ALEXANDRE DUMAS SKYTTURNAR (LES TROIS MOUSQUETAIRES) (DE TRE MUSKETERER) SAGA Í FJÓRUM HEFTUM BJÖRN G. BLÖNDAL ÞÝDDI SIGLUFIRÐI BÓKAÚTGÁFAN HEIMDALLUR 1925 PRENTSMIÐJA SIGLUFJARÐAR. III. LEYNDARMÁLIÐ. I. Frakkar og Englendingar. Á tilteknum tíma fóru þeir félagar ásamt þjónum sínum á afvikinn stað bak við Luxemburg-höllina. Þessi afvikni staður var girtur og ætlaður geitfje til beitar. Athos gaf geitahirðinum dálitla þóknun fyrir að hafa sig á burt, en þjónarnir voru látnir standa á verði. Í sömu svifum komu þangað menn nokkrir, er fóru mjög hljóðlega, og gengu til skyttuliðanna. Heilsuðu hverjir öðrum og sögðu til nafns síns að enskum sið. Englendingarnir voru menn stórættaðir allir saman. Urðu þeir ekki að eins forviða, en jafnframt mjög órólegir, er þeir heyrðu hin undarlegu nöfn andstæðinga sinna. »Það er nú gott og blessað«, sagði Winter lávarður, þegar skyttuliðarnir þrír nefndu nöfn sín. »En þrátt fyrir það vitum við engin deili á ykkur og viljum ekki eiga vopnaviðskifti við menn með slíkum nöfnum. Þetta eru ekki annað en hirðingja nöfn.« »Það eru heldur ekki annað en gervinöfn, herra lávarður«, sagði Athos. »Þess fíknari erum við í að vita rjettu nöfnin«, sagði Englendingurinn. Þið hafið samt sem áður spilað við okkur án þess að þekkja nöfn okkar«, sagði Athos, »og unnið af okkur tvo hesta í tilbót.« »Satt er það, en þá hættum við að eins peningum okkar. Nú verðum við að hætta lífi okkar og menn geta spilað við hvern, sem vera skal, en menn eiga ekki vopnaviðskifti við aðra en jafningja sína.« »Það er líka alveg rjett«, sagði Athos. Hvíslaði hann svo nafn sitt að Englendingi þeim, sem móti honum var skipaður og sama gerðu þeir Porthos og Aramis. »Eruð þjer nú ánægður?« sagði Athos við andstæðing sinn, »og álítið þjer mig svo eðalborinn, að yður sæmi að berjast við mig?« »Já, vissulega, herra góður«, sagði Englendingurinn og hneigði sig. »Jæja — en á eg þá að segja yður nokkuð?« sagði Athos kuldalega. »Hvað er það?« spurði Englendingurinn. Það hefði verið hyggilegra af yður að spyrja mig ekki nafns«. »Hvers vegna?« »Vegna þess að menn halda, að jeg sje dauður og vegna þess, að jeg hef mínar ástæður til að óska þess, að menn haldi það. Jeg neyðist því til að særa yður banasári til þess, að leyndarmáli mínu sje óhætt«. Englendingurinn leit á Athos og hjelt, að hann væri að gera að gamni sínu, en honum var fylsta alvara. »Núnú, herrar góðir!« sagði Athos og beindi orðum sínum jafnt til samherja sinna og andstæðinga. »Þá erum við víst tilbúnir?« Í sama bili voru átta sverð á lofti og blikuðu í kvöldroðanum. Atlagan var hin snarpasta eins og búast var við af mönnum, sem voru andvígir á tvennan hátt að heita mátti. Athos barðist jafnrólega og reglufast eins og hann hefði verið að æfa sig í skylmingasalnum. Porthos hafði eflaust látið sjer ógætni sína í Chantilly að kenningu verða. Beitti hann nú sverði sínu bæði fimlega og hyggilega. En Aramis hafði ekki lokið við þriðju kviðuna af drápu sinni og sótti hart fram, eins og honum lægi mjög á. Athos vó andstæðing sinn. Hann hitti hann þegar í fyrstu atlögu og særði hann banasári, eins og hann hafði sagt fyrir. Rann sverðið þegar á hol og beint í hjarta Englendingnum. Porthos særði mótstöðumann sinn á læri og feldi hann að velli. Englendingur sá hugsaði ekki á frekari mótvörn og rjetti Porthos sverð sitt, en tók Porthos hann þá í fang sjer og bar hann í vagn sinn. Aramis sótti fast að andstæðing sínum eins og áður er sagt. Lauk þeirri viðureign svo, að Englendingurinn lagði á flótta og komst undan, en þjónarnir æptu að honum. D'Artagnan ljet sjer nægja að verjast og þegar hann var búinn að þreyta mótstöðumann sinn til hlítar, sló hann sverðið úr hendi hans með snöggu »fjórða högglagi«. Baróninn hopaði á hæl, en varð fótaskortur og fjell aftur á bak. D'Artagnan stökk þegar að honum, studdi sverðinu á háls honum og sagði: »Nú gæti eg ráðið yður bana, herra barón, ef mjer svo sýndist, en jeg gef yður líf vegna þess, að jeg elska systur yðar.« Þarna kom d'Artagnan þeirri ætlun sinni fram, sem hann hafði ráðið með sjer og brosti yfir af ánægju, eins og áður er sagt. Var hann því í allra bezta skapi. Hins vegar þótti Englendingnum gott að sleppa svona vel. Hann faðmaði d'Artagnan að sjer og ljet í ljós vinarþel sitt til skyttuliðanna með ýmsu móti. En með því að mótstöðumaður Porthos var kominn í vagn sinn og andstæðingur Aramis átti fótum sínum fjör að launa, þá þurfti ekki að skifta sjer af öðrum en þeim, sem veginn lá. Porthos og Aramis flettu hann klæðum til þess að ganga úr skugga um, hvort líf leyndist með honum. Losnaði þá þung pyngja frá belti hans, er d'Artagnan tók upp og rjetti Winter lávarði. »Hvern fjárann á jeg að gera með hana?« spurði Englendingurinn. »Afhenda hana ættingjum hans«, sagði d'Artagnan. »Ættingjar hans þurfa ekki á þessu lítilræði að halda, því að þeir fá fimtán þúsund gulldali í tekjur eftir hann. Það er bezt að þjónar ykkar fái þessa peninga«. D'Artagnan stakk pyngjunni í vasa sinn. »En þjer, ungi vinur minn, sem jeg vona að jeg megi kalla svo«, sagði Winter lávarður — »nú vil jeg, ef yður svo sýnist, fylgja yður til systur minnar, frú Clarick, strax í kvöld. Jeg vildi gjarna geta komið því til leiðar, að henni þætti vænt um yður og með því að hún má sín allmikils við hirðina, þá gæti svo farið, að meðmæli hennar kynnu að koma yður að liði ef svo ber undir«. D'Artagnan roðnaði af ánægju og hneigði sig. Athos gekk nú til d'Artagnans. »Hvað ætlarðu að gera við pyngjuna?« hvíslaði hann að honum. »Jeg ætla auðvitað að fá þjer hana, kæri Athos«. »Mjer — vegna hvers?« »Mikil ósköp! Þú hefur vegið manninn og herfangið tilheyrir sigurvegaranum«. »Ætlarðu mig þann mann, að jeg fari að sölsa undir mig eftirlátna muni andstæðings míns?« »Þetta er algeng stríðsvenja«, sagði d'Artagnan, »og hvers vegna ætti ekki að fara eftir sömu reglu þegar um einvígi er að ræða?« »Jeg hefði aldrei gert það á vígvellinum heldur«, sagði Athos. Porthos ypti öxlum og Aramis kvaðst vera sömu skoðunar sem Athos. »Við skulum þá gefa þjónum okkar peningana eins og Winter lávarður sagði til«. »Já«, sagði Athos, »það er að segja ekki okkar þjónum, heldur þjónum Englendinganna«. Athos tók pyngjuna og fleygði henni í ökumanninn. »Taktu við þessu handa þjer og fjelögum þínum«, sagði hann. Jafnvel Porthos fanst mikið til um þessa framkomu af manni, sem ekki átti nokkurn eyri þá í svipinn. Winter lávarður og fjelagi hans sögðu síðar öðrum frá þessu sannfranska tiltæki og mæltist það hvarvetna vel fyrir nema hjá Grimaud, Mousqueton, Planchet og Bazin. Winter lávarður sagði d'Artagnan heimilisfang systur sinnar áður en þeir kvöddust. Hún átti heima í nr. 6 á Place Royale, sem þá þótti eitt veglegasta hverfið í París. Annars lofaði hann að fylgja honum þangað sjálfur og kom þeim saman um að hittast hjá Athos klukkan átta. D'Artagnan hlakkaði mjög til að fá aðgöngu að heimili Mylady og var hann að hugsa um, hve undarlega forlögin hefðu leitt saman leiðir þeirra alt að þessu. Hann var sannfærður um, að hún væri verkfæri á höndum kardínálans, en samt sem áður hneigðist hugur hans að henni með þeim tilfinningum, sem hann ekki gat gert sjer grein fyrir. Hann óttaðist það eitt, að hún kynni að kannast við sig sem sama manninn, er borið hafði fyrir hana í Meung og í Dover. Ef hún gerði það, þá vissi hún líka jafnframt, að hann mundi vera í kærleikum við herra de Tréville og þá að sjálfsögðu dyggur fylgismaður konungs og mundi það verða honum til óhagræðis að ýmsu leyti, því ef Mylady bæri kensl á hann eins og hann á hana, þá yrði hann að leika sama skollaleikinn sem hún. Viðkynning þeirra Wardes greifa og hennar ljet d'Artagnan sjer í ljettu rúmi liggja, enda þótt greifinn væri ungur, fríður og auðugur og í miklum metum hjá kardínálanum. Slíkt er eðli æskumanna, ekki hvað sízt þeirra, sem bornir og barnfæddir eru í Gaskogne. Það var nú fyrsta verk d'Artagnans að skunda heim til sín og búa sig sem bezt hann kunni. Að því loknu fór hann heim til Athos og sagði honum upp alla sögu að vanda. Athos hlustaði á frásögn hans og fyrirætlanir með athygli, en hristi jafnframt höfuðið og rjeði honum alvarlega til að gæta allrar varúðar. »Á jeg að segja þjer nokkuð!« sagði hann. »Þú ert nú nýbúinn að missa frá þjer konu, væna, fríða og vel að kostum búna eftir því, sem þjer sjálfum sagðist frá, og samt ertu undir eins farinn að eltast við aðra«. D'Artagnan skildi sneiðina. »Jeg elska frú Bonacieux af öllu mínu hjarta, en Mylady elska jeg með heilanum«, sagði hann. »En að jeg vil gjarna fá að komast í kynni við hana, stafar aðallega af því, að jeg ætla mjer að ganga úr skugga um, hvernig afstöðu hennar við hirðina er varið«. »Afstöðu hennar við hirðina! Mikil ósköp! Það er nú hægur vandi að gizka á það, eftir öllu því, sem þú hefur sagt mjer. Hún er njósnari kardínálans, ein af átján, og mun ginna þig í þá gildru, sem varðar höfuð þitt — það er alt og sumt.« »Jájá! Minna má nú gagn gera! Nei, kæri Athos. Mjer finst nú satt að segja, að þú gerir alt of mikið úr þessu«. »Jeg treysti ekki kvenfólki og er búinn að fá mig fullreyndan á því — einkum því ljóshærða. Og sagðirðu ekki, að Mylady væri ljóshærð?« »Hún hefur allra kvenna gullfallegast hár«. »Veslings d'Artagnan!« sagði Athos. »Heyrðu nú! Jeg ætla bara að leita hófanna og kem mjer svo út úr öllu saman, þegar jeg hef aflað mjer þeirrar vitneskju, sem jeg þykist þurfa«. »Já, blessaður leitaðu hófanna«, sagði Athos þurlega. Winter lávarður kom á tilsettum tíma og var Athos þá genginn inn í innra herbergið, svo að lávarðurinn hitti d'Artagnan einan fyrir. Klukkan var farin að ganga til átta og tók hann d'Artagnan þegar með sjer. Fyrir utan beið þeirra skrautlegur vagn og fyrir honum framúrskarandi akhestar, svo að þeir voru enga stund að komast til Place Royale. Frú Clarick tók mjög virðulega við d'Artagnan. Hús hennar var afar skrautlegt og þar sem aðrir Englendingar voru að þyrpast burt frá Frakklandi vegna stríðsins, eða í undirbúningi með það, þá var Mylady þvert á móti að láta gera ýmsar umbætur á húsi sínu, er bentu til þess, að hún þyrfti ekki að aka seglum eftir sama vindi sem landar hennar. »Hjer kem jeg með ungan aðalsmann, sem átti ráð á lífi mínu, en notaði sjer það ekki«, sagði Winter lávarður um leið og hann leiddi d'Artagnan fyrir systur sína. »Og þetta gerði hann, enda þótt við værum tvöfaldir andstæðingar, því að fyrst og fremst var það jeg, sem móðgaði hann að fyrra bragði og auk þess er jeg Englendingur. Þjer megið því vera honum þakklát, frú mín góð, svo framarlega sem þjer berið nokkurn vinarhug til mín«. Mylady hleypti brúnum og brosti eitthvað svo einkennilega að d'Artagnan, sem tók eftir þessu, fanst sjer fara kalt vatn milli skinns og hörunds. Bróðir hennar tók ekki eftir þessu, því að hann var að leika sjer við taminn apa, sem Mylady hafði hjá sjer. »Þjer eruð velkominn hingað, herra minn«, sagði hún við d'Artagnan og var málrómurinn svo þýður og blíðlegur, að hann stakk mjög í stúf við gremjumerki þau, sem d'Artagnan þóttist hafa orðið var við. »Jeg mun æ og æfinlega standa í þakklætisskuld við yður«, bætti hún við. Englendingurinn vjek sjer nú að þeim og skýrði ítarlega frá einvíginu og öllum atvikum þess. Mylady hlustaði á hann með athygli, en samt var auðsjeð, að frásögnin var henni alls ekki til neinnar ánægju, enda þótt hún reyndi að láta ekki á því bera. Blóðið stje henni til höfuðsins og hún stappaði fætinum í gólfið undir kjólfaldinum. En ekki tók Winter lávarður eftir neinu enn. Þegar frásögninni var lokið, gekk hann að borði, þar sem stóð flaska af spönsku víni og glös hjá. Hann helti í tvö glös og benti d'Artagnan að drekka með sjer. D'Artagnan vissi, að hver Englendingur telur sjer það stóra móðgun, ef annar maður skorast undan að drekka með honum. Gekk hann því að borðinu og tók annað glasið. Slepti hann samt ekki augunum af Mylady og sá í spegli einum, að andlitssvipur hennar breyttist alt í einu er hún hjelt að enginn tæki eftir sjer. Lýsti sjer nú grimd og geðofsi í svipnum — hún beit á vörina og læsti tönnunum í vasaklút sinn. Í þessum svifum kom inn til þeirra herbergisþernan fríða, sem d'Artagnan hafði áður veitt eftirtekt. Hún sagði eitthvað á ensku við Winter lávarð og bað hann d'Artagnan afsökunar á því, að hann yrði að fara burt í áríðandi erindum og kvöddust þeir síðan. D'Artagnan vjek sjer þá aftur að Mylady og hafði svipur hennar breyzt enn á ný, svo að nú brosti hún yndislega við gestinum. Að eins sáust ofurlitlir rauðir blettir á vasaklút hennar sem merki þess, að hún hefði bitið varir sínar til blóðs. Samræða þeirra varð nú fjörugri og virtist Mylady vera búin að ná sjer alveg aftur. Hún sagði að Winter lávarður væri svili sinn, en ekki bróðir. Hefði hún verið gift yngri bróður hans, en væri nú orðin ekkja með eitt barn í eftirdragi og þetta barn yrði eini erfingi lávarðarins ef hann giftist ekki. Þóttist d'Artagnan skynja, að einhver hula hvíldi yfir þessu öllu saman, en ekki vissi hann, hvað undir þeirri hulu kynni að leynast. Að öðru leyti var hann nú orðinn sannfærður um, að Mylady væri honum samlend, enda talaði hún móðurmál hans svo snildarlega að á því gat enginn efi leikið. D'Artagnan gerðist fagurmáll og ástleitinn og brosti Mylady náðarsamlega að öllu hans orðaglamri. Loksins varð hann að hypja sig á burt. Kvaddi hann Mylady með virktum og gekk út úr salnum hreykinn og hróðugur. Í stiganum rakst hann á herbergisþernuna, er þar var á stjái. Bað hún hann afsökunar og roðnaði við og var það fúslega veitt. D'Artagnan kom þegar daginn eftir og fjekk enn betri viðtökur en í fyrra skiftið. Winter lávarður var ekki við staddur og varð Mylady ein að sinna gestinum. Var hún hin altilegasta í viðmóti, spurði hann margs um átthaga hans og vini og hvort hann hefði aldrei hugsað til að gerast liðsmaður kardínálans. Eins og áður er sagt, mátti d'Artagnan teljast hygginn maður jafn ungur og hann var og komu honum nú í hug grunsemdir sínar gagnvart Mylady. Hrósaði hann því kardínálanum á hvert reipi og kvaðst ekki mundi hafa hikað við að ganga í lífvörð hans ef hann á þeim tíma hefði t.d. þekt eins vel til de Cavois og hann þekti til de Tréville. Mylady vjek nú talinu að öðru og spurði einstaklega meinleysislega, hvort hann hefði nokkurn tíma komið til Englands. D'Artagnan svaraði þeirri spurningu svo, að herra de Tréville hefði einu sinni sent sig þangað til að sjá um kaup á hestum og hefði hann haft með sjer þaðan fjóra gæðinga til reynslu. Mylady beit oftsinnis á vörina, meðan á þessari samræðu stóð, en hjer var við Gaskognara að eiga sem kunni að halda á spilunum. D'Artagnan kvaddi og fór um sama leyti sem kvöldið áður og mætti þernunni fríðu — hún hjet annars Ketty — frammi á ganginum. Leit hún á hann þeim aðdáunar og velvildaraugum, að ekki var um að villast, hvað henni bjó í brjósti, en d'Artagnan var nú svo hrifinn af húsmóður hennar, að hann leit ekki við öðrum. Næsta dag og daginn þar á eftir heimsótti hann Mylady og fjekk í hvert skifti hinar alúðlegustu viðtökur. Og alt af þegar hann fór mætti hann herbergisþernunni, annaðhvort á ganginum eða í stiganum. En d'Artagnan leit ekki við henni, eins og áður er sagt, og ljet sem hann sæi hana ekki. II. Miðdagsverður hjá málfærslumanninum. Þó að Porthos væri við einvígið riðinn, gleymdi hann samt ekki þeirra hluta vegna, að hann var boðinn til miðdagsverðar heima hjá málfærslumanninum. Klukkan undir eitt daginn eftir ljet hann Mousqueton bursta spariflíkurnar og lagði af stað til Bjarnargötu og var auðsjeð á honum, að hann bjóst við góðum árangri af þeirri för sinni. Hann kendi hjartsláttar, en ekki af neinum ungæðislegum og óstýrilátum ástarumbrotum eins og d'Artagnan. Ónei — eftirvænting hans var miklu jarðbundnari, því að nú átti hann í fyrsta skifti að koma inn fyrir dyr málfærslumannsins og feta sig tröppu af tröppu upp óþektan stiga, sömu leið sem maurar málfærslumannsins höfðu áður farið. Hann mundi standa fyrir framan stóran og mikinn skáp, sem hann oftsinnis hafði dreymt um, járnvarðan skáp og traustlega negldan niður í gólfið með gildum járnfleinum. Hann hafði oft heyrt talað um þennan skáp og nú mundi sjálf málfærslumannsfrúin opna hann með sínum prýðilegu en fremur hrjúfu höndum og sýna honum alt hans dýrðlega innihald. Og Porthos, sem hvergi átti höfði sínu að að halla og engan átti að, hermaður, sem vanastur var knæpum og drykkjukrám, sælkeri, sem oftast nær varð að láta sjer nægja reykinn af rjettum annara — hann átti nú að setjast við fjölskylduborð í skauti fjölskyldunnar og hegða sjer eftir siðum hennar, en þetta var einmitt sjerlega aðlaðandi fyrir óbrotinn hermann. Porthos sá sig í anda setjast við ríkmannlegt borð og vera gamla málfærslumanninum til skemtunar, eins og velkominn „frændi“, hafa af skrifurunum í teningskasti „hálf tólf“ og „ketti“ og sópa til sín á einni kvöldstund þeim skildingum, sem þeir urðu að þræla fyrir í heilan mánuð með súrum sveita. Raunar mintist Porthos þess orðs, sem fór af nízku og grútarskap málfærslumanna yfirleitt og loðað hefir við þá stjett manna frá öndverðu, en samt hafði málfærslumannsfrúin, þegar á alt var litið og að fráskyldum nokkrum óviðeigandi íheldnisköstum, reynst Porthos vel og taldi hann því líklegt, að sjer mundi geðjast vel að fjölskyldu þessari. Honum brá samt hálfvegis í brún, þegar hann gekk inn um hliðið. Portið var dimt og óþverralegt, stigaræfill lá upp á loftið og út að garðinum voru gluggaholur með járngrindum fyrir. Gengið var um lágar dyr inn í efri hæð hússins og var hurðin öll járnrekin eins og fangelsishurð. Porthos barði að dyrum. Kom þá langur og slánalegur skrifari til dyra og heilsaði Porthos með þeirri auðmýkt, sem honum virtist ráðlegast að sýna þessum háa og sterklega manni, klæddum hermannabúningi og sem leit annars út fyrir, að ljeti sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Fyrir aftan þennan skrifara stóð annar sýnu minni og fyrir aftan hann sá þriðji, talsvert hærri og fyrir aftan þennan þriðja var strákhvolpur, eitthvað tólf ára á að gizka. Til samans hálfur fjórði skrifari og benti það til þess, að aðsókn væri allmikil að málfærslumanninum. Svo var ráð fyrir gert, að Porthos skyldi koma klukkan eitt, en samt hafði húsfreyja alt af verið á gægjum frá því klukkan tólf, því að hún vonaði að ástarofsi elskhugans og jafnvel magi hans mundi reka á eftir honum og knýja hann til þess að koma fyrir tilsettan tíma. Frú Coquenard kom því líka til dyra jafnskjótt sem Porthos kom inn á ganginn og varð hann því feginn, því að skrifararnir þyrptust utan um hann, afar forvitnislegir, og Porthos vissi ekkert, hvað hann ætti að segja við þessa misháu skrifaraþvögu og stóð þarna orðlaus. „Þetta er frændi minn“, sagði málfærslumannsfrúin. „En gerið nú svo vel að koma inn fyrir og verið velkominn, kæri herra Porthos“. Nafnið Porthos hafði þau áhrif á skrifarana, að þeir fóru að flissa, en Porthos sneri sjer snögglega að þeim og urðu þeir þá undir eins afar alvarlegir og hátíðlegir. Nú var farið gegnum biðstofuna, þar sem skrifararnir voru, gegnum skrifstofuna, þar sem þeir áttu að vera í raun rjettri og inn í einkaherbergi málfærslumannsins. Skrifstofan var stór um sig, en skuggsýnt var í henni og ekki annað að sjá þar inni en gulnaða skjalabögla. Enn fremur var gengið fram hjá eldhúsinu á hægri hönd og inn í viðhafnarsalinn. Porthos leizt ekki á þessa herbergjalengju, því að hvert orð, sem talað var, hlaut að heyrast gegnum allar þessar opnu dyr. Hann leit hornauga inn í eldhúsið um leið og hann gekk fram hjá því, en sá sjer til mikilla vonbrigða, að þar inni var alls ekki það líf og fjör, sem búast hefði mátt við í þessum helgidómi, rjett á undan dýrindis matarveizlu. Málfærslumaðurinn hafði auðsjáanlega búist við komu hans, því að hann brá sjer hvergi þegar hann sá Porthos, en heilsaði honum frjálslega og kurteislega. „Jeg trúi, að við sjeum eitthvað venzlaðir, herra Porthos“, sagði hann, reis örðuglega úr sæti sínu og studdist við staf. Öldungur þessi var sveipaður svörtum kufli, sem allur var í fellingum eins og hann hjengi utan á einhverri beinagrind. Hann var gulgrænn í framan, augun lítil en ákaflega snör og glóðu eins og eldhnettir og virtust vera það eina, auk munnsins, sem nokkur líftóra var í. Hann var farinn að verða fótaveikur og hafði í sjálfu sjer verið lítið annað en handbendi konu sinnar seinasta missirið. „Frændinn“ fjekk aðgöngu af því að húsfreyja vildi svo vera láta. Svona var það nú lagað. Ef herra Coquenard hefði verið nokkurn veginn rólfær, þá hefði hann víst lítið kært sig um að vera í venzlum við Porthos og alls ekki viljað kannast við það. „Jújú, herra góður, við erum venzlaðir“, sagði Porthos og var hinn brattasti. Annars hafði hann aldrei búist við því, að málfærslumaðurinn mundi fagna sjer með útbreiddan faðminn. „Það er víst í kvennlegginn — ætli það ekki?“ sagði öldungurinn illkvitnislega. Porthos tók ekki eftir háðinu, en skildi þetta sem hverja aðra einfeldni, er hann gæti hlegið að með sjálfum sjer. En frú Coquenard vissi ofurvel, að trúgirni og einfeldni átti ekkert skylt við mann hennar. Brosti hún því vandræðalega og stokkroðnaði. Alt frá því, að Porthos kom inn, hafði málfærslumaðurinn ekki haft augun af stórum og þungum skáp, sem stóð gegnt skrifborði hans. Porthos þóttist vita, að þetta væri skápurinn, sem hann hafði svo oft verið að dreyma um og hrósaði happi yfir því í huga sínum, að þessi var miklu stærri. Herra Coquenard fór ekki lengra út í ættartöluna, en leit nú af skápnum á Porthos og sagði: „Er það ekki svo, kona góð, að „frændi okkar“ ætli að gera okkur þá ánægju að borða einu sinni miðdagsverð hjá okkur, áður en hann fer í þennan leiðangur?“ Nú skildi Porthos skensið og frúin líka, því að hún svaraði: „Frændi minn kemur sjálfsagt ekki oftar hingað, ef honum finst hann ekki vera velkominn. En hins vegar er hann á förum hjeðan úr París og hefur lítinn tíma til að heimsækja okkur, svo að við ættum að mælast til, að hann væri hjer öllum þeim stundum, sem hann getur“. „Æ, aumingja lappirnar á mjer, dofnar og máttlausar“, sagði Coquenard. Nú var sagt að miðdagsverðurinn væri tilbúinn og var þá gengið inn í borðstofuna — stórt og hálfdimt herbergi gegnt eldhúsinu. Skrifararnir voru þegar komnir inn, því að þeir höfðu fundið óvenju góða matarlykt leggja um húsið. Þeir voru mjög græðgislegir á svipinn og fóru strax að japla kjálkunum. „Ja, nú er mjer nóg boðið“, hugsaði Porthos og leit á þessar þrjár hungurvofur, því að strákurinn fjekk auðvitað ekki að sitja við borð húsbóndans. „Þessir matgoggar skyldu sannarlega ekki vera hjer stundinni lengur, ef jeg mætti ráða. Þeir eru eins og sjóhraktir menn, sem ekki hafa fengið ærlegan matarbita vikum saman“. Frú Coquenard mjakaði manni sínum inn í borðstofuna á völtrustólnum og hjálpaði Porthos henni að koma honum til sætis við borðið. „Náná, en sú indælis súpa!“ sagði hann og fór að smjatta eins og skrifararnir. „Af hverjum skrattanum skyldi þessi lykt vera af súpunni!“ sagði Porthos við sjálfan sig þegar lokið var tekið af súpuskálinni, en í henni var dauft kjötsoð, algerlega fitulaust og þar í fáeinar brúnar brauðskorpur eins og eyjar í úthafi. Frúin jós súpunni fyrst á disk manns síns og þar næst Porthos. Því sem þá var eftir jós hún á sinn eigin disk svo að skrifararnir fengu ekki annað en súpulausar brauðskorpurnar. Þegar súpunni var lokið bar vinnukonan inn soðna hænu. Þetta var nú alveg eindæma óhófsemi, enda ætluðu augun að springa út úr augnatóftunum á skrifurunum. „Það er auðsjeð, að þjer þykir vænt um ættingja þína, kona góð“, sagði málfærslumaðurinn og brosti dauflega. „Þú ert sannarlega rausnarleg við frænda þinn“. Hæna þessi var skinhoruð og paran á henni gul og skorpin en of seig til þess beinin stæðu út um hana. Hún hafði eflaust verið dregin fram úr einhverju skúmaskoti í hænsnahúsinu, þar sem hún hafði lagst fyrir til að enda sitt vesala líf. „Nei, nú gengur alveg fram af mjer!“ hugsaði Porthos þegar hann sá þessa hrygðarmynd. „Auðvitað ber jeg virðingu fyrir ellinni, en hvorki steiktri nje soðinni“. Hann leit á borðnauta sina, en þeir voru auðsjáanlega ekki sömu skoðunar, því að augu þeirra tindruðu af græðgi og ílöngun í þessa makalausu hænu, sem Porthos sýndist óæt. Frúin tók fatið til sín, skar af bæði lærin og ljet þau á disk bónda síns, hálsinn og bakið tók hún handa sjálfri sjer og helminginn af bringunni lagði hún á diskinn hjá Porthos. Það sem þá var eftir af hænunni, ljet hún stúlkuna bera fram aftur, svo að skrifaranir fengju engan munnbita, og urðu þeir heldur súrir á svipinn. Þessu næst var borin inn baunaskál og í henni nokkrar kindarhnútur, sem ætla hefði mátt við fyrsta álit að einhverjar kjöttægjur teldu við, en skrifararnir ljetu ekki blekkjast af því og kom nú á þá fullkominn örvæntingarsvipur. Frúin skifti baununum milli þeirra með húsmóðurlegri umhyggjusemi og aðgætni. Nú kom vínið til sögunnar. Málfærslumaðurinn helti ofurlitlum skvetti í glös skrifaranna og álíka miklu í sitt eigið glas, en setti svo flöskuna fyrir framan Porthos og húsmóðurina. Skrifararnir þyntu mjöðina með vatni og fyltu glösin aftur með vatni þegar þeir voru hálfnaðir úr þeim. Þessu hjeldu þeir áfram þangað til að ekkert annað en hreint og tært vatnið var eftir í þeim. Porthos hamaðist á hænubringunni þó seig væri og sló köldum svita út um hann, en þá varð hann þess var, að frúin ýtti við honum með fætinum undir borðinu. Hann smakkaði líka á víninu og fann að það var bæði súrt og dauft á bragðið. Málfærslumaðurinn leit á hann og þótti hann taka óþarflega stóra teiga. „Viljið þjer ekki bragða á þessum baunum, frændi góður?“ sagði frúin, en það var auðsjeð og auðheyrt að hún ætlaðist til, að hann neitaði því. „Nei, fjanda korninu sem jeg geri það!“ sagði Porthos í hljóði og bætti svo við upphátt: „Kæra þökk, frænka góð, en jeg hef annars nóg hjerna“. Það var nú þögn við borðið. Porthos vissi ekki vel, hvernig hann ætti að snúast við þessu en málfærslumaðurinn tautaði hvað eftir annað: „Jajæja, kona góð! Þessi miðdagsverður er þjer sannarlega til sóma — reglulegur hátíðamatur. Ó-ó! Jeg ætla alveg að rifna!“ Hann var líka búinn með súpuna, hænulærin og einasta kjötbeinið, sem nokkur tætla var á. Porthos hjelt að hann væri að gera gys að sjer, svo hann fór að ygla sig og snúa uppá skeggið, en frúin ýtti aftur við honum í laumi og bað hann að vera þolinmóðan. En skrifarana grunaði hvað þessi þögn atti að þýða og sömuleiðis það, að ekki voru fleiri rjettir bornir inn. Húsbóndinn leit á þá og húsfreyja brosti. Þeir lögðu hikandi handþurkurnar frá sjer, risu hikandi úr sætum sínum, hneigðu sig og gengu burt. „Verði ykkur að góðu, ungu menn!“ sagði málfærslumaðurinn. „Farið svo og neytið matarins í sveita ykkar andlitis. Það er gild og góð regla og heilsunni hentust“. Jafnskjótt og þeir voru komnir út úr dyrunum stóð frúin upp og tók út úr borðskapnum osthleif, sætindaskál og köku, sem hún hafði bakað sjálf og kryddað með hunangi og möndlum. Málfærslumaðurinn hleypti brúnum yfir öllu þessu óhófi og Porthos beit á vörina þegar hann sá, að ekki var von á meiri matföngum. Hann fór að svipast eftir baunaskálinni, en það var þá búið að bera hana burt. „Já, þetta er nú veisla í lagi!“ sagði málfærslumaðurinn og ók sjer á stólnum. „Sannkölluð kóngamáltíð — epulae epularum, herramannsmatur! Lúkúllus hjá Lúkúllusi!“ Porthos hugsaði með sjer, að hann gæti þó sefað sárasta hungrið með osti, brauði og víni og varð litið á flöskuna fyrir framan sig, en — hún var galtóm. Hann var búinn úr henni, enda var hún ekki stór og hvorugt hjónanna virtist taka eftir því. „Nújæja!“ hugsaði Porthos, fjekk sjer sætindi og beit í kökudeigið, seigt og límkent. „Jæja-þá. Það er ekki til neins að fást um það og ef jeg hefi ekki von um að geta gægst inn í peningaskáp þessa gamla nirfils, þá — sem jeg er lifandi maður — —!“ Að máltíðinni lokinni fjell höfgi á málfærslumanninn og fór Porthos að vona, að hann ætlaði að sofna þarna á stólnum. En það varð nú ekkert af því. Hann heimtaði að sjer væri ekið inn í einkaherbergi sitt og linti ekki látum fyr en búið var að koma honum að skáphurðinni. Frúin leiddi Porthos inn í annað herbergi og þar fóru þau að ráðgast um friðarskilmálana. „Þjer getið komið hingað og borðað hjá okkur þrisvar í viku“, segði frú Coquenard. „Kæra þökk“, svaraði Porthos, „en það er aldrei vert að níðast á gestrisni manna. Annars verð jeg nú að fara að hugsa eitthvað fyrir útbúnaði mínum“. „Æjá, það er alveg satt“, sagði hún og stundi við, „Þessi ólukku útbúnaður! En hvers þarfnist þjer annars, herra Porthos“. „Og það er nú svona sitt af hverju“, svaraði Porthos. „Skyttuliðarnir eru úrvalalið, eins og þjer sjálfsagt vitið, og þurfa ýmislegt, sem lífvarðarliðarnir geta án verið“. „Það er nú svo, en viljið þjer ekki gera svo vel að telja það upp — sundurliða það?“ „Að öllu samlögðu mundi það líklega kosta — við skulum sjá —“ sagði Porthos og vildi heldur tiltaka einhverja ríflega fjárupphæð en að tilgreina hvern sjerstakan hlut. „Kosta hvað mikið?“ sagði frúin. „Jeg vona að það fari þó ekki fram úr — —“ „Nei — seiseinei!“ sagði Porthos. „Það fer aldrei fram úr tvö þúsund og fimm hundruð frönkum. Jeg held jafnvel, að ef vel er á haldið, þá kæmist jeg af með tvö þúsund“. „Herra trúr — tvö þúsund frankar!“ æpti frúin. „Það er skárri summan!“ Porthos ypti öxlum og frúin skildi hálfkveðna vísu. „Jeg var bara að biðja um það sundurliðað“ sagði hún. „Þjer megið ómögulega misskilja mig. Jeg á svo marga ættingja innan verzlunarstjettarinnar og hef svo mikið saman við hana að sælda, að jeg treysti mjer næstum til að fá hvern einstakan hlut fyrir helmingi legra verð en þjer ættuð kost á“. „Nú-jájá!“ sagði Porthos. „Var það ekki annað, sem þjer vilduð mjer?“ „Hlustið þjer nú á mig, Porthos. Fyrst og fremst þurfið þjer að fá hest“. „Já, hest þarf jeg einmitt að fá“. „En þann hest get jeg útvegað yður“. „Nei, er það satt?“ sagði Porthos og hýrnaði yfir honum. „Þá þarf jeg ekki að hugsa meira um hestinn. En þá er það hnakkur og svo ótal margt annað, sem enginn getur keypt nema skyttuliðinn sjálfur, en annars nemur það nú varla meiru en þrjú hundruð frönkum“. „Þrjú hundruð frönkum? Jæja, segjum þá þrjú hundruð franka“, stundi frúin. Porthos brosti í kampinn. Eins og menn muna, átti hann enn reiðtýgin frá Buckingham og gat þá stungið þessum þrjú hundruð frönkum í vasa sinn. „En svo þarf jeg að fá annan hest handa þjóninum mínum og ferðatösku, en ekki þurfið þjer að kosta vopn handa mjer, því að þau á jeg nóg sjálfur“. „Hest handa þjóninum?“ stundi frúin. „Er það nú ekki óþarfi, vinur kær?“ „Hvað eruð þjer að segja, frúin góð?“ spurði Porthos allþóttalega. „Haldið þjer að jeg, sje einhver árans prangari, eða hvað?“ „Nei, fjarri fer því, kæri Porthos. Jeg hjelt bara, að fallegt múldýr gæti komið í staðinn fyrir hest og ef jeg tæki nú að mjer að útvega Mousqueton laglegt múldýr, þá — —“ „Jæja, jeg læt mjer þá nægja snoturt múldýr“, sagði Porthos. „Þetta er alveg rjett hjá yður og jeg minnist þess nú, að jeg hef sjeð tigna Spánverja á ferð með alt föruneyti sitt ríðandi á múlösnum. En eitt vil jeg taka fram kæra frú — múldýrið verður að hafa fjaðraskúf á höfðinu og klingjandi bjöllur“. „Ekki skal það vanta“, sagði málfærslukonan. „Þá er það ferðataskan“, sagði Porthos. „Jeg skal sjá um hana“, sagði frú Coquenard. „Maðurinn minn á fimm eða sex ferðatöskur úr níðsterku leðri og þjer getið fengið þá beztu. Honum þykir mjög vænt um hana og hún getur rúmað alt mögulegt“. „Er hún þá tóm, taska sú?“ spurði Porthos í einlægni. „Já — hvað annað?“ sagði frúin jafneinlæglega. „Nú, en jeg þarf að fá troðfulla tösku, kæra frú“. Frú Coquenard stundi enn á ný og þjörkuðu þau svo all-lengi um annað, sem til leiðangurs útbúnaðar heyrði. Niðurstaðan varð sú, að frúin lofaði að leggja fram átta hundruð fránka í reiðupeningum og útvega þar að auki hestinn og múldýrið, sem bera átti þá Porthos og Mousqueton áleiðis til frama og frægðar. Porthos kvaddi frú Coquenard þegar þetta alt var komið í lag. Hún vildi raunar halda honum lengur hjá sjer, en hann bar fyrir sig ýmsar annir, sem ekki mættu dragast úr hömlu og varð málfærslukonan að láta sjer það lynda þó nauðugt væri henni það. Porthos fór svo heim til sín banhungraður og í illu skapi. III. Herbergisþernan og húsmóðir hennar. D'Artagnan varð æ ástfangnari í Mylady með degi hverjum þrátt fyrir alt samvizkubit og heilræði þau, sem Athos lagði honum. Hann heimsótti hana á hverjum degi og leitaði hylli hennar og þóttist sannfærður um, að sjer mundi auðnast að ná henni fyr eða síðar. Það var einu sinni sem oftar seinni part dags, að hann kom þangað hreykinn og hnakkakertur eins og hann ætti sjer gull og græna skóga í vændum. Mætti hann þá herbergisþernunni í portinu, en í þetta skifti ljet Ketty sjer ekki nægja að strjúkast fram hjá honum, heldur greip hönd hans ofur feimnislega. „Nú-jájá“, hugsaði d'Artagnan. „Hún er sjálfsagt með einhver skilaboð til mín frá húsmóður sinni — kanske stefnumót — hver má vita?“ „Jeg vildi gjarnan tala við yður fáein orð, kæri jungherra“, sagði herbergisþernan. „Talaðu, barnið gott!“ sagði d'Artagnan. „Það er ekki hægt hjerna. Það er all-langt mál, sem jeg þarf að segja yður frá og þar að auki leyndarmál“. „Einmitt það! Hvernig eigum við þá að fara að?“ „Ef jungherran vill koma með mjer — —“, sagði Ketty og roðnaði. „Hvert þá, kæra barn?“ „Jæja, komið þjer þá!“ Ketty hjelt enn um höndina á d'Artagnan og leiddi hún hann nú upp dimman og brattan stiga og opnaði dyr nokkrar. „Gangið inn, herra“, sagði hún. „Hjer getum við talað saman í næði“. „Hvaða herbergi er þetta?“ spurði d'Artagnan“. „Það er mitt herbergi og hurðin þarna veit inn í svefnherbergi frúarinnar. En þjer megið vera rólegur þess vegna, að hún heyrir ekki til okkar, því að hún fer aldrei upp að hátta fyr en um miðnætti“. D'Artagnan litaðist um í herberginu. Það var einstaklega vel um gengið, hreint og þokkalegt, en þó varð honum lang tíðast litið á dyrnar, sem vissu inn í svefnherbergi Mylady. Ketty grunaði hvað honum bjó í brjósti og stundi við. „Þjer elskið húsmóður mína“, sagði hún. „Æ-já — miklu meira en orð fá lýst, kæra Ketty. Jeg er hálfvitlaus eftir henni“. „Æ, það er illa farið“, sagði Ketty og stundi aftur. „Nú-jájá! Ekki get eg nú sagt það“. „Jú — því að húsmóðir mín elskar yður alls ekki“. „Hvað er þetta!“ sagði d'Artagnan. „Hefur hún skipað þjer að segja mjer það?“ „Ja-neinei! En yðar vegna vildi jeg segja yður það“. „Jeg er þjer mjög þakklátur fyrir þinn góða tilgang, kæra Ketty, en heldur ekki fyrir annað, en þú verður þó að játa, að sjálf frásögnin geti varla verið mjer geðfeld“. „Það er með öðrum orðum, að þjer viljið ekki trúa því, sem jeg segi?“ „Það er ekki svo auðvelt að fá sig til að trúa þess háttar — af tómri sjálfelsku, þó ekki væri annars vegna“. „Þjer trúið mjer þá ekki?“ „Jeg verð að segja, að meðan þú kemur ekki með neinar sannanir — —“ „Hvernig lízt yður þá á þetta?“ sagði Ketty og tók brjef úr barmi sínum. „Er það til mín?“ spurði d'Artagnan og hrifsaði brjefið af henni. „Nei, það er til annars manns“. „Til annars manns?“ „Já“. „Og til hvers þá?“ spurði d'Artagnan. „Lesið þjer utan á það“. „Herra de Wardes greifi“. D'Artagnan mintist alt í einu þess, sem hann hafði sjeð í Saint-Germain. Hann reif upp brjefið í snatri, hvað sem Ketty sagði þegar hún sá, hvað hann ætlaði að gera eða var búinn að gera, rjettara sagt. „Hamingjan góða — hvað eruð þjer að gera?“ sagði hún. „Jeg — ekki neitt!“ sagði d'Artagnan og svo las hann eftirfylgjandi línur: „Þjer hafið ekki svarað fyrra brjefinu mínu. Eruð þjer veikur, eða eruð þjer búinn að gleyma, hvernig þjer störðuð á mig á dansleiknum hjá frú de Guise? En nú er tækifærið, herra greifi — nú eða aldrei“. D'Artagnan brá litum. Sjálfselsku hans var misboðið. „Vesalings kæri herra d'Artagnan!“ sagði Ketty í meðaumkvunarróm og tók aftur um hönd hans. „Ert þú að kenna í brjósti um mig, góðin mín“, sagði d'Artagnan. „Já, það segi jeg satt, því að jeg veit hvað ástin er“. „Veizt þú hvað ástin er?“ tók d'Artagnan upp aftur og virti nú í fyrsta skifti herbergisþernuna betur fyrir sjer. „Æ-já, því er nú ver og miður“. „Nú-jæja! Þú ættir þá heldur að hjálpa mjer til að koma hefndum fram en að vera að vorkenna mjer“. “Og hvers konar hefnd ætti það að vera?“ „Jeg, ætla að yfirvinna húsmóður þína og bola sambiðli mínum burt“. „Þjer fáið aldrei mína hjálp til þess, jungherra góður“. „Hvers vegna?“ spurði d'Artagnan. „Af tveimur ástæðum“, svaraði Ketty. „Hverjar eru þær?“ „Í fyrsta lagi munuð þjer aldrei ná ástum húsmóður minnar“. „Hvernig veiztu það?“ „Þjer hafið sært tilfinningar hennar“. „Hef jeg? Hvernig ætti jeg að hafa sært tilfinningar hennar — jeg sem hef kropið að knjám hennar eins og auðmjúkur þræll alt frá þeirri stund, að jeg kyntist henni. Þú verður að skýra þetta betur — heyrirðu það!“ „Það segi jeg engum manni nema þeim, sem getur kafað djúp sálar minnar“. D'Artagnan virti Ketty aftur fyrir sjer. Þessi unga stúlka var svo aðdáanlega fögur, að mörg hertogafrúin hefði fúslega skift á tign sinni og fegurð hennar. „Ketty“, sagði hann. „Jeg skal kafa djúp sálar þinnar, eins og þú orðar það, hve nær sem þú vilt. Láttu það ekki aftra þjer“. Hann kysti hana, en hún kafroðnaði. „Nei — ónei!“ veinaði Ketty. „Þjer elskið mig ekki — þjer elskið húsmóðurina, eins og þjer voruð að segja rjett áðan“. „Já, en er það nokkuð því til fyrirstöðu, að jeg fái að vita hina ástæðuna?“ Ketty var nú orðin upplitsdjarfari eftir kossinn og það sem hún sá nú í augnaráði hins unga manns. „Hin ástæðan til þess“, sagði hún, „að jeg vil ekki hjálpa yður, er sú, að í ástasökum er hver sjálfum sjer næstur“. Nú fyrst flaug d'Artagnan það í hug, að Ketty hafði jafnan gefið honum hýrt auga þegar hann mætti henni í forstofunni eða í stiganum eða á ganginum og straukst við hann með hendinni og stundi þegar þau gengu hvort fram hjá öðru! En hugur hans var allur hjá Mylady, svo að hann veitti herbergisþernunni enga eftirtekt. Þeir sem eru á arnarveiðum eru ekki að skifta sjer af smáfuglunum. En nú opnuðust augu hans alt í einu fyrir því, hver hagur honum gat verið að ást þeirri, sem Ketty játaði honum svona hreinskilnislega og afdráttarlaust. Hann gat nú komist yfir brjef frúarinnar til Wardes greifa, hann gat alt af fengið að vita, hvað hún tæki sjer fyrir hendur og honum stóð alt af opinn aðgangur að herbergi Ketty, sem næst var svefnherbergi frúarinnar. Eins og sjá má af þessu, var d'Artagnan svo hlálegur að hann hugsaði sjer þegar að blekkja vesalings stúlkuna til þess að yfirvinna húsmóður hennar með illu eða góðu. „Heyrðu nú kæra Ketty“, sagði hann. „Viltu að jeg sýni þjer ótvíræð merki ástar þeirrar, sem þú ert að efast um?“ „Hvaða ástar?“ spurði Ketty. „Þeirrar ástar sem jeg er reiðubúinn að bera til þín“. „Og hvaða merki eru það?“ „Viltu að jeg dvelji hjer í herbergi þínu þann tíma í kvöld, sem jeg annars er vanur að vera hjá húsmóður þinni?“ „Ójá!“ svaraði Ketty himinlifandi. „Það vil jeg gjarna, eins og þjer getið skilið“. „Jæja-þá, barnið gott“, sagði d'Artagnan og fleygði sjer á hægindastól. „Komdu þá hingað og svo skal jeg segja þjer, að þú ert sú „pragtugasta píka“ og indælasta herbergisþerna, sem jeg hef nokkurn tíma orðið skotinn í á æfi minni“. Og þetta sagði hann henni svo oft og innilega, að aumingja stúlkan trúði honum. En annars var hún ekki eins auðunnin og d'Artagnan hafði búist við og svona leið tíminn. Þegar komið var fram undir miðnætti heyrðist hringing frá Mylady. „Almáttugur!“ sagði Ketty. „Nú er frúin að hringja. Flýtið yður burt fyrir alla muni!“ D'Artagnan ljet sem hann ætlaði að hlýða þessu, stóð upp og tók hatt sinn. En í stað þess að fara, opnaði hann í snatri hurðina að stórum klæðaskáp og faldi sig þar bak við kjóla og annan klæðnað frúarinnar. „Hvað eruð þjer nú að gera?“ stundi Ketty. D'Artagnan lokaði skáphurðinni og svaraði engu. „Hvað á þetta að þýða?“ kallaði Mylady svo að undir tók í öllu. „Ertu sofandi eða hvers vegna kemurðu ekki þegar jeg hringi til þín?“ D'Artagnan heyrði að millihurðinni var hrundið upp harkalega. „Nú kem jeg, Mylady — nú kem jeg!“ svaraði Ketty og gekk til frúarinnar. Þær gengu inn í svefnherbergið en skildu dyrnar eftir opnar, svo að d'Artagnan heyrði að Mylady var að atyrða herbergisþernuna all-langa stund. Loks virtist hún þó sefast og fóru þær svo að tala um sjálfan hann meðan Ketty var að hjálpa henni að afklæða sig. „Jeg hef ekki sjeð Gaskognarann í kvöld“, sagði Mylady. „Nei, nú er jeg hissa, kæra frú!“ sagði Ketty. „Hefur hann ekki komið? Skyldi hann vera einn af þeim, sem flögrar undir eins burt án þess að hafa nokkuð áunnið?“ „Nei-ónei! Hann hefur auðvitað ekki komist fyrir de Tréville eða des Essarts. Nei, jeg er nú óhrædd um hann, Ketty, ef jeg annars ber nokkuð skyn á þá hluti“. „Og hvað ætlar frúin sjer með hann?“ „Hvað jeg ætla mjer með hann? Bíddu bara við, Ketty! Það er einn hlutur okkar á milli — milli mín og þess manns, sem hann hefur engan grun um. Hann var næstum búinn að gera að engu traust það, sem kardínálinn ber til mín — og þess skal grimmilega hefnt verða“. „Jeg hjelt að frúin elskaði hann“. „Að jeg elskaði hann! Jeg hef andstygð á honum. Þessi fádæma klaufi, sem átti ráð á lífi Winters lávarðar og notaði svo ekki tækifærið, heldur ljet þrjú hundruð þúsund fránka árstekjur ganga mjer úr greipum!“ „Já, það er alveg satt“, sagði Ketty. „Sonur yðar var einka-erfingi föðurbróður síns og þjer hefðuð haft eignir hans til umráða þangað til að hann var kominn til lögaldurs“. Það fór hrollur um d'Artagnan þegar hann heyrði þessa ástúðlegu konu álasa sjer með herfilegum fúkyrðum fyrir það, að hafa ekki ráðið þeim manni bana, er hún ljet sem væri sjer einkar hugþekkur. „Jeg skyldi líka vera búin að ná mjer niðri á honum“, hjelt Mylady áfram, „ef kardínálinn hefði ekki ráðið mjer til að hlífa honum af einhverjum óskiljanlegum ástæðum“. „Jú, vitanlega. En frúin hefur samt ekki hlíft konugarminum, sem hann var að draga sig eftir.“ „Áttu við prangaramaddömuna í Fossoyeurs-götunni? Eins og hann sje ekki búinn að gleyma henni fyrir löngu! Það var þá líka hefndin“. Það sló köldum svita út um d'Artagnan. Þessi kona hlaut að vera reglulegt flagð! Hann hlustaði samt enn, en nú var Mylady komin í rúmið og þær hættar að tala um þetta. „Svona, farðu nú inn til þín“, sagði Mylady, „og mundu eftir að færa mjer svar í fyrramálið við brjefinu, sem jeg bað þig fyrir.“ „Brjefinu til Wardes greifa?“ spurði Ketty. „Já, — hvað annað?“ „Það er nú eitthvað öðruvísi maður en þessi d'Artagnan“, sagði Ketty. „Hana — farðu nú burt og vertu ekki að neinum þvættingi“. D'Artagnan heyrði, að millihurðinni var nú lokað og að Mylady skaut fyrir hana tveimur slagbröndum sín megin til þess að vera óhult um sig, en að Ketty sneri lyklinum í skránni sín megin svo hljóðlega sem hún gat. D'Artagnan lauk nú líka upp hjá sjer og stje út úr skápnum. „Hvað gengur að yður?“ hvíslaði Ketty. „Hvaða ósköp eruð þjer fölur“. „Þetta er auma ófreskjan“, tautaði d'Artagnan. „Þei þei, nú verðið þjer að fara og hafa hljótt um yður“, sagði Ketty. „Það er ekki nema þunt þil milli herbergjanna, svo að alt getur heyrst í öðru, sem talað er í hinu“. „Og þess vegna ætla jeg ekkert að fara“, sagði d'Artagnan. „Hvað eigið þjer við?“ spurði Ketty kafrjóð. Hann tók hana í faðm sjer og Ketty varð nú að láta undan. Það var ekki til neins að streitast á móti, því að það hefði að eins gert meiri hávaða. D'Artagnan fann að hann var nú að koma fram einskonar hefndum á Mylady og honum fanst hefndin himnesk unun. Hann hefði nú látið sjer nægja þessa nýju sigurvinningu, ef hann hefði verið ögn lundþýðari, en hann var fullur drambs og metnaðargirni. Þó má segja honum það til hróss, að yfirburði sína yfir Ketty notaði hann fyrst og fremst til þess, að spyrjast fyrir um afdrif frú Bonacieux. En stúlku-auminginn sór og sárt við lagði, að hún vissi ekkert um, hvað orðið væri af henni með því að Mylady tryði sjer ekki fyrir öllum sínum leyndarmálum. Það eitt þóttist hún vita með vissu, að hún væri enn á lífi. Ekki vissi Ketty heldur hvað til þess kom, að húsmóðir hennar var næstum búin að glata hylli kardínálans, en um það var d'Artagnan öllu fróðari. Þegar hann fór frá Englandi, hafði hann sjeð hana stadda á skipi, sem kyrsett var í höfn og honum ljek grunur á, að þetta stæði í sambandi við demantsbandið. En um það var engum blöðum að fletta, hvað sem öðru leið, að hið rótgróna hatur, sem Mylady hafði á honum, stafaði af því, að hann hafði ekki gengið af mági hennar dauðum. Daginn eftir heimsótti d'Artagnan Mylady á ný. Var hún þá í illu skapi og gat ekki leynt því. D'Artagnan var ekki í neinum efa um, að sú gremja hennar kom til af því, að Wardes greifi hafði ekki enn svarað brjefi hennar. Ketty kom inn til þeirra og hreytti Mylady ónotum í hana, en hún leit á d'Artagnan eins og hún vildi sagt hafa: Þarna sjáið þjer hvað jeg má þola yðar vegna. Þegar á leið kvöldið fór Mylady þó að renna reiðin og hlustaði hún brosandi á allan fagurgala og ástahjal d'Artagnans og leyfði honum jafnvel að kyssa hönd sína að skilnaði. D'Artagnan fór og vissi nú ekki vel, hvernig áhorfðist. En hann var ungur og óblautgerður og hafði hann þegar hugsað sjer bragð jafnframt því að daðra og dekra við Mylady. Hann hitti Ketty í portinu og gekk með henni upp í herbergi hennar. Hún hafði heldur en ekki orðið fyrir barðinu á húsmóður sinni. Mylady brá henni um hirðuleysi og sviksemi og skildi ekkert í því, að Wardes greifi skyldi ekki svara sjer. Hafði hún skipað Ketty að koma inn til sín klukkan níu morguninn eftir til að sækja þriðja brjefið. D'Artagnan ljet Ketty lofa sjer því statt og stöðugt, að hún skyldi færa honum þetta brjef þá strax um morguninn og ljet hún það eftir honum og vildi alt gera að vilja elskhuga síns. Það fór á sömu leið og kvöldið áður: D'Artagnan faldi sig í fataskápnum, Mylady hringdi, ljet afklæða sig, sagði þernunni að fara og skaut slagbröndum fyrir dyrnar, en d'Artagnan kom ekki heim fyr en undir morgun — eins og áður. Ketty kom til hans klukkan ellefu og hafði þá nýtt brjef frá Mylady. Hún reyndi nú ekki einu sinni að aftra d'Artagnan frá því að brjóta það upp, heldur ljet hann fara sínu fram möglunarlaust. Brjefið hljóðaði þannig: „Jeg skrifa yður nú í þriðja sinn til að segja yður, að jeg elska yður. Gætið yðar nú, að jeg skrifi ekki í fjórða sinn og segi yður þá, að jeg hafi andstygð á yður. En ef þjer iðrist nú framkomu yðar við mig, þá getur stúlkan, sem færir yður þetta brjef, sagt yður hvernig kurteis og hæverskur maður getur öðlast fyrirgefningu“. D'Artagnan brá litum hvað eftir annað, meðan hann var að lesa brjefið. „Æ, þjer elskið hana enn!“ sagði Ketty og leit ekki af hinum unga manni. „Nei, það er misskilningur, Ketty. Jeg elska hana ekki lengur, en jeg ætla að hefna mín á henni“. „Jú, jeg þekki nú hefndina yðar, hvernig henni er varið. Þjer hafið líka sagt mjer, hvernig þjer ætlið að koma henni fram“. „Ekki getur það gert þjer neitt til, Ketty. Þú veizt, að jeg elska bara þig — eingöngu þig“. „Hvernig ætti jeg að vita það?“ „Af þeirri fyrirlitningu, sem jeg sýni henni.“ D'Artagnan greip penna og skrifaði þannig: „Kæra frú! Jeg hef alt að þessu efast um, að tvö fyrstu brjefin yðar væru stíluð til mín: fanst mjer jeg vera alls óverður slíkrar sæmdar. Annars hef jeg verið svo lasburða nú undanfarið, að jeg hef dregið að svara yður, eingöngu af þeirri ástæðu. En nú hlýt jeg að trúa því, að þjer berið slíkan velvildarhug til mín, þótt óskiljanlegt megi virðast, þar sem ekki að eins brjef yðar, heldur einnig þerna yðar fullyrðir, að jeg sje sá gæfumaður að njóta ástar yðar. Hún þarf ekki að segja mjer, hvernig kurteis og hæverskur maður eigi að hegða sjer til þess að öðlast fyrirgefningu. Jeg kem sjálfur klukkan ellefu til þess að beiðast hennar og læt það ekki dragast einum degi lengur, því að slíkt væri nú í mínum augum ófyrirgefanleg móðgun. Það mælir sá, sem þjer hafið gert sælastan allra manna. de Wardes greifi.“ Brjef þetta var nú fyrst og fremst falsbrjef og í öðru lagi ósvinna. Á vorum tímum hefði það enn fremur verið álitið tilætlaður dónaskapur og ósvífni, en í þá daga voru menn ekki eins tiltektarsamir og nú. Annars hafði d'Artagnan heyrt það af vörum frúarinnar sjálfrar, að hún hafði gert sig seka um miklu lúalegri sviksemi og undirhyggju og bar hann mjög litla virðingu fyrir henni. Þrátt fyrir það var hann algerlega heillaður af konu þessari og jafnvel fyrirlitning hans varð til þess að æsa þessa ástríðu enn meir. Það var afar einfalt bragð, sem d'Artagnan hafði dottið í hug. Hann ætlaði sjer að brjótast inn í svefnherbergi frúarinnar úr herbergi Ketty, koma að henni óvörum og yfirbuga hana þar sem hún stæði uppi ráðþrota af hræðslu og blygðunarsemi. Það gat hugsast, að þetta færi alt út um þúfur, en hann ætlaði að láta kylfu ráða kasti. Eftir vikutíma átti hann að fara í leiðangurinn og hafði því engan tíma til þess að eiga í langvinnu og torsóttu ástabralli. „Gerðu svo vel“, sagði hann og fjekk Ketty brjefið þegar þann var búinn að loka því. „Fáðu nú Mylady þetta brjef — það er svar Wardes greifa“. Vesalings Ketty varð náföl. Hana grunaði hvað í brjefinu stæði. „Heyrðu nú, barnið gott“, sagði d'Artagnan. „Það verður að koma einhverjum enda á þetta. Mylady getur komist að því á einhvern hátt, að þú hafir fengið þjóni mínum fyrsta brjefið hennar í misgripum og að því næst hafi jeg, brotið upp hin brjefin, sem til Wardes greifa áttu að fara. Þá verður þú nú fyrst og fremst rekin á dyr — og annars þekkirðu hana. Hún mun ekki láta sjer það nægja, heldur hefna sín grimmilega“. „Æ, hamingin góða“, sagði Ketty. „Og fyrir hvern á jeg alt þetta yfir höfði mjer?“ „Jeg veit vel, að þú gerir það mín vegna, vina góð“, sagði d'Artagnan, „og jeg er þjer líka ósegjanlega þakklátur — það máttu reiða þig á“. „Hvað stendur í þessu brjefi?“ „Það fær þú að vita hjá Mylady“. „Æ, þjer elskið mig ekki“, sagði Ketty kjökrandi. „Skelfing á jeg bágt!“ Við slíkum kveinstöfum er ekki nema ein huggun, sem konur láta alt af blekkjast af og þá huggun veitti d'Artagnan Ketty, svo að hún var jafn villuráfandi og áður. En samt grjet hún og bar sig aumlega áður en hún gat fengið sig til að færa Mylady þetta brjef, en loksins ákvað hún, hvað gera skyldi og ákvörðun hennar var sú að láta í einu og öllu að vilja d'Artagnans. En aftur á móti hjet hann henni því, að þetta kvöld skyldi hann fara snemma frá Mylady og ganga beint upp til hennar. Þetta loforð huggaði vesalings Ketty til fulls og eyddi öllum hennar efasemdum. IV. Útbúnaður Porthos og Aramis. Þeir fjelagar hittust ekki eins oft og reglulega síðan þeir fóru að hugsa um útbúnað sinn, hver í sínu lagi. Þeir mötuðust hver fyrir sig, hvar sem þá bar að og hvar sem eitthvað var að fá. Líka urðu þeir að gefa sig við herþjónustunni og tíminn leið óðfluga. Samt höfðu þeir komið sjer saman um að hittast einn tiltekinn dag á viku heima hjá Athos klukkan eitt, því að Athos stóð við orð sín og stje nú ekki út fyrir hússins dyr. Þeir áttu að hittast einmitt þennan sama dag, sem Ketty kom til d'Artagnans með brjefið og lagði hann af stað til Feron-götunnar jafnskjótt sem hún var farin aftur. Aramis var þar fyrir og sat og skeggræddi við Athos. Aramis átti í stríði við sjálfan sig og var á tveimur áttum — var jafnvel farinn að hugsa um að venda aftur í kirkjunnar skaut. Athos rjeði honum hvorki frá nje til — hjelt því fram, að hver maður ætti að fara eftir sínum eigin frjálsa vilja. Hann lagði engum ráð, nema að hann væri beinlínis beðinn þess, og þá ljet hann meira að segja biðja sig tvisvar. „Tíðast leita menn ekki ráða til annars en að fara ekki að þeim“, sagði hann, „eða þá til bess að geta skelt skuldinni á einhvern, ef þeir fara að ráðum hans og mishepnast“. Porthos kom rjett á eftir d'Artagnan og voru þeir þá allir samankomnir vinirnir fjórir. — Mátti sjá sinn svipinn á hverjum: Porthos var rólegur, d'Artagnan vongóður, Aramis efablandinn, og Athos áhyggjulaus. Porthos ljet á sjer skilja, að háttstandandi persóna ein hefði tekist á hendur að greiða úr vandræðum sínum, en í því kom Mousqueton inn. Kvaðst hann eiga brýnt erindi og var allþungbúinn á svip. Sagði hann að húsbóndi sinn yrði tafarlaust að koma heim, því að þar biði hans vandamál, sem hann sjálfur yrði að skera úr. „Er það viðvíkjandi útbúnaðinum?“ spurði Porthos. „Já og nei“, svaraði Mousqueton. „Segðu annaðhvort af eða á, maður“. „Nei, þjer verðið að koma sjálfur, herra minn“. Porthos ljet undan og fór með Mousqueton og í þeim svifunum kom Bazin í dyrnar. „Hvað er þjer á höndum, vinur?“ spurði Aramis mjög hógværlega eins og honum vara tamt þegar hugur hans hvarflaði til kirkjunnar. „Það bíður yðar maður heima“, svaraði Bazin. „Hvaða maður er það?“ „Það er beiningamaður“. „Gefðu honum ölmusu og segðu honum að biðja fyrir einhverjum syndara“. „En hann vill ná tali af yður, hvað sem tautar og fullyrðir, að þjer munuð fúslega veita sjer áheyrn“. „Var hann með nokkur sjerstök skilaboð til mín“. „Já, hann bað mig að segja yður, að hann kæmi frá Tours“. „Frá Tours!“ sagði Aramis. „Þá verðið þið að afsaka, kæru vinir. Þetta er sjálfsagt áríðandi“. Spratt hann svo á fætur og skundaði burt en þeir Athos og d'Artagnan sátu eftir. „Þessir félagar okkar eru víst komnir úr klípunni, eða hvað heldur þú, d'Artagnan?“ sagði Athos. „Jeg veit að Porthos er vel á veg kominn“, svaraði d'Artagnan, „og hef satt að segja aldrei borið neinn kvíða fyrir Aramis. En hvað líður þjer, Athos minn? Þú vildir ekki hirða gullpeninga Englendingsins, sem voru þó þín eign með öllum rjetti.“ „Jeg læt mjer nægja að hafa vegið manninn þar sem jeg býst við, að það megi teljast til góðverkanna að drepa Englendinga og jeg hins vegar hefði fengið samvizkubit af því, að hirða peninga hans“. „Þetta eru nú ekki annað en öfgar, Athos minn“. „Má vera. En veiztu það, að herra de Tréville sýndi mjer þann sóma að heimsækja mig í gær og var að segja mjer af þjer?“ „Núnú?“ „Hann sagði að þú umgengist þessa Englendinga, sem kardínálinn hefur í þjónustu sinni“. „Það er að segja, að jeg heimsæki ensku konuna, sem jeg var að segja þjer frá“. „Já — þessa ljóshærðu. En jeg sagði þjer mína skoðun um það og var að leggja þjer ráð, sem þú hefur auðvitað ekki fylgt“. „Jú, og jeg sagði þjer mínar ástæður til þess“. „Já, þú hjelst að það gæti komið þjer að liði með útbúnað þinn — var ekki svo?“ „Nei, alls ekki, En jeg veit nú með vissu, að þessi kona á sinn þátt í hvarfi frú Bonacieux“. „Nú, einmitt það — svo ertu að daðra við þessa konu til að geta fundið hina. Það er auðvitað krókaleið, en kannske ekki sem óskemtilegust“. D'Artagnan var að hugsa um að segja Athos upp alla sögu, en hætti samt við það. Athos var mjög strangur í skoðunum sínum viðvíkjandi því, hvað aðalsmönnum sæmdi og öll framkoma hans við Mylady var á þá leið, að hann var sannfærður um, að Athos mundi mislíka hún. Hann kaus því heldur að láta þetta kyrt liggja og það var honum innan handar, því að Athos var fjarri því að vera forvitinn. Segir ekki meir af þeim félögum í bráð, en nú víkur sögunni aftur til Aramis. Eins og áður er sagt, skundaði hann heimleiðis þegar hann heyrði að maðurinn, sem vildi finna hann væri frá Tours og þegar þangað kom, var þar fyrir maður lítill vexti, greindarlegur á svip og tötralega til fara. „Ætlið þjer að finna mig eitthvað?“ spurði Aramis. „Jú, jeg var að spyrja eftir herra Aramis. Eruð það þjer sem svo nefnist?“ „Já, það er jeg og enginn annar en jeg. Hafið þjer nokkur skilaboð til mín?“ „Getur verið, ef þjer viljið fyrst sýna mjer vissan útsaumaðan vasaklút“. „Lítið þjer á“, sagði Aramis, tók upp lykil og opnaði lítið íbenviðarskrín, greypt með perluskel. „Það er líklega þessi“. „Það er rjett“, sagði maðurinn. „Látið þjer þjóninn yðar fara“. Aramis benti Bazin að fara burt og gerði hann það hálfnauðugur. Komumaður skygndist um til þess að vera viss um að enginn heyrði eða sæi til þeirra, fletti frá sjer treyjugarminum, spretti frá fóðrinu á einum stað og tók þar fram brjef. Aramis varð himinglaður er hann sá innsiglið, kysti brjefið og opnaði það og var það svohljóðandi: „Kæri vinur! Forlögin hafa hagað því svo, að við getum ekki fundist fyrst um sinn, en vonandi eru allir okkar sæludagar ekki taldir fyrir því. Þjer verðið að gegna skyldu yðar sem hermaður og jeg mun gegna mínum skyldum. Takið við því, sem brjefberinn fær yður og haldið svo í herferðina sem frækinn og fríður aðalsmaður. Hugsið til mín, en jeg kyssi í anda augun yðar fögru. Verið sælir eða sjáumst aftur öllu heldur!“ Komumaður hjelt áfram að spretta fóðrinu og tíndi fram smátt og smátt fimtíu spanska gulldali, sem hann raðaði á borðið. Að því búnu hneigði hann sig og var horfinn áður en Aramis gat áttað sig eða komið upp nokkru orði. Hann las brjefið aftur og tók nú eftir þessari eftirskrift, sem í því stóð: E.s. „Þjer getið fengið brjefberanum kvittun. Hann er greifi og spanskur stórhöfðingi“. „Sæludraumar!“ sagði Aramis. „Ó þú indæla líf og æskublómi. Við erum ung enn og eigum eftir að lifa saman í lukku og gengi! Ó þú ástin mín, og hjartað mitt og lífið í brjóstinu á mjer. Alt, alt skal þín vegna gert, þú yndi mitt og eftirlæti!“ Hann kysti brjefið enn einu sinni og leit ekki við gullinu, sem lá á borðinu. Bazin fór að rjála við hurðina og Aramis hafði nú enga ástæðu til að meina honum aðgöngu. Hann sagði honum því að koma inn. Bazin varð svo hissa þegar hann sá alt þetta gull, að hann gleymdi að segja að d'Artagnan væri kominn. Honum ljek forvitni á að vita hver þessi beiningamaður hefði verið og kom nú inn óbeðinn. „Ja, hvert í logandi, kæri Aramis“, sagði hann. „Ef þjer eru oft send svona blóm frá Tours, þá bið jeg kærlega að heilsa garðyrkjumanninum, sem ræktar þau“. „Þú ferð vilt kæri vin“, sagði Aramis íbygginn. „Þetta er sending frá bóksalanum mínum og er ritlaun fyrir einsatkvæða drápuna, sem jeg orti fyrir nokkru“. „Það kalla jeg óvenju örlátan bóksala. Hvar náðirðu í hann?“ „Hvað er að tarna!“ sagði Bazin steinhissa. „Eru kvæði svona dýr? Því hefði jeg aldrei trúað. Æ, kæri herra! Það leikur alt í höndunum á yður og þjer getið jafnast á við Voiture eða Benserade. Þetta líkar mjer og það er næstum eins mikið varið í að vera skáld eins og ábóti. Kæri, góði herra Aramis! Jeg bið og grátbæni yður um að fást nú ekki við neitt annað framvegis en að yrkja kvæði“. „Mjer heyrist þú vera að sletta þjer fram í samtalið, Bazin góður“, sagði Aramis. Bazin sá að hann hefði gerst helst til framhleypinn, svo að hann þagnaði og hljóp á dyr. „Já, þessi ritverk þín eru gulls ígildi“, sagði d'Artagnan brosandi, „og þú ert sannarlegt lukkunnar óskabarn. En gættu þín nú að týna ekki brjefinu, sem gægist þarna upp úr vasa þínum. Það er víst líka frá bóksalanum“. Aramis kafroðnaði, stakk brjefinu inn á sig og hnepti að sjer treyjunni. „Kæri d'Artagnan“, sagði hann. „Eigum við ekki að fara og finna fjelaga okkar og fá okkur svo máltíð í sameiningu fyrst að jeg er svona peningaður. En ykkur berst sjálfsagt líka eitthvað upp í hendurnar“. „Seisei-já!“ sagði d'Artagnan. „Það er annars orðið langt síðan, að við höfum borðað góða máltíð saman og með því að jeg á dálítið æfintýri fyrir höndum í kvöld, þá þætti mjer gaman að því að drekka eina eða tvær flöskur af gömlu Bourgogne-víni á undan“. „Jeg gæti líka vel þegið eina Bourgogne-flösku“, sagði Aramis og var nú búinn að steingleyma allri heimsafneitun. Hann stakk á sig nokkrum gulldölum upp í væntanlegan veizlukostnað og fleygði hinum ofan í íbenviðarskrínið, þar sem þessi dásamlegi vasaklútur var geymdur. Þeir fóru fyrst til Athos og var hann ófáanlegur til að rjúfa heit sitt um að stíga ekki út fyrir húsdyr, en lofaði að sjá um, að miðdagsverðurinn yrði fram reiddur heima hjá sjer. Vissi hann svo gjörla, hversu haga skyldi slíkum glaðningi, að þeir Aramis og d'Artagnan fálu honum fortakslaust alla tilhögun og undirbúning þar að lútandi. Þaðan fóru þeir áleiðis til Porthos til að bjóða honum að taka þátt í miðdagsverðinum, en mættu þá Mousqueton á leiðinni. Rak hann á undan sjer hest og múlasna og var harla ófrýnn á svipinn. „Nei, þarna kemur Bleikur minn gamli“, hrópaði d'Artagnan forviða og þótti vænt um að sjá klárinn aftur. „Líttu á þennan hest, Aramis. „Þetta er aumi jálkurinn“, sagði Aramis. „Það er hesturinn, sem jeg fyrst reið hingað til Parísar“, sagði d'Artagnan. „Þekkið þjer þennan hest“, spurði Mousqueton. „Hann er alleinkennilegur á lit og háralag“, sagði Aramis. Jeg hef aldrei sjeð slíka há á nokkurri skepnu“. „Því skal jeg trúa“, sagði d'Artagnan. „Jeg seldi hann líka fyrir þrjá dali og fjekk þá víst aðallega fyrir hana, því að skrokkurinn var ekki mikils virði. En hvar hefur þú fengið færleikinn, Mousqueton?“ „Æ, minnist þjer ekki á það, herra — það er bara óþokkaskapur af manni hertogafrúarinnar.“ „Hvernig þá?“ „Jú, við erum í miklum dáleikum við tigna konu, hertogafrú ... En þjer verðið að afsaka! Húsbóndi minn hefir strengilega bannað mjer að nefna nöfn. Nú, en hvað um það! Hún var búin að gefa okkur gjafir til minja: fyrirtaks gæðing spánskan og framúrskarandi fallegan múlasna frá Andalúsíu, en svo hafði maður hennar komist á snoðir um þetta og skifti um — tók þessar ljómandi skepnur og sendi okkur þessar drógar í staðinn“. „Og ertu nú að skila þeim aftur“, spurði d'Artagnan. „Já, víst er jeg að því“, svaraði Mousqueton. „Þjer sjáið það sjálfur, að við getum ómögulega gert okkur þessar ferfættu horgrindur að góðu fyrir almennilegar skepnur, sem búið var að lofa okkur“. „Já, það er hverju orði sannara — og samt hefði jeg haft gaman af að sjá Porthos á honum Bleik gamla. Jeg hefði þá getað gert mjer hugmynd um, hvernig jeg leit út þegar jeg kom fyrst til Parísar. En við skulum ekki vera að tefja þig lengur, Mousqueton. Gerðu það sem húsbóndi þinn hefur skipað þjer — en er hann annars heima?“ „Ójá, hann er það, en hann er ekki í sjerlega góðu skapi“, sagði Mousqueton. Hann fór svo sína leið, en þeir fjelagar hjeldu áfram og börðu að dyrum hjá Porthos. Hann sá til þeirra þegar þeir gengu inn í garðinn, en vildi ekki opna fyrir þeim. Þeir börðu hvað eftir annað en enginn gegndi. En Mousqueton hjelt áfram með drógarnar yfir Port-Neuf og komst loksins með þær inn í Bjarnargötu. Þar batt hann hestinn og múlasnann við dyrabjöllu málfærslumannsins eins og húsbóndi hans hafði sagt honum að gera. Gekk hann svo burt án þess að skifta sjer meira af skepnunum, fór aftur heim til Porthos og kvaðst hafa lokið erindi sínu vel og rækilega. Það leið ekki á löngu að vesalings skepnurnar færu að gerast óþolinmóðar og hreyfa sig, því að ekki höfðu þær fengið neina munntuggu síðan einhvern tíma um morguninn. Fór þá dyrabjallan auðvitað að hringja í ákafa og varð af því hávaði mikill. Málfærslumaðurinn sendi skósvein sinn í nágrennið til að forvitnast um, hverju þetta sætti og hver mundi eiga þennan hest og múlasna. Frú Coquenard þekti þar aftur gjöf sína og skildi fyrst ekkert í hvernig á því gat staðið, að hún var komin aftur, en innan stundar kom Porthos þangað og gaf henni fullnægjandi skýringu á því. Fjell frúnni allur ketill í eld þegar hún sá, hve elskhugi hennar var reiður. Mousqueton hafði heldur ekki dulið húsbónda sinn þess, að hann hefði mætt Aramis og d'Artagnan á leiðinni og hefði d'Artagnan þegar þekt bleika klárinn og kannast við, að það var sami jálkurinn, sem hann á sínum tíma hafði riðið til Parísar og síðan selt fyrir þrjá dali. Porthos fór svo eftir að hafa talað svo um við málfærslumannskonuna að þau skyldu hittast í klaustrinu Saint-Magloire. Þegar málfærslumaðurinn sá, að hann var að fara, bauð hann honum til miðdegisverðar á ný, en Porthos afþakkaði. Frú Coquenard fór til klaustursins skjálfandi af hræðslu og bjóst ekki við góðum viðtökum, enda hlífði Porthos henni ekki. Honum sveið þetta mjög og ljet hann skammir og ónot óspart dynja á vesalings konunni. „Æ, vinur minn kær“, sagði hún. „Jeg gerði þetta alt í bestu meiningu. Einn kunningi okkar er hestaprangari og hann skuldaði manninum mínum peninga, sem ómögulegt var að ná hjá honum og tók jeg svo hestinn og múlasnann upp í skuldina. Hann lofaði mjer auðvitað góðum og gildum skepnum“. „Og jeg get sagt yður það, að hafi þessi hestaprangari skuldað ykkur meira en fimm dali, þá er hann þjófur að því, sem fram yfir hefur verið“. „Það er engin yfirsjón að komast að góðum kaupum“, sagði frú Coquepnard. „Nei, satt er það. En þeir sem vilja fá alt sem ódýrast, verða að sætta sig við að aðrir reyni að velja sjer örlátari vini“. Að svo mæltu sneri Porthos sjer frá henni og ljet sem hann ætlaði að fara. „Herra Porthos, herra Porthos!“ kallaði frú Coquenard. „Jeg hef rangt fyrir mjer — jeg kannast við að hafa rangt fyrir mjer. Jeg hefði ekki átt að vera að horfa í verðið þegar ræða var um útbúnað handa öðrum eins manni og yður“. Porthos svaraði engu, en gekk enn nokkur skref burt. Málfærslumannskonunni fanst hún eygja hann eins og í þoku, umkringdan af hertogafrúm og öðrum hefðarkonum, sem stráðu gulli fyrir fætur hans. „Bíðið þjer við herra Porthos, í öllum guðanna bænum“, hrópaði hún. „Bíðið þjer við og talið þjer betur við mig“. „Jeg hef bara ilt af því að tala nokkuð við yður“, sagði Porthos. „En segið mjer þó að minsta kosti, hvers þjer óskið“. „Ekki neins. Það kæmi alveg í sama stað niður“. Frú Coquenard tók um handlegg hans og sagði kveinandi: „Æ, herra Porthos jeg ber ekkert skynbragð á þetta og veit varla hvað hestur er; auk heldur hertýgi“. „Þá ættuð þjer að spyrja mig, sem hef gott vit á þess háttar, frúin góð. En meinið er, að þjer tímið engu og viljið skera alt við nögl yðar“. „Nú gerið þjer mjer rangt til, herra Porthos. En jeg skal gera gott úr þessa öllu“. „Og hvernig þá?“ spurði hann. „Heyrið nú! Í kvöld fer Coquenard til hertogans af Chaulnes[* Sjóln.], sem hefur gert boð eftir honum. Hann þarf eð ráðgast við hann um eitthvað og þeir verða tvo tíma að því að minsta kosti. Þá getið þjer komið heim til mín. Við verðum þá tvö ein og getum sjálfsagt orðið ásátt um þetta“. „Nú jæja! Annað mál er það, kæra frú“. „Ætlið þjer þá að fyrirgefa mjer?“ „Við sjáum nú til“, svaraði Porthoe mjög íbygginn og með það skildu þau. „Jæja þá!“ hugsaði Porthos þegar hann gekk frá henni. „Loksins förum við þá að rjála eitthvað við peningaskáp málfærslumannsins“. V. Ekki sjer deili í dimmunni. Það leið að kvöldi. D'Artagnan heimsótti Mylady um klukkan níu, eins og hans var vani og hitti svo á, að hún var í mjög góðu skapi. Hafði hún aldrei tekið jafn vel við honum og vissi hann þá, að brjef hans hafði komist til skila og haft tilætluð áhrif. Ketty kom inn með hressingu handa þeim. Húsmóðir hennar brosti náðarsamlega við henni, en stúlkuauminginn var svo angurvær, að hún tók ekkert eftir því. Þegar klukkan var orðin tíu fór Mylady að ókyrrast og vissi d'Artagnan vel hvernig á því stóð. Hún var alt af að líta á klukkuna, settist niður, stóð upp aftur og brosti til d'Artagnans, eins og hún vildi sagt hafa: þú ert dæmalaust elskulegur, góði vin, en þú værir enn indælli ef þú færir nú að fara. D'Artagnan stóð upp og tók hatt sinn. Mylady tók mjög vinalega í höndina á honum að skilnaði og vissi hann, að það var ekkert ljettúðarmerki, heldur miklu fremur þakklætisvottur fyrir það, að hann skyldi nú loksins hypja sig burtu. „Hún er sjónvitlaus eftir honum“, sagði d'Artagnan við sjálfan sig og fór. Í þetta skifti beið Ketty ekki eftir honum og hitti hann hana hvorki á ganginum, í forstofunni eða í portinu, svo að hann varð einn að paufast upp stigann og finna dyrnar að herbergi hennar. Ketty sat þar grátandi og studdi hönd undir kinn og leit ekki einu sinni upp þegar hann kom inn til hennar. Hann tók blíðlega um hönd hennar, en þá grjet hún hástöfum. Eins og d'Artagnan bjóst við, þá varð Mylady svo ofsakát yfir brjefi hans, að hún sagði Ketty hvernig í öllu lá og gaf henni auk þess peningapyngju í þakklætisskyni fyrir það, hve vel hún hefði rekið erindi sitt í þetta skifti. Ketty fleygði pyngjunni út í horn í herbergi sínu og lá hún þar opin, svo að þrír eða fjórir gullpeningar ultu úr henni út á gólfið. Hún leit loksins upp þegar d'Artagnan fór að láta vel að henni, en var þá orðin svo breytt í útliti, að honum hnykti við. Hún fórnaði höndum, en mælti ekki orð. Hann komst við af þessari þöglu sorg, en var svo ólmur í þetta æfintýri sitt, að honum datt ekki í hug að hætta við það. Hann gaf henni því engar vonir um það, en reyndi að hugga hana með því að sjer gengi ekkert annað til en hefndargirni. Honum veitti enn ljettara að koma fram þessari hefnd sinni vegna þess, að Mylady hafði skipað Ketty að slökkva öll ljós, eins í hennar eigin svefnherbergi. Hún ætlaðist til — sjálfsagt af blygðunarsemi — að Wardes greifi bæði kæmi og færi í þreifandi myrkri. Eftir litla stund heyrðu þau, að Mylady gekk inn í svefnherbergi sitt og gat d'Artagnan rjett skotist inn í skápinn áður en hún hringdi. Ketty fór inn til húsmóður sinnar, en ljet hurðina aftur á eftir sjer. Milliveggurinn var svo þunnur, að hann heyrði mest alt, sem þær töluðu saman. Mylady rjeði sjer ekki fyrir gleði. Hún ljet Ketty taka upp aftur hvert einasta atvik, sem við kom þessari seinustu sendiför — hvernig greifinn hefði tekið við brjefinu, hvernig honum hefði orðið við, þegar hann las það, hvað hann hefði sagt, hvort hann hefði ekki orðið „ósköp skotinn“ o. s. frv. Úr öllum þessum spurningum varð Ketty að leysa greiðlega og af áfergjunni tók frúin ekkert eftir því, hve málrómur hennar var dapurlegur. Loksins leið að því, að greifinn skyldi koma og skipaði Mylady henni þá aftur að slökkva öll ljós og fara inn í sitt herbergi, en gæta þess samt að hleypa greifanum inn þegar hann kæmi. Ketty þurfti ekki að bíða lengi. Þegar d'Artagnan þóttist viss um, að búið væri að slökkva ljósið, þaut hann út úr skápnum áður en Ketty var búin að loka millihurðinni. „Hvaða hávaði er þetta?“ spurði Mylady. „Það er jeg Wardes greifi“, sagði d'Artagnan í hálfum hljóðum. „Æ, hamingjan góða“, hugsaði Ketty. „Hann getur ekki einu sinni beðið þess tíma, sem hann tiltók sjálfur!“ „Nú-jæja“, sagði Mylady og var röddin óstyrk. „Hvers vegna komið þjer ekki inn, herra greifi? Þjer vitið þó, að jeg bíð yður“. D'Artagnan losaði sig við Ketty með hægð og gekk rösklega inn í svefnherbergi frúarinnar. Ekkert getur sært meira tilfinningar elskhugans en meðvitundin um það, að ástaratlot þau, sem honum eru sýnd, sjeu í raun og veru ætluð sambiðli hans. Þetta hafði d'Artagnan alls ekki gert sjer ljóst og nú kvaldist hann af afbrýðissemi, svo að honum leið lítið betur en vesalings Ketty, sem sat grátandi í næsta herbergi. „Já, kæri greifi“, sagði Mylady ofurinnilega og þrýsti hönd hans milli handa sjer. „Jeg er vissulega sæl þeirrar ástar, sem þjer hafið auðsýnt mjer í orðum og augnatilliti í hvert skifti, sem við höfum hizt. Jeg elska yður líka og mun þegar á morgun heimta af yður eitthvert það ástarmark, er ávalt geti sýnt mjer, að þjer hugsið til mín — — en svo skuluð þjer taka við þessum, til þess að þjer gleymið mjer ekki.“ Hún dró fingurgull af hendi sjer og ljet það á fingur hins unga manns. D'Artagnan mintist þess nú, að hann hafði sjeð þennan hring á hendi hennar. Í hann var greyptur undurfagur safírsteinn og demantar alt í kring. D'Artagnan ætlaði fyrst að skila honum aftur, en Mylady bætti við: „Nei-nei, eigið þjer hann til merkis um ást mína — og auk þess gerið þjer mjer meiri greiða, en yður grunar, með því að þiggja hann“. „Það eru meiri leyndarmálin, sem þessi kona býr yfir“, hugsaði d'Artagnan. Honum lá nú næst að kannast við alt eins og var, og það var rjett komið fram á varirnar á honum að segja hver hann væri og að hann hefði laumast inn til hennar í því skyni einu að hefna sín, en þá sagði hún: „Og þetta Gaskognara-afhrak var nærri búið að ráða yður bana?“ Afhrakið var hann sjálfur! „Eruð þjer enn þá mjög þjáður at sárunum?“ „Já“, sagði d'Artagnan og vissi ekki vel, hverju hann átti að svara. „Verið ókvíðinn“, sagði hún. „Jeg skal hefna yðar — og það svo um muni“. „Nú-jájá!“ hugsaði d'Artagnan. „Það er líklega bezt að segja ekki til sín strax“. Hann var nokkra stund að nú sjer eftir þetta, en öll hefndargirni var horfin úr huga hans. Hann hataði hana og elskaði, hvorttveggja í senn og hafði aldrei trúað því, að jafngagnstæðar tilfinningar gætu rúmast í eins manns brjósti og orðið þar að undarlegri og næstum djöfullegri fýsn. Þau skildu klukkan eitt og átti d'Artagnan bágt með að rífa sig frá henni. Kom þeim saman um að hittast aftur í næstu viku. Ketty auminginn var að vonast eftir, að hún gæti sagt fáein orð við d'Artagnan um leið og hann færi, en Mylady fylgdi honum sjálf í myrkrinu gegnum herbergi hannar og skildi ekki við hann fyr en í stiganum. Morguninn eftir flýtti d'Artagnan sjer heim til Athos. Þetta æfintýri hans var nú orðið svo viðsjárvert, að hann þarfnaðist góðra ráða, Hann sagði Athos alt, eins og farið hefði og fór honum ekki að dáma að. „Mjer skilst að þessi Mylady sje einstakt flagð og forað, en samt var það ekki rjett af þjer að blekkja hana þannig“ sagði Ahos. „Þú hefur eignast hættulegan óvin þar sem hún er“. Um leið og Athos sagði þetta, horfði hann stöðugt á steinhringinn, sem nú var kominn á fingur d'Artagnans, þar sem hringurinn Drotningarnautur hafði áður verið. Hann geymdi d'Artagnan nú vandlega í skríni einu. „Þú ert að horfa á hringinn, sje jeg“, sagði hann, heldur en ekki hreykinn af því að geta státað með svo dýrmæta gjöf. „Já, hann minnir mig á ættargrip, sem jeg þekti einu sinni“, svaraði Athos. „Er hann ekki fallegur?“ spurði d'Artagnan. „Jú, hann er aðdáanlegur“, sagði Athos. „Jeg hjelt að ekki væru til tveir safírar svona gallalausir og þú hefur líklega fengið hann í skiftum fyrir demantshringinn þinn“. „Nei-ónei“, sagði d'Artagnan. „Hann er gjöf frá fögru konunni ensku, eða öllu heldur frönsku, því að jeg er sannfærður um, að hún er fædd á Frakklandi, þótt ekki hafi jeg spurt hana að því“. „Jæja, þú hefur þá fengið þennan hring frá Mylady?“ sagði Athos í ákafri geðshræringu. „Já, einmitt frá henni. Hún gaf mjer hann í nótt“. „Lof mjer að líta á hann“, sagði Athos. „Gerðu svo vel“, sagði d'Artagnan og dró hringinn af fingri sjer. Athos skoðaði hann og brá litum, setti hann síðan upp á vinstri baugfingur og var hann honum alveg mátulegur. Það brá fyrir hefndarsvip og reiði á enni hins rólynda aðalsmanns. „Það getur ekki átt sjer stað, að það sje hún“, sagði hann. „En hvernig hefur þá þessi hringur komist í eigu frú Clarick? Samt er það ótrúlegt, að tveir hringir sjeu svona nákvæmlega líkir hvor öðrum“. „Það virðist svo sem þú þekkir hringinn“, sagði d'Artagnan. „Jeg hjelt að jeg þekti hann, en mjer hefur víst missýnst“, sagði Athos. Hann fjekk d'Artagnan hringinn aftur, en horfði samt alt af á hann. „Heyrðu nú“, sagði hann eftir litla stund. „Taktu annaðhvort þennan hring af þjer eða snúðu steininum inn. Hann rifjar upp fyrir mjer sárustu endurminningar mínar og varnar mjer þess að geta talað rólega við þig. Sagðistu ekki vera í vafa um, hvað þú ættir að gera og vera kominn til að spyrja mig ráða? En bíddu við — láttu mig líta á hringinn aftur. Það var ofurlítil rispa í einn flötinn á safírnum í hringnum, sem jeg átti við“. Athos skoðaði hringinn aftur og kiptist við. „Líttu á“, sagði hann. „Er þetta ekki undarlegt?“ Hann benti á örlitla rispu í einum fleti steinsins. „En hjá hverjum fjekst þú þennan hring“, spurði d'Artagnan. „Jeg fjekk hann hjá móður minni og hún fjekk hann hjá móður sinni. Hann var gamall ættargripur, eins og jeg sagði og átti aldrei að ganga úr ættinni“. „Þú hefur þá líklega selt hann?“ spurði d'Artagnan hikandi. „Ónei“, svaraði Athos og brosti einkennilega. „Jeg gaf hann eina ástanótt — eins og þjer var gefinn hann. D'Artagnan sat hugsi. Hann fór að gruna, að Mylady byggi yfir einhverju hyldýpi myrkurs og óheilla — og hringnum stakk hann í vasa sinn. „Heyrðu nú, d'Artagnan“, sagði Athos aftur og greip um hönd fjelaga síns. „Þú veizt, að mjer þykir vænt um þig — þú værir mjer ekki kærari, þó að þú værir sonur minn. Losaðu þig við þennan kvenmann og hafðu mín ráð. Jeg þekki hana ekki, en jeg hef fengið eitthvert hugboð um, að hún sje glötuð manneskja og eitthvað hræðileg í eðli sínu“. „Og jeg held, að þú hafir rjett fyrir þjer“, sagði d'Artagnan. „Jeg ætla að segja skilið við hana og kannast líka við, að mjer stendur ógn af henni.“ „En heldurðu, að þú hafir þrek til þess?“ „Já, það hef jeg og ætla að gera þetta tafarlaust“. „Það er rjett af þjer, sonur sæll“, sagði Athos og tók innilega — næstum föðurlega í höndina á d'Artagnan. „Hamingjan gefi að þessi kona, sem nú hefur mætt þjer á lífsleið þinni, láti þar ekki eftir einhverjar óttalegar menjar“ Hann kinkaði svo kolli til d'Artagnans eins og til að gefa honum í skyn, að hann vildi nú helzt vera einn með hugsanir sínar. Þegar d'Artagnan kom heim til sín, var Ketty þar fyrir og beið hans. Var hún svo breytt í útliti og vesaldarleg, að það var líkast, sem hún hefði legið heilan mánuð á sóttarsæng. Var hún send af húsmóður sinni til Wardes greifa, sem hún hjelt að væri. Mylady var svo sem örvita af ástarbruna og frá sjer numin af feginleik og vildi nú fá að vita, hvaða kvöld elskhugi hennar ætlaði að vitja sín. Ketty beið eftir svari d'Artagnans náföl og titrandi. Athos hafði tekist að telja honum hughvarf og var hann nú fastráðinn í að segja skilið við Mylady. Hann greip penna og skrifaði svohljóðandi svar: „Þjer skuluð ekki búast við mjer, kæra frú, til hins ákveðna stefnumóts. Jeg hef svo mörgum þess háttar samfundum að sinna, síðan jeg varð hress og heilbrigður aftur, að jeg verð að sækja þá eftir vissri röð og skal leyfa mjer að gera yður aðvart, þegar röðin kemur næst að yður. Með ástarkveðjum yðar Wardes greifi“. Hann mintist ekki á steinhringinn einu orði. Ætlaði hann að nota hann senn vopn í viðureigninni við Mylady — eða er ekki bezt að játa það hreinskilninslega, að hann hjelt honum hjá sjer í þeim tilgangi að grípa til hans sem seinustu úrræða til þess að búa sig undir leiðangurinn? Annars má ekki dæma þessa tíma eftir siðferðiskröfum nútíðarmanna. Það sem nú er álitið minkun og ósamboðið heiðvirðum mönnum, var þá talið siðlegt og sjálfsagt og það var þá algengt að ungir menn, jafnvel af háum stigum, hikuðu sjer ekki við að færa sjer í nyt örlæti fylgikvenna sinna. D'Artagnan fjekk Ketty brjefið áður en hann lokaði því. Hún hljóp yfir það einu sinni án þess að skilja nokkurt orð í því, en varð frá sjer numin af gleði þegar henni loksins varð ljóst, hvers efnis það var. D'Artagnan skýrði það enn betur fyrir henni og enda þótt það væri talsverð áhætta að færa jafn geðríkri konu og Mylady var slíkt brjef, þá flýtti Ketty sjer samt eins og hún gat, að koma því til hennar. Mylady braut brjefið óðar upp og varð mjög litverp er hún las það. Hún böglaði því saman í hendi sjer og sneri sjer að Ketty með tindrandi augun. „Hvers konar brjef er þetta?“ spurði hún. „Það er svarið við brjefi yðar“, svaraði Ketty. „Það á sjer engan stað!“ æpti Mylady. „Það er óhugsandi að aðalsmaður skrifi nokkurri konu slíkt brjef! En skyldi hann kannske — —?“ sagði hún og kiptist við. Hún nísti tönnunum og varð nábleik í framan, ætlaði út að glugganum til að svala sjer, en riðaði á fótunum og hnje niður á hægindastól. Ketty hjelt að henni væri að verða ilt og fór að losa um föt hennar, en þá reis Mylady upp. „Hvað viltu mjer og hvers vegna ertu að káfa í mig með fingrunum?“ spurði hún. „Jeg hjelt að yður væri að verða ilt og ætlaði að losa um kjólinn yðar til að liðka um andrúmið“, svaraði Ketty og stóð ógn af svipnum á húsmóður sinni. „Verða ilt! Mjer að verða ilt! Hæ-hæ! Heldurðu að jeg sje eins og einhver konuræfill, sem orðið hefur fyrir skætingi og ónotum? Nei, ónei. Mjer verður ekki ilt þó að einhver móðgi mig, en þá hefni jeg mín bara. Skilurðu það?“ Svo benti hún Ketty að fara frá sjer. VI. Hefndarhugur. Um kvöldið skipaði Mylady að vísa d'Artagnan inn til sín undir eins og hann kæmi á venjulegum tíma. En hann kom alls ekki. Morguninn eftir skrapp Ketty til hins unga manns og sagði honum alt hversu farið hefði daginn áður, en hann brosti. Þessi afbrýðissemi frúarinnar — það var hefndin! Þetta kvöld var Mylady enn órórri en kvöldið áður og skipaði aftur að vísa d'Artagnan inn til sín, en svo leið þetta kvöld líka, að hann kom ekki. Og daginn eftir kom Ketty til hans — ekki glöð og kát eins og hún hafði verið tvo undanfarna daga, heldur döpur og stúrin. D'Artagnan spurði hana, hvað að henni gengi og dró hún þá þegjandi brjef úr barmi sínum og fjekk honum. Það var með hendi frúarinnar og var nú stílað til d'Artagnans sjálfs, en ekki til Wardes greifa. Það hljóðaði svo: „Kæri herra d'Artagnan! Það er ljótt af yður að snúa svona bakinu við vinum yðar, ekki sízt nú, þegar þjer eigið bráðlega að yfirgefa okkur um langan tíma. Mágur minn og jeg höfum bæði vonast eftir yður í gærkvöldi og fyrrakvöld, en sú von brást okkur herfilega. Ætlið þjer ekki heldur að koma í kvöld? Yðar einlæg. Frú Clarek“. „Þetta er ósköp eðlilegt og blátt áfram og jeg bjóst einmitt við þessu brjefi“, sagði d'Artagnan. „Horfur mínar fara batnandi af því að Wardes greifa fara versnandi“. „Ætlið þjer til hennar?“ spurði Ketty. „Heyrðu, barnið gott“, sagði d'Artagnan og var að reyna að finna sjer einhverjar málsbætur fyrir það, að hann brást loforði því, sem hann hafði gefið Athos. „Það væri fásinna, eins og þú getur skilið, að hafna svona ákveðnu boði. Ef jeg hætti nú alt í einu að heimsækja Mylady, þá gæti hana farið að gruna margt og slík kona, með því lundarlagi sem hún hefur, mundi þá hefna sín grimmilega“. „Æ-já, það er alveg satt“, sagði Ketty. „Þjer skýrið málið alt af á þá leið, að maður verður að fallast á skoðun yðar og ef þjer náið ástum hennar í þetta skifti með yðar eigin persónu og í yðar nafni, þá verður síðari villan argari hinni fyrri“. Stúlku-aumingjann grunaði hvernig þessu mundi reiða af, en d'Artagnan hughreysti hana sem bezt hann gat og fullyrti að yndisleiki húsmóður hennar skyldi engin áhrif á sig hafa. D'Artagnan kom til Place Royale klukkan níu. Þjónarnir höfðu auðsjáanlega fengið sínar fyrirskipanir, því að einn hljóp inn til að segja til hans áður en hann gat spurt um, hvort Mylady væri heima. Honum var nú vísað inn og leit hann hálfgerðum forvitnisaugum á Mylady. Hún var föl og þreytuleg til augnanna. Ljósin voru ekki eins mörg og vant var, en samt sáust greinileg merki þeirrar æsingar, sem hún hafði verið í seinustu dagana. D'Artagnan spurðist mjög kurteislega fyrir um líðan hennar. „Mjer líður illa — verulega illa“, sagði hún. D'Artagnan kvað sjer þykja leitt að hafa ónáðað hana og ætlaði að hafa sig á burt, en hún aftraði honum. „Nei, þjer ónáðið mig alls ekki, herra d'Artagnan“, sagði hún. „Nærvist yðar er mjer þvert á móti til ánægju og þjer megið hreint ekki fara“. „Jájá!“ hugsaði d'Artagnan. „Það er þessi gállinn á henni núna og það er líklega vissast að hafa vaðið fyrir neðan sig“. Mylady var líka einstaklega alúðleg og ljek við hvern sinn fingur. Augun leiftruðu og roði færðist í kinnar henni, svo að d'Artagnan varð alveg heillaður, Ástin, sem hann hjelt að væri útkulnuð, blossaði upp aftur í hjarta hans. Hún brosti við honum og honum fanst hann geta vaðið eld og eimyrju fyrir hvert hennar bros. Mylady varð æ innilegri við hann og spurði hann, hvort hann ætti sjer enga ástmey. „Hvernig getið þjer spurt svona?“ sagði hann. „Jeg sem hef ekki getað lítið hýru auga til nokkurs kvennmanns síðan jeg sá yður“. Mylady brosti einkennilega. „Er það meining yðar, að þjer elskið mig?“ spurði hún. „Eins og jeg þurfi að segja yður það! Þjer hljótið að hafa tekið eftir því“. „Jú, en þjer vitið víst, að þess mikillátari sem konan er, þess erfiðara er að ná hylli hennar“. „Erfiðleikarnir fæla mig ekki“, svaraði d'Artagnan. „Það er eingöngu ómáttuleikinn, sem sviftir mig allri von“. „Sannri ást er ekkert ómáttugt“. „Ekkert, frú mín kær?“ „Nei, ekkert“, endurtók hún. „Ja, hver skrambinn!“ hugsaði d'Artagnan. „Nú ber eitthvað nýrra við! Skyldi það nú detta í hana að verða skotin í mjer og gefa mjer annan eins hring og hún gaf mjer, þegar hún hjelt að jeg væri Wardes greifi?“ „Segið mjer“, sagði hún, „hvað þjer viljið gera til þess að sannfæra mig um, að þjer berið sanna og hreina ást til mín“. „Jeg skal gera hvað sem yður þóknast. Skipið þjer bara og jeg skal hlýða“. „Hvað sem mjer þóknast?“ „Já, hvað sem yður þóknast“, sagði d'Artagnan og vissi sem var, að það gerði ekki mikið til þó að hann lofaði einhverju upp í ermina sína. „Jæja, við skulum tala betur um það“, sagði Mylady og flutti sig nær honum. „Jeg er reiðubúinn“, sagði hann. Mylady þagði um stund, eins og hún væri á báðum áttum, en sagði svo: „Jeg á einn óvin“. „Eigið þjer óvin, kæra frú?“ spurði d'Artagnan og ljet sem þetta kæmi flatt upp á sig. „Hvernig getur það verið — þjer sem eruð svo fögur og góð“. „Já, svarinn óvin“. „Hvað er að tarna!“ „Óvin, sem hefur móðgað mig svo herfilega, að milli okkar stendur bardagi um líf eða dauða. Má jeg nú treysta á liðveizlu yðar gegn þessum fjandmanni mínum?“ D'Artagnan skildi strax hvert stefndi. „Já, það megið þjer, kæra frú“, sagði hann. Öll mín geta og alt mitt líf stendur yður jafn fúslega til boða og ást mín“. „Nú-jæja“, sagði Mylady. „Fyrst að þjer eruð jafn drenglyndur og þjer eruð ástfanginn, þá — —“ „Þá hvað?“ spurði d'Artagnan. „Þá skuluð þjer ekki lengur halda, að yður sje neitt ómáttugt“. „Þjer gerið mig sælastan allra manna“, sagði d'Artagnan, fjell á knje og kysti hendur hennar. „Hefndu mín á mannfýlunni, Wardes greifa og að því búnu verður hægðarleikur að losast við þig klunninn þinn“, hugsaði Mylady með sjer. „Já komdu í faðm mjer eftir að þú ert búin að smána mig eins og þú hefur gert, undirförla eiturpaddan þín, og að því búnu skulum við draga dár að þjer, bæði jeg og maðurinn, sem þú ætlar mjer að vinna að fullu“, hugsaði d'Artagnan. „Jæja, jeg er reiðubúinn“, sagði d'Artagnan og leit upp til hennar. „Þjer hafið þá skilið mig kæri d'Artagnan“, sagði hún. „Jeg skil hvert einasta augnatillit yðar“. „Þjer ætlið þá að lána mjer armlegg yðar, sem þegar hefur unnið ýms frægðarverk?“ „Hvenær sem þjer viljið, kæra frú“. „En með hverju á jeg að launa yður slíkan greiða?“ sagði Mylady. „Jeg þekki þessa ástfangnu menn — þeir ætlast jafnan til endurgjalds, piltarnir“. „Þjer vitið hver mín innilegasta ósk er“, sagði hann, „og það eina, sem sæmir yður og mjer, er —“ Hann faðmaði hana að sjer og streittist hún lítið eitt á móti. „Þjer eruð afskaplega eigingjarn, herra góður“, sagði hún brosandi. „Já, það er vegna þess, að jeg get varla trúað því, að mjer hlotnist þessi sæla og verð því að fá hana áþreifanlega, því að annars óttast jeg, að hún hverfi eins og draumur“. „Nú-jæja! En þjer verðið að sýna yður maklegan þessarar sælu, sem þjer svo kallið“. „Jeg er reiðubúinn, segi jeg enn og aftur“. „Má jeg þá hiklaust reiða mig á yður?“ spurði Mylady. „Nefnið mjer þann ódreng, sem komið hefur út á yður tárunum“. „Hver dirfist að segja, að jeg hafi tárast?“ spurði hún. „Mjer sýnist ekki betur, en — —“ „Slíkar konur sem jeg tárast aldrei“, sagði Mylady. „Jæja, gott er það — en segið mjer nafn hans“. „Þjer verðið að gæta að því, að í nafni hans er alt mitt leyndarmál innifalið“. „Það er engu að síður óhjákvæmilegt, að þjer segið mjer það“. „Já, víst er svo, en þarna sjáið þjer, hve vel jeg treysti yður“. „Það gleður mig ósegjanlega. Hvað heitir hann?“ „Þjer þekkið hann sjálfur“. „Getur það verið?“ „Já, víst þekkið þjer hann“. „Jeg vænti þá að það sje ekki einhver vinur minn?“ spurði d'Artagnan hikandi, til þess að leyna því enn betur, að hann vissi um hvern var að tefla. „Þjer ætlið þá að renna, ef það er einhver vinur yðar“, sagði hún með leiftrandi augum. „Nei, sei-sei — nei! Ekki þó að það væri minn eigin bróðir“. D'Artagnan var óhætt að segja þetta — hann vissi hver maðurinn var. „Mjer þykir líka vænt um þessa hjálpfýsi yðar“, sagði Mylady. „Þykir yður þá ekki vænt um neitt annað mjer viðkomandi?“ spurði d'Artagnan. „Mjer þykir vænt um yður sjálfan“, sagði hún og og tók um hönd hans. „Þjer elskið mig — þjer elskið mig!“ sagði d'Artagnan og titraði allur. „Jeg held að jeg gengi af vitinu ef jeg vissi, að svo væri“. „Hann faðmaði hana að sjer aftur og hún reyndi ekki að verjast kossum hans, en varir hennar voru ískaldar og fanst d'Artagnan það líktist því sem hann væri að kyssa marmarastyttu. Þrátt fyrir það var hann frá sjer numinn af fögnuði, ær og örvita af ástarofsa. Hann var næstum farinn að halda, að Wardes greifi væri illmenni og mundi hafa gengið næst lífi hans, eða jafnvel drepið hann, hefði hann verið þar nær staddur. Nú greip Mylady tækifærið. „Hann heitir — —“ sagði hún. „Hann heitir Wardes greifi — jeg veit það“, sagði d'Artagnan. „Hvernig stendur á því?“ spurði Mylady, tók um hendur hans og horfði í augu honum. Nú skildist d'Artagnan, að hann hafði hlaupið á sig og gert ótrúlegt axarskaft. „Nú-nú, áfram með það. Af hverju vitið þjer það?“ spurði hún. „Af hverju jeg veit það?“ „Já“. „Jeg veit það af því að jeg var í samkvæmi í gær ásamt Wardes greifa og þá var hann að sýna mjer hring, sem hann sagði, að þjer hefðuð gefið sjer“. „En sú mannfýla!“ æpti Mylady. „Nú-jæja. Jeg skal hefna yðar á þessari mannfýlu,“ sagði d'Artagnan. „Þakka yður fyrir, hugprúði vinur“, sagði hún. „Hvenær ætlið þjer að hefna mín?“ „Á morgun, eða núna undir eins, ef þjer viljið það heldur“. „Núna undir eins“, var næstum komið fram á varirnar á henni, en þá datt henni í hug, að best væri að fara gætilega og að hún yrði að leggja á ráðin, svo að d'Artagnan gerði sig ekki sekan í neinu frumhlaupi eða slægist upp á greifann í votta viðurvist. En d'Artagnan var fyrri til og sagði: „Á morgun skal yðar hefnt, eða jeg skal dauður liggja“. „Nei, þjer eigið að hefna mín, en ekki falla sjálfur“, sagði hún. „Annars er hann mesta ragmenni“. „Má vera gagnvart konum, en ekki gagnvart karlmönnum. Það má jeg bezt vita“. „Þjer þurfið samt ekki að kvarta undan því, að hamingjan væri yður ekki hliðholl seinast þegar þjer áttuð vopnaviðskifti“. „Hamingjan er næsta hverflynd. Hún brosir við manni annan daginn en snýr svo bakinu við manni hinn daginn“. „Þjer hafið þá með öðrum orðum enga löngun til að berjast við hann?“ „Jú, jeg hef fulla löngun til þess. En finst yður það sanngjarnt að stofna mjer í lífshættu án þess að unna mjer annars en veikrar vonar?“ „Nú, er það svo að skilja? Jeg er að segja yður, að þjer megið eiga ást mína visa“. „Já, en ef jeg fæ ekkert tækifæri til að auðsýna yður ást mína? Ef enginn morgundagur rennur upp fyrir hana?“ „Þei-þei! Jeg heyri að mágur minn er að koma. Það er óþarfi að hann hitti yður hjerna“. Hún hringdi og Ketty kom inn til þeirra. „Þjer skuluð fara þessa leið“, sagði hún og ýtti honum að leynidyrum nokkrum, „Og komið svo aftur klukkan ellefu. Ketty vísar yður inn til mín og þá getum við talað betur um þetta. Ketty vesalingur ætlaði að hníga niður, þegar hún heyrði þetta. „Núnú! Því stendurðu þarna eins og þvara? Fylgdu herra d'Artagnan til dyra og vertu viðbúin klukkan ellefu. Skilurðu það?“ „Það virðist vera hennar uppáhaldstími til stefnumóta eða komið upp í vana fyrir henni“, hugsaði d'Artagnan. Mylady rjetti honum höndina að skilnaði og þrýsti hann vörum sínum að henni. Ketty bar sig aumlega og brá honum um ótrygð hans, en hann svaraði henni varla einu orði. „Jæja“, sagði hann. „Við skulum nú ekki vera að neinni vitleysu. Hún er kvennmaður — það er alt og sumt — og við skulum gæta að okkur.“ VII. Leyndarmálið. D'Artagnan fór ekki upp til Ketty þó að hún sárbæði hann um það, heldur gekk út og það af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi slapp hann þá við frekari álasanir, ávítur, grát og harmatölur og í öðru lagi fanst honum hann þurfa að vera einn til þess að rannsaka sjálfan sig og reyna að gera sjer grein fyrir hugsunum Mylady. Það eitt var víst, að hann var sjónvitlaus eftir henni og hitt eins, að hún virti hann vettugi. Honum kom það allrasnöggvast til hugar, að langrjettast væri að fara heim og skrifa Mylady, kannast við, að hann og Wardes greifi hefði verið ein og sama persóna seinustu dagana og þess vegna gæti hann ekki tekist á hendur að fyrirkoma greifanum nema með því að drýgja sjálfsmorð. En svo brann líka hefndargirnin í honum og hann vildi komast yfir þessa konu undir sínu eigin nafni. Þessi hefnd var honum svo mikið áhugamál, að honum var það fyrir öllu að koma henni fram. Hann gekk nokkrum sinnum yfir Place Royale og var alt af að gæta að, hvort að ljós loguðu enn í herbergjum frúarinnar. Var hún auðsjáanlega ekki eins ólm nú og í fyrra skiftið að ganga til svefnherbergis síns. Loksins voru ljósin slökt og með þeim hurfu allar efasemdir d'Artagnans. Hann hljóp upp í herbergi Ketty, brennandi af ástarlöngun. Ketty stóð þar náföl og skjálfandi og reyndi að aftra honum. En Mylady hafði heyrt þegar hann ruddist inn og opnaði dyrnar. „Komið þjer!“ sagði hún. D'Artagnan sjálfum þótti nóg um þessa taumlausu frekju. Honum fanst þetta eins og eitthvert æfintýri, sem ekki gæti neinn mann hent nema í draumi. Samt skundaði hann inn til Mylady, því að hún seiddi hann til sín eins og segulsteinninn járnið. Dyrunum var nú lokað. Ketty þaut að hurðinni. Afbrýðissemi, örvænting og skapraun, allar þær ástríður, sem hrjá og herja hjarta hverrar ástsjúkrar konu — alt þetta var henni hvöt til þess að koma öllu upp. En henni var glötunin vís ef hún færi nú að játa það, að hún hefði hjálpað til við þessar blekkingar og auk þess mundi hún algerlega missa af d'Artagnan. Sú tilhugsun knúði hana til að standast þessa síðustu raun. Nú var sú stund komin, að vonir d'Artagnans skyldu rætast og nú átti hann að hljóta umbun ástar sinnar, ekki í dulargerfi sambiðils síns, heldur vegna sín sjálfs. Og samt fann hann það með sjálfum sjer, að hann var ekki annað en verkfæri í hendi hefnigjarnrar konu og að hún ljet honum ást sína í tje einungis í þeim tilgangi, að láta hann bera banaorð af öðrum manni. En mikillæti hans og eigingirni var þessari tilfinningu yfirsterkari. Auk þess hafði hann allmikinn sjálfsþótta til að bera og þegar hann bar sig saman við Wardes greifa, þá lagði hann þá spurningu fyrir sjálfan sig, hvort að hann d'Artagnan sjálfur, gæti ekki einnig náð ástum konu fyrir eigin verðleika. Hann gaf sig því algerlega á vald þessari augnabliks nautn og var ekkert að hugsa um það, að Mylady væri bæði viðsjál og vjelráð og að honum hefði ofboðið fals og fláræði hennar. Þennan svipinn var hún honum ekki annað en eldheit og ofsafengin lags kona, sem ekki virtist stjórnast af öðru en tilfinningum sínum og ástríðum. Og svo leið tíminn í algleymi og ástarvímu. — — En loksins rankaði Mylady við sjer og spurði hinn unga mann, hvort hann væri búinn að ráða það við sig, hvernig hann ætlaði að koma því fyrir daginn eftir, að Wardes skoraði hann á hólm. En d'Artagnan var nú í alt öðrum hugsunum. Hann gleymdi sjer alveg og svaraði blátt áfram, að það væri orðið heldur framorðið til þess að vera nú að hugsa um einvígi og sverðalög. Mylady kunni illa þessu kæruleysi um það málefni, sem henni lá þyngst á hjarta og gekk því fastar á d'Artagnan. Hann hafði alls ekki hugsað um þetta einvígi af neinni alvöru og reyndi nú að víkja talinu að öðru, en Mylady var ósveigjanleg og hjelt sjer fast við efnið. D'Artagnan sagði að þetta væri ókristilegt og rjeði henni til að hætta við þetta blóðuga áform sitt og fyrirgefa Wardes greifa, en hún rauk upp eins og naðra undir eins og hann fór að minnast á nokkur friðmæli. „Þjer eruð víst hálfsmeikur, d'Artagnan góður“, spurði hún háðslega. „Ekki skuluð þjer halda það, ástin mín!“ svaraði d'Artagnan, „en segjum nú svo, að Wardes greifi sje ekki eins sekur og þjer haldið“. „Hann hefur dregið mig á tálar og verðskuldar því dauðann“, sagði Mylady með áherzlu. „Hann skal líka deyja fyrst að þjer hafið dæmt hann til þess“, sagði d'Artagnan svo einlæglega, að Mylady þóttist nú sannfærð um hollustu hans og auðsveipni. Það var nú farið að lýsa af degi og fór d'Artagnan að búast til farar, en hún minti hann enn einu sinni á loforð hans. „Jeg er reiðubúinn“, sagði d'Artagnan, „en samt vildi jeg vita vissu mína um eitt áður“. „Hvað er það?“ spurði Mylady. „Hvort þjer elskið mig“. „Eins og jeg sje ekki búin að sýna yður það!“ „Jú, og jeg er líka yðar með lífi og sál“. „Kærar þakkir, ótrauði elskhugi minn. Og nú ætlið þjer að sannfæra mig um ást yðar, eins og jeg hef sannfært yður um mína. Er ekki svo?“ „Jú vissulega. En ef þjer elskið mig eins heitt og þjer látið — eruð þjer þá alveg kvíðalaus um það, hvernig mjer reiði af?“ „Hverju ætti jeg að kvíða?“ „Nú-já! Til dæmis því, að jeg kynni að særast hættulega eða jafnvel falla“. „Það er engin hætta á því. Þjer eruð hraustleika maður og vanur skylmingum“. „Þjer munduð þá ekki kjósa þann kost heldur, að koma fram hefnd yðar án þess að til einvígis þurfi að koma?“ Mylady horfði þegjandi á hann og fölgrá morgunskíman brá undarlegum og einkennilegum blæ á augu hennar. „Jeg held vissulega, að þjer sjeuð eitthvað hikandi“, sagði hún með sömu kaldhæðninni og áður. „Nei, jeg er ekkert kvíðandi“ svaraði hann. „En mjer þykir þetta leitt vegna Wardes greifa, fyrst þjer elskið hann ekki lengur og mjer finst líka, að honum sje fullhegnt með því, að hafa brotið af sjer hylli yðar“. „Hver er kominn til að segja, að jeg hafi elskað hann?“ spurði Mylady. „Jeg geri mjer að minsta kosti von um, að þjer elskið nú annan mann“, sagði d'Artagnan ofur ísmeygilega. „Og það er eins og jeg sagði — mjer leiðist það greifans vegna“. „Leiðist yður?“ spurði Mylady. „Já, mjer“. „Og hvers vegna leiðist yður það hans vegna?“ „Af því að jeg veit — —“ „Hvað vitið þjer?“ „Jeg veit, að hann er ekki líkt því eins brotlegur við yður og virðast mætti“. „Ja, hvað er að tarna?“ sagði Mylady og brá sjer hvergi. „Þjer verðið að skýra þetta betur, því að jeg hef enga hugmynd um, hvað þjer eigið við“. „Jú“, sagði d'Artagnan og var alráðinn í að gera einhvern enda á þessu — „fyrst að þjer elskið mig og jeg má vera fullviss um ást yðar — því að það er áreiðanlegt, eða hvað?“ „Já, jeg elska yður. Haldið þjer áfram“. „Nú-jæja — þá þarf jeg að gera játningu“. „Gera játningu?“ „Jeg mundi aldrei hafa þorað að stynja henni upp, ef jeg hefði efast um ást yðar. En þjer elskið mig, ljúfan mín ljúf — þjer elskið mig — er það ekki áreiðanlegt?“ „Ja jújú!“ „Og þess vegna fyrirgefið þjer mjer, þó að jeg hafi gerst brotlegur við yður af ofurmagni ástar minnar. Þjer fyrirgefið mjer — ætlið þjer ekki að gera það?“ „Getur verið“. D'Artagnan brosti og reyndi að komast að vörum hennar, en hún vjek sjer undan. „Hver er þessi játning?“ spurði hún og brá litum. „Jeg vil fá að heyra hana“. „Þjer áttuð stefnumót við Wardes greifa í þessu herbergi á fimtudaginn er var. Var það ekki?“ „Jeg — nei alls ekki!“ sagði hún svo rólega og ákveðið, að d'Artagnan hefði jafnvel getað efast um þetta sjálfur, hefði hann ekki haft óræk gögn í höndum. „Verið þjer nú ekki að þessu, ástin mín“, sagði hann brosandi. „Það er ekki til neins að neita því“. „Hvað er þetta? Haldið þjer áfram, maður! Þetta gengur alveg fram af mjer“. „Verið þjer róleg, elskan mín! Þjer hafið ekkert misgert við mig og annars er jeg löngu búinn að fyrirgefa yður“. „Áfram, áfram!“ „Og Wardes greifi þarf ekki að hrósa sjer af neinu“. „Hvað eigið þjer við? Þjer sögðuð sjálfur, að þjer hefðuð sjeð hringinn — —“ „Hringinn, yndið mitt! Það er jeg, sem hef hringinn! Wardes greifi á fimtudaginn og d'Artagnan í dag er einn og sami maðurinn!“ Í einfeldni sinni bjóst d'Artagnan við, að hún mundi láta undrun sína í ljósi og jafnframt blygðast sín — ávíta sig harðlega og gráta beisklega, en þar skjátlaðist honum hraparlega og það leið heldur ekki á löngu, að hann kæmist að raun um það. Mylady þaut upp náföl og ægileg á að líta. Hún hrinti d'Artagnan harkalega frá sjer og stökk fram úr rúminu. D'Artagnan þreif í náttkjól hennar og reyndi að halda henni aftur til þess að biðja hana fyrirgefningar, en hún brá við hart og reyndi að komast undan. Í þessum sviftingum rifnaði náttkjólinn, svo að önnur öxl hennar varð ber og sá d'Artagnan þar, sjer til mikillar skelfingar, liljumarkið, hið óafmáanlega brennimark, sem böðullinn hafði þrýst á hið hvíta hörund. „Hamingjan góða!“ hrópaði d'Artagnan og slepti takinu. Lá hann svo steinþegjandi og gat sig hvergi hreyft. En eingöngu af því, hversu d'Artagnan brá, vissi Mylady nú að komist hafði upp um sig. Hann hafði eflaust sjeð, hvers kyns var — hann vissi nú leyndarmál hennar — þetta hræðilega leyndarmál, sem öllum var hulið nema henni. Hún snerist í mót honum, ekki eins og sárreiður kvennmaður, heldur eins og óarga dýr. „Þrælmenni!“ sagði hún. „Þjer hafið svikist að mjer og hafið nú komist að leyndarmáli mínu. Vissulega skal það kosta líf yðar!“ Hún hljóp að náttborðinu, opnaði skrín eitt og tók þar upp lítinn rýting, gullskeftan og oddhvassan. Stökk hún svo á d'Artagnan með rýtinginn á lofti. D'Artagnan var enginn hugleysingi, en samt ógnaði honum þetta afmyndaða andlit, þessi grimdarlegu augu og þessar nábleiku kinnar. Hann færði sig nær þilinu, eins og hann mundi hafa gert, ef eiturslanga hefði hvæst að honum, en um leið gat hann þó rjett út höndina, og náð í sverð sitt. Mylady ljet sig það engu skifta og reyndi að leggja rýtingnum til hans og ekki hætti hún fyrri en hún fann kaldan sverðsoddinn nema við beru brjóstinu. Þá reyndi hún að grípa um sverðið, en d'Artagnan beindi því frá höndum hennar og ljet það leiftra fyrir augum hennar, en um leið gat hann mjakað sjer fram úr rúminu og freistaði nú að komast að dyrunum hjá Ketty. Mylady sótti að honum í ofsabræði og hrein og orgaði eins og særð skepna. Þetta fór að líkjast nokkurs konar einvígi og áttaði d'Artagnsn sig þá brátt. „Jæja, góða mín! Svona — svona!“ sagði hann. „Stillið þjer yður nú ofurlítið — annars gæti farið svo, að jeg risti rauðar liljur á kinnarnar yður.“ „Níðingur og þrælmenni!“ öskraði Mylady. Það varð allmikill skarkali af viðureign þeirra. Mylady sótti svo ákaflega að d'Artagnan að hún velti um nokkrum stólum og hann skauzt bak við borð og bekki til að verjast. Við þennan hávaða vaknaði Ketty og opnaði dyrnar, en d'Artagnan tók þá undir sig stökk og komst inn í herbergi hennar. Skelti hann þegar hurðinni aftur, læsti henni og stóð fyrir henni og Mylady reyndi að hrinda henni upp, en vann ekki á. Varð hún þá svo hamslaus, að hún keyrði rýtinginn í hurðina hvað eftir annað og það af slíku afli, að oddurinn smaug nokkrum sinnum gegnum hana, en bölv og formælingar streymdu af vörum hennar við hvert högg. „Flýttu þjer, Ketty, flýttu þjer!“ sagði d'Artagnan hljóðlega. „Hleyptu mjer út áður en hún getur vakið þjónana og látið þá vinna á mjer.“ „En þjer getið ekki farið, svona útlítandi“, sagði Ketty. „Þjer eruð hálf nakinn!“ „Það er alveg satt“, sagði d'Artagnan og tók nú fyrst eftir því, að hann var fremur fáklæddur. „Jæja, fáðu mjer þá einhverjar spjarir, en vertu fljót að því. Þú sjerð, að jeg á lífið að leysa“. Ketty sá það vel. Hún færði hann í skræpóttan kvennmannskjól í hendingskasti, batt á hann kollhettu og fleygði yfir hann stórum herðaklút, en fjekk honum gólfskó á fæturna. Að svo búnu ýtti hún honum ofan stigann. Það mátti heldur ekki seinna vera. Mylady var búin að hringja og vekja alla í húsinu, og um leið og d'Artagnan skrapp út úr dyrunum, opnaði hún glugga og kallaði til dyravarðarins: „Opnaðu ekki!“ VIII. Athos fær farareyri með hægu móti. D'Artagnan flýði sem fætur toguðu, en Mylady reiddi hnefann á eftir honum og fjell svo í öngvit um leið og hún misti sjónar á honum. Hann var svo ringlaður, að hann hugsaði ekkert um Ketty, en hljóp og hljóp götu eftir götu þangað til hann staðnæmdist við dyrnar hjá Athos. Á eftir honum dröttuðu nokkrir næturslarkarar og einn eða tveir næturverðir með stírurnar í augunum, en d'Artagnan þaut upp stigann og lamdi á dyrnar hjá Athos eins og hann ætlaði að mölva hurðina. Grimaud kom hálfsofandi og opnaði dyrnar, en d'Artagnan ruddist inn með slíkum ákafa, að hann var næstum búinn að velta honum um koll. Grimaud var þögull hversdagslega, eins og áður er sagt, en nú gat hann ekki orða bundist. „Þarna þú“, æpti hann. „Hvaða erindi áttu hingað, gálan þín? Farðu burt, stelpuskratti!“ D'Artagnan reif af sjer kollhettuna og fletti frá sjer kjólnum og þegar Grimaud sá yfirskeggið og sverðið við hlið hans, skildist honum að þetta mundi engin „stelpa“ vera. En þá datt honum í hug, að þetta kynni að vera flugumaður og illvirki. „Hjálp!“ æpti hann. „Morð! Hjálp! Takið morðingjann!“ „Haltu kjafti, asninn þinn!“ sagði d'Artagnan. „Þekkirðu mig ekki? Hvar er húsbóndi þinn?“ „Eruð það þjer, herra d'Artagnan?“ spurði Grimaud. „Nei, það getur ekki verið. Það eruð ekki þjer!“ „Grimaud!“ sagði Athos og kom fram í dyrnar í slopp sínum. „Jeg heyri ekki betur, en að þú sjert að leyfa þjer að tala!“ „Fyrirgefið, herra! En það var af því að — —“ „Þegiðu!“ Grimaud ljet sjer nægja að benda á d'Artagnan. Athos kannaðist við fjelaga sinn, en þó að hann væri geðstillingarmaður, gat hann samt ekki að sjer gert að skellihlæja þegar hann sá þessa skepnu skaparans í rifnum kjól og með úfið yfirskegg, sem reis eins og veiðihár á ketti. „Vertu ekki að hlægja, vinur minn!“ sagði d'Artagnan. „Vertu ekki að hlægja, í öllum guðanna bænum! Jeg get lagt eið út á það, að þetta er ekkert hlátursefni“. „Þú ert þó ekki særður, vænti jeg kæri vin?“ spurði Athos alláhyggjufullur. „Að minsta kosti ertu náfölur“. „Nei, en jeg hef sannarlega komist í hann krappan. Ertu einn heima, Athos?“ „Hvað heldurðu, maður? Hver ætti svo sem að vera hjer um þetta leyti dags?“ „Jæja, það er gott!“ sagði d'Artagnan og þaut inn í svefnherbergi Athos. „Nú geturðu talað“, sagði Athos og læsti hurðinni til þess að þeir yrðu ekki ónáðaðir. „Er kóngurinn dauður, eða hefurðu drepið kardínálann? Þú ert ekki með öllum mjalla. Jæja, segðu nú frá — jeg er orðinn hálf órólegur“. „Athos“, sagði d'Artagnan og reif af sjer kvennbúninginn, og stóð þá í nærfötunum einum. „Þú skalt fá að heyra ótrúlega og óheyrða sögu“. „Farðu nú fyrst í þennan slopp“, sagði Athos. D'Artagnan tók við sloppnum og var svo ringlaður, að hann fór í skakka ermi. „Jæja-þá!“ sagði Athos. „Heyrðu“, hvíslaði d'Artagnan. „Mylady er brennimerkt á öxlinni!“ „Ó!“ stundi Athos, eins og hann hefi veri stunginn í hjartað. „Ertu viss um, að hin sje dauð?“ spurði d'Artagnan. „Hvaða hin?“ spurði Athos svo lágt, að d'Artagnan heyrði varla til hans. „Jú, hún sem þú varst að segja mér frá í Amiens“. Athos stundi þungt og huldi andlitið í höndum sjer. „Þessi kona er tuttugu og sex eða átta ára á að gizka“, sagði d'Artagnan. „Er hún ljóshærð?“ spurði Athos. „Jú, hún er ljóshærð“. „Með blátindrandi augu og svartar augabrýr og augnahár?“ „Já, það stendur heima“. „Há og vel vaxin og vantar eina tönn við hliðina á vinstri augnatönninni?“ „Já, alveg rjett“. Liljan er lítil, blóðrauð á lit og ekki vel greinileg, af því að yfir henni er þykt lag af smyrslum og hársalla“. „En þú segir, að hún sje ensk?“ „Hún er kölluð Mylady, en hún er vafalaust frönsk. Winter lávarður er líka aðeins mágur hennar“. „Jeg vil fá að sjá hana, d'Artagnan!“ „Varaðu þig á því, Athos. Gættu þín vel! Þú ætlaðir að svifta hana lífi og henni er trúandi til að borga þjer í sömu mynt og láta sjer ekki mistakast“. „Hún þorir ekkert að segja, því að þá kæmi hún upp um sjálfa sig“. „Hún vílar ekkert fyrir sjer. Hefurðu aldrei sjeð hana hamslausa af reiði?“ „Nei“, svaraði Athos. „Hún er þá líkust einhverju óargadýri. Æ, kæri Athos! Jeg er hræddur um, að jeg hafi búið okkur báðum hræðilega hefnd“. Og svo sagði d'Artagnan honum upp alla sögu frá upphafi til enda. „Þú hefur rjett fyrir þjer og jeg held, að líf okkar beggja sje ekki á marga fiska“, sagði Athos að sögunni lokinni. „En til allrar hamingju förum við burt úr París eftir einn eða tvo daga. Við förum til La Rochelle að öllum líkindum og þegar við á annað borð erum farnir — —“ „Hún mun ofsækja þig og elta til enda veraldar, ef hún sjer þig aftur, kæri Athos. Við skulum því láta hatur hennar bitna á mjer einum“. „Nei, það skal aldrei verða“, sagði Athos. Hverju skiftir það líka, þó að hún verði mjer að aldurtila? Heldurðu kannske, að mjer sje svo sárt um líf mitt?“ „Það býr eitthvert voðalegt leyndarmál undir þessu öllu saman. Jeg er sannfærður um, að þessi kona er ein af njósnarmönnum kardínálans“. „Þá skaltu gæta þín vel, ef svo er. Kardínálinn hatar þig, síðan þú fórst Englandsförina, svo að þú mátt vara þig, þó að hann þori ekki að bera sakir á þig opinberlega. Vertu ekki einn á gangi og gættu vel að því, sem þú leggur þjer til munns. Grunaðu alla — jafnvel þinn eigin skugga!“ „Sem betur fer verður þetta ekki nema fáeina daga“, sagði d'Artagnan, „og við höfum vonandi ekki annað en karlmenn að óttast, þegar leiðangurinn er hafinn“. „Og jeg ætla nú að hætta við það, að byrgja mig hjer inni“, sagði Athos. „Þú verður að snúa aftur heim til þín og jeg kem með þjer“. „En jeg get samt ekki farið svona til reika“, sagði d'Artagnan, „þó að leiðin sé ekki löng“. „Nei, það er satt“, sagði Athos og hringdi bjöllunni og kom Grimaud þá inn til þeirra. Athos benti honum, að hann skyldi fara heim til d'Artagnans og sækja föt handa honum. Grimaud hneigði sig þegjandi og fór. „Þá er það búið, en samt sem áður munar útbúnaði okkar ekkert áfram, kæri vin“, sagði Athos. „Þú hefur víst skilið allar pjönkur þínar eftir hjá Mylady, ef mig grunar rjett og hún fer varla að gera þjer þann greiða, að senda þjer þær aftur. Vonandi hefurðu þó hringinn?“ „Hringinn átt þú, kæri Athos. Þú sagðir, að hann væri ættargripur“. „Já, hann kostaði tvö þúsund dali og móðir mín fjekk hann í brúðargjöf. Hann er aðdáanlegur og móðir mína gaf mjer hann, en jeg gaf hann aftur þessu kvennflagði í staðinn fyrir að geyma hann eins og helgan dóm“. „Þá skaltu taka víð honum aftur, því að jeg þykist vita, að hann muni vera þjer dýrmætur“. „Heldurðu að jeg fari að taka við honum aftur, þegar hann er búinn að vera á fingrinum á þessari skepnu? Nei, það skal aldrei verða. Hringurinn er saurgaður, skal jeg segja þjer!“ „Seldu hann þá“. „Selja dýrgrip sem móðir mín hefur átt! Jeg mundi telja það vanhelgun“. „Settu hann þá að veði. Þú getur fengið þúsund dali út á hann að minsta kosti og sú upphæð nægir þjer til allra þinna þarfa. Þú getur svo losað hann úr veðböndum þegar þú færð peninga aftur og þá verður hann sjálfsagt orðinn hreinn af allri saurgun eftir að hafa verið í höndum okrara og fjárplógsmanna!“ „Þú ert ágætis fjelagi“, sagði Athos brosandi „og þeim til huggunar með ljettlyndi þínu, sem sjúkir og sorgmæddir eru. Jæja-nú! Við setjum þá hringinn að veði, en þó með einu skilyrði“. „Og hvað er það?“ „Að þú fáir fimm hundruð og jeg fimm hundruð“. „En jeg þarf ekki fjórða partinn ef þeirri upphæð, Athos minn. Jeg þarf ekki annað en að selja reiðtýgin mín til þess að fullnægja öllum mínum þörfum, enda þarf jeg ekki annað en hest handa Planchets — það er alt og sumt. En svo gleymirðu líka, að jeg á sjálfur hring“. „Sem þjer er enn dýrmætari en mjer er minn hringur — eða svo hefur mjer skilist að minsta kosti“. „Já, því að hann getur bjargað mjer úr kröggum, ef í nauðirnar rekur og jafnvel úr lífshættu, ef svo ber undir. Það er ekki að eins dýrmætur demants hringur, heldur verndargripur þar á ofan“. „Jeg skil þetta ekki rjett vel, en skal gjarnan trúa því. Við skulum þá tala betur um minn hring, eða þinn, rjettara sagt. Annaðhvort tekurðu helminginn af því, sem við fáum fyrir hann, eða að jeg fleigi honum í Seinefljótið — og jeg efast um, að það fari þá með hann eins og hring Polykratesar, að hann finnist aftur í fiskmaga“. „Jæja, jeg geng þá að því“, sagði d'Artagnan. Grimaud kom nú aftur og Planchet með honum. Var Planchet orðinn hræddur um húsbónda sinn og ljek nú forvitni á að vita, hvað komið hefði fyrir hann. Greip hann því tækifærið til að fara með fötin sjálfur. D'Artagnan klæddi sig nú og sama gerði Athos. Þegar þeir voru alklæddir og bjuggust að ganga út, benti Athos Grimaud og ljet eins og hann miðaði á hann byssu. Grimaud skildi það undir eins, tók byssu sína af þilinu og bjóst að fylgja húsbónda sínum eftir. Þeir komust í Fossoyeurs-götuna án þess neitt bæri til tiðinda. Bonacieux stóð í húsdyrunum og glotti einkennilega, þegar hann sá d'Artagnan. „Flýtið þjer yður, leigjandi góður“, sagði hann. „Uppi hjá yður situr gullfalleg stúlka og bíður yðar og stúlkunum leiðist biðin, eins og þjer vitið“. „Það er víst Ketty“, sagði d'Artagnan og hljóp upp. Þar hitti hann Ketty, sem stóð við dyrnar nötrandi og skjálfandi. Setti að henni grát undir eins og hún kom auga á d'Artagnan. „Þjer hjetuð mjer að vernda mig og skjóta mjer undan reiði hennar“, sagði hún. „Þjer verðið líka að minnast þess, að jeg á alla mína ógæfu upp á yður“. „Vertu ókvíðin, Ketty mín“ sagði d'Artagnan. „En segðu mjer, hvað til bar, eftir að jeg var farinn“. „Hvað ætli jeg viti það!“ svaraði Ketty. „Hún æpti og öskraði þangað til að þjónarnir komu og var þá alveg hamstola af reiði. Það voru óþvegin orð, sem hún valdi yður, herra d'Artagnan. Mjer kom þá til hugar, að hún mundi sjálfsagt átta sig á því, að þjer höfðuð ruðst inn til hennar gegnum mitt herbergi og að hana hlyti því að gruna, að jeg hefði verið í verki með yður. Þess vegna tíndi jeg saman fót mín og peninga og hljóp á burt“. „Hvað get jeg gert fyrir þig vesalingur? Jeg fer burt eftir einn eða tvo daga“. „Gerið þjer við mig, hvað sem yður sýnist. Látið mig fara burt úr París, eða af landi burt, ef yður svo líkar“. „Jeg get þó ekki haft yður með í herbúðirnar við La Rochelle“, sagði d'Artagnan. „Nei, en þjer getið kannske komið mjer fyrir upp í sveit hjá einhverri konu, sem þjer þekkið þar, til dæmis hjá foreldrum yðar? „Ja-neinei, góða mín. Konurnar þar hafa engar herbergisþernur, en bíddu við — nú veit jeg, hvað jeg get gert fyrir þig. Planchet, farðu og beiddu Aramis að finna mig strax. Jeg þarf nauðsynlega að tala við hann“. „Jú, nú skil jeg“, sagði Athos. „En því ekki Porthos? Mjer finst að hertogafrúin hans — —“ „Nei, hertogafrúin hans lætur skrifara bónda síns þjóna sjer til sængur“, svaraði d'Artagnan hlægjandi. „Annars vill Ketty líklega síður eiga heima í Bjarnargötu. Er ekki svo Ketty?“ „Mjer er sama hvar jeg er“, svaraði Ketty, „bara að jeg geti verið á laun og hún viti ekki, hvað orðið er um mig“. „Jæja Ketty mín! Við verðum nú að skilja og þú þarft nú ekki að vera afbrýðissöm lengur“. „Jeg mun alt af elska yður jafnheitt, hvort sem jeg er nærri yður eða fjærri“, sagði Ketty. Oft er dygð undir dökkum hárum og trygðin fer ekki í manngreinarálit“, tautaði Athos. „Jeg mun sömuleiðis ávalt elska þig“, sagði d'Artagnan. „Þú mátt reiða þig á það. En bíðum nú við, segðu mjer eitt — mjer er áríðandi að fá að vita það: Hefurðu heyrt nokkuð talað um unga konu, sem var numin burt um nótt fyrir nokkru?“ „Við skulum sjá — — æ, hamingan góða, herra d'Artagnan! Elskið þjer þá konu líka?“ Nei, það er einn vinur minn sem elskar hana. Það er hann Athos — maðurinn sem stendur þarna“. „Jeg“, hrópaði Athos og hrökk við, eins og hann hefði stígið á glóandi járn. „Já, víst er það þú!“ sagði d'Artagnan og hnipti í hann. Þú veizt bezt, hvað við erum áhyggjufullir út af henni frú Bonacieux og Ketty fer ekki að koma upp um okkur. Jeg skal segja þjer, Ketty mín — hún er kona þessa durgs, sem þú sást niðri í portinu. „Nei hvað er að tarna!“ sagði Ketty. „En þjer minnið mig á nokkuð — bara að hann hafi ekki þekt mig !“ „Þekt þig? Hefurðu þá sjeð þennan mann áður?“ „Hann hefur komið nokkrum sinnum til Mylady“. „Eimmitt það! Hvenær til dæmis?“ „Það er hjerumbil hálfur mánuður síðan“. „Núnú?“ „Og svo kom hann líka í gærkvöldi“. „Í gærkvöldi?“ „Já litlu áður en þjer komuð“. „Heyrðu Athos! Við erum umkringdir af njósnurum á allar hliðar! Heldurðu að hann hafi þekt þig aftur, Ketty?“ „Jeg teigði húfuna ofan að augum þegar jeg varð vör við hann, en það hefur kannske verið um seinan“. „Skreptu ofan, Athos og gættu að, hvort hann stendur í dyrunum enn — hann grunar þig sízt“. Athos fór ofan og kom strax upp aftur. „Hann er farinn“, sagði hann. „Hann hefur farið að segja til okkar og að við sjeum hjer eins og mýs í gildru“. „Honum skal nú ekki verða að því“, sagði Athos. „Við skulum fara og skilja bara Planchet eftir til að láta okkur vita, hvað gerist“. „En við erum búnir að senda eftir Aramis!“ „Það er alveg satt! Við skulum bíða eftir honum!“ Í sama bili kom Aramis. Þeir sögðu honum alla málavöxtu og lögðu að honum, að útvega Ketty einhverstaðar verustað hjá kunningjum sínum. Aramis hugsaði sig stundar korn um, roðnaði og sagði: „Kæmi það þjer vel d'Artagnan?“ „Jeg mundi vera þjer þakklátur, alt mitt líf“, svaraði hann. „Nú-jæja! Frú de Bois-Tracy hefur beðið mig að útvega einni vinkonu sinni, sem á heima uppi í sveit að jeg held, áreiðanlega herbergisþernu. Og ef þú, d'Artagnan góður, vilt ábyrgjast þessa stúlku, þá — —“ „Þjer þurfið ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því, herra“, sagði Ketty. „Jeg mun reynast þeirri manneskju trú og trygg alt til dauðans, sem gefur mjer kost á að komast hjeðan úr París“. „Það er gott“, sagði Aramis, settist við borðið og skrifaði brjef, innsiglaði það með hring sínum og fjekk Ketty það. „Jæja, barnið gott“, sagði d'Artagnan. „Þú veizt að okkur er það báðum fyrir beztu að komast hjeðan og það sem fyrst. Við skulum því kveðjast og vona, að við sjáumst aftur þegar betur lætur“. „Já, og yður mun reynast jeg vera sama sinnis, hvar og hvenær sem við hittumst aftur“, sagði Ketty. „Jeg mun ávalt elska yður jafnheitt og jeg elska yður nú“. „Sverðu nú ekki af þjer“, tautaði Athos, en d'Artagnan fylgdi Ketty til dyra. Nokkru síðar skildust þeir fjelagar og komu sjer saman um að hittast aftur klukkan fjögur heima hjá Athos. Planchet varð eftir til að gæta hússins. Aramis gekk heim til sín, en Athos og d'Artagnan fóru á stúfana til þess að fá sjer peninga út á hringinn. Þeim veittist hægt að fá þrjú hundruð gulldali út á hann, eins og d'Artagnan hafði búist við. Gyðingurinn kvaðst auk þess fús til að láta þá fá fimm hundruð, ef þeir vildu selja honum hringinn, af því að hann samsvaraði tveimur eyrnahringum, sem hann hafði fyrirliggjandi, en þeir ljetu sjer næja að selja hann að veði fyrir þrem hundruðum. Þeir voru báðir vel kunnir kaupum á því, sem þá vanhagaði um og voru því tæpa þrjá tíma að útvega alt það, sem skyttuliði þurfti sjer til útbúnaðar. Annars var ofur auðvelt að eiga kaup við Athos, því að hann taldi það ósamboðið virðingu sinni að vera að þjarka um verð. Ef honum líkaði hluturinn, borgaði hann þegar tiltekið verð án þess að nefna nokkurn afslátt. D'Artagnan var stundum að malda eitthvað í móinn og brosti þá Athos að honum. Skildi d'Artagnan það svo, að sjer, fátækum aðalsmanni frá Gaskogne, væri það að vísu enginn virðingarhnekkir, þó að hann þjarkaði um verð fram og aftur, en að slíkt sæmdi ekki manni, sem bar sig jafn fyrirmannlega og Athos. Athos keypti sjer gullfallegan hest frá Andalússíu, kolsvartan, iðandi af fjöri og hlaupalegan mjög. Leit hann út fyrir að vera eitthvað sex vetra og gallalaus að sjá. Hann kostaði þúsund fránka og hefði ef til vill mátt fá hann eittkvað ódýrari, en meðan d'Artagnan var að semja um verðið tók Athos upp peninga sína og borgaði hið tiltekna verð. Grimaud fjekk hest hjá Ricardie, stóran og sterkan og kostaði hann þrjú hundruð fránka. En þegar búið var að kaupa reiðtýgi á þann hest og vopn handa Grimaud, var enginn eyrir afgangs af peningum Athos. D'Artagnan bauðst þá til að lána honum eitthvað af sínum peningum og gæti hann alt af borgað sjer það seinna, en Athos vildi ekki heyra það nefnt. „Hvað sagðist Gyðingurinn ætla að láta fyrir hringinn, ef hann fengi hann keyptan?“ spurði hann. „Fimm hundruð gulldali“. „Tvö hundruð gulldali í viðbót, með öðrum orðum — hundrað handa hvorum okkar. Þetta er stórfje, kæri vin! Flýttu þjer til hans aftur!“ „En þú ætlar þá ekki — —?“ „Jú, víst ætla jeg. Þessi hringur mundi bara verða mjer til angurs og ama og þar að auki höfum við líklega aldrei þrjú hundruð gulldali liggjandi í handraðanum til að leysa hann út aftur, svo að við færum þar bara á mis við tvö hundruð dali. Farðu d'Artagnan, og segðu honum, að hann geti fengið hringinn og komdu svo aftur með þessi tvö hundruð“. „Hugsaðu þig nú vel um, Athos!“ „Peningar eru vandfengnir nú á tímum og það verður eitthvað til þeirra að vinna. Vertu nú fljótur, d'Artagnan! Grimaud getur fylgt þjer með byssu sína“. Hálfum tíma síðar kom d'Artagnan aftur heilu og höldnu með tvö þúsund fránka. þannig komst Athos út úr þessu á þann hátt, sem honum hefði sízt til hugar komið. IX. Fyrirbrigði. Klukkan fjögur hittust þeir fjelagar allir heima hjá Athos. Þeir voru nú búnir að hugsa fyrir útbúnaði sínum og var þeim áhyggjum ljett af þeim og þeir hinir ánægðustu að öðru leyti en því, að sjerhver þeirra hafði sínar eigin áhyggjur, sem hann bar í brjósti sjer. Því að það er jafnan svo, að bak við hverja ánægjustund dylst einhver óró og kvíði fyrir því, sem framtíðin kunni að fela í skauti sjer. Í þessum svifum kom Planchet inn til þeirra með tvö brjef til d'Artagnans. Annað brjefið var lítið um sig og lakkað með grænu lakki, en á því sást dúfa með olíuviðargrein í nefinu. Hitt brjefið var stórt fyrirferðar og á því hið geigvænlega innsigli kardínálans. D'Artagnan fjekk hjartslátt þegar hann sá litla brjefið og fanst hann þekkja höndina á því. Að vísu hafði hann ekki sjeð hana nema einu sinni áður, en hún var honum vel minnistæð fyrir því. Braut hann því það brjef upp á undan hinu. Það hljóðaði svo: „Farið á veginn, sem liggur til Chaillot næsta miðvikudag klukkan milli sex og sjö síðdegis og gætið vel að vögnum þeim, sem þar fara um. En ef þjer metið nokkurs yðar eigið líf og þeirra, er unna yður, þá segið ekki nokkurt orð og látið ekkert á því bera, að þjer hafið sjeð og kannast við hana, sem alt vill vinna til að fá að sjá yður, þótt ekki sje nema tilsýndar og rjett í svip“. Brjefið var nafnlaust. „Þetta er einhver gildran“, sagði Athos. „Farðu ekki eitt fet, d'Artagnan“. „Mjer finst samt, að jeg þekki höndina“, sagði d'Artagnan. „Hún getur verið stæld“, svaraði Athos. „Á veginum milli Chaillot er ekki nokkur manneskja milli klukkan sex og sjö um þetta leyti árs, svo þeirra hluta vegna gætirðu alveg eins vel gengið út í einhvern eyðiskóg“. „En ef við færum þangað allir“, sagði d'Artagnan. „Við verðum þó líklega ekki gleyptir með húð og hári fjórir saman og með fjóra þjóna og hesta og alvæpni“. „Þá fengjum við líka tækifæri til að sýna okkur í öllum hertýgjum“, sagði Porthos. „En sje þetta kvennmaður, sem hefur skrifað brjefið“, sagði Aramis, „og vilji hún ekki láta aðra sjá sig, þá verðurðu að gæta að því, d'Artagnan, að þetta gerir henni hneisu og að slíkt sæmir ekki aðalsmanni“. „Við getum verið álengdar og látið hann fara á undan“, sagði Porthos. „Jú, en það er fljótgert að skjóta af skammbyssu, þó að vagninn sje á hraðri ferð“. „Hvaða ósköp — það skot hittir mig ekki“, sagði d'Artagnan. „Og þá ráðumst við á vagninn og gerum út af við þá, sem í honum eru og þá eru þeir fjandmenn úr sögunni“. „Alveg rjett“, svaraði Porthos. „Við þurfum líka að reyna vopnin okkar“. „Nú-jæja! Við skulum þá láta þetta eftir honum“, sagði Aramis blíðlega eins og hann var vanur. „Sem ykkur þóknast“, sagði Athos. „Herrar góðir!“ sagði d'Artagnan. „Klukkan er nú orðin hálf-fimm, svo okkur veitir ekki af tímanum, ef við eigum að komast á Chaillot-veginn klukkan sex“. „Og svo sæi enginn heldur til okkar ef við færum mikið seinna“, sagði Porthos, „og það væri leiðinlegt. Við skulum því hervæðast, herrar góðir“. „En þú gleymir hinu brjefinu sagði Athos, „og sýnist mjer þó innsiglið á því benda til þess, að það sje þess vert að opna það. Og hvað mig snertir kæri d'Artagnan, þá segi jeg það blátt áfram, að jeg álít það meira virði, en brjefmiðann sem þú stakst í barm þinn“. „Jæja“, sagði d'Artagnan og roðnaði. „Við skulum þá sjá, hvað hans Hágöfgi segir“. Hann braut brjefið upp og var það svohljóðandi: „Svo er til ætlast að herra d'Artagnan í lífvarðarliði des Essarts komi í höll kardínálans klukkan átta í kvöld. La Houdinieré, höfuðsmaður“. „Ja hver fjárinn“, sagði Athos. „Þetta er líka nokkurs konar stefnumót og öllu kvíðvænlegra en hitt“. „Jeg fer til þess, þegar jeg kem frá hinu“, sagði d'Artagnan. „Annað klukkan sex til sjö og hitt klukkan átta. Jeg get sótt þau bæði“. „Jeg færi ekki eitt fet, ef jeg væri í þínum sporum“, sagði Aramis. „Hæverskur riddari vanrækir ekki stefnumót við konu, en það láir enginn hygnum aðalsmanni, þó að hann fari ekki á fund kardínálans, einkum þegar hann hefur ástæðu til að ætla, að hann sje ekki boðaður á fund hans til þess að hlusta á heillaóskir og blíðmæli“. „Jeg er alveg á sama máli“, sagði Porthos. „Herrar góðir“, svaraði d'Artagnan. „Jeg hef einu sinni fengið svipuð boð, sem herra de Cavois sendi mjer frá kardínálanum. Jeg skeytti þeim ekki og daginn eftir varð jeg fyrir stöku óláni — þá hvarf Constance. Jeg fer því nú, hvað sem fyrir kann að koma“. „Ef þú ert fastráðinn í því, d'Artagnan, þá skaltu fara“, sagði Athos. „En Bastillan?“ sagði Aramis. „Seisei! Þið getið líklega náð mjer úr henni“ svaraði d'Artagnan. „Auðvitað!“ sögðu þeir Porthos og Aramis með miklu yfirlæti, rjett eins og það væri ekki annað en leikur einn. „Auðvitað náum við þjer úr henni, en samt væri bezt, að þú ættir það ekki á hættu að komast í hana fyrst að við eigum að fara eftir einn dag“. „Við skulum gera enn betur“, sagði Athos. „Við skulum ekki víkja frá honum í alt kvöld heldur bíða fyrir utan kardínálahöllina og fá þrjá skyttuliða hver okkar í viðbót til liðsauka. Ef við sjáum svo lokaðan eða grunsaman vagn fara frá höllinni, þá ráðumst við á hann. Það er líka orðið langt síðan, að okkur hefur lent saman við lífvarðarliða kardínálans og herra de Tréville mætti halda, að við værum allir steindauðir“. „Sannast að segja, Athos, þá ættir þú helzt að vera hershöfðingi yfir heilum her manns“, sagði Aramis. „Hvernig lízt ykkur á þessa uppástungu, herrar góðir?“ „Ágætlega“, svöruðu hinir. „Nú-jæja“, sagði Porthos. „Þá hleyp jeg til hermannaskálans og bið fjelaga mína að vera viðbúnir klukkan átta og svo getum við hizt á torginu fyrir framan kardínálahöllina, en á meðan látið þið söðla hestana“. „Jeg hef engan hest“, sagði d'Artagnan. „Jeg verð að fá mjer hest hjá Tréville“. „Þess þarf ekki“, sagði Aramis. „Þú getur fengið hest hjá mjer“. „Hefur þú kennske marga hesta?“ spurði d'Artagnan. „Jeg hef þrjá“, svaraði Aramis brosandi. „Kæri vin“, sagði Athos. „Þú ert víst það bezt hestaða skáld á öllu Frakklandi. En heyrðu, góði Aramis! Til hvers þarftu eiginlega þrjá hesta? Mjer er óskiljanlegt, hvers vegna þú hefur keypt svona marga“. „Jeg hef heldur ekki keypt þriðja hestinn“, svaraði Aramis. „Mjer var færður hann í morgun af þjóni nokkrum, sem ekki vildi segja mjer, hver húsbóndi hans væri“. „Eða húsmóðir“, sagði d'Artagnan. „Það kemur nú í sama stað niður“, sagði Aramis og roðnaði. „Þjónninn sagði, að sjer hefði verið skipað að færa mjer hestinn, en láta þess ekki getið, frá hverjum hann væri“. „Það eru skáldin ein, sem verða fyrir slíkum höppum“, sagði Athos hátíðlega. „Nú-jæja“, sagði d'Artagnan. „Við skulum nú sjá. Hverjum hestinum ætlar þú að ríða sjálfur — þeim sem þú hefur keypt, eða þeim sem þjer var gefinn?“ „Auðvitað þeim, sem mjer var gefinn. Hitt væri, eins og þú skilur, hrein og bein móðgun við hinn óþekta — —“ „Hollvin“, bætti d'Artagnan við. „Eða hollvinu“, sagði Athos. „Þú hefur þá, með öðrum orðum, litla eða enga þörf fyrir þennan hest, sem þú hefur keypt?“ „Alls enga“. „Og þú hefur valið þjer hann sjálfur?“ „Já, og valdi hann svo vel sem mjer var hægt. Eins og þú veizt, ríður riddaranum fyrst og fremst á því, að hestur hans sje traustur og áreiðanlegur“. „Jæja, láttu mig þá fá hann fyrir það verð, sem þú ljezt fyrir hann“. „Jeg ætlaði einmitt að bjóða þjer hann, kæri d'Artagnan, og láta þig sjálfráðan um að borga mjer það lítilræði, sem hann kostar, þegar þjer best hentar“. „Hvað kostar hann?“ „Átta hundruð fránka“. „Gerðu svo vel, kæri vin“, sagði d'Artagnan og taldi fram peningana, fjörutíu gullpeninga á tuttugu fránka hvern. „Það eru sams konar peningar, sem þú ert vanur að fá fyrir kvæði þín“. „Þú ert þá eitthvað peningaður núna?“ sagði Aramis. „D'Artagnan stakk hendinni í vasa sinn og hringlaði í peningum. „Já“, sagði hann, en nú er klukkan bráðum fimm, svo að við verðum að hraða okkur“. Litlu síðar sást til Porthos í Ferougötunni á prýðisfallegum hesti apalgráum og fylgdi Mousqueton honum á litlum en laglegum hesti frá Auvergne[* Óvernj.]. Jafnframt kom Aramis í hinn enda götunnar á enskum fyrirtaks gæðingi og með honum Bazin á móálóttum klár og hafði föngulegan hest frá Mecklenbúrg í taumi. Sá hestur var ætlaður d'Artagnan. Þeir mættust í portinu, en Athos og d'Artagnan horfðu á þá út um gluggann. „Ja, hvað er þetta!“ sagði Aramis. „Þarna hefurðu sannarlega fengið fallegan reiðskjóta, Porthos góður“. „Já“, svaraði Porthos. „Það er sá, sem jeg átti að fá í fyrstunni, en eiginmaðurinn gerði það af skömmum sínum að skifta honum fyrir afgamlan húðarjálk. En nú hefur sá sami eiginmaður fengið það tiltæki borgað og jeg haft mitt fram“. Nú komu þeir Planchet og Grimaud með reiðtýgi húsbænda sinna, Athos og d'Artagnan fóru ofan og stigu á bak hestum sínum og þeystu þeir svo allir af stað: Athos á hesti þeim, sem hann átti konu sinni að þakka, Aramis á hesti frá ástmey sinni, Porthos á þeim, sem hann fjekk hjá málfærslumannskonunni og d'Artagnan reiðskjóta sinnar eigin hamingju og hún er betri en allar konur, ástmeyjar og málfærslumannakonur samlagðar. Þjónarnir riðu á eftir þeim. Þessi reiðmannaflokkur vakti mikla athygli, eins og Porthes hafði gizkað á. Og hefði frú Coquenard verið þar nær stödd og sjeð elskhuga sinn hreykinn og hermannlegan á spánska gæðingnum, þá mundi hana fráleitt hafa iðrað þess að hafa gerst heldur umsvifamikil í peningaskáp eiginmanns síns. Þeir fjelagar mættu herra de Tréville skamt frá Louvre og kom hann frá Saint-Germain. Hann nam staðar og hrósaði þeim fyrir útbúnað þeirra og undir eins safnaðist að þeim hópur manna, sem þar voru á gangi. D'Artagnan notaði tækifærið til þess að segja höfuðsmanninum frá brjefi kardínálans. Hitt brjefið nefndi hann auðvitað ekki á nafn. Tréville fjellst á ásetning hans og kvaðst treysta sjer til að finna hann, hvar sem hans væri að leita, ef hann ljeki ekki lausum hala daginn eftir. Nú sló klukkan sex. Skyttuliðarnir afsökuðu sig með því, að þeir væru tímabundnir og kvöddu höfuðsmanninn. Þeir hleyptu nú á harða spretti til Chaillot-vegarins. Degi var tekið að halla og vagnar fóru fram og aftur. D'Artagnan var nokkru á undan hinum, en þeir höfðu gát á honum. Hann stöðvaði hest sinn og leit inn í hvern vagn, sem hjá honum fór, en sá ekkert andlit, sem hann kannaðist við. Svona beið hann fullan fjórðung stundar og var farið að skyggja er vagn einn kom á flugferð á veginum frá Sévres. D'Artagnan fann það einhvern veginn á sjer, að í þessum vagni mundi sá eða sú vera, sem kvatt hafði hann til mótsins. Í sömu andránni, sem vagninn þaut fram hjá, stakk kvennmaður höfðinu út í gluggann og studdi tveimur fingrum á varirnar, eins og til að biðja hann að hafa hljótt um sig — eða þá til að senda honum fingurkoss, en samt rak hann ósjálfrátt upp lágt fagnaðaróp, því að þessi kvennmaður, eða þetta fyrirbrigði rjettara sagt — það nam engri stund — var frú Bonacieux. Þrátt fyrir aðvörun þá, sem d'Artagnan hafði fengið, keyrði hann hest sinn sporum og náði vagninum, en þá var búið að loka glugganum og tjald dregið fyrir — sýnin var horfin. Þá fyrst mundi hann eftir aðvöruninni, stöðvaði hestinn og nötraði af hræðslu — ekki um sitt eigið líf, heldur um vesalings konuna, sem auðsjáanlega hafði stofnað sjer í mikla hættu til þess að fá að sjá hann allra snöggvast. Vagninn þaut áfram með geysi hraða og hvarf inn í borgina. Fjelagar hans komu nú til hans. Allir höfðu þeir greinilega sjeð kvennmannsandlit í glugganum, enginn þeirra þekti frú Bonacieux nema Athos og hann hjelt, fyrir sitt leyti, að þetta hefði verið hún, en hann hafði líka sjeð annað andlit aftar í vagninum og það var karlmannsandlit. „Ef svo hefur verið“, sagði d'Artagnan, „þá er verið að flytja hana úr einu fangelsinu í annað. En hvað ætla þeir að gera við aumingja konuna og hvernig á jeg að fara að því að hitta hana aftur?“ „Kæri vin“, sagði Athos alvarlega. „Mundu það, að það eru að eins hinir framliðnu, sem maður hittir aldrei aftur á þessari jörð. En þetta veiztu sjálfur eins vel og jeg. En ef ástmey þín er ekki dauð — og það var hún, sem við sáum — þá hittirðu hana aftur fyr eða síðar. Og hver veit, nema að það verði kannske fyrri, en þú kærir þig um“, bætti hann við og kendi einhverrjar gremju og mannhaturs í rómnum. Klukkan var orðin hálf átta og mintu fjelagar d'Artagnans hann á það, að hann ætti eftir annað „stefnumót“ og að skamt væri til þess ef hann á annað borð ætlaði að sinna því. En d'Artagnan var bæði forvitinn og hjelt fast við áform sitt. Hann var búinn að einsetja sjer að fara á fund kardínálans og fá að vita, hvað hans Hágöfgi vildi honum og hann ætlaði ekki að láta neinn eða neitt aftra sjer frá því. Þeir hjeldu svo á torgið fyrir framan kardínálahöllina og hittu tólf skyttuliða, sem biðu þeirra þar. Var þeim þá fyrst sagt, til hvers væri ætlast af þeim. D'Artagnan var mörgum kunnugur í hinu lofsamlega skyttuliði konungs, enda var það á allra vitorði, að hann mundi verða tekinn í það. Skyttuliðarnir skoðuðu hann því þegar sem fjelaga sinn og voru fúsir til að veita honum aðstoð sína við þetta tækifæri. Auk þess var mjög líklegt, að þetta yrði til þess, að þeir gætu gert kardínálanum og mönnum hans einhvern grikk, en til þess voru þeir jafnan reiðubúnir. Athos skifti þeim í þrjá flokka, tók sjálfur forustuna fyrir einum, setti Aramis yfir annan og Porthos yfir þann þriðja og síðan hjelt hver flokkur vörð fyrir utan tilsvarandi útidyr hallarinnar. D'Artagnan gekk ótrauður inn um aðaldyrnar. Honum var samt hálf órótt þegar hann gekk upp hinar breiðu tröppur, enda þótt hann vissi af þessum aðstoðarmönnum að baki sjer. Framkoma hans gagnvart Mylady var einna líkust svikráðum og hann hafði einhvern grun um, hvaða pólitiskt samband var milli þeirrar konu og kardínálans. Auk þess var Wardes greifi, sem hann hafði leikið svo grátt, einn af velvildarmönnum kardínálans og d'Artagnan vissi það vel, að jafn ægilegur og kardínálinn var fjandmönnum sínum, jafn hollur var hann vinum sínum. „Hafi Wardes greifi sagt kardínálanum upp alla sögu um viðskifti okkar, og það hefur hann sjálfsagt gert — og hafi hann þekt mig aftur, sem líka er mjög sennilegt — þá má víst álíta mig nokkurn veginn glataðan mann“, hugsaði d'Artagnan með sjer og hristi höfuðið. „En hvers vegna hefur hann þá beðið þangað til í dag? Auðvitað vegna þess, að nú hefur Mylady borið sakir á mig með þessari uppgerðar armæðu, sem henni er svo lagin — og þessi seinasta misgjörð mín hefur svo fylt mæli synda minna“. „Til allrar hamingju bíða vinir mínir hjer fyrir utan og þeir láta ekki taka mig höndum án þess að skerast í leikinn“, hjelt d'Artagnan áfram hugleiðingum sínum. „En hinsvegar geta ekki skyttuliðar herra de Tréville barist til streitu við kardínálann, sem hefur yfir öllum herafla Frakklands að ráða. Drotningin má sín einskis gagnvart honum og konunginn hefur hann í hendi sjer. Nei, d'Artagnan minn góður. Þú ert að vísu hraustmenni og mörgum og ágætum kostum búinn, en kvennfólkið verður til þess að steypa þjer í glötun“. Að þessari sorglegu niðurstöðu var hann kominn, þegar hann kom inn í forsalinn. Hann fjekk brjef kardínálans þjóni nokkrum, sem fylgdi honum inn í biðstofuna, en þar voru fyrir eitthvað sex foringjar úr lífvarðarliði kardínálans. Þeir könnuðust við d'Artagnan og vissu að það var hann, sem hafði sært Jussac. Þeir horfðu á hann og brostu í kamp. Þetta bros þótti d'Artagnan ills viti. En hann var ekki sá maður, að hann ljeti slíkt fá á sig, eða rjettara sagt: Gaskognarablóðið í honum varnaði honum frá að láta sjást, hvað honum var innanbrjósts, einkum ef það átti eitthvað skylt við ugg eða ótta. Hann stóð því keikur frammi fyrir lífvarðarforingjunum og studdi annari hendinni á mjöðmina. Gat það vel líkst því að hann væri að ögra þeim. Þjónninn kom nú aftur og benti d'Artagnan að fylgja sjer eftir. Honum sýndist lífvarðarforingarnir stinga saman nefjum og hvíslast á þegar hann gekk frá þeim. Hann fylgdi þjóninum eftir löngum gangi, gegnum stóran sal og inn í bókastofu og þar stóð hann gagnvart manni, sem sat við borð og var að skrifa. Þjónninn sagði til nafns hans og gekk svo hljóðlega burt. D'Artagnan stóð kyr. — Fyrst datt honum í hug, að þetta væri einhver dómari, sem sæti þarna með rjettarskjöl sín, en svo tók hann eftir því, að þessi maður var að leiðrjetta mislangar línur og taldi atkvæðin á fingrum sjer. Þá skildist honum, að þetta væri skáld. Enn leið nokkur stund, en þá lagði skáldið handritið saman og sá d'Artagnan, að utan á því stóð: Mirame, sorgarleikur í fimm þáttum. Skáldið leit nú upp og kannaðist d'Artagnan við, að þetta var kardínálinn sjálfur. XI. Hræðileg sjón. Kardínálinn studdi olboganum á handriðið og hendi undir kinn og horfði stundarkorn á hinn unga mann. Richelieu kardínáli var manna fráneygðastur og fanst d'Artagnan blóðið ólga í æðum sjer, meðan hann horfði á hann, en hann tók kjark í sig og beið þess að hans Hágöfgi yrti á hann. Stóð hann þar með hattinn í hendinni og reyndi að setja á sig þann svip, er hvorki sýndi ofmikinn hroka nje ofmikinn undirlægjuskap. „Herra góður“, tók kardínálinn til máls, „þjer munuð heita d'Artagnan og vera frá Béarn?“ „Já, yðar Hágöfgi“, svaraði hinn ungi maður. „Það eru ýmsar kvíslir af d'Artagnansættinni í Tarbes og þar í grendinni“, sagði kardínálinn. „Af hverri ættkvíslinni eruð þjer kominn?“ „Jeg er sonur d'Artagnans þess, sem stýrði trúarbragðastyrjöldunum ásamt hinum mikla Hinrik konungi[* Hinrik 4. (1589-1610). Veitti mótmælendum trúarbragðafrelsi með tilskipuninni, sem kend er við Nantes (1598).] föður hans Hátignar, konungs vors?“ „Rjett er það. Þjer yfirgáfuð heimkynni yðar fyrir sjö eða átta mánuðum og komuð hingað til Parísar til að freista gæfunnar?“ „Já, yðar Hágöfgi“. „Á leiðinni komuð þjer við í Meung, og þar kom nokkuð fyrir yður — jeg veit ekki vel, hvað það var, en eitthvað var það samt“. „Jeg skal segja yðar Hágöfgi, hvað fyrir kom þegar — —. „Nei, þess gerist ekki þörf“, sagði kardínálinn brosandi og mátti skilja, að hann kunni söguna eins vel og sá sem ætlaði að segja hana. Þjer höfðuð meðmælingarbrjef til herra de Tréville. Var ekki svo?“ „Jú, yðar Hágöfgi. En í þessum sviftingum í Meung, — —“ „Mistuð þjer meðmælingarbrjefið“, sagði kardínálinn. „Jú, jeg veit það, en herra de Tréville er glöggskygn og þekkir sína menn jafnskjótt og hann sjer þá. Hann kom yður í lífvarðarlið des Essarts, mágs síns og gaf yður von um að verða tekinn í skyttulið konungs þegar tímar liðu fram“. „Þetta er rjett frá skýrt, yðar Hágöfgi“, sagði d'Artagnan. „Síðan hefur ýmislegt drifið á dagana fyrir yður. Einn daginn voruð þjer á gangi bak við Karmelítaklaustrið og hefðuð þá heldur átt að vera einhver staðar annarstaðar. Í annað skifti fóruð þjer ásamt vinum yðar til baðvistar í Torges, teptust á leiðinni, en þjer hjelduð áfram, eingöngu vegna þess, að þjer áttuð erindi til Englands“. „Yðar Hágöfgi“, sagði d'Artagnan undrandi. „Jeg ætlaði — —“ „til veiða í Windsor, eða eitthvað annað sem engum kemur við. Jeg veit það líka, bara af því, að staða mín útheimtir að jeg viti alla skapaða hluti. Þegar þjer komuð aftur, fenguð þjer áheyrn hjá tiginni persónu, og það gleður mig, að þjer eigið enn menjagrip, sem sú tigna persóna gaf yður“. D'Artagnan greip um hringinn, sem drotningin gaf honum, og sneri demantinum inn í lófann, en nú var það heldur seint. „Daginn eftir heimsótti Cavois yður“, hjelt kardínálinn áfram, „og bað yður að koma hingað, en þjer daufheyrðust við því og það var óhyggilegt“. „Jeg var hræddur um, að jeg hefði orðið fyrir reiði yðar Hágöfgi“. „Og vegna hvers, herra góður? Kannske vegna þess, að þjer framkvæmduð það, sem yður var skipað, með meiri hyggindum og hugrekki, en nokkur maður annar hefði gert? Orðið fyrir reiði minni, þar sem þjer þvert á móti áttuð hrós skilið! Nei, jeg hegni þeim, sem óhlýðnast, en ekki þeim sem hlýðnast — og það alt of vel. — Og því til sönnunar þurfið þjer ekki annað en að minnast dagsins, sem jeg gerði boð eftir yður — og svo þess, sem til bar sama kvöldið“. Það var einmitt kvöldið, sem frú Bonacieux var numin brott. Það fór hrollur um d'Artagnan og honum flaug í hug að það var rjettur hálftími síðan, að þessi vesalings kona ók framhjá honum, sjálfsagt af völdum þeirra sömu manna, sem ollu hvarfi hennar. „Í fám orðum að segja“, sagði kardínálinn enn fremur, „hef jeg ekkert af yður heyrt nú um nokkra hríð og langaði því til að vita, hvað þjer hefðuð nú fyrir stafni. „Annars eruð þjer í þakklætisskuld við mig, þótt lítil sje, og þjer hafið hlotið að veita því sjálfur eftirtekt, að yður er alt af hlíft, hvað sem fyrir kemur“. D'Artagnan hneigði sig lotningarfylst. „Og ekki eingöngu vegna meðfæddrar hjartagæzku minnar“, sagði kardínálinn, „heldur einnig vegna þess, að jeg hef mitt áform, hvað yður snertir“. D'Artagnan undraðist æ meir. „Jeg ætlaði að segja yður frá því, þegar jeg gerði boð eftir yður í fyrra skiftið, en þá komuð þjer ekki. Sem betur fer, er einskis í mist, þó að þetta hafi dregist og nú skuluð þjer fá að heyra, hvað þetta áform mitt er. Fáið þjer yður sæti, herra d'Artagnan. Þjer eruð svo tiginn aðalsmaður, að þjer þurfið ekki að hlusta á það standandi“. Kardínálinn benti honum í stól, en hinn ungi maður var svo forviða á þessu öllu saman, að hann sinti ekki boði kardínálans fyrir en hann ítrekaði það. „Þjer eruð frækinn maður, herra d'Artagnan,“ sagði kardínálinn, „og þjer eruð jafnframt hygginn maður, sem er enn meir í varið. Mjer þykir vænt um menn, sem hafa höfuð og hjarta í góðu lagi — — nei, verið þjer óhræddur“, sagði hann brosandi. „Þegar jeg segi, að hafa hjartað í góðu lagi á jeg ekki við annað, en að maðurinn sje hugrakkur. En þó að þjer sjeuð ungur og lítt veraldarvanur, þá eigið þjer samt megna óvini og þeir munu steypa yður í glötun, ef þjer gætið yðar ekki“. „Og það mun þeim veitast ljett, yðar Hágöfgi, því að þeir eru máttugir og eiga sjer mektuga aðstandendur, þar sem jeg er einn míns liðs“. „Já, satt er það, en þó að þjer sjeuð einn yðar liðs, þá hafið þjer afkastað talsverðu og eigið sjálfsagt eftir að gera margt og mikið enn. Þrátt fyrir það held jeg, að þjer þurfið leiðsagnar við á þeirri æfintýrabraut, sem þjer hyggist að ganga, því ef mjer ekki skjátlast, þá eruð þjer kominn hingað til Parísar í því skyni að leita yður frægðar og frama“. „Jeg er á þeim aldri, yðar Hágöfgi, sem menn gera sjer fífldjarfar vonir“, sagði d'Artagnan. „Það eru að eins fíflin sem gera sjer fífldjarfar vonir, en jafn hygginn maður og þjer hefur rjett til að setja markið hátt“, sagði kardínálinn. „Við skulum nú sjá — hvernig litist yður á að verða merkisberi í lífvarðarliði mínu — og síðan höfuðsmaður þegar leiðangrinum er lokið?“ „Já, en yðar Hágöfgi — —“ „Þjer gangið að því, er ekki svo?“ „Yðar Hágöfgi!“ sagði d'Artagnan aftur, sýnilega í vanda staddur. „Hvað er nú? Ætlið þjer að hafna þessu boði?“ „Jeg er í lífvarðarliði Hans Hátignar og hef enga ástæðu til þess að vera óánægður með þá stöðu“. „Jeg hefði þó haldið“, sagði kardínálinn, „að lífvarðarlið mitt sje jafnframt lífvarðarlið konungs og að sá sje í hans þjónustu, sem er í einhverju frönsku herfylki“. „Yðar Hágöfgi hefur miskilið það sem jeg ætlaði að segja?“ „Yður vantar einhverja átyllu — er ekki svo? Jú, jeg skil það og þá átyllu hafið þjer líka. Upphefð í leiðangrinum, sem fyrir höndum er — gott tækifæri sem yður býst hjá mjer — þetta er nægileg átylla í almennings augum. Og svo getið þjer bætt því við með sjálfum yður, að þjer þurfið að fá öruggan verndarmann, því að jeg skal segja yður eins og er, herra d'Artagnan, að til mín hafa borist alvarlegar kærur á hendur yður. Það virðist svo sem þjer verjið ekki öllum yðar stundum um nætur og daga í kongsins þjónustu“. D'Artagnan stokkroðnaði. „Annars hef jeg hjerna“, sagði kardínálinn enn fremur og lagði höndina á skjalabúnka allstóran, „hin og þessi plögg viðvíkjandi yður. En jeg vildi tala við yður sjálfan áður en jeg læsi þau. Jeg veit, að þjer eruð maður einbeittur og afrek yðar mættu að gagni verða ef þeim væri beint í rjetta átt, ekki sízt yður sjálfum, í stað þess að verða til tjóns. Hugsið yður því vandlega um og ráðið svo við yður hvað gera skuli“. „Yðar Hágöfgi sýnir mjer frábæra góðvild“, sagði d'Artagnan, „og jeg verð að kannast við, að sköruglyndi yðar yfirgengur mig algerlega, en ef jeg má segja eins og mjer býr í brjósti — —“ D'Artagnan þagnaði. „Svona — haldið þjer áfram!“ sagði kardínálinn. „Nú-jæja! Þá skal jeg segja yður, að allir vinir mínir og kunningjar eru í skyttuliði konungs og í lífvarðarliði hans, en að svo vill til, að andstæðingar mínir eru í þjónustu yðar Hágöfgi. Jeg kæmist því í hann krappan og yrði mjer til minkunar, ef jeg tæki boði yðar“. „Eruð þjer svo drembinn að halda, að það sje oflítill vegsauki, sem jeg býð yður?“ spurði kardínálinn og brosti háðslega. „Þjer auðsýnið mjer sannarlega alt of mikla góðsemi, yðar Hágöfgi og jeg held þvert á móti, að jeg sje hennar ekki verður. Umsátin um la Rochelle stendur nú fyrir dyrum. Jeg mun verða þar undir yðar handleiðslu og verði jeg svo heppinn að ávinna mjer hylli yðar Hágöfgi í leiðangri þessum — nú nú — þá hef jeg að minsta kosti afrekað eitthvað, sem getur rjettlætt þá vernd, er þjer ætlið að láta mjer í tje. Alt bíður síns tíma, yðar Hágöfgi. Svo getur farið, að seinna meir fái jeg rjett til að ganga sjálfviljugur í yðar þjónustu, en nú sem stendur liti það út eins og jeg væri að láta múta mjer“. „Það er með öðrum orðum, að þjer skorist undan að ganga mjer á hönd“, sagði kardínálinn gremjulega, en þó mátti finna, að í þeirri gremju hans kendi jafnframt virðingar fyrir hinum unga manni. „Já, yður er auðvitað frjálst að gera sem yður sýnist og vera einráður sem áður um óvild yðar og ástsemi — —“ „Yðar Hágöfgi — —“ sagði d'Artagnan. „Svona, svona! Jeg er alls ekki reiður yður þeirra hluta vegna“, sagði kardínálinn. „En eins og þjer skiljið, þá er það hverjum manni nóg viðfangsefni að vernda vini sína og umbuna þeim — hag óvina sinna ber enginn fyrir brjósti. Og samt vil jeg ráðleggja yður eitt: Gætið yðar vel, herra d'Artagnan, því að alt frá þeirri stundu, að jeg sleppi hendinni af yður, vil jeg ekki gefa eyrisvirði fyrir líf yðar“. „Jeg skal reyna það, yðar Hágöfgi“, svaraði d'Artagnan. „Og minnist þess jafnan, hvenær sem einhver ógæfa ber yður að höndum“, sagði kardínálinn með áherzlu, „að það var jeg, sem gerði boð eftir yður og að jeg hef gert, það sem í mínu valdi stóð, til þess að bægja ógæfunni frá yður“. D'Artagnan lagði höndina á hjartað, hneigði sig og sagði: „Jeg mun ávalt vera yðar Hágöfgi þakklátur fyrir það, sem þjer hafið gert fyrir mig á þessari stundu — hvað sem fyrir kann að koma“. „Jæja-þá! Við hittumst aftur að leiðangrinum loknum, eins og þjer sögðuð, herra d'Artagnan. Og jeg mun líka gefa yður gætur, því að jeg tek sjálfur þátt í honum“, sagði kardínálinn og benti á afar skrautleg herklæði, sem hjá honum lágu — „og svo gerum við upp reikninginn þegar við komum aftur!“ „Æ, yðar Hágöfgi“, sagði d'Artagnan. „Hlífið mjer við reiði yðar og haldið yður hlutlausum, svo framarlega sem yður virðist framganga mín sæma heiðvirðum hermanni“. „Ungi maður“, sagði Richelieu. „Ef jeg get enn einu sinni talað við yður eins og jeg hef talað við yður í dag, þá lofa jeg yður því að gera það“. D'Artagnan stóð meiri ógn af þessum seinustu orðum kardínálans heldur en þó að hann hefði hótað honum einhverju, því að þau voru nokkurs konar viðvörun. Það var svo að heyra, sem kardínálinn væri að reyna að firra hann einhverjum vandræðum, sem hann ætti í vændum. Hann ætlaði að svara einhverju, en kardínálinn bandaði hendinni til merkis um að samtalinu væri lokið. „D'Artagnan hneigði sig djúpt og fór. Honum ætlaði að fallast hugur þegar hann kom fram í dyrnar og var að honum komið að fara inn aftur. Hann var snöggvast á báðum áttum, en þá stóð honum fyrir hugskotssjónum ásjóna Athos, ströng og alvarleg. Athos mundi snúa baki við honum og engin mök við hann eiga ef hann gengi kardínálanum á hönd. Það reið baggamuninn og sá ótti aftraði honum. Svo máttug eru þau áhrif, sem sönn göfugmenska hefur á dagfar og breytni annara. D'Artagnan fór ofan sömu tröppuna sem hann hafði gengið upp og hitti Athos og skyttuliða þá, sem með honum voru, fyrir utan portið. Voru þeir orðnir hálfhræddir um hann, en d'Artagnan friðaði þá með nokkrum orðum. Planchet hljóp á hinar varðstöðvarnar til þess að láta skyttuliðana vita, að óþarfi væri að halda vörð lengur, þar sem húsbóndi hans væri kominn aftur út úr höllinni heill á hófi. Þegar þeir voru komnir heim til Athos, fóru þeir Aramis og Porthos að grafast eftir því, hvað gerst hafði milli kardínálans og d'Artagnans, en hann ljet sjer nægja að svara því, að Richelieu hefði gert boð eftir sjer til þess að bjóða sjer merkisberastöðu í lífvarðarliði sínu, en því boði hefði hann hafnað. „Eins og líka rjett var, kæri vin“, sögðu þeir Porthos og Aramis einum rómi. Athos sat hugsi og mælti ekki orð frá munni en þegar þeir d'Artagnan og hann voru orðnir tveir einir, sagði hann: „Þú hefur gert það sem þjer bar að gera, d'Artagnan, en hamingjan má vita, hvort það var hyggilegt af þjer“. D'Artagnen stundi við, því það var eins og orð Athos bergmáluðu einhverja rödd innra með honum sjálfum, sem spáði honum óláni og armæðu. Daginn eftir voru þeir allir önnum kafnir að búa sig undir burtförina. D'Artagnan fór að kveðja herra de Tréville. Enn þá var búist við, að aðskilnaður lífvarðarliða og skyttuliða mundi ekki verða nema fyrst um sinn, þar sem konungur sat á ráðstefnu þennan dag og ætlaði að leggja upp daginn eftir. Tréville ljet sjer því nægja að spyrja d'Artagnan, hvort hann gæti verið honum hjálplegur með nokkuð, en hinn ungi maður svaraði hreykinn mjög, að sig vanhagaði ekki um neitt. Um kvöldið komu þeir saman í vinsemdar og kunningsskapar skyni lífvarðarliðar des Essarts og skyttuliðar de Tréville. Sátu þeir saman alla nóttina með glaum og gleði sem vænta mátti, því þess þyngra sem geðið er, þess fúsari eru menn til að vísa öllum áhyggjum á bug og sleppa sjer út í sollinn. Um morguninn fóru höfuðsmennirnir með herfylki sín til Louvre til þess að kanna þau í augsýn konungs. Konungur virtist vera lasinn og laraður og daginn áður hafði hann fengið köldukast á ráðstefnunni. Þrátt fyrir það var hann fastráðinn í að leggja upp um kvöldið og ljet ekki aftra sjer, hvernig sem að honum var lagt, frá því að vera viðstaddur liðskönnunina, enda hjelt hann, að hann mundi fá yfirunnið lasleika sinn með því að taka í sig skerpu og reyna eitthvað á sig. Lífvarðarliðarnir hjeldu af stað þegar liðskönnuninni var lokið, en skyttuliðarnir áttu að bíða og vera í för með konungi. Gafst þá Porthos tækifæri til þess að skreppa út í Bjarnargötu, skrýddur öllum sínum glæsilegu herklæðum. Hann var líka dásamlegur á að líta. Sporarnir glömruðu, brynjan skein og ljómaði og sverðið skrjáfaði við hlið honum. Skrifararnir þorðu heldur ekki á sjer að bæra, þegar þeir sáu þessa undursamlegu veru. Honum var vísað inn til herra Coquenard, en augu málfærslumannsins tindruðu af geðvonzku, þegar hann sá „frænda“ í allri sinni dýrð. Eina huggun átti hann sjer þó og hún var sú, að búist var við að herferð þessi yrði næsta torveld. Vonaði hann því með sjálfum sjer, að Porthos kæmi aldrei lifandi aftur úr þeim Hildarleik. Samt óskaði hann honum allrar gæfu og gengis þegar Porthos kvaddi hann. Hins vegar grjet frú Coquenard beisklega, en enginn hneyklaðist á því, þar eð allir vissu, hve ant hún ljet sjer um ættingja sína og hvaða stríð hún átti við mann sinn út af öllum þeim frændsemistilfinningum og allri þeirri ættrækni. Aðalkveðjufundur þeirra stóð þó í einkaherbergi frúarinnar og var átakanlega harmsamlegur. Hún veifaði svo vasaklútnum meðan hún misti ekki sjónar á elskhuga sínum og teygði sig svo langt út úr glugganum, að það var því líkast, sem hún ætlaði að steypa sjer út um hann. Porthos tók ástarmerkjum þessum eins og maður, sem vanur er slíkum viðkvæmnishótum og fyrst þegar hann sneri sjer fyrir götuhornið, lyfti hann hattinum í kveðjuskyni. Aramis skrifaði langt brjef, en enginn vissi hverjum. Ketty sat þar í hliðarherbergi og beið. Hún átti að fara til Tours sama kvöldið. Athos tæmdi seinustu flöskuna af Spánarvíninu í smáteigum. En d'Artagnan hjelt út úr borginni með herfylki sínu. Hann sneri sjer við þegar hann kom í útborgina Saint-Antoine[* Angtoan.]og leit gletnislega til Bastillunar. En með því að hann var ekki að líta eftir neinu öðru, þá tók hann ekki eftir Mylady, er sat á hesti og benti tveimur ískyggilegum mönnum á hann, en þeir ruddust strax fram fyrir mannþyrpinguna, sem var að horfa á hermennina, til þess að geta sjeð hann betur. Þeir litu svo spyrjandi til Mylady, en hún gaf þeim merki um, að þetta væri maðurinn. Keyrði hún svo hest sinn sporum og reið burt, þegar hún þóttist viss um, að skipun hennar yrði ekki misskilin. En þessir tveir menn fylgdu herfylkinu eftir og við götuendann stigu þeir á bak sínum hestinum hvor, sem þjónn nokkur hafði til taks handa þeim. XI. Umsátin um La Rochelle. Umsátin um La Rochelle var meðal hinna merkustu viðburða á stjórnarárum Lúðvíks þrettánda og eitt af hinum miklu hernaðarfyrirtækjum Richelieu kardínála. Það er því bæði fróðlegt og jafnvel nauðsynlegt vegna sögu þessarar að skýra frá henni með nokkrum orðum. Kardínálinn stefndi að vissu pólitisku markmiði, þegar hann stofnaði til þessarar umsátar. Skal nú fyrst gerð nokkur grein fyrir því, hvert það markmið var og því næst athugaðar lítils háttar hans eigin hvatir, sem ef til vill hafa verið öllu yngri á metunum en alþjóðarheill og stjórnmálakænska. Hinrik fjórði hafði fengið Húgenottum til umráða borgir nokkrar allstórar og víggirt þær og voru þær nú allar gengnar úr höndum þeirra nema La Rochelle. Varðaði það því miklu að gera áhlaup á þetta seinasta vígi Kalvínista og jafna við jörðu þessa gróðrarstíu uppreisna og ófriðar. Óróaseggir frá Spáni, Englandi og Ítalíu og glæframenn af öllum þjóðum, sem öll og engin trúarbrögð játuðu, voru jafnan reiðubúnir að safnast þangað undir merki mótmælenda og stofnuðu með sjer víðtækan fjelagsskap, sem breiddist út um alla álfuna. La Rochelle varð þannig aðalathvarf Kalvínista þegar hinar borgirnar voru gengnar undan þeim og aðalbækistöð sundurlyndis og alls konar óreiða. Það var enn fremur eina höfnin, sem Englendingum stóð opin, og með því að loka höfninni fyrir Englendingum, fjandmönnum Frakka frá ómunatíð, rak kardínálinn endahnútinn á athafnir Jóhönnu frá Orléans og hertogans af Guise. En auk þessara stórpólitisku fyrirætlana kardinálans; ætlaði hann sjer líka, eins og áður er vikið að, að koma fleiru í verk sem elskhugi og afbrýðissamur sambiðill, þótt ekki varðaði það hag lands ag þjóðar. Kardínálinn hafði felt ástarhug til drotningarinnar, eins og allir vita. En hitt veit enginn, hvort pólitík var þar í og saman við, eða Anna frá Austurríki hafði vakið brennheita ást í brjósti hins mikla stjórnmálamanns eins og í brjóstum svo margra, sem umgengust hana. En hvað sem um það er, þá er það augljóst af því, sem áður hefur verið sagt frá í sögu þessari, að Buckingham var tekinn fram yfir hann og ljek tvívegis illa á hann, einkum í demantamálinu, með tilstyrk d'Artagnans og hinna þriggja skyttuliða. Richelieu var því ekki eingöngu áhugamál að yfirvinna fjandmann Frakka, heldur einnig að ná sjer niðri á sambiðli sínum. Og hann vildi láta muna um hefnd sína — láta hana vera samboðna þeim manni, sem hafði öllum herafla Frakklands á að skipa í þeirri viðureign. Kardínálinn var sjer þess meðvitandi, að með því að berjast við England, koma því á knje og lítillækka það í augum Evrópu, lítillækkaði hann einnig Buckingham í augum drotningar. Og sama var með Buckingham. Að vísu taldi hann sjálfsagt að halda uppi heiðri Englands, en ljet hins vegar leiðast af sömu hvötum sem kardínálinn. Buckingham hugði einnig á hefndir fyrir sitt leyti. Hann gat með engu móti komið til Frakklands aftur sem sendiherra og þá ætlaði hann að koma sem sigurvegari. Það var því í raun rjettri ekki um annað að tefla, en hylli Önnu frá Austurríki. Buckingham veitti betur í fyrstu. Kom hann skyndilega undir eyna Ré með níutíu skip og tuttugu þúsund sjóliðs. Toirac greifi, höfuðsmaður eyjarinnar, var óviðbúinn. Sló þar í blóðugan bardaga, er lyktaði svo, að Englendingar náðu landtöku. Toirac greifi hopaði með setuliði sínu í kastalann Saint-Martin og skildi eftir hundrað manns í vígi einu litlu, sem La Prèe nefnist. Þessir atburðir neyddu kardínálann til að bregða fljótt við. Í þeirri von, að konungur og hann gætu sjálfir stýrt umsátinni um La Rochelle, sendi hann erfðaprinsinn á undan til að takast á hendur hinar fyrstu herstjórnaraðgerðir og dró saman á ófriðarstöðvarnar allan þann herafla, er hann átti yfir að ráða. D'Artagnan var einn í þessu framliði. Eins og áður er sagt, ætlaði konungur að koma á eftir þegar ráðsamkomunni væri lokið, en kendi hitasóttar meðan á henni stóð. Þrátt fyrir það breytti hann ekki áformi sínu og hjelt af stað, en elnaði sóttin á leiðinni og varð að nema staðar í Villeroi. Og þar staðnæmdust þá einnig skyttuliðarnir, svo að d'Artagnan, er var í lífvarðarliðinu, varð nú fráskila þeim vinum sínum Athos, Porthos og Aramis, að minsta kosti um stundarsakir. Þessi fráskilnaður var honum í sjálfu sjer ærið áhyggjuefni, en hefði hann þá vitað, hvílíkar hættur biðu hans, þá hefðu þær áhyggjur orðið honum enn þyngri. Hann komst samt heilu og höldnu í herbúðirnar fyrir framan La Rochelle — aðfaranótt hins 10. september 1627. Þar hafði engin breyting á orðið og sat alt við sama. Buckingham og Englendingar hans hjeldu eyjunni Ré og gerðu umsát um Saint-Martin kastala og vígið La Prèe, en vanst ekki á. Áhlaupið á La Rochelle var í byrjun og hafði hertoginn af Angouléme byrjað að hlaða skotgarða fyrir þremur eða fjórum dögum. Lífvarðarlið það, sem des Essarts rjeði fyrir, hafði fengið aðsetur í klaustri nokkru. En það var ásetningur d'Artagnans að komast í skyttuliðið, eins og margoft er búið að taka fram og hafði hann því gefið sig lítt við fylkisbræðrum sínum í lífvarðarliðinu. Var hann oftast nær einn með hugsanir sínar, sem ekki voru sjerlega ánægjulegar. Hann var orðinn bendlaður við ýms vandamál þessi tvö ár, sem liðin voru síðan hann kom fyrst til Parísar, en aftur hafði hans eigin málefnum miðað næsta lítið áfram — bæði ástamálum hans og auðnugengi. Hvað ástamál hans snerti, þá var frú Bonacieux eina konan, sem hann hafði fest einlæga ást á og nú var hún horfin án þess að honum hefði enn tekist að komast fyrir, hver afdrif hennar hefðu orðið. Og hverjar voru framtíðarhorfurnar? Hann var búinn að egna kardínálann upp á móti sjer — þann mann, sem helzu mönnum ríkisins, að konungi meðtöldum, stóð af ótti og andvari! Sá maður gat troðið hann undir fótum sjer, hvenær sem vera skyldi, og samt hafði hann ekki enn látið til þess koma. Honum fanst þetta vera ofurlítil vonarskíma um bjartari framtíð. Hins vegar hafði hann áunnið sjer traust og velvild drotningar, en eins og á stóð, var hylli hennar enn meiri ástæða til að gæta sín og mundi baka honum enn meiri ofsóknir, enda var frú Bonacieux glögt dæmi þess, hve vernd hennar náði skamt og var ófullnægjandi til að firra aðra hættum og hörmungum. Eini vinningurinn, sem honum hafði áskotnast, var demanshringurinn, sem hann bar á fingri sjer og var fimm eða sex þúsund fránka virði. Og ef gera skyldi ráð fyrir, að hann ætlaði að geyma hann í því skyni að hafa eitthvert sýnilegt tákn, til að minna drotningu á sig ef í nauðir ræki — þá hafði hringur þessi að svo komnu ekki verið honum meira en steinarnir undir fótum hans, meðan hann ekki gat skilið hann við sig. Steinarnir undir fótum hans, sögðum vjer, því að meðan d'Artagnan var að velta þessu fyrir sjer, var hann enn á gangi á yndislegum vegi, sem lá frá herbúðunum til þorpsins. Hann var svo niðursokkinn í hugsanir sínar, að hann var kominn lengra, en hann hafði ætlað sjer og var degi farið að halla. Sýndust honum þá síðustu sólargeislarnir blika á byssuhlaup bak við hrísgirðingu við veginn. D'Artagnan hafði ágæta sjón og var mjög eftirtekarsamur. Hann sá strax, að hvorki var byssan komin þangað sjálfkrafa, nje heldur hafði sá, er hana bar, skotist í leyni í neinu vinskapar skyni. Hann ætlaði að leita sjer afdreps, en sá þá um leið á hlaupið á annari byssu bak við hæð nokkra. Þetta var greinileg fyrirsát. D'Artagnan varð litið á fyrri byssuna og sá, að verið var að miða henni á sig. Fleygði hann sjer þá flötum til jarðar og í sama bili reið skotið af og flaug kúlan rjett fyrir ofan höfuðið á honum. Hjer var ekki til setunnar boðið. Hann stökk upp í hendingskasti og á sama augnabliki kom kúla úr hinni byssunni og þyrlaði upp steinunum einmitt á sama blettinum, sem hann hafði legið með höfuðið. „Ef þriðja skotið kemur, þá er úti um mig“, sagði hann við sjálfan sig. Að svo mæltu tók hann á rás og flýði sem fætur toguðu til herbúðanna — og Gaskognarar hafa orð fyrir að vera fráir á fæti. D'Artagnan var fullhugi mikill, en þrátt fyrir það var hann ekki sá glanni að ganga í opinn dauðann að óþörfu að eins til þess að geta hrósað sjer af því, að hann hefði aldrei vikið fótmál. Annars kom þettað ekki til greina, þar sem um slíka fyrirsát var að ræða. En þó hann væri sporgreiður, fjekk fyrri maðurinn samt svigrúm til þess að hlaða byssuna aftur og senda aðra kúlu á eftir honum — og svo var nákvæmlega miðað, að kúlan flaug gegn um hatt hans og þeytti honum nokkur skref fram undan. D'Artagnan átti ekki annað höfuðfat og tók því upp hattinn á hlaupunum. Hann var orðinn lafmóður þegar hann kom til herbúðanna og settist niður til að hugsa um þennan atburð, en gat hans samt ekki við neinn. Hjer var um þrent að ræða. Í fyrsta lagi var það líklegt, að fyrirsátin hefði verið gerð af borgarbúum í La Rochelle, er gjarnan vildu leggja að velli einhvern liðsmann Hans Hátignar. — Það var þá einum óvininum færra og sá óvinur gat þar að auki haft troðfulla pyngju í vasanum. D'Artagnan tók hatt sinn og fór að skoða gatið eftir kúluna, en hristi svo höfuðið. Gatið var auðsjáanlega ekki eftir „múskettu“ kúlu heldur eftir kúlu úr almennri byssu. Fyrirsátin hafði þá ekki verið gerð af neinum úr borgarliðinu, eftir kúlunni að dæma. Skyldi þetta vera runnið undan rifjum kardínálans? Eins og áður er sagt, var d'Artagnan einmitt að furða sig á langlundargeði hans, þegar hann kom auga á byssuhlaupið. En hann hristi höfuðið aftur. Kardínálinn hafði sjaldan þá aðferð, nema sjerstaklega stæði á. Hvað d'Artagnan snerti, þurfti kardínálinn ekki annað en benda með fingrinum til þess að tortíma honum. Í þriðja lagi gat þetta verið hefnd af hendi Mylady — og það var raunar lang sennilegast. Hann reyndi að gera sjer grein fyrir útliti morðingjanna, en flótta hans bar svo bráðan að, að hann gat ekki tekið vel eftir þeim. „Æ, bara að þið væruð komnir, vinir mínir!“ hugsaði hann. Hann svaf illa um nóttina. Tvisvar hrökk hann upp við það, að honum sýndist greinilega einhver lúta yfir hvílu sína til þess að reka hann í gegn, en loksins rann dagurinn án þess honum væri mein gert. En hann hugsaði þó sem svo, að geymt er ekki gleymt. Klukkan níu um morguninn var blásið til burtfarar. Hertoginn af Orlêans kannaði liðið og d'Artagnan gekk í röð með fjelögum sínum. Hertoginn reið með fram fylkingarbrjóstinu og þar á eftir gengu hinir æðri liðsforingjar fram og gáfu honum skýrslu sína — þar á meðal des Essarts sem höfuðsmaður lífvarðarins. Litlu síðar virtist d'Artagnan höfuðsmaður sinn benda sjer að ganga fram, en hann beið þess samt, að hann benti sjer aftur, því að hann var ekki viss um, að hann hefði tekið rjett eftir. Höfuðsmaðurinn benti aftur og gekk d'Artagnan þá til hans. „Hertoginn þarf að fá nokkra dáta í sendiferð“, sagði hann, „Förin er hættuleg, en mun verða þeim til heiðurs og frama, sem hepnast að ljúka henni giftusamlega — og jeg hef kosið yður til þessarar farar“. „Jeg kann yður þakkir fyrir, herra höfuðsmaður“, sagði d'Artagnan. Hann gat ekki kosið sjer betra tækifæri til að vinna sjer til frægðar og vaxa í augum yfirforingjans. Íbúarnir í La Rochelle höfðu gert útrás um nóttina og náð aftur vígi nokkru, sem konungsliðið hafði tekið í áhlaupi tveim dögum áður. Nú þurfti að fá nána vitneskju um, hversu óvinirnir gættu þessa vígis. Eftir litla stund sagði hertoginn: „Jeg þarf þrjá eða fjóra sjálfboðaliða til þessarar farar og áreiðanlegan mann til að vera fyrir þeim“. „Áreiðanlegan mann hef jeg hjer, yðar Hágöfgi“, sagði des Essarts og benti á d'Artagnan, „og svo gefa hinir sig eflaust fram, þegar yður þóknast að segja, til hvers þjer ætlist af þeim“. „Fjóra menn, sem eru fúsir til að ganga í dauðann með mjer!“ hrópaði d'Artagnan og brá sverði sínu. Tveir fjelagar hans gengu þegar fram og rjett á eftir tveir aðrir og var þá tölunni náð. Fleiri buðu sig fram, en d'Artagnan tók þá, sem fyrstir urðu til. Það ljek vafi á því, hvort að La Rochelle-búarnir hefðu yfirgefið vígið eftir að þeir náðu því aftur, eða hvort þeir hefðu skilið þar setulið eftir. Þurfti að athuga vígið allvel til þess að ganga úr skugga um, hvort heldur væri. D'Artagnan lagði af stað með þessa fjóra fylgdarmenn sína og gengu þeir eftir víggröfinni. Tveir gengu honum samhliða og hinir tveir fylgdu þeim eftir. Á þennan hátt komust þeir áfram í skjóli moldarhauganna, sem lágu á grafarbarminum alt þar til þeir áttu hundrað skref eftir að víginu. D'Artagnan var þá litið um öxl og sá, að þeir tveir, sem á eftir gengu, voru horfnir! Honum þótti sennilegast, að þeim hefði fallist hugur og hjelt áfram. Þegar þeir komu að næstu víggrafamótum, áttu þeir ekki eftir nema sextíu skref að víginu. Þar var ekkert að sjá og leit helzt út fyrir, að vígið væri mannlaust. Ráðguðust þeir nú um, hvort lengra skyldi halda, en í því sáu þeir reyk þyrlast upp úr víginu og þutu byssukúlur um þá d'Artagnan og hina tvo fjelaga hans. Nú vissu þeir það sem þeir áttu að komast eftir. Vígisins var gætt. Það hefði verið óþarfa fífldirfska að bíða lengur á jafn hættulegum stað. Þeir fjelagar sneru því sem skjótast aftur, en þegar þeir komust aftur í skjól við moldarhaugana, fjell einn þeirra og hafði sá fengið skot gegnum brjóstið, en hinn, sem ósærður var, hljóp til herbúðanna sem fætur toguðu. D'Artagnan vildi ekki yfirgefa fjelaga sinn undir eins svona á sig kominn og fór að reisa hann upp til að reyna að koma honum áfram, en í því riðu af tvö skot. Önnur kúlan molaði höfuðið á hinum særða manni, en hin straukst rjett hjá andlitinu á d'Artagnan. Hann snjeri sjer við, en sá undir eins, að þessi skot gátu ekki komið frá víginu, því að það var nú komið í hvarf bak við víggrafarmótin. Honum duttu í hug þessir tveir dátar, sem hurfu frá þeim og í sambandi við þá fyrirsátin, sem honum var gerð daginn áður og ásetti hann sjer nú að komast fyrir, hvernig á þessu stæði, ef hægt væri. Hann ljet því fallast ofan á lík fjelaga síns, eins og hann hefði orðið fyrir sömu útreið. Í sama bili sá hann á höfuðin á tveimur mönnum, sem gægðust upp yfir gamlan skotgarð þar skamt frá. Það voru þessir tveir dátar, svo að sú tilgáta d'Artagnans reyndist rjett. Þeir höfðu fylgst með þeim í þeim tilgangi að myrða hann og ætluðust auðvitað til, að mönnunum í víginu yrði kent um. Dátarnir hugsuðu aftur sem svo, að vera kynni, að d'Artagnan væri að eins særður og gæti þá sagt öðrum frá tiltæki þeirra. Þeir fóru því að þokast nær í þeim tilgangi að gera honum full skil, en ekki vöruðust þeir bragð hans og hirtu því ekki að hlaða byssurnar aftur. Þegar þeir voru rjett að segja komnir, spratt d'Artagnan á fætur og hljóp að þeim með sverð sitt á lofti. Þeir vissu sem var, að ef þeir flýðu til herbúðanna án þess að gera út af við d'Artagnan, þá mundi alt komast upp um þá og leizt því það ráð vænst, að leita á náðir óvinanna. Annar þeirra tók um hlaupið á byssu sinni, reiddi hana um öxl og hugðist að rota d'Artagnan með skeftinu, en hann vjek sjer til hliðar, svo að höggið lenti ekki á honum, en við það gafst hinum færi á að komast fram hjá og tók þegar á rás til vígisins. Vígismenn vissu náttúrlega ekki hver það kynni að vera, sem kæmi þannig til þeirra á harða hlaupum og skutu á hann. Lenti eitt skotið í öxl hans og særði hann svo, að hann fjell til jarðar. D'Artagnan sneri sjer nú að hinum manninum og lagði til hans sverðinu, en hann reyndi að verjast með byssunni. Varð sú viðureign ekki löng, því að sverð d'Artagnans rann með byssuhlaupinu og í lærið á manninum og varð af svöðusár mikið, svo að hann fjell, en d'Artagnan setti þegar sverðið á háls honum. „Æ-æ, drepið mig ekki!“ æpti fanturinn. „Vægð, vægð, herra liðsforingi! Jeg játa alt!“ „Ætli það leyndarmál þitt sje þess virði, að jeg eigi að gefa þjer líf?“ sagði d'Artagnan. „Já, ef þjer teljið mannslíf nokkurs virði þegar hann er rúmt tvítugur, eins og þjer eruð, og getur komist til vegs og gengis“. „Vertu ekki að því arna, afhrakið þitt!“ sagði d'Artagnan, „en segðu mjer undir eins, hver hefur sent þig mjer til höfuðs“. „Það er kona, sem jeg þekki ekki, en hún heitir Mylady. „Hvernig stendur á því, að þú veizt hvað hún heitir og þekkir hana samt ekki?“ „Fjelagi minn þekti hana og kallaði hana þetta. Hún samdi við hann, en ekki mig. Hann hefur líka brjef á sjer frá þessari sömu konu og hann sagði mjer, að það brjef varðaði yður miklu“. „Hvers vegna varst þú þá í þessari fyrirsát?“ „Það var hans uppástunga og jeg fjelst á hana“. „Og hvað hefur hún borgað ykkur fyrir þetta þokkaverk?“ „Hundrað gulldali“. „Jæja-þá!“ sagði d'Artagnan hlægjandi. Henni finst þá að minsta kosti, að jeg sje einhvers virði. Hundrað gulldali! Það var ekki svo afleitt fyrir svona piltunga eins og ykkur. Það var ekki nema eðlilegt, að þið gengjuð að því og jeg ætla nú að gefa þjer líf, en þó með einu skilyrði“. „Og hvað er það?“ spurði dátinn órór. Hann fann, að ekki var alt búið enn. „Með því skilyrði, að þú sækir brjefið, sem fjelagi þinn hefur á sjer“. „Já, en þá er jeg líka dauðans matur — bara á annan hátt!“ æpti dátinn. „Hvernig getið þjer ætlast til, að jeg sæki brjefið beint undir byssukjaftana í víginu?“ „Það verður þú nú samt að gera, góðurinn minn. Að öðrum kosti verður þú að deyja fyrir minni hendi og það strax — það máttu reiða þig á!“ „Vægð, góði herra, vægð! Vægið mjer vegna ungu konunnar, sem þjer elskið — sem þjer haldið að sje dauð, þó að það sje nú ekki“, kveinaði dátinn og reis upp á hnje þó að hann ætti bágt með það, því að blóðrásin var farin að mæða hann. „Hvernig veiztu það, að jeg elski unga konu og að jeg hafi haldið að hún væri dauð?“ spurði d'Artagnan“. „Jeg veit það af brjefinu sem fjelagi minn hefur“. „Jæja, þá sjerðu líklega, að jeg verð að fá þetta brjef“, sagði d'Artagnan. „Svona-nú! Hjer er ekkert undanfæri! Mjer býður raunar við að ata sverð mitt aftur í blóði slíks óþokka, sem þú ert, en sem jeg er lifandi maður, þá — —“ Dátinn sá það á öllu, að d'Artagnan var rammasta alvara og staulaðist á fætur. „Bíðið við — bíðið þjer við!“ æpti hann. „Jeg skal fara — jeg skal fara!“ D'Artagnan tók byssuna af honum og rak hann á undan sjer með því að stinga sverðsoddinum í bakið á honum við og við. Það var aumt að sjá mannræfilinn með blæðandi benjar og nábleikan, eins og dauðinn væri að fara á hann, vera að reyna að skjögra til fallins fjelaga síns sem var spölkorn þaðan. Hann sveittist allur köldum svita og andlit hans var svo afmyndað af ótta og skelfingu, að d'Artagnan aumkvaðist yfir hann. „Bíddu við!“ sagði d'Artagnan. „Nú skal jeg sýna þjer mismuninn á hugdjörfum manni og öðru eins ragmenni og þú ert. Bíddu hjerna — jeg ætla að fara sjálfur“. D'Artagnan laumaðist eins og köttur að mús, ljet hverja ójöfnu í jarðveginum hlífa sjer, þar sem þess var kostur og gaf nánar gætur að öllum hreyfingum óvinanna. Á þennan hátt tókst honum að komast óskemdur til hins dátans. Hann átti nú um tvent að velja: annaðhvort að leita að brjefinu á manninum þarna sem hann lá eða að drösla honum inn í víggröfina og hafa hann um leið eins og nokkurs konar skjöld. Hann tók síðari kostinn og var rjett búinn að koma honum á bakið á sjer þegar skothríðin úr víginu hófst aftur. Hann fann dálítinn kipp og að þrjár kúlur buldu á mannaskrokk, heyrði lágt vein og varð var við seinustu dauðateygjurnar — og nú vissi d'Artagnan, að sá sem hefði ætlað að taka líf hans hefði orðið til að bjarga því. Hann komst í víggröfina og fleygði líkinu af sjer við hliðina á særða dátanum. Svo fór hann að leita. Það sem hann fann, var brjefaveski úr leðri, pyngja með einhverjum peningum — sjálfsagt afgangurinn af fje því, sem lagt hafði verið til höfuðs honum og tvo teninga ásamt teningabikar. Hann fleygði teningunum og bikarnum, fjekk særða manninum pyngjuna, en fór svo að gæta í veskið. Fann þar ýms brjef, sem ekki skiftu hann neinu, og þar á meðal brjef það, sem hann hafði vogað lífi sínu til að ná í. Það var svohljóðandi: „Þið ljetuð konuna ganga úr greipum ykkar og er hún nú úr hættu og geymd í klaustri nokkru, sem þið hefðuð aldrei átt að láta hana komast í. En fyrst svona fór um hana, þá verðið þjer að minsta kosti að sjá svo um, að þið missið ekki af manninum. Ef þið gerið það ekki, þá megið þið vita að hönd mín nær langt og að þessir hundrað gulldalir, sem þið hafið fengið, skulu verða ykkur fulldýrir“. Brjefið var nafnlaust, en auðsjáanlega skrifað með hendi Mylady. D'Artagnan tók það því til sín og ætlaði að eiga það sem sönnunargagn á hendur henni. Því næst fór hann með særða manninum út í horn á víggröfinni, þar sem þeim var óhætt fyrir skotum, og fór að ganga betur á hann. Játaði hann þá, að hann hefði verið í samráðum við fjelaga sinn — þann er nú var nýdauður — um að nema burtu unga konu, sem átti að komast úr París út um La-Villette-hliðið, en að þeir hefðu svo orðið of seinir til að stöðva vagninn, sem hún var í, af því að þeir hefðu sezt að drykkju í veitingahúsi. „En hvað áttuð þjer að gera af konunni, ef þið hefðuð náð henni?“ spurði d'Artagnan. „Við áttum að flytja hana í stórhýsi eitt eða höll á Place Royale“, svaraði maðurinn. „Einmitt það!“ tautaði d'Artagnan. „Auðvitað heim til Mylady sjálfrar!“ Og hann hugsaði til þess með skelfingu, hvílík fádæma hefndargirni það væri, sem knúði þessa konu til allra þessara ofsókna gegn honum sjálfum og öllum þeim, sem honum voru velviljaðir og hversu kunnugt henni var um öll vjelabrögð hirðarinnar og alt, sem þar gerðist. Taldi hann víst, að þá vitneskju hefði hún frá kardínálanum. En jafnframt gladdi það hann stórlega, að honum skildist nú, að drotningin hefði loksins getað komist fyrir, hvar frú Bonacieux var haldið leyndri og tekist að koma henni undan úr þeirri prísund. Nú gat hann gert sjer skiljanlegt brjefið frá hinni ungu konu og hvernig á því hefði staðið, að henni brá fyrir á Chaillot-veginum. Og nú kom þá að því, sem Athos hafði spáð, að ekki yrði óvinnandi vegur að finna hana aftur og klaustur það, sem hún nú var geymd í. Þessi tilhugsun blíðkaði geð hans. Hann sneri sjer að særða manninum, sem starði á hann milli vonar og ótta, rjetti honum höndina og sagði: „Nú-jæja! Jeg ætla ekki að yfirgefa þig svona á þig kominn. Styddu þig við mig og svo skulum við snúa aftur til herbúðanna“. „Já“, svaraði hinn og ætlaði varla að trúa sínum eigin eyrum. „En er það þá ekki eingöngu til þess að láta hengja mig þar?“ „Þjer er óhætt að trúa mjer“, sagði d'Artagnan. „Jeg ætla að gefa þjer líf í annað sinn“. Særði maðurinn ljet fallast á hnje og faðmaði fætur lífgjafa síns, en d'Artagnan vildi nú ekki tefja tímann og þóttist ekki hafa ástæðu til að dvelja lengur þarna á næstu grösum við óvinina. Dátinn sem undan komst úr fyrstu skothríðinni, hafði flutt þá fregn til herbúðanna, að þeir, sem með honum hefðu verið, væru allir fallnir. Vakti það því bæði undrun og gleði, þegar d'Artagnan kom aftur heill á hófi og skýrði hann svo frá, að förunautur sinn hefði særst á lærinu í útrás sem gerð hefði verið úr víginu, en hinn dátinn hefði fallið og dró sízt úr hættum þeim, sem þeir hefðu lent í. Var sú frásögn hans ef til vill ekki laus við nokkrar ýkjur, enda hlaut hann lof og aðdáun alls hersins og fjekk heillaóskaskeyti frá sjálfum hertoganum. En því er nú svo varið, að sjerhvert þrekvirki felur í sjer sína eigin umbun og þetta afrek d'Artagnans varð til þess, að hann tók aftur gleði sína og hugarrósemi, enda mátti honum nú vera hughægra, þar sem annar ofsóknarmaður hans var fallinn en hinn orðinn honum hollur og trúr, með því að hann átti honum líf sitt að launa. En þessi geðró d'Artagnans sýndi ekkert annað en það, að hann þekti ekki Mylady til hlítar. XII. Anjou[* Angsjú.]-vínið. Mönnum leizt illa á veiki konungs í byrjun, en ekki leið á löngu að þær fregnir bárust til herbúðanna, að hann væri á góðum batavegi. Og þar sem honum væri áhugamái að vera sjálfur við staddur umsátina, þá fylgdi það fregninni, að hann mundi halda ferð sinni áfram jafnskjótt og hann treysti sjer til að sitja á hesti. Alt að þessu hafði erfðaprinsinn ekki aðhafst neitt verulegt, enda vissi hann, að hann mundi innan skams verða að víkja annaðhvort fyrir hertoganum af Angonlime eða Bassompierre eða Schomberg, þar sem þeir þrír sóttust allir eftir yfirherstjórninni, en hann eyddi tímanum til ýmsra óþarfra og þýðingarlausra athafna og þorði ekki að láta til skara skríða með það að reyna að stökkva Englendingum burt úr eynni Ré, þar sem þeir sátu um Saint-Martin og La Prèe og Frakkar sátu um La Rochelle að sínu leyti. Svo sem áður er sagt, var d'Artagnan nú orðinn rólegri eins og þeim mönnum ávalt fer, sem nýsloppnir eru úr mikilli hættu. Það var nú að eins eitt, sem olli honum nokkurri áhyggju, sem sje það, að hann hafði ekkert frjett af vinum sínum. En morgun einn snemma í nóvember fjekk hann líka skýringu á því í eftirfarandi brjefi, sem honum barst frá Villeroi: ** „Herra d'Artagnan! Þeir háu herrar Athos, Porthos og Aramis hjeldu nýlega samsæti hjer hjá mjer og skemtu sjer ágætlega, en að því loknu hegðuðu þeir sjer á þann hátt, að hallarráðsmaðurinn, sem er maður gætinn og reglusamur, setti þá í varðhald nokkra daga. En samkvæmt skipun þeirra sendi jeg yður hjer með tólf flöskur af Anjou-víni, sem þeir hafa miklar mætur á. Þeir vonast til, að þjer drekkið skál þeirra í þessu ágætis víni. Með sjerlegri virðingu Yðar reiðubúinn þjenari Godeau[* Godó.] veitingasali skyttuliða konungs“. „Húrra!“ hrópaði d'Artagnan. „Þeir minnast mín í gleði sinni eins og jeg minnist þeirra á angursstundum mínum. Og jeg skal líka drekka skál þeirra með sannri ánægu, en það geri jeg ekki einsamall“. Hann fann tvo fjelaga sina, þá lífvarnarliðana, sem honum voru handgengnastir og bauð þeim að drekka með sjer þetta fyrirtaks Anjou-vín, sem sjer hefði verið sent frá Villeroi. En svo stóð á fyrir þeim, að annar þeirra átti að sækja heimboð sama kvöldið og hinn næsta kvöld og varð boð d'Artagnans því að dragast þangað til daginn þar á eftir. D'Artagnan ljet bera flöskurnar ofan í skenkistofu lífvarðarliðanna og bað að geyma þær vel. Þegar boðsdagurinn rann upp, sendi hann Planchet þangað ofan strax klukkan níu til þess að undirbúa boðið, sem standa átti klukkan tólf. Planchet var talsvert upp með sjer af þessu hlutverki sínu og gerði sjer far um að vanda allan undirbúning sem bezt. Hann fjekk sjer til aðstoðar þjón annars boðsgestsins, sem Fourreau hjet og sömuleiðis dátann, sem hafði ætlað að myrða d'Artagnan, en var nú genginn í hans þjónustu, eða öllu heldur Planchets, síðan að d'Artagnan gaf honum líf. Boðsgestirnir komu á tilsettum tíma og settust undir borð og voru rjettirnir svo bornir fram. Planchet gekk um beina með hvíta borðþerru á handleggnum, Fourreau opnaði flöskurnar og Brisemont — svo hjet dátinn — helti víninu á borðflöskur. Það var sem sje hálfgruggað að sjá eftir flutninginn og hristinginn. Brisemont helti dreggjunum úr fyrstu flöskunni í glas og leyfði d'Artagnan honum að drekka þær með því að mannræfill sá var máttfarinn eftir blóðmissinn. Í sömu svipan sem þeir höfðu lokið við súpuna og ætluðu að fara að bragða á víninu heyrðust fallbyssuskot frá tveimur vígjum, Fort Louis og Fort Neuf. Þeir spruttu þegar úr sætum sínum og gripu sverð sín með þvi að þeir hjeldu að La Rochelle-búar eða Englendingar hefðu gert skyndi-áhlaup. D'Artagnan var ekki hvað seinastur og ruku þeir út allir þrír og hlupu á stöðvar sínar. Þeir fengu að vita, af hverju þetta uppþot stafaði, jafnskjótt og þeir komu út úr dyrunum. Allir hrópuðu: lifi konungurinn! og lifi kardínálinn! og hvarvetna voru lúðrar þeyttir og bumbur barðar. Konungurinn var svo bráðlátur, að hann hafði farið náttfari og dagfari og var nú einmitt að koma og með honum tíu þúsund manns til liðsauka. Skyttuliðum hans var skipað bæði framundan og að baki honum. D'Artagnan stóð í röð með fylgisbræðrum sínum, heilsaði vinum sínum allíbyggilegur á svip og eins herra de Tréville. „Það var naumast, að þið komuð á heppilegri stund!“ sagði d'Artagnan. „Maturinn er varla farinn að kólna til muna enn, eða hvað haldið þið, herrar góðir?“ bætti hann við og sneri sjer að hinum tveimur gestum sinum. Hann sagði vinum sínum, hverjir þeir væru. „Nú-jájá! Það virðist svo sem við hittum á samsæti!“ sagi Porthos. „Jeg vona, að þar sjeu engar kvensur við staddar“, sagði Aramis. Er nokkur drekkandi dropi til á þessum stað?“ spurði Athos. „Altjend þetta ágætis vín frá ykkur sjálfum“, svaraði d'Artagnan. „Vín frá okkur? sagði Athos steinhissa. „Já þetta sem þjer senduð mjer“. „Höfum við sent þjer vín?“ „Uss-já, góði! Þetta ágæta vín frá Anjou, sem þú kannast við“. „Jú, víst kannast jeg, við það“. „Þitt uppáhaldsvín“. „Jú-seisei — ef jeg hef ekki annaðhvort kampavín eða Bourgogne“. „Nú-jæja, þú verður þá að gera þjer þetta að góðu fyrst hvorugt hitt er til“. „Þú hefur þá pantað þjer vín frá Anjou?“ spurði Porthos og kjamsaði. „Nei, jeg á við vínið sem þið senduð mjer sjálfir. „Við sent þjer vín?“ hrópuðu þeir allir einum rómi. „Hefur þú sent nokkuð vín, Aramis?“ spurði Athos. „Nei, en þú Porthos?“ spurði Aramis. „Nei, en þú Athos?“ spurði Porthos. „Nei“, svaraði Athos. „Ef enginn ykkar hefur gert það“, sagði d'Artagnan, „þá hefur samt veitingasalinn ykkar gert það að minsta kosti“ „Veitingasalinn okkar?“ „Já, hann Godeau, veitingasali skyttuliðanna“. „Nú-jæja! Það skiftir nú minstu, hvaðan vínið er komið“, sagði Porthos. „Við skulum smakka á því og drekka það upp ef það er boðlegt“. „Nei“, sagði Athos. „Við skulum ekki drekka vín, sem við vitum ekki hvaðan er komið“. „Þú hefur rjett að mæla, Athos“, sagði d'Artagnan. „Það kannast þá engin ykkar við að hafa skipað Godeau að senda mjer vín?“ „Nei — og samt hefur hann gert það í okkar nafni?“ „Já hjerna getið þið sjeð brjefið hans“, sagði d'Artagnan. „Það er ekki hans hönd á því“, sagði Athos. „Jeg ætti þó að þekkja höndina hans, því að það var jeg, sem gerði honum reikningskil fyrir okkur alla áður en við fórum.“ „Það er haugalýgi, alt sem stendur í brjefinu“, sagði Porthos. „Við höfum ekki verið í neinu varðhaldi!“ „D'Artagnan!“ sagði Aramis. „Þú hefur þó aldrei haldið, að við höfum hegðað okkur ósæmilega?“ D'Artagnan varð litverptur og fór um hann kaldur hrollur. „Hvað er þetta, d'Artagnan?“ sagði Athos. „Þú gerir mig skelkaðan. Hvað gengur á?“ „Við skulum flýta okkur, vinir kærir — við skulum hlaupa!“ sagði d'Artagnan. „Hjer er einhver voði á ferðum. Skyldi það vera ein hefndin enn frá þessari konu?“ Nú brá Athos litum. D'Artagnan þaut til skenki stofunnar og skyttuliðarnir á hælum honum ásamt boðsgestunum tveimur. Þegar d'Artagnan kom inn, rak hann fyrst augun í Brisemont. Lá hann endilangur á gólfinu og engdist sundur og saman af ógurlegum krampaflogum. Planchet og Fourreau, báðir nábleikir, voru að reyna að hjálpa honum eftir mætti, en það var auðsjeð, að hjer dugði engin hjálp. Dauðinn hafði þegar sett merki sitt á ásjónu hins veika manns. „Æ-æ!“ æpti hann, þegar hann kom auga á d'Artagnan. „Æ, þetta er óttalegt! Þjer ljetuð sem þjer hefðuð fyrirgefið mjer — og gáfuð mjer svo eitur!“ „Jeg!“ sagði d'Artagnan. „Hvað eruð þjer að segja, veslings maður?“ „Þjer gáfuð mjer vínið, segi jeg — og sögðuð mjer að drekka það. Þjer ætluðuð að hefna yðar á mjer — og það er óttalegt, segi jeg!“ Þetta megið þjer ekki halda, Brisemont!“ sagði d'Artagnan. „Jeg fullvissa yður — jeg skal sverja — —“ „Æ-æ, en guð er uppi yfir okkur og hann mun hegna yður! Guð minn! Láttu hann einhvern tíma kveljast eins og jeg kvelst núna!“ „Jeg sver það við alt, sem heilagt er!“ hrópaði d'Artagnan og fleygði sjer á gólfið við hliðina á hinum veika manni. „Jeg sver þess dýran eið, að jeg vissi ekki að vínið væri eitrað. Jeg ætlaði sjálfur að fara að drekka það“. „Jeg trúi yður ekki“, sagði dátinn og gaf upp andann með hræðilegum kvölum. „Þetta er voðalegt“, tautaði Athos, en Porthos mölvaði allar flöskurnar og Aramis gerði boð eftir presti, þó að það væri nú helzt til seint. „Æ, kæru vinir!“ sagði d'Artagnan. „Enn einu sinni hafið þið bjargað lífi mínu, og ekki að eins mínu, heldur einnig þessara manna. Herrar góðir!“ sagði hann og sneri sjer að gestum sínum. „Jeg bið ykkur að hafa ekki orð á þessu. Það er ekki óhugsanlegt að háttsettar persónur eigi hjer einhvern hlut að máli og þá yrðum við fyrir skakkafallinu, ef uppvíst yrði“. „Æ, góði herra!“ sagði Planchet með lífið í lúkunum. „Jeg slapp þó vel!“ „Hvað ertu að segja, afglapinn þinn?“ sagði d'Artagnan. „Ætlaðir þú að stelast í vínið?“ „Jeg ætlaði bara að fá mjer lítið glas, konginum til heiðurs — en þá hrópaði Fourreau til mín, að þjer væruð að kalla á mig“. „Ó-ó!“ stundi Fourreau og nötruðu í honum tennurnar af skelfingu. „Jeg ætlaði bara að koma honum burt, til þess að geta drukkið einn!“ „Herrar góðir!“ sagði d'Artagnan og vjek sjer að lífvarðarliðunum. „Þið sjáið, vona jeg, að þetta samsæti yrði heldur dapurlegt eftir alt það, sem hjer hefur borið við. Jeg bið ykkur því afsökunar og sting upp á því að fresta samsætinu til betri tíma“. Þeir tóku afsökun d'Artagnans kurteislega og gengu burt. Þóttust þeir vita, að hinir fjórir fjelagar vildu helzt vera einir saman. Þeir litu hver framan í annan þegar þeir voru orðnir einir eftir og var auðsjeð á svip þeirra allra, að þeir skildu, hver alvara var hjer á ferðum. „Við skulum fyrst og fremst komast út úr þessari stofu“, sagði Athos. „Dauðir menn eru daprir fjelagar“. „Jeg ætla að biðja þig, Planchet, að sjá um lík þessa veslings manns og að láta jarða hann í vígðri mold“, sagði d'Artagnan. „Hann hefur að vísu framið óbótaverk, en hann hefur líka sannarlega iðrast misgerða sinna“. Gengu þeir svo út fjórir saman og fólu þeim Planchet og Fourreau að sjá um jarðarför Brisemonts. Þeim fjelögum var vísað til annars herbergis og var þeim borinn þangað einkar óbrotinn málsverður — soðin egg og vatn, en svo var Athos varfærinn, að hann sótti þeim sjálfur vatnið. Voru þeim Porthos og Aramis nú sagðir allir málavextir. „Jæja-þá!“ sagði d'Artagnan við Athos. „Þú sjerð nú, að hjer er barist til þrautar“. „Jú, jeg sje það, sagði Athos og hristi höfuðið. En heldurðu að það sje hún?“ „Já, það er jeg sannfærður um“. „Jeg skal játa, að jeg er enn þá í nokkrum vafa“. „En liljurnar á öxlinni?“ „Getur hugsast, að það sje enskur kvenmaður, sem hefur framið eitthvert ódáðaverk hjer á Frakklandi og hefur svo verið brennimerkt“. „Jeg segi þjer satt, Athos, að það er þín eigin kona“, svaraði d'Artagnan. „Manstu ekki, hvað lýsingarnar áttu vel við?“ „Jú, en jeg ætti þó að vera nokkurn veginn viss um, að hún sje dauð. Jeg hengdi hana svo rækilega“. Nú hristi d'Artagnan höfuðið. „Hvað á nú til bragðs að taka?“ spurði hann. „Svo er mál með vexti, að það er ómögulegt til lengdar að hafa sverðið alt af hangandi yfir höfði sjer“, sagði Athos. „Við verðum einhvern veginn aö komast út úr þessu öngþveiti“. „En hvernig þá?“ „Heyrðu nú! Reyndu að hitta hana og komast að einhverjum málalokum. Segðu sem svo við hana: Annaðhvort stríð eða frið! Jeg legg þar við drengskap minn, að jeg skal aldrei ljóstra neinu upp um yður — aldrei andæfa yður í neinu. Aftur lofið þjer fyrir yðar leyti að láta mig afskiftalausan. Ef þjer gangið ekki að þessu, þá sný jeg mjer beint til kanzlarans eða kóngsins eða jafnvel til böðulsins — jeg siga hirðinni á yður: afhjúpa yður sem brennimerkt glæpakvendi, fæ yður dæmda — og ef þjer verðið sýknuð, þá skal jeg, sem jeg er lifandi maður, leggja yður að velli á almannafæri, eins og menn rota bandóða skepnu“. „Þetta er ágæt uppástunga“, sagði d'Artagnan, „en hvernig á jeg að ná fundi hennar?“ „Tíminn gefur tækifærið, kæri vin. Það er tækifærið, sem ræður spilunum í hendi manns. Þess meira sem sett er undir, þess meiri verður vinningurinn ef maður bara hefur vit á því að bíða“. „Jú, að bíða — umkringdur á allar hliðar af flugumönnum og eiturbyrlurum!“ „Forsjónin hefur haldið sinni verndarhendi yfir okkur hingað til“, sagði Athos, „og hún mun líka gera það framvegis“. „Já, yfir okkur, satt er það, en við erum líka karlmenn og auk þess fylgir það stöðu okkar að stofna lífi okkar í hættu“, sagði d'Artagnan. „En hún?“ bætti hann við í hálfum hljóðum. „Hún! Hver er hún?“ spurði Athos. „Constance“. „Frú Bonacieux! Æ-já, það er satt“, sagði Athos. „Jeg var nú alveg búinn að gleyma því, veslings vinur minn, að þú ert ástfanginn“. „Jú, en þú sást sjálfur í brjefinu, sem þú tókst af dauða fantinum, að hún er geymd í einhverju klaustri“, sagði Aramis. „Og það er gott að vera í klaustri! Og því skal jeg lofa og líka efna, að þegar þessari fyrirsát er lokið þá — —“ „Það er ágætt!“ sagði Athos. „Við vitum vel, að allar þínar hugsanir beinast að trúarbrögðum.“ „Já, jeg er ekki skyttuliði nema um stundarsakir“, sagði Aramis hógværlega. „Það er sjálfsagt langt síðan, að hann hefur frjett nokkuð af kærustunni“, hugsaði Athos með sjer, „En það er ekki til neins að fást um það — það þekkja fleiri“. „Mjer sýnist þetta nú ekki vera sjerlegt vandamál“, sagði Porthos. „Hvernig þá?“ spurði d'Artagnan. „Sagðirðu ekki, að hún væri geymd í einhverju klaustri?“ „Jú“. „Nú-jæja! Hvað er þá annað en ná henni úr því klaustri þegar umsátinni er lokið?“ „Fyrst verðum við þó að vita, hvar það klaustur er“. „Já, það er alveg, satt“, sagði Porthos. „En hvað jeg vildi sagt hafa“, skaut Athos inn í. „Var það ekki svo, d'Artagnan góður, að drotningin veldi þetta klaustur handa henni?“ „Jú — að minsta kosti hef jeg ástæðu til að halda það“. „Jæja — þá er Porthos einmitt sá maður, sem getur hjálpað okkur“. „Og hvernig þá, með leyfi að spyrja?“ „Auðvitað með því að leita aðstoðar markgreifafrúarinnar, hertogafrúarinnar, prinsessunnar, eða hvað hún nú er. Hún hlýtur að vera voldug og máttug“. „Þei-þei!“ sagði Porthos og studdi fingrinum á varirnar. „Jeg er hræddur um, að hún sje í flokki kardínálans — það er óþarfi að láta hana vita neitt um það“. „Þá skal jeg takast á hendur að komast fyrir, hvar hún sje“, sagði Aramis. „Þú, Aramis!“ kvað við einum rómi hjá þeim öllum. „Hvernig þá?“ „Með því að spyrja skriftaföður konungs, — jeg er honum nákunnugur“, svaraði Aramis og roðnaði. Og við það skildu þeir fjelagar, er þeir höfðu lokið máltíð sinni, en komu sjer saman um að hittast aftur sama kvöldið. D'Artagnan för heim til sín, en skyttuliðarnir til herbúða konungs til þess að hreiðra þar um sig. XIII. Rauða dúfnabúrið. Konungur hafði hvatað mjög ferðinni eins og áður er sagt, til þess að komast sem fyrst í námunda við óvinaherinn, enda hataðist hann við Buckingham engu síður en kardínálinn og hafði líka meiri ástæðu til þess. Tók hann þegar eftir komu sína að gera ýmsar ráðstafanir, sumpart til þess að hrekja Englendinga úr eynni Ré og sumpart til þess að herða á umsátinni um La Rochelle. En þvert á móti vilja hans, varð samt mikill dráttur á öllum framkvæmdum vegna sundurlyndis herforingjanna. Bassompierre og Schomberg voru marskálkar að nafnbót og kröfðust því að hafa yfirstjórn hersins á hendi næst konungi. Hins vegar grunaði kardínálann, að Bassompierre væri Húgenotti í raun og veru og óttaðist því, að hann mundi sækja slælega fram á móti trúbræðrum sínum, Englendingum og La Rochelle-búum. Hjelt hann því hertoganum af Angouléme fram og að hans tilhlutun gerði konungur hertogann að yfirhershöfðingja. En raunar varð sú reyndin á, að hver þeirra varð að fá sína forustu til þess að Bassompierre og Schomberg yfirgæfu ekki herinn. Bassompierre tók sjer stöðu norðan við borgina, hertoginn af Angouléme austan til og Schomberg sunnan til. Aðalherstöðvar hertogans voru í Dompierre. Konungur var ýmist í Etrè eða La Jarrie og loks hafðist kardínálinn við í óálitlegu og óvíggirtu húsi í sandhólunum. Á þennan hátt gat hertoginn litið eftir Bassompierre, konungurinn haft tilsjón með hertoganum og kardínálinn haft vakandi auga á Schomberg. Þegar búið var að koma þessu fyrir, var farið að hugsa til að stökkva Englendingum burt. Nú gafst gott tækifæri til þess. Englendingum er það fyrir öllu að hafa nægan og góðan mat, ef þeir eiga að geta gegnt herþjónustu svo að vel fari, en á eyinni Ré höfðu þeir ekki aðrar vistir en saltkjöt og myglað brauð. Var því ærinn sjúkleiki í herbúðum þeirra. Auk þess var ákaflega brimasamt um þetta leyti árs, svo að varla leið nokkur sá dagur, að ekki hlektist einhverjum skútum þeirra á, enda var öll strandlengjan frá Aiguillon-tanga til víggrafanna alstráð skipsflökum og bátarusli. Þó að herlið konungs hefði legið aðgerðalaust í herbúðum sínum, þá hlaut samt að reka að því, að Buckingham neyddist til að hætta umsátinni, enda hjelt hann eynni Ré af tómri þrjózku. En svo kom tilkynning frá herra Toirac, að óvinaherinn væri að búa sig undir nýtt áhlaup. Gaf konungur þá loksins skipun um að láta skríða til skara og honum til mikillar undrunar og kardínálanum til stórmikils sóma tókst það fyrirtæki öllum vonum framar. Englendingar urðu að hopa undan fet fyrir fet, biðu alstaðar lægra hlut og tvístruðust að lokum. Varð mannfall mikið í liði þeirra, og þeir sem uppi stóðu, urðu að leita skipanna í snatri, en á vígvellinum lágu tvö þúsund manns, þar á meðal átta yfirforingjar, tvö hundruð og fimtíu höfuðsmenn sem og tuttugu hinir tignustu aðalsmenn. Claude de Saint Simon flutti fjórar fallbyssur og sextíu gunnfána til Parísar og voru fánarnir hengdir undir þakhvolf Frúarkirkju sem sigurmerki. Te Deum[* Gamall lofsöngur.] var sungið í herbúðunum og víðar um Frakkland. Kardínálinn gat þá snúið sjer algerlega að umsátinni um La Rochelle án þess að þurfa að óttast fleiri árásir af hendi Englendinga — að minsta kosti fyrst um sinn. En hann átti ekki lengi þeirri hvíld að fagna. Sendiboði Buckinghams hertoga, Montaigu að nafni, hafði verið tekinn höndum og fengust sannanir fyrir því, að Austurríki og Spánn, England og Lothringen hefðu gert bandalag sín á milli. Og þetta bandalag var myndað gegn Frakklandi. Þetta sannaðist betur af skjölum, sem fundust í fórum Buckinghams, er hann skildi eftir á eynni Ré, en þaðan varð hann að fara í flughasti. Einnig segir Richelieu í endurminningum sínum, að ýmislegt í skjölum þessum hafi verið mjög niðrandi fyrir frú Chevreuse og um leið fyrir drotninguna. Öll ábyrgðin lá á kardínálanum, því enginn verður alvaldur ráðherra án þess að bera ábyrgð. Þessi framúrskarandi stjórnmálaspekingur unni sjer heldur ekki hvíldar, hvorki dag nje nótt og hafði nákvæmar gætur á öllu, stóru og smáu, sem gerðist í stjórnmálum allra hinna stærri ríkja. Kardínálanum var kunnugt um atorku Buckinghams og þó einkum um hatur hans. Ef bandalag það, sem ógnaði Frakklandi, bæri sigur úr býtum, þá mundu áhrif hans að engu verða. Stjórnmálastefna Spánar sem og Austurríkis átti sjer fulltrúa við frönsku hirðina, það er að segja eingöngu fylgismenn þeirrar stefnu, en enga andstæðinga. Franski ráðherrann Richelieu, þjóðlegastur allra ráðherra, mundi falla úr sögunni. Konungurinn hlýddi honum að vísu eins og barn, en hafði jafnframt sömu anstygð á honum og sum börn hafa á kennara sínum og ljet hann ótæpt verða fyrir hatri drotningar og erfðaprinsins — jú, Richelieu mundi falla úr sögunni og Frakkland ef til vildi líka — en þessu varð að afstýra. Ekki leyndi það sjer heldur, að hraðboðum fór sífjölgandi, sem áttu erindi bæði nætur og daga í litla húsið, sem kardínálinn hafðist við í. Þangað komu múnkar og fór kuflinn þeim svo illa, að auð sjeð var að það voru „kirkjunnar stríðshetjur“. Þangað komu konur, sem voru allóvanar hirðsveinaklæðum, er ekki gátu heldur dulið til fulls skapnað þeirra — og þangað komu loks bóndamenn, sem að vísu voru óhreinir um hendurnar, en jafnframt svo fótnettir, að enginn efi var á því, hverrar stjettar þeir voru í raun og veru. En þangað komu líka miður þægilegir gestir, því að nokkrum sinnum flaug það fyrir, að kardínálinn hefði með naumindum sloppið úr klóm launmorðingja. Raunar fullyrtu fjandmenn kardínálans, að hann espaði sjálfur slíka flugumenn gegn sjer, því að á þann hátt þættist hann ávinna sjer nokkurs konar rjett til að beita sömu aðferð gegn öðrum þegar honum þætti við þurfa. En það má hvorki taka of mikið mark á orðum ráðherra nje heldur á orðum fjandmanna þeirra. Hvað sem því nú líður, þá er það víst að kardínálinn, sem engin frýði hugur — jafnvel ekki örgustu óvinir hans — ljet slíkt ekki aftra sjer frá að vera á ferli um nætur, ýmist til að gefa hertoganum af Angouléme áríðandi dagsskipanir, ráðgast við konung eða þá að tala við einhvern sendiboðann, sem hann ekki vildi hleypa inn til sín. Skyttuliðarnir áttu náðuga daga meðan á umsátinni stóð og höfðu ekki sjerlega strangt aðhald, enda lifðu þeir við glaum og gleði. Veitti þeim þetta enn hægra vegna kunningsskapar síns við de Tréville, svo að ekki varð þeim nein skotaskuld úr því að fá útgönguleyfi úr herbúðunum og hjelzt uppi að vera úti langt fram yfir tilskipaðan tíma. Þá var það eitt kvöld er d'Artagnan stóð á verði í gröfunum og gat því ekki farið út með fjelögum sínum, að þeir Athos, Porthos og Aramis komu úr veitingahúsi, sem Athos hafði „uppgötvað“ fyrir skömmu á leiðinni til La Jarrie og kallað var „Rauða dúfnabúrið“. Þeir sátu kuflklæddir á stríðshestum sínum og höfðu skammbyssurnar til taks, ef þeir skyldu verða fyrir launsátri. Þegar þeir áttu skamt eftir til þorpsins Boinax, þóttust þeir heyra hófadyn, sem nálgaðist þá. Þeir námu þá staðar, hnöppuðu sig saman og biðu á miðjum veginum. Rjett á eftir dró ský frá tunglinu og sáu þeir þá hvar tveir riddarar komu á harða spretti. Þeir stöðvuðu nú líka sína hesta þegar þeir komu auga á skyttuliðana og virtust vera að ráða með sjer, hvort þeir ættu að halda áfram eða snúa aftur. Þetta þótti skyttuliðunum grunsamt, svo að Athos reið spölkorn áfram og kallaði hátt: „Hverjir eru þar?“ „Hverjir eruð þið sjálfir?“ svaraði annar riddarinn. „Þetta er ekkert svar“, sagði Athos. „Hverjir eruð þið? Svarið strax — annars skjótum við“. „Varið ykkur á því“, var svarað aftur í gjallandi rómi, er virtist vanur að skipa. „Það er líklega einhver yfirforingi, sem er að gæta að varðstöðvunum“, sagði Athos við fjelaga sína. „Hvað eigum við þá að gera?“ „Hverjir eruð þið?“ kallaði sami maðurinn í skipunarróm. „Svarið því — annars gæti það komið ykkur illa að þrjózkast“. „Við erum úr skyttuliði konungs“, svaraði Athos og varð æ sannfærðari um, að sá sem spurði, hefði rjett til þess. „Hvaða herfylki?“ „Herfylki de Trévilles“. „Ríðið fram í röð og gerið mjer grein fyrir, hvað þið eruð að gera hjer um þetta leyti“. Þeir fjelagar riðu fram, fremur kollhúfulegir, því að þeim skildist nú, að hjer var við yfirmann að eiga, og ljetu Athos hafa orðið fyrir þeim. Sá riddarinn, sem talað hafði við þá, reið spölkorn fram fyrir förunaut sinn og Athos benti fjelögum sínum að vera kippkorn fyrir aftan sig. „Jeg bið afsökunar, herra fyrirliði!“ sagði Athos. „Okkur grunaði sízt, hver þjer væruð — en þjer sjáið þó, að við erum á varðbergi“. „Hvað heitið þjer?“ spurði fyrirliðinn og dró kufl sinn til hálfs fyrir andlitið. „Hvað heitið þjer sjálfur, herra góður?“ sagði Athos og var nú farið að síga í hann. „Gerið svo vel að sýna mjer eitthvert merki þess, að þjer hafið rjett til að spyrja mig“. „Hvað heitið þjer?“ spurði riddarinn aftur og fletti kuflinum frá andlitinu. „Kardínálinn sjálfur!“ hrópaði Athos alveg forviða. Hvað heitið þjer?“ spurði hans Hágöfgi í þriðja sinn. „Jeg heiti Athos“, sagði skyttuliðinn. Kardínálinn benti fylgdarmanni sínum að koma nær. „Jeg læt þessa þrjá skyttuliða fylgja okkur“, sagði hann lágt. „Jeg vil ekki að neinn komist á snoðir um, að jeg hafi farið út fyrir herbúðirnar, en við erum vissir um að þeir segja engum frá því, ef þeir verða í för með okkur“. „Við erum aðalsmenn, yðar Hágöfgi“, sagði Athos. „Krefjist af okkur dreingskaparorðs og þá er öllu borgið. Svo er fyrir að þakka, að við kunnum að varðveita leyndarmál“. Kardínálinn hvesti augun á skyttuliðann. „Þjer hafið næma heyrn, herra Athos“, sagði hann. „En jeg bið ykkur ekki að slást í för með mjer vegna þess, að jeg, ætla ykkur ílt, heldur mjer til tryggingar. Þessir förunautar yðar eru líklega herrarnir Porthos og Aramis?“ „Já, það eru þeir, yðar hágöfgi!“ svaraði Athos. — Þeir færðu sig nær og tóku ofan. „Jeg kannast við ykkur, herrar góðir“, sagði kardínálinn. „Jeg, þekki ykkur vel. Jeg veit að þið eruð engir vinir mínir og mjer þykir það leitt, en jeg veit líka, að þið eruð heiðvirðir aðalsmenn og að það er óhætt að reiða sig á ykkur. Viljið þjer þá, herra Athos, sýna mjer þann sóma að fylgja mjer ásamt þessum tveimur vinum yðar? Jeg hef þá svo frítt föruneyti, ad sjálfur konungurinn mundi öfunda mig ef hann mætti okkur. Skyttuliðarnir hneigðu sig djúpt. „Það er rjett af yðar Hágöfgi að taka okkur í fylgd yðar“, sagði Athos. „Við höfum orðið varir við ískyggilega menn á leiðinni og höfum líka átt í erjum við fjóra illhryssinga í „Rauða dúfnabúrinu“ núna rjett áðan“. „Átt í erjum — vegna hvers, herrar góðir? þið vitið að illdeilur eru mjer ekki að skapi“. „Einmitt þess vegna leyfi jeg mjer að skýra yðar Hágöfgi frá, hvað við bar. Annars gæti svo farið, að þjer fengjuð söguna rangfærða úr annari átt og hjelduð að við hefðum átt upptökin“. „Og hver urðu þá endalokin á þessum erjum?“ spurði kardínálinn og hnyklaði brýrnar. „Aramis þarna fjekk stungu í handlegginn en þó ekki stærri en svo, að hún mun ekki hindra hann frá herþjónustu á morgun ef yðar Hágöfgi þóknast að gera áhlaup“. „En annars fáið þið ekki orð fyrir að taka þeigjandi á móti sverða stungum og spjótalögum“, sagði kardínálinn „og hafið sjálfsagt fyllilega borið hönd fyrir höfuð ykkur. En skriftið bara fyrir mjer — mjer ber rjettur til að veita syndalausn, eins og þið vitið“. „Það kom aldrei til þess, yðar hágöfgi, að jeg fyrir mitt leyti brygði sverðinu“. sagði Athos. „Jeg náði tökum á mótstöðumanni mínum, hóf hann á loft og fleygði honum út um glugga, en hann hefur víst komið eitthvað illa niður, því að hann lærbrotnaði að jeg held!“ „Það er svo“, sagði kardínálinn — „en þjer herra Porthos?“ „Jeg vissi að einvígi eru bönnuð, yðar Hágöfgi,“ svaraði Porthos. „þess vegna greip jeg bekk og slangraði honum í einn af þessum illhryssingum og sá hinn sami held jeg að hafi handleggsbrotnað“. „Núnú — og þjer herra Aramis?“ sagði kardínálinn. „Jeg er nú mesti friðsemdar maður, yðar Hágöfgi“, svaraði Aramis — „og er í þann veginn að taka vígslu, eins og þjer hafið kannske heyrt. Þess vegna ætlaði jeg að ganga á milli, en þá kom einn af þessum föntum aftan að mjer og lagði sverðinu í handlegginn á mjer. Mjer varð þá skapfátt, brá sverðinu og held, að jeg hafi rekið þann kauða í gegn — að minsta kosti sá jeg, að hann fjell og mjer sýndist hann ryðja tveimur öðrum um koll, um leið og hann datt“. „Jájá — skárra er það!“ sagði kardínálinn. „Þrír menn gerðir óvígir í áflogum í veitingahúsi! Þið fjelagar eruð víst fremur þunghentir — en út af hverju reis svo þessi deila?“ „Þeir voru víst hálffullir, þessir náungar“, sagði Athos. „Þar var stödd aðkomandi kona og var í herbergi sjer og inn til hennar ætluðu þeir að ryðjast“. „Ryðjast inn til konunnar!“ sagði kardínálinn. Hvað vildu þeir henni?“ „Líklega ekki annað en að svívirða hana“, sagði Athos. „Þeir voru fullir, eins og jeg sagði“. „Var þetta ung og fríð kona?“ spurði kardínálinn hálfórólegur. „Við sáum hana ekki, yðar Hágöfgi“. „Sáuð þjer hana ekki? Nú-jæja!“ sagði kardínálinn sýnu ljettbrýnni. „Það var rjett af ykkur að vernda sóma konunnar — en jeg á nú einmitt erindi í þetta veitingahús og þá get jeg fengið að vita, hvort þið hafið sagt mjer satt frá“. „Við erum aðalsmenn, yðar Hágöfgi“ sagði Athos með nokkrum þjósti, „og mundum ekki fara með neinar lygar þó líf okkar lægi við“. „Jeg er ekki heldur að efa frásögur ykkar — það væri langt frá mjer!“ svaraði kardínálinn. „En svo að jeg víki þá að öðru — var þessi kona ein á ferð?“ „Nei það var karlmaður með henni og var inni hjá henni. En þrátt fyrir allan hávaðann og ryskingarnar, ljet hann ekkert á sjer kræla, svo að það hefur verið eitthvert bleyðimenni, býst jeg við“. „Dæmið ekki, stendur þar“, svaraði kardínálinn. „En nú hef jeg fengið að vita, það sem jeg ætlaði mjer og bið ykkur þá að fylgjast með mjer“. Þeir riðu á eftir honum, en hann dró aftur kufl sinn fyrir andlitið og var spölkorn á undan fylgdarmönnum sínum. Þeir komu brátt að veitingahúsinu, sem nú var lokað og læst. Var svo að sjá, sem veitingamaðurinn ætti von á komu kardínálanns og hefði því lokað húsinu fyrir öðrum óviðkomandi. Kardinálinn benti fylgdarmönnum sínum að nema staðar skamt frá portinu, en við það var bundinn hestur með öllum reiðtýgjum. Kardínálinn barði þrjú sérkennileg högg á porthurðina og kom þá þegar út maður, sveipaður stórum kufli. Hann talaði fáein orð hljóðlega við kardínálann, stje síðan á bak hestinum og þeysti fram á veginn, sem lá til Parísar. „Komið nú, herrar góðir“, sagði kardínálinn. „Þið hafið sagt mjer satt og rjett frá“, sagði hann við skyttuliðana, „og ekki skal það verða mjer að kenna ef samfundir okkar í kvöld koma ykkur að engum notum“. Kardínálinn fór af baki og skyttuliðarnir sömuleiðis. Gestgjafinn stóð í dyrunum og ljet sem hann vissi ekki annað, en að kardínálinn væri óbreyttur liðsforingi, sem ætlaði sjer að heimsækja þessa konu, sem komin var. „Er nokkuð upphitað herbergi hjerna niðri, þar sem þessir herrar geta beðið eftir mjer?“ spurði kardínálinn. Gestgjafinn opnaði dyrnar að stórum sal. Þar hafði nýlega verið tekinn burt ofngarmur en stór og góð eldstó sett í staðinn. „Þeir geta fengið þetta herbergi“, sagði hann. „Það er gott“, sagði kardínálinn. „Gerið svo vel að ganga inn herrar góðir, og bíðið mín hjerna. Jeg skal koma aftur eftir hálfa klukkustund“. Skyttuliðarnir gengu inn, en kardínálinn fór hiklaust upp á loft án þess að spyrja sig fyrir, rjett eins og hann væri húsinu gagnkunnugur. XIV. Til hvers má nota ofnpípu. Það var auðsætt, að þeir fjelagar þrír höfðu gert kvennpersónu, sem naut sjerlegrar hylli kardínálans, stórkostlegan greiða og ekki gengið annað til þess, en drengskapur og riddaraleg hæverska. En hver var þá þessi kvennpersóna? Um það voru skyttuliðarnir að skrafa sín á milli, en komust ekki að neinni niðurstöðu. Porthos fanst það bezt að vera ekki að hugsa um það lengur, kallaði á gestgjafann og bað hann um teninga. Porthos og Aramis settust við borð og fóru að varpa teningum, en Athos gekk fram og aftur um gólfið í djúpum hugsunum. Varð honum þá alt af gengið fram hjá ofnpípunni, sem enn þá hjekk í loftinu síðan ofninn var tekinn, náði upp í herbergið þar uppi yfir og var opin í báða enda og í hvert skifti, sem hann gekk þarna fram hjá, heyrðist honum einhver ómur, eins og menn væru að tala saman uppi á loftinu. Athos fór þá loksins að veita þessa betri eftirtekt og benti fjelögum sínum að hafa hljótt um sig. Orðin, sem hann nú heyrði að ofan, hafa honum víst þótt furðu merkileg, því að nú lagði hann eyrað fast að neðra opinu á ofnpípunni. „Lítið þjer á, Mylady,“ heyrði hann kardínálann segja. „Þetta er mikilsvarðandi málefni. Fáið þjer yður sæti og svo skulum við tala betur saman um þetta“. „Mylady!“ tautaði Athos. „Jeg skal taka vel eftir, yðar Hágöfgi“, svaraði kvennmannsrödd og hrökk Athos við þegar hann heyrði málróminn. „Það bíður yðar lítið skip við ósinn á Charente við Le Pointe-vígið. Skipshöfnin er ensk og skipstjórinn áreiðanlegur. Skipið fer snemma í fyrra málið“. „Jeg verð þá að fara út í það í kvöld“. „Já, núna undir eins, það er að segja, jafnskjótt og jeg hef sagt yður erindið. Þjer munið hitta tvo menn hjer fyrir utan, sem eiga að fylgja yður til skips. Jeg fer út á undan svo komið þjer hálftíma seinna“. „Gott og vel, en við skulum nú snúa okkur að þessari sendiför, sem yðar Hágöfgi ætlar að trúa mjer fyrir. Mjer ríður mjög mikið á að halda hylli yðar framvegis eins og hingað til og vil því biðja um skýrar og ótvíræðar fyrirskipanir, svo að jeg eigi ekki á hættu, að neitt fari í handaskolum fyrir mjer“. Nú varð stundarþögn uppi. Var kardínálinn auðvitað að hugsa með sjer fyrirskipanir sínar og beið Mylady þeirra með eftirvæntingu. Athos notaði þessa þögn til þess að biðja fjelaga sína að loka hurðinni og benti þeim síðan að koma til sín að ofnpípunni. Þeir tóku sjer stóla og settust svo allir við ofnpípuna. „Þjer eigið að fara til London“, hjelt kardínálinn áfram „og ganga svo á fund Buckinghams þegar þangað er komið“. „Jeg verð að benda yðar Hágöfgi á það, að hertoginn grunar mig alt af um græsku síðan demantamálið var á ferðinni, svo að hann ber nú ekkert traust til mín lengur“. „Þjer þurfið ekki á trausti hans að halda í þetta skifti“, sagði kardínálinn. „Þjer eigið bara að koma fram við hann sem semjandi — blátt áfram og undirhyggjulaust“. „Blátt áfram og undirhyggjulaust!“ endurtók Mylady með einstökum lævísi og lymskusvip. „Já, blátt áfram og undirhyggjulaust“ sagði kardínálinn aftur með sama lymskusvipnum. „Þjer verðið að tala við hann hreint og beint og afdráttarlaust.“ „Jeg mun haga mjer nákvæmlega eftir því, sem yðar Hágöfgi mælir fyrir“. „Þjer eigið að finna Buckingham fyrir mína hönd og segja honum, að mjer sjeu kunnar allar ráðstafanir hans og að jeg sje ekki sjerlega smeykur við þær, því að jeg muni steypa drotningunni af stóli undir eins og hann hreyfir sig nokkuð“. „En ætli hann trúi því, að þjer sjeuð þess megnugur?“ „Já, því að jeg hef næg sönnunargögn í höndum“. „Jeg þarf að geta sýnt honum þau sönnunargögn“. „Já, auðvitað! Þjer skuluð segja honum, að jeg muni birta skýrslu þeirra Bois-Roberts og Beautru greifa um stefnumót hertogans og drotningar á grímudansleik dróttsetafrúarinnar. Og til þess að færa honum heim sanninn um þetta, getið þjer bætt því við, að hann hafi verið í Mongólabúningi sem hann hafi keypt af hertoganum af Guise fyrir þrjú þúsund gulldali“. „Það skal gert, yðar Hágöfgi“. „Þjer skuluð enn fremur segja honum, að jeg viti upp á hár alt sem fram fór, kvöldið sem hann laumaðist inn í konungshöllina í ítölskum spámannsbúningi. Og svo að hann þurfi ekki að efast um það, þá getið þjer sagt honum, að innundir kuflinum hafi hann verið í hvítum slopp með áteiknuðum hauskúpum, krossleggjum o.s.frv., því ef einhver hefði komið að honum, þá ætlaði hann sjer að látast vera „Hvítu-frúar-draugurinn“, sem sagt er að birtist ætíð í Louvre þegar einhver stórtíðindi eru í vændum“. „Er svo ekki fleira, yðar Hágöfgi?“ „Segið honum einnig, að jeg þekki æfintýri hans í Amiens og að jeg muni láta færa það í letur ásamt uppdrætti yfir lystigarðinn og myndum af aðalpersónunum í þeim leik“. „Jeg skal gera það“. „Segið honum enn fremur, að jeg hafi tekið Montaigu fastan og varpað honum í fangelsi. Það hafi að vísu engin skjöl fundist á honum, en að hann muni verða píndur til sagna“. „Það er ágætt“. „Og getið þess líka, að það hafi verið svo mikið óðagot á hertoganum þegar hann fór úr eynni Ré, að honum hafi gleymst þar brjef frá frú Chevreuse, sem sje mjög niðrandi fyrir drotninguna með því að það sýni ljóslega, að hún elski ekki að eins óvin konungs heldur leiti einnig bandalags við óvini ríkisins. Jeg vona nú, að þjer hafið tekið vel eftir því, sem jeg hef verið að segja“. „Já, hlustið þjer nú á, yðar Hágöfgi: Grímudansleikurinn hjá drótsettafrúnni, kvöldið í Louvre, nóttin í Amiens, brjefið frá frú Chevreuse — —“ „Það er gott“, sagði kardínálinn. „Það er ágætt. Þjer eruð stálminnug, Mylady“. „En ef hertoginn lætur sjer nú ekki segjast við þetta alt saman og heldur áfram að ógna Frakklandi?“ „Hertoginn er orðinn hálf ærður af þessu ástabralli sínu og hugsar ekki um annað“, svaraði Richelieu gremjulega. „Hann lætur alveg eins og farandriddararnir gömlu og hefur hafið þennan ófrið eingöngu til þess að geta náð fundi ástkonu sinnar. En ef honum er bent á það, að þessi árás hans geti varðað sóma og frelsi ástkonu hans, þá trúi jeg ekki öðru, en að renni á hann tvær grímur“. En Mylady var þrálát og vildi þekkja út í æsar erindi það, sem hún átti að reka. „Ef hann lætur sig nú ekki samt sem áður?“ sagði hún. „Það er næsta ólíklegt“, sagði kardínálinn. „Já, en ekki óhugsanlegt“, sagði Mylady. „Ef hann verður ósveigjanlegur — ef honum verður als ekki þokað — nújæja! Þá vonast jeg bara eftir einhverjum þeim atburði, sem breytir örlögum þjóða og ríkja á einni svipstundu“. „Kannske að yðar Hágöfgi vildi nefna mjer einhvern slíkan atburð í veraldarsögunni“, sagði Mylady. „Jeg yrði þá ef til vill ögn vonbetri um afdrif þessa máls“. „Já, jeg skal nefna yður eitt dæmi“, svaraði kardínálinn. „Þegar Hinrik fjórði, hásællar minningar, ætlaði að ráðast með ófriði á Flæmingjaland og Ítalíu árið 1610 af svipuðum ástæðum og Buckingham nú og hefna sín þannig á Austurríki, nú! — þá kom fyrir atburður sem bjargaði Austurríki. Hví skyldi eitthvað svipað ekki geta borið við aftur?“ „Eigið þjer við hnífstunguna á Ferronnerie-götunni?“ „Já, jeg á við hana“, sagði kardínálinn. „En haldið þjer ekki, að þessi hræðilega hegning, sem Ravaillae varð fyrir, muni fæla hvern mann frá að fara að dæmi hans, sem annars kynni að hugsa til þess?“ „Það munu ávalt og í öllum löndum finnast ofstækismenn, sem fúsir eru til að líða píslarvættisdauðann, einkum ef landið logar alt í trúarbragðadeilum. Og bíðum nú við — nú dettur mjer í hug að „hreintrúarmenn“ eru ákaflega æstir gegn Buckingham og að prjedikarar þeirra kalla hann falskrist“. „Og hvað um það?“ „Nú-jæja! Eins og hjer stendur á, er vandinn ekki annar en að finna unga, fríða og laglega konu, sem vildi hefnast á hertoganum sjálfrar sín vegna og slík kona hlýtur að finnast einhverstaðar. Hertoginn hefur verið kvennhollur mjög og lofað konum óspart trygð sinni, en jafnframt brugðist þeim svo mörgum, að einhver þeirra hlýtur að leggja hatur á hann“. „Já, slík kona hlýtur að finnast, sagði Mylady kuldalega. „Gott og vel! Slík kona, sem rjetti einhverjum ofstækismanni morðkutann — hún mundi verða talin bjargvættur Frakklands“. „Jú! en hún yrði þá meðsek í morði“. „Hefur það nokkurn tíma vitnast, hverjir voru meðsekir Ravoillae?“ „Nei, en þeir hafa ef til vill verið svo háttsettir, að enginn hefir þorað að grenslast eftir þeim. Það yrði varla farið að leggja eld í dómhöllina fyrir hvern óvalinn mann. „Þjer haldið þá, að dómhallarbrennan hafi ekki verið töm tilviljun?“ sagði kardínálinn. „Jeg held ekki neitt, yðar Hágöfgi — jeg bendi bara á staðreyndir, það er alt og sumt, en hitt er það, að ef jeg hjeti ungfrú Montpensier eða María drotning af Medici, þá mundi jeg viðhafa færri varúðarreglur en nú, þar sem jeg að eins heiti frú Clarick“. „Það er mjög svo eðlilegt“, sagði Richelieu. „En hvers munduð þjer krefjast ef til kæmi?“ „Jeg mundi krefjast skriflegrar yfirlýsingar, er samþykti fyrir fram alt, sem jeg þættist þurfa að gera í þágu Frakklands“. „En fyrst er að finna þá konu, sem ætti sín í að hefna á Buckingham“. „Hennar þarf nú ekki langt að leita“ sagði Mylady. „Þar næst að finna þann ofstækismann, sem vildi takast á hendur að koma fram guðs hegnandi rjettlæti“. „Hann mun líka finnast“. „Nú-jæja!“ sagði kardínálinn. „Þá og ekki fyr er tími til að heimta þess háttar yfirlýsingu, sem þjer voruð að minnast á“ „Það er alveg rjett, yðar Hágöfgi“ sagði Mylady, „og mjer hefur auðvitað skjáttlast, þar sem jeg hjelt að eitthvað annað byggi undir þessari sendiför minni en að segja hertoganum fyrir yðar hönd, að þjer vitið um búning þann, sem hann notaði til þess að ná fundi drotningar á dansleik dróttsetafrúarinnar, að þjer hafið sannanir fyrir því, að ítölskum stjörnuspámanni hafði verið hleypt inn í Louvre og þar fundið drotningu að máli og að sá stjörnuspámaður hafi enginn annar verið en Buckingham, að þjer ætlið að láta færa í letur frásögn um viðburðina í Amiens með uppdrætti af lystigarðinum, þar sem þeir gerðust og mynd af persónum þeim, sem þar áttu hlut að máli, að Montaigu sje í fangelsi og verði píndur til sagna og loks að þjer hafið í höndum brjef frá frú Chevreuse, sem fundist hafði í fórum hertogans og sje afarniðrandi bæði fyrir hana sjálfa og drotninguna. Og láti svo hertoginn sjer ekki segjast við alt þetta — meira hef jeg ekki verið beðin fyrir — þá ber mjer að eins að biðja forsjónina að firra Frakkland vandræðum með einhverju kraftaverki. Þarna er þá alt upptalið, yðar Hágöfgi og hlutverk mitt ekki annað?“ „Já, þar með er alt upp talið“, sagði kardínálinn. „Og þar sem jeg hef nú fengið fyrir_skipanir yðar viðvíkjandi óvinum yðar“, sagði Mylady, „þá vil jeg nú leyfa mjer að fara fáeinum orðum um óvini mína“. „Yðar óvini! Eigið þjer líka óvini?“ spurði kardínálinn. „Já yðar Hágöfgi — og jeg á sanngirniskröfu á aðstoð yðar gegn þeim, því að jeg hef bakað mjer óvináttu þeirra í yðar þágu“. „Hverjir eru þessir óvinir?“ spurði kardínálinn. „Það er nú fyrst og fremst þessi lævísa frú Bonacieux“. „Hún situr í fangelsi“. „Nei, ekki lengur. Drotningin hefur komið því til leiðar að konungur hefur fyrirskipuð að flytja hana í klaustur“. „Hvaða klaustur?“ „Það veit jeg ekki. Því er haldið leyndu“. „Jeg skal komast fyrir það“. „Og ætlið þjer þá að segja mjer í hvaða klaustri hún er?“ „Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu“, sagði kardínálinn. „Jæja — en svo á jeg annan óvin miklu skæðari en þessa frú Bonaeieux“. „Hver er hann?“ „Það er elskhugi hennar“. „Hvað heitir hann?“ „Þjer þekkið hann vel, yðar Hágöfgi“, sagði Mylady allæst, „Hann er báðum okkur til óheilla. Það var fyrir hans aðgerðir, að lífvarðarliðar yðar biðu lægra hlut í viðureign sinni við skyttuliða konungs. Það var hann, sem særði Wardes greifa, sendiboða yðar þremur sárum og ónýtti fyrir okkur demantamálið og það er líka hann, sem situr um líf mitt af því að hann veit að jeg var völd að brottnámi frú Bonacieux rjett við nefið á honum“. „Einmitt það“, sagði kardínálinn. „Jú, jeg veit við hvern þjer eigið“. „Jeg á við þennan níðangalega d'Artagnan“. „Það er ófeilinn drengur“, sagði kardínálinn. „Já, og einmitt þess vegna er hann hættulegri“. „Það verða þó að fást einhverjar sannanir fyrir því, að hann sje í sambandi við Buckingham“. „Sannanir! Jeg get fengið ótal sannanir“, sagði Mylady. „Jæja, þá er enginn vandi á ferðum. Komið þjer með sannanirnar og svo skal jeg láta varpa honum í fangelsi“. „Það er nú gott og blessað að — hvað svo?“ „Það fara ekki fleiri sögur af honum þegar hann er þangað kominn“, sagði kardínálinn og var alldimmróma. „Hvaða ósköp! Það er ekki út af eins auðráðið við mína óvini. Mjer yrði ekki mikið fyrir að eiga við svona pilta!“ „Æ sjer gjöf til gjalda, yðar Hágöfgi“, sagði Mylady. „Við skulum láta líf á móti lífi og mann á móti manni. Látið mig fá þennan og svo fæ jeg yður hinn“. „Jeg veit ekki við hvað þjer eigið“, sagði kardínálinn, „og kæri mig heldur ekki um að vita það, en jeg vil gjarnan gera yður greiða og sje ekkert því til fyrirstöðu að verða við þessari ósk yðar, fyrst ekki er um merkari mann að ræða, og það því fremur sem þessi d'Artagnan er, að yðar sögn, slarkaramenni, illindaseggur og föðurlandssvikari“. „Hann er ærulaus óþokki, níðingur og — —“ „Fáið mjer þá pappír, penna og blek“, sagði kardínálinn. „Það er hjer altsaman, yðar Hágöfgi“. Nú varð aftur þögn uppi á loftinu. Kardínálinn var víst farinn að skrifa eitthvað. Athos hafði heyrt hvert einasta orð af þessu samtali. Tók hann nú fjelaga sína, sinn til hvorrar handar, og leiddi þá í hinn endann á herberginu. „Hvað er nú?“ sagði Porthos. „Hvað viltu okkur? Hvers vegna eigum við ekki að hlusta á það sem eftir er af þessu samtali þarna uppi ?“ „Þei-þei!“ hvíslaði Athos. „Við erum búnir að heyra alt, sem okkur er nauðsynlegt að heyra — annars getið þið hlustað aftur, en jeg verð að fara“. „Verður þú að fara?“ sagði Porthos. „En hverju eigum við að svara þegar kardínálinn fer að spyrja eftir þjer?“ „Þið skuluð ekki láta hann þurfa að spyrja eftir mjer, heldur segja honum að fyrra bragði, að jeg hafi farið út að njósna af því að gestgjafinn hafi hálfvegis gefið í skyn, að ekki væri sem tryggast á veginum. Jeg ætla fyrst að drepa á það við fylgdarmann kardínálans með örfáum orðum. Hitt kemur sjálfum mjer við — kærið ykkur ekkert um það“. „Farðu gætilega, Athos“, sagði Aramis. „Verið ókvíðnir“, svaraði Athos. „Þið vitið, að jeg er enginn glanni“. Porthos og Aramis settust aftur í sæti sín við ofnpípuna, en Athos gekk út og fór ekki með neinni leynd. Hann tók hest sinn, sem bundinn var við hliðið ásamt hestum fjelaga hans og gerði fylgdarmanni kardínálans skiljanlegt, að nauðsynlegt væri að skygnast um á veginum áður en þeir sneru til herbúðanna aftur. Hann gætti vandlega að hvellhettunni á skammbyssu sinni og reið út á veginn, sem lá til herbúðanna. XV. Hjónaspjall. Kardínálinn kom von bráðar ofan, eins og Athos grunaði. Hann opnaði dyrnar að herberginu, sem skyttuliðarnir voru í og sá að Porthos og Aramis voru að varpa teningum. Leit hann snögglega yfir stofuna og sá þegar, að einn manninn vantaði. „Hvað er orðið af Athos?“ spurði hann. „Hann fór burt, yðar Hágöfgi, til þess að skygnast um á veginum af því að gestgjafinn var að dylgja um, að væri ekki alt sem tryggast“. „Og hvað hafið þjer verið að gera, Porthos?“ „Jeg hef unnið fimm gulldali af Aramis“. „Jæja, þið getið nú báðir komið með mjer“. „Sem yðar Hágöfgi þóknast“. „Við skulum þá halda af stað — það er orðið framorðið“. Fylgdarmaðurinn beið við dyrnar og hjelt í hest kardínálans. Skamt þaðan voru tveir menn og þrír hestar þar sem skugga bar á. Það voru mennirnir, sem áttu að fylgja Mylady til La Pointe-kastalans og sjá um, að hún kæmist á skipsfjöl. Fylgdarmaðurinn gat hins sama við kardínálann, sem skyttuliðarnir höfðu sagt honum um burtför Athos. Kardínálinn kinkaði kolli og reið af stað og gætti sömu varúðar sem áður. Skal nú horfið frá honum um stund þar sem hann ríður eftir þjóðveginum ásamt fylgdarmanni sínum og báðum skyttuliðunum og víkja sögunni aftur að Athos. Hann reið fyrst seinagang dálítinn spöl, en keyrði hestinn sporum þegar hann var kominn í hvarf og leyndist bak við runna þar sem hann gat sjeð til ferða hinna. Litlu síðar kom hann auga á hina barðastóru hatta fjelaga sinna og gullkögraðan kufl kardínálans. Hann beið þangað til þeir voru komnir fram hjá og hurfu fyrir bugðu á veginum, en þeysti svo aftur til veitingahússins, er var opnað fyrir honum viðstöðulaust, með því að gestgjafinn þekti hann aftur. „Húsbóndi minn gleymdi áríðandi erindi við konuna uppi á loftinu“, sagði Athos, „og sendi mig því aftur til að bæta úr því“. „Gerið þjer svo vel! Hún er uppi enn þá“, sagði gestgjafinn. Athos ljet ekki segja sjer það tvisvar, en gekk ljettilega upp stigann. Hurðin stóð í hálfa gátt og sá hann inn um dyrnar, að Mylady var að láta á sig hattinn. Hann gekk inn, ljet hurðina aftur á eftir sjer og skaut slagbrandi fyrir. Mylady sneri sjer við, þegar hún heyrði þruskið. Athos stóð við hurðina, sveipaður kufli sínum og með hattinn niðri í augum. Mylady varð hrædd þegar hún sá þennan þögula og hreyfingarlausa mann. „Hver eruð þjer og hvað viljið þjer?“ sagði hún. „Það er hún samt sem áður“, tautaði Athos. Hann fletti frá sjer kuflinum, tók ofan hattinn, gekk að henni og sagði: „Þekkið þjer mig ekki, frú?“ Mylady gekk fram eitt skref, en hopaði svo á hæl eins og hún hefði sjeð skrattann sjálfan. „Jeg sje, að þjer kannist við mig“, sagði Athos. „De la Fére greifi!“ hvíslaði hún og hröklaðist aftur á bak alt upp að þilinu. „Jú, það er hann sjálfur í eigin persónu og kemur nú alla leið frá undirheimum eingöngu til þess að fá þá ánægju að sjá yður. Eigum við ekki að fá okkur sæti og tala ögn saman, eins og kardínálinn kemst að orði?“ Mylady settist niður gagntekin af skelfingu og gat engu orði komið upp. „Þjer eruð reglulegur kvenndjöfull, hingað sendur til vorrar jarðar“, sagði Athos. „Jeg veit að máttur yðar er mikill, en samt skuluð þjer minnast þess, að stundum hefur mönnum tekist, sem betur fer, að vinna svig á hinum örgustu fjendum. Þjer hafið einu sinni áður orðið á leið minni og þá hjelt jeg, að jeg hefði afmáð yður af jörðinni, en annaðhvort hefur mjer þá mistekist eða að þjer hafið vaknað til lífsins aftur og eruð hingað komin úr kvalastað fordæmdra“. Mylady drap höfði og stundi undir þessum ófagnaðarorðum, enda vöktu þau hinar hræðilegustu endurminningar í huga hennar. „Já, myrkrahöfðinginn hefur sent yður hingað aftur“, hjelt Athos áfram. „Hann hefur gefið yður auð og upphefð, hann hefur gefið yður annað nafn og næstum því aðra ásjónu, en hann hefur hvorki getað hreinsað sorann og svívirðinguna úr sál yðar nje heldur afmáð brennimarkið af líkama yðar“. Mylady tók afarsnögt viðbragð og spratt á fætur með leiftrandi augum. Athos sat kyr. „Þjer hjelduð, að jeg væri dauður, eða hvað? Og það hjelt jeg líka, að þjer væruð. Athos-nafnið leyndi De la Fère greifa eins og nafnið frú Clarick huldi Önnu de Bueil! Eða genguð þjer ekki undir því nafni, þegar sá háæruverðugi bróðir yðar gaf okkur saman? Það stendur annars hálfskrítilega á fyrir okkur báðum“, sagði Athos enn fremur og hló við. „Alt fram á þessa stund höfum við bæði lifað, eingöngu vegna þess, að hvort um sig hjelt að hitt væri dautt og af því að endurminningin er þó aldrei eins viðfangsill og manneskjan sjálf — og samt geta slíkar endurminningar sem okkar verið fullerfiðar“. „En hver vísaði yður hingað og hvað viljið þjer mjer?“ spurði Mylady. „Jeg ætlaði að segja yður það, að enda þótt jeg hafi verið ósýnilegur fyrir yðar augum, þá hef jeg samt haft vakandi auga á yður í seinni tíð“. „Vitið þjer þá alt, sem jeg hef tekið mjer fyrir hendur?“ „Jeg get rakið athafnir yðar frá þeim tíma, að þjer genguð kardínálanum á hönd og alt fram á þennan dag“. Það ljek eitthvert efasemdar bros um varirnar á Mylady. „Hlustið nú á: Það voruð þjer, sem skáruð tvo demantshnappa af öxlinni á Buckingham, þjer voruð völd að brottnámi frú Bonacieux, þjer felduð ástarhug til Wardes greifa og hleyptuð d'Artagnan inn til yðar í þeirri trú, að það væri Wardes, þjer ætluðuð að fá sambiðil Wardes til þess að ráða honum bana, af því að þjer hjelduð, að greifinn hefði brugðist yður. Og þegar þessi sambiðill komst að leyndarmáli yðar, senduð þjer tvo flugumenn honum til höfuðs. Þegar sú tilraun mistókst, senduð þjer honum eitrað vín ásamt falsbrjefi, sem átti að telja honum trú um, að vínið væri frá vinum hans. Loks voruð það þjer, sem rjett áðan í þessu herbergi tókust á hendur sendiför til London fyrir Richelieu kardínála, þess erindis að myrða Buckingham hertoga gegn því, að hann ofurseldi d'Artagnan í yðar hendur“. Mylady var orðin föl eins og liðið lík. „Eruð þjer þá fjandinn sjálfur?“ stundi hún. „Getur verið“, sagði Athos. „En takið nú vel eftir því, sem jeg ætla að segja: Þjer getið ráðið Buckingham af dögum eða látið aðra gera það — það kemur mjer ekkert við. Jeg er honum ókunnugur og auk þess er hann Englendingur. En dirfist ekki að snerta eitt hár á höfði d'Artagnans! Hann er trygðavinur minn og jeg ann honum og vil vera verndari hans. Að öðrum kosti sver jeg það við framliðinn föður minn, að það skal verða yðar seinasta ódáðaverk“. „D'Artagnan hefur móðgað mig afskaplega — og hann skal deyja“, sagði Mylady. „Hversu má það vera, að nokkur maður hafi móðgað yður, frú?“ spurði Athos og hló kuldahlátur. „Hann hefur móðgað yður og hann skal deyja, segið þjer?“ „Hann skal deyja!“ endurtók hún. „Fyrst hún, svo hann“. Athos sortnaði fyrir augum. Allar hans sárustu endurminningar rifjuðust upp, er hann horfði á þessa konu og hann mintist þess, að einu sinni hafði hann ætlað að tortíma henni til þess að forsvara sinn eigin sóma. Þessi sama blóðfíkn greip hann nú — hann stóð upp, þreif skammbyssu sína og spenti bóginn upp. Mylady var náföl og ætlaði að hljóða upp yfir sig, en það var eins og tekið væri fyrir kverkar henni, svo hún gat engu hljóði komið upp, heldur korraði í henni eins og verið væri að hengja hana, augun ranghvolfdust og hárið flaksaðist ofan um herðar. Athos rjetti út handlegginn svo að skammbyssan næstum nam við enni frúarinnar og sagði hægt og stillilega: „Nú er ekki nema um tvent að velja fyrir yður, frúin góð: Annaðhvort fáið þjer mjer skriflegu yfirlýsinguna, sem þjer fenguð hjá kardínálanum, eða að jeg sendi kúlu gegn um hausinn á yður“. Mylady hreyfði sig ekki að heldur. „Jeg gef yður hálfrar mínútu umhugsunarfrest“, sagði hann. Hún sá það nú á svip hans, að honum var alvara. Stakk hún hendinni skjótlega í barminn, tók fram pappírsblað og fjekk Athos. „Þarna — taktu við því og farðu margbölvaður“, sagði hún. Athos tók miðann, stakk skammbyssunni í beltið, gekk að lampanum til þess að fullvissa sig um að þetta væri rjetta blaðið og las eftirfarandi línur: „Það er eftir minni skipun og í ríkisins þágu að handhafi þessa brjefs gerði það sem hún hefur gert. 3. desember 1627 Richelieu“. „Nú hef jeg dregið úr þjer eiturtönnina, naðran þín, svo að nú máttu bíta, ef þú bara getur“, sagði Athos, sveipaði að sjer kuflinum og setti upp hattinn. Gekk hann svo snúðugt út og hitti í portinu mennina með lausa hestinn. „Þið hafið víst fengið skipun hans Hágöfgi um að fylgja konunni strax til La Pointe-kastalans og skilja ekki við hana fyr en hún er komin á skipsfjöl“. Mennirnir hneigðu sig, því að þetta kom heima við það, sem þeim hafði verið sagt áður. Athos stökk á bak hesti sínum og hleypti burt. Ekki fór hann samt eftir þjóðveginum, heldur þvert yfir akra og engi, nam staðar við og við og hlustaði. Loks heyrði hann hófadyn og þóttist vita, að þar mundi kardínálinn og menn hans fara. Hann hleypti þá aftur af stað, komst fram fyrir þá og reið svo út á veginn eitthvað fimtíu faðma frá herbúðunum. „Hverjir fara þar“, hrópaði hann þegar þeir nálguðust. „Jeg býst við að þetta sje skyttuliðinn okkar“, svaraði kardínálinn. „Já, yðar Hágöfgi“, sagði Athos. „Það er hann og enginn annar“. „Jeg er yður þakklátur fyrir trúmensku yðar, herra Athos“, sagði Kardínálinn. „En nú erum við komnir og skuluð þið fara vinstra megin inn í herbúðirnar. Kenniorðið er Konungurinn og Ré“. Að svo mæltu kinkaði hann kolli til skyttuliðanna og fór sjálfur hægra megin inn í herbúðirnar ásamt fylgdarmanni sínum, því hann ætlaði að hvílast í herbúðunum þessa nótt. „Heyrðu Athos“, sögðu þeir Porthos og Aramis þegar kardínálinn var farinn. „Hann setti nafn sitt undir yfirlýsinguna, sem hún bað hann um“. „Jeg veit það“, sagði Athos rólega, „því að hún er hjer“. Skyttuliðarnir töluðust ekki fleira við fyr en þeir komu í náttstað sinn, en þeir sendu Mousqueton til Planchet með þau skilaboð, að hann skyldi segja húsbónda sínum að koma á fund þeirra jafnskjótt sem hann kæmi úr víggröfunum. Mylady fór umyrðalaust með mönnunum, sem biðu hennar, eins og Athos hafði búist við. Raunar datt henni snöggvast í hug að láta þá fylgja sjer til kardínálans og segja honum upp alla sögu, en þá mátti hún búast við, að Athos hefði líka sögu að segja. Hún gat sagt að Athos hefði sýnt sjer banatilræði og ætlað að hengja sig, en þá gat hann aftur sýnt og sannað að hún væri brennimerkt. Hún komst því að þeirri niðurstöðu, að það væri bezt að láta þetta liggja í þagnargildi, fara för sína í kyrþey og reka erindi það, sem henni hafði verið trúað fyrir, en síðan snúa heim aftur þegar alt væri komið í kring eftir ósk og vilja kardínálans og krefjast þá hefndar af honum. Hún var á ferð alla nóttina og kom til kastalans klukkan sjö um morguninn. Klukkan átta stje hún á skipsfjöl og klukkan níu var akkerum ljett, segl dregin upp og lagt af stað til Englands. XVI. Saint Gervais-vígið. Skyttuliðarnir þrír voru allir í sama herberginu þegar d'Artagnan kom til þeirra. Athos var í þungum hugsunum, Porthos sneri uppá skeggið og Aramis las í skrautlegri bænabók í bláu flauelsbandi. „Jeg vona fastlega, að hjer sje um eitthvert mikilsvarðandi mál að ræða, herrar góðir“, sagði d'Artagnan, „því að annars skal jeg aldrei fyrirgefa ykkur að vera að ómaka mig hingað eftir hita og þunga dagsins. Við höfum gert áhlaup á eitt vígið og jafnað það við jörðu. Þar hefðuð þið átt að vera við, góðir hálsar — þar var harður aðgangur“. „Það var líka harður aðgangur þar sem við vorum“, sagði Porthos og sneri skeggið í ákafa. „Þei-þei!“ sagði Athos. „Nú-jájá!“ sagði d'Artagnan. „Það virðist svo sem eitthvað alvarlegt sje á seiði“. „Borðaðir þú ekki morgunverð, Aramis, í matsöluhúsi Parpaillots í fyrradag?“ spurði Athos. „Jú“, svaraði Aramis. „Hvernig fjell þjer það?“ „Æ, mjer fjell það illa. Það var föstudagur í fyrradag og samt var ekkert annað en kjöt á borðum“. „Hvað er að tarna!“ sagði Athos. „Gaztu ekki fengið fisk hjerna við sjávarsíðuna?“ „Þeir segja að stíflan, sem kardínálinn er að láta gera, fæli allan fisk til hafs“. „En það var nú annars ekki þetta, sem jeg ætlaði að spyrja þig um“, sagði Athos, „heldur um það, hvort þú hefðir getað verið þar í ró og næði“. „Já, að því leyti held jeg, að það sje ekki svo afleitur staður. Það var ekki ýkja margt um manninn þar, sízt af nærgöngulum mönnum“. „Þá skulum við fara þangað“, sagði Athos. „Hjerna geta allir heyrt til okkar“. D'Artagnan var vanur dutlungum vinar síns og sá undir eins á svip hans er eitthvað alvarlegt var á ferðum. Hann fór þegar af stað með honum orðalaust, en Porthos og Aramis gengu á eftir þeim og ræddust við. Þeir mættu Grimaud á leiðinni. Athos benti honum að fylgja sjer eftir og hlýddi hann því þegjandi, eins og hann var vanur. Hann var annars, mann garmurinn, næstum búinn að venja sig af að segja nokkurt orð. Þeir gengu svo inn á skenkistofu Parpaillots. Klukkan var orðin sjö og farið að lýsa af degi. Pöntuðu þeir sjer morgunverð og var vísað til herbergis, þar sem gestgjafinn sagði, að þeir yrðu ekki ónáðaðir. En svo illa tókst til, að þeir höfðu valið mjög óheppilega stund til þessarar samkomu. Það var nýbúið að blása til rismála og streymdu menn til veitingahússins hvaðanæva með stýrurnar í augunum til þess að fá sjer morgunhressingu. Riddarar, svissneskir dyraverðir, lífvarðarliðar, skyttuliðar og húsarar komu hverjir af öðrum og var það að vísu veitingamanninum í hag en mjög svo bagalegt fyrir þú fjelaga. Þeir svöruðu heldur ekki morgunkveðju hermannanna öðru en hálfgerðum ónotum. „Heyrið nú!“ sagði Athos. „Þetta verður bara til þess, að við lendum í einhverjum illdeilum, en hjá því ættum við helst að komast í þetta sinn. Segðu okkur, d'Artagnan, af áhlaupinu í gærkvöldi svo skulum við segja þjer, hvað fyrir okkur kom“. „Já, hvert í logandi!“ sagði húsari nokkur með brennivínsglas í hendinni, sem hann var að dreypa í við og við. „Þið lífvarðarliðarnir voruð í víggröfunum í gærkvöldi. Hvernig var þar að vera? Fengu Rochelle-búarnir duglega á baukinn?“ D'Artagnan leit til Athos eins og til að spyrja hann um, hvort hann ætti að vera að svara þessum kumpán, sem var að gaspra fram í tal þeirra. „Núnú, d'Artagnan!“ sagði Athos. „Heyrirðu ekki að herra Busigny er að tala við þig? Segðu frá viðureigninni í gærkvöldi fyrst að þessa herra langar til að fræðast um hana“. „Haben sie[* Hafið þið.] ekki tekið fígið[** vígið.]?“ sagði svissneskur dyravörður, sem var að drekka romm úr stórri ölkollu. „Jú,“ svaraði d'Artagnan og hneigði sig. „Okkur tókst líka að lauma púðurkvartili undir eitt vígishornið, sem gerði allmikla glufu í múrinn þar, þegar kviknaði í því“. Annars gerði sprengingin talsverð spjöll á öllum múrnum, enda var hann orðinn hrörlegur“. „Hvaða vígi var það?“ spurði riddari, sem var að steikja gæs yfir glóð. „Það var Saint Gervais-vígið“, svaraði d'Artagnan. „Rochellebúarnir skutu á verkamenn okkar í skjóli við það“. „Það hefur víst verið harður aðgangur?“ „Ójá, fremur það. Við mistum fimm menn og af óvinunum fjellu milli tíu og tuttugu“. „Sacrebleu!“ hrópaði Svissinn, því að þótt þýzkan sje óvenju auðug af blótsyrðum, þá hafði hann vanið sig á að nota frönsk blótsyrði með fram. „Líklega senda þeir nú undir eins verkamenn til að gera við vígið aftur“, sagði húsarinn. „Já, það er mjög sennilegt“, sagði d'Artagnan. „Heyrið, góðir hálsar!“ sagði Athos alt í einu. „Eigum við að veðja“. „Jawohl!“ sagði Svissinn. „Bíðið ögn við!“ sagði riddarinn, sem var að steikja gæsina. „Jú, jeg er til í það, en heyrðu þarna Glasagvendur!“ kallaði hann til veitingamannsins. „Komdu með bolla eða spilkomu og það á augabragði, því að jeg vil ekki missa niður einn einasta dropa af þessari dásamlegu gæsarfeiti“. „Hann hafa rjett!“ sagði Svissinn. „Gansfett[* gæsafeiti.] mikið gút[** góð.] með syltutau“. „Svona-nú!“ sagði riddarinn. „Látið okkur nú heyra veðmálið, herra Athos“. „Já, hvernig er það?“ spurði húsarinn. „Nú-jæja, herra Busigny“, sagði Athos. „Jeg býðst til að veðja við yður um, að fjelagar mínir, þeir Porthos, Aramis, d'Artagnan og jeg sjálfur skulum borða morgunverð í Saint Gervais-víginu og vera þar einn klukkutíma — nákvæmlega einn klukkutíma — hvað svo sem óvinirnir gera til þess að hrekja okkur þaðan“. Porthos og Ararnis litu hvor á annan. Þá fór að gruna hver tilgangurinn væri. „En við verðum allir skotnir niður vægðarlaust“, hvíslaði d'Artagnan að Athos. „Það verður miklu fremur allra okkar bani, ef við förum þangað ekki“, svaraði Athos. „Ja-jæja!“ sagði Porthos, ruggaði sjer á stólnum og sneri skeggið. „Þetta er svei mjer myndarlegt veðmál — finst ykkur það ekki?“ „Jú — og jeg geng líka að því“, sagði Busigny. „En hvað eigum við að setja undir?“ „Þið eruð fjórir og við erum líka fjórir“, sagði Athos. „Það er bezt að við setjum undir góðan miðdagsverð handa átta mönnum — hverníg lízt ykkur á það ?“ „Ágætlega“, sagði Busigny. „Prýðilega“, sagði riddarinn. „Herrlich[* dásamlega.]“, sagði Svissinn. Fjórði maðurinn hafði ekki lagt neitt til málanna, en kinkaði nú kolli til samþykkis. „Morgunverðurinn er tilbúinn“, sagði veitingamaðurinn. „Það að er gott, komið þjer þá með hann“, sagði Athos. Veitingamaðurinn gerði svo. Athos benti Grimaud að vefja um hann handþerrunum og láta hann ofan í stóra körfu, sem stóð þar í einu horninu. Grimaud gerði það og tók körfuna á handlegg sjer. „Hvert ætlið þið með matinn?“ spurði veitingamaðurinn. „Hvað kemur yður það við, bara ef þjer fáið borgunina?“ sagði Athos og fleygði nokkrum gulldölum á borðið. „Á jeg að skila nokkru aftur? spurði veitingamaðurinn. „Nei, en bætið þjer við tveimur kampavínsflöskum og svo megið þjer eiga afganginn“. Þetta voru nú vonbrigði fyrir veitingamanninn, en hann bætti úr skák með því að lauma tveimur flöskum af Anjouvíni í körfuna í stað kampavíns. „Viljið þjer gera svo vel, herra Busigny“, sagði Athos, „að setja úrið yðar eftir mínu úri eða láta mig setja mitt úr eftir yðar“. „Sjálfsagt“, sagði Busigny og tók upp prýðisfallegt úr, greypt demöntum. „Mitt úr er hálf átta“, sagði hann. „Og mitt er fimm mínútum betur“, sagði Athos. „Þjer munið þá, að mitt úr er fimm mínútum á undan yðar“. Þeir fjelagar fjórir kvöddu svo hina og lögðu af stað til vígisins. Grimaud gekk á eftir þeim, en ekki grunaði hann, hvert ferðinni var heitið og hafði heldur ekki spurt um það. Þeir töluðu ekki orð saman meðan þeir voru innan vjebanda herbúðanna, enda elti þá hópur forvitinna manna, sem höfðu heyrt um veðmálið og langaði nú til að sjá, hversu þeim reiddi af. En jafnskjótt sem þeir komu út fyrir skotgarðana og á bersvæði, þótti d'Artagnan tími til kominn að biðjast einhverrar skýringar á þessu tiltæki. „Viltu nú ekki, kæri Athos minn, gera svo vel og segja mjer, hvert ferðinni er heitið?“ sagði hann. „Til vígisins, eins og þú sjerð“, svaraði Athos. „En hvaða erindi eigum við þangað?“ „Borða morgunverð eins og okkur kom saman um“. „Hvers vegna gátum við ekki borðað hann hjá Parpaillot?“ „Af því við þurfum að ráðgast um mikilsvarðandi mál, en það var ómögulegt að tala saman í næði nokkurt augnablik þarna í veitingahúsinu fyrir kjaftæði og gauragangi. En þarna ónáða þessir gasprarar okkur ekki“, bætti hann við og benti á vígið. „Mjer finst nú raunar“, sagði d'Artagnan, „að við hefðum getað fundið einhvern afvikinn stað í sandhólunum niðri við sjóinn. „Þar sem allir hefðu getað rekist á okkur og kardínálinn búinn að komast að því innan hálftíma, að við sætum þar á leynifundi“. „Já, Athos hefur rjett fyrir sjer“, sagði Aramis. „Animadvartuntur in desertis“.[* Þeir hittast á eyðimörku.] „Eyðimörk væri ekki svo illa tilvalin, ef hún væri hjer nokkur“, sagði Porthos. „Enginn staður er svo auður, að ekki kunni fugl að fljúga, fiskur að spretta upp úr vatni eða hjeri hlaupa úr fylgsni sínu og jeg fer að halda, að ekki sje sá fugl, fiskur eða hjeri, sem ekki er í þjónustu kardínálans. Þess vegna er bezt, að við förum þangað, sem um talað var, enda getum við nú ekki hliðrað okkur hjá því vansalaust. Við höfum veðjað og engan grunar, hvað undir veðmálinu býr af okkar hendi og við verðum að vera einn klukkutíma í víginu ef við ætlum okkur að vinna veðmálið. Annað hvort verður ráðist á okkur, eða ekki — það er hvorttveggja til. Verði það ekki gert, þá gefst okkur gott tækifæri til að tala saman í næði, því að jeg þori að ábyrgjast, að þar hlerar enginn. En verði ráðist á okkur, þá getum við samt sem áður rætt nauðsynjamál okkar og jafnframt því varist drengilega, svo að við munum hljóta af frægð og frama. Hagurinn er því allur okkar megin, hvernig sem fer“. „Já, en það er nú áreiðanlegt, að einhver kúlan hittir okkur“, sagði d'Artagnan. „Seisei — nei, kæri vin!“ sagði Athos. „Þær kúlur, sem við þurfum helzt að óttast, koma ekki frá óvinunum“. „En mjer finst nú samt, að við hefðum átt að hafa byssur með okkur í svona ferðalag“, sagði Porthos. „Hvaða vitleysa, vinur minn. Hvað hefðum við átt að gera við þann óþarfa farangur?“ „Jeg skil ekki að það sje neinn óþarfi að taka með sjer góða byssu, nokkur skothylki og fullan púðurbauk þegar gengið er til móts við óvinina“. „Núnú! Heyrirðu ekki hvað d'Artagnan var að segja?“ „Nei — hvað var hann að segja?“ spurði Porthos. „Hann var að segja, að í áhlaupinu í gærkvöldi hefðu fallið nokkrir af okkar mönnum og allmargir af óvinunum“. „Nú — og hvað um það?“ „Það hefur víst ekki verið neinn tími til að sinna neinu herfangi, eða hvað? Það hefur víst verið um nóg annað að hugsa“. „Nú-jæja?“ „Nú-jæja! Þar af leiðir, að við getum tekið byssur þeirra og skotfæri og fáum þá miklu fleiri byssur og meiri skotfæri, heldur en þó að við hefðum haft sína byssuna hver“. „Kæri Athos!“ sagði Aramis. Þú ert sannarlegt mikilmenni!“ Porthos kinkaði kolli, en það virtist að d'Artagnan gæti ekki sætt sig við þetta. Og það var auðsjeð, að eins var ástatt fyrir Grimaud, því nú kipti hann í kyrtilskaut húsbónda síns þegar hann sá, að þeim var alvara að fara til vígsins. „Hvert erum við að fara?“ spurði Grimaud — auðvitað þegjandi. Athos benti á vígið. „En þar fáum við kúlur í skrokkinn ljet Grimaud skilja á sjer. Athos ránghvolfdi augunum og benti upp í himininn. En nú hristi Grimaud höfuðið, ljet körfuna niður og settist hjá henni. Athos dró skammbyssu úr beltinu, gætti að hvellhettunni, spenti bóginn og hjelt hlaupinu að annari hlustinni á Grimaud, en hann tók viðbragð mikið og spratt þegar á fætur. Athos benti honum að taka körfuna og ganga á undan þeim. — Það var alt og sumt sem Grimaud hafði upp úr þessari tregðu sinni, að verða nú að vera í fararbroddi í stað þess að ganga síðastur! Þeir litu til baka þegar þeir voru komnir að víginu. Rúm þrjú hundruð hermanna höfða safnast að inngangi herbúðanna, en í hóp sjer gátu þeir greint þá fjóra, sem höfðu veðjað við þá. Athos tók hatt sinn, setti hann á sverðoddinn og veifaði til þeirra, en kveðju hans var tekið með dynjandi fagnaðarópum frá herbúðunum. Að svo mæltu gengu þeir inn í vígið og var Grimaud kominn þangað á undan þeim. XVII. Ráðagerð skyttuliðanna. Eins og Athos hafði búist við, voru ekki aðrir fyrir í víginu en hinir föllnu menn. „Jæja, góðir hálsar“, sagði Athos. „Nú skulum við byrja á því að safna saman byssunum og skotfærunum meðan að Grimaud reiðir fram matinn. Við getum sem bezt talað saman á meðan, því að ekki heyra þessir til okkar“, sagði hann og benti á þá föllnu. „Við gætum nú líka leitað í vösum þeirra og kastað þeim svo í víggröfina,“ sagði Porthos. „Já — það er bezt að láta Grimaud hafa fyrir þeirri leit“, sagði Athos. „Nú-jæja, látið þá Grimaud leita á þeim og fleygja þeim svo út fyrir múrinn“, sagði d'Artagnan. „Nei, það tek jeg ekki í mál“, sagði Athos „Þeir geta komið okkur að notum“. „Hvernig geta líkin komið okkur að notum?“ sagði Porthos. „Nú held jeg, að þú sjert ekki með öllum mjalla“. „Dæmið varlega, segir Guðspjallið og kardínálinn“, svaraði Athos. En hvað erum við nú búnir að fá margar byssur“. „Tólf“, sagði Aramis. „Og hvað mörg skothylki?“ „Eitthvað hundrað“. „Það er nóg og meira en nóg. Nú skulum við hlaða byssurnar“. Þegar þeir höfðu lokið þessu, benti Grimaud þeim, að maturinn væri til reiðu, en Athos benti honum aftur á einskonar skot í vígismúrnum og skyldi hann standa þar á verði, en honum til afþreyingar ljet Athos hann taka með sjer nokkrar brauðsneiðar, kjötbita og vínflösku. „Jæja, við skulum nú fara að borða“, sagði Athos. Settust þeir svo flötum beinum á jörðina og tóku til snæðings. „Fyrst að þú þarft nú ekki að óttast, að neinn standi á hleri“, sagði d'Artagnan, „þá vona jeg, að þú segir okkur nú þetta leyndarmál“. „Og jeg, vona, að jeg hafi sjeð ykkur bæði fyrir frægð og ánægju“ sagði Athos. „Jeg hef sjeð ykkur fyrir indælli skemtigöngu og ágætis mat og þið getið sjeð gegnum skotskörðin þarna, að mörg hundruð manns mæna hingað augunum og álíta okkur annað-hvort fól eða fullhuga, sem oft kemur í sama stað niður“. „Jú, en leyndarmálið“, sagði d'Artagnan. „Leyndarmálið er ekki annað en það“, sagði Athos, að jeg talaði við Mylady í gærkvöldi“. D'Artagnan var að bera vínglas upp að vörunum, en þegar hann heyrði þetta, brá honum svo við, að hann varð að setja glasið frá sjer, til þess að ekki skvettist úr því. „Hefurðu sjeð kon — —“ „Ussuss!“ sagði Athos. „Þú mátt ekki gleyma því, kæri vin, að þessir herrar vita ekkert um einkahagi mína og heimilisástæður. Núnú! Jeg talaði við Mylady, eins og jeg var að segja“. „Hvað þá?“ spurði d'Artagnan. „Það var fremur skamt hjeðan — í veitingahúsi, sem kallað er „Rauða dúfnabúrið“. „Jæja, þá er úti um mig“, sagði d'Artagnan. „Ekki nú enn“, sagði Athos, „því að nú er hún víst farin hjeðan úr landi“. D'Artagnan ljetti við þetta. „En segið okkur fyrir alla muni“, sagði Porthos. „hvaða manneskja þessi Mylady er, sem þið eruð alt af að tala um“. „Það er dæmalaust yndisleg kona“, sagði Athos og saup á vínglasi. „Hvaða árans óþokki er hann þessi veitingamaður!“ kallaði hann upp. „Hann hefur fengið okkur Anjouvín í staðinn fyrir kampavín og heldur víst, að við tökum ekkert eftir því. Jú“, hjelt hann áfram, „það er dæmalaust yndisleg kona og þykir víst fremur vænt um d'Artagnan, en þarf samt að hefna sín á honum fyrir einhverja hrekki, sem hann hefur sýnt henni. — Það er líklega mánuður síðan að hún ætlaði að láta skjóta hann og rúm vika síðan hún ætlaði að byrla honum eitur, en í gær bað hún kardínálann um höfuð hans!“ „Hvað ertu að segja — bað hún kardínálann um höfuð mitt?“ sagði d'Artagnan og brá litum. „Það er alveg gullsatt“, sagði Porthos. „Jeg heyrði það með mínum eigin eyrum“. „Og jeg líka“, sagði Aramis. „Jæja-þá!“ sagði d'Artagnan alveg utan við sig. „Það er þá ekki til neins að vera að eiga við þetta lengur. Mjer er eins gott að senda kúlu gegnum hausinn á mjer til þess að koma einhverjum enda á þetta“. „Það er sú argasta vitleysa, sem nokkur maður gerir“, sagði Athos, „því að það er eina vitleysan sem ekki er hægt að bæta úr“. „Jeg get aldrei varist slíkum fjandmönnum“, sagði d'Artagnan. „Fyrst er nú maðurinn frá Meung. Þar næst Wardes greifi, sem jeg særði þremur svöðusárum, þá Mylady með sitt leyndarmál, sem jeg komst að og að síðustu kardínálinn og hefnd hans, sem jeg ónýtti fyrir honum“. „Jú, rjett er það“, sagði Athos. „Það eru samtals fjórir, en við erum líka fjórir, svo að þetta er jafntefli. En bíðum við! Ef nokkuð er að marka, hvernig Grimaud lætur, þá bætist bráðum drjúgum í fjandmannahópinn. Hvað gengur á Grimaud? Eins og nú stendur á, þá leyfi jeg þjer hjer með að tala í þetta skifti, en vertu samt fáorður. Hvað sjerðu?“ „Mannahóp“. „Hvað marga menn?“ „Eitthvað tuttugu“. „Hvers konar menn?“ „Sextán verkamenn, fjóra dáta“. „Hvað er langt til þeirra?“ „Rúmir tvo hundruð faðmar“. „Það er gott. Við höfum þá tíma til að borða dálítið enn og drekka þína skál, d'Artagnan“. „Skál!“ sögðu Porthos og Aramis. „Þakka ykkur fyrir!“ sagði d'Artagnan. „En jeg er hræddastur um, að velvild ykkar komi mjer að litlu haldi, kæru vinir“. „Seisei-jú!“ sagði Athos. „Allah er stór, segja Múhameðsmenn, og framtíðin er í hans höndum“. Að svo mæltu tæmdi hann glas sitt, setti það frá sjer, reis rólega á fætur, tók sjer byssu og gekk að einu skotskarðinu. Porthos, Aramis og d'Artagnan gerðu sama, en Grimaud sögðu þeir að standa fyrir aftan þá og rjetta þeim hlaðnar byssur þegar við þyrfti. Þeir sáu nú hvar mennirnir komu eftir krókóttri víggryfju, sem lá frá borginni út til vígisins. „Ja, hver skrattinn! Það var þá helzt ástæða til að vera að ónáða okkur vegna nokkurra manna með pála og rekur að vopnum!“ sagði Athos. „Grimaud hefði ekki þurft annað en banda á móti þeim — þeir hefðu þá sjálfsagt látið okkur í friði“. „Það efast jeg nú um“, sagði d'Artagnan. „Jeg sje ekki betur, en að þeir haldi hiklaust áfram. Það er einn undirforingi með dátunum og þeir hafa allir byssur“. „Þeir hafa varla sjeð okkur enn“, sagði Athos. „Jeg hef ekki brjóst til þess að vera að skjóta þessi borgaragrey“, sagði Aramis. „Það er lakur klerkur, sem aumkvast yfir trúvillinga“, sagði Porthos. „Nei, Aramis hefur rjett fyrir sjer“, sagði Athos. „Jeg ætla að gera þeim aðvart“. „Hvað ertu að hugsa, maður?“ sagði d'Artagnan. „Þú getur átt á hættu að verða fyrir kúlum þeirra“. Athos skeytti því engu, en gekk fram í glufuna á múrnum með byssuna í annari hendinni og hattinn í hinni. Mennirnir urðu forviða þegar þeir sáu þennan mann alt í einu og námu staðar skamt frá víginu. „Herrar góðir!“ kallaði Athos til þeirra og hneigði sig. „Við hjerna, það er að segja jeg og nokkrir kunningjar“ mínir, erum að fá okkur árbít hjerna í víginu, en eins og þið vitið, þá er fátt leiðinlegra en að hafa ekki matfrið. Þess vegna viljum við biðja ykkur, ef þið annars eigið brýnt erindi hingað, að doka við meðan við erum að borða eða þá að koma aftur einhvern tíma seinna, nema því að eins að þið finnið hvöt hjá ykkur til að hverfa frá villu ykkar vegar, skerast úr leik með uppreistarmönnunum og drekka með okkur skál Hans Hátignar Frakkakonungs — þá eruð þið auðvitað velkomnir!“ „Varaðu þig Athos!“ hrópaði d'Artagnan. „Sjerðu ekki að þeir miða byssunum á þig?“ „Jú-seisei-jú! Jeg sje það!“ svaraði Athos „En þetta eru skikkanlegir borgarar, óvanir að fara með byssu og þá líklega ekki sjerlega hæfnir“. Í sama bili riðu af fjögur skot og kúlurnar smeltust á múrvegginn alt í kring um Athos, engin þeirra hitti hann. Um leið riðu af önnur fjögur skot og nú var betur miðað. Dátarnir þrír fjellu allir og einn verkamaðurinn særðist. „Aðrar byssur, Grimaud!“ sagði Athos og stóð enn í múrglufunni. Grimaud hlýddi undir eins og enn riðu af fjögur skot. Nú fjell undirforinginn og tveir verkamenn, en hinir lögðu á flótta. „Gerum útrás!“ hrópaði Athos. Þeir fjelagar hlupu úr víginu og könnuðu valinn. Þeir tóku byssur dátanna og sverð undirforingjans og sneru aftur í vígið með þetta herfang, þegar þeir þóttust vissir um, að hinir hjeldu áfram flóttanum. „Hladdu byssurnar, Grimaud“, sagði Athos, „meðan við ljúkum við máltíðina og tölum betur saman. Nú, en hvað var jeg að segja? Jú, hún fór úr landi og til Englands“. „Hvað á hún að gera þangað?“ spurði d'Artagnan. „Ráða Buckingham af dögum eða fá einhvern til þess“. „En sá níðingsskapur?“ „Ojæja!“ sagði Athos. „En það kemur mjer nú annars ekkert við. Þegar þú ert búinn að þessu, Grimaud, þá taktu sverð undirforingjans, festu á það handþurku og skorðaðu það uppi á vígisveggnum svo að upphlaupsmennirnir í La Roehelle geti sjeð, að hjer er við konungholla menn að eiga“. Grimaud hlýddi þegjandi eins og vant var og litlu síðar blakti hinn hvíti fáni yfir þeim fjelögum. Frá herbúðunum kvað við dynjandi fagnaðaróp. „Hvað er þetta!“ sagði d'Artagnan. „Kemur þjer ekkert við, hvort hún ræður Buckingham af dögum eða lætur aðra gera það? Hertoginn er þó vinur okkar“. „Hertoginn er Englendingur og á í ófriði við okkur. Fyrir mjer má hún gera við hann hvað sem henni sýnist. Jeg kæri mig ekki frekar um það, en þessa tómu flösku“. Athos fleygði frá sjer flösku, sem hann hjelt á og var búinn að tæma í botn. „Nei, hættu nú“, sagði d'Artagnan. „Jeg fyrirlæt ekki Buckingham svona undir eins. Hann gaf okkur svo ljómandi fallega hesta“. „Og þessi dásamlegu reiðtýgi“, sagði Porthos. „Og auk þess vill guð ekki dauða syndugs manns, heldur að hann snúi sjer og lifi“, sagði Aramis. „Amen“, sagði Athos. „Við getum talað betur um það seinna, ef ykkur svo sýnist, en það sem mjer var mest umhugað um, eins og þjer mun skiljast, d'Artagnan, var að ná í brjefmiða frá þessari konu, sem hún hafði herjað út úr kardínálanum. Með þennan brjefmiða í höndum gat hún að ósekju ráðið niðurlögum þínum og okkar allra ef til vill“. „Þetta er þá reglulegur kvennskratti“, sagði Porthos og fjekk sjer nýjan kjötbita. „En þessi brjefmiði — hefur hún hann þá enn?“ spurði d'Artagnan. „Nei, hann er nú kominn í mínar vörzlur, en ekki skal jeg fullyrða, að jeg hafi fengið hann með góðu, því að það væri ósatt mál“. „Kæri Athos“, sagði d'Artagnan, „Jeg er nú hættur að hafa tölu á því, hvað oft þú ert búinn að bjarga lífi mínu.“ „Fórstu þá frá okkur til þess að ná fundi hennar?“ spurði Aramis. „Já, það gerði jeg“. „Hefurðu þennan brjefmiða kardínálans hjerna?“ spurði d'Artagnan. „Já, hann er hjerna“, sagði Athos og tók miðann upp úr vasa sínum. D'Artagnan fletti honum sundur og var ærið skjálfhendur. Á honum stóð eins og áður er sagt: „Það er eftir minni skipun og í ríkisins þágu, að handhafi þessa brjefs gerði það sem hún hefur gert. 3. desember 1627 Richelieu“. „Þetta er reglulegt syndalausnarbrjef“, sagði Aramis. „Og það verðum við að rífa í sundur“, sagði d'Artagnan. Honum fanst hann vera að lesa sinn eigin dauðadóm. „Nei, jeg held nú ekki“, sagði Athos. „Það verður þvert á móti að geymast vandlega og jeg læt það ekki fyrir nokkurt verð — ekki þó að það væri alþakið gulli“. „En hvað ætli hún taki til bragðs?“, sagði d'Artagnan. „Nú skrifar hún líklega kardínálanum“, sagði Athos, eins og ekkert væri um að vera, „að skyttuliðaþrælmenni, Athos að nafni, hafi tekið af sjer vegabrjefið með ofbeldi og leggur honum um leið það heilræði, að sjá fyrir þessum kumpán og kunningjum hans tveimur, Porthos og Aramis. Kardínálinn mun þá minnast þess, að það eru sömu mennirnir, sem alt af verða á vegi hans. Svo lætur hann varpa d'Artagnan í fangelsi og sendir okkur þangað líka honum til samlætis, svo honum leiðist ekki“. „Ja-svei!“ sagði Porthos. „Mjer finst nú raunar þetta of alvarlegt til þess að hafa það í flimtingum“. „Jeg er heldur ekki að því“, sagði Athos. „Á jeg að segja ykkur nokkuð?“ sagði Porthos. „Jeg held að það væri minni synd að snúa þessa bansetta Mylady úr hálsliðnum, en að strádrepa þessi Húgenottagrey, sem ekki vinna annað til sakar en að syngja á Frönsku sömu sálmana sem við syngjum á Latínu“. „Hvernig lízt ábótanum á það?“ sagði Athos rólega. „Jeg er á sama máli sem Porthos“, sagði Aramis. „Og jeg líka“, sagði d'Artagnan. „Jeg er feginn að hún er komin langt í burt“, sagði Porthos. „Jeg skal játa, að jeg hef alt af verið hálf áhyggjufullur út af henni“. „Og jeg líka, hvort sem hún er á Frakklandi eða Englandi“, sagði Athos. „Jeg sömuleiðis, hvar sem hún er“, sagði d'Artagnan. „En þú hafðir hana á valdi þínu, Athos“, sagði Porthos. „Hvers vegna drektirðu henni ekki, kyrktir hana eða hengdir? Þeir dauðu koma ekki aftur?“ „Ertu nú alveg viss um það? sagði Athos og brosti einkennilega. „Mjer dettur nokkuð í hug“, sagði d'Artagnan. „Hvað er það ?“ spurðu skyttuliðarnir. „Til vopna!“ hrópaði Grimaud. Þeir fjelagar spruttu á fætur og gripu byssurnar. Í þetta skipti voru það milli tuttugu og þrjátíu menn, sem stefndu til vígisins, en nú voru engir verkamenn þar á meðal, heldur dátar úr setuliðinu. „Ættum víð ekki að snúa aftur til herbúðanna?“ sagði Porthos. „Mjer virðist þetta vera ofmikill liðsmunur“. „Það er ómöglegt af þremur ástæðum“, sagði Athos. „Í fyrsta lagi er morgunverðinum ekki lokið enn, í öðru lagi er ýmislegt fleira, sem við þurfum að ræða og í þriðja lagi vantar enn þá tíu mínútur í klukkutímann“. „Einmitt það, en við verðum þó að setja okkur einhverjar varnarreglur“, sagði Aramis. „Þær eru mjög svo einfaldar“, sagði Athos. „Við hleypum af byssunum þegar óvinirnir koma í skotfæri. Ef þeir halda samt áfram, skjótum við aftur og höldum því áfram meðan við höfum hlaðnar byssur. Ef þeir sem þá standa uppi af þeim, ætla sjer að gera áhlaup á vígið, þá látum við þá koma fast að víginu og veltum svo yfir þá allri þessari hlið múrveggsins, sem öll rambar og riðar eftir sprenginguna“. „Ágætt!“ sagði Porthos. „Það er sem jeg segi, Athos, að þú ert fæddur og getinn hershöfðingi og kardínálinn er hreinasti skussi í samanburði við þig, þó að hann þykist nú hafa gott vit á hernaði“. „Núnú, góðir hálsar“, sagði Athos. „Engin óþarfaskot, skal jeg segja ykkur! Miðið vandlega, hver á sinn mann“. „Jeg er búinn að velja minn“, sagi d'Artagnan. „Og jeg minn“, sagði Porthos. „Jeg sömuleiðis“, sagði Aramis. „Skjótið!“ skipaði Athos. Skotin riðu öll af í einu og fjórir menn fjellu. Í sama bili var gefið merki og dátarnir ruddust fram á harða spretti. Skothríðin hjelzt úr víginu og skeikaði hvergi, en dátarnir skeyttu því ekki, rjett eins og þeir vissu hve fátt manna var fyrir til varnar. Þegar dátarnir komu inn undir vígið stóðu tólf eða fjórtán uppi af þeim. Var skotið á þá einu sinni enn, en þeir hikuðu ekki að heldur. Hlupu þeir nú ofan í vígisgryfjuna og fóru að klifra upp að múrglufunni. „Svona-nú, kæru vinir“, sagði Athos. „Nú skulum við vinna á þeim öllum í einu — niður með múrinn!“ Þeir notuðu byssurnar sem vogarstengur og ýttu allir við múrnum ásamt Grimaud, en öll þessi hliðin hallaðist út og riðaði, eins og áður er sagt. Alt í einu valt múrinn um og fjell ofan í gryfjuna með ógurlegu braki. Þeir heyrðu eitt samfelt angistaróp, þykkan rykmökk lagði upp í loftið — og svo var alt búið! „Ætli við höfum kramið þá alla í sundur?“ sagði Athos. „Það lítur helzt út fyrir það“, sagði d'Artagnan. „Nei“, sagði Porthos. „Þarna skjögra tveir eða þrír burtu, allir illa til reika“. „Það var sem honum sýndist. Fáeinir þessara vesalings manna lögðu á flótta til borgarinnar eftir víggröfinni, allir útataðir af for og blóði. Þetta voru einu mennirnir, sem uppi stóðu af öllum flokknum. Athos leit á úrið. „Jæja drengir góðir“, sagði hann. „Nú höfum við verið hjer einn klukkutíma og því unnið veðmálið, en við getum vel verið dálitla stund enn, enda áttum við eftir að heyra hvað það var, sem d'Artagnan datt í hug“. Að svo mæltu settist hann að því sem eftir var af krásunum, jafn rólegur og vant var. „Sem mjer datt í hug?“ sagði d'Artagnan. „Já, þú sagðir að þjer hefði dottið nokkuð í hug“. „Já, það er alveg satt — nú man jeg það! Jeg fer til Englands í annað sinn til þess að ná fundi Buckinghams“. „Það gerir þú ekki, d'Artagnan“, sagði Athos. „Vegna hvers? Þetta hef jeg þó áður gert“. „Jú, en þá áttum við ekki í ófriði. Þá var Buckingham landmaður okkar, en ekki fjandmaður. Ef þú færir nú, mætti ef til vill telja það föðurlandssvik“. Þessu gat d'Artagnan ekki mótmælt. „En bíðum við“, sagði Porthos. „Jeg held líka, að mjer hafi dottið nokkuð í hug“. „Gott og vel! Látum oss heyra!“ sagði Aramis. „Jeg bið herra de Tréville um fararleyfi og ber eitthvað fyrir, en þær viðbárur verðið þið sjálfir að finna, því að „mjer er ekki ment sú ljeð“, eins og þar stendur. Mylady þekkir mig ekki, svo að jeg get snuðrað í kringum hana, án þess að hana gruni neitt og svo kyrki jeg hana ef jeg á annað borð næ tökum á henni“. „Skoðum til!“ sagði Athos. „Jeg, er ekki fjarri því, að hallast að þessari uppástungu“. „Ja-svei!“ sagði Aramis. „Vega að kvennmanni! Nei-ónei! Mín uppástunga verður bezt“. „Hver er hún?“ spurði Athos. Hann mat Aramis altaf mikils. „Við verðum að gera Drotningunni aðvart“. „Allveg rjett!“ sögðu Porthos og d'Artagnan einum rómi. „Þarna kom það — þetta er eini rjetti vegurinn!“ „Gera drotningunni aðvart“, sagði Athos. „Hvernig þá? Ekki höfum við neitt samband við hirðina og getum engan sent til Parísar án þess að það verði hljóðbært í herbúðunum. Hjeðan og til Parísar eru níutíu mílur og við værum komnir í svartholið áður en sá sendiboði væri komin til Angers[* Angsje.]“. „Jeg gæti tekið að mjer að koma brjefi skilvíslega til hennar Hátignar“ sagði Aramis og roðnaði. „Jeg þekki áreiðanlega manneskju í Tours“. Athos brosti. „Þú vilt þá ekki aðhyllast þessa uppástungu, Athos?“ spurði d'Artagnan. „Jeg hafna henni ekki undir eins“, svaraði Athos, „en jeg vil að eins benda Aramis á það, að hann getur ekki farið burt úr herbúðunum og að engum nema einhverjum okkar er trúandi fyrir þessu. Tveimur tímum eftir að sá sendiboði væri farinn, mundu sporhundar kardínálans kunna brjefið utan að, en bæði þjer og þinni „áreiðanlegu manneskju“ vera varpað í varðhald“. „Að því ógleymdu“, sagð Porthos, „að drotningin mundi sjálfsagt alt til vinna að bjarga Buckingham, en kæra sig kollótta um okkur“. „Þetta er alveg rjett athugað af Porthos“, sagði d'Artagnan. „Hana-nú!“ Athos. „Hvað gengur nú á í borginni?“ „Þeir blása til útrásar“. „Þeir senda nú sjálfsagt heilt herfylki á okkur“, sagði Athos. „Þú ætlast þó líklega ekki til, að við veitum heilu herfylki viðnám“, sagði Porthos. „Því ekki það?“ svaraði Athos. „Jeg er ágætlega fyrirkallaður og væri til með að bjóða heilum her byrgin ef við hefðum verið svo forsjálir að taka meira vín með okkur“. „Þarna kemur bumbuberinn!“ sagði d'Artagnan. „Látum hann koma“, sagði Athos. „Það er stundarfjórðungs gangur hjeðan og til borgarinnar og þá jafnlangt þaðan og hingað, svo að við höfum nægan tíma til að ljúka við ráðagerð okkar. Ef við förum hjeðan nú, þá fáum við aldrei jafn hentugan stað til skrafs og ráðagerða — og bíðum nú við! Nú datt mjer líka nokkuð í hug — það langbezta af því öllu saman“. „Hvað var það?“ „Lofið mjer fyrst að gefa Grimaud afarnauðsynlegar fyrirskipanir“. Athos benti Grimaud að koma til sín. „Heyrðu Grimaud“, sagði hann og benti á dauðu skrokkana, sem voru alt í kringum þá. „Taktu þessa fjelaga og raðaðu þeim upp við múrinn — láttu hattana á þá og byssurnar í hendurnar á þeim“. „Ó, þú mikli maður!“ sagði d'Artagnan. „Nú skil jeg!“ „Hvað skilurðu?“ spurði Porthos. „Skilur þú það, Grimaud?“ sagði Aramis. Grimaud hneigði sig þegjandi. „Við þurfum nú ekki annars við“, sagði Athos. „Svo skulum við tala betur um mína uppástungu“. „En jeg vildi gjarna geta skilið —“ sagði Porthos. „Það er hreinasti óþarfi“. „Jæja — hver er þín uppástunga, Athos?“ spurðu þeir d'Artagnan og Aramis. „Hefurðu ekki sagt mjer, d'Artagnan, að þessi Mylady, þessi kvennskratti, ætti mág?“ „Jú, og hann þekki jeg vel. Jeg held að honum sje ekkert sjerlega vel við mágkonu sína“. „Það sakar ekki“, svaraði Athos. „Það væri jafnvel enn betra, að hann hataðist við hana“. „Jeg gæti bezt trúað að svo væri“. „Jeg skil ekkert í þessu, sem Grimaud er að gera“, sagði Porthos. „Þegiðu Porthos“, sagði Aramis. „Hvað heitir þessi mágur hennar?“ „Winter lávarður“. „Hvar er hann staddur núna?“ „Hann sneri aftur til London undir eins og ófriðinum laust á“. „Nú-jæja! Þar er einmitt maðurinn, sem við þurfum á að halda“, sagði Athos. „Við skulum gera honum boð og láta hann vita, að mágkona hans ætli sjer að drýgja morð og biðja hann að hafa vakandi auga á henni. Það er eflaust til eitthvert betrunarhús í London — þangað ætti hann að koma henni og þá megum við vera rólegir“. „Jú, þangað til að hún kemur aftur“, sagði d'Artagnan. „Þú ert of heimtufrekur, d'Artagnan“, sagði Athos. „Jeg hef ráðið þjer eins vel og jeg hef getað og jeg skal játa, að jeg sje engin önnur ráð“. „Jeg held þó, að jeg viti enn betra ráð“, sagði Aramis. „Við skulum gera bæði drotningunni og Winter lávarði aðvart, báðum í einu“. „Jú en hvern getum við sent með brjefin til Tours og London?“ „Jeg skal ábyrgjast Bazin“, sagði Aramis. „Og jeg Planchet“, sagði d'Artagnan. „Já, þetta er einmitt rjetta leiðin“, sagði Porthos. „Við getum sent þjóna okkar, þó að við getum ekki farið sjálfir úr herbúðunum“. „Já, auðvitað“, sagði Aramis, „og svo skrifum við brjefin í dag, fáum þjónunum ferðapeninga og sendum þá af stað“. „Ferðapeninga!“ sagði Athos. „Hafið þið nokkra peninga?“ Þeir fjelagar litu hver á annan og dró heldur niður í þeim. „Gætið að!“ hrópaði d'Artagnan. „Jeg sje einhverja svarta og rauða díla á hreyfingu þarna. Þú varst að tala um heilt herfylki, Athos, en þetta er heill her!“ „Ja, svei mjer þá!“ sagði Athos. „Þarna koma þeir og laumast þegjandi áfram — engar bumbur barðar og enginn lúðraþytur. Ertu búinn að þessu, Grimaud?“ Grimaud kinkaði kolli og benti á hina föllnu, sem hann var búinn að reisa upp við múrinn í ýmsum stellingum, suma með byssu um öxl, suma með byssuna fram undan sjer og suma með brugðið sverð. „Ágætt!“ sagði Athos. „Þetta hefurðu gert snildarlega!“ „Það má vel vera“, sagði Porthos, „en jeg skil það bara ekki“. „Við skulum nú fyrst komast hjeðan“, sagði d'Artagnan, „svo skilurðu það kannske seinna“. „Bíðið svo lítið við, drengir góðir — bara eitt augnablik. Grimaud verður að hirða matarleifarnar“. „Lítið á!“ sagði Aramis. „Nú eru svörtu og rauðu dílarnir altaf að stækka og jeg verð að vera á sama máli og d'Artagnan. Mjer finst ekki seinna vænna að komast til herbúðanna“. Nú-jæja — jeg er heldur ekkert að hafa á móti því“. sagði Athos. „Við veðjuðum um einn klukkutíma og nú er liðinn hálfur annar, svo að það er ekkert út á það að setja. Komum þá herrar góðir — við skulum nú fara!“ Grimaud var þegar lagður af stað með körfuna og matarleifarnar og gengu þeir fjelagar nú spölkorn á eftir honum. „Nei, hvaða fjandans vitleysa er þetta!“ sagði Athos alt í einu og nam staðar. „Hefurðu gleymt nokkru?“ spurði Aramis. „Fánanum, auðvitað! Það má ekki láta fánann lenda í óvina höndum, þó að það sje nú ekki annað en handþurka“. Svo hljóp Athos inn í vígið aftur, stje upp á múrinn eg tók fánann. Rochellebúarnir voru nú komnir í skotmál og ljetu nú skothríðina dynja á þennan mann sem virtist gera sjer leik að því að gera sig að skotspæni þeirra. En það var eins og einhver „hulinn verndarkraftur“ hlífði Athos, því að kúlunum rigndi niður alt í kringum hann, en engin þeirra hitti hann. Athos veifaði fánanum til herbúðanna, en sneri baki við bæjarbúum. Gerðist nú gnýr mikill á báðar hliðar — hróp og heiftarorg meðal óvinanna og dynjandi fagnaðaróp fyrir framan herbúðirnar. Nú skall á önnur skothríðin og þutu þrjár kúlur gegnum handþurkuna svo að hún líktist nú reglulegum gunnfána. Frá herbúðunum heyrðist hrópað: „Niður af múrnum! Niður af múrnum!“ Athos stökk niður og gekk til fjelaga sinna og tóku þeir honum tveim höndum, enda þóttust þeir hafa heimt hann úr helju. „Komdu nú, Athos“, sagði d'Artagnan. „Nú er bezt að taka til fótanna! Við erum nú búnir að sjá fyrir öllu nema peningunum, svo að það væri heimskulegt að bíða hjer dauða síns“. En Athos fór sjer að öllu hægt og fjekst ekki til að greikka sporið, hvernig sem fjelagar hans ráku á eftir honum, svo að þeir neyddust loks til að hægja á sjer líka. Grimaud fór á undan með körfu sína og var þegar kominn úr skotfæri. Litlu síðar heyrðu þeir dynjandi skothríð. „Hvað er nú?“ sagði Porthos. „Á hvað eru þeir að skjóta? Jeg heyri engan kúlnaþyt og sje ekki nokkurn mann“. „Þeir eru að skjóta á þá föllnu“, sagði Athos. „En þeir föllnu fara þó varla að svara skothríðinni“. „Nei, vissulega gera þeir það ekki og þess vegna halda hinir, að hjer sje um launsát að ræða, hætta að skjóta og bera ráð sín saman. Svo senda þeir griðaboða í vígið og þegar þeir loksins komast að, hvernig í öllu liggur, verðum við komnir ríflega úr skotfæri. Það er þess vegna óþarfi að hlaupa sig í spreng og fá tak og lungnabólgu“. „Hæhæ! Nú skil jeg loksins“, sagði Porthos undrandi. „Jæja — mikið var!“ sagði Athos og ypti öxlum. Það sást nú til þeirra úr herbúðunum og var lostið upp fagnaðarópi á móti þeim. En loksins dundi á ný skothríð og í þetta skifti þutu kúlurnar um eyrun á þeim fjelögum og klestust á steinunum við fætur þeirra. Bæjarbúar höfðu nú tekið vígið. „Skárri eru það klaufarnir!“ sagði Athos. „Hvað marga skutum við af þeim?“ „Eitthvað tólf eða fjórtán“. Og hvað marga krömdum við undir múrnum?“ „Átta eða tíu“. „Og enginn okkar særður — ekki svo mikið sem skeina á fingur! Jú, bíðum við!“ „Hvað er að hendinni á þjer, d'Artagnan? mjer sýnist hún vera blóðug“. „Það er ekki neitt“, sagði d'Artagnan“. „Var það geigskot?“ „Ónei — ekki það einu sinni“. „Hvað var það þá?“ „Það er bara svolítið fleiður“, sagði d'Artagnan. „Jeg lenti með fingurinn á milli tveggja steina — annar var í múrveggnum og hinn í hringnum mínum“. „Svo fer þeim, sem ganga með demantshring“, sagði Athos hæðnislega. „Einmitt það!“ sagði Porthos. „Hefur hann demantshring? Hvað ætli við sjeum þá að barma okkur út af peningaleysi, fyrst að við höfum demant í fórum okkar!“ „Það er hverju orði sannara“, sagði Aramis. „Vel sje þjer, Porthos! Í þetta skifti datt þjer sannarlegt snjallræði í hug“. „Já, jeg hefði nú haldið það!“ sagði Porthos hreykinn. „Ekki þarf annað en að selja hringinn“, „Jú; en þetta er demantshringur drotningarinnar“, sagði d'Artagnan. „Þess heldur!“ sagði Athos. „Drotningin bjargar Buckingham, elskhuga sínum — það er ekki nema sanngjarnt. Og drotningin bjargar okkur vinum hans — það er heldur ekki nema sanngjarnt. Við skulum selja demantinn — eða hvað segir ábótinn? Porthos er óþarft að spyrja. Hann er búinn að segja sitt álit“. „Ja, mjer finst nú“, sagði Aramis og roðnaði, „að þar sem d'Artagnan hefur ekki fengið hringinn hjá ástmey sinni og hringurinn þar af leiðandi er ekki neinn trygðapantur, þá sje honum heimilt að selja hann“. „Þú talar eins og sá vísi Salómon, kæri vin! Þín skoðun er þá?“ „Að hringinn beri að selja“, sagði Aramis. „Jæja, við skulum þá selja hringinn og ekki hafa fleiri orð um það“, sagði d'Artagnan. Skothríðin hjelt áfram, en þeir fjelagar voru nú komnir úr skotfæri. „Það mátti ekki seinna vera, að Porthos dytti þetta snjallræði í hug, því að nú erum við þegar komnir að herbúðunum“, sagði Athos. „En munið það nú fjelagar góðir, að minnast ekki einu orði á þetta. Þarna koma þeir á móti okkur og ætla heldur en ekki að fagna okkur“. Það var líka orð og að sönnu. Allur umsátursherinn var kominn á kreik og höfðu rúm tvö þúsund manns horft á þessa glæfraför, þótt enginn vissi aðaltilgang hennar. Alstaðar glumdu og dundu við fagnaðarópin. Busigny gekk fram, tók í höndina á Athos og kannaðist við að veðmálið væri sjer tapað. Sama gerðu riddarinn og Svissinn og síðan aðrir samherjar þeirra fjelaga, hver af öðrum. Heillaóskir, handtök og faðmanir skiftust á jafnframt því, sem hlegið var dátt að borgarbúum. Varð af þessu slíkur glaumur, að kardínálinn hjelt, að upphlaup hefði orðið í hernum og sendi höfuðsmann lífvarðarliðanna, La Houdiuiére, til að grenslast eftir, hverju þetta gengdi. Var honum sögð öll sagan og sízt dregið úr, heldur aukið talsverðu við. „Núnú, hvað er um að vera?“ spurði kardínálinn þegar La Houdiuiére kom aftur. „Jú, yðar Hágöfgi svaraði höfuðsmaðurinn. “Þrír skyttuliðar og einn lífvarðarliði veðjuðu um það við Busigny; að þeir skyldu borða morgunverð í Saint-Gervais-víginu. Það gerðu þeir líka og meðan á máltíðinni stóð vörðust þeir árásum fjandmannanna í tvo klukkutíma og feldu þá að velli — jeg veit ekki hvað marga“. „Vitið þjer nöfnin á þessum skyttuliðum?“ „Já, yðar Hágöfgi“. „Hvað heita þeir?“ „Þeir heita Athos, Porthos og Aramis“. „Það grunaði mig, að það væru þeir þrír, en hvað heitir sá fjórði?“ „D'Artagnan“. „Það hjelt jeg líka. Hann er þá á ferðinni enn, sá ungi maður! Nú-jæja! Þessa fjóra fjelaga þyrfti jeg umfram alt að fá í mína þjónustu“. Þetta sama kvöld átti kardínálinn tal við herra de Tréville um þetta afreksverk, enda var það á hvers manns vörum í herbúðunum. Tréville hafði söguna frá hlutaðeigendum sjálfum og sagði kardínálanum hana nú ítarlega og gleymdi ekki að geta um handþurkuna, sem gerð var að gunnfána“. „Það er ágætt, herra de Treville“, sagði kardínálinn. „Mjer mundi vænt um þykja, ef þjer vilduð eftirláta mjer handþurkuna. Jeg ætla að láta sauma í hana þrjár gullnar liljur og gefa herfylki yðar hana fyrir gunnfána“. „Það væri ranglátt gagnvart lífvarðarliðunum, yðar Hágöfgi“, sagði de Tréville. „D'Artagnan er ekki í mínu herfylki, heldur des Essarts“. „Jæja, takið þjer hann þá í yðar herfylki“, sagði kardínálinn. „Það er líka ranglátt að þessir fjórir fullhugar skuli ekki vera í sama herfylki, jafn samrýmdir og þeir eru“. Sama kvöldið tilkynti de Tréville d'Artagnan og skyttuliðunum þremur þessa miklu nýjung og bauð þeim öllum til miðdagsverðar hjá sjer daginn eftir. D'Artagnan varð frá sjer numinn af fögnuði. Þetta hafði lengi verið hans heitasta ósk. Þeir fjelagur hans samglöddust honum innilega. „Þetta var dásamlegt tiltæki af þjer, Athos“, sagði d'Artagnan. „Við höfum bæði getið okkur góðan orðstír og fengið tækifæri til að ræða alvarlegt og áríðandi mál“. „Og því getum við nú haldið áfram án þess að vekja tortrygni annara“, sagði Athos. Því að nú er vonandi, að hjeðan af verðum við álitnir vinir kardínálans!“ Sama kvöldið fann d'Artagnan herra des Essarts að máli og sagði honum frá því, að hann væri nú tekinn í skyttuliðið. Des Essarts hafði mætur á d'Artagnan og bauðst til að vera honum hjálplegur með útbúnað hans, því að þessi breyting hafði nokkurn kostnað í för með sjer. D'Artagnan afþakkaði það, en bað hann í þess stað að verðleggja demantinn og koma honum í peninga fyrir sig. Morguninn eftir kom þjónn des Essarts með peningapoka til d'Artagnans og voru í honum sjö þúsund fránkar. Það var borgunin fyrir demantshringinn Drotningarnaut. XVIII. Fjölskyldumálefni. Athos fann nafnið á þessu málefni þeirra og kallaði það fjölskyldumálefni. Kardínálinn hafði engan rjett til þess að hlutast til um fjölskyldumálefni. Fjölskyldumálefni koma öllum og engum við. Aramis fann bezta úrræðið — það voru þjónarnir. Porthos fann hjálparmeðalið — það var demantshringurinn. D'Artagnan einum hafði ekkert hugkvæmst og var hann þó löngum þeirra ráðsnjallastur, en það er aðgætandi, að hugsunin um Mylady lamaði alt hans sálarþrek. Og þó er þetta ekki alveg rjett — d'Artagnan fann ráð til þess að koma hringnum í peninga. Miðdagsveizlan hjá herra de Tréville var einkar skemtileg og bar d'Artagnan hinn nýja einkennisbúning sinn. Hann var mjög svipaður Aramis á vöxt og með því að Aramis hafði fengið talsverða peninga frá „forleggjaranum“, eins og áður er sagt, þá ljet hann sauma sjer tvo nýja einkennisbúninga og gaf d'Artagnan annan. Mundi d'Artagnan nú þózt hafa fengið uppfylling óska sinna ef umhugsunin um Mylady hefði ekki varpað nokkrum skugga á fögnuð hans. Að miðdagsverðinum loknum komu þeir fjelagar sjer saman um að finnast hjá Athos til þess að koma ráðagerð þeirra í framkvæmd. Var nú að eins eftir að komast að niðurstöðu um þessi þrjú atriði: Hvað skrifa ætti mági Mylady. Hvað skrifa ætti þessari „áreiðanlegu manneskju“ í Tours. Og hver þjónanna ætti að fara með brjefin. Sjerhver þeirra mælti með sínum eigin þjóni. Athos benti á hagmælsku Grimaud, sem væri alveg óviðjafnanleg. Porthos hrósaði Mousqueton á hvert reipi og kvað hann vera fjögra manna maka að afli. Aramis fór lofsamlegum orðum um Bazin, fyrir hyggindi og snarræði og þá dró d'Artagnan ekki af þegar hann var að lýsa öllum hreystiverkum Planchets. Voru þeir lengi að metast um þetta, en ekki er þörf að segja frekar frá þeim umræðum. „Sá sem við sendum, þarf helst að vera gæddur öllum þessum mannkostum, sem upp hafa verið taldir“, sagði Athos. „Já, en hvar er hægt að fá slíkan mann?“ „Hann fæst hvergi“, svaraði Athos. „Við skulum halda okkur við Grimaud“. „Nei, Mousqueton heldur“. „Jeg held því fram, að við eigum að senda Bazin“. „Nei, við skulum senda Planchet, hann er hraustur og hygginn og það eru þó strax tveir af umræddum mannkostum“. „Nú skal jeg segja ykkur nokkuð“, sagði Aramis. „Það er ekki nóg að fá að vita hver þjóna okkar sje þagmælskastur, sterkastur, hygnastur eða hraustastur — fyrst af öllu verðum við að komast eftir, hver þeirra sje fjegjarnastur“. „Aramis hefur rjett að mæla“, sagði Athos. „Það verður ávalt að byggja meira á göllum manna en kostum. Þú ert djúpskygn sálfræðingur, herra ábóti“. „Já, er ekki svo?“, sagði Aramis. „Við megum ekki gleyma því, að fyrirætlanir okkar geta engu síður mishepnast en hitt — og ef þær mishepnast, þá varðar það ekki eingöngu líf þjónanna, heldur einnig — —“. „Hafðu ekki svona hátt“, sagði Athos. „Nei, rjett er það — þá varðar það ekki eingöngu líf þjónanna, heldur einnig húsbænda þeirra. En eru nú þjónar okkar svo ábyggilegir, að þeir sjeu fúsir til að hætta lífi sínu okkar vegna? Naumast held jeg það“. „Jeg þori næstum að ábyrgjast Planchet“, sagði d'Artagnan. „Einkum ef þú lofar honum góðri borgun“. „Og samt er það ekki nægileg trygging“, sagði Athos. „Þeir lofa hverju sem vera skal til þess að fá peningana, en fellst svo hugur, þegar á hólminn er komið, og gleyma öllum loforðum. Svo verða þeir teknir höndum og píndir til sagna. Til þess að komast til Englands verður að fara Frakkland á enda og alstaðar eru útsendarar og njósnarmenn kardínálans. Til þess að fá far með skipi verður að hafa vegabrjef. Til þess að komast til London verður maður að kunna ensku. Þessi för er ótal erfiðleikum bundin“. „Það getur mjer ómögulega fundist“, sagði d'Artagnan, því að honum var þetta áhugamál. „Jeg held þvert á móti, að þetta sje ógnar auðvelt. Það leiðir af sjálfu sjer, að ef við skýrum Winter lávarði sem greinilegast frá fólskuverkum kardínálans — —“ „Ekki svona hátt!“ sagði Athos. „ — ef við skrifum honum um leynibrögð kardínálans og stjórnmálavafstur, þá verðum við bundnir á hjól og steglur“, hvíslaði d'Artagnan. „Við megum ómögulega gleyma því, að við ætlum að skrifa honum um „fjölskyldumálefni“. Þú hefur sjálfur valið það orð, Athos. Við skrifum honum í þeim tilgangi einum, að hann aftri Mylady frá því að vinna okkur mein þegar hún kemur til London og ættir þú að orða brjefið eitthvað á þessa leið: „Já, blessaður láttu okkur heyra“, sagði Aramis og glotti við. „Háttvirti, kæri vin — —“ „Það er afbragð, d'Artagnan. „Jeg verð að segja, að þetta er ekki ólagleg byrjun“, sagði Athos. „Kæri vin!“ Það eitt er nóg til þess, að þú verður bútaður sundur lim fyrir lim, en ekki lagður í hjól og steglur“. „Nú-jæja! Þá skrifa jeg bara: Háttvirti herra“. „Þú getur líka eins vel skrifað herra lávarður“, sagði Athos. Hann var alt af svo formfastur. „Herra lávarður! Munið þjer eftir girta blettinum bak við Luxembourg — —“ „Eigum við nú líka að fara að minnast á Luxembourg í brjefinu? Það gæti skilist sem sneið til ekkjudrotningarinnar. Það var annars ekki svo illa til fundið“, sagði Athos. „Jæja við skrifum þá bara: Herra lávarður! Munið þjer nokkuð eftir girta blettinum, þar sem lífi yðar var bjargað — —“ „Kæri d'Artagnan“, sagði Athos. „Þú ert og verður afleitur brjefritari. „Þar sem lífi yðar var bjargað!“ En sú dæmalaus smekkleysa! Aðalsmenn eru ekki að minnast á smágreiða, sem þeir hafa gert hver öðrum — slíkt er móðgandi“. „Þú ert óþolandi, Athos“, sagði d'Artagnan. Ef þú þykist ætla að fara að kenna mjer að stíla sendibrjef, þá hætti jeg við allar brjefaskriftir“. „Það er líka það langrjettasta. Þjer er betur lagið að fara með byssu og korða — það eru vopn við þitt hæfi, en þjer er bezt að láta ábótann fara með pennann. Hann kann að halda á honum“. „Já, það skaltu gera“, sagði Porthos. „Fáðu Aramis pennann. — hann getur skrifað ritgerðir á latínu, hvað þá annað“. „Jæja, látum svona vera“, sagði d'Artagnan. Skrifa þú þá brjefið, Aramis, en stutt og gagnort verður það að vera, skal jeg segja þjer“. „Það skal jeg gjarnan gera“, sagði Aramis, „en þá verðið þið að segja mjer alla málavöxtu. Mjer hefur skilist á ýmsu, sem þið hafið látið í ljós, að þessi mágkona sje mesta flagð, enda sannfærðist jeg um það, þegar jeg varð áheyrandi að tali hennar við kardínálann“. „Hafðu lægra, maður“, sagði Athos. „En nánari atvik þekki jeg ekki“, hjelt Aramis áfram. „Og jeg ekki heldur“, sagði Porthos. Athos og d'Artagnan litu hvor á annan. Athos var nú orðinn fölari en hann átti að sjer og hugsaði sig um stundarkorn. Hann gaf svo d'Artagnan til kynna, að hann skyldi taka til máls. „Um þá hlið málsins mætti skrifa á þessa leið“, sagði d'Artagnan: „Herra lávarður! Mágkona yðar er glæpakvendi og hefur ætlað sjer að ráða yður bana til þess að erfa eigur yðar. En raunar gat hún aldrei gifzt bróður yðar löglega, með því að hún átti mann á Frakklandi og var — —“ D'Artagnan leit á Athos, eins og hann væri í vandræðum með áframhaldið. „— og var rekin burt af þeim manni sínum“, bætti Athos við. „Af því að hún var brennimerkt á annari öxlinni“, hjelt d'Artagnan áfram. „Þetta hlýtur að vera einhver fjarstæða“, sagði Porthos. „Ætlaði hún að ráða mág sinn af dögum?“ „Já“. „Og var hún gift áður?“ spurði Aramis. „Já“. „Og maður hennar komst að því, að hún var brennimerkt á öxlinni?“ spurði Porthos. „Já“. Það var Athos, sem játaði öllum þessum spurningum. „Hver hefur sjeð þetta brennimark?“ „D'Artagnan og jeg eða jeg og d'Artagnan, rjettara sagt“, svaraði Athos. „Og er þá hinn rjetti eiginmaður þessarar ófreskju lifandi enn?“ spurði Aramis. „Já hann er lifandi“. „Ertu viss um það?“ „Já, jeg er það“. Það sló öllu í þögn nokkra stund og hugsaði hver sitt. „Þetta er allra bezta brjefsefni“, sagði Athos loksins. „Satt er það“, sagði Aramis, „en samt sem áður er alls ekki vandalaust að semja brjefið sjálft. Það mundi kosta sjálfan kanzlarann nokkra fyrirhöfn að stíla brjef jafn einkennilegs efnis og er hann þó allvanur að bókfæra ýmislegt. En hvað um það — hafið nú hljótt um ykkur, því að nú fer jeg að skrifa“. Aramis greip pennann, hugsaði sig um, skrifaði nokkrar línur og las þær síðan upp, en þær voru svohljóðandi: „Herra lávarður! Þeim sem þessar línur skrifar, hefur veizt sá sómi að eiga vopnaviðskifti við yður á girtum bletti við Enfer-götuna. En þar sem þjer, alt frá þeim tíma, hafið oftsinnis sýnt mjer þá velvild að kalla mig vin yðar, þá er það blátt áfram skylda mín að launa vinsemd yðar með því að leggja yður heilræði eitt. Það hefur tvívegis legið við, að þjer hlytuð bana af völdum kvennpersónu einnar, sem yður er nátengd og þjer skoðið sem löglegan erfingja yðar af því að yður er ókunnugt um, að hún var gift manni á Frakklandi áður en hún giftist aftur á Englandi. En nú vofir ný hætta yfir yður. Þessi kvennpersóna fór frá La Rochelle í nótt sem leið áleiðis til Englands. Hafið gát á henni, þegar hún kemur þangað, því að ætlunarverk hennar er mikið og hræðilegt, en til þess að sannfæra yður um, að hún láti ekki alt fyrir brjósti brenna, þurfið þjer ekki annað en að skoða á henni vinstri öxlina“. „Þetta er fyrirtak!“ sagði Athos. „Þú skrifar eins og hreinasti landritari, kæri Aramis, og Winter lávarður verður nú var um sig ef þetta brjef kemst í hans hendur, en jafnvel þótt kardínálinn næði í það, þá getur enginn grunur fallið á okkur. En til þess að tryggja okkur að þjónninn, sem við sendum, reyni ekki að telja okkur trú um, að hann hafi komist alla leið til London, þó að hann hafi kannske stöðvast á miðri leið, þá er ráðlegast að borga honum ekki nema helming fyrirfram og lofa honum hinum helmingnum þegar hann komi aftur með svar. Hefurðu demantshringinn enn?“ „Nei, en jeg hef það sem betra er“, svaraði d'Artagnan „og það er andvirði hans“. Hann fleygði peningapokanum á borðið. Aramis leit upp, þegar hann heyrði glamra í gullinu, Porthos hrökk við, en Athos brá sjer hvergi. „Hvað er mikið í pokanum?“ spurði hann. „Sjö þúsund fránkar í gulli“. „Sjö þúsund fránkar!“ sagði Porthos. „Var þetta demantskríli sjö þúsund fránka virði?“ „Svo er að sjá fyrst að þeir liggja þarna á borðinu“, sagði Athos. „En við gleymum drotníngunni“, sagði d'Artagnan. „Við skulum nú fara að hugsa eitthvað fyrir honum Buckingham hennar — minna á hún þó ekki skilið af okkur“. „Það er alveg satt“, sagði Athos. „en aðallega verður Aramis að sjá fyrir því“. „Nú - og hvað á jeg þá að gera?“ spurði Aramis. „Þú verður að skrifa þessari „áreiðanlegu manneskju“ í Tours, sem þú segist þekkja“. Aramis greip pennann aftur, hugsaði sig um og skrifaði og las síðan upp eftirfarandi línur: „Kæra frænka! — —“ „Það er svo!“ greip Athos fram í. „Er þessi „áreiðanlega manneskja“ frænka þín?“ „Já, holdborin frænka mín“, svaraði Aramis. „Jæja, látum svo vera — hvað kemur svo?“ „Hans Hágöfgi kardínálinn, sem jeg bið forsjónina að vernda Frakklandi til blessunar og óvinum þess til tortímingar — hann er nú í þann vegin að sigrast á hinum þverúðarfullu trúvillingum í La Rochelle, því að sennilega mun enski hjálparflotinn ekki dirfast að koma hjer undir land. Jeg gæti líka bezt trúað því — eða jeg þori að fullyrða það, rjettara sagt, að óvæntur og afdrifaríkur viðburður muni gera það að verkum, að herra Buckingham komist ekki frá Englandi. Kardínálinn er sá mesti stjórnvitringur, sem nokkru sinni hefur uppi verið og hans líki mun tæplega til verða á ókomnum öldum. Segðu systur þinni þessi gleði tíðindi. Mig dreymdi ekki alls fyrir löngu, að þessi bannsettur Englendingur væri af dögum ráðinn, annaðhvort með rýtingi eða eitri, jeg man ekki hvort heldur var. En jeg man fyrir víst, að mig dreymdi, að hann væri dauður og þú veizt, hvað jeg er berdreyminn. Jeg mun bráðlega koma til þín aftur“. „Þetta er stórágætt!“ sagði Athos. „Þú ert allra skálda æðstur og mestur, kæri Aramis. Orð þín eru dul sem goðasvör og jafn sönn sem evangelíið. Þá er nú bara eftir að skrifa utan á“. „Það en nú hægur vandi“, sagði Aramis, lagði brjefið saman og skrifaði: „Ungfrú Michon, saumakona í Tours“. Hinir litu hver á annan og hlóu — þeir voru jafnvísir eftir sem áður. „Væntanlega skilst ykkur það nú“, sagði Aramis, „að enginn annar en Bazin getur flutt þetta brjef til Tours. Frænka mín þekkir Bazin og trúir honum, en engum öðrum og auk þess er Bazin jafn fjegjarn sem fróður. Meðal annars er hann sögufróður vel og veit að Síxtus fimti var svínahirðir áður en hann varð páfi og fyrst að hann ætlar sjer að gerast kirkjunnar þjónn um leið og jeg, þá er ekki loku fyrir það skotið, að hann verði einhvern tíma páfi eða að minsta kosti kardínáli. Það er því auðsætt að maður, sem stefnir jafn hátt, lætur ekkert aftra sjer og mundi fyr láta lífið en ljóstra nokkru upp, ef svo illa tækist til, að hann yrði handsamaður“. „Nú — jæja,“ sagði d'Artagnan. „Sendið þá Bazin til Tours en látið mig senda Planchet til London. Mylady ljet einu sinni lúberja hann og fleygja honum á dyr og Planchet er ekki svo gerður, að hann gleymi þess háttar. Jeg skal ábyrgjast, að ef hann sjer sjer nokkurt færi á að hefna sín, þá lætur hann fyr skera sig í stykki, en að hann sleppi því tækifæri. Taktu þetta mál að þjer, Aramis, hvað Tours snertir, en láttu mig eiga við London og jeg bið ykkur enn sem fyrri að láta Planchet fara. Hann hefur komið til London áður ásamt mjer og getur vel sagt á Ensku: London, sir, if you please og My master Lord d'Artagnan — en það er kappnóg til þess að hann geti komist leiðar sinnar fram og aftur“. „Ef við fastráðum þetta“, sagði Athos, „þá getum við látið Planchet fá sjö hundruð fránka til burtfararinnar og aðra sjö hundruð til heimfararinnar og Bazin tvenn þrjú hundruð í sama skyni. Þá eru eftir fimm þúsund fránkar. Þar af tekur hver okkar eitt þúsund fránka í sínar eigin þarfir og verða þá eitt þúsund fránkar afgangs, sem bezt er að láta ábótann geyma, svo að hægt sje að grípa til þeirra, þegar nauðsyn krefur. Viljið þið fallast á þetta?“ „Kæri Athos! Þú talar eins og hinn fjölvitri Nestor“, sagði Aramis, „Þá er þetta útkljáð“, sagði Athos, „og við látum þá Planchet og Bazin fara. Sannast að segja kemur mjer líka bezt að hafa Grimaud hjá mjer, því að hann er orðin vanur öllum mínum tiktúrum. Gærdagurinn reyndi líka mikið á hann, svo að það er ekki að vita nema að þessi ferð hefði gert út af við minn trúa þjón“. Planchet var nú kallaður inn og tók við fyrirskipunum sínum, en d'Artagnan hafði þegar gert honum aðvart um, hvað til stæði og við það tækifæri, brýnt fyrir honum, hver sómi þetta væri honum, því næst minst á borgina og að lokum á hættur þær og erfiðleika, sem búast mætti við á þessari glæfraför. „Jeg get falið brjefið undir fóðrinu á treyjunni minni“, sagði Planehet, „og verði jeg handsamaður, þá gleypi jeg það“. „En þá geturðu ekki lokið erindi þínu sagði d'Artagnan. „Látið mig fá afrit af brjefinu í kvöld og svo læri jeg það utan að til morguns“. „Þú færð átta daga til að komast á ákvörðunarstaðinn“, sagði d'Artagnan „og jafn langan tíma til heimfararinnar, en verðirðu ekki kominn hingað aftur klukkan átta að kvöldi sextánda dags, þá færðu enga borgun, enda þótt koma þín dragist ekki nema um fimm mínútur“. „Þá verðið þjer að kaupa úr handa mjer“, sagði Planchet. „Þú mátt hafa þetta“, sagði Athos og fjekk honum sitt eigið úr. „Vertu nú bæði hraustur og harðfylginn og mundu það, að ef þú talar af þjer eða ljóstrar einhverju upp, þá varðar það lífi húsbónda þíns, en hann treystir þjer svo vel, að hann vill ábyrgjast þig. Gleymdu því heldur ekki, að ef d'Artagnan hendir nokkur ógæfa fyrir þínar aðgerðir, þá skal jeg rista þig á hol“. „Og jeg skal flá þig lifandi“, sagði Porthos og ranghvolfdi augunum. „Jeg skal steikja þig yfir hægum eldi, eins og villimenn fara með fjandmenn sína“, sagði Aramis ofur rólega. Planchet veinaði undan öllum þessum ósköpum og fór að gráta, en ekki er gott að segja, hvort það var af ótta við allar þessar gífurlegu hótanir, eða þá af hinu, að hann komst við af þessari dæmalausu einingu og samheldni þeirra fjelaga. „Þeir tala svona, Planchet, að eins vegna þess, að þeir vilja þjer vel“, sagði d'Artagnan og faðmaði Planchet að sjer. „Í rauninni er þeim öllum vel við þig“. „Annaðhvort lýk jeg erindi mínu eða að jeg læt skera mig í stykki“, sagði Planchet. „En verði jeg skorin í stykki, þá megið þið vera vissir um, að ekkert af þeim stykkjum mun ljóstra neinu upp“. Þeir ákváðu nú að Planchet skyldi leggja af stað klukkan átta morguninn eftir til þess að hann gæti lært brjefið utan að um nóttina, eins og hann sjálfur sagði. D'Artagnan var í raun rjettri vel til Buckinghams og vjek hann því Planchet afsíðis þegar hann var ferðbúinn morguninn eftir og sagði við hann: „Þegar þú ert búinn að skila Winter lávarði brjefinu og hann búinn að lesa það, þá skaltu segja við hann: Hafið einnig gát á hertoganum af Buckingham, því að honum eru búin fjörráð. Þetta sem jeg bið þig nú fyrir, Planchet, er svo þýðingarmikið, að jeg hefi ekki einu sinni viljað trúa fjelögum mínum fyrir því og mundi ekki fá þjer neitt skriflegt því viðvíkjandi þó að mjer væri boðin höfuðsmannsstaða“. „Verið ókvíðinn, herra“, sagði Planchet. „Þjer megið reiða yður á mig“. Að svo mæltu þeysti Planchet af stað á ágætis hesti, sem hann átti að ríða fyrstu tuttugu mílurnar, en ferðast með póstum úr því. Var hann hinn vonbezti um ferð sína, en þó hálf hugsandi út af hinum hræðilegu hótunum skyttuliðanna. Bazin lagði af stað til Tours daginn eftir. Voru honum ætlaðir átta dagar til ferðarinnar fram og aftur. Þeir fjelagar gáfu nákvæmar gætur að öllu, sem við bar, meðan þjónar þeirra voru fjarverandi. Þeir voru sjer úti um alls konar frjettir, athuguðu kardínálann í laumi og reyndu með öllu móti að komast fyrir, hvaða tíðindi hraðboðar hans höfðu að færa honum. Greip þá stundum óviðráðanleg hræðsla, ef hastarlega var kallað á þá til herþjónustunnar. Auk þess urðu þeir sífelt að vera varir um sig, því að alt af stóð Mylady fyrir hugskotssjónum þeirra eins og einhver ógnandi vofa, sem aldrei ljet þá hafa neinn frið. Að morgni áttunda dags kom Bazin aftur, heill á húfi og gekk inn í veitingahús Parpaillots, þar sem þeir fjelagar sátu að morgunverði. „Hjer kemur svarið frá frænku yðar, herra Aramis“, sagði hann. Þeir fjelagar urðu heldur en ekki glaðir á svip. Nú var þá nokkur hluti áhugamáls þeirra til lykta leiddur, þótt ekki væri það nema auðveldasti hlutinn. Aramis tók við brjefinu og leit á og var utanáskriftin harla viðvaningsleg. „Nei, þetta er ótækt“, sagði hann hlægjandi. „Aumingja frænka mín getur aldrei lært að draga til stafs, svo nokkur mynd sje á“. „Hvað eigið þjer við — aumingja frænka yðar?“ spurði Svissinn, sem var að skrafa við þá fjelaga þegar Bazin kom með brjefið. „Mikil ósköp!“ svaraði Aramis. „Það er bara saumakona, sem mjer þótti einu sinni mjög vænt um og jeg hef beðið að senda mjer línu við og við“. „Einmitt það! Ef hún er eins stórmyndarleg og stafirnir í utanáskriftinni, þá er hún ekkert smásmíði“, sagði Svissinn og hló. Aramis las brjefið og fjekk Athos það. „Sjáðu, hvað hún skrifar“, sagði hann. Athos leit á brjefið og las það svo upphátt. Það var svohljóðandi: „Kæri frændi! Við systurnar kunnum vel að ráða drauma, en annars stendur okkur hálfgerður stuggur af þeim. Jeg vona samt, að um draum þinn megi með sanni segja: ekki er mark að draumum. Vertu nú sæll og líði þjer vel og láttu okkur frjetta eitthvað af þjer við og við. Aglaé Michon“. „Hvaða draum er hún að tala um ?“ spurði riddarinn og færði sig nær meðan brjefið var lesið upp. „Já, hvaða draumur er það? spurði Svissinn líka. „Sussu-sussu!“ sagði Aramis. „Það er draumur, sem mig dreymdi einu sinni og jeg sagði henni frá“. „Draumur — ekki nema það þó!“ sagði Svissinn. „Mig dreymir aldrei neitt!“ „Jæja, gott eigið þjer“, sagði Athos. „Jeg vildi að jeg gæti sagt það sama“. „Nei, aldrei!“ endurtók Svissinn og þótti vænt um, að hann var öfundaður af einhverju. „Aldrei nokkurn tíma — það vill ekki til!“ D'Artagnan sá nú að Athos stóð upp. Gerði hann þá slíkt hið sama og gengu þeir svo út, en Porthos og Aramis sátu kyrrir eftir. Bazin fór líka heim til sín og fleygði sjer á hálmdyngju og hann var þeim mun hugmyndaríkari en Svissinn, að hann dreymdi, að Aramis væri orðinn páfi og væri að láta á hann kardínálahattinn. Að vísu voru þeir fjelagar mjög svo glaðir yfir því, hve greiðlega Bazin hafði gengið erindi sitt, en þó voru þeir afar áhyggjufullir út af því, hvernig Planchet mundi reiða af. „Langt finst þeim sem búinn bíður“ og d'Artagnan hefði verið til með að veðja um það, að í sólarhring væru 36 tímar, eins og maðurinn sagði. Hann hugsaði ekkert út í það, hvað skip eru oft lengi á leiðinni og hann gerði alt of mikið úr áhrifum og yfirburðum Mylady. Honum fanst hún vera einhver óvættur úr myrkheimum, hann hrökk við, hvað lítinn hávaða, sem hann heyrði og ímyndaði sjer, að nú kæmi einhver að taka sig höndum, eða að nú yrði Planchet leiddur í fjötrum fram fyrir sig og fjelaga sína. Þar við bættist að traust hans á Planchet þverraði dag frá degi og loks urðu þeir Porthos og Aramis jafn áhyggjufullir og órólegir og hann. Athos var sá eini, sem hvergi brá sjer, en var alt af jafn stiltur og rólegur. Skyldi enginn sjá á honum, að nokkur hætta væri á ferðum. Einkum kvað þó að órósemi d'Artagnans og hinna tveggja sextánda daginn eftir burtför Planchets. Þeir eirðu hvergi en ráfuðu fram og aftur eins og vofur á veginum, sem Planchet hlaut að fara um. „Það mætti ætla að þið væruð ístöðulausir krakkar en engir karlmenn, fyrst að þið látið eina konukind hræða ykkur svona“, sagði Athos. „Hvaða hætta er það þá, sem helzt vofir yfir okkur? Óttist þið að verða hneptir í varðhald? Nú-jájá! Einhver verður til þess að bjarga okkur þaðan — eða svo reyndist það með frú Bonacieux. Eruð þið hræddir um, að höfuðið fjúki af ykkur? Það eigum við á hættu dags daglega í víggröfunum. Við getum fengið kúlu í lappirnar, hve nær sem vera skal og jeg er viss um, að það er miklu meiri sársauki að láta taka af sjer fót heldur en að láta böðulinn stýfa af sjer hausinn. Verið því ókvíðnir. Planchet verður kominn aftur eftir tvo eða fjóra eða í mesta lagi sex tíma. Því lofaði hann og jeg treysti loforði hans, því að hann virðist vera allra bezti piltur“. „En ef hann kemur nú ekki?“ sagði d'Artagnan. „Ef hann kemur ekki, þá er það vegna þess, að eitthvað tefur hann. Það er alt og sumt. Hann getur hafa dottið af baki og meitt sig, það getur eitthvað hafa viljað honum til á sjóleiðinni og hann getur hafa veikst. Það verður alt af að gera ráð fyrir einhverjum tilviljunum. Lífið er ein samanhangandi keðja af tilviljunum og ýmsum óþægindum, sem vitur maður brosir að og lætur sig engu varða. Verið skynsamir eins og jeg, vinir góðir. Setjist að sumbli og tæmið glösin. Lífið er lang bjartast álitum þegar horft er á það gegnum freyðandi kampavínsglas“. „Þetta er nú alt saman gott og blessað“, sagði d'Artagnan, „en mjer er nú farið að leiðast að vera alt af síhræddur um, að hver víndropi, sem jeg drekk, kunni ef til vill að vera kominn úr vínkjallara Mylady“. „Það er erfitt að gera þjer til hæfis“, sagði Athos. Hún er þó fríðleikskona!“ „Ætli að hún hafi verið brennimerkt vegna fríðleikans!“ sagði Porthos og hló hrottalega. Athos hrökk við, strauk hendinni um ennið og spratt á fætur. Loks leið þessi dagur að kvöldi eins og aðrir dagar. Veitingastaðirnir fyltust af gestum. Athos hafði sína peningafúlgu á sjer og sat kyr í veitingahúsi Parpaillots og hreyfði sig hvergi. Busigny hafði veitt þeim ágætan miðdagsverð, eins og umtalað var og þar hitti Athos hæfilegan meðspilara, þar sem hann var. Þegar klukkan sló sjö, sátu þeir að spilum, eins og þeir voru vanir. Næturvarðflokkurinn gekk fram hjá og klukkan hálf átta var kvöldbumban barin. „Nú er úti um okkur“, hvíslaði d'Artagnan að Athos. „Já, spilið er tapað“, svaraði Athos rólega, greip fjóra gulldali úr vasa sínum og fleygði þeim á borðið. „Nú heyrist til kvöldbumbunnar, svo að það er bezt að fara að komast í rúmið. Góða nótt, herrar góðir“. Athos gekk út úr veitingahúsinu og d'Artagnan með honum. Þeir Aramis og Porthos leiddust á eftir. Aramis hafði yfir sálmvers en Porthos reitti skeggið. Þá brá fyrir einhverjum skugga í kvölddimmunni, sem d'Artagnan fanst hann bera kensl á — og því næst heyrðist rödd, sem hann kannaðist vel við. „Jeg kem hjerna með kuflinn yðar, herra“, sagði röddin. „Það er hálfkalt í kvöld“. „Planchet!“ hrópaði d'Artagnan frá sjer numinn af fögnuði. „Planchet!“ endurtóku þeir, Porthos og Aramis. „Jú, auðvitað er það Planchet“, sagði Athos. „Finst ykkur það svo undarlegt? Hann lofaði að koma aftur klukkan átta og nú er hún að slá. Vel sje þjer, Planchet! Þú stendur við orð þín og ef þú yfirgefur húsbónda þinn einhvern tíma, þá skaltu koma til mín. Þú skalt ávalt eiga vísan verustað hjá mjer“. „Nei, jeg yfirgef aldrei húsbónda minn“, svaraði Planchet. D'Artagnan varð nú var við, að brjefmiða var stungið í lófa hans. Hann langaði til að faðma Planchet að sjer, eins og hann gerði þegar hann fór, en hann stilli sig um það, af því að það hefði vakið athygli þeirra, sem fram hjá gengu. „Jeg er búinn að fá svarið“, sagði hann við Athos og hina fjelaga sína. „Það er ágætt“, sagði Athos. „Við skulum fara heim og lesa það“. D'Artagnan iðaði allur af óþolinmæði og vildi hraða sjer sem mest, en Athos þreif um handlegg hans, svo að hann varð að hægja á sjer. Þeir gengu inn í tjaldið og kveyktu ljós, en Planchet hjelt vörð við dyrnar, til þess að enginn óviðkomandi skyldi ónáða þá. D'Artagnan braut upp hið eftirþráða brjef með skjálfandi hendi. Í því stóðu að eins þessi fjögur orð: „Thank you — be easy! Þakka fyrir — verið ókvíðnir!“ Athos tók brjefið, hjelt því að ljósinu þangað til kviknað var í því og fleygði því ekki fyr en það var brunnið til ösku. Því næst kallaði hann á Planchet. „Nú geturðu fengið þessa sjö hundruð fránka“, sagði hann, „en annars var nú ekki hundrað í hættunni fyrir þig að koma bjefinu til skila“. „Jeg varð nú samt að neyta ýmsra bragða til að fela það“, svaraði Planchet. „Blessaður, segðu okkur eitthvað af því“, sagði d'Artagnan. „Það er nú löng saga að segja frá því“. „Hann hefur rjett að mæla“, sagði Athos, „Það er orðið framorðið og ekki vert að við látum ljós loga lengur en aðrir. Það gæti vakið athygli“. „Við skulum þá fara að hátta“, sagði d'Artagnan. „Sofðu rótt, Planchet!“ „Það verður þá í fyrsta sinn á sextán sólarhringum“. „Sama get jeg sagt“, sagði d'Artagnan. „Jeg líka“, sagði Porthos. „Jeg sömuleiðis“, sagði Aramis. „Og ef satt skal segja“, sagði Athos loksins, „þá get jeg vel tekið undir og sagt: Og jeg líka!“ XIX. Ei má sköpum renna. Mylady ljet eins og hún væri hamstola og hótaði að fleygja sjer í sjóinn og synda til lands. Hún bólgnaði af reiði þegar hún hugsaði um móðganir d'Artagnans og hótanir Athos — og nú varð hún þar á ofan að fara af landi burt án þess að geta hefnt sín! Loks þoldi hún ekki mátið lengur og sárbændi skipstjórann að snúa við og hleypa sjer á land, en því neitaði skipstjóri afdráttarlaust, enda var hann eins og milli tveggja elda, þar sem honum stóð ótti af Frökkum á aðra hliðina og enskum beitiskipum á hina. En með því að kardínálinn hafði sjerstaklega beðið hann fyrir Mylady, þá lofaði hann henni því, að hann skyldi skjóta henni á land í einhverri höfn í Bretagne, t.d. í Lorient eða Brest, ef veður leyfði og Frakkar hindruðu það ekki, en nú var hrakviðri og mótbyr og gengu sjóir yfir skipið. Það var fyrst níu dögum eftir burtförina frá Charente að Mylady sá bláma fyrir ströndinni á Finistére og var þá orðin vesul og máttfarin af gremju og ferðavolki. Henni taldist svo til, að ef hún ljeti setja sig á land þarna, þá yrði hún að minsta kosti þrjá daga að komast til kardínálans aftur að viðbættum landgöngudeginum, eða fjóra daga alls og þegar þar við bættust níu dagar, sem liðnir voru, þá yrðu það samtals þrettán dagar, sem færu til ónýtis — en hvað gat gerzt í London allan þann tíma? Auk þess yrði kardínálinn að sjálfsögðu bálreiður ef hún sneri aftur og fúsari til að hlusta á ákærur á hana sjálfa heldur en þær ákærur, sem hún bæri á aðra. Ljet hún því ekki á neinu bera þegar skipið fór fram hjá Lorient og Brest, enda varaðist skipstjóri að segja henni, hvar þau væru stödd. Mylady hjelt þá ferðinni áfram og kom til Portmouth sama daginn, sem Planchet tók sjer far þaðan á heimleið til Frakklands aftur. Það var hátíðabragur á borginni allri. Fjögur stærðarskip voru nýhlaupin af stokkunum og fremst á bryggjunni stóð maður í afarskrautlegum einkennisbúningi, tilsettum dýrindis gimsteinum með fjaðrahatt á höfði. Maður þessi var hertoginn af Buckingham, en hjá honum stóðu herforingjar, næstum eins skrautbúnir og hann sjálfur. Þetta var óvenju fagur vetrardagur, svo að jafnvel á Englandi sást sólin í sinni dýrð. Sjálfur ljósgjafinn hnje að Ægi eins og gullroðinn hnöttur og varpaði ljómandi purpurageislum yfir himin og haf, en gluggarnir í húsum borgarinnar glitruðu eins og eldbjarma slæi á þá. Mylady andaði að sjer hressandi sjóloftinu og horfði á hin voldugu varnarvirki, sem henni var falið að eyðileggja. Henni varð ósjálfrátt hugsað til Júdítar, hinnar mikilátu og hugdjörfu konu, er læddist í herbúðir Assýra og sá þar ógrynni hermanna, vopna, hesta og hervagna og vissi að hún þurfti ekki annað en að rjetta út hönd sína til að tortíma því öllu. Skipið leitaði hafnar. En rjett í því, að varpa skyldi akkerum, kom þar að alvopnuð snekkja — auðsjáanlega strandvörzluskip. Var báti skotið út frá snekkjunni og sátu í honum liðsforingi, bátsmaður og átta ræðarar. Báturinn lagði að skipinu og gekk liðsforinginn einn á þiljur upp. Var honum tekið þar sem tign hans sómdi. Liðsforinginn talaði stundarkorn við skipstjóra og sýndi honum skjöl nokkur, sem hann hafði meðferðis. Var þá öllum, sem á skipinu voru, hásetum jafnt sem farþegum, sagt að koma tafarlaust á þiljur upp. Jafnskjótt sem allir voru á þiljur komnir, spurði liðsforinginn skipstjóra hátt og snjalt, hvaðan skipið kæmi, hverja leið það hefði farið og hvort það hefði komið nokkurstaðar við á leiðinni. Skipstjóri svaraði öllum þessum spurningum greiðlega. Fór þá liðsforinginn að kanna skipshöfnina, mann fyrir mann. Hann staðnæmdist allra snöggvast frammi fyrir Mylady, horfði grant á hana, en sagði ekki aukatekið orð. Hann gekk til skipstjóra aftur, talaði við hann í hálfum hljóðum og gaf því næst fyrirskipun um seglahögun, rjett eins og hann væri yfirmaður skipsins. Þeirri fyrirskipun var tafalaust hlýtt. Skipið tók aftur til skriðar, snekkjan sigldi því jafnhliða með ógnandi fallbyssum og báturinn fór á eftir í varsímanum. Þegar liðsforinginn staðnæmdist frammi fyrir Mylady og virti hana fyrir sjer, sveikst hún heldur ekki um að athuga hann vel og rækilega. Kona þessi var leikin í því að sjá á svip manna, hvað í þeim bjó og hvort hún gæti notað þá í sínar þarfir og voru þeir færri, sem stóðust augnaráð hennar — en í þetta skifti brást henni bogalistin. Liðsforingi þessi var hálfþrítugur á að gizka, fölur í andliti og lágu augun djúpt. Hann var munnfríður og þó fremur varaþunnur. Hakan heldur skörp og þykir það yfirleitt bera vott um viljaþrek, en meðal Englendinga er það oft og tíðum þráa og þrjózkumerki. Ennið hallaðist lítið eitt, er oft þykir einkenna skáld og hugsjónamenn og herskáa. Hárið var snögt og grisið og skegg sömuleiðis, dökkjarpt á lit og blæfagurt, svipur hans vandráðinn og helzt ekkert eftir honum að dæma. Það var liðið langt fram á kvöld, þegar þau komust í höfn og skollin á úðaþoka, sem gerði myrkrið enn tilfinnanlegra og myndaði „rosabauga“ um öll ljós. Það fór kuldahrollur um Mylady, þó að hún væri annars engin kuldakreista. Liðsforinginn ljet bera farangur hennar ofan í bátinn og bað hana að stíga í hann. Mylady horfi á hann hálfefablandin. „Með leyfi að spyrja — hver eruð þjer annars, sem látið yður svona ant um mig?“ spurði hún eftir nokkra umhugsun. „Það getið þjer sjeð á einkennisbúningi mínum“, svaraði hann. „Jeg er liðsforingi í enska sjóhernum. „Eru liðsforingjar í enska sjóhernum vanir að sýna löndum sínum, þótt konur sjeu, slíka umhyggju, þegar þeir koma í enska höfn og nær umhyggjusemi þeirra svo langt, að þeir fylgi þeim á land?“ „Já, Mylady. En það má fremur kallast varasemi en umhyggjusemi. Á þessum ófriðartímum er öllum aðkomumönnum vísað til ákveðins gistihúss, svo að stjórnin geti haft tilsjón með þeim þangað til að áreiðanlegar upplýsingar fást um þá“. Hann sagði þetta stilt og rólega og afar kurteislega, en samt ljet Mylady sjer það ekki nægja fullkomlega. „Jeg er enginn aðkomumaður“, sagði hún á hreinni og lítalausri Ensku. „Nafn mitt er frú Clarick og þessi varúðarráðstöfun — —“ „Hún tekur jafnt til allra, Mylady, og ekki til neins að ætla sjer að komast hjá henni“. „Jæja — jeg verð þá að fylgjast með yður“. Hún fór að ganga niður tröppuna og liðsforinginn á eftir henni. Stór yfirhöfn var breidd á öftustu þóftina í bátnum. Liðsforinginn ljet hana setjast á yfirhöfnina og settist sjálfur við hlið hennar. „Róið!“ kallaði hann til ræðaranna. Átta árar skullu í sjóinn og báturinn brunaði áfram og var kominn að landi eftir örstuttann tíma. Liðsforinginn stökk upp á bryggjuna og rjetti Mylady höndina, en þar var vagn til taks. „Er þessi vagn handa okkur? spurði hún. „Já, frú mín góð“. „Gistihúsið er þá langt hjeðan?“ „Það er í hinum enda bæjarins“. „Rjett er það“, sagði Mylady og stje inn í vagninn. Liðsforinginn leit eftir því, að farangri hennar væri komið vel fyrir á vagninum. Að því loknu settist hann við hliðina á Mylady og lokaði vagnhurðinni. Ökumaðurinn sló í hestinn og ók eftir götum bæjarins á harða spretti. Það var eðlilegt að Mylady þætti þessar viðtökur ærið kynlegar. Hún fann að liðsforinginn vildi sem minst segja og hallaði sjer því aftur í vagnhornið og hugsaði margt um þetta. Hún leit út um vagngluggann eftir nokkra stund til þess að vita hvort þau væru ekki bráðum komin, en nú var engin hús að sjá. Hún sá ekkert annað en trje, sem bar ört fyrir. „Við erum komin út úr bænum“, sagði hún. Liðsforinginn svaraði engu. „Jeg fer ekki eitt fet lengra ef þjer segið mjer ekki, hvert þjer eruð að fara með mig“. Sama þögn ekkert svar. „Nei — þetta þoli jeg ekki. Hjálp, hjálp!“ hrópaði hún. Enginn svaraði. Vagninn hjelt áfram og liðsforinginn sat grafkyr. Mylady leit á hann þeim augum, að fáir mundu hafa staðist. Augu hennar leiftruðu í myrkrinu en hann hreyfði sig ekki hót. Hún reyndi að opna vagnhurðina og ætlaði að stökkva út. „Gætið að yður, Mylady!“ sagði liðsforinginn kuldalega. „Þjer steinrotið yður, ef þjer reynið að stökkva út“. Mylady settist aftur og rjeði sjer ekki fyrir bræði. Liðsforinginn leit framan í hana og undraðist hve andlit hennar var afmyndað af óstjórnlegri reiði. En hún var svo hyggin, að hún ljet sjer skiljast, hve heimskulegt það var að láta á sjer sjá, hvað henni bjó innifyrir. Reyndi hún því að stilla sig og sagði hálfkjökrandi: „Segið mjer þó fyrir alla muni, hver ber ábyrgð á þessari óttalegu meðferð, sem jeg verð fyrir. Eruð það þjer eða stjórnin eða einhver fjandmaður, mjer óþektur?“ „Þjer þurfið ekki að óttast illa meðferð að neinu leyti, kæra frú. Þetta er ekkert annað en einföld varúðarráðstöfun, sem við neyðumst til að beita við alla, sem stíga hjer á land“. „Kannist þjer þá ekki við mig?“ „Nei. Þetta er í fyrsta skifti, sem mjer veitist sú virðing að sjá yður“. „Og getið þjer lagt þar við drengskap yðar, að þjer hafið enga ástæðu til að hatast við mig?“ „Já — jeg legg þar við drengskap minn, að jeg hef alls enga ástæðu til þess“. Hann sagði þetta svo einlæglega og jafnvel svo vingjarnlega, að Mylady sefaðist. Eftir eitthvað klukkutíma akstur nam vagninn staðar við grindahlið eitt fyrir framan stórhýsi eða öllu heldur höll, sem stóð ein sjer og afskekt. Fyrir innan hliðið lá sandstráður stígur upp að höllinni og marraði og argaði í vagnhjólunum þegar á stíginn kom, en þrátt fyrir það heyrðist glögt annað hljóð og þóttist Mylady skilja að það væri brimhljóð, er sjórinn gnauðaði við ströndina þar skamt frá. Vagninum var ekið gegnum porthvelfingar og nam loks staðar í hálfdimmum garði. Um leið var vagnhurðin opnuð og stökk liðsforinginn út. Hann rjetti Mylady höndina og þáði hún hjálp hans til að stíga út úr vagninum. „Jeg sje það á öllu, að jeg er fangi“, sagði Mylady brosandi, „en bæði finn jeg það á samvizku minni og kurteisi yðar, að það muni ekki vara lengi“. Liðsforinginn svaraði þessu engu en tók upp litla silfurblístru og bljes þrisvar sinnum í hana á einkennilegan hátt. Komu þá nokkrir menn að vörmu spori, leystu hestinn frá vagninum og gengu frá hvorumtveggja. Liðsforinginn benti Mylady að ganga með sjer. Komu þau fyrst að steinriði og því næst að afarsterklegum dyrum, er liðsforinginn opnaði og skrækti hátt í hurðarjárnunum. Mylady litaðist um í herberginu, sem þau komu inn í og henni var ætlað. Eftir útbúnaði þess að dæma, gat það verið annað tveggja — alment herbergi eða fangaklefi, en járngrindurnar fyrir gluggunum bentu þó fremur til þess, að það væri hið síðarnefnda. Í fyrstunni virtist hún ætla að örmagnast. Hún hnje niður í hægindastól, drap höfði og krosslagði hendurnar í skaut sjer og bjóst nú helzt við, að einhver rannsóknardómari kæmi inn til þess að yfirheyra sig. Það komu samt ekki aðrir inn en tveir dátar, sem báru farangur hennar inn í herbergið og fóru strax aftur. Liðsforinginn var alt af jafn rólegur og þögull. Loksins þoldi Mylady ekki þessa þögn lengur og sagði: „Hvernig í ósköpunum stendur á þessu öllu saman? Hvað er þetta sem á gengur? Jeg er ekkert hræðslugjörn, en mig langar til að vita, hvað við mig á að gera. Hvar er jeg stödd og er jeg frjáls ferða minna? Hvers vegna eru þessar járngrindur fyrir gluggunum? Eða er jeg fangi? Hvaða glæpur er það, sem jeg á að hafa drýgt?“ „Þjer eruð á þeim stað sem yður er ætlaður“, svaraði liðsforinginn. „Mjer var skipað að flytja yður hingað í þessa höll og það hef jeg gert sem hlýðinn hermaður, en jafnframt sem kurteis aðalsmaður og þannig rækt skyldu mína. Hvað sem svo við tekur, kemur öðrum manni við, en ekki mjer“. „Hver er sá maður og hvað heitir hann?“ spurði Mylady. Í sama bili heyrðist glamra í sporum á steinriðinu og því næst mannsmál, sem þó þagnaði bráðlega, en í þess stað heyrðist skóhljóð eins manns, er nálgaðist dyrnar. „Þarna kemur sá rjetti hlutaðeigandi“, sagði liðsforinginn, vjek sjer til hliðar og stóð keikur að hermanna sið. Hurðinni var lokið upp og sást maður í dyrunum. Hann var berhöfðaður með sverð við hlið og hjelt á vasaklút í hendinni. Það bar á hann skugga, en samt fanst Mylady, að hún bæri kensl á hann. Hún laut fram í stólnum og starði á hann. Hann færði sig nú nær og kom í ljósbirtuna og hrökk Mylady þá við. „Mágur minn!“ hrópaði hún forviða, þegar hún var gengin úr skugga um, hver maðurinn var. „Er það sem mjer sýnist, að það sjeuð þjer sjálfur?“ „Já, fagra frú! Það er jeg sjálfur í eigin persónu“, svaraði Winter lávarður. „En hvaða höll er þetta?“ „Hana á jeg“. „Og þetta herbergi?“ „Er yður ætlað“. „Jeg er þá fangi yðar eftir þessu?“ „Jú — það er eitthvað í þá áttina“. „En þetta er andstyggileg misbeiting á valdi yðar!“ „Strykum yfir stóru orðin“. Við skulum heldur tala saman í meinleysi og bróðerni eins og nátengdu fólki sæmir“. Hann vjek sjer að liðsforingjanum, sem stóð frammi við dyrnar og sagði: „Þetta hefur gengið að óskum, herra Felton og jeg er yður þakklátur fyrir — en lofið okkur nú að vera einum“.