John Stuart Mill. Kúgun kvenna. Íslenzk þýðing. Gefin út á kostnað „hins íslenzka kvennfélags“. Reykjavík. Glasgow-Prentsmiðjan. 1900. I. KAFLI. Það er áform mitt með þessu riti, að skýra eins ljóst og auðið er ástæðurnar fyrir ætlun þeirri, er eg hef haft frá því að eg fyrst tók að sannfærast um ýmislegt viðvíkjandi almennum málum; fer því svo fjarri, að ætlun þessi hafi nokkuð veikzt eða haggazt við íhuganir eða lífsreynslu, að hún þvert á móti hefur styrkzt æ því meir. Þessi ætlun mín er sú, að það fyrirkomulag milli hinna tveggja kynja, karla og kvenna, sem geri annað hinu háð, í laganna nafni, er óhafandi, og að það nú sem stendur hamlar framförum mannkynsins eigi alllítið, og að í stað þess fyrirkomulags verður að koma annað, sem miðar að því, að koma á fullkomnum jöfnuði milli kynjanna, þannig að hvorugt hafi nokkur forréttindi eða völd og hvorugt verði með lögum útilokað frá nokkru því, sem hitt hefur. — Sjálf orðin, er eg hlýt að tákna með verkefni það, er eg hef tekið mér, sýna, hve örðugt verkefnið er. Samt mundi rangt, að ímynda sér, að erfiðleikar þeir, er eg þarf að vinna bug á, komi af því, að mig vanti góð og glögg rök, er eg geti leitt að sannfæringu minni. Þessir örðugleikar eru þvert á móti þeir, sem verða fyrir hverjum manni, sem hættir sér í baráttu við rótgrónar og sterkar tilfinningar. Eins lengi og einhver ætlun er djúpt rótgróin í tilfinningunni styrkist hún fremur en haggast við sannanir, sem bornar eru fram móti henni, hversu ljósar sem þær eru. Ef ætlun þessi væri til orðin við tómar íhuganir, mundu máttarsúlur sannfæringarinnar undir eins bila, þegar sýnt væri fram á, að rangt hefði verið ályktað; en þegar einhver ætlun hefur eigi annað að styðjast við en tilfinninguna, þá er það sannreynt, að því meir sem hún er hrakin með rökum, því sannfærðari verða þeir menn, er hallast að henni, um, að tilfinning þeirra hljóti að hafa einhvern djúpan grundvöll, sem sannanir nái eigi til. Meðan tilfinningin helzt lifandi vantar hana aldrei lærdómsgreinir til þess að verja sig með og fyllir þannig fljótt upp skörð þau, er skotin eru á víggirðingar hennar. Nú eru einmitt tilfinningar vorar með tilliti til hinnar misjöfnu stöðu karla og kvenna í mannfélaginu af ýmsum ástæðum meir lifandi og rótgrónari en allar aðrar tilfinningar, sem geyma og vernda venjur fortíðarinnar. Það er því eigi að furða, þótt þær séu öflugastar af öllum, og hafi varizt bezt gegn andlegum byltingum, sem orðið hafa í mannfélaginu á seinni tímum; en þó má eigi ætla, að ómannúðlegar fyrirskipanir í mannfélaginu, sem lengst hafa verið hafðar í hávegum, séu mannúðlegri en þær, sem áður hefur verið rýmt burt. — Það er ávallt örðugt starf, að ráðast á skoðun, sem næstum alstaðar er útbreidd. Ef heppnin er eigi því meiri, og gáfurnar eigi því frábærari, er orðum manna eigi gefinn neinn gaumur. Þegar svo ber undir er örðugra að finna dómstól en fyrir aðra að fá viðunanlegan dóm. Ef mönnum tekst að vekja athygli annara stundarkorn verða menn til endurgjalds að ganga að afarkostum. Alstaðar verður sá, sem heldur einhverju fram, að koma með allar sannanirnar. Þegar maður er ákærður fyrir morð, er það skylda ákæranda að sanna afbrot (hins) ákærða; það er ekki skylda (hins) ákærða að sanna sakleysi sitt. Ef talað er um sögulegan sannleika einhvers viðburðar, er lítið eða ekki snertir tilfinningar manna almennt t. d. tróversku styrjöldina, þá verða þeir, sem halda því fram, að þessi viðburður hafi orðið, að bera fram sannanir gegn mótstöðumönnum sínum, en mótmælendur eru aldrei skyldugir til annars en að sanna, að framburður hinna sé ónógur (ɔ: einskisverður). Í venjulegum málum er það leyft, að þeir menn beri fram sannanir fyrir sínu máli, er mótmæla frelsi, ɔ: þeir, sem halda uppi vörn fyrir ýmsar takmarkanir og hindranir, hvort sem þær miða að því, að takmarka frelsið almennt eða að því að gera ákvörðun um, að einhver einstaklingur eða flokkur sé eigi hæfur til að öðlast réttindi eða jafnréttindi við aðra. Hér eru menn fyrir fram hlynntir frelsinu og óhlutdrægninni, og ætla að engar aðrar takmarkanir séu réttar en þær, sem almenn velgengni heimtar, og að lögin hafi ekki heimild til þess að gera nein afbrigði frá reglunni, en eigi að breyta jafnt við alla, nema því að eins, að löglegar eða pólitiskar ástæður heimti, að gerður sé mismunur. Þó getur sá, sem ber fram skoðun þá, er eg ver, eigi horfið til neinnar af þessum reglum. Gagnvart mótstöðumönnum mínum, sem halda því fram, að maðurinn hafi rétt til að stjórna, og að konan samkvæmt eðli sínu sé skyld að hlýða, og enn fremur, að maðurinn hvað hæfilegleika snertir sé færari um, að hafa völdin á hendi — gagnvart þessum mönnum mundi eg eyða tíma til ónýtis, ef eg ætti að fara að leiða þeim fyrir sjónir, að þeir verði að sanna skoðun sína, ef þeir vilja eigi, að hún verði hrakin. Það mundi koma að jafnlitlu haldi, að reyna að sýna þeim fram á, hvernig þeir með því að neita konum um frelsi það og réttindi, er menn njóta, bæði ráðast á frelsið og eru meðmæltir ójöfnuðinum. Hvernig sem öðru vísi hefði staðið á mundi þetta hafa mikla þýðingu. Hér er öðru máli að gegna. Ef eg vil, að orð mín hafi nokkur áhrif, verð eg eigi að eins að svara öllu, er mótmælendur mínir hafa nokkurntíma borið fyrir sig, en þar að auki verð eg að ímynda mér, hvað þeir hefðu getað sagt, og svo hrekja það, leggja þeim fyrst ástæður í munn og því næst tala á móti þeim. Að þessu búnu heimta menn enn fremur af mér, að eg sanni ætlun mína með gildum og óhrekjandi rökum. Og ekki nóg með það. Þó að eg hefði fullnægt þessu skilyrði, þó að eg hefði leitt fram heila hersveit af óhrekjandi ástæðum móti andvígismönnum mínum, og ekki látið eina einustu af þeirra ástæðum óhrakta, mundu menn þrátt fyrir það stöðugt ætla, að eg hefði ekki sannað neitt. Því að mál, sem annars vegar styðst við almenna venju og hinsvegar við afarmáttuga og útbreidda tilfinningu, hefur sér til styrktar ímyndun, sem er miklu öflugri en sú sannfæring, sem sprettur af skynsamlegri ályktun hjá öllum þeim mönnum, sem ekki eru því hyggnari. — Þegar eg minnist á alla þessa örðugleika, þá er það ekki til þess að barma mér yfir þeim; það mundi eigi gagna neitt; þessir örðugleikar mæta öllum, sem ráðast á tilfinningar og almennar stefnur, og taka skynsemina fyrir dómara. Andi flestra manna verður að ná miklu hærra þroskastigi, áður en unnt sé að vinna þá til þess að reiða sig á eigin dæmigreind og hverfa frá reglum, sem þeir hafa drukkið í sig með móðurmjólkinni, og sem er að mestu leyti grundvöllur fyrirkomulagsins, eins og það er nú, þegar gerð hefur verið árás á þá með rökum, sem þeir geta eigi hrakið með skynsamlegum ályktunum. Eg lái þeim ekki, þótt þeir beri of lítið traust til hugsunarinnar, en eg lái þeim, að þeir bera of mikið traust til venjunnar og almennrar tilfinningar. Það er einn af þeim hleypidómum, sem táknar fráhvarf 19. aldarinnar frá stefnu 18. aldarinnar, að 19. öldin telur tilfinningu og vilja hjá manninum jafn óskeikandi og 18. öldin taldi skynsemina. Í stað þess, að skipa skynseminni æzta sess tilbiðjum vér hvötina, en hvöt köllum vér allt, sem vér finnum hjá oss og getum ekki fært skynsamleg rök fyrir. Þessi tilbeiðsla er óendanlega miklu vanvirðulegri en skynsemis-tilbeiðslan og styður hjátrúna á vorum tímum, því hún er sjálf hin hættulegasta hjátrú, en þó mun hún haldast við, þangað til sálarfræðin kollvarpar henni með því að sýna og sanna, hver sé hinn sanni uppruni flestra þeirra tilfinninga, er við höfum nú í hávegum og köllum tilgang náttúrunnar og guðs ákvarðanir. Í þessu máli er eg því boðinn og búinn til þess, að taka þeim kostum, sem hleypidómarnir setja mér, þótt þeir verði eigi sem þægilegastir. Eg mun fallast á það, að tízkan og almenn tilfinning verði taldar óhrekjandi rök, svo framarlega sem mér tekst eigi að sanna, að í þessu máli hefur siðvenja og tilfinning á öllum tímum eigi átt það réttlætinu að þakka, að þær hafa haldizt við, heldur ýmsum öðrum ástæðum og að þær hafa rót sína að rekja til hins verri hluta mannlegrar náttúru, ekki til hins betra.— Eg mun sætta mig við það, að dómurinn verði mér á móti, ef eg get eigi sannað, að dómari minn hefur þegið mútur. Eg slaka eigi til eins mikið og ef til vill sýnist, því að sanna þetta er léttasti hlutinn af starfi mínu. — Þegar einhver siðvenja er almenn, þá eru opt miklar líkur til þess að hún miði eða hafi áður miðað að einhverju lofsverðu máli. Þannig er þeim siðvenjum varið, sem fyrst komast á og seinna meir héldust við, af því að þær voru viss vegur til þess að verða einhverra gæða aðnjótandi, og giltu sem niðurstaða, er komizt varð að fyrir reynslu. Hafi því menn á þeim tíma, sem fyrirskipunin um vald mannsins yfir konunni var gerð, fyrst hugsað um, hver aðferð mundi bezt til að stjórna mannfélaginu og hafa komizt að því, að þetta fyrirkomulag mundi hentugast, hafi menn fyrst gert ýmsar aðrar tilraunir, svo sem að láta konuna hafa yfir manninum að segja, eða láta bæði kynin hafa jöfn réttindi, eða með einhverju öðru fyrirkomulagi fyrir reynslu sannfærzt um, að báðum kynjum mundi það fyrir beztu, að konan væri undir manninn gefin, að henni væri eigi veitt nein hlutdeild í almennum málum, og að lögin, hvað heimilislífið snertir, neyddu hana til að vera þeim manni hlýðin, sem hún er sameinuð eins lengi og hún lifir — ef þessu er þannig varið, þá neyðast menn til að að telja þetta fyrirkomulag sönnun fyrir því, að það á þeim tíma, sem það komst á, hafi verið hið bezta, þar sem það varð almennt að reglu. Þó er hægt að ímynda sér, að það, sem á þeim tímum mælti með þessu fyrirkomulagi, hafi seinna misst gildi sitt, eins og svo margt annað í mannfélaginu, sem upprunalega hafði hina mestu þýðingu. Nú er þessu ekki þannig varið, heldur á hið gagnstæða sér stað. Það er þá fyrst á því að taka, að þegar menn aðhyllast fyrirkomulagið, sem nú er, þar sem veika kynið er gert háð sterka kyninu, þá liggur hér ekkert verulegt til grundvallar fyrir þessu ástfóstri við hið gamla, annað fyrirkomulag hefur aldrei verið reynt og það er í vanalegri merkingu orðsins ómögulegt að fullyrða, að það sé reynslan, sem hér hefur mælt með fyrirkomulaginu. Enn fremur hefur reglan um undirokun kvenna aldrei haft rót sína að rekja til samvizkusamlegrar umhugsunar um það eða þekkingar á því, hvað mannkyninu hentaði bezt, og hver væri beztur vegur til þess að koma á góðu skipulagi í mannfélaginu. Allt þetta sprettur af því, að frá bernsku mannkynsins hefur konan talið sig ofurselda sem ambátt manninum, sem þótti vænt um að eiga yfir henni að segja, og honum gat hún eigi veitt mótþróa sökum þess, að hún var kraptaminni. Lög og fyrirskipanir mannfélagsins byrja ávallt á því, að fallast á samband það, sem þegar hefur átt sér stað milli einstaklinganna. Það sem því fyrst var gerræði verður seinna að lögum og rétti; mannfélagið verndaði þennan rétt; aðrir kraptar í mannfél. koma í stað líkamlegs styrkleiks, er barðist taumlaust fyrir valdi sínu, og þeir styðja og efla þennan rétt. Þeir einstaklingar, sem í byrjun voru hræddir til hlýðni með ytra ofbeldi, eru nú með lögum skyldaðir til hlýðni. Þrælahaldið, sem í upphafi komst á fyrir líkamsstyrk yfirboðaranna, varð seinna að lagalegri fyrirskipan; þrælarnir voru liðaðir inn í þann sáttmála, sem skyldaði drottna þeirra til að gæta sinna einstöku eigna og tryggja þær hvor öðrum með því að neyta sameiginlegs valds. Á hinum fyrstu sögutímum var meginþorri karlmanna þrælar, eins og kvennfólk var þá. Það líða margar aldir og þar á meðal aldir, þar sem menntunin var komin á hátt stig, áður nokkur heimsspekingur þyrði að andmæla því, að slíkt þrældómsástand þessara flokka væri réttlátt og óhjákvæmilegt. Smátt og smátt komu samt fram slíkir afbragðsmenn og það er þeim og almennum framförum mannkynsins í sameiningu að þakka, að þrælahald karlmanna er afnumið hjá öllum kristnum Norðurálfu-þjóðum (fyrir fimm eða sex árum eymdi eptir af því hjá einni Norðurálfu-þjóð) og hvað kúgun kvenna snertir, þá hefur hún smátt og smátt tekið breytingum til hins betra. En þessi undirokun kvenna, sem nú kemur fram í vægari mynd er engan veginn ávöxtur þroskaðrar umhugsunar um það, hvað réttlátt er og nytsamlegt fyrir almenning; það er þrælahald í sinni upprunalegu mynd; það helzt enn við, en hefur smátt og smátt mildazt og lagazt af sömu ástæðum, sem liggja að því, að siðirnir hafa fágazt og hafa að nokkru leyti gert mannúð og réttvísi það unnt að hafa hemil á athöfnum mannanna. Menjarnar af þessu upphaflega gerræði eru þó eigi horfnar. Það er því eigi unnt fyrir fram að sjá, hvern rétt þetta fyrirkomulag mannfélagsins hefur við að styðjast eða að aðhyllast það fyr en litið er á, hvaða tilverukjörum það hefur átt að fagna. Hið eina sem unnt er að segja um það, er að það hefur haldizt við þangað til nú, þar sem aðrar fyrirskipanir, sem runnar eru af sömu rót, eru horfnar; og þegar litið er á málið í heild sinni, þá er þetta ástæðan til, að flestum þykir svo kynlegt að heyra því haldið fram, að mismunurinn milli karla og kvenna hafi hnefaréttinn við að styðjast. — Að þessi skýring í málinu þykir eigi sennileg, leiðir að nokkru leyti af því, að menntuninni hefur fleygt svo mikið fram, og siðferðistilfinningin hefur þroskazt. Vér, eða réttara sagt, tvær hinar mestu framfaraþjóðir eru komnar á það stig, að þær hafa fullkomlega afnumið þá grundvallarsetningu lífsins, að réttur hins sterkara eigi að hafa nokkurt gildi; enginn ber þennan rétt fyrir sig og mjög óvíða hefur nokkur leyfi til þess að neyta hans. Ef einhver engu að síður gerir það, neyðist hann til að láta það á einhvern hátt sýnast svo, að hann með því hafi viljað gera mannkyninu eitthvert gagn. Þannig er þessu varið að ytra áliti, og menn hrósa sér af því, að nú ráði eigi framar máttur þess, sem voldugri er, menn smjaðra fyrir sjálfum sér með því að telja það fjarri sanni, að yfirburðir í líkamsstyrk séu uppruni til þess, sem ber við dagsdaglega og telja það enn fremur óhugsandi, að það fyrirkomulag, sem nú á sér stað, í hverri mynd, sem það hefur komið fram í upphafi, hafi getað haldizt við allt fram að því menntunar- og framfarastigi heimsins, er vér lifum nú á, nema því að eins, að með réttu hafi ríkt sú skoðun, að það væri fullkomlega samkvæmt mannlegu eðli og væri til almennings hagnaðar. — Menn hafa enga skímu um, hve lífseigar þær fyrirskipanir eru, sem gera réttinn að eign þess, sem sterkari er; menn gæta eigi að því, hvílíkri tryggð menn taka við slíkar venjur og með hvílíku afli yfirboðararnir halda í þær með góðum og illum tilfinningum í sameiningu; menn gæta eigi að tímalengd þeirri, sem þarf til þess, að gamlar ákvarðanir hverfi hver af annari, fyrst þær, sem veikastar eru fyrir, seinna þær, sem sterkari eru, en sterkastar fyrir eru þær, sem nánast eru tengdar daglega lífinu. Það er eigi almennt kunnugt, að þeir menn, sem höfðu á hendi lögboðið vald sökum þess, að líkamsstyrkurinn var upphaflega, þegar þeir fengu þetta vald, þeirra meginn. — Þessir menn hafa sjaldan misst vald sitt fyr, en líkamstyrkurinn varð eign mótstöðumannanna. Þar sem nú líkamsmátturinn er eigi eign kvenna, liggur það í augum uppi, að jafnvel þótt þessum leifum af gömlum lagaákvörðunum hafi þegar snemma á tímum eigi verið fylgt strax fram í aðalatriðum sínum, þá hverfa þær þó seinast, og að þessar leifar af úreltu fyrirkomulagi hafa haldizt við hjá kynslóðum, sem eigi tóku aðra niðurskipun gilda en þá, sem byggist á réttvísi. Það er næstum hið eina afbrigði frá reglunni, sem veldur ósamræmi í lögum þeim og venjum, sem nú tíðkast; en meðan þessi niðurröðun vottar eigi sjálf uppruna sinn og er eigi rædd til hlítar, þá lítur eigi út fyrir, að hún komi í bága við heimsmenntunina fremur en þrælahaldið í heimilislífi Grikkja var í þeirra augum til fyrirstöðu fyrir því, að þeir teldu sig frjálsa þjóð.— Í raun réttri hefur hvorki kynslóð sú, er nú lifir né þær tvær eða þrjár kynslóðir, sem á undan hafa lifað, getað gert sér grein fyrir hinu upphaflega ástandi mannkynsins. Að eins þeir menn, sem hafa vandlega kynnt sér sögu þjóðanna eða ferðazt um heimshluta, þar sem eimir eptir af fornu fyrirkomulagi, eru færir um að að gera sér grein fyrir, hvað mannfélagið var í fornöld. — Menn vita eigi, að á fyrstu tímum réði réttur hins máttuga án allrar takmörkunar, og að hans var neytt opinberlega og fyrir allra augum; eg vil eigi segja, að hans hafi verið neytt með hlífðarleysi og ósvífni, því að það mundi vera hið sama og að segja, að þessum yfirráðum hafi verið samfara meðvitundin um, að þau væru ranglát, en slíkt gat eigi vakað fyrir neinum á þeim tímum, nema ef vera skyldi heimspekingum og helgum mönnum. Mannkynssagan flytur oss sorglega heim sanninn um skuggahliðar mannlegrar náttúru með því að sýna oss, hve náið samband var fyrrum milli meðferðar þeirrar, er heilir flokkar manna máttu sæta annars vegar og máttar þess, er flokkar þessir höfðu að verjast með hins vegar. Vér sjáum, að í hvert skipti, sem uppreisn var gerð móti vopnuðum valdsmönnum, hversu illa, sem þeir höfðu farið að ráði sínu og gefið tilefni til hennar, þá kom þessi uppreisn í bága við rétt þann, er hinn máttugri hafði og enn fremur við öll lög og allar hugmyndir um almennar skyldur. Og vér sjáum, að þeir, sem sýndu mótþróa, voru í augum almennings eigi að eins sekir í glæp, heldur í hinum mesta glæp, og voru taldir maklegir hinnar grimmilegustu refsingar, sem hægt var að leggja á þá. — Það var í fyrsta sinn, að yfirmann óraði fyrir því, að hann hefði skyldum að gegna gagnvart undirmanni sínum, þegar svo bar undir, að hann af eigingjörnum hvötum fann sig knúðan til að gefa honum loforð. Jafnvel þó að loforð þessi væru bundin dýrum eiðum þótti þó þeim, sem loforðin höfðu gefið, ekkert til fyrirstöðu fyrir því, að taka þau aptur og fótumtroða þau, hvað lítið sem út af bar; en það er sennilegt, að þessir menn hafi seinna séð eptir þessum eiðrofum, ef þeir hafa eigi haft því minni siðferðistilfinningu. Þjóðveldin í fornöld byggðust að mestu leyti á sáttmála, er gerður var manna á milli; að minnsta kosti voru þau stofnuð af félagi af mönnum, sem eigi báru mikið hver af öðrum hvað krapta snerti; þess vegna sýndu þau fyrst niðurröðun í mannfélaginu, þar sem önnur lög voru ráðandi en réttur hins máttugra. Þótt nú réttur hins máttugra væri upphaflega hið eina, sem kvað á um sambandið milli höfðingja og þræls og um sambandið milli hins almenna og þegnanna, með einstökum undantekningum, sem sérstakar ákvarðanir voru gerðar um, þá var þó mikið unnið við það, að rétti hins máttugra var rýmt burt frá þessu litla svæði, svo að mannkynið gæti tekið að endurfæðast við það, að nýjar tilfinningar ruddu sér til rúms, enda sýndi og sannaði reynslan undir eins, að tilfinningar þessar höfðu afarmikla þýðingu jafnvel fyrir tímanlega velferð mannanna, og þurftu þær því eptir það að eins að glæðast og magnast. Jafnvel þótt þrælarnir hefðu eigi neina hlutdeild í málum þjóðveldisins, var það þó fyrst í frjálsum ríkjum, að þrælum voru veitt viss mannréttindi. Heimspekingar af Stóumannaskóla voru, þegar litið er burt frá lögum Gyðinga, þeir fyrstu, sem kenndu það, að yfirmenn hefðu skyldum að gegna gagnvart þrælum sínum. Eptir að kristni breiddist út var engum kenning þessi ókunn, og eptir að kaþólska kirkjan var stofnuð vantaði kenninguna aldrei forvígismenn. En þó veitti kristninni það mjög örðugt að gera skoðun þessa lifandi í hugsunarhætti þjóðanna, því að kirkjan hefur barizt í meir en þúsund ár, áður hún fengi nokkru sýnilegu áorkað. Hana vantaði eigi vald yfir anda þjóðanna. Vald hennar var geisimikið. Hún kom konungum og aðalsmönnum til að sleppa öllu tilkalli til hinna dýrmætustu eigna sinna og hafði sjálf hagnað af þeim. Hún knúði margar þúsundir manna til þess að segja skilið við öll gæði heimsins á bezta aldri, loka sig inni í klaustrum og leita sálu sinni friðar með fátækt, föstum og bænum; hún rak mörg hundruð þúsund manna yfir lönd og sjó, gegnum Norður- og Austurálfu, til þess að leysa hina helgu gröf úr óvinahöndum og láta lífið fyrir; hún neyddi konunga til þess að skilja við konur, sem þeir unnu hugástum, einungis með því að lýsa því yfir, að hjónin væru skyld í sjöunda lið, og meir að segja eptir reikningi enskra laga í fjórtánda lið. Kirkjan hefur megnað að gera allt þetta; en hún megnaði eigi að aptra höfðingjum því, að berast á banaspjótum eða aðalsmönnum, að beita grimmd við þræla (ɔ: mansmenn) sína og borgara; hún megnaði eigi að koma þeim til að neita sér um ánægju þá, sem þeir höfðu af yfirburðum sínum bæði meðan á ófriðnum stóð og eptir að sigur var fenginn. Valdsmennirnir vildu eigi vægja til, fyr en sá tími kom, að þeir urðu að lúta öðru æðra valdi. Vald konunganna, sem fór meir og meir í vöxt, gat gert enda á þessari almennu baráttu með því að gefa konungum einkaleyfi til þess að heyja ófrið. Seinna reis upp auðug og þrekmikil borgarastétt, sem varðist í víggirtum bæjum, og fyrst þegar komst upp fótgöngulið af alþýðumönnum, sem bar af óæfðum riddaraflokkum á vígvellinum, þá var unnt að takmarka hina gegndarlausu harðstjórn lénsaðalsins yfir borgurum og bændum. Harðstjórn þessi hélzt þó við löngu eptir að undirmönnum var vaxinn svo fiskur um hrygg, að þeir gátu náð sér niðri og komið fram grimmilegri hefnd. Á meginlandinu eymdi eptir af ýmsum harðstjórnarvenjum allt fram að stjórnarbyltingunni á Frakklandi; í Englandi gerðu löngu fyrir þennan tíma ýmsir alþýðuflokkar enda á venjum þessum, og komu á jöfnuði gagnvart lögunum og gerðu ýmsar frjálsar fyrirskipanir. — Þar sem nú almenningur veit eigi, að víðast í mannkynssögunni hefur hinn meiri máttar talið krapta sína sem hina einu og sjálfsögðu reglu fyrir gerðum sínum og að allar aðrar reglur voru sérstök afbrigði, sem koma af einhverjum óvanalegum ástæðum; þar sem menn vita eigi hversu ný sú krafa er, að fyrirkomulag mannfélagsins eigi að byggjast á siðferðislegum lögum, þá hugsa þeir jafnlítið um það, að fyrirskipanir og venjur, sem ekkert hafa annað við að styðjast en rétt hins meiri máttar, haldast við um langan tíma, og það þótt skoðanir ryðji sér til rúms, sem aldrei hefðu leyft slíkum fyrirskipunum að ná gildi. Það er eigi meira en 40 ár síðan, að Englendingar gátu haldið þræla, selt og keypt menn; í byrjun þessarar aldar gátu þeir tekið svertingja heima hjá þeim, haft þá burt með sér og látið þá ganga þannig fram af sér við vinnu, að þeir biðu bana af. Jafnvel þeir, sem þoldu næstum allskonar gerræði, fylltust gremju og viðbjóði við þessa vanbrúkun máttarins, enda var hún hið versta hneyksli í augum hvers óhlutdrægs manns, og þó var hún á tímum núlifandi manna lög í hinu menntaða og kristna Englandi. Í öðrum helmingi þess hluta af Vesturálfu, sem engilsaxneskur er, hélzt þrælahald við fyrir þremur eða fjórum árum síðan og menn keyptu, seldu og ólu upp þræla almennt. Og þó var óánægjan yfir þessu þrælahaldi óvanalega mikil þar og hagnaðarvonin, sem fylgdi þrælahaldinu og mælti með því, var hér minni en alstaðar annarstaðar, þar sem völdin eru vanbrúkuð, að minnsta kosti á Englandi, því að það sem mælti með þrælahaldinu á Englandi, var eigi annað en hrein og einskær mauragirnd hjá litlum hluta þjóðarinnar, sem hafði hagnað af því, en allir, sem engan ávinning höfðu á því, höfðu viðbjóð á því.— Eptir það, að drepið hefur verið á svo hræðilega vanbrúkun, virðist það næstum óþarft, að nefna nokkra aðra, en þó er vert að gæta að því, hversu lengi einvaldsdæmið hefur staðið. Í Englandi eru menn nú sannfærðir um, að hernaðarkúgunin hefur rót sína að rekja til réttar hins meiri máttar og einskis annars. Þó á hún sér stað eða hefur til skamms tíma átt sér stað hjá öllum öðrum Norðurálfuþjóðum, en mikill hluti af hverri þjóð, einkum menn af hærri stigum, lifir undir henni, Svo máttug er hefðin, og það þótt þessi hefð hefði eigi allstaðar gildi, og þótt á hverri söguöld séu mikil og alþekkt dæmi gagnstæðs fyrirkomulags, enda hjá frægustu og farsælustu þjóðum. Á einvaldstímum er þar að auki sá, sem hefur gegndarlaus völd, og sem hagnaðarins vegna lætur sér annt um að halda í þau, eigi nema einn, en þegnarnir, sem lúta kúgunarvaldinu, eru allur hinn hluti þjóðarinnar. Það hlýtur því að leiða af þessu, að okið auðmýkir alla nema þann, sem situr að völdum, og þann, sem vonast eptir að verða eptirmaður hans. En hvílíkur munur er eigi á þessu valdi og valdi mannsins yfir konunni. Eg skal eigi grípa fram fyrir hendurnar á þeim, sem vilja svara þeirri spurningu, hvort unnt sé að réttlæta þetta vald, eg sýni að eins fram á, að þótt því verði eigi mælt nein bót, þá hlýtur það að vera rótgrónara en alls konar önnur yfirráð, sem hafa haldizt allt fram á vora tíma. Hér er það eigi neinn einstakur flokkur, sem hefur forréttindi til þess að fullnægja drambi sínu með því að hafa völd á hendi, og svala eigingirni sinni með því að neyta þeirra, heldur hafa allir karlmenn þessi forréttindi. Því fer svo fjarri, að þessi völd séu almennt æskileg fyrir þá, sem vilja halda þeim, eða að takmark það í stjórnarmálum, sem flokkarnir sækja að, sé að eins þýðingarlítið fyrir eigin hagnað manna að foringjunum undan skildum, nei, völdin sitja við arn hvers manns, sem hefur fjölskyldu í eptirdragi, eða sem heldur að líkur séu til þess, að hann verði höfuð fjölskyldunnar. Hér neytir þorparinn eða getur neytt valds síns eins og bezti maður landsins. Í heimilislífinu er drottnunargirnin meir að segja mest, því að sá, sem óskar að hafa völd, mun einkum neyta þeirra gagnvart þeim, sem kringum hann eru, og sem hann á að lifa með alla æfi sína, sem hafa sömu hagsmuna að gæta og hann og sem gætu notað vald sitt, ef þeir hefðu það, til þess að vera til fyrirstöðu hans eigin tilhneigingum. Ef það nú þannig fyrst hefur tekizt eptir margar og harðar tilraunir og eptir svo langan tíma að brjóta á bak aptur vald, er auðsjáanlega var grundvallað á líkamsstyrknum eingöngu, og hafði miklu minna að styðjast við, hversu örðugt hlýtur það þá eigi að vera, að afnema vald mannsins yfir konunni, þótt það standi eigi á fastari grundvelli. Vér verðum að gæta að því, að handhöfum valdsins veitir auðveldar hér en víðast hvar annarstaðar, að koma í veg fyrir allar uppreistar-tilraunir. Hér lifir hver þegn undir handarjaðrinum á yfirmanni sínum og í miklu nánara sambandi við hann en við nokkurn af samþegnum sínum. Hér er enginn vegur til að gera samsæri móti honum, enginn máttur til að ná nokkurstaðar höggstað á honum og hins vegar miklar ástæður til að leita hylli hans og forðast að styggja hann. — Þegar barizt hefur verið fyrir frelsi í stjórnarmálum hefur það opt sýnt sig, að forvígismenn frelsisins hafa verið keyptir með mútum til þess að hverfa frá málstað sínum, eða verið hræddir til að þegja. Þegar um konur er að ræða, eru allir af undirokaða flokknum keyptir með mútum og hræddir um leið. Vilji þær veita mótstöðu, verður meiri hlutinn af foringjunum og einkum þorrinn af þeim einstaklingum, er berjast, næstum fullkomlega að fórna öllum þægindum og gæðum lífsins. Hafi nokkur fyrirskipun, þar sem sumum eru veitt forréttindi, en aðrir neyddir til hlýðni, nokkurn tíma neglt okið fast á þá, sem undirgefnir eru, þá er það á konur. Eg hef enn ekki sýnt fram á, að þessi niðurskipun er ranglát; en sérhver, sem fær er um, að íhuga þetta mál, hlýtur að ganga úr skugga um, að jafnvel þótt þetta sé ósanngjarnt, hlýtur það þó að haldast lengur við en allt annað ósanngjarnt vald. Og þar sem nú margs konar hraparleg vanbrúkun á valdinu á sér enn stað meðal margra menntaðra þjóða, og fyrst fyrir skömmum tíma síðan hefur verið af numin hjá öðrum þjóðum, þá mundi það virðast kynlegt, ef hið rótgrónasta af þessum yfirráðum hefði beðið nokkurn verulegan hnekki. Það er öllu fremur ástæða til að furða sig á, að þau hafa mætt svo mörgum og miklum mótmælum. Sú athugasemd mun, ef til vill, verða gerð við þetta, að eigi sé rétt, að bera völd mannsins yfir konunni saman við önnur rangfengin völd, er vér höfum minnzt á, þar sem þau völd hafi verið fengin með gerræði og yfirgangi, en yfirráð mannsins yfir konunni séu eðlileg. En hve nær hefur nokkrum, sem hafði einhver yfirráð, fundizt þessi yfirráð óeðlileg? Einu sinni var þannig ástatt í heiminum, að menn, sem lengst voru áleiðis komnir í menntun, töldu það fara með felldu, að mannkyninu væri skipt í tvo flokka, annan lítinn, sem yfirmenn eingöngu væru í, og hinn stóran, þar sem þrælar væru í, þeim fannst, meir að segja, að þessi niðurskipun væri hin eina eðlilega. Enda jafn-frábær gáfumaður og Aristoteles, sem vann svo mikið að framförum samtíðarmanna sinna, barðist öruggur og ótrauður fyrir þessari skoðun; hann byggði á sömu skilyrðum og almennt er byggt á, þegar menn gera þá ályktun, að yfirráð mannsins yfir konunni séu eðlileg. Hann ímyndaði sér, að sumir af mannkyninu væru samkvæmt eðli sínu skapaðir fyrir frelsi, aðrir fyrir áþjan, að Grikkir væru eptir eðli sínu frjáls þjóð, en útlendingar, svo sem Þrakverjar og Austurálfumenn, þrælar. En það þarf eigi að leita svo langt. Héldu eigi þrælaeigendur í Suður-Bandaríkjunum sömu kenningu fram, og vörðu þeir hana eigi með sama ákafa og eiginlegur er þeim mönnum, sem berjast fyrir skoðunum, er réttlæta ástríður þeirra eða vernda hagsmuni þeirra? Hafa þeir eigi kallað himinn og jörð til vitnis um það, að svertingjar væru samkvæmt eðli sínu óhæfir til frelsis og skapaðir til ánauðar? Komust sumir eigi svo langt, að þeir staðhæfðu, að frelsi þeirra manna, sem gegndu líkamlegri vinnu, væri alstaðar ósamhljóða eðlilegri niðurröðun hlutanna? Og hafa eigi forvígismenn einvaldsdæmisins ávallt haldið því fram, að það sé hið eina eðlilega stjórnarfyrirkomulag, og að það eigi rót sína að rekja til feðravaldsins, sem sé hin upphaflega og eðlilega fyrirmynd mannfélagsins; að það sé mótað eptir feðravaldinu og að það vald sé eldra en sjálft mannfélagið, og eptir þeirra kenningu hið eðlilegasta af öllu? Fyrir þessar sakir hefur meir að segja öllum þeim, sem eigi hafa haft annað fyrir sig að bera en rétt hins meiri háttar, þótt, sem þessi réttur væri hinn eðlilegasti grundvöllur fyrir öllum yfirráðum. Sigrandi þjóðflokkar telja það náttúrunnar lögmal, að yfirunnir menn hlýði sigurvegurunum, eða með vægari orðum, að lingerðir og óherskáir þjóðflokkar gangi á hönd hinum hraustari og þrekmeiri. Þeir, sem þekkja nokkuð til lífsins á miðöldunum, hljóta að sjá, hversu eðlileg lénsaðlinum þótti yfirráð sín yfir þeim, sem voru af lágum ættum, og hversu óeðlilegt þeim fannst, að menn af lágum stigum gætu staðið þeim jafnfætis eða haft vald yfir þeim. Hugsunarháttur hinna undirgefnu var líkur. Mansmenn og borgarar, sem hafa hlotið frelsi, hafa á grimmustu ófriðartímum aldrei krafizt þess, að fá hlutdeild í stjórninni; þeir kröfðust einungis meiri eða minni takmörkunar á valdi því, sem menn höfðu til þess, að þjá þá. Svo mikill sannleikur er það, að orðatiltækið: „gagnstætt náttúrunni“ þýðir almennt sama sem: „gagnstætt venjunni“ og ekkert annað, og allt, sem er venja, virðist náttúrlegt. Þar sem það er orðið að almennri venju, að konan sé manninum undirgefin, þá er það eðlilegt, að þær tilraunir, sem gerðar eru til að koma þessari venju af, þyki gagnstæðar náttúrunni. En reynslan sýnir nægilega, hve mjög tilfinningin er hér háð venjunni. Það sem íbúa í fjarlægum löndum furðar mest á, þegar þeir heyra fyrst talað um England, er það, að meykonungur skuli stjórna landinu. Þeim virðist þetta svo óeðlilegt, að þeim þykir það ótrúlegt. Englendingum finnst þetta alls ekki óeðlilegt, af því að þeir eru vanir við það, en þeim mundi finnast það koma í bága við náttúruna, ef konur væru hermenn eða þingmenn. Á lénstímunum þótti almenningi hvorki hernaður eða pólitík vera konum óeðlilegt, af því að þær fengust tíðum við slíkt. Það þótti fara að sköpum, að konur af æðri stigum hefðu skaplyndi karla, og að þær væru í engu eptirbátar manna sinna og feðra, nema í líkamsstyrk. Grikkjum þótti frelsi kvenna eigi eins óeðlilegt og öðrum fornaldar-þjóðum, sökum þess, að þeir höfðu heyrt frásöguna um Amazonurnar og álitu hana sögulegan sannleik, og sökum þess, að þeir höfðu dæmið fyrir sér, þar sem voru spartverskar konur; því að þó að þær samkvæmt lögunum væru mönnum sínum jafn-háðar og konur í öðrum ríkjum Grikkja, þá voru þær í rauninni frjálsari; þeim var veitt tilsögn í líkamsæfingum eins og karlmönnum, og eru nægar sannanir fyrir því, að þær samkvæmt náttúrufari sínu stóðu karlmönnum alls eigi á baki í þessu atriði. Það leikur naumast nokkur vafi á, að dæmi Spartverja hafi orðið til þess, að vekja hjá Plató meðal annars hugmyndina um pólitisk og mannleg réttindi karla og kvenna. En nú mun verða sagt sem svo, að vald mannsins yfir konunni sé ólíkt öllu öðru valdi í því atriði, að þar sé eigi beitt ofbeldi, það sé viðurkennt af frjálsum vilja; konurnar kvarti eigi yfir því og gefi sig undir það með frjálsu samþykki. Fyrst er þá á því að taka, að það er eigi mikill hluti kvenna, sem gefur sig undir þetta vald. Frá því fyrsta að menn hafa sögur af konum, sem voru færar um, að láta skoðanir sínar í ljósi í ritum — því að á þann eina hátt er þeim leyft að gera uppskátt — frá þeim tíma hefur þeim konum fjölgað meir og meir, sem hafa mótmælt hinu núverandi ásigkomulagi. Nýlega hafa margar þúsundir kvenna,[* Hér er átt við England.] og fremstar þeirra ýmsar alþekktar konur, sótt um leyfi til þingsins um að hljóta atkvæðisrétt við þingkosningar. Því meir sem tímar líða fram því ríkara ganga konur eptir því, að sama rækt verði lögð við uppeldi þeirra og karlmanna, og því meira útlit er fyrir, að þær beri sigur úr býtum. Þessu næst gera konur meiri og meiri kröfur til að fá aðgang að störfum þeim og atvinnuvegum, sem hingað til hafa verið lokaðir fyrir þeim. Það er reyndar eigi í Englandi eins og í Vesturheimi haldnar samkomur við og við, og myndaðir fastir flokkar, sem gangast fyrir því, að konum séu veitt meiri réttindi; en í Englandi er félag eitt, sem margir og duglegir menn eru í; það er stofnað af konum og er undir forustu þeirra; setur það sér þrengra takmark, það er: að hljóta atkvæðisrétt. Það er heldur eigi að eins í Englandi og Ameríku, að konur eru teknar að mótmæla hinu lögbundna ófrelsi, er þær verða að sæta. Í Frakklandi, Ítalíu, Sviss og Rússlandi má sjá sömu hreyfingu. Hversu margar þær konur eru, sem þegjandi þrá hið sama, getur enginn sagt; en það eru allar líkur til þess, að þær mundu verða margar, ef menn legðu sig eigi svo mjög fram um, að koma þeim til að bæla niður hjá sér þessa þrá með því að telja þeim trú um, að þessi tilfinning sé ósamkvæm því, sem sæmi þeirra kyni. — Gætum að því, að enginn ánauðugur flokkur hefur undir eins í byrjun heimtað fullkomið frelsi. Þegar Símon frá Montfort stefndi saman nokkrum útvöldum mönnum úr sveitarfélögunum til þess í fyrsta sinn að skipa þeim setu í þinginu, var það þá einn einasti maður, sem leiddi sér í hug að krefjast þess, að kjörinn flokkur af kjósendum skyldi geta skipað ný ráðaneyti og sett það aptur frá, sem og ákveðið gerðir konungs í ríkismálefnum? Slík hugsun vakti aldrei fyrir hinum allra framgjörnustu þingmönnum. Aðallinn gerði þegar þessar kröfur; menn úr sveitarfélögunum settu sér eigi annað mark og mið, en að losast við gerræðislega skatta og grimma kúgun konunglegra embættismanna. Það er eðlilegt pólitiskt lögmál, að þeir sem þjázt undir ánauðaroki gamals valds, taka aldrei að kvarta yfir sjálfu valdinu, en bera sig einungis upp undan því, ef því er beitt með kúgun. Það hefur aldrei vantað konur, sem kvörtuðu yfir illri meðferð hjá mönnum sínum. Margar fleiri mundu hafa kvartað, ef kvartanirnar hefðu eigi í þessu atriði orðið til þess, að mennirnir beittu enn meiri hörku við þær eptir en áður. Það er þetta, sem dregur úr hverri tilraun, sem gerð er til þess, að halda valdi mannsins óskertu, og þá um leið vernda konuna gegn vanbrúkun þessa valds. Þó að konan hafi fært órækar sannanir fyrir því, að hún hafi orðið fyrir rangindum, er hún aptur ofurseld hinum seka; þannig er, auk kvenna að eins farið með börn. Þess vegna þora heldur konur aldrei, hversu lengi sem þær hafa sætt hinni smánarlegustu meðferð, að neyta laga þeirra, sem gefin hafa verið út til þess að vernda þær, og ef þær einhvern tíma annaðhvort af því að þær ráða sér eigi fyrir gremju, eða eptir áeggjun annara bera þessi lög fyrir sig, gera þær sér undir eins á eptir allt far um, að gera eins lítið uppskátt af ógæfu sinni og unnt er, og hlífa kúgara sínum þannig við hegningu þeirri, er hann átti skilið að fá. Það virðist ólíklegt eptir öllu mannlegu og eðlilegu lögmáli, að konur í sameiningu geti hafið herskjöld gegn gerræði manna. Staða þeirra er ólík stöðu allra undirokaðra flokka að því leyti, að yfirmenn þeirra ætlast til meira af þeim en ytri þjónustu. Mennirnir láta sér eigi nægja að konurnar hlýði þeim, þeir þurfa á tilfinningum þeirra að halda. Allir vilja þeir, nema þeir séu því tilfinningalausari, að kona sú, sem þeir eiga að búa saman við, verði eigi ambátt þeirra nauðug, heldur af frjálsum vilja, verði eigi að eins ambátt, heldur eptirlætisgoð þeirra. Þeir hafa því gert allt sitt til að þrælbinda anda þeirra. Yfirmenn annara þræla ætlast til, að þrælarnir hlýði þeim af ótta, annaðhvort af ótta fyrir þeim sjálfum, eða af trúar-ótta. Yfirmenn kvenna vildu þegar í upphafi hafa meira en hlýðnina eina; þess vegna gerðust þeir einráðir um uppeldi kvenna, og notuðu þetta til þess að ná marki sínu. Þær eru frá barnæsku aldar upp í þeirri trú, að það fullkomnunar-takmark, sem þær eiga að keppa að, sé allt annað en takmark karlmanna; þær eru þegar vandar af því, að hafa nokkurn vilja, og að gera sjálfum sér reikningsskil fyrir gerðum sínum, en eru vandar á að gefa sig undir vald annara og gera þeim grein fyrir öllu. Hin almenna siðferðiskenning telur konunni trú um, að það sé skylda hennar að lifa manninum, og hin almenna uppgerða tilfinningarsemi fyrir kvenfólkinu bætir því við, að konan sé sköpuð til þess; hún á að afneita sjálfri sér algerlega og lifa að eins í ástinni til þeirra fáu, sem henni er leyft að unna, ástinni til mannsins, sem hún á að búa saman við alla æfi, og ástinni til barnanna, sem tengir hana og manninn nýju og órjúfandi bandi. Ef vér nú lítum fyrst á hið eðlilega aðdráttarafl, sem dregur konuna að manninum, og því næst á það, að hún er manninum fullkomlega háð, og á náð hans og miskunn að þakka allan rétt og alla ánægu, sem hún verður aðnjótandi, og ef vér svo loks íhugum það, að henni er eigi unnt nema fyrir hjálp manns síns, að leita þess eða öðlast það, sem allir þrá mest, nefnilega almenna virðingu, eða ná í neitt annað, sem almennt er sótzt eptir, þá sjáum vér brátt, að margt þyrfti að breytast til þess að aðalmark og mið uppeldisins ætti eigi að vera það, að vekja löngun hjá konum til þess að þóknast manninum og til þess að þessi kjarnsetning uppeldisins ætti eigi að móta skaplyndi hennar. Og þar sem nú mönnum einu sinni hafa boðizt þessi kostakjör til þess að ná völdum yfir konum og hafa áhrif á þær, hafa þeir af nokkurskonar ósjálfráðri eigingirnis-hvöt notað tækifærið, sem þeim þótti einkar hentugt, til þess að halda þeim í kúgun, með því að leiða þeim fyrir sjónir, að það, sem menn gengjust mest fyrir hjá konum, væri veikleiki þeirra, sjálfsafneitun og það, að þær legðu sinn eigin vilja í mannsins hendur. Geta menn efast um, að önnur ánauðarok, sem mannkyninu hefur smátt og smátt tekizt að brjóta, mundu hafa haldizt við fram á þennan dag, ef svo ríkt hefði verið lagt á, að beygja anda mannanna undir þau, ef t. a. m. sérhverjum rómverskum almúgamanni hefði verið sýnt fram á það, að æzta takmark hans ætti að vera það, að ná hylli einhvers höfðinga, og æzta takmark þrælsins, að ná hylli einhvers yfirmanns síns; ef þeim hefði verið heitið þeim launum fyrir kappsmuni sína að fá að lifa í samfélagi við yfirboðara sína og ná ástsældum þeirra, og þeir af undirmönnunum, sem gáfaðastir og virðingargjarnastir voru, gátu þannig vonast eptir mestum launum á þennan hátt? Og þar sem nú almúgamennirnir eða þrælarnir, þegar þeir höfðu náð þessum verðlaunum, hefðu fullkomlega verið sneyddir öllum gæðum, sem eigi snertu algerlega yfirmenn þeirra, og öllum tilfinningum og allri þrá, sem yfirmennirnir höfðu eigi hlutdeild í, mundi þá eigi sama djúp hafa verið staðfest milli höfðinga og almúgamanna, yfirboðara og þræla, sem nú er milli karlmanna og kvenna, og mundi nokkur annar en við og við einhverjir spekingar hafa ætlað annað, en að þessi mikli mismunur hlyti að eiga sér stað og væri óhagganlegur samkvæmt mannlegu eðli? Þær íhuganir, sem nú hafa verið gerðar, eru nægar til þess að sýna, að hversu út breidd sem einhver venja er, þá er þó þess vegna engin ástæða til að vera hlynntur fyrirkomulagi, þar sem konunni, hvað mannleg og pólitisk réttindi snertir, er skipað skör lægra en manninum. En eg tek enn dýpra í árinni, eg held því fram, að því fari svo fjarri, að nokkurstaðar sé unnt að ráða það af gangi sögunnar eða af viðleitni mannfélagsins, að þessu fyrirkomulagi sé bót mælandi, að það eru miklar líkur til að það sé ranglátt. Eg held því fram, að sé það leyfilegt að álykta nokkuð um þetta efni samkvæmt bótum þeim, sem nú eru orðnar á ýmsu öðru fyrirkomulagi og allri nýrri tíma viðleitni, þá verður niðurstaðan sú, að þessar leifar frá fyrri tímum séu fullkomlega ósamkvæmar stefnu eptirkomandi tíma og hljóti því að hverfa. Því hvað er það annars, þegar á allt er litið, sem einkennir nýrri tíma? Hvað er það sem einkum greinir fyrirkomulag og líf þessara tíma og almennar hugmyndir þeirra frá fyrirskipunum, lífi og hugmyndum fyrri tíma? Það er það, að staða mannsins í lífinu er eigi komin undir fæðingu hans, að enginn er bundinn við hina upphaflegu stöðu sína í mannfélaginu með óleysanlegu bandi, en að hann á kost á, að nota hæfilegleika sína og sérhvert hentugt tækifæri, sem hann fær, til þess að laga lífskjör sín eptir því, sem honum finnst æskilegast. Í fyrndinni var mannfélagið byggt á allt öðrum grundvallarsetningum. Sérhver var eptir fæðingu sinni ætlaður til vissrar stöðu, og meginhlutinn var bundinn við þessa stöðu og með lögum sneyddur öllu, sem gat hafið hann upp. Á sama hátt og nokkrir voru fæddir svartir, aðrir hvítir, voru nokkrir fæddir sem þrælar, aðrir sem frjálsir menn og borgarar, nokkrir sem höfðingjar, aðrir sem almúgamenn, nokkrir sem aðalsmenn og lénseigendur, aðrir sem ófrjálsir menn. Þræll eða mansmaður gat aldrei losnað úr ánauð, en losnaði fyrst með vilja yfirmanns síns. Í flestum löndum Norðurálfu var það fyrst um lok miðaldanna og sem afleiðing af hinni vaxandi þýðingu konungsvaldsins, að borgarar gátu náð aðalstign. Hjá sjálfum aðlinum var elzti sonurinn samkvæmt frumburðarréttinum hinn eini erfingi að eignum föðursins. Það leið langur tími áður föðurnum væri gefin heimild til að gera hann arflausan. Í iðnaðarmannaflokkum gátu að eins þeir menn, sem voru fæddir meðlimir einhvers félags eða á löglegan hátt teknir í félagið af einhverjum félagsmanni, gegnt iðn sinni innan takmarka þeirra, er félaginu voru sett, og enginn gat yfir höfuð að tala gegnt nokkru starfi, sem talið var þýðingarmikið, á annan hátt en til var tekið í lögunum. Verksmiðjueigendur hafa verið settir í gapastokkinn, ef þeir hafa verið svo djarfir, að nota einhverjar betri aðferðir en áður hafa tíðkast við iðn sína. — Í þeim löndum Norðurálfunnar, sem hafa tekið mestum framförum, ríkja þær skoðanir, sem eru eins gagnstæðar hinum gömlu og verða má. Það er eigi ákveðið með lögum, hver eigi að inna af hendi eitthvert verklegt fyrirtæki og hver ekki megi það, og heldur eigi er það ákveðið, hverjar aðferðir séu einungis leyfilegar. Sérhverjum er leyft að velja eptir eigin vild. Í Englandi eru þau lög afnumin, sem gerðu verkamönnum það að skyldu, að hafa kennslu. Það er föst sannfæring, að í öllum þeim verknaði, sem þörf er á kennslutíma, muni nauðsynin vera nægileg til að gera hann að skyldu. Samkvæmt fyrri skoðuninni mátti einstaklingurinn eigi velja nema sem allra minnst eptir eigin vild, allar gerðir hans áttu að stjórnast sem mest af afburða-kunnáttu. Þá var sú sannfæring ráðandi, að fengi einstaklingurinn að vera sjálfráður, mundi hann villast á veginum. Sannfæring nýrri tíma manna er numin af margra ára reynslu; er hún sú, að þau störf, sem einhver er sérstaklega hneigður fyrir, fari aldrei vel úr hendi, nema hann sé algerlega látinn sjálfráður, og að afskipti yfirvaldanna sé að eins til ills, þegar eigi er undir því komið, að vernda réttindi annars manns. Það hefur liðið langur tími áður en menn komust að þessu; menn hafa eigi komizt að því fyr en það var ljóst, að gagnstæð kenning gerði mesta tjón, hvernig sem henni var beitt; en reglunni er nú fylgt, að minnsta kosti hvað verknað snertir, alstaðar í hinum mestu framfaralöndum og næstum alstaðar meðal þeirra þjóða, er vilja láta telja sig á framfara-rekspöl. Eigi má skilja þetta svo, að allar aðferðir séu jafn— góðar og allir menn jafn— hæfir til alls, en það er ætlun manna nú á tímum, að eina ráðið til þess að koma á fót góðu skipulagi og fela hverjum það starf, sem hann er hæfastur til, sé það, að gefa hverjum einstakling frjálsan kost á að velja það, sem hann vill. Enginn telur nauðsyn bera til þess, að ákveða með lögum, að einungis kraptamenn megi vera járnsmiðir. Frelsið og keppnin í öllum verknaðargreinum er nægilegt til þess að stæla handleggi smiðanna, þar sem allir kraptaminni menn geta haft betur ofan af fyrir sér með því, að gefa sig við þeim störfum, sem þeir eru hæfari til. Samkvæmt þessari kenningu er það nú talin vanbrúkun á valdinu, að fylgja einhverri almennri skoðun svo fast fram, að vissir menn séu úrskurðaðir óhæfir til að leysa viss störf af hendi. Það er fullkomlega viðurkennt nú á tímum, að þó að til séu þannig almennir hleypidómar, þá séu þeir eigi óskeikulir. Jafnvel þótt þessir hleypidómar hefðu í flestum atriðum við rök að styðjast, sem lítil líkindi eru til, mundi þó ávallt verða eptir eigi allfá atriði, þar sem þeim yrði eigi komið að, og þá væri það ranglæti, gegn hverjum einstökum og tjón fyrir mannfélagið, að gera einstökum mönnum erfitt fyrir að neyta krapta sinna þeim og öðrum til gagns. Ef hins vegar hæfilegleika skortir til einhvers starfs, þá mun sá, sem ófær er til starfsins, sjálfkrafa mæta örðugleikum í viðleitni sinni og hætta við tilraunina af sömu ástæðum; sem stjórna athöfnum manna yfir höfuð að tala. — Ef þessi grundvallarregla í almennum, hagfræðislegum vísindum er ekki rétt, ef hver einstakur maður, með því að njóta leiðbeiningar kunningja síns, er eigi færari til að dæma um köllun sína, en lög og stjórn, þá ætti mannkynið þegar að hverfa frá þessari reglu og koma á gömlu reglunni, þar sem nokkrir voru út valdir til einstakra starfa, en aðrir útilokaðir frá þeim. En ef reglan er rétt, þá eigum vér að breyta eins og vér treystum henni og megum eigi telja allan rétt til að ná í vissa stöðu í lífinu kominn undir því, hvort það er piltur eða stúlka, sem fæðist, hvítur maður eða svertingi, maður af borgara ættum eða aðli.— Tilviljunin við fæðinguna má eigi útiloka neinn frá hárri stöðu í mannfélaginu, eða heiðarlegum störfum yfir höfuð að tala. Jafnvel þótt vér tökum allar þær ástæður góðar og gildar, sem færðar eru fyrir því, að menn hafi meiri hæfilegleika til alls þess, sem þeim er heimilað, gætum vér þó borið fyrir oss sömu ástæðu sem bannar lögbundna takmörkun á kjörgengi til þingsins. Það er mikils í misst, ef kjörgengis skilyrðin synja að eins einu sinni á tíu árum einum nýtum manni þingsetu, en ekkert unnið við, að synja þúsund gagnslausum mönnum; því ef að kjósendur eru hneigðir til að velja ónýta menn, mun ávallt verða meira en nóg af þess konar mönnum, sem býður sig fram. Í öllum flóknum og þýðingarmiklum málum, eru þeir menn, sem færir eru um, að leysa verkefni sitt vel af hendi, miklu færri, en þeir ættu að vera, og það þótt eins mikið frelsi sé gefið til að kjósa og unnt er; við sérhverja takmörkun á þessu frelsi missir mannfélagið skilyrði, sem gera því það unnt, að fá nýta menn í þjónustu sína, en nær við takmörkunina engri tryggingu fyrir því, að ónýtir menn komist eigi að.— Útilokun kvenna með lögum er nú á tímum í hinum meiri framfaralöndum að einu einstöku dæmi fráskildu, hið einasta dæmi þess, að lög og fyrirskipanir ákveði þegar við fæðingu einstaklinganna, að þeir aldrei á æfi sinni fái leyfi til að keppa um vissar stöður. Konungstignin er hið einasta afbrigði frá reglunni. Menn eru enn fæddir til konungstignar; enginn getur náð konungsvöldum nema hann sé af ætt stjórnendanna, og af þessari ætt getur enginn orðið konungur nema sá eini, sem erfir völdin eptir fyrirrennara sinn. En að þessu einu fráskildu eiga karlmenn kost á að ná í öll völd og öll hlunnindi mannfélagsins; raunar eru það ýms völd sem eigi er unnt að ná án þess auður sé með, en sérhverjum manni er gefin heimild til að afla sér auðs, og mörgum mönnum af lágum stigum tekst það; reyndar mætir þorrinn örðugleikum, sem eigi er unnt að bugast á, nema því að eins að heppnin sé með; en enginn karlmaður liggur undir lagalegu banni: hvorki lög eða hefð bæta neinum örðugleikum við hina eðlilegu örðugleika. Að eins konungstignin er afbrigði frá reglunni, eins og áður er sagt; en allir finna að þetta afbrigði er óeðlilegt nýrri tíma stefnu, að það kemur í bága við venjur nýrri tíma og grundvallarreglur, og að það eina, sem mælir með því, er hagnaður, sem eigi snertir fyrirkomulagið sjálft; eptir honum verða menn að laga sig, og það þótt ýmsir menn og ýmsar þjóðir telji eigi hagnað þennan jafn— þýðingarmikinn. En þótt vér í þessu einstaka atriði sjáum, að æzta staða í mannfélaginu getur eigi orðið að keppiefni, og að hún af öðrum ástæðum er komin undir fæðingunni, þá halda engu að síður í raun réttri allir frjálsir menn fast við þá grundvallarreglu, sem þeir að ytra áliti breyta út af. Því að það er opinberlega viðurkennt, að í rauninni sé þessi háa staða bundin skilyrðum, sem menn af ásettu ráði láta miða að því, að sá, sem að ytra áliti hefur völdin, fái eigi kost á að beita þeim, en sá sem völdunum beitir, þ. e. æzti ráðgjafinn, getur að eins með keppni náð í stöðu sína, og er öllum borgurum, sem náð hafa fullorðinsaldri, gefinn kostur á að komast í þessa stöðu. Hin lögbundna útilokun kvenna af þeirri ástæðu, að þær eru fæddar kvenmenn, er því samkvæmt þessu hið einasta dæmi af þessari tegund, sem lögin vernda. Hvergi nema í þessu atriði, þar sem um helming mannkynsins er að ræða, eru það fæðingarlögin, sem hamla hverjum einstakling að ná í hin æztu embætti; hér geta engir kappsmunir eða breyting á lífskjörum unnið bug á. Þar sem mönnum er synjað um eitthvað af einhverjum ástæðum í trúarefnum, þá er þeim þó eigi fullkomlega fyrirmunað að geta öðlazt það; sá, sem synjað hefur verið um aðgöngu, getur fengið hana, ef hann breytir trú (annars á þess konar útilokun sér eigi stað lengur að nokkru ráði hvorki á Englandi eða á meginlandi Norðurálfu). Undirgefni konunnar undir manninn er þannig hið eina afbrigði frá öllu fyrirkomulagi í mannfélaginu nú á tímum; hún er hið eina brot á grundvallarreglum þess; þetta eru hinar einu eptirstöðvar gamals hugsunarháttar; hann er alstaðar í öllum atriðum úr gildi genginn, nema í þessu eina, sem mönnum er almennt svo mikið áhugamál. Það er eins og geysi-stórt, tyrkneskt bænahús eða tröllslegt Júpitersmusteri væri byggt á þeim stað, sem St. Pálskirkjan (í Rómaborg) stendur, og þangað kæmi daglega söfnuður, en kristnu kirkjurnar væru að eins opnaðar á hátíðisdögum. Sá, sem alvarlega virðir fyrir sér framfaraviðleitni mannkynsins, hlýtur að hugsa margt, þegar hann sér þessa miklu mótsögn milli einstakrar niðurskipunar og alls annars fyrirkomulags í mannfélaginu, og sér hvað þetta atriði er gagnstætt framfarahreyfingunni, sem nýrri tíma menn geta hrósað sér svo mjög af, því að við hana hafa horfið allar aðrar fyrirskipanir, þar sem jafnréttið náði eigi framgöngu. Við þessa íhugun kemur fram þegar í fyrsta áliti grunur um, að hin misjafna staða karla og kvenna sé ranglát, og þessi grunur er miklu sterkari en líkur þær, sem samkvæmt venju og hefð er hægt að leiða að því, að fyrirkomulagið sé réttlátt, en í öllu falli eru líkur þessar nægilegar til þess, að láta spurningunni ósvarað fyrst um sinn á sama hátt og þá, þegar um þjóðveldi og einveldi er að ræða. — Hið minnsta sem krafizt verður er, að hleypidómar þeir, sem byggjast á hinum ríkjandi skoðunum, séu eigi taldir einhlítir til úrskurðar í málinu, en að leyft sé hins vegar að ræða það, til þess að réttvísi og gagn nái fram að ganga. Úrskurðurinn verður í þessu máli, eins og í öllum öðrum málum, þar sem um eitthvert fyrirkomulag í mannfélaginu er að ræða, að vera kominn undir hagnaði þeim, sem menn eptir skynsamlega rannsókn sjá, að mannkynið getur haft af því, án tillits til hvers einstaks kyns. Og þetta mál verður að íhuga rækilega; það verður að taka málið frá rótum og eigi láta staðar numið við almennar og órökstuddar kröfur. Það verður t. a. m. að fylgja því sem reglu, að reynslan hafi mælt með þessu fyrirkomulagi. Reynslan hefur eigi getað lagt úrskurð sinn á tvenns konar fyrirkomulag, þar sem að eins hefur verið gerð tilraun með annað. Það er sagt, að hugmyndin um jafnrétti karla og kvenna hafi aldrei verið sýnd i verkinu; en þess verður að gæta, að gagnstæð hugmynd hefur eigi við neinn verklegan grundvöll að styðjast, Öll sú bót, sem unnt er að mæla henni í reynslunnar nafni, er, að mannkynið hefur getað lifað með þessu stjórnarlagi og náð eins langt í framförum og auðnu og það hingað til hefur náð. En reynslan kennir oss eigi, að mannkynið hefði eigi hlotið þessa auðnu fyr, að hún hefði eigi verið meiri, ef fyrirkomulagið hefði verið annað. Hins vegar kennir reynslan oss, að við sérhvert fótmál á framfaraleið mannkynsins hefur staða kvenna batnað smátt og smátt, og þetta er svo óyggjandi sannleiki, að sagnaritarar og heimspekingar hafa aðhyllzt þá skoðun, að staða kvenna í mannfélaginu á ýmsum tímum sé hin bezta sönnun og áreiðanlegasti mælikvarði fyrir menningu þjóða og alda. Frá því vér höfum sögur af framförum, sjáum vér ljóslega, að staða kvenna hefur sótt í það horfið, að verða jöfn stöðu karlmanna. Þetta sannar eigi, að fullkominn jöfnuður þurfi að vera, en víst er um það, að talsverðar líkur eru til þess, að svo muni verða með tímanum. — Það er jafn— árangurslaust að segja, að kynin séu samkvæmt eðli sínu ætluð í stöðu þá, sem þau nú eru í, og hvort um sig bezt fallið til að vera í henni. Í nafni heilbrigðrar skynsemi og samkvæmt eiginlegleikum mannlegs anda neita eg því, að nokkur þekki eður geti þekkt eðlisfar beggja kynja meðan þau að eins eru dæmd eptir hlutföllum þeim, er þau lifa í hvort við annað nú á tímum. Ef vér hefðum nokkurn tíma rekizt á mannfélag, þar sem voru menn og engar konur, eða konur og engir menn eða menn og konur, og konurnar hefðu eigi verið undir manninn gefnar, þá væri unnt að vita með nokkurri vissu um mismun þann á getu og siðferðislegum hæfilegleikum karla og kvenna, sem getur verið sprottinn af náttúrufari þeirra. Það, sem nú á tímum er kallað náttúrufar kvenna, er í mesta máta afleiðing af meðferð þeirri, er þær hafa sætt; það er orðið til við þvingun í vissar stefnur og óeðlilega æsingu í aðrar stefnur. Það má hiklaust fullyrða, að hvergi þar sem ófrelsi hefur átt sér stað og hvernig sem það hefur verið lagað, hefur hið upphaflega lunderni þegnanna aflagazt svo gersamlega við hlutfallið milli undirmanna og yfirboðara eins og hér í þessu atriði. Því þó að ýmsir ættstofnar, er hnepptir voru í ánauð, og þjóðflokkar, er unnir voru í hernaði og brotnir á bak aptur, hafi að sumu leyti sætt snarpari kúgun, þá hafa allar framfaratilraunir þeirra þróast eptir öllu eðlilegu lögmáli, svo framarlega sem þeim hefur verið veitt nokkurt frelsi, og tilraunirnar eigi verið kyrktar í fæðingunni. — Hvað konur hins vegar snertir, hefur ávallt verið farið með þær eins og jurtir í jurtahúsi, þegar riðið hefur á að auka og efla einhverja hæfilegleika þeirra, og ávallt hefur verið litið á hagsmuni og ánægju mannanna. Sumir angar af lífsmagni þeirra þjóta fljótt upp og þróast af ylnum og vegna góðrar umönnunar, en aðrir angar af sömu rót gefa ekkert af sér (eða ná engum þroska), en skrælna upp og hverfa, sökum þess að vetrarnæðingurinn hefur leikið um þá og klakinn hefur með vilja verið látinn liggja um þá; mennirnir eru svo hugsunarlausir, að þeir skilja eigi sín eigin verk og ímynda sér, að jurtin vaxi af sjálfu sér á þann hátt, sem hún vex fyrir þeirra tilverknað, og að hún mundi visna, ef öðrum helmingi hennar væri eigi haldið í gufubaði, hinum í snjóbaði. — Það sem nú á tímum hamlar mest framförum hugmyndanna og réttri þekkingu á lífinu og fyrirkomulaginu í mannfélaginu, er hin óumræðilega fávizka og skeytingarleysi meðal manna almennt með tilliti til áhrifa þeirra, er móta lunderni mannsins. Þegar einhver hluti mannkynsins er eða virðist vera svo eða svo gerður, hvernig sem það svo er, ímynda menn sér, að hann eptir náttúrufari sínu sé hneigður til að vera þannig, og það þótt lélegasta þekking á lífskjörum hans sýni ljóslega ástæðurnar til þess, að hann er, eins og vér sjáum að hann er. Af því að írskur leiguliði hefur eigi í langan tíma getað staðið í skilum við húsbónda sinn með afgjaldið af jörð sinni, og rækir því lítt vinnu sína, ráða ýmsir það, að Írar séu latir af náttúru. Af því að stjórnarfyrirkomulaginu í Frakklandi er opt kollvarpað, þegar valdsmenn, sem eiga að halda því uppi, snúa vopnum sínum móti því, eru ýmsir sem ætla, að Frakkar séu ekki skapaðir til að hafa frjálsa stjórn. Af því að Grikkir beittu svikum við Tyrki, en Tyrkir rændu að eins Grikki blygðunarlaust, níða margir það, að Tyrkir séu af náttúrunni drenglyndari en Grikkir. Og af því að konur, eins og menn komast opt að orði, hirða í stjórnarmálum eigi um annað en einstaka menn, ætla menn, að þær hafi af náttúrunni minni áhuga á almenningsheillum en karlmenn. Mannkynssagan, sem nú er skilin miklu betur en fyr á tímum, kennir oss annað. Hún sýnir oss, hve afar-fljótt mannleg náttúra tekur við ytri áhrifum og hversu afar-miklum breytingum þær hliðar af henni geta tekið, sem taldar eru mest samkynja og algildastar, En það gengur eins með mannkyns-sögulestur og með ferðir, menn sjá almennt að eins það, sem þeir þekktu áður, og fáir læra nokkuð að ráði af sögunni, ef þeir hafa eigi áður verið vel undir námið búnir. — Eins og ástand mannkynsins er nú á tímum er eigi unnt að byggja á neinum föstum grundvelli, ef á að svara til hlítar spurningunni um það, hver sé mismunur á náttúrufari karla og kvenna; en af því, sem áður hefur verið sagt, leiðir það, að næstum allir þylja upp órökstuddar lærdómsgreinir í stað þess að kynna sér rækilega hinn þýðingarmesta kafla sálarfræðinnar, sem skýrir áhrif hinna ytri lífskjara á skaplyndi mannsins; Það er hinn eini leiðarvísir í þessu efni. Það er áreiðanlegt, að hversu mikill og hversu afmáanlegur að ytra áliti sem þessi mismunur á upplagi og siðferðislegum hæfilegleikum karla og kvenna ef til vill er, getur það aldrei orðið sannað með gildum rökum, að þessi mismunur eigi rót sína að rekja til náttúrufarsins. Það má eigi telja annan mismun náttúrlegan en þann, sem á engan hátt getur verið kominn fram við ytri áhrif, það er að segja: þær leifar, sem verða eptir, þegar burt eru numin þau einkenni hjá báðum kynjum, sem uppeldi og ytri kjör geta valdið. Vér yrðum að þekkja til hlítar, eptir hverju lögmáli skapferli vort lagast og nærvissri mynd, ef vér ættum að hafa heimild til að fullyrða, að mismunur sé á kynjunum, hvað þá heldur til að segja, hvað það sé í siðferðislegu tilliti, sem greinarmuninn gerir milli kynjanna og að hverju leyti þau séu ólík sem skynsemi gæddar verur. Enn í dag þekkir enginn þetta til hlítar; því að það er naumast nokkurt atriði, sem minna hefur verið rannsakað, þegar litið er á, hve þýðingarmikið það er. Þess vegna hefur enginn heimild til að kveða upp nokkurn úrskurð um þetta mál. Hið eina, sem vér höfum heimild til, er að leiða sennilegar getur að málinu samkvæmt þekkingu vorri á kenningu sálarfræðinnar um það, hvernig ytri áhrif móti lunderni vort. — Jafnvel þótt vér leiðum hjá oss að spyrja um uppruna þessa mismunar og spyrjum að eins, hver mismunurinn sé nú á tímum, þá fer því fjarri, að vér fáum fullnægjandi svör. Læknar og líffærafræðingar hafa að nokkru leyti sannað, að líkamsskapnaðurinn sé ólíkur, og er það þýðingarmikið atriði fyrir sálarfræðinga; en það er vandfenginn læknir, sem líka er líffærafræðingur. Athuganir þeirra um einkenni sálarinnar hjá konum eru eigi meira virði en athuganir margra manna. Kvennþjóðinni einni er kunnugt um þetta efni, en framburður hennar í málinu er ónógur og henni mútað til að tala þvert um huga sinn, og meðan þessu er þannig varið, er eigi unnt að fá áreiðanlega vissu um þetta atriði. Það er eigi örðugt að læra að þekkja heimska konu; heimskan er hér um bil alstaðar hin sama. Það er hægt að ráða tilfinningar og hugmyndir heimskrar konu af tilfinningum þeim og hugmyndum, er ríkja meðal þess fólks, er hún lifir með. Þannig er eigi þeim mönnum varið, þar sem hugsanir og tilfinningar eiga rót sína að rekja til náttúrufars þeirra og upplags. Það má hér og hvar hitta menn, sem þekkja nokkurnveginn lunderni þeirra kvenna, sem eru í ætt við þá, en lunderni annara kvenna þekkja þeir eigi. Eg tala eigi um hæfilegleika þeirra; þá þekkir enginn, ekki einu sinni þær sjálfar, af því mestur hluti þeirra hefur aldrei neytt þeirra. Eg tala að eins um hugsanir þeirra og tilfinningar nú á tímum. Margir menn ætla, að þeir þekki konur til hlítar af því, að þeir hafi lifað í ástabralli við ýmsar, ef til vill við margar. Séu þessir menn aðgætnir og hafi þeir eigi að eins lært að þekkja vissa tölu af kvenfólki, heldur kynnt sér skaplyndi þeirra, þá má vera, að þeir hafi fengið nokkra þekkingu um einstakar hliðar af náttúrufari þeirra, og er það eflaust mjög þýðingarmikið. En fáir menn eru að jafnaði fáfróðari um allt annað hjá konum en þessir menn af því að þær halda því fyrir fæstum jafn-leyndu. Hentugasta tækifærið fyrir menn almennt til þess að kynna sér skaplyndi kvenna, er tækifærið til þess að þekkja eiginkonu sína; örðugleikarnir eru fæstir og dæmi má finna, þar sem fullkomið samræmi er í tilfinningum hjónanna. Eg hygg í rauninni, að öll sú þekking í þessu efni, sem hefur nokkra þýðingu, komi frá hjónabandinu. En meiri hluti manna hefur ekki kost á, að þekkja fleiri en eina konu á þennan hátt; þess vegna er líka hægt með hlægilegri nákvæmni að gizka á um lunderni kvenna, ef menn þekkja skoðanir eiginmanna þeirra um konur almennt. Til þess, að af þessu eina atriði sé unnt að ráða nokkuð, útheimtist, að konan sé makleg þess, að menn læri að þekkja hana, og að maðurinn sé eigi að eins góður dómari, heldur að tilfinningar hans samræmi svo vel við tilfinningar konunnar og lundarfar hans standi í svo mikilli samhljóðan við sál hennar, að hann geti nákvæmlega lesið inn í hugskot hennar, og hafi alls eigi neitt það í dagfari sínu, að konan blygðist sín fyrir, að opna honum innstu fylgsni tilfinninga sinna. Ekkert er ef til vill fágætara en slík tilviljun. Tilfinningar og skoðanir hjóna geta opt fallið saman, þegar um dagleg málefni er að ræða, og þó getur hvoru um sig verið jafn-ókunnugt um allt innra líf hins eins og þau væru eigi meir en kunnug. Jafnvel þegar svo ber undir, að þau bera sanna ást hvort til annars, þá er valdið á aðra hlið og undirgefnin á hina hliðina því til fyrirstöðu, að þau geti verið fullkomlega einlæg hvort öðru. Það má vel vel vera, að það sé eigi ásetningur konunnar, að leyna nokkru, en það er margt, sem hún eigi gerir uppskátt. Milli foreldra og barna kemur hið sama í ljós. Þrátt fyrir það, þótt faðir og sonur unni hvor öðrum mjög, þá vill það þráfallt til, eins og allir vita, að faðirinn þekkir eigi, meira að segja, hefur eigi skímu um sumar hliðar af lunderni sonar síns, sem stallbræður hans og jafnaldrar þekkja nákvæmlega. Sannleikurinn er sá, að þegar menn komast í stöðu, þar sem öðrum er boðið að sýna þeim virðingu, þá er þetta fyrirkomulag sízt lagað til þess að undirmenn sýni yfirmönnum fullkomna einlægni og djörfung. Undirmennirnir óttast fyrir, að þeir rýrni í áliti hjá yfirmönnum sínum eða fari á mis við hollustu þeirra manna, sem þeir virða, og þessi ótti er svo mikill, að jafnvel drenglyndustu mönnum verður það fyrir, án þess þeir viti af, að sýna hið bezta í lunderni sínu eða að minnsta kosti það, sem yfirmönnum þeirra líkar bezt. Það má fullyrða, að tveir menn þekkja naumast nokkurn tíma hvor annan til hlítar, nema þannig standi á, að þeir eigi að eins sýni hvor öðrum einlægni, heldur séu jafningjar. — Á þetta þá eigi í fyllsta mæli heima, þar sem annar málspartur lýtur eigi einungis valdi hins, heldur hefur konunni ávallt verið kennt, að það sé skylda hennar að gera allt sitt til, að manni hennar vegni sem bezt, og hún megi aldrei láta hann sjá eða skilja nokkuð annað en það, sem honum gezt að. Allir þessir annmarkar hamla því, að maðurinn geti þekkt til hlítar hina einu konu, sem honum gefst kostur á að læra að þekkja. Vér megum enn fremur gæta að því, að þótt vér þekkjum eina konu er það ekki sjálfsagt, að vér þekkjum aðrar konur; og þótt vér gætum kynnt oss lunderni margra kvenna í vissri stöðu og í vissu landi, mundum vér samt eigi þekkja konur í annari stöðu og öðru landi; og þó vér næðum þessu skilyrði, mundum vér að eins þekkja konur frá einu tímabili sögunnar. Þegar vér íhugum þetta, höfum vér fulla heimild til að halda því fram, að þekking manna á konum, eins og þær hafa verið og eru nú, án tillits til þess, hvað þær gætu verið orðnar, hlýtur að vera hörmulega ófullkomin og ónóg, og vér höfum enn fremur heimild til að fullyrða, að menn muni eigi afla sér betri þekkingar um þetta mál, meðan konurnar sjálfar geta eigi sagt oss allt, sem þær þurfa að kenna oss. — Sá tími er eigi kominn og kemur seint. Það er öldungis nýtt, að gáfuðum konum sé gefið opinbert leyfi til þess að snúa sér að alþýðu í ritum sínum. Fáar konur áræða enn að segja nokkuð, sem þeim mönnum mislíkar, er þær eiga að þakka góðan árangur ritsmíðis tilrauna sinna. Gætum að, hvernig almenningur hefur brugðizt við, ef komið hafa fram óvanalegar skoðanir eða tilfinningar, sem eptir almennings hyggju hafa verið allt of ofsalegar, og það þótt karlmenn hafi átt hlut í máli. Gætum að, hver viðtaka þeim er veitt enn í dag, þá munum vér fá skímu um örðugleika þá, sem mæta konum, þar sem þeim hefur verið innrætt sú skoðun frá bernsku, að tízkan og almenningsálitið eigi að vera hið æzta lögmál þeirra, vilji þær sýna eitthvað það í ritum, sem liggur í innstu fylgsnum náttúru þeirra. Af konum er frú Staël fremst hvað ritsmíðar snertir; hún hefur látið eptir sig svo frábær verk, að hún á skilið einhvern hinn æzta sess í bókmenntum lands síns; henni hefur þótt nauðsyn bera til að setja þessi einkunnarorð framan á hið berorðasta rit sitt: „Karlmaðurinn getur boðið almenningsálitinu byrginn, konan verður að laga sig eptir því“. Meiri hlutinn af því, sem konur rita um konur, er að eins smjaður fyrir mönnunum. Ef það er ógipt kona, sem ritar, lítur út eins og hún geri það til þess að eiga hægra með að fá mann. Margar giptar og ógiptar konur láta, meira að segja, eigi hér við lenda; þær breiða út skoðanir, sem eru brennimerktar með miklu meiri undirgefni og auðmýkt en nokkrum þeim mönnum þykir æskilegt eða tilhlýðilegt, sem eigi hafa því hverndagslegri hugsunarhátt. Nú á tímum ber þetta eigi eins opt við og fyrir eigi all-löngum tíma síðan. Konur rita með meiri einurð, og eru fúsari á að gefa hinar sönnu tilfinningar sínar til kynna. Til allrar ógæfu eru konur, einkum á Englandi, orðnar þannig fyrir vana, að skoðanir þeirra eru sambland af fáeinum persónulegum athugunum og hugsunum sameinuðum við fjölda marga algenga hleypidóma. Þessu ástandi fer hnignandi dag frá degi, en það mun víða haldast við, meðan því er þannig varið, að lagafyrirskipanirnar í mannfélaginu leyfa eigi konum að neyta sinna upphaflegu hæfilegleika og efla þá á sama hátt og manninum er leyft það. Þegar sá tími kemur, og eigi fyr, mun oss gefast kostur á að sjá, og eigi að eins heyra allt, sem vér þurfum nauðsynlega að læra til þess að þekkja náttúrufar kvenna, og vita hvernig lífshlutföllin eiga við það. — Þar sem eg hef svo lengi dvalið við örðugleika þá, er hamla mönnum frá að ná þekkingu á náttúrufari kvenna, þá er sú ástæða til þess, að í þessu atriði, eins og víða annarstaðar, ríkir sú ætlun hjá mönnum, að þeir eigi einhvern hlut, sem þeir eiga ekki, og setja sig því úr færi um að verða hans aðnjótandi; í þessu atriði hrósa menn sér af því, að þeir skilji fullkomlega mál, sem fæstir vita nokkuð um, sökum þess að nú á tímum er það óhugsandi, að nokkur einstakur maður eða menn í heild sinni geti haft nokkra þá þekkingu á málinu, að þeir hafi heimild til að gefa konum reglur fyrir, hvað sé köllun þeirra og hvað eigi, en meðan þessu er þannig varið, eru litlar líkur til, að unnt sé að breiða út skynsamlegar skoðanir um málið. Til allar hamingju útheimtist eigi svo rækileg þekking til þess að geta skipað fyrir um verkahring kvenna í mannfélaginu, því að samkvæmt öllum grundvallarreglum í stjórnarfyrirkomulagi mannfélagsins, ber konum eingöngu að skipa fyrir um slíkt og skera úr því samkvæmt eigin reynslu og eptir eigin mætti. Með engu öðru móti er unnt, að vita, hverju einn eða fleiri menn geta afrekað, en að láta þá reyna sjálfa, og enginn annar vegur er til þess að láta aðra koma í þeirra stað og komast að því, hvað hentugast sé fyrir þá að gera eða láta ógert. — Eitt er það, sem vér þurfum eigi að bera neina áhyggju fyrir. Þau verk, sem eru gagnstæð náttúrufari kvenna, munu þær aldrei fást til að vinna, þótt þeim sé gefinn laus taumurinn. Þar sem mannkynið er gjarnt á að veita náttúrunni hjálp sína, af því að það óttast, að það muni eigi geta náð takmarki sínu ella, þá er slíkur ótti öldungis ónauðsynlegur. Það er öldungis óþarft, að banna konum það, sem náttúrufar þeirra leyfir þeim eigi að gera. Keppnin er einhlít til þess að banna þeim allt, sem þær eru eigi færar um að vinna eins vel og þeir menn, sem keppa við þær, með því að enginn heimtar nein forréttindi eða verndunarlög fyrir þær. Allt það, sem heimtað er, er það, að þau forréttindi og verndunarlög, sem karlmenn njóta góðs af, verði af numin. Ef konur hafa af náttúrunni meiri hvöt til að vinna eitt fremur en annað, þá er eigi þörf á lögum eða neinum öðrum böndum til þess að neyða þorrann til að vinna það, sem þær eru gefnastar fyrir. Konur munu mest sækjast eptir þeirri vinnu, sem þær samkvæmt frjálsri keppni finna hvöt til þess að takast á hendur, og, eins og sjálfsagt er, munu þær sækjast mest eptir því, sem þær eru færastar til; ef því hindrunum þeim verður rýmt burt, sem nú standa mannkyninu fyrir þrifum, mun þannig fást trygging fyrir, að hæfilegleikar karla og kvenna í sameiningu verði neytt sem haganlegast. Það er talið sem hjónabandið og móðurstaðan sé, eptir almennri hyggju karlmanna, hin eiginlega, eðlilega köllun kvenna. Eg segi, að það sé talið svo, því að ætla mætti, að almenn skoðun væri gagnstæð þessu, ef dæma ætti eptir því, sem nú á sér stað, eptir öllu skipulagi í mannfélaginu. Því ef litið er á ástandið eins og það er, þá lítur svo út sem karlmenn haldi, að það, sem í orði kveðnu er talin köllun kvenna, komi mest í bága við náttúrufar þeirra. Það lítur að minnsta kosti þannig út, eins og þeir héldu, að væri konum veitt heimild til þess að taka sér nokkuð annað fyrir hendur, væri þeim leyft, að nota tíma sinn og hæfilegleika á nokkurnveginn viðunanlegan hátt, mundu þær eigi verða nægilega margar, sem af eigin vild gegndu þeirri stöðu, sem sagt er að þær séu lagaðastar fyrir samkvæmt náttúrufari sínu. Ef þetta er ætlun flestra manna, væri það vel til fallið, að hún væri látin í ljósi. Það er engum vafa bundið að þessi hugsun liggur til grundvallar fyrir miklu af því, sem ritað hefur verið um þetta mál, en mér þætti gaman að heyra einhvern gangast við henni og segja sem svo: „Það er nauðsynlegt að konur giptist og eigi börn. Þær munu eigi gera það, séu þær eigi neyddar til þess. Þess vegna er nauðsynlegt að beita þvingun við þær“. Þá mundi brátt koma í ljós, hver er mergurinn málsins. Þeir, sem þetta segðu, mundu komast harla líkt að orði og þrælaeigendurnir í Suður-Karólínu og Louisiönu. Þeir sögðu: „Það er nauðsynlegt, að rækta sykur og baðmull. Hvítir menn geta það eigi, svertingjarnir vilja það eigi fyrir það kaup, er vér viljum gjalda þeim. Þess vegna verður að neyða þá með valdi“. Annað miklu skýrara dæmi er kúgunin við sjómenn: „Vér hljótum að hafa sjómenn til þess að verja landið. Það ber opt við, að þeir ganga eigi í hermannatölu með frjálsum vilja. Þar af leiðir, að vér verðum að neyða þá til þess með valdi“. Hversu opt hefur eigi þessi hugsunarháttur verið notaður! Hefði honum eigi verið ábótavant í einhverju, mundi hann hafa ríkt fram á vora daga. En svarið liggur nærri: „Gjaldið þér fyrst sjómönnum yðar sæmilegt kaup fyrir vinnu þeirra. Þegar þér hafið gert þannig við þá, að þeim sé jafn-arðsamt að vinna hjá yður eins og hjá öðrum skipaútgerðarmönnum, munu þeir eigi verða ófúsari að ráða sig á skip hjá yður en öðrum. - Þessu er eigi svarað með gildari rökum en svo: „Vér viljum ekki“. Nú á tímum fyrirverða menn sig fyrir að stela launum af verkamönnum sínum, og vilja meira að segja eigi gera slíkt; þess vegna ver enginn framar þessa þvingun. Þeir eiga skilið að fá slíkt svar, sem vilja þvinga konur í hjónaband með því að láta þeim varnað alls annars. Ef þeir ætla það, sem þeir segja, þá er ætlun þeirra auðsjáanlega sú, að mennirnir geri eigi hjónabandið nógu glæsilegt fyrir kvenfólkið; hlunnindi þau, sem hjónabandinu eru samfara, freisti þeirra eigi. Það lítur eigi út sem mönnum þyki mikið varið í það, sem þeir bjóða öðrum, þegar þeir segja um leið og þeir rétta þeim það: „Annað hvort þetta eða ekkert“. Hér er eptir minni hyggju lykillinn að tilfinningum þeirra manna, sem er það alvarlega móti skapi, að konunni sé gefið jafn-mikið frelsi og manninum. Þeir bera eigi kvíðboga fyrir því, að konur vilji eigi giptast framar — það held eg eigi að nokkur sé hræddur um — en þeir óttast, að þær krefjist jafnaðar í hjónabandinu; þeir óttast, að allar þrekmiklar og ötular konur kjósi heldur að taka sér fyrir hendur eitthvað annað, sem þeim sjálfum þykir eigi minnkun að, en að gipta sig, ef þær hreppa eigi annað við giptinguna en að gefa sig í hendur yfirmanni, sem ræður þar að auki yfir öllu, sem þær eiga. Ef það, sem eg gat um áður er í raun og veru afleiðing af hjónabandinu, þá virðist mér óttinn eigi ástæðulaus. Eg óttast þetta líka, mér er nær að halda, að fáar konur, séu þær færar um að gera eitthvað annað, og láti þær eigi leiðast og blindast af óviðráðanlegum og áköfum tilfinningum, kjósi heldur að búa við slíkt, en að ná einhverri sómasamlegri stöðu í mannfélaginu, ef þær eiga kost á. Ef karlmennirnir eru einráðir í að halda því stöðugt fram, að lögmál hjónabandsins eigi að vera harðstjórn, þá breyta þeir rétt, þegar að eins er litið pólitiskt á málið, ef þeir gera konum einungis þá tvo kosti, er vér drápum á. En þá hafa líka allar tilraunir nútímamanna til þess að leysa hina andlegu fjötra kvenfólksins verið yfirsjón. Það hefði aldrei átt að láta þær læra að þekkja bókmenntir. Konur sem lesa, hvað þá heldur konur, sem rita, eru mótsögn og gera glundroða í mannfélaginu, eins og því er nú háttað, Þá hefur það verið rangt, að kenna konum annað en það, sem hjákonur Tyrkjasoldáns eða vinnukonur almennt þurfa að vita og kunna. — II. Kafli. VÉR erum komnir svo langt, að vér getum tekið fyrir hin einstöku atriði málsins og byggt á því, er vér hættum við, þ. e. stöðu þeirri, er lög á Englandi og í öllum öðrum löndum ákveða sem afleiðingu af hjónabandinu. Hjónabandið er sú ákvörðun, sem mannfélagið setur konunum, sú framtíð, sem uppeldið á að gera þær hæfar fyrir, það mál, sem allir eru ásáttir um, að þær eigi að keppa að, að þeim fráskildum, sem eigi eru nægum kostum búnar til þess að nokkur vilji velja þær fyrir konur, af þessum ástæðum mætti ætla, að mannfélagið hefði gert allt sitt til þess að gera stöðu þessa sem glæsilegasta, til þess að konurnar skyldu eigi hafa neina ástæðu til að kvarta yfir því, að þær hafi eigi getað valið sér aðra stöðu. Þannig er því eigi varið. Mannfélagið hefur í þessu atriði, eins og í fleirum, heldur kosið að ná takmarki sínu með ljótum meðulum en heiðarlegum. En þetta er hið einasta atriði, þar sem það hefur haldið þessum meðulum til streitu. Upphaflega tók maðurinn konuna með valdi, eða faðirinn seldi honum hana. Það er eigi langur tími síðan að feður í Norðálfu höfðu allt vald yfir dætrum sínum, svo að þeir gátu gipt þær burt eptir því, sem þeim líkaði bezt, án tillits til tilfinninga dætranna. Kirkjan lét sér reyndar ávallt annt um betri siðu að því leyti, að hún heimtaði að konan gæfi jákvæði sitt við vígsluna; þetta jákvæði var gefið fyrir siðasakir og varð því engan vegin sannað af því, að samþykkið væri gefið af frjálsum vilja. Ungri stúlku var eigi unnt að neita hlýðni í verkinu. ef faðirinn gekk ríkt eptir henni, nema ef vera skyldi þegar svo bar við, að hún naut verndar hjá kirkjunni og kvaðst einráðin í því að ganga í klaustur. Væri maðurinn einu sinni kvongaður hafði hann áður kristni var inn leidd, vald yfir lífi og dauða móts við eiginkonu sína. Hún gat eigi borið fyrir sig lög móti honum, hann eingöngu var dómari hennar og lög. Um langan tíma gat hann rekið hana frá sér, en hún hafði eigi sama rétt gagnvart honum. Í gömlum Englands-lögum er maðurinn kallaður höfðingi eiginkonu sinnar, hann var bókstaflega skoðaður sem einvaldshöfðingi yfir henni þannig, að ef kona óg mann sinn, þá var slíkt kallað svik (samt eigi fullkomlega drottinssvik) og þess var hefnt grimmilegar en drottinssvika; hegningin var að verða brenndur lifandi. Þetta guðlausa ranglæti gengst eigi við framar — fáar af þessum rangsleitnu venjum hafa nokkurn tíma verið af numdar formlega, að minnsta kosti eigi fyr en löngu eptir, að hætt var að beita þeim; þess vegna ætla menn, að allt leiki í lyndi hvað hjónabandið snertir nú á tímum, og stagast á því, að menntun og kristni hafi veitt konum aptur hin náttúrlegu réttindi þeirra. Það er allt um það engu minni sannleiki, að konan er í rauninni ambátt mannsins í eins fullum mæli og hinir reglulegu svo nefndu þrælar, og það innan takmarka lagalegrar skyldu. Hún heitir manni sínum æfilangri hlýðni við altarið, og hún er með lögum skylduð til þess að auðsýna honum þessa hlýðni alla æfi. Það mætti með hártogunum gera þá athugasemd, að þessi skylda sé takmörkuð, þar sem hún nær eigi svo langt, að hún geti neytt konuna til með hlýðni sinni að gera sig meðseka í glæp; en hún nær til alls annars. Konan getur ekkert gert, nema maðurinn leyfi henni það, að minnsta kosti með þögninni. Hún getur eigi aflað sér fjár nema það sé handa honum; undir eins og einhver munur er orðinn á hennar eign, þótt það sé að arfi, þá er hann við hjónabandið orðinn eign mannsins. Í þessu atriði er staða sú, sem konan hefur eptir enskum lögum verri en staða þræla eptir því sem lög eru til í ýmsum löndum. Eptir rómverskum lögum gat þrællinn t. a. m. eignast nokkurt fé, sem hann gat varið eingöngu í sínar þarfir, og tryggðu lögin honum fé þetta. Í æðri stéttunum á Englandi eru konum veitt lík hlunnindi með sérstökum samningum, er sveigja lögin, þar sem konum er leyft að ráða sjálfar yfir vissri fjárupphæð, er kallast „nálapeningar“. Þar sem föðurtilfinningarnar hjá karlmönnum eru almennt máttugri en tilfinningin fyrir sínu eigin kyni, þá tekur faðirinn almennt dótturina fram yfir tengdason sinn, sem hann þekkir heldur eigi. Auðmenn reyna þá með ýmsum haganlegum ákvörðunum að slá varnagla við því, að maðurinn verði einráður yfir öllum föðurarfi dótturinnar eða að minnsta kosti yfir nokkru af honum, en þeim tekst eigi að koma málinu í það horf, að dóttirin hafi ein yfir auðnum að ráða. Hið eina, sem þeir geta gert, er að sporna við því, að maðurinn sói honum burt, en um leið svipta þeir hinn rétta eiganda frjálsri notkun á eign sinni. Auðurinn gengur úr greipum beggja hjónanna, og hvað tekjurnar af auðnum snertir er manninum bannað að taka við þeim einum samkvæmt fyrirskipun þeirri, er konunni er mest í vil; tekjurnar ganga í gegnum hendur konunnar, en ef maðurinn rænir hana peningum með valdi, þá liggur engin hegning við slíku, og eigi verður hægt að neyða hann til að skila þeim aptur. Þetta er vernd sú, sem hinn voldugasti aðalsmaður samkvæmt enskum lögum getur veitt dóttur sinni gagnvart manni hennar. Við fjölda mörg slík tækifæri er engin sérstök fyrirskipun gerð; maðurinn gín yfir öllu, yfir réttindum konu sinnar, eigum hennar og frelsi. Í lagalegum skilningi er maður og kona eitt, þ. e. allt, sem er hennar eign, það á hann líka, en af þessu er eigi hægt að ráða hið gagnstæða, að allt, sem hann á, er líka hennar eign; grundvallarreglunni er eigi beitt við manninn nema þegar svo ber undir, að hann gagnvart öðrum verður að bera ábyrgðina fyrir gerðir konu sinnar á sama hátt og höfðingjar báru ábyrgðina fyrir það, sem þrælar þeirra eða peningur hafði gert. Það er fjarri mér að fullyrða, að konur almennt mæti eigi betri meðferð en þrælar, en enginn þræll er eins ánauðugur og konan. Það er fágætt, að þrællinn sé þræll hverja klukkustund og hverja mínútu á dægrinu, nema því að eins að hann fylgi yfirmanni sínum stöðugt; venju lega á hann að leysa af hendi ákveðin störf eins og t. a. m. hermenn; þegar hann hefur unnið þau verk og hann hefur eigi meira að gera af skyldustörfum sínum, er hann að nokkru leyti sjálfs sín ráðandi, yfirmaðurinn skiptir sér sjaldan nokkuð um heimilislíf hans. Sumir hafa heimili fyrir sig í kofa sínum næstum á sama hátt og verkamenn, sem vinna utan heimilis allan daginn hafa heimili hjá fjölskyldu sinni. Þannig er því eigi varið með konuna. Einkum og sér í lagi hafa ánauðugar konur í kristnum löndum gilda heimild, meira að segja siðferðislega skyldu til að neita yfirmanni sínum um blíðu sína. Öðru máli er að gegna um konuna; hversu grimmur harðstjóri sem maður hennar er, og hversu ógæfusöm sem hún er, jafnvel þótt hún viti, að hann hati sig, þótt hann hafi daglega ánægju af að særa hana og kvelja, jafnvel þótt henni sé ómögulegt annað en að hafa andstyggð á honum, þá getur hann heimtað af henni og þvingað hana til, að gera sér sjálfri hina mestu vanvirðu, sem nokkurri mannlegri veru er unnt að gera sér, nefnilega að inna af hendi dýrslegt ætlunarverk móti vilja sínum. Konan er þannig, hvað hana sjálfa snertir, undirorpin hinni verstu ánauð, en hver er þá staða hennar með tilliti til barnanna, sem bæði henni og manni hennar er sameiginlega annt um? Samkvæmt lögunum eru þau börn mannsins. Hann eingöngu hefur lögmætan rétt yfir þeim. Hún getur ekkert gert fyrir þau eða með tilliti til þeirra, nema þvi að eins að hún fái umborð til þess frá manni sínum. Hún hefur meira að segja eigi löglega gæzlu yfir börnum sínum eptir dauða mannsins, nema því að eins að hann hafi gert sérstaka ákvörðun um það. Til skamms tíma gat hann gert hana viðskila við þau og svipt hana tækifæri til að sjá þau og skrifast á við þau; en nú er þetta vald takmarkað með lögum. Þetta er hin löglega staða konunnar, og hún á engan kost á, að hliðra sér hjá þessu. Ef hún skilur við mann sinn, getur hún eigi haft neitt með sér, hvorki börn sín né neitt af því, sem er hennar lögleg eign. Ef hann vill, getur hann í nafni laganna neytt hana til að koma aptur; hann getur neytt ytra valds eða látið sér nægja að taka allt undir sig, sem hún getur aflað sér og allt, sem ættingjar hennar gefa henni. Að eins með dómsatkvæði fær hún heimild til að lifa út af fyrir sig, losast við að komast aptur undir gæzlu hins reiða fangavarðar síns og fær að nota nokkuð af því, sem hún aflar sér, í eigin þarfir, en þarf eigi að óttast, að maður, sem hún hefur ef til vill eigi séð í tuttugu ár, brjótist inn til hennar einhvern góðan veðurdag og ræni burtu frá henni öllu, sem hún á. Til skamms tíma gerðu dómstólarnir eigi þessa birtingu við hjónaskilnað, nema hún hefði svo mikinn kostnað í för með sér, að ókljúfandi var fyrir aðra en þá, sem voru af háum stigum. Enn í dag er hjónaskilnaður að eins leyfður, ef konan strýkur eða sætir hraparlega illri meðferð, og samt er stöðugt kvartað yfir því, að hjón eigi allt of hægt með að fá skilnaðinn. En ef hlutskipti konunnar í lífinu er eingöngu það, að verða bæði andlega og líkamlega ambátt harðstjóra, ef allt er komið undir því fyrir hana, að hún verði svo heppin, að finna mann, sem gerir hana að dalætisgoði sínu í stað þess að gera hana að ánauðugri konu, þá versnar þó vissulega þetta hlutskipti hennar mikið við það, að henni er eigi leyft optar en einu sinni að freista gæfu sinnar. Þar sem allt í lífinu er komið undir því fyrir hana, að fá góðan yfirmann, ætti það að vera eðlileg afleiðing af þessu, að hún fengi heimild til að skipta um hvað eptir annað, þangað til hún loks fengi hann. Eg segi eigi, að hún eigi að hafa þessi einkaréttindi, það er allt annað mál. Það er eigi tilgangur minn, að fara að tala um hjónaskilnað, þar sem konan fengi leyfi til að gipta sig aptur, Eg læt mér nægja að segja sem svo, að fyrir þá, sem eiga eigi val á öðru hlutskipti en ánauð, er að eins vegur og hann enda ónógur til þess að gera stöðu sína þolanlegri, og er hann sá, að fá sjálfir heimild til þess að velja eptir eigin vild, fyrir hvern þeir vilja þræla. Synjunin á þessu frelsi gerir stöðu konunnar engu betri en stöðu þrælsins, og það þar sem ánauðin var mest; því að það hafa verið gefin út lög, sem gáfu þrælnum löglega heimild til þess að krefjast þess, að yfirmaður sinn seldi sig burt, ef hann var mjög illa leikinn. Í Englandi gildir einu hve opt konunni er þjakað, hún getur eigi losnað við kvalara sinn, nema því að eins að hjónabands-afbrot bætist við. — Eg vil eigi fara með ýkjur, og eg þarf þess heldur eigi. Eg hef lýst stöðu þeirri, er konan hefur samkvæmt lögum, ekki meðferð þeirri, er hún sætir í raun og veru. Lög í flestum löndum eru miklu verri en menn þeir, sem beita þeim, og mörg af lögum þessum halda að eins lagagildi sínu sökum þess, að þeim er sjaldan eða aldrei beitt. Ef hjónabandslífið væri eins og ætla mætti samkvæmt lögunum að það væri, þá væri mannfélagið jarðneskt helvíti. Því fer betur, að tilfinningar og hagnaður margra manna býður þeim að bæla niður hvatir þær og tilhneigingar, sem leiða til harðstjórnar, að minnsta kosti optast að draga úr þeim, og af öllum þessum tilfinningum er band það, sem tengir saman mann og konu, hið öflugasta, og má ekkert við það jafnast; því fer svo fjarri að ást föðursins til barnanna veiki þetta band, að hún hjálpar til þess að treysta það. En af því að þessu er þannig varið, af því að menn almennt láta eigi konurnar þola alla þá eymd, er þeir gætu látið þær þola, ef þeir neyttu hins fullkomna harðstjórnarvalds síns yfir þeim, þá ímynda þeir sér, sem halda vörn uppi fyrir hjónabandinu í þeirri mynd sem það nú er, að allt þetta ranglæti sé afplánað, og að umkvartanir þær, sem eru gerðar um það, séu eigi annað en sakargipt fyrir eitthvert böl, sem hljóti ávallt að vera samfara miklum ávinning. En þótt þessu eða öðru harðstjórnarvaldi sé eigi ætíð fylgt strangt fram í verkinu, og þótt þessi vægðarsemi komi eigi í bága við fulla löglega notkun valdsins, þá fer því fjarri, að slíkt mæli harðstjórninni bót, heldur sýnir það krapt mannlegrar náttúru til þess að veita mótspyrnu hinum svívirðilegustu fyrirskipunum og ber vott um, hversu lífseigt sáðkornið til hins góða er, engu síður en sáðkornið til hins illa, og hversu það útbreiðist og frjófgast í lunderni mannsins. Eigi er unnt að mæla þeirri harðstjórn í heimilislífinu nokkra bót, sem eigi getur samrýmzt við ofríkisvald í stjórnarmálum. Það eru eigi allir ótakmarkaðir konungar, sem sitja við gluggann sinn og hafa skemmtun af að sjá, hve hörmulega þrælar þeirra bera sig meðan þeir eru píndir, þeir ræna þá heldur eigi einu spjörunum, sem þeir eiga, svo að þeir deyi úr kulda á alfaraveginum. Einvaldsdæmi Loðvíks 16. var eigi líkt grimmdarvaldi Filipps fríða, Nadir Shah eða Caligulu, en það var nógu illt til þess að réttlæta frakknesku stjórnarbyltinguna og til að mæla afsökun hryðjuverkum hennar. Það gagnar eigi neitt að klifa á ást kvenna til manna sinna; það mætti eins bera fyrir sig þess konar dæmi úr þrælalífinu. Í Grikklandi og Rómaborg var það eigi fágætt, að þrælar létu pína sig til dauða heldur en að bregðast yfirmönnum sínum. Meðan stóð á útlegðardómunum eptir rómversku innanríkis-styrjaldirnar, sýndu konur og þrælar, eins og kunnugt er, tryggð og hugprýði, en synirnir gerðust títt uppljóstursmenn. Og þó vitum vér hvílíkri grimmd Rómverjar beittu opt og tíðum við þræla sína. En í rauninni þróast þessar tilfinningar hvergi eins aðdáanlega og þar, sem fyrirkomulagið er hryllilegast. Það er einn þáttur af lífsins glensi, að hinar öflugustu þakklætis- og hollustu tilfinningar, sem finnast í mannlegri náttúru, þroskast hjá oss gagnvart þeim, sem hafa vald til þess að spilla allri tilveru vorri, en eru svo vorkunnlátir, að neyta eigi þessa valds. Það mundi vera grimmd, að rannsaka hve ummálsrík þessi tilfinning er hjá flestum mönnum, og hve þýðingarmikil hún er fyrir guðhræðslu þeirra. Vér sjáum daglega, hversu rík þakklátssemi við guð kviknar í hjörtum manna, þegar þeir sjá einhvern meðbræðra sinna hafa farið á mis við eins mikla miskunn guðs eins og þeir hafa sjálfir orðið fyrir. Þegar vér eigum að mæla einhverju harðstjórnar-fyrirkomulagi bót, hvort sem það er þrælahald, einvaldsdæmi í stjórnarmálum eða einvaldsráð hjá höfðingja fjölskyldunnar, þá er ávallt krafizt, að vér sníðum dóm vorn eptir beztu dæmunum. Þá er lýst fyrir oss, hversu ástúðlega völdunum er beitt annars vegar og hversu ástúðlega þeim er hlýtt hins vegar, þar sem valdsmaðurinn af viti sínu skipar öllu niður svo þegnum hans sé fyrir beztu, og nýtur ánægju þeirra og blessunar fyrir. Þetta mundi allt eiga vel við, ef vér fullyrtum það, að engir góðir menn væru til. Hver efast um það, að þar sem góður maður hefur ótakmörkuð yfirráð, þar geti blómgast mikil manngæzka, mikil hamingja og mikil hollusta? En þegar rita skal lög og gera fyrirskipanir, skal ávallt hafa vonda menn fyrir augum. Hjónabandið er eigi stofnað fyrir fáeina útvalda. Það er eigi heimtað, að nokkur maður skuli sanna það með vitnum fyrir brúðkaupið, að hann geti neytt hina ótakmörkuðu yfirráða á þann hátt, að honum verði treyst. Þau hollustu- og skyldubönd, sem tengja saman mann og konu hans og börn, eru mjög sterk hjá öllum þeim mönnum, sem finna glöggt til skyldna sinna í mannfélaginu, meira að segja, hjá mörgum þeim, sem finna lítt til annara almennra skyldna. En það má finna tilfinningu og tilfinningarleysi á öllum stigum gagnvart þessum skyldum, eins og finna má manngæzku og mannvonzku á öllum stigum allt niður til þeirra einstaklinga, sem engin bönd liggja á, og sem mannfélagið getur eigi ráðið við, nema með því, að leggja á þá hegningu þá, sem lögin ákveða. Á öllum þessum stigum niður eptir eru menn til, sem hafa hin sömu löglegu völd, er eiginmaðurinn hefur. Hinn aumasti glæpamaður á ógæfusama konu; hana getur hann leikið eins illa og hann vill; hann hefur að eins eigi leyfi til að drepa hana; þó getur hann, ef hann er slóttugur, ráðið hana þannig af dögum, að hann getur komizt hjá mikilli lagalegri refsingu. Hversu margar þúsundir manna eru það eigi í hverju landi, og það þótt eigi séu að öðru leyti glæpamenn í lagalegum skilningi, þ. e. þegar svo stendur á, að yfirgangi þeirra mundi verða veitt mótspyrna, sem þó beita hinu mesta ofríki við ógæfusama eiginkonu; að fráskildum börnunum er hún sú eina, sem hvorki getur borið hönd fyrir höfuð sér, eða firrst ofbeldisverkin. Þótt konan sé algerlega háð þessum lítilmótlegu ofríkismönnum, finna þeir þó eigi til neinnar drenglundaðrar vorkunsemi eða sómaskyldu til þess að fara vel með þann, sem leggur hið jarðneska hlutskipti sitt í þeirra hönd, heldur hugsa þeir sem svo, að lögin hafi fengið sér hana eins og einhvern hlut; hann geti þeir notað eptir vild; þeir séu eigi skyldir til að taka eins mikið tillit til konunnar og til annara. Lögin hafa til skamms tíma, þar sem um viðbjóðslega grimmd í heimilislífinu var að ræða, látið slíku óhegnt, en á seinustu árum hafa þau gert ónógar tilraunir til þess að hegna því. Það hefur haft lítið að þýða, enda er ekki neins að vænta, því að það er gagnstætt skynseminni og reynslunni, að unnt sé að hafa verulegan hemil á ofríkinu, jafnframt því að konan situr í kvalarans höndum. Meðan því er þannig varið, að konan getur eigi heimtað skilnað að lögum eða að minnsta kosti skilnað að borði og sæng, þótt hún geti sannað að ofríki, og meira að segja ítrekuðu ofríki hafi verið beitt við hana, þá mun það verða þýðingarlaust, að ætla sér að reyna, að halda misþyrmingunni í skefjum með hegningu, sökum þess að hér vantar bæði ákæranda og vitni. — Þegar vér lítum á, hve mikill sægur manna það er í öllum löndum, sem ber lítið af dýrum, og ef vér hugleiðum, að ekkert er til fyrirstöðu fyrir því, að þeir samkvæmt hjónabandslögunum geti náð í bráð, þá sjáum vér, hve hryllilega mörg hryðjuverk að eins þetta fyrirkomulag hefur að geyma. Þó eru þetta að eins öfgarnar, undirdjúpin; en áður en þangað er komið sjáum vér hverja gjána af annari niður eptir. Í heimilislífinu og opinberu lífi, þar sem harðstjórn er, votta verstu þrælmennin ástandið með því að sýna, að eigi eru til nein illvirki, sem eigi er hægt að fremja undir þessu stjórnarfyrirkomulagi, ef harðstjórinn vill svo; þess vegna eru glæpir, sem eru engu síður viðbjóðslegir, ávallt fegraðir sem mest, hversu opt sem þeir koma fyrir. Djöflar eru eins fágætir í mannkyninu og englar, ef til vill fágætari, en það er alltítt að finna menn, sem líkjast villidýrum, og eru þó með köflum sem mennskir menn. Og þegar svo dýrsæðið hleypur í þá og þeir eru eigi mönnum líkir, á hversu mörgum stigum og í hversu mörgum myndum leynist eigi óhemjuskapur og eigingirni undir gljáskán menntunar og menningar! Hversu margir eru eigi þeir menn, sem lifa í friði við lögin og eru að ytra áliti látprúðir við alla þá, sem þeir hafa eigi yfir að ráða, en þrátt fyrir það, eru þeir nógu mikil varmenni til þess að gera þeim mönnum lífið óþolandi, sem undir þá eru gefnir. Það mundi verða leiðinlegt, að hafa upp allt það, sem sagt hefur verið viðvíkjandi því, hve óhæfir karlmenn séu almennt til þess að hafa völd á hendi; eptir það, að menn hafa kynnt sér margra alda pólitík kunna allir slíkt utanbókar; en næstum engum dettur í hug, að nota þessar setningar þar, sem þær eiga betur við en alstaðar annarstaðar; engum dettur í hug, að heimfæra þær til valds þess, sem eigi er gefið neinum einstökum manni eða flokk manna í hendur, heldur er gefið sérhverjum fullorðnum karlmanni, hversu aumur og dýrslegur sem hann er. Þó að einhver maður hafi eigi brotið neitt af boðorðunum, svo menn viti, þótt hann njóti góðs orðstírs meðal þeirra, sem hann getur eigi þvingað til að hafa nein mök við sig, og þótt hann glæpist eigi á, að beita ofurvaldi við þá, sem eigi eru skyldugir til að þola slíkt, þá er eigi unnt að ráða af þessu, hvernig dagfar hans muni vera heima hjá honum, þar sem hann er ótakmarkaður valdsmaður. Að öllum jafnaði hafa menn lag á, að láta eigi á því bera við menn, þótt þeir séu uppstökkir, fúllyndir eða ramm-eigingjarnir, en beita þessum ókostum við þá, sem eigi megna að veita mótspyrnu. Hlutfallið milli yfirmanns og undirmanns er gróðrarstía þessara skaplasta; alstaðar þar, sem þeir eru til, magnast þeir við þetta hlutfall; sá maður, sem er bráður og önugur við jafningja sína, hefur áreiðanlega einhvern tíma haft yfir öðrum að ráða, og getað kúgað þá með ótta eða ama. Sé heimilislífið sá skóli, þar sem læra á, að sýna öðrum vináttu og viðkvæmni og gleyma sjálfum sér af ást til annara, þá er það miklu optar sá skóli, þar sem höfðingi fjölskyldunnar lærir þrályndi, hroka og takmarkalausa ónærgætni, enn fremur magnast eigingirni hans, en getur tíðum komið fram í þeirri mynd að hann leggi sig sjálfan í sölurnar, manninum er opt eigi annt um konu sína og börn af öðru en því, að þau eru nokkur hluti af því sem hann á, og leggja með öllu móti velferð sína í sölunnar til þess að gera honum lífið ánægjulegt. Hvers betra má væntast af hjónabandinu eins og það er nú! Vér vitum, að eigi er unnt að hafa taum á illum tilhneigingum mannsins, nema því að eins að þeim sé eigi leyft að hamast eins og þær vilja. Vér vitum, að næstum öllum, sem hafa yfir öðrum að ráða, verður það á, annaðhvort af tilhneigingu eða vana, sé það eigi af ásetningi, að beita ójöfnuði við undirmenn sína, þangað til þeir neyðast til að veita mótstöðu. Með því að maðurinn er þannig gerður, þá liggur það í augum uppi, að við það að mannfélagið á vorum dögum gefur honum næstum ótakmarkað vald yfir einum, sem hann á að búa saman við og ávallt er með honum, þá kveykir slíkt eigingirni, sem dylst í leyndustu fylgsnum mannlegs hjarta, það blæs lífi í hina minnstu neista hennar, og sleppir beizlinu fram af illum girndum, sem manninum hefði við önnur tækifæri fundizt nauðsynlegt, að bæla niður og halda leyndum, þangað til þessi vani var orðinn hans annað eðli. Mér dylst eigi, að málið verður rætt á annan veg; eg veit, að þótt konan geti eigi veitt mótstöðu, getur hún þó goldið líku líkt; hún hefur sín megin vald til þess, að gera mann sinn mjög ófarsælan í lífinu, og hún getur neytt þessa valds til þess að koma fram vilja sínum í mörgum atriðum, þar sem hann ætti að vera ráðandi, en auk þess opt þar, sem hann ætti eigi að vera það. En þessi persónulegu vopn, sem kalla mætti mátt rifrildisins, húskross-valdboð mislyndisins, eru hraparlegum annmörkum bundin; þeim er beitt með beztum árangri gegn vægustu yfirmönnunum og þeim af hinum undirgefnu til hagnaðar, sem ómaklegastir eru. Þessum vopnum beita uppstökkar og einþykkar konur; mundu þær neyta verst valdsins, ef það væri þeirra megin, er neyta illa þess valds, sem þær hrifsa undir sig. Blíðlyndar konur grípa eigi til slíkra vopna, sómakærar konur fyrirlíta þau. Því næst er það, að með þessum vopnum verður beztum höggstað náð á þeim mönnum, sem eru viðkvæmastir og lingerðastir, þeim mönnum, sem aldrei fást til, að láta neitt til sín taka, hversu miklum ertingum sem þeir verða fyrir. Vald það, sem konan hefur til þess að vera óþolandi, veldur venjulegast mót-harðstjórn frá hennar hlið, og ræðst einkum á þá menn, sem hneigjast sízt til harðstjórnar. — Hvað er það þá, sem í raun réttri dregur úr hinum skaðvænlegu áhrifum valdsins og gerir það að verkum, að það getur samrýmzt svo miklu góðu, er vér sjáum alstaðar kring um oss. Blíðulæti konunnar hafa við einstök tækifæri mikla þýðingu, en megna lítt að breyta hlutfallinu í heild sinni. Þess konar áhrif haldast þar að auki einungis við, meðan konan er ung og fögur, eða meðan fegurðin er ný fyrir manninum og eigi farin að fyrnast við stöðuga samveru; loks eru margir þeir menn, sem finnst eigi mikið til um þetta. Það, sem verulega stuðlar að því að mýkja þetta fyrirkomulag, er persónuleg vinátta; hún skapast með tímanum, þegar náttúrufar mannsins getur fundið til hennar, og lunderni konunnar er nógu skylt lunderni mannsins til þess að vekja hana; því næst sameiginleg umhyggja beggja fyrir börnum sínum og sameiginlegur áhugi þeirra á öðrum málum; sömuleiðis það, að hin daglegu þægindi og skemmtun í heimilislífinu er svo mikið komið undir konunni, og að maðurinn þess vegna hefur svo miklar mætur á henni vegna sjálfs sín; frá þessari tilfinningu sprettur hjá hverjum veglyndum manni vinátta sú, sem hann ber til hennar vegna hennar sjálfrar; loks áhrif þau, er næstum allir menn verða fyrir frá sínum nákomnustu; séu þessir menn eigi allt of nærgöngulir geta þeir haft afarmikil, já, óskynsamlega mikil áhrif á dagfar annara og það þótt séu yfirmenn þeirra; yfirmennirnir láta leiðast fyrir bænastað þeirra og án þess þeir viti af verða tilfinningar og tilhneigingar hinna að tilfinningum og tilhneigingum þeirra sjálfra; þannig er þessu varið svo framarlega sem yfirmennirnir hafa eigi jafnmikil áhrif á hina og geta þannig spyrnt á móti broddunum. — Með öllu þessu nær konan geysimiklu valdi yfir manninum og hefur áhrif á framferði hans, jafnvel þar sem þessi áhrif eru eigi góð, þar sem þau eru eigi að eins óhyggileg, heldur verða jafnvel til þess að greiða götu einhverju, sem er siðferðisislega illt; mundi maðurinn breyta þar betur, ef hann færi eptir eigin hvötum. En hvorki í heimilislífinu eða í ríkinu er unnt að bæta upp frelsismissi með valdi. Vald það, sem kona hefur yfir manni sínum, veitir henni opt það, sem hún hefur enga heimild til að fá, og gerir henni þó eigi unnt að tryggja sér eigin réttindi sín. Dálætisambátt soldáns hefur jafnvel þræla; þá kúgar hún; betra væri að hún hefði enga þræla og væri sjálf eigi ambátt. Konan lætur allt líf sitt renna saman við tilveru mannsins, hún hefur engan vilja, eða telur honum trú um, að hún hafi engan annan vilja en hans vilja í sameiginlegum málefnum þeirra, hún ver öllu lífi sínu til þess að hafa áhrif á tilfinningar hans; getur hún þannig notið þeirrar gleði, að hafa áhrif á hann og glepja fyrir honum, þegar hann fæst við málefni, sem hún aldrei hefur aflað sér þekkingar á, eða þar sem hún lætur algerlega stjórnast af hleypidómum eða einhverjum persónulegum hvötum. Meðan þannig er ástatt, hafa því þeir, sem fúsastir hafa verið til þess að hlýða ráðum eiginkvenna sinna, optsinnis breytt ver vegna þess, einkum þegar svo hefur borið undir, að áhrif konunnar hafa orðið ráðandi í þeim málum, sem eigi hafa snert fjölskylduna. Konunni hefur verið kennt, að hún eigi ekki að fást við málefni, sem liggja fyrir utan hennar verkahring; hún getur því sjaldan dæmt heiðarlega og samvizkusamlega um þau; af því leiðir, að hún gefur sig næstum aldrei við þeim í réttum tilgangi, heldur í einhverju eigingjörnu augnamiði. Í stjórnarmálum veit hún eigi, hverju megin rétturinn er, og hirðir eigi um að vita það; hún veit, hvernig vinna á auð og njóta heimboða; hún veit, hvernig maður hennar getur öðlazt nafnbót, hvernig sonur hennar getur komizt í góða stöðu og hvernig dóttirin getur fengið góðan ráðahag. Nú mun verða spurt, hvernig mannfélagið geti staðizt án stjórnar. Í heimilislífinu verður einhver að hafa úrskurðarvaldið eins og í ríkismálefnum. Hver á að skera úr, þegar hvor af bandamönnum hefur sína skoðun. Báðir geta eigi komizt fram með hana. Það er eigi satt, að þegar tveir gera samband sín á milli af frjálsum vilja, þá hljóti annar að vera ótakmarkaður yfirmaður; því síður er það hlutverk laganna, að skera úr, hvor eigi að vera það. Sú mynd af frjálsu sambandi, sem algengust er næst hjónabandinu, er félagsskapur í verzlunarsökum. Það er eigi talið nauðsynlegt, að ákveða með lögum, að í þess konar félagsskap skuli annar hluttakenda vera fyrir verzluninni og hinir vera skyldugir til þess að hlýða honum í öllu. Enginn mundi ganga inn í félagið eða taka á sig ábyrgð þá, sem yfirmaður hefur, ef hann ætti um leið eigi að hafa önnur völd en verzlunarþjónn eða undirtylla hefur. Ef lögin færu eins með alla skilmála og þau fara með hjónabandið, mundu þau gera þá fyrirskipun, að annar félaginn skyldi stjórna verzluninni, eins og hann einn ætti hana, að allir hinir skyldu að eins hafa umboð frá honum, og að þessi eini skyldi vera sjálfkjörinn yfirmaður með einhverri almennri ákvörðun, t. a. m. skyldi vera elztur. Lögin hafa aldrei gert slíka ákvörðun, og reynslan hefur aldrei sýnt, að nauðsynlegt væri að ákveða, að sambandsmennirnir skyldu hafa misjöfn völd, eða að bæta þyrfti nýjum tryggingum við þær tryggingar, sem þeir sjálfir ákveða í skilmála sínum. Qg þó mætti ætla, að ótakmarkað vald væri eigi eins hættulegt í verzlunarfélagi og í hjónabandinu, þar sem undirmennirnir mundu hafa fullt frelsi til þess að brjóta þetta vald með því að ganga úr félaginu. Konan hefur eigi þetta frelsi, og þó að hún hefði það, er það næstum ávallt æskilegt, að hún freisti alls annars áður en hún notaði sér það. Það er fullkomlega satt, að þau málefni, sem verður að gera út um daglega, sem ekki verður ráðstafað smátt og smátt eða eigi þola bið, þangað til úr þeim verður skorið eptir samkomulagi, — þessi málefni verða að vera komin undir einum vilja. Einn maður verður að höggva þessa hnúta. En af því leiðir eigi, að þetta eigi ávallt að vera sami maðurinn. Eðlilegust er sú niðurröðun, að skipta völdunum milli beggja, þannig að hvorugt um sig ræður ótakmarkað yfir sínum hluta, og ef gera skal einhverja breytingu á fyrirkomulagi eða reglum, þá útheimtist samþykki beggja. Þessi skipting á völdunum á eigi að vera fyrirskipuð með lögum og getur heldur eigi orðið það, því að hún er komin undir ásigkomulagi og hæfilegleikum hvors einstaks. Ef hjónin kjósa það heldur, geta þau ákveðið skiptinguna fyrirfram í kaupmála sínum, eins og peningasökum er ráðstafað nú. Það mundi sjaldan valda miklum örðugleikum, að ráðstafa þessu eptir samkomulagi beggja, þegar frá eru skilin þau ófarsælu hjónabönd, þar sem allt gefur tilefni til þrætu og ágreinings. Skipting réttindanna verður að vera eðlileg afleiðing af skiptingu skyldna og starfa, og sú skipting er nú gerð með frjálsu samþykki, eða í öllu falli eigi með lögum, heldur eptir venju; geta þeir, sem hlut eiga að máli breytt þessari venju eptir því, sem þeim líkar, og breyta henni líka í raun og veru. — Hvoru hjónanna, sem trúað er fyrir völdum þessum, þá mun hinn verulegi úrskurður í málefnum þeim, sem fyrir liggja, mjög fara eptir hlutfallinu milli gáfnalagsins, eins og sést þegar nú á tímum. Optast mun maðurinn verða tekinn fram yfir konuna einungis af því, að hann er venjulega eldri, að minnsta kosti þangað til bæði hafa náð þeim aldri, þar sem áramunurinn hefur eigi lengur neitt að þýða. Það leiðir ennfremur af sjálfu sér, að það hjónanna ráði meiru, sem efnin koma frá. Sá mismunur, er þannig verður, fer því eigi eptir hjónabandslögunum, heldur eptir kjörum mannfélagsins, eins og það er nú. Ef annað stendur hinu framar að öllum gáfum, eða að einhverri sérstakri þekkingu og þreklyndi, þá hljóta slíkir andlegir yfirburðir að ráða miklu. Þannig er því ávallt varið nú á tímum, og sýnir þessi sannleikur bezt, hversu ástæðulaus sé óttinn fyrir því, að eigi sé unnt svo viðunanlegt sé og eptir samkomulagi, að skipta völdum og ábyrgð milli þeirra, sem hafa gert samband æfilangt, á sama hátt og milli þeirra, sem hafa gert samband í verzlunarmálum. Þessi skipting á sér eigi stað, nema þegar svo ber undir, að hjónabandið fer illa. Í raun og veru sjáum vér aldrei í nokkru sambandi, að allt valdið sé öðru megin, og hlýðnin að eins hinu megin, nema þar sem sambandið hefur fullkomlega misheppnazt, og þar sem bezt mundi vera fyrir báða málsparta, að losast við byrði sína. Ef til vill mun sú athugasemd verða gerð við þetta, að þar sem ágreiningur sé, verði því að eins unnt að miðla málum í bróðerni, að menn vita, að bak við liggur þvingunarvald laganna á sama hátt og menn leggja mál í gerð, af því að dómstólarnir liggja bak við og þeim eru menn neyddir til að hlýða. En til þess að þessi atriði ættu að vera sömu tegundar, yrðum vér að setja svo, að dómstólarnir gerðu sér það eigi að reglu, að rannsaka málið, heldur stöðugt að kveða upp dóm sama málspartinum í vil, þ. e. hinum ákærða. Ef þannig stæði á, ef ákærandi ætti að gera slíkum dómstól grein fyrir gerðum sínum, mundi slíkt vera hvöt fyrir hann til þess að sætta sig við gerðina, hvernig sem hún væri, en allt öðru máli væri að gegna með hinn ákærða. Harðstjórnarvald það, sem lögin gefa manninum, getur auðveldlega verið hvöt fyrir konuna til þess að fallast á hvern samning, þar sem valdinu er skipt milli hennar og mannsins, en maðurinn hefði hins vegar enga ástæðu til að samþykkja slíkt. Allir, sem fara heiðarlega að, gera samning sín á milli, og þó verður að minnsta kosti annar þeirra eigi þvingaður til þess, hvorki með líkamlegu né andlegu ofurvaldi; sannar þetta, að það hefur í raun réttri mesta þýðingu að fyrirkomulagið sé ákveðið af frjálsum vilja samkvæmt eðlilegum ástæðum, þannig að lífið verði viðunanlegt fyrir hvorttveggja hjónanna; þó eru einstök ófarsæl hjónabönd undanskilin. Eigi mundi það bæta nú, þótt ákveðið væri með lögum, að lögbundið kúgunarvald skyldi liggja til grundvallar fyrir frjálsri stjórn annars vegar, en undirgefni hins vegar, og að hve nær sem harðstjórinn slakaði til, gæti hann tekið það aptur, þegar honum réði svo við að horfa og án þess að gera hinum aðvart. Sleppum því, að allt frelsi er einskisvert, þegar það stendur á veikum fótum; en það eru litlar líkur til þess að skilyrðin fyrir því verði réttlát og jöfn, þegar lögin leggja slíkan afarþunga í aðra metaskálina, þegar svo er hagað til, að annað hjónanna hefur heimild til að gera allt, og hitt hefur eigi heimild til annars en að gera vilja hins fyrnefnda, og er þó samkvæmt siðferðiskenningu og trúarbrögðum skyldugt til þess að þola allan yfirgang og kúgun án þess að veita nokkra mótstöðu. — Þrályndir mótstöðumenn, sem finna, að þeir eru brátt þrotnir að vörn, munu ef til vill segja sem svo, eigi sé hætt við, að eiginmennirnir vilji eigi slaka til við konur sínar, svo viðunanlegt sé, þótt þeir verði eigi neyddir til þess, þeir muni verða viðráðanlegir og skynsamir, en konurnar muni eigi verða það; ef konum væru veitt réttindi yfir höfuð að tala, mundu þær eigi viðurkenna nein réttindi hjá öðrum, og að þær mundu eigi sýna tilhliðrunarsemi í neinu atriði, ef þær væru eigi þvingaðar til þess með valdi mannanna, að láta undan í öllum atriðum. Fyrir nokkrum ættliðum síðan mundi þannig hafa verið komizt að orði, þegar háðsögur um konur voru í mestu gengi, og þegar mennirnir þóttust af því, er þeir í móðgunar-skyni álösuðu konum fyrir það, að þær væru eins og þeir sjálfir hefðu gert þær. En nú á tímum mun enginn, sem maklegur er svars, láta sér slíkt um munn fara. Það er eigi framar ætlun manna á þessum tímum, að konur ali góðar tilfinningar í brjóstum sér í minna mæli en karlmenn eða að þær sýni þeim minni nákvæmni, sem þær eru sameinaðar æfilangt með hinum sterkustu böndum. Þvert á móti. Þeir menn, sem mest sporna móti því, að farið sé með konur eins og þær væru jafn-góðar og karlmenn, þeir ítreka í sífellu, að þær séu betri en karlmenn, svo að þessi setning er að síðustu orðin að viðbjóðslegum hræsnis-formála, og er tilgangurinn með honum að skýla móðguninni með gullhamraslætti; minnir þetta á það, þegar konungurinn úr Þumlungsmannalandi í ferðabók Gullivers hefur það sem formála fyrir hinum grimmilegustu skipunum sínum, að vegsama mildi konunganna. Ef konur standa karlmönnum framar í nokkru atriði, þá er það vissulega í sjálfsafneitun þeirri, er þær sýna gagnvart fjölskyldu sinni; en eg met þetta eigi svo mikils, meðan þeim er alstaðar innrætt það, að þær séu fæddar og skapaðar til þess að láta á móti sjálfum sér. Eg hygg, að jafnrétti mundi draga úr hinni óhóflegu sjálfsafneitun, sem krafizt er nú á tímum af konum, er eiga að vera fyrirmyndir annara, og að góð kona mundi eigi verða tilleiðanlegri til þess að leggja sig í sölurnar, en beztu mennirnir, en hinsvegar mundu karlmenn verða ósérplægnari og fúsari á, að leggja sig í sölurnar, sökum þess, að þeim yrði eigi framar kennt það, að tilbiðja sinn eiginn vilja, þar sem hann væri slíkt kostaþing, að hann ætti að vera lögmál fyrir aðra skynsemisveru. Maður lærir ekkert eins fljótt og þess konar sjálftilbeiðslu; allir menn og mannflokkar, sem hafa haft einhver einkaréttindi, hafa lifað í henni. Á því lægra stigi, sem mennirnir standa, því meir brennandi verður þessi sjálfdýrkun, og heitust er hún hjá þeim, sem eigi standa öðrum ofar en ófarsælli konu og nokkrum börnum. Þessi breyzkleiki er að tiltölu algengari en nokkur annar mannlegur breyskleiki. Í stað þess, að heimspekingar og guðfræðingar ættu að berjast á móti honum, er þeim mútað til þess að verja hann, og það er ekkert, sem reisir rönd við honum, nema tilfinningin fyrir almennum jöfnuði, sem kemur fram í verkinu; þessi tilfinning er hugmynd kristninnar, en kristnin mun aldrei kenna hana í verkinu, meðan hún staðfestir og helgar fyrirkomulag, er grundvallast á forréttindum eins manns fram yfir annan. Það eru vafalaust til bæði konur og menn, sem eigi þykir það einhlítt, að báðum sé gert jafn-hátt undir höfði, og eru eigi í rónni fyr en vilji þeirra og óskir eru hið eina, sem kemur til skoðunar. Gagnvart þeim koma hjónaskilnaðarlögin að góðu haldi. Þau eru sköpuð til þess að lifa ein, og engan mann ætti að þvinga til að búa við þau. En í stað þess að fækka þess konar kvenfólki, gerir hin lögbundna undirokun kvenna það að verkum, að þeim fjölgar. Ef maðurinn neytir alls valds síns kúgar hann konuna fullkomlega, en ef farið er vorkunnlátlega með hana, og hún fær heimild til þess að ná í völd, þá er engin regla, sem setur ráðríki hennar takmörk. Lögin ákveða eigi réttindi hennar, þar sem þau í orði kveðnu heimila henni engan rétt, en við það gera þau þá ákvörðun í verkinu, að réttur hennar nái til alls þess, sem hún getur áorkað að ná völdum yfir. Jafnrétti hjónanna gagnvart lögunum er eigi að eins hinn eini vegur til þess að hjónabandið geti byggzt á réttlæti á báðar hliðar og orðið þeim til gæfu, heldur er hann auk þess eina ráðið til þess að gera daglegt líf mannanna að siðferðislegri uppeldisstofnun. Jafnvel þótt margar kynslóðir komi og hverfi áður en þessi sannleikur er almennt viðurkenndur, þá er þó enginn annar skóli til fyrir hreina siðferðislega tilfinningu, en félag meðal jafningja. Mannkynið hefur hingað til að mestu leyti í siðferðislegu tilliti verið alið upp við rétt hins meiri máttar, og uppeldið hefur næstum eingöngu verið lagað eptir hlutföllum, sem myndazt hafa við þvingun. Hjá þeim mönnum, sem skemmst eru komnir, þekkist varla nokkurt jafnaðarhlutfall; jafningi er þar óvinur. Samband þessara manna er ofan frá og niður eptir löng keðja eða réttara sagt stigi, þar sem hver einstaklingur er yfir eða undir nágranna sínum; alstaðar þar sem hann skipar eigi fyrir, verður hann að hlýða. Hinar siðferðislegu fyrirskipanir, sem gangast við nú á tímum, eru einkum gerðar viðvíkjandi yfirmönnum og þjónum. Og þó er skipun og hlýðni að eins nauðsynlegt böl í mannlegu lífi, reglulega ástandið er jöfnuður í mannfélaginu. Skipun og hlýðni eru þegar nú á tímum orðin afbrigði frá reglunni og verða það því meir, því meiri sem framfarirnar verða. Samband meðal manna með jöfnum réttindum er almennt orðið að reglu. Siðafræði fornaldarmanna byggðist á skyldunni til þess að gefa sig undir valdið, seinna hefur siðferðiskenningin byggzt á rétti hins minni máttar til þess að njóta hlífðar og verndar hins meiri máttar. Hversu lengi mun eitt fyrirkomulag í mannfélaginu láta sér nægja þá siðafræði, sem átti við í öðru fyrra fyrirkomulagi. Vér höfum haft siðafræði ánauðarinnar; vér höfum haft siðafræði riddaraskaparins og veglyndisins, nú er sá tími kominn, er siðafræði réttvísinnar á að ryðja sér til rúms. Alstaðar þar sem menn fyrrum komust næst því að búa saman í jöfnuði, þar hafa menn skírskotað til réttvísinnar sem grundvallar alls góðs. Þannig var því varið í hinum frjálsu þjóðveldum fornaldarinnar. En jafnvel í hinum beztu af þessum þjóðveldum náði jöfnuðurinn að eins til frjálsra borgara af karlkyni. Þrælar, konur og íbúar þeir, sem höfðu eigi borgararréttindi urðu að lúta rétti hins meiri máttar. Rómverska menntunin og kristnin í sameiningu námu burt þennan stéttamun, og það var birt í orði kveðnu, þó að það hafi eigi sózt í verkinu, að mannréttindin séu fremri réttindum kynsins, stéttarréttindum og réttindum þeim, sem fylgja einhverri stöðu í mannfélaginu. Þannig tóku menn að vinna bug á tálmununum, en þær hófust aptur, þegar ósiðaðar þjóðir fóru að leggja lönd undir sig, og í allri nýju sögunni hefur eigi gengið á öðru en að reyna að afnema mismuninn, og hefur framförum í þá stefnu miðað smátt og smátt áfram. Nú er þannig orðið ástatt í heiminum, að réttvísin mun verða talin æzta dyggð, og mun, eins og áður, byggjast á jafnrétti, þar sem um samband er að ræða, og enn fremur mun hún héðan af grundvallast á hjartanlegri sameiningu, sem eigi mun framar eiga rót sína að rekja til sjálfsverndunarhvata jafningjanna, heldur til samræmis í tilfinningum, er leiðir af menntun; mun engum verða synjað, en öllum verða sett sama mark. — Það er eigi nýtt, að mannkynið sjái eigi glöggt fyrir breytingar þær, sem eru fyrir höndum og taki eigi eptir því, að tilfinningar þess eru sniðnar eptir ásigkomulagi liðna tímans og eru eigi samhljóða ókomna tímanum. Andagiptarmenn, og þeir, sem notið hafa kennslu þeirra, hafa öðrum fremur verið færir um að sjá fram í ókominn tíma kynslóðanna. En að hafa tilfinningar komandi kynslóða, það hefur ávallt aflað enn færri afbragðsmönnum frægðar og rauna. Stofnanir, bækur, uppeldi, mannfélag, allt veitir það mönnum menntun eptir gömlu sniði, og það löngu eptir að nýtt er komið í ljós, hve miklu fremur þá, þegar hið nýja hefur eigi birzt? En hin sanna dyggð mannanna er hæfilegleikinn til þess að geta lifað saman sem jafningjar, þannig, að hver einstakur krefst eigi annars fyrir sjálfan sig en þess, sem hann veitir öðrum af frjálsum vilja. Það mun einhverntíma reka að því landi, að sérhver skoðar alla skipun, hvernig sem hún er, sem afbrigði frá reglunni, og í mesta lagi sem nauðsyn um stundarsakir, og kýs heldur að vera með þeim, sem hann getur ráðið yfir og hlýtt jöfnum höndum, þar sem hvor hefur áhrif á annan, heldur en að vera í drottnarastöðu. — Í lífinu, eins og það er nú á tímum, er ekkert, sem æfir og glæðir þessar dyggðir. Heimilislífið er skóli harðstjórnar, þar sem dyggðir harðstjórnarinnar, en jafnframt lestir hennar þróast ríkulega. Í frjálsum löndum er pólitiskt líf reyndar að nokkru leyti skóli, þar sem menn læra jöfnuð; en hið pólitiska líf ræður mjög litlu í lífi nútímans, rýmir sér eigi inn í daglegar venjur og hefur eigi áhrif á hinar innilegustu tilfinningar. Ef heimilislífið væri byggt á réttlátum grundvelli, mundi það vera hinn sanni skóli fyrir dyggðir frelsisins. Það má reiða sig á, að í þeim skóla má læra allt annað. Heimilislífið mun ávallt verða sá skóli, þar sem börnin læra hlýðni, og foreldrarnir læra að drottna. En mest er undir því komið, að það verði sá skóli, þar sem læra má samræmi í tilfinningum meðal jafningja og sambúð í ást, þar sem völdin eru eigi öll annars vegar og hlýðnin öll hins vegar. Þetta ætti heimilislífið að vera fyrir foreldrana. Þá mundi mega læra þar allar þær dyggðir, sem menn gætu óskað að hafa til að bera í öðrum samböndum; þá mundu börnin finna, að heimilislífið væri fyrirmynd tilfinninga þeirra og hegðunar, sem eiga að vera náttúrlegar og stöðugar hjá þeim; þessar tilfinningar og þetta háttalag er leitazt við að innræta þeim með undirgefni þeirri, sem við uppeldið er heimtuð af þeim. Uppeldi kynslóðanna mun eigi verða samhljóða allsherjarlífi því, sem allar framfarir vorar miða að að skapa, meðan eigi er fylgt hinu sama siðferðislögmáli í heimilislífinu, sem skipar fyrir um hið annað siðferðislega fyrirkomulag í mannfélaginu. Frelsistilfinningin hjá manni, sem hefur hlýjastar og innilegastar tilfinningar fyrir þeim, er hann hefur ótakmarkað vald yfir, — það er eigi hin hreina, kristilega ást til frelsisins, það er ástin til frelsisins, eins og hún var almennt hjá fornaldarmönnum og miðaldarmönnum: — sterk tilfinning fyrir sinni eigin virðingu og upphefð; kemur hún hlutaðeiganda til að skoða okið sem vanvirðu fyrir sig, þótt hann í sjálfu sér hafi enga óbeit á því, þar sem hann er mjög gjarn á að leggja þetta ok á aðra, til þess að hafa sjálfur hagnað af því, eða til þess að fullnægja hégómagirni sinni. — Eg er boðinn og búinn til þess að kannast við (og jeg vona það líka), að hjá mörgum hjónum, meira að segja að líkindum hjá meiri hluta hjóna af hærri stigum ríkir andi réttláts jafnaðarlögmáls, þótt lögin séu eins og þau eru nú. Lögin mundu aldrei taka neinum bótum, ef eigi væru margir þeir menn, sem hafa betri tilfinningar en lögin gera ráð fyrir. Þessir menn ættu að styðja grundvallarreglur þær, er eg berst fyrir, því að þær miða eigi að öðru, en að koma öllum hjónum til að líkjast þeim. En þó að menn hafi mjög mikla siðferðistilfinningu, þá eru þeir gjarnir á að ætla, séu þeir eigi því meiri andans menn, að ýms lög og ýmsar venjur séu eigi skaðlegar, ef þeir hafa eigi sjálfir beðið neinn óhag af þeim, menn ætla, meira að segja, — einkum, ef þær eru almennt teknar góðar og gildar, — að þær að öllum líkindum hafi góð áhrif, og að það sé rangt, að hreifa við þeim. Mörg hjón hugsa eigi einu sinni á ári um hin löglegu skilyrði fyrir bandi því, er sameinar þau. Þau lifa þannig, að þeim finnst að þau séu jafningjar gagnvart lögunum, hvernig sem á málið sé litið. En þeim skjátlast, ef þau byggja á þessu, að því sé þannig varið alstaðar, þar sem maðurinn er eigi mesta varmenni. Slík ætlun mundi bera vott um jafn-mikla fáfræði viðvíkjandi mannlegri náttúru eins og viðvíkjandi lífinu yfir höfuð að tala. Því óhæfari sem maðurinn er til þess að hafa völd á hendi, því minni líkur sem hann sér að eru til þess að hann geti nokkurn tíma náð völdum yfir nokkrum manni með frjálsum vilja hans, því ánægðari er hann með þau völd, sem lögin gefa honum, því meir beitir hann hinum löglega rétti sínum og neytir allrar þeirrar hörku, er venjan leyfir, og því meiri ánægju hefur hann af að neyti valdsins til þess að halda lifandi hjá sér tilfinningunni fyrir því, að hann hafi það. Meira að segja, í hinum lægri stéttum, sem eru á lægsta siðferðisstigi, fyrirlítur maðurinn konu sína að nokkru leyti sökum hinnar löglegu ánauðar hennar og sökum þess, að hún er honum líkamlega háð og sem viljalaust verkfæri í höndum hans; þannig fyrirlítur hann eigi nokkra konu eða nokkurn annan, en skoðar konu sína sem hlut, er skapaður sé til þess að þola alla illa meðferð. Ef maður, sem er fær um að taka vel eptir og hefur tækifæri til þess, freistar, hvort þessu er eigi þannig varið og líti hann eins á málið og vér, þá er það eigi kynlegt, þótt hann furði sig eigi á viðbjóð þeim og gremju, sem þær fyrirskipanir geta vakið hjá oss, er hljóta að steypa manninum í svo mikla spillingu. — Ef til vill mun það verða sagt, að trúarbrögðin leggi á oss hlýðnisskylduna, því að þegar einhver málstaður er svo illur, að ekkert getur mælt honum nokkra bót, þá er ávallt sagt, að trúarbrögðin skipi fyrir um slíkt, Það er satt, að kirkjan býður hlýðni í lögum sínum en það mundi verða örðugt að sýna rót þessara fyrirskipana í kristninni. Vér erum fræddir um, að Páll postuli hafi sagt: „Þér konur, verið mönnum yðar undirgefnar!“. En hann hefur líka sagt við þrælana: „Hlýðið yfirmönnum yðar“! Köllun Páls postula var eigi það, að hvetja til uppreisnar gegn lögum þeim, er þá voru; það var eigi samkvæmt ætlunarverki hans, sem var að breiða út kristni. En þó að postulinn tæki fyrirkomulagið í mannfélaginu eins og það var á hans dögum, þá höfum vér eigi heimild til þess að ráða af því, að honum mundi eigi geðjast að tilraunum þeim, sem síðar kynnu að verða gerðar til þess að bæta fyrirkomulagið; og þó að hann hafi lýst því yfir, að guð hafi skipað þau yfirvöld, sem eru, þá er eigi heldur unnt að ráða af því, að honum hafi geðjast vel að hervaldinu eða lýst því yfir, að þetta stjórnarlag væri hið eina kristilega og heimtað hlýðni gagnvart því. Ef því er haldið fram, að kristnin hafi það fyrir mark og mið, að halda við öllu stjórnar- og mannfélagsfyrirkomulagi, sem átti sér stað er hún hófst, þá er henni um leið eigi skipaður hærri sess en Múhameðstrú eða Brahmatrú! Það er einmitt sökum þess, að kristnin hefur eigi gert þetta, að hún hefur verið trúarbrögð framfaraþjóðanna og að Múhameðstrú og Brahmatrú hafa verið trúarbrögð þeirra þjóða, er staðið hafa í stað, eða réttara sagt þeirra þjóða, er farið hefur aptur, því að ekkert mannfélag stendur í stað. Það hafa ávallt, á öllum öldum kristninnar verið til margir menn, sem reyndu að gera kristnina líka þessum óhagganlegu trúarbrögðum, reyndu að gera kristna menn að Múhameðstrúarmönnum og ritninguna að Kórani; þessir menn hafa haft mikil völd, og margir hafa látið lífið í baráttunni við þá; en þeim hefur verið veitt mótspyrna, og vegna mótspyrnunnar erum vér orðnir það sem vér erum, og verðum það sem vér munum verða framvegis. Eptir að vér höfum rætt þannig um hlýðnisskylduna, er það næstum óþarft, að bæta nokkru við viðvíkjandi hinum einstöku atriðum, sem eru liðir úr heildinni, þ. e. viðvíkjandi heimild konunnar til þess að ráða yfir eigum sínum, því að eg geri mér enga von um, að þeim mönnum finnist nokkuð til um þetta rit, sem þurfa að fá sannanir fyrir því, að það fé, sem konan erfir eða öðlast með vinnu sinni, eigi hún að eiga eptir það að hún giptist, á sama hátt og hún mundi hafa átt það áður en hún giptist. Einföldust regla er þetta: Allt, sem mundi vera eign mannsins eða konunnar, ef þau væru eigi gipt, yfir því á hvort um sig eingöngu að ráða í hjónabandinu; þetta er þó eigi því til tálmunar að þau geti komið sér saman um, að ráðstafa auðnum þannig, að hann sé tryggður börnum þeirra. Tilfinningar sumra særast við umhugsunina um það, að hvort hjónanna ráði yfir sínu fé; þeim þykir slíkt mótmæla hugmynd hjónabandsins: að tvö líf eigi að renna saman í eitt. Eg fyrir mitt leyti mæli manna mest með sameign, þegar hún sprettur af fullkominni samhljóðun í tilfinningum, þar sem allt er sameiginlegt þeim, sem eiga auðinn saman. En eg aðhyllist eigi þá kenningu, að allt, sem þú átt, sé mitt, en allt, sem eg á, sé þó eigi þitt; slíkan samning vildi eg eigi gera við neinn, og það eigi þótt hann væri gerður mér í vil. Það er almennt viðurkennt, að þess konar kúgun kvenna sé óréttlát. Það má ráða bót á henni, þótt önnur atriði málsins séu eigi snert, og er því engin efi á, að hún verður fyrst afnumin. Í mörgum nýjum ríkjum og í mörgum hinum gömlu ríkjum Bandaríkjanna í Ameriku hefur verið skotið eigi að eins inn í lögin, heldur inn í stjórnarfyrirkomulagið, ákvörðunum, sem tryggja konunni sömu réttindi og manninum í þessu atriði og bætir í líkamlegu tilliti að minnsta kosti stöðu þeirra kvenna, sem eiga auð, þar sem þessar ákvarðanir gera konum það unnt, að ná völdum, og þetta færi á að ná þeim missa þær eigi við giptinguna. Þannig verður komið í veg fyrir hina svívirðilegu vanbrúkun hjónabandsins, sem verður þegar maður fær talið auðuga stúlku á að eiga sig, án þess að gera nokkurn samning, að eins til þess ná undir sig auð hennar. Þegar fjölskyldan lifir eigi á eignum sínum, heldur á því, sem hún aflar sér með vinnu sinni, þá virðist mér að bezt fari á því, að vinnunni sé þannig skipt milli beggja hjónanna, að manninum sé, eins og títt er, falið á hendur að afla tekjanna, en konunni að annast búsýsluna. Ef konan, auk hinna líkamlegu þjáninga, sem hún tekur út við barnsburðinn, auk ábyrgðarinnar fyrir nauðsynlegri hjúkrun barnanna og uppeldi þeirra fyrstu árin, tekst enn fremur þá skyldu á hendur, að verja afla mannsins með umhyggju og sparsemi eins og fjölskyldunni hentar bezt, þá tekur hún á sig drúgan hluta af byrðinni og venjulega örðugasta hlutann af hinni andlegu og líkamlegu vinnu, sem sambúðin heimtar. Ef hún tekst á hendur önnur störf, losnar hún sjaldan við þetta, og verður örðugar að rækja það vel. Enginn annar tekst á hendur umhyggju þá, sem hún sjálf er eigi fær um að sýna börnum sínum og heimili; þau af börnunum, sem eigi deyja, vaxa upp og engin rækt er lögð við uppeldi þeirra, heimilisstjórnin verður svo ill, að meira tjón hlýzt af en svo, að afli húsfreyjunnai gæti bætt það upp. Þó að því fullkomið réttlæti ætti sér stað að öðru leyti, þá væri það eptir minni hyggju eigi æskilegt, að konan stuðlaði að því með vinnu sinni að auka tekjur heimilisins. Þar sem ranglætið ræður getur það verið gagnlegt fyrir hana að stuðla að því, vegna þess að við það vex hún í augum manns þess, er samkvæmt lögunum er yfirmaður hennar; en hins vegar getur maðurinn við það því fremur neytt valds síns illa með því að þvinga hana til vinnu og með því að fela henni á hendur að hafa ofan af fyrir fjölskyldunni, en eyðir sjálfur miklum hluta af tíma sínum í drykkjuskap og ómennsku Það er einkum til að halda uppi virðingu konunnar, að hún hefur heimild til að afla sér einhvers sjálf, ef hún á eigi auð, sem er óháður manninum, hvort sem hún notar sér þessa heimild eða eigi: En ef hjónabandið væri réttlátur samningur, þar sem hlýðni væri eigi gerð að skyldu, ef enginn, sem væri vansæll í þessu sambandi, væri framar neyddur til þess að vera í því, en hver kona, sem hefði siðferðislega heimild til þess að fá réttlátan skilnað, gæti fengið hann, og ef kona þessi gæti með hæfilegleikum sínum komizt að öllum embættum og störfum jafnt og maðurinn, þá mundi eigi vera þörf á því til þess að vernda hana, að hún neytti sérstaklega þessara hæfilegleika í hjónabandinu. Á sama hátt og maðurinn velur sér einhverja lífsiðn, þannig velur konan, eptir almennum skilningi, það við giptinguna sem sitt einkastarf, að stjórna heimilinu og ala upp börn sín; þessu starfi tekst hún á hendur að gegna öll þau ár af lífi sínu, sem þarf til þess að fullkomna þessa köllun hennar, og þótt hún afsali sér eigi tilkalli til alls annars, þá leiðir hún þó hjá sér öll störf, sem eigi fá samrýmzt við kröfur þessa takmarks. Það er þessi ástæða, sem í rauninni bannar meiri hluta giptra kvenna að gegna stöðugt þeim störfum, er draga þær frá heimilinu, og yfir höfuð að tala bannar þeim að fást við allt það, sem þær geta eigi annast heima. En það ætti, eins frjálslyndislega og unnt er að laga almennar reglur eptir sérstökum hæfilegleikum hvers eins, og ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu, að konur, sem eru gæddar óvenjulegum hæfilegleikum og sérstaklega lagaðar fyrir einhverja iðn, að þær geti gegnt þessari iðn, þótt þær séu giptar, en þó verður að gera ráð fyrir því, að hlutaðeigendur gætu á annan hátt greitt úr örðugleikum þeim, sem geta orðið og hljóta að verða, þar sem um almenn heimilisverk húsfreyju er að ræða. Þegar heilbrigð skynsemi einhvern tíma tæki að fást við málið, þá mundi ekkert vera því til tálmunar, að hún fengi að ráðstafa þessu fyrirkomulagi, væri þá engin þörf á að lögin hlutuðust nokkuð um slíkt. — III. KAFLI. EG hygg eigi, að mér mundi veita örðugt að sannfæra þá, sem hafa fylgt mér í röksemdaleiðslu minni viðvíkjandi jafnri stöðu manns og konu í heimilislífinu, um aðra afleiðingu af fullkomnum jöfnuði, sem sé, að konan fái heimild til þess að komast að öllum störfum og sýslum, sem sterka kynið hefur hingað til eingöngu haft forgönguréttinn til. Eg hygg, að þeim sé synjað allra þessara starfa einungis til þess að halda við undirgefni þeirra í heimilislífinu, og það af því að flestir menn mega eigi hugsa til þess að búa með jafningja sínum. Væri eigi þessi ástæða til þessa, þá hygg eg, að samkvæmt hinum pólitisku og hagfræðislegu grundvallarreglum vorra tíma mundu næstum allir viðurkenna, hversu ranglátt það sé, að synja helmingnum af mannkyninu um flestar arðsamar sýslur og um næstum öll æðri embætti í mannfélaginu, og að lýsa því yfir, annaðhvort að konurnar séu frá fæðingu eigi og verði eigi færar um að gegna embættum þeim, sem standa opin hinum heimskustu og lítilsigldustu karlmönnum, eða að þessi embætti eigi að vera lokuð fyrir þeim, þótt þær séu þeim vaxnar, og eingöngu ætluð karlmönnum. Þegar menn á tveim hinum síðustu öldum, sem sjaldan bar við, hugsuðu sér að leita að einhverri verulegri ástæðu til þess að konunni væri synjað um allt, þá var það sjaldan notað sem átylla, að konan væri minni hæfilegleikum gædd en maðurinn, enda trúðu fáir slíku á þeim tímum, er barátta hins opinbera lífs reyndi á krapta hvers einstaks og konur höfðu ástæðu til þess að sýna krapta sína. Ástæðan, er menn báru fyrir sig, var eigi sú, að konur væru óhæfar til að gegna sömu störfum og menn, heldur var litið á hagnað mannfélagsins, þ. e. hagnað karlmannanna, öldungis á sama hátt og það var talið nægilegt til þess að gera það skiljanlegt og fyrirgefanlegt að menn drýgðu hina svívirðilegustu glæpi, ef glæpamennirnir höfðu gagn ríkisins fyrir augum og var þá átt við það, sem stjórninni hentaði og studdi valdsmennina. — Á vorum dögum er valdið mýkra í máli, og þegar það kúgar einhvern, þá heldur það því ávallt fram, að það geri það, sem honum má að mestu gagni verða. Samkvæmt þessu ætla menn, þegar konum er synjað um eitthvað, að það sé nauðsynlegt að segja það og trúa því, að þær séu óhæfar til að gera slíkt, og ef þær sækist eptir því, þá fjarlægist þær hinn sanna veg til frama og auðnu. En til þess að hægt væri að hlusta á slíka röksemdaleiðslu, hvað þá heldur að láta sannfærast af henni, útheimtist það, að þeir sem bera hana fram, færi lengra en nokkur hefur þorað að fara þegar litið er á, hvað reynslan hefur sýnt oss: Það er eigi nægilegt, að staðhæfa það, að konur séu, hvað æðri hæfilegleika snertir að; meðaltali ver úr garði gerðar en karlmenn að meðaltali; eða að færri konur en karlmenn séu lagaðar fyrir þær iðnir og embætti, þar sem útheimtist mestir vitsmunir. Þessir menn hljóta að staðhæfa; að alls engar konur séu hæfar til að gegna þessum störfum og að lökustu menn, sem nú á tímum gegna þeim, standi miklu framar hvað andans hæfilegleika snertir en frábærustu konur. Því að ef keppnin ræður hver er skipaður í þessi embætti eða einhver önnur úrvals-aðferð, þar sem séð er fyrir almenningsgagninu þá þurfum vér eigi að bera kvíðboga fyrir því, að nokkur þýðingarmikil sýsla verði veitt þeim konum, sem standa karlmönnum að meðaltali á baki, eða sem eru óhæfari til sýslunnar en þeir karlmenn eru að meðaltali, sem sækja með þeim um embættið. Það mundi að eins reka að því, að færri konur en karlmenn yrðu skipaðar í slíka stöðu, og mundi að líkindum fara þannig, hvernig sem á stæði, af því að það er sennilegt, að meiri hluti kvenna mundi heldur kjósa hina einu stöðu, þar sem enginn keppti við þær. Nú mun samt enginn, hvað lítið sem hann gerir úr kvenfólki, dirfast að mótmæla því, að þegar vér bætum reynslu vorra tíma við reynslu liðinna tíma, þá hafa fjöldamargar konur og það ef til vill afbrigðislaust sýnt, að þær eru færar um að gera allt, sem karlmenn geta gert, og að gera það þannig, að það fer fallega og heiðarlega úr hendi. Það eina, sem sagt verður, er það, að þeim hefur lánazt margt miður en sumum karlmönnum, og það er margt, sem þær hafa eigi borið af öðrum í. En það er í örfáum greinum, þar sem andlegir hæfilegleikar eingöngu útheimtast, að þær hafa eigi staðið næstum jafnhliða karlmönnum. Er þetta eigi nægilegt og miklu meir en nægilegt til þess að sanna það, að það er harðstjórn gagnvart konum og tjón fyrir mannfélagið, að konum er eigi leyft að keppa við menn um embætti þessi? Er það eigi hverjum manni kunnugt, að slíkar sýslur og embætti eru opt skipuð mönnum, sem eru miklu óhæfari til þess að gegna þeim en fjöldi kvenna er, og sem konur mundu hafa sigrað, ef þeim hefði verið leyft að etja kappi við þá á réttlátan hátt? Hvaða þýðingu hefur það, að í sumum embættum sitja menn, sem ef til vill eru enn hæfari til þess að gegna embættum sínum, en þessar konur? Vill slíkt eigi til alstaðar þar sem um keppni er að ræða? En svo mikil gnægð nýtra manna í hinum æztu embættum, að mannfélagið hafi heimild til að hafna þjónustu nokkurra þeirra, sem gagnlegir eru? Höfum vér svo mikla vissu fyrir að eiga ávallt völ á mönnum í allar þýðingarmiklar sýslur í mannfélaginu, sem losna, að vér missum einskis í, þótt vér lýsum banni yfir helming mannkynsins með því að aftaka það fyrir fram, að vér viljum taka nokkurt tillit til hæfilegleika þeirra, hversu frábærir sem þeir kunna að vera? Og þótt vér gætum verið án þeirra, mundi það samrýmast réttlætinu, að sneiða konur frama þeim og heiðri, er þeim ber með fullum rétti, eða að synja þeim um heimild þá, sem hver maður hefur til þess, að kjósa sér sína iðn eptir því sem hann er hneigður fyrir og upp á eigin ábyrgð, sé svo að þessi iðn verði eigi öðrum til baga? Og ranglætið nær lengra en til kvennanna. Það lendir einnig á þeim, sem gætu haft góð not af þjónustu þeirra. Að gera þá fyrirskipun, að sérstökum flokki manna sér meinað að vera læknar, málfærslumenn eða þingmenn, er eigi að eins að gera þessum mönnum rangt til, en auk þeirra öllum þeim, sem þurfa á læknum, málfærslumönnum og þingmönnum að halda — Það er tjón fyrir þessa menn að bæla niður þau vekjandi áhrif, sem meiri keppni mundi hafa á þá, sem um embættin sæktu og að takmarka kosningarnar við minni flokk af einstaklingum. Það mun, ef til vill, vera nægilegt, að eg með tilliti til hinna einstöku atriða málsins tali að eins um opinber réttindi og sýslur. Ef eg kem ár minni vel fyrir borð í þessu atriði, munu menn að líkindum kannast við, að konur ættu að eiga kost á að geta náð í öll önnur störf, sem þeim mættu að gagni koma. Eg vil fyrst tala um eitt starf, sem er mjög ólíkt öllum öðrum störfum; heimildin til þessa starfs er alls eigi komin undir hæfilegleikum kvenna. Eg á við atkvæðagreiðslu bæði með tilliti til þingkosninga og sveitarkosninga. Heimildin til þess að taka þátt í kosningu þeirra, er hafa á höndum opinber embætti, er allt annað en heimildin til þess að sækja sjálfur um þessi embætti. — Ef enginn gæti gefið þingmönnum atkvæði, sem eigi væri sjálfur fær um að bjóða sig fram til þingsetu, þá mundi stjórnin vera mjög takmörkuð fámennis-stjórn. Það, að eiga kost á að gefa þeim mönnum atkvæði sitt, sem eiga að stjórna mönnum, er vegur til þess að vernda sjálfan sig, og á hver maður skyldu á slíku, þótt honum sé stöðugt synjað um hluttöku í stjórninni, og að konur séu taldar hæfar til að hafa slíka kosningu á hendi, má ráða af því, að lögin gefa þeim heimild til þess, þar sem þeim riður mest á henni. Það er ávallt gert ráð fyrir því, að konan kjósi sjálf af frjálsum vilja þann mann, sem á að stjórna henni alla æfi hennar. Hvað snertir kosningar til opinberra embætta, þá á stjórnarfyrirkomulagið að vera þannig lagað, að það tryggi og takmarki atkvæðisréttinn á þann hátt, sem nauðsynlegt er, en þær tryggingar, sem einhlítar eru, þegar um karlmenn er að ræða, hljóta einnig að vera það, þar sem um kvenfólk er að ræða. Með hverjum skilyrðum og innan hverra takmarka sem karlmenn hafa heimild til að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, þá er eigi minnsta ástæða til að veita eigi konum heimildina með sömu kjörum. Það eru eigi líkur til þess, að nokkur verulegur pólitiskur meiningarmunur sé með þorra kvenna í nokkurri stétt mannfélagsins og karlmönnum í sömu stétt, nema því að eins að um hagnað kvenna sjálfra sé að ræða, og ef svo er, þurfa þær einmitt á atkvæðisréttinum að halda, því að hann er eina tryggingin fyrir því, að mótbárur þeirra séu réttlátlega og sangjarnlega teknar til skoðunar. Þetta ætti jafnvel þeim að vera ljóst, er eigi hafa neinar af þeim skoðunum, er eg berst fyrir. Jafnvel þótt sérhver kona væri gipt kona, og þótt sérhver gipt kona ætti að vera ambátt, þá ættu þó þessar ambáttir því heldur að njóta lagalegrar verndar; en vér vitum hverrar lagalegrar verndar þrælar geta vænzt, þar sem yfirmenn þeirra gefa lögin. Hvað snertir hæfilegleika kvenna eigi að eins til þess að taka þátt í kosningum, heldur til að gegna sýslum eða embættum, sem hafa mikla opinbera ábyrgð í för með sér, þá hef eg þegar getið þess, að slíkt kemur eigi svo mjög til greina þar sem er að ræða um hin verulegu atriði málsins, er eg fæst við, þar sem sérhver kona, er rækir vel lífsiðn þá, sem allir geta komizt að, sýnir með því, að hún er henni vaxin. Og hvað viðvíkur opinberum embættum, þá er annað tveggja, að stjórnarlögum landsins er þannig varið, að enginn ónýtur maður kemzt að embættum þessum og þá eigi fremur nein ónýt kona, eða því er eigi þannig varið og þá er eigi meira í húfi, þótt sá, sem í embættið er skipaður, sé kona heldur en karlmaður. Jafnskjótt og það er viðurkennt, að einhverjar fáar konur séu hæfar til embætta þessara, þá er það eigi unnt að mæla þeim lögum bót, sem synja þessum fáu konum um embættin, hverja skoðun sem menn hafa á hæfilegleikum kvenna almennt. En jafnvel þótt þessu íhugun hafi eigi verulega þýðingu, þá er hún þó eigi þýðingarlaus; þegar litið er hlutdrægnislaust á hana magnast og styrkjast ástæðurnar gegn hinni lögbundnu synjun kvenna og fá festu, þegar hið verulega almenningsgagn er tekið til greina. — Vér skulum fyrst um sinn leiða hjá oss allar sálarfræðislegar íhuganir, er miða að því að sýna, að munur sá, sem í orði kveðnu er á karlmönnum og kvenmönnum í andlegu tilliti, sé að eins eðlileg afleiðing af muninum á uppeldi þeirra og lífshlutföllum, og að af þessum mismun sé eigi unnt að ráða neinn grundvallarmismun í náttúrufari þeirra, hvað þá heldur það, að annað eigi að vera hinu undirgefið. Vér skulum að eins skoða konurnar eins og þær eru nú, eða eins og vér vitum að þær hafa verið, og enn fremur skulum vér líta á hæfilegleika þá, er þær hafa sýnt í verkinu. Það liggur í augum uppi, að þótt þær geti eigi gert annað, þá geta þær að minnsta kosti gert það, sem þær hafa þegar gert. Ef vér gætum að, hve mjög menn kappkosta við uppeldið að halda þeim frá hverju starfi og hverju takmarki, sem karlmenn eiga kost á að ná, þá er það ljóst, að eg krefst eigi of mikils konum í vil, þegar eg byggi á því, sem þær þegar hafa framkvæmt. Hér hefur að minnsta kosti óbein sönnun vissulega mjög litla þýðingu, en allar beinar sannanir eru óhrekjandi. Það verður eigi ályktað, að kona geti alls eigi orðið sem Homer, Aristoteles eða Beethoven, af því að engin kona til þessa tíma hefur afrekað neitt, sem getur komizt í samjöfnuð við verk þessara afbragðsmanna í neina þá stefnu, þar sem þeir hafa sýnt frábæra snilld. Þessi óbeini sannleiki lætur málið að eins óútkljáð, svo það stendur opið þeim, sem vilja ræða það frá sálarfræðislegu sjónarmiði. En það er víst, að kona getur verið Elisabet drottning eða Deborah eða Jeanne d' Arc, því að þetta er eigi ályktun, heldur beinn sannleikur. Nú er það kynlegt, að hið eina, sem lögin nú á tímum synja konum um að gera, eru þeir hlutir, sem þær hafa sannað, að þær geta gert. Það eru engin lög til, sem banna konum að rita sjónleiki eins og sjónleiki Shakespears eða söngleiki eins og söngleiki Mozarts. En hefði Elisabet drottning eða Viktoría drottning eigi erft konungsvöld, hefði þeim eigi verið trúað fyrir hinu minnsta pólitiska embætti, og þó sýndi Elisabet, að hún var vaxin hinum örðugustu hlutverkum. Ef vér leiddum hjá oss allar sálarfræðislegar rannsóknir, og ef reynslan sannaði nokkuð, þá mundi það vera það, að það, sem konum er bannað að gera, er hið eina, sem þær eru sérstaklega lagaðar fyrir; þar sem þeim hefur gefizt kostur á að stjórna hafa þær sýnt frábæra hæfilegleika til þess, þótt þær hafi sjaldan fengið tækifæri til þess, en hins vegar fer því fjarri, að þær hafi að sama skapi aflað sér ágætis á þeim heiðursbrautum, sem að ytra áliti hafa staðið þeim opnar. Vér vitum, hversu fáar stjórnandi drottningar mannkynssagan getur um í samanburði við fjöldann af konungum, en af þessum fáu drottningum hefur miklu fleirum að tiltölu verið list sú lagin að stjórna vel, jafnvel þótt margar af þeim hafi setið að völdum þegar illa stóð á. Hér má einnig geta þess, að þær opt og einatt hafa áunnið sér orðstír einmitt með þeim eiginlegleikum, sem eru mest gagnstæðir því lundarfari, er menn samkvæmt gamalli hefð ímynda sér að sé einkenni þeirra; þær hafa getið sér jafnmikinn orðstír með festu og krapti í stjórninni sem með hyggindum. Ef vér auk meykonunga og meykeisara teljum konur þær, er hafa haft stjórn og aukastjórn yfir skattlöndum, þá verður skráin yfir konur þær, er hafa stjórnað mannkyninu frábærlega vel, mjög löng[* Það liggur í augum uppi, að þetta er sannleikur, þegar vér tökum Asíu engu síður en Evrópu til skoðunar. Þegar Hindúafurstadæmi er stjórnað með atorku, árvekni og sparsemi, þegar þar ríkir gott skipulag, en engin kúgun, þegar akuryrkja er út breidd og þjóðin er farsæl, þá er í þrem tilfellum af fjórum slíku furstadæmi stjórnað af konu. Því fór fjarri, að eg sæi þennan sannleik fyrir, en eg hef uppgötvað hann, er eg sem embættismaður hafði lengi fengizt við indversk stjórnarmál. Það eru til mörg slík dæmi, því að þótt konum sé synjað um konungsvöld samkvæmt indversku stjórnarfyrirkomulagi, þá er þeim leyft að hafa ríkisstjórn á hendi þangað til erfingjarnir eru komnir til lögaldurs; vill slíkt opt til í löndum, þar sem furstarnir deyja snemma sökum aðgerðaleysis og óreglu. Þegar vér nú hugleiðum, að þessar furstakonur hafa aldrei komið fram opinberlega, aldrei talað við nokkurn mann, sem var eigi úr fjölskyldu þeirra, nema bak við gluggatjald, og að þær kunna eigi að lesa, og þó að þær gætu það, að þá er eigi nokkur bók á þeirra máli, sem getur gefið þeim minnstu hugmynd um stjórnarmál. Þá er þetta mjög ljóst dæmi þess, að konur eru vel fallnar til að stjórna.] Þessi sannleikur er svo ómótmælanlegur, að reynt hefur verið þegar fyrir löngu síðan að snúa sönnuninni við og gera sannleik þann, sem viðurkenndur var, að nýrri móðgun gegn konum og sagt að ef drottningar stjórni betur en konungar, þá sé það vegna þess, að þegar konungar sitji að völdum, ráði konur og þegar drottningar sitji að völdum, ráði karlmenn. — Það getur sýnzt svo sem það sé tímatöf að hrekja léleg hæðnisyrði með ástæðum; en þess konar hefur áhrif á múginn, og eg hef heyrt menn bera slíkt fyrir sig, og hefur mátt ráða af svip þeirra, að þeim fannst eitthvað til í þessu. Í öllu falli má leggja þessi orð eins og hver önnur til grundvallar fyrir rannsókninni. Eg neita þá, að konur ráði þegar konungar sitja að völdum. Þegar svo ber við, þá er slíkt afbrigði frá reglunni og það hefur borið við jafn-opt að duglausir konungar hafa stjórnað illa vegna áhrifa þeirra, er gæðingar þeirra af karlkyni hafa haft á þá, eins og að slíkt hafi verið konum að kenna. Þegar konungur lætur stjórnast af konu af því að hann er ástfanginn í henni, þá er eigi líklegt að stjórnin geti farið vel úr hendi og þó er því eigi ávallt þannig varið. En í sögu Frakklands má finna tvo konunga, sem hafa um mörg ár af frjálsum vilja falið konum stjórnarvöldin á hendur; annar þeirra fékk þau í hendur móður sinni, hinn systur sinni; hinn fyrri, Karl áttundi, var barn að aldri, en fór í öllum athöfnum sínum eptir ákvörðun Lúðvíks ellefta, föður síns og Lúðvík ellefti var hinn nýtasti einvaldskonungur á sínum tíma, hinn Lúðvík níundi, var hinn bezti og einn af hinum öflugustu stjórnendum og sat að völdum allt frá tímum Karls mikla. Báðar þessar konur stjórnuðu þannig, að naumast nokkur stjórnari á þeim tíma komst í samjöfnuð við þær. Karl fimmti var stjórnkænastur höfðingi á sínum tíma; hafði hann fleiri dugandi menn í þjónustu sinni en nokkur annar stjórnari hefur nokkru sinni haft og var einn af þeim höfðingjum, er allra sízt má ætla að hafi hneigzt til að láta hagnað sinn sitja á hakanum fyrir persónulegum tilfinningum sínum; hann fól tveimur konum af ætt sinni stjórnarvöldin yfir Niðurlöndum á hendur meðan hann lifði (seinna fékk þriðja konan þau í hendur). Báðar voru mjög nýtir stjórnendur, og önnur þeirra, Margrét frá Austurríki, var einhver mesti stjórnvitringur á þeim tímum. Þetta er nægilegt hvað aðra hlið málsins snertir; vér skulum líta á hina hliðina. Þegar það er sagt, að karlmenn ráði, þegar drottningar sitja að völdum, er það þá svo að skilja sem sagt væri, að konungar láti stjórnast af konum? Er það svo að skilja að drottningar velji í ríkisþjónustu sína þá menn, sem þær hafa mesta persónulega ánægju af að vera með? Þetta ber sjaldan við jafnvel hjá þeim, er víla slíkt jafn-lítið fyrir sér og Katrín önnur gerði og hér var heldur eigi um hina góðu stjórn að ræða, sem ætti að vera þakka áhrifum karlmanna. Ef það því er satt, að ríkisstjórnin sé í höndum betri manna, þegar drottningar sitja að völdum en hún er að meðaltali, er konungar sitja að völdum, hlýtur slíkt að stafa frá því, að konur hafa mjög mikla hæfilegleika til þess að velja þessa menn; hljóta þá konur að vera betur lagaðar til þess en menn bæði að hafa ríkisvöld á hendi og til þess að gegna embættisstörfum æzta ráðgjafa, því að aðalstarf æzta ráðgjafa er eigi það að stjórna sjálfur, heldur að finna þá menn, sem að öllu leyti eru færastir um að vera yfirvöld. Hið eina atriði, þar sem viðurkennt er að konur standi framar en karlmenn er, að ná fljótri þekkingu á lundarfari manna; en það er öldungis víst, að þó að karlmenn og kvenfólk séu að öðru leyti jöfn hvað hæfilegleika snertir, þá verða þær sökum þessa færari til þess en menn að velja undirtyllur sínar, og ríður hverjum þeim næstum mest á slíku, er fæst nokkuð við stjórnarstörf. Jafnvel Katrín frá Medici, sem hafði enga stefnu í stjórn sinni, gat þó metið de l'Hospital kanslara, eins og hann átti skilið. En það er þó engu síður sannleikur, að mestu drottningar hafa unnið sér frægð vegna eigin stjórnkænsku sinnar og hafa þess vegna haft menn, er þjónuðu þeim vel. Þær áskildu sér, að hafa sjálfar á hendi æztu stjórn, og þegar þær fóru eptir ráðum góðra ráðgjafa, sýndu þær ljósast með því, að þær vegna dæmigreindar sinnar voru færar um, að eiga við hin vandasömustu mál, sem stjórnarar þurfa að fást við. Er það skynsamlegt að hugsa sem svo, að þeir, sem hafa hæfilegleika til æðri stjórnarstarfa hafi enga hæfilegleika til þess að fást við minni stjórnarstörf? Er nokkur eðlileg ástæða til þess að konur og systur fursta ættu, ef á hæfilegleika þeirra reynir, að reynast jafn nýtar sem furstarnir jafnvel til þess, sem þeir eiga að gera, en að konur og systur stjórnfræðinga embættismanna, félags-formanna og yfirmanna yfir opinberum stofnunum ættu að vera óhæfar til þess að afreka það, sem bræður þeirra og menn fá afrekað. Hin sanna ástæða er augljós. Hún er sú, að konungadætur vegna fæðingar sinnar standa miklu meir fyrir ofan karlmenn almennt en þær vegna kynsins standa undir þeim; þeim hefur aldrei verið kennt að hugsa sem svo, að eigi ætti við fyrir þær að fást við stjórnarmál, en hafa haft leyfi til, að fylgja með athygli hinum miklu viðburðum, sem urðu um heiminn; er slíkt eðlilegt fyrir hvern, sem fullþroska er, hvort sem það er karl eða kona. Kvenfólk af stjórnanda ættum eru hinar einu konur, sem gefin er heimild til að fást við hinar sömu æðri sýslur sem karlmenn og er veitt sama frelsi til þess að ná þroska og þeim, og það hefur reynzt, að þær hafa engu minni hæfilegleika til að bera en menn. Alstaðar og að sama skapi sem reynt hefur verið á dugnað kvenna í ríkisstjórn, að sama skapi hefur það reynzt, að þær voru stöðu sinni vaxnar. — Þessi sannleikur er samhljóða hinum áreiðanlegustu, almennu ályktunum, sem virðist mega gera samkvæmt reynslu þeirri, er vér höfum viðvíkjandi hinum sérstöku tilhneigingum, er konur hafa sýnt hingað til, og hæfilegleikum þeim, er einkenna þær; en reynsla vor er í þessu efni mjög ófullkomin. Eg tala eigi um, hvað konur munu verða framvegis; því að eins og eg hef þegar sagt optar en einu sinni, tel eg það dirfskulegt að skera úr, hvað konur samkvæmt hinum náttúrlegu hæfilegleikum þeirra eru eða eru ekki, geti orðið eða geti ekki orðið. Í stað þess, að láta þær ná frjálsum þroska, hefur þeim hingað til verið haldið í svo ónáttúrlegum böndum, að náttúrufar þeirra hlýtur, eins og gefur að skilja, að vera orðið mjög aflagað og ólíkt sjálfu sér, og enginn getur sagt með vissu, að hefði kvenmannsnáttúrunni verið leyft að velja stefnu sina á jafn-frjálsan hátt og karlmannsnáttúrunni er leyft það, og eigi hefði verið reynt til þess með íþrótt, að skapa hjá henni aðrar tilhneigingar en þær, er útheimtast samkvæmt skilyrðum mannfélagsins og eru sameiginlegar báðum kynjum, — að þá mundi vera nokkur verulegur munur eða yfir höfuð að tala nokkur munur á eiginlegleikum og hæfilegleikum karla og kvenna. Eg skal bráðum sýna fram á, að jafnvel þar sem skýlausastur mismunur á sér stað, þá er honum þannig varið, að hann getur auðveldlega verið kominn af lífshlutföllunum án þess nokkur munur sé á náttúrlegum hæfilegleikum. Þó, ef vér skoðum konurnar eins og vér höfum þekkt þær af reynslunni, þá getum vér sagt um þær með meiri sanni en almennt er fólginn í því sem sagt er um þetta mál, að þær séu almennt bezt lagaðar fyrir allt verulegt (praktiskt). Þessi setning styðst við allt, sem mannkynssagan kennir oss um konur fyr og nú og styrkist eigi síður við almenna og daglega reynslu. Vér skulum líta á hið sérstaka gáfnalag, sem einkennir greindar konur. Hjá öllum þeim eru gáfurnar þannig, að þær gera konurnar lagaðar fyrir hið verulega (praktiska) og koma þeim til að keppa að því. Hvað eigum vér við, er vér eignum konum skarpa skoðunargáfu? Vér eigum við fljótan og réttan skilning á máli, sem fyrir liggur. Þessi eiginlegleiki á ekkert skylt við almennar reglur. — Með skarpri skoðunargáfu komst enginn nokkurn tíma svo langt, að hann gæti stílað náttúrulögmal eða sett almennar skyldu- og skynsemisreglur. Slíkt kemur fram, er vér höfum safnað því hægt og vandlega, er vér höfum reynt, og borið það saman hvað við annað, en það er eigi venjulegt, að þeir menn eða þær konur, sem vér teljum hafa skarpa skoðunargáfu til að bera, beri af öðrum hvað þetta snertir, nema því að eins, að hin nauðsynlega reynsla sé slík, að þau geti aflað sér hennar sjálf. Því að það, sem kallast hvass skilningur hjá þeim gerir þau einkum fær um, að safna saman þeim almennu sannindum, er þeim gefst sjálfum kostur á að athuga. Þegar konur þá eru svo heppnar, að þær við lestur eða uppeldi hafa lært að þekkja niðurstöðuna af því, sem aðrir hafa reynt, eins vel og karlmenn eg segi „heppnar“, af því að einu konurnar, sem hafa þá þekkingu til að bera, að þær séu hæfar til að gegna einhverju miklu lífsstarfi, hafa lært af sjálfum sér), þá eru þær fremur en meiri hluti karlmanna gæddar helztu kostunum, er útheimtast til nýtilegra og heppilegra verklegra framkvæmda. Mönnum, sem hafa lært mikið, hættir til, að hafa skakkan skilning á máli því, er fyrir liggur; þeir sjá opt og einatt eigi hver er hinn verulegi mergur málsins í því, er þeir fást við, heldur hvers þeim hefur verið kennt að væntast. Þetta verður þeim konum sjaldan á, sem eru að nokkru nýtar. Hin hvassa skilningsgáfa þeirra hamlar því. Þótt maður og kona hafi jafn-mikla reynslu og jafn-mikla hæfilegleika yfir höfuð, sér konan almennt betur en maðurinn, hvað beinlínis liggur fyrir. Nú er þessi næma tilfinning fyrir því, sem er fyrir höndum, sá aðaleiginlegleiki, sem gáfan til að fást við hið verulega (praktiska) líf er komin undir, gagnstætt á sér stað við hugmyndalífið. Þeim, sem hefur ríkt hugsunarafl, ber að finna almennar reglur; að vinsa úr og greina í sundur hin sérstöku atriði, þar sem grundvallarreglunum verður komið við eða eigi, það er þeim bezt lagið, sem hefur opið auga fyrir hinu verulega (praktiska), og til þess eru konur, eins og þær eru nú, gæddar sérstökum hæfilegleika. Eg viðurkenni að engin góð, verkleg framkvæmd verður án grundvallarregla, og að konum er einkum gjarnt til að álykta allt of fljótt eptir reynslu þeirra sjálfra vegna þess, að hröð athugunargáfa er aðaleiginlegleiki þeirra; en þær eru engu síður reiðubúnar til að leiðrétta þessar hugmyndir sínar undir eins og reynslu þeirra opnast stærra sjónarsvið. Þessi annmarki mun hverfa undir eins og konum er gefinn kostur á, að afla sér reynslu mannkynsins, og almennrar þekkingar, og slíkt getur uppeldið veitt bezt. Konum skjátlast venjulega í því sama, sem vér sjáum að duglegum mönnum skjátlast í, sem hafa menntast af eigin rammleik; þeir sjá opt það, sem skólalærðir menn finna eigi, en þeir gera glappaskot af því, að þá vantar þekkingu til þeirra hluta, er aðrir hafa lengi þekkt. Eins og að líkindum ræður, hafa þeir aflað sér mikils fróðleiks, er til var fyrir þeirra tíma, annars mundu þeir alls eigi hafa komizt neitt áfram; en það, sem þeir vita, hafa þeir fengið í molum og fyrir sérstakar tilviljanir eins og konur gera. Þessi tilhneiging, sem konur hafa til að fást við hið verulega, og það sem er fyrir höndum, leiðir þær opt í gönur, ef hún ræður eingöngu, en er jafnframt hin gagnlegasta vörn gegn gagnstæðri villu. Hinn mesti og einkennilegasti galli þeirra, sem hafa ríkt hugsunarafl, er sá, að þá skortir þennan eldfljóta skilning og þetta sívakandi auga fyrir því er fyrir liggur. Þess vegna gæta þeir opt og einatt eigi að því, hve mikil mótsögn er milli hinna ytri sanninda og hugsana þeirra sjálfra, og eigi nóg með það, heldur missa þeir algerlega sjónar á hinu rétta marki og miði hugleiðinga sinna og láta hugsunarríki sitt hlaupa með sig í gönur þangað, sem hvorki eru lifandi eða dauðar verur, meira að segja ekki hugsjónarverur, heldur svipir í manngerfi, sem orðnir eru til við frumspekilegar sjónhverfingar eða við tóma orðabendu; telja þeir þessa svipi aðalefnið, sem hin æzta og yfirgripsmesta heimspeki eigi að fást við, Naumast getur nokkuð verið þýðingarmeira fyrir mann, sem hefur hugmyndaríki og skoðandi gáfur og neytir eigi krapta sinna til þess að safna ávöxtum lífsreynslu sinnar, heldur til þess að sameina þá í huganum og að skýra þá með yfirgripsmiklum, vísindalegum sannindum eða almennum, siðferðislegum lögum, en að hugleiða slíkt í viðurvist andríkrar konu, þannig að hún geti dæmt um. Þetta er hinn allra bezti vegur til þess að halda hugsununum innan takmarka hins verulega og náttúrlega. Konum hættir sjaldan við að greina andlega undirstöðu hlutanna frá hlutunum sjálfum. Af því þeim er almennt gjarnara til að fást við hlutina sinn í hvoru lagi en saman, og af því þeim er mikið áhugamál um persónulegar tilfinningar, svo að þær fyrst af öllu, þegar um eitthvað praktiskt er að ræða, íhuga, hver áhrif það muni hafa á hlutaðeigendur, af þessu tvennu eru þær mjög ófúsar á, að reiða sig á hugleiðingar, þar sem eigi er gætt að hinu einstaka, en farið með hlutina, eins og þeir væru til fyrir einhverja ímyndaða veru, eitthvert heilafóstur, er ekki getur átt við neinar tilfinningar lifandi vera. Hugsanir kvenna eru þá jafn-gagnlegar til þess að skorða hugmyndir hugsunaríkra manna við hið verulega, eins og hugsanir manna til að gera hugmyndir kvenna yfirgripsmiklar og fjölhæfar. Hvað djúpsæi snertir, sem er nokkuð annað en ummál hugmyndanna, þá efast eg mjög um, að konur jafnvel nú á tímum standi þar á baki karlmönnum, þótt þær séu bornar saman við þá.— Ef hinir andlegu eiginlegleikar kvenna, jafnvel á því þroskastigi, sem þær eru nú á, geta orðið að svo miklu liði við rannsóknir í huganum, þá hafa þeir þó enn meiri þýðingu, þegar öllum hugleiðingum er lokið, og þegar undir því er komið að láta niðurstöðuna sjást í verkinu. Af áður greindum ástæðum, er konum, þegar þær eru bornar saman við menn, mjög ógjarnt til, að láta sér verða á hin sífelldu glappaskot mannanna: að halda fast við reglur sínar, þó þannig beri undir, að reglunum verði annað hvort alls eigi komið við, eða að sérstaklega verði að liðka þær til, ef þeim á að verða beitt. Vér skulum gæta að hinni hvössu skilningsgáfu kvenna; er hún hið annað atriði, þar sem viðurkennt er, að duglegar konur beri af karlmönnum. Er það ekki einkum og sér í lagi þessi eiginlegleiki, sem gerir oss vel lagaða til verklegrar starfsemi? Þar sem til framkvæmda kemur, er allt komið undir fljótum úrskurði. Þar sem um hugleiðingar eingöngu er að ræða, er ekkert komið undir slíku. Sá, sem beitir hugsunaraflinu tómu getur beðið, getur haft tímann fyrir sér til þess að leggja allt niður með sér, getur safnað sýjum sönnunum; hann þarf eigi að bera kvíðboga fyrir því, að honum gefist eigi seinna meir færi til hugleiðinga sinna og þarf því eigi að gera enda á þeim allt í einu. Það er vissulega eigi gagnslaust í heimspekinni að geta ályktað eins vel og auðið er, þar sem fátt er til að byggja á; að búa sér til undirbúnings aðferð til þess að skýra hlutina samkvæmt sannindum þeim, er vér höfum öðlast fyrir reynslu, það er opt nauðsynlegt til þess að byggja á meiri rannsóknir. En þó má fremur kalla slíkan hæfilegleika gagnlegan en óhjákvæmilegan í heimspekinni, og til þessarar aukastarfsemi getur heimspekingurinn þurft eins langan tíma og til aðalstarfsins. Hann þarf eigi að vera leikinn í því að geta flýtt sér; hann þarf fremur að halda á þolinmæði til þess að fara hægt að öllu þangað til það, sem var lítt ljóst, er orðið fullljóst og þangað til getgátan er þroskuð og orðin að kenningu. Þeim hins vegar, sem fást við hið snögga og stopula, við einstök sannindi, en eigi við tegundir af sannindum, ríður eins mikið á að vera hraðir að hugsa, eins og að hafa mikið hugsunarmagn. Sá, sem eigi getur haft beina stjórn á hæfileikum sínum, þegar hann á að framkvæma eitthvað, er jafn-illa farinn og hann hefði eigi þessa hæfilegleika. Hann getur verið lagaður til að dæma um gerðir annara, en er sjálfur óhæfur til framkvæmda. Það er viðurkennt, að í þessu atriði hafa konur og þeir menn, sem líkjast konum mest í þessu tilliti, yfirburði yfir aðra. Menn, sem eru öðruvísi gerðir, fá opt mjög seint stjórn yfir hæfilegleikum sínum, hversu frábærir sem þeir eru því, hraða hyggju og snarræði til hyggilegra framkvæmda hafa þeir öðlast smátt og smátt; það er orðið til fyrir mikla kappsmuni og hefur smátt og smátt orðið að vana. — Ef til vil mun verða sagt, að konur séu tauganæmari en menn, og því óhæfar til verklegrar starfsemi í öllu, sem eigi snertir heimilið, af því að þær séu hviklyndar og breytanlegar, láti allt of mikið stjórnast af snöggum innblæstri, vanti seigju og þol, séu óstöðugar og á báðum áttum, þegar þær eiga að neyta hæfilegleika sinna. Eg hygg, að hér sé upp talinn meiri hluti þeirra mótmæla, er almennt eru gerð gegn hæfilegleikum kvenna til alvarlegra, æðri sýsla. Mest af þessum göllum er eigi annað en of mikið tauganæmt fjör, sem eyðist, og mundi þess vegna hætta, ef þessum krapti væri beint gegn einhverju verulegu takmarki. Nokkuð af göllunum kemur af því, að þeir eru annaðhvort afvitandi eða óafvitandi örfaðir, vér sjáum sönnunina fyrir þessu af því, að móðursýki og öngvit hafa næstum fullkomlega horfið, síðan þeir hafa lagzt niður. Þegar fólk auk þess, eins og margar konur af æðri stéttum (þótt slíkt sé fágætara í Englandi en annarstaðar) er alið upp eins og nokkurs konar jurtahúsplöntur, og er haldið frá öllum styrkjandi umskiptum lopts og hita og er eigi vanið við nokkra sýslu eða æfingar, sem veita blóðrásinni og vöðvakerfinu líf og þroska, en taugakerfið og einkum þær taugar, er verða fyrir áhrifum geðshræringanna, verða að gegna óeðlilegu og stöðugu starfi, þá er það engin furða, þótt heilsufar þeirra kvenna, sem eigi deyja úr uppdráttarsýki, verði þannig með aldrinum, að það raskist við hinar minnstu innri eða ytri orsakir, og verði ófært til þess að þola alla líkamlega eða andlega vinnu, sem útheimtir stöðuga áreynslu. — Á þessari veiklu ber eigi hjá þeim konum, sem eru aldar upp til þess að vinna fyrir brauði sínu, nema eins og eðlilegt er, þegar þær sitja fastar við einhverja innivinnu í lokuðum og óheilnæmum herbergum. Konur, sem í æsku hafa tekið þátt í hinu holla líkamsuppeldi og frelsi bræðra sinna, og seinna hafa eigi farið varhluta af hreinu lopti og hreifingu, eru sjaldan svo ákaflega tauganæmar, að þær geti eigi þess vegna tekið þátt í framkvæmdalífinu. Það er auðvitað, að það er til fólk af báðum kynjum, sem samkvæmt líkamsbyggingu sinni er mjög tauganæmt, og kveður svo rammt að því, að þessi tauganæmleiki einkennir og mótar allar lífshræringar þess. Þessi líkamsbygging er arfgeng eins og aðrir líkamseiginlegleikar, og kemur eigi síður fram á sonum en dætrum; þá er það mögulegt og sennilegt, að fleiri konur en menn erfi þetta næma skaplyndi. Setjum svo, að þessu sé þannig varið; þá spyr eg, hvort menn með næmum skapsmunum séu taldir óhæfir til þeirra starfa og embætta, sem menn eiga annars kost á? Ef þessu er eigi þannig varið, hvers vegna skyldum vér þá telja konur með sömu skapsmunum óhæfar til þeirra. Lundarfarseinkenni eru án efa innan vissra takmarka til fyrirstöðu framförum í sumum greinum, en koma að gagni í öðrum greinum, Þegar þannig ber við, að sýslan og lundernið eiga saman, og jafnvel stundum þótt því sé eigi þannig varið, þá sýna mjög tauganæmir menn, að jafnaði af sér frábæran dugnað. Þeir þekkjast, þegar til framkvæmda kemur, einkum á því, að þeir eru stundum færir um að sýna meira fjör og meiri ákafa en aðrir, og þess vegna er það, að þegar þeir vekjast til starfa á annað borð, þá er meiri munur á hæfilegleikum þeirra þá og á hæfilegleikum þeirra hversdagslega, en hjá öðrum mönnum; þá má svo að orði kveða, að þessir menn gangi fram af sér og vinni hæglega þá hluti, sem þeir annars eru alls eigi færir um. En þetta fjör er eigi nema hjá veikbyggðum mönnum að eins stundarfuni, sem hverfur undir eins og lætur eigi eptir sig neinar menjar, og sem eigi verður komið við, þar sem til fastrar og stöðugrar áreynslu kemur. Það er einmitt einkenni manna með næmum skapsmunum, að þeir eru færir um, að sýna langvinnt fjör, sem þolir langar raunir. Það er sama skapið og hjá góðum kappreiðarhesti, þegar hann hleypur og hægir ekki sprettinn fyr en hann dettur niður dauður. Það er þessu að þakka, að svo margar veikbyggðar konur hafa verið færar um, að sýna hina aðdáanlegustu staðfestu eigi að eins á bálinu, heldur við hinar löngu andlegu og líkamlegu píslir, er á undan fóru. Það er augljóst, að menn með þessu lundarfari eru einkum lagaðir til þeirrar forustu hjá mannkyninu, sem kalla mætti framkvæmdarvaldið. Af þessu efni eru gerðir miklir mælskumenn, ræðusnillingar og menn, sem geta haft mikil andleg áhrif á aðra. Það mætti ætla, að eigi væri hentugt fyrir stjórnfræðinga eða dómara að vera þannig gerðir. Það mundi vera hentugt ef sú ályktun væri rétt, að þeir menn, sem geti orðið æstir, hljóti þess vegna allt af að vera í æstu skapi. En þetta heyrir algerlega uppeldinu til. Mikil tilfinningasemi er skilyrði fyrir því og verkfæri til þess að stjórna sjálfum sér; en til þess verður að laga hana. Ef þetta er gert, þá veitir hún eigi að eins augnabliks-innblástur, heldur skapar hún hetjur með óbilandi vilja. Mannkynssagan og reynslan sýna, að menn með ofsalegustu skapi eru ósveigjanlegastir í skyldutilfinningum sínum, þegar ákafa þeirra er beint í þá stefnu. Sá dómari, sem kveður upp réttlátan dóm í þeim málum, þar sem tilfinningar hans bjóða honum stranglega að draga taum gagnstæðs málparts, finnur glöggt til þess sökum tilfinningamagns síns, að á honum hvílir skylda til að vera óhlutdrægur, og þess vegna verður honum auðið að sigrast á sjálfum sér. Hæfilegleikinn til þess að geta fyllzt háleitum guðmóði, sem hefur manninn upp yfir daglegt skapferli hans, hefur aptur áhrif á þetta daglega skapferli. Af þeim hvötum og hæfilegleikum, sem maðurinn finnur til í þessu afbrigðisástandi, skapast sú fyrirmynd, er hann ber tilfinningar sínar og athafnir saman við á öðrum tímum og metur þær eptir. Hin almennu áform hans mótast og lagast eptir augnablikum þeim, er hann fyllist þessum göfuga guðmóði, jafnvel þótt þessi áform sökum heilsufars mannsins geti breytzt fljótt. — Það, sem vér vitum um flokka manna og einstaka menn; sýnir eigi, að menn með því skapferli, er lýst hefur verið, séu að meðaltali óhæfari til að hugsa eða framkvæma, en menn sem eru kaldari og rólyndari. Frakkar og Ítalir eru vafalaust næmari að náttúrufari en germanskir þjóðflokkar, og ef þeir eru bornir saman við Englendinga, kveður vissulega miklu meir að geðshræringum hjá þeim í almennu og daglegu lífi. En hafa þeir þess vegna verið eptirbátar annara í vísindum, í pólitík, í löggjöf eða í hernaði? Það er sannað meir en nægilega, að Grikkir hinir fornu (og eptirmenn þeirra enn í dag) voru óstöðugastir af öllum þjóðflokkum. Það er óþarft að spyrja, í hverju þeir hafi ekki borið af öðrum. Það er líklegt, að Rómverjar, sem voru Suðurlandaþjóð eins og hinir hafi upphaflega verið eins skapi farnir. En fyrir strangan þjóðaraga urðu þeir eins og Spartverjar dæmi upp á gagnstæða þjóðernis-fyrirmynd og hinn mikli máttur náttúrlegra tilfinninga þeirra varð bezt augljós af þeim öflugu áhrifum, er þessar tilfinningar höfðu á hinar sjálfsköpuðu tilfinningar þeirra. Ef þessi dæmi sýna, hvað getur orðið úr hviklyndri þjóð, þá sjáum vér einna bezt, er vér lítum á Kelta í Írlandi, hvað verður úr slíkri þjóð, þegar ekkert er skeytt um hana; — ef annars verður sagt, að eigi sé skeytt neitt um þjóð, þegar hún hefur öldum saman orðið að sæta þungum búsyfjum af óbeinum áhrifum vondrar stjórnar, af beinum áhrifum kaþólsks klerkavalds og af hreinni trú á kaþólska kenningu. Þess vegna má skoða lunderni Íra sem óhenntugt dæmi, en allt um það, hvaða þjóð hefur staðið Írum framar í því, að leiða fram menn með hinum ólíkustu og fjölhæfustu hæfilegleikum, undir eins og ástandið var nokkurn veginn þolanlegt? Á sama hátt og Frakkar í samanburði við Englendinga, Írar í samanburði við Svisslendinga, Grikkir og Ítalir í samanburði við germanskar þjóðir, þannig mun það að líkindum koma í ljós, að konur í samanburði við menn eru að meðaltali færar um að vinna hið sama með nokkrum mismun í þeim greinum, þar sem þær hafa sérstaklega frábæra hæfilegleika. En mér finnst eigi að minnsti efi geti leikið á því, að þær gætu framkvæmt þessa sömu hluti eins vel og karlmenn, ef uppeldi þeirra miðaði að því, að laga hina eðlilegu lundernisgalla þeirra í stað þess að auka þá. — Setjum samt svo, að andi kvenna sé að náttúrufari hvikulli, síður fær um að þola lengi sömu áreynslu, meir fallinn til þess að beita hæfilegleikunum við margt, en að fást við einn hlut, þangað til þar er náð eins mikilli fullkomnun og unnt er. Þetta getur verið satt um konurnar eins og þær eru nú, (þótt hér séu mörg og mikil afbrigði frá reglunni) og getur það gefið skýringu á því, hvers vegna þær hafa staðið að baki frábærum mönnum einmitt í þeim hlutum, þar sem komið er undir því, að sökkva sér niður í einhverja eina tegund af hugmyndum og störfum. En ef þessu er þannig varið, þá er allt um það þessi mismunur þannig lagaður, að hann snertir vissa yfirburði, ekki yfirburðina sjálfa eða hið verulega gildi þeirra, og auk þess er eptir að sanna það, að það sé reglulegt og eðlilegt ástand mannlegra hæfilegleika, jafnvel þótt þeir fáist við rannsóknir, að nota þannig eingöngu nokkuð af anda sínum, að sökkva sér þannig með öllu hugarmagni sínu niður í einn hlut, og leiða athygli að einu einstöku starfi. Eg hygg, að að því skapi sem andan þroskast í einstaka stefnu við þessa einangrun, að sama skapi missi hann mátt til þess að fast við önnur verkefni lífsins, og jafnvel þar sem um almenna hugsun er að ræða, þá er það föst hyggja mín, að andinn fái áorkað meiru ef hann hverfur opt að einhverju örðugu efni, en þótt hann búi stöðugt yfir því. Í öllu falli er, þegar til framkvæmda kemur, í öllum málum, frá hinu minnsta til hins mesta, miklu þýðingarmeira, að geta hlaupið fljótt úr einu efni í annað, án þess að hugurinn missi krapt sinn við þessi mörgu stökk, en hið gagnstæða, og þetta geta konur í fyllsta mæli einmitt vegna hviklyndis þess, sem þeim er álasað fyrir. Þær hafa það ef til vill að náttúrufari, en þær hafa það vissulega líka fyrir uppeldi og vana; því að allar iðjur kvenna eru fólgnar í því, að fást við einstaka hluti, lítilfjörlega og fjölbreytta, þar sem andinn getur eigi dvalið svipstund við hvern af þeim, en er neyddur til að hverfa að öðru, svo að þær verða að stela tíma frá þeim augnablikum, sem annars mundu eyðast til ónýtis, til að hugsa um málefni, er þurfa langa íhugun. Vér höfum opt og einatt tekið eptir hæfileka þeim, sem konur eru gæddar til þess að hugsa um málefni þeirra undir þeim kringumstæðum og á þeim tímum, þar sem næstum hver maður mundi þykjast afsakaður að reyna slíkt. Þótt andi konunnar eigi að eins við smámuni, veitir honum aldrei hægt að leyfa sjálfum sér að vera iðjulaus, eins og andi mannsins er svo opt, þegar hann hefur eigi nóg að gera við það, sem hann telur lífsiðju sína. Hin almenna sýsla í lífi konunnar er sýslan með allt mögulegt, og þessari sýslu linnir eigi fremur en jörðin getur hætt að snúast. — Menn segja: Líkskurðarfræðin sannar, að karlmenn hafi meiri sálargáfur en konur: þeir hafa stærri heila. Eg svara, að í fyrsta lagi er þetta mál mjög efasamt. Það er engan veginn sannað, að heili konunnar sé minni en heili karlmannsins. Ef menn geta einungis ráðið það af því, að líkami konunnar er almennt minni um sig en líkami karlmannsins, þá mundu ef til vill margar kynlegar ályktanir leiða af slíku einkenni. Hár og hraustlegur maður ætti eptir því að bera undarlega mikið af litlum manni hvað skynsemi snertir og fíll eða hvalur ætti að standa langtum framar en maður. Það er miklu minni munur á heilastærð manna en á líkamsstærð eða jafnvel höfuðstærð og hvorugt er unnt að ráða af öðru. Það er víst, að sumar konur hafa eins stóran heila og nokkur karlmaður. Eg veit af reynslu, að maður, sem hafði vegið marga mannsheila, sagði, að þyngsti heili, sem hann hefði hitt á, og jafnvel þyngri en heilinn í Cuvier (er áður var talinn þyngstur), væri konu heili einn. Því næst verð eg að geta þess, að hið nána samband milli heilans og sálargáfnanna þekkist enn ekki, heldur greinir menn mjög á um það. Vér getum eigi efast um það, að þau standa í mjög nánu sambandi. Heilinn er að vísu verkfæri hugans og tilfinningarinnar, og án þess að dvelja við hinn mikla ágreining, er enn ríkir um það, hverjir sérstakir hlutar heilans séu aðsetur hinna ýmsu hæfilegleika, þá viðurkenni eg, að það mundi vera afbrigði frá reglunni og afbrigði frá öllu, er vér vitum inn hin almennu lög lífsins og líffæranna, ef stærð heilans kæmi starfsemi hans alls eigi við, svo að líffæri þetta ætti eigi að gefa því meiri krapt, því stærra sem það væri um sig. En undantekningin og afbrigðin frá reglunni mundi verða öldungis eins mikil ef áhrif líffærisins í þessu tilfelli væri einungis komið undir stærð þess. Alstaðar þar sem starfsemi náttúrunnar er smágerð — en smágerðust er starfsemi lífsins og þar af smágerðust starfsemi taugakerfisins — þar eru hin ýmsu áhrif jafn-mikið komin undir ásigkomulagi líkamsfæranna, eins og undir stærð þeirra, og ef sjá má, hvernig verkfærið er af því, hve nákvæmt og smágert verk það vinnur, þá er mikil ástæða til að ætla, að heili Og taugakerfi kvenna sé smágerðara en heili og taugakerfi karlmanna. Vér skulum leiða hjá oss að tala um hinn almenna mismun á ásigkomulagi líffæranna, því að örðugt er að rannsaka það efni, en þó vitum vér í öllu falli, að þýðing líffæranna fer eigi að eins eptir stærð þeirra, heldur líka eptir starfsmagni þeirra, og að vér höfum nokkurn veginn áreiðanlegan mælikvarða fyrir þessu starfsmagni þegar vér gætum að, hve fjörug blóðrásin er í gegnum líffærið, þar sem það er mjög komið undir blóðrásinni bæði að það geti starfað vel og bætt upp það, sem það hefur misst. Oss mundi nú eigi koma á óvart þótt karlmenn að meðaltali bæru af kvenfólki hvað stærð heilans snertir, en kvenfólk bæri af karlmönnum hvað hraða blóðrasarinnar í heilanum snertir. Sú ætlun mundi vera mjög samhljóða þeim mismun, er vér sjáum nú á tímum að er á hugarstarfsemi beggja kynja. Sú niðurstaða, er vér fyrir samanburð gætum vænzt eptir að komast að af þessum mismun á líffærabyggingunni, mundi vera samkvæm nokkru af því, er vér almennt tökum eptir. Í fyrsta lagi yrðum vér að búast við, að sálarstarfsemi mannsins væri hægri. Hann mundi almennt eigi vera eins fljótur að hugsa og konur og tilfinningar hans eigi vera eins fljótar að vakna. Stórir líkamir þurfa lengri tíma til þess að komast í hreifingu en litlir líkamir. Hins vegar mundi heili mannsins, þegar hann væri tekinn til starfa á annað borð, geta unnið meiri vinnu. Hann mundi vera þolbetri til þess að starfa að því, sem hann byrjaði einu sinni á, honum mundi veita örðugra að skipta um störf; en hann mundi vinna lengur án þess að missa krapta og án þess að finna til þreytu. Og finnum vér eigi, að þar sem karlmenn bera mest af konum er í þeim hlutum, þar sem komið er undir því, að ríghalda sér við einhverja einstaka hugmynd og hugsa hana til hlítar, en konur gera það bezt sem á að gera fljótt? Heili konunnar verður fyr þreyttur, kraptar hans réna fyr; en eins og við er að búast, þegar kraptar hans eru þannig þrotnir, vinnst honum aptur fyr þróttur en heila karlmannsins Eg ítreka það, að þessar hugmyndir eru tómar ágizkanir; þær miða einungis að því, að birta rannsókninni braut. Eg hef þegar áður getið þess, að menn vita eigi enn með vissu, hvort það er verulegur, náttúrlegur mismunur á afli og stefnu sálargáfnanna hjá báðum kynjum, og því síður í hverju þessi mismunur er fólginn. Það er heldur eigi auðið að þekkja hann, meðan menn hafa kynnt sér svo lítt hið sálarfræðislega lögmál fyrir lundernis-myndun manna, og það jafnvel þótt menn hafi kynnt sér slíkt almennt, og geta því alls eigi enn á nokkurn hátt komið því við í einstökum tilfellum, og meðan menn hirða ekkert um hinar ljósustu ytri ástæður til lundarfarsmismunarins; þetta taka þeir eigi til greina, sem íhuga málið og sálarfræðis- og líffærafræðisskólar, sem ráða mestu, líta á slíkt með þóttafullri fyrirlitningu. Því að hvort sem þessir skólar leita að upprunanum til þess, sem einkum að greinir mannlegar verur í hinu líkamlega eða andlega, þá kemur þeim þó öllum saman um það að úthúða þeim, sem kjósa heldur að leita skýringar á slíkum mismun í hinum ýmsu hlutföllum, sem menn hafa búið við í mannfélaginu og í lífinu yfirhöfuð að tala. Hinn venjulegi skilningur á náttúrufari kvenna eru tómar allsherjarímyndanir, byggðar á reynslu; hann er orðinn til án þess að heimspeki eða rannsókn sé tekin til hjálpar, en styðst við hin og þessi atvik, er fyrst verða fyrir, kveður svo hlægilega mikið að þessu að almenningsskilningurinn á náttúrufari kvenna er mismunandi í hinum ýmsu löndum og fer eptir því, hvert tækifæri konur, sem lifa í hverju landi, samkvæmt skoðunum og ásigkomulagi mannfélagsins í landinu, hafa fengið til þess að framast eða eigi í einhverja stefnu. Austurlandamenn ætla, að konan sé að náttúrufari afar-munaðargjörn, þess vegna eru konur grimmilega svívirtar í indverskum ritum. Englendingar ætla almennt, að þær séu kaldar að náttúrufari. Orðtækin um hverflyndi kvenna eru að mestu leyti frakknesk að uppruna og hafa myndast á undan og eptir það, að Franz I. gerði hinar alkunnu vísur. Í Englandi heyrist almennt, að konur séu langtum stöðuglyndari en karlmenn. Hverflyndið hefur nefnilega í Englandi lengur en í Frakklandi verið skoðað sem niðurlæging fyrir konuna, og enskar konur eru þar að auki miklu meir háðar almenningsálitinu en frakkneskar konur. Hér má snöggvast drepa á það, að Englendingar eru einkum og sér í lagi illa farnir, þegar þeir eiga að dæma um, hvað er náttúrlegt eða eigi, og það eigi einungis konum, heldur líka karlmönnum og fólki yfir höfuð, að minnsta kosti ef þeir hafa reynslu sína eingöngu úr Englandi; því að til er enginn staður, þar sem mannleg náttúra hefur haldið jafn-fáum upphaflegum einkennum sínum eins og þar. Bæði í góðum og illum skilningi eru Englendingar komnir fjær hinu náttúrlega ástandi sínu en nokkur önnur nútímaþjóð. Fremur en nokkur önnur þjóð eru þeir afkvæmi menntunar og aga. England er það land, þar sem mannfélagsaganum hefur tekizt bezt fremur að bæla niður allt, sem gat orðið honum til fyrirstöðu, en að bugast á því. Fremur en nokkur önnur þjóð fara Englendingar eptir reglunum, eigi að eins í framkvæmdum, heldur í tilfinningum sínum. Í öðrum löndum getur hin tillærða, opinbera meining eða mannfélagskrafan einnig ráðið meiru, en fýsnir einstaklingseðlisins má þó ávallt sjá undir okinu og þær veita því opt mótspyrnu: reglan getur mátt sín meir en eðlið, en eðlið helzt þar samt enn við. Í Englandi hefur reglan að miklu leyti skipað sess náttúrunnar. Mestum hluta lífsins er varið eigi til þess að fara eptir fýsn sinni, þannig að láta regluna takmarka hana, heldur til þess að hafa enga aðra fýsn en þá, að fara eptir reglu. Nú hefur þetta eflaust sína kosti, en því fylgir einnig afarmikill ókostur; meðal annars veldur það því, að Englendingurinn verður mjög óhæfur til þess að dæma samkvæmt eigin reynslu um upphaflegar tilhneigingar manneðlisins. Athugendur í öðrum löndum gera sig seka í misjöfnum villum. Englendingurinn þekkir eigi manneðlið, Frakkinn hefur fordóma um það. Englendingnum skjátlast negativt, Frakkanum positivt. Englendingurinn ímyndar sér, að hlutir séu eigi til, af því að hann sér þá aldrei, Frakkinn ímyndar sér, að þeir hljóti að vera alstaðar til og nauðsyn beri til þess, af því að hann sér þá. Englendingurinn þekkir eigi manneðlið, af því að hann hefur ekki haft neitt tækifæri til þess að athuga það, Frakkinn þekkir almennt mikinn hluta þess, en skjátlast opt, af því að hann hefur að eins séð það rangfært og afmyndað. Fyrir báðum hefur hin íþróttlega mynd, sem mannfélagið hefur gefið hinum athugaða, breitt hulu yfir hinar eðlilegu tilhneigingar hans, með því að nema burt eða ummynda manneðlið. Í öðru tilfellinu eru að eins eptir litlar leifar af manneðlinu, sem unnt er að kynna sér, í hinu tilfellinu er meira af eðlinu, en hefur þroskast í allar aðrar stefnur en þær, sem það mundi hafa kosið sér, hefði það getað náð frjálsum þroska. Eg hef sagt, að nú á tímum er eigi unnt að vita, hve mikið af hinum andlega mismun milli manns og konu er eðlilegt og hve mikið íþróttlegt, eigi heldur, hvort það er yfir höfuð nokkur eðlilegur mismunur, eigi heldur, hvort eðlilegt lundarfar mundi koma í ljós, væru allar íþróttlegar orsakir til mismunarins afnumdar. Það er því eigi ætlun mín að freista þess, sem eg hef lýst yfir, að eigi væri unnt, en efi útilokar eigi tilgátur, og þar sem eigi er auðið að öðlast vissu, getur þó gefizt nokkur kostur á að komast að nokkrum líkum. Fyrsta atriðið, uppruninn til mismunar þess, er á sér stað, er hægast aðgöngu fyrir hugsunina; eg ætla að freista þess, að nálgast það á hinn eina hátt, er auðið er, með því að grennslast eptir áhrifum ytri orsaka á hugarfarið. Vér getum eigi einangrað mann frá þeim hlutföllum, er hann lifir í, til þess þá að komast eptir með tilraunum, hverja stefnu þroski hans eptir eðli sínu mundi hafa tekið, en vér getum rannsakað, hvað þessi maður er, og hver lífshlutföll hans hafa verið, og hvort þau hafa getað gert manninn að því sem hann er orðinn. Vér skulum nefna hið einasta átakanlega atriði, er vér sjáum, þegar vér gætum að, þar sem konan í snöggu áliti stendur skör lægra en maðurinn, þótt því sé sleppt, að hún hefur minni líkamskrapta. Í heimspeki, í vísindum, í íþróttaverkum hafa engin frábær snilldarverk legið eptir konur. Er unnt að skýra þetta án þess að ímynda sér, að konur séu eptir eðli sínu óhæfar til þess að afreka slíkt? Í fyrsta lagi höfum vér heimild til þess að spyrja, hvort reynslan hafi veitt oss nægilega undirstöðu, til þess að byggja á henni ályktun. Það eru naumast þrír mannsaldrar síðan að kvenfólk, að einstökum konum undanskildum, hefur farið að reyna hæfilegleika sína í heimspeki, vísindum eða íþróttaverkum. Það er fyrst hjá núlifandi kynslóð, að tilraunir þessar eru orðnar nokkuð margar, og þær eru jafnvel nú mjög fáar í öllum öðrum löndum en Englandi og Frakklandi. Ályktað eptir beinum líkum er það vafasamt, hvort búizt verði við því, að á þessu tímabili bæri á anda, gæddum frábærum gáfum til hugsana eða skapandi íþróttaverka, meðal þeirra kvenna, er tilhneiging höfðu í þá stefnu og jafnframt stöðu, er gerði þeim það unnt að helga sig þessum störfum. Á öllum þeim starfsviðum, þar sem þær hafa haft nauðsynlegan tíma, einkum þar, sem þær hafa unnið lengst, nefnilega í bókmenntum (bæði í bundnu og óbundnu máli), hafa konur, þótt þær hafi eigi náð æzta sessi, unnið sér fullt svo fríða og marga frægðarsveiga, sem búast mátti við, þá er litið var á tímalengdina og viðurkeppenda-fjöldann. Þá er vér færum oss aptur í aldirnar, þá er mjög fáar konur reyndu sig, heppnuðust tilraunir nokkurra af þessum fáu konum ágætlega. Grikkir hafa jafnan talið Sapho með hinum miklu skáldum sínum, og vér höfum heimild til þess að ætla, að Myrtis, er sagt er, að hafi kennt Pindar, og Korinna, sem fimm sinnum gat sér meira lof í skáldskap en hann, hafi átt skilið að jafnast við þetta mikla nafn. Aspasia hefur eigi látið eptir sig neitt heimspekilegt rit, en vitum vér eigi, að Sókrates gekk til hennar til þess að njóta fræðslu hennar og viðurkenndi sjálfur, að hann hefði haft gagn af því? Ef vér lítum á þau verk, er á nýrri tímum liggja eptir konur, og berum þau saman við verk karlmanna bæði í bókmenntum og í listum, þá er það einkum í einu atriði, að hinir minni hæfilegleikar kvenna, er vér tökum eptir, koma fram, og er það atriði að vísu eptirtektavert: það er skortur á frumleik. Eg tala eigi um fullkominn skort á frumleik, því að sérhver framleiðsla, sem er nokkurs virði, er að vissu leyti frumleg, er undir komin hjá framleiðanda sjálfum og er ekki eptirmynd af neinu öðru. Frumlegar hugsanir, ekki lántöku hugsanir, heldur hugsanir, sprottnar af eigin athugunum eða eigin anda hugsandans, af þeim er yfirgnæfanlega mikið í ritum kvenna. En þær hafa enn eigi komið fram með neina af þeim hinum miklu og lýsandi nýju hugmyndum, er valda byltingar-tímabilum í sögu hugans, eigi heldur hafið neina af þeim hinum gersamlega nýju stefnum í listinni, er opna heilt sjónarsvið af mögulegri fegurð, er menn óraði eigi áður fyrir, og grundvallað með því nýjan skóla. Framleiðsla þeirra byggist optast nær á hugsanahöfuðstól, er þegar var fenginn, og það sem þær skapa fjarlægist eigi þær fyrirmyndir, sem þegar má finna fyrir sér. Það eru þessháttar vanefni, er lýsa sér í verkum þeirra, því að í gagnrekstri hugmyndarinnar í einstökum atriðum og í fullkomleika stílsins standa þær eigi karlmönnum á baki. Þeir af skáldritasmíðum vorum, er standa fremst með tilliti til samsetningar og meðferðar á einstökum atriðum, hafa að mestu leyti verið konur; og það er eigi til á öllum nýrri bókmenntum snilldarlegri orðbúningur fyrir hugann en ritháttur frú de Staël, eigi heldur í algerlega listfræðilegu tilliti neitt, sem ber af því óbundna máli, er George Sand ritar, því að ritháttur hennar hefur önnur eins áhrif á taugakerfið, eins og samhljómslag eptir Haydn eða Mozart. Öflugur frumleiki í grundvallarskoðun er, eins og eg hef sagt, það sem konum einkum er áfátt, og vér skulum því grennslast eptir, hvort nokkur vegur sé til að skýra þennan ófullkomleik. Hvað fyrst snertir einungis hugsun, þá verðum vér að muna eptir því, að á öllum sagna- og menningartímunum, þá er unnt var að öðlast mikinn og arðsaman nýjan sannleika með andríki eingöngu, þótt lítil fræðsla færi á undan og lítill menntunarforði væri fyrir, allan þann tíma fengust konur alls eigi við hugleiðingar. Frá tímum Hypatiu fram að siðabótinni er hin nafnfræga Héloise næstum hin eina kona, er unnt var að gefa sig við slíkri sýslu, og vér vitum ekki, hversu mikillar heimspekigáfu mannkynið hefur í misst við ógæfu hennar. Frá þeim tíma þá er fleiri konum hefur verið unnt að sökkva sér niður í alvarlegar hugleiðingar, hefur frumleiki aldrei verið mögulegur með hæfilegum kostum. Allar þær hugsanir, er öðlast má eingöngu fyrir krapt meðfæddra hæfilegleika, eru fyrir löngu fengnar, og frumleik í orðsins æðri merkingu er nú naumast nokkru sinni unnt að öðlast, nema fyrir þá andans menn, sem hafa leitað sér undirbúningsmenntunar með erfiðismunum, og sem þekkja til hlítar niðurstöðu hugleiðinga þeirra, er á undan hafa farið. Það er, að því er eg ætla, Maurice, sem hefur getið þess, að hinir frumlegustu hugsanskörungar séu nú á dögum þeir, sem bezt og vandlegast hafi þekkt hugmyndir fyrirrennara sinna og framvegis mun það ætíð verða þannig. Hvern steinn á bygginguna verður nú að setja ofan á svo marga aðra, að langur tími hlýtur að ganga til þess að klifra upp og hefja upp byggiefnið fyrir sérhvern þann, er vil taka þátt í verkinu á hinu núverandi þroskastigi. Hversu margar konur skyldu það vera, sem hafa getað komið slíkri aðferð við? Frú Sommerville er nú á tímum ef til vill sú eina kona, sem kann svo mikið í stærðfræði, sem út heimtist til þess að gera merka, stærðfræðislega uppgötvun. Er það nokkur sönnun fyrir minni hæfileikum konunnar að hún hefur ekki borið auðnu til, að vera ein af þeim tveim eða þrem persónum, sem um hennar æfidaga hafa gert nafn sitt frægt fyrir einhverja eptirtektaverða framför í vísindunum? Síðan ríkishagfræðin varð að vísindagrein, hafa alls tvær konur haft næga þekkingu á henni til þess að gefa út nytsöm rit um viðfangsefni hennar; um hve marga af hinum ótallegu rithöfundum af karlmönnum, er á sama tíma hafa ritað um hana, er unnt að segja meira, og halla þó eigi á sannleikanum? Hafi engin kona enn verið mikill sagnfræðingur, hvaða kona hefur þá haft nauðsynlegan lærdóm til þess að verða það? Sé engin kona mikill málfræðingur, hvaða kona hefur þá numið sanskrít, slavnesku, gotnesku í Ulfilas eða persnesku í Zend-Avesta? Jafnvel í praktiskum málefnum vitum vér allir, hversu lítið fáfróðir vitmenn hafa að þýða. Þeir uppgötva af nýju fyrsta grundvöllinn til þess, sem þegar fyrir löngu hefur verið uppgötvað og fullkomnað af fjölda fundningsmanna. Þegar konur fyrst hafa notið þeirrar undirstöðufræðslu, sem sérhver karlmaður verður nú að hafa til þess að geta verið frumlegur í ströngum skilningi orðsins, þá er tíminn kominn til þess af reynslu að dæma um hæfileika þeirra til frumleika. Án efa ber það opt við, að manni, sem eigi hefur með kostgæfni eða að neinu leyti til hlítar kynnt sér hugmyndir annara um eitthvert málefni, hugkvæmist ýmislegt nýtt af náttúrlegri skarpgreind, sem hann getur leitt í ljós, en ekki sannað, en þó getur það, er það nær þroska, aukið talsverðu við mannlega þekkingu. En jafnvel í þessu tilfelli er eigi unnt að færa sér slíkt í nyt eður láta það njóta réttar síns fyr en aðrir, sem hafa fengið nauðsynlega frumþekkingu, taka það fyrir, rannsaka það og setja á það vísindalegt eður raunhæft snið og skipa því sinn sess meðal sanninda þeirra, er heimspekin og náttúruvísindin hafa orðið að njótandi. Er það ætlun manna, að konur hafi eigi slíkar góðar hugmyndir. Sérhver gáfuð kona hefur þær svo hundruðum skiptir. En þær glatast að mestu sökum þess að þær vantar eiginmann eða vin, sem hefur til að bera aðra þekkingu, sem eingöngu veldur því, að hugmyndir þessar geti orðið metnar, og komist fyrir almenningssjónir, og jafnvel þótt þannig fari, eru þær almennt taldar hans hugmyndir. Enginn getur sagt, hve margar af hinum frumlegustu hugsunum, sem rithöfundar af karlkyni hafa komið fram með, eru konum að þakka, og á rithöfundurinn eigi aðra hlutdeild í þeim en þá, að hann hefur reynt þær og gefið þeim meiri víðáttu. Ef eg má dæma eptir eigin reynslu, er mörgum hugmyndum þannig varið. — Ef vér nú snúum oss frá hreinni hugsan að bókmenntum í þrengra skilningi, þá liggur mjög nærri ástæðan til þess, að kvenna-bókmenntirnar eru eptirlíking af ritsmíðum karlmanna í grundvallarskoðunum og aðalblæ. Hvers vegna voru rómversku bókmenntirnar eptirlíking af grísku bókmenntunum í stað þess að vera frumlegar, eins og ritdómendur hafa svo opt sagt oss frá? Hreint og beint þess vegna að Grikkir voru fyrri. Ef konur hefðu lifað í öðru landi en karlmenn og hefðu aldrei lesið nein rit þeirra, mundu þær hafa bókmenntir fyrir sig. Nú hafa þær ekki skapað neinar bókmenntir, af því að þær fundu þegar fyrir sér þroskaðar bókmenntir. Ef þekkingin til fornlistarinnar hefði staðið óhögguð, eða ef endurfæðingar-tímabilið hefði runnið upp áður en gotnesku kirkjurnar voru byggðar, mundu menn aldrei hafa byggt þær. Vér sjáum að eptirlíking fornaldarbókmenntanna í Ítalíu og Frakklandi dró skyndilega úr hinum frumlega þroska, er þegar var byrjaður. Allar konur, sem rita, hafa lært af miklum rithöfundum af karlkyni. Fyrstu verk málara, þótt hann væri Rafael sjálfur, er eigi auðið að þekkja frá verkum kennara hans að sniðinu til. Jafnvel Mozart birti eigi í fyrstu verkum sínum hinn volduga frumleik sinn. Þar sem þurfa ár til fyrir velgáfaðan einstakling, þá útheimtast heilar kynslóðir fyrir fjöldann. Ef ritsmíði kvenna sem heild er ákvörðuð til þess að bera á sér annað snið en ritsmíði karlmanna, sökum einhvers mismunar í náttúrlegum tilfinningum þeirra, þá er nauðsyn á miklu lengri tíma en liðinn er, til þess að þær geti firrst áhrif fyrirmynda þeirra, er þegar eru til, og farið sína leið eptir eigin hvötum. En þótt það, að því er eg hygg, muni koma í ljós, að eigi sé nein náttúrleg tilhneiging, sem sé sameiginleg konum og greini anda þeirra frá anda karlmanna, þá mun engu að síður hver einstök kona, sem ritar, hafa sína sérkennilegu tilhneigingu, sem á vorum tímum er niðurbæld af venjum og fyrirmyndum. Það munu hverfa margar kynslóðir, áður en sérkennileiki kvenna hefur náð nægilegum þroska, til þess að spyrna á móti þessum áhrifum. — Það er í fögrum listum í eiginlegum skilningi, að sönnun sú fyrir minni frumlegum eiginlegleikum hjá konum, sem er auðsæ í fyrsta áliti, virðist vera öflugust, þar sem almenningsálitið, (að því er sagt er) útilykur þær eigi frá þessum listum, heldur öllu fremur örfar þær til þess að gefa sig við þeim og þar sem uppeldi þeirra, einkum meðal ríkari stéttanna, er næstum eingöngu helgað þessu starfsviði. Samt komast konur í þessari grein fremur en í mörgum öðrum greinum skammt í samanburði við hin mestu fullkomnunarstig, er karlmenn hafa náð. Þessum vanefnum til skýringar þarf samt eigi að bera fyrir aðra ástæðu, en hinn velþekkta sannleik, sem hefur enn meiri þýðingu í fögrum listum en annars, að þeir, sem iðka greinina, standa langt um framar en þeir, sem fást við hana að gamni sínu. Næstum allar konur af æðri stéttunum fá meiri eða minni tilsögn í einhverri af hinum fögru listum, þó eigi líkt því svo djúptæka tilsögn, að þær geti lifað af því, eða náð í stöðu í mannfélaginu. Listiðkendur af kvennkyni iðka listirnar að gamni sínu. Undantekningarnar eru þeirrar tegundar, að þær styrkja hinn almenna sannleik, sem í þessu er fólginn. Konur læra sönglist, en ekki til þess að búa til lög, heldur að eins til þess að æfa hana. Hin eina af fögrum listum, er konur iðka sem atvinnuveg og aðalstarf, er sjónleiksíþróttin, og í henni eru þær jafningjar karlmanna, ef þær standa þeim ekki framar. Til þess að vera réttlátur í samanburðinum, yrði að jafna saman íþrótt-smíðum kvenna, og íþrótt-smíðum þeirra karlmanna, sem eigi hafa gert íþróttina að lífsiðn sinni. Hvað sönglagasmíði snertir hafa t. d. konur vafalaust látið eptir sig liggja jafn-góð verk eins og þeir af karlmönnum, er fengist hafa við slíkt að gamni sínu. Það eru nú á tímum fáar konur, já, mjög fáar, sem gera málaraíþróttina að lífsiðn sinni, en þessar konur sýna allt það listhæfi, sem vænta mátti. Jafnvel karlmenn hafa (með virðingu fyrir hinum fræga fagurfræðing vorum Jóni Ruskins) eigi á þessum síðustu öldum gert neina mannsmynd, sem telja megi í fyrstu röð, og þess mun lengi að bíða, að þeir geri það að nýju. Orsökin til þess að gömlu málararnir báru svo mjög af nútímamálurunum, er sú, að svo mikill sægur stórgáfaðra manna fékkst þá við málara-íþróttina. Á fjórtándu og fimmtándu öldinni voru ítalskir málarar hinir fullkomnustu menn á sínum tíma. Hinir mestu af þeim voru menn með hinni víðtækustu þekkingu og hæfilegleikum, sem afbragðsmenn Grikklands. En á þeim tímum voru hinar fögru listir í augum þjóðarinnar hið virðulegasta, sem auðið var að verða frábær í; þær veittu iðkendum sínum þann heiður, sem nú á tímum að eins hernaður og stjórnkænska megnar að afla mönnum, gerðu þá að vildustu kunningjum konunga og að jafningjum æztu aðalsmanna. Nú á tímum hafa þannig gerðir menn annað mikilvægara starf af hendi að leysa sér til heiðurs og nútímamönnum til gagns en að mála, og það er að eins endrum og sinnum að menn eins og Reynolds og Turner helga líf sitt íþróttinni (en eigi geri eg kröfur til þess, að dæma um hinn tilfærilega sess, er þessir menn skipa meðal mikilla listamanna). Sönglistin er íþróttagrein mjög ólík þessum listum, hún útheimtir eigi sama almenna andakrapt, en virðist fremur háð sérstökum eðlisgáfum, og það getur því virzt, sem það gegni furðu, að enginn af miklum sönglagasmiðum hefur verið kona. En jafnvel þessar eðlisgáfur útheimta, til þess að geta orðið að nægu liði við stór verk, nám, sem verður að verja til allri æfinni. Hin einu lönd, sem átt hafa frábæra lagsmiði, er Þýzkaland og Ítalía; eru það lönd, þar sem konur bæði með tilliti til almennrar og sérstakrar menntunar hafa staðið langt að baki konum á Englandi og Frakklandi, því að þær fá almennt (og eru það engar ýkjur) mjög lítilfjörlegt uppeldi og glæða yfir höfuð naumast neinn af andans æðri hæfilegleikum. Í þessum löndum skiptir tala þeirra karlmanna hundruðum, meira að segja að líkindum þúsundum, sem þekkja grundvallarreglur sönglagasmíðinnar, en tala kvenmanna, sem þekkja þær, ekki nema tugum, svo að hér verður aptur að réttu hlutfalli eigi búizt við að finna meira en eina frábæra konu af hverjum fimmtíu frábærum mönnum, og á þremur síðustu öldunum hafa eigi verið meir en fimmtíu miklir sönglagasmiðir, hvorki á Þýzkalandi eða Ítalíu. Það eru til aðrar ástæður en þær, er nú hafa verið taldar, sem stuðla að því að skýra það, hvers vegna konur standa karlmönnum að baki, jafnvel í þeim störfum, sem standa opin bæði körlum og konum. Í fyrsta lagi hafa mjög fáar konur tíma til þeirra. Þetta getur virzt gagnstætt reynslunni; það er vafalaust raunhæfi í mannfélaginu. Fremur öllu öðru þarf sérhver kona að verja tíma til ýmissa praktiskra smásýslana og ljá þeim rúm í anda sínum. Heimilisstjórnin, umhyggjan fyrir útgjöldum heimilisins fær að minnsta kosti einni konu á hverju heimili nóg að starfa, venjulega þeirri, sem hefur öðlazt andlegan þroska og aflað sér nokkurrar reynslu, nema því að eins að heimilið sé nógu ríkt, til þess að geta falið slíkt einhverju hjúanna og staðizt þá sóun og þau vandræði, sem í þessu tilfelli er óaðgreinanlegt frá búsýslunni. Heimilisstjórnin er, jafnvel þótt hún útheimti eigi mikla vinnu, ærið örðug fyrir andann; hún útheimtir stöðuga aðgæzlu, auga, sem eigi dylst neitt, og leggur hún hvern dag og hverja klukkustund fyrir menn fyrir séðar og ófyrirséðar spurningar til rannsóknar og úrlausnar, og getur sá, sem úrlausnar-ábyrgðin hvílir á, naumlega hrakið þær burt úr huga sér. Þegar kona er af þeirri stétt eða í þeirri stöðu, að henni leyfist að hliðra sér hjá þessum skyldum, er það þó enn hlutverk hennar, að sjá um samband alls heimilisins við aðra út í frá og samfélag þess við þá: í stuttu máli, það sem kallað er samkvæmislífið. Því minni tíma sem hún þarf að verja til hinna skyldnanna, því meiri tíma ver hún til þessa. Miðdegissamsæti, samsöngva, kvöldsamsæti, árdegis-heimsóknir, bréfritanir má telja meðal þessa. Og með öllu þessu hefur enn eigi verið talin hin æzta skylda, sem mannfélagið eingöngu leggur konunni á herðar, er það sú: að vera elskuverð. Gáfuð kona af æðri stéttunum þarf næstum á öllum sálargáfum sínum að halda til þess að öðlast yndislegt viðmót og halda því og til þess að iðka viðræðuíþróttina. Og ef vér lítum á ytri hlið málsins, þá hlyti eingöngu hið mikla og stöðuga sálarafl, er allar konur, er meta mikils að klæðast fagurlega (eg tala eigi um þær, sem klæðast prjállega, heldur um þær, sem klæðast smekkvíslega, og bera skyn á hvað eðlilegt er og á við samkvæmt venjunni) — þá hlyti það sálarafl, sem allar þessar konur verða að beita við búning sinn og stundum við búning dætra sinna að hafa getað komið þeim góðan spöl áleiðis til þess að ná allmiklum framförum í íþróttum, vísindum eða bókmenntum, ef þær hefðu eigi eytt þessu sálarafli til ónýtis með því að leita að svo miklu lítilfjörlegra marki[* Það virðist vera sami sálarhæfilegleiki, er veldur því, að menn geta fundið upp og öðlazt hugmyndina um það, hvað er fagurt eða rétt hvað snertir skraut og æðri verkefni íþróttarinnar. Það er sama fullkomnunarhugmyndin, en að eins beitt á minna starfsviði. Tökum sem dæmi sundurgerð í fatasniði, þar sem þó er viðurkennt, að sé til góður og slæmur smekkur. Stærð hverrar einstakrar flíkur breytist, en samt er aðalsniðið hið sama; það er stöðugt sama flíkin með tilfærilega fastri fyrirmynd, samkvæmt vissu augnamiði við þessa fyrirmynd er sundurgerðin neydd að styðjast. Þeim sem bezt tekst að finna slíkt upp eða klæðir sig með mestri smekkvísi, hann mundi að líkindum, ef hann hefði helgað þýðingarmeira viðfangsefni sömu skarpgreind, hafa sýnt jafnt listfengi eða öðlazt sama ágæta fegurðarsmekk í miklu meiri mæli. (Sir Josuha Reynolds' Discourses, Disc. VII.).]. Til þess að það væri unnt, að þær af þessari mergð af smásýslunum, sem hafa verið gerðar stórar fyrir þær, hefðu afgangs annaðhvort miklar tómstundir eða nægilegt þrek og sálarfrelsi til þess að iðka vísindi og listir, yrðu þær að hafa yfir að ráða miklu meiri upphaflegum framkvæmdar-þrótt en mestur þorri karlmanna. En ekki er nóg með þetta. Þótt vér sleppum hinum reglulegu skyldum, sem hvíla á konunni, þá er búizt við því og heimtað af henni, að sérhver maður skuli sífellt hafa yfir hæfilegleikum hennar að ráða. Ef karlmaður hefur eigi einhverja lífsstöðu, sem tryggir hann gegn þess konar kröfum, en hefur að eins eitthvert verk að inna af hendi, þá styggir hann engan, þótt hann verji til þess öllum tíma sínum. Eru sýslanir konunnar, einkum þær, sem hún kýs af frjálsum vilja og af löngun, skoðaðar sem afsökun, sem gefur henni lausn frá því, sem kallað er kröfur samsætislífsins? Naumast hinar nauðsynlegustu og mest viðurkenndu skyldur hennar losa hana við þessar kröfur. Það útheimtist hvorki meira né minna en sjúkdómur á heimilinu eða slík fágæt atvik, til þess að henni leyfist að láta sín eigin málefni sitja fyrir annara skemmtun. Ef hún fæst við eitthvert nám eða iðn, verður hún að stelast í slíkt stund og stund. Fræg kona getur þess í bók, sem eg vona að komi fyrir almenningssjónir, að allt það sem konan fái gert, geri hún á þeim tíma, sem eigi sé talinn með. Er það þá furða þótt hún nái eigi æzta sessi í þeim efnum, sem útheimta stöðuga athygli og aðaláhuga lífsins á þeim? Þannig er heimspekinni varið og fremur öllu listunum, þar sem eigi að eins hugsanir og tilfinningar verða að helgast viðfangsefninu, heldur verður og sífellt að æfa hendina, ef ná á mikilli leikni í íþróttinni. — Eitt kemur enn til skoðunar. Í hverri einstakri íþrótt og andlegu starfi þarf að ná vissu fullkomnunarstigi, til þess að geta lifað af þeim, og á enn æðra fullkomnunarstig verður að komast til þess að láta eptir sig liggja mikil verk, sem afla ódauðlegs orðstírs. Allir þeir, sem gera greinina að lífsiðn sinni, láta leiðast af einhverri nægilegri hvöt til þess að ná fyrra stiginu; síðara stiginu nær naumast nokkur, sem hefur eigi einhvern kafla æfi sinnar haft löngun til að ávinna sér frægð. Almennt útheimtist eigi minna en þessi hvöt til þess að koma hlutaðeiganda til að þola langt og strangt erfiði, sem jafnvel mestu gáfumenn að upplagi skilmálalaust verða að leggja á sig, ef þeir vilja öðlast háan sess í þeim íþróttagreinum, þar sem vér eigum þegar svo margar fagrar menjar um hina mestu afbragðsmenn og eptir þá. Hvort sem nú orsökin er eðlileg eða tillöguð, þá hafa konur sjaldan þessa fýsn til þess að geta sér orðróm. Veggirni þeirra er almennt einskorðuð innan þrengri takmarka. Áhrif þau, er þær æskja eptir, eru áhrifin á nánustu samvistarmenn þeirra. Löngun þeirra er í því fólgin að verða vinsælar, elskaðar og dáðar af þeim, sem þær líta daglega og þær eru næstum ávallt ánægðar með það sæti í þekkingu, íþróttum og náttúrugáfum, sem er nægilegt til þess. Þetta er lundernis einkenni, sem eigi má sneiða hjá, þegar dæmt er um konur, eins og þær eru nú. Eg hygg öldungis eigi, að þetta sé sprottið af eðlisfari þeirra. Það er að eins eðlileg afleiðing af lífshlutföllum þeirra. Ástin til orðstírs verður örfuð hjá karlmanninum við uppeldið og almennings-álitið. „Að hafna skemmtunum og lifa starfsömu lífi“ heiðursins vegna, það er, eptir því sem sagt er, hlutverk „veglyndra hjartna“, jafnvel þótt veggirnin sé jafnframt talin sem hinn „síðasti brestur“ þeirra, og til þessa knýst karlmaðurinn af því, að frægðin gerir honum unnt að ná í sérhvert takmark veggirni hans, og þar á meðal í hylli kvenna, en konum er bannað að keppa að slíku, og sjálf frægðarlöngunin er hjá þeim skoðuð sem ókvenleg. Hvernig ætti líka öðruvísi að fara, en að allar hugðir kvenna beindust að þeim áhrifum, sem þeir hafa á þær, er þær sjá daglega, þar sem mannfélagið hefur skipað svo fyrir, að allar skyldur þeirra eigi að vera skyldur gagnvart þessum mönnum og öll gæfa þeirra sé háð þeim? Hin eðlilega löngun til að vera virtur af samvistarmönnum sínum er eins sterk hjá konum eins og karlmönnum; en mannfélagið hefur gert þá niðurröðun, að í öllum almennum tilfellum getur konan að eins öðlazt virðingu með aðstoð bónda síns eða kunningja sinna af karlkyni, en eigin virðingu sinni hefur hún fyrirgert um leið og hún lætur bera mikið á sjálfri sér eða kemur fram öðruvísi en sem fylgja karlmanna. Sá sem er minnstu ögn fær um að dæma um þau áhrif, sem staða mannsins á heimilinu eður í mannfélaginu og enn fremur allar venjur lífsins hafa á hann, mun eiga hægt með að skýra fyrir sér allan þann andlega mismun, er virðist vera á konum og körlum og meðal þess þann mismun, sem skoðaður er sem vanefni, á hvern hátt sem er. — Hvað snertir siðferðislega eiginlegleika gagnstætt sálarhæfilegleikum, er almennt álitið, að konan standi þar framar en karlmaðurinn. Það er sagt, að hún sé betri en karlmaðurinn; þetta eru tómir gullhamrar og hlýtur að vekja kuldabros hjá hverri nýtri konu, þar sem hvergi annarstaðar í lífinu er þannig ástatt, að það sé föst niðurskipun og talið sem öldungis eðlilegt og hæfilegt, að hinn betri hlýði hinum verri. Ef þetta heimsku-hjal hefur nokkra þýðingu, þá er það einungis sem viðurkenning frá hlið karlmannanna um spillingar-mátt valdsins; því þetta er vissulega hinn eini sannleiki, sem þetta raunhæfi, sé það annars raunhæfi, sannar eða skýrir. Satt er það og, að ánauð, sljófgi hún eigi menn og geri þá að dýrum, (þótt hún sé skaðleg báðum málsaðilum) er þó að minnsta kosti síður skaðleg þrælnum, en þræleigandanum. Það er gagnlegra fyrir andann að vera kúgaður jafnvel af gerræðisvaldi, en að fá sjálfur leyfi til að beita gerræðisvaldi hindrunarlaust. Það er mælt að sjaldan komi það fyrir, að konur verði fyrir hegningarlaga-refsingu, og að nöfn þeirra standi eigi eins opt á glæpamannalistanum eins og nöfn karlmanna. Eg efast eigi um að hið sama verði sagt með sanni um svertingjaþrælana. Þeir, sem lúta valdi annara, geta eigi opt drýgt glæpi, nema það sé eptir skipun yfirmanna þeirra og í þjónustu þeirra. Átakanlegra dæmi en þessa heimskulegu niðrun á sálarhæfilegleikum kvenna og þetta hégómlega hól um siðferðiseðli þeirra, þekki eg eigi, til þess að sýna þá blindun hjá heiminum — eg undanskil hér eigi alla hjörð lærða manna — þar sem hann læzt eigi þekkja áhrif hinna ýmsu hlutfalla í mannfélaginu, og lætur sér yfirsjást í slíku. Hól það, sem borið er á konur fyrir það, að þær séu betri en karlmenn, vegur létt upp á móti ámæli því, er borið er á þær fyrir það, að þær séu hneigðari til hlutdrægni en þeir. Það er sagt, að konur megni eigi að bugast á þeirri tilfinningu að taka meiru persónulegu ástfóstri við eitt en annað, að dómur þeirra í alvarlegum málefnum sé rangfærður af meðlíðan þeirra eða óbeit. — Setjum svo, að þessu sé þannig varið, þá verður enn að færa sönnun fyrir því, að konur láti optar leiðast afvega af persónulegum tilfinningum sínum, en karlmenn af persónulegum hugðum sínum, Aðalmunurinn á þessu mundi þá vera sá, að karlmaðurinn lætur leiðast frá skyldum sínum og frá almenningsheillunum af sjálfsumhyggju, en konan hins vegar, þar sem henni er eigi leyft að hafa neinar eigin hugðir, af umhyggju fyrir öðrum. Það verður þá einnig að íhuga, að allt uppeldið, sem mannfélagið veitir konum, innrætir þeim þá tilfinningu, að þeir einstaklingar, sem þær eru tengdar, séu hinir einu, sem þær hafi nokkra skyldu við að rækja, hinir einu, sem þær eigi að láta sér annt um, en hins vegar firrir uppeldið þær algerlega allri þekkingu á hinum frumlegustu hugmyndum, sem menn verða að öðlast til þess að geta haft skilning á hinum mikilvægu hugðum og æðri andlegum keppimiðum. Sakargiptin móti þeim nær þá eigi lengra en að þessu eina atriði, að þær rækja allt of trúlega hina einu skyldu, sem þeim hefur verið kennd og næstum hina einu, sem þeim er leyft að rækja. — Þær tilslakanir, sem rétthafar gera hinum réttlausu, eru svo sjaldan sprottnar af annari ástæðu en valdi hinna réttlausu til þess að ná þeim með ofríki, að líklega mun engin rökleiðsla gegn forréttindum annars kynsins vekja nokkra almenna eptirtekt, meðan menn geta friðað sjálfa sig með því að konurnar kvarti eigi. Að vísu leyfir þetta viðgengi karlmönnum að halda nokkru lengur ranglátum forréttindum, en gerir þau eigi síður ranglát. Öldungis hið sama má segja um konur í kvennabúrum Austurlanda; þær barma sér ekki yfir að þær njóta eigi sama frelsis og Norðurálfu-kvenfólk. Þeim þykir vort kvenfólk óbærilega óskammfeilið og ókvenlegt. Hversu fágætt er það ekki, að jafnvel karlmenn beri sig upp undan hinu almenna ásigkomulagi í mannfélaginu, og hversu fágætari mundu eigi þessar umkvartanir vera, ef karlmönnunum væri ókunnugt um, að annarstaðar er betur ásatt. Konur kvarta eigi yfir almennum kjörum kvenna; eða réttara sagt, þær kvarta yfir þeim; því að raunakvæði eru almenn í ritum kvenna og voru enn algengari, meðan enginn grunur lék á því, að þessar harmatölur miðuðu að verulegri breytingu. Umkvartanir þeirra líkjast umkvörtunum karlmanna yfir mannlífinu í heild sinni; áformið með þeim er ekki að láta aðfinningar í ljósi eða að krefjast umbóta. En jafnvel þótt konur beri sig eigi upp undan valdi bænda sinna, þá ber þó sérhver kona sig upp undan manni sínum eða mönnum vinkvenna sinna. Þannig er því og varið í hverju öðrum ánauðarástandi að minnsta kosti við lausnarbyrjun. Ófrjálsir menn börmuðu sér í fyrstu eigi yfir valdi yfirmanna sinna, en að eins yfir harðstjörn þeirra. Neðri málstofan heimtaði í fyrstu fáein borgar-einkaréttindi, seinna krafðist hún þess að verða undanskilin öllum þeim sköttum, sem hún hefði eigi samþykkt sjálf; en jafnvel á þeim tíma mundi hún hafa talið það mestu óhæfu að krefjast nokkurrar hlutdeildar í einveldi konungs. Kvennamálið er hið eina atriði, þar sem mótspyrna móti hinum gildandi reglum er enn skoðuð eins og fyrrum heimildarkrafa þegns til þess að gera uppreisn móti konungi sínum. Kona, sem tekur þátt í nokkurri hreifingu, sem bónda hennar geðjast eigi að, verður píslarvottur, en getur einu sinni eigi orðið postuli, því maðurinn getur fljótlega og með fylgi laganna gert enda á postulatign hennar. Þess má eigi vænta, að konur vilji fórna sjálfum sér fyrir frelsisgjöf kvenna, fyr en allmargir karlmenn eru búnir til þess að vinna með þeim að fyrirtæki þeirra. IV. KAFLI. EITT atriði er eptir og það er eigi síður mikilvægt en þau, sem vér höfum þegar rætt, og munu þeir andmælismenn, sem finnst sannfæringu sinni lítið eitt haggað hvað snertir aðalatriðið, bera það fram með mestum ákafa. Hvers góðs megum vér vænta af þeim breytingum, er stungið er upp á í venjum vorum og fyrirkomulagi? Mundi mannkyninu vegna betur ef kvenfólkið væri frjálst? Ef eigi, hvers vegna á þá að vera að æsa þær og reyna til að gera mannfélagsróstu í nafni sérstaks rjettar? Það verður vart ætlað að þetta atriði verði borið fram, þegar er að ræða um þá breytingu, sem farið er fram á í hjúskaparstöðu kvenna. Þær þjáningar, það siðleysi, þau mein af öllu tagi, sem í ótölulegum tilfellum er afleiðingin af undirgefni hverrar einstakrar konu undir einstakan mann, er er allt of ógurlegt til þess að mönnum sjáist yfir slíkt. Menn, sem eigi hugsa, eða menn, sem eru óærlegir, geta, ef þeir að eins telja saman þau tilfelli, þar sem óhamingjan sést ljósast eða verður opinber, sagt, að meinin séu undantekningar; en enginn getur verið blindur fyrir því, að þau eiga sér stað og eru voðaleg í mörgum tilfellum, og það er fullkomlega auðsætt, að eigi er hægt að koma í veg fyrir ranga meðferð hjúskaparvaldsins meðan þetta vald er til. Það er vald, sem gefið er eða boðið eigi að eins góðum mönnum eða almennt heiðarlegum mönnum, heldur öllum karlmönnum, mestu dónum og stórglæpamönnum. — Á þeim hvílir ekkert band, nema það, sem almenningsskoðunin leggur á, og þess konar menn fylgja almennt í þessu efni engri annari skoðun en sinni eigin og jafningja þeirra. Ef slíkir menn beittu eigi grimmri harðstjórn við hina einu mannlegu veru, sem lögin þvinga til að þola allt af þeim, hlyti mannfélagið þegar að vera komið í sælufult ástand. — Það mundi eigi lengur vera þörf á lögum til þess að leggja bönd á hinar illu tilhneigingar manna. Réttlætisgyðjan hlyti eigi að eins að vera komin aptur til jarðarinnar, heldur yrði hjarta hins versta manns að vera musteri hennar. Lögin um ánauð í hjónabandinu eru afarmikil mótsögn mót öllum grundvallarreglum heimsins nú á dögum og mót allri þeirri reynslu, sem þessar grundvallarreglur hafa seint og erfiðlega verið leiddar út af. Þetta er hið eina tilfelli, nú þegar svertingjaþrælkunin er af numin, þar sem mannleg vera með óskertum hæfilegleikum er ofurseld annari mannlegri veru upp á von og óvon, ef vera kynni að þessi síðarnefnda mannlega vera neytti valds síns hinni undirgefnu til góðs. Hjónabandið er hin eina verulega ánauð, er lög vor viðurkenna. Eptir lögunum er eigi framar neinn þræll til nema húsfreyjan á hverju heimili. Það er því eigi líklegt að neinn, hvað þennan hluta umræðuefnis vors snertir, muni spyrja, að hverju gagni breyting mundi koma. Menn kynnu að vilja segja, að hinar illu afleiðingar breytingarinnar mundu vega móti hinum góðu, að hinar góðu afleiðingar séu verandlegar, getur eigi verið bundið efa. Hvað snertir hið víðtækara atriði: afnám á útilokun kvenna frá atvinnuvegum karlmanna, viðurkenning á jöfnuði milli þeirra og karlmanna í öllu, sem heyrir til borgararéttinda, og uppeldi, sem gerir þær hæfar til þessara sýslana, þá eru margir þeir, sem þykir það eigi nóg, að jafnaðarleysið byggist eigi á neinum réttvísum eða gildum grundvelli; þeir vilja, að þeim sé sagt, hver hagnaður mundi af því hljótast að afnema hann. Eg svara þessu fyrst því: sá hagnaður, að koma réttvísu skipulagi á hið algengasta og gagntækasta af öllum mannlegum hlutföllum í stað óréttvíss. Þann geysimikla ávinning, sem af þessu leiðir fyrir mannkynið, er naumast unnt að gera átakanlegri með nokkurri skýringu eða nokkru dæmi, en einmitt með þessari yfirlýsingu fyrir hvern þann, sem lætur siðferðislega skoðun fylgja máli. Allar síngirnis-tilfinningar, sjálfstilbeiðslan og óréttvís sérdrægni, sem nú ríkja hjá mannkyninu, hafa upphaf og rót sína að rekja til hinnar núverandi tilhögunar á hlutfallinn milli manns og konu og sjúga aðalnæringu sína frá því. Hugleið það, hverja þýðingu það hefur fyrir dreng að alast til fullorðinsaldurs upp í þeirri trú, að þótt hann sjálfur vinni eigi neitt til þess, þótt hann sjálfur fái engu afrekað, meira að segja, þótt hann sé hið vesalasta og atkvæðaminnsta eða hið heimskasta og fáfróðasta eintak af manni, þá er hann þó samkvæmt fæðingunni einni yfir helming mannkynsins gefinn undantekningarlaust, þótt þar á meðal séu ef til vill ýmsir, er hann hvern dag og hverja stund finnur að hafa í raun réttri yfirburði yfir hann. Jafnvel þótt hann í öllu framferði sínu láti sífellt stjórna sér af konu, þá hugsar hann þó, sé hann auli, að hún sé eigi og geti eigi verið honum jöfn að gáfum og dæmigreind; og sé hann eigi auli, gerir hann það sem verra er, hann sér, að hún hefur yfirburði yfir hann, en hyggur, að þrátt fyrir yfirburði hennar, þá hafi hann þó heimild til þess að skipa og hún sé skyldug til þess að hlýða. Hver áhrif hlýtur þá þessi lærdómsgrein að hafa á hugarfar hans. Menntaða menn órar opt eigi fyrir því, hversu mjög hún er rótgróin í hugsunarhætti alls þorra karlmanna, því að meðal rétthyggjandi og heiðarlegra manna kemur jafnaðarleysið eins lítið til greina og unnt er, einkum eru börn eigi látin taka það til greina. Það er heimtuð eins mikil hlýðni af drengjum við móðurina eins og við föðurinn; þeim leyfist eigi að sýna systrum sínum ójöfnuð, eigi venjast þeir heldur við að sjá þær settar hjá, heldur öllu fremur hið gagnstæða, það er reynt að glæða hjá þeim riddaralegar tilfinningar, þar sem látið er bera minna á þeim ánauðarhlutföllum, sem gera þessar tilfinningar nauðsynlegar. Ungir vel uppaldir menn af æðri stéttum komast þannig opt á fyrstu árum sínum hjá hinum illu áhrifum ástandsins, en verða fyrst fyrir þessum áhrifum, þegar þeir hafa náð fullorðinsaldri og koma inn í hið verulega líf. Slíkir menn hafa þá eigi skímu um, hversu snemma drottnunar-hugmyndin kviknar hjá öðruvísi uppöldum dreng, hvernig hún vex, eptir því sem honum aukast kraptar, hvernig hver skólasveinn innrætir hana öðrum, hversu snemma unglingurinn tekur að álíta sig yfir móður sinni og hyggur, að hann sé ef til vill skyldugur til þess að taka tillit til hennar, en eigi til þess að sýna henni verulega virðingu, og hversu þóttafulla og stórbokkalega tilfinningu fyrir drottnunarvaldi sínu hann hefur þá gagnvart þeirri konu, sem hann veitir þá sæmd, að taka þátt í lífskjörum sínum. Ímynda menn sér, að allt þetta gerspilli eigi karlmanninum að öllu leyti bæði sem einstakling og borgara? Þessi tilfinning samsvarar algerlega tilfinningu erfðakonungs af því að vera fæddur konungur, eða tilfinningu tiginborins manns af því að vera fæddur aðalsmaður. Hlutfallið milli manns og eiginkonu líkist mjög hlutfallinu milli lénsdrottins og lénsþiggjanda að því undanskildu, að konan er skyldug til þess að sýna miklu takmarkalausari hlýðni en lénsþiggjandinn var. Hvort sem nú hugarfar lénsþiggjandans á þeim tímum varð betra eða verra við undirmannsstöðuna, þá sér hver, að hugarfar höfðingjans varð verra, þegar honum annaðhvort fannst, að lénsþiggjendur sínir væru í rauninni sér meiri, eða honum fannst hann settur yfir menn, sem voru honum jafnsnjallir, þótt hann sjálfur hefði ekkert til unnið eða fyrir haft, einungis, einsog Figaro segir, af því að hann hafði fyrir því að fæðast. Sjálfsaðdáun einvaldshöfðingjans eða lénshöfðingjans samsvarar algerlega sjálfsaðdáun karlmannsins. Það fer ekki hjá því, að menn verði þóttafullir, þegar þeir frá bernsku hafa á hendi forréttindi, sem þeir hafa eigi unnið til. Þeir af þeim, sem finna, að mannkostir þeirra samsvara eigi forréttindum þeirra, og auðmýkjast við þessa hugsun, eru eigi margir og má einungis leita þeirra meðal beztu manna. Hinir fyllast að eins hroka og versta hroka, þeim hroka sem byggist eigi á stórlæti yfir eigin gerðum, heldur á tilviljanlegum hlunnindum. Fremur öllu þegar tilfinningin fyrir því, að ráða yfir heilu kyni, er samfara persónulegu valdi yfir einstakri konu, þá læra að eins þeir, sem hafa samvizkusemi að aðaleinkenni í lunderni sínu, af þessu þá list, að sýna hugulsama og ástúðlega nærgætni, en fyrir aðra er þetta ástand sú vísindastofnun, sá háskóli, þar sem þeir læra að vera óbærilegir og yfirgangssamir, í stuttu máli, að láta þá lesti þróast, sem þeir ef til vill annars neyðast til að bæla niður, af því að þeir eru vissir um að þeir munu mæta mótspyrnu hjá öðrum mönnum, en beita þeim við þá, sem samkvæmt stöðu sinni eru skyldugir til, að þola þetta. - Opt hefna þeir sín þá á ófarsælli konu fyrir ósjalfviljuga þvingun, sem þeir hafa í einhverju atriði verið neyddir til þess að leggja á sig. Það dæmi og það uppeldi, sem tilfinningarnar öðlast við það, að heimilislífið byggist á hlutföllum, sem koma í bága við fyrstu grundvallarreglur mannfélagsréttvísinnar, hlýtur samkvæmt sjálfu eðli karlmannsins að hafa skaðleg áhrif. Tjónið er svo mikið, að oss er naumast unnt með núverandi reynslu vorri að ná svo langt með ímyndunarafli voru, að vér getum gert oss hugmynd um þau góðu umskipti, sem mundu komast á, ef jafnaðarleysinu væri rýmt burt. Það, sem uppeldi og menning gerir, til þess að eyða áhrifunum af rétti hins sterkara á lundernið og láta réttvísis-lögin bæta hann upp, mun eigi ná lengra en til yfirborðsins, meðan eigi er ráðið á vígi óvinarins. Frumregla nútímahreifinga í siðafræði og stjórnfræði er sú, að líferni mannsins og það eingöngu heimilar virðingu, og að það sem mennirnir gera, ekki hvað þeir eru, ræður því, hvort þeir komast í álit, og einkum að tilverknaðurinn, ekki fæðingin, er hið eina réttmæta skilyrði til að ná yfirráðum og völdum. Ef engin mannleg vera hefði neitt vald yfir annari fram yfir vissan tíma, þá mundi mannfélagið ekki eins og nú neyta krapta sinna til þess að glæða með annari hendinni þær tilhneigingar, sem það verður að aptra með hinni hendinni. Barninu mundi þá sannarlega, og það í fyrsta skipti eptir það að mannkynið varð til á jörðunni, verða í uppeldinu kenndur sá vegur, sem það ætti að ganga, og þegar það eltist, væri líkur til að það mundi eigi af honum víkja, En meðan réttur hins sterkara til að ráða yfir hinum minni máttar drottnar í sjálfu hjarta mannfélagsins, þá mun tilraunin til þess að gera jafnrétti hins minni máttar að frumreglu fyrir ytri gerðum mannfélagsins ávallt verða örðug barátta, því lögmál réttvísinnar, sem einnig er lögmál kristninnar, mun þá aldrei ná innstu tilfinningum mannlegra vera á vald sitt. Menn munu sporna við því, en að ytra áliti beygja sig fyrir því. Annar ávinningur, sem vænta má að leiði af því, ef konum er gefinn kostur á að neyta hæfilegleika sinna á frjálsan hátt, með því að setja þeim í sjálfsvald að velja lífsiðn sína og opna þeim sama starfsvið, sömu iðgjöld og upphvatningar, sem öðrum mannlegum verum, mun verða sá, að tvöfalda fjölda þeirra andlegu hæfilegleika, sem mannkynið hefur í þjónustu sinni. Þar sem nú er ein mannleg vera, sem hefur gáfur og köllun til þess að gera mannkyninu gagn og starfa að almennum framförum, sem opinber kennari eða rækjandi eitthvert pólitiskt eða mannfélagslegt embætti, þar munu þá líkindi til að verði tvær. Andlegar gáfur, hverrar tegundar sem eru, eru nú sem stendur svo miklu minni að vöxtunum til heldur en um er sótt; það er svo mikil ekla á mannlegum verum, sem megna að leysa frábærlega af hendi hvað eina það, sem nokkra snilli útheimtir, að það tjón er mjög tilfinnanlegt, sem heimurinn bíður við það, að sneiða sig notkuninni af öðrum helmingi þeirra hæfilegleika, er hann á til. Satt er það, að þessi upphæð af anda-krapti eyðist ekki algerlega. Miklu af honum er varið og mundi, hvernig sem færi, verða varið til heimilisstjórnar og annara hinna fáu starfa, sem konur eiga kosta á, og hvað afganginn snertir, þá kemur hann í mörgum tilfellum óbeinlínis að notum, þar sem er í persónulegum áhrifum konu á karlmann. En þessi kraptur kemur að notum að eins að nokkru leyti og með undantekningum; yfirgripssvið hans er mjög þröngt, og ef annars vegar á að draga hann frá þeirri upphæð af nýjum kröptum, sem heiminum mundi aukast við það, að leysa úr dróma helming mannlegra vitsmuna, þá verður hinsvegar að leggja við gagnið, sem af því leiðir, að viðurkeppnin mundi knýja fram anda mannsins, eða til þess að komast ljósar að orði, af því að það mundi verða nauðsynlegt fyrir hann, að vinna til hins æzta sess, áður en hann næði í hann. Þessi mikla aukning í andakrapti kynslóðarinnar og í upphæð þeirri af vitsmunum, sem hún mundi hafa yfir að ráða til þess að rækja vel málefni sín, mundi að nokkru leyti fást við betra og fullkomnara andlegt uppeldi kvenna, sem þá mundi geta orðið alveg samferða uppeldi karlmannanna og gera konur færar um að skilja embættisstörf, stjórnfræði og vísindaleg viðfangsefni í eins miklum mæli og karlmenn, er gegndu sömu stöðu í mannfélaginu. Hinir fáu útvöldu jafnt af báðum kynjum, sem hefðu gáfur eigi að eins til þess að skilja, hvað aðrir hafa unnið eða hugsað, heldur til þess sjálfir að hugsa eða afreka eitthvað að mun, mundu þá í báðum kynjum hæglega eiga kost á að mennta og glæða hæfilegleika sína. En, hvað sem þessu líður, þá mundi eingöngu tálmunarrofið í sjálfu sér hafa hið mikilverðasta uppeldisvald. Einungis það, að fá rýmt burt þeirri hugmynd, að öll æðri viðfangsefni fyrir hugsun og framkvæmdir, öll þau málefni, sem snerta almennar og eigi að eins einstakra manna hugðir, að eins komi karlmönnum við, svo menn eigi að stía konum frá þeim, banna þeim beint að fást við flest þeirra, þola með fályndi að þær fáist við hið litla, sem þeim er liðið að gefa sig við — eingöngu meðvitundin, sem konan mundi þá hafa um að hún væri mannleg vera jafn-nýt og hver annar, hefði réttmæta heimild til að velja braut sína, væri þvinguð eða tilknúð af sömu ástæðum sem hver annar til þess að hafa áhuga á öllu, sem er áhugamál mannlegum verum, hefði réttmæta heimild til þess að leggja fram sinn skerf þegar er að gera um mannleg málefni, þar sem einstaklings-skoðunin hefur nokkra þýðingu, hvort sem hún nú æskti starfandi hlutdeildar í þeim eður eigi, — þetta eingöngu mundi hafa í för með sér geysimikla þróun á hæfilegleikum kvenna og um leið opna tilfinningum þeirra stærra sjónarsvið. Auk þess sem vér mundum sjá hina vaxandi upphæð af einstaklingsgáfum auka almenna velmegun (og listhæfis-upphæðin er vissulega eigi svo mikil, að vér getum verið án helmingsins af því, sem náttúran framleiðir) þá mundu konurnar fá fremur betri en beint meiri áhrif á almenna heild mannlegrar trúar og tilfinninga. Eg segi: fremur betri en meiri, því að konur hafa ætíð haft mikil áhrif á ásigkomulag opinberrar skoðunar eða hafa að minnsta kosti haft það frá fyrstu sagnatímum. Áhrif mæðra á aðalseiginmyndum barna þeirra og löngun ungra manna til að vinna hylli ungra kvenna hafa á öllum tímum verkað mjög á aðalseiginmyndunina og valdið nokkrum af hinum merkustu framförum menningarinnar. Þegar á tímum Hómers er sneypa gagnvart hinum „síðblæjuðu Trójukonum“ viðurkennd voldug starfahvöt Hektori hinum mikla. Siðleg áhrif kvenna hafa orðið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi hafa þau mýkt siðina. Þeim, sem hættast hefur verið við að láta stjórnast af grimmu ofurvaldi, þeir hafa náttúrlega leitast við eins og þeir hafa getað að takmarka umráðasvið þess og hægja frumhlaup þess. Þeim, sem eigi var kennt að neyta vopna, var samkvæmt eðli sínu kærara að útkljá misklíð á allan annan hátt fremur en að berjast. Að öllum jafnaði hafa þeir, sem þyngstum búsifjum hafa sætt af síngirnislegum ástríðu-köstum, verið áköfustu forvígismenn sérhvers siðalögmáls, sem bauð ráð til þess að hafa taum á ástríðunni. Konur hafa verið voldug verkfæri til þess að koma víkingum frá Norðurlöndum til að taka kristni, trú, sem er konum miklu hliðhollari, en nokkur trú sem áður var. Það má segja, að konur Aðalbjarts og Hlöðvers (Chlodwigs) hafi orðið fyrstar til að snúa Engilsöxum og Frökkum. Annað atriði, þar sem áhrif af skoðun kvenna hafa verið ljós, er það, að þau hafa verið hin öflugustu hvöt fyrir þá eiginlegleika hjá karlmönnunum, sem konurnar sjálfar samkvæmt uppeldi þeirra hafa eigi til að bera, og þeim því var nauðsynlegt að finna hjá verndurum þeirra. Hugprýði og hermannlegar dyggðir yfir höfuð hafa á öllum tímum stórum verið að þakka löngun þeirri, sem karlmenn hafa til þess að vera dáðir af konum, og þessi frameggjun nær langtum lengra en til þessa eina flokks af frábærum eiginlegleikum, þar sem fremsta skilyrði til þess að njóta aðdáunar og hylli kvenna hefur ávallt verið það, að njóta mikillar virðingar meðal karlmanna. Af sameiningu þessara tvenns konar siðlegu áhrifa, sem konur þannig höfðu á karlmenn, spratt upp riddarastefnan, og var aðaleinkenni hennar, að sameina æztu fyrirmynd hermannlegra eiginlegleika hinum fjarskyldustu dyggðum, kurteisi, veglyndi og sjálfsafneitun gagnvart öllum óherskáum og varnarlausum flokkum, loks sérstök undirgefni og lotning fyrir konum, því að þær voru öðrum varnarlausum flokkum ólíkar, að því leyti að þær höfðu vald til af frjálsum vilja að umbuna þeim mönnum mikillega, sem lögðu sig fram um að ná hylli þeirra í stað þess að þvinga þær til undirgefni með ofbeldi. Jafnvel þótt riddaraskapurinn stæði í rauninni langt að baki því, sem hann var í hugmyndinni, enn meir en verknaður stendur jafnaðarlega á baki hugmyndinni, þá er hann þó eitthvert hið dýrmætasta minningarmark í sögu kynslóðar vorrar og merkilegt dæmi lagaðrar og skipulegrar tilraunar, er algerlega óskipulegt og ringlað mannfélag gerði, til þess að skapa og sýna í verkinu siðlega hugsjónarfyrirmynd, sem stóð langtum ofar skilyrðum og fyrirkomulagi mannfélagsins, var meir að segja svo langt hafin yfir það, að hún, að því er snerti aðalmark hennar, strandaði fullkomlega, þótt hún yrði reyndar eigi öldungis arðlaus, þar sem hún lét eptir sig mjög þekkjanlegt og að mestu leyti mjög mikilsvert snið á öllum hugmyndum og tilfinningum eptirlifandi tíma. Hin riddaralega hugsjónar-fyrirmynd er æzta stig áhrifa þeirra, er tilfinningar kvenna hafa á siðlega menntun mannkynsins, og ef konurnar ættu framvegis að verða undirgefnar karlmönnum, þá er það mjög illa farið, að riddara-fyrirmyndin skuli vera horfin, því að hún eingöngu gæti þá mýkt hin skaðlegu áhrif ásigkomulagsins. En af breytingum þeim, sem urðu á hinu almenna ástandi mannkynsins, leiddi það óumflýjanlega, að allt öðruvísi hugsjónarfyrirmynd yrði að koma í stað þeirrar á riddaratímunum. Riddarastefnan var tilraun til að koma siðlegum frumefnum inn í mannfélags-ásigkomulag, þar sem allt, bæði illt og gott, var komið undir persónulegri hreysti, undir mýkjandi áhrifum persónulegrar nærgætni og veglyndis. Í nýrri tíma mannfélagi ráða eigi einu sinni afrek einstakra manna framar úrslitum styrjaldanna, heldur sameinaðar aðgerðir fjöldans, og aðalsýsla mannfélagsins er orðin vinna í stað styrjalda, verknaðarlíf í stað hernaðarlífs. Nýrri tíma líf gerir að vísu kröfur til veglyndis eins og gamla lífið, en það er eigi lengur öldungis háð því; hin sanna undirstaða hins andlega lífs á vorum tímum hlýtur að vera réttvísi og hyggindi, virðing hvers og eins fyrir annars réttindum og hæfilegleiki hvers og eins til að sjá fyrir sjálfum sér. Riddaraskapurinn lagði eigi neitt löglegt hapt á nein þess konar rangindi, sem ríktu óhegnd í öllum lögum mannfélagsins; hann lét sér nægja að hvetja fáa menn, til þess að beita heldur rétti en rangindum, með því að beina lofi og aðdáun í þá átt, sem hann gerði. En styrkleikur siðfræðinnar í hinu verulega lífi er fólginn í hegningar-valdi, sem hún er vopnuð með, í afli hennar til að fæla frá misgerðum. Öruggleiki mannfélagsins getur eigi hvílt eingöngu á þeim sóma, sem er því sameinaður að breyta rétt, því, sú hvöt (til réttra athafna) er svo afar-magnlaus hjá allflestum mönnum, og hefur alls engin áhrif á marga. Hið nýja mannfélag er því vaxið, að bæla niður rangindi hjá öllum meðlimum sínum, með því að neyta hæfilega yfirburða-máttar þess, sem menningin hefur veitt því, og getur það þannig gert tilveruna bærilega hinum máttarminni meðlimum sínum, sem eru eigi framar varnarlausir, heldur verndaðir af lögunum, en þarf eigi að hverfa til hinna riddaralegu tilfinninga hjá þeim mönnum, sem eru í stöðu, þar sem þeir geta beitt harðstjórn við aðra. Fegurð og velsæmi hins riddaralega aðalseigins er enn það sem það var; en réttindi hins máttarminna og almenn velgengni hvílir nú á öruggari og fastari grundvelli, eða réttara sagt: þannig er því alstaðar varið nema í hjúskaparlífinu. Nú sem stendur eru hin siðlegu áhrif kvenna eigi síður veruleg, en þau sjást eigi framar eins glögglega; þau samlagast að mestu leyti almennum áhrifum opinberrar skoðunar. Bæði sökum þeirrar sameignar í skoðunum, sem ástin veldur, og sökum löngunar karlmanna til þess að vaxa í augum kvenna, eru tilfinningar kvenna gæddar miklu afli til þess að endurvekja það, sem eptir er af hinni riddaralegu hugsjónar-fyrirmynd, með því að glæða þann háleik í hugsunarhætti og það göfuglynda hugarfar, sem er framhald af munnmælum riddaratímanna. Þegar á þetta er litið, stendur konan vissulega framar en karlmaðurinn, hvað skyn á réttvísi snertir stendur hún nokkuð á baki hans. Hvað snertir hlutföll einstaklings-lífsins, má að öllum jafnaði segja, að áhrif konunnar efli blíðari dyggðinnar og dragi úr hinum strangari, jafnvel þótt þessa setningu verði að takmarka með sérhverri nauðsynlegri hliðsjón til hins sérkennilega mismunar. Í hinum mikilvægustu stærri raunum, sem aðalseiginið þarf að standast í hinum ýmsu hlutföllum lífsins, t. d. í baráttunni milli hugðar og frumreglu, þar er stefna kvenlegra áhrifa mjög samkembds eðlis. Ef nú svo stendur á, að frumreglan er ein af þeim fáu, sem hið trúfræðislega og siðlega uppeldi þeirra hefur stranglega innrætt þeim, þá eru þær voldugir bandamenn í baráttunni fyrir hinum góða málstað, og menn þeirra og synir knýjast þá opt af þeirra völdum til athafna, þar sem þeir þurfa að láta á móti sér, og mundu þeir aldrei hafa verið færir til slíks, ef þeir hefðu eigi fengið þessa hvatningu. En með því uppeldi, sem konur fá nú á tímum, og í þeirri stöðu, sem þær eru, gilda hinar siðlegu frumreglur, sem þær hafa tileinkað sér, að eins á mjög þröngu og takmörkuðu svæði og eru í tilbót yfirgnæfandi neikvæðar; þær banna vissar athafnir, en þær skipta sér lítt af þeim almennu stefnum, sem hugsanir og athafnir manna eiga að ganga í. Eg er hræddur um að eg verði að viðurkenna, að áhugaleysi í önnum lífsins og það, að helga alla krapta marki, sem eigi hefur neinn sérstakan hagnað fyrir heimilið í för með sér, eigi sjaldan hjálp eður hvatningu að fagna hjá konum. Það er reyndar að því leyti að eins lítil ásökun gagnvart þeim, að þær letji þeirra fyrirtækja og dragi kjark úr mönnum við þau, er þær hafa eigi lært að skilja þýðingu þeirra, þegar þau líka draga karlmenn burt frá þeim og hugðum heimilisins; en afleiðingin er reyndar sú, að áhrif konunnar eru allt annað en happasæl fyrir menn með pólitiskum aðalseiginum. Engu að síður hafa konur, síðan þær hafa fengið lítið eitt stærra svigrúm til þess að beita starfsafli sínu og síðan fleiri hafa í verkinu tekið að fást við hluti, sem eigi snerta sifjalið eður búsýslu; fengið nokkur áhrif á siðlegar hugsjónar-fyrirmyndir hins opinbers lífs. Þeirra áhrifum verður að miklu leyti að þakka tvö hin ljósustu einkenni í lífi Evrópu á nýrri tímum: viðbjóðinn á styrjöldum og mannástina. Tvö ágæt einkenni. En þótt áhrif kvenna séu mjög mikilsverð, þegar þau hvetja almennt til þessara tilfinninga, þá eru þau þó — því fer ver — fullt eins skaðleg eins og gagnleg hvað snertir stefnuna, sem þau beina þeim (tilfinningunum) í einstökum atriðum. Hvað snertir viðfangsefni mannástarinnar, þá eru það tvö starfsvið, þar sem konur mestmegnis vinna snúnings-tilraunir í trúarefnum og velgerðasemi. Snúnings-sýki í trúarefnum er innan heimilis að eins til að æsa trúarhatrið; utan heimilis geysar hún í blindni að einhverju marki, en þekkir eigi eða athugar eigi hið skaðlega ólán, sem hún veldur með þeim meðulum, sem hún neytir — óhappasælar afleiðingar bæði hvað snertir trúarmarkið sjálft og allt annað. — Hvað góðgerðaseminni viðvíkur, þá er hún málefni, þar sem hin beinu áhrif á þá, sem menn vilja liðsinna, og afleiðingarnar af því, koma í fullkominn bága hvort við annað Þetta leiðir af einfaldri ástæðu: Þar sem uppeldi það, sem konum er veitt, snertir fremur hjartað en skynsemina, og þar sem venja sú, sem öll atvik lífs þeirra koma inn hjá þeim, er sú, að taka til greina hin beinu áhrif á einstaklinganna og ekki hin fjarlægu áhrif á flokka af einstaklingum, þá eru þær að öllum jafnaði eigi færar um, að sjá og lítt upp lagðar til að viðurkenna, að nokkur sú mynd af góðgerðasemi eður mannást, sem hinum samlíðandi tilfinningum þeirra gezt að, geti þegar til alls kemur haft ill áhrif. Hið sívaxandi ógrynni af óhyggilegum og skammsýnum góðgerðum, sem tekur umhyggjuna fyrir lífi manna frá þeim sjálfum og losar þá við óþægilegar afleiðingar eigin gerða þeirra, kollvarpar algerlega þeirri sjálfsvirðingu, sjálfshjálp og sjálfsdrottnun, sem er aðalskilyrðið bæði fyrir velgengi einstakra manna og mannfélagsins. Öll þessi sóun á hjálp og mannelsku-tilfinningum, sem gerir tjón en eigi gagn, hefur geysimikið aukizt við tilstyrk kvenna og mætt æsingum af þeirra völdum. Ekki er það svo að skilja, að þetta sé yfirsjón, sem einmitt er sennilegt að þær konur mundu gera sig sekar í, er standa fyrir góðgerða-stofnunum. Það vill þvert á móti stundum til, að konur, sem stjórna opinberum góðgerða-stofnunum og hafa vit á því, sem fyrir höndum er, og þekkja einkum tilfinningar þeirra, sem þær hafa bein mök við, og í því standa konur að jafnaði framar en karlmenn — þá vill það til, að þær kannast glöggt við hin spillandi áhrif þeirra ölmusugjafa og þeirrar hjálpar, sem veitt er, og mundu viðvíkjandi þessu atriði geta gefið mörgum ríkishagfræðing nytsama lærdóma. En af konum, sem að eins gefa peninga sína og sem eigi fá séð augliti til auglitis þær afleiðingar, sem þær eru orsök til, verður þess vænzt, að þær sjái afleiðingarnar fyrir. Hvernig ætti kona, sem fædd er við hin núverandi kjör kvenna og er ánægð með þau, að geta metið gildi þess, að vera eigi háður öðrum en sjálfum sér? Hún er sjálf öðrum háð, hún hefur eigi lært sjálfræði að þekkja; ákvörðun hennar er að taka við öllu af öðrum, hvers vegna skyldi þá það, sem henni er nógu gott, eigi vera nógu gott hinum fátæka? Sá skilningur, sem hún hefur daglega á hinu góða, er, að það sé velgerð, sem komi frá yfirmanni. Hún gleymir, að hún er ekki frjáls, og að hinir fátæku eru það; , ef þeim er gefið það sem þeir þurfa, án þess þeir hafi unnið til þess, þá eru þeir eigi framar þvingaðir til að afla sér þess; sérhverri mannlegri veru verður eigi veitt fyrirsjá af annari mannlegri veru, en að það verður að vera einhver hvöt, sem knýr sérhvern til að sjá fyrir sér sjálfum, og að loks hin eina góðgerð, sem í raun réttri er velgerð og ber vott um að hún sé það, er sú, sem hjálpar fátæklingnum til að hjálpa sér sjálfur, svo framarlega sem hann er líkamlega fær um það. — Þessar hugleiðingar sýna, hve miklum bótum sú hlutdeild, sem konur hafa í því að skapa opinbera skoðun, mundi taka við meir rýmkað uppeldis-svið og við verklega sýslan með þau efni, sem skoðun þeirra hefur áhrif á, sem æ meir og meir mundi verða nauðsynleg afleiðing af mannfélagslegu og pólitisku frelsi þeirra. En sú endurbót, sem við lausnina mundi komast á þau áhrif, sem hver kona hefur á sifjalið sitt, mundi þó verða enn merkilegri. Opt er það sagt, að í þeim stéttum, sem liggja öndverðastar fyrir freistingum, sé það einkum eiginkona og börn, sem hamli manninum að víkja af vegi velsæmis og réttvísi, bæði af beinum áhrifum konunnar og af umhyggju fyrir komandi velgengni barnanna. Þessu getur verið þannig varið og er eflaust þannig varið, þegar um fremur þreklausa en illa menn er að ræða, og þessi happasælu áhrif mundu geymast og styrkjast við jafnaðarlögmál, þau eru ekki komin undir ánauð kvenna, þau réna þvert á mót við þann skort á virðingu, sem menn af lægri stéttunum finna ávallt til í hjarta sínu gagnvart þeim, sem lúta valdi þeirra. En komum vér lengra upp eptir mannfélags-stiganum, hittum vér fyrir fyrir oss alveg ólíka deild af athafna-hvötum. Áhrif konunnar miða hér, að svo miklu leyti sem unnt er, að því að koma í veg fyrir, að maðurinn fari niður fyrir það almenna miðlungsmal af virðingu, sem menn njóta í landinu; en þau leitast eins mjög við að aptra honum frá að komast upp fyrir það. Eiginkonan er bandamaður hinnar algengu almenningsskoðunar. Maður, sem kvongaður er konu, er stendur honum á baki að hyggindum, hefur, þar sem hún er, drjúgan hælhaldara, meir að segja það sem verra er, þarf á mótspyrnu að sigrast, hve nær sem hann finnur hjá sér hvöt til að gera betur, en almenningsskoðunin heimtar. Það er naumast unnt fyrir mann, sem er þannig fjötraður, að ná neinum mikilleik í aðalseigin eður athöfnum. Ef hann hefur aðrar skoðanir en fjöldinn, ef hann eygir sannindi, sem fjöldinn hefur enn eigi litið bjarmann af, eða ef hann í hjarta sínu finnur til þeirra sanninda sem lifandi sanninda, er aðrir að eins heiðra með vörunum, og ef hann vill hegða sér samvizkusamlegar en meginþorrinn gerir, þá á hann hinum bágustu tálmunum að mæta í hjónabandinu, það er að segja, ef hann er eigi einmitt svo lánsamur að eiga konu, sem er jafnhátt hafin yfir almennan miðlungsflöt og miðlungsþauf eins og hann. — Í fyrsta lagi verður hann nefnilega, ef svo stendur á, ávallt að leggja í sölurnar eitthvað af eigin hagsmunum, annaðhvort af hinni ytri stöðu sinni í mannfélaginu eða af peninga-tekjum sínum, verður jafnvel ef til vill að hætta sér í bjargræðisskort. Þessi afsöl og hættur er hann ef til vill fyrir sitt leyti fús til að stofna sér í; en það kemur hik á hann við hugsunina um að hann muni stofna sifjaliði sínu í slíkt. Og sifjalið hans er í þessu atriði eiginkona hans og dætur; því að hann vonar sífellt, að synir hans muni hafa tilfinningar eins og hann, og að það, sem hann getur án verið, muni þeir einnig geta án verið af frjálsum vilja fyrir sama málstað. En dætur hans — ráðahagur þeirra er undir því kominn, og kona hans, — sem hvorki getur aðhyllzt né skilið þau óskamál, sem hann afsalar sér til að ná þessu, og sem ennfremur, ef hún héldi að nokkuð ætti í sölurnar að leggja fyrir þau, mundi ætla slíkt af hefðartrú og fyrir hans sök eingöngu — kona hans, sem eigi getur tekið þátt í ákafa hans eður samþykki því, er samvizka hans veitir honum, en þar sem hins vegar það, sem hann vill leggja í sölurnar, er henni dýrmætast af öllu — mun þá eigi einmitt hinn bezti og ósérdrægasti maður hika lengst við, áður en hann lætur afleiðingarnar af valdi sínu koma í koll henni? Ef það er eigi ytri velmegun, en einungis mannvirðing, sem hætta er búin, þá er sú byrði, sem hvílir á samvizku hans og tilfinningum, allt um það mjög alvarleg. Sá sem á konu og börn hefur sett broddborgaraskapnum veð. Maðurinn getur sjálfur hafið sig upp yfir hann eða fengið nægilega uppbót (á honum) í dómum þeirra, sem hugsa eins og hann. En konu sinni og þeim konum yfir höfuð, sem honum eru tengdar, þeim hefur hann enga uppbót að bjóða. Opt hefur konum verið gefin að sök hin næstum óbreytanlega tilhneiging þeirra til þess, að láta áhrif sín koma fram, þar sem um það er að ræða að ná í metorð, og hefur mönnum virzt það breyzklega merki og barnaskapur; er það vissulega mjög ranglátt. Mannfélagið gerir í hærri stéttunum líf kvenna að stöðugri sjálfsoffrun; það heimtar að konan bæli óaflátanlega niður náttúrlegar tilhneigingar, og sem umbun fyrir það, sem opt mætti kalla píslarvætti, veitir það henni eitt: virðinguna. En sú virðing, sem gipt kona nýtur, er óaðgreinanlega tengd virðingu mannsins, og eptir að hún hefur keypt hana og borgað fullu verði, sér hún sig nú svipta henni af ástæðu, en skilur eigi hið þvingandi afl hennar. Hún hefur lagt allt líf sitt í sölurnar til þess að öðlast þessa mannvirðingu, og maðurinn vill eigi hennar vegna vinna það til að hætta við heilaköst, sérvizku draumóra, hlut, sem heimurinn viðurkennir eigi eða tekur eigi tillit til, og sem heimurinn eins og hún mun kalla vitleysu, ef ekki verra. Þessi klípa í vali sínu er tilfinnanlegust fyrir þann flokk sannra verðleikamanna, sem eigi eru þeim hæfilegleikum gæddir, að þeir séu færir um að láta til sín taka meðal þeirra manna, er aðhyllast skoðun þeirra, en byggja ætlun sína á fastri sannfæringu, og finna í samvizku sinni skyldu hjá sér til þess að vinna henni með því að játa í heyranda hljóði það sem þeir hyggja, og verja því tíma sínum, vinnu, og fé til sérhvers málefnis, sem þessari hugmynd má að gagni verða. Verst af öllu er þegar svo stendur á, að slíkir menn heyra til flokki eða stétt, sem í sjálfu sér hvorki veitir þeim né meinar aðgöngu að því, sem skoðað er sem beztur félagsskapur, þar sem aðgangur þeirra er því undir því kominn, hvað menn hyggja um þá sjálfa. Því að þá mun, hversu óaðfinnanleg sem hegðun þeirra kann að vera, það, að vera talinn framsögumaður meiningar eða pólitiskrar skoðunar, sem þeim mönnum eru hvumleiðar, er ráða mestu í félaginu, leiða til þess, að þeir eru útiluktir frá félaginu; það bregzt eigi. Mörg kona smjaðrar fyrir sjálfri sér með þeirri trú (í níu af tíu tilfellum öldungis ranglega) að ekkert annað hamli henni eða manni hennar að komast í hinn bezta félagsskap staðarins eða héraðsins — félagsskap, sem opinn stendur mörgum kunningjum hennar af sömu stétt — en eingöngu það, að maður hennar hafi frábrugðnar trúarskoðanir, eða sé talinn fylgismaður hinna lítilsvirtu stjórnarskoðana frelsismanna. Það er það, heldur hún, sem hamlar því, að Georg hennar nái í stöðu eða nái æðra embætti, hamlar því, að Karólína fái góðan ráðahag, sem er sök í því, að hún sjálf og maður hennar hafa ekkert að segja og öðlast engin þau heiðursmerki, sem þau, að því er hún fær séð, eru eins vel að komin eins og sumir aðrir. Er það þá furða að menn, þar sem þeir hafa slíkt aðhald á hverju heimili, hvort sem það hefur augljós áhrif, eður það er því öflugra, af því það er eigi viðurkennt, að þeir þá að öllum jafnaði láti lenda við það virðingar-miðlungsmál, sem smátt og smátt verður hið helzta einkenni nýrri tíma. Þá er annar ókostur, og hvað hann snertir er það tilvinnandi að kynna sér þær afleiðingar, sem fram koma, eigi beint við útilokun konunnar frá frelsi og menntun, heldur við þá djúpu gjá, sem þessi útilokun skapar milli uppeldis og aðalseigins konu og karlmanns. Ekkert getur verið óhentugra þeirri sameiningu hugsana og tilfinninga, sem á að vera fyrirmynd hjúskaparins. Innileg sambúð milli tveggja mannlegra vera, sem eru gersamlega ólíkar, er tómur draumur. Ólíking getur verið tilfýsileg, en líkingin er það, sem bindur, og það er að eins í hlutfalli við gagnkvæma líkingu, að hjónin eru fær um að skapa hvort annars farsæld. Meðan konur eru eins ólíkar karlmönnum og þær eru nú, þá er það lítil furða, að eigingjarnir menn finni þörf hjá sér til þess að taka ótakmarkað gerræðisvald í hendur til þess að geta kæft í fæðingunni hina æfilöngu baráttu milli tilhneiginganna, sem hlýtur að hefjast. Þegar mannlegar verur eru eins ólíkar og mest má verða, þá geta þær eigi haft neinar hugðir verulega sameiginlegar. Mjög opt hafa hjón gersamlega ólíkar hugmyndir um hinar æztu skyldur. Hvert verulegt gildi hefur hjónaband, þar sem slíkur meiningamunur ríkir? Og þó er þetta hvergi óvanalegt, þar sem konan hefur nokkra alvöru til að bera í aðalseigini sínu, það á sér meir að segja jafnaðarlega stað í kaþólskum löndum, þar sem hún í ágreiningum við bónda sinn nýtur fylgis hjá hinum eina valdsmanni auk hans, sem hann hefur kennt henni að beygja sig fyrir, nefnilega prestinum. Í hugsunarleysis-bráðræði, eins og títt er valdhöfum, er eigi eru vanir því að þeim sé mótmælt, fara rithöfundar af mótmælendatrú og frjálslyndir rithöfundar hörðum orðum um áhrif klerka á konur, síður af því að þau séu ill, en af því þau eru nýr óskeikulleiki, sem látinn er mæta hinu óskeikula valdi karlmannsins og spanar konuna til uppreisnar gegn því. Í Englandi má stundum hitta líkan mismun, þegar oftrúar-kona er gipt manni, sem hefur aðra lífsskoðun. En að jafnaði firra menn sig þessari ósamþykkis orsök með því að gera slíkt kríli úr anda kvenna, að það þær hafi enga aðra ætlun en hina almennu broddborgaráætlun og þá, sem maður þeirra kennir þeim, að þær eigi að hafa. Þótt ekki eigi sér stað neinn djúptækur meiningamunur, getur misjafn smekkur eingöngu verið nægilegur til þess að draga úr farsæld hjúskaparins. Það getur ef til vill vakið ástarhug hjá manninum (til konunnar), en það leiðir eigi til hjúskapar-sælu, að gera sem mestan þann mismun, sem af náttúrunni á sér stað, með fullkomlega ólíku uppeldi. Ef hjónin eru menntaðar og heiðarlegar mannlegar verur, leyfa þau hvort öðru að hafa misjafnan smekk, en er umburðarlyndi hvort við annað það sem menn þrá, þegar menn ganga í hjúskap? Þessar ólíku tilhneigingar munu að sjálfsögðu, ef ást og skyldutilfinning heldur þeim eigi í skefjum, gera óskir hjónanna hvað snertir öll heimilisefni, sem fyrir koma, gersamlega ólíkar. Hvílíkur munur hlýtur þá eigi að vera á því félagi manna, sem hvort hjónanna um sig vill helzt umgangast og sjá hjá sér. Hvort þeirra fyrir sig mun óska sér samvistarfólks, sem hefur sama smekk og hann eða hún; þá, sem öðru gezt að, mun hitt ekkert hirða um eður hreint og beint þykja þeir hvumleiðir; og þó getur enginn komið til annars svo hann komi eigi til hins, þar sem hjón lifa eigi nú á tímum sitt á hvoru lopti eða taka á móti öldungis ólíkum heimsóknarmönnum eins og á tímum Loðvíks 15. Það getur þá eigi heldur hjá því farið, að þau hafi ólíkar óskir hvað snertir uppeldi barnanna; bæði munu þau óska þess, að sjá hinar sérkennilegu tilhneigingar og tilfinningar koma aptur fram hjá börnum sínum, og þá er opt annaðhvort gerður samningur, og leiðir af honum hálf fullnaðargerð fyrir bæði, eða húsfreyja verður að slaka til — opt með trega; og með eða mót vilja hennar verða áhrif hennar eptir það til þess að hnekkja áformum manns hennar. Sú ímyndun mundi vissulega vera mjög heimskuleg, að þessi munur á tilfinningu og tilhneigingu eigi sér eingöngu stað, af því að konur fá annað uppeldi en karlmenn, og eigi mundi verða munur á smekk, hvernig sem á stæði. En það er eigi farið út fyrir rétt takmörk, þótt sagt sé, að ástand það, sem lýst hefur verið, fari geysimikið versnandi og verði næstum óhjákvæmilegt við uppeldið. Meðan konur eru upp aldar eins og nú eru þær, getur maður og kona örsjaldan fundið hvort hjá öðru verulega samhljóðun í smekk og óskum, þegar um málefni daglegs lífs er að ræða. Þau hljóta venjulega að gefast upp við þetta og sleppa tilkalli til að finna hjá þeim, sem þau eru nánast tengd, þá samhljóðun, það, að vilja og vilja eigi hið sama, sem er hið eina band verulegrar samvistar. Eða ef maðurinn er svo lánsamur að öðlast þetta, þá verður það með því móti að velja svo auðvirðilega konu, að hún yfir höfuð hefur engan vilja, og er jafnbúin til eins sem annars, svo framarlega sem hann segir henni að það sé rétt. Þó getur mönnum skjátlazt jafnvel í þessum reikningi, heimskan og veikleikinn er eigi ávallt trygging fyrir undirgefni, sem menn vænta með svo miklu trúnaðartrausti. Og jafnvel þótt svo væri, er þetta þá hugsjónar-fyrirmynd hjúskaparins? Hvað græðir maðurinn, þegar svona er ástatt, við hjónabandið annað en ráðskonu, fóstru handa börnum sínum eða frillu? Þegar hins vegar hvort hjónanna um sig, í stað þess að vera ekkert, er eitthvað, þegar þau unna hvort öðru og eru eigi allt of ólík að upphafi, þá vekur hin stöðuga hlutdeild í sömu verkefnum, örvuð af ástinni, leynda hæfilegleika, sem hvort þeirra hefur til að bera til að hafa áhuga á þeim hlutum, sem frá upphafi voru að eins áhugamál annars þeirra, og veldur það þannig smátt og smátt því, að hvort gerir annars tilhneigingar og aðalseigin að sínu eigin, að nokkru leyti við það, að hvottveggja venst við að beygja sig, án þess það viti af, og að nokkru leyti og fremur við það, að eðli þeirra beggja auðgast verulega, þar sem annað bætir viti og hæfilegleikum hins við sitt eigið. Þetta vill jafnvel opt til milli tveggja vina af sama kyni, sem eru mikið saman í daglega lífinu, og það mundi vera almennt, ef eigi hið algengasta í hjúskapnum, ef eigi hið ger-ólíka uppeldi karla og kvenna gerði það næstum ómögulegt að gera samband, þar sem maður og kona eiga verulega saman. Ef nú einu sinni væri ráðin bót á meini þessu, mundi, hver munur, sem eptir yrði á mæti og smekk einstaklinganna, (að minnsta kosti sem almenn regla) ríkja fullkomin eindrægni og samhljóðun hvað snertir hin miklu viðfangsefni lífsins. Þegar bæði hjónin hafa jafnan áhuga á stórum óskamálum og eru hvort annars hjálp og hvatning í öllu, sem viðvíkur þeim, þá munu hin minni verkefnin, þar sem smekkurinn er ólíkur, alls eigi vera svo áríðandi fyrir þau, og þar mun þá vera varanleg undirstaða fastrar vináttu, og mun það fremur nokkru öðru valda því, að hvort hjónanna um sig hefur meiri ánægju af að gleðja hitt, en að gleðja sig sjálft. — Hingað til hef eg að eins skoðað þá rýrnun á ánægju og gæðum hjúskaparins, sem er afleiðing af mismuninum einum milli hjóna; en hættan er enn meiri þegar ólíkingin er undirlæging. Ólíkingin ein, þegar að eins er átt við mismun á góðum eiginlegleikum, er fremur hvöt til þess að hvort bæti annað, heldur en hömlur gæfunni; þegar bæði keppa hvort við annað, hvort um sig þráir og leitast við að öðlast hina einkennilegu eiginlegleika hins, þá leiðir eigi af mismuninum ólíking í hugðum, heldur vaxandi líking í þeim og það, að þau fá enn meiri mætur hvort á öðru. En þegar annað stendur hinu langtum neðar að andlegum hæfilegleikum og að menntun og leitast eigi kappsamlega við með hjálp hins að komast eins hátt og það, þá draga gervöll áhrif sambandsins hreint og beint úr því hjónanna, sem yfirburðina hefur, og eru enn meiri brögð að því í þolanlega farsælum búskap en ófarsælum. Þess mun eigi óhegnt, er sá sem andlega yfirburði hefur lykur sig inni með undirtyllu sinni og gerir þessa undirtyllu að hinum útvalda og nátengdasta samvistarmannni sínum, meira að segja, að alúðarvini sínum. Sérhvert félag, sem eigi veitir þroska, veldur hnignun, og því meiri, því þrengra og nátengdara sem það er. Jafnvel verulega hágáfuðum manni fer næstum ávallt að hnigna, þegar hann er sífellt fyrstur í sínum hóp, og þannig er þeim manni ávallt farið, sem á konu, er undir honum stendur. Meðan ánægja hans með sjálfan sig annars vegar fer stöðugt vaxandi, þá fer hann hins vegar, án þess hann viti sjálfur af, að hafa þær tilfinningar og líta á hlutina með þeim hætti, sem eiginlegt er lítilsigldari og takmarkaðri sál en hans eigin. Þetta mein er hinu fyrnefnda ólíkt að því leyti, að það fer í vöxt, æ meir og meir. Dagleg samvist milli karlmanna og eiginkvenna þeirra er miklu nánari nú á tímum, en hún hefur nokkru sinni áður verið. Líf karlmanna er nú fremur heimalíf. Fyrrum leituðu þeir skemmtana sinna og ljúflingsstarfa hjá karlmönnum og í karlmannahóp; eiginkonum sínum gáfu þeir að eins brot úr lífi sínu. Nú sem stendur hefur maðurinn hallazt meir að heimili sínu og heimilisfólki, bæði hvað snertir heimilis-skemmtanir hans og skemmtanir í kunningjahóp; er það að þakka framförum menningarinnar og óvild almenningsálitsins gegn klúrum skemmtunum og ölteiti, sem fyrrum var einkaathöfn manna í frítímum þeirra, sameinuðum glæddum tilfinningum fyrir skyldum þeim, sem tengja manninn eiginkonu sinni; — en umbætur þær, sem orðið hafa á uppeldi kvenna, hafa verið þess kyns og á því stigi, að þær hafa að eins í einstökum atriðum gert þær færar um, að gera manni þeirra sambúðina uppbyggilega í andlegu tilliti, en hafa í flestum atriðum látið konurnar standa fyrir neðan hann og að baki hans, svo að þær áttu eigi uppreisnarvon. Löngun hans eptir andlegri vísbendingu og andlegum félagsskap fær að jafnaði enga aðra fullnæging en þá, sem hann hefur af sambúð, þar sem hann lærir eigi neitt. Sambúð, sem engan þroska né upphvatning veitir, kemur í stað þess, sem hann annars hefði verið neyddur til að leita: samvistar við jafningja sína í hæfilegleikum og félaga sína í eptirleitun hins æðra. Vér sjáum því, sem og almennt er viðurkennt, að ungir menn, sem virzt hafa mjög vænlegir, hættu að taka framförum, undir eins og þeir voru kvæntir, og þegar þeir tóku eigi framförum, hlaut þeim að sjálfsögðu að hnigna. Ef konan knýr eigi mann sinn áfram, þá hamlar hún ávallt viðleitni hans. Hann hættir að hirða um það, sem hún hirðir eigi um; hann þráir eigi framar og þolir eigi að lokum, meira að segja forðast félagsskap við þá menn, er hann fyrrum átti með sameiginlegar tilhneigingar; er hann nú hræddur um, að þeir muni úthúða sér fyrir það, að hann hefur yfirgefið þá, engir æðri hæfilegleikar hans, hvorki andans né hjartans hæfilegleikar, vekjast framar til aðgerða. Þegar nú þessi breyting sameinast nýjum síngirnis-hugðum, sem sitjaliðið skapar, er hann að fáum árum liðnum eigi ólíkur þeim, sem aldrei hafa þurft annari ósk að fullnægja en auðvirðilegri hégómagirni, sameinaðri mauraelsku. — Hvað hjúskapur mundi verða milli tveggja mannlegra vera með þroskuðum hæfilegleikum, með sömu skoðunum, sama áformi, er væru hvort annars jafningjar, og jöfn eins og bezt mætti vera, með skyldleika í náttúrugáfum og hæfilegleikum, þannig, að hvort stæði öðru ofar í einstökum atriðum — svo að hvort um sig gæti notið þeirrar ánægju að líta upp til hins og stjórna og láta sér stjórna til skiptis á framfaraveginum, — hvað slíkur hjúskapur mundi vera, því ætla eg eigi að reyna að lýsa hér. Þeir, sem geta skilið það, þurfa eigi neinnar lýsingar við; þeim, sem eigi geta það, mun virðast það draumur úr sveimhuga. En með hinni föstustu sannfæringu held eg því fram, að þetta og eingöngu þetta er hugsjónar fyrirmynd hjónabandsins, og að sérhver meining, venja, niðurröðun, sem er meðmælt öðrum skilningi á þessu, eða beinir þeim hugmyndum og þeirri viðleitni, sem standa í sameiningu við hjónabandið, í aðra stefnu, hún er, hverri viðbáru sem hún tildrar utan á sig, leifar af upphaflegu siðleysi. Hin siðferðislega endurfæðing mannkynsins mun eigi í raungerðinni byrja fyr en þeirri mannfélagsniðurröðun, sem liggur til grundvallar fyrir öllum hinum, er skipað undir yfirráð jafnrar réttvísi, og fyr en mannlegar verur læra að auðsýna hina hlýjustu ást þeim, sem í réttindum og menntun er jafningi þeirra. — Þeir velgerningar, sem reynzt hefur allt að þessu atriði í röksemdaleiðslunni, að heimurinn mundi öðlazt við það, að hætta að skoða kynið sem ástæðu til synjunar frá forréttindum og sem undirgefnis-merki, voru fremur mannfélagslegir en einstaklegir; þeir voru fólgnir í viðbót við hina almennu innstæðu af hugsunar- og starfsafli og í umbótum hinna almennu skilyrða fyrir sameiningu karlmanna og kvenmanna. En það mundi vera: að vanmeta þessar framfarir, ef menn létu hjá líða að tala um hinn beinasta hagnað af öllum hagnaði, hin óumræðilega ávinning fyrir einstaklings-gæfuna, sem slíkt mundi vera fyrir hina frelsuðu helft mannkynsins, þann mun, sem mundi vera á lífi, er lýtur annars vilja, og lífi, er nýtur skynsamlegs frelsis. Næst hinum fyrstu nauðsynjum, fæði og klæði, er frelsið fyrsta og sterkasta krafa manneðlisins. Meðan mannlegar verur hafa engin lögleg réttindi, æskja þær lagalauss frelsis. Þegar þær hafa lært að skilja, hvað skylda og skynsemi hefur að þýða, verða þær meir og meir hneigðar til þess, að sýna ástúðlega og hyggilega nærgætni, þótt þær neyti frelsis síns; en þær æskja eigi minna frelsis eptir en áður; þær verða eigi fúsari til að láta vilja annara framflytja og þýða skyldu og skynsemi. Þvert á móti, þau félög, þar sem skynsemin hefur verið á mesta þroskastigi, og þar sem hugmyndin um félagsskylduna hefur verið voldugust, það eru þau, sem öflugast hafa haldið fram athafna-frelsi einstaklingsins, — frelsi fyrir hvern til þess að stjórna athæfi sínu sjálfur með þeirri tilfinningu, sem hann hefur af hvað skylda er og með þeim lögum og mannfélagsreglum, sem eigin samvizka hans getur verið meðmælt. Til þess að meta rétt, hvað persónulegt sjálfstæði hefur að þýða fyrir hamingjuna, þurfum vér eigi annað en að íhuga, hvaða þýðingu hún samkvæmt eigin ætlun vorri hefur fyrir hamingju vora. Viðvíkjandi engu eru dómarir misjafnari, eptir því hvort maðurinn dæmir gildi þess fyrir sjálfan hann eða hann dæmir gildi þess fyrir aðra. Þegar hann heyrir aðra barma sér yfir því, að þeim hafi eigi verið gefið frelsi til athafna, að eiginn vilji þeirra hafi eigi nægileg áhrif á líferni þeirra og kjör, þá er honum gjarnt til að segja: hverja þýðingu hafa þessar harmatölur? hvert beint tjón bíða þessir menn? að hverju leyti ætla þeir að hugðum þeirra sé eigi sinnt? og ef þeim tekst eigi að svara þessum spurningum neinu því, sem honum virðist gefa nægt tilefni til umkvartana, skellir hann skolleyrunum við öllu og telur umkvartanir þessar sprottnar af hugringlaðri harmatölusýki, sem engin skynsamleg tilslökun geti fullnægt. En hann dæmir á allt annan hátt, þegar hann á að dæma í sinni eigin sök. Þótt honum sé fenginn fjárráðamaður, sem gætir hugða hans öldungis óaðfinnanlega, þá mun hann þó eigi láta sér nægja það; þá mun honum virðast persónuleg útilokun sín frá úrskurðarvaldinu hin mesta móðgun, sem verða má, og þykja hún svo óleyfileg, að hann ætlar það jafnvel óþarft, að leggja sig niður við það að sýna fram á, að umsjónin sé slæm. Þannig er því einnig varið með þjóðirnar. Hvaða borgari í frjálsu landi mundi nokkru sinni vilja líta við nokkru tilboði um góða og duglega stjórn, ef hann ætti að borga það með frelsi sínu, þótt hann gæti trúað því, að góð og öflug stjórn gæti átt sér stað hjá þjóð, sem væri stjórnað af öðrum vilja en hennar eigin, mundi þó ávallt meðvitundin um að skapa sjálfur kjör sín á eigin ábyrgð vera nægileg í hans augum til að vega á móti miklum rustaskap og ófullkomleika í einstökum atriðum í frjálsu stjórnarfyrirkomulagi. Fullviss má hann vera þess, að það sem hann finnur viðvíkjandi þessu atriði, það finna konur jafnt. Hvað sem sagt hefur verið eða ritað frá dögum Heródóts fram á vora tíma um bætandi áhrif frjálsrar stjórnar, um þann vöxt og viðgang, sem allir hæfilegleikar fá við þau, um meiri og æðri óskamál, sem þau setja hugsun og tilfinningu, um óeigingjarnari allsherjaranda og opnara auga fyrir skyldunni, sem þau valda, um meira meðalhæðarstig, sem einstaklingurinn kemst á af hennar völdum bæði sem siðleg og andleg vera og mannfélagslimur — hvert einasta orð af öllu þessu er jafnmikill sannleikur um kvenmenn sem karlmenn. Er allt þetta eigi merkir þættir úr einstaklingsauðnunni. Munum eptir hvers vér karlmenn sjálfir fundum til, þegar vér komumst af bernskuskeiðinu, undan því fjárhaldi og þeirri umsjá, sem að sönnu kærir og ástúðlegir foreldrar höfðu yfir oss, og tókum allt í einu á oss ábyrgð manndómsaldursins. Þótti oss ekki sem miklum þunga væri létt af oss, eins og leyst væru af oss hamlandi bönd, jafnvel þótt þau væru eigi á annan hátt sár? Fannst oss eigi að vér vera hálfu meirlifandi, hálfu meiri menn en áður? Ímynda menn sér, að konur hafi eigi neina af þessum tilfinningum? En það er átakanlegt raunhæfi, að fullnæging og skerðing persónulegs stolts, jafnvel þótt það sé flestum karlmönnum fyrir öllu, þegar þeir eiga sjálfir hlut að máli, þá er það lítils metið, þegar um aðra er að ræða og kemur síður til álita sem orsök eða nægileg athafnahvöt en nokkur önnur tilfinning, sem mannlegri veru er eðlileg. Ef til vill er ástæðan til þessa sú, að karlmenn, þegar um eigin málefni þeirra er að ræða, skreyta þetta stolt með nöfnum á svo mörgum öðrum eiginlegleikum, að þeir eru sér sjaldan misvitandi, hve öflug áhrif þessi saðning og skerðing hefur á líf þeirra. En vér getum sagt oss sjálfum að þessi áhrif eru eigi yfirgripsminni eða eða óöflugri á líf kvenmanna. Konum er kennt að bæla niður sjálfstilfinninguna í þær stefnur, sem hún vill taka, eptir því sem henni er eðlilegast og hollast, en kjarninn verður eptir, tilfinningin fær að eins aðra ytri mynd. Starfsöm og þrekmikil sál mun, sé henni synjað um frelsi, reyna að ná í völd; sé hún svipt ráðum yfir sjálfri sér, mun hún halda fram sérkennileik sínum með því að reyna að ráða yfir öðrum. Að vilja eigi láta það eptir mannlegum verum að hafa neina eigin tilveru, en láta þær eingöngu vera öðrum háðar, það er að gefa þeim allt of mikla upphvatningu til að láta aðra gagnast áformum þeirra. Þar sem menn geta eigi gert sér von um frelsi, en ef til vill um völd, verða völdin það, sem mannleg vera þráir mest. Þeim, sem eigi eru leyfð óbrjáluð ráð yfir eigin líferni sínu, þeir munu, hvar sem þeir koma því við, leita fullnaðar með því að sletta sér fram í annara hegðun í eigingirnis-skyni. Af ófrelsinu kemur einnig fýsn kvenna til þess að vera fríðar, halda sér til og láta bera á sér; og af þessu spretta öll þau mein, sem vér sjáum breiðast út í mynd skaðlegs óhófs og mannfélags ósiðsemi. Ástin til valda og ástin til frelsis eiga eilífa baráttu hvor við aðra. Þar sem minnst er frelsið, þar mun valdfýknin vera ofsalegust og samvizkulausust. Löngunin til valda yfir öðrum getur fyrst hætt að hafa spillandi áhrif á mannkynið í för með sér, þegar sérhver mannleg vera getur fylgt fram hugðum sínum og þarf þó eigi að hripsa til sín völd, það er að segja, þegar virðingin fyrir því frelsi, sem sérhver hefur í eigin málefnum er orðin að fastri og algildri frumreglu. — En það er eigi að eins með tilfinningunni fyrir persónulegum verðleikum, að frjáls ráð yfir hæfilegleikum manna og frjáls notkun þeirra verður farsældar-uppspretta, og það að vera rígbundinn við notkun þeirra verður óláns-uppspretta fyrir allar mannlegar verur, og eigi sízt fyrir konur. En næst sjúkdómi, bágindum og afbrotum er ekkert, sem er jafn-skaðvænlegt farsæld lífsins, eins og að fá eigi maklega svalað þörfinni til starfa. Þær konur, sem hafa fyrir sifjaliði að sjá, hafa meðan umhyggjan fyrir því hvílir á þeim, þessa svölun, og er það þeim að jafnaði nóg. En hver úrræði eru hinum dagvaxandi kvennafjölda veitt, er eigi hefur neitt hentugt tækifæri til að rækja þá köllun, sem menn í skopi kalla hina sérstöku köllun kvenna? Hver úrræði eru fyrir konu, sem misst hefur börn sín; annaðhvort eru þau dáin, eða búa fjarri henni eða eru fullorðin, hafa gipzt og sjálf stofnað sér heimili? Yfrið mörg eru þeirra manna dæmi, sem eptir starfsamt líf draga sig út úr með eigur, sem þeir vonast eptir að geta lifað rósömu lífi með, en þar sem þeir eru eigi færir um að geta nýjar hugðir, þá fá þeir eigi annað við lífernisbreytinguna en leiðindi og hugarvíl, og deyja snemma. Og þó íhugar enginn, að lík örlög bíða svo margra maklegra og sjálfsfórnandi kvenna, — eptir að þær hafa goldið mannfélaginu skuld þeirra, sem svo er kölluð, eptir að hafa óaðfinnanlega alið upp börn sín, eptir að hafa staðið fyrir búsýslunni, eins lengi og þær þurftu heimili að stjórna — þá missa þær einu sýsluna, sem þær bera skyn á, þörf þeirra til starfa hefur enn eigi rýrnað, en þær þurfa ekki á henni að halda, nema því að eins að dóttir eða tengdadóttir sé fús að láta þeim eitthvað eptir af stöðu sinni og fá þeim sömu sýslu hjá yngra sifjaliðinu. Vissulega er það hart hlutskipti í ellinni fyrir þá konu, sem hefur maklega fullnægt þeirri einu mannfélagsskyldu sinni, sem svo er kölluð, eins lengi og henni var þess unnt. Þessar konur og þær, sem skylda þessi hefur alls ekki legið á, og sem að mestu leyti veslast upp alla æfi með meðvitundinni um kyrktar tilhneigingar og köllun og um lamaðan starfskrapt hafa einskis annars trausts að leita en þess, sem fólgið er í trú og góðgerðasemi. En trú þeirra, sem byggð getur verið á tilfinningunni og komið fram í kirkjurækni, getur eigi orðið nein trú verkanna, nema einungis að því leyti sem hún kemur fram í góðgerðasemi. Til góðgerðasemi eru reyndar margar konur dásamlega fallnar, en til að gera gagn með henni, eða þótt eigi sé til meira mælzt, en að gera eigi tjón með henni, til þess útheimtist uppeldi hjá góðum umsjónarmanni, marghliða undirbúningur, þekking og hugsunarþrek. Það eru fá umsjónarembætti stjórnar, sem sá þætti óhæfur til, sem sýnt hefði, að hann væri fær um að beita góðgerðasemi á gagnsamlegan hátt. Í þessu sem öðru tilliti (einkum hvað snertir uppeldi barnanna) geta konur eigi svo að vel megi fara gegnt þeim skyldum, sem þeim eru faldar, nema þær fái þá menntun, að þær geti hæglega tekizt störf á hendur, sem þeim nú er synjað um til mikils tjóns fyrir mannkynið. Og hér vil eg leyfa mér að minnast á, á hve einkennilegan hátt þeir menn að jafnaði skýra málið um lögskylda útilokun kvenna, sem auðveldara þykir að útmála það hlægilega, sem þeir geta eigi þolað, en að svara ástæðum þeim, sem mæla með því. Þegar þeim er sagt, að hinir praktisku hæfilegleikar kvenna og hyggilegu ráð muni einhverntíma koma að góðu haldi í ríkismálefnum, þá trana þessir háðfuglar fram heiminum til athlægis þingi eða ráðaneyti, sem í séu stúlkubörn, ekki tvítug eða ungar konur tuttugu og tveggja eða þriggja ára, sem séu fluttar umsvifalaust, eins og þær koma fyrir, úr baðstofunni á neðri málstofuna. Þeir gleyma því, að öllum jafnaðarlega eru eigi svo ungir menn kosnir til þings eða látnir hafa á hendi neitt pólitiskt embætti, sem hefur ábyrgð í för með sér. Heilbrigð skynsemi mundi fræða þá um, að væru slík áríðandi störf falin konum á hendur, myndu þau vera fengin slíkum konum, sem eigi fyndu hjá sér neina sérstaka köllun til hjúskaparlífsins, eða kysu heldur að neyta öðruvísi hæfilegleika sinna (eins og margar konur nú þegar meta eitthvert af hinum fáu heiðarlegu störfum, sem þær eiga aðgang að, meir en hjónabandið), en hefðu varið beztu árum æsku sinnar til að leitast við að gera sig hæfar til þeirrar stöðu sem þær óskuðu að ná, eða það mundu ef til vill vera ekkjur eða eiginkonur milli fertugs og fimmtugs, sem eptir hæfilega undirbúnings-þekkingu mundu reyna að neyta í stærri stíl þekkingar sinnar á lífinu, og þeirrar leikni í stjórn og niðurröðun, sem þær hefðu öðlazt heima. Það er ekkert land í Norðurálfu, þar sem hinir nýtustu menn hafa eigi iðulega reynt og metið mjög mikils ráð og hjálp hyggnra og reyndra hefðarkvenna, og það bæði í einstökum og opinberum efnum; og það eru til ýmiskonar mikilsverð opinber umsjónar-embætti, sem fáir menn eru fallnir til að gegna eins vel og slíkar konur; til þess tel eg meðal annars umsjónina með útgjöldum í öllum einstökum atriðum þeirra. Það, sem vér erum nú að ræða um, er samt eigi þörf sú, sem mannfélagið hefur fyrir þjónustu kvenna í ríkismálum, heldur er það hið daufa og dýrðarlausa líf, sem það dæmir þær svo opt til, þar sem það bannar þeim að neyta hins verklega atgerfis, sem margar þeirra eru sér meðvitandi, á stærra svæði en því, sem aldrei hefur staðið opið sumum þeirra, og stendur eigi framar opið öðrum. Ef nokkuð er lífsskilyrði fyrir farsæld kynslóðarinnar, þá er það að hver einstök mannleg vera hafi ánægju af daglegu starfi sínu. Þetta skilyrði fyrir farsælu lífi er mjög ónógt tryggt eða fullkomlega meinað miklum hávaða mannkynsins, og af vöntun á þessu skilyrði er margt mannslífið, sem virðist hafa öll farsældarskilyrði, að eins leynilegt þrotabú. — En ef hlutföll, sem mannfélagið hefur enn eigi þrek til að bera ofurliða, gera opt nú á tímum slík þrotabú óhjákvæmileg, þarf þó mannfélagið sjálft eigi að vera þeirra valdandi. Óskynsamir foreldrar, reynsluleysi unglinga, vöntun á tækifæri til þess að fara eptir náttúrlegri köllun sinni, atvika-öfugstreymi, sem knýr menn inn á veg, sem menn hafa enga löngun til að ganga, dæmir fjölda mannlegra vera til þess að eyða lífi sinu til starfa, sem þær vinna illa og utan við sig, en hins vegar eru önnur störf, sem þær mundu gera fúslega og vel. En á konur er þessari bölvun neytt af núgildandi löggjöf og venjum, sem hafa sama mátt og lög, Það sem liturinn, kynið, trúbrögðin eru í óuppfræddu mannfélagi, eða þjóðernið fyrir nokkra menn, ef um sigurvinning er að ræða, það er kynið fyrir allt kvenfólk, ótakmörkuð orsök til útilokunar frá næstum öllum heiðarlegum störfum, nema annaðhvort þeim störfum, sem aðrir geta eigi unnið, eða þeim störfum, sem þessir aðrir telja sér eigi samboðin. Þær þjáningar, sem þess eðlis orsakir koma til leiðar, mæta að jafnaði svo lítilli meðlíðan, að að eins fáar mannlegar verur þekkja þá feikna ófarsæld, sem þegar nú á tímum sprettur af tilfinningunni fyrir að hafa glatað lífi sínu. En tilfellin munu verða enn tíðari, því meiri misjöfnuð sem vaxandi menntun gerir á hugmyndum og atgerfi kvenna annars vegar og takmarki því, sem mannfélagið leyfir aðgerðalöngun þeirra að keppa að hins vegar. Þegar vér lítum á hið beina mein, sem leiðir af því ósjálfræði og þeirri útilokun sem lendir á helming mannkynsins, í fyrsta lagi við að verða af hinni mest fjörgandi og svalandi tegund af gleði, og í öðru lagi við þá þreytu, hugarvíl og megnu óánægju með lífið og leiða á því, sem svo opt kemur í stað hennar, þá finnum vér, að af öllu því, sem mannlegar verur eru nauðbeygðar til að gera til þess að sigrast á því óumflýjanlega böli, sem tengt er hlutskipti þeirra á jörðunni, er ekkert, sem meiri þörf er á, en að læra: að bæta eigi nýjum meinum við þau mein, sem spretta af náttúrlegum hlutföllum, með því að leggja afbrýðis- öfundar- og fordómsbönd hver á aðra. Eingöngu kvíði mannlegra vera lætur að vísu önnur og verri mein koma í stað þeirra, sem þær bera ástæðulausan kvíðboga fyrir, en sérhver takmörkun hins vegar á frjálsu háttalagi náunga sinna, sem miðar að öðru en að leggja þeim á herðar ábyrgð fyrir illa notkun á frelsi sínu, hún gerir það sem í hennar valdi stendur til þess að þurka upp aðallind mannlegrar sælu og að gera kynslóðina sýnu fátækari að öllu, sem gerir lífið dýrmætt fyrir einstaklinginn. — Eptirmáli. Rit það, sem hér birtist almenningi, er gefið út samkvæmt því, sem samþykkt var á fundi hins íslenzka kvenfélags í vetur, er leið, í því skyni, að það komi í staðinn fyrir fjögur ársrit, er annars hefðu átt að koma út hvert í sínu lagi, eptir því, sem gert er ráð fyrir í lögum félagsins. Þegar kom til þess að velja slíkt rit, sem bæði gæti fullnægt kröfunum hæfilega, að því er stærðina snertir, og einnig væri þess efnis, sem tilgangur félagsins heimtar, þá þótti ekki annar kostur betri, heldur en að taka þá viðurkenndu og ágætlega sömdu ritgerð um stöðu kvenna í mannfélaginu, sem hér liggur fyrir, og vonar stjórn kvenfélagsins, að bók þessi hljóti sömu hylli hjá kvenþjóðinni hér sem alstaðar annarstaðar úti um heim. Þýðinguna á ritinu hefur félagið fengið fyrir milligöngu Stefáns kennara Stefánssonar á Möðruvöllum. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á handritinu við prófarkalesturinn, en að öðru leyti vill félagsstjórnin auðvitað ekki bera neina ábyrgð á því, hvernig þýðingin sjálf er af hendi leyst, enda virðist mega treysta því, að ritið geti komið að fullum notum samkvæmt tilætlun félagsins. Vér viljum svo óska þess af heilum hug, að sá andi og sú stefna, sem gengur í gegnum þetta heimsfræga rit hins mikla mannvinar og heimspekings Stuarts Mill's, megi bera góðan ávöxt meðal íslenzkra kvenna og miða bæði meðlimum félags vors og öðrum, sem hlut eiga að máli, áleiðis að því takmarki, að skilja réttilega bæði kjör kvenna eins og þau nú eru og hlutverk kvenna eptir hlutarins eðli og kröfum réttlætis, sanngirni og vaxandi menningar. Kvenfélagsstjórnin.