ALEXANDRE DUMAS
SKYTTURNAR
(LES TROIS MOUSQUETAIRES.)
(DE TRE MUSKETERER)
SAGA Í FJÓRUM HEFTUM
BJÖRN G. BLÖNDAL
ÞÝDDI.
SIGLUFIRÐI
BÓKAÚTGÁFAN HEIMDALLUR
1928.
PRENTSMIÐJA SIGLUFJARÐAR.
IV.
Í FANGELSI
I. Mágur og mágkona.
Winter lávarður lokaði dyrunum, skaut slagbrandi
fyrir hurðina og settist á stól við hliðina á Mylady,
en hún sat í djúpum hugsunum og fór nú að greina
möskvana í neti því, sem hún var orðin flækt í. Hún
vissi að mágur sinn var dáðadrengur og fullhugi mesti,
þaulæfður veiðimaður, ófeilinn spilamaður og kvennhollur
mjög, en hún vissi líka, að hann var lítt gefinn
fyrir krókavegi og leynibrögð. Hvernig gat hann
vitað um komu hennar? Hvers vegna ljet hann taka
hana höndum og hvers vegna var hún nú höfð í haldi
í herbergi þessu?
Athos hafði að vísu eitthvað minst á það, að samræða
hennar við kardínálann hefði borist fleirum til
eyrna. En hvernig gat það hugsast, að hann hefði
verið svo snarráður að láta krók koma á móti bragði
svona fljótt og djarflega?
Hún óttaðist fremur að einhver kynni að hafa
komist á snoðir um fyrri athafnir hennar á Englandi.
Hugsanlegt var, að Buckingham hefði komist eftir því,
að hún hefði klipt demantana af kufli hans og ætlaði
nú að hefna sín, en Buckingham var ekki svo gerður,
að hann ljeti skríða til skara, þegar kvennmaður var
annars vegar, einkum ef gera mátti ráð fyrir því, að
sá kvennmaður hefði gert þetta af afbrýðissemi.
Samt fanst henni sennilegast, að þetta væri alt
saman af völdum Buckinghams og að hans undirlagi
gert. En hvað sem því leið, þá þótti henni vænt um
að hafa lent í höndum mágs síns. Hún treysti sjer til
að ráða við hann og vefja honum um fingur sjer.
„Já, við skulum talast við“, sagði hún í hálfgerðu
spaugi og einsetti sjer, að ná í allar þær upplýsingar,
sem henni mættu að haldi koma, þrátt fyrir alla varkárni
lávarðarins.
„Þjer komuð þá aftur til Englands samt sem áður“,
sagði Winter lávarður. „Þjer munið þó víst, að
þjer hafið margsagt mjer, að þjer skylduð aldrei oftar
stíga fæti á enska grund“.
Mylady svaraði þessu engu — hún hafði sjálf svo
margs að spyrja.
„Áður en við höldum lengra“, sagði hún, „ætla
jeg að biðja yður að segja mjer, hvernig þjer gátuð
haft svona nánar gætur á mjer, svo að þjer vissuð ekki
að eins, að jeg var á leið hingað, heldur einnig í hverri
höfn jeg mundi lenda og hvaða dag og stund?“
Winter lávarður fór að dæmi Mylady. Hann hugsaði
sem svo, að hún mundi velja hyggilegustu aðferðina
og endurtók því spurningu sína.
„Segið mjer, kæra mágkona, í hverjum erindum
þjer komuð nú hingað til lands“.
„Til þess að heimsækja yður“, sagði Mylady mjög
ísmeygilega. Hana grunaði sízt, að þetta svar hennar
styrkti grun þann, sem d'Artagnan hafði vakið hjá
honum.
„Einmitt það! Ætluðuð þjer að heimsækja mig“,
sagði Winter brosandi.
„Já, það ætlaði jeg. Finst yður það svo undarlegt?“
„Og áttuð ekkert annað erindi?“
„Nei“, svaraði Mylady.
„Lögðuð þjer þá í þessa sjóferð bara mín vegna?“
„Já, að eins yðar vegna“.
„Ja, hvað er að tarna! Jeg er nú alveg forviða“.
„Jeg er eina manneskjan, sem er nákomin yður“,
sagði Mylady ofur einlæglega.
„Já, og þjer eruð líka einasti erfinginn minn“,
sagði lávarðurinn og hvesti á hana augun.
Það fór titringur um Mylady þó að hún væri leikin
í því að láta sem ekkert væri. Winter lávarður tók
eftir þessu, enda hafði hann lagt hönd sína á handlegg
hennar.
Orð hans skutu henni talsverðan skelk í bringu.
Fyrst datt henni í hug, að Ketty hefði komið upp um
sig og eflaust sagt lávarðinum, að hún hefði talað illa
um hann í hennar áheyrn. Líka mundi hún eftir því,
að hún hafði úthúðað d'Artagnan fyrir það að gefa
honum líf.
„Jeg skil yður ekki, kæri mágur“, sagði hún til
þess að ná sjer og fá hann til að halda áfram. „Hvað
eigið þjer við — eða býr eitthvað undir þessum orðum
yðar?“
„Nei, ekki svipað því“, svaraði Winter lávarður
með uppgerðar hæglæti. „Yður langaði til að heimsækja
mig og tókust því ferð á hendur hingað til Englands.
Jeg frjetti það, eða fann það á mjer, rjettara
sagt, að þjer munduð vera á leiðinni og sendi svo einn
af liðsforingjum mínum til þess að taka á móti yður
og aðstoða yður við landgönguna. Jeg útvegaði yður
vagn og ljet liðsforingjann flytja yður hingað, því að
hjer er jeg húsráðandi og viðstaddur á hverjum degi
— og alt gerði jeg þetta í þeim tilgangi, að við gætum
hizt og spjallað saman í næði. Er þetta nokkuð
undarlegra en það, sem þjer voruð að segja mjer?“
„Seisei-nei. En jeg skil bara ekki, hvernig þjer
gátuð vitað um komu mína“.
„Það er þó ofur skiljanlegt, kæra mágkona. Tókuð
þjer ekki eftir því, að rjett áður en skipstjórinn lagði
inn á höfnina, skaut hann litlum báti á land til þess
að fá aðkomuleyfi og skila af sjer leiðarbókinni og
skýrslu um skipshöfn og farþega? Nú-jæja! Jeg er
hafnarvörður og rakst á nafn yðar í farþegaskránni.
Mig grunaði strax, í hvaða tilgangi þjer hefðuð tekist
þessa löngu og erfiðu ferð á hendur og sendi snekkjuna
mína á móti yður. Hitt annað vitið þjer sjálf“.
Mylady þóttist skilja, að Winter lávarður segði
þetta, ósatt og varð enn skelkaðri.
„Kæri mágur“, sagði hún. „Var það ekki hertoginn
af Buckingham, sem jeg sá á bryggjunni?“
„Jú, það var hann. Nú, en jeg get vel skilið, að
yður hafi hnykt við að sjá hann“, hjelt lávarðurinn áfram.
„Þjer komið úr því landi, þar sem mikið er
um hann talað og jeg veit líka að vinur yðar, kardínálinn,
er áhyggjufullur út af herbúnaði hans á hendur
Frakklandi“.
„Vinur minn kardínálinn!“ hrópaði Mylady. Hún
sá nú, að Winter lávarði var sömuleiðis vel kunnugt
um þetta.
„Nú — er hann kann ske ekki vinur yðar? Jæja-þá,
jeg bið afsökunar, en jeg hjelt það samt. Annars
getum við talað um það seinna, en fyrst um sinn skulum
við halda okkur við efnið. Þjer segist hafa komið
til þess að heimsækja mig?“
„Já, jeg sagði það“.
„Það skal yður líka veitast. Við getum hizt á hverjum
degi“.
„En á jeg þá að dvelja hjer alla tíð?“ spurði hún
áhyggjufull.
„Eruð þjer óánægð með herbergið? Segið bara til
hvers þjer óskið og svo skal jeg sjá um, að yður verði
fengið það“.
„Jeg hef hvorki herbergisþernu nje annað þjónustufólk“.
„Jeg skal útvega yður það, kæra mágkona. Segið
mjer, hvernig fyrri maðurinn yðar kom þessu fyrir og
svo skal jeg sjá um, að þjer fáið sama aðbúnað hjer,
þó að jeg sje nú ekki annað en mágur yðar“.
„Fyrri maðurinn minn!“ hrópaði Mylady og leit
flóttalega á Winter lávarð.
„Já, franski maðurinn yðar. Jeg á ekki við bróðir minn,
en annars skal jeg gjarna skrifa honum, ef
þjer skylduð hafa gleymt því, og biðja hann að leiðbeina
mjer með þetta. Hann er líklega lifandi enn,
vænti jeg“.
Það sló köldum svita út um Mylady.
„Þjer eruð víst að gera gys að mjer“, sagði hún
dauflega.
„Sýnist yður jeg vera líklegur til þess núna?“
spurði hann og reis á fætur.
„Nú-jæja, en jeg átti annars við, að þjer sjeuð að
móðga mig“, sagði hún og greip báðum höndum um
stólbríkurnar.
„Jeg að móðga yður!“ sagði Winter lávarður háðslega.
„Trúið þjer þessu sjálf?“
„Þjer eruð annaðhvort fullur eða vitlaus“, sagði
Mylady. „Farið þjer burtu og sendið einhverja stúlku
hingað inn til mín“.
„Kvennfólkið er svo lausmált, kæra mágkona. Get
jeg ekki gengið yður í stað herbergisþernu? Þá geymast
öll okkar leyndarmál innan fjölskyldunnar“.
„Þjer eruð ósvífinn!“ æpti Mylady og æddi að
lávarðinum í ofsabræði. Hann stóð grafkyr með krosslagðar
hendur, en studdi samt annari hendi á meðalkafla
sverðs síns.
„Ojæja“, sagði hann. „Raunar veit jeg, að yður
ægja ekki manndráp, en jeg ætla nú samt að verja
mig — þó að þjer sjeuð annars vegar“.
„Það undrar mig ekki“, sagði Mylady. „Þjer eruð
svo sem líklegur til þess að vera það hrakmenni, að
leggja hönd á kvennmann“.
„Ekki er það óhugsanlegt, en annars gæti það
verið mjer til afsökunar ef svo færi, að jeg yrði
varla fyrsti maðurinn, sem legði hönd á yður“.
Um leið og hann sagði þetta, benti hann á vinstri
öxlina á Mylady og snart hana næstum með fingrunum,
en hún rak upp hljóð, eða öllu heldur öskur og
kipraði sig í eitt herbergishornið eins og tígrisdýr, sem
býst til að stökkva.
„Þjer megið æpa og öskra eins og yður sýnist“,
sagði Winter lávarður hægt og stylt, „en reynið ekki
að glepsa. Það gæti komið sjer illa. Hjer er enginn
lögmaður, sem útbýr erfðaskrána fyrir fram og hjer er
heldur enginn farandriddari, sem hleypt gæti yður úr
fangelsinu. Hins vegar hef jeg dómara á reiðum höndum
og þeir munu kunna að dæma þá konu að verðleikum,
sem var svo blygðunarlaus að giftast eldri bróður
mínum, þó að hún væri þá gift öðrum manni. Og
þeir dómarar munu svo fá yður böðlinum í hendur,
en hann mun sjá um það, að hægri öxl yðar verði
brennimerkt á sama hátt og sú vinstri“.
Það leyftraði slík ofsagrimd úr augunum á Mylady,
að kaldur hrollur fór um Winter lávarð, enda þótt
hann stæði vopnaður andspænis vopnlausri konu. Samt
hjelt hann áfram og varð æ æstari:
„Jú jeg skil þetta alt saman. Þjer erfðuð bróðir
minn og nú langar yður til þess að erfa mig líka. En
vita skuluð þjer það, að jeg hef þegar gert mínar ráðstafanir,
hvort sem þjer myrðið mig sjálf, eða fáið aðra
til þess. Þjer fáið ekki eyris virði af eigum mínum,
enda eruð þjer nógu auðug fyrir — eigið næstum miljón
eða hvað? Væri nú ekki ráðlegast að láta hjer
staðar numið og hyggja ekki á fleiri ódáðaverk? Eða
er það í raun og veru yðar unun og yndi, að koma
alstaðar fram til ills? Ef minning bróður míns væri
ekki jafnkær og hún er, skyldi jeg láta varpa yður í
eitthvert svarthol ríkisins eða fleygja yður í Tyburn,
girndaræði siðlausra sjóara að bráð. En jeg ætla
mjer ekki að ljóstra neinu upp og yður er bezt að
taka fangavist yðar með þögn og þolinmæði. Jeg fer
með hernum til La Rochelle eftir tvær eða þrjár vikur.
Daginn eftir burtför mína kemur skip að sækja yður
og flytja yður til nýlendnanna í Suðurheimi og þangað
mun fylgja yður maður, sem sendir kúlu gegnum
höfuðið á yður undir eins og þjer reynið til að flýja“.
Mylady hlustaði á hann með galopnum, undrandi
augum.
„Þangað til verðið þjer að hýrast hjer í höllinni“,
hjelt Winter lávarður áfram. „Múrveggirnir eru þykkir,
hliðin rammger og sterkar járngrindur fyrir gluggunum.
Það vill svo vel til, að glugginn yðar veit út
að hafinu og menn mínir, sem gjarna vildu leggja lífið
í sölurnar fyrir mig, halda vörð alt í kring. Jafnvel
þótt þjer kæmust einhvern veginn út í garðinn, ættuð
þjer samt eftir að komast út um þrjú hlið. Fyrirskipanirnar
eru stuttar og gagnorðar: Ef þjer stigið eitt
skref, gerið einhverja hreyfingu eða segið eitthvað, sem
bendir á flótta, þá nægir það til þess, að þjer verðið
skotin. Og ef þjer látið lífið hjer, þá vona jeg að ensku
yfirvöldin verði mjer þakklát fyrir að taka af þeim ómakið.
En bíðum nú við! Jeg sje að andlitsdrættir yðar
eru að verða jafnrólegir og vant er. Ja-svei, bara
tvær eða þrjár vikur, hugsið þjer — mjer hugkvæmast
einhver ráð allan þann tíma. Jeg hef ráð undir rifi
hverju og mjer dettur margt í hug. Innan hálfs mánaðar
verð jeg komin hjeðan. Svona hugsið þjer nú,
en jeg segi aftur á móti: Reynið þjer bara!“
Mylady sá nú, að hann las í huga hennar. Hún
neri saman höndunum til þess að stilla sig.
„Þjer hafið sjeð liðsforingjann, sem hjer ræður
mestu þegar jeg er fjarverandi. Það er maður, sem
þekkir skyldur sínar, eins og yður mun hafa skilist og
þjer hafið líklega ekki orðið honum samferða frá Portsmouth
og alla leið hingað án þess að reyna að fá
hann til að tala við yður. En þjer gætuð fult eins vel
yrt á þögula og hreyfingarlausa marmarastyttu — eða
finst yður það ekki ? Þjer hafið reynt að heilla og töfra
margan manninn og ávalt tekist það, því miður. En
reynið listir yðar á þessum manni! Þjer mættuð vera
fjandinn sjálfur í eigin persónu, ef yður tækist að ginna
hann í gildrur yðar“.
Lávarðurinn gekk fram að dyrunum og opnaði þær.
„Sækið Felton“, kallaði hann út um dyrnar.
Nú varð óviðfeldin þögn um stund og heyrðist
ekkert annað en hægt og stilt fótatak, sem nálgaðist
dyrnar. Brátt sást maður á dimmum ganginum og kom
hinn ungi liðsforingi, sem áður er getið, brátt í dyrnar
og beið þar eftir skipunum lávarðarins, herra síns.
„Komið nær, kæri Jón“, sagði Winter lávarður,
„en lokið hurðinni á eftir yður“.
Liðsforinginn gekk inn.
„Lítið þjer á þessa konu“, sagði lávarðurinn. „Hún
er ung og fögur og öllum þeim eiginleikum gædd,
sem draga megi menn að sjer og heilla þá. Og samt
er hún óvættur, ekki nema tuttugu og fimm ára að
aldri, en hefur þegar framið eins mörg ódáðaverk og
tilfærð eru á heilu ári í glæpa-annálum vorum. Rödd
hennar er hljómþýð, fegurð hennar töfrandi og það
skal játað, að allur skapnaður hennar er óaðfinnanlegur.
Hún mun reyna að flækja yður í net sitt og hún
mun ef til vill ráða yður bana. Jeg hef rjett yður
hjálparhönd á dögum neyðarinnar, Felton; jeg hef gert
yður að liðsforingja og bjargað lífi yðar — þjer vitið
sjálfur við hvaða tækifæri það var. Jeg er ekki eingöngu
verndarmaður yðar, heldur einnig vinur yðar.
Jeg er meira en velgjörðamaður yðar, því að jeg hef
reynst yður eins og góður faðir syni sínum. Þessi kona
kom hingað til Englands til þess að búa mjer banaráð,
en nú hef jeg náð tangarhaldi á þessari ófreskju
og nú segi jeg: Felton, vinur minn og sonur, verndaðu
mig fyrir henni — en varaðu jafnframt sjálfan þig!
Sverðu þess dýran eið, að þú skulir gæta hennar vel,
svo að hún fái ekki umflúið þá hegningu sem hún
verðskuldar. Jeg treysti þjer, Jón Felton og held, að þú
sjert ærlegur maður“.
„Jeg sver þess dýran eið að verða við ósk yðar,
herra lávarður“, svaraði hinn ungi liðsforingi og skein
hatrið og óvildin úr augum hans.
„Hún má ekki fara eitt fet út úr þessu herbergi
og hún má engin brjefaskifti hafa við nokkurn mann.
Hún verður að snúa sjer til yðar með alt, sem hún
óskar eða þarfnast, ef þjer þá viljið virða hana þess,
að eiga orðastað við hana“.
„Gott og vel, herra lávarður. Það skal vera eins
og þjer mælið fyrir“.
„Og nú er yður bezt að reyna að leita friðar í
guði, frú mín góð. Dómur mannanna hefur þegar verið
kveðinn upp yfir yður“.
Mylady drap höfði eins og hún örmagnaðist undir
þessari ræðu. Winter lávarður gekk út úr herberginu
og benti Felton að koma með sjer.
Skömmu síðar heyrðist þungt fótatak á gangnum.
Það var varðmaður, er gekk þar fram og aftur með
byssu um öxl og öxi í belti sínu.
Mylady sat hnípin nokkra stund, því að hún bjóst
við, að horft væri á sig gegnum skráargatið. En svo
hóf hún höfuð sitt hægt og hægt og varð nú svipur
hennar hræðilegur, hallaði sjer síðan aftur á bak í stólnum
og sökti sjer niður í hugsanir sínar.
II. Liðsforinginn.
Kardínálinn beið frjetta frá Englandi, en honum
bárust að eins illar frjettir og hvimleiðar.
Það leit út fyrir, að umsátin um La Rochelle kynni
að vara æði lengi, enda þótt henni væri vel stjórnað
og sigurinn mætti teljast viss að lokum. Raunar jók
þetta ekki á frægð konungsliðsins og kom kardínálanum
illa, því að nú var hann hættur að hugsa um að
ala óvild milli konungs og drotningar — þess þurfti
ekki lengur — en hann ljet sig nú mestu skifta að
koma sættum á milli Bassompierre og hertogans af Angonléme.
Erfðaprinsinn stýrði umsátinni í fyrstu, eins og
áður er sagt, en ljet nú kardínálann einráðann um að
leiða hana til lykta.
Borgarstjórinn í La Rochelle var ótrúlega þrautseigur
og gerðu borgarbúar einskonar samsæri til þess
að neyða hann til að gefast upp, en borgarstjóri ljet
grípa samsærismennina og hengja þá. Við það sljákkaði
í uppreistarmönnunum og tóku nú heldur þann
kostinn að láta svelta sig til dauða. Virtist þeim sá
bani ekki eins bráður og öllu óvissari en hengingarólin.
Hins vegar vildi það til, að sendiboðar þeir, sem
borgarbúar sendu til Buckinghams og njósnarar þeir,
sem Buckingham sendi til La Rochelle voru gripnir
af mótstöðumönnum. Var þá ekki sökum að spyrja og
kardínálinn sagði að eins þessi tvö orð: Hengið hann!
Konungi var ávalt boðið að vera viðstaddur henginguna
og kom hann jafnan, þó þreyttur væri, valdi sjer
gott sæti og horfði á alla athöfnina frá byrjun til enda.
Þetta var honum dægrastytting og gerði hann þolinmóðari
með umsátina, en annars leiddist honum þóf
þetta og hafði oft á orði að hverfa aftur til Parísar. Ef
þessir sendiboðar og njósnarar hefðu ekki verið honum
til afþreyingar, þá hefði kardínálinn orðið í stökustu
vandræðum.
En svo leið tíminn, að La Rochelle-búar gáfust
ekki upp. Seinasti sendiboðinn, sem náðst hafði, var
með brjef á sjer. Það var stílað til Buckinghams og í
því stóð, að borgarbúar væru að því komnir að gefast
upp. Brjefið endaði þannig: Ef þjer sendið okkur enga
hjálp innan hálfs mánaðar, þá deyjum við allir úr
hungri“.
La Rochelle-búar bygðu þannig allar sínar vonir
á Buckingham. Hann var þeirra Messías. Ef hann
skyldi bregðast þeim, þá var þeim öllum lokið.
Kardínálinn beið því með mikilli óþreyju þeirra
frjetta frá Englandi, að Buckingham gæti ekki komið.
Sú tillaga hafði oftsinnis komið fram í ráðaneyti
konungs að gera áhlaup á borgina, en altaf hafði því
verið skotið á frest, fyrst og fremst vegna þess, að
borgin virtist óvinnandi og þar næst sökum þess, að
kardínálinn — sem á þeim dögum þótti framsóknarmaður
eins og nú er kallað — vissi mjög vel, að blóð
það, sem úthelt yrði í innanlands ófriði, mundi hafa í
för með sjer pólitískan afturkipp heillar kynslóðar. Að
jafna La Rochelle við jörðu og því næst strádrepa alla
Húgenotta mundi þá — árið 1628 — minna menn of
mjög á Barthólómeusnóttina 1572. En aðalástæðuna
gegn áhlaupi á borgina, báru hershöfðingjar umsáturshersins
fram og hún var sú, að La Rochelle var að
þeirra skoðun óvinnandi nema með því einu móti að
halda borgarbúum í svelti.
Kardínálanum varð alt af órótt þegar hann hugsaði
til hins ægilega sendiboða síns, því að honum var
einnig orðið það ljóst, að kona sú væri ekki við eina
fjölina feld, en kæmi ýmist fram í eiturnöðru eða
ljónsynjulíki. Skyldi hún hafa dregið hann á tálar eða
skyldi hún vera dauð? Hann þekti svo mikið til hennar,
að hann vissi, að hún mundi aldrei vera aðgerðarlaus,
hvort heldur hún kæmi fram sem vinur eða óvinur.
En sennilega hafði hún orðið fyrir einhverjum
tálmunum, fyrst að hann hafði ekkert af henni frjett
— og hverjar gátu þær tálmanir verið?
Annars treysti hann Mylady fyllilega — og það
með rjettu. Hann þóttist vita, að hún byggi yfir hræðilegum
launmálum, sem rauða skykkjan hans ein var
megnug að hylja. Og hann fann líka, að hún vildi
vera honum trú — að minsta kosti var hann eini
maðurinn, sem var fær um að vernda hana fyrir hættum
þeim, er yfir henni vofðu.
Hann ásetti sjer því að framkvæma ætlanir sínar
á eigin ábyrgð og láta kylfu ráða kasti, hvað aðstoð
annara snerti. Hjelt hann nú áfram að byggja stíflugarð
þann, er hjálpa átti honum til þess að svelta
borgarbúa. Meðan á því stóð, varð honum oft litið
á þessa vesalings borg, þar sem margt gott og margt
misjafnt var saman blandað og hann mintist þá hins
gamla spakmælis: dreyfðu og drotnaðu!
Þegar Hinrik fjórði sat um París, ljet hann fleygja
matvælum inn yfir borgarmúrana. Richelieu hafði
sömu aðferð að vissu leyti. Hann ljet lauma smáritum
inn í borgina og brýndi í þeim fyrir borgarbúum,
hversu órjettmæt, eigingjörn og hrottaleg framkoma
leiðtoga þeirra væri. Þessir leiðtogar hefðu gnægð korns
yfir að ráða, en ljetu ekki útbýta því og hugsuðu sem
svo, að lítil eftirsjón væri að konum, börnum og gamalmennum
svo framarlega sem fulltíða menn, sem
settir væru borginni til varnar, gætu dregið fram lífið.
Flugritin komu enda á þetta ástand, þar sem þau
vöktu athygli hinna vopnfæru borgarbúa á því, að allar
þessar konur, börn og gamalmenni, sem að þessu
leyti voru dauðanum ofurseld, væru í raun rjettri konur
þeirra sjálfra, börn þeirra og foreldrar og það væri
miklu rjettlátara, að láta eitt yfir alla ganga — þá fyrst
fengist eindrægni og samheldni.
Þessi flugrit höfðu tilætluð áhrif og urðu til þess,
að nokkur hluti borgarbúa afrjeð að leita samninga við
umsátursherinn.
En rjett um þær mundir, sem kardínálinn hlakkaði
hvað mest yfir þessu bragði sínu, slapp einn af
borgarbúum, sem kom frá Portsmouth, inn í La Rochelle.
Það veit enginn, nema sá sem alt veit, hvernig
hann komst gegnum herbúðir umsátursmanna og var
þó haldinn þar strangur vörður. Hann flutti borgarbúum
þau tíðindi, að við strendur Englands væri voldugur
herskipafloti, sem yrði seglbúinn á viku fresti.
Auk þess hafði hann þau skilaboð til borgarstjóra frá
Buckingham, að hið mikla bandalag gegn Frakklandi
væri nú loks komið á laggirnar og mundu því enskir,
spánskir og austurískir herflokkar brátt streyma inn á
Frakkland. Þessi boðskapur var lesinn upp í heyranda
hljóði á öllum torgum bæjarins og afrit af honum fest
á öll götuhorn, en af því leiddi aftur, að þeir sem hafið
höfðu samninga við óvinina, kiptu nú að sjer hendinni
og biðu hjálpar þeirrar, sem í vændum var.
Alt þetta olli Richelieu áhyggjum miklum og varð
hann nú aftur að snúa huga sínum til eyríkisins handan
við sundið.
Umsátursherinn tók engan þátt í þessum áhyggjum
kardínálans og lifði í giaumi og gleði, enda skorti
hann hvorki matvæli nje peninga. Möttust hinar ýmsu
deildir hersins um hvers konar hryðjuverk og leituðu
sjer dægrastyttingar í því að grípa njósnarmenn og
hengja þá, fara ýmsar glæfrafarir eftir stíflugarðinum
eða á haf út og hætta lífi sínu og limum til þess að
framkvæma alls konar heimskupör, því að tíminn fanst
öllum langur — eigi að eins borgarbúum, er kvöldust
af hungri og áhyggjum, heldur einnig kardínálanum
og umsáturshernum.
Richelieu fór oft á hestbak sjer til afþreyingar og
leit yfir verk þau, sem í framkvæmd voru og miðaði
fremur hægt, þrátt fyrir forstöðu æfðra verkfræðinga.
Þegar hann mætti einhverjum skyttuliða úr herfylki
de Tréville á þeim ferðum sínum, nam hann oft staðar
og leit vendilega eftir því, hvort það væri ekki einhver
hinna fjögra fjelaga og brygðist honum það, rendi
hann augunum, djúpskygnum og alvarlegum, þegar í
aðra átt.
Einhverju sinni var kardínálinn á ferð sem oftar
og voru ekki aðrir í för með honum en Cahussac og
La Hondiniére. Hann var í þungu skapi út af af því, að
frjetta ekkert frá Englandi og starði óþreyjulega út yfir
hinn ómælanlega hafgeim, er þandi sig í allar áttir
framundan honum. Reið hann þá upp á lítinn hól
við sjóinn og sá þaðan sjö menn, er lágu á fjörusandinum
bak við hrísgirðingu og sleiktu sólskinið. Þó að
ekki væri ýkjaheitt í veðri um það leyti árs. Hjá þeim
stóðu nokkrar tómar flöskur. Meðal þessara manna
voru fjórir skyttuliðar, er lagt höfðu frá sjer spil og
teninga til þess að hlusta á upplestur brjefs, sem einn
þeirra var nýbúinn að fá. Hinir þrír voru að losa tappann
úr afarstórum vínbrúsa og voru það þjónar skyttuliðanna.
Kardínálinn var í þungu skapi, eins og áður er
sagt og þegar svo lá á honum, gazt honum ekki að
glaðværð annara, en það kom til af því, að hann hafði
tekið það í sig, að þá væru aðrir að henda gaman að
áhyggjum hans. Hann benti Cahussac og La Hondiniére
að nema staðar, stje zjálfur af baki og færði sig nær
þessum mönnum, sem angruðu hann með glaðværð
sinni. Hann hjelt, að sandurinn mundi deyfa skóhljóð
sitt og hrísgerðið skýla sjer, svo að hann gæti hlerað
samtal þeirra. Þegar hann átti skamt til þeirra, heyrði
hann, að þeir töluðu mállýzku Gaskognara, en áður
var hann búinn að sjá af einkennisbúningum þeirra,
að þeir voru úr skyttuliðinu. Taldi hann því víst, að
þetta væru „þeir óaðskiljanlegu“, sem kallaðir voru,
nefnilega þeir d'Artagnan, Athos, Portos og Aramis.
Það var sízt að undra, þó að löngun hans til að
heyra umræðuefnið, ykist að miklum mun þegar hann
komst að því, hverjir mennirnir voru. Það kom einkennilegur
glampi í augun á honum og læddist hann
nú að hrísgerðinu eins og köttur að mús. Hann var
að eins búinn að heyra einstöku orð á stangli þegar
hann hrökk saman við hátt óp, sem vakti athygli skyttuliðanna.
„Liðsforingi!“ æpti Grimaud.
„Hvaða vitleysa!“ sagði Athos önuglega og reis
upp á olboga.
Grimaud sagði ekki einu orði meira, en ljet sjer
nægja að benda á hrísgerðið.
Skyttuliðarnir spruttu á fætur og heilsuðu kurteislega
mjög þegar þeir komu auga á kardínálann og
fylgdarmenn hans.
Kardínálinn var allreiður að sjá.
„Þið hafið mann á verði, skyttuliðar góðir“, sagði
hann og byrsti sig, „Haldið þið kann ske, að Englendingarnir
komi landveg, eða þykist þið vera hátt
settir liðsforingjar?“
„Skyttuliðarnir varpa teningum og fá sjer neðan í
því í frístundum sinum, náðugi herra“, svaraði Athos
með sömu geðrónni, sem hann var vanur, þrátt fyrir
þetta uppþot. „Þeir eru þá liðsforingjar í samanburði
við þjóna sína“.
Kardínálinn hummaði. „Þegar þjónar standa á
verði til þess að gera húsbændum sínum aðvart, ef
einhver kynni að koma, ber ekki að skoða þá lengur
sem þjóna, heldur sem varðmenn“, sagði hann.
„Ef við hefðum ekki gætt þessarar varúðar“, sagði
Athos, þá hefði vel getað farið svo, að yðar Hágöfgi
hefði farið hjer hjá og við hefðum þá ekki fengið tækifæri
til þess að færa yður okkar lotningarfylstu þakkir
fyrir þann sóma, er þjer sýnið okkur með því, að
heilsa upp á okkkur. Jeg minnist þess nú, d'Artagnan,
að þú varst að óska eftir því, að þú fengir tækifæri til
að tjá hans Hágöfgi þakklátssemi þína. — Hjer er
tækifærið!“
Athos sagði þetta með þeirri aðdáanlegu hógværð
og stillingu, sem aldrei bilaði hann, þegar einhver
hætta var á ferðum og svipur hans og látbragð var
hvorttveggja svo stórhöfðinglegt, að vel hefði einhver
konungurinn mátt öfunda hann af því.
D'Artagnan gekk fram og stamaði út úr sjer einhverjum
þakkarorðum, en þykkjusvipur kardínálans
kom honum brátt til að þagna.
„Jújú“, sagði kardínálinn og ljet orð Athos sem
vind um eyrun þjóta. „Mjer geðjast ekki að því, að óbrotnir
dátar hagi sjer eins og einhverjir stórherrar,
þótt þeir aldrei nema sjeu svo hepnir að vera í herfylki,
sem hefur sjerstök forrjettindi. Heraginn tekur
jafnt til þeirra sem allra annara“.
Athos ljet kardínálann ljúka máli sínu, en að því
búnu hneygði hann sig djúpt og svaraði á þessa leið:
„Við höfum alls ekki brotið í bága við heragann,
yðar Hágöfgi. Við höfum engum skyldustörfum að
gegna sem stendur og hjeldum, að við gætum varið
frístundum okkar eftir eigin geðþekni. Ef yðar Hágöfgi
vill eða þarf að fá okkur eitthvert verk að vinna,
þá er sjálfsagt að gera það“. Athos hleypti brúnum,
því að honum var farið að leiðast þetta stapp. „Eins
og þjer getið sjálfur sjeð“, sagði hann enn fremur, „þá
höfum við vopn okkar hjer við höndina, ef eitthvað
óvænt kynni að koma fyrir“.
Hann benti á byssur þeirra, sem voru reistar upp
hjá þeim við hliðina á bumbunni, er spilin og teningarnir
lágu á.
„Yðar Hágöfgi má vera þess fullviss, að við hefðum
gengið til móts við yður, ef okkur hefði komið til
hugar, að þjer kæmuð til okkar jafn fáliðaður“, sagði
d'Artagnan.
Kardínálinn beit á vörina.
„Vitið þið, hvað manni dettur fyrst í hug, þegar
maður sjer ykkur hjer alla saman alvopnaða með vörð
á gægjum?“ spurði hann. „Þið lítið út eins og þið væruð
að stofna samsæri“.
„Við erum líka að því, yðar Hágöfgi“,svaraði Athos.
„Að eins er samsærið ekki stofnað gegn yður,
heldur gegn borgarbúum — eins og þjer sáuð á dögunum“.
Þið eruð slægir sem höggormar“, sagði kardínálinn
og hleypti brúnum. „Ef maður gæti lesið í huga
ykkar eins og þið lásuð brjefið, sem þið földuð þegar
jeg kom, þá kæmist maður líklega að ýmsu, sem leynt
á að fara“.
Athos stokkroðnaði og færði sig nær kardínálanum
um eitt skref.
„Maður skyldi ætla“ sagði hann, „að þjer grunið
okkur um græsku í fullri alvöru og að við ættum að
yfirheyrast. Ef svo er, þá viljum við biðja yðar Hágöfgi
að segja okkur ástæðuna til þess, svo að við vitum,
hverju við megum eiga von á“.
„Og þó að þetta væri nú yfirheyrsla“, svaraði
kardínálinn, „þá væruð þjer ekki sá fyrsti, herra Athos,
sem jeg hef yfirheyrt“.
„Jeg sagði yðar Hágöfgi, að þjer þyrftuð ekki annað
en að spyrja. Við erum reiðubúnir að svara“.
„Hvaða brjef var það, sem þjer voruð að lesa,
herra Aramis og földuð, þegar jeg kom?“
„Það var brjef frá kvennmanni, yðar Hágöfgi“.
„Vissulega á maður ekki að flíka slíkum brjefum“,
sagði kardínálinn. „en samt má sýna það hverjum
skriftaföður, og jeg hef tekið prestvígslu, eins og þjer
vitið“.
„Yðar Hágöfgi“, sagði Athos með sinni vanalegu
rósemi, er var því aðdáanlegri sem hann vissi, að svar
sitt gæti kostað hann lífið. „Að vísu er brjefið frá
kvennmanni, en hvorki er það undirskrifað af Marion
de Lorme eða frú d'Aiguillon“.
Kardínálinn náfölnaði og brann eldur úr augum
hans. Hann sneri sjer við eins og til þess að gefa þeim
Cahussac og La Hondiniére vísbendingu. Athos sá,
hvað honum bjó í huga og færði sig nær byssunum.
Hinir fjelagar hans sneru sjer líka ósjálfrátt að vopnunum,
því að þá langaði ekkert til að láta taka sig
höndum. Kardínálinn sá samt undir eins, að hann einn
við þriðja mann mundi hafa lítið að gera í hendurnar
á sjö mönnum og með þeim eldsnöru umskiftum, sem
honum voru jafnan eiginleg, fór hann að brosa og
mælti:
„Nú-nú! Þið eruð hugprúðir menn, jafn trúir og
áreiðanlegir á nótt sem degi. Menn sem vaka jafn trúlega
yfir annara heill, hafa líka rjett til þess að gæta
að sjálfum sjer. Jeg gleymi aldrei nóttinni, sem þið fylgduð
mjer til „rauða dúfnabúrsins“ og ef jeg hefði nokkuð
að óttast nú, þá bæði jeg ykkar fylgdar. En nú
stendur ekki svo á og skuluð þið því vera kyrrir,
þar sem þið eruð komnir, tæma flöskur ykkar,
varpa teningum og lesa brjef ykkar! Verið sælir,
herrar góðir!“
Að svo mæltu stje hann á hestinn, sem Cahussac
teymdi til hans, og reið burt.
Þeir fjelagar stóðu lengi þegjandi og horfðu á eftir
honum þangað til að hann hvarf þeim sýnum. Þá
litu þeir óttaslegnir hver á annan, því að þeir voru
sjer þess meðvitandi, að kardínálinn var ofsareiður
þrátt fyrir öll blíðmæli sín.
Athos var sá eini, sem brosti háðslega.
Þegar kardínálinn var kominn svo langt burt, að
hann gat ekki heyrt til þeirra, hrópaði Porthos, til
þess að svala reiði sinni á einhverjum:
„Grimaud sagði okkur of seint til hans“.
Grimaud ætlaði svara og afsaka sig með einhverju,
en Athos gaf honum bendingu og sagði hann
því ekki eitt einasta orð.
„Ætlaðurðu að fá honum brjefið!“ spurði d'Artagnan.
„Ef hann hefði krafist þess, þá ætlaði jeg að rjetta
honum brjefið með annari hendinni og reka hann í
gegn með hinni“, svaraði Aramis ofur þýðlega.
„Þetta grunaði mig“, sagði Athos, „og jeg ætlaði
mjer þess vegna að ganga á milli ykkar. Það er annars
undarlegt, hvað kardínálinn þykist mega bjóða sjer
við okkur. Það mætti ætla að hann væri vanastur að
tala við konur og unglinga“.
„Jeg dáist að þjer,“ kæri Athos“, sagði d'Artagnan,
„en við skulum minnast þess, að við höfðum rangt
fyrir okkur, þegar alt er athugað“.
„Höfðum við rangt fyrir okkur!“ sagði Athos.
„Hver á loftið, sem við öndum að okkur? Hver ræður
yfir hafinu, sem blasir við augum okkar? Hverjum
heyrir sandurinn til, sem við liggjum á? Hver á brjefið
frá ástkonu þinni? Kannske kardínálinn eigi það?
Jeg veit raunar, að hann þykist eiga yfir öllum heiminum
að ráða. Og þarna stóðst þú, stamandi og óttasleginn,
eins og svartholið gapti við þjer eða að þú
ætlaðir að verða að steini eins og nátt-tröll. Er það
þá eitt og hið sama, að vera ástfanginn og mynda samsæri?
Þú elskar konu, sem kardínálinn hefur varpað
í fangelsi og þú óskar eflaust að ná henni þaðan. En
hefði kardínálinn sjeð brjefið, þá var það sama sem
að leggja spilin á borðið og því eru menn þó ekki vanir.
Það er hans að gæta í spilin hjá þjer, ef hann
getur“.
„Þetta er alveg rjett“, sagði d'Artagnan.
„Jæja — þá er úttalað um það! Nú er bezt að
Aramis haldi áfram að lesa upp brjefið“.
Aramis tók brjefið upp úr vasanum, hinir færðu
sig nær honum og þjónarnir fóru að fást við víndunkinn.
„Þú varst ekki búinn að lesa nema svo lítið, svo
að það er bezt að þú byrjir aftur“, sagði d'Artagnan.
„Með ánægju“, svaraði Aramis. Brjefið var svohljóðandi:
/*
„Kæri frændi!
Jeg held helzt, að jeg afráði að fara til Stenay.
Systir mín hefur sett þjónustustúlkuna okkar í Karmelítaklaustrið
og stúlku-auminginn lætur sjer það lynda,
því að hún veit, að annarstaðar getur hún ekki verið
án þess að líða tjón á sálu sinni, en ef eitthvað greiðist
úr heimilishögum okkar, þá held jeg samt, að hún
vilji eiga það á hættu að fara aftur til ykkar, sem hún
þráir, ekki sízt þar sem hún veit, að hennar er ávalt
minst. Annars líður henni bærilega og óskar einskis
nema að fá brjef frá elskhuga sinum. Jeg veit, að það
er ekki auðgert að lauma slíku inn í klaustur, en jeg
er enginn klaufi, eins og þjer er kunnugt, og jeg skal
taka það að mjer. Systir mín biður að heilsa þjer og
þakkar þjer fyrir kveðjuna til sín. Hún var óróleg og
áhyggjufull um tíma, en nú er hún orðin rólegri aftur
og hefur sent þangað mann, svo að ekkert ófyrirsjeð
geti borið að höndum.
Vertu sæll, kæri frændi. Láttu okkur frjetta eitthvað
af ykkur svo oft sem hægt er, það er að segja,
án þess að nokkur hætta sje því samfara.
María Michon.
*/
„Mikið á jeg þjer að þakka, Aramis“, sagði d'Artagnan.
„Loksins fæ jeg þá að frjetta eitthvað af Constance.
Hún er lifandi og vel geymd í einhverju klaustri
í Stenay — en hvar er Stenay, Athos?“
„Í Lóthringen, skamt frá landamærum Elsass. Við
getum skroppið þangað, þegar umsátinni er lokið“.
„Jeg vona, að þess verði ekki langt að bíða“, sagði
Porthos. „Í morgun var hengdur njósnari, sem sagði
að íbúarnir í La Rochelle væru nú að þrotum komnir
og hefðu ekki annað sjer til munns að leggja, en
yfirleðrin af skónum sinum. Þegar það er uppgengið,
hafa þeir víst engin önnur ráð en að jeta hver annan“.
„Skelfing eru þeir heimskir! sagði Athos og tæmdi
glas af ágætu Bordeuxvíni. „Veslings flónin! Þeir geta
þá ómögulega skilið það, að katólska trúin er allra trúarbragða
skynsamlegust og aðgengilegust. Nú-jæja!
Látum það svo vera, en hraustir eru þeir — því getur
enginn neitað. En hvern skrattann ertu að gera
við brjefið, Aramis? Ætlarðu að stinga því í vasa þinn“.
„Athos hefur rjett fyrir sjer sagði d'Artagnan. „Það
verður að brenna brjefið, og það er kann ske ekki einu
sinni nóg. Hver veit nema að kardínálinn viti einhver
ráð til þess að lesa skriftina í öskunni?“
„Það væri rjett eftir honum“, sagði Athos.
„En hvað eigum við þá að gera við brjefið“,
spurði Porthos.
„Komdu hingað Grimaud“, sagði Athos og hlýddi
Grimaud því, „Þú hefur talað án leyfis og til hegningar
fyrir það, skaltu nú jeta þetta brjef, en til launa
fyrir þann greiða, sem þú gerir okkur með því, skaltu
fá þetta vínglas á eftir. Hjerna er brjefið — tygðu
nú vel!
Grimaud leit á glasið og brosti. Svo stakk hann
brjefinu upp í sig, tugði það og gleypti síðan.
„Þetta er ljómandi, Grimaud“, sagði Athos. „Taktu
nú við glasinu — þú átt það sannarlega skilið“.
Grimaud tæmdi glasið þegjandi, en með sýnilegri
ánægju.
„Nú held jeg að við getum verið nokkurn veginn
öruggir“, sagði Athos, „það er að segja ef kardínálanum
dettur ekki það snjallræði í hug, að rista Grimaud
á kviðinn!“
Meðan þetta gerðist, hjelt hans Hágöfgi leiðar
sinnar og tautaði við sjálfan sig í illu skapi:
„Jeg, verð, hvað sem tautar, að ná þessum fjórum
mönnum á mitt band“.
III. Fyrsti fangadagurinn.
Nú víkur sögunni aftur til Mylady. Hún var í
sama vanda stödd og áður er sagt, sat í djúpum hugsunum
og fanst hún vera komin á dvalarstað fordæmdra,
þar sem enginn vonarneisti skín. Í fyrsta skifti á æfi
sinni vantreysti hún sjálfri sjer og í fyrsta skifti fann
hún nú til ógnar og kvíða.
Tvisvar áður hafði hún orðið fyrir óhöppum —
tvisvar verið svikin og á tálar dregin. Og í bæði þau
skifti var það þessi ólánsmaður, sem örlögin höfðu
leitt á hennar leið, henni til falls og fordjörfunar —
það var d'Artagnan, sem borið hafði sigur af hólmi í
viðureign þeirra — sigrað hana, sem áður var óvinnandi
í ilsku sinni.
Hann hafði smánað ást hennar, lítillækkað hana
þegar hún ofmetnaðist, brugðist trausti hennar og nú
að síðustu rænt hana frelsi sínu, spilt velferð hennar
og jafnvel ógnað lífi hennar. Já, meira að segja flett
af henni að nokkru leyti þeirri grímu, sem var hennar
aðalhlífð og skjól.
D'Artagnan bægði ógæfunni frá Buckingham —
en hún hataði Buckingham eins og alla þá, sem hún
hafði einhvern tíma elskað — bægði frá honum þeirri
ógæfu, sem Richelieu hafði hótað honum út af kunningsskap
hans við drotninguna. D'Artagnan ljezt vera
Wardes greifi, sá maður, sem hún hafði fengið óstjórnlega
ást á. D'Artagnan þekti hið hræðilega leyndarmál
hennar, en hún hafði svarið, að hver sem kæmist að
því, skyldi engu fyrirtýna nema lífinu. Og loks þegar
hún hafði fengið griðabrjef, sem átti að hjálpa henni
til að koma fram hefndum á óvinum sinum, þá var
það brjef rifið af henni með ofbeldi og það var d'Artagnan,
sem nú hjelt henni fanginni og ætlaði að senda
hana í útlegð til einhverrar afskektrar eyjar í Indlandshafi.
Því að það var svo sem enginn efi á því, að
d'Artagnan var valdur að öllu þessu andstreymi. Eða
hvaðan stafaði öll sú smán og alt það mótlæti, sem
hún nú hafði orðið fyrir alt í einu, nema frá honum?
Enginn annar en d'Artagnan gat sagt Winter lávarði
öll þau óttalegu leyndarmál, sem hann hafði komist
fyrir af tilviljum. Hann þekti mág hennar og hafði eflaust
skrifað honum.
Þar sem hún sat nú þarna ein í herberginu, fyltist
hún heift og hatri og eldur brann úr augum hennar.
Hún stundi þungan eins og brimaldan, sem brotnaði
á klettunum þeim, er þessi ömurlega höll var reist
á. Reiðin svall í huga hennar og hún hugsaði sjer hinar
og þessar leiðir til þess að hefnast á frú Bonacieux,
Buckingham og einkum d'Artagnan.
En til þess að geta hefnt sín, verður maður að vera
frjáls ferða sinna og til þess að brjótast út úr fangelsi
verður að gera gat á múrinn, brjóta stundur járnstengur
eða grafa göng undir gólfið. Það getur efldum og
þolinmóðum karlmanni tekist, en veikburða konu er
það um megn, Auk þess þarf til þess langan tíma —
mánuði eða jafnvel ár og hún hafði ekki nema tvær
til þrjár vikur til framkvæmda, eftir því sem Winter
lávarður, þessi skelfilegi fangavörður hennar sagði.
En hvað um það. Hún hefði reynt þetta alt, ef
hún hefði verið karlmaður, og kann ske tekist það.
Hvers vegna hafði forsjónin látið þessa kjarkmiklu
karlmanns sál í veikburða og vanmáttugan kvennmannslíkama?
Þessir fyrstu fangatímar hennar voru hræðilegir. Í
byrjuninni var hún hamslaus af bræði og reiði, en
smám saman sefaðist hún og reiðiköstin minkuðu.
Hún var nú orðin þreytt eins og naðra, sem hringar sig
saman og hvílist.
„Jeg hef víst ekki verið með sjálfri mjer, fyrst að
jeg hagaði mjer svona“, sagði hún víð sjálfa sig og
leit í spegil. „Ofsinn er ekki til neins og hann ber að
eins merki um vanmátt og getuleysi. Jeg hef ekkert
upp úr því. Ofsi og ákafi gæti kann ske komið til
greina ef við kvennmenn væri að eiga, en hjer er við
karlmenn að etja og jeg er ekki annað en kvennmaður
í þeirra augum. Það er því ráðlegast að vega með
vopnum konunnar. Máttur minn felst í veikleik mínum“.
Hún tók á sig ýms svipbrigði til þess að sjá, hve
andlitsdrættir hennar væru liðugir í vikunum. Ýmist
setti hún á sig reiðisvip, eða að yfirbragðið varð ásttúðlegt
og töfrandi og greiddi hárið í ýmislega lokka.
„Það er ekki öll nótt úti enn“, sagði hún við sjálfa
sig. „Fríð er jeg — ekki verður því neitað“.
Klukkan var nú orðin átta. Mylady sá, að rúm
var í herberginu og datt henni í hug, að það mundi
hressa sig bæði á sál og líkama að fá sjer dálítinn dúr,
en samt hætti hún við það, því að nú mundi hún, að
hún hafði eitthvað heyrt talað um kvöldmat. Hún var
nú búin að vera þarna fullan klukkutíma, svo að það
gat nú varla dregist lengi, að henni yrði færður matur.
Hún vildi því ekki eyða tímanum til ónýtis, en ásetti
sjer að þreyfa fyrir sjer þegar sama kvöldið og reyna
að gera sjer grein fyrir lunderni manna þeirra, sem
áttu að hafa tilsjón með henni.
Hún gægðist út um rifuna milli hurðarinnar og
þröskuldarins og sá einhverja ljósglætu og rjeð af því,
að nú kæmu fangaverðirnir aftur. Hún stóð upp í snatri,
fleygði sjer á stólinn og hallaði höfðinu aftur á bak,
ljet hárið flaka og brjóstið vera hálfbert. Annari hendinni
studdi hún á hjartað, en hin hjekk máttlaus niður.
Nú heyrðist fótatak og var hurðin opnuð.
„Látið matinn þarna“, sagði einhver og þekti hún
á málrómnum, að það var Felton.
„Sækið blys og skiftið um verði“, sagði Felton enn
fremur.
Mylady rjeð af þessum skipunum, að það mundu
vera tómir dátar, sem áttu að gæta hennar, en annars
var skipunum Feltons hlýtt hljótt og tafarlaust, er bar
vott um strangan aga.
Nú fyrst varð honum litið á Mylady.
„Einmitt það — hún sefur þá“, sagði hann. „Jæjaþá!
Hún fær sjer sjálfsagt að borða þegar hún vaknar
aftur“.
Að svo mæltu gekk hann fram að dyrunum.
„Nei, hún sefur ekki“, sagði einn dátinn, sem
hafði fært sig nær Mylady.
„Hvað er nú?“ sagði Felton. „Hvað er þá að
henni?“
„Hún liggur í dái og er náföl. Jeg heyri engan
andardrátt, hvernig sem jeg hlusta“.
„Þú segir satt“, sagði Felton og leit á Mylady án
þess þó að færa sig nær. „Segðu Winter lávarði, að
fanginn liggi í öngviti. Jeg veit ekkert hvað gera skal
og hef engar skipanir fengið viðvíkjandi slíkum atburði“.
Dátinn fór eins og honum var sagt og Felton
settist í hægindastól, sem stóð frammi við dyrnar og
beið átekta, sagði ekki nokkurt orð og sat hreyfingarlaus.
Mylady var list sú lagin, sem konur leika oft,
sú að horfa gegnum augnahárin án þess að opna augnalokin
svo að á beri. Hún leit á Felton, sem sneri baki
við henni og horfði á hann eitthvað í tíu mínútur, en
allan þann tíma bærði hann ekki á sjer.
Þessi fyrsta tilraun hennar mishepnaðist þá og hún
reyndi nú aðra aðferð. Hún lyfti upp höfðinu, opnaði
augun og stundi.
Felton sneri nú sjer að henni.
„Þjer eruð þá vöknuð, frúin góð“, sagði hann.
„Jeg hef þá ekkert meira hjer að gera, en ef þjer þarfnist
einhvers, þá er ekki annað en að hringja“.
„Æ, hamingjan góða — hvað jeg hef mátt þola!“
sagði hún lágt og í þessum undurþýða rómi, sem hún
beitti gagnvart þeim, er hún ætlaði að ginna í einhverja
gildruna. Hún settist upp í stólnum í enn lauslegri
stellingum en meðan hún lá í dáinu.
Felton stóð upp.
„Yður verður færður matur þrisvar á dag“, sagði
hann, „klukkan níu á morgnana, klukkan eitt um miðjan
daginn og klukkan átta á kvöldin. Þjer skuluð segja
til, ef þjer viljið heldur fá matinn á öðrum tímum og
mun því verða sint ef ástæður leyfa“.
„En á jeg þá alt af að kúldast í þessu stóra og
leiðinlega herbergi?“ spurði hún.
„Það hafa verið gerð boð eftir konu hjer í nágrenninu
og hún kemur hingað á morgun. Hún getur
verið yður til hagræðis, hvenær sem þjer óskið þess“.
„Jeg er yður þakklát fyrir það“, svaraði Mylady
hóglátlega.
Felton hneigði sig og gekk fram að dyrunum. Um
leið og hann fór út um dyrnar, sást Winter lávarður
koma eftir ganginum og með honum dátinn, sem fór
með skilaboðin til hans um öngvit Mylady. Hann hjelt
á glasi með ilmvatni í hendinni.
„Núnú! Hvað er um að vera — hvað gengur á?“
spurði hann ertingarlega og leit á Mylady, er stóð upp,
en Felton var í þann veginn að fara. „Hún er þá risin
upp frá dauðum! Hvað er að tarna, Felton? Skilurðu
það ekki, að hún skoðar þig sem hvern annan
nýgræðing og er nú búin að leika fyrsta þáttinn í gamanleik,
sem við fáum sjálfsagt að kynnast nánar?“
„Jú, auðvitað hafði jeg grun um það, herra lávarður“,
svaraði Felton. „En með því að fanginn er
kona, þá vildi jeg gjarna sýna henni alla þá nærgætni,
sem kynferði hennar ber“.
„Hefur þá hárprýði hennar, drifhvítt hörundið og
munarblítt augnaráð engin áhrif haft á þig? Hefur
hún ekki getað heillað þig enn ?“
„Nei, herra lávarður“, svaraði liðsforinginn. „Þjer
megið reiða yður á, að það skal meira til að raska ró
minni, en daður og dutlungar eins kvennmanns“.
„Það er gott, kæri Felton. En nú skulum við lofa
Mylady að finna eitthvað nýtt upp, meðan að við sitjum
að kvöldverði, Trú mjer til — henni verða engin
vandræði úr því og það mun varla þurfa lengi að bíða
eftir öðrum þætti leiksins“.
Að svo mæltu gekk Winter lávarður út um dyrnar
ásamt Felton.
„Jæja-þá! Jeg næ líklega einhverjum tökum á þjer“,
tautaði Mylady við sjálfa sig. „Vertu rólegur, munksgepillinn
þinn, þú umsnúni hermaður, sem hefur vilzt
á einkennisfötunum“.
„Þjer skuluð ekki láta yður verða svo mikið um þetta,
að þeir missið matarlystina“, sagði lávarðurinn hlægjandi
og nam staðar á þröskuldinum. „Smakkið þjer á
hænsnasteikinni og fiskinum — það er hvorttveggja óeitrað,
sem jeg er lifandi maður. Mjer líkar vel við
matsveininn hjerna og treysti honum fyllilega, enda
hann ekkert að erfa eftir mig. Það sama skuluð þjer
gera. Verið þjer nú sælar, kæra mágkona. Við sjáumst
aftur við næsta yfirlið!“
Nú var Mylady nóg boðið. Hún greip fast um
stólbríkurnar og nísti tönnum þegar þeir lokuðu hurðinni
á eftir sjer. Hún fjekk eitt reiðikastið enn. Sá
hún þá hvar hnífur lá á borðinu, spratt á fætur og
greip hann, en tók þá eftir því, að það var oddlaus,
deigur og beygjanlegur silfurhnífur.
Fyrir framan dyrnar heyrðist hlátur og hurðin var
opnuð í hálfa gátt.
„Hahaha! Hvað sagði jeg yður ekki, kæri Felton!“
hrópaði Winter lávarður. „Þessi hnífur var þjer ætlaður,
drengur minn — hún ætlaði að reka hann í þig.
Hún er sem sje vön að ryðja þeim einhvern veginn
burt, sem standa í vegi fyrir henni. Hefði jeg farið að
þínum ráðum og hnífurinn verið beittur og oddhvass,
þá værir þú nú ekki lengur í lifandi minna tölu. Fyrst
hefði hún skorið þig á háls og þar næst okkur alla.
Líttu nú á, hve höndulega hún leikur hnífinn!“
Mylady stóð enn með hnífinn á lofti í kreptri
hendinni, en þessi síðustu móðgunaryrði lömuðu hana.
Það dró allan mátt úr hendinni, kjarkurinn þvarr —
og hnífurinn fjell glamrandi á gólfið.
„Þjer hafið rjett að mæla, herra lávarður“, sagði
Felton fyrirlitlega, „og jeg hafði rangt fyrir mjer“.
Síðan gengu þeir burt, en nú hlustaði Mylady með
meiri athygli en áður. Hún heyrði fótatak þeirra fjarlægjast
og hverfa í hinum enda gangsins.
„Nú er úti um mig!“ hugsaði hún með sjer. „Jeg
er komin í hendurnar á mönnum, sem jeg hef ekki
frekar áhrif á, en steingervingar væru. Þeir þekkja mig
til hlítar og mín vopn bita ekki á þá, en samt skal
það aldrei verða, að þessir menn fái vilja sínum framgengt“.
Hún var ekki vonlaus enn. Örvænting og kjarkleysi
gátu ekki bugað hana til lengdar, svo var viljaþrek
hennar mikið. Hún settist að borðinu, neytti bæði
matar og drykkjar og fann, að sjer jókst styrkur og þrek.
Hún rifjaði upp fyrir sjer alt samtal hinna tveggja
manna áður en hún gekk til hvílu — og árangurinn
af þeim hugleiðingum hennar varð sá, að Felton yrði
auðunnari þegar á þyrfti að reyna. Það var einkum
eitt, sem hún hafði hugfast:
„Hefði jeg farið að þínum ráðum“, sagði Winter
lávarður við Felton.
Felton hafði þá talað hennar máli, en lávarðurinn
hafði ekki viljað hlíta ráðum hans.
„Hvort sem hann er nú veikur fyrir eða ósveigjanlegur“,
hugsaði hún, „þá er svo mikið víst, að einhver
meðaumkvunarneisti felst í brjósti hans, en sá
neisti skal verða að báli, sem brennir hann upp til
agna. Hvað hinn snertir, þá þekkir hann mig og óttast,
enda veit, hvers hann má vænta sjer, ef jeg einhvern
tíma slepp úr greipum hans. Það er því ekki til
neins, að reyna neitt við hann. En Felton er alt annar
maður. Hann er ungur og auðtrúa og honum get
jeg náð í mitt vald“.
Síðan tók hún á sig náðir og sofnaði með bros á
vörum. Líktist hún þá einna mest ungri stúlku, er
dreymir um blómsveig þann, sem prýða skal höfuð
hennar á þeirri gleðisamkomu, sem næst fer í hönd.
IV. Annar fangadagurinn.
Mylady dreymdi, að hún hafði náð d'Artagnan á
sitt vald og að hún væri við stödd aftöku hans. Brosti
hún þá blíðlega í svefninum, er hún horfði á blóð
hans drjúpa af öxi böðulsins.
Hún svaf eins og þeir fangar sofa, sem enn þá
ala von og traust í brjósti sjer.
Hún lá enn í rúminu þegar komið var inn til
hennar morguninn eftir. Felton stóð frammi á ganginum
og hjá honum kona sú, sem hann hafði minst á
daginn áður.
Konan gekk að rúmi hennar og spurði hana, hvort
hún gæti verið henni til nokkurrar þægðar.
Mylady var venjulegast föl yfirlitum, en nú var
hún rjóð í kinnum og gat útlit hennar hæglega blekt
þann, sem sá hana svo útlítandi í fyrsta sinn.
„Jeg hef megnustu hitasótt“ sagði hún, „hef ekki
sofið dúr í alla nótt og líður mjög illa, Má ske mjer
verði sýnd einhver meiri vægð en í gær. Jeg bið ekki
annars nú, en að fá að liggja í friði“.
„Viljið þjer, að læknis sje vitjað?“ spurði konan.
Felton hlustaði á samtal þeirra, en lagði ekkert til
málanna.
Mylady hugsaði sem svo, að þess fleiri, sem væru
í kringum hana, þess meiri meðaumkvun hlyti hún
að vekja og þess nánari gætur mundi Winter lávarður
hafa á henni. Auk þess hlyti læknirinn að gefa það til
kynna, að veiki hennar væri ímyndun ein — en hún
vildi nú ekki bíða lægri hluta í þetta skifti.
„Hvað ætti það að þýða að fara að leita læknis!“
sagði hún, „Mjer varð ilt í gærkvöldi og þá sögðu
þessir menn, að það væri tóm uppgerð. Sama segja
þeir líklega í dag og þeir hafa líka haft nægan tíma,
síðan til þess að telja lækninum trú um þetta“.
„Segið okkur þá, hvers þjer óskið“, sagði Felton
nú all óþolinmóðlega.
„Hvað veit jeg um það? Mjer líður illa — það
er alt og sumt, sem jeg get sagt. Gerið við mig, hvað
sem ykkur sýnist — mjer er alveg sama um það alt
saman“.
„Sækið þjer Winter lávarð“, sagði Felton og var
farinn að þreytast á þessum sífeldu aðfinslum og umkvörtunum.
„Nei, ænei! Sækið hann ekki, í öllum hamingju
bænum!“ hrópaði Mylady. „Mjer líður vel og þarfnast
einskis. Sendið ekki eftir honum“.
Það var sú einlægni og sárbeiðni í róm hennar,
að Felton steig ósjálfrátt yfir þröskuldinn.
„Nú kemur hann!“ hrópaði Mylady.
„Við skulum ná í lækninn, ef eitthvað verulegt
gengur að yður“, sagði Felton. „Það verður yður sjálfri
verst, ef þjer eruð að blekkja okkur, en við þurfum þá
ekki að ásaka okkur fyrir neina vanrækslu“.
Mylady svaraði engu. Hún sneri hinu fagra höfði
sínu upp að vegg og grjet sáran.
Felton leit snöggvast á hana með sinni vanalegu
rósemi, en þegar grátinum virtist ekki ætla að linna,
gekk hann burt og konan með honum. Lávarðurinn
kom ekki.
„Nú held jeg að jeg fari að sjá eitthvað fram úr
þessu, hugsaði Mylady með sjer. Hún dró sængina
upp yfir höfuð og brosti nornalega.
Svona liðu tveir tímar.
„Það er nú líklega mál til komið að láta sjer fara
að batna“, sagði hún við sjálfa sig. „Jeg verð að komast
á fætur og freista einhverra framkvæmda — af
þessum fáu dögum, sem jeg hef til umráða, er nú þegar
einn liðinn“.
Það var löngu búið að láta morgunmatinn inn til
hennar og bjóst hún nú við, að einhver kæmi bráðlega
til þess að taka af borðinu og fengi hún þá líklega
að sjá Felton um leið.
Henni brást það ekki heldur. Felton kom aftur
og skipaði að bera burt matinn án þess að líta eftir
því, hvort Mylady hefði nokkurs neytt af honum.
Sjálfur varð hann eftir og hjelt á bók í hendinni.
Mylady sat í hægindastólnum, fögur á að líta en
föl og mæðuleg.
Felton gekk nær henni og sagði:
„Winter lávarður er katólskur eins og þjer og
hann álítur, að yður skorti tilfinnanlega þá huggun,
sem trúin veitir. Vill hann því gefa yður leyfi til þess,
að lesa messu hvern dag og sendir yður þessa bænabók
í því skyni“.
Felton lagði bænabókina á borðið fyrir framan
hana og lagði sjerstaka áherzlu á orðið „messu“, en
um leið var eitthvað svo einkennilegt í fasi hans, að
Mylady leit upp og horfði á hann.
Hár hans var snoðklipt, klæðaburðurinn einfaldur
og óbrotinn, ennið sljett og hörkulegt — alt þetta
benti til þess, að hann væri einn af þessum þungbúnu
Púritönum[* Púrítanar: hreintrúarmenn.], sem hún oft hafði rekist á, bæði við hirð
Jakobs konungs og eins við frönsku hirðina, en þangað
leituðu þeir sjer hælis stöku sinnum, þrátt fyrir
endurminningarnar um Barthólómeusnóttina.
Í sömu andránni fjekk hún einn þennan innblástur,
sem ekki hendir nema afburðamenn á þeim lífsstundum
þeirra, þegar teflt er um líf og dauða. Hún
fann það nú, að alt var undir því komið, hvernig hún
hagaði orðum sínum, en hugur hennar var skjótur sem
elding og stóð ekki á svarinu.
„Messu!“ sagði hún og kendi hálfgerðrar hæðni í
rómnum. „Winter lávarður veit ofur vel, að jeg er
ekki katólsk. Þetta er ekki annað en gildra, sem hann
ætlar að ginna mig í“.
„Hverrar trúar eruð þjer þá?“ spurði Felton og
gat ekki leynt undrun sinni.
„Það skal jeg segja yður þann dag, sem jeg hef
liðið nóg fyrir trú mína“, hrópaði Mylady og ljezt vera
æst mjög.
Það var auðsjeð á Felton, að Mylady óx mjög í
augum hans við þessi ummæli, en þrátt fyrir það stóð
hann grafkyr og steinþegjandi.
„Jeg er á valdi óvina minna“, hjelt hún áfram
með þeim fjálgleik cg ofstæki, sem alment tíðkast meðal
Púrítana. „Jeg vildi að Himnafaðirinn gæfi mjer frelsi
mitt aftur, eða ljeti mig deyja að öðrum kosti, en verði
hans vilji. Þetta bið jeg yður að segja Winter lávarði.
Og hvað þessa bók snertir — hún benti á borðið,
eins og hún væri hrædd við að snerta bókina — þá
er bezt að þjer farið með hana aftur og notið hana
sjálfur, því að jeg er sannfærð um, að þjer eruð jafn
fylgispakur Winter lávarði í villutrú hans eins og þjer
eruð honum samtaka um að ofsækja mig“.
Felton svaraði þessu engu. Hann tók bókina, eins
og hann hrylti við henni og gekk burtu í þungum
hugsunum.
Klukkan eitthvað fimm síðdegis kom Winter lávarður.
Mylady hafði nú haft gott næði til að hugsa
ráð sín og tók við honum eins og hún væri alráðin í
því, hvað gera skyldi.
„Það virðist svo, sem þjer sjeuð gengin af trúnni“,
sagði hann og settist andspænis henni.
„Hvað eigið þjer við?“
„Jeg á við það, að þjer hafið skift um trúarbrögð,
síðan við sáumst seinast. — Kann ske að þjer sjeuð
gengin að eiga þriðja manninn — einhvern mótmælanda?“
„Jeg skil yður ekki herra lávarður!“ svaraði Mylady.
„Það er að segja — orðin skil jeg, en ekki, hvað
í þeim felst“.
„Má einnig vera, að þjer hafið enga trú — og
við því gæti jeg helzt búist“.
„Jú — það kæmi líka vel heim við alla framkomu
yðar“, svaraði Mylady.
„Nú-jæja! Jeg skal játa, að mjer stendur það algerlega
á sama“.
„Þjer ættuð ekki að kannast svona afdráttarlaust
við kæruleysi yðar um trúarefni. Lestir yðar og glæpaverk
ber nægan vott um það“.
„Hvað er nú, frú Messalína? Var nokkur að
minnast á lesti? Eða kann ske að mjer hafi misheyrst,
frú Macbeth? Það er gállinn á yður núna!“
„Þjer talið svona af því að menn standa fyrir framan
dyrnar á hleri“, sagði Mylady kuldalega“, og þjer
viljið espa varðmenn yðar og böðla upp á móti mjer“.
„Það er naumast, að yður tekst upp. Varðmenn
og böðla! Þetta fer að verða skáldlegt hjá yður! Gamanleikurinn
sá í gær verður líklega að sorgarleik á
endanum, en annars get jeg sagt yður það, að eftir
vikutíma verðið þjer komin þangað, sem yður er
búinn samastaður og þá er ætlunarverki mínu lokið“.
„Það er óguðlegt og andstyggilegt ætlunarverk“,
sagði Mylady og skalf af reiði.
„Vissulega held jeg, að konan sje að verða vitlaus!“
sagði lavarðurinn og stóð upp. „Reynið þjer að stilla
yður ofurlítið, frúin góð, því að öðrum kosti læt jeg
flytja yður í reglulegt fangelsi, eða kann ske að spanska
vínið mitt hafi fengið á yður? En sú víma rennur
fljótt af yður, ef svo skyldi vera“.
Að svo mæltu fór Winter lávarður bölvandi og
ragnandi eins og stórhöfðingjum þeirra tíma var tamt.
Felton hafði staðið fyrir framan dyrnar og heyrt
hvert orð, eins og Mylady gizkaði á.
Nú sló öllu í þögn. Þegar komið var inn með
kvöldmatinn tveim tímum seinna, lá Mylady á knjebeð
og baðst fyrir upphátt. Bænir þær hafði hún lært
í seinna hjónabandi sínu af gömlum þjóni. Hún virtist
hafa allan hugann á bænahaldinu og gaf engan
gaum að því, sem fram fór í kringum hana. Felton
benti þeim, sem við staddir voru, að trufla hana ekki
og gekk þegjandi út með dátunum.
Mylady grunaði að menn stæðu á hleri við dyrnar
og hjelt bænahaldinu áfram. Henni heyrðist dátinn,
sem var á verði, vera hættur að ganga fram og aftur
og hafa numið staðar við dyrnar. Hún ljet sjer þetta
nægja í svipinn, reis upp af knjebeðnum, settist að
borðinu, mataðist og drakk ekki annað en vatn.
Einum tíma síðar var borið af borðinu, en nú
tók Mylady eftir því, að Felton var ekki við staddur.
— Hann var þá hálfsmeykur við að venja komur sínar
til hennar! Hún sneri sjer út í horn og brosti.
Hún beið enn í hálfa klukkustund og nú varð alt
hljótt og kyrt í höllinni. Ekkert heyrðist nema brimhljóðið
við klettana. Þá hóf Mylady rödd sína, skæru
og hljómfagra og tók að syngja vers úr púrítönskum
sálmi, sem þá var mjög tíðkaður:
/*
Það hendir á hörmungatímum,
að þú Herra oss hverfur um stund,
en að lokum lárviðarkrýnda
oss leiðir þín heilaga mund.
*/
Vers þetta var hvorki auðugt að skáldmæti nje
andagift, en Púritanar gerðu ekki miklar kröfur til sálmaskálda
sinna.
Mylady hlustaði um leið og hún söng. Dyravörðurinn
stóð hreyfingarlaus — eftir því að dæma, var
hann hugfanginn af söng hennar.
Svo kyrjaði hún versið aftur og leyfði nú ekki af
röddinni. Það glumdi í göngum og hvelfingum og
fjálgleikurinn var svo mikill og innilegur, að slíkt hlaut
að mýkja hjörtu varðmannanna. En dyravörðurinn var
eflaust katólskur og ljet það ekki á sig fá, því að hann
hrópaði inn um hurðargættina:
„Hættið þjer þessu, frú! Þessi söngur yðar líkist
mest einhverjum útfararsálmi og það er ekki svo skemtilegt
hjerna, að okkur sje nokkur unun í að hlusta á
þetta harmavæl og píslarsöng!“.
„Þegiðu!“ heyrðist nú sagt af alvöru mikilli og
kannaðist Mylady við, að það var málrómur Feltons.
„Hvað kemur þjer þessi söngur við, þrjóturinn þinn?
Þú ert ekki kominn hingað til að skipa öðrum. Þú
átt að gæta þess, að fanginn ekki strjúki og það er alt
og sumt, sem þjer ber að gera“.
Það brá fyrir ósegjanlegum gleðisvip á andliti
Mylady, er þó hvarf jafnharðan aftur. Hún ljet sem
hún hefði ekki heyrt orðaskifti þeirra og söng annað
vers:
/*
Í sorg og sárum kvíða,
er synda þjáir mein,
mjer gafst samt góður kjarkur,
því guð er von mín ein.
*/
Hin yndisfagra söngrödd veitti orðum þessum unun
og innileik og Felton þótti sem hann heyrði himneskan
englasöng.
Mylady ljet ekki þar við staðar numið, en hjélt
áfram:
/*
En stund sú kemur að stríði er ljett
og stansar harmur og neyð —
en vilji það bregðast þá göngum vjer glaðir
í gegnum píslir og deyð.
*/
Mylady söng þetta með slíkum sannfæringarkrafti,
að hinn ungi liðsforingi stóðst ekki lengur. Hann rykti
hurðinni upp og stóð á þröskuldinum bleikur sem nár,
með tindrandi, tárvotum augum.
„Hvers vegna eruð þjer að syngja þetta og það
með slíkri rödd?“ spurði hann.
„Fyrirgefið þjer“, svaraði hún. „Jeg gleymdi því,
að þetta, sem jeg var að syngja, á ekki sem bezt við
hjer. Jeg hef ef til vill hneykslað trúartilfinningar yðar,
en hafi svo verið, þá var það að minsta kosti ekki
ásetningur minn“.
Mylady var nú svo fögur sýnum og trúarofsinn,
sem tindraði í augum hennar, setti á hana þann svip,
að Felton fanst hann standa augliti til auglitis við einhverja
himneska veru.
„Jú — þjer gerið þeim ónæði, sem hjer eru í
höllinni og raskið ró þeirra“, svaraði hann.
Hann tók ekkert eftir því, að rödd hans titraði
af geðshræringu, en hún hvesti augun á hann.
„Jeg skal ekki ónáða ykkur með söng mínum oftar“,
sagði hún og leit niður fyrir sig.
„Nei, það megið þjer ekki segja“, svaraði Felton,
„Þjer megið bara ekki syngja svona hátt — einkum á
kvöldin og nóttunni.
Að svo mæltu gekk Felton burt og fann, að hann
gat ekki lengur beitt neinni harðýðgi við hana.
„Það var rjett gert af yður, herra liðsforingi“, sagði
dyravörðurinn. „Söngur hennar getur gert mann hálfringlaðan,
en maður venst því líklega með tímanum
— og hún hefur svo ljómandi falleg sönghljóð!“
V. Þriðji fangadagurinn.
Mylady fann, að hún var orðin samúðar Feltons
aðnjótandi — en ennþá var langt í land. Hún varð
að sjá svo um, að hún gæti talað við hann í einrúmi,
en til þess sá hún engin ráð, að svo komnu.
Og svo var eitt enn: Hún varð að fá hann til að
láta uppi skoðanir sínar, svo að hún fengi tækifæri til
þess að ræða þær við hann. Því að hún vissi sem
var, að rödd hennar var henni ómetanlegur styrkur
— þessi indæla rödd, sem hún gat temprað á alla
vegu, svo að hún gat líkst röddum englanna, eins og
menn hugsa sjer þær.
En þrátt fyrir það gat hún farið halloka fyrir Felton,
er var við öllu búinn frá hennar hlið. Upp frá
þessu lagði hún alt kapp á að gefa honum sem nánastar
gætur. Hún athugaði hvert hans orð, hverja hreyfingu,
hvert augnatillit og jafnvel hvern hans andardrátt
til þess að reyna að gera sjer ljósa grein fyrir hans
innra manni.
Það var mun hægra að fást við Winter lávarð og
hafði hún þegar kvöldið áður hugsað sjer, hversu hún
skyldi haga sjer gagnvart honum. Hún ætlaði að vera
þögul og róleg, espa hann við og við með þótta og
fyrirlitningu og fá hann til að ryðja úr sjer ókvæðisorðum
og hótunum, svo að framkoma hans yrði gagnólík
þolgæði hennar og stillingu. Þessu mundi Felton
eflaust veita eftirtekt. Gat verið, að hann hefði ekki
orð á því, en hann mundi taka eftir því samt sem áður.
Morguninn eftir kom Felton að vanda og leit eftir
því, að morgunmaturinn væri reiddur fram, en ekki
yrti hún á hann einu orði, meðan á því stóð. Hún
vonaðist eftir, að hann sagði eitthvað við sig um leið
og hann færi, en hann bærði að eins varirnar og sagði
ekki nokkurt orð.
Winter lávarður kom inn til hennar um miðjan
daginn. Það var skínandi fagur vetrardagur og lagði
sólargeislana inn um grindaskjáinn.
Mylady starði út á hafið og ljet sem hún heyrði
ekki, að gengið var um dyrnar.
„Skoðum til!“ sagði lávarðurinn. „Á eftir gamanleiknum
kemur sorgarleikurinn og á eftir sorgarleiknum
koma dapurlegar hugleiðingar“.
Mylady svaraði engu.
„Einmitt það! Jeg skil þetta ofur vel“, hjelt hann
áfram. „Þjer vilduð gjarnan vera komin þarna ofan í
fjöruna laus og liðug. Þá gætuð þjer siglt yfir hið sægræna
haf og meðal annars látið mig lenda í einhverri
launsátinni, sem yður er svo lagið að búa mönnum.
En bíðið þjer róleg! Eftir fjóra daga getið þjer svifið
á „bylgjandi bárum“ og eftir fjóra daga verður England
orðið laust við yður“.
Mylady fórnaði höndum og lyfti augum til himins.
„Herra, herra!“ sagði hún í svo innilegum bænarrómi,
sem henni var unt. „Fyrirgef þessum manni
eins og jeg þegar hef fyrirgefið honum!“
„Já, bíddu, bíddu, ókindin þín!“ hrópaði lávarðurinn.
„Bæn þín er þeim mun tilkomumeiri, sem þú
ert komin í klærnar á þeim manni, sem aldrei ætlar
sjer að fyrirgefa þjer! Það skaltu fá að sjá og reyna“.
Að svo mæltu fór hann sína leið.
Um leið og hurðin fjell aftur á eftir honum, kom
Mylady auga á Felton, er vjek straks til hliðar, svo að
ekki yrði tekið eftir sjer.
Nú fjell hún á knje og hóf bænagjörð sína.
„Guð minn, guð minn!“ kveinaði hún. „Þú veizt,
að jeg verð að þola þetta fyrir þitt heilaga málefni.
Gef mjer þá styrk til að standast þessa raun!“
Hurðin var opnuð hægt, en hún ljet sem hún
tæki ekki eftir því og hjelt áfram bænum sínum með
grátstaf í hálsinum:
„Hefndin heyrir þjer til, en þú ert gæzkan sjálf!
Ætlar þú að láta hótanir þessa manns fá framgang?
Ætlar þú að láta hinar hræðilegu fyrirætlanir hans
komast til framkvæmda?“
Alt í einu ljezt hún heyra umgang í herberginu.
Hún sneri sjer við og roðnaði, eins og hún fyriryrði
sig fyrir að láta koma að sjer knjekrjúpandi.
„Jeg vil ógjarnan ónáða nokkurn mann, sem liggur
á bæn“, sagði Felton alvarlega. „Látið þjer því
sem þjer vitið ekki, að jeg sje hjer viðstaddur“.
„Hvernig gátuð þjer vitað, að jeg væri að biðjast
fyrir?“ spurði Mylady með grátklökkri rödd. „En yður
skjátlast — jeg var ekki að biðjast fyrir“.
„Jeg hef engan rjett til þess að meina neinum
manni að fleygja sjer flötum fyrir fætur skapara síns“,
sagði Felton alvarlega, en þó fremur þýðlega, „Guð
forði mjer frá því! Auk þess er iðrunin öllum syndugum
mönnum þarfleg. Glæpamaðurinn er mjer heilagur
þegar hann liggur frammi fyrir fótaskör þess
hæsta, hvað svo sem hann hefur fyrir sjer gert“.
„Jeg — glæpamaður!“ sagði Mylady og brosti
þannig, að sjálf refsinornin hefði mátt láta blíðkast.
„Guð minn! Þú einn veizt hvort jeg er í nokkru brotleg!
— Þjer getið sagt að jeg sje þegar dæmd — þar
til hef jeg engu að svara. En þjer vitið líka að Herrann,
sem hefur velþóknun á píslarvottinum, lætur stundum
óverðskuldaðan dóm ganga yfir sakleysingjann“.
„Hvort sem þjer eruð dómfeld eða að þjer eruð
píslarvottur, þá er ástæðan þess meiri til að vaka og
biðja. Jeg skal styrkja yður með bænum mínum“.
„Þjer eruð góður maður“, svaraði Mylady og fjell
á knje fyrir honum, „Heyrið mig, því að jeg get ekki
afborið þetta lengur. Jeg er svo hrædd um, að mig
bili kjarkinn þegar mest á ríður og jeg þarf að játa trú
mína. Heyrið bæn örvilnaðrar konu. Þjer hafið látið
blekkjast, en tölum ekki um það. Jeg bið yður að eins
um eitt og ef þjer verðið við þeirri bón minni, skal
blessun mín fylgja yður um tíma og eilífð!
„Snúið þjer yður til yfirboðara míns“, sagði Felton.
„Jeg er hjer hvorki til að hegna nje umbuna, sem
betur fer. Sú ábyrgð hvílir á öðrum, mjer æðra manni“.
„Nei, sú ábyrgð hvílir á yður — eingöngu á yður.
Heyrið mig að minsta kosti og gerið yður eigi meðsekan
í glötun minni og vansæmd“.
„Ef sú vansæmd er verðskulduð, þá er að taka
henni með auðmýkt og undirgefni“.
„Hvað eruð þjer að segja? Nei, þjer hafið ekki
skilið mig. Þjer haldið auðsjáanlega, að þegar jeg er
að minnast á vansæmd, þá eigi jeg við einhvers konar
hegningu — fangelsi eða líflát. Hvað kæri jeg mig
um fangelsi eða líflát?“
„Jeg skil yður ekki, frú mín góð“.
„Eða að þjer látist ekki skilja mig“, sagði hún og
brosti angurblítt.
„Nei, það er gullsatt. Jeg skil ekki, hvað þjer
eigið við“.
„En þjer vitið þó, hvað Winter lávarður ætlar sjer
með mig?“
„Nei, það veit jeg ekki!“
„Það getur ekki verið — þjer, sem eruð trúnaðarmaður
hans“.
„Jeg segi aldrei ósatt“.
„En hann dylur þó ekki fyrirætlanir sínar betur
en svo, að það er auðvelt að gizka á þær“.
„Jeg reyni ekki að gizka á neitt, en bíð að eins
boðanna. Winter lávarður hefur ekki trúað mjer fyrir
neinu fram yfir það, sem hann hefur sagt hjer í yðar
áheyrn“.
„En eruð þjer þá ekki samverkamaður hans?“
spurði Mylady undrandi. „Vitið þjer ekki, að hann
ætlar að gera mjer þá svívirðingu, sem er þúsundfalt
verri hinni hörðustu hegningu?“
„Þar skjátlast yður“, sagði Felton og roðnaði við.
„Winter lávarður er ekki sá maður, að hann fremji
slíka óhæfu“.
„Nú-jájá!“ hugsaði Mylady með sjer. „Hann kallar
það óhæfu, án þess að vita hvað í brugg-gerð er“.
„Vinur óþokkans er til alls vís“, aagði hún.
„Hvern kallið þjer óþokka ?“ spurði Felton.
„Eru nema tveir menn á Englandi, sem geta kallast
því nafni?“
„Eigið þjer við Georges[* Sjorsj.] Villiers?“ hrópaði Felton
með tindrandi augum.
„Sem heiðingjar og trúvillingar kalla hertoga af
Buckingham“, hjelt Mylady áfram, „Jeg hjelt, að sá
Englendingur væri ekki til á Englandi, sem ekki skildi
það undir eins, við hvern jeg ætti“.
„Herrans hönd liggur þungt á honum“, svaraði
Felton. „Hann mun ekki umflýja örlög sín“.
Með þessum orðum sagði Felton ekki annað en það,
sem bjó í huga hvers Englendings gagnvart þessum
manni, sem jafnvel katólskir menn kölluðu blóðvarg
og munaðarsegg, en Púrítanar með einu orði kölluðu
Satan.
„Hamingjan góða!“ sagði Mylady. „Það er ekki
til þess að koma fram persónulegri hefnd, að jeg bið
yður að láta þennan mann fá sín makleg málagjöld,
en tilgangurinn er sá, að losa heila þjóð undan þeirri
möru, sem treður hana“.
„Þekkið þjer hann þá?“ spurði Felton.
„Loksins fer hann þá að tala og spyrja“, hugsaði
Mylady afar glöð, „Jú, því miður þekki jeg hann alt
of vel“, sagði hún.
Hún sló höndum saman, eins og hún væri yfirbuguð
af harmi. Felton skildist nú, að hann hafði miður
í þessari sálarþreks raun, sem þau lögðu hvort fyrir
annað og færði sig nær dyrunum, en Mylady aðgætti
allar hreyfingar hans og aftraði honum.
„Verið miskunsamur og heyrið bæn mína!“ hrópaði
hún. „Hnífurinn, sem lávarðurinn vildi ekki láta
mig fá, af því að hann vissi, til hvers jeg ætlaði að
brúka hann — — nei, heyrið þjer, hvað jeg ætla að
segja — jeg sárbæni yður að lána mjer hann, bara
eina mínútu! Þjer getið lokað dyrunum á eftir yður;
jeg ætla ekki að gera yður neitt mein. Þjer hafið verið
mjer svo góður og almennilegur, að jeg mun aldrei
ala neina óvild í brjósti til yðar. Verið þjer nú hjálparmaður
minn og lánið mjer hnífinn hara eina mínútu!
Jeg skal rjetta yður hann aftur gegnum gatið á
hurðinni. Jeg bið og sárbæni — —“
„Ætlið þjer að svifta yður sjálfa lífi?“ spurði
Felton agndofa og gleymdi að sleppa höndunum á Mylady,
sem hann hafði þrifið um. „Ætlið þjer — —
„Nú veit hann hugsanir mínar og nú er úti um
alt“, sagði hún lágt og ljet fallast á gólfið.
Felton stóð kyr í sömu sporum og vissi ekki, hvað
gera skyldi.
„Hann trúir mjer ekki almennilega enn“, hugsaði
Mylady. „Jeg hef ekki komið ár minni nógu vel fyrir
borð“.
Í sama bili heyrðist fótatak frammi í ganginum og
þóttist hún vita, að þar færi Winter lávarður. Felton
hjelt það líka, og færði sig fram að dyrunum.
Mylady hljóp á eftir honum.
„Jeg bið yður fyrir alla muni að segja honum ekki
eitt einasta orð af þessu — annars er mjer glötunin vís“,
sagði hún — „og þá eruð það þjer, sem — — sem
— —“
Hún þagnaði þegar skóhljóðið færðist nær og óttaðist,
að það kynni að heyrast til hennar, en hún
lagði höndina óttaslegin á munn Feltons. Hann ýtti
henni frá sjer með hægð og hnje hún þá niður í hægindastólinn.
En Winter lávarður gekk fram hjá dyrunum viðstöðulaust.
Felton stóð kyr um stund og hlustaði. Hann var
orðin náfölur og þegar skóhljóðið heyrðist ekki lengur,
var sem hann vaknaði af draumi og flýtti hann sjer út.
„Loksins hef jeg þá náð tangarhaldi á þjer“, hugsaði
Mylady og hlustaði á fótatak Feltons.
En svo þyngdi yfir svip hennar.
„Ef hann segir lávarðinum þetta“, sagði hún við
sjálfa sig, „þá er jeg glötuninni ofurseld, því að hann
veit það vel, að jeg svifti mig ekki lífinu. Hann mun
auk heldur lána mjer sjálfur hnífinn og kemst þá undir
eins upp, að þessi örvilnan mín er ekki annað en
leikur“.
Hún leit í spegilinn. Aldrei hafði hún verið jafn
fögur og nú.
„En jeg er viss um, að hann segir lávarðinum
ekkert!“ sagði hún og brosti.
Winter lávarður kom þegar kvöldverðurinn var
borinn inn.
„Er nokkur nauðsyn á nærveru yðar hjer í þessum
fangaklefa?“ spurði Mylady. „Gætuð þjer ekki
hlíft mjer við þeirri skapraun, sem koma yðar veldur
mjer?“
„Kæra mágkona“, sagði Winter lávarður. „Sögðuð
þjer mjer ekki með þessum yðar eigin fagra munni,
sem nú lætur slík hrópyrði út úr sjer, að þjer væruð
hingað til Englands komin, eingöngu til þess að heimsækja
mig og að þjer hefðuð ekkert látið aftra yður,
hvorki sjóveiki, hrakviðri nje fangavist, til þess að geta
öðlast þá gleði? Nú-jæja! Hjer er jeg! og þá ættuð
þjer að vera ánægð. Annars hef jeg nú sjerstaka ástæðu
til þess að heimsækja yður í dag“.
Það fór hrollur um Mylady og hjelt hún, að Felton
hefði sagt honum alt, sem þeim fór á milli. Hún
hafði aldrei fengið annan eins hjartslátt eins og í þetta
skifti og hafði hún þó reynt ýmislegt um dagana.
Winter lávarður settist á stól við hliðina á henni,
tók síðan skjal upp úr vasa sínum og fletti því í sundur.
„Hjer kem jeg með vegabrjef handa yður, sem
jeg sjálfur hef samið“, sagði hann, „og getur verið yður
eins konar griðabrjef á ókomnum æfidögum yðar,
sem þjer vitanlega eigið mjer eingöngu að þakka“.
Hann leit á skjalið og las upphátt:
„Skipun um að flytja Carlotte Backson, dæmdri í
Frakklandi og slept aftur að afplánaðri hegningu, til
— —“
„Nafnið á ákvörðunarstaðnum er ekki tilfært hjer“.
sagði lávarðurinn. Ef þjer kjósið yður einn stað öðrum
fremur, þá skuluð þjer segja mjer það. Verður það
látið að ósk yðar, en staður sá verður að vera þúsund
mílur frá London að minsta kosti“.
Svo hjelt hann upplestrinum átram:
„Þetta skal vera dvalarstaður hennar og má hún
aldrei víkja lengra en þrjár mílur frá honum. Geri
hún nokkra tilraun til að strjúka, verður hún tafarlaust
tekin af lífi. Henni verða lagðir fimm shillings á dag
fyrir fæði og húsnæði“.
„Þessi skipun kemur mjer ekki við“, sagði Mylady
þóttalega. Míns nafns er ekki getið í henni“.
„Yðar nafns! Eigið þjer nokkurt nafn?“
„Jeg ber nafn bróður yðar“.
„Ja-neinei! Að vísu er bróðir minn seinni maður
yðar, en fyrri maðurinn er enn á lífi. Segið mjer nafn
hans og svo skal jeg setja það í staðinn fyrir Carlotte
Backson. Ætlið þjer að neita því? Viljið þjer það ekki?
Nú-jæja! Þá læt jeg nafnið Carlotte Backson standa óhreyft“.
Mylady sat hljóð, en nú var það enginn leikur
fyrir henni, því að hún var afskaplega hrædd. Hún
hjelt að þessari skipun mundi verða framfylgt þegar í
stað og að Winter lávarður hefði hraðað þessu svo
mjög vegna burtfarar sinnar — gat hugsast, að hún
yrði látin fara þegar sama kvöldið! Hún var alveg utan
við sig um stund, en þá tók hún alt í einu eftir
því, að skjalið var undirskriftarlaust.
Henni brá svo við þetta, að hún gat ekki dulið
gleði sína.
„Já, jeg skil vel, hvað þjer hugsið“, sagði lávarðurinn.
„Þjer sjáið enga undirskrift og hugsið sem svo:
Öllu er óhætt enn meðan undirskriftina vantar og þetta
er bara gert til þess að hræða mig. En þar skjátlast
yður nú samt. Jeg sendi Buckingham þetta skjal á
morgun; hann sendir það aftur hinn daginn með undirskrift
sinni og innsigli og eftir einn sólarhring verður
skipunin framkvæmd — það megið þjer eiga víst.
Verið þjer nú sælar — það var þetta, sem jeg ætlaði
að segja yður“.
„Og jeg segi yður, að þetta er ofbeldisverk. Þessi
brottrekstur með fölsuðu nafni, er svívirðilegur“.
„Kann ske að þjer viljið heldur verða hengd undir
yðar rjetta nafni? Þjer vitið að ensku lögin eru
vægðarlaus þegar um hjúskaparmál er að ræða. Segið
hreint og beint, hvort þjer kjósið heldur. Jafnvel þótt
nafn mitt, eða bróður míns rjettara sagt, flækist inn í
þetta, skal jeg þó ekki skirrast við því hneyksli, sem
jafnan er samfara opinberri rjettarrannsókn, bara að jeg
sje viss um að losast við yður“.
Mylady svaraði engu, en var orðin náföl.
„Jæja, þjer kjósið þá heldur brottreksturinn. Það
er ágætt. Út vill æskan, segir máltækið og rjett er nú
það. Flestir kjósa firðar líf, þegar öllu er á botninn hvolft
og þess vegna ætla jeg heldur ekki að eiga líf mitt undir
yður. Þá er nú útrætt um alt nema meðlagið. Yður
finst líklega, að jeg sje heldur naumur — eða hvað?
En það kemur til af því, að jeg vil ekki að þjer getið
mútað þeim, sem eiga að gæta yðar, en annars hafið
þjer líka annað fje til umráða. Þjer getið freistað þeirra
með yndisleik yðar, ef þjer eruð þá ekki orðin hvekt
á hinum árangurslausu tilraunum yðar við Felton“.
„Felton hefur þá ekkert sagt honum“, hugsaði
Mylady. „Þá er engu tapað“.
„Við sjáumst aftur, kæra mágkona. Jeg skal láta
yður vita, þegar sendimaðurinn fer á morgun“.
Að svo mæltu stóð lávarðurinn upp, kvaddi háðslega
og fór.
Það ljetti yfir Mylady. Enn voru fjórir dagar eftir
og það mundi nægja henni til þess að ná Felton algerlega
á sitt vald. En þá datt henni eitt í hug. Ef lávarðurinn
skyldi nú senda Felton með skjalið til Buckinghams!
Þá gæti hún ekki hitt hann lengur, en henni
var nauðsynlegt að hafa hann altaf nálægt sjer til þess
að geta stappað í hann stálinu. Samt huggaði hún sig
við það, að Felton hafði ekkert sagt enn.
Hún vildi ekki láta á því bera, að hótanir lávarðarins
hefðu gert sjer nokkurn geig og settist því að
borðinu og mataðist. Að því búnu tók hún upp sama
sið sem kvöldið áður, fjell á knje og þuldi bænir sínar
og varðmaðurinn nam staðar og hlustaði, eins og
kvöldið áður.
Litlu síðar heyrðist fótatak frammi á ganginum,
sem færðist nær og staðnæmdist við dyrnar.
„Þetta er hann!“ hugsaði hún.
Svo fór hún að kyrja sömu sálmaversin, sem Felton
hafði orðið svo mikið um. En þó að hún beitti
rödd sinni sem bezt hún gat, var hurðinni samt ekki
lokið upp. Henni sýndist hún grilla í tindrandi augu
hins unga manns gegnum gægjugatið á hurðinni, en
hvort sem það var nú svo, eða að það var bara ímyndun
hennar, þá hafði Felton samt þá stillingu að
fara ekki inn.
En nokkru eftir að hún var hætt sálmasöng sínum,
heyrðist henni einhver stynja þungt og brátt fjarlægðist
fótatakið aftur hægt og seint.
VI. Fjórði fangadagurinn.
Þegar Felton kom inn til Mylady daginn eftir,
stóð hún upp á stól með snöru í hendinni, sem hún
hafði hnýtt saman úr sundurrifnum vasaklútum. Hún
stökk ofan á gólfið, þegar hurðinni var lokið upp og
reyndi að fela snöruna að baki sjer.
Felton var fölari en hann átti að sjer og sást á
augum hans, að hann hafði ekkert sofið um nóttina.
Hann var alvarlegur og svipþungur mjög.
Hann gekk nær Mylady, sem nú var sezt á stól
og tók í snöruna, sem Mylady ljet sjást á, annaðhvort
viljandi eða óviljandi.
„Hvað á þetta að þýða?“ spurði hann kuldalega.
„Ekki neitt!“ svaraði hún og brosti raunalega.
„Leiðindin eru fangans versti óvinur. Mjer leiddist og
bjó svo til þessa snöru að gamni mínu“.
Felton varð litið þangað, sem Mylady hafði staðið
uppi á stólnum og sá, að þar uppi yfir var krókur,
sem ætlaður var vopnum að hanga á. Það fór titringur
um hann og hún tók eftir því.
„Hvers vegna stóðuð þjer uppi á stólnum ?“ spurði
hann.
„Er yður nokkuð áríðandi að vita það?“ svaraði
hún.
„Jeg vil gjarna fá eitthvert svar“.
„Spyrjið mig ekki. Þjer vitið, að sannkristnar
manneskjur vilja ekki segja ósatt“.
„Nú-jæja!“ sagði Felton. „Þá skal jeg segja yður
hvað þjer voruð að gera eða ætluðuð að gera, rjettara
sagt. Þjer ætluðuð að framkvæma það, sem yður hefur
lengi búið í huga. En hugsið eftir því, að guð leggur
enn harðari hegningu við sjálfsmorði en lýgi“.
„Þegar guð sjer, að einhver manneskja verður fyrir
óverðskulduðu hatri og ofsóknum og að hún er svo
aðþrengd, að hún á ekki völ á öðru en sjálfsmorði eða
svívirðing, þá mun hann fyrirgefa sjálfsmorðið“, sagði
hún, „því að það er þá ekki annað en píslarvætti“.
„Þjer segið bæði ofmikið og oflítið. Talið greinilegar,
í öllum hamingjunnar bænum“.
„Ætti jeg að fara að segja yður frá allri óhamingju
minni, sem þjer munduð ekki einu sinni leggja
trúnað á? Ætti jeg að fara segja yður fyrirætlanir mínar,
svo að þjer gætuð undir eins farið með þær í hatursmann
minn? Nei, ónei, herra liðsforingi! Hvað
varðar yður um líf mitt eða dauða? Þjer eigið að eins
að standa skil á líkama mínum — eða er ekki svo?
Ef þjer getið sýnt lík, sem aðrir kannast við að sje
mitt lík, þá verðið þjer ekki spurður að fleiru og hljótið
sennilega ríkuleg laun fyrir“.
„Jeg“, sagði Felton. „Haldið þjer að jeg þiggi
nokkra blóðpeninga fyrir yður? Þjer vitið ekki, hvað
þjer eruð að segja“.
Látið mig fara mínu fram, kæri Felton“, sagði
Mylady æst. „Hermenn eiga að vera metnaðargjarnir
— er ekki svo? Nú eruð þjer liðsforingi — en þjer
munuð fylgja mjer til moldar sem höfuðsmaður“.
„Hvað hef jeg gert yður, að þjer skuluð vilja leggja
mjer þessa byrði á herðar?“ sagði Felton. „Þjer verðið
laus við mína varðgæzlu eftir nokkra daga, og þá
getið þjer farið að yðar eigin vilja og geðþótta“.
„Einmitt það!“ sagði Mylady af gremju mikilli.
„Þjer þykist vera vandaður maður og frómlundaður og
eruð samt ánægður, ef þjer sjálfur verðið ekki fyrir
neinum óþægindum eða aðkasti vegna dauða míns“.
„Mjer er skylt að vaka yfir lífi yðar og þeirri
skyldu ætla jeg mjer að gegna“.
„En hafið þjer þá fullan skilning á því, hvaða
verk þjer eruð að vinna? Það mætti kallast hræðilegt,
jafnvel þótt jeg væri sek, en hvað á að kalla það og
hvernig haldið þjer að Himnafaðirinn líti á það, ef jeg
væri nú sýkn saka“.
„Jeg er hermaður og mjer ber að hlýða því sem
mjer er fyrir lagt.
„Haldið þjer, að guð muni á degi dómsins gera
nokkurn mun á blinduðum böðlum og ranglátum dómurum?
Þjer viljið ekki, að jeg deyði líkamann, en
þjer gangið erindi hans, sem vill myrða sál mína“.
„En jeg hef margsagt yður, að þjer sjeuð ekki í
neinni hættu stödd. Jeg þori að ábyrgjast Winter lávarð
eins og sjálfan mig“.
„Ó, veslings blindaði maður!“ hrópaði Mylady.
„Þjer þorið að ábyrgjast aðra og vitið þó, að góðir
menn og guðhræddir þora naumast að ábyrgjast sjálfa
sig! Þjer gangið í lið með hinum volduga gegn hinum
vesala“.
„Það sem þjer eruð að dylga um, er óhugsanlegt“,
sagði Felton og fann, að hún hafði á rjettu að standa.
Þjer eruð fangi og getið ekki fengið frelsi yðar fyrir
minn tilverknað og jeg vil heldur ekki láta það viðgangast,
að þjer sviftið yður lífinu.
„En jeg verð svift því, sem mjer er dýrmætara en
lífið sjálft og það er sómi minn! Og jeg læt yður bera
ábyrgðina á skömm minni og svívirðingu“.
Þó að Felton væri staðfastur vel, eða ljetist vera
það, þá gat hann samt ekki í þetta skifti varizt áhrifum
þeim, sem hún þegar fyrir löngu hafði haft á hann.
Að horfa á þessa konu, fagra og bjartleita, að hlusta
á hana ýmist grátbiðjandi eða hótandi, að finna
áhrifin af fegurð hennar sem og sorg hennar og kvíða
— það var ofraun þessum viðkvæma draumlynda
manni, það var ofraun hjarta hans, sem vissulega elskaði
guð innilega, en bar jafnframt hatur til mannanna.
Mylady sá, í hverjum vanda hann var staddur og
vissi þegar, hvað honum var innan brjósts. Fór hún
að dæmi hygginna herforingja, er sjá, að óvinirnir taka
að hopa, og stóð nú upp til að nota sjer sigur sinn.
Hún líktist að fegurð hofgyðjum fornaldarinnar og
kristinni ungmey að guðmóði. Hún rjetti fram handlegginn,
hnepti frá hálsinum, ljet hárið falla niður,
gekk að honum með leiftrandi augum og tók að syngja
sálmvers mjög átakanlega með sinni hljómfögru rödd:
/*
Í ljónagryfju er látinn
og lagður á glóhvítt bál
píslarvottur — en iðran eykst
þá af er liðin hans sál.
*/
Felton stóð sem steini lostinn af undrun.
„Hver eruð þjer?“ hrópaði hann og fórnaði höndum.
„Eruð þjer send af himnum eða Helvíti, eruð
þjer engill eða ári? Eruð þjer Elóah eða Astarte?“
„Þekkir þú mig ekki, Felton? Jeg er hvorki engill
nje ári. Jeg er ekki annað en jarðnesk kona og
systir þín í trúnni“.
„Já, vissulega!“ sagði Felton. „Jeg var lengi í efa,
en nú trúi jeg“.
„Þú trúir — en samt ert þú í samfjelagi við þennan
Belíals son, sem Winter lávarður nefnist! Þú trúir — og
samt ofurselur þú mig fjandmönnum mínum, óvinum
guðs og Englands á vald! Þú trúir — og samt fær þú
mig honum í hendur, sem saurgar og svívirðir jörðina
með löstum og guðleysi, þessum níðingslega Sardanapal,
sem af andlega voluðum nefnist hertogi af Buckingham,
en Antikristur af öllum rjett-trúuðum“.
„Hvað eruð þjer að segja? Fæ jeg yður Buckingham
í hendur?“
„Þjer hafið augu og sjáið þó ekki — eyru og
heyrið þó ekki“, hrópaði Mylady.
Felton strauk hendinni um ennið, eins og til að
firra sig allri efasemi.
„Já, vissulega!“ sagði hann. „Jeg þekki þessa rödd
aftur — hún talar við mig í draumum mínum. Jeg kannast
við þennan engil, sem birtist mjer á hverri nóttu og hrópar
til sálar minnar, sem aldrei fær frið: Slá þú, bjarga þú
Englandi, bjarga þú sjálfum þjer — annars munt þú
deyja í ósátt við guð þinn! Talið þjer, segið þjer eitthvað
meira!“ hrópaði hann, „því að nú skil jeg yður“.
Það brá fyrir gleðiglampa í augum Mylady. Felton
tók eftir því og það var sem hann horfði í eitthvert
hyldýpi í huga þessarar konu.
Hann mintist nú alt í einu aðvarana Winters lávarðar
og blekkingatilrauna hennar og hann hopaði á
hæl og drap höfði án þess þó að líta af henni. Það
var eins og fegurð hennar töfraði hann og seiddi til sín.
Mylady sá strax, hvað honum leið og hjelt rósemi
sinni, þó að hún virtist vera í ákafri geðshræringu.
Hún ljet hendurnar falla í skaut sjer, eins og kvennlegur
veikleiki hennar hefði alt í einu lamað viljaþrek
hennar algerlega og sagði:
„Æ-nei! Jeg verð aldrei sú Júdít, sem losar England
við þennan Hólófernes, Sverð hins hæsta er of
þungt fyrir minn veika armlegg. Leyfið mjer því að
deyja til þess að fá umflúið smán mína, látið mig leita
hælis í píslarvættinu. Jeg bið yður hvorki um frelsi,
eins og sá mundi gera, sem vissi sig sekan, nje heldur
um hefnd, sem hinn vantrúaði mundi óska sjer.
Jeg bið yður að eins að fá að deyja — það er alt og
sumt. Jeg bið og grátbæni yður um það á knjám mínum.
Látið mig fá að deyja og mitt síðasta andvarp
skal vera blessun yfir velgerðamanni mínum!“
Felton gekk nær henni. Hann var heillaður af
þessari hljómþýðu, mjúklátu rödd og þessu munarklökka
augnaráði, en hún gerði ýmist, að varpa af
sjer eða íklæðast þessum töfrandi dýrðarljóma, sem hún
hafði til sinna umráða: fegurð, blíðu og tár — og fyrst
og fremst þessa dularfullu munaðarþrá, sem er skæðasta
vopn konunnar.
„Því miður get jeg að eins eitt“, sagði Felton og
stundi. „Jeg get kent í brjósti um yður, ef þjer getið
sannað, að þjer líðið saklaus. Winter lávarður ber þungar
sakir á yður. Þjer eruð kristin og systir mín í trúnni.
Mjer hefur aldrei þótt vænt um nokkurn mann nema
velgerðamann minn og jeg hefi aldrei fyrirhitt annað
meðal mannanna en svikara og guðleysingja og samt
laðast jeg að yður. En eitthvað hljótið þjer þó að hafa
misgert, fyrst að þjer, jafnlýtalaus eins og þjer virðist,
verðið fyrir ofsóknum af hendi Winters lávarðar“.
„Þjer hafið augu, og sjáið þó ekki — eyru og
heyrið þó ekki“, endurtók Mylady.
„Talið þjer greinilegar, fyrir alla muni“, sagði liðsforinginn.
„Ætti jeg að fara að trúa yður fyrir smán minni!“
sagði hún og brá fyrir feimnisroða í kinnum hennar.
Glæpur eins er oft og tíðum smán annars, og svo ætti
jeg, kvennmaðurinn, að fara að trúa karlmanni fyrir
vansæmd minni! Nei, það get jeg ekki, þó jeg ætti lif
mitt að leysa“.
„Þjer getið sagt mjer það, trúbróður yðar“, sagði
Felton.
Mylady horfði lengi á hann, eins og hún væri á
báðum áttum og ætti í baráttu við sjálfa sig.
„Nú-jæja!“ sagði hún. „Jeg skal tala við yður eins
og bróður minn“.
Í sama bili heyrðu þau fótatak Winters lávarðar,
en í þetta skifti ljet hann sjer ekki nægja að ganga
fram hjá dyrunum. Hann staðnæmdist og talaði eitthvað
við varðmanninn, svo opnuðust dyrnar og hann
gekk inn.
Felton hafði fært sig til og stóð nú all-langt frá
fanganum þegar lávarðurinn kom inn. Hann leit á þau
bæði og sagði svo:
„Þjer eruð búinn að vera hjerna býsna lengi, Jón,
en ef Mylady hefur verið að rekja glæpaferil sinn fyrir
yður, þá skal mig ekki undra, þó að dregist hafi í
tímann“.
Felton hrökk við og Mylady sá, að nú var alt í
veði, ef hún kæmi honum ekki til hjálpar.
„Þjer eruð vist hræddur um, að fanginn gangi yður
úr greipum“, sagði hún. „Það er þá bezt að þjer
spyrjið fangavörðinn, hvers jeg hef verið að biðja hann“.
„Var hún að biðja yður einhvers, Felton?“ spurði
lávarðurinn.
„Já, herra lávarður“, svaraði Felton.
„Og hvað var hún að biðja um?“
„Hún bað mig um að lána sjer hníf og sagðist skyldi
fá mjer hann strax aftur út um gatið á hurðinni“,
svaraði Felton.
„Það leynist þá eflaust einhver hjer inni, sem þessi
gæðakona æt1ar að myrða“, sagði lávarðurinn.
„Já, jeg er hjer“, svaraði Mylady.
„Þjer getið valið um Ameríku eða Tyburn“, sagði
lávarðurinn. „Þjer ættuð heldur að kjósa Tyburn“, kæra
mágkona, því að hengingarólin er miklu áreiðanlegri
en hnífurinn“.
Felton brá litum. Hann mundi nú eftir því, að
hann hafði sjeð Mylady halda á snöru í hendinni, þegar
hann kom inn til hennar.
„Þjer hafið rjett að mæla“, sagði hún. „Annars
var jeg búin að hugsa mjer það áður. Það verða auðvitað
endalokin“, bætti hún við eins og hún væri að
tala við sjálfa sig.
Það fór hrollur um Felton og tók lávarðurinn víst
eftir því, því að nú sagði hann:
„Gættu vel að þjer, Jón. Jeg reiði mig á þig, en
annars þarftu engu að kvíða, kæri vin. Við verðum
lausir við hana eftir þrjá daga og þá sendi jeg hana þangað,
þar sem hún getur engum unnið mein“.
„Þú heyrir það!“ hrópaði Mylady, en þannig að
lávarðurinn hlaut að skilja það svo, sem hún væri að
ákalla guð. Hins vegar vissi Felton, að orðin voru til
hans töluð.
Lávarðurinn tók liðsforingjann við hönd sjer og
gengu þeir svo burt.
„Mjer hefur þá ekki orðið eins mikið ágengt og jeg
hjelt“, sagði Mylady við sjálfa sig þegar þeir voru farnir.
„Mjer hefur ekki þótt Winter stíga í vitið hingað til,
en nú er hann orðinn hygginn og kænn. Ja, það er
ekki að spyrja að hatri og hefnigirni — það hvorttveggja
getur algerlega umbreytt hverjum manni! En
Felton er enn á báðum áttum. Hann er eitthvað öðru
vísi en þessi bölvaður d'Artagnan. Púritanar elska ekki
annað en dýrlinga og dýrka þá með upplyftum höndum,
en skyttuliðar elska konur og vefja þær örmum!“
Hún beið nú átekta með mikilli óþreyju, því að
hún bjóst við, að Felton mundi koma aftur einhvern
tíma dagsins. Loksins heyrði hún þá líka, að hvíslast
var á fyrir framan dyrnar og opnaði Felton þær litlu
síðar. Hann gekk hvatlega um, ljet dyrnar standa opnar
og benti Mylady að hafa hljótt um sig. Hann var
mjög órólegur að sjá.
„Hvað viljið þjer mjer?“ spurði hún.
„Heyrið nú“, sagði Felton lágt. „Jeg sendi varðmanninn
burt, svo að enginn viti, að jeg sje hjer inni
og til þess að geta talað við yður, án þess að neinn
standi á hleri. Lávarðurinn var einmitt að segja mjer
hræðilega sögu“ .
Mylady brosti raunalega og hristi höfuðið.
„Annaðhvort eruð þjer sjálfar óvinur mannkynsins,
eða þá að lávarðurinn — velgerðamaður minn —
er einstök mannfýla“, sagði Felton. „Það eru að eins
fjórir dagar, síðan að jeg kyntist yður, en jeg hef virt
hann og elskað í tvö ár. Þjer getið því skilið það, að
jeg eigi úr vöndu að ráða. En verið þjer nú óhrædd
— jeg þarf að geta sannfærst. Jeg kem aftur til yðar í
nótt og þá verðið þjer að sannfæra mig“.
„Nei, Felton — nei, bróðir minn!“ svaraði hún.
„Það er of mikið lagt í sölurnar og jeg veit, hvað það
kostar yður. Jeg er glötuð manneskja, en þjer megið
ekki steypa yður í glötunina líka. Dauði minn mun
segja yður meira en æfisaga mín og þögull nárinn mun
sannfæra yður betur en orð hins lifandi fanga“.
„Talið þjer ekki svona!“ hrópaði Felton. „Jeg
kom til þess að fá yður til að lofa mjer því upp á
æru og trú og sverja það við alt sem heilagt er, að
þjer skuluð ekki svifta yður lífinu“.
„Jeg vil engu lofa“, svaraði hún, „því að enginn
virðir gefið loforð meira en jeg. Ef jeg lofaði því, yrði
jeg líka að standa við orð mín“.
„Nú-jæja!“ sagði Felton, „en lofið mjer samt þessu
þangað til jeg kem aftur. Ef þjer verðið þá sama sinnis,
þá skal jeg veita yður frelsið og lána yður sjálfur
hnífinn, sem þjer báðuð um“.
„Jeg skal gera það fyrir yðar orð, að bíða“, svaraði
hún.
„Ætlið þjer að sverja það?“
„Seg sver það við Hann, sem er uppi yfir okkur
báðum. Nægir yður það?“
„Það er gott“, sagði Felton. „Við sjáumst aftur
í nótt“.
Hann flýtti sjer út, lokaði hurðinni á eftir sjer og
tók atgeir varðmannins í hönd sjer, eins og hann
ætlaði að standa á verði sjálfur, en fjekk dátanum atgeirinn,
þegar hann kom aftur.
Mylady stóð við gatið á hurðinni og sá, að Felton
gerði krossmark fyrir sjer og gekk því næst fram
ganginn glaður í bragði. Hún settist í sæti sitt aftur.
„Slíkt og þvílíkt ofstæki!“ tautaði hún fyrirlitlega.
„En hann skal samt koma fram hefnd minni!“
VII. Fimti fangadagurinn.
Mylady fanst að nú væri hálfur sigur fenginn og
jókst henni kjarkur við það.
Það var vandalaust að sigra þá, sem hún hingað
til hafði átt í höggi við. Þeir voru næsta auðunnir,
enda hafði hirðvist þeirra gert þá fremur lina í sóknum.
Þeir voru fæstir, sem stóðust líkamsfegurð hennar
og andlegt atgervi hennar var slíkt, að hún stóð engum
að baki, hvað það snerti.
En hjer var við dulan og þunglyndan mann að
eiga, sem var orðinn svo hertur af ofstæki og meinlætingum
líkamans, að alment tál og blekkingar bitu
ekki á hann. Heili hans var svo æstur og loftkastalar
hans og skýjaborgir svo feikilegar, að ekkert ástabrall
eða neitt þess háttar komst þar að. Hjer var verkefni,
sem Mylady varð að beita allri sinni lævísi og kænsku
til að ráða við og hjer nutu líka þessir hæfileikar hennar
sín til fulls.
Mylady var mjög óþreygjufull og fanst tíminn
lengi að líða. Klukkan níu um kvöldið kom Winter lávarður,
aðgætti gluggann og járngrindurnar fyrir utan
hann, skoðaði gólf og veggi, gægðist inn í eldstóna og
leit eftir dyrunum, en hvorugt mælti orð á meðan. Var
nú auðsætt, að báðum þótti málinu komið í það horf,
að ekki væri eyðandi að því óþarfa orðum.
„Ekki skuluð þjer heldur fá færi á að flýja í nótt“,
sagði lávarðurinn um leið og hann fór.
Klukkan tíu kom Felton og gekk á vörð við dyrnar.
Nú kunni hún tökin á honum, en samt fyrirleit
hún þennan ofstækismann og hafði andstygð á honum.
Ekki kom hann samt inn að svo stöddu.
Tveimur tímum seinna, klukkan 12, var skift um
vörð.
Nú var tíminn kominn og elnaði Mylady óþolinmæðin
um allan helming.
Nýi vörðurinn fór að ganga fram og aftur á ganginum
og eftir tíu mínútur kom Felton.
„Heyrðu“, sagði hann við vörðinn. „Þú mátt ekki
fara eitt fet frá þessum dyrum undir neinum kringumstæðum.
Þú veizt, að vörðurinn, sem var hjer í nótt,
sem leið, varð hart úti af því að hann gekk rjett sem
snöggvast af verðinum og stóð jeg þó á verði fyrir
hann á meðan“.
„Já, jeg veit það“, svaraði dátinn.
„Þú verður að gæta vel að. Jeg ætla nú inn til
fangans og rannsaka herbergið. Jeg er hræddur um,
að hún ætli að granda sjer og hef jeg fengið skipun
um að varna henni þess“.
Varðmaðurinn brosti.
„Þjer eigið svei mjer gott, herra liðsforingi“, sagði
hann. „Það væri gaman að eiga slíkt verk fyrir höndum,
einkum ef lávarðurinn hefur skipað að gæta vel
að rúminu hennar“.
Felton roðnaði og mundi hafa sett ofan í við varðmanninn
fyrir þessa keskni, hefði öðru vísi staðið á,
en samvizka hans var ekki svo hrein, að hann vildi
skifta sjer af þessu í þetta sinn.
„Þú verður strax að koma, ef jeg kalla“, sagði
hann „og segja mjer undir eins til ef einhver kemur“.
„Það skal gert, herra liðsforingi!“
Felton gekk nú inn til Mylady.
„Þarna komið þjer þá“, sagði hún.
„Jeg efni bara loforð mitt um að koma aftur“,
svaraði hann.
„Já, en þjer lofuðuð mjer líka öðru“.
„Hverju þá? Ó, hamingjan góða!“ sagði hann og
hljóp út um hann kaldur sviti.
„Þjer lofuðuð að færa mjer hníf og skilja hann
eftir hjá mjer, þegar við hefðum lokið samtali okkar“.
„Minnist þjer ekki á það“, sagði Felton. „Það er
ekki svo hræðilegt böl til í þessum heimi, að nokkur
manneskja hafi rjett til að svifta sig lífinu. Jeg hef sjeð
mig um hönd og mun aldrei gera mig samsekan í
slíkri óhæfu“.
„Jæja, þjer hafið sjeð yður um hönd“, sagði Mylady
brosandi og settist. „Það hef jeg líka gert — jeg
hef líka sjeð mig um hönd“.
„Með hvað?“
„Jeg hef komist að þeirri niðurstöðu, að það sje
hyggilegast að segja þeim manni ekkert, sem ekki
stendur við orð sín“.
„Hvaða ósköp eru að heyra til yðar“, sagði Felton.
„Þjer getið alveg eins farið undir eins“, sagði hún,
„því að jeg segi yður ekkert, hvort sem er“.
„Hjerna er hnífurinn“, sagði hann og tók hann
upp úr vasa sínum.
„Má jeg líta á hann?“ spurði hún.
„Til hvers ætlið þjer hann?“
„Jeg skal fá yður hann undir eins aftur. Þjer getið
lagt hann á borðið hjerna og staðið milli mín og
hans“.
Felton rjetti henni hnífinn, en hún skoðaði hann
nákvæmlega og reyndi oddinn á fingrinum.
„Hann bítur ágætlega“, sagði hún og fjekk honum
hann aftur. „Þjer eruð tryggur vinur, Felton“.
Felton tók við hnífnum og ljet hann á borðið.
„Ætlið þjer nú að hlusta á mig?“ spurði hún.
Þetta var nú óþörf spurning. Liðsforinginn stóð
þarna frammi fyrir henni og leit út eins og hann ætlaði
að gleypa hvert orð, sem hún sagði.
„Felton“, sagði hún raunalega og jafnframt hátíðlega.
Hvað ætli að yður yrði við, ef systir yðar, dóttir
föður yðar, talaði þannig til yðar: Þegar jeg var ung
og — því miður — fríð voru lagðar fyrir mig tálsnörur,
en jeg streittist á móti. En óvinur minn fjölgaði
tálsnörunum, hafði í frammi hótanir og ofbeldi og jeg
varðist enn sem fyr. Hann hæddi trú mína og spottaði
þann guð, sem jeg tilbið og er mitt eina skjól og
athvarf, en samt stóðst jeg. Þá beittu óvinirnir ofbeldi
og ætluðu að svívirða líkama minn þegar þeir gátu ekki
eyðilagt sálina og að lokum —“
Mylady þagnaði og brosti napurlega.
„Að lokum — — endurtók Felton.
„Að lokum afrjeðu þeir að lama mótstöðuafl mitt
með brögðum. Kvöld eitt var drykkur minn blandaður
sterku svefnlyfi. Þegar jeg hafði matast, færðist yfir
mig undarlegur drungi og þó að mig grunaði ekki,
hvað í efni væri, greip mig þó hræðsla og reyndi jeg
af öllum mætti að verjast svefni. Jeg reis á fætur og
stökk út að glugganum til þess að kalla á hjálp, en
riðaði á fótunum. Mjer fanst loftið ætla að detta ofan
á mig og kremja mig í sundur með þunga sínum. Jeg
baðaði út höndunum og reyndi að tala, en gat engu
orði komið upp. Það sótti mig ósigrandi svefn, jeg
hjelt mjer í stól af því mjer fanst að jeg ætla að detta,
en svo gat jeg það ekki heldur og kiknaði í knjáliðunum.
Jeg ætlaði að biðjast fyrir, en ekki gat jeg það
og svo hnje jeg niður á gólfið yfirbuguð af óviðráðanlegum
svefni.
Jeg veit ekkert hvað gerðist allan þann tíma, sem
jeg svaf. Það eina, sem jeg man, er það, að jeg vaknaði
í afarskrautlegu herbergi, sem fjekk birtu sína gegnum
þakglugga. Ekki gat jeg sjeð neinar dyr á því —
það var eins konar fangelsi.
Jeg var lengi að átta mig á því, hvar jeg væri og
mjer fanst þessum svefndrunga aldrei ætla að ljetta af
mjer. Eitthvað rámaði mig í að hafa setið eða legið
í vagni og líka, að mig hefði dreymt einhvern
hræðilegan draum og liðið afarilla í svefninum.
En alt var þetta í þoku fyrir mjer, eins og það
hefði borið við í einhverri annari tilveru, en stæði þó
í sambandi við þessa tilveru mína.
Þannig leið langur tími, að mjer fanst þetta alt
saman hljóta að vera einhver illur draumur. Jeg reis
upp riðandi og skjálfandi. Föt mín lágu á stól fyrir
framan rúmið, en jeg mundi ekkert eftir því, að jeg
hafði háttað eða lagst fyrir. Smám saman varð mjer
það þó ljóst, mjer til mikillar skelfingar, að jeg var í ókunnugu
húsi. Eftir sólinni að dæma, var farið að halla
af degi og hafði jeg þá sofið heilan sólarhring — en
hvað hafði gerst á meðan?
Jeg klæddist í snatri, en var eins og lurkum lamin
eftir þennan ónáttúrlega svefn. Herbergið var auðsjáanlega
ætlað kvennmanni og útbúnaður allur hinn
prýðilegasti.
Það var auðsjeð á öllu, að jeg var ekki fyrsti fanginn,
sem hjer hafði dvalið, en allur þessi skrautlegi
útbúnaður gerði mig hrædda.
Þetta var eins konar fangelsi og ekkert annað, því
að mjer var ómögulegt að komast út. Jeg þreifaði um
veggina hátt og lágt, til þess að reyna að finna einhverjar
dyr, en sú leit varð árangurslaus. Jeg margreyndi
þetta, en það kom fyrir ekki og hnje jeg loksins
máttvana niður á stól.
Loks var komið fram undir nótt og varð jeg æ
hræddari. Jeg vissi ekki, hvort jeg ætti að sitja kyr á
stólnum og mjer fanst jeg vera umkringd af óteljandi óþektum
hættum. Ekki hafði jeg smakkað mat síðan daginn
áður, enn fann þó ekki til svengdar sökum hræðslunnar.
Ekki heyrðist nokkurt hljóð og ekkert vissi jeg
hvað tímanum leið, en ímyndaði mjer að klukkan
mundi vera eitthvað um átta, því að þetta var í Nóvember
og orðið koldimt úti.
Alt í einu hrökk jeg upp við það, að jeg heyrði,
að hurð var opnuð. Bjart ljós skein inn um þakgluggann
og mjer til skelfingar sá jeg, að karlmaður stóð
rjett hjá mjer.
Í einu vetfangi stóð borð á miðju gólfi og á því
matur handa tveimur.
Maður sá, sem hjá mjer stóð, var sami maðurinn,
sem ofsókt hafði mig í heilt ár, sem svarið hafði að
svívirða mig og ljet mig þegar skilja á fyrstu orðunum,
sem hann sagði, að hann hefði þegar framkvæmt
sitt djöfullega athæfi nóttina áður.
„Þvílík mannfýla!“ sagði Felton.
„Já, mannfýla!“ endurtók Mylady og gladdist af
því að sjá, með hve mikilli athygli Felton fylgdi sögu
hennar. „Þetta þrælmenni hjelt auðsjáanlega, að nú væri
sigurinn unninn. Hann vonaðist eftir, að jeg mundi
sætta mig við það, sem orðið var og bauð mjer auðlegð
sína til umbunar fyrir ást mína.
Jeg svaraði honum með allri þeirri hæðni og fyrirlitningu,
sem rúmast getur í huga kvennmannsins,
en hann virtist vera vanur slíkum góðgerðum, því að
hann stóð kyr með krosslagðar hendur og hlustaði brosandi
á mig. Hann færði sig nær mjer, þegar hann
hjelt, að jeg hefði lokið máli mínu, en jeg stökk að
borðinu, greip þar hníf og setti hann á brjóst mjer.
„Ekki eitt fet lengra!“ hrópaði jeg, „því að þá skal
eigi að eins smán mín, heldur og blóð mitt koma yfir
yður!“
Það var eitthvað í fasi mínu og orðum, sem hafði
áhrif á hann. Hann stóð kyr.
„Blóð yðar!“ svaraði hann. „Nei, þjer eruð sannarlega
yndislegri en svo, að jeg vilji missa yður á þann
hátt, fyrst að jeg hef komist yfir yður á annað borð.
Verið þjer sælar, ljúfan mín! Jeg bíð þangað til að
þjer verðið í betra skapi“.
Að svo mæltu tók hann upp pípu og blístraði.
Ljósið hvarf alt í einu og jeg, var ein í myrkrinu, því
að jeg heyrði að gengið var um dyrnar og þeim lokað
aftur.
Þetta var óttalegt! Nú var öll von úti! Jeg var
komin í klærnar á þeim manni, sem jeg hataði og
fyrirleit, sem trúandi var til alls og þegar hafði fært
mjer hræðilega sönnun fyrir því, við hverju mætti búast
af honum“.
„Hver var þessi maður?“ spurði Felton.
„Jeg sat á stólnum alla nóttina og hrökk í kúðung,
hvað lítið sem heyrðist, en svo leið nóttin, að ekkert
bar til tíðinda. Þegar fór að lýsa af degi, sá jeg, að
borðið var horfið, en jeg hjelt enn þá á hnífnum í
hendinni. Hnífurinn var mitt eina traust.
Jeg var orðin úrvinda af þreytu og svefni, því
að ekki þorði jeg fyrir mitt líf að sofna um nóttina.
Dagsbirtan gerði mig rólegri og lagði jeg mig á rúmið
en stakk hnífnum undir koddann.
Þegar jeg vaknaði stóð borðið aftur á miðju gólfi
og matur á. Jeg var nú banhungruð orðin, þrátt fyrir
hræðsluna, enda hafði einskis neytt í tvo sólarhringa.
Jeg borðaði dálítið af brauði og ávöxtum, en forðaðist
að smakka vatnið, vegna þess, sem á undan var farið,
heldur fjekk jeg mjer vatn úr marmaraskálinni, sem
stóð á þvottaborðinu. Samt var jeg dauð hrædd við
það um stund, en í þetta skifti var hræðsla mín ástæðulaus
og jeg fann ekki til neins svefnsdrunga.
Jeg gætti þess að hella nokkru úr vatnsflöskunni,
svo að ekki liti út fyrir, að mig hefði grunað neitt.
Dagur leið að kvöldi og tók að dimma, en jeg
var nú farin að venjast myrkrinu. Jeg sá að borðið
hvarf ofan um gólfið, en kom nokkru síðar upp aftur
og á því kvöldverður minn. Nú var líka kveykt ljós,
svo að birta var nóg.
Jeg ásetti mjer að borða ekkert annað en það,
sem jeg hjelt, að engin svefnlyf gætu leynst í. Borðaði
jeg því ekki annað en tvö egg og nokkra ávexti og
drakk vatn úr marmaraskálinni.
En nú fanst mjer vatnið vera öðruvísi á bragðið,
en um morguninn. Jeg drakk þá ekki meira af því,
en var þá þegar búin úr hálfu glasi. Varð jeg þá dauð
hrædd og skvetti því burt, sem eftir var í glasinu, en
beið svo átekta og svitnaði af angist.
Sjálfsagt hafði einhver tekið eftir því, að jeg drakk
úr marmaraskálinni og notað sjer það til þess að geta
haldið áfram þeim illverknaði, sem mjer var fyrirbúinn.
Jeg fór að finna til áhrifa svefnlyfsins innan lítillar
stundar, en gat nú varist lengur, af því að jeg hafði
drukkið svo lítið og sofnaði ekki til fulls. Jeg fjell í
einhvern dvala og vissi hvað gerðist í kringum mig,
en var svo máttfarin, að jeg gat ekki varið mig og
lítið hreyft mig.
Jeg stóð upp og ætlaði að skjögrast að rúminu til
þess að ná í hnífinn, sem nú var mín eina vörn, en
komst ekki svo langt. Jeg hnje niður á gólfið og greip
um rúmstuðulinn og vissi þá, að nú var úti um mig“.
Felton brá litum og fór titringur um hann allan.
„En hræðilegast af öllu var það, að nú vissi jeg
um hættuna, sem yfir mjer vofði“, hjelt Mylady áfram
með titrandi rödd, eins og hún væri yfirkomin af geðshræringu.
„Sálin vakti þótt líkaminn lægi í dauðamóki.
Jeg bæði sá og heyrði, og var þetta raunar líkast einhverjum
draumi, en jafn skelfilegt fyrir því. Jeg sá, að
ljósið hvarf og aldimt varð og svo heyrði jeg, að dyrnar
voru opnaðar.
Jeg fann á mjer, að einhver kom inn og var sú
tilfinning líkust því, sem sagt er að grípi einbúann í
frumskógum Ameríku þegar höggormur er í nánd —
— Jeg reyndi að rísa upp og hljóða, en fjell aftur á
bak — í fangið á kvalara mínum“.
„Segið mjer nú, hver þessi maður var“, greip Felton
fram í.
Mylady sá, að hann kvaldist beinlínis af hverju
einstöku í frásögn hennar, en hún ætlaði sjer ekki að
hlífa honum. Þess meira, sem honum gramdist, þess
vissari var hún um, að hann mundi hefna sín. Hún
ljet því sem hún heyrði ekki spurningu hans og hjelt
áfram frásögunni. Henni þótti ekki kominn tími enn
til að svara honum.
„En í þetta skifti var það ekki máttvana og hálfdauð
manneskja, sem þrælmennið var að fást við. Að
vísu var jeg ekki með fullri meðvitund, en vissi þó
greinilega um hættuna, sem ógnaði mjer. Jeg varðist
af alefli og hef víst veitt allmikla mótstöðu, þó að jeg
væri mjög máttfarin, því að jeg heyrði, að hann sagði:
„Þessir fjandans Púritanar! Víst vissi jeg, að þeir
geta gert sjálfan böðulinn hálf ráðþrota, en jeg hjelt
ekki, að þeir berðust svona á hæl og hnakka út af
öðru eins og þessu“.
En jeg gat ekki varist til lengdar og fann, að kraftarnir
dvínuðu. Og nú var það ekki svefninn, heldur
skyndilegt yfirlið, sem fanturinn notaði sjer“.
Felton kurraði, en sagði ekki nokkurt orð. Honum
spratt sveiti af enni og hann krepti hnefann.
„Það fyrsta, sem mjer datt í hug, þegar jeg raknaði
við, var að þreifa eftir hnífnum undir koddanum.
Þó hann hefði ekki orðið mjer til varnar í þetta skifti,
þá gat jeg notað hann til annars — gegn sjálfri mjer.
En um leið og jeg tók hnífinn, greip mig hræðileg
hugsun. Jeg hef lofað að segja yður alt, og það
skal jeg líka gera. Jeg hef lofað að segja yður sannleikann
og við það skal jeg standa, jafnvel þótt
það kunni að verða mjer til falls“.
„Yður datt í hug að hefna yðar á manninum —
var ekki svo?“ spurði Felton.
„Jú“, svaraði Mylady. „Veit jeg vel, að sú hugsun
var ósamboðin kristinni manneskju, en óvinur sálarinnar,
sem gengur um eins og grenjandi ljón, hefur
líklega blásið mjer þeirri hugsun í brjóst. Ja, hvað á
jeg að færa mjer til afsökunar? Þessum ásetningi skaut
upp í huga mínum, án þess að jeg gæti varist því og
þess geld jeg nú“.
„Haldið þjer áfram í öllum bænum“, sagði Felton.
„Mig langar ákaflega til að heyra, hvað svo
gerðist“.
„Jeg ásetti mjer sð koma fram hefnd minni sem
allrafyrst og efaðist ekki um, að jeg mundi fá tækifæri
til þess þegar kvöldið eftir. Jeg taldi víst, að hann
kæmi þá aftur, en að deginum til þurfti jeg ekkert að
óttast.
Jeg vílaði ekki fyrir mjer að borða morgunmatinn
og drekka eftir þörfum, en kvöldmatinn ætlaði jeg
ekki að snerta nema rjett til málamynda og láta mjer
morgunverðinn nægja bæði til dagsins og næturinnar.
Samt geymdi jeg mjer vatn í glasi, því að jeg mintist
þess, hve þorstin hafði kvalið mig þegar jeg fjekk
hvorki vott nje þurt í tvo sólarhringa.
Dagurinn leið og ásetningur minn varð æ fastari
með hverjum tímanum, en jeg gætti þess vel, að láta
það ekki sjást á svip mínum, hvað mjer bjó í brjósti,
því að jeg var sannfærð um, að einhver var á gægjum,
en samt gat jeg ekki að mjer gert að brosa við og við.
Jeg þori ekki að segja yður Felton, að hverju jeg var
að brosa — yður mundi ofbjóða það“.
„Haldið þjer áfram“, sagði Felton. „Jeg fylgi frásögn
yðar með mestu athygli“.
„Kvöldið kom og alt fór eins og áður. Kvöldverðurinn
var látinn inn, ljósið kveykt og jeg settist að
borðinu, en borðaði ekki annað en fáeina ávexti. Jeg
ljet sem jeg tæki vatn úr vatnsflöskunni, en drakk auðvitað,
að eins það, sem jeg hafði geymt mjer og fór
jeg svo klókindalega að þessu, að enginn njósnari
mundi hafa grunað mig.
Nokkru eftir að máltíðinni var lokið, fann jeg til
sömu drunga-einkennanna sem kvöldið áður. Jeg ljet
sem jeg væri yfirkomin af þreytu eða farin að venjast
hættunni, skjögraðist að rúminu, háttaði og lagðist
út af.
En nú náði jeg mjer í hnífinn, hjelt honum rígfast
og ljet sem jeg svæfi.
Svona liðu tveir tímar og bar ekkert nýrra við.
Jeg fór jafnvel að verða hálf hrædd um, að hann ætlaði
alls ekki að koma.
Loksins sá jeg að ljósið var slökt og varð kolamyrkur.
Jeg gat ekkert sjeð, en reyndi með öllu móti
að gera mjer grein fyrir því, sem gerðist. Enn liðu
tíu mínútur og heyrði jeg ekkert nema minn eigin
hjartslátt.
Loks heyrði jeg þrusk við dyrnar og voru þær
opnaðar og þeim lokað aftur. Því næst heyrði jeg að
læðst var eftir gólfinu og einhver nálgaðist rúmið“.
„Áfram“, sagði Felton. „Hvert einasta orð særir
mig eins og hárbeitt sverð“.
„Jeg tók í mig allan þann kjark, sem mjer var
mögulegt“, hjelt Mylady áfram, „því að nú var tími
hefndarinnar kominn, eða öllu heldur maklegra málagjalda.
Jeg reis hægt upp og tók fast um hnífskaftið og
þegar hann kom með útbreidda arma og ætlaði að
faðma mig að sjer, rak jeg hnífinn af alefli í brjóst
honum.
En þessi níðingur var við öllu búinn. Hnífurinn
rakst í panzara, sem hann bar innan klæða.
„Skoðum til!“ sagði hann, þreif um handleggi
mína og sneri hnífinn úr höndum mjer. „Þjer sækist
eftir lífi mínu og það er verra en hatur, því að það
er vanþakklæti. En verið þjer róleg, barnið gott! Jeg
hjelt að þjer væruð orðin gæfari. Jeg er ekki svo harðúðugur,
að jeg beiti ofbeldi við konur og var svo grunnhygginn
að halda, að þjer elskuðuð mig, en nú er jeg
sannfærður um, að svo er ekki. Á morgun skuluð
þjer fá frelsi yðar“.
Jeg óskaði þess eins, að hann gerði út af við mig.
„Varið yður!“ sagði jeg. „Frelsi mitt yrði sama
og vansæmd yðar“.
„Hvað eigið þjer við?“
„Jeg ljóstra öllu upp óðara en jeg er orðin frjáls
aftur — segi öllum frá fangavist minni, frá ofbeldi því
og svívirðingu, sem þjer hafið sýnt mjer og frá þessari
gróðrarstíu lastanna og forsmánarinnar. Þjer eruð
að vísu voldugur, herra lávarður, en þó eru aðrir yður
voldugri. Konungurinn er yður æðri og guð æðri
konunginum“.
Þó að sjálfsstilling hans væri mikil, gat hann samt
ekki leynt reiði sinni. Jeg gat ekki sjeð framan í hann,
en jeg fann að handleggur hans titraði.
„Þá sleppi jeg yður ekki hjeðan“, sagði hann.
„Nú-jæja“, svaraði jeg. „Jeg hef orðið að þola
hjer þær raunir, að jeg get eins vel dáið hjer og þjer
skuluð fá að reyna, hvort að hefnandi svipur er ekki
enn hræðilegri en hatur og hótanir lifandi manns“.
„Þjer hafið ekkert vopn og fáið það ekki“.
„Samt er eitt vopn til, sem örvilnanin rjettir hverjum
þeim, er hefur kjark til að nota sjer það. Jeg svelti
mig til bana“.
„Heyrið nú!“ sagði þrælmennið. „Er nú ekki
betra að kjósa frið en að halda þessu til streytu? Þjer
getið fengið frelsi yðar þegar í stað og jeg skal kunngera
öllum mönnum, að þjer sjeuð dygðin sjálf og
skírlífasta mærin á öllu Englandi!“
„Og jeg skal bera það út, að þjer sjeuð argasti
fúllífisseggur á öllu Englandi. Jeg skal bera yður þann
vitnisburð í allra manna áheyrn, jafnvel þótt það kosti
líf mitt“.
„Þá er öðru máli að gegna“, sagði hann háðslega.
„Það fer nú annars ágætlega um yður hjerna og yður
skortir ekkert, svo að það verður yður sjálfri að kenna,
ef þjer sveltið til bana“.
Að svo mæltu gekk hann burt og lokaði dyrunum
á eftir sjer. Þar stóð jeg ein eftir og skal jeg játa,
að gremja mín yfir því, að hafa ekki getað komið fram
hefnd minni, var öllu meiri en hrygð mín og hugarangur.
Hótanir hans voru ekki orðin tóm, því að ekki
kom hann aftur allan þann dag eða næstu nótt. En
jeg hjelt líka fast við áform mitt og neytti hvorki matar
nje drykkjar og var staðráðinn í því að svelta til
bana, eins og jeg sagði honum.
Nóttina þar á eftir voru dyrnar opnaðar. Jeg lá
á gólfinu og þvarr afl mitt óðum, en reis upp á olboga,
þegar jeg heyrði umganginn.
„Núnú!“ sagði hann. „Eruð þjer nú orðin svolítið
viðráðanlegri? Ætlið þjer að lofa þögn og hagmælsku
gegn því að fá frelsi yðar? Jeg vil yður ekkert ilt.
Að sönnu er mjer lítið gefið um Púritana, en ann
þeim þó sannmælis, ekki sízt laglegum Púritana-stúlkum.
Sverjið þjer þetta við þann heilaga kross — annað
fer jeg, ekki fram á“.
„Við þann heilaga kross!“ hrópaði jeg og reis upp,
því að geðshræring mín veitti mjer nýja krafta. „Nei,
það skal aldrei verða! En hitt sver jeg, að engin loforð,
engar hótanir og engar píslar skulu aftra mjer frá
að segja, það sem mjer býr í brjósti. Jeg sver það, að
hvað sem um mig verður og hvar sem jeg fer, skal
jeg úthrópa yður sem morðingja, æruþjóf og afhrak
allra manna. Jeg sver að krefjast þess, ef jeg nokkurn
tíma slepp hjeðan, að yður verði goldin makleg málagjöld“.
„Gætið yður!“ sagði hann ógnandi. „Jeg veit ráð
enn, sem jeg vil þó ekki grípa til fyr en í nauðir rekur,
en nægir til að þagga niður í yður, eða að minsta
kosti til þess, að enginn trúi nokkru orði, sem þjer
segið“.
Jeg harkaði af mjer eins og jeg gat og rak upp
skellihlátur.
„Heyrið þjer nú“, sagði hann. „Jeg gef yður umhugsunarfrest
það sem eftir er af þessari nótt og á
morgun. Ef þjer þá lofið mjer að þegja yfir þessu, þá
skal yður hlotnast auður og upphefð og jafnvel völd
og metorð, en ef þjer hótið enn að ljóstra öllu upp, þá
munuð þjer af því hljóta ævarandi smán og svívirðing“.
„Ætlið þjer að gera mjer smán og svívirðing —
þjer?“
„Já, jeg!“ endurtók hann.
„Svona farið þjer nú!“ sagði jeg. „Farið frá mjer,
ef þjer viljið ekki verða til þess, að jeg roti mig við
þilið hjerna“.
„Gott og vel“, sagði hann, „Við sjáumst aftur annað
kvöld“.
„Já, annað kvöld“, svaraði jeg og hnje niður á
gólfið.
Felton var orðið svo mikið um þetta, að hann
varð að styðja sig við borðið og var Mylady afarhróðug
yfir áhrifum þeim, sem frásögn hennar hafði á hann.
VIII. Gamalt bragð.
Mylady þagði um stund og horfði á áheyranda
sinn, en hóf svo aftur frásögn sína á þessa leið:
„Nú líðu svo þrír dagar, að jeg smakkaði hvorki
vott nje þurt og tók jeg út hræðilegar kvalir. Stundum
sortnaði mjer fyrir augum, svo að jeg gat ekkert greint
í kringum mig og hjelt jeg, að jeg væri að verða vitstola.
Dagur leið að kvöldi og fjekk jeg aðsvif hvað eftir
annað og bjóst við, að jeg mundi þá og þegar deyja“.
Í einu þessu aðsvifi heyrði jeg, að dyrnar voru
opnaðar og varð svo hrædd, að jeg raknaði við og
heyrði að maður kom inn.
Hann bar grímu fyrir andliti og var með honum
annar maður, sömuleiðis grímubúinn, en jeg þekti hann
bæði á ganginum, málrómnum og öllum limaburði hans.
„Nú-jájá“, sagði hann, „Eruð þjer þá búin að afráða
við yður, að sverja þennan eið, sem jeg krefst
af yður?“
„Þjer hafið sjálfur sagt, að ekki sje ástæða að vjefengja
orð Púrítana og jeg stend við það sem jeg hef
sagt: Jeg mun ákæra yður fyrir dómstóli guðs og
manna bæði hjer og annars heims“.
„Og þjer eruð fastráðin í því?“
„Já, jeg sver það við alt sem heilagt er, að jeg
skal opinbera öllum heiminum glæpi yðar og jeg skal
ekki linna, fyr en jeg fæ einhvern til að hefna mín“.
„Þjer eruð skækja!“ grenjaði hann, „og skuluð
verða fyrir hegningu skækjunnar. Og reynið þjer svo,
þegar búið er að brennimerkja yður, að telja heiminum
trú um, að þjer sjeuð hvorki sek nje sturluð“.
„Gerðu skyldu þína, böðull!“ sagði hann og sneri
sjer að manninum, sem með honum var.
Hvað heitir þetta þrælmenni? Hver er hann?
Segið mjer það í himnanna bænum!“ hrópaði Felton.
„Jeg hljóðaði upp yfir mig og barðist um á hæl
og hnakka, því að nú vissi jeg, að það var verra en
dauðinn, sem yfir mjer vofði. En það var ekki til
neins. Böðullinn þreif mig heljartaki, fleygði mjer á
gólfið og hjelt mjer blýfastri, en jeg var hálf rænulaus
og grátandi og bað fyrir mjer, en fjekk enga bænheyrslu.
— Svo rak jeg upp óttalegt vein og böðullinn
þrýsti glóandi járninu á öxl mjer“.
Felton rumdi við.
„Já“, sagði Mylady og reis hátignarlega á fætur.
„Þetta eru þær pínslir, sem saklausar stúlkur, sem komast
í klærnar á þessum fúllífismönnum, verða að líða.
Lærið af því að þekkja mennina og láta ekki hafa
yður til þess að vera verkfæri í höndum annara til að
koma fram ranglátri hefnd“.
Mylady fletti frá sjer kjólnum, svifti af sjer brjósthlífinni
og roðnaði af uppgerðarreiði og blygðun og
sýndi Felton hið óafmáanlega smánarmerki, sem óprýddi
hina yndisfögru öxl hennar.
„En þetta er lilja, sem merkt er á öxlina á yður“,
sagði Felton undrandi.
„Já, og það er það argasta af því öllu“, svaraði
Mylady. „Hefði hann látið brennimerkja mig með
enska brennimarkinu, þá hefði hann orðið að sýna og
sanna, hvaða dómstóll hefði dæmt mig og þá hefði
jeg getað skírskotað til allra dómstóla í landinu — en
franska brennimarkið! Jeg get ekki leitað á náðir rjettvísinnar
hjer með það á öxlinni —“
Nú var Felton nóg boðið.
Hann var orðinn náfölur og stóð þarna hreyfingarlaus,
eins og þessi hræðilega saga hefði dregið allan
mátt úr honum og gagntekinn af hinni óumræðilegu
fegurð þessarar konu. Kraup hann á knje fyrir henni,
eins og einhverjum dýrðlingi og hirti nú ekkert um
brennimarkið á öxlinni.
„Fyrirgefið mjer!“ sagði hann klökkur.
„Hvað á jeg að fyrirgefa yður?“ spurði hún.
„Að jeg hef gengið í flokk með hatursmönnum
yðar“.
Mylady rjetti honum höndina.
„Svona ung, og fögur!“ sagði hann og kysti hönd
hennar í ákafa.
Mylady leit á hann þeim augum, sem gert hefðu
hvern mann frá sjer numinn, en Felton var Púrítani.
Hann slepti hönd hennar og tók að kyssa fætur hennar.
— Það var meira en ást — það var tilbeiðsla!
Þegar þessi ákafi rjenaði, virtist Mylady verða rólegri.
Hún sveipaði kjólnum að sjer aftur, en raunar
hafði hún flett sig klæðum aðeins til þess að æsa tilfinningar
hans.
„Nú er það að eins eitt, sem jeg vil biðja yður
um“, sagði Felton, „og það er að segja mjer nafnið á
þessu þrælmenni, því að mjer virðist ekki vera hjer
nema um einn að ræða — hinn er ekkert annað en
verkfæri í höndum hans“.
„Eins og jeg þurfi að segja þjer nafn hans, kæri
bróðir!“ sagði Mylady. „Hefurðu kannske ekki gizkað
á, hver hann sje?“
„Hvað er þetta!“ hrópaði Felton. „Er það hann
— alt af hann?“
„Já, víst er það hann“, svaraði Mylady. „Það er
hann, sem er bölvun Englands, sem ofsækir rjett-trúaða
og smánar fjölda kvenna — það er hann, sem úthellir
blóði sinna eigin landa, eingöngu af dutlungasemi
og mannvonzku, því hann svíkur mótmælendur
hinn daginn þó að hann verndi þá þennan daginn“.
„Það er þá Buckingham!“ sagði Felton æstur, „sem
hefur kvalið og pínt þennan engil og guð hefur ekki
látið sitt reiðarslag tortíma honum, en látið hann lifa
við auð og alls nægtir, völd og virðingar, öllum til
tjóns og glötunar!“
„Guð yfirgefur þann, sem fyrirlætur hann“, sagði
Mylady.
„Og lætur hann sæta þeirri hegningu, sem fordæmdum
er fyrirhuguð!“ sagði Felton og varð æ æstari.
„Hann vill að hefnd mannanna komi yfir hann,
áður en hans himneska reiði bitnar á þessu mannhraki!“
„Mennirnir óttast hann og hlífa honum“.
„Jeg óttast hann ekki — og skal heldur ekki vægja
honum“, sagði Felton.
Þetta var Mylady sannur gleðiboðskapur.
„En hvernig stendur á því, að Winter lávarður,
verndari minn og velunnari, skuli eiga nokkurn þátt í
þessu?“
„Það er nóg af fyrirlitlegum illmennum í veröldinni“,
sagði Mylady, „en jafnhliða þeim standa margir drenglyndir
og mikilhæfir heiðursmenn. Jeg átti einu sinni
unnusta, sem jeg elskaði og hann elskaði mig. Hann
var bæði frómlyndur og hjartahreinn og dáðadrengur
eins og þjer, Felton. Jeg fór til hans og sagði honum
þetta alt saman, en hann þekti mig og var ekki í
minsta vafa um, að jeg segði satt. Hann var ungur
maður og stóð í engu að baki hertoganum af Buckingham.
Hann svaraði mjer engu, en girti sig sverði,
fleygði á sig yfirhöfn og gekk beint til Buckinghamhallarinnar“.
„Jú, jeg veit, hvað hann hefur ætlað sjer“, sagði
Felton. „En að þess háttar mönnum á ekki að vega
með sverði, heldur rýtingi“.
„Buckingham var farinn í ferð daginn áður. Hann
fór til Spánar sem sendiherra tll þess að biðja krónprinsessunnar
til handa Karli fyrsta, sem þá var prins
af Wales. Svo kom unnusti minn aftur“.
„Hertoginn er farinn burtu, svo að jeg get ekki
hefnt þín á honum sem stendur“, sagði hann, „en á
meðan skulum við gifta okkur, eins og áformað var
og þú mátt reiða þig á það, að Winter lávarður er
þess megnugur að vernda sóma sinn og konu sinnar“.
„Winter lávarður!“ sagði Felton.
„Já, Winter lávarður — hann og enginn annar“,
svaraði Mylady“. „Og nú skiljið þjer, hvernig í öllu
liggur, eða er ekki svo? Buckingham var næstum heilt
ár fjarverandi, en átta dögum áður en hann kom aftur,
varð Winter lávarður bráðkvaddur og arfleiddi mig
að öllum eigum sínum. Hver var valdur að dauða
hans? Það veit sá sem alt veit — ekki er jeg að ásaka
neinn — —“
„Skelfilegt hyldýpis efasemda-myrkur er þetta!“
sagði Felton.
„Winter lávarður dó svo, að hann hafði ekkert
tal haft af bróður sínum og var þetta hræðilega leyndarmál
öllum dulið fyrst um sinn. Verndari yðar var
því ávalt mótfallinn, að bróðir sinn gengi að eiga fátæka
stúlku og jeg sá vel, að mjer var engrar hjálpar
að vænta af manni, sem brugðist hafði arfsvon sín.
Jeg ákvað því að fara til Frakklands og vera þar, það
sem eftir væri æfinnar. En allar eigur mínar voru á
Englandi og þegar ófriðurinn skall á og samgöngur
teptust milli landanna, skorti mig brátt allar nauðsynjar.
Neyddist jeg því til að fara hingað aftur og náði
höfn í Portsmouth, eins og þjer vitið“.
„Hvað gerðist svo?“ spurði Felton.
„Buckingham frjetti auðvitað um hingaðkomu mína
og gat um það við Winter lávarð, sem var mjer mótdrægur
eins og áður er sagt. Hefur Buckingham eflaust
sagt honum, að jeg væri ærulaus skækja, en nú var
ekki hinn drenglyndi eiginmaður minn til þess að
taka svari mínu og Winter lávarður trúði öllu, sem á
mig var logið. Hann ljet taka mig höndum, flytja mig
hingað og fjekk mig yður til umsjónar og svo vitið
þjer sjálfur, hvað síðan hefur gerst. Nú ætlar hann að
gera mig landræka og ofurselja mig ævarandi smán og
svívirðingu. Öllu er þessu hyggilega fyrir komið, enda
er það ekki stór vandi í sjálfu sjer að yfirbuga varnarlausa
og einmana konu. En nú skilst yður það líklega,
Felton, að dauðinn er mitt einasta athvarf. Fáið
mjer hnífinn!“
Að svo mæltu hnje Mylady hálfmeðvitundarlaus
og með tárvot augu í faðminn á hinum unga manni.
En hann var frá sjer numinn af gremju, ást og unaði
og faðmaði hana að sjer, fast og innilega.
„Nei-nei!“ sagði hann. „Þú skalt lifa, virt og elskuð,
hrein og ósnortin og sigri hrósandi yfir óvinum
þínum!“
Mylady ýtti honum blíðlega frá sjer, en leit um
leið á hann með töfrandi augnaráði. Felton faðmaði
hana að sjer á ný og horfði á hana tilbiðjandi augum.
„Ó, látið mig deyja!“ hvíslaði hún með hálflokuðum
augum. „Dauðinn er betri en smán og vansæmd!
Jeg grátbæni þig, Felton, vinur minn og bróðir!“
„Nei“, svaraði Felton. „Þú skalt lifa og þú skalt
fá hefnd!“
„Það stafar öllum ógæfa af mjer, sem vilja eitthvað
liðsinna mjer! Yfirgefðu mig, vinur minn! Láttu
mig deyja!“
„Jæja, þá skulum við bæði deyja!“ hrópaði hann
og þrýsti kossi á varir hennar.
Í sama bili var barið á dyrnar hvað eftir annað
og Mylady ýtti honum nú frá sjer.
„Það kemur einhver“, sagði hún. „Nú er úti um
okkur!“
„Nei“, sagði Felton. „Það er bara dyravörðurinn
til að gera aðvart um varðsveitina“.
„Farið þá sjálfur og ljúkið hurðinni upp“.
Felton hlýddi því tafarlaust. Hún var nú búin að
fá algert vald yfir honum.
Þetta var undirforingi og varðflokkur með honum.
„Nú-nú! hvað gengur á?“ spurði Felton.
„Þjer sögðuð mjer að opna dyrnar, þegar þjer kölluðuð“,
svaraði dyravörðurinn, „en þjer gleymduð raunar
að fá mjer lykilinn. Nú heyrði jeg eitthvert hróp
þarna að innan, en skildi ekki hvað þjer sögðuð. Dyrnar
voru læstar og svo kallaði jeg á undirforingjann“.
„Og hjer er jeg“. sagði undirforinginn.
Felton stóð þarna ringlaður og utan við sig og
vissi ekkert hvað hann átti að segja.
Mylady sá nú, að hún varð að taka til sinna ráða
til að greiða úr þessu. Hún hljóp að borðinu, þreif
hnífinn, sem Felton hafði lagt þar og hrópaði:
„Hvaða rjett hafið þjer til þess að aftra mjer frá
að leita dauðans?“
„Hamingjan góða“, hrópaði Felton, þegar hann
sá hnífinn blika í hendi hennar.
En í sömu andránni heyrðist hæðnishlátur úti á
ganginum og var það lávarðurinn. Hann hafði heyrt
hávaðann og var nú kominn þarna með sverð við hlið.
„Hæhæ! Nú erum við þá líklega komin að seinasta
þætti sorgarleiksins“, sagði hann, „og nú sjáið þjer
líklega, Felton, að leikurinn hefur farið fram með öllum
þeim tilbreytingum, sem jeg var búinn að segja
fyrir. En eitt megi þjer vera viss um, sem sje það,
að hjer verður engin blóðsúthelling“.
Mylady sá, að nú var úti um hana, ef hún sýndi
þess ekki merki, að henni væri full alvara.
„Yður skjátlast, herra lávarður“, sagði hún. „Blóði
skal úthelt og jeg vildi óska að það kæmi yfir þá, sem
eiga sök á þessu“.
Felton rak upp hljóð og hljóp til hennar, en það
var um seinan — Mylady hóf hnífinn á loft og rak
hann í sig. En hún hafði verið svo forsjál að gæta
þess, að hnífurinn lenti á járnspöng þeirri, sem konur
þeirra tíma höfðu framan á brjóstinu innan klæða.
Rann hnífurinn út af spönginni og rispaði hörundið
að eins lítið eitt, en nóg til þess, að úr dreyrði og sást
blóðblettur á kjólnum.
Mylady hnje aftur á bak og virtist missa meðvitund,
en Felton tók hnífinn af henni.
„Þjer sjáið nú víst, herra lávarður“, sagði hann
alvarlega, „að kona sú, sem þjer fóluð mjer til umsjónar,
hefur ráðið sjer bana“.
„Verið þjer rólegur, kæri Felton“, sagði Winter
lávarður, „Hún er alls ekki dauð. Það lifir lengst, sem
sem lýðum er leiðast, en farið þjer nú til herbergis
míns og bíðið mín þar“.
„En, herra lávarður — —“
„Farið þjer undir eins — jeg skipa yður það“.
Felton hlýddi, en stakk hnífnum á sig um leið
og hann fór.
Winter lávarður gerði boð eftir konunni, sem þjóna
átti Mylady, sagði henni að annast fangann og gekk
burt, en til vonar og vara ljet hann líka sækja lækni.
IX. Flóttinn.
Það var sem Winter lávarð grunaði, að Mylady
var ekki hættulega særð. Lauk hún upp augunum jafnskjótt
sem hún var orðin ein með þjónustustúlkunni,
er flýtti sjer að afklæða hana.
Hún varð samt að láta sem sjer liði afarilla og
var það sízt vandaverk fyrir annan eins bragðaref og
Mylady. Konan trúði henni líka eins og nýju neti og
vildi umfram alt vaka yfir henni alla nóttina þó að
Mylady kærði sig ekkert um það.
En þrátt fyrir nærveru hennar gat Mylady hugsað
það sem henni sýndist.
Það var nú engum vafa undirorpið, að Felton var
orðinn sannfærður og algerlega á hennar valdi. Þó að
honum hefði birzt engill af himnum og ásakað Mylady,
þá var honum nú svo brugðið, að hann hefði ekki
álitið það annað en vjelabrögð djöfulsins.
Mylady brosti ósjálfrátt að hugleiðingum sinum,
því að Felton var hennar einasta von og einasta hjálparhella.
En hugsast gat, að Winter lávarður væri farinn
að gruna hann og ekki var ólíklegt, meira að segja, að
hafðar væru gætur á honum.
Læknirinn kom klukkan eitthvað fjögur um nóttina.
Sárið eða rispan var þá að mestu hlaupin saman
og öll líðan sjúklingsins benti til þess, að engin hætta
var á ferðum.
— Mylady ljet þjónustustúlkuna fara frá sjer um morguninn
og bar það fyrir, að hún hefði ekki sofnað dúr
alla nóttina og þyrfti því að hafa næði.
Hún vonaðist sem sje eftir því, að Felton kæmi
um leið og morgunverðurinn yrði borinn inn, en það
brást henni, því að Felton kom ekki.
Skyldi það nú vera komið fram, sem hún hafði
óttast mest? Skyldi lávarðinum hafa tekist að vekja
grun Feltons, svo að hann kann ske brygðist henni
nú, þegar mest á riði? Nú var ekki nema einn dagur
eftir. Lávarðurinn hafði sagt, að hún ætti að fara tuttugasta
og þriðja og nú var tuttugasti og annar.
Samt beið hún þolinmóð fram á miðjan dag.
Henni var færður miðdagsverður á vanalegum
tíma þó að hún hefði ekki snert á morgunverðinum.
Mylady sá nú sjer til skelfingar, að aðrir dátar voru á
verði en áður hafði verið.
Hún dirfðist að spyrja um, hvað orðið væri af
Felton og var henni svarað, að hann hefði riðið eitthvað
burt fyrir klukkutíma.
Þá spurði hún, hvort lávarðurinn væri enn í höllinni.
Var því svarað játandi og enn fremur sagt, að
hann hefði skipað að segja sjer undir eins til ef hún
óskaði að ná tali af honum.
Mylady svaraði, að hún væri svo máttfarin enn,
að hún treysti sjer ekki til að eiga tal við lávarðinn
og óskaði að eins að fá að vera í friði.
Dátinn ljet matinn á borðið og gekk burt.
Felton var þá farinn og búið að breyta um varðmenn.
Það hlaut að vera af því, að lávarðurinn treysti
Felton ekki lengur.
Þar með voru öll sund lokuð fyrir Mylady.
Hún reis á fætur þegar hún var orðin ein. Hún
hafði legið í rúminu að eins til málamynda, en nú
fanst henni sængin eins og glóandi bálköstur. Henni
varð litið á dyrnar og tók þá eftir því, að búið var
að negla fyrir gægjugatið á hurðinni. Lávarðurinn óttaðist
sjálfsagt, að henni kynni að takast með einhverjum
vjelabrögðum að telja dyraverðinum hughvarf og
fá hann til að hleypa sjer út.
Mylady rak upp hlátur. Nú gat hún gefið tilfinningum
sínum lausan tauminn án þess að aðrir sæju.
Hún rásaði fram og aftur um gólfið eins og vitfirringur
og hamaðist eins og ljón í böndum. Ef hún hefði
nú haft hnífinn, þá hefði hún hugsað um það eitt að
drepa — ekki sjálfa sig heldur lávarðinn.
Winter lávarður kom klukkan sex og var alvopnaður.
Mylady hafði alt að þessu álitið hann hálfgerðan
einfeldning, en nú var hann orðinn sjerlega aðgætinn
fangavörður. Hann virtist sjá alt fyrir og kunna
ráð við öllu.
Hann þurfti ekki annað en líta á Mylady til þess
að geta gizkað á hvað henni var innan brjósts.
„Nú-jæja! Þjer berið naumast banaorð af mjer í
dag“, sagði hann, „því að bæði eruð þjer vopnlaus og
svo er jeg líka við öllu búinn. Þjer voruð þegar byrjuð
að spilla Felton fyrir mjer og hann stóðst ekki tálbrögð
yðar, en jeg ætla mjer að sjá honum borgið og
hann verður nú ekki oftar á vegi yðar. Þjer skuluð nú
ferðbúa yður í snatri, því að á morgun verðið þjer látin
fara. Jeg ætlaði eiginlega að draga það til tuttugasta
og fjórða, en þess fyr sem þjer farið, þess óhultari verð
jeg um sjálfan mig. Jeg fæ brottrekstursskipunina um
miðjan dag á morgun með undirritun Buckinghams og
ef þjer talið orð við nokkurn mann, áður en þjer komist
á skipsfjöl, þá hefur undirforingjanum verið sagt að
skjóta yður tafarlaust. Og ef þjer yrðið á nokkurn mann
á skipinu án leyfis skipstjórans, þá hefir honum sömuleiðis
verið boðið að fleygja yður fyrir borð og það
hefur hann lofað að gera. Verið þjer nú sælar! Fleira
hef jeg ekki við yður að tala í dag, en á morgun kem
jeg og kveð yður í síðasta sinn“.
Að svo mæltu gekk lávarðurinn burt.
Mylady brosti háðslega meðan hún hlustaði á
þennan reiðilestur, en heiftin sauð og svall hið innra
með henni.
Nú var kvöldverðurinn borinn inn. Mylady fann,
að hún varð að hressa sig og styrkja á einhverju, því
að ekki var að vita, hvað fyrir hana kynni að koma
þessa nótt. Það var alt fremur ískyggilegt útlits. Skýjafar
mikið var á lofti og þrumur heyrðust í fjarska, er
boðuðu að ofviðri væri í nánd.
Veðrið skall á um klukkan tíu. Mylady var hugfró
í því að sjá höfuðskepnurnar óðar og uppvægar,
eins og hún var sjálf. Eldingarnar klufu loftið eins og
reiðin leiftraði í augum hennar og henni virtist stormurinn
þyrla hári sínu eins og hann þyrlaði laufinu á
trjánum. Hún æpti eins og fellibylurinn og óp hennar
samlagaðist tryltum röddum ofviðrisins.
Alt í einu heyrði hún, að barið var á gluggann
og sá hún í andlit á manni utan við gluggagrindurnar.
„Eruð það þjer Felton?“ hrópaði hún. „Þá er
mjer borgið!“
„Já“, svaraði hann, „en hafið þjer ekki hátt. Jeg
þarf tíma til að sverfa járnstengurnar sundur, en gætið
þess, að enginn gægist gegnum gatið á hurðinni“.
„Hamingjan er okkur holl, Felton! Það er búið
að negla fyrir gatið“.
„Það er ágætt“, sagði Felton. „Þeir eru slegnir
blindu!“
„En hvað á jeg nú að gera?“ spurði Mylady.
„Ekkert — ekki nokkurn skapaðan hlut og lokið
þjer glugganum aftur. Leggið þjer yður fyrir eða setjist
hálfklædd á stól að minsta kosti. Jeg skal berja á
gluggann þegar þessu er lokið — en getið þjer nú
fylgt mjer eftir?“
„Já, víst get jeg það“.
„En sárið?“
„Mig tekur að vísu í það, en ekki svo, að jeg sje
ekki allra ferða fær“.
„Verið þjer þá tilbúin þegar jeg gef yður merki“.
Mylady lokaði glugganum, slökti ljósið og lagði
sig á rúmið eins og Felton hafði ráðið henni. Vindurinn
hvein og hamaðist á húsinu, þjölin urgaði og
sargaði á járnteinunum og í hvert skifti, sem eldingunum
brá fyrir, sá hún Felton bera við gluggann.
Svona lá hún um stund stynjandi af angist og
löðursveitt og hlustaði eftir hverju hljóði, sem heyrðist
frammi í ganginum. Henni fanst tíminn aldrei ætla að
líða, en loksins barði Felton aftur á gluggann.
Mylady stökk fram úr rúminu, hljóp að glugganum
og opnaði hann. Felton var búinn að sverfa sundur
nokkra járnteina og rýmdist þá svo um, að ein
manneskja rjett gat smogið í gegn.
„Eruð þjer nú tilbúin?“ spurði Felton.
„Já! Á jeg að hafa nokkuð með mjer?“
„Ef þjer eigið peninga, þá skuluð þjer taka þá
með yður, helzt alla ef hægt er“.
„Já. Til allrar hamingju hef jeg fengið að halda
peningum mínum og dýrgripum“.
„Það er ágætt. Jeg er búinn að láta alla mína
peninga fyrir bát“.
„Hjerna, takið þjer við“, sagði Mylady og rjetti
honum lítinn pinkil með gullpeningum.
Felton tók við pinklinum og ljet hann falla til
jarðar.
„Jæja, komið þjer þá?“ sagði hann.
„Já, nú kem jeg“.
Mylady stje upp á stól og klifraði upp í gluggann
og sá nú að liðsforinginn hjekk í kaðalstiga þar fyrir
utan með kolsvart hyldýpið undir fótum sjer, en svo
var þó kvennmannseðlið ríkt í henni, að hana óaði við.
„Þetta grunaði mig“, sagði Felton.
„Það gerir ekkert til“, sagði hún. „Jeg loka bara
augunum og þá er alt búið“.
„Treystið þjer mjer“, spurði hann.
„Eins og þjer þurfið að spyrja að því!“
„Rjettið mjer hendurnar — svona — það er gott“.
Felton reyrði úlnliði hennar saman með vasaklút
og þar á eftir með snæri.
„Hvers vegna gerið þjer þetta?“ spurði Mylady
undrandi.
„Leggið hendurnar um hálsinn á mjer og hugsið
svo ekki um neitt annað“.
„En þá missið þjer jafnvægið og þá er úti um
okkur“.
„Verið þjer ekki að kviða því — jeg er sjómaður“.
Þau máttu engan tíma missa. Mylady lagði hendurnar
um hálsinn á honum og mjakaði sjer út um
gluggann.
Felton fór svo að færa sig ofan kaðalstigann með
mestu varasemi, en stiginn dinglaði til og frá í vindinum,
þrátt fyrir þunga þeirra beggja. Alt í einu nam
Felton staðar.
„Hvað er nú?“ spurði Mylady.
„Þei-þei!“ sagði hann. „Jeg heyri fótatak“.
„Þá hefur komist upp um okkur“.
Þau voru kyr svo litla stund og hlustuðu.
„Neinei!“ sagði Felton. „Það er ekki neitt“.
„En hvaða hávaði er þetta, sem við heyrum?“
„Það er varðflokkurinn“.
„Hvar fer hann um?“
„Beint fyrir neðan okkur“.
„Þá koma þeir auga á okkur“.
„Nei, ekki nema því að eins, að ný elding komi“.
„Dátarnir hljóta að rekast á kaðalstigann“.
„Nei, seisei-nei! Hann er þremur álnum of stuttur
til allrar hamingju“.
„Hamingjan góða! Þarna koma þeir!“
„Þei-þei!“
Þau hjengu þarna í stiganum eitthvað tíu álnum ofar
jörðu og hreyfðu hvorki legg nje lið, en dátarnir gengu
framhjá hlægjandi og masandi.
Þetta var óttalegt augnablik fyrir þau bæði, en
það stóð ekki á löngu og brátt heyrðist ekki meira til
varðflokksins.
„Nú er okkur borgið“, sagði Felton.
Mylady stundi og leið í öngvit.
Felton hjelt nú áfram að feta sig ofan stigann það
sem hann náði, en þegar stigann þraut, klifraði hann
það sem eftir var til jarðar, eftir járngöddum, sem
hann hafði með sjer og rak inn í glufur og milli steina
í veggnum.
Því næst tók hann á rás með Mylady í fanginu
í gagnstæða átt þeirri, sem dátarnir höfðu farið. Komst
hann svo út á klettana og náði brátt fjörunni og um
leið blístraði hann í hljóðpípu.
Honum var svarað á sama hátt og litlu síðar sást
bátur með fjórum mönnum. Báturinn kom svo nærri
landi, sem hægt var, en gat þó ekki lent og varð Felton
að vaða út í hann með byrði sína.
Veðrið lægði nú ofur lítið, en samt var sjórinn
mjög ókyr og goppaðist báturinn upp og ofan á bylgjunum.
„Fram að skipinu nú!“ sagði Felton „og róið nú
duglega“.
Mennirnir lögðust á árar og leyfðu ekki af, en
samt gekk þeim fremur seint í sjávarrótinu. Samt bar
þá frá landi — og það var aðalatriðið.
Nú grilti í skipið eins og svartan blett ruggandi
á öldunum.
Meðan á þessu stóð, leysti Felton klútinn og snærið
utan af úlnliðunum á Mylady og skvetti sjó í andlit
henni, en hún stundi við og opnaði augun.
„Hvar er jeg?“ sagði hún.
„Þjer eruð nú sloppin“, svaraði liðsforinginn.
„Já, jeg er sloppin“, sagði hún. „Nú sje jeg aftur
himinn og haf og anda að mjer loftinu eins og frjáls
manneskja. — Ó, þakka yður fyrir Felton!“
Liðsforinginn þrýsti henni að hjarta sjer.
„En hvað gengur að höndunum á mjer?“ spurði
hún. „Mjer finst alveg eins og þær hefðu verið klemdar
í skrúfstykki“.
Hún lyfti upp handleggjunum og sáust enn för á
úlnliðunum eftir klútinn og snærið. Felton stundi og
hristi höfuðið þegar hann sá hinar fögru hendur þannig
útleiknar.
„Æ, það er satt!“ sagði Mylady, „Nú man jeg
það alt saman. Þetta gerir ekkert til“.
Svo fór hún að svipast um.
„Hann er þarna“, sagði Felton og ýtti við peningapinklinum
með fætinum.
Þau nálguðust skipið. Skipsvörðurinn kallaði til
bátsmanna og þeir svöruðu.
„Hvaða skip er þetta?“ spurði Mylady.
„Það er skip, sem jeg hef leigt handa yður“.
„Og hvert flytur það mig?“
„Hvert sem þjer viljið, en þið verðið bara að
hleypa mjer á land í Portsmouth“.
„Hvaða erindi eigið þjer til Portsmouth?“ spurði
hún.
„Fullnægja skipun Winters lávarðar“, sagði Felton
og brosti dauflega.
„Hvaða skipun?“
„Getið þjer ekki gizkað á það?“
„Nei — hvað eigið þjer við?“
„Hann var hættur að treysta mjer og vildi því
gæta yðar sjálfur — þess vegna átti jeg að fara til
Buckinghams og fá undirskrift hans undir skipunina
um brottrekstur yðar úr landi“.
„En hvernig stóð á því, að hann skyldi trúa yður
fyrir þessu, þegar hann var þó búinn að missa
traust á yður?“
„Það var ekki sjálfsagt, að mjer væri kunnugt um
þessa brottreksturs skipun“.
„Nei, það er satt — og nú ætlið þjer til Portsmouth?“
„Já, og verð að hraða mjer. Á morgun er tuttugasti
og þriðji og þá fer hertoginn af Buckingham með
flotanum.
„Hvað er þetta! Fer hann — og hvert fer hann?“
„Hann fer til La Rochelle“.
„Hann má alls ekki fara“, hrópaði Mylady og
gleymdi snöggvast varkárni sinni.
„Verið þjer róleg — hann fer varla langt“, svaraði
Felton.
Þetta svar hans gladdi Mylady stórlega. Hún las
í huga hins unga manns jafn greinilega og þar hefði
staðið skýru letri: Buckingham skal deyja!
„Felton!“ sagði hún. „Þjer eruð álíka mikilmenni
og Júdas Makkabeus. Ef þjer lútið að jörðu, þá geng
jeg í dauðann með yður — og meira get jeg ekki sagt“.
„Þei-þei!“ sagði Felton. „Nú erum við komin“.
Felton gekk fyrstur á skipið og rjetti Mylady höndina.
Bátsmennirnir urðu líka að styðja hana vegna
öldugangsins og komst hún svo upp á þiljur og síðan
gengu þau Felton og hún upp á stjórnpallinn.
„Herra skipstjóri!“ sagði Felton. „Hjer er nú konan,
sem jeg sagði yður frá, og eigið þjer að koma
henni til Frakklands heilu og höldnu“.
„Já — fyrir þúsund gulldali“, sagði skipstjórinn.
„Af þeim hafa yður verið borgaðir fimm hundruð“.
„Já, rjett er það“, svaraði skipstjórinn.
„Og hjer eru þau fimm hundruð, sem eftir standa“,
sagði Mylady og hreif til peningapinkilsins.
„Nei“, sagði skipstjóri. „Jeg er búinn að semja
við þennan unga mann. Þessi fimm hundruð, sem til
vanta, fæ jeg þá fyrst þegar við erum komin til Boulogne
heilu og höldnu“.
„En ætli að við komumst þangað?“
„Já, það megið þjer reiða yður á, eins og jeg
heiti Jack Butler“, sagði skipstjóri.
„Nú-jæja!“ sagði Mylady. „Svo framarlega, sem
þjer efnið þetta, þá skuluð þjer ekki að eins fá fimm
hundruð, heldur þúsund gulldali í viðbót“.
„Jeg óska yður langra lífdaga, kæra frú“, sagði
skipstjórinn, „og jeg vildi líka óska þess, að jeg ætti
eftir að flytja marga farþega slíka sem yður!“
„En flytjið þjer okkur nú fyrst og fremst í litlu
víkina, sem við töluðum um“, sagði Felton. „Við vorum
búnir að koma okkur saman um það“.
Skipstjóri svaraði því ekki öðru en að skipa fyrir
um nauðsynlega seglahögun og var svo varpað akkerum
í vík þessari klukkan sjö um morguninn.
Á leiðinni þangað sagði Felton Mylady alt hvað
gerst hafði — að hann hefði leigt skipið í stað þess að
fara til London, að hann hefði komið aftur og klifrast
upp hallarmúrinn á þann hátt að reka járnfleina milli
steinanna og hvernig sjer hefði tekist að festa kaðalstigann
við járngrindurnar fyrir utan gluggann. Hitt
annað var Mylady sjálfri kunnugt um.
Að sínu leyti reyndi hún að æsa hann og eggja
til að koma fram áformi sínu, en fann brátt, að
hann þurfti engrar eggjunar við, heldur var ofstæki
hans svo magnað, að fremur var þörf á að aftra honum
en hitt.
Þau komu sjer saman um, að hún skyldi bíða
Feltons þangað til klukkan tíu, en svo skyldi hún
halda áfram ferðinni, ef hann yrði þá ekki kominn
aftur. Og ef svo færi, þá skyldi hann hitta hana hjá
Karmelítaklaustrinu í Béthune á Frakklandi svo framarlega
sem hann væri frjáls ferða sinna.
X. Í Portsmouth 23. ágúst 1628.
Felton kysti á hönd Mylady og kvaddi hana eins
og bróðir kveður systur sína um leið og hann skreppur
eitthvað á burt. Hann virtist vera jafnrólegur og hann
átti að sjer, en þó brann eldur úr augum hans og
gljáðu þau, eins og hann væri sóttveikur. Ennið var
óvenjulega fölt og hann beit á jaxlinn og var allerfitt
um mál. Var þetta alt vottur þess, að honum væri
mikið niðri fyrir.
Meðan hann sat í bátnum, sem flutti hann til
lands, sneri hann andlitinu að Mylady, en hún stóð á
stjórnpallinum og mændi til hans augunum. Þau voru
bæði viss um, að enginn elti þau enn. Enginn mundi
koma inn í herbergi hennar fyr en klukkan níu og
þriggja tíma leið var frá höllinni til London.
Felton stökk á land, kleif upp brekkuna frá fjörunni,
kastaði síðustu kveðju til Mylady og hljóp áleiðis
til borgarinnar.
Þegar hann átti skamt til bæjarins, leit hann um
öxl sjer og sá þá að eins siglutoppana á skipinu, enda
var þá landinu tekið að halla frá sjónum. Einnig sá
hann turnana í Portsmouth og siglur skipanna á höfninni
eins og þjettan skóg af greinalausum trjám, er
bærðust fram og aftur fyrir vindinum.
Hann rifjaði upp fyrir sjer á leiðinni allar þær
ákærur, sannar og lognar, sem hann hafði heyrt bornar
á vildarmann Jakobs sjötta og Karls fyrsta, öll þau
ár, sem hann hafði umgengist Púrítana. Þegar hann
bar saman alla þá lesti Buckinghams, sem voru
hvers manns vitund og þjóðkunnir svo að segja, og
svo aftur þá leyndu glæpi og óhæfuverk, sem Mylady
hafði sakað hana um, þá fanst Felton, að prívatmaðurinn
Buckingham, sem almenningur þekti lítið til,
væri stórum klækjóttari en valdsmaðurinn Buckingham.
Honum uxu svo í augum ákærur Mylady á hertogann,
að það var sem hann sæi alla hans klæki og
lesti í gegnum stækkunargler.
Hann kom til Portsmouth klukkan liðugt átta og
var þar mikið um að vera, bumbusláttur og gauragangur.
Allar götur voru troðfullar af hermönnum, sem
hjeldu niður til hafnar og áttu að stíga þar á skip.
Felton var orðinn löðursveittur af hlaupunum,
þegar hann kom að aðmírálshöllinni og sást ekki í
hann fyrir ryki og óhreinindum. Hann var venjulega
fölur yfirlitum, en var nú blóðrjóður af hita og æsingi.
Hallarvörðurinn ætlaði að varna honum inngöngu, en
Felton kallaði á yfirmann hans og dró upp úr vasa
sínum brjef það, sem hann var sendur með.
„Brjef frá Winter lávarði og þarfnast skjótrar afgreiðslu“,
sagði hann.
Yfirmaðurinn vissi, að Winter lávarður var góðvinur
hertogans og gaf strax skipun um að hleypa
Felton inn, enda bar hann einkennisbúning sjóliðsforingja.
Felton flýtti sjer inn í höllina. Í anddyrinu rakst
hann á annan mann, allan rykugan og með öndina í
hálsinum og var sá nýstiginn af hesti sínum, en hesturinn
fjell þegar niður af mæði þegar maðurinn var
kominn af honum.
Felton og þessi maður snjeru sjer nú samtímis til
Patricks, sem var herbergisþjónn Buckinghams og vildarmaður
hans. Felton bar Winter lávarð fyrir sig, en
ókunni maðurinn vildi engin nöfn nefna og kvaðst
ekki geta gert öðrum grein fyrir sjer og sínum erindum
en hertoganum sjálfum. Reyndu þeir hvor um sig
að fá áheyrn á undan hinum.
Patrick vissi, að Winter lávarður átti ýms embættiserindi
við húsbónda sinn og var auk þess mjög
handgenginn honum og ljet því sendimann hans hafa
forgangsrjettinn. Varð hinn þá að sætta sig að bíða og
var auðsjeð á honum, að hann var argur með sjálfum
sjer út af þessari töf.
Herbergisþjónninn fylgdi Felton gegnum sal einn
mikinn og sátu þar sendimenn frá La Rockhelle og
biðu áheyrnar, en síðan komu þeir að einkaherbergi
Buckinghams. Hann var nýstiginn úr kerlaug og var
nú að klæða sig, en til þess gekk jafnan langur tími
fyrir honum.
Patrick gekk inn og tilkynti að kominn væri Felton
liðsforingi frá Winter lávarði.
„Frá Winter lávarði!“ endurtók Buckingham. „Láttu
hann koma inn“.
Felton gekk inn og í sömu andránni fleygði
Buckingham frá sjer á bekk þar hjá gullseymdum
slopp, en smeygði sjer í flauelstreyju, alsetta perlum.
„Hvers vegna kom lávarðurinn ekki sjálfur?“
spurði Buckingham. „Jeg átti von á honum í morgun“.
„Hann bað mig að segja yður, að sjer þætti mjög
leitt, að hann gat ekki komið“, svaraði Felton, „en
hann er forfallaður vegna þess, að hann verður nú
sjálfur að halda vörð“.
„Já, jeg veit það“, svaraði Buckingham. „Hann
þarf að gæta að fanga“.
„Já, og það er einmitt viðvíkjandi þessum fanga,
sem jeg þarf að tala við yður“, sagði Felton.
„Nú-jæja! Talið þjer!“
„Jeg þarf að tala við yður í einrúmi, herra hertogi“.
„Þú getur farið, Patrick“, sagði Buckingham, „en
farðu samt ekki langt. Jeg þarf bráðum að finna þig
aftur“.
Patrick fór.
„Nú erum við einir“, sagði Buckingham. „Nú
getið þjer sagt frá erindinu“.
„Herra hertogi“, sagði Felton. „Winter lávarður
skrifaði yður fyrir skömmu og bað yður að undirrita
brottrekstursskipun viðvíkjandi ungri konu, Charlotte
Backson að nafni“.
„Rjett er það. Og jeg svaraði honum, að hann
skildi koma með skipunina eða sendi mjer hana og
þá skyldi jeg undirrita hana“.
„Skipunin er hjer“, sagði Felton.
„Fáið mjer hana“, sagði hertoginn.
Hann tók við skjalinu og las það fljótlega. Þegar
hann sá, að það var eins og það átti að vera, lagði
hann það á borðið fyrir framan sig, greip penna og
ætlaði að skrifa undir.
„Afsakið, herra hertogi“, sagði Felton. „Er yður
kunnugt um, að þessi unga kona heitir ekki Charlotte
Backson rjettu nafni?“
„Jú, veit jeg það“, svaraði hertoginn og dýfði pennanum
í blekbyttuna.
„Nú, en vitið þjer þá, hvað hún heitir rjettu
nafni?“ spurði Felton all snúðugt.
„Já“, svaraði hertoginn.
Hann ætlaði að fara að skrifa. Felton brá litum.
„Og samt ætlið þjer að skrifa undir, þó að yður
sje kunnugt um nafn hennar?“
„Auðvitað“, svaraði Buckingham. „Og það oftar
en einu sinni ef við þyrfti“.
„Jeg á bágt með að trúa því, að þjer vitið að
þessi brottrekstursskipun við kemur frú Winter“, sagði
Felton svo stillilega, sem honum var hægt.
„Jú, það veit jeg ofur vel, en mig furðar meira,
að þjer skuluð vita það“.
„Og samt hikið þjer ekki við að skrifa undir“.
Buckingham horfði á hinn unga mann.
„Jeg skal segja yður nokkuð, herra góður“, sagði
hann. „Þetta eru hálf undarlegar spurningar, sem þjer
eruð að leggja fyrir mig og það væri glópska af mjer
að svara þeim“.
„Jú, svarið þeim, herra hertogi“, sagði Felton.
„Þetta er meira alvörumál, en þjer kannske haldið“.
Buckingham hugsaði, að Felton væri með allar
þessar málalengingar vegna Winters lávarðar, úr því
að hann var sendimaður hans, og sat því á sjer.
„Nei, jeg hika alls ekki við það“, sagði hann.
„Lávarðinum er það jafn kunnugt og mjer, að frú
Winter er reglulegur kvenndjöfull og að henni er sýnd
alt of mikil linkind með því að reka hana að eins
úr landi“.
Hann greip pennann aftur.
„Þjer megið ekki undirskrifa þessa skipun herra
hertogi“, sagði Feiton og færði sig nær.
„Má jeg ekki undirskrifa! Og hvers vegna ekki?“
spurði hertoginn.
„Vegns þess, að, þjer verðið að stinga hendinni í
yðar eigin barm og sýna henni rjettlæti“.
„Það væri rjetturinn hennar, að hún væri send
til Tyburn“, sagði Buckingham. „Þessi kona er versta
flagð og forað“.
„Hún er sannur engill, herra hertogi. Það veit
enginn betur en þjer sjálfur og nú bið jeg yður að
gefa henni aftur frelsi sitt“.
„Eruð þjer alveg frá yður, maður? Vitið þjer,
hvað þjer eruð að segja?“
„Fyrirgefið, herra hertogi! Jeg segi það sem mjer
býr í brjósti og er að reyna að stilla mig. En gætið
vel að því, sem þjer gerið og líka þess, að fara ekki
of langt“.
„Hvað er að tarna! Fyr má nú vera!“ sagði Buckingham.
„Þjer dirfist að hóta mjer?“
„Nei, herra hertogi — enn þá fer jeg bónar veginn.
En það skuluð þjer vita, að ekki þarf mikið út
af að bera til þess að refsivöndurinn ríði að þeim
manni, sem enn hefur sloppið óhegndur þrátt fyrir
hvers kyns glæpi og óhæfuverk!“
„Herra Felton“, sagði Buckingham. „Jeg læt tafarlaust
setja yður í varðhald“.
„Fyrst skuluð þjer heyra, hvað jeg hef að segja,
herra hertogi. Þjer hafið smánað og svívirt þessa ungu
konu. Reynið að bæta henni það, sem þjer hafið brotið
við hana, látið hana fara af landi burt frjálsa og óátalda
og þá skal jeg ekki krefjast annars af yður“.
„Ekki krefjast!“ endurtók Buckingham og horfði
undrandi á Felton.
„Herra hertogi!“ hjelt Felton áfram og varð æ
æstari eftir því sem hann talaði lengur. „Gætið að
yður, herra hertogi! Englendingar eru farnir að þreytast
á rangsleitni yðar og yfirgangi. Þjer hafið misbeitt
þeim völdum, sem þjer hafið hrifsað undir yður og
þjer eruð til andstygðar bæði guði og mönnum — guð
mun hegna yður, þegar hans tími er kominn, en nú
mun jeg hegna yður fyrst“.
„Nei, þetta gengur sannarlega fram úr öllu hófi“,
sagði Buckingham.
Hann ætlaði að ganga fram að dyrunum, en Felton
varnaði honum þess.
„Jeg bið yður auðmjúklega“, sagði hann, „að undirrita
aðra skipun þess efnis, að frú Winter sje gefið
frelsi. Minnist þess, að það er kona, sem þjer hafið
svívirt“.
„Farið burt!“ hrópaði Buckingham. „Annars
jeg og læt setja yður í járn“.
„Þjer hríngið ekki!“ sagði Felton og tók sjer stöðu
fyrir framan borðið, sem bjallan stóð á. „Gætið yðar,
herra hertogi — nú eruð þjer í herrans höndum!“
„Eða fjandans öllu heldur!“ hrópaði Buckingham
og hækkaði röddina án þess þó að kalla beinlínis á
mannhjálp.
„Skrifið undir, herra hertogi. Skrifið undir það,
að frú Winter sje frjáls allra sinna ferða“, sagði Felton
og ýtti öðru skjali til hertogans.
„Eftir yðar skipun! Eruð þjer vitlaus maður?
Heyrðu, Patrick!“
„Skrifið undir, herra hertogi!“
„Nei, aldrei!“
„Svo — aldrei?“
„Hjálp!“ æpti hertoginn og greip til sverðs síns.
En Felton gaf honum ekki ráðrúm til þess að
draga sverðið úr slíðrum. Hann bar á sjer hnífinn,
sem Mylady stakk sig með og sveif nú á hertogann,
en í sömu svifum kom Patrick í dyrnar og kallaði:
„Hjer er maður frá Frakklandi með brjef“.
„Frá Frakklandi!“ hrópaði Buckingham og sinti
nú ekki öðru en þessu brjefi. Þetta notaði Felton sjer
og rak hnífinn í hann alt upp að skefti.
„Æ, fanturinn þinn!“ æpti Buckingham. „Þú
drepur mig!“
„Morð!“ grenjaði Patrick.
Felton leit í kringum sig í snatri. Hann sá að
dyrnar stóðu opnar og stökk fram í fremra herbergið,
þar sem sendimennirnir frá La Rochelle sátu, hentist
út úr því og að stiganum, en í efstu þrepunum hljóp
hann beint í fangið á Winter lávarði. Hann sá strax,
að Felton var náfölur, augnaráðið æðisgengið og hendur
og andlit atað í blóði. Þreif hann þegar fyrir kverkar
Felton og hrópaði:
„Þetta vissi jeg og gizkaði á um seinan. Ó, vei
mjer vesölum!“
Felton veitti enga mótvörn. Winter lávarður fjekk
hann varðmönnunum í hendur og fóru þeir með hann
fyrst um sinn út á lítinn grashjalla, sem sneri út að
hafinu. Því næst skundaði lávarðurinn inn í einkaherbergi
Buckinghams.
Þegar maðurinn, sem Felton hafði hitt í anddyrinu,
heyrði hávaðann, flýtti hann sjer líka inn til hertogans.
Lá hann þar á legubekk og studdi hendinni
á sárið.
„Laporte“, sagði hertoginn með veikri rödd. „Komið
þjer með boð frá henni?“
„Já, herra hertogi, en nú er það því miður um
seinan“, svaraði þessi trúi sendisveinn Önnu frá Austurríki.
Þei-þei. Laporte! Það getur heyrst til okkar. Láttu
engan koma inn Patrick. Æ, fæ jeg þá ekki að heyra,
hvað hún vill mjer? Hamingjan hjálpi mjer! Jeg er
að deyja!“
Hertoginn fjell í öngvit.
Nú komu þeir inn í herbergið Winter lávarður,
sendimennirnir frá La Rochelle, yfirhershöfðingjarnir
og enn fremur aðrir liðsforingjar og ýmsir þjónar
Buckinghams. Óp og köll heyrðust um alla höllina og
þaðan barst fregnin út um borgina eins og eldur í
sinu.
Svo var skotið af fallbyssu til merkis um, að óvæntan
og alvarlegan atburð hefði borið að höndum.
Winter lávarður reitti hár sitt af sorg og gremju.
„Einni mínútu of seint — einni einustu mínútu!“
hrópaði hann. „Hvílík óttaleg ógæfa!“
Klukkan sjö um morguninn hafði honum verið
gert aðvart um, að kaðalstigi hjengi niður úr einum
hallarglugganum. Hann hljóp þegar inn í herbergi
Mylady, en þar var engin manneskja, glugginn opinn
og járnstengurnar sorfnar í sundur. Honum flaug í hug
aðvörunin, sem d'Artagnan hafði gert honum með
sendiboða sínum og greip hann nú áköf hræðsla um
líf hertogans, Hann þaut út í hesthús, greip þar fyrsta
hestinn, sem fyrir hendi varð og þeysti burt án þess
að gefa sjer tíma til að leggja á. Hann kom líka nógu
fljótt til þess að grípa Felton í stiganum — en ofseint
þó!“
Hertoginn var samt ekki örendur. Hann raknaði
við aftur og lauk upp augunum og urðu þá allir
vonbetri.
„Herrar góðir!“ sagði hann. „Lofið mjer að vera
einum með Patrick og Laporte. Æ, eruð þjer þarna,
Winter lávarður! Þetta var bandvitlaus maður, sem
þjer senduð til mín. Lítið þjer á, hvernig hann fór
með mig!“
„Jeg lít aldrei glaðan dag framar, herra hertogi“,
sagði lávarðurinn.
„Það er misskilningur, kæri Winter“, sagði Buckingham
og rjetti honum hönd sína. „Jeg þekki engan
mann, sem verðskuldar að vera harmaður alla æfi af
öðrum. En lofið okkur nú að vera einum, kæri vin!“
Lávarðurinn gekk burt kjökrandi, en þeir Patrick og
Laporte urðu einir eftir hjá hertoganum. Voru nú
send boð eftir lækni og hans leitað um alt, en enginn
læknir fanst þá í svipinn.
„Þjer deyið ekki, herra hertogi — þjer skuluð
ekki deyja!“ sagði hinn trúi sendimaður Önnu drotningar
og kraup á knje við legubekk hertogans.
„Hvað skrifar hún mjer?“ stundi Buckingham með
veikri rödd. Blóðið streymdi ofan um hann, en hann
harkaði af sjer eins og hann gat. „Hvað skrifar hún
mjer? Lesið þjer brjefið hennar upp fyrir mjer!“
„Ó, herra hertogi!“
„Heyrirðu það, Laporte! Sjerðu ekki að það er
hver seinastur fyrir mjer?“
Laporte braut upp brjefið og hjelt því fyrir augum
hertogans, en hann reyndi árangurslaust að sjá
stafaskil.
„Lestu það, segi jeg — mjer dimmir fyrir augum
og kann ske deyfist heyrnin líka áður en varir og þá
dey jeg án þess að fá að vita, hvað hún hefur viljað
mjer“.
Laporte færðist nú ekki undan lengur og las eftirfarandi
brjef:
„Herra hertogi! Jeg særi yður við alt, sem þjer
látið mig líða og alt, sem jeg hef liðið fyrir yðar sakir
síðan jeg kyntist yður fyrst, að hætta við þennan herbúnað
á hendur Frakklandi, svo framarlega sem þjer
unnið mjer nokkurrar hugarrósemi og að binda skjótan
enda á þennan ófrið, en um hann segja menn upphátt,
að orsök hans sjeu trúarbragðadeilur í orði kveðnu,
en hafa hitt í flimtingum, að ást yðar til mín sje hin
sanna og leynda orsök hans. Þessi ófriður getur eigi
að eins leitt alls konar ógæfu yfir Frakkland og England,
en jafnframt orðið sjálfum yður til þess skaðræðis,
sem jeg aldrei mundi geta borið með jafnaðargeði.
Verið var um líf yðar, því að það er setið um
það og það mun verða mjer kært alt frá þeirri stundu,
að jeg þarf ekki lengur að telja yður í fjandmanna
flokki,
Yðar einlæg
Anna“.
Það var eins og Buckingham reyndi að treyna
sjer lífsþróttinn, meðan þetta brjef var lesið upp og
eins og hann yrði fyrir sárum vonbrigðum, þegar því
var lokið.
„Eruð þjer þá ekki með nein skilaboð til mín frá
henni?“ spurði hann.
„Jú, herra hertogi! Drotningin sagði mjer að biðja
yður að gæta allrar varúðar, því að hún hefði komist
að því, að setið væri um líf yðar“.
„Er það alt og sumt?“ spurði Buckingham óþolinmóður.
„Hún bað mig líka að segja yður, að hún elskaði
yður æ og æfinlega“.
„Hamingjunni sje lof!“ stundi Buckingham. „Fráfall
mitt verður henni þá hugstæðara en fráfall einhvers
ókunnugs manns“.
Laporte gat ekki varist tárum.
„Patrick“, sagði hertoginn. „Fáðu mjer skrínið,
sem demantarnir eru geymdir í“.
Patrick fjekk honum skrínið og kannaðist Laporte
þegar við, að það hafði verið í eigu drotningar.
„Fáðu mjer líka litla þykksilkisveskið hvíta, sem
fangamark hennar er saumað á með perlum“.
Patrick hlýddi því.
„Lítið á, Laporte! Þetta eru einu minjarnar, sem
jeg á um hana. Þjer skuluð færa Hennar Hátign þær
og sem seinustu kveðju mína skuluð þjer taka með yður
— —“
Hann litaðist um í herberginu, en húm dauðans
var þegar tekið að færast yfir hann, svo að hann kom
ekki auga á annað en hnífinn, sem dottið hafði úr
hendi Feltons og var blaðið atað í blóði hertogans.
— — „skuluð þjer taka með yður þennan hníf“,
sagði hertoginn eg tók í höndina á Laporte.
Enn þá entist honum styrkur til þess að láta veskið
og hnífinn ofan í silfurskrínið. Svo gerði hann Laporte
merki um, að nú gæti hann ekki talað lengur — og
að því búnu fjekk hann krampateygju, sem hann gat
ekki ráðið við og valt af legubekknum ofan á gólfið.
Patrick rak upp hátt hljóð.
Buckingham reyndi að brosa í síðasta sinn, en
dauðinn fór á hann og stirðnaði brosið á vörum hans.
Í þessum svifum kom líflæknir hertogans á harða
hlaupum og óttasleginn mjög. Hann hafði verið kominn
fram á aðmírálsskipið og þar fanst hann loksins.
Hann gekk að hertoganum, greip um úlnlið hans og
hjelt um hann nokkra stund en ljet hann svo falla
niður.
„Hjer er ekki um neina hjálp að ræða — hann
er dauður“, sagði hann.
„Dauður!“ æpti Patrick. „Er hann dauður!“
Við þetta óp ruddust menn inni í herbergið og sló
felmtri á alla.
Jafnskjótt sem Winter Lávarður var þess fullviss,
að Buckingham væri örendur, hljóp hann til Feltons,
sem varðmennirnir geymdu enn á grashjallanum.
„Ókindin þín!“ kallaði hann til hins unga manns,
sem nú hafði náð aftur sinni fyrri rósemi og stillingu.
„Hvað hefur þú gert, ókindin þín?“
„Jeg hef hefnt mín“, svaraði Felton.
„Hefnt þín!“ sagði lávarðurinn. „Segðu heldur, að
þú hafir verið verkfæri í höndunum á þessum kvennskratta.
En nú sver jeg þess eið, að þetta ódáðaverk
skal líka verða hennar seinasta“.
„Jeg veit ekki hvað þjer eigið við“, svaraði Felton
rólega „og heldur ekki, um hvern þjer eruð að tala.
Jeg vó Buckingham vegna þess, að hann hafði tvívegis
neitað, í yðar eigin áheyrn, að gera mig að höfuðsmanni.
Jeg hegndi honum fyrir rangsleitni hans —
það er alt og sumt.
Winter lávarður stóð orðlaus og horfði á, að varðmennirnir
lögðu Felton í fjötra. Hann vissi ekki, hvað
hann ætti að hugsa um aðra eins þverúð.
Samt var einn hlutur, sem Felton gat ekki áttað
sig á. Í hvert skifti, sem gengið var um, hjelt þessi
einfeldnislegi Púrítani, að þar kæmi Mylady til þess
að fleygja sjer í faðm hans, ákæra sjálfa sig og sæta
sömu kjörum og hann.
En alt í einu hrökk hann við og starði út á hafið,
sem blasti við grashjallanum. Líklega hefðu aðrir
ekki sjeð þar neitt markvert, en hin skörpu sjómannsaugu
hans sáu þar blika á seglin á skipinu á leið þess
til Frakklands. Hann náfölnaði og studdi hendinni á
hjartastað — nú fyrst skildist honum það, að hann
var svikinn og á tálar dreginn.
„Viljið þjer gera seinustu bón mína?“ spurði hann
lávarðinn.
„Hver er hún ?“ spurði lávarðurinn.
„Að segja mjer hvað klukkan er“.
„Hana vantar tíu mínútur í níu“, sagði lávarðurinn,
er hann hafði litið á úrið sitt.
Mylady hafði þá farið hálfum öðrum tíma áður
en umtalað var. Hún hafði skipað að ljetta akkerum
jafnskjótt, sem hún heyrði fallbyssuskotið, er tilkynti
hinn sorglega og mikilsverða atburð.
Og nú skreið skipið þarna fyrir fullum seglum
og var þegar komið langt frá landi.
„Það er guðs vilji“, sagði hann með allri rósemi
hins sanntrúaða, en samt gat hann ekki haft augun af
hinu hverfandi skipi. Winter lávarður tók eftir því,
hvert hann horfði og grunaði, hvað honum var innan
brjósts.
„Þú mátt þola hegninguna einn, vesali maður“,
sagði hann — „þola hana aleinn fyrst um sinn, en
jeg sver það við minningu bróður míns, sem mjer var
mjög hugþekkur, að sú sem þjer er meðsek skal heldur
ekki fá umflúið refsivönd laganna í þetta sinn“.
Felton drap höfði og svaraði engu, en Winter lávarður
gekk frá honum og hjelt niður til hafnarinnar.
XI. Á Frakklandi.
Þegar Karl fyrsti Bretakonungur, frjetti dauða
Buckinghams, óttaðist hann fyrst og fremst, að þessi
sviplegi atburður mundi draga hug og dug úr La Rochelle-íbúum.
Richelieu segir svo frá í æfiminningum
sínum, að konungur hafi í lengstu lög reynt að leyna
þá því, sem gerst hafði. Hann ljet loka öllum höfnum
ríkisins og gætti þess vel, að ekkert skip kæmist
burt fyr en floti sá, er Buckingham hafði herbúið, var
lagður úr höfn fyrir nokkru og sjálfur tókst hann á
hendur, að sjá um burtsigling hans. Og svo var þessum
varúðarreglum strengilega fylgt, að sendiherra Dana
er kvatt hafði kóng og prest, var haldið aftur á Englandi
og sömuleiðis sendiherra Hollendinga, er átti að
fara til Vliessingen með Austur-Indiaskip, sem Karl
fyrsti varð að skila Hollendingum aftur.
En með því að honum hafði ekki hugkvæmst að
láta þetta boð út ganga fyr en mörgum tímum eftir
sjálfan viðburðinn, eða þegar komið var langt fram á
dag, þá voru þegar tvö skip lögð frá landi. Á öðru
þeirra var Mylady, eins og sagt hefur verið, því að
hún hafði fengið grun um, hversu komið var og sá
grunur hennar styrktist þegar hún sá svarta veifu blakta
á stórsiglu aðmírálsskipsins. Það segir seinna frá því,
hver var á hinu skipinu og hvernig það komst út af
höfninni.
Meðan þetta gerðist, bar fátt og lítið til tíðinda í
umsáturshernum við La Rochelle. Konungi sárleiddist
eins og raunar alt af, en kann ske fremur í herbúðunum
en annarstaðar. Hann ásetti sjer því, að halda
messu Lúðvíks helga í Sant-Germain og bað kardínálann
að lána sjer tuttugu skyttuliða til fylgdar. Kardínálinn
varð fúslega við þeirri beiðni hans og konungur
lofaði að koma aftur til herbúðanna um miðjan septembermánuð.
Herra de Tréville bjóst því til ferðar og ljet hina
fjóra fjelaga og vini sína auðvitað vera með í förinni
þar eð hann vissi, að þá fýsti mjög að koma til Parísar
aftur, án þess þó að þekkja aðalástæðu þeirra til
þess.
Tréville tilkynti þeim fjelögum þetta litlu síðar,
enda sagði hann þeim það fyrstum manna og þóttist
d'Artagnan þá ekki nógsamlega geta lofað hamingju
sína fyrir það, að kardínálinn hafði sýnt honum þá
velvild, að veita honum upptöku í skyttuliðið, því að
öðrum kosti hefði hann orðið að verða eftir í herbúðunum
meðan fjelagar hans voru burtu. Þess þarf ekki
að geta, að löngun hans til þessarar Parísarferðar stafaði
af þeirri hættu, sem hann vissi að mundi vofa yfir
frú Bonacieux ef fundum þeirra Mylady og hennar,
hins argasta óvinar frú Bonacieux, skyldi bera saman
í klaustrinu í Bethune.
Sökum þess hafði Aramis eins og áður er
sagt, undir eins skrifað Maríu Michon, saumakonu í
Tours, og beðið hana að útvega frú Bonacieux leyfi
drotningar til þess að fara úr klaustrinu og leita sjer
hælis í Lóthringen eða Belgíu. Ekki stóð lengi á svarinu
og viku síðar fjekk Aramis svolátandi brjef:
/*
„Kæri frændi!
Hjer með fylgir leyfi systur minnar til þess að
taka stúlkuna okkar úr klaustrinu í Bethune, fyrst að
þjer virðist að vistin þar muni ekki vera henni sem
hollust. Systir mín veitir þetta leyfi með glöðu geði,
því að henni þykir mjög vænt um stúlkuna og vill
gjarna vera henni innan handar framvegis.
Með kærum kveðjum
María Michon“.
*/
Brjefi þessu fylgdi svohljóðandi fyrirskipun:
/*
„Príóressunni í Bethune-klaustrinu ber að fá þeim,
sem þetta skilríki sýnir, í hendur hina ungu stúlku,
sem jeg hef beðið klaustrið að geyma og varðveita
um hríð.
Louvre 10. ágúst 1628
Anna“.
*/
Það lætur að líkindum, að þessi frændsemi Aramis
við saumakonu, sem kallaði drotninguna systur
sína, hafi oft og tíðum verið aðhlátursefni þeirra fjelaga.
Aramis kafroðnaði stundum út undir eyru, einkum
þegar Porthos var að glensa um þetta með allfrekum
orðum ef svo bar undir og varð það til þess,
að Aramis bað fjelaga sína að hætta því gamni algerlega,
ella mundi hann ekki tíðar fara þess á leit við
frænku sína að hafa nokkur afskifti af málum þeirra.
Þeir fjelagar hættu þá öllu gaspri um Maríu Michon,
enda höfðu þeir fengið það, sem þeir vildu — leyfi
til að taka frú Bonacieux úr Karmelítaklaustrinu í Bethune.
Raunar kom þeim þetta leyfi að litlu haldi meðan
þeir voru bundnir við herbúðirnar við La Rochelle,
á öðru landshorni að heita mátti. D'Artagnan hafði
líka ásett sjer að biðja Tréville um fararleyfi, þá en kom
fregnin um Parísarferð konungs og að þeir fjórir ættu
að verða í fylgd hans.
Þessi fregn gladdi þá stórum og varð nú uppi fótur
og fit. Þeir sendu þjóna sína á undan með farangurinn
og lögðu af stað um morguninn. Kardínálinn
fylgdi Hans Hátign á leið og skildust þeir síðan með
allri blíðu.
Konungur ætlaði sjer að vera kominn til Parísar
tuttugasta og þriðja og hraðaði því för sinni sem mest
hann mátti, en tók sjer þó áningarstað við og við sjer
til hvíldar og skemtunar og horfði þá á fuglaveiðar
með veiðihaukum, er hann jafnan hafði mikið yndi af.
Af þessum tuttugu skyttuliðum, sem fylgdu honum,
voru sextán, sem undu vel þessum viðstöðum, en
fjórir bölvuðu þeim í sand og ösku. Einkum kvartaði
d'Artagnan um sífelda suðu fyrir eyrunum og skýrði
Porthos það á þessa leið:
„Mjög tigin kona hefur sagt mjer, að suða fyrir
eyrum merkti það, að verið væri að skrafa um mann
einhverstaðar“.
Loks komust þeir til Parísar aðfaranótt tuttugasta
og þriðja. Konungur þakkaði Trèville fylgdina og leyfði
honum að gefa fylgdarliðinu orlof alt að fjórum dögum
með því skilyrði, að enginn fylgdarmanna ljeti sjá
sig á opinberum stöðum. Brot gegn því skyldu varða
fangelsi.
Þeir fjelagar voru, sem geta má nærri, hinir fyrstu,
sem beiddust orlofs. Athos hafði auk heldur tekist að
fá það lengt, svo að þeir fengu sex daga og tvær nætur
til sinna umráða.
„Nei, bíðum nú við!“ sagði d'Artagnan með sinni
vanalegu bjartsýni, „Þetta finst mjer nú heldur vel í
lagt! Jeg get farið til Bethune á tveim dögum —
reyndar með því að sprengja tvo eða þrjá hesta, en
það gerir nú minna til. Jeg hef kappnóg af peningum.
Þar fæ jeg príóressunni boðskap drotningar og
flyt blessunina mína hvorki til Lóthringen eða Belgíu,
heldur beint til Parísar, því að þar er langbezti geymslustaðurinn,
einkum meðan kardínálinn dvelur við La
Rochelle. Síðar getum við hagað þessu eins og okkur
bezt þykir með tilstyrk drotningarinnar, þegar umsátinni
verður lokið og við komum aftur úr leiðangrinum.
Þið haldið því kyrru fyrir hjer og farið ekki að
leggja þetta á ykkur að óþörfu. Við Planchet getum
sem bezt skroppið þetta einir okkar liðs“.
Þessu svaraði Athos mjög stillilega:
„Við höfum líka peninga. Jeg er ekki búinn að
drekka út minn part af því, sem okkur áskotnaðist
fyrir demantinn, og Porthos og Aramis eru heldur ekki
búnir að jeta sinn part út. Við getum því líka sprengt
nokkra hesta. En heyrðu nú, d'Artagnan“, bætti hann
við í svo alvarlegum og hátíðlegum rómi, að d'Artagnan
fjell allur ketill í eld. „Þú verður vel að gæta
þess, að Bethune er einmitt sá staðurinn, þar sem
kardínálinn hefur mælt sjer mót með þessari konu,
sem alt af hlýzt eitthvað ilt af, hvar sem hennar verður
vart. Ef þú ættir fjórum mönnum að mæta, þá væri
jeg óhræddur um ykkur Planchet tvo eina, en fyrst að
þessi kona er með í leik, þá skulum við fara allir saman
og mun þó öllu til skila haldið, að við fjórir, eða
átta með þjónum okkar, verði nægur liðsafli“.
„Þú gerir mig logandi hræddan, Athos“, sagði
d'Artagnan. „Mikil ósköp! Hvað er það helzt, sem þú
óttast?“
„Alt“, sagði Athos.
D'Artagnan leit framan í fjelaga sína og voru þeir
allir jafnórólegir á svipinn og Athos. Eyddu þeir svo
ekki fleiri orðum að þessu, en þeystu þegar af stað á
harða spretti.
Að kvöldi þess tuttugasta og fimta komu þeir til
Arras[* Arra.]. D'Artagnan fór af baki fyrir utan veitingahúsið
„Gullherfið“ og ætlaði að fá sjer glas af víni, en í
sama bili kom þar út maður, sem hafði verið að hvíla
sig þar, stje á hest sinn og þeysti eftir veginum til
Parísar. Rjett í því, að hann var að skreppa út úr
hliðinu, kom vindþota, lyfti upp yfirhöfn hans stórri
og þykkri, þó að þetta væri um hásumarið og var
nærri búin að feykja af honum hattinum. Hann gat
þó haldið í hattinn og þrýsti honum skjótlega ofanundir
augu.
D'Artagnan gætti vel að manninum, brá litum og
setti glasið frá sjer.
„Hvað gengur að yður, herra?“ spurði Planchet.
— „Hæ, heyrið þið þarna! Húsbóndanum er að verða
ilt!“
Hinir þrír komu hlaupandi að vörmu spori. En
d'Artagnan kendi sjer einskis meins, heldur hljóp
að hesti sínum, en hinir öftruðu honum.
„Jájá! Hvern skrattann ætlarðu nú að þjóta?“
spurði Athos.
„Það er hann!“ æpti d'Artagnan, náfölur af reiði
og kófsveittur. „Það er hann — látið mig elta hann!“
„Hvaða hann?“ spurði Athos.
„Hann — maðurinn“.
„Hvaða maður?“
„Þessi mannskratti, sem er minn vondi andi og
jeg skal alt af rekast á, þegar einhver ógæfa vofir yfir
mjer. Hann, sem var í för með þessari hræðilegu konu
í fyrsta skifti, sem jeg hitti hana — hann, sem jeg sá
sama morguninn, sem frú Bonacieux var numinn brott.
Jeg sá hann líka núna — það var hann. Jeg kannaðist
við hann þegar hatturinn ætlaði að fjúka af honum.
„Það var skrítinn skolli“, sagði Athos hugsandi.
„Á bak, á bak! Við skulum elta hann! Við getum
náð honum enn!“ sagði d'Artagnan.
„Kæri vin!“ sagði Athos. Gættu að því, að hann
ríður í gagnstæða átt við okkur og að hann er á óþreyttum
hesti, en hestar okkar nærri uppgefnir. Þetta
yrði því ekki til annars en að sprengja okkar hesta að
þarflausu og gagnslausu. Láttu manninn eiga sig, d'Artagnan
— við skulum hugsa um það eitt, að hjálpa frú
Bonacieux“.
„Hæ, herra, halló!“ hrópaði hestastrákur einn og
hljóp af stað á eftir ókunna manninum. „Hæ-hó! Hjer
er pappírsmiði, sem fauk út úr hattinum yðar“.
„Heyrðu góði minn!“ sagði d'Artagnan. „Fáðu
mjer miðann! Jeg skal láta þig fá tíu franka gullpening
fyrir hann“.
„Gerið svo vel, herra — hjer er miðinn! sagði
strákurinn og fór inn í hesthúsið aftur, himinglaður yfir
þessari höfðinglegu borgun. D'Artagnan fletti miðanum
sundur og leit á hann.
„Núnú?“ sögðu fjelagar hans og þyrptust að honum.
„Það stendur bara eitt orð á honum“, sagði d'Artagnan.
„Jú, en það er nafn á einhverjum bæ eða þorpi“,
sagði Aramis.
„Armentiéres, sagði Porthos og leit á miðann. —
„Þann bæ þekki jeg ekki“.
„En þetta er skrifað með hennar hönd!“ sagði
Athos.
„Komum svo og látum okkur geyma miðann vel“,
sagði d'Artagnan. Kann ske að jeg hafi ekki samt sem
áður látið gullpeninginn til einskis. Á bak nú!“
Þeir keyrðu hestana sporum og riðu í loftinu áleiðis
til Bethune.
XII. Karmelítaklaustrið í Bethune.
Það virðist mega benda á einskonar fyrirhugun á
æfiferli allra stórglæpamanna, er lætur þá sigrast á
hvers konar hættum og hindrunum alt þangað til því
endimarki er náð, sem forsjónin hefur sett óhæfuverkum
þeirra, þegar mælir synda þeirra er fullur orðinn.
Svo var þessu varið með Mylady. Hún sigldi ótrauð
innan um beitiskip tveggja þjóða og komst heilu
og höldnu til Boulogne. Þegar hún kom til Portsmouth,
þóttist hún vera ensk og hafa orðið að flýja frá La
Rochelle vegna trúarbragða-ofsókna á Frakklandi. Og
þegar hún kom til Boulogne nokkru seinna, ljezt hún
vera frönsk og ekki hafa getað haldist við í Portsmouth
vegna haturs þess, sem Engiendingar legðu á Frakka.
Annars var Mylady mestur og beztur fararbeini í
fegurð sinni, tíguleik og örlæti á fje. Gamall hafnarvörður
heilsaði henni brosandi og kysti á hönd hennar
og slepti henni svo við frekari spurningar og eftirgrenslanir,
en annars stóð hún ekki lengur við í Boulogne
en á meðan hún skrifaði eftirfarandi brjef og
kom því í póstinn:
/*
„Til hans Hágöfgi, Richelieu kardínála, í herbúðunum
við La Rochelle.
Yðar hágöfgi getur verið áhyggjulaus. Hertoginn
af Buckingham kemur ekki til Frakklands.
Boulogne að kvöldi þess 25.
Mylady.
ES.
Eftir umtali við Yðar Hágöfgi fer jeg til Karmelítaklaustursins
í Bethune og bíð þar eftir frekari ráðstöfunum“.
*/
Sama kvöldið lagði Mylady af stað. Þegar nóttin
datt á, leitaði hún sjer gistingar í veitingahúsi einu.
Klukkan fimm morguninn eftir hjelt hún ferðinni áfram
og þrem tímum síðar kom hún til Bethune.
Hún ljet vísa sjer leið til Karmelítaklaustursins og
gekk þegar inn í það. Príóressan tók við henni sjálf.
Mylady sýndi henni meðmælabrjef frá kardínálanum
og var henni síðan vísað til herbergis og reiddur fram
matur handa henni.
Alt sem á undan var gengið, var nú horfið úr
huga þessarar konu. Hún hugsaði eingöngu til framtíðarinnar
og þeirra stórkostlegu launa, sem kardínálinn
hafði heitið henni. Hún hafði unnið honum með
elju og ástundun og með slíkri lægni og varúð, að
nafn hans kom aldrei við sögur, hvað sem í skarst og
á hverju sem valt. Þessar sífeldu ástríður, nýjar og
nýjar, sem ásóttu hana, gerðu líf hennar einna líkast
þessum svörtu og eldbryddu óveðursskýjum, sem þjóta
yfir jarðarbeltið og valda hvarvetna dauða og tortímingu.
Að máltíðinni lokinni kom príóressan inn til hennar.
Í klaustrum ber fátt til tíðinda og lítið er þar um
gleðskap og ljek príóressunni því mikill hugur á að
kynnast þessum nýja gesti sínum.
Mylady vildi koma sjer í mjúkinn hjá príóressunni,
enda veitti henni það því ljettara, sem hún að
ýmsu leyti bar af flestum konum. Hún var alúðleg og
töfrandi og heillaði príóressuna með fjörlegum samræðum
og yndisleik þeim, sem prýddi alt viðmót
hennar og framgöngu.
Príóressan var aðalsmannsdóttir og hafði einkum
skemtun af alls konar sögum úr hirðlífinu, en sögur
þær berast sjaldan út að landamærum og enn sjaldnar
inn fyrir klaustursmúrana, því að á þeim brotna bylgjur
og hafrót lífsins storma og æsinga.
En Mylady voru hins vegar gjörkunnar allar krókaleiðir
og sniðgötur hirðarinnar, því að um fimm eða
sex ára skeið hafði hún margoft átt leið um þær. Hún
tók að skemta abbadísinni með sögum um margvísleg
vjelabrögð hirðfólksins og yfirdrepsskap konungs, hún
þuldi henni öll hneykslismál hirðgæðinganna, karla
sem kvenna og kannaðist abbadísin við nöfn þeirra
flestra. Einnig drap hún lauslega á ástafar drotningarinnar
og Buckinghams og ljet alt af dæluna ganga í
von um að fá abbadísina til þess af leggja orð í belg.
En abbadísin ljet sjer nægja að hlusta á og brosa,
en sagði ekki nokkurt orð. Mylady sá, að henni var
skemtun að þessu og hjelt áfram tali sínu, en vjek því
nú smátt og smátt að kardínálanum.
En þá komst hún í bobba, því að hún vissi ekki,
hvort abbadísin fylgdi konungi eða kardínálanum að
málum. Fór hún því bil beggja, en abbadísin var enn
varkárari og ljet sjer nægja að hneigja sig djúpt, í hvert
skifti, sem kardínálinn var nefndur.
Mylady fór að halda, að sjer mundi leiðast í
klaustrinu og ásetti sjer því, að vera ekki út af eins
orðvör til þess að komast strax eftir því, hvað hún
mætti leyfa sjer. Hún ætlaði að reyna að komast eftir
því, yfir hverju abbadísin byggi og fór nú að halla á
kardínálinn, fyrst með hægð, en síðan öllu djarflegar
og sagði nú bæði frá kunningsskap kardínálans við frú
d'Aiguillon, Marion de Lorme og ýmsar aðrar konur.
Abbadísin hlustaði á með athygli, lifnaði öll við
og fór að brosa.
„Þetta líkar henni“, hugsaði Mylady, „og ef hún
fyllir flokk kardínálans, þá fylgir því ekkert ofstæki
að minsta kosti“.
Því næst fór hún að tala um ofsóknir kardínálans
gegn óvinum hans. Abbadísin gerði að eins krossmark
fyrir sjer, en mælti hvorki með eða móti.
Þetta styrkti þá skoðun Mylady, að abbadísin
mundi frekar fylgja konungi að málum en kardínálanum.
Mylady hjelt því áfram og varð æ djarfmæltari.
„Mjer er harla ókunnugt um þetta alt saman“,
sagði abbadísin loksins. „En þó að við hjer í klaustrinu
höfum ekkert af hirðlífinu að segja eða hávaða
heimsins og skarkala, þá höfum við þó einnig hjer sjeð
sorgleg dæmi þess, sem þjer eruð að segja frá. Hjer
er ung nunna, nú sem stendur, sem hefur orðið hart
úti vegna haturs kardínálans og ofsókna hans“.
„Ung nunna!“ sagði Mylady. „Vesalings stúlkan!
Jeg vorkenni henni sannarlega!“
„Já, vissulega er hún aumkvunarverð. Fangelsi,
misþyrmingar og hótanir — alt þetta hefur hún mátt
þola. En kardínálinn hefur kann ske haft fulla ástæðu
til að fara þannig að. Raunar lítur hún út eins og
engill, en oft er flagð undir fögru skinni“.
„Gott og vel!“ hugsaði Mylady. „Hver veit nema
hjer sje eitthvað að hnýsast eftir — jeg er ágætlega
fyrirkölluð núna til þess“.
Hún setti upp mesta sakleysissvip og sagði:
„Æ-já! Jeg held að jeg kannist við það! Það er
gamalt mál, að ekki sje alt sem sýnist og að ekki beri
að dæma eftir útlitinu, en hverju á þá að treysta, ef
ekki má treysta fegurstu skepnu skaparans? Það má
vera, að jeg láti villa mjer sjónir alla mína æfi, en alt
fyrir það get jeg ekki annað en trúað hverri manneskju,
sem býður af sjer góðan þokka og mjer geðjast vel að“.
„Yður þykir þá ekki ósennilegt, að þessi unga
nunna kunni að vera saklaus?“
„Kardínálinn ofsækir ekki afbrotamenn“, sagði
Mylady. „En til eru þeir mannkostir, sem finna minni
náð fyrir hans augum en misgerðirnar“.
„Með yðar leyfi að segja“, kæra frú“, sagði abbadísin,
„þá er jeg mjög hissa“.
„Hissa á hverju?“
„Á þessu tali yðar“.
„Hvað finst yður undarlegt við það?“ spurði
Mylady brosandi.
„Þjer hljótið að vera vinur kardínálans, fyrst að
hann hefur vísað yður hingað og samt — —“
„Og samt tala jeg illa um hann?“ bætti Mylady
við.
„Já — að minnsta kosti talið þjer ekki vel um
hann“.
„Það kemur til af því, að jeg er ekki vinur hans,
heldur einn af þeim sem hann ofsækir“.
„En hvað á þá þetta meðmælabrjef að þýða, sem
hann ljet yður færa mjer?“
„Það er ekki annað en skipun um að hafa mig í
eins konar varðhaldi, þangað til að hann lætur einhvern
af þjónum sínum sækja mig“.
„En hvers vegna flýðuð þjer þá ekki?“
„Hvert hefði jeg átt að flýja?“ sagði Mylady.
„Haldið þjer, að það sje nokkur sá afkimi veraldarinnar
til, að armur hans nái ekki þangað? Það hefði
kann ske ekki verið óhugsanlegt, hefði jeg verið karlmaður,
en hvað má vesöl kona sín? Hefur þessi unga
nunna, sem þjer voruð að minnast á, nokkurn tíma
reynt að flýja?“
„Nei, það hefur hún ekki, en það er nú öðru
máli að gegna með hana. Jeg held að það sjeu einhver
ástamál, sem binda hana við Frakkland“.
„Jæja — það getur þá verið henni ofurlítil huggun“,
sagði Mylady og stundi.
„Þjer eruð þá ofsótt og ógæfunni ofurseld?“ sagði
abbadísin.
„Æ-já!“ svaraði Mylady.
Abbadísin ókyrðist nú, eins og henni hefði dottið
eitthvað nýtt í hug.
„Þjer eruð þó væntaniega ekki fjandsamleg vorri
trú?“ sagði hún.
„Jeg!“ sagði Mylady. „Að jeg sje mótmælandi!
Nei, eins og guð er uppi yfir okkur, þá er jeg vissulega
katólskrar trúar“.
„Jæja!“ sagði abbadísin brosandi. „Þá þurfið þjer
engu að kvíða, hvað það snertir. Þetta klaustur skal
ekki verða yður þungbært fangelsi, heldur skulum við
gera alt, sem í okkar valdi stendur til þess að þjer
getið unað fangavistinni vel. Það er sætt sameiginlegt
skipsbrot, segir máltækið, og hjer munuð þjer hitta
píslarnaut — ungu stúlkuna, sem jeg mintist á, en hún
hefur víst orðið fyrir einhverjum vjelabrögðum hirðarinnar.
Hún er indæl og elskuleg stúlka“.
„Hvað heitir hún?“
„Það er mjög tigin persóna, sem bað mig fyrir
hana og sagði, að hún hjeti Ketty, en jeg hef ekki
grenslast eftir ættarnafni hennar“.
„Ketty!“ sagði Mylady. „Eruð þjer viss um það?“
„Að hún nefnist því nafni? Já, það er jeg. Kann
ske að þjer kannist eitthvað við hana?“
Mylady brosti að þeirri hugmynd sinni, að þetta
kynni að vera sama stúlkan, sem áður var herbergisþerna
hennar. En minningin um Ketty ýfði upp hennar
gömlu sár og harma og færðist hún þegar í hefndarhug.
En svo setti hún strax upp aftur sama alúðar
og velvildarsvipinn.
„Hve nær fæ jeg að sjá þessa ungu stúlku“, sagði
hún. „Mjer er strax orðið hlýtt til hennar“.
„Þjer fáið að sjá hana í kvöld — eða undir eins,
ef þjer viljið það heldur“, sagði abbadísin. „En nú
hafið þjer verið fjóra daga á ferðalagi, eftir því sem þjer
segið sjálf og voruð ferðbúin klukkan fimm í morgun.
Þjer hljótið því að þarfnast hvíldar. Nú skuluð
þjer leggjast fyrir og sofa og svo vekjum við yður um
miðjan daginn“.
Mylady þáði boð príóressunnar, enda þótt hún
vel hefði getað verið án svefns, því að nú sá hún hilla
undir nýtt æfintýri og það var hinum vjelráða huga
hennar hressing og styrkur. En hún var búin að reyna
svo margt og mikið seinustu tvær vikurnar, að sál
hennar þráði hvíldina þó að líkaminn væri óbilandi.
Hún yfirgaf því abbadísina, lagðist upp í rúm, en
hefndarhugur sá, sem nafnið á Ketty hefði vakið hjá
henni með ómótstæðilegu afli, vaggaði henni mjúklega
í værð. Hún fór að hugsa um þetta ótakmarkaða athafnafrelsi,
sem kardinálinn hafði heitið henni að launum,
ef hún ræki erindi sitt vel og með góðum árangri
— og sá árangur var fenginn! D'Artagnan var nú algerlega
ofursedur henni!
Það var aðeins eitt, sem olli henni áhyggjum og
það var endurminningin um mann hennar, de la
Fére greifa, sem hún hafði haldið að væri dauður, en
sem hún hafði hitt aftur undir nafninu Athos, einkavin
d'Artagnans. En fyrst að hann var einkavinur
d'Artagnans, þá hlaut hann líka að hafa verið í vitorði
með honum um öll þau glæpafyrirtæki, sem d'Artagnan
hafði framkvæmt í þágu drotningarinnar og sem
hvað eftir annað komu kardínálanum í stökustu vandræði.
Og þar sem Athos var einkavinur d'Artgnans,
þá var hann um leið fjandmaður kardínálans og henni
hlaut að takast á endanum að koma honum í sömu
snöruna, sem hún ætlaði sjer að herða að hálsi
hins unga skyttuliða.
Allar þessar glæsilegu vonir og framtíðarhorfur
voru henni til yndis og ánægju og leið ekki á löngu
að hún fjell í væran svefn.
Hún vaknaði aftur við þýðan og þægilegan málróm.
Opnaði hún þá augun og sá abbadísina ásamt
ungri stúlku, bjarthærðri og hörundsmjúkri með ljómandi
falleg augu, sem horfðu á hana með velvild og
nokkurri forvitni.
Hún kannaðist ekkert við andlitið á þessari ungu
stúlku. Virtu þær hvora aðra fyrir sjer með stakri athygli
um leið og þær skiftust á kurteisiskveðjum. Báðar
voru þær forkunnar fagrar, en þó sín með hvoru
móti og Mylady brosti þegar hún sá, að hún var hinni
miklu fremri að fyrirmensku og höfðingjabrag. En það
var aðgætandi, að nunnubúningurinn, sem hin unga
stúlka bar, var ekki sem bezt fallinn til þess að láta
líkamsfegurð hennar og vaxtarprýði njóta sín til
fullnustu.
Litlu síðar varð abbadísin að fara til tíða og urðu
þær þá einar eftir, nunnan og Mylady. Reyndar ætlaði
nunnan að fara líka, en Mylady kallaði á hana.
„Farið þjer ekki frá mjer svona undir eins“, sagði
hún. „Jeg er naumast búin að sjá yður og jeg bjóst
hálfvegis við, að þjer munduð stytta mjer stundir meðan
að jeg dveldi hjer“.
„Jeg skal ekki fara“, svaraði nunnan, „en jeg hjelt
að jeg mundi gera yður ónæði“.
„Nei, það er síðar en svo, að þjer gerið mjer
ónæði“, sagði Mylady og benti henni á stól við rúmið.
„Þetta vill annars leiðinlega til“, sagði nunnan.
„Nú er jeg búin að vera hjer í heilt missiri og hef
ekkert haft mjer til dægrastyttingar, og svo komið þjer
og hefðuð orðið mjer til sannrar ánægju, en þá stendur
svo á, að jeg fer líklega bráðlega hjeðan úr klaustrinu“.
„Það er svo!“ sagði Mylady. „Farið þjer bráðlega
hjeðan?“
„Já, það vona jeg að minsta kosti“, svaraði nunnan
og dró enga dul á ánægju sína.
„Jeg hef víst heyrt einhvern ávæning um það, að
þjer hafið orðið fyrir ofsóknum kardínálans“, hjelt
Mylady áfram. Þess betur ættum við að una okkur
saman“.
„Það er þá satt, sem príóressan var að segja, að
þjer sjeuð ein af þeim, sem þessi kardínálaskömm getur
ekki látið í friði“.
„Þei-þei!“ sagði Mylady. „Við skulum ekki fara
slíkum orðum um hann — ekki einu sinni hjer á
þessum stað. Öll mín ógæfa stafar af því, að jeg hafði
um hann hjer um bil sömu orðin og þjer við konu,
sem jeg hjelt að væri bezta vinkona mín, en hún
sveik mig í trygðum. Ætli að því sje eins varið með
yður?“
„Nei“, svaraði nunnan, „Jeg geld trygðar minnar
— trygðar minnar og trúfesti við konu sem mjer þótti
svo vænt um, að jeg hefði gjarna lagt lífið í sölurnar
fyrir hana.
„Og svo hefur hún auðvitað svikið yður?“
„Jeg gerði henni svo rangt til að halda það um
tíma, en nú fyrir skemstu fjekk jeg fullar sannanir
fyrir því, að svo var ekki og fyrir það er jeg Forsjóninni
þakklát. Mig hefði tekið það ákaflega sárt, hefði
hún brugðist mjer. En það virðist svo sem þjer getið
farið allra yðar ferða og flúið, hvenær sem yður sýnist“.
„Hvert ætti jeg að flýja, fjelaus og vinum horfin,
á mjer ókunnugu landshorni og öllum manneskjum ókunnug
hjer?“
„Vinum horfin! Yður mun aldrei verða vinafátt,
hvar sem þjer farið — þjer, sem eruð svo góðleg og
fögur“.
„Þrátt fyrir það er jeg nú samt ekki annað en ofsóttur
einstæðingur“, sagði Mylady.
„Þjer verðið umfram alt að treysta Forsjóninni“,
sagði nunnan. „Sá dagur kemnr, að vjer munum umbun
hljóta fyrir þau góðverk, sem vjer höfum gert og
vera kann að yður snúist það til gæfu að hafa hitt
mig þótt jeg sje vanmáttug og umkomulítil. Því að
komist jeg hjeðan burt, þá á jeg það að þakka voldugum
vinum og velunnurum, sem ekki munu telja eftir
sjer að rjetta yður hjálparhönd þegar þeir hafa sjeð
mjer borgið“.
„Jeg var að segja, að jeg væri einstæðingur“, sagði
Mylady, „og gekk þó raunar fram hjá fáeinum kunningjum
mínum í hárri stöðu, því að þeim stendur einnig
ótti af kardínálanum. Jafnvel drotningin sjálf þorir
ekki að ganga í herhögg við hann og jeg gæti nefnt
dæmi þess að Hennar Hátign, þrátt fyrir einlægan
vilja, hefur oftar en einu sinni neyðst til að ofurselja
reiði kardínálans þá menn, sem henni hafa verið innan
handar“.
„Þjer megið trúa mjer til þess, kæra frú, að það
getur vel hafa virzt svo, sem drotningin hafi brugðist
þeim mönnum. En það er ekki alt sem sýnist, og þess
frekar sem þeir menn eru ofsóttir, þess meira hugsar
hún um þá, enda fá þeir oftsinnis órækar sannanir
fyrir því þegar þá varir minst“.
„Ójá, því get jeg vel trúað“, sagði Mylady. Drotningin
er hjartagóð manneskja“,
„Jæja — Þjer hljótið þá að þekkja eitthvað til
hinnar fögru og göfuglyndu drotningar fyrst að yður
farast svo orð um hana“, sagði nunnan.
„Jú, raunar þekki jeg ekki Hennar Hátign persónulega,
en jeg hef komist í kynni við ýmsa nánustu
vini hennar“, svaraði Mylady. „Jeg þekki herra Putange[* Pujtangsj]
og herra Tréville og herra Dujart[** Dujsjar] hef jeg kynst á
Englandi“.
„Þekkið þjer herra de Tréville?“ spurði nunnan
með ákafa.
„Já, jeg þekki hann mjög vel, meira að segja“.
„Höfuðsmann skyttuliða konungs?“
„Já“, sagði Mylady.
„Jæja — þá er ekki hætt við öðru en að við
kynnumst fljótlega og verðum vinkonur ef til vill“,
sagði nunnan, „En fyrst að þjer þekkið herra de Tréville,
þá hafið þjer auðvitað komið heim til hans?“
„Já, oft og mörgum sinnum“, svaraði Mylady og
fann ekki ástæðu til að vera að klípa af lýginni þegar
hún var einu sinni byrjuð á henni.
„Þá hafið þjer eflaust hitt þar einhverja af skyttuliðum
hans?“
„Já, alla þá, sem hann er vanur að bjóða heim
til sín“, svaraði Mylady og fór nú að fylgja þessu
samtali þeirra með allmiklum áhuga.
„Nefnið þjer mjer einhverja þá, sem þjer þekkið
— það kemur þá líklega upp úr kafinu, að jeg á einhverja
vini meðal þeirra“.
„Nú-jæja“, sagði Mylady hálf vandræðalega. „Jeg
þekki til dæmis herra Souvigny, herra Courtviron og
herra Férussac“.
„Þekkið þjer ekki aðalsmann, sem Athos heitir?“
Mylady hvítnaði upp, svo að lökin í rúminu voru
varla hvítari og reyndi að stilla sig sem bezt hún gat,
en samt gat hún ekki varist því að reka upp lágt hljóð,
greip um höndina á nunnunni og starði á hana ofboðslega.
„Hvað gengur að yður? O, hvað er þetta! Hef
jeg orðið til þess að segja eitthvað, sem yður mislíkar?“
spurði nunnan allskelkuð.
„Nei, ekki svipað því. En jeg hef líka þekt þennan
mann, sem þjer nefnduð og það kom svo flatt upp
á mig, að þjer skylduð líka þekkja hann“.
„Já, jeg þekki hann mjög vel — og ekki að eins
hann, heldur einnig Porthos og Aramis, vini hans“.
„Nei, hvað er að tarna! Jú, þá þekki jeg líka“,
sagði Mylady og fanst henni sjer renna kalt vatn milli
skinns og hörunds.
„Nú-jæja! Fyrst að þjer þekkið þá, þá vitið þjer
líka eflaust, að þeir eru góðir menn og áreiðanlegir.
Hvers vegna hafið þjer ekki leitað til þeirra, fyrst að
þjer eruð hjálparþurfi?“
„Ja, það er að segja“, sagði Mylady — „jeg hefi
ekki persónuleg kynni af neinum þeirra, en jeg þekki
þá af lýsingu eins vinar þeirra, sem minnist mjög oft
á þá, og sá maður heitir d'Artagnan“.
„Þekkið þjer d'Artagnan?“ sagði nunnan og nú
var það hún, sem greip um höndina á Mylady og
starði á hana eins og hún ætlaði að gleypa hana með
augunum.
Þá sá hún einkennilegum glampa bregða fyrir í
augunum á Mylady og spurði:
„Jeg bið afsökunar, kæra frú — en hvernig er
kunningsskap ykkar varið?“
„Herra d'Artagnan er — ja, hann er vinur minn“,
svaraði Mylady vandræðalega.
„Þjer segið ekki satt, frú! Þjer hafið víst verið —
ástkona hans“.
„Það hafið þjer sjálf verið“, svaraði Mylady.
„Jeg!“
„Já, þjer og nú veit jeg hver þjer eruð — þjer
eruð frú Bonacieux!“
Nunnan hopaði á hæl, bæði forviða og óttaslegin.
„Yður er ekki til neins að þræta — svarið þjer
mjer!“ sagði Mylady.
„Nú-jæja! Jeg er frú Bonacieux“, sagði nunnan.
„Erum við kann ske keppinautar?“
Augu Mylady leiftruðu svo ískyggilega, að frú Bonacieux
hefði þegar lagt á flótta ef öðru vísi hefði staðið
á, en nú kvaldi afbrýðissemin hana.
„O, segið mjer að eins“, sagði hún og varð æ ákafari.
„Hafið þjer verið ástkona hans, eða eruð þjer
það enn?“
„Nei og aftur nei!“ hrópaði Mylady með slíkri
röddu, að enginn þurfti að efast um, að henni væri
fylsta alvara.
„Jeg trúi yður“, sagði frú Bonacieux. „En hvers
vegna brá yður svona kynlega við?“
„Skiljið þjer það ekki, góða mín?“ sagði Mylady.
Hún var nú búin að ná sjer aftur.
„Hvernig ætti jeg að geta skilið það? Jeg veit
ekkert um þetta“.
„Skilst yður það ekki, að d'Artagnan er vinur
minn og hefur sagt mjer öll sín leyndarmál?“
„Getur það verið?“
„Skilst yður það ekki, að jeg veit um þetta alt
saman, bæði um brottnám yðar úr sumarskálanum í
Saint-Germain, örvænting hans, samúð fjelaga hans og
allar hinar árangurslausu eftirgrenslanir þeirra? Og
skilst yður það ekki, að mjer hlaut að bregða þegar
jeg alt í einu og að óvörum er hjer augliti til auglitis
við yður — yður, sem við höfum þráfaldlega minst á,
yður, sem hann elskar af alhuga og hefur einnig komið
mjer til að láta mjer þykja vænt um yður, löngu
áður en jeg sá yður? Jæja-þá, kæra Constance! Loksins
hef jeg þá fundið yður og fengið að sjá yður!“
Og hún breiddi út faðminn á móti frú Bonacieux,
sem trúði öllu, sem hún hafði sagt, eins og nýju neti
og var sannfærð um, að þarna hefði hún alt í einu
eignast trúa og einlæga vinkonu þó að hún rjett áður
hefði haldið, að hún væri keppinautur sinn.
„Ó, fyrirgefið mjer“. sagði hún og lagði höfuðið
á öxiina á Mylady. „Jeg elska hann svo óumræðilega“.
Þær lágu í faðmlögum nokkra stund og hefðu
kraftar Mylady samsvarað hatri hennar, þá hefði frú
Bonacieux vissulega aldrei sloppið lifandi úr þeim faðmlögum.
En Mylady var nú ekki svo efld, að hún gæti
kyrkt hana og þá brosti hún við henni í þess stað.
„Æ, blessunin mín!“ sagði hún. „Dæmalaust þykir
mjer vænt um, að jeg fjekk að sjá yður. Lofið þjer
mjer nú að horfa reglulega vel á yður“, sagði hún og
skoðaði hana í krók og kring. „Jú, sannarlega eruð
það þjer. Jeg held að jeg þekki yður eftir lýsingum
hans — jeg þekki yður eins og hendurnar á mjer“.
Vesalings ungu konuna grunaði alls ekki, hvílík
grimd og hatur byggi bak við þetta sviphreina enni
og þessi ljómandi augu, hún sá þar ekkert annað en
samúð og meðaumkvun.
„Þjer vitið þá líka, hvað jeg hef orðið að líða“,
sagði frú Bonacieux, „fyrst að hann hefur sagt yður alt
af okkar högum. En það er sælt að líða fyrir hann“.
„Já, það er sælt“, endurtók Mylady ósjálfrátt. Hún
var að hugsa um alt annað.
„Og auk þess eru nú allar þrautir mínar bráðum
á enda“, hjelt frú Bonacieux áfram. „Jeg fæ að sjá
hann aftur á morgun, eða kann ske í kvöld og þá er
alt gleymt“.
„Í kvöld — eða á morgun?“ sagði Mylady og
vaknaði sem af draumi. „Við hvað eigið þjer? Eigið
þjer von á boðum frá honum?“
„Jeg á von á honum sjálfum“.
„Honum sjálfum! Kemur d'Artagnan hingað?“
„Já, hann kemur sjálfur!“
„Það nær engri átt. Hann er með kardínálanum
í herbúðunum við La Rochelle og hann getur ekki
komið fyr en umsátinni er lokið“.
„Það er nú yðar skoðun, en haldið þjer, að d'Artagnan
sje nokkur hlutur um megn — þeim góða og
göfuga riddara?“
„Mjer er ómögulegt að trúa því!“
„Jæja, lesið þjer þá þetta!“ sagði aumingja konan
himinglöð og fjekk Mylady brjef.
„Frá frú Chevreuse!“ hugsaði Mylady með sjer.
„Jú, mig grunaði lengi, að hún væri eitthvað við þetta
riðin!“
Svo las hún eftirfarandi línur:
„Verið þjer tilbúin, kæra barn! Vinur okkar kemur
bráðum til þess að sækja yður úr þessu fangelsi,
sem við urðum að fela yður í til vonar og vara. Þjer
skuluð því búast til ferðar og aldrei efast um hjálpsemi
okkar.
Gaskognarinn okkar hefur enn á ný sýnt sig bæði
hygginn og trúan, eins og áður. Segið honum, að menn
sjeu honum þakklátir á vissum stað fyrir boðskap
þann, er hann hafi flutt“.
„Já-seisei, brjefið er greinilegt“, sagði Mylady.
„Vitið þjer, hvaða boðskapur það er, sem minst er á
í því?“
„Nei — jeg ímynda mjer bara, að hann hafi gert
drotningunni aðvart um einhver vjelabrögð kardínálans“.
„Já, það er auðvitað eitthvað þess háttar“, sagði
Mylady og fjekk frú Bonacieux brjefið aftur.
Í sama bili heyrðist jódynur til hests, sem kom á
harða spretti.
„Ó, þetta skyldi þó aldrei vera hann!“ sagði frú
Bonacieux.
Mylady lá kyr í rúminu og var sem steini lostin
af undrun. Það bar nú svo margt að í einu, að hana
rak í rogastanz, aldrei þessu vant.
„Ja, skyldi það vera hann!“ sagði hún, Hún
hreyfði sig ekki úr rúminu, en starði fram undan sjer
með galopnum, flóttalegum augum.
„Ja-neinei“, sagði frú Bonacieux. „Það er einhver
maður, sem jeg þekki ekki, en hann er samt á leið
hingað. Nú hægir hann ferðina — hann nemur staðar
við hliðið og ber á porthurðina“.
Mylady stökk fram úr rúminu.
„Eruð þjer viss um, að það sje ekki hann?“
spurði hún.
„Já, jeg er alveg viss um það“.
„Þjer hafið kann ske ekki aðgætt það nógu vel“.
„Ó, jeg þarf ekki annað en að sjá fjöðrina í hattinum
hans eða lafið á kápunni hans til þess að þekkja
hann á augabragði“.
„Haldið þjer, að hann ætli að koma hingað upp?“
spurði Mylady.
„Hann ætlar þá að finna annaðhvort yður eða
mig“.
„Skelfing eruð þjer óróleg!“
„Já, jeg skal játa, að jeg er ekki eins ugglaus og
þjer — jeg á mjer altaf ills von af kardínálanum“.
„Þei-þei!“ sagði frú Bonacieux. „Nú kemur einhver“.
Hurðinni var lokið upp og príóressan kom inn.
„Eruð það þjer, sem komuð frá Boulogne?“ spurði
hún Mylady.
„Já“ svaraði hún og reyndi að stilla sig. „Er
nokkur að spyrja eftir mjer?“
„Já — hjer er kominn maður, sem ekki vill segja
til nafns síns, en hann segist vera sendur af kardínálanum“.
„Og vill þessi maður fá að finna mig?“
„Já, hann vill fá að tala við konu, sem hafi komið
hingað frá Boulogne“.
„Jæja — látið þjer hann koma hingað upp“.
„Ó, hamingjan góða!“ sagði frú Bonacieux. „Bara
að þetta viti ekki á eitthvað ilt!“
„Jeg er hrædd um það“.
„Nú fer jeg burt meðan þjer talið við þennan ókunnuga
mann, en kem svo aftur þegar hann er farinn
— ef yður er sama“.
„Já, það er langbezt“.
Príóressan og frú Bonacieux gengu nú út.
Þegar Mylady var orðin ein eftir, settist hún niður
og starði á dyrnar full eftirvæntingar. Litlu síðar
heyrðist gengið upp stigann, hurðin var opnuð og
maðurinn kom inn. — Mylady hljóðaði upp yfir sig
af fögnuði, því að maðurinn var Rochefort greifi —
hinn illi andi kardínálans.
XIII. Tvö varmenni.
„Nei, eruð það þjer?“ sögðu þau hvort um sig,
greifinn og Mylady.
„Já, það er jeg“.
„Og hvaðan komið þjer ?“ spurði Mylady.
„Jeg kem frá La Rochelle — en þjer?“
„Jeg kem frá Englandi“.
„Hvað er að frjetta af Buckingham?“
„Hann er annaðhvort dauður eða særður til ólífis.
Jeg gat engu tauti við hann komið og loksins var hann
myrtur af ofstækismanni einum“.
„Einmitt það — það bar vel í veiði!“ sagði Rochefort.
„Jeg held að kardínálanum þyki það ekki ónýtt,
en hafið þjer sent honum skeyti um það?“
„Jeg skrifaði honum frá Boulogne — en hvers
vegna eruð þjer kominn hingað?“
„Hans Hágöfgi var orðinn hræddur um yður og
sendi mig til þess að leita að yður“.
„Jeg kom ekki fyr en í gær“.
„Og hvað hafið þjer aðhafst síðan í gær?“
„Nú — jeg hef ekkj verið alls kostar yðjulaus“,
„Nei — jeg skal trúa því!“
„Vitið þjer, hvern jeg hitti hjerna?“
„Nei — það veit jeg ekki“.
„Getið þjer!“
„Hvernig í ósköpunum — —?“
„Ja-jújú! Jeg hitti ungu konuna, sem drotningin
hjálpaði út úr fangelsinu“.
„Það er svo — ástkonuna hans d'Artagnans?“
„Já, hana frú Bonacieux, sem hvarf svo að kardínálinn
vissi ekkert hvað af henni varð“.
„Ja, rjett er það — það er annað happið til. Kardínálinn
en sannarlega bráðheppinn!“
„Þjer getið nærri, hvað jeg varð hissa þegar jeg
rakst á þessa konu“, sagði Mylady.
„Þekkir hún yður?“
„Seisei — nei“.
„Svo að þjer eruð þá bráðókunnug manneskja í
hennar augum?“
„Jeg er hennar bezta vinkona!“ svaraði Mylady
brosandi.
„Ja, hvað er að tarna! Vissulega kann enginn að
koma ár sinni eins vel fyrir borð eins og þjer“, sagði
Rochefort.
„Jú, en vitið þjer, hvað hjer fer á eftir?“ spurði
Mylady.
„Ónei“.
„Hún verður sótt hingað á morgun eða hinn daginn
eftir skipun drotningar“.
„Einmitt það — og hver á að sækja hana?“
„D'Artagnan og vinir hans“.
„Getur það verið? Jeg hef annars oft hugsað, að
það væri bezt að stinga þeim piltum í svartholið“.
„Já — hvers vegna er ekki búið að því fyrir
löngu?“
„Af því að kardínálanum er eitthvað óskiljanlega
hlýtt til þeirra“.
„Nú-jæja! Þjer skuluð þá segja honum, Rechefort,
að þessir fjelagar hafi hlerað samtal okkar í veitingahúsinu
„Rauða dúfnabúrið“. Segið honum, að þegar
hann var farinn, hafi einn þeirra komið upp til mín
og tekið af mjer með ofbeldi griðabrjefið, sem kardínálinn
fjekk mjer. Segið honum, að þeir hafi tilkynt
Winter lávarði för mína til Englands og að fyrir þær
sakir hafi legið við, að erindi mitt mishepnaðist eins
og í fyrra skifti, þegar um demantana var að ræða.
Segið honum, að af þessum fjórum mönnum sjeu að
eins tveir, sem við þurfum að óttast — þeir d'Artagnan
og Athos. Segið honum, að þriðji maðurinn, Aramis,
sje elskhugi frú Chevreuse og að bezt sje að láta
hann afskiftalausan; við þekkjum leyndarmál hans og
gætum þess vegna haft gagn af honum og segið honum
loks, að fjórði maðurinn sje klunni, kjáni og oflátungur,
sem enginn þurfi að kæra sig um“.
„En þessir fjórir menn hljóta að vera í herbúðunum
við La Rochelle“.
„Það hjelt jeg líka, en frú Bonacieux hefur fengið
brjef frá frú Chevreuse, sem hún var svo grunnhyggin
að sýna mjer og af því brjefi þóttist jeg geta ráðið, að
þessir fjelagar hafi tekið sjer ferð á hendur til þess að
ná frú Bonacieux hjeðan“.
„Ja, hvert í logandi! Hvað eigum við nú að taka
til bragðs?“
„Hvað sagði kardínálinn yður, mjer við víkjandi?“
„Ekkert annað en það, að jeg skyldi fá skýrslu
hjá yður, skriflega eða munnlega, um það, hvað yður
hefði orðið ágengt og mundi hann svo, þegar hann
hefði fengið þá skýrslu, kveða á um, hvaða verkefni hann
fengi yður næst“.
„Á jeg þá að vera hjer kyr?“
„Annaðhvort hjer, eða einhverstaðar í grendinni“.
„Svo að jeg get þá ekki farið með yður?“
„Nei, það vill hann alls ekki. Þjer kynnnð að
þekkjast í herbúðunum og auk þess mundi þarvera
yðar verða honum til ýmsra óþæginda, eins og þjer
getið víst gizkað á“.
„Nú-jæja! Jeg bíð þá einhverstaðar hjer í grendinni“.
„Já, en þjer verðið að segja mjer, hvernig hægt
verður að komast í samband við yður. Jeg verð að
vita, hvar hægt er að hitta yður“.
„Já, en fyrst og fremst er ólíklegt, að jeg verði
hjerna til lengdar“.
„Vegna hvers?“
„Þjer gleymið því, að fjandmenn mínir geta komið
hingað þegar minst varir“.
„Satt er það, en ef þjer farið hjeðan mjög bráðlega,
þá vitið þjer ekki hvað verður af frú Bonacieux
og þá missir kardínálinn líka af henni“.
„Seisei-nei“, sagði Mylady og brosti einkennilega.
„Jeg var að segja yður rjett áðan, að jeg væri orðin
bezta vinkona hennar“.
„Já, það er nú svo, en á jeg þá að segja kardínálanum,
að hvað þá konu snerti — —“
„— — þá geti hann verið áhyggjulaus“.
„Og ekkert annað?“
„Nei, jeg býzt við að hann skilji hálfkveðna vísu“.
„Jæja-þá! Hvað á jeg svo annað að gera?“
„Snúa aftur um hæl til La Rochelle, enda finst
mjer, að þær fregnir, sem þjer hafið að færa, sjeu þess
verðar, að þær komist tafarlaust“.
„En vagninn minn bilaði í Lilliers“.
„Það var ágætt“.
„Ágætt — hvað eigið þjer við?“
„Jeg á við það, að jeg þarf að halda á honum“.
„En hvernig á jeg þá að komast sjálfur?“
„Þjer eigið að ríða alt hvað af tekur“.
„Það er nú hægra sagt en gert — eitthvað sextán
dagleiðir“.
„O-jæja — annað eins hefur nú verið gert“.
„Jú, það er auðvitað ekki alveg frágangssök, en
hvað svo?“
„Þegar þjer komið til Lilliers, látið þjer gera við
vagninn, sendið mjer hann og segið þjóni yðar að fara
eftir því, sem jeg skipa honum“.
„Jú, rjett er það“.
„Þjer hafið væntanlega einhverja skriflega skipun
frá kardínálanum?“
„Já, jeg hef hana“.
„Hana skuluð þjer sýna príóessunni og segja henni,
að jeg verði sótt hingað í dag eða á morgun og að
jeg verði að fylgjast með þeim manni, sem komi hingað
í yðar nafni. Það er bezt, að þjer farið einhverjum
niðrunarorðum um mig um leið“.
„Vegna hvers?“
„Vegna þess að jeg hef gefið það í skyn, að jeg
hafi orðið fyrir reiði og ofsóknum kardínálans og það
verður þá enn trúlegra“.
„Já, auðvitað. En ætlið þjer að segja mjer, hvar
yður verður að hitta?“
„Í Armentiéres“, svaraði Mylady eftír nokkra umhugsun.
„Það er bezt, að þjer skrifið það hjá yður til
vonar og vara“.
„Jæja — látum okkur nú sjá hvernig þetta er —
— Buckingham dauður, eða hættulega særður að minsta
kosti, samtal yðar við kardínálann hlerað af skyttuliðunum,
Winter lávarði gert aðvart um komu yðar til
Englands, setja d'Artagnan og Athos í svartholið, Aramis
í þingum við frú Chevreuse, Porthos aulabárður,
frú Bonacieux komin í leitirnar, senda vagninn sem
fyrst, segja þjóninum mínum að hlýða skipunum yðar,
segja príóressunni, að kardínálinn hafi ilt auga á yður
— er nú alt upp talið?“
„Já, þjer eruð alveg stálminnugur — en samt hafið
þjer gleymt einu“.
„Hvað er það?“
„Að spyrja, hvort mig vanti ekki peninga“.
„Já, það var alveg rjett. Hvað þurfið þjer mikið?“
„Alt það gull, sem þjer hafið“.
„Jeg held, að jeg hafi fimm hundruð gulldali“.
„Og jeg hef eitthvað álíka. Með þúsund gulldölum
er hægt að gera hvað sem vera skal í þessari veröld.
Jæja, upp með pyngjuna! Svona, þakka yður fyrir
og verið þjer nú sælir!“
„Verið þjer sælar, kæra frú!“
„Berið þjer kardínálanum kveðju mína“.
Síðan kvöddust þau brosandi, Mylady og Rochefort.
Litlu síðar reið hann burt á harða spretti og var
kominn til Arras eftir fimm tíma.
XIV. Eitt staup af víni.
Frú Bonacieux kom inn til Mylady þegar Rochefort
var farinn og brosti Mylady blíðlega við henni.
„Nú er það komið fram sem þjer óttuðust“, sagði
frú Bonacieux. „Kardínálinn sendir eftir okkur í dag
eða á morgun“.
„Hver hefur sagt yður það, barnið gott“, spurði
Mylady.
„Jeg heyrði sendimanninn sjálfan segja það“.
„Komið þjer hjerna og setjið yður“, sagði Mylady.
„Já, jeg er hjerna“.
„Bíðið þjer við — jeg ætla að gæta að, hvort
nokkur heyrir til okkar“.
„Hvers vegna þarf að gæta að því?“
„Það skuluð þjer bráðum fá að vita“.
Mylady stóð upp og gekk fram að dyrunum, opnaði
hurðina og leit fram á ganginn, kom svo aftur og
settist við hliðina á frú Bonacieux.
„Hann hefur þá leyst ætlunarverk sitt vel af hendi“,
sagði hún.
„Hver þá?“
„Hann sem sagði príóressunni, að hann væri
sendimaður kardínálans“.
„Var það ekki annað en fyrirsláttur?“
„Nei, það var ekki annað, góða mín“.
„Hann er þá ekki — —“
„Nei, hann er bróðir minn“, hvíslaði Mylady.
„Bróðir yðar?“
„Já, en það veit enginn nema þjer og það er úti
um mig, og yður kann ske líka, ef þjer segið það
nokkrum lifandi manni“.
„Hvað er að tarna!“
„Nú skal jeg segja yður, hvað er að gerast og
hvernig á stendur. Bróðir minn var á leið hingað til
þess að taka mig hjeðan með valdi, ef þörf gerðist,
og mætti þá sendimanni kardínálans, sem átti að sækja
mig hingað. Hann slóst í för með honum og þegar
þeir komu á afvikinn stað, brá hann sverði sínu og
heimtaði af sendimanninum að hann fengi sjer skjöl
þau, er hann hafði meðferðis. Maðurinn synjaði þess
og bjóst til varnar, en bróðir minn hjó hann banahögg.
„Æ, hvaða ósköp eru að heyra þetta!“ sagði frú
Bonacieux.
„Já, en þjer verðið að gæta þess, að bróðir minn
átti ekki annars úrkosti og ásetti sjer að beita brögðum
en ekki valdi. Hann tók skjöldinn og ljezt svo
vera sendimaður kardínálans þegar hingað kom og
innan skamms verður sendur hingað vagn til þess að
sækja mig í nafni kardínálans“.
„Æ, nú skil jeg alt saman — bróðir yðar sendir
vagninn“.
„Alveg rjett — en þar með er ekki alt búið. Brjefið,
sem þjer sýnduð mjer — —“
„Hvað er um það?“.
„Það er falsað“.
„Getur það verið?“
„Já, víst er það falsað og yður var sent það til
þess að þjer skylduð ekki sýna neina mótstöðu þegar
þeir kæmu að sækja yður“.
„En það er d'Artagnan, sem ætlar að sækja mig“.
„Það skuluð þjer ekki halda. D'Artagnan og fjelagar
hans eru í herbúðunum við La Rochelle“.
„Hvernig vitið þjer það?“
„Bróðir minn varð var við sendimenn frá kardínálanum
dularklædda í skyttuliðabúningi. Ætlunin var
sú, að þeir ættu að látast vera kunningjar yðar, taka
yður hjeðan og flytja yður til Parísar“.
„Æ, hamingjan góða! Mig svimar af öllum þessum
glæpum og blekkingum og mjer finst jeg ætla að
ganga af vitinu ef þessu heldur áfram“.
„Bíðið þjer snöggvast við“.
„Hvað er nú?“
„Jeg heyri hófadyn. Það er bróðir minn að fara
burt — jeg ætla að senda honum kveðju“.
Mylady opnaði gluggann og benti frú Bonacieux
að koma nær. Rochefort þeysti fram hjá.
„Vertu nú sæll, góði Georg!“ kallaði hún.
Riddarinn leit upp, sá konurnar og kastaði kveðju
á Mylady.
„Blessaður pilturinn!“ sagði hún, lokaði glugganum
og varð hálf angurvær á svipinn.
„Til hvers ráðið þjer mjer nú, kæra frú?“ spurði
frú Bonacieux.
„Jeg held að þjer ættuð að leynast einhversstaðar
hjer í grendinni svo að þjer getið fengið að vita vissu
yðar um, hver það er sem kemur að sækja yður“.
„En mjer verður ekki leyft að fara neitt. Jeg er
hjer eins _og nokkurs konar fangi“.
„Jú, en abbadísin heldur, að jeg fari hjeðan eftir
skipun kardínálans og þá dettur víst engum í hug, að
þjer sækist eftir að fara með mjer — —“
„Nú — og hvað meira?“
„Þjer skuluð kveðja mig þegar vagninn kemur,
stíga upp á vagnskörina og faðma mig að skilnaði.
Þjónn bróður míns veit um þetta alt — hann segir
vagnstjóranum til og svo rjúkum við á fljúgandi ferð“.
„En ef nú d'Artagnan skyldi koma?“
„Jeg skal einhvern veginn ráða fram úr því“.
„Hvernig þá?“
„Ekkert er auðveldara. Við sendum þjón bróður
míns aftur til Bethune. Hann verður í dularbúningi
og leynist beint á móti klaustrinu. Ef það verða nú
sendimenn kardínálans, sem koma, þá hreyfir hann
sig hvergi, en ef það verður d'Artagnan og fjelagar
hans, þá fylgir hann þeim strax til okkar“.
„En ætli að hann þekki þá?“
„Já, góða mín. Hann hefur margoft sjeð d'Artagnan
heima hjá mjer“.
„Já, auðvitað! Jú, það er sjálfsagt hægt að hafa
það svona, en hvar get jeg nú talað við yður aftur?“
„Hjerna uppi — eftir svo sem klukkutíma“.
„Skelfing eruð þjer væn og góð“.
„Ójá — mjer er ómögulegt annað en að þykja
vænt um yður“, sagði Mylady. „Þjer eruð svo dæmalaust
indæl og falleg — og þar að auki vinkona einhvers
míns bezta vinar“.
„Hans d'Artagnans! Já, hann verður yður þakklátur
— það megið þjer eiga víst?“
„Já, það vona jeg líka. En nú skulum við ganga
ofan — þetta er nú alt saman klappað og klárt“.
„Farið þjer ofan í garðinn?“
„Já, jeg ætla þangað“.
Svo skildu þær — báðar brosandi af vináttu og
velvild, — Mylady var nú mest umhugað um það, að
koma frú Bonacieux eitthvað burt og fá hana geymda
einhverstaðar á vísum og öruggum stað — það var þá
alt af hægt að nota hana sem gísl, ef á þyrfti að halda.
Annars var nú Mylady farin að standa alvarlegur stuggur
af því, hver úrslitin mundu verða á þessari voðalegu
baráttu, sem háð var af andstæðingum hennar
með engu minna kappi og þrautseigju heldur en af
henni sjálfri. —
Nú-jæja! Það var að minsta kosti öllu óhætt með
frú Bonacieux. Það var ekki hætt við öðru en að hún
færi með henni og þegar þær væru komnar til Armentiéres,
þá var lítill vandi að telja henni trú um,
að d'Artagnan hefði aldrei náð til Bethune. Svo kæmi
Rochefort aftur eftir hálfs mánaðar tíma eða svo og
á meðan gæti hún ráðið við sig, hvernig hún ætti að
ná sjer niðri á þeim fjelögum fjórum.
Að klukkutíma liðnum heyrði Mylady, að frú
Bonacieux kallaði á hana. Príóressan hafði auðvitað
gengið að öllu umyrðalaust og nú áttu þær ekki annað
eftir en að taka sjer bita saman. Þá heyrðu þær, að
vagn staðnæmdist fyrir utan hliðið.
„Heyrið þjer nokkuð?“ spurði Mylady.
„Já“, svaraði frú Bonacieux.
„Þetta er víst vagninn frá bróður mínum“.
„Æ, hamingjan góða!“
„Verið þjer alveg óhrædd!“
Nú var barið á hliðið.
„Farið þjer upp á herbergið yðar“, sagði Mylady.
„Þjer eigið þar líklega sitt af hverju, sem þjer ætlið
að hafa með yður“.
„Já, brjefin hans“, sagði frú Bonacieux.
„Nú-jæja! Sækið þjer þau og komið þjer svo inn
til mín og svo skulum við borða í snatri. Við verðum
kann ske á ferð mestalla nóttina, svo að það veitir
ekki af að styrkja sig á einhverju“.
„Jeg kemst ekki úr sporunum“, svaraði frú Bonacieux
og greip fyrir hjartað. „Mjer finst jeg ætla að
kafna“.
Mylady flýtti sjer upp í herbergi sitt og hitti þar
þjón Rocheforts, er beið hennar og gaf hún honum
þegar nauðsynlegar fyrirskipanir.
„Jæja, þá er þetta búið“, sagði hún þegar þjónninn
var farinn. „Príóressan veit ekkert og heldur að
kardínálinn sje að láta sækja mig. Drekkið þjer nú
svolítinn vínsopa yður til styrkingar og svo skulum við
komast af stað“.
„Já“, sagði frú Bonacieux utan við sig. „Við skulum
reyna að komast af stað“.
Mylady benti henni að setjast á stól og helti
spönsku víni í staup.
„Þetta gengur alt blessunarlega. Nú kemur nóttin,
snemma í fyrramálið komum við á ákvörðunarstaðinn
og engan grunar, hvar við sjeum niður komnar“.
Frú Bonacieux bragðaði á víninu.
„Það var rjett — drekkið út eins og jeg!“ sagði
Mylady.
En í því að hún færði glasið að vörunum, hrökk
hún við. Hún hjelt sig heyra jódyn í fjarska og gleði
hennar varð að engu í einu vetfangi. Það var eins og
hún vaknaði af svefni um miðja nótt við þrumur og
eldingar. Hún stökk út að glugganum náföl og óttaslegin,
en frú Bonacieux stóð upp titrandi af hræðslu
og varð að styðja sig við stólinn. Enn þá var ekki
neitt að sjá, en jódynurinn færðist stöðugt nær.
„Æ, hvað gengur nú á?“ spurði frú Bonacieux.
„Það eru annaðhvort vinir okkar eða fjandmenn“,
svaraði Mylady með sinni venjulegu stillingu, „Verið
þjer kyr þarna — svo skal jeg bráðum segja yður,
hverjir það eru“.
Í sömu andránni sá hún blaktandi fjaðrir og gullbrydda
hatta riddaranna í bugðu á veginum. Hún fór
að kasta tölu á þá — þeir voru tveir, fimm, átta til
samans og einn þeirra var spölkorn á undan hinum.
Mylady stundi þungt. Hjer var engum blöðum að
fletta — það var d'Artagnan, sem var á undan hinum!
„Segið mjer í hamingjunnar bænum — hverjir eru
það?“ spurði frú Bonscieux.
„Það eru lífvarðarliðar kardínálans. Við skulum
flýja sem skjótast!“
„Já, við skulum flýja“, endurtók frú Bonacieux,
en gat ekki hreyft sig úr stað. Hún var svo yfirkomin
af ótta, að hún gat hvorki hrært legg nje lið.
Nú heyrðust riddararnir þeysa fram hjá niður
undan glugganum.
„Komið nú, í öllum hamingju bænum!“ hrópaði
Mylady og reyndi að draga frú Bonacieux með sjer
út úr herberginu. „Við megum ekki bíða eitt augnablik
lengur“.
Frú Bonacieux skjögraði fáein skref_og datt svo á
hnjen. Í sama bili heyrðist vagninn halda burt á fullri
ferð og riðu af þrjú eða fjögur skot á eftir honum.
„Ætlið þjer að koma eða ekki?“ spurði Mylady.
„Æ, guð minn góður!“ veinaði frú Bonacieux.
„Sjáið þjer ekki, að jeg er alveg magnþrota! Þjer verðið
að fara ein“.
„Og skilja yður hjer eftir — nei, það geri jeg aldrei!“
hrópaði Mylady.
Alt í einu datt henni eitthvað í hug og brann eldur
úr augum hennar. Hún stökk að borðinu, helti
rauðleitu dufti, sem hún hafði falið á sjer, í annað vínglasið
og rann það þegar í sundur. Síðan rjetti hún
frú Bonacieux glasið.
„Drekkið þetta — það mun styrkja yður!“ sagði
hún.
Frú Bonacieux tæmdi glasið ósjálfrátt.
„Jæja — jeg ætlaði mjer nú raunar ekki að hefna
mín á þennan hátt“, sagði Mylady við sjálfa sig, ljet
glasið á borðið og brosti djöfullega, „en það verður
einhver ráð að hafa“.
„Svo hljóp hún út úr herberginu.
Frú Bonacieux sá hana hverfa, en gat ekki með
nokkru móti fylgt henni eftir. Henni fanst, eins og oft
verður í draumi, að hún endilega þurfa að komast eitthvað,
en hvorki geta hreyft legg nje lið.
Svona leið örlítil stund og heyrðist þá barið harkalega
á hliðið. Frú Bonacieux bjóst alt af við, að Mylady
kæmi aftur, en ekki varð af því og sló nú út um
hana köldum svita.
Loksins heyrði hún að hliðið var opnað, fótatak
og sporaglamur upp stigana og málróm margra manna,
er færðist alt af nær og nær. Henni heyrðist jafnvel
einhver nefna nafn sitt.
Í sama bili rak hún upp fagnaðaróp og komst með
herkjum fram að hurðinni. Hún hafði kannast við málróm
d'Artagnans.
„D'Artagnan, d'Artagnan!“ hrópaði hún. „Ert það
þú? Hingað, hingað!“
„Constance, Constance!“ heyrðist d'Artagnan kalla.
„Hvar ertu, í hamingjunnar bænum?“
Í sömu andránni var hurðinni hrundið upp og
ruddust fjórir menn inn í herbergið. Frú Bonacieux
hnje niður í hægindastól og gat sig hvergi hreyft.
D'Artagnan þeytti frá sjer skammbyssunni og kraup
á knje fyrir framan ástkonu sína. Athos stakk pístólunni
í beltið og Porthos og Aramis slíðruðu sverð sín.
„Æ, d'Artagnan, elsku-góði d'Artagnan! Ertu nú
loksins kominn? Þú komst þá, eins og þú varst búinn
að lofa mjer!“
„Já, Constance — nú höfum við fundist aftur!“
„Já, jeg bjóst altaf við því, hvað svo sem hún var
að segja. Jeg vildi ekki flýja og það var líka rjett af
mjer. Skelfing er jeg nú sæl!“
Athos hrökk við, þegar hann heyrði þetta.
„Hún — hvaða hún? spurði d'Artagnan.
„Vinkona mín, sem ætlaði að forða mjer undan
ofsóknarmönnum mínum. Hún flýði einmitt núna í
þeirri trú, að þið væruð lífvarðarliðar kardínálans“.
„Vinkona þín!“ sagði d'Artagnan náfölur. „Um
hvaða vinkonu ertu að tala?“
„Um hana, sem á vagninn fyrir utan hliðið hjerna.
Hún sagðist líka vera vinkona þín, d'Artagnan — þú
hefðir sagt sjer öll þín leyndarmál“.
„En hvað heitir hún? Segðu mjer, fyrir alla muni,
hvað hún heitir!“ sagði d'Artagnan.
„Já, það sagði hún mjer líka — bíddu nú við —
ósköp er þetta undarlegt — æ hamingjan góða — mig
snarsvimar og mjer sortnar fyrir augum!“
„Hjálp — hjálp, kæru vinir!“ hrópaði d'Artagnan.
Hún er orðin ísköld á höndunum — hún er fárveik
— það er liðið yfir hana!“
Aramis gekk að borðinu til þess að ná í glas af
vatni, en varð hverft við, þegar hann sá svipinn á
Athos, er stóð við borðið og starði á annað vínglasið
með ranghvolfdum augum og flakandi hári. Hann
hafði nú gizkað á, hvers kyns var.
„Vatn, vatn!“ hrópaði d'Artagnan í dauðans angist.
„Vesalings konan!“ tautaði Athos með grátstaf í
hálsinum.
D'Artagnan kysti frú Bonacieux og opnaði hún
þá augun.
„Hún er að rakna við — hamingjunni sje lof!“
sagði hann.
„Hver hefur drukkið úr þessu glasi?“
„Jeg“, svaraði hin unga kona með veikri rödd.
„Og hver gaf yður vínið?“
„Hún“.
„Hvaða hún?“
„Æ, nú man jeg nafnið. Hún sagðist heita greifafrú
Winter“, svaraði frú Bonacieux.
Þeir hljóðuðu upp yfir sig og Athos hærra en hinir
allir.
Í sama bili helblánaði frú Bonacieux í framan,
fjekk krampateygjur, stundi við og hnje út af í faðminn
á Porthos og Aramis. D'Artagnan greip um höndina
á Athos, yfirkominn af skelfingu.
„Hvað er þetta, heldurðu að — —“ hann fór
að kjökra og gat ekki sagt meira.
„Jeg get öllu trúað“, sagði Athos og beit á vörina.
D'Artagnan, d'Artagnan!“ hrópaði frú Bonacieux.
„Hvar ertu? Farðu ekki frá mjer — sjerðu ekki að
jeg er að deyja!“
D'Artagnan slepti hendinni á Athos og skundaði
til ástkonu sinnar.
„Guð minn góður! Hjálp, hjálp! Porthos og Aramis!
Flýtið ykkur og sækið hjálp!“
„Það er ekki til neins“, sagði Athos. „Það er ekkert
móteitur til gegn hennar eitrum“.
„Hjálp, hjálp!“ stundi frú Bonacieux. Hún gerði
sína ítrustu tilraun, greip höndunum um höfuð d'Artagnans,
leit á hann ástblíðum augum og þrýsti kjökrandi
brennheitum kossi á varir honum.
„Constance, Constance!“ hrópaði d'Artagnan í örvæntingu.
Hún stundi þungt og gaf upp öndina um leið.
Það var nú ekki annað en liðið lík hennar, sem hvíldi
í faðmi d'Artagnans. Hann hljóðaði upp yfir sig og
hnje niður við hlið ástkonu sinnar, jafn fölur og helkaldur
sem hún.
Porthos grjet, Aramis fórnaði höndum til himins
og Athos gerði krossmark fyrir sjer.
Í þessum svifum kom maður í dyrnar, næstum
eins fölur og þeir, sem inni voru.
„Jæja, jeg hef þá ekki farið vilt“, sagði hann.
„Þetta er herra d'Artagnan og hinir þrír fjelagar hans,
Athos, Porthos og Aramis“.
Skyttuliðarnir horfðu undrandi á hann — þeim
fanst þeir kannast við hann.
„Og þið eruð að leita að konu, eins og jeg“ sagði
hann. „Nú — hún hefur þá verið hjerna“, bætti hann
við og brosti ömurlega — „því að jeg sje lík hjer inni“.
Þeir fjelagar svöruðu engu. Þeir gátu ekki komið
því fyrir sig, hvar og hvenær þeir hefðu sjeð þetta
andlit og heyrt þennan málróm.
„Herrar góðir!“ sagði maðurinn enn fremur. „Fyrst
að þið virðist ekki ætla að kannast við mann, sem
þið hafið líklega tvívegis forðað úr lífsháska, þá verð
jeg víst að segja til nafns míns. Jeg heiti Winter lávarður“.
Þeir fjelagar hljóðuðu upp yfir sig, af undrun, en
Athos gekk fram, tók í höndina á lávarðinum og heilsaði
honum.
„Verið velkominn, herra lávarður!“ sagði hann.
„Þjer eruð bandamaður vor“.
„Jeg fór frá Portsmouth fimm tímum eftir flótta
hennar“, sagði Winter lávarður, „kom til Boulogne
þrem tímum á eftir henni og þegar jeg kom til Saint-Ower,
var hún farin þaðan fyrir tuttugu mínútum, en
í Lilliers tapaði jeg slóð hennar. Svo hjelt jeg áfram
upp á von og óvon og spurðist fyrir hjá öllum, sem
jeg mætti. Þá sá jeg ykkur alt í einu ríða fram hjá á
hvínandi spretti, þekti herra d'Artagnan og kallaði til
ykkar en þið gengduð mjer ekki. Jeg ætlaði svo að
reyna að ná ykkur, en hesturinn minn var farinn að
breytast. En þó að þið hafið riðið alt hvað af tók, þá
hafið þið samt komið of seint“.
„Já, eins og þjer sjáið“, sagði Athos og benti á
líkið og d'Artagnan, sem þeir Porthos og Aramis voru
að reyna að lífga við.
„Eru þau bæði dauð?“ spurði Winter lávarður
með sinni ensku rósemi.
„Nei, ekki er það sem betur fer“, svaraði Athos.
D'Artagnan liggur bara í yfirliði“.
„Það er vel farið“, sagði Winter lávarður.
Í þessum svifum opnaði d'Artagnan augun. Hann
reif sig úr höndunum á Porthos og Aramis og fleygði
sjer eins og vitstola maður yfir lík unnustu sinnar.
Athos gekk til hans með hægð og faðmaði hann
að sjer. Það setti ákafan grát að d'Artagnan og sagði
Athos þá hægt og stilt:
„Hertu upp hugann, vinur minn! Konur gráta þá,
sem dánir eru, en karlmenn hefna þeirra“.
„Já“, svaraði d'Artagnan. „Jeg er strax til, ef um
hefnd er að ræða“.
Athos bað nú Porthos og Aramis að sækja príóressuna
og mættu þeir henni í ganginum. Hún var alveg
forviða á þessu öllu saman. Kallaði svo á nokkrar
nunnur og gengu þær svo inn í herbergið til karlmannanna,
þrátt fyrir allar klaustursreglur.
„Kæra frú“, sagði Athos, „Við felum yður umsjá
þessarar ógæfusömu konu. Hún var sannkallaður engill
hjer á jörðu og er nú orðin engill á himnum. Gerið
útför hennar jafn veglega og hún hefði verið ein af
klaustursystrunum, en við munum svo koma aftur
seinna og gera bæn okkar við leiði hennar“.
D'Artagnan faðmaði Athos og grjet sáran.
„Gráttu“, sagði Athos. „Gráttu og svalaðu hjarta
þínu, ást og æsku. Ó, að jeg gæti grátið og svalað
hörmum mínum eins og þú“.
Að svo mæltu leiddi hann vin sinn burt með allri
þeirri rósemi og virðuleik, sem samboðin er þeim, er
í þungar raunir hafa ratað.
Þeir fóru síðan fimm saman ásamt þjónum sínum
til bæjarins Bethune, er sjá mátti frá klaustrinu og settust
að í fyrsta gistihúsinu, sem fyrir þeim varð. Voru
þeir allir fremur hljóðir eftir það, sem á undan var
gengið og varð Winter lávarður fyrstur til að rjúfa
þögnina.
„Mjer finst það standa mjer næst“, sagði hann,
að koma fram hefndum á greifafrúnni. Hún er mágkona
mín“.
„Jú — en hún er eiginkona mín“, sagði Athos.
XV. Maðurinn í rauða kuflinum.
Örvænting Athos snerist brátt í hæglátan, þungan
harm, er virtist skerpa hinar óvenjulegu sálargáfur hans
enn meir.
Hann bað gestgjafann að lána sjer uppdrátt yfir
hjeraðið og fór að skoða hann með sjerlegri athygli.
Komst hann brátt að raun um, að fjórar leiðir lágu til
Bethune frá Armentiéres og litlu síðar kallaði hann
þjónana til sín.
Planchet, Grimaud, Mousqueton og Bazin komu
allir og fengu sínar ákveðnu fyrirskipanir hjá Athos.
Þeim var sagt að leggja af stað í birtingu morguninn
eftir og halda til Armentiéres, en fara hver sína leið.
Skyldi Planchet, sem var þeirra slyngastur, fara sömu
leiðina, sem þjónn Rocheforts hafði ekið. Áttu þeir
svo að mætast morguninn þar á eftir og ef einhver
þeirra hefði þá fundið dvalarstað Mylady, skyldu þrír
þeirra verða eftir og halda vörð um hann, en sá fjórði
snúa aftur til Bethune og gera Athos aðvart.
Þjónarnir gerðu eins og fyrir þá var lagt.
Athos girti sig sverði og gekk út. Klukkan var þá
tíu og um það leiti er venjulega lítil umferð í sveitaþorpum,
enda varð hann lengi að skima í kringum
sig, áður en hann kæmi auga á nokkurn mann. Loksins
sá hann þó mann einn, gekk til hans og talaði
við hann fáein orð, en maðurinn hörfaði undan dauðhræddur
og ljet sjer nægja að benda honum í vissa
átt. Athos bauð honum hálfan gulldal til þess að vísa
sjer leið, en maðurinn var ófáanlegur til þess.
Eftir langa mæðu rakst hann á beiningamann, er
var að biðjast ölmusu. Athos lofaði honum einum gulldal,
ef hann vildi fylgja sjer þangað, sem hann ætlaði.
Betlarinn hugsaði sig um stundarkorn, en stóðst ekki
freistingu gullsins og tókst á hendur að segja Athos til
vegar.
Er þeir höfðu gengið stundarkorn, komu þeir að
götuhorni og benti betlarinn þá á lítið, afskekt og hrörlegt
hús all-langt þaðan. Að því búnu tók hann á rás
og hljóp eins og fætur toguðu.
Athos varð að ganga hringinn í kringum húsið
áður en hann loksins fann dyrnar. Ekki lagði nokkra
ljósskímu út um gluggahlerana og ekki heyrðist nokkurt
er benti til þess, að einhver væri í húsinu. Þar
var ekkert annað en myrkur og þögn.
Athos barði þrisvar að dyrum áður en nokkur
gegndi, en þá heyrði hann loksins, að einhver kom
til dyra. Hurðin var opnuð í hálfa gátt og kom þar
út hár maður fölleitur, dökkur á hár og skegg.
Athos sagði nafn sitt og erindi og benti maðurinn
honum þá, að ganga inn í húsið. Hlýddi Athos því
og var dyrunum lokað á eftir honum.
Maðurinn leiddi hann í vinnustofu sína og var
hann þar að tengja saman mannsbeinagrind með stálþræði.
Hann var að mestu búinn með skrokkinn, en
hauskúpan lá þar á borði og var eftir að festa hana
við búkinn.
Allir innanstokksmunir báru þess vitni, að húsráðandi
legði stund á náttúrufræði. Þar voru glös með
höggormum, þurkaðir froskar í umgerðum úr svartviði,
en upp undir loftinu og úti í hornunum hjengu angandi
vöndlar af villijurtum.
Ekki voru þar neinir þjónar eða annað fólk. Maðurinn
var aleinn í húsinu.
Athos tók sjer sæti og bar fram erindi sitt, en
jafn skjótt sem hann hafði lokið því, hörfaði maðurinn
undan óttasleginn og þverneitaði að verða við ósk hans.
Þá tók Athos brjefmiða upp úr vasa sínum og rjetti
manninum hann. Á miðanum voru fáeinar línur með
undirskrift og innsigli og ekki var maðurinn fyr búinn
að athuga undirskriftina og innsiglið, en hann hneigði
sig til merkis um, að hann væri reiðubúinn að hlýða.
Meira fór Athos ekki fram á. Hann stóð upp,
kvaddi húsráðanda og gekk burt.
Snemma morguns daginn eftir kom d'Artagnan
inn til hans og spurði hvað gera skyldi.
„Ekkert annað en bíða átekta“, sagði Athos.
Nokkru síðar koma boð frá príóressunni um það,
að jarðarförin ætti að fara fram þann dag. Ekki hafði
neitt spurst um morðkvendið og var haldið, að hún
hefði flúið út um blómgarðinn, því að þar sáust för
eftir hana, en hliðinu var lokað og lykillinn horfinn.
Á tilteknum tíma fóru þeir fjelagar fjórir til klaustursins
ásamt Winter lávarði. Klukkurnar hljómuðu,
kapellan stóð opin og gráturnar voru lokaðar. Í miðjum
kórnum var líkið, sveipað nunnuklæðum. Báðum
megin kórsins stóðu allar nunnurnar og tóku þátt í
athöfninni.
D'Artagnan fjelst hugur þegar hann kom í kapelludyrnar.
Hann sneri sjer við til þess að svipast eftir
Athos, en þá var Athos horfinn.
Athos var alt af að hugsa um, að koma hefndum
fram, en fyrst varð hann að komast fyrir, hverja leið
Mylady hefði haldið.
Og nú var hann ekki í neinum efa um það lengur.
Vegurinn, sem vagninn hafði farið eftir, lá utan
við skóginn. Athos gekk eftir honum nokkurn spöl og
horfði til jarðar. Sá hann þá blóðdrefjar, sem annaðhvort
hlutu að stafa frá vagnstjóranum eða hestunum.
Hálfa mílu frá klaustrinu og eitthvað tuttugu til þrjátíu
faðma frá þorpinu Fertubert sá hann blóðpoll og
þar var allmikið traðk eftir hesta, en skamt þaðan fann
hann aftur sömu förin sem í blómagarðinum og þar
hafði vagninn numið staðar. Mylady hafði komið út
úr skóginum og sezt í vagninn.
Athos var mjög ánægður með þessa uppgötvun
sína, því að hún styrkti allar grunsemdir hans. Sneri
hann nú aftur til gistihússins og þar beið Planchet
hans.
Alt hafði gengið eins og Athost bjóst við.
Planchet hafði farið sömu leiðina og líka hitt fyrir
sjer blóðdrefjarnar. Hann gekk inn í veitingahús í
Fertubert og var sagt þar í óspurðum frjettum, að
kvöldið áður, klukkan um hálfimm, hefðu komið þangað
karlmaður og kvennmaður. Karlmaðurinn var særður
allhættulega og hlaut því að verða eftir í þorpinu,
en konan skifti um hesta og hjelt svo áfram. Eftir því
sem manninum sagðist frá, höfðu ræningjar ráðist á
þau í skóginum.
Planchet gat náð tali af ökumanninum og hafði
hann ekið konunni til Formelles, en þaðan hjelt hún
til Armentiéres. Planchet gat stytt sjer leið og kom til
Armentiéres klukkan sjö um morguninn.
Þar hitti hann fyrir sjer gistihús rjett hjá pósthúsinu.
Ljest Planchet þá vera lausamaður, er væri að
leita sjer atvinnu og var hann naumast búinn að tala
í tíu mínútur við heimilisfölkið þegar hann var kominn
á snoðir um það, að klukkan ellefu hefði komið
þangað kona nokkur, beðið um herbergi og sagt gestgjafanum,
að hún mundi dvelja þar um hríð.
Meiri vitneskju þóttist Planchet ekki þurfa að svo
stöddu. Hann flýtti sjer þangað sem þeir þjónarnir
höfðu mælt sjer mót, hitti þá þar alla saman, ljet þá
halda vörð um allar dyr gistihússins og skundaði síðan
til húsbónda síns. —
„Hvað eigum við nú að gera?“ spurði Aramis.
„Bíða“, svaraði Athos.
Klukkan átta um kvöldið ljet Athos söðla hestana
og tilkynti fjelögum sínum, sem og Winter lávarði, að
þeir yrðu að búast til ferðar.
Litlu síðar voru þeir allir ferðbúnir og litu eftir vopnum
sínum. Athos gekk seinastur út og var þá d'Artagnan
þegar kominn á bak og hinn óþolinmóðasti.
„Við eigum von á einum manni í viðbót“, sagði
Athos hægt og rólega.
Hinir litu undrandi hver á annan. Þeir vissu ekki
við hvern Athos ætti. Í því kom Planchet með hest
Athos og varpaði hann sjer ljettilega á bak og reið
burt. Innan lítillar stundar kom hann aftur og var þá
í för með honum ókunnugur maður með grímu fyrir
andliti og í rauðum kufli yztum klæða.
XVI. Dómurinn.
Kvöldið var dimt og veðrið hvast. Í lofti var skýjafar
mikið og byrgði stjörnurnar, en tunglið var orðið
kvöldsett mjög.
Við og við brá fyrir eldingum, er lýstu upp veginn,
sem lá fram undan þeim, auður og sljettur eins
og ljósleit rák.
Athos varð alt af að vera að kalla í d'Artagnan,
því að svo mikið var kapp hans, að hann ætlaði hvað
eftir annað að þeysa á undan þeim.
Þeir fóru hljóðlega í gegnum Fertubert-þorpið, þar
sem særði maðurinn varð eftir. Síðan riðu þeir gegnum
skóg nokkurn og nokkru síðar beygði Planchet til
vinstri handar, en hann rjeði förinni.
Winter lávarður, Porthos og Aramis reyndu oftsinnis
að yrða á manninn í rauða kuflinum, en hann
anzaði því engu og varð ekki togað út úr honum orð.
Óveðrið fór vaxandi. Eldingarnar ráku hver aðra
og þrumurnar dundu, en stormurinn rykti og reif í yfirhafnir
ferðamannanna.
Þegar þeir riðu fram hjá Goskat skauzt alt í einu
maður fram úr náttmyrkrinu og gekk í veg fyrir þá.
Athos sá strax, að maður þessi var Grimaud.
„Hvað er nú á seiði?“ kallaði d'Artagnan. „Er
hún farin frá Armentiéres?“
Grimaud samsinti því og varð d'Artagnan þá
hamslaus af bræði.
„Stiltu þig, d'Artagnan“, sagði Athos. „Jeg hef
tekist á hendur að ráða þessu máli til lykta og það er
þess vegna bezt, að jeg tali við Grimaud. — Hvar er
hún?“ spurði hann.
Grimaud benti með báðum höndum í áttina til
fljóts eins, er Lys heitir.
„Er það langt hjeðan?“
Grimaud krepti vísifingurinn.
„Er hún ein?“
Grimaud kinkaði kolli.
„Herrar góðir!“ sagði Athos við fjelaga sína. „Eftir
þessu að dæma er hún alein um hálfa mílu vegar hjeðan
í stefnu á fljótið“.
„Það er gott“, sagði d'Artagnan. „Vísaðu okkur
leið, Grimaud“.
Grimaud fór skemstu leið þvert yfir akur og engi
og riddararnir á eftir honum. Hjeldu þeir svo áfram
eitthvað tvö hundruð faðma og komu að læk einum,
sem þeim gekk greiðlega að komast yfir. Í sama bili
brá fyrir eldingu og komu þeir þá auga á þorp eitt.
„Er hún þarna, Grimaud?“ spurði Athos.
Grimaud hristi höfuðið.
Þeir hjeldu svo þegjandi áfram. Brá þá fyrir annari
eldingu og benti Grimaud með hendinni, en þeir
sáu afskekt hús á fljótsbakkanum og ferju þar skamt
frá. Ljós logaði í einum glugga hússins.
„Nú erum við líklega komnir“, sagði Athos.
Í sama bili skauzt þar maður upp úr skurði. Það
var Mousqueton og benti hann á gluggann, sem ljósið
sást í.
„Þarna er hún inni“, sagði hann.
„En hvar er Bazin?“ spurði Athos.
„Jeg, átti að gæti að glugganum, en Bazin heldur
vörð við dyrnar“.
„Það er gott“, sagði Athos. „Þið hafið allir reynst
dyggir þjónar“.
Kringum húsið var álnar há girðing. Athos hljóp
yfir hana, gekk að glugganum og gægðist inn um hann.
Sá hann þá konu sitja á stól við eldstóna og stara í
glæðurnar. Hún hafði yfir sjer dökka kápu, studdi olbogunum
á borð, sem hjá henni stóð og hvíldi höfuðið
á fannhvítum höndunum. Athos gat ekki sjeð framan
í hana, en honum nægði það sem hann sá til þess að
ganga úr skugga um það, að þarna var konan, sem
hann leitaði eftir.
Nú heyrðist hestur hneggja skamt frá húsinu.
Mylady leit upp, sá andlitið á Athos fast við gluggarúðuna
og rak upp hljóð.
Athos þóttist vita, að hún hefði þekt sig. Mölvaði
hann gluggann umsvifalaust og stökk inn og stóð nú
eins og engill hefndarinnar frammi fyrir Mylady.
Hún hljóp fram að dyrunum og rykti upp hurðinni
— en þar stóð d'Artagnan náfölur og enn geigvænlegri
en Athos.
Mylady hljóðaði upp yfir sig og hörfaði undan.
D'Artagnan hjelt að hún hygði á flótta og þreif til
skammbyssu sinnar, en Athos brá upp hendinni og
mælti:
„Láttu skammbyssuna kyrra, d'Artagnan. Þessi
kona verður fyrst að þola sinn dóm og þú skalt hafa
þig hægan fyrst um sinn. Komið inn, herrar góðir!“
Og nú gengu þeir inn, Porthos, Aramis, Winter
lávarður og maðurinn í rauða kuflinum.
Þjónarnir hjeldu vörð fyrir utan dyrnar og við
gluggann. Mylady hnje niður á stól og rjetti báðar
hendur fram undan sjer eins og til að verja sig einhverri
hræðilegri sjón. Hún hljóðaði hástöfum þegar
hún kom auga á mág sinn.
„Hvað viljið þið mjer?“ hrópaði hún.
„Við erum komnir“, svaraði Athos, „til þess að
sækja Carlottu Backson, sem einu sinni nefndist greifafrú
de la Fére og nú kallar sig frú Winter“.
„Það er jeg“, sagði hún yfirkomin af skelfingu,
„en hvað viljið þið mjer?“
„Við ætlum að dæma yður fyrir glæpi yðar“,
svaraði Athos, „en yður er frjálst að verja sök yðar
og rjettlæta yður ef yður er það fært. Herra d'Artagnan
ber fyrstur sakir á yður“.
D'Artagnan gekk fram og tók svo til orða:
„Frammi fyrir guði og mönnum ber jeg þær sakir
á þessa konu, að hafa ráðið Constance Bonacieux
bana með eitri“.
Hann sneri sjer að Porthos og Aramis.
„Við erum vitni þess“, sögðu þeir.
„Frammi fyrir guði og mönnum“, hjelt d'Artagnan
áfram, „ber jeg enn fremur þær sakir á þessa konu
að hafa ætlað að byrla mjer eitur í víni, sem hún
sendi mjer frá Willeroi ásamt fölsuðu brjefi. Ætlun
hennar var sú að telja mjer trú um, að vínið væri frá
vinum mínum. Forsjónin forðaði mjer frá þessu, en
annar maður, Brisemont að nafni, leið dauðann í minn
stað“.
„Við vitum það líka“, sögðu Porthos og Aramis.
„Fyrir guði og mönnum ber jeg þær sakir á þessa
konu, að hún hafa reynt að fá mig til þess að vega
Wardes greifa, en með því að hjer er enginn, sem
borið getur vitni um þetta, þá vona jeg, að orð mín
verði tekin trúanleg. — Hef jeg svo lokið máli mínu“.
Að svo mæltu skipuðu þeir d'Artagnan, Porthos
og Aramis sjer í hinn enda herbergisins.
„Nú kemur röðin að yður, herra lávarður“, sagði
Athos.
Winter lávarður gekk fram og sagði:
„Fyrir guði og mönnum ásaka jeg þessa konu um
að hafa látið myrða Buckingham hertoga“.
„Hefur Buckingham verið myrtur?“ hrópuðu tilheyrendurnir
einum rómi.
„Já, hann hefur verið myrtur“, svaraði lávarðurinn.
„Samkvæmt brjefi því, sem þið skrifuðuð mjer,
ljet jeg setja þessa konu í varðhald og dyggan þjón
minn gæta hennar, en hún vjelaði þennan þjón minn,
fjekk honum morðkutann í hendur og ljet hann myrða
hertogann og nú verður hann að öllum líkindum að
líða dauðann fyrir glæpi þessarar manneskju“.
Það fór hrollur um tilheyrendurna. Þessi morðfregn
kom þeim öllum á óvart.
„Jeg er ekki búinn enn“, sagði Winter lávarður
og sneri sjer að Mylady. „Bróðir minn var búinn að
arfleiða yður og hann dó skyndilega af einhverjum
undarlegum sjúkdómi, svo að hann bljes allur upp og
helblánaði allur. Nú vil jeg spyrja yður, hvað valdið
hafi manni yðar dauða“.
„Þetta er óttalegt“, sögðu þeir Porthos og Aramis.
„Þjer hafið myrt Buckingham, myrt Felton og myrt
bróður minn. — Jeg krefst þess, að rjettvísinni verði
fullnægt og lýsi yfir því, að fái jeg yður ekki dæmda
af öðrum, þá ætla jeg mjer að dæma yður sjálfur“.
Að svo mæltu gekk Winter lávarður til d'Artagnans,
„Nú ætla jeg að taka til máls“, sagði Athos og
titraði af óstyrk. „Jeg gekk að eiga þessa konu, þegar
hún var ung stúlka — jeg giftist henni þvert á móti
óskum og vilja ættingja minna og vina. Jeg gaf henni
nafn mitt og auðlegð mína — og svo varð jeg þess
var einn góðan veðurdag, að hún ber brennimerki
böðulsins á vinstri öxl“.
„Þjer getið ekki sýnt eða sannað“, sagði Mylady
og stóð upp, „í hverju landi sá dómari er, sem hvað
þennan níðingslega dóm upp yfir mjer, og þjer getið
ekki sagt, hver hafi fullnægt dóminum“.
„Þei-þei! þessu get jeg svarað“, sagði nú maðurinn
í rauða kuflinum og gekk fram.
„Hver er það — hver er þessi maður?“ hrópaði
Mylady yfirkomin af skelfingu.
Allir sneru sjer að þessum manni og kannaðist
enginn við hann nema Athos. En Athos horfði líka
forviða á hann, því að hann skildi ekkert í því, hvernig
þessi ókunnugi maður gæti verið riðinn við þennan
hræðilega sorgarleik, sem hjer fór fram.
Ókunnugi maðurinn gekk hægt og hátíðlega að
Mylady og tók af sjer grímuna þegar hann var kominn
svo nærri henni, að ekki var annað en borðið á
milli þeirra.
Hún starði um stund á þetta föla andlit, er virtist
kalt og tilfinningalaust. Svo spratt hún á fætur og hljóp
yfir í hinn enda herbergisins.
„Neinei! Þetta eru einhver djöfulsins vjelabrögð“,
æpti hún. „Það getur ekki verið hann! Hjálpið mjer,
hjálpið mjer!“
„Hún sneri sjer að þilinu og var sem hún ætlaði
að reyna að brjótast út um það.
„Hver eruð þjer?“ spurðu nú hinir líka.
„Spyrjið þessa konu“, svaraði maðurinn. „Þið
heyrið að hún kannast við mig“.
„Böðullinn í Lille — böðullinn í Lille!“ hrópaði
Mylady nær örvita af skelfingu.
Þeir hörfuðu allir frá manninum, svo að hann
stóð einn sjer.
„Vægð, vægð!“ hrópaði Mylady og fjell á knje.
Maðurinn í rauða kuflinum beið þangað til að
hún varð rólegri.
„Já, jeg er böðullinn í Lille“, sagði hann, „og nú
skal jeg segja ykkur sögu mína. — Þegar þessi kona
var ung, var hún jafn fögur og hún er enn. Hún var
þá nunna í klaustri einu í Templemar og í klaustrinu
var ungur prestur, saklaus og einlægur. Hún ásetti sjer
að vjela hann og það tókst henni líka hæglega — hún
hefði getað vjelað helga menn.
Þau höfðu bæði unnið skírlífisheit og gátu því ekki
notist án þess að stofna sjer í ógæfu. Talaði hún þá
svo um fyrir honum, að þau skyldu flýja þaðan, en
til þess þurftu þau fje og það hafði hvorugt þeirra.
Presturinn varð að stela helgum dómum klaustursins
og selja þá, en þjófnaðurinn komst upp áður en þau
gætu flúið og voru þau svo bæði tekin höndum.
Viku síðar var hún búin að vjela son fangavarðarins
og flúin úr fangelsinu. Ungi presturinn var brennimerktur
og auk þess dæmdur til tíu ára þrælkunarvinnu.
Jeg var þá böðull í Lille, eins og kona þessi
sagði. Var það því skylduverk mitt að brennimerkja
hinn dómfelda — og hann var bróðir minn.
Þá sór jeg þess dýran eið, að kona þessi, sem
steypt hafði honum í ógæfuna, skyldi þola sömu hegninguna,
því að hún var eigi að eins meðsek honum,
heldur hafði hvatt hann til illverknaðarins. Jeg gat
komist að því, hvar hún leyndist, náði í hana og setti
á hana sama glóandi járnið, sem jeg varð að brennimerkja
bróður minn með.
Bróðir mínum hepnaðist að flýja daginn eftir að
jeg kom aftur til Lille. Jeg var sakaður um að hafa
hjálpað honum til þess og dæmdur til fangelsisvistar í
hans stað þangað til að hann kynni að koma aftur og
taka út hegningu sína. Ekkert vissi bróðir minn um
þann dóm og hann var aftur kominn í kunningsskap
við þessa konu. Þau fóru til Berry. Þar fjekk hann
prestakall og var látið heita svo sem hún væri systir
hans.
Maður sá, sem átti óðalið og jarðirnar, er prestakall
bróður míns heyrði undir, sá einhverju sinni þessa
svokölluðu systir hans og varð undir eins ástfanginn í
henni — svo ástfanginn, að hann bað hana eiginorðs.
Þá yfirgaf hún bróður minn, sem hún hafði steypt í
glötun, til þess að steypa hinum manninum í sömu
glötunina. Gerðist hún nú greifafrú de la Fére — —“
Um leið og hann nefndi þetta nafn, varð öllum
litið á Athos, en hann hneigði höfði til merkis um,
að þessu væri svo varið sem böðullinn hafði skýrt frá.
„Vesalings bróðir minn hvarf nú aftur til Lille“,
sagði böðullinn enn fremur. „Hann var ekki orðinn
mönnum sinnandi af sorg og örvæntingu og fastráðinn
í því að gera enda á tilveru sinni, sem ekki hafði orðið
til annars en gera hann ærulausan og óhæfann til
allrar viðreisnar í framtíðinni. Hann komst nú að því,
að jeg hafði verið dæmdur til þess að taka út hegningu
hans. Sagði hann þá yfirvöldunum þegar til sín
og hengdi sig í fangelsinu sama kvöldið.
Að öðru leyti ber mjer að láta dómara mína njóta
þeirrar rjettlátu viðurkenningar, að þeir ljetu mig lausan
undir eins og þeir vissu hvernig máli þessu var varið.
Og nú hef jeg skýrt frá glæp þeim, sem jeg saka
þessa konu um og hvernig á því stendur, að hún er
brennimerkt“.
„Herra d'Artagnan“, sagði Athos. „Hverja hegningu
álítið þjer að kona þessi verðskuldi?“
„Dauðann“, svaraði d'Artagnan.
„Winter lávarður“, sagði Athos aftur. Hverja hegningu
teljið þjer hæfa þessari konu?“
„Dauðann“.
„Porthos og Aramis. Nú kemur til ykkar kasta að
dæma. Hverja hegningu dæmið þið þessari konu?“
„Dauðann“, svöruðu þeir báðir alvarlega.
Mylady rak upp hræðilegt vein og skreið á hnjánum
til dómara sinna, en Athos bandaði hendinni á
móti henni og sagði:
„Charlotta Backson, greifafrú de la Fére, frú Winter
— bæði guð og menn eru orðnir þreyttir á glæpum
yðar. Ef þjer kunnið einhverja bæn, þá er bezt
að þjer hafið hana yfir nú, því að þjer hafið hlotið
dóm yðar og nú eigið þjer að deyja“.
Þegar Mylady heyrði þessi orð og sá, að öll von
var úti, reis hún á fætur og ætlaði að segja eitthvað,
en hún gat engu orði komið upp og fann, að þrifið
var í hár sjer af afli miklu og hún dregin út jafnmiskunnarlaust
og örlögin flytja mennina að því takmarki,
sem þeim er sett. Reyndi hún nú ekki að standa á
móti lengur, en gekk sjálfviljuglega út úr húsinu.
Winter lávarður, d'Artagnan, Athos, Porthos og
Aramis gengu einnig burt og þjónar þeirra á eftir þeim.
Að baki þeim stóð húsið alautt og herbergið, þar sem
alt þetta hafði farið fram, galtómt með brotinn glugga,
opnar dyr og logandi lampa á borðinu.
XVII. Dóminum fullnægt.
Það var komið lágnætti. Tungl var þverrandi og
gægðist blóðrautt út á milli óveðursskýjanna bak við
þorpið Armentières, en húsin þar og kirkjuturninn bar
eins og dimma skugga við tunglskimuna. Það glampaði
á fljótið eins og bráðið tin, en hinum megin bar
dökkan skóginn við loft. Vinstra megin var gömul og
hálffallin mylna og heyrðist ugluvæl úr rústum hennar.
Báðum megin vegarins, sem þessi sorglegi hópur
fór eftir, stóðu lágvaxin, kræklótt trje, einna líkust ógeðslegum
dvergum, er væru á gægjum eftir þessum
þögulu vegfarendum.
Við og við brá fyrir eldingu, er lýsti upp allan
sjóndeildarhringinn, hlykkjaðist yfir skóginn og klauf
himininn eins og tvíeggjað sverð. Ekki bærðist hár á
höfði manns, en loftið var afar þungt. Einhver óviðfeldinn
dauðadrungi hvíldi yfir náttúrunni, jörðin var
blaut og gljúp eftir rigninguna, en sterkan ilm lagði af
grösum og jurtum.
Grimaud og Mousqueton leiddu Mylady á milli
sín, böðullinn gekk næstur á eftir henni og þar á eftir
þeir Winter lávarður, d'Artagnan, Athos, Porthos og
Aramis. Planchet og Bazin fóru seinastir.
Mylady var leidd ofan að fljótinu. Hún mælti
ekki orð frá munni, en augun töluðu sínu máli og
mændu biðjandi á þjónana á víxl. Þau þrjú urðu
snöggvast spölkorn á undan og hvíslaði hún þá
skyndilega:
„Jeg skal gefa hverjum ykkar þúsund gulldali ef
þið hjálpið mjer til að komast undan, en ef þið ofurseljið
mig húsbændum ykkar, frá mun hefndarinnar
ekki langt að bíða og þá skuluð þið grimmilega gjalda
dauða míns“.
Grimaud fór að hugsa sig um og Mousqueton
skalf eins og hrísla. Athos heyrði að hún hvíslaði einhverju
að þjónunum og skundaði til þeirra og Winter
lávarður sömuleiðis.
„Burt með þá báða!“ sagði hann. „Þeir hafa orðið
fyrir áhrifum hennar og þar af leiðandi getum við
ekki treyst þeim“.
Því næst voru þeir Planchet og Bazin látnir
gæta hennar.
Þegar hópurinn kom ofan að fljótinu, gekk böðullinn
að Mylady og batt hana á höndum og fótum.
Æpti hún þá alt í einu:
„Þið eruð níðingar og morðingjar — komið hingað
tíu í hóp til þess að murka lífið úr einum kvennmanni.
En jeg segi, þið megið vara ykkur! Þó að
ekki verði hægt að forða mjer úr greipum ykkar, þá
mun mín samt vissulega verða hefnt“.
„Þjer eruð enginn kvennmaður“, sagði Athos
kuldalega. „Þjer getið ekki einu sinni talist manneskja,
heldur eruð þjer einhver illur andi, kominn úr undirheimum,
og þangað eigið þjer nú að fara aftur.
„Jæja, blessaðir englarnir — heyrið þið nú hvað
jeg segi: Sá sem snertir eitt hár á mínu höfði, hann
er morðingi!“
„Böðullinn, sem heggur af yður höfuðið, er enginn
morðingi“, sagði maðurinn í rauða kuflinum og
klappaði á sverð sitt, „Hann er yðar síðasti dómari
eða Nachrichter, eins og þjóðverjar komast að orði.“
Um leið og hann sagði þetta, herti hann á böndunum,
sem hún var fjötruð með og hljóðaði Mylady
þá svo óskaplega, að undir tók í skóginum.
„Ef jeg er glæpamaður — ef jeg er sek um það
alt, sem þið berið á mig, þá er bezt, að þið dragið
mig fyrir lög og dóm“, sagði hún kjökrandi, „en ykkur,
sem hafið safnast hjer saman, ber enginn rjettur til
þess að dæma mig“.
„Jeg var einu sinni að nefna Tyburn við yður“,
sagði Winter lávarður. „Hvers vegna vilduð þjer ekki
sinna því?“
„Af því að jeg vil ekki deyja!“ hrópaði Mylady.
„Jeg er of ung enn til þess að deyja“.
„Konan, sem þjer byrluðuð eitur í Bethune, var
enn yngri og samt er hún dáin“, sagði d'Artagnan.
„Jeg vil fara í klaustur!“ sagði Mylady.
„Þjer hafið verið í klaustri“, sagði maðurinn í
rauða kuflinum, „en þjer yfirgáfuð það til þess að steypa
bróður mínum í glötun“.
Mylady hljóðaði upp yfir sig og fjell á knje. Böðullinn
þreif um handlegg hennar og ætlaði að draga
hana ofan í ferjuna.
„Æ, hamingjan hjálpi mjer!“ æpti hún. „Ætlið
þið að drekkja mjer?“
Þessi hljóð hennar voru svo átakanleg, að d'Artagnan
gat ekki afborið þau, þó að hann hefði verið
æstastur allra þeirra í byrjuninni. Hann horfði niður
fyrir sig og hjelt fyrir eyrun, en það gagnaði ekki —
hann heyrði samt hljóðin, ýmist ógnandi eða biðjandi.
„Jeg þoli þetta ekki“, sagði hann. „Jeg get ekki
látið það viðgangast, að þessi kona láti lífið á þennan
hátt“.
Mylady heyrði þessi orð og kveyktu þau seinasta
vonarneistann í brjósti hennar.
„D'Artagnan!“ hrópaði hún. „Mundu hvað jeg
unni þjer vel!“
D'Artagnan gekk til hennar, en Athos brá sverði
sínu og gekk í veg fyrir hann.
„Ef þú ferð einu feti lengra“, sagði hann, „þá er
mjer að mæta“.
D'Artagnan fjell á knje og baðst fyrir.
„Gerðu skyldu þína, böðull!“ sagði Athos.
„Með ánægju, herrar góðir“, sagði hann, „því að
það veit trúa mín, að jeg þykist gera gott verk með
því að gegna skyldu minni við þetta tækifæri“.
„Það er gott!“
„Jeg fyrirgef yður alt það ilt, sem þjer hafið gert
mjer“, sagði Athos og gekk til Mylady. „Jeg fyrirgef
yður, að þjer hafið eyðilagt framtíð mína og svift mig
sóma mínum — að þjer hafið saurgað ást mína og
valdið ógæfu minni. Farið í friði!“
„Jeg fyrirgef yður“, sagði Winter lávarður, „að
þjer hafið byrlað bróður mínum eitur og myrt Buckingham
hertoga. Jeg fyrirgef yður, að þjer eruð völd
að dauða vesalings Feltons og allar þær tilraunir, sem
þjer hafið gert til þess að ráða mjer bana. Farið í
friði!“
„Og jeg“, sagði d'Artagnan, „bið yður að fyrirgefa
mjer, að jeg reitti yður til reiði með því að blekkja
yður á þann hátt, sem ósamboðinn var aðalsmanni —
aftur á móti fyrirgef jeg yður, að þjer sviftuð vesalings
vinkonu mína lífinu og allar þær hræðilegu tilraunir,
sem þjer hafið gert til þess að hefna yðar á mjer. Farið
í friði!“
„I am lost, I must die[* Æ em lost, æ möst dæ ɔ: Jeg er glötuð — jeg hlýt að deyja.]“ tautaði Mylady.
Að svo mæltu stóð hún upp og leit í kringum sig
með leiftrandi augum og hlustaði, en hún hvorki sá
neitt nje heyrði. Alt í kringum hana voru tómir fjandmenn.
„Hvar á jeg að deyja?“ spurði hún.
Á hinum bakkanum“, svaraði böðullinn.
Hann kom henni út í ferjuna og um leið stakk
Athos fjesjóð að honum.
„Gerið svo vel — hjer eru verkalaun yðar“, sagði
hann. „Það skal enginn þurfa að efast um, að við
komum fram sem dómarar“.
„Það er rjett“, sagði böðullinn, „en þá skal þessi
kona líka vita það, að þar sem jeg framkvæmi verk
mitt í þetta skifti, þá er það að eins til þess að gegna
skyldu minni“.
Að svo mæltu kastaði hann fjesjóðnum í fljótið.
Meðan að hann var að ferja Mylady yfir að hinum
bakkanum, tókst henni í laumi að losa böndin,
sem fætur hennar voru fjötraðir með. Þegar báturinn
kom að landi, stökk hún upp á bakkann og tók á rás.
En bakkinn var háll og blautur. Þegar hún var
komin nokkur skref, skrikaði henni fótur og lá hún
þar á hnjánum.
Þá flaug henni það í hug, að nú væri Forsjónin
búin að yfirgefa hana. — Hún drap höfði og fórnaði
höndum.
Skömmu síðar sáu þeir, sem stóðu á hinum bakkanum,
böðulinn hefja upp hendur sínar, sverð hans
blika í tunglsljósinu, heyrðu dyn sverðshöggsins og síðasta
vein hinnar dauðadæmdu konu.
Böðullinn fletti af sjer rauða kuflinum, breiddi
hann á jörðina, lagði líkið á hann, sveipaði kuflinum
um það og bar það ofan í bátinn.
Þegar hann var kominn miðja vegu út á fljótið,
nam hann staðar, hjelt líkinu út fyrir borðstokkinn og
kallaði hárri röddu:
„Rjettvísinni er fullnægt!“
Að svo mæltu varpaði hann líkinu útbyrðis og
laukst straumurinn yfir það.
Þremur dögum síðar sneru skyttuliðarnir aftur til
Parísar og sama kvöldið, sem þeir komu þangað, fóru
þeir til herra de Tréville að vanda.
„Jæja, herrar góðir“, sagði höfuðsmaðurinn. „Hvernig
hafið þið skemt ykkur?“
„Ágætlega“, svaraði Athos fyrir sig og fjelaga sína.
Endir.
Sjötta dag næsta mánaðar lagði konungur upp frá
París samkvæmt loforði því, er hann hafði gefið kardínálanum.
Hann var ekki búinn að ná sjer enn eftir þá
fregn, sem nú gekk staflaust manna á milli, að Buckingham
hefði verið myrtur.
Að vísu bjóst drotningin við því, að maður sá,
sem hún unni hugástum, væri í mikilli hættu staddur,
en samt gat hún ómögulega fengið sig til að trúa því,
að æfi hans væri lokið. Var hún jafnvel svo óvarkár
að láta sjer þau orð um munn fara, að það gæti ekki
verið satt, því að hann hefði skrifað sjer nýlega.
En þegar daginn eftir neyddist hún til að trúa
því, að fregnin væri sönn. Eftir skipun Karls fyrsta
var Laporte haldið eftir á Englandi eins og öðrum,
en nú kom hann aftur og flutti með sjer hina seinustu
gjöf Buckinghams til drotningarinnar.
Konungur rjeði sjer ekki fyrir fögnuði. Gerði hann
sjer ekkert far um að leyna gleði sinni, heldur ljet
þvert á móti bera hvað mest á henni í nærveru drotningar.
Lúðvík þrettándi var gjörsneyddur öllu göfuglyndi
svo sem önnur lítilmenni.
Brátt þyngdi honum þó aftur í skapi og gat hann
varla á heilum sjer tekið, svo að ekki bráði af honum
nema stund og stund. Hann vissi sem var, að hann
yrði nú aftur að sæta áþján kardínálans, þegar hann
kæmi til herbúðanna — en samt fór hann.
Ferðin til La Rochelle var næsta gleðisnauð.
Einkum undruðust menn þá fjelaga fjóra, þeir hjeldu
hóp alla leiðina og gáfu sig ekki að öðrum, en voru
jafnan þögulir og niðurlútir. Helst var það Athos, sem
rjetti úr sjer einstaka sinnum. Tindruðu þá augu hans
og napurt bros ljek um varir honum, en svo fjell hann
aftur í sömu deyfðina sem fjelagar hans.
Þá var það einn dag á leiðinni, er konungur tók
sjer hvíld til fuglaveiða og þeir fjelagar sátu í veitingahúsi
að vanda, að sá atburður kom fyrir, er ljetti af
þeim deyfðinni um stund. Maður nokkur kom á harða
spretti frá La Rochelle, fór af baki við veitingahúsið
til þess að fá sjer hressingu og leit um leið inn til
þeirra fjelaga.
„Hana-nú!“ kallaði hann „Þarna er þá herra d'Artagnan!“
D'Artagnan leit upp og rak upp fagnaðaróp. Maðurinn
sem kominn var, var hans illi andi, maðurinn
frá Meung, frá Fossogeurs-götunni og frá Arras. Hann
dró sverð sitt úr slíðrum og spratt á fætur.
En ókunni maðurinn flýði hann ekki í þetta skifti,
heldur gekk til móts við hann.
„Jæja, loksins hittumst við þá, sagði d'Artagnan.
„Nú skuluð þjer ekki sleppa!“
„Það er heldur ekki ætlun mín“, svaraði maðurinn,
„því að nú er jeg einmitt að leita að yður. Jeg
tek yður hjermeð fastan í nafni konungs og ræð yður
til að afhenda mjer sverð yðar og gera það tafarlaust.
Nú er um lífið að tefla, skal jeg segja yður“.
„Hver eruð þjer?“ spurði d'Artagnan og lækkaði
sverðið, en ljet það ekki af höndum.
„Jeg er Rochefort greifi, stallvörður kardínálans“,
svaraði ókunni maðurinn, „og jeg hef skipun um að
færa kardínálanum yður“.
„Við erum einmitt á leiðinni til hans Hágöfgi“,
sagði Athos og gekk til þeirra. „Væntanlega takið þjer
herra d'Artagnan trúanlegan, þegar hann segist vera á
leiðinni til La Rochelle“.
„Nú-jæja! Jeg skal láta lífvarðarliðana taka við
honum og segja þeim að fara með hann til herbúðanna“.
„Einmitt það. Við leggjum þar við drengskap
okkar sem aðalsmenn, að við skulum ekki missa sjónar
af herra d'Artagnan“.
Rochefort litaðist um og sá nú, að Porthos og
Aramis stóðu fyrir dyrunum. Vissi hann þá, að hann
var algerlega á valdi þeirra fjelaga.
„Herrar góðir“, sagði hann. „Ef herra d'Artagnan
vill afhenda mjer sverð sitt og leggja sitt drengskaparorð
við ykkar, þá læt jeg mjer nægja loforð ykkar um
að flytja hann til kardínálans“.
„Jeg lofa þessu við drengskap minn og hjer er
sverð mitt“, sagði d'Artagnan.
„Jæja — þetta kemur mjer annars vel, því að jeg
þarf að halda lengra“.
„Ætlið þjer að finna Mylady?“ spurði Athos
kuldalega. „Ef svo er, þá getið þjer sparað yður ómakið,
því að hana hittið þjer ekki í þetta skifti“.
„Hvað hefur komið fyrir hana?“ spurði Rochefort
með ákafa.
„Þjer getið nú fengið að vita það, ef þjer verðið
samferða til herbúðanna“.
Rochefort hugsaði sig um stundarkorn, en með
því að ekki var nema ein dagleið til Surgéres[* Sujrsjer.] þar sem
kardínálinn ætlaði að mæta konungi, þá afrjeð hann
að fara að ráðum Athos og slást í för með þeim, enda
gat hann þá sjálfur litið eftir fanganum.
Þeir komu til Surgéres daginn eftir um miðjan dag
og beið kardínálinn konungs þar.
Þeir kardínáli og konungur heilsuðust með blíðu
mikilli og samglöddust af þessum gleðilega atburði er
losað hefði Frakkland við eindreginn óvin, er æsti
Norðurálfuna upp á móti því. Að því búnu kvaddi
kardínálinn og fór sína leið. Hafði Rochefort sagt honum,
að d'Artagnan væri gripinn og vildi hann láta
leiða skyttuliðann fyrir sig sem fyrst.
Þegar kardínálinn kom til híbýla sinna um kvöldið,
stóð d'Artagnan vopnlaus þar úti fyrir og fjelagar
hans hjá honum með alvæpni.
Nú átti hans Hágöfgi leikinn. Hann leit þóttalega
til þeirra og benti d'Artagnan að fylgja sjer eftir og
hlýddi hann því.
„Við bíðum eftir þjer, d'Artagnan!“ sagði Athos
svo hátt, að kardínálinn mátti vel heyra. Hann hleypti
brúnum, nam staðar um stund, en hjelt svo þegjandi
áfram.
D'Artagnan fylgdi kardínálanum inn og var lokað
á eftir þeim. Voru þeir nú tveir einir og var þetta í
annað skifti, að d'Artagnan stóð frammi fyrir hinum
volduga manni. Sagði hann svo seinna, að hann hefði
verið sannfærður um, að það væri í síðasta skifti.
Richelieu stóð hjá eldstónni og var borð á milli
hans og d'Artagnans.
„Þjer hafið verið tekinn fastur eftir minni skipan“,
sagði kardínálinn.
„Jú, svo hefur mjer verið sagt, yðar Hágöfgi“.
„En hefur yður þá líka verið sögð ástæðan til
þess, að þjer voruð tekinn?“
„Nei, yðar Hágöfgi, enda vitið þjer ekki enn þá
einu ástæðu, sem hjer gæti komið til mála“.
„Við hvað eigið þjer?“
„Ef yðar Hágöfgi vill segja mjer fyrst, hvern glæp
jeg er kærður fyrir, þá skal jeg líka segja yður, hvað
jeg í raun og veru hef gert“.
„Þjer hafið haft þá óhæfu í frammi, sem hefur
kostað aðra menn lífið, er verið hafa yður margfalt
æðri“, sagði kardínálinn.
„Hvaða óhæfa er það?“ spurði d'Artagnan.
„Þjer eruð sakaður um að hafa haft brjefaskifti við
óvini ríkisins, að hafa ljóstrað upp launungarmálum
þess og lagst á móti ráðstöfunum yfirherforingjans“.
„Og hver er það þá, sem ber allar þessar sakir
á mig?“ spurði d'Artagnan, sem vissi vel, að kærur þessar
stöfuðu frá Mylady. „Það er brennimerkt glæpakvendi,
sem giftist manni á Englandi þó að hún ætti annan á
Frakklandi, sem drepið hefur seinni manninn á eitri
og þrásinnis reynt að gera mjer sömu skil“.
„Hvað er þetta, herra góður!“ sagði kardínálinn
forviða. „Hvaða konu eigið þjer við?“
„Jeg á við frú Winter“, svaraði d'Artagnan. Auðvitað
efast jeg ekki um, að yður sje ókunnugt um glæpaverk
hennar — annars hefðuð þjer ekki sýnt henni
þann sóma að bera traust til hennar“.
„Hafi frú Winter í raun og sannleika framið alla
þá glæpi, sem þjer berið á hana, þá skal henni vissulega
verða hegnt“, sagði kardínálinn.
„Hún hefur þegar þolað sína hegningu, yðar Hágöfgi“,
svaraði d'Artagnan.
„Hver hefur þá hegnt henni?“
„Það höfum við fjelagar gert“.
„Er hún í fangelsi?“
„Nei, hún er dauð“.
„Dauð!“ endurtók kardínálinn og ætlaði ekki að
trúa sínum eigin eyrum. „Dauð! — sögðuð þjer, að
hún væri dauð?“
„Hún reyndi þrisvar að svifta mig lífi og það fyrirgaf
jeg henni, en svo myrti hún konu þá, sem jeg
unni hugástum. Þá gripum við hana, jeg og fjelagar
mínir, og dæmdum hana til dauða“.
D'Artagnan skýrði kardínálanum því næst frá öllum
nánari atvikum að handtöku hennar og fullnægingu
dauðadómsins.
Það fór hrollur um kardínálann, aldrei þessu vant,
þegar hann heyrði hin síðustu og hræðilegu afdrif þessarar
konu, en svo ljetti yfir honum og var sem honum
hefði dottið eitthvað nýtt í hug.
„Ja, það er svo“, sagði hann og var viðmótið
þýðara en orðin sjálf. Þið hafið þá gert ykkur að dómurum
án þess að hugsa út í það, að sá sem hegnir
öðrum án þess að hafa heimild til þess, hann er hreinn
og beinn morðingi“.
„Jeg get lagt eið út á það, yðar Hágöfgi, að mjer
kemur ekki til hugar að verja þær gerðir mínar. Jeg
er reiðubúinn að þola þá hegningu, sem yður mætti
þóknast að dæma mjer. Lífið er mjer ekki svo dýrmætt,
að jeg hræðist dauða minn“.
„Jeg veit að þjer eruð hugrakkur maður“, sagði
kardínálinn næstum blíðlega. „Mjer er því óhætt að
segja yður nú þegar, að þjer verðið dæmdur — dæmdur
til dauða“.
„Einhver annar kynni að svara yðar Hágöfgi því
í mínum sporum, að hann hefði náðunina í vasanum,
en jeg læt mjer nægja að segja: Jeg er við öllu búinn“.
„Náðunina!“ sagði kardínálinn forviða.
„Já, yðar Hágöfgi“.
„Hver befur undirskrifað hana? Hefur konungurinn
gert það? Kardínálinn lagði þessar spurningar fyrir
hann með hálfgerðri fyrirlitningu.
„Nei, þjer hafið undirskrifað hana sjálfur“.
„Jeg! Eruð þjer frá yður, maður?“
„Yðar Hágöfgi þekkið sjálfur bezt yðar eigin
undirskrift“.
Að svo mæltu rjetti d'Artagnan kardínálanum hið
dýrmæta skjal, sem Athos hafði tekið af Mylady og
fengið d'Artagnan sem griðabrjef.
Richelieu tók við skjalinu, las það hægt og seint
og lagði áherzlu á hvert orð:
„Það er eftir minni skipun að sá, sem þetta brjef
hefur í höndum, hefur gert það, sem hann hefur gert.
Herbúðunum við La Rochelle 5. ágúst 1628
Richelieu“.
Kardínálínn varð hugsi þegar hann hafði lesið
þetta, en ekki fjekk hann d'Artagnan brjefið aftur.
„Nú er hann að bræða við sig, hvaða dauðdaga
jeg eigi að hljóta“, hugsaði d'Artagnan. „Nú-jæja!
Hann skal vissulega fá að eiga við aðalsmann, sem
þorir að horfast í augu við dauðann“.
Kardínálinn var hljóður enn og böglaði brjefið
milli fingra sjer. Loks leit hann upp og hvesti augun
á d'Artagnan. Báru andlitsdrættir hans þess ljósan vott,
hverjar raunir hann hefði ratað í seinustu mánuðina
og enn sem fyr flaug kardínálanum í hug, hve glæsilega
framtíð þessi tvítugi maður ætti fram undan sjer
og hvílíkur styrkur góðum og skynsömum yfirboðara
gæti orðið að hugrekki hans, djörfung og hyggindum.
Hins vegar hafði honum oftlega risið hugur við
glæpaverkum Mylady, valdafýkn hennar og djöfullegri
slægð. Var honum það í rauninni hugarhægð, að vera
nú orðin laus við þennan hættulega vitorðsmann og
glæpanaut.
Hann reif hægt og hægt í sundur brjefið, sem
d'Artagnan hafði fengið honum.
„Nú er úti um mig“, hugsaði d'Artagnan og hneigði
sig fyrir kardínálanum.
Richelieu gekk að borðinu og bætti við fáeinum
línum á bókfell, sem þegar var búið að skrifa eitthvað
á áður.
„Þetta er nú sjálfsagt dauðadómurinn“, hugsaði
d'Artagnan. „Hann ætlar ekki að hafa fyrir því að
fleygja mjer í fangelsi og hlífa mjer við löngum málarekstri
og það er vissulega fallega gert af honum“.
„Lítið á“, sagði kardínálinn. „Jeg tók af yður griðabrjef,
en hjer er þá annað í staðinn. Það er eyða fyrir
nafninu og þá eyðu getið þjer sjálfur fylt“.
D'Artagnan tók við skjalinu og leit hálf hikandi
á kardínálann. Á skjalinu stóð, að hann væri skipaður
foringi í skyttuliðinu. Hann fleygði sjer fyrir fætur kardínálanum.
„Yðar Hágöfgi!“ sagði hann. „Líf mitt tilheyrir yður
og þjer skuluð ráða yfir því upp frá þessari stundu,
en jeg verðskulda ekki slíka velgerð sem þessa. Jeg á
þrjá fjelaga, sem eru mjer miklu fremri og miklu maklegri
góðs — —“
„Þjer eruð dáðadrengur, d'Artagnan“, sagði kardínálinn
og klappaði vinalega á öxl hans. „Gerið hvað
yður líkar við þetta skjal, en gleymið því samt ekki,
að enda þótt eyða sje fyrir nafninu, þá var það tilgangur
minn að veita yður einum þessa upphefð“.
„Jeg fullvissa yðar Hágöfgi um, að því skal jeg
aldrei gleyma“, svaraði d'Artagnan.
Kardínálinn sneri sjer við og kallaði hárri röddu:
„Rochefort!“
Greifinn hafði víst ekki verið langt undan, því að
hann kom strax inn.
„Rochefort“, sagði kardínálinn. „Frá þessum degi
tel jeg d'Artagnan meðal vina minna. Ef yður er ant
um líf yðar, þá skuluð þjer nú mynnast við hann og
halda yður í skefjum“.
D'Artagnan og Rochefort kystust — mjög lauslega
þó. Kardínálinn gaf þeim auga og síðan gengu þeir
saman fram að dyrunum.
„Við hittumst kann ske aftur“, sagði greifinn.
„Hvenær sem yður þóknast“, svaraði d'Artagnan.
„Við fáum eflaust tækifæri til þess“, sagði Rochefort.
Þeir brostu, tókust í hendur og hneigðu sig fyrir
kardínálanum.
„Við vorum farnir að verða óþolinmóðir“, sagði
Athos þegar d'Artagnan kom út.
„Jæja, hjer er jeg kominn, vinir mínir“, sagði
d'Artagnan, „og ekki að eins frjáls og óskaddur, heldur
einnig með hylli kardínálans í tilbót.
„Þú verður að segja okkur betur af því“.
Sama kvöldið kom d'Artagnan heim til Athos.
Var hann að tæma flösku af spánsku víni eins og hans
var venja á hverju kvöldi.
D'Artagnan sagði honum, hvað sjer og kardínálanum
hefði farið á milli. Dró hann því næst veitingarbrjefið
upp úr vasa sínum og sagði:
„Líttu á, kæri Athos! Þetta hefðir þú sannarlega
átt betur skilið en jeg“.
„Kæri vinur“, sagði Athos og brosti blíðlega. „Þetta
væri ofmikið handa Athos og of lítilfjörlegt handa de
la Fére greifa. Hafðu þetta sjálfur — þú hefur vissulega
unnið til þess“.
Því næst gekk d'Artagnan til Porthos. Stóð hann
fyrir framan spegilinn, klæddur nýjum búningi, afarskrautlegum.
„Nú, ert það þú?“ sagði hann, „Hvernig lízt þjer
á nýju fötin mín?“
„Ágætlega“, sagði d'Artagnan, „en jeg kom nú
annars til þess að bjóða þjer annan búning, sem fer
þjer enn betur“.
„Einmitt það! Hvers konar búningur er það?“
„Það er liðsforingjabúningur“.
D'Artagnan sagði nú Porthos af samfundum þeirra
kardínálans og hans, tók skjalið upp úr vasa sínum og
sagði: „Líttu á, kæri vin, skrifaðu nú nafn þitt í eyðuna
og lofaðu mjer því, að verða dugandi foringi“.
Porthos leit á skjalið og fjekk d'Artagnan það aftur,
honum til mikillar undrunar.
„Þetta er auðvitað mesta sæmdarboð“, sagði hann,
„en það yrði skammgóður vermir. Maðurinn hertogafrúarinnar
minnar kvaddi þennan heim meðan við
vorum í Béthune. Peningaskápur hins framliðna seiðir
mig til sín og jeg ætla nú að giftast ekkju hans. Jeg
var einmitt að máta brúðkaupsfötin, þegar þú komst.
Halt þú veitingarbrjefinu, kæri vin og gleðstu af upphefð
þinni“.
Þessu næst fór d'Artagnan til Aramis. Hann lá á
knjebeð fyrir framan bænapúlt sitt og studdi enninu á
opið bænakver. D'Artagnan sagði enn á ný hversu farið
hefði með kardínálanum og sjer og dró veitingabrjefið
upp úr vasanum í þriðja sinn.
„Þetta veitingarbrjef skalt þú hafa“, sagði d'Artagnan,
„þú sem verið hefur ljós á okkar vegum og
hinn duldi verndari okkar. Þú verskuldar það framar
öllum öðrum fyrir hyggindi þín, viturleik og heilræði,
sem ávalt hafa að góðu gagni komið“.
„Æ, kæri vin“, svaraði Aramis. Þessi seinustu æfintýri
okkar hafa gert mig leiðan á þessu lífi og öllu
því, sem að hernaði lítur. Ásetningur minn er nú óbifanlegur
og jeg ætla mjer að taka prestvígslu þegar
umsátinni er lokið. Haf veitingabrjef þitt, d'Artagnan
— þú ert borinn og barnfæddur hermaður og
verður eflaust nýtur foringi“.
D'Artagnan fór aftur til Athos, er sat við borðið
og hjelt seinasta vínglasinu upp að ljósinu.
„Ja-neinei!“ sagði hann. „Þeir vildu ekki heldur
þiggja veitingarbrjefið“.
„Það er vegna þess, að enginn verðskuldar það
betur en þú, kæri vin“, sagði Athos.
Að svo mæltu greip hann penna og skrifaði nafn
d'Artagnans á skjalið.
„Upp frá þessu á jeg þá enga vini framar — ekkert
annað en endurminningar“, sagði d'Artagnan. Hann
huldi andlit sitt höndum og tárin streymdu niður kinnar
honum.
„Þú ert ungur enn“, sagði Athos, „og hinar beisku
endurminningar munu brátt rýma fyrir öðrum, gleðilegri,
og auk þess bíða þín ný og skemtileg æfintýri“.
Eftirmáli.
La Rochelle-búar fengu enga liðveislu af flota
Englendinga og herlið það, sem Buckingham hafði
sent, gafst upp 28. október 1628 eftir eins árs umsát.
Hinn 23. desember s.á. hjelt konungur innreið
sína í París. Var honum tekið með óskaplegum fagnaðarlátum,
rjett eins og hann hefði borið sigur úr býtum
í viðureign við fjandmenn ríkisins, en ekki við
landsins eigin borgara.
D'Artagnan varð liðsforingi. Porthos gekk úr skyttuliðinu
og giftist frú Coquenard árið eftir. Sá marg
þreyði peningaskápur hafði átta hundruð þúsund fránka
að geyma.
Mousqueton fjekk skínandi fallegan þjónsbúning
og komst að lokum í þá stöðu, sem hann hafði þráð
alla æfi: hann fjekk sæti aftan á gyltum vagni.
Aramis fór til Lóthringen og hvarf vinum sínum
algerlega — þeir spurðu aldrei til hans framar. Síðar
ljek orð á því, að hinn fyrverandi skyttuliði hefði gengið
í klaustur í Nancy og var hald manna, að frú Chevreuse
hefði sagt þetta einhverjum elskhuga sínum í
trúnaði.
Bazin gerðist múnkur.
Athos var í skyttuliðinu þangað til 1631 undir forustu
d'Artagnans. Það ár tók hann sjer ferð á hendur
til Touraine og baðst skömmu síðar lausnar úr herþjónustu
og bar það fyrir, að sjer hefði áskotnast arfur
í Roussaillon.
Grimaud fylgdi húsbónda sínum eftir.
D'Artagnan háði þrjú einvígi við Rochefort og
særði hann í öll skiftin.
„Í næsta sinn ber jeg líklega banaorð af yður“,
sagði d'Artagnan um leið og hann rjetti greifanum hönd
sína til þess að reisa hann á fætur.
„Það væri þá sennilega hentugast okkur báðum,
að við ljetum sitja við það, sem nú er komið“, svaraði
Rochefort. „Annars er jeg miklu trúrri vinur yðar
en þjer haldið, því að þegar okkur lenti saman fyrst,
þá hefði jeg getað látið höfuðið fjúka af yður, ef jeg
hefði nefnt það einu orði við kardínálann“.
Að svo mæltu föðmuðust þeir mótstóðumennirnir
og í þetta skifti var það af einlægni gert og undirhyggjulaust.
Rochefort útvegaði Planchet undirforingjastöðu í
lífvarðarliðinu.
Herra Bonacieux lifði kyrlátu lífi og hafði engan
grun um, hvað orðið hefði af konu sinni, enda ljet
hann sig það engu skifta. Einhverju sinni var hann
svo óvarkár að minna kardínálann á tilveru sína. Hans
Hágöfgi ljet þá skila til hans, að hann skyldi sjá svo
um, að hann gæti upp frá því lifað áhyggjulausu lífi.
Klukkan sjö kvöldið eftir gekk Bonacieux út úr
húsi sínu áleiðis til Louvre-hallarinnar og upp frá því
sást hann ekki framar í Fossoyeurs-götunni. Þeir sem
bezt þóttust vita gizkuðu á, að hann hefði fengið ókeypis
húsnæði og fæði í einhverri opinberri byggingu
— alt á kardínálans kostnað.
Alexandre Dumas
Höfundur sögu þessar, Alexandre Dumas (Alexangdr Dujma)
pjere (eldre) var uppi frá 1803 til 1870 og kom til Parísar 1823,
en þar fjekk hann stöðu á skrifstofu hertogans af Orleans með því
að hann skrifaði fyrirtaks fallega rithönd og beitti því jafnframt
penna sínum og fluggáfum til annara ritstarfa. 1826 gaf hann út
sögusafn í nokkrum bindum. Vakti það ekki mikla athygli og ekki
heldur leikrit eitt, er hann samdi ári seinna. Hinns vegar kom út
eftir hann sjónleikur einn sögulegs efnis 1829, „Henri III et sa
cour (Hinrik 3. og hirð hans), er mjög vel var tekið, og þar á
eftir fóru koll af kolli fjöldamörg hugsjónarík og heillandi ritverk
sögulegs efnis. Beitti hann þar óspart æsandi lýsingum og hrikalegum
tilbrigðum, sem hann var mjög gefinn fyrir og náðu rit þessi
almennri hylli bæði í París og í útlöndum. Heimsfrægð sína hlaut
hann þó ekki fyrir þessi rit, heldur fyrir skáldsögur sínar. Samdi
hann ógrynnin öll af þeim og hafði þannig oft og tíðum 10-12
stóreflis sögur á prjónunum í einu, enda marga aðstoðarmenn. Eins
og nærri má geta, hafði allur þessi sögugrúi ekki fullkomið listgildi,
eða risti djúpt í sálarlífi mannanna yfirleitt, en hugarflugið, æsinguna
og „spenninginn“ höfðu þær til að bera í ríkulegum mæli, enda ber
því síst að neita að þær tóku langt fram almennum „reyfara“-sögum
að hugmynda-auðlegð og galliskri andagift. Langfrægust og snildarlegust
er saga sú, er hjer birtist í íslenskri þýðingu, „Skytturnar“
(le troa músketer) og áframhald hennar: „Tuttugu árum síðar“ og
„Seinustu afrek skyttanna“, enn fremur „greifinn af Monte Christó“
„Margot drotning“ og „Hálsmen drotningarinnar“. Sögar þessar
voru — og eru sumpart enn — uppáhaldsbækur almennings, bæði
á Frakklandi og annarsstaðar og hafa verið þýddar á fjölda túngumála.
Aðalástæðan til þess, að Dumas hrúgaði saman þessum feikna
sögufjölda og öðrum ritum, var hin sífelda peningaekla hans,
en hún stafaði aftur af ótrúlegri og hamslausri eyðslusemi. Hann
græddi í raun rjettri of fjár á sjónleikum sínum, skáldsögum, tímaritum,
„endurminningum“ o. s. frv., en það fje hvarf jafnóðum
eins og dropi í hafið og urðu þau æfilok hinns fræga skálds, að
hann dó í örbirgð og vinum horfinn að heita mátti.
—
Aths. Framburður frönsku nafnanna er neðanmáls, þar sem
þess hefur þótt þurfa. Áherslan er ávalt á seinustu samstöfu.