Sagan af Dimmalimm: Æfintýri með myndum

eftir
Guðmund Thorsteinsson
PRENTAÐ HJÁ ST CLEMENTS PRESS (1942) LTD. LONDON

Reykjavík 1942

BÓKABÚÐ KRON



Sagan af Dimmalimm kóngsdóttur

SAGAN AF DIMMALIMM KÓNGSDÓTTUR

Einu sinni var lítil kóngsdóttir, sem hét Dimmalimm. Hún var bæði ljúf og góð, og hún var líka þæg. Hún lék sér alltaf ein í garðinum hjá kóngshöllinni.

Í garðinum var lítil tjörn, og á tjörninni voru fjórir svanir. Dimmalimm þótti svo vænt um þá. Þeir komu líka alltaf syndandi, þegar þeir sáu hana. Hún gaf þeim líka brauð og ýmislegt annað góðgæti.

Einu sinni fékk Dimmalimm að fara út úr garðinum. Hana langaði til að sjá, hvort þar væri nokkuð öðruvísi um að litast.

Jú-ú! Þar var allt öðruvísi. Næstum engin tré og engin hús, ekkert annað en grænar grundir og blá fjöll, langt-langt í burtu. Dimmalimm þótti svo fallegt þarna, að hún gekk og gekk, langa-lengi.

Loks kom hún að stóru vatni. Þá varð Dimmalimm alveg hissa, því að á vatninu sá hún svan, miklu-miklu stærri og fallegri en litlu svanina í kóngsgarðinum.

Og -- hugsaðu þér -- svanurinn kom syndandi til hennar, og hann horfði svo blítt á hana.

Dimmalimm þótti þegar í stað vænt um fallega svaninn.

Eftir þetta fór Dimmalimm á hverjum degi út að stóra vatninu. Svanurinn kom þá á land og settist hjá henni. Dimmalimm strauk svaninum, en hann lagði kollinn sinn í hálsakot. Það var svo inndælt.

En allt breytist í þessu lífi.

Einu sinni, þegar Dimmalimm kom hoppandi, þá sá hún hvergi svaninn sinn -- hvergi nokkursstaðar.

Hún leitaði hringinn í kring um vatnið.

Loksins fann hún svaninn. En svanurinn var dáinn. Dimmalimm fór að gráta, og hún grét og grét.

Aumingja Dimmalimm.

Svo fór hún heim. En á hverju kvöldi gekk hún út að vatninu og hugsaði um svaninn, sem henni þótti svo vænt um.

En nú kemur annað til sögunnar.

Dimmalimm sat einu sinni sem oftar við vatnið og var að hugsa um svaninn sinn.

Þá stóð allt í einu lítill kóngssonur hjá henni. Hann var ljómandi fallegur, og hann hét Pétur.

"Þú mátt ekki gráta, Dimmalimm mín", sagði hann.

"Æ, jú" sagði Dimmalimm. "Svanurinn minn er dáinn".

"Nei, gráttu nú ekki meira", sagði kóngssonurinn. "Eg skal segja þér sögu. Eg heiti Pétur, ég er kóngssonur og á heima hérna skammt frá. Einu sinni kom ljót kerling. Hún var norn. Hún lagði það á mig, að ég skyldi verða að svani og aldrei leysast úr þeim álögum, fyrr en ég hitti stúlku, sem væri góð og þæg, og sem þætti vænt um mig."

"Sérðu nú, Dimmalimm mín? Þú ert góða stúlkan, sem leystir mig úr álögunum. Og nú skulum við gifta okkur".

Þá varð Dimmalimm himinlifandi. Hún kyssti kóngssoninn. Og svo giftust þau.

Nú eru þau kóngur og drottning í ríki sínu. Þau sitja í ljómandi fallegum stólum, sem kallaðir eru hásæti. Og þau eru reglulega hamingjusöm.

En allt var þetta því að þakka, að Dimmalimm var svo góð og þæg stúlka.

Engin er eins þæg og góð
og Dimma-limma-limm,
og engin er eins hýr og rjóð
og Dimma-limma-limm.


Guðmundur Thorsteinsson, eða Muggur, eins og hann var venjulega kallaður af kunnugum jafnt sem ókunnugum, var einn gáfaðasti og fjölhæfasti listamaður, sem Ísland hefir átt.

Það má segja, að allt hafi leikið honum í höndum. Hann var snjall málari og teiknari, en auk þess var hann leikari góður og gamanvísna söngvari. Greip hann oft til þess, þegar fjárhagur hans var þröngur, að syngja á skemmtunum, enda var hann hrókur alls fagnaðar, hvar sem hann kom.

Muggur ól samanlagt sjálfsagt meir en helming æfi sinnar utanlands. Þó er hann að mörgu leyti meðal hinna þjóðlegustu íslenzkra myndlistarmanna, enda munu myndir hans úr íslenzkum þjóðsögum lengst halda nafni hans á lofti.

Þótt hann væri af ríku fólki kominn tæmdist honum snemma fé, enda var hann manna örlátastur og hafði lítið fésýsluvit, svo sem títt er um listamenn. Þó var faðir hans, Pétur Thorsteinsson kaupmaður, talinn einn snjallasti athafnamaður Íslands um langt skeið.

Muggur var fæddur á Bíldudal 5. september 1891. Móðir hans, Ásthildur Guðmundsdóttir Thorsteinsson, var þá húsfreyja á einu stærsta og merkasta heimili landsins. Milli hennar og Muggs voru alla æfi miklar ástir.

Muggur varð ekki nema 32 ára að aldri. Hann átti við mikla vanheilsu að stríða síðustu ár æfi sinnar. Dvaldi hann þá langvistum utanlands til heilsubótar. Hann lézt á heilsuhælinu í Sölleröd vorið 1924. Lét hann eftir sig fjölda merkra mynda. Hin merkasta þeirra mun vera altaristafla, sem hann málaði 1921 á Ítalíu, "Kristur læknar sjúka."

Honum var sérstaklega sýnt um að segja sögur, enda var hann barngóður með afbrigðum og þekkti betur sálarlíf barna en flestir aðrir fullorðnir.

Hann gerði myndir við "Þulur" frú Theodóru Thoroddsen, móðursystur sinnar. Ennfremur gerði hann myndir við barnakvæðið alkunna "Tíu litlir negrastrákar."

Bók þessa samdi hann og teiknaði handa systurdóttur sinni, Helgu Egilson, árið 1921, er hann var á leið frá Ítalíu til Íslands með flutningaskipi.

Myndin, sem fylgir þessum línum, er tekin haustið 1919, þegar Muggur lék hlutverk Ormars í kvikmyndinni "Sögu Borgarættarinnar."