En Atreifsson, hinn rómsterki Menelás, skaut í þá höndina, er Helenus hélt með hinum vel skafna boga, og flaug eirspjótið þvers í gegnum höndina á boganum; hopaði Helenus þá aftur í flokk félaga sinna til að forðast bana sinn; hann lét höndina lafa, en dró eftir sér eskispjótið. Hinn mikilhugaði Agenor dró spjótið út úr hendinni, og batt um höndina með vel fléttuðu ullarbandi úr slöngu þeirri, er sveinn hans hélt á fyrir þjóðhöfðingjann. [Mynd: Paris nemur burt Helenu.] 601 Písander gekk nú á móti hinum fræga Menelási, en hin skaðvæna skapanorn stýrði honum í opinn dauðann, að hann yrði sigraður af þér, Menelás, í hinni grimmu orustu. Þegar þeir voru komnir í höggfæri hvorr við annan, missti Atreifsson lagsins, því spjótið gekk fyrir utan; en Písander lagði í skjöld hins fræga Meneláss, en gat ekki rekið eirvopnið í gegnum, því hinn víði skjöldur stóð fyrir, en spjótið brotnaði í falnum; varð Písander þá glaður við og vænti sér sigurs. En Atreifsson brá hinu silfurneglda sverði sínu, og stökk á móti Písander; þá tók Písander undan skildi sínum eirslegna öxi á löngu, vel sköfnu viðsmjörsviðarskafti, og komu þeir báðir senn höggi hvorr á annan. Písander hjó ofan til í pípu hins fexta hjálms fyrir neðan sjálfa bustina; en í því Písander gekk að honum, hjó Menelás hann á ennið fyrir ofan nefbeinið, brustu þá beinin, en bæði augun féllu blóðug til jarðar fyrir fætur honum ofan í moldina; féll hann þá og engdi sig saman, en Menelás sté fæti á brjóst honum og fletti hann vopnum, hældist þá um og mælti: „Nú vona eg, að þér yfirgefið þó skip hinna hestfimu Danáa, þér ofbeldisfullu Trójumenn, er aldrei seðjizt á ógurlegum hergný! Þér, hinir svívirðilegu hundar, hafið ekki sparað að gera mér hvers kyns smán og skömm; þér hafið jafnvel ekki óttazt hina þungu heiftarreiði Seifs gestaguðs, er á síðan mun í eyði leggja yðar hávu borg. Þér fenguð góðar viðtökur hjá eiginkonu minni, og þó voruð þér svo ósvífnir að flytja hana og marga fjárhluti hennar upp hingað. Ofan á allt þetta viljið þér nú leggja eyðandi eld í hin haffæru skip og drepa hina akknesku kappa. En nú mun brátt sjatna í yður vígahugurinn. Faðir Seifur, það segja menn, að þú sért öllum mönnum og guðum vísari, og þó hlýzt allt þetta af þér! En að þú skulir vera vinveittur slíkum ofstopum, sem Trójumenn eru, er jafnan eru fullir af óstjórnlegum ofsa og verða aldrei saddir á hergný hins sameiginlega ófriðar! Á öllu má fá sig fullsaddan, bæði á svefni, og ástaratlotum, sætum söng og fögrum dansleik, og á þessu vill maður þó heldur svala lyst sinni, en á ófriði; en Trójumenn eru óseðjandi á orustum“. 640 Að því mæltu tók hinn ágæti Menelás blóðug vopnin af líkinu, og fékk þau mönnum sínum, en fór sjálfur inn í flokk forvígismannanna. 643 Þá hljóp að honum Harpalíon, sonur Pýlemeness konungs; hann hafði farið til Trójuborgar með föður sínum til að berjast, en komst ekki heim aftur til ættjarðar sinnar. Þegar hann komst í færi, lagði hann spjóti í miðjan skjöld Atreifssonar, en gat ekki komið eirvopninu í gegn; hopaði hann þá aftur í flokk félaga sinna til að firra sig bana, og skyggndist um alla vega, að engi gæti komið sári á hann. En í því hann fór í burt aftur, skaut Meríónes að honum eirsleginni ör; kom skotið í hægra þjóhnappinn, og gekk örin í gegn og kom út fyrir neðan blöðruna undir beininu; settist hann þá niður, þar sem hann var, og andaðist í höndum vina sinna; lá hann endilangur á jörðinni, sem ánumaðkur, en svart blóðið vall út af honum og vætti jörðina. Hinir hugstóru Paflagónar stumruðu yfir honum, lyftu honum upp á kerru og fluttu hann harmþrungnir til ennar helgu Ilíonsborgar; þar gekk faðir hans með þeim, og út hellti tárum, en fékk engri hefnd fram komið fyrir víg sonar síns. 660 Paris varð mjög gramur í geði af falli hans, því hann var gestfélagi hans í landi Paflagóna, og til að hefna hans, skaut hann eirsleginni ör. Maður er nefndur Evkenor; hann var sonur spámannsins Polýíduss; hann var auðugur maður og hraustmenni; hann átti heimili í Korintuborg. Hann sté á skip, þó hann vissi fyrir bana sinn, því hinn ágæti Polýídus hinn gamli hafði oft sagt honum, að hann mundi verða sóttdauður heima í húsi sínu, eða falla fyrir Trójumönnum hjá skipum Akkea; vildi Evkenor því komast hjá hvorutveggju, bæði hörðum átölum af Akkeum og svo hinni viðurstyggilegu sótt; þótti honum hvortveggja mikil hugraun. Paris skaut hann undir kjálkann fyrir neðan eyrað, og leið þá skjótt lífið úr limum hans, og sveif yfir hann ógurlegt myrkur. 673 Þannig börðust þeir, sem eldur brynni. Hektor, ástvinur Seifs, hafði ekki frétt og vissi ekki, að menn hans féllu fyrir Argverjum vinstra megin skipanna, og að við sjálft lá, að Akkear mundu sigur hafa; því hinn jarðráðandi Landaskelfir eggjaði Argverja svo ákaft fram, og varði þá sjálfur af afli. Hektor hafðist við, þar sem hann eitt sinn hafði stokkið á hliðið og garðinn, og rofið þéttar fylkingar hinna skjaldbúnu Danáa. Þar voru fyrir skip Ajants (þ.e. Öyleifssonar) og Prótesílásar; voru þau sett þar upp á strönd hins gráa hafs; en þar upp frá hafði garðurinn verið hlaðinn lægri; var þar því hörðust aðsókn bæði af fótgönguliði og kerruliði. 685 Böyótar og hinir síðkyrtluðu Íónar, Lokrar, Fiðjumenn og hinir frægu Epear, sem hér voru fyrir, höfðu fullt í fangi að verja skipin fyrir áhlaupi Hektors, og ekki gátu þeir hrundið af sér hinum ágæta Hektori, því hann var líkur eldsloga. Þar var fyrir einvalalið Aþenumanna; fyrirliði þeirra var Menesteifur Petásson, og fylgdu honum þeir Fídas, Stikkíus og hinn hrausti Bías, en fyrir Epeum var Meges Fýleifsson, Amfíon og Drakíus, en fyrir Fiðjumönnum Medon og hinn herdjarfi Podarkes; var Medon bróðir Ajants, en launsonur hins ágæta Öyleifs; hann hafði vegið mann, bróður stjúpmóður sinnar Eríopisar, er Öyleifur átti, og fyrir því bjó hann í Fýlaksborg, langt frá ættjörðu sinni. En Podarkes var sonur Ifíkluss Fýlakssonar; stóðu þeir alvopnaðir fyrir framan hina hugstóru Fiðjumenn, og börðust, skipunum til varnar, næstir Böyótum. Hinn skjóti Ajant Öyleifsson stóð ekki mjög langt frá Ajant Telamonssyni, og var allskammt bili milli þeirra. Svo sem tvö dumbrauð naut draga sterkan plóg á nýplægingi, og hafa bæði jafnan áhuga, brýzt mikill sviti fram undan hornum þeirra; er það ekki nema okið eitt, er skilur milli þeirra, þar er þau þrauka áfram eftir plógfarinu, meðan plógurinn ristir akurlandið: svo nærri stóðu þeir Ajantar hvorr öðrum; fylgdu Telamonssyni margir hraustir liðsmenn, sem tóku við skildi hans af honum; þegar lúi og sviti mæddi kné hans. En Lokrar fylgdu ekki hinum hugstóra Öyleifssyni; báru þeir ekki áræði til að standa í fastabardaga; því þeir höfðu ekki eirbúna, fexta hjálma, og enga kringlótta skjöldu eða eskispjót, heldur fylgdust þeir með til Ilíonsborgar, treystandi bogum sínum og vel fléttuðum slönguböndum; veittu þeir Trójumönnum harða skothríð og rufu fylkingar þeirra. Því var það, að menn Ajants Telamonssonar stóðu að framanverðu, búnir glæsilegum vopnum, og börðust við Trójumenn og hinn eirbrynjaða Hektor; en Lokrar leyndust að baki hinna, og skutu þaðan; gáðu Trójumenn ekki að berjast, því örvarnar töfðu fyrir þeim. 723 Nú mundu Trójumenn við illan leik hörfað hafa frá skipunum og búðunum til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar, ef Polýdamant hefði ekki gengið til hins djarfa Hektors og mælt til hans: „Bágt áttú með, Hektor, að gegna tillögum manna. Þess vegna, að guð hefir veitt þér atgjörvi fremur öðrum mönnum til hernaðar, viltu þar fyrir vera öðrum mönnum framar að ráðkænsku? Engi getur þó öðlazt allt einn. Sumum veitir guð hreysti í hernaði; öðrum leggur hinn víðskyggni Seifur í brjóst gott vit, og njóta þess margir menn; hefir vitur maður oft frelsað með því margan mann; og þó hefir hann bezt af því sjálfur. Nú skal eg segja, eins og mér virðist vera tiltækilegast. Með því ófriðurinn geisar nú alla vega umhverfis um þig, og Trójumenn, eftir að þeir komust upp á garðinn, þá hafa sumir þeirra hörfað frá aftur með vopnum sínum, en sumir hafa dreift sér um skipin og berjast þar fámennir við mikinn liðsmun: þá skaltú fara aftur og stefna hingað öllum hinum hraustustu; síðan skulum vér hyggja vel að öllu, hversu fram skal fara, hvort vér eigum heldur að ráðast á hin margþóftuðu skip, og vita, ef guð vill veita oss sigur, eða skulum vér að svo búnu hverfa frá skipunum, án þess að bíða meira tjón. Því víst em eg hræddur um, að Akkear gjaldi að fullu skuld þá, er vér eigum hjá þeim síðan í gær; því enn er hjá skipum þeirra sá maður, er aldrei verður saddur á ófriði, og hygg eg, að hann verði ekki lengur með öllu afskiptalaus af orustunni“. 748 Þannig mælti Polýdamant, og líkaði Hektori þetta heilræði; hann mælti til hans skjótum orðum: „Polýdamant, haltú hér hjá þér öllum hinum hraustustu; en eg ætla að fara þangað og hlutast til um orustuna; mun eg brátt koma aftur, þegar eg hefi skipað þar öllu í hag“. 754 Þannig mælti hann, og fór af stað kallandi, líkur snjóþöktu fjalli; hann fór sem fugl gegnum flokka Tróverja og liðsmannanna. Þustu þá allir til Polýdamants Panþóussonar, þá er þeir heyrðu rödd Hektors; en hann fór aftur og fram meðal frumherjanna, og leitaði, ef hann fyndi nokkurstaðar þá Deífobus, hinn sterka höfðingja Helenus, Adamant Asíusson og Asíus Hyrtaksson. Hann fann þá, en þeir voru þá bæði lestir og líflátnir; lágu sumir þeirra hjá skutstöfnum á skipum Akkea, þeir er líf sitt höfðu látið fyrir Argverjum; sumir þeirra voru uppi á garðinum, og voru skotnir og höggnir. En vinstra megin hins hörmulega bardaga hitti hann hinn ágæta Alexander, mann hinnar hárfögru Helenu; var hann að hughreysta menn sína og hvetja þá til orustu. Hektor gekk til hans, og mælti þessum smánarorðum: „Þú óláns-Paris, manna fríðastur sýnum, en hleypur sem galinn eftir hverri konu og glepur hana! Hvar er nú Deífobus og hinn sterki höfðingi Helenus, Adamant Asíusson og Asíus Hyrtaksson? Hvar er nú Oþrýoneifur? Hin háva Ilíonsborg er nú með öllu til grunna gengin, og þér bráður bani vís“. 774 Hinn goðumlíki Alexander svaraði honum: „Gjarnt er þér, Hektor, að saka þann, sem saklaus er. Það ætla eg, að eg muni í eitthvert annað skipti hafa meir hliðrað mér við orustu, en nú geri eg, og ól þó ekki móðir mín mig þreklausan með öllu; því frá því er þú vaktir orustu hjá skipunum með mönnum þínum, upp frá því höfum vér verið hér og allt af átt við Danáa að skipta. Félagar vorir, er þú spyr eftir, eru dauðir; tveir einir komust burtu, þeir Deífobus og hinn sterki höfðingi Helenus, báðir særðir á hendi með löngum spjótum, en Kronusson forðaði þeim við dauða. Far þú fyrir, hvert sem hjarta þitt og hugur býður þér, en eg mun fylgjast með þér með áhuga; vonar mig, að eg liggi ekki á liði mínu, að því er eg hefi orku til; en hversu mikill sem áhuginn er, má engi maður berjast fram yfir orku sína“. 788 Með þessum orðum sannfærði kappinn bróður sinn. Fóru þeir nú, þangað sem mest var orustan og hergnýrinn, þar sem þeir voru Kebríones og hinn ágæti Polýdamant, Falkes og Orþeus og hinn goðumjafni Polýfetes, Palmýs, og Askaníus og Morýs Hippotíonssynir; þeir höfðu komið daginn fyrir frá hinni frjólendu Askaníu, og áttu að skiptast um við menn, en Seifur sendi þá í það skipti fram í bardagann. Nú gengu Tróverjar fram, líkir fellibyl óhemjandi vinda, sem fer til jarðarinnar með þrumu föður Seifs og steypist á sjóinn með ógurlegum gný; þjóta þar þá upp margar öldur hins brimótta hafs, hvítfyssandi holgeiflur, hvor á fætur annarri: þannig fylgdu Trójumenn fyrirliðum sínum í þéttskipuðum flokkum, hverr flokkur á fætur öðrum, og glóaði á þá af eirmálmi. En Hektor gekk fremstur Príamsson, líkur hinum mannskæða Aresi; hann hafði fyrir sér kringlóttan skjöld, þykklagðan af húðum og mjög eirsleginn, en skínandi hjálmur bifaðist á höfði hans. Hann steig fram og freistaði alla vega um kring fylkingarnar, hvort þær mundu hörfa undan sér, þar er hann gengi fram með skjöldinn fyrir sér; en hann gat ekki skelft hugann í brjóstum Akkea; gekk Ajant fyrstur fram; hann skálmaði stórum, og skoraði á Hektor: „Kom þú nær, vinur (kvað hann)! Hví hræðir þú svo Argverja? Vér Akkear erum að vísu ekki óherkænir, en nú erum vér kúgaðir af hinni hörðu svipu Seifs. Þú munt þó víst gera þér í hug, að þú munir fá lagt skip vor í eyði, en brátt mun það sýna sig, að vér höfum og hendur fyrir oss. Fyrr mun yðar fjölbyggða borg verða tekin og lögð í eyði af oss; og skammt hygg eg þess að bíða, að þú munt á flótta leggja, og biðja föður Seif og aðra ódauðlega guði, að hinir faxprúðu hestar þínir, er munu svipa þér í moldrokunni yfir völlinn til borgarinnar, mætti verða fljótari en haukar“. 821 Þegar hann hafði þetta mælt, flaug fugl nokkurr til hægri handar honum; það var háfleyg örn. Þá æpti her Akkea upp; urðu menn hughraustir við þessa jarteikn. Þá svaraði hinn frægi Hektor: „Þú orðmargi, mikilláti Ajant, en að þú skulir mæla slíkt! Eg vildi eg væri eins viss um að vera eilíflega sonur Seifs ægisskjalda og hinnar tignarlegu Heru, og að eg væri svo virtur, sem Aþena og Appollon eru virt, eins og eg er viss um það, að þessi dagur mun verða hartnær öllum Argverjum óhamingjudagur; þú munt og einn af þeim, sem drepinn verður, ef þú ber áræði til að bíða eftir hinu langa spjóti mínu, sem slíta mun í sundur þitt liljufríða hörund; en hundar og hræfuglar Trójumanna munu seðja sig á ístru þinni og holdi, þegar þú ert fallinn hjá skipum Akkea“. 833 Að því mæltu gekk hann á undan, og fylgdu honum menn hans með ógurlegum gný, en herinn, sem á baki var, laust upp ópi. Hins vegar æptu Argverjar upp; létu þeir ekki fallast vörnina, heldur biðu hinna hraustustu Trójumanna, er þá fóru á móti þeim. En óp hvorratveggju bar upp í uppheimsloftið og upp til ljóssala Seifs. FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR LEIKINN SEIFUR. NESTOR heyrði ópið inn, þar er hann drakk; mælti hann þá skjótum orðum til Asklepíussonar: „Hygg að, ágæti Makáon, hversu þetta muni fara; óp hinna ungu hermanna vex æ meir og meir hjá skipunum. En þú sit hér og drekk skært vín, þar til er hin fagurlokkaða Hekameda hefir gert þér heita laug, og þvegið af þér hið storkna blóðhlaup; en eg ætla að fara og bregða mér snöggvast út, að skyggnast um“. 9 Að því mæltu tók hann vel smíðaðan skjöld einn, er lá í búðinni; hann glóði allur af eirmálmi; þann skjöld átti sonur hans, hinn hestfimi Þrasýmedes, en hann hafði aftur skjöld föður síns. Nestor tók í hönd sér sterkt spjót, með hvössum eiroddi, gekk út úr búðinni og sá skjótt, í hvert óefni komið var: Akkear á hrakningi, en hinir stórhuguðu Trójumenn að baki í hælum þeim, og garður Akkea niðurbrotinn. Svo sem hafið mikla verður mórautt af lognöldu, þá er það veit einhverneginn á sig snarlegt áhlaup þjótandi vinda, og fellur það þá á hvorugan bóginn, fyrr en ofan stígur einhver eindreginn vindur frá Seifi: svo tvískiptist hugur hins gamla manns, og velkti fyrir sér, hvort hann skyldi ganga í flokk hinna hestfimu Danáa, eða til hershöfðingjans Agamemnons Atreifssonar. En er hann hugsaði þetta fyrir sér, þókti honum ráðlegra að ganga til Atreifssonar. En hinir börðust meðan og drápu hvorir aðra; glumdi í hinum harða eirmálmi utan á þeim, þá þeir voru lagðir með sverðum og tvíeggjuðum spjótum. 27 Nú mættu Nestori konungarnir, fóstursynir Seifs, þeir er særðir höfðu verið með eirvopnum, og gengu nú upp frá skipum sínum, þeir Týdeifsson, Odysseifur og Agamemnon Atreifsson; höfðu skip þeirra upp verið sett á strönd hins gráa hafs langt frá orustustaðnum. Því fyrstu skipin höfðu menn sett á land upp, og reist garðinn fyrir aftan skutstafna þeirra. Nú þó ströndin væri næsta víð um sig, þá gat hún þó ekki rýmt öll skipin, og varð heldur þröngt fyrir herinn. Því var það, að þeir settu upp skipin í raðir, hvort aftur af öðru, og fylltu svo alla hina víðu sjávarströnd, allt í milli nesjanna. Nú langaði þá til að vita um hergnýinn og orustuna, gengu nú allir saman og studdust við spjót sín, og var þeim sárt í hug. Nú mætti þeim hinn gamli Nestor, og hnykkti þeim Akkeum mjög við. Tók þá hinn voldugi Agamemnon til orða, og mælti til hans: „Nestor Neleifsson, þú mikli sómi Akkea, hví ertu hingað kominn úr hinum mannskæða bardaga? Hræddur er eg um, að hinn sterki Hektor komi nú fram heityrðum þeim, er hann eitt sinn hafði frammi á samkomu Trójumanna, að hann skyldi ekki fyrr aftur hverfa frá skipunum til Ilíonsborgar, en hann hefði brennt skipin í eldi og drepið mennina. Svo fórust honum orð á samkomunni, og mun það nú allt fram koma. Mikið er til þess að vita, að hinir fagurbrynhosuðu Akkear skuli setja í hug sér ógeð við mig, eins og Akkilles gerir, og að þeir skuli ekki vilja berjast hjá skutstöfnum skipanna“. 52 Hinn gerenski riddari Nestor svaraði honum: „Þetta er nú og fram komið, og sjálfur hinn háþrumandi Seifur mun ekki fá því umbreytt. Því nú er sá garður hruninn, er vér treystum á, að hann mundi verða óbilug vörn fyrir skip og menn, en Akkear eiga sífellt í endalausum bardaga hjá hinum fljótu skipum, og ekki verður framar séð, hversu vel sem að er gáð, hvoru megin aðsókn er gerð að Akkeum; svo eru þeir drepnir niður hverr um annan, en ópið gengur til himins. Hugleiðum nú, hversu nú áhorfist, og vitum, hvort nokkuð verður ráðum við komið; vil eg ekki ráða yður til að ganga í orustu, því ótækt er fyrir særða menn að berjast“. 64 Herkonungurinn Agamemnon svaraði honum: „Nestor, fyrst svo er komið, að Akkear berjast nú hjá skutstöfnum skipa sinna, og garður sá, sem hlaðinn var, er ekki orðinn að neinu liði; og díkið ekki heldur, er Danáar hafa svo mikið fyrir haft, og sem þeir gerðu sér í hug að verða mundi óbilug vörn fyrir skip og menn, þá hlýtur það víst að vera vilji hins afar sterka Seifs, að Akkear skuli verða drepnir hér niður frægðarlausir langt í burtu frá Argverjalandi. Man eg þær tíðirnar, að hann veitti Danáum lið af miskunn sinni; en nú finn eg, að hann vegsamar Trójumenn jafnt hinum sælu goðum, en heftir hugmóð vorn og hendur vorar. Heyrið nú, gerum nú allir, eins og eg mæli fyrir. Vér skulum setja fram á djúpan sæ öll þau skip, er fremst eru upp sett við sjóinn, og láta þau liggja við stjóra, þar sem djúpt er, þar til hin himneska nótt kemur, ef Trójumenn annars halda sér frá ófriðnum á náttarþeli. Síðan skulum vér fram setja öll hin skipin. Því engum er láanda, þó hann flýi háskann, enn þótt á náttarþeli sé, og er betra að forða lífi sínu með flótta, en að vera drepinn“. 82 Hinn margráðugi Odysseifur leit til hans með reiðisvip, og mælti: „En að slíkt skuli þér um munn fara, Atreifsson! Þú hamingjulausi maður, betur væri, að þú værir fyrir einhverjum öðrum her, sem væri huglaus, en réðir ekki yfir oss; því á oss hefir Seifur það lagt, að standa í hættulegum ófriði frá æsku vorri og allt fram á ellidaga, svo að hverr af oss skuli tortýnast. Ætlar þú þér þá að yfirgefa þannig hina strætabreiðu borg Trójumanna, er vér höfum þolað svo margt illt fyrir? Þegi þú, svo engi Akkea heyri þessa tillögu. Engi maður, sem vit hefir í brjósti sér, og á veldissprota heldur og ráð hefir yfir svo mörgum mönnum, sem þú átt yfir að ráða meðal Argverja, lætur sér slíkt um munn fara. Líkar mér nú með engu móti ráð það, er þú hefir upp borið, þar sem þú ræður til að setja hin þóftusterku skip á sjó fram, nú þegar slegið er í orustu og ófrið, til þess Trójumenn, sem þó bera hærra hlut, fái enn heldur ósk sína, en yfir oss svífi bráður bani; því ekki munu Akkear fá afstýrt styrjöldinni, ef skipin verða fram sett til sjávar, heldur munu þeir leita sér undanfæris, og ekki halda uppi bardaga. Þá mun tillaga þín, þjóðhöfðingi, verða heldur óhagleg“. 103 Agamemnon herkonungur svaraði honum: „Mjög hefir þú snortið hjarta mitt, Odysseifur, með þessari hinni hörðu ræðu þinni. En ekki er það ráð mitt, að synir Akkea setji hin þóftusterku skip fram til sjóvar, nema þeir sjálfir vilji. Komi nú einhverr, ungur eða gamall, og leggi til betra ráð, en þetta er; þá skyldi eg verða feginn“. 109 Þá mælti hinn rómsterki Díómedes: „Hér er maðurinn; ekki munum vér þurfa hans lengi að leita, ef þér viljið ráð mín hafa. Bið eg, að engi yðar reiðist eða láti sér fyrir þykja, þó eg sé yðar yngstur að aldri. Verð eg að segja það, að eg em af ágætum föður kominn. Því Porþeifur átti þrjá fræga sonu; þeir bjuggu í Plevronsborg og hinni hálendu Kalýdonsborg; einn var Agríus, annar Melas, hinn þriðji var riddarinn Öynefur, faðir föður míns; hann var þeirra fremstur að hreysti. Afi minn bjó þar kyrr, en faðir minn varð að fara úr landi, og settist hann að í Argverjaborg, því svo mun Seifur og aðrir guðir hafa til ætlazt. Hann kvongaðist einni af dætrum Adrastuss; hann átti auðugt bú, gnóga hveitiakra og marga eikigarða þar umhverfis; hann átti og mikinn fénað; hann var öllum Akkeum spjótfimari. Munuð þér víst heyrt hafa, að þessi saga er sönn. Fyrir því skuluð þér ekki ætla, að eg sé af lítils háttar ætt eða þreklaus, og ekki fyrirlíta þá tillögu, sem eg ber upp í heyranda hljóði, öllum til góðs. Heyrið, leggjum nú hart á oss og förum til bardagans, þó vér séum sárir; þar skulum vér vera úr skotmáli og ekki ganga í bardaga, að engi vor fái sár á sár ofan. Vér skulum heldur eggja liðið, og hleypa þeim fram, sem áður hafa gengið úr orustunni af sérhlífni, og berjast ekki“. 133 Þannig mælti hann, en þeir gegndu honum fúslega og fóru að ráðum hans; gengu nú af stað, og fór herkonungurinn Agamemnon fyrir þeim. 135 Hinn frægi Landaskelfir hélt nú engan blindingsvörð, heldur fór hann með þeim, og var hann nú í gamals manns líki. Hann hélt í hægri hönd Agamemnons Atreifssonar, og mælti til hans skjótum orðum: „Atreifsson, nú mun hið meingjarna hjarta Akkils gleðjast í brjósti honum, þegar hann lítur mannfall og flótta Akkea; því hann er síður en ekki brjóstgóður maður. Svo tortýnist hann, og steypi honum guð í ógæfu! En hinir sælu guðir eru vissulega enn ekki orðnir reiðir þér, heldur munu fyrirliðar og höfðingjar Tróverja enn fylla ryki hinn víða völl, en sjálfur muntu horfa á, þar sem þeir flýja frá skipunum og búðunum“. 147 Að því mæltu kallaði hann hátt, og fór geysandi yfir völlinn. Svo hátt sem níu eða tíu þúsundir manns æpa í orustu, þá þeir hafa vakið Aresarrimmu, svo miklu ópi hratt hinn voldugi Landaskelfir upp frá brjósti sínu; skaut hann þá miklum þrótt í hjarta sérhvers af Akkeum, til að vera án afláts í ófriði og bardögum. [Mynd: Snyrting.] 153 Hera gullinsessa stóð upp á Ólympi, og litaðist um ofan af einum tindinum; varð hún þegar þess vör, að albróðir hennar og mágur hafði annríki mikið á hinum mannfræga vígvelli, og varð hún glöð í huga. Gat hún þá að líta, hvar Seifur sat á efsta tindi hins lækjótta Ídafjalls; var hann henni mjög óvinveittur í þeli niðri. Þá hugsaði hin mikileyga, tignarfulla Hera með sér, hversu hún mætti véla hug Seifs ægisskjalda; leizt henni það ráð bezt, að fara ofan til Ídafjalls í hinu bezta skarti sínu, ef svo mætti verða, að hann fýsti að hvíla með ástarblíðu við hlið sér, og skyldi hún þá bregða meinlausum og mjúkum svefni á brár honum og yfir hið vizkufulla hugskot hans. Hún gekk þá til svefnherbergis þess, er Hefestus sonur hennar hafði smíðað henni; hafði hann læst hinum vel felldu hurðum við dyrustafina með leyniloku; þeirri loku skaut engi frá af guðunum, nema hún. Þegar hún var hér inn komin, lagði hún aftur hinar glæsilegu hurðir. Fyrst þó hún öll óhreinindi af sínu unaðsfulla hörundi með ódáinsvökva, smurði sig síðan með ódauðlegri, þægilegri, ilmsætri viðsmjörsviðarfeiti, sem hún átti; þó ekki kæmi nema einhver hreyfing á þetta viðsmjör í hinni eirföstu höll Seifs, þá lagði þó ilminn af því til jarðar jafnt og himins. En er hún hafði smurt hið fríða hörund sitt með þessu viðsmjöri og greitt hár sitt, fléttaði hún með höndum sínum hina ljómandi, fögru, ódauðlegu hárlokka á hinu ódauðlega höfði sínu. Þá lagði hún yfir sig ódauðlega skikkju; þá skikkju hafði Aþena búið til handa henni, og vandað mjög og fágað, og gert þar á margs konar glit; síðan krækti hún að sér skikkjunni framan á brjóstinu með gullpörum. Hún gyrti sig með linda; í honum voru hundrað skúfar; í hina fagurboruðu eyrnasnepla sína smeygði hún vönduðum eyrnahringum með þremur tölum í; ljómaði af þeim mikil fegurð. Þá faldaði hin ágæta gyðja höfuð sitt með fagri, nýgjörðri höfuðblæju; var sú blæja hvít, sem sól; síðan batt hún fagra sóla undir sína þriflegu fætur. En er hún hafði búið sig í allt skartið, gekk hún út úr herberginu, kallaði til sín Afrodítu, þangað sem aðrir guðir voru ekki nærri, og mælti til hennar: „Viltu gera nokkuð fyrir mig, sem eg vil mælast til, dóttir góð? Eða muntu synja mér, og reiðast mér fyrir það, að eg hjálpa Danáum, en þú Tróverjum?“ [Mynd: Snyrting.] 193 Afrodíta, dóttir Seifs, svaraði henni: „Hera, þú tignarlega gyðja, dóttir hins mikla Kronusar, seg, hvað þér er í huga, og skal eg gjarna gera það, ef eg má, og verði því til leiðar komið“. 197 Hin vélráða, tignarlega Hera mælti til hennar: „Ljá mér nú þá ást og yndi, er þú sigrar með alla ódauðlega guði og dauðlega menn; því eg ætla nú til endimarka hinnar björgulegu jarðar, að finna Ókean, uppruna goðanna, og móður Teþýsi; þau tóku við mér af Hreu, þegar hinn vígskyggni Seifur fékk Kronusi bústað niðri undir jörðunni og hinu ófrjóva hafi, og veittu mér gott uppeldi og uppfóstur í húsum sínum. Nú ætla eg að fara og finna þau, og skera úr deilu þeirri, er enn er óútkljáð þeirra milli; hafa þau nú í langan tíma, síðan er reiðin rann í skap þeim, haldið sér frá hvílubrögðum og ástaratlotum hvort við annað. Geti eg nú með fortölum talið þeim hughvarf, og komið þeim til að ganga í rekkju sína og njóta yndis saman, þá mun eg ávallt hafa hylli þeirra og vináttu“. 211 Hin brosmilda Afrodíta svaraði henni: „Ekki má eg, og ekki sæmir mér að synja þess, er þú mælist til, því þú hvílir í faðmi hins ágætasta Seifs“. [Mynd: Aþusfjall.] 214 Að því mæltu leysti hún af brjósti sér útsaumað band; það var fjölskreytt; voru þar á allir hennar töfrar; þar var á ástin og eftirlöngunin, og þar var á hið elskulega blíðuhjal, sem stelur burtu viti hyggnustu manna. Hún fékk henni bandið, tók til orða og mælti: „Taktu nú við, stíktu þessu fjölskreytta bandi í barm þinn; þar á eru allir mínir töfrar, og hygg eg, að þú munir ekki fara erindisleysu“. 222 Þannig mælti hún; þá brosti hin mikileyga Hera, og stakk bandinu brosandi í barm sér. 224 Síðan gekk Afrodíta, dóttir Seifs, heim til sín, en Hera þusti ofan af Ólympstindi; fór hún yfir Píeríu og hið fagra Emaþíuland; þaðan geisaði hún yfir hin snjólögðu fjöll hinna reiðfimu Þrakverja, og fór eftir hæstu fjallatindum, og kom ekki við jörðina. Frá Aþusfjalli fór hún yfir hið bylgjótta haf og kom til Lemnus, borgar hins ágæta Þóants. Þar hitti hún Blund, bróður Dauða; hún tók í hönd honum, tók til orða og mælti: „Blundur, konungur allra guða og allra manna. Þú hefir heyrt bón mína fyrri, vert einnig nú við bæn minni, en eg skal þér þakkir fyrir kunna alla daga. Svæf þú hin björtu augun í höfði Seifs, þegar eg em lögzt hjá honum með ástarhótum. Eg skal gefa þér gjafir í staðinn, fagran hástól af gulli, sem aldrei skal eyðast; skal Hefestus, sonur minn, hinn fótlami, smíða hann og vanda sem bezt, og gera á hann fótaskör undir niðri, og getur þú lagt þar á hina sællegu fætur þína, þá er þú situr að mannboðum“. 242 Hinn svefnhöfgi Blundur svaraði henni: „Hera, tignarlega gyðja, dóttir hins mikla Kronusar, hægt mundi mér veita, að svæfa hvern annan af hinum eilífu guðum, og þó væru straumar fljótsguðsins Ókeans, sem er uppruni alls; en Seif Kronusson má eg ekki nálgast, og ekki svæfa hann, nema þegar hann býður mér sjálfur. Það var eitt sinn fyrr meir, að bænastaður þinn gerði mig hygginn; það var þann dag, er hinn ofurhugaði sonur Seifs sigldi frá Ilíonsborg, eftir að hann hafði lagt í eyði borg Trójumanna. Þá breiddi eg mig í svefnhöfga alla vega kring um Seif ægisskjalda, og svæfði svo hugskot hans; en þú hafðir ill ráð í hyggju, hleyptir stríðum stormvindum yfir hafið, og hraktir son Seifs til hinnar fjölbyggðu Kóeyjar; var hann þá viðskila orðinn við alla vini sína. En er Seifur vaknaði, varð hann reiður; þeytti hann þá guðunum hingað og þangað um höllina, en vildi helzt af öllum finna mig; og þá hefði hann varpað mér ofan úr uppheimslofti og niður í sjó, svo eg hefði aldrei sézt síðan, ef Nótt, sú er guði og menn sigrar, hefði ekki bjargað mér. Á hennar náðir flýði eg; en hann hætti þá leitinni, þó hann væri reiður, því honum þókti mikið fyrir að gera það, sem hinni svipulu Nótt væri móti skapi. Og nú biður þú mig aftur að gera aðra bón þína, sem er ógerandi“. 263 Hin mikileyga, máttuga Hera svaraði honum: „Hví dettur þér þetta í hug? Hvort hugsar þú, að hinn víðskyggni Seifur muni taka sér jafnnærri liðveizluna við Trójumenn, og hann gerði, þá er hann reiddist fyrir hönd Heraklesar, sonar síns? Kom þú nú, eg skal gifta þér eina af hinum yngri Þokkagyðjum, og skal hún verða eiginkona þín“. 270 Þannig mælti hún, en Blundur varð glaður við, svaraði henni og mælti: „Kom þú þá, og vinn mér eið við hið óbrigðilega Stýgarvatn, og legg aðra hönd þína á hina margfrjóvu jörð, en hina á hinn glæfagra sjó, svo allir undirheimaguðir, þeir er hjá Kronusi eru, séu vottar okkar, að þú viljir gifta mér eina af hinum yngri Þokkagyðjum, Pasíþeu, sem eg ávallt hefi haft hug á“. [Mynd: Þokkagyðjurnar.] 277 Svo mælti hann, en hin hvítarmaða gyðja Hera gerði, sem hann bað; hún sór, sem hann mæltist til, og nefndi á nafn alla Niflheimsguði, þeir er kallaðir eru Títanar. En er hún hafði svarið og unnið eiðinn, þá gengu þau af stað frá Lemneyjarborg, og þaðan til Imbreyjarborgar; þau voru íklædd skýmökkva, og bar þau skjótt yfir. Þaðan komu þau til hins lækjótta Ídafjalls, móður dýranna, þar sem heitir Lektarnes; þar komu þau fyrst af hafi, og gengu þar á land upp, en efstu toppar skógarins bærðust undir fótum þeirra. Hér var Blundur eftir, áður en hann kæmi í augsýn Seifs. Hann sté upp í eitt mjög hátt furutré; það var þá allra eika hæst á Ídafjalli, og mændi í loft upp allt til himins. Þar sat hann, hulinn furukvistum, líkur hvellum fjallfugli, þeim er guðir kalla eirsmyril, en mennskir menn nátthauk. 292 Hera gekk skyndilega upp á Gargarsmúla, sem er efstur á hinu háva Ídafjalli. Þá gat skýsafnarinn Seifur að líta hana; og jafnskjótt er hann leit hana, þá breiddi ástin sig yfir hans vizkufulla hugskot, viðlíka og þá þau áttu saman hina fyrstu ástafundi og samrekktu á laun við foreldra sína. Hann nam staðar frammi fyrir henni, tók til orða og mælti: „Hvert ætlar þú, Hera, er þú kemur hingað ofan frá Ólympi? Hér eru öngvir hestar eða kerra handa þér til að aka á“. 300 Hin vélráða drottning Hera mælti til hans: „Eg ætla til endimarka hinnar björgulegu jarðar, að finna Ókean, uppruna goðanna, og móður Teþýsi, er upp fæddu mig og fóstruðu í húsum sínum. Þau fer eg að finna, til að skera úr deilu þeirri, er enn er óútkljáð þeirra í milli; hafa þau nú í langan tíma, síðan er reiðin rann í skap þeim, haldið sér frá hvílubrögðum og ástaratlotum hvort við annað. Hestar mínir standa á undirlendi hins lækjótta Ídafjalls, og mega þeir bera mig yfir láð og lög. En þín vegna kem eg nú hingað ofan af Ólympi, í þeirri veru, að þú ekki reiðist mér síðar meir, þó eg kunni að fara í kyrrþey til húss hins straumdjúpa Ókeans“. 312 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni og sagði: „Þangað getur þú ferðazt síðar meir, Hera. En komum við nú bæði, látum okkur ganga til hvílu og njóta yndis saman! Því aldrei hefir elska til nokkurrar gyðju eða konu útbreiðzt svo í brjósti mínu og sigrað svo hugskot mitt; ekki þá eg elskaði konu Ixíons (Díu), er ól Píríþóus, hinn goðumjafna ráðsnilling; ekki þá eg elskaði hina öklafríðu Danáu Akrisíusdóttur, er ól Perseif, sem frábærastur var allra manna; ekki þá eg elskaði dóttur hins víðfræga feniska konungs, er átti við mér Mínós og hinn goðumlíka Hradamant; ekki þá eg elskaði Semelu, eða Alkmenu í Þebuborg, er átti að syni hinn hugsterka IHerakles, en Semela ól Díonýsus, fögnuð dauðlegra manna; ekki þegar eg elskaði hina fagurlokkuðu drottningu, Demetru; ekki þá eg elskaði hina vegsamlegu Letó, og aldrei elskaði eg þig sjálfa, jafnt og eg elska þig nú; svo sæt eftirlöngun sigrar mig“. 329 Hin vélráða drottning Hera mælti til hans: „Harðráðasti Kronusson, en að þú skulir mæla slíkum orðum! Ef þig lystir nú að ganga til hvílu hér á tindum Ídafjalls og njóta þar yndis, þá er hér allt opið og öndvert. Hvernig mundi fara, ef einhverr hinna eilífu guða sæi okkur sofandi, færi svo og segði öllum guðunum frá? Ekki bæri eg við að fara aftur heim til hallar þinnar, þegar eg væri risin úr rekkju; því þá væri láandi, ef eg gerði það. En ef þú vilt þetta, og leiki þér hugur á því, þá áttu herbergi, sem Hefestus, sonur þinn, hefir smíðað og fellt þar haglegar hurðir á gætti. Göngum þangað til hvílu, ef þig lystir að samrekkja mér“. 341 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni og sagði: „Hvorki þarftu að óttast, Hera, að þetta muni sjá nokkurr guða eða manna; eg skal bregða yfir þig því gullskýi, að jafnvel Helíus skal ekki geta séð okkur í gegnum það, og er þó hans ljós eitthvert hið ílitsbjartasta“. 346 Að því mæltu tók Kronusson konu sína í faðm sér; lét þá hin heilaga jörð upp renna undir þau nýgrænkað gras, döggvotan smára og saffranblóm og sverðlilju, þétta og mjúka, sem hélt þeim hátt upp frá jörðinni; þar lögðust þau niður í, og breiddu yfir sig fagurt gullský, og drupu af þvi ljómandi daggir. 352 Þannig svaf faðir Seifur efst á Gargarsmúla, sigraður af svefni og ást, og hafði konu sína í faðmi sér. En hinn svefnhöfgi Blundur hljóp þegar af stað til skipa Akkea, að bera fréttir hinum jarðkringjanda Landaskelfi. Hann gekk til hans, og mælti til hans skjótum orðum: „Hjálpa þú nú Danáum, Posídon, af alvöru, og veit þeim sigur, að minnsta kosti um stundar sakir, meðan Seifur sefur enn þá; því eg hefi brugðið yfir hann mjúkum svefnhöfga, en Hera hefir lokkað hann til ástugra hvílubragða“. 361 Að því mæltu fór hann burt þaðan og til mannabyggða, og eggjaði Posídon áður enn betur að hjálpa Danáum. Stökk Posídon þá þegar hart fram meðal þeirra, er fremstir voru, og eggjaði liðið: „Argverjar (kvað hann), eigum vér þá enn að nýju að unna Hektori sigurs, svo hann taki skipin og afli sér svo frægðar? Nei, hann mælir svo og hælist um, af því Akkilles liggur enn, í reiðum hug, niðri við hin hvelfdu skip. En vér munum ekki sakna hans mjög, ef vér hinir leggjum léttann á að duga hverr öðrum. Heyrið nú, gerum allir, svo sem eg mæli fyrir. Tökum skjöldu þá, er sterkastir eru og mestir í hernum, og hlífum oss með, látum á höfuð vor ljómandi hjálma, og tökum í hönd oss hin lengstu spjót, sem vér höfum, og förum svo af stað, en eg mun ganga fyrstur, og vonar mig, að Hektor Príamsson muni ekki lengi veita viðnám, þó hann sé nú allákafur“. 378 Þannig mælti hann, en þeir gerðu, sem hann lagði ráð til. Þeir konungarnir, Týdeifsson, Odysseifur og Agamemnon Atreifsson, þó þeir væru sárir, þá fylktu þeir þeim sjálfir, gengu til hvers manns og höfðu skipti á hervopnum, fór þá sá, er hraustur var, í sterk vopn, en fékk veikari vopnin þeim, sem óhraustari var. En er þeir höfðu búið sig skínanda eirmálmi, gengu þeir af stað. Posídon landaskelfir fór fyrir þeim; hann hafði í hendi sér ógurlegt sverð, langeggjað; það var líkt lofteldi; það var einskis manns að ganga undir það sverð í enum skæða bardaga, heldur stóð öllum ótti af því. 388 Hins vegar fylkti hinn prúði Hektor Trójumönnum. Þá hófu þeir hina grimmustu orusturimmu, hinn bláhærði Posídon og Hektor hinn prúði; veitti annar þeirra lið Trójumönnum, en hinn Argverjum, og geystist sjóargangurinn upp að búðum og skipum Argverja, en þeir gengust að með miklu herópi. Ekki drynur hafaldan eins hátt, þegar óviðráðanlegur norðanblástur keyrir hana utan af hafi á land upp; ekki verður jafnmikill þytur af loganda eldi uppi í fjalldölum, þegar hann rís upp til að brenna skóginn; ekki gnýr vindur eins mikið í hálaufguðum eikum, og drynur hann þó oftast mikið, þegar hann reiðist: eins og þá urðu mikil óhljóð Trójumanna og Akkea, þegar þeir ruddust með ógurlegu herópi hvorir mót öðrum. 402 Hektor hinn prúði skaut fyrstur spjóti til Ajants, þegar Ajant snérist öndverður við honum; ekki missti Hektor, þar er hann skaut til; kom skotið þar á, sem báðir fetlarnir lágu yfir um brjóstið, skjaldarfetilinn og fetill hins silfurneglda sverðs, og hlífðu báðir fetlanir hinu mjúka hörundi. Hektor reiddist, er hið fljóta skotvopn flaug til ónýtis úr hendi honum; hörfaði hann þá aftur í flokk félaga sinna, og forðaði sér við bana. En í því hann fór aftur, tók hinn mikli Ajant Telamonsson upp stein einn af þeim mörgu skipskorðum, er þar veltust fyrir fótum manna á orustuvellinum; kom steinninn í brjóst Hektors fyrir ofan skjaldarröndina, nálægt hálsinum. Ajant slengdi steininum, sem skopparakringlu, svo steinninn hringsnérist. Svo sem eikitré fellur til jarðar með rótum fyrir reiðarslagi föður Seifs, og rýkur megnismikil brennusteinsgufa úr trénu, en hverjum, sem nærstaddur er og á horfir, fellst hugur við, því voðalegt er reiðarslag hins mikla Seifs: svo féll hinn sterki Hektor snögglega til jarðar í moldina, spjótið hrökk úr hendi hans, og þar ofan á skjöldurinn og hjálmurinn, en herklæðin, sem margvíslega voru eirbúin, glömruðu utan á honum. Þá lustu synir Akkea upp ópi miklu og hlupu til, og væntu, að þeir mundu fá dregið hann til sín, og létu drífa spjótin sem óðast; en engi gat sært eða skotið þjóðhöfðingjann, því hinir hraustustu kappar urðu fyrri til að koma honum til varnar, Polýdamant, Eneas og hinn ágæti Agenor, Sarpedon, foringi Lýkíumanna, og hinn frækni Glákus. Engi hinna kappanna vanrækti heldur að verja hann, heldur héldu þeir hinum kringlóttu skjöldum fyrir honum til hlífðar. En sveitungar Hektors hófu hann upp á höndum sér, og báru hann af vígvelli, þar til hann kom til hinna fráu hesta sinna, er stóðu bak við orustustaðinn hjá kerrusveininum og hinni fjölskreyttu kerru. Hestarnir drógu Hektor til borgarinnar, og andvarpaði hann þá þungt. 433 En er þeir komu að vaði hins fagurrennanda fljóts, hins, sveipótta Ksantuss, er hinn ódauðlegi Seifur hafði getið, þá tóku þeir hann ofan úr kerrunni, lögðu hann á jörðina, og jusu vatni á hann; raknaði hann þá við og leit upp augunum. Þá settist hann á kné sér og spjó svörtu blóði, hneig svo á bak aftur til jarðar; en svört nótt sé fyrir augu hans, því skotið þjáði enn fjörmagn hans. 440 Nú sem Argverjar sáu, að Hektor fór burt, sóktu þeir enn fastar að Trójumönnum og héldu uppi bardaga. Fyrstur allra hljóp fram hinn skjóti Ajant Öyleifsson og lagði hvössu spjóti til Satníuss Enópssonar, er hin ágæta Vatnadís hafði átt við Enópi, þegar hann gætti nauta á Satníóisbökkum. Hinn spjótfrægi Öyleifsson gekk að honum og lagði hann í nárann, svo hann valt um koll; áttust þá Tróverjar og Danáar við harðan bardaga í kring um lík hans. Þá kom hinn spjótfimi Polýdamant Panþóusson honum til varnar; hann skaut í hægri öxl á Próþóenor Arelýkussyni, og gekk hið sterka spjót í gegnum öxlina; féll hann þá til moldar og greip í jörðina með lófanum. Þá kallaði Polýdamant hátt og hældist um ákaflega: „Víst hygg eg (mælti hann), að spjótið hafi enn ekki til ónýtis stokkið úr hinni sterku hendi hins hugmikla Panþóussonar, heldur mun einhverr Argverja bera það í sér, og vona eg, að hann styðjist við það og fari svo niður í Hadesar heimkynni“. 458 Svo mælti hann, en Argverjum sárnaði, er hann hældist svo um, en mest sveið það hinum herkæna Ajanti Telamonssyni, því hann stóð einna næstur, þar sem Próþóenor féll; skaut hann þá skyndilega fögru spjóti að honum, í því hann gekk burt aftur, en Polýdamant stökk snöggt til hliðar og forðaði sjálfum sér við dimmri feigð, en Arkílokkus Antenorsson fékk skotið; því guðirnir höfðu ætlað honum dauða. Kom spjótið í efsta köggulinn í hnakkanum, þar sem mætist höfuð og háls, og sneið spjótið í sundur báðar aflsinarnar, kom höfuðið og munnurinn og nasirnar til jarðar miklu fyrr, en fætur hans og kné félli. Þá kallaði Ajant til hins fræga Polýdamants: „Hygg þú að, Polýdamant, og seg mér með sanni: er nú ekki jafnvígi komið fyrir Próþóenor, er þessi maður er veginn? Svo virðist mér, sem hann muni ekki vera lítils háttar maður, eða af smámennum kominn, þar sem hann er annaðhvort albróðir eða sonur hins hestfima Antenors; sýnist hann helzt hafa eitthvert ættarmót með honum“. 475 Svo mælti Ajant, því hann vissi vel, hverr maðurinn var, en Trójumönnum sveið þetta mjög sárt. Þá fór Akamant til og varði lík bróður síns; hann skaut Promakkus hinn böyózka, er þá var að draga burt líkið og hélt um fætur þess, í gegn með spjóti. Kallaði Akamant þá hátt upp og hældist um ákaflega: „Argverjar, þér örvaþrjótar, er aldrei látið af stóryrðum, ekki munum vér einir verða fyrir tjóni og hörmungum, heldur vonar mig, að þér munið og verða drepnir hér einnig. Gætið að, hversu hann Promakkus yðar blundar sætt, sæfður á spjóti mínu; vildi eg ekki láta bróður minn liggja lengi óbættan. Þess vegna óskar og hverr maður að eiga bróður á heimili sínu, til þess að bægja þaðan óhamingjunni“. 486 Svo mælti hann, en Argverjum sárnaði, er hann hældist svo um, en mest sárnaði það hinum herkæna Penelási. Hann gekk fram móti Akamanti, en Akamant beið ekki eftir áhlaupi Peneláss konungs; lagði Penelás þá til Ilíoneifs; hann var sonur hins sauðauðga Forbants, þess er Hermes unni mest allra Trójumanna og veitti honum fullsælu fjár; var Ilíoneifur einkasonur Forbants. Penelás lagði hann fyrir neðan augnabrúnina, þar sem augnastaðurinn er, og hleypti út augasteininum, en spjótið gekk í gegnum augað og í gegnum hnakkann. Þá settist Ilíoneifur niður, og breiddi út báðar hendur sínar; en Penelás brá bitru sverði og hjó á þveran hálsinn, svo af tók höfuðið, og féll það til jarðar ásamt með hjálminum; stóð þá enn hið sterka spjót í auganu. Hann tók upp knapphöfðann, og mælti: „Skilið frá mér, Trójumenn, til föður og móður hins vaska Ilíoneifs, að þau skuli harma í húsi sínu; því ekki mun heldur kona Promakkuss Alegenorssonar eiga að fagna heimkomu manns síns, þegar vér sveinar Akkea förum heim aftur á skipum vorum frá Trójuborg“. 506 Svo mælti hann, en skjálfti kom í limu þeirra allra. Hverr maður skyggndist um, til að vita, hversu hann mætti undan komast bráðum bana. 508 Segið mér nú, Sönggyðjur, þér sem búið í Ólympssölum, hverr það var af Akkeum, sem fyrstur náði blóðugum hervopnum af felldum óvin, eftir það að hinn frægi Landaskelfir hafði hallað orustunni á Tróverja. Ajant Telamonsson hjó fyrstur Hyrtíus Gyrtíusson, foringja hinna hugsterku Mýsa. Antílokkus vó Falkes og Mermerus. Meríónes drap Morýs og Hippotíon. Tevkrus tók af lífi þá Proþóon og Perífetes. Því næst lagði Atreifsson í nára þjóðhöfðingjans Hyperenors; hljóp eirvopnið á kaf inn í iðrin, og skar þau í sundur, en sálin þaut í skyndi út um hina eggbitnu und, og myrkur breiddi sig yfir bæði augu mannsins. En flesta menn drap hinn skjóti Ajant Öyleifsson; því engi var jafnfljótur á fæti og hann að elta flóttamenn, er jafnan verða felmtsfullir, þegar Seifur kemur styggð að þeim. FIMMTÁNDI ÞÁTTUR ORUSTA VIÐ SKIPIN. EN er Trójumenn voru flúnir yfir stauragarðinn og díkið, og margir þeirra voru fallnir fyrir Danáum, þá stöðvuðu þeir flóttann við kerrurnar, og létu þar fyrir berast, voru þá bleikir af ótta. Þá vaknaði Seifur á tindum Ídafjalls og spratt upp frá Heru gullinsessu; hann stóð og leit á Trójumenn og Akkea, sá þá, að Trójumenn voru á hrakningi, en Argverjar að baki á hælum þeim, og að hinn voldugi Posídon var í liði með þeim. Hann sá, að Hektor lá fallinn á vellinum, og sátu sveitungar hans yfir honum; hafði hann erfiðan andardrátt, vissi ekki til sín, og spjó blóði, því hann hafði fengið sár af þeim manni, sem ekki var minnstur fyrir sér af Akkeum. Og er faðir manna og guða leit hann, sá hann aumur á honum, leit ógurlega með reiðisvip til Heru, og mælti til hennar: „Þínar vonzkufullu vélar, óviðráðanlega Hera, hafa gert hinn ágæta Hektor óvígan og rekið menn hans á flótta. Mér er næst geði, að láta þig enn einu sinni fyrsta kenna á hinum meinsamlegu illbrögðum þinum, og keyra þig höggum. Hvort manstu ekki, þegar þú hékkst í loftinu, og eg hengdi tvo steðja neðan í fætur þér, en brá óslítanda gullfjötri um hendur þínar? Hékkstu svo í uppheimsloftinu og skýjunum; en guðir þeir, er voru á hinum háva Ólympi, urðu reiðir, þorðu þó ekki að ganga nær og leysa þig; því hverjum sem eg náði, þá tók eg hann og snaraði honum út af þröskuldinum, svo hann komst með litlu lífi til jarðar. Ekki rénaði þó að heldur sú hin megna sorg, er eg þá bar vegna hins ágæta Herakless; hafðir þú æst upp stormbyljina með aðstoð Norðanvindarins, og rekið hann út á hið ófrjóva haf; bjó þér illt í huga, og hraktir hann síðan til hinnar fjölbyggðu Kóeyjar; frelsaði eg hann þaðan, og kom honum aftur til hins hestauðga Argverjalands; hafði hann þá afstaðið mjög margar þrautir. Á þetta vil eg nú minna þig aftur, til þess þú látir af vélabrögðum þínum, svo þú sjáir, hvort það muni stoða þig nokkuð, að þú gabbaðir mig með ástaratlotum þeim og hvílubrögðum, er þú áttir við mig í fjarvist guðanna“. 34 Svo mælti hann, en hin mikileyga drottning Hera skelfdist, og talaði til hans skjótum orðum: „Viti það nú Jörð og hinn víði Upphiminn og hið niðurrennanda Stýgarvatn: er það mestur eiður og styrkvastur með hinum sælu goðum; og viti það þitt hið helga höfuð og hjónasæng okkar beggja, er eg mundi aldrei vinna ósæran eið við: að ekki er það af mínum völdum, að Posídon jarðarskelfir vinnur skaða þeim Tróverjum og Hektori, en veitir lið Akkeum; heldur mun hugur sjálfs hans knýja hann til þess, því þá er hann sá, að Akkeum veitti þungt niðri við skipin, kenndi hann í brjósti um þá. En nú vil eg gjarna þér í vil ráða honum til að snúa þar að, sem þú, Svartskýjaguð, ræður honum“. 47 Þannig mælti hún, en faðir manna og guða brosti, og svaraði henni aftur skjótum orðum: „Ef þú, mikileyga drottning Hera, værir mér samhuga á ráðstefnu hinna ódauðlegu guða, þá mundi Posídon, enn þótt hugur hans stefni annað, brátt snúa skapi sínu eftir þykkju okkar. Nú ef þú talar af alvöru og hugur fylgir máli, þá far þú til fundar við guðina, og kalla á þau Íris og hinn fræga bogaguð Appollon, og bið þau koma hingað; skal Íris fara til hinna eirbrynjuðu Akkea og segja Posídon konungi að láta af ófriðnum og fara heim til sín; en Febus Appollon skal eggja Hektor fram til orustu, skal hann blása aftur lífsfjöri í brjóst honum, og láta hann gleyma sársauka þeim, er nú mæðir hjarta hans, en slá felmtri á Akkea og hræðslu, og snúa þeim aftur á flótta; mun þá flóttann bera að skipum Akkils Peleifssonar, en hann mun þá kveðja upp Patróklus, vin sinn; mun Patróklus að velli leggja marga hrausta hermenn, og þar á meðal hinn ágæta Sarpedon, son minn, en þá mun hinn frægi Hektor drepa hann með spjóti sínu fyrir framan Ilíonsborg. Þá mun hinn ágæti Akkilles reiðast, og mun hann þá drepa Hektor. Síðan mun eg svo til haga, að ávallt skal herhlaup veitt verða aftur frá skipunum, allt þar til er Akkear fá tekið hina hávu Ilíonsborg með ráðum Aþenu; því ekki mun eg láta reiðina linna, og engum leyfa af hinum ódauðlegu guðum að koma hér til liðs við Danáa, fyrr en uppfyllt er ósk Peleifssonar, svo sem eg hét í fyrstu og hneigði til höfði mínu, þann dag er Þetis tók um kné mér og bað mig rétta hlut Akkils borgabrjóts“. 78 Svo mælti hann, en hin hvítarmaða gyðja Hera gerði, sem hann bauð, og fór eftir Ídafjöllum og upp til hins háva Ólymps. Svo sem hugur manns þess, er um margt land hefir farið, flýgur skjótt, þá hann beitir hinni, hvössu hugsan sinni; hvarflar hugur hans víða, og margt flýgur honum í hug: svo skjótlega flaug Hera drottning; sókti hún ákaft ferðina, og kom til hins háva Ólymps; kom hún þar, er hinir ódauðlegu guðir voru á samkomu í höll Seifs. En er þeir sáu hana, spruttu þeir allir upp, báðu hana velkomna og drukku henni til. Hún skipti sér ekki af öðrum, en tók við drykkjarkeri af hinni kinnfögru Þemisi, því hún kom fyrst hlaupandi á móti henni, og mælti til hennar skjótum orðum: „Hví ertu komin hér, Hera? Víst mun Kronusson, ver þinn, hafa gert þig hrædda, því þú lítur út, sem þú sért óttaslegin“. 92 Hin hvítarmaða gyðja Hera svaraði henni: „Spyr mig ekki að því, Þemis gyðja; þú veizt sjálf, hversu hann er skapi farinn, ofstopafullur og óþýður. Sezt nú aftur að skammtveizlu með goðunum hér í höllinni; en þú og allir hinir ódauðlegu guðir skulu fá að heyra, hver illverk Seifur hefir með höndum; hygg eg, að allir muni ekki tíðindum verða jafnfegnir, hvorki menn né guðir, enn þótt sumir sitji enn kátir að veizlu“. Þá er Hera drottning hafði þetta mælt, settist hún niður. Guðunum gerðist nú skapþungt í höll Seifs, en Hera brá hlátri á grön, og kom þó ekki gleðibragð á enni hennar, það er uppi var yfir hinum svörtu augnabrúnum hennar. Þá mælti hún til allra goðanna með þykkju mikilli: „Vér bernskulegu guðir, að vér skulum vera svo fákænir, að reiðast Seifi! Víst hyggjum vér enn, að ganga nær honum, og halda honum í skefjum, annaðhvort með orðum eða ofríki; en hann situr fjarri, og skiptir sér ei af oss, og lætur, sem ekki sé; því hann kveður sig vera allra guða langmáttkastan og sterkastan. Verið því þolinmóðir, hvaða mótlæti sem hann sendir sérhverjum yðar. Því nú hygg eg, að Ares hafi nýlega beðið mikinn skaða, er Askaláfur, sonur hans, er fallinn í orustunni; segir hinn sterki Ares, að hann sé sonur sinn“. 113 Svo mælti hún, en Ares sló á bæði lær með lófum sér; og mælti harmsfullur: „Láið mér ekki, þér guðir, er búið í Ólympshöllum, þó eg fari til skipa Akkea, og hefni sonar míns, enn þótt það lægi fyrir mér, að verða fyrir reiðarslagi Seifs, og liggja í valnum blóðugur og moldrokinn“. 119 Að því mæltu bauð hann þeim Ótta og Flótta að beita hestum fyrir kerru sína, en sjálfur fór hann í hinn skínanda herbúnað. Nú hefði hin ódauðlegu goð mátt sæta af Seifi meiri og strangari heift og reiði, en nokkru sinni ella, ef Aþena hefði ei orðið hrædd um alla guðina, og stokkið af hástóli þeim, er hún sat á, og út af hallardyrunum. Hún tók hjálminn af höfði Aresar, og skjöld af herðum; eirspjótið tók hún úr hans sterku hendi, og reisti það upp; mælti síðan til hins óðláta Aresar: „Þú ert óður og vitstola, og stofnar þér í bráðan bana! Hvort hefir þú að eins eyrun til að heyra með? Er horfið frá þér allt vit og virðing? Skilur þú ekki, hvað Hera segir, hin hvítarmaða gyðja, sem kom rétt núna frá hinum ólympska Seifi? Hvort viltu fara aftur nauðugur til Ólymps, með sárum hug, og sætt mörgu illu, en stofna öllum hinum öðrum goðum í mikla óhamingju? Því Seifur mun þegar yfirgefa hina hugstóru Trójumenn og Akkea, og fara til Ólymps og skjóta oss skelk í bringu, og þá mun hann grípa hvern að öðrum, jafnt sekan, sem ósekan. Þess vegna ræð eg þér, að þú látir fara þann vígahug, sem á þér er vegna sonar þíns. Því margur sá hefir veginn verið, eða mun síðar veginn verða, sem röskvari er og kraftameiri, en þessi maður var, og er bágt að frelsa kyn og afkvæmi allra manna“. 142 Þá hún hafði þetta mælt, lét hún hinn óðfúsa Ares setjast á hástólinn aftur. Hera kallaði á Appollon út úr höllinni, og á Írisi, sem var sendigyðja hinna ódauðlegu guða. Hún mælti til þeirra skjótum orðum: „Seifur segir ykkur báðum að koma skjótast til Ídafjalls, og þegar þið komið þangað og í augsýn Seifs, eigið þið að gera, hvað sem hann leggur fyrir og býður ykkur“. 149 Þá er Hera drottning hafði sagt þetta, fór hún inn aftur, og settist í hásæti sitt. En þau Íris brugðu við og flugu af stað, og komu til hins lækjótta Ídafjalls, móður dýranna. Þau fundu hinn víðskyggna Kronusson, þar sem hann sat uppi á Gargarsmúla; var umhverfis hann eitt ilmandi ský. Þegar þau komu þar, numu þau staðar frammi fyrir Seifi skýsafnara, og reiddist hann þeim ekki, þegar hann sá, að þau höfðu brugðið fljótt við orðsendingu konu hans. Hann talaði fyrst til Írisar skjótum orðum: „Far þegar, skjóta Íris, og flyt Posídon konungi allt þetta erindi, og vert óhallsögul. Seg þú honum að hætta orustunni og ófriðnum, og fara á fund guðanna, eða þá ofan í ginnungasæ. En ef hann gegnir ekki orðsendingu minni, og leggst hana undir höfuð, þá má hann búast við því, að hann mun ekki hafa þor til, þó hann sé sterkur mjög, að bíða mín, þá eg veiti honum atgöngu; því eg er honum miklu sterkari og eldri, en hann svífst ekki að telja sig jafnsnjallan mér, þar sem þó aðrir óttast mig“. 168 Svo mælti hann, en hin vindfráa Íris gegndi honum, og fór ofan af Ídafjöllum til hinnar helgu Ilíonsborgar. Svo sem þá er köld snjódrífa eða hagl flýgur úr skýjum undan aðkasti hins heiðborna Norðanvindar: svo skyndilega flaug hin fráa Íris alla leiðina. En er hún kom til hins fræga Jarðarskelfis, þá mælti hún til hans: „Eg er komin hingað frá Seifi ægisskjalda, bláhærði Jarðkringir, að flytja þér boðskap nokkurn. Hann segir þér að hætta orustunni og ófriðnum, og fara á fund guðanna eða ofan í ginnungasæ. En ef þú vilt ekki gegna orðum hans og virðir þau vettugis, þá hótar hann, að hann skuli koma hingað, og berjast á móti þér; ræður hann þér að forða þér við áhlaupi sínu, því hann kveðst vera þér miklu máttkari og eldri; en þú svífst ekki við að teljast jafnsnjall honum, sem allir aðrir eru hræddir við“. 184 Hinum fræga Jarðarskelfi varð þungt í skapi, og mælti til hennar: Heyr undur! Heldur gerist hann nú djarforður, Seifur, þó hann sé allmikill fyrir sér, þar sem hann ætlar sér að kúga mig með valdi nauðugan, og em eg þó jafn honum að virðingu. Því við vorum þrír bræður, synir Kronusar og Hreu, Seifur og eg, og hinn þriðji Hades, konungur undirheima. Öllu ríkinu var skipt í þriðjunga, og fékk hverr sinn hluta ríkis. Og er vér vörpuðum hlutum um, þá kom það í minn hlut, að eg skyldi ávallt búa í hinum gráa sæ, en Hades hlaut hinn dimma myrkheim, Seifi hlotnaðist hinn víði himinn í uppheimsloftinu og skýjunum; en jörðin og hinn hávi Ólympus var sameign vor allra; mun eg því ekki fara eftir geðþekkni Seifs. Sitji hann rólegur í sínum þriðjungi, allt hvað voldugur hann er. Víst skal hann ekki hræða mig með ofríki sínu, sem væri eg huglaus; væri honum betra, að átelja með ógnarorðum dætur sínar og syni, er hann á; þeir munu gegna boðum hans, og láta kúgast til“. 200 Hin vindfráa Íris svaraði honum því næst: „Er það alvara þín, bláhærði Jarðkringir, að eg flytji Seifi svo hörð ógnarorð frá þér? Eða ætlar þú að láta undan? Því gegn er göfugra lund. Þú veizt, að refsinornirnar fylgja ávallt hinum eldri“. 205 Posídon jarðarskelfir svaraði henni aftur: „Þú gyðja, Íris, satt er þetta að vísu, er þú sagðir, og er það gott, að erindsreki sé sannsýnn. En mig tekur það sárt í huga og hjarta, þegar hann vill átelja með reiðiorðum, þann sem honum er jafnauðugur og jafnan hlut hefir hlotið. En þó skal eg nú sjá sóma minn, og láta undan. En eitt ætla eg að segja þér, og heita því í huga mér, að ef hann að fornspurðum mér og Aþenu ránsgyðju, Heru og Hermesi og Hefestus konungi hlífir hinni hávu Ilíonsborg, og vill ekki leggja hana í eyði og veita Argverjum ágætan sigur, þá skal hann vita það, að aldrei mun um heilt gróa með okkur“. 218 Þá er Jarðarskelfir hafði mælt þetta, yfirgaf hann hinn akkneska her og fór ofan í hafið, og var Akkeum mikill söknuður að honum. 220 Þá mælti skýsafnarinn Seifur til Appollons: „Far nú, kæri Febus, til hins eirbrynjaða Hektors, því nú er hinn jarðkringjandi Landaskelfir farinn niður í ginnungasæ, og hefir svo forðað sér fyrir hinni megnu reiði vorri; var það snjallast, þar sem ella mundi hafizt hafa sú orusta, að jafnvel mundu heyrt hafa guðir þeir, sem í Niflheimi eru hjá Kronusi. En það fór miklu betur bæði fyrir mig og hann, að hann hefir séð sóma sinn og sloppið undan höndum mínum, því ella mundi ekki hafa þrautarlaust úr slitið milli okkar. Tak nú í hönd þér hinn skúfaða ægisskjöld, skak hann fast og skjót köppum Akkea skelk í bringu. En sjálfur skaltú, Fjarvirkur, annast hinn glæsilega Hektor. Vek upp hjá honum mikinn hugmóð, allt þar til er Akkear leggja á flótta og komast til skipanna og Hellusunds. Úr því skal eg sjálfur hug um leiða, hvað úr skal ráða og upp taka, svo Akkear fái aftur hvíld í þraut“. 236 Svo mælti hann, en Appollon var ekki óhlýðinn boði föður síns. Hann fór ofan af Ídafjöllum, líkur fráum hauki, dúfnabana, er fljótastur er allra fugla. Hann fann hinn ágæta Hektor, son hins herkæna Príamuss; sat hann þá uppi, en lá ekki, var hann nýraknaður við og þekkti sveitunga sína, sem hjá honum voru; var nú mæðin farin að hverfa og svitinn, því hugur Seifs ægisskjalda tók nú til að lífga fjör hans. Hinn fjarvirki Appollon gekk til hans og mælti: „Hektor Príamsson, hví situr þú fjarri öðrum mönnum svo máttlítill? Gengur nokkuð að þér?“ 246 Hinn hjálmkviki Hektor svaraði honum með litlum mætti: „Hverr ertú, hinn bezti guð, sem aðspyr mig? Hefir þú ekki heyrt, að þá eg lagði að velli sveitunga hins rómsterka Ajants hjá skutstöfnum hinna akknesku skipa, þá laust hann mig vopnsteini fyrir brjóstið, svo eg varð með öllu óvígur. Og ekki hugsaði eg annað, en að eg mundi þann dag sjá Náheim og Hadesarhöll; það fann eg þá á mér“. 253 Hinn fjarvirki, máttugi Appollon svaraði honum: „Vert nú ókvíðinn! Þann liðsinnanda hefir Kronusson sent þér frá Ídafjalli til hjástoðar og varnar, þar sem er hinn gullsverðaði Febus Appollon; hefi eg jafnan að undanförnu verndað þig, bæði þig sjálfan og hina hávu borg. Heyr nú, bjóð nú öllu kerruliðinu að hleypa hinum fljótu hestum til enna holu skipa, en eg mun ganga á undan og jafna allan voginn fyrir kerrurnar, og snúa hinum akknesku köppum á flótta“. 262 Að því mæltu blés hann miklum hugmóði í brjóst þjóðhöfðingjanum. Svo sem gjafarhestur, er alinn er á stalli, slítur festina, hleypur yfir völlinn og lætur ganga hófana, því hann er vanur að baða sig í hinu straumfagra fljóti; er hann þá hróðugur, reisir hátt höfuðið, en faxið flaksast um herðakambinn; hann drambar af fegurð sinni, en fæturnir bera hann skjótt í átthaga og haglendi hestanna: svo títt bar Hektor fæturna og knén, þá hann rak kerruliðið af stað, eftir það hann hafði heyrt rödd guðsins. En Danáar voru sem bændamenn, sem elta hyrndan hjört eða villigeit með hundum; kemst hjörturinn upp á einhvern ógengan hamar, þar sem skógurinn er dimmastur, og forðar sér svo, því bændum á ekki auðið að verða, að ná honum; en við óhljóðin í hundunum og bændunum rís upp kamploðið ljón og kemur í veg fyrir þá, og snýr þeim öllum skjótt aftur, þó áður hafi verið mikill áhugi í þeim; svo sóktu Danáar fyrst framan af ávallt í flokkum á eftir Trójumönnum, og lögðu þá með sverðum og tvíeggjuðum spjótum; en er þeir sáu Hektor, hvar hann fór innan um herflokkana, þá urðu þeir felmtsfullir, og drap stall hjarta þeirra allra. 281 Þá hélt Þóant Andremonsson ræðu fyrir þeim. Hann var ágætastur allra Etóla, kunni vel að skjóta spjóti og var hraustur til framgöngu í fastabardaga, en þegar ungir menn áttust við orðaskipti, þá sigraði hann engi Akkea í mælsku. Hann var mönnum vel viljaður, hélt ræðu og mælti: „Mikil firn er slíkt! Stór undur eru það, sem eg sé nú með augum mínum, að Hektor skuli hafa undan komizt Valkyrjunum og vera aftur á fætur kominn. Víst mun hverr maður hafa hugsað, að hann mundi fallið hafa fyrir Ajanti Telamonssyni. Nei, einhverr guð hefir forðað Hektori og frelsað hann; hefir hann nú þegar mörgum Danáum á kné komið, og svo hygg eg nú fara muni, því ekki stæði hann svo ákafur í brjósti fylkingar, nema Seifur þrumuvaldur réði því. Heyrið nú, gerum nú allir, svo sem eg mæli fyrir. Vér skulum segja meginliðinu að hverfa aftur til skipanna, en allir vér, sem þykjum hraustastir í hernum, skulum nema hér staðar, mæta Hektori, hafa spjótin á lofti, og reka hann af höndum oss; væntir mig, þó hann sé allákafur, að hann muni ekki þor til hafa, að ganga í flokk Danáa“. 300 Þannig mælti hann, en þeir gerðu, sem hann bauð. Þeir Ajant, Idomeneifur konungur, Tevkrus, Meríónes og Meges, sem var jafnoki Aresar, kölluðu á hina hraustustu kappa, og héldu uppi bardaga við Hektor og Trójumenn; en meginliðið snéri aftur til skipa Akkea. 306 Trójumenn geystust fram í þyrpingu; fór Hektor fyrir þeim og skálmaði stórum; en á undan honum gekk Febus Appollon; hann var klæddur skýi um herðar, og hélt á hinum áriðamikla ægisskildi; sá skjöldur var ógurlegur, alskúfaður í kring, og mjög auðkennilegur; hafði eirsmiðurinn Hefestus gefið Seifi skjöldinn til að bera hann mönnum til skelfingar. Þann skjöld hafði Appollon í hendi sér, þá hann fór fyrir liðinu. 312 Argverjar biðu þeirra og voru í þéttum hnappi; reis þá upp hvellt óp af hvorumtveggjum, örvarnar stukku af bogastrengjunum, mörg spjót flugu úr hinum óvægnu höndum þeirra; leituðu sum sér staðar í holdi hinna hersnöru kappa, en mörg lentu í jörðinni á miðri leið, áður en þau næði að snerta hið hvíta hörund, og stóðu þar og langaði til að seðja sig á holdi manna. Meðan Febus Appollon hélt ægisskildinum kyrrum milli handa sér, á meðan leituðu spjótin sér staðar hjá hvorumtveggjum, og gerðist mikið mannfall; en er hann skók skjöldinn framan að hinum reiðkænu Danáum, og æpti sjálfur við mjög hátt, þá sljóvgaðist hugur í brjósti þeirra, svo þeir gleymdu berserksgangnum. Svo sem tvö óargadýr koma skyndilega að um sjálft svartnættið, þegar smalamaður er ekki við, og tvístra stórri nautahjörð eða sauðahjörð: svo flýðu Akkear felmtsfullir, því Appollon skaut þeim skelk í bringu, en veitti frama Trójumönnum og Hektori. 328 Þar drap maður mann, þá er losna tók bardaginn. Hektor vó Stikkíus og Arkesílás; hann var fyrirliði hinna eirbrynjuðu Böyóta, en Stikkíus var trúr félagi hins hugstóra Menesteifs. Eneas vó Medon og Jasus; Medon var launsonur hins ágæta Öyleifs og bróðir Ajants; hann hafði vegið mann, frænda stjúpmóður sinnar, Eríópisar, er Öyleifur átti, og varð því að fara úr föðurlandi sínu, og bjó í Fýlaksborg; en Jasus var fyrirliði Aþenumanna, og var kallaður son Sveluss Búkolssonar. Polýdamant vó Mekisteif; Polítes vó Ekkíus framarlega í orustunni; hinn ágæti Agenor vó Kloníus. Meðal forvígismannanna lagði Paris spjóti neðan til í öxl Deíokkuss, sem var á flótta, og rak eirvopnið í gegnum hann. 343 Meðan þeir flettu þá vopnum, ruddust Akkear á hið grafna díki og á stauragirðinguna, flýðu síðan á sundrungu og rákust inn yfir garðinn. Þá kallaði Hektor hátt til Trójumanna: „Hlaupið á skipin, en látið hin blóðugu hervopn liggja! Eg skal bana hverjum, þeim er eg finn langt frá skipunum annars vegar, og vonar mig, að frændur og frændkonur muni ekki fá líki þess manns á bál komið, heldur munu hundar draga það fyrir framan borg vora“. 352 Að því mæltu reiddi hann svipuna yfir öxl sér og keyrði hestana, og kallaði til Trójumanna, hvers í sínum flokki, en þeir keyrðu allir kerruhestana jafnframt honum, og kölluðu upp með geysimikilli háreysti. Febus Appollon, sem fyrir framan þá var, ruddi grafarbökkunum með fótum sér fyrirhafnarlaust ofan í díkið, og lagði þar yfir langan veg og breiðan, svo sem spjót kemst, þegar sá maður kastar því, er reynir harðskeyti sína. Þar óðu þeir yfir flokkum saman, og Appollon á undan þeim, með ægisskjöld hinn dýra í hendi sér. Hann varpaði til jarðar garði Akkea, og veitti honum það mjög hægt. Svo sem ungur sveinn leikur sér að sandi á sjávarströndu og býr til sandhrúgur að gamni sér, sem börnum er títt, en hefir gaman af því að ryðja um aftur sandhrúgunum með höndum og fótum, svo ónýttir þú, skjótandi Febus, hið mikla erfiði og þraut Argverja, og gerðir þá felmtraða. 367 Þannig numu þeir staðar hjá skipunum og héldu þar kyrru fyrir; eggjaði þá hverr annan, fórnuðu höndum og báðu ákaflega til allra guða, hverr um sig. Mest allra bað hinn gerenski Nestor, vörður Akkea; hann rétti hendur sínar upp til hins stirnda himins, og mælti: „Faðir Seifur, hafi nokkurr maður í hinu hveitifrjóva Argverjalandi brennt þér til fórnar feitum blótbitum af nauti eða sauð, og heitið á þig til heimkomu, en þú lofað því og heitið með höfuðbendingu, þá minnst þess nú, ólympski guð, og afstýr ófagnaðardegi þessum, og lát ekki Akkea þannig verða kúgaða af Tróverjum“. 377 Þannig baðst hann fyrir, en hinn ráðvísi Seifur lét koma mikinn brest, þá hann heyrði bænir öldungsins, Neleifssonar. 379 En er Trójumenn heyrðu brest Seifs ægisskjalda, stukku þeir enn ákafar á Argverja, og þreyttu bardagann. Svo sem stór alda hins víðfarna sjávar steypist ofan yfir byrðingu eins skips, þegar vindmegnið rekur á eftir henni, því það er veðurmagnið, sem mest stærir bárurnar: svo fóru Trójumenn yfir garðinn með mikilli háreysti, og er þeir höfðu ekið kerrunum inn yfir, börðust þeir hjá skutstöfnum skipanna í höggorustu með tvíeggjuðum spjótum, Tróverjar af kerrunum, en Akkear stigu upp á hin svörtu skip, og börðust þaðan með löngum sköftum, er þar lágu í skipunum; það voru vígásar, er hafðir voru í skipaorustum; voru þeir samskeyttir og eirbryddir að framan. 390 Meðan Akkear og Trójumenn börðust hjá garðinum fyrir utan hin fljótu skip, sat Patróklus í búð hins vaska Evrýpýluss, og skemmti honum með frásögum; hann bar læknisdóma á hin viðkvæmu sár hans, til að stilla hina sáru verki. En er hann heyrði, að Trójumenn réðust á garðinn, en Danáar æptu og hrukku undan, þá hljóðaði hann upp yfir sig, sló báðum lófum á lær sér, og mælti harmsfullur: „Ekki má eg vera hér lengur hjá þér, Evrýpýlus, þó þú þurfir þess mjög, því nú er mikil styrjöld upp risin. Sveinn minn skal vera hjá þér og skemmta þér, en eg ætla að skunda til Akkils og biðja hann að berjast. Hverr veit, nema eg með guðs hjálp fái hrært hug hans með fortölum mínum, og er gott vin að vara“. 405 Þá hann hafði þetta mælt, hljóp hann af stað. En Akkear stóðu fast móti Trójumönnum, er að sóktu; en þó Trójumenn væru færri, gátu þó Akkear ekki rekið þá af sér frá skipunum; ekki gátu Trójumenn heldur rofið fylkingar Danáa, og komizt upp á skipin og í búðirnar. Heldur, svo sem mæliþráður gerir beinan skipaviðinn, þegar hagur smiður heldur á, sá er lært hefir alls konar smiðvélar eftir tilsögn Aþenu: svo gekk orustan og styrjöldin jöfnum höndum milli þeirra, og börðust ýmsir kringum ýms skip. [Mynd: Bogmaður.] 415 Hektor fór á móti hinum fræga Ajanti; þeir áttust við hjá einu skipi, og gat hvorki Hektor hrakið hann burt og kveikt í skipunum, né heldur mátti Ajant reka hann af höndum sér, með því einhverr guð hafði stefnt Hektori þangað. Þar lagði hinn ljómandi Ajant spjóti fyrir brjóst Kaletor Klýtíussyni; hann var þá að bera eld að skipinu; féll hann og varð við dynkur mikill, en logbrandurinn hraut úr hendi hans. En er Hektor gat að líta, hvar bræðrungur hans lá fallinn í moldinni fyrir framan hið svarta skip, þá kallaði hann hástöfum til Tróverja og Lýkíumanna; „Þér Tróverjar og Lýkíumenn, og þér návígu Dardanar, víkið ekki úr bardaganum, þó svæði þetta sé heldur þröngt; bjargið Klýtíussyni, sem fallinn er á skipstöðinni, svo Akkear fletti hann ekki vopnum“. 429 Að því mæltu skaut hann fögru spjóti til Ajants, og missti hans; kom hið bitra eirvopn í höfuðið á Lýkofron Mastorssyni fyrir ofan eyrað; hann var hersveinn Ajants og stóð hjá honum; hann var frá Kýþeru, en bjó þá hjá Ajanti, sökum þess hann hafði vegið einn mann fyrir hinum ágætu Kýþereyingum; hann féll til jarðar ofan af skutstafni skipsins, og lá upp í loft í moldinni, og hrærði hvorki legg né lið. Ajanti varð bilt við, og mælti til bróður síns: „Góði Tevkrus, nú er drepinn trúr félagi vor, Mastorsson, er við virtum í húsi voru jafnt foreldrum okkar, þó hann ætti heima í Kýþeru. Hinn hugstóri Hektor hefir drepið hann. Hvar eru nú hinar banvænu örvar þínar, og bogi sá, er Febus Appollon gaf þér?“ 442 Þannig mælti hann, en Tevkrus skildi málið. Hann hljóp til hans, og hafði staðharðan boga í hendi og örvamæli, og tók til að skjóta örum ákaft á Trójumenn. Hann skaut Klítus, Písenors fræga son, kerrusvein hins ágæta Polýdamants Panþóussonar; hann hafði starfa mikinn í kerruliðinu, því hann ók þar um, sem flokkarnir voru þéttastir og mest var ösin; gerði hann það Hektori og Trójumönnum í vil; en þá kom skyndilega að honum ógæfan, sú er engi manna hans gat frá bægt, hvað fegnir sem þeir vildu; því hin sára ör kom aftan í háls hans; valt hann þá ofan af kerrunni, en hestarnir hopuðu á bak aftur og skröltu tómri kerrunni. Jafnskjótt og höfðinginn Polýdamant varð þess varr, gekk hann fyrstur framan að hestunum og fékk þá í hendur Astýnóus Protíáonssyni, og lagði ríkt á við hann að halda hestunum þar í nánd við sig og hafa jafnan augastað á sér, en sjálfur gekk hann aftur í flokk forvígismannanna. 458 Þá tók Tevkrus aðra ör, sem hann ætlaði hinum eirvopnaða Hektori, og nú hefði hann gert enda á orustunni hjá skipum Akkea, ef hann hefði getað skotið Hektor til dauðs, í því hann gekk sem röskvast fram. En Seifur sá við þessu bragði, og hafði gætur á Hektori, en lét ekki Tevkrus Telamonssyni frægðar auðið verða. Hann sleit sundur hinn harðsnúna bogastreng á boganum góða, í því Tevkrus dró strenginn og ætlaði að skjóta á Hektor; geigaði þá hin eirbunga ör eitthvað annað, en boginn féll úr hendi hans. Þá varð Tevkrusi bilt við, og mælti við bróður sinn: „Skelfing er slíkt! Víst ónýtir einhverr guð öll herbrögð mín, er hann hefir lostið bogann úr hendi mér, og slitið sundur nýsnúinn strenginn, er eg batt í gærmorgun, til þess hann skyldi halda, þó örvarnar hlypu títt af boganum“. 471 Hinn mikli Ajant Telamonsson svaraði honum: „Láttu, vinur, bogann liggja, og hinar óðu örvar, fyrst guð hefir ónýtt bogann, og ann ekki Danáum að hafa nytjar hans. Tak nú í hönd þér langt spjót, og skjöld á öxl, berst svo við Trójumenn, og eggja hitt annað liðið. Sannlega skulu þeir þó ekki þrautarlaust ná hinum þóftusterku skipum, þó þeir hafi mjög ekið að oss. Verðum né hraustlega við!“ 478 Svo mælti hann, en Tevkrus geymdi bogann í búð sinni, en lagði fjórbyrðan skjöld á herðar sér, en setti sterkan hjálm á sitt hrausta höfuð; hann tók og í hönd sér sterkt spjót með hvössum eiroddi, gekk svo af stað, og hljóp mjög skjótt til Ajants og stóð hjá honum. 484 Nú er Hektor sá, að ónýtt voru skeyti Tevkrusar, þá kallaði hann hástöfum til Tróverja og Lýkiumanna: „Þér Tróverjar og Lýkíumenn, og þér návígu Dardanar! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og leggið fram ofurafl yðvart; því eg sá nú með augum mínum, að skeyti hins hraustasta manns urðu ónýt af völdum Seifs. Verður mönnum nú auðsén hjástoð Seifs, bæði þeim, er hann veitir vegsemd fremur öðrum, og svo hinum, er hann niðurlægir og vill ekki hjálp veita, svo sem hann nú minnkar mátt Argverja, en aðstoðar oss. Berjizt nú allir, hverr með öðrum, og verjið skipin. Hverr yðar sem bana bíður og skapadægur sitt fyrir skotum eða sverðshöggum, falli hann; honum er engin óvirðing í að falla, þegar hann er að verja föðurland sitt. Kona hans er þó lífs og börn hans eftir hann, og heimili hans og óðal verður óskert, ef Akkear ná heim að komast á skipum sínum í sitt kæra föðurland“. 500 Með þessum orðum hvatti hann hug og hjarta hvers manns. En hins vegar kallaði Ajant til félaga sinna: „Sjáið sóma yðar, Argverjar! nú er einsætt, annaðhvort að falla, eða verja líf sitt og hrinda ógæfunni frá skipunum. Hvort ætlizt þér til, ef hinn hjálmkviki Hektor nær skipunum, að hverr yðar muni komast landveg heim til föðurlands síns? Heyrið þér ekki, að Hektor, sem langar til að brenna skipin, eggjar alla menn sína? Hann biður þá ekki að fara í dansleik, heldur að berjast. En fyrir oss er engin fyrirætlun og ekkert ráð betra, en að neyta hugar og handa í návígisorustu. Betra er skammt líf eða skjótur dauði, en að vanmegnast svo lengi að ósynju í grimmum bardaga hér hjá skipunum við aðsókn oss verri manna“. 514 Með þeim orðum hvatti hann hug og dug hvers manns. Þá vó Hektor Skedíus Perímedesson, fyrirliða Fókverja; en Ajant vó hinn fræga Laódamant Antenorsson; hann réð fyrir stórskjaldaða liðinu. Polýdamant drap Ótus hinn kyllenzka, hersvein Fýleifssonar, foringja hinna hugstóru Epea. En er Meges sá það, réðst hann móti Polýdamanti, en Polýdamant vék sér til hliðar, og missti Meges hans; því Appollon vildi ekki leyfa, að sonur Panþóusar væri drepinn á meðal forvígismannanna. Lagði Meges þá spjóti fyrir brjóst Kröysmusi; féll hann, og varð af dynkur mikill, en Meges fletti hann vopnum. Meðan hann var að því, óð að honum Dólops Lampusson; hann var vel spjótfær maður, og berserkur í framgöngu. Lampus, faðir hans, var Laómedonsson, og hinn hraustasti karlmaður. Dólops óð að Fýleifssyni, og lagði spjóti í miðjan skjöld hans. Meges hafði vandaða boðangabrynju, og hlífði brynjan honum. Þá brynju hafði Fýleifur forðum fengið í Effýru við Sellisfljót; hafði gestfélagi hans, herkonungurinn Evfetes, gefið honum hana, til að bera hana í bardaga sem verju móti óvinum sínum; en sú brynja hlífði nú syni hans við líftjóni. Meges hjó beittu spjóti efst í kambpípuna á hinum eirbúna, fexta hjálmi Dólops, og reif af henni hrosshársbustina; féll öll bustin niður í moldina; hún var nýlituð í purpura og gljáandi. Meðan Meges stóð þar að vígi og vænti sér sigurs, kom hinn herdjarfi Menelás honum til hjálpar. Hann kom á hlið við Dólops, svo hann vissi ekki af; Menelás hafði spjót í hendi, og lagði því aftan í herðar hans; gekk oddurinn í gegnum bringuna, og vildi fara enn lengra, svo var hann óður; féll Dólops þá á grúfu. Fóru þeir nú báðir til og drógu hin eirbúnu vopn af herðum hans. Þá kallaði Hektor til allra frænda sinna, og ávítti fyrst hinn vaska Melanippus Hiketáonsson. Fyrst, áður en óvinirnir komu, hélt hann drattandi nautum á beit í Perkótu; en er hin borðrónu skip Danáa voru komin, fór hann aftur til Ilíonsborgar, og hafði þar meiri metorð en aðrir Trójumenn; bjó hann hjá Príamusi, og virti Príamus hann jafnt sonum sínum. Hektor átaldi hann, tók til orða og mælti: „Eigum við að liggja svo á liði okkar, Melanippus? Kemst ekki hugur þinn við, er bræðrungur þinn er drepinn? Sérðu ekki, hvað annsamt þeir eiga um vopn Dólops? Kom þú nú með mér; ekki tjáir lengur að berjast í fjarvígi við Argverja. Annaðhvort verðum vér að drepa þá, eða Ilíonsborg verður til grunna niður rifin og drepnir borgarmennirnir“. 559 Að því mæltu gekk Hektor á undan, en hinn goðumjafni kappi fylgdi á eftir honum. Þá eggjaði Ajant hinn mikli Telamonsson Argverja: „Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og gætið sóma yðar. Blygðizt hverr fyrir öðrum í hinum hörðu orustum; því af blygðunarsömum mönnum verða þeir fleiri, er lífs af komast, en hinir, er falla; en eftir flýjandi menn liggur hvorki nokkurr orðstír, né heldur stendur af þeim nokkur vörn“. 565 Þannig mælti hann, en þeir voru sjálfir fúsir á að verja sig, og hugfestu orð hans. Þeir gerðu eirvegg um skipin, og þar hleypti Seifur Tróverjum á. Hinn rómsterki Menelás eggjaði nú Antílokkus: „Engi Akkea er yngri en þú, Antílokkus, engi fljótari á fæti, og engi jafnhraustur, sem þú, í bardaga. Nú væri gott, ef þú vildir hlaupa fram og skjóta einhvern af Trójumönnum“. 572 Að því mæltu flýtti hann sér aftur, en eggjaði hinn fram. Stökk Antílokkus þá fram úr flokki forvígismannanna, leit alla vega kringum sig, og skaut fögru spjóti; hrukku Trójumenn undan, er maður skaut spjóti; en Antílokkus missti ekki, þar er hann skaut til; kom skotið í brjóstið hjá geirvörtunni á hinum ofurhugaða Melanippus Híketáonssyni, í því hann gekk fram í bardagann; varð mikill dynkur, er hann féll, og sé sorti fyrir augu hans. Antílokkus hljóp þá til, svo sem dýrhundur stökkur á særðan hindarkálf, þann er veiðimaður hefir skotið banasári, í því kálfurinn hljóp upp úr bæli sínu: svo stökk hinn vígglaði Antílokkus á þig, Melanippus, og vildi fletta þig vopnum. Hinn ágæti Hektor varð þess varr, og fór hlaupandi yfir vígvöllinn móti Antílokkus. En þótt Antílokkus væri vaskur hermaður, beið hann þó ekki úr stað, heldur hörfaði undan, líkur hinu óarga dýri, er það hefir unnið eitthvert spellvirki, drepið hund eða smalamann hjá nautunum, þá leggur það á flótta, áður en meiri mannsöfnuður kemur; þannig flýði Nestorsson, en Trójumenn og Hektor létu banvæn skotvopn drífa að honum með geysilegri háreysti. En er Antílokkus kom í flokk sveitunga sinna, snérist hann við og stóð þar. 592 Trójumenn sóktu nú að skipunum, líkir hráætum ljónum og ráku erindi Seifs, er ávallt vakti upp stóran hugmóð í brjósti þeirra, en bældi niður hug Argverja og svipti þá fremd og frama, en æsti hina upp; því hann vildi veita Hektori Príamssyni þann vegsmun, að kveikja í hinum stafnbognu skipum með óþrotlegum surtaloga, og ætlaði þannig að uppfylla hina óhamingjusamlegu bæn Þetisar. Beið nú hinn ráðvísi Seifur þess, að hann sæi með augum sínum blossa einhvers brennanda skips; því eftir það ætlaði hann að láta Trójumenn rekast aftur frá skipunum, en veita Danáum frama. Í þeirri veru hleypti hann Hektori Príamssyni á hin holu skip, og var Hektor þó allákafur af sjálfum sér, því hann var óður, sem hinn spjótfimi Ares, eða sem skaðvænlegur eldur, er ólmast á fjöllum uppi í þykkum skógarrunnum; froðan löðraði um munn honum, bæði augun brunnu undir hinum voðalegu brúnum, en hjálmurinn hristist geigvænlega á höfði hans í orustunni; og nú vildi hann leita þar á fylkingar kappanna, sem hann sá mestan mannsöfnuðinn fyrir og beztan vopnabúnaðinn, og freista, ef hann fengi rofið þær. En allt fyrir það gat hann ekki rofið fylkingarnar, hvað mjög sem hann langaði til þess; því honum hömluðu þéttskipaðir flokkar Akkea; voru þeir sem stórmikill, ógengur hamarklettur, er stendur við hinn gráa sæ, og þrokar þar af sér snarlegt áhlaup þjótandi vinda og digrar öldur, er gjósa upp á klettinn: þannig stóðu Danáar ávallt af sér Trójumenn, og flýðu ekki. En Hektor æddi alla vega um herinn, ljómandi af eldi, og veitti þeim áhlaup, svo sem þegar steinóð, vindbólgin alda steypist úr hálofti ofan í skríðandi skip; verður /á allt skipið hulið sjávarfroðu, og ógurlegur vindþytur gnýr í seglinu, en skipverjar verða hræddir og hjarta þeirra skelfur, því þá er þeim mjótt á milli lífs og hels: þannig tvískiptist hugurinn í brjóstum Akkea. En Hektor var sem morðgjarnt ljón, er ræðst á nautahjörð; nautin ganga ótölulega mörg á beit í stórri mýrarveitu; með þeim er smalamaður, sem enn þá hefir ekki numið til fulls, að verja bjúghyrnt naut fyrir morðgirni hins óarga dýrs, gengur hann því ávallt ýmist með fremstu nautunum, ýmist með hinum öftustu; en ljónið stökkur inn í miðjan flokkinn, og rífur í sig einn uxann, og þjóta þá öll hin nautin lafhrædd á burt: svo afskaplega æðruðust allir Akkear þá fyrir Hektori og föður Seifi. En Hektor drap engan, nema Perífetes frá Mýkenu, son Kopreifs; sá Kopreifur fór oft til Herakless hins sterka með erindum Evrýsteifs konungs; Kopreifur var lítilmenni, en hann átti þann son, sem honum var miklu framar að alls konar mannkostum, bæði fótfrár, hraustur að berjast, og einhverr hinn mesti vitsmunamaður af Mýkenumönnum. Hann léði þá Hektori sigurs yfir sér; því þegar hann snérist við á hæli, rak hann hælinn í skjaldarröndina; hafði hann fótsíðan skjöld til hlífðar við spjótalögum; vafðist nú skjöldurinn fyrir fótum hans, svo hann féll upp í loft, og glamraði óttalega í hjálmi hans, er hann féll. Hektor varð þess skjótt varr, hljóp að honum, rak spjótið í brjóst honum og drap hann þar hjá vinum sínum; gátu þeir ekki liðsinnt félaga sínum, þó þeim tæki mjög sárt til hans, því þeir óttuðust mjög hinn ágæta Hektor. 653 Nú áttu Akkear að horfa í móti skipum sínum, því efstu skipin, sem fyrst höfðu verið upp sett, voru nú fyrir framan þá; streymdu Tróverjar þar að þeim. Að vísu höfðu Argverjar neyðzt til að hörfa frá hinum fremstu skipum, en þó létu þeir hér nú fyrir berast hjá búðunum, þar sem þeir voru komnir; héldu þeir saman flokkum sínum, en dreifðu sér ekki um herbúðirnar. Þeir bæði fyrirurðu sig og voru hræddir, og kölluðu því alltaf hverjir til annarra. En ákaflegast bað hinn gerenski Nestor, vörður Akkea; hann bað hvern mann fyrir sakir barna sinna, og mælti: „Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og blygðizt fyrir öðrum mönnum. Minnist hverr barna sinna og kvenna, óðals og foreldra, bæði sá, sem á foreldra á lífi, og svo hinn, er misst hefir foreldra sína. Fyrir sakir þeirra, þó þeir séu nú hér ekki nærstaddir, bið eg yður að standa hraustlega, og snúizt nú ekki á flótta“. 667 Með þessum orðum hvatti hann hug og dug hvers manns. Þá hratt Aþena hinu heilaga þokuskýi af augum Akkea; birti þeim nú svo fyrir augum til beggja handa, að þeir bæði sáu, hvar skipin voru, og svo hvar komið var bardaga hvorratveggju. Þeir sáu hinn rómsterka Hektor og sveitunga hans, svo og bæði þá, er að baki stóðu og börðust ekki, og hina, er uppi héldu bardaga hjá hinum fljótu skipum. 674 Hinn hugstóri Ajant hafði nú ekki eirð að standa lengur, þar sem hinir aðrir synir Akkea stóðu, heldur gekk hann um þiljur skipanna mjög stórstígur, og mundaði stórum vígási járnbendum, 22 álna löngum. Svo sem fimur reiðmaður, sem hefir valið sér úr mörgum hrossum fjóra reiðhesta, og rekur þá úr haglendinu um alfaraveg til einhverrar stórrar borgar; horfa þá margir á hann með undrun, bæði karlar og konur, en hann stökkur jafnan af einum hesti á annan á víxl, og skeikar ekki, en þeir fljúga í loftinu: svo gekk Ajant fram og aftur yfir margar þiljur hinna fljótu skipa, og stikaði stórum, en rödd hans fór til himins; því hann kallaði ógurlega, og eggjaði Danáa að verja skipin og búðirnar. Hektor hélt ekki heldur kyrru fyrir í mannsöfnuði hinna harðbrynjuðu Trójumanna; heldur svo sem mórauð örn ræðst á fuglaflokk, gæsir, trönur eða hálslanga svani, sem leita sér fæðu fram með einhverju fljóti: svo stökk Hektor móti Akkeum, og stefndi beint á eitthvert stafnblátt skip, en Seifur hratt á eftir honum með sinni afar miklu hendi, og eggjaði herinn að fylgja honum. 696 Nú hófst að nýju ákafur bardagi hjá skipunum, og var ekki annað að sjá, en óþreyttir og ólúnir menn ættust þar orustu við; svo börðust þeir ákaft. Hvorirtveggju höfðu þann hug í bardaganum: Akkear uggðu sér bana, og örvæntu, að þeir mundu undan komast þessum háska; en hverr Trójumanna hafði þá von í brjósti, að þeir mundu brenna upp skipin og drepa hina akknesku kappa. Með þessum áhuga réðust hvorir á aðra. Hektor greip um skutstafn eins hafskipsins; það var fagurt skip og fljótt á sjó; það skip hafði fleytt Prótesílási til Trójulands, en flutti hann ekki heim aftur í föðurland sitt. Í kring um hans skip drápu Akkear og Trójumenn hvorir aðra í návígi; þurftu þeir ekki að standa fyrir bogaskotum eða handskotum, heldur gengust þeir að með einum huga, og börðust með beittum breiðöxum og holöxum, heftisverðum og tvíyddum spjótum; þar fellu á jörð mörg fögur sverð, með svörtum slíðrum og meðalkafla, sum úr höndum, sum af herðum manna, er þeir börðust, en hin svarta jörð flaut í blóði. En er Hektor hafði fengið fang á skutnum, hélt hann um bugustafninn með höndum sínum, og lét ekki laust. Hann kallaði til Trójumanna: „Komið með eld, og herðið undir eins hergnýinn allir saman. Nú hefir Seifur gefið oss þann dag, er meira er verður en allir dagar aðrir, að vér fáum nú tekið þau skip, er hingað komu að óvilja guðanna, og oss hafa gert margan skaða sökum ragmennsku öldunganna, er heftu mig, þegar eg vildi berjast hjá skutstöfnum skipanna, og öftruðu hernum. En svo sem hinn víðskyggni Seifur blindaði hugskot vor þá, svo eggjar hann og hvetur oss nú“. 726 Þannig mælti hann, og gerðu Tróverjar þá enn harðari aðsókn að Argverjum. Nú hélzt Ajant ekki lengur við fyrir vopnaganginum; sá hann sér nú bana búinn, og hopaði spölkorn aftur, fór nú af þilfari hins jafnbyrða skips og fram á eina þóftu, sjö fóta langa. Þar stóð hann á gægjum, og varði ávallt skipin með spjóti sínu fyrir Trójumönnum, hverjum sem með eld kom. Hann kallaði jafnan ógurlega, og eggjaði Danáa: „Kærir vinir, kappar Danáa, þjónar Aresar! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og leggið fram ofurefli yðvart. Eða eigum vér von á nokkrum aðstoðarmönnum að baki oss, eða á einhverjum betra garði, sem gæti hlíft hernum við niðurdrepi? Engin víggirt borg er í nánd, þar er vér gætum varið oss og haft styrk af borgarlýðnum. Nei, vér sitjum í landi hinna harðbrynjuðu Trójumanna, liggjum hér við hafið, fjarri föðurlandi voru. Sú er því eina hjálpin, að neyta handa, og hlífa sér ekki í orustunni“. 742 Svo mælti hann, og sókti að í ákafa með hinu bitra spjóti. Sérhverjum þeim af Trójumönnum, sem hljóp að hinum holu skipum með loganda eld eftir boði Hektors og honum í vil, þeim sætti Ajant, og hjó hann með hinu langa spjóti sínu, og drap svo tólf menn í návígi fyrir framan skipin. SEXTÁNDI ÞÁTTUR PATRÓKLUSÞÁTTUR. ÞANNIG börðust þeir hjá hinu þóftusterka skipi. En Patróklus kom til þjóðhöfðingjans Akkils; hann út jós heitum tárum, sem kolblá vatnslind, sú er spýtir dökkvu vatni fram af bröttum hamri. En er hinn fóthvati, ágæti Akkilles sá hann, kenndi hann í brjósti um hann, og mælti til hans skjótum orðum: „Hví grætur þú, Patróklus, sem ung mær, sú er hleypur eftir móður sinni og bíður hana taka sig, tekur í skikkju hennar og heldur henni aftur, þá hún vill flýta sér áfram, og mænir upp á hana grátandi, að hún taki sig? Líkur henni, út hellir þú, Patróklus, mjúku tári. Eða hefir þú erindi við Myrmídóna, eða við mig? Eða hefir þér einum borizt einhver fregn frá Fiðju? Menn segja þó, að Menöytíus Aktorsson sé enn á lífi, og enn er Peleifur á lífi Ajaksson hjá Myrmídónum. Það mundi okkur næsta sárt taka, ef báðir þeir menn væru dánir. Eða ber þú þig svo illa af því, að Argverjar drepast niður hjá hinum holu skipum, sökum ofstopa sjálfra þeirra? Seg mér allt af létta, og leyn engu af, svo við vitum báðir“. 20 Þá andvarpaðir þú, reiðkæni Patróklus, þungan og mæltir til hans: „Lá þú mér ekki, Akkilles Peleifsson, langhraustasti maður Akkea! Slíkt andstreymi yfirbugar nú Akkea. Því allir þeir, sem áður voru hinir hraustustu, liggja nú við skipin skotnir og höggnir; Týdeifsson, hinn sterki Díómedes, er skotinn; hinn spjótfimi Odysseifur er höggvinn, svo og Agamemnon, en Evrýpýlus er skotinn með ör í lærið. Læknar, er marga læknisdóma kunna, stumra yfir þeim og lækna sár þeirra. En á þig bítur ekkert, Akkilles. Þess vildi eg óska, að sú heift, sem þú býr yfir, kæmi ekki í mig. Vesall ertu hreysti þinnar! Hvert gagn munu aðrir eftirkomandi menn af þér hafa, ef þú frelsar ekki Argverja frá smánarlegu tjóni? Þú harðhjartaði maður, riddarinn Peleifur hefir þá ekki verið faðir þinn, og Þetis ekki móðir þín; nei, hið dimmbláa haf og ógengir hamrar hafa getið þig; svo ertu harðgeðja. En ef þú setur fyrir þig einhverja goðaspá, og hafi hin virðulega móðir þín sagt þér spá nokkura frá Seifi, þá lát mig þó fara sem skjótast, og send með mér nokkura menn af Myrmídónum, ef verða má, að eg komi Danáum að einhverju liði. Lát mig herklæðast vopnum þínum; því vera kann, að Trójumenn haldi, að eg sé Akkilles, láti svo af bardaganum, en hinir herkænu synir Akkea fái þá því þeir eru nauðulega staddir, en nú er lítið hlé á orustunni; mun oss og hægt veita, er vér erum óþreyttir, að hrekja vígmóða menn frá skipunum og búðunum til borgarinnar“. [Mynd: Akkilles í tjaldi sínu] 46 Þannig mælti hann biðjandi, sá hinn fávísi maður; því það átti fyrir honum að liggja, að hann bæði sjálfum sér óhamingjulegs dauða og feigðar. Hinn fóthvati Akkilles mælti til hans, og var þungt í skapi: „En að þú skulir mæla slíkt, seifborni Patróklus! Hvorki hirði eg um nokkura goðaspá, þó eg viti einhverja, né heldur hefir mín heiðvirða móðir sagt mér neina spá frá Seifi. Hitt særir heldur hug minn og hjarta, þegar einhverr, þó hann hafi meira vald, rænir jafnborinn mann sér og tekur af honum aftur heiðursgjöf hans. Sá er mér harmur sárastur; því eg hefi um sárt átt að binda. Mey þá, er synir Akkea höfðu valið af óskiptu herfangi og gefið mér að heiðursgjöf, og sem eg hafði hertekið, eftir að eg hafði í eyði lagt ramgirta borg, þá mey tók Agamemnon konungur Atreifsson aftur úr höndum mér, svo sem væri eg einhverr sæmdarlaus reikunarmaður. En vér viljum ekki fást um það, sem umliðið er, enda væri það ekki heldur viðurkvæmilegt, að ala heiftarreiði í huga sér; eg sagði og, að eg ætlaði ekki að leggja niður heiftina, fyrr en herópið og styrjöldin næði skipum mínum. Far þú nú í hin frægu vopn mín, og takst herstjórn á hendur yfir hinum hergjörnu Myrmídónum, fyrst blásvartur mokkur Trójumanna kringir um skipin með ofurefli, og Argverjar halda til við sjávarlána, þar er þeir enn hafa lítinn hlut fengið af landinu, en allur borgarlýður Trójumanna sækir á hendur þeim, því hann sér ekki fyrir sér framskyggnið á hinum brennanda hjálmi mínum. Trójumenn hefðu skjótt lagt á flótta og fyllt árfarveginn með dauðum mannabúkum, ef Agamemnon konungur hefði verið mér eftirlátur; en nú berjast þeir í kring um herbúðirnar, því spjótið leikur ekki svo ótt í greipum Díómedess Týdeifssonar, að hann geti varið Danáa við fjörtjóni; og ekki hefi eg enn heyrt hljóð fara úr hinu fjandlega höfði Atreifssonar, en hvervetna kveður við rödd Víga-Hektors; þar er hann eggjar fram Trójumenn; hafa þeir nú sigrað Akkea í bardaganum og fylla gjörvallan völlinn með herópi. En ei að síður skaltú, Patróklus, gera áhlaup á þá af alefli og frelsa skipin frá tjóni, svo þeir ekki brenni þau í loganda eldi og svipti oss allri heimfararvon. Láttu mig nú leggja þér á hjarta atriði máls míns, sem er það, að þú afrekir mér mikinn sóma og frægð hjá öllum Danáum, en þeir sendi mér aftur hina fögru mey og gefi mér fagrar gjafir að auk. Hverf þú aftur, þegar þú hefir rekið Trójumenn frá skipunum. En þó svo fari, að hinn háþrumandi verr Heru láti þér frægðar auðið verða, þá lát þig þó ekki fýsa til að halda uppi bardaga við hina hergjörnu Trójumenn í fjarvist minni, því með því gerir þú mig enn sæmdarminni. Ekki skaltú heldur miklast svo af ófriðnum og styrjöldinni, þóttú drepir niður Trójumenn, að þú farir með flokkinn til Ilíonsborgar, því þá er hætt við, að einhverr hinna ódauðlegu guða frá Ólympi mæti þér, því hinn fjarvirki Appollon er mikill vin Trójumanna. Snú þú heldur aftur, þá þú hefir bjargað skipunum, og lát þá eigast við sjálfa á vellinum. Eg vildi nú, faðir Seifur og Aþena og Appollon, að engi af Trójumönnum gæti dauðann umflúið, svo margir sem þeir eru, og engi heldur af Argverjum, en að við mættum komast úr lífsháskanum, svo við einir fáum rofið hina helgu víggarða Trójuborgar“. 101 Þannig töluðust þeir við um þetta. En Ajant hélzt nú ekki lengur við fyrir vopnaganginum. Honum meinaði bæði fyrirætlan Seifs og vopnaburður hinna ágætu Trójumanna. Glumdi nú hræðilega í hinum fagra hjálmi á höfði hans af skotunum, sem ávallt skullu á hinum fagurgjörvu hjálmskjöldum; hann þreyttist í vinstri öxl sinni af því að halda ávallt hinum handbæra skildi. En þó Trójumenn léti dynja á honum skotvopnin, gátu þeir þó ekki þokað honum úr stað. Hann varð ákaflega móður, og svitinn rann í lækjum af öllum hans limum. Hann fékk enga andhvíld, því ein ógæfan rak aðra. 112 Segið mér nú, þér Sönggyðjur, sem búið í Ólympshöllum, hversu eldurinn kom fyrst í skip Akkea. 114 Hektor gekk að Ajanti, og hjó með stóru sverði á eskispjót hans, og hjó skaftið þvers í sundur við falinn fyrir aftan fjöðrina; veifaði þá Ajant Telamonsson tómu skaftinu til einskis, en eirfjöðrin féll sönglandi langt frá honum til jarðar. Ajant viðurkenndi af drenglyndum hug og óttaðist þau afskipti guðanna, að hinn hábrumandi Seifur ónýtti nú með öllu herbrögð hans og ætlaði Trójumönnum sigurinn. Hörfaði hann þá undan, og úr skotfæri, en Tróverjar skutu óþrotlegum eldi í hið fljóta skip, og læsti sig skjótt óslökkvandi logi um það allt. 124 Þannig lék eldurinn skutstafn skipsins. Þá sló Akkilles á bæði lær sér, og mælti til Patrókluss: „Upp, upp, seifborni Patróklus, ökugarpur! Eg sé hjá skipunum þyt brennanda elds; er eg hræddur um, að þeir nái skipunum, og ekkert undanfæri verði framar. Far þú fljótt í herklæðin, en eg skal kalla saman liðið“. 130 Svo mælti hann, en Patróklus bjó sig blikanda eirmálmi. Fyrst lagði hann fagrar brynspengur um fótleggi sér, kræktar silfurlegum öklapörum; því næst færði hann sig í hina fjölskreyttu ljómandi brynju hins fóthvata Ajaksniðja; hann varpaði silfurnegldu eirsverði, og þar næst stórum og sterkum skildi um herðar sér; hann setti á sitt hraustlega höfuð fextan hjálm fagurgjörvan, og slútti bustin fram geigvænlega. Hann tók tvö sterk spjót, sem honum voru greiphæf. Eitt var það vopn, er hann ekki tók af vopnum hins ágæta Ajaksniðja; það var spjótið þunga, mikla og sterka; því mátti engi af Akkeum valda, nema Akkilles; hann einn gat valdið því; það var Pelíonsaskur, er Kíron frá Pelíonsfjalli hafði gefið föður hans, til þess það yrði köppum að bana. Hann bað Atómedon að beita hestunum fyrir skjótlega; þann mann virti hann mest, næst Akkilli fylkingabrjót; treysti hann honum bezt til að standast óvinarherkall í bardaga. Að boði hans leiddi Átómedon hina fráu hesta undir okið, þá Bleik og Skjóna; þeir flugu, sem vindur; þá hesta hafði alið sviptinornin Snarfæta við Vestanvindinum, þegar hún var á beit á engi nokkuru fram með Ókeansstraumi. Hann lét Stökkul ganga í hjáteymingi; það var góður hestur; þeim hesti hafði Akkilles rænt forðum, þá hann tók Etjonsborg; sá hestur var hestkynjaður, en gekk þó með hinum goðkynjuðu hestum. 155 Akkilles gekk um búðirnar til allra Myrmídóna, og herbjó þá með vopnum; þeir voru sem hráætir úlfar, sem hafa óumræðilegt þor í brjósti sér; þegar þeir hafa drepið stóran hjört hyrndan á fjöllum uppi, rífa þeir hann í sig: kjaftarnir á þeim öllum eru rauðir af blóðinu, ganga svo í flokkum, ælandi rauðu blóðinu, til að lepja með tungubleðlum sínum blátt vatn ofan af dökkri lind; er óskelft hjarta í brjósti þeim, en kviðurinn uppbólginn: líkir þeim voru fyrirliðar og höfðingjar Myrmídóna, þá er þeir þustu í kring um hinn hrausta hersvein ens fóthvata Ajaksniðja, en hinn víglegi Akkilles stóð inni í hringnum, og eggjaði bæði kerruliðið og hina skjaldbúnu hermenn. 168 Akkilles, ástvinur Seifs, hafði komið með fimm tugi örskreiðra skipa til Trójulands; á hverju skipi réru 50 menn; fimm yfirmenn, er hann trúði vel, hafði hann sett til að vera fyrir þeim, en sjálfur hafði hann æðsta hervald yfir þeim. Fyrir einni sveitinni var hinn brynkviki Menesþíus, sonur Sperkíuss, hins himinrunna vatnsfalls; hin fríða Polýdóra Peleifsdóttir, sem var mennskra manna, hafði átt hann í samförum við hinn sterka fljótsguð Sperkíus; en í mæli var, að hún hefði átt hann við Bórus Períeressyni, því hann kvæntist henni opinberlega og gaf henni ógrynni brúðgjafa. Fyrir annarri sveit var hinn víglegi Evdórus; hann var meyjarson; móðir hans var hin dansfagra Polýmela Fýlantsdóttir; hafði hinn sterki Argusbani fellt hug til hennar, eitt sinn, er hann gat að líta hana með öðrum söngmeyjum í dansleik hinnar skarksamlegu Artemisar gullinsnældu; gekk hinn ómeinsami Hermes þegar upp í loftsalinn með henni, og hvíldi þar hjá henni leynilega; átti hún við honum fríðan svein, sem Evdórus hét, einkar hvatan á skeiði og vaskan bardagamann. En er Lausnargyðjan, sú er jóðsóttina gerir, hafði leitt sveininn í ljós, og hann hafði litið geisla Helíusar, færði hið sterka hraustmenni Ekekleifur Aktorsson Polýmelu ógrynni brúðgjafa, og hafði hana heim með sér; en öldungurinn Fýlant upp ól hann og upp fæddi, og tók við hann ástfóstri, svo sem væri hann sonur hans. Fyrir þriðju sveit var hinn víglegi Písander Maimalsson; hann var spjótfimastur maður allra Myrmídóna, næst hersveini Peleifssonar. Fyrir fjórðu sveit var hinn aldraði riddari Fenix, en fyrir enni fimmtu hinn vaski Alkímedon Laerkesson. En er Akkilles hafði skipað öllu liðinu og fylkt því ásamt með hershöfðingjunum, þá kvað hann upp þessi hörðu orð: 200 „Engi yðar Myrmídóna gleymi þeim ógnarorðum, er þér höfðuð við Trójumenn hjá hinum fljótu skipum, alla þá stund, er heift mín stóð yfir; átölduð þér mig þá, og sögðuð: „ „Móðir þín hefir fætt þig á galli, þú grimmi Peleifsson; miskunnarlaus maður ertu, er þú heldur oss nauðugum við skipin, sveitungum þínum. Vér munum nú fara heim aftur á hinum haffæru skipum, fyrst ill heift hefir þér þannig í skap runnið“ “. Þetta sögðuð þér oftsinnis við mig á samkomum yðar. Nú er fyrir hendi hið mikla orustustarf, er yður hefir áður svo mjög langað til. Berjist nú hverr yðar við Trójumenn, sem hraust hjarta hefir“. 210 Með þeim orðum upphvatti hann hugmóð og áræði hvers manns, en flokkarnir þrengdust enn meir saman, er þeir heyrðu konunginn tala. Svo sem maður hleður hávan húsvegg af þéttum steinum, til að verjast ofríki vindanna, svo þétt lágu hjálmarnir og hinir bukluðu skildir hverr við annan; þar studdi skjöldur skjöld, hjálmur hjálm og maður mann; hinir fextu hjálmar komu við hinar fögru hjálmbólur, er menn lutu áfram; svo þétt stóðu þeir hverr hjá öðrum. Fremstir allra voru tveir menn herklæddir, Patróklus og Átómedon, báðir einráðir í því að berjast í brjósti Myrmídóna. En Akkilles gekk til búðar sinnar; hann lauk upp örk einni; hún var fögur og mesta gersemi; hafði hin silfurfætta Þetis flutt þá örk út á skip hans, og fyllt hana af kyrtlum, skjólgóðum yfirhöfnum og loðdúkum. Í þeirri örk átti hann vandað drykkjarker; af því keri drakk engi maður hið skæra vín, utan hann, og engum guði dreypti hann af því keri, nema föður Seifi. Hann tók nú kerið upp úr örkinni, og hreinsaði það fyrst með brennusteini, laugaði það síðan í fögrum vatnsstraumi, þvoði sér svo um hendur, og hellti á það skæru víni. Síðan gekk hann fram í miðjan búðargarðinn, leit til himins, dreypti víninu og baðst fyrir, og fór sú bæn ekki á mis við hinn þrumuglaða Seif: „Seifur konungur (kvað hann), þú Dódónugoð, þú Pelasgagoð, þú sem býr langt í burtu, ráðandi hinnar vetrarríku Dódónu, þar sem Sellar, spámenn þínir, búa hjá þér, með óþvegnum fótum, og liggja á berri jörð! Eitt sinn heyrðir þú bænarorð mín, veittir mér sóma og refsaðir harðlega hermönnum Akkea. Veit mér og enn að þessu sinni þessa ósk mína. Eg ætla sjálfur að vera hér eftir í skipstöðinni, en sendi nú vin minn með marga Myrmídóna í bardagann; veit þú honum frama, víðskyggni Seifur; hughreyst hjartað í brjósti hans, svo Hektor fái að vita, hvort þessi hersveinn minn kann að berjast einn sér, eða hvort hinar afar sterku hendur hans ólmast þá að eins, þegar eg geng út í Aresarþraut. En er hann hefir stökkt styrjöldinni og herópinu frá skipunum, þá óska eg hann komist heill aftur til hinna fljótu skipa með öll vopnin og hina návígu félaga mína“. 249 Þannig baðst hann fyrir, en hinn ráðvísi Seifur heyrði bæn hans; veitti faðir Seifur honum bæn sína að sumu leyti, en synjaði að nokkuru: hann veitti honum að stökkva ófriðnum og styrjöldinni frá skipunum, en synjaði honum að komast lífs aftur úr bardaganum. [Mynd: Maður með drykkjarker.] 253 Nú sem hann hafði dreypt og gert bæn sína til föður Seifs, gekk hann aftur inn í búðina, og lagði kerið niður í örkina, gekk síðan út og stóð fyrir framan búðina, því hann langaði enn til að horfa á hinn grimma bergný Trójumanna og Akkea. 257 Myrmídónar gengu herklæddir með hinum hugstóra Patróklus, og héldu hinum stóra áhuga sínum, allt þar til er þeir stukku inn á Tróverja. Þeir þeystust út frá skipunum, líkir geitungum á alfaravegi, er fávísir drengir glettast við eftir venju sinni og valda með því mikils ills bæði sér og öðrum; því beri þar að einhvern ferðamann, og komi hann óviljandi við geitungana, þá fljúga þeir allir fram með þrekmiklum hug, og ver hverr unga sína. Myrmídónar höfðu nú þeirra hjarta og skap, þá er þeir þustu frá skipunum, og reis þá upp geysimikið heróp, en Patróklus kallaði hástöfum til félaga sinna: „Myrmídónar, sveitungar Akkils Peleifssonar, verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og takið nú á ofurafli yðar, svo vér fáum rétt hluta Peleifssonar, sem er hinn langhraustasti af Akkeum hér við skipin og á návíga hersveina, og svo hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson kannist við glæpsku sína, er hann virti einskis þann, er hraustastur er af Akkeum“. 275 Með þessum orðum hvatti hann hug og hjarta hvers manns; en þeir stukku á Trójumenn gjörvallir; tók þá ógurlega undir í skipunum, er Akkear æptu. En er Trójumenn sáu hinn hrausta Menöytsson og hersvein hans, báða ljómandi í herbúnaði, þá kom felmtur yfir alla, svo fylkingar þeirra bifuðust, gerðu þeir sér í hug, að hinn fóthvati Peleifsson hefði snarað af sér heiftinni hjá skipunum, og tekið sáttum. Leit þá hverr þeirra kringum sig, hversu hann mætti undan flýja bráðum bana. 284 Patróklus skaut fyrstur fögru spjóti beint í miðjan flokkinn, þar er mest var mannþyrpingin við skutstafninn á skipi hins hugstóra Prótesíláss, og kom skotið á Pýrekmes, er komið hafði með hina hestfimu Peóna frá Amýdonsborg við hið straumbreiða Axíusfljót; kom spjótið í hægri öxl hans; féll hann þá hljóðandi upp í loft ofan í moldina, en Peónar, félagar hans, urðu felmtsfullir í kring um hann, því Patróklus skaut þeim öllum skelk í brjóst, er hann hafði drepið þann fyrirliða, er jafnan var hinn hraustasti maður til framgöngu í bardaga, keyrði Patróklus þá frá skipunum, og slökkti hinn brennanda eld. Stóð skipið þar eftir hálfbrunnið, en Trójumenn flæmdust undan með geysimiklum þys; steyptu Danáar sér þá yfir hin holu skip, og gerðist nú hinn æsilegasti manngnýr. Svo sem þá er Seifur eldingaguð feykir þykku skýi burt af hávum tindi mikils fjalls; sjást þá allir fjallatindar, múlar og dalir, því þá rofar í hið ómælilega uppheimsloft undir himinhvolfinu: svo fengu Danáar hvíld nokkura, þá þeir höfðu hrundið af sér hinum skæða eldi. Þó varð ekki hlé á orustunni, því Tróverjar flýðu ekki undan Akkeum, ástvinum Aresar, svo að þeir snéri bökum við hinum svörtu skipum, heldur veittu þeir enn mótstöðu, og hörfuðu nauðugir frá skipunum. 306 Nú sem bardaginn tók að losna, hafði hverr hershöfðingjanna mann fyrir sér. Fyrstur lagði hinn hrausti Menöytsson hvössu spjóti í lær Areilýkusi, er hafði snúizt undan á flótta, og rak eirvopnið í gegn, en spjótið braut beinið; féll maðurinn þá til jarðar á grúfu. Menelás hjó til Þóants, er skjöldinn bar frá bringunni; var það banasár. Amfíklus hljóp fram að Fýleifssyni, en Fýleifsson sætti honum, varð fyrri að bragði, og lagði í kálfann, þar sem vöðvi manns er þykkastur; skárust sundur sinarnar fyrir spjótsoddinum, en sorti sé fyrir augu mannsins. Antílokkus Nestorsson lagði hvössu spjóti á Atymníus, og gekk eirspjótið í gegnum nárann, svo hann féll áfram. Maris, er þar var nærstaddur, reiddist, er bróðir hans féll, og hljóp að Antílokkus með spjótið á undan sér, og vildi verja lík bróður síns; en hinn goðumlíki Þrasýmedes varð skjótari en hann til lags, og lagði þegar til hans; brást honum ekki lagið, og kom í öxlina; reif spjótsoddurinn af vöðvana efst á upphandleggnum, og braut sundur beinið gjörsamlega; féll hann þá, og varð dynkur mikill, en sorti sé fyrir augu hans. Þannig féllu þeir báðir fyrir tveimur bræðrum, og fóru til Myrkheims; þeir voru vaskir menn og spjótfimir, félagar Sarpedons og synir Amísódars; sá ól upp hina ósigranlegu Kímeru, meinvætt margra manna. Ajant Öyleifsson hljóp fram, og náði Kleóbúlus lifanda; hafði hann rasað í mannþrönginni, en Ajant tók hann þar af lífi, og hjó á háls honum með heftisverði; varð allt sverðið volgt af blóðinu, en dökkrauður dauðinn og hin máttuga skapanorn heltók augu mannsins. Þeir hlupu saman, Penelás og Lýkon; þeir höfðu báðir skotið spjótum sínum til ónýtis, og misst hvorr annars, hlupu svo saman að nýju með sverðum. Lýkon hjó á bólu hins fetta hjálms, og brotnaði sverðið í falnum. Penelás hjó á hálsinn fyrir neðan eyrað, og hljóp sverðið inn í hálsinn á kaf, svo ekki hélt nema skinnið; hékk þá höfuðið út á hlið; en limir hans urðu magnþrota. Meríónes náði Akamanti á snöru athlaupi, í því hann ætlaði að stíga á kerru sína, og lagði hann í hægri öxlina; valt hann þá ofan af kerrunni, en dimma sé fyrir augu hans. Idomeneifur lagði hörðu eirvopni í munn Erýmanti; gekk eirspjótið þvers í gegn fyrir neðan heilann og sprengdi sundur hin hvítu bein; hrukku þá út tennurnar, og bæði augu hans fylltust blóði, en hann gapti og spúði blóðinu um munn og nasir, og svart dauðaský sveif yfir hann. 351 Þessir hershöfðingjar Danáa höfðu hverr mann fyrir sér. Svo sem glepsandi úlfar stökkva á sauði eða hafra, og taka það úr fénu, sem sökum vangæzlu smalamannsins hefir orðið viðskila við annað fé uppi á fjöllum, grípa úlfarnir það, þegar þeir sjá það, en féð hefir þá engan hug til mótvarnar: svo stukku Danáar á Trójumenn, en þeir flýðu undan með þys miklum, og gáðu ekki að neyta ofureflis síns. 358 Ajant hinn mikli leitaði ávallt við að skjóta spjóti að hinum eirbrynjaða Hektori, en af herkænsku sinni hlífði Hektor hinum breiðu herðum sínum með nautsleðursskildi, skyggndist um og tók eftir hvini örvanna og þyt spjótanna. En þó hann vissi, að sigurinn í orustunni hné á hinn bóginn, veitti hann ei að síður viðnám, og bjargaði hinum tryggu félögum sínum. 364 Svo sem ský kemur frá Ólympi upp úr heiðríkju og fer yfir loftið, þegar Seifur undirbýr harðan fellibyl: svo fóru Trójumenn með ys og þys frá skipunum, fóru nú aftur farinn veg í engu skipulagi. Hinir fótfráu hestar báru Hektor undan með vopnunum, og lét hann þar eftir hið tróverska herlið; komust þeir nú ekki áfram, sem þeir vildu, fyrir díkinu, er grafið hafði verið; hrutu margir fráir kerruhestar fremri hluta kerrustanganna þar í díkinu, og hlupu svo frá kerrum eigendanna. Patróklus sókti á eftir þeim; hann eggjaði Danáa ákaflega, og hafði illan hug til Trójumanna; fóru Tróverjar nú á sundrungi með ys og þys miklum, og fylltu alla vega; rauk moldarstrokan upp undir ský, en hinir einhæfðu hestar gönuðu aftur til borgarinnar frá skipunum og búðunum. Patróklus hleypti kerru sinni þar sem hann sá mesta mannaþvöguna, og kallaði hátt; féllu þá kapparnir á grúfu ofan af kerrunum og lágu svo fyrir neðan hjólásana, en kerrustólarnir botnveltust brakandi. Hinir fráu hestar hans voru nú mjög framfúsir og stukku beint yfir díkið, lék honum hugur á að finna Hektor, og vildi skjóta hann; en hinir fráu hestar báru Hektor undan. Svo sem öll jörðin flóir undan dimmri skúr á haustdegi, þegar Seifur eys niður vatninu sem ákaflegast, þá er hann vonzkast í heift sinni við þá menn, sem með ofríki dæma ranga dóma á þingum, halla réttinum og skeyta ekki hegningu guðanna; renna þá öll fljót bakkafull, en lækirnir grafa sér farveg ofan eftir mörgum holtum, og steypast með miklum nið ofan af fjöllunum út í hinn dimmbláa sæ, og spillast þá akurlönd og andvirki manna: svo hlupu hinir tróversku hestar, stórum rymjandi. 394 En þegar nú Patróklus hafði höggvið skarð í fremstu flokkana, hrakti hann Trójumenn aftur á leið til skipanna og lofaði þeim ekki að komast til borgarinnar, þó þeir væru þangað fúsastir, heldur ólmaðist hann um kring og drap þá milli skipanna og fljótsins og hins háva borgarveggs, og þá hefndi hann margra Akkea. Þar skaut hann fyrst fögru spjóti á Pronóus, þar sem hann var hlífarlaus og skjöldinn hafði borið frá bringunni; var það hans bani, og varð dynkur mikill, er hann féll. Þá réðst hann fram annað sinn, og lagði til Þestors Enopssonar; hann sat í hnipri í hinni vel sköfnu kerru sinni, því hann var óttaskelfdur, og sluppu taumarnir úr höndum honum. Patróklus gekk að honum, og lagði spjóti í hægri kinn honum, og gekk lagið milli tanna hans. Síðan vó hann hann á spjótinu upp yfir kerrubogann, svo sem þá er maður situr á klapparnefi, og dregur helgan fisk úr sjó með færi og fögrum öngli. Svo vó Patróklus hann á hinu bjarta spjóti upp af kerrunni gapanda, og kastaði honum niður á munninn, og dó hann þegar, er hann var fallinn. Erýalus hljóp þá að Patróklusi, en Patróklus kastaði steini í mitt höfuð honum; klofnaði sundur allur hausinn í hinum þunga hjálmi, en hann féll til jarðar á grúfu, og sveif banvænn dauði yfir hann. Því næst felldi hann til jarðar hvern að öðrum, Erýmant, Amfoterus, Epaltes, Tlepólemus Damastorsson, Ekkíus, Pýris, Ifeif, Evippus og Polýmelus Argeasson. 419 En er Sarpedon sá, að hinir ógyrðluðu félagar sínir féllu fyrir Patróklus Menöytssyni, átaldi hann hina goðumlíku Lýkíumenn, og kallaði til þeirra: „Minnkun, Lýkíumenn, hvert flýið þér? Verið nú vaskir, því eg vil ganga til móts við þenna mann, og vita, hvað manna sá er, er þar gengur svo mjög fram; hefir hann nú þegar gert Trójumönnum margt illt og mörgum hraustum manni á kné komið“. 426 Að því mæltu stökk hann alvopnaður ofan af kerrunni til jarðar. Hins vegar stökk Patróklus, er hann sá það, ofan úr kerrustól sínum. Voru þeir, sem tveir klóbjúgir, bjúgnefjaðir gammar, er fljúgast á uppi á hávum kletti, og gjalla hátt: svo stukku þeir hvorr á annan með miklu ópi, Patróklus og Sarpedon. En er sonur hins brögðótta Kronusar sá þá, mælti hann til Heru, systur sinnar og konu: „Vesall em eg, er Sarpedon, sem mér er kærastur manna, skal falla fyrir Patróklus Menöytssyni. Leikur nú hugur minn á tveim áttum, hvort eg á að svipta honum burt lifanda úr hinum hörmulega bardaga, og flytja hann í hið frjóvsama Lýkíuland, eða skal eg láta hann hníga fyrir Menöytssyni“. [Mynd: Fallinn hermaður.] 439 Hin mikileyga drottning Hera svaraði honum: „Harðráðasti Kronusson! En að þú skulir mæla slíkum orðum! Ætlar þú aftur að frelsa dauðlegan mann, sem er háður forlögunum, frá enum hryllilega dauða? Ger þú það, en ekki munum vér, hinir guðirnir, verða allir á þínu máli. En eitt vil eg segja þér, sem þú skalt festa í hug þér: ef þú flytur Sarpedon lifanda heim til sín, þá máttu búast við, að hinir guðirnir muni og vilja flytja sonu sína úr hinni hörðu orustu; því margir synir ódauðlegra guða berjast nú í kring um hina miklu Príamsborg, og muntu hleypa í guðina megnri heift. Nú þó Sarpedon sé þér kær, og þig taki sárt til hans, þá lát hann þó falla fyrir Patróklus Menöytssyni í hinni hörðu orustu; en er sál og líf er við hann skilið, þá lát þá Bana og Blund bera hann burt, þar til er þeir koma í hið víða Lýkíuland; þar skulu frændur hans og vinir verpa haug eftir hann og reisa honum bautastein; því það er sá heiður, er dánir menn njóta“. 458 Þannig mælti hún, en faðir manna og guða hlýddi henni. Hann lét drjúpa blóðuga dropa til jarðar til heiðurs syni sínum, er Patróklus átti af lífi að taka í hinu jarðfrjóva Trójulandi, fjarri föðurlandi hans. 462 En er þeir Sarpedon áttu skammt hvorr til annars, þá skaut Patróklus hinn fræga Þrasýmelus; hann var hraustur maður og hersveinn Sarpedons konungs; kom skotið neðan til í kviðinn, og var það hans bani. Þessu næst skaut Sarpedon til Patróklus fögru spjóti, og missti hans, en spjótið kom í hægra bóg á Stökkli, hesti Patrókluss; öskraði hesturinn í andarslitrunum, féll grenjandi niður í moldina, og þá leið lífið úr honum. Hinir hestarnir stukku hvorr frá öðrum, brakaði þá í okinu og taumarnir flæktust, af því hjáteymingshesturinn lá í moldinni. Hinn spjótfimi Átómedon fann ráð við þessu vandræði; hann dró langeggjað sverð frá hlið sér, hljóp til og var ekki seinn, og hjó lausan hjáteymingshestinn; réttu hinir sig þá við og lögðust jafnt í taumana. Þá gengu þeir Patróklus aftur saman af sárbeittu kappi. 477 Sarpedon skaut fögru spjóti, og missti hans aftur; lenti spjótsoddurinn fyrir ofan vinstri öxl Patrókluss, og varð hann ekki sár. Því næst reiddi Patróklus eirvopn sitt, og flaug ekki skotvopnið til ónýtis úr hendi hans; kom spjótið, þar sem þindin afgirðir hið hulda hjarta. Þá féll Sarpedon, sem eik fellur, eða ösp, eða hávaxin fura, er smiðir höggva til skipatimburs á fjöllum uppi með nýhvöttum öxum. Þannig lá hann endilangur fyrir framan hestana og kerruna; hann grenjaði og gruflaði höndum í blóðugri moldinni. Svo sem ljón ræðst á nautahjörð, og drepur bröndóttan griðung mannýgan í nautaflokknum, og drepst griðungurinn öskrandi í kjafti ljónsins: svo var enn móðurinn í foringja hinna skjaldfimu Lýkíumanna, þá hann féll fyrir Patróklus, og kallaði hann nú á kæran félaga sinn með nafni: „Góði Glákus, þú hermaður meðal kappanna, nú ber þér að sýna spjótfimi þína og vera hraustur bardagamaður. Ef þú ert vaskur maður, þá lát þig nú langa í óttalegan ófrið. Far fyrst um allan flokkinn og eggja fyrirliða Lýkíumanna að halda uppi bardaga og verja Sarpedon, og því næst skaltu sjálfur berjast með eirvopni þínu mér til varnar; því ef Akkear fletta mig hér vopnum, þar sem eg ligg fallinn hjá skipstöðinni, þá mun eg ávallt alla daga verða þér til minnkunar og ámælis. Statt þig nú hraustlega, og eggja fram allan herinn“. 502 Þá hann hafði þetta mælt, sveif algjörr dauði yfir augu hans og nasir, en Patróklus sté fæti sínum á brjóst honum, og kippti spjótinu úr undinni, og fylgdi þar með þindin; var það jafnskjótt, að hann kippti út spjótsoddinum og sálin skrapp út úr undinni. En Myrmídónar héldu þar hinum másandi hestum; vildu þeir hlaupa í gönur, eftir að þeir höfðu yfirgefið kerrur eigendanna. 555 Glákus varð næsta sorgbitinn, er hann heyrði orð Sarpedons; féll honum sárt, að hann gat ekki komið honum til hjálpar. Hann hélt hendi sinni um handlegg sér, og kreisti, því hann þjáðist af sári því, er Tevkrus særði hann, þá hann skaut ör að Glákusi ofan af hinum háva garði, og varði svo sveitunga sína, þegar Glákus vildi ráðast á þá. Glákus gerði nú bæn sína til hins langskeyta Appollons, og mælti: „Heyr lávarður, þú sem nú ert einhverstaðar í hinu frjóvsama Lýkíulandi eða í Trójulandi, þú getur allstaðar heyrt bæn hvers manns, sem þjáður er, svo sem eg þjáist nú. Því stórt er sár það, er eg hefi þar á mér; hjarta mitt er alla vega stungið sárum verkjum, blóðrásin getur ekki stöðvazt, og öxlin verður mér þung af sárinu. Eg get ekki valdið spjótinu til lengdar, og ekki gengið í bardaga við óvinina; en nú er Sarpedon fallinn, sonur Seifs, hinn hraustasti maður, og vill Seifur nú ekki svo mikið sem hjálpa syni sínum. En lækna þú þó, lávarður, þetta hið mikla sár mitt, still verkina, og veit mér styrk, að eg kalli á mína lýkversku sveitunga og biðji þá að berjast, og gangi svo sjálfur í bardaga til varnar líki því, er hér liggur fallið“. 527 Þannig baðst hann fyrir, en Febus Appollon heyrði bæn hans, stillti verkina, þerrði hið svarta blóð af sárinu og kom styrk í hjarta hans. Glákus fann það með sjálfum sér, og gladdist, er hinn mikli guð hafði svo skjótt orðið við bæn hans. Fyrst gekk hann um allan flokkinn og eggjaði liðsforingja Lýkíumanna að verja lík Sarpedons. Síðan fór hann til Trójumanna, stikaði stórum, gekk til Polýdamants Panþóussonar og hins ágæta Agenors, og þaðan til Eneass og hins eirbrynjaða Hektors. Hann gekk til Hektors og mælti til hans skjótum orðum: „Nú hefir þú, Hektor, gleymt mjög liðsmönnum þínum, þeim er fyrir þínar sakir láta líf sitt fjarri vinum sínum og föðurlandi, án þess þú viljir koma þeim til liðs. Nú er Sarpedon fallinn, foringi hinna spjótfimu Lýkíumanna, er varði Lýkíu með réttvísi sinni og hreysti. Hinn eirklæddi Ares lét hann falla fyrir spjóti Patrókluss. Heyrið, góðir hálsar, komið til, látið yður ekki þá skömm henda, að Myrmídónar fletti lík hans og fari illa með það í hefnd eftir hina föllnu Danáa, er vér drápum með spjótum vorum hjá hinum fljótu skipum“. 548 Svo mælti hann, en óbærilegur og óaflátlegur harmur gagntók Trójumenn; því þó Sarpedon væri útlendur maður, þá hafði hann þó verið þeim sem vörzlugarður fyrir borg þeirra; fylgdu honum og margir menn, og hann sjálfur hinn hraustasti maður til framgöngu. Gengu þeir nú með ákafa miklum móti Danáum; fór Hektor fyrir þeim; hann vildi hefna Sarpedons, en hinn hrausti kappi, Patróklus Menöytsson, eggjaði Akkea. Hann mælti fyrst til beggja Ajanta, enn þótt þeir af sjálfum sér væru allákafir: „Þið Ajantar, látið ykkur nú líka að veita slíka vörn, sem þið áður hafið veitta fremur öðrum mönnum, eða enn betri. Nú er Sarpedon fallinn, sá maður, er fyrstur hljóp á garð Akkea; væri nú gott ef vér næðum honum, lékjum hann smánarlega og flettum hann vopnum, og fengjum drepið með hörðu eirvopni einhvern af sveitungum hans, er verja líkið“. 562 Þannig mælti hann, og voru þeir þó allákafir af sjálfum sér til hraustrar varnar. En er hvorirtveggju höfðu styrkt fylkingar sínar, Tróverjar og Lýkíumenn, Myrmídónar og Akkear, þá æptu þeir upp ógurlega, og gengust á, til að berjast um dauðan náinn; gall þá hátt í vopnum kappanna, en Seifur þandi voðalegt náttmyrkur yfir hina hörðu orustu, svo unnin yrði skæð bardagaþraut í kring um hans kæra son. 569 Trójumenn urðu fyrri til að hrekja hina snareygu Akkea, því þá féll einhverr hinn hraustasti maður af Myrmídónum, hinn ágæti Epígeifur, sonur hins hugstóra Agakless; hann var fyrst konungur í hinni fjölmennu Búdíonsborg, en vó þá einhvern frænda sinn, ágætan mann, og flýði því á náðir Peleifs og hinnar silfurfættu Þetisar; þau sendu hann til hinnar hestauðgu Ilíonsborgar með Akkilli fylkingabrjót, til að berjast við Trójumenn. Þegar hann nú greip á líkinu, kastaði hinn prúði Hektor vopnsteini í höfuð hans; klofnaði þá allt höfuðið í sundur inni í enum þunga hjálmi, en hann datt á grúfu ofan yfir líkið, og sveif lífskæður dauði yfir hann allan. Patróklus sárnaði, er sveitungur hans féll; óð hann þá fram milli forvígismannanna, líkur snörum hauki, er rekur á flótta krákur og stara. Svo óðstú, Patróklus ökugarpur, beint á móti Lýkíumönnum og Tróverjum, því þá varstu í reiðum hug sökum félaga þíns. Þá kastaði Patróklus vopnsteini á háls Stenelási Íþemeneifssyni, og slitnuðu sundur hálssinarnar. Hörfuðu þá forvígismennirnir undan og hinn prúði Hektor. Svo langt sem langspjót flýgur, þegar sá maður skýtur því, er reynir langskeyti sína annaðhvort í kappleik eða í orustu móti mannskæðum óvinum, svo langt viku Trójumenn undan, en Akkear sóktu eftir. Glákus, foringi hinna skjaldbúnu Lýkíumanna, snérist fyrstur við, og vó hinn hugstóra Baþýkleif Kalkonsson; hann bjó í Hellulandi, og var mesti lánsmaður og auðmaður af Myrmídónum. Glákus snérist skyndilega við, og skaut spjóti í brjóst Baþykleifi, því hann elti Glákus og var nærri búinn að ná honum; varð mikill dynkur er hann féll. Þá tók sár harmur Akkea, er svo hraustur maður féll, en Trójumenn urðu stórum glaðir, og stóðu þykksett í kring um hann. Akkear lágu þó ekki á liði sínu, heldur lögðu fram mátt sinn og megin móti þeim. Þá vó Meríónes hraustan mann herbúinn, einn af Trójumönnum, Laógonus Onetorsson; hann var hofgoði Seifs Ídafjallsguðs, og virtur af landslýðnum, sem einhverr goðanna. Meríónes kom höggi á hann fyrir neðan kjálkann og eyrað; hvarf þá lífið skjótt úr limum hans, og kom yfir hann hræðilegt myrkur. Eneas skaut eirspjóti að Meríónes, og hugði að hæfa hann, þar er hann gekk fram með skjöldinn fyrir sér; en Meríónes horfði í mót honum, og vék sér undan eirspjótinu, með því hann laut áfram; flaug hið langa spjót þá yfir bak hans og í jörð niður; hristist þá við aurfalurinn á spjótinu, og þar missti loks hinn sterki málmur magn sitt. Þá reiddist Eneas, og mælti: „Þó þú sért mikill lífkálfur, Meríónes, þá mundi þó spjót mitt brátt hafa tekið til fulls úr þér galsann, ef eg að eins hefði hitt þig“. 619 Hinn spjótfrægi Meríónes svaraði honum: „Erfitt mun þér veita, Eneas, þó þú sért allröskur, að bæla niður fjör hvers manns, þess er móti þér gengur og vill verjast þér, því þú munt vera dauðlegur, sem aðrir menn. Og ef eg skyti til þín hvössu eirvopni og hitti þig miðjan, þá mundir þú, þó þú sért allfrækinn og góður kraftamaður, veita mér óskina mína og selja sálu þína hinum hestfræga Hadesi“. 626 Svo mælti hann, en hinn þrekmikli Menöytsson átaldi hann: „Hví heldur þú þessa ræðu, Meríónes, svo ágætur maður? Vinur, ekki munu Trójumenn ganga frá líkinu fyrir brigzlyrðum einum; fyrr mun einhverr þeirra í gras hníga, því hönd skal í róstu reyna, en ræðu á þingi. Er því ekki vert, að hafa mörg orð, en berjast heldur“. 632 Að því mæltu fór Patróklus á undan, en hinn goðumlíki kappi gekk á eftir honum. Svo sem stór dynur verður í fjalldölum, svo að heyrist langar leiðir, þegar menn höggva eikur í skógi: svo gerðist hark mikið á hinni víðförnu jörð af eirvopnum og hlífum og traustsmíðuðum nautsleðursskjöldum, þá er hvorirtveggju lögðu með sverðum og tvíyddum spjótum. Nú mundi jafnvel kunnugur maður ekki framar þekkt geta hinn ágæta Sarpedon, því hann var allur hulinn skotvopnum og blóði og moldryki frá hvirfli til ilja; en þeir þyrptust kringum líkið, svo sem mýflugur á stöðli söngla uppi yfir fullum mjólkurskjólum á vorin, þegar vel mjólkar: svo flykktust þeir um líkið, en Seifur snéri aldrei hinum björtu augum sínum frá hinni hörðu orustu, heldur horfði hann ávallt á kappana, og var mjög hugsandi með sjálfum sér um dauða Patrókluss, hvort Hektor hinn prúði skyldi vega hann þar í hinni hörðu orustu ofan á líki hins goðumlíka Sarpedons, og fletta hann vopnum, eða skyldi hann enn auka fleirum mönnum mikið starf. En er hann hugsaði slíkt með sér, leizt honum það ráðlegra, að hinn hrausti hersveinn Akkils Peleifssonar hrekti Trójumenn og hinn eirbúna Hektor aftur til borgarinnar, og tæki marga menn af lífi. Hann skaut þá Hektori fyrstum manna hugleysi í brjóst; steig Hektor þá á kerru sína, og hélt undan, og bað aðra Trójumenn flýja; því hann þekkti hinar helgu metaskálar Seifs. Þá biðu ekki heldur hinir vösku Lýkíumenn úr stað, heldur flýðu allir, þegar þeir sáu konung sinn til hjarta lagðan, liggjandi í valnum; því margir höfðu fallið á hann ofan, þá er Kronusson knúði hina hörðu bardagarimmu. Tóku nú Akkear hin skínandi eirvopn af herðum Sarpedons, og lét hinn þrekmikli Menöytsson félaga sína bera þau til enna holu skipa. Þá mælti Seifur skýbólstraguð til Appollons: „Heyr nú, kæri Febus, gakk úr skotfæri, og hreinsa hið svarta blóð af Sarpedon, ber hann síðan langt í burt, og þvo hann í fljótsstraumunum, smyr hann með ódáinsfeiti, og fær hann í ódauðleg klæði, fá hann síðan til flutnings í hendur hinum skjótu ferjendum, þeim tvíburunum, Blund og Bana, skulu þeir flytja hann skjótlega í hið frjóvsama byggðarlag ens víða Lýkíulands; þar munu frændur hans og vinir heygja hann og reisa honum bautastein; því það er sá heiður, er dánir menn njóta“. 676 Þannig mælti hann, en Appollon gerði, sem faðir hans bauð; hann sté ofan af Ídafjöllum, og þangað sem hinn ógurlegi manngnýr var. Hann tók þegar hinn ágæta Sarpedon upp og kom honum úr skotfæri, bar hann mjög langt þaðan frá og þvoði hann í fljótsstraumunum, smurði hann ódáinsfeiti, og færði í ódauðleg klæði, fékk hann svo í hendur hinum skjótu ferjendum til flutnings, þeim tvíburunum, Blund og Bana, en þeir komu hinum skjótt til hins frjóvsama héraðs ennar víðlendu Lýkíu. 684 Patróklus rak eftir hestunum og Átómedon að flýta sér, og hélt nú á eftir Tróverjum og Lýkíumönnum, og þá steypti hann sér í ógæfuna, sá hinn óforsjáli maður. Ef hann hefði gegnt boðum Peleifssonar, mundi hann hafa komizt undan illri valkyrju hins dimma dauða. En ráð Seifs eru jafnan ríkari, en mannleg ráð, og það var Seifur, sem þá æsti huginn í brjósti hans. 692 Hvern vóstu þar fyrstan, og hvern síðastan, Patróklus, þá er guðirnir kölluðu þig til banans? Hann vó fyrst Adrestus, Átónóus og Ekeklus, þá Perímus Megasson, Epistor og Melanippus, og þar eftir Elasus, Múlíus og Pýlartes, en allir aðrir lögðu á flótta. 698 Þar hefðu synir Akkea unnið hina háhliðuðu Trójuborg, sökum hraustrar framgöngu Patróklusar, því hann æddi áfram með spjótið í hendi sér meir en nokkurr annar, ef Febus Appollon hefði ekki staðið uppi á hinum ramgjörva turni; hann bar heiftarhug til Patrókluss, en hjálpaði Trójumönnum. Patróklus réðst þrisvar á útskot hins háva borgarveggs, og þrisvar stakk Appollon hinum ódauðlegu höndum sínum við hinum ljómanda skildi Patrókluss, og hratt honum frá. En er Patróklus hljóp á vegginn í fjórða sinn, líkur einhverjum guði, þá hastaði Appollon á hann ógurlega, og mælti til hans skjótum orðum: „Burt þú, seifborni Patróklus! Þess á ekki auðið að verða, að borg hinna framgjörnu Trójumanna verði lögð í eyði með þínu spjóti, og jafnvel ekki með spjóti Akkils, sem þó er miklu meiri maður, en þú ert“. 710 Þannig mælti hann. Þá hörfaði Patróklus langt á bak aftur, og vildi forða sér við heiftarreiði hins langskeyta Appollons. 712 Hektor hélt hinum einhæfðu hestum hjá Skehliðum, því hann var á tveim áttum, hvort hann skyldi hleypa aftur í mannþröngina og berjast þar, eða skyldi hann kalla á borgarmenn og biðja þá safnast saman á borgarveggnum. En er hann hugsaði þetta með sér, kom Febus Appollon til hans; hann var líkur ungum og hraustum hermanni, Asíusi, sem var móðurbróðir hins reiðfima Hektors, albróðir Heköbu, og sonur Dýmants; hann bjó hjá Sangarsstraumum í Frýgalandi; í líki þessa manns mælti Appollon, sonur Seifs, til Hektors: „Hví hættir þú að berjast, Hektor? Ekki sómir þér það. Eg vildi óska, að eg væri þeim mun sterkari en þú, sem eg er þér kraftaminni; þá skyldir þú brátt taka þunga hefnd, fyrir það er þú víkst undan ófriðnum. Heyr nú, hleyptu hinum hófsterku hestum eftir Patróklusi, ef svo mætti verða, að þú fengir banað honum á einhvern hátt, og Appollon vildi veita þér veg og frama“. 726 Að því mæltu gekk Appollon þangað sem bardaginn var. En Hektor hinn prúði bað hinn herkæna Kebríones að keyra hestana fram í bardagann, en Appollon gekk inn í mannþröngina, og gerði mikla ös í liði Argverja, því hann vildi veita Tróverjum og Hektori sigur og sóma. Hektor hirti ekki um aðra Danáa, eða að vega að þeim, en hélt hinum hófsterku hestum eftir Patróklusi. En hins vegar stökk Patróklus ofan af kerru sinni til jarðar; hann hélt á spjóti í vinstri hendi, en með annarri hendi tók hann hrufóttan harðstein, sem hann mátti greipa yfir hendi sinni, spyrndi fótum við og kastaði steininum; fór steinninn ekki til ónýtis, og leið ekki á löngu, áður hann hafði mann fyrir sér, og kom eggsteinninn í ennið á Kebríones, kerrusveini Hektors, er hestunum stýrði, launsyni hins fræga Príamuss; marði steinninn sundur báðar augnabrúnirnar, og stóðst brúnarbeinið ekki höggið; hrukku þá út augun og féllu til jarðar ofan í moldina fyrir fætur honum, er hann féll, líkur kafhlaupara, ofan úr hinum ramgjörva kerrustól, og var þegar dauður. Þá talaðir þú, Patróklus riddari, til hans spottandi: „Mikil undur, víst er sá maður furðu léttur, er svo kollsteypir sér fimlega! Ef hann væri einhverstaðar úti á sjá á fiskimiðum, gæti hann, enda þó mjög hvasst væri, hlaupið fyrir borð eftir ostrum, og fætt því margan mann. Svo fimlega kollsteypir hann sér ofan af kerru á hörðum velli. Víst eru og góðir kafhlauparar með Trójumönnum“. 751 Að því mæltu hljóp hann að kappanum Kebríones svo ákafa snart, sem ljón það, er fengið hefir skot í brjóstið, þá það brýzt inn í fjárhús til að ræna, verður þá ofurhuginn því að bana. Með slíkum ákafa stökkst þú, Patróklus, að Kebríones. Hins vegar hljóp Hektor ofan af kerru sinni til jarðar; börðust þeir nú báðir um lík Kebríoness, svo sem tvö stórhuga ljón, sem bæði eru soltin, berjast um drepinn hjört uppi á fjallstindum. Svo leituðu þeir tveir bardagamenn, Patróklus Menöytsson og Hektor hinn prúði, að koma sárum hvorr á annan, með hörðu eirvopni kringum lík Kebríoness. Hektor tók í höfuðið, og var ekki laushendur, en hins vegar hélt Patróklus í annan fótinn. En aðrir Tróverjar og Danáar áttust við harða orustu. Svo sem Austanvindur og Sunnanstormur keppast hvorr við annan að skaka þykkan skóg í fjalldölum, ætibjörk, ask og sambirkinn hagþorn; slá þá trén hinum angalöngu hríslum hvort á annað með afar miklum þyt, og verða brestir stórir, er trén brotna: svo stukku Trójumenn og Akkear hvorir á aðra og börðust, og hugðu hvorugir á hinn skaðsamlega flótta; mörg hvöss spjót stóðu í jörðunni í kring um Kebríones, margar fjaðraðar örvar stukku þar af strengjum, og margir stórir vopnsteinar skullu á skjöldum þeirra, er þeir börðust í kring um líkið; en hinn stórvaxni maður lá á stóru rúmsvæði í rykmokknum, og hafði þá týnt niður riddaraskapnum. 777 Meðan Helíus ók yfir mitt himinhvolfið, leituðu spjótin sér staðar í beggja liði, og varð þá mikið mannfall; en er Helíus sveif að akneytalausnum, þá urðu Akkear efri, yfir það fram er ætlað var; drógu þeir þá Kebríones úr skotfæri undan aðsókn Trójumanna, og flettu hann vopnum. Patróklus geystist fram, og hafði illan hug til Trójumanna. Hann grenjaði ógurlega, og réðst á þá þrem sinnum, líkur hinum skjóta Aresi, og þá drap hann þrisvar níu menn. En er hann hljóp fram í fjórða sinni, líkur einhverjum guði, þá var komið að enda lífs þíns, Patróklus, því Febus mætti þér í hinni hörðu orustu, og var þá mjög ógurlegur. Ekki varð Patróklus hans var, er hann gekk innan um mannösina, því hann mætti honum hulinn miklum myrkva, nam staðar að baki hans, og sló flötum lófa sínum á bak hans og hinar breiðu herðar. Þá hringsnérust augun í höfði Patróklusi, en Febus Appollon laust hjálminn af höfði hans, og valt pípuhjálmurinn sönglandi undir hestafæturna; ataðist þá faxbustin í blóði og ryki, en það var ekki fyrr vant, að hinn fexti hjálmur saurgaðist af moldryki, því hann hlífði þá höfði og fríðu enni Akkils, goðborins manns; en nú veitti Seifur Hektori að bera þann hjálm á höfði sér, því þá átti Hektor skammt til bana síns. Hið langskefta spjót, sem var þungt, stórt, sterkt og eirbúið, brotnaði allt í höndum Patrókluss, og hinn fótsíði skjöldur ásamt með skjaldarbandinu féll af herðum hans til jarðar. Þá leysti hinn voldugi Appollon, sonur Seifs, af honum brynjuna; gagntók þá rænuleysi huga Patrókluss, og hinir fögru fætur hans urðu vanmegna; en honum varð bilt, og stóð svo kyrr. Þá lagði maður hvössu spjóti í bak honum meðal herðanna, sá hét Evforbus Panþóusson, dardanskur maður; hann var allra manna fimastur við spjót, og reiðkænastur og fóthvatastur; því Evforbus hafði þá þegar steypt tuttugu köppum niður af kerrum sínum, og var það þó í fyrsta sinn, að hann lærði að aka kerru í orustu. Sá maður lagði þig fyrstur með spjóti, Patróklus riddari, en vann þó ekki á þér til fulls. Kippti Evforbus eskispjótinu úr sárinu, og stökk aftur inn í mannþröngina; þorði hann ekki að eiga vopnaskipti við Patróklus, þó hann væri þá hlífarlaus. En er Patróklus hafði fengið höggið af Appollon og lagið af spjótinu, hörfaði hann aftur í flokk félaga sinna, og forðaði sér við bana. 818 Nú sem Hektor sá, að hinn hugstóri Patróklus var særður hvössu eirvopni, og að hann hörfaði aftur, þá gekk hann um fylkingarnar, og fram að honum, og lagði spjóti neðan til í huppinn, og rak hann í gegn með eirvopninu. Féll Patróklus þá, og varð dynkur mikill, en her Akkea varð mjög sorgbitinn. Svo sem ljón sigrar í bardaga ómæðinn villigölt, þegar þeir báðir fljúgast á í miklum ofurhuga uppi á fjallstindi um litla vatnslind, er hvortveggi vill af drekka; másar gölturinn þá stórum, en þó ber ljónið af honum sökum aflsmuna: svo hafði hinn hrausti Menöytsson vegið marga menn, áður Hektor Príamsson gekk að honum og tók hann af lífi með spjóti sínu. Hældist Hektor þá um, og mælti skjótum orðum til Patrókluss: 830 „Þess vændist þú, Patróklus, að þú mundir brjóta borg vora, en svipta hinar tróversku konur frelsi sínu, og flytja þær á skipum þínum heim í föðurland hitt. Fávís maður varstu, því þeim til varnar þenja sig hinir fráu hestar Hektors til hlaups út í bardagann, og sjálfur sýni eg þess vegna, að eg em spjótfimari öðrum hergjörnum Trójumönnum, svo eg frelsi þær frá ánauðardeginum. En þig skulu hér gammar eta. Þú vesali maður, ekki varð heldur Akkilles þér að liði, þó hann sé hraustur. Hann var sjálfur eftir við skipin, en mun þó hafa lagt ríkt á við þig, áður þú fórst af stað, og sagt: „ „Mun mig um það, Patróklus ökugarpur, að þú komir ekki fyrr aftur til enna holu skipa, en þú hefir rist í sundur blóðugan brynstakkinn á brjósti Víga-Hektors“ “. Svo mun hann hafa sagt við þig, og blekkt svo huga þinn, óforsjáls manns“. 843 Þá mæltir bú til hans, riddari Patróklus, og varst þá með litlu lífi: „Mjög hælist þú nú um, Hektor, er Seifur Kronusson og Appollon veittu þér sigur; var þeim það hægur leikur, að yfirbuga mig, er þeir flettu mig vopnum mínum. En þó tuttugu menn, slíkir sem þú ert, stæðu á götu minni, munda þeir allir falla þar í stað fyrir spjóti mínu. Nei, það er hin skæða skapanorn og sonur Letóar, sem hafa banað mér, og, af mönnum til, Evforbus, en þú ert hinn þriðji, er vinnur á mér til fulls. Nú vil eg segja þér nokkuð, sem þú skalt festa í huga þér: þú munt sjálfur ekki lengi lifa, því dauðinn og hin máttuga skapanorn stendur allnærri við hlið þér, þar er þú munt drepinn verða af hinum ágæta Akkilli Ajaksniðja“. 855 Þá hann hafði þetta mælt, sveif yfir hann algjörr dauði, en sál hans flaug úr limunum og fór til Hadesarheims, harmandi forlög sín, er hún varð að skilja við þroskann og æskuna. Hektor hinn prúði mælti til hans, og var Patróklus þá dauður: 859 „Patróklus, hví spáir þú mér bráðum bana? Hverr veit, nema Akkilles, sonur ennar hárfögru Þetisar, fái áður það lag af mínu spjóti, að honum verði að fjörlesti?“ 862 Að því mæltu sté hann fæti sínum á Patróklus, kippti eirspjótinu úr undinni, og hratt honum upp í loft af spjótinu, og fór þegar, með spjótið í hendi sér, eftir hinum goðumlíka Átómedon, hersveini hins fóthvata Ajaksniðja, og vildi skjóta hann, en hinir fráu, ódauðlegu hestar, þeir fögru kostgripir, er guðirnir höfðu gefið Peleifi, komu honum undan. SEYTJÁNDI ÞÁTTUR AFREKSVERK MENELÁSAR. MENELÁS ATREIFSSON, ástvinur Aresar, varð þess brátt varr, að Patróklus var fallinn fyrir Trójumönnum í bardaganum. Hann gekk í gegnum forvígismennina, búinn blikanda eirmálmi, og gekk í kring um líkið, svo sem kvíga að fyrsta kálfi, er aldrei hefir fyrr borið, gengur í kring um kálf sinn. Svo gekk hinn bleikhári Menelás í kring um Patróklus. Hann hafði fyrir sér spjót sitt og hinn kringlótta skjöld, og vildi ólmt drepa hvern þann, er móti líkinu gengi. 9 Hinn spjótfimi Panþóusson varð þess og varr, að hinn ágæti Patrókluss var fallinn, gekk þá nær honum og stóð þar, og mælti til hins hergjarna Menelásar: „Menelás Atreifsson, seifborni þjóðhöfðingi! Haf þig á burt, far frá líkinu, og lát mig ná hinum blóðstokknu vopnum, því engi af Trójumönnum eða hinum frægu liðsmönnum þeirra hefir komið spjótlagi á Patróklus í hinni hörðu orustu fyrri en eg. Lát mig því ná að öðlast frægð meðal Trójumanna af sigri þessum, að eg ekki skjóti þig og taki frá þér hið ljúfa líf“. 18 Hinum bleikhára Menelási varð þungt í skapi, og mælti til hans: „Faðir Seifur, eigi sæmir manni, að miklast yfir hóf fram. Víst býr ekki jafnmikil hugarákefð í pardus- (flekku-) dýri eða ljóni eða skaðvænum gelti, sem er allra dýra hugmestur og er hróðugur af styrkleik sínum, sem hugur sá er, er býr í hinum spjótfimu Panþóussonum. Þó varð ekki hinum sterka, hestfima Hyperenori langgæður æskualdurinn, þegar hann smánaði mig og þorði að mæta mér, og kvað enga meiri bleyðu til vera, en mig, í Danáa her. Það hygg eg, að hann færi ekki fótgangandi heim til að gleðja sína kæru konu og virðulega foreldra. Svo mun eg og, vonar mig, lækka ofurhuga þinn, ef þú stendur gagnvart mér; ræð eg þér heldur að hörfa aftur í flokkinn, áður en þig hendir eitthvert slysið, og statt ekki framan í mér. Gáir heimskur að því, sem gjört er“. 33 Þannig mælti hann, og gat þó ekki talið honum hughvarf; en Evforbus svaraði: „Nú skaltu þó víst, seifborni Menelás, taka hefnd fyrir bróður minn, er þú vóst og stærir þig nú af víginu, gerðir þú konu hans munaðarlausa í hinu nýbyggða herbergi sínu, og bjóst foreldrum hans ósælan harm og sorg. Nú gæti eg orðið þeim vesalingum mikill harmabætir, ef eg færði þeim höfuð þitt og vopn, og seldi þau í hendur Panþóusi og hinni ágætu Frontisi. Nú skal reyna þenna kappleik og ekki lengur fresta honum, hvort sem fyrir liggur sigur eða flótti“. [Mynd: Bardagi um fallinn kappa.] 43 Að því mæltu lagði hann spjóti í hinn kringlótta skjöld, og gekk ekki gegnum eirið, því spjótsoddurinn bognaði í enum sterka skildi. Menelás Atreifsson reiddi því næst upp eirvopn sitt, og hét á föður Seif; en í því Evforbus hörfaði aftur, lagði Menelás í hóst honum, og fylgdi á eftir ótæplega með sinni þreknu hendi; gekk oddurinn þvers í gegnum hinn mjúka háls, varð þá dynkur mikill, er hann féll, og glömruðu vopnin ofan á honum; urðu þá blóði litaðir hárlokkar hans, er líkir voru hárlokkum Þokkagyðjanna, og hárflétturnar, er reyrðar voru gulli og silfri. Svo sem vöxtulegur viðsmjörsviðarkvistur, sá er maður klekur upp á afviknum stað, þar sem gnógt vatn vellur upp, verður fagur og blómlegur, því vindar úr öllum áttum blása um hann, svo hann verður prúðbúinn af hvítu blómi; en þá kemur voveiflega stormur með miklu hreti, sviptir honum upp úr holunni og slær flötum á jörðina: svo var hinn spjótfimi Evforbus Panþóusson, sá er Menelás Atreifsson drap og vildi síðan fletta vopnum. Svo sem fjallaljón, það er treystir afli sínu, þrífur bezta uxann úr hjörðinni, þar sem hún er á beit, leggur að honum hinar sterku tennur sínar og hálsbrýtur hann fyrst, rífur hann svo í sundur og hvomar í sig blóðið og öll innýflin; en hundar og hjarðmenn, sem í kring um það eru, standa langt frá, og ýlfra mjög og hljóða, en þora ekki að ganga móti ljóninu, því bleikur ótti grípur þá mjög: svo hafði engi Trójumanna þor til að ganga móti hinum fræga Menelási; og þar hefði Atreifsson auðveldlega náð hinum góðu vopnum Panþóussonar, ef Febus Appollon hefði unnt honum þess. En Appollon tók á sig líki Mentesar, Kíkóna foringja, og eggjaði Hektor, er var jafnmaki hins skjóta Aresar, móti honum; talaði hann til Hektors skjótum orðum og mælti: „Þú hleypur hér nú, Hektor, og eltir það, er ekki næst, sem er hestar hins herkæna Ajaksniðja. Erfitt er dauðlegum mönnum að ráða við þá hesta og aka með þeim, nema fyrir Akkilles einn, er borinn er af ódauðlegri móður. En á meðan þú ert að þessu, hefir hinn herskái Menelás Atreifsson haldið uppi vörn kring um Patróklus, og drepið hinn hraustasta mann af Tróverjum, Evforbus Panþóusson, og stöðvað á honum berserksganginn“. 82 Að því mæltu fór guðinn aftur, þangað er menn voru að berjast. En megn harmur fyllti hjartafylgsni Hektors; hann litaðist um meðal herflokkanna, og varð þegar varr, að Menelás var að fletta manninn vopnum, en Evforbus lá fallinn, og flaut blóðið út af hinni eggbitnu und. Hann gekk þá í gegnum forvígismennina, búinn blikanda eirmálmi; hann kallaði hástöfum, og var líkur óslökkvandi eldsloga. Atreifsson varð þess varr, að vera mundi Hektor, er kallaði svo hátt; mælti hann þá í þungu skapi við sína hugstóru sál: „Eg vesall maður, ef eg læt hér eftir hin fögru vopn og skilst við Patróklus, sem féll hér til að reka réttar míns, em eg hræddur um, að Danáar reiðist mér, ef þeir sjá það. En ef eg firri mig vítum, og berst aleinn við Hektor og Trójumenn, uggir mig, að margir muni veitast að mér einum; því hinn hjálmkviki Hektor kemur hér með alla Trójumenn. En hví velki eg þetta í huga mér? Þegar einhverr maður vill móti vilja guðs berjast við þann mann, er guð hefir mætur á, þá er honum mikið tjón búið. Engi Danáa mun því reiðast mér, þó hann sjái mig hörfa fyrir Hektori, þar er hann berst, framhvattur af einhverjum guði. En verði eg einhverstaðar varr við hinn rómsterka Ajant, skulum við báðir koma aftur og halda uppi bardaga, jafnvel móti vilja guðs, og freista, ef vér fáum bjargað líkinu undan fyrir Akkil Peleifsson. Mun þetta vera bezta úrræðið í þessum vandræðum“. 106 Meðan hann velkti þessu í huga sér og hjarta, komu þangað flokkar Trójumanna, og var Hektor fyrir þeim. Hörfaði Menelás þá á bak aftur frá líkinu, og leit oft um öxl sér, svo sem kamploðið ljón, þegar menn og hundar fæla það frá fjárhúsi með spjótum og óhljóðum; kemur þá hrollur í hugfulla hjartað, er það á í brjósti sér, svo ljónið fer frá fjárhúsinu, og þó nauðugt: svo gekk hinn bleikhári Menelás frá Patróklusi. En er hann kom í flokk félaga sinna, snérist hann við og stóð svo, litaðist um eftir hinum mikla Ajanti Telamonssyni, og varð hans skjótt varr í vinstra fylkingararminum, þar sem hann var að hughreysta félaga sína, og hvetja þá til að berjast; því Febus Appollon hafði skotið miklum ótta í brjóst þeim. Menelás hljóp af stað, og þegar er hann kom til hans, mælti hann: „Ajant, komdu, vinur; við skulum gera rögg af okkur kringum lík Patrókluss, og vita, ef vér fáum fært Akkilli, þó ekki sé nema beran náinn, því hinn hjálmkviki Hektor hefir náð vopnunum“. 123 Þannig mælti hann, og hrærði hjarta hins herskáa Ajants. Hann gekk í gegnum forvígismennina, og með honum hinn bleikhári Menelás. Hektor hafði þá flett Patróklus vopnunum góðu, og vildi þá draga líkið, til að höggva höfuð frá herðum þess með hvössu eirvopni, og gefa svo líkið tróverskum hundum. Þá kom Ajant þar að; hann hafði skjöld, sem turn væri; hörfaði Hektor þá aftur í flokk félaga sinna, og stökk upp á kerru sína, en fékk Trójumönnum hin fögru vopn, að bera þau til borgarinnar; skyldu þau vera þar honum til ágætis. Ajant brá hinum víða skildi sínum yfir Menöytsson, og stóð svo, sem ljónsmæðra stendur hjá hvolpum sínum, þegar veiðimenn mæta henni á skóginum, þar sem hún fer með hvolpana; hún drambar af styrkleik sínum og hleypir allri ennisfyllunni niður fyrir, svo ekki sér í augun: svo gekk Ajant í kring um kappann Patróklus, en hins vegar stóð Menelás Atreifsson, ástvinur Aresar, með stóran harm innan brjósts. 140 Glákus Hippolokkusson, foringi Lýkíumanna, leit til Hektors með reiðisvip, og veitti honum þungar átölur: „Hektor, mikið skortir á, að þú, svo afbragðsfríður maður, gangir vel fram í orustu, og mjög er það að ósynju, að frægð mikil fer af þér, þar sem þú ert ragur og flóttagjarn. Hugsa nú eftir, hversu þú munt fá frelsað borgina einn þíns liðs með mönnum þeim, er búa í Ilíonsborg, því engi af Lýkíumönnum mun berjast við Danáa borginni til varnar, þar sem þeim hefir verið litlu launað, þó þeir hafi sí og æ barizt við óvinina. Hversu muntú, harðbrjóstaði maður, frelsa lítils háttar mann í hernum, þar sem þú skildist við Sarpedon, gestvin þinn og félaga, og lézt hann verða Argverjum að bráð og herfangi? Gerði hann þó mikið gagn, bæði sjálfum þér og borginni, meðan hann lifði, en þó barst þú ekki áræði til fyrir skömmu, að verja hann fyrir hundum. Þess vegna, vilji nokkurr af Lýkíumönnum fara að mínum ráðum, þá munum vér halda heim, og þá er það sýnilegt, að Trójuborg er búið óumflýjanlegt tjón, því ef óskelfur hugmóður og áræði væri til í Trójumönnum, slíkt er kemur í brjóst þeirra manna, er vinna þraut og baráttu við óvini fyrir föðurland sitt, þá mundum vér skjótt fá dregið Patróklus til borgarinnar. En ef vér fengjum dregið hann af vígvellinum, og kæmist líkið til hinnar miklu borgar Príamuss konungs, þá mundu Argverjar þegar skila aftur hinum fögru vopnum Sarpedons, og vér flytja lík hans til Ilíonsborgar. Því nú er drepinn hersveinn þess manns, er hraustastur er allra Argverja við skipin, og sem á návíga hersveina. En þú þorðir ekki að ganga til móts við hinn hugstóra Ajant og horfa í augu honum, því síður að þú áræddir að ráðast á hann, því hann er meiri maður, en þú“. 169 Hinn hjálmkviki Hektor leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Hví ertú, Glákus, svo ofstopafullur í orðum, slíkur maður sem þú ert? Sér er hvað! Eg ætlaði, að þú mundir vera fremri öðrum mönnum að viti, þeim er búa í hinni landfrjóvu Lýkíu; en nú þykir mér ekki koma til vitsmuna þinna, er þú mælir slíkt, þar sem þú segir, að eg hafi ekki þorað að bíða hins afar stóra Ajants. Ekki óttaðist eg bardagann eða hestagnýinn; en vilji Seifs ægisskjalda er jafnan máttkari; því hann skelfir jafnvel hugdjarfan mann, og í eitt skiptið tekur hann frá honum sigurinn, og veitir honum það hægt, en annað slagið hvetur hann manninn til að berjast. Heyr nú, vinur, kom hingað, og statt hjá mér, og lít á aðfarir mínar, hvort eg verð huglaus í allan dag, svo sem þú segir, eða mun eg aftra einhverjum Danáa, þótt þeir gangi fram allákaft, frá því að verja hinn fallna Patróklus“. 183 Að því mæltu kallaði hann hátt til Trójumanna: „Þér Tróverjar og Lýkíumenn, og þér návígu Dardanar! Verið hraustir karlmenn, góðir hálsar, og takið á ofurafli yðar, meðan eg fer í hin fögru vopn hins ágæta Akkils, þau er eg tók með valdi af Patróklusi, og hafði drepið hann áður“. 188 Að því mæltu gekk hinn hjálmkviki Hektor burt úr hinum brennanda ófriði; hann hljóp eftir félögum sínum, þeim er báru hin frægu hervopn Peleifssonar til borgarinnar; voru þeir ekki langt komnir, og náði hann þeim skjótt, er hann sókti hvatlega eftir; gekk hann þá langt frá hinum grátlega bardaga, og skipti þar um vopn, fékk hinum víggjörnu Trójumönnum sín vopn, að bera þau til ennar helgu Ilíonsborgar, en fór í hin ódauðlegu vopn Akkils Peleifssonar, þau er upphiminsguðirnir höfðu gefið föður hans, og hann aftur syni sínum í elli sinni, en sonur hans varð ekki ellimóður í herklæðum föður síns. 198 En er skýsafnarinn Seifur sá álengdar, að Hektor bjó sig herklæðum hins goðumlíka Peleifssonar, hristi hann höfuð sitt, og mælti við sjálfan sig: „Vesall maður, þér kemur ekki einu sinni til hugar dauði þinn, er nú vofir yfir þér, en ert nú að fara í hin ódauðlegu vopn hins hraustasta manns, þess er aðrir menn hræðast. Þú vóst hinn góða og hrausta félaga hans, tókst vopnin af höfði hans og herðum, er ekki skyldi verið hafa. Nú skal eg þó veita þér mikinn sigur, og bæta þér svo það, er Andrómakka mun ekki taka við hinum ágætu vopnum Peleifssonar af þér afturkomnum úr orustunni“. 209 Svo mælti Kronusson og hneigði hinum dökku brúnum sínum. Vopnin voru Hektori mátuleg; hinn ógurlegi, víglegi Ares fór þá í hann, og limir hans fylltust innan af þreki og styrkleik. Síðan gekk hann til hinna frægu liðsmanna, og grenjaði hátt; hann ljómaði af vopnunum, og sýndist þeim öllum hann vera líkur hinum hugstóra Peleifssyni. Hann gekk til hvers manns og upphvatti hann með orðum: hann kom til Mesþless, Glákusar, Medons, Þorsílokkuss, Asteropeuss, Dísenors, Hippoþóuss, Forkunns, Kromíuss og Ennómuss fuglaspámanns; þessa upphvatti hann alla, og mælti til þeirra skjótum orðum: „Heyrið, þér ótölulegir flokkar liðsmanna, þeirra er búa í kring um oss! Ekki kvaddi eg upp sérhvern mann úr borgum yðar til að fara hingað, af því eg sæktist eftir liðsfjölda eða þyrfti hans við, heldur til þess, að þér verðuð með alúð konur og ungbörn Trójumanna fyrir hinum hergjörnu Akkeum. Af því mér gekk þetta til, þá legg eg þungar álögur á fólkið, skattgjafir og matgjafir, sérhverjum yðar til hjartastyrkingar. Gangi því nú hverr maður fram, og fái annaðhvort bana eða fjör; því svo er vant að fara í orustum. En hverr sem fær dregið Patróklus, enn þótt dauðan, til enna hestfimu Trójumanna, og verði Ajant að víkja fyrir honum, þeim skal eg skipta helming herfangsins, en öðrum helmingi mun eg sjálfur halda; öðlast hann þá jafna frægð við mig“. 233 Svo mælti hann, en þeir gengu fram móti Danáum af alefli, og höfðu spjótin á lofti, treystu því nú, að þeir mundu dregið fá líkið af Ajanti Telamonssyni; en þeim brást sú von, því hann tók marga þeirra af lífi ofan á líkinu. Þá mælti Ajant til hins rómsterka Meneláss: „Seifborni Menelás, það ætla eg, vinur, að við fáum sjálfir ekki heilir heim komizt úr þessum ófriði. Er eg nú ekki svo hræddur um lík Patrókluss, því það mun bráðum seðja hræfugla og hunda Trójumanna, svo sem eg em hræddur um líf mitt og þitt, að því verði hætt; því ófriðarmokkurinn Hektor svífur nú hvervetna yfir, og okkur er vís bani búinn. Heyr nú, kalla á hina hraustustu Danáa, ef einhverr kann að heyra“. 246 Svo mælti hann, en hinn rómsterki Menelás gerði, sem hann bað, kallaði hárri röddu, svo Danáar heyrðu: „Kæru vinir, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja, er drekkið almannavín hjá þeim Atreifssonum, Agamemnon og Menelási, og ráðið hverr fyrir sínum flokki, og hafið alla yðar tign og frægð af Seifi! Bágt er fyrir mig að þekkja álengdar sérhvern af hershöfðingjunum, þar sem ófriðarrimman er svo óð. Komi því hverr sjálfkrafa, og láti ekki þá skömm henda, að Patróklus verði tróverskum hundum að leikfangi“. 256 Þannig mælti hann, en hinn skjóti Ajant Öyleifsson heyrði brátt, hljóp um herinn og kom fyrstur til þeirra. Eftir hann komu þeir Idomeneifur og Meríónes, sveinn Idomeneifs, er líkur var hinum mannskæða Vígaguði; og hverr fær talið í huga sér nöfn allra þeirra af Akkeum, sem þar eftir komu og vöktu bardaga? 262 Trójumenn geystust nú fram í þyrpingu, og fór Hektor fyrir. Svo sem stórsjór gengur drynjandi í móti vatnsstraumi í ósum himinrunnins vatnsfalls, og yztu strendur endurkveða, þegar sjórinn gýs upp á landið: svo mikil voru óhljóð Trójumanna, þegar þeir gengu. En Akkear stóðu í kring um Menöytsson, allir samhuga, víggyrðlaðir eirbúnum skjöldum; en Kronusson brá miklum myrkva yfir hina ljómandi hjálma þeirra; hafði Seifur aldrei að undanförnu lagt hatur á Menöytsson, meðan hann var á lífi og var hersveinn Ajaksniðja; var honum því ógeðfellt, að hann yrði tróverskum hundum að bráð, óvina sinna, og því var það, að hann sendi félaga hans honum til návarnar. 274 Trójumenn hröktu fyrst hina snareygu Akkea, svo þeir gengu frá líkinu og flýðu undan; þó gátu enir hugstóru Tróverjar engan þeirra drepið með spjótum sínum, enn þótt þeir væru þess næsta fúsir, en líkið drógu þeir með sér. Þó var það skömm stund, að Akkear voru í burtu frá líkinu, því Ajant snéri þeim skjótt aftur; hann var vænstur og mestur fyrir sér allra Danáa, næst hinum ágæta Peleifssyni. Hann óð í gegnum forvígismennina, þrekmikill sem villigöltur, sá er hleypur í króka um afdali, og tvístrar með hægu móti hundum og ungum veiðimönnum á fjöllum uppi: svo hæglega tvístraði hinn prúði Ajant, sonur hins ágæta Telamons, flokkum Trójumanna, þá hann snaraðist inn í milli þeirra, er stóðu fyrir Patróklusi, og einna helzt hugðu að draga hann til borgar sinnar og bera sigur úr býtum. 288 Hinn frægi Hippoþóus, sonur Leþusar Pelasga, dró nú líkið á fætinum í hinni hörðu orustu; hafði hann brugðið taug um aflsinarnar við öklann; gerði hann það Hektori og Trójumönnum til geðs. En þá kom að honum voveiflega sú ógæfa, er engi þeirra gat af honum stýrt, þó þeir hefðu fegnir viljað. Telamonsson snaraðist að honum gegnum mannfjöldann, og hjó berhöggi í gegnum hinn eirkinnaða hjálm, og brast hinn þéttfexti hjálmur fyrir spjótsegginni, lostinn af hinu mikla spjóti og hinni þreknu hendi; stökk þá blóðugur heilinn út úr undinni og upp á falinn, en lífsfjör mannsins dvínaði þegar í stað, og sleppti hann fæti hins hugstóra Patrókluss úr höndum sér, svo fóturinn lá á jörð, en sjálfur féll hann hjá honum á grúfu ofan yfir líkið, langar leiðir frá hinni landfrjóvu Larissu, og galt ekki foreldrum sínum fósturlaunin, því hann varð skammlífur og féll fyrir spjóti hins hugstóra Ajants. Þá skaut Hektor fögru spjóti til Ajants, en Ajant sá beint á Hektor, og vék sér undan eirspjótinu lítt það; kom þá spjótið á Skedíus, son hins hugstóra Ifítuss; hann var hraustastur allra Fókverja, og átti heima í hinni frægu Panópsborg; var hann þar konungur yfir mörgum mönnum; kom spjótið fyrir neðan sjálft viðbeinið, og gekk hinn eirslegni spjótsoddur þvers í gegn, og kom út neðan til við herðarblaðið; féll hann þá, og varð dynkur mikill, en vopnin glömruðu ofan á honum. Ajant lagði í kvið hins herkæna Forkunns Fenópssonar, er standa vildi fyrir Patróklusi; rauf eirvopnið brynjuboðanginn og sökk á kaf inn í iðrin; féll hann þá til moldar og greip í jörðina með lúku sinni. Þá hörfuðu undan bæði forvígismennirnir og hinn glæsilegi Hektor, en Argverjar lustu upp ópi miklu, drógu til sín þá Forkunn og Hippoþóus, er fallið höfðu, og leystu vopnin af herðum þeirra. 319 Nú mundu Trójumenn aftur hafa hrokkið undan Akkeum, ástvinum Aresar, án þess að gera af sér nokkra vörn, og farið inn í Ilíonsborg, en Argverjar borið sigur frá borði sökum hraustrar framgöngu, jafnvel þó Seifur hefði annað ætlað; en nú eggjaði sjálfur Appollon fram Eneas, og var þá í líki kallarans Perífants Epýtussonar; hann var maður gamall og góðráður, og hafði allan sinn aldur verið kallari hjá föður hans. Í þess manns líki mælti Appollon, sonur Seifs, til Eneasar: „Eneas, hversu megið þér verja hina hávu Ilíonsborg án aðstoðar einhvers guðs? Og hefi eg þó séð, að sumir menn, er miklu minni fólksfjölda hafa haft, hafa varizt einungis með því þeir hafa reitt sig á afl sitt og styrkleik, karlmennsku og liðsafla. En nú vill Seifur miklu heldur unna oss sigurs, en Danáum; og þó flýið þér, hverr sem betur getur, og berjizt ekki“. 333 Þannig mælti hann, en Eneas kannaðist við hinn langskeyta Appollon, þegar hann sá framan í hann; kallaði hann þá hátt, og mælti til Hektors: „Hektor, og þér aðrir Tróverjar og liðsmanna foringjar! Mikil minnkun er þetta, að vér fyrir þrekleysis sakir skulum nú flýja undan hinum hergjörnu Akkeum inn í Ilíonsborg. Heyrið nú; einhverr af guðunum kom til mín og sagði mér, að Seifur, hinn æðsti ráðgjafi, væri bjargvættur vor í bardaganum. Gerum því enn áhlaup á Danáa, og látum þá ekki hafa næði til að koma líki Patróklusar til skipanna“. 342 Svo mælti hann, og stökk með það sama langt fram fyrir forvígismennina, og stóð þar, en þeir snérust við og stóðu öndverðir móti Akkeum. Þá lagði Eneas spjóti til ens hrausta Leókrítuss Arisbantssonar; hann var félagi Lýkomedesar. Lýkomedes, ástvinur Aresar, kunni illa falli hans, gekk mjög að fram til hans, og skaut fögru spjóti; og kom á hershöfðingjann Apísáon Hippasusson, í lifrina fyrir neðan þindina, og var hann þegar dauður; hann var frá hinu frjóvsama Peónalandi, og var hinn hraustasti maður í bardaga, næst Asteropeusi. Kunni hinn vígkæni Asteropeus illa falli hans, og óð hann fram, og var albúinn að berjast við Danáa, en hann kom því nú ekki við framar, því þeir stóðu í kring um Patróklus, og höfðu skotið skjaldborg um sig alla vega, en höfðu spjótin fyrir sér; því Ajant gekk mjög um allan herinn og lagði margt til, bað engan hopa á hæl frá líkinu, né heldur fara fram fyrir aðra Akkea til forvígis, heldur standa þétt í kring um líkið og berjast í návígi. Svo mælti hinn afar stóri Ajant fyrir, en jörðin flaut í dökku blóði, og féllu dauðir, hverr á fætur öðrum, jafnt Tróverjar og hinir ofurhuguðu liðsmenn þeirra, sem og Danáar; því einnig varð mannfall í liði þeirra, en þó féllu miklu færri af þeim, því þeir létu sér ávallt annt um, að forða hver öðrum við bráðum bana í mannösinni. 366 Þannig börðust þeir, sem eldur léki; og ekki skyldir þú ætla annað, en að sól og tungl væri af himni horfið; því allir þeir kappar, er stóðu í kring um hinn dauða Menöytsson, huldust myrkva, meðan barizt var, en aðrir Tróverjar og fagurbrynhosaðir Akkear börðust í hægðum sínum í heiði dags; skein þar skær sólarbjarminn allt um kring, og hvergi sást ský á jörðu eða fjöllum; börðust þeir þar og hvíldu sig í milli, stóðu þá langt hverr frá öðrum, og vöruðust banvæn skotvopn hverra annarra; en þeir, sem í miðjunni voru, þoldu nauð mikla af myrkvanum og orustunni, og hinir hraustustu kappar særðust af hörðum eirvopnum. Tveir kappar, Þrasýmedes og Antílokkus, er báðir voru frægir menn, höfðu enn ekki spurt, að hinn ágæti Patróklus var fallinn, heldur ætluðu þeir, að hann væri enn á lífi og mundi berjast við Trójumenn í fremstu ösinni. Og þó þá báða óaði fyrir falli og flótta félaga sinna, þá börðust þeir þó langan veg frá þeim, því svo hafði Nestor boðið, þá er hann sendi þá í bardagann frá hinum svörtu skipum. 384 En hinir áttu mikið kapp strangrar rimmu allan dag í gegnum. Kné þeirra og fótleggir, fætur, hendur og augu hvers manns ötuðust sí og æ af erfiðinu og svitanum, þá er þeir börðust í kring um hinn vaska hersvein hins fóthvata Ajaksniðja. Svo sem þá er skinnari nokkurr fær mönnum sínum stóra uxahúð að teygja, makaða í feiti; taka þeir við henni, standa í kring bilkorn hverr frá öðrum, og eru að teygja; gengur feitin inn í húðina og mýkist hún skjótt, er margir menn toga, og verður húðin loks með öllu fullteygð: svo drógu þeir hvorirtveggju dauðan náinn fram og aftur á litlu svæði; ætluðu Trójumenn endilega að draga líkið til Ilíonsborgar, en Akkear til enna holu skipa; gerðist nú svo grimm orusta um líkið, að jafnvel hinum hersvæsna Aresi og Aþenu mundi ekki hafa þókt ábótavant, þó þau hefðu horft á, og væri megn bræði í þeim. 400 Svo háskasamlegt erfiði fyrir menn og hesta drýgði Seifur þann dag fyrir sakir Patrókluss. Hinn ágæti Akkilles vissi enn ekki, að Patróklus var fallinn, því hann barðist undir borgarvegg Trójumanna langt í burtu frá hinum fljótu skipum; gat hann því aldrei gert sér í hug, að hann væri fallinn, heldur hélt, að hann hefði farið allt til borgarhliðanna og mundi svo koma lifandi aftur. Hann gerði sér heldur aldrei það í hugarlund, að hann mundi leggja borgina í eyði án sín, og ekki heldur með sér; því það hafði hann oft heyrt á móður sinni, þá hún talaði við hann í einrúmi, því hún birti honum oft fyrirætlun hins mikla Seifs; þó sagði móðir hans honum þá ekki frá þeirri miklu ógæfu, er nú var orðin, að fallinn var vinur hans, er honum var langkærastur allra. 412 Þeir gengust nú að sífellt án afláts með oddhvössum spjótum, og drápu hvorir aðra. Þá tók oft margur maður af hinum eirbrynjuðu Akkeum svo til orða: „Víst er það ekki gott afspurnar, góðir hálsar, ef vér förum svo búnir aftur til hinna holu skipa. Nei, svelgi fyrr svört jörðin oss alla hér í stað; það væri oss sjálfsagt miklu betra, en að láta hina hestfimu Trójumenn draga hann til borgar sinnar, og bera sigur úr býtum“. 420 Og oft mælti svo margur maður af hinum stórhuguðu Tróverjum: „Góðir hálsar, enn þótt fyrir oss öllum eigi að liggja, að falla hér allir hverr með öðrum hjá þessum manni, þá skal þó engi af oss af láta orustunni“. Þannig mælti oft margur maður og upphvatti með því tíðum hugmóð félaga síns. Þannig börðust þeir, en járnglymurinn fór í gegnum hið ófrjóva uppheimsloft allt upp til hins eirsterka himinhvolfs. 426 Hestar Ajaksniðja voru langan veg frá orustustaðnum og grétu, jafnskjótt og þeir urðu varir við, að kerrusveinn Akkils var að velli lagður af Víga-Hektor. Hinn hrausti Átómedon Díóreifsson lagði að vísu oft í þá með hinni snöggu svipu, og talaði oft til þeirra með blíðum orðum, og oft með hótyrðum, en þó vildu þeir hvorki fara aftur ofan að skipunum til hins víða Hellusunds, né til Akkea út í bardagann. Nei, þeir voru sem stöðugur bautasteinn, er stendur á haugi látins manns eða konu: svo stóðu þeir krafkyrrir fyrir framan hinn glæsilega kerrustól og hengdu höfuðin niður að jörðu; heit tár flutu til jarðar af hvörmum þeirra, er þeir hörmuðu, af söknuði eftir kerrusveininn; hið þykka fax, er smeygzt hafði út úr okhringnum báðum megin oksins, varð moldugt. En er Kronusson sá þá báða harmandi, kenndi hann í brjósti um þá, hristi höfuð sitt og mælti í hug sér: „Vesölu hross, fyrir hví gáfum vér ykkur Peleifi konungi, dauðlegum manni, þar sem þið eruð ódauðlegir og eldizt aldrei. Var það til þess, að þið nú skylduð eiga illt hjá vesölum mönnum; því ekkert er aumara, en maðurinn, af öllu því, sem á jörðu andar og um jörð skríður. Hektor Príamsson skal þó ekki aka með ykkur og hinni glæsilegu kerru; það skal eg ekki leyfa. Er það ekki nóg, að hann hefir náð vopnunum, og stærir sig af engu tilefni? En í kné ykkar og brjóst skal eg láta koma hug og fjör, svo þið megið koma Átómedon heilum úr orustunni til hinna holu skipa; því enn mun eg veita Tróverjum sigur til að vega vígin, þar til er Akkear koma til enna þóftusterku skipa, og sól rennur og heilagt rökkur yfir kemur“. 456 Að því mæltu blés hann góðum styrk í brjóst þeim; hristu þeir þá moldrykið af föxum sér til jarðar, og drógu hina fljótu kerru skjótlega til Trójumanna og Akkea; réðst Átómedon þá til orustu móti Tróverjum; harmaði hann mjög félaga sinn, og ólmaðist með hestana sem gammur í gæsadun; veitti honum jafnauðvelt að flýja undan þys Trójumanna, og að hleypa hestunum inn á hinn mikla manngrúa, þá hann veitti eftirför. En aldrei vó hann neina menn, hvað oft sem hann elti þá; því þar eð hann var einn á hinni veglegu kerru, mátti hann með engu móti bæði sæta spjótalögum og stýra hinum fráu hestum. Um síðir leit hann einn félaga hans, Alkímedon Laerkesson Emonssonar; hann gekk aftan að kerrustólnum, og mælti til Átómedons: „Hverr guðanna hefir glapið vitsmuni þína og skotið því óyndisúrræði í brjóst þér, að þú skulir berjast svo einn við Trójumenn í fremsta flokki, þar sem þó félagi þinn er drepinn, og Hektor miklast af því, að hann ber vopn Ajaksniðja á herðum sér“. 474 Átómedon Díóreifsson svaraði honum: „Hverr annar af Akkeum getur ráðið við hina ódauðlegu hesta og stýrt fjöri þeirra, jafnfimlega og Patróklus gat, meðan hann var á lífi, sá hinn goðumjafni ráðsnillingur? En nú hefir dauðinn og skapanornin náð honum. Heyr nú, tak við svipunni og hinum glæsilegu taumum, en eg skal fara ofan af kerrunni og berjast“. 481 Svo mælti hann, en Alkímedon hljóp upp á hina vígskjótu kerru, og greip í skyndi svipuna og taumana, en Átómedon stökk ofan. Hektor hinn prúði varð þess varr, og mælti þegar til Eneasar, er hjá honum var: „Eneas, höfðingi hinna eirbrynjuðu Trójumanna! Eg sé þar hesta hins fóthvata Ajaksniðja, hvar þeir bruna út í bardagann með ónýtum kerrusveinum; vona eg því, að eg geti náð þeim, ef þú vilt; því þó þeir nemi staðar gagnvart okkur til að berjast í orustu, munu þeir ekki fá staðizt okkur báða, ef við ráðumst á þá“. 491 Þannig mælti hann, en hinn hrausti Ankísesson gerði, sem hann mæltist til. Þeir gengu báðir fram, með þurra og harða nautsleðursskjöldu á baki sér. Með þeim gengu báðir þeir Kromíus og hinn goðumlíki Aretus; lék þeim mjög hugur á að drepa þá Átómedon og ná hinum hnarreistu hestum; en það lá ekki fyrir þessum óforsjálu mönnum, að komast aftur óblóðguðum frá Átómedon. En er Átómedon hafði heitið á föður Seif, fylltist hans innsta hjartans grunn með þreki og styrkleik; mælti hann þá þegar til hins trúa félaga síns, Alkímedons: „Halt ekki hestunum langt frá mér, heldur svo nærri, að þeir blási á herðar mér; því ekki býst eg við, að Hektor Príamsson létti fyrr ákefðinni, en hann hefir drepið okkur báða, og er á bak kominn hinum faxprúðu hestum Akkils, og rekið á flótta hersveitir Argverja, eða hann að öðrum kosti fellur í öndverðu liðinu“. 507 Að því mæltu kallaði hann á þá báða Ajanta og Menelás: „Þið Ajantar, foringjar Argverja, og þú Menelás! Fáið til hina hraustustu menn til að standa fyrir líkinu og verjast herflokkum óvinanna, en komið og frelsið okkur, sem enn lifum, frá dauðans hættu; því Hektor og Eneas, sem hraustastir eru af Trójumönnum, sækja hér fast að í hinum hörmulega ófriði. Þó er það á guðanna valdi, hversu þeim tekst, því eg mun og skjóta, og ráði svo Seifur, hversu öllu reiðir af“. 516 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót og skaut, og kom á hinn kringlótta skjöld Aretusar; stóðst skjöldurinn ekki spjótið, og gekk eirvopnið í gegn, og keyrði hann spjótið í gegnum brynbeltið og í kviðinn neðanverðan. Svo sem útigangsnaut stökkur upp og dettur svo niður, þegar röskur maður með beitta öxi í hendi höggur það fyrir aftan hornin, og þversníður sundur hálssinina: svo stökk Aretus upp, og féll svo upp í loft, og var það hans bani, að hið flugbeitta spjót hafði hlaupið inn í iðrin. Hektor skaut fögru spjóti til Átómedons. Átómedon sá í mót, laut áfram, og forðaði sér við eirspjótinu, en hið langa spjót hljóp aftur fyrir hann í jörð niður; hristist þá við aurfalurinn á spjótinu, og þar missti loks hinn sterki málmur magn sitt. Og nú hefðu þeir gengizt að höggorustu og barizt með sverðum, ef þeir Ajantar hefðu ekki skilið þá, í því þeir ætluðu saman; komu þeir Ajantar til fundarins, af því félagi þeirra hafði kallað á þá. Urðu þeir Hektor og Eneas og hinn goðumlíki Kromíus smeykir við þá, og hörfuðu aftur til baka, og létu Aretus þar eftir liggja, lagðan til hjarta, en Átómedon, líkur hinum skjóta Aresi, fletti hann vopnum, hældist um og tók til orða: „Víst er hjarta mínu orðið nokkuð harms léttara eftir fall Menöytssonar, þó sá, er nú hefi eg vegið, sé miklu verri maður“. 540 Að því mæltu tók hann hin blóðugu hervopn og lagði þau upp í kerrustólinn, sté svo sjálfur upp í; voru þá fætur hans og hendur blóðugar, svo sem á ljóni, er étið hefir upp heilan uxa. 543 Nú gerðist enn aftur hörð orusta, torsókt og mannhætt, hjá Patróklusi; þá rimmu vakti Aþena; hún kom af himni ofan; hafði hinn víðskyggni Seifur sent hana til að eggja Danáa, því nú hafði honum snúizt hugur. Svo sem Seifur spennir purpuralegan regnboga á himinhvolfinu, að hann sé dauðlegum mönnum teikn, annaðhvort til ófriðar, eða þá til óhlýs vetrar, er gerir enda á akurstörfum manna og tekur upp á sauðfénaðinn: svo gekk Aþena, hulin purpuralegu skýi, inn í flokk Akkea, og upphvatti hvern mann. Fyrst varpaði hún orði á hinn hrausta Menelás, sem nálægt henni var, og upphvatti hann; var hún þá í líki Fenix, jafnvöxtuleg og jafnraddsterk, sem hann: „Það verður þér til minnkunar og ámælis, Menelás, ef fráir hundar draga hinn tryggva vin ens ágæta Akkils undir borgarveggjum Trójumanna. Statt þig nú hraustlega, og eggja fram allan herinn“. 560 Hinn rómsterki Menelás svaraði henni: „Faðir Fenix, gamli öldungur! Eg vildi óska, að Aþena veitti mér styrk, og bægði frá mér skotvopnafluginu; þá skyldi eg standa hjá Patróklusi og verja hann, því lát hans hefir mjög hryggt hjarta mitt. En Hektor er ákafur, sem óður eldur, og hann lætur ekki af að drepa menn með vopnum, því Seifur veitir honum nú sigurinn“. 567 Svo mælti hann, en hin glóeyga gyðja Aþena gladdist, er hann hét á hana fyrst allra guða. Lét hún nú koma kraft í herðar hans og kné, en í brjóst hans skaut hún mýflugu þori, þeirrar er allt af vill bíta mannshörundið, hvað mjög sem hún er rekin burt, því henni þykir sætt mannsblóðið; slíku þori fyllti Aþena innsta hjartagrunn hans. Hann gekk þangað sem Patróklus lá, og skaut fögru spjóti. Í liði Trójumanna var maður að nafni Pódes; hann var Etíonsson, auðugur maður og hraustmenni; virti Hektor hann mest af löndum sínum, því Pódes var veizlubróðir hans. Pódes var stokkinn á flótta, en þá skaut hinn bleikhári Menelás í brynbelti hans, og fló eirspjótið í gegnum hann, og varð dynkur mikill, er hann féll; en Menelás Atreifsson dró lík hans frá Trójumönnum og í flokk félaga sinna. 582 Appollon gekk til Hektors og eggjaði hann fram; var hann þá í líki Fenóps Asíussonar, er honum var kærstur allra gestfélaga hans; hann átti heima í Abýdusborg: „Hverr mun annar af Akkeum hræðast þig framar, þar sem þú hvikar svo undan Menelási, sem að undanförnu hefir verið linur bardagamaður? En nú fer hann aleinn burt með dauðan mann úr höndum Trójumanna, og hefir drepið Pódes Etíonsson, sem var tryggur félagi þinn og ágætur forvígismaður“. 591 Þannig mælti hann; þá sveif yfir Hektor svart harmaský. Hann gekk fram í gegnum forvígismennina, búinn blikanda eirmálmi. Þá greip Kronusson hinn skúfaða, ljómanda ægisskjöld, huldi skýjum allt Ídafjall, lét koma eldingar og stórar þrumur, og hristi skjöldinn; gaf hann nú Trójumönnum sigur, en stökkti Akkeum á flótta. 597 Fyrstur flýði Penelás, böyózkur maður. Hann snérist ávallt öndverður við Trójumönnum, og fékk því lag í öxlina: það var svöðusár, og risti spjótsoddurinn öxlina inn að beini. Polýdamant hafði gengið í berhögg við hann og veitt honum þann áverka. Hektor gekk að Leitus, syni ens hugstóra Alektrýons, og hjó á hönd honum við úlnliðinn, og varð hann óvígur, flýði þá og skimaði í kring um sig, því hann hugsaði ekki til þess framar, að berjast við Trójumenn með spjót í hendi. Hektor hljóp eftir Leitusi, en þá skaut Idomeneifur hann, og kom á brynjuna í brjóstið við geirvörtuna, en hið langa spjót brotnaði í falnum; þá æptu Trójumenn, en Hektor skaut spjóti til Idomeneifs Devkalíonssonar; hann stóð á kerru sinni; geigaði spjótið lítið eitt, og kom á Köyranus, fylgdarmann og kerrusvein Meríóness; hann hafði fylgzt með honum frá hinni fjölmennu Lyktusborg. Fyrrum þegar Idomeneifur kom fótgangandi frá hinum borðrónu skipum, þá hefðu Trójumenn unnið frægan sigur á honum, ef Köyranus hefði ekki skjótlega borið þar að með fótfráa hesta og komið honum til hjálpar og frelsað hann úr lífsháska; en nú lét Köyranus sjálfur líf sitt fyrir hinum mannskæða Hektor; kom spjót Hektors fyrir neðan kjálkann og eyrað, en spjótsoddurinn sprengdi út tennurnar og skar tunguna þvert í sundur; féll hann þá ofan af kerrunni, en lét falla taumana til jarðar. Meriónes laut niður og tók upp taumana með höndum sínum, og mælti til Idomeneifs: „Keyrðu nú af stað, þar til er þú kemur til enna fljótu skipa; því þú mátt nú sjá, að Akkeum verður ekki framar sigurs auðið“. 624 Svo mælti hann, en Idomeneifur keyrði hina faxprúðu hesta til enna holu skipa, því hræðsla var komin í brjóst honum. 626 Hinn hugstóri Ajant og Menelás sáu nú, að Seifur veitti Trójumönnum algjörðan sigur. Þá tók hinn mikli Ajant Telamonsson svo fyrstur til máls: „Mikil skelfing! það getur nú hvert barnið séð, að faðir Seifur veitir sjálfur lið Trójumönnum; því öll skeyti þeirra hafa mann fyrir sér, og hverr sem þeim kastar, hugleysingi eða hraustmenni, þá stýrir samt Seifur öllum skotum þeirra. En öll vor skotvopn falla ónýt til jarðar, svo ekki verður af. En heyrið nú, látum oss þó hugleiða, hvað tiltækilegast muni vera, bæði hversu vér fáum náð líkinu, og svo glatt vora kæru félaga með afturkomu vorri; munu þeir nú renna hingað raunalegum augum, og ekki ætla, að vér munum staðizt fá berserksgang Víga-Hektors, heldur munum vér falla hjá enum svörtu skipum. Nú væri gott, ef einhverr félaga vorra vildi sem fyrst segja Peleifssyni frá tíðindum, því eg hygg hann ekki hafa spurt þá harmasögu, að vinur hans sé dauður. En eg get engan séð af Akkeum, er til þessa sé fallinn, því bæði vér sjálfir og svo kerrurnar eru huldar í myrkva. Faðir Seifur, frelsa þú þó sonu Akkea frá myrkva þessum, lát verða heiðbjart, lát oss ná að sjá með augum vorum; með því að þér þóknast að tortýna oss, þá tortýn oss í dagsljósi“. 648 Svo mælti hann, en faðir Seifur aumkvaðist yfir hann, er hann jós út tárum. Hann dreifði myrkvanum og hratt burt þokunni; skein þá sólin, og blasti við allur orustustaðurinn. Þá mælti Ajant til hins rómsterka Meneláss: „Litast nú um, seifborni Menelás, ef þú sér Antílokkus enn á lífi, son ens hugstóra Nestors, og bið hann fara fljótt og segja hinum herkæna Akkilli, að hinn kærasti félagi hans er dáinn“. 656 Svo mælti hann, en hinn rómsterki Menelás gerði, sem hann bauð. Hann gekk af stað, sem ljón frá fjárhúsi, þegar það er orðið þreytt af að glettast við hunda og menn; en bændurnir vaka alla nóttina, og vilja ekki lofa ljóninu að taka feitasta uxann úr nautunum, en ljónið langar í kjötið og leitar ótæpt á, og verður ekki ágengt að heldur, því spjót og brennandi logbrandar fljúga óðum móti því úr hinum óvægnu höndum bændanna; en hvað ólmt sem ljónið er, fælist það þó brandana, og lötrar burt í sárum hug um dægramótin: svo fór hinn rómsterki Menelás mjög nauðugur frá Patróklusi, því hann var mjög hræddur um, að Akkear mundu sökum felmturs þess, er yfir þá var komið, láta hann verða óvinum þeirra að herfangi; hann lagði því ríkt á við Meríónes og þá Ajanta, og mælti: „Þið Ajantar, foringjar Argverja, og þú Meríónes, minnist nú hverr maður á hógværð hins vesala Patrókluss, sem vanur var að vera blíðskaparmaður við alla, meðan hann var á lífi, þó nú hafi dauðinn og skapanornin náð honum“. 673 Að því mæltu gekk hinn bleikhári Menelás burt; hann skyggndist alla vega í kring um sig, sem örn, er menn segja skarpskyggnastan allra fugla undir himinhvolfinu, því þó hann sé í hálofti, þá sér hann, hvar hinn fótfrái héri lúrir undir allaufguðum viðarrunni; fleygir örninn sér þá ofan á hann, hremmir hann skjótlega og tekur hann af lífi: svo hvörfluðu nú augu þín, seifborni Menelás, alla vega um hersveitir margra félaga, til að vita, hvort þú sæir Nestorsson einhverstaðar enn á lífi. Hann varð skjótt varr við hann í vinstra fylkingararminum, hvar hann var að hughreysta félaga sína og eggja þá fram til orustu; gekk hinn bleikhári Menelás til hans og mælti: „Kom hingað, seifborni Antílokkus, svo þú heyrir þau harmatíðindi, sem eg vildi þú aldrei spyrðir. Vona eg, að þú sjálfur sért sjónarvottur að og vitir, að guð lætur óhamingjuna steðja að Danáum, og að Trójumenn eiga sigri að hrósa; en nú er fallinn sá hinn hraustasti maður Akkea, Patróklus, og er Danáum stór söknuður að honum. Heyr nú, hlaup fljótt til skipa Akkea, og seg Akkilli frá, ef verða mætti, að hann geti fljótt bjargað líkinu til skips síns; það er hlífarlaust, því hinn hjálmkviki Hektor hefir náð vopnunum“. 694 Þannig mælti hann, en Antílokkus hnykkti við, er hann heyrði tíðindin; hann var lengi orðlaus og mælti ekki; augun fylltust tárum, og þá komst ekki upp sú hin rómfulla rödd hans. En allt fyrir það afræktist hann ekki erindi það, er Menelás bauð honum, heldur hljóp af stað, og fékk áður vopn sín Laódokusi, ágætum félaga sínum, er stýrði hinum einhæfðu hestum hans og hélt þeim í nánd við hann. 700 Hljóp Antílokkus nú, sem fætur toguðu, til að segja Akkilli Peleifssyni þessi ófagnaðartíðindi. Ekki vildir þú samt, seifborni Menelás, veita vörn hermönnum þessum, er nauðulega voru staddir, í stað Antílokkuss, en Pýlverjum var mikill söknuður að. Nei, Menelás bað hinn ágæta Þrasýmedes fyrir þá, en fór sjálfur aftur til kappans Patrókluss; hann hljóp til þeirra Ajanta, nam staðar hjá þeim, og tók þegar til orða: „Eg sendi hann til hinna fljótu skipa, til hins fóthvata Akkils, og hygg eg þó, að hann geri sér ekki ferð hingað, enn þótt hann sé allreiður hinum ágæta Hektori, því með engu móti má hann berjast vopnlaus við Trójumenn. En nú skulum vér hug um leiða, hvað tiltækilegast muni, bæði hversu vér megum ná líkinu, og svo hversu vér sjálfir fáum sloppið úr hergný Trójumanna, og forðað oss bana og feigð“. 715 Hinn mikli Ajant Telamonsson svaraði honum: „Allt hefir þú talað viðurkvæmilega, frægi Menelás. Heyrið nú, þú og Meríónes skuluð nú ganga undir líkið og taka það upp, og bera úr orustunni, en við nafnarnir munum berjast samhuga á baki ykkar við Trójumenn og hinn ágæta Hektor, því við höfum áður fyrri staðið hvorr hjá öðrum og þolað snarpan bardaga“. 722 Þannig mælti hann, en þeir hófu líkið á handleggjum sér hátt upp frá jörðunni, og var það ákaflega mikil aflraun. Allur hinn tróverski her æpti að baki þeim, er þeir sáu Akkea hefja upp líkið, og sóktu þá að þeim, líkir hundum þeim, er hlaupa undan veiðimönnum og elta særðan villigölt; þeir hlaupa fyrst vel og lengi, og langar ákaft til að rífa sundur göltinn, en þegar galti snýr sér við innan um hundana, þá hopa þeir aftur, og þjóta lafhræddir í sína áttina hverr: svo sóktu Trójumenn fyrst jafnt og þétt á eftir í einum hnappi, og lögðu sverðum og tvíyddum spjótum; en er þeir Ajantar snérust við móti þeim og stóðu öndverðir, urðu þeir litverpir, og þorði engi að hlaupa fram til að berjast um líkið. [Mynd: Menelás með lík Patróklusar.] 735 Þannig báru þeir líkið með mikilli orku úr bardaganum á leið til hinna holu skipa; harðnaði þó á hendur þeim hin grimma orusta, líkt sem eldur, er skyndilega gýs upp, brýzt inn í híbýli manna og brennir upp að björtu báli, svo húsin hjaðna niður í hinum mikla blossa, en veðurmegnið þýtur og æsir eldinn: svo sókti á eftir þeim, þar er þeir gengu, óaflátlegur ys og þys hesta og spjótfimra hermanna. En hinir voru, sem múlasnar, þeir er búnir eru sterku þreki, og draga trédrumb eða stóran timburstokk ofan af fjalli um grýttan veg, og þó mæðist hugur þeirra jafnt af erfiðinu og svitanum, er þeir þramma áfram: svo báru þeir Menelás líkið með stórri aflraun. En þeir báðir Ajantar voru að baki þeim og vörnuðu Trójumönnum, svo sem skógi vaxið holt, er liggur eftir endilöngum velli, stemmir stiga fyrir vatnagangi, og aftrar þungum straumum sterkustu vatnsfalla; þó þau renni með miklum styrk, fá þau ekki brotið sér farveg gegnum holtið, því það hrindir frá sér og veitir öllum vatnsföllunum rás út á sléttlendið: svo vörðu þeir báðir Ajantar ávallt á baki Akkea, og öftruðu aðsókn Trójumanna, en þeir sóktu eftir, og einna mest tveir, Eneas Ankísesson og Hektor hinn prúði. Svo sem þýtur fram skýflóki af störum og krákum með miklum ólátaklið, þegar þeir sjá smyrilinn koma, því hann er vanur að bana smáfuglunum: svo gengu sveinar Akkea með kliðmiklu ópi undan þeim Eneas og Hektori, og héldu engri vörn uppi; en mörg fögur vopn féllu alla vega í kring um díkið, þar er Danáar flýðu, og varð ekkert hlé á orustunni. ÁTJANDI ÞÁTTUR VOPNSMÍÐARÞÁTTUR. ÞANNIG börðust þeir, sem eldur brynni. Hinn fóthvati Antílokkus kom nú með tíðindasöguna til Akkils, og fann hann fyrir framan hin stafnhávu skip; var Akkilles þá að hugsa með sjálfum sér um það, sem þá var fram komið; mælti hann þá í þungu skapi við sína hugstóru sál: „Eg vesall maður, hví flýja hinir hárprúðu Akkear svo hræddir á vellinum, og flykkjast aftur til skipanna? Eg er hræddur um, að guðirnir hafi búið hjarta mínu einhverja þunga harma. Það birti móðir mín mér forðum, er hún sagði mér, að einhverr hraustasti maður af Myrmídónum mundi að mér enn lifanda líða burt úr sólarljóssheimi. Nú er víst dáinn hinn hrausti Menöytsson, hinn ofurhugaði maður; sagði eg honum þó, að hann skyldi fara aftur til skipanna, þegar hann hefði afstýrt eldi óvinanna, en berjast ekki til þrautar við Hektor“. 15 Meðan hann velkti þetta í hug sér og hjarta, kom þar til hans sonur hins ágæta Nestors; hann úthellti heitum tárum, og sagði frá hinum hörmulegu tíðindum: „Þú sonur hins herkæna Peleifs! Vei mér, nú muntu fá að heyra mikla harmasögu, er eg vildi að þú aldrei spyrðir: Patróklus er fallinn; þeir berjast um líkið, en það er hlífarlaust, því hinn hjálmkviki Hektor hefir náð vopnunum“. 22 Þannig mælti hann, en svart harmaský sveif yfir Akkilles; hann tók rauða moldina með báðum höndum sínum og jós yfir höfuð sér, og óprýddi svo hið fagra andlit sitt, en svört askan loddi á hinum dýrlega kyrtli hans. Sjálfur lá hann, hinn stórvaxni maður, endilangur í moldinni á stóru rúmsvæði, og sleit hár sitt með höndum sínum, og lék það illa. Ambáttir þær, er þeir Akkilles og Patróklus höfðu rænt, æptu hástöfum, hryggar í huga, hlupu út og flykktust í kring um hinn herskáa Akkilles, börðu þær allar á brjóst sér, og kné sérhverrar urðu máttvana. Hins vegar harmaði Antílokkus og úthellti tárum, og hélt um hendur Akkils, þar eð hann óttaðist, að Akkilles mundi bregða járni á barka sér; því þá var hinum fræga manni þröngt um hjarta. Hann hljóðaði ógurlega upp yfir sig, og heyrði það hin tigulega móðir hans, þar er hún sat í sjávardjúpinu hjá sínum aldraða föður; kveinaði hún þá hátt, en kringum hana söfnuðust allar Nereifsdætur, þær er í voru sjávardjúpinu. Þar var Gláka, Þalía og Kýmódoka, þar var Nesea, Speó, Þóa og hin mikileyga Halía, þar var Kýmoþóa, Aktea og Limnóría, þar var Melíta, Íera, Amfíþóa og Agava, þar var Dótó, Prótó, Ferúsa og Dýnamena, Dexamena, Amfínóma og Kallíaníra, Dóris, Panópa og hin víðfræga Galatea, Nemertes, Apsevdes og Kallíanassa, og þar var Klýmena, Íaníra og Íanassa, Mæra og Óriþýa, og hin fagurlokkaða Amaþea, og aðrar Nereifsdætur, þær er í sjávardjúpinu voru. Varð hinn silfurhvíti hellir fullur af sjávargyðjunum, en þær slógu allar á brjóst sér. Þá hóf Þetis harmasöng þenna: „Hlýðið til, systur, dætur Nereifs, svo þér heyrið allar og vitið, hve miklar sorgir leggjast á hjarta mitt. Vei mér aumri, vesöl em eg þess, er eg ól hinn hraustasta son! Eg ól hann, ágætan og hraustan, frábæran um fram aðra goðkynjaða menn. Hann rann upp sem ungur kvistur, og eg klakti honum upp, sem hríslu í frjóvum eikagarði, og sendi hann til Ilíonsborgar á stafnbognum skipum að berjast við Trójumenn. En nú mun eg ekki taka móti honum aftur lífs heimkomnum til Peleifshallar; því hann harmar, svo lengi sem hann lifir og lítur ljós sólarinnar, og eg get ekkert lið veitt honum, þó eg komi til. Eg skal þó fara, að sjá son minn, og heyra, hvað að honum gengur, þar sem hann þó ekki gengur í orustu“. 65 Að því mæltu fór hún úr hellinum, en þær gengu með henni grátandi, og brotnaði sjávaraldan í kring um þær. En er þær komu til hins frjóvsama Trójulands, gengu þær upp á ströndina í röð, hver eftir annarri, þar sem skip Myrmídóna höfðu verið upp sett, hvert hjá öðru í kring um skip hins skjóta Akkils. Hin virðulega móðir gekk til hans, þar sem hann andvarpaði þungan. Hún kveinaði hástöfum, tók um höfuð sonar síns, og mælti grátandi til hans skjótum orðum: 73 „Hví grætur þú, sonur? Hvað gengur að þér? Seg mér og leyn mig ekki. Nú hefir Seifur veitt þér það, sem þú baðst um fyrrum með upplyftum höndum, að allir synir Akkea hafa farið verstu sneypuför, eru hraktir að skutstöfnum skipa sinna, og þurfa þín nú við“. 78 Hinn fóthvati Akkilles svaraði henni, og andvarpaði þungan: „Að vísu hefir hinn ólympski guð veitt mér það, móðir; en hvað stoðar mig það, þar sem Patróklus er dáinn, kær félagi minn, sá er eg virti mest allra sveitunga minna, og jafnt sem höfuð á hálsi mér. Þann vin hefi eg misst; hefir Hektor drepið hann og flett hinum afar stóru vopnum, sem voru fögur og mestu gersemar. Þá glæsilegu gripi höfðu guðirnir gefið Peleifi að gjöf, þann dag er þeir köstuðu þér í rekkju dauðlegs manns. Betur hefði verið, að þú hefðir búið, þar sem þú ert, hjá hinum ódauðlegu sjávargyðjum, en Peleifur hefði gengið að eiga dauðlega konu. En nú fékk hann þig, til þess að þúsundfaldur harmur legðist á hjarta þitt af láti sonar þíns; muntú ekki fagna aftur heimkomu hans; því ekki leikur mér hugur á að lifa og vera með öðrum mönnum, nema Hektor láti fyrst líf sitt fyrir spjóti mínu, og, gjaldi mér svo hernám fyrir Patróklus Menöytsson“. 94 Þetis svaraði honum grátandi: „Já, svo er, sem þú segir, sonur, að þú munt skammlífur verða; því þegar eftir dauða Hektors er þér bani búinn“. 97 Hinn fóthvati Akkilles svaraði henni, og var þungt í skapi: „Eg vildi, eg dæi þegar í stað, með því mér varð ekki auðið að verja líf vinar míns, sem nú er drepinn; lézt hann mjög langt í burt frá föðurborg sinni, en missti mín við, að eg afstýrði frá honum ógæfunni. Nú mun eg ekki aftur heim fara til míns kæra föðurlands, fyrst eg hefi ekki orðið Patróklus að liði, eða öðrum vinum mínum, er margir hafa fallið fyrir hinum ágæta Hektor, heldur sit hér við skipin, og er sem ónýt byrði fyrir jörðina, og er þó engi hinna eirbrynjuðu Akkea jafnoki minn til vígs, þó aðrir séu meiri mælskumenn, en eg em. Eg vildi óska, að kíf og reiði væru með öllu horfin frá guðum og mönnum; því reiðin æsir oft vitrasta mann til vonzkuverka; hún er fyrst miklu sætari, en drjúpandi hunang, en magnast síðan í brjóstum manna, sem reykur. Hversu reitti mig nú Agamemnon herkonungur til reiði! En vér viljum ekki fást um það, sem liðið er, þó oss falli mjög sárt, heldur neyðumst eg til að hefta skap það, sem mér er innan brjósts. Nú mun eg fara að finna Hektor, hann, sem drepið hefir minn dýrsta vin; en móti Valkyrjunni mun eg þá taka, þegar Seifur og aðrir ódauðlegir guðir vilja svo vera láta. Því ekki komst heldur hinn sterki Herakles undan Valkyrjunni, og var hann þó hinn kærsti vinur Seifs konungs Kronussonar, heldur sigraði Skapanornin hann og hin sárbeitta reiði Heru. Svo mun eg og leggjast fyrir, þegar eg dey, ef sama á fyrir mér að liggja, sem honum. Nú mun eg heldur kjósa ágætan orðstír, og láta margar prúðbúnar konur Tróverja og Dardana andvarpa þungan og þerra báðum höndum tár af mjúkum kinnum sér; skulu þær komast að raun um, að eg hefi nú lengi haldið mér frá orustunni. Og þú, móðir, sem elskar mig svo mjög, aftra mér nú ekki frá bardaga, því það mun koma fyrir ekki“. 127 Hin silfurfætta gyðja Þetis svaraði honum: „Satt er þetta, sonur, mikil sæmd er í því, að frelsa vini sína, þá er nauðulega eru staddir, frá vísum bana. En nú eru hin fögru, ljómandi eirvopn þín hjá Trójumönnum, ber hinn hjálmkviki Hektor þau á herðum sér, og miklast mjög af því, hygg eg þó, að hann muni ekki stæra sig hróðugur lengi, því nú á hann skammt til dauða síns. En þú gakk ekki út í Aresar þraut, fyrr en þú með eigin augum sér mig koma hingað aftur. Því á morgun árla að upprennandi sólu mun eg aftur koma og færa þér fögur vopn frá Hefestus konungi“. 138 Að því mæltu skildist hún við son sinn, og er hún hafði snúið sér við, mælti hún til sjávargyðjanna: „Farið þér nú niður í sjávarins breiða skaut, á vit hins aldraða sjávarguðs og heimkynna föður míns, og segið honum frá öllu; en eg mun fara upp á hinn háva Ólymp til Hefestuss, hins fræga völundarsmiðs, og vita, ef hann vill búa til góð, blikandi hervopn handa syni mínum“. 145 Þannig mælti hún, en þær stungu sér þegar niður í sjávarbylgjuna. En hin silfurfætta gyðja Þetis fór upp til Ólymps til að sækja góð vopn handa syni sínum. Fór hún nú, sem leið lá, upp til Ólymps. 148 Nú flýðu Akkear með geysimiklu ópi undan Víga-Hektori, og komu til skipanna og Hellusunds. Þó gátu ekki hinir fagurbrynhosuðu Akkear frelsað hinn dauða Patróklus, hersvein Akkils, úr skothríðinni, því fótgönguher og kerrulið Tróverja náðu honum aftur, og Hektor Príamsson, hann var óður sem eldslogi. Þrisvar tók Hektor hinn prúði aftan í fætur Patrókluss, og vildi draga, og kallaði hátt á Trójumenn; en báðir Ajantar, berserkirnir, hrundu honum þrisvar frá líkinu, en hann treysti afli sínu og gerði ávallt ýmist, að hann veitti áhlaup aftur og aftur innan um mannösina, eða hann stóð kyrr annað kastið, og öskraði hátt; en ekki veik hann hið minnsta á hæl. Svo sem sveitahjarðmenn fá ekki hrakið bröndótt ljón úr nautsskrokki, ef það er mjög svangt: svo gátu þeir tveir herklæddu Ajantar ekki fælt Hektor Príamsson frá líkinu. Og nú hefði hann náð því og öðlazt mestu frægð, ef hin vindfráa, skjóta Íris hefði ekki komið hlaupandi ofan af Ólympi, á laun við Seif og aðra guði, með þau boð til Peleifssonar, að hann skyldi herklæðast; því Hera hafði sent hana. Gekk Íris til hans og mælti skjótum orðum: „Upp, Peleifsson, ógnarbíldur allra manna, og hjálpa nú Patróklusi; er nú hans vegna upp risinn ógurlegur hergnýr fyrir ofan skipin, og drepa menn hvorir aðra; verja Akkear dauðan náinn, en Trójumenn sækja ákaft eftir að draga líkið til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar; er Hektori hinum prúða mest í mun að ná líkinu; hefir hann þá ætlan, að höggva höfuð af hálsi þess og festa á gálga. Rís nú upp, og ligg ekki lengur; lát þér minnkun í þykja, að Patróklus verði tróverskum hundum að leikfangi. Það skal vera þín skömm, ef líkið verður skammhöggvið“. 181 Hinn fóthvati, ágæti Akkilles svaraði henni: „Íris gyðja, hverr guðanna sendi þig til mín með þessa orðsending?“ 183 Hin vindfráa, fljóta Íris svaraði honum: „Hera sendi mig, hin veglega kona Seifs. Kronusson öndvegisguð veit ekki af því, og engi af þeim guðum, sem búa á hinum snjóþakta Ólympi“. 187 Hinn fóthvati Akkilles svaraði henni: „Hversu má eg ganga út í orustu? Þeir hafa náð vopnunum, Tróverjar; en móðir mín bannar mér að herklæðast, fyrr en eg sjái hana sjálfa koma, því hún lofaði, að hún skyldi færa mér fögur vopn frá Hefestus; en eg veit ekki til, að vopn nokkurs manns sé við mitt hæfi, nema skjöldur Ajants Telamonssonar; hygg eg þó, að hann sé nú sjálfur fremstur í flokki, og höggvi niður óvini sína í kring um lík Patrókluss“. 196 Hin vindfráa, fljóta Íris svaraði honum: „Vér vitum það og með vissu, að hin frægu vopn þín eru nú í hershöndum. Nú skaltu ganga, eins og þú stendur, að díkinu, og láta Trójumenn sjá þig; kann vera, að Trójumenn hræðist þig, og láti svo af orustunni, en hinir víglegu synir Akkea fái hvíld, því þeir eru nauðulega staddir, en nú er lítið hlé á orustunni“. 202 Að því mæltu fór hin vindfráa, fljóta Íris burt. Þá reis Akkilles upp, ástvinur Seifs; lagði Aþena hinn skúfaða ægisskjöld um hinar þreklegu herðar hans; hin veglega gyðja kórónaði höfuð hans með gullnu skýi, og lét þar upp af brenna ljómandi loga. Svo sem reykinn leggur upp allt til himins úr borg nokkurri á fjarlægri eyju, er óvinir herja á; halda eyjarskeggjar upp harðri orustu allan daginn í gegn, og verja borg sína; en jafnskjótt og sól er runnin, blossa vitar upp hverr hjá öðrum, og skýtur bjarmanum hátt í loft upp, svo nábúarnir geti séð, ef svo mætti verða, að þeir kæmi á skipum til að frelsa þá úr háskanum: svo lagði ljómann til himins af höfði Akkils. Hann gekk upp frá garðinum, og yfir díkið, og stóð þar, en gekk ekki í flokk með Akkeum, því hann vildi hlýða hinu viturlega boði móður sinnar. Akkilles kallaði nú upp, þar sem hann stóð, en langt burtu þaðan lét Pallas Aþena til sín heyra, og vakti hún geysimikinn ys í liði Trójumanna. Svo sem hljóðið er hvellt í básúnu þeirri, er við kveður, þegar morðgjarnir óvinir umsitja borg nokkura: svo hvell var nú rómur Ajaksniðja. En er Trójumenn heyrðu hina eirsterku rödd Ajaksniðja, þá féllst öllum hugur, en hinir faxprúðu hestar snéru við kerrunum aftur, því þá óaði fyrir einhverjum óförum. Kerrusveinarnir urðu skelfdir, er þeir sáu hinn óþrotlega eld brenna ógurlega af höfði hins hugstóra Peleifssonar, en þann eld kynti hin glóeyga gyðja Aþena. Hinn tigulegi Akkilles kallaði hátt þrisvar fyrir handan díkið, og þrisvar sló felmtri á Trójumenn og hina frægu liðsmenn þeirra. Þá drápust þar tólf hraustustu kappar, er urðu fyrir kerrum og spjótum sjálfra þeirra, en Akkear drógu Patróklus með fögnuði undan skotunum, og lögðu hann á líkbörur, og stóðu hinir kæru félagar hans grátandi kringum börurnar. Með þeim fylgdist og hinn fóthvati Akkilles; hann úthellti heitum tárum, þá er hann leit á hinn tryggva vin sinn, þar sem hann lá á börunum sundraður hvössu eirvopni; hafði hann nýsent hann í orustuna með hesta og kerru, en tók ekki aftur móti honum lífs heimkomnum. 239 Hin mikileyga, tignarlega Hera lét hinn ómæðna Helíus fara nauðugan ofan að Ókeansstraumum. Gekk Helíus þá undir, en hinir ágætu Akkear hættu hinni hörðu orustu og hinum mannskæða bardaga. 243 Hins vegar létu Trójumenn af hinni hörðu orustu, og leystu hina fráu hesta frá kerrunum. Þeir komu saman á þing, áður en þeir hygði á kvöldverð; þeir stóðu allir á því þingi, en engi þorði að setjast, því allir voru óttaskelfdir, sökum þess að þá hafði Akkilles látið sjá sig, en hafði áður lengi engan hlut átt í hinni hættulegu orustu. Hinn vitri Polýdamant Panþóusson tók nú fyrstur til máls á þinginu; hann var allra manna forvitrastur og framsýnstur; hann var vinur Hektors; voru þeir fæddir á einni nóttu; var Polýdamant einhverr orðfærasti maður, en Hektor bar langt af öllum að vígfimi. Polýdamant var maður vinsæll, hann tók til orða á þinginu og mælti: „Hafið nú vandlega athuga á öllu, góðir hálsar. Það er mitt ráð, að menn fari nú til borgarinnar, og bíði ekki á vellinum hér við skipin, þar til hin veglega Morgungyðja kemur; því vér erum langan veg frá borgarveggnum. Meðan þessi maður var reiður hinum ágæta Agamemnoni, þá var allt hægra við Akkea að eiga í bardögum; hafða eg þá oft gaman af að liggja úti hjá hinum fljótu skipum, og gerði mér í hug, að eg mundi tekið fá hin borðrónu skip. En nú em eg ákaflega hræddur við hinn fóthvata Peleifsson; því slíkur ofurhugi sem hann er, mun hann ekki láta sér lynda, að láta hér fyrir berast á vellinum, þar er hvorirtveggju, Tróverjar og Akkear, berjast jafnvígóðir í herkvíunum, heldur mun hann berjast til að ná borg vorri og konum vorum. Förum þá til borgarinnar, og hlýðið ráðum mínum. Því þessi mun raunin á verða; nú hefir hin himneska nótt hamlað hinum fóthvata Peleifssyni, en ef hann hittir okkur hér stadda á morgun, þá hann rís upp í vopnum sínum, þá mun margur maður fá á honum að kenna; mun þá sá, er undan getur flúið, verða feginn að komast til ennar helgu Ilíonsborgar, en marga af Trójumönnum munu hundar og gammar sundur rífa, sem eg óska að aldrei bæri mér til eyrna. Nú ef vér viljum mínum ráðum fram fara, er vér erum svo nauðulega staddir, þá munum vér halda liðsafla vorum á torginu í nótt, en turnarnir og hin hávu hlið, og hinar stóru, sléttsköfnu, lokuðu hurðir, sem á eru hliðunum, skulu gæta borgarinnar. En á morgun árla munum vér ganga upp í turnana alvopnaðir, og standa þar; mun Akkilles þá hafa verra af, ef hann fer frá skipunum, og vill berjast við oss til borgarveggjarins; mun hann hverfa aftur til skipanna, þá hann hefir fullsatt hina hnarreistu hesta sína á hlaupum í margvíslegu kringsóli umhverfis um borgina. En ekki mun hann hafa hug til að ráðast inn í borgina, og aldrei mun hann fá hana brotið; fyrr munu fráir hundar rífa hann“. 284 Hinn hjálmkviki Hektor leit til hans með reiðisvip og mælti: „Ekki líkar mér enn þetta, sem nú segir þú, Polýdamant, þar sem þú ræður til, að menn hneppi sig aftur inn í borgina. Hvort hafið þér enn ekki fengið nóg af því, að vera kvíaðir innan borgarveggja? Fyrr gerðu allir mæltir menn orð á því, hvað Príamsborg væri auðug af gulli og eiri, þó nú séu hinar fögru gersemar úr húsum horfnar, margir gripir seldir og komnir til Frýgalands og hins fagra Meónalands, síðan hinn mikli Seifur varð oss reiður. En nú, þegar sonur hins brögðótta Kronusar hefir veitt mér að vinna frægð hér við skipin og hrekja Akkea að sjó fram, skalt þú ekki, fávís maður, bera slíkar tillögur upp framar fyrir alþýðu, því engi Trójumanna mun á þær fallast, enda mun eg ei leyfa það nokkurum. Heyrið nú, látum oss nú alla fallast á það, er eg legg til. Takið nú kvöldverð hér í herbúðunum, hverr í sinni sveit, gangið svo á vörð, og haldi hverr maður vöku fyrir sér. En hverr Trójumanna, sem þolir allmjög önn fyrir eigur sínar, hann safni þeim saman og gefi þær hernum, svo allir hafi þær til kosts sér sameiginlega; betra er, að vorir hermenn njóti þeirra, en Akkear. En á morgun árla skulum vér herklæðast, og vekja snarpa orustu hjá hinum holu skipum. En ef það er víst, að hinn ágæti Akkilles er upp risinn hjá skipunum, þá skal hann hafa verra þar af, ef hann vill hafa sig nokkuð frammi. Ekki mun eg forðast hann í hinum róstusama bardaga; nei, eg skal ganga beint framan að honum, og vita, hvort hann á vísan mikinn sigur, eða hvort mér muni sigurs auðið verða. Valtur er Vígaguðinn, og vegur oft þann, er vígi er næstur“. 310 Svo mælti Hektor á þinginu, og gerðu Tróverjar róm mikinn að máli hans, hinir óforsjálu menn, því þá tók Pallas Aþena frá þeim vitsmuni þeirra. Þeir urðu samþykkir Hektori, þó hann réði þeim óheilt; en engi rómaði mál Polýdamants, og var það þó heillaráð, er hann sagði þeim. 314 Akkear hörmuðu Patróklus allan daginn, og andvörpuðu, en Peleifsson hóf upp þungar harmatölur meðal þeirra, lagði sínar manndrápsgjörnu hendur á brjóst vinar síns, og andvarpaði mjög ótt. Svo sem þá er hjartskyti hefir tekið hvolpa undan kamploðinni ljónsmóður í þykkum skógarrunni; en er mæðran kemur á eftir, þá sárnar henni missirinn; fer hún þá yfir margar fjallalautir snuðrandi, til að vita, hvort hún finnur nokkurstaðar för mannsins, því beisk reiði er í hana komin: svo andvarpaði Akkilles þungan, og mælti í viðurvist Myrmídóna: 324 „Mikil undur, til ónýtis urðu þau orð, er mér hrutu, þann dag er eg hughreysti kappann Menöytíus í höll hans; hét eg honum að færa honum aftur hinn fræga son hans heim til Ópuntsborgar, og skyldi hann þá hafa lagt Ilíonsborg í eyði og öðlazt sinn hlut af herfanginu. En Seifur lætur ekki framgengar verða allar ætlanir manna; því okkur er báðum ætlað að rjóða sömu jörð hér í Trójulandi, því ekki mun hinn aldraði riddari Peleifur, né heldur Þetis móðir mín veita mér viðtöku heilum heimkomnum í húsum sínum, heldur mun eg hér gista undir grænni torfu. Með því nú, Patróklus, að eg mun síðar til moldar hníga en þú, þá skal eg ekki fyrr gera útför þína, en eg hefi fært hingað vopn og höfuð Hektors, hins hugstóra bana þíns, og hálshöggvið tólf fagra sonu Trójumanna fyrir framan bálið, í hefnd eftir þig. Á meðan skaltú liggja hér svo búinn hjá hinum stafnbognu skipum, en yfir þér skulu gráta prúðbúnar tróverskar og dardanskar konur, og úthella tárum nætur og daga; þær konur hertókum við með oddi og egg, þá er við brutum niður auðugar borgir mæltra manna“. 343 Að því mæltu kallaði hinn ágæti Akkilles til félaga sinna, og bað þá setja stóran þrífæting yfir eld, að þeir sem fyrst þvæði blóðlifrarnar af Patróklusi. Þeir settu laugarvatnsketil yfir brennandi eld, helltu þar í vatni, tóku við og kyntu undir, lék eldurinn ketilbumbuna, og hitnaði vatnið. En er vatnið sauð í hinum fagra eirkatli, þvoðu þeir líkið, og smurðu með viðsmjörsviðarfeiti, fylltu sárin með níu ára gömlum smyrslum, lögðu svo líkið á börur og breiddu mjúkt lín yfir frá höfði til fóta, og þar yfir hvítan dúk. Myrmídónar hörmuðu síðan Patróklus með þungum andvörpum alla nóttina hjá hinum fóthvata Akkilli. Þá mælti Seifur til Heru, systur sinnar og konu: „Þú hin mikileyga drottning, Hera, þar hefir þú þó loksins komið því til vegar, að hinn fóthvati Akkilles er risinn á fætur. Hinir hugprúðu Akkear eru sannkallaðir synir þínir“. 360 Hin mikileyga drottning Hera svaraði honum: „Þú harðráðasti Kronusson, en að þú skulir mæla slíkum orðum! Mennskur maður, enn þótt dauðlegur sé og hafi ekki jafnmörg ráð undir rifi, sem eg, mun þó víst koma sínu fram á öðrum manni. Átti eg þá ekki að gera Trójumönnum illt, hatursmönnum mínum, þar sem eg er hin æðsta af gyðjunum, hvortveggja af ætt minni og sökum þess, að eg em kona þín, sem ert yfirkonungur hinna ódauðlegu guða?“ Þannig töluðust þau við um þetta. 369 Hin silfurfætta Þetis kom til hallar Hefestuss; sú höll var af eiri, óslítandi, ljómandi fögur, og bar af öllum öðrum goðahöllum; hafði Bægifótur gert þá höll sjálfur. Hún fann hann, þar sem hann var að bjástra við belgina; hann átti annríkt og var sveittur mjög; hafði hann þá í smíðum ekki færri en tuttugu þrífætinga, er standa skyldu með vegg hins gólffasta húss; undir hverjum fæti gerði hann gullhjól, svo þeir gætu runnið af sjálfsdáðum til samkundu guðanna, og aftur þaðan heim til hallarinnar; var það mikið furðuverk. Svo langt var nú komið smíðinni, en þá voru hin haglegu eyru enn ekki á komin; var hann nú að smíða eyrun, og slá til naglana. Meðan hann var að starfa að þessu með miklu hugviti, þá kom hin silfurfætta gyðja Þetis að höllinni. Hin fríða, fagurdúkaða Karis, er hinn víðfrægi Fótlamur átti, gekk fram í þessu, og gat að líta hana; tók hún þá í hönd Þetisi, tók til orða og mælti: „Hví kemur þú til hallar vorrar, þú síðmöttlaða Þetis, virðulegur gestur og velkominn? Þú ert þó ekki annars vön að koma hér með jafnaði. En kom þú nær, svo eg veiti þér beina“. 388 Að því mæltu leiddi hin ágæta gyðja hana inn, og lét hana setjast á silfurnegldan hástól; hann var fagur og forkunnlega gerður, og var fótaskör undir til að standa á. Hún kallaði þá á hinn fræga völundarsmið, Hefestus, og mælti: „Kom fram hingað, Hefestus; hún Þetis vill þér eitthvað“. Hinn víðfrægi Fótlamur svaraði henni: „Þar hefir vegleg og virðuleg gyðja sókt mig heim. Hún bjargaði lífi mínu, þegar eg var kominn hætt af fallinu mikla; kom það af völdum móður minnar, sem var svo ósvífin, að hún vildi myrða mig, af því eg var fótlami. Þá hefði farið illa fyrir mér, ef þær hefðu ekki tekið við mér í skaut sitt, þær Evrýnoma, dóttir hins kringstreyma Ókeans, og Þetis. Hjá þeim var eg í níu ár í holum helli, og smíðaði margar gersemar, sylgjur, bjúga armbauga, eyrnaklukkur og hálsbauga; rann hinn ómælilegi Ókeansstraumur umhverfis hellinn með miklum nið og froðufalli, og vissi engi af mér af guðum eða dauðlegum mönnum, nema þær Þetis og Evrýnoma, sem höfðu bjargað mér; þær vissu, hvar eg var. Sú gyðja er nú komin til hallar minnar; á hin fagurlokkaða Þetis það að mér, að eg greiði henni full laun fyrir lífgjöfina. Heyr þú, veit þú henni góðan beina, meðan eg legg frá mér belgina og öll smíðatólin“. [Mynd: Þetis í smiðju Hefestusar.] 410 Að því mæltu reis hið afar stóra ferlíki upp frá steðjaþrónni. Hann haltraði, en þó hreyfðu sig fljótt hans máttvönu fótleggir. Hann lét eldblístrurnar sér, tíndi upp öll smíðatólin og lét þau niður í silfurkistu. Þá tók hann njarðarvött og þurrkaði um andlit sér og báðar hendur, hinn þrekna háls og hið loðna brjóst. Þá fór hann í kyrtil og tók digran staf í hönd sér, og gekk út haltrandi. Samsíða konunginum gengu gullþernur, líkar lifandi meyjum; þær hafa vit í brjósti og mál og styrkleik, og hinir ódauðlegu guðir hafa kennt þeim hannyrðir; þær gengu við hlið konungsins og höfðu fullt í fangi að styðja hann; dróst hann svo með þeim, þangað að sem Þetis var, og settist á fagran hástól, hélt um hönd henni, tók til orða og mælti: „Hví kemur þú til hallar vorrar, síðmöttlaða Þetis, virðulegur gestur og velkominn oss? Þú ert þó ekki vön að koma hér annars með jafnaði. Seg, hvað þér er í huga; eg skal gjarna gjöra það, ef eg má, og verði því til leiðar komið“. [Mynd: Hefestus smíðar skjöld Akkilless.] 428 Þetis svaraði honum tárfellandi: „Hefestus, mun nokkur af öllum þeim gyðjum, sem á Ólympi eru, borið hafa á hjarta sínu jafnsárt mótlæti, og þeir harmar eru, er Seifur Kronusson hefir á mig lagt fremur öllum öðrum? Hann batt mig eina af sjávargyðjunum á hönd Peleifi Ajakssyni, og varð eg að ganga á beð með honum, þó mér væri það sárnauðugt, og liggur hann nú ellihrumur í höll sinni. Ekki er allt þar með búið: Seifur veitti mér það, að eg ól og upp fæddi þann son, er afbragð var annarra goðkynjaðra manna; rann hann upp, sem ungur kvistur, og klakti eg honum upp, sem hríslu í frjóvsömum garði; sendi eg hann til Ilíonsborgar á stafnbognum skipum að berjast við Trójumenn. En nú mun eg ekki taka móti honum aftur lífs heimkomnum til Peleifshallar, því hann harmar, svo lengi sem hann lifir og lítur ljós sólarinnar, en eg má ekkert lið veita honum, þó eg komi til. Konu þá, er synir Akkea höfðu valið honum að heiðursgjöf, hana tók Agamemnon konungur aftur frá honum. Nú tók hann sárt missir hennar, og því sleit hann hjarta sitt í harmi, en Trójumenn ráku Akkea ofan að kjalarhælum skipa sinna og bönnuðu þeim upp á land að ganga. Fóru þá höfðingjar Argverja bónarveg til hans, og hétu honum mörgum stórgjöfum. Að sönnu synjaði hann þeim nú þess, að fara sjálfur og reka ófögnuðinn af hendi þeim, en lét Patróklus fara í vopn sín, sendi hann til orustu, og lét marga menn fara með honum. Þeir börðust allan daginn hjá Skehliðum, og hefðu lagt borgina samdægris í eyði, ef Appollon hefði ekki veitt Hektori sigur og drepið hinn hrausta Menöytsson í brjósti fylkingar, og hafði Patróklus þá unnið mikinn skaða á óvinunum. Fyrir því kem eg nú að knjám þínum, að vita ef þú vilt ljá hinum ógæfusama syni mínum skjöld og hjálm, fagrar brynhosur með öklapörum, og brynju; því brynju þá, er hann átti, missti hinn tryggi vinur hans, þá hann var sigraður af Trójumönnum; en sonur minn liggur á jörðunni, harmþrunginn í hjarta“. 462 Hinn víðfrægi Fótlamur svaraði henni: „Vert óhrædd, lát þér eigi þetta að áhyggju verða. Eg vildi eg gæti eins falið hann fyrir hinum óttalega dauða, þegar skapadægur hans ber að, eins og vopn skulu verða til handa honum, svo fögur, að margur hverr maður, er þau sér, skal undrast þau ekki síður en hin“. 468 Að því mæltu skildist hann þar við hana, og fór til belgja sinna, snéri þeim að eldinum og bað þá blása; blésu þá ekki færri en tuttugu belgir í aflana, og sendu út frá sér ýmiss konar glæðandi gust, svo þeir voru til taks, bæði þegar Hefestus flýtti sér, og eins endrarnær, eftir því sem hann vildi, og eftir því sem smíðinu leið. Hann lét í eldinn óslítandi eir, tin, dýrmætt gull og silfur; síðan lagði hann stóran steðja í steðjaþróna, tók sterkan hamar í hönd sér, en hélt á töng í hinni. 478 Fyrst gerði hann stóran og sterkan skjöld, og vandaði hann alla vega sem mest; í kring um skjöldinn lagði hann fagra rönd, þrefalda og ljómandi, og silfurbúinn fetil út úr skildinum; í skildinum sjálfum voru fimm lög; en á skildinum gerði hann mörg hagleiksbrögð af hugviti sínu. 483 Hann gerði þar á jörð og himin og sjó, hinn ómæðna Helíus og hinn fulla Mána, og öll þau himintungl, er himinhvolfið er alsett með umhverfis, Sjöstjörnurnar, Vætustjörnurnar, hinn sterka Óríon og Björninn, er Vagn kallast öðru nafni, og gengur þar í hring og hefir augun á Óríoni, og er einn svo, að hann laugast ekki í útsjánum. [Mynd: Brúðför] 490 Þar gerði hann tvær fagrar borgir mæltra manna; í annarri borginni voru brúðkaupsveizlur og mannboð; voru brúðirnar leiddar úr brúðarhúsunum um borgina með brennandi blysum, og var kyrjaður upp hár brúðarsöngur; þar hringsnéru sér ungir sveinar, er léku dansleik, og meðal þeirra hljómuðu pípur og hörpur, en konurnar stóðu hver í sínu fordyri, og undruðust. Á torginu voru bæjarmenn saman komnir; þar reis upp deila mikil; þrættu tveir menn um bætur eftir veginn mann, og kvaðst annar goldið hafa fullar vígsbætur, og vottaði það fyrir lýðnum, en hinn þrætti fyrir, að hann hefði við nokkurum bótum tekið. Nú vildu báðir koma málinu til loks, og láta lögvitran mann um dæma; gerðu menn góðan róm að hvorumtveggjum, og hélt sinn með hvorum; þögguðu þá kallarar niður lýðinn, en öldungarnir sátu í helgum hring á sléttum steinum, og héldu á sprotum hinna hvellrómuðu kallara, spruttu síðan upp með sprota í hendi sér, og sögðu fram atkvæði sín hverr eftir annan. Í miðjum dómhringnum lágu tvær vættir gulls, er sá skyldi fá, er réttastan dóm dæmdi þeirra í milli. 509 Hjá hinni borginni sátu tveir herflokkar; þeir ljómuðu allir af vopnum; umsátursherinn bauð tvo kosti, að þeir skiptu í helminga öllu því fé, er væri í borginni, ella létust beir mundu leggja borgina í eyði. Að þessum kostum vildi borgarherinn enn ekki ganga, og bjóst á laun að gera þeim fyrirsátur, en konur þeirra og börn og gamalmenni stóðu uppi á borgarveggnum og gættu hans. Nú fóru þeir af stað, og var Ares og Pallas Aþena í fararbroddi; þau voru bæði af gulli gjör og klædd í gullklæði, bæði fögur sýnum og stórvaxin, er þau voru guðir, og var hvortveggja þeirra mjög auðkennilegt, en hitt liðið var nokkuð minna vexti. En er þeir komu, þar er þeir vildu hafa fyrirsátrið, það var hjá fljóti nokkuru, og var þar brynnt öllum nautunum, þá settust þeir þar, búnir blikanda eirmálmi. Síðan fóru tveir menn frá liðinu og settust á njósn, og biðu þess, að þeir sæju, nær sauðféð kæmi og hin bjúghyrndu naut; var þess ei langt að bíða, að féð kom í ljós, og fylgdu því tveir smalamenn; þeir skemmtu sér á munnhörpur, og vissu sér engin svik búin. En er hinir sáu féð, hlupu þeir á það, ræntu nautahjörðunum og hinum fríðu hjörðum enna hvítu sauða, en drápu hjarðmennina þar hjá fénu. Nú sem umsátursherinn heyrði óhljóðin, þangað sem nautin voru, sátu þeir þá fyrir framan þingstöðina, þá stigu þeir þegar á hina léttfættu hesta sína, og riðu eftir hinum; náðu þeir þeim skjótt, og er þeir höfðu fylkt liði sínu, börðust þeir á fljótsbökkunum, og skutust á eirslegnum spjótum. Þar var Þrætan í flokki, þar var Hergnýrinn, og þar var hin skaðvæna Valkyrja; hún þreif ýmist lifandi menn nýsærða, ýmist ósærða menn, ýmist dró hún dauða menn á fótunum í mannösinni; hún hafði rautt klæði á herðum, litað í mannablóði. Þeir áttu vopnaskipti og börðust, sem væru þeir lifandi menn, og drógu til sín dauða menn, er fallið höfðu hverr fyrir öðrum. [Mynd: Bóndi við plóginn. Hermaður í stríðsvagni ásamt vagnstjóra sínum.] 541 Hefestus gerði á skildinum mjúka ekru; það var feitt sáðland, vítt og þríplægt. Á þeirri ekru voru margir akurmenn; þeir óku eykjunum í hring, og keyrðu þá ýmist fram eða aftur; en í hvert sinn er þeir komu á enda plóglandsins eftir hverja umferð, gekk til þeirra einn maður og rétti að þeim fullt drykkjarker af ljúffengu víni; snéru þeir þá aftur og þræddu með plógreininni, og kepptust við að komast á enda ens djúpa ekrulands; en þó ekran væri af gulli gjörð, þá sortnaði hún þó að baki þeim, og sýndist sem plægð væri; var það hið mesta völundarsmíði. 550 Hann gerði og á skildinum hávaxinn kornakur; þar voru kornskurðarmenn, og héldu á beittum sigðum, og skáru; féllu sumar málhendurnar til jarðar strannlengis hver við aðra, en kerfarar tóku sumar málhendurnar og bundu með kerfabendum; því þar stóðu hjá þrír kerfarar, en að baki þeim voru sveinar, er tóku saman málhendurnar, báru þær í fangi sér og réttu jafnótt að þeim. Þar var konungur meðal þeirra; hann þagði, hélt á sprota og stóð hjá múgnum, glaður í hjarta; en kallarar voru spölkorn þaðan undir einni eik og bjuggu til snæðings; höfðu þeir slátrað stórum uxa, og gerðu hann til; en konur sáðu yfir kjötið miklu af hvítu byggmjöli; skyldi það vera kvöldverður handa kornskurðarmönnunum. 561 Hann gerði enn á skildinum vínakur; hann var þungaður af vínberjum, fagur og af gulli gerður; berin voru dökk á viðnum, en viðurinn reis alstaðar upp við vínstoðir, þær voru af silfri. Í kring um akurinn gerði hann gröf, og garð þar í kring; hann var af tini, og lá eitt einstigi að gröfinni; þann stig gengu burðarmenn ávallt, þegar berin voru lesin. Meyjar og glaðværir sveinar báru hinn hunangsæta gróða í riðnum körfum, en mitt á meðal þeirra var einn sveinn, er lék ununarfullt lag á snjalla hörpu, og söng undir fagurlega Línusarljóð með mjúkri rödd, en hinir gengu með honum dansandi og leikandi með söng og gleðilátum. 573 Enn gerði hann á skildinum hjörð háhyrndra nauta; voru nautin gerð af gulli og tini, og hlupu baulandi frá fjósinu út í hagann, en hagbeiti var í loðnu sefengi fram með einu niðmiklu fljóti. Fjórir hjarðmenn úr gulli gengu með nautunum, og fylgdu þeim níu fótfráir hundar. Fremst í nautaflokknum voru tvö óttaleg ljón, og höfðu náð öskrandi griðungi; drógu þau hann, en hann beljaði hátt, og hlupu hundarnir og hjarðsveinarnir eftir honum. Ljónin rifu húðina af hinum mikla griðungi, og hvomuðu í sig kjötið og hið svarta blóð, og kom fyrir ekki, þó hjarðmennirnir siguðu hundunum á þau, því þeir þorðu ekki að bíta ljónin, heldur stóðu rétt hjá þeim geltandi, og voru varir um sig. 587 Hinn víðfrægi Fótlamur gerði og á skildinum stórt beitarland fyrir ena hvítu sauði í fögrum afdal, og þar með fjárhús, þaktar búðir og lambakrær. 590 Enn gerði hinn víðfrægi Fótlamur á skildinum með miklum hagleik dansleik einn, líkan þeim, er Dedalus gerði forðum í hinni víðlendu Knósusborg handa hinni fagurlokkuðu Aríöðnu. Þar dönsuðu sveinar og mundsælar meyjar, og héldu hvert um úlnlið annars; voru þær í smágjörvum línhjúpum, en þeir í vel ofnum kyrtlum, er voru jafngljáandi af viðsmjöri; þær höfðu fagra sveiga, en þeir gullsöx á silfurfetlum; ýmist léku þau hringdans mjög léttilega með fimlegu fótataki, svo sem þá leirsmiður situr og hefir mátulega kringlu í hendi, og reynir, hversu hún snýst; ýmist dönsuðu þau í röðum hvert við annað. Mikill fjöldi fólks stóð í kring um hið ununarfulla leiksvið, og hafði gaman af, og þar var með þeim andríkur söngmaður, er lék á hörpu og söng undir; en er hann byrjaði sönginn, komu fram tveir kollhlauparar og hringsnéru sér meðal þeirra. 607 Hann gerði og á skildinum hinn ofur máttuga Ókeansstraum allt með yztu rönd hins gersemlega skjaldar. 609 En er hann hafði gert hinn mikla og sterka skjöld, þá smíðaði hann fyrir hana brynju; sú var fegri en eldsbjarmi; hann smíðaði og fyrir hana hjálm, fagran og vandaðan, mátulegan um höfuð Akkilli, og gerði þar á bust af gulli; þá bjó hann til fyrir hana brynhosur af voðfelldu tini. 614 En er hinn frægi Fótlamur hafði gert öll vopnin, tók hann þau, og lagði fram fyrir móður Akkils; en hún stökk, sem haukur, ofan af hinum snjóvga Ólympi með hin ljómandi vopn frá Hefestusi. NÍTJÁNDI ÞÁTTUR AKKILLES OG AGAMEMNON SÆTTAST. MORGUNGYÐJAN reis upp af Ókeansstraumum, íklædd sóllauksmöttli, til að bera birtu ódauðlegum guðum og dauðlegum mönnum. Þetis kom nú til skipanna með gjafir guðsins. Hún fann sinn kæra son; hafði hann þá Patróklus í fangi sér og grét hástöfum, og margir félagar hans hörmuðu í kring um hann. Hin veglega gyðja gekk til hans, greip um hönd hans, tók til orða og mælti: „Sonur minn, látum þenna liggja, þó okkur taki sárt til hans, fyrst hann eitt sinn er dáinn að ráðstöfun guðanna. En tak þú nú við hinum ágætu vopnum frá Hefestusi; þau eru svo fögur, að engi maður hefir enn borið slík á herðum sér“. 12 Að því mæltu lagði gyðjan vopnin fram fyrir Akkilles, og glamraði þá í öllum gersemunum. Skelkur kom í alla Myrmídóna; þorði engi að líta í gegn vopnunum, heldur hrukku þeir frá. En jafnskjótt og Akkilles leit vopnin, jafnskjótt hljóp enn meiri reiði í hann, en áður var; blossuðu augu hans undir brúnum, sem leiftur; hafði hann gaman af að handleika hinar glæsilegu gjafir guðsins. En er hann hafði svalað hjarta sínu á því að horfa á gersemarnar, mælti hann þegar skjótum orðum til móður sinnar: „Þau vopn hefir guð gefið, móðir mín, að líklegt er, að slíkir gripir séu af guðum gerðir, en engin mannaverk. Nú mun eg herklæða mig; en eg em mjög hræddur um, að meðan eg fer í vopnin, komi flugur og skríði inn í hinn hrausta Menöytsson um hinar eggbitnu undir, leggi þar möðkum og afskræmi líkið, því allt lífið er drepið, og drafni svo allur líkaminn“. 28 Hin silfurfætta gyðja Þetis svaraði honum: „Lát þér ekki þetta að áhyggju verða, sonur. Eg mun reyna til að reka frá honum flugurnar, villisæg þann, er etur vopndauða menn. Því þó hann liggi árlangt, skal líkami hans verða óskaddur, eða jafnvel sjálegri, en áður. En kalla nú hina akknesku kappa á þing, seg lausri heift þinni við herkonunginn Agamemnon, bú þig svo til bardaga og íklæðst styrk þínum“. 37 Með þessum orðum kom hún áræðisfullum hugmóð í brjóst hans, en lét drjúpa ódáinsfeiti og rautt ódáinsvín inn um nasir Patrókluss, svo líkami hans yrði óskaddaður. 40 Hinn ágæti Akkilles gekk eftir sjávarströndinni, kallaði ógurlega hátt og kvaddi upp hina akknesku kappa. Þeir sem áður höfðu ávallt kyrrir verið á skipstöðinni, bæði skipstjórnarmenn, er vanir voru að halda um stjórnvéli skipanna, og brytar, er miðluðu matvælum við skipin, þeir gengu nú og einnig á þing, sökum þess að Akkilles lét nú sjá sig, en hafði lengi engan þátt átt í hinni hættulegu styrjöld. Tveir komu haltrandi, þjónustumenn Aresar, hinn vígdjarfi Týdeifsson og hinn ágæti Odysseifur; þeir studdust við spjót, því þeir höfðu enn viðkvæm sár; þegar þeir komu, settust þeir niður fremst á þinginu. Síðastur allra kom Agamemnon herkonungur; hann hafði sár á sér; hafði Kóon Antenorsson sært hann með eirslegnu spjóti í hinni hörðu orustu. En er allir Akkear voru saman komnir, þá stóð hinn fóthvati Akkilles upp, og mælti til þeirra: „Atreifsson, þetta hefði þó verið betra fyrir okkur báða, mig og þig, þegar við í sárum hug deildum sárbeittu kappi um konuna. Eg vildi óska, að Artemis hefði drepið hana með ör við skipin, þann dag er eg rænti henni og braut Lýrnesborg. Þá hefðu ekki svo margir Akkear að velli hnigið fyrir óvinunum, eins og fallið hafa, meðan eg hélt fram heiftinni. Fyrir Hektor og Trójumenn var þetta að vísu betra, en Akkear munu, vonar mig, lengi minnast deilu minnar og þinnar. En eg vil ekki fást um það, sem liðið er, þó sárt sé á að minnast, heldur hefta nauðugur skap það, sem mér er innan brjósts. Eg legg nú niður reiðina, því mér sæmir ekki að vera ávallt reiður án afláts. En heyr nú, bið nú fljótt hina hárprúðu Akkea að fara til orustu, svo eg enn megi mæta Trójumönnum, og vita, hvort þá muni langa til að hafa náttból hjá skipunum; er hitt heldur gáta mín, að margur muni feginn verða hvíldinni, ef hann að eins kemst lífs úr hinni skæðu styrjöld og grimmu baráttu“. [Mynd: Akkilles tekur við vopnunum af Þetisi.] 74 Þannig mælti hann, en hinir fagurbrynhosuðu Akkear urðu glaðir, er hinn hugstóri Peleifsson hafði gefið upp heiftarreiði sína. Þá reis herkonungurinn Agamemnon upp úr sæti því, er hann sat í, og mælti þaðan til þeirra, án þess að ganga fram á þingið: „Heyrið, vinir, þér kappar Danáa, þjónar Aresar! Menn eiga að hlýa á þann, sem stendur og talar, en það sæmir ekki, að skjóta orðum í; því það glepur jafnvel þann, sem vel er máli farinn. En hversu má nokkurr hlýða til eða mæla máli sínu í miklum mannys? því þar við glepst jafnvel sá ræðumaður, sem er allsnjallmæltur. Nú mun eg færa fram afsökun mína fyrir Peleifssyni, en þér hinir aðrir takið eftir, og athugi hverr vandlega orð mín. Oft hafa Akkear borið mér á brýn mál þetta, og veitt mér þungar átölur; en eg er þess ekki valdur, heldur Seifur og Skapanornin og hin myrkförla Refsinorn, er skutu í brjóst mér hamslausri glæpsku á þinginu, þann dag er eg af sjálfræði tók frá Akkilli heiðursgjöf hans. En hvað gat eg gert? Guð ræður öllum hlutum til lykta. Glæpska, sem alla glepur, elzta dóttir Seifs, er háskasamleg; fætur hennar eru mjúkir, því hún kemur ekki við jörðina, heldur stiklar hún á höfðum manna. Já, eitt sinn glapti hún Seif, er menn þó segja vera hinn máttkasta af mönnum og guðum; en þó gabbaði Hera hann, þó hún væri kona, með vélræði sínu, þann dag er Alkmena skyldi ala Herakles hinn sterka í hinni víggirtu Þebuborg. Seifur mælti þá hróðugur í viðurvist allra guðanna: „Heyrið á, allir guðir og allar gyðjur, meðan eg mæli, það er mér býður hugur um. Í dag mun hin þrautvaldandi Lausnargyðja í ljós leiða þann mann, er ríkja skal yfir öllum nábúum sínum, og er af kyni þeirra manna, er að ættinni til eru af mér komnir“. Þá svaraði hin vélráða drottning Hera: „Það muntu ósatt mæla, og enn mun það sannast, að þú munt ekki binda enda á orð þín. Komdu til, láttu sjá, vinn mér styrkan eið, þú Ólympsguð, að sá skuli ríkja yfir öllum nábúum sínum, sem í dag verður af konu borinn, þeirra manna, er að ættinni til eru af þínu kyni komnir“. Svo mælti hún, en Seifur sá ekki í þetta vélræði hennar, og sór dýran eið, og varð honum þá stórlega á, því Hera þusti ofan af Ólympstindi, og kom skyndilega til hins akkneska Argverjalands, því þar vissi hún af hinni skörulegu konu Steneluss Perseifssonar; hún gekk þá með sveinbarni, og var þá byrjaður sjöundi mánuður hennar. Þenna svein leiddi Hera í ljós, og skorti hann þó enn nokkura mánuði, að hann væri fullburða; en hún frestaði burði Alkmenu, með því hún lofaði Lausnargyðjunum ekki til hennar. Fór síðan að segja Seifi Kronussyni fréttirnar, og mælti til hans: „Faðir Seifur, bjartleiftraguð, nú skal eg leggja þér eitt orð á hjarta: nú er fæddur ágætur maður, er ríkja skal yfir Argverjum; það er Evrýsteifur, sonur Steneluss Perseifssonar; hann er af þínu bergi brotinn, og er því ekki óskylt, að hann ríki yfir Argverjum“. Svo mælti Hera, en sár harmur beit djúpt inn í hjarta Seifs; hann þreif í hið gljálokkaða höfuð Glæpskunnar í bræði sinni, og sór styrkan eið, að Glæpskan, sem alla glepur, skyldi aldrei aftur koma upp á Ólymp eða hinn stirnda himin. Að því mæltu hringsneri hann henni með hendi sinni, og snaraði henni ofan af hinum stirnda himni, og kom hún skjótt til bústaða mannanna. Yfir henni andvarpaði Seifur jafnan, í hvert sinn er hann sá sinn kæra son verða fyrir svívirðilegri meðferð af Evrýsteifi sökum þrauta þeirra, er hann lagði á hann. Svo var og um mig, að þegar hinn mikli hjálmkviki Hektor drap Argverja niður að nýju við skutstafna skipanna, þá gat eg ekki gleymt Glæpskunni, er í fyrstunni hafði glapið mig. En fyrst mér varð þessi glæpska, og Seifur vélti mig frá viti, þá vil eg bæta það aftur, og gjalda í bætur geysimikið fé, en þú rís nú upp til orustu og eggja fram aðra menn. Eg em nú hér, búinn til að greiða fram allar þær gjafir, er hinn ágæti Odysseifur hét þér í fyrra kvöld, þá er hann kom í búð þína. Eða bíð þú, ef þú vilt, enn þótt þig fýsi mjög til bardagans, því sveinar mínir skulu sækja gjafirnar í skip mitt og færa hingað, svo þú sjáir, að eg vil gefa þér það, sem er að þínu skapi“. 145 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum og mælti: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herkonungur, ráð þú, hvort þú vilt láta fram gjafirnar, svo sem viðurkvæmilegt er, eða þú vilt halda þeim hjá þér. En nú skulum við sem bráðast hyggja á bardaga, því ekki tjáir okkur að vera hér og eyða orðum og tefja tímann, þar sem enn er mikið ógert, er vinna þarf; svo hverr maður megi enn sjá, hversu Akkilles leggur að velli fylkingar Trójumanna fremstur í flokki. Svo skal hverr yðar láta sér um gefið að berjast við mótstöðumann sinn“. 154 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum, og mælti: „Ekki skaltu gera það, goðumlíki Akkilles, þó þú sért meiri fyrir þér, en aðrir, að láta sonu Akkea fara fastandi til Ilíonsborgar til að berjast við Trójumenn, því hergnýrinn mun ekki haldast allskamma stund, þegar fylkingum kappanna eitt sinn lýstur saman, og guð tekur til að blása hugmóði í brjóst hvorumtveggjum. Heyr nú, lát Akkea neyta matar og víns hjá hinum fljótu skipum, því matur er manns megin; því engi maður, sem er matarlaus, mun geta barizt öndverður liðilangan daginn til sólseturs. Því þó hann sé ákafur í hugnum að berjast, þá verða þó, þegar hann minnst varir, limir hans þunglamalegir, og þá kemur þorstinn og sulturinn, og þá reika knén á göngunni. En sá maður, sem er saddur af víni og mat, þó hann berjist við óvini sína allan daginn, þá hefir hann öruggt hjarta í brjósti, og limir hans þreytast ekki, fyrr en allir óvinirnir eru gengnir úr orustu. Heyr nú, lát nú herinn fara hvern til sín, og seg þeim að búa til dagverðar; en herkonungurinn Agamemnon skal láta flytja gjafirnar á mitt torgið, svo allir Akkear sjái þær, og svo þú gleðjist í hjarta þínu. Hann skal standa upp og vinna þér eið í viðurvist Argverja, að hann hafi aldrei gengið á beð með henni, eða átt samlag við hana; áttú þá og sjálfur að hafa sáttgjarnan hug í brjósti. Þar eftir skal hann bjóða þér til dýrlegrar veizlu í búð sína til heilla sátta, svo ekkert á skorti, að þú hafir fullan rétt þinn. En þú, Agamemnon, átt og einnig hér eftir að vera sanngjarnari við aðra menn; því það er engum láandi, þó hann sættist við konungmann, þegar hann hefir að fyrra bragði reitt hann til reiði“. 184 Agamemnon herkonungur svaraði honum: „Ánægju hefi eg af því, Laertesson, að heyra á orð þín, því þú hefir farið skynsamlega orðum og sagt frá öllu. Þetta vil eg sverja, og þess em eg allfús, og mun eg ekki rangan eið sverja við guð. En Akkilles skal bíða hér á meðan, þó hann fýsi mjög til bardaga. Þér hinir aðrir skuluð og bíða hér allir saman, þar til er gjafirnar koma frá búðinni og vér eiðfestum sáttmálið. En þér sjálfum fel eg á hendur og býð þér að velja göfugustu sveina af alþjóð Akkea til að færa frá skipi mínu allar þær gjafir, er vér hétum að gefa Akkilli í fyrra dag, og leiða hingað konurnar. En Taltybíus skal fljótt útvega gölt í hinum víðu herbúðum Akkea, og höggva hann til fórnar Seifi og Helíusi“. 198 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum, og mælti: „Frægasti Atreifsson, Agamemnon herkonungur, þér skuluð heldur starfa í þessu eitthvert annað sinn, þegar nokkurt hlé verður á styrjöldinni, og minni ákafi er í brjósti mér, en nú er. Nú liggja þeir menn á vígvelli niðurhöggnir, er Hektor Príamsson drap, þegar Seifur veitti honum sigurinn, og þó ráðið þið til, að ganga til snæðings. Mín tillaga er, að synir Akkea berjist matarlausir og fastandi; en þegar er sól er runnin, skulum vér efna til mikils náttverðar, þá er vér fáum hefnt harma vorra, en fyrr skal ekki drykkur eða matur inn fyrir mínar varir koma, fyrst vinur minn er látinn; liggur hann nú í búð minni, sundraður hvössu eirvopni, gegnt fordyrinu, og standa félagar mínir grátandi kring um hann. Þess vegna er mér ekkert um slíkt hugað, heldur um víg og um blóð og um erfiðleg andvörp manna“. 215 Hinn ráðagóði Odysseifur svaraði honum, og mælti: „Akkilles Peleifsson, þú mesti hreystimaður Akkea, þú ert meiri maður fyrir þér, en eg, og góðum mun spjótfimari, en það ætla eg, að eg muni þér miklu ráðvitrari, með því eg em eldri og reyndari; þess vegna skal hjarta þitt vera þolinmótt við orð mín. Skjótt verða menn fullsaddir á orustugnýnum, því í orustunni fellir eirsigðin til jarðar margar stangir, en uppskeran verður næsta lítil, þegar Seifur, sem stjórnar ófriði manna, lætur skálarnar síga. Engan veginn geta Akkear harmað dauðan mann með föstu, því margir menn falla á degi hverjum hverr að öðrum. Hve nær gætu menn þá fengið hvíld fyrir harminum? Nei, vér eigum heldur að jarða með rólegum hug hvern þann, sem deyr, og gráta hann daglangt. En allir vér, sem komumst lífs af úr hinni óttalegu styrjöld, eigum að neyta matar og drykkjar, svo vér getum þess heldur barizt ávallt við óvinina án afláts, íklæddir óslítandi eirmálmi. Nú skal engi hermanna dveljast eftir og vænta annarrar kvaðningar; því sú kvaðning mun til ills verða hverjum þeim, sem eftir dvelst við skip Argverja. Förum heldur allir saman móti hinum hestvönu Trójumönnum, og vekjum snarpan bardaga“. 238 Að því mæltu tók Odysseifur með sér til fylgdar sonu hins fræga Nestors, og Meges Fýleifsson, Þóant og Meríónes, Lýkómedes Kreonsson og Melanippus. Þeir gengu til búðar Agamemnons Atreifssonar. Ráku þeir nú erindi sitt, sem málið mælt, báru út úr búðinni sjö þrífætinga, er þeir höfðu lofað honum, tuttugu fagra katla og tólf hesta; þeir leiddu og þegar út úr búðinni sjö konur, er kunnu fallegar hannyrðir, en hin áttunda var hin kinnfagra Brísesdóttir. Odysseifur vó ekki minna en tíu vættir gulls, gekk síðan á undan, en hinir aðrir sveinar Akkea fóru með honum og báru gjafirnar, og létu þær á mitt torgið. Þá stóð Agamemnon upp, en Taltybíus, er var líkur í máli einhverjum guði, stóð við hlið herkonunginum, og hélt í gölt. Þá brá Atreifsson saxi, er jafnan hékk við hinar stóru sverðslíðrir hans, og skar til frumfórnar hárlokka af geltinum, fórnaði upp höndum og hét á Seif, en allir Argverjar sátu á meðan þegjandi, svo sem vera bar, og hlýddu á konunginn. En er hann hafði gert bæn sína, leit hann upp í hinn víða himin, og mælti: „Viti það Seifur fyrst og fremst, æðstur og beztur allra goða, viti það Jörðin og Sólin og Refsinornirnar, sem hegna neðan jarðar hverjum þeim mönnum, er meinsæri vinna, að eg hefi ekki hrært hendi við hinni ungu Brísesdóttur, í því skyni að mælast til samlags við hana eða nokkurs annars, heldur hefir hún ávallt verið svo í búð minni, að hún hefir ekki verið snert mannshendi. Sé nokkuð hér í ósært, þá láti guðirnir yfir mig koma allar þær miklu hörmungar, sem þeir láta koma yfir þann mann, er syndgar móti þeim með röngum eiði“. 266 Að því mæltu skar hann göltinn á háls með hinu harða eirvopni, en Taltybíus tók göltinn, sveiflaði honum og kastaði út í hið mikla sjávardjúp, til fæðu fyrir fiskana. Þá stóð Akkilles upp og mælti til hinna hergjörnu Argverja: 270 „Faðir Seifur, miklar glapir gerir þú mönnunum! Aldrei mundi hinn óvægni Atreifsson hafa ert svo freklega skapið í brjósti mér, eða tekið konuna að óvilja mínum, ef Seifur hefði ekki ætlað sér að skapa mörgum Argverjum aldurtila. En farið nú til dagverðar, áður vér byrjum bardaga“. 276 Að því mæltu brá hann skjótlega þinginu, fór þá hverr til síns skips, en hinir hugstóru Myrmídónar unnu að gjöfunum, og fóru með þær til skips hins ágæta Akkils, settu þær inn í búðina, og létu konurnar setja sig niður, en hinir vösku þjónar ráku hestana til stóðsins. 282 Brísesdóttir, sem lík var hinni gullfögru Afrodítu, þá er hún sá Patróklus sundraðan hvössu eirvopni, þá faðmaði hún hann að sér og kveinaði hástöfum, og reif með höndum sínum brjóst sitt og hinn mjúka háls og hið fríða andlit sitt. Síðan mælti hin gyðjumlíka kona grátandi: „Patróklus, þú sem ert mér vesalli konu einhverr hinn hjartkærasti, eg skildi við þig lifanda, þegar eg fór héðan úr búðinni, en nú hitti eg þig látinn, þjóðhöfðingi, er eg kem aftur. Svo tekur ein ógæfan við af annarri fyrir mér. Mann þann, er faðir minn og mín heiðvirða móðir höfðu gift mig, sá eg sundraðan hvössu eirvopni fyrir framan borgina. Eg átti þrjá ástkæra bræður, sammædda mér, er allir biðu banadægur sitt. En þegar hinn frái Akkilles drap mann minn og lagði í eyði borg hins ágæta Mýnesar, þá vildir þú ekki láta mig gráta, heldur kvaðst skyldu gera mig að eiginkonu hins ágæta Akkils, og flytja mig á skipunum til Fiðju, og halda brúðkaup mitt með Myrmídónum. Þess vegna græt eg dauða þinn án afláts, því þú varst mér jafnan svo góður“. 301 Þannig mælti hún grátandi, en konurnar andvörpuðu við harmatölur hennar; þær grétu Patróklus að yfirbragði, en raunar grét hver þeirra sínar eigin raunir. En öldungar Akkea söfnuðust kringum Akkilles, og báðu hann taka dagverð, en hann neitaði því, og stundi þessu fram: „Eg ætla að bíða og þreyja, allt til þess sól er runnin, og sækir þó megn harmur á mig; og mælist eg þó til, ef nokkurr vina minna hefir verið mér eftirlátur, að þér biðjið mig ekki að næra mig á mat og drykk“. 309 Að því mæltu lét hann aðra höfðingja fara hvern til sín, en þar voru eftir hjá honum báðir Atreifssynir og hinn ágæti Odysseifur, Nestor og Idomeneifur, og hinn aldraði riddari Fenix; leituðu þeir viturlega að hressa hinn sorgmædda mann, en hann hresstist ekkert í huga, fyrr en hann gekk í gin hinnar blóðugu styrjaldar. Hann mundi ávallt til Patrókluss, stundi hátt og sókti langt neðan andvörpin, og mælti; „Þú vesall maður og mér kærstur allra félaga minna! Áður settir þú sjálfur fljótt og rösklega ljúffengan dagverð fyrir mig í búð minni, ávallt þegar Akkear hlupu til að heyja grátlegan ófrið við hina hestfimu Trójumenn; en nú liggur þú sundurhöggvinn, og eg neyti hvorki matar né drykkjar, þó hvor tveggja sé til innan búðar, af söknuði eftir þig. Ekkert þyngra böl getur á mig lagzt, og ekki þó eg spyrði lát föður míns, er nú mun úthella fögrum tárum í Fiðju af eftirsjá eftir slíkan son, sem eg em, er nú berst við Trójumenn í öðru landi sökum hinnar viðbjóðslegu Helenu, eða þó eg spyrði lát míns kæra sonar, sem nú er á fóstri í Skyrey. Áður fyrr meir gerði eg mér í hugarlund, að eg mundi deyja einn hér í Trójulandi, fjarri hinu hestauðga Argverjalandi, en þú mundir komast heim aftur til Fiðju, og sækja son minn til Skyreyjar á gangfljótu, svörtu skipi, og mundir þú þá sýna honum hvað eina, eigur mínar og mansmenn og mitt háreista hús. Því nú ætla eg, að Peleifur muni annaðhvort með öllu dauður, eða þá, ef til vill, hjara enn með litlu lífi harmþrunginn og ellihrumur, og ávallt vænta sér þeirrar harmsögu af mér, að hann frétti mig látinn“. 338 Þannig mælti hann grátandi, en öldungarnir andvörpuðu við, því þeir minntust þá þess, er hverr þeirra skildi eftir í húsi sínu. En er Kronusson sá þá fljóta í tárum, sá hann aumur á þeim, og mælti þegar skjótum orðum til Aþenu: 342 „Helzt til langt ertu nú frá hinum hrausta manni, dóttir. Hvort lætur þú þér þá alls ekki framar annt um Akkilles? Hann situr þar fyrir framan hin stafnhávu skip, og harmar vin sinn. Aðrir menn eru gengnir til dagverðar, en hann er matarlaus og fastandi. Heyr nú, far og lát drjúpa í brjóst honum ódáinsvín og unaðsfulla ódáinsfeiti, svo hungur sæki hann ekki“. 349 Með þessum orðum eggjaði hann Aþenu, og var hún þó áður allfús að fara. Hún stökk ofan af himni í gegnum uppheimsloftið, lík vængjalangri, snjallrómaðri veiðibjöllu. Þá voru Akkear sem óðast að herklæða sig um allar herbúðirnar. Aþena lét ódáinsvín og unaðsfulla ódáinsfeiti drjúpa í brjóst Akkilli, svo hið gamanlausa hungur skyldi ekki leita á kné hans; síðan fór hún til ennar sterku hallar hins máttuga föður. Þá streymdu Akkear frá hinum fljótu skipum. Svo sem þá er kaldur kafaldsbylur flýgur út frá Seifi undan aðkasti hins heiðborna Norðanvinds: svo þykkt drifu þá út frá skipunum skært ljómandi hjálmar og búklaðir skildir, sterkboðangaðar brynjur og eskiviðarspjót, ljómann lagði til himins, og öll jörðin í kring hló við af leiftri eirmálmsins, en dynur mikill varð í jörðinni af fótatökum kappanna. Hinn ágæti Akkilles herklæddi sig þar meðal þeirra; fyrst lagði hann fagrar brynhosur um fótleggi sér, kræktar silfurlegum öklapörum; því næst færði hann sig í brynju, þá varpaði hann um herðar sér silfurnegldu eirsverði, tók síðan í hönd sér stóran og þykkan skjöld, og lagði ljómann af honum langar leiðir, sem af tungli. Svo sem þá er sjófarendur sjá utan af rúmsjó bjarma af kveiktum eldi, sem kyntur er í seli nokkuru einstöku hátt á fjöllum uppi, en þá koma vindbyljir og reka þá nauðuga frá vinum sínum langt út á hið fiskisæla haf: svo lagði ljómann til himins, af hinum fagra, gersemlega skildi Akkils. Þá tók hann hinn sterka hjálm og setti á höfuð sitt, og lýsti af hinum fexta hjálmi, sem af stjörnu, en hin þéttu gullhár, er Hefestus hafði látið á hjálminn í bustar stað, flöksuðust alla vega í kring. Hinn ágæti Akkilles tók nú viðbragð í herklæðunum, til að vita, hvort þau væru honum mátuleg og hvort hans sjálegu limir gætu hreyfzt mjúklega í þeim; en þau voru honum þá sem vængir, og hófu herkonunginn á loft. Þá dró hann úr slíðrum hið þunga, mikla og sterka spjót föður síns; því spjóti mátti engi af Akkeum valda, nema Akkilles, hann einn gat valdið því; það var Pelíonsaskur, er Kíron frá Pelíonsfjalli hafði gefið föður hans, til þess það yrði köppum að bana. Þeir Átómedon og Alkímus önnuðust um hestana, og beittu þeim fyrir; voru á þeim fagrar brjóstreimar; þeir hleyptu bitlunum upp í hestana, og lögðu taumana aftur á hinn ramgjörva kerrustól. Þá tók Átómedon fagra svipu handhæfa í hönd sér, og hljóp upp á kerruna, en Akkilles steig upp í að kerrubaki; hann var í öllum herklæðum, og glitaði af vopnunum, sem af hinum skínanda Hýperíonssyni. Þá kallaði hann með ógurlegri raust til hesta föður síns: 400 „Bleikur og Skjóni, þið víðfrægu Snarfætusynir, gætið þess nú betur en áður, að koma kerrugæti ykkar aftur heilum í flokk Danáa, þegar eg er fullsaddur orðinn á orustunni, en látið mig hér ekki dauðan eftir liggja, svo sem þið gerðuð við Patróklus“. 405 Bleikur, sá hinn fótfimi hestur, mælti þá til hans undir okinu, og laut niður höfði sínu, en allt faxið smeygðist úr okhringunum báðu megin oksins og lagði til jarðar; en hin hvítarmaða gyðja Hera gaf hestinum málið: „Víst munum við í þetta sinn koma þér heilum undan, þú sterki Akkilles; en þó líður nú að banadægri þínu, og erum við þó ekki skuld í því, heldur hinn mikli guð og hin máttuga skapanorn. Því ekki tóku Trójumenn vopnin af herðum Patrókluss sökum ófráleiks okkar eða seinlætis; nei, hinn máttki guð, þann er ól hin hárprúða Letó, drap hann í flokki forvígismannanna, og veitti Hektori sigurinn. Við getum hlaupið jafnt sem Vestanvindur, er menn segja allra vinda skjótfærastan; en fyrir þér liggur að falla með hreysti fyrir guði og manni“. 418 En er hesturinn hafði mælt þetta, tóku Refsinornirnar fyrir mál hans; en hinum fóthvata Akkilli varð þungt í skapi, og mælti: 420 „Hví spáir þú mér dauða, Bleikur? Þess var engin þörf; því eg veit sjálfur fullvel, að mér er auðið að falla hér, fjarri föður og móður; en allt fyrir það skal eg ekki fyrr af láta, en eg hefi gert Trójumenn fullsadda á orustunni“. 424 Að því mæltu kallaði hann hátt, og hleypti hinum einhæfðu hestum á undan öllum. TUTTUGASTI ÞÁTTUR GOÐAVÍGSÞÁTTUR. ÞANNIG bjuggu Akkear sig til bardaga hjá hinum stafnbognu skipum í kring um þig, Peleifsson, og fengu aldrei nóg af orustunum. En hins vegar bjuggu Trójumenn sig á vallarhólnum. Þá var Seifur uppi á efsta tindi hins marghálsótta Ólymps; hann bað Þemisi kalla guðina til þings; fór hún um allt fram og aftur, og stefndi þeim til hallar Seifs. Þar vantaði engan af fljótagoðunum, nema Ókean, og enga af Landvættunum, hvorki þeim, er búa í fögrum lundum, eða í uppsprettum vatnsfalla, eða í grösugum engjum. En er þeir komu í höll Seifs skýsafnara, tóku þeir sér sæti í þeim sléttfáguðu svölum, er Hefestus hafði gert af hugviti sínu fyrir föður Seif; þannig söfnuðust þeir saman inni hjá Seifi. 13 Landaskelfir heyrði og boðskap gyðjunnar, kom upp úr sænum, og fór til þeirra. Hann settist í miðjan hringinn, og frétti eftir fyrirætlun Seifs: „Hví hefir þú, bjartleiftraguð, kallað guðina aftur til þings? ætlar þú að ráðslaga nokkuð um Trójumenn og Akkea? því styrjöldin og ófriðurinn er nú fyrir skemmstu orðin sem óðust þeirra í milli“. 19 Skýsafnarinn Seifur svaraði honum, og mælti: „Þú veizt, Landaskelfir, fyrirætlan þá, er mér er í huga um þá menn, vegna hverra eg hefi kallað yður saman. Mér er annt um þá, er þeir nú eru mjög svo á heljarþremi. Nú mun eg sjálfur sitja hér kyrr á hrygg Ólymps, og horfa héðan að gamni mínu; en farið þér, hinir guðirnir, þar til þér komið til Trójumanna og Akkea, og veitið hvorumtveggjum lið, eftir því sem hverjum yðar stendur hugur til. Því ef Akkilles berst einn síns liðs við Trójumenn, munu þeir jafnvel ekki skamma hríð standa fyrir hinum fóthvata Peleifssyni; því áður fyrr urðu þeir oft hræddir, er þeir sáu hann, og flýðu þá fyrir honum; en nú, þegar ákafleg reiði er komin í skap hans vegna vinar síns, þá er eg hræddur um, að hann leggi borgarvegginn í eyði fyrir forlög fram“. 31 Þannig mælti Kronusson, og vakti upp óaflátlega styrjöld. Guðirnir gengu nú til orustu, þeir voru tvískiptir í huga; fór Hera þangað, sem skipstöðin var, og Pallas Aþena, og Posídon jarðkringir, og Hermes hagsældaguð; hann var öðrum goðum framar að vitsmunum; með þeim fór Hefestus, hróðugur af styrkleik sínum; hann gekk haltur, en ótt tifuðu fótleggir hans, þó máttlitlir væru. Til Trójumanna fór hinn hjálmkviki Ares, og með honum hinn óhárskorni Febus, og Artemis örumglöð, og Letó og Ksanþus, og hin brosmilda Afrodíta. 41 Meðan guðirnir voru ekki komnir til hinna dauðlegu manna, voru Akkear mjög hróðugir, sökum þess að Akkilles var nú kominn aftur, sá er lengi áður hafði engan þátt tekið í hinni hættulegu orustu; en megn skjálfti kom í kné sérhverjum Trójumanna; urðu þeir hræddir, er þeir sáu hinn fóthvata Peleifsson, ljómandi af herbúnaðinum, og líkan hinum mannskæða Aresi. En er Ólympsguðir komu þangað, er mannfjöldinn var, þá reis upp hin máttuga, atsama Þræta, og þá kallaði Aþena hátt, og stóð ýmist utan garðs hjá hinu grafna díki, ýmist stóð hún á hinum dynmiklu ströndum, og kallaði þar hátt; hins vegar kallaði Ares, hann var líkur dimmum stormbyl, og eggjaði ákaft Trójumenn ofan úr háborginni; annað kastið hljóp hann ofan að Fagrahól á Símóisbökkum. 54 Þannig eggjuðu hinir sælu guðir hvoratveggju, og öttu þeim saman, og hleyptu upp þungri rimmu milli þeirra. Faðir manna og guða þrumaði ógurlega að ofan, en að neðan skók Posídon hina ómælilegu jörð og hin hávu höfuð fjallanna; allar rætur og tindar hins lækjótta Ídafjalls hristust, svo og borg Trójumanna og skip Akkea, og Hades, konungur undirheima neðan jarðar, stökk ofan úr hásæti sínu og hljóðaði, því hann varð hræddur um, að Posídon landaskelfir mundi rífa sundur jörðina uppi yfir honum, og að þá mundu dauðlegir menn og ódauðlegir guðir sjá hin ógurlegu og dimmu híbýli sín, er jafnvel guðunum stendur ógn af. Svo mikill gnýr varð, þá er guðirnir gengust að af kappi; því móti Posídon konungi stóð Febus Appollon, og hélt á fjöðruðum örum; móti Vígaguðinum hin glóeyga gyðja Aþena; móti Heru stóð hin skarksamlega Artemis örumglöð, gullinsnælda, systir hins fjarvirka guðs; móti Letó gekk hinn máttugi Hermes hagsældaguð; móti Hefestus hinn mikli, sveipadjúpi fljótsguð, er guðirnir kalla Ksanþus, en menn kalla Skamander. 75 Þannig gengu guðir móti guðum. En Akkilles vildi helzt ráðast á mannfjöldann, þar gegnt er Hektor Príamsson var fyrir, því honum lék mest í mun að seðja Ares, hinn þrásækna bardagaguð, á blóði hans. En hinn hersvæsni Appollon eggjaði Eneas móti Peleifssyni, og skaut hraustum hug í brjóst honum; hann gerði sig líkan í málfæri Lýkáon Príamssyni, og í hans líki mælti Appollon, sonur Seifs, til Eneasar: „Eneas, höfðingi Trójumanna, hvar eru nú stóryrði þín, er þú hézt konungum Tróverja, eitt sinn þá þú sazt að víndrykkju, að þú skyldir berjast við Akkilles Peleifsson?“ 86 Eneas svaraði honum og mælti: „Hví eggjar þú mig svo, Príamsson, að berjast við hinn ofurhugaða Peleifsson, þar sem eg ekki vil það sjálfur? Ekki mun eg nú í fyrsta sinn fá staðið fyrir enum fóthvata Akkilli, þar sem hann áður fyrr meir rak mig á flótta með spjóti sínu ofan af Ídafjalli, þegar hann réðst á nautahjarðir vorar og lagði í eyði Lýrnesborg og Pedasusborg; en Seifur frelsaði mig þá; hann veitti mér styrkleik og gerði kné mín fljót til hlaups; annars hefði eg orðið sigraður af Akkilli og Aþenu, því hún gekk á undan honum og lýsti honum, og eggjaði hann að drepa Lelega og Tróverja með eirspjóti sínu. Fyrir því er það ekki fyrir mennskan mann að berjast við Akkilles, því ávallt er einhverr guð hjá honum og varnar honum við líftjóni, og jafnan flýgur skotvopn hans beint, og stöðvast ekki, fyrr en það gengur í gegnum mannshörundið. En ef einhverr guð vildi jafna bardagann svo, að við báðir stæðum jafnt að vígi, þá skal hann ekki eiga mjög hægt með að sigra mig, enn þótt hann hrósi því, að hann sé allur af eiri gerður“. 103 Hinn voldugi Appollon, sonur Seifs, svaraði honum: „Heyr þú, goðkynjaði kappi, heit þú einnig á hina eilífu guði, því menn segja, að þú sért sonur Afrodítu, dóttur Seifs, en hann af minni háttar gyðju borinn, því móðir þín er af Seifi komin, en móðir hans af öldruðum sjávarguði. Heyr nú, gakk fram móti honum með hið óbiluga eirvopn þitt, og lát ekki Akkilles aftra þér með ógnarorðum og smánaryrðum“. 110 Með þessum orðum blés hann hugrekki í brjóst þjóðhöfðingjans; gekk hann þá fram meðal forvígismannanna, búinn blikanda eirmálmi. Hin hvítarmaða Hera varð þess vör, að sonur Ankísess gekk innan um mannösina og ætlaði móti Peleifssyni. Hún kallaði þá saman guðina og mælti til þeirra: „Hyggið að, þið Posídon og Aþena, hversu þessu muni af reiða. Eneas gengur þar í móti Peleifssyni, búinn blikanda eirmálmi, og hefir Febus Appollon eggjað hann fram. Heyrið nú, látum oss snúa honum frá héðan aftur, eða fari einhverr vor og standi hjá Akkilli og veiti honum mikinn styrk, svo honum þyki einskis í vant, að hann finni, að hinir máttkustu guðir unna honum, en að þeir eru að engu nýtir, er fyrr meir hafa varið Trójumenn fyrir ófriði og styrjöld. Því vér erum allir komnir af Ólympi ofan og eigum þátt í þessum bardaga, svo Akkilli verði ekkert til meins af Trójumönnum í dag; en síðar meir má á daga hans drífa, það sem örlagadísin ætlaði honum, þá hún spann lífsþráð hans við fæðinguna, er móðir hans ól hann. En ef Akkilles fær enga vitneskju um þetta af einhverri vísbendingu guðanna, þá mun hann óttast, ef einhverr guð kann að ganga til móts við hann í orustunni; því það er hræðslugæði, þegar guðir koma fyrir augu bersýnilega“. 132 Posídon jarðarskelfir svaraði henni: „Reiðst ekki ófyrirsynju, Hera, það sæmir þér ekki. Ekki er það minn vilji, að etja guðunum saman í orustu; förum heldur úr vegi og upp á leitið, og setjumst þar, en látum kappana eigast ófrið við. En ef þeir Ares eða Febus Appollon vekja bardaga að fyrra bragði, eða hamla Akkilli og láta hann ei ná að berjast, þá skal þegar í stað orusturimman upp rísa af vorri hálfu, og hygg eg, að skjótt muni úr slíta, munu þeir nauðugir sigrast af handafli voru, og verða að hverfa aftur heim til Ólymps á fund hinna guðanna“. 144 Að því mæltu gekk hinn bláhærði guð á undan, og til hins háva garðs, er Trójumenn og Pallas Aþena höfðu hlaðið hinum ágæta Herakles til varnar, svo hann mætti forða sér undan sjóarskrimslinu, ef það kynni að elta hann frá ströndinni á land upp. Þar settist Posídon og aðrir guðir með honum, og íklæddu sig óumþrengilegu skýi. En hinir guðirnir settust á Fagrahólshæðir í kring um þig, fjarskeyti Febus, og í kring um Ares borgabrjót. 153 Þannig sátu þeir sín hvoru megin, og hugðu að ráðum sínum; voru hvorirtveggju tregir til að vekja hina harðskeyttu orustu, þó Seifur, er sat á upphæðum, byði það. 156 Nú fylltist allur völlurinn af mönnum og hestum, og glóaði af eirmálmi; dundi jörðin undir fótum þeirra, þegar þeim lenti saman. Þá gengu tveir hinir hraustustu kappar fram milli fylkinganna í miklum vígahug, þeir Eneas Ankísesson og hinn ágæti Akkilles. Eneas gekk fyrstur fram; hann drambaði mjög, og lét hinn sterka hjálm slúta fram; hann hélt hinum umfangsmikla skildi fyrir framan bringu sér, og skók eirspjótið. Hins vegar gekk Peleifsson fram á móti honum; hann var sem ljónvargur, sá er menn vilja drepa, og hefir öll sveitin safnazt saman til þess; fyrst gengur ljónið, sem það eigi ekki um að vera, en þegar einhverr hinna vígsnöru veiðimanna skýtur það með spjóti, þá beygir það kryppuna og sperrir upp ginið, gengur þá froðan út milli tanna þess, og hið hugfulla hjarta þess stynur í brjóstinu; það flengir halanum um báðar síður sér og lendar, og hvetur sig svo sjálft til að berjast; stökkur svo beint fram í ofurhug með glóandi augum, og vill annaðhvort hafa einhvern mann fyrir sér eða falla sjálft fremst í flokki: svo hvatti hinn framgjarni berserkshugur Akkilles til að ganga fram móti hinum hugstóra Eneas. En er þeir áttu skammt hvorir til annars, tók hinn fóthvati, ágæti Akkilles svo fyrri til máls: „Hví gengur þú, Eneas, svo langt frá flokknum og stendur hér? Hvort leikur þér hugur á að berjast við mig, í þeirri von að þú munir konungur verða yfir hinum hestfimu Trójumönnum í ríki því, er Príamus hefir nú? Nei, þó þú drepir mig, mun Príamus ekki þar fyrir fá þér konungdóminn í hendur, því hann á sonu, en er staðfastur maður í sér og óhviklindur. Hvort hafa Trójumenn ánafnað þér eitthvert land til eignar, fagurt land, betra en önnur lönd, gott tréland og plógland, ef þú fær drepið mig? Nei, það vona eg að þér veiti erfitt að gera. Það var eitt sinn, minnir mig, að eg rak þig á flótta með spjóti mínu. Eða manstu ekki, þegar eg elti þig skyndilega á harða hlaupi ofan eftir Ídafjöllum frá nautunum, sem þú sazt einn yfir? Þá flýðir þú, svo að þú leizt aldrei aftur. Þú komst þá undan til Lýrnesborgar, en eg elti þig þangað, og braut borgina með hjálp Aþenu og föður Seifs, hertók þar konurnar og flutti þær burt í ánauð; en Seifur og hinir aðrir guðir frelsuðu þig. Þó vona eg, að þeir frelsi þig ekki í þetta sinn, eins og þú gerir þér í hugarlund; ræð eg þér heldur að hörfa aftur í flokkinn, áður en þig hendir eitthvert slysið, og standa ekki framan í mér. Gáir heimskur að því, sem gjört er“. 199 Eneas svaraði honum aftur og mælti: „Hugsa þú það ekki, Peleifsson, að þú munir hræða mig með orðum, eins og barn: eg kann nóg af háðsyrðum og frekjufullum orðum, eins og þú. Hvorr okkar þekkir ætt annars, og af fornum frásögnum eftir dauðlega menn, sem okkur hafa verið sagðar, þekkjum við forfeður okkar. Hvorki hefir þú augum litið foreldra mína, né eg þína. Menn segja þú sért sonur hins ágæta Peleifs, en móðir þín sé hin fagurlokkaða sjávargyðja Þetis. En eg em sonur hins hugstóra Ankísess, en móðir mín er Afrodíta. Aðrir hvorir foreldrar okkar munu í dag gráta son sinn; því ekki hygg eg, að fundi okkar slíti svo, að við förum aftur úr orustu við slíkt bernskuhjal. En ef þú vilt fræðast um þetta, þá skal eg segja þér ætt mína, svo þú vitir hana glöggt, og þekkja hana þó margir menn. Seifur skýbólstraguð átti þá fyrst Dardanus; hann byggði Dardaníu, því hin helga Ilíonsborg, aðsetur mæltra manna, var þá enn ekki byggð á undirlendinu, heldur bjuggu menn þá enn við rætur ens lækjótta Ídafjalls. Dardanus átti aftur Erikþoníus konung fyrir son; hann var allra manna auðugastur; hann átti þrjú þúsund hryssur, sem gengu þar í mýrinni, þær voru allar með ungum folum og reisugar mjög. Norðra leizt vel á hrossin, þar sem þau voru á beit; hann brá sér í hestslíki dökkfaxaðs, og lagðist hjá merunum; urðu þær með fangi og köstuðu tólf folum; þeir voru svo léttir, að þegar þeir runnu eftir hinni kornfrjóvu jörð, stikluðu þeir efst á gullrótarstöngunum og brutu ekki af öxin; en þegar þeir skeiðuðu yfir sjávarins breiðu hryggi, þá runnu þeir efst á báru hins gráa hafs. Erikþoníus átti Trós; hann var konungur yfir Trójumönnum. Trós átti þrjá ágæta sonu, Ílus, Assarakus og hinn goðumlíka Ganýmedes; hann var allra manna fríðastur, og numu guðirnir hann fyrir sakir fegurðar hans, til þess hann skyldi byrla Seifi vín í samkvæmi goðanna. Þá átti Ílus ágætan son; sá hét Laómedon, en Laómedon átti Tíþónus og Príamus, Lampus og Klytíus og Híketáon, afspreng Aresar. Assarakus átti Kapýs; sonur hans var Ankíses. Ankíses átti mig, en Príamus átti hinn ágæta Hektor. Þetta er nú ætt mín, og af þessu bergi em eg brotinn, en Seifur eykur og þverrir atgjörvi manna, eftir því sem hann vill, því hann er máttugastur allra. En tölum ekki lengur um þetta sem óvitar, þar er vér stöndum hér sem óvinir mitt í orustunni. Mörg smánarorð getum við báðir sagt hvorr gegn öðrum, svo ekki mundi hundraðsessa fá meira borið. Tunga dauðlegra manna er vökur; á henni liggja margar ýmiss konar ræður, og vítt er rúmsvæði orðanna. Slík orð sem maður talar, slík orð fær maður aftur að heyra. En hver nauðsyn er okkur á að standa hér hvorr framan í öðrum, og þrátta og deila hvorr við annan, svo sem konur, þær er verða reiðar hvor annarri, ganga mitt út á strætið og skammast þar af sárbeittri þrætugirni, tala margt, bæði satt og ósatt, og veldur því reiðin. Nú þar sem svo mikill hugi er í mér, þá muntu ekki með orðum einum hamla hreysti minni, fyrr en þú hefir barizt við mig með eirvopni. Kom nú til, reynum nú, hvorum okkar betur bíta hin eirslegnu spjót“. 259 Að því mæltu lagði Eneas hinu sterka spjóti sínu í hinn stóra, ógurlega skjöld Akkils, og buldi hátt í hinum mikla skildi, er spjótsoddurinn nam hann. Peleifssyni varð bilt, og hélt frá sér skildinum með sinni þreknu hendi, því hann hélt, að hið langskefta spjót hins hugstóra Eneasar mundi auðveldlega ganga í gegnum skjöldinn, fávís maður, er hann hugleiddi það ekki, að guðanna veglegu gjafir gátu ei auðveldlega brotnað eða rofnað fyrir lögum dauðlegra manna; og hið sterka spjót hins vígkæna Eneasar rauf nú ekki heldur skjöld Akkils, því gulllagið, er guðinn hafði gert, stóð fyrir, en spjótið gekk í gegnum tvö lögin, og voru þá enn þrjú lög eftir; því Fótlamur hafði smíðað fimm lög í skildinum, tvö eirlög og tvö tinlög þar fyrir innan, en eitt lagið hafði hann gert af gulli, og þar nam eskispjótið staðar í. [Mynd: Fram til orustu.] 273 Þessu næst skaut Akkilles hinu langskefta spjóti sínu; kom skotið í hinn kringlótta skjöld Eneasar við fremstu skjaldarröndina, þar sem eirröndin var þynnst, og þar undir mjög þunn rönd af nautsleðri; hljóp Pelíonsaskur í gegn, og brast við í skildinum við skotið. Eneas engdi sig þá saman, og hélt upp frá sér skildinum, því hann varð hræddur; rauf spjótið báðar rendur hlífskjaldarins, og flaug fyrir ofan bak honum og í jörðina, og stóð þar. En er Eneas hafði forðað sér við hinu langa spjóti, réttist hann upp; var hann þá skelkaður og þúsundfalt angurský lagðist yfir augu hans, út af því að skotvopnið skyldi hafa gengið svo nærri honum. En þá kom berserksgangur á Akkilles; hann brá bitru sverði og óð að Eneas, og grenjaði ógurlega. Eneas þreif þá upp vopnstein með hendi sinni; það var mikið bjarg, og ekki mundu því tveir menn valdið hafa, slíkir sem nú gefast, en hann gat hæglega valdið honum einn. Nú mundi Eneas kastað hafa steininum á Akkilles, þegar hann óð að honum, og hitt annaðhvort hjálm hans eða skjöldinn, sem annars var vanur að hlífa honum við döprum dauða, og Peleifsson mundi hafa tekið Eneas af lífi í návígi með sverðinu, ef Posídon jarðarskelfir hefði ekki haft glöggar gætur á. Hann tók nú þegar til orða við hina ódauðlegu guði: „Mikil skelfing, mjög tekur mig sárt til hins hugstóra Eneasar, er brátt mun falla fyrir Peleifssyni og fara ofan til Hadesarheims, af því hann var svo fávís, að hlýða orðum hins langskeyta Appollons, og nú mun engi hlutur fá forðað honum frá döprum dauða. En hví skal hann saklaus mæta slíkum raunum, fyrir enga skuld, fyrir harma sakir annarra manna, hann sem ávallt gefur þægilegar gjafir guðum þeim, er byggja víðan himin? Heyrið nú, látum oss frelsa hann frá dauða. Kronusson verður annars reiður, ef Akkilles drepur Eneas; því svo er ákveðið, að hann skuli af komast svo Dardansætt verði ekki svo aldauða, að engir verði uppi niðjar hans; því Kronusson unni Dardani mest allra sona sinna, þeirra er hann átti með mennskum konum; því nú hefir Kronusson lagt hatur á ætt Príamuss; mun því hinn sterki Eneas ríkja yfir Trójumönnum, og svo barnabörn hans, er síðar munu af honum koma“. 309 Hin mikileyga drottning Hera svaraði honum: „Hygg þú sjálfur að, Jarðarskelfir, hvort þú vilt frelsa hann, eða láta hann ráða sér sjálfan. Því við báðar, eg og Pallas Aþena, höfum margsvarið í viðurvist allra ódauðlegra goða, að við skulum aldrei varna óförum Trójumanna, og ekki þó kveikt sé í Trójuborg og hún brenni í óðum eldi, þeim er kyntur væri af hinum víglegu sonum Akkea“. 318 En er Posídon jarðarskelfir heyrði þetta, gekk hann þangað, sem orustan var og spjótaflugið. Hann kom þar, er þeir voru, Eneas og hinn frægi Akkilles. Hann brá þegar huldu fyrir augu Akkilli Peleifssyni, en kippti hinu eirslegna eskiviðarspjóti út úr skildi hins hugstóra Eneasar, og lagði það fyrir fætur Akkilli; þá brá hann Eneasi hátt í loft upp frá jörðinni; stökk Eneas þá upp yfir margar herfylkingar kappanna og yfir margar fylkingar kerrna, hafinn á loft af hendi guðsins, og kom niður aftast á hinum róstusama orustustað, þar sem Kákónar bjuggust til bardaga. Posídon jarðarskelfir gekk að honum og mælti til hans skjótum orðum: 332 „Hverr guðanna biður þig að vera svo fífldjarfan, að berjast móti hinum ofurhugaða Peleifssyni, sem er bæði meiri maður en þú og kærari hinum ódauðlegu guðum? Þú skalt ávallt hörfa undan honum, ef þú kannt einhvern tíma fyrir honum að verða, svo þú komist ekki til Hadesarhallar fyrir forlög fram. En þá er Akkilles hefir beðið bana og skapadagur sitt, þá máttu óhræddur berjast fremstur í flokki, því engi annar af Akkeum mun drepa þig“. 340 Að því mæltu skildist hann þar við hann, þegar hann hafði sagt honum frá öllu. Síðan brá hann skyndilega hinni helgu hulu frá augum Akkils; leit Akkilles þá upp stórum augum, og mælti við sína hugstóru sál í þungu skapi: „Mikil undur, mikil firn eru það, er eg lít með augum mínum: spjót mitt liggur þar á jörðinni, en eg sé hvergi manninn, er eg skaut til og hugði að drepa. Víst hefir Eneas einnig verið kær hinum ódauðlegu guðum, þó eg héldi, að skrum hans væri einber hégómi. Fari hann þá! Honum mun ekki leika hugur á, að leita á mig framar, fyrst hann varð feginn að flýja undan bananum núna. Eg skal nú fara og eggja fram hina hergjörnu Danáa, og ganga svo sjálfur fram og reyna mig við hina aðra Trójumenn“. 353 Að því mæltu steðjaði hann til flokkanna og eggjaði hvern mann: „Þér ágætu Akkear (mælti hann), standið nú ekki lengur langt frá Trójumönnum, heldur gangi maður mót manni og berjist í ákafa. Því erfitt er fyrir mig, þó eg sé allhraustur, að ganga móti svo mörgum mönnum og berjast við alla. Því ekki einu sinni Ares, sem þó er ódauðlegur guð, og ekki Aþena mundu ganga í gin svo mikillar styrjaldar og berjast. En það hygg eg, að eg ekki muni liggja á liði mínu, allt það er eg má að hafast með höndum og fótum og styrkleik mínum; mun eg ganga þvers í gegnum fylkingu Trójumanna, og ætla eg, að margur þeirra muni lítt verða feginn, ef hann kemur nærri spjóti mínu“. 344 Með þessum orðum eggjaði Akkilles fram Akkea, en Hektor hinn prúði kallaði til Trójumanna og eggjaði þá, og kvaðst ætla móti Akkilles: „Þér ofurhuguðu Trójumenn (kvað hann), hræðizt ekki Akkilles. Eg mundi geta barizt jafnvel við ódauðlega guði með orðunum, en með spjóti mundi mér veita það erfitt, því þeir eru mér miklu yfirsterkari. Svo mun og Akkilles ekki efna allt það, er hann segir, heldur mun hann enda sumt, en láta sumt endasleppt. Nú ætla eg að ganga á móti honum, þó hendur hans séu sem eldur; já, þó hendur hans séu sem eldur og hugur sem blikandi járn, skal eg þó fara móti honum“. 373 Með þessum orðum eggjaði hann Trójumenn, og gengu þeir þá fram með spjótin á lofti. Lenti nú hvorumtveggjum saman og réðust hvorir á aðra; gerðist þá gnýr mikill. Þá gekk Febus Appollon til Hektors og mælti: „Hektor, berst ekki framar við Akkilles í forvígi, tak heldur móti honum úr flokki þínum, þar sem þú hefir mannmargt um þig, svo hann ekki skjóti þig, eða höggvi þig með sverði í návígi“. 379 Þannig mælti hann, en Hektor varð skelkaður, þegar hann heyrði rödd guðsins, sem við hann talaði; fór hann þá aftur inn í mannþyrpinguna. 381 Þá stökk Akkilles á Trójumenn, íklæddur miklum hugarstyrk, og grenjaði ógurlega. Hann drap fyrst hinn vaska Ifitíon Otrynteifsson; hann var foringi fyrir miklum her. Landvættur nokkur, ein af vatnadísum, hafði átt hann við Otrynteifi borgabrjót undir enu snjóvga Tmólusfjalli í hinu frjóvsama Hýdulandi. En í því hann sókti fram, lagði hinn ágæti Akkilles hann með spjóti, og kom í mitt höfuðið; klofnaði það allt í sundur, en hann féll, og varð af dynkur mikill. Þá hældist hinn ágæti Akkilles um, og mælti: „Þar liggur þú, Otrynteifsson, ógnarbíldur allra manna; hér skaltu deyja. En átthagi þinn er við Gýgjarvatn, þar sem óðalseign þín liggur, á bökkum hins fiskisæla Hyllusfljóts og hins sveipótta Hermusfljóts“. 393 Þessum orðum hældist hann um, en sorti sé fyrir augu Ifitíons, en kerrur Akkea mörðu hann í sundur með hjólröndunum fremst í orustunni. En rétt á fætur honum lagði Akkilles spjóti á Demóleon Antenorssyni, vöskum bardagamanni, í gagnaugað, gegnum hinn eirkinnaða hjálm; stóðst eirhjálmurinn ekki lagið, flaug oddurinn í gegnum hjálminn og braut beinið; varð þá allur heilinn í höfðinu blóði blandinn; vann Akkilles þar á honum, í því hann sókti sem ákafast áfram. Þar eftir lagði hann spjóti í bak Hippodamants; hann hafði hlaupið af kerru sinni og flýði á undan honum. Hippodamant öskraði í andarslitrunum, svo sem griðungur öskrar, sá er drepinn er í kring um hinn volduga Helíkonsguð, og hefir Jarðarskelfir mikla gleði af sveinum þeim, er leiða griðunginn: svo öskraði Hippodamant, þegar hið framgjarna líf leið úr beinum hans. Þá fór Akkilles með spjótið í hendi sér eftir hinum goðumlíka Polýdórus Príamssyni; hafði faðir hans oft bannað honum að ganga í orustuna, af því hann var yngstur að aldri sona hans og honum kærastur; hann var þeirra allra frástur á fæti; en nú óð hann af einhverju bernskuæði, til að sýna fráleik sinn, fram á meðal forvígismannanna, unz hann lét líf sitt. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles lagði spjóti á honum miðjum, í því hann óð fram hjá; kom lagið í hrygginn, þar sem hinar gullnu brynbeltisspengur tóku saman og báðir brynjuboðangarnir mættust; gekk spjótsoddurinn þvers í gegn og kom út hjá naflanum; féll Polýdórus þá á kné hljóðandi, og sveif þá yfir hann svart ský, en hann greip höndum fyrir iðrin, í því hann valt út af. 419 En er Hektor varð þess varr, að Polýdórus bróðir hans var fallinn til jarðar og hélt höndum fyrir iðrin, þá sveif harmský fyrir augu hans; fékk hann nú ekki lengur af sér að standa fjarri; gekk hann þá fram móti Akkilli; hann veifaði bitru spjóti, og var þá líkur eldsloga. En jafnskjótt og Akkilles sá hann, stökk hann upp og mælti hróðugur: „Þar er sá maður, er mest hefir sært hjarta mitt, er hann drap virktavin minn. Nú skulum við ekki lengur flýja hvorr fyrir öðrum um herkvíarnar“. 428 Að því mæltu leit hann með reiðisvip til hins ágæta Hektors, og sagði til hans: „Gakktu nær, svo þú megir skjótt hreppa fullkominn bana“. 430 Hinn hjálmkviki Hektor svaraði honum, og varð ekki bilt: „Hugsa þú það ekki, Peleifsson, að þú munir hræða mig með orðum, svo sem ungbarn; eg kann nóg af háðsyrðum og frekjufullum orðum, eins og þú. Eg veit, að þú ert vel að þér gjörr, og að eg er miklu minni fyrir mér, en þú. Þó er það á guðanna valdi, hvort eg fæ skotið þig til dauðs með spjóti mínu, þó eg sé minni maður; því hvasst er spjót mitt að framanverðu“. 438 Að svo mæltu reiddi hann aftur spjótið og skaut því, en Aþena andaði mjög hægt á spjótið, og snéri því aftur frá hinum fræga Akkilli með anda sínum, svo það kom aftur til hins ágæta Hektors og féll niður fyrir fætur honum, þar sem hann stóð. En Akkilles varð óður og stökk að honum, og vildi drepa hann, og grenjaði ógurlega; en Appollon rykkti Hektori skyndilega burt; veitti honum það mjög hægt, er hann var guð, og brá yfir hann miklum mökkva. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles stökk þrisvar á hann með eirspjótið, og þrisvar lagði hann spjótinu í hinn þykka skýmokk. En í því er hann réðst fram í fjórða sinni, líkur einhverjum guði, þá kallaði hann upp ógurlega, og mælti til hans skjótum orðum: „Þar slappstu aftur undan bananum, hundurinn, og var þó ógæfan ekki langt frá þér; en í þetta skipti hefir Febus Appollon frelsað þig, er þú munt vanur vera að heita á hann, áður þú gengur út í spjótadyninn. Eg skal þó sjá fyrir þér, þó síðar verði, ef við hittumst; því vísast er, að einhverr guðanna veiti mér einnig fulltingi. En nú mun eg fara móti öðrum, hverr sem fyrir mér verður“. 455 Að því mæltu lagði hann spjóti í hálsinn á Drýópi, og féll hann fyrir fætur honum. Lét Akkilles hann liggja, en skaut spjóti til Demúkkuss Fíletorssonar; hann var vaskur maður og mikill; kom spjótið í kné honum og hefti för hans; síðan hjó Akkilles hann með hinu stóra sverði, og tók hann af lífi. Þá réðst hann á þá Bíantssonu, Laógonus og Dardanus, og steypti þeim af kerrunni til jarðar; skaut hann annan þeirra með spjóti, en hjó annan með sverði í návígi. Þá drap hann Trós Alastorsson; hafði hann gengið móti Akkilli og tekið um kné hans, vildi biðja hann að vægja sér og gefa sér líf, sjá aumur á sér, og drepa sig ekki, er hann væri jafnaldri hans. Svo var hann fávís; vita mátti hann, að Akkilles mundi synja honum þessa; því Akkilles var síður en ekki mjúklyndur eða þýðlyndur maður, heldur mesti ofsamaður. Trós hélt nú höndum um kné hans, og vildi biðja sér lífs, en Akkilles lagði hann sverði í lifrina; valt lifrin út úr honum, en svart blóðið úr lifrinni fyllti skaut hans; sé þá sorti fyrir augun, og var hann örendur. Þá gekk Akkilles að Múlíus, og lagði hann með spjóti í eyrað, og gekk þegar eiroddurinn út um hitt eyrað. Þá hjó hann með heftisverði í höfuð Ekeklus Agenorssyni; varð allt sverðið volgt af blóðinu, en dökkrauður dauðinn og hin máttuga skapanorn heltók augu hans. Þá lagði hann eirspjótinu í gegnum handlegg Devkalíons, þar sem aflsinarnar koma saman í olnboganum; varð honum þá höndin ónýt, og sá hann nú fyrir dauða sinn, beið svo, þar til Akkilles hjó á hálsinn með sverði; fauk þá af honum höfuðið og hjálmurinn með, en mænan gaus upp úr hálsliðunum, og féll hann endilangur á jörð niður. Þá fór Akkilles eftir hinum vaska Hrigmus Píráussyni, er komið hafði frá hinu frjóvsama Þraklandi, og skaut spjóti á hann miðjan, og gekk eirvopnið inn í lungað; féll hann þá ofan af kerrunni. Aríþóus, kerrusveinn hans, snéri þá hestunum aftur, en Akkilles lagði hvössu spjóti í bak hans, og hratt honum ofan úr kerrunni, og fældust þá hestarnir. 490 Svo sem þá er geysilegur eldur hleypur óður um djúpa afdali, þegar þykkur skógur er að brenna, og vindurinn keyrir fram logann og þyrlar honum um allt: svo óð Akkilles um allt með spjót í hendi, líkur einhverri óhemju, og elti menn þá, er feigir voru, en dökk jörðin flaut í blóði. Svo sem þá er maður tengir saman krúnubreiða uxa, til að láta þá þreskja hvítt bygg á vel settum þreskivelli, og smækka byggkornin skjótt undir klaufum enna hábaulandi nauta: svo tróðu enir einhæfðu hestar hins hugstóra Akkils jafnt mannabúka og skjöldu, en allur hjólásinn undir kerrunni varð blóði drifinn, og blóðsletturnar undan hestahófunum og hjólröndunum gengu yfir kerrustólsbogann; en Peleifsson geystist áfram til að vinna sér frægð, og voru hinir óárennilegu armleggir hans blóði stokknir. TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR BARDAGI VIÐ FLJÓTIÐ. EN er Trójumenn komu að vaði hins straumfagra, sveipótta Ksanþusfljóts, er hinn ódauðlegi Seifur hafði getið, þá skildi Akkilles þá, elti suma þeirra út á völlinn á leið til borgarinnar, þar sem Akkear flýðu æðrufullir daginn fyrir, þá er Hektor hinn prúði lét óðast: þá leið þustu nú Trójumenn áfram á flóttanum, en Hera dreifði þykkum skýmokk fyrir framan þá, til að tálma þeim; en helmingur þeirra rakst út í hið straumdjúpa silfursveipótta vatnsfall; féllu þeir í fljótið með skvampi miklu; gnúðu þá hinir djúpu straumar, og bakkarnir beggja vegna umhverfis drundu hátt, en mennirnir hringsnerust innan um vatnasveipina, og sveimuðu með óhljóðum hingað og þangað. Svo sem þá er engisprettur hefjast á loft til að flýja út í eitthvert fljót undan eldsgangi, þegar óslökkvandi eldur gýs skyndilega upp og logar, svo þær steypa sér lafhræddar út í vatnið: svo fylltist hinn glymjandi straumur ens sveipadjúpa Ksantusfljóts af hestum og mönnum, hverju innan um annað, fyrir eltingum Akkils. 17 Hinn seifborni kappi lét þar eftir spjót sitt, og lagði það í einn porsviðarrunn, stökk síðan, líkur óvætti, út í fljótið, með eintómt sverðið, og hafði ill verk í hyggju. Hann hjó á báða bóga; risu þá upp hræðileg andvörp, er mennirnir voru slegnir með sverðinu, en vatnið varð rautt af blóðinu. Svo sem aðrir fiskar flýja hræddir undan ákafastórum vagnhval, og fylla upp allar víkur í vogskornum fjarðarbotni, því vagnan étur drjúgum hvern fisk, er hún nær: svo flýðu Trójumenn undir vatnsbakkana í straumum hins óttalega fljóts. En er Akkilles var þreyttur orðinn í handleggjunum að drepa, veiddi hann upp úr fljótinu tólf unga sveina, í vígsbætur fyrir Patróklus Menöytsson, og dró þá á land; voru þeir þá rænulausir af hræðslu, sem hindarkálfar. Hann batt hendur þeirra á bak aftur með vel sniðnum ólum, er þeir sjálfir höfðu á sér við hina riðnu brynstakka sína, fékk þá svo félögum sínum, að flytja þá til enna holu skipa, en hljóp sjálfur fram að fljótinu aftur, því hann langaði enn til að höggva niður mennina. 34 Þá mætti hann Lýkáoni Príamssyni Dardanungs; var hann þá að flýja frá fljótinu. Eitt sinn áður hafði Akkilles gengið út um nótt og handtekið Lýkáon og haft hann burt nauðugan úr eikagarði föður hans; var Lýkáon þá að höggva unga teina af fíkjutré með beittri eiröxi, og ætlaði að hafa þá í kerrustólsboga; kom hinn ágæti Akkilles þar að honum, og varð honum óvísavargur; flutti hann þá Lýkáon á skipum til ennar fjölbyggðu Lemneyjar og seldi hann þar; galt Jasonsson Akkilli verðaura fyrir hann. Gestfélagi Lýkáons, Etíon frá Imbrey, leysti hann út þaðan, og galt fyrir hann mikið fé, og sendi hann til ennar helgu Arisbu. Þaðan flýði hann á laun og komst heim til föður síns. Hann skemmti sér með vinum sínum í ellefu daga, síðan hann kom frá Lemney, en á tólfta degi lét guð hann aftur falla í hendur Akkilli, því Akkilli var það fyrirhugað, að senda hann til Hadesarheims, þó Lýkáon væri nauðugt að fara þangað. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles gat nú að líta, hvar Lýkáon var; hann var hlífarlaus, bæði hjálmlaus og skjaldarlaus; hann hafði og ekkert spjót; hafði hann kastað því öllu frá sér á landi, því svitinn mæddi hann, og erfiðið lúði kné hans, þegar hann flýði upp frá fljótinu. Þá mælti Akkilles í þungu skapi við sína hugstóru sál: „Mikil skelfing! Stór furða er það, er eg sé með augum mínum. Víst munu hinir hugstóru Trójumenn, er eg drap, rísa aftur upp frá hinum dimma myrkheimi, fyrst þessi maður, er seldur var til ennar sannhelgu Lemneyjar, er hér aftur kominn og hefir sloppið undan banadægri sínu, og fyrst djúp hins gráa sævar, er mörgum heldur nauðugum, gat ekki hamlað för hans. En bíddu við, hann skal og fá að kenna á spjótsoddi mínum, svo eg sjái og komist að raun um, hvort hann muni og komast þaðan jafnt og þeir, eða hvort hin lífgandi jörð, sem heldur hjá sér fræknustu mönnum, muni og fá haldið honum“. 64 Akkilles stóð kyrr, meðan hann velkti þessu í huga sér; en á meðan kom Lýkáon til hans felmtsfullur, og ætlaði að taka um kné hans, því hann vildi fyrir hvern mun forðast hinn illa dauða og hina svörtu valkyrju. Þá reiddi hinn ágæti Akkilles hið langa spjót, og vildi leggja hann í gegn. Lýkáon laut áfram, hljóp undir lagið og tók um kné hans, en lagið gekk fyrir ofan bak hans, og nam spjótið staðar í jörðinni, og var mjög fúst að seðja sig á mannsblóði. Lýkáon tók annarri hendi um kné Akkils og bað sér lífs, en annarri hendi hélt hann um hið beitta spjót, og sleppti ekki þeim tökum. Hann mælti til Akkils skjótum orðum: „Eg knéfell fyrir þér, Akkilles. Sjá þú sóma minn, og haf meðaumkun með mér! Jafnt er, sem eg sé nauðleitamaður þinn, þú fóstri Seifs, og máttu því ekki níðast á mér; því hjá þér neytta eg fyrstum manna Demetru meldurs, þann dag er þú handtókst mig í hinum velsetta eikagarði, og fluttir mig burt frá föður mínum og vinum, og seldir mig mansali til ennar sannhelgu Lemneyjar, og fékkst fyrir mig hundrað uxalög, og enn galt eg þrenn slík gjöld, áður eg væri þaðan laus látinn; er þetta hinn tólfti dagur, síðan eg kom til Ilíonsborgar, og hefir margt á daga mína drifið. Hin skaðvæna skapanorn hefir nú aftur selt mig í hendur þér; er það sýnt, að eg hefi engi vinur verið föður Seifs, er hann skyldi fá mig aftur á vald þitt, og skammælegan hefir hún alið mig, móðir mín, Laóþóa Altesdóttir hins gamla, er konungur var yfir enum herskáu Lelegum, og bjó í hinni hávu Pedasusborg á Satníóisbökkum; átti Príamus dóttur hans, og auk hennar margar konur aðrar. Við vorum tveir bræður, synir hennar, og muntu ganga milli bols og höfuðs á báðum okkur. Þú skauzt hinn goðumlíka Polýdórus með hvössu spjóti og drapst hann fremst í fótgönguliðinu; en yfir mig mun ógæfan koma hér, því það hygg eg, að eg sleppi ekki úr höndum þínum, fyrst guð hefir eitt sinn látið fund okkar saman bera. En eitt vil eg segja þér, sem eg bið þig leggja á hjarta þitt: drep mig ekki, því eg em ekki sammæddur bróðir Hektors, þess er vó hinn góða og hrausta félaga þinn“. 97 Slíkum bænarorðum mælti hinn frægi Príamsson til hans, en fékk aftur þetta ómilda svar: „Vertu ekki svo heimskur, að nefna lausnargjald við mig, eða halda ræðu fyrir mér. Áður en Patróklus beið skapadægur sitt, var mér ljúfara að hlífa Trójumönnum, og mörgum mönnum, sem eg handtók, gaf eg líf, og seldi þá mansali. En nú skal alls engi undan bana sleppa, hvern sem guð lætur mér í greipar ganga; nei, engi af öllum Tróverjum, og sízt Príamssynir. Heyr þú, kunningi, þú skalt nú deyja hér einnig. Hví berst þú svo illa af? Deyja mátti Patróklus, og var hann þó miklu meiri maður, en þú. Sér þú ekki, hve fríður eg em sýnum og mikill á velli. Eg er af ágætum föður kominn, og móðir mín, sem ól mig, var gyðja. Þó er mér einnig dauðinn vís og hin máttuga skapanorn, hvort sem það verður að morgni dags, að kveldi eða um miðjan dag, þegar einhverr tekur mig af lífi í orustunni, og annaðhvort skýtur mig með spjóti eða með ör af bogastreng“. 114 Þannig mælti Akkilles. Þá urðu kné og hjarta Lýkáons vanmegna; hann sleppti spjótinu, settist niður og breiddi frá sér báðar hendur. Akkilles brá hinu bitra sverði og hjó á viðbeinið við hálsinn; sökk tvíeggjaður brandurinn allur á kaf; lagðist Lýkáon þá á jörðina endilangur á grúfu, en svart blóðið rann og vætti jörðina. Akkilles tók í fót honum og slöngdi honum út í fljótið, hældist um og mælti til hans skjótum orðum: 122 „Ligg þú nú hérna hjá fiskunum; þeir munu í næði sleikja blóðið úr sárinu. Ekki skal móðir þín leggja þig á líkbörur og harma þig svo; nei, hinn sveipótti Skamander skal bera þig fram í hina breiðu fjarðarvík; mun svo margur fiskur, sem stökkur innan um sjóarbylgjuna, renna neðan upp undir hið dökkva gráð á sjónum, til að eta Lýkáons hvítu fitu. Farið allir illa för, þar til vér komumst til ennar helgu Ilíonsborgar, þér á flótta, en eg á hælum yðar að höggva niður. Ekki skal heldur hinn straumfagri, silfursveipótti fljótsguð verða yður að liði, þó þér oft fórnfærið honum marga griðunga, og hleypið einhæfðum hestum kvikum niður í hyljina. Nei, þér skuluð allt að einu deyja illum dauða, þar til þér allir hafið tekið hefnd fyrir víg Patrókluss og manntjón þeirra Akkea, er þér drápuð hjá hinum fljótu skipum, meðan eg var ekki við“. 136 Þannig mælti Akkilles. Þá varð fljótsguðinn ákaflega reiður, og velkti í huga sér, hversu hann mætti koma hinum ágæta Akkilli til að láta af orustunni, og hversu hann fengi varið Trójumenn við manntjóni. Á meðan stökk Peleifsson með hið langskefta spjót í hendi sér að Asteropeus, og vildi drepa hann; hann var Pelegonsson, en hinn straumbreiði Axíus hafði átt Pelegon við Períböyu, elztu dóttur Akesamens, því hinn sveipadjúpi fljótsguð hafði átt samlag við hana. Akkilles óð nú að honum, en Asteropeus reis upp í fljótinu og fór móti honum; hann hafði tvö spjót í hendi, en Ksanþus lét styrk koma í brjóst honum, því fljótsguðinn var reiður orðinn af vígunum, er Akkilles hafði vægðarlaust drepið svo marga kappa í fljótinu. En er þeir áttu skammt hvorr til annars, mælti hinn fóthvati ágæti Akkilles fyrr til hans: „Hverr ertu, og hverra manna, er þú þorir að fara móti mér? því ógæfumanna synir eru það, sem verða á götu minni, þegar á mér er móðurinn“. 152 Pelegons frægi son svaraði honum: „Hugstóri Peleifsson, hví spyr þú að ætt minni? Eg em frá hinu frjóvsama Peónalandi, sem héðan er langt í burtu, og er hér kominn með peónska kappa, vopnaða með löngum spjótum; er þetta hinn ellefti dagur, síðan eg kom til Ilíonsborgar. En ætt mína á eg að rekja til hins straumbreiða Axíuss; hann var faðir hins spjótfima Pelegons, sem sagður er faðir minn. En nú skulum við berjast, frægi Akkilles“. 161 Svo mælti hann hróðugur. Hinn ágæti Akkilles reiddi þá Pelíonsask; en í sama vetfangi skaut kappinn Asteropeus báðum spjótunum, sínu með hvorri hendi, því honum voru báðar hendur jafntamar; kom annað spjótið í skjöldinn, og gekk ekki í gegn, því gulllagið, er guðinn hafði gert, stóð fyrir; hitt spjótið kom í hægra framhandlegginn; var það skinnsprettur, og stökk út svart blóð, en spjótið, sem langaði til að seðja sig á holdi, flaug fyrir ofan Akkilles og lenti í jörðinni. Því næst skaut Akkilles hinum gagnfleyga aski til Asteropeuss, og vildi bana honum, en hann missti hans; flaug eskispjótið í hinn háva bakka og hljóp ofan í bakkann allt upp á miðjan falinn. Þá dró Peleifsson hið bitra sverð frá hlið sér, og óð að honum í vígahug. Asteropeus var þá að leita við að kippa askinum, er Akkilles hafði skotið, upp úr vatnsbakkanum, en gat ekki; þrisvar rigaði hann því til, og vildi draga það upp, og þrisvar gafst hann upp við það; í fjórða sinni vildi hann benda eskispjót Ajaksniðja út á hlið og brjóta það svo, en Akkilles bar að honum áður, og banaði honum með sverðinu, hjó á kviðinn hjá naflanum, svo öll iðrin ultu út á jörðina; tók hann þá andköf, og sorti sé fyrir augu hans. En Akkilles stökk á hann ofan og fletti hann vopnum, og mælti síðan hróðugur: „Ligg þú nú svona! Erfitt er fyrir þig, þó þú sért af fljótsguði kominn, að keppa við sonu hins afar sterka Kronussonar. Þú sagðist vera afkvæmi straumbreiðs fljótsguðs, en eg þykist eiga ætt mína að rekja til ens mikla Seifs. Peleifur Ajaksson, sem er konungur yfir mörgum Myrmídónum, er faðir minn, en Ajakus var sonur Seifs. Og svo sem nú Seifur er máttkari en fljótsguðir, er til sævar renna, svo er og niðji Seifs máttkari en fljótsguðs niðji. Nú er og hjá þér einn mikill fljótsguð; vittu, hvort hann fær hjálpað þér. Nei, engi fær staðizt móti Seifi Kronussyni. Því er það, að Akkelóus, sem er yfirfljót allra fljóta, jafnast ekki við hann, og ekki heldur hinn afar sterki, straumdjúpi Ókean, er öll fljót og allur sjór og allar vatnslindir og hinir djúpu brunnar hafa sína upprás af; og þó óttast hann einnig reiðarslag hins mikla Seifs og hina ógurlegu þrumu hans, þegar hún dunar af himni ofan“. 200 Að því mæltu kippti hann eirspjótinu upp úr vatnsbakkanum. Hann lét nú Asteropeus liggja þar eftir örendan á aurunum, og þar skolaði hann hið dökkva vatn, en álar og fiskar unnu að honum og rifu í sig nýrnamörinn. En Akkilles fór nú og elti hina hestfimu Peóna, en þeir flýðu upp með hinu sveipótta fljóti, þegar þeir sáu, að hinn hraustasti kappi var fallinn fyrir ofurefli og sverði Peleifssonar eftir hrausta vörn í harðri orustu. Drap Akkilles þar þá Þersilokkus og Mýdon og Astýpýlus, Mnesus og Þrasíus, Eníus og Ofelestes. 211 Hinn skjóti Akkilles mundi nú drepið hafa fleiri Peóna, ef hinn sveipadjúpi fljótsguð hefði ekki orðið reiður og talað til hans í mannslíki, og látið heyra raust sína upp úr djúpri hringiðu: „Það er hvortveggja, Akkilles, að þú ert meiri kraftamaður, en aðrir menn, enda ertu og stórvirkjasamari, því sjálfir guðirnir hlífa þér jafnan við háska. Hafi Kronusson lofað þér að drepa alla Trójumenn, þá farðu frá mér, og frem stórvirki þín á vellinum, því hinir fögru straumar mínir eru nú fullir orðnir af mannabúkum, svo eg má með engu móti velta rás minni fram til reginhafs, með því eg em stíflaður upp af líkunum, en þú strádrepur allt. Ger svo vel og lát nú af. Eg undrast stórum yfir þér, þjóðhöfðingi“. 222 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum, og mælti: „Skamander, fóstri Seifs, svo skal vera, sem þú segir. En ekki mun eg fyrr af láta að drepa hina ofstopafullu Trójumenn, en eg hefi hneppt þá inn í borgina, og reynt mig við Hektor, hvort sem hann fær sigrað mig, eða eg hann“. 227 Að því mæltu stökk hann eftir Trójumönnum, eins og óhemja. Þá mælti hinn sveipadjúpi fljótsguð við Appollon: „Heyr undur, Silfrinbogi, sonur Seifs, lítt hlýðir þú boðum Kronussonar, er hann lagði ríkt á við þig að vera hjástoð og vörn Trójumanna, allt þar til er kemur hin síðrennandi kvöldsól og breiðir skugga yfir hina frjóvsömu jörð“. 233 Þannig mælti hann, en þá stökk hinn spjótfimi Akkilles fram af vatnsbakkanum og hljóp ofan í mitt fljótið. Þá ylgdist Skamander óður, og réðst á hann; hann varð allur í uppnámi og æsti upp alla straumana, og hratt af stað líkadyngjum þeim, er í hann höfðu safnazt og Akkilles hafði drepið; hann öskraði, svo sem griðungur, og skaut líkunum upp úr sér á land upp, en hann bjargaði þeim, sem lifandi voru innan um hina fögru strauma, með því móti, að hann sveipaði utan um þá stórum, djúpum hringiðum. Nú reis ógurleg brimylgja umhverfis um Akkilles; straumkastið skall á skildi hans, og hann gat enga fótfestu fengið; þreif hann þá með höndum sínum í einn hávaxinn, stóran álmvið, en álmurinn losnaði upp með rótum, reif í sundur allan vatnsbakkann, og stemmdi hina fögru strauma með sínum þéttu greinum, féll svo allur niður í fljótið og stíflaði það; varð Akkilles þá hræddur og stökk upp úr hylnum og hljóp eftir bökkunum, léttur á sér, sem fugl á flugi. En hinn mikli fljótsguð lét ekki af, heldur hóf sig upp í móti honum kolmórauður, og ætlaði nú að aftra hinum ágæta Akkilli frá því að halda fram sókninni, og afstýra óförum Trójumanna. Peleifsson stökk undan, sem kólfi væri skotið; var hann þá svo ákafasnar, sem dökkgrár veiðiörn, sem er allra fugla sterkastur og skjótastur. Svo skjótt þaut hann undan, en eirmálmurinn glumdi óttalega um brjóst honum; flýði hann nú og skauzt á hlið undan fljótsguðnum, en guðinn sókti á eftir honum með miklum straumgný. Svo sem þá er vatnsveitingarmaður ræsir fram vatn frá kolblárri uppsprettulind og veitir því yfir skóga og eikigarða, heldur á reku í höndum sér og varpar burt úr rennunni, því sem fyrirstöðu gerir; en er vatnið fær framrás, velta undan allir smásteinar; bunar vatnið þá ótt ofan eftir hallandanum, svo veitumaður hefir ekki við því: svo náði straumaldan Akkilli ávallt, þó hann væri léttur á sér; því guðir eru mönnum máttkari. Því í hvert sinn er hinn fóthvati, ágæti Akkilles reyndi til að veita viðnám, og vita, hvort allir guðir, þeir er byggðu víðan himin, ræki sig á flótta, þá kom í hvert sinn stóralda hins himinrunna vatnsfalls ofan yfir herðar honum, og hrakti hann úr stað. Sá hann nú sitt óvænna, og stökk hátt í loft upp, en hinn stríði vatnsstraumur lúði kné hans að neðan, því hann skakkylgdist og skolaði sandinum undan fótum hans. Þá leit Peleifsson upp í hinn víða himin, og kveinaði hátt: „Faðir Seifur, en að engi af guðunum skuli fá af sér að bjarga mér aumkunarverðum manni úr fljótinu; komist eg að eins héðan, mun eg ekki undan skorast að deyja. Engum get eg þó af uppheimsgoðum kennt um þetta, heldur er móðir mín skuld í því, því hún gabbaði mig með ósannindum, er hún sagði, að eg mundi falla fyrir hinum snöru skeytum Appollons undir borgarveggi hinna brynjuðu Trójumanna. Eg vildi óska, að Hektor hefði drepið mig; hann hefir vaxið hér upp manna hraustastur; þá hefði hraustur vegið og flett hraustan vopnum. En nú liggur fyrir mér að deyja hér smánarlegum dauða og vera innilokaður í þessu mikla fljóti, svo sem svínahirðir, er veður yfir læk á vetrardegi og ferst í læknum“. 284 Þannig mælti hann; þá gengu þau til hans skyndilega, Posídon og Aþena; þau voru í mannslíkjum og stóðu hjá honum, tóku í hönd hans með hendi sinni og hughreystu hann með orðum; tók Posídon jarðarskelfir svo fyrr til máls: „Peleifsson, hvorki skaltu skelfast um of, né æðrast, þar sem þú með orlofi Seifs átt slíka bjargvættu að meðal guðanna, sem við erum, eg og Pallas Aþena. Því ekki á það fyrir þér að liggja að verða sigraður af fljótsguði. Hann mun brátt láta af, og muntu sjálfur finna það. En nú munum við leggja þér heilræði, ef þú vilt okkar ráðum fram fara: þú skalt ekki fyrr af láta hinni mannhættu styrjöld, en þú hefir hrakið hinn tróverska her, þann er undan kemst, til ennar frægu Ilíonsborgar, og ekki fyrr aftur fara til skipanna, en þú hefir tekið Hektor af lífi. Skulum við nú veita þér, að þú fáir ósk þína“. 298 En er þau höfðu mælt þetta, gengu þau burt, og til enna ódauðlegu guða. En Akkilles gekk nú út á völlinn, því skipun guðanna eggjaði hann mjög fram. Var nú allur völlurinn fullur af vatnsflóðinu; flutu þar mörg fögur vopn vopnbitinna kappa, og svo margir mannabúkar. Tók Akkilles nú hátt upp fæturna, er hann óð beint á móti straumnum, og gat hið straumbreiða fljót nú ekki aftrað honum, því Aþena hafði komið miklum styrkleik í brjóst honum. Skamander lét þó ekki af berserksgangi sínum, heldur varð hann nú enn reiðari við Peleifsson; hóf hann sig nú hátt í loft upp og bláhryggjaði straumölduna. Hann kallaði þá hátt og mælti til Símóis: „Heyr, bróðir, við verðum báðir að stöðva afl þessa manns, því ella mun hann brátt í eyði leggja hina miklu borg Príamuss konungs, og Trójumenn munu ekki fá staðizt í orustunni. Kom nú skjótt til liðs við mig, og fyll farvegu þína með vatni úr uppsprettunum, og æs upp alla læki. Reis upp mikla öldu og ger stóran skruðning með eikabolum og steinum, svo við fáum hamið hinn tryllta mann, er nú gerir yfirgang mikinn og vill jafnast við sjálfa guðina. Væntir mig, að ekki muni honum að liði verða afl hans eða fríðleikur, né enn heldur vopnin þau hin góðu; munu þau nú liggja einhverstaðar neðst á botni í flóðinu auri orpin. Eg skal ausa utan um hann ótallegum aurskriðum og hylja hann með sandhaugum, svo Akkear skulu ekki geta tínt upp bein hans; svo mikilli aurbleytu skal eg yfir hann dyngja. Hér skal vera leg hans, og skal ekki þurfa haug að verpa yfir hann, þegar Akkear jarða hann“. 324 Að því mæltu réðst hann á Akkilles; hann ólgaði allur og geystist hátt í loft upp, drundi og velti froðunni, blóðinu og mannabúkunum. Dökkmórauð alda hins himinrunna vatnsfalls stóð uppreist, hafin í loft upp, og ætlaði að slengja Peleifssyni. Þá varð Hera hrædd um Akkilles, að hinn mikli, sveipadjúpi fljótsguð mundi svipta honum í burtu; hún kallaði þá hátt og mælti til Hefestuss, sonar síns: „Upp, Fótlamur, sonur minn! Það ætlaði eg, að það væri við þitt hæfi, að eiga vopnaskipti við hinn sveipótta Ksanþus; kom nú skjótt til liðs, og lát mikið bál brenna, en eg skal fara og senda utan af hafi stríðan stormbyl vestanvindar og hins hvíta sunnanvindar; skal sá bylur bera hinn skaðvæna loga og brenna upp lík og vopn Trójumanna; en þú skalt brenna tré þau, er standa á Ksanþusbökkum, og steypa eldi á sjálfan hann, og lát hann hvorki aftra þér með blíðum orðum eða stríðum, og hætt ekki fyrr berserksgangi þinum, en eg læt heyra til mín og kalla hátt; þá skaltu stöðva hið ómæðna bál“. 342 Þannig mælti Hera, en Hefestus kveikti þá upp geysimikinn eld. Fyrst brann eldurinn á vellinum, og brenndi mörg lík, er þar lágu í dyngjum, þeirra manna, er Akkilles hafði vegið. Þornaði nú upp allur völlurinn, og hið fagra vatn stöðvaðist. Svo sem frumhausts-útnyrðingur þurrkar skjótt upp nývökvaðan garð, svo garðyrkjumanni þykir vænt um: svo þornaði allur völlurinn, þegar Hefestus brenndi upp líkin. Síðan vendi hann hinum skínanda loga að fljótinu; þá brunnu álmarnir, pílarnir og porsbjarkirnar; þá brann steinsmæran, sefið og ilmstörin, er þar óx mikið af umhverfis hina fögru fljótsstrauma; þá mæddust álar þeir og fiskar, er í hyljunum voru, og léku sér hér og hvar um hina fögru strauma; mæddust þeir af andardrætti hins fjölfima Hefestuss. En er fljótsguðinn tók til að brenna, tók hann til orða og mælti: „Engi af guðunum getur jafnazt við þig, Hefestus, og ekki vil eg heldur við þig keppa, er þú logar svo allur af eldi. Hættu þessum leik; hinn ágæti Akkilles má mín vegna reka Trójumenn út af borginni, þó hann vilji nú þegar. Hvað varðar mig um sókn og vörn?“ 361 Svo mælti fljótsguðinn, og logaði þá í eldi, en hinir fögru vatnsstraumar ullu upp, svo sem þá er sýður niðri í katli, við mikinn eld, þegar soðinn er nýrnmör af feitu alisvíni; vellur þá alla vega upp úr katlinum, er brennileg eldskíð eru undir látin: svo loguðu hinir fögru straumar fljótsguðsins af eldinum, en vatnið sauð; stöðvaðist hann þá og mátti ekki fram renna; mæddist hann af eldshitanum sökum ofurafls hins fjölkunna Hefestuss; bað hann þá Heru stórmjög og mælti til hennar skjótum orðum: „Hví sækir sonur þinn, Hera, svo hart að mér fremur en öðrum, til að angra straum minn? Þú átt ekki meiri sök á mér, heldur en hinum guðunum, er veita lið Trójumönnum. Eg skal nú hætta, ef þú vilt svo vera láta, en þá skal Hefestus þarna láta af líka. Og hér á ofan mun eg sverja þér, eg skal aldrei varna óförum Trójumanna, og ekki þó kveikt sé í Trójuborg og hún brenni í óðum eldi, þeim er kyntur væri af hinum víglegu sonum Akkea“. 377 Þá er hin hvítarmaða gyðja Hera heyrði þetta, mælti hún þegar til Hefestuss, sonar síns: „Hættu, Hefestus, sonur minn hinn víðfrægi, því ekki hæfir að hrekja svo ódauðlegan guð sökum dauðlegra manna“. 381 Þannig mælti hún, og slökkti Hefestus þá hinn geysilega eld; runnu þá hinir fögru straumar aftur ofan í farveg sinn. 383 En er ákefð Ksanþusar var niður kæfð, voru báðir kyrrir og hættu, því Hera, sem var allreið, hélt þeim í taumi. 385 Nú hófst ströng og þung rimma meðal hinna annarra guða; voru hjörtun óð í brjóstum þeirra af sundurþykkju. Þeir réðust nú hvorir á aðra með miklum gný, svo að hrikti í hinni víðu jörð, og tók undir umhverfis í hinu stóra himinhvolfi. Seifur heyrði það, þar sem hann sat á Ólympi, og hló þá hjarta hans af gleði, er hann sá, að guðunum lenti saman í orustu. Leið nú ekki á löngu, áður þeir færi saman, því Ares skjaldbrjótur gekk á undan og réðst fyrstur á Aþenu; hann hafði eirspjót í hendi og mælti til hennar smánarorð: „Hverju sætir, að þú, hundsflugan, með ákefðarfullri ofdirfsku og framhvött af stórhuga þínum, etur guðunum saman til orustu? Hvort manstu ekki, þegar þú eggjaðir Díómedes Týdeifsson til að veita mér áverka, og hélzt sjálf um hið alskínanda spjót og rakst það beint á mig og sundurflettir mínu fríða holdi. Nú skal eg hefna á þér fyrir það, sem þú hefir gert mér“. 400 Að því mæltu lagði Ares í hinn ógurlega, skúfaða ægisskjöld, þann er jafnvel reiðarslag Seifs vinnur ekki á. Þar í lagði hinn blóðflekkaði Ares hinu langa spjóti sínu. Aþena hopaði aftur, og þreif með sinni þreknu hendi stein einn, er lá á vellinum; hann var svartur, hrufóttur og mikill; það var marksteinn, er fornmenn höfðu sett þar. Með þeim steini laust hún Ares, og kom á hálsinn; varð Ares óvígur, og féll hann; lagði hann undir sig sjö plógslönd, þar sem hann lá; varð þá hár hans moldugt, og vopnin glömruðu alla vega utan á honum. Þá hló Pallas Aþena og mælti hróðug til hans skjótum orðum: „Þú hefir þá ekki gætt að því, heimskinginn, þar er þú þykist mér jafnsnjallur að kröftum, að eg em þér miklu yfirsterkari. Þannig munu bitna á þér óbænir móður þinnar, sem er reið þér og hefir illan hug til þín, sökum þess að þú yfirgafst Akkea, en veitir lið hinum ofstopafullu Trójumönnum“. 415 Að því mæltu snéri Aþena frá honum hinum björtu augum sínum. Afrodíta, dóttir Seifs, tók þá í hönd Aresar, og leiddi hann burt; stundi hann þá mjög ótt, og lá við sjálft, að hann félli í ómegin. En er hin hvítarmaða gyðja Hera varð vör við Afrodítu, mælti hún þegar skjótum orðum til Aþenu: „Atrýtóna, dóttir Seifs ægisskjalda, mikil firn eru slíkt! Hún leiðir þar hinn mannskæða Ares aftur úr hinum brennandi bardaga mitt í orustugnýnum, hundsflugan. Heyrðu, farðu og elt hana!“ 423 Þannig mælti Hera, en Aþena varð glöð við og hljóp eftir Afrodítu, óð að henni og rak sína þreknu hönd fyrir brjóst henni, svo kné hennar og hjarta vanmegnuðust. Lágu þau Ares þar nú bæði tvö á hinni margfrjóvu jörð. Þá hældist Aþena um, og mælti skjótum orðum: „Svona vildi eg að allir væri nú, þeir er lið veita Trójumönnum, í hvert sinn sem þeir berjast við hina brynjuðu Akkea, svona áræðnir og hugaðir, sem Afrodíta var nú, þá hún kom til liðs við Ares, og varð fyrir mér, þegar á mér var móðurinn. Þá værum vér fyrir löngu búnir að leggja í eyði hina fjölmennu Ilíonsborg, og kvittir orðnir við allan ófrið“. 434 Þannig mælti Aþena, en hin hvítarmaða gyðja Hera brosti. Þá mælti hinn voldugi Jarðarskelfir við Appollon: „Febus, hví stöndum við svo langt frá öðrum? Slíkt sæmir ekki, fyrst aðrir hafa byrjað bardagann, og enn meiri er minnkunin, ef við förum svo til Ólymps og til hinnar eirföstu hallar Seifs, að við höfum ekki verið í bardaga. Byrja þú fyrri, fyrst þú ert yngri, því ekki sæmir, að eg geri það, þar sem eg em eldri og reyndari, en þú. En hvað þú ert hugsunarlaus, heimskinginn þinn! Þú manst ekki eftir þeim ókjörum, er við einir guða urðum fyrir í Ilíonsborg, þegar við fórum frá Seifi og þjónuðum árlangt hjá Laómedon hinum mikilláta fyrir ákveðið kaup; lagði hann fyrir okkur ákvæðisverk. Þá hlóð eg breiðan og mjög fagran vegg fyrir Trójumenn um borg þeirra, svo borgin yrði óbrjótandi. En þú, Febus, sazt yfir drattandi bjúghyrndum nautum í skógvöxnum hlíðum hins marghálsótta Ídafjalls. En er hinar fagnaðarsælu misserisgyðjur létu hinn tiltekna gjalddaga að hendi koma, þá sveik hinn ofríkisfulli Laómedon okkur um allt kaupið, hótaði okkur hörðu og rak okkur svo burt. Hann hótaði þér að binda þig á höndum og fótum og selja þig mansali til fjarlægra eyja; en af báðum okkur hét hann að höggva eyrun með eirvopni. Urðum við þá reiðir, sökum þess að hann galt ekki kaup það, er hann hafði lofað okkur, og fórum aftur til hans með heiftarhug. Og nú ertú vinveittur landsmönnum þessa konungs, en vilt ekki leggjast á eitt með oss, svo hinir ofstopafullu Trójumenn tortýnist með öllu og hreppi ófarir ásamt með börnum sínum og heiðvirðum konum“. 461 Hinn fjarvirki konungur Appollon svaraði honum: Jarðarskelfir, þú mundir ekki kalla mig heilvita, ef eg fer nú að berjast við þig sökum vesalla, dauðlegra manna, sem, líkt og laufblöðin, eru í eitt skiptið með ákafa-fjöri, meðan þeir eta ávöxt jarðarinnar, en doðna í annað skipti og eru huglausir. Heyr nú, hættum sem skjótast bardaganum, og látum þá sjálfa eigast við“. 468 Að því mæltu gekk Appollon frá honum, því hann fyrirvarð sig að ganga í berhögg við föðurbróður sinn. Systir hans, drottning dýranna, veitti honum þá stórar átölur: „Flýr þú, Fjarvirkur (mælti hún); lætur þú Posídon eftir allan sigurinn og frægðina að raunalausu? Hví heldur þú, heimskinginn, á boganum að eins til ónýtis? Láttu mig ekki framar heyra, að þú hrósir því í höll föður okkar, svo sem þú gerðir fyrr meir meðal hinna ódauðlegu guða, að þú sért fær um að berjast við Posídon“. 478 Svo mælti Artemis. Hinn fjarvirki Appollon svaraði henni engu, en hin virðulega kona Seifs reiddist, og mælti til hennar: „Hví dirfist þú, ósvífna grey, að standa á móti mér nú? Erfitt mun þér verða, að jafnbjóða mér í kröftum, þó þú berir boga á baki; því Seifur gerði þig að óargadýri mennskra kvenna, og leyfði þér að drepa hverja þeirra, sem þig lystir til. Betra er þér að drepa dýr eða villihéra upp um fjöll, en að þreyta víg við þá, sem þér eru meiri. En ef þú vilt vita, hvað bardagi er, þá skaltu fá það, svo þú finnir glöggt, hve miklu eg em þér yfirsterkari, fyrst þú þykist jafnsterk mér“. 489 Að því mæltu þreif hún báðar hendur hennar með vinstri hendi, en tók bogann af baki hennar með hinni hægri, og barði hana um eyrun með boganum glottandi, en Artemis snéri sér oft undan; hrukku þá hinar skjótu örvar upp úr örvamælinum. Þá flýði gyðjan undan grátandi út á hlið, svo sem dúfa, sú er flýgur undan val inn í smugu í holum kletti, því það liggur ekki fyrir henni, að valurinn taki hana: svo flýði Artemis grátandi, og lét eftir boga sinn. Sendiguðinn Argusbani mælti nú til Letóar: „Með engu móti vil eg berjast við þig, Letó, því það er hættulegt að fást við konur Seifs skýsafnara. Þér er því óhætt að hrósa þér af því meðal hinna ódauðlegu guða, að þú hafir verið mér yfirsterkari“. 502 Svo mælti Hermes, en Letó tíndi upp hinar bjúgu örvar, er hrotið höfðu hingað og þangað í moldarrykinu, og er hún hafði tekið upp skeytin, gekk hún burt frá dóttur sinni. En Artemis kom til Ólymps, til ennar eirföstu hallar Seifs; settist mærin þá grátandi á kné föður síns, og skalf þá hinn himneski möttull utan á henni. Kronusson, faðir hennar, faðmaði hana upp að sér, hló dátt og spurði: „Hverr af himinbúum hefir farið svona með þig, dóttir góð?“ 511 Hin fagurkórónaða veiðigyðja svaraði honum: „Hin hvítarmaða Hera, kona þín, gerði mér svona harðleikið, því hún hefir valdið hinum ódauðlegu guðum mikillar deilu og ófriðar“. Þannig töluðust þau við. 515 Febus Appollon fór nú inn í hina helgu Ilíonsborg, því honum var annt um, að Danáar legðu ekki þann dag í eyði hinn ramgjörva borgarvegg fyrir forlög fram. En hinir aðrir eilífu guðir gengu til Ólymps, sumir reiðir í skapi, sumir mjög hróðugir, og settust hjá Seifi svartskýjaguði. En Akkilles hélt nú áfram að drepa niður jafnt Trójumenn sjálfa, sem hina einhæfðu hesta. Svo sem reyk leggur upp í hinn víða himin af borg nokkurri, sem er að brenna og sem reiði guðanna hefir í kveikt; gerir reykurinn öllum borgarmönnum mikla þraut og fær mörgum manni mikils meins: svo gerði Akkilles Trójumönnum mikla þraut og armæðu. 526 Príamus hinn gamli stóð uppi í hinum goðreista turni, og gat að líta hinn afar mikla Akkilles, og flýðu Trójumenn jafnt og þétt undan honum í flæmingi, og héldu engri vörn uppi. Þá hljóðaði Príamus og gekk ofan úr turninum; hann mælti til hinna frægu hliðgæzlumanna, er við borgarvegginn voru: „Hafið hurðirnar opnar, og haldið í þær, þar til er flóttamennirnir komast til borgarinnar; því það er víst Akkilles, sem rekur flóttann hér allnærri, og býst eg við, að eitthvað illt sé í vændum. En fari svo, að þeir komist inn fyrir borgarvegginn og fái hvíld, þá látið hinar vel felldu hurðir fyrir aftur, því eg er hræddur um, að skaðræðismaðurinn stökkvi inn í borgina“. 537 Þannig mælti hann, en þeir létu upp hliðin og skutu frá slagbröndunum. En er hliðin opnuðust, þá birti Trójumönnum fyrir augum, en Appollon stökk út í móti þeim, til að verja þá í lífsháskanum; en þeir flýðu af vellinum og stefndu beint á borgina og hinn háva borgarvegg, þurrir í kverkum af þorsta og moldroknir. Akkilles sókti æsilega eftir þeim með spjót í hendi, og var alltaf á honum stórkostlegur æðisgangur, því hann vildi vinna sér frægð og frama. 544 Nú mundi synir Akkea hafa náð hinni háhliðuðu Trójuborg, ef Febus Appollon hefði ekki eggjað fram hinn ágæta kappa Agenor, hinn fræga og hrausta Antenorsson. Hann kom hugrekki í hjarta hans, og stóð sjálfur hjá honum við ætibjörkina, til að forða honum við hinum þungu valkyrjum dauðans; var hann þar hulinn í miklum myrkva. En er Agenor sá Akkilles borgabrjót, nam hann staðar, og var hjarta hans mjög órótt við biðina. Mælti hann þá í þungu skapi við sína hugstóru sál: 553 „Eg vesall maður, þó eg flýi undan hinum sterka Akkilli, sömu leið og hinir fara, sem undan flæmast æðrufullir, þá mun hann ná mér allt að einu og höggva höfuð af mér, án þess eg komi nokkurri vörn fyrir mig. En ef eg læt þá þarna flæmast undan Akkilli Peleifssyni, og hleyp annan veg frá borginni og upp á Íluvöll, þar til eg kemst upp í Ídahlíðar, og krýp þar inn í runnana, þá gæti eg, þá eg hefði baðað mig í fljótinu og þurrkað af mér svitann, náð heim aftur til Ilíonsborgar í kvöld. En hví velki eg þetta í huga mér? Það getur verið, að hann verði mín varr, þá eg hef mig burt frá borginni og upp á völlinn, hlaupi svo snarlega eftir og nái mér, og mun þá engi kostur vera að forðast banann og valkyrjurnar, því Akkilles er hraustur langt um fram alla menn. En gangi eg til móts við hann hér fyrir framan borgina, þá mætti það vel endast; því hvasst eirvopn mun þó að vísu á hann bíta; ekki hefir hann og nema eitt líf, og það mæla menn, að hann muni dáið geta“. 571 Að því mæltu setti hann sig í stellingar, og beið Akkils, og varð hans hrausta hjarta þá ákaft í orustur og bardaga. Svo sem flekkudýr gengur út úr þykkum skógarrunni móti veiðimanni, og æðrast ekki eða flýr, þó það heyri hundageltið; því þó veiðimaður verði fyrri til að leggja það eða skjóta, og þó spjótið standi í gegnum það, þá gefur það þó ekki upp vörnina, fyrr en það hefir sigrað í atlögu, eða það fellur: svo vildi hinn ágæti Agenor, sonur hins fræga Antenors, ekki flýja, fyrr en hann hefði reynt sig við Akkilles. Hann hélt fram fyrir sig hinum kringlótta skildi, mundaði spjótinu á hann, og kallaði hátt: „Þú hugsar víst, frægi Akkilles, að þú munir á þessum degi leggja í eyði borg hinna framgjörnu Trójumanna. Fávís maður, víst muntu enn eiga mörgum raunum að mæta hér hjá borginni; því vér, sem í borginni búum, erum bæði fjölmennir og hraustir kappar, er verja munum Ilíonsborg fyrir foreldra vora, konur vorar og sonu vora; en þú munt bíða hér bana, svo hræðilegur og djarfur bardagamaður sem þú ert“. 590 Að því mæltu skaut hann hinu bitra spjóti úr sinni sterku hendi; kom spjótið í fótlegginn fyrir neðan knéð, og var hann ekki missifengur; en brynhosan, sem var af nýgjörvu tini, gall við óttalega, og hrökk eirvopnið af Akkilli aftur, er hann fékk skotið, því gjafir guðsins hlífðu honum. Því næst réðst Peleifsson móti hinum goðumlíka Agenor, en Appollon unni honum ekki að vinna sér þar til ágætis, heldur svipti hann Agenori burt, brá yfir hann miklum myrkva, og lét hann komast í hægðum sínum burt frá styrjöldinni. Síðan beitti hann Peleifsson brögðum og stíaði honum frá hernum; því Fjarvirkur brá sér í líki Agenors og staðnæmdist fyrir framan fætur Akkils, tók þá Akkilles til fótanna og fór að elta hann. Elti Akkilles hann nú um hinn hveitifrjóva völl, og vildi bægja honum að hinu sveipadjúpa Skamandersfljóti, en Agenor gaf honum jafnan lítið eitt við fót; því Appollon lék svo á Akkilles með brögðum, að hann alltaf skyldi hugsa, að hann mundi þá og þá ná honum. En á meðan á þessu stóð, komust hinir aðrar Trójumenn, sem flýðu, í einum hnapp til borgarinnar; urðu þeir þá fegnir, og varð borgin full af mannfjöldanum, er þangað þyrptist; var þá svo komið, að þeir þorðu ekki að bíða hverr eftir öðrum utan borgar og utan veggjar, og hyggja að, hverr undan hefði komizt, og hverr fallið hefði í bardaganum; heldur þustu þeir inn í borgina sem óðast, hverr sem fótum og knjám átti fjör að launa. TUTTUGASTI OG ANNAR ÞÁTTUR FALL HEKTORS. ÞANNIG komust Trójumenn í borgina á flótta, sem hindarkálfar. Þeir þerruðu nú af sér svitann, drukku og svöluðu þorsta sínum, og hvíldu sig upp við hin fögru virki; en Akkear gengu að borgarveggnum, og höfðu skjölduna á hlið sér. Þá lét hin skæða skapanorn herfjötur koma á Hektor, svo að hann beið þar fyrir framan Ilíonsborg og Skehlið, en Febus Appollon mælti til Peleifssonar: „Hví leggur þú mig í einelti, Peleifsson, þú dauðlegur maður ódauðlegan guð? Þú hefir víst ekki þekkt, að eg er guð, þar sem þú sækir svo ákaft á eftir mér; lætur þú þér alls ekki annt um að fást við Trójumenn, er þú hefir rekið þá á flótta; hafa þeir nú þyrpzt inn í borgina undan þér, en þú hvarflar hingað. Ekki muntu fá drepið mig, því eg em alls ekki feigur“. 14 Hinum fóthvata Akkilles varð þungt í skapi, og mælti til hans: „Fjarvirkur, þú skæðasti allra guða, þú hefir vilt hug minn, er þú hefir teygt mig hingað frá borgarveggnum; annars mundu enn margir menn hafa hnigið í gras, áður en þeir hefðu inn komizt í Ilíonsborg. Nú hefir þú svipt mig miklum sigri, en komið Trójumönnum heilum undan; var þér það auðvelt, því þú þarft ekki að óttast, að nein hefnd komi á bak þér. Skyldi eg víst hefna mín á þér, ef eg hefði megn til“. 21 Að því mæltu skundaði hann til borgarinnar í stórum hug; hann hljóp, svo sem sigurvanur veðhlaupshestur fyrir kerru, sá er hleypur léttlega á skeiði yfir skeiðvöllinn: svo létt bar Akkilles fætur sína og knjáliðu. 25 Hinn aldraði Príamus kom fyrstur auga á Akkilles, þar sem hann hljóp eftir vellinum, blikandi sem stjarna sú, er upp rennur á frumhausti; eru geislar hennar mjög auðkennilegir meðal margra stjarna um lágnættið; þá stjörnu kalla menn með öðru nafni Óríonshund, og er hin skærasta stjarna; er hún þó oft ills viti, og færir veslum mönnum megna brunasótt. Svo lýsti af eirmálminum á brjósti Akkils, þar er hann hljóp. Hinn aldraði maður hljóðaði, reiddi hátt upp hendur sínar og sló höfuð sitt; hljóðaði hann hátt, svo gjörla mátti heyra, og bað hinn kæra son sinn; stóð Hektor þá fyrir framan hliðið, og vildi alltaf ákaft berjast við Akkilles. Öldungurinn fórnaði höndum aumkunarlega, og mælti til hans: 38 „Hektor, gerðu það fyrir mig, kæri son, bíð ekki eftir manni þessum einmana fjarri öðrum, svo þú bíðir ekki skjótan bana og verðir drepinn af Peleifssyni, því hann er miklu meiri maður fyrir sér, en þú. Eg vildi óska, að þessi hinn grimmi maður væri ekki meiri vinur guðanna, en hann er vinur minn; þá mundu hundar og gammar skjótt eta hann liggjanda í valnum, og þá mundi mikilli sorg létta á hjarta mér. Því hann hefir gert mig viðskila við marga hrausta sonu mína, drepið suma, en selt suma mansali í fjarlægar eyjar. Og nú get eg ekki séð hér meðal þeirra Trójumanna, er flykkzt hafa inn í borgina, tvo sonu mína, Lýkáon og Polýdórus, er hin göfuga kona Laóþóa átti við mér. En séu þeir á lífi í herbúðum Akkea, mun eg geta leyst þá út síðar með eiri og gulli, því nóg er heima fyrir; því hinn nafnfrægi öldungur Altes lét dóttur sinni fylgja mikið fé heiman. En séu þeir dánir og komnir til Hadesarheimkynna, þá er það mikil hugraun fyrir mig og móðurina, foreldra þeirra bræðra. Verður þó öðrum út í frá skammvinnari söknuður eftir þá, heldur en ef þú fellur líka og verður sigraður af Akkilli. Heyrðu, son minn, far þú inn í borgina, svo þú frelsir Trójumenn og Trójukonur, en ljáir ekki Peleifssyni mikils sigurs og verðir sjálfur fjöri firrður. Auk þessa, þá sjá þú aumur á mér aumum manni og ólánssömum, þó eg enn hafi vit mitt; því faðir Kronusson mun deyða mig á elliþremi raunamæddan; hefi eg á marga hörmung mátt horfa, séð sonu mína drepna, dætur mínar dregnar í ánauð, herbergin rænd, ungbörnum slegið niður við í grimmu óvinaæði, og sonakonur mínar burtdregnar af hinum skaðvænu höndum Akkea. Og þegar einhverr hefir höggvið mig eða lagt í gegn með hvössu eirvopni og tekið mig af lífi, munu porthundar mínir, hráæturnar, er eg ól af borði mínu í höllinni, rífa mig sundur fyrir framan dyrnar síðastan allra, og leggjast svo í fordyrið óðir í huga, þá þeir hafa drukkið blóð mitt. Á ungum manni sómir sér allt vel, þó hann liggi fallinn, helsleginn, sundraður hvössu eirvopni, því allt er fagurt, sem á honum kemur til sýnis, enn þótt hann sé dauður. En það er hið aumkunarlegasta fyrir vesla, dauðlega menn, þegar hundar skemma grátt höfuð og grátt skegg og sköp vegins öldungs“. 77 Þannig mælti öldungurinn, og kippti upp hinum gráu hárlokkum með höndum sínum og reytti þá úr höfði sér, og fékk þó ekki talið Hektori hughvarf. Hins vegar grét móðir hans og jós út tárum; hún tók frá barmi sér og hélt upp brjóstinu með annarri hendi, úthellti tárum og mælti til hans skjótum orðum: „Hektor, sonur minn, lát þér hug við þetta ganga, og kenn í brjósti um mig. Hafi eg nokkuru sinni gefið þér brjóst til raunaléttis, þá minnst þess nú, kæri son. Gakk inn fyrir borgarvegginn, og verst óvin þinum þaðan, en mæt honum ekki í forvígi. Harðbrjóstaður ertu! Ef hann drepur þig, þá mun eg, sem ól þig, ekki gráta þig framar, yndisblómið mitt, á líkbörunum, né heldur hin mundsæla kona þín, heldur munu hundar rífa þig í sig hjá skipum Argverja, allt of langt frá okkur“. 90 Þannig mæltu þau bæði grátandi til síns kæra sonar, og sárbændu hann, og gátu þó ekki talið Hektori hughvarf. Hinn afar stóri Akkilles kom þá nær, og beið Hektor hans. Svo sem fjalldreki sá, er etið hefir mörg eiturgrös, bíður eftir manni á gjótubarmi; kemur þá í hann grimm heift, skýtur hann ógurlega augunum og hleypir sér í bugður hjá gjótunni: svo hörfaði Hektor ekki undan, því hann hafði óstöðvanda hug í brjósti. Hann reisti hinn fagra skjöld sinn upp við eitt útbrot á borgarveggnum, og mælti við sína hugstóru sál í þungu skapi: „Ef eg vesall maður fer inn um hliðin og inn í borgina, þá mun Polýdamant fyrstur manna leggja mér ámælisorð til; því kvöldið fyrir þá hina skaðvænu nótt, þá er hinn ágæti Akkilles reis upp, réð hann mér að fara með Trójumenn til borgarinnar, en eg gegndi honum ekki, og hefði það þó verið miklu betra. En nú, þegar eg hefi misst marga menn sökum óstýrilætis míns, fyrirverð eg mig fyrir Trójumönnum og hinum síðmöttluðu tróversku konum, og er hræddur um, að einhverr mér verri maður segi: Hektor steypti lýðnum í ógæfu, fyrir þá skuld að hann treysti of mjög hreysti sinni. Þannig munu menn mæla, og verður þá miklu betra fyrir mig, annaðhvort að ganga móti Akkilles og drepa hann og fara við það aftur inn í borgina, eða falla sjálfur með sæmd fyrir framan borgina. En ef eg legg niður hinn búklaða skjöld og hinn þunga hjálm, og reisi spjót mitt upp við borgarvegginn, fer svo og geng til móts við hinn ágæta Akkilles, og lofa honum, að eg skuli selja Atreifssonum í hendur til meðferðar Helenu og þar með gjörvallt það fé, er Alexander flutti til Trójuborgar á hinum holu skipum, og sem rimma þessi hefir af risið, og skipta svo hverjum akkneskum manni fyrir sig öðru fé, af því sem til er hér í borginni, tek síðan eið af öldungum lýðsins fyrir hönd Trójumanna, að þeir skuli engu leyna, heldur skipta öllu til jafnaðar. En hví velki eg þetta í huga mér? Nei, eg skal ekki fara og flýja á náðir hans; hann mun ekki kenna í brjósti um mig, og ekkert við mig virða, heldur mun hann drepa mig, svo sem annan kvenmann, ef eg legg af mér vopnin og geng til hans verjulaus, svona eins og eg stend. Það tjáir ekki að hjala við Akkilles ofan úr einhverju tré eða ofan af bjargi, svo sem meyjar og sveinar hjala hvort við annað. Nei, það er bezt að láta skríða til skarar; við skulum bráðum fá að vita, hvorum okkar Ólympsguð vill veita sigurinn“. [Mynd: Stúlkur við brunninn.] 131 Um þetta var Hektor að hugsa, þar sem hann beið Akkils. Nú kom Akkilles að honum; hann var líkur vígaguðnum, hinum hjálmóða herguði, og reiddi hinn óttalega Pelíonsask um hægri öxl sér; blikaði eirmálmurinn utan á honum, sem ljómi af brennanda eldi eða upprennandi sólu. En er Hektor sá hann, greip hann skjálfti; þorði hann þá ekki að bíða þar lengur, sem hann var, snéri frá hliðinu og lagði á flótta. Peleifsson neytti þá fráleiks síns og stökk þá eftir honum, svo sem smyrill, er allra fugla er léttfleygastur, fleygist eftir styggri dúfu uppi á fjöllum; skýzt dúfan undan honum út á hlið, en smyrillinn, sem er í nánd, gellur hátt, og stökkur að henni aftur og aftur, og vill ná henni: svo flaug Akkilles beint fram í mestu ákefð, en Hektor flýði með borgarveggnum, og bar létt fæturna. Þeir hlupu eftir kerrubrautinni fram hjá leitinu og hinum veðurnæma fíkjuhól, æ lengra og lengra frá borgarveggnum. Þeir komu nú að þeim straumfögru uppsprettum, þar sem þær tvær lindir hins sveipótta Skamanders vella upp; í annarri lindinni er volgt vatn, og er þar gufa mikil í kring, sem leggur upp af henni, eins og af brennanda eldi; hin vatnslindin er á sumrum sem hagl eða kaldur snjór eða jökull. Þar hjá vatnslindunum, allskammt þaðan, voru víðar laugardælir af steini; þar voru konur Trójumanna og hinar fríðu dætur þeirra vanar að þvo glæsileg klæði, fyrrum meðan friður var, áður en synir Akkea komu. Hér hlupu þeir báðir fram hjá, annar flýjandi, hinn eltandi á eftir. Hart hljóp sá, sem á undan flýði, en miklu harðara hljóp hinn, sem eftir sókti; því hér var ekki til sláturfjár að vinna eða nautshúðar, sem menn eru vanir að fá til verðlauna í veðhlaupum, heldur hlupu þeir til kapps um líf hins hestfima Hektors. Svo sem þá er sigurvanir, einhæfðir hestar hlaupa mjög skjótt í kring um marksúlur í dánarleikum eftir einhvern mann, og við liggur til verðlauna annaðhvort þrífætingur eða ambátt: svo runnu þeir báðir þrem sinnum á harða hlaupi í kring um Príamsborg. Allir guðirnir horfðu á, og tók þá faðir manna og guða fyrstur til máls: „Mikil skelfing, þar horfi eg á með augum mínum, að maður sá, sem mér er kær, er eltur í kring um borgarvegginn. Eg kenni í brjósti um Hektor, sem brennt hefir mér til fórnar marga blótbita af nautslærum uppi á tindum hins bugðótta Ídafjalls, og stundum uppi í háborginni; en nú eltir hinn ágæti Akkilles hann á harða hlaupi í kring um Príamsborg. Heyrið nú, þér guðir, ráðslagið og úrskurðið, hvort vér skulum frelsa hann undan dauða, eða láta nú Akkilles Peleifsson yfirstíga þenna hrausta mann“. 177 Hin glóeyga gyðja Aþena mælti til hans: „Faðir minn, þú bjartleiftraguð, þú svartskýjaguð, en að þú skulir mæla slíkt. Ætlar þú aftur að frelsa dauðlegan mann, sem er háður forlögunum, frá hinum hryllilega dauða. Ger þú það, en ekki munum vér hinir guðirnir verða allir á þínu máli“. 182 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni: „Vertu óhrædd, kæra dóttir, Trítogenía; eg tala þetta ekki í alvöru; eg skal vera þér eftirlátur. Ger þú, svo sem þér er hugleikið, og dvel ekki“. 186 Með þessum orðum eggjaði hann Aþenu, og var hún þó áður alláköf; fór hún nú brunandi ofan af Ólympstindum. 188 Hinn skjóti Akkilles sókti nú ákaft eftir Hektor. Svo sem þegar hundur rekur hindarkálf upp úr bæli sínu á fjöllum uppi, og eltir hann yfir gil og afdali, og þó kálfurinn krjúpi inn undir einhvern skógarrunn og feli sig, þá rekur hundurinn þó sporin og hleypur einlægt, þangað til hann finnur hann: svo komst Hektor ekki undan hinum fóthvata Peleifssyni; því svo oft sem hann leitaði að hlaupa til Dardanshliða og komast inn undir hina vel hlöðnu turna, ef verða mætti, að menn fengi varið hann með skotum ofan úr turnunum: svo oft komst Akkilles fyrir hann og bægði honum frá borginni og út völlinn, og hljóp hann ávallt í loftinu borgarmegin. Svo sem maður í draumi getur ekki náð þeim, sem undan flýr, og hvorki sá undan komizt, sem eltur er, né hinn áfram komizt, sem eltir: svo gat Akkilles ekki náð Hektor, né Hektor komizt undan Akkilli. En hvernig hefði Hektor mátt umflýja valkyrjur dauðans, ef Appollon, sem þar var í nánd, hefði ekki gengið til móts við hann, og veitt honum að nýju styrkleik og fráleik? En hinn ágæti Akkilles gerði mönnum sínum höfuðbendingu, og bannaði þeim að skjóta bitrum skeytum að Hektori, svo engi hefði frægð af því að hafa skotið Hektor fyrstur, en hann kæmi sjálfur um seinan. En er þeir komu í fjórða sinn til uppsprettanna, þá vatt faðir Seifur upp tveimur gullskálum, og lagði þar í tvær banavalkyrjur; átti Akkilles aðra, en aðra hinn kerrufimi Hektor; síðan tók hann um vogarmundanginn og hóf upp, seig þá skapadægur Hektors og allt niður til Hadesarheims. Skildist Febus Appollon þá við Hektor, en hin glóeyga gyðja Aþena gekk til Peleifssonar, nam staðar hjá honum og mælti til hans skjótum orðum: 216 „Frægi Akkilles, ástvinur Seifs, nú vona eg, að við getum afrekað mikla frægð Akkeum til handa, og komizt við það til skipanna, að við drepum Hektor, sem aldrei verður fullsaddur á bardögum. Má hann nú ekki lengur undan okkur sleppa, hversu sárt sem hinum fjarvirka Appollon fellur það, og hversu sem hann þráveltist fyrir fótum föður Seifs ægisskjalda. Heyr nú, stattu við og kasta mæðinni, en eg skal fara til Hektors, og lokka hann til að berjast við þig“. 224 Þannig mælti Aþena, en Akkilles varð glaður við, og gerði sem hún bauð, stóð við og studdist fram á hinn eirydda ask. Aþena skildist þar við hann og fór að finna hinn ágæta Hektor; var hún þá í líki Deífobuss, jafnvöxtuleg og jafnraddsterk, sem hann. Hún nam staðar hjá honum, og mælti til hans skjótum orðum: 229 „Fast sækir hinn hvati Akkilles þig, frændi, er hann eltir þig á harða hlaupi í kring um Príamsborg. Heyr, látum okkur veita viðnám og verjast héðan“. [Mynd: Akkilles og Hektor berjast.] 232 Hinn hjálmkviki Hektor svaraði honum: „Fyrr meir varstu mér, Deífobus, langkærastur allra frænda minna, sona Príamuss og Heköbu; en nú hygg eg, að eg muni virða þig enn fremur í hjarta mínu, er þú áræddir mín vegna, þegar þú leizt mig augum, að ganga út af borginni, þó aðrir séu kyrrir innan borgar“. 238 Hin glóeyga gyðja Aþena svaraði honum: „Mjög báðu þau mig, faðir minn og hin heiðvirða móðir mín, að vera kyrr og fara hvergi, gengu að mér hvort eftir annað, að knjám mér, og svo félagar mínir; því svo eru þar allir skelkaðir. En hjarta mitt innan brjósts þjáðist af sárri sorg þín vegna. Látum okkur nú ganga í berhögg við Akkilles, og sækjum að fast, og hlífum ekki spjótunum, svo við vitum, hvort Akkilles fær drepið okkur báða, og haft með sér til hinna holu skipa blóðstokkin helvopn okkar, eða hvort hitt kann að verða, að hann falli fyrir spjóti þínu“. 247 Jafnskjótt og Aþena hafði mælt þetta, gekk hún kænlega á undan honum. En er skammt var í milli þeirra, tók hinn mikli hjálmkviki Hektor svo fyrr til máls: „Nú skal eg ekki lengur flýja fyrir þér, Peleifsson, svo sem áður hefi eg gert. Eg hefi látið þig elta mig þrisvar í kring um hina miklu Príamsborg, og ekki þorað að bíða þín; en nú hvetur mig hugur minn, að horfa öndverður við þér, hvort sem heldur verður, að eg drepi þig, eða eg falli fyrir þér. Heyr nú, við skulum hér skírskota til guðanna; skulu þeir vera hinir styrkustu vottar og yfirsjáendur samninga okkarra. Fari svo, að Seifur veiti mér afburð, og eg taki þig af lífi, þá skal eg ekki fara svívirðilega með þig, heldur skal eg, Akkilles, skila Akkeum aftur líki þínu, þegar eg hefi flett þig vopnunum góðu; og á sama hátt skaltú gera við mig“. 260 Hinn fóthvati Akkilles leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Þú Hektor, sem eg aldrei gleymi, talaðu ekki við mig um samninga. Svo sem eiðfest sáttmál ekki á sér stað milli ljóna og manna, og svo sem úlfar og sauðir ekki verða samhuga, heldur hafa ávallt illan hug hvorir til annarra: svo getum við, eg og þú, ekki verið vinir, né heldur nokkur sátt átt sér stað okkar á meðal, fyrr en annar hvorr er fallinn og hefir satt Ares, hinn þrásækna styrjaldarguð, á blóði sínu. Taktu nú til allra íþrótta þinna; nú ríður á, að þú sért spjótfimur og öruggur bardagamaður. Þú getur nú ekki framar undan flúið, því Pallas Aþena mun láta þig þegar hníga fyrir spjóti mínu. Nú skal eg hefna á þér í einu allra harma minna, í hefnd fyrir félaga mína, er þú drapst, þá er þú ólmaðist með spjótið“. 273 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót og skaut því, en hinn prúði Hektor horfði beint í móti og forðaði sér við spjótinu, settist á hækjur, þá hann sá spjótið álengdar, og flaug eirspjótið fyrir ofan hann og hljóp í jörðina, en Pallas Aþena kippti því upp og fékk Akkilli aftur, svo þjóðhöfðinginn Hektor sá ekki. Þá mælti Hektor við hinn ágæta Peleifsson: „Fyrst þú misstir mín, goðumlíki Akkilles, þá hefir Seifur ekki sagt þér fyrir dauða minn, sem þú talaðir um, heldur hefir þú þar talað sem einhverr málfimur maður og orðslunginn, til þess eg fengi beyg af þér og missti þrótt minn og kjark. Ekki skaltu geta rekið spjót þitt í bak mér, því eg mun ekki flýja fyrir þér; keyr þú það heldur í gegnum brjóst mitt, ef guð ann þér þess, því eg mun vaða beint á móti þér. Vara þig nú við eirspjóti mínu, og mundi eg vilja, að þú bærir það allt í holdi þér; mundi Trójumönnum léttara veita orustan, ef þú værir af ráðinn, því þeim er hinn mesti geigur að þér“. 289 Að því mæltu reiddi hann aftur hið langskefta spjót, og skaut, og kom í miðjan skjöld Peleifssonar, og var Hektor ekki missifengur, en spjótið stökk af skildinum langt í burtu. Varð Hektor reiður, er hið hvassa skotvopn flaug svo til ónýtis úr hendi hans. Hann stóð forviða, því hann hafði ekki eskispjót annað. Hann kallaði þá hástöfum á hinn hvítskjaldaða Deífobus, og bað hann um langspjót. En þá var Deífobus hvergi nærri; og er Hektor fann það, mælti hann: „Mikil skelfing, sannlega hafa guðirnir kallað mig til dauðans; því eg hélt, að kappinn Deífobus væri hér hjá mér, en hann er nú inni í borginni, og hefir Aþena svikið mig. Er nú víst, að hinn illi dauði er nærri mér, en ekki fjarri, og er nú ekkert undanfæri. Áður fyrr var Seifi og svo hinum fjarskeyta guði, syni Seifs, það kærara, að eg leitaði mér farborða, og frelsuðu þeir mig oft áður af miskunn sinni, en nú hefir skapanornin náð mér. Mundi eg nú vilja, að eg félli ekki frægðarlaust, og án þess að gera nokkura vörn af mér, heldur mundi eg vilja vinna eitthvað stórt, sem orðið gæti til afspurnar hjá eftirkomandi mönnum“. 306 Þá hann hafði þetta mælt, brá hann hinu mikla og sterka sverði, er hékk fyrir neðan hupp honum. Hann setti sig í hnipur, og skauzt fram, svo sem háfleyg örn, er þýtur til jarðar gegnum hin dimmu ský, til að hremma ungt lamb eða hræddan héra: svo skauzt Hektor fram, og hristi bitran brandinn. Akkilles óð þá fram, og fylltist hjarta hans af vargsmóði. Hann breiddi hinn fagra, gersemlega skjöld fyrir brjóst sér, og hneigði hinum skínanda, fjórbólaða hjálmi, og bifuðust þá alla vega þau hin fögru gullföx, er Hefestus hafði sett þétt allt um kring í hjálmbustinni. Svo sem kvöldstjarnan, sem er hin fegursta stjarna á himni, er björt, þegar hún gengur upp með öðrum stjörnum í næturhúminu: svo lýsti af hinu bráðeggjaða spjóti, er Akkilles veifaði í hægri hendi sinni. Hann hafði illan hug til hins ágæta Hektors, og renndi auga til, hvar helzt væri höggstaður á honum. Eirvopn þau hin fögru, er Hektor hafði tekið af hinum sterka Patróklus, þá hann vó hann, hlífðu alstaðar vel líkama hans, nema þar sem viðbeinin skilja hálsinn frá öxlunum, þar skein í hóstið, og þar er hinn banvænlegasti höggstaður á manni. Þar lagði hinn ágæti Akkilles spjótinu á Hektori, þegar hann óð að honum, og gekk spjótsoddurinn þvers í gegnum hinn mjúka háls. Þó skar hinn eirþungi askur ekki í sundur barkann, svo Hektor mátti mæla við hann og svara honum. Féll Hektor nú til jarðar, en hinn ágæti Akkilles hældist um og mælti: „Þú munt þó hafa hugsað, Hektor, þegar þú flettir Patróklus vopnum, að þú mundir við það heill af komast, og munt ekkert skeytt hafa um mig, sem þá var hvergi við staddur. Heimskur varstu, því þá átti Patróklus enn eftir miklu hraustari eftirtalsmann niðri við hin holu skip, þó langt væri þangað, og það var eg, sem hefi nú komið þér af knjám; munu hundar og hræfuglar rífa þig smánarlega, en útför hans munu Akkear gera með sóma“. 337 Hinn hjálmkviki Hektor svaraði honum, og var þá máttur hans ekki mikill: „Eg bið þig fyrir sakir lífs þíns og knjá þinna og fyrir sakir foreldra þinna, lát ekki hunda rífa mig í sundur hjá skipum Akkea, þigg heldur gjafir, gnótt eirs og gulls, er faðir minn og hin heiðvirða móðir mín munu gefa þér, en skila aftur líki mínu heim, svo Tróverjar og konur Trójumanna nái að veita mér þann sóma, að brenna mig dauðan“. [Mynd: Akkilles misþyrmir líki Hektors.] 344 Hinn fóthvati Akkilles leit til hans með reiðisvip, og mælti: „Biddu mig ekki, hundurinn þinn, fyrir sökum knjá minna og foreldra minna. Eg vildi, að æðið og heiftin eggjaði mig til að brytja hold þitt í stykki og eta það hrátt, fyrir það sem þú hefir gert mér. Svo skal þá engi geta bægt hundum frá höfði þínu. Nei, þó menn færi hingað og reiði tífalt og tvítugfalt útlausnargjald, og lofi öðru þar á ofan, nei, þó Príamus Dardansniðji segi, að vega skuli lík þitt móti gulli: þá skal hin heiðvirða móðir þin, sú er ól þig, allt fyrir það ekki gráta þig lagðan á líkbekk, heldur skulu hundar og hræfuglar rífa þig allan í sundur“. 355 Hinn hjálmkviki Hektor mælti til hans, og var þá að kominn dauða: „Eg sé, að þú ert, eins og þú hefir reynzt mér; eg þurfti ekki að hugsa til þess, að telja þér hughvarf, því hjartað í brjósti þínu er af járni. En hugsa þú nú um það, að eg verði þér ekki að goðagremi, þann dag er þeir Paris og Febus Appollon munu taka þig af lífi í Skehliðum, allt hvað hraustur þú ert“. 361 Þá hann hafði þetta mælt, sveif yfir hann algjörr dauði, en sál hans flaug úr limunum og fór til Hadesarheims, harmandi forlög sín, er hún varð að skilja við þroskann og æskuna. En er hann var dauður, mælti hinn ágæti Akkilles til hans: „Dey þú; en móti Valkyrjunni mun eg þá taka, þegar Seifur og aðrir ódauðlegir guðir vilja svo vera láta“. 367 Að því mæltu kippti hann eirspjótinu úr hinum dauða, og lagði það hjá sér, og fletti blóðugum herklæðunum af herðum honum. Þá þustu synir Akkea þar að, og undruðust vöxt Hektors og hinn aðdáanlega vænleik hans, en engi gekk svo að honum, að hann ekki særði hann einhverju sári. Leit þá margur maður til þess, sem næstur honum stóð, og tók til orða: „Mikil undur, víst er Hektor nú miklu mýkri viðkomu, en þegar hann brenndi skip vor í ljósum loga“. Þannig mælti margur maður, sem þar var viðstaddur, og hjó til hans um leið. En er hinn fóthvati, ágæti Akkilles hafði flett Hektor vopnum, mælti hann skjótum orðum, standandi mitt á meðal Argverja: „Kæru vinir, þér fyrirliðar og foringjar Argverja, með því guðirnir hafa unnt oss að yfirstíga þenna mann, er meira skaða hefir gert oss, en allir hinir til samans, þá komið til, látum oss fara til alvopnaðir og sækja alla vega að borginni, svo vér verðum áskynja, hvað Trójumenn ætlist enn fyrir, hvort þeir vilji yfirgefa hina hávu borg, fyrst Hektor er fallinn, eða ætli þeir sér að sitja kyrrir, þó Hektors sé ekki lengur við kostur. En hví er eg að hugsa um þetta? Patróklus liggur lík niðri við skipin, ógrátinn og ójarðaður. Honum skal eg ekki gleyma, meðan eg stend lífs uppi og kné mín hrærast. En þó vant sé að gleyma dánum mönnum, sem til Hadesarheims eru farnir, þá skal eg samt muna eftir hinum kæra vin mínum, þó hann sé þangað kominn. Heyrið nú, sveinar Akkea, látum oss syngja fagnaðarsöng og fara ofan til hinna holu skipa, og hafa þenna mann með oss. Vér höfum unnið mikla frægð; vér höfum drepið hinn ágæta Hektor, er Trójumenn tilbáðu í borginni, svo sem einn af guðunum“. 395 Að því mæltu lék hann hinn ágæta Hektor svívirðilega. Hann stakk raufar á hásinunum aftan til á báðum fótum frá hæli til ökla, festi þar í nautsleðursólar, batt við kerrustól sinn, og lét höfuðið dragna um jörðina. Síðan tók hann upp hin ágætu vopn, og steig upp á kerruna; þá keyrði hann hestana til hlaups, og flugu þeir viljugir af stað; varð af rykmokkur mikill, er líkið dróst, en hið blásvarta hár flaksaðist alla vega og allt höfuðið, sem áður var svo fagurt, lá nú í moldinni, því þá hafði Seifur fengið Hektor óvinunum í hendur til smánarlegrar meðferðar í föðurlandi sjálfs hans. Þannig varð allt höfuð Hektors moldrokið. 405 Móðir Hektors fleygði hinni smágjörvu skýlu langt frá sér og reytti hár sitt. Hún veinaði mjög sárt, er hún leit son sinn. Hinn kæri faðir hans hljóðaði aumlega, og fólkið í kring bar sig illa í allri borginni með veini og hljóðum; það var því líkast, sem öll hin hálenda Ilíonsborg svældist í eldi allt frá grunni. Fólkið gat varla haldið hinum angráða öldungi, því hann vildi ákaft fara út um Dardanshlið; hann veltist um í moldinni, bað alla, og nefndi hvern með nafni: „Hættið, vinir, þó yður taki sárt til mín, og lofið mér að fara einum saman út af borginni og til skipa Akkea; eg ætla að biðja þenna ofstopafulla ofríkismann, ef hann kann að virða aldur minn og aumka elli mína. Hann á þó föður, sem er á aldur við mig, Peleif, er ól hann og upp fæddi Trójumönnum til tjóns, þó hann hafi fengið mér sárustu harma af öllum, þar sem hann hefir drepið svo marga sonu mína á bezta aldri. Þó mig taki sárt til þeirra allra, syrgi eg þó engan þeirra jafnmjög sem Hektor einan, því, sár harmur eftir hann mun flytja mig niður í Hadesarheim. Eg vildi óska, að hann hefði dáið í höndum mínum. Þá hefðum við, eg og hin ógæfusama móðir, sem ól hann, getað svalað hörmum okkar með kveini og táraflóði“. 429 Þannig mælti hann kveinandi, og borgarmennirnir tóku undir með andvörpum, en Hekaba hóf upp þungar harmatölur meðal Trójukvenna: „Eg vesöl kona, sem beðið hefi svo þungar raunir, hví skal eg lifa, þegar þú ert dáinn, son minn, sem varst mitt eftirlæti í borginni, nætur og daga, og allra stoð innan borgar, Trójumanna og Trójukvenna, er fögnuðu þér, svo sem værir þú einhverr af goðunum? Sannlega mundir þú orðið hafa þeim til stórmikillar frægðar, ef þú hefðir lifað, en nú hefir dauðinn og skapanornin náð þér“. 437 Þannig mælti hún kveinandi. Kona Hektors hafði enn ekkert frétt, því engi viss sendimaður hafði til hennar komið að segja henni, að maður hennar varð eftir fyrir utan hliðin. Hún var í innsta herbergi hallarinnar, og var að vefa tvískikkju af purpura, og óf hún þar í blómmyndir með ýmsum litum. Hún bauð hinum fagurlokkuðu þjónustumeyjum, sem í herberginu voru, að setja stóran þrífæting á eld, svo Hektor gæti fengið heitt laugarvatn, þá hann kæmi heim úr bardaganum. Hún vissi það ekki, fávís kona, að hin glóeyga Aþena hafði látið hann falla fyrir Akkilli mjög langt frá laugum öllum. Hún heyrði nú kveinið og hljóðin ofan frá turninum; þá skulfu hendur hennar, og skeiðin féll ofan á gólf. Hún mælti þá aftur til hinna fagurlokkuðu þjónustumeyja: „Upp tvær, og fylgi mér! Eg ætla að sjá, hvað um er að vera. Eg heyrði rödd hinnar heiðvirðu sværu minnar. Hjartað í brjósti mér berst allt upp undir kverkar, og fætur mínir stirðna upp; einhverr háski er víst nálægur Príamssonum; eg vildi óska, að mér hefði þetta aldrei til eyrna borið. En nú er eg mjög ákaflega hrædd um, að hinn ágæti Akkilles hafi nú afkróað hinn djarfa Hektor einan sér frá borginni, elt hann út á völlinn og hafi nú gert enda á hinni voðalegu karlmennsku, sem ávallt var í honum; því hann eirði aldrei kyrr í flokki manna, heldur hljóp jafnan langt fram fyrir aðra, og lét ekki undan nokkurum manni, þegar móðurinn var á honum“. 460 Að því mæltu hljóp hún út úr herberginu, líkt sem hún væri óð, og barðist hjarta hennar mjög, en þjónustumeyjarnar fylgdu henni. En er hún kom upp í turninn, þar sem mannsöfnuðurinn var, þá litaðist hún um uppi á borgarveggnum; sá hún þá, hvar Hektor var dreginn fyrir framan borgina; drógu hinir fljótu hestar hann óþyrmilega til hinna holu skipa Akkea. Þá seig svört nótt fyrir augu hennar; hún féll á bak aftur og leið í öngvit; fuku þá af höfði hennar hin glæsilegu höfuðbönd, ennisdregillinn, hárnetið, hin fléttaða umgjörð og höfuðblæja sú, er hin gullprúða Afrodíta hafði gefið henni, þann dag er hinn hjálmkviki Hektor leiddi hana heim til sín úr húsi Etjons, eftir það hann hafði gefið ótal brúðgjafa. Kringum hana stóðu margar mágkonur og svilkonur hennar, og héldu um hana milli sín; var hún þá svo rænulaus, sem hún væri dauðvona. En er hún skaut upp öndinni og lífið færðist í hjartað, kveinaði hún fyrst með tíðum ekka, og mælti síðan til Trójukvenna: „Hektor, eg ógæfusama! erum þá bæði fædd til sama óláns, þú í Trójuborg í húsi Príamuss, en eg í Þebu undir hinu skógivaxna Plaksfjalli í húsi Etjons, sem upp fæddi mig ógæfusamur ógæfusama, meðan eg var lítil. Eg vildi óska, að eg hefði aldrei fæðzt. Nú fer þú til Hadesarheimkynna í fylgsnum jarðarinnar, en eftirskilur mig í sárri sorg munaðarlausa í herbergi mínu, en sonur okkar, sem við áttum saman vesöl hjón, hann er barnungur enn, og hvorki verður þú, Hektor, honum til aðstoðar, úr því þú ert dáinn, né heldur hann þér. Og þó hann komist lífs af í hinni hörmulegu styrjöld Akkea, mun hann þó ávallt eiga erfitt og bágt, það sem eftir er; því aðrir munu taka frá honum akurlönd hans. Munaðarleysið gerir son þinn viðskila við alla hans jafnaldra; hann gengur ávallt niðurlútur, kinnar hans eru tárugar; þurfandi gengur hann til vina föður síns, og tekur í skikkju eins, en í kyrtil annars. Ef einhverr þeirra aumkar sig þá yfir hann, þá réttir hann honum svo lítinn munnsopa, að hann getur vætt í því varirnar, en góminn getur hann ekki vætt. Annar sveinn, sem á báða foreldra á lífi, hrindir honum burt úr veizlunni, slær hann með höndunum og smánar hann með þessum orðum: snáfaðu burt, eins og þú komst; hann faðir þinn situr ekki að veizlu með okkur. Svo fer þá sveinninn Astýanax grátandi heim til móður sinnar, ekkjunnar, hann sem fyrr meir var vanur að eta tóman merg og feitan sauðamör á knjám föður síns, og, þegar hann hætti að leika sér og var orðinn syfjaður, var ávallt vanur að hvíla í mjúkri sæng á legubekk í faðmi fóstru sinnar, hjartaglaður af allsnægtum. Sá hinn sami Astýanax mun nú mörgum raunum sæta, þegar hann hefir misst föður sinn, hann sem Trójumenn gáfu þetta viðurnefni, af því þú einn varðir borgarhliðin og hina hávu borgarveggi. Nú munu spriklandi maðkar eta þig nakinn niðri við hin stafnbognu skip, fjarri foreldrum þínum, eftir það að hundarnir eru búnir að seðja sig á þér. En klæði þau hin smágjörvu og fögru, er konur unnu með höndum sínum, og sem geymd eru handa þér hér í herbergjunum, þau skal eg öll á björtu báli brenna, svo þú hafir frægð af þeim hjá Trójumönnum og Trójukonum; þau eru þér til engra nota, úr því þú getur ekki legið í þeim sjálfur“. 515 Þannig mælti hún grátandi, en konurnar tóku undir með andvörpum. TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI ÞÁTTUR LEIKIR EFTIR PATRÓKLUS. ÞANNIG andvörpuðu menn í borginni. En er Akkear komu til skipanna og Hellusunds, þá dreifðu þeir sér, og fór hverr til síns skips; en Akkilles lét ekki Myrmídóna sundrast hvern til sín, heldur mælti hann til þessara hergjörnu félaga sinna: „Hestfráu Myrmídónar, þér hinir tryggu félagar mínir, vér skulum enn ekki leysa hina einhæfðu hesta frá kerrunum, heldur skulum vér fara nær með hestana og vagnana, og gráta Patróklus, því það er sá heiður, er dánir menn njóta. En er vér höfum svalað oss á hinum fagnaðarlausa harmi, munum vér beita hestunum frá og taka hér allir náttverð“. 12 Þannig mælti hann, og hljóðuðu þeir þá upp allir í einu, og byrjaði Akkilles fyrstur. Þeir keyrðu hina faxprúðu hesta þrem sinnum í kring um líkið, og flutu í tárum, en Þetis vakti upp hjá þeim mikla sorgarlöngun. Ströndin vöknaði, og herbúnaður kappanna varð votur af tárum; slíkum flóttafrömuði áttu þeir á bak að sjá; en Peleifsson hóf upp þungar harmatölur meðal þeirra, og lagði hinar víggjörnu hendur sínar á brjóst vinar síns: „Heill veri þú, Patróklus, einnig í Hadesarhíbýlum! Nú skal eg enda allt, sem eg lofaði þér áður, að eg skyldi draga Hektor hingað og láta hunda rífa í sig hrátt lík hans, en hálshöggva tólf fríða sonu Trójumanna hjá báli þínu í hefnd eftir þig“. 24 Að því mæltu lék hann hinn ágæta Hektor svívirðilega, og lagði hann á grúfu í moldina við hliðina á líkbekk Menöytssonar. Myrmídónar lögðu af sér hin ljómandi eirvopn, og beittu frá hinum hádunandi hestum; síðan settust þeir niður hjá skipi hins fóthvata Ajaksniðja, svo hundruðum skipti, en hann veitti þeim dýrlega erfiveizlu. Margir sjálegir uxar lágu þar flatir, skornir á háls með járni, svo og margir sauðir og kumrandi geitur; og mörgum bráðfeitum hvíttenntum svínum var haldið yfir loganda sviðueldi, og blóðið flaut alla vega í kring um náinn, svo ausa mátti með skálum. 35 Höfðingjar Akkea leiddu nú konunginn, hinn fóthvata Peleifsson, til hins ágæta Agamemnons; áttu þeir bágt með að fá hann með sér, svo var honum skapþungt sökum vinar síns. En er þeir komu til búðar Agamemnons, báðu þeir hina hvellrómuðu kallara að setja stóran þrífæting yfir eld, ef þeir kynnu að fá Peleifsson til að þvo af sér hið storknaða blóðhlaup; en hann neitaði því þverlega, og lagði eið á ofan: „Eg sver við Seif, sem er æðstur og máttugastur allra goða, ekki hæfir, að laugarvatn komi á höfuð mitt, fyrr en eg hefi lagt Patróklus á bál, orpið haug eftir hann og skorið hár mitt; því slíkur harmur mun ekki snerta hjarta mitt annað sinn, svo lengi sem eg em á lífi. Nú munum vér þó láta oss lynda að sitja að þessari fagnaðarlausu veizlu. En á morgun skaltú, Agamemnon herkonungur, láta sækja við í skóg, og fá til, það sem dauður maður á með sér að hafa, áður en hann fer niður í hinn dimma Myrkheim, svo hinn ómæðni eldur brenni upp lík þetta og taki það sem fyrst frá augum vorum, og fólkið geti svo tekið til starfa“. 54 Þannig mælti hann, en þeir hlýddu honum, og gerðu, sem hann bauð. Efnuðu þeir nú skyndilega til náttverðar hverr sér, og snæddu, og var einskis vant, þess er á kjósa mátti að skammtveizlu. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, gengu þeir til hvílu, hverr til sinnar búðar. En Peleifsson lá ásamt með Myrmídónum á strönd hins stórbrimótta hafs, á hreinum stað, þar sem bylgjurnar voru vanar að ganga upp á ströndina og skola hana; hann andvarpaði þungan. Þá greip hann blundurinn, er leysir allar sorgir hugarins, og breiddi sig í svefnhöfga alla vega utan um hann; því hinir fögru limir hans höfðu orðið lúnir, þá hann elti Hektor hjá hinni veðurnæmu Ilíonsborg. Þá kom að honum vofa hins vesala Patrókluss; hún líktist Patróklus í öllu; vöxturinn var eins, augun jafnfögur, málrómurinn hinn sami, og búin líkum klæðum, sem hann. Hún nam staðar uppi yfir höfði hans, og mælti til hans þessum orðum: „Sefur þú? Hefir þú gleymt mér, Akkilles? Þú afræktir mig ekki, meðan eg var á lífi, en gerir það nú, þegar eg er dauður. Jarða mig sem skjótast; eg vil komast inn um Hadesarhlið. Vofurnar, svipir dauðra manna, bægja mér langt í burt frá sér, og banna mér að komast til sín yfir fljótið; ráfa eg því svo búinn um hinn víðhliðaða Hadesarheim. Og rétt mér nú hönd þína, eg grátbæni þig. Þá er þér hafið brennt lík mitt, mun eg aldrei hverfa hingað framar aftur úr Hadesarheimi. Við munum ekki í lifanda lífi sitja saman og ráðslaga, langt í burt frá vinum vorum, því hin hryllilega Valkyrja, sú er mér hlotnaðist, þegar eg fæddist, heldur mér í opnu gini sínu. Það liggur og fyrir þér sjálfum, goðumlíki Akkilles, að láta líf þitt hjá borgarveggi hinna göfugu Trójumanna. En eitt vil eg nefna við þig og biðja þig fyrir, ef þú vilt gera það fyrir mig. Legg ekki bein mín langt frá beinum þínum, Akkilles; lát þau heldur vera hvor hjá öðrum, eins og við vorum upp fæddir saman í húsum ykkar, upp frá því að Menöytíus flutti mig ungan til ykkar frá Ópuntsborg, sökum hins hörmulega vígs, er eg vó, þann dag er eg var sá heimskingi að drepa son Amfídamants, þó óviljandi, af því eg reiddist út af kotrunni. Þá tók riddarinn Peleifur við mér í hús sitt, upp fæddi mig ástúðlega, og nefndi mig hersvein þinn. Svo vildi eg, að sama ílát geymdi bein vor beggja, gullkrukka sú, er hin heiðvirða móðir þín gaf þér“. 93 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum, og mælti: „Hví ertu, elskuvinur, kominn hingað til mín? Hví mælist þú til sérhvers þessa af mér? Eg skal gjarna veita þér það allt, og gera, sem þú mælist til. En kom þú nær mér, látum okkur faðmast um stundarsakir, og svala okkur svo á hinum fagnaðarlausa harmi“. 99 Að því mæltu rétti hann til hans hendur sínar, og náði honum þó ekki, því vofan fór ymjandi niður í jörðina, svo sem reykur. Akkilli varð bilt við, spratt á fætur, sló saman höndunum og mælti aumkunarlegum orðum: „Mikil undur! Sannlega eru þá og til vofur og svipir í Hadesarheimi, þó þær hafi með öllu ekkert fjörmagn. Því vofa hins vesala Patrókluss stóð hjá mér í alla nótt harmandi og grátandi, og mæltist til margs af mér, og var hún furðulega lík sjálfum honum“. 108 Þannig mælti hann, og vakti upp hjá þeim öllum mikla sorgarlöngun, og meðan þeir voru að gráta í kring um hinn vesla ná, birtist þeim hin rósfingraða Morgungyðja. Þá sendi Agamemnon konungur í allar búðir eftir múlum og mönnum, til að sækja við; yfir þeim var vaskur maður, Meríónes, hersveinn hins hrausta Idomeneifs. Þeir fóru og höfðu með sér bolaxir og vel snúna strengi, en múlarnir gengu á undan þeim. Þeir fóru lengi upp og ofan, sniðhallt og í króka; en er þeir komu upp á hálsa hins lækjótta Ídafjalls, þá tóku þeir til að höggva hinar hálaufguðu eikur með egglöngu eirvopni, og flýttu sér mjög; urðu dynkir miklir, er eikurnar féllu. Síðan flettu Akkear trjánum, og beittu múlunum fyrir; þrömmuðu múlarnir þá af stað, og fýsti þá mjög að komast í gegnum hina þykku runna ofan á jafnlendið. Allir þeir, er að skógarhögginu voru, báru sinn eikidrumbinn hverr; því svo hafði Meriónes lagt fyrir, sveinn hins hrausta Idomeneifs, og köstuðu þeir þeim niður á ströndina hverr að öðrum, þar er Akkilles hafði í hyggju að verpa haug mikinn handa Patróklus og sjálfum sér. En er þeir höfðu lagt niður viðinn, sem var geysimikill, um alla ströndina, þá settust þeir allir þar niður og biðu svo. En Akkilles bauð þegar hinum hergjörnu Myrmídónum að herklæðast, og hverjum að beita hestum fyrir kerru sína; en þeir brugðu við skjótt og fóru í vopn sín, stigu svo upp á vagnana, bæði hjástöðumenn og kerrusveinar; voru riddararnir fremstir, en þar kom á eftir mikill fjöldi fótgöngumanna, svo hundruðum skipti, en í miðjum flokknum var Patróklus borinn af félögum sínum; þeir höfðu skorið af sér hár sitt, köstuðu því á Patróklus, og huldu þar með allt líkið, en hinn ágæti Akkilles gekk að aftanverðu og hélt um höfuð Patróklus; hann var harmþrunginn mjög, því hann sendi þá hinn góða vin sinn til Hadesarheims. 138 En er þeir komu þangað, sem Akkilles vísaði þeim á, lögðu þeir líkið niður, og hlóðu þegar mikinn viðarköst. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles að hafðist nú annað; hann gekk frá bálinu og skar af sér hið bleika höfuðhár sitt, er hann lét vaxa fljótsguðnum Sperkíus til dýrðar; var það bæði mikið og fagurt. Hann horfði þá út á hið dimmbláa haf, og mælti í þungu skapi: „Til einskis var það, Sperkíus, að Peleifur faðir minn hét á þig, að ef eg kæmist heim aftur til míns kæra föðurlands, þá skyldi eg skera hár mitt þér til dýrðar, og fórna helgri hundraðsfórn; svo skyldi eg og skera fimm tygi óvanaðra sauða ofan í uppsprettur þínar, á þeim stað sem blótlundur þinn er og hinn ilmandi blótstalli. Þessu hét hinn gamli maður, en þú hefir ekki látið framgengt verða, það er hann ætlaðist til. Nú með því eg mun ekki aftur heim koma til míns kæra föðurlands, þá vil eg gefa kappanum Patróklus hár mitt, að hann hafi það með sér héðan“. 152 Að því mæltu lagði hann hárið í hendur vinar síns, og vakti hjá öllum harmfýsi mikla, og þar mundu þeir hafa verið að harma til sólseturs, ef Akkilles hefði ekki skjótlega gengið til Agamemnons og mælt til hans: „Þig kveð eg að þessu, Agamemnon, því hermenn Akkea munu helzt hlýða atkvæðum þínum. Af harmi má fá sig fullsaddan. Lát þú nú Akkea fara héðan frá bálinu, hvern til sín, og seg þeim að búa til náttverðar; en vér, sem helzt eigum að annast hinn dauða, skulum starfa að brennunni, og skulu líkmennirnir vera eftir hjá oss“. 161 En er Agamemnon herkonungur heyrði þetta, þá lét hann herinn þegar fara til hinna jafnbyrðu skipa, hvern til sín, en líkmennirnir voru þar eftir og hlóðu köstinn. Þeir gerðu bál hundrað fóta á hvern veg, og lögðu líkið efst upp á bálið, harmþrungnir í hjarta. Þeir flógu marga feita sauði og mörg bjúghyrnd drattandi naut hjá bálinu, og gerðu þau til. Hinn hugstóri Akkilles tók mörinn úr þeim öllum og huldi með líkið frá höfði til fóta, og hlóð þar í kring hinum flegnu kroppum; hann lagði á bálið krukkur með hunangi og smyrslum, og setti þær upp við líkbekkinn; fjórum hnarreistum hestum varp hann á bálið með miklu snarræði, og andvarpaði þungan. Konungurinn átti níu borðhunda; tvo af þeim hjó hann á háls, og kastaði á bálið, svo og tólf hraustum sonum enna hugstóru Trójumanna, og hjó þá áður með eirvopni, því hann hafði stór hermdarverk í hug. Síðan skaut hann þar í járnóðum eldi, til að vinna upp viðarköstinn. Þá hljóðaði hann upp, og kallaði á vin sinn með nafni: „Heill veri þú, Patróklus, einnig í Hadesarhíbýlum; nú skal eg enda allt, sem eg hét þér fyrrum. Eru hér nú tólf hraustir synir enna hugstóru Trójumanna, og etur nú eldur þá alla saman þér til ágætis, en eld mun eg ekki eta láta Hektor Príamsson, heldur skulu hundar eta hann“. 184 Þessu hótaði Akkilles, en ekki unnu hundar að Hektori; því Afrodíta, dóttir Seifs, varði hann fyrir hundunum nætur og daga; smurði hún hann með himnesku rósaviðsmjöri, svo hann ekki skyldi hruflast, þó Akkilles drægi hann. En Febus Appollon færði yfir hann dimmblátt ský af himni til jarðar, og huldi allt það svæði, er líkið tók yfir, svo magn sólarinnar skyldi ekki skræla holdið utan á sinum hans og limum. [Mynd: Bálför Patróklusar.] 192 Nú vildi ekki kvikna í báli hins dána Patrókluss. Þá hugsaðist hinum fóthvata, ágæta Akkilli eitt ráð: hann gekk frá kestinum, og hét á tvo vindaguði, Norðra og Vestra, og lofaði þeim fögrum blótum; hann dreypti og oft af gullnu keri, og bað þá koma, svo líkin léki sem fyrst í ljósum loga og viðurinn brynni skjótt. Hin fráa Íris heyrði bænir hans, og fór með boðskap til Vindaguðanna; sátu þeir allir saman að gildi heima hjá hinum andhvassa Vestra. Íris kom hlaupandi, og nam staðar á steinþröskuldinum. En er þeir litu hana augum, spruttu þeir allir upp, og bauð hverr þeirra henni til sín; en hún kvaðst ekki vilja sitja, og mælti: „Eg má ekki sitja, því eg ætla að fara aftur til Ókeansstrauma, til Eþíópalands; þar færa Eþíópar hundraðsfórnir hinum ódauðlegu goðum, og þar ætla eg og að sitja að blótveizlu. En Akkilles biður ykkur Norðra og hinn hvínanda Vestra að koma, og lofar ykkur fríðum blótum, til að kveikja í viðarkesti þeim, er Patróklus liggur á, sá er allir Akkear harma nú mjög“. 212 Að því mæltu fór Íris burt, en þeir Vestri þustu báðir með geysimiklum gný og ráku undan sér skýin. Brátt komust þeir út að hafinu, til að blása þar, og reis þá upp bylgja undan hinum þjótanda blæstri þeirra. Þá komu þeir til hins frjóvsama Trójulands, og steyptu sér á viðarköstinn, og þaut þá upp geysilegur eldur. Þeir blésu snjallt alla nóttina báðir saman, og skutu loganum upp úr kestinum. Hinn hvati Akkilles hélt alla nóttina á tvíkeri, jós með því vín af gullnu skaftkeri, og steypti niður, og vætti jörðina; hann kallaði um leið á vofu hins vesla Patrókluss. Svo sem faðir harmar, þá hann brennir bein sonar síns, sem dáið hefir nýkvæntur og hryggt með láti sínu hina veslu foreldra sína: svo harmaði Akkilles, þá hann brenndi bein vinar síns; hann vafraði fram með bálinu og andvarpaði ótt. 226 Um það leytið að morgunstjarnan kemur til að boða dagsljósið á jörðinni, og morgungyðjan, íklædd sóllauksmöttli, dreifir sér þar á eftir yfir hafið: í það mund rénaði bálið og loginn hvarf; fóru þá vindaguðirnir aftur heim til sín yfir hið þrakneska haf, en það drundi og æddi af ylgju. Peleifsson gekk burt frá brennunni annan veg, og lagðist niður, því hann var þreyttur, og féll skjótt yfir hann sætur svefn. Þá áttu þeir fund með sér Atreifsson og menn hans, og varð ys mikill og hark, er þeir gengu á fundinn. Við það vaknaði Akkilles; settist hann þá upp og mælti til þeirra: „Þú Atreifsson, og þér aðrir höfðingjar af alþjóð Akkea, slökkvið fyrst allan uslann, svo vítt sem eldsmagnið hefir náð yfir, með skæru víni; því næst skulum vér safna saman beinum Patrókluss Menöytssonar, og leita þeirra vandlega; er þar mjög að vísu að ganga, því hann var lagður á mitt bálið, en hitt annað var brennt yzt, hvað innan um annað, bæði menn og hestar; skulum vér leggja beinin í gullskál, og láta vera tvö mörlög um þau; þar skulu þau liggja, þar til er eg fer sjálfur inn í Hadesarheim. Eg vil láta gera haug, ekki mjög mikinn, heldur rétt mátulegan, síðan skulu þér, Akkear, sem verðið eftir við hin margþóftuðu skip eftir minn dag, gera hauginn bæði víðan og hávan“. 249 Þannig mælti hann, en þeir hlýddu hinum fóthvata Peleifssyni, slökktu fyrst uslann með skæru víni, svo vítt sem logann hafði lagt og öskuhrúgan náði, tíndu svo upp harmsfullir þau hin hvítu bein hins góða félaga síns, og létu þau í gullskál og tvöfalt lag af mör, settu svo skálina inn í búð, og breiddu smágjört línklæði yfir. Þeir afmörkuðu hauginn umhverfis, og lögðu undirstöðurnar í kring um bálið, og urpu svo hauginn. Þegar þeir höfðu orpið hauginn, ætluðu þeir burt, en Akkilles hélt fólkinu aftur og lét það setjast á einum víðum leikvelli. Þá lét hann færa verðlaunin frá skipunum; voru það katlar og þrífætingar, hestar og múlar, haussterkir uxar, fagurbeltaðar konur og gráleitt járn. 262 Fyrst ákvað hann fögur verðlaun fyrir hina skjótfæru riddara; hinum fyrsta ætlaði hann að leikslaunum konu, þá er vel var að sér í ágætum hannyrðum, og tuttugu og tveggja mæla þrífæting, eyrðan; hinum næsta ætlaði hann sex vetra gamla hryssu, ótamda, fylfulla að múlfyli; hinum þriðja fallegan ketil, er aldrei hafði á eld komið, og tók fjóra mæla, og svo fagur, sem hann átti að sér að vera; hinum fjórða tvær vættir gulls; hinum fimmta óeldborna tvískál. Þá stóð Akkilles upp, og mælti til Argverja: 272 „Þú Atreifsson, og þér aðrir fagurbrynhosaðir Akkear! Nú eru hér fram sett á leikmótinu þau sigurlaun, er ætluð eru riddurum. Nú ef vér Akkear ættum að leika öðrum manni til vegs, þá mundi eg upp taka hin fyrstu verðlaun og hafa með mér til búðar minnar; því þér vitið, hve hestar mínir eru öllum hestum betri að kostum, þar eð þeir eru goðkynjaðir; gaf Posídon þá Peleifi föður mínum, en hann aftur mér. Nú mun eg fyrir þá sök vera kyrr, og hinir einhæfðu hestar mínir, að þeir hafa nú misst hins fræga og ágæta kerrusveins, er þeim var svo góður, að hann þvoði þá margoft í hreinu vatni og steypti tæru viðsmjöri yfir fax þeim; híma þeir nú og harma hann, og lafa föx þeirra til jarðar; svo standa þeir hryggir í hjarta. Veri þá einhverr annar til af herliði Akkea, sá er vel treystir hestum sínum og kerru“. 287 Þannig mælti Peleifsson. Þá þyrptust hinir skjótfæru riddarar saman. Fyrstur allra gekk fram herkonungurinn Evmelus Admetusson; hann var allra manna reiðfimastur. Næst honum gekk fram hinn sterki Díómedes Týdeifsson, og leiddi undir ok hina tróversku hesta, þá er hann hafði eitt sinn tekið af Eneas, þegar Appollon bjargaði honum undan. Næst honum gekk fram hinn bleikhári, seifborni Menelás Atreifsson; hann leiddi fráa hesta undir ok, Rauðku Agamemnons og Sokka sinn; þá hryssu hafði Ekepólus Ankísesson gefið Agamemnoni að gjöf, til þess að hann þyrfti ekki að fara með honum til hinnar veðurnæmu Ilíonsborgar, heldur mætti vera kyrr heima og skemmta sér þar; bjó Ekepólus í enni landvíðu Sikýonsborg, og hafði Seifur veitt honum auð fjár; þá hryssu leiddi Menelás nú undir ok, og var hún mjög fús til veðhlaupsins. Antílokkus var hinn fjórði er bjó hina faxprúðu hesta sína, hinn frægi sonur Nestors, hins göfuglynda konungs, Neleifssonar. Kerru Antílokkusar drógu fótfráir hestar pýlverskir. Faðir hans gekk til hans og lagði honum góð ráð, gætinn faðir greindum syni: 306 „Þó þú sért allungur, Antílokkus, þá hafa þeir þó unnt þér, Seifur og Posídon, og kennt þér alls konar kerruleikfimni, og er því ekki stór þörf að fræða þig í þeirri mennt. Þú kannt að hverfa hestunum í kring um marksúluna. En hestar þínir eru helzt til seinir á skeiði, og uggir mig, að þú munir illt af því hljóta. Hinir hafa að vísu skjótari hesta, en ekki kunna þeir fleiri leikbrögð, en þú. Heyr nú, vinur, lát þér til hugar koma alls konar vélfimni, svo þú farir ekki á mis við sigurlaunin. Meiru orkar skógarhöggsmaður með ráðum, en afli; með ráðum stýrir skipstjórnarmaður enu örskreiða skipi, þegar það hrekst af vindum úti á hinu dimmbláa hafi, og með ráðum sigrar kerrustýrir kerrustýri. Sá sem að eins treystir hestum sínum og kerru sinni, hann kringsólar hér og hvar ráðlauslega úti á víðum vangi, hestar hans villast á skeiðvellinum, og hann ræður ekki við þá. En hinn, sem sér hag sinn, enn þótt hann aki lakari hestum, hann hefir alla jafna augun á marksúlunni, stefnir nálægt henni, og man eftir því fyrst og fremst, að halda hestunum á fullu skeiði með ólarsvipunum; hann heldur alltaf stöðugt rásinni, og hefir gát á þeim, sem á undan honum er. Nú skal eg skilmerkilega lýsa fyrir þér marksúlunni, og muntu þá ekki villast á henni. Upp af jörðinni stendur þurrt tré, svo sem faðmslangt; það er annaðhvort eikitré eða tyrvitré, og fúnar það ekki, þó vætur séu. Sínu hvoru megin trésins eru settir niður tveir steinar á renniskeiðsbugnum, og er sléttur skeiðvöllur þar til beggja handa. Er tré þetta annaðhvort líksúla yfir leiði einhvers manns, sem fyrir löngu er dáinn, eða það er marksúla, sem fornmenn hafa reist þar, og nú hefir hinn fóthvati, ágæti Akkilles gert tréð að skeiðmarki. Þú skalt halda sem næst trénu, og aka kerrunni og hestunum rétt þar hjá, en sjálfur skaltú halla þér lítt það í hinum fagurriðna kerrustól til vinstri hliðar við hestana; skaltú þá keyra á hægra hestinn og hotta á hann, og slaka við hann í hendi þér á taumunum, en vinstri hestur þinn skal sneiða svo nærri marksúlunni, að þér sýnist, sem hjólnöfin strjúkist með súluröndinni, en varastu að koma við steininn, svo þú meiðir ekki hestana og brjótir kerruna; munu hinir hafa gaman af því, en þú sjálfur svívirðingu; far heldur, sonur, varlega og gætilega. Því ef þú kemst á skeiðinu fram um við marksúluna, þá mun engi, sem á eftir hleypir, fá náð eða komizt fram hjá þér, og ekki þó hann hleypti eftir þér hinum goðkynjaða Aríon, þeim hinum fráa hesti Adrastusar, er kyn sitt átti að rekja til goðanna, eða hinum ágætu hestum Laómedons, sem hér hafa alizt upp“. 349 Að því mæltu settist Nestor Neleifsson aftur á sinn stað, þá er hann hafði sagt syni sínum allt það, sem mest á reið. 351 Meríónes var hinn fimmti, er bjó hina faxprúðu hesta sína til hlaups. Þeir stigu nú upp í kerrustólana, og köstuðu hlutum; hristi Akkilles hlutina, og stökk upp hlutur Antílokkuss Nestorssonar; næst honum hlaut Evmelus konungur; þar næst hinn spjótfrægi Menelás Atreifsson; þar næst hlaut Meríónes, og síðast Týdeifsson, sem var langhraustastur þeirra allra. Nú stóðu þeir allir í röð, hverr út frá öðrum, en Akkilles vísaði þeim á, hvar skeiðmörkin voru, langt úti á hinum slétta velli; setti hann til gæzlumanns hinn goðumlíka Fenix, hersvein föður síns; skyldi hann hafa gætur á veðhlaupinu og segja þar satt frá. 362 Nú hófu þeir allir jafnsnemma svipurnar á loft uppi yfir hestunum, slógu á þá snöggt með ólunum, og kölluðu að þeim með orðum; bar þá skjótt yfir völlinn upp frá skipunum; stóð rykmokkurinn, sem reis undan brjóstum þeirra, sem ský eða hvirfilbylur, en föxin flöksuðust í vindstrokunni. Kerrurnar flugu ýmist ofan að hinni margfrjóvu jörð, ýmist gönuðu þær hátt í loft upp; en ökumennirnir stóðu uppi í kerrustólunum; barðist hjarta í brjósti hverjum þeirra, því allir vildu sigurinn hafa; eggjaði hverr sína hesta, en þeir flugu í einum rykmokk yfir völlinn. 373 En er hinir fráu hestar voru á síðasta hluta skeiðsins og runnu aftur fram að hinum gráa sæ, þá sást bezt atgjörvi hvers hests fyrir sig, því þá þreyttu þeir skeiðið í sífellu. Þá bar hinar fótfráu hryssur Feresniðja skjótt fram frá hinum. Á eftir þeim runnu hinir tróversku graðhestar, er Díómedes átti, og var allskammt milli þeirra og Evmelushrossa; því svo sýndist, sem graðhestarnir mundu ætla að stökkva upp á kerrustólinn, og varð bak Evmelusar og hinar breiðu herðar hans varmar af blæstri hestanna, því þeir lágu ofan á honum með höfuðin, þá er þeir flugu áfram, og nú hefði Týdeifssonur annaðhvort komizt fram hjá Evmelusi, eða þá gert tvísýnt um sigurinn, ef Febus Appollon hefði ekki haft hatur á Týdeifssyni, og skaut hinni fögru svipu úr hendi hans. Díómedes varð reiður, svo að tárin streymdu af augum hans, er hann sá, að hryssurnar hlupu þá miklu harðara en áður, en að hans hestar seinkuðu sér, er þeir runnu keyrislaust. Aþena varð þess brátt vör, að Appollon hafði gert Týdeifssyni óleik, og hljóp hún því mjög skjótt eftir þjóðhöfðingjanum, fékk honum svipuna aftur, og kom fjöri í hesta hans. Síðan fór gyðjan í heiftarhug eftir Admetussyni, og braut í sundur okið fyrir honum; hlupu hryssurnar þá afleiðis, og kerrustöngin rakst niður í jörðina, en hann valt sjálfur úr kerrustólnum ofan með hjólinu, og hruflaðist á olnbogum, munni og nefi, en ennið fyrir ofan brýrnar rispaðist; fylltust þá augu hans með tárum, og þá komst ekki upp sú hin rómfulla rödd hans. Týdeifsson hélt nú hinum einhæfðu hestum sínum fram hjá honum, og var nú kominn langt á undan öllum hinum, því Aþena kom fjöri í hesta hans og veitti honum sjálfum sigur, en næstur honum var hinn bleikhári Menelás Atreifsson. Þá hét Antílokkus á hesta föður síns: „Haldið á skeiðinu, og rennið báðir sem hvatlegast. Ekki bið eg ykkur að keppa við hesta hins herkæna Týdeifssonar, sem fremstir eru, því Aþena hefir nú veitt þeim fráleik og unnt honum sjálfum sigurs. En náið í flughasti hestum Atreifssonar, og verðið ekki seinni. Látið ekki Rauðku, merina, gera ykkur skömm til. Hví eruð þið á eftir, gæðingarnir? Það segi eg ykkur fyrir satt, og það skal framgengt verða: þið skuluð enga hjúkrun fá hjá þjóðhöfðingjanum Nestori, heldur mun hann þegar drepa ykkur með hvössu eirvopni, ef við af skeytingarleysi hreppum óæðri verðlaunin. Heyrið, verið nú samtaka, og skundið sem hvatlegast, en eg skal hafa brögð við, og sjá til að smokka mér fram hjá honum á þrönga veginum, og skal hann ekki komast þar fram, svo eg viti ekki af“. 417 Svo mælti hann, en hestarnir óttuðust heitingar konungsins, og runnu fram harðara nokkura stund. En brátt þar eftir sá hinn vígglaði Antílokkus, hvar var þröngur vegur djúpur; það var gróf nokkur; hafði vetrarvatnið safnazt þar saman og brotið af þjóðbrautina og dýpkað allan jarðveginn. Menelás ók í þessa gróf, til þess aðrir ræki sig ekki á hann. En Antílokkus ók hinum einhæfðu hestum til hliðar út af veginum, fór í svig við hann, skammt frá honum, og sókti fast áfram. Þá varð Atreifsson hræddur, og kallaði, svo Antílokkus heyrði: „Þú ekur ógætilega, Antílokkus; haltu við hestana, því vegurinn er þröngur; þú getur bráðum ekið fram hjá mér, þar sem vegurinn er breiðari; eg er hræddur um, að þú lendir á kerru minni og verðir okkur báðum að skaða“. 429 Þannig mælti Menelás, en Antílokkus lét sem hann heyrði ekki, og ók miklu harðara en áður, og keyrði á með svipunni. Svo langt sem leiktafla flýgur, þegar ungur kappi, sem reynir æskumagn sitt, reiðir hana yfir öxl sér og kastar henni, svo langt hlupu hestarnir fram fyrir, en hestar Atreifssonar drógust aftur undan, því Menelás gerði það með vilja, að keyra hestana lint, til þess hinum einhæfðu hestum lenti ekki saman í grófinni, og velti um hinum fagurriðnu kerrustólum, og félli þeir svo sjálfir til jarðar af sigurkappinu. Hinn bleikhári Menelás hrakti hann í orðum, og mælti til hans: „Engi maður er illskiptnari en þú, Antílokkus. Snáfaðu burt. Þá sögðum vér ósatt, Akkear, er vér kölluðum þig vitran mann. En allt fyrir það skaltu ekki svardagalaust komast að sigurlaununum“. 442 Að því mæltu hét hann á hesta sína, og mælti; „Gerið það fyrir mig, verið ekki svo latir, standið ekki svo hugdaprir. Hestarnir þarna munu fyrr lýjast í fótum og knjám, en þið, því þá skortir æskufjör hvorn tveggja“. 446 Svo mælti Menelás, en hestarnir hræddust nokkuð svo átölur konungsins, og runnu enn harðara, og drógu skjótt eftir hinum. 448 Argverjar sátu á leikmótinu og horfðu á hestana, er þá flugu í einum rykmokk eftir vellinum. Idomeneifur, foringi Kríteyinga, kom fyrstur auga á hestana, því hann sat fyrir utan leikmótið, hæst allra, á einum víðsýnum hól. Hann heyrði nú til eins, sem hottaði hátt, og þekkti hann, þó hinn væri langt frá honum; kom hann auga á einn allreisulegan hest, er á undan rann; hann hafði hvítan blett í enni, kringlóttan, sem mána, en allannarstaðar var hesturinn dumbrauður. Idomeneifur stóð þá upp, og mælti til Argverja: „Kærir vinir, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja, kem eg einn auga á hestana, eða sjáið þér þá og? Mér sýnast nú aðrir hestar vera á undan, og svo virðist mér, sem kerrusveinninn sé annar; en hryssunum, sem voru fljótastar upp eftir, mun eitthvert slys hafa viljað til á vellinum, því eg sá þær fyrst hlaupa í kring um marksúluna, en nú get eg hvergi séð þær, þó augu mín hvarfli um kring og horfi um allan Trójuvöll. Eða þá taumarnir hafa skroppið úr höndum kerrusveinsins, svo hann hefir ekki getað stýrt hestunum kringum marksúluna, og hefir því mistekizt kringsólið; hygg eg hann þá hafa dottið út og brotið kerruna í sundur; hefir þá komið ofboð á hryssurnar, og hafa þær þá hlaupið í gönur. Heyrið, standið nú upp og lítið á. Eg sé það ekki glöggt, en þó sýnist mér maðurinn vera hinn sterki Díómedes, sonur hins reiðfima Týdeifs, etólskur að kyni, sem nú er konungur yfir Argverjum“. 473 Hinn skjóti Ajant Öyleifsson atyrti hann nú með smánarorðum: „Hví fleiprar þú svo of snemma, Idomeneifur? Hinar háfetuðu hryssur eru þarna langt upp frá, og hlaupa eftir hinum víða velli. Hvorki er, að þú sért svo miklu yngstur allra Argverja, né heldur að þú hafir skarpskyggnari augu í höfði þér, en allir aðrir. Nei, þú ert jafnan vanur að vera kjaftfor. Ekki er vert fyrir þig að vera svo orðhvatur, því hér eru aðrir viðstaddir, sem betur sjá, en þú. En þetta eru hryssur Evmelusar, og eru þær enn fremstar, svo sem þær voru áður; en hann stendur sjálfur á kerrunni, og heldur um ólarnar“. 482 Foringi Krítarmanna varð reiður, og svaraði honum: „Bæði er, Ajant, að þú ert mesti orðhákur, og þó illgjarn, enda skortir þig allt annað við Argverja, því þú ert óvægur í geði. Komdu nú til, við skulum veðja annaðhvort um þrífæting eða ketil, og taka báðir Agamemnon Atreifsson til gjörðarmanns um það, hverr fremstu hrossin eigi, svo þú kannist við það, þegar þú fer að bæta fyrir þig“. 488 Svo mælti Idomeneifur, en hinn skjóti Ajant Öyleifsson reiddist, er hann svaraði illu um, og reis upp þegar. Og nú hefði hvortveggi haldið lengra fram deilunni, ef Akkilles hefði ekki staðið upp sjálfur og tekið til orða: „Skiptizt nú ekki lengur við illum reiðimálum, þið Ajant og Idomeneifur. Slíkt sæmir ekki. Þið munduð lá öðrum, ef hann gerði annað eins. Heyrið, setjizt nú á leikmótið og horfið á hestana. Þeir, sem um sigurinn keppa, munu bráðum koma hér, og þá fær hvorr ykkar að vita, hverjir af hestum Argverjum eru á eftir, og hverjir á undan“. 499 Þannig mælti Akkilles. Þá var Týdeifsson kominn rétt að þeim. Hann ók hart, og keyrði alltaf upp á með svipunni, reiddri yfir öxl sér, en hestarnir reistu sig hátt upp, og bar þá skjótt yfir. Moldrokurnar gengu alltaf yfir kerrusveininn, en kerrurnar, búnar gulli og tini, runnu eftir hinum fótfráu hestum, og lítið sást votta fyrir förum eftir hjólrendurnar að aftanverðu í lausri moldinni, en hestarnir flýttu sér og flugu áfram. Díómedes nam nú staðar á leikmótinu, vall þá mikill sviti niður af hestunum, bæði af hálsum þeirra og brjóstum. Diómedes stökk ofan úr hinum ljómanda kerrustól, og reisti svipuna upp við okið. Hinn hrausti Stenelus var ekki seinn til, hann tók skjótlega sigurlaunin, og fékk hinum hugdjörfu félögum sínum konuna og hinn eyrða þrífæting að fara burt með; síðan beitti hann hestunum frá. 514 Næstur honum ók Antílokkus, niðji Neleifs, sinni kerru; hann hafði komizt fram fyrir Menelás með brögðum, en ekki með fráleik. Ei að síður hélt Menelás hinum fráu hestum sínum eftir honum. Svo langt sem hestur stendur frá hjólinu, sá er dregur á harða hlaupi eigandann á kerru sinni yfir völlinn; leika þá yztu broddarnir af tagli hestsins við hjólrendurnar, en hjólið rennur mjög nálægt, og er ekki langt bil milli þess og hestsins, sem skeiðar eftir víðum vellinum: ekki var Menelás þá lengra á eftir hinum ágæta Antílokkus, en í fyrstu var hann allt að töfluskoti á eftir; en hann dró fljótt eftir, því hið ágæta fjör hinnar faxprúðu Rauðku, merar Agamemnons, fór alltaf vaxandi; og ef báðir hefðu haldið lengra fram skeiðinu, þá hefði Menelás ekið fram hjá honum og tekið af öll tvímæli. Meriónes, hinn vaski hersveinn Idomeneifs, varð spjótsnari á eftir hinum víðfræga Menelási; því hinir faxprúðu hestar hans voru seinfærastir, en hann sjálfur óharðskeyttur að aka kerru í kappreiðum. Admetusson kom langsíðast allra; hann dró hina fögru kerru, en rak hrossin á undan sér. En er hinn fóthvati, ágæti Akkilles sá hann, kenndi hann í brjósti um hann; gekk hann þá fram fyrir Argverja, og mælti skjótum orðum: „Þar kemur hraustasti maðurinn, og er seinastur, og rekur hina einhæfðu hesta. Heyrið, gefum honum önnur verðlaunin, því það er sanngjarnt; en Týdeifssonur skal öðlast hin fyrstu“. 539 Svo mælti hann, en allir tóku vel undir það, sem hann mælti til. Og nú hefði hann gefið honum hryssuna, með því Akkear voru því samþykkir, ef Antílokkus, sonur hins hugstóra Nestors, hefði ekki risið upp og svarað Akkilli Peleifssyni með réttu: „Mjög mun eg reiðast þér, Akkilles, ef þú fer því fram, sem nú mæltir þú, þar er þú ætlar að taka frá mér verðlaunin, fyrir þá sök að slysið henti kerru hans og hina fljótu hesta, svo og sjálfan hann, þó hann sé hraustur maður. En hann hefði átt að heita á hina ódauðlegu guði; þá hefði hann ekki orðið síðastur allra á skeiðinu. Nú ef þú kennir í brjósti um hann, og sé hann þér ástkær, þá áttú í búð þinni nóg af gulli og eiri og sauðfé, svo og ambáttir, og einhæfða hesta. Tak þú eitthvað af þessu, og gef honum síðar, enda þó meiru nemi, en verðlaunin, eður og gef þú nú þegar, svo Akkear unni þér lofs fyrir. En hryssuna læt eg ekki. Komi hverr, sem vill berjast við mig um hana, og reyni sig“. 555 Svo mælti hann, en hinn fóthvati, ágæti Akkilles brosti þá, og þókti vænt um Antílokkus, því hann var vinur hans og kær honum; hann svaraði honum nú skjótum orðum og mælti: „Með því þú ræður mér, Antílokkus, að gefa Evmelus önnur verðlaun frá sjálfum mér, þá skal eg nú gera það. Eg skal gefa honum brynju þá, er eg tók af Asteropeus; hún er af eiri, og steypt um hana utan fögru tini, og mun honum góður gripur í þykja“. 563 Að því mæltu bað hann Átómedon, hinn kæra félaga sinn, að sækja brynjuna til búðarinnar, en hann fór og færði honum hana. 566 Nú stóð Menelás upp á meðal þeirra; honum var sárt í hug, og ákaflega reiður Antílokkusi. Kallari lét sprota koma í hendur honum, og bað Argverja þegja. Síðan mælti hinn goðumlíki kappi: 570 „Þú Antílokkus, sem áður varst vitur maður, en að þú skulir hafa gert slíkt! Þú hefir smánað atgjörvi mína, og tafið fyrir hestum mínum, með því þú hleyptir þínum hestum fram fyrir, og voru þó þínir hestar miklu verri, en mínir. Heyrið nú, þér fyrirliðar og höfðingjar Argverja, dæmið nú eftir málavöxtum meðal hvors tveggja okkar, en hvorugum í vil, að aldrei segi neinn af hinum eirbrynjuðu Akkeum: Menelás beitti Antílokkus vélum og tók frá honum hryssuna, af því hestar hans voru miklu verri, en hann sjálfur voldugri og aflameiri. En eg skal nú sjálfur leggja úrskurðinn á, og vona eg, að engi Danáa álasi mér fyrir það, því úrskurðurinn skal vera réttur. Ger svo vel, seifborni Antílokkus, kom hingað, svo sem siður er til, statt fyrir framan hestana og kerruna, og halt í hendi þér á hinni mjóu svipuól, er þú keyrðir með áður, legg svo hönd þína á hestana, og sver við hinn jarðkringjanda Landaskelfi, að þú hafir ekki viljandi hindrað kerru mína“. 586 Hinn vitri Antílokkus svaraði honum: „Vertu nú góður, því eg em miklu yngri, en þú, Menelás konungur, en þú eldri og framar en eg. Þú veizt, hversu ungum manni er títt að yfirsjást, því hugur hans er fljótfær og ráðdeildin lítil. Vert því þolinmóður. Eg vil gjarna gefa þér hryssu þá, er eg vann til; og þó þú vildir að auki heimta annað meira úr sjálfs míns eigu, þá vil eg heldur gefa þér það þegar í stað, heldur en að missa hylli þína, seifborni konungur, og verða brotlegur við guðina“. 596 Að því mæltu tók sonur ens hugstóra Nestors hryssuna og seldi í hendur Menelási; þá varð glatt hjarta hans, svo sem dögg á axi á þroskuðu korni, þegar akrarnir standa fullsprottnir; svo varð glatt hjartað í brjósti þínu, Menelás. Hann mælti þá til hans skjótum orðum: „Nú vil eg gjarna láta til við þig, Antílokkus, þó mér áður þækti fyrir; því þú hefir ekki verið áður kviklyndur eða léttúðugur, þó bernskan sigraði nú vit þitt. En varast skaltu það hér eftir, að gabba þér meiri menn. Ekki mundi auðveldlega nokkur annar af Akkeum hafa talið mér hughvarf nú; en þú hefir margt þolað og margar þrautir haft mín vegna, og svo bæði hinn góði faðir þinn og bróðir þinn. Þess vegna vil eg víkjast vel undir, er þú fer bónarveg að mér, og vil eg gefa þér hryssuna, enn þótt hún sé mín, svo þeir, sem hér eru viðstaddir, komist að raun um, að hugur minn er aldrei ofstopafullur eða óvæginn“. 612 Þá hann hafði þetta mælt, fékk hann Nóemoni, félaga Antílokkusar, hestinn, til að fara með hann, en tók sjálfur hinn ljómanda ketil. Meríónes, sem var hinn fjórði í kerruleiknum, fékk tvær vættir gulls. Þá voru eftir fimmtu sigurlaunin; það var tvískálin; hana gaf Akkilles Nestori; bar hann hana fram á leikmóti Argverja, gekk til Nestors og mælti: „Tak nú við, gamli maður, þetta skal vera þér menjagripur, í minningu bálfarar Patrókluss, því ekki muntu framar sjá hann með Argverjum. En þessi sigurlaun gef eg þér utanleiks, því hvorki muntú nú leika hnefleik, eða glíma, eða ganga í spjótaleik, eða hlaupa skeið, því nú beygir þig hin þungbæra elli“. 624 Að því mæltu fékk hann honum skálina, en Nestor tók glaður við, og mælti til hans skjótum orðum: „Víst er allt þetta satt, sem þú segir, sonur. Nú eru fætur Hrólfs farnar, vinur, og hendur mínar leika nú ekki eins fimlega og áður beggja megin axlanna. Eg vildi óska, að eg væri nú í þeim blóma aldurs, og afl mitt væri svo óbilugt, sem það var, í þann tíð að Epear gerðu útför Amarynkeifs konungs í Búprasíonsborg, og konungssynir settu fram verðlaunin. Þá var engi maður jafnoki minn, hvorki af Epeum, né sjálfum Pýlverjum, né af hinum hugstóru Etólum. Eg sigraði Klýtómedes Enópsson í hnefaleik; og felldi Ankeus frá Plevronsborg, sem gekk til móts við mig í glímu; eg hljóp fram hjá Ifíklus á skeiði, og var hann þó hraustur maður; eg skaut spjóti lengra, en báðir þeir Fýleifur og Polýdórus. Aktorssynir voru þeir einu, er óku fram hjá mér í kerruleik; neyttu þeir þess, að þeir voru fleiri, en unnu mér ekki sigursins, því þá voru þar enn eftir stærstu verðlaunin, en þeir voru tvíburar; hafði annar ávallt taumhaldið og stýrði kerrunni, en hinn keyrði á með svipunni. Svona var eg fyrr meir, en nú er bezt, að hinir yngri menn leiki þess konar íþróttir; mér er nú bezt að una mér við elli mína, þó eg fyrrum væri mestu köppum meiri. En þú far og heiðra útför vinar þíns með kappleikum. En gjöf þessa vil eg gjarna þiggja, og gleðst hjarta mitt af því, að þú manst til mín, vinar þíns, og að þér er ekki úr minni liðið, hvern sóma eg á skilinn af Akkeum, og gjaldi guðirnir þér góða þökk fyrir þetta“. [Mynd: Hnefaleikamenn.] 651 Þannig mælti Nestor, En er Peleifsson hafði hlýtt öllum lofsorðum Neleifssonar, gekk hann um mannsöfnuð Akkea, og kvað á verðlaun í hættulegum hnefaleik. Hann leiddi eftir sér þolinn múlasna, sex vetra gamlan, ótaminn, og batt hann á leikmótinu; var sá múll einhver hin torveldasta skepna til tamningar. Þeim, sem sigraður yrði, ætlaði hann eitt tvíker til launa. Hann stóð nú uppréttur, og mælti í viðurvist Argverja: „Þú Atreifsson, og þér aðrir fagurbrynhosaðir Akkear, nú bjóðum vér einhverjum tveimur mönnum, þeim er færastir eru, að leika aleflis-hnefleik. Þeim sem Appollon veitir afburð og allir Akkear verða ásáttir um, sá skal fá í laun hinn þolna múlasna, og hafa hann heim með sér til búðar sinnar; en sá, er sigraður verður, skal fá tvíker“. 664 Þannig mælti hann; reis þá upp Epeus Panopeifsson, mikill maður og hraustur, og alvanur hnefaleik. Hann fór höndum um hinn þolna múlasna, og mælti: „Gangi sá nær, sem vill öðlast tvíkerið, því það ætla eg, að engi af Akkeum, nema eg, hreppi múlasnann að sigurlaunum í hnefaleik, þar eð eg hrósa mér af því, að eg em maður færastur í þeim leik. Er það ekki nóg, að mig skortir vígkænsku við aðra? Engi maður getur kunnað allar íþróttir. En það segi eg óskorað, og það skal sannast, að eg skal merja í sundur allt holdið og brjóta í sundur beinin. Bezt er, að leikmenn þeir, er hér eru, séu hér eftir allir saman, svo þeir geti borið manninn til moldar, þegar hann er hniginn fyrir mér“. 676 Þannig mælti hann; en allir þögðu og létu hljótt um sig. Engi varð til að ganga fram móti honum, nema hinn goðumjafni kappi Evrýalus Mekisteifsson konungs Talajonssonar; sá Mekisteifur kom til Þebu forðum í erfi eftir hinn fallna Öydípus, og þá bar hann sigur af öllum Kadmeumönnum. Hinn spjótfrægi Týdeifsson bjó hann til leiksins, hughreysti hann með orðum, og óskaði mjög, að hann ynni sigur. Fyrst lagði hann hjá honum sveipu, og þar næst fékk hann honum vel sniðin ólarbönd af nautsleðri. En er þeir höfðu gyrt sig báðir, gengu þeir fram á leikmótið. Þeir hófu sig upp báðir undir eins til höggs og höfðu á lofti hinar þreknu hendur sínar, greiddu svo höggin, og fóru þá saman á víxl hinar þungu hendurnar, en marraði hræðilega í kinnbeinunum, og svitinn flaut af öllum limunum. Þá reis upp hinn ágæti Epeus, og laust Evrýalus á vangann, þegar hann var að skyggnast um eftir höggfæri. Stóð Evrýalus þá ekki lengi uppi eftir það, því hinir glæsilegu knjáliðir hans kiknuðu niður. Svo sem fiskur stökkur upp undan norðangráðinu við þarafulla strönd, og stingur sér svo djúpt niður í einhvern stórsjóinn: svo stökk Evrýalus upp við höggið. Hinn hugstóri Epeus tók þá til hans og reisti hann upp, en hinir kæru félagar hans skipuðu sér umhverfis um hann, og leiddu hann yfir leikmótið; drógust þá eftir honum fæturnir, en hann spýtti þykku blóði, og höfuðið hékk út á aðra hliðina. Þeir, sem leiddu hann, settu hann svo á milli sín; vissi hann þá ekki af sér. Þeir hinir sömu báru og með sér tvíkerið. 700 Brátt þar eftir á kvað Peleifsson hin þriðju verðlaun í erfiðum glímuleik, og sýndi Danáum verðlaunin. Þeim, er sigraði, ætlaði hann stóran þrífæting eldneytan; virðu Akkear hann fyrir tólf uxalög; en þeim, er sigraður yrði, ánefndi hann ambátt eina; hún kunni margs kyns hannyrðir, og virtu þeir hana fjögur uxalög. Akkilles stóð uppréttur, og mælti til Argverja á mótinu: „Gangið fram þér, er freista viljið þessa leiks“. Þannig mælti hann. Þá reis upp hinn mikli Ajant Telamonsson; þá stóð og upp hinn fjölráði Odysseifur; hann kunni mörg brögð. Þá er þeir höfðu gyrt sig báðir, gengu þeir fram á mitt leikmótið. Þeir tóku örmum hvorr um annan með sterkum átökum, svo sem sperrur tvær í hávu húsi, þær er góður húsasmiður hefir skeytt saman, til að aftra ofbeldi vindanna. Brakaði í bökum þeirra af hinum óþyrmilegu átökum, þegar þeir gerðu stóru rykkina; bogaði þá af þeim rennandi svitinn, og hlupu upp margir blóðrauðir þrimlar á síðunum og herðunum, en þeir kepptust einlægt eftir sigrinum, til að öðlast hinn velsmíðaða þrífæting. En hvorki gat Odysseifur fellt Ajant og slengt honum til jarðar, né heldur gat Ajant það, því hinn sterki Odysseifur stóð fast í móti. Nú sem hinum fagurbrynhosuðu Akkeum leiddist þóf þeirra, mælti hinn mikli Ajant Telamonsson við Odysseif: „Seifborni Laertesson, margbrögðótti Odysseifur, gerðú annaðhvort, að þú lyft mér upp, eða eg skal taka þig á loft, en Seifur mun ráða því öllu“. 725 Þá hann hafði þetta sagt, reyndi hann til að lyfta honum, en Odysseifur tók til sinna bragða, og laust aftan í knésbótina; varð Ajant þá laus á fótum og féll á bak aftur, og Odysseifur á brjóst honum ofan. Sá þetta allur lýður, og undraðist stórum. Því næst reyndi hinn þrautgóði ágæti Odysseifur að lyfta Ajanti, og gat hreyft hann lítið eitt frá jörðu, en ekki tekið hann á loft; þá kiknaði Odysseifur í knjám, og féllu þeir þá báðir til jarðar hvorr hjá öðrum, og urðu allir moldugir. Og nú mundu þeir hafa sprottið á fætur aftur og glímt í þriðja sinni, ef Akkilles hefði ekki staðið upp sjálfur og aftrað þeim: „Streitizt ekki lengur (kvað hann), og mæðið ykkur ekki á harðleikum þessum. Þið hafið báðir unnið sigurinn; takið nú jöfn verðlaun, og farið svo burt, svo aðrir Akkear nái og að leika“. 738 Svo mælti hann, en þeir hlýddu honum, og gerðu, sem hann bauð; struku þeir þá rykið af sér, og fóru í kyrtla sína. 740 Nú til tók Peleifsson enn ein verðlaun fyrir skjótfæri; það var skaftker af silfri, vel smíðað; það tók sex mæla, og sigraði við fegurð sína langt öll önnur í öllum löndum, því hinir fjölhögu Sídonsmenn höfðu gert það og vandað mjög, en feniskir menn fluttu það yfir hið dimma haf; þeir lentu í höfnum, og gáfu Þóanti skaftkerið að gjöf, en Evneus Jasonsson galt það kappanum Patróklus í verðkaup fyrir Lýkáon Príamsson. Þetta skaftker setti Akkilles fram í leikunum eftir vin sinn, til sigurlauna handa þeim, er léttastur væri á skeiði og fóthvatastur. Hinum næsta ætlaði hann til launa uxa einn, mikinn og vel mörvaðan, en þeim, er seinastur væri, hálfvætt gulls. Akkilles stóð uppréttur, og mælti meðal Argverja: „Gangið fram, þér er freista viljið þessa leiks“. Svo mælti hann. Þá reis þegar upp hinn skjóti Ajant Öyleifsson, þar næst hinn fjölráði Odysseifur, þá Antílokkus Nestorsson, því hann var léttastur á fæti allra ungra manna. Þeir tóku á rás frá hlaupstíunni, hljóp Öyleifsson skjótt fram, og allnærri honum rann hinn ágæti Odysseifur. Svo sem vinduteinn er nálægt brjósti fagurbeltaðrar konu, sem er að draga fyrirvaf í gegnum uppistöðu, og lætur konan beinan teininn leika mjög laglega í höndum sér og heldur honum nálægt brjósti sínu: svo rann Odysseifur nálægt Ajanti, og steig jafnan í spor Ajants að baki honum, áður en rykið náði að dreifast yfir sporin; hljóp hinn ágæti Odysseifur einlægt í loftinu, og lagði andgufuna út úr honum á höfuð Ajants. Þá kölluðu allir Akkear að honum, er hann sókti svo fast sigurinn, og báðu hann herða sig, og flýtti hann sér þó allákaft. En er þeir voru síðast á skeiðinu, þá hét Odysseifur í huga sér á hina glóeygu Aþenu: „Heyr, gyðja, vertu góð aðstoð fóta minna“. Svo mælti hann biðjandi; heyrði Pallas Aþena bæn hans, og gerði liðuga limu hans, bæði hendur og fætur. En er rétt var að því komið, að þeir mundu fleygja sér ofan yfir leikféð, þá skriðnaði Ajant á skeiðinu, því Aþena hefti för hans; hafði þar verið hleypt gorinu úr hinum hábeljandi uxum, þeim er hinn fóthvati Akkilles hafði höggva látið að bálför Patróklusar. Fylltist þá munnur og nasir Ajants af uxagorinu. Nú varð því hinn þrautgóði Odysseifur skjótari, og þegar er hann kom, greip hann skaftkerið, en hinn prúði Ajant tók uxann; hann hélt um horn uxans og hrækti út úr sér gorinu; síðan mælti hann í áheyrn Argverja: „Mikil skelfing, sannlega hefir nú hamlað för minni sú gyðja, er ávallt stendur Odysseifi til annarrar handar, sem móðir, og hjálpar honum“. [Mynd: Hlauparar.] 784 Svo mælti hann, en þeir hlógu allir dátt að honum. Antílokkus bar brosandi burt síðustu verðlaunin; og tók til orða meðal Argverja: „Eg ætla nú að segja yður, það sem þér allir vitið, að hinir ódauðlegu guðir heiðra enn nú hina eldri menn. Því Ajant er litlu eldri en eg, en Odysseifur er bæði eldri og af eldri mönnum kominn; segja menn hann vera gamlan mann, og þó enn hinn röskvasta, og mun flestum Akkeum, nema Akkilli, torvelt veita að þreyta skjótfæri hans“. 793 Þessi lofsorð talaði hann til hins fóthvata Peleifssonar. En Akkilles svaraði honum og mælti: „Ekki skaltu þessi lofsorð til einskis mælt hafa, því eg skal bæta við einni hálfvætt gulls til“. 797 Að því mæltu seldi hann gullið í hendur honum, en Antílokkus tók glaður á móti. 799 Peleifsson lagði nú fram á leikmótinu langskeft spjót, og þar með skjöld og hjálm; það voru vopn Sarpedons, þau er Patróklus hafði tekið af honum. Hann stóð uppréttur og tók til orða meðal Argverja: „Nú bjóðum vér einhverjum tveimur mönnum, þeim er færastir eru, að herklæðast og taka í hönd sér bitvænleg eirvopn, og berjast svo til þessara gripa, sem hér eru, og reyna sig hvorr við annan hér á mótinu. Hvorr sem fyrr kemur lagi á annan, svo að gangi í gegnum herklæðin, og gerir skinnsprett, svo að blóðvaka verði, þeim skal eg gefa þetta þrakneska sverð, er eg tók af Asteropeus; það er fagurt sverð og silfurneglt. En vopn þessi skulu vera sameign beggja þeirra, og svo skulum vér halda þeim góða veizlu í búðum vorum“. 811 Þannig mælti hann. Þá risu þeir upp, hinn mikli Ajant Telamonsson, og hinn sterki Díómedes Týdeifsson. En er þeir höfðu herklæðzt, sín hvoru megin á mótinu, þá gengu þeir báðir fram hvorr móti öðrum; var á þeim mikill vígahugur og augnaráð þeirra ógurlegt, svo allir Akkear urðu forviða. En er þeir áttu skammt ófarið hvorr til annars, þá hlupust þeir þrisvar á, og réðust þrem sinnum hvorr á annan. Þá lagði Ajant spjóti í hinn hringlagða skjöld, og nam spjótið ekki hörundið, því brynjan hélt við að innan. En Týdeifsson sætti jafnan lags með hinum fagra spjótsoddi á háls Ajants fyrir ofan skjöldinn. Urðu Akkear þá mjög hræddir um Ajant, báðu þá hætta og taka leikféð að jafnaði. En Akkilles sókti hið stóra sverð og gaf Týdeifssyni það með umgjörð og vel sniðnum fetli. 826 Nú lagði Peleifsson fram eina kúlu af ásmundarjárni. Þeirri kúlu kastaði fyrrum hinn afarsterki Etjon, en hinn fóthvati, ágæti Akkilles drap Etjon, og flutti kúluna til skipa sinna með öðrum fjármunum. Hann stóð nú uppréttur og tók til orða meðal Argverja: „Komi nú fram hverr yðar, sem þreyta vill þenna leik. Sá, sem á þenna ásmund, getur haft hann í fimm ár samfleytt, hvað víðar lendur sem hann á, og skal ekki fjárhirðir hans eða akurmaður þurfa í kaupstað að fara sökum járneklu, því hann getur sjálfur birgt hann með því“. 836 Þannig mælti hann. Þá risu þeir upp, hinn vígdjarfi Polýpöytes og hinn goðumlíki Leonteifur, hann var berserkur að afli, og Ajant Telamonsson og hinn ágæti Epeus. Þeir stóðu í röð hverr hjá öðrum. Hinn ágæti Epeus tók kúluna, sveiflaði henni og kastaði. Þá hlógu allir Akkear. Þar næst kastaði Leonteifur, afspringur Aresar. Í þriðja sinn kastaði hinn mikli Ajant Telamonsson. En er hinn vígdjarfi Polýpöytes tók kúluna, þá var það, svo sem þá er nautahirðir varpar krókstaf sínum, svo hann hringsnýst og flýgur langt innan um nautaflokkinn: svo langt kastaði Polýpöytes kúlunni yfir allan leikvöllinn. Þá kölluðu Akkear upp. Stóðu þá upp félagar hins sterka Polýpöytess, og báru verðlaun konungsins til hinna holu skipa. 850 Því næst lagði Akkilles fram blásvart járn handa bogmönnunum; hann setti og fram tíu tvíöxar og tíu hálföxar. Þá reisti hann upp siglutré af einu stafnbláu skipi langt frammi á söndunum, og batt þar við stygga dúfu á fætinum með mjóum þræði, og bað þá skjóta eftir dúfunni: „Skal sá, sem hittir hina styggu dúfu, taka allar tvíöxarnar og hafa heim með sér; en sá sem missir fuglsins, en hittir þráðinn, hann skal fá hálföxarnar, því sá er minni bogmaður“. 859 Þannig mælti hann. Þá risu þeir upp, hinn sterki Tevkrus konungur, og Meríónes, hinn vaski hersveinn Idomeneifs. Þeir tóku hluti, og hristu í eirbúnum hjálmi, og hlaut Tevkrus fyrstur. Hann skaut ör af afli miklu, en hét ekki á hinn máttuga guð, að fórna honum veglega hundraðsfórn frumborinna ásauðarlamba, enda missti hann fuglsins, því Appollon unni honum ekki þess happs; en Tevkrus hitti í þráðinn, er fuglinn var bundinn með, hjá fætinum, og hjó hin hvassa ör þráðinn þvert í sundur, þaut dúfan þá til himins, en þráðurinn féll til jarðar. Þá gerðu Akkear hávaða mikinn. Meríónes þreif þá bogann snöggt úr hendi Tevkrusar, en ör var hann ávallt vanur að hafa á sér, þegar hann skaut til hæfis. Hann hét nú á hinn langskeyta Appollon, að fórna honum veglega hundraðsfórn frumborinna ásauðarlamba. Hann sá nú hina styggu dúfu, hvar hún var að kringsóla hátt undir skýjum uppi, og þar skaut hann á hana miðja undir vænginn; gekk örin þvert í gegnum vænginn, og féll aftur á jörð niður fyrir framan fót Meríóness; en fuglinn settist á siglutré hins stafnbláa skips, og hengdi niður hálsinn, og þá sigu niður vængirnir undir eins; flaug lífið þá skjótt úr limum dúfunnar, og datt hún niður langt frá siglutrénu. Horfðu menn á þetta með undrun og urðu forviða. Meríónes tók allar tíu tvíöxarnar, en Tevkrus bar hálföxarnar til hinna holu skipa. 884 Nú bar Peleifsson og lagði fram á leikmótinu langskeft spjót, og svo ketil einn með blómmyndum, óeldbæran; hann var eitt uxagildi. Þá risu upp spjótskytarnir, hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson, og Meríónes, hinn vaski hersveinn Idomeneifs. Hinn fóthvati, ágæti Akkilles tók þá til orða á mótinu: „Með því vér vitum, Atreifsson, hversu mjög þú ert um fram alla menn, og hversu þú ert öllum framar að kröftum og spjótfimi, þá tak þú þetta leikfé, og haf með þér til enna holu skipa; en spjótið skulum vér gefa kappanum Meríónes, ef þú lætur þér það líka; en eg ræð til þess“. 895 Þannig mælti hann, en herkonungurinn Agamemnon gerði, sem Akkilles mælti. Kappinn gaf Meríónes eirspjótið, en fékk kallaranum Taltybíus bið fagra leikfé. TUTTUGASTI OG FJÓRÐI ÞÁTTUR ÚTLAUSN HEKTORS. NÚ var slitið leikmótinu, og fóru menn hverr til sín til hinna fljótu skipa; hugðu menn gott til að hressa sig á kvöldverði og værum svefni. En Akkilles kveinaði, því hann mundi eftir hinum kæra vin sínum. Jafnvel svefninn, sem allt sigrar, gat ekki sigrað hann, heldur velti hann sér á ýmsar hliðar, svo sá hann eftir líkamsatgjörvi og hinni ágætu hreysti Patróklusar. Hann mundi til þess, hversu margar þrautir hann hafði unnið, og hversu margar raunir ásamt honum þolað, bæði í bardögum við menn og í hættulegum bylgjum á sjó. Þegar hann minntist þessa, lét hann hrynja þrungin tár af augum, lá ýmist á ýmsum hliðum, ýmist upp í loft, eða á grúfu, reis svo á fætur og hvarflaði sem rænulaus hér og hvar um sjávarströndina. Og er hann varð þess varr, að Morgungyðjan lét sjá sig fyrir ofan hafið og strendurnar, þá beitti hann hinum fráu hestum fyrir kerru sína og batt Hektor aftan í kerrustólinn, dró hann þrisvar í kring um haug hins dána Menöytssonar, lagði sig svo aftur til svefns í búðinni, en lét Hektor liggja flatan á grúfu í moldinni. En Appollon kenndi í brjósti um kappann, þó hann væri dauður, og forðaði honum við öllum meiðslum; hann hlífði honum öllum með hinum gullna ægisskildi, svo líkið skyldi ekki hruflast, þó Akkilles drægi það. 22 Þannig lék hann smánarlega hinn ágæta Hektor í heift sinni. En er hinir sælu guðir sáu þetta, kenndu þeir í brjósti um hann, og vildu senda hinn glöggskyggna Argusbana til að ná honum burt á laun; líkaði það ráð öllum guðunum, nema Heru og Posídon og hinni glóeygu mey líkaði það ekki, því þau hötuðu enn, jafnt sem fyrr, hina helgu Ilíonsborg og Príamus og menn hans sökum óhæfu þeirrar, er Alexander gerði, er hann svívirti gyðjurnar, þá er þær komu að bæ hans, en hrósaði þeirri gyðjunni, sem hafði gefið honum háskasamlega munaðarfýsn. En er hinn tólfti morgunn rann upp þaðan frá,[*] þá tók Febus Appollon svo til máls meðal hinna ódauðlegu guða: „Miskunnarlausir eruð þér, guðirnir, og meinsamlegir. Hefir Hektor þá aldrei brennt yður til dýrðar blótbita af gallalausum uxum og geitum? Og þó getið þér nú ekki fengið af yður að bjarga honum, þó aldrei sé nema dauðum, fyrir sakir konu hans og móður og sonar og Príamuss föður hans og landslýðsins, að þau fái að sjá hann. Því fengi þau það, mundu þau skjótt brenna hann á báli og gera virðulega útför hans. En Akkilli viljið þér hjálpa, guðirnir, skaðræðismanninum, sem hvorki hefir sanngjarnan hug, né auðbeygða lund í brjósti sínu, heldur er grimmur í skapi, svo sem ljón, það er með miklum styrkleik og öruggum hug ræðst á sauðfénað manna, til að fá fylli sína. Svo hefir og Akkilles týnt allri miskunnsemi, og hefir enga skammfeilni, sem gerir mönnum mikinn skaða og mikið gagn. Margur maður mun að vísu misst hafa kærara vin, svo sem annaðhvort samborinn bróður eða son, og þó lætur hann af að harma hann og gráta; því skapanornirnar gáfu mönnunum þolugan hug. En Akkilles, eftir að hann tók lífið af hinum ágæta Hektori, þá bindur hann lík hans við kerru sína, og dregur hann í kring um haug vinar síns; og er það sannlega ekki sæmilegt, og ekki heldur hollt fyrir hann; og lá munum vér honum þetta, þó hann sé allmikill maður fyrir sér; því hann níðist í heift sinni á jörðinni, sem einskis kennir“. [* frá dauða Hektors.] 55 Hin hvítarmaða Hera reiddist og mælti til hans: „Vel mætti það vera, sem þú segir, Silfrinbogi, ef þér viljið gera jöfn metorð þeirra Akkils og Hektors. Nú er Hektor mennskur maður og hefir sogið konubrjóst, en Akkilles er borinn af gyðju þeirri, er eg ól upp og fóstraði sjálf, og gifti eg hana kappanum Peleifi, sem verið hefir mjög ástfólginn hinum ódauðlegu goðum; voruð þér allir guðirnir að því brúðkaupi; og þú, samlaginn vondra manna og ávallt ótryggur, varst þar með öðrum goðum að boðinu, og hélzt á hörpunni“. 64 Skýsafnarinn Seifur svaraði henni: „Reiðstú ekki goðunum svo mjög, Hera. Ekki munum vér jöfn gera metorð þeirra, en þó var Hektor kærstur goðunum þeirra manna, er í Ilíonsborg eru, og svo var hann og mér; því hann lét aldrei hjá líða, að færa goðunum þakknæmilegar gjafir, og aldrei brast á stalla mínum jafndeildan blótskammt, dreypifórn eða mörblót, sem er sú heiðursgjöf, er oss guðunum ber. En hinu skulum vér sleppa, að stela burt hinum hugdjarfa Hektori; það verður með engu móti gert, svo Akkilles viti ekki, því Þetis, móðir hans, kemur ávallt til hans, jafnt nætur sem daga. En kalli einhverr guðanna Þetisi til mín, svo eg segi henni þá föstu ráðstöfun mína, að Akkilles skuli þiggja gjafir af Príamus og láta Hektor lausan“. 77 Þannig mælti hann, en hin stormfráa Íris fór af stað með þessa orðsendingu. Hún stökk ofan í hið dimma haf í milli Sámseyjar og hinnar klettóttu Imbreyjar; drundi við í sundinu, en hún rann niður í djúpið, sem blýsakka, sú er fest er við forsendu, og fer til að færa fiskunum bana, hráætunum. Hún fann Þetisi í einum holum helli, og voru þar saman komnar hinar aðrar sjávargyðjur, og sátu í kring um hana, en hún var í miðjum hringnum og kveinaði yfir forlögum hins ágæta sonar síns, er fyrir honum lá að deyja í enu frjóvsama Trójulandi, langt frá föðurjörðu sinni. Hin fóthvata Íris gekk til hennar og mælti: „Upp þú, Þetis, Seifur kallar á þig, hann, sem býr yfir órjúfanlegum ráðstöfunum“. Hin silfurfætta gyðja Þetis svaraði henni: „Hví gerir hann boð eftir mér, sá hinn mikli guð? Eg fyrirverð mig, að fara á fund ódauðlegra guða, þar eð óbættir harmar liggja á hjarta mér. Þó skal eg koma, og ekki ónýtt láta neitt, það er hann býður“. 93 Að því mæltu tók hin ágæta gyðja dökkva skikkju, og var ekki til svartari búningur, en sá. Hún fór af stað, og gekk hin vindfráa, skjóta Íris á undan, og vék sjávarbylgjan til hliðar í kring um þær. En er þær voru stignar á land, brugðu þér sér upp til himins, og fundu hinn víðskyggna Kronusson; voru þar saman komnir allir hinir sælu, eilífu guðir, og sátu í kring um hann. Þetis settist hjá föður Seifi, og þokaði Aþena fyrir henni, en Hera fékk henni fagurt gullker, og mælti til hennar blíðlega; rétti Þetis henni kerið aftur, þá er hún hafði drukkið. Þá tók faðir manna og guða svo til máls: „Þú ert komin til Ólymps, Þetis gyðja, og mjög harmsfull; veit eg, að þú ber ógleymandi sorg í hjarta þínu. En ei að síður vil eg segja þér, vegna hvers eg gerði boð eftir þér hingað. Nú hefir í níu daga misklíð verið milli hinna ódauðlegu guða um lík Hektors og um Akkilles borgabrjót. Guðirnir vildu senda hinn glöggskyggna Argusbana til að stela burt líkinu. En eg ætla Akkilli að hafa sæmdarauka af þessu, og vil eg jafnan bera virðingu fyrir þér, og halda vináttu við þig hér eftir. Far nú mjög af skyndingu til herbúðanna með þau skilaboð til sonar þíns, að þú seg honum, að hinir ódauðlegu guðir séu honum reiðir, og mest eg af öllum, fyrir það að hann af hugaræði heldur Hektori hjá hinum stafnbognu skipum, og lætur hann ekki lausan; því vera má, að Akkilles óttist mig og láti Hektor lausan. En eg skal senda Írisi til hins hugstóra Príamuss með þau boð, að hann fari til skipa Akkea og leysi út son sinn, og færi Akkilli þær gjafir, er honum sé hugbót í“. 120 Þannig mælti hann, en hin silfurfætta gyðja Þetis gegndi boði hans. Hún fór brunandi ofan af Ólympstindum, og kom til búðar sonar síns og fann hann; andvarpaði hann ótt, en hinir kæru félagar hans voru í starfi miklu og bjuggu til dagverðar; höfðu þeir slátrað stórum sauð ullarmiklum í búðinni. Hin heiðvirða móðir settist hjá syni sínum, klappaði honum með hendinni, tók til orða og mælti: „Hve lengi viltu, sonur, láta sorgir og harmakvein eta hjarta þitt, er þú neytir hvorki svefns né matar? Gott er, að hafa konu hjá sér til yndis og eftirlætis. Ekki mun eg hafa þá gleði, að þú lifir lengi, því dauðinn og hin máttuga skapanorn stendur nú allnærri þér. Heyr nú skjótt, hvað eg segi; eg hefi boð til þín frá Seifi. Hann segir, að hinir ódauðlegu guðir séu reiðir þér, mest allra segist hann sjálfur reiðast þér, fyrir það að þú af hugaræði heldur Hektori hjá hinum stafnbognu skipum, án þess að láta hann lausan. En heyr nú, lát hann lausan, og þigg útlausn fyrir hinn dauða“. 138 Hinn fóthvati Akkilles svaraði henni og mælti: „Komi þá einhverr og færi mér útlausnina, og hafi svo burt með sér líkið, ef hinn ólympski guð býður þetta í fullri alvöru“. 141 Þannig töluðust þau við mörgum skjótum orðum, mæðginin, á skipstöðinni. 143 Kronusson sendi nú Írisi til ennar helgu Ilíonsborgar. „Far þú fljótt, fráa Íris (kvað hann), frá Ólympsstöðvum til Ilíonsborgar, og seg hinum hugstóra Príamusi, að hann skuli fara til skipa Akkea og leysa út son sinn, og færi Akkilli þær gjafir, sem honum sé hugbót í. Hann skal vera einn og engi Trójumanna fara með honum. Einhverr gamall kallari getur fylgt honum, til að stýra múlunum og hjólvagninum, og flytja til borgarinnar aftur hinn dauða mann, er hinn ágæti Akkilles vó. Ekki þarf hann að kvíða dauða sínum, eða vera hræddur; slíkan leiðsaga skal eg fá honum: Argusbani skal fylgja honum til Akkils, og þegar hann hefir fylgt honum inn í búð hans, mun Akkilles ekki drepa hann, heldur banna öllum að gera það. Því hann er hvorki óvitur maður, né ógætinn, og engi níðingur, heldur mun hann mjög innvirðulega hlífa þeim manni, er á náðir hans flýr“. 159 Þannig mælti hann, en hin stormfráa Íris fór af stað með þessa orðsendingu. Hún kom til Príamshallar, og hitti þar í óp og kvein; synirnir sátu í forgarðinum kringum föður sinn, og vættu klæði sín í tárum, en hinn aldraði maður lá á meðal þeirra í yfirhöfn utan um sig, svo sem í upphleyptu myndasmíði, og umhverfis um höfuð og háls þessa heiðvirða öldungs var saur mikill, er hann hafði hrúgað saman með höndum sínum, þá hann veltist um á jörðunni; dætur hans og sonakonur kveinuðu í herbergjum sínum, þá þær minntust hinna mörgu og hraustu manna, er nú lágu fallnir og höfðu látið líf sitt fyrir Argverjum. 169 Sendimær Seifs gekk að Príamusi og nam þar staðar; hún talaði til hans í lágum hljóðum, en hann skalf allur: „Vertu óhræddur, Príamus Dardansniðji, og æðrast ekki lengur. Eg kem ekki hingað til að boða þér illt, heldur er eg komin í góðum hug; því eg flyt þér orðsendingu Seifs; hann lætur sér annt um þig og aumkvar þig, þó hann sé þér fjarstaddur. Hinn ólympski guð segir þér að leysa út hinn ágæta Hektor, og færa Akkili þær gjafir, er honum sé hugbót í. Þú skalt vera einn saman, og skal engi Trójumanna fara með þér; fylgja má þér einhverr gamall kallari til að stýra múlunum og hjólvagninum og flytja aftur til borgarinnar hinn dauða mann, er hinn ágæti Akkilles vó. Ekki skaltu kvíða dauða þínum, eða æðrast. Slíkur leiðtogi skal fylgja þér. Argusbani skal fylgja þér, þar til er hann kemur, þangað sem Akkilles er. En er hann hefir leitt þig inn í búð Akkils, þá mun Akkilles ekki drepa þig; nei, hann mun banna hverjum manni að gera það; því hvorki er hann óvitur né athugalaus, og engi níðingur, heldur mun hann mjög innvirðulega hlífa þeim manni, er leitar líknar hans“. Að því mæltu fór hin fóthvata Íris burt. 189 Príamus bað nú sonu sína að búa einn hjólbúinn múlvagn, og binda laup ofan á hann. Sjálfur gekk hann ofan í hinn ilmanda geymslusal; hann var af sedrusviði og háræfraður; voru þar geymdar inni margar gersemar. Hann kallaði á Heköbu konu sína hingað, og mælti: „Heillin mín, mér kom ólympsk orðsending frá Seifi, að eg skuli fara til skipa Akkea og leysa út minn kæra son, og færa Akkilli þær gjafir, sem honum sé hugbót í. Ger nú svo vel, seg mér, hvað sýnist þér ráðlegt? Hugur minn og hjarta hvetur mig mjög ákaflega að fara þangað til skipanna inn í hinar víðu herbúðir Akkea“. 200 Þannig mælti hann, en konan hljóðaði, og svaraði honum: „Æ mig vesala, hvað er nú orðið af vitsmunum þínum, þeim er fyrrum fór orð af bæði meðal útlenzkra manna, og svo hjá þeim, er þú átt yfir að ráða? Hví viltu fara aleinn til skipa Akkea, og koma í augsýn þess manns, er drepið hefir svo marga og svo hrausta sonu þína? Þú hefir sannarlega járnhjarta. Því ef hann nær þér og lítur þig augum, sá hinn blóðfíkni og ótrúi maður, þá mun hann ekki kenna í brjósti um þig, og einskis svífast við þig. Látum okkur nú sitja hér og kveina í höllinni, langt í burt frá þeim manni. En hin máttuga skapanorn mun hafa ætlað Hektori það, þá hún spann lífsþráð hans við fæðinguna, er eg ól hann, að hann skyldi seðja fótfráa hunda fjarri foreldrum sínum hjá ofríkismanninum; æ, eg vildi eg mætti hanga á lifrinni inni í honum og eta hana! Það væri mátuleg hefnd fyrir son minn. Því ekki téði sonur minn sig sem ragmenni, þegar Akkilles drap hann, heldur stóð hann sem vörn fyrir Trójumönnum og hinum skautfögru Trójukonum, og hugði hvorki á flótta né undanhald“. 217 Hinn goðumlíki, aldraði Príamus svaraði henni: „Haltu mér ekki, fyrst eg vil fara. Vertu mér ekki sjálf sem óheillaspáfugl í húsum mínum. Þú fær ekki talið mér hughvarf. Því ef einhverr jarðneskra manna hefði ráðið mér þetta, svo sem annaðhvort spáfararmenn, brennifórnarspámenn eða iðrablótsmenn, þá mundi eg kalla það markleysu, og síður marka þann mann eftir, en áður. En nú fer eg, því eg heyrði sjálfur, að það var einhverr guð, og eg horfði beint framan í hann; þetta skulu því ekki verða hégómaorð. En ef fyrir mér á að liggja að deyja hjá skipum enna eirbrynjuðu Akkea, þá er eg þess fús; því mig gildir einu, þó Akkilles drepi mig þegar í stað, þá eg hefi umfaðmað son minn og svalað harmfýsi minni“. 228 Að því mæltu lauk hann upp hinum fögru kistulokum, tók þar upp úr tólf mjög fagra möttla, tólf einbrotnar yfirhafnir, jafnmarga dúka, jafnmargar fagrar skikkjur, og auk þessa jafnmarga kyrtla. Þá vó hann gullið, og tók ekki minna en tíu vættir með sér. Hann tók og upp tvo ljómandi þrífætinga, fjóra katla, og mjög fagurt drykkjarker, er þrakneskir menn höfðu gefið honum eitt sinn, þá hann fór sendiför til þeirra; var það mikil gersemi, og þó hlífðist ekki öldungurinn við að taka það úr herbergjum sínum, því hann vildi fyrir alla muni leysa út hinn kæra son sinn. Þá ávítti Príamus Trójumenn með smánarlegum orðum, og rak þá alla út úr svölunum: „Burt, burt, svívirðingarnar, afhrökin! Er þá ekki nóg harmakvein hjá yður heima, að þér þurfið að koma hingað til að ónáða mig? Eða nægir yður það ekki, að Seifur Kronusson hefir sent mér það mótlæti, að missa hraustasta son minn? Þér munuð sjálfir fá að kenna á því; því Akkear munu nú eiga miklu hægra með að drepa yður niður, síðan hann er fallinn. En eg vildi, að eg væri genginn inn í Hadesarhöll, áður en eg horfi á það með augum mínum, að borgin sé rænd og rupluð“. 247 Að því mæltu rak hann Trójumenn burtu, og fóru þeir þá út undan öldungnum, því hann rak hart á eftir. Þá kallaði Príamus til sona sinna, og átaldi þá Helenus og Paris og hinn ágæta Agaþon, Pammon og Antífónus og hinn rómsterka Polítes, Deífobus og Hippoþóus og hinn vaska Díus. Hinn gamli maður kallaði til þessara níu sona sinna og bauð þeim: „Flýtið yður, ónytjurnar, svívirðurnar! Eg vildi óska, að þér hefðuð verið drepnir allir saman hjá hinum fljótu skipum í stað Hektors. Mikill ólánsmaður er eg! Eg átti hina hraustustu sonu, sem til voru í hinu víða Trójulandi, og nú er engi þeirra eftir, að kalla má. Eg átti hinn goðumlíka Mestor og hinn kerruvíga Tróílus, og Hektor, sem var guð meðal manna, því hann sýndist ekki vera sonur mennskra manna, heldur einhvers af goðunum. Þessum sonum mínum hefir Ares glatað, en verstu afhrökin eru eftir, lygarar og dansleikarar, frakkastir í því, að stíga dans og hrifsa lömb og kiðlinga innan lands. Búið þér mér vagn sem skjótast, og látið allt þetta upp í, svo eg geti farið leiðar minnar“. 265 Þannig mælti hann, en þeir urðu smeykir við ávítur föður síns, og báru út einn hjólbúinn múlvagn, fagran og nýsmíðaðan, þar bundu þeir laupinn ofan á. Þeir tóku eitt múlok ofan af nagla; það var af bússviði, búklað, með sterkum taumhringum; þeir báru út níu álna langt okband með okinu, og lögðu okbandið varlega á hina vel telgdu vagnstöng, fremst framan á enda hennar, hleyptu svo hringnum upp á stangarnaglann, þríbrugðu síðan okbandinu um okbúklið beggja vegna, þar eftir bundu þeir bandið fast og smeygðu endanum undir. Síðan báru þeir út úr geymslusalnum ógrynni fjár, útlausnarfé Hektors, og hlóðu því á hinn fagurskafna vagn; beittu svo fyrir hinum hófasterku, togþolnu múlum, er Mýsar höfðu eitt sinn gefið Príamusi, og var það allfögur gjöf. En handa Príamusi leiddu þeir undir ok hesta þá, er hinn gamli maður átti sjálfur og ól á fagursköfnum stalli; en kallarinn og Príamus, báðir ráðvitrir menn, beittu þeim hestum fyrir í hinni hávu höll. 283 Þá kom þar Hekaba til þeirra með sorgmæddum hug; hún hélt í hægri hendi sér á gullskál með ljúffengu víni handa þeim til að dreypa dreypifórn, áður þeir færi af stað. Hún nam staðar fyrir framan kerruna, tók til orða og mælti: „Tak við, dreyp föður Seifi, og heit á hann, að þú komist aftur frá fjandmönnunum, fyrst þig endilega fýsir að fara til skipanna, enn þótt eg vildi, að þú gerðir það ekki. Heyr, heit nú á Kronusson svartskýjaguð, Ídafjallsgoð, sem horfir ofan yfir allt Trójuland; bið hann senda til hægri handar þér hinn skjóta sendiboða sinn, spáfugl þann, er honum er kærstur allra fugla, og allra fugla er sterkastur, að þú sjáir hann sjálfur með augum þínum og farir í hans trausti til skipa hinna hestfimu Danáa. En sendi ekki hinn víðskyggni Seifur þér sendiboða sinn, þá skal eg ekki ráða þér til að fara til skipa Argverja, þó þú sért þess allfús“. 299 Hinn goðumlíki Príamus svaraði henni og mælti: „Gegna skal eg þessum þínum tilmælum, kona; því það er hollt, að fórna höndum til Seifs og biðja hann miskunnar“. 302 Að því mæltu bauð hinn gamli maður einni þjónustumey, sem var ráðskonan, að hella tæru vatni á hendur sér. Þjónustumærin gekk þá til hans og hélt sínu í hvorri hendi, á laugarkeri og vatnskönnu. En er hann hafði þvegið sér, tók hann við skálinni af konu sinni, gekk síðan fram í miðjan hallargarðinn og baðst fyrir; hann leit til himins, dreypti víninu, og tók svo til orða: „Faðir Seifur, þú sem ríkir á Ídafjalli, þú vegsamlegasti og mesti! Lát mér auðið verða náðar og miskunnar, þá eg kem til búðar Akkils; send til hægri handar mér hinn skjóta sendiboða þinn, fugl þann, er þér er kærstur allra fugla og allra fugla er sterkastur, svo eg sjái hann sjálfur með augum mínum, og fari í hans trausti til skipa enna hestfimu Danáa“. 314 Þannig baðst hann fyrir, en hinn ráðvísi Seifur heyrði bæn hans, og sendi af bragði örn einn, sem er hinn áreiðanlegasti allra spáfugla, dökkgráan veiðiörn, sem og er kallaður fiskiörn. Svo víð sem vel læst og vel felld hurð er á háræfruðu húsi auðugs manns: svo langir voru vængir arnarins beggja vegna; sýndist þeim hann fljúga hægra megin yfir borginni. En er þau sáu hann, urðu þau glöð, og lifnaði hugur í brjóstum allra. 322 Hinn aldraði maður steig nú í skyndi upp á kerru sína, og ók út úr fordyrinu og hinum ómanda svölugangi. Múlarnir drógu hinn ferhjólaða vagn á undan, og keyrði þá hinn vitri Ídeus; á eftir þeim fóru hestarnir; þá keyrði gamli Príamus hart með svipu gegnum borgina; fylgdust með honum allir vinir hans, og hörmuðu þeir stórlega, svo sem gengi hann út í dauðann. En er þeir voru komnir ofan úr borginni og ofan á völlinn, þá hurfu þeir aftur, synir hans og dætramenn, til Ilíonsborgar. 331 Hinn víðskyggni Seifur varð brátt varr þeirra Príamuss, þá er þeir komu fram á völlinn; og er hann sá það, aumkaðist hann yfir hinn gamla mann, og mælti þegar til Hermess, sonar síns: 334 „Með því þér er kærast, Hermes, að samlaga þig manni, og bænheyrir gjarna, þann er þú vilt, þá far þú fljótt og fylg Príamusi til enna holu skipa Akkea, á þann hátt að engi sjái hann og engi Danáa verði varr við, fyrr en hann kemur til Peleifssonar“. 339 Þannig mælti hann, en hinn hvatfæri Argusbani gerði, sem hann bauð. Hann batt þegar undir fætur sér fagra, himneska gullsóla, er báru hann, sem vindur blési, yfir láð og lög. Hann tók í hönd sér sprota þann, er hann stingur með svefnþorn þeim mönnum, er hann vill, og vekur þá, er sofa. Þann sprota hafði hinn sterki Argusbani í hendi sér, og rann þegar af stað. Hann kom skjótt til Trójulands og Hellusunds; gekk svo af stað, og var þá líkur ungum sveini konungbornum, sem nýsprottin er grön og er á sínu fegursta æskuskeiði. 349 Nú sem þeir Príamus voru komnir fram hjá Ílushaugi, þá áðu þeir múlunum og hestunum við fljótið og létu þá drekka, því þá var farið að rökkva. Þá varð kallarinn varr við Hermes, og sá, að hann var kominn nærri þeim; tók hann þá til orða og mælti til Príamuss: „Hygg að, Dardansniðji, hér er úr vöndu að ráða. Eg sé mann; er eg hræddur um, að hann brátt fyrirkomi okkur báðum. Heyr, látum oss flýja á kerrunni, eða þá göngum fyrir kné hans og biðjum hann miskunnar“. 358 Svo mælti Ídeus, en hinn gamli maður varð felmtraður og ákaflega hræddur, reistu hárin sig á limum hans, og hann stóð frá sér numinn. Þá gekk Hagvaldur til hins gamla manns, tók í hönd honum, spurði hann og mælti: „Hví ekur þú svo, faðir, hestum og múlum á náttarþeli, þegar aðrir menn sofa? Hræðist þú þá ekki hina hugmóðsfullu Akkea, sem hér eru í nánd, óvini þína og fjandmenn? Ef einhverr þeirra sæi þig flytja svo mikla fjármuni á hinni svipulu, svörtu nótt, hversu mundi þér þá verða um gefið? Hvorki ertú sjálfur ungur, og svo er sá, sem hér fylgir þér, gamall maður, og er hvorugur fær um að verjast þeim manni, sem veitir árás að fyrra bragði. En eg skal ekkert illt gera þér, og heldur mun eg verja þig fyrir öðrum, því mér sýnist þú líkur ástsamlegum föður“. 372 Hinn goðumlíki öldungur Príamus svaraði honum: „Svo mun vera, sem þú segir, sonur sæll. En einhverr guðanna heldur enn hendi sinni yfir mér, þar sem hann hefir mér til heilla sent í veg fyrir mig þann samferðamann, sem er svo afbragðslegur, sem þú, að vexti og vænleik og vitsmunum. Sælir eru þeir foreldrar, er þú ert af kominn“. 378 Hinn hvatfæri Argusbani svaraði honum: „Allt er þetta satt, sem þú segir, gamli maður. En seg mér og inn með sannindum: ætlar þú að flytja héðan svo marga góða gripi eitthvað til útlanda, til þess þú haldir þó þessu að minnsta kosti órændu? Eða eruð þér allir orðnir svo hræddir, að þér ætlið að flytja yður burt úr enni helgu Ilíonsborg? Og væri það von, þar sem fallinn er einhverr hinn hraustasti maður, sonur þinn, sem ekkert skorti á við Akkea í orustu“. 386 Hinn goðumlíki öldungur Príamus svaraði honum: „Hverr ertu, góður maður, og af hvaða foreldrum kominn, er þú talar svo vel um fall hins ógæfusama sonar míns?“ 389 Hinn hvatfæri Argusbani svaraði honum: „Þú freistar mín, gamli maður, og spyr um hinn ágæta Hektor. Eg sá hann margoft með eigin augum í hinum mannsæma bardaga, svo og þá hann keyrði Argverja niður til skipanna, drap þá og hjó niður með hvössu eirvopni; stóðum vér þá og undruðumst, því Akkilles vildi ekki lofa oss að berjast, sökum þess að hann var þá reiður Atreifssyni. Eg em hersveinn Akkils, og kom hingað á sama skipi, sem hann. Em eg einn af Myrmídónum; faðir minn er Polyktor; hann er auðugur maður, og gamall maður, svo nokkuð sem þú ert. Hann á sex sonu, og em eg hinn sjöundi. Vér bræður köstuðum hlutum um, og hlaut eg að fara með í för þessa hingað. En mér varð gengið hingað upp á völlinn frá skipunum, því á morgun ætla hinir snareygu Akkear að hefja orustu hjá borginni; tekur þeim nú að leiðast setan, og ekki geta höfðingjar þeirra haldið þeim; svo eru þeir ákafir í styrjöldina“. 405 Hinn goðumlíki öldungur Príamus svaraði honum: „Ef þú ert hersveinn Akkils Peleifssonar, þá ger svo vel og seg mér allt af létta: er sonur minn enn þá hjá skipunum, eða hefir Akkilles höggvið hann í smátt og kastað honum fyrir hunda sína?“ 410 Hinn hvatfæri Argusbani svaraði honum: „Gamli maður, ekki hafa hundar eða hræfuglar etið hann enn þá, heldur liggur hann enn, eins og hann var, hjá búðinni við skip Akkils; er þetta hinn tólfti dagur, sem hann liggur þar, og fúnar þó ekki hold hans, og ekki eta hann maðkar, sem þó eru vanir að eta vopnbitna menn. Þegar hinn himneski morgunroði kemur í ljós, dregur Akkilles hann að sönnu óþyrmilega í kring um haug vinar síns, en fær þó ekki afskræmt hann. Þér mundi gefa á að líta, ef þú kæmir sjálfur til hans, hversu hann liggur, sem væri hann glænýr; allt blóð er af honum þvegið, og hann er hvergi óhreinn; öll sár, þeim er hann var særður, eru saman runnin, því margir menn báru vopn á hann. Þannig annast hinir sælu guðir hinn góða son þinn, þó hann liggi lík, því hann er þeim mjög ástfólginn“. 424 Svo mælti Hermes, en hinn gamli maður gladdist, og svaraði honum: „Gott er fyrir mann, sonur sæll, að greiða hinum ódauðlegu goðum skyldugjafir sínar. Því aldrei gleymdi sonur minn, sem eg ávallt sakna, guðum þeim, er á Ólympi búa. Því hafa þeir munað honum það, jafnvel eftir það hann var dauður. En heyr nú, þigg þessa fögru skál af mér, og tak við mér til trausts, og fylg mér með aðstoð guðanna, unz eg kem til búðar Peleifssonar“. 432 Hinn hvatfæri Argusbani svaraði honum: „Ekki muntu fá mig til þess; þú freistar mín nú, gamli maður, þér yngra manns, er þú biður mig að þiggja gjafir af þér án vitundar Akkils; óttast eg hann, og vil fyrir hvern mun forðast að hafa nokkuð af honum, svo eg hafi ekkert illt þar af síðar meir. En eg skal gjarna fara með þér á fljótu skipi til hins fræga Argverjalands, eða fylgja þér þangað landveg, og mun þá engi ráðast á þig fyrir þá skuld, að honum þyki lítið koma til fylgdarmanns þíns“. 440 Að því mæltu stökk Hagvaldur skyndilega upp á kerruna, greip svipuna og taumana, og blés miklum móði í brjóst hestunum og múlunum. En er þeir komu að skipagarðinum og díkinu, voru vökumenn nýgengnir til náttverðar; stakk hinn hvatfæri Argusbani þeim öllum svefnþorn, opnaði þegar hliðin og skaut frá slagbröndunum. Þar fór hann inn með Príamus og með hinar fögru gjafir, er á vagninum voru. Þá komu þeir að hinni hávu búð Peleifssonar; þá búð höfðu Myrmídónar gert konunginum af höggnum furutrjám, en þakt hana með loðnum reyr, er þeir skáru í mýri einni. Í kring um búðina höfðu þeir gert konunginum mikinn forgarð af þéttum staurum; fyrir hurðinni var einn furuslagbrandur; voru þrír Akkear vanir að hrinda þeim slagbrandi fyrir, og þrír Akkear skutu hinni stóru loku frá hurðunum, en þeim slagbrandi hratt Akkilles fyrir einn. Hermes hagsældaguð skaut þá frá lokunni fyrir hinn aldraða mann, og ók inn með hinar fögru gjafir, er ætlaðar voru hinum fóthvata Peleifssyni. Síðan steig hann af kerrunni til jarðar, og mælti: [Mynd: Útlausn Hektors.] 460 „Gamli maður, eg sem hingað er kominn, em Hermes, ódauðlegur guð; faðir minn sendi mig til fylgdar við þig. Nú mun eg fara aftur, og ekki ganga inn fyrir augu Akkils, því það væri óviðurkvæmilegt fyrir ódauðlegan guð, að kveðja dauðlega menn svo bersýnilega. En þú skalt ganga inn og taka um kné Peleifssonar, og svo þú hrærir hug hans, skaltu biðja hann fyrir sakir föður hans og hinnar hárprúðu móður hans og fyrir sakir sonar hans“. 468 Að því mæltu fór Hermes burt, og upp til hins háva Ólymps. 469 Príamus varp sér ofan úr kerrunni til jarðar. Hann lét Ídeus vera þar eftir, og var hann þar kyrr og gáði að hestunum og múlunum, en öldungurinn gekk rakleiðis að húsi því, er Akkilles sat í, ástvinur Seifs, og hitti hann Akkilles inni. Félagar hans sátu sér, en tveir einir menn voru hjá Akkilli og þjónuðu honum, kappinn Átómedon og Alkímus, afspringur Aresar; var Akkilles nýhættur snæðingi, að eta og drekka, og var borðið enn ekki upp tekið. Hinn mikli Príamus gekk inn, svo þeir urðu ei varir við; hann gekk til Akkils, tók höndum sínum um kné hans, og kyssti þær hinar óttalegu manndrápshendurnar, er drepið höfðu marga sonu hans. Svo sem þá er mann nokkurn hendir sá stórglæpur, að hann hefir vegið mann í föðurlandi sínu, og fer því í land annarra manna til einhvers auðugs manns, og verður öllum bilt við, er á hann horfa: svo varð Akkilli bilt við, er hann leit hinn goðumlíka Príamus. Hinir urðu og forviða, og leit hverr upp á annan. Príamus bað þá Akkilles, og tók svo til orða: „Minnstu föður þíns, goðumlíki Akkilles; hann er á aldur við mig, hrumur af elli og kominn af fótum fram. Vera má, að einhverjir nágrannar hans, sem í kring um hann eru, angri hann nú, án þess neinn sé til að verja hann fyrir óhamingju og tjóni; en hann gleðst í hjarta sínu, þegar hann fréttir, að þú ert á lífi, og væntir þess á hverjum degi, að hann fái að sjá sinn kæra son heim aftur kominn frá Trójulandi. En eg, vesalstur allra manna, eg átti þá sonu, sem voru manna hraustastir í öllu Trójulandi, og nú er engi, að kalla, eftir af þeim. Þegar synir Akkea komu, átti eg fimmtíu sonu; var ein móðir að nítján þeirra, en hina átti eg við ambáttum í höll minni. Hefir hinn óðláti Ares flestum þeirra á kné komið. En þann, sem frábærastur var allra sona minna, þann, sem varði borgina og borgarmennina, hann Hektor, hann drapstú nýlega, þá hann var að halda vörn uppi fyrir föðurland sitt. Hans vegna kem eg nú til skipa Akkea, til að fá útlausn fyrir hann hjá þér, og hefi með mér ógrynni útlausnarfjár. Heyr, Akkilles, óttast guðina, sjá aumur á mér, og minnst föður þíns; og em eg þó enn aumkunarverðari, því eg hefi haft þá raun, sem engi annar jarðneskur maður hefir haft, að bera hendur sonarbana míns upp að munni mínum“. 507 Svo mælti Príamus, og vakti hjá honum harmfýsi sökum föður hans. Akkilles tók um hönd öldungsins og þokaði honum hægt frá sér. Báðir áttu þeir nú böls að minnast: Príamus minntist Víga-Hektors; hann kraup frammi fyrir fótum Akkils og kveinaði hástöfum; en Akkilles harmaði ýmist föður sinn, ýmist Patróklus; heyrðust nú andvörp þeirra um alla búðina. En er hinn ágæti Akkilles hafði svalað sér á harminum, þá reis hann þegar upp af hástólnum, tók í hönd öldungsins og reisti hann á fætur; kenndi hann í brjósti um hans gráa höfuð og gráa skegg. Hann talaði til hans skjótum orðum og mælti: „Þú vesall maður, sannlega hefir þú borið margar raunir á hjarta þínu. Hví áræddir þú að fara aleinn til skipa Akkea, og koma fyrir augu þess manns, er drepið hefir svo marga og svo hrausta sonu þína? Þú hefir sannarlega járnhjarta. Heyr nú, sezt nú í hásæti. Þó við séum í sárum hug, þá látum samt harmana liggja niðri í brjóstinu; engu er maður nær að heldur, þó hann kveini fagnaðarlaus. Því guðirnir hafa skapað vesölum mönnum það hlutfall, að þeir skyldu lifa við harma, en sjálfir eru guðirnir sorgalausir. Á hallargólfi Seifs standa tvö ker; í þeim kerum eru gjafir þær, er guðirnir veita; í öðru kerinu er hið illa, en í hinu hið góða. Veiti hinn þrumuglaði Seifur einhverjum manni beggja blands af kerum þessum, þá ratar sá maður ýmist í gæfu, ýmist í ógæfu; en þeim sem hann úthlutar hörmungunum, þann mann gerir hann svívirðilegan; þann mann eltir sár sultur um víða veröld; hann ráfar hingað og þangað, og er hvorki virtur af guðum, né mönnum. Þannig veittu guðirnir Peleifi fagrar gjafir allt í frá fæðingu hans; því hann hafði velsæld og auðlegð um fram alla menn, og var konungur yfir Myrmídónum, og þó hann væri dauðlegur maður, gáfu guðirnir honum gyðju fyrir konu. En ofan á þessa gæfu bætti guð þeirri ógæfu, að hann átti enga sonu, er komið gætu til ríkis eftir hann. Sá eini sonurinn, sem hann átti, er allt of bráðfeigur. Ekki mun eg hjúkra honum í elli sinni, með því eg sit hér í Trójulandi, mjög langt frá föðurlandi mínu, og angra þig og börn þín. Heyrt höfum vér og, gamli maður, að þú hafir verið lánsmaður fyrrum; er það mál manna, öldungur, að þú hafir að auðlegð og sonastyrk verið öllum mönnum fremri, þeim er búa í því takmarki, Lesbey að norðan, aðsetri Makars, Frýgalandi að ofan og hinu endalausa Hellusundi. En síðan himinbúarnir létu þér þenna ófögnuð að hendi bera, sem nú er, þá hefir þér aldrei orðið í milli bardaga og manndrápa, er verið hafa kringum borgina. Berðu þig vel, og kveina ekki óaflátlega í hjarta þínu, því þú verður engu að nær, þó þú harmir þinn góða son; ekki fær þú reist hann upp aftur; fyrr muntu rata í aðra raun“. 552 Hinn goðumlíki öldungur Príamus svaraði honum: „Bjóð mér ekki, fóstri Seifs, að setjast í hásæti, meðan Hektor liggur í búðinni ógrafinn. Lát hann lausan sem fyrst, svo eg sjái hann með augum mínum, en tak við hinu mikla útlausnargjaldi, er eg hefi að færa þér. Eg óska, að þú njótir þess vel, og komist heim í föðurland þitt, þegar þú fyrst hefir gefið mér heimleyfi“. 559 Hinn fóthvati Akkilles leit til hans með reiðisvip og mælti: „Komdu mér ekki aftur til, gamli maður; eg hefi sjálfur í hyggju, að gefa þér Hektor lausan, því móðir mín, sem ól mig, dóttir sjávaröldungsins, kom til mín með orðsending frá Seifi, og svo skil eg það af viti mínu, Príamus, að einhverr guðanna hefir fylgt þér til hinna fljótu skipa Akkea; það bregzt mér ekki. Því engi maður, og ekki þó á bezta aldri væri, mundi áræða að fara inn í herbúðirnar; mundi hann ekki komast, svo vökumennirnir yrðu ekki varir við, og ekki eiga hægt með að skjóta slagbröndunum frá hurðum vorum. Ger því ekki skap mitt í hörmum mínum uppvægara, en það er, svo eg ekki níðist á þér, gamli maður, hér í búð minni, þó þú hafir flúið á náðir mínar, og brjóti svo á móti orðsendingu Seifs“. 571 Þannig mælti Akkilles, en öldungurinn varð hræddur, og gegndi orðum hans. En Peleifsson stökk, eins og ljón, út úr búðinni; hann var ekki einn, honum fylgdu tveir sveinar, kappinn Átómedon og Alkímus; þá virði Akkilles mest allra félaga sinna, næst hinum dána Patróklus. Þeir leystu hestana og múlana undan okunum, leiddu hinn hljóðmikla kallara öldungsins inn í búðina, og létu hann setjast þar á stól; síðan tóku þeir upp úr hinum fagurskafna vagni hið stórmikla útlausnarfé fyrir lík Hektors, en létu vera eftir tvær skikkjur og einn vel ofinn kyrtil, til þess hann skilaði heim aftur líkinu í umbúðum. Þá bauð hann þernum að bera líkið afsíðis, svo Príamus sæi ekki son sinn, og þvo það og smyrja allt í kring; ella hefði verið hætt við, að Príamus, ef hann hefði séð son sinn, mundi ekki hafa stillt reiði sína í hinu sorgbitna hjarta sínu, og hugur Akkils orðið uppvægur, og hann svo drepið Príamus og brotið móti orðsendingu Seifs. En er þernurnar höfðu þvegið líkið og smurt með viðsmjöri, þá sveipuðu þær það í fagri skikkju og kyrtli. Akkilles hóf líkið sjálfur upp og lagði það á líkbekk, en félagar hans hófu það upp á hinn fagurskafna vagn. Því næst hljóðaði Akkilles upp, og nefndi á nafn hinn kæra vin sinn: „Reiðst mér ekki, Patróklus, þó þú fréttir til Hadesarheims, að eg hafi látið lausan hinn ágæta Hektor, og fengið hann föður hans; því Príamus hefir gefið mér ekki ósæmilegar gjafir, og skal eg skipta þér af þeim svo miklum hlut, sem þér ber“. 596 Að því mæltu gekk hinn ágæti Akkilles aftur inn í búðina, og settist á hinn gersemlega legubekk, er hann hafði áður á setið, við hinn búðarvegginn, og mælti til Príamuss: „Nú er þér laus gefinn sonur þinn, gamli maður, svo sem þú mælist til; hann er nú lagður á líkbekk, og muntu á morgun, þegar er birtir, sjá hann, er þú flytur hann heim. En nú skulum við hyggja á náttverð. Því matar neytti einnig hin hárprúða Níóba, þó hún missti tólf börn í húsi sínu, sex dætur og sex frumvaxta sonu; drap Appollon, er reiður var Níóbu, sonu hennar með silfurboga sínum, en Artemis örumglöð dæturnar, fyrir þá sök að Níóba jafnaði sér við hina kinnfögru Letó, kvað hana ekki fætt hafa nema tvö börn, en hún kvaðst átt hafa mörg. En þessi bæði börnin, þó þau væri ekki nema tvö, drápu öll mörgu börnin. Börn Níóbu lágu níu daga í blóði sínu, og varð engi til að jarða þau, því Kronusson gerði mennina að steinum; en á tíunda degi jörðuðu himnaguðirnir þau. En er Níóba var þreytt orðin af að út hella tárum, þá hugði hún á það að neyta matarins; en nú er hún uppi á eyðifjöllum, og stendur á einhverjum hömrum á Sípýlusfjalli, þar sem mælt er að séu leguból landvætta þeirra, er léku sér forðum í kring um Akkelóus; þar stendur hún í steinslíki og meltir með sér harma þá, er guðirnir sendu henni. Heyr nú, ágæti gamli maður, látum okkur einnig hyggja á matarnautn. Þú getur síðar meir grátið þinn kæra son, þegar þú hefir flutt hann til Ilíonsborgar, því mörg tár muntu yfir honum fella“. 621 Að því mæltu spratt hinn skjóti Akkilles upp og slátraði mjallhvítum sauð, en félagar hans flógu sauðinn, og gerðu til, svo sem siður var til; þeir brytjuðu limina kunnáttulega, og stungu öllum stykkjunum upp á teina, steiktu svo gætilega og tóku öll stykkin af teinunum. Átómedon tók brauð, sem var í fallegum körfum, og skammtaði það á borðinu, en Akkilles skammtaði kjötið. Réttu þeir nú hendur sínar til hins tilreidda matar, er á borð var borinn. En er þeir höfðu satt lyst sína á mat og drykk, þá undraðist Príamus Dardansniðji, hve mikill vexti og hve fríður maður Akkilles var; því hann var líkur goðunum í sjón. En Akkilles undraðist Príamus Dardansniðja, þá hann virti fyrir sér hinn góða yfirlit hans, og heyrði orðræðu hans. En er hvorr hafði virt annan fyrir sér, sem hann lysti, tók öldungurinn, hinn goðumlíki Príamus, svo fyrri til máls við Akkilles: „Lát mig nú, fóstri Seifs, fara sem fyrst að hátta, svo við, gengnir til hvílu, endurnærumst af værum svefni; því enn hafa ekki augu mín blundað undir hvörmum mér, síðan sonur minn lét líf sitt fyrir höndum þínum, heldur veltist eg um í saurnum í hallarforgarðinum, og andvarpa ávallt og byrgi niðri í mér ótal harma. Nú fyrst hefi eg neytt matar og rennt skæru víni um kverkar mér, en fyrr hefi eg ekki notið neins“. 643 Svo mælti Príamus, en Akkilles bauð félögum sínum og ambáttunum að setja rúmstæði í svalirnar, láta þar í fagrar ábreiður af purpura og breiða yfir dúka, og leggja þar ofan á loðkápur til að fara í. Þær gengu út úr stofunni og héldu á blysi, og bjuggu þegar af bragði upp tvær rekkjur. Þá mælti hinn fóthvati Akkilles í gamni við Príamus: „Þú verður nú, góði, gamli maður, að hátta utan búðar. Því verið getur, að hingað komi einhverr af höfðingjum Akkea, því þeir eru jafnan vanir að sitja hjá mér á ráðstefnu, svo sem siður er til. Færi nú svo, að einhverr þeirra sæi þig um hina svipulu, dimmu nótt, þá mundi hann þegar segja Agamemnon herkonungi frá, og mætti þá verða, að frestaðist útlausn Hektors. En heyr nú, seg mér og inn með sannindum, í hvað marga daga þú vilt gera útför hins ágæta Hektors, til þess eg sitji kyrr á meðan sjálfur, og haldi hernum hér hjá mér“. 659 Öldungurinn, hinn goðumlíki Príamus, svaraði honum: „Með því þú vilt leyfa mér að gera útför hins ágæta Hektors, þá væri mér stór þökk á, Akkilles, ef þú vildir haga svo til. Þú veizt, að vér erum inni hnepptir í borginni, en langt að sækja við upp á fjall, og Trójumenn mjög hræddir. Gjarna vildum vér harma hann níu daga í höllinni, jarða hann á tíunda degi og halda fólkinu veizlu, en verpa haug eftir hann á ellefta degi. Þá getum vér barizt á tólfta degi, ef svo verður að vera“. 668 Hinn fóthvati Akkilles svaraði honum: „Þetta skal og vera, svo sem þú mælist til, gamli Príamus. Eg skal fresta ófriðnum svo langan tíma, sem þú til tekur“. 671 Að því mæltu tók Akkilles um hægri handar úlnlið öldungsins, svo hann gæti verið óhræddur. Þeir hvíldu þar nú, hinir ráðvitru menn, kallarinn og Príamus, í framhúsinu í búðinni; en Akkilles svaf innst í hinni vel smíðuðu búð, og þar hvíldi hjá honum hin kinnfagra Brísesdóttir. 677 Nú sváfu allir guðir og hermenn af um nóttina, sigraðir mjúkum svefni, nema Hermes, hinn hagvaldi guð, hann festi aldrei blund, því hann var að velkja í huga sér, hversu hann mætti koma Príamus konungi heim aftur frá skipunum, svo hinir helgu hliðverðir yrði ei varir við. Hann nam nú staðar uppi yfir höfði Príamuss, og mælti til hans: „Þú hirðir þá, gamli maður, alls ekkert um háskann, er þú sefur svo enn meðal óvina þinna, eftir það að Akkilles hefir gefið þér heimleyfi. Þú hefir nú leyst út son þinn og goldið mikið fé; en þrefalt meiri útlausn munu synir þínir, sem eftir eru í borginni, verða að greiða þér til lífgjafar, ef Agamemnon Atreifsson og allir Akkear verða þess varir, að þú ert hér“. 689 Svo mælti Hermes, en hinn gamli maður varð hræddur, og vakti kallarann. Hermes beitti hestunum og múlunum fyrir, og ók sjálfur í skyndingu gegnum herbúðirnar, án þess neinn yrði varr við. En er þeir komu að vaði hins straumfagra fljóts, fór Hermes burt og upp til hins háva Ólymps. 695 Morgungyðjan, íklædd sóllauksmöttli, dreifði sér nú yfir alla jörðina. Þeir Príamus keyrðu hestana til borgarinnar með kveini og andvörpum, en múlarnir drógu líkið. Engi karlmaður og engin af hinum fagurbeltuðu konum varð þeirra fyrr vör, en Kassandra; hún var lík hinni gullprúðu Afrodítu. Hún hafði gengið upp á Pergamsborg, og gat að líta, hvar faðir hennar og borgarkallarinn stóðu á kerrunni; hún sá og, að líkið lá á líkvagninum, er múlarnir drógu. Hún hljóðaði þá upp yfir sig, og kallaði, svo heyrðist um alla borgina: „Komið, Trójumenn og Trójukonur; nú munuð þér sjá mega Hektor, ef yður nokkurn tíma hefir þókt vænt um hann, meðan hann lifði, þegar hann kom heim aftur úr bardaga; því hann var gleði borgarinnar og alls fólksins“. 707 Svo mælti Kassandra. Þá varð engi maður eftir í borginni, hvorki karl né kona, því óbærilegur harmur var kominn í alla. Nálægt hliðunum mætti fólkið þeim, er líkið flutti. Kona Hektors og hans heiðvirða móðir þustu að hjólvagninum, og reyttu hár sitt af harmi og lögðu hendur sínar á höfuð honum, en mannfjöldinn stóð í kring um þær, og kveinaði. Og nú hefði fólkið verið að harma Hektor og út ausa tárum fyrir framan borgarhliðin allan þann dag til sólseturs, ef hinn gamli konungur hefði ekki talað til lýðsins ef kerrunni: „Farið úr vegi, svo eg komist áfram með múlana. Þér getið síðar satt yður á kveinstöfum, þegar eg hefi ekið líkinu heim“. 718 Svo mælti Príamus, en þeir viku úr vegi og gerðu kvíar fyrir líkvagninn. En er þeir Príamus komu að höllinni, lögðu þeir Hektor á fagurrenndan líkbekk, og settu þar söngvara hjá til að byrja harmaljóðin; kyrjuðu þeir upp sorglegan söng, en konurnar tóku undir með andvörpum. Hin hvítarmaða Andrómakka hóf fyrst upp harmasönginn meðal kvennanna; hún hélt um höfuð Víga-Hektors með höndum sínum, og kvað: „Maður ungur léztú líf þitt, og skilur mig nú eftir einstæða í húsunum, en sonur okkar, sem við áttum saman, vesöl hjón, er enn barnungur, og býst eg ekki við, að hann nái frumvaxtaaldri, því borg þessi mun fyrr verða niður brotin frá grunni; því nú ertú dáinn, forstöðumaðurinn, sem verndaðir hana og varðir hinar heiðvirðu konur og hin ungu börn; munu þær nú bráðum fara burt héðan á hinum holu skipum, og eg með þeim; en þú, sonur minn, munt annaðhvort fylgjast með mér, þangað sem þú munt verða að vinna þrælavinnu með þungri þraut undir valdi einhvers grimmúðugs húsbónda, eða þá þú hreppir þann dapra dauðdaga, að einhverr af Akkeum þrífur í hönd þér og kastar þér ofan fyrir borgarvegginn í bræði sinni, í hefnd eftir bróður sinn eða föður eða son, sem Hektor kann hafa drepið, því margir Akkea hafa þrifið tönnum víðan vang fyrir höndum Hektors; því faðir þinn var ósætur viðureignar í orustum, og því harmar fólkið hann um alla borgina. Fagnaðarlausan harm og sorg hefir þú búið foreldrum þínum, Hektor; en þó eru mér eftir skildir sárustu harmarnir, því þú réttir mér ekki hendur þínar á banasænginni, og talaðir ekkert huggunarorð til mín, og þó gæti eg alltaf munað til þín og grátið þig fögrum tárum nætur og daga“. 746 Þannig mælti hún kveinandi, en konurnar tóku undir með andvörpum. Þá byrjaði Hekaba þungar harmatölur meðal þeirra: „Hektor, þú mér ástfólgnasti allra sona minna, sannlega hefir þú verið guðunum kær, alla þá stund sem þú varst á lífi, fyrst hinir ódauðlegu guðir líknuðu þér í sjálfum dauðanum. Því hina aðra sonu mína seldi hinn fóthvati Akkilles, þegar hann handtók þá, mansali handan yfir hið ófrjóva haf, til Sámseyjar og Imbreyjar og hinnar torsóktu Lemneyjar. En er hann hafði tekið þig af lífi með langeggjuðu eirvopni, þá dró hann þig oft í kring um haug Patrókluss, vinar síns, er þú hafðir drepið, og fékk þó ekki að heldur vakið hann upp fyrir það. En nú liggur þú glær og nýsæfður í höllinni, líkur þeim manni, er Appollon silfrinbogi hefir drepið sviplega með hinum þýðu skeytum sínum“. 760 Þannig mælti hún kveinandi, og vakti upp óaflátlegan harm. Helena var sú þriðja, sem því næst hóf upp harmatölur meðal þeirra: „Hektor, þú ert mér ástkærastur allra mága minna. Að vísu er hinn goðumlíki Alexander, sem flutti mig hingað til Trójuborgar, eiginmaður minn. Eg vildi óska, að eg hefði dáið áður, því þetta er hið tuttugasta ár, síðan eg fór þaðan, og burt úr föðurlandi mínu. Og þó heyrði eg aldrei af þér nokkurt misjafnt orð til mín eða móðgunaryrði. Því í hvert sinn sem einhverr ámælti mér innan hallar, annaðhvort einhverr af mágum mínum eða mágkonum, eða einhver af svilkonum mínum, eða tengdamóðir mín (því tengdafaðir minn var mér ávallt góður, sem hann væri faðir minn), þá tókstu hann ávallt tali og aftraðir honum með ljúfmennsku þinni og blíðskaparorðum. Þess vegna harma eg hann og mig, vesala konu, af sorgfullu hjarta; því nú á eg engan mann framar góðan mér eða vinveittan í allri Trójuborg, því öllum rís hugur við mér“. 776 Þannig mælti hún kveinandi, en ótölulegur lýður tók undir með andvörpum. 777 Príamus gamli mælti nú til lýðsins: „Flytjið nú, Trójumenn, við til borgarinnar, og óttizt ekki fyrirsátur af Argverjum; því Akkilles lofaði, þegar hann gaf mér heimleyfi hingað frá hinum svörtu skipum, að hann skyldi engan óskunda gera, fyrr en hinn tólfti dagur kæmi“. 782 Svo mælti hann, en þeir beittu uxum og múlum fyrir vagna, og söfnuðust síðan skjótt saman utan borgar. Þeir fluttu í níu daga ógrynni af við; en er hinn tíundi dagur rann upp til að lýsa mönnum, þá báru þeir hinn hugdjarfa Hektor út og grétu þá mjög; lögðu þeir lík hans efst á bálið, og skutu í eldi. 788 En er hin árrisula, rósfingraða Morgungyðja kom í ljós, vöknuðu menn hjá báli hins fræga Hektors. Þeir slökktu fyrst allan uslann með skæru víni, svo vítt sem eldsmagnið hafði náð; því næst söfnuðu bræður og vinir saman hinum hvítu beinum; grétu þeir, svo fögur tárin hrundu niður eftir kinnunum; tóku þeir upp beinin og lögðu niður í gullskrín, og breiddu þar yfir mjúka purpuradúka, grófu síðan skrínið niður í gryfju, og þöktu ofan gryfjuna með stórum steinum hverjum við annan, þá urpu þeir haug í skyndi, en alla vega umhverfis sátu njósnarmenn, svo hinir fagurbrynhosuðu Akkear skyldu ekki fyrr veita árásir, en öllu væri lokið. En er þeir höfðu orpið hauginn, gengu þeir burt, komu svo aftur saman eftir réttum sið, og sátu að dýrlegri veizlu í höll Príamuss konungs, fóstra Seifs. 804 Þannig gerðu þeir útför hins reiðfima Hektors. SKÝRINGAR. (Tölurnar vísa til ljóðlínu gríska textans. I. = Inngangur; J.G. = Jón Gíslason: Goðafræði Grikkja og Rómverja, Rvík 1944). FYRSTI ÞÁTTUR Líkt og í Odysseifskviðu hefst Ilíonskviða á eins konar stuttum forleik, inngangi, sem aðeins er 7 línur af 15000 ljóðlínum kviðunnar, en gefur þó til kynna meginefnið í allri kviðunni. Vér fáum að vísu ekkert að vita um nafn skáldsins, ekkert um tíma og stað. En vér fáum að vita, að hér er að ræða um skáld, sem finnur til guðdómlegrar köllunar: Það er ekki hann, sem syngur, heldur gyðjan, sem syngur fyrir hans munn. Skáldið boðar í þessu stutta yfirliti reiði Akkilless og orsök hennar, mannraunir og þrautir Akkea vegna aðgerðaleysis Akkilless, og loks er drepið á dularfulla fyrirætlun Seifs, sem framgengt hafi orðið. Þessi orð vekja forvitni lesandans — eða áheyrandans — , svo að hann spyr: „Hver var þessi fyrirætlun Seifs?“ Eftir þennan stutta inngang leiðir skáldið áheyrandann „inn í miðja viðburðina“, — eins og rómverska skáldið Hóras orðar það — , án nokkurs aðdraganda eða skýringa, því að gert er ráð fyrir, að allir þekki þessar sagnir. Í línunum 8 til 52 er viðburðunum lýst með dramatískum krafti: Hofgoðinn Kryses biður um lausn dóttur sinnar, bæn hans er synjað, hann biður Apollon um hefnd, en guðinn bregður við og sendir örvar sínar yfir herbúðir Akkea, svo að þá „gekk sem tíðast á líkabrennum“. Í þeim hluta þáttarins, sem eftir er, eru þrjár aðallýsingar: 1) Þing Akkea, 2) samfundir mæðginanna, Akkilless og móður hans, og 3) samkoma guðanna á Ólympi. Í þingfundarlýsingunni fær áheyrandinn góða hugmynd um lyndiseinkunn tveggja höfuðpersóna Akkea, þeirra Agamemnons og Akkilless. Í lýsingunni er mikil stígandi, orðasennan milli þeirra harðnar smám saman, og loksins verður hinn stórlyndi og örlyndi Akkilles svo reiður, að hann hyggst að jafna deiluna með sverði sínu. En gyðjan Aþena varnar honum þess í tæka tíð. Áheyrandinn fær ósjálfrátt nokkura samúð með Akkilles og jafnframt skýringu á því, hvers vegna hann dregur sig út úr bardögunum. Annarri hlið á skapgerð Akkilless bregður skáldið upp síðar í þættinum, þegar kallararnir koma til þess að sækja Brísesdóttur. Þar sýnir hann óvænta hógværð, stillingu og kurteisi, einkenni, sem koma vel heim við lýsingarnar á honum í síðasta þætti kviðunnar, þar sem hann líka sýnir sáttfýsi og hógværð. Hliðstæðir atburðunum í mannheimum eru atburðirnir á Ólympi, sem lýst er í síðari hluta þáttarins. Fyrst er samtalið milli Þetisar og Seifs, sem lyktar með því, að Seifur gefur samþykki sitt til kynna með því að hneigja „hinum dökkvu brúnum sínum“ og þá „skelfdi hann hinn háva Ólympus“. Er svo mælt, að þessi lýsing hafi verið hinum fræga gríska myndhöggvara Fidíasi til fyrirmyndar, er hann gerði hið fræga líkneski af Seifi í Ólympíu. Þá kemur lýsingin á deilunni milli Seifs annars vegar og Heru og sumra hinna guðanna hins vegar, og skerst mjög í odda með þeim. En þegar sennan stendur sem hæst, kemur smíðaguðinn Hefestus haltrandi og hoppandi og skenkir Heru móður sinni og öðrum guðum. En við þessa skringilegu sjón „kom upp óstöðvandi hlátur með hinum sælu guðum“. Þannig lætur skáldið þenna þátt, sem annars allmikill „tragiskur“ blær hvílir yfir, enda á glensi og gamni. 1 gyðja, þ.e. sönggyðja eða menntagyðja, „músa“. Að vísu talar Hómer um fleiri en eina „músu“ eða menntagyðju, en ákveðin tala þeirra, 9, og nöfn koma ekki fyrir fyrr en hjá Hesíodus. 2 fársfullu, þ.e. banvænu, bölvuðu (úlomenen). 3 til Hadesarheims, eiginl. til Hadesar, því að í Ilíonskviðu táknar nafnið Hades nálega alltaf guðinn sjálfan. 5 Svo varð fyrirætlun S. framgeng: Ef til vill er átt við loforð það, sem Seifur gaf Þetis (sjá hér á undan) um að hefna móðgunarinnar við Akkilles. Aðrir skýra þó þessi orð á annan veg. 15 gullnum sprota, slíkan sprota báru þjóðhöfðingjar, prestar og kallarar sem tákn tignar sinnar. 17 fagurbrynhosaðir Akkear, brynhosur þessar voru eins konar legghlífar úr málmi. Sjá inng. við Od. bls. XLIX og mynd hér. 30 í Argverjalandi, þ.e. Grikklandi eða öllu fremur á Pelopsskaga, í ríki Agamemnons. Orðið Argos hefur venjulega hjá Hómer víðtæka merkingu: Grikkland eða Pelopsskagi. 31 búa um rúm mitt, eða: hvíla hjá mér í rúmi mínu (orðrétt: „koma til móts við mig til rúms míns“). 35 kominn úr herbúðunum, eiginlega: var kominn alllangt burt (apanevþe kíón). 37 þú, sem ert á gangi, þ.e. verndar (amfíbebekes). Krýsiborg og ... Killiborg voru í Mýsíu í L.-Asíu. En bæði þar og í Trójulandi yfirleitt, svo og á Tenedusey, var Apollo Smintugoð dýrkaður. 39 Smintugoð, eiginlega þýðir orðið líklega „Músabani“ (af kríteysku orði sminþos = mús). Hafi eg o.s. frv., gr. textinn (epíerepsa) gefur til kynna minni háttar goðahús eða skýli. fagurlegt, réttara: „Þér til yndis, til þess að þóknast þér“ (kharíenta). [Mynd: Brynhosa.] 45 Hann hafði boga á baki, orðrétt: „um axlir hafði hann boga og lokaðan (eiginl. þakinn báðum megin) örvamæli“. 52 skaut, eiginl. skaut aftur og aftur (balle). 54 stefndi, eða: lét stefna, kalla saman. Akkilles og höfðingjar gátu stefnt saman til þings, þó að Agamemnon væri yfirkonungur. 59 við nýja hrakninga, eða: reknir, hraktir til baka (frá takmarkinu): palín plankhþentas. 62 blótgoðinn grennslast fyrir um vilja guðanna með blótum, spámaðurinn af flugi fugla og ýmsum öðrum jarteiknum, en draumspekingurinn af draumum, sem vitrast honum, er hann sefur í einhverju musteri. 98 kvikeyga, eða glóeyga, bjarteyga (heilkópida). 106 er mér væri gagn í, eða: er mér væri ljúft að heyra. 112 hana, eða: hana sjálfa (áten). 124 almannafé, þ.e. óskiptu herfangi. 125 Á undangengnum 9 árum höfðu Akkear rænt og ruplað í næstu borgum í Trójulandi. 142 svo fullskipað sé, eða: í skyndi, kappsamlega, (epitedes). 147 hinum fjærvirka guði, þ.e. Apollon. 155 fjölbyggða, eða: frjósömu (eríbólakí). Fiðjulandi, heimkynni og ríki Akkilless, er ýmist nafn á aðalborginni í ríki Akkilless í Þessalíu, ýmist (eins og hér) á öllu ríki hans (Hellulandi, Hellas, landi Myrmídóna), sjá landabréf í Od. bls. XXXVIII. 184 Brísesdóttur, faðir hennar hét Briseus, en hún sjálf Hippodameia eða Astynome. 186 skal eg svo leiða öðrum, þ.e. láta öðrum þykja það leitt, láta þá komast að því fullkeyptu. 191 reisa upp þingheiminn móti honum, eiginl. reka þá upp (tús men anasteseien), þ.e. þá, sem næstir Agamemnon sátu, til þess að komast að honum. 194 hann dró, réttara: ætlaði að fara að draga (helketo). 201 skjótum, réttara: hraðfleygum (pteroenta). 206 hin glóeyga gyðja, upprunalega þýðir orðið (glákópis) líklega „með ugluandlitið“, en þessi merking orðsins var löngu gleymd, og Hómer virðist nota það í merkingunni „bjarteyg, glóeyg“. 211 svo sem verða vill (hós esetai per), eða: hvernig fara muni, eða: eins og líka koma mun á daginn (nl. að þetta verði honum til smánar). 213 því að það o.s. frv., þar með er gert ráð fyrir, að Akkilles framkvæmi ekki hótun sína um að fara heim. 225 með hundsaugun og hindarhjartað, hundurinn var á tímum Hómers tákn frekju og óskammfeilni (undantekning er þó hundur Odysseifs, Argos), en hindin (ekki hérinn) tákn ragmennskunnar. 229 makara, þ.e. hæfara, hentara, viðurkvæmilegra. 234 við þenna sprota, skáldið gerir ráð fyrri, að kallarinn hafi afhent Akkilles sprota, tákn þess, sem talar. 250 tveir mannsaldrar, Nestor hefur þá sennilega verið 70—75 ára gamall; en Grikkir reiknuðu þrjá mannsaldra í einni öld. mæltra (manna), eða, eftir skýringu annarra, „dauðlegra“ (meropón). 253 Eftir Odysseifskviðu virðist Pylos ekki hafa verið í Messeníu, heldur önnur borg samnefnd nokkru norðar, í Trífylíu nálægt ósum Alfeiosfljóts. 263 Um nöfnin, sjá nafnaskrá! 265 vantar í þýð., enda vantar þessa línu í beztu handrit. En þar stendur: „og Þeseif Egeifsniðja, er líktist hinum ódauðlegu guðum“. 268 við bergrisana, í gr. textanum mun átt við Kentárana, sem voru hálfir menn og hálfir hestar; sbr. J.G. bls. 218. 272 þeirra, er nú eru uppi o.s. frv., það er mjög algeng hugsun hjá Hómer, að samtímamenn séu minni máttar og lakari en fyrri alda menn, „heimur versnandi fer“. 307 Menoitssyni þ.e. Patróklus, sem hér er nefndur í fyrsta sinn og í heiðurs skyni með föðurnafni sínu; en gert er ráð fyrir, að allir kannist við hann undir því nafni. 314 og köstuðu hinu óhreina laugarvatni í sjóinn, líklega hafa þeir laugazt í sjálfum sjónum, því að eftir fornri grískri trú hreinsaði sjórinn syndir manna; gríska orðið (ballon) þýðir eiginlega „köstuðu“, en hér e. t. v. „létu skolast burt með sjónum“. 319 Þó lét A. ekki o.s. frv., orðrétt: Þó lét A. ekki af deilu þeirri, er hann hafði hótað. 327 ófúsir, eða þegjandi (akeonte); hvor merkingin sem er, táknar, að þeim hafi verið þungt í skapi og nauðugt að framkvæma þessa skipun. 343—44 fyrirhyggju né framsýni o.s. frv., orðrétt: „kann ekki að skoða í einu fortíð og framtíð“ (úde te oide noesai hama prossó kai opissó). 352 skammlífari en aðra menn, orðrétt: „Þó ekki væri það nema til skammvinns lífs“. 358 hjá sínum aldraða föður, nl. sjávarguðinum Nereusi; dætur hans nefndust Nereídur eða Nerevsdætur; ein þeirra var Þetis, móðir Akkilless; sjá nánar J.G. bls. 174. Hómer hugsar sér, að þær eigi heima í Grikklandshafi, milli Samóþrake og Imbros. 365 Þar sem þú veizt allt, nl. sem gyðja. 366 Vér fórum, nl. í einni herferðinni í nágrenni Tróju. til Þebu, þar sem ríkti Eetíon konungur, faðir Andrómökku. 369 Krysesdóttur, sem skáldið gerir ráð fyrir, að hafi verið í heimsókn í Þebu, þegar borgin var tekin. 393 því þess ertu megnug, eða: ef þú ert þess megnug. 398 vandræði meðal hinna ódauðlegu guða, eða: þú kvaðst alein meðal hinna ódauðl. g. ... Þessa samsæris er hvergi annars staðar getið og ekki nefnt oftar hjá Hómer. Einkum er einkennilegt, að Aþena skuli gera samsæri gegn föður sínum ásamt Heru, og að Bríarós skuli fylgja Seifi að málum. Hera, Posídon og Aþena voru hjálparar Grikkja, og ætti það — eftir skoðun Akkilless — að styðja málstað Þetisar. 403 Bríarós, orðið þýðir, „hinn sterki“. Hann er sonur Posídons, og hugsar skáldið sér hann sem sjávarrisa. 423 að Jarðarstraumi ... Eþíópa, þeir bjuggu yzt á jörðunni við Ókeanos eða Jarðarstraum, sjá nánar aths. við Odyseifskv. I 22. 426 eirslegnu hallar, orðrétt gr.: hallar með eirslegnum þröskuldi (khalkobates); einungis um hallir Seifs, Hefestuss og Alkinóuss. 434 létu síðan siglutréð o.s. frv.: sjá mynd af skipi í Od. bls. 396. 436 stjóra og ... skutfestar, stjórarnir voru þungir steinar, bundnir við kaðla og hleypt út úr stefni bátsins, en skuturinn var festur við land með traustum köðlum, skutfestum. 440 að blótstallanum, sem er undir beru lofti, í heilögum lundi nálægt höfninni; skáldið hugsar sér, að presturinn búi þar. 449 tóku upp blótbyggið, fórnarbyggið var ómalað; sá, sem fórnina færði, tók hnefafylli sína úr fórnarkörfunni og stráði kornunum milli horna fórnardýrsins. 464 iðrarnar, þ, e. hjarta, lungu, nýru og magi (splankhna). 468 skammtveizlu, þ.e. jafnt skammtaða veizlumat (daitos eíses). 471 skenktu í drykkjarkerin til dreypifórnar, fáeinir dropar voru teknir með sleif úr skaftkerinu (kreter), hellt í drykkjarkerin (depas) og síðan úthellt sem dreypifórn. Þetta var venjulega gert áður en drykkjarkerin voru fyllt til drykkju. 477 rósfingraða Morgungyðja, sjá ath. við Od. II 1. 490 í þýð. er sleppt orðinu: kydíaneiran = sem veitir hetjunni frægð. 493 þaðan frá, nl. frá samtalinu við Þetis, móður sína. 516 hversu eg hef minnsta virðingu allra guða, nl. af því að hún varð að giftast mennskum manni. Samkvæmt gamalli sögu hafði sjálfur Seifur fellt ástarhug til hennar. En hún var látin giftast Peleifi, af því að gyðjan Þemis hafði spáð því, að ef þau Seifur legðu lag sitt saman, mundi þeim fæðast sonur, sem yrði föður sínum yfirsterkari. 528 Að því mæltu o.s. frv., rithöfundurinn Strabo segir, að þessi lýsing skáldsins hafi gefið myndhöggvaranum fræga, Fidíasi, hugmyndina að hinni glæsilegu myndastyttu hans af Seifi í Olympíu. 539 o.s. frv. Lýsingarnar á deilum guðanna eru í þeim anda, sem lýsingar á guðunum hjá Hómer eru yfirleitt. Þær bera vægast sagt ekki vott um mikla virðingu fyrir guðunum og eru mjög ólíkar hugmyndum frumstæðrar trúar. En þetta er aðeins eitt merki þess, að sú menning, sem kvæðin lýsa, er mjög gömul, en ekki frumstæð. Sjá nánar inngang að Od. bls. XL—XLIII. 546 Það mun ekki vera hollt fyrir þig, eiginl. „þær munu verða þér erfiðar“ 555 hafi blekkt þig, eiginl.: hafi talað þig á sitt mál (pareipe). 590 Því það var einu sinni o.s. frv., þessu atviki er lýst í 15. þætti, 18.—24. l. Um aðra sögusögn, sjá J.G. bls. 149. 593 í Lemney, hún var álitin heimkynni Hefestuss vegna eldfjallsins Mosykloss, sjá landabréf. 594 Sintíar voru frumbyggjar eyjarinnar Lemnos; voru þeir komnir þangað frá Þrakíu. 600 sem frammistöðumanns, í gr. stendur aðeins: „másandi og blásandi“. Hinn halti smíðaguð hefur afarstóran og sterklegan búk, sem veikbyggðir fætur hans geta varla borið; þess vegna haltrar hann áfram svo skoplega, að það vekur almennan hlátur. Er göngulag hans næsta ólíkt hreyfingum gyðjunnar Hebu (gyðja æskuþokkans), sem annars gengur um beina. ANNAR ÞÁTTUR Þessi þáttur skiptist í tvo meginhluta: draum Agamemnons (1.—483. 1.) og skrá eða yfirlit yfir herstyrk Akkea og Trójumanna (484.—785. 1.). Agamemnon framkvæmir ekki undir eins skipun Seifs í draumnum, heldur vill hann fyrst reyna hug Akkea. En hann verður fyrir miklum vonbrigðum, því að þegar hann stingur upp á því, að þeir haldi heim, flykkjast allir niður til skipanna, og Aþena verður að grípa í taumana til þess að stöðva heimförina. Telja sumir skýrendur, að með draumnum og afleiðingum hans vilji skáldið sýna blindni þá, sem Agamemnon er haldinn vegna hroka síns (hybris, sem af Grikkjum er talin ein dauðasyndin), er ljóslega kom fram í 1. þætti. Með Þersítes (sem eiginlega þýðir „sá ósvífni“) vill skáldið lýsa andstæðu kappans Akkilless. Flestir gagnrýnendur munu þó sammála um þa, að hin langa, nákvæma skrá yfir einstaka þátttakendur herferðarinnar, tölu skipa þeirra og hvaðan þeir séu, sé ekki upprunalega ort af skáldinu sjálfu, heldur sé það mjög gamall og frumstæður skáldskapur, sem skáldið þekkti, og gengið hafði frá kynslóð til kynslóðar, frá einu héraði, til annars. Hellenum þótti ákaflega gaman að ættartölum. Má gera ráð fyrir, að hverju héraði, hverri borg, hafi þótt mikið í mun að hafa átt sinn fulltrúa í hinum miklu bardögum og afrekum við Tróju. Er því líklegt, að skráin hafi aukizt stórum eftir því, sem tímar liðu fram og fleiri héruð og borgir létu sinna manna getið. — Þessari skrá hlaut skáldið að skjóta inn einhvers staðar. Annar tilgangur með skránni og ýmsu öðru í þessum þætti, — eins og reyndar í næstu þáttum —, er að draga úrslitaatburðina sem mest á langinn, halda eftirvæntingu hlustandans sem lengst vakandi, láta hann vera sem lengst í óvissu, stöðva atburðina eða breyta stefnu þeirra rétt áður en til úrslita virðist hljóta að draga. Loforð Seifs um ófarir Akkea kemur eiginlega ekki fram fyrr en í þáttunum 11—18. Í þessum þætti bregður skáldið í fyrsta skipti þeim brandi listar sinnar, sem hann beitir oft með óviðjafnanlegri leikni og list og gefur skáldskap hans svo mikið listrænt gildi, en það eru líkingarnar. Þær koma alls ekki fyrir í 1. þætti, en í 2. og 3. þætti úir og grúir af þeim. Ástæður til þess eru einkum tvær: Fyrsti þáttur er í sjálfum sér svo viðburðaríkur og stórfelldur, svo „dramatískur“, að þess gerist ekki þörf að krydda hann með líkingum. Skáldinu lætur einkum vel að lýsa stórum hópum manna með líkingum. Í 1. þætti kemur þetta síður til greina; þar snúast viðburðirnir mest um einstaka menn. Í 2. þætti eru margar hóplýsingar, svo að þar er gott tækifæri til þess að nota líkingar. Gætir mikillar tilbreytni, og má glöggt sjá, að skáldið hefur haft næma eftirtekt og skilning á fyrirbrigðum náttúrunnar. Þegar fólkið þusti að, er Agamemnon hafði sagt fyrirliðunum drauminn, líkir skáldið því við býflugur: „Svo sem flokkar þéttra býflugna þjóta fram úr bergholu, og koma æ fram nýjar og nýjar, fljúga í riðlum uppi yfir vorblómunum ...“ Eða þegar Agamemnon hefur tilkynnt þingheimi, að bezt sé að halda heim, líkir skáldið ókyrrðinni við úfið haf eða öx á akri, hvort tveggja af vindi skekið. Þegar Akkear fylkja sér til orustu, bregður skáldið upp fleiri ólíkum myndum til þess að gera þetta lifandi: Vopnin blika „svo sem bjarminn sést langar leiðir af voveiflegum eldi, er brennir upp ógnarstóran skóg uppi á fjallstindi“. Svo bregður fyrir mynd af mannfjöldanum: „En svo sem stórflokkar af fljúgandi fuglum, gæsum eða krákum eða hálslöngum svönum, fljúga hér og hvar ..., baða vængjunum hróðugir, og setjast hvorr fram fyrir annan glammandi svo undir tekur í veitunni“ — eða „svo sem stórflokkar áfjáðra mýflugna sveima í kring á kvíabóli um vortíma, þegar mjólkin fyllir skjólurnar“. Fyrirliðarnir skipa til bardaga eins og þegar geitahirðar skilja sundur stórar geitahjarair. Loks kemur foringinn, sem ber af öllum, „svo sem griðungur í nautahjörð er langtigulegastur allra nautanna“. 1 hermenn, á gr. orðrétt.: menn, sem berjast á vögnum (Wilster: Stridsvognshelte). 7 skjótum, eiginl. „hraðfleygum“ (pteroenta). 11 hina hárprúðu Akkea, frjálsbornir Akkear báru sítt hár, en þrælar klipptu hár sitt. 42 mjúkan kyrtil, hann (khítón) var innstur klæða og úr lérefti. 43 yfirhöfn (faros), af egypzkum uppruna, úr lérefti, eins konar skikkja, sem einungis tignir menn báru. 45 silfurnegldu, þ.e. hjöltun voru skreytt silfurnöglum. 90 hnapparnir, þ.e. býflugnahnapparnir. 104 Pelópi, um Pelops sjá J.G. bls. 250. 106 lét A. hann eftir sig ...: Þyestes tók við konungdómi eftir bróður sinn Atreif, en því næst tók Agamemnon við völdum. Hómer getur hvergi fjandskapar þeirra bræðranna Atreifs og Þyestess. 108 öllu Argverjalandi, sennilega er átt við allan Pelopsskaga. 111 meini, eiginl. blindu, blekkingu (ate). 116—138 Þó að Agamemnon í orði kveðnu hvetji til heimferðar, er honum þó hitt í hug og lætur helztu rök fyrir því koma fram, sem sé: 1) að Seifur hafi lofað því, að Trója skuli lögð í eyði, 2) að skömm sé að snúa heim erindisleysu, 3) að Grikkir séu helmingi fjölmennari. 129 Svo miklu fleiri o.s. frv.: Samkv. 8. þætti (562. 1. o.s. frv.) var tala Trójumanna og bandamanna þeirra um 50.000. Samkv. útreikningi síðar í þessum þætti hafa Akkear verið um helmingi fleiri eða 100.000. 153 grafa fram bakkaskurðina, bakkaskurðir (úroi) voru skurðir eða rennur, sem grafnir voru í fjöruna til þess að setja stór skip fram og upp. 157 Atrýtóna, viðurnefni á Aþenu: „hin ósigrandi“. 165 borðrónu, eða: stafnbjúgu (amfíelissas). 194 Vér heyrðum ekki allir, eða: „Heyrðum vér ekki allir?“ 205—206 Í mörgum handritum er 1. 206 sleppt. Sé hún tekin með, stendur: „sem sonur hins bragðvísa Kronusar hefur veitt veldissprota og völd, svo að hann ríki meðal þeirra“. 212 Þersítes, orðið kemur af lo. þersos = framur, ósvífinn. Hann er eini óbreytti hermaðurinn, sem nefndur er með nafni í Ilíonskviðu. 217 kiðfættur, eða réttara: hjólbeinóttur (folkos). [Mynd: Hermaður með skjöld] 222 voru Akkear honum, nl. Agamemnoni; Þersítes var í fyrstu málsvari þeirra og málpípa. 225 Þersítes skilur ætlun Agamemnons, að halda stríðinu áfram, sem hann kennir eigingirni og ágirnd Agamemnons. 253 Á eftir orðunum ... til gæfu eða ógæfu er sleppt 1. 254—56: „Er það þess vegna, sem þú heldur áfram að hallmæla höfðingjanum Agamemnoni, að hetjur Danáa gefa honum svo margar gjafir? Er það þess vegna, sem þú talar svo háðulega?“ 260 faðir hans Telemakkuss, hjá frumstæðum þjóðum (t. d. í Ástralíu og Súmötru) er algengt, að faðirinn kallar sig nafni elzta sonar síns. 303 forðum, orðrétt stendur í gr.: í gær og í fyrradag. 310 upp í hlyninn, eða upp að hlyninum (pros ... plataniston). 336 hinn gerenski riddari, þ.e. frá bænum Gereoníu í Messeníuhéraði á Pelopsskaga; hafði Nestor leitað þar hælis eftir að Herakles hafði lagt ættborg hans, Pylos, í eyði. 353 hægra megin, þ.e. heillavænlega; vinstri hliðin (sem nefndist a gr. „sú með góða nafnið“, — til þess að blíðka hana!) aftur á móti var óheillahlið. 356 og hefnt harma og andvarpana Helenu: Eftir þessu hefði París átt að flytja hana nauðuga til Tróju. Hefur það sennilega verið hin upprunalega mynd sögunnar, enda hefði Akkeum varla annars verið svo mjög í mun að vinna hana aftur. 363 Skipt liðinu ... í ættkvíslir og frændbálka: Ráð þetta er gefið til þess að gefa tækifæri til þess að telja upp herafla Akkea. 388 Hlífskjaldarfetillinn var leðuról, fest við vinstri og hægri rönd skjaldarins og lögð yfir báðar axlir hermannsins. Sjá mynd. Sbr. aths. við III 335. 406 hvorum tveggja Ajanti, þ.e. Ajanti Telamonssyni og Ajanti Öyleifssyni. Týdeifssyni, þ.e. Díómedes. 419 en K. veitti honum ekki, eiginl.: vildi enn ekki veita honum. 447 ægisskjöldinn, það var eiginlega ekki skjöldur, heldur brynja, upprunalega úr geitarskinni, sem Aþena íklæddist, þegar hún vildi skelfa aðra eða fór sjálf til bardaga. 449 100 uxalög, þ.e. 100 uxa virði — eftir fornu mati. 450 Með voðalegu augnaráði, eða: glampandi, leiftrandi augnaráði. 460 krákum, réttara: trönum. 461 á hinni asnesku veitu, nafn á víðlendri mýrarsléttu í Lýdíu, sunnan við Tmólusfjall; þaðan er dregið nafnið „Asía“. Á sléttu þessari var oft mjög mikið af fuglum. 465 Skamander var aðalfljótið, sem rann um Trójusléttuna. Kemur það upp á Ídafjalli, fellur norður um sléttuna vestur fyrir Trójuborg og út í Hellusund. Austan við fljótsmynnið, milli höfðanna Sigeion og Rhoiteion, höfðu Akkear herbúðir sínar. — 484—785 Segið mér nú, þér sönggyðjur, skáldið hefur þenna kafla þáttarins með sérstöku ávarpi, sem sýnir, að þetta er sérstakur, sjálfstæður þáttur eða réttara sagt sjálfstætt kvæði. Getið er hér ýmissa hetja og staða, sem hvergi koma fyrir annars staðar í kviðunum: Sjá nánar ath. framan við þenna þátt og landabréf í inng. við Od., bls. XXXVIII—XXXIX. 494 Ástæðan til þess, að hetju- og skipatal hefst á Böyótum, er annaðhvort sú, að flotinn safnaðist fyrst saman í Ális, sem var í Böyótíu, eða þá sú, að höfundur þessa kafla hefur verið Böyótíumaður. 500 Hýla stóð á hæð við Kopaisvatn. 502 Þispa, á milli Helíkonsfjalls og Korinþuflóa, skammt frá sjó. Þar eru enn þann dag í dag villtar dúfur. 505 Undirþeba, stóð niðri á sléttunni, en Þeba sjálf með 7 borgarhliðum sínum stóð á hæð. 506 Onkestusborg við Kopaisvatn. 508 er lá á landamæri, þ.e. við Evböyuflóa. 510 og voru 120 sveinar B. á hverju, þetta mun hafa verið venjuleg tala skipverja, þó að stundum sé getið um færri (t. d. 50 á skipum Fíloktess). 511 Orkomenus var hin auðuga höfuðborg Minýjaríkis, er síðar varð hluti af Böyótíu. Ares var ættarguð þeirra. 517 Skedíus, konungur, sem ríkti í Panopeus. Hann féll fyrir hendi Hektors. Ifítus og Nábolos voru meðal Argóarfara. 522 Kefíusfljót sprettur upp norðan við Parnassosfjall (við Lileu), rennur gegn um Fókis, inn í Böyótíu og fellur í Kopaisvatn. 533 Boagríusá fellur í sjó út móts við norðvesturodda Evböyu. 535 Evböyu, á að vera: „hinni heilögu Evböyu“, vegna dýrkunar Apollons og Artemisar. 536 Abantar, samkv. landfræðingnum Strabo voru þeir Þrakverjar, aðrir segja frá Fókis. 540 afspringur Aresar, þetta og svipuð orðatiltæki tákna venjulega aðeins „hraustan hermann“. 542 hinir vösku A., eiginl. hinir fóthvötu A. Þeir létu vaxa hár í hnakka sér, líkl. er átt við fornan sið, — sem annars þekktist ekki með Hellenum —, raka hárið af að framan. 548 móðir hans var hin kornfrjóva jörð, táknar, að hann hafi verið Jarðarbur, enda stærðu Aþeningar sig af því að vera frumbyggjar landsins. 549 auðuga hof, af því að þar söfnuðust margar helgigjafir og heitfé. Hof Aþenu og Erekteifs voru ávallt undir sama þaki. 550 hylla ... á ári hverju, átt er við svonefnda „Minni Aþenuhátíð“, til heiðurs Aþenu og Erekteif sem stofnendum akuryrkju í Attíku. 558 og þegar hann kom með þau ... Þessa línu vantar í ýmis beztu handrit. En Aþeningar studdust m. a. við hana í deilu sinni við Megöru um Salamis. Sumir telja, að línunni hafi verið skotið inn á tímum Peisistratusar harðstjóra, sem hertók Salamis. 559 vegggirtu; enn þann dag í dag eru múrarnir, sem um Tiryns luktu, stórkostlegir. Sjá mynd J.G. bls. 31. 560 hinn djúpa fjörð, nl. Saróníska flóann, milli Argverjalands og Attíku, sjá landabréf! 563 Díómedes var ættaður frá Etólíu; faðir hans, Tydeifur, hafði flutzt þaðan til Argos. 566 Talajonssonar, réttara: Talaossonar, faðirinn hét Talaos. 569 Mýkena var höfuðborg Agamemnons; ríki hans, sem virðist greint frá Argos, Tiryns o. fl., var á norðanverðum Pelopsskaga og náði allt til Elealands. Sjá landabréf! 570 hinni auðugu Korintuborg, frá mjög gömlum tímum var borg þessi mjög auðug vegna verzlunar sinnar. 572 Adrestus var einnig sonur áðurnefnds Talaoss. Vegna deilu við Amfiaraos varð hann að flýja til Sikyon, þar sem hann varð konungur. 575 Strönd eða Aigialos var nafn á norðurströnd Pelopsskaga, er seinna nefndist Achaia. 581 hola ... Lakverjalandi, þ.e. lágt liggjandi, láglenda, sem stendur lágt, nl. milli fjallanna Taygetos og Parnon. 582 Messu = Messenu. 591 Pylosborg, annaðhvort í Trífylíu eða hin fræga borg með því nafni í Messeníuhéraði, nú: Navarino. 595 Þamýris hinn þrakverski, Þrakverji líkt og Orfeus var, er átti heima í Pieríu við rætur Olympsfjalls. 599 gerðu hann sjónlausan, eða mállausan (peron). 616 svo vítt sem ..., þ.e. þessir staðir afmarka landamærin. 624 Ágeassonar, um Ágeas konung sjá J.G. bls. 237. 625 Dúliksey, annaðhvort samnefnd eyja, eða eyja sú, er síðar nefndist Kefallenía. Ekinaeyjar lágu fyrir utan strönd Akarnaníu í Mið-Grikklandi móts við Akkelóusósa norður af Elís. Annars virðist þekking Hómers á vesturströndinni nokkuð óljós. 629 Fýleifur varð að fara að heiman af því að hann bar vitni á móti föður sínum Ágeasi, sem hafði reynt að svíkja Herakles um launin fyrir fjósahreinsunina, sbr. J.G. bls. 237. 633 Krókylja og Egilípa voru annaðhvort staðir á Íþöku eða smáeyjar þar í nánd. 634 Sakyntsey og Sámsey, sjá landabréf! 635 handari ströndinni, orðrétt: sem liggur beint á móti, þ.e. héraðið Akarnanía. Eyjan Leukas er ekki nefnd hér, e. t. v. er það einmitt sú eyja, sem Hómer nefnir Íþöku. Sbr. inngang að Od. bls. XXXVII. 637 hlýrroðin (miltopareoi), á gr. orðrétt: með menjurauðar kinnar. Ef til vill hefur andlit verið málað á stefnið, líkt og enn tíðkast í Kína og sums staðar við Miðjarðarhaf. Skipin voru hugsuð sem eins konar persónur. 640 Kalýdonsborg, Kúretar réðust á borgina, Etólar vörðu hana, og hjálpaði Meleager þeim til sigurs. 645 Hér hefst upptalning á eyjum, er liggja suður og austur af meginlandinu. Borgir þær, sem nefndar eru á Krít, stóðu allar við rætur Ídafjalls á miðri eyjunni. Idomeneifur var afkomandi Seifs; faðir hans var Devkalíon, afi hans Mínos, konungur á Krít. 647 hinni hvítu Lýkastus, eiginl. hinni krítarauðugu L.; hún stóð á krítarbjörgum. 651 Enýalius(s), nafn á herguðnum Ares. 653 Roðeyingar á eyjunni Rhodos (Roðey) eru ekki nefndir annars staðar hjá Hómer. Sbr. inngang að þessum þætti. 659 Effýru, í Elealandi (Elís), þar sem Ágeas konungur ríkti. Í Odysseifskviðu er sagt, að þaðan hafi verið sótt eitur (Od. I 259 o.s. frv. og II 328 o.s. frv.). 662 Likymníus var bróðir Alkmenu. Skáldið Pindar segir, að vígið hafi verið unnið í æðiskasti, en önnur saga segir, að það hafi verið óviljaverk. 670 og lét K. afarmikinn auð renna til þeirra. Borgirnar urðu brátt auðugar af verzlun, siglingum og iðnaði. 671 Sýmey, eyja norður af Roðey (Rhodos). 676 Nisýra og næstu eyjar teljast til svonefndra Sporades-eyja í Grikklandshafi, milli Hringeyja (Kyklades) og Kríteyjar. Hringeyjar eru ekki nefndar í skránni. 681—759 fjalla um Norður-Grikkland (síðar Þessalíu). 681 Argverjalandi Pelasga, átt er við ríki Akkilless, en heimkynni hans nefndist líka stundum Argverjaland. 682 Alópa, norðan við malíska flóann, sem gengur inn í Mið-Grikkland að austanverðu; Trakis við rætur Ötufjalls. 683 Fiðja var heimkynni þeirra Peleifs og Akkilless, hérað í Suður-Þessalíu. 692 Mýnes var eiginmaður Bríseisar, en Epistrofus bróðir Mýness. 695 Fýlaksborg og eftirfarandi 4 borgir voru í héraði því, er síðar nefndist Fíótis (Phthiotis, Fiðja) fyrir norðan Oþrys, á strönd pagasaíska flóans. 700 með sárar kinnar, orðrétt: með báðar kinnar rifnar, klóraðar (nl. af sorg). 701 hús hans var hálfgert, líklega á ekki að taka þetta bókstaflega (eftir gríska textanum), heldur er meiningin, að heimilið var enn ekki fullstofnað, hann átti t. d. enn engan son. dardanskur = tróverskur. 712 Jólkusborg, þar sem Pelías og hinn frægi Jason bjuggu. 716 Meþóna og 3 eftirfarandi borgir voru á strönd Magnesíu, austur af Þessalíu, við Þrakahaf. Fíloktetes bjó í Meliböyu. 719 50 ræðarar á hverju, annars voru venjulega 120; sbr. ath. við 1. 510. 722 Lemney, þar höfðu Akkear á leiðinni til Tróju fengið góðar viðtökur hjá Evneos konungi. 724 áttu bráðum að muna til F., hér er vitnað til atburða, sem ekki er getið um hjá Hómer, en öllum áheyrendum hafa verið kunnir. 743 þann dag, er hann, þ.e. á brúðkaupsdegi þeirra Píríþóuss og Hippodamíu; sjá J.G. bls. 219. Ferum (bergrisum), sjá ath. við I 268 (um Kentárana). 751 Títaresusfljót, sem seinna nefndist Evropos, kom upp á Titanosfjalli nálægt Olympsfjalli, og er bergvatn. Peneusfljót er aftur á móti hvítleitt vegna mikils kalks. 755 hinu óttalega eiðsvatni, guðirnir unnu eiða sína við undirheimsfljótið Styx, þegar mikið lá við. 759 Tala skipanna nemur 1186. Tala alls hersins hefur numið eitthvað kring um 100.000 manns, ef hver áhöfn hefur að meðaltali verið 85, eins og Þúkydídes reiknar. 763 Evmelus, á gr. stendur einnig: sonarsonur Feresar, en hans sonur var Admetus, faðir Evmelusar. 766 hafði Apollon s. alið upp o.s. frv., þ.e. þegar hann var í þjónustu Admetusar, sjá J.G. bls. 127. 774 töfluleik, þ.e. kringlu- (diskos) kasti. 783 Týfón eða réttara: Týfóeifur, andi neðanjarðarelds, ógurlegur risi, sigraður af Seifi með eldingu og grafinn undir fjalli, en reynir við og við að losa sig, og kemur þá jarðskjálfti; sbr. J.G. bls. 99. á Arímafjöllum, eldfjallahérað í Kilikíu í L.-Asíu. 786 vindfætta, eða vindhraða. Íris er í Ilíonskviðu oftast sendiboði guðanna, í Od. kviðu er það Hermes. 788 við hallardyr Príamuss, þar sem eftir austurlenzkum sið konungar heyrðu og dæmdu mál manna. 791 gerði sig líka í máli; gera verður ráð fyrir, að hún hafi líka verið það í útliti; sbr. líka 1. 795. 804 er mannmergðin er mikil, eða: menn eru mjög dreifðir (polyspereón anþrópón). 809 öllum hliðum, greftirnir við Hissarlik sýna, að á borgarmúrum Tróju hafa verið nokkur hlið, þó að Hómer nefni aðeins eitt, nl. Skehlið (stundum nefnt Dardanshlið); nálægt því stóð eikitré Seifs. 812 má hlaupa umhverfis í kring um hann, þ.e. hann stendur einn sér. 813 Batía þýðir eiginl. „Þyrnihóll“. 814 Myrína var skjaldmær eða amazóna. 816—877 er upptalning á herforingjum Trójumanna og bandamanna þeirra. Allur heraflinn skiptist í 16 flokka: 5 tróverska og 11 bandamanna (3 frá Evrópu, 8 frá Asíu). Tala manna þeirra alls var um 50.000, þar af um 10.000 Trójumenn. 819 Dardansmönnum, borgin Dardanía, sem var eldri en Ilíon, stóð sunnar og ofar í Skamandrosdalnum. 820 Eneas Ankísesson, um hann og Afrodítu sjá J.G. bls. 263. 821 á hálsum Ídafjalls, þar sem Ankíses stjórnaði fjárhirðunum. Fjallið er allhátt og tindur þess er snævi þakinn mikinn hluta árs. 828 Adresteia, slétta og borg vestur af mynni Granikosfljóts. 836 Sestus, borg í Þrakíu við Hellusund, á Chersonesosskaga, beint á móti borginni Abydos. 845 fagurrennanda, eða: straumharða (agarroos). 846 Kíkónar bjuggu við Hebrosfljót í Þrakíu, sem heitir nú Maritsa (í Búlgaríu). 848 Peónar voru nágrannar Þrakverja og náskyldir Trójumönnum. 850 Axíusfljót, nú Vardar, rennur í Salonikiflóa. 852 Enetalandi; Enetar voru sagðir ættfeður Veneta í Venetíu við botn Adríahafs. 860 Eaksniðji, þ.e. Akkilles Peleifsson. 865 Þeir voru fæddir af Gýgjarvatni, þ.e. móðir þeirra var hafmær. 867 Þeir töluðu útlenzka tungu, eða þeir töluðu ruddalega (siðlausa) tungu (barbarofónón). 872 hann, nl. Nestor. og bar gull á sér, þ.e. gullskraut, líklega hárspennur úr gulli. 876 Sarpedon var hraustasti höfðingi bandamanna og gekk næstur sjálfum Hektor að hreysti. ÞRIÐJI ÞÁTTUR Herirnir standa nú vígbúnir, hvor andspænis öðrum. En ekki lætur skáldið enn koma til allsherjar átaka. Höfuðefnið í þessum þætti er einvígið milli Parisar, Príamssonar, þess, er numið hafði burt Helenu og komið þannig stríðinu af stað, og Menelásar konungs, er um sárast hafði að binda vegna konumissisins. Þykir eðlilega báðum aðilum, Akkeum og Tróverjum, þessi lausn á málinu ágæt, því að allir eru orðnir þreyttir af löngum og mannskæðum ófriði. Í þessum þætti fær skáldið tækifæri til að leiða fram á sjónarsviðið ýmsar aðalpersónur bæði Tróverja og Akkea. Skáldið lýsir vel mismuni Príamssonanna tveggja, hins glæsilega, ástleitna og munaðargjarna Parisar, sem meiri er í orði en verki, og hins hrausta og hugstóra Hektors. Þá er Príamusi konungi lýst með mikilli samúð sem mildum og göfugum konungi, — yfirleitt lýsir skáldið fjandmönnunum með jafnmikilli samúð og Akkeum. Jafnvel óvinirnir virða hann og bera traust til hans. Hann vill ekki horfa á son sinn Paris berjast (303—313). Þegar Helena kemur til fundar við hann uppi á múrnum, mætti búast við, að hann fari að hallmæla henni. Það gerir hann ekki, heldur talar til hennar blíðlega og telur hana ekki bera sökina, heldur goðin. En hún ásakar sjálfa sig harðlega. Yfirleitt gerir skáldið sér far um í þessum þætti að vekja samúð hlustandans með Helenu og skilning á högum hennar. Kemur það fram í þáttarlok, að ekki má hún sköpum renna, heldur hlýtur að hlýðnast Afródítu, jafnvel sér þvert um geð. Þessi barátta í huga hennar, milli skyldu og lægri hvata, kemur einnig fram í 6. þætti. Samtalinu milli Príamuss og Helenu á borgarmúrunum er líka skotið inn til þess að fá tækifæri til þess að bregða upp fyrir áheyrendum stuttum lýsingum á helztu forustumönnum Akkea, þeim Agamemnoni; Menelási, Odysseifi og Ajanti. — 2 Trójumenn, þ.e. þeir sjálfir og bandamenn þeirra. 5 út að Ókeansstraumum, eða: í áttina til Ó., þ.e. til suðurs. 6 Pygmeum (af gr. pygme = hnefi, þ.e. sem varla standa upp úr hnefa). Menn hugsuðu sér, að þeir byggju syðst á jarðarkringlunni og væru á hverju ári drepnir af trönum. Hafa fornmenn sennilega haft óljósar sagnir af dvergþjóðum Mið- og Suður-Afríku. 11 en haglegri þjófunum, sem eiga hægara með að stela nautgripum í dimmri þoku, þegar gripirnir eru úti, heldur en að næturlagi, þegar þeir eru læstir inni. 17 pardusfeld, ósútaðar húðir ýmissa dýra voru fyrstu verjur manna. Slíkur feldur var annars einkum notaður af bogskyttum. Þetta var heill feldur með hárunum á. Var höfuðið fest á vinstri öxl mannsins rétt við hálsinn. Þegar hann þurfti að hlífa sér fyrir skoti eða lagi, greip hann neðri hluta feldsins með vinstri hendi og hélt honum fyrir framan sig til varnar. 13 eirslegnum, eiginl. „með eiroddi“ (kekoryþmena khalko). 25 svo sem ljón, eiginl.: svo sem soltið (peinaón) ljón. 40 hefðir aldrei verið kvennýtur, eða: hefðir aldrei fæðzt (agonos). 57 kominn í grjótstakk, þ.e. grýttur til dauða. 64 gullfögru, eða gullskreyttu (khryses). 103 hvítt hrútlamb — handa guðinum Sól (Helíus) og svarta gimbur handa gyðjunni Jörð (Ge). 106 Því synir hans eru o.s. frv.: Þessi orð eiga einkum við Paris (Alexander). Menelás reynir að láta persónulega gremju ekki koma fram í orðum sínum, en getur þó ekki stillt sig um þessa hnútu. 121 Íris kemur hér ótilkvödd; venjulega er hún sendiboði guðanna. 126 óf hún þar á marga bardaga, þetta ívaf hefur auðvitað verið marglitt; þessi íþrótt var komin frá Austurlöndum. Svipaðan vefnað unnu Normannakonurnar á miðöldum. 130 frábæru afreksverk, eða: furðulegu aðfarir (þeskela erga). 140 foreldrum, þ.e. Ledu og Tyndarevs. 142 mjúkt (þ.e. viðkvæmt) tár. 144 Báðar þjónustumeyjarnar höfðu komið með henni frá Spörtu. Faðir Eþru, Sitteifur, var sonur Pelops og konungur í Trözen. Eþra átti með Egeifi son, kappann Þeseif. 145 Skehlið var vestanvert við borgina; einnig nefnt hið dardanska. Hómer nefnir aðeins þetta hlið þó að þau hafi sjálfsagt verið fleiri. 149 höfðingjar, eiginl. „öldungar þjóðarinnar“ (demogerontes), þ. „Volksälteste“). sátu uppi yfir S., þ.e. á turninum yfir hliðinu. Líklega hefur hliðið verið á turni miklum, er gnæfði upp yfir múrana. Þar sátu konur og öldungar og horfðu á bardagana. Við grefti á hinu forna stæði Tróju (þar sem nú heitir Hissarlik) hafa fornfræðingar fundið grunn eða undirstöðu afar stórs turns við suðurhlið borgarinnar. 151 eikifroskum, þ.e. trjásöngvum eða skortítum (tettigessín). 176 mína ástkæru dóttur, hún hét Hermíone. 179 hann er hvort tveggja o.s. frv., þetta var uppáhalds ljóðlína Alexanders mikla, sem hann lét sér oft um munn fara. 186 Otreifur var mágur Príamuss. 187 Sangar var fljót í Stór-Frygíu í Litlu-Asíu. 189 Skjaldmeyjarnar (amazónur) fóru ránsför inn í Frygíuland, og kom þá Príamus Frygum til aðstoðar. 205 í erindagerðum þinna vegna: Áður en Akkear færu með her gegn Tróju, höfðu þeir sent sendimenn til þess að reyna að miðla málum á friðsamlegan hátt. 207 þá gisti eg þá báða ...: Samkvæmt alþjóðarétti þeirra tíma nutu sendimenn gistiréttar og voru friðhelgir. 209 er Trójumenn voru saman komnir, nl. á þjóðfundi til þess að ráðgast um kröfur sendimanna. 219 Í Suðurlöndum hafa menn löngum talað með miklu handapati og hreyfingum, og var það einkum í fornöld talið eðlilegt. 237 Kastor ... Polýdevkes, sjá J.G. bls. 113—114. 274 síðan skiptu kallararnir þeim o.s. frv.: tákn þess, að báðir herir eigi hlut að samningnum, og þeir hljóti örlög fórnardýrsins, ef þeir halda ekki gerð grið. 276 á Ídafjalli, réttara: frá Ídafjalli, sem var nálægt Tróju. 278 Fljót, þ.e. fljótaguðir Tróju. 279 þið tvö, þ.e. undirheimaguðirnir Hades og Persefóna. Annars talar Hómer sjaldan um refsingu í undirheimum. Sjá inng. að Od. bls. XLI—XLII og inng. að skýr. við XI. þátt Od. 305 veðurnæmu Ilíonsborg. Borgin hefur staðið nokkuð áveðra. Fræðimenn, sem fengizt hafa við forngrefti í Hissarlikhæðum, þar sem borgin hefur staðið, segja, að mjög sé vindasamt þar uppi á hæðunum. 325 og horfði aftur fyrir sig á meðan, nl. til þess að forðast grun um, að hann væri hlutdrægur og ívilnaði bróður sínum. 330 brynhosur voru eins konar legghlífar, eirplata (oft einnig leður) beygð aftur með leggnum og bundin eða krækt föst um ökla og hné. Sjá skýringarmynd bls. 511. [Mynd: Hermaður með alvæpni.] 332 brynja; hún var gerð úr tveimur eirplötum, þakti önnur brjóst, en hin bak hermannsins. Á þeim tímum, sem þeir atburðir gerðust, sem hér er lýst, voru þessar hlífar þó sjaldnar úr málmi, heldur var hermaðurinn klæddur leðurserk. Sbr. inng. að Od. bls. XXXIV. [Mynd: Skjöldur að innanverðu.] 335 stórum og þykkum skildi: Skjöldur sá, er kappar Hómers notuðu, var þannig gerður: Nautshúðir voru lagðar hver ofan á aðra, tvær eða fleiri og saumaðar saman þannig, að skjöldurinn varð nokkurn veginn hringmyndaður. Síðan var hann frá tveimur stöðum í röndinni (a og b á myndinni) herptur dálítið saman og skiptist þannig í tvo misstóra hluta. Skildinum var haldið í þessari lögun af tveimur tréstöfum, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Að utan var skjöldurinn þakinn málmþynnum eða bólum með ýmiss konar gerð, og á miðjunni var stór málmbóla, skjaldarnöfin. Skjöldurinn var borinn í breiðri leðuról, sem brugðið var undir hægri handarkrika og hvíldi á vinstri öxl. Skjöldurinn var mjög stór og þungur. Þegar hann hékk á öxlinni, náði hann niður fyrir miðjan fótlegg. Þegar hann var ekki notaður, hékk hann á baki hermannsins. Með því að kippa honum fram fyrir sig, gat hermaðurinn hlíft öllum líkama sínum, en haft handleggina lausa til þess að skjóta með spjótum. Loks gat hermaðurinn látið neðri jaðar skjaldarins hvíla á jörðinni, en sjálfur kropið bak við skjöldinn. Þetta, hve skjöldurinn var stór og þungur, gerði það að verkum, að illmögulegt var að hlaupa eða ganga með hann lengi. Þess vegna notuðu kapparnir kerrur eða stríðsvagna, sem ekki var barizt úr, heldur hafðir til þess að komast fljótar og auðveldar áfram. 336 hjálm, sjá skýringarmynd bls. 517. Ofan á honum var hólkur, sem hjálmskúfinum var stungið ofan í og festur við. Hjálmurinn var bundinn undir hökuna með leðuról. Upp úr hjálminum stóðu oft horn, eitt eða fleiri, eins og myndin sýnir. Framan á honum var málmhnúður eða bóla, hjálmbólan. Stundum voru fleiri mámhnúðar eða bólur ofan á hjálminum, t. d. er stundum talað um „fjórbóluhjálm“. Hjálmurinn var úr eir, en að innan klæddur leðri. Gríska orðið, sem stundum (t. d. hér) er notað um hjálm, þýðir líkl. „úr hundsleðri“, sennilega af því, að upprunalega hafa hjálmarnir verið hettur úr hundsleðri. 345 langskeftu, eiginl. þýðir gr. orðið „með langan skugga“. 375 hina sterku nautsleðuról, eiginl. orðrétt: „ól af nauti, sem drepið hafði verið með afli“. 406 vík burt af vegi guðanna, þ.e.: hættu öllu samneyti við guðina. 411 búa um rekkju hans, þ.e. þjóna honum til rekkju og sofa hjá honum. 448 útskornum legub., eða réttara: götuðum, þ.e. með göt fyrir leðurólar, sem bundu rúmstæðið saman. FJÓRÐI ÞÁTTUR Þessi þáttur skiptist eðlilega í þrjá meginkafla: 1) Sáttarof, og Menelás særður sviksamlega (1.—219. 1.), 2) liðskönnun Agamemnons (220.—421. 1.) og 3) allsherjar bardagar hefjast (422.—544. 1.). Þátturinn hefst á Ólympstindi, í „hinni gulllegu höll“ guðanna. Sitja guðirnir þar á fundi, og er rætt um Trójustríð. Hera og Aþena sækja það fast, að bardagar hefjist af nýju og haldi áfram, þangað til yfir ljúki og Trója sé eyðilögð. Seifur er að vísu í fyrstu nokkuð tregur til þessa, af því að honum er hlýtt til Trójumanna, en lætur þó að lokum til leiðast og sendir Aþenu niður á vígvöllinn til þess að vekja aftur bardagann. En Aþena gerir það með því að fá Pandarus til þess að skjóta ör að Menelási og særa hann. Skáldið lýsir bróðurkærleika Agamemnons, áhyggjum hans og gremju yfir tryggðrofunum og spá hans um fall Tróju. Trójumenn sækja nú fram, en Agamemnon kannar sitt lið, ýmist hvetur og hrósar eða ámælir. Síðan hefst allsherjar bardagi, sem jafnframt undirbýr frásögnina um afreksverk Díómedess í næsta þætti. 2 gulllegu höll, eiginl. á gr.: „gulllagða gólfi“ (khryseó dapedó). Sá siður, að hylja gólfið málmi, þekktist aðeins í Austurlöndum. Heba, gyðja æskunnar, sjá J.G. bls. 163. 8 Alalkómenugoð, Alalkómene var smábær í Böótíu, þar sem Aþena var dýrkuð. 17 þetta sé öllum yður kært og ljúft, auðvitað veit hann, að það er hvorki Heru né Aþenu kært, en segir það til þess að stríða þeim. 20 ýskruðu, eða: mögluðu, nöldruðu (epemyxan). 68 Þannig lætur þá Seifur rjúfa þann sáttmála, sem einmitt var gerður í hans nafni. 101 er fæddur er í Lykíu, eða: er fæddur er af úlfi, eða: ljósguð (lykegenes). 105 ólmrar villigeitar, átt er við sérstaka tegund steingeitar, sem á heima í Litlu-Asíu. 107 hafði hann sætt henni, þ.e. setið um hana eða fyrir henni. 109 16 þverhandir á lengd, hver þverhönd, eða breidd fjögurra fingra, var talin 3 þuml. eða 0,254 m. Það er óvenjuleg lengd á geitarhorni, og mundi erfitt vera að draga upp slíkan boga; mundi það samsvara um 700—750 kg. þunga! 111 álmbaug, þ.e. hringur sá eða rauf, sem lausa enda strengsins var smeygt upp á, þegar nota átti bogann. 112 lagði hann svo gætilega niður á jörð skáhallan, þ.e. spyrndi öðrum endanum við jörðina. 117 undirstöðu, eiginlega: uppsprettu ( þ.e. orsök, herma). 122 sintaugarnar, orðrétt: nautsleðurtaugarnar (-strengina). 123 örvafleininn, eiginl.: járnið (nl. í örvaroddinum). 126 langaði ólmt; Skáldið gerir vopn stundum að hugsandi, lifandi verum. 127 Menelás; frá honum er ekkert sagt síðan í 3. þætti (449. l. og áfram), að „hann gekk hingað og þangað um herinn (nl. her Trójumanna) eins og óarga dýr“. Skáldið gerir ráð fyrir að nú sé hann kominn aftur í hóp sinna manna. 128 hin hlutsæla dóttir Seifs, nl. Aþena, sem studdi málstað Akkea eftir mætti. hlutsæla, þ.e. sem fær mikið í sinn hlut af herfanginu (ageleie). 137 bryndregilinn (mítre), breitt belti, sett eirplötum eða silfurplötum, sem borið var undir brynjunni utan um kyrtilinn; var efri hluti beltisins hulinn af brynjunni, en neðri hlutinn sást. 146 lituðust ... lær þín; kyrtillinn hefur verið svo stuttur, að hann hefur ekki náð nema niður á mið læri. 151 girnið og krókarnir, með girni þýðir Sveinbj. gr. orðið (nevron), sem táknar band það, sem batt örvaroddinn við örvarskaftið; krókar (onkoi) voru eins konar agnhöld á örvaroddinum, sennilega voru þeir 3. 157 rufu, orðrétt: fótum tróðu. 186 hið liðuga belti, eða: hið glitrandi b. 187 brynskyrtan, líkl. eins konar leðurstakkur. 212 en hinn goðumlíki kappi, nl. Makáon (ekki Menelás); í stað Makáon í upphafi næstu setningar mætti því standa: Hann ... 215 liðugu, sjá ath. við 1. 186. 219 Kíron, vitur kentár (sjá J.G. bls. 218), er bjó á Pelíonsfjalli. Hann var elzti læknir Hellena. 221 Ekkert er sagt um það, hvaða afstöðu foringjar Trójumanna hafa tekið til sáttarofanna eða hvers vegna Trójumenn sækja fram. 242 örvaþrjótar, eða: rauparar, gortarar (íomóroi). 262 þá stendur þó ker þitt jafnan fullt: það var sérstakur sómi, sem sýndur var sérstaklega heiðruðum gesti, að staup hans væri ávallt fullt. 273 Ajantar, þ.e. Ajant, sonur Telamons, og Ajant Öyleifsson. 306 En hver maður o.s. frv.; meiningin virðist vera sú, að maður megi skjóta spjóti að óvini, ef hann haldi, að hann dragi án þess að fara burt úr sínum stað í fylkingunni. 319 Erevþalíon, forvígismaður Arkadíumanna. 327 Aþeningar stóðu til hægri handar við Pylosmenn, og út frá Aþeningum til hægri komu Kefallenar. 330 flokkar Kefallena, Kefallenar nefndust einu nafni allir þegnar Odysseifs. 331 spurt um ófriðinn, eiginl. heyrt herópið. 350 Hvaða orð kom þér af vörum? Orðrétt á gr.: Hvaða orð komst út fyrir gerði tanna þinna? (poion se epos fygen herkos odontón). 354 faðir Telemakkuss, þ.e. ég (Odysseifur), sjá ath. II 260. 366 á hinni málmbúnu kerru, eiginl. (á gr.): á hinni traustu kerru með hestum fyrir. 367 Stenelus: Vagnstjórar konunganna voru aðalsmenn og oft nánustu vinir konunganna. 371 herkvíarnar, líkl. gefur þýð. með þessu orði til kynna millibilið milli einstakra fylkinga, en það er það, sem gr. orðin (polemoio gefyras) þýða. 376 frá hernum, eða (réttara): án ófriðar (ater polemú), þ.e. í friðsamlegum erindum. 377 í liðsbón, nl. gegn Þebuborg. 378 þeir, nl. Týdeifur og Polýníkes. 380 Í Mýkenu ríkti þá Þýestes. 382 (héldu) þeir (þaðan), nl. Týdeifur og Polýníkes með mönnum sínum. 383 Asópsbakka, fljót í Böótíu. Á bökkum þess nam her Argverja staðar og sendi Týdeif til Þebu til Eteókless konungs til þess að reyna að komast að friðsamlegu samkomulagi. 384 aftur á njósn, eða (réttara): aftur sem sendimann (angelíen). 385 Kadmeumanna, þeir voru elztu íbúar Þebu. Eteókless er annars ekki getið hjá Hómer; höfðingjar hans voru á ráðstefnu hjá honum. 406 hina sjöhliðuðu Þebuborg, sjá ath. vi3 II 505. Átt er við hina síðari herferð gegn Þebu, sem Epígónar (afkomendur) fóru gegn borginni. Sbr. J.G. bls. 250. 407 fámennir, réttara: fámennari (nl. en feður okkar). upp undir Aresarvegg, eða: upp undir sterkari vegg (nl. en veggur sá, sem feður okkar réðust á). 409 en feður okkar týndust o.s. frv., hinum sjö herstjórum gegn Þebu er venjulega lýst sem ofstopafullum illvirkjum, sjá J.G. bls. 249—250. 412 gamli maður, réttara: kæri vinur eða góði minn (tetta). sezt niður, eða: hafðu hægt um þig. 448 hinir bunguðu skildir, eða: skildir, skreyttir skjaldarbólum, sem voru málmþynnur eða mámhnúðar. Sbr. ath. við III 335. I. 462 og féll hann í hinum harða bardaga, eða: svo sem þá turn hrynur í hinum harða bardaga. 474 Símóisíus, nefndur eftir fljótinu Símóis, sem kom upp á Ídafjalli og rann í Skamandrosfljót niðri á sléttunni. 489 Antífus fellur síðar (XI 109 1.) fyrir Agamemnoni. 492 sín megin, þ.e. til hliðar. 500 frá Abýdus (sjá landabréf), sem var í ríki Príamuss; þar hafði hann stóðhöfn, og hefur D. haft umsjón með henni. 508 af Pergamus, sem var nafn á háborginni í Tróju. Þar var og hof Apollons. 509 hestfimu Trójumenn (gr. hippodamoi T., af hippos = hestur og damaó = tem). 511 bitvænlegt (gr. tamesíkhroa, af tamnó = sker og khrós = hörund) eirvopn, Sveinbirni tekst oft prýðilega með þýðingar á samsettum lýsingarorðum, flestum þýðendum betur. Finnur hann oftast orð í íslenzkunni, sem nær hljómi og hugsun gríska orðsins. 515 Tritógenía, nafn á Aþenu. Vafasamt er um merkingu orðsins, e. t. v. er það dregið af ánni Tríton í Böótíu, þar sem Aþena átti að hafa alizt fyrst upp og fyrst verið tignuð. 517 Díóres, var foringi Epeanna, II 622. 527 Þóant, sbr. II 638. En meðan P. ruddist áfram, eða: þegar P. hljóp til baka, eða: þá ruddist fram Þóant hinn etólski og skaut hann o.s. frv. 533 (hinir) kollhærðu (Þrakverjar), þ.e. þeir létu hárið aðeins vaxa á kollinum og bundu það þar saman í hnút; sama sið segir sagnritarinn rómverski, Tacitus, að germanski þjóðflokkurinn Svebar hafi haft. FIMMTI ÞÁTTUR Þessi þáttur fjallar aðallega um afreksverk kappans Díómedess. Síðasti hluti 4. þáttar er eins konar inngangur að þeim, og framhald á þeim er í upphafi 6. þáttar. Ef allt þetta væri í einum þætti, yrði hann um eða yfir 1000 ljóðlínur, en það var talið of mikið í einn papyrusstranga, sem venjulega rúmaði 600—800 línur eða einn þátt. Það voru málfræðingar í Alexandríu, sem gerðu þessa skiptingu (sbr. inng. að Odysseifskviðu, bls. XXX—XXXI). Í bardaganum taka sjálfir guðirnir þátt: Aþena og Hera með Akkeum, Ares, Afrodíta og Apollon með Trójumönnum, og særist Afrodíta eins og mennsk væri. Í fornum söguljóðaskáldskap var það mjög algengt, að bardagalýsingar leystust upp í lýsingar á bardögum einstakra kappa. Yrði allt of tilbreytingarlaust að lýsa bardögum almennt í svo löngum þætti eins og þessum; lýsingarnar verða miklu meira lifandi, þegar lýst er afrekum einstakra kappa. Skáldið fær í þessum þætti tækifæri til þess að lýsa nánar ýmsum köppum Trójumanna, einkum Hektor, og undirbýr þannig Hektorskaflann í 6. þætti. Fimmti þáttur skiptist eðlilega í þrjá meginkafla: 1) 1.—430. 1. Diómedes gerir usla í liði Trójumanna og særir Afródítu með aðstoð Aþenu. 2) 431.—710. 1. Ares og Apollon hvetja Trójumenn til dáða, og Díómedes verður að hörfa undan. 3) 711.—909. 1. Hera og Aþena koma Grikkjum til aðstoðar, og Aþena og Díómedes særa Ares og hrekja hann upp á Ólympus. 5 frumhaustsstjörnunni, nl. Síríus eða Hundastjörnunni, sem skín um „hundadagana“. 13 og reiddi hátt vopnin, þessum orðum er ofaukið eftir gr. textanum. 44 Törnuborg, Tarne var við rætur Tmolosfjalls í Lydíu, nefndist síðar Sardes. 59 Harmonsson smiðs, eða son Tektons (= Smiðs, eiginnafn), Harmonssonar; Harmon þýðir líka „samskeytari“ eða smiður, sem á að sýna, að þetta hafi verið listamannaætt. 64 goðaspárnar, sem hótuðu Tróju tortímingu, ef Paris á skipum rændi Helenu úr Lakedemon. 69 Meges, sjá II 627. 70 hin ágæta Þeanó, hún var dóttir Þrakverjakonungsins Kisses, hofgyðju Aþenu í Tróju og gift Antenor. Þrakverjar voru bandamenn Trójumanna. 72 Fýleilsson, þ.e. Meges. 76 Evrýpýlus, sbr. II 736. 77 Skamanders, honum voru fórnuð naut og hestar. 92 andvirki, þ.e. mannvirki, bæði akrar og hús. 95 Lýktions frægi son, nl. Pandarus, sbr. IV 88 og áfram. 105 hinn voldugi guð, nl. Apollon, frá Lýkíu, í Trójulandi. 108 Stenelus, sem beið með kerruna þar í nánd. 115 Atrýtóna, viðurnefni á Aþenu, sbr. ath. við II 157. 144 Skáldið lætur Díómedes ekki strax fá ósk sína uppfyllta, að hefna sín á Pindarusi. 148 lét hann þá liggja, nl. án þess að svipta þá vopnum og herklæðum. 150 hafði ... ekki útþýtt fyrir þeim drauma sína, eða: hafði ... ekki þýtt (túlkað) fyrir þeim drauma ( þ.e. hafði ekki í draumi séð fyrir örlög þeirra og því leyft þeim að fara). 153 elligetnir, eða: unglingar. 182 pípuhjálminum, eiginl. hjálminum með nefbjörg og fjórum hornum, sbr. ath. við III 336. 195 og er tjaldað dúknum ... , eða: og eru dúkar breiddir ofan á þær. tveir samokshestar, stríðsvagnar voru venjulega með tveimur hestum fyrir. 200 ... á kerru, eftir þessum orðum vantar í þýðinguna: út í hina hörðu bardaga. 226 hinum glæsilegu taumum, taumar voru oft prýddir fílabeins- eða gullplötum. [Mynd: Stríðsvagn.] 262 um kerrubogann, hann var eins konar sveigjanleg trégjörð eða handrið, sem lá rétt fyrir ofan kerrubrúnina allt í kring og var fest sitt hvoru megin að aftan, en náði þó ekki saman, því að kerran var opin að aftan og stigið þar upp í hana á þrepi; sjá mynd. 265—266 Um Tros og Ganýmedes sjá J.G. bls. 163 og 242. í bætur fyrir G., sem Seifur hafði rænt. 268 Ankíses, faðir Eneasar. 272 ... Eneasi; voru það hinir fótfimustu hestar, eða flóttavaldinum Eneasi (mestóri foboio). 276 Lýkaons frægi son, nl. Pandarus. 285 hefir þú nú veitt mér ... óskað, eða: hefur þú nú veitt mér mikinn orðstír. 289 hinn þrásama bardagaguð, eða: skjaldfima (talárínon) b. 291 á nefið ... og gekk ... í gegn um hinar hvítu tennur, P. hefur beygt sig, og skýrir það stefnu vopnsins. 330 Kýprisi, Kýpris var eitt nafn Afródítu, því að eyjan Kýprus var henni sérstaklega helguð. 333 Enýó var bardagagyðja og svaraði til herguðsins Aresar, sem líka nefndist Enýalíus. 351 enda þó þú o.s. frv. þó að þú einungis heyrir um hann í fjarska, en komir ekki nálægt honum. 354 hennar fríða hörund sortnaði, þ.e. litaðist blóði. 355 hann sat vinstra megin vígvallarins, eins og sagt er í 36. 1., en þangað hafði Aþena leitt hann. 370 Díona er nefnd aðeins á þessum eina stað hjá Hómer; hún var dóttir úthafsguðsins, Ókeanuss, og Teþýsar. 385 Ótus og Efíaltes voru bræður, risar miklir. Þeir ætluðu að steypa himinguðunum af stóli, og til þess að ná til þeirra, ætluðu þeir að setja Ossafjall ofan á Ólympus og Pelíonsfjall ofan á Ossu. En áður en þeim tækist að framkvæma þessa fyrirætlun, banaði Apollon þeim með örvum sínum. Sbr. Odysseifskviðu XI 308 og áfram. 389 Eriböyja hataði stjúpsyni sína; móðir þeirra hét Ifímedeia (Od. XI 305). 392 Amfitrýonsson, þ.e. Herakles. Þegar hann einu sinni átti í höggi við Neleif, hjálpaði Hera og fleiri guðir Neleifi, en fyrir atbeina Seifs og Aþenu sigraði Herakles bæði guði og menn. 394 sársauka, að hún beið hans seint bætur, eða: óþolandi sársauka. 397 hjá Pýlusborg, eða hjá hliðinu (en pyló), og er þá átt við 12. þraut Heraklesar, þegar hann sótti hundinn Kerberus til undirheima, en Hades umkringdur hinum dauðu reyndi að stöðva hann við hlið undirheima. 401 Peon var ættfaðir allra lækna; hann var læknir guðanna. 449 mannssvip, þ.e. sjónhverfing, glapsýn. Skáldið hugsar sér, að Apollon sé aftur kominn út á vígvöllinn, þar sem hann rétt á eftir ávarpar Ares; en í 460. l. er hann aftur á Pergamsvígi. 453 léttar hráskinnstjörgur, án málmhringja eða málmplata; slíka skildi báru óbreyttir hermenn, léttvopnað lið og sjóliðar. 462 Akamant, sjá II 844. 471 Sarpedon, foringi Lýkíumanna, sbr. ath. við II 876. 491 hinna langt aðkomnu l., eða hinna víðfrægu (telekleitón) liðsm. 492 að leggja niður stóryrðin, eða (líkl. réttara): að hrista af þér æðruorðið. 497 manngný, eða: vopnagný (fylopín). 499 Svo sem vindur o.s. frv.: til þess að feykja burt hisminu, var ýmist notaður eðlilegur vindur eða hann var myndaður með eins konar blævængi. Við þreskinguna notuðu menn kastskóflu til þess að þeyta korninu upp í loftið. 500 hin bleikhára Demetra, hár hennar hefur sama lit og fullþroskað korn. 502 og hvítna þá sáðhrúgurnar, nl. af hisminu. 504 eirfasta himinhvolf, þeirra tíma menn hugsuðu sér himininn sem málmhvelfingu mikla. 509 gullsvarðaða, þ.e. með gullbúið sverð. 518 Eris, Bardagagyðjan. 528 Atreifsson, nl. Agamemnon. 543 Feruborg í Messeníuhéraði. 576 Þar vógu þeir Pýlemenes, í 13. þætti 658. 1. er hann þó enn á lífi. 581 í því hann snéri við, eða: þegar hann var í þann veginn að snúa við, nl. til þess að flýja. 592 Enýó, sjá ath. við 1. 333. 604 líkur dauðlegum manni, nl. Akamanti, sbr. 462. 1. 612 Pesusborg, nálægt Lampsakusborg í Mýsíu, ekki fjarri Hellusundi. 631 sonur, nl. Sarpedon, sonur Seifs, sjá nafnaskrá. sonarsonur, nl. Tlepólemus, sonur Herakless, sonar Seifs, sbr. nafnaskrá og J.G. bls. 234. 640 til að heimta hesta Laomedons, Herakles hafði frelsað Hesíónu, dóttur Laomedons Trójukonungs, undan sjóskrímsli. Hafði konungur lofað honum í launaskyni hinum frægu hryssum af Trosætt, en sveik loforðið. Herakles kom þá og eyddi borgina. Sjá nánar J.G. bls. 242. við fáa menn, eiginl. við færri menn, nl. heldur en Laomedon. 654 veita mér ósk mína, eða: veita mér sigurfrægð. 662 inn í beinið, eða: straukst við beinið. en faðir Sarpedons (nl. Seifur) afstýrði því, að meira mein varð að, eða: afstýrði því enn (etí), að það yrði hans bani. En seinna (16. þætti 1. 502) féll hann fyrir Patróklusi. 673 meiri hluta L., eða: fleiri, meiri fjölda L. (nl. heldur en þennan eina mann). 693 hina forkunnarfögru ætibjörk, hún var nálægt Skehliði og helguð Seifi. 700 A. hörfuðu aldrei á leið til ... , eða: A. lögðu ekki á algeran flótta í áttina til skipanna (þeir hörfuðu að vísu og hopuðu á hæli, en „snéru þó öndverðir við“ Trójumönnum, sbr. 1. 605). 707 gyrðilkvika, gyrðill (mítre) virðist hafa verið hið sama og Svbj. nefnir bryndregil, sjá ath. við IV 137. 708 í Hýlu, sjá ath. við II 500. 709 Kefísavatn, sama og Kopaisvatn, dregur nafn sitt af ánni Kefísus, sem rennur í vatnið. 714 Atrýtóna, sjá ath. við II 157. 715 veitt M. það heit, þetta loforð er hvergi nefnt annars staðar. 723 eirhjólum ... þeir voru af járni ... af gulli o.s. frv., á guðavögnum er það úr málmi, sem á mannavögnum venjulega var úr tré. Spelar voru á venjulegum vagni 6, en þessum 8. 725 eirrendur, eins konar hjólbarðar. 727 gullböndum og silfurböndum, þ.e. gull- og silfurskreyttum böndum, sem héldu kerrustólnum við kerruumbúnaðinn. 728 kerrubogarnir voru tveir, venjulega var hann aðeins einn, en á guðavögnum var allt fínna og fullkomnara. Sbr. ath. við 1. 262 og mynd. 729 kerrustöng, hún var fest við kerruna í hvert skipti, sem hún var notuð. 730 okreimum, það voru bönd, sem fest voru framan á brjóst hestanna. 734 möttli, hann var næstur klæða, víð skikkja eða kjóll, sem festur var saman á öxlunum með nælum og opinn á annarri hliðinni. Ef nælurnar voru teknar, seig möttullinn þegar niður. á gólfi Seifs, uppáhaldsdóttir hans, Aþena, bjó í höll hans, en aðrir guðir bjuggu hver í sinni höll. 738 skúfaða ... ægisskildi, eiginlega var það ekki skjöldur, heldur eins konar brynja (upprunalega úr geitarskinni, sbr. J.G. bls. 120-122 og mynd bls. 121). Neðan úr henni héngu skúfar úr gullþræði. Í list síðari tíma urðu þessir skúfar að slöngum. 741 haus Gorgóar, eiginl. haus Medúsu, einnar Gorgósystra. Allir, sem hausinn litu, urðu að steini. Sjá nánar J.G. bls. 228—229. Á myndum af Aþenu sést hausinn á miðjum „skildinum“ sem gríma (sjá mynd hjá J.G. bls. 121). Sjálfur Hefestus hafði smíðað skjöldinn, og var hann eiginl. eign Seifs, en mjög oft notaður af Aþenu. Auk Gorgóhaussins virðast og hafa verið fleiri myndir, t. d. af hinum persónugerðu Deilu, Vörn og Ofsókn. 743 bóluhjálm fjórbólaðan, eða: hjálm með tveimur hornum sitt hvoru megin (amfífalon) og fjórbólaðan. Sbr. ath. við III 336. 744 nógu stóran fyrir skjaldaða fótgöngumenn úr 100 borgum, merking þessara lína er vafasöm, og mjög um hana deilt; e. t. v. á að þýða: útbúinn ( þ.e. með mynd af) fótgöngumönnum úr 100 borgum. 745 logandi, þ.e. glampandi, skínandi (af hinum skæru málmum). 766 hún er helzt vön o.s. frv., nl. sem hernaðargyðja og keppinautur Aresar. 778 líkar í göngu styggum villidúfum, gamansöm samlíking hjá skáldinu til þess að lýsa göngulagi kvenna, ólíku göngu kappanna, sem „skálmuðu stórum“. 785 eirrómaða Stentors, nafnið þýðir eiginl. „Öskrarinn, Æparinn“. Nafnið kemur ekki fyrir oftar hjá Hómer, en er orðið alþjóðatákn fyrir háa, hvella raust. 803 þá hann fór sendiför o.s. frv., sbr, frásöguna IV 384 og áfram. 804 Kadmeumenn, sem saman voru komnir í höll Eteokless. 807 og vann öll verðlaunin, á eftir þessu er í þýð. sleppt línu 808, sem sumir álíta, að eigi ekki þarna heima, en þar stendur: „auðveldlega, enda veitti ég honum aðstoð“. 845 Hadesarhjálm, þ.e. eins konar huliðshjálm; slíkur hjálmur er ekki nefndur annars staðar hjá Hómer, en kemur fyrir í sögunni um Perseif. 849 gekk móti, því að vagn sinn hafði hann fengið Afródítu (363. 1.). 861 kappleik Aresar, þ.e. bardagann. 880 þú hefir sjálfur alið ... hjá Hómer er þess hvergi getið, að hún hafi sprottið alhertygjuð út úr höfði Seifs; heldur ekki er getið hjá Hómer neinnar móður hennar. 897 vobeyða, þ.e. óheillavættur. 898 Úranssonu, þ.e. Gígantana (Risana); þeir voru synir Úrans og ríktu á undan Ólympsguðum. En Seifur og aðrir Ólympsguðir steyptu þeim úr stóli og vörpuðu þeim niður í Tartarus, „hinn myrkva Ógnarheim, mjög langt héðan þar sem geimurinn er dýpstur undir jörðinni“ (VIII 14). Sjá J.G. bls. 97—100. 899 Peon, sjá ath. við l. 401. 905 Heba, sem var þjónustumær guðanna. 908 hin alalkómenska, sjá ath. við IV 8. SJÖTTI ÞÁTTUR Þessi þáttur er beint framhald á síðasta þætti. Fyrstu 60—70 línurnar lýsa áframhaldi bardagans. Þegar Ares er flúinn særður úr bardaganum, hallar aftur skjótt á Trójumenn, og láta þeir undan síga fyrir Díómedes og öðrum grískum köppum allt að borgarhliðum Tróju. Í stað þess að láta þetta verða lokabardaga, sem leiði stríðið til lykta, skýtur skáldið hér inn nýju atriði, nýrri frásögu um atburði, sem allir eru eins og umgjörð utan um sjálfa perlu þáttarins, — sem líka er fyrirsögn hans —, samfundi þeirra hjónanna Hektors og Andrómökku. Þegar verst gegnir fyrir Trójumenn, kemur Helenus Príamsson að máli við Hektor bróður sinn og hvetur hann til þess að skunda inn í borgina og fá móður þeirra, Heköbu, til þess að fara til hofs Aþenu í fylgd með öðrum höfðingjakonum og færa gyðjunni að fórn dýrustu og fegurstu skikkjuna sína til þess að blíðka gyðjuna. Hektor fellst á þetta. Sendiför þessa lætur skáldið Hektor vitanlega fara til þess að fá tækifæri til þess að lýsa fundum þeirra hjóna. Bilið milli þess, að Hektor hleypur burt úr bardaganum, og þangað til hann kemur til Ske-hliða, fyllir skáldið skemmtilega út með lýsingunni á fundum þeirra Díomedess og Glákusar, sem gefur góða hugmynd um hetjuöld Hómerstíma. Þar kynnist áheyrandinn líka annarri hlið á Díómedes heldur en í 5. þætti, þar sem honum er aðallega lýst sem blóðugum bardagamanni. Nú er hann blíðmáll og vingjarnlegur við fjandmann, því að það kemur í ljós, að afar þeirra höfðu verið gistivinir, og lætur Díómedes Glákus njóta þess. Skiptast þeir jafnvel á gjöfum, en auðvitað leikur hinn séði Grikki þar á útlendinginn, því að hann fær „gullvopn fyrir eirvopn“. Þá hefst hinn eiginlegi kafli um Hektor, perlan í þessum þætti, dáð og lofsungin bæði í fornöld og á nýrri tímum, títt yrkisefni skálda og listamanna fyrr og síðar, enda án efa meðal gimsteina heimsbókmenntanna. Þessum kafla má skipta í þrennt: 1. Hektor hjá móður sinni (242.—285. 1.). 2. Hektor hjá Paris og Helenu (312.—368. l.) og 3. Hektor og Andrómakka (369.—502. l.). Í frásögninni er sífelld stígandi eins og í vel sömdum harmleik, og nær hún hámarki sínu í samtali þeirra hjónanna, sem allt hitt er undirbúningur undir og aðdragandi að. Í öðrum kaflanum (Hektor hjá Paris og Helenu) dregur skáldið glöggt og skýrt fram mismuninn á hinum tvennum hjónum: annars vegar er hinn þreklausi og hvikuli Paris, sem Helena er löngu orðin leið á, en hins vegar er hinn hetjulundaði Hektor og hin göfuga kona hans, sem unna hvort öðru jafnheitt og innilega. Hugsunin um dauðann, sem í stíl harmleiksins er mjög ofarlega í hugum hjónanna, þegar þau tala saman, kemur fram oftar en einu sinni áður. T. d. segir Hektor við Helenu, að hann ætli heim „til að sjá heimafólk mitt, konu mína og minn unga son, því óvíst er, hvort eg kem aftur til þeirra framar, eða guðirnir láta mig falla fyrir Akkeum“. Þá er það líka í stíl sjónleiksins, til þess að vekja eftirvæntingu áheyrandans og kvíða, að skáldið lætur hjónin farast á mis í fyrstu. Þegar hann kemur heim til sin, er hún nýfarin út með litla drenginn til þess að svipast um eftir manni sínum, knúin af kvíða og óróleika. Áheyrandinn hlýtur þá að spyrja sjálfan sig: „Skyldu þau nú ekki hittast? Ætli Hektor verði að fara við svo búið aftur út í bardagann og falla, án þess að honum auðnist að sjá þau, sem hann ann mest, í hinzta sinn?“ Í lýsingu sinni á samtali hjónanna hefur hann ekki miklar orðalengingar um tilfinningar þeirra; þær koma bezt fram í hæglátum, látlausum svipbrigðum þeirra og látbragði, í brosi, gráti, handtaki. Bæði sjónarmið konunnar og mannsins koma skýrt fram, og sjónarmiðin eru gerólík, en jafnsjálfsögð og jafnrétthá. Henni er mest um það hugað fá að halda manni sínum sér og barni sínu til yndis og varnar, „því að þú, Hektor“, segir hún, „ert mér faðir og heiðvirð móðir og bróðir, og þú ert eiginmaður minn í blóma aldurs þíns“. En í hans augum er sæmd og orðstír framar öllu öðru, og ekki getur hann hugsað sér að lifa það að vita konu sína lifa í útlegð og ánauð, „mun þá af nýju vekjast upp hjá þér sár harmur, þegar þú hefðir engan þann mann, er bægt gæti frá þér ánauðardeginum“. En þegar sorg þeirra er sárust, lætur skáldið barnið, sem þeim er báðum jafnkært, blíðka og sefa sársaukann og sameina aftur hjónin. Þegar Hektor ætlar að taka litla drenginn í fang sér, hræðist hann hinn ógurlega hrosshársskúf á hjálminum, svo að Hektor verður að taka hann af sér. „Þá hló faðir hans dátt, og hans heiðvirða móðir“. Þegar hann hafði hampað honum um stund, fékk hann hann aftur konu sinni, „en hún tók hann í sinn ilmandi faðm, og hló með tárin í augum“. En maður hennar viknaði við þessa sjón. Þetta er hámark þessarar fögru lýsingar. — Þess skal getið, að Grímur Thomsen hefur einnig þýtt þennan kafla um Hektor og Andrómökku í sama bragarhætti og í frummálinu. (Sjá Ljóðmæli eftir G. Th., fyrra bindi, bls. 246 og áfram, Rvík 1934). 1 einir sér, þ.e. guðirnir tóku ekki lengur þátt í orustunni. 6 lét birta fyrir augum sveitunga sinna, þ.e. ruddi þeim braut, rétti við hag þeirra. 8 Akamant, sbr. II 844 og V 462. 9 í bólu, o.s. frv.; sjá ath. við III 336. 14 hafði mikla mannheill, þ.e. var mjög vinsæll. 19 og fóru þeir báðir niður í jörðina, þ.e. sálir þeirra fóru til Undirheima. 20 Evrýalus, sjá II 565. 28 Mekisteilsson, þ.e. Evrýalus. 29 Polýpöytes, konungur Lapíþa, sbr. II 740. 31 Tevkrus, Telamonsson, sjá nafnaskrá. 35 Pedasusborg var höfuðborg Lelega, en þá borg hafði Akkilles lagt í eyði; en allmargir Lelega börðust undir forustu Hektors. Fýlaktus var Trójumaður. Leítus, konungur Böyóta. 36 Evrypýlus, þessalskur höfðingi. 40 ... fremri hluta kerrustangarinnar, hestarnir voru aðeins bundnir við framenda vagnstangarinnar; þegar hún brotnaði, voru þeir því lausir. 46 „Gef mér líf“, orðrétt: „Taktu mig lifandi til fanga“. 47 margir menjagripir, eða: miklir skattar (keimelía). 48 eir og gull, þ.e. gripir úr eiri og gulli. seigunnið járn, á tímum Hómerskvæðanna var enn mjög lítið um járn, enda mjög erfitt að smíða úr því, þar sem bræðsluaðferðir voru þá mjög frumstæðar. 64 Atreifsson, nl. Agamemnon. 68 valrofi = valráni. 90 möttul, mjög var algengt að færa líkneski þess guðs, sem menn vildu blíðka, í dýrindis fatnað. Aþena er hér blíðkuð, ekki af því að hún sé sérstaklega verndargyðja Tróju, heldur vegna þess, að Trójumönnum er ljóst, að hún styður Diómedes, sem nú er þeim hættulegastur. 92 leggja á kné h. hárf. Aþenu, skáldið hugsar sér gyðjulíkneskið (af Aþenu Polias = Borgargyðjunni Aþenu) sitjandi, líklega útskorið úr tré, líkt og flest hin elztu líkneski voru. 94 ársgamlar, sumir vilja þýða gr. orðið (enís) með „þriflegar“. 117 en hin svarta leðurrönd o.s. frv., hinn mikla, öklasíða skjöld hefur Hektor borið á bakinu (sjá ath. við III 335), og skullu því skjaldarrendurnar, sem fóðraðar voru með nautsleðri til þess að forða meiðslum, á hælum hans og hnakka. 127 ógæfumanna (synir), nl. vegna þess, að foreldrar þeirra fá aldrei framar að sjá þá. 130 Lýkúrgus, konungur í Þrakíu, sem vildi ekki, að Díónýsusdýrkun kæmist á í landi sínu. 132 fóstrur h. óðláta D., þær, sem síðar voru nefndar Bakkynjur, sjá nánar J.G. bls. 183. 133 Nýsíons — eða Nýsafjalls er víða getið og það á mörgum ólíkum stöðum í sambandi við Díónýsusdýrkun. 134 blótstöfum, sjá J.G. bls. 183. 135 nautastafnum, þessi stafur var með járngaddi í endanum og var notaður til þess að reka áfram naut við plægingu. 136 Þetis hafði yfirgefið Peleif og bjó niðri í hafinu hjá Nereifi föður sínum. 138 h. hóglífu guðir, eða: guðirnir, sem lifa rólega, áhyggjulausu lífi. 139 Kronusson, þ.e. Seifur. 152 Effýra var í fornöld talið gamalt nafn á Korinþuborg; aðrir telja hana hafa verið ættarborg Sisýfusættarinnar, og hafi staðið undir fjöllunum norðvestur við Argverjalandssléttu. við vog einn, eða: í horni (skoti, afkima) ens h. A., eða: innst inni í enu h. A. 153 Sisýfus, nafnið er talið skylt gr. orðinu sofos, sem þýðir vitur. Sjá J.G. bls. 224. 155 Bellerófontes, hann hét í fyrstu Hippónús, en eftir víg á höfðingja einum í Korinþuborg, Bellerus að nafni, hlaut hann nafnið Bellerófontes, þ.e. Bellerusbani. Flýði hann þá á náðir Pröytusar, konungs í Tírýns (eða Argos), til þess að hreinsa sig af blóðsökinni. Sjá enn fremur J.G. bls. 224. 159 og hafði Seifur lagt þá undir ríkisvönd hans, eða (réttara): og hafði S. lagt hann (nl. Bellerófontes) undir ríkisvönd ( þ.e. vald) hans. 160 Antea, einnig nefnd Steneboia, sbr. J.G. bls. 224. 162 hergjarna, eða: hyggna, vitra. 167 á eftir orðunum: ... að drepa hann sjálfur vantar eiginl.: og samvizkan bannaði honum það. 168 og fékk honum skaðvænlegar jarteiknir; venjulega er talið, að hér sé átt við bréf, sem konungur skrifaði og fékk honum. Er þetta þá í fyrsta skipti, sem getið er um leturgerð í grískum bókmenntum, en auðvitað var leturgerð enn eldri og þekktist m. a. á eyjunni Krít, eins og fornleifafundir hafa sannað. En á þeim tímum, þegar þessir atburðir gerast, hefur leturgerð verið svo lítið kunn almenningi, — aðeins fáir menn kunnu til slíks, — að hún hefur hjá öllum þorra manna verið talin galdur, eins og yfirleitt tíðkast hjá frumstæðum mönnum, þegar þeir fyrst kynnast henni. 169 hafði hann reist mörg lífspell ( þ.e. skaðvænleg tákn) á s. s.; skáldið hugsar sér bréfið eins og gerðist á síðari tímum: tvö tréspjöld voru borin vaxi öðru megin; á vaxið var svo bréfið skrifað, en síðan voru spjöldin lögð saman og innsigluð og vissu auðvitað vaxbornu hliðarnar inn. — Skáldið virðist ekki gera ráð fyrir almennum bréfaskriftum á hetjuöld Grikkja eða a. m. k. gera ráð fyrir, að menn hafi þá talið þær eitthvert dularfullt kukl. 174 í 9 daga ... 9 uxum, talan níu var heilög tala. Á þessum tímum var það venja að veita gesti góðan beina án þess að spyrja, hver hann væri eða hvert erindi hans væri; gat svo liðið einn eða jafnvel fleiri dagar. Sbr. Odysseifskviðu (7. og 8. þátt), þar sem Odysseifur er ekki spurður til nafns fyrr en á 2. degi dvalar sinnar hjá Feakakonungi. 176 mæltist til að sjá jarteikn þá, algengt var á þeim tímum, að ferðamenn hefðu jarteikn, einhvern kunnan hlut til sannindamerkis um það, frá hverjum þessi „meðmæli“ væru. 181 hauðna eða haðna, þ.e. geit. 183 fyrirburðum goðanna, hvergi er sagt, hvaða fyrirburðir það voru. 184 Sólýma; Heródótus, hinn gríski sagnritari, telur þá hafa verið frumbyggja Lýkíu í Litlu-Asíu. Lýkíumenn hafi komið frá eyjunni Krít og flæmt frumbyggjana upp í fjöllin, en átt sífellt í erjum við þá. 186 Skjaldmeyjar eða Amazónur voru þjóð herskárra kvenna, sem ýmsar sagnir gengu af í fornöld, og greinir fræðimenn um það, hvort þær, hafi verið til eða ekki. Þær áttu að búa i Kappadókíu í L.-Asíu. Fóru þær oft herferðir úr landi sínu á hendur nágrönnum sínum. Eina slíka herferð fóru þar gegn Pröytusi Lykíukonungi, en Bellerófontes sigraði þær. 200 En er B. varð fyrir, eiginl.: Einnig (kai) B. varð fyrir ..., nl. þó að hann hefði áður verið guðunum kær. 201 Alejonsvöll, orðið þýðir eiginl. „Villivöllur“, og er það orðaleikur í grískunni við sögnina að ráfa, villast (alato). 202 Augsýnilega hefur verið til sögusögn um það, að B. hafi orðið vitfirrtur, þó að þess sé hvergi annars staðar getið. 205 en Artemis hafði reiðzt, e. t. v. af því, að L. hafði verið Seifi eftirlát. Veiðigyðjan Artemis olli konum oft snögglegum dauða. 206 hans son em eg sagður, eiginl.: hans son tel eg mig vera. 213 stakk spjótinu niður, sá sem slíkt gerði, gaf þar með til kynna, að hann ætlaði ekki að berjast lengur. 216 Öynefur, konungur í Kalýdon í Etólíuhéraði og afi Díómedesar. 221 og lét eg það eftir, þ.e. hann hafði tekið það í arf af föður sínum, en hann aftur af föður sínum, Öynefi. 224 ... kær gistivinur þinn ... í Argv.l., þ.e. ef þú heimsækir mig í A., skal ég taka á móti þér sem gistivini mínum. 234 En þá glapti o.s. frv., skringilegur og gamansamur endir á þessari skemmtilegu lýsingu. 236 hundrað uxalög (uxalag = verð eins uxa), skáldið hugsar sér, að vopnin (eða öllu heldur er hér átt við verjurnar, tevkhea) séu úr skíru gulli. 237 ætibjarkarinnar, sjá ath. við V 693. 239 vinum, eða: frændum (etas). 242 til h. fögru hallar P., um hús og hallir á þessum tímum sjá inng. að Od. bls. XLV—XLVII og mynd. 243 með höggnum svölum, eiginl.: með fagurlega fáguðum súlnagöngum (xestes aiþúsesí). Þessi hluti hússins var opinn á einn veginn, en með þaki, sem hvíldi á súlum. Þessi súlnagarður var ætlaður til þess að geta notið sólar og útilofts án þess að vera ónáðaður af vindi og regni. 245 byggð hvert nálægt öðru, þ.e. í röð. 248 voru 12 herbergi, í þýð. vantar „hályft“ (tegeoi). af höggnum steini, nl. marmara. 249 þar hvíldust dótturmenn P. o.s. frv.; á þessum tímum virðist það hafa tíðkazt, — a. m. k. með höfðingjum —, að heilar fjölskyldur byggi saman í húsi, þ.e. foreldrar og gift og kvænt börn þeirra, líkt og hér er lýst. 266 Með óþvegnum höndum o.s. frv., sá, sem ætlaði að biðja eða færa fórn, varð fyrst að þvo sér vandlega. 275 ársgamlar, sjá ath. við I. 94. 288 ofan í hinn ilm. geymslusal, hann (þalamos) var innst inni í húsinu, og hafa sennilega legið ein eða fleiri tröppur niður í hann. Sbr. inng. að Od. bls. XLVI og mynd. 290 sættverskar, þ.e. frá Sídonsborg í Föníkíu. Sagan segir, að Alexander (Paris) hafi hrakið á leið heim frá Spörtu með Helenu af réttri leið til Egyptalands. Þaðan fór hann til Fönikíu og síðan heim til Tróju. 298 Þeanó, sjá ath. við V 70. 319 spjót ellefu álna langt, þessi mikla lengd spjótsins leggur sérstaka áherzlu á, að kappinn Hektor hafi vegið með spjóti, þar sem aftur móti Paris bróðir hans barðist með boga. Svipaða lengd höfðu síðar spjót Makedóníumanna. 320 gullhólkur um utan, nl. fremst á skaftinu til þess að treysta betur falinn sem stungið var inn í rauf á skaftinu. 321 í skála, eða í svefnskála, dyngju (þalamó), sem var inn af skálanum. hann var að fara með vopn sín o.s. frv.: Paris lætur sér nægja að handleika og fitla við vopnin, en fer ekki til bardaga, þegar löndum hans reið mest á. 326 að setja þetta ógeð í hug þér, þ.e. vera með þessa ólund; e. t. v. er átt við ólund hans eða gremju út af ósigrinum í einvíginu við Menelás. 339 því sigursældin fer frá manni til manns, þ.e. einn hrósar sigri í dag, annar á morgun. 350 vildi eg, að eg hefði verið gefin einhverjum betra manni, þessi ummæli sýna, að sú ást, sem Helena kann að hafa borið til Parisar í byrjun, hefur nú snúizt í fyrirlitningu og kala. 373 í turninum, sjá ath. við III 149. 388 upp að borgarvegg, þ.e. múrnum rétt við hliðið, þar sem turninn var. 389 en barnfóstran er með henni, í asanum og kvíðanum tekur hún ekki með sér tvær þjónustumeyjar, eins og venja var, en litla drenginn getur hún ekki skilið við sig. 394 hans gjafsæla kona, þ.e. kona, sem fengið hafði með sér að heiman miklar gjafir. Venjulega „keypti“ brúðguminn konuna, en ríkir foreldrar létu henni oft fylgja miklar gjafir að heiman. 396 Plaksfjall er hugsað sem rani út úr Ídafjalli í Mýsíu, nálægt Tróju. 397 yfir Kilikamönnum, það virðast hafa verið aðrir en þeir, er síðar nefndust Kilíkar og bjuggu í samnefndu héraði (Kilikíu) í suðausturhluta L.-Asíu. 402 Skamandríus, af Skamander, sem var aðalfljótið nálægt Tróju, en fljótsguðinn var og verndarvættur borgarinnar. 403 Astýnax (Borgarvörður) til heiðurs föður hans, enda voru börn stundum nefnd eftir einhverju einkenni föður síns. 428 þá skaut Artemis ... hana, um skjótan, en sársaukalausan dauðdaga. 435 freistuðu þrisvar, auðsýnilega einhvern tíma áður en frásögn Ilíonskviðu hefst. 455 í Argverjaborg, nl. hjá Agamemnon. 457 Messulind nálægt Þerapnai í Lakóníuhéraði; nl. ef Menelás taki hana til fanga. Hyperíulind í Þessalíu, ef Akkilles hljóti hana. Í síðari tíma skáldskap Grikkja, einkum í harmleikjum (t. d. hjá Evrípídesi) er henni einmitt oftast lýst sem vatnssóknarkonu. 458 mun þá hart rekið á eftir þér, eða: mjög móti skapi þínu (poll'aekatsomene). 465 og sæi þig dregna, eða: er þú værir dregin ... 482 lét hann son sinn í fang sinnar kæru konu, hann fær ekki fóstrunni hann, heldur konu sinni, bæði henni til huggunar og hughreystingar og sem tákn þess, að hann eigi í framtíðinni að vera verndari borgarinnar. 505 Á eftir orðunum: ... og hljóp gegnum borgina stendur í gr. textanum: treystandi fráum fótum. 512 til Pergamsborgar, réttara: niður úr (kata) P., þ.e. ofan úr háborginni. 518 „Víst tef eg fyrir þér“ o.s. frv., Paris er að „fiska eftir“ skjalli hjá bróður sínum. Í svari sínu reynir líka Hektor að draga úr og mýkja fyrri ákúrur. 528 frelsisskaftker, þ.e. í þakkarskyni fyrir að hafa frelsazt frá því að komast í ánauð Akkea. SJÖUNDI ÞÁTTUR Þessi þáttur skiptist aðallega í tvo meginkafla: 1) Einvíg þeirra Hektors og Ajants og 2) líkbrennsla fallinna og bygging víggarða og skurða, skipunum til varnar. Þegar Hektor kom aftur til bardaga, rétti hann fljótlega bardagann við fyrir Trójumönnum, og gerðu þeir bræður allmikinn usla í liði Akkea. Þá verða þau Aþena og Apollon ásátt um að stöðva bardagann í bili, en láta Hektor berjast við einhvern Akkeanna í einvígi. Slík einvíg voru mjög algeng yrkisefni, en auðvitað áttu þau misjafnlega vel við. Er því ekki að neita, að þetta einvíg er miklu veigaminna en einvíg þeirra Menelásar og Parisar í 3. þætti, enda er mun meira undir því komið. Þar börðust þeir menn, sem deilan snerti langmest og mest höfðu að vinna og tapa. Undir úrslitum þess einvígis, — ef til fullra úrslita hefði mátt koma fyrir guðunum — ultu úrslit alls ófriðarins. Ef úrslit hefðu orðið, hefðu Akkear þegar getað siglt heim til sín. Einvígið í þessum þætti er ekki svipað því eins örlagaríkt. En sennilega hefur verið til gamalt kvæði um þetta einvíg, enda hefur skáldið viljað svala forvitni áheyrandans um það, hvernig mundi reiða af viðureign þessara miklu kappa, sem hvor fyrir sig er „varnargarður“ sinna manna, án þess þó að láta koma til úrslita. Því að alltaf hefur skáldið Akkilles í huga og veit, að það er milli hans og Hektors, sem úrslitaviðureignin á að standa. Þegar kallararnir hafa stöðvað einvígið, skiptast kapparnir á gjöfum, eins og þeir gerðu Díómedes og Pandarus, en óneitanlega á það síður við í þessum þætti. Kaflinn um byggingu víggarðanna er nokkuð losaralegur og virðist ekki eiga sérlega vel heima þarna. Telja því sumir fræðimenn, að þetta muni vera gamalt kvæði eða hluti þess, sem skáldið hafi skotið þarna inn. 9 í Örnu, borg í Böyótíu; er talið, að leifar þessarar borgar hafi fundizt í eyjunni Gla í Kopaisvatni. kylfings, þ.e. sem hafði kylfu að vopni, „kylfusveiflari“; kylfan var eitt af elztu vopnum, sem þekktust. 10 mikileygu, lýsingarorð, sem oftast er notað um gyðjuna Heru. 21 frá Pergamsvígi, þar sem hann hafði hof. 22 hjá ætibjörkinni, sjá ath. við V 693. 32 ykkur gyðjanna, nl. Aþenu og Heru. 44 Helenus ... varð áskynja ráðagerðar þeirrar, hann var nefnilega spámaður, sbr. VI 76. 55 eins og skegggammar, þetta er eini staðurinn í Ilíonskviðu, þar sem þess er getið, að guðir taki á sig dýramynd; í Odysseifskviðu kemur það aftur á móti nokkrum sinnum fyrir. 62 Hermennirnir leggja nú ekki niður vopnin, eru þeir bæði brynjaðir og hafa skildi sína og spjót, ólíkt því, sem lýst er í 3. þætti (113. l. og áfram). 69 hefir ekki látið sættir vorar verða framgengar, líklega er átt við hið endasleppa einvíg þeirra Menelásar og Parísar í 3. þætti. 83 og festa þau upp í hofi ... Appollons, venja var að hengja upp í anddyri verndarguðs síns vopn tekin af föllnum óvini. 86 og verpa haug o.s. frv., á seinni tímum þóttust menn geta sýnt við Hellusund hauga þeirra Ajants, Akkilless, Patrókluss og Antilokkusar. 99 Verði þér allir að vatni og moldu, alþýðleg bölbæn til þess að tákna upplausn lífsveru í frumefni sín; en vatn og mold voru skoðuð þau frumefni, sem maðurinn væri skapaður úr. Sbr. t. d. skáldið Hesíodus í frásögn hans um sköpun Pandóru. 102 afburður sigursins, þ.e. höndlun sigursins; eiginl. stendur í gr.: „ökutaumar sigursins“ (níkes peirata), sem guðirnir hafa í höndum sér og stýra eftir vild. 114 kveinkar sér við að mæta honum, þess er reyndar ekkert dæmi í kviðunni, en Agamemnon segir þetta í augnabliks æsingu til þess að aftra bróður sínum. 122 tóku vopnin af herðum hans, skjöldurinn hékk á vinstri, sverðið á hægri öxl. 127 er eitt sinn hafði mikið gaman af því í húsi sínu, nl. þegar þeir Nestor og Odysseifur voru í Fiðjuborg til að fá Akkilles til að taka þátt í herferðinni gegn Tróju; sbr. 11. þátt 769. 1. og áfram. 133 Keladon var fljót í Eleahéraði. 134 og Arkadar, í þýð. vantar: hinir spjótfimu (enkhesímóroi). 135 Féborg var hafnarbær í suðurhluta Eleahéraðs. 141 gekk hann í gegn um fylkingar, eiginl. rauf hann f. járnkylfu, járnvopna er sjaldan getið hjá Hómer, nálega einungis eirvopna. 142 Lýkúrgus var höfðingi frá Arkadíu. 154 og veitti Aþenu o.s. frv., hún var verndargyðja Pýlverja. 166 Vígaguði, í gr. stendur nafnið Enýalíus, sem var eitt nafn á vígaguðinum Ares. 168 Þóant, sjá II 638. 170 Hinn gerenski riddari, sjá ath. við II 336. 171 Varpið nú hlutkesti; það var annaðhvort smáspýta, steinvala eða málmbútur. Hlutirnir voru merktir og varpað í hjálm, sem síðan var hristur, þangað til einhver hlutanna stökk upp úr hjálminum; sá hlutur réði úrslitum, og var það talið eins konar guðsdómur, enda var beðizt fyrir, þegar hlutkesti var varpað. 180 hinnar gullauðugu Mýkenu, en hún var — ásamt Orkómenusborg í Böyótíu — einhver auðugasta borg í þeirra tíma Grikklandi, eins og fornleifafundir Schliemanns hafa greinilega leitt í ljós; sbr. J.G. bls. 16. 202 á Ídafjalli, sjá ath. við III 276. 209 til þeirra manna, eða: meðal (í hópi) þeirra manna. 219-220 hann hafði skjöld ... sjöbyrðing, það var hinn stóri, sporöskju- eða hringmyndaði skjöldur, sem lýst er í aths. við III 335. sjöbyrðing, þ.e. með 7 nautshúðum, hverri ofan á annarri; venjulega var tvöfalt lag, allra mest fjórfalt lag. 221 í Hýlu, borg í Böyótíu við Kopaisvatn. 222 handbæra (skjöld), eða: skínanda (aiolon). 228 þó Akkilles sé frá. Akkilles er ávallt talinn fremstur kappanna, fylkingabrjótur er aðeins notað um hann. 231 vér, nl. aðrir höfðingjar en Akkilles. 232 En byrja þú fyrri bardagann ..., með þessari ívilnun gerir Ajant ráð fyrir að vera Hektori fremri og hraustari. 267 skjaldarnöfina, sbr. ath. við III 335. 275 annar þeirra ..., nl. Ídeus. hinn, Taltybíus. 304 silfurneglt sverð, þ.e. hjöltun voru silfurnegld; vel sniðnum fetli, fetillinn var leðuról, stundum sett málmplötum, hékk hann á hægri öxl þannig, að sverðið sjálft hékk niður með vinstri hlið. 305 brynbelti o.s. frv., það hefur verið úr leðri með purpuralit. Síðari tíma sögusögn segir, að gjafir þessar hafi orðið þeim báðum til óheilla: á beltinu, Ajantsnaut, hengdi Akkilles seinna líkama Hektors við vagn sinn, og með sverðinu, Hektorsnaut, vann Ajant sjálfum sér bana. 334-335 svo að hver megi færa sonunum bein feðra sinna, þetta brýtur í bág við venjur þær, er tíðkuðust, enda í ósamræmi við frásögnina að öðru leyti, þar sem sagt er, að öll bein skuli brennd og síðan orpinn sameiginlegur haugur. Ýmsir fræðimenn telja því þessar línur vera síðari tíma innskot. 336 skulum vér svo út fara o.s. frv., eða (réttara): skulum vér svo verpa öllum o.s. frv. („út fara“ virðist ofaukið). 338 hernum, eiginl.: oss sjálfum (átón). Þó að þess sé ekki getið sérstaklega, er átt við samfelldan varnargarð með mörgum turnum, sem m. a. voru til varnar hliðunum, sem á þeim voru. (Það er ýmist eitt eða fleiri hlið, sem um er að ræða). 353 er sleppt úr þýðingunni, enda er hún með öllu óþörf skýring á fyrri línu; telja flestir hana síðari tíma innskot. 372 á morgun, eiginl.: í dögun, í fyrramálið (eóþen). 387 ef yður væri það ljúft og kært, var ekki með í skilaboðunum, en er kurteislegt innskot kallarans. 390 betur hann hefði farizt áður, þessi orð sýna gremju manna í Tróju til Alexanders (Parisar). 393 og eru þó T. þess mjög fýsandi, að vísu er ekki nema Antenor nefndur, sem lætur þá ósk í ljós; en auðvitað hafa margir verið á sama máli. 402 að fullkomið tjón o.s. frv., orðrétt á gr.: að snara glötunar er lögð um háls Trójumanna. 411 Þessarar sáttargjörðar, nl. um vopnahléið. 424 að þekkja hvern d. mann frá öðrum, nl. hvort hann væri Trójumaður eða Akkei; m. a. þess vegna þvoðu þeir líkin. 434 vöknuðu þeir menn A. ... fóru síðan út og gerðu, ..., eða: safnaðist þar saman hópur útvaldra A. hjá bálinu og gerðu ... 453 sem við F. A. hlóðum, sjá J.G. bls. 171. 467 frá Lemney með vínfarm, mjög snemma höfðu Minýar stofnað þar nýlendu. Skipin voru því grísk. Á styttri ferðum og í minni skömmtum var vínið geymt í leðurbelgjum. Annars í leirkerum. 469 Hypsípýla, dóttir Þóass konungs. — Jason hafði kynnzt henni á ferð sinni á skipinu Argó, sjá J.G. bls. 244—47. 470 Auk þess, eða: sérstaklegs (khóris). 471 Einn mælir eða mál (gr. metron) virðist hafa verið um 12 l. ÁTTUNDI ÞÁTTUR Um þenna þátt eru gagnrýnendur mjög ósammála. Sumir telja hann ófrumlegasta og óskáldlegasta þáttinn. Aðrir neita því og telja hann vera fullkomlega í stíl Hómers. Því er að vísu ekki að neita, að þar ber óvenjulega mikið á endurtekningum og óvenju margar línur eru úr öðrum þáttum. En hins vegar er allur þátturinn greinilega stíll Hómers. Viðburðirnir gerast ýmist í mannheimum eða guða og eiga stoð sína og orsakir á báðum stöðum. Einnig er þátturinn í heild sinni nauðsynlegur undirbúningur undir 9. þátt, sendiförina til Akkilless. Í þessum þætti sverfur svo að Akkeum, að þeir verða að hörfa alla leið til skipanna og jafnvel inn fyrir víggirðingarnar. Einmitt þessi vandræði verða þess valdandi, að Agamemnon lætur sér lynda, að leitað sé sætta við Akkilles sem hina einu bjargvætt Akkea. Í þættinum er þrenns konar stígandi. Fyrst eru hin vaxandi vandræði Akkea og ófarir. Í öðru lagi er sívaxandi sjálfstraust Hektors, sem nær hámarki sínu í bæn hans til Seifs (1. 526 og áfram). Loks er vaxandi þvermóðska guðanna gegn Seifi, sem í byrjun þáttarins hafði bannað þeim öll frekari afskipti af deilu Akkea og Trójumanna. Þessi þvermóðska hefur svo í för með sér spádóm Seifs um, að Akkilles muni aftur taka þátt í bardaganum, „því svo er ákveðið af örlögunum“. 1 sóllauksmöttli, þ.e. með ljósgulum lit morgunroðans; sóllaukur er þýðing á gr. orðinu krókos, sem — eins og kunnugt er — er nafn á alþekktu skrautblómi, en sumar tegundir þess hafa gulllituð, gulleit blóm. 13 hinn myrkva Ógnarheim, Tartarus var hugsaður langt niðri í jörðinni. Göngin niður í hann eru á endimörkum jarðar. Í augum guðanna var hann — líkt og Hadesarheimur í augum manna — staður ógnar og skelfingar, þangað sem engin sólarglæta kemst. 16 Myrkheim, þ.e. Hadesarheim. 39 Trítogenía, viðurnefni á Aþenu; um merkingu orðsins sjá ath. við IV 515. 47 uppspretturíka, á norðurhlíðum fjallsins koma upp ýmsar ár. 48 á Gargarstind, hann er hæsti tindur fjallsins, tæpir 1800 m. Að sunnan er fjallið snarbratt, og er gott útsýni af tindinum yfir Trójuhéraðið. 62 baugnöfuðu skildir, þ.e. með bólur eða skjaldarnöf, sbr. ath. við III 335. 73-74 Þessum línum er sleppt í þýð., enda af mörgum taldar síðari tíma innskot. En þessar línur hljóða þannig: „Valkyrjur Akkea sigu niður til hinnar frjósömu jarðar, en valkyrjur Trójumanna hófust upp til hins víða himins“. 80 vörður Akkea, vegna hygginda sinna og ráðkænsku. 81 annar hestur hans er líklega ekki rétt þýð., því að eins og á eftir sést var þetta lausahestur, bundinn við hina hestana tvo eða við vagnstöngina; var þessi hestur hafður til vara, ef annar hinna hestanna skyldi særast eða vera drepinn. til Odysseifs, af því að hann og menn hans stóðu í fylkingu næstir Pýlusborgarmönnum, milli manna Nestors og Díomedesar. 108 (eg tók) áðan (af Eneasi), eða (réttara): áður, nl. fyrir þremur dögum, sbr. V 257 og áfram. 109 hestana þarna, nl. þína. þeim hérna, nl. mínum hestum. 121 í brjóstið o.s. frv., vagnstjórinn hafði skjöldinn á bakinu, svo að brjóstið var berskjaldað; venjulega bar hann ekki brynju. 122 hrukku á bak aftur, eða: hrukku (fældust) út á hlið, til hliðar. 130 o.s. frv. Ólíklegt er, að fall vagnstjórans eitt gæti haft svo mikil áhrif á gang orustunnar, þar sem allir Akkear voru flúnir, nema Díómedes. 162 ... og ávallt full drykkjarker, sbr. orð Agamemnons í 4. þætti 262: „... þá stendur þó ker þitt jafnan fullt“. 164 huglausa feiman, gr. orðið (glene), sem Svbj. þýðir með feima ( þ.e. feimin ung stúlka) þýðir eiginl. augasteinn, síðan brúða og loks stelpukind. 166 senda þér óheillasendingu, þ.e. verða þér að bana. 183 línu vantar í þýð., enda er henni sleppt í beztu handritum, en þar stendur: „Argverjana, sem byltast skelkaðir um hjá skipunum í reykjarsvælunni“. 185 Hér eru nefndir 4 hestar fyrir einum vagni, sem er mjög óvenjulegt. Tvo hestana verður að hugsa sér lausa. 186 launið, á gr. er tvítala, þ.e. launið þið tveir (líkl. þeir hestanna, sem draga vagninn). 189 er sleppt í þýð., enda af mörgum talin síðar til komin; en í línunni stendur: „og vín blandaði hún ykkur að drekka, þegar hugur ykkar girntist“. 193 skjaldrimarnar voru tveir tréstafir, sem héldu skildinum uppi, sbr. ath. við III 335. 203 í Helíku og Ægisborg, í báðum þessum borgum í Akkeu var Posídon mikið tignaður. 219 og eggja A. ... í óða önn að því, eða: að taka í sig kjark (eiginl.: setja sig á hreyfingu) og eggja A. skjótlega fram. 221 hélt ... á hinni stóru purpuraskikkju sinni, sem hann notaði sem eins konar fána til þess að vekja á sér eftirtekt. 222 hinu stórhúfaða ... skipi, þ.e. með breiðum, stórum byrðing (húfr = neðsti hluti byrðings). 224-226 er sleppt í þýð., en þar stendur: „bæði til blíða Ajants Telamonssonar og Akkilless, en þeir höfðu einmitt lagt skipum sínum yzt í trausti til karlmennsku sinnar og hreysti“. 230 Lemney, sjá ath. við II 722. 237 steypt í aðra eins ógæfu, eiginl.: blindað með annarri eins blekkingu. 239 síðan eg ... kom hingað, eða (réttara): á ógæfuferð minni hingað. 249 blótstalla Seifs, sem sennilega hefur staðið á hinu auða svæði fyrir framan skip Odysseifs (sbr. XI 807). 266 staðharðan, þ.e. teygjanlegan, fjaðurmagnaðan. 284 þó þú værir óskilgetinn, Telamon gat Tevkrus við Hesíónu, dóttur Trójukonungsins Laomedons; en Herakles hafði tekið hana í Tróju og gefið Telamon hana. Móðir Ajants var Eríboia (eða Períboia). 299 þenna ólma hund, nl. Hektor. 304 Esyma var borg í Drakíu. 349 Gorgóarhausi, þegar á Hómerstímum hugsaður sem ógurleg gríma með starandi, hræðileg augu. Sjá J.G. bls. 228-29. Sbr. ath. við V 741. 360 ylmdist, þ.e. ólmaðist, hamaðist. 362 syni hans, nl. Heraklesi, sjá J.G. bls. 234 og áfram. 367 harðlæstu hallar, harðlæst öllum þeim, sem vildu komast út aftur úr Dauðaheimi. 368 hund, nl. varðhundinn, Kerberus, sjá J.G. bls. 104. 369 Stýgarvatns, fljót, sem menn hugsuðu sér, að rynni á landamærum Uppheima og Undirheima. Sjá J.G. bls. 103. 382 gullóluðu, átt er við ólar þær, sem festar voru um enni og háls hestanna; þær voru stundum skreyttar gullþynnum. 385 á gólfi Seifs ... möttli, sjá ath. við V 734. 389 logandi, sjá ath. við V 745. 393 Misserisgyðjurnar, eða Stundagyðjurnar, sjá J.G. bls. 159. 398 Íris, sjá J.G. bls. 161. 404 á tíu árshringum, þ.e. á tíu árum. 411 margbugótta, þ.e. með mörgum giljum. 415 ef hann annars endir það, eða: og það mun hann líka enda. 423 En þú, nl. Aþena. 444 Þær ... sátu einar sér, langt frá Seifi, en sátu annars sín til hvorrar handar honum. 448 Ykkur hefur þó víst ekki orðið mikið fyrir því, eða: Þið hafið þó víst ekki lagt mikið á ykkur við að ... Þær komust nefnilega aldrei svo langt. 466—468 er sleppt, en þær línur hljóða: „Nú viljum við að vísu engan hlut eiga að styrjöldinni, ef þú býður svo. En ráð munum við leggja Argverjum, það, er þeim megi að gagni verða, svo að þeir farist ekki allir fyrir reiði þinni“. 475—476 er sleppt, en þar stendur: „á þeim degi, þegar þeir skulu berjast í ógurlegri þröng við skutfestarnar um hinn fallna Patróklus“. — Kemur þarna fram merkilegur spádómur um fall Patrókluss og um þátttöku Akkilless af nýju í bardaganum. 479 Japetus og Kronus voru Títanar, sem Seifur hafði steypt niður í Ógnarheim (Tartarus). — Meiningin virðist vera: Þó að þú í reiði þinni snúir þér til verstu og hættulegustu fjandmanna minna, þá hirði ég ekki o.s. frv. 480 Hyperíonssonar, eða: Uppheimssonar. 490 hinu sveipharða fljóti, þ.e. Skamanderfljóti. 513 Nei, margur þeirra skal o.s. frv., þessi orð eru eiginl. framhald á óskinni: Væri betur, að margur þeirra yrði skotinn o.s. frv. 515 leiða, þ.e. gera þeim leitt, vara þá við. 518 Unglingar og öldungar tóku ekki þátt í eiginlegum bardögum, en héldu stundum vörð. 528 Valkyrjurnar eða Keres, sjá J.G. bls. 107. 529 Nú skulum vér ..., eða: Nú munum vér ... 548—552 er sleppt, enda af flestum fræðimönnum taldar síðari innskot, nema l. 549. í þessum línum stendur: „Færðu þeir hinum ódauðlegu guðum gallalausar hundraðsfórnir, og báru vindarnir fórnarilminn upp frá sléttunni allt til himins (549. l.). En hinir sælu guðir neyttu þeirra ekki og vildu þær ekki, því að þeim var illa við hina helgu Ilíonsborg, Príamus og þjóð hins spjótfima Príamuss“. 557-558 er sleppt, en þar stendur: „Og allar hæðir, fjallatindar og dalverpi koma glöggt í ljós, er hin ómælanlega víðátta himinins birtist“. NÍUNDI ÞÁTTUR Þessi þáttur er beint framhald á næsta þætti á undan. En jafnframt er horfið aftur að meginefni kviðunnar, rauða þræði viðburðanna, reiði Akkilless. Í lok 8. þáttar er svo komið fyrir Akkeum, að Agamemnon er tilleiðanlegur til sátta. Þegar Nestor í veizlu höfðingjanna áfellist Agamemnon fyrir að hafa reitt Akkilles til reiði og ræður honum til að leita sátta, játar Agamemnon, að hann hafi látið skapið hlaupa með sig í gönur, en tjáir sig fúsan á að bæta þetta með því að bjóða Akkilles ríkulegar gjafir, bæði fé, dýrgripi, lönd og borgir og dóttur sína að auki. Sýnir þetta auðlegð og vald Mýkenukonunga þeirra tíma. En hann bætir við: „Hann verður að vægja til við mig, að svo miklu leyti, sem eg hef æðra vald ...“ Nestor hrósar boðunum, og samkykkt er að senda þriggja manna sendinefnd á fund Akkilless til þess að tilkynna honum boð Agamemnons og telja honum hughvarf. Fyrir valinu verða þeir Odysseifur, Ajant og Fenix, hinn aldraði fóstri Akkilless. En Akkilles lætur sér ekki segjast, enda er hans tími enn ókominn til sátta. En það verður samkvæmt fyrirætlun skáldsins ekki fyrr en við fall vinar hans, Patrókluss. En í ræðum sendimannanna þriggja og í svarræðu Akkilless fær skáldið tækifæri til þess að sýna þá list sína að lýsa mismunandi skapgerð þessarra manna í ræðum þeirra. Hinn „ráðagóði“ Odysseifur hagar orðum sínum mjög kænlega, eins og af honum mátti vænta. Hann slær á þá strengi í huga kappans, sem hann hyggur, að hæst muni hljóma, nefnilega strengi miskunnsemi, sæmdar og hetjuskapar. Hann leggur áherzlu á vandræði Akkea allra, en forðast sem mest að nefna viðskipti þeirra Akkilless og Agamemnons. Í svari Akkilless blossar reiðin aftur upp. Orð og setningar streyma af vörum hans með sívaxandi geðofsa. Hann hafnar háðulega öllum tilboðum Agamemnons, „tröll hafi gjafir hans; eg met hann ekki meir en hundshár“. Nú er valið, sem fólgið er í spádómi Þetisar, ævarandi orðstír eða löng ævi, ekki erfitt í hans augum. Hann vill fara heim og lifa í ró og næði. Í þessari ræðu kemur fram ágæt mynd af Akkilles og skapgerð hans. Jafnframt vill skáldið sýna, að eins og Agamemnon í upphafi hafði látið tælast af „ate“, blindni, eins láti Akkilles tælast af „ate“ og sýni „hybris“, drambsemi, sem var dauðasynd í augum Grikkja. Í ræðu sinni slær Fenix á viðkvæma strengi bernskunnar, og máli sínu til stuðnings kemur hann með dæmi úr goðafræðinni. Ræða Ajants er stytzt og flutt af lítilli mælsku, en hefur þó langmest áhrif á Akkilles, af því að Ajant er honum líkastur í skapi. Ajant áfellist hann fyrir að vísa vináttu þeirra á bug og fyrir þrjózkufulla þverúð. En allt kemur fyrir ekki. Þó að sérstaklega orð Ajants fengju mikið á hann, gat hann samt ekki sigraz á sínu eigin skapi. Sendimennirnir fóru því til baka erindisleysu. 5 sem blása frá Þraklandi (= Þrakíu): þessi orð virðast benda til þess, að skáldið hafi átt heima í Litlu-Asíu. 12 en kalla ekki, af því að óvinirnir voru í nánd. 18 þungu meini, sjá ath. við II 111. 34 Það var eitt sinn, nl. í IV 370—402. 56 en þó hefir þú ekki rætt þetta mál til lykta, þ.e. að leita sætta við Akkilles. Nestor vill ekki bera þessa tillögu fram á þinginu til þess að auðmýkja ekki Agamemnon. 116 Mér varð á, eiginl.: Ég lét blindast (nl. af „ate“). 122 sjö, talan sjö var heilög tala í Austurlöndum. Þaðan barst hún til Vesturlanda og táknaði óákveðna, háa tölu. Í Grikklandi kom hún oft fyrir, t. d. vitringarnir 7, furðuverkin 7, 7 hlið Þebuborgar o. fl. Sbr. „í sjöunda himni“ og í dönsku: „til syvende og sidst“. nýir þrífætur, er aldrei hafa á eld komið, því að þrífætur voru notaðir til þess að setja á katla þá, sem nefndir eru á eftir, yfir eldinn. 122 tíu vættir gulls, vætt er hér þýðing á gr. orðinu talanton, sem hjá Hómer er ávallt ákveðinn þungi. Sennilega hefur talentan verið lítil gullstöng (slegnir peningar voru ekki fundnir upp fyrr en á 7. öld f. Kr. b.), en óvíst er um gildi hennar. Sumir fræðimenn telja, að hún hafi gilt 1 uxa, a. m. k. hefur hún verið verðminni en attísk talenta síðari tíma, sem gilti um 4300 kr. (miðað við verðlag fyrir fyrri heimsstyrjöld). 130 að afnámsfé, áður en herfangi var skipt, mátti konungur eða höfðingi velja úr því það, sem honum sýndist. hann sjálfur, nl. Akkilles; Agamemnon hliðrar sér hjá að nefna nafnið. 137—138 Þá skal hann ... herfanginu, eða: Þá skal hann sjálfur fara inn (nl. í borgina), þegar vér Akkear skiptum meðal vor herfanginu, og alferma skip sitt gulli og eiri“. 141 til hins akkneska Argverjalands, þ.e. í ríki Agamemnons á Peloponnes og á Pelopsskaga öllum; hér táknar það heimkynni Grikkja yfirleitt. 145 K., L. og I., hjá sorgleikaskáldunum heita þær: Krýsóþemis, Elektra og Ifígeneia. Hjá Hómer er hvergi getið um fórnfæringu Ifígeneiu (sjá J.G. bls. 253). 146 ókeypis, án þess að færa henni brúðgjafir, venjan var, að brúðguminn „keypti“ brúðina af föður hennar (sennilega upprunal. til þess að bæta honum upp það vinnuafl, sem hann missti); gjaldið var mjög misjafnt. Stundum hefur þó sérstaklega ásæll biðill fengið hana ókeypis, og henni stundum fylgt gjafir, sem þó voru ekki eiginleg heimanfylgja. 149 sjö fjölbyggðar borgir, allar þessar borgir voru í Messeníu við Messeníuflóa. 153 yzt í landi, eða: yzt við landamæri h. s. P. 168 Fenix, fóstri Akkilless, er hér nefndur í fyrsta sinn. Hvergi er þess getið, hvers vegna hann er ekki heima í tjaldi Akkilless, en situr hér á fundi með höfðingjum Akkea. Sumir fræðimenn telja, að honum sé skotið síðar inn í þenna þátt. 171 Takið nú handlaugar, sjá ath. við VI 266. 176 skenktu í drykkjarkerin o.s. frv.: Fáeinum dropum var ausið með sleif úr skaftkerinu í drykkjarkerin, og það vín síðan fært sem dreypifórn; eftir það voru svo drykkjarkerin fyllt til drykkjar. 182 Þeir Odysseifur gengu, í gr. textanum stendur: Þeir tveir gengu; þessir tveir virðast vera Odysseifur og Ajant; styrkir þetta nokkuð áðurnefnda tilgátu, að Fenix sé síðar skotið inn í þáttinn. 183 og báðu ... til ... Landaskelfis, nl. Posídons; eðlilegt er, að þeir biðji helzt til hans, þar sem hann var Grikkjum ávallt velviljaður, og þeir eru nálægt sjónum, sem hann ræður yfir. 186 hvella hörpu, sjá mynd í Odysseifskviðu bls. 8. 187 lyklarim, þverrim sú, sem strengirnir voru festir við. 188 Etjonsborg, nl. Þebu, þar sem ríkti Etjon, faðir Andrómökku, sbr. ath. við I 366. 189 lék ... og söng, þetta er eini staðurinn í Ilíonskviðu, þar sem þess er getið, að kapparnir syngi. 196 kvaddi þá, með því að rétta fram höndina. 197 Verið velkomnir! o.s. frv., kveðjuorð Akkilless lýsa í senn undrun, gleði og beiskju, en gleðin verður þó ofan á. Kemur þetta betur fram í gr. textanum en þeim íslenzka. 203 byrla vín í áfengara lagi, þ .e. með því að blanda það minna vatni en venjulega; kapparnir blönduðu ávallt vínið vatni. 206 kjötborð, þar sem hráa kjötið var höggvið og limað sundur. 213 skaraði hann, nl. Akkilles. 214 helgu (salti), líklega af því, að það var af ýmsum þjóðum talið hafa hreinsandi eiginleika og því t. d. notað við fórnir. 215 fjöl, réttara: smáborð, þ.e. eins konar matgagnaborð, þar sem kjötið var skammtað. 216—217 P. tók brauð ... á borðinu, eða: P. tók brauð og skammtaði það á borðinu í fallegum körfum. 220 frumfórnum, það voru venjulega hráir kjötbitar. 223 gerði A. Fenixi höfuðbendingu, nl. um, að hann skyldi bera upp erindið. 235 að A. muni nú ekki fá staðizt, heldur muni þeir falla, eða (e. t. v. réttara): að þeir muni ekki vera stöðvaðir, heldur muni þeir gera árás á h. s. skip. 236 heillavænlegar jarteiknir, sbr. ath. við II 353. 241 höggva skuttrjónurnar af skipum vorum, líklega til þess að taka þær með sem sigurmerki. 245 muni oss eiga auðið að verða, þ.e. þau muni verða örlög vor. 252 Þau áminningarorð o.s. frv.: Þeir Odysseifur og Nestor voru þá einmitt staddir hjá Peleifi til þess að fá Akkilles til þátttöku í leiðangrinum til Tróju. 254 sigur, eiginl.: þrótt, styrk. 299 Kröfu Agamemnons um, að Akkilles vægi fyrir sér, sleppir Odysseifur alveg til þess að reita ekki Akkilles til reiði. Að öðru leyti er ræða Agamemnons endurtekin hér orðrétt, aðeins breytt um persónu. 309 fortakslaust, þ.e. hispurslaust, hreinskilnislega. 312 Hadesar grindum, þ.e. hliði Undirheima. 320 jafnt fellur sá ... afrekar mikið, þessi lína virðist eiga hér fremur illa við; telja sumir hana því síðari tíma innskot. 321 Mig stoðar það ekki, þ.e. mér er það til einskis gagns. 327 sökum eiginkvenna A., í bræði sinni ýkir Akkilles og hefur fleirtölu, þó að hann eigi við Helenu eina. 332 við skipin, í gr. textanum stendur: við hin hraðskreiðu skip. 338 Akkilles á við, að Agamemnon hafi farið með Akkea til Tróju til þess að bjarga stolinni konu, en sjálfur sé hann konuræningi (þar sem hann hafi stolið Brísesdóttur). 381 Orkómensborg var fræg verzlunarborg í Böótíu, borg Minýjanna, sem frægir voru fyrir auð sinn. Fornfræðingurinn Schliemann gróf þar í jörðu, sem kallaðist „Fjárhirzla Minýjanna“. Fundust þar margir fornir dýrgripir. Hin egypzka Þeba (síðar nefnd Diospolis) var hin fornfræga höfuðborg Suður-Egyptalands. Þessi borg náði hátindi frægðar sinnar og valds á 10. öld f. Kr. b. — Tölur þær, sem nefndar eru, eiga sennilega að tákna herstyrk borgarinnar. 385 sand, nl. á sjávarströnd. mold, eiginl.: ryk (á vegum úti). 387 tekið gjöld, nl. með auðmýkingu og óförum. 392 meiri höfðingi er auðvitað háð (vegna drembilætis Agamemnons). 394 biðja, eiginl.: velja. 395 Hella, eins og vant er, hérað í Þessalíu (ekki allt Grikkland). 405 Pýþó er sama og Delfí. 407 má ná, nl. á friðsamlegan hátt; til kaups eða sem verðlaun. 411 tvennar, eiginl.: tvenns konar. Annars staðar er einungis getið þess möguleika, að A. verði skammlífur, sbr. I 352 og 416 og áfram. 447 Helluland eða Hella (Hellas), sem venjulega er notað hjá Hómer í þröngri merkingu um Þessalíu eða norðurhluta hennar, þar sem Peleifur réði ríkjum. Á enn eldri tímum virðist nafnið H. hafa náð yfir töluvert stærra svæði. 453 varð þess vís, eða: grunaði þetta. 454 hét á hinar óttalegu refsinornir sem verndarvætti ættarréttarins. Menn hugsuðu sér, að þær ættu heima í undirheimum (og var jafnvel stundum ruglað saman við undirheimaguðina; sbr. hér á eftir), en að bölbænir gætu sært þær upp til uppheima. Venjulega var það einhver af eldri meðlimum fjölskyldunnar, sem gat sært þær fram til refsingar þeim, sem syndgað hafði gegn blóðfrændum sínum. Refsinornirnar refsa með dauða, barnleysi eða svipaðri ógæfu. Sbr. enn fremur J.G. bls. 107-108. 455 setja á kné sér, þ.e. viðurkenna og taka inn í ættina. 457 Undirheima-Seifur, þ.e. Hades undirheimaguð. 472 í svölugangi hins ramgirta forgarðs, sjá mynd í Od. I. bls. XLVI. herbergisdyrnar, þ.e. svefnherbergisdyrnar. 483 fékk mér stórt mannaforráð, F. varð eins konar undirkonungur yfir nokkru af landi Peleifs. 484 yzt í Fiðjulandi, í suðvesturhluta Þessalíu, næst Epírus. 487 fara til veizlu, þegar föður hans var boðið til annarra höfðingja, virðist drengnum hafa verið boðið með. 490 þegar þú varst o.s. frv., eða (líkl. réttara): þegar þú spýttir (eða slefaðir) víninu út úr þér, eins og er leiður vani lítilla barna. 502 Bænirnar (Litai) eru persónugervingar. Þær eru dætur Seifs, af því að hann var verndari biðjandi manna. Þær eru haltar, af því að iðrunin kemur oftast seint, er sein á sér, þær eru hrukkóttar til þess að tákna hinn vesældarlega svip þess, sem biður fyrirgefningar — og þær eru hjáleitar vegna hins óupplitsdjarfa svips þess, sem biður. Þær eru seinfærari en Glæpskan, sem er fótfim, þ.e. menn eru fljótir að láta glepjast, en ekki jafnfljótir að bæta úr glæpskunni og biðja fyrirgefningar. 509 og heyra bæn hans, nl. þegar honum verður eitthvað á og hann biður aðra. 512 taki gjöld fyrir glæpsku sína (nl. að hafa móðgað Bænirnar), meistaraleg þýðing. 515 heldur lofað þeim síðar meir, eða (réttara): og lofað öðrum síðar. 529 Þjóðsagan um „Veiðarnar við Kalýdonsborg“ var í stuttu máli þannig: Öynefur, konungur Etóla, hafði móðgað veiðigyðjuna Artemis. Í refsingarskyni sendi hún landi hans hinn ógurlega villigölt, sem lýst er í textanum. En Meleager, syni Öynefs, tekst að leggja hann að velli með aðstoð Kúreta. (En Öynefur var kvæntur Alþeu, dóttur Þestíasar, Kúretakonungs). En þá kom Artemis upp deilu um haus og húð galtarins, og varð af ófriður milli Etóla og Kúreta. Etólar settust um Plevron, höfuðborg Kúreta, en Meleager drepur þar móðurbróður sinn og er þess vegna formælt af móður sinni. Hann dregur sig því út úr bardaganum. Hallar nú á Etóla. Kúretar ráðast á höfuðborg þeirra, Kalýdon, sem hefði verið tekin, ef Meleager hefði ekki tekið sættum. Fenix heimfærir þessa sögu upp á Akkilles: Meleager var ósveigjanlegur eins og hann lét heldur ekki að bænum vina sinna. Samt varð hann að láta undan að lokum, en fékk þá ekki þær gjafir, sem hann hefði getað fengið, ef hann hefði látið að óskum vina sinna. Eins muni fara fyrir Akkilles. 537 eða hugsunarleysi, eða: af ráðnum huga. 539 vobeyðu, þ.e. skaðsemdardýr. 552 utan borgar, nl. Plevron, sem var um setin af Etólum undir stjórn Meleagers; sbr. ath. við l. 529. 557 Marpessu Evenusdóttur, Evenus var fljót og fljótsguð í Etólíu. Ídas frá Messeníu hafði numið hana burt, en Apollon vildi taka hana af honum. Kom til bardaga milli þeirra. Seifur skildi þá og bauð Marpessu að velja milli þeirra. Hún kaus Ídas. 563 kveinkaði eins og ... ísfugl, sagt er, að þegar karlfuglinn er tekinn, kveini kvenfuglinn í sífellu mjög ámátlega. 572 hin myrkförula refsinorn, sjá ath. við 454. 1. Ein sagan segir, að Meleager hafi fallið í bardaga við Kóreta fyrir örvum Apollons. 579 fimmtíu plóglönd, eitt plógland var akurlendi, sem hægt var að plægja á einum degi (líkl. f. pl. = 20 hekt.). 582 hins háræfraða sals, þar sem M. hafði lokað sig inni. 584 hin heiðvirða móðir, nl. Alþea, sem yfirunnið hafði reiði sína til þess að bjarga ættborg sinni. 616 Haf þú jafnan hlut ríkis við mig o.s. frv.: Hugsunin er: „Ég skal láta þér eftir helming konungsríkisins, en þetta geri ég ekki fyrir þig“. 633 Og þó tekur o.s. frv.: Upprunalega hafa mannhefndir verið venja, en manngjöld hafa smám saman komið í þeirra stað. 640-42 Í þessum síðustu línum leggur Ajant áherzlu á þrennt: 1) þeir eru gistivinir hans, 2) fulltrúar allra Akkea og 3) vildarvinir hans. 648 reikunarmaður, þ.e. flækingur; gr. orðið táknar aðkomumann eða útlending, sem var réttlaus í þjóðfélaginu. 656 tvíker, bikar með tveimur handarhöldum. 657 dreypti, þ.e. færði dreypifórn. 668 Skyrey eða Skýrus í Grikklandshafi, h. u. b. mitt á milli Evboju og Lesbeyjar; þessa eyju virðist floti Akkea hafa hertekið á leiðinni til Tróju, eins og Lesbey seinna. 685 Því að yður mun ..., sbr. 418. 1. og áfram. 694 er sleppt, en þar stendur: „Fannst þeim mikið til koma þess, er hann mælti, því að hann hafði talað skorinort“, sbr. 431. 1. TÍUNDI ÞÁTTUR Þessi þáttur, er lýsir njósnarferð akknesku foringjanna, vígi njósnarans Dólons og ráni hinna fögru hesta Rhesuss, er í mjög lausu sambandi við viðburðarás kviðunnar í heild. Þess vegna hafa ýmsir fræðimenn talið þenna þátt vera síðari tíma innskot. Aðrir benda aftur á móti á, að hann sé í fullu samræmi við viðburðina, hann sé settur hér annars vegar til þess að bregða upp mynd af daglegu lífi kappanna við Tróju, en hins vegar til þess að auka á eftirvæntingu áheyrandans og fresta enn um hríð frásögninni um úrslitabardagana. 8 lætur hina bitru styrjöld ..., hugsunin virðist vera sú, að þrumur og eldingar úr heiðskíru lofti boði ófrið. 10 pipruðu, þ.e. titruðu, skulfu. 20 meinabót o.s. frv.: Agamemnon virðist óttast næturárás Trójumanna. 23 húð ... af ljóni, e. t. v. vegna næturkuldans. 41 á næturþeli, á gr. stendur: „á hinni guðdómlegu (heilögu) nótt“, nætursvefninn var skoðaður sem guðleg gjöf mönnunum til hressingar. 45 því að nú hefir S. snúizt hugur o.s. frv. A. dregur þá ályktun af ósigrinum daginn áður. Ekki er getið um blót Hektors, en A. gerir ráð fyrir því vegna viðburðanna. 48 Á eftir orðunum „... svo mörg stórvirki“ vantar í þýð. „á einum degi“. 50 af gyðjum né guðum borinn, eins og t. d. Akkilles. 53 Ajant, Telamonsson, og Idomeneifur höfðu búðir hjá hvor öðrum utast í herbúðunum. 56 helga, eða: hrausta. 57 sonur hans, Þrasýmedes. 68 kenn hvern mann o.s. frv., slíkt þótti virðingarvottur. 77 liðuga, eða: glitrandi, skrautlega. 84 er sleppt í þýð., en þar stendur: hvort leitar þú að múlasna eða einhverjum félaga þinna? 110 hinn skjóta Ajant, nl. Öyleifsson. Fýleifsson, nl. Meges (sbr. II 627). 112 hinn goðumlíka Ajant, nl. Telamonsson. 125 komst orði á, þ.e. nefndir, tókst til. 126 hitta þá, nl. Ajant, Idomeneif, svo og Menelás. fyrir framan hliðin, varðmennirnir voru milli múrsins og grafanna. 149 alla vega litan, þ.e. með ýmiss konar málmskrauti. 153 á aurfalnum, aurfalur var gaddur aftur úr spjótsendanum til þess að geta stungið spjótinu niður í jörðina. 159 sefur, eiginl. hrýtur. 164 seinþreyttur ertu, ágæt þýðing: sy men ponú ú pote legeis, orðrétt: þú linnir aldrei á erfiðinu. 173 leikur á hnífsegg, þ.e. úrslitin eru yfirvofandi. Gr. orðið gefur eiginl. til kynna rakhníf, en á þessum tímum rökuðu menn efri vörina eina. Fundizt hafa í jörðu (t. d. í Tróju og víðar) hálfmánalagaðir rakhnífar. 197 Þeir, eða (réttara): þeir sjálfir, nl. höfðingjarnir. 258 bólulausan og skúflausan, til þess að minna bæri á honum. 264 Þéttar raðir af hvítum galtartönnum, þessar tennur voru upprunalega settar á hjálminn til þess að veita kappanum kraft villisvínsins og gera hann ægilegri ásýndum. 267 Átolýkus, móðurfaðir Odysseifs. 274 hægra megin, það þótti heillamerki, en ef það var til vinstri, óheillamerki – Auk Aþenu senda þeir Seifur og Apollon slík jarteikn. 284 Atrýtóna, sjá ath. II 157. 285 Týdeifi, þá hann fór o.s. frv., sjá IV 382 og áfram og V 802 og áfram. 286 fyrir A., eiginl.: á undan A. 288 Kadmunga, sem voru elztu íbúar Þebuborgar. 289 mikil stórvirki, sbr. IV 391 og áfram. 294 skal eg gullbúa horn hennar, venja var að leggja gullþynnur á horn fórnardýrsins. 321 lyft upp sprota þínum, sprotinn er tákn konungstignarinnar, sem sett var í veð fyrir því, að eiðurinn skyldi ekki rofinn. 324 frá því, þ.e. ólíkt því. 327 Skáldið gerir mikinn mun á framkomu Dólons og Díómedess; sá síðarnefndi talar ekkert um laun eða gumar af, hvað hann muni gera. 332 og sór þar ósæran eið, þ.e. sór meinsæri, því að eiðurinn rættist ekki, þar sem Dólon féll og Hektor fekk aldrei vagn og hesta Akkilless, en var einmitt dreginn af þeim eftir dauða sinn. 334 úlfhéðinn, þ.e. úlfsskinn. 347 frá herbúðunum, nl. Trójumanna. 351 svo langt ..., sem múlar komast í einni lotu, þ.e. svo langt sem múlar geta dregið plóginn án þess að nema staðar. 379 seigunnið járn, sjá ath. við VI 48. 394 svipulu, þ.e. sem líður fljótt. 402 Eaksniðja, þ.e. Akkilless. 409–411 er sleppt, enda af sumum talið innskot frá I. 208–210, en þar stendur: „hvað þeir ætlast fyrir, hvort þeir ætli að vera hér kyrrir hjá skipunum fjarri borginni, eða vilji þeir hverfa aftur til borgarinnar, þar sem þeir hafa unnið sigur á Akkeum“. 415 haugi Ílusar, sem var stofnandi Trójuborgar (Ílíos); haugurinn var miðja vegu á sléttunni milli borgarinnar og skipanna, ekki fjarri Skamandersfljóti. 416 langt frá skarkalanum, nl. í búðunum. 428 Kárar ... Peónar o.s. frv., nöfn á mjög gömlum þjóðflokkum, sem á síðari tímum voru taldir hafa búið á ströndum og eyjum Eyjahafs. Annars staðar hjá Hómer eru þeir taldir nágrannar Tróju. 430 Timburvallar, eða Timbru, því að sennilega var það nafn á borg við Skamandersfljót, ekki fjarri Tróju. 435 Resus E., hann var annars talinn sonur fljótsguðsins Strýmons. 454 um höku hans, tilburðir þess, sem biður innilega; svipaðir tilburðir þekkjast enn sums staðar í Austurlöndum. 459 bogann, eigil.: „hinn fjaðurmagnaða (palíntona) boga“. 460 hóf vopnin hátt upp sem tákn helgunar og vígslu. 460 hinni fengsælu A., þ.e. sem veitir gnótt herfangs. 475 yzta hlýrann á kerrustólsþreminum ( þ.e. -brúninni), eða: enda kerrubogans, sbr. ath. við V 262. 491 í þeirri veru, þ.e. í þeim tilgangi. 496 var honum mótt, þ.e. hann átti erfitt um andardrátt; sbr. vera ómótt. 497 er sleppt í þýð., enda af flestum talin síðari tíma innskot, en þar stendur: „þá nótt, nefnilega Öyneifsniðji (Díómedes), eftir ráðstöfun Aþenu“. Höf. línunnar hefur hugsað sér Díómedes vera efni hins illa draums. 502 og gaf, eiginl.: og gaf með því. 511 Trójumenn, eiginl.: einnig (kai) Trójumenn. 513 Steig hann á hestbak, nl. öðrum hestinum; að Odysseifur hafi farið bak hinum hestinum, er ekki tekið fram. Kapparnir á Hómerstímum voru annars sjaldan ríðandi, hvorki í stríði né á ferðalögum. 517 hafði hann illan grun á henni, eða: reiður henni (te koteón). 531 er sleppt, enda vantar hana í ýmis beztu handritin; en þar stendur: „til hinna holu skipa, því að þangað girntust þeir að fara“. 539 af skarkala T., eða: í hinum tryllta orustugný T. 542 fögnuðu þeim með handabandi, handabandið táknaði bæði kveðju, þakkir, sættir, heillaósk (eins og hér) o. fl. 571 helgigjöf, nl. við fórnir þær, sem þeir höfðu lofað að færa Aþenu 1. 292 og áfram. Þá áttu vopnin að vígjast henni. 576 velskafin laugarker, sá siður, að laugast í baðkerum, á sennilega rót sína að rekja til eyjarinnar Krítar, því að gr. orðið um laugarker er kríteyskt tökuorð. ELLEFTI ÞÁTTUR Þessi þáttur greinist í tvo meginkafla, mislanga: 1) Fyrri kaflinn, 1. 1—575, lýsir bardaganum á ný og einkum afreksverkum þeirra Agamemnons, Díómedess og Odysseifs, sem hrekja Trójumenn aftur alla leið upp að borgarmúrunum. Að boði Seifs særast grísku kapparnir, hver á fætur öðrum, og snúa aftur til skipa sinna og búða. En Hektor fyllist vígamóði og hrekur Akkea aftur niður að skipavirkjunum. Með þessu uppfyllir Seifur loforð sitt við Þetis. En skáldið tekur jafnframt upp hinn fyrri þráð efnisins: ósigur Akkea sem skilyrði fyrir þátttöku Akkilless aftur í bardögunum. Hin byrjandi umskipti í huga Akkilless eru svo fyrst boðuð í síðari kaflanum: 2) Ofan af skipi sínu hafði Akkilles séð, þegar lækninum Makaon var ekið þar fram hjá særðum í vagni Nestors. Hann sendir nú Patróklus vin sinn til búðar Nestors til bess að grennslast betur fyrir um það, hver hinn særði maður sé — og jafnframt að fá nánari fregnir af ósigrinum. Patróklus fer og hittir Nestor, sem tekur honum mjög vel. Segir hann honum, hve illa sé komið fyrir Akkeum. Þá segir hann honum langt ævintýr frá æsku sinni og notar þessa frásögn til þess að fá hann til að hvetja Akkilles til þess að veita nú lið, eða að minnsta kosti að fá vopn hans lánuð og taka sjálfur þátt í bardaganum — eins og síðar verður. Þannig hverfur skáldið aftur að aðalefni kviðunnar: reiði Akkilless og afleiðingum hennar. 1 Tíþóni, manni sínum, syni Laomedons, bróður Príamuss. Sjá J.G. bls. 166. 3 þrætugyðju, sem hét Eris. 4 ófriðarteikni, e. t. v. ægisskjöldur eða þrumufleygur. 5 stórhúfaða, þ.e. með stóran, víðan byrðing. 11 upprétt, eða: með hvellri röddu. 13-14 er sleppt í þýð., enda af mörgum talið síðari tíma innskot, en þar stendur: Gerðist þeim nú skjótt kærari styrjöldin en að hverfa aftur til ættjarða sinna á hinum holu skipum. 17-19 Sjá ath. við III 330-332 (um brynhosur og brynju). 20 Kinýras átti að vera fyrsti konungur á Kíprey (Cyprus) og fyrsti prestur gyðjunnar Afrodítu. Þetta er eini staðurinn hjá Hómer, þar sem Kípur er nefnd. List Kípurmanna var fenísk. 21 þann mikla frama, eða: þá miklu fregn. 23 í vináttuskyni, eiginl.: til þess að þóknast honum. E. t. v. hefur hann með þessu ætlað að kaupa sig undan því að veita honum vígsgengi. 24 Á brynjunni voru o.s. frv.: Skáldið virðist hugsa sér, að brjóstplata og bakplata séu úr ræmum, 21 í hvorri, og skiptist þar á blástál, gull og tin (eða líklega tinblendingur) eftir vissum reglum. Þvert yfir ræmurnar upp að hálsinum liggi svo drekamyndir. 27 líkir regnbogum, líklega ekki um litinn, heldur lagið, þ.e. drekarnir lágu í hálfhring upp að hálsinum. 28 mælta menn, sjá ath. I 250. 29 naglar, sem brandurinn er negldur við hjöltun með. 30 umgjörð, þ.e. slíður. 31 gullbúnum annfetlum, fetillinn var festur um axlir mannsins og var venjulega úr leðri. 32 hlífskjöld, orðrétt: skjöldinn, sem þekur manninn; skjöldurinn var mjög stór, náði frá miðju brjósti og niður á miðjan fótlegg. Sjá nánar ath. við III 335. 33 tíu baugrendur af eiri, frá miðjum skildinum, hver baugur utan um annan út á skjaldarrönd. 34-35 bólur ... nöf, sjá ath. III 335. 36 á skildinum allt í kring, eða: á miðjum skildinum. Gorgó, sjá ath. V 741. 37 Óttinn og Flóttinn eru persónugervingar. 38 skjaldarfetillinn, þ.e. breið leðuról, sem skjöldurinn var borinn á; sjá ath. III 335. 40 kringsnúnir hausar, þ.e. sinn hvoru megin við miðhausinn gekk haus upp úr sama svíra. 41 bóluhjálm, eiginl.: hjálm með tveimur hornum eða skúfum, sbr. ath. við III 336. fjórbólaðan, þ.e. með tvær málmbólur eða málmhnúða sinn hvoru megin á hjálminum. 50 í dagsljósinu, eða: með morgunsárinu, í dagrenningu. 62 hin meinsamlega stjarna, nl. Síríus eða Hundsstjarnan, en við uppkomu hennar byrjar í Suðurlöndum hið heita, óholla miðsumar („hundadagar“). 67 hvorir gegnt öðrum, skáldið hugsar sér, að hvorir byrji á sínum enda akursins og mætist í miðjunni. 72 heldur héldu nokkurir o.s. frv., eða: sóttust þeir jafnt á á báða bóga og ólmuðust sem úlfar. 73 hörmulega, þ.e. sem vekur harma. 84 signaði, þ.e. blessaði (á gr. eiginl. „hinn helgi“). 86 til miðdagsverðar, eða: til morgunverðar, því að að sumri til má gera ráð fyrir, að þetta gerist um 9 eða 10 að morgni, ef hann hefur byrjað verkið um sólaruppkomu. Gr. orðið getur þýtt „mat“ yfirleitt. 100 Herkon. Agam. lagði o.s. frv., flestir þýða þessa setn. þannig: „Herk. A. lét þá liggja þar eftir með skínandi brjóstin (ber), er hann hafði tekið af þeim brynstakkana (eða réttara: skyrturnar)“. En slíkt var venja frá fornum, siðlausum tímum. Gr. orðið „perídyse“ þýðir eiginl.: „hjúpaði“, „vafði um“, en er sennilega síðari tíma innskot fyrir annað orð, sem þýddi „rændi, svipti“. 104 hjástöðumaður, þ.e. hann barðist, hinn stýrði hestunum. 107 hinn víðlendi, þ.e. sem réði fyrir víðlendu ríki. 124 hann hafði tekið við, eða: hann vænti sér. 127 stýrðu báðir jafnt, eða: reyndu báðir jafnt að hafa hemil á. 129 en þeir urðu báðir óttaskelfdir, lík. er ekki átt við bræðurna, heldur hestana, svo að þýða mætti: en hestarnir fældust. 130 krupu á kné, ekki bókstaflega, því að til þess var ekki pláss, heldur: grátbændu, sárbændu hann. 140 er kominn var o.s. frv., sbr. III 205. 145 stökk ofan, nl. til þess að flýja. 146 Slíkum misþyrmingum beittu þeirra tíma Grikkir ekki, nema þeir hefðu átt sérstaklega sökótt við manninn í lifanda lífi eða þá við ættingja hans (eins og hér). 147 sem sleggjusteini, eða: sem valtara. 166 haugi Ílusar, sjá ath. X 415. 196 til ... Ilíonsborgar, þ.e. ekki til hennar sjálfrar, heldur nágrennisins, þar sem Trójumenn voru á undanhaldi. 198 kerru sinni, sjá ath. við IV 366. 216 festist þá orustan, þ.e. skipuleg orusta hófst. 218 Þetta ávarp til Sönggyðjanna kemur hér vegna þeirra umskipta, er verða á þessum stað, á rás viðburðanna: Nú fer Seifur fyrir alvöru að framkvæma loforð sitt við Þetis. 224 Þeanóar, sjá VI 298; hún var hofgyðja Aþenu í Tróju. 226 hélt honum o.s. frv., eða: reyndi að halda honum með því að ... Ifídamant kvongaðist þá móðursystur sinni. 229 í Perkótu, borg eða höfn í L.-Asíu við Hellusund, milli Lampsakos og Abydos. 234 bryngyrðilinn, þ.e. beltið, sbr. ath. IV 137. 237 mætti silfrinu, þ.e. silfurplötum, sem beltið var sett með. 242 borgarmönnum; hann var Trójumaður — sem sonur Antenors —, þó að hann væri alinn upp í Þrakíu. 243 margar gjafir; á eldri tímum varð biðillinn að „kaupa“ brúðina af föður hennar. Þessi venja var leifar frumstæðs tíma, þegar litið var á dótturina sem vinnuafl, og afsal hennar var þá missir, sem bæta þurfti upp. En auk brúðargjafa er líka getið heimanmundar hjá Hómer, eins og síðar tíðkaðist. 259 baugnafaða skildi, sjá ath. III 335. 271 dætur Heru, Hera var sérstaklega ákölluð af konum í barnsnauð. Hún var yfirleitt gyðja hjónabandsins. 286 nágönglu, þ.e. sem ekki hræðast návígi. 288 veitt mér mikið vegsefni, nefnilega samkvæmt skilaboðunum í l. 206 og áfram. 297 Hektor hafði hingað til haft hægt um sig í bardaganum. Hinni skyndilegu komu hans er líkt við eina af hinum snöggu vindhviðum, sem stundum koma ofan af hinum háu fjöllum við strendur Grikklandshafs og æsa það upp. 306 hins hvíta sunnanvinds, sunnanvindurinn (Nótus) er kallaður hvítur (levkos, levkonotos) af því, að honum fylgir jafnan á þessum stöðum bjart og heiðskírt veður. 313 að við skulum ekki neytt hafa o.s. frv., eða: að við skulum hafa gleymt hinum skæða bardaga. 326 hrukku þeir við, þ.e. veittu viðnám, gerðu áhlaup (eftir flótta). 329 tveir synir, þeir Adrestus og Amfius (sbr. II 830). 332 valkyrjur, hinar svonefndu Kerur, sjá J.G. bls. 107. 343 varð varr við þá, nl. Díómedes og Odysseif. 353 þrefaldi, þ.e. þrjú málmlög hvert ofan öðru. pípuhjálmur, þ.e. með pípu til þess að stinga hjálmskófnum í. E. t. v. á að þýða: þrefaldi hjálmur með kinnbjörg (eða hjálmgrímu). 360 forðaðist hina svörtu Valkyrju, þ.e. forðaði sér frá bana. 366 einhverr guðanna, Díómedes hugsar sjálfsagt til Aþenu. 368 Peonsson, nl. Agastrofus í l. 338. 375 bogarifið var baugur sá eða hólkur, sem skeytti saman enda hinna tveggja horna, sem boginn var gerður úr (sbr. lýsinguna í IV 105—111). 385 horngassi, þ.e. hrútur með stór horn; á gr. stendur orðrétt: „þú, sem státar af horni“, en með því virðist vera átt við sérstaka liði í hárinu (líkt og hrútshorn í laginu), sem spjátrungar skreyttu sig með. 393 með sundurrifnar kinnar; syrgjendur, einkum konur, rifu hár sitt og klóruðu kinnarnar. 413 meinvættinn, af því að hann átti eftir að bana mörgum þeirra. 424 í kviðinn, orðrétt: í naflann. 427 ættgöfga, eða: auðuga. 445 gefa líf þitt hinum hestfræga H., sennil. hafa menn á elztu tímum hugsað sér, að Hades æki um vígvöllinn til þess að taka með sér hina dauðu. 455 útför var nauðsynleg, svo að sál hins dána gæti komizt til undirheima. 457 út úr holdinu, nl. á sjálfum sér. 470 að honum verði nokkuð, þ.e. að honum hlekkist á. 480 þá stefnir einhver guð þangað morðgjörnu ljóni, fyrirætlun þess er ekki sú sama og Ajants, en áhrif ljónsins á gullúlfana eru hin sömu og Ajants á Trójumenn, og það er aðalatriðið hjá skáldinu. 488 sveinninn, nl. sveinn Menelásar, því að Odysseifur notaði engan vagn. 494 tyrvitré = furutré, furur. 515 er sleppt í þýð., en þar stendur: „til þess að skera örvar úr sárum og strá á þau mýkjandi jurtum“. 521 Kebríones, bróðir Hektors, sem Hektor hafði beðið um að taka við taumunum, þegar vagnstjórinn var fallinn (VIII 318). 535 kerrustólsbogana, sjá ath. við V 262. 543 er sleppt í þýð., enda vantar hana í handritin; en í þessari l. stendur: „því að Seifur reiddist honum, þegar hann barðist við sér hraustari mann“. 544 kom nú Ajanti á flótta, eða: skaut nú skelk í bringu A. 545 hann varpaði á bak sér ... skildi, til þess að hlífa sér á flóttanum og eiga hægara um vik; sbr. ath. við III 335. 546 mannþröngina, nl. sinna eigin manna, Akkeanna, sem nú voru á flótta. 558 asni sá o.s. frv., þetta er eini staðurinn, þar sem asni er nefndur hjá Hómer, enda var hann ekki orðinn algengt húsdýr þá, á tímum kvikfénaðar og akuryrkju. 559 hann gengur utan með akurlendinu o.s. frv., lýsingin er á asna, sem smásveinar reka eftir vegi meðfram akurlendi, sem asninn reynir að komast inn á, en drengirnir reyna árangurslaust að varna því. 590 öndverðir, nl. gegn óvinunum. 592 hjá honum, nl. Evrýpýlus. 593 höfðu skjölduna á hlið sér, líkl. hafa þeir kropið á jörðunni bak við skjölduna, sem námu við axlir þeirra, sbr. aths. við III 335. 595 sinna manna, nl. þeirra, sem stóðu eða krupu kringum Evrýp. 600 á skutstafni, skutur skipanna vissi upp á land, stefnið til sjávar. hins stórhúfaða skips, þ.e. með stóran byrðing. 601 (grátlegu) sókn, eða: (grátlega) flótta. 604 var þetta hið fyrsta upphaf ógæfu hans; með þessum orðum er gefið í skyn, að hér hefjist nýr þáttur í viðburðunum, Patróklusþáttur. Sendiför hans til Nestors verður til þess, að hann að áeggjan Nestors biður Akkilles um að fá að fara út í bardagann, þar sem hann svo fellur. 624 milskudrykk, sæt blanda úr hunangi, víni og fleiru, eins og lýst er í 1. 638—640. 627 að afnámsfé, sem höfðinginn fékk af óskiptu herfangi. 630 hnapplauk, laukur í suðlægum löndum er öðruvísi á bragðið en í norðlægum löndum, miklu sætari og ljúffengari. 635 tína, nl. korn. tveir fætur, eða (e. t. v. réttara): tvær stoðir, eins og sjást á gullbikar þeim, er Schliemann fann í Mýkenuborg. Þessi bikar, sem hér er nefndur, hefur sennil. verið úr silfri eða eirblendingi nema naglarnir og dúfurnar. Tvö eyru hafa verið sín hvorum megin. Naglarnir voru, sumpart til prýði, sumpart til þess að festa plöturnar. 639 af pramnisku víni, það var sterkt rauðvín, sem dró nafn af fjallinu Prymne (líkl. á eyjunni Íkaríu). 649 ægilegur, eða: virðulegur. 654 óttalegi, eða: skapstóri, uppstökki. 662 er sleppt í þýð., enda vantar hana í beztu handritin; en þar stendur: „særður er og Evrýpýlus örvarskoti í lærið“. En Evrýp. særðist eftir að Nestor var farinn úr orustunni. 667 að óvilja A., þ.e. þrátt fyrir mótspyrnu A. 671 Elea, íbúar í Elealandi eru annars hjá Hómer venjul. nefndir Epear. 674 ránsför; eins og eftirfarandi frásögn sýnir, var þessi ránsför farin í hefndarskyni fyrir fyrri ránsfarir og ofbeldisverk Epeanna. Pýlusmenn réðust á hirðana með hjarðir sínar; eigandi þeirra, Itýmoneifur, kom þeim þá til hjálpar. 690 Herakles hinn sterki; hjá Hómer er H. alls ekki þjóðhetja, heldur er hann nefndur ójafnaðarmaður. 692 tólf sonu, talan tólf var heilög tala og oft notuð um óákveðinn fjölda. 696 nóg, nl. af öllu herfanginu. 699 og kerrurnar með, eða (réttara) og kerran með, því að á eftir (1. 702) er sagt, að kerrusveinninn hafi verið einn. Það hafa þá verið 4 hestar fyrir kerrunni, sem annars var mjög sjaldgæft. 700 þangað, þ.e. til Eleaborgar. hlaupa um þrífót, síðar voru sigurlaunin í kappakstri í Olympíuleikjunum ekki þrífótur, heldur olíuviðarsveigur. Þessir leikir voru ævagamlir, og átti Herakles að hafa stofnað þá. 701 Ágeas, sjá J.G. bls. 237. 703 orða þeirra, Ágeas hafði sent háðuleg orð með kerrusveininum. 705 er sleppt í þýð., enda af fornum gagnrýnendum talin síðari tíma innskot; en þar stendur: „að skipta, svo að enginn fari burt sviptur sínum rétta hluta“. 709 Molíónusynir; þeir hétu Kteatos og Evrýtos og voru ýmist taldir synir Aktors (bróður Ageasar) eða Posídons. Þeir eru nefndir líka í 23. þætti 638. l. og áfram. 712 yzt í landinu, líkl. nyrzt í Trífýlíuhéraði gegnt Elís. 722 Minýeus, er síðar nefndist Anigros. 722 Vatnaguðir voru oft hugsaðir í mynd griðunga eða hesta; þess vegna var þeim oftast fórnað griðungum eða hestum. 751 Jarðarskelfir, þ.e. Posídon. 756 Búprasíon var hérað, norðurhluti Elíshéraðs. 763 en Akkilles vill einn o.s. frv., ólíkt Nestor, sem barðist fyrir alla þjóðina. 765 Þau heilræði, nl. þau, sem koma í I. 786 og áfram. 769 velsettu herbergja Peleifs: Menöytíus fór með son sinn ungan til Peleifs, og ólst hann upp hjá honum; sbr. nánar 23. þátt 85 og áfram. 774 í hallarforgarðinum, þar var altari helgað Seifi herkeios, þ.e. verndara hússins; þar færði konungurinn sem prestur ættarinnar fórnir. 777 Akkilles kemur fram sem fulltrúi föður síns, sem er önnum kafinn við fórnir. 786 er Akkilles ættgöfgari, hann var niðji Eaks (Aiakoss), sem talinn var sonur Seifs; auk þess var hann sonur gyðjunnar Þetisar. 794 einhverja goðaspá, sem bannar honum að taka þátt í bardögunum. 796 og nokkura menn með þér af M.; eða (réttara): „og annan herstyrk M. með þér“. 807 dómstaður, ætti að vera: samkomustaður og dómstaður. 811 svitinn, orðrétt: blautur svitinn. 818 að verða þannig ... að bráð o.s. frv., orðrétt á gr.: „að seðja þannig fljóta hunda í Trójulandi með hvítu spiki ykkar“. 832 Kíron, sjá ath. við IV 219. réttlátastur, eða: siðaðastur, því að annars voru Kentárar ósiðaðir og villtir. 839 Eg vil fara, eða: ég er á leiðinni til þess að ... 840 vörður Akkea, alltaf um Nestor vegna umhyggju hans fyrir hag Akkea. 846 rót, þessi rót var síðan nefnd Achillea. TÓLFTI ÞÁTTUR Næstu þættirnir fjórir, 12.-15., eru í raun og veru ein heild. Lýsa þeir sigursælum árásum Trójumanna á skipabúðir og virki Akkea, svo og bardögum milli þeirra Hektors og Ajants. Í þessum þáttum rætast loforð þau, er Seifur hafði gefið Þetis í 1. þætti og Hektor í 11. þætti. Þessi þáttur, sá 12., er í beinu framhaldi á 11. þætti: Á meðan Patróklus hjúkraði Evrýpýlusi, héldu bardagarnir áfram við skipagarðinn. En því næst (með 10. línu) kemur mjög einkennilegur kafli, einstæður í allri kviðunni, þar sem skáldið lítur langt fram í framtíðina miðað við viðburðina. Á tímum skáldsins sáust engar menjar af hinum mikla skipagarði og öðrum mannvirkjum. Þessu til skýringar lætur skáldið guðina Posídon og Apollon bindast samtökum um að eyðileggja með öllu í sameiningu öll þessi mannvirki. Í fyrri þáttum er í bardagalýsingum lögð megináherzla á afrek einstakra kappa. Í þessum 4 þáttum (12.-15.) er brugðið upp myndum af bardögunum yfirleitt, þar sem úrslit eru óviss. Í 12. þætti verður Trójumönnum það vel ágengt, að í lok þáttarins tekst þeim að brjóta upp hliðið. Í 13. þætti veitir Posídon, — þrátt fyrir bann Seifs —, Akkeum lið á laun og styrkir viðnám þeirra. Í 14. þætti eru Trójumenn hraktir til baka og Hektor særður. Loks í 15. þætti vinna Trójumenn sigur við skipin fyrir atbeina Seifs og Apollons. — Eitt af einkennum 12. þáttar eru hinar afar mörgu og snjöllu líkingar. Enginn þáttur Hómerskvæða er jafnauðugur af þeim og þessi. Algengustu líkingarnar eru að líkja kappanum við villidýr, hátt og blómlegt tré o. fl. Einnig eru mjög margar líkingar teknar úr náttúrunni og ýmsum fyrirbrigðum hennar. 6 án þess að færa guðunum ... hundraðsblót, sjá VII 450, þar sem Posídon 1ætur í ljós gremju sína yfir þessu athæfi Akkea. 18 þá réðu þeir það með sér, þeir P. og A., um þessa einkennilegu skýringu skáldsins sjá inng. að þessum þætti. Seifur hafði leyft Posídon að brjóta niður múrinn: sjá VII 459 og áfram. Um ástæðuna fyrir þátttöku Apollons sjá VII 452. 19 allra þeirra fljóta o.s. frv., af þessum fljótum eru aðeins 3 síðasttalin fljót nefnd. Graníkus er frægt af sigri Alexanders mikla yfir Persum árið 334 f. Kr. b. 23 kyn hálf-goðkunnugra kappa, orðrétt: kyn hálfgoða; átt við kappana við Tróju, sem margir voru goðkynjaðir. 27 þríforkinn, hann er annars aðeins nefndur í Odysseifskviðu. 37 af refsingu Seifs, orðrétt á gr.: af svipu (mastigi) Seifs. 45 galtarins, eða: ljónsins, eftir gr. textanum getur það verið hvort dýrið sem er. 59 þótti áhorfsmál, sérstaklega góð þýðing. 64 hjá staurunum o.s. frv., þ.e. víggarðurinn er svo nærri, að varla er svigrúm til þess að berjast. 91 Kebríones, bróðir Hektors og kerrusveinn hans frá VIII. þætti 318. l. hinn þriðji maður, hver sveit hafði 3 yfirmenn eða foringja. 93 Fyrir annarri sveit o.s. frv., báðar þessar sveitir, sú 2. og 3., hafa sennil. verið skipaðar Trójumönnum. 98 fjórðu sveit, 13. e. Dardönum, íbúum héraðsins Dardaníu, skammt frá Tróju. 102 Glákus, sbr. VI 119. 1. og áfram. 113 átti honum ekki auðið að verða o.s. frv., þetta kemur að vísu ekki fram fyrr en í 13. þætti 384. 1. og áfram. Valkyrjum, Valkyrjurnar eða Dauðagyðjurnar (Keres) fluttu sálir hinna dauðu til Hadesar heima. 116 sveif yfir hann, eiginl.: huldi hann skýi dauðans. 118 vinstra megin, þ.e. miðað við herbúðir Akkea. 120 hliðin, þau eru stundum hugsuð fleiri, eins og t. d. hér og í 1. 175 og 340, en annars aðeins eitt h. u. b. á miðjum múrnum, eins og t. d. síðast í þessum þætti (1. 445). 138 og héldu hátt upp o.s. frv., nl. til þess að verjast skotum ofan af víggarðinum. 151 Líkingin, sem byrjar í 1. 146, á að lýsa vígamóði kappanna tveggja, en síðasti hluti líkingarinnar gefur tilefni til nýrrar líkingar. 164 ósannsögli, hann á við loforð það, sem gefið er í 1. 207 og áfram, og ummæli Hektors í 1. 288. 166 áhuga vorn og ofurefli, orðrétt: afl vort og óárennilegar hendur. 170 veiða þær, nl. vegna hunangsins. 175-181 er sleppt í þýð., enda hafa þessar línur þegar frá fornöld verið taldar síðara innskot. Hér hefði mátt búast við endalokum á frásögninni um Asíus; í þess stað koma þessar línur. En þar stendur: „En aðrir börðust við hin hliðin. En mér mundi veitast erfitt sem guði að skýra frá öllu, því að víðsvegar við steingarðinn geisaði bardaginn eins og eldur brynni, því að þó að Argverjar væru hryggir í huga, knúði nauðsyn þá til þess að verja skipin. En guðirnir allir, þeir er vígsgengi veittu Danáum, voru daprir í bragði. En Lapítarnir sóttu fram saman til bardaga og víga“. 189 H. Antímakkssonar, aðra tvo syni Antímakks felldi Agamemnon í XI. þ.l. 122, þá Písander og Hippolokkus. 201 vinstra megin, sú hliðin var talin óheillahlið. Trójumenn standa sunnan við varnargarð Akkea; fuglinn kemur úr austurátt og flýgur í áttina til díkisins yfir fremstu raðir Trójumanna (sbr. einnig 206. 1.). 208 kvikanda, eða: glitrandi, gljáandi. 211 legg til nokkur heilræði, í þýð. vantar: á samkomum. 230 Í svari Hektors, þar sem hann kveðst ekkert hirða um fuglaspár eða svipaðar jarteiknir, heldur um það eitt „að verja ættjörð sína“, lýsir skáldið óbilandi kjarki Hektors. En jafnframt kemur fram í svarinu „hybris“, hroki og ofurdramb gagnvart vilja guðanna, eins og hann birtist í jarteiknum og spádómum, — hroki, sem verða muni Hektor loks að falli. 236 þeim er hann birti mér, nl. með því að senda til hans Íris, í 11. þætti 186. 1. og áfram. 239 gegn dagsheimi og sólarheimi, þ.e. til austurs, gegn enum dimma næturheimi, til vesturs. Sá, sem leitaði fuglaspár, sneri sér til norðurs, — í áttina til Olympsfjalls —; þótti fugl, er birtist til hægri (austurs), vera heillamerki, en til vinstri óheillamerki. 256 jarteiknum Seifs, nl. vindbylnum. 258 Þeir rifu af tinda o.s. frv., eða: Þeir reyndu að rífa niður stoðir turnanna, fella brjóstvirkin o.s. frv. Með gr. orðinu „krossás“ er sennilega átt við stoðir þær, er héldu uppi brjóstvirkjum turnanna. 261 Þá stólpa undu þeir á bak aftur, eða: þeim stólpum reyndu þeir að kippa upp. 265 Báðir Ajantar, Ajant Telamonsson var síðast nefndur í XI 595. 267 átöldu þeir suma, eiginl.: hvöttu þeir suma. 280 skeyti sín, þ.e. snjóflygsurnar. 292 Sarpedon brýtur að vísu ekki upp hliðið, en árás hans hefur það í för með sér, að Ajant Telamonsson er kallaður af sínum stað, þar sem hann stóð gegn Hektor, svo að Hektor hefur nú frjálsar hendur. Annars hafði Sarpedon særzt 4 dögum áður (V 660 og áfram). 294 kringlóttum skildi, sem hefur eftir lýsingunni að dæma verið ólíkur hinum venjulegu Mýkenuskjöldum. 296 og fest innanvert ... mörg lög af uxaleðri, hér eru uxahúðirnar notaðar fyrir fóður innan á skildinum, sem aðallega er úr eiri, enda smíðaður af eirsmið. 311 sessakostum, þ.e. tignarsætum; þetta fernt, sem upp er talið, var meðal helztu fríðinda smákonungsins. 331 Menesteifur, sjá II. 552. 336 Tevkrus hafði Hektor sært daginn áður (VIII 324 og áfram), og hafði hann því verið fluttur til búðar sinnar. 340 hliðunum, sjá ath. við l. 120. 365 Öyleifssonar, þ.e. hins Ajantsins. 381 efst uppi hjá víginu, uppi á brjóstvirkinu hefur verið grjóthrúga til þess að kasta niður á óvinina. 384 fjórbóluhjálminn, sjá aths. við III 336. 389 skjöldinn bar frá handleggnum, nl. við tilraun hans til þess að klifra upp á garðinn. 398 féll þá fram allt vígið; vígið eða brjóstvirkið hefur sennilega verið gert úr fléttuðum tágum og féll því allt niður í einu. 403 að hann yrði ekki sigraður o.s. frv., það átti fyrir Sarpedon að liggja að falla fyrir vopnum Patrókluss, sbr. XVI 480 og áfram. 412 margar hendur vinna létt verk, pleonón de te ergon ameinon, orðrétt: verk fleiri (manna) er betra. Mjög snjöll þýðing! 421 landamerki á sameignarlandi, öllu ræktuðu landi í kringum hvert þorp var skipt niður í margar lóðir eða landskika. Átti hver maður fleiri skika á ýmsum stöðum. Voru þeir afmarkaðir með landamerkjasteinum. Spunnust mjög oft deilur af þessum landskikum. 426 léttar hráskinnstjörgur, skildir, sem léttvopnað lið og sjóliðar notuðu. 429 gegnum heila skildina, þ.e. særðust í brjóstið, þó að þeir hefðu skjöldinn fyrir sér. 430 hvervetna; skáldið hverfur nú burt frá lýsingunni á bardaganum milli Lýkíumanna og Danáa við turn Menesteifs og fer nú að lýsa bardögunum yfirleitt við víggarðana. 433 Þeir voru hvorirtveggju, eða (e. t. v. réttara): heldur veittu þeir (nl. Akkear) viðnám. Framhaldið mætti þýða: „Eins og ráðvönd spunakona, er heldur á metaskálunum og hefur metin og ullina sitt í hvorri skálinni og leitast við að gera hvort tveggja jafnþungt o.s. frv.“ Lýsingin er á fátækri spunakonu, sem spinnur í ákvæðisvinnu, fær ákveðið gjald fyrir vissan þunga ullar, sem hún vegur samvizkusamlega á metaskálum. 444 upp á vígin, þ.e. brjóstvirkin (eiginl.: stoðirnar undir þeim). 449 slíkir menn, sem nú gerast, þessi viðbót, sem kemur alloft fyrir hjá Hómer, gefur í skyn, að skáldið telji samtímamenn sína miklum mun síðri þeim, er áður voru uppi, „heimur versnandi fer“. Þessi lífsskoðun kemur mjög oft fram bæði hjá Grikkjum og Rómverjum. 450 er sleppt í þýð., enda þegar í fornöld talin síðara innskot, þar sem það dragi úr afreki Hektors; en í línunni stendur: „Því að sonur hins brögðótta Kronusar gerði hann léttan“. 455 slagbrandar, þeim hefur verið rennt inn í raufir á hliðarveggjunum, þegar hliðið var opnað. 456 lykill, eða öllu heldur „bolti“, sem festi slagbrandana saman. 459 nafirnar voru tveir stautar, er gengu annar niður úr og hinn upp úr hurðinni næst dyrastafnum, og snerust þeir í tilsvarandi götum eða augum í dyraumbúnaðinum. ÞRETTÁNDI ÞÁTTUR Með XIII. þætti hefst frásögn af ýmiss konar hindrunum, sem tálma og seinka atburðanna rás, er streymt hefur fram tafarlaust til þessa. Er nú tekið að greina frá fjölmörgum bardögum, þar sem ýmsum veitir betur, en úrslit ávallt tvísýn. Meginkafli þessa þáttar fjallar um afreksverk þeirra Idomeneifs, konungs á Krít, og Merióness, fylgdarmanns hans (136.—672. ljóðl.) Bardagalýsingarnar í þessum þætti eru meðal hinna þróttmestu í allri kviðunni. 4 hinna hestfimu Þrakverja, hippopolón Þrekón: Orðið hippopolos þýðir Svb. Il. XIV 227 reiðfimu (Þrakverja). Kemur orðið fyrir aðeins á þessum tveim stöðum. — Þrakverjar áttu heima í Þrakíu, sjá kort. 5 hinna nærvígu Mýsa: Orðið ankhemakhos þýðir Sv. ýmist „nærvígur“ eða „návígur“ (Il. XVI 248, 272; XVII 165). Mýsar, þeir er hér getur, munu eigi verið hafa hinir sömu og minnzt er á í Il. II 858, heldur þjóðflokkur í Þrakíu. hinna ágætu Hippemolga: Þeir munu verið hafa einn hirðingjaþjóðflokka þeirra, sem heima áttu í Skyþíu fyrir norðan Dóná. Er þeim svo lýst, að þeir hafi lifað á kaplamjólk, enda merkir nafnið „þeir, sem mjólka merar“. 6 á land Abía: Abíar (Abíoi) eru annars ókunnir. Að þeir eru kallaðir allra manna réttlátastir, á ef til vill rót sína að rekja til þess, að þeir hafi verið frumstæður þjóðflokkur, sem óbeit hafði á styrjöldum og vígaferlum og notið því e. k. friðhelgi. Herodotus getur um slíkan þjóðflokk (IV 23). 10 Landaskelfir, þ.e. Posídon. 12 hinni ... þraknesku Sámsey, þ.e. Samoþrake (sbr. Il. XXIV 78). Á þeirri ey miðri er hátt fjall. Er þaðan unnt að eygja sléttuna við Tróju, þó að eyjan Imbros sé þar í milli. Þessi kunnugleiki á staðháttum er merkilegur. 13 Ídafjall, skammt frá Tróju. Getur þess margoft í Ilíonskviðu. 20 Hann tók þrjú skref á göngunni: Sbr. Il. V 770-2 um hina guðdómlegu hesta. 21 til Ægisborgar: Vitað er um tvær borgir með þessu nafni (Aigas), aðra í Akkealandi (Achaia) á Peleifsskaga nyrzt við Korinþuflóa, hina á eynni Evböyu norðarlega á henni vestanverðri. Í báðum þessum borgum var helgi mikil á Posídon, (sbr. t. d. Il. VIII 203). En við hvorn staðinn, sem átt er, hlýtur sú spurning að vakna, hvers vegna Posídon fari þangað fyrst eftir vagni sínum, því að leiðin til þessara staða hvors um sig er miklu lengri en frá Samoþrake til Tróju. 22 og fyrntust aldrei, afþíta aiei: Betur virðist eiga við að þýða hér með nútíð: „fyrnast aldrei“, því að auðvitað hugsar skáldið sér, að hallir guðanna standi um aldur og ævi. 23—24 þeir hestar voru eirfættir: Betur virðist eiga við að þýða þetta með nútíð, „þeir hestar eru eirfættir“, sbr. aths. næst á undan. 23—26 = VIII 41—44. 28 lávarð sinn: Orðið „lávarður“ er fornt í merkingunni „herra“, „drottinn“. 30 hjólásinn, axón, -onos = öxull. Þýðir Svb. þetta orð alls staðar svona í Il. (V 723, 838; XI 534; XVI 378; XX 499). 31 hinir vökru reiðskjótar, eýskarþmoi ... hippoi: Sv. lætur hestana hafa íslenzkan gang. 33 Tenedusey og Imbrey (Imbros) eru eyjar nyrzt við strendur Litlu-Asíu, sjá kort. 42 og drepið marga menn þeirra við skipið, kteneein de par' átoþí pantas aristús: „og vegið þar alla hina hraustustu (Akkea)“. 45 í líki Kalkasar: Kalkas Testorsson, fuglaspámaður í liði Grikkja. Er hann hefur beðizt verndar Akkillesar fyrir Agamemnoni (Il. I 69, 86), lýsir hann fyrirætlun Apollons (Il. I 92), en Agamemnon svarar (Il. I 105). Um spádóm Kalkasar í Ális getur Il. II 300, 322. 46 til beggja þeirra Ajanta: Það eru þeir nafnar Ajant Telamonsson, foringi liðs þess, er var frá eynni Salamis, og Ajant Öyleifsson, foringi Lokra, frá Lokralandi (Lokris), sem er á norðurströnd Korintuflóa, vestan Böyótíu. 48 ef þið neytið karlmennsku ykkar og látið ekki hugfallast, alkes mnesamenó, mede kryeroio foboio: „ef þið minnizt máttar ykkar, en hugsið ekki um hinn hrollkalda ótta“. 54 er sagður er sonur hins þróttöfluga Seifs, hos Díos evkhet'ktl.: „sem stærir sig af að vera o.s. frv.“ — Þetta eru auðvitað aðeins ýkjur. Hektor hefur aldrei haldið því fram, að hann væri sonur Seifs, en Posídon á við, að hann sé mikillátur í framkomu eins og hann væri sonur Seifs. 59 með sprota sínum: Sproti er algengt tákn um töframátt, sbr. t. d. Hermes Il. XXIV 343, Kirku Od. X 238, Aþenu Od. XIII 429, XVI 172. — Sumir hafa haldið því fram, að það sé einkenni hinna yngri þátta í kviðunum, að láta guðina beita áhöldum við framkvæmd fyrirætlana sinna (Il. XXIV og Od.). Í Il. V 122, t. d., kemur Aþena hinu sanna til leiðar og Posídon hér með hinum guðdómlega vilja einum saman. 61 = Il. V 122, XXIII 772. 83 hinn jarðkringjandi guð, þ.e. Posídon. 91 Tevkrus Telamonsson; albróðir Ajants Telamonssonar; Trójumenn fá að kenna á bogfimi hans Il. VIII 266, 273, 281, 292; hann miðar á Hektor Il. VIII 300, 309; H. særir hann Il. VIII 322, Ajant bjargar honum 330, Il. XII 336, 350, 363, 371, 372; hann særir Glákus Il. XII 387, XVI 511 og Sarpedon Il. XII 400; Il. XIII 91; hann vegur Imbríus Il. XIII 170, 182; Il. XIII 313, XIV 515, XV 302, 437; miðar á Hektor Il. XV 458, en strengurinn brestur 462, 466, 484; hann bíður lægri hlut fyrir Meríónesi í bogkeppni Il. XXIII 859, 862, 883. Um Leitus og Penelás, foringja Böyóta, sjá Il. II 494. 92 Þóant Andremonsson, grískur, fyrirliði Etóla, frá Etólíu í Grikklandi, sjá kort. 93 Meríónes Mólusson, höfðingi í liði Idomeneifs, konungs á Krít. Antílokkus, sonur Nestors konungs hins gamla í Pýlusborg. herforingjana, mestóras aýtes: „meistara herópsins“. 95 ungir sveinar, kúroi neoi: Ávarp þetta er hér í fyrirlitningarskyni notað. 103 og verða gullrefum ... að bráð: Orðið sem Svb. þýðir hér „gullrefir“ (þós, eignarf. flt. þóón), hefur sennilega verið haft um sjakala. Það kemur fyrir í annarri líkingu, Il. XI 474, 479, 481, og þýðir Sv. það þar „gullúlfar“. 108 sakir ofstopa hershöfðingjans, hegemones kakotetí: „sakir hugleysis hershöfðingjans“ og nenningarleysis hermannanna: Orðið „nenningarleysi“ er fornt, (þat er ómennska, ef maðr gengr með húsum fyrir sakir nenningarleysis eða ókosta annarra Grág. 151⁴.). 112 Hinn víðlendi Agamemnon Atreifsson: Sbr. Inng. bls. LXXI. 113 hann svívirti hinn fóthvata Peleifsson, þ.e. Akkilles Peleifsson. Hér er auðvitað átt við rimmu þá, sem reis milli Agamemnons og Akkillesar og lýst hefur verið í I. þætti. 115 og er jafnan auðbætt skaplyndi göfugra manna: Hér mun vera átt við Akkilles. Ber þess að gæta, að Posídon talar hér sem einn af liðsmönnum Grikkja. Á hann við, að Akkilles kynni ef til vill að þiggja af öllum herafla Grikkja þau boð, sem hann hefur hafnað hjá Agamemnon. 120 góðir hálsar, ó pepones: „bleyðurnar ykkar“, enda þýðir Sv. þannig á öðrum stað, Il. II 235: Miklar bleyður eruð þér Akkear. 125 Láðvaldur, gaieokhos [gaie-, gaia + okh ekhó], „sem umlykur jörðina“, viðurnefni eða nafn á Posídon. Svb. þýðir þetta og „Jarðkringir“, (Il. XV 174, 201, XV 34). 126 þá báða Ajanta: sbr. aths. 46. 128 hin hersvæsna Aþena, Aþenaie laossoos [laos + so-, sy-, sevó]: Þetta lo. þýðir Svb. einnig svo Il. XVII 398 (um Ares), XX 79 (um Apollon), en Il. XX 48 „atsamur“ (um Þrætu). Í Od. kemur orðið tvisvar fyrir XXII 210, og þýðir Svb. þar „vígagyðjan Aþena“, og XV 244 „bardagamaðurinn Amfíarás“. 130 og tjörgu þétt við tjörgu, sakos sakeí proþelymnó: Hvað lo. proþelymnos táknar, er eigi vitað með vissu. Sumir ætla, að það lýsi skildi, sem hefur hvert lagið (af nautshúð) á öðru, þ.e. gerður úr margfaldri nautshúð. Aðrir hyggja, að það lýsi hinum mannhæðar háa, mýkenska skildi, er hann hefur verið reistur upp, og þýði „sem skotið hefur verið fram að neðan“. En hinir fornu skýrendur hafa skilið þetta eins og Svb. — Orðið „tjarga“, e. k. skjöldur, er fornt, samstofna við lat. tergum. 132 hinir fextu hjálmar komu við hinar fögru hjálmbólur, þegar menn lutu áfram, páson d'ippokomoi koryþes lamproisí faloisín / nevontón [= XVI 216]: „og hrosshársskúfarnir í hinum fögru hjálmbólum snertu hver annan, er mennirnir hreyfðu til höfuðið“. Orðið falos, sem Svb. þýðir „hjálmbóla“, mun sennilega verið hafa bóla eða bryggja efst á hjálminum, sem hrosshársskúfnum hefur verið fest í. 150 Lýkíumenn, þjóðflokkur í suð-vesturhluta Litlu-Asíu. og þér nærgönglu Dardanar, kai Dardanoi ankhímakhetai: þ.e. „sem berjast í návígi“, enda þýðir Svb. einnig þetta sama Il. VIII 174 „þér hinir návígu Dardanar“, einnig Il. XV 425, 486 og XVII 184, en XI 286 þýðir hann eins og hér, „hinir nærgönglu D.“ og orðasambandið aneres ankhímakhetai, Il. II 604 „miklir höggorustumenn“. Dardanar eða Dardansmenn áttu heima í Dardaníu, miðhluta dalsins, sem fljótið Skamander rann um. Fyrirliði þeirra var Eneas (Il. II 819). þeir voru kenndir við Dardanus, forföður konunganna í Tróju, sbr. Il. XX 215 o. áfr. 154 frumver Heru: Orðið „frumverr“ er fornt og merkir fyrsta karlmanninn, sem kona hefur átt ástarmök við. Hér er auðvitað átt við Seif. 157 Deífobus Príamsson, bróðir Hektors, einn hinna ágætustu kappa í liði Trójumanna. 159 Meríónes, sbr. aths. 93. 170 Tevkrus Telamonsson, sbr. aths. 91. 171 Imbríus: Hans er hvergi getið nema hér og 197, er Ajantar fletta hann vopnum. 172 Hann bjó í Pedeonsborg: Sú borg mun verið hafa einhvers staðar í Trójulandi. 174 hin borðrónu skip: sbr. aths. Od. X 91. 185 Amfímakkus, höfðingi Epea (Il. II 620), en þeir áttu heima í Elis, á Peleifsskaga norð-vestanverðum. Hann var kominn af Posídon. 192 í skjaldarnöfina, aspídos omfalon: „í nafla skjaldarins“, þ.e. bóluna á miðjum skildinum. 195 Menesteifur: Hans getur einnig sem fyrirliða Aþenumanna Il. II 552. 203 Öyleifsson, þ.e. Ajant Öyleifsson, sbr. aths. 46. 206 Þá varð Posídon afar reiður: sbr. aths. 185. 210 Idomeneifur Devkalíonsson, höfðingi Krítarmanna (Il. II 645). Hans getur mjög víða í kviðunni, sbr. nafnaskrá. 216 Þóant Andremonsson, sbr. aths. 92 og Il. II 638, IV 527. 217 Plevron og Kalýdon, borgir í Etólíu, héraðinu á milli Akarnaníu og Lokris. 226 Kronussonar, þ.e. Seifs. 227 langt í burt frá Argverjalandi: Hér þýðir Argverjaland (Argos) allt Grikkland, bæði suður- og norðurhluta þess. Annars felast a. m. k. fjögur mismunandi hugtök í þessu nafni hjá Hómer: 1) Á tveimur stöðum er Argos borgin, sem svo heitir enn í dag, í héraðinu Argolis á Peleifsskaga norð-austanverðum: Il. IV 52 Argverjaborg, Sparta og hin strætabreiða Mýkena, og Od. XXI 108 hvorki í enni helgu Pýlusborg, né í Argverjaborg, né í Mýkenuborg. 2) Argos er mjög oft nefnd öll sléttan í Argolis, einkanlega sem heimkynni Agamemnons: Il. I 30, II 115, IV 171, IX 22, XIII 379. Díómedes á einnig heima í þessu „Argverjalandi“, Il. VI 224, XIV 119, Od. III 180, og Evrýsteifur og Herakles, Il. XIX 115, XV 30. Egistus á einnig heima „innst inni í hinu hestauðuga Argverjalandi“, Od. III 263. Þessi er og merkingin í Argos, sem Melampus flýr til frá Pýlusborg, Od. XV 224—239. Að kalla Argos (í þessari merkingu) „vatnslausa“ (Il. IV 171) á næsta vel við. Að vísu belja fram lækir um sléttuna að vetrarlagi, en á sumrin er ekkert eftir af þeim nema farvegirnir, allt skraufþurrt. Þá er og einkunnin „hestauðugur“ viðeigandi, því að enn í dag er hestastóð mikið á mýrlendi með suðurströnd héraðsins. 3) Þá táknar Argos hjá Hómer einnig Suður-Grikkland, einkanlega Peleifsskaga, í mótsetningu við Norður-Grikkland, ríki Peleifs. Kemur þetta fram t. d. í orðatiltækinu „víða um Helluland og inn í mitt Argverjaland“, Od. I 344, IV 726, 816, XV 80, sem þýðir þá „um endilangt Grikkland frá norðri til suðurs“, því að Helluland (Hellas) táknar í Hómerskviðum aðeins hérað í Þessalíu í dalnum, sem fljótið Sperkíus rennur um. Sömu merkingu hefur Argos og Od. IV 174, 562. Hið sama virðist og felast í orðunum „í hinu íasiska Argverjalandi“, Od. XVIII 246. 4) Argos táknar einnig allt Grikkland, og er sú merking algengust: Il. XIX 329, Od. XXIV 37, Il. VI 456, VII 363, XII 70, XIII 227, XIV 70, XXIV 437. Akkealand mun yfirleitt tákna allt Grikkland. 250 Á eftir orðunum: „... úr orustunni og ófriðnum“, hefur Svb. fellt niður 251. ljóðl.: „Ertu ef til vill særður, og skelfir þig oddur á spjóti?“ 254 Á eftir orðunum: „... Meríónes svaraði honum“, hefur Svb. fellt niður 255. ljóðl.: „Idomeneifur, ráðsnillingur hinna eirbrynjuðu Kríteyinga“. Vantar hana og í beztu handritin. 258 Deífobus: Sbr. aths. 157. 261 við hina skínandi forsalsveggi, pros enópía pamfanoónta: Orðið enópía er mjög umdeilt. Kemur það einnig fyrir í Il. VIII 435 og Od. IV 42 og XXII 121. En auðsjáanlega notar skáldið sömu orðatiltæki, er það er að lýsa búðum eða hofum Grikkja við Tróju, og það er vant að beita við lýsingar á höllum. 264 baugnafaða skjöldu, aspídes omfaloessai, þ.e. skjöldu með nöf eða bólu á miðjunni. 270 í hinum mannfræga bardaga, makhen ana kydíaneiran, „í bardaganum, sem gerir manninn frægan“; kydíaneira [kydos + aner]. 295 líkur ... Aresi, þ.e. orustuguðinum. 299 Flótti: Um persónugerving þenna sjá Il. IV 440, XV 119. 301-2 fara þeir feðgar herbúnir frá Þrakalandi til Effýra o.s. frv.: Skáldin hugsuðu sér heimkynni orustuguðsins í Þrakalandi, af því að það land var alræmt fyrir herskáa þjóðflokka. Effýrar og Flegýar voru herskáir og rángjarnir þjóðflokkar í Þessalíu. Orðið „hugstór“ er fornt, (sbr. einnig „hugsterkur“, „Hjálmar enn hugum stóri“). 313 báðir þeir Ajantar, sbr. aths. 46; og Tevkrus, sbr. aths. 91. 322 Demetru korn: Demetra (Demeter) var gyðja akuryrkjunnar. 323 stórir vopnsteinar: Orðið „vopnsteinn“ er fornt. 350 vegsama Þetisi, þ.e. móður Akkillesar, sem var ódauðleg gyðja. 354 og föðurland hið sama, ed' ía patre: Hér virðist eiga betur við að þýða „og sömu foreldrar“, því að satt að segja er ekki hægt að benda á neitt sérstakt föðurland guðanna. 358-60 En báðir fléttuðu þeir hinn óslítanda og órjúfanda streng o.s. frv.: Samkvæmt gríska textanum ætti fullt eins vel við að segja „toguðu þeir í“. Virðist skáldið hugsa sér, að guðirnir stjórni bardaganum með ósýnilegum streng, er þeir togi í á ýmsa vegu, sbr. og XI 336, XIV 389, XV 413. — Fyrir Svb. hefur vakað hin norræna hugmynd um herfjötur, eins og aths. hans sýnir. 363 Hann vó Oþrýoneif: Hans getur aðeins hér. — Kabesus, borg í Þrakíu, að því er helzt er ætlað. 366 bað Kassöndru: Sagnir hermdu, að Appollon hefði gefð henni spádómsgáfu, en er hún vildi ekki þýðast ástaratlot guðsins, hafi hann lagt á hana, að enginn skyldi festa trúnað á spádóma hennar. Hennar getur og Il. XXIV 699, og Od. XI 422 er greint frá dauðdaga hennar. að hann fengi hennar mundlaust, anaëdnon, þ.e. án þess að hann, biðillinn, þyrfti að greiða hið venjulega gjald fyrir brúðina, sbr. hið forna „að kaupa konu mundi“. Í þess stað ætlaði hann að vinna þrekvirki; sbr. einnig Il. XI 243, XVI 178, XVIII 593. Í þessu sambandi mætti minna á frásögn Biblíunnar, er Davíð lofar að fella 100 Filistea gegn því að fá dóttur Sáls, 1. Sam. XVIII 25. 376 Príamusi Dardansniðja: Príamus, konungur í Tróju, var Laomedonsson, Ílussonar, Tróssonar, Erikþoníussonar, Dardanssonar, en Dardanus var sonur Seifs. 379 til Argverjalands: Sbr. aths. 227. fríðustu dóttur Atreifssonar, þ.e. Agamemnons. 382 Því við erum engir harðir giftingarmenn, eednótai: Hér mun um að ræða milligöngumenn, sem ganga frá giftingarsáttmálum. Starf slíkra milligöngumanna var eðlileg afleiðing af verzlunarsjónarmiðum þeim, sem réðu við stofnun hjúskapar. 384 Þá kom Asíus, þ.e. Asíus Hyrtaksson, fyrirliði í her Trójumanna, liðsmanna frá Perkótu og Abýdus. 389—393 = XVI 482—6. 402 Deífobus: Sbr. aths. 157. 407 hann var bjúgrendur, dínóten: Ef til vill lýtur þessi einkunn að einhverju skrauti á skildinum, t. d. hringjum kringum sama miðdepil. tvær skjaldrimar: Hvað gr. orðið kanones þýðir hér, er ekki vitað með vissu. Sumir ætla þá verið hafa tvær stangir, sem haldið hafi út nautshúðinni skildinum og gert hann í lögun eins og töluna 8. — Svb. hefur sennilega hugsað sér „skjaldrim“ sem handfang á skildinum, og hafa sumir skýrendur skilið gríska orðið þannig. „Skjaldrim“ í fornu máli táknaði hins vegar einhverjar skorður með borðstokk skipa, sem skjöldum var komið fyrir í, er skip var skarað skjöldum. 411 Hypsenor Hippasusson, sjá nafnaskrá. 422 Mekisteifur Ekkíusson og ... Alastor, sjá nafnaskrá. 443—4 að aurfalurinn á spjótinu hristist, og þar missti loks hinn sterki málmur magnið sitt = XVI 612, XVII 528. 450 þess er fyrst gat Mínos o.s. frv.: Um fæðingu Mínosar sjá Il. XIV 321, þar sem móðir hans er kölluð „fenísk mær“. Um Mínos getur einnig Od. XI 322, 568, XVII 523, XIX 178. 461 þó Eneas væri hraustasti maður o.s. frv.: Í Il. XX 179—186 og 306 er vitnað í deilur með ættum þeirra Ankísess (föður Eneasar) og Príamusar. Raunar var hér að ræða um tvær greinar af sömu ættinni. Með þeim virðast hafa komið upp deilur um konungdóm í Tróju. 466 Alkaþóus ... og fóstraði þig fyrrum í höllinni: Sbr. XI 223. Bæði Ankíses og Príamus (VI 249) virðast hafa látið tengdasyni sína búa hjá sér. 469 = 297. 471 svo sem villigöltur bíður o.s. frv.: Þessa ágætu líkingu má bera saman við Il. XII 146—153. 488 og höfðu skjölduna á hlið sér: Sbr. XI 593, XXII 4. 492 sem sauðir fylgja hrút úr haga o.s. frv.: Þetta er dæmi um „tvíhliða“ líkingu. Gleði smalans, sem einungis er aukaatriði við fyrra líkingaratriðið, er skeytt nýjum líkingartengslum við framhaldið. Eins er farið að í líkingunni Il. XII 146. 510—11 = V 621—2. 516 Meðan hann nú gekk aftur fót fyrir fót, þ.e. hörfaði aftur á bak. 518 kom skotið á Askaláf Enýalíusson: Enýalíus er annað nafn á Aresi herguði. Var Askaláfur, sonur Aresar og Astýoku, fyrirliði liðs frá Orkomenusborg, sbr. Il. II 512. 530 Kambpípuhjálmurinn, álópes tryfaleia: Svb. hefur hér fylgt hinum fornu skýrendum, sem kváðu þessi orð tákna hjálm með pípu upp úr toppinum, sem hrosshársskúfnum hefði verið fest í. Önnur skýring er sú, að í álópis, -ídos [álos + ópa] felist lýsing á hjálmi með augnaopum. 531 sem gammur, aigypíos hós: vafalaust lambagammur (Gypaëtus barbatus), ekki sú tegund gamma, sem einungis lifir á hræjum (XXII 42 o.s. frv.), en aigypíos ræðst á lifandi dýr (XVII 460, Od. XXII 302 o. áfr.). 532 úr upphandleggnum, þ.e. á Deífobusi. 533 Um Polítes Príamsson sjá Il. II 791. 535—8 = XIV 429—32. 546 holæðina, sem liggur eftir endilöngu bakinu: Ekki kannast líffærafræðingar nú við neina æð, er liggi upp eftir bakinu í hálsinn. Sennilega á skáldið við hálsæðarnar. 554 því Posídon landaskelfir varði Nestorsson: Posídon var forfaðir Antílokkuss. 566 En í því Adamant gekk burt aftur, hljóp Meríónes eftir honum, aps d'etarón eis eþnos ekhatseto ker' aleeinón: „En A. hörfaði aftur í flokk félaga sinna og forðaðist skapadægur sitt“. (En M. veitti honum eftirför o.s. frv.). 568 milli hræranna og naflans, þ.e. milli kynfæranna og naflans. 570 en Adamant féll við skotið, ho d' espomenos perí dúrí: Hugsunin virðist raunar vera sú, að hinn særði maður halli sér áfram yfir spjótið í von um að lina sársaukann. 577 Lofsamlegum orðum er farið um hið þrakneska sverð Asteropeuss Il. XXIII 808. Virðast Þrakverjar snemma hafa haft orð á sér fyrir málmvinnslu (X 438, XXIV 234) og kaupskap með þess háttar vörur. 583 þá var Helenus að draga upp bogrifið: Bogrifið, toxú pekhys, handfangið á boganum, sem gripið var um, er boginn var dreginn upp, sbr. XI 375. 587 brynjuboðanginn, þórekos gyalon: Brynjan mun hafa verið gerð úr tveim íbjúgum málmplötum. Var önnur í bak, en hin fyrir. 588 Svo sem svartar hrossabaunir eða fuglabaunir o.s. frv.: hrossabaunir, kyamoi (vicia faba L.), fuglabaunir erebinþoi (cicer arietinum L.). Varpskófla, ptyon, var áhald, sem notað var við hreinsun kornsins. Til samanburðar má benda á líkinguna Il. V 499, sem fjallar um þreskingu korns. 600 úr slöngu þeirri: Orðið sfendone kemur ekki fyrir annars staðar í Hómerskviðum. En í 716. ljóðl. hér er að vísu talað um „vel fléttuð slöngubönd“, og í vörn gríska víggarðsins í XII. þætti, er steinadrífunni tvisvar líkt við snjókomu (XII 156 og 279—285). Eru þær líkingar miklu eðlilegri ef menn hugsa sér smásteina, sem varpað er með kastslöngum, heldur en stóra vopnsteina, þótt þeirra sé einnig getið. 617 en bæði augun féllu blóðug til jarðar: Næsta mikil fjarstæða er það, að augun detti úr höfðinu við eitt högg á ennið. 623 Þér, hinir svívirðilegu hundar, kakai kynes: Í rauninni er þetta kvk.: „þér, hinar svívirðilegu hundtíkur“. Verður þetta enn meira smánaryrði vegna þess. 635 hins sameiginlega ófriðar, homonú polemoio: Þetta lo. hefur raunar aldrei verið skýrt til fulls, sbr. aths. Od. XXIV 543. 656 Hinir hugstóru Paflagónar: Þeir áttu heima í Paflagóníu, á suðurströnd Svartahafs, milli Herakleia og Carambishöfða. 658 þar gekk faðir hans með þeim: Þetta er í algerri mótsögn við Il. V 576, þar sem lýst er vígi Pýlemeness, föður Harpalíons. 659 en fékk engri hefnd fram komið fyrir víg sonar síns: Ef maður var veginn, og hvorki vígsbætur né hefnd kom þar fyrir, þá var það hin mesta svívirða. Hinn vegni hafði þá hlotið sæti á bekk með útlagaræflum, sem réttdræpir voru, hvar sem var. 669 vildi Evkenor því komast hjá hvorutveggju, bæði hörðum átölum af Akkeum og svo hinni viðurstyggilegu sótt: Svb. þýðir argaleen þóen „hörðum átölum“, en raunar mun vera átt við sekt, sem krafizt var, ef menn vildu losna við persónulega herþjónustu, sbr. Il. XXIII 296 o. áfr., er Ekepólus lætur Agamemnon fá hryssu til þess að losna við að fara til Ilíonsborgar. 683 hafði garðurinn verið hlaðinn lægri, (eiginl. orðrétt „lægstur“), af því að hreysti Ajants var hér talin nægileg trygging. 685 hinir síðkyrtluðu Íónar: Einungis hér getur í Hómerskviðum nafns Íóna. Sennilegt telja gagnrýnendur, að hér sé um innskot að ræða, gert í þeim tilgangi að rökstyðja yfirráðarétt Aþenu yfir íónsku kynkvíslunum. Hinir síðkyrtluðu, helkekhítónes (þetta lo. kemur ekki fyrir annars staðar í Hómerskviðum), bendir til hins síða kyrtils, sem á klassískri tíð var talið sérstakt einkenni á Íónum. Báru hann einkum rosknir fyrirmenn við hátíðleg tækifæri. Mun kyrtill þessi vera kominn til Grikkja frá Semítum, eins og nafnið bendir til, (gr. khítón, hebr. Ketoneth). 686 Fiðjumenn (Fþíoi): Þetta nafn kemur aðeins fyrir í þessum kafla (693, 699). Er þeirra ekki getið meðal íbúa í Fiðju (Phthia) í Beótabálki (II 684). Er nafn þetta sennilega síðar upp komið, er kynþáttanöfnin Myrmídónar, Hellenar og Akkear voru annaðhvort gleymd eða höfðu flutzt til. 694—7 = XV 333—6: Medon er hér fyrirliði í stað Fíloktetess (sjá Il. II 727) og Podarkes í stað Prótesíláss (Il. II 704). 701—2 Um Ajanta sbr. aths. 46. 705 brýzt mikill sviti fram undan hornum þeirra: Uxarnir voru festir undir okið á hornunum, en ekki hálsunum. Er sá siður enn tíðkanlegur í Suður-Evrópu. 714 því þeir höfðu ekki eirbúna, fexta hjálma o.s. frv.: Það er einsdæmi í grískri sögu að lýsa Lokrum sem bogmönnum. 721 en Lokrar leyndust að baki hinna o.s. frv.: það er annars ekki venja Hómers að láta umskipti í orustu vera að þakka hópi bogmanna, földum að orustubaki, heldur ráða afreksverk einstakra kappa alltaf úrslitum. Hins nafnlausa fjölda getur Hómer ævinlega í lítilsvirðingartón. 725 Polýdamant Panþóusson: Félagi Hektors, fæddur á sömu nóttu og hann, ráðsnillingur (Il. XVIII 249). Hann ræður frá því að ráðast á díkið í stríðsvögnum (Il. XII 60), ræður Hektori til að hætta við árásina (Il. XII 210) o.s. frv. 731. ljóðl. fellir Svb. niður, enda er hún ekki í beztu handritum, (komi á eftir orðunum „hreysti í hernaði“): „öðrum dans, öðrum hörpu og söng“. 748—9 = XII 80—1. 749. ljóðl. fellir Svb. niður, enda vantar hana í mörg handrit, (komi eftir orðunum, „líkaði Hektori þetta heilræði“): „og þegar í stað stökk hann í herklæðunum ofan úr vagni sínum niður á jörðina“. 752—3 = XII 368—9. 754 líkur snjóþöktu fjalli: Hversu djúpt sem lagzt er í túlkun, virðist ekki unnt að breiða yfir það, hve óviðeigandi er að líkja kappa, sem geysist fram herklæddur, við snæviþakið fjall. Virgill hefur samt stælt þessa líkingu (Aen. XII 699 o. áfr.). Einn skýrandi (Nitzsch) hefur látið sér detta í hug snjóskriðu, en enga stoð á sér sú þýðing í grískunni, enda eru snjóskriður óþekkt fyrirbæri í Grikklandi. 769 = III 39. 788 = VI 61, VII 120. 793 áttu að skiptast um við menn, elþon amoiboi: Þeir komu, að því er virðist, til að leysa samlanda sína af hólmi, gefa þeim tækifæri til að hvílast. En hvorki orðið né hugtakið koma annars fyrir í Hómerskviðum. frá hinni frjólendu Askaníu: Askanía var hérað umhverfis samnefnt vatn í norðanverðri Litlu-Asíu við Propontis. Þar stóð síðar borgin Nikea. 795 Nú gengu Tróverjar fram, líkir fellibyl óhemjandi vinda: Hinn stórfenglegi kafli héðan og út þáttinn, er talin einhver hin bezta orustulýsing Hómers. Fellibyljir þeir, sem lýst er í líkingunni, eru allalgengir í Egevshafi. 799 hvor á fætur annarri: Svb. gerir ekki þann greinarmun á „hvor“ og „hver“ að öllu leyti eins og nú tíðkast. — Af handriti má sjá, að hér hefur hann fyrst þýtt: „sumar á undan, sumar á eftir“, og er það orðrétt samkvæmt gríska textanum. 804 kringlóttan skjöld, þykklagðan af húðum og mjög eirsleginn: Til samanburðar sjá skjaldarlýsinguna Il. VII 220—3. 825 Eg vildi eg væri eins viss um o.s. frv.: Til samanburðar má benda á svipað form fyrir ósk Il. VIII 538—41, XVIII 464 og Od. IX 523 og XV 156. 830 þitt liljufríða hörund, khroa leiríoenta: Þetta er auðvitað sagt í háði við kappann. (Orðið leiríon = lilja). FJÓRTÁNDI ÞÁTTUR Meginefni þessa þáttar er sögnin um það, hversu Heru tekst að leika á Seif. Þeirri frásögn er síðan fram haldið í næsta þætti, Il. XV 1—366, en aðdraganda að henni hyggja sumir verið hafa upphaf XIII. þáttar. Öllum mun koma saman um, að saga þessi sé næsta vel sögð. Gagnrýnendur hafa að vísu frá fornu fari litið hornauga þann kafla, er Seifur tekur að telja upp allar ástmeyjar sínar andspænis eiginkonu sinni, 317.—327. ljóðl., og getið sér til, að hann væri síðari viðbót. Annars er aðeins eitt atriði í frásögninni óljóst, skilaboðin, sem Blundur (Hypnos) flytur Posídoni 354. ljóðl. o. áfr., án þess að Hera hafi svo fyrir lagt, að því er virðist. Hins vegar hefur þetta atriði talsverða þýðingu í sambandi við eiðinn, sem Hera vinnur til að hreinsa sig af þeim grun að hafa látið Posídon hjálpa Akkeum, (sbr. XV 42). En er athuguð eru tengsl þessarar frásagnar við atburðaröð kviðunnar í heild, finna gagnrýnendur ýmsa agnúa. Þeir spyrja, hvers vegna Hera skerist í leikinn einmitt hér. Posídon hefur þó farið sínu fram óhindraður í öllum þættinum næst á undan. Sú hugmynd að svæfa Seif virðist því koma helzti seint fram hjá Heru. Einn skýrandi hefur því borið fram þá athugasemd, að svæfing Seifs hér í XIV. þætti fari fram samtímis atburðunum, sem lýst er í XIII. þætti. Þetta sé einmitt skýringin á því, að Posídon fær að leika lausum hala í XIII. þætti og aðstoða Grikki að vild. Eigi því orðin í Il. XIV 154: varð hún þegar þess vör, að albróðir hennar og mágur hafði annríki mikið á hinum mannfræga vígvelli, o.s. frv., við starfsemi Posídons, sem lýst er Il. XIII 430 o. áfr. Þó að skýring þessi sé hugvitssamleg, er hún of langt sótt til að reynast rétt. Skáldið hefur ekki getað ætlazt til þess, að venjulegum lesanda eða áheyranda lægi þetta umsvifalaust í augum uppi. En annars er ekki unnt að greina hér nánar frá röksemdafærslum gagnrýnendanna. Um eðli og anda þessarar frásagnar af bragðvísi Heru og samförum þeirra Seifs hefur Gilbert Murray ritað bezt. Hann greinir á milli fjögurra þróunarstiga í afstöðu manna til guðanna og goðsagnanna: 1) Frumstætt stig telur hann fyrst, er bezt komi fram í elztu hlutum Goðakyns (Þeogoníu) eftir Hesíod. Á þessu stigi voru menn eigi farnir að beita gagnrýni við goðasagnaefni. Í vitund manna hefur þá og ef til vill enn vakað óljós grunur um, að í sumum þeirra sagna, er síðar vöktu hneyksli, kvæði við bergmál af baráttu milli hinnar máttugu gyðju heimajarðarinnar (Heru) og himinguðs hinna sigursælu innrásarmanna (Seifs, guðs Akkea). 2) Síðan telur Murray taka við langt þróunarstig, er unnið er að því að hreinsa goðasagnirnar af einkennum ómenningar og ruddaskapar, hefja þær upp úr feni frumstæðrar villimennsku á það stig siðmenningar, sem þjóðin hafði öðlazt að öðru leyti. 3) Hið „íónska stig“ telur Murray taka við þessu næst, kennt við Íóníu, hinar grísku byggðir og borgir á ströndum Litlu-Asíu. Hinu trúarlega gildi Ólympsguða er þá tekið mjög að hnigna. Guðirnir eru þá orðnir að e. k. leiksoppum í höndum sagnamannanna, efniviður í kýmnilegar frásagnir, mótaðar lausung og fyndni. 4) Á hinu fjórða þróunarstigi gerist það, að hinir grísku heimahagar veita með lotningu viðtöku goðum Hómers sem e. k. endurlausnurum frá glundroða ýmiss konar frumstæðrar hjátrúar og hindurvitna, sem haldizt hafði í heimalandinu, löngu eftir að Grikkir á ströndum Litlu-Asíu voru vaxnir frá slíku. Á 6. öld f. Kr. b. virðast menningaráhrif frá Íóníu hafa borizt eins og óstöðvandi flóðbylgja inn yfir meginlandið gríska. En sjálfir munu þá íbúar Íóníu hafa verið farnir að tala með lítilsvirðingu um þessi goð Hómers, sem Grikkir heimalandsins urðu svo hugfangnir af. Hugmyndir Eskýluss harmleikaskálds um Seif eru því mjög ólíkar þeim, sem koma fram hjá sagnamönnunum í Míletusborg, er þeir voru farnir að segja kýmnisögur, af hinum æðsta guði og drottningu hans í anda og stíl Boccaccios. Heldur Murray því fram, að þessa anda gæti allmjög í hinum síðari þáttum Ilíonskviðu. Sem dæmi nefnir hann einmitt frásögnina hér í XIV. þætti, er Hera leikur á Seif, og Goðavígsþátt (Il. XXI 391 o. áfr.). Hin háleita alvara, sem einkennt hafði söguljóðin á blómaskeiði þeirra, var nú að hverfa, hnignun þeirra í aðsigi. Í sögnum sem þessum koma að vísu fram réttmætar efasemdir um hina viðurkenndu og viðteknu guði og goðsagnirnar, en höfunda skortir það hugrekki, sem þarf til að leita sannleikans hiklaust. Þeir gera hvorki að afneita guðunum né hefja þá til meiri fullkomnunar. Í rauninni niðurlægðu þeir guðina enn meir og notuðu þá til skrauts og skemmtunar, svo að góð saga yrði þeim mun kátlegri. Hliðstæður er að finna í sumum Eddukvæðum vorum. Kýmilegri meðferð sæta guðirnir þar t. d. í Þrymskviðu. Efni skammanna, sem dynja á gyðjunum í Lokasennu, svipar að ýmsu leyti til viðfangsefnis þess, sem Demodokus velur sér í Od. VIII 266—366, hrakfarir Aresar og Afrodítu á ástafundi þeirra. 1 þar er hann drakk, pinonta per empes: „þótt hann sæti að drykkju“. 2 til Asklepíussonar: þ.e. Makáons Asklepíussonar, læknaguðs, sonar Apollons, sbr. J.G. Goðafr., bls. 127, 129. Makáon var ásamt bróður sínum, Podaliríus, helzti læknir Grikkja við Tróju og foringi liðs frá Trikkaborg í Þessalíu, Il. II 732; kallað er á hann til að búa um sár Menelásar, Il. IV 193, 200; París særir hann Il. XI 506, en Nestor bjargar honum 512, 517, 598, 613, í búð Nestors 618, 651; XI 833. 6 Hekameda Arsínóusdóttir. Il. XI 624 er greint frá, hvernig Nestor eignaðist hana. 10 Þrasýmedes Nestorsson. Getur hans allvíða: Il. IX 81, X 255; hann vegur Maris XVI 321; XVII 378, 705. Í Od. getur hans III 39, 414, 442, 448. 16 Svo sem hafið mikla verður mórautt af lognöldu, o.s. frv.: Þessi ágæta líking er af undiröldunni, sem ýmist er forboði aðsteðjandi storms eða eftirköst vinds, er þegar hefur lægt. Orðið porfyreos, sem Svb. þýðir „mórauður“, virðist eiga að túlka ólgu hafsins fremur en lit. 26 þá þeir voru lagðir með sverðum og tvíeggjuðum spjótum = XIII 147, XVI 637. 29 Týdeifsson, þ.e. Díómedes. 31 Því fyrstu skipin höfðu menn sett á land upp, og reist garðinn fyrir aftan skutstafna þeirra, tas gar prótas pedíonde / eirysan, átar teikhos epí prymnesín edeiman: „Því að þau ( þ.e. skip höfðingjanna, Díómedess, Odysseifs og Agamemnons) höfðu verið dregin upp í fremstu röðinni, en garðurinn verið reistur skammt frá hinum öftustu“. — Hér virðist átt við, að skip höfðingjanna hafi verið dregin fyrst á land, þau staðið í þeirri skiparöð, sem næst var sjónum, (sbr. 75. ljóðl.), en hin skipin hafi staðið í röðum lengra uppi á landi, og garðurinn verið hlaðinn handan við hin öftustu þeirra. Hverjar hinna yztu raða skipanna voru kallaðar „hinar fyrstu“ eða „hinar fremstu“, fór auðvitað eftir því, hvort komið var frá sjónum, eins og hér, eða landmegin frá, eins og t. d. XV 654. 37 Nú langaði þá til að vita um hergnýinn og orustuna: Langt er síðan Agamemnon hvarf af vígvellinum (Il. XI 274). Virðist því þurfa sérstakrar skýringar við, að hann skuli nú fyrst vera að grennslast eftir, hvernig orustan horfi. Skýringin er sú, að búð hans hafi verið svo langt frá varnargarðinum, að orustugnýrinn hafi ekki borizt honum til eyrna, fyrr en leikurinn hafði borizt inn fyrir garðinn. 45 heityrðum þeim, er hann eitt sinn hafði frammi o.s. frv.: Hér er átt við orð Hektors í Il. VIII 181, 526. 52 Hinn gerenski riddari Nestor: Orðið gerenskur, Gereníos, ætla menn að dregið muni af nafni einhvers óþekkts staðar í Elis. Hafi Nestor dvalizt þar, er hann var útlægur úr Pýlusborg. 69 þá hlýtur það víst að vera vilji hins afarsterka Seifs: = II 116, IX 23. 70 að Akkear skuli verða drepnir hér niður langt í burtu frá Argverjalandi: = XII 70, XIII 227. — Um Argverjaland sbr. aths. XIII 227. 74 Heyrið nú, gerum nú allir, eins og eg mæli fyrir: = II 139, IX 26. 83 En að slíkt skuli þér um munn fara, Atreifsson, Atreïde, poion se epos fygen herkos odontón: Sjá aths. Od. I 64. Atreifsson, þ.e. Agamemnon. 87 svo að hverr af oss skuli tortýnast, ofra fþíomesþa hekastos: Sennilega ber að skilja þetta sem napuryrði til Agamemnons, eins og tortíming hvers manns væri takmark hans, (ofra merkti tilgang). Hins vegar er og hægt að skilja þessi orð sem hluta af lýsingunni á hetjunum, mönnum, sem fæddir eru til styrjalda og munu berjast, unz þeir falla, (ofra í tíðarmerkingu). 99 en yfir oss svífi bráður bani, hemín d' aipys oleþros epírrepe: „en niður á oss sígi (á vogarskálum örlaganna) bráður bani“. Sjá Il. VIII 72. 109 hinn rómsterki Díómedes: D. Týdeifsson. Kona hans var Egíalía Adrastusdóttir (Il. I 118), sem var móðursystir hans, því að systir hennar (Deípýla) var kona Týdeifs. Samkvæmt Il. II 563, 567 var Díómedes foringi þeirra manna, sem heima áttu í Argverjaborg (Argos) á Peleifsskaga, og eftir þeirri heimild hefur ríki hans verið allstórt. Walter Leaf, (Homer and History, bls. 233 o. áfr.), hefur fært rök að því, að vitneskja sú, sem Beótabálkur, ( þ.e. Il. II), veitir, sé í mótsögn við það, er hermir í öðrum þáttum Ilíonskviðu um Díómedes. Um Díómedes ritar ennfremur Gilbert Murray, The Rise of the Greek Epic, bls. 215. 113 að eg em af ágætum föður kominn: Á eftir þessum orðum hefur Svb. fellt niður 114. ljóðl.: „af Týdeifi, sem heygður er í Þebu“. Virðist eðlilegt að halda henni, því að ættartölur hefjast venjulega með nafni föður. 116 þeir bjuggu í Plevronsborg og hinni hálendu Kalýdonsborg: Borgir þessar voru í Etólíu, sjá kort; sbr. ennfremur Il. II 638: „Þóant Andremonsson var fyrir Etólum, er bjuggu í Plevron, Ólenus og Pýlenu, Kalkisströnd og í hinni klettóttu Kalýdonsborg; því þá voru þeir ekki lengur á lífi synir hins hugstóra Öynefs og ekki heldur sjálfur hann“. Sjá og Il. XIII 217. 119 í Argverjaborg: Sjá aths. Il. XIII 227. 120 en faðir minn varð að fara úr landi: Sagnir hermdu, að Týdeifur hafi hrökklazt brott fyrir víga sakir. 121 Hann kvongaðist einni af dætrum Adrastuss: Díómedes hafði sjálfur kvænzt annarri dóttur Adrastuss, sbr. V 412: „hin vitra Egíalía Adrastusdóttir, sú skörulega kona hins reiðfima Díómedess“. — Adrastus var konungur í Sikíonsborg við Korintuflóa sunnanverðan. 123 eikigarða, fytón ... orkhatoi: Átt er við trjágarða ( þ.e. aldintrjáa), þar sem trén eru gróðursett í röðum (kat' orkhús), sbr. Od. VII 112. 135 Landaskelfir, þ.e. Posídon, hvort sem nafn þetta stafar af því, að P. var talinn ráða fyrir landskjálftum eða af því, að sjórinn er sífellt að bylja á ströndinni. Sama orðalag er að finna X 515 og XIII 10. 136 í gamals manns líki, palaió fótí eoikós: Sá er annars háttur Hómers að taka skýrt fram nafn þeirrar persónu, sem hamlíkingin er tekin af. Hafa gagnrýnendur hnotið um þetta. 142 Svo tortýnist hann, og steypi honum guð í ógæfu, all' ho men hós apoloito, þeos de he siflóseie: Eigi er fullljóst um merkingu sagnarinnar sifloó. Segir einn forn skýrandi (Evstath.), að hún hafi verið tökuorð í grísku, (frá Lykíu). Bendir Leaf á merkilega hliðstæðu í hebresku, shaphal, (arab. safala). Er sú sögn í Biblíunni ævinlega notuð um það, er guð lækkar drambið í hinum hrokafullu, t. d. Jesaja II 17, X 33; Daníel V 19, VII 24. Annars tákna hin fáu semízku tökuorð, sem vissa er fyrir í forngrísku, nöfn á hlutum, sem gera má ráð fyrir, að fluttir hafi verið inn frá Austurlöndum, (t. d. khítón = kyrtill, oinos = vín o.s. frv.). 147—52 Að því mæltu kallaði hann hátt o.s. frv.: Posídon virðist leggja hér niður „gamals manns líkið“ og öskra í eigin persónu, án þess að óttast, að Seifi berist ópið til eyrna. 148—9 Svo hátt sem níu eða tíu þúsundir manns æpa o.s. frv. = V 860—61; 151—52 skaut hann þá miklum þrótti í hjarta sérhvers o.s. frv. XI 11—12. 154 litaðist um ofan af einum tindinum: Hugmyndin virðist vera sú, að bústaður guðanna sé höll á miðjum Ólympi, umkringd tindum í nokkurri fjarlægð. Er þær Hera og Aþena hafa farið út um hliðin (V 749) finna þær Seif, „þar sem hann sat langt frá öðrum guðum á efsta hnúki hins margtindótta Ólymps“. 156 albróðir hennar og mágur, þ.e. Posídon, sem var sonur Kronusar og Hreu eins og líka Hera og Seifur. 157 hins lækjótta Ídafjalls: Mikið og hátt fjall fyrir austan Trójuborg. 158 var hann henni mjög óvinveittur í þeli niðri, stygeros de hoi epleto þymó: „var hann hjarta hennar næsta hvimleiður“. Ef þýtt er eins og Svb. gerir hér, má segja, að siðferðinu sé nokkurn veginn borgið. En það, sem gerir þessa frásögu siðspillta, er einmitt þetta: Hera hefur mestu andstyggð á eiginmanni sínum, en samt gengur hún til ástafunda við hann, af því að henni er svo ríkt í hug að blekkja hann; sbr. það, sem sagt var um þetta efni í inng. að þessum þætti. 173 þó ekki kæmi nema einhver hreyfing á þetta viðsmjör, tú kai kínynenoio: „þó að það væri ekki nema hrist“, virðist eðlilegri þýðing. 181 hundrað skúfar: Skúfar eða öllu heldur gullnisti hangandi niður úr belti eru algengt skraut á assýriskum styttum. Leifar slíkra nista hafa og fundizt bæði í Mýkenu, Kýprus og Etrúríu; sbr. og skúfana á ægisskildinum (Il. II 448), sem slöngubryddingin virðist hafa þróazt upp úr síðar. Ef dæma skal eftir forngripum, sem fundizt hafa af þessu tæi, virðist talan hundrað hér engan veginn fjarstæða. 182 vönduðum eyrnahringum með þremur tölum í: sbr. aths. Od. XVIII 298. 186 undir sína þriflegu fætur, possí d'ypo líparoisín: „undir sína gljáandi fætur“, eins og fætur voru, sem smurðir höfðu verið með olíuviðarfeiti. 193 Afrodíta, ástagyðja, sbr. J.G. Goðafr., bls. 137 o. áfr. 194 dóttir hins mikla Kronusar: Kronus og kona hans, Hrea (Rhea), voru börn Úranusar (= himins) og Gaju (= jarðar). Kronus og Hrea voru því meðal hinna tólf Títana, barna Úranusar og Gaju. Til þeirra töldust og þau Ókeanus og Teþýs, kona hans, sbr. J.G. Goðafr., bls. 97 o. áfr. 200 til endimarka hinnar björgulegu jarðar: Samkvæmt hugmyndum manna á tíð skáldsins var Ókean mikill straumur, sem umflaut alla jarðarkringluna. Sá, sem fór að sækja Ókean heim, hlaut því að fara til „endimarka jarðarinnar“. hinnar björgulegu jarðar, polyforbú ... gaies: Svb. þýðir þetta sama IX 568 margfæðandi jörð. 201 að finna Ókean, uppruna goðanna, og móður Teþýsi: Teþýsar getur ekki annars staðar í Hómerskviðum en í þessum þætti, og eigi er annars staðar getið um Ókean sem föður goðanna. Utan þessa þáttar kemur hann fram sem goð einungis í Il. XX 7. Hesíodus (Theog. 133-6) telur Ókean og Teþýsi meðal barna Gaju og Úranusar. 203 þau tóku við mér af Hreu o.s. frv.: Seifur hratt Kronusi föður sínum af veldisstóli og byrgði hann ásamt öðrum Títönum niðri í Tartarusi eða Myrkheimi. Hafði Kronus af ótta við spásögn eina gleypt börn þau, er hann átti við Hreu, unz henni tókst að blekkja hann og forða Seifi, yngsta barni sínu. Ólst hann síðan upp á laun, unz hann varð þess megnugur að neyða Kronus til að spúa aftur upp hinum ódauðlegu systkinum sínum og hrinda honum sjálfum frá völdum. Seifur hneppti Kronus í fjötra í Myrkheimi, sjá V 898. Hér virðist fylgt sögu, sem hefur hermt, að Heru hafi Hrea selt Ókeani og Teþýsi til fósturs, eins og Seifur var fóstraður hjá dísum á Krít. — Um afsetningu Kronusar sjá VIII 479. 214 leysti hún af brjósti sér útsaumað band, apo steþesfín elysato keston himanta: Sennilegt er, að hér sé ekki um mittisband, tsóne, að ræða. Ef til vill ber að líta á þetta sem táknmynd ástarinnar, band, er tengir saman elskendur. Orðið kestos (= gegnum stunginn, þ.e. útsaumaður) er hér lo., en úr latínu er það kunnugt sem no. cestus, mittisband Afrodítu (Venusar) í rómverskri goðafræði. 226 yfir Píeríu: Land það var í norður frá Ólympi, sbr. Od. V 50. Emaþíuland, fyrir norðan Píeríu, milli fljótanna Erígon og Axíos. Hera heldur fyrst norðvestur, en sveigir síðan til suðurs allt til Aþusfjalls á Akteskaga í Kalkedike. 230 til Lemnus, borgar hins ágæta Þóants, (sbr. I 593): Gera verður ráð fyrir, að í þann mund, er Trójustríð var háð, hafi Lemnus, sem er ey ein nyrzt fyrir strönd Litlu-Asíu haft samnefnda höfuðborg. Síðar hét höfuðborgin þar Myríne. — Þóant þessi var talinn sonur Díónýsuss og Aríöðnu, frægur úr sögnum um Argóarfara. Hans getur aftur sem konungs á Lemnus XXIII 745. Honum má auðvitað ekki rugla saman við Þóant Andremonsson Il. II 638 o.s. frv. Hvers vegna Lemnus skyldi verða fyrir valinu sem sá staður, er Blund (Hypnos) var að hitta á, verður vart gizkað á. Ef til vill hefur Blundur átt þar helgistað. Hinir fornu skýrendur leystu úr þessari spurningu svona: Hefestus, sem gengið hafði að eiga Karis (Il. XVIII 382), dvaldist löngum á Lemnus. Það var því mágkona hans, Pasíþea, sem Blundur var ástfanginn af (275-6). Af þeim sökum vandi Blundur komur sínar í hús Hefestuss á Lemnus. 231 Blund, bróður Dauða: Að telja Blund (Hypnos) bróður Dauða (Þanatos) er mjög forn samlíking, sjá Il. XVI 682; Hesíod, Theog. 212, 756-9; Virgil, Aen. VI 278 consanguineus Leti Sopor. 233 Blundur, konungur allra guða og allra manna: Einnig guðir neyta svefns eins og mennirnir, sjá Il. I 606. 239 Hefestus, smíðaguð, sjá J.G. Goðafr., bls. 148. 243 dóttir hins mikla Kronusar, sbr. aths. 203. 245 Þó væru straumar fljótsguðsins Ókeans: Ókean kallaðist fljót, af því að menn hugsuðu sér hann sem straum, er umflyti alla jarðarkringluna, sjá XVIII 399, sem er uppruni alls: Virgill kemst eins að orði (Georg. IV 382 Oceanumque patrem rerum), sbr. einnig 201. ljóðl. hér á undan og hinar ágætu ljóðl. XXI 195-9. 250 hinn ofurhugaði sonur Seifs, þ.e. Herakles. Er hann ekki nefndur með nafni fyrr en í 266. ljóðl. Aftur er vikið að þessari sögn XV 18-30, sbr. einnig XIX 96-133 um óvináttu þeirra Heru og Herakless. Um herför Herakless til Tróju sjá V 638 o. áfr. 255 til hinnar fjölbyggðu Kóeyjar, þ.e. eyjarinnar Kos, syðst við vesturströnd Litlu-Asíu. Á leiðinni frá Tróju hreppti Herakles storma mikla, sem Hera gerði honum. Tók hann land á Kos. Ætluðu eyjarskeggjar hann vera mundi sjóræningja og hófu grjótkast á hann. Tók Herakles þá eyna herskildi og vó Evrýpýlus konung, son Posídons. Særðist Herakles í þeirri viðureign, en Seifur barg honum og flutti hann heilu og höldnu til Argos, sbr. XV 18-30. 267 eina af hinum yngri Þokkagyðjum: Hvað hér er átt við með orðunum „af hinum yngri Þokkagyðjum“, er ekki unnt að segja. Þokkagyðjur (Charítur) eru óljóst persónugerðar (V 338, XVII 51; Od. VI 18, VIII 364, XVIII 194) sem þjónustumeyjar Afrodítu, veitandi yndisþokka o. s. frv., og Il. XVIII 382 er Karis kona Hefestusar. Hómer virðist annars hafa látið tölu þeirra liggja á milli hluta. Hjá Hesíod er tala þeirra orðin ákveðin, þrjár, Aglaja, Evfrosýne og Þalía. Pásanías ritar skemmtilegan kafla um þetta efni, IX 35. 269. ljóðl. sleppir Svb., enda vantar hana í flest handrit: „Pasíþeu, sem þú þráir alla þína daga“. (Komi þetta í textanum á eftir orðunum: „skal hún verða eiginkona þín“). 271 við hið óbrigðula Stýgarvatn: Sá var eiður mestur með goðum, sbr. XV 36, Od. V 185. Samkvæmt sögn einni (Hesíod, Theogon. 783) varð sá guð, er sekur hafði gerzt um meinsæri, að liggja í Stýgarvatni í heilt ár, mállaus og andlaus. Um Stýx eða Stýgarvatn sjá II 753 og XV 36. Ákallið til undirheimaguðanna virðist stafa af þörf á einhverri meiri og persónulegri staðfestingu en fljót gat veitt. Þá varð aðeins gripið til hinnar fyrri goðaættar. Einnig mennskir menn ákalla við svipuð tækifæri undirheimaguði, sbr. Il. III 278. Snerting láðs og lagar á sennilega að tákna að allur heimurinn sé kallaður til vitnis eða öll máttarvöld í jörðu og á; sjá I 568. 279 Niflheimsguði, þeir er kallaðir eru Títanir, sjá aths. 203, sbr. ennfremur VIII 479. — Hugtak hinnar norrænu goðafræði fer hér ágætlega í þýðingunni. 281 til Imbreyjarborgar: Imbros er nyrzt við vesturströnd Litlu-Asíu. 284 Lektarnes: Höfði á Trójuströnd við rætur Ídafjalls, (nú Cap Baba). Myndar hann suðvesturhornið í Trójahéraði, (sjá VIII 47). Hafa hinir fornu skýrendur auðvitað sett þetta nafn í samband við orðið lekhos (= rekkju) þeirra Seifs og Heru. 290 þeim er guðir kalla eirsmyril, en mennskir menn nátthauk: Orðið „eirsmyrill“ er í gríska textanum khalkís, en „nátthaukur“ kymindes. Þýðing Sveinbjarnar á fyrra orðinu stafar auðsjáanlega af því, að hann hefur ætlað það skylt khalkos = eir, en síðara orðið þýðir hann samkvæmt vitneskju frá fornum heimildum: Aristoteles segir í Historia animal. 9, 12, að kymindes eigi heima í fjöllum og sjáist sjaldan eins og hinn mikli gullörn. Hann sé svartur að lit, á stærð við dúfnafálka, langur og grannur að líkamsbyggingu. Pliníus H. N. 10, 8, 10 nefnir fugl þenna nocturnus accipiter. Er þýðing Sveinbjarnar auðsjáanlega runnin frá þessu latneska heiti Pliníusar, beint eða óbeint. Leaf heldur, að hér sé ef til vill um haukuglu (Strix Uralensis) að ræða. Önnur dæmi um tvenns konar nöfn með mönnum og guðum í Hómerskviðum er að finna á eftirtöldum stöðum: Il. I 403, II 813, XX 74; Od. X 305, Od. XII 61. C. M. Bowra, Tradition and Design in the Iliad, bls. 152 o. áfr., heldur því fram, að nöfn þau, sem Hómer segir, að tíðkist með mönnum, séu hin fornu nöfn, úr tungum þeirra þjóða, er Grikkir lögðu undir sig. Hin, sem guðirnir nota, séu af grískum rótum runnin. Þannig séu orðin, tíðkanleg með guðum, Briareós (Il. I 403), Myríne (Il. II 813), khalkís (Il. XIV 291), Xanþos (Il. XX 74), mólý (Od. X 305) og Planktai (Od. XII 61) öll af indó-evrópskum uppruna. Að vísu bendir stafasambandið nþ í Xanþos á ógrískan uppruna, en snemma hefur það orð samt verið tekið upp í grísku í merkingunni „ljóshærður“, (sbr. „hinn bleikhári Menelás“ í þýðingu Sveinbjarnar). Grikkir hafa þakkað guðum sínum sigra og landvinninga. Hafa hinar undirokuðu þjóðir orðið að lúta hinum grísku guðum. Þess vegna hefur gríska ef til vill verið talin tunga guðanna. 292 upp á Gargarsmúla: Það er syðsti tindur Ídafjalls og hinn hæsti, sjá VIII 48. 296 Hin leynilega gifting Seifs og Heru varð mesta hugleikið viðfangsefni ýmsum skáldum og goðsagnaskrásetjurum, enda veigamikill þáttur í átrúnaði víða. 301-306 Eg ætla til endimarka hinnar björgulegu jarðar o.s. frv., sjá 200-205 hér á undan. 317-327 Um þessa skrá yfir ástmeyjar Seifs sbr. aths. í inngangi að skýringum þessa þáttar. Bæði Aristarchus og Aristophanes töldu skrá þessa síðari viðbót. Allur minnir kaflinn mjög á skrár eða „katalóga“ þá, sem er að finna hjá Hesíod. Annars staðar í Hómerskviðum er ekki að þessum sögnum vikið, þó að alkunnar hafi þær verið á klassískri tíð. Í Il. XIX 99 er aðeins vikið að fæðingu Herakless og Alkmenu, móður hans. 317 konu Ixíons: Ixíon var konungur Lapíta í Þessalíu. Myrti hann tengdaföður sinn til að komast hjá að greiða brúðféð. Sakir þess glæps vildu aðrir höfðingjar nærlendir ei samneyta honum. Seifur kenndi þá í brjósti um hann og flutti hann upp á ólymp. En Ixíon var vanþakklátur og ætlaði að ná ástum Heru. Fyrir þann glæp lét Seifur binda hann við hjól í undirheimum, sem snerist í sífellu. 318 Píríþóus: Hans getur sem sonar Seifs Il. II 741; sjá J.G., bls. 219. 319 Danáa Arkisíusdóttir. Hún var dóttir Akrisíuss, konungs í Argos. Nálgaðist Seifur meyna sem gullregn. Þeirra son var Perseifur, sem ágætur varð fyrir að vega Medúsu og frelsa Andrómedu; sbr. J.G. Goðafr., bls. 226. 321 dóttur hins víðfræga feníska konungs, þ.e. Evrópu, dóttur Agenors Feníkakonungs; sbr. J.G. Goðafr., bls. 116, 221, 233; um Mínós og Hradamant einnig þar, og um Mínos Il. XIII 450 og um Hradamant Od. IV 564. Ef til vill eru fólgnar í þessum sögnum minningar um blöndun Feníka og Grikkja á Krít. 323 Semela var dóttir Kadmosar konungs í Þebu, sjá Il. VI 128, sbr. J.G. Goðafr., bls. 183 o. áfr. Alkmena Elektrýonsdóttir, kona Amfítrýons í Þebu; sbr. J.G. Goðafr., bls. 234. 324 Herakles, sjá J.G., bls. 234 o. áfr. hinn hugsterka Herakles, Heraklea kraterofrona: Sama lo. kemur fyrir í Od. IV 333, XVII 124, XI 299 og um dýr Il. X 184, og umritar Svb. það á öllum þessum stöðum. Orðið „hugsterkr“ er fornt, sbr. Alexanderssögu 8²⁵ ver hugsterkr (= lat. magnanimus esto). 325 Díonýsus, sbr. J.G., bls. 181 o. áfr. Hans getur á einum stað öðrum í Ilíonskviðu, Il. VI 132, og í Od. XI 325, sbr. Od. XXIV 74. Telja ýmsir gagnrýnendur þetta allt síðari viðbætur. 326 Demetra, sbr. J.G., bls. 198 o. áfr. Hómer getur hennar annars sem kornyrkjugyðju (Il. XIII 322 o.s. frv.), nema í Od. V 125, þar sem vikið er að ástum hennar. 327 Letó, (nefndist hjá Rómverjum Latóna), var af ætt Títana, og átti Seifur við henni þau Appollon og Artemis, sjá J.G., bls. 124. 338-9 = 166-7. 339 Hefestus, smíðaguð, sbr. J.G., bls. 148 o. áfr. 344 Helíus, sólguð, sbr. J.G., bls. 163. 345 og er þó ljós hans eitthvert hið ílitsbjartasta, hú te kai oxytaton peletai faos eisoraasþai: Sennilega er orðið „ílitsbjartur“ nýyrði, þó að orðið „ílit“ komi allvíða fyrir, sbr. Sigf. Blöndals Orðabók. Í gríska textanum virðist orðið faos hafa tvöfalda merkingu, „ljós“ og „sjón“. Með hliðsjón af fornum hugmyndum um sjónina er þessi ruglingur eðlilegur. Var sjónin útskýrð svo, að frá auganu útgengu geislar til hlutarins, sem horft var á, og flyttu þessir geislar síðan mynd af hlutnum til augans. Samkvæmt þessu hlaut því sjón sólarinnar að vera þeim mun öflugri og skarpari, sem geislar hennar eru máttugri en allir aðrir „sjóngeislar“. Framangreinda ljóðl. þýða því sumir svo: „enda þótt hann hafi öllum öðrum skarpari sjón“. 347 lét þá hin heilaga jörð o.s. frv.: Þenna fallega kafla, hinn „rómantískasta“ í Hómerskviðum, mætti helzt bera saman við lýsinguna á för Posídons í upphafi XIII. þáttar (Il. XIII 27 o. áfr.) að næmleik fyrir náttúrunni. Af stælingum síðari tíma skálda ber einkum að nefna staðinn í Verg. Georg. I1 325, sem er frábær lýsing, en þar ræður auðsjáanlega hin táknræna hugsun um náttúruna lífi gædda. Ýmsir spakir menn í fornöld, t. d. Porphyrios, útskýrðu þenna stað sem táknræna lýsingu á endurnýjun náttúrunnar á vorin. 348 döggvotan smára, lóton þ'erseenta: lótos ætla menn, að verið hafi steinsmári (trifolium melilotus) eða kerlingartönn (lotus corniculatus). og safranblóm, krokos mun verið hafa hnúðlilja (crocus vernus), sem er meðal fyrstu vorblóma í Grikklandi. og sverðlilju: hyakinþos (iris germanica), en aðrir ætla það verið hafa riddaraspora (delphinium Ajacis). 352 á Gargarsmúla, sjá aths. 292. 355 Landaskelfi, þ.e. Posídon. 359 brugðið yfir hann mjúkum svefnhöfga: Til samanburðar má benda á Od. XVIII 201, hinn væra svefn, sem Aþena sendir Penelópu. 367 við hin hvelfdu skip, nevsín epí glafyresí (glafyros = holur): Svb. þýðir þetta lo. annars „rúmgóður“, þegar það á við skip, (Od. III 287, IV 356, IX 99, X 23 o.s. frv.). 376—7 ljóðl. sleppir Svb., enda vildu fornir gagnrýnendur ekki við þær kannast: „Og hver sá maður, sem er hraustur til framgöngu, en hefur skjöld lítinn á öxl sér, láti hann lélegri mann fá hann, en sjálfur fái hann sér stærri skjöld“. (Komi þessi málsgrein í textanum á eftir orðunum: „... þó hann sé nú allákafur“.). 380 Tídeifsson, þ.e. Díómedes, sbr. 28. ljóðl. 381 og höfðu skipti á hervopnum: Þessi hugmynd er næsta kynleg, að menn hafi herklæða- og vopnaskipti í grimmilegum bardaga. Í XI. þætti Ilíonskviðu t. d. kemur fram miklu nánari þekking á raunverulegum orustum. 392 geystist sjóargangurinn o.s. frv.: Um hlutdeild hinnar „dauðu“ náttúru sbr. Il. XIII 29 og XXI 387. 410 af þeim mörgu skipskorðum: Skipin voru skorðuð uppi á steinum, svo að loft næði að leika um þau einnig að neðan, sjá Il. XII 260 og XIII 139. 429—32 = Il. XIII 535—8. 434 hins sveipótta Ksantuss, sbr. Il. XX 73: „hinn mikli, sveipadjúpi fljótsguð, er guðirnir kalla Ksanþus, en menn kalla Skamander“. — Að sögn Hesíods eiga öll fljót ætt að rekja til Ókeans. Hér virðist Hómer hins vegar fylgja öðrum skoðunum, er hann telur fljótsguð þenna son Seifs. Hinir fornu skýrendur reyndu að losna við þessa mótsögn með því að benda á, að Skamander væri fremur farvegur, sem fylltist í steypiregni, en fljót og mætti því teljast afsprengi þess guðs, sem réð fyrir regni; þ.e. Seifs, sbr. Od. IV 475, þar sem ræðir um „Egypta fljót, hið himinrunna vatnsfall“. 433—4 = Il. XXI 1—2, XXIV 692—3. Í öllum hinum margvíslegu umskiptum styrjaldarinnar er þetta í fyrsta skipti, að minnzt er á vað á Skamanderfljóti, sem í þessum kafla er á milli borgarinnar og herbúðanna. Fer skáldið mjög frjálslega með staðfræðina, allt eftir þörfum sínum í það og það skipti. 442 hinn skjóti Ajant: „Skjótur“ er algengust einkunn Ajants Öyleifssonar, sbr. Il. X 110. 444 við Enópi, sjá Il. XVI 401. Á Satníóisbökkum: Fjallalækur í Mýsíu, sbr. Il. VI 34. 450 á Próþóenor Arelýkussyni: Hann var einn af fyrirliðum Beóta, sbr. Il. II 495. 458—9 = Il. XIII 417—18. 463 Arkelokkus Antenorsson: Hann er fyrirliði Dardana, sjá Il. II 823; XII 100. 473 Antenor, höfðingi í Tróju. 477 Akamant, einnig sonur Antenors, sbr. Il. II 823; XI 60; XII 100. 479 örvaþrjótar: Það þótti ekki eins hermannlegt að skjóta af boga eins og að berjast í návígi. 487 Penelás: Einn af leiðtogum Beóta, sbr. Il. II 494; XIII 92 o.s. frv. 491 þess er Hermes unni mest o.s. frv.: Hermes var guð hjarðmanna, því er það, að í Od. XIV 435 færir svínahirðirinn fórn dísunum og Hermesi. 516 Atreifsson, þ.e. Menelás, sem vitnar um víg Hýperenors í Il. XVII 24, þó að hann bæti að vísu við atriðum þar, sem ekki getur hér. FIMMTÁNDI ÞÁTTUR Fimmtándi þáttur er í tveim meginhlutum: 1) Seifur vaknar og Hektor kemur aftur á vettvang, 1.—366. ljóðl., og 2) úrslitaorusta eða — orustur við skipin, 405.—746. ljóðl. Þann hluta þáttarins, sem hér kemur inn á milli, 367.—404. ljóðl., ætla ýmsir síðara innskot, að nokkru leyti ort til að mynda brú á milli hinna tveggja meginkafla þáttarins, en að nokkru leyti til að koma á tengslum við aðalsöguefnið, eins og við það var skilið í lok XI. þáttar. Fyrri meginkaflinn, allt að 262. ljóðl., er nátengdur frásögninni í þættinum á undan um það, hversu leikið er á Seif, og er skyldur þeirri frásögn að anda. En eftir þenna kafla, frá 263. ljóðl., fara ýmsir örðugleikar að koma í ljós, að áliti gagnrýnenda. Hinni löngu og ágætu líkingu, sem Paris var lýst með í VI 506 o. afr., er snúið upp á Hektor, þótt hún eigi hér verr við. Ef henni er sleppt, er ekki með einu orði vikið að því, að Hektor verði að koma alla leið frá vaðinu á Skamandros (XIV 433) til að komast til sinna manna. Er það eigi að hætti söguljóðaskálda að fella slíkt niður. Líkingin af hestinum á stökki hylur að vísu þessa eyðu í frásögninni að nokkru. Á ræðu Þóants, 281.—305. ljóðl., finna gagnrýnendur ýmsa agnúa. Benda þeir og á að flestar þeirra ljóðl., sem eigi brjóta í bág við anda Hómers og orðfæri, séu teknar að láni annars staðar að úr kviðunum, (263—8 = VI 506—11; 269 = XXII 24; 270, sbr. XIII 757; 271 = III 24; 272 = XI 549; 277—8 = XVII 730—1, sbr. XIII 147; 285 = I 73 o.s. frv.; 286 = XIII 99; 290, sbr. Od. XIV 279, Il. X 44; 294 = II 139; 298 sbr. XI 594; 299 sbr. X 433; 300 = VII 379). Fáar snurður verða fundnar á lýsingunni á orustunni við skipin. Hin helzta er sú, að Hektor, sem sagt er um í 307. ljóðl., að „skálmi stórum“, birtist skyndilega í vagni síðar, sbr. 352. ljóðl. En slíkt eru smámunir einir. Eru mjög mörg dæmi um slíka smáósamkvæmni í Hómerskviðum, já, meira að segja í skáldritum, sem samin hafa verið við meiri rittækni en Hómer hefur að líkindum átt kost á. Skylt er og að minnast þess, að Hektor var borinn að vagni sínum (XIV 429) og kemur í honum til orustunnar. Verður því að teljast eðlilegt, að hann geysist ýmist fram til orustu í vagni sínum eða berjist á fæti, eftir því sem bezt hentar. Í 366. ljóðl. er Apollon horfinn úr orustunni, enda hefur hann þá framkvæmt það, sem honum var boðið í 229.—233. ljóðl. Upp frá því stjórnar Seifur einn orustunni. Má því með vissu telja, að hér ljúki þeim kafla, sem fjallaði um sögnina af því, hversu leikið var á Seif (Díos apate). En er hér er komið frásögninni þykjast gagnrýnendur fara að sjá ýmsa agnúa á henni. Skal aðeins fátt eitt nefnt. Nestori er talið skjóta upp fyrirvaralaust í 370. ljóðl. Fyrirboðinn (þruman í 379. ljóðl.) missir marks og hefur þveröfug áhrif við það, sem ætlað var. Kaflinn um Patróklus (390.—404. ljóðl.) þykir falla illa inn í frásögnina hér. Er það trúlegt, að Patróklus hafi eigi tekið eftir óförum Akkea í XIII. og XIV. þætti og alls eigi, fyrr en verið er að ráðast á garðinn í annað sinn? Þá þykir og lýsingin á orustunni í ýmsum atriðum sjálfri sér ósamkvæm, staða Ajants og hersins óljós t. d. En eftir 514. ljóðl. kemur allt vel heim við frásögnina, eins og við hana var skilizt í lok XIII. þáttar. Eftir orðaskak þeirra Ajants og Hektors, XIII 809—832, beinist athyglin æ meir að þeim, unz þeim lýstur loks saman, 688.—746. ljóðl. Auðvitað felur frásögnin í sér þá óhjákvæmilegu nauðsyn, að hvorugum verður sigurs auðið. 1—3 = VIII 343—5. 3 við kerrurnar: Trójumenn söfnuðust aftur saman við kerrurnar, þ.e.a.s. stríðsvagna sína, sem þeir höfðu skilið eftir hinum megin við díkið, sjá XII 75. 7 að Trójumenn voru á hrakningi o.s. frv.: Sbr. XIV 436. 11 sem ekki var minnstur fyrir sér af Akkeum, þ.e. Ajant Telamonsson, sjá 410. 18 Hvort manstu ekki o.s. frv.: Einn hinna fornu gagnrýnenda, Zenodot, vildi sleppa öllum þessum kafla, 18—31, frásögninni af refsingu þeirri, sem Seifur beitti Heru. Þó að síðari tíma gagnrýnendur hafi fært nokkur málsöguleg rök fyrir réttmæti þeirrar brottfellingar, verður að gera ráð fyrir, að Zenodot hafi fyrst og fremst þótt kaflinn óviðurkvæmilegur og vansæmandi fyrir guðina. Leaf heldur því fram, að ruddaskapurinn í sögninni sé sönnun þess, að hún hafi verið tiltölulega seint í letur færð, því að slíkar sagnir hafi ekki hlotið sess í bókmenntunum fyrr en eftir daga Hómers. Auðsæ eru tengsl við sögnina, sem um getur XIV 249 (sjá hana), en hér er hún rækilegar sögð. Annars var þessi refsing algeng til forna: Afbrotamaðurinn er bundinn á höndum og fótum og síðan látinn hanga í bandi á staur eða súlu, sbr. Od. XXII 173 o. áfr., 465—473. Hér er auðvitað allt í stærri stíl, er um guði ræðir: Hera hangir ekki á súlu, heldur er hún fest við sjálfa himinhvelfinguna. 25 hins ágæta Herakless: Sbr. aths. XIV 324. 26 með aðstoð Norðanvindarins: Sjá III 439, X 290. Um storm þenna sjá XIV 254. 28 til ... Kóreyjar: Sjá aths. 255. 30 til Argverjalands: Sjá aths. XIII 227. 36—8 Viti það nú Jörð o.s. frv. = Od. V 184—6, sjá aths. við Il. XIV 271. Að hún vinnur eiðinn jafnframt við höfuð Seifs og hjónaástir þeirra, mun gert í því skyni að milda skap alföður. 41 að ekki er það af mínum völdum o.s. frv.: Á yfirborðinu hefur Hera rétt fvrir sér, því að Blundur breytti upp á sitt einsdæmi, þó að hann að vísu vissi, að gerðir hans voru í samræmi við óskir Heru. 55 Íris, regnbogagyðja, sendimær guðanna, sbr. J.G., bls. 161; Appollon, sbr. J.G., bls. 124. 56-57 skal Íris fara ... hlut Akkils borgabrjóts: Þessum kafla vildu fornir gagnrýnendur sleppa. Leaf telur þó, að fyrstu 7 ljóðl. mættu standa, en gegn 64-71 séu rök miklu veigameiri: Spádómurinn um gang styrjaldarinnar sé ekki í samræmi við aðferðir Hómers og alveg ónauðsynlegar. Auk þess samrýmist hann ekki staðreyndunum. Flótta Akkea ber ekki að skipum Akkils, (sjá þó 624 og XIII 742); og það er ekki Akkilles, sem æsir Patróklus upp, heldur öfugt. Síðustu 6 ljóðl. virðast geta staðizt. Akkilles hafði og sjálfur sagt (IX 650), að hann vildi ekki veita Hektori viðnám, fyrr en hann kæmi að skipum Myrmídóna. 65 Patróklus, fóstbróðir Akkillesar. 67 Sarpedon, sjá I1 876. 71 með ráðum Aþenu: Átt er við tréhestinn, sbr. Od. VIII 492. 75 og hneigði til höfði mínu: Sjá I 528, IX 620. 76 Þetis Nereifsdóttir, sjávargyðja, móðir Akkillesar. 80 Svo sem hugur manns þess o.s. frv.: Þetta er eina líkingin í Hómerskviðum af sviði sálarlífsins, ef undan eru skilin þessi orð: „sem fugl fljúgandi eða hugur manns“, Od. VII 36. 82 hvarflar hugur hans víða, og margt flýgur honum í hug: Aðrir þýða þetta svo: „Eg vildi eg væri hér eða þar, og margar eru þær óskir, sem honum fljúga í hug“. Virðist það nær orðalagi frumtextans. 87 af ... Þemisi: Hún var dóttir Úranusar og Gaju, táknar hið eilífa lögmál alheims. Hún átti Stundagyðjurnar við Seifi. Kallar hún saman ráðstefnur guðanna. 95 að skammtveizlu, eni daitos eïses: þ.e. veizlu, þar sem hver fær jafnan skerf af krásunum. 101 en Hera brá hlátri á grön, he de gelasse / kheilesín: „hló með vörunum“. Skáldið á við að einungis hafi verið um uppgerðarhlátur að ræða. Þýðing Sveinbjarnar er að vissu leyti ágæt, því að grön þýddi í fornu máli eigi einungis skegg, heldur og vör (sbr. t. d. Guðrúnarkviðu I 13). En flestum nútímamönnum mun þykja óviðeigandi að þýða svona, þegar um er að ræða konu, já sjálfa himnadrottninguna, af því að þeir þekkja ekki orðið „grön“ í annarri merkingu en skegg. 104 Vér bernskulegu guðir, nepíoi: þ.e.a.s. „Vér, heimskingjar“. 110 Ares, herguðinn, sjá J.G., bls. 134. 112 Askaláfur, sjá aths. XIII 518. 113 sló á bæði lær með lófum sér: Svb. fellir niður einkunnina með „lær“, þaleros = þrekinn. Slíkt látbragð táknaði mikinn harm, sbr. 397, XII 162, XVI 125. 118 að liggja í valnum blóðugur og moldrokinn: Einnig guðir gátu særzt, sjá t.d. V 585 o. áfr. 119 þeim Ótta og Flótta: Þeir voru synir og förunautar Aresar, sjá IV 440, XIII 299. 121 Nú hefði hin ódauðlegu goð o.s. frv.: Reiði Seifs hefði orðið goðunum ennþá þyngri í skauti, ef þeim hefði ekki tekizt að halda aftur af Aresi. 123 ef Aþena o.s. frv.: Auðvitað lætur skáldið vizkugyðjuna sjálfa koma vitinu fyrir Ares. Skynsamlegar ákvarðanir hetjanna eru henni einnig þakkaðar, t. d. I 200, II 172. 152 uppi á Gargarsmúla: Sjá VIII 48, XIV 352 og aths. XIV 292. 153 eitt ilmandi ský: Ef til vill er átt við hið „fagra gullský“, sem um getur XIV 350. Fornir skýrendur segja, að ilminn hafi lagt af blómunum, sem jörðin lét spretta á ástafundi þeirra Seifs og Heru (XIV 347). 161 ofan í ginnungasæ, eis hala dían: „hinn bjarta sæ“, ætla sumir, að þetta þýði. Auðvitað sómir þýðing Sveinbjarnar sér prýðilega, ginnungasær = hinn djúpi sær. 171 hins heiðborna Norðanvindar, aiþregeneos Boreao: Eiginlega þýðir þessi einkunn „fæddur í háloftunum“. Ætluðu menn, að norðanvindurinn kæmi frá hátindum Þrakíufjalla. Þýðing Sveinbjarnar er með ágætum. Orðið kemur og fyrir í Od. V 296 sem einkunn með norðanvindi. Þar þýðir Svb. „heiðríkur norðanvindur“ og Il. XIX 358, en þar þýðir Svb. orðið eins og hér, „heiðborinn“. 173 til ... Jarðarskelfis, þ.e. Posídons. 203 Því gegn er göfugra lund, streptai men te frenes esþlón: Ágæt þýðing! Svb. er sérstaklega sýnt um að þýða. spakmæli og orðskviði. 204 að refsinornirnar fylgja ávallt hinum eldri: Refsinornir Erinýjur, gæta óskráðra laga siðgæðis og velsæmis, sbr. t. d. XIII 355 og (um virðing þá, sem eldri bræðrum ber, og hlutverk Erinýja innan fjölskyldunnar) I 454, 571; XXI 412. 225 guðir þeir, sem í Niflheimi eru hjá Kronusi: Átt er við Títani, sbr. aths. XIV 203. 229 hinn skúfaða ægisskjöld: Skjöldur þessi nefnist á grísku aigís (*-ídos). Ætla sumir orð þetta dregið af aïssó (= að þjóta eða fara yfir með ofsa), enda þýði aigis einnig síðar „ofviðri“. Aðrir setja það í samband við aix (= geit), af því að í forneskju hafi geitarskinn verið notað sem eins konar skjöldur. Á ægisskjöld er einnig minnzt XV 308, XVII 593, IV 167, V 738. Táknar hann auðsjáanlega óveðursskýið og ber því Seifi með réttu, guði veðráttu og loftsins. Apollon ber hann XV 318, 361; XXIV 20, en Aþena II 447, V 738; XVIII 204, XXI 400. Skúfarnir á jöðrum hans virðast fremur vera hátignarlegt skraut (sbr. XIV 181) en tákn eldingarleiftra. 231 Fjarvirkur, þ.e. Apollon, hinn bogfimi guð. 263—8 Svo sem gjafarhestur ... í átthaga og haglendi hestanna: = VI 506-11. Leaf telur líkingu þessa hina fögru missa hér marks, er með henni skal einungis lýst hraða Hektors, en eiga hins vegar vel við á fyrri staðnum (VI 506—11). Auk þess telur hann það eigi venju Hómers að endurtaka svona sérkennilega frumlegar líkingar. Endurtekningar í Hómerskviðum séu grunsamlegar, nema um sé að ræða orð, lögð í munn sendiboða eða vissar ljóðlínur, sem teljast megi til mótaðrar myntar hins epíska kveðskapar. 280 og drap stall hjarta þeirra allra, pasín de parai posí kappesi þymos: „og hrapaði hugrekki allra niður í fætur þeirra“. Er svo að orði komizt með hliðsjón af því, að þegar kjarkurinn bilar, er mönnum gjarnt að taka til fótanna. Þýðing Sveinbjarnar er sótt í fornmál vort. 281 Þóant Andremonsson, sjá II 638. 284 þegar ungir menn áttust við orðaskipti: Vitanlega mundu hinir eldri, t.d. Nestor, auðveldlega hafa orðið honum þar snjallari. 287 hafi undan komizt Valkyrjunum: Það er gríska orðið keres, sem Svb. þýðir hér „Valkyrjur“. Í Hómerskviðum tákna Kerur annars vegar hlutskipti það, sem hverjum er fyrirhugað, og hins vegar hið óumflýjanlega skapadægur. 289 fyrir Ajanti Telamonssyni: Hann var fyrirliði manna frá Salamis (II 557), gekk næstur Akkillesi að hreysti, kemur mjög víða við sögu. 301 Idomeneifur Devkalíonsson, fyrirliði Krítverja (II 645), Helena lýsir honum fyrir Príamusi III 230 o.s. frv. Getur hans mjög víða í kviðunni. 302 Tevkrus Telamonsson, grískur bogmaður, albróðir Ajants, sjá aths. XIII 91. Meriónes, annar aðalfyrirliði Krítverja, II 651, VII 165. Meges Fýleifsson, fyrirliði manna frá Dúliksey. 308 hélt á hinum áriðamikla ægisskildi, þ.e. hinum fyrirferðarmikla ægisskildi. Um ægisskjöld sbr. aths. 229. 322 svo þeir gleymdu berserksgangnum, laþonto de þúrídos alkes: „gleymdu sínum æðisgengna mætti“. Þýðing Sveinbjarnar er prýðileg, einmitt fyrir það, að hann leitar til hliðstæðna í sögumáli voru, en hirðir ekki um orðrétta þýðingu. 324 tvö óargadýr: Sagt er „tvö“, því að skáldið hefur þá Apollon og Hektor í huga. 333-6 Medon var ... og bjó í Fýlaksborg: = XIII 694-7: Fýlaksborg var í Þessalíu, um 25 km. vestur af Pagaseuflóa. Enda þótt Medon byggi í Fýlaksborg, var hann eigi fyrirliði liðs frá þeirri borg. Það var Prótesílás, og að honum látnum Podarkes, sbr. II 716. Medon var foringi manna frá Meþónu, borg á strönd Pagaseuflóa. 352 og keyrðu hestana: Áður hefur þess ekki verið getið hér, að Hektor hafi stigið á vagn sinn, og orðin í 307. ljóðl. „og fór Hektor fyrir þeim og skálmaði stórum“ bera það með sér, að hann hafi þá verið fótgangandi, þó að um vagnaáhlaup sé að ræða í 258.-61. ljóðl., og XIV 429-31 er Hektor borinn að vagni sínum, auðsjáanlega af því að búizt er við, að hann noti hann, þegar hann hefur náð sér. En svipuð ósamkvæmni er auðvitað æði algeng í Hómerskviðum. 521—2 því Appollon vildi ekki leyfa o.s. frv.: Appollon verndar Polýdamant, 362 Svo sem ungur sveinn o.s. frv.: Minna má á aðra líkingu, XVI 7, sem einnig er dregin af hátterni barna. 367-9 Þannig numu þeir staðar ... hverr um sig = VIII 345—7. 370 hinn gerenski riddari Nestor: Sbr. aths. XIV 52. 372 í ... Argverjalandi: Sbr. aths. XIII 227. 378 Neleifssonar, þ.e. Nestors Neleifssonar. 379 En er Trójumenn heyrðu brest Seifs: Það virðist einkennilegt, að þruman, sem ætluð var sem hagstætt svar við bæn Nestors, skuli vera til hvatningar Trójumönnum, en ekki Grikkjum. Um þetta hafa gagnrýnendur hnotið og talið vera innskot; gert í því skyni, eins og svo mörg önnur, að auka hróður Nestors. 388 Eigi getur um sjóorustur í Hómerskviðum annars staðar en hér og í 677. ljóðl. Sennilega er það aðeins tilviljun, að svo er, því að snemma munu Grikkir hafa komizt upp á að gera árásir á óvinaskip. Og að vísu er óbeinlínis vikið að viðureign á sjó, er ræðir um fyrirsátur biðlanna fyrir Telemakkusi á heimleið hans frá Pýlus, (Od. IV 669, 842, XV 28, XVI 351). Sennilega mun fyrst hafa verið að ræða um uppgöngu á skip óvinanna, því að vígtrjónur á skipum virðast óþekktar í Hómerskviðum. Vígásar þeir, er hér getur, munu sennilega hafa verið notaðir til að stjaka frá óvinaskipum, sem stærri voru og styrkari, eða til árása á ræðarana. 390 sat Patróklus í búð hins vaska Evrýpýluss: XI 841 o. áfr, segir frá því, að Patróklus hittir Evrýpýlus sáran og hjúkrar honum. 395—6 = XII 143—4. 397—8 = XV 113—14. 403—4 = XI 792—3. 404 og er gott vin að vara, agaþe de paraifasís estín hetairú: Svb. er hér sem oftar fundvís á almenna orðskviði. 410—14 Heldur svo sem mæliþráður gerir beinan skipaviðinn o.s. frv.: Þessi líking verður helzt skilin á þá lund, að víglínan hafi verið eins þráðbein og skipaviður, sem æfður skipasmiður hefur höggvið til og gert beinan eftir máli. Svipaða líkingu er að finna XII 432, sbr. og Od. V 245, XVII 341. 412 eftir tilsögn Aþenu: hún var hagleiksgyðja. 419 fyrir brjóst Kaletor Klýtíussyni: Klýtíus var bróðir Príamuss, sjá III 147, XX 258. Voru þeir Hektor og Kaletor því bræðrasynir. 426 þó svæði þetta sé heldur þröngt: þ.e.a.s. milli stauragirðingarinnar og skipanna. 431 frá Kýþeru: Eyja undan suðaustur-odda Peleifsskaga, sjá kort. 432 fyrir hinum ágætu Kýþereyingum. Kyþeroisí tsaþeoisí: „fyrir hinum helgu Kýþereyingum“ eða „á hinni helgu Kýþeru“. Er svo að orði komizt, af því að dýrkun Afrodítu hafði breiðzt út þaðan. Hafði eyjan um stund verið í höndum Feníka. 443 hafði staðharðan boga, toxon ekhón ... palíntonon: Orðið palíntonos [palín + ton-, teinó], einkunn með boga, mun þýða „aftur sveigður“, þ.e. sveigður aftur í miðjunni, þannig að handfang myndist. Síðan virðist það geta táknað „hrökkvandi aftur í fyrri stöðu“, „fjaðurmagnaður“, og þá merkingu virðist orðið „staðharður“ hafa hjá Sveinbirni hér, sbr. aths. Od. XXI 11. 449-50 = XVII291-2. 470 er eg batt í gærmorgun: Sumir skilja þetta svo, aðrir þýða „í morgun“ og enn aðrir „í fyrramorgun“. Svb. fylgir hér hinum fornu skýrendum, sem lásu hér próíon og töldu það þýða „í gærmorgun“, sbr. lat. pridie. 479 fjórbyrðan skjöld: Þ.e. skjöld úr ferfaldri uxahúð, en síðan var skjöldurinn klæddur málmþynnum að utan. 488 Á eftir orðunum „og leggið fram ofurafl yðvart“ hafa fallið niður í þýðingunni orðin neas ana glafyras, „við hin holu skip“. 496 honum er engin óvirðing í að falla, þegar hann er að verja föðurland sitt: Sbr. Horat. od. 3. 2. 13 Dulce et decorum est pro patria mori. 498 og óðal verður óskert: Orðið, sem Svb. þýðir hér „óðal“, er kleros, sem þýðir „hlutur“ ( þ.e. „hlutkesti“); þá „eignarhlutur“, „jarðeign“. Ætla skýrendur þetta runnið frá hinum forna sið að skipta öllu landi samfélagsheildarinnar með hlutkesti af nýju eftir ákveðinn tíma. Hér mun þá átt við það, að þótt maðurinn falli, skuli réttur hans til hlutdeildar í þessu hlutkesti hverfa óskertur til fjölskyldu hans. 511 Betra er skammt líf eða skjótur dauði, belteron e apolesþai hena khronon ee bíónai: „Betra er á samri stundu að vinna sér annaðhvort til lífs eða deyja að öðrum kosti“. Þýðing Sveinbjarnar virðist tæplega geta falið í sér þá merkingu, sem ráða má af samhenginu. Til samanburðar þessu orðalagi má benda á Od. XII 350-1, þar sem hapax, (sem Svb. þýðir þar „allt í einu“), virðist samsvara hena khronon hér. 515 Skedíus Perímedesson: II 517 er getið um Fókverja einn, Skedíus Ifítusson að nafni, sem Hektor vegur XVII 306. Auðvitað má gera ráð fyrir, að verið hafi tveir Fókverjar, sem báðir hétu Skedíus. Annars virðist í kviðunum farið mjög frjálslega með nöfn aukapersóna. 517 hann réð fyrir stórskjaldaða liðinu, hegemona pryleón: Eigi er fullljóst, hvað orðið prylees, sem Svb. þýðir hér „stórskjaldað lið“, merkir. Annars staðar þýðir hann það „fótgöngumenn“ eða „fótgöngulið“, (Il. V. 744 skjaldaða fótgöngumenn; XII 77 vér fótgöngumennirnir; XXI 90 fremst í fótgönguliðinu). Leaf bendir á, að prylees sé ef til vill skylt prylis, er hann segir, að sé krítverskt orð og tákni „stríðsdans“, og hafi prylees þá kannske í upphafi táknað kappa, sem dönsuðu fyrir hernum til að ögra óvinaliðinu. 518 Ótus hinn kyllenzka: Þ.e. frá hafnarborg í Elis eða Elealandi, er Kyllene hét. 519 hersvein Fýleifssonar: Þ.e. Megesar Fýleifssonar, sjá aths. 302. af því að Panþóus, faðir hans, var Apollons prestur. 529 vandaða boðanga brynju, pykínos ... þórex: Slík brynja var sett saman úr tveim gyala, íbjúgum plötum, annarri á bak, en hinni fyrir. 531 í Effýru við Sellisfljót: Fljót þetta, (sem eigi ber að rugla saman við samnefnda á er um getur II 839 og XII 97, í Asíu), ætla menn, að verið hafi í Þesprótíu, héraði í Epírus. 536 í kambpípuna: þ.e. sennilega pípu efst á hjálminum, sem hrosshársskúf hefur verið fest í. 547 Melanippus, bróðursonur Príamusar. 548 í Perkótu: Perkóta hefur sennilega verið borg fyrir sunnan Hellusund (Hellespont). 549—51 = XIII 174—6. 561—4 = V 529—32, nema á fyrri staðnum stendur kai alkímon etor helesþe = „og takið til yðar móð og manndóm“, en hér kai aidó þesp' ení þymó = „og gætið sóma yðar“. Í þýðingu Sveinbjarnar eru auk þess tvö atriði ekki orðrétt eins. 568 Antílokkus, sonur Nestors. 573—5 = IV 496—8. 597 með óþrotlegum surtaloga, þespídaës pyr ... akamaton: Enn er þetta eitt dæmi þess, hve vel fara hugtök tengd norrænni hetjusögu og goðafræði í þýðingu hinna grísku söguljóða, og hversu Svb. er fundvís og smekkvís á þau. (Sbr. Vafþrúðnismál 50 og 51). 598 hina óhamingjusamlegu bæn Þetisar: Sbr. I 399 o. áfr. 610—614. ljóðl. höfnuðu hinir fornu gagnrýnendur, Zenodotus og Aristarchus, og Sveinbjörn hefur farið að dæmi þeirra. Kemur hinn brottfelldi kafli á eftir orðunum „á höfði hans í orustunni“: „því að Seifur var verndari hans af himni og tryggði honum heiður og frægð, er hann var einn meðal svo margra hermanna. En skammlífur átti hann að verða, því að nú þegar var Aþena að hraða skapadægri hans fyrir mætti Peleifssonar“. Gagnrýnendur segja, að þessi kafli sé máttlaus endurtekning á 603. ljóðl. Auk þess hafi Seifur á þessari stundu verið á Ídafjalli, en ekki himni; „er hann var einn“ sé einkennilegt orðalag, þar sem Hektor hafi allan herinn með sér; spádómurinn í 613. ljóðl. sé andstæður venjulegum aðferðum Hómers, og ennfremur brjóti það í bág við goðafræðina að láta Aþenu ganga erinda örlaganna. 628 því þá er þeim mjótt milli lífs og hels, tytþon gar hypek þanatoio ferontai: Ágæt þýðing, í orðskviðastíl. 631 = IV 483. 638 Mýkena, borg á Peleifsskaga, sjá kort. Kopreifur var Peleifsson. Sakir þess, að hann vó Ifítus, flýði hann á náðir Evrýsteifs til Mýkenu, sem friðþægði fyrir hann. En af þessum sökum varð hann að þjóna Evrýsteifi sem sendiboði. 653 Nú áttu Akkear að horfa í mót skipum sínum, eisópoi d'egenonto neón: Samkvæmt textanum virðist þetta vera eðlileg þýðing. En Grikkir hafa hörfað undan, unz þeir koma að skipunum. Verður þá tæplega gert ráð fyrir, að þeir snúi allt í einu bökum við Trójumönnum og horfi í mót skipum sínum. Eftir samhengi mætti því búast við, að hér stæði: „Nú hörfuðu Akkear inn á milli fremstu skipanna“. Þenna skilning leggja og ýmsir skýrendur í orðið eisópos, [eis + ópa], „horfandi inn á milli“, og síðan „inni á milli“. 656 en þó létu þeir hér nú fyrirberast hjá búðunum: Leaf hugsar sér, að skipulag skipa og búða kunni að hafa verið þannig: Fyrst röð skipa með millibilum á milli þeirra; þar fyrir aftan röð af búðum, gegnt millibilunum á milli skipanna, en svæðið autt beint fyrir aftan skutstafn þeirra. Síðan önnur röð skipa beint fyrir aftan hin fyrstu o.s. frv. Búðirnar hafa ekki getað verið á milli skipanna, því að þá mundu þær hafa tafið framrás hersins, né heldur beint fyrir aftan þau, því að þá hefðu þær staðið í vegi, er skipin voru sett fram, (sbr. II 153, þegar Grikkir búast til að setja skipin fram). 668-673 Þá hratt Aþena hinu heilaga þokuskýi af augum Akkea ... er uppi héldu bardaga hjá hinum fljótu skipum: Þessum ljóðl. vildi Aristarchus sleppa. Halda hinir fornu gagnrýnendur fram, að áður hafi aldrei verið á neitt þokuský minnzt, enda hafi og komið skýrt fram, að Akkear hafi séð greinilega bæði Hektor og hans menn, og ennfremur blandi Aþena sér hér í bardagann í trássi við bann Seifs. Sumir hafa reynt að útskýra þetta sem líkingamál: Ræða Nestors hafi orðið til þess að svipta þokuskýi þróttleysis og manndómsskorts af hugarsjón Akkea, svo að þeir hafi nú fengið mátt til að átta sig á aðstöðu sinni. Næsta ólíklegt er þó, að slík skýring geti átt við í Hómerskviðum. Verður því að álykta, að hér sé um síðara innskot að ræða. 674 Ajant: sbr. aths. 289. 676 um þiljur skipanna: Þiljur voru aðeins í framstafni og skut, en miðskipa var rúm fyrir ræðarana, sjá Od. XII 224, 414. 677 mundaði stórum vígási járnbendum: Sbr. aths. 388. 679 Svo sem fimur reiðmaður, o.s, frv.: Af þessu má marka, að Hómer hefur þekkt til reiðmennsku og reiðlistar, þó að hann láti ei hetjurnar leika þær listir. Það er með þetta eins og básúnuna (XVIII 219) og suðu á kjöti (XXI 362), að slíkt kemur aðeins fyrir í líkingum, en eigi í lýsingum á hetjuöldinni. Allt bendir þetta til þess, að skáldið hefur gert sér grein fyrir, að hér var um tiltölulega nýjar uppfinningar að ræða, sem ei hæfðu lýsingum á þeirri fornöld, er það var að kveða um. 695 en Seifur hratt á eftir honum með sinni afarmiklu hendi: Hér er um að ræða mjög frumstæða hugmynd um tilverknað guðanna og aðstoð, sem er alveg andstæð þeirri actio in distans eða fjarhrifum, er stafa frá Díos noos í 242. ljóðl. („því hugur Seifs ægisskjalda tók nú til að lífga fjör hans“). 705 hafði fleytt Prótesílási til Trójulands: Prótesílás Ifíklusson var fyrirliði manna úr ýmsum borgum á austurströnd Þessalíu, sbr. II 698 o. áfr., þar sem segir og, að hann hafi fyrstur lent á Trójuströndum. Kemur þetta heim við það, að skip hans er í efstu röð, fjarst ströndinni. 711 börðust með beittum breiðöxum og bolöxum: Orð það, sem Svb. þýðir hér „bolöx“, er axíne, sem kemur aðeins fyrir hér og XIII 612. Virðist eigi alveg ljóst, hvað það þýðir, hvers konar vopn er um að ræða. Notkun breiðaxa og bolaxa, (eða hver svo sem munurinn er á pelekys og axíne), sem eigi eru að jafnaði notaðar í orustum í Hómerskviðum, stafar vafalaust af hinum sérstöku aðstæðum hér. Slík tæki munu hafa talizt til verkfæra trésmiða þeirra, er unnu við flotann og í herbúðunum. Þessi ljóðlína á aðeins við Grikki. 712 heftisverðum og tvíyddum spjótum: Þessi ljóðl. á bæði við Grikki að nokkru leyti, ( þ.e. þá, sem börðust ekki með öxum), og Trójumenn. Orðið „hefti“ er fornt og þýðir „skaft“ eða „handfang“, sbr. „hefti-sax“. 714 sum af herðum manna: Þ.e.a.s. sverðin, sem héngu í ólum yfir herðar manna, duttu til jarðar í slíðrum, þar eð ólarnar voru höggnar í sundur við sverðshögg á öxlina. 717 bugstafninn, aflaston: Það var há, skrautleg trjóna, sem skutstafninn endaði í. 729 fór nú af þilfari hins jafnbyrða skips og fram á eina þóftu, sjö fóta langa, þrenyn ef' heptapoden, lípe d' ikría neos eises: „hopaði nú af þilfari hins jafnbyrða skips eftir brú einni sjöfeta hárri“. — Menn hafa eigi verið á eitt sáttir um, hvað þrenys þýddi hér. Orðið þýðir venjulega „fótskemill“. Sennilegust er skýring Leafs. Hann heldur því fram, að það þýði hér brú, sem tengdi saman þiljurnar í framstafni og skut. Á milli þessara þilfara í báðum endum skipsins var rúm fyrir ræðarana. Brú, sem tengdi saman fram- og afturþiljur, mundi því hafa þurft að vera um sjö feta há, svo að ræðararnir gætu athafnað sig óhindrað undir henni. SEXTÁNDI ÞÁTTUR Í I. þætti hafði Akkilles heitið því, að sárt mundu synir Akkea sakna sín, þó að síðar yrði, og Agamemnon þá eigi fá dugað þeim. En í XI. þætti gekkst honum svo hugur við óförum Grikkja, að hann sendi Patróklus til að spyrjast fyrir um særðan hermann, sem hann sá ekið framhjá búð sinni í vagni Nestors. Þó að Patróklus sé aðeins skamma stund í brott, gerist margt á meðan. Agamemnon, Odysseifur og Díómedes, sem orðið hafa óvígir af sárum, fá ekki dugað Grikkjum. Eru þeir hraktir til skipa sinna. Fyrir hraustlega vörn Ajants stöðva þeir undanhaldið við efstu röð skipanna, (XV 592 og allt til loka þáttarins). Patróklus snýr skjótt aftur til Akkillesar og fær ekki tára bundizt. Er honum tekið með kaldhæðnislegri spurningu um orsök að harmi hans. báðir hafa þeir auðvitað gleymt hinu lítilvæga erindi, sem Patróklus hafði átt að reka, og án þess að á Makáon sé minnzt, fer Patróklus þess á leit, eins og Nestor hafði skorað á hann að gera, að verða sendur sem fyrirliði Myrmídóna gegn óvinunum. Akkilles fellst á það, og er ræðan, sem hann flytur í þessu máli, ágætlega dregin mynd af innri baráttu hans, annars vegar hið særða stolt kappans, hins vegar föðurlandsástin. Hann býður Patróklusi að láta eigi meir að gert en bjarga herbúðunum, því að of skjótunninn sigur mundi svipta hann þeim skaðabótum, sem Agamemnon ber að greiða honum. Ýmsir gagnrýnendur hafa gert mikið úr því misræmi, sem þeir telja vera milli ræðu Akkillesar hér, (einkum 60.—79. ljóðl. og 84.—6. ljóðl.), og þess, sem áður var sagt um auðmýkingu Agamemnons í IX. þætti. Misræmi þetta telja þeir stafa af þeim sökum, að hinn glæsilegi IX. þáttur hafi upprunalega verið sjálfstætt kvæði, er síðar hafi verið skotið inn í Ilíonskviðu. Þá telja gagnrýnendur ýmislegt benda til þess, að hervæðing Patróklusar í vopnabúnað Akkillesar sé eigi þáttur af sögunni, eins og hún hafi verið upphaflega. Frá herklæðaskiptunum segir í XVI 40—3, 64, 140—44, 248(?), 796—800. En jafnvel af þessum fimmtán eða sextán ljóðlínum eru sjö teknar annars staðar að, — 41—43 úr XI 799—803 og 141—44 úr XIX 388—91. Vildi Zenodotus fella hér niður hinar fjórar síðast töldu, þar eð enginn vafi gæti á því leikið, að þær væru á réttum stað í XIX. þætti. Það er næsta furðulegt, að atriði, sem orðið er svo samgróið hugmyndum manna um Ilíonskviðu, skuli vera greint í þessum örfáu ljóðlínum, helmingur þeirra skuli vera vafasamur, og allar megi fella brott, án þess að nokkurrar eyðu verði vart í frásögninni. Tilgangurinn með herklæðaskiptunum hlýtur auðvitað einungis að hafa verið sá að skjóta óvinunum skelk í bringu. En í reyndinni veitir þeim eiginlega enginn athygli, því að Trójumönnum sýnist ekki nema örstutta stund Akkilles hafa komið til orustu (281—2), og er sú skýring alveg nægileg á því, að hersveitir hans ganga fram í bardagann. Með 419. ljóðl. hefst hin langa frásögn af dauða Sarpedons, og lýkur henni í 683. ljóðl. Sumir gagnrýnendur ætla, að þessi frásögn hafi eigi frá upphafi átt heima í kviðunni um reiði Akkillesar, en hún er samt í heild svo misfellulaus, að snemma mun hún hafa verið felld inn í kviðuna. Í frásögninni af dauða Patróklusar hefur mönnum fundizt lítt til um hið óvirðulega hlutverk Hektors: Hann gengur að vísu af Patróklusi dauðum, en eigi fyrr en Apollon hefur afvopnað hann og Evforbus komið á hann sári. En eigi mun öruggt að treysta hér hugmyndum vor nútímamanna um riddaralega framgöngu og framkomu, eins og marka má af hinni hliðstæðu frásögn af dauða Hektors, sem enginn hefur efazt um, að staðið hafi í kviðunni frá upphafi. Eins og hér, skerst guð þar í leikinn. Hinu gríska skáldi hefur leikið hugur á að sýna og sanna, að mikils hafi við þurft til að leggja að velli hinn ágæta kappa. Þar sem í þessum þætti ræðir um að Apollon hafi afvopnað Patróklus (í 793. og 846. ljóðl.), virðist það vera í nokkurri mótsögn við efni næsta þáttar á eftir (XVII.), því að þar er lýst bardaga um lík Patróklusar og herklæðin á því. Hins vegar er auðvelt að skilja, hvers vegna þessum ljóðlínum hefur verið skotið inn í, ef, eins og þegar hefur verið tekið fram, hervæðing Patróklusar í vopn Akkillesar er síðari viðbót, því að í herklæðum, sem voru handaverk guðanna, hlaut hann að vera ósæranlegur. Bornar hafa því verið brigður á, að 796.—800. ljóðl., þar sem vopna Akkillesar er greinilega getið, væru upprunalegar, og jafnvel á allan kaflann 793.—804. ljóðl. ásamt hinni 846. Hafa menn þá hugsað sér, að upphaflega hafi frásögnin verið á þessa leið: Apollon greiðir Patróklusi högg, svo að hann riðar við, Evforbus hagnýtir sér það og særir hann í bakið, og síðan kemur Hektor á vettvang og gerir út af við hann. Að undanskildum 120—150 ljóðl., sem nokkrar brigður hafa verið bornar á, virðast flestir gagnrýnendur telja XVI. þáttinn veglegan kafla hinnar upphaflegu kviðu um reiði Akkillesar, að viðbættum innskotskafla um dauða Sarpedons, sem ef til vill hefur þó staðið þar frá upphafi. Og allur sómir þátturinn sér vel í þessu úrslitasæti, sem hann skipar, í frásögn Ilíonskviðu. 1 hjá hinu þóftusterka skipi: Átt er við skip Prótesílásar, sbr. XV 704. 2 En Patróklus o.s. frv.: Síðast var Patróklusar getið í XV 390—405 á leið frá Nestori til Akkillesar. 3—4 hann út jós heitum tárum o.s. frv.: = IX 14—15. 11 mjúku tári, teren ... dakryon: „hnöttóttu tári“. — Orðið teren, -enos, (sbr. lat. teres) notar Hómer 1) um hold, Il. IV 237, XIII 553, XIV 406; 2) um tár, Il. III 142, XVI 11, XIX 323, Od. XVI 332; 3) um blöð, Il. XIII 180, Od. XII 357. Svb. fylgir þeim skilningi, sem algengastur var á þessu orði. Merkingin „mjúkur“ getur þó hvorki átt við 1) né 2), því að holdið, sem við er átt, er ávallt hold hertra kappa, en ekki kvenna eða barna. Virðist orðið eiga að lýsa hinum stinnu, ávölu vöðvum, (sbr. lat. tor-us). Um blöð og blóm táknar það „bólginn af safa“, fullur af gróðrarmagni. 12 Eða hefur átt erindi við Myrmídóna o.s. frv.: Spurningar þessar eru auðvitað bornar fram í hæðnistón. Er að sjálfsögðu ekkert athugavert við það, þótt Akkilles gleymi við breyttar aðstæður hinu smávægilega erindi, sem Patróklus hafði verið sendur til að reka í XI. þætti, (sjá XI 608). 13 frá Fiðju: Fiðja (Phthía) virðist hafa verið hérað, sem náði frá norðurhlíðum Oþrýsfjalls og allt fyrir botni Pagaseusflóa, sbr. kort, (sbr. ennfremur Leaf: Homer and History, bls. 112 o.s. frv.). 14 Menöytíus Aktorsson: Hann var faðir Patróklusar, átti heima hjá Peleifi, föður Akkillesar, í Fiðju, sjá. XI 771. 22 Lá þú mér ekki ... yfirbugar nú Akkea = X 145. 23—27 Því allir þeir ... en Evrýpýlus er skotinn með ör í lærið = XI 658—662. 28 Læknar, er marga læknisdóma kunna o.s. frv.: Af þessum stað hefur verið ályktað, að í her Grikkja hafi margir læknar verið auk Makáons og Podaliríusar. — Svb. umritar hér íetroi polýfarmakoi, eins og að ofan sést, en í Od. X 247 þýðir hann Kirkes polýfarmakú „Kirku hinnar fjölkunnugu“. Ber það órækan vott um smekk þýðanda. 36-45 En ef þú setur fyrir þig einhverja goðspá ... að hrekja vígmóða menn frá skipunum og búðunum til borgarinnar: Sbr. XI 794-803. Leaf heldur því fram, að þessum ljóðl. hafi verið skotið inn síðar á báðum þessum stöðum einungis með hliðsjón af herklæðaskiptum þeirra Akkillesar og Patróklusar, sbr. inngang að þessum þætti. 50 þó eg viti einhverja: Er svo að orði komizt án efa til samræmis við IX 410, þar sem Akkilles talar um spádómlega aðvörun frá móður sinni. 57 eftir að hafa í eyði lagt ramgirta borg: þ.e. Lýrnesborg (Lýrnessos) í norðurhluta Trójuhéraðs, sbr. Il. II 690. Konan, sem við er átt, er auðvitað Brísesdóttir (Briseis). 59 sæmdarlaus reikunarmaður, atímeton metanasten: Þessi þýðing er frábær. Orðið „reikanarmaðr“ er fornt. 67 við sjávarlána, hregmíni þalasses: þ.e. við fjöruborðið, þar sem öldurnar brotna. 69-70 sækir á hendur þeim: Á eftir þessum orðum hefur fallið niður í þýðingu orðið „þarsynos“, „hugrakkur“. 76 Atreifssonar: þ.e. Agamemnons Atreifssonar. — Svo virðist sem Hómer hafi ætlað höfuðið vera aðsetur raddarinnar, sbr. Il. XI 462. 83 atriði máls míns: þ.e. a. s. „meginatriði“. 85 en þeir sendi mér aftur hina fögru mey o.s. frv.: Hér hafa þeir, sem halda því fram, að IX. þáttur hafi frá upphafi staðið í Ilíonskviðu, gripið til þess ráðs að hafna 84.-86. ljóðl., því að Akkillesi höfðu þegar verið gerð þessi boð í IX 274. — Eigingirni Akkillesar er auðsæ og í samræmi við lýsinguna á honum annars. Frægð vinar hans á að fórna fyrir hans eigin. 88 hinn háþrumandi verr Heru: Auðvitað er átt við Seif, sem hafði eldinguna að vopni. 94 hinn fjarvirki Appollon: Hann var guð bogfimi og hæfði allt það, er hann skaut til. 100 svo að við einir fáum rofið hina helgu víggarða Trójuborgar, ofr oioi Troies híera kredemna lyómen: Til samanburðar má benda á Od. XIII 388 „þegar vér leystum hin glæsilegu skarbönd Trójuborgar“. — Orðið kredemna, „skarbönd“ eða „ennishlað“, er á báðum þessum stöðum notað til að tákna múrana umhverfis borgina. 102 En Ajant ... fyrir vopnaganginum: = XV 727. Ajant, sbr. aths. XV 289. Víkur nú sögunni að þeim atburðum, sem frá segir í lok þáttarins hér á undan. Eigi að síður er það óljóst, hvort Ajant er enn á skipi Prótesílásar. Í 106. ljóðl. er svo að sjá, að hann haldi á skildi í vinstri hendi, en í XV 676 „mundaði hann stórum vígás“ og virðist til þess hafa þurft báðar hendur. 106 á hinum fagurgjörvu hjálmskjöldum: Hjálmskildir (falara) þessir virðast annaðhvort hafa verið kinnbjargir á hjálminum eða bólur á honum til styrktar og skrauts. 107 hinum handbæra skildi, sakos aiolon: „hinum leiftrandi skildi“. 112 Segið mér nú, þér Sönggyðjur: Næsta vel við eigandi er það að hefja þenna úrslitaþátt kviðunnar, er ófarir Grikkja ná hámarki, með ávarpi til sönggyðjanna, sbr. XI 218 og II 484. 131—9 Fyrst lagði hann fagrar brynspengur um fótleggi sér o.s. frv.: Sbr. III 330 o. áfr., XI 17 o. áfr., XIX 369 o. áfr. — Hinir sex hlutar vopnabúnaðarins eru ávallt taldir í þessari röð, þ.e. a. s. í þeirri röð, sem menn mundu færa sig í þá, nema hvað vænta hefði mátt, að hjálmurinn hefði verið settur upp, áður en menn tóku sér skjöld í hönd. 134 hins fóthvata Ajaksniðja: þ.e. Akkillesar, því að Ajakus, konungur Egínuey, var afi hans, faðir Peleifs. 141—4 það var spjótið þunga og mikla ... köppum að bana = XIX 388—91. 143 Kírón frá Pelíonsfjalli: Hann var einn af Kentárum, sem voru að framan í mannsmynd, en búkurinn frá naflastað hestur. Spjót þetta hafði Kíron gefið Peleifi, föður Akkillesar, í brúðargjöf. Pelíonsfjall var á austurströnd Þessalíu. 150 sviptinornin, harpyía, Orðið mun upphaflega hafa táknað „vindhviða“. — Í Il. XX 223 á Norðri (norðanvindurinn) afkvæmi með dauðlegum hryssum. 151 fram með Ókeansstraumi: Það var hinn mikli straumur, sem umflaut jarðarkringluna. 153 Etjonsborg: þ.e. Þebu, sbr. VI 397, en sú borg, byggð Kilíkum, stóð á sléttu þeirri, sem borgin Adramyttium var síðar reist á, fyrir botni Adramyttenusflóa, þar sem Lesbey (Lesbos) liggur úti fyrir. 154 sá hestur var hestkynjaður, en gekk þó með hinum goðkynjuðu hestum, hos kai þnetos eón hepeþ' hippois aþanatoisín: „enda þótt sá hestur væri dauðlegur, gekk hann með hinum ódauðlegu hestum“. 160 af dökkri lind: Lýsingarorðið á að gefa hugmynd um, að lindin sé djúp, sbr. IX 14. 165 ens fóthvata Ajaksniðja: Sbr. aths. 134. 168 hafði komið með fimm tugi örskreiðra skipa: Sbr. skipatal, II 685. 173 hinn brynkviki, aioloþórex: „með hina leiftrandi brynju“. Þetta lo. kemur og fyrir í IV 489, og þýðir Svb. það eins þar. 174 Sperkíuss, hins himinrunna vatnsfalls: Fljót þetta rann um Hellashérað í Þessalíu út í Malíuflóa. Hárlokkur af Akkillesi var vígður því fljóti, XX 142. 144. — „Himinrunnið“, díïpetes, kallast í Hómerskviðum fljót þau, sem vaxa stórum í rigningum, sbr. XVII 263. 175 Polýdóru þessarar er annars ekki getið í kviðunum. 176 hinn sterka fljótsguð, Sperkheió akamantí: akamas, -antos [a- + kam-, kamnó] = óþreytandi, ( um fljót) sí-streymandi. 177 en í mæli var, epiklesín: Annars staðar hjá Hómer er komizt svo að orði í sambandi viðurnefni, sjá VII 138, XVIII 487, XXII 506. — Brögð sem þessi til að lagfæra ættfærslur eftir pólitískum hentugleikum eða ættardrambi eru algeng alls staðar, þar sem mikið veltur á ætterni. Um leið og kynkvísl vex upp úr „verndartákns- (tótem-) stiginu“, breytir hún venjulega sínu forna „verndartákni“ (tótem) í goðkynjaðan ættföður og tengir hann við ættartölu sína. 178 gaf henni ógrynni brúðgjafa: Það var forn siður að kaupa brúði með gjöfum af foreldrum, ef henni var þá ekki rænt, sbr. IX 146, XI 243 og XVIII 593. 181 Argusbani: þ.e. Hermes, sbr. aths. Od. X 302. 183 hinnar skarksamlegu Artemisar gullinsnældu, Artentidos khrýselakatú keladeines: Orðið, sem Svb. þýðir hér „skarksamleg“, er keladeinos, -e [kelados]. Notar Hómer það 1) sem einkunn með vindum, „blásandi“ (Il. XXIII 208 „hinn hvínandi Vestra“), 2) sem einkunn með Artemisi veiðigyðju, „sú, sem dynur fylgir“ (Il. XVI 183, XX 70, XXI 511). 187 Lausnargyðjan, Eileiþýa: Í flt. er orð þetta haft í Il. XI 270 og XIX 119, í eint. Il. XVI 187, XIX 103, Od. XIX 188. Fornmenn skýrðu orðið svo, að það þýddi „komendur“, þ.e. þær, sem koma á neyðarstund. Aðrir setja það í samband við elevþeros, og tákni það þá gyðjur þær, sem leysa eða frelsa frá sársauka. 191 en öldungurinn Fýlant upp ól hann: Ef til vill örlar hér á endurminningu um það tímabil í sögu hjúskaparins, er börnin töldust til fjölskyldu móðurinnar, en eigi föðurins. Fýlant var faðir Polýmelu, sbr. 181. 214 hinir bukluðu skildir, aspídes omfaloessai: Orðið „buklaður“ á að lýsa skildi, sem á er bukl eða bóla í miðju. („Bukl“ er komið af lat. buccula). 215—17 þar studdi skjöldur skjöld ... hverr hjá öðrum = Il. XIII 131—3, sbr. aths. þar. 231 Síðan gekk hann fram í miðjan búðargarðinn: Þar hefur staðið altari Seifs Herkeiosar ( þ.e. þess, sem heldur verndarhendi yfir húsagarðinum). 233 Seifur konungur (kvað hann), þú Dódónugoð o.s. frv.: Akkilles hefur það á tilfinningunni, að Seifur sé langt í burtu í hinni fornhelgu borg sinni, Dódónu í Epírus, þar sem feður hans hafa ákallað hann. Þessi ávörp eiga að sýna, að Akkilles þekkti hann vel og vilji vekja athygli hans á því. — Þess verður vart í Ilíonskviðu, að snemma hefur verið litið á Trójustríð sem atburð úr hinni ævafornu baráttu milli austurs og vestur, Aría og Semíta, (t. d. Il. XXI 88, XXII 48). En af hinum elztu sögnum virðist mega ráða, að foringjar Trójumanna hafi verið af sama kynþætti og Akkear. Enginn munur er á tungumáli. Mismunur á tungu er með Trójumönnum annars vegar og þeirra eigin bandamönnum hins vegar, (Il. II 867, IV 437). Trójumenn beita sömu bardagaaðferð sem Akkear. Þeir tigna sömu guði. Að sögn Hómers vinna Akkear eiða sína við þrenninguna Seif, Apollon og Aþenu. En svo kynlega víkur við, að þessi þrenning hlýtur upphaflega að hafa beitt sér fyrir málstað Trójumanna. Apollon berst með þeim, Seifur heldur löngum yfir þeim verndarhendi og frestar skapadægri þeirra. í þeirri mynd Ilíonskviðu, sem oss er kunn, berst Aþena að vísu með Akkeum, en samt biðja Trójumenn sérstaklega til hennar. Þeir telja hana öðrum goðum fremur verndara borgarinnar, alveg eins og hún var verndargoð borga með Grikkjum. Og það er ekki fyrr en Palladium eða mynd verndarguðsins Aþenu hefur verið stolið, að loks er unnt að vinna Trójuborg. Því má hér við bæta, að í leikriti Evrípídesar, sem „Trójukonur“ nefnist, eru svik Aþenu við sína eigin borg aðaluppistaða leiksins. — Seifur fluttist að vissu leyti frá einu fjalli til annars eins og menntagyðjurnar (musae). Þær höfðu upphaflega verið söngelskar lindardísir í Píeríu og á Ólympi, en fluttust síðar suður til Helíkons og Parnassuss, vafalaust í fylgd með dýrkendum sínum. Seifur sat á Ídafjalli fyrir utan Tróju, þegar Akkilles bað til hans sem Dódónugoðs. Hann var þangað kominn með þjóðflokki Frygverja, er hann tignuðu, fyrir löngu. En Seifur var guð Trójumanna og mátti því vissulega ekki bænheyra óvini þeirra. Þarna stendur þá Seifur á Ídafjalli andspænis Seifi í Dódónu. Kynþátturinn var þarna orðinn sjálfum sér sundurþykkur. — Véfrétt Seifs í Dódónu í Epírus var ævaforn, sbr. 11. II 750, hin elzta í Grikklandi, ef til vill frá frumbyggjum landsins. Samkvæmt Od. XIV 328 þóttust prestarnir nema raust Seifs í helgri eik eða eikum og síðar í e.k. málmskálum, sem vindurinn bærði. Sellar voru prestar Seifs í hofinu. Lifðu þeir nokkurs konar meinlætalífi, (sbr. orðin „með óþvegnum fótum og liggja á berri jörð“). 236—8 Eitt sinn heyrðir þú ... hermönnum Akkea = I 453—5. 261. ljóðl. sleppir Svb. að dæmi fornra skýrenda og gagnrýnenda: „sí-kveljandi þá í hreiðrum þeirra við veginn“, (og komi þessi orð í textann á eftir: „eftir venju sinni“). Aðra líkingu af geitungum er að finna í XII 168 o. áfr. 273—4 og svo hinn víðlendi Againemnon Atreilsson ... af Akkeum = I 411—12. — Eiga þessi orð miður vel heima hér, er Patróklus ætlar að fara að hjálpa Grikkjum, en á hinum upprunalega stað eru þau hótun. 278 Menöytsson, þ.e. Patróklus. 281 Peleifsson, þ.e. Akkilles. 286 hins hugstóra Prótesíláss: Sbr. aths. XV 715. 287—89 kom skotið á Pýrernekes, er komið hafði með hina hestfimu Peóna o.s. frv.: Þessar ljóðl. standa nokkurn veginn óbreyttar í II 848—50, nema hvað Peónar eru þar, eins og líka í X 428, kallaðir „bogsterkir“ („bogfimir“ X 428), en hér og í XXI 205 „hestfimir“. 288 Axíusfljót: Það var í Makedoníu, fellur um Vardardal. 299-300 sjást þá allir fjallatindar ... undir himinhvolfinu = VIII 557—8. 308 Areilýkusi: Annar maður með sama nafni er nefndur XIV 451. 311 Menelás hjó til Þóants: Þessum Þóant, Trójumanni, má eigi rugla saman við Þóant Andremonsson, etólsku hetjuna (II 635), né Þóant þann, er réð fyrir Lemney. 313 Amfíklus, Trójumaður. Fýleifssyni: þ.e. Meges, sbr. XIII 692. 317 Atymníus: Hann er annars ókunnur. Annar maður með því nafni er nefndur í V 581. 321 Þrasýmedes: Þeir Antílokkus og hann voru bræður, Nestorssynir. 326—9 Þannig féllu báðir ... meinvætt margra manna: Leaf heldur, að þessar ljóðl. séu innskot, bæði af því að Sarpedon muni upphaflega eigi hafa átt heima í kvæðinu um reiði Akkillesar, og eins séu hér ýmis óvenjul. orðatiltæki. Amísódars er ekki getið á hinum staðnum, sem snertir Kímeru (VI 179—83). Hefur hún auðsjáanlega verið villidýr, en eigi „upp alin“ af mennskum mönnum. 330 Ajant Öyleifsson: Sbr. aths. XIII 46. 332 með heiftisverði, xífei kópeentí: Sbr. hefti = handfang, skaft; heftisax (Grett. 153¹³. 333—4 en dökkrauður dauðinn ... augu mannsins: Sbr. V 82—3. 335 Penelás, foringi í liði Beóta, sbr. II 494, XIII 92, XIV 487 o.s. frv. 338 á bólu hins fexta hjálms: Bólu (falos, -ú) ætlar Leaf verið hafa málmnibbur á hjálminum, (sbr. III 362), er upphaflega hafi átt að tákna horn og eyru á haus villidýrs, (því að það er sumra manna mál, að hinn gríski hjálmur hafi upphaflega verið gerður með villidýrahausa sem fyrirmyndir). Voru málmnibbur þessar ýmislega lagaðar, stundum uppstæð bunga eða bryggja upp af enninu. 342 Meríónes, Mólusson, sem var, ásamt Idomeneifi, fyrirliði Kríteyinga. Akamanti, Antenorsson, sbr. XII 100, II 823. Annan Akamant, fyrirliða Þrakverja, hafði Ajant Telamonsson fellt, VI 7. 345 í munn Erýmanti: Annar Trójumaður með sama nafni er nefndur í 415. ljóðl. 343—4 í því hann ætlaði ... sé fyrir augu hans: Sbr. V 46—7. 358 Ajant hinn mikli: Þ.e. A. Telamonsson, sbr. t. d. V 610, IX 169. 364—71 Svo sem ský kemur frá Ólympi ... er hlupu svo frá kerrum eigendanna: Þenna kafla telur Leaf vera innskot, enda sé líkingin óljós. Flótti Hektors sé næsta einkennilegur eftir frammistöðu hans rétt á undan, sbr. 363. ljóðl. Víggarðinum um skipastöðina sé alveg gleymt og örðugt að sá, hvernig díkið verður fótgangandi mönnum að torfæru, þegar Hektor fer viðstöðulaust yfir það í vagni. Því er og gleymt, að Apollon var búinn að fylla upp díkið, sbr. XV 356. Allan þennan rugling telja fræðimenn stafa af því, að í hinu upphaflega kvæði um reiði Akkillesar hafi ekki verið getið um neinn víggarð umhverfis herbúðir Grikkja. 381. ljóðl. er felld niður í þýðingunni: „hinir ódauðlegu hestar, er guðirnir gáfu Peleifi sem dýrlegar gjafir“. (Þessi orð komi í textann á eftir: „og stukku bent yfir díkið“). 384 Svo sem öll jörðin flóir o.s. frv.: Eins og fjallalækir í vexti flæða með fossaföllum niður hlíðarnar, geysast hestar Trójumanna með miklum dyn víðs vegar um sléttuna. — Er þetta uppistaðan í samlíkingunni. 387—8 sem með ofríki dæma ranga dóma ... hegningu guðanna: Leaf telur þessum ljóðl. ofaukið. Raski þær jafnvægi líkingarinnar, dragi fram atriði, sem óviðkomandi sé þeirri mynd, er hér er verið að draga upp. Heldur hann því fram, að skáld, innblásið af stefnu Hesíodusar, hafi notað hér tækifærið til að flytja heilræði sín. 392 spillast þá akurlönd og andvirki manna, mínyþei de te erg' anþrópón: Orðið „andvirki“, sem víða kemur fyrir í fornu lagamáli, táknar alls konar manna verk í sambandi við búskap. Sómir það sér ágætavel hér í þýðingunni. 393 hinir tróversku hestar, hippoi Tróai: „hinar tróversku hryssur“. 401 Þestors Enopssonar: Sbr. XIV 444. 406 svo sem þá er maður situr á klapparnefi o. ., frv.: Fiskidrætti á öngul er ennþá nákvæmar lýst í líkingu í Od. XII 251—4, sbr. og Il. XXIV 80—2. Hetjur Hómers neyta ekki fisks nema í neyð, sbr. Od. IV 368—9. (Um fiskveiðar getur Od. X 124, XII 251, XXII 384, Il. XXIV 80). Einkunnin „helgur“ hefur hér verið skýrð á ýmsa lund. Ef til vill er sú skýring sennilegust, að fiskur hafi verið kallaður helgur, af því að hann lifir í sjó og vatni, sem mennskir menn fá ekki lifað í. 415 Erýmant: Annar maður með því nafni féll rétt áður, sbr. 345. ljóðl. 418 til jarðar, khþoní púlyboteire: „til hinnar margfrjóvu jarðar“. 419 Sarpedon, hinn mikli fyrirliði Lýkíumanna. Um afstöðu eftirfarandi kafla til sögunnar sjá inngang að þessum þætti. 428 Voru þeir sem tveir klóbjúgir, bjúgnefjaðir gammar, sbr. Od. XXII 302. 431 sonur hins brögðótta Kronusar. Þ.e. Seifur, sbr. J.G., bls. 98. 439 hin mikileyga, boópis [bo-, bós + ópa]: „kýreygð“. 441 sem er háður forlögunum, palai peprómenon aise: „sem er fyrir löngu fordæmdur af örlögunum“. 448 því margir synir ódauðlegra guða o.s. frv.: Að tali Ilíonskviðu sjálfrar geta þeir ekki talizt margir í bardögunum við Tróju. Það eru þeir Jalmenus, sonur Aresar, (II 512), Menesþíus Sperkíusson, Evdórus, sonur Hermesar, (XVI 174, 185), Akkilles og Eneas. 454 þá Bana og Blund, Þanaton te kai nedymon Hypnon: „þá Bana og hinn sæta Blund“. — Á fornum skrautkersmyndum eru þeir víða sýndir vera að flytja dauða hetju. 459 Hann lét drjúpa blóðuga dropa til jarðar: Sbr. XI 53, þar sem glöggt kemur og fram merking þessa fyrirboða sem tákn væntanlegra blóðsúthellinga. 478—80 lenti spjótsoddurinn ... Patrókluss ... til ónýtis úr hendi hans = V 16—18. 482—6 Þá féll Sarpedon sem eik fellur ... í blóðugri moldinni = XIII 389—93. 488 bröndóttan griðung mannýgan í nautaflokknum, táron ... aiþóna megaþymon en eilípodessí boessí: „bröndóttan griðung stórhugaðan meðal hinna drattandi nauta“. — Þýðing Sveinbjarnar er hér frábær, þótt hann hirði ekki um að þræða frumtextann orðrétt. 511 er Tevkrus særði hann: Sbr. XII 388. 514 Heyr, lávarður, klyþí, anax: Orðið „lávarður“ kemur allvíða fyrir í fornu máli og merkir þá „drottinn“, „herra“. 535 til Polýdamants Panþóussonar o.s. frv.: Allir eru þessir menn kunnir kappar í liði Trójumanna. 541 foringi hinna spjótfimu Lýkíumanna, Lykíón agos aspistaón: „foringi hinna skjaldbúnu Lýkíumanna“, enda þýðir Svb. svo í 593. ljóðl. 554 hinn hrausti kappi, Patróklus, Patrokleos lasíon ker: „Patróklus með hina loðnu bringu“, þ.e. „hraustur“. 567 en Seifur þandi voðalegt náttmyrkur yfir hina hörðu orustu: Eigi er vikið að þessu yfirnáttúrlega myrkri aftur, þótt það hafi hlotið að hafa einhver áhrif á úrslit orustunnar. 571 Epígeifur: Hann hefur verið, eins og t. d. Fenix og Patróklus, skjólstæðingur, sem hlýtur gegn þjónustu sinni vernd fyrir blóðhefndum. 578—80 klofnaði þá allt höfuðið ... sveif lífskæður dauði yfir hann allan = 412—14. 582 líkur snörum hauki: Sbr. XV 237. 589 Svo langt sem langspjót flýgur o.s. frv.: Um spjótkast sem lengdarmál sbr. XV 358—9. 595 í Hellulandi: Þ.e. Hellas í hinni fornu, þröngu merkingu: sbr. II 683, hluti af ríki Peleifs, í dal þeim, sem fljótið Sperkíus rennur um í Þessalíu. 603 Meriónes: Sbr. aths. 342. 604 Laógonus: Annar maður með sama nafni er nefndur XX 260. Seifs Ídafjallsguðs: Seifur sá, er Trójumenn tignuðu, átti heima á Ídafjalli við Tróju, sbr. aths. 233. 610 en Meriónes horfði í mót honum og vék sér undan eirspjótinu = XIII 184. 610—13 horfði í mót honum ... hinn sterki málmur magn sitt = XVII 526—9 613 = XIII 444. 614—15 (Þessum ljóðl. sleppir Svb. í þýðingunni, enda vantar þær í flest handrit) = XIII 504—5: „flaug bitvopn það, er Eneas hafði skotið, til ónýtis úr hans sterku hendi, og hljóp í jörð niður“. 617 Þó þú sért mikill lífkálfur, kai orkhesten per eonta: „Þó að þú sért liðugur dansmaður“. — Ef til vill felst í þessum skömmum bending um hinn krítverska uppruna mannsins, sem þeim er beint til, því að Krít var fræg fyrir hinn svo kallaða „sverðdans“. Hugsun um „sverðdans“ er einnig fólgin í orðum Hektors VII 241 (kann eg að stíga dans hins skæða Aresar), sbr. einnig XXIV 261 (lygarar og dansleikarar, frakkastir í því að stíga dans og hrifsa lömb og kiðlinga innan lands). 625 hinum hestfræga Hadesi: Sbr. V 654. Ef til vill táknar einkunnin „hestfrægur“ aðeins, að Hades konungur undirheima eigi góða hesta eins og jarðneskir konungar. En af því að þessi einkunn er eigi notuð um neinn annan guð, þá er sennilegt, að hún lýsi að einhverju leyti sambandi hestsins við undirheima, þó að í Hómerskviðum finnist að vísu enginn annar vottur um þá hugmynd. Í list Etrúska er dánarguðinn venjulega tengdur hestum, og í grískri þjóðtrú síðar hugsuðu menn sér dánarguðinn ríðandi. Í ráni Persefónu, undirheimadrottningar, er Hadesi svo lýst, að hann hafi komið þeysandi á fráum akjóum. Hefur sumum komið til hugar, að Grikkir hafi tekið þessar hugmyndir að erfðum frá þjóðflokkunum, sem þeir undirokuðu. 630 því hönd skal í róstu reyna, en ræðu á þingi, en gar khersí telos polemú, epeón d'ení búle: Þessi þýðing er með ágætum. Tekst Sveinbirni ævinlega upp í orðskviðum og spakmælum. 637 Þá er hvorirtveggju höfðu með sverðum o.s. frv. = XIV 26. 638 Nú mundi jafnvel kunnugur maður ekki framar þekkt geta hinn ágæta Sarpedon: „Nú mundi jafnvel kunnugur maður ekki framar hafa getað þekkt o.s. frv.“. 641 svo sem mýflugur á stöðli: Sbr. II 469 o. áfr. — Í XVII 570 er einnig góð líking af mýflugu. 689.—90. ljóðl. sleppir Svb., enda vantar þær í mörg handrit. Ljóðl. þessar standa í XVII 177—8, og þar þýðir Svb.: „Því hann skelfir jafnvel hugdjarfan mann, og í eitt skiptið tekur hann frá honum sigurinn, og veitir honum það hægt, en annað slagið hvetur hann manninn til að berjast“. (Komi þetta hér í textann á eftir orðunum: „en mannleg ráð“). 692 Hvern vóstu þar fyrstan og hvern síðastan = V 703. 694 Flestir þeirra Trójumanna, sem hér er getið, koma annars hvergi fyrir, (Perímus, Epistor og Elasus), annan Adrestus vegur Menelás (VI 37), einhver Átónóus var í her Akkea (sjá XI 301), einhver Ekeklus kemur fyrir í XX 474; Melanippus hétu allmargir (sjá XV 547), Múlíuss er getið meðal Trójumanna (sjá XX 472). 698—711 Þar hefðu synir Akkea ... við heiftarreiði hins langskeyta Appollons: Kafla þenna telja sumir gagnrýnendur (Lachmann) grunsamlegan, af því að árás á borgarvegginn sé tæplega í samræmi við hegðun Hektors í 713. 1jóðl. (Því hann var á tveim áttum, hvort hann skyldi hleypa aftur í mannþröngina og berjast þar). Ýmsar þessara ljóðl. koma og fyrir annars staðar, og einkum minnir þessi kafli á frásögnina í V 437—44, er Apollon hrindir Diómedesi aftur. 712 hjá Skehliðum: Þau vissu út að sléttunni, sem barist var á sjá III 145. 717 Asíusi, sem var móðurbróðir hins reiðfima Hektors: Má auðvitað ekki rugla honum saman við Asíus Hyrtaksson frá Arisbuborg, sbr. XIII 387. Samkvæmt þessu taldi Hómer Heköbu vera Dýmantsdóttur, höfðingja í Frygíu. 719 Sangarsstraumar: Fljót þetta í Frygíu féll út í Svartahaf, sbr. einnig III 187. 727 Kebríones: Sbr. VIII 318. Hann var bróðir Hektors og vagnstjóri hans, sjá 738. ljóðl. 765 Svo sem Austanvindur og Sunnanvindur o.s. frv.: Hjá Hómer kemur víða fram sú hugmynd, að stormur sé stríð milli vindanna. Hafa ýmis skáld stælt þetta síðan, (sbr. t. d. Verg. Aen. IV 441 og Aen. XI 446). 767 sambirkinn hagþorn, tanyfloion te kraneian: Orðið tanyfloion, sem Svb. þýðir „sambirkinn“ er venjulega skýrt [tanyó + floios] „með mjúkum berki“. — Þýðing Sveinbjarnar hér byggist sennilega á skilningi þeim, sem kemur fram hjá Voss í þýðingu hans, „zäh umwachsen“. Segja menn, að börkurinn af þessum runna, sem hér um ræðir, hangi saman, þegar hann er fleginn af, en hrökkvi ekki í sundur eins og t. d. börkur af eik og öðrum trjám. Af þeim rökum mun runnin þýðing Sveinbjarnar, „sambirkinn“. 776 hinn stórvaxni maður ... í rykmokknum = XVIII 26. 777 Meðan Helíus ók yfir mitt himinhvolfið: Sbr. VIII 67. 68. Hér er lýst hádegi þess dags, er hófst í XI 84. 779 en er Helíus sveif að akneytalausnum: Menn hugsuðu sér, að Helíus, sólguðinn, æki yfir himinhvolfið í vagni, sem fráum fákum væri beitt fyrir. Átti hann að sækja á brattann allt að hádegisstað, en síðan hallaði undan fæti. „Akneytalausnir“ eru hér eyktamark, sá tími dags, er akneyti voru leyst frá plógi, þ.e. a. s. kveld, sólsetur. Áður en sólarhringnum var skipt í klukkustundir voru ýmis slík eyktamörk, er miðuð voru við störf manna og athafnir. Eru þess merki víðar í Hómerskviðum, t. d. Il. XI 840 o. áfr., Od. XII 439. 795 pípuhjálmurinn, álópis tryfaleia: Svb. hefur aðhyllzt þá skýringu, að þetta væri hjálmur með pípu upp úr hvirflinum til að festa hjálmbustina í. Aðrir leggja þá merkingu í þetta, að hér hafi verið um hjálm að ræða, sem á voru „pípu-op“ fyrir augun, (álópis [álos + ópa]), þ.e. a. s., að á hjálminum hafi verið e. k. gríma með götum fyrir augun, sbr. V 182, XI 353, XIII 530. 800 Því þá átti Hektor skammt til bana síns: Refsingalaust mátti Hektor ekki bera herklæði þau, sem goðin höfðu smíðað, því að eigi var hann goðborinn. Sökum þess dynur á honum nemesis, refsidómur. Akkilles, sem vopnin átti, hann var goðborinn. 803 hinn fótsíði skjöldur, aspís ... termíoessa: Sennilega er termíoeis dregið af termis, sem talið er verið hafa e. k. brydding eða kögur. Orðið er notað um skjöld hér og um kyrtil, khítóna, Od. XIX 242. Hafi hér því verið að ráða um e. k. skraut á skildinum. Svb. fylgir hins vegar þeirri skýringu, að termíoeis sé dregið af terma (= endir) og þýði „sem nær allt til enda“, hér þá haft um skjöld, sem hylur allan manninn. 808 Evforbus Panþóusson: Sbr. III 145. Diog. Laert. 8, 1. 4 segir, að Pýþagoras hafi staðhæft, að hann væri þessi Evforbus endurborinn, og greina rómversk skáld einnig frá því, (Ovid. Met. XV 160, Hor. Carm. I. 18. 10). hann var allra manna fimastur við spjót, hos helikíen ekekasto / enkheï: „hann var allra manna fimastur við spjót sinna jafnaldra“. 841 brynstakkinn, khítóna: „kyrtilinn“. Að rífa í sundur kyrtilinn var síðasta svívirða, sem unnin var á föllnum óvini, og sýndi, að hann hafði þegar verið sviptur herklæðum, sbr. II 416. — Orðið „brynstakkur“ er fornt og þýðir „stutt brynja“. 854 Akkilli Ajaksniðja: Sbr. aths. 134. SEYTJÁNDI ÞÁTTUR Einn gagnrýnandi hefur gert sér lítið fyrir og neitað með öllu, að XVII. þátturinn geti verið eftir frumhöfund Ilíonskviðu. Reisir hann þessa staðhæfingu á þeirri forsendu, að í upphafi I. þáttar standi: „... en lét sjálfa þá verða hundum og alls konar hræfuglum að herfangi“. Komi það því í bága við þessi ummæli í upphafi kviðunnar, að barizt sé um lík og þeim forðað. Auðvitað á jafneinstrengingsleg túlkun á skáldskap engan rétt á sér. Er sönnu nær, að þátturinn sómi sér í heild vel í efnisskipun kviðunnar, einkum fyrri hluti hans, sem lýkur með 365. ljóðl. (eða öllu heldur með hinni 361.). Þess ber aðeins að minnast, sem sagt var í inngangi að XVI. þætti, að líklega er sú frásögn síðari viðbót, sem greinir frá því, að Apollon hafi afvopnað Patróklus. Herklæðin virðast vera á líkinu, unz Hektor nær þeim, en síðan geisar bardaginn um líkið nakið. Í athugasemdum með þættinum hér á undan (XVI. þætti) var drepið á, að vopnaskipti þeirra Akkillesar og Patróklusar mundu eigi hafa staðið í kviðunni í upphafi. Hér veldur þessi sama hugmynd einmitt slæmum ruglingi, eins og sýnt er með aths. við 186. ljóðl. Í síðari hluta þáttarins þykir frásögnin eigi alls staðar fullljós. Greinir þar og frá hetjum, sem ýmsir gagnrýnendur telja, að eigi hafi í upphafi átt heima í kviðunni, t. d. Idomeneifi, Fenix og Glákusi. Af þeim sökum hugsar Leaf sér, að upphaflega hafi frásögninni af bardaganum um lík Patróklusar lokið með 365. ljóðl., og síðan hafi skáldið brugðið upp nýju sjónarsviði, herbúðunum, í XVIII. þætti. Nauðsynlegt er það ekki, að vér fáum að vita, hvers vegna Antílokkus flytur Akkillesi fregnina af falli Patróklusar, og hvernig takast má að bjarga líkinu, kemur nægilega skýrt fram í XVIII 148 o. áfr. sem árangur af hinu örugga viðnámi Grikkja í XVII 356-65. Lítur Leaf því svo á, að allur síðasti hluti þessa þáttar, frá 543. ljóðl., sé ein af síðari viðbótum í Ilíonskviðu, sennilega eftir sama höfund, sem orti um afreksverk Idomeneifs í XIII. þætti. 5 svo sem kvíga að fyrsta kálfi: Á eftir þessum orðum hefur Svb. fellt niður orðið kínyre, „baulandi aumkvunarlega“. — Með líkingunni á að leiða í ljós, hve annt Menelás lætur sér um að vernda líkið. Var það og skylt að verja lík fallins félaga til að koma í veg fyrir, að óvinirnir flyttu það brott og flettu það vopnum, sbr. t. d. V 299, XIV 477. 9 Panþóusson: þ.e. Evforbus, sbr. XVI 608, XV 522 og aths. þar, einnig aths. XVI 808. 13 og lát mig ná hinum blóðstokknu vopnum: Af þessum orðum er auðsætt, að vopnin eru enn á líkinu, sbr. inng. að þessum þætti og hinum XVI., um að Apollon afvopni Patróklus. 19 Faðir Seifur o.s. frv.: Menelás vill sýna E. fyrirlitningu með því að beina orðum sínum ekki til hans, heldur til þriðja aðila (Seifs). 23 Panþóussonum: Þeir voru Evforbus, Hýperenor og Polýdamant. Báru þeir allir af fyrir hreystilega framgöngu. spjótfimu: Það er hér þýðing á eýmmeliai, „með hin góðu eskiviðarspjót“. Er Príamusi annars gefin sú einkunn, (IV 47, 165, VI 449; Od. III 400 um Písistratus). 24 Þó varð ekki ... Hýperenori langgæður æskualdurinn: Í XIV 516 getur þess lauslega, að Menelás hafi vegið Hýperenor, sbr. aths. þar. 32 Gáir heimskur að því, sem gjört er: Heimskinginn skynjar tjónið þá fyrst, er hann hefur beðið það. Vitur maður sér það fyrir og forðar sér. 36 í hinu nýbyggða herbergi sínu: Víðar í kviðunum verður vart við þá hugmynd, að synir flytji konur sínar heim til foreldra sinna og reisi sér þar herbergi. Eftir því, sem fjölskyldan stækkar, var nýjum herbergjum (þalamoi) bætt við, en eigi reist ný hús, að minnsta kosti á meðan sameiginlegur forfaðir (ættarhöfðingi) var á lífi, sbr. VI 242-50. 51 Þokkagyðjanna: Sbr. J.G., bls. 158. 52 hárflétturnar, er reyrðar voru gulli og silfri: Hárið hefur verið snúið í lokka með smávefjum (spirals) úr gulli og silfri. Hafa slík áhöld fundizt hjá hauskúpum í gröfum í Etrúríu, Grikklandi og Hissarlik (Tróju). Er þessi venja því mjög forn og útbreidd, sbr. einnig II 872 og Verg. Aen. IV 138 crines nodantur in aurum. 53 Svo sem vöxtulegur viðsmjörsviðarkvistur o.s. frv.: Venjulega líkir Hómer hetjunum við eikur, sbr. XII 132, XIII 389. 54 á afviknum stað: Sbr. XIII 473. Á slíkum stað var tréð öruggt fyrir ágangi skepna og manna og náði skjótt öruggum þroska. Sama hugsun kemur fram í þessum fögru ljóðl. hjá Catull. LXII 39 /# ut flos in saeptis secretus nascitur hortis ignotus pecori, nullo convulsus aratro, quem mulcent aurae, firmat sol, educat imber. #/ 59 hinn spjótfimi Evforbus, eýmmelíen Erforbon: „E. með hið góða eskiviðarspjót“, sbr. aths. 23. 61 Svo sem fjallaljón o.s. frv.: Sbr. XII 299, Od. VI 130. 63-64 leggur að honum ... og öll innýflin = XI 175-6. 73 tók á sig líki Mentesar, Kíkóna foringja: Í skipatali, II 846, er Evfemus talinn vera fyrirliði Kíkóna, (sem voru þrakneskur þjóðflokkur og áttu heima undir Ismarusfjalli. Borg þeirra, Ismarus, lagði Odysseifur í eyði, sbr. Od. IX 39). 76-78 hestar hins herkæna Ajaksniðja ... af ódauðlegri móður: Sbr. X 498. 82 Að því mæltu ... menn voru að berjast = XIII 239. 83 En megn harmur fyllti hjartafylgsni Hektors: Sbr. VIII 124. Eiginlega stendur í frumtextanum „hið koldimma hjartafylgsni“, sbr. og þýðingu Sveinbjarnar I 103 „hans koldimma hjartafylgsni fylltist miklum móði“. 89 Atreifsson: þ.e. Menelás. 94-105 Ræða þessi er samin í ákveðnu formi, sem endurtekið er nákvæmlega í XXI 552-70 og XXII 98-130, í styttri mynd XI 404-10. Fyrst er um tvo vonlausa möguleika að ræða, sem byrja á „ef eg ... En ef eg“, og báðum síðan hafnað í 97. ljóðl.: „En hví velki eg þetta í huga mér?“ Loks er ákvörðun tekin með orðum, sem lýsa örvinglun. 96 hinn hjálmkviki Hektor, koryþaialos Hektór: „hinn hjálmblikandi H.“. 102 hinn rómsterki Ajant: Ajant Telamonsson. 106-7 Meðan hann velkti þessu ... var Hektor fyrir þeim = XI 411-12. 108 Hörfaði Menelás þá á bak aftur frá líkinu: Sbr. XI 461. 109 svo sem kamploðið ljón: Sbr. XI 547, XVIII 318. 114 En er hann kom í flokk félaga sinna ... og stóð svo: XI 595. 117 þar sem hann var að hughreysta ... til að berjast = XIII 767. 122 beran náinn, því hinn hjálmkviki Hektor hefir náð vopnunum = XVII 693, XVIII 21. Um „hjálmkvikur“ sbr. aths. 96. Gera verður ráð fyrir, að Menelás gangi að því vísu, að Hektor hafi náð vopnunum, er hann (Menelás) hörfaði. 125 Hektor hafði þá flett Patróklus vopnunum góðu: Af þessu er ljóst, að Patróklus hafði ekki verið flettur vopnum áður. 128 hann hafði skjöld, sem turn væri: Á tveim stöðum öðrum er þessi líking endurtekin um skjöld Ajants, VII 219 og XI 485. Er svo sagt, að hann hafi gerður verið úr sjöfaldri uxahúð og yzt auk þess lag úr málmi. Aðrir skildir voru ferfaldir, t. d. skjöldur Tevkrusar (XV 479) og Akkillesar fimmfaldur XVIII 481). 140 Glákus Hippolokkusson: Sbr. VI 144 o.s. frv. 164-5 Því nú er drepinn ... návíga hersveina: Sbr. XVI 271-2. 169 hinn hjálmkviki Hektor: Sbr. aths. 96. 173 en þykir mér ekki koma til vitsmuna þinna, er þú mælir slíkt = XIV 95. 176-8 en vilji Seifs ... manninn til að berjast: Sbr. XVI 688-90. 186 meðan eg fer í hin fögru vopn hins ágæta Akkils: Það er ekki fyrr en hér, að vér rekumst í þessum þætti á þá hugmynd, að Patróklus hafi verið í herklæðum Akkils, og er hér ýmislegt athugavert. Í fyrsta lagi það, að Hektor skuli, rétt á eftir áskorun til Glákusar um að vera við hlið honum og horfa á, hverfa skyndilega af vígvellinum. Engin nánari skýring er heldur gefin á því, að honum skuli allt í einu detta í hug að fara í herklæðin, er hann er þó nýbúinn að senda herfangið af Patróklusi til borgarinnar. Eigi virðast Grikkir gefa þessum herklæðaskiptum neinn gaum. Hinn mikli styrkur, sem Hektori veitist frá guðunum, kemur honum heldur ekki að miklu haldi, því að eigi tekst honum að ná líkinu. Hann veitir Grikkjum aðeins eftirför. Leaf hyggur því hér vera um innskot að ræða eftir höfund Vopnsmíðarþáttar. Hugsar hann sér, að upphaflega hafi 229. ljóðl. verið framhald af 185. ljóðl. 195 þau er uppheimsguðirnir höfðu gefið syni hans: Herklæði þessi hafði Peleifur fengið í brúðargjöf, (sbr. XVIII 851 eins og hestana og spjótið, sbr. XVI 143). 205 tókzt vopnin af höfði hans og herðum: Þetta er greinileg mótsögn við kaflann í lok XVI. þáttar, þar sem segir, að Apollon taki herklæðin af Patróklusi. 209 Svo mælti Kronusson og hneigði hinum dökku brúnum sínum = I 528. 216-18 til Mesþless ... Ennómuss: Nöfn þessi eru flest tekin úr skipatali II 840-64. 220 Ekki kvaddi eg upp sérhvern mann úr borgum yðar o.s. frv.: Hugsunin, sem í þessum orðum felst, virðist vera svona: Eigi kvaddi eg yður hingað til að auka á fjölmennið, því að af því hefi eg nóg, heldur til að fá hrausta hermenn. 250 er drekkið almannavín: Sbr. IV 259, II 404, IV 343. Konungurinn þiggur gjafir af lýðnum og í staðinn veitir hann höfðingjunum af gnægð sinni, sbr. einnig IX 73, I 231. 258-9 Eftir hann komu þeir Idomeneifur ... hinum mannskæða Vígaguði = VII 165-6. 263-5 Svo sem stórsjór ... gýs upp á landið: Fornir höfundar geta ekki nógsamlega rómað fegurð þessarar líkingar, (sbr. Dionys. Halicarn. de compos. verb. XV 110 og Aristotel. de art. poet. C. 22). Láta þeir þess getið, að Sólon og Platon hafi brennt kvæði sín, af því að þeir hafi örvænt um að geta ort neitt, er jafnaðist á við hljóðlíkingu og hrynjandi þessara þriggja ljóðlína. 264-5 og yztu strendur endurkveða, þegar sjórinn gýs upp á landið, amfí de t' akrai / eïonos booósín erevgomenes halos exó: „og höfðar strandarinnar bergmála sinn hvorum megin, er saltur særinn drynur úti fyrir“. 268-73 en Kronusson ... honum til návarnar: Leaf telur þessar línur innskot. Afskipti Seifs hér séu algerlega misheppnuð, því að skýinu, sem hann hylur þá í og á að koma Akkeum í hag; biðja þeir sjálfir um að verði aflétt, (sjá 645-7). Satt að segja má gera ráð fyrir, að skýið, sem Ajant biður þar um að verði aflétt, hafi verið alveg eðlilegt fyrirbæri: hefur stafað af þéttum rykmekki, sem þyrlazt hefur upp á þurri sléttunni í bardaganum. 279-80 Ajant ... hinum ágæta Peleifssyni = Od. Xl 550-1. 281 mikill sem villigöltur: Sbr. IV 253, XVII 21. 288 Hinn frægi Hippoþóus: Sjá 217. ljóðl., II 840. 291-2 gerði hann það Hektori ... hefðu fegnir viljað það = XV 449-50. 301 frá hinni landfrjóvu Larissu: Sbr. II 841. Larissa var ævaforn borg Pelasga í frjósömu héraði í Þessalíu, Tempedal, sem Peneusfljót rennur eftir. 302-3 og galt ekki ... hins hugstóra Ajants = IV 478-9. 306 Skedíus: Um hann sjá II 517-18 ásamt aths. via XV 515. 307 Panópsborg: Hún var ein hinna elztu borga í Fókverjalandi í Mið-Grikklandi, sbr. Od. XI 581. 312 Forkunns Fenópssonar: Hans var getið sem fyrirliða Frýga í 218. ljóðl., sbr. II 862. 314-15 rauf vopnið brynju boðanginn ... með lúku sinni = XIII 507-5. 316-17 Þá hörfuðu undan ... er fallið höfðu = IV 505-6. 319-20 Nú mundu Trójumenn ... inn í Ilíonsborg = VI 73-4. 324 hjá föður hans, para patri geronti: „hjá, öldungnum föður hans“. Perífant þessi var Trójumaður, og má ekki rugla honum saman við Perífant hinn etólska, sbr. V 842. 344 Leókrítuss Arisbantssonar: Hans er aðeins getið hér. Hefur hann sennilega verið kappi frá Beótalandi, því að Lýkomedes Kreonsson Beóti, sbr. IX 84, XIX 80. 348 Apísaón; Annar maður með sama nafni er nefndur í XI 578. 350 Peónalandi: Það var í Þrakíu norðanverðri, milli fljótanna Axíuss og Strýmons, heimkynni Peóna, sbr. II 848. Fyrirliði þeirra, Asteropeus, var einn hinn hraustasti af bandamönnum Trójumanna, sbr. 216. ljóðl. og XII 102 o. áfr. 378 Þrasýmedes og Antílokkus: Þeir voru synir Nestors. Verður vart séð, hvers vegna þeirra er hér getið, nema ef vera skyldi undirbúningur undir það, sem seinna gerist í 679. ljóðl. 382 Ekki er þessarar skipunar Nestors sérstaklega getið, sbr. samt XV 659, IV 300. 392 gengur feitin inn í húðina og mýkist hún skjótt, afar de te íkmas ebe, dynei de t' aloife: „rakinn fer strax út úr henni, en feitin gengur inn í hana“. — Er í líkingu þessari fólgin lýsing á frumstæðri aðferð við verkun á húðum. Húðin var mökuð í feiti og síðan teygð. Lá sú hugmynd til grundvallar, að rakinn í húðinni mundi þá fara út um svitaholurnar, en feitin ganga fljótt inn. 398 Aresi og Aþenu: Bæði voru þau orustuguðir. Sennilega eru þau nefnd hér saman, af því að Ares veitt Trójumönnum, en Aþena Grikkjum, og mundu þau bæði hafa verið ánægð með frammistöðu sinna manna. 408 þá hún talaði við hann í einrúmi: Akkilles átti ævinlega tal við móður sína í einrómi, af því að hún var gyðja, sbr. I 349. Um aðvaranir frá Þetisi sbr. IX 410, XVIII 9 o. áfr. En þeirrar hugmyndar, að Akkilles standi í stöðugu sambandi við hana og fái frá henni spádóma, verður aðeins vart hér. 426 Hestar Ajaksniðja: þ.e. hestar Akkils. Patróklus hafði stigið úr vagninum í XVI 733. En gera verður ráð fyrir, að hestunum hafi verið haldið skammt frá honum í bardaganum. Er Patróklus féll, elti Hektor þá (XVI 864—7, XVII 75—7). Þessa lýsingu á harmi hestanna, Bleiks og Skjóna (XVI 149), stældi Virgill Aen. II 89. Hómer leggur bæði lifandi hlutum og dauðum mannlegar tilfinningar í brjóst, sbr. t. d. það, sem hann segir um örvar, „og langaði ólmt til að fljúga fram í flokkinn“ (IV 126) eða um spjót, sem „langaði til að seðja sig á holdi“ Ajants (XI 574). Eigi er því að furða, þó að hann geti látið þessa hesta, sem voru ódauðlegrar ættar, gráta af hryggð. Seinna lætur hann annan þeirra mæla á máli manna, sjá XIX 404. 429 Átómedon: Hann var vagnstjóri Patrókluss. 432 til hins víða Hellusunds: Hér mun átt við hafið úti fyrir hinu eiginlega Hellusundi (Hellespont), sbr. VII 86. 434 sem stöðugur bautasteinn: Sbr. XI 371, XVI 457. 440 (hið þykka fax), er smeygzt hafði út úr okhringnum báðum megin oksins, (varð moldugt), tsevgles exerípúsa para tsygon amfoteróþen: „er féll undan okþófanum við okið báðum megin“ = XIX 406, sbr. XXIII 283—4 (um sömu hestana). Nú mun álitið, að tsevgle hafi verið þófi á okinu til að koma í veg fyrir, að hestarnir meiddust undan því á hálsinum. 446 Því ekkert er aumara en maðurinn o.s. frv.: Í þessi orð hafa fornir höfundar oft vitnað, sbr. einnig svipuð ummæli í Od. XVIII 130. 454—5 til að vega vígin ... rökkur yfir kemur = XI 193—4. Ljóðlínur þessar eru í nokkurri mótsögn við XVIII. þáttinn, því að Trójumenn komast raunar hvorki að skipunum né víggarðinum, heldur eru þeir stöðvaðir lengra í burtu. 460 sem gammur í gæsadun: Orðið „dunn“ (kk.) er fornt og merkir „hóp“, „flokk“, (sbr. t. d. þá er vargr kemr í sauða dun Svarfd. 23). 464 á hinni veglegu kerru, hieró ení dífró: „á hinni helgu kerru“. Sennilega er kerran kölluð helg, af því að ódauðlegum hestum er beitt fyrir hana. 467 Alkímedon: Hann var einn af fyrirliðum Mýrmídóna, sbr. XVI 197. 491 Ankísesson: þ.e. Eneas. 493 Á eftir orðunum „með þurra og harða nautsleðursskjöldu á baki sér“ hefur Svb. fellt niður í þýðingu: polys d' epelelato khalkos, „og voru þeir slegnir miklum eiri“. 499 hans innsta hjartans grunn, frenas ... melainas: „hans koldimma hjartafylgsni“, sbr. I 103. 502 heldur svo nærri, að þeir blési á herðar mér: Sbr. XIII 385. 516—17 Að svo mæltu, ... á hinn kringlótta skjöld = III 355—6. 517—18 = V 538—9. 520 Svo sem útigangsnaut o.s. frv.: Til samanburðar má benda á slátrun nauts til fórnfæringar í Od. III 442-54. Hér virðist fyrst greitt högg fyrir aftan hornin, og síðan er nautið skorið á háls. Í öðrum lýsingum svipuðum er aðeins hálsskurðarins getið, sennilega af því að hann einn hefur verið mikilvægur í helgisiðum þeim, sem fylgt var við fórnfæringu, (sbr. I 459, II 422). Þegar um naut var að ræða, hafa þau verið hægari viðfangs, er þeim hafði verið greitt rothögg, áður en þau voru skorin. 526—9 sá í mót ... hinn sterki málmur magn sitt = XVI 610—13. 530 Og nú hefðu þeir ... með sverðum = VII 273. 545 því nú hafði honum snúizt hugur: Seifi hafði að vísu ekki snúizt hugur að því leyti, að hann vildi svipta Trójumenn sigri þennan dag, heldur á þetta við hitt, að Aþenu er leyft að koma og hvetja Grikki, því að áður hafði Seifur bannað guðunum að taka þátt í bardögunum, sbr. VIII 10 o. áfr., XV 720 o. áfr. 547 Svo sem Seifur spennir purpuralegan regnboga o.s. frv.: Einkennilegt er, að regnboginn skuli hafa verið talinn forboði ills. Sennilega stafar þetta af því, að í suðlægum löndum samsvarar regntíminn vetri í hinum norðlægari. 555 Fenix: Sbr. IX 448, XVI 196. 585. ljóðl. sleppir Svb., enda er hún ekki í beztu handritum: „Í líki hans talaði hinn fjarvirki Apollon til Hektors“. 591 svart harmaský: Sbr. VIII 124, X1 250. 593 hinn skúfaða, ljómandi ægisskjöld: Sbr. aths. XV 229, sjá einnig II 447, IV 167, V 738. 597 Penelás: Sbr. II 494. 639 að vér munum staðizt fá ... hjá hinum svörtu skipum = IX 235. 644 því bæði vér sjálfir og svo kerrurnar eru huldar í myrkva: Eins og áður er tekið fram í aths. við 269. ljóðl., er óþarfi að gera hér ráð fyrir yfirnáttúrlegum myrkva. Muni hér aðeins verið hafa að ræða um hið mikla rykský, sem þyrlaðist upp í bardaganum á þurri sléttunni. 657 Hann gekk af stað sem ljón frá fjárhúsi o.s. frv.: Sbr. XI 541—56, þar sem sömu líkingu er að finna, að undanskilinni 658. ljóðl., („þegar það er orðið þreytt af að glettast við hunda og menn“). 659—64 og vilji ekki lofa ljóninu ... í sárum hug um dægramótin = XI 550—5. 696 fylltust tárum ... rómfulla rödd hans = XXIII 397. 700 Á eftir orðunum: „Hljóp ... sem fætur toguðu“, hefur fallið brott orðið „grátandi“. 730—31 svo sóktu Trójumenn ... tvíyddum spjótum = XV 277—8. 737 líkt sem eldur o.s. frv.: Svipaða líkingu er að finna í XIV 396, XX 490. 742 En hinir voru sem múlasnar o.s. frv.: Með líkingunni á að túlka þolgæði Akkea og þrautseigju, sbr. X 352, XXIII 654. 747 svo sem skógivaxið holt o.s. frv.: Myndin, sem fyrir skáldinu vakir, er auðsjáanlega hæð, sem bægir vatnagangi frá þorpi eða ökrum í stórrigningum. ÁTJÁNDI ÞÁTTUR Í inngangsorðum og athugasemdum við XVI. og XVII. þátt hefur verið vikið að skoðunum gagnrýnenda á Vopnsmíðarþætti og herklæðaskiptum þeirra og Patróklusar: Hugmyndin um herklæðaskiptin sé sprottin af því, að skapa hafi þurft rúm í kviðunni fyrir Vopnsmíðarþátt og tengja hann við atburðarrás hennar. Þó nokkur röskun kunni að hafa hlotizt af þessu, er ávinningurinn auðsær, því að öll lýsingin á vopnasmíðinni er með fegurstu köflum kviðunnar. Kjarni þessa kafla er fólginn í frásögninni frá 369. ljóðl. til loka þáttarins og má heita samstæð heild. Hafa þar aðeins tvö atriði valdið nokkrum efasemdum: hluti af ræðu Þetisar, 429.—461. ljóðl., og lýsingarnar, sem snerta Krít, 590-605. Höfundur Vopnsmíðarþáttar mun og ort hafa: 1) um heimsókn Þetisar til Akkillesar, 35.—147. ljóðl., 2) um atburðina við díkið ásamt heimsókn Írisar, 165.—231. ljóðl. Úr frumkviðunni um reiði Akkillesar mundi þá vera: 1) Akkillesi flutt fregnin um víg Patróklusar, 1.—34. ljóðl., 2) viðureignin út af líki Patróklusar, 149.—164. ljóðl., 231.—42. ljóðl., 3) ráðstefna Trójumanna og harmagrátur yfir Patróklusi, 243.—353. ljóðl. Atburðir þeir, sem lýst er í þessum þætti, gerast á 26. degi frásagnarinnar allt að 238. ljóðl., og með 239. ljóðl. hefst 27. dagurinn. Með 238. ljóðl. lýkur viðureigninni um lík Patróklusar og þar með einnig þriðju orustunni, sem hófst í XI. þætti. 1 Þannig börðust þeir, sem eldur brynni = XI 596. Er þessari ljóðl. sennilega skotið inn hér sem upphafi að nýjum þætti. Hún kemur einnig fyrir í XIII 673 og XVII 366. 3 hin stafnhávu skip, neón orþokrairaón: „skipin með hin uppstæðu horn“. Orðið orþokrairos, -e [orþos + kraira = keras] er 1) einkunn með nautum; sem hafa uppstæð horn, (VIII 231 beinhyrndra uxa, XVIII 573 háhyrndra nauta, Od. XII 348 rétthyrndu nauta); 2) einkunn með skipum. Stafar það af því, að hin elztu skip Grikkja enduðu bæði í skut og stafni í hávum trjónum til skrauts (aflaston, korymbon). Séð frá hlið, minna þau, eftir myndum að dæma, á tunglið, er líður að síðasta kvartili þess. Verður þá ljós þýðingin „stafnhár“ hér og XIX 344. 5 mælti hann ... hugstóru sál = XI 403, og alls kemur þessi ljóðl. 7 sinnum fyrir í Il. og 4 sinnum í Od., (í öll skiptin í Od. V: V 298, 355, 407, 464). 6 hinir hárprúðu Akkear, kare komoóntes / Akhaioi: Á það hefur verið bent, að þessi einkunn, „hárprúðir“ eða öllu heldur „sem láta hárið á höfðinu verða sítt“, kunni ef til vill að vera sprottin af þeirri hugmynd, að Akkear hafi strengt þess heit — slíkt heit nefnist á tungu Hómers hyposkesis (II 349) — að vinna Tróju. Með heitstrengingu þessari hafi þeir jafnframt skuldbundið sig til að telja sér óheimila ýmsa tiltekna hluti, unz þeir hefðu unnið Tróju. Að þeir skera hvorki hár sitt né kemba, mundi þá aðeins vera hið sýnilega tákn þess „bindindis“, sem þeir hafa sett sér, unz takmarkinu er náð, er heitstrengingin fól í sér. Eitt af því, sem þeir hafa samkvæmt heitstrengingu sinni talið sér óheimilt, mun hafa verið að samrekkja konum. Í fljótu bragði virðast aðstæður þær, sem frá er greint í I. þætti Ilíonskviðu, vera í mótsögn við þessa ætlun, einkennilegt mætti þykja, að menn, sem unnið hefðu slíkt heit, skyldu deila um kvenfanga. En það verður ekki einkennilegt nema af því, að vér hugsum oss umsátina um Tróju standa um langan tíma. Sannleikurinn er sá, að þá gerðu Grikkir sér nokkra von um að geta unnið Trójuborg einmitt þann dag, (II 29, 66, 413), og þá mundu þeir hafa leystir orðið frá heitinu. Ekkert er að athuga við ummæli Agamemnons í þessu sambandi (I 31 og I 113). Hann tengir ást sína til Brísesdóttur við heimili sitt og heimkomu. Að vísu virða þeir Akkilles og Patróklus ekki þetta heit í IX. þætti, en það stafar af því, að þeir hafa skorizt úr leik og telja sig því lausa allra mála (sbr. IX 665 o. áfr.). Af sérstökum ástæðum rýfur Akkilles í XXIII 144 það heit að skera ekki hár sitt. Skýrir þetta ef til vill brot hans á hinu heitinu í XXIV 676. Hins vegar virðist Agamemnon hafa haldið það (IX 133, 275). Nestor þarf eigi að virða það fyrir aldurs sakir, og þjónar honum þerna ein, Hekameda (XI 624). Yfirleitt verður ekki vart mikils áhuga fyrir konum og kvenlegu eðli í lýsingum Ilíonskviðu. Er eigi fjarri lagi að ætla, að slíkt stafi upphaflega af hinu helga heiti, sem karlar unnu, áður en þeir fóru í herför. Síðar, er hinar trúarlegu orsakir, sem heitið var sprottið af, voru gleymdar, varðveittist í hetjuljóðunum samt andrúmsloft, lítt mengað kvenlegum blæ og munarmálum, eins og skáldin hafi haft það á tilfinningunni, að slíkt ætti ekki við í háleitri frásögn af hernaði. Meðal aflvaka Ilíonskviðu er því engin Brynhildur, aðeins Patróklus. Ást á vini og samherja var hin eina ást, sem var nógu heið og hrein til að vera samboðin frásögnunum af hinum miklu hetjudáðum. Að vísu glæðist nokkuð áhugi skáldsins fyrir konum, er það lýsir háttum og högum Trójumanna. Ber þá fyrst og fremst að geta Helenu og Andrómökku. Tróverjar voru ekki bundnir neinu slíku heiti sem Akkear. Þeir létu sér eigi vaxa sítt hár. Það er því í tróversku andrúmslofti, á næstu grösum við hina frægu lýsingu á skilnaði þeirra Hektors og Andrómökku, að minnzt er hinnar einu ástar í meinum, sem greint er frá í Ilíonskviðu, ástar Anteu á Bellerófontesi. Verður þó eigi sagt, að skáldið fjölyrði um það mál. Allt þetta efni, einmitt af því tagi, sem orðið hefur hin frjósamasta uppspretta í skáldskap síðari tíma, kemst fyrir í 6 ljóðl. í Ilionskviðu, og er það næsta lítið brot af rúml. 15 þúsund ljóðl. kviðunnar, (VI 160—65). Annars sýna lýsingarnar á hinum tróverskum hefðarkonum og margir fallegir kaflar í Odysseifskviðu, að hetjuljóðaskáldin gátu ort um konur, ef þau vildu. Um hinar tróversku konur er annars vert að taka fram tvö atriði. 1) Þótt myndir þeirra séu frábærlega vel gerðar, er enginn ástaráhugi við þær tengdur. Allt það efni er jafnan látið ósnert. 2) Allar hinar beztu kvenlýsingar koma fyrir í þeim hlutum Ilíonskviðu, sem gagnrýnendur hafa að jafnaði talið til yngstu kafla kviðunnar. Gætir þar og meir anda harmleika. Fyrir skáld, sem bjó yfir vaknandi skilningi á leikrænni meðferð og skoðun viðfangsefna sinna, hlaut aðstaða kvenna í umsetinni borg að vera næsta lokkandi yrkisefni. Hefur slíku skáldi þótt borga sig að hætta sér á yztu þröm hins hefðbundna söguljóðastíls til að geta gert því efni nokkur skil. Andrómakka, hin trúfasta og göfuga eiginkona hins mikla andstæðings Grikkja, er persóna, sköpuð fyrir harmleiki. 10—11 að einhver hraustasti maður af Myrmídónum o.s. frv.: Patróklus telst auðvitað til Myrmídóna, af því að hann var höfðingi í liði þeirra. Sjálfur var hann frá Opuntsborg í Lokralandi. — Við þessar ljóðl. má bera saman XIX 328, XVII 410, og er hér auðsæ mótsögn við hinn síðar nefnda stað: „Þó sagði móðir hans honum þá ekki frá þeirri miklu ógæfu, er nú var orðin, að fallinn var vinur hans“. Að vísu má hugsa sér, að Þetis hafi sagt sem svo, að Patróklus mundi falla á undan honum, en ekki, að hann mundi falla einmitt nú. 12 Menöytsson: þ.e. Patróklus. 18—19 nú muntu fá að heyra mikla harmsögu, er eg vildi þú aldrei spyrðir: Sbr. XVI 686, þar sem er næstum því sama orðalag. 21 en það er hlífarlaust ... náð vopnunum = XVII 122. 22 en svart harmaský sveif yfir Akkilles = XVII 591. 22-24 ... hið fagra andlit sitt: Sbr. Od. XXIV 315—17. 23 rauða moldina, konín aiþaloessan (= Od. XXIV 316): „dökkt rykið“. Sennilega er átt við ösku, því að rétt á eftir segir: „en svört askan loddi á hinum dýrlega kyrtli hans“. — Ösku þessa hefur Akkilles sennilega fengið af altari Seifs Herkeiosar fyrir utan búð sína, sbr. aths. XVI 231. 26 hinn stórvaxni maður ... á stóru rúmsvæði: Sbr. XVI 776. 27 hár sitt: Akkilles var ljóshærður, sbr. I 197. 28 Ambáttir þær o.s. frv.: Víðar er þess getið í kviðunum, að þrælar hafi verið hertekið fólk, sbr. Od. I 398. Akkilles hafði eignazt ambáttir þessar, er hann hertók ýmsar borgir, Lýrnesborg, Debu o.s. frv., sjá II 689. Kunnugt er, að ambáttir urðu að taka undir harmatölur húsbænda sinna, sbr. VI 498 og ennfremur XIX 301 o. áfr. 35 hin tigulega móðir hans: þ.e. Þetis Nereifsdóttir. 36 hjá sínum aldraða föður: þ.e. Nereifi, sem menn hugsuðu sér, að byggi í djúpum Egeifshafs, skammt frá Evböyu. Nereifsdætur voru dísir innhafa. Najades (Vatnadísir) — dísir hins ósalta vatns og Ókeansdætur, dísir úthafsins. 39-49 Þar var Gláka ... þær er í sjávardjúpinu voru: Þessa skrá yfir Nereifsdætur töldu gagnrýnendur þegar í fornöld vera síðari viðbót, (Zenodotus, Aristarchus). Virðist þetta vera útdráttur úr miklu lengri skrá yfir Nereifsdætur hjá Hesíod (Theog. 243 o. áfr., sbr. og Verg. Georg. IV 346 o. áfr.) sem taldi þær verið hafa fimmtíu. Er á það bent, að Hómer nefni þess háttar guði ekki með nafni, heldur almennt: Þokkagyðjur, Barnsburðargyðjur, Sönggyðjur o.s. frv. Nereifur var, eins og Próteifur í Odysseifskviðu, spáfróður, og eiga sum nöfn dætra hans að benda til þess, (Nemertes = óskeikul, Apsevdes = óljúgfróð). 50 hinn silfurhvíti hellir: Hellir Nereifsdætra er annaðhvort svo bjartur og gljáandi af kristöllum, sbr. Od. XIII 105 o. áfr., eða þá úr silfri, því að úr málmi eða steini eru bústaðir sjávarguða, sbr. XIII 21. 51 Þá hóf Þetis harmasöng þenna: Þessu er eins farið og með mönnum. Fyrst hefur einhver kona, nákomin hinum látna, upp harmasönginn, en síðan taka við aðrar konur nærstaddar, allar einum rómi, þegar hún er þögnuð. 56 sem ungur kvistur: Sbr. Od. VI 162, Od. XIV 175. 59-60 En nú man eg ekki ... til Peleifshallar: Eftir þessu virðist Hómer eigi kannast við þá sögn, sem síðar kom upp, að Þetis hafi farið úr höll Peleifs rétt eftir brúðkaupið. 71 tók um höfuð sonar síns: Með því vildi hún láta ástúð sína í ljós, sbr. 317. ljóðl., XXIV 712. 82-90 Þann vin ... heimkomu hans: Í þessum ljóðl. er gert ráð fyrir, að herklæðaskipti þeirra Akkillesar og Patróklusar hafi átt sér stað, og væri hægt að fella þenna kafla brott, án þess að frásögnin missti í neins. Annars hlýtur öll sagan um heimsókn Þetisar að vera síðar til komin, sbr. inng. að þessum þætti. 101 Nú mun eg ekki aftur heim fara til míns kæra föðurlands = XXIII 150. 109 drjúpandi hunang: Ef til vill er hér átt við villihunang, sem drýpur niður tréð, eins og segir í hinni alkunnu sögu í biblíunni (I. Sam.) af Jónatan og hunanginu. 110 en magnast ... sem reykur: Eins og reykur af litlum eldi fyllir allt húsið, þannig fyllir og reiði af litlu tilefni hjörtu manna, (sbr. ummæli Hómers um vínið Od. XIV 464. Í Il. IX 118 harmar Agamemnon sitt „vondslega skap“). 115-116 en móti Valkyrjunni ... vilja svo vera láta = XXII 365-6. Á það má benda, hve vel fer á að þýða hér Ker með orðinu „Valkyrja“. Kerur voru örlagagyðjur, einkum hins sviplega dauða, en Moirur voru forlagadísir í almennari merkingu, og þýðir Svb. það orð „Skapanorn“, (sbr. 119. ljóðl.). 117 hinn sterki Herakles: Um hann sjá II 658, VIII 362 o. áfr., XIV 250 o. áfr. 119 hin sárbeitta reiði Heru: Hera varð afbrýðisöm út af ástum Seifs og Alkmenu, sbr. XIV 249 o. áfr., XV 27, XIX 119. 122 prúðbúnar, baþykolpón: „barmdjúpar“. Orðið baþykolpos [baþys + kolpos] á sennilega að lýsa því atriði, að skikkjan falli í djúpri fellingu yfir beltið. Er það notað sem einkunn kvenna hér og í 339. ljóðl. og í XXIV 215 skautfögru Trójukonum. Leaf heldur því raunar fram, að einkunn þessi muni þýða „íturbrjóstuð“, af því að kolpos þýði hjá Hómer ævinlega brjóst, bert eða klætt. Virðist þó sönnu nær, að það þýði „barmur“. 125 að eg hefi nú lengi haldið mér frá orustunni: Í 15 daga hafði Akkilles ekki aðhafzt, því að á 11. degi þess tímabils, sem Ilíonskviða tekur til, hafði Þetis farið á fund Seifs, og á 26. degi hafði Patróklus fallið. 129 frá vísum bana, aipyn oleþron: Svb. þýðir ýmist svona, (og virðist það minna á danska orðatiltækið „den visse död“), eða „bráðum bana“, (t. d. X 371, XI 441 o.s. frv.). 131 hinn hjálmkviki Hektor: Sbr. aths. XVII 96. 137 vopn frá Hefestus konungi: Algengt var, að goðin létu miklum hetjum vopn í té. Perseifur hlaut hinn ágæta hjálm sinn hjá Hadesi, og Herkúles fekk öll herklæði sín frá goðunum. 141 hinn aldraði sjávarguð: þ.e. Nereifur. 154 óður sem eldslogi: Sbr. XI 155, XVII 88. 161 Svo sem sveitahjarðmenn o.s. frv.: Líkingar sem þessi koma mjög oft fyrir, sbr. XII 298 o. áfr., XX 164 o. áfr. 166 Íris: Hún var sendimær guðanna, sbr. J.G., bls. 161. 167 að hann skyldi herklæðast, þóressesþai: Bent hefur verið á, að Akkillesi mundi ekki hafa verið hægt um vik að gera það, þar eð hann skorti herklæðin. Sennilega er so. notað í almennari merkingu hér, „ganga út í bardagann“ (prodire in pugnam). Hins vegar hafa sumir álitið þetta sönnun fyrir því; að þessi kafli tilheyri frumkviðunni um reiði Akkillesar, ( þ.e. kviðunni, eins og hún var, áður en herklæðaskiptin voru tekin upp í hana). 170 ógnarbíldur allra manna, pantón ekpaglotat' andrón: Sbr. I 147. Orðið „ógnarbíldur“ mun vera fornt. Kemur m. a. fyrir í orðabók Björns Halldórssonar í merkingunni „björn með rauða vanga“. 177 festa á gálga, pexai ana skolopessi: Orðið skolops, -opos [sbr. skólos] er í flt. notað um stauragirðingu sem varnarvirki, (sbr. VII 441, IX 130). Hér mun það því þýða þess háttar girðingu á virkisvegg Trójuborgar. Í Od. VII 45 er lýsing á þess háttar víggirðingu um borg, og þýðir Svb. þá þar „vígstaurar“. Samkvæmt þessu væri því eðlilegra að þýða hér „festa á vígstaura“. 200—201 hinir víglegu synir Akkea ... hlé á orustunni: Þessar ljóðl. vantar í ýmis handrit. Er þeim auðsjáanlega skotið inn hér úr svipaðri lýsingu í XI 799-801. Auðvitað verður Akkilles ekki hvattur hér til dáða með neinni samúð við Grikki. Hann lætur eingöngu stjórnast af löngun til að bjarga líki vinar síns. 204 ægiskjöld: Venjulega ritar Svb. samkvæmt uppruna orðsins, „ægisskjöld“, sbr. XV 310 og aths. XV 229. 207 Svo sem reykinn leggur upp o.s. frv.: Þungamiðjan í þessari líkingu virðist vera: „en jafnskjótt og sól er runnin“ (210. ljóðl.). Þegar vitar eru kyntir á daginn, sést aðeins reykurinn úr fjarska. En um leið og sól er til viðar gengin, getur að líta eldslogana blossa upp, og í ljósaskiptunum sjást stutta stund eldur og reykur í senn. Á svipaðan hátt er þessu farið hér. Á meðan skýið er myrkt yfir höfði Akkillesar, blossar loginn til himins. Öll virðist líkingin tekin af þeim atburði, er sjóræningjar ráðast skyndilega á borg í einhverri smáeyju. 219 Svo sem hljóðið er hvellt o.s. frv.: Hugmyndin virðist vera sú, að básúna sé þeytt til að kalla borgarbúa til varnar á virkisveggjum. 239—40 Hera lét hinn ómæðna Helíus fara nauðugan: Helíus, sólguðinn, rennur braut sína samkvæmt settum reglum, og hlýtur því „nauðugur“ að bregða út af því hér. Aðeins eitt dæmi annað er um það í Hómerskviðum, að guðir grípi inn í reglubundna rás náttúrunnar, Od. XXIII 243 „hún (Aþena) hélt hinni löngu nótt á vesturloftinu“. 249 Polýdamant Panþóusson: Sbr. aths. XIII 725. 284 Hinn hjálmkviki Hektor: Sbr. aths. XVII 96. 288—89 hvað Príamsborg væri auðug af gulli og eiri: Oft getur Hómer þess, að Trója hafi verið mjög auðug fyrir styrjöldina, sbr. V 489, VI 46—50, X 378—81, en kostnaðarsamt var að sjá bandamönnum fyrir öllum þörfum, og gekk þá mjög á þenna auð, sbr. XVII 225. 291 til Frýgalands og ... Meónalands: Frygía mun hér vera hluti Biþyníu, er síðar nefndist svo, við Sangaríusfljót (Sangarsstrauma), sbr. III 184, XVI 719. Meónaland nefndist öðru nafni Lydía, og ráku íbúar þar snemma mikla verzlun, sbr. III 401, II 864. Frá báðum þessum löndum hafa Trójumenn sennilega orðið að afla sér korns, af því að land allt umhverfis borgina hafði verið í eyði lagt, (sbr. IX 329). 277 En á morgun árla skulum vér herklæðast = VIII 530. 284—5 Hinn hjálmkviki Hektor leit til hans með reiðisvip og mælti = XII 230—31. 309 Valtur er Vígaguðinn, og vegur oft þann, er vígi er næstur, xynos Enyalíos, kai te ktaneonta katekta: „Eins er Vígaguðinn við alla, og sjá, hann drepur oft þann, sem ætlaði að drepa“. 314 Á eftir orðunum: „er hann sagði þeim“, hefur fallið niður setningin: „Síðan var kveldverðar neytt um allan herinn“. 315 En Akkear hörmuðu Patróklus allan daginn: Samkvæmt frumtexta á hér að standa „alla nóttina“. 316 en Peleifsson hóf upp þungar harmatölur meðal þeirra: Ljóðl. þessi kemur allvíða fyrir í síðari þáttum Ilíonskviðu, sbr. XXIII 17-18. 325 kappann Menöytíus: Hann var faðir Patróklusar, frá Opuntsborg í Lokralandi. Hafði hann flúið fyrir víga sakir til Fiðju (Phthia), sbr. XI 770 o. áfr., XXIII 83 o. áfr. 336—37 og hálshöggvið tólf ... í hefnd eftir þig = XXIII 22—3. 344 og bað þá setja stóran þrífæting yfir eld = XXII 443, XXIII 40, Od. VIII 434. 345 að þeir sem fyrst þvæði blóðlifrarnar af Patróklusi = XXIII 41. 346—8 Þeir settu laugarvatnsketil ... og hitnaði vatnið = Od. VIII 435—7. 351 fylltu sárin með níu ára gömlum smyrslum: Auðvitað var þetta gert í þeim tilgangi að verja líkið rotnun. Í sambandi við hin níu ára gömlu smyrsl hér má benda á Od. X 19, þar sem segir, að belgurinn, sem Eólus vindadrottinn fær Odysseifi, sé af „níu ára gömlum uxa“, og í Od. XI 311 er greint frá vexti þeirra Ótusar og Efíaltesar, er þeir voru „níu vetra“. 356—68 þá mælti Seifur til Heru ... Þannig töluðust þau við um þetta: Vitað er um fornan gagnrýnanda, sem fella vildi þenna kafla brott. Af þessum þrettán ljóðl. koma sjö fyrir annars staðar, (356 = XVI 432, 360-61 = I 551-52, 363 = Od. XX 46, 365-66 = IV 60-61, 368 = V 274). Mundi einkis verða saknað, þótt kaflanum væri sleppt. 359 Í fyrstu útg. Ilíonskviðu stendur hér „hinir hugprúðu Akkear“, en á að vera „hinir hárprúðu Akkear“, enda er svo í handritinu. 369 til hallar Hefestuss: Hómer telur bústað Hefestuss á Ólympi. Síðar töldu menn hann vera á Lemnos, sbr. Od. VIII 283. 371 Bægifótur, kyllopodíón: Orð þetta kemur aðeins fyrir hér og XX 270, XXI 331, en á báðum þeim stöðum þýðir Svb. Fótlamur. Önnur einkunn með Hefestusi er amfígyeeis, sem Svb. þýðir og Fótlamur, nema í Od. VIII 300, 349, 357, öllum þeim stöðum þýðir hann Bægifótur. 375 undir hverjum fæti gerði hann gullhjól: Hugmyndir sínar um hina glæstu smíðisgripi Hefestusar sækir skáldið til hins ágætasta, er því var kunnugt í samtíð sinni, en hefur það auðvitað allt upp í æðra veldi: Þrífætingarnir renna af sjálfsdáðum, gullþernurnar styðja hann (418. ljóðl.), smiðjubelgirnir hlýða boði hans (470. ljóðl.), sbr. einnig hunda þá úr gulli og silfri, sem Hefestus hafði smíðað og gættu hallar Alkínóuss, Od. VII 91—95 og Il. I 607—608. Hjólum undir ýmsum húsmunum munu Grikkir fyrst hafa kynnzt hjá Feníkum, sem fluttu slíkan varning út, sbr. einnig „silfurkörfu með hjólum undir“, er Helena átti (sjá Od. IV 131). 382 fagurdúkaða Karis, Kharis líparokredemnos: „Karis með hina skínandi blæju“. — Hér lætur þá Hómer eina af Þokkagyðjunum (Kharítunum) vera konu Hefestusar, en í Od. VIII 267 segir, að Afrodíta sé kona hans. En hvort sem er, kemur hér hin sama hugmynd fram: Hinn mikli völundur, höfundur fagurra gripa, á að eiginkonu hina yndislegustu gyðju, þó að sjálfur sé hann æði ófrýnn. 386—7 virðulegur gestur ... veiti þér beina = Od. V 88; þannig og 425—7 virðulegur gestur ... og verði því til leiðar komið = Od. V 88—90. 395 þegar eg var kominn hætt af fallinu mikla: Sbr. XIV 249, XV 18-24, I 590-94. Hera hræddist Hefestus nýfæddan, sakir þess hve ljótur hann var (sbr. Od. VIII 311), og fleygði honum út fyrir þröskuld himinsins. Ekki greinir Hómer alls staðar eins frá þessari sögn, þó að afleiðingarnar séu að vísu æ hinar sömu fyrir Hefestus. 397 vildi myrða mig, m'eþelese / krypsai: „vildi leyna mér“, „fela mig“. — En þess er raunar að minnast, að so. „að myrða“ hefur í fornu máli einnig merkinguna „að leyna“ e-u, sem ætti ekki að fara leynt, (sbr. t. d. Sturl. II 119: ek ætla at láta lesa hér í dag konungsbréf, tvau eðr þrjú, opinberlega, svá at þér heyrit; ok skal ek eigi myrða þetta konungsbréfit, þóttú hafir myrt þau konungsbréf, er til þín hafa send verit). 410 frá steðjaþrónni, ap' akmoþetoio: Orðið akmoþeton, sem kemur tvisvar fyrir í þessum þætti (410 og 476 og einu sinni í Od., Od. VIII 274), er talið þýða „steðjastólpi“, „steðjablökk“. Um orðið „steðjaþró“ skal vísað til orðabókar Sigf. Blöndals. 412 Hann lét eldblístrurnar sér, fysas men hr' apanevþe tíþei pyros: „Hann lét belgina afsíðis frá eldinum“. 418 gullþernur, líkar lifandi meyjum: Eina hliðstæðan í Hómerskviðum eru hundar þeir úr gulli og silfri, sem gættu hallar Alkínóuss, (Od. VII 91). Hins vegar eru sveinar þeir úr gulli á velsmíðuðum pöllum, sem um getur í Od. VII 100 og halda á logandi blysum, auðsjáanlega myndastyttur. 423—5 hélt um hönd henni ... hér annars með jafnaði: Sbr. aths. við 386—7. 426—27 Seg, hvað þér er í huga ... til leiðar komið = XIV 195—6. 429 „Hefestus, mun nokkur af öllum þeim gyðjum o.s. frv.“: Gagnrýnendur hafa haft ýmislegt að athuga við þessa ræðu Þetisar, t. d. það, að Patróklus var ekki sendur út í orustuna vegna sendifarar höfðingjanna (sbr. IX. þátt), eins og virðist mega skilja af 451. ljóðl. (Fóru þá höfðingjar Argverja bónarveg til hans ... Að sönnu synjaði hann þeim nú þess, að fara sjálfur ... en lét Patróklus fara í vopn sín). Mikill hluti ræðunnar er líka tekinn að láni annars staðar frá: (437-43 = 56—62; 444—5 = XVI 56, 58; 456 = XIX 414; 457 = Od. III 92, Od. IV 322; sbr. og 448 og IX 574, 449 og IX 121, 515). Aristarchus vildi fella brott 444.—56. ljóðl. Konu þá ... mikinn skaða á óvinunum. Með þeirri brottfellingu er að vísu verstu örðugleikunum úr vegi rutt, en samt eftir skilin hin langa upptugga á 437—43. Hinn möguleikinn er sá að gera ráð fyrir, að fyrri hluti ræðunnar hafi verið úr lagi færður til að fá rúm fyrir tilvitnunina til sendiferðar höfðingjanna, eftir að IX. þáttur hafði verið tekinn upp í kviðuna. 457 Fyrir því kem eg nú að knjám þínum, ta sa gúnaþ' híkanoma.: Orðatiltæki þetta kemur annars einungis fyrir í Odysseifskviðu, (Od. III 92, IV 322, sbr. Od. V 449, VII 147, XIII 231). 467 ekki síður en hin: Þessum orðum bætir Svb. inn í til skýringar. 469 og bað þá blása: Belgirnir eru, eins og þrífætingarnir áður, skyni gæddar vélar, sem hlýða boði og banni guðsins. 476 í steðjaþrónni: Sbr. aths. 410. 478 Fyrst gerði hann stóran og sterkan skjöld o.s. frv.: Skáldlegt og smekklegt er það að lýsa skildinum um leið og hann verður til, en ekki fullsmíðuðum og tilbúnum. Starfið gæðir lýsinguna lífi. Skjöld Akkillesar ber að hugsa sér gerðan, eins og aðra skildi þeirra tíma, úr fimmfaldri uxahúð, sem sennilega hefur verið strengd á trégrind: Eins konar pílárar hafa stafað eins og geislar út frá sama miðpunkti, (ranghverfu skjaldarbólunnar), og á þá hefur húðinni verið fest. Ytra borð skjaldarins hefur síðan verið klætt málmi. Er það einungis skreyting þessa yzta lags, sem skáldið lýsir, — smíðin að öðru leyti tekin sem sjálfsagður hlutur. Lítill vafi getur á því leikið, að myndir þær, sem lýst er hér á eftir, eru búnar til með því að greypa málma hvern í annan á sama hátt og á hinum glæsilegu rýtingsblöðum, sem fundizt hafa í Mýkenu, (sbr. J.G., mynd á bls. 37). Gera verður ráð fyrir, að grunnurinn hafi verið úr eiri, en myndirnar sjálfar greyptar úr gulli, silfri, tini og bláum glerjung (kyanos), (sbr. XI 24, þar sem Svb, þýðir orðið kyanos „blástál“). Að gerð munu myndirnar annars sennilega hafa verið kynlegt sambland af egypzkum og assýrskum stíl. Fluttu Feníkar fyrstir þá tegund myndlistar til Evrópu. Bendir margt til þess, að Grikkir hafi á hetjuöldinni ekki verið búnir að skapa sér sjálfstæða myndlist. Virðast hinir beztu kjörgripir þeirra verið hafa innfluttir, komið frá Feníkum. En auðvitað má eigi ætla, að skáldið sé hér að lýsa einhverjum tilteknum, áþreifanlegum skildi. Slíkt væri fjarskylt anda hetjukvæðanna, enda taka lýsingarnar á sig myndir, sem fara langt út yfir takmörk allra myndlista, (sjá einkum 509—40). Eigi er hægt að segja neitt með vissu um niðurröðun hinna einstöku mynda. Virðist þó vera ljóst, að þeim hafi verið skipað niður í myndaræmur umhverfis miðdepil skjaldarins. Hafi jörð, himinn og himintungl verið dregin upp í innsta hringnum, en Ókeanus yzt með skjaldarröndinni. Slík myndskreytingarbönd eru kunn af fenískum skrautkerum. Að efnisskipan er lýsingin tvíhverf: Andspænis friðsæld og búandstörfum (490—508) er teflt fram róstum og ófriði (509—40), brugðið er upp myndum úr lífi borga og sveita, en í störfum sveitafólksins birtast einnig árstíðirnar, sem hver um sig ber ákveðið viðfangsefni í skauti, — plægingu, kornuppskeru, vínuppskeru, fjárgæzlu. Dansinn (590—606) er að vissu leyti sérstæður. Ef hann er ekki síðari viðbót, mætti ef til vill huga sér hann sem skreytingartilbrigði, eins konar tengilið milli brotlausrar eljanar mannlífsins og eilífrar hvíldar úthafsins, sem umlukti allt. Að undanskildum goðamyndum þeim, sem skáldið þykist kenna og kallar Aþenu og Ares (516), eru engin hellensk sérkenni fólgin í skjaldarlýsingunni. Sérstaklega er eftirtektarvert, að helgisiðir og goðsagnir koma þar ekki við sögu. Hvergi vottar fyrir neinu atriði, er tengi lýsingarnar við ákveðinn stað. Einmitt svona mætti búast við, að lýsingin yrði hjá skáldi, sem hefði erlent listaverk í huga: Hann skildi myndirnar í stórum dráttum, þótt hin sérstaka merking þeirra væri honum hulin. Að einhverju leyti munu af þessu atriði vera sprottnir örðugleikar þeir, er menn reka sig á, þegar útskýra skal umsátina (509). — Skjaldarlýsingu þessa hafa mörg skáld stælt, t. d. einhver lærisveinn Heríods í „Skildi Heraklesar“ og Virgill í skildi Eneasar, (Aen. VIII 626—731). 486 Sjöstjörnurnar, Vætustjörnurnar, Pleïadas þ' Hyadas te: Pleiades kallast og Sæfarastjörnur, af því að þá, er þær komu upp í maímánuði, hófst tími siglinga og sjóferða. Mundi þá nafnið vera dregið af plein (= að sigla). Eru þetta sjö stjörnur í Nautsmerki. Aðrir segja þær hóp lafhræddra dúfna, (nafnið þá eiginlega Peleiades), á flótta, eins og Björninn, undan veiðimanninum Óríoni. — Hyades, Vætustjörnur, (af hyein = rigna, því að uppkoma þeirra boðaði regntímann) voru fjórar, einnig í Nautsmerki. Hin nöfnin eru úr lífi veiðimanna og hjarðmanna, en ekki sjómanna, (sbr. Od. V 272). Óríon átti að hafa verið sterkur og íturvaxinn veiðimaður, sem Artemis lagði að velli, en síðan var settur upp á himininn sem stjörnumerki, sbr. J.G., bls. 166—67. 489 og er einn svo, að hann laugast ekki í útsænum: Fyrir skáldinu virðist vaka þessi hugmynd: Þegar Órion er að koma upp í austri, nemur Björninn við sjóndeildarhring, — sem hann rétt snertir í Norður-Grikklandi. Síðan færir hann sig óðum upp á loftið, eins og hann hefði hætt við að lauga sig, þegar hann kom auga á hinn mikla veiðimann. 497 Á torginu voru bæjarmenn saman komnir o.s. frv.: Hér hefst annar „þáttur“, í tveim „atriðum“. Um er að ræða vígsmál fyrir rétti. 1. atriði: Vegandinn býður bætur fyrir hinn vegna. Sá, sem á eftir hann að mæla, neitar að þiggja þær. Báðir koma sér ásamt um að skjóta málinu til dómara. Fylgir sinn flokkurinn hvorum að málum. 2. atriði: Dómarinn skýtur málinu til „öldungaráðs“. Skal það úr því skera, hvort vegandinn fái komið bótum fyrir sig eða verði að öðrum kosti dæmdur í útlegð. Á dögum Hómers virðist þjóðfélagið hafa verið að komast á það stig að afnema blóðhefndir. Það var ekki lengur einkamál, hvort menn þágu vígsbætur eða ekki. Úrskurður í öllum málum heyrði undir forstöðumann ríkisins, (sbr. hinn rómv. praetor). En vígsmál voru svo ákaflega þýðingarmikil fyrir samfélagið, að dómarinn skaut þeim venjulega til öldungaráðsins (ríkisráðsins). Málsmeðferð sú, sem hér hefur lýst verið, er hin sama og fram kemur í leikritinu Evmenídes eftir Aiskhýlos. Spurningunni um það, hvort sekt Órestesar skuli afmáð með hreinsunarathöfnum eða hvort honum skuli refsað með ævarandi útlegð, er skotið til Aþenu sem æðstu fyrirsvarspersónu ríkisins, en hún skýtur málinu þegar til Areiopagosar, ríkisráðs Aþenuborgar. Ef menn hafa í huga það, sem að framan greinir, fæst fullnægjandi skýring á þessu atriði í skjaldarlýsingunni. Að vísu er þar hlaupið yfir málskot dómarans til öldungaráðsins, en eins og glöggt má sjá af Evmenídes, var slíkt talið sjálfsagt í þess konar málum. 499—500 kvaðst annar goldið hafa fullar vígsbætur, og vottaði það fyrir lýðnum, en hinn þrætti fyrir, að hann hefði við nokkrum bótum tekið: Flestir skýrendur hafa talið, eins og Svb. hér, að deilan hafi aðeins staðið um þetta: Vegandinn fullyrðir, að hann hafi goldið vígsbæturnar, en sakaraðili segist ekki við neinum bótum hafa tekið. Þetta gæti auðvitað verið rétt, en sögnin, sem hér ræðir um, anainomai, þýðir venjulega „að hafna tilboði“ eða „að hafna einhverri hugmynd“ (IX 116 og Od. XIV 149) og venjulega „að hafna með fyrirlitningu“. Auðvitað verður þetta atriði í skjaldarlýsingunni miklu innihaldsríkara, ef deilan stendur ekki aðeins um greiðslu á fé, heldur um þýðingarmikið, opinbert mál: Vegandinn kemur með vígsbæturnar og leggur þær fram í viðurvist lýðsins. Telur hann sig nú hafa greitt bæturnar og vera sýkn sakar. Sakaraðili lýsir yfir því, að hann hafni bótunum. Koma þeir sér þá báðir ásamt um að skjóta málinu til dómara. 503 þögguðu þá kallarar niður lýðinn: Eins er það í leikritinu Evmenídes, að kallarar skipa lýðnum að þegja, áður en atriðið fyrir Areiopagos hefst. 504 í helgum hring: Sennilega mun verið hafa að ræða um hálf-hringlagaðan steinbekk. Minna má hér á hin „sléttu steinsæti“ á þingstöð þeirra Feaka (Od. VIII 6). Helg eru sæti dómaranna sakir hinna mikilvægu starfa, er þeir áttu af hendi að inna, og í XI 807 er talað um „dómstað“ og „blótstalla“ goðanna í sömu andránni. 505 og héldu á sprotum hinna hvellrómuðu kallara: Flt. virðist hér notuð til að tákna, að allir fengu þeir hver af öðrum kallarasprotann í hendur. Kallarasprotinn var þeim fenginn í hendur, sem ætlaði að taka til máls, til marks um, að hann hefði orðið, svo að auðvitað var aðeins einn sproti í notkun í senn; sbr. XXIII 567, I 234. 507 tvær vættir gulls, dyó khrysoio talanta: Á dögum Hómers hljóta tvær talentur að hafa verið heldur lítil fjárupphæð. Í XXIII 262-70 eru tvær talentur fjórðu verðlaun og því miklu minna virði en ambáttin, sem var hluti af fyrstu verðlaunum. Önnur dæmi þess, að gulltalenta sé tiltölulega lítil upphæð, eru Od. VIII 393, Od. IV 129, Il. XXIV 232. Líklegt þykir, að hjá Hómer sé 1 talenta = 1 uxi. Að minnsta kosti er fullvíst, að þessar tvær talentur (sem Svb. þýðir „vættir“) hafa ekki getað verið full manngjöld. Nú má túlka 507.—8. ljóðl. á tvennan hátt, eftir því, hvaða merking er talin felast í díken eipein. Virðist mega nota það orðatiltæki annaðhvort um dómarann, „að kveða upp dóm“, eða um málsaðila, „að flytja mál sitt“. Er síðari merkingin ekki kunn í grísku máli fyrr en miklu síðar (Xen. Mem. IV. 8, 1; Aristoph. Eq. 347). Ef valin er merkingin „að kveða upp dóm“, þá mundu talenturnar tvær vera eins konar þóknun til þess meðlims réttarins, er beztan kvæði upp dóminn að áliti dómenda. Sé hins vegar valin merkingin „að flytja mál sitt“, þá mundu talenturnar tvær vera nokkurs konar málskostnaður, greiðsla til þess aðila, sem ynni málið, fyrir ómak það, er hann hefði haft af málaferlunum. Mæla líkur með því, að sú þýðing muni rétt vera. Hliðstæður er að finna í rómversku réttarfari. Mæltu þar lög svo fyrir, að hvor málsaðili um sig skyldi leggja fram veð, er sacramentum nefndist, fyrir réttmæti málstaðar. Gekk veð þess, sem málinu tapaði, til „praetorsins“ sem ómakslaun. Samkvæmt því mundi veð þetta hafa numið hér 1 talentu gulls frá hvorum málsaðila. 500 Hjá hinni borginni sátu tveir herflokkar o.s. frv: Lýsingin á mynd hinnar umsetnu borgar er slungin frásögn á þann hátt, að mjög erfitt er að greina hana sundur í einstök myndlistaratriði. Auðsjáanlega er um tvær aðalmyndir að ræða, — (1) umsátur um borg, (2) bardaga um hjarðir. Auk þess kunna þar og að hafa verið tvær myndir enn — (3) ráðstefna meðal umsátarmanna, (4) útrás úr hinni umsetnu borg. Hins vegar mætti og telja (3) og (4) einbera frásögn til að koma á tengslum milli (1) og (2). Fornleifafræðingar hafa gefið skýringu á því, að umsátarherirnir eru hér tveir. Er assýrskir listamenn gerðu myndir af umsetinni borg, sýndu þeir jafnan árásir á borgarmúra úr tveimur gagnstæðum áttum. Myndlistartækni þeirra hafði ekki komizt í það stig, að þeim væri á annan hátt unnt að tákna, að múrarnir væru gersamlega umkringdir. Slík mynd virðist hafa svifið fyrir hugskotssjónum skáldsins hér og skotið því í brjóst þeirri hugmynd, að herflokkarnir tveir væru bandamannaherir, en ekki hlutar sama hersins. Endurminningin um deilurnar í gríska hernum hefur ennfremur vakið hjá skáldinu grun um skiptar skoðanir með þessum bandamönnum. Er eigi ósennilegt, að (3) hafi því verið sérstök mynd, allsherjar ráðstefna umsátarmanna. Af lýsingunni á Aresi og Aþenu má ætla, að (4) hafi verið sérstök mynd. Af þessum efniviði, — umsáti tvískipts hers, ráðstefnu hers, útrás úr borg, orustu um hjarðir —, hefur skáldið fellt saman lýsingu sína. En auðvitað er óvíst, hvort myndir þessar hafi verið samstæð heild á listaverki því, sem skáldið kann að hafa haft í huga. Víst er um það, að þráðurinn í frásögn skáldsins verður á þessa leið: Tveir bandamannaherir sitja um borg. Með þeim eru skiptar skoðanir, hvort þeir skuli taka borgina og eyða, eða hvort bera skuli fram sáttaboð. Á meðan eru borgarbúar að íhuga gagnárás. Fela þeir konum, börnum og gamalmennum vörn múranna, en láta herinn gera útrás. Ræðst hann úr launsátri sátri á hjarðir þær, sem umsátarherinn hefur sér til lífsframfæris. Vopnagnýrinn, sem verður við árás borgarbúa, berst til eyrna bandamönnum á ráðstefnunni. Hraða þeir sér til hjálpar sínum mönnum, og verður úr allsherjar orusta. 511 að þeir skiptu í helminga öllu því fé, er væri í borginni: þ.e. a. s., annan helminginn skyldu umsátarmenn fá, en borgarbúar skyldu halda hinum. 516 Ares og Aþena: Að getið er þessara tveggja grísku orustuguða, er eina atriðið í styrjaldarlýsingunni, sem er sérkennilegt fyrir Hellas. Þarf ekki annað að felast í því en að skáldið hafi á myndinni, sem það hafði í huga, séð tvær persónur gerðar stærri en allar hinar. Er assýrskir og egypzkir listamenn drógu upp myndir af orustum, höfðu þeir konungana jafnan höfði hærri en allan lýðinn. 526 Þeir skemmtu sér á munnhörpur, terpomenoi syrinxí: Orðið syrinx, -ngos táknaði hljóðpípu úr reyr eða öðru sliku efni. Í þessari merkingu kemur það fyrir aðeins hér og X 13. 535 Þar var Þrætan í flokki, þar var Hergnýrinn o.s. frv.: þessir persónugervingar orustunnar og hergnýsins minna mjög á valkyrjur þær, sem um getur í fornum fræðum hjá oss, enda þýðir Svb. orðið Ker einmitt „Valkyrja“. Svipuðum persónugervingum er lýst í IV 440. 541 Hefestus gerði á skildinum mjúka ekru o.s. frv.: Nú er komið að atriðum þeim úr sveitalífi, sem skipað er niður samkvæmt árstíðum. Fyrsta atriðið, plæging, gerist sennilega á sameignarakri. Hófust þar jafnan handa um plægingu allir meðlimir samfélagsins í senn, enda er getið hér um marga akurmenn (polloi aroteres 542). — Orðið, sem Svb. þýðir „ekra“ (541), er á grísku neios, ú [neos] og táknar raunar akur, sem látinn hefur verið ósáinn, árið áður en hann er tekinn í notkun. Á frumstæðu stigi ræktunar hefur víða verið fylgt þeirri reglu að sá aðeins í helming akurlendisins, en láta hinn helminginn hvíla sig í eitt ár. þríplægt: Sennilega er átt við, að það hafi verið plægt þrisvar sinnum, áður en í það var sáð. Hefur síðasta plæging líklega farið fram snemma vors. 548—9 en þó ekran væri af gulli gjörð, þá sortnaði hún þó að baki þeim: Hér virðist augljóst, að skáldið hafi haft í huga ákveðið listaverk. Má af þessu marka, að einhverjum ráðum hafi verið beitt til að syrta hinn skæra lit gullsins, hvort sem verið hefur með blöndun við annan málm eða með glerjung. 550 Hann gerði og á skildinum hávaxinn kornakur, en d' etíþei temenos baþyleïon: Hér vill svo til, að annar lesháttur með jafngóðri stoð í handritum er fyrir hendi, basíleïon í stað baþyleïon, og mundi þá þýðingin verða á þessa leið: „Hann gerði og á skildinum konungsakur“. Verður sá lesháttur merkilegri, ef vér gerum ráð fyrir, að í atriðinu á undan hafi verið lýst plægingu á sameignarakri. Er hér þá um tvær andstæður að ræða: Plægingu á almenningsakri, sameign þjóðfélagsins, annars vegar, hins vegar uppskeru á konungsakri, sem daglaunamenn (eríþoi, er Svb. þýðir hér „kornskurðarmenn“) starfa að. Konungslendur, þar með taldar lendur, sem veittar voru fyrir þjóðheillastörf, (VI 194, IX 578). virðast vera hin eina jarðeign einstaklinga, er um getur í Ilíonskviðu, og hinar einu, sem nytjaðar voru með daglaunamönnum. Hómer lætur konungana sjálfa hafa umsjá með hjörðum sínum og ökrum, (sbr. Od. XXIV 226). Sprotinn (skeptron), sem konungurinn heldur á hér, er auðvitað tákn konungsvaldsins, en ekki aðeins göngustafur. (Stundum er skeptron notað í merkingunni „stafur“, „prik“, sbr. Od. XVII 199, XVIII 103 og jafnvel Od. XIII 437). 552 féllu sumar málhendurnar til jarðar strannlengis hver við aðra: Þegar kornskurðarmennirnir eru að slá, hafa þeir sigðina í hægri hendi, en með hinni vinstri taka þeir handfylli sína af kornöxum og láta síðan sigðina ríða að rótum þeirra. Þessi handfylli af öxum kallast „málhönd“. Orðið „strannlengis“ (= strandlengis) merkir hér „í langri röð“, því að kornskurðarmennirnir slá í e. k. skárum. 560 sáðu yfir kjötið ... byggmjöli: Siður var að framreiða steikt kjöt með ástráðu mjöli, sbr. Od. XIV 77. 561 Hann gerði enn á skildinum vínakur o.s. frv.: Vínuppskera er sjötta atriði skjaldarlýsingarinnar. 564 Í kringum akurinn gerði hann gröf, amfí de kyaneen kapeton: „Í kringum um akurinn gerði hann gröf; hún var úr blástáli. ( þ.e. kyanos, e. k. glerjung, sbr. aths. 478). 570 Línusarljóð: Ljóð þetta mun semízkt að uppruna. Mun það upphaflega verið hafa harmljóð yfir sumrinu, sem var að deyja út, og átti því ekki illa við að syngja það við vínuppskeruna á haustin. Er nafnið sennilega dregið af viðkvæðinu ailínon (ai-línos), sem kunnugt er úr kórsöngnum mikla í upphafi leikritsins Agamemnons eftir Aiskhýlos. Var talið, að viðkvæði þetta þýddi „vei oss vegna Línosar“. Hefur einn fræðimaður getið þess til, að það mundi vera fenísku orðin ai lenú, „vei oss“. — Í goðafræðinni var Línos talinn verið hafa hljómlistarsnillingur, sem m. a. átti að hafa kennt Herkúlesi söng og hljóðfæraslátt. Leiddist Herkúlesi þófið og laust kennarann með hörpunni, svo að hann beið bana af. Aðrar sagnir hermdu, að Apollon hefði drepið Línos, af því að hann hefði í ofmetnaði sínum hætt sér í sönglistarkeppni við guðinn. Annars er bezt að vísa til þess, sem Frazer segir um allt þetta efni í The Golden Bough. — Þó að ljóð þetta hafi upphaflega verið harmljóð og saknaðarsöngur út af sumrinu, sem var að hverfa á braut, varð það síðar einnig með nokkrum gleðibrag, og vitna fornar heimildir um það, (Athen. XIV). 573 Enn gerði hann á skildinum hjörð háhyrndra nauta o.s. frv.: Næstu tvö atriðin lýsa störfum og lífi hjarðmanna. háhyrndra nauta, boón orþokrairaón: Um orðið orþokrairos, sbr. aths. 3. 579 Fremst í nautaflokknum voru tvö óttaleg ljón: Eitt hið algengasta myndlistarefni fornt var einmitt þetta, eitt eða tvö ljón ráðast á naut. Getur slíkar myndir oft á peningum frá Litlu-Asíu. Verður þetta rakið til fenískra áhrifa. 590 dansleik, khoron: Hinir fornu skýrendur telja, að þetta orð beri að skilja hér í staðarlegri merkingu, „danssvið“. Kemur orðið khoros víðar fyrir í þeirri merkingu í Hómerskviðum, t. d. Od. VIII 260, 264, Od. XII 4, 318, og þýðir Svb. á þessum stöðum „danssvið“, „leikvellir“. Kaflinn 590—606 hefur sérstöðu á meðal mynda þeirra, sem brugðið er upp á skildinum, af því að hér eru ljós dæmi um staðbundinn blæ, krítverskan. Um Dedalus getur Hómer hvergi annars staðar. „Kollhlauparar“ (kybisteteres 604) eru sagðir verið hafa sérkennilegir fyrir Krít, og hið sama gildir um það atriði að bera rýtinga, (Svb. þýðir „gullsöx“ 597), í dansinum, sbr. XVI 617, 745. Hefur þess því verið til getið, að allur kaflinn sé innskot af krítverskum uppruna. Hafi skáldið hins vegar séð á listaverkinu, sem hann hafði í huga, mynd af „sverðdansi“, er ekki ósennilegt, að hann hefði brugðið sjálfur hinum krítverska blæ á lýsingu sína, af því að Krít var frá fornu fari kunn fyrir slíkar danslistir. 591 Knósusborg var helzta borgin á eynni Krít, hið forna aðsetur Mínósar konungs, sbr. II 646. 592 Dedalus: Sbr. J.G., bls. 233. hinni fagurlokkuðu Aríöðnu: Sbr. J.G., bls. 232. 593 mundsælar meyjar, parþenoi alfesíboiai: Átt er við meyjar, sem fyrir fegurðar sakir og gervileika eru líklegar til að færa foreldrum sínum mörg naut frá væntanlegum biðlum, er verða að kaupa þær, sbr. VI 394 hans gjafsæla kona (í sömu merkingu hér), XI 244. 596 er voru jafngljáandi af viðsmjöri: Augljóst virðist, að viðmjör (jurtaolía) hafi verið notuð til að veita fötum gljáa, (sbr. Od. VII 107 og hið tæra viðsmjör rennur af hinum fastofnu dúkum). 600 og hefir mátulega kringlu í hendi: Leirkerasmiðshjólið eða leirkerasmiðskringlan var ævaforn uppfynding. Áður en leirkerasmiðurinn byrjar vinnu sína, reynir hann hjólið, hvort það snúist viðstöðulaust. 604 og þar var með þeim andríkur söngmaður, er lék á hörpu og söng undir: Þessari ljóðl., sem er úr Od. IV 17,[*] hefur verið bætt inn í útgáfur af Ilíonskviðu allt frá Wolf, sem í þessu samdi sig að skoðun Aþenaiosar (V. 181 c). Leaf telur þetta rangt. Texti Ilíonskviðu á því að vera hér á þessa leið: „Tveir kollhlauparar hringsneru sér meðal þeirra og stýrðu þeir dansinum“. (Komi þessi setning inn í textann á eftir orðunum: „og hafði gaman af“). — Gera verður ráð fyrir, að dans sveina og meyja sé eins konar „undirleikur“ við listir kollhlauparanna. [* Í Viðeyjarútgáfu Odysseifskriðu hefur Svb. sett innan hornklofa Od. IV 15-19: [Þannig sátu nábúar og vinir hins fræga Menelásar glaðir að veizlu í þeim stóra háræfraða sal; hinn helgi kvæðamaður söng hjá þeim, og lék á hörpu, en þá hann byrjaði sönginn, hringsneru tveir leikarar sér mitt meðal þeirra]. — Í útgáfu Sigf. Blöndals af Odysseifskviðu hefur þessi kafli verið felldur brott samkvæmt hinni endurskoðuðu þýðingu Sveinbjarnar af fyrri hluta Odysseifskviðu í Lbs. 429, 4to. — Nú er það skoðun beztu fræðimanna, að ljóðl. þessar skuli hér standa, en að engu sé hafandi skoðun Aþenaiosar á þessum stað] 607 Hann gerði og ... Ókeansstraum: Eins og Ókeansstraumur umflýtur jarðarkringluna, verður og svo að vera á þeirri mynd af heiminum, sem listamaðurinn hefur dregið upp á skjöldinn. 612 brynhosur af voðfelldu tini: Næsta óheppilegur málmur í herklæði virðist tin hafa hlotið að vera. En hér og XXI 592 er þess getið, að brynhosur ( þ.e. legghlífar) Akkillesar haft verið úr þeim málmi. Verður annaðhvort að gera ráð fyrir, að skáldinu hafi verið ókunnugt um eiginleika tins, vitað það eitt, að tin var sjaldgæfur málmur, sem Feníkar fluttu að óra vegu, eða að hann hafi raunar hugsað sér legghlífarnar úr eiri með tinhúð. Þess konar smíði hefur skáldið þekkt, eins og sjá má af XXIII 561, þar sem ræðir um brynju „af eiri og steypt um hana utan fögru tini“. Er það bert af ýmsum stöðum í Ilíonskviðu, að tin hefur notað verið til skrauts, (XI 25, 24; XVIII 474, 565, 574 meðal málma skjaldarins; XX 271 og XXIII 503 í skrauti á stríðsvagni). Í Odysseifskviðu er þess ekki getið. 615 sem haukur: Sbr. XIII 62. NÍTJÁNDI ÞÁTTUR Fyrstu þrjátíu og níu ljóðlínurnar virðast heyra til Vopnsmíðarþætti, svo að þáttaskil hefðu í rauninni fremur átt að vera næst á undan fertugustu ljóðl.: „En hinn ágæti Akkilles gekk eftir sjávarströndinni o.s. frv.“. Aðeins fyrstu tvær ljóðlínurnar kunna að hafa heyrt frumkviðunni til og verið upphaf að frásögn af síðasta degi sögunnar. Lítill vafi getur á því leikið, að annars eru í þættinum kaflar, sem heyrt hafa til frumkviðunni, og mikið af utanaðkomandi efni auk þess. Sættirnar voru nauðsynlegar til að binda endi á söguna um reiði Akkillesar, en hins vegar er einnig að finna um allan þáttinn augljós merki um síðari höfunda. Hinar löngu rökræður um það, hvort herinn skuli eða skuli ekki setjast að. snæðingi, áður en lagt sé til orustu (154.—237. ljóðl.), bera á sér merki um hnignun söguljóðaskáldskapar. Kemur oss og á óvart, að Nestor, sem annars er alltaf aðalræðumaður, þegar um herstjórnarleg málefni er fjallað, skuli hér engan þátt að eiga. Hin langa og ótímabær frásögn af fæðingu Heraklesar í ræðu Agamemnons er því líkust að vera komin úr sjálfstæðri kviðu um Herakles (Herakleia). Mundi þessi kafli sennilega taka til 88.—136. ljóðl. Harmagrátur Brísesdóttur, þótt áhrifaríkur sé og viðeigandi, virðist bera á sér þann blæ, að eigi geti hann hafa til orðið fyrr en tiltölulega seint. Drepið er víða á gjafirnar, sem boðnar voru í IX. þætti, í frásögninni um eiðinn. Bendir það til þess, að sú frásögn muni einnig seint ort. Öll er frásögnin af atburðunum í búð Akkillesar (303. ljóðl. og áfr.) einnig vafasöm vegna þess, hve mikil áherzla er þar lögð á mat og drykk. Virðist hún af þeim sökum falla undir sama flokk og umræðurnar um sama efni á undan. Væri þeim umræðum sleppt, væri að vísu miklu minna athugavert við ræðu Agamemnons, og gæti hún þá staðizt að 325. ljóðl. Í 326. ljóðl. skýtur Neoptolemus upp. Ber einungis að líta á það sem tilraun síðari skálda til að tengja efni Ilíonskviðu við allan hinn mikla bálk samstæðra söguljóða, en þar skipaði sonur Akkillesar veglegt sæti. 1 Morgungyðjan ... sóllauksmöttli = VIII 1. 2 til að bera birtu ... dauðlegum mönnum = XI 2. Hefst hér 27. dagur þess tímabils, sem frásögn Ilíonskviðu tekur til. Það var uppáhaldsviðfangsefni grískra myndlistarmanna, einkum á hinum síðari þróunarstigum, að sýna Akkilles, er hann veitir vopnunum viðtöku. Koma þar Nereifsdætur ævinlega fram. Gafst listamönnunum þarna gott færi á að sýna ungar blómarósir í ýmsum líkamsstellingum. 3 Þetis kom nú til skipanna o.s. frv.: Seint að nóttu hafði Þetis lagt upp frá Ólympi, sjá XVIII 145, 240, 615, og kom nú með morgunsárinu til herbúða Grikkja. 5 og grét hástöfum: Hetjur Hómers fyrirverða sig ekki fyrir tár og raunatölur, eins og víða má sjá í kviðunum, sjá XVIII 316, 355. 8 „Sonur minn, látum þenna liggja o.s. frv.“: Sbr. svipuð orð í munni Akkillesar, XVIII 112. 38 rautt ódáinsvín: Ef til vill er það tekið fram, að vín þetta sé rautt, af því að menn hafa hugsað sér, að það kæmi í staðinn fyrir blóð. Vel má ætla, að í frásögn þessari felist óljós vitneskja um aðferðir Egypta við líksmurningu, sbr. og Herodot II 86. 48 Týdeifsson: þ.e. Díómedes. Um sár Díómedesar sbr. XI 376, 371, og um sár Odysseifs sbr. XI 436. 53 Kóon Antenorsson: Sbr. XI 248 o. áfr. 56 Atreifsson ( þ.e. Agamemnon), þetta hefði þó verið betra fyrir okkur báða: Hann á við það, að þá hefði verið betra að sættast, eins og þeir ætla sér að gera nú. Aðrir hafa skilið þetta sem spurningu: „Atreifsson, var þetta þá betra fyrir okkur báða o.s. frv.?“, og virðist það liggja beinna við. 60 og braut Lýrnesborg: Um þá borg sem heimkynni Brísesdóttur sbr. II 690. 69 hina hárprúðu Akkea: Sbr. aths. XVIII 6. 87 Seifur og Skapanornin og hin myrkförla Refsinorn: Þannig kenna hetjurnar venjulega goðunum um glópsku sína, sjá II 111, VI 234, XVII 470. Stundum virðist Seifur sem faðir guða og manna stýra örlögunum, sjá VIII 69, XXII 209, Od. IV 208. Refsinornin (Erinýs) er þerna Seifs og Skapanornarinnar (Moiru), ef þau bjóða, að maðurinn skuli leiðast til yfirsjóna og glapræðis og gjalda þannig synda sinna og feðra sinna, sjá IX 454, Od. XV 234. hin myrkförla Refsinorn: Sbr. IX 567. 91 Glæpska (Ate) kallast gyðja dóttir Seifs sakir þess, hve máttug hún er. En Hesíod (Theog. 230) telur hana vera dóttur Erisar (Sundurþykkjunnar), af því að þrætur og ástríður þær, sem þeim eru samfara, leiði til glapræðis. Lýsingunni á persónugerving þessum, Glæpsku, svipar mjög til lýsingarinnar á persónugervingum Bænanna (Litai) í IX 502—12. Telur Leaf þær muni teljast til allra yngstu hluta kviðunnar. Platon (Symp. 195) vitnar í 92—4 sem „Hómer“ með þeim hætti, að auðséð er, að menn hafa þá alls ekki verið sér meðvitandi um mismunandi höfunda kviðunnar. 95 Já, eitt sinn glapti hún Seif: Sem dæmi um mátt Glæpsku varð auðvitað ekki áhrifaríkara vitni leitt en sjálfur Seifur, er öllum var þó máttkari. 95—136 Þessi langi innskotskafli, sem ljóðlínurnar næst á undan (frá 88 eða 90) eru eins konar inngangur að, ber það með sér að vera kominn úr sjálfstæðri kviðu um Herakles (Herakleia). Frábrugðið er það venjulegri aðferð Hómers að láta eina af persónum sögunnar skýra frá orðum og athöfnum guðanna. Annars staðar greinir skáldið frá þeim sjálft. Er því sú vitneskja komin fyrir beinan innblástur. 99 Alkmena: Hún var Elektrýonsdóttir, Perseifssonar, sjá XIV 323. 101—102 „Heyrið ... mér býður hugur um“ = VIII 5—6. 105 og er af kyni þeirra manna, er að ættinni til eru af mér komnir: Alkmena var, eins og áður segir, dóttir Elektrýons, Perseifssonar, en Perseifur var sonur Seifs, og Stenelus, faðir Evrýsteifs, var einnig sonur Perseifs. Herakles og Evrýsteifur voru því báðir af kyni Seifs, en auk þess var Herakles hans eigin son, sbr. J.G., bls. 234. 112 en Seifur sá ekki þetta vélræði hennar: Þ.e.a.s. honum sást yfir, að Hera, sem er hjónabands- og barnsburðargyðja, átti nokkurt vald á þessum málum. 115 til hins akkneska Argverjalands: þ.e. Argverjalands (Argos) á Peleifsskaga eins og í IX 141, en ekki Argverjaland Pelaska, sjá II 681, sbr. einnig aths. XIII 227. 133 sá sinn kæra son verða fyrir svívirðilegri meðferð af Evrýsteifi: Sbr. VIII 363 o. áfr. 137—8 En fyrst mér varð þessi glæpska ... geysimikið fé: Sjá IX 119—20 o. áfr. 155 Ekki skaltu gera það ... meiri fyrir þér, en aðrir = I 131. 176—(7) að hann hafi aldrei ... samlag við hana = IX 275—6. 177. ljóðl. hefur Svb. að vísu fellt niður, (enda vantar hana í flest handrit): „svo sem mönnum er títt, körlum og konum“. (Komi þessi orð inn í textann á eftir: „samlag við hana“). 182—3 þó hann sættist við konungmann: Þ.e.a.s. í þessu tilfelli við Akkilles. 196 Taltybíus: Hann var kallari Agamemnons. 197 útvega gölt: Það var einnig siður með Rómverjum að fórna gelti, er sáttmálar voru gerðir, sbr. Liv. I 24, Verg. Aen. VIII 641. 212 gegnt fordyrinu: Líkið hefur legið þannig, að fætur sneru að fordyri. Er mælt, að það hafi verið haft svo til að koma í veg fyrir, að hinn framliðni gengi aftur. 216 Akkilles Peleifsson, þú mesti hreystimaður Akkea o.s. frv.: Sams konar kænlega afsökun fyrir andmælum er að finna í IX 53 o. áfr. 223—4 þegar Seifur ... lætur skálarnar síga: þ.e. a. s. hefur ákveðið úrslit orustunnar, sbr. VIII 69. 224 þegar Seifur, sem stjórnar ófriði manna = IV 84. 226—9 því margir menn falla ... og gráta hann daglangt: Cicero, Tusc. III 27, 65 þýðir ljóðlínur þessar á latínu þannig: /# Namque nimis Multos atque omni luce cadentes Cernimus, tit nemo possit maerore vacare. Quo magis est aequom tumulis mandare, peremptos Firmo animo, et luctum lacrimis finire diurnis. #/ 238 sonu hins fræga Nestors: þ.e. Þrasýmedes og Antíokkus. 244 tuttugu fagra katla og tólf hesta = IX 123. 245 þeir leiddu og ... fallegar hannyrðir = IX 128. 247 Odysseifur vó ... vættir gulls = XXIV 232. 252—53 Þá brá Atreifsson saxi ... sverðslíðri hans = III 271—22: Sax (makhaira) er hér fórnarhnífurinn, sem aldrei er ruglað saman við vopn. 254 og skar til frumfórnar hárlokk af geltinum: Við fórnarathafnir var það helgur siður að sníða nokkur hár af fórnardýrinu og fleygja þeim í eldinn. Var dýrið þannig vígt til fórnar, sbr. Od. XIV 422, Od. III 430 o.s. áfr. (fórn Nestors), Il. III 273. Við eiðfórnir var fórnardýrið að vísu ekki brennt á báli, heldur grafið, eða eins og hér, því varpað haf út. Munu þá þeir, er hlutdeild áttu í fórninni, hafa fengið nokkur hár af fórnardýrinu. 258 Viti það Seifur fyrst og fremst o.s. frv.: Sbr. svipaðan eiðstaf í III 276 o. áfr. og Verg. Aen. XII 175 o. áfr. 267 og kastaði út á hið mikla sjávardjúp: Eins og áður er raunar tekið fram, var fórnardýrinu ekki brennt við eiðfórnir, heldur helgað undirheimaguðunum með því að grafa það eða fleygja því á haf út, sbr. III 273. 275 áður vér byrjum bardaga, hína xynagómen Area: „svo að vér getum byrjað bardaga“. 282 Brísesdóttir o.s. frv.: Eins og fram var tekið í inngangi að þessum þætti, hafa harmtölur Brísesdóttur að ýmsu leyti á sér blæ, sem frábrugðinn er söguljóðastíl. — Annars staðar í Hómerskviðum er þess ekki getið, að menn rífi hold sitt af harmi. Að jafnaði láta menn sér þar nægja að slíta af sér hárið. 291 mann þann: Þegar Akkilles vann Lýrnesborg, féll maður Brísesdóttur, er Mýnes hét, sbr. II 689. 301—2 þær grétu Patróklus að yfirbragði, en raunar grét hver þeirra sínar eigin raunir: Patroklon profasín, sfón d' átón kede' hekaste: „vissulega grétu þær Patróklus, en jafnframt grét og hver þeirra sínar eigin raunir“. — Ýmsir hafa skilið þenna stað á sömu lund og Svb., en svo næm sálgreining er annars óþekkt fyrirbæri í Hómerskviðum, enda kallar þetta einn gagnrýnandi „acumen a poeta nostro alientum“. Konurnar harma Patróklus uppgerðarlaust, en um leið rifjast upp fyrir þeim eigin raunir, sbr. t. d. 338—9 og XXIV 167 o. áfr. 325 sökum hinnar viðbjóðslegu Helenu: Eftirtektarvert er það, að þetta er eini staðurinn í Ilíonskviðu, eins og Od. XIV 68 er eini staðurinn í Odysseifskviðu, þar sem Grikki fer reiðilegum orðum um Helenu. 327. ljóðl. sleppir Svb.: „ — ef hinn goðumlíki Neoptolemus er þá enn á lífi“. (Komi þessi orð inn í textann á eftir: „á fóstri í Skyrey“). Fornir gagnrýnendur höfnuðu þessari ljóðl., af því að Akkilles hefði ekki þurft að vera í vafa um, hvort sonur hans væri enn á lífi eða ekki, af því að Skyrey var ekki svo langt frá Tróju. En raunar er allur kaflinn 326—33 (eða 337) vafasamur, því að annars getur ekki um neinn son Akkillesar í Ilíonskviðu nema í XXIV 467, sem er jafnvafasamur staður. Stafar þetta innskot af viðleitni síðari söguljóðaskálda til að tengja Ilíonskviðu við hinn mikla bálk samstæðra söguljóða, þar sem mikið kvað að Neoptolemusi. 332 og sækja son minn til Skyreyjar: Sagan um það, að Neoptolemus var sóttur til Skyreyjar, þar sem hann hafði alizt upp hjá afa sínum, Lýkomedesi, er sögð í Od. XI 506 o. áfr. Þar, eins og í hinum síðari söguljóðabálki, er hann látinn leiða umsátina um Tróju til lykta. Hér er hann auðsjáanlega talinn of ungur til að ferðast einn, hvað þá til að berjast. Verður ósamræmið enn auðsærra, ef þetta er borið saman við þá hugmynd, að Akkilles hafi verið á unglingsaldri, þegar hann fór til Tróju, sjá IX 437—43, XI 783 o. áfr. En slíkar tímavillur lætur sér ekki fyrir brjósti brenna skáld, sem slægist eftir áhrifamiklum tilfinningamálum. 344 hin stafnháu skip: Sbr. aths. XVIII 3. 347—8 lát drjúpa ... sæki hann ekki: Sbr. 38—9. 350 veiðibjöllu, harpe: Eftir nafninu að dæma mun hér vera um einhvern ránfugl að ræða. Sumir hafa þýtt þetta orð „fálka“ samkvæmt fornri skýringu. En Aristoteles (hist. anim. 9, 1, 16) virðist nota orðið um einhvern sjófugl, ef til vill „haförn“. 358 undan aðkasti hins heiðborna Norðanvinds = XV 171, sbr. aths. þar. 361 sterkboðangaðar brynjur: Sbr. XV 529 og aths. þar. 362 og öll jörðin í kring hló við af leiftri eirmálmsins: Hugtökin „að hlæja“ og „að skína“ eru náskyld, og kemur það víða fram í fornum skáldskap, t. d. Hor. carm. IV, 11, 6 ridet argento domus. 365.—68. ljóðl. fellir Svb. niður: „Hann gnísti tönnum, bæði augu hans leiftruðu sem eldslogi, og í hjarta hans kom óbærilegur harmur. Af megnri heift til Trójumanna klæddist hann þannig gjöfum guðsins, en þær hafði Hefestus smíðað fyrir hann með erfiði“. (Komi þessi kafli inn í textann á eftir orðunum: „þar meðal þeirra“. Fornum skýrendum virðist hafa þótt ósmekklega að orði komizt um hetjuna Akkilles, að hann gnísti tönnum o.s. frv. Er þetta þó ekki meira en segir í XV 607—9 um Hektor. 369—73 fyrst lagði hann fagrar brynhosur ... stóran og þykkan skjöld = III 330—32, 334—35. 375 Svo sem þá er sjófarendur sjá utan af rúmsjó o.s. frv.: Meginatriði samlíkingarinnar er fjarlægðin, sem ljós á hárri hæð verður greint úr utan af hafi. Ef til vill felst einnig í henni sú hugsun, að Akkilles í öllum herklæðum gleðji og hressi eigi síður hermenn sína en eldur fjárhirða verður til að hughreysta sæfarendur, sem hrakið hefur úr leið og vita ekki, hvar þeir eru staddir. 382—83 en hin þéttu gullhár ... flöksuðust alla vega: Þessar tvær ljóðl. virðast vera innskot úr XXII 315—16. Þar á Akkilles annríkt í bardaganum, svo að „flöksuðust alla vega“ verður þar að teljast eðlilegt orðalag. 387 Þá dró hann úr slíðrum ... spjót: Orðið, sem Svb. þýðir hér „slíður“, er á grísku syrinx, ingos og þýðir eiginlega „pípa“, (einnig notað í merkingunni „hljóðpípa“). Hér virðist það notað til að tákna einhvers konar áhald til að skorða spjót í, er þau voru ekki í notkun, svipað dúrodoke, sem kemur fyrir í Od. I 128 og Svb. þýðir þar „spjótahirzla“. 388—91 því spjóti mátti engi ... yrði köppum að bana = XVI 141—44, sbr. og aths. XVI 143. 392 Átómedon: Sbr. XVI 145, XVII 429. Alkímus, styttri mynd í stað Alkímedon (XVI 197 o.s. frv.), þannig einnig í XXIV 474, 574. 393 voru á þeim fagrar brjóstreimar: Um aktygi og vagna sbr. XXIV 265—80. 398 Hyperíonssyni: Í Odysseifskviðu er sólguðinn oft nefndur þessu nafni, en í Ilíonskviðu aðeins hér og VIII 480. A8 sögn Hesíods var (sólguðinn) sonur Hyperíons Titans, sbr. J.G., bls. 163—5. 400 „Bleikur og Skjóni o.s. frv.“: Sjá XVI 149—50. 406 smeygðist úr okhringnum, báðu megin oksins = XVII 440. 407 Hera gaf hestinum málið: Allt frá fornöld hafa menn hnotið um þetta, að Hera, sem æskti Akkillesi sigurs af heilum hug, skyldi ljá hestinum mál til að spá honum hrakspám. Að hætti goðsagna ætti og sami guð að svipta hestinn aftur máli, sem léði honum það. Enga aðra vitneskju fær Akkilles hér en þá, sem móðir hans hafði þegar veitt honum, nema í 417. ljóðl.: „en fyrir þér liggur að falla með hreysti fyrir guði og manni“. 413 þann er ól hin hárprúða Letó: Auðvitað er átt við Apollon, sbr. J.G., bls. 124. 416 Vestanvindur: Sbr. XVI 149 o. áfr. Samkvæmt því, sem þar segir, var Vestanvindur faðir Bleiks. 418 tóku Refsinornirnar fyrir mál hans: Eigi er það skiljanlegra, að Refsinornirnar taki fyrir mál hestsins en að Hera veiti honum það. Helzt væri að hugsa sér þá skýringu, að Refsinornirnar sem örlagagyðjur vildu ekki láta það viðgangast, að mönnum yrði birt of mikið um forlög sín. TUTTUGASTI ÞÁTTUR Nafnið á þessum þætti, Goðavíg (Þeomakhía), er í litlu samræmi við efni hans, getur helzt átt við upphafið, 1.-74. ljóðl. Þar er reifuð frásögn af orustu guðanna, sem verður þó lítið eða ekkert úr að sinni. Greinir menn að vísu á um, hvernig skilja beri 55. ljóðl., hvort þar skuli þýða, eins og Svb. gerir: „og hleyptu upp þungri rimmu milli þeirra“, þ.e. a. s. milli kappanna, eða hvort hitt sé rétt, „og hleyptu upp þungri rimmu sín á meðal“. Sé hinn síðar nefndi skilningur réttur, væri hér sagt berum orðum, að bardagi hefði brotizt út meðal guðanna. Meginefni þáttarins skiptist í tvennt: (1) fund þeirra Akkillesar og Eneasar og endasleppt einvígi þeirra (76.—352. ljóðl.); (2) berserksgang Akkillesar í liði Trójumanna (353.—503. ljóðl.). Í rauninni er hinn fyrri þessara kafla ekki í neinum tengslum við samhengi það, sem honum hefur verið skotið inn í, og raunar í beinni mótsögn við það. Akkilles heldur af stað úr herbúðunum logandi af heift og hefnigirni, en samt ræður hann fyrsta óvininum, sem á vegi hans verður, til að hafa sig á brott, „áður en hann hendi eitthvert slysið“ (196. ljóðl.). Í allri ræðu hans (178.—98. ljóðl.) er ekki eitt orð, er snerti hinar sérstöku aðstæður. Er helzt að skilja af þeirri ræðu hans, að hann sé allt í einu kominn í hið mildasta skap og hlusti síðan fullur langlundargeðs á hina langdregnu, tróversku ættartölu Eneasar (200.—58. ljóðl.), sem hinn útlendi kappi tekur þó fram, að Akkilles þekki þegar. Er þeir byrja að berjast, verður Akkilles smeykur við spjót óvinar síns (262. ljóðl.), og fær hann eigi varpað sínu spjóti svo, að neinn árangur verði. Loks rís Posídon upp sem verjandi og formælandi Trójumanna, í algerri mótsögn við öll hans afskipti af styrjöldinni til þessa. Bjargar hann Eneasi vegna framtíðarvegs og gengis ættar hans. Er ekki að orðlengja það, að lítill vafi getur á því leikið, að hér sé upphaflega um sjálfstætt kvæði að ræða, ort í ákveðnum tilgangi, er eigi á neitt skylt við rás atburðanna hér. Tilgangurinn með kvæði þessu hlýtur að hafa verið sá að auka veg og sóma Eneasar, ef til vill vill að vera uppreist fyrir ófarir þær, er hann fyrr hafði beðið fyrir Akkillesi, og hér er tvisvar vitnað í, þegar hann flýði undan hinni grísku hetju við Lýrnesborg, án þess að gera tilraun til að verjast. Kennir Eneas Seifi um hinn fyrri veikleik sinn (242. ljóðl.) og gefur nú sjálfum Akkillesi lítt eftir að hugrekki í viðureign þeirra. Má með sanni segja, að hér sé Eneas hetjan fremur en Akkilles. Og í hinni einkennilegu skírskotun til afkomenda Eneasar í 307. ljóðl. mun fólgin ástæðan fyrir þessu innskoti, — viðleitni til að koma samræmi á milli Ilíonskviðu og síðari sagna, sem hermdu, að ætt Eneasar hefði erft konungdóm í Trójulandi. Jafnframt getur og verið, að hér sé reynt að útskýra Posídonsdýrkun með þeirri ætt. Síðari hluti þáttarins, (353.—503. ljóðl.), mun hins vegar að stofni til eiga rót sína að rekja til frumkviðunnar um reiði Akkillesar, verið hafa upphaf að lýsingu á hefndaræði hans. Má að vísu ætla, að 353.—40. ljóðl. sé eins konar tengikafli, runninn frá innskotshöfundi þeim, sem orti Eneasarkaflann. Hafi þá hefndarverk Akkillesar hafizt með 381. ljóðl.: „Þá stökk Akkilles á Trójumenn, íklæddur miklum hugarstyrk o.s. frv.“. 3 á vallarhólnum, epí þrósmó pedíoio: Orðatiltæki þetta kemur fyrir á tveim stöðum öðrum í Ilíonskviðu, (X 160 á einni hæð á vellinum, XI 56 á vallarhólnum). Telur Leaf það upphaflega hafa táknað rætur hæðarinnar, sem Trója var reist á. En er VIII. þætti hafði verið skotið inn og Trójumenn voru látnir sækja fram til grísku skipanna, hafi síðari kvæðamenn farið að misskilja þessi orð og telja þau tákna „hæð eina á vellinum“ einhvers staðar í námunda við grísku herbúðirnar. Er Hómer geti staða á sléttunni, þá nefni hann þá ávallt sérstökum nöfnum, t. d. „haug Ílusar“ (X 415), „hól þann, er menn kalla Batíu“ (II 813) o.s. frv. Hér sé hins vegar ekkert, er ákvarði þenna stað nánar, nema álitið sé, að hann tákni „jaðar sléttunnar“. 4 bað Þemisi: Þannig er það og í Od. II 69 Þemis, „sem setur og bregður samkomum manna“. Hún var gyðja laga og réttar, sbr. J.G., bls. 159. 7 Þar vantaði engan af fljótaguðunum, nema Ókean: Fornir skýrendur töldu Ókean hafa vantað á þetta þing, af því að í nærveru hans hefðu hinir guðirnir ekki getað deilt sakir lotningar þeirrar, er þeir báru fyrir honum sem aldursforseta! Annars er það næsta óvenjulegt, að fljótaguðir og landvættir skuli taka þátt í ráðstefnu goðanna. Hefur þess verið til getið, að skáldið hafi með þessu viljað undirbúa þátttöku fljótsguðsins Skamanders í goðavígum. En sennilega hefur Ókean ekki átt heiman gengt, af því að hann var e. k. megingjörð jarðarinnar, umflaut jarðarkringluna og hélt henni saman. 9 í uppsprettum vatnsfalla eða í grösugum engjum = Od. VI 124. 11 í þeim sléttfáguðu svölum, xestes aiþúsesín: Átt er við súlnagöng við framhlið hallarinnar eða umhverfis hallargarðinn. Sléttfáguð eru þau sennilega kölluð af því, að þau hafa verið hlaðin úr höggnu grjóti. 13 Landaskelfir: Þ.e. Posídon. Benda fornir skýrendur á, að hans muni hér sérstaklega getið, af því að Seifur og hann höfðu ekki skilizt með neinni blíðu síðast, sbr. XV 173-218. 37 þótt máttlitlir væru, araiai: „þótt mjóslegnir væru“. 38 hinn hjálmkviki Ares, Ares koryþaiolos: „Ares með hinn leiftrandi hjálm“. Aðeins hér er þessi einkunn höfð um annan en Hektor. 39 hinn óhárskorni Febus: þ.e. Apollon, sem bar sítt hár, tákn ævarandi æskublóma. Er skáldið skipti liði með goðunum, fór það sennilega eftir fornum sögnum. Hera, Aþena og Posídon voru í eiginlegum skilningi þjóðguðir Grikkja og því andsnúnir Tróverjum, sbr. IV 26, V 768 o. áfr., VIII 205. Apollon átti hins vegar marga helgidóma á ströndum Litlu-Asíu og var verndargoð Tróverja, sjá IV 507. Hinir guðirnir, Ares, Afrodíta, Artemis, Hermes o. a. gegna aukahlutverkum eftir þörfum. 40 Ksanþus: Hann var guð samnefnds fljóts á sléttunni við Tróju, sjá VI 4, VIII 135, 556. 53 að Fagrahól: Þessi staður er auðvitað ókunnur. Arfsögn hermdi, að þar hefði París kveðið upp úrskurð sinn í deilu gyðjanna, sbr. J.G., bls. 119. 70 hin skarksamlega Artemis örumglöð: Sbr. aths. XVI 183. 74 er guðirnir kalla Ksanþus, en menn kalla Skamander: Eigi er ósennilegt, að nafn það, er guðirnir nota, hafi kunnugt verið úr fornum skáldskap, en hitt hafi verið hið hversdagslega og venjulega nafn, sbr. nánar aths. XIV 290, þar sem getur annarrar skýringar. 78 að seðja Ares ... á blóði hans = V 289. 81 Lýkáon Príamssyni: Sjá III 333, XVI 34 o. áfr. 83-5 „Eneas, höfðingi Trójumanna ... við Akkilles Peleifsson“. Sbr. XIII 219-20, VIII 229-33. 90 þar sem hann áður fyrr meir rak mig á flótta ... ofan af Ídafjalli: Akkilles víkur að þessu í 187.-94. ljóðl. Samkvæmt fornum heimildum á sögn þessi að hafa verið sögð í söguljóði því, sem Kypría nefndist, einu úr bálki hinna samstæðu söguljóða. 96 að drepa Lelega: Þeir áttu heima í Lýrnesborg. Eneas hafði flúið þangað, og fyrir því var hún í eyði lögð, sjá 188. ljóðl. o. áfr. Taldist hún til ríkis Þebu, sjá XIX 295. Í Pedasusborg bjuggu Lelegar einnig við fljótið Satníóis, sbr. XXI 86, VI 35. Um Lelega sjá einnig X 429. 98 því ávallt er einhverr guð ... við líftjóni = V 603. 106 en hann af minni háttar gyðju borinn: þ.e. Þetisi, einni af Nereifsdætrum. 112 sonur Ankísess: þ.e. Eneas, sem var sonur Afrodítu ástagyðju og Ankísess, (um ætt hans sjá aths. 241). 145 og til hins háva garðs, er Trójumenn o.s. frv.: Sögnin, sem hér er vitnað í, hefur auðvitað verið alkunn. Er Laómedon hafði svikið Posídon um launin fyrir að reisa borgarveggi Tróju (XXI 446—57), sendi guðinn sjóskrímsli til að eyða landið. Að boði véfréttar seldi Laómedon því fram dóttur sína, að skrímslið gleypti hana. Hverjum, sem dræpi það, hét hann að launum hinum ódauðlegu hestum sínum (V 640). Herakles vann á skrímslinu og naut við það verk skjóls undir vegg þeim, er Aþena hafði reist fyrir hann. En Laómedon sveik einnig Herakles og lét hann fá dauðlega hesta. Virðist þetta vera eitt afbrigðið af sögninni um Perseif. 150 óumþrengilegu skýi, arrekton nefelen: „ótvístranlegu (eða „órjúfanlegu“) skýi“. 158-60 Þá gengu tveir ... og hinn ágæti Akilles: Sbr. XIII 499-500, VI 120. 164 hann var sem ljónvargur o.s. frv.: Sumir hafa talið þessa líkingu hina beztu í Hómerskviðum. ljónvargur, león ... / síntes: „morðgjarnt ljón. Það er mjög algengt, að Svb. komi þannig lo. og no. grísku fyrir í einu samsettu no. íslenzku. Tekst oft slíkt með ágætum, eins og t. d. hér. 180 í þeirri von, að þú munir konungur verða o.s. frv.: Réttur Eneasar til ríkis er útskýrður í 213.-41. ljóðl. 184 Hvort hafa Trójumenn ánafnað þér eitthvert land o.s. frv.: Sjá VI 194-5, sbr. aths. XVIII 550. 188 Eða manstu ekki o.s. frv.: Sbr. aths. 90. 193 hertóku þar konurnar ... í ánauð = XVI 831. 198 Gáir heimskur að því, sem gjört er: Sbr. aths. XVII 32. 202 eg kann nóg ... eins og þú = 433. 208-9 En eg em sonur ... Afrodítu = V 247-8. 213-14 En ef þú vilt ... margir menn = VI 150-51. 223 Norðra leizt vel á hrossin o.s. frv.: Sú skoðun virðist hafa verið allútbreidd til forna, að vindar gætu frjóvgað hryssur, sbr. Verg. Georg. III 272. 235 og numu guðirnir hann fyrir sakir fegurðar hans = Od. XV 251. 238 Lampus ... afspreng Aresar = III 147. 241 Þetta er nú ætt mín, og af þessu bergi em eg brotinn = VI 211. Eneas var náskyldur konungsættinni í Tróju: /# Trós** Ílus Assarakus Ganýmedes Laómedon Kápýs Príamus Ankíses Hektor Eneas #/ 242 en Seifur eykur og þverrir o.s. frv.: Eneas er þarna að afsaka flótta sinn við Lýrnesborg, sem Akkilles vék áður að. 244 En tölum ekki lengur um þetta sem óvitar = XIII 292. 247 svo ekki mundi hundraðsessa fá meira borið: Skip þau, er Hómer voru kunn, virðast í mesta lagi hafa getað borið 50 menn. Í Od. IX 322 líkir Odysseifur kylfu Kýklópsins við „siglutré úr stórum tvítugærum byrðingi“, svo að tuttugu manna far hlýtur þá að hafa verið talið mjög stórt skip. 249 og vítt er rúmsvæði orðanna, epeón de polys nomos enþa kai enþa: Orðið nomos, sem Svb. þýðir hér rúmsvæði, kemur víða fyrir í Hómerskviðum og þá í merkingunni „haglendi“ (II 475, VI 511 = XV 268, XVIII 587, Od. IX 217, X 159). Felst hér því ef til vill sú hugsun, að víðlent sé hagbeiti (illra hugsana), sem skammaryrði verði alin upp í handa tungunni. 268 því gulllagið ... stóð fyrir = XXI 165. 269—72 en spjótið gekk í gegnum tvö lögin ... nam eskispjótið staðar í: Leaf telur ljóðl. þessar innskot einhvers kvæðamanns, sem misskildi orðin í XVIII 481, „Í skildinum sjálfum voru fimm lög“, á þá leið, að málmarnir, sem þar er getið, hafi myndað hin fimm lög skjaldarins. Þau voru auðvitað úr nautshúð. En jafnvel þó að menn hugsuðu sér lögin úr málmi, mundi þessi niðurröðun — tvö eirlög, gulllag, tvö tinlög — vera fjarstæða, gullið fólgið inni í skildinum, þar sem það var hvorki til gagns né skrauts. Annars virðist sá misskilningur, að skjöldurinn hafi allur verið úr málmlögum ger, verið hafa allútbreiddur í fornöld, og deilur verið hafa uppi um það meðal skýrenda, í hvaða röð málmlögin hafi verið í skildinum! 275 þar sem eirröndin var þynnst: Eirlagið á ytra borði skjaldarins var haft þynnst út við jaðrana, af því að þar var skildinum sízt hætt við spjótalögum, þykkast hins vegar á miðjum skildinum. 285—7 Eneas þreif þá upp vopnstein ... valdið honum einn = V 302—4. 289 sem annars var vanur að hlífa honum við döprum dauða, to hoi erkese lygron oleþron: „sem hafði hlíft honum við döprum dauða“, sbr. 268. ljóðl. hér á undan. 293 Mikil skelfing, mjög tekur mig sárt til hins hugstóra Eneasar o.s. frv.: Þessi ræða og atferli Posídons eru í jafnhrópandi mótsögn við afstöðu hans til atburðanna í Ilíonskviðu yfirleitt og við nýflutta ræðu hans, 133.—43. ljóðl. Auðvitað hefði Apollon fyrst og fremst átt að finna hvöt hjá sér til að bjarga Eneasi, því að hann hafði eggjað hann til framgöngu. Eins og drepið var á í inngangi að þessum þætti, er ef til vill fólgin í þessari afstöðu Posídons hér skýringartilraun á Posídonsdýrkun meðal einhverra ætta, sem þóttust komnar af Eneasi. 296 og nú mun engi hlutur fá forðað honum frá döprum dauða, úde tí hoi khraismesei lygron oleþron: „og engan veginn mun hann (guðinn) forða honum frá döprum dauða“. 297 En hví skal hann saklaus mæta slíkum raunum o.s. frv.: Eneas átti að vísu ekki eins mikilla hagsmuna að gæta í styrjöldinni og Príamus, en þó er þetta orðalag og öll hugsunin, sem í því felst, einkennileg. Þess getur áður, XIII 460—61, að fátt hafi verið með Príamusi og Eneasi. 307 mun því hinn sterki Eneas ríkja yfir Trójumönnum o.s. frv.: Fornir skýrendur sögðu, að Seifur hefði lagt hatur á ætt Príamuss sakir þess, að Laómedon rauf eið sinn við Posídon, sjá V 638. Sumir töldu þenna stað vera í mótsögn við þær sagnir, sem hermdu frá því, að Eneas hefði flúið til Ítalíu og setzt þar að. Hins vegar töldu þetta aðrir vera spádóm einmitt um þá atburði og ríki Rómverja, sbr. orð Virgils, sem löguð eru eftir þessum stað, Aen. III 97 Hic domus Aeneae cunctis dominabitur orbis, Et nati natorum et qui nascentur ex ilis. 312. ljóðl. fellir Svb. niður, enda vantar hana í beztu handritin: „þótt hraustur sé, falla fyrir Akkillesi Peleifssyni“, (komi inn í textann á eftir orðunum „eða láta hann“, en orðin „ráða sér sjálfan“ falla þá brott). 315-17 að við skulum aldrei ... hinum víglegu sonum Akkea = XXI 374-6. 319 gekk hann þangað ... spjótaflugið = V 167. 322-24 en kippti ... eskiviðarspjóti út úr skildi hins hugstóra Eneasar: Þetta virðist í mótsögn við 276.-80. ljóðl., en þar segir, að spjót Akkillesar hafi flogið í gegnum skjöld Eneasar og í jörð niður. Verður þetta þó að teljast til minni háttar mótsagna í þessum þætti. 329 Kákónar: Eigi eru þeir taldir með bandamönnum Trójumanna í II. þætti kviðunnar, og vissu menn síðar lítið eða ekkert um þá. Annar þjóðflokkur samnefndur kemur fyrir í Od. III 366, sem heima á í Elealandi (Elis). Pelaska er einnig getið bæði í Grikklandi og Litlu-Asíu. Í Il. X 428 o. áfr. er Kákóna getið meðal þjóðflokka, sem teljast til hinna elztu, er sögur fara af í Grikklandi og Litlu-Asíu. 343 og mælti við ... í þungu skapi = XI 403. 344 Mikil undur ... með augum mínum = XIII 99. 385 Hýdulandi: Sennilega hefur Otrynteifur verið konungur í Hýdu, sem fremur er borgarheiti en nafn á landi. Segir Strabo þetta verið hafa hina sömu borg, er síðar var kölluð Sardis, en það var hin fræga höfuðborg í Lydíu. Um Tmólusfjall og Gýgjarvatn (390. ljóðl.) er einnig getið í II 865-6. Munu þeir staðir verið hafa skammt frá Sardis. Hyllusfljót fellur í Hermusfljót. Rennur hið síðar nefnda til sjávar út í Smyrnuflóa. 397-400 gegnum hinn eirkinnaða hjálm ... sem ákafast fram = XII 183-86, sbr. XI 95-8. 404 Helíkonsguð: þ.e. Posídon. Orð þetta mun sennilega dregið af nafni borgarinnar Helíke í Akhaiahéraði í Þessalíu. Þar var frægt Posídonshof, sbr. VIII 202-3. En frægasti blótstaður Posídons var við Príenuborg við rætur Mykalefjalls á vesturströnd Litlu-Asíu, þar sem háð var hin „paníónska“ hátíð. Ef hér væri verið að vitna til þeirra blóta, mundi það sönnun þess, að þátturinn væri tiltölulega seint ortur. 414 þar sem hinar gullnu brynbeltisspengur tóku saman og báðir brynjuboðangarnir mættust: Brynjan virðist hafa verið sett saman af tveimur plötum, annarri á brjóst, en hinni á bak. Mynduðust samskeyti milli þessara tveggja hluta brynjunnar á hliðunum. Með brynbeltinu var þeim haldið í skefjum, en það var krækt saman með spöngum á hliðunum. Væri spjóti kastað á mann aftan frá, mundi oddurinn geiga að samskeytum brynjunnar. 429 Gakktu nær ... fullkominn bana = VI 143. 431-33 Hugsa þú það ekki ... frekjufullum orðum = 200-2 hér að framan. 434 Eg veit ... og að eg er miklu minni fyrir mér en þú: Hinir fornu skýrendur töldu þetta sagt í háði. En skáldið virðist alls ekki hafa ætlazt til, að þetta yrði skilið svo. Hetjuhugur Hektors birtist hér einmitt glöggt, af því að hann hefur dug til að horfast í augu við staðreyndirnar. 435 en þó er þetta á guðanna valdi, all' e toi men táta þeón en gúnasí keitai: „en þó liggur þetta vissulega í skauti guðanna“. Þetta einkennilega orðalag kemur einnig fyrir í XVII 514 og Od. I 267. Þýðir Svb. það alls staðar eins og hér. Beinast liggur við að setja orðatiltæki þetta í samband við hinn forna sið, sem um getur í VI 92, að helga guðunum gjafir með því að leggja þar í skaut hinna fornu, sitjandi goðalíkana. Var þá hugsunin ef til vill þessi: Eins og maðurinn hefur gersamlega sleppt tilkalli til þeirra gjafa, sem hann eitt sinn hefur lagt í skaut guðanna, eins mætti að orði kveða um allt, sem mennirnir fela guðunum í óeiginlegum skilningi, að það lægi „í skauti guðanna“, mannlegur máttur fengi þar eigi framar neinu um ráðið. 444 veitti honum það mjög hægt ... miklum mökkva = III 381. 445-48 Hinn fóthvati ... skjótum orðum: Sbr. V 436-9. 449-54 Þar slappstu ... hverr sem fyrir mér verður = XI 362-7. 466 Svo var hann fávís ... synja honum þess = Od. III 146. 475-77 Þá hjó hann ... heltóku augu hans: Sbr. XVI 332-34. 486 og gekk eirvopnið inn í lungað, page d'en nedyí khalkos: „og gekk eirvopnið inn í kviðinn“. 490 Svo sem þá er geysilegur eldur o.s. frv.: Sbr. XI 155 o. áfr. 493 líkur einhverri óhemju, daimoni ísos: „líkar einhverjum guði“. 495-503 Svo sem þá er maður tengir saman krúnubreiða uxa ... armleggir hans blóði stokknir: Ýmsir útgefendur hafa hafnað þessum ljóðl., bæði vegna þess, að 499.-502. ljóðl. er endurtekning á XI 534-7, og þó einkum sökum þess, að Akkilles, sem hingað til hefur barizt á fæti, birtist hér skyndilega í vagni. Um fyrri mótbáruna er það að segja, að ljóðl. þessar kunna að hafa verið teknar þar að láni héðan, því að allur kaflinn, sem þær standa þar í, er talinn vafasamur. En um síðari mótbáruna má taka það fram, að hetjum er oft lýst í bardögum svo, að þær eru ýmist á fæti eða í stríðsvögnum, án þess, að það sé nánar útskýrt, sbr. t. d. XV 352, enda höfðu kapparnir vagna sína jafnan rétt hjá sér í bardögum, (sbr. XIII 385, XVII 502), svo að þeir væru alltaf til taks. Er Akkilles hefur fellt hina helztu forvígismenn, ekur hann blátt áfram yfir hina óbreyttu liðsmenn, sem eigi voru verðir þess, að hann skipti við þá höggum. Og líkingin í 495.-7. ljóðl. sver sig vissulega í ætt við hinn bezta söguljóðastíl. TUTTUGASTI OG FYRSTI ÞÁTTUR Um einn kafla þessa þáttar, goðavíg (385.—513. ljóðl.), hafa ýmsir gagnrýnendur farið hörðum orðum. Leaf telur hann t. d. einn af örfáum köflum í Ilíonskviðu, sem með sanni megi segja um, að sé lélegur skáldskapur. Í staðinn fyrir tilkomumikla viðureign hinna goðkynjuðu máttarvalda, sem vér hefðum getað búizt við samkvæmt upphafi XX. þáttar, sé aðeins brugðið upp kátlegri mynd af ruddafengnum róstum, sennilega orta með hliðsjón af hinni harkalegu útreið, er Afrodíta fær í V. þætti. Beri að líta á kafla þenna sem háðfærslu, er sé í rauninni fjarskyld anda hinna fornu söguljóða. Gilbert Murray er og hér sömu skoðunar og Leaf, að um háðfærslu sé að ræða, og verði þessarar viðleitni til að háðfæra forn goðasagnaefni víðar vart í Ilíonskviðu, einkum í síðari þáttum hennar. Sé þetta þó vissulega góður skáldskapur á sína vísu, þó að hann stingi í stúf við hinn háleita hetjuanda söguljóðanna annars. (Má lesa nánar um þetta í inngangi að skýringum XIV. þáttar). Að öðru leyti skiptist XXI. þáttur í forspjall (1.—33. ljóðl.) og fjögur atriði: fall Lýkáons (34.—138. ljóðl.), fall Asteropeuss (139.—202. ljóðl.), viðureign Akkillesar og Skamanders fljótsguðs (203.—384. ljóðl.) og eltingarleik Akkillesar við Agenor (514.—611. ljóðl.). Af þessum atriðum telur Leaf hið síðast talda líklegast til að hafa staðið í frumkviðunni um reiði Akkillesar. Hugsar hann sér 514.—539. ljóðl. sem e. k. tengikafla til að beina frásögninni að hinni upphaflegu viðureign á sléttunni. Falli þá 540. ljóðl., „en þeir flýðu af vellinum og stefndu beint á borgina o.s. frv.“, ágætlega að endi XX. þáttar. Sé þar síðan þróttmikil og gagnorð lýsing á framsókn Akkillesar, en hinar einstöku viðureignir fyrr í þættinum verði fremur til að draga úr áhrifamætti þessarar lýsingar en auka hann. Kaflinn um fall Lýkáons er einstaklega fagur og þróttmikill, en það eru líka ýmsir þeirra staða í kviðunni, sem taldir eru meðal hinna yngri. Tilvitnunin í Argonátasagnir í 41. ljóðl. virðist benda til síðari uppruna. Þó hafa gagnrýnendur meira að athuga við forspjall þáttarins. Vaðsins á Skamander getur ekki nema í yngstu köflum kviðunnar. Lýsingin í 6.—8. ljóðl. er mjög óljós, og í 17.—18. ljóðl. verður ekki séð, hvoru megin vaðsins Akkilles kemur með fangana. Ef það er Grikkja megin, verður öll staðfræðin á eftir óskiljanleg. Fangarnir eru teknir til að undirbúa útför Patróklusar, en sú frásögn er, eins og nánar mun að vikið síðar, yngri en frumkviðan um reiði Akkillesar. Mun hér fólgin ástæðan fyrir því, að forspjallinu var skotið inn. Asteropeusarkaflann telur Leaf tilkomulítið bergmál af frásögninni af falli Lýkáons og jafnframt stælingu á fundi Akkillesar og Eneasar í XX. þætti. Innskotinu hafi ef til vill ráðið sæmd einhverrar ættar, sem þóttist eiga fljótið Axíus að forföður, ef ekki ber þá að líta á það sem tilbrigði einhvers kvæðamanns við kaflann um Lýkáon, sem einnig hefur haft í huga frásögnina af Glákusi og Díómedesi í VI. þætti og notfært sér hana. Þykja þó næsta vel ortar ljóðlínur þær, sem kafli þessi endar á (194.-99. ljóðl.). Kaflinn um viðureign Akkillesar og Skamanders er stórhrikalegur og þó tignarlegur, en að vísu er frásögnin þar ekki ávallt eins skýr og skyldi. Telja ýmsir gagnrýnendur það stafa að nokkru leyti af síðari breytingum. Í 332. ljóðl. er greinileg tilvitnun í inngang að goðavígum, XX 73.-74. ljóðl. Ályktar Leaf því af þessu, að frásögnin af afskiptum Heru og Hefestusar (328.-84. ljóðl.) muni vera ort til tengsla við goðavíg og hafi verið látin koma í stað upphaflegs endis á bardaga Akkillesar við fljótsguðinn. 1-2 En er Trójumenn ... hinn ódauðlegi Seifur = XIV 433-4, XXIV 692-3, (sbr. aths. þar). 5 þar sem Akkear flýðu æðrufullir daginn fyrir: þ.e. a. s. þegar Hektor hafði fellt Patróklus og rekið Akkea á flótta, sjá XVII 753 o. áfr. 8 en helmingur þeirra o.s. frv.: Helzt verður að gera sér í hugarlund, að beggja vegna vaðsins hafi legið hæðir að fljótinu. Á flóttanum hafi því brátt orðið þröng mikil í vaðinu, svo að þeir, er síðar bar að, hafi orðið að fleygja sér í fljótið, þar sem þeir komu að því. 12 Svo sem þá er engisprettur o.s. frv.: Fornir skýrendur greina svo frá, að á eynni Kýprus hafi tíðkazt að eyða engisprettum á þenna hátt. Mun jafnvel þessi aðferð hafa verið notuð þar fram á þenna dag. Með líkingunni vill skáldið einkum leiða í ljós, að Trójumenn steypist í fljótið í stórhópum. 17 Hinn seifborni kappi lét þar eftir spjót sitt, og lagði það í einn porsviðarrunn, Átar ho díogenes dory men lípen átú ep' okhþe / keklímenon myríkesin: „En hinn seifborni kappi lét þar eftir spjót sitt á árbakkanum og reisti það upp við porsviðarrunnana“. 18 líkur óvætti, daimoní ísos: „líkur einhverjum guði“. 20-21 Hann hjó á báða bóga ... varð rautt af blóðinu = X 483-84. 22 Svo sem aðrir fiskar flýja hræddir o.s. frv.: Með líkingunni á einkum að lýsa hræðslu þeirri, er Trójumenn verða gagnteknir af. Fer næsta vel á að sækja líkinguna til sjávarbúa, þar eð Akkilles er þarna að hamast í fljótinu. 23 og fylla upp allar víkur í vogskornum fjarðarbotni, pimplasí mykhús límenos evormú: „og fylla afkima einhvers skjólgóðs skipalægis“. — Eftirtektarvert er, hve þýðing Sveinbjarnar er hér í senn nákvæm, (þó eigi sé orðrétt), og ágæt túlkun á efninu fyrir íslenzka lesendur. Hann flytur myndina í íslenzkt umhverfi. 31 við hina riðnu brynstakka sína, epí streptoisí khítósín: „við hina riðnu (þjálu?) stakka sína“. — Hér virðist Svb. hafa fylgt skilningi Voss, „um ihre geflochtenen Panzer“. Orðasamband þetta kemur fyrir í eint. í V 113 día streptoio khítonos, og þýðir Svb. þar „út um þá hringofnu brynjustúku“, sbr. Voss, „die geflochtenen Ringe des Panzers“. Leaf virðist halda, að hér hafi verið um einhvers konar skyrtu eða stakk að ræða, sem borinn hafi verið undir brynjunni til hlífðar líkamanum við núning af henni. Hringabrynjur virðast hafa verið með öllu ókunnar á dögum Hómers. Til hvers menn þessir hafa borið „hinar vel sniðnu ólar“ er ekki unnt að segja, nema með þeim hafi beir gyrt sig í hina „riðnu brynstakka“. Hafa fangarnir þá sennilega verið léttvopnað lið, eigi í málmbrynjum eins og Díómedes í V. þætti, heldur aðeins í riðnum serkjum til hlífðar fyrir höggum og hnjaski. 34 Dardanúngs: Príamus ber þetta nafn sem afkomandi Dardanusar, en Dardanus var sonur Seifs og afi Trós, sbr. aths. XX 241. 39 óvísavargur, anóiston kakon: „bölvun, er ekki varð séð fyrir“. Orðið „óvísavargur“ mun vera fornt, „útlagi, sem ekki var vitað, að væri það“, „óvæntur óvinur“. 41 Jasonsson: Um Evneus, son Jasons og Hypsipýlu, sjá VII 469. Virðist hann hafi keypt Lýkáon sem þræl. „Verðaurarnir“, sem hann galt, munu verið hafa skaftker það af silfri, sem lýst er í XXIII 741. 43 Etíon frá Imbrey: Þetta er auðvitað allt annar maður en Etíon (Eetíon) konungur í Þebu, sjá VI 415. Imbrey var á milli Lemneyjar (Lemnos) og Hellusunds, sjá XIII 33. Arisba var borg við Hellusund, sbr. II 836. Hið „mikla fé“, sem goldið var fyrir Lýkáon, var 300 uxar, sjá 79-80. 44 Þaðan flýði hann á laun: Má af þessu ráða, að ætlunin hefur verið að hafa hann þar í haldi honum til öryggis. 51 kastaði því öllu frá sér á land, panta khamai bale: „kastaði því öllu frá sér til jarðar“. 53 Þá mælti Akkilles ... hugstóru sál = XI 403, XVII 90. 54 Mikil skelfing ... augum mínum = XIII 99. 67 Þá reiddi hinn ágæti Akkilles hið langa spjót: Í 17. ljóðl. var sagt, að hann hefði lagt spjótið frá sér. Gerir skáldið hér því steinþegjandi ráð fyrir, að hann hafi nú verið búinn að taka það aftur. 74 Eg knéfell fyrir þér ... meðaumkun með mér = Od. XXII 312. 75 Jafnt er, sem eg sé nauðleitarmaður þinn: Eigi þurfti annað en brjóta brauð í híbýlum annars manns til að öðlast rétt nauðleitarmanns hjá honum, jafnvel þótt húsráðanda væri þvert um geð að láta vernd sína í té. Hefur þessi siður verið í gildi með Aröbum fram á þenna dag. Um gesti og nauðleitarmenn sbr. t. d. Od. IX 270, Od. VII 164. Akkilles hafði fyrr geymt Lýkáon í búð sinni og gefið honum að borða, áður en hann seldi hann mansali. 76 Demetru meldurs, Demetros akten: þ.e. mjöl. Demeter var akuryrkjugyðja. Orðið „meldr“ er að fornu kk., eignarf. „meldurs“ eða „meldrar“, og þýðir „mjöl“, sbr. t. d. kenninguna „meldr Fróða þýja“ = gull. 79 hundrað uxalög: Þ.e.a.s. silfurskaftkerið, sem hann fekk, (sjá 41. ljóðl. og aths. þar), hefur verið jafngildi 100 uxa. Uxar hafa verið verðmælir þeirra tíma, sbr. XXIII 703-5. 84 skammælegan, mínynþadíos: Hið íslenzka orð er fornt, kemur fyrir í klerkamáli. 85 Laóþóa: Hún ól Príamusi tvo sonu, Lýkáon og Polýdórus, sbr. XXII 46-51. 107 Deyja mátti Patróklus, og var hann þó miklu meiri maður, en þú, katþane kai Patroklos, ho per seo pollon ameinón: Oft hefur verið vitnað í þessa ljóðl. Er mælt, að heimspekingurinn Kallisþenes hafi einu sinni minnt Alexander mikla á hana. 140 Asteropeus: Í II 848 er Pýrekmes talinn fyrirliði Peóna, en hann hafði Patróklus fellt (XVI 287). Leiðir því skáldið Asteropeus, sem er nýkominn (155. ljóðl.), fram á sjónarsviðið sem fyrirliða þeirra, sjá XVII 350. 141 Axíus: Það fljót var í Makedóníu, vestan Strymons, sjá II 849. 151 því ógæfumanna synir ... þegar á mér er móðurinn = VI 127. 153 „Hugstóri Peleifsson, hví spyr þú að ætt minni?“ Sbr. VI 145. Er samtal þetta auðsjáanlega samið með viðræður þeirra Glákusar og Díómedesar að fyrirmynd. 154 Peónaland: Sbr. II 848-50. Í II þætti eru Peónar taldir bogmenn, en hér eru þeir „vopnaðir löngum spjótum“. 165 því gulllagið, er guðinn hafði gert, stóð fyrir = XX 268, sbr. aths. þar. 175 að kippa, eryssai kheirí pakheie: „að kippa með styrkri hendi“. — Mun smekkur Sveinbjarnar hér hafa um ráðið, að hann felldi niður orðin „með styrkri hendi“, með því að höndin reyndist hér alls ekki styrk. 183 fletti hann ... hróðugur = XIII 619. 194 Akkelóus, sem er yfirfljót allra fljóta: Í fornöld var A. frægasta fljót Grikklands. Telur Hesíod hann elztan 3000 bræðra, sona Okeans og Teþýsar. Fræg var goðsögnin um viðureign þeirra Akkelóusar og Heraklesar, sbr. J.G., bls. 243. 205 hinna hestfimu Peóna, Paionas hippokorystas: „Peóna þeirra, er stríðsvögnum fylkja“. Eigi hefur Peóna verið getið hér áður, en gera verður ráð fyrir, að þeir hafi verið með foringja sínum, Asteropeusi, og meðal þeirra, sem hrakizt höfðu út í fljótið, sbr. 8. ljóðl. 223 Skamander, fóstri Seifs, svo skal vera, sem þú segir: Eigi er fullljóst, hverju Akkilles er hér að lofa. Skamander hafði beðið hann að fremja stórvirki sín á vellinum, m. ö o. reka fórnarlömbin upp úr fljótinu. Þess hefur verið til getið, að hér sé um brögð að ræða af hendi fljótsguðsins, svo að hann fái náð Akkillesi sitt vald. Gengur Akkilles í gildruna, lofar að gera það, sem hann var beðinn um, stekkur út í fljótið, eigi til að drepa Tróverja, heldur til að reka þá upp úr út á völlinn. Ef skáldið hefði fylgt venjulegum hætti, mundi það þó hafa gert oss aðvart um þessa pretti guðsins, enda er svo að sjá af 227. ljóðl., að Akkilles sé þar drepa Tróverja, en ekki aðeins að reka þá upp úr fljótinu. 227 eins og óhemja, daimoní ísos: „eins og einhver guð“. 229 „Heyr undur, Silfrinbogi, o.s. frv.“: Ræðu þessari hafa ýmsir viljað hafna sakir þess, að Apollon sé hér ekki viðstaddur til að heyra ákallið, enda sé því og ekki frekar gaumur gefinn. En sem tákn um gremju fljótsguðsins á hún rétt á sér og þarf þá ekki svars við. Að vísu vitum vér heldur ekkert um skipanir Seifs, sem getur um í 230. ljóðl. En búast má við, að fljótsguðinn fari í bræði sinni óvarlega með staðreyndir, hann vissi að minnsta kosti, að Seifur hafði leyft og jafnvel hvatt Apollon til að hjálpa Tróverjum. 237 hann öskraði, svo sem griðungur: Ef til vill er þetta skýring á því, að menn hugsuðu sér í fornöld fljótsguði oft í nautslíki. Beljandi í fljótum hefur minnt á öskur í nautum. 239 hann sveipaði utan um þá stórun djúpum hringiðum: Um það, hvernig fljót felur menn með yfirnáttúrlegum hætti, sbr. Od. XI 244, einnig Verg. Georg. IV 360 „at illum / curvata in montis faciem circumstetit unda, / accepitque sinu vasto“. — Hugmyndin virðist sprottin af því, er fjallháar öldur rísa og djúpir öldudalir myndast. Hefur mönnum þá virzt margt geta leynzt í þeim dölum. 252 sem dökkgrár veiðiörn o.s. frv.: Sbr. líkingu í XXII 178 o. áfr., ekki óáþekka. 257 Svo sem þá er vatnsveitingarmaður o.s. frv.: Á vatnsveitur minnist Hómer eigi annars staðar. Er líking þessi gædd lífi og áhrifamætti. 278 að eg mundi falla fyrir hinum snöru skeytum Appollons: Sbr. spádóm Hektors deyjanda í XXII 359-60. Þetis hafði aldrei sagt annað en Akkilles mundi skammlífur verða, eigi með hvaða hætti dauða hans mundi að höndum bera, sjá XVII 408, XVIII 98. Nokkru ákveðnari voru orð Bleiks um þetta, XIX 410. 282 svo sem svínahirðir o.s. frv.: Það mun hafa verið venja að reka svín í skóga að haustlagi til að fita þau, sbr. einnig Od. XIV, upphafið. 307 og mælti til Símóis: Á þremur stöðum öðrum ræðir um Skamander og Símóis sem tvö aðgreind fljót, V 774, VI 4 og XII 22. Leaf telur þenna stað hér og XII 22 vera seint orta, en í VI 4 er til gamall lesháttur, þar sem ekki er minnzt á Símóis. Eru því allgild rök fyrir því að ætla, að í frumkviðunni hafi aðeins verið um eitt fljót að ræða, Símóis sé aðeins annað nafn á Skamander. Við Tróju nú mun ekki verða fundið nema eitt fljót, Skamander, (Mendere), nema ef nefna skyldi lækjarsprænu eina, er þornar alveg upp á sumrin og fellur alls ekki í Mendere. Það er athugandi, að þessu ávarpi Skamanders er alls ekki svarað. 331-32 Það ætlaði eg, að það væri við þitt hæfi, o.s. frv.: Hera á hér við það, sem sagt var í XX 730 o. áfr. um það, hvernig goðunum var skipað niður til orustunnar. 346 frumhausts-útnyrðingur, opórinos Borees: þ.e. útnyrðingur um uppskerutímann, (síðsumars eða snemma hausts). 374-76 að eg skal aldrei varna óförum ... víglegu sonum Akkea = XX 315-17. 390 og hló þá hjarta hans af gleði o.s. frv.: Seifur virðist kunna að meta rétt alla þessa viðureign sem háðfærslu á alvarlegum bardaga. Það er aðeins hér og í 508. ljóðl., að Seifur gerir meira en að brosa. 396 þegar þú eggjaðir Díómedes Týdeifsson: Sbr. V 856. 400 hinn skúfaða ægisskjöld: Sbr. aths. XV 229. 403-4 Aþena hopaði aftur ... hrufóttur og mikill = VII 264—5. 405 það var marksteinn, er fornmenn höfðu sett þar: Sbr. XXIII 332. 407 lagði hann undir sig sjö plógslönd: Orðið „plógsland“ (peleþron) mun tákna landssvæði það, er einn maður með tvo uxa fyrir plógi gat plægt á dag. Kemur orðið fyrir bæði sem lengdarmál, 100 fet grísk, og flatarmál, 10.000 ferfet. En þetta er auðvitað hvort tveggja að tali manna síðar. Í Od. XI 577 þýðir Svb. þetta sama orð „stakksvöll“. Segir þar um Titýus: „og náði yfir níu stakksvelli, þar sem hann lá“. Annars má kveða svo að orði, að Hómer telji guðina að vísu stórvaxna, en ekki tröllaukin ferlíki. Í V 860 (og 744?) bregður að vísu fyrir ýkjum um raddstyrk og stærð guða. 419—20 mælti hún skjótum, orðum ... mikil firn eru slíkt = V 713—14. Atrýtóna, nafn á Aþenu, sem talið er þýða „hin óþreytandi“. 434 Þannig mælti Aþena, en hin hvítarmaða gyðja Hera brosti: Innskot úr I 595. 435 Jarðarskelfir: þ.e. Posídon. 438 til hinnar eirföstu hallar Seifs, Díos potí khalkobates dó: Orðið khalkobates [khalkos + ba-, bainó] mun takna „grundvallaður á eir“ eða „með gólfi úr eir“, (um höll Seifs I 426, XIV 173, XXI 438, 505; um höll Hefestusar Od. VIII 321 og um höll Alkínóusar Od. XIII 4). 440 þar sem eg em eldri og reyndari, en þú = XIX 219, sbr. XIII 355. 442 Þú manst ekki eftir þeim ókjörum o.s. frv.: Sagnarinnar um það, er þeir Posídon og Apollon voru í þrældómi hjá Laómedon, getur einnig í VII 452—3. Ástæðan fyrir þessu er ekki tilgreind, en sennilega hefur verið um einhverja refsingu að ræða. Goðasagnafræðingar sögðu síðar, að guðirnir hefðu gengizt undir þessa meðferð til að leiða í ljós hroka og ofmetnað Laómedons. Aðrir sögðu, að Seifur hefði refsað þeim með þessu fyrir að bindast samtökum við Heru og Aþenu um að hlekkja Seif og gera sér hann háðan, sbr. I 399. 450 fagnaðarsælu misserisgyðjur: Einkunn þessa hljóta misserisgyðjurnar (stundagyðjurnar), af því að þær færa að höndum vistarlok og kaupgreiðslu. Um misserisgyðjur sjá V 749, VIII 393. 453 Hann hótaði þér að binda þig á höndum, og fótum, syn men ho g' epeilese podas kai kheiras hyperþe / desein: „Hann hótaði að binda okkur o.s. frv.“. Er þessi lesháttur nú talinn betri, ( þ.e. syn í stað soi), enda engin ástæða til að ætla, að Apollon sæti verri meðferð en Posídon. 456 og fórum aftur til hans með heiftarhug, nóí de t' apsorroi kíomen kekoteotí þymó: „og snerum í brott frá honum með heiftarhug“. 464 sem, líkt og laufblöðin o.s. frv.: Auðsjáanlega er þetta ort með hliðsjón af hinni frægu líkingu í VI 146. 471. ljóðl. fellir Svb. niður að dæmi Aristarchusar: „Artemis veiðigyðja og mælti til hans smánarorðum“. (Komi þetta hér inn í textann á eftir orðunum „stórar átölur“). 480. ljóðl. fellir Svb. niður, enda er hún aðeins í nokkrum yngstu handritunum: „og ávítaði hina örvumglöðu (Artemis) með smánarorðum“. (Komi þetta hér inn í textann á eftir „kona Seifs reiddist“, en orðin „og mælti til hennar“ falli brott). 483 Seifur gerði þig að óargadýri mennskra kvenna, se leonta gynaixín / Zevs þeken: þ.e. a. s. Artemisi hafði verið fenginn boginn til að vinna á dauðlegum konum, en ekki á ódauðlegum gyðjum eins og Heru. — Orðið león, -ontos er sennilega tökuorð (semizkt). Í semízkri goðafræði birtist dauðinn í gervi ljóns, og vottar fyrir því táknmáli einnig með Grikkjum, t. d. hér. Um Artemis sem banagyðju sjá VI 205, 428 o.s. frv. Er og mælt, að hún hafi tignuð verið í Ambrakíu í mynd ljónsmóður. 493 svo sem dúfa o.s. frv.: Með líkingunni á að lýsa ótta Artemisar, sbr. XXII 141. 510. ljóðl. fellir Svb. niður, enda vantar hana í flest handritanna, „ósæmilega, svo sem hefðir þú gert eitthvað illt af þér opinberlega“. (Komi þetta inn í textann á eftir orðunum „dóttir góð“). Annars eru 509.—510. ljóðl. (Hverr af himinbúum ... opinberlega) teknar úr V 373—4, enda er allur þessi kafli ortur með hliðsjón af lýsingunni á því, er Afrodíta er særð, svo sem lýst er þar. 522 Svo sem reyk leggur upp í hinn víða himin o.s. frv.: Þetta er sniðið eftir XVIII 207. Hryðjuverkum Akkillesar virðist eiga að lýsa með hörmungum brennandi borgar, en samkvæmt orðanna hljóðan er þeim líkt við reykinn. Missir því líkingin að verulegu leyti marks. 526 í hinum goðreista turni: Er svona að orði komizt, af því að Posídon hafði reist borgarvegg Tróju. 545 Agenor: Hann er einn hinn ágætasti kappi Trójumanna, sjá XI 59, XII 93. 549 við ætibjörkina, fegó: Orðið fegos, -ú táknar sérstaka tegund af eik, sem ber æt akörn. Eikin, skammt frá Skehliði, var alkunnugt kennimark á vellinum, sbr. VI 237, VII 22, IX 354, XI 170. 552 Mælti hann þá ... sína hugstóru sál = XI 403. Er ljóðl. þessi þar inngangur að ræðu, sem er mjög lík ræðu Antenors hér, þótt hún sé styttri. Að efnisskipun eru íhuganir Hektors í XXII 99—130 ennþá líkari ræðu Antenors. Í öllum þessum köflum eru möguleikarnir til undankomu athugaðir, en síðan hafnað með sömu orðum, XI 407 = XXI 562 = XXII 122, (en hví velki eg þetta í huga mér?), því að hetjan vill heldur verjast með sæmd en flýja af hólmi. 558 Íluvöll, pedíon Ileíon: Þess hefur verið til getið, að hér ætti að standa Ideíon í stað Ileíon, og væri þá átt við sléttlendið í dal þeim, sem fljótið Skamander rennur um frá rótum Ídafjalls. Virðist Agenor hugsa sér að sleppa úr þrönginni við hliðið vestur fyrir borgina. Annars nefnir skáldið ekki annan völl en þann, sem var á milli borgarinnar og grísku herbúðanna, en við hann getur það ekki átt, því að þá hefði Agenor anað út í opinn dauðann. 570. ljóðl. fellir Svb. niður að dæmi Aristarchusar: „enda þótt Seifur Kronusson veiti honum frægð“. Er ljóðl. þessi komin úr VIII 141, en er hér í beinni mótsögn við það, sem áður var látið í ljós, vonina um að sigra Akkilles. (Komi hún inn í textann á eftir orðunum „muni dáið geta“.) 573 flekkudýr, pardalis: þ.e. pardusdýr, enda þýðir Svb. orðið einnig svo, sbr. XIII 103, XVII 20. 591 missifengur, afamarten: Þetta er fornt orð, sbr. Flat. I 492³ O. konungr hafði verit eigi missifengr, hvat sem hann hafði áðr til skotit, en engi þessi kesja kom á jarl. TUTTUGASTI OG ANNAR ÞÁTTUR Sögnin um fall Hektors er einföld og brotalaus, sæti hennar í frumkviðunni um reiði Akkillesar óumdeilanlegt. Er hún í nánum tengslum við lok þáttarins á undan, svo að jafnvel XXI 526 (Príamus hinn gamli stóð uppi í hinum goðreista turni o.s. frv.) gæti virzt eðlilegri þáttaskil. Í þættinum munu samt vera nokkrir síðari íaukar. Flestir þeirra eru stuttir og eigi þýðingarmiklir fyrir frásögnina. Hinn mikilvægasti er lokaatriði þáttarins, sem frá fornu fari hefur af ýmsum ástæðum verið talið síðar ort. Sumir þýzkir gagnrýnendur hafa álitið, að með 394. ljóðl., sigursöng yfir Hektor föllnum, hafi frumkviðunni um reiði Akkillesar lokið. Hins vegar telur Leaf 404. ljóðl. (því þá hafði Seifur fengið Hektor óvinunum í hendur til smánarlegrar meðferðar í föðurlandi sjálfs hans) eðlilegri endir. Næsti kafli, 405.-36. ljóðl., er auðsjáanlega aðdragandi að útlausn líksins í XXIV. þætti. Hins vegar minna hinar fögru ljóðlínur 437-515 á lýsinguna á skilnaði þeirra Hektors og Andrómökku, eiginmanns og eiginkonu, í VI. þætti, og mætti ætla, að sama skáldi hefði ort þá kafla báða. Raunar hæfir lýsingin á hlutskipti munaðarleysingjans, 487.-507. ljóðl., tæplega þessu samhengi, eins og Aristarchus skynjaði fyrir löngu, þó að hún sé annars átakanleg og sönn. Annars má segja, að þátturinn í heild skipi veglegan sess meðal söguljóða. Hann hefur sérstöðu í Ilíonskviðu að því leyti, að frá upphafi til enda er þar ekki einnar einustu grískrar hetju getið nema Akkillesar og Patróklusar. 7 en Febus Appollon mælti til Peleifssonar: Apollon er enn í gervi Agenors, sbr. XXI 600. 24 svo létt ... og knjáliðu = XV 269. 27 stjarna sú, er upp rennur á frumhausti: Átt er við Siríus eins og í V 5. Hómer skiptir árinu í vor, fyrri hluta sumars (þeros), síðsumar (opóre, sem Svb. kallar „frumhaust“) og vetur, enda eru snögg umskipti í Grikklandi frá sumarhitum til vetrarkulda. Siríus boðaði mestu sumarhitana, hundadagana, sem jafnan þóttu vera óhollasti árstíminn, sbr. ennfremur XI 62 og XIII 244-45. „Um lágnættið“ skín Siríus aðeins vetur og vor, en ekki á sumrin. En líkingin verður einmitt frábær fyrir þessi tengsl hins skæra skins og banvænna áhrifa stjörnunnar, þótt stjarnfræðilegir meinbugir kunni þar á að vera. 29 Oríonshund: Nú hefur Hundsnafnið (Canis major) flutzt yfir á allt stjörnumerkið, sem Siríus er skærasta stjarnan í. 31 og færir veslum mönnum megna brunasótt: Sbr. það, sem Virgill segir um sömu stjörnu Aen. X 274 Sitim morbosque ferens mortalibus aegris. 43 Eg vildi óska, að þessi hinn grimmi maður o.s. frv.: Ósk þessi er að orðalagi mjög lík þeirri, sem er að finna í XXI 428-33. 46 Og nú get eg ekki séð ... tvo sonu mína: Um fall þeirra Lýkáons og Polýdórusar sjá XX 407 o. áfr., XXI 34 o. áfr. og um Laóþóu XXI 85 o. áfr. 48 hin göfuga kona Laóþóa, Laoþoe, kreiúsa gynaikón: „Laóþóa, skörungur meðal kvenna“. Mun einkunnin kreiúsa tákna, að hún hafi verið lögmæt eiginkona, en ekki venjuleg hjákona. Er auðsætt, að Príamus hefur átt margar konur. Hefur fjölkvæni viðgengizt með Trójumönnum, en ekki með Grikkjum. Er þetta aðalmunurinn á siðum beggja þjóðanna, eins og þeim er lýst í Ilíonskviðu. 51 Altes var konungur Lelega og faðir Laóþóu, sbr. XXI 85, 86. 52 En séu þeir dánir og komnir til Hadesarheimkynna: Ljóðl. þessi kemur fjórum sinnum fyrir í Odysseifskviðu, (IV 834, XV 350, XX 208, XXIV 264). 60 á elliþremi, epí geraos údó: Venjulega er þetta talið þýða „á þröskuldi ellinnar“, þ.e. a. s. við upphaf ellinnar, en það getur tæplega átt við hér. Er þýðing Sveinbjarnar ágæt og nær vel þeirri hugsun, sem fyrir skáldinu mun hafa vakað. Nokkrum sinnum kemur orðatiltæki þetta fyrir í Odysseifskviðu, og þýðir Svb. þar með ýmsum hætti, en ávallt vel, (Od. XV 246, 348, Od. XXIII 212). 88 hin mundsæla kona þín, alokhos polydóros: Sennilega þýðir polydóros hér sama og polyednos, „keypt með mörgum gjöfum“, sbr. VI 394 og Od. XXIV 294, sbr. einnig aths. XVI 178 og XVIII 593. 93 Svo sem fjalldreki sá o.s. frv., hós de drakón ktl.: Átt er við slöngu á fjöllum uppi, „er etið hefir mörg eiturgrös“. Var það trú manna í fornöld, að slöngur öfluðu sér eiturs með því að eta slík eiturgrös, og væru þær aldrei hættulegri né eitraðri en þegar þær væru nýbúnar að eta sig saddar af slíkum jurtum. 97 upp við eitt útbrot á borgarveggnum, pyrgó epí prúkhontí: „Útbrot“ er fornt orð í þessari merkingu, ( þ.e. „útskot“), sbr. Maríu sögu 1040²: þat vegliga musteri er brotit með veggjunum víða, sem háttr er til í stórvirkjum, ok í eitt af þessum útbrotum víkr ungi maðr til bænar. 98 og mælti við sína hugstóru sál í þungu skapi: Sbr. aths. XXI 552. 100 Þá mun Polýdamant o.s. frv.: Hér er hugsað til ræðu Polýdamants í XVIII 249 o. áfr. 103 en eg gegndi honum ekki ... miklu betra = V 201. 105 fyrirverð eg mig ... tróversku konum = VI 442. 111 hinn búklaða skjöld. aspída ... omfaloessan: „Bukl“ kallaðist í fornu máli hnúður á miðju ytraborði skjaldarins, lat. umbo (mlat. buccula), og er lo. „búklaður“ dregið af því. 117 Atreifssonum: þ.e. Agamemnon og Menelás. 120 heldur skipta öllu til jafnaðar, all' andikha panta dasasþai: þ.e. öllu skyldi skipt í tvo jafna hluta, Trójumenn halda öðrum, en Akkear fá hinn, sbr. XVIII 511—12. 121. ljóðl. fellir Svb. niður, enda er hún sennilega innskot hér úr XVIII 512, „öllu því fé, sem hin yndislega borg hefur að geyma“. (Í XVIII 512 fellir Svb. niður einkunnina „yndisleg“). Komi þetta inn í textann eftir orðunum „til jafnaðar“. 126 Það tjáir ekki að hjala við Akkilles ofan úr einhverju tré eða ofan af bjargi o.s. frv.: Sbr. aths. Od. XIX 163. 128. ljóðl. fellir Svb. niður: „— sveinn og mær! hjala hvort við annað“. (Komi inn í textann á eftir orðunum „hjala hvort vð annað“). Þessi endurtekning virðist bezt skilin á þá lund, að með henni eigi að undirstrika mótsetninguna milli afstöðu Hektors til Akkillesar og unglinga að ástarhjali hins vegar. 132 hinn hjálmóði herguð, koryþaïkí ptolemiste: „berserknum með hinn leiftrandi hjálm“. Virðist koryþaïx sömu merkingar og koryþaiolos, sem Svb. þýðir „hjálmkvikur“, sbr. aths. XX 38. 133 Pelíonsask: Sbr. aths. XVI 143. 145—46 eftir kerrubrautinni: Leaf hugsar sér, að þessi braut hafi legið umhverfis borgina, spölkorn frá borgarmúrnum. fram hjá leitinu og hinum veðurnæma fíkjuhól: Sennilega eru þetta eiginnöfn, að minnsta kosti fíkjuhóllinn. Fornmenn töldu hann verið hafa lund fíkjutrjáa á hól einum skammt frá Skehliði. Er hann einnig nefndur sem kennimark í VI 433. 146 æ lengra og lengra frá borgarveggnum, teikheos aien hypek: „ávallt spölkorn frá borgarveggnum“, þ.e. til að tryggja sér skeiðvöll eftir vagnbrautinni. Svb. hefur auðsjáanlega fylgt þeirri skýringu, að braut þessi hafi legið brott frá borginni að uppsprettulindum Skamanders. Hitt virðist sönnu nær, að skáldið hafi hugsað sér upptök árinnar við rætur hæðarinnar, sem Trója stóð á. Nú er vitað, að Mendere, en svo kallast nú Skamander, á upptök sín í Ídafjalli, rúma 30 km. frá borginni til suðausturs. Það er hins vegar rétt hermt hjá skáldinu, að áin kemur upp í tveimur stórum uppsprettum, og er hitastig þeirra eigi hið sama. Í annarri er vatnið 8.4°, en í hinni 15.8° á Celsíus. Mun þessi mismunur á hitastigi þeirra stafa af því, að hin kaldari uppsprettan myndast við snjóbráð. Sé þessi lýsing athuguð, má af henni ráða, að staðfræðiþekking skáldsins hafi verið reist á frásögnum annarra. Sumt er rétt, annað ranghermt. Að uppsprettulindir fljótsins voru misheitar, mun mönnum hafa þótt kynlegt og því frásagnarvert, þó að munurinn sé hér að vísu mjög ýktur. 153 laugardælir af steini: Sbr. Od. VI 40. Höfðingskonur Tróverja fara sjálfar til línþvotta eins og konungsdóttirin Násíka. 162 Svo sem þá er sigurvanir, einhæfðir hestar o.s. frv.: Um einkunnina „einhæfðir“ (mónykhes) sbr. aths. Od. XV 46. Um þrífætinga getur oft sem verðlaun, sjá VIII 290, IX 122. Kappakstur var vegleg íþrótt og þáttur í dánarleikum, sbr. XXIII. þátt. 170 sem brennt hefir mér til fórnar marga blótbita o.s. frv.: Í VIII 48 er þess getið, að Seifur eigi altari á Gargarstindi, hæsta tindi Ídafjalls (5806 fet yfir sjávarmáli). Schliemann fann þar marmarahellu, sem hann taldi vera úr altari. 174—6 Heyrið nú, þér guðir ... yfirstíga þenna hrausta mann: Sbr. svipaðan kafla viðvíkjandi Sarpedon í XVI 435—8. 179-81 Ætlar þú aftur að frelsa dauðlegan mann ... hinir guðirnir verða allir á þínu máli = XVI 441—43. 182—4 Skýsafnarinn Seifur ... þér eftirlátur = VIII 38—40. Virðast þessar ljóðlínur eiga öllu betur við hér. Seifur sér sig um hönd, gerir sér ljóst, að örlagastundin er upprunnin. 183 Trítogenía: Þetta er forn einkunn eða nafn á Aþenu. Fornir skýrendur töldu það dregið af nafni fljóts eins, sem Tríton hét, eða af heiti vatns eins í Libýu, er kallaðist Trítonis. 194 því svo oft sem hann leitaði að hlaupa til Dardanshliðs o.s. frv.: Eina skýringin á þessu er sú, að Hektor hlaupi enn eftir vagnbrautinni (146. ljóðl.), en Akkilles stytti sér leið með því að hlaupa meðfram borgarveggnum. Þannig má hann, þó að hann nái ekki Hektori, bægja honum frá, hvenær sem hann reynir að komast að hliðinu. Aristarchus taldi Dardanshlið og Skehlið vera eitt og hið sama, sbr. einnig V 789. 199 Svo sem maður í draumi o.s. frv.: Þetta er eina líkingin í Hómerskviðum af sviði sálrænna fyrirbæra. Þungamiðja líkingarinnar er sú tilfinning, sem oft gerir vart við sig í draumi, að þykjast þurfa að hraða sér sem mest, en fá sig hvergi hrært. Hefur Virgill stælt þessa líkingu í Aen. XII 908 Ac velut in somnis, oculos ubi languida pressit / Nocte quies, nequiquam avidos extendere cursus / velle videmur, et in mediis conatibus aegri / Succidimus; non lingua valet, non corpore notae / Sufficiunt vires, nec vox aut verba sequuntur. 202—4 En hvernig hefði Hektor ... styrk og fráleik: Leaf skilur þessar ljóðlínur að nokkru á annan veg en Svb.: „Hvernig hefði Hektor (fram til þessa) mátt umflýja valkyrjur dauðans, hefði Appollon ekki komið honum til hjálpar, styrkt hug hans og gert kné hans liðug, (þó að vísu) væri í síðasta sinn. Hinn ágæti Akkilles gerði einnig sínum mönnum höfuðbendingu og bannaði þeim að skjóta bitrum skeytum að Hektori o.s. frv.“. — Fyrsta þætti harmleiksins, falli Hektors, er lokið. Greinilegt hlé verður á frásögninni. Hektor hefur komizt undan Akkillesi á hlaupunum, orðið honum hlutskarpari einmitt í þeirri íþróttagrein, sem hinn „fóthvati“ (podas ókys) Akkilles hefði fyrst og fremst getað verið viss um að vera andstæðingi sínum ofjarl. Þetta er vanvirða fyrir Akkilles, ef ekki er útskýrt nánar, hið gríska skáld verður að sjá borgið heiðri hinnar grísku hetju: Það var Apollon, sem veitti Hektori það þrek og þann fráleik, sem þurfti til að komast undan Akkillesi á hlaupunum. — Svb. hefur í þýðingu sinni fellt alveg brott orðin pymaton te kai hystaton (203. ljóðl.), „í allra síðasta sinn“, en bætt hins vegar inn í orðunum „að nýju“. Ættu því hin fyrr greindu orð að koma inn í þýðinguna í stað hinna síðar nefndu. 209-10 þá vatt faðir Seifur ... tvær, banavalkyrjur = VIII 69-70. (Í VIII. þætti ritar Svb. orðið „banavalkyrjur“ með stórum upphafsstaf). 212 síðan tók hann um vogarmundanginn ... skapadægur Hektors = VIII 72. — Ljóðlínur þessar um vogarskálar Seifs eiga miklu betur við hér en í VIII. þætti. Hér er í raun og veru um skapadægur að ræða, en á hinum staðnum aðeins um bráðabirgðaundanhald Grikkja. — Annars má láta þess getið, að sálir á metaskálum var algengt myndtákn í trúarbrögðum Egypta. Vert er að minnast þess, að Aeschylus samdi harmleik, (sem nú er týndur), er Psykhostasía (= sálnavigtun) nefndist. Þar voru þær Þetis og Eos að vega sálir Akkillesar og Memnons og komust að raun um, að hinn síðar nefndi var léttari. Hefur Aeschylus sennilega haft í huga þenna stað í Ilíonskviðu, er hann samdi þetta leikrit. Háðfærði Aristofanes þetta tiltæki Aeschylusar í Froskunum 1365 o. áfr. 221 og hversu sem hann þráveltist o.s. frv.: Þessi orð eiga auðvitað við Apollon. ægisskjalda: Sbr. aths. XV 229. 227 í líki Deífobuss: Hann var bróðir Hektors, sbr. einnig XIII 402 o. áfr. 228 skjótum orðum, epea pteroenta: Sbr. aths. Od. X 324. 231 Heyr, látum okkur ... og verjast héðan = XI 348. 232 Hinn hjálmkviki Hektor: Sbr. aths. XVII 96. 261 Þú Hektor, sem eg aldrei gleymi, Hektor ... alaste: Þ.e.a.s. sakir þeirra illvirkja, sem þú hefur framið. Svb. skýrir þá orðið alastos svona [a- + laþ-, lanþanó]. En Leaf hugsar sér það dregið af alatsó, aukamynd af ala-omai, „að vera ruglaður“, og muni því rétt að þýða hér: „Hektor, þú hinn óði maður“. 266-7 fyrr en annar hvorr ... á blóði sínu = V 288-9. 299 og hefir Aþena svikið mig: Hektor veit, hver hefur svikið hann, alveg eins og Akkilles veit í XX 450, að það var Apollon, er barg Hektori. 301 Áður fyrr var Seifi og svo hinum fjarskeyta guði, syni Seifs, það kærara, að eg leitaði mér farborða og frelsuðu þeir mig oft af miskunn sinni, en nú hefur skapanornin náð mér, e gar hra palai to ge fílteron een / Zení te kai Díos hyí hekeboló, hoi me paros ge / profrones eiryato: nyn áte me moira kikhanei: „Svona ( þ.e. að eg skyldi falla hér) hefur Seifi og hinum fjarskeyta guði, syni Seifs, (Apollon), þóknazt að haga þessu frá öndverðu, einmitt þeim, sem frelsuðu mig oft áður af miskunn sinni o.s. frv.“. Munurinn er í rauninni aðeins sá, að Leaf telur to ge eiga við setninguna á undan, en Svb. talið það taka til þess, er síðar kom í sömu setningu. 315-16 og bifuðust þá ... í hjálmbustinni = XIX 382-3. Er hinni síðari af þessum ljóðlínum sleppt í ýmsum handritum, enda á hún ekki heima í hinum eldri hlutum kviðunnar, þar sem engrar vitneskju verður vart um Vopnsmíðarþátt. 317 Svo sem kvöldstjarnan o.s. frv.: Átt er við stjörnuna Venus. Hómer getur hennar og sem morgunstjörnu XXIII 226 og Od. XIII 93, (sbr. Verg. Aen. VIII 589). 323 Eirvopn þau hin fögru ... sterka Patróklus = XVII 187. 331 „Þú munt þó hafa hugsað, Hektor o.s. frv.“: Þessari ræðu Akkillesar er auðvitað af ásettu ráði hagað eftir storkunaryrðum Hektors, er hann vó Patróklus, XVI 830. 342-3 en skila aftur líki mínu ... brenna mig dauðan = VII 79-80. 352 Príamus Dardansniðji: Sbr. aths. XIII 376. 356 „Eg sé, að þú ert, eins og þú hefir reynzt mér o.s. frv.“: Það er auðvitað með vilja gert að láta víg þeirra Hektors og Patróklusar bera að með svona líkum hætti, báðir öðlast þeir deyjandi þá gáfu að sjá óorðna hluti. 361-4 Þá hann hafði þetta mælt ... Akkilles til hans = XVI 855-8. 372 Leit þá margur maður ... og tók til orða = II 271. 375 en engi gekk svo að honum, að hann ekki særði hann einhverju sári: Eigi virðist skáldið hafa haft neitt að athuga við þessar villimannlegu aðfarir, enda er það útbreidd trú, að eigi þurfi að óttast afturgöngu fallins fjandmanns, ef lík hans er limlest. Hitt er og líklegt, að hver þeirra Mýrmídóna, sem misst hafði skyldmenni fyrir Hektori, hafi fundizt hann hafa rétt til að veita líkinu áverka. 393-4 Vér höfum unnið mikla frægð ... svo sem einum af guðunum: Í einu handriti er skrifað út á jaðri við þessar ljóðl.: hútos estín ho paian, „þetta er fagnaðarsöngurinn“, ( þ.e. a. s. sem Akkilles skoraði á menn sína að syngja). 406 hinni smágjörvu skýlu, líparen ... kalyptren: Orðið líparos virðist notað sem einkunn með línklæðum, sem eru gljáandi af viðsmjöri, sbr. aths. XVIII 596, ennfremur aths. XXIV 94. 414 hann veltist um í moldinni, kylíndomenos kata kopron: „hann veltist í saurnum“, sjá XXIV 164, 640, og er það allt með felldu, að talað er þar um saur eða mykju í hallargarðinum, þar sem skepnur voru hýstar. Í Od. XVII 296-9 kemur orðið fyrir, notað um hauginn, sem Argus, hundur Odysseifs, hafðist við á fyrir framan hallardyrnar. 419 ef hann kann að virða aldur minn og aumka elli mína, en pós helikíen aidessetai ed' eleese / geras: „ef ske kynni, að hann fyriryrði sig fyrir jafnöldrum sínum og aumkaði elli mína“. — Orðið helikíe hafa ýmsir skilið hér á sömu lund og Sveinbjörn, þó að nú muni réttar talið að þýða það „jafnaldrar“, sbr. aths. XVI 808. 430 en Hekaba hóf upp þungar harmatölur meðal Trójukvenna: Sbr. XVIII 316, XXIV 747. 441 og var að vefa tvískikkju af purpura o.s. frv.: Sbr. III 125-6. 448 þá skulfu hendur hennar, tes d' elelíkhþe gyía: „þá skulfu limir hennar“. og skeiðin féll ofan á gólf, khamai de hoi ekpese kerkis: í Od. V 62 þýðir Svb. orðið kerkis „hræll“, en hér „skeið“, og er ekki vitað, hvort muni réttara. 451 hinnar heiðvirðu sværu minnar: Orðið „sværa“ er fornt og þýðir tengdamóðir, þ.e.a.s. þegar átt er við móður eiginmanns, sbr. „sværa heitir vers móðir“ Sæm. Edd. I 538³, en tengdadóttir (kona sonar) = sonarkván var „snor“ eða „snör“ Sæm. Edd. I 538³. 457 gert enda á hinni voðalegu karlmennsku: Þetta er sem bergmál frá síðustu orðum Andrómökku við Hektor, VI 407 „Áhugi þinn mun verða þér að fjörlesti“. 468 fuku þá af höfði hennar hin glæsilegu höfuðbönd, tele d' apo kratos bale desmata sígaloenta: „Langt burt af höfði sér fleygði hún hinum glæsilegu höfuðböndum“. — Andrómakka gerir þetta ósjálfrátt um leið og hún hnígur í ómegin. Lýsir sér í þessu hinn óbærilegi harmur hennar. „Höfuðbönd“ er safnheiti, en síðan eru hinir einstöku hlutar höfuðbandanna taldir upp. 469 ennisdregillinn, ampyx: málmspöng um ennið = stefane í XVIII 597., sem Svb. þýðir „sveigur“. hárnetið, kekryfalon: Sennilega hefur þetta verið einhvers konar kollhúfa eða strútur. hin fléttaða umgjörð, plekten anadesmen: Það mundi þá verið hafa einhvers konar skraut á húfunni. Svb. virðist hafa álitið það vera umgerð til að halda „hárnetinu“ í skefjum. Er þýðing Sveinbjarnar hér öldungis samhljóða skýringu þeirri, sem er að finna í útgáfu Ilíonskviðu eftir Gottl. Christ. Crusius, Hannover 1840. Bendir þetta atriði og fleira til þess, að Sveinbjörn hafi notað þá útgáfu. 472 leiddi hana heim til sín úr húsi Etjons: Sbr. VI 395 o. áfr. 473 mágkonur, galoó: þ.e. systur eiginmanns hennar. svilkonur, einateres: þ.e. bræðrakonur eiginmanns hennar, (sbr. orðið „svilar“ um menn, sem giftir eru sinn hvorri systurinni), sbr. einnig VI 378, XXIV 769. 479 en eg í Þebu o.s. frv: Sbr. VI 396. 487-99 Og þó hann komist lífs af ... til móður sinnar, ekkjunnar: Aristarchus taldi þessar ljóðl. innskot, af því að þær væru fjarstæða hér, með því að konungborinn sveinn, sem enn átti á lífi afa og föðurbræður, mundi aldrei hafa verið látinn sæta jafnömurlegu hlutskipti. Hér væri kjörum munaðarleysingjans lýst almennt alveg án tillits til Astýanax. En þá yrðu, eins og Leaf bendir á, 500.—504. ljóðl. einnig að hverfa, því að þær eru út í bláinn nema sem andstæða við þá mynd af skortinum, sem dregin var upp áður. 489 munu taka frá honum akurlönd hans, alloi gar hoi apúresúsín arúras: Eiginlega felst í þessum orðum, að rangsleitnir nágrannar muni færa til landamerkjasteinana af því landi, sem honum hefur verið úthlutað af almannaakrinum. Munu óvandaðir nágrannar einatt hafa beitt lítilmagna slíkum rangindum. Varð ekki úr þess háttar deilum skorið nema með því að mæla landið af nýju, sbr. t. d. líkinguna í XII 421, og um sameignar- og konungslendur aths. XVIII 550. 506 hann sem Trójumenn gáfu þetta viðurnefni, ( þ.e. Astýanax): Merking nafnsins er útskýrð í VI 402—3, (= Borgarvörður). 513 þau eru þér til engra nota o.s. frv.: Hér virðist átt við það, að fyrst Hektor verði ekki sjálfur brenndur í klæðum sínum, muni þau ekki fara með honum til undirheima. Sál hans muni reika um nakin hérna megin fljótsins, (sbr. XXIII 71—4 og J.G., bls. 104 efst). En þessi athöfn, að brenna klæði hans, mun samt verða uppbót fyrir útförina, huggun fyrir eftirlifendurna. TUTTUGASTI OG ÞRIÐJI ÞÁTTUR Einhvers staðar hefur Schiller komizt svo að orði, að eigi gæti sá maður með sanni sagt, að hann hefði til einkis lifað, sem lesið hefði tuttugasta og þriðja þátt í Ilíonskviðu. Þótt lof þetta kunni að þykja nokkrum ýkjum blandið, verður því eigi í móti mælt, að af list eru í þessum þætti snortnir margvíslegir strengir mannlegra tilfinninga, allt frá spurningunni miklu um ódauðleika sálarinnar, sem vaknar í hugum manna, þegar vofa hins fallna Patróklusar birtist, til fagnaðarsællar gleði og æskuþrótts, er leikur sem logi helgrar lífsorku um lýsingarnar á kappleikunum. Fyrri hluti þáttarins, útförin, (1.—257. ljóðl.), er heilsteyptur og fagur, ljómandi af andagift. Verður þar tæplega vart íauka eða innskota. Hins vegar hafa gagnrýnendur haft ýmislegt að athuga við síðari hluta þáttarins, dánarleikana eftir Patróklus. Gildir þetta einkum heilræðaþulur Nestors, (303.—350. ljóðl.). Þykja auðsæ, merki þess, að þeim hafi hér með valdi verið skotið inn í keppendaskrána. Sé þar krökkt torskilinna orða, sem beri engan keim söguljóða, enda séu heilræðin ekki í neinum tengslum við atburði kappakstursins á eftir. Sé þessu og líkt farið með aðrar óskáldlegar spekiræður, sem Nestori eru í munn lagðar, ávallt með óheppilegum afleiðingum fyrir samhengi frásagnarinnar. Loks hafa flestir gagnrýnendur orðið á eitt sáttir um, að kaflinn 798.-883. ljóðl. sé síðara innskot. Eru lýsingar hinna þriggja kappleika þar, (einvígis, kúluvarps og bogfimi), fullar óskáldlegra firna og fjarstæðna, og að frásagnarsnilld standa þær mjög að baki lýsingum á úrslitum í hinum öðrum íþróttagreinum. Niðurlag þáttarins, 884.-97. ljóðl., kann að þykja nokkuð á skorta um þrótt eftir lýsingar á hinum fyrri afrekum í þættinum, en er þó talið frá upphafi að hafa táknað endi kappleikanna. Annars skal það tekið fram, að hinar snilldarlegu frásagnir af kappleikunum í þessum þætti hafa eignazt fjölda stælenda, sem raunar hefur aldrei auðnazt að komast til jafns við þessa fyrirmynd allra íþróttalýsinga. Öll stílseinkenni benda til þess, að sama skáldið hafi ort fyrri hluta þessa þáttar, um útförina, og tuttugasta og fjórða þátt. (Mætti skeyta XXIII 257 við XXIV 3). Hins vegar mun engum getum verða að því leitt, hver höfundur sé lýsingarinnar á kappleikunum. Má með sanni segja, að hún sé sérstæð að frásagnarhætti og frásagnarsnilld. 2 til skipanna og Hellusunds: Eins og í VII 86 verður að telja, að hér sé átt við hafið rétt utan við hið eiginlega Hellusund (Hellespont), því að herbúðir Akkea munu verið hafa á milli höfðanna Rhöteion og Sígeion. 7 hina einhæfðu hesta: Sbr. aths. Od. XV 46. 9 því það er sá heiður, sem dánir menn njóta, ho gar geras estí þanontón: = XVI 675, Od. XXIV 296 o.s. frv. 13 Þeir keyrðu hina faxprúðu hesta þrem sinnum í kring um líkið: Sbr. XXIV 16. Hér hugsar skáldið sér lík Patróklusar undir berum himni á ströndinni, þar sem Myrmídónar og Akkilles sofa, en í XIX 211 var líkið inni í búð. 16 slíkum flóttafrömuði, toion ... mestóra foboio: Orðið „flóttafrömuður“ virðist nýyrði. 17-18 en Peleifsson hóf upp ... á brjóst vinar síns = XVIII 316-17. 28 Ajaksniðja. þ.e. Akkilles, sbr. aths. XVI 134. 29 svo hundruðum skipti, myríoi: „ákaflega margir“, „ótölulegir“, sbr. I 2. Samkvæmt XVI 168 voru Myrmídónar 2500 að tölu. 32-33 og mörgum bráðfeitum ... loganda sviðueldi = IX 467-8. Orðið „sviðueldur“ er fornt og táknar eiginlega eld, sem sauðahöfuð eru sviðin við. 34 svo ausa mátti með skálum: Sennilega hefur blóð fórnardýranna verið látið koma í skálar, sem síðan hefur verið hellt úr í kringum náinn. Hefur blóðið verið talin gjöf syrgjandans hinum látna til handa. Á blóði bergja vofurnar sem styrkjandi drykk við hina einkennilegu særingarathöfn, sem lýst er í för Odysseifs til Hadesarheims, Od. X 535 o. áfr., Od. XI 81, 96, 153 o.s. frv. 40-41 að setja stóran þrífæting ... hið storknaða blóðhlaup = XVIII 344-5. 46 og skorið hár mitt: Um hárskurð sem tákn sorgar sbr. 135. ljóðl. og Od. IV 198. 58 gengu þeir ... sinnar búðar = I 606. 62 þá greip hann blundurinn ... sorgir hugarins = Od. XX 56, sbr. og Od. XXIII 342. 73 og banna mér að komast til sín yfir fljótið: Ekki ber hér vofum þeirra Patróklusar og Elpenors (Od. XI 5I—83) alveg saman um nauðsyn útfarar til að komast inn í Hadesarheim. Þó að Elpenor sé ójarðaður, virðist fljótið, ( þ.e. Akkeron, sbr. J.G., bls. 104 efst), ekki tálma för hans til vofanna. Svo er það og í Od. XXIV 186 o. áfr., að vofur biðlanna komast til skugganna í undirheimum, þó að lík þeirra séu enn ójörðuð. Hins vegar var það ævinlega talin heilög skylda eftirlifandi aðstandenda að sjá um, að lík framliðinna hlytu sómasamlega greftrun. 74 ráfa eg því svo búinn um hinn víðhliðaða Hadesarheim: Raunar virðist þetta mótsögn við það, sem vofan hermdi rétt áður, að hún væri ekki enn komin „inn um Hadesarhlið“. Sennilega á skáldið aðeins við það, að enn sé vofan stödd í forgarði Hadesarheims. 85 að Menöytíus flutti mig ungan til ykkar frá Ópuntsborg: Sjá XVIII 325 o. áfr. og aths. XVIII 325. — Hér er að ræða um útlegðardóm fyrir víg, sem unnið er í stundaræsingi. Hitt virðist þó verið hafa öllu algengara á tímum þeim, sem Hómer kveður um, að sætzt hafi verið á víg og vígsbætur goldnar, (sjá IX 632—6). Að vísu má og sjá þess merki, t. d. af XXIV 480—1, að útlegð hafa menn stundum sætt fyrir víg. Eigi verður nú úr því skorið, hver munur hefur verið á sakargiftum, er dæmt var til útlegðar eða til greiðslu vígsbóta. Þess er t. d. ekki getið hér, hvort sonur Amfídamants hafi verið skyldur Patróklusi eða ekki. En öllum ber saman um, að útlegð muni verið hafa eldri refsing en vígsbætur. 88 út af kotrunni, amf' astragaloisí: Þessa leiks getur ekki annars staðar í Hómerskviðum, þó að hann yrði vinsæll síðar í Grikklandi. Orðið astragalos þýðir „hálsliður“. Munu bein þessi hafa verið telgd til og notuð í leiknum. 90 hersvein þinn, son þorapont'; Átt er við aðstoðarmann herforingja (Adjutant). 92 gullkrukka sú, er hin heiðvirða móðir þín gaf þér: Ljóðl. þessi hefur frá fornu fari verið talin innskot úr Od. XXIV 74, en þar þýðir Svb. orðin khryseos amfíforevs, „byðnu af gulli“, en hér „gullkrukku“. Samkvæmt frásögninni af útför Akkillesar í Od. XXIV 570 o. áfr., kemur Þetis móðir hans með þessa „byðnu af gulli“ eftir fall kappans sonar hennar, en hér er svo að skilja sem hún hafi gefið honum hana, áður en hann lagði upp í herferðina, — og hefði það vissulega verið hinn versti fyrirboði. 101 ymjandi, tetrígyía: Rómurinn er jafnþróttlaus eftirlíking mannsraddarinnar, eins og hún var í lifanda lífi, sem vofan sjálf (eidólon) er vesæl mynd mannsins. Hugmyndunum um vofurnar er nánar lýst í Od. XXIV 6—10, þar sem ræðir um vofur hinna vegnu biðla. 103 Sannlega ertu þá og til vofur og svipir í Hadesarheimi o.s. frv.: Ýmsir mannfræðingar hafa rakið trú manna á framhaldslíf til þess fyrirbæris, að einatt birtast hinir framliðnu eftirlifendum í draumi á mjög skýran hátt. Og auðséð er af orðum Akkillesar hér, að hann telur sig með draumnum hafa fengið vitneskju um ástand manna eftir dauðann. 114 bolaxir, hylotomús pelekeas: „Axir til viðarhöggs“, en „bolöxi“ táknar einmitt þess konar áhald. 120 Síðan flettu Akkear trjánum: þ.e. klufu trén. 132 bæði hjástöðumenn og kerrusveinar, paraibatai heníokhoi te: Átt er við hermanninn, sem stóð í vagninum, og ekilinn. 142 er hann lét vaxa fljótsguðnum Sperkíus til dýrðar. Sperkíus var fljót eitt í Þessalíu í ríki Peleifs, föður Akkillesar. Var það siður með Grikkjum, að ungir sveinar létu sér vaxa hár til þess, er þeir urðu frumvaxta. Þá var hár þeirra skorið og fært fljótum til fórnar, af því að þau voru talin efla vöxt og gróanda. Hlutu fljótin því einkunnina kúrotrofoi, „fóstrar sveina“. Ungur hafði Akkilles lagt upp í herferðina, og þess vegna hét Peleifur, faðir hans, Sperkíusi hári sonar síns, ef hann kæmi aftur heim heill á húfi. Nú, er Akkilles veit sér bana búinn, biður hann fljótsguðinn að leyfa sér að láta hárið fylgja vini sínum og horfir um leið yfir hafið í áttina til föðurlandsins. 147 og skera ... ofan í uppsprettur þínar: Fornir skýrendur töldu að fljótum hefði verið fórnað óvönuðum karldýrum til að tryggja frjósemi. Við uppspretturnar var álitið að fljótsguðirnir byggju, og þar voru því helgidómar þeirra og blótstaðir. 160 líkmennirnir, agoi: „fyrirliðarnir“. Kemur orð þetta oft fyrir og ævinlega í þeirri merkingu. 163 líkmennirnir, kedemones: Orð þetta er dregið af kedos, -eos, „harmi ættmenna yfir látnu skyldmenni“. Mun Svb. sennilega hafa ályktað, að agoi (sbr. aths. 160) og kedemones væru sömu mennirnir, og þess vegna þýtt hvort tveggja „líkmennirnir“. 166 marga feita sauði ... drattandi naut = IX 466. 167—8 tók mörinn úr þeim öllum o.s. frv.: Eigi verður sagt með vissu um það, hvort mör hafi verið notaður hér til að flýta fyrir að líkið brynni, eða hvort hér er að ræða um leifar eldri siðar, er mör var notaður til að verja líkin rotnun. Þá getur og þeirrar hugmyndar hafa gætt, að mörinn hafi átt að vera fæða handa hinum framliðna í undirheimum, eins og t. d. hestarnir og hundarnir áttu að fylgja honum til Hadesarheims. Eru slíkir útfararsiðir alkunnir meðal ósiðmenntaðra þjóða víðs vegar um heim. Ágætt dæmi þess er lýsing Herodots á konungsútför með Skyþum, IV 71—2, sbr. einnig lýsingar Arabans Ahmeds ibn Fâdlans á bálferð norræns höfðingja í Rússlandi á fyrra hluta 10. aldar, (Fr. Paasche: Landet med de mörke skibene, bls. 276 o. áfr.). — Trójumenn eru ekki drepnir í hefndarskyni eingöngu, heldur einnig til að sjá Patróklusi fyrir þrælum í hinni nýju tilveru. Rækja menn þau yfirleitt sömu störf og þeir höfðu unnið í lifanda lífi, sbr. Od. XI 74. 571 o. áfr., 604 o. áfr. 170 hann lagði á bálið krukkur með hunangi og smyrslum: Sennilega eru þetta leifar frá þeirri tíð, er líkin voru smurð og þau varðveitt í neðanjarðargrafhýsum. Hið fyrra notagildi hunangs og smyrsla í sambandi við líkin hefur verið gleymt. En ekkert var látnum vini of gott. Hann skyldi hafa með sér á helveg allt, sem dauðum mönnum hafði hlotnazt frá fornu fari, sbr. Inngang, bls. L-LI. 176 því hann hafði stór hermdarverk í huga. kaka de fresí medeto erga: Sbr. XXI 19. Hér fordæmir skáldið sjálft þessar aðfarir í rauninni. Ber það vott um framför í siðferðilegum efnum. Skáldið neyðist til að lýsa þessu, það var hluti af sögunni, sem það var að segja, en samtíð þess er vaxin upp úr þessum siðum. Fyrir utan þessa tvo staði verður þess tæplega vart, að skáldið felli sjálft dóm yfir gerðum persóna sinna. 177 járnóðum eldi, pyros menos ... sídereon: þ.e. a. s. móðurinn í eldinum er miskunnarlaus sem járnið. 179—S0 Heill veri þú ... hét þér fyrrum = 19-20. 184 en ekki unnu hundar að Hektori o.s. frv.: Afrodíta og Apollon voru helztu verndargoð Trójumanna. Febus Apollon var sólargoð og mátti því verja líkið fyrir sólargeislunum. Í 184.-91. ljóðl. er verið að víkja að atburðum, sem lýst er í næsta þætti, hinum síðasta, er Akkilles dregur líkið, svo og að útlausn þess, sbr. orðið prín í 190. ljóðl. Fellir Svb. það niður, en það þýðir „fyrir tímann“, þ.e. áður en líkið væri komið í hendur Príamusi, sjá XXIV 413 o. áfr. Komi orðin „fyrir tímann“ inn í textann á eftir „utan á sinum hans og limum“. 195 Norðra og Vestra: Akkilles heitir á þá vinda, sem algengastir eru á þessum slóðum, sbr. IX 5. Má m. a. víða ráða það af orðum skáldsins um vinda og áttir, t. d. í líkingum, að það hefur verið kunnugt staðháttum í Litlu-Asíu og nærliggjandi eyjum. 198 Íris, hin hraðfara sendimær guðanna, skundar oftar óbeðin með skilaboð, t. d. í III 122, XXIV 74. 200 sátu þeir allir saman að gildi o.s. frv.: Jafnan er tekið fram, hvað heimafólk er að starfa, þegar gest ber að garði, sbr. Od. IV 4, Od. X 8, 60. — Vindarnir sitja að veizlu, þ.e. þeir eru að hvíla sig, blása ekki. 202-3 Er þeir líta hana augum, spruttu þeir allir upp: Er það gert í virðingarskyni við gestinn, sbr. I 584, III 216, er menn standa upp til að drekka öðrum til eða til að flytja ræðu. 206 til Eþíópalands o.s. frv.: Skáldið hugsar sér, að Eþíópar byggi yztu takmörk jarðar við sjálfan Jarðarstrauminn, sbr. kort af heiminum, eins og Hómer hugsaði sér hann, Inng. bls. XXXV. Virðast menn hafa talið, að goðin færu þangað árlega í blótveizlu, sbr. I 423, XIV 197 o. áfr. og Od. I 23. 219 tvíker, depas amfíkypellon: Sbr. aths. 270. af gullnu skaftkeri, khryseú ek kreteros [kre-, kerannymí = að blanda]: Átt er við stórt ker, sem vín var blandað í vatni, enda voru skaftker (= skapker) að fornu notuð til að blanda í öl eða mjöð, en horn síðan fyllt úr þeim og borin um stofuna. 223 sem dáið hefur nýkvæntur: Jók það auðvitað á harm föðurins, að hann átti á bak að sjá syni sínum einmitt um það leyti, sem hann hefði mátt búast við afkomendum, sonarsonum. 230 yfir hið þrakneska haf: Átt mun vera við norðurhluta Egeifshafs. Vindar þessir eiga heima í Þrakíu, sbr. aths. 195. 233 Atreifsson: þ.e. Agamemnon. 237 slökkvið fyrst allan uslann: „Usli“ kemur víða fyrir í fornu máli í merkingunni „glóandi aska“. 243 í gullskál, en khryseë fíale: Sennilega er þessi skál hin sama, sem kölluð er „gullkrukka“ í 92. ljóðl., (sbr. aths. þar). Rannsóknir á fornum gröfum á Ítalíu hafa leitt í ljós, að sá siður hefur verið algengur til forna að varðveita ösku líka í kerum eða krukkum. 254 settu svo skálina inn í búð: Haugurinn er auðsjáanlega aðeins minnismerki. Beinin eru ekki lögð í hann heldur geymd í búðum Myrmídóna og síðan flutt ásamt beinum Akkillesar til Þessalíu. Bein Hektors eru hins vegar lögð í haug, af því að hann féll á ættjörðu sinni. 255 og lögðu undirstöðurnar í kring um bálið: þ.e. reistu upp steina hringinn í kring, er vera skyldu undirstaða haugsins og halda moldinni í honum í skefjum. 263 konu, þá er vel var að sér í ágætum hannyrðum: Sjá XIX 245. 264 tuttugu og tveggja mæla þrífætling, eyrðan, kai tripod' ótóenta dyókaieikosímetron: Átt er við pott eða ketil, er stóð á þrem fótum, og var með eyru eða handarhöld. Eigi verður nú úr því skorið, hve metron hefur verið mikið að voru máli. 266 hryssu, ótamda: Svo virðist sem köppunum hafi þótt það kostur að fá ótamdar skepnur að verðlaunum, sbr. 655. ljóðl. 269 (hinum fjórða tvær) vættir gulls, dyó khrysoio talanta: Af þessu er auðsætt að verðgildi „talentu“ hefur verið tiltölulega lítið á tímum Hómers, sbr. aths. XVIII 507. 270 (hinum fimmta óeldborna) tvískál, amfíþeton fíalen: Aristarchus taldi þetta verið hafa skál, sem var í lögun eins og ef vér hugsuðum oss tvo bolla festa saman á stéttinni eða botninum. Væri þá sama, hvor endinn sneri upp. Annar forn skýrandi taldi þetta verið hafa skál með tveimur handarhöldum. En auðsætt er, að Svb. hefur fylgt skilningi Aristarchusar, er hann þýðir „tvískál“, sbr. einnig þýðingu hans í Od. III 63 tvíhvolfaða drykkjuker (depas amfíkypellon). 272 Atreifsson: þ.e. Agamemnon. fagurbrynhosaðir: Sbr. aths. Od. XVIII 259. 273 á leikmótinu, en agóní: Orðið „leikmót“ (= leikstefna) er fornt, sbr. Egils sögu, 40. kap. 276 hve hestar mínir eru öllum hestum betri að kostum o.s. frv.: Um hesta Akkillesar sbr. XVI 148 o. áfr., 380 o. áfr. 281 og steypti tæru viðsmjöri yfir fax þeim: Sbr. umhyggjusemi Andrómökku fyrir hestum Hektors, VIII 185 o. áfr. 288 Evmelus Admetusson: Hann réð fyrir Feruborg í Þessalíu, sjá II 711. Átti hann hina ágætustu hesta í öllum hernum, sjá II 763 o. áfr. Getur hans aðeins hér og í II. þætti (Beótabálki). 291 leiddi hann undir ok hina tróversku hesta o.s. frv.: Sbr. V 323 o. áfr., VIII 108. 296 þá hryssu hafði Ekepólus Ankísesson o.s. frv.: Hann réð fyrir Sikýonsborg og var undirkonungur Agamemnons, sbr. II 572. 299 í enni landvíðu Sikýonsborg, en evrykhoró Sikyóní: „í Sikýonsborg með hinum rúmgóðu dansflötum“. — Sennilega hefur Svb. byggt þýðingu sína á skoðun Aristarchusar, að hér stæði að vísu vegna kveðandi evrykhoró, þar sem lesa bæri evrykhóró samkvæmt merkingu (af evrys = víður og khóros = land, en hið fyrra af khoros = dansflötur). Virðist einkunnin lúta að auðæfum borgarinnar og velmegun. „Landvíð“ virðist hins vegar óviðeigandi einkunn, því að borgin er klemmd inni á milli Korinþuflóa og fjalla Peleifsskaga. 301 Antílokkus Nestorsson, sbr. IV 157, XVIII 16. 303 fótfráir hestar pýlverskir: Sbr. II 54. 307 Seifur og Posídon: Allir frábærir eiginleikar eru taldir vera gjafir frá guðunum. Fyrst er Seifur nefndur, hinn alvaldi, verndari konunga, sjá VIII 22, II 205, XX 242, en síðan sérstaklega Posídon, skapari hestsins, höfundur og stjórnandi kappaksturs, sbr. 584. ljóðl. Hann var og sérstakt verndargoð Nestors og þeirra Pýlverja, sbr. Od. III 5 o. áfr. allskonar kerruleikfimni, hipposynas ... / pantoias: Sjá XVI 776, en þar þýðir Svb. þetta orð „riddaraskap“. Táknaði hipposyne allar þær íþróttir í heild, er góðum kappakstursmanni var þörf á að kunna. Orðið „kerruleikfimni“ er sjálfsagt nýyrði. 311-12 en ekki kunna þeir fleiri leikbrögð en þú, ú de men átoi / pleiona ísasin seþen átú metísasþai: Þessi setning, sem vel gæti verið úr fornsögum okkar, nær fyllilega merkingu frumtextans, án þess að orðalag hans sé þó þrætt. 313-14 lát þér til hugar koma alls konar vélfimni, metin emballeó þymó / pantoien: Orðið „vélfimni“, ( þ.e. a. s. í myndinni „vélfimi“), og merkir „kænskubrögð“. Í Od. VIII 281 kemur orðið einnig fyrir, er ræðir um bönd þau, er Hefestus smíðaði til að binda með þau Aresi og Afrodítu, „svo voru þau gjörð með mikilli vélfimni“, perí gar doloenta tetykto, þ.e. af mikilli kænsku. (Virðist því skýring Blöndalsorðabókar á þessu orðasambandi ekki alls kostar nákvæm, að „vélfimni“ þýði þar „Kunstfærdighed“. Á báðum þessum stöðum í Hómerskviðum notar Svb. orðið í sömu merkingu, þ.e. „kænska“, „kænskubrögð“. 319-25 Sá sem aðeins treystir hestum sínum o.s. frv.: Öll miða þessi heilræði Nestors að því að brýna fyrir syni sínum að missa aldrei sjónar á marksúlunni. Hann má og ekki „treysta hestum sínum“, þ.e. a. s., hann má ekki láta þá ráða ferðinni, heldur verður hann sjálfur að hafa öruggt taumhald á þeim frá upphafi. 326 Nú skal eg skilmerkilega lýsa fyrir þér marksúlunni, sema de toi ereó mal' arífrades: Eiginlega þýðir sema „merki“. En hér hafa ýmsir talið það þýða = terma (marksúla) til að fá eitthvert vit í þenna stað, sem er mjög óskýr. Virðist þessi ljóðl. raunar tekin hugsunarlítið úr Od. XI 126, en þar þýðir Svb. hana svona: „Eg skal segja þér eitt merki, sem er mjög auðkennilegt“. Og enn kemur sema hér fyrir aftur í 331. ljóðl. í allt annarri merkingu, „minnismerki“, (Svb. þýðir „líksúla“). Helzt verður að gera ráð fyrir, að Nestor viti meira en aðrir um skeiðmörkin, sem Akkilles vísar á í 358. ljóðl., og í öðru lagi viti hann, að jarðvegur við marksúluna sé sléttur, svo að Antílokkusi sé óhætt að aka þar djarflega. Verði hins vegar aðrir, sem eigi hafa þessa vitneskju, að fara varlegar. 330 á renniskeiðsbugnum, en xynokhesín hodú: Svb. virðist hafa talið þetta þann stað, er vegurinn sveigðist fyrir „marksúluna“, þ.e. þann stað brautarinnar, sem fjærstur var áhorfendum. Fyrst leggja keppendur allir samtímis af stað frá marki, þar sem áhorfendur eru saman komnir, þjóta síðan allt hvað af tekur, unz þeir nálgast „marksúluna“. Við hana verður kröpp beygja á brautinni, því að síðan er stefnt aftur í átt til áhorfenda. Ef til vill hefur brautin legið í lykkju umhverfis marksúluna. Víst er um það, að þarna urðu keppendur að gæta sín bezt, enda segir Nestor síðar, að verði Antílokkus fyrstur fyrir „marksúluna“, muni enginn hinna keppendanna þurfa að reyna til að komast fram úr honum. 331 Er tré þetta annaðhvort líksúla yfir leiði einhvers manns o.s. frv.: Eigi eru þess annars nokkur dæmi, að til forna hafi reist verið minnismerki úr tré yfir látna menn. 335 í hinum fagurriðna kerrustól: Einkunnin „fagurriðinn“ mun fyrst og fremst hafa átt við gólfið í vagninum, sem mun hafa verið riðið eða fléttað úr ólum. Kerrustóllinn sjálfur mun verið hafa úr tré, eins og einkunnin eýxestos, „vel skafinn“ bendir til, en hún stendur venjulega með difros (= kappaksturs- eða stríðsvagni), t. d. XVI 402. Með Egyptum voru kerrustólar allir riðnir úr tágum. — Hið „vel riðna“ gólf kerrunnar mun verið hafa til mikilla þæginda, er ekið var um ósléttan veg, hlíft vagnstjóranum fyrir hristingnum. Nákvæma lýsingu á kerru og einstökum hlutum hennar er að finna í V 722 o. áfr. 336 skaltu þá keyra á hægri hestinn og hotta á hann: Auðvitað stafar þetta af því, að hægri hesturinn hefur orðið að fara stærri beygju en hinn vinstri, sem nær var marksúlunni. hjólnöfin, plemne ... / kyklú poietoio: „nöfin á hinu vel smíðaða hjóli“. 339 sem hjólnöfin strjúkist með súluröndinni: Hjólnöfin er miðhluti hjólsins, sem öxullinn leikur í. 340-41 en varast að koma við steininn, svo þú meiðir ekki hestana og brjótir kerruna: Góð skýring á þessum ljóðl. er fólgin í lýsingu á slysi því, sem verður í kappakstrinum í leikritinu Elektru eftir Sófokles, 743 o. áfr. 346 hinum goðkynjaða Aríon: Adrestus var konungur í Síkýon, sjá II 572. Átti hann hesti þessum fjör að launa, er hann, einn hinna sjö herstjóra, hélt gegn Þebuborg, en hinir sex biðu bana. Var hestur þessi kominn af Posídon og Erinýu (Refsinorn). Hafði Adrestus fengið hestinn hjá Heraklesi, en Herakles hjá Kopreifi konungi í Halíartusborg, en föður hans hafði Posídon gefið hestinn. Var hestur þessi frægur í sagnabálki þeim, sem kenndur er við Þebuborg, en í rauninni ókunnur í goðsagnaheimi Hómers. 348 hestum Laómedons: Hesta þessa hafði Seifur gefið Trós konungi í Tróju í bætur fyrir rán Ganýmedesar, sjá V 265. 352 og köstuðu hlutum: þ.e. köstuðu hlutum í hjálm, sbr. VII 176, 182. (Sbr. og Elektru eftir Sófokles, 709. ljóðl.). 357 Týdeifsson: þ.e. Díómedes. 358 allir í röð, hverr út frá öðrum: þ.e. Antílokkus innst á brautinni, en hinir út frá honum, allir jafnfætis. 360 setti hann til gæzlumanns ... Fenix: Hann er settur á beygjuna við marksúluna til að hafa gát á, að fylgt sé réttum leikreglum. 368-9 Kerrurnar flugu ýmist ofan að hinni margfrjóvu jörð, ýmist gönuðu þær hátt í loft upp: Sbr. Verg. Georg. III 108-9 Iamque humiles, iamque elati sublime videntur / Aëra per vacuum ferri atque adsurgere in auras. 373 voru á síðasta hluta skeiðsins: þ.e. þeim hluta brautarinnar, sem lá frá marksúlunni í áttina til búðanna og skipanna við sjóinn, en þaðan hafði verið lagt upp. 376 Feresniðja: þ.e. Evmelus, sbr. II 763. 383 Ef Febus Appollon hefði ekki haft hatur á Týdeifssyni: Þessi hlutdrægni Apollons stafar sennilega af því, að hann hafði alið upp hryssur Evmelusar, sbr. II 766. 391 Admetussyni: þ.e. Evmelusi. 392 og braut sundur okið fyrir honum: Sbr. skýringarmynd með aths. XXIV 270. 397 fylltust þá augu hans tárum ... hin rómfulla rödd hans = XVII 696. 398 hinum einhæfðu hestum: Sbr. aths. XV 46. 420 það var gróf nokkur o.s. frv.: Leiðin til baka að þeim stað, er lagt var upp frá, liggur um gróf, uppþornaðan farveg. Antílokkus hyggst að komast á móts við Menelás á þessum stað, þar sem aðeins einn vagn getur ekið í senn, og neyða hann annaðhvort til að víkja eða verða fyrir árekstri að öðrum kosti. 431 Svo langt sem leiktafla flýgur o.s. frv.: Sbr. 523. ljóðl. og Od. aths. XVII 168. 441 ekki svardagalaust: þ.e. án þess að verða að sverja þess eið, að hann hefði engum brögðum beitt í kappakstrinum, sbr. 585. ljóðl. 451 því hann sat fyrir utan leikmótið: Gera verður ráð fyrir, að hinn fjærsti hluti brautarinnar sjáist ekki frá áhorfendum sakir mishæða á leiðinni, enda þótt völlurinn hafi verið kallaður sléttur í 359. ljóðl. Er keppendurnir sáust síðast á leið að marksúlunni, var Evmelus fremstur. Idomeneifur má sjá lengra af hinum víðsýna hól en hinir, en ekki alla leið að marksúlunni, þar sem beygjan var á brautinni. 452 sem hottaði hátt, og þekkti hann: Idomeneifur þekkti Díómedes á hinni miklu rödd. 454 allannarstaðar. þ.e. „en annars alls staðar“. Sennilega er þetta atvo. nýmyndun. 460 en hryssunum: þ.e. hryssum Evmelusar. 462-4 því eg sá þær fyrst ... horfi um allan Trójuvöll: Þessar ljóðl. hafa verið taldar vafasamar, af því að þær eru í mótsögn við lýsinguna á kappakstrinum að öðru leyti, þar sem gert er ráð fyrir, að beygjan við marksúluna sjáist ekki frá áhorfendum, og sérstaklega í mótsögn við 466. ljóðl., „svo hann hefir ekki getað stýrt hestunum kringum marksúluna, og hefir því mistekizt kringsólið“. Ef Idomeneifur hefur séð alla leið að marksúlunni, gat hann ekki verið í vafa um, hvort slys hefði orðið eða ekki. 473 Ajant Öyleifsson atyrti hann nú: Eins og oft vill verða, kemur hér upp deila með áhorfendum að kappleiknum, því að hver heldur með sínum leikmanni. En annars reynist Ajant einatt viðskotaillur og orðhvatur, sbr. Od. IV 499, 502. 476 hvorki er, að þú sért svo miklu yngstur: Idomeneifur er mesaipolíos, „hálfgrár fyrir hærum“, sjá XIII 361. 479 því hér eru aðrir viðstaddir, sem betur sjá, en þú, para gar kai ameinones alloi: „sem eru meiri menn en þú“. (Einnig hér virðist Svb. hafa farið eftir skýringu Crusiusar, sbr. aths. XXII 469). 492 illum reiðimálum: Þetta er fornt orðalag. 514 niðji Neleifs Antílokkus er hér kenndur við afa sinn, eins og Akkilles er stundum kallaður Ajaksniðji (= Easkniðji). 523 allt að töfluskoti á eftir: Sbr. 431. ljóðl. 532 Admetusson: þ.e. Evmelus. 560 brynju þá, er eg tók af Asteropeus: Sbr. XXI 183. 561 en steypt um hana utan fögru tini, hó perí khevma faeinú kassíteroio: Sennilega er þetta svo að skilja, að hringar hafi verið steyptir úr tini utan um brynjuna til skrauts, fremur en að hún hafi verið tinhúðuð. 565. ljóð., sem vantar í mörg handrit, fellir Svb. niður: „Seldi hann hana í hendur Evmelusi, og tók hann við glaður“. (Komi þetta inn í textann á eftir orðunum „færði honum hana“). 567-8 Kallari lét koma sprota í hendur honum: Þetta var gert til marks um það, að hann vildi taka til máls á samkomunni, sbr. aths. XVIII 505. 581 svo sem siður er til: þ.e. við kappakstur, þar sem allra þeirra formsatriða er gætt, sem talin eru hér á eftir. Minnir þetta á eiðinn, sem hver hátttakandi sór á undan kappakstursleikunum í Ólympíu. 584 við hinn jarðkringjandi Landaskelfi: Í ljóðlínu þessa hefur oft verið vitnað sem sönnun þess, að Posídon hafi verið þegar á tímum Hómers, eins og síðar í Grikklandi, hestagoð og kappakstursíþrótta. Hvað sem því líður, þá er og þess að minnast, að Posídon var verndargoð Neleifsættar og því eðlilegt af þeim sökum, að Antílokkus ynni eiðinn við hann. 597-9 þá varð glatt hjarta hans, svo sem dögg á axi á þroskuðu korni, þegar akrarnir standa fullsprottnir, toio de þymos / íanþe, hós ei te perí stakhyessín eërse / leïú aldeskontos, hote frissúsín arúrai: „Þá varð glatt hjarta hans, svo sem kornið, er það með dögg á axi verður þroskað og akrarnir standa fullsprottnir“. — Eigi eru menn á eitt sáttir um, hvernig þýða beri þessar ljóðl. Leaf bendir á, að það sé fjarstæða, að segja, að hjarta Menelásar hafi glaðzt eins og döggin. Því sé öfugt farið, það sé döggin, sem „gleðji“ kornið. En í handritum stendur orðið, sem táknar „dögg“ (eërse), í nefnif., og samkvæmt því þýðir Svb. Hins vegar hefur þess verið getið til, að það ætti að vera í þáguf., og hafa það nú flestir fyrir satt. Bent er á hliðstæða líkingu í leikritinu Agamemnon eftir Aischylus, 1391-2: „Eg gladdist eigi síður en sáin jörð gleðst í endurnærandi regni himins, þegar blómknapparnir fæðast“. 614 tvær vættir gulls: Sbr. aths. 269. 616 tvískálin: Sbr. aths. 270. 627 Nú eru fætur Hrólfs farnar, ú gar et' empeda gyía, fílos, podes: (Svb. hefur „fætur“ ýmist í kk. eða kvk., að vísu oftar í kk.) Þetta er eitt dæmi þess, hve Sveinbirni tekst meistaralega að ná anda og merkingu frumtextans með íslenzkum orðatiltækjum, já, miklu betur heldur en ef þýtt væri alveg orðrétt. 629 Eg vildi óska, að eg væri nú í þeim blóma aldurs o.s. frv.: Nestor reifar jafnan frásagnir sínar af yngri árum sínum á þessa leið, sbr. VII 157, XI 670. 630 í þann tíð er Epear gerðu útför Amarynkeifs konungs: Amarynkeifur var Alektorsson (eða Pyttíusson). Hafði komið til Elealands (Elis) frá Þessalíu. Ágeias, konungur í Elealandi, fekk hann til liðs við sig gegn Heraklesi og gaf honum land fyrir liðveizluna, Búprasíonsborg og héraðið umhverfis, sjá II 615. Einn sona hans, Díóres, er nefndur fyrirliði Epea, sjá II 622, IV 517. Um Epea sjá XI 671, Od. XIII 275. (Elear = Epear). Búprasíonsborg, sjá XI 756. 633 Etólum: Þeir voru nágrannar Epea og skyldir þeim, ættaðir úr Elealandi. 639 neyttu þeir þess, að þeir voru fleiri, pleþei prosþe balontes: Aldrei hefur tekizt að skýra til fulls, við hvað muni vera átt hér. Fornmenn báru fram tvær skýringar: 1) Aktorssynir létu fleiri en einn vagn taka þátt í keppninni fyrir sig og hindruðu með því keppinaut sinn; 2) að meirihluti keppenda hafi bundizt samtökum um að veita þeim forhlaup með ódrengilegum hætti. en unnu mér ekki sigursins, agassamenoi perí níkes: „því að þeim var mikið í mun að sigra“. — Nestor hafði orðið hlutskarpastur í öllum fjórum kappleikunum á undan, en sigurlaunin fyrir kappaksturinn, stærstu verðlaunin, voru enn eftir óunnin. Aktorssonum „var því mikið í mun að sigra“. Með því að hreppa stærstu verðlaunin, hefðu þeir fengið nokkra uppreisn fyrir hina fyrri ósigra. 655 hin torveldasta skepna til tamningar: Sjá aths. 266. 656 tvíker: Sbr. aths. 270. 658 fagurbrynhosaðir Akkear: Sbr. aths. Od. XVIII 259. 660-61 Þeim sem Appollon veitir afburð: Sumir skýrendur telja Apollon verið hafa hnefleikagoð, af því að hann hafði sigrað Forbant Flegýa konung í hnefleik. Sat konungur þessi fyrir þeim, sem lögðu leið sína til Delfa, og skoraði á þá til hnefleiks, (sbr. Ovid. Met. XI 414). Fylltist hann ofmetnaði og skoraði á sjálfa guðina til leiks, og gerði Apollon þá út af við hann. Ber þessi sögn samt merki þess, að vera síðar til komin en Hómerskviður. Er sennilegra, að Apollons sé hér við getið sem verndargoðs ungmenna, er veitti þeim orku og æskuþrótt. — Enn síðar kemur Polýdevkes fram sem verndargoð hnefleikamanna. Í Od. XI 300 o. áfr. er hann ekki ennþá orðinn að goði, þó að hann njóti að vísu sérstakrar virðingar hjá goðunum. — Orðið „afburður“ er fornt, sbr. Svarfd. 19: Karl eggjar Ljótólf útgöngu ok kvat honum eigi annat vænna til afburðar. 665 Epeus Panopeifsson: Þó að hann hafi orðið frægur í sögnum síðar, allt frá Od. VIII 493, Od. XI 523 o. áfr., sem höfundur tréhestsins, þá er hans ekki getið annars staðar í Ilíonskviðu nema í 839. ljóðl. í þessum þætti. 666 Hann fór höndum um hinn þolna múlasna, hapsato ktl: „Hann þreif til hins þolna mólasna“, þ.e. a. s. sem tákn þess, að hann slægi eign sinni á hann, sbr. latn. manum inicere. Svb. hefur orðið hugsað til tilburða Íslendinga, er þeir skoða gripi, sem þeim leikur hugur á að eignast. 670-1 Er það ekki nóg ... kunnað allar íþróttir: Leaf hyggur vera mega, að þessar ljóðl. séu innskot, svo sem afsökun fyrir því, að Epeusar hefur ekki verið getið áður. 674 Bezt er, að leikmenn þeir, er hér eru, séu hér eftir allir saman, kedemones de hoi enþad' aollees áþí menontón: „Bezt er, að syrgjandi skyldmenni hans bíði hér öll saman“. — Um orðið kedemones sjá aths. 163. Epeus er svo viss um sigur, að hann gengur að því vísu, að keppinautur sinn muni snýta rauðu. Munu þessi digurmæli og sögð í því skyni að draga kjark úr væntanlegum keppinaut. 677 Evrýalus Mekisteifsson: Hann er talinn höfðingi í liði Argverja, II 565. Mekisteifur Talásson, (Talajonsson, sjá II 566, en hið fyrra föðurnafn er réttara, því að Talaïonídes er óreglul. mynd vegna kveðandi í staðinn fyrir Talaïdes, patronym. af Talaos), var bróðir Adrastusar og að Ödípus látnum tók hann þátt í herferðinni gegn Þebu. Hefði hann getað tekið þátt í dánarleikunum eftir Ödípus fyrir þá herferð. Evrýalus taldist til Epígona, sbr. J.G., bls. 250. 680 Kadmeumönnum: = Þebumönnum, sjá IV 385. 681 Týdeifsson: þ.e. Díómedes, sem var skyldur Evrýalusi. 683 Fyrst lagði hann hjá honum sveipu, tsóma de hoi próton parakabbalen: „Fyrst gyrði hann hann stuttbrókum“. — Orðið tsóma mun hér tákna e. k. stuttbrækur fremur en mittisskýlu (= sveipu). Báru Grikkir slíka flík til kappleika í Ólympíu til loka 8. aldar f. Kr. b. Greinir Þúkydídes (I 6) nánar frá því er siður þessi lagðist niður og keppendur gengu naktir til leika. Leaf telur, að parakabbalen geti tæplega þýtt neitt annað en „gyrði hann“, þó að raunar þýði þetta að myndinni til „lagði hjá honum“. Má vera, að hér sé um sérstakt orðtak íþróttamanna að ræða, sem eigi verði nú skýrt til fulls. Orðið „sveipa“ er fornt og merkir klæði til að hjúpa sig í eða sveipa um sig, sbr. Harð. 24: hón sækir þá sveipu sína og veifði upp yfir höfuð sér; sbr. og Sæm. Edd. II 4301⁶, 514⁴. Gríska orðið tsóma [af tsónnymí, „að gyrða“] táknar tvennt í Hómerskviðum: 1) mittisskýlu eða svuntu, sennilega úr leðri, borin í hernaði, sjá IV 187, 216, (á báðum þeim stöðum þýðir Svb. „brynskyrta“), Od. XIV 482 (bryntreyja), sbr. aths. þar. 2) e. k. stuttbrækur, sem bornar voru til kappleika. 684 vel sniðin ólarbönd: Böndum þessum var vafið um hnúfana, en fingurnir voru lausir. 692 Svo sem fiskur stökkur upp undan norðagráðinu o.s. frv.: Ýmsum hefur þótt þetta kynleg samlíking, þar sem verið er að lýsa manni, sem sleginn er í rot og fellur því þegar í stað. Hins vegar segir í 694. ljóðl. „svo stökk Evrýalus upp við höggið“. Þykir næsta furðulegt, að högg „á vangann“ skyldi hafa þau áhrif. undan norðangráðinu, hypo fríkos Boreó: Átt er við gárurnar, sem myndast, er norðanvindurinn þýtur eftir yfirborði sjávarins. Í fornu máli kemur fyrir kk.-orðið „gráði“ = vindgola, sem rétt gárar yfirborð vatns eða sjávar. 693 og stingur sér svo djúpt niður í einhvern stórsjóinn, melan de he kym' ekalypsen: „og síðan hylur hann hin svarta bylgja“. — Raunar er hér um tvo leshætti að ræða, bæði melan og mega. Hefur Svb. farið eftir hinum síðari, þó að hinn fyrri virðist eðlilegri eftir sambandinu og hugsuninni. 696 drógust þá eftir honum fæturnir. Sbr. aths. 627. 702 stóran þrífæting eldneytan, megan trípod' empyríbeten: þ.e. þrífæting (eða pott á þrem fótum) til að setja á eld. Sbr. 267. ljóðl. apyron ... lebeta, „ketil, er aldrei hafði á eld komið“, og 270. ljóðl. fíalen apyróton, „óeldborin tvískál“. Sumir hafa skilið einkunnina apyros á þá lund, að með henni væri átt við katla eða þrífætinga, sem aðeins voru ætlaðir til skrauts, en ekki til að hafa á eldi. 703 tólf uxalög, dyódekaboion: þ.e. tólf uxa virði, sbr. í fornu máli „kýrlag“, „auralag“ o.s. frv., sbr. og VI 236 og 885. ljóðl. hér á eftir. 705 virtu þeir hana fjögur uxalög: Fjórir uxar virðast vera mjög lágt verð fyrir vel kunnandi ambátt. Laertes hafði látið 20 uxa fyrir Evrýkleu (Od. I 431). En sennilega hafa ambáttir verið lítt seljanleg vara í grísku herbúðunum. 712 Ajant Telamonsson: Sbr. VII 182, II 406 o.s. frv. svo sem sperrur tvær, hós hot' ameibontes: Glímumönnunum, sem standa gleitt og bolast, er líkt við sperrur í húsi með risi. Hafa þó flestir gert ráð fyrir, að hús á tímum Hómers hafi verið með flötu baki. Hefur það byggingarlag jafnan verið algengast í Miðjarðarhafslöndum. Er ræðir víða í Hómerskviðum um súlur í stofunni (megaron), hefur verið dregin sú áyktun af því, að þær hafi reistar verið undir flatt þak. Nú er 713. ljóðl. („í hávu húsi ... til að aftra ofbeldi vindanna“) = XVI 213 og ef til vill innskot þaðan. Ef henni væri sleppt, bæri enga nauðsyn til að álíta, að ameibontes ætti við sperrur í þaki. Það gæti eins verið krosslagðir bitar, t. d. í hliði, (sbr. epemoiboi í XII 456, sem Svb. þýðir „slagbrandar“). 721 hinum fagurbrynhosuðu Akkeum: Sbr. aths. Od. XVIII 259. 724 gerðú annað hvort, að þú lyft mér upp, eða eg skal taka þig á loft, e m'anaeir, e egó se: Líklega liggur megináherzlan á breyttri baráttuaðferð, á sögninni anaeire, en ekki á gagnstæðum persónum: „Við skulum lyfta, — reyndu við mig eða eg við þig“. Virðist sú hugmynd vaka fyrir Ajanti, að hvor fyrir sig skuli til skiptis veita aðeins varnarviðnám og gefa keppinautinum þannig færi á að lyfta sér og varpa sér til jarðar. 725 reyndi hann til að lyfta honum, anaeire: „lyfti hann honum“. En Odysseifur gleymdi ekki bragðvísi sinni, því að á meðan hann er lofti, lýstur hann með fætinum í knésbót Ajanti, svo að hann missir jafnvægið. Er keppinaut hafði verið lyft frá jörðu, verður að áykta, að hinn sami hafi mátt beita hvaða ráðum sem var til að fella andstæðing sinn. Orðið, sem talið er þýða „knésbót“, er grísku kóleps, og var þegar óskiljanlegt í fornöld, en sambandið virðist réttlæta þessa þýðingu. 731 þá kiknaði Odysseifur í knjám, en de gony gnampsen: „þá kom Odysseifur knéskoti á hann“. Flestir virðast skilja þetta svo, að Odysseifur, sem hefur rétt aðeins getað lyft Ajanti, komi á hann einhvers konar bragði. Er hér auðsjáanlega að ræða um orðatiltæki úr máli íþróttamanna, sem nú er ekki unnt að útskýra til hlítar. 735 Þið hafið báðir unnið sigurinn o.s. frv.: Eigi virðist hafa verið þægilegt fyrir þá að skipta jafnt á milli sín þrífæting, sem gilti 12 uxalög, og ambátt, er var fjögurra nauta virði Annars mundu flestir álíta, að Odysseifur hafi orðið hlutskarpari, því að hann hafði komið keppinaut sínum hreinlega á bakið. 741 (það var skaftker af silfri) vel smíðað, (argyreon kretera) tetygmenon: „skreytt“, þ.e. ekki slétt. Orð þetta kemur einnig fyrir í Od. IV 615, og þýðir Svb. þar „vandað“. skaftker = skapker, sbr. ath 219. sex mæla, hex ... metra: Sjá aths. 264 743 því hinir fjölhögu Sídonsmenn o.s. frv.: Alls staðar kemur það greinilega fram í Hómerskviðum, að Sídonsmenn séu smiðir ágætir, en Feníkar kaupmenn. Um hina fyrr nefndu sbr. VI 290-91, Od. IV 618. Feníka er allvíða getið í Odysseifskviðu, en einungis hér í Ilíonskviðu. 745 og gáfu Þóanti: Hann var konungur á Lemney, faðir Hypsipýlu og afi Evneuss, sjá VII 468. 746 Evneus Jasonsson galt það o.s. frv.: Um útlausn Lýkáons sjá XXI 40 o. áfr. Þar er Patróklusar að vísu ekki getið, en ekki er óeðlilegt, að hann hafi séð um þau kaup. 757. ljóðl. fellir Svb. niður samkvæmt skoðun Aristarchusar: „Nú stóðu þeir allir í röð, hverr út frá öðrum, en Akkilles vísaði þeim á hvar skeiðmörkin voru“. (= 358. ljóðl.). (Komi inn í textann á eftir orðunum „léttastur á fæti allra ungra manna“). Er engin ástæða til að ætla, að hún sé fremur innskot hér en á hinum staðnum, því að verknaðurinn, sem hún lýsir, er sjálfsagður við kapphlaup. 758 þeir tóku á rás frá hlaupstíunni, toisí d'apo nysses tetato dromos: „(Þegar) frá viðbragðsstriki hlupu þeir sem þeir máttu“. — Orðið nyssa, -es kvk., (sbr. nyssó = „að rispa“. þ.e. a. s. dregið er strik eða rispa í moldina, þaðan sem hlaupið hefst. Svb. þýðir orð þetta „hlaupstía“. Orðatiltæki þetta kemur einnig fyrir í Od. VIII 121, og þýðir Svb. þar nákvæmlega eins og hér. Virðist eigi ósennilegt, að hann hafi hagað hér þýðingu eftir skýringu Crusiusar: nyssa ist hier der Standpunkt, von welchem aus der Wettlauf begann, die Schranken.[*] [* A. T. Murray (í útg. sinni af Ilíonskviðu í Loeb Classical Library) álítur, að nyssa þýði hér ekki viðbragðsstrikið, heldur staðinn, sem hlaupið var til, sveigt fyrir og síðan hlaupið frá í áttina að marki því, er lagt var upp frá. Hann þýðir því: „og var þeim mörkuð braut frá kringhlaupsstað“.] 760 Svo sem vinduteinn er nálægt brjósti fagurbeltaðrar konu o.s. frv.: Hér mun hafa verið að ræða um vefstól, svipaðan hinum gamla, íslenzka vefstól, (sbr. skýringarmynd í Blöndalsorðabók), sjá aths. Od. X 227. Vafasamt er, hvort skilningur Sveinbjarnar er alveg réttur, ef „vinduteinn“ er hér í hinni fornu merkingu, þ.e. áhaldið, sem fyrirvafið var undið upp á, (og samsvarar vefjarskyttu síðar). Það er þýðing hans á gríska orðinu kanón, sem táknar annað hinna sívölu kefla, er þræðir uppistöðunnar voru festir á á víxl, jafna talan annað, ójafna talan á hitt. Þegar ofið var, stóð vefarinn við vefinn og dró að brjósti sér annað þessara kefla. Myndaðist við það op milli þráða uppistöðunnar, og í gegnum það var áhaldið með fyrirvafinu dregið. Virðist því, að líkinguna verði að þýða svona: „Svo sem vefjarskeið er nálægt brjósti fagurbeltaðrar konu, er hún dregur hana fimlega að sér með hendinni um leið og hún skýtur fyrirvafinu (vinduteininum) í gegnum uppistöðu og heldur skeiðinni nálægt brjósti sínu“. 773 að þeir mundu fleygja sér yfir leikféð: Af þessu má ráða, að verðlaunin hafi verið sett við markið. 780 hann hélt um horn uxans: Táknaði þetta, að hann helgaði sér hann til eignar, sbr. aths. 666. 798 Peleifsson lagði nú fram á leikmótinu langskeft spjót o.s. frv.: Fáir telja kaflann 798.-883. ljóðl. óaðskiljanlegan hluta Ilíonskviðu, (sbr. inngang að þessum þætti). Margt er hér mjög óljóst og torskilið. Kallar Leaf þenna kafla auman þvætting í samanburði við hinar ágætu lýsingar á afrekum íþróttagarpanna hér að framan. Hvorki Akkilles (621.-3. ljóðl.) né Nestor (634 o. áfr.) geta um keppni í þeim íþróttagreinum, sem hér er lýst, (einvígi, kúluvarpi og bogfimi). 800 það voru vopn Sarpedons: Um það, er Sarpedon var flettur vopnum og herklæðum, sjá XVI 663-5. 801 Hann stóð uppréttur ... meðal Argverja = 271. ljóðl. 802 Nú bjóðum vér ... færastir eru = 659. ljóðl. 806 svo að blóðvaka verði: Orðið „blóðvaka“ er fornt, (sbr. Biskupasögur I, 87-; sbr. einnig „að vekja e-m blóð“). 808 er eg tók af Asteropeus: Um hann sjá XXI 183, og um hið þrakneska sverð sjá aths. XIII 577. Eigi er fullljóst, hvernig vopn Sarpedons máttu verða sameign. 810 og svo skulum vér ... góða veizlu: Þegar í fornöld hnutu menn um þetta, að þessum keppendum einum skyldi heitið veizlu, en ekki hinum. 811-16 ljóðl. eru allar fengnar að láni annars staðar frá (= XXIII 708, 290, III 340-2, 15). 825 og vel sniðnum fetli: þ.e. ól um brjóst, yfir og undir öxl. Hékk sverðið við ól þessa. 826 eina kúlu af ásmundarjárni, solon átokhoónon [sennilega af átokhónos = átokhoanos, af átos + khoanos]: Líklega er átt við bút af járni eins og það var, þegar það kom úr bræðsluofninum. Sumir hafa talið, að átokhoónon (= sjálfbrætt) benti til járns úr lofsteini. Ólíklegt má samt telja, að slíkt járn hafi hentað í landbúnaðarverkfæri. — Orðið „ásmundarjárn“ mun eiginlega þýða járn, sem framleitt er með rauðablæstri, „rauði“. 827 hinn afarsterki Etjon: Hann var faðir Andrómökku, sbr. VI 395, IX 188, 414 o.s. frv. 835 og skal ekki fjárhirðir hans eða akurmaður þurfa í kaupstað að fara o. s. frv.: Af því að ýmislegt bendir til síðari uppruna alls þessa kafla (798-883), hefur sumum dottið í hug, að það væri sagt út frá eigin hugmyndum síðara skálds um menningarástand hetjualdarinnar, að akurmenn og fjárhirðar(!) smíði sér sjálfir nauðsynleg áhöld úr smíðajárnsbút. Á tímum Hómers virðist málmsmiðurinn þegar orðinn sérhæfður handiðnaðarmaður, enda getur tæplega nokkra grein handiðna, er sérhæfingar hefði verið brýnni þörf í. 836-7 Um þá Polýpöytes og Leonteif sbr. XII 129 o. áfr. og II 740-47. 838 Epeus: Sbr. aths. 665. 840 Þá hlógu allir Akkear: Eigi er tekið fram, hvort þeir hafi hlegið af því, að Epeusi hafi illa tekizt eða af ánægju yfir góðu kasti. Leikur nokkur grunur á, að skáldið líti á Epeus sem vitgrannan kraftajötun. 843. ljóðl. fellir Svb. niður að dæmi Aristarchusar: „úr sinni styrku hendi og sendi hana framhjá mörkum allra“. (Komi inn í textann á eftir orðunum „hinn mikli Ajant Telamonsson“). Það sem hér kallast „mörk“, er á grísku semata og mun lúta að því, að reknir hafa verið niður tréhælar, þar sem kúlan kom niður hverju sinni. 845 svo sem þá er nautahirðir kastar krókstaf sínum o.s. frv., hosson tis t'erripse kaláropa búkolos aner: Orðið kalárops [ef til vill af kalos í merkingunni „strengur“, (lýtur að lykkju, sem notuð var til að auðvelda kast) + (F)repó, samst. við þýzka so. werfen] ætla flestir, að tákni krókstaf þann, er nautahirðar hafa notað til að kasta fyrir gripi, sem rása frá hjörðinni. 850 Því næst lagði Akkilles fram blásvart járn o.s. frv.: Eftirfarandi keppni er ennþá fjarstæðari en einvígið og öllu torskildari. Að ákveða fyrirfram verðlaun handa þeim manni, sem að vísu gæti ekki hitt fuglinn, en ynni hins vegar hið ólíklega afrek að skjóta í sundur strenginn, er næsta ótrúlegt. Virgill (Aen. V 485-521) og Scott (Anne of Geierstein) hafa báðir stælt þessa lýsingu Hómers, en forðast samt þessa misfellu. — Sennilega eru „tíu tvíöxar“ og „tíu hálföxar“ aðeins viðurlag við „blásvart járn“, svo að þýðingin ætti þá að vera svona: „Því næst lagði Akkilles fram blásvart járn handa bogmönnunum, tíu tvíöxar og tíu hálföxar“, ( þ.e. a. s. orðin „hann setti fram“ ættu að falla brott. Þau stafa af því, að Svb. hefur skilið þetta svo, að um tvennt hafi verið að ræða, annars vegar járnið, hins vegar öxarnar. Fornir skýrendur telja, að „tvíöxar“ (pelekeis) og „hálföxar“ (hemípelekka) tákni hér ákveðinn þunga af járni. Áður en mótuð mynt kom til sögunnar, voru málmar (gull, silfur, járn) notaðir sem gjaldmiðill í stöngum. Væri þá ekki óhugsandi, að nöfn sem „tvíöxar“ og „hálföxar“ hafi verið notuð til að tákna ákveðið magn málmsins. Ef um öxar í eiginlegum skilningi er hér að ræða, mun „tvíöx“ verið hafa tvíblaða, en „hálföx“ einblaða. 859 Tevkrus Telamonsson var beztur bogmaður meðal Akkea, sjá VI 31, VIII 281 o. áfr., sbr. og aths. XIII 91. 861 Þeir tóku hluti og hristu í eirbúnum hjálmi = III 316, Od. X 206. — Hlutkesti var hér óhjákvæmilegt, því að samkvæmt skilmálunum, sem teknir hafa verið fram, mundi sá, er síðar átti að skjóta, engan möguleika hafa til að vinna, ef hinn fyrri hitti fuglinn. 863 hét ekki á hinn máttuga guð: Eins og fram kemur hér á eftir, er átt við Apollon. 864 veglega hundraðsfórn frumborinna ásauðarlamba = V 102. Virðist sem, þetta sé fastákveðið gjald til guðsins fyrir árangursríkt skot. 870 Meriónes þreif þá bogann o.s. frv.: Báðir verða að skjóta af sama boga, alveg eins og allir urðu að kasta sömu kúlunni, sbr. og kappleikinn í húsi Odysseifs, Od. XXI 74 o. áfr. 871 en ör var hann alltaf vanur að hafa á sér, þegar hann skaut til hæfis atar de oïston ekhen palai, hós íþynen: „en ör hafði hann fyrir löngu (reiðubúna), á meðan Tevkrus skaut til hæfis“. — Annars ber mönnum ekki fyllilega saman um, hvernig hér skuli þýtt. 875 og þar skaut hann á hana miðja undir vænginn: Allt má þetta teljast undrum sæta, að örin skyldi komast aftur að fótum Merióness, og fuglinn fljúga eftir þessa útreið að siglutrénu. Virgill lætur þó fuglinn steindrepast strax. 884 Nú bar Peleifsson og lagði fram á leikmótinu langskeft spjót: Sennilega er spjót þetta ekki verðlaunagripur, heldur vopnið, sem keppendur eiga að hafa til leiksins. En er Akkilles verður þess var, að Agamemnon gefur sig fram til keppninnar, (og ekki gat skáldið með góðu móti gengið framhjá honum, er allir helztu höfðingjar Akkea voru að reyna sig í íþróttum), þykir honum óviðeigandi að láta sjálfan yfirhershöfðingjann keppa við sér minni mann og ótignari og úrskurðar honum því verðlaunin án keppni, en gefur Meríónes spjótið í sárabætur. Þetta niðurlag þáttarins, 884.—97. ljóðl., ætla flestir úr frumkviðunni, enda er sérstak1ega getið um „spjótaleik“ (akontistys) í 622. ljóðl. Ætti þá 884. ljóðl. að koma næst á eftir hinni 797., kaflinn þar á milli að teljast innskot, (sbr. inngang að skýringum þessa þáttar). Að vísu virðist þessi endir heldur máttlaus eftir tilþrif hinna fyrri kappleika. 885 óeldbæran, apyron: Sbr. aths. 702. eitt uxagildi: Sbr. aths. 703. 892 leikfé, aëþlon: þ.e. „verðlaun“. Mun orðið líklega vera nýyrði. Að sjálfsögðu kemur orðið aëþlon langoftast fyrir í þessum þætti eða 21 sinni. Þýðir Svb. það ýmist „verðlaun“ (12 sinnum), „sigurlaun“ (6 sinnum) eða „leikfé“ (3var sinnum). Í Od. XXI 73, 106 umritar hann orðið, en í Od. XXIV 85 og 91 þýðir hann „sigurgjafir“ og í Od., XXIV 89 „sigurlaun“. TUTTUGASTI OG FJÓRÐI ÞÁTTUR Tuttugasti og fjórði þáttur Ilíonskviðu hefur talinn verið til hins fegursta skáldskapar fyrr og síðar. Jafnframt er hann svo traust heild, að gagnrýnendur hafa þar óvíða nokkrar veilur fundið. Hin helsta þeirra er inngangskaflinn (1.-30. ljóðl.), því að ýmsar ljóðlínur hans hafa sætt nokkurri tortryggni allt frá fornöld. Einn merkur gagnrýnandi hefur og talið lok þáttarins, frá 677. ljóðl., síðari viðbót. Virðist þó þessi endir næsta viðeigandi, er stormum og styr Ilíonskviðu slotar og, jafnvægi kemst á, enda þótt fljótar sé hér yfir sögu farið en háttur er söguljóðskálda að öllum jafnaði. En auðsætt er, að skáldið hefur orðið að fullnægja löngun áheyrenda sinna til að heyra greint frá heimkomu Príamusar. Hitt var skáldskaparleg nauðsyn, að gera það í sem stytztu máli, er hámarki hinnar glæsilegu stígandi hafði þegar verið náð. — Þá kann og nokkur vafi að geta leikið um harmatölurnar í 725.-76. ljóðl. Einkanlega valda örðugleikum orð Helenu í 765.-76. ljóðl., „því þetta er hið tuttugasta ár, síðan eg fór þaðan, og burt úr föðurlandi mínu“. Aðeins tvær skýringar virðast hugsanlegar á þessu. Annaðhvort er hér vitnað til hinnar síðari sagnar í söguljóðabálknum, þar sem ræðir um tvær herferðir gegn Tróju, eða áhrifa hefur gætt í endurminningu skáldsins um tuttugu ára fjarvistir Odysseifs að heiman (í Od. XIX 222). En hvort sem er, bendir þetta atriði til þess, að harmatölurnar séu seint ortar, síðar en þátturinn að öðru leyti. En enda þótt þátturinn sé ortur fyrir þann tíma, er bálkur söguljóðanna var að myndast, er hann samt vafalaust yngri en frumkviðan um reiði Akkillesar og hinar fyrri viðbætur við hana. Oft hefur verið bent á, að stíllinn í þessum þætti sé alls staðar hinn sami og á Odysseifskviðu. Koma hér ýmis orðatiltæki fyrir, sem annars er aðeins að finna í Odysseifskviðu. Þá kemur Hermes hér fram sem boðberi guðanna, en alls staðar gegnir Íris því starfi annars í Ilíonskviðu, Skapanornirnar (Moirai) í 49. ljóðl. eru og síðari hugmynd. Að sögninni um Níóbu er aðeins vikið í þessum þætti. Öll er lýsingin á búð Akkillesar eða þó miklu fremur höll í ósamræmi við aðra hluta Ilíonskviðu, að undanskildum IX. þætti. Með IX. þætti og hinum XXIV. eru raunar nokkur skyldleikamerki. Að anda og efnismeðferð sverja þeir sig báðir meir í ætt við harmleika- en söguljóðaskáldskap. Í báðum er styrkur skáldsins meiri í ræðum en eiginlegri frásögn. Skortir því stundum nokkuð á um skýrleik og snerpu í þeim hlutum þáttarins, sem eru einber frásögn, en það er bæði upphaf hans og endir. (Sama máli gegnir um upphaf XXIII. þáttar, sem vel má vera eftir sama höfund). IX. þáttur er meistaraverk að mælsku, hinn XXIV. að snilldarlegri meðferð átakanlegra atburða. Báðir tákna spor fram á við frá hófsemi hins epíska stíls, vekja hugboð um hnignun hans. Höfundi frumkviðunnar um reiði Akkillesar mæti líkja við Aischylos, en þá mætti líka kveða svo að orði, að andi þeirra Sófoklesar og Evrípídesar hefði verið að verki í huga skáldsins, sem orti XXIV. þátt Ilíonskviðu löngu fyrir þeirra dag. 1 leikmótinu: Sbr. aths. XXIII 273. — Með þessum þætti hefst 30. dagur Ilíonskviðu, og allt gerist efni hans á 21 degi. [Dagatal Ilíonskviðu: Í 9 daga geisar sóttin (I 29). Á 10. degi kveður Akkilles saman ráðstefnu (I 54). Eftir 12 daga snýr Seifur heim frá Eþíópum (I 423), svo að samkvæmt því heimsækir Þetis Seif á 21. degi kviðunnar, og lýkur þeim degi með I. þætti kviðunnar. — Frá upphafi II. þáttar að 293. ljóðl. VII. þáttar er einn dagur, hinn 22. — Í VII. þætti frá 381.-432. ljóðl. einn dagur, hinn 23., og frá 433.-465. ljóðl. sama þáttar einn dagur, hinn 24. — Frá VIII. þætti að lokum X. þáttar er einn dagur, hinn 25. — Frá XI. þætti til XVIII. þáttar er einn dagur, hinn 26. — Frá XIX. þætti að 101. ljóðl. í XXIII. þætti er einn dagur, hinn 27. ásamt næstu nótt. Í þeim þætti eru auk þess tveir dagar, frá 109. ljóðl. til 225. ljóðl. einn dagur, hinn 28., og frá 226. ljóðl. til þáttarloka einn dagur, hinn 29. dagur. — Í XXIV. þætti verður dagatal á þessa leið: Akkilles dregur í 11 daga lík Hektors umhverfis haug Patróklusar. Á 12. degi er goðastefna (31. ljóðl.), þ.e. a. s. á 39. degi allrar kviðunnar (Misþyrmingarnar á líki Hektors verður að reikna frá þeim degi, er hann féll, hinum 27. degi kviðunnar). Sama dag leysir Príamus lík Hektors út (351. ljóðl., 676. ljóðl. o. áfr.), og næsta morgun (40. degi) snýr Príamus aftur til Tróju. Með 41. degi hefst 11 daga vopnahlé, sem Akkilles hét að veita, og á því tímabili er Hektor grátinn í 9 daga, á 10. degi er lík hans brennt, ( þ.e. hinum 50. í kviðunni), og jarðað loks á 11. degi]. 8 bæði í bardögum við menn og í hættulegum bylgjum á sjó = Od. VIII 183, Od. XIII 91, 264. (Á fyrsta staðnum í Od. þýðir Svb. þetta: „bæði orustur við menn, og hættulegan öldugang“, á næsta: „átt í bardögum við menn og farið gegnum hættulegur bylgjur“, og á síðast talda staðnum: „verið í mannhættum orustum, og farið yfir háskasamleg höf“. Er þetta gott sýnishorn þess, hve Svb. orðar margvíslega það, sem á einn veg er sagt í frumtextanum). 20-21 hann hlífði honum öllum með hinum gullna ægisskildi, svo líkið skyldi ekki hruflast, þó Akkilles drægi það: Þessum ljóðl. vildu fornir gagnrýnendur sleppa. Voru rök þeirra sem hér segir: 1) Þær eru óþarfar; 2) það er ósamrýmanlegt helgi ægisskjaldarins að snerta lík; 3) ægisskjöldur var raunverulegur skjöldur, sem ekki var hægt að vefja um líkið, er það var dregið; 4) ægisskjöldur heyrir Seifi til, en ekki Apolloni; 5) önnur ráð eru höfð til að verja líkið í XXIII 185-91. — En allsendis er óvíst, hvort hugmyndirnar um ægisskjöld guðanna hafa verið svo ákveðnar. Menn hafa hugsað sér hann til þess hæfan að veita vernd gegn hverju sem var. Auðvitað hefði Seifur getað lánað Apolloni skjöldinn eins og í XV 229, 307-310. (Sbr. aths. XV 229). 29-30 er hann svívirti gyðjurnar ... honum háskasamlega munaðarfýsn. Dómur Parisar er annars hvergi nefndur í Ilíonskviðu. Sakir þess vilja ýmsir gagnrýnendur fella þessar ljóðl. brott, enda séu þær með öllu óskyldar anda Hómers. Fornir skýrendur gengu jafnvel svo langt að vilja fella brott 24.-30. ljóðl. Töldu þeir verknaðinn, sem Hermes átti að fremja (sbr. 24. ljóðl.), ósamboðinn guði. Virðist þó Hermes hafa verið til í annað eins. Hitt er að vísu rétt, að hvergi getur Hómer annars um það, að Hermes sé stelvís. En yfirleitt eru hugmyndirnar um Hermes, t. d. sem sendiboða, sem lýst er í þessum þætti, frábrugðnar þeirri mynd, sem skáldið hefur dregið upp af honum annars staðar í Ilíonskviðu. 24 Argusbana: Sbr. aths. Od. X 302. 25 hinni glóeygu mey: þ.e. Aþenu. 31 En er hinn tólfti morgun rann upp þaðan frá = I 493. Á hvorugum staðnum er ljóst, við hvaða tíma er miðað. Hér hlýtur það samt að vera fall Hektors, þó að ekki sé það beinlínis tekið fram. Talið er, að 3 dagar fari til útfarar Patróklusar og 9 dagar að auk í deilurnar á himnum, (sbr. 107. ljóðl.: „Nú hefir í níu daga misklíð verið milli hinna ódauðlegu guða um lík Hektors og um Akkilles borgabrjót“). 44-45 og hefir enga skammfeilni, sem gerir mönnum mikinn skaða og mikið gagn: Orðið, sem Svb. þýðir „skammfeilni“, er aidós, þ.e. óttinn við það, sem aðrir menn kunna að segja. Sá ótti getur að vísu forðað mönnum frá því að fremja óhæfuverk, en hins vegar kemur hann og stundum í veg fyrir, að þeir geri það, sem þeir vita, að er rétt, (sbr. t. d. Hippolytus eftir Evrípídes, 385. ljóðl. o. áfr.). Allt frá því í fornöld hefur 45. ljóðl. verið talin innskot, því að hún missir alveg marks hér: Ekki gat Seifur ásakað Akkilles fyrir að hafa ekkert af þeirri tegund „skammfeilni“, sem bakar mönnum tjón. 47 samborinn bróður, kasígneton homogastríon: Sbr. „sammæddur bróðir“ (XXI 95). 49 skapanornir, Moirai: Annars staðar í Ilíonskviðu kemur orð þetta aðeins fyrir í eint. Er þetta enn ein sönnun fyrir síðari uppruna þessa þáttar. Felur þetta í sér greinilega persónugervingu skapanornanna svo sem í Od. VII 197. Í XX 127 er persónugerving örlagadísarinnar nokkurn veginn fullger, en það er einnig talinn tiltölulega ungur kafli. 54 því hann níðist í heift sinni á jörðinni, sem einskis kennir: Sbr. VII 99 „Verði þér allir að vatni og moldu“. — Hér hefði ef til vill mátt komast nær merkingu frumtextans með því að þýða: „því hann níðist í heift sinni á skynlausum leirnum“. 60 af gyðju þeirri, er eg ól upp og fóstraði sjálf o.s. frv.: Samkvæmt síðari sögnum átti Hera að hafa látið sér svona annt um Þetisi, af því að hún hafði vísað á bug ástleitni Seifs. Annars staðar í kviðunni eru guðirnir allir látnir standa að ráðahag hennar við Peleif, sbr. XVIII 85. 63 og þú samlaginn vondra manna og ávallt ótryggur, varst þar o.s. frv.: Þetta er ekki óskemmtilegt dæmi um kvenlega rökvísi, að ætlast skilyrðislaust til þess af Apollon, að hann fylgi Þetisi að málum, af því að hann hafði verið í brúðkaupi hennar. — Orðið „samlagi“ (= félagi) er fornt (Postula sögur). 68 þakknæmilegar gjafir: Orðið „þakknæmur“ kemur fyrir í fornu máli (Alexanders sögu). 78 í milli Sámseyjar og hinnar klettóttu Imbreyjar: Sbr. XIII 12, 33 og aths. við þá staði. 81 sú er fest er við forsendu, he te kat' agráloio boos keras embebáía: „sem ( þ.e. sakkan) fest er við horn af sveita-uxa“. Á skáldið hér ef til vill við tálbeitu, sem búin hefur verið til úr horni og bundin við blýsökku, sbr. Od. XII 251 o. áfr. — Aðrir hafa hugsað sér, að pípa úr horni hafi verið notuð utan um færið neðst við öngulinn til að koma í veg fyrir, að það yrði bitið í sundur. Var það skoðun þeirra Aristarchusar og Aristotelesar. 91 óbættir harmar, akhe' akríta: „takmarkalausir harmar“. 93 skikkju, kalymma: „slæða“. Mun þetta verið hafa sams konar fat og kalyptre í XXII 406, sem Svb. þýðir „skýla“. Hefur þetta verið síð slæða, sem konur hafa brugðið yfir sig, er þær fóru út. — Eigi getur annars staðar í Hómerskviðum um svört klæði sem tákn sorgar. 100 og þokaði Aþena fyrir henni: Aþena situr hið næsta Seifi, eftirlætisbarn hans. 108 Akkilles borgabrjót: Sbr. aths. Od. XIV 447. 109 Argusbana: Sbr. aths. Od. X 302. 110 En eg ætla Akkilli að hafa sæmdarauka af þessu: Þ.e.a.s. að fá gjafir gegn afhendingu líksins í stað þess að verða að láta það af hendi án lausnargjalds og launa. Af öllum IX. þætti m. a. er ljóst, að á hetjuöldinni grísku lá sómi manna við að láta ekki hafa neitt af sér í viðskiptum, sbr. einkum IX 515, 598. 119 er honum sé hugbót í: Þetta er fornt orðalag. Kemur orðið „hugbót“ fyrir í Stjórn og víðar. 130—32 Gott er, að hafa konu hjá sér ... skapanorn stendur nú allnærri þér: Þessum ljóðl. vildi Aristarchus sleppa. Sennilega hefur honum þótt þessi athugasemd um konur fara illa í munni móður. Og víst er um það, að hin eldri söguljóðaskáld voru aldrei með neitt lauslætishjal, þótt þau væru annars skorinorð. 133 Heyr nú skjótt ... frá Seifi = II 26. 150 hjólvagninum, amaksan eýtrokhon: „hinum vel hjólaða vagni“. — Oft dregur Svb. þannig saman einkunn og no. í grísku í eitt samsett no. á íslenzku. 157 Því hann er hvorki óvitur maður, né ógætinn, og engi níðingur, úte gar est' afrón út askopos út' alítemón: Fornir skýrendur láta þess getið, að þessi þrjú lo. taki til hinna þriggja orsaka, er leiði til rangsleitni: heimsku, hugsunarleysi og illgirni. 158 heldur mun hann mjög innvirðulega ... á náðir hans flýr: = 187. mjög innvirðulega, mal' endykeós: Orðið „innvirðulega“ kemur fyrir í fornu máli (Heilagra manna sögum). Gríska orðið endykeós kemur einnig fyrir í XXIII 90, og þýðir Svb. það þar „ástúðlega“, en síðar í þessum þætti (XXIV 187) „innvirðulega“. Víða kemur orð þetta fyrir í Odysseifskviðu, og þýðir Svb. þar „góðfúslega“ (Od. VII 256, XIX 195), „ástsamlega“ (Od. XIV 62, XVII 111), „góðfúslega“ (XV 491) eða hann umritar það, „með öllum virktum“ (Od. X 65, 450 o.s. frv.). 163 í yfirhöfn utan um sig, svo sem í upphleyptu myndasmíði, entypas en khlaine kekalymmenos: „og hafði sveipað yfirhöfninni þétt að sér“. — Orðin „svo sem í upphleyptu myndasmíði“ stafa auðsjáanlega af því, hvernig Svb. hefur skilið orðið entypas [sennil. af en + typ. typtó = slá], þ.e. að yfirhöfnin hafi legið svo þétt að líkamanum, að sköpulag hans hafi komið jafnskýrt fram sem á upphleyptri mynd. Frummerkingin í typos mun vera „far eftir innsigli“. Mun slík merking hafa verið skáldinu kunn, því að fundir við Mýkenu sanna, að notkun innsigla er ævaforn í Grikklandi. Hefur því ef til vill vakað fyrir skáldinu sú hugsun, að Príamus hafi legið „svo flatur á jörðinni, að líkast hafi verið upphleyptri mynd í fari eftir innsigli“. En óvíst er, hvort svona mikið má knýja fram úr þessu eina orði. 164 var saur mikill: Sbr. aths. XXII 414. 170 og hann skalf allur: Þó að gyðjan lækki sína guðdómlega styrku rödd, fer beygur um Príamus, er hann verður hennar var. 171 Príamus Dardansniðji: Sbr. aths. XIII 376. 174 hann lætur sér annt ... sé þér fjarstaddur = II 27. 175—87 Hinn ólympski guð ... manni, er leitar líknar hans = 146—58 (að breyttu breytanda). 176 er honum sé hugbót í: Sbr. aths. 119. 179 hjólvagninum: Sbr. aths. 150. 181.—87. ljóðl.: Ekki skaltu kvíða dauða þínum ... þeim manni, er leitar líknar hans, virðast með röngu vera endurteknar hér úr kaflanum að framan. Samkvæmt því, sem eftir fer, er Príamusi með öllu ókunnugt um slík loforð. Hann minnist ekki á það við Heköbu, og eigi kannast hann við leiðsögumann sinn, er hann hittir hann. Hermes verður að segja til sín á síðustu stundu. Það jók auðvitað á hetjuskap Príamusar að leggja upp í ferðina án þess að vita, að hann ætti von á öruggri fylgd Hermesar. En hitt er venjuleg aðferð söguljóðaskálda, að láta áheyrendur vera búna að fá vitneskju um það, að Príamus mundi komast heilu og höldnu, (sbr. 152.—58. ljóðl.). 190 og binda laup ofan á hann: Hér mun hafa verið að ræða um e. k. vagnkassa. Mun laupur þessi sennil. hafa verið riðinn úr tágum. Kemur orðið einnig fyrir í 267. ljóðl. og Od. XV 131, en þar þýðir Svb. „vagnskrín“. Orðið hyperteríe í Od. VI 70, sem Svb. þýðir „kerrulaup“, mun táknað hafa eitthvað svipað. Flytur Násíka lín sitt í „kerrulaup“ þessum til þvotta. 191 Sjálfur gekk hann ofan í hinn ilmanda geymslusal = VI 288. Þetta hefur þótt einkennilegt orðalag, af því að hér gat ekki verið að ræða um að ganga ofan af efri hæð niður í geymslusalinn, (sbr. einnig Od. II 337, þar sem um sama vanda ræðir). Geymslusalurinn var allra innst inni í húsinu. Hann mun hafa verið gluggalaus og dimmt þar inni. Einmitt þess vegna er þetta orðað svona hér, „gekk hann ofan í o.s. frv.“, farið var úr birtunni inn í (ofan í) myrkrið. 192 af sedrusviði: Í gríska textanum er sambandið milli „ilmandi“ og „af sedrusviði“ svo náið, að hugsun skáldsins virðist vera „ilmandi af sedrusviði“, en ilmur hans var talinn verja muni fyrir skemmdum. 209-10 En hin máttuga skapanorn ... er eg ól hann: Sbr. XX 127-8. 212 æ, eg vildi eg mætti hanga á lifrinni inni í honum og eta hana: Svipað orðalag er í IV 35 og XXII 347. Er vitanlega helber firra að ætla, að slík orðatiltæki bendi á nokkurn hátt til leifa mannætulifnaðarhátta á hetjuöldinni grísku. Meira að segja Xenofon segir í Anabasis IV 8, 14 „ef vér með nokkru móti getum, verðum vér blátt áfram að eta þessa náunga hráa“. Og á hann þar við, að þeir verði með öllu móti að fá yfirbugað þá eða rutt þeim úr vegi. 215 hinum skautfögru Trójukonum: Sbr. aths. XVIII 122. 221 svo sem annaðhvort spáfararmenn, brennifórnarspámenn eða iðrablótsmenn, e hoi mantíes eisí þyoskooi e híerees: „svo sem annaðhvort brennifórnarspámenn eða prestar“. — Svb. hefur hér í þýðingu gert tvær manntegundir úr einni, þ.e. mantíes þyoskooi á saman og táknar „spámenn, sem mark taka á brennifórnum“, „brennifórnarspámenn“. — Orðið híerevs, sem hér er í flt. og Svb. þýðir „iðrablótmenn“, þýðir hann í I 62 „blótgoði“, en annars oftast nær „hofgoði“, þegar um er að ræða prest, sem þjónar einhverjum ákveðnum guði (t. d. I 370, V 10, XVI 604, Od. IX 198). 229 mjög fagra möttla, períkalleas ... peplús: Orðið „möttull“ virðist ágæt þýðing á peplos. Hefur það táknað síða yfirhöfn kvenna, hátíðarbúning. (Svb. hefur í V 315, 338 þýtt peplos með orðinu „blæju“, en annars jafnan „möttull“, t. d. V 734, VIII 385, VI 90, 271, 289, 302; Od. VI 38, XV 105, 124, XVIII 292). En einnig kemur það fyrir í merkingunni „dúkar“, sbr. V 194 „fagrar kerrur ... og er tjaldað dúkum (peploi) umhverfis þær“. 230—31 einbrotnar yfirhafnir ... jafnmarga kyrtla = Od. XXIV 276—7. 230 einbrotnar yfirhafnir, haploídas khlainas: Orðið khlaina hefur táknað e. k. skikkju, sem brugðið hefur verið yfir kyrtilinn (khítón), „einbrotin“, þegar menn brugðu henni yfir sig einfaldri, „tvíbrotin“ (khlaina diple), er menn lögðu hana yfir sig tvöfalda, (sbr. X 134: þá spennti hann á sig skikkju; hún var purpurarauð, tvíbrotin og víð; III 126 tvískikkju). jafnmarga dúka, tossús de tapetas: Orðið tapes, -etos mun verið hafa ábreiða, notuð í rúm eða á sæti, enda þýðir Svb. það einnig stundum svo, t. d. IX 200 purpuraábreiður. [Mynd: 1. mynd] [Mynd: 2. mynd] [Mynd: 3. mynd. Stríðsvagn og hlutar hans.] 231 jafnmargar fagrar skikkjur, tossa de farea levka: „jafnmargar hvítar skikkjur“. — Orðið faros táknaði skikkju úr líni. Var slíkt fat sennilega ennþá dýrara en khlaina, sem var úr ull. Einmitt af því að faros var úr líni, hlýtur það einkunnina levkos = hvítur. Í nokkrum hinna lélegri handrita stendur hér kala í stað levka. Hefur það, kótt einkennilegt sé, komizt inn í margar útgáfur, m. a. útgáfu Crusiusar, sbr. aths. XXII 469. 232 Þá vó hann ... tíu vættir með sér = XIX 247. — Um verðgildi gulltalentu, (sem Svb. þýðir „vætt“), á tímum Hómers sbr. aths. XVIII 507. 238 út úr svölunum, aiþúses (apeërgen): Um orðið aiþúsa sbr. aths. Od. XX 176. Annars notar Svb. orðið „svalir“ í fornri merkingu þess, („en bedækket mod Ydersiden aaben Gang, der löber langs en Bygning eller Husrække“. Fritzner). 249 og átaldi þá Helenus og Paris o.s. frv.: Þessa sonu átti hann nú lífs af fimmtíu, sjá 495. ljóðl. 258 Hektor, sem var guð, meðal manna: Sbr. X 47-50. 269 af bússviði, pyxínon: Orðið „búss“ er fornt í merkingunni „bússviður“, sbr. lat. buxus, (Sæm. Edd. II 483. 566). 270 þeir báru út níu álna langt okband o.s. frv.: Leaf, skýrir þetta á þá leið, að vagnstöngin (krymos) hafi fremst sveigzt upp á við. Kallaðist þessi standur á vagnstönginni petse, (Svb. þýðir petse epí próte ,fremst framan á enda hennar“), og við hann var okið lagt yfir vagnstöngina. Áfastur okinu var hringur (kríkos). Í gegnum hringinn var stangarnaglanum (hestór) stungið og í gat á vagnstönginni. Síðan var okbandinu (tsygodesmon) brugðið um okbúklið (omfalos), nagla þann á okinu, sem hringurinn (kríkos) lék í, (enda er okið í 269. ljóðl. kallað „búklað“). Þá mun okbandinu hafa verið brugðið um enda vagnstangarinnar fremst (petse), og loks hefur okbandið verið fest við vagnstólpann, sem var fremst á kerrustólnum, sbr. að öðru leyti skýringarmynd á bls. 683. 278 Mýsar: Þeir voru nágrannar Eneta, (sbr. II 852: hann var frá Enetalandi; þaðan er komið kyn enna viltu hálfasna). Voru Mýsar frægir fyrir múldýr sín, að því er fornir skýrendur herma. 284-86 hún hélt í hægri hendi sér á gullskál ... tók til orða og mælti = Od. XV 148-50. 293 er honum kærstur allra fugla: þ.e. örninn, sendiboði Seifs. 306 gekk síðan fram í miðjan hallargarðinn: Þar stóð altari Seifs, sbr. aths. XVI 231. (306-7 = XVI 231-32; 308 = III 276; 309 = Od. VI 327; 310-13 sjá 292-95 hér rétt á undan; 314 = XVI 249; 315 = VIII 247). Það er annars sérkenni á Odysseifskviðu að biðja guðina um hagstæða forboða, en í Ilíonskviðu bryddar ekki slíku nema á einstaka stað. 317 Svo víð sem vel læst og vel felld hurð o.s. frv.: Auðvitað er átt við vængjahurð, sbr. Od. II 344: þéttfelld tvíhurð. 323 og ók út úr fordyrinu og hinum ómanda svölugangi: Þessi ljóðl. er úr Odysseifskviðu, kemur þar þrisvar fyrir, Od. III 493 o.s. frv., sbr. og aths. Od. XX 176. 339-45 Þannig mælti hann, en hinn hvatfæri Argusbani ... í hendi sér, og rann þegar af stað = Od. V 43-49. (340 = Il 44; 341-42 = Od. I 97-98; 343-44 = Od. XXIV 3-4). 348 sem nýsprottin er grön ... fegursta æskuskeiði = Od. X 279, (einnig þar um Hermes). Einkennilegt er það, að þessi lýsing á Hermesi skuli raunar aðeins standa heima við hugmyndir manna um hann á blómaskeiði grískra lista, því að þar áður er Hermes ávallt sýndur á myndum alskeggjaður, sbr. J.G., bls. 147. 349 Ílushaugi: Sjá X 415. Virðist af þessum stað mega ráða, að haugur þessi hafi verið mitt á milli borgarinnar og vaðsins á Skamander. 354 Dardansniðji: Sbr. aths. XIII 376. 359 á limum hans, ení gnamptoisí melessí: „á hinum liðugu (bognu?) limum hans“. — Orðasamband þetta er úr Odysseifskviðu, t. d. XI 394 og XIII 398, og á báðum þeim stöðum á einkunnin gnamptos, „liðugur“, vel við. Hér er hún annaðhvort notuð sem óaðskiljanlegur hluti þessa orðasambands, e. k. epitheton ornans, eða hún er notuð í merkingunni „beygður“ eða „boginn“, ( þ.e. a. s. af elli; sbr. gnamptó = að beygja). 360 Hagvaldur, eríúníos: þ.e. „sá, sem hjálpar“. Þetta sama orð þýddi Svb. í XX 72 (Hermes) hagsældaguð, einnig síðar í þessum þætti 457. ljóðl.), en í 679. ljóðl. (Hermes) hinn hagvaldi guð. — C. M. Bowra, Tradition and Design in the Iliad, bls. 143, skýrir þetta orð á annan veg: Í mállýzku þeirri, sem töluð var á eynni Kýprus og í hálendi Arkadíu, varðveittust ýmsar orðmyndir, sem bregða óvæntri birtu á torskilin orð hjá Hómer. Í þessari mállýzku þýðir orðið „úníos“ „hlaupari“. Orðið „eríúníos“ hjá Hómer, segir Bowra þýðir því „hraðfari“, og á sú einkunn vel við sendiguðinn Hermes. 363 á náttarþeli, þegar aðrir menn sofa = X 83. 369 að verjast þeim manni, sem veitir árás að fyrra bragði = Od. XVI 72 (til að hrinda af mér, ef einhverr bekkist til við mig að fyrra bragði), Od. XXI 133. 378 Hinn hvatfæri Argusbani, díaktoros Argeífontes: Þýðir Svb. svo í þessum þætti, (339, 389, 410, 432, 445, en í XXI 497 og yfirleitt í allri Odysseifskviðu „sendiguðinn Argusbani“, t. d. Od. I 84, V 43, 75, 94, 145, VIII 335 o.s. frv.). 379 Allt er þetta satt, sem þú segir, gamli maður = I 286 (og víðar). 391 í hinum mannsæma bardaga, makhe ení kydíaneire: Orðið „mannsæmur“ er þýðing á kydíaneira [kydos + aner], „sem færir mönnum sóma“, einkum með makhe (= bardagi), en stundum þýðir Svb. þetta „mannfræga bardaga“ (XII 325, XIII 270, XIV 155). 396 hersveinn: Sbr. aths. XXIII 90. á sama skipi, mía d'egage nevs everges: „á hinu sama traustsmíðaða skipi“, (sbr. þýðingu Sveinbjarnar í Od. XII 1G5, XVI 322 o.s. frv.). 410 Hinn hvatfæri Argusbani: Sbr. aths. 378. 437 til hins fræga Argverjalands: Argverjaland hlýtur hér í munni Myrmídóna að tákna „Argverjaland Pelaska“, þ.e. Þessalíu, sbr. II 681. 440 Hagvaldur: Sbr. aths. 360. 445 hinn hvatfæri Argusbani: Sbr. aths. 378. 448 Þá komu þeir að hinni hávu búð Peleifssonar o.s. frv.: Búð Akkillesar er hér lýst sem húsi í sama stíl og um getur víða í Hómerskviðum: Hér er forgarður og framhús (673), svalir (aiþúsa 644), stofa (megaron 647), enda allt kallað hús (oikos 572, eða dómata 512, þó að Svb. þýði að vísu „búð“ á báðum þeim stöðum). 453 furuslagbrandur: Hefur þetta verið þverslá, komið fyrir í götum sínu á hvorum dyrastaf. 457 Hermes hagsældarguð: Sbr. aths. 360. 466-67 skaltu biðja hann fyrir sakir föður hans ... sakir sonar hans: Ýmsir gagnrýnendur hafa talið þessar tvær ljóðl. síðara innskot, í fyrsta lagi af því, að eigi getur um neinn son Akkillesar nema í þeim köflum kviðunnar, sem yngstir eru taldir, sjá aths. XIX 327. Í öðru lagi fer Príamus ekki að ráðum guðsins, því að hann minnist síðar hvorki á móður Akkillesar né son. Mundi 465. ljóðl. líka vera ágætur endir á ræðunni. 474 Alkímus: Þetta er styttingarmynd af Alkímedon eins og í XIX 392. 480 Svo sem þá er mann nokkurn hendir sá stórglæpur o.s. frv.: Líkingin er dregin af hinum alkunna viðburði, er vegandi, sem útlægur hefur farið úr föðurlandi sínu, leitar sér hælis hjá höfðingja og hyggst gerast hans maður, en þiggja í staðinn lífsframfæri og vernd. 482 til einhvers auðugs manns: Auðvitað voru það aðeins auðugir og voldugir höfðingjar, sem voru þess um komnir að veita slíkum mönnum vernd, sbr. aths. XVI 571. 487 hrumur af elli og kominn af fótum fram, oloó epí geraos údó: Sbr. aths. XXII 60. 493-94 En eg, vesalstur allra manna ... eftir af þeim = 255-56. 506 að bera hendur sonarbana míns upp að munni mínum, andros paidofonoio potí stoma kheir' oregesþai: „að seilast með hendinni að ásjónu sonarbana míns“. — Svb. hefur farið eftir skýringu og skilningi þeirra Voss og Crusiusar. Voss þýðir: „duld' ich doch, — ach die die Kinder getötet, die Hand an die Lippe zu drücken“. Benda þeir á að þetta sé í samræmi við það, sem segir í 478. ljóðl., að Príamus kyssi hendur Akkillesar. En allt frá fornöld hefur samt sá skilningur, sem felst í hinni þýðingunni, verið talinn réttur, að Príamus seilist með hendinni að andliti (munni) Akkillesar til að snerta höku hans sem nauðleitarmaður (sjá I 500), enda geti ekki annað falist í oregesþai. 514. ljóðl. fellir Svb. niður að dæmi Aristarchusar: „og löngunin til að harma hafði farið úr hjarta hans og limum“. (Komi þessi orð inn í textann á eftir orðunum „svalað sér á harminum“). 519-21 Hví áræddir þú ... þú hefir sannarlega járnhjarta = 203-5. 526 en sjálfir eru guðirnir sorgalausir: Orðið „sorgalauss“ er fornt, sbr. örlög sín /viti engi fyrir; / þeim es sorgalausastr sefi. Hávam. 57. 527 Á hallargólfi Seifs standa tvö ker; í þeim kerum eru gjafir þær, er guðirnir veita; í öðru kerinu er hið illa, en í hinu hið góða, doioi gar te píþoi katakeiatai en Díos údei / dórón koia didósé, kakón, heteros de heaón: „Á hallargólfi Seifs standa tvö ker hinna illu gjafa, er hann veitir, og annað (ker) hinna góðu (gjafa)“. — Leaf styður hina síðari þýðingu þessa kafla. Hann segir eitthvað á þessa leið: Er frumstæðum manni verður á að spyrja sig, hvaðan hið illa stafi, kemst hann að þeirri niðurstöðu, að Seifur hafi birgðir af því í kerum í húsi sínu. Kann Hesíod að greina frá því, að kona hafi í gáleysi opnað slíkt ker og hleypt á þann hátt hvers konar böli yfir mannkynið. Er hinn frumstæði bölsýnismaður spyr sig ennfremur, hvers vegna sé meira af böli en blessun í heiminum, þykir honum ljóst, að skýringin sé fólgin í því, að Seifur hafi tvö ker af böli á móti einu af blessun. Auðvitað hagnýtir Hómer sér þessa fornu goðsagnaskýringu til að klæða í skáldlegan búning þá staðreynd, að meira fer fyrir ófarnaði en velgengni í heiminum, en ekki trúir hann þessu í bókstaflegum skilningi. Auðsjáanlega má ráða af orðum Akkillesar hér á eftir, að þegar bezt lætur, geti maðurinn aðeins vænzt þess að fá örlítið af blessun saman við böl sitt, en hins vegar geti vel svo farið, að hann hreppi bölið eitt. Kemur það vel heim við þá hugmynd, að tvö séu ker hins illa á móti einu hins góða. Sé hins vegar aðeins eitt af hvoru, hlytu menn að geta gert sér jafnar vonir um gæfu og ógæfu. Verður þá endirinn á ræðu Akkillesar hjáróma. 532 sár sultur, kake búbróstis: Þetta er eitt þeirra orða í Hómerskviðum, sem ekki verður með vissu sagt, hvað þýða. Töldu sumir fornir skýrendur það tákna „broddflugu, sem hrjáir nautgripina“, (orðið þá samstofna bús = naut), en aðrir þýða hér „illt æði“. 537 gyðju fyrir konu: þ.e. Þetisi. 544 þeim er búa í því takmarki: Orðið „takmark“ í þessari merkingu er fornt, þ.e. „það, sem liggur innan einhverra tiltekinna endimarka“, (þú skalt ok eigi vera í því takmarki, er T. er bannat. Vatnsd. 35). aðsetri Makars: Makar átti að hafa verið fornkonungur á Lesbey (Lesbos), stofnandi höfuðborgarinnar þar, sem var samnefnd eynni. Leaf tekur fram, að nafnið Makar sé mjög útbreitt með ströndum Miðjarðarhafsins. Er það með gildum rökum talið vera hið sama og Melkert, hinn feníski Herakles, sem einnig var tignaður undir nafninu Melíkertes á Korinþueiði. 545 og hinu endalausa Hellusundi: Nafn þetta hlýtur hér að tákna í senn sjálft Hellespont og hafið við vesturströnd Asíu, því að ekki mundi skáldið að öðrum kosti hafa getað kallað það „endalaust“. 557 þegar þú fyrst hefir gefið mér heimleyfi, epei me próton easas: „þar sem þú hefur annað borð þyrmt mér“. 558. ljóðl. fellir Svb. brott. Hefur henni auðsjáanlega verið skotið inn af kvæðamanni, sem ekki hefur skilið easas til fulls og hugsað sér að hér ætti að standa: „(þar sem þú hefur frá upphafi leyft sjálfum mér) að lifa og líta ljós sólarinnar“. 560 Komdu mér ekki aftur til, gamli maður o.s. frv.: Gagnrýnt hefur verið, að Akkilles skuli hér skyndilega stökkva upp á nef sér, þó að orð Príamusar feli ekkert tilefni í sér til þess. En auðvitað gat skáldið ekki látið oss fá ljósari grun um hina ægilegu innri baráttu, sem Akkilles á í, en með þessari viðkvæmni hans jafnvel fyrir hinum meinlausustu orðum, ef þau benda á nokkurn hátt til flýtis eða efasemda. Hann verður að gera þetta upp við sjálfan sig einn og ótruflaður. Og ekkert er í rauninni eðlilegra en að maður ýfist í skapi við þrábeiðni um það, sem hann þegar hefur ákveðið að gera, og þó nauðugur. 574-75 þá virði Akkilles mest allra félaga sinna, næst hinum dána Patróklus: Sbr. Od. XXIV 78-9, þar sem sama lýsingin er heimfærð upp á Antílokkus. 577 hinn hljóðmikla kallara, keryka kaletora: Orðið „hljóðmikill“ í merkingunni „raddsterkur“ er fornt. 586 og hann svo drepið Príamus og brotið móti orðsendingu Seifs: Leaf hefur leitt gild rök að því, að þetta muni vera síðari viðbót einhvers kvæðamanns, sem hafi ekki þótt orðin „og hugur Akkills orðið uppvægur“ nógu greinileg. Hitt sé þó raunar sönnu nær, að skáldið hafi af ráðnum hug ekki viljað kveða nánar á um, hvað Akkilles kynni að hafa gert. 587-88 En er þernurnar höfðu ... í fagra skikkju og kyrtli = Od. VIII 454-55 = XVII 88-89 (því sem næst). — Gera verður ráð fyrir, að önnur skikkjan (sbr. 580. ljóðl.) hafi verið breidd á líkbekkinn, en líkið, klætt kyrtlinum, hafi verið hjúpað hinni. 594-95 því Príamus hefir gefið mér ekki ósæmilegar gjafir, og skal eg skipta þér af þeim svo miklum hlut, sem þér ber: Hvernig Patróklus átti að fá sinn hlut af útlausnarfénu, er ekki gott að segja, en af orðum Andrómökku (XXII 512) mætti ráða, að Akkilles hafi ætlað sér að brenna sumt af klæðunum honum til heiðurs, (sbr. loforð Odysseifs til handa draugunum í Od. XI 30-31). Var það enda útbreiddur siður í fornöld að færa framliðnum gjafir, einkum þó mat og drykk. 597 á hinn gersemlega legubekk, en klismó polydaidaló: Þessi „legubekkur“ (klismos) virðist vera sama og „hástóllinn“ (þronos) (í 515. ljóðl., sem Akkilles spratt upp af. Venjulega gerir skáldið þó greinarmun á þessum sætum, sjá einkum Od. I 130 o. áfr., þar sem auðsætt er, að klismos hefur verið lægra sæti, sbr. aths. Od. X 233). 602 Því matar neytti einnig hin hárprúða Níóba o.s. frv.: Annars staðar í Hómerskviðum er Níobusagnarinnar hvergi getið, en minnzt er einu sinni á Tantalus föður hennar, Od. XI 582-92. Harmleikaskáldin töldu Níóbu hafa átt sjö sonu og sjö dætur. Bæði Aischylos og Sofókles sömdu hvor um sig harmleik um Níóbu, þótt nú séu þeir týndir. Getur Sófokles einnig um þessa sögn í harmleikunum Elektru (150-53) og Antígonu (823-32); sbr. J.G., bls. 133 og 222. 607 Nióba jafnaði sér við hina kinnfögru Letó: Sagnir hermdu, að Níóba og Letó, móðir þeirra Apollons og Artemisar, hafi um eitt skeið verið nánar vinkonur, enda hafði Níóba eins og Tantalus faðir hennar verið í kærleikum við guðina. 611 því Kronusson gerði mennina að steinum, laús de líþús poiese Kronón: Sennilega hafa menn þessir á einhvern hátt verið meðsekir Níóbu. Mun hér vera skírskotað til einhverrar nú óþekktrar gerðar sagnarinnar. Þess er og rétt að geta, að alþýða manna þóttist skynja tengsl milli orðanna laos (fólk) og laäs (steinn). 615 Sípýlusfjalli: Fjall þetta var inni í miðri Litlu-Asíu, gekk út úr Tmolusfjallgarði. 616 í kring um Akkelóus: Auðvitað er hér átt við eitthvert fljót í Litlu-Asíu, en ekki við hið fræga fljót samnefnt í norð-vestur Grikklandi. 623-24 þeir brytjuðu limina kunnáttulega ... öll stykkin af teinunum = VII 317-18. 625-26 Átómedon tók brauð ... en Akkilles skammtaði kjötið = IX 216-17. 627-28 Réttu þeir nú hendur sínar ... satt lyst sína á mat og drykk = IX 91-92. Kemur 627. ljóðl. einnig oft fyrir í Odysseifskviðu. 629 Dardansniðji: Sbr. aths. XIII 376. Sérkennileg fyrir gríska hugsun er þessi aðdáun á líkamlegu atgervi, vexti og vænleik. Hvort aldursskeiðið um sig, sem þeir Akkilles og Príamus eru fulltrúar fyrir, á sér sína fegurð, þó með ólíkum hætti sé. 640 í saurnum, kata kopron: Sbr. aths. XXII 414. í hallarforgarðinum, áles en khortoisí: „í skilrúmum hallarforgarðsins“. Orðið khortos kemur í eint. fyrir í XI 774 og mun þar tákna hið afgirta svæði umhverfis altari Seifs Herkeiosar, en ekki þýðir Svb. það heldur þar. 643 en Akkilles bauð félögum sínum og ambáttunum = IX 658. 644-48 að setja rúmstæði í svalirnar ... og bjuggu þegar af bragði upp tvær rekkjur = Od. IV 296-300, Od. VII 336-40. 644 að setja rúmstæði í svalirnar: Hér er átt við „súlnaportið“ framan við búðina eða húsið, en þar voru gestir jafnan látnir sofa, sjá t. d. Od. IV 297, sjá einnig aths. Od. XX 176. 646 loðkápur, khlainas ... úlas: Sbr. aths. Od. X 451 og aths. Od. XVII 89. 649 í gamni, epíkertomeón: Eigi er fullljóst, hvernig skýra beri þetta orð hér, en líklegt þykir, að þessi þýðing sé rétt. Akkilles er raunar ekki að afsaka það við Príamus, að hann verði að sofa utan búðar, því að það var jafnan venja að láta gesti sofa í svölunum, (sbr. aths. 644). Hins vegar slær hann upp á gamni, er hann minnist á Agamenmon, og þó með nokkurri beiskju, eins og hann geri fyrir, að hinn forni andstæðingur muni rísa gegn hverri ráðstöfun hans. 662-63 en langt að sækja við upp á fjall: Allt til þessa dags hafa íbúar í Hissarlik eða Tróju og á láglendinu þar í kring orðið að afla sér viðar á skógivöxnum hálsum Ídafjalls og flytja hann heim á hestum. 671-72 tók Akkilles um hægri handar úlnlið öldungsins: Þetta var vináttumerki, sbr. Od. XVIII 258 og aths. þar. 673-76 Þeir hvíldu þar nú ... hin kinnfagra Brísesdóttir: Þessar ljóðl. eru ákaflega líkar Od. IV 302-5, Od. VII 344-47; sbr. og Od. XXIII 289.-99; Od. XXII 497 = Il. XXIV 647. Þær gengu út úr stofunni og héldu á blysi. — Virðast ljóðl. þessar miklu eðlilegri, er verið er að lýsa höllum þeirra Menelásar og Alkínóuss en búð í herstöð. En auðvitað eru þær í fullu samræmi við lýsinguna á búð Akkillesar annars staðar í þessum þætti, (sbr. aths. 448), svo að þess vegna hefði höfundur Odysseifskviðu getað fengið þær að láni héðan, þó að raunar hitt sé líklegra, að höfundur þessa þáttar hafi sótt þær í Odysseifskviðu. 673 í framhúsinu: Framhús (prodomos) og svalir (aiþúsa) virðist einatt tákna eitt og hið sama í Hómerskviðum, sjá t. d. Od. IV 302-5. 675 en Akkilles svaf innst inni í hinni vel smíðuðu búð = IX 663. 677-78 Nú sváfu allir guðir ... mjúkum svefni = II 1-2, X 2. 679 Hermes, hinn hagvaldi guð: Sbr. aths. 360. 681 hinir helgu hliðverðir, híerús pylaórús: Þar eð engin ástæða virðist til að kalla hliðverðina „helga“, verður að álykta, að híeros sé hér notað í upprunalegri merkingu sinni, „sterkur“. 682 Hann nam nú staðar ... mælti til hans = II 59. 692-93 En er þeir komu að vaði hins straumfagra fljóts, (hins sveipótta Ksantuss, er hinn ódauðlegi Seifur hafi getið) = XIV 433-34, XXI 1-2. En 693. ljóðl., (orðin, sem hér eru innan sviga í tilvitnuninni), vantar í mörg handrit, og hefur Svb. því fellt hana niður í þýðingunni. 695 Morgungyðja ... yfir alla jörðina = VIII 1. 698-99 varð þeirra fyrr vör, en Kassandra: Á einum stað öðrum er Kassöndru getið í Ilíonskviðu, XIII 306 0. áfr. (Getur hennar einnig í Od. XI 422). Ekkert bendir til þess, að skáldið hafi talið hana þeirri spádómsgáfu gædda, sem svo mikið orð fór af í söguljóðabálknum síðar. Hitt er ekki ósennilegt, að hugmyndin um spádómsgáfu hennar sé einmitt upphaflega sprottin af þessu, að skáldið lætur hana verða fyrst vara við för Príamusar. 700 Pergamsborg: Það var háborg Tróju, og stóð þar hof Apollons, sbr., V 446. 720 á fagurrenndan líkbekk, tretois en lekheëssí: Um orðið tretos sbr. aths. Od. X 12. og settu þar söngvara hjá o.s. frv.: Svipaðir útfararsiðir hafa haldizt lítt breyttir fram á þenna dag í Austurlöndum. Þýzkur ferðalangur lýsti um síðustu aldamót útför í Albaníu eitthvað á þessa leið: „Konurnar sitja umhverfis líkið, og hefst nú hinn eiginlegi harmsöngur. Taka þátt í honum bæði grannkonur og konur, skyldar hinum framliðna. Textinn, sem sunginn er, er ávallt í bundnu máli. Fyrst syngur einsöngvari eitt erindi af harmljóðinu, en síðan endurtaka konurnar það allar einum rómi. Venjulega eru þessi harmljóð fastmótuð og hefðbundin ... , en fyrir kemur það, að andinn kemur yfir einhverja hinna syrgjandi kvenna, svo að hún mæli fram frumortan texta. 723 Hin hvítarmaða Andrómakka hóf fyrst upp harmasönginn o.s. frv.: Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til að kljúfa þessar ljóðlínur niður í ljóðrænar hendingar, en aldrei hefur það tekizt. Hitt er auðsætt, að andi þeirra og efni eru skyldari ljóðrænum skáldskap en epískum. Efni harmatalna hinna þriggja kvenna er þetta: 1) hreysti Hektors, 2) ræktarsemi hans og umbun fyrir hana, 3) góðvild hans. 726-27 og skilur mig nú eftir ... er enn barnungur = XXII 484-85, en að öðru leyti er harmsöngur Andrómökku hér algerlega óháður harmsöng hennar í XXII. þætti. 735 þrífur í hönd þér og kastar þér ofan fyrir borgarvegginn o.s. frv.: Þessum dauðdaga Astýanaxar lýsa skáld söguljóðabálksins. 741 Fagnaðarlausan harm ... foreldrum þínum = XVII 37. 752 Því hina aðra sonu mína o.s. frv.: Hugsun Heköbu virðist vera þessi: „Þó að Akkilles hafi að vísu verið miklu grimmari við þig en aðra sonu mína, svo illa sem hann lék þá, þá hefur öllu samt að lokum lyktað með sæmd þér til handa“. — En hin syrgjandi kona setur þessa hugsun að vísu ekki alveg skýrt og rökrétt fram, því að harmurinn glepur hana. 753 og hinnar torsóttu Lemneyjar, kai Lemnon amikhþaloessan: „og til hinnar mistri huldu Lemneyjar“. — Á orðinu amikhþaloessan hafa verið bornar fram tvær skýringar aðallega: 1) „óvistleg“ („torsótt“), annaðhvort sakir hafnlausra stranda eða sakir þess, hve illt orð fór af íbúunum þar, Sintíum, sjá Od. VIII 294, þó að þeim færist að vísu vel við Hefestus, sjá Il. I 593; 2) „mistri hulin“, (leitt af o-mikh-le = mistur, þoka, reykur), og muni sú einkunn lúta að eldfjalli einu þar, Mosychlos. Hallast Leaf að hinni síðartöldu skýringu, því að gegn merkingunni „óvistleg“ mæli t. d. Od. VIII 283 og Il. VII 467, VIII 230. til Sámseyjar: þ.e. Samoþrake, sjá aths. XIII 12. og Imbreyjar: Sjá aths. XIII 33. 759 hefir drepið sviplega með hinum þýðu skeytum sínum: Ljóðl. þessi kemur víða fyrir í Odysseifskviðu, t. d. Od. III 280. Var skyndilegur og þjáningalaus dauði þakkaður „hinum þýðu skeytum“ Artemisar og Apollons. Svipti gyðjan konur lífi, guðinn karla. Var slíkur dauði hægur, sjá Od. XVIII 202; í Od. XI 172 er getið um „langvinna sótt“ sem andstæðu slíks dauðdaga og í Od. XV 407-11 sem andstæðu við hvers konar „skæða sótt“. 765 því þetta er hið tuttugasta ár, síðan eg fór þaðan: Þetta eru næsta einkennileg orð, því að þau verða einungis skýrð með hliðsjón af þeirri sögu, sem Hómer er annars með öllu ókunnugt um, að Grikkir hafi farið tvær herferðir gegn Tróju. Samkvæmt þessari sögn mistókst fyrri herferðin algerlega, því að þeir villtust og lentu í Mysíu. Urðu þeir síðan að hverfa aftur til Grikklands og endurskipuleggja lið sitt þar. Tók þetta allt saman tíu ár. Síðan fóru þeir í aðra herferð gegn Tróju og tókst þá um síðir að leggja borgina í eyði. Voru þeir að því í önnur tíu ár. Raunar hyggur Leaf þetta fremur vera endurminningu um það, sem segir í Odysseifskviðu, að Odysseifur komi á tuttugasta ári heim til Íþöku, en þar eru auðvitað talin með þau tíu ár, sem hann var í hrakningunum eftir lok stríðsins. Sé svo, verður að álykta, að þessi kafli sé yngri en Odysseifskviða. 769 svilkonum: einaterón evpeplón: „hinum fagurmöttluðu svilkonum“, sjá aths. XXII 473. 790. ljóðl. fellir Svb. niður, enda vantar hana í mörg handrit: „En er menn höfðu safnazt saman og voru komnir allir á einn stað“. (Komi þessi orð inn í textann á eftir orðunum „hjá báli hins fræga Hektors“). Ljóðl. þessi er næstum óbreytt í I 57. 791 Þeir slökktu fyrst allan uslann o.s. frv.: Sbr. XXIII 250 og raunar alla lýsinguna á útför Patróklusar, því að þessi lýsing á útför Hektors má teljast útdráttur úr henni. Um orðið „usla“ sbr. aths. XXIII 237. 796 og breiddu þar yfir mjúka purpuradúka: Fornleifafræðingar hafa leitt rök að því, að klæðin hafi verið breidd yfir skrínið, sem beinin voru lögð í, en ekki vafið um beinin í skríninu. Hafa þessa fundizt merki bæði í grískum gröfum á Krímskaga og eins í gröfum Etrúra á Ítalíu. 804 Þannig gerðu þeir útför hins reiðfima Hektors: Þessa ljóðlínu ætla sumir orta til að mynda tengsl við framhald Ilíonskviðu, Aiþíopis eftir Arktínos, er bálk hinna samstæðu söguljóða hafði verið skeytt við Ilíonskviðu. Segja skýrendur, að niðurlagsorðin (og jafnframt tengslin við framhald kviðunnar) hafi verið á þessa leið: „Þannig gerðu þeir útför hins reiðfima Hektors. Þá kom Skjaldmærin, dóttir hins hugstóra, mannskæða Aresar“. — Er þar átt við Pantesíleu Skjaldmeyjadrottningu, sem átti að hafa komið til liðs við Trójumenn eftir fall Hektors. Hvað sem þessu líður, verður því ekki neitað, að 803. ljóð.: „í höll Príamuss konungs, fóstra Seifs“, mundi hafa sómt sér ágætlega sem þáttarlok og endir kviðunnar. HELZTU ÚTGÁFUR OG HEIMILDARRIT The Iliad ed. by Walter Leaf, vols I-II. London 1886-88. Homeri Ilias mit erklärenden Anmerkungen von Gottl. Christ. Crusius. Hannover 1840. Homer, The Iliad with an English Translation by A. T. Murray. London, Heinemann 1937-39. Homer's Odyssey, vol. I., Books I—XII, ed. by W. Walter Merry and James Riddell, second ed., revised. Oxford 1886. Homer's Odyssey, Books XIII—XXIV, ed. by D. B. Monro. Oxford 1901. Homers Odyssee für den Schulgebrauch erklärt von Dr. Karl. Fr. Ameis, siebente berichtigte Aufl. besorgt von Dr. C. Hentze. Leipzig 1913. Homer, The Odyssey, with an English Translation by A. T. Murray, vols I-II. London, Heinemann 1938-42. Homers Ilias von Johann Heinrich Voss. Verlag von Philipp Reclam, Leipzig. Homeros oversat af Christian Wilster, ny Udgave, gennemset og rettet af M. Cl. Gertz. Gyldendal 1909. Homers Odyssee von Johann Heinrich Voss, vierte stark verbesserte Aufl. Stuttgart und Tübingen 1814. Homer, The Odyssey translated by E. V. Rieu, Penguin Books. (First published 1945). Richard John Cunliffe: A Lexicon of the Homeric Dialect. London 1924. Matthew Arnold: On Translating Homer. London 1896. C. M. Bowra: Tradition and Design in the Iliad. Oxford 1930. R. C. Jebb: Homer. An Introduction to the Iliad and the Odyssey. Glasgow 1894. Per Krarup: Homer og det homeriske Spørgsmaal. København 1945. Andrew Lang: Homer and the Epic. London 1893. Walter Leaf: Homer and History. London 1915. Gilbert Murray: The Rise of the Greek Epic, fourth ed. Oxford 1934. Ulrich von Wilamowitz-Möllendorff: Die Ilias und Homer. Berlin 1916. ATHS.: Ýmissa annarra rita getur á víð og dreif í skýringum við einstaka staði, en eigi þykir ástæða til að fella þau inn í þessa skrá. Þeim, sem leita vildu sér nánari vitneskju um kviður Hómers og menningarháttu hinnar grísku hetjualdar, mætti benda á eftirtaldar bækur: M. P. Nilsson: Homer und Mykenae 1933. Thassilo von Scheffer: Die Schönheit Homers, 2. Aufl. Berlin 1927. Thassilo von Scheffer: Homer und sein Zeitalter. Wien 1924. T. D. Seymour: Life in the Homeric Age. New York 1907. Marjorie & C. H. B. Quennell: Everyday Things in Homeric Grecce. London 1929. EFNI Bls. Formáli XIII—XVII Inngangur XIX—XXII Yfirlit efnisins XXIII—XXXIV Ilíonskviða 1-507 Skýringar 509-692 Nafnaskrá 693-715 Helztu útgáfur og heimildarrit 717-718 MYNDIR Bls. Hómer VII Sveinbjörn Egilsson IX Sýnishorn af sefpappírshandriti og venjulegum grískum prenttexta X Sýnishorn af rithönd Sveinbjarnar Egilssonar XI Hómer ákallar Sönggyðjuna 2 Prestur með lárviðarsveig og sprota 3 Apollon 4 Kentárar og menn berjast 12 Akkilles selur fram Brísesdóttur 15 Samkoma guðanna á Ólympi 22 Grísk hvíla 23 Fórnfæring 37 Salamsey 42 Landslag við Argosflóa 43 Afrodíta telur Helenu á að fylgja Paris — 59 Hera ... 71 Aþena hervædd — 107 Bellerófontes drepur Kímeru — 121 Skilnaður Hektors og Andrómökku (Rismynd eftir Thorvaldsen) — 129 Hermaður með alvæpni — 137 Ajant og Hektor skiptast á gjöfum — 140 Ólympsfjall — 161 Sendiför til Akkilless — 171 Grísk skip í fjörunni — 189 Bardagi — 243 Bardagi hjá skipunum — 255 Paris nemur burt Helenu — 263 Snyrting, 2 myndir ... 266-67 Aþusfjall — 279 Þokkagyðjurnar — 281 Bogmaður — 301 Akkilles í tjaldi sínu — 313 Maður með drykkjarker — 319 Fallinn hermaður — 325 Bardagi um fallinn kappa — 341 Menelás með lík Patróklusar — 361 Þetis í smiðju Hefestusar — 375 Hefestus smíðar skjöld Akkilless — 377 Brúðför — 379 Bóndi við plóginn. Hermaður í stríðsvagni ásamt vagnstjóra sínum (Fornar myndir, mótaðar í leir, fundnar við Tanagra) — 381 Akkilles tekur við vopnunum af Þetisi — 387 Fram til orustu — 407 Stúlkur við brunninn — 439 Akkilles og Hektor berjast — 443 Akkilles misþyrmir líki Hektors — 447 Bálför Patróklusar — 459 Hnefaleikamenn — 473 Hlauparar — 477 Útlausn Hektors ... 497